Title
stringlengths
43
45
Keywords
stringlengths
3
216
Summary
stringlengths
141
7.4k
Text
stringlengths
135
434k
Mál nr. 7/2016
Kærumál Dómkvaðning matsmanns Kærumálsgögn
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu C ehf. um að dómkveðja matsmann til að svara þremur nánar tilgreindum spurningum. Talið var að þegar litið væri til þeirra úrræða sem C ehf. hefði samkvæmt IX. kafla laga nr. 91/1991 og þeirra takmarkana sem heimild málsaðila til að afla matsgerðar væru settar í þeim lögum, væri ljóst að með matsbeiðni C ehf. væri nú leitað mats um atriði sem að mestu leyti hefðu áður verið metin í undir- og yfirmati. Að öðru leyti þótti bersýnilegt að matsgerð um það sem eftir stæði væri tilgangslaus til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. sömu laga. Var því staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að synja beiðni C ehf. um dómkvaðningu matsmanns.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Helgi I. Jónsson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru, sem barst héraðsdómi 4. janúar 2016, en kærumálsgögn bárust Hæstarétti 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. desember 2015, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að umbeðin dómkvaðning fari fram. Þá krefst hann ,,kærumálskostnaðar bæði vegna meðferðar málsins fyrir héraðsdómi og fyrir Hæstarétti.“ Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. I Sóknaraðili höfðaði mál þetta, sem þingfest var fyrir héraðsdómi 14. mars 2012, og krafðist greiðslu vangoldinna reikninga að fjárhæð samtals 169.568 evrur. Varnaraðili krafðist aðallega frávísunar en til vara sýknu og lagði í málinu fram reikninga, sem áritaðir voru um greiðslu. Sóknaraðili hefur aflað álitsgerðar Haraldar Árnasonar rithandarsérfræðings, matsgerðar og yfirmatsgerðar og með því móti freistað þess að sanna að áritanir á reikninga þá, sem varnaraðili lagði fram, séu falsaðar. Ágreiningsefni þessa þáttar málsins lýtur að því hvort fallast beri á beiðni sóknaraðila, sem lögð var fram í héraðsdómi 18. desember 2015, um dómkvaðningu matsmanns til þess að skoða og meta þau atriði, sem þar greinir og tíunduð eru í hinum kærða úrskurði. Í matsbeiðninni kemur fram að matsmaðurinn eigi að rannsaka frumrit reikninga, sem lögð hafa verið fram í málinu. Ástæða þess að dómkveðja þurfi nú matsmann sé sú að í fyrri matsgerðum sé ekki ,,nægilega svarað ákveðnum þáttum sem rannsaka átti í tilvitnuðum mötum og því liggi ekki fyrir hvort gögnin eru ófölsuð eða ekki.“ Í yfirmatsgerð sé bent á að ekki sé tekin afstaða til þess möguleika að um geti verið að ræða ,,þjálfaða eftirlíkingu sem skrifuð sé hratt.“ Þá komi að auki fram að um geti verið að ræða mann ,,sem þekkir aðferðir rithandarsérfræðinga og nýti sér þá þekkingu.“ Loks sé hvorki um það fjallað í matsgerðunum hvort sami maður og ritaði orðið ,,paid“ og skráði dagsetningar á reikninga hafi einnig fært á suma þeirra útreikninga, sem á þeim séu, né hvert sönnunargildi tiltekinna mynda sé. Um ,,tilefni og markmið“ nýrrar matsgerðar segir að matsbeiðandi telji að hún muni leiða í ljós að fyrri matsgerðir séu ,,alltof varkárar og að mat á skjölunum og undirritun þeirra og að ekki sé um frumrit reikninga að ræða og sem slík geti þau ekki verið ígildi fullnaðarkvittana“ í málinu. ,,Til þess að leggja frekari grunn að kröfum sínum telur matsbeiðandi nauðsynlegt að dómkvaddur verði hæfur og sérfróður aðili til að meta hvort þær hugleiðingar er fram koma í tilvitnuðum matsgerðum hafi sönnunargildi sem fullnaðarkvittanir ... Með hinu umbeðna mati hyggst matsbeiðandi sanna að framlagðar matsskýrslur taki ekki [á] þeim þætti hvort unnt sé að falsa nafn hans með þeim hætti að það verði vart greint. Matsgerð muni leiða í ljós þá fullyrðingu matsbeiðanda að um fölsuð og breytt gögn sé að ræða eins og matsbeiðandi hefur haldið fram frá upphafi“. II Í IX. kafla laga nr. 91/1991 er að finna reglur um matsgerðir. Í 1. mgr. 61. gr. laganna er mælt fyrir um að í matsbeiðni skuli koma skýrlega fram hvað meta skuli og hvað aðili hyggist sanna með mati. Af 2. mgr. 60. gr. leiðir að ekki er unnt að beiðast matsgerðar ef tilgangur þess er að sanna lögfræðileg atriði, enda er það hlutverk dómara máls að leggja mat á atriði sem krefjast lagaþekkingar. Þá er í 1. mgr. 66. gr. kveðið á um að dómari geti úrskurðað um atriði er varða framkvæmd matsgerða svo sem hvort það hafi verið metið, sem meta skyldi samkvæmt dómkvaðningu, eða hvort matsgerð sé nægilega rökstudd rísi ágreiningur um kröfu um endurskoðun hennar. Loks er mælt fyrir um í 1. mgr. 65. gr. að matsmanni beri, krefjist málsaðili þess, að koma fyrir dóm og gefa þar skýrslu til skýringar og staðfestingar um atriði sem tengjast matsgerð. III  Þær spurningar sem fram koma í matsbeiðni sóknaraðila, er lögð var fram í héraðsdómi 18. desember 2015, lúta að efni til að atriðum sem hann hefur þegar fengið metin bæði með undirmatsgerð og yfirmatsgerð. Í framangreindri lýsingu í matsbeiðninni á tilgangi hennar og hvað sóknaraðili hyggist sanna með henni kemur í fyrsta lagi fram að hann telji matsmenn hafa verið of varkára í matsgerðum sínum og að mat á skjölunum og undirritun þeirra og að ekki sé um frumrit reikninga að ræða og því geti þau ekki verið það sem hann nefnir ígildi fullnaðarkvittana. Samkvæmt framansögðu á hann þess kost að afla skýringa frá matsmönnum um mat þeirra er þeir gefa skýrslu fyrir dómi. Mat á því hvort reikningur, áritaður um greiðslu, er fullnaðarkvittun er lögfræðilegt og samkvæmt 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991 viðfangsefni dómara máls. Í öðru lagi kveður sóknaraðili tilgang með matsbeiðni þann að fá mat á því hvort þær hugleiðingar er fram koma í tilvitnuðum matsgerðum hafi sönnunargildi sem fullnaðarkvittanir í máli því sem hann rekur gegn varnaraðila. Að því leyti sem unnt er að skilja þennan hluta lýsingar sóknaraðila á tilgangi nýrrar matsgerðar er slíkt mat á sönnunargildi hugleiðinga í fyrri matsgerðum lögfræðilegt og því einungis á færi dómara máls, en getur ekki orðið andlag nýrrar matsgerðar. Í þriðja lagi kveður sóknaraðili nýja matsgerð muni sanna að fyrri matsgerðir taki ekki á þeim þætti hvort unnt sé að falsa nafn þannig að það verði vart greint. Matsgerðin muni leiða í ljós að um fölsuð og breytt gögn sé að ræða, svo sem sóknaraðili hafi haldið fram frá upphafi. Sá tilgangur með nýrri matsgerð, sem hér er lýst, er hinn sami og með fyrri matsgerðum, að leiða í ljós hvort undirritun á reikningana sé fölsuð. Játa verður aðila máls ríkan rétt til þess að afla og leggja fram þau sönnunargögn sem hann telur þörf á. Meðal slíkra gagna eru matsgerðir dómkvaddra manna. Almennt eiga hvorki gagnaðili né dómstólar að standa þeirri gagnaöflun í vegi. Þessum rétti málsaðila hafa þó verið settar nokkrar skorður í lögum. Hafi aðili þannig aflað bæði matsgerðar og yfirmatsgerðar getur hann ekki, samkvæmt gagnályktun frá 64. gr. laga nr. 91/1991, leitað nýrrar matsgerðar til sönnunar um sömu atriði. Þá verður ekki aflað matsgerðar um atriði, sem lögfræðiþekkingu þarf til að skera úr, enda er það hlutverk dómara máls svo sem fyrr greinir. Loks leiðir af 65. og 66. gr. sömu laga að sóknaraðili getur fengið úr því skorið með úrskurði hvort metið hafi verið það sem meta skyldi og hann getur leitað skýringa matsmanna á því sem fram kemur í matsgerð þegar matsmenn gefa skýrslu fyrir dómi. Þegar litið er til þeirra úrræða, sem sóknaraðili hefur samkvæmt IX. kafla laga nr. 91/1991 og þeirra takmarkana sem heimild málsaðila til að afla matsgerðar eru settar í þeim lögum er ljóst að með þeirri matsbeiðni sem mál þetta varðar er leitað mats um atriði sem að mestu leyti hafa þegar verið metin í undirmati og yfirmati. Að öðru leyti er bersýnilegt að matsgerð um það sem eftir stæði er tilgangslaus til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt framansögðu verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að synja beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Málskostnaðarákvörðun héraðsdóms verður staðfest. Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Það athugast að við málskot þetta hefur sóknaraðili ekki sinnt fyrirmælum í reglum nr. 677/2015 um kærumálsgögn í einkamálum, sem settar voru með stoð í 6. mgr. 147. gr. laga nr. 91/1991. Þannig hefur hann ekki gætt þess að leggja einungis fyrir Hæstarétt þau skjöl sem þörf er á til úrlausnar um ágreining þann er kærumálið varðar. Efnisyfirlit er ekki í samræmi við 4. gr. reglnanna og röð skjala er ekki sú sem mælt er fyrir um í 5. gr. Þá eru gögnin ekki í hefti og ekki með síðutali, svo sem boðið er í 7. gr. reglnanna. Ber að átelja sóknaraðila fyrir þessa ágalla. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, C Trade ehf., greiði varnaraðila, BVBA De Klipper, 450.000 krónur í kærumálskostnað.            
Mál nr. 309/2015
Börn Brot gegn blygðunarsemi
G var sakfelldur fyrir brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 með því að hafa í aftursæti bifreiðar sinnar reynt að fá A til að fara með hendurnar inn fyrir buxur hans á kynfærasvæði. Var G hins vegar sýknaður af þeirri háttsemi að hafa sent A tvær myndir af getnaðarlim í síma hennar. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að G var 19 ára þegar hann framdi brotið og hafði ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Á hinn bóginn var litið til ungs aldurs A sem var 14 ára þegar brotið átti sér stað. Var refsing G ákveðin fangelsi í 45 daga en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðbundið í 2 ár.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. apríl 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd. Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, en til vara að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Kröfu sína um ómerkingu hins áfrýjaða dóms reisir ákærði á því að mat héraðsdóms á sönnunargildi munnlegs framburðar sé rangt, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og ekki hafi farið fram heildstætt mat á öllum gögnum málsins og munnlegum framburði. Ekkert er komið fram í málinu um að niðurstaða héraðsdóms um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi sé rangt svo einhverju skipti um úrlausn málsins, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008. Þá verður af forsendum dómsins ráðið að heildstætt mat fór fram á framburði ákærða og vitna og þeim gögnum sem fyrir dóminn voru lögð. Samkvæmt þessu er kröfu ákærða um ómerkingu héraðsdóms hafnað.  Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Ákærði, Guðjón Ingibergur Ólafsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 603.479 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Gísla M. Auðbergssonar  hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur, og ferðakostnað hans, 63.294 krónur.     Dómur Héraðsdóms Austurlands 6. mars 2015.        Mál þetta, sem dómtekið var 9. janúar sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 10. september 2014, á hendur Guðjóni Ingibergi Ólafssyni, kt. [...], Sandbakkavegi 2, Höfn í Hornafirði, „fyrir neðangreind brot gegn blygðunarsemi og brot gegn barnaverndarlögum, framin í ágúst 2013 sem hér greinir:                 1. Með því að hafa sent A, fæddri [...] 1999, tvær myndir af getnaðarlimi með forritinu snapchat í síma A.                 2. Með því að hafa í aftursæti bifreiðar sinnar sem lagt var við [...] á [...], reynt að fá A til að fara með hendurnar inn fyrir buxur ákærða á kynfærasvæði.“                 Í ákæru er þessi háttsemi talin varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.                 Ákærði krefst sýknu. Til vara er krafist þeirrar vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá er þess krafist að allur sakarkostnaður verði lagður á ríkissjóð, þar með talin hæfileg málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða. I                 Samkvæmt fyrirliggjandi rannsóknargögnum er upphaf máls þessa að rekja til bréfs félagsmálayfirvalda á [...], dags. 25. október 2013, þar sem óskað var lögreglurannsóknar á samskiptum ákærða við þrjár stúlkur, allar fæddar árið 1999, þar á meðal við brotaþola, A. Í bréfinu segir að komið hafi fram upplýsingar um að ákærði hafi sent stúlkunum myndir með kynferðislegu ívafi, að öllum líkindum um nokkurra vikna skeið. Þá hafi ákærði reynt að fá brotaþola til að „fara inn á sig“ í bifreið, að viðstaddri annarri þessara stúlkna, B.                 Ákærði var handtekinn og húsleit gerð á heimili hans 5. nóvember 2013, samkvæmt heimild í dómsúrskurði. Við leitina var lagt hald á tölvur og síma ákærða en ekkert saknæmt fannst við rannsókn á þeim munum.                 Að kröfu lögreglu voru skýrslur teknar af öllum stúlkunum þremur undir stjórn dómara á rannsóknarstigi málsins, sbr. a-lið 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Skýrslutökurnar fóru allar fram 7. nóvember 2013 og liggja fyrir upptökur af þeim í hljóði og mynd.                 Í framburði brotaþola kom fram að hún hefði vistað á tölvu nokkrar ljósmyndir frá ákærða. Samdægurs nálgaðist lögregla myndirnar á heimili brotaþola, samkvæmt því sem greinir í skýrslu, dags. 7. janúar 2014, um þá rannsóknaraðgerð. Kemur þar fram að fimm svokallaðar „Snapchat“ myndir hafi verið „afhentar“. Lýtur ákæra málsins að tveimur þeirra mynda, sem eru mjög áþekkar, báðar nærmyndir þar sem sést í getnaðarlim og hönd utan um hann (merktar nr. 4 og 5 í rannsóknargögnum lögreglu). Til viðbótar hafi brotaþoli sent lögreglu eina mynd með tölvupósti, sem B hafi tekið í bifreið ákærða það sinn sem fjallað er um í síðari lið ákærunnar (merkt nr. 7). Sú mynd sýnir stúlku og mann í aftursæti bifreiðar, en stúlkan er að horfa út um hægri hliðarrúðu og heldur hún að hluta fyrir andlit sitt, en maðurinn liggur að því er virðist á læri hennar og horfir upp til hennar, með síma í hendinni. Loks er í skýrslunni getið um eina mynd til viðbótar sem aflað hafi verið frá þriðju stúlkunni, C (merkt nr. 6). Liggja allar þessar sjö myndir fyrir í málinu. II                 Ákærði, sem neitar sök hvað báða ákæruliði varðar, kvaðst fyrir dómi kannast við brotaþola og hafa vitað nokkurn veginn um aldur hennar. Brotaþoli hafi haft frumkvæði að samskiptum þeirra með því að „adda“ honum sem vini í samskiptamiðlinum „Snapchat“. Þau hafi aðallega átt samskipti í gegnum samskiptamiðla, s.s. Snapchat og Facebook. Ákærði noti heitið [...] á Snapchat.                 Ákærði neitaði alfarið að hafa sent frá sér þær tvær myndir af getnaðarlim sem liggja fyrir í málinu, hvorki til brotaþola né nokkurs annars. Þær myndir hafi fyrst komið fyrir sjónir hans við skýrslutöku hjá lögreglu. Hann kvaðst ekki kannast við að hafa sent brotaþola neinar myndir sem geti talist vafasamar. Hann kunni enga skýringu á því hvers vegna brotaþoli beri um að hann hafi sent henni þessar myndir. Hann kvaðst ekki vita til þess að einhver annar hafi sent myndir úr síma hans en það sé ekki útilokað.                 Bornar voru undir ákærða fleiri myndir sem liggja fyrir meðal málsgagna og var aflað frá brotaþola, m.a. ein mynd sem sýnir ákærða, þar á meðal andlit hans, þar sem hann hylur nekt sína að framanverðu með baðhandklæði (merkt nr. 1 í rannsóknargögnum lögreglu). Kannaðist ákærði við að hafa sent vinum sínum á Snapchat þá mynd, þar á meðal e.t.v. brotaþola, en sú mynd væri „eðlileg“. Einnig var borin undir hann mynd (merkt nr. 3) sem ákærði kvaðst telja sýna niður eftir líkama karlmanns, að því er virðist reistan lim undir nærbuxum. Kvað ákærði að það „gæti verið“ að hann kannaðist við þá mynd og umhverfi sem sjáist á myndinni svipi til herbergis hans. Ákærði var þó ekki spurður beint að því hvort hann hafi tekið eða sent brotaþola eða öðrum þá mynd.                 Aðspurður kvaðst ákærði kannast við að hafa einhvern tímann átt í rafrænum samskiptum við brotaþola og B á meðan þær voru að passa fyrir frænku annarrar hvorrar þeirra.                 Varðandi síðari lið ákærunnar kvaðst ákærði hafa getað rifjað það upp að hann hafi farið með brotaþola og vinkonu hennar í eitt skipti á rúntinn. Kvaðst hann hafa átt í erfiðleikum með að rifja þetta upp, enda fari hann svo oft á rúntinn. Stúlkurnar hafi margsinnis verið búnar að biðja hann að bjóða þeim á rúntinn og í eitt skipti hafi hann látið það eftir þeim, rúntað með þær og spjallað við þær um stund. Þetta hafi verið að sumarlagi og kvaðst ákærði hafa verið þreyttur eftir vinnudaginn. Er hann hafi viljað fara heim hafi stúlkurnar ekki viljað það. Hafi hann þá stungið upp á því að hann stöðvaði aksturinn og hvíldi sig aðeins. Hann hafi lagst í aftursætið, í kjöltu brotaþola og farið að skoða símann sinn. Þar hafi hann legið í svolitla stund. B hafi setið í framsæti bifreiðarinnar. Stúlkurnar og hann hafi spjallað saman og hlustað á útvarpið. Meðal annars hafi ákærði hringt í vin sinn úr síma brotaþola, en ákærði kvaðst ekki muna hvort hann hafi svarað.                 Brotaþoli hafi síðan misst símann sinn. Síminn hafi lent á gólfinu. Brotaþoli hafi beðið ákærða að ná í hann. Kvaðst ákærði ekki hafa náð að teygja sig í hann og sagt henni að ná bara í hann sjálf, en brotaþoli hljóti að hafa misskilið það og ekki tekið eftir því hvar síminn lenti. Brotaþoli hafi farið út úr bílnum, staðið þar og leitað að símanum og fljótlega eftir það hafi hann skutlað stúlkunum heim.                 