Title
stringlengths
43
45
Keywords
stringlengths
3
216
Summary
stringlengths
141
7.4k
Text
stringlengths
135
434k
Mál nr. 469/2015
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og einangrun meðan á því stæði. 
Dómur Hæstaréttar Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. júlí 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 15. júlí 2015 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 22. júlí 2015 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um að varnaraðila verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 400/2015
Kærumál Börn Vistun barns Lögvarðir hagsmunir Málshraði Aðfinnslur Frávísun frá héraðsdómi að hluta Gjafsókn
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem felldur var úr gildi úrskurður félagsmálanefndar sveitarfélagsins A um að dóttir B skyldi vistuð utan heimilis hennar í tvo mánuði og jafnframt hafnað kröfu sveitarfélagsins um að vistun barnsins yrði framlengd í tólf mánuði. Í dómi Hæstaréttar kom fram að við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar hefði verið liðinn sá tveggja mánaða tími sem kveðið hafði verið á um í úrskurði félagsmálanefndarinnar. Af þeim sökum hefði B ekki lengur haft lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurðinn felldan úr gildi og var þeirri kröfu hennar því vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi. Með hliðsjón af gögnum málsins var talið ljóst að dóttir B ætti við að etja verulega örðugleika sem meðal annars tengdust máltöku og félagsþroska hennar. Yrði stúlkunni ekki veitt viðeigandi hjálp gætu áhrif þess reynst margvísleg og langvarandi á þroska og uppvöxt hennar. Hún þarfnaðist mikillar örvunar, sem B hefði ekki reynst fær um að veita henni, væri tekið mið af þeim áætlunum, sem gerðar hefðu verið en ekki borið tilætlaðan árangur, ekki síst vegna afstöðu og aðgerðarleysis B. Teldist því fullreynt að hún gæti ekki sinnt skyldum sínum gagnvart dóttur sinni og mætt þörfum hennar sem skyldi. Þá lægi fyrir að föðurmóðir stúlkunnar hefði lýst sig reiðubúna til að hún yrði vistuð hjá sér, en það sem fram hefði komið í málinu benti til að dvöl hennar hjá ömmu sinni fyrr á árinu hefði reynst henni mjög vel. Var því fallist á þá kröfu sveitarfélagsins að heimilt væri með vísan til b. liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga að vista stúlkuna utan heimilis B lengur en tvo mánuði. Að teknu tilliti til sjónarmiða um meðalhóf skyldi vistunin þó aðeins vara í allt að átta mánuði. Loks var talið að sá dráttur sem hefði verið á meðferð málsins í héraði hefði verið aðfinnsluverður.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. júní 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 2. júní 2015 þar sem felldur var úr gildi úrskurður félagsmálanefndar sóknaraðila 27. mars sama ár um að dóttir varnaraðila, C, skyldi vistuð utan heimilis hennar í tvo mánuði og jafnframt hafnað kröfu sóknaraðila um að vistun barnsins yrði framlengd í tólf mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreindur úrskurður félagsmálanefndar haldi gildi sínu og að fallist verði á þá kröfu „að fósturráðstöfun skv. b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga standi í 12 mánuði frá uppkvaðningu dóms.“  Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt. I Við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar 2. júní 2015 var liðinn sá tveggja mánaða tími sem kveðið var á um í úrskurði félagsmálanefndar sóknaraðila 27. mars sama ár að gilda skyldi um vistun dóttur varnaraðila utan heimilis hennar. Af þeim sökum hafði varnaraðili ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurðinn felldan úr gildi og verður þeirri kröfu hennar því vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi. II Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði munu barnaverndaryfirvöld hafa haft afskipti af málefnum dóttur varnaraðila frá því í júlí 2011 í kjölfar tilkynninga um slæman aðbúnað hennar á heimili móður sinnar, en stúlkan er fædd í mars sama ár. Í tilefni af áhyggjum yfirvalda af þroska stúlkunnar, ekki síst málþroska hennar, og félagslegum og heilsufarslegum aðstæðum hjá varnaraðila var 9. júlí 2014 gerð áætlun um meðferð máls samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga í því skyni að bæta stöðu barnsins. Áætlunin gilti frá áðurnefndum degi til 15. ágúst 2014 og skrifaði varnaraðili undir hana. Sams konar áætlanir voru síðar gerðar með samþykki varnaraðila 7. ágúst og 21. október 2014 sem tóku annars vegar til tímabilsins frá 16. ágúst til 15. október sama ár og hins vegar frá 21. þess mánaðar til 1. febrúar 2015. Þrír starfsmenn sóknaraðila gáfu skýrslu fyrir héraðsdómi, en þeir höfðu allir komið að málefnum varnaraðila og dóttur hennar á árinu 2014 og framan af árinu 2015. Í skýrslum þeirra kom meðal annars fram að aðbúnaði stúlkunnar á heimili varnaraðila hafi verið verulega ábótavant og hún alls ekki sinnt uppeldi dóttur sinnar sem skyldi, til dæmis hafi hún vanrækt að fara með stúlkuna í læknisskoðun og mæta með hana til talmeinafræðings þrátt fyrir að búið væri að panta þar tíma fyrir hana. Í september 2014 hafi komið í ljós að varnaraðili þurfti á meiri stuðningi að halda en áætlað var í fyrstu og því hafi starfsmaður sóknaraðila farið á heimili varnaraðila fimm sinnum í viku til að aðstoða hana við að sinna daglegum þörfum dóttur sinnar. Hins vegar hafi varnaraðili ekki sinnt ráðleggingum og leiðbeiningum og hún ýmist viljað fá aðstoð eða afþakkað hana. Sóknaraðili fékk nafngreindan sálfræðing til að leggja mat á forsjárhæfni varnaraðila. Í niðurstöðum sálfræðiálitsins 20. janúar 2015 kom meðal annars fram að um væri að ræða seinfæra móður sem byggi yfir ýmsum styrkleikum í uppeldislegu tilliti. Hún hefði myndað góð tengsl við dóttur sína, sýndi henni hlýju og kærleika og beitti hana aga. Veikleikar að því er vörðuðu foreldrahæfni varnaraðila tengdust öryggi, líkamlegri umönnun og atlæti. Veikleikar í lífsstíl hennar hefðu áhrif, væntanlega til hins verra, á hana sem fyrirmynd dóttur sinnar. Varnaraðili hafi verið greind á tornæmismörkum og til þess að hún hefði vald á foreldrahlutverkinu og gæti sinnt þörfum stúlkunnar, örvað hana og veitt henni öryggi og gott atlæti þyrfti móðirin leiðsögn, en hún ætti erfitt með að meðtaka og fara eftir fyrirmælum. Hún jánkaði og samþykkti, en færi oftast sínar leiðir og væri oft tvísaga um daglegt líf og umönnun dóttur sinnar. Í lok álitsgerðar sálfræðingsins sagði: „Forsjárhæfni B er verulega skert. Hún hefur fengið margvísleg tilboð um stuðning sem ekki hafa skilað þeim árangri sem til var ætlast. Reynslan sýnir að B hefur litla getu til að nýta sér þá þjónustu sem henni stendur til boða til að styrkja stöðu sína sem foreldri. Hún á erfitt með að sjá samband milli orsakar og afleiðingar og stendur ekki við skuldbindingar sínar. Hún hefur lítið innsæi í vanda sinn, er óraunsæ, á erfitt með að standa við það sem hún segist ætla að gera og telur sig hæfari en hún í raun er til að búa barninu góðar aðstæður, öryggi, atlæti og vera góð fyrirmynd fyrir hana. Tilboð sem henni eru gerð eru ekki líkleg til að skila frekari árangri ... Mat á persónuleika og sagan sýnir að ... hún hafi ekki úthald til að ljúka því sem hún byrjar á. Frekari tilboð um stuðning og eða meðferð eru því ekki líkleg til að skila árangri. Niðurstöður greindarmats, mats á persónuleika og klínískt mat ... gefa ... ekki tilefni til að álykta að þetta muni breytast.“ Sálfræðingurinn kom fyrir dóm og staðfesti þetta álit sitt. Hinn 24. febrúar 2015 var enn á ný gerð áætlun samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga og ástæðan sögð áhyggjur af velferð dóttur varnaraðila. Markmið áætlunarinnar var „að fullreyna stuðning barnaverndar við móður þannig að móðir nái að sinna forsjárskyldum sínum með fullnægjandi hætti.“ Síðan voru talin upp ýmis úrræði og aðgerðir til að ná því markmiði. Þar kom meðal annars fram að varnaraðili samþykkti að stúlkan færi aðra hverja helgi til stuðningsfjölskyldu, sem barnavernd útvegaði, en um væri að ræða dvöl hjá föðurmóður hennar, D. Skyldi áætlunin gilda frá áðurnefndum degi til 21. apríl 2015 og skrifaði varnaraðili undir hana. Þegar gengið var frá áætluninni mun hafa verið farið yfir það með varnaraðila að mikilvægt væri að hún færi eftir því, sem þar kæmi fram og varðaði dóttur hennar, svo sem að stúlkan færi vikulega til talmeinafræðings og á hverjum virkum degi í leikskóla. Þá mun varnaraðili hafa verið hvött til að nýta sér aðstoð sem henni byðist og fara að ráðum sem henni væru gefin. Í samantekt félagsráðgjafa sóknaraðila um tilsjón með varnaraðila á tímabilinu frá 24. febrúar til 24. mars 2015 kom fram að á þeim tíma hafi hún ekki farið eftir áætluninni, þar á meðal ekki þeim ráðleggingum sem henni voru gefnar um umönnun dóttur sinnar. Hinn 16. mars 2015 sendi félagsmálanefnd sóknaraðila bréf til varnaraðila þar sem henni var tilkynnt að nefndin myndi taka málefni dóttur hennar til meðferðar á fundi síðar í mánuðinum. Á fundinum yrði tekið til athugunar hvort tilefni væri til að úrskurða um töku barnsins af heimili hennar og væri henni gefinn kostur á að koma að andmælum sínum við þeirri fyrirætlan nefndarinnar. Á fundi með félagsmálanefnd 26. mars 2015 lýsti varnaraðili sig andvíga því að dóttur sín yrði vistuð utan heimilis hennar. Í bréfi til nefndarinnar 27. sama mánaðar kvað varnaraðili þau skilyrði, sem sér hafi verið gert að undirgangast, bæði hafa verið umfangsmikil og íþyngjandi. Nær allar þær kröfur, sem gerðar hafi verið til sín, hafi beinst að sér og samstarfsvilja sínum, en minna hafi farið fyrir athugasemdum um líðan dóttur sinnar. Á fundi félagsmálanefndar síðar sama dag var kveðinn upp úrskurður á grundvelli b. liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga um að dóttur varnaraðila skyldi ráðstafað í fóstur í allt að tvo mánuði. Stúlkan var vistuð hjá föðurmóður sinni frá 27. mars til 2. júní 2015 þegar hinn kærði úrskurður var kveðinn upp. Samkvæmt gögnum málsins, þar á meðal upplýsingum sem aflað var hjá sóknaraðila að frumkvæði Hæstaréttar samkvæmt 2. mgr. 56. gr., sbr. 1. mgr. 61. gr. barnaverndarlaga, mætti stúlkan reglulega í leikskóla á þessum tíma og starfsmenn hans sáu umtalsverða breytingu á högum hennar til hins betra, þar á meðal hefði málþroski hennar og félagsþroski eflst á þessum tíma. Þá hafi exemblettir, sem hún hafi verið með, alveg horfið. Í vottorði talmeinafræðings, sem mun hafa verið gefið í lok maí 2015, sagði að stúlkan hafi mætt vikulega í tíma frá því í byrjun apríl og væri um að ræða miklar framfarir á málþroska hennar frá þeim tíma. Í greinargerð sóknaraðila fyrir Hæstarétti er tekið fram að dóttir varnaraðila hafi ávallt þekkt föðurmóður sína og dvalist hjá henni um skemmri tíma þegar varnaraðili hafi óskað þess. Ef vista þurfi stúlkuna utan heimilis móður hennar sé það talið henni fyrir bestu að dvelja hjá ömmu sinni þar sem hún þekki allt umhverfi. Hafi amma hennar lýst sig reiðubúna að vista barnið hjá sér í allt að tólf mánuði til viðbótar ef til þess kæmi. Í greinargerðinni segir enn fremur að eftir að stúlkan hafi farið aftur heim til varnaraðila hafi móðirin ekki fengist til að gera áætlun um meðferð málsins með félagsráðgjafa, enda hafi hún ekki mætt til viðtala. Samkvæmt upplýsingum frá leikskóla hafi allt yfirbragð stúlkunnar breyst á ný eftir að hún fór aftur í umsjá móður sinnar. Breyting hafi orðið á aðbúnaði barnsins og það virðist vera mjög þreytt. Þá séu exemblettir, sem hafi verið horfnir, að koma aftur.  Af því sem rakið hefur verið að framan er ljóst að dóttir varnaraðila á við að etja verulega örðugleika sem meðal annars tengjast máltöku og félagsþroska hennar. Verði stúlkunni ekki veitt viðeigandi hjálp geta áhrif þess reynst margvísleg og langvarandi á þroska og uppvöxt hennar. Hún þarfnast mikillar örvunar, sem varnaraðili hefur ekki reynst fær um að veita henni, sé tekið mið af þeim áætlunum, sem gerðar hafa verið en ekki borið tilætlaðan árangur, ekki síst vegna afstöðu og aðgerðaleysis varnaraðila. Telst því fullreynt að hún getur ekki sinnt skyldum sínum gagnvart dóttur sinni og mætt þörfum hennar sem skyldi, sbr. 2. mgr. 1. gr. barnaverndarlaga. Þá liggur fyrir að föðurmóðir stúlkunnar hefur lýst sig reiðubúna til að hún verði vistuð hjá sér, en það sem fram er komið í málinu bendir til að dvöl hennar hjá ömmu sinni fyrr á þessu ári hafi reynst henni mjög vel. Samkvæmt öllu þessu er fallist á þá kröfu sóknaraðila eftir 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga að heimilt sé með vísan til b. liðar 1. mgr. 27. gr. laganna að vista stúlkuna utan heimilis varnaraðila lengur en tvo mánuði. Að teknu tilliti til sjónarmiðs um meðalhóf, sbr. 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, skal vistunin þó ekki vara lengur en átta mánuði frá uppsögu dóms þessa að telja. Dómsorð: Vísað er frá héraðsdómi þeirri kröfu varnaraðila, B, að úrskurður félagsmálanefndar sóknaraðila, Sveitarfélagsins A, 27. mars 2015 verði felldur úr gildi.
Mál nr. 405/2015
Kærumál Nauðungarvistun
Í málinu er álit tveggja geðlækna, þeirra B og C, um það að sóknaraðili hafi að undanförnu verið haldinn geðrofsgeðklofa með miklum ranghugmyndum.  Að sögn B hefur dregið úr einkennum sjúkdómsins að undanförnu en hann kveður A þó enn vera í geðrofi.  Enn sé þó ekki óhætt að aflétta nauðungarvistuninni og því brýnt að hún sæti henni áfram til þess að veita megi meðferð við sjúkdóminum og koma í veg fyrir að hún veikist aftur.  Dómarinn telur ljóst af þessu áliti læknanna að brýnt sé að sóknaraðili vistist á sjúkrahúsi um sinn til þess að hann fái meðferð við alvarlegum geðsjúkdómi. Ber því að synja kröfu hans og ákveða að fyrrgreind ákvörðun ráðuneytisins skuli haldast. 
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. júní 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2015, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fella úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins 8. sama mánaðar um nauðungarvistun hennar á sjúkrahúsi. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að áðurgreind krafa verði tekin til greina, en staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um þóknun verjanda síns. Þá krefst hún þóknunar til handa verjanda sínum vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og þess að þóknun talsmanns síns fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði. Með samþykki innanríkisráðuneytisins 8. júní 2015 var sóknaraðili vistuð á sjúkrahúsi gegn vilja sínum í allt að 21 sólarhring frá þeim tíma. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Þóknun verjanda sóknaraðila, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, og talsmanns varnaraðila, Árna Ármanns Árnasonar hæstaréttarlögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 124.000 krónur til handa hvorum um sig, greiðist úr ríkissjóði.
Mál nr. 401/2015
Kærumál Nauðungarvistun
Með kröfu, sem barst Héraðsdómi Reykjaness þann 9. júní 2015, hefur sóknaraðili, A, kt. [...], [...], [...], krafist þess að felld verði úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins dagsett 9. júní 2015, um að sóknaraðili skuli vistast á sjúkrahúsi í 21 dag, með vísan til 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. júní 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. júní 2015 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fella úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins 9. sama mánaðar um nauðungarvistun hennar á sjúkrahúsi. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hún þóknunar til handa verjanda sínum vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og þess að þóknun talsmanns síns fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur með þeim hætti sem í dómsorði greinir. Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Staðfest er ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 9. júní 2015 um að sóknaraðili, A, skuli vistast á sjúkrahúsi. Ákvörðun héraðsdóms um málskostnað skal vera óröskuð. Þóknun verjanda sóknaraðila, Guðmundar St. Ragnarssonar héraðsdómslögmanns, og talsmanns varnaraðila, Unnars Steins Bjarndal héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 124.000 krónur til handa hvorum um sig, greiðist úr ríkissjóði.