Ákærði neitaði því alfarið að hafa hneppt frá buxnaklauf sinni umrætt sinn og ýjað að því við brotaþola að hún skyldi sækja símann inn undir buxur hans á kynfærasvæði. Aðspurður hvers vegna hann hafi ekki gefið framangreinda skýringu fyrr, þ.e. við rannsókn málsins, sagði ákærði þessi atvik ekki hafa rifjast upp fyrir sér fyrr en eftir síðari skýrslutökuna hjá lögreglu. Fyrir dómi staðfesti ákærði að mynd (merkt nr. 7 í rannsóknargögnum lögreglu) af manni og stúlku í aftursæti bifreiðar, sýni hann og brotaþola og hafi myndin verið tekin í bifreið hans umrætt sinn.                 Ákærði gaf skýrslu við rannsókn málsins hjá lögreglu, fyrst 7. nóvember 2013 og aftur 13. janúar 2014, í bæði skiptin að viðstöddum verjanda. Við fyrri skýrslutökuna kvaðst ákærði ekki minnast þess að hafa verið á rúntinum með brotaþola og B, en ekki getað útilokað það enda sé hann oft á rúntinum. Á sama veg bar ákærði við upphaf síðari skýrslutökunnar. Var þá borinn undir hann framburður brotaþola, þar á meðal um að hann hafi stöðvað bifreiðina á [...], farið á milli sæta aftur í bifreiðina og lagst í aftursætið á læri hennar, þar sem hann hafi m.a. handleikið síma hennar, rennt frá buxnaklauf og gefið henni til kynna að hann vildi að hún færi með hendur að kynfærum hans. Einnig var borinn undir hann samsvarandi framburður B. Kvaðst ákærði ekkert kannast við þetta og telja að hann hefði munað það ef þetta hefði gerst. Ákærða var þá sýnd áður nefnd mynd (merkt nr. 7) af manni og stúlku í aftursæti bifreiðar. Þekkti ákærða sjálfan sig og brotaþola á myndinni en kvaðst ekki muna við hvaða tilefni hún hafi verið tekin. Er framburður ákærða fyrir dómi breyttur að því leyti að hann kveðst nú muna eftir atvikum í bifreiðinni. Að öðru leyti samræmist framburður ákærða fyrir dómi í meginatriðum framburði hans hjá lögreglu.                 Brotaþoli, A, þá 14 ára gömul, gaf skýrslu undir stjórn dómara við rannsókn málsins 7. nóvember 2013. Er aðalmeðferð málsins fór fram hafði hún náð 15 ára aldri, en ekki var talin þörf á að leiða hana fyrir dóminn á nýjan leik. Í skýrslu hennar, sem liggur fyrir í hljóði og mynd, kom fram að hún væri komin til að gefa skýrslu „út af strák sem var alltaf að senda mér myndir af sér og svo tókum við alveg ömurlega ákvörðun og fórum upp í bíl með honum, ég og vinkona mín ... hann fór eitthvað aftur í og lagðist ofan á mig og ég hljóp út úr bílnum fyrst, þú veist, já, en hann var þá búinn að taka símann af mér og þóttist vera búinn að setja hann innan á sig og hneppti frá buxunum og sagði „náðu bara í hann“ og ég sagði „nei, ég vil það ekki“ og já, það var þá sem ég hljóp út úr bílnum ... það var dimmt í kringum okkur því hann lagði á einhverjum stað sem enginn getur séð ... ég heyrði eitthvað eins og einhver væri að hlaupa fyrir utan bílinn og ég var geðveikt hrædd og hljóp bara aftur inn í bílinn ...“.                 Í framburði brotaþola kom fram að umræddur „strákur“ sé ákærði. Hún hafi kynnst honum þannig að hann hafi „addað“ henni á Snapchat og hún „bara samþykkt“ það skömmu áður en þessir atburðir gerðust.                 Nánar skýrði brotaþoli svo frá að hún teldi atburðinn í bifreiðinni hafa átt sér stað síðla kvölds í júlí eða ágúst s.á. og telja að ákærði hafi farið að senda sér myndir eftir það. Þau hafi verið þrjú í bílnum, B í framsæti og brotaþoli í aftursæti, en ákærði hafi klifrað aftur í til hennar á milli framsætanna. „Hann fór aftur í til að leggjast ofan á mig ... leggst bara hérna ofan á lærið á mér ... ég veit ekki af hverju“. „B tók mynd af honum liggjandi ofan á mér ... ég var bara eitthvað að þykjast vera að horfa út og skoða stjörnurnar af því að mér leið svo óþægilega ... ég vissi ekkert hvað ég gat gert, ég þorði ekkert að ýta honum í burtu ... hann fékk að skoða símann minn og ég [sagði] „getur þú látið mig hafa símann minn“ og hann [sagði] bara „þú verður bara að finna hann“ og þóttist vera búinn að setja hann inn á sig og byrjaði að hneppa frá buxunum ... hann var alveg búinn að reyna að láta mig fara inn á sig í örugglega 10 mínútur sko og svo gafst hann bara upp af því að hann vissi að ég var ekki að fara að gera það og vildi þetta ekki“. Aðspurð hvar ákærði hafi reynt að fá hana til að fara inn á sig, svaraði hún: „Á typpið.“ Aðspurð hvernig hún hafi vitað að hann vildi að hún færi inn á hann þar, sést á upptöku að brotaþoli ber hönd að buxnastreng, svarar hún: „Af því að hann hneppti frá og var eitthvað svona og kom eitthvað „þú verður að ná í símann“ bara hérna“. Nánar aðspurð hvernig ákærði hafi gefið í skyn að hún ætti að fara inn á hann svaraði hún: „Ég man það ekki alveg, hann var bara „komdu bara hérna og farðu bara hérna inn á mig“ og var bara að segja „síminn er þarna“ ... ég sagði bara nei og ætlaði að hlaupa út úr bílnum, en ég ætlaði ekkert hvort eð er að fara án símans“. Aðspurð hvernig þetta hafi endað svarði hún: „Hann kom eitthvað „æ fock you“ og keyrði okkur bara heim.“                 Brotaþoli kvað ákærða hafa verið að senda sér myndir á Snapchat, fyrst „kannski í júlí“ og síðast í október 2013. Taldi hún þetta hafa gerst fimm sinnum. Kom fram við upphaf skýrslutökunnar að þetta hafi verið myndir af kynfærum hans, en ekki sést mikið í þau, og einnig myndir af honum „á brókinni“. Nánar aðspurð um hvað hafi sést á myndunum sagði hún: „Sko, þetta var bara yfirleitt að hann var að senda eitthvað upp úr þurru, bara á brókinni sko, skrifaði eitthvað „like it“ og eitthvað svona“. Er brotaþola var bent á að hún hefði verið búin að nefna að sést hefði í kynfæri hans sagði hún: „Já það var á einhverjum, það var samt ekkert mikið sko. Hann, þú veist, það var ekki ég sem hann var að senda þannig, það var önnur vinkona mín [leturbreyting dómara].“ Aðspurð hvort ákærði hafi þá alltaf verið í brókinni á myndunum var svarið: „Yfirleitt.“ Beinlínis aðspurð hvort hún hafi séð einhverja líkamsparta eða eitthvað  slíkt var svarið: „Það var bara á tveimur myndum, en það sást ekkert allt, bara eitthvað svona smá ... hann var bara haldandi eitthvað utan um og tók mynd“. Aðspurð um hvað hann hafi haldið svaraði hún: „Typpið á sér ... ég vildi ekkert horfa á þetta, ég opnaði bara og úff.“ Aðspurð í beinu framhaldi hvernig hún fékk „þessa mynd“ senda svaraði hún: „Snapchat.“ Kom fram að myndin hafi verið send með Snapchat í símann hennar.                 Síðar við skýrslutökuna dró spyrillinn saman það sem komið hafði fram hjá brotaþola og bað hana að leiðrétta ef eitthvað væri rangt. Var borið undir brotaþola að hún hafi fengið sendar 5 myndir, þar af tvær þar sem sést hafi í typpið á ákærða, þar sem hann haldi utan um það. Svaraði brotaþoli: „Já, en það er sko ekkert mikið ... en mér fannst það alveg nóg ... ég hefði ekki viljað sjá neitt meira ...“ Síðar við skýrslutökuna er brotaþoli enn spurð út í þessar tvær myndir, og þá spurð hvernig hún viti að þær sýni ákærða halda um typpið á sér, og svaraði hún: „Hann sagði það, hann var eitthvað talandi um að hann ætlaði að gera það ... og svo var hann allt í einu búinn að senda það.“                 Síðasta myndin sem ákærði hafi sent henni hafi sýnt hann standandi, nakinn, en með handklæði fyrir framan sig og með hafi fylgt textinn „bað yeee“. Þá hafi hún sent honum boðin „þetta er allt of langt gengið hjá þér“ og hann svarað „það sást ekki neitt“. Í framhaldinu hafi hún eytt honum sem vini á samskiptamiðlum.                 Brotaþoli kvaðst hafa vistað skjáskot af þessum myndum. Aðspurð hvernig henni hafi liðið þegar hún fékk þessar myndir sagði hún að fyrst hafi henni fundist þetta fyndið, en síðan fundist þetta „allt of gróft“. Henni líði „ógeðslega illa“ við að sjá hann á förnum vegi eða hugsa um hann. Einnig kom fram að henni líði „ömurlega“ út af því að málið hafi undið upp á sig með aðkomu lögreglu og félagsmálayfirvalda.                 Vitnið B gaf fyrst skýrslu undir stjórn dómara við rannsókn málsins 7. nóvember 2013 og síðan aftur við aðalmeðferð málsins.                 Við fyrri skýrslugjöf hennar kvaðst hún komin til viðtals „af því að [ákærði] var að senda stelpunum myndir ... A var að peppa hann í að senda myndir eða segja honum að senda ... hún var bara að biðja hann að senda myndir af sér og eitthvað.“ Aðspurð hvernig myndir brotaþoli hafi beðið ákærða að senda henni svaraði hún: „Af typpinu sínu.“ Aðspurð hvort hann hafi gert það svaraði hún: „Hann hélt bara fyrir, það sást bara í neðst.“ Fram kom að umrætt sinn hafi þær brotaþoli verið saman að passa heima hjá frænku vitnisins og að brotaþoli hafi átt samskipti við ákærða í gegnum Facebook og Snapchat. U.þ.b. 4 til 6 myndir hafi komið frá ákærða þetta kvöld sem þær voru að passa og vitnið séð þær allar hjá brotaþola, sem og samskiptin við ákærða. Á einni myndinni, sem hafi verið tekin í spegil, hafi ákærði sést á brókinni „og síðan allar hinar sem hann hélt bara fyrir og það sást bara svona“. Sýndi vitnið með bili milli tveggja fingra hve mikið hafi sést. Aðspurð í hvað sást svaraði hún: „Bara neðst á typpinu.“                 Aðspurð hvort hún hafi sjálf átt einhver samskipti við ákærða sagðist vitnið bara hafa átt samskipti við hann „þegar við fórum á rúntinn með honum“. Lýsti hún því atviki svo að brotaþoli hafi haft frumkvæði að því að biðja ákærða að bjóða þeim á rúntinn. Ákærði hafi alltaf verið „að fara á staði til að stoppa og fara í símann sinn og á einum staðnum fór hann eitthvað aftur í til A ... hún sat og hann lagðist bara hjá henni, hún var eitthvað í símanum sínum og hann eitthvað tók símann hennar og var eitthvað að segja að hann væri inni á sér ... hún var eitthvað „má ég fá símann?“ ... svo ætluðum við að fara og hann var ennþá með símann ... ég var eitthvað „náðu þá bara í hann“ en hún hélt að hann væri inni á brókinni hans og var eitthvað „já, ég er ekkert að fara án símans míns af því að hann er ekki læstur“ ... ég sagði „já farðu þá og náðu í hann“ en hún misskildi það og hélt að ég væri að segja [henni] að fara ofan í buxurnar, sem ég var auðvitað ekki að láta hana gera.“                 Nánar aðspurð, sagði B að brotaþoli hafi verið að biðja ákærða að hringja í vin sinn. Ákærði hafi fengið símann hennar til að hringja úr honum. Svo hafi ákærði verið „eitthvað að þykjast hafa sett hann inn á sig“ og þær brotaþoli farið út úr bílnum, en síðan hafi ákærði verið „að djóka eitthvað í okkur og tók símann upp og keyrði okkur heim“. Ákærði hafi farið aftur í til brotaþola með því að klifra á milli framsæta bifreiðarinnar. Hann hafi legið í aftursætinu á lærum brotaþola í „svona korter, við vorum alltaf að segja honum að fara, en hann vildi það ekki, ekki strax“. Brotaþoli hafi verið „komin með geðveikt mikinn kvíða þannig að hún horfði bara og var eitthvað að telja stjörnurnar“. Aðspurð hvernig hún vissi um kvíða brotaþola sagði vitnið hana hafa sent sér SMS-skeyti um það á meðan þau voru öll í bílnum. Aðspurð hvort hún vissi hvort ákærði hafi í raun sett símann inn á sig eða bara þóst gera það sagðist hún fyrst ekki vita það en síðan að síminn hafi örugglega ekki verið þar. Ákærði hafi sagt brotaþola að ná í símann ofan í brókina. Aðspurð hvort ákærði hafi sagt brotaþola þetta með orðum játti hún því í fyrstu, en nánar aðspurð sagði hún brotaþola hafa spurt ákærða hvort hún mætti fá símann sinn og ákærði hafi sagt: „Þú verður bara að ná í hann.“ Ákærði hafi ekki beinlínis sagt henni að ná í símann ofan í buxurnar, en gefið í skyn að síminn væri þar. Aðspurð hvernig ákærði hafi gefið þetta í skyn svaraði hún: „... hún var eitthvað „Má ég fá símann?“ og hann bara „Þú verður að ná í hann“ og hann var með hneppt frá ... buxunum“ Kvaðst B hafa séð að buxurnar voru fráhnepptar. Ákærði hafi þá legið á lærum brotaþola. Hún kvaðst ekki vita hvenær ákærði hneppti frá sér en hafa tekið eftir þessu er hún tók mynd af þeim. Aðspurð hve oft hún hafi heyrt ákærða segja þetta kvaðst hún bara hafa heyrt það einu sinni en tók fram að hún hafi „eiginlega ekkert [verið] að hlusta, ekki mikið“.                  Aðspurð hvort ákærði hafi gert eitthvað fleira svaraði hún: „Nei, þær náttúrulega gerðu svo mikið mál úr þessu af því að hann var ekki að gera neitt.“                 Í framburði B kom fram að þessi atburður hafi átt sér stað u.þ.b. þremur dögum áður en skólinn hófst að hausti, þetta hafi verið seint að kvöldi, nálægt miðnætti. Þau hafi verið þrjú í bílnum og bílnum hafi verið lagt nálægt gistiheimili, [...]. Hún hafi tekið eina mynd af ákærða liggjandi á lærum brotaþola. Hitt tilvikið, þar sem ákærði sendi brotaþola myndir þegar þær voru að passa, sagði hún hafa gerst í ágúst, u.þ.b. viku áður en þær fóru á rúntinn með ákærða.                 Við aðalmeðferð málsins gaf B skýrslu fyrir dómi á ný. Tók framburður hennar þá nokkrum breytingum sem hér verður vikið sérstaklega að.                 Eins og fyrr kvað hún ákærða hafa sent brotaþola myndir af sér kvöldið sem þær brotaþoli voru að passa hjá frænku vitnisins, en þetta hafi verið myndir af honum „á brókinni ... með standpínu“. Sést hafi í andlit ákærða á einhverjum myndanna og allar myndirnar komið frá sama „aðganginum“. Aðspurð sagði hún ekki hafa sést í getnaðarlim á þessum myndum. Er borinn var undir hana fyrri framburður hennar um að hafa verið með brotaþola er ákærði sendi henni myndir þar sem sást í getnaðarlim sagði hún að það hafi „annað hvort“ verið „A eða C“ sem hafi fengið slíka mynd, þar sem „sást sko eiginlega ekkert ... það sást svona höndin, ef það var einhver mynd. Við erum búnar að fá svo margar svona myndir sko.“ Aðspurð hvort hún hafi munað betur atvik þegar hún gaf skýrslu ríflega ári áður svaraði hún: „Nei, af því að þær voru að láta mig segja helling af hlutum sem að, eða þú veist, þær sko sögðu mér að segja bara eins og þær væru að gera, ég vildi ekki missa þær þarna en mér er eiginlega alveg sama núna ...“. Kom skýrt fram í framburði B að með „þeim“ væri hún að vísa til brotaþola og vitnisins C, og bætti hún við: „Það var sko C sem stjórnaði þessu öllu. A vildi ekkert segja frá þessu.“ Aðspurð hvort hún hafi þá verið að skálda þegar hún sagðist hafa séð slíka mynd svaraði hún: „Ég alla vega man ekki eftir neinni mynd sko, ég átti bara að segja eins og þær sögðu ... þær voru bara að segja mér að segja að hann hafi verið að senda helling af ógeðslegum myndum og eitthvað ... ég átti náttúrulega bara að hjálpa þeim.“                 Aðspurð um atvikið á rúntinum, sbr. síðari lið ákærunnar, varð af framburði B ráðið að hún vildi gera sem minnst úr því atviki. Aðspurð hvort eitthvað hafi þá gerst sagði hún: „Ekki eins og hún er að segja. Ég var þarna sko og ég veit alveg hvað gerðist ...“. Sagði vitnið að brotaþoli hafi sagt henni síðar „að þetta hefði ekki verið jafn mikið og hún hefði upplifað það fyrst“.                 Tók vitnið fram að ákærði hafi lagst á hné brotaþola, en „ekki svona ofarlega eins og hún var að segja“ og að „hann potaði í magann á henni, mér finnst það ekkert eitthvað kynferðislegt ofbeldi sko, en það er náttúrulega bara misjafnt hvernig fólk upplifir það ... svo tók hann eitthvað símann af henni og var eitthvað að djóka í henni, að segja, að þú veist, hann faldi hann, setti hann bara í sætið og það var alveg augljóst að síminn var í sætinu sko, ... hann var eitthvað að djóka í henni og segja henni að sækja símann ofan í buxurnar. Hvernig gat hún ekki fattað að þetta væri djók ...“.        Kvaðst B viss um að ákærði hafi ekki sett símann inn fyrir buxur sínar í raun og veru, því að hún hafi séð þegar hann sótti símann undan læri sínu. Síminn hafi verið „í sætinu, ekki ofan í buxunum“.                 Að öðru leyti lýsti vitnið atvikum með sama eða svipuðum hætti og við fyrri skýrslugjöf fyrir dómi, þar á meðal um að ákærði hafi verið með fráhneppta buxnaklauf, eða með hennar orðum: „... hún sagði honum að koma með símann og hann hafði einhvern veginn gefið í skyn að hann hefði verið ofan í buxunum af því að hann hneppti frá og hérna og já svo var hann eitthvað að, hún sagði „nennir þú að koma með símann“ og hann eitthvað „náðu í hann“ „ok, ég er ekki að fara að ná í hann ofan í buxurnar þínar“.“ Nánar aðspurð kvaðst vitnið þó ekki muna beinlínis eftir því að brotaþoli hafi sagst ekki vilja sækja símann ofan í buxur ákærða.                 Brýnt var sérstaklega fyrir vitninu að gera greinarmun á því sem hún sjálf hefði séð, heyrt eða skynjað með öðrum hætti og því sem brotaþoli hefði e.t.v. sagt henni um sína upplifun af atvikinu. Endurtók vitnið þá efnislega fyrri frásögn sína, þar á meðal um að ákærði hafi verið með fráhneppta buxnaklauf. Sérstaklega aðspurð hvort ákærði hafi með hátterni sínu gefið brotaþola í skyn að síminn væri inni á honum svaraði hún: „Já, annað hvort það eða hann hafi verið að biðja hana um að gera eitthvað, en ég veit að hann er alveg ekki það ruglaður, en já, hún eitthvað „ég veit ekkert hvar hann er“ og þú veist, hann var bara alltaf að segja henni að sækja símann.“                 Fyrir dómi var borin undir B ljósmynd, merkt nr. 7 í rannsóknargögnum lögreglu, og staðfesti hún að hafa tekið þessa mynd af ákærða og brotaþola í bifreiðinni umrætt sinn.                 C gaf skýrslu undir stjórn dómara við rannsókn málsins 7. nóvember 2013 og liggur framburður hennar fyrir í hljóði og mynd. Verða hér aðeins rakin atriði úr framburði hennar sem haft geta þýðingu fyrir mál þetta. Fram kom að hún hafi ekki vistað myndir sem ákærði hafi sent henni. Ákærði noti heitið [...] á Snapchat. Hún viti til þess að brotaþoli eigi myndir frá ákærða í tölvunni sinni. Brotaþoli hafi sýnt sér þær. Brotaþoli hafi einnig sagt sér frá atviki í bifreið, þar sem ákærði hafi verið byrjaður að hneppa frá buxum sínum. Brotaþoli hafi verið miður sín er hún skýrði vitninu frá þessu.                 D, móðir brotaþola, gaf skýrslu fyrir dómi og kvað dóttur sína hafa upplýst sig um málið haustið 2013. Hafi dóttir hennar upplýst vitnið að hún mætti eiga von á símtali frá móður vinkonu sinnar, C, sem hafi verið búin að upplýsa félagsmálayfirvöld um mál hennar. Dóttir hennar hafi lýst fyrir vitninu atvikum í bifreið með ákærða, en ekki nefnt neinar myndsendingar. Hafi vitninu ekki orðið kunnugt um að brotaþola hefðu borist myndir fyrr en lögregla nálgaðist þær í tölvu á heimili þeirra. Hún hafi ekki séð þessar myndir sjálf. Aðspurð um líðan brotaþola haustið 2013 sagði vitnið dóttur sína vera haldna kvíða og hafa liðið illa á þeim tíma ef hún mætti ákærða á förnum vegi, en í dag líði henni fyrst og fremst illa yfir því í hvern farveg málið hafi farið og hve mikið hafi verið gert úr því.                 Borið var undir vitnið að í samantekt á framburði hennar hjá lögreglu 14. nóvember 2013 komi fram að dóttir hennar hafi sýnt vitninu mynd á síma sínum af ákærða, þar sem hann hylji nekt sína að hluta með handklæði, og sagt vitninu að ákærði hafi sent sér fleiri myndir. Kvað vitnið ekki rétt að dóttir hennar hafi sýnt sér myndina, en hún hafi sagt sér frá þessari mynd.                 E lögreglumaður gaf skýrslu fyrir dómi og kvaðst hafa farið á heimili brotaþola til að nálgast myndir í fartölvu þar. Þar hafi brotaþoli sýnt honum myndir, sem hafi verið vistaðar þar í möppu með fleiri myndum. Ekki hafi tekist að afrita myndirnar yfir á minnislykil og brotaþoli því sent lögreglu þessar sömu myndir með tölvupósti.                 Þegar Snapchat-myndir séu vistaðar sem skjáskot vistist þær á venjulegu myndasniði, t.d. „jpg“. Myndirnar sem fundust í tölvu á heimili brotaþola hafi verið á slíku sniði og því auðvelt að vinna með þær í myndvinnsluforriti. Vitnið staðfesti að hafa stækkað og lýst upp tvær þessara mynda, að beiðni saksóknara, sbr. skýrslu hans, dags. 9. september 2014. Hann kvaðst ekki muna skráarheiti myndanna. Tölur í horni myndanna sýni að þær hafi verið sendar með Snapchat-forritinu og sýni þær hve margar sekúndur hafi verið eftir af birtingartíma myndanna þegar skjáskot var tekið af þeim.                 F rannsóknarlögreglumaður gaf skýrslu fyrir dómi. Staðfesti hann að hafa fengið myndir framsendar frá E 8. nóvember 2013. Myndirnar hafi verið á „png“-formi, heiti þeirra ekki lýsandi fyrir efni þeirra og ekki hafi fylgt þeim neitt „snið“, þ.e. upplýsingar um hvenær þær hafi verið teknar. Talan „2“ sjáist í horni á tveimur myndum af getnaðarlim í hendi, sem vitnið hafi fengið sendar frá E. Sé sú tala til marks um að um Snapchat-mynd sé að ræða.                 Loks gaf skýrslu fyrir dómi G sálfræðingur og staðfesti vottorð sitt varðandi brotaþola, dags. 13. nóvember 2014, þar sem fram kemur að brotaþoli eigi við kvíðaröskun að etja og mælst til þess að álag á hana verði mildað með því að víkja ákærða úr dómsal, komi til þess að henni verði gert að bera vitni við aðalmeðferð málsins. Kvaðst hann hafa sinnt brotaþola í rúm tvö ár vegna kvíða, eftir tilvísun frá skóla, og síðast hitt hana ásamt móður hennar snemma árs 2014. Vitnið kvaðst ekki geta lagt mat á það hvort mál þetta hafi haft áhrif á brotaþola, enda hafi hún aldrei rætt málið neitt við vitnið og vitnið fyrst fengið upplýsingar um að mál þetta væri til meðferðar í gegnum félagsmálastjóra. III 1.                 Með fyrri lið ákærunnar er ákærða gefið að sök að hafa, í ágúst 2013, brotið gegn blygðunarsemi brotaþola, sem þá var 14 ára gömul, með því að hafa sent henni, þ.e. í síma hennar með forritinu Snapchat, tvær myndir af getnaðarlim. Er brotið talið varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.                 Ákærði hefur frá upphafi rannsóknar málsins neitað að hafa sent brotaþola myndir sem sýna getnaðarlim og ekki kannast við tvær slíkar myndir sem brotaþoli framvísaði við lögreglu.                 Í skýrslu, sem brotaþoli, A, gaf undir stjórn dómara á rannsóknarstigi málsins, kom margsinnis fram að ákærði hafi sent henni tvær myndir þar sem sést hafi í typpi innan í hendi og hún talið um kynfæri hans að ræða. Þó kom í eitt skipti fram í framburði brotaþola, snemma í skýrslutökunni, nokkurt misræmi að þessu leyti, sbr. setninguna „það var ekki ég sem hann var að senda þannig, það var önnur vinkona mín“. Í ljósi þess hve skýrt kom annars fram í framburði brotaþola að ákærði hafi sent henni sjálfri slíkar myndir er ekki ólíklegt að með tilvitnaðri setningu hafi brotaþoli verið að vísa til þess að vinkona hennar hafi fengið sendar enn skýrari myndir af kynfærum. Sökum þess vafa sem á um þetta leikur verður ekki hjá þessu misræmi litið við mat á framburði brotaþola. Þá verður að líta til þess að framburður brotaþola var ekki svo skýr sem skyldi um t.d. það hvenær ákærði hafi sent henni þessar myndir, hvar hún var stödd er hún opnaði þær og hvort hún hafi opnað myndirnar í félagsskap einhvers annars, s.s. vinkonu. Að öðru leyti en að framan greinir er ekkert fram komið sem dregur úr trúverðugleika framburðar brotaþola, sem virtist einlæg í sínum framburði.                 Við útgáfu ákæru naut framburður brotaþola um myndsendingar ákærða stoðar í framburði sem B gaf undir stjórn dómara meðan á rannsókn málsins stóð. Kom í framburði hennar fram að þær A hafi verið að passa, skömmu fyrir skólabyrjun, þegar ákærði hafi sent A nokkrar myndir, þar á meðal myndir þar sem sést hafi í typpi innan í hendi.                 Þennan framburð dró B til baka er hún gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins og kvaðst ekki hafa orðið vitni að því að ákærði sendi brotaþola myndir af getnaðarlim. Gaf hún þá skýringu á breyttum framburði að stúlkurnar hafi lagt að henni að segja eins frá og þær, áður en þær gáfu allar skýrslu undir stjórn dómara 7. nóvember 2013. Var á henni að skilja að þrýstingurinn hafi verið mestur frá C.                 Ekkert er fram komið sem bendir til þess að síðari framburður B sé rangur eða að hún hafi verið undir þrýstingi er hún gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Verður því að leggja til grundvallar að hún sé ekki til vitnis um það hvernig og hvaðan brotaþola bárust þær myndir af getnaðarlim sem í ákæru greinir.                 Myndirnar sjálfar, sem brotaþoli framvísaði og eru nærmyndir af getnaðarlim sem hönd heldur utan um, bera engin einkenni sem tengt geta þær við ákærða. Engar tækniupplýsingar liggja heldur fyrir um tilurð myndanna sem stutt geta að þær séu frá ákærða komnar.                 Sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik sem telja má honum í óhag hvílir á ákæruvaldinu og metur dómari hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, sbr. 108. og 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Gegn eindreginni neitun ákærða fær framburður brotaþola ekki þá stoð í gögnum málsins eða framburði vitna að sannað geti talist að ákærði hafi brotið gegn henni með þeim hætti sem greinir í fyrri lið ákærunnar. Ber því að sýkna ákærða af því sakaratriði. 2.                 Með síðari lið ákærunnar er ákærða gefið að sök að hafa, í aftursæti bifreiðar sinnar, sem lagt var á tilgreindum stað, „reynt að fá [brotaþola] til að fara með hendurnar inn fyrir buxur ákærða á kynfærasvæði“. Með því hafi ákærði brotið gegn blygðunarsemi brotaþola og er þetta talið varða við 209. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga.                  Í framangreindri háttsemislýsingu ákæru er ekki tilgreint með hvaða hætti ákærði hafi reynt að fá brotaþola til að fara með hendur inn fyrir buxur sínar á kynfærasvæði. Ekki var að því fundið af hálfu ákærða að ákæran væri óskýr að þessu leyti og verður ekki séð að vörn ákærða hafi orðið áfátt af þessum sökum.                 Eins og fyrr var rakið bar ákærði við aðalmeðferð málsins um að hafa getað rifjað upp atvik sem hann hafi ekki getað munað er hann gaf skýrslur hjá lögreglu. Kvaðst hann minnast þess að hafa farið í bíltúr með brotaþola og vitninu B, og þess að hafa lagst aftur í hjá brotaþola, í kjöltu hennar. Síminn hennar hafi dottið á gólf bifreiðarinnar. Brotaþoli hafi beðið hann að rétta sér símann en ákærði kvaðst hafa sagt henni að sækja símann sjálf. Kvaðst hann telja framburð brotaþola á einhverjum misskilningi byggðan.                 Við mat á trúverðugleika þessa framburðar ákærða verður ekki hjá því litið að það var fyrst við aðalmeðferð málsins sem hann bar með framangreindum hætti um atvikið, en við skýrslutökur hjá lögreglu kvaðst hann alls ekki minnast þess að hafa farið í bíltúr með stúlkunum, enda þótt borinn væri undir hann framburður stúlknanna við síðari skýrslutökuna og honum sýnd mynd sem hann kannaðist við að sýndi hann sjálfan liggjandi í kjöltu brotaþola í aftursæti bifreiðar. Sú skýring sem ákærði gaf fyrir dómi á breyttum framburði sínum, þ.e. að hann hafi ekki getað rifjað þetta atvik upp fyrr þar sem hann sé svo oft á rúntinum, virðist ekki ýkja trúverðug, sérstaklega í ljósi þess að ekkert bendir til annars en að þetta hafi verið í fyrsta og eina skiptið sem hann fór í bíltúr með stúlkunum. Að áliti dómsins ber þessi skýring einkenni þess að vera búin til eftir á, auk þess sem skýringin sjálf virðist ekki sennileg. Dregur þetta úr trúverðugleika framburðar ákærða.                  Óumdeilt er að vitnið B var með ákærða og brotaþola í bifreiðinni umrætt sinn. Ber ákærða og báðum stúlkunum saman um að ákærði hafi klifrað aftur í til brotaþola, lagst í kjöltu hennar og handleikið símann hennar. Það sem skilur í milli framburðar ákærða og stúlknanna er að ákærði neitar að hafa hneppt frá buxnaklauf sinni umrætt sinn og gefið brotaþola til kynna að hún ætti að sækja símann sinn inn fyrir föt hans á kynfærasvæði. Um það efni er framburður brotaþola afdráttarlaus og kveður hún að á þessu hafi gengið um nokkra hríð í bílnum, eða í um 10 mínútur. Hafi ákærði gefið henni þetta til kynna bæði með orðum og hátterni, þar sem hann lá með höfuðið á lærum hennar. Eins og fyrr sagði virtist brotaþoli einlæg í framburði sínum og var framburður hennar um atvik í bifreiðinni mun nákvæmari en framburður hennar um myndsendingar ákærða. Er framburður brotaþola um atvik í bifreiðinni bæði skýr og trúverðugur að áliti dómsins.                 Framburður B hefur verið stöðugur um atvik í bifreiðinni í öllum meginatriðum, þótt nokkurra áherslubreytinga hafi gætt í síðari framburði hennar fyrir dómi varðandi alvarleika og þýðingu þeirra atburða. Samræmist framburður hennar framburði brotaþola um atvik í bifreiðinni í öllum meginatriðum, þar á meðal um að hafa veitt því athygli að ákærði hafði hneppt frá buxnaklauf sinni. Þá kom að áliti dómsins skýrt fram í framburði hennar að með hátterni sínu og orðum hafi ákærði gefið brotaþola til kynna að hún ætti að sækja símann sinn inn fyrir buxur hans, þótt hann hafi ekki beinlínis sagt henni að gera það. Rennir framburður vitnisins stoðum undir það að brotaþoli hafi mátt leggja þann skilning í hátterni ákærða sem hún gerði.                 Við mat á trúverðugleika framburðar B verður ekki hjá því litið að vitnið viðurkenndi fyrir dómi að hafa sagt ósatt við fyrri skýrslugjöf sína varðandi myndsendingar ákærða. Þetta viðurkenndi hún hins vegar hreinskilnislega og bar við að hafa verið undir þrýstingi frá hinum stúlkunum, einkum þó C. Á hinn bóginn varð ekki ráðið af framburði B að hún hafi verið undir neinum þrýstingi varðandi frásögn af atvikum í bifreiðinni er hún gaf skýrslu undir stjórn dómara 7. nóvember 2013 og aftur við aðalmeðferð málsins og hefur framburður hennar um þau atvik verið stöðugur eins og fyrr sagði. Verður heldur ekki annað ráðið en að vitnið hafi lýst atvikum af eigin raun, eins og sérstaklega var brýnt fyrir henni að gera við aðalmeðferð málsins. Þá styrkir það fremur trúverðugleika framburðar vitnisins heldur en hitt, að hún bar um að vera ekki lengur í nánum vináttutengslum við brotaþola.                 Samkvæmt öllu framanrituðu þykir trúverðugur framburður brotaþola um atvik í bifreiðinni fá slíka stoð í framburði vitnisins B, að gegn neitun ákærða telst fram komin lögfull sönnun þess að ákærði hafi reynt að fá brotaþola til að fara með hendurnar inn fyrir buxur hans á kynfærasvæði.                 Af hálfu ákærða var jafnframt borið við þeirri vörn, teldist háttsemi hans sönnuð, að virða verði háttsemina sem grín og að hann hafi ekki haft ásetning til kynferðisbrots. Teljist háttsemin honum því ekki refsiverð.                 Í framburði ákærða fyrir dómi bar hann því við að brotaþoli hlyti að hafa misskilið hann þegar hann sagði henni að sækja símann sinn sjálf, en ekkert kom fram sem getur stutt það að um grín af hans hálfu hafi verið að ræða. Þótt þessi málsvörn ákærða fái vissa stoð í framburði B, einkum við aðalmeðferð málsins, um að brotaþola hafi mátt vera ljóst að um grín væri að ræða, kom ekkert fram efnislega í framburði vitnisins sem rennir stoðum undir það að háttsemi ákærða hlutlægt séð hafi verið sett fram sem grín og að brotaþola hafi mátt skiljast það. Kom heldur ekkert fram í framburði ákærða eða vitnisins um að brotaþola hafi verið tjáð að um grín hefði verið að ræða. Virtist framburður vitnisins fyrst og fremst byggður á því að vegna aldursmunar ákærða og brotaþola hafi vitnið talið ólíklegt að hann væri að fara á fjörurnar við hana og því hlyti að hafa verið um grín að ræða. Getur afstaða vitnisins engum úrslitum ráðið í þessum efnum. Hins vegar kom skýrt fram í framburði B að brotaþoli hafi sýnt þess merki í bifreiðinni að henni liði illa vegna hátternis ákærða. Samræmist það framburði brotaþola sjálfrar um upplifun hennar af atvikinu. Verður framangreindri vörn ákærða því hafnað.                 Sú háttsemi sem sannað er samkvæmt framanrituðu að ákærði viðhafði í garð brotaþola, þar sem hann lá í kjöltu hennar og gaf í skyn með orðum og látbragði að hún gæti sótt símann sinn inn undir fráhnepptar buxur hans á kynfærasvæði, er hlutlægt séð af kynferðislegum toga og til þess fallin að brjóta gegn blygðunarsemi brotaþola, eins og framburður hennar er jafnframt til marks um. Er brot ákærða réttilega heimfært í ákæru til 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og jafnframt til 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, í ljósi ungs aldurs brotaþola. IV                 Samkvæmt framanrituðu er ákærði hér sakfelldur fyrir brot samkvæmt síðari lið ákærunnar, en sýknaður af fyrri lið hennar, og varðar brot hans við 209. gr. almennra hegningarlaga, auk 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga.                 Ákærði var 19 ára er brot hans átti sér stað og hefur hann ekki áður gerst sekur um refsiverð brot. Við ákvörðun refsingar hans er litið til ungs aldurs hans og hreins sakaferils, en jafnframt til ungs aldurs brotaþola, sem var 14 ára gömul er brotið átti sér stað. Framburður móður brotaþola fyrir dómi bendir þó ekki til þess að brot ákærða hafi haft varanleg neikvæð áhrif á líðan brotaþola og liggja ekki fyrir gögn sem benda til annars. Með hliðsjón af framanrituðu og brotinu sjálfu, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 45 daga fangelsi, en fullnustu refsingarinnar er frestað og fellur hún niður að liðnum tveimur árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.                 Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Gísla M. Auðbergssonar hrl., vegna starfa hans á rannsóknarstigi málsins og fyrir dómi, eru hæfilega ákveðin í einu lagi að fjárhæð 742.500 krónur, en auk þess á verjandinn rétt til greiðslu 70.064 króna vegna aksturs. Þóknun réttargæslumanns brotaþola, Evu Dísar Pálmadóttur hrl., vegna starfa hennar í þágu brotaþola á rannsóknarstigi málsins og fyrir dómi, þykir hæfilega ákveðin 207.075 krónur. Við ákvörðun málsvarnarlauna verjanda og þóknunar réttargæslumanns hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Þá féll við aðalmeðferð málsins til sakarkostnaður vegna aksturs vitnis, 59.392 krónur. Með hliðsjón af úrslitum málsins þykir rétt að dæma ákærða til greiðslu helmings áfallins sakarkostnaðar, þ.e. 539.515 krónur, en að öðru leyti greiðist sakarkostnaður úr ríkissjóði.                 Dómur þessi er kveðinn upp af Hildi Briem héraðsdómara föstudaginn 6. mars 2015, kl. 14.00, í dómsal Héraðsdóms Austurlands að Lyngási 15, Egilsstöðum. Við dómsuppsögu var gætt ákvæðis 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en dráttur varð á dómsuppsögu vegna embættisanna dómara. Dómsorð:                 Ákærði, Guðjón Ingibergur Ólafsson, sæti fangelsi í 45 daga, en fullnustu refsingarinnar er frestað og fellur hún niður að liðnum tveimur árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.                 Ákærði greiði 539.515 krónur í sakarkostnað, en að öðru leyti greiðist sakarkostnaður úr ríkissjóði. Innifalið í sakarkostnaði eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Gísla M. Auðbergssonar hrl., 742.500 krónur, ferðakostnaður verjandans, 70.064 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Evu Dísar Pálmadóttur hrl., 207.075 krónur.                               