Mál nr. 385/2015
Kærumál Kyrrsetning Rannsókn
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X um að felldar yrðu úr gildi kyrrsetningar sýslumannsins í Reykjavík í tilgreindum eignum hans.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. júní 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júní 2015, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að felldar yrðu úr gildi kyrrsetningar sýslumannsins í Reykjavík 8. nóvember 2013 í tilgreindum eignum varnaraðila. Kæruheimild er í k. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að framangreind krafa verði tekin til greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði var mál það, sem hér um ræðir, sent ríkissaksóknara til meðferðar í desember 2014. Samkvæmt 3. mgr. 18. gr. laga nr. 88/2008 ber ákærendum að hraða meðferð máls eftir því sem kostur er. Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 395/2015
Kærumál Opinber skipti Óvígð sambúð
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu M um opinber skipti til fjárslita milli hans og K. Höfðu þau gert með sér samkomulag um fjárskipti vegna sambúðarslita árið 2008 og kom fasteignin C meðal annars í hlut K. Var sú fasteign síðar seld og fékk K upp í greiðslu fyrir hana íbúðina D. Á grundvelli umboðs frá K afsalaði M íbúðinni í janúar 2011 til systur sinnar A sem síðar sama ár afsalaði henni til B, sambýliskonu M, án þess að endurgjald kæmi fyrir. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 554/2014 var komist að þeirri niðurstöðu að A og B skyldu greiða K skaðabætur vegna þessara ráðstafana á íbúðinni. Í kröfugerð M tilgreindi hann skaðabótakröfuna einu óskiptu eign aðila. Taldi Hæstiréttur að með framangreindum dómi hefði því verið slegið föstu að samkomulag aðila, sem í upphafi hefði verið málamyndagerningur, hefði við sambúðarslit þeirra árið 2010 orðið bindandi þrátt fyrir upphaflegan tilgang þess. Hefði með dóminum einnig verið komist að þeirri niðurstöðu að K hefði verið raunverulegur eigandi íbúðarinnar D áður en að henni hefði verið afsalað með framangreindum hætti. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar var hann staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. maí 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. maí 2015 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um opinber skipti til fjárslita milli hans og varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa verði tekin til greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hún þess að sér „verði dæmdur málskostnaður fyrir héraðsdómi“ og kærumálskostnaður. Skýra verður kröfu varnaraðila um málskostnað sér til handa í héraði á þann veg að hún krefjist þess að henni verði dæmdur hærri málskostnaðar en þar var ákveðinn. Þar sem varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti kemur þessi krafa hennar ekki til álita hér fyrir dómi. Hinn 20. september 2008 gerðu málsaðilar með sér samkomulag um fjárskipti vegna sambúðarslita. Þar var meðal annars tekið fram að í hlut varnaraðila skyldi koma fasteignin C, [...]. Eins og greinir í dómi Hæstaréttar 12. mars 2015 í máli nr. 554/2014 var þetta einbýlishús selt 26. febrúar 2010 og fékk varnaraðili upp í greiðslu fyrir það íbúð D, [...]. Hinn 10. janúar 2011 fékk A afsal fyrir síðastgreindri íbúð og var afsalið undirritað af sóknaraðila á grundvelli umboðs frá varnaraðila. A sem er systir sóknaraðila afsalaði síðan íbúðinni 27. september sama ár til B sem mun vera núverandi sambýliskona hans. Samkvæmt dómi Hæstaréttar kom engin greiðsla fyrir íbúðina, hvorki af hálfu A né B. Með dóminum var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að þær skyldu greiða varnaraðila 21.257.591 krónu í skaðabætur með nánar greindum vöxtum. Í hinum kærða úrskurði er gerð grein fyrir kröfu sóknaraðila 27. mars 2015 um opinber skipti til fjárslita milli hans og varnaraðila. Þar eru taldar upp sem „helstu eignir til skipta“ tilteknar fasteignir og bifreiðar. Allar þessar eignir hafi verið seldar eftir sambúðarslit málsaðila og aðeins standi eftir skaðabótakrafa samkvæmt áðurnefndum dómi Hæstaréttar í málinu nr. 554/2010. Í þeim dómi var því slegið föstu að fyrrgreint samkomulag aðila 20. september 2008, sem hafi í upphafi verið málamyndagerningur, hafi við sambúðarslit þeirra í september 2010 orðið bindandi þrátt fyrir upphaflegan tilgang þess. Einnig var komist að þeirri niðurstöðu í dóminum að varnaraðili hafi verið raunverulegur eigandi íbúðarinnar D áður en henni var afsalað til systur sóknaraðila fyrir atbeina hans og síðar til sambýliskonu hans. Þótt sóknaraðili hafi ekki verið aðili að þessu dómsmáli hefur dómur Hæstaréttar fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í honum greinir þar til það gagnstæða er sannað, sbr. 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þau gögn, sem stafa frá lögmanni varnaraðila frá því í september 2011 og síðar og sóknaraðili vísar til í málatilbúnaði sínum, benda ekki til annars en að varnaraðili hafi litið á umrætt samkomulag aðila um fjárskipti sín á milli sem skuldbindandi þar til því yrði breytt, annaðhvort með samningi þeirra á milli eða eftir atvikum úrlausn dómstóla. Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, M, greiði varnaraðila, K, 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Mál nr. 834/2014
Verksamningur Ógilding samnings Umboð
Ágreiningur aðila laut að ákvæðum verksamnings sem gerður var vegna vinnu við uppsteypu og byggingu þaks fjöleignahúss. Í upphafi verksamningsins var ákvæði um að verkkaupar bæru ,,sameiginlega, beina og óskipta ábyrgð gagnvart verktaka.“ Í dómi Hæstaréttar var ekki talið að G og B hefðu fært haldbær rök fyrir því að ákvæðið hefði verið svo ósanngjarnt að því yrði vikið til hliðar á grundvelli 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þá var hafnað þeirri málsástæðu B að hún væri óbundin af samningnum vegna umboðsskorts eiginmanns síns til undirritunar hans. Þá lægi skýrt fyrir samkvæmt samningnum að HJ, meðstefndi í héraði, hefði undirritað hann sem verkkaupi og hefði þar að auki komið fram fyrir hönd verkkaupa gagnvart verktaka, S ehf., sem síðar framseldi kröfuna til HS. Að mati Hæstaréttar gat skortur á þinglýstri eignarheimild HJ ekki breytt neinu um skuldbindingargildi samningsins gagnvart G og B. Í verksamningnum var einnig kveðið á um að ÍST-30:2003 væri hluti hans eftir því sem við ætti. Með hliðsjón af framburði HS fyrir héraðsdómi yrði ráðið að ekki hefði ríkt formfesta um vinnslu verksins og yrði einnig ráðið af gögnum málsins að ákvæði staðalsins hefði lítt verið lögð til grundvallar í lögskiptum aðila. Við úrlausn ágreinings aðila var því einkum horft til ákvæða verksamningsins. Talið var að G og B hefðu hvorki sýnt fram á að útreikningar HS um verðbótaþátt verksins væru efnislega rangir né í andstöðu við ákvæði samningsins. Þá lægi ekki fyrir matsgerð dómkvadds manns um magntölur og forsendur útreikninga G og B á eftirstöðvum verklauna. Hefðu G og B því ekki sýnt fram á, gegn andmælum HS, að vikið hefði verið frá ákvæðum samningsins við útreikning þeirra. Loks var talið að G, B og HJ hefðu með aðgerðarleysi sínu samþykkt nánar tilgreinda reikninga S ehf. Var G og B gert að greiða HS óskipt 5.401.015 krónur með dráttarvöxtum af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 15. janúar 2009 til greiðsludags.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar. Áfrýjendur skutu málinu upphaflega til Hæstaréttar 3. október 2014. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 19. nóvember sama ár og áfrýjuðu þau öðru sinni 17. desember sama ár. Þau krefjast aðallega sýknu af kröfu stefnda en til vara að krafa hans verði lækkuð. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 má víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Í 2. mgr. sömu lagagreinar kemur fram að við mat á því hvort samningur sé ósanngjarn skuli meðal annars líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila og atvika við samningsgerðina. Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 11/1986, sem breyttu 36. gr. laga nr. 7/1936 í núverandi horf, var meðal annars tekið fram að reglan um samningsfrelsi væri ein af grundvallarreglum íslensks réttar og ekki þýðingarminni væri reglan um að gerða samninga bæri að halda. Af þessum reglum leiddi að samningsaðili gæti almennt ekki komið sér hjá því að efna samningsskyldur sínar þó svo að þær mætti telja ósanngjarnar í hans garð, enda væri þá gengið út frá því að samningur hefði verið gerður milli jafnsettra aðila. Af framansögðu leiðir að áfrýjendur verða að færa sönnur á að fullnægt sé skilyrðum um að víkja til hliðar fyrrgreindu ákvæði eða fella það niður á grundvelli 1. mgr., sbr. 2. mgr. 36. gr. fyrrgreindra laga. Samkvæmt verksamningnum tókst Stikuvík ehf. á hendur að annast uppsteypu og byggingu þaks fjöleignahúss í Mosfellsbæ, sem samanstóð af þremur raðhúsum. Stóðu áfrýjendur ásamt Hlyni Jóhannessyni sameiginlega að byggingu fjöleignahússins og voru verkkaupar samkvæmt samningnum. Að teknu tilliti til þessa og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms hafa áfrýjendur ekki fært haldbær rök fyrir því að ákvæðið hafi verið svo ósanngjarnt að því verði vikið til hliðar á grundvelli 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936. Þá er með vísan til forsendna héraðsdóms staðfest niðurstaða hans um að hafna þeirri málsástæðu áfrýjandans Berglindar að hún sé óbundin af samningnum vegna umboðsskorts eiginmanns síns til undirritunar hans. Jafnframt liggur skýrt fyrir samkvæmt samningnum að Hlynur Jóhannsson undirritaði hann sem verkkaupi og kom þar að auki fram fyrir hönd verkkaupa gagnvart verktaka. Getur skortur á þinglýstri eignarheimild hans ekki breytt neinu um skuldbindingargildi samningsins gagnvart áfrýjendum. II Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júlí 2014. I. Mál þetta, sem dómtekið var 6. júní sl., var höfðað af Stikuvík ehf. á hendur Gunnari Má Gíslasyni, Laxatungu 56, Berglindi Ingu Árnadóttur, Laxatungu 58, og Hlyni Jóhannessyni, Kambaseli 59, öllum í Reykjavík, með stefnu birtri 30. nóvember 2012. Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmd til að greiða honum óskipt 5.863.438 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr.  laga nr. 38/2001 af  6.000.000 króna frá 15. janúar til 15. febrúar 2009,  af  9.418.478 krónum frá þeim degi til 18. júní 2009, af  7.640.958 krónum frá þeim degi til 24. júní 2009, og af 5.863.438 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara gerir stefnandi eftirfarandi kröfur: Að stefnda Gunnari Má Gíslasyni verði gert að greiða stefnanda 1.660.446 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af  2.000.000 króna frá 15. janúar 2009 til 15. febrúar 2009,  af  3.437.966 krónum frá þeim degi til 18. júní 2009, en af  1.660.446 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Að stefndu Berglindi Ingu Árnadóttir verði gert að greiða stefnanda 641.212 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr.  laga nr. 38/2001 af  2.000.000 króna frá 15. janúar  til 15. febrúar 2009, af  2.418.732 krónum frá þeim degi til 24. júní 2009, en af  641.212 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Að stefnda Hlyni Jóhannessyni verði gert að greiða stefnanda 3.561.780 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 2.000.000 króna frá 15. janúar til 15. febrúar 2009, en af 3.561.780 krónum til greiðsludags. Í báðum tilvikum er þess krafist að stefndu greiði málskostnað óskipt samkvæmt mati dómsins verði fallist á aðalkröfu stefnanda en hvert hinna stefndu ef fallist verður á varakröfu.  Endanlegar dómkröfur stefnda Gunnars Más er þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara krefst hann þess að stefnukröfur verði lækkaðar verulega. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda. Stefnda, Berglind Inga, krefst þess aðallega að hún verði sýknuð af öllum dómkröfum stefnanda, en til vara að dómkröfur á hendur henni verði lækkaðar verulega. Stefndi Hlynur tekur ekki til varna í málinu. Bú upphaflegs stefnanda málsins, Stikuvíkur ehf., var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði uppkveðnum 8. ágúst 2013. Með samkomulagi milli skiptastjóra þrotabús Stikuvíkur ehf. og Halldórs Svanssonar, Jöklalind 8, Kópavogi, fyrrverandi framkvæmdastjóra þess félags, framseldi þrotabúið honum þær kröfur sem um er deilt í máli þessu. Jafnframt lýsti Halldór því yfir að hann ábyrgðist persónulega allan kostnað af rekstri dómsmálsins, þar með talið greiðslu málskostnaðar til stefndu ef málið tapaðist. Með framlagningu samkomulags þessa í þinghaldi hinn 4. september 2013 tók nefndur Halldór því við rekstri málsins sem stefnandi þess. II. Málsatvik Upphaflegur stefnandi málsins, Stikuvík ehf., og stefndu gerðu með sér verksamning í apríl 2008 um byggingu raðhúsanna að Laxatungu 56-60 í Mosfellsbæ. Samningurinn byggðist að stórum hluta á tilboði Stikuvíkur ehf. frá því í janúar sama ár. Í upphafi samningsins kemur fram að aðilar sem myndi verkkaupa beri sameiginlega, beina og óskipta ábyrgð gagnvart verktaka og að stefndi Hlynur verði tengiliður verkkaupa við verktaka. Í 1. gr. samningsins, sem ber yfirskriftina verksvið, kemur fram að verkkaupi fyrirhugi að byggja þrjú raðhús að Laxatungu 56-60 í samræmi við teikningar frá HSÁ Teiknistofu. Taki verktaki að sér uppsteypu og byggingu þaks. Einnig kemur þar m.a. fram að ÍST 30 sé hluti samningsins, eftir því sem við geti átt. Um greiðslur fyrir verkið segir svo m.a. í a-lið 4. gr. samningsins að verktaki fái greiddar 22.143.149 krónur, án virðisaukaskatts, samkvæmt tilboði sínu, dags. 22. janúar 2008. Þar sem það eigi við hafi verktaki sjálfur magntekið verkið út frá fyrirliggjandi teikningum og gefið einingaverð. Sé ekki um endanlega upphæð að ræða heldur taki hún breytingum eftir því sem raunverulegt magn á einstökum liðum verði hvort sem er til hækkunar eða lækkunar. Undantekning á þessu sé þó flatarmál sökkla sem verði reiknað miðað við 1,0 m að lágmarki. Við undirritun samnings liggi fyrir að sökklar og einangrun undir botnplötu séu hönnuð öðruvísi en gert hafi verið ráð fyrir í tilboði verktaka og að vegna þessa séu aðilar sammála um að verkkaupar greiði til viðbótar 144.578 krónur, án virðisaukaskatts, fyrir uppslátt sökkla og einangrun. Steypa verði síðan gerð upp samkvæmt magni, eins og gert hafi verið ráð fyrir í tilboði verktaka. Þá segir í 5. gr. að verkið verði verðbætt samkvæmt byggingarvísitölu í mars 2008, sem sé 386 stig. Loks er hér að geta að í 6. gr. kemur fram að gert sé ráð fyrir að verktaki geti hafið vinnu á verkstað 8. apríl 2008 og að hann ljúki sökkulveggjum 19. maí sama ár, en þá verði verkkaupi búinn að láta fylla í sökkla og jafna undir einangrun. Skuli verktaki síðan ljúka verki sínu eigi síðar en 15. ágúst sama ár. Í stefnu kemur fram að samkvæmt verksamningnum hafi stefnandi átt að fá greiddar til viðbótar 144.578 krónur, auk virðisaukaskatts, vegna breytinga á verkinu, eða 180.000 krónur, með virðisaukaskatti. Samtals hafi stefnandi átt að fá greiddar 27.748.220 krónur, auk verðbóta, miðað við áætlaðar magntölur. Miðað við endanlegar magntölur vegna verksins eigi stefnandi hins vegar að fá greiddar 29.697.606 krónur fyrir verkið, að viðbættum verðbótum skv. 5. tl. verksamnings að fjárhæð 4.731.323 krónur og greiðslu fyrir aukaverk að fjárhæð 2.460.651 króna. Samtals hafi hann því átt að fá greitt fyrir verkið 36.889.580 krónur. Stefndu hafi greitt inn á verkið alls 31.268.007 krónur og hafi því verið ógreiddar 5.621.573 krónur. Hafi þá verið tekið tillit til óútgefins kreditreiknings að fjárhæð 462.423 krónur.  Fram kemur í greinargerðum stefndu, Gunnar Más og Berglindar Ingu, að verktakinn hafi fljótlega eftir undirritun samningsins hafist handa við framkvæmdir en í júní eða júlí 2008 hafi hann horfið frá verkinu og ekki komið aftur að því fyrr en í lok ágúst eða byrjun september það ár. Hafi þá verið komið töluvert fram yfir umsamin verklok, sem hafi átt að vera 15. ágúst 2008. Hafi verktakinn talið sig hafa lokið verkinu um áramótin 2008-2009, þótt ýmsir ágallar hafi síðar komið fram sem ekki hafi verið bætt úr. Stefndu hafi mótmælt reikningum upphaflegs stefnanda þegar eftir útgáfu þeirra, í byrjun janúar 2009. Hafi þeir talið þar ýmislegt ofreiknað, bæði að magni sem og verðbætur á eintaka verkliði, og hafi þeir því fengið Þorvald Guðjónsson verkfræðing til að fara yfir magn- og vísitöluútreikninga. Þorvaldur hafi skilað útreikningum sínum í mars 2009 til Dagbjarts Guðmundssonar verkfræðings og hafi hann síðan útskýrt þær nánar á fundi síðar í mánuðinum. Í kjölfarið hafi stefndu, Gunnar Már og Berglind Inga, greitt hvort fyrir sig lokagreiðslu til upphaflegs stefnanda að fjárhæð 1.777.520 krónur 18. og 24. júní 2009. Stefndi Hlynur hafi hins vegar ekki greitt sinn hluta uppgjörsins. Hinn 11. september 2009 sendi lögmaður stefnanda stefndu innheimtubréf þar sem skorað var á þau að greiða eftirstöðvar skuldar sinnar. Með bréfi, dags. 24. september 2009, svaraði þáverandi lögmaður stefndu framangreindum bréfum og kemur þar fram að stefndu hafi látið fara yfir kostnað vegna hússins, sbr. meðfylgjandi yfirlit, og að þau telji að heildargreiðsla samkvæmt samningnum eigi að nema samtals 33.266.085 krónum. Þar af séu ógreiddar 1.777.520 krónur, en einn stefndu myndi inna þá greiðslu fljótlega af hendi. Í kjölfarið ritaði lögmaður stefnanda bréf til stefndu, dags. 23. október 2009, þar sem framangreindum athugasemdum var andmælt. Var og krafist skýringa á andmælum stefndu og krafa um greiðslu áréttuð. Engin svör bárust og var bréfið ítrekað hinn 11. nóvember 2010. Við aðalmeðferð málsins voru teknar skýrslur af stefnanda, stefndu Gunnari Má og Berglindi Ingu, og vitnunum Elíasi Þórhallssyni, eiginmanni stefndu Berglindar Ingu, og verkfræðingunum Dagbjarti H. Guðmundssyni og Þorvaldi Guðjónssyni. III. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi byggir kröfu sína á umræddum samningi upphaflegs stefnanda við stefndu frá því í apríl 2008, og tilboði í framkvæmdina frá 28. janúar 2008, sem sé hluti samningsins. Samkvæmt 4. gr. samningsins hafi stefndu borið að greiða reikninga vegna verksins innan 14 daga frá móttöku þeirra. Samkvæmt lið 31.3 í ÍST 30, sem sé hluti verksamningsins, sbr. 1. gr. hans, skuli greiðslu lokið innan þriggja vikna frá því að hennar hafi verið krafist nema verkkaupi hafi borið skriflega fram rökstudd andmæli gegn reikningi. Þá komi fram í lið 31.13.1 að hafi verktaki ekki fengið í hendur skrifleg mótmæli við framlögðum upplýsingum innan hálfs mánaðar frá þeim degi er verkkaupi tók við þeim sé litið svo á að þær séu samþykktar. Stefndu hafi ekki mótmælt reikningunum innan þess tíma og því hafi réttur þeirra til að gera athugasemdir fallið niður. Stefndu hafi ekki sýnt fram á að reikningarnir séu í ósamræmi við umræddan verksamning eða það verk sem unnið hafi verið. Yfirlit yfir reikninga vegna verksins og innborganir: Nr.          Útgáfudagur        Gjalddagi              fjárhæð                 stefndi, 101         01.12.2008           15.12.2008           2.000.000             Gunnar Már 111         31.12.2008           14.01.2009           1.437.966             Gunnar Már Innb.      18.06.2009                                          1.777.520 Mism.                                                                   1.660.446 Nr.          Útgáfudagur        Gjalddagi              fjárhæð                 stefnda, 99           01.12.2008           15.12.2008           2.000.000             Berglind Inga 109         31.12.2008           14.01.2009              418.732             Berglind Inga Innb.      24.06.2009                                          1.777.520 Mism.                                                                      641.212 Nr.          Útgáfudagur        Gjalddagi              fjárhæð                 stefndi, 100         01.12.2008           15.12.2008           2.000.000             Hlynur Jóhannesson 110         31.12.2008           14.01.2009           1.561.780             Hlynur Jóhannesson Innb.                                                                                   0 Mism.                                                                   3.561.780 Mismunur samtals             5.863.438 Krafa á hvern stefnda fyrir sig, verði ekki fallist á óskipta ábyrgð þeirra, byggist á mismuninum hér að framan. Krafist sé dráttarvaxta 14 dögum frá útgáfu reiknings, þ.e. frá eindaga, en greiða skyldi reikninga ekki seinna en 14 dögum eftir móttöku þeirra. IV. Helstu málsástæður og lagarök stefndu Gunnars Más Gíslasonar og Berglindar Ingu Árnadóttur Stefndu byggja sýknukröfu sína á því að með greiðslum sínum, annars vegar hinn 18. júní 2009 í tilviki stefnda Gunnars Más en hins vegar 24. sama mánaðar í tilviki stefndu Berglindar Ingu, hafi þau að fullu gert upp við upphaflegan stefnanda samkvæmt verksamningi þeirra. Stefnandi eigi því ekki frekari kröfur á hendur þeim. Því sé hafnað að stefndu hafi sýnt af sér tómlæti vegna reikningsgerðar upphaflegs stefnanda. Þvert á móti hafi þau þegar í stað mótmælt lokareikningum hans og síðan leitað til Þorvaldar Guðjónssonar verkfræðings til þess að sannreyna magntölur og verðbætur í útreikningum hans, eða öllu heldur að sýna fram á ranga útreikninga hans. Þeir útreikningar hafi legið fyrir þegar í mars 2009 og hafi þá verið kynntir upphaflegum stefnanda og verkfræðingi hans. Stefndu telji útreikninga Þorvaldar vera rétta og að leggja eigi þá til grundvallar uppgjöri sínu við stefnanda. Meðal annars beiti Þorvaldur þeirri aðferð að draga frá gluggaop í húsinu, enda sé ljóst að þar fari hvorki steypa né steypustyrktarjárn. Þá beri að leggja til grundvallar þá nálgun hans í verðbótaútreikningi að reikna verðbætur ekki lengur en til september 2008, en samkvæmt verksamningnum skyldu verklok vera eigi síðar en 15. ágúst það ár. Af ástæðum sem eingöngu séu á ábyrgð og áhættu stefnanda hafi verklok dregist verulega fram yfir umsaminn skiladag, til verulegs óhagræðis fyrir stefndu. Upphaflegur stefnandi hafi því ekki átt samningsbundinn rétt til að verðbæta einstaka verkliði lengur en til umsaminna verkloka. Útreikningar Þorvaldar miði reyndar við byggingarvísitöluna í september 2008, sem sé stefnanda til hagsbóta án þess þó að hann eigi lögvarinn rétt til þess. Bent sé á að upphaflegur stefnandi hafi tekið við lokagreiðslu sinni 18. júní 2009, án nokkurra athugasemda. Hann hafi þannig fallist á réttmæti þessa lokauppgjörs. Hann geti ekki síðar haft uppi frekari kröfur gagnvart stefndu og hvað sem öðru líði hafi hann misst allan rétt til frekari greiðslna vegna tómlætis. Stefndu hafni því að bera sjálfsskuldarábyrgð á hugsanlegum fjárskuldbindingum meðstefndu gagnvart stefnanda, svo sem haldið sé fram af stefnanda í aðalkröfu hans. Sé á það bent að það ákvæði verksamningsins sem stefnandi styðji kröfu sína við að þessu leyti, sé afar óvenjulegt, jafnvel einstakt, í byggingarframkvæmdum. Verksamningurinn sé saminn af verkfræðilegum ráðgjafa upphaflegs stefnanda, og með vísun til viðurkenndra túlkunarreglna í samningarétti beri að skýra allan vafa um gildi ákvæðisins stefndu í hag. Þá sé ljóst að upphaflegur stefnandi hafi haft yfirburðastöðu í samningsgerðinni, með alla sína reynslu og þekkingu, auk þess að hafa notið ráðgjafar sérfræðings í samningsgerðinni. Stefndu hafi að þessu leyti staðið verulega höllum fæti gagnvart honum. Á því sé byggt að framangreint ákvæði um sjálfskuldarábyrgð feli engan veginn í sér skilgreiningu á því hvort og þá hvað stefndu eigi að ábyrgjast. Ekkert verði því lesið út úr verksamningnum um það að þau ábyrgist þannig greiðslu verklauna til upphaflegs stefnanda. Ekkert hafi verið fjallað um og farið yfir þetta ákvæði þegar gengið hafi verið frá verksamningnum. Hafi þó verið full ástæða til þess í ljósi allra atvika málsins. Þá sé hvergi nærri ljóst að um sjálfskuldarábyrgð sé að ræða, enda sé almennt viðurkennt að við slíkar aðstæður beri að líta á ábyrgð sem einfalda ábyrgð. Þegar ábyrgð sé einföld verði ekki gengið að ábyrgðarmanni um greiðslu skuldar nema kröfuhafa hafi reynst ómögulegt að fá skuldina greidda úr hendi aðalskuldara. Fyrir liggi að Elías Þórhallsson, eiginmaður stefndu, Berglindar Ingu, hafi ritað undir verksamninginn fyrir hennar hönd, og þar með sjálfskuldarábyrgð á skuldbindingum annarra eigenda í raðhúsalengjunni, án þess að framvísa þá umboði frá henni þar um. Haldi stefnda Berglind Inga því fram að hann hafi enga heimild haft til að skuldbinda  hana með þeim hætti sem málatilbúnaður í stefnu byggi á, að hún beri beina og óskipta ábyrgð með meðstefndu gagnvart stefnanda. Ákvæði verksamningsins um slíka ábyrgð geti því ekki haft neitt gildi gagnvart henni. Hið sama verði sagt um þátt meðstefnda Hlyns í samningsgerðinni. Bendi stefndu á að ekkert liggi fyrir um heimild hans til að skuldbinda Daða Pálsson, eiganda Laxatungu 60, með sjálfskuldarábyrgð á skuldbindingum annarra eigenda í raðhúsalengjunni. Raunar liggi ekkert fyrir um það hvort og þá í hversu ríkum mæli meðstefndi Hlynur hafi getað verið aðili að verksamningnum, en ekki verði séð að Hlynur hafi haft nokkurn rétt til þess að standa að verkframkvæmdum að Laxatungu 60. Hljóti það að vera á ábyrgð og áhættu stefnanda að samningsaðild í verksamningnum sé hafin yfir allan vafa og að þeir er undirrituðu samninginn hafi haft fulla og óskoraða heimild til þess að takast á hendur skuldbindingar samkvæmt honum eða að binda umbjóðanda sinn með undirritun sinni. Í ljósi þess hvernig staðið hafi verið að samningsgerðinni, og þar sem í ljós hafi komið að undirskriftir umboðsmanna tveggja af þremur verkkaupum hafi ekki haft það skuldbindingargildi fyrir eigendur lóðanna númer 58 og 60 sem nauðsynlegt hafi verið, séu með öllu brostnar forsendur fyrir meintri ábyrgð stefndu á skuldbindingum þessara tveggja lóðareigenda. Stefndu telji einnig að með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 beri að ógilda eða víkja til hliðar og/eða fella niður samningsákvæðið um gagnkvæma ábyrgð verkkaupa. Í ljósi þess umboðsleysis sem lýst hafi verið, og vegna þess hversu afar óvenjulegt, óskýrt og óljóst þetta samningsákvæði sé, sé það bæði verulega ósanngjarnt og einnig andstætt góðri viðskiptavenju að bera slíkt ákvæði fyrir sig. Verði ekki fallist á sýknukröfu stefndu samkvæmt framangreindu styðji þau lækkunarkröfu sína, eftir atvikum, við sömu málsástæður og til stuðnings aðalkröfu. Hafna beri og víkja til hliðar útreikningum sem stefnandi byggi á, enda séu þeir rangir og ósanngjarnir og ekki í samræmi við samning aðila. Stefndi Gunnar Már bendi á að samkvæmt greinum 16.6 og 16.7 í ÍST 30 megi engin aukaverk vinna nema samkvæmt staðfestum fyrirmælum verkkaupa og að allar yfirlýsingar um breytingar skuli vera skriflegar, svo og kröfugerð og samningar. Engin slík gögn liggi fyrir er styðji kröfur stefnanda um greiðslur fyrir aukaverk og eigi hann því ekki neinn rétt á að fá viðurkenndar kröfur sínar um greiðslur fyrir slík verk. Stefndu vísa til þess að Halldór Svansson, forsvarsmaður verktaka og nú stefnandi málsins, hafi hinn 7. júlí 2009 sagt sig frá því að vera byggingarstjóri á húsbyggingu stefnda. Lokaúttekt hafi ekki farið fram á verkinu og geti ekki farið fram fyrr en skráðir verði á verkið iðnmeistarar og byggingarstjóri með gilda ábyrgðartryggingu. Hinn 22. október 2008 hafi byggingafulltrúi Mosfellsbæjar gert athugasemdir við þak hússins og stigahönnun og útfærslur á stiga, sem ekki samrýmdust ákvæðum byggingareglugerðar. Úr þessu hafi stefnandi ekki bætt. Þá hafi komið fram verulegir gallar á gluggum og gluggaísetningu, sem telja verði galla á verki upphaflegs stefnanda. Dráttarvaxtakröfum í stefnu sé mótmælt. Upphaflegur stefnandi hafi engan reka gert að því að innheimta kröfu sína frá 11. september 2009 fyrr en með stefnu í máli þessu, sem birt hafi verið stefndu 30. nóvember 2012. Tómlæti við innheimtu kröfunnar hljóti að hafa þá þýðingu að dráttarvextir reiknist ekki fyrr en frá dómsuppsögu. V. Niðurstaða Eins og að framan er rakið gerðu stefndu í sameiningu sem verkkaupar skriflegan verksamning við upphaflegan stefnanda málsins, Stikuvík ehf., sem verktaka um uppsteypu og byggingu þaks á þremur raðhúsum að Laxatungu 56-60 í Mosfellsbæ. Kemur fram í upphafi samningsins að „aðilar sem mynda verkkaupa bera sameiginlega, beina og óskipta ábyrgð gagnvart verktaka“. Hafa stefndu, Gunnar Már og Berglind Inga, mótmælt því að með þessu hafi þau og stefndi Hlynur hvert fyrir sig tekið á sig óskipta ábyrgð á greiðslum samkvæmt samningnum, eins og aðalkrafa stefnanda miðar við. Við túlkun á umræddu ákvæði samningsins verður til þess að líta að ákvæðið kemur fremst í samningnum, á undan tölusettum liðum þar sem kveðið er á um einstakar skyldur aðila samkvæmt samningnum, þar á meðal þá aðalskyldu verkkaupa að inna af hendi verkkaupið fyrir hið umsamda verk verktakans. Verður því að telja að ákvæði þetta um sameiginlega, óskipta og beina ábyrgð eigi við um greiðsluskyldu stefndu vegna verksins gagnvart verktaka. Stefndu, Gunnar Már og Berglind Inga, benda einnig á að ekkert liggi fyrir um að sú síðarnefnda hafi veitt eiginmanni sínum, sem ritaði undir samninginn fyrir hennar hönd, sérstakt umboð til þess að samningurinn yrði undirritaður með sjálfskuldarábyrgð hennar á skuldbindingum annarra eigenda í raðhúsalengjunni. Enda þótt ekkert liggi fyrir um að sérstakt umboð til eiginmannsins hafi legið frammi við undirritun samningsins hefur stefnda Berglind Inga ekki haldið því fram að samningurinn sem slíkur væri óskuldbindandi fyrir hana, og hún væri því ekki með réttu aðili máls þess, heldur einungis þetta eina ákvæði hans. Þar sem ekkert er fram komið um að upphaflegum stefnanda hafi mátt vera kunnugt um slíka takmörkun á umboði eiginmanns stefndu getur það ekki leitt til niðurfellingar þessa ákvæðis samningsins vegna brostinna forsendna, eins og stefndu virðast byggja á. Ekki verður heldur talið að sú niðurstaða verði leidd af því að einhver vafi leiki á því að stefndi Hlynur teljist réttur aðili umrædds verksamnings eða hvort hann hafi ritað undir samninginn fyrir hönd Daða Pálssonar, eiganda Laxatungu 60. Stefndi Hlynur hefur ekki haldið uppi slíkum eða öðrum vörnum í málinu og verður ekki af umræddum verksamningi ráðið eða öðrum gögnum málsins, annað en að hann hafi ritað undir samninginn í eigin nafni. Var þannig í samningnum kveðið á um að hann skyldi verða tengiliður stefndu sem verkkaupa við verktakann. Stefndu, Gunnar Már og Berglind Inga, vísa einnig til þess að ógilda beri eða víkja til hliðar og/eða fella niður samningsákvæðið um gagnkvæma ábyrgð verkkaupa á þeim forsendum að það sé bæði ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera það fyrir sig, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, með tilliti til framangreindra atriða um meint umboðsleysi og hversu óvenjulegt og óljóst þetta samningsákvæði sé. Ekki liggur annað fyrir um aðdraganda þess að aðilar gerðu með sér umræddan verksamning en, eins og fram kemur í samningnum, að verkkaupinn fyrirhugi að byggja þrjú raðhús að Laxatungu 56-60 og að verktakinn, Stikuvík ehf., hafi gert tilboð í uppsteypu þeirra og byggingu þaks í tengslum við þá framkvæmd. Enda þótt ætla megi að nokkur munur hafi verið á aðstöðu þessara aðila samningsins þykir ekki í ljós leitt að viðhlítandi ástæður séu fyrir því að umdeilt ákvæði verksamnings aðila um óskipta ábyrgð þeirra verði talið ósann­gjarnt eða andstætt góðum viðskiptavenjum. Af því leiðir að ekki eru skilyrði til að þessu ákvæði samningsins verði vikið til hliðar skv. 36. gr. laga nr.7/1936. Stefndu, Gunnar Már og Berglind Inga, byggja sýknukröfu sína og á því að þau hafi greitt fyrir verkið að fullu þegar hvort þeirra fyrir sig greiddi 1.777.520 krónur til upphaflegs stefnanda hinn 18. og 24. júní 2009. Stefnandi telur hins vegar að eftir þær greiðslur hafi ógreiddur höfuðstóll numið 1.660.446 krónum vegna þeirra reikninga sem stefndi Gunnar Már hafi verið krafinn um, 641.212 krónum vegna þeirra reikninga sem stefnda Berglind Inga hafi verið krafin um og 3.561.780 krónum vegna reikninga sem stefndi Hlynur hafi verið krafinn um. Vísar stefnandi til ákvæðis gr. 31.13.1 í IST 30 um að hafi verktaki ekki fengið í hendur skrifleg mótmæli við framlögðum upplýsingum innan hálfs mánaðar frá þeim degi er verkkaupi tók við þeim skuli litið svo á að þær séu samþykktar. Ekki sýnist um það ágreiningur að ÍST 30 teljist hluti af samningi aðila, sbr. 1. gr. umrædds verksamnings um að IST 30 sé hluti samningsins eftir því sem við geti átt, enda vísa stefndu, Gunnar Már og Berglind Inga, til staðalsins í sínum greinargerðum. Í gr. 31.3 í skilmálunum, sem stefnandi vísar og til, kemur fram að greiðslu skuli lokið innan þriggja vikna frá því að hennar var krafist nema verkkaupi hafi borið skriflega fram rökstudd andmæli gegn reikningi. Þá segir í fyrrgreindri gr. 31.13.1 að hafi verktaki ekki fengið í hendur skrifleg mótmæli við fram lögðum upplýsingum innan hálfs mánaðar frá þeim degi er verkkaupinn tók við þeim sé litið svo á að þær séu sannar. Þeir tveir reikningar sem upphaflegur stefnandi gaf út á hendur hverjum hinna stefndu, og dómkröfur stefnanda byggja á, voru gefnir út annars vegar 1. desember 2008 og hins vegar 31. sama mánaðar. Halda fyrrgreind stefndu því fram að þau hafi mótmælt umræddum reikningum þegar eftir útgáfu þeirra, í byrjun janúar 2009, og kom fram í framburði vitnisins Elíasar Þórhallssonar, eiginmanns stefndu Berglindar Ingu, að hann hefði gert það símleiðis. Er fram komið að stefndu leituðu til Þorvaldar Guðjónssonar verkfræðings í því skyni að yfirfara forsendur útgefinna reikninga stefnanda og að hann hafi verið í sambandi við Dagbjart H. Guðmundsson verkfræðing, aðstoðarmann upphaflegs stefnanda, vegna ýmissa atriða í því sambandi. Var framburður Dagbjarts fyrir dómi á þá leið að þeir hefðu verið í sambandi í apríl 2009 vegna athugasemda stefndu og að hann hefði þá fengið í hendur útreikninga Þorvaldar sem lágu þeim til grundvallar. Liggur fyrir í málinu tölvupóstur frá Þorvaldi til Dagbjarts 27. þess mánaðar, ásamt tillögu hans að uppgjöri milli aðila, sem Dagbjartur staðfestir að hann hafi fengið. Að öðru leyti liggur ekkert fyrir um það í gögnum málsins að skriflegar athugasemdir stefndu hafi komið fram fyrr en síðan með bréfi lögmanns þeirra, dags. 24. september 2009. Með hliðsjón af framangreindu verður því hér við það að miða að stefndu hafi vegna þessa aðgerðarleysis síns talist samþykkja umrædda reikninga, sbr. tilvitnaða gr. 31.13.1, og að þau séu því við þá afstöðu bundin. Verður hins vegar hvorki talið að umræddur verksamningur né reglur kröfuréttar standi til þess að stefnandi teljist vegna tómlætis hafa samþykkt innborganir stefndu Gunnars Más og Berglindar Ingu hinn 18. og 24. júní 2009 sem lokagreiðslu, sbr. tilgreiningu þeirra á fyrirliggjandi greiðsluseðlum, en fyrir liggur greiðsluáskorun frá lögmanni upphaflegs stefnanda til stefndu, dags. 11. september 2009. Með hliðsjón af því sem að framan hefur verið rakið er niðurstaða dómsins sú að stefndu beri að greiða stefnanda óskipt stefnukröfur máls þessa ásamt dráttarvöxtum, eins og nánar kemur fram í dómsorði. Stefndu greiði stefnanda óskipt 600.000 krónur í málskostnað. Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Dómsorð: Stefndu, Gunnar Már Gíslason, Berglind Inga Árnadóttir og Hlynur Jóhannesson, greiði stefnanda, Halldóri Svanssyni, óskipt 5.863.438 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr.  laga nr. 38/2001 af  6.000.000 króna frá 15. janúar til 15. febrúar 2009, af 9.418.478 krónum frá þeim degi til 18. júní 2009, af 7.640.958 krónum frá þeim degi til 24. júní 2009 og af 5.863.438 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Stefndu greiði stefnanda óskipt 600.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 822/2014
Námssamningur Stjórnsýsla Andmælaréttur Miskabætur Aðfinnslur
Á, sem I ohf. hafði vísað úr starfsþjálfun til flugumferðarstjóra, höfðaði mál á hendur I ohf. til heimtu skaðabóta vegna tjóns af völdum brottrekstursins og miskabóta vegna þess hvernig staðið hefði verið að honum. Talið var að ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 giltu um töku ákvarðana I ohf. um rétt eða skyldu manna innan hlutaðeigandi verksviðs. Þá var talið að Á hefði ekki staðist þær prófkröfur sem gerðar voru til árangurs í verklegum æfingum á námstímanum samkvæmt þeirri þjálfunaráætlun sem um nám hans gilti og að það úrræði að vísa Á úr námi af þeirri ástæðu hefði átt sér stoð í lögum. Í ljósi þeirra skilmála er giltu um námið og ástæðna sem lágu til grundvallar námslokum Á voru ekki talin skilyrði til að dæma honum bætur fyrir fjártjón. Á hinn bóginn var lagt til grundvallar að vegna þess hvernig staðið hefði verið að brottvísun Á úr náminu hefði hann orðið fyrir miska sem veitti honum rétt til bóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og voru þær ákveðnar 600.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. desember 2014 og krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 6.010.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. desember 2009 til 9. febrúar 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. október 2014. Mál þetta sem dómtekið var 24. september 2014, var höfðað 10. desember 2013, af hálfu Árna Svavars Arnarsonar, Sóleyjarima 23 í Reykjavík á hendur Isavia ohf., Reykjavíkurflugvelli í Reykjavík, til greiðslu skaðabóta og til viðurkenningar á skaðabótaábyrgð. Stefnandi krefst þess að stefndi greiði stefnanda 6.010.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 11. desember 2009 til 9. febrúar 2014, en frá þeim degi með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, til greiðsludags. Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaábyrgð stefnda á tjóni stefnanda vegna tekjumissis stefnanda út starfsævina, sem leiðir af ákvörðun stefnda um að vísa stefnanda frá starfsþjálfun til flugumferðarstjóra, dags. 11. desember 2009. Þá krefst stefnandi þess að stefndi greiði honum málskostnað að mati dómsins. Stefndi krefst þess að kröfu stefnanda um viðurkenningu á skaðabótaábyrgð stefnda á tjóni stefnanda vegna tekjumissis hans út starfsævina verði vísað frá dómi, en stefndi að öðrum kosti sýknaður af þeirri kröfu. Stefndi krefst sýknu af öðrum kröfum stefnanda. Þá gerir stefndi þá kröfu að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu að mati dómsins. Málflutningur um allar framangreindar dómkröfur fór fram við aðalmeðferð málsins, sbr. 2. ml. 2. mgr. 100. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna Samkvæmt því sem fram kemur í lýsingu málavaxta í stefnu og greinargerð, öðrum gögnum málsins og því sem fram er komið fyrir dóminum eru atvik máls þau að stefnandi hóf starfsnám hjá stefnda 30. mars 2009 (þá Flugstoðir ohf.). Stefndi er eini aðilinn hérlendis sem hefur starfsleyfi frá Samgöngustofu til að bjóða upp á þjálfun fyrir flugumferðarstjóra. Stefnandi hafði lokið bóklegu námi í flugumferðarstjórn í Flugskóla Íslands 20. febrúar sama ár og var samþykktur af forvera stefnda til þjálfunarinnar ásamt sex öðrum umsækjendum. Í auglýsingu um námskeiðið kom fram að ekki væru greidd laun á námstímanum og að engin trygging væri fyrir starfi hjá Flugstoðum ohf. að loknu námi. Við upphaf starfsnámsins var haldin formleg kynning fyrir nemana. Þá var meðal annars farið yfir námsferlið og hvernig það skiptist í áfanga, kynnt að viðtöl yrðu eftir hvern áfanga og kynnt hverjir myndu kenna á námskeiðinu. Farið var yfir þjálfunaráætlun, sem Flugmálastjórn, nú Samgöngustofa, samþykkir fyrir hvern hluta starfsnámsins. Þar er fyrirkomulagi námsins ítarlega lýst, meðal annars um það hvaða lágmarkskröfur eru gerðar og hvernig árangur er metinn. Í þjálfunaráætlun fyrir NW- hluta námsins kemur meðal annars fram að vísa megi nema frá námi sé það samhljóða álit kennara þjálfunardeildar og ef við á, þjálfara hans í verklegu námi, að neminn sé óhæfur. Markmið námsins sé að ljúka þjálfunarferli svo nemi hafi sjálfsöryggi til að ljúka lokaprófi og hafi auk þess sjálfstraust til að vinna einn með réttindi og sé áhersla lögð á vönduð vinnubrögð og að taka á ósiðum sem nemi gæti hafa vanið sig á. Starfsnámið skiptist í þrjá meginþætti eftir flugstjórnarsvæðum, OCN (Oceanic Control), NW (norður-vestur) og loks SE (suður-austur) og er kennt í þessari röð sem mun vera í samræmi við erfiðleikastig. Stefnandi stóðst bókleg próf í OCN-hluta námsins, sem hann tók 8. maí 2009. Í verklegri þjálfun frá 11.-26. maí átti stefnandi í töluverðum erfiðleikum með æfingar og náði aðeins 10 af 16 æfingum, eða um 68,75%, en krafa er gerð um 80% árangur í verklegum æfingum að meðaltali samkvæmt þjálfunaráætlun. Á tímabilinu átti umsjónarkennari við hann tvö viðtöl um þær athugasemdir sem kennarar í hermi höfðu skráð hjá sér um styrkleika hans og veikleika. Ákveðið var að stefnandi tæki verklegt próf sem hann stóðst 26. maí s.á. og fékk hann þá OCN-áritun í nemaskírteini sitt. Stefnandi hóf réttindanám í NW-deild flugstjórnarmiðstöðvarinnar þann 27. maí 2009, en sá hluti námsins skiptist í þrjá áfanga. Eftir starfsþjálfun á vöktum frá 27. maí til 23. ágúst 2009 tóku við verklegar æfingar í hermi frá 24. ágúst til 4. september 2009. Eftir fyrstu fjórar æfingarnar í hermi héldu kennarar fund vegna stefnanda þar sem hann kom ekki vel út úr æfingunum. Á þessum fundi kom fram að kennararnir töldu rétt að gefa stefnanda tækifæri til að bæta sig, og var hann settur í meiri kennslu, auk þess sem hann fékk meiri stuðning og meira utanumhald en aðrir nemar þurftu og fengu. Stefnandi var með öðrum orðum settur í svokallaða „gjörgæslu“. Var þetta gert með það að leiðarljósi að styðja hann við að ná betri tökum á náminu. Var stefnanda hjálpað í gegnum æfingarnar og kennt hvernig ætti að leysa úr æfingunum þegar hann væri ekki viss. Þann 26. ágúst 2009 var tekið viðtal við stefnanda þar sem farið var yfir styrkleika hans og veikleika og fór annað slíkt viðtal fram 2. september s.á. Í viðtölum var reynt að efla sjálfstraust stefnanda með hvatningu og því áhersla lögð á jákvæða þætti, þó að þeir neikvæðu kæmu einnig til umræðu. Í lok fyrsta áfanga fór stefnandi í próf og stóðst það. Stefnandi hóf annan áfanga með starfsþjálfun á vöktum, frá 5. september 2009 til 15. nóvember s.á. Í byrjun október fékk hann nýjan starfsþjálfara. Áfram bar á skorti á sjálfstrausti hjá stefnanda, hann leitaði mikið eftir samþykki og var hvattur til að bæta sjálfstraust, vinnuhraða og skipulag. Var stefnanda gerð grein fyrir því í áfangaviðtali að breyting yrði að verða á getu hans til að framhaldið gæti gengið vel. Að starfsþjálfun lokinni tóku við verklegar æfingar í hermi, en stefnandi skilaði ekki tilætluðum árangri í þeim. Í viðtali við stefnanda 18. nóvember 2009, var honum gerð grein fyrir alvöru málsins. Stefnandi náði 10 af 14 æfingum í öðrum áfanga og var því með um 71% árangur. Hann stóðst lokapróf í áfanganum 27. nóvember 2009. Stefnandi hóf nám í þriðja áfanga NW-námsins í lok nóvember 2009. Fljótlega kom í ljós að námið gekk ekki betur en í fyrsta og öðrum áfanga. Stefnandi gerði enn alvarlegar villur, sem nemandi á því stigi námsins ætti ekki að gera. Starfsþjálfari stefnanda lýsti áhyggjum sínum af stöðu náms hans í bréfi til umsjónarkennara NW-námsins þann 10. desember 2009. Vegna þess sem þar kom fram var haldinn fundur í þjálfunardeild föstudaginn 11. desember s.á., þar sem farið var yfir feril og stöðu stefnanda í náminu. Fundinn sátu deildarstjóri þjálfunardeildar, þjálfunarstjóri, umsjónarkennari NW-námsins og deildarstjóri flugstjórnardeildar en starfsþjálfari stefnanda var einnig kallaður inn á fundinn til viðtals. Eftir ítarlega yfirferð yfir námsferil stefnanda var það einróma niðurstaða þjálfunardeildar að frekari þjálfun myndi ekki skila tilætluðum árangri og ekki væri forsvaranlegt að hann héldi áfram námi. Var því tekin sú ákvörðun að vísa stefnanda úr námi. Stefnandi var kallaður á fund sama dag þar sem honum var tilkynnt um þessa ákvörðun þjálfunardeildar. Var stefnanda boðið að fara heim og jafna sig, og koma svo aftur í viðtal þar sem farið yrði ítarlegar yfir málin. Stefnandi mætti ekki í slíkt viðtal en hins vegar mættu unnusta hans og móðir sem fulltrúar hans á fund þann 20. janúar 2010 þar sem þeim voru kynnt gögn málsins og spurningum þeirra svarað. Var þá búið að útbúa samantekt um nám og árangur og var hún kynnt þeim á fundinum, en ekki afhent. Lögmaður stefnanda kom á fund stefnda í mars 2010 og fékk skýringar. Hann óskaði einnig bréflega eftir rökstuðningi frá stefnda vegna brottrekstursins ásamt afriti af öllum gögnum. Stefndi hafnaði þeirri beiðni stefnanda á þeim grundvelli að félagið væri opinbert hlutafélag og því ættu ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og upplýsingalaga nr. 50/1996 ekki við um stofnunina, en bauð lögmanninum að koma ásamt stefnanda til fundar þar sem farið yrði aftur yfir málið. Stefnandi telur að ákvörðun stefnda um brottvísun úr námi, sem hann telur að sé stjórnvaldsákvörðun, hafi verið ólögmæt og að stefndi hafi með henni og framangreindri málsmeðferð brotið gegn reglum stjórnsýsluréttar. Ákvörðunin hafi valdið stefnanda tjóni, sem hann krefst að stefndi bæti honum. Stefndi hafnar því að skilyrði bótaskyldu séu fyrir hendi, ákvörðunin hafi ekki verið ólögmæt eða saknæm, tjón stefnanda sé ósannað og ekki sé sýnt fram á orsakatengsl ætlaðs tjóns og athafna stefnda. Þá hafnar stefndi þeirri málsástæðu að stjórnsýslulög nr. 37/1993 eigi við um starfsemi stefnda. Ágreiningur aðila málsins snýst því um það hvort framangreind atvik og samskipti aðila, í aðdraganda og kjölfar ákvörðunar stefnda 11. desember 2009, og ákvörðunin sjálf skapi stefnanda rétt til skaðabóta úr hendi stefnda. Áður en mál þetta var höfðað hafði stefnandi leitað til stjórnvalda í því skyni að fá ákvörðun stefnda endurskoðaða. Gögn um þau samskipti lagði stefnandi fram við þingfestingu málsins og verður gerð grein fyrir þeim hér á eftir. Með bréfi 17. febrúar 2011 óskaði lögmaður stefnanda eftir því að Flugmálastjórn Íslands rannsakaði gögn stefnda og legði mat á það hvort stefnandi hefði uppfyllt kröfur í viðauka þágildandi reglugerðar nr. 404/2008 um skírteini flugumferðarstjóra. Flugmálastjórn Íslands hafnaði þeirri beiðni með bréfi 15. apríl 2011 á þeim grundvelli að það væri ekki hlutverk stofnunarinnar að leggja mat á það hvort einstaklingar uppfylltu skilyrði eða kröfur í reglugerðum um skírteini fyrr en sótt væri um útgáfu á slíku skírteini. Sama dag sendi lögmaður stefnanda bréf til Flugmálastjórnar Íslands og benti á að stefndi væri með starfsleyfi frá stofnuninni samkvæmt reglugerð nr. 404/2008 til að annast þjálfun nema í flugumferðarstjórn og var þess krafist að Flugmálastjórn Íslands rannsakaði hvort þjálfun og eftirfarandi brottrekstur stefnanda hefði samræmst umræddri reglugerð og stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Flugmálastjórn Íslands hafnaði því í bréfi 9. maí 2011 að ákvörðun stefnda hefði verið stjórnvaldsákvörðun í skilningi laganna og yrði hún því ekki borin undir stjórnvöld. Hinn 20. október 2011 sendi lögmaður stefnanda erindi til umboðsmanns Alþingis þar sem hann óskaði þess að umboðsmaður tæki framangreind álitaefni til skoðunar og legði mat á það hvort og þá hvaða málsmeðferðarreglur hefðu verið brotnar í samskiptum stefnda við stefnanda. Lagði hann áherslu á að hann teldi ákvörðun stefnda vera stjórnvaldsákvörðun. Í svari umboðsmanns 28. nóvember 2011 var bent á að stefnanda væri rétt að bera synjun Flugmálastjórnar Íslands undir innanríkisráðuneytið áður en hann sendi kvörtun til umboðsmanns, enda þótt kærufrestur væri þá liðinn. Var það gert 9. desember 2011, en ráðuneytið vísaði kærunni frá með úrskurði 20. janúar 2012. Í úrskurðinum sagði að það væri ekki hlutverk Flugmálastjórnar að leggja á það mat hvort einstaklingar uppfylltu skilyrði eða kröfur í reglugerðum um skírteini fyrr en sótt væri um útgáfu þeirra. Synjun Flugmálastjórnar feli ekki í sér stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga þar sem álitaefnið falli utan lögbundinna verkefna stofnunarinnar. Ráðuneytið tók fram, með vísun til laga um hlutafélög nr. 2/1995 og lögskýringargagna um opinber hlutafélög, að ákvarðanir stefnda, Isavia ohf., væru ekki stjórnvaldsákvarðanir í skilningi stjórnsýslulaga og yrðu þær því ekki bornar undir stjórnvöld á grundvelli laganna. Lögmaður stefnanda sendi samdægurs kvörtun til umboðsmanns Alþingis, sem óskaði með bréfi til innanríkisráðuneytisins 16. apríl 2012 eftir upplýsingum um starfsleyfi stefnda og hvort komið hefði verið á fót áfrýjunarkerfi, sbr. B-hluta viðauka II í reglugerð nr. 404/2008. Ráðuneytið sendi erindi til Flugmálastjórnar 19. október 2012, þar sem óskað var eftir afstöðu stofnunarinnar til þess hvort mál stefnanda félli undir eftirlitshlutverk hennar og ef svo væri hvort hún myndi taka mál stefnanda til umfjöllunar. Með bréfi Flugmálastjórnar Íslands til ráðuneytisins 21. desember 2012 var áréttað að stofnunin gæti ekki lagt mat á námsárangur nemenda, en hún gæti hins vegar farið yfir mál stefnanda með það að leiðarljósi að kanna hvort þjálfunarferlið hefði verið hlutlaust og óvilhallt, á grundvelli áfrýjunarkerfis sem verið væri að koma á fót í samræmi við reglugerðarviðaukann. Lögmaður stefnanda óskaði með tölvupósti 7. janúar 2013 eftir því að Flugmálastjórn Íslands kannaði hvort þjálfunarferli stefnda vegna stefnanda hefði verið hlutlaust og óvilhallt. Samkvæmt áliti áfrýjunarnefndar Samgöngustofu 30. ágúst 2013, en Samgöngustofa hafði þá tekið yfir starfsemi Flugmálastjórnar Íslands, var mat stefnda á námsárangri stefnanda talið óvilhallt og hlutlaust. Þann 29. nóvember 2013 mun stefnandi hafa kært þá niðurstöðu til innanríkis­ráðuneytisins, en ráðuneytið mun ekki hafa leyst úr því kærumáli þegar mál þetta var dómtekið. Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi skýrslu og móðir hans. Þá komu fyrir dóminn til skýrslugjafar þrír starfsmenn stefnda, deildarstjóri þjálfunar, verklagsstjóri þjálfunar og deildarstjóri kjaramála. Málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi kveði Flugstoðir ohf. hafa tekið þá ákvörðun sem sé upphaf og rót þessa máls. Þáverandi samgönguráðherra hafi stofnað nýtt opinbert hlutafélag, stefnda, sem tekið hafi við öllum rekstri, eignum og skuldbindingum Flugstoða ohf. 1. maí 2010, sbr. 1. gr. laga nr. 153/2009. Stefnandi telji engum vafa undirorpið að ákvörðun stefnda frá 11. desember 2009 hafi verið stjórnvaldsákvörðun og byggist sú niðurstaða á eftirfarandi sjónarmiðum. Starfsþjálfun nemenda til skírteinis flugumferðarstjóra sé verkefni allsherjar­réttarlegs eðlis. Stefndi hafi verið og sé opinbert hlutafélag í 100% eigu ríkisins. Stefndi hafi með höndum flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur. Þá hafi stefndi jafnframt með höndum deildarþjálfun nemenda til flugumferðarstjóra, sem einnig sé nefnd starfsþjálfun. Eitt af skilyrðum þess að hljóta skírteini flugumferðarstjóra sé að viðkomandi hafi lokið starfsþjálfun í flugstjórnardeild hjá veitanda flugumferðar­þjónustu með fullnægjandi árangri ásamt því að standast viðeigandi próf. Heimild veitanda flugumferðarþjónustu til að sinna starfsþjálfun nemenda til flugumferðarstjóra sé bundin sérstöku starfsleyfi, sbr. ákvæði 18. gr. reglugerðar nr. 404/2008 um skírteini flugumferðarstjóra, en stefndi sé eini handhafi slíks leyfis. Starfsemi stefnda sé háð opinberu eftirliti og stjórn félagsins kosin af eiganda þess, fjármálaráðherra f.h. ríkisins, sem hafi virkt eftirlit með rekstri og starfsemi félagsins. Reglugerð nr. 404/2008 kveði á um þær kröfur sem gerðar séu til starfsnámsins. Sérstaklega sé kveðið á um eðli og innihald þjálfunaráætlana og skulu þær innihalda upplýsingar um ferla og tímasetningar starfsþjálfunar, alla þætti hæfnismatskerfisins, þ.m.t. vinnuframlag, framfara­mat og próf, ásamt málsmeðferð fyrir tilkynningar til innlendra eftirlitsyfirvalda. Lengd deildarþjálfunar skuli jafnframt ákvörðuð í þjálfunaráætlun deildar. Loks skulu prófdómarar eða matsmenn, sem samþykktir hafi verið meta tilskilda fagþekkingu með viðeigandi prófum eða símatskerfi og vera óvilhallir og hlutlægir í mati sínu og í því skyni beri innlendum eftirlitsyfirvöldum að koma á fót áfrýjunarkerfi til að tryggja að umsækjendur fái sanngjarna meðferð. Eftirlit með störfum veitenda flugumferðarþjónustu og framkvæmd þjálfunarinnar hafi verið í höndum Flugmálastjórnar Íslands sem lúti yfirstjórn innanríkisráðherra.  