Mál nr. 572/2015
Líkamsárás Ómerkingu héraðsdóms hafnað
X var ákærður fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa veitt A högg með krepptum hnefa í andlit þar sem hún stóð við útidyr heimilis síns með þeim afleiðingum að hún féll við og lenti á gólfi innan við útidyrnar og hlaut bólgu og margúl neðan við auga og út til hliðar yfir kinnbein. Talið var að framburður A, sem var ein til frásagnar um að X hefði ráðist á hana, hefði að sumu leyti verið óstöðugur og í ósamræmi við framburð annars vitnis um atvik áður en árásin átti sér stað. Yrði sakfelling því ekki á honum byggð gegn neitun X. Var því ekki talið að komin væri fram lögfull sönnun þess að X hefði veist að A með þeim hætti sem greindi í ákæru. Var X því sýknaður.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 6. ágúst 2015. Af hálfu ákæruvaldsins er þess aðallega krafist að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, en til vara að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og dæmdur til refsingar. Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms. Krafa ákæruvaldsins um ómerkingu héraðsdóms er reist á því að sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kunni að vera rangt svo að einhverju skipti um úrslit máls, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þegar niðurstaða hins áfrýjaða dóms er virt í ljósi þess sem komið hefur fram í málinu verður ekki fallist á að það með ákæruvaldinu að líkur standi til að sönnunarmatið hafi verið rangt svo einhverju skipti um niðurstöðuna. Verður kröfunni því hafnað. Samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 getur Hæstiréttur ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði gefi skýrslu hér fyrir dómi. Að því gættu og með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Allur áfrýjunarkostnaður málsins verður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Héraðsdómur skal vera óraskaður. Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, Jónasar Þórs Jónassonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.   Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 10. júlí 2015. I Mál þetta, sem dómtekið var 24. júní sl., höfðaði lögreglustjórinn á Vestfjörðum með ákæru 30. apríl 2015 á hendur ákærða; „X, kennitala [...], [...], [...], fyrir líkamsárás, með því að hafa að kvöldi mánudagsins 3. nóvember 2014, veitt A, kt. [...], eitt högg með krepptum hnefa í andlit, þar sem hún stóð við útidyr heimilis síns að [...] á [...], með þeim afleiðingum að hún féll við og lenti á gólfi innan við útidyrnar og hlaut bólgu og margúl neðan við vinstra auga og út til hliðar yfir kinnbein. Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. síðari breytingar. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“ Ákærði neitaði sök við þingfestingu málsins og skilaði 3. júní sl. greinargerð sinni, sbr. 165. gr. laga nr. 88/2008. Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa. Í báðum tilvikum er þess krafist að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar á meðan málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í samræmi við framlagða tímaskýrslu, auk útlagðs kostnaðar verjandans. II Þann 3. nóvember 2014 barst lögreglu tilkynning um að brotaþoli, A, hefði verið kýld í andlitið fyrir utan heimili sitt að [...], [...]. Í tilkynningunni kom fram að meintur gerandi væri ákærði sem er nágranni brotaþola og býr í götunni fyrir ofan hana. Þegar lögregla kom á vettvang var brotaþoli í uppnámi og mátti sjá örlítinn roða í andliti hennar. Brotaþoli sagði hundinn hennar hafa farið að gelta eins og hann geri þegar einhver er að „sníglast“ á lóðinni við húsið. Hún hafi þá farið út og þegar hún kom til baka hafi ákærði staðið við dyrnar, klæddur dökkgrárri úlpu, með húfu og svartan og hvítan hund af tegundinni border collie. Hún hafi spurt ákærða hvað hann væri að gera og hafi hann svarað að hann væri að viðra hundinn. Ákærði hafi svo kýlt hana fyrirvaralaust í andlitið með krepptum hnefa þannig að hún kastaðist inn í húsið. Lögregla náði síðan tali af ákærða þar sem hann var við vinnu á [...]. Ákærði var sýnilega ölvaður, á stólbaki á vinnustað hans var dökkgrá úlpa og auk þess var hann með svartan og hvítan border collie hund sem hann kvaðst vera að gæta. Ákærði neitaði því að hafa gert brotaþola nokkuð. Hann kvaðst hafa komið gangandi heiman frá sér fyrr um kvöldið. Hafi hann þá gengið út [...] og niður [...], [...] niður að [...] og [...] að hafnarvoginni. Þá gaf ákærði öndunarsýni í áfengismæli sem sýndi niðurstöðuna 1,06 mg/l. Brotaþoli gaf skýrslu hjá lögreglu vegna málsins 4. nóvember 2014. Hún kvaðst hafi farið út þar sem hún heyrði hund sinn gelta. Þegar hún kom til baka og hafi verið komin í anddyri íbúðar sinnar og hafi haldið annarri hendi í sneril útihurðar, sem var hálfopin, og með aðra löppina inni en hina úti hafi hún litið við og þá séð ákærða fyrir aftan sig. Hún hafi spurt hann hvað hann væri að gera þarna og hafi hann svarað að hann væri að fylgjast með hundi sínum. Ákærði hafi verið með hund og hafi hann verið klæddur grárri úlpu og með húfu á höfði. Eftir þetta svar ákærða hafi hún ætlað að fara inn en hann hafi þá reitt hægri hnefa til höggs og slegið hana í vinstri kinn þannig að hún féll inn um dyrnar og í gólfið. Skýrsla var tekin af ákærða 7. nóvember 2014. Hann sagði kæruna vera ranga og hann hafi aldrei komið nálægt húsi brotaþola. Hann hafi þetta kvöld verið kallaður út í vinnu en hann sé [...] og [...] á [...]. Hann hafi gengið niður á bryggju til vinnu og hafi þá verið með hund sem hann hafi verið með í pössun. Hann hafi gengið heiman frá sér út [...], niður [...] og út á bryggju. Hann sagði vel geta staðist að hann hafi verið klæddur grárri úlpu og kvaðst einnig hafa verið með rauða Arsenal-húfu en kvaðst einnig eiga svarta húfu. Hann kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis og hafa byrjað að drekka um fimm- eða sexleytið og hafa drukkið tæpa flösku af rauðvíni. Vitnið B sagði í skýrslu sinni hjá lögreglu að snemma þetta kvöld hafi hann, frá bílskúrnum á heimili sínu að [...], séð ákærða koma gangandi framhjá, en ákærði búi við hliðina í húsi nr. [...]. Hafi hundur fylgt ákærða. Um 10 til 15 mínútum seinna hafi hann séð ákærða inni í vigtarskúrnum að vigta upp úr vélbátnum [...]. Fyrir liggur læknisvottorð, dagsett 7. nóvember 2014, þar sem fram kemur að brotaþoli hafi leitað til slysadeildar 4. nóvember 2014. Þar hafi hún lýst atvikum svo að hún hafi fengið hnefahögg í andlitið þar sem hún var í anddyri íbúðar sinnar og hafi það lent fyrir neðan vinstra auga og á kinnbeini. Hún hafi þá dottið aftur fyrir sig og skollið í gólfið. Fram hafi komið hjá henni að hún hafi kastað einu sinni upp. Ástandi brotaþola er lýst svo í vottorðinu að hún hafi verið vakandi og áttuð en í talsverðri geðshræringu. Bólgusvæði hafi verið neðan við vinstra auga og út til hliðar yfir kinnbein, 3 x 5 sm að stærð, og aðeins blámi í því (margúll). Einnig liggur fyrir vottorð C sálfræðings, dagsett 3. desember 2014, vegna brotaþola. Þá liggur fyrir ljósmyndamappa lögreglu með ljósmyndum sem teknar voru 18. nóvember 2014 af brotavettvangi og þeirri gönguleið sem ákærði kvaðst hafa gengið, tvær ljósmyndir af áverkum á brotaþola sem teknar voru af lögreglu 4. nóvember 2014, götukort af [...], gögn um færslur bæði brotaþola og ákærða á Facebook, yfirlit ákærða vegna samskipta á milli fjölskyldna hans og brotaþola, vigtarskýrsla vegna [...] og símagögn. Loks liggja fyrir útprentanir úr dagbók lögreglu sem ná yfir tímabilið frá 16. janúar 2014 til 19. maí 2015 þar sem bókaðar eru tilkynningar um ætlað áreiti annars vegar frá brotaþola og fjölskyldu hennar og hins vegar frá ákærða og fjölskyldu hans og þrjár tilkynningar til barnaverndaryfirvalda sem settar voru fram af hálfu ákærða og eiginkonu hans vegna ætlaðs áreitis brotaþola gagnvart börnum þeirra. III Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi. Ákærði lýsti því fyrir dómi að hann hafi þetta kvöld verið kallaður í vinnu að vigta úr mótorbátnum [...] af D stýrimanni bátsins. Hann hafi farið gangandi í vinnuna frá heimili sínu og gengið út [...], út [...], út [...] og út á [...] og þaðan út í vigtarskúr. Þar hafi hann setið og beðið eftir því að báturinn byrjaði að landa þegar lögreglumaður hringdi í hann og sagði honum að hann ætti von á heimsókn lögreglu út af líkamsárásarmáli. Þegar hann var byrjaður að vigta hafi tveir lögreglumenn komið til hans og hafi þeir staðið yfir honum og spurt hann spjörunum úr. Það hafi allt farið í „kleinu“ hjá honum út af þessu þar sem hann átti ekki von á þessu. Eftir þetta hafi hann gengið heim og á leiðinni hringt í E, sambýlismann brotaþola, og spurt hann hvað honum gengi til í þetta skipti en þau séu búin að vera að áreita hann og konuna hans síðustu tvö ár. E hafi engu svarað og skellt á en hann haldið áfram heim. Þegar hann kom heim hafi hann sett færslu á Facebook-síðu sína því að hann hafi reiðst mjög út af þessu. Ákærði sagði að verið gæti að klukkan hafi verið fimmtán til tuttugu mínútur í níu þegar hann lagði af stað niður í vigtarskúr. Báturinn hafi komið inn fyrir níu og hann hafi verið mættur niður eftir þegar báturinn kom. Ákærði kvaðst ekki vita hversu lengi hann var að ganga niður eftir en hann hafi verið með hundinn með sér og hafi hann stundum drifið hann áfram en stoppað einnig mikið á leiðinni.                 Ákærði kvaðst hafa sagt lögreglumönnunum að það væri fjarri lagi að hann hafi gert þetta. Þeir hafi látið hann blása í áfengismæli og spurt hann um hundinn. Ákærði kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis. Hann hafi drukkið kannski eina rauðvínsflösku frá klukkan fimm eða sex þangað til hann fór að vigta. Ákærði kvaðst hafa verið með hund í pössun, svartan og hvítan border collie, og hafi verið búinn að vera með hann í um tvær vikur þegar þetta gerðist. Á þeim tíma hafi hann margoft farið með hann út en muni ekki eftir að hafa hitt brotaþola á þeim ferðum. Aðspurður kvaðst ákærði hafa verið klæddur í gráa úlpu með loðkraga, svartar joggingbuxur og verið með húfu. Ákærði sagði að göngufæri væri á milli heimilis hans og brotaþola en girðing sé við ofanvert hús brotaþola, tvær spýtur þveraðar, kannski 40 sm að hæð. Órækt sé á svæðinu milli húsanna, og einhverjir runnar og sé þetta ekki gönguleið. Ákærði sagði að það sæist glitta í hús hans frá húsi brotaþola en það sjáist greinilega frá [...]. Aðspurður sagði ákærði að ágreiningur væri á milli fjölskyldu hans og fjölskyldu brotaþola sem hafi upphaflega stafað af því að dætrum þeirra hefði sinnast. Dóttir ákærða hafi þá sagt í gríni að hún ætlaði að biðjast afsökunar svo að hún yrði ekki tekin hálstaki. Með þetta hafi dóttir brotaþola hlaupið heim og svo hafi brotaþoli hringt í konu ákærða og dóttur og kallað dóttur hans lygatík og sagt að hún væri að bera út lygar um E. Skömmu seinna, haustið 2013, hafi hann unnið með E á [...] og hafi E þá fengið far með honum til baka til [...]. Á leiðinni hafi þeir rætt um slys sem ákærði lenti í árið 2011 en hann þurfti að hætta á sjónum vegna þess. Hann hafi sagt E að ef allt færi eins og áætlað væri fengi hann umtalsverðar tryggingabætur. Hann hafi síðan fengið bréf frá lögmanni sínum um að það væri búið að klaga hann fyrir tryggingasvik. Hann kvaðst strax hafa séð að þetta var frá E komið. Fljótlega upp úr þessu hafi hann séð, þegar hann var að aka framhjá húsinu hjá þeim, að þau voru vinkandi, hlæjandi og klappandi framan í hann. Þetta hafi svo ágerst. Vitnið kvaðst vita að E gerði þetta og hafi farið að segja öðrum frá því og þá hafi þetta breyst í grettur og „fokkjúmerki“. Í janúar 2014 hafi kona hans lent í rifrildi við E úti í íþróttahúsi og hafi ákærði þá farið og látið E heyra það. Hann hafi þá verið mjög reiður og kannski sagt ýmislegt sem hefði mátt kyrrt liggja. Upp frá þessu ágerðist skítkastið. Ákærði sagði að hann hefði verið kallaður í endurmat hjá tryggingafélaginu vegna tilkynningarinnar frá E og niðurstaða þess hafi verið sú að fyrra mat á varanlegri örorku var lækkað um 10%. Þá sagði ákærði það ekki vera rétt að hann hafi verið að gefa brotaþola og fjölskyldu hennar einhverjar bendingar og merki heldur væri þessu öfugt farið. Ákærði sagði E og brotaþola hafa haft í hótunum við sig og einnig hafi brotaþoli verið að kalla dóttur hans nöfnum. Þá hafi honum verið sagt að E hafi hótað því að yrði mál þetta ekki tekið fyrir hjá lögreglu yrði fjórföld jarðarför. Einnig hafi E og brotaþoli hringt í bæjarstjórann og reynt að fá hann rekinn af vigtinni og sagt að hann væri alltaf dauðadrukkinn í vinnu og einnig talað um að hann væri grunaður um að vera í neyslu eiturlyfja. Þá hringdu þau í starfsmann [...] með sömu sögu og E reyndi að fá hann rekinn úr starfi í [...] og sagt að hann væri að áreita börnin hans í íþróttahúsinu og í sundi. Ákærði kvaðst vera í hjúskap, eiga tvö börn og starfa sem [...] og hafa að auki verið í hlutastarfi sem [...] síðasta vetur. Hann kvaðst hafa liðið miklar þjáningar út af þessum árásum af hálfu brotaþola og fjölskyldu hennar. Það hafi verið mikið áfall að missa starfið sem hann var búinn að vera í alla tíð. Hann hafi verið edrú þegar hann fékk þær fréttir að tryggingafélagið ætlaði að taka hann til rannsóknar. Hann hékk heima og var á endanum orðinn þunglyndur og fékk lyf við því en byrjaði að drekka aftur í júní 2014 og telur það vera beina afleiðingu af þeim ásökunum sem á hann hafa verið bornar. Vitnið A, brotaþoli, lýsti því að þetta kvöld hafi hún verið ein heima með nú fimm ára gamla dóttur sína og hafi sambýlismaður hennar, E, farið í vinnu um klukkan hálfátta. Hún hafi þá sett dóttur sína í bað. Þetta hafi gerst í nóvember og það hafi verið farið að dimma úti. Hún sé með hund og alltaf þegar einhver komi að húsinu eða gangi framhjá gelti hann. Meðan dóttir hennar var í baði hafi hún heyrt hundinn gelta en hann var læstur inni í þvottahúsi. Eftir að hún tók dóttur sína úr baðinu hafi hún farið út. Hennar hundur hafi þá enn verið í þvottahúsinu. Hún hafi séð son sinn rétt hjá á skólalóðinni og gengið í áttina að honum talað við hann nokkur orð. Hún hafi svo gengið til baka að húsinu en áður en hún kom inn í húsið hafi hún fundið skrýtna tilfinningu og snúið sér við og þá séð ákærða. Hann hafi verið með svarta húfu, í dökkum buxum og í grárri úlpu. Hún sagði ákærða hafa verið með hund, svartan og hvítan, border collie-blöndu. Útiljósið var kveikt og lýsti á ákærða. Hann var alls ekki illur en var mjög órólegur og mjög skrítinn eins og hann væri undir áhrifum en var ekki ókurteis. Hann hafi ekki getað staðið kyrr og var með líkamlega kæki. Þegar hann kom nærri henni hafi hún farið að óttast hann og hafi spurt hann hvað hann væri að gera. Hann sagði að hann væri að fylgjast með hundinum sínum. Hún hafi þá opnað dyrnar og hafi ætlað að fara inn í húsið en þá hafi hann kýlt hana. Hann hafi haldið í hundinn með vinstri hendi og kýlt hana með hægri hendi og í vinstri kinn. Hún kvaðst ekki muna mikið eftir þessu nema að eftir að hún rankaði við sér á gólfinu þá heyrði hún yngstu dóttur sína gráta og kalla: „mamma“. Hún þorði ekki að snúa sér að henni af því að hún vissi ekki hvernig andlitið á sér liti út, til að hræða hana ekki, en hún hafi staðið fyrir aftan hana í ganginum. Hún kvaðst hafa sagt dóttur sinni af fara inn í rúm áður en hún snéri sér að henni. Vitnið kvaðst hafa verið mjög vönkuð og í sjokki og hafa kastað upp inni á salerni eftir að hún stóð upp. Hún kvaðst ekki hafa áttað sig á því hvort hennar hundur gelti þegar ákærði var þarna og ekki hafa séð hvaðan ákærði kom. Frá því að hún sá ákærða þar til hann kýldi hana hafi liðið mjög stuttur tími. Vitnið kvaðst halda að hún hafi rotast í nokkrar sekúndur. Síðan hafi hún hringt í 112 og 118, en muni ekki í hvort númerið hún hringdi fyrst, og sagt að ákærði hefði kýlt hana. Systir E, vitnið F, hafi komið eftir að ákærði kýldi hana og seinna einnig vitnið G, sóknarprestur. F hafi sagt lögreglu að flýta sér af því að hún vissi að E færi að koma og óttaðist hvað hann gerði. Vitnið hafi einnig verið hrædd um að E kæmi heim og mundi gera eitthvað við ákærða en hann hafi verið orðinn mjög þreyttur á framkomu ákærða gagnvart börnum þeirra og henni. Hún óttaðist að hann mundi, eins og örugglega flestir menn mundu gera ef einhver ræðst á konu þeirra, ráðast á þann sem það gerði. Vitnið kvaðst ekki vita hve lengi hún hafi verið rotuð eða hvernig ástand hennar var eftir að ákærði kýldi hana en hún hafi dottið inn í ganginn heima hjá sér og lent á gólfinu. Hún kvaðst muna að yngri dóttir hennar kallaði nafnið hennar en viti ekki hvort hún stóð fyrir aftan hana eða hvort hún heyrði í henni í gegnum barnapíutækið. Aðspurð um afleiðingar árásarinnar sagði vitnið að ákærði hefði kýlt hana í kinnina og hafi hún verið bólgin þar og síðan marin. Einnig hafi hún daginn eftir verið bólgin á öxlinni og hafi bólgan verið eins og kúla og kvaðst hún halda að einnig hafi verið rispa. Vitnið kvaðst hafa verið þunglyndissjúklingur áður en þetta gerðist og ákærði og fjölskylda hans vissu það. Hún hafi hætt að vinna vegna þess í september eða október 2014 að ráðleggingu sálfræðings. Hún hafi verið mjög illa andlega stödd en sálfræðingurinn sagði henni að finna sér eitthvað að gera, til dæmis ganga úti. Eftir þetta gat hún ekki gert það og var eins og hann hefði tekið þetta frelsi frá henni. Hún hafi verið mjög hrædd við ákærða. Hann hafi einnig verið að aka framhjá húsinu hjá henni en hún hafi „elskað“ að sitja við eldhúsgluggann og drekka kaffi. Eftir að hún kærði hafi þetta verið lifandi helvíti. Hann hafi alltaf verið með bendingar og nefnir sem dæmi að hann hafi gefið bendingu með því að setja fingur þvert yfir hálsinn á sér. Hann hægði á bifreiðinni ef hún var að ganga úti á götu og starði á hana. Einu sinni þegar hún var að fara með dóttur sína á leikskóla og hann var að fara með konu sína í vinnu hafi hann ekið á gönguhraða og starað á hana allan tímann.                 Brotaþoli sagði ágreining milli fjölskyldu hennar og ákærða hafa byrjað fyrir um tveimur árum og nefnir annars vegar ásakanir um tryggingasvik og hins vegar að ákærði hafi verið að ógna dóttur hennar. Hún nefnir sem dæmi að hann hafi verið hjólandi eftir henni og verið að horfa á hana, eða akandi á bifreið eftir henni. Ef börnin voru að rífast, eins og krakkar geri, þá kom konan hans og skammaði börnin hennar. Mest allt „vesen“ hafi þó verið eftir árásina. Nefndi hún sem dæmi að ákærði hafi kallað dóttir hennar hóru og að hann hafi einu sinni ekið svo nálægt dóttur hennar þegar hún var á hjóli að hún hafi dottið af því. Aðspurð kvaðst brotaþoli ekki hafa klagað ákærða út af tryggingasvikum en ágreiningurinn milli þeirra hafi í raun byrjað fyrst eftir að þau komu upp. Þá kvaðst vitnið kannast við að hafa skrifað Facebook-færslu sem liggur fyrir í málinu en sagði þar ekki koma fram að þarna sé hún að skrifa um ákærða. Hún kvaðst hafa skrifað færsluna í kjölfar samskipta ákærða við dóttur hennar þegar hún var á vegum skólans að safna fyrir krabbameinssjúka. Aðspurð kvaðst hún ekki hafa séð ákærða með þennan hund áður en atvik gerðist. Þá staðfesti hún að göngufæri væri frá bakhlið húss hennar að heimili brotaþola. Vitnið F, systir E, sambýlismanns brotaþola, sagði brotaþola hafa hringt í sig og sagt að ákærði hefði barið hana og að E væri farinn. Hafi hún haldið að hann hafi farið á eftir ákærða en vitnið hafi óttast viðbrögð hans. Vitnið hafi svo farið til brotaþola sem hafi verið í mikilli geðshræringu og hafi dóttir hennar verið grátandi. Vitnið hafi þá hringt í G sem hafi einnig komið. Aðspurð um áverka á brotaþola sagði hún hana hafa verið rauða á vanganum. Vitnið sagði brotaþola hafi lýst atvikum fyrir henni svo að hún hafi verið að baða stelpuna og hafi þá heyrt hundinn gelta. Hún hafi svo farið út til að athuga með son sinn en þegar hún koma til baka hafi ákærði birst með hund. Hún hafi staðið í dyrunum og snúið sér við og svo fengið högg í andlitið og rankað við sér á gólfinu. Brotaþoli hafi sagt henni að ákærði aki oft framhjá húsinu og horfi upp í gluggann og sé með áreiti. Kvaðst vitnið hafa staðreynt þetta eitt sinn er hún gekk á eftir ákærða framhjá húsinu. Þá sagði hún ákærða hafa sagt sér að hann hefði áreiðanlegar heimildir fyrir því að E hafi látið tryggingar vita af því að hann teldi að ákærði væri að svíkja undan bætur. Vitnið H lögregluvarðstjóri kvaðst hafa ritað frumskýrslu málsins. Þegar þeir komu á vettvang hafi brotaþoli verið í miklu uppnámi, grátandi og rauð í framan, og sagði að ákærði hefði ráðist á sig og talað um að hann hafi verið með hund. Vitnið F hafi þá verið hjá brotaþola. Brotaþoli hafi verið með roða á kinn sem vitnið hafi tekið myndir af. Brotaþoli lýsti því að hún hafi sussað á hundinn og farið út að athuga með son sinn. Þegar hún kom til baka stóð ákærði fyrir utan útidyrnar hjá henni í dökkum jakka með svarta húfu með hund í bandi. Vitnið kvaðst ekki muna hvort hún sagði ákærða hafa ýtt henni inn eða kýlt hana inn og minnti að hún hafi sagt að hún hafi henst eftir ganginum. Þeir hafi síðan farið að leita að E, sambýlismanni brotaþola, en hún hafi óttast að hann yrði reiður þegar hann heyrði hvað hefði gerst. Hann hafi reyndar verið mjög rólegur þegar þeir hittu hann. Þeir hafi svo fundið ákærða í vigtarskúrnum við höfnina með hund og jakka sem passaði við lýsingu brotaþola. Ákærði hafi vitað að von var á lögreglu. Ákærði talaði mikið og reyndist hann vera undir áhrifum áfengis. Hann hafi talað um samskipti við brotaþola og hennar fólk og lýst ágreiningi. Hann hafi lýst leiðinni sem hann fór til vinnu og samkvæmt því fór hann ekki framhjá húsi brotaþola. Vitnið kvaðst ekki minnast þess að brotaþoli hafi sagt að hún hafi kastað upp. Vitnið I, fyrrverandi lögreglumaður, kvaðst hafa farið á vettvang og hitt þar vitnið F ásamt brotaþola sem var í miklu uppnámi og grét og sagði þeim að ákærði hefði kýlt hana í andlitið. Hún hafi heyrt hundinn sinn gelta og þá farið út og róað hann niður og séð síðan son sinn og kallað á hann. Þegar hún kom til baka sá hún ákærða, með hund, og hann hafi kýlt hana fyrirvaralaust með krepptum hnefa. Við það hafi hún kastast inn. Hún talaði um að vera aum í andlitinu og hafi þeir tekið mynd af henni. Vitnið kvaðst ekki muna eftir því að hún hafi talað um að hún hafi vankast, misst meðvitund eða kastað upp. F hafi lýst því að hún hefði áhyggjur af E og óttast að hann yrði reiður og myndi ganga í skrokk á ákærða. Þeir hafi því fyrst leitað að E. Þegar þeir hittu hann hafi hann reynst vera rólegur en vildi vita hvort það væri í lagi með brotaþola. Þeir hafi síðan hitt ákærða á vinnustað hans á [...] og var þá verið að landa. Ákærði hafi verið töluvert ölvaður. Hann sagðist vera nýkominn í vinnu og lýsti leiðinni sem hann fór til vinnu en samkvæmt henni hafði hann ekki gengið fram hjá húsi brotaþola. Ákærði var lítillega stressaður þegar þeir komu. Hann neitaði því að hafa framið líkamsárásina. Hann var klæddur ljósbrúnni skyrtu og jakki hékk á stól hjá honum. Hann var með hund af tegundinni border collie, svartan og hvítan að lit. Vitnið kvaðst ekki muna hvort hann sá áverka á brotaþola en hún hafi haldið mikið um andlitið og grátið. Hún talaði um að það hafi verið einhverjar erjur á milli þeirra og ákærða síðustu mánuði. Vitnið E, sambýlismaður brotaþola, kvaðst hafa farið að vinna fyrir klukkan átta þetta kvöld. Þegar hann kom heim hafi brotaþoli verið grátandi og skolfið en þar hafi einnig verið vitnin F og G. Vitnið sagði brotaþola hafa verið dálítið bólgin í andliti, á vinstra kinnbeini, og hafi mar komið út seinna og einnig bólga í herðunum á henni. Hann hafi sjálfur verið í hálfgerðu taugaáfalli og muni lítið. Seinna um kvöldið hafi brotaþoli sagt honum frá því sem gerðist. Hún kvaðst hafa heyrt eitthvað úti þegar hún var að baða dóttur þeirra. Skömmu seinna hafi hún farið út og þá hafi ákærði verið kominn. Hún hafi spurt hann hvað hann væri að gera og hann sagt að hann væri að fylgjast með hundi sem hann var með. Hún hafi sagt „ok“ og kvaðst hann halda að hún hafi ekki munað neitt meira fyrr en hún var komin niður á gólf og heyrði dóttur þeirra gráta. Vitnið sagði ágreining hafa byrjað milli fjölskyldu hans og ákærða um áramót 2013 og 2014 en dætrum þeirra hafi þá lent saman. Í febrúar 2014 hafi hann frétt að kona ákærða hefði sakað hann um að hafa tekið myndir út af Facebook-síðu hennar og sent tryggingunum. Hann hafi þá reynt að segja henni að hann hefði ekki gert það og í kjölfar þess hitti hann ákærða sem hafi ætlað að hjóla í hann og hafi sagt að hann ætlaði að stúta fjölskyldu vitnisins. Þetta hafi vitnið tilkynnt til lögreglu. Vitnið kvaðst hafa talað við [...] og starfsmann [...] eftir árásina eftir að hafa fengið vitneskju um að ákærði hafi verið undir áhrifum áfengis við vinnu. Þá hafi hann talað m.a. við bæjarstjóra vegna barnanna en hann hafi verið búinn að reyna að koma þeim í íþróttir, en ákærði hafi verið [...], og einnig vegna samskipta ákærða við dóttur hans í tengslum við söfnun sem hún tók þátt í. Vitnið kvaðst hafa haft samband við tryggingafélagið vegna ætlaðra bótasvika ákærða eftir að hafa unnið með honum. Ástæða þess að hann hringdi var sú að það komu upp erjur milli dætra þeirra og eftir það hafi dóttir ákærða sagt þá sögu, sem hafi borist út um allt, að vitnið tæki fólk hálstaki. Þá kvaðst hann ekki kannast við að hafa hótað ákærða lífláti og í því sambandi talað um fjórfalda jarðarför. Loks kannaðist hann við að hafa sagt frá því að ákærði hefði verið færður til blóðrannsóknar á Ísafirði vegna gruns um fíkniefnaneyslu. Vitnið G sóknarprestur kvaðst hafa verið beðin um að koma til brotaþola í umrætt sinn. Brotaþoli hafi verið í mjög miklu uppnámi, í raun verið í áfalli, hafi ætt um gólf og litla stjórn haft á gráti og raddstyrk. Hún hafi skolfið mikið og ekki ráðið við að halda á símtóli eða kaffibolla og endurtekið sig í sífellu og séu þetta einkenni áfalls. Brotaþoli hafi sagt að hún hafi verið að baða barnið og hafi síðan farið út á götu og yfir götuna þar sem sonur hennar var að leika sér á sparkvelli við skólann og talað við hann. Þegar hún kom til baka hafi hún hitt ákærða, það hafi komið til einhverra orðaskipta milli þeirra og hún fengið högg í andlitið. Hún hafi talað um að hafa legið á gólfinu, heyrt í barninu gráta og svo hafi sagan byrjað upp á nýtt. Hún sagði ákærða hafa verið með hund, svartan og hvítan. Brotaþoli hafi verið með áverka, daufan roða á kinn, en vitnið hafi séð þar stóran marblett daginn eftir. Þá kvaðst hún hafa hitt E þegar hann kom á meðan hún var þarna. Hann hafi lítið sagt og hafi í raun verið „úr leik“ og gerði ekki neitt. Þá sagði hún ákærða hafa komið til hennar eftir þetta og sagt henni að það væri verið að bera á hann sakir sem ættu sér ekki stoð. Vitnið B kvaðst búa við hlið ákærða og vera vinur hans. Hann kvaðst muna eftir því að hafa séð ákærða þetta kvöld, líklega um klukkan sex, að ganga út [...] og hafi hann þá gengið framhjá húsi vitnisins. Seinna hafi hann séð ákærða aftur þar sem hann sat inni í vigtarskúrnum þar sem verið var að vigta úr [...]. Þetta hafi verið korter eða tuttugu mínútum seinna en hann sá ákærða gangandi. Vitnið kvaðst ekki muna eftir að hafa séð ákærða oftar þennan dag. Hann kvaðst einnig hafa séð brotaþola skömmu áður en hann sá ákærða en hann hafi ekið framhjá henni þar sem hún var gangandi á leið niður að skólaplássinu, með hundinn. Vitnið J læknir lýsti því fyrir dómi að þegar brotaþoli kom til hans hafi hún verið í léttri geðshræringu. Hann hafi ekki séð aðra áverka á henni en margúl neðan við vinstra auga. Hann hafi ekki getað greint hvers vegna þessi margúll var en saga hennar var sú að hún hafi fengið hnefahögg í andlitið. Vitnið staðfesti vottorð sitt frá 7. nóvember 2014 og þá lýsingu sem þar kemur fram og kvaðst hafa skoðað brotaþola sjálfur og tekið niður upplýsingar. Þá sagði vitnið að allt sem sagt er um aðdraganda árásarinnar í vottorðinu sé haft eftir brotaþola. Vitnið K, nágranni brotaþola, sem búsett er að [...], kvaðst hafa verið heima þetta kvöld og telja að hún hafi verið í sófa í stofu með veikt barn. Aðspurð sagði hún stofuna væntanlega snúa að húsi nr. [...]. Hún kvaðst ekki muna eftir neinum mannaferðum þetta kvöld en hafa séð, þegar hún stóð upp úr sófanum, að lögreglubifreið var komin en heyrði hana ekki koma né heldur sá hún lögreglumennina. Vitnið kvaðst venjulega verða vör við ef hundurinn hjá brotaþola geltir þegar hann er úti og hafi hún orðið vör við að hundurinn var eitthvað úti þetta kvöld en muni ekki klukkan hvað. Venjulega heyrðist rosalega mikið í hundi brotaþola, það megi varla koma fugl yfir þá heyrist í honum. Vitnið kvaðst venjulega heyra vel þegar gengið er framhjá húsinu og þegar bifreiðar fara framhjá en hafi ekkert orðið vör við það þetta kvöld og hafi ekki séð ákærða þetta kvöld. Vitnið L rannsóknarlögreglumaður kvaðst hafa tekið myndir sem fyrir liggja í málinu. Myndirnar hafi verið teknar nokkurn veginn af leiðinni sem ákærði sagðist hafa gengið heiman frá sér niður á höfn. Einnig hafi hann tekið myndir af aðstæðum utandyra við heimili brotaþola. Þá staðfesti hann að hafa gert upplýsingaskýrslu um vegalengdir og að hafa mælt vegalengdina frá heimili ákærða niður á höfn og reiknað út áætlaðan göngutíma miðað við mismunandi forsendur. Aðspurður sagði vitnið að það væri hægt að ganga stystu leið milli heimila ákærða og brotaþola, sem væri kannski 80 metra loftlína, og komast milli húss og bílskúrs í anddyri á heimili brotaþola. Vitnið C sálfræðingur sagði brotaþola hafa verið í sálfræðimeðferð hjá henni, frá því í febrúar 2014 þar til í maí 2015, vegna þunglyndis og mikillar streitu. Brotaþoli hafi verið búin að vera veik áður en hún byrjaði að koma til hennar, með alvarlegt þunglyndi, kvíða, streitu og þráhyggju. Mikið álag hafi fylgt starfi hennar og var því ákveðið að hún myndi hætta að vinna í október 2014. Eftir það fóru að sjást batamerki. Vitnið sagði að mikilvægur þáttur í meðferð þunglyndis væri að auka virkni. Það hafi verið farið að ganga betur og sýnileg merki voru um bata í október 2014. Vitnið kvaðst hafa hitt brotaþola 7. nóvember 2014, fjórum dögum eftir árásina, og þá sagði hún frá því að hún hefði verið kýld. Brotaþoli hafi eftir árásina átt mjög erfitt, henni hafi liðið illa og verið hrædd og fundið fyrir miklum ótta og varnarleysi. Hún hafi verið búin að sofa illa og var með tilfinningasveiflur. Þegar þetta gerðist var hún farin að fara í göngutúra með hundinn og fannst eins og hún væri farin að ná tökum á þunglyndiseinkennunum en eftir þetta þorði hún ekki út og upplifði mikla ógn af ákærða sem var, að hennar sögn, oft að aka framhjá heimili hennar. Meðferð brotaþola hafi haldið áfram eftir árásina en þá hafi komið skýrt bakslag í meðferðina. Vitnið sagði brotaþola hafa greinst með einkenni áfallastreituröskunar. Vitnið hafi kannað þau einkenni aftur í desember og í janúar og þá hafi hún enn verið með mikið þunglyndi, hafi grátið mikið, verið hrædd og með tilfinningasveiflur. Hún hafi enn verið viðbrigðin og hrædd við að fara út og vera ein. Vitnið kvaðst tengja þessi einkenni beint við árásina. Kvíðinn hafi verið fyrir en hann hafði dvínað mikið fyrir árásina. Þá kvaðst hún ekki telja að brotaþoli hafi veitt sér áverkana sjálf en hún hafi ekki, að vitninu vitandi, verið með sjálfskaðahegðun. Aðspurð sagði vitnið að miðað við frásögn og upplifun brotaþola og ástand hennar þegar hún sá hana þá trúi hún því að hún hafi orðið fyrir árásinni. Þá séu engin merki um geðrof eða að þetta sé ímyndun brotaþola. Brotaþoli hafi verið bólgin og marin á vinstri kinn og upp undir auga þegar hún sá hana eftir árásina. Þá sagði vitnið að brotaþoli hafi ekki minnst á það að erfiðleikar væru í sambandi hennar við E. IV Ákærði neitar sök. Hann er ákærður fyrir líkamsárás, með því að hafa veitt brotaþola, A, eitt högg með krepptum hnefa í andlit, þar sem hún stóð við útidyr heimilis síns að [...] á [...], með þeim afleiðingum að hún féll við og lenti á gólfi innan við útidyrnar og hlaut bólgu og margúl neðan við vinstra auga og út til hliðar yfir kinnbein. Ákærði byggir sýknukröfu sína á því að ósannað sé að hann hafi framið þann verknað sem greinir í ákæru. Af framburði ákærða, brotaþola og vitna má ráða að óvild hefur verið á milli ákærða og fjölskyldu hans og brotaþola og fjölskyldu hennar í nokkurn tíma. Báðir aðilar virðast m.a. rekja þetta annars vegar til ágreinings sem kom upp á milli dætra þeirra og til þess að sambýlismaður brotaþola hafði samband við tryggingafélag og benti á hugsanleg tryggingasvik ákærða. Fyrir liggur að ákærði var við vinnu þetta kvöld á [...] og samkvæmt framlagðri vigtarskýrslu í málinu var fyrsta vigtun þetta kvöld klukkan 21.08. Ákærði bar um það í framburði sínum að hann hafi lagt af stað í vinnu fimmtán til tuttugu mínútur fyrir níu og fyrirliggjandi gögn um símtöl benda til þess að stýrimaður á bátnum hafi hringt í ákærða klukkan 19.42. Samkvæmt skýrslu lögreglu barst henni tilkynning um líkamsárásina klukkan 20.23 og samkvæmt framburði brotaþola, sem fær stuðning í framburði sambýlismanns hennar E, var hún ein heima með dóttur sína frá því fyrir klukkan átta. Af hálfu ákæruvalds er aðallega byggt á framburði brotaþola og hann talinn fá stuðning í öðrum gögnum. Brotaþoli hefur frá upphafi verið staðföst um að það hafi verið ákærði sem veittist að henni í umrætt sinn. Misræmi er í framburði hennar hvað varðar afleiðingar árásarinnar en það var fyrst við aðalmeðferð málsins sem hún bar um að hafa einnig hlotið áverka á öxl en sá framburður er í samræmi við framburð E fyrir dómi. Þá bar hún fyrst um það við aðalmeðferð málsins að hafa kastað upp eftir árásina en samkvæmt læknisvottorði lýsti hún þessu einnig við komu til læknis. Einnig komu þá fyrst fram hugleiðingar hennar um að vera kunni að hún hafi rotast við árásina, að dóttir hennar hafi ekki komið til hennar og kallað á hana heldur kunni að vera að hún hafi heyrt í henni í gegnum „barnapíu“ og nákvæmari lýsingar á ástandi ákærða, t.d. um að hann hafi verið með kæki. Þá bar hún um að hundur hennar hefði verið lokaður inni í þvottahúsi þegar atvik gerðust en það samrýmist ekki framburði vitnisins B sem bar um að hún hafi verið með hundinn úti. Hann sagði brotaþola þá hafa verið að ganga að skólaplássinu sem er í samræmi við þá leið sem brotaþoli sagðist hafa farið áður en hún hitti ákærða. Þá kvaðst B hafa skömmu síðar séð ákærða ganga framhjá heimili vitnisins og fimmtán til tuttugu mínútum seinna séð ákærða í vigtarskúrnum að vigta úr [...]. B taldi að öll þessi atvik líklega hafa gerst um sexleytið, en hvorki ákærði né brotaþoli báru um að hafa þá verið á ferðinni en ákærði taldi að hann hafi lagt af stað frá heimili sínu um tuttugu mínútum eftir að lögreglu barst tilkynning um árásina. Þá lýsti hann ferðum sínum í samræmi við það sem fram kom í skýrslu vitnisins B. Einnig liggur fyrir framburður vitnisins K um að hún hafi hvorki heyrt hund brotaþola gelta né heyrt til mannaferða þetta kvöld en það samrýmist ekki framburði brotaþola um að hundurinn hafi verið að gelta meðan hún var með barnið í baði. Með hliðsjón af því að framburður K var með þeim fyrirvara að hún heyrði alltaf hundinn gelta þegar hann væri úti og að samkvæmt framburði hennar væri það ekki óskeikult að hún heyrði alltaf til mannaferða telur dómurinn ekki að framburður hennar rýri sérstaklega trúverðugleika framburðar brotaþola. Þá var klæðnaður ákærða og sá hundur sem hann var með þegar lögregla hafði tal af honum í vigtarskúrnum eftir árásina í samræmi við lýsingar brotaþola. Telur dómurinn þó ekki að það styðji ekki sérstaklega framburð brotaþola um að ákærði hafi ráðist á hana þar sem stutt er á milli heimila þeirra. Loks reyndist ákærði vera ölvaður en brotaþoli lýsti því að hann hafi verið undir áhrifum. Samkvæmt fyrirliggjandi vottorði og framburði sálfræðings greindist brotaþola með áfallastreituröskun eftir atvikið auk þess sem bakslag kom í bataferli hennar vegna veikina fyrir árásina. Er þetta í samræmi við lýsingu brotaþola á líðan sinni á þeim tíma. Þetta verður þó ekki, eins og atvikum er háttað, talið vera til sönnunar um sekt ákærða. Ákærði hefur frá upphafi neitað sök og hefur framburður hans verið stöðugur. Ætla má að þau atvik sem á undan gerðust milli fjölskyldna ákærða og brotaþola hafi setið í ákærða en ekkert er þó fram komið sem bendir til þess að á þessum tímapunkti hafi ákærði haft sérstakt tilefni til að ganga lengra en áður í þeirra samskiptum og ráðast á brotaþola. Ljóst er að ákærði hafði svigrúm hvað varðar tíma og staðsetningu til að fremja það brot sem hann er ákærður fyrir en leiðin frá húsi ákærða í bakgarð brotaþola, og þar með að útidyrum húss brotaþola, er stutt og þar er göngufæri samkvæmt framburði brotaþola, framlögðum ljósmyndum og framburði vitnisins L rannsóknarlögreglumanns. Engin vitni eru hins vegar að því að ákærði hafi farið þessa leið. Þá er brotaþoli ein til frásagnar um að ákærði hafi verið á vettvangi brotsins þegar atvik gerðust og að ákærði hafi ráðist á hana. Sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik sem telja má honum í óhag hvílir á ákæruvaldinu og metur dómari hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, sbr. 108. og 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Framburður brotaþola hefur að sumu leyti verið óstöðugur, eins og að framan hefur verið rakið, og í ósamræmi við framburð vitnisins B um atvik áður en árásin átti sér stað. Gegn neitun ákærða verður sakfelling ekki á honum byggð. Með vísan til þess verður því ekki talið að fram sé komin lögfull sönnun þess að ákærði hafi veist að brotaþola, eins og í ákæru greinir. Verður ákærði því sýknaður. Eftir úrslitum málsins, sbr. 2. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008, ber að fella allan sakarkostnað málsins, sem er samtals 1.041.392 krónur, á ríkissjóð. Til sakarkostnaðar teljast málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jónasar Þórs Jónassonar hrl., sem eru hæfilega ákveðin 900.000 krónur vegna starfa hans bæði á rannsóknarstigi og fyrir dómi, og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts, útlagður kostnaður verjandans, 35.700 krónur, og annar sakarkostnaður samkvæmt framlögðu yfirliti ákæruvalds, samtals 105.692 krónur. Af hálfu ákæruvalds flutti mál þetta Bryndís Ósk Jónsdóttir fulltrúi. Dóm þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir dómstjóri. D Ó M S O R Ð: Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins. Allur sakarkostnaður málsins, 1.041.392 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jónasar Þórs Jónassonar hrl., 900.000 krónur, og útlagður kostnaður verjandans, 35.700 krónur.
Mál nr. 452/2015
Líkamsárás Ölvunarakstur Ökuréttarsvipting Einkaréttarkrafa Ómerkingu héraðsdóms hafnað
X var sakfelldur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa veist að A, þáverandi unnustu sinni, sparkað og slegið í andlit hennar og líkama ásamt því að hafa slegið hana í höfuð með kertastjaka. Hann var á hinn bóginn sýknaður af ákæru fyrir aðra sérstaklega hættulega líkamsárás. Ekki var fallist á með ákæruvaldinu að ómerkja bæri héraðsdóm sökum þess að í því tilviki hefði ekki hefði verið lagt sérstakt mat á trúverðugleika framburðar ákærða og brotaþola. Þá var ómerkingarkröfu X, vegna rangs mats á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008, einnig hafnað. Við ákvörðun refsingar X var meðal annars litið til 3. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940 en líkamsárásin, sem var hrottaleg, beindist að unnustu hans á heimili hennar. Þá var X jafnframt sakfelldur fyrir ölvunarakstur.Var refsing X ákveðin fangelsi í tíu mánuði en fullnustu sjö mánaða hennar var frestað skilorðsbundið í tvö ár, auk þess sem staðfest var niðurstaða héraðsdóms um sviptingu ökuréttar og greiðslu sektar vegna ölvunarakstursbrotsins, svo og greiðslu miska- og þjáningabóta til A. 
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. júní 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess aðallega krafist að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað hvað varðar fyrri lið ákæru ríkissaksóknara 12. mars 2014, en að niðurstaða um sakfellingu ákærða verði að öðru leyti staðfest. Til vara er þess krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt fyrrnefndri ákæru auk ákæru lögreglustjórans á [...] 2. maí 2014. Í báðum tilvikum er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd. Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, en að því frágengnu að refsing hans verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð. A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 1.545.760 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. ágúst 2010 til 5. apríl 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. I Aðalkrafa ákæruvaldsins er reist á því að ómerkja beri hinn áfrýjaða dóm vegna þess ágalla á málsmeðferð að héraðsdómur hafi ekki lagt mat á trúverðugleika framburðar ákærða og brotaþola vegna sakargifta samkvæmt fyrri lið ákæru ríkissaksóknara 12. mars 2014, en með  dóminum var ákærði sýknaður af þeirri háttsemi sem honum er gefin að sök samkvæmt þeim ákærulið. Af gögnum málsins er ljóst að brotaþoli kærði ekki hina ætluðu árás 22. ágúst 2010 fyrr en 10. febrúar 2013. Í forsendum fjölskipaðs héraðsdóms er rakið að brotaþoli hafi komið á sjúkrahúsið á [...] 22. ágúst 2010 með þá áverka sem greinir í vottorði sjúkrahússins og að þar hafi jafnframt komið fram að brotaþoli hafi sagt ákærða hafa ráðist á sig. Þá hafi hún borið á sama veg hjá félagsráðgjafa sem starfi á sjúkrahúsinu. Brotaþoli hafi einnig sagst hafa skýrt mágkonu ákærða frá atvikinu um svipað leyti, en hin síðarnefnda hafi ekki kannast við það sem vitni fyrir dómi. Yrði að skoða framburð mágkonunnar í ljósi tengsla hennar við ákærða, en engu að síður þætti, í ljósi meginreglu sakamálaréttarfars um að ákæruvaldið beri sönnunarbyrði af öllu því sem ákærða er í óhag, ekki fært að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að brotaþoli hafi tjáð sig á þennan hátt í samtali sínu og mágkonunnar. Þá hafi enginn nema brotaþoli borið fyrir dómi með vissu um að hún og ákærði hafi verið saman umrætt kvöld og lægju engin gögn fyrir í málinu sem styddu það sérstaklega. Af þessum sökum hafi ákæruvaldið ekki gegn neitun ákærða fært fram lögfulla sönnun fyrir því að brotaþoli hafi verið á heimili ákærða 22. ágúst 2010 og hlotið af hans völdum þá áverka sem í ákæru greinir. Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála metur dómari hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt við broti, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafi, vitnisburður, skjöl og önnur sönnunargögn. Þá metur dómari það enn fremur ef þörf krefur hvert sönnunargildi þær staðhæfingar hafa sem varða ekki beinlínis það atriði sem sanna skal en ályktanir má leiða af um það, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Framangreint sönnunarmat héraðsdóms ber það með sér að dómurinn hafi talið óþarft að meta trúverðugleika framburðar ákærða og brotaþola, þar sem engin gögn málsins bæru með sér að brotaþoli hefði verið á heimili ákærða það kvöld sem líkamsárás sú, sem hér um ræðir, var talin hafa átt sér stað samkvæmt ákæru. Stæðu því orð gegn orði um þetta grundvallaratriði við sönnunarmat í málinu og hafi ákæruvaldið þar af leiðandi ekki axlað þá sönnunarbyrði sem á því hvílir eftir 108. gr. áðurnefndra laga. Í ljósi þess sem rakið hefur verið eru ekki efni til að ómerkja hinn áfrýjaða dóm af þeim sökum að ekki hafi verið lagt sérstakt mat á trúverðugleika framburðar ákærða og brotaþola. Verður þeirri kröfu ákæruvaldsins því hafnað. Ekkert er fram komið í málinu um að niðurstaða hins áfrýjaða dóms um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi sé rangt svo einhverju skipti um úrlausn málsins, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008. Af þeim sökum verður ómerkingarkröfu ákærða einnig hafnað. II Samkvæmt 4. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er dómstólum heimilt, sé dæmt fyrir tvö eða fleiri brot, er annað eða sum varða fangelsi en hin sektum, að dæma sektir jafnframt fangelsi, svo sem gert var í héraðsdómi. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en fangelsisrefsingu þá, sem ákærði hlaut fyrir brot það sem hann var sakfelldur fyrir samkvæmt ákæru ríkissaksóknara. Til þyngingar refsingar ákærða fyrir það brot horfir samkvæmt 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga að brotið, sem var hrottafengið, beindist að unnustu hans á heimili hennar. Er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 10 mánuði, en fresta skal fullnustu 7 mánaða refsingarinnar skilorðsbundið eins og nánar greinir í dómsorði. Ákærða verður gert að greiða ⅔ hluta alls áfrýjunarkostnaðar málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en fangelsisrefsingu ákærða, X. Ákærði sæti fangelsi í 10 mánuði, en fresta skal fullnustu 7 mánaða refsingarinnar og sá hluti hennar falla niður að liðnum 2 árum frá uppsögu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði greiði ⅔ hluta alls áfrýjunarkostnaðar málsins, samtals 1.153.640 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjenda sinna, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur, auk útlagðs kostnaðar hans, 44.500 krónur, og Gísla M. Auðbergssonar hæstaréttarlögmanns, 124.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Arnbjargar Sigurðardóttur hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur, svo og ferðakostnað hennar, 64.900 krónur. Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 12. maí 2015. Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð þriðjudaginn 17. mars, er höfðað með tveimur ákærum á hendur X, kt. [...], [...], [...]. Fyrri ákæru gaf ríkissaksóknari út hinn 12. mars 2014 og er hún fyrir „neðangreind brot gegn fyrrum unnustu [ákærða], A, [sem ákærði hafi framið] á [...] sem hér greinir: 1.         Sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 22. ágúst 2010 á ofangreindu heimili sínu að [...] veist með ofbeldi að A og sparkað ítrekað í líkama hennar og höfuð. Af þessu hlaut A bólgu yfir vinstra hluta andlits, bólgu og skrámu á nef, bólgu aftan við hægra eyra og tvær kúlur á höfuð, mar á handarbak, upp- og framhandlegg hægri handar, mar yfir vinstri axlarvöðva og á vinstri framhandlegg, mar á brjóstkassa og eymsli í hálsi og mjóbaki. 2.         Sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 10. febrúar 2013, að [...], veist að A, sparkað og slegið í andlit hennar og líkama ásamt því að hafa slegið hana í höfuð með kristalkertastjaka. Afleiðingar árásarinnar urðu þær að A hlaut kúlu aftan á hnakka hægr[a] megin, á vinstri hlið höfuðs og ofan við vinstra eyra, mar aftan á baki, á vinstri upphandlegg, hægri framhandlegg, við vinstri úlnlið og aftan á hægra læri. Þá hlaut hún skurð á vinstra handarbak sem sauma þurfti saman og bólgu á varir. Teljast brot þessi varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“   A, kt. [...], gerir þá kröfu að ákærði verði dæmdur til að greiða henni kr. 1.545.760,- í skaða- og miskabætur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 22. ágúst 2010 til 5. apríl 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Auk þessa er krafist hæfilegrar þóknunar vegna starfa réttargæslumanns að mati dómara eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts. Síðari ákæru gaf lögreglustjórinn á [...] út hinn 2. maí 2014 og er hún „fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 10. mars 2014, ekið bifreiðinni [...], undir áhrifum áfengis (alkóhólmagn í blóði reyndist 1,99‰), stutta vegalengd á bifreiðastæði við afgreiðslu [...] við [...] á [...]. Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, með síðari breytingum. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar, samkvæmt 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga.“ Ákærði neitar sök. Að því er varðar síðari ákærulið í ákæru ríkissaksóknara neitar ákærði að hafa sparkað í A og neitar að hafa slegið hana með kertastjaka en viðurkennir að þau hafi tekist á og hann slegið hana, en það hafi verið í sjálfsvörn. Ákærði krefst sýknu en til vara krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfi. Verjandi hans krefst málsvarnarlauna úr ríkissjóði. Málin voru sameinuð. Málavextir Ákæra ríkissaksóknara, fyrri ákæruliður Samkvæmt lögregluskýrslu kom A, hér eftir nefnd brotaþoli, til lögreglu 19. febrúar 2013 vegna mála sem í skýrslunni eru sögð „varða samskipti hennar og X“, ákærða í málinu. Sagði hún þá meðal annars svo frá að ákærði hefði, hinn 22. ágúst 2010, að heimili sínu í [...], sparkað í sig, svo hún hefði orðið bólgin í andliti og fengið mikla verki. Hún hefði farið á sjúkrahús eftir þetta en ekki leitað til lögreglu. Samkvæmt vottorði úr bráðasjúkraskrá [...]sjúkrahússins á [...] kom brotaþoli þangað kl. 15:31 hinn 22. ágúst 2010. Er haft eftir henni að hún hafi daginn áður farið út að borða með unnusta sínum, þau hafi eitthvað farið að kýta og þegar heim til hans hafi verið komið hafi hann hrint henni svo hún hafi dottið í gólfið og sparkað í nokkur skipti í höfuð hennar. Um skoðun á henni segir í vottorðinu: „Hún er mjög sjokkeruð að sjá. Höfuð: Hún er greinilega bólgin yfir [vinstri] hluta andlits, sérstaklega yfir kinnbeini og fyrir framan eyra. Einnig nokkuð bólgin á nefi og það er skráma [vinstra] megin á nefi. Einnig bólga fyrir aftan [hægra] eyra og 2 aðrar kúlur á höfði. Við þreifingu á andlitsbeinum er hún mjög aum yfir [vinstri] zygomaticus og yfir [vinstri] sinus og einnig kjálka, bæði efri og neðri. Finnst vera skrítin tilfinning eiginlega báðum megin í andliti, þó ekki eins og náladofi. Það er sársaukafullt að bíta tönnum saman og getur ekki opnað munninn að fullu. Öll andlitsbein eru stabil. Ekki blóð úr eyrnagöngum. Það eru mikil eymsli þegar þreifað er yfir nefi en ekkert óstabilitet þreifast. Öll andlitsmimik eru eðlileg og sjón í lagi. [Hægri] handleggur: Það er mar ofan á handarbaki, fyllir nær allt handarbakið. Það er einnig mar dorsalt á framhandlegg og 2 á upphandlegg, þetta er allt byrjandi mar. Mjög aum við þreifingu. Þó ekki aum í olnbogalið, úlnlið eða öxl og allar þreifingar í þessum liðum eðlilegar. [Vinstri] handleggur: Það er stórt mar yfir deltoid vöðva og einnig mar dorsalt á framhandlegg. Það er í lagi með öxl, olnboga og úlnlið. Það má sjá mar á thorax, rétt fyrir neðan axilluna á bakinu [vinstra] megin. Það eru eymsli paravertebralt í hálsi, ekki bankaum yfir hryggjatindum á hálsi eða bakinu, en eymsli við þreifingu í mjóbaki og paravertebralt þar. Allar hreyfingar í baki eru þó í lagi en hún heldur mjóbakinu svolítið stífu.“ Undir vottorðið ritar B læknir. Samkvæmt vottorði C háls-, nef- og eyrnalæknis, dags. 11 nóvember 2013, kom brotaþoli til læknisins hinn 25. október 2010, þar sem hún hefði orðið fyrir líkamsárás tveimur mánuðum áður og þá fengið högg á höfuð, andlit og háls. Í vottorðinu segir að við skoðun hafi verið að sjá „svolitla þykknun á vinstri kinn, eðlilegar andlitshreyfingar og skoðun [að öðru leyti] innan eðlilegra marka. Virtist vera með smá blóðgúl í vinstri kinn sem var að fara og hverfa en virtist ganga frekar hægt.“ Þá segir í vottorðinu að brotaþoli hafi komið í eftirlitsskoðun til læknisins hinn 11. ágúst 2011. Hafi bólga á andliti þá verið gengin niður. Áður hafi D lýtalæknir sprautað í hægri kinn hennar vegna skekkju á brosi. Við skoðun hafi komið í ljós að munnvik hægra megin hafi verið aðeins lægra, sem hugsanlega hafi verið vegna sprautunnar, en annað eðlilegt. Samkvæmt vottorði D lýtalæknis, dags. 5. nóvember 2013, kom brotaþoli til læknisins hinn 8. ágúst 2011 og hafi þá sagst hafa fengið áverka ári áður eftir spark í andlit. Við skoðun hafi hún verið „með dýpri nasolabiallínu vinstra megin, þ.e.a.s. hrukkulínan milli vinstri kinnar og munns. Er þó ekki lömuð en áberandi er þó hve vöðvakraftur vinstri andlitshelmings er minni en hægra megin. Þar er áberandi munur og þegar hún talar er eins og munnvik séu aðeins skökk vegna sömu orsaka. Útlitslega séð er hægt að minnka þetta örlítið með því að sprauta fylliefni undir nasolabialhrukkuna til að [mýkja] þetta örlítið og það var gert“. Þá segir í vottorðinu að brotaþoli hafi hitt lækninn að nýju hinn 3. júní 2013 og hafi hún þá sagst hafa fengið spark á vinstri andlitshelming í febrúar. Við skoðun hafi verið „greinilegt að andlitið virkaði skakkt en aðallega virðist efri vör vinstra megin vera slappari þegar hún talar og hangir þar aðeins meira niður þannig að eins og tonus vöðvanna sé ekki eins mikill vinstra megin eins og hægra megin. Það er þó ekki full lömun á tauginni, hún getur brosað, hún getur talað en bara eins og vöðvatonusinn sé ekki eins mikill. Húðskyn er eðlilegt. Þegar bankað er yfir fascialis taugina, þ.e.a.s. andlitstaugina sem hefur með andlitsvöðvana að gera á þessu svæði er hún aum þar yfir vinstra megin en ekki hægra megin. Óþægindi niður eftir kinn yfir tauginni vinstra megin. Álitið var eins og fyrr að taugin sé aðeins löt, þó ekki lömuð. Erfitt að gera sér grein fyrir hvort þetta sé versnun frá því 2 árum áður eða ekki. Ekki var gerð aðgerð eða frekari meðferð planlögð en henni var ráðlagt að gefa þessu tíma enda fannst sjúklingi þessi einkenni versna við þennan seinni áverka. Erfitt er að gera sér grein fyrir batahorfum þannig að líklega er þessi taugalömun sem að hluta til virðist vera í andlitstaug varanleg, hún allavegana var til staðar 08. 08. 2011 og þegar maður skoðar sjúkling u.þ.b. 2 árum seinna virðist enginn bati hafi orðið þarna á. Geri ekki ráð fyrir að taugin nái sér eða það sé hægt með aðgerðum að lagfæra þetta. Ef hins vegar taugin verður algerlega lömuð myndi horfa allt öðru vísi við. Þá yrði hægt að gera aðgerð til að fá betri function eða leiðni í þessa taug.“ Samkvæmt vottorði E félagsráðgjafa á sjúkrahúsinu á [...] kom brotaþoli til hennar hinn 25. ágúst 2010 í kjölfar komu á slysadeild hinn 22. ágúst „í kjölfar meints ofbeldis á henni af hálfu kærasta síns“, ákærða. Hafi hún komið reglulega til félagsráðgjafans „til úrvinnslu áfalls og til að fá aðstoð við að setja nýjan ramma utan um líf sitt, þ.e. að slíta sambandi við [ákærða].“ Hafi hún sýnt sterk einkenni kvíða og hræðslu, átt erfitt með svefn og óttast viðbrögð ákærða við sambandsslitum. Henni hafi svo gengið ágætlega að slíta tengsl við ákærða, farið að vinna einhverjum vikum eftir atburðinn og í nóvember hafi hún verið farin „að geta notið lífsins betur, losa um einangrun og hitta vinkonur.“  Ákæra ríkissaksóknara, síðari ákæruliður  Samkvæmt frumskýrslu lögreglu barst tilkynning klukkan 04:13 hinn 10. febrúar 2013 um hávær öskur í konu úr íbúð í [...], líklega íbúð [...]. Á vettvangi hafi brotaþoli opnað þar fyrir lögreglu og verið í miklu uppnámi, með áverka í andliti og blóðugar hendur. Á vettvangi hafi ákærði einnig verið og er haft eftir honum í frumskýrslu að þau hafi rifist og það farið úr böndunum. Var ákærði handtekinn og fluttur af vettvangi en brotaþoli flutt á slysadeild. Þá hafi ákærði verið færður á slysadeild klukkan 05:10. Í málinu liggja fyrir ljósmyndir sem lögregla tók á vettvangi. Sjást meðal annars brotnir kertastjakar á gólfi og að glerplata á sófaborði er skökk. Þá segir að blóðblettir hafi fundist á sófa. Einnig sést á myndum blóð við eldhúsvask og á eldhúsgólfi og brotin flaska á eldhúsgólfinu. Þá sjást á myndum blóðblettir á gangi íbúðarinnar og blóðkám á svalahurð og vegg við hana, og einnig segir í gögnunum að blóðkám hafi verið á svölunum sjálfum. Tekið var blóðsýni úr ákærða til alkóhólákvörðunar klukkan fimm um morguninn. Samkvæmt vottorði rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands mældist magn alkóhóls í sýninu 2,11‰. Ekki er í málinu vottfest skjal um að sýni hafi verið tekið úr brotaþola, en þess er getið í frumskýrslu lögreglu að svo hafi verið gert. Segir í yfirliti lögreglu að skjal með niðurstöðu alkóhólákvörðun taki til sýna úr báðum aðilum. Skjalið greinir tvær, annars vegar þá sem rakin hefur verið og varðar sannanlega ákærða. Hin niðurstaðan hljóðar um 1,63‰ og verður miðað við að hún taki til brotaþola. Samkvæmt áverkavottorði, undirrituðu af F lækni, dags. 1. mars 2013, kom brotaþoli á bráðamóttöku hinn 10. febrúar 2013. Hafi hún þá verið „sjokkeruð að sjá“ og grátið. Hún hafi verið með kúlu aftan á hnakka hægra megin og aðra á vinstri hlið höfuðs, verið aum við þreifingu neðst á hálsi og þreifiaum „yfir paravertebral vöðva á hálsi. Getur hreyft háls í alla hreyfifleti en fær eymsli við að reigja höfuðið aftur og einnig fær hún eymsli þegar hún setur höku niður í bringu. Það er að sjá mar aftan á baki í hæð við C7 sem nær frá hægri öxl og út á þá vinstri, um 10 cm á lengd. Er um 3 cm breitt. Hún er með bólgnar varir og hefur blætt úr þeim. Er að sjá blóð í kringum munn. Útlimir: Það er að sjá mar á innanverðum upphandleggnum vinstra megin. Einnig er að sjá mar á vinstri úlnlið. Á vinstra handarbaki er skurður sem að saumaður er með 3 sporum. Einnig er að sjá á hægri framhandlegg 2 marbletti á stærð við 5 krónu peninga.“ Í vottorðinu segir einnig að hún hafi komið að nýju daginn eftir og þá hafi verið teknar Röntgen-myndir af hálsi og brjósthrygg en engir brotáverkar hafi greinst. Við skoðun hafi sést greinilegur marblettur aftan á hægra læri, um sex til sjö cm á lengd og einn í þvermál þar sem mest hafi verið. Þá hafi hún kvartað yfir „töluverðum eymslum yfir vinstra parietalsvæði og eru nokkur eymsli þar við þreifingu. Þreifast greinilega kúla þar sem hún er mjög aum. Hún er sirka 4 cm fyrir ofan vinstra eyra. Ekki eru nein merki um haematom eða mar í gegnum hárið. Einnig er hún með nokkur eymsli á bak við vinstra eyra. Hugsanlega smá punktmarblettur sem er um sirka ½ x ½ cm að stærð. Er þá aðallega aum við þreifingu. Ekki augljós merki um yfirborðsáverka. Þá er hún mjög aum í vinstri hendi þar sem hún hafði verið saumuð“. Brotaþoli hafi komið að nýju í saumatöku hinn 22. febrúar. Hafi þá verið sýking í kring um skurðsárið og hafi hún verið sett á sýklalyf í vikutíma. Samkvæmt áverkavottorði undirrituðu af F lækni, dags. 28. febrúar 2013, kom ákærði á bráðamóttöku hinn 10. febrúar 2013. Hann hafi verið sýnilega ölvaður en sagt skýrlega frá atvikum frá sínum sjónarhóli. Skyrta hans hafi verið blóðug yfir vinstri framhandlegg. Um skoðun segir meðal annars: „Áverka var að sjá á vinstri handlegg. Það var að sjá eitt skurðsár dorsalt rétt neðan við olnboga, var grunnt örlítið gapandi. Sett var 1 spor í sárið og síðan settur steristrip plástur yfir. Annað sár var meira distalt, um 5 cm ofan við úlnlið, um 2 cm á lengd. Við fyrstu sýn virtist það ekki vera djúpt en þegar búið var að deyfa í sárið og farið var með pincettu niður þá virtist það liggja undir húðlagið. Annað sár sem lá volart virtist vera útgangsport sársins. Sett voru 2 spor í sárið dorsalt en sárið sem var volart var skilið eftir opið, lokað með steristripi. Hann var með eðlilega hreyfigetu í öllum fingrum og virtist hnífsblaðið rétt hafa aðeins farið undir húðlagið. Ekki var að sjá sinaskaða. Hann var töluvert bólginn fram á handarbak alveg upp undir kjúkur. Var þreifiaumur yfir metacarpalbeini I og II aðallega. Hann var með fulla hreyfigetu um úlnlið en töluvert verkjaður í öllum framhandleggnum. Einnig var að sjá stórt bitfar um miðjan framhandlegg lateralt. Hann var með rispur inni í hægri og vinstri lófa. Einnig var að sjá fleiðursár á hægri framhandlegg sem var plástrað. Ekki var að sjá áverka annarsstaðar á líkama.“ Síðar sama dag hafi ákærði komið í endurmat og þá verið tekin Röntgen-mynd af framhandlegg sem ekki hafi sýnt beináverka. Skoðun hafi sýnt að „distal status“ hafi verið í lagi og engin merki verið um taugaskaða. Hafi hann getað hreyft alla fingur. Enn hafi hann haft verki og bólgur eftir stungusár og bit. Samkvæmt vottorði E félagsráðgjafa á sjúkrahúsinu á [...] kom brotaþoli til hennar í kjölfar þess að hafa leitað á slysadeild hinn 10. febrúar 2013. Hafi brotaþoli lýst því að hún hafi átt erfitt með að slíta alveg tengslin við ákærða og hafi þau tekið saman að nýju og gengið vel í fyrstu. Hafi hún komið í regluleg viðtöl hjá félagsráðgjafanum og meðferðartímabil verið frá 20. febrúar 2013 til 24. október 2014. Segir í vottorðinu meðal annars að brotaþoli hafi lýst vaxandi líkamlegri og andlegri þreytu og megi líklega rekja þau einkenni að verulegu leyti til langvarandi streitu og kvíða og hræðslu. Hafi brotaþoli sveiflast mjög tilfinningalega gagnvart ákærða og í senn haft áhyggju af honum og vitað að hún þyrfti að slíta sig frá honum. Segir svo í vottorðinu að „ítrekað ofbeldi sem [brotaþoli hafi] orðið fyrir“ hafi að mati félagsráðgjafans „klárlega sett sitt mark á konuna. Hún [lýsi] sífelldri þreytu, dofaeinkennum og skertu jafnvægi sem vel [geti] verið einkenni áfallastreitu.“ Ákæra sýslumannsins á [...] Samkvæmt lögregluskýrslu barst hinn 10. mars 2014 klukkan 02:38 tilkynning um að ölvaður ökumaður hefði komið að bifreiðastöðinni [...] á bifreiðinni [...] og væri vitni að akstrinum, G. Ökumaður hefði hlaupið frá stöðinni þegar hann hafi orðið þess var að hringt var á lögreglu. Er lögregla hefði verið á leið á vettvang hefði hún orðið vör við mann á hlaupum við [...]götu [...] og hafi hún þekkt hann sem ákærða. Hafi hann verið hlaupinn uppi og handtekinn og hafi kveikjuláslyklar bifreiðarinnar fundist í vasa hans. Segir í skýrslunni að ákærði hafi verið „margsaga um hvort hann hefði ekið bifreiðinni eða ekki“, og hafi hann borið öll merki ölvunar við handtökuna. Tvívegis var tekið blóð úr ákærða til rannsóknar, klukkan 03:15 og klukkan 04:45. Samkvæmt vottorði rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands mældist alkóhól 1,99‰ í fyrra sýni en 1,55‰ í hinu síðari. Tekin var skýrsla af ákærða eftir handtökuna og neitaði hann þá að tjá sig um sakarefnið. Hinn 11. apríl 2014 gaf ákærði skýrslu hjá lögreglu og sagði þá að vinur sinn, H, hefði ekið bifreiðinni frá heimili ákærða og að leigubifreiðastöðinni. Hinn 14. apríl 2014 gaf H skýrslu hjá lögreglu. Kvaðst hann hafa ekið bifreið ákærða þessa nótt frá heimili ákærða og að leigubifreiðastöðinni. Hefði hann skilið bifreiðina þar eftir og farið þaðan gangandi. Skýrsla ákærða og framburður vitna fyrir dómi Ákæra ríkissaksóknara, fyrri ákæruliður Ákærði sagði samband sitt og brotaþola hefði verið mjög gott, en stormasamt. Áfengisneysla hefði valdið vandamálum í sambandinu og ættu þar bæði sök. Væri brotaþoli mjög skapbráð og hefði gert margt á hlut ákærða, sem ekki hefði farið lengra. Sjálfur ætti hann enga ofbeldissögu og hefði aldrei lagt hendur á nokkurn mann. Hann hefði hins vegar oft þurft að verja sig þegar brotaþoli hefði fengið „bræðisköst“. Sambandið hefði varað í um níu ár, en þau hefðu aldrei átt sameiginlegt heimili, þótt slíkt hefði stundum komið til tals. Sambandinu væri nú lokið, þótt ákærði gæti ekki nefnt ákveðna dagsetningu í því samhengi. Síðast hefðu þau verið saman sem par, fyrir hálfu ári, eða svo. Spurður um þetta kvöld sagðist ákærði ekki muna hvort þau brotaþoli hefðu farið saman út þá, en sagði engin gögn málsins styðja að hún hefði verið hjá sér um kvöldið. Áverkar sem hún hefði verið með daginn eftir, væru ekki af sínum völdum.  Brotaþoli sagði samband þeirra ákærða hafa staðið í átta ár eða svo, og hafa verið stormasamt, tilfinningaríkt og flókið. Víndrykkja, afbrýðisemi og misskilningur hefði spillt fyrir þeim. Bæði hefðu neytt áfengis en ákærði þó í meira mæli en hún. Spurð um fyrri ákæruliðinn sagði brotaþoli að þau hefðu farið út að borða og eftir það á skemmtistað þar sem þau hefðu verið langt fram eftir nóttu. Þar hefði hún dansað tvo eða þrjá dansa við annan mann, en hætt því þegar vinkona sín hefði bent sér á að ákærði hefði staðið reiður á dansgólfinu með kreppta hnefa. Brotaþoli hefði þó ekki tekið því neitt alvarlega því kvöldið hefði verið búið að vera „mjög skemmtilegt“. Þau hefðu farið með leigubifreið heim til hans og strax í forstofunni hefði hafist rifrildi og ákærði fljótlega hrint sér í gólfið og byrjað að sparka í sig, fyrst í hliðina, í kring um brjóstkassa og út á handlegg, en svo í höfuðið margoft. Brotaþoli hefði farið inn í herbergi ákærða og læst að sér, en hann hefði átt lykil og hefði opnað og komið inn og þar haldið áfram um stund. Kvaðst brotaþoli ekki muna frekar eftir sér fyrr en hún hefði vaknað í rúmi í herberginu daginn eftir. Hefði hún farið heim til sín, lagt sig en ákveðið eftir það að fara á sjúkrahús vega verkja, einkum höfuðverkja. Brotaþoli sagðist hafa hringt í mágkonu sína, vitnið I, og sagt henni hvað gerst hefði. Hefði mágkonan komið til brotaþola sama dag eða daginn eftir og séð áverkana. Brotaþoli sagði að ákærði hefði oft komið til sín dagana eftir þetta og viljað „gera allt til þess að laga þetta“ og hefði meðal annars séð um innkaup fyrir hana. Hann hefði sýnt henni „fram á það að hann var sjálfur ekki ánægður með það sem gerðist“, og hefði það átt þátt í því að hún hefði ákveðið að kæra atvikið ekki til lögreglu. Vitnið I, mágkona ákærða, var spurð hvort hún hefði talað við brotaþola í ágúst 2010. Kvaðst hún hafa farið tvisvar og talað við hana, en ekki muna hvenær það hefði verið nákvæmlega. Þá kvaðst hún ekki muna orðaskiptin nákvæmlega, en þær hefðu rætt deilur sem verið hefðu milli ákærða og brotaþola og áfengisneyslu þeirra. Hefði vitnið sagt að skoðun sín væri „að þau ættu að hætta því, en nákvæmlega hvað okkur fór á milli man ég ekki“. Vitnið sagðist ekki hafa séð áverka á brotaþola og ekki muna til þess að brotaþoli hefði sagt við sig að ákærði hefði lagt hendur á hana. Nánar spurð neitaði hún að brotaþoli hefði sagt að orðið hefðu átök þar sem hún hefði meiðst. Brotaþoli hefði sagt sér að hún væri þreytt og vansvefta, og það hefði ekki leynt sér, auk þess sem hún hefði eflaust glímt við eftirköst áfengisneyslu og verið útgrátin. Ekki hefðu verið, vitninu vitanlega, átök milli ákærða og brotaþola, en vitnið tók fram að það hefði ekki verið daglegur gestur hjá þeim. Vitninu voru sýndar myndir af brotaþola, sem liggja fyrir í málinu, og sagði vitnið að brotaþoli „hefði verið vansvefta, útgrátin og örugglega verið timbruð eftir fyllerí, en svona var hún ekki.“ Vitni J, sonur ákærða, kvaðst hafa átt heima hjá föður sínum í mörg ár, fram á árið 2011. Herbergi vitnisins hefði verið við hliðina á innganginum í húsið og hefði hann því tekið eftir mannaferðum í og úr húsinu. Vitnið sagði að í ágúst 2010 hefði hann verið að vinna síðari hluta dags en almennt verið mjög mikið heima á kvöldin. Sagðist vitnið hafa verið heima umrætt kvöld og vísaði til þess að á þessum tíma hefði það sofið heima hjá sér allar nætur og hefði hvergi annars staðar getað verið. Hann hefði verið heima eiginlega hvert einasta kvöld að spila tölvuleiki. Kvaðst vitnið ekki kannast við að nein átök hefðu orðið milli ákærða og brotaþola á þessum tíma. Vitnið K vinnufélagi brotaþola kvaðst muna eftir því að hafa hitt ákærða og brotaþola í nokkur skipti saman á [...]. Hugsanlega hefði eitt skiptið verið í ágúst 2010. Kvaðst vitnið muna eftir því að ákærði hefði orðið afbrýðissamur vegna þess að brotaþoli hefði dansað við annan mann og hefði vitnið þá sagt við hana „að það væri kannski sniðugt hjá henni að hætta að dansa við hann.“ Vitnið B læknir staðfesti vottorð sitt. Vitnið sagði þá áverka sem brotaþoli hefði verið með hefðu getað komið heim og saman við frásögn hennar. Batahorfur hefðu verið góðar. Hugsanlega yrðu slíkir áverkar til þess að menn misstu daga úr vinnu, en ekki marga. Vitnið E félagsráðgjafi sagði brotaþola hafa leitað á slysadeild sjúkrahússins í ágúst 2010 og í framhaldi af því hefði henni verið vísað til vitnisins. Þeirra fyrsta viðtal hefði verið 25. ágúst og þá hefði sést á andliti brotaþola og eitthvað á höndum hennar, að því er vitnið minnti. Fyrst og fremst hefði brotaþola verið brugðið og hún verið skelkuð. Hefði brotaþoli viljað fá aðstoð við að slíta sambandinu, sem hún hefði verið í lengi. Brotaþoli hefði verið í viðtölum við vitnið fram yfir næstu áramót og þá verið komin „á góða leið“, ef svo mætti segja. Hefði brotaþoli sýnt ýmis einkenni sem þekktust hjá konum sem átt hefðu í ofbeldisfullu sambandi. Ákæra ríkissaksóknara, síðari ákæruliður Ákærði tók fram að hann myndi atvikið ekki í smáatriðum, enda hefði hann verið ölvaður og þau brotaþoli bæði. Þá hefðu allt gerst hratt, þegar í íbúð brotaþola hefði verið  komið. Þau hefðu farið saman í matarboð í heimahús um kvöldið, en eftir það á [...]. Þaðan hefðu þau farið með leigubifreið heim til hennar. Þar hefðu þau fljótlega farið að þrasa og hún tekið upp vasahníf, svo sem hún væri vön. Ákærði hefði þá orðið hræddur, enda hefði hún stungið hann áður, og reynt að ná af henni hnífnum. Sá leikur hefði eitthvað borist um íbúðina en að lokum hefði hann náð af henni hnífnum, en áður hefði hann fengið þrjú sár á hendina, þar af eitt í gegn. Þá hefði brotaþoli reynt að stinga hann í bakið. Ákærði hefði tekið utan um brotaþola, til þess að róa hana, en þá hefði hún bitið hann í hendina og hefði hann borið tannaför eftir í hálfan mánuð. Eftir þetta hefði „leikurinn [borist] þarna eitthvað um húsið og endirinn er sá að við dettum um eitthvert tréborð inni í stofunni, sem var með glerplötu, og á því voru einhverjir kertastjakar sem náttúrulega duttu niður og brotnuðu“. Eftir þetta hefði ákærði náð að róa brotaþola, en hún hefði tekið síma og hringt á lögreglu. Ákærði hefði tekið af henni símann, enda hefði sér fundist lögreglan búin að koma „nógu oft“ til þeirra. Ákærði hefði farið í yfirhöfn sína og byrjað að þurrka upp blóð af gólfinu en þá hefði lögreglu borið að garði og hún handtekið ákærða. Fossblætt hefði úr höndum ákærða en hann hefði samt verið fluttur í fangageymslu en brotaþola verið ekið á sjúkrahús. Ákærði var spurður hvort hann hefði getað flúið úr íbúðinni en sagðist ekki hafa átt möguleika á því. Brotaþoli hefði reynt að stinga sig í bakið og væru göt á baki skyrtu hans eftir það. Leðurjakkinn sem hann hefði verið í væri hins vegar heill, enda hefði hann farið úr honum þegar hann kom inn í íbúðina. Á sjúkrahúsinu um nóttina hefði bakið ekkert verið skoðað og því væru ekki til læknisfræðileg gögn um áverka á bakinu, sem hefðu bæði verið eftir stungu og klór.  Brotaþoli sagði þau ákærða hafa farið út um kvöldið, en í leigubifreiðinni heim til hennar á eftir hefði ákærði sagt að hún hefði verið „mjög köld við hann“ þetta kvöld. Hefði hún þá sagt honum að koma ekki með sér inn heldur fara heim til sín. Hefði hún svo yfirgefið bifreiðina og farið ein inn til sín. Þegar hún hefði verið komin inn hefði ákærði fljótlega knúið dyra og það fast og hún þá ákveðið að opna svo „hann myndi ekki gera eitthvað“. Þegar hún hefði opnað hefði hann sparkað beint framan í hana og aftur þegar hún hefði legið í gólfinu. Hún hefði reynt að slá til baka og reynt að losa sig við hann. Þessar ryskingar hefðu borist um alla íbúðina og í eitt skipti, er ákærði hefði haldið um höfuð hennar, hefði hún bitið hann. Hefði hann þá byrjað að „láta höggin dynja“ og þau þá verið komin í stofusófann. Hefði hann þá meðal annars barið sig í höfuðið með kristalskertastjaka. Hún hefði tekið stálkertastjaka og ætlað að verja sig með honum, en ákærði tekið hann af henni. Þá hefði hún hlaupið til að ná í síma en ákærði einnig tekið hann af henni. Loks hefði hún náð í lítinn hníf til að ógna ákærða með, en ákærði einnig náð honum. Hún sagðist ekki muna til þess að hafa reynt að stinga ákærða með hnífnum, en hún hefði otað hnífnum að honum til að halda honum frá sér. Ákærði hefði þá verið „með hendurnar úti um allt til þess að reyna að taka hann af“ brotaþola. Hefði hann getað fengið stungusár vegna þess. Hún kvaðst ekki muna til þess að hafa reynt að stinga ákærða í bakið. Nánar spurð hvort verið gæti að hún hefði hlaupið á eftir ákærða og stungið hann í bakið sagði hún að það gæti verið, en hún myndi ekki eftir því. Brotaþoli sagði að lögregla hefði komið einni til tveimur mínútum eftir að átökunum hefði lokið. Vitnið L, sem heima á í annarri íbúð fyrir ofan íbúð brotaþola, kvaðst hafa tilkynnt atvikið til lögreglu. Vitnið hefði vaknað um nóttina við „gríðarlegan hávaða“ úr íbúð brotaþola og skruðninga í húsgögnum. Þá hefði hún heyrt „óhljóð“ í konu, frekar væl en öskur. Ekki hefði heyrst í karlmanni. Ekki hefði farið milli mála að þarna hefði ofbeldi verið haft í frammi. Vitnið sagði að sér hefði fundist lögregla lengi á leiðinni og hefði ætlað að hringja til hennar aftur, þegar hún hefði komið. Hefði hún svo séð lögreglu fylgja ákærða á brott. Vitnið M leigubifreiðarstjóri kvaðst hafa ekið ákærða og brotaþola á heimili brotaþola í febrúar 2013. Hefði vitninu fundist framkoma brotaþola við ákærða á leiðinni vera „dálítið leiðinleg“. Nánar spurt vísaði vitnið til þess að tónninn í tali hennar hefði verið „fráhrindandi“ og hún „æddi nú út á undan manninum á meðan hann er að gera upp [...] ökugjaldið“. Vitnið kvaðst ekki hafa heyrt í ákærða á leiðinni. Vitnið N lögregluþjónn sagði brotaþola hafa opnað fyrir lögreglunni og þá verið blóðug, hrædd og lítið getað tjáð sig. Ákærði hefði verið á staðnum og að þrífa blóð af gólfi, æstur og hefði hreytt einhverju í lögregluna. Hefði strax verið ákveðið að handtaka hann og færa af vettvangi. Staðfesti vitnið skýrslu sína en kvaðst ekki muna nú hvaða orð hefðu farið milli manna á vettvangi. Vitnið O lögregluþjónn sagðist hafa komið á vettvang, en þá hefðu aðrir lögregluþjónar þegar verið komnir. Hefði ákærði þá verið að þrífa gólfið, sem hefði verið svolítið blóðugt, en brotaþoli hefði setið eða legið á gólfinu og verið í uppnámi. Ákærði hefði ekki verið æstur en „hundfúll“ vegna komu lögreglu og sagt um einkamál þeirra að ræða. Hefði honum orðið tíðrætt um að brotaþoli væri blóðheit og erfið. Ákærði hefði verið fluttur á lögreglustöðina og þegar hann hefði þar verið færður úr leðurjakka sínum hefði komið í ljós að hann hefði verið talsvert blóðugur á annarri hendi og með stungusár þar, en einnig klór- og bitför. Þá hafi ákærði verið með þrjá síma á sér og sagt að einn væri hans sjálfs, annar væri gsm-sími brotaþola og þriðji heimasími hennar. Gsm-sími brotaþola hefði verið brotinn í tvennt. Vitnið sagði að ákærði hefði sagt að brotaþoli hefði ráðist að sér mér hníf. Vitnið P rannsóknarlögreglumaður sagðist hafa fengið skyrtu ákærða í hendur við rannsókn málsins. Skyrtan hefði verið blóðug á ermum. Vitnið kvaðst hafa séð lítið gat á skyrtunni, milli herðanna, en þar hefði ekkert blóð verið að sjá. Hefði vitnið fengið ákærða til sín til að athuga hvort eitthvað væri að sjá á honum sem skýrt gæti gatið. Vitnið hefði skoðað bak ákærða en þar hefði ekkert verið að sjá sem tengst gæti gatinu á skyrtunni, hvorki sár né hrufl. Vitnið kvaðst ekki muna hvenær þetta hefði verið gert, það hefði verið einhverjum dögum eftir atvikið, en ekki mörgum. Vitnið kvaðst ekki muna hvort þá hefði verið tekin skýrsla af ákærða. Vitnið R, bróðir ákærða, sagðist hafa verið viðstaddur er kona sín, vitnið I, hefði tekið sauma úr hendi ákærða. Hefði ákærði sagt brotaþola hafa stungið sig. Þá hefði ákærði kvartað yfir kláða á baki og hefði vitnið skoðað bakið og séð „smá áverka“ á því ofarlega, rétt fyrir neðan hnakka. Vitnið sagðist hafa farið heim til brotaþola í febrúar 2013, að beiðni fyrrverandi tengdaföður hennar. Hún hefði þá verið með marbletti og hefði gefið þá skýringu að ákærði hefði ráðist á sig. Vitnið I, mágkona ákærða, sagðist hafa séð áverka á ákærða eftir hníf. Hún hefði tekið sauma úr hendi hans en þeir hefðu komið til af hnífstungu frá brotaþola, að því er ákærði hefði sagt. Hún kvaðst ekki muna nákvæmlega hvenær þetta hefði verið. Vitnið E félagsráðgjafi bar að brotaþoli hefði komið á slysadeild í febrúar 2013 og í framhaldi af því til vitnisins. Hefði þá verið liðinn langur tími frá því þær hefðu hist síðast. Vitnið staðfesti vottorð sitt en að öðru leyti þykir ekki sérstök ástæða til að rekja framburð þess frekar hér. Vitnið D lýtalæknir kvaðst hafa skoðað brotaþola í ágúst 2010. Skoðunin og frásögn brotaþola gætu komið heim og saman. Vitnið kvað mun hafa verið á hægri og vinstri andlitshelmingi og áberandi minni vöðvanotkun í vinstri kinn eða í kring um vörina. Brotaþoli hefði komið aftur til sín í júní 2013 og þá hefði vitninu fundist vera meiri dofi og vöðvi við efri vör slappari en áður. Spurður um batahorfur sagði vitnið að það tæki taugar allt að tveimur árum að verða betri, en eftir það yrði yfirleitt ekki frekari bati. Hafi ástand brotaþola í júní 2013 verið vegna áverka sem hún hafi fengið í febrúar sama ár, mætti geri ráð fyrir að ástandið hafi þá átt eftir „að skána eitthvað“. Vitnið C læknir staðfesti vottorð sitt. Vitnið F læknir staðfesti vottorð. Hún kvað áverka á brotaþola geta komið heim og saman við sögu hennar. Brotaþoli hefði þurft að vera með sauma í tíu daga og þurft að vera frá vinnu allan þann tíma, og væntanlega lengri tíma hafi hún fengið sýkingu. Sár ákærða í lófa gætu komið heim og saman við að hann hafi tekið um hnífsblað til að reyna að ná hníf. Hún kvaðst ekki muna hvort hún hefði skoðað bak ákærða en það hefði verið bókað ef hann hefði borið um stunguáverka á baki. Vitnið S, BA í sálfræði, kvaðst hafa verið „meðferðaraðili“ ákærða í nokkur ár en auk þess hefðu þau þekkst í 24 ár. Aðstoðaði hún ákærða sem vinur hans. Vitnið sagðist hafa séð umbúðir á baki ákærða eftir stungusár, en ekki muna hvenær það hefði verið. Ákæra lögreglustjórans á [...] Ákærði sagðist hafa verið heima hjá sér þegar vinur sinn, H, hefði komið í heimsókn á eigin bifreið. Ákærði hefði verið búinn að mæla sér mót við tiltekinn bifreiðastjóra á [...] og hefði H ekið sér þangað á bifreið ákærða, en skilið eigin bifreið eftir heima hjá honum. Þegar á leigubifreiðastöðina hefði verið komið, hefði ákærði stigið úr bifreiðinni og farið í afgreiðsluna. Bifreið sín hefði verið skilin eftir við stöðina en H gengið leiðar sinnar, en hann hefði þá átt heima þar skammt frá. Bifreiðarstjóri sá, sem ákærði hefði ætlað að finna, hefði verið nýfarinn af stöðinni svo ákærði hefði gengið burt og ætlað á eftir H. Þegar hann hefði verið kominn í námunda við [...], sem væri um áttatíu metra frá leigubílastöðinni, hefði lögreglan komið og tekið hann fastan. Ákærði sagði að til væru þrjú eintök af lyklum að bifreið sinni. Sjálfur hefði hann eitt, dóttir sín annað og H hefði þarna verið með það þriðja. Ákærði var spurður hvers vegna hann hefði ekki sagt lögreglu að H hefði ekið bifreiðinni en ekki hann sjálfur, og sagði það vera vegna þess að hann „treysti ekki lögreglunni fyrir húshorn“. Þar að auki ætti lögreglan ekki að yfirheyra drukkna menn. Ákærði kvaðst efast um að leigubifreiðarstjóri sá, sem hefði sagst hafa séð hann aka bifreið sinni, hefði séð það í raun. Þarna hefði verið niðamyrkur og filmur fyrir rúðum. Kvaðst ákærði ekki muna til þess að bifreiðastjórinn hefði verið úti á plani, enda væri síminn á [...] með snúru sem byði ekki upp á slíkt. Vitnið G leigubifreiðarstjóri kvaðst hafa verið á næturvakt á [...] umrædda nótt. Afgreiðslan væri jafnan læst að nóttu en knúið hefði verið dyra og vitnið hleypt komumanni inn. Þar hefði ákærði verið á ferð og kvað vitnið engan vafa leika á því, þeir væru jafnaldrar og vitnið hefði kannast við hann í þrjátíu til fjörutíu ár. Ákærði hefði viljað vín en vitnið sagst ekki hafa það í boði. Eftir stuttar viðræður þeirra um þetta hefði ákærði farið út. Fyrir utan hefði bifreið staðið og ákærði opnað dyr hennar og sest undir stýri. Vitnið hefði hugsað með sér að ákærði væri ölvaður og hefði farið á eftir honum, „[rifið] upp hurðina og [sagt]: þú ferð ekkert á þessum bíl, nú hringi ég bara á lögregluna.“ Þá hefði ákærði fært bifreiðina fyrir húshornið og komið svo gangandi til vitnisins og beðið hann um að hringja ekki á lögregluna. Vitnið hefði svarað því til að hann liði engum að aka ölvaður en þá hefði ákærði ætt af stað og gengið yfir götuna. Vitnið hefði náð sambandi við lögreglu og lýst ferðum ákærða. Ákærði hefði komið að nýju til vitnisins og endurtekið ósk sína um að ekki yrði hringt á lögreglu en vitnið hefði svarað því til að hann væri þá með lögregluna í símanum. Ákærði hefði þá tekið „á strauið aftur yfir götuna og milli húsa og í áttina að [...]“ en vitnið áfram verið í sambandi við lögreglu. Skömmu síðar hefði vitnið séð glampa af bláum ljósum og lögreglumann á hlaupum og séð lögreglu taka ákærða fastan við [...]. Lögreglan hefði svo komið með ákærða til vitnisins og spurt hvort væri ökumaðurinn, og hefði vitnið staðfest það. Vitnið sagði að enginn hefði verið með ákærða í bifreiðinni og enginn þar nálægt. Vitnið sagði að sú vegalengd sem ákærði hefði ekið að sér ásjáandi hefði ekki verið löng, tveir til þrír metrar. Vitnið sagði að stæði það, sem ákærði hefði lagt bifreið sinni í, væri eingöngu ætlað leigubifreiðum. Stæðið væri ekki merkt þeim sérstaklega en þetta vissu allir. Vitnið T lögregluþjónn sagði tilkynningu hafa borist um ölvaðan ökumann við [...]. Lögreglan hefði hraðað sér þangað og séð þá mann á ferli milli [...]götu [...] og [...]. Kallað hafi verið til hans en hann þá hlaupið undan. Annar lögregluþjónn, U, hefði stokkið úr bifreiðinni og farið á eftir manninum, sem hefði verið handtekinn skammt frá. Þeir hefðu farið með hann á [...] þar sem tilkynnandi hafi staðfest að hinn handtekni væri ökumaðurinn. Maðurinn hefði verið með lykil bifreiðarinnar á sér. Vitnið sagðist ekki muna hvort maðurinn hefði sagt að einhver annar hefði ekið bifreiðinni eða nefnt vitnið H á nafn. Slíkt hefði þá verið skráð í skýrslu. Vitnið U lögregluþjónn lýsti aðdraganda handtöku ákærða með sama hætti og vitnið T. Vitnið sagði að ákærði hefði ekki gefið skýra frásögn við handtökuna og fyrst sagt að hann hefði ekki ekið bifreiðinni en svo sagst hafa verið á henni, en frásögnin hefði aldrei orðið heildstæð. Vitnið tók þó fram að langt væri um liðið. Vitnið H kvaðst hafa farið heim til ákærða þetta kvöld og þá verið á eigin bifreið. Eftir um tveggja klukkustunda veru þar hefði hann ekið ákærða þaðan, á bifreið hans, að bifreiðastöðinni [...]. Hefði vitnið lagt bifreiðinni vestan megin við afgreiðslu [...]. Þetta hefði vitnið gert að beiðni ákærða sem hefði ætlað að hitta einhvern bifreiðastjóra að máli. Þeir ákærði hefðu skilið á planinu við bifreiðastöðina og er vitnið hefði gengið burt hefði hann séð ákærða ganga að dyrunum. Á þessum tíma hefði vitnið átt heima í [...] og hefði gengið þangað en skilið bifreið ákærða eftir. Ákærði hefði viljað hafa þennan hátt á, og hann hefði átt bifreiðina, svo vitnið hefði ekki andmælt því. Vitnið hefði svo farið með frænda sínum daginn eftir og vitjað bifreiðar sinnar heima hjá ákærða. Vitnið sagði að það stæði, sem hann hefði lagt í, væri eingöngu ætlað leigubifreiðum. Hann hefði hins vegar lagt þar, þar sem hann hefði séð að bifreiðin yrði ekki fyrir neinum þarna og hann hefði talið í lagi að hún yrði þar til morguns. Vitnið hefði notað varalykla að bifreiðinni og tekið þá með sér eftir aksturinn. Niðurstaða Ljóst er að brotaþoli kom á sjúkrahúsið á [...] hinn 22. ágúst 2010 og var þá með þá áverka sem í vottorði eru greindir. Þá er ljóst af vottorði að hún hefur þá borið að unnusti hennar hafi ráðist á sig. Hún hefur borið á sama veg við félagsráðgjafa er starfar á sjúkrahúsinu. Hún kveðst einnig hafa tjáð mágkonu ákærða þetta sama í samtali um svipað leyti, en mágkonan kannaðist ekki við það er hún bar vitni fyrir dóminum. Framburð mágkonunnar verður að skoða í ljósi tengsla hennar og ákærða en engu að síður þykir, í ljósi meginreglu sakamálaréttarfars um að ákæruvaldið beri sönnunarbyrði af öllu sem ákærða í óhag, ekki fært að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að brotaþoli hafi tjáð sig á þennan hátt í samtali þeirra. Ákærði neitar sök og kveður ósannað að brotaþoli hafi verið á heimili hans umrætt kvöld. Sonur hans kvaðst fyrir dómi hafa verið heima og ekki hafa orðið var við nein átök. Framburð hans verður að meta í ljósi tengsla hans við ákærða og þess að vel á fimmta ár er liðið frá þessum tíma. Óumdeilt er að ákærði og brotaþoli fóru ósjaldan út að skemmta sér saman. Hins vegar hefur enginn nema brotaþoli borið fyrir dómi af vissu um að þau hafi verið saman umrætt kvöld. Engin gögn liggja fyrir í málinu sem veita því atriði sérstakan stuðning. Þegar á allt er horft þykir dóminum sem ákæruvaldinu hafi ekki tekist að færa fram lögfulla sönnun fyrir því, svo hnekkt geti neitun ákærða, að brotaþoli hafi verið á heimili ákærða aðfaranótt 22. ágúst 2010 og þar fengið af hans völdum þá áverka sem taldir eru upp í ákæru. Verður því að sýkna ákærða af fyrri ákærulið í ákæru ríkissaksóknara. Enginn vafi er hins vegar á að til átaka kom milli ákærða og brotaþola aðfaranótt sunnudagsins 10. febrúar 2013. Telja má sannað að hvort um sig hafi fengið þá áverka sem í vottorðum greinir. Skyrta ákærða var sýnd í réttinum og var lítið gat á baki hennar. Hins vegar sá P rannsóknarlögreglumaður, sem sérstaklega kallaði ákærða á sinn fund í framhaldi af því að hafa tekið eftir gatinu á skyrtunni, engin merki um ákomu á baki ákærða. Í læknisvottorði um skoðun á ákærða eftir atvikið er hvorki minnst á áverka á baki né á að hann hafi sagt frá stungu í bakið. Þykir í þessu ljósi ekki verða byggt á að hann hafi fengið stungu í bakið í átökunum, og þykir framburður bróður hans og vitnisins S engu breyta um þessa niðurstöðu. Ákærði kveðst hafa verið í sjálfsvörn. Fyrir liggur að brotaþoli freistaði þess í átökunum að hringja til lögreglu en ákærði tók af henni síma. Lögregla fann á honum tvo síma brotaþola og var annar brotinn. Ákærði kvaðst fyrir dómi hafa hindrað hana í að hringja á lögreglu þar sem sér hefði fundist lögregla búin að koma nógu oft til þeirra. Sú staðreynd að brotaþoli reyndi að kalla á lögreglu en ákærði hindraði það, mælir gegn því að hann hafi átt hendur sínar að verja fyrir árásum brotaþola. Verður að telja almennar líkur á því að það sé fremur árásarþoli en árásarmaður sem vilji fá lögreglu á vettvang. Vitnið L kvaðst hafa heyrt úr íbúðinni „óhljóð“ í konu og lýsti „óhljóðunum“ sem væli frekar en öskrum. Hún hefði hins vegar ekkert heyrt í karlmanni. Ljóst má telja að brotaþoli hafi á einhverju stigi átakanna haft hníf í hönd og ákærði fengið áverka af honum, en sjálf segist hún hafa otað honum að ákærða í varnarskyni. Ber þeim ákærða saman um að hann hafi tekið af henni hnífinn. Ákærði hlaut stungusár á hönd og rispur í báða lófa og þykja áverkarnir geta komið heim og saman við þessa frásögn. Að mati dómsins var framburður brotaþola trúverðugur en á hinn bóginn þykir í ljósi framanritaðs ekki trúverðugt að hún hafi ráðist á ákærða sem hafi síðan verið í sjálfsvörn. Þykir verða að leggja framburð brotaþola til grundvallar og telja ákærða sannan að sök samkvæmt síðari ákærulið, en háttsemi hans er í ákærunni rétt færð til refsiheimildar. Loks er ákærða gefið að sök að hafa ekið bifreið sinni undir áhrifum áfengis stutta vegalengd. Vitnið G leigubifreiðarstjóri bar fyrir dómi að ákærði, sem vitnið hefði kannast við um áratuga skeið, hefði komið á leigubifreiðastöðina, falast þar eftir áfengi, en eftir að hafa verið tjáð að það væri ekki í boði, farið í bifreið sína og ekið henni spölkorn. Fyrir liggur að vitnið hafði samband við lögreglu og bar kennsl á ákærða þegar hann hafði verið handtekinn þar skammt frá, stuttu síðar. Framburður vitnisins var mjög trúverðugur. Fyrir liggur að ákærði var handtekinn skammt frá bifreiðastöðinni og var hann þá með kveikjuláslykil að bifreiðinni í fórum sínum. Nefndi ákærði ekki við lögreglu þá um nóttina að vinur sinn, H, hefði í raun ekið bifreiðinni, en telja verður líkur á því að maður, sem handtekinn er fyrir ölvunarakstur, upplýsi lögreglu um það ef hann veit til þess að annar maður hafi í raun verið ökumaðurinn. Fyrir dómi vísaði ákærði til þess að hann treysti lögreglunni alls ekki og hefði því ekki tjáð sig um þetta við hana um nóttina, auk þess sem alls ekki ætti að yfirheyra ölvaða menn. Hvað sem um þessi atriði má segja þykir ekki verða horft fram hjá því að ákærði nefndi H ekki sem raunverulegan ökumann, þegar lögreglan handtók hann og færði á lögreglustöð grunaðan um ölvunarakstur. Framburður ákærða og H fyrir lögreglu um mánuði eftir atvikið, og svo framburður þeirra beggja fyrir dómi, breytir engu um það, að telja verður sannað með mjög trúverðugum framburði vitnisins G að ákærði hafi í raun ekið bifreið sinni stuttan spöl á bifreiðastæðinu við [...] þessa nótt. Er hann því sannur að sök samkvæmt ákæru sýslumannsins á [...], en háttsemi hans er í ákærunni rétt færð til refsiheimildar. Af sakaferli ákærða skal þess getið hér að með dómi Hæstaréttar Íslands var hann hinn [...] dæmdur til greiðslu 250.000 króna sektar fyrir brot gegn 1. sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga og var jafnframt sviptur ökurétti í tvö ár og þrjá mánuði frá 10. mars 2014 að telja, en héraðsdómur, þar sem ákærði hafði verið sakfelldur fyrir brot gegn sömu lagaákvæðum, var kveðinn upp [...]. Hefur dómurinn ítrekunaráhrif að því er varðar tímalengd sviptingar ökuréttar sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 92/2008. Ákærða hefur ekki áður gerð refsing fyrir ofbeldisbrot. Á hinn bóginn var brotaþoli unnusta hans um átta til níu ára skeið, þótt þau hafi aldrei átt sameiginlegt heimili. Verður litið svo á að þau hafi verið nákomin í skilningi 3. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940. Verður ákærði dæmdur til átta mánaða fangelsis en fullnustu þeirrar refsingar skal frestað og niður skal hún falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá verður ákærða gerð 220.000 króna sekt vegna umferðarlagabrotsins en sextán daga fangelsi komi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins. Ákærði verður sviptur ökurétti í þrjú ár og sex mánuði frá 10. júní 2016 að telja. Ákærði framdi ólögmæta meingerð gagnvart brotaþola og verður dæmdur til greiðslu 600.000 króna miskabóta til hennar ásamt vöxtum svo sem í dómsorði greinir. Þá liggur fyrir samkvæmt vottorði að brotaþoli var í tólf daga með sauma og svo á sýklalyfjum í viku vegna sýkingar. Verður ákærði dæmdur til greiðslu þjáningabóta vegna nítján daga, 33.440 króna, ásamt vöxtum svo sem í dómsorði greinir. Bótakrafa var birt 4. mars 2014. Ákærði er sýknaður af fyrri ákærulið ákæru ríkissaksóknara en sakfelldur af hinum síðari og ákæru sýslumanns. Verður ákveðið að ákærði greiði að tveimur þriðju hlutum en ríkissjóður einum þriðja 1.860.000 króna málsvarnarlaun Gísla M. Auðbergssonar hrl., verjanda ákærða, 366.560 króna ferðakostnað verjandans og 558.000 króna þóknun Arnbjargar Sigurðardóttur hrl. réttargæslumanns, og er virðisaukaskattur innifalinn í launum lögmannanna. Annar sakarkostnaður samkvæmt yfirliti ákæruvaldsins, 258.603 krónur, er vegna ákæruliða er ákærði er sakfelldur fyrir og ber honum að greiða hann að fullu, en fjörutíu þúsund króna ferðakostnaður vitnis, sem ekki er getið á yfirlitinu, var vegna þess ákæruliðar er ákærði var sýknaður af og greiðist sá kostnaður úr ríkissjóði. Gætt var ákvæða 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008. Af hálfu ákæruvaldsins fór Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari með málið. Málið dæma héraðsdómararnir Þorsteinn Davíðsson, Erlingur Sigtryggsson og Ólafur Ólafsson. D Ó M S O R Ð Ákærði, X, sæti átta mánaða fangelsi en fullnustu refsingarinnar er frestað og niður skal hún falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940. Ákærði greiði 220.000 króna sekt í ríkissjóð en sextán daga fangelsi komi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins. Ákærði er sviptur ökurétti í þrjú ár og sex mánuði frá 10. júní 2016 að telja. Ákærði greiði A 633.444 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 10. febrúar 2013 til 5. apríl 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Ákærði greiði að tveimur þriðju hlutum 1.860.000 króna málsvarnarlaun verjanda síns, Gísla M. Auðbergssonar hrl., 366.560 króna ferðakostnað hans, og 558.000 króna þóknun Arnbjargar Sigurðardóttur hrl. réttargæslumanns brotaþola. Þá greiði ákærði annan sakarkostnað 258.603 krónur.                                                                                                                                         
Mál nr. 38/2016
Kærumál Varnarþing
H kærði úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem ógildingarmáli hans gegn handhafa veðskuldabréfs var vísað frá dómi á þeirri forsendu að málið hefði verið höfðað á röngu varnarþingi. Í dómi Hæstaréttar kom fram að mál til ógildingar á veðskuldabréfi skyldi höfða í þeirri þinghá þar sem bréfinu var eða yrði þinglýst, sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 91/1991. Bréfinu hafði upphaflega verið þinglýst á eign í Reykjavík árið 1988, en flutt yfir á fasteign í Garðabæ tveimur árum síðar. Samkvæmt þessu bar að höfða málið í þinghá Héraðsdóms Reykjaness, en í henni væri eignin sem veðskuldabréfið var þinglýst á. Var niðurstaða hins kærða úrskurðar um að vísa málinu frá héraðsdómi því staðfest.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. janúar 2009, en kærumálsgögn bárust réttinum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. desember 2015, þar sem máli sóknaraðila á hendur handhafa veðskuldabréfs var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Í kæru kemur fram að lögmanni sóknaraðila hafi borist vitneskja um hinn kærða úrskurð 28. desember 2015 og eru ekki efni til að miða við annað en að svo hafi verið. Barst kæran því innan lögbundins kærufrests, sbr. 1. mgr. 144. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt fyrri málslið 2. mgr. 120. gr. laga nr. 91/1991 skal höfða mál til ógildingar á veðskuldabréfi í þeirri þinghá þar sem því var eða yrði þinglýst. Veðskuldabréfi því, sem um ræðir í málinu, var þinglýst 26. júlí 1988 hjá Borgarfógetaembættinu í Reykjavík á tilgreinda fasteign að Stigahlíð 35 í Reykjavík. Hinn 23. október 1990 var bréfinu síðan þinglýst á fasteignina Naustahlein 7 í Garðabæ og fyrrnefnda fasteignin jafnframt leyst undan veðbandi. Samkvæmt þessu ber að höfða málið í þinghá Héraðsdóms Reykjaness, en í henni er eignin sem veðskuldabréfinu var þinglýst á svo sem rakið hefur verið, sbr. 8. tölulið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla og reglugerð nr. 395/1998 um dómþinghár og þingstaði, eins og henni var breytt með  með reglugerð nr. 1109/2010. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 461/2015
Fiskveiðistjórn Skattur Veiðigjald Stjórnarskrá Jafnræði
"Í málinu krafðist H ehf.\r\n endurgreiðslu veiðigjalda sem hann greiddi fiskveiðiári(...TRUNCATED)
"Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar\r\n Már Matthíasso(...TRUNCATED)
Mál nr. 281/2015
Tekjuskattur Nauðasamningur
"Ágreiningur aðila laut að því hvort\r\n eftirgjöf skulda samkvæmt nauðasamningi teld(...TRUNCATED)
"Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús\r\n Sigurbjörnsson(...TRUNCATED)
Mál nr. 300/2015
Líkamsárás Einkaréttarkrafa Ómerkingu héraðsdóms hafnað
"X var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr.\r\n almennra hegningarlaga nr. 19/1940 me(...TRUNCATED)
"Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi\r\n I. Jónsson, Bene(...TRUNCATED)
Mál nr. 462/2015
Fiskveiðistjórn Aflaheimild Aflahlutdeild Stjórnarskrá Jafnræði Meðalhóf Kröfugerð
"Með setningu laga nr. 48/2014 var sett nýtt bráðabirgðaákvæði við lög nr.\r\n 116/(...TRUNCATED)
"Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús\r\n Sigurbjörnsson(...TRUNCATED)
Mál nr. 52/2016
Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
"Staðfestur var úrskurður\r\n héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi (...TRUNCATED)
"Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma\r\n hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Ka(...TRUNCATED)

No dataset card yet

Downloads last month
9