Stefnandi telji ljóst að stefnda, sem sé opinbert hlutafélag, hafi verið falið stjórnsýsluhlutverk samkvæmt lagaheimild, undir eftirliti stjórnvalds, sem sé liður í opinberri leyfisveitingu. Starfsþjálfunin sé liður í veitingu réttinda sem séu takmörkuð. Stefnandi og aðrir nemendur hafi sóst eftir því að fá starfsréttindi, sem hafi áhrif á atvinnuréttindi þeirra. Slík ákvörðun sé tekin af stefnda einhliða, í skjóli opinbers valds og beint að þeim sem hana fái og teljist þannig stjórnvaldsákvörðun. Þar sem starfsnámið sé ferli sem ljúki með stjórnvaldsákvörðun þá sé ákvörðun um það að vísa nemanda fyrirvaralaust úr starfsnámi, á hvaða tíma starfsnámsins sem er, stjórnvaldsákvörðun enda bindi hún enda á námið. Slík ákvörðun sé einhliða ákvörðun sem tekin sé í skjóli stjórnsýsluvalds og beint milliliðalaust út á við að tilteknum nemanda. Ákvörðunin varði jafnframt réttindi og skyldur nemandans í ákveðnu fyrirliggjandi máli, þar sem að hún varði rétt hans til þess að ljúka starfsnámi og þar með möguleika hans á að uppfylla skilyrðið til skírteinis flugumferðarstjóra. Því sé ljóst að ákvörðun um að vísa nemanda úr starfsnámi sé stjórnvaldsákvörðun sem sé jafnframt verulega íþyngjandi fyrir viðkomandi nemanda. Stjórnsýslulög nr. 37/1993 taki til allrar stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga þegar teknar séu stjórnvaldsákvarðanir. Ekki skipti máli hvort stjórnsýslan sé í höndum sérstakra stofnana á vegum ríkis eða stofnana félagaréttarlegs eðlis. Þurfi að ákveða hvort tiltekin ákvörðun teljist falla undir gildissvið laga nr. 37/1993, skuli leggja til grundvallar hvort um eiginlega stjórnsýslu sé að ræða. Þannig geti einkaaðili eða opinbert hlutafélag sem fengið hafi opinbert vald, lotið ákvæðum laganna a.m.k. í þeim tilvikum þegar hann tekur stjórnvalds­ákvörðun. Stefndi hafi stjórnsýslu með höndum í þágu ríkisins, sem sé liður í ferli til veitingar opinbers leyfis. Stefndi verði í störfum sínum við starfsþjálfun nemenda til skírteinis flugumferðarstjóra að fylgja allsherjar­réttarlegum reglum. Því sé ljóst að ákvörðun stefnda um frávísun nemanda úr starfsnámi til skírteinis flugumferðarstjóra sé stjórnvaldsákvörðun og um hana gildi ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá telji stefnandi ákvörðun stefnda um frávísun hans úr deildarþjálfun ólögmæta. Lögmætisreglan sé ein af meginreglum íslensks stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar og feli í sér að ákvarðanir stjórnvalda skuli almennt eiga sér stoð í lögum. Þá megi stjórnvöld ekki ganga í berhögg við önnur lög með ákvörðunum sínum. Brjóti ákvörðun í bága við lög sé hún ólögmæt að efni til og ógildanleg. Skýrt sé kveðið á um lögbundið efni þjálfunaráætlana í ákvæðum reglugerðar nr. 404/2008. Í reglugerðinni sé hvergi kveðið á um heimild til þess að vísa nemendum fyrirvaralaust úr starfsnámi á hvaða tíma starfsþjálfunarinnar sem er. Þrátt fyrir það hafi stefndi áskilið sér rétt þess efnis, í þjálfunaráætlun sinni, en í 2. kafla hennar sé að finna ákvæði með fyrirsögninni: Lágmarkseinkunnir og kröfur í verklegum æfingum. Þar segi að árangur nemenda í verklegum æfingum skuli vera a.m.k. 80% að meðaltali. Standist nemandi ekki þær kröfur sé kveðið á um að þjálfunardeild muni meta hvort lengja beri námið innan ákveðinna marka, eða víkja nema úr námi. Þá sé kveðið á um að vísa megi nema frá námi sé það samhljóma álit kennara þjálfunardeildar, og ef við eigi, þjálfara hans í verklegu námi, að neminn sé óhæfur.  Taki stefndi ákvörðun þess efnis, þ.e. að víkja nemanda fyrirvaralaust úr starfsnámi, líkt og í tilviki stefnanda, sé um íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun að ræða. Með tilliti til lögmætisreglunnar verði slík stjórnvaldsákvörðun að byggjast á skýrri lagaheimild svo hún geti talist lögmæt. Engin slík heimild hafi verið fyrir hendi og hafi ákvörðun stefnda um að víkja stefnanda fyrirvaralaust úr starfsnámi þann 11. desember 2009 þannig verið ólögmæt. Stefndi hafi brotið gegn andmælarétti stefnanda. Þegar tekin sé stjórnvaldsákvörðun beri stjórnvaldi að hlíta skráðum og óskráðum reglum stjórnsýsluréttarins, en þær stuðli að því að ákvarðanir séu byggðar á málefnalegum sjónarmiðum. Nauðsynlegt sé að tryggja að ákvarðanir stjórnvalda séu löglegar og réttar og byggðar á lögmætum forsendum þannig að réttindi borgaranna verði ekki skert og hagsmunum þeirra stefnt í voða með handahófskenndum ákvörðunum. Á grundvelli þessara réttaröryggissjónarmiða hafi verið talin þörf á því að tryggja málsmeðferð stjórnvalda, enda leiði vönduð málsmeðferð frekar til þess að endanleg ákvörðun verði efnislega rétt og lögmæt. Óvönduð málsmeðferð leiði til þess að ákvarðanir verði tilviljunarkenndar og þannig líklegri til þess að verða rangar og byggðar á röngum forsendum og sjónarmiðum. Reglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993, feli í sér réttaröryggisreglur í þágu þeirra sem ákvarðanir stjórnvalda beinist að og í þeim felist ákveðnar lágmarkskröfur til málsmeðferðar. Því sé mikilvægt að slíkum reglum sé fylgt í hvívetna. Grundvallarreglan um þátttöku borgaranna í málsmeðferð stjórnsýslumáls sé reglan um andmælarétt málsaðila. Samkvæmt 13. gr. laga nr. 37/1993 skuli aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald taki ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Í athugasemdum með IV. kafla frumvarps þess er orðið hafi að lögum nr. 37/1993, segi að í reglunni felist að aðili máls skuli eiga þess kost að tryggja réttindi sín og hagsmuni með því að kynna sér gögn máls og málsástæður er ákvörðun muni byggjast á, leiðrétta fram komnar upplýsingar og koma að frekari upplýsingum um málsatvik áður en stjórnvald taki ákvörðun í máli hans. Fram komi að andmælareglan eigi ekki aðeins að tryggja hagsmuni aðila máls heldur sé tilgangur hennar einnig sá að stuðla að því að mál verði betur upplýst og tengist hún þannig rannsóknarreglunni. Afstaða stefnanda til frávísunarinnar hafi ekki legið fyrir í gögnum málsins við meðferð stefnda á máli hans. Þá hafi stefnanda ekki verið veittur kostur á að kynna sér gögn málsins og þær málsástæður sem stefndi hafi byggt ákvörðun sína á. Stefnanda hafi ekki verið veitt færi á að leiðrétta fram komnar upplýsingar eða koma að frekari upplýsingum um málsatvik. Stefndi hafi virt andmælarétt stefnanda að vettugi áður en félagið hafi tekið endanlega ákvörðun um að víkja stefnanda úr starfsnámi.  Engar forsendur hafi verið til þess við meðferð málsins að víkja frá umræddum reglum. Þvert á móti hafi verið sérstakt tilefni til þess að veita andmælarétt enda um að ræða íþyngjandi ákvörðun er varðað hafi starfsréttindi og framtíð stefnanda. Stefnandi hafi haft augljósa og brýna hagsmuni af því að koma sínum sjónarmiðum að. Þegar brotið sé í bága við 13. gr. laga nr. 37/1993, þannig að aðila hafi ekki verið veitt færi á að tjá sig, teljist það almennt verulegur annmarki sem leiði til þess að íþyngjandi ákvörðun teljist ólögmæt. Stefndi hafi brotið gegn rannsóknarreglunni, rökstuðningsreglunni og meðalhófi. Rannsóknarregla 10. gr. laga nr. 37/1993 feli í sér að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Stefnda hafi borið að rannsaka mál stefnanda með fullnægjandi hætti áður en ákvörðun væri tekin um að vísa stefnanda úr starfsnámi. Í því felist m.a. að stefnda hafi borið að kalla eftir þeim upplýsingum og sjónarmiðum sem varpað gætu ljósi á þau atriði sem félagið teldi ekki nægilega rökstudd eða upplýst. Stefnanda hafi ekki verið veittur andmælaréttur og sú skýring sem stefnanda hafi verið veitt er honum hafi verið kynnt ákvörðunin, hafi verið að hann væri ekki rétti maðurinn í starf flugumferðarstjóra. Slíkt sjónarmið sé ómálefnalegt. Kröfu stefnanda um frekari rökstuðning fyrir ákvörðuninni hafi verið hafnað og það hafi ekki verið fyrr en eftir afskipti umboðsmanns Alþingis, þremur og hálfu ári eftir að stefnanda hafi verið kynnt ákvörðunin, sem stefndi hafi lagt fram greinargerð vegna málsins. Greinargerðin sé hvorki undirrituð né dagsett með fullnægjandi hætti. Stefnandi telji greinagerðina bera þess skýrlega merki að hafa ekki verið gerða áður en umrædd ákvörðun var tekin. Af greinagerðinni sé jafnframt ljóst að einn af kennurum stefnanda hafi myndað sér neikvæða skoðun á stefnanda frá upphafi samskipta þeirra. Athugasemdir hans virðist beinast fremur að persónu stefnanda en afköstum og getu hans í starfsnáminu. Kennarinn finni stefnanda allt til foráttu sem dragi bæði úr sjálfstrausti og afkastagetu stefnanda undir hans umsjón. Sjáist það vel af gögnum málsins þegar bornar séu saman umsagnir hans og annarra kennara stefnanda. Þannig hafi hann talið að allt skipulag færi út um gluggann hjá stefnanda, öfugt við ummæli annarra kennara sem hafi talið oft ganga best hjá stefnanda þegar sem mest pressa væri á honum. Þá hafi stefnandi staðist öll þau próf og verklegar æfingar sem fyrir hann hafi verið lögð samkvæmt kröfum þjálfunaráætlunar stefnda. Þannig hafi stefnanda verið vikið úr starfsnámi stefnda eftir 2. áfanga, þrátt fyrir að hafa staðist próf áfangans. Búið hafi verið að tilkynna stefnanda að hann ætti að fá nýjan kennara sem tæki við þjálfun hans um áramótin 2009/2010. Miðað við afstöðu fyrri kennara til stefnanda hefði verið rétt, m.a. samkvæmt meðalhófsreglu 12. gr. laga nr. 37/1993, að gefa stefnanda kost á að reyna sig með nýjum kennara.  Í greinagerð stefnda sé byggt á því að yfir tímabilið 16.11.2009-27.11.2009 hafi stefndi náð 10 af 14 verklegum æfingum sem gefin hafi verið einkunn fyrir. Samanlögð einkunn stefnanda sé því sögð 71% úr þeim þætti og áréttað að í þjálfunaráætlun sé gerð krafa um 80% árangur. Séu ákvæði þjálfunaráætlunarinnar hins vegar skoðuð nánar sé kveðið á um að árangur í verklegum æfingum skuli vera a.m.k. 80% að meðaltali. Ljóst sé að til þess að meta hvort fullnægjandi árangur í verklegum æfingum hafi náðst, sé nauðsynlegt að leggja saman einkunnir hverrar einstakrar verklegrar æfingar og deila þeirri tölu með fjölda hinna verklegu æfinga. Þannig fáist út raunverulegt meðaltal árangurs í verklegum æfingum. Sé meðaltalið 80% eða hærra teljist nemandi hafa staðist lágmarkskröfur til árangurs úr viðkomandi æfingum. Af yfirliti yfir einkunnir stefnanda vegna umrædds tímabils sé ljóst að stefnandi hafi náð 78% árangri vegna æfinga nr. 8 og 13. Hins vegar hljóti hann 80% til 92% fyrir æfingar 1-7, 9-12 og 14-16. Af gögnum málsins sé því ljóst að stefnandi hafi staðist kröfur þjálfunaráætlunar stefnda um lágmarks námsárangur. Mat starfsþjálfara á nemanda við lok 2. áfanga leggi grundvöllinn að því hvort starfsþjálfari leggi til að nemi haldi áfram starfsþjálfun yfir í 3. áfanga. Við matið séu gefin stig vegna vinnuborðs, fjarskiptatækja, FDPS-tölvu, samræmingar, skipulags og aðskilnaðar. Byggist stigagjöf á skalanum 1-10, þar sem 10 sé hámarksárangur. Starfsþjálfari stefnanda við lok 2. áfanga annaðist mat á stefnanda. Stigagjöf hans vegna stefnanda hafi rokkað á milli skalans 6-9, en hann hafi jafnframt skrifað inn á matsblaðið eftirfarandi athugasemd: Erfitt er að gefa svona einstaka liði. Við höfum talað um áherslur síðustu vikur. Það þarf að bæta talsvert sjálfstraust, vinnuhraða og skipulag, sérstaklega þegar mikið er að gera. Þessi atriði verða að batna ef framhaldið á að ganga vel. Loks hafi það verið niðurstaða hans að hann legði til að stefnandi héldi áfram starfsþjálfun. Þann 27. nóvember 2009 hafi stefnandi staðist lokapróf úr 2. áfanga og hafi yfirþjálfari stefnanda sérstaklega tekið fram að stefnandi vinni ágætlega undir álagi. Þann 30. nóvember 2009 hafi starfsþjálfari stefnanda skráð í nemabók að verkleg æfing stefnanda hafi gengið vel. Þá hafi hann jafnframt ritað eftirfarandi athugasemd: Á næstu vikum rífum við svo saman upp sjálfstraust, vinnuhraða og skipulag og klárum þetta. Ekki sé að finna neikvæðar athugasemdir frá starfsþjálfaranum í nemabók stefnanda vegna verklegra æfinga dagana 4., 5., 6. eða 10. desember 2009. Skráðar athugasemdir þann 10. desember hafi verið tvær, en þann 11. desember hafi hann hins vegar sent sex margþættar athugasemdir til yfirþjálfara vegna vaktar þann 10. desember 2009. Hann hafi byggt þá skoðun sína að ekki ætti að hleypa stefnanda áfram í 3. áfanga á því að stefnandi væri langt fyrir aftan einhverja af samnemendum sínum bæði í sjálfstrausti og getu. Enginn staðfestur samanburður liggi hins vegar fyrir á stefnanda og öðrum nemendum sem styrki þá fullyrðingu. Samkvæmt þjálfunaráætlun stefnda felist 3. áfangi í tveggja vikna verklegum æfingum og markmið áfangans sé að ljúka þjálfunarferli svo nemi hafi sjálfsöryggi til að ljúka lokaprófi auk þess sem hann hafi sjálfstraust til að vinna einn með réttindi. Áhersla sé lögð á vönduð vinnubrögð og að taka á ósiðum sem nemi gæti hafa vanið sig á. Stefnanda hafi hins vegar ekki verið gefinn kostur á að sitja 3. áfanga, þrátt fyrir að hafa staðist próf 2. áfanga og þá staðreynd að markmið 3. áfanga virðist hafa verið sérsniðið til þess að taka á þeim atriðum sem starfsþjálfarinn hafi talið stefnanda skorta til að klára námið. Stefnanda hafi því aldrei verið gefinn kostur á því að ljúka þeim hluta námsins sem hefði að öllum líkindum bætt færni hans og sjálfstraust. Á stöðufundi þjálfunardeildar stefnda um stefnanda 11. desember 2009 sé vísað til þess í umræddri greinargerð stefnda að niðurstaðan hefði verið sú, eftir að hafa farið rækilega yfir allt er varðaði nám stefnanda að vonlaust væri að hann næði að ljúka námi með fullnægjandi hætti og því væri ekki réttlætanlegt að hann héldi því áfram. Hins vegar sé hvergi vísað til þess hvað átt sé við með allt er varðaði nám kæranda. Rökstuðningur sem þessi sé skólabókardæmi um ófullnægjandi rökstuðning. Ófullnægjandi rök­stuðningur þyki jafnan benda til þess að málsmeðferð og einkum rannsókn hafi verið ófullnægjandi. Það leiði svo almennt til þess að efnisleg ákvörðun sé ólögmæt. Með öllu sé óljóst hvaða gögn hafi verið lögð til grundvallar og hvaða vægi þeim hafi verið gefið við töku ákvörðunarinnar. Stefndi verði þannig að teljast hafa brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. laga nr. 37/1993 og ljóst sé að mat stefnda á námsárangri stefnanda geti hvorki talist hafa verið óvilhallt né hlutlaust. Frávísun hafi ekki verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum. Í lögmætisreglu og réttmætisreglu stjórnsýsluréttar felist að málefnaleg sjónarmið verði að búa að baki ákvörðun stjórnvalda. Stefnda hafi borið að byggja ákvörðun um frávísun nemanda úr starfsnámi á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum. Stefnandi telji ákvörðun stefnda hafa skort lagastoð. Jafnframt sé ljóst að samkvæmt ákvæðum þjálfunar­áætlunar stefnda skyldi eingöngu koma til álita að víkja nema úr starfsnámi næði hann ekki a.m.k. 80% árangri að meðaltali úr verklegum æfingum. Stefndi hafi hins vegar ekki sýnt fram á það að stefnandi hafi ekki staðist þær kröfur. Þvert á móti hafi stefnandi náð öllum þeim prófum sem fyrir hann hafi verið lögð og aldrei komið til þess að hann þyrfti að nýta sér heimild sem einnig sé að finna í ákvæðum þjálfunaráætlunarinnar um að nemendur hafi einn upptökurétt standist þeir ekki verklegt próf í fyrstu tilraun. Ekki liggi fyrir á hvaða sjónarmiðum stefndi hafi byggt ákvörðun sína, eða hvert vægi þeirra hafi verið hvers fyrir sig. Það sé óskráð meginregla í stjórnsýslurétti að stjórnvöldum beri að sjá til þess að jafnan liggi fyrir í gögnum þeirra hvaða afgreiðslu erindi sem þau hafi til umfjöllunar hafi fengið. Þágildandi upplýsingalög nr. 50/1996 hafi kveðið á um að forsendur fyrir niðurstöðum mála lægju ávallt fyrir hjá þeim sem ákvörðun tækju. Í 23. gr. þágildandi upplýsingalaga hafi verið mælt fyrir um skyldu stjórnvalda til þess að skrá upplýsingar sem hefðu verulega þýðingu fyrir úrlausn mála og ekki væri að finna í öðrum gögnum. Ætli stjórnvald sér að byggja á ákveðnum sjónarmiðum og ljá þeim verulega þýðingu beri stjórnvaldinu að skrá þau niður ásamt öllum þeim upplýsingum og atriðum sem þeim tengist og máli hafi skipt við ákvörðunartökuna. Stefndi hafi ekki lagt fram nein slík gögn, að undanskilinni mjög svo síðbúinni greinargerð sem stefnandi hafi ekki fengið fyrr en rúmum þremur og hálfu ári eftir að honum hafi verið kynnt umrædd ákvörðun. Auk þess sé greinagerðin hvorki undirrituð né staðfest af þar til bærum aðilum og ekki verði skýrlega af henni ráðið hvaða sjónarmið hafi verið lögð til grundvallar ákvörðuninni eða innbyrðis vægi þeirra hvers um sig. Virðist raunar af gögnum málsins sem ákvörðunin hafi fyrst og fremst verið geðþóttaákvörðun stefnda. Stefndi hafi brotið jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga með því að meðhöndla stefnanda með öðrum hætti en aðra nemendur. Stefnda hafi borið að beita vægara úrræði en fyrirvaralausri brottvísun úr náminu, sbr. meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Telji stefnandi ljóst að ákvörðun stefnda um að vísa stefnanda úr starfsnámi hafi verið byggð á ómálefnalegum sjónarmiðum. Réttur stefnanda til óvilhalls og hlutlægs mats hafi ekki verið tryggður. Með sérstöku ákvæði í reglugerð nr. 404/2008 hafi átt að tryggja sérstaklega að nemendur þyrftu ekki að þola þá málsmeðferð sem stefnandi hafi hlotið, en í B-hluta viðauka II segi: Lengd deildarþjálfunar skal ákvörðuð í þjálfunaráætlun deildar. Prófdómarar eða matsmenn, sem hafa verið samþykktir, skulu meta tilskilda fagþekkingu með viðeigandi prófum eða símatskerfi og vera óvilhallir og hlutlægir í mati sínu. Í þessu skyni skulu innlend eftirlitsyfirvöld koma á áfrýjunarkerfi til að tryggja að umsækjendur fái sanngjarna meðferð. Þannig hafi verið skylt að koma á áfrýjunarkerfi til þess að tryggja að nemendur í starfsnámi til skírteinis flugmálastjórnanda, fengju sanngjarna meðferð. Skaðabótakrafa Þess sé krafist að stefndi bæti stefnanda allt það tjón sem stefnandi hafi orðið fyrir við það að honum hafi verið á ólögmætan hátt vikið úr starfsnámi til flugumferðarstjóra hjá stefnda, hinn 11. desember 2009. Frávísunin hafi verið ólögmæt enda bæði í andstöðu við ákvæði þjálfunaráætlunar stefnda og í bága við þau lagaákvæði sem reifuð hafi verið. Stefndi hafi sýnt af sér sök (ásetning eða í það minnsta gáleysi) þegar hann, án fyrirvara og áminningar og án andmælaréttar, hafi vikið stefnanda úr starfsnámi til flugumferðarstjóra. Tjón stefnanda megi rekja beint til háttsemi stefnda og sé sennileg afleiðing hennar. Ákvörðun stefnda hafi útilokað stefnanda frá frekara námi á háskólastigi, þar sem  stefnandi hafi fjármagnað flugnám sitt og nám til flugumferðarstjóra með námslánum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Eftir frávísunina geti stefnandi ekki átt rétt á frekari námslánum. Frávísunin hafi leitt til þess að stefnandi hafi ekki getað lokið námi sínu og hafi orðið af því að öðlast réttindi til þess að verða flugumferðarstjóri. Tekjur hans og starfsöryggi sem flug­umferðar­stjóri hefðu verið mun meiri en tekjur og starfsöryggi stefnanda séu í dag. Krafist sé viðurkenningar á því tjóni en tjónið felist í mismun á launum flugumferðarstjóra og launum stefnanda út starfsævina. Gögn málsins bendi ekki til neins annars en þess að stefnandi hefði lokið náminu og hlotið starf sem flugumferðarstjóri. Stefnda beri að sýna fram á að stefnandi hefði ekki lokið náminu og hlotið starf, þrátt fyrir hina ólögmætu ákvörðun. Stefnandi geri þær kröfur á hendur stefnda að viðurkennt verði að hann eigi að verða eins settur fjárhagslega og ef hann hefði lokið náminu. Krafa um viðurkenningu á bótarétti byggist á 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en verði fallist á þessa kröfu stefnanda megi búast við því að leitast verði við að ná samkomulagi um greiðslu bóta eða óskað eftir mati dómkvaddra matsmanna á ætluðu tjóni. Stefnandi hafi verið launalaus meðan á starfsnámi hans hjá stefnda hafi staðið. Stefnandi hafi verið í vinnu þegar námið hafi hafist en orðið að segja henni upp til að fara í námið. Stefnandi hafi þannig orðið af þeim tekjum sem hann hefði haft í óbreyttri vinnu. Stefnandi hafi greitt skólagjöld fyrir námið en sú greiðsla hafi ekki nýst honum og sé þannig hluti af tjóni hans. Krafa um miskabætur Kröfu sína um miskabætur byggi stefnandi á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Frávísunin hafi verið ólögmæt meingerð gegn friði, æru og persónu stefnanda. Stefnanda hafi ekki verið gefinn kostur á að andmæla þeim ávirðingum sem á hann hafi verið bornar. Þá hafi stefnandi sætt einelti af hálfu starfsþjálfara síns, starfsmanns stefnda sem síðan hafi endað með frávísun stefnanda eftir samskipti hans við yfirmenn sína. Þá hafi frávísunin jafnframt verið gróf skerðing á heiðri stefnanda sem í kjölfar frávikningarinnar hafi ekki átt kost á að ljúka námi sínu til flugumferðarstjóra. Stefnandi hafi orðið fyrir verulegu áfalli við frávísunina enda hafi hún breytt framtíðaráformum stefnanda og sett svartan blett á náms- og starfsferil hans. Sundurliðun kröfugerðar Skólagjöld                                            kr.                     610.000 Launatap                                             kr.                  4.400.000 Miskabætur                                         kr.                  1.000.000 Samtals                                                kr.                 6.010.000         Jafnvel þótt litið yrði svo á að ákvörðun stefnda hafi ekki brotið gegn form- eða efnisreglum stjórnsýsluréttarins þá hafi hún engu að síður verið ólögmæt á grundvelli almennra reglna samninga- og kröfuréttar. Aðilar hefðu gert samning um starfsþjálfun sem byggði á tilteknum forsendum. Stefndi hafi rift og/eða vanefnt þann samning án þess að hafa til þess lögmætar ástæður. Sú ráðstöfun hafi orðið til þess að stefnandi hafi ekki getað lokið námi sínu og bakað honum tjón. Krafa um almenna vexti á skaðabótakröfu eigi stoð í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 og dráttarvextir eigi stoð í III. kafla sömu laga. Upphaf almennra vaxta miðist við tjónsatburð en upphaf dráttarvaxta miðast við þingfestingu stefnu og dómskjala, sbr. 9. gr. laganna. Málskostnaðarkrafa stefnanda eigi sér stoð í 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Fyrirsvar eigi stoð í 4. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Um varnarþing stefnda sé vísað til 1. mgr. 33. gr. sömu laga. Málsástæður og lagarök stefnda Krafa um frávísun á kröfu stefnanda um viðurkenningu á bótaskyldu Krafa um sýknu Stjórnsýslulög eigi ekki við um starfsemi stefnda Stefndi hafni alfarið framangreindum málsástæðum stefnanda og telji reyndar að þær séu með öllu órökstuddar. Stjórnsýslulög nr. 37/1993 taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, sbr. 1. mgr. 1. gr., og þau gildi þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt og skyldu manna, skv. 2. mgr. sömu greinar. Stefndi sé opinbert hlutafélag en slík félög teljist ekki stjórnvöld í skilningi stjórnsýslulaga. Mörk gildissviðs stjórnsýslulaganna séu mjög skýr hvað þetta varði. Með lögum nr. 102/2006 hafi verið gerð sú breyting á starfsemi og skipulagi Flugmálastjórnar að stofnað hafi verið sérstakt hlutafélag, Flugstoðir, um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar. Stjórnsýslustarfsemin, þ.m.t. eftirlitsstarfsemi Flugmálastjórnar, hafi hins vegar verið sett í sérstaka stofnun, Flugmálastjórn Íslands, nú Samgöngustofu. Það sé því Samgöngustofa sem fari með stjórnsýslu og eftirlit á sviði loftferða á Íslandi.  Í 28. gr. b. laga nr. 60/1998 um loftferðir, sbr. lög nr. 15/2009, komi fram að aðili sem vilji hljóta vottun eða viðurkenningu til verklegrar kennslu, þjálfunar eða prófunar á sviði flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnunar flugumferðar, þ.m.t. stjórnunar flugumferðar, sbr. f-lið 1. mgr., skuli sækja um slíka vottun eða viðurkenningu til Flugmálastjórnar. Í 18. gr. þágildandi reglugerðar nr. 404/2008, sem sett hafi verið með stoð í framangreindum lögum, hafi komið fram að þjálfun fyrir flugumferðarstjóra væri háð starfsleyfi frá Flugmálastjórn Íslands. Kröfur til starfsleyfis til veitingar þjálfunar hafi komið fram í 1. lið IV. viðauka reglugerðarinnar. Umsækjendur skyldu sækja um starfsleyfi til Flugmálastjórnar Íslands og skyldi Flugmálastjórn Íslands gefa út starfsleyfi uppfylli viðkomandi þær kröfur sem kveðið væri á um í viðaukanum. Hver sem uppfyllti skilyrði viðauka reglugerðarinnar hefði því getað fengið slíkt starfsleyfi. Stefndi hafi sótt um slíkt starfsleyfi og fengið. Þó að stefndi sé eini handhafi slíks starfsleyfis í dag sé ekkert sem komi í veg fyrir að aðrir sem uppfylli skilyrði viðauka reglugerðarinnar fái slíkt leyfi. Stefnda hafi þannig ekki verið veittur einkaréttur til þess að fá slíkt starfsleyfi með lögum eða reglugerð. Því hafi ekki verið um það að ræða að stefnda hefði þannig verið falið stjórnsýsluhlutverk með lagaheimild eins og stefnandi byggi á. Það séu eingöngu stjórnvöld sem hafi að lögum heimild til að taka ákvarðanir um rétt og skyldu manna, svokallaðar stjórnvaldsákvarðanir. Slíkt vald verði ekki falið öðrum nema á grundvelli skýrrar lagaheimildar eða lögheimiluðu framsali. Stefndi sé hvorki stjórnvald né hafi honum verið fengið vald til að taka stjórnvaldsákvarðanir. Hvorki skráðar né óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttarins hefðu því átt við um ákvörðun stefnda. Yrði fallist á, þrátt fyrir framangreint, að ákvörðun stefnda um frávísun stefnanda úr starfsþjálfun flugumferðarstjóra hafi verið stjórnvaldsákvörðun, en stefnandi byggi ekki á öðru en því, sé því alfarið hafnað að brotið hafi verið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga eða meginreglum stjórnsýsluréttar við frávísun stefnanda úr námi. Þvert á móti hafi þeim verið fylgt í hvívetna. Stefndi hafi útbúið þjálfunaráætlun SKT 12-1 fyrir deildarþjálfun flugumferðarstjóra á Norður/Vestur svæði BIRD, í samræmi við kröfur í B-hluta reglugerðar nr. 404/2008 og hafi þjálfunaráætlunin verið samþykkt af Flugmálastjórn Íslands. Þar hafi verið tilgreindir ferlar og tímasetningar starfsþjálfunar sem ætlað hafi verið að tryggja þjálfun í beitingu verklagsreglna á staðbundnu svæði (N/W) undir leiðsögn starfsþjálfara á vinnustað. Þá hafi þar komið fram upplýsingar um alla þætti hæfnismatskerfisins, m.a. vinnufyrirkomulag, framfaramat og próf. Þar hafi komið fram að markmið þjálfunarinnar væri að gera nemendur hæfa og tilbúna til að starfa sem flugumferðarstjórar í Norður/Vestur deild flugstjórnarmiðstöðvarinnar í Reykjavík. Í kafla á bls. 4 í þjálfunaráætluninni, sem beri yfirheitið „Lágmarkseinkunnir og kröfur í verklegum æfingum“ komi fram að gerð væri krafa um a.m.k. 80% árangur í verklegum æfingum. Stæðist nemandi ekki þær kröfur myndi þjálfunardeild meta hvort lengja bæri námið innan ákveðinna marka, eða víkja nemanda úr námi. Heimilt væri að vísa nemanda úr námi væri það samhljóma álit kennara þjálfunardeildar og ef við ætti, þjálfara hans í verklegu námi, að nemandi væri óhæfur. Stefndi mótmæli sérstaklega þeim staðhæfingum stefnanda að hann hafi staðist öll þau próf og verklegar æfingar sem fyrir hann hafi verið lagðar samkvæmt kröfum þjálfunaráætlunar stefnda. Af gögnum málsins sé ljóst að stefnandi hafi ekki staðist allar æfingar sem fyrir hann hafi verið lagðar og hafi árangur stefnanda úr æfingum verið undir þeim lágmarkskröfum sem tilgreindar séu í þjálfunaráætlun. Þrátt fyrir að stefnandi hafi staðist próf 2. áfanga hafi árangur úr verklegum æfingum einungis verið um 71% og þær villur sem stefnandi hafi gert hafi verið mjög alvarlegs eðlis. Stefndi mótmæli þeim útreikningi er stefnandi byggi á sem röngum. Árangur í æfingum hafi verið metinn með hliðsjón af hlutfalli þeirra æfinga sem stefnandi hefði staðist, og áréttað sé að tilteknar villur í æfingum þýði sjálfkrafa fall án tillits til stigagjafar. Þá sé ekki um að ræða vegið meðaltal á einkunnagjöf, líkt og stefnandi haldi fram. Fyrir liggi að nám stefnanda hafi ekki gengið eins og skyldi. Hann hafi ekki uppfyllt skilyrði um 80% meðalárangur í verklegum æfingum, auk þess sem hann hafi ítrekað fallið á æfingum með því að gera svokallaðar sep loss og/eða technical villur, en slíkar villur þýði sjálfkrafa fall í æfingu. Stefnanda hafi verið gerð grein fyrir því í viðtölum við kennara að hann þyrfti að bæta sig hvað þetta varðaði til að hann gæti lokið námi sínu í flugumferðarstjórn. Starf flugumferðarstjóra sé í eðli sínu þannig að þar sé ekkert svigrúm fyrir þær villur sem stefnandi hafi ítrekað gert í æfingum. Slík mistök geti vissulega átt sér stað á fyrstu stigum námsins en eigi ekki að sjást í 3. áfanga námsins. Stefnandi hafi þannig ekki staðist þær kröfur sem gerðar hafi verið í samþykktri þjálfunaráætlun námsins. Af framangreindu leiði að ákvörðun stefnda um frávísun stefnanda úr starfsnámi hafi verið í samræmi við ákvæði samþykktrar þjálfunaráætlunar og hafi þannig ekki brotið gegn ákvæðum reglugerðar nr. 404/2008. Þá verði ekki séð að framangreind sjónarmið, er legið hafi að baki ákvörðun þjálfunardeildar stefnda, geti talist ómálefnaleg enda hafi stefnanda ekki tekist að sýna fram á annað. Stefndi byggi þannig á því að bæði lögmæt og málefnaleg sjónarmið hafi búið að baki umræddri ákvörðun um frávísun stefnanda úr starfsnámi. Þá telji stefndi að röksemdir stefnanda að því er varði skyldur stjórnvalda geti ekki átt við um stefnda, þar sem stefndi teljist ekki stjórnvald. Hvað sem öðru líði hafni stefndi því alfarið að brotið hafi verið gegn formreglum stjórnsýslulaga þegar ákvörðun hafi verið tekin um frávísun stefnda úr starfsnámi. Öllum málsástæðum stefnanda þar að lútandi sé því alfarið hafnað. Stefndi hafni þeirri málsástæðu stefnanda að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Málið hafi átt sér langan aðdraganda. Þegar stefnandi hafi verið kominn í þriðja og lokaáfanga námsins hafi hann enn verið að gera alvarlegar villur. Því hafi verið haldinn fundur hjá þjálfunardeild um stöðu hans í náminu. Á fundi þjálfunardeildar hafi verið farið ítarlega yfir allan námsferil stefnanda, æfingar og próf sem hann hefði þreytt og frammistaða hans í heild metin. Sérstaklega hafi verið farið yfir hvers eðlis þær villur hafi verið sem stefnandi hefði gert og gerði enn, en þær teldust alvarlegar („sep loss“ og „technical“). Allar tiltækar upplýsingar hefðu verið fyrir hendi við ákvarðanatöku og ákvörðunin hafi verið tekin af deildarstjóra þjálfunardeildar, umsjónarkennara og deildarstjóra flugstjórnardeildar. Afstaða stefnanda hafi legið skýrlega fyrir í málinu og hefði stefndi ekki talið þörf á frekari upplýsingum frá honum til að varpa ljósi á málið. Telji stefndi því að málið hafi verið nægjanlega upplýst þegar ákvörðun um frávísun stefnanda úr námi hafi verið tekin. Áréttað sé að þrátt fyrir að samantekt stefnda hefði ekki legið fyrir þegar hin umdeilda ákvörðun hafi verið tekin sé í henni að finna samantekt af upplýsingum er fyrir hafi legið við ákvörðun um frávísun stefnanda úr námi. Stefndi telji jafnframt að fyllsta meðalhófs hafi verið gætt við meðferð málsins. Vægari úrræði hafi ítrekað verið reynd án árangurs. Stefnanda hefði áður verið veitt meiri þjálfun og hann fengið meiri kennslu en gert hafi verið ráð fyrir í þjálfunaráætlun og hann hefði fengið meiri stuðning en aðrir nemendur í náminu. Samhliða hafi markvisst verið unnið að því að reyna að byggja upp sjálfstraust hans í því skyni að efla hann í því að taka sjálfstæðar ákvarðanir, sem sé nauðsynlegur eiginleiki í starfi flugumferðarstjóra. Hafi þetta allt verið gert með hliðsjón af fyrri reynslu reyndra kennara í náminu af því að stundum fari nemendur hægt af stað en nái sér svo á strik og verði góðir flugumferðarstjórar. Þá verði einnig að hafa í huga í þessu sambandi að þjálfun hvers og eins nemanda sé gríðarlega kostnaðarsöm fyrir stefnda. Það að vísa nemanda úr námi sé algjört þrautaúrræði enda þýði það tap sem nemi kostnaði við þjálfun nemandans fram að því. Með hliðsjón af þessu hafi stefnandi fengið að halda áfram námi lengur en ella þrátt fyrir að hafa í raun ekki náð þeim lágmarkskröfum sem gerðar hafi verið til áframhaldandi náms. Í þriðja og síðasta áfanga námsins hafi stefnandi enn verið að gera alvarlegar villur. Á þeim tíma í náminu sé gert ráð fyrir því að nemandi geti unnið nánast sjálfstætt við flugumferðarstjórn og kennari fylgist aðeins með. Þannig hafi staðan ekki verið hjá stefnanda. Þann 11. desember 2009 hafi því verið haldinn stöðufundur hjá þjálfunardeild um stöðu stefnanda og eftir mat á heildarframmistöðu stefnanda í námi hafi verið talið ljóst að hann myndi ekki ná að ljúka námi með fullnægjandi hætti og þar af leiðandi væri ekki réttlætanlegt að hann héldi áfram námi. Nýr kennari hefði að mati stefnda engu breytt um það. Stefndi telji að fyllsta meðalhófs hafi verið gætt enda hafi ákvörðun um brottvísun úr námi ekki verið tekin fyrr en önnur úrræði hafi verið fullreynd. Ljóst hafi verið frá upphafi að nám stefnanda hafi ekki gengið vel. Honum hafi ítrekað verið gerð grein fyrir námsframvindunni og ítrekað gefinn kostur á að taka sig á í náminu. Stefnanda hafi verið fullkunnugt um að þrátt fyrir að hann hefði náð prófum í 1. og 2. áfanga, hefði hann ekki náð lágmarks árangri í verklegum æfingum. Stefnda hafi hins vegar verið ljós sú afstaða hans að hann vildi halda áfram námi. Ekkert komi fram í stefnu um að rangar upplýsingar hafi legið fyrir við töku umræddrar ákvörðunar, upplýsingar sem stefnandi hefði getað leiðrétt. Því sé mótmælt, sem fram komi í stefnu, að stefnandi hafi staðist allar verklegar æfingar og verið yfir lágmarks meðaltali í æfingum. Ekkert komi fram í stefnu um hvaða upplýsingar um málsatvik hafi skort að mati stefnanda, til að stefnda hefði verið unnt að taka ákvörðun í málinu. Öll gögn hafi legið fyrir varðandi frammistöðu stefnanda í náminu og þjálfunardeild hafi metið þau heildstætt áður en ákvörðunin hafi verið tekin. Ekki verði því séð að frekari andmæli stefnanda hefðu haft einhverja þýðingu í þessu sambandi. Þá hafni stefndi því alfarið að rökstuðningi með frávísun úr námi hafi verið áfátt. Stefnanda hafi verið gerð grein fyrir ástæðum frávísunar strax. Auk þess hafi stefnanda verið boðið að koma til ítarlegra viðtals við stefnda þegar hann hefði jafnað sig. Stefnandi hafi ekki þegið það boð sjálfur en hins vegar sent móður sína og unnustu sem fengið hafi skýringar og spurningum þeirra hafi jafnframt verið svarað. Greinargerð hafi verið tekin saman fyrir þann fund en um sé að ræða samantekt á athugasemdum kennara og starfsþjálfara yfir allan námsferil stefnanda hjá stefnda. Lögmaður stefnanda hafi einnig síðar komið á fund stefnda og fengið sömu skýringar. Það hafi því enginn skortur verið á rökstuðningi ákvörðunar stefnda. Samkvæmt 2. tl. 2. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 39/1993 sé stjórnvöldum ekki skylt að veita rökstuðning þegar um sé að ræða einkunnir sem veittar séu fyrir frammistöðu á prófum. Oftast eigi nemendur bara rétt á munnlegum skýringum kennara. Telji stefndi að útilokað sé að frekari kröfur séu gerðar til hans, sem hlutafélags, hvað þetta varði, en til stjórnvalda samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga. Stefnanda hafi ítrekað verið gerð grein fyrir því í viðtölum hans og umsjónarkennara hans, að frammistaða hans í náminu væri áhyggjuefni og verulega úrbótavant. Þegar stefnanda hafi verið tilkynnt um ákvörðun þjálfunardeildar um að víkja honum úr námi hafi honum jafnframt verið gerð grein fyrir því af hverju sú ákvörðun var tekin. Stefnanda hafi því átt að vera fullljóst hvaða sjónarmið hafi legið að baki umræddri ákvörðun. Stefndi telji þá skyldu sem kveðið sé á um í B-hluta viðauka II í reglugerð nr. 404/2008, um að innlend eftirlitsyfirvöld skulu koma á áfrýjunarkerfi til að tryggja að umsækjendur fái sanngjarna meðferð, hvíli samkvæmt orðanna hljóðan á innlendum eftirlitsyfirvöldum en ekki á stefnda. Sú skylda sé því stefnda óviðkomandi. Stefndi telji hins vegar, og byggi á því, að það að slíku kerfi hafi ekki verið komið á fót þegar atvik þessa máls urðu, breyti engu um að umrædd ákvörðun hafi verið tekin á lögmætan, málefnalegan og hlutlausan hátt. Stefndi vísi á bug þeirri málsástæðu stefnanda að ákvörðun um að vísa stefnanda úr námi hafi verið ólögmæt á grundvelli almennra reglna samninga- og kröfuréttar. Stefndi hafi haft réttmæta ástæðu til þess að vísa stefnanda úr námi og hafi það jafnframt átt sér stoð í þjálfunaráætlun og verið þannig hluti af samningi aðila. Krafa um skaðabætur í formi fjárkröfu Stefndi krefjist sýknu af fjárkröfu stefnanda. Grunnskilyrði skaðabótaábyrgðar, þ. á m. um ólögmæti og saknæmi, geti ekki talist uppfyllt eins og hér standi á. Þá hafi stefnandi hvorki sýnt fram á hvert tjón hans eigi að vera né að orsakasamhengi sé á milli þess og ákvörðunar stefnda um að vísa honum úr námi. Skilyrði skaðabótaábyrgðar að þessu leyti séu því heldur ekki uppfyllt í málinu að mati stefnda. Meintu ófjárhagslegu tjóni stefnanda, í formi miska, sé jafnframt mótmælt, og þá ekki hvað síst um fjárhæð, auk þess sem því sé almennt mótmælt að skilyrði miskabótakröfu geti talist uppfyllt yfirhöfuð. Engar ávirðingar hafi verið bornar á stefnanda heldur hafi verið um að ræða óvilhallt og hlutlaust mat starfsþjálfara og þeirra sem að námi stefnanda hafi komið. Þá sé því alfarið mótmælt af hálfu stefnda sem órökstuddu og ósönnuðu að stefnandi hafi sætt einhvers konar einelti af hálfu starfsþjálfara síns, líkt og haldið sé fram í stefnu. Þvert á móti hafi í lengstu lög verið reynt að halda stefnanda í náminu, með þeim ráðum sem stefnda hafi verið tiltæk. Það að stefnanda hafi verið vísað úr námi hjá stefnda geti ekki sjálfkrafa leitt til þess að um ólögmæta meingerð gagnvart stefnanda hafi verið að ræða. Ljóst megi vera miðað við öll atvik málsins að engar slíkar hvatir eða ástæður hafi legið að baki ákvörðun stefnda, sem leitt gætu til þess að ákvörðun stefnda teldist ólögmæt meingerð gegn stefnanda. Viðurkenningarkröfu stefnanda sé jafnframt sérstaklega andmælt, sbr. fyrri umfjöllun til stuðnings frávísunarkröfu, að breyttu breytanda. Stefndi bendi jafnframt á að ekkert liggi fyrir um að stefnandi hafi verið útilokaður frá námi í flugumferðarstjórn um aldur og ævi. Hann hafi ekki staðist þær kröfur sem gerðar hafi verið í náminu en hvergi sé kveðið á um að menn geti ekki reynt aftur við námið. Hægt sé að afla sér slíkra réttinda erlendis, og það nám sé jafngilt námi hjá stefnda. Hins vegar þyrfti þá til viðbótar sérstaka þjálfun á starfssvæði stefnda. Því sé alfarið mótmælt að ákvörðun stefnda hafi „útilokað hann frá frekara háskólanámi“ þar sem hann hafi ekki átt rétt á frekari námslánum. Það sé engin almenn forsenda fyrir því að stunda háskólanám að tekin séu námslán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Ekki taki allir háskólanemar slík lán og fjölmargir stundi nám með vinnu. Þá liggi ekkert fyrir um að stefnandi eigi ekki frekari lántökurétt hjá Lánasjóðnum. Stefndi telji ástæðu til að mótmæla sérstaklega þeim fullyrðingum í stefnu er lúti að einum af kennurum stefnda sem ómaklegum og jafnvel meiðandi. Kennarar á vegum stefnda reyni eftir fremsta megni að aðstoða og styðja nemendur sína í því skyni að auka hæfni þeirra og sjálfsöryggi. Markmiðið sé alltaf fyrst og fremst að nemendur verði hæfir flugumferðarstjórar.  Það sé harmað að persóna eins kennarans skuli með þessum hætti dregin inn í málatilbúnað stefnanda en slíkt geti orðið til þess að hæfir og góðir kennarar stefnda hörfi frá kennslu. Niðurstaða Í máli þessu er um það deilt hvort brottvísun stefnanda úr þjálfunarnámi til flugumferðarstjóra hafi bakað stefnda skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda. Annars vegar gerir stefnandi kröfu um greiðslu skaðabóta og miskabóta og hins vegar gerir hann kröfu um að viðurkennd verði ábyrgð stefnda á fjártóni hans til framtíðar. Krafa stefnanda um viðurkenningu á skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda vegna tekjumissis út starfsævina er byggð á 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Stefndi krefst þess aðallega að þessari kröfu verði vísað frá dómi, en til vara sýknu. Samkvæmt ítrekuðum dómafordæmum Hæstaréttar er það forsenda þess að slík krafa sé dómtæk að leiddar séu nægilegar líkur að því að krefjandi hafi orðið fyrir tjóni, hann geri grein fyrir því í hverju tjónið felist og hver tengsl þess séu við ætlað skaðaverk. Í stefnu er því haldið fram að frávísun stefnanda frá starfsþjálfun í flugumferðarstjórn hafi útilokað hann frá frekara háskólanámi, því er haldið fram að sá munur sem sé á launum stefnanda nú og ótilgreindum launum flugumferðarstjóra sé fjártjón sem hann muni bera út starfsævina og því er loks haldið fram að tekjur hans og starfsöryggi væru meiri nú ef hann hefði lokið námi sínu sem flugumferðarstjóri. Þessar fullyrðingar eru engum gögnum studdar öðrum en skattframtölum stefnanda sjálfs og upplýsingum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna, en þau gögn færa engar sönnur að því sem haldið er fram. Fallast ber á það með stefnda að í stefnu var ekki gerð grein fyrir kröfunni og grundvelli hennar þannig að fullnægt væri d- og e-liðum 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, og áskilnaði 2. mgr. 25. gr. laganna um viðurkenningardóm. Stefnandi leiddi við höfðun málsins ekki nægilegar líkur að því að brotthvarf hans úr náminu muni valda honum fjártjóni til framtíðar, og gerði ekki nægilega grein fyrir því í hverju það felist og tengslum þess við háttsemi stefnda, til þess að leggja megi efnisdóm á viðurkenningarkröfu hans. Þegar af þeirri ástæðu er fallist á aðalkröfu stefnda um þessa kröfu og verður henni vísað frá dómi. Um þá starfsemi stefnda sem mál þetta er sprottið af fer samkvæmt lögum nr. 60/1998 um loftferðir, en stefndi hefur fengið heimild stjórnvalda til þjálfunar flugumferðarstjóra á grundvelli 28. gr. b í lögunum. Ráðherra setur samkvæmt lögunum reglugerð um slíka vottun eða viðurkenningu, um framkvæmd kennslu, þjálfunar og prófana, og um menntun og hæfni kennara og þeirra er annast prófanir. Nú gilda um þetta efnisreglur reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 805/2011, sem innleidd er með 7. gr. reglugerðar nr. 1044/2013, sbr. áður reglugerð nr. 404/2008. Vottun eða viðurkenning er veitt að fullnægðum skilyrðum laganna og reglugerða settum samkvæmt þeim, en taka má vottun eða viðurkenningu aftur ef aðili fullnægir eigi þeim kröfum og skilyrðum sem fyrir starfseminni eru sett. Þessi starfsemi stefnda er þannig bæði háð starfsleyfi og eftirliti stjórnvalda. Mælt var fyrir um það í B-hluta viðauka II í þágildandi reglugerð nr. 404/2008, að samþykktir prófdómarar eða matsmenn skuli meta tilskilda fagþekkingu með viðeigandi prófunum eða símatskerfi og vera óvilhallir og hlutlausir í mati sínu, en til þess að tryggja að umsækjendur fái sanngjarna málsmeðferð skyldu eftirlitsyfirvöld koma á áfrýjunarkerfi. Þegar stefnanda var vísað úr námi hjá stefnda hafði slíku áfrýjunarkerfi ekki verið komið á fót og var það ekki gert fyrr en undir lok ársins 2012. Þá var unnt að skjóta máli til Flugmálastjórnar Íslands, en Samgöngustofa hefur nú tekið við hlutverki hennar. Stefnandi hafði leitað til Flugmálastjórnar Íslands, umboðsmanns Alþingis og innanríkisráðuneytisins með kvörtun sína vegna ákvörðunar stefnda, svo sem rakið er í kafla um málsatvik hér að framan. Af þeim drætti sem varð á því að stjórnvöld kæmu slíku áfrýjunarkerfi á fót hafði stefnandi óhagræði, en fallast ber á það með stefnda að á því óhagræði ber stefndi ekki ábyrgð. Það var verkefni lögbærra yfirvalda, að koma á fót viðeigandi áfrýjunarkerfi í samræmi við þágildandi reglugerð, sbr. nú reglugerð nr. 1044/2013, sbr. g-lið 2. mgr. 22. gr. og II. viðauka reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 805/2011. Áfrýjunarnefnd Samgöngustofu veitti þann 30. ágúst 2013 álit sitt í tilefni af kvörtun stefnanda. Var það niðurstaða nefndarinnar, sem ekki hefur verið hnekkt af æðra stjórnvaldi, að mat stefnda á námsárangri stefnanda hafi verið óvilhallt og hlutlaust. Málavextir eru ítarlega raktir í sérstökum kafla hér að framan og vísast til þess sem þar kemur fram, m.a. um árangur stefnanda í verklegum æfingum á námstímanum. Stefnandi heldur því fram í málinu að hann hafi náð 80% árangri í verklegum æfingum og því staðist þær kröfur sem settar eru í samþykktri þjálfunaráætlun, en stefndi mótmælir því að það sé rétt. Í málatilbúnaði stefnanda er aðeins vísað til meðalfjölda stiga því til stuðnings að stefnandi hafi skilað viðunandi árangri. Þá er ekki tekið tillit til þess að tilteknar villur í verklegum æfingum, ein „sep loss“ villa eða tvær „technical“ villur, valda sjálfkrafa falli í æfingu samkvæmt reglum stefnda um einkunnagjöf. Um það var stefnanda kunnugt samkvæmt framburði hans fyrir dóminum. Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins og vitnisburði fyrir dóminum stóðst stefnandi því ekki umræddar kröfur. Þeirri málsástæðu að stefnandi hafi staðist þær kröfur sem settar eru um verklegar æfingar í þjálfunaráætlun fyrir námið verður, að virtum gögnum málsins, að hafna. Stefnandi krefst skaðabóta úr hendi stefnda og telur stefnandi skaðabótaskyldu hafa stofnast þegar stefndi hafi vikið honum með ólögmætum og saknæmum hætti úr starfsnámi. Telur stefnandi sig hafa við það orðið fyrir fjártjóni og miska sem rekja megi beint til háttsemi stefnda og sé sennileg afleiðing hennar. Stefnandi, sem ber sönnunarbyrði fyrir því að skilyrði bótaábyrgðar séu fyrir hendi, vísar um ólögmæti og saknæmi háttsemi stefnda einkum til þess að stefndi hafi við meðferð máls hans brotið gegn fyrirmælum stjórnsýslulaga og almennum reglum stjórnsýsluréttar. Stefnandi heldur því fram að ákvörðunin hafi verið fyrirvaralaus og að honum hafi ekki gefist kostur á að tala máli sínu áður en ákvörðun var tekin. Málið hafi ekki verið nægilega upplýst, ákvörðunin ekki nægilega rökstudd og brotið hafi verið gegn lögmætisreglu og reglu um meðalhóf. Í þessu sambandi er til þess að líta að samkvæmt 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 taka þau til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og gilda þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Stefndi er opinbert hlutafélag. Í almennum athugasemdum við frumvarp sem varð að lögum nr. 90/2006 og breytti lögum nr. 2/1995 um hlutafélög að því er varðar opinber hlutafélög, er ráðagerð um að ákvæði stjórnsýslulaga eigi ekki að gilda „formlega um opinber hlutafélög“. Þótt ákvæði stjórnsýslulaga gildi samkvæmt framansögðu ekki „formlega“ um opinber hlutafélög getur það, hvernig staðið var að ákvörðun stefnda um að vísa stefnanda úr námi, haft áhrif þegar metið er hvort háttsemi stefnda hafi verið ólögmæt og saknæm þannig að bótaskylda stofnist. Gera verður þá kröfu að stefndi beiti heimildum sínum samkvæmt starfsleyfi með forsvaranlegum hætti og viðhafi vandaða málsmeðferð við ákvörðun sem varðar nemanda svo miklu. Við mat á því hvort vandað hafi verið til meðferðar máls verður almennt að líta til meginreglna stjórnsýsluréttarins. Gögn málsins bera það með sér að ákvörðun stefnda hafði langan aðdraganda, rætt hafði verið ítrekað við stefnanda um stöðu hans í náminu og stefnanda mátti vera ljóst að hann stóðst ekki lágmarkskröfur í verklegum æfingum. Þá liggur fyrir að stefnandi hafði notið sérstakrar aðstoðar við verklegar æfingar í fyrsta áfanga í öðrum hluta námsins (NW), sem hann fékk að hefja þótt árangur hans í verklegum æfingum í fyrsta hlutanum (OCN) hafi ekki verið fullnægjandi. Verður því ekki annað séð en að meðalhófs hafi verið gætt að því er stefnanda varðar. Stefnanda mátti vera ljóst að bætti hann ekki frammistöðu sína gæti það leitt til þess að hann fengi ekki að ljúka þjálfuninni. Þetta var honum sérstaklega kynnt í viðtali 18. nóvember 2009, þar sem honum var gerð grein fyrir alvöru málsins og því að til þess að hann gæti lokið náminu þyrfti að verða virkileg breyting á. Þá stóðu yfir verklegar æfingar í öðrum áfanga NW-námsins, þar sem stefnandi náði aðeins 10 af 14 æfingum sem gefin var einkunn fyrir, sem er 71% árangur, en lágmarkskrafa er 80%. Á annarri vakt sinni með starfsþjálfara í þriðja áfanga NW-námsins mun stefnandi hafa gert sex tilgreindar villur, sem þóttu svo alvarleg mistök miðað við það hve langt stefnandi væri kominn í þjálfuninni, að haldinn var fundur í þjálfunardeild um stöðu hans 11. desember 2009. Um frammistöðu sína, frá því að honum var kynnt alvara málsins í viðtalinu 18. nóvember s.á., mátti stefnanda vera fullkunnugt og það hvaða afleiðingar það hefði að frammistaðan hafði ekki batnað. Hafði stefnandi þá fullt tilefni til að koma því á framfæri í andmælaskyni ef hann teldi að eitthvað annað en frammistaða hans í náminu gæti haft áhrif á ákvörðun um framhald náms hans. Stefnandi heldur því fram að mat starfsþjálfara hans hafi ekki verið óvilhallt og hafi ekki gefið rétta mynd af frammistöðu hans. Til þess er að líta að fyrir fundi þjálfunardeildar 11. desember 2009 lágu niðurstöður verklegra æfinga stefnanda og skjámynd af vinnustöð hans frá starfsþjálfara. Í ljósi þeirra gagna sem fyrir lágu verður ekki séð að huglægt mat starfsþjálfarans á hæfi stefnanda hafi ráðið þeirri samhljóða niðurstöðu fundarins, eftir rækilega athugun alls sem varðaði nám hans, að vonlaust væri að hann næði að ljúka námi með fullnægjandi hætti og að ekki væri réttlætanlegt að hann héldi náminu áfram. Að öllu þessu virtu verður ekki fallist á að brotið hafi verið gegn meginreglum stjórnsýsluréttar um andmælarétt og rannsókn máls við ákvörðun í máli stefnanda. Stefnandi heldur því fram að kröfu hans um rökstuðning fyrir ákvörðuninni hafi verið hafnað og að það hafi ekki verið fyrr en þremur og hálfu ári eftir að stefnanda hafi verið kynnt ákvörðunin, sem stefndi hafi lagt fram greinargerð vegna málsins. Upplýst þykir að stefnanda var boðið að koma til fundar deildarstjóra þjálfunardeildar, hvenær sem væri eftir brottvísunina til að ræða hana og rúmum mánuði síðar var honum sérstaklega boðið til fundar til þess að kynna sér forsendur hennar og fá svör við spurningum sínum. Móðir stefnanda og unnusta hans mættu til þess fundar, en stefnandi upplýsti fyrir dóminum að hann hefði ekki treyst sér til hans sjálfur. Á fundinum var greinargerð stefnda um feril stefnanda í þjálfuninni kynnt, en hún hafði verið tekin saman sérstaklega af því tilefni. Stefnandi átti því kost á ítarlegum rökstuðningi eftir að honum hafði verið kynnt ákvörðun stefnda. Flugmálastjórn Íslands, nú Samgöngustofa, samþykkti þjálfunaráætlun í samræmi við fyrirmæli reglugerðar, sem styðst við ákvæði laga um loftferðir, nr. 60/1998. Það úrræði, að vísa megi nema úr starfsnámi sem ekki telst hæfur samkvæmt samhljóða áliti kennara þjálfunardeildar, sem kveðið er á um í slíkri samþykktri þjálfunaráætlun, er því úrræði sem á sér stoð í lögum og því er hafnað þeirri málsástæðu stefnanda að ákvörðun stefnda hafi brotið gegn lögmætisreglu. Af gögnum málsins um námsferil stefnanda verður ekki annað ráðið en að kennarar þjálfunardeildar hafi fylgt samþykktri þjálfunaráætlun við starfsþjálfun hans og að þeir hafi beitt málefnalegu mati á hæfi hans í samræmi við frammistöðu hans og fylgt tilsettum skilyrðum og viðeigandi málsmeðferðarreglum við beitingu þess úrræðis að víkja honum úr náminu. Fyrir dóminum hefur stefnandi freistað þess að sýna fram á að mat á námsferli hans hafi ekki verið óvilhallt og hlutlaust. Stefnanda hefur ekki tekist sú sönnunarfærsla að mati dómsins. Stefnandi hefur ekki leitt sönnur að því að stefndi hafi með ólögmætum og saknæmum hætti vikið stefnanda úr námi. Ber þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af kröfum stefnanda um skaðabætur og miskabætur. Með vísan til 1. mgr. og 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber í ljósi niðurstöðu málsins að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, eins og greinir í dómsorði. Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð
Mál nr. 30/2015
Flutningssamningur Farmskírteini Vátrygging Endurkrafa
S ehf. fékk greiddar bætur úr farmtryggingu hjá V hf. á grundvelli tjóns af völdum þess að kjötvara, sem J hf. flutti til landsins fyrir S ehf. á grundvelli flutningssamnings, var ekki geymd í kæligeymslu við komu hennar til landsins. V hf. höfðaði mál á hendur J hf. og krafðist greiðslu á grundvelli 1. mgr. 22. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 vegna þeirra bóta sem hann hefði innt af hendi til S ehf. vegna skemmda á kjötvörunni meðan hún var í vörslum J hf. V ehf. byggði á hlutlægri ábyrgðarreglu 1. mgr. 105. gr. loftferðalaga nr. 60/1998, en talið var sú regla kæmi ekki til álita við úrlausn málsins þar sem óumdeilt var að tjónið hefði ekki átt sér stað við loftflutning. V hf. reisti kröfu sína einnig á því að tekja mætti tjónið til rangrar og ófullnægjandi geymslu í vöruhúsi J hf. umrætt sinn og því bæri J hf. skaðabótaábyrgð á tjóninu gagnvart V hf. eftir almennum reglum skaðabótaréttar og sérreglum um skyldur og ábyrgð geymslumanns. Talið var að J hf. hefði samkvæmt flutningssamningnum verið skylt að haga flutningi og geymslu kjötvörunnar þannig að hún yrði ekki fyrir skemmdum af völdum starfsmanna hans og að við meðferð vörunnar hafi J hf. fyrst og fremst borið að fara eftir því sem fram kom á farmbréfi. Ekki var talið að lýsing vörunnar í farmbréfi hefði verið nægileg til þess að J hf. hefði mátt gera sér ljóst að geyma yrði vöruna í kæli. Þá lægi ekki fyrir að hlutaðeigandi vörubretti hefði verið merkt þannig að varan sem á þeim væri skyldi sett í kæligeymslu. Loks var talið ósannað að meðferð J hf. á matvælunum hefði, að þessu gættu, falið í sér brot á lögum nr. 93/1995 um matvæli eða reglum settum samkvæmt þeim. Var J hf. því sýknað af kröfu V hf.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Viðar Már Matthíasson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. janúar 2015 og krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur um annað en málskostnað sem verði felldur niður á báðum dómstigum. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október 2014. I.          Mál þetta, sem var dómtekið 3. október sl., er höfðað 30. september 2013 af Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3 í Reykjavík, gegn Jónar Transport hf., Kjalarvogi 7 til 15 í Reykjavík.          Stefnandi gerir þá kröfu að stefndi greiði sér 1.726.360 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. og 1. mgr. 6. gr., sbr. 11. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. janúar 2013 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.          Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda auk málskostnaðar. Til vara krefst stefndi verulegrar lækkunar á kröfum stefnanda og að málskostnaður verði felldur niður. II.          Málavextir eru þeir að 7. febrúar 2011 gerðu stefndi og Sælkerinn ehf. með sér sérstakan flutningasamning þar sem stefndi tók að sér að sjá um heildarflutningaþjónustu til og frá landinu á aðföngum og sölu- og framleiðsluvörum Sælkerans ehf. Í samningnum var meðal annars kveðið á um að Sælkerinn ehf. ábyrgðist að upplýsingar sem hann gæfi starfsmönnum stefnda væru réttar og sannar. Í samningnum sagði að flutningsgjöld og flutningsskilmálar miðuðust við „Incoterms 2010“, almenna flutningaskilmála sem fram kæmu í farmbréfum eða farmskírteinum og „skilmála flutningasviðs SVÞ (Samtök verslunar og þjónustu) nema þegar annað er tilgreint eins og við landflutninga eða aðra flutninga erlendis“.          Í nóvember 2012 annaðist stefndi flutning á kjötvöru á fimm vörubrettum með flugi frá Barcelona á Spáni. Á flugfarmbréfi kemur fram að sendandinn sé spænskt félag, Embotits Calet S.L., og að móttakandi þeirra sé Sælkerinn ehf. Þar var vörunni lýst með eftirfarandi hætti: „COLD MEATS (SERRANO HAM/CHORIZO) 3PX-120X80X158 1P-120X80X129 1P-120X80X80CM? Vol: 6,6340 m³.“ Í reit þar sem gert var ráð fyrir að flutningsfyrirmæli (e. Handling information) væru skráð stendur í farmbréfinu: „EXW FREIGHT COLLECT AS AGREED“. Ágreiningur er milli aðila hvort og þá hvernig brettin hafi verið merkt, sérstaklega með tilliti til þess hvort þeim ætti að koma fyrir í kæligeymslu. Aðilar virðast þó sammála um að slík merking hafi verið á einu brettanna.          Vörurnar voru fluttar með flugfrakt til Keflavíkurflugvallar. Stefndi annaðist flutning vörusendingarinnar frá flugvellinum og kom henni fyrir í geymslu í vöruhúsi stefnda í Reykjavík. Eitt bretti, sem virðist hafa verið sérstaklega merkt, mun hafa verið sett í kæligeymslu, en fjórum var komið fyrir á ókældum stað í vöruhúsinu.          Stefndi sendi Sælkeranum ehf. tilkynningu um sendinguna 21. nóvember 2012 þar sem þess var getið að um væri að ræða „COLD MEATS“. Stefndi annaðist enn fremur gerð tollskýrslu, dags. 21. nóvember 2012, vegna innflutningsins. Þar var vörunni lýst sem „PARMASKIN“ og „SALAMI“ og vörurnar flokkaðar í tollflokka fyrir annars vegar beinlaust kjöt og hins vegar pylsur.          Mánudaginn 26. nóvember 2012 mun starfsmaður Sælkerans ehf. hafa ætlað að sækja kjötið. Þar sem fjögur bretti höfðu ekki verið geymd í kæligeymslu neitaði starfsmaðurinn að taka við vörunum. Hinn 27. sama mánaðar fyllti starfsmaður stefnda út tjónaskýrslu (e. Damage, Loss or Pilferage Report). Þar kemur fram að vörurnar, sem ekki voru geymdar í kæligeymslu, væru ónothæfar (e. „CONTAIN ON THESE FOUR PLL CAN NOT BE USED OR SOLD“). Þess var jafnframt getið í skýrslunni að hvergi hafi komið fram að geyma ætti vörurnar á köldum stað. Tjónaskýrsla þessi mun hafa verið send stefnanda.          Í framhaldi af þessu var óskað eftir því við tollstjóra að vörunum yrði fargað. Þar sem þær hefðu verið fluttar inn „á tollkvóta“ var jafnframt óskað eftir því að hann yrði notaður fyrir nýja sendingu sem væri á leiðinni. Stefndi mun hafa fargað vörunum undir eftirliti tollstjóra.          Sælkerinn ehf. var með farmtryggingu hjá stefnanda. Stefnandi greiddi félaginu bætur 4. desember 2012 vegna tjónsins. Námu bæturnar „samkvæmt mati“ 1.776.360 krónum, en Sælkerinn ehf. var látinn bera 50.000 krónur í eigin áhættu. Greiddar skaðabætur námu því 1.726.360 krónum.          Með bréfi 4. desember 2012 fór stefnandi fram á að stefndi greiddi honum þá fjárhæð sem félagið hafði greitt Sælkeranum ehf. í bætur. Þar var því haldið fram að varan hefði verið „mishöndluð og því geymd við rangt hitastig í vöruhúsi“ stefnda. Í ódagsettu svari stefnda var endurkröfunni hafnað þar sem hvergi hafi komið fram í gögnum frá sendanda að „um hitastýrða vöru“ væri að ræða, nema á einu bretti af fimm.          Stefnandi áréttaði ætlaða endurkröfu sína með bréfi 31. janúar 2013 og rökstuddi kröfugerð sína. Í svarbréfi 15. febrúar sama ár kom fram að afstaða stefnda væri óbreytt. Lögmaður stefnanda ítrekaði kröfuna að nýju með bréfi 14. júní 2013. Kröfunni var hafnað með bréfi lögmanns stefnda 12. júlí 2013. III. 1. Málsástæður og lagarök stefnanda          Stefnandi byggir á því að félagið hafi greitt Sælkeranum ehf. bætur að fjárhæð 1.726.360 krónur vegna tjóns á kældu kjöti á grundvelli farmtryggingar félagsins hjá stefnanda samkvæmt vátryggingarskírteini nr. 4864756 frá 10. júní 2013. Samkvæmt 22. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 öðlist stefnandi rétt Sælkerans ehf. á hendur stefnda að svo miklu leyti sem hann hefur greitt félaginu bætur. Með vísan til þess telur stefnandi sig hafa öðlast endurkröfurétt á hendur stefnda vegna tjóns á kjötinu. Byggir stefnandi aðild sína að málinu á framangreindum atvikum.          Stefnandi telur sannað að tjónið hafi átt sér stað meðan kjötið var í vörslu stefnda. Vísar hann þar til viðurkenningar stefnda á því að hann hafi geymt fjögur bretti með umræddu kjöti í hillum í vöruhúsi sínu án kælingar, eins og fram komi í tjónaskýrslu stefnda. Þá liggi fyrir mat stefnda í sömu skýrslu að ekki sé unnt að nota kjötvörur á þessum fjórum brettum og selja vörurnar. Það sé því viðurkennt og óumdeilt að kælda kjötið hafi ekki verið geymt við lögbundið hitastig í vöruhúsi stefnda og að það hafi orðið fyrir altjóni sökum þess.          Af hálfu stefnanda er vísað til þess að samkvæmt almennum reglum um skyldur og ábyrgð geymslumanns beri honum að varðveita geymsluhlut á þann hátt að hann verði ekki fyrir tjóni. Miðað sé við að geymslumaður skuli varðveita geymsluhlut með sama eða með sambærilegum hætti og ætla megi að góður og gegn maður myndi gera í hans sporum. Í því felist m.a. að honum beri að haga geymslunni í samræmi við lög og venjur. Geymslumaður beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem rekja megi til saknæmrar vanrækslu hans eða manna sem hann beri ábyrgð á samkvæmt almennum reglum.          Stefnandi vísar til 13. gr. laga um matvæli nr. 93/1995 til stuðnings kröfu sinni, en þar segir að matvæli skuli geyma þannig að þau verði ekki fyrir skemmdum eða spillist á annan hátt. Geymsluskilyrði skuli vera í samræmi við ákvæði sem sett séu með reglugerðum um geymslu matvæla. Samkvæmt reglugerð nr. 103/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og -ráðsins (EB) nr. 852/2004 um hollustuhætti sem varða matvæli skuli þau matvæli sem geyma á í kæli eða framreiða köld geymd við 0-4°C, þannig að hitastig þeirra haldist við 0-4°C.          Stefnandi dregur þá ályktun af framangreindu að samkvæmt íslenskum lögum eigi að geyma öll kæld matvæli, þar með talið þau matvæli sem mál þetta snúist um, við 0-4°C. Að öðrum kosti sé hætta á því að sjúkdómsvaldandi örverur fjölgi sér eða myndist í matvælunum sem geti skapað heilbrigðisáhættu.          Með vísan til framangreinds byggir stefnandi á því að stefnda hafi borið að geyma umrætt kjöt, sem hann hafi tekið að sér að flytja fyrir Sælkerann ehf., við 0-4°C án tillits til þess hvort einhver fyrirmæli fylgdu matvælunum um meðferð þeirra, enda hafi stefndi vitað eða mátt vita að um kæld matvæli var að ræða sem meðhöndla ætti í samræmi við framangreindar reglur.          Í því sambandi vísar stefnandi til lýsingar á vörunni í flugfarmbréfi, tilkynningar frá stefnda til Sælkerans ehf. 21. nóvember 2012 og tollskýrslu sem stefndi hafi gert fyrir Sælkerann ehf. sem tollmiðlari, en í öllum þessum gögnum komi skýrt fram að um kælt kjöt sé að ræða (á ensku „COLD MEATS“) og þar af leiðandi matvöru sem háð sé geymslu við ákveðið lögbundið hitastig.          Stefnandi vísar einnig til þess að stefndi sé sérfræðingur í geymslu matvæla. Því hafi félagið mátt vita hvernig geyma ætti kældar kjötvörur auk þess sem stefnandi vísar til venju í viðskiptum þessara aðila, en stefndi hafi margoft tekið að sér að flytja sambærilegar vörur fyrir Sælkerann ehf. áður en þetta tilvik hafi komið upp. Þá verði ekki horft fram hjá því að stefndi hafi tekið að sér að tollflokka kjötið, sem leiði til þess að hann vissi eða mátti vita um hvers konar matvæli væri að ræða.          Með vísan til framangreinds er á því byggt af hálfu stefnanda að rekja megi tjónið á hinu kælda kjöti til rangrar og ófullnægjandi geymslu þess í vöruhúsi stefnda frá 21. til 26. nóvember 2012. Á þessu tjóni beri stefndi skaðabótaábyrgð eftir almennum reglum skaðabótaréttar og þeim sérreglum sem gildi í íslenskum rétti um skyldur og ábyrgð geymslumanns. Samkvæmt því krefst stefnandi þess að stefndi greiði honum 1.726.360 krónur í skaðabætur, en það sé sú fjárhæð sem stefnandi hafi greitt Sælkeranum ehf. í bætur vegna tjónsins.          Sé ekki fallist á framangreinda málsástæðu byggir stefnandi á því að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóninu á grundvelli 105. gr., sbr. 118. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir, enda hafi stefndi tekið að sér sem samningsbundinn flytjandi að flytja matvælin með flugi frá Barcelona til Reykjavíkur og afhenda matvælin í vörumiðstöð sinni í Reykjavík. Í því sambandi sé vísað til ofan- og neðangreindra sjónarmiða stefnanda, eftir því sem við eigi.          Stefnandi mótmælir þeim málsástæðum, sem stefndi hafi teflt fram í bréfaskiptum við stefnanda, sem röngum og ósönnuðum.          Þannig mótmælir hann því að skylda hvíli á sendanda/framleiðanda matvæla að skrá sérstaklega með skýrum hætti flutningsfyrirmæli til handa flytjanda í flugfarmbréf, ef matvælin þurfa sérstaka meðhöndlun og að skortur á slíkum fyrirmælum leiði til þess að flytjandi losni undan þeim skyldum og þeirri ábyrgð sem á honum hvíli samkvæmt lögum og reglum um meðferð og geymslu matvæla. Enga slíka reglu sé að finna í lögum nr. 60/1998 um loftferðir. Þvert á móti mæli loftferðalög fyrir um hlutlæga skaðabótaábyrgð flytjanda á farmi í 105. gr. laganna með nánar tilteknum fjórum undantekningum. Engin af þessum undantekningum eigi við í þessu máli. Stefnandi telur þetta leiða til þess að stefndi beri fulla ábyrgð á tjóninu.          Stefnandi kveður það einnig rangt sem stefndi haldi fram að ekki hafi verið upplýst að vörusendingin innihéldi kældar matvörur. Þá verði allir þeir sem geymi matvæli að fara eftir ákvæðum laga nr. 93/1995 um matvæli og reglum sem sett séu á grundvelli þeirra laga, án tillits til þess hvort þeim hafi verið gefin einhver flutningsfyrirmæli eða hvernig þau séu merkt.          Stefnandi áréttar að samkvæmt 13. gr. laga nr. 93/1995 skuli geyma matvæli þannig að þau verði ekki fyrir skemmdum eða spillist á annan hátt og að geymsluskilyrði skuli vera í samræmi við ákvæði sem sett séu með reglugerðum um geymslu matvæla. Þá segi þar enn fremur að eigandi eða umráðamaður flutningatækis sé ábyrgur fyrir því að tækið uppfylli þær kröfur sem settar séu um flutning matvæla. Af þessum ákvæðum verði ekki annað ráðið að mati stefnanda en að öllum þeim sem flytji og geymi matvæli í tengslum við flutning beri skylda til þess að fylgja þeim reglum sem í gildi séu hér á landi um meðferð og geymsluskilyrði matvæla.          Í ljósi þess að stefndi hafi vitað eða mátt vita að um kældar matvörur væri að ræða telur stefnandi að honum hafi borið samkvæmt 13. gr. laga um matvæli að fara eftir fyrrgreindri reglugerð nr. 103/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og -ráðsins (EB) nr. 852/2004 um hollustuhætti sem varða matvæli, sbr. reglugerð nr. 506/2010. Undan þessari skyldu geti stefndi ekki losnað með því einu að vísa til þess að flytjandi hafi ekki fengið einhver óskilgreind flutningsfyrirmæli eða að varan hafi ekki verið merkt eða pökkuð á einhvern óskilgreindan hátt.          Stefnandi mótmælir því alfarið sem ósönnuðu að hið kælda kjöt hafi ekki verið í viðeigandi umbúðum og að venja sé að nota einhverjar aðrar umbúðir utan um þessi matvæli.          Þá bendir stefnandi á að stefndi gefi sig út fyrir að vera sérfræðingur í flutningum og geymslu, enda reki hann umfangsmikla flutninga- og geymslustarfsemi, þar með talið sérstaka kæligeymslu. Slíkur sérfræðingur eigi að vita að þegar hann tekur við matvælum sem séu merkt sem kælivara verði að meðhöndla þau í samræmi við gildandi lög og reglur.          Í þessu sambandi leggur stefnandi áherslu á að stefndi hafi séð um að tollafgreiða kjötvörurnar sem tollmiðlari og þar með ákveðið hvaða tollflokkum þær tilheyrðu. Slík ákvörðun kalli eðli málsins samkvæmt á rannsókn á vörunni og þar af leiðandi innihaldi vörusendingarinnar. Stefndi hafi því vitað fullvel að um kælivöru væri að ræða sem geyma hafi átt við 0 til 4°C eins og lög og reglur mæli fyrir um.          Af hálfu lögmanns stefnda hafi einnig komið fram að eitt bretti af fimm hafi verið merkt með litlum miða (kælivara) og hafi hann því reiknað með því að önnur bretti þyrftu enga sérstaka meðhöndlun. Stefandi kveður þessa fullyrðingu ekki studda neinum gögnum og mótmælir henni sem ósannaðri. Sé þetta hins vegar rétt telur stefnandi ljóst að ganga verði út frá því að einhver á vegum stefnda hafi merkt þetta eina bretti á þennan hátt, enda hafi enginn á vegum Sælkerans ehf. komið nálægt þessum fimm brettum meðan á flutningi þeirra stóð. Þá telur stefnandi óskiljanlegt hvernig stefndi hafi komist að þeirri niðurstöðu að hin brettin, sem merkt hafi verið „store in a cool and dry place“, hafi ekki átt að geyma á sama hátt og það bretti sem merkt hafi verið sem kælivara, sérstaklega þegar haft sé í huga að öll skjöl sem gefin hafi verið út vegna allra fimm brettanna hafi borið það með sér að kælt kjöt væri á öllum fimm brettunum. Að sjálfsögðu hefði það átt að leiða til þess að þau fengju öll sömu meðferð.          Um stefnukröfuna segir í stefnu að á vörureikningi komi fram að altjón hafi orðið á matvörum sem lýst væri í átta fyrstu liðum reikningsins. Þá hafi orðið altjón á hluta vöru sem lýst sé í lið númer níu á reikningnum eða 38,83 kg af 68,83 kg. Um sé að ræða tjón á eftirtöldum vörum:          Samkvæmt þessu sé verðmæti hinnar skemmdu vöru 6.847,66 evrur. Við uppgjör bóta til Sælkerans hafi verið miðað við gengi evru í reit 21 í tollskýrslu, þ.e. 235,8286 krónur auk 10% vegna hagnaðartaps eða nánar tiltekið: 6.847,66 EUR x gengi 235,8286 x 10% hagnaðartap = 1.776.361 kr.          Eins og fram komi á tjónskvittun hafi verið miðað við að verðmæti vörunnar væri 1.776.360 krónur og að frádreginni eigin áhættu Sælkerans ehf. að fjárhæð 50.000 kr. hafi stefnandi greitt Sælkeranum ehf. 1.726.360 kr. í bætur vegna tjónsins. Stefnukrafan sé byggð á þeirri fjárhæð.          Stefnandi kveður dráttarvaxtakröfu sína reista á 9. gr. og 1. mgr. 6. gr., sbr. 11. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Upphafstími dráttarvaxta, 4. janúar 2013, sé miðaður við mánuð eftir að upplýsingar um tjónsatvik og fjárhæð bóta hafi verið lagðar fram með bréfi 4. desember 2012. Þá sé krafa um málskostnað reist á 129. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 2. Málsástæður og lagarök stefnda          Stefndi kveðst ekki mótmæla aðild stefnanda sem hafi greitt Sælkeranum ehf. hið meinta tjón. Stefndi tekur þó fram að sú vernd sem farmtryggingar tryggingarfélaga veiti viðskiptavinum þeirra sé almennt meiri en sú sem farmeigendur eigi gagnvart farmflytjanda. Tryggingarfélag öðlast eðlilega aldrei meiri rétt en sá sem félagið leiði rétt sinn frá.          Stefndi reisir sýknukröfu sýna á því að hann hafi hagað meðferð farmsins að öllu leyti eðlilega meðan hann hafi verið í hans vörslum og að hann hafi sinnt geymslumannsábyrgð sinni í samræmi við samning aðila þar að lútandi. Þurfi vara einhverja sérstaka meðhöndlun hvíli að hans sögn sú skylda á sendanda/móttakanda hennar að upplýsa farmflytjanda um það, þ.e. að veita fullnægjandi fyrirmæli um geymslu vörunnar. Það eigi t.d. við ef varðveita á vöruna við ákveðið hitastig. Í þessu sambandi bendir stefndi á að það hafi verið sendanda sem framleiðanda ljóst sem og móttakanda sem kaupanda að vörusendingin yrði geymd í vöruhúsi stefnda.          Stefndi byggir á því að þar sem stefnandi hafi ekki látið fylgja vörunni nein flutningsfyrirmæli verði hann sjálfur að bera ábyrgð á hinu meinta tjóni sínu. Umrædd vara hafi verið flutt og varðveitt með almennum og hefðbundnum hætti í vöruhúsi stefnda. Stefndi hafi margoft flutt sambærilegar vörur fyrir stefnda, en í fyrri tilvikum hafi verið rétt fyrirmæli á farmbréfi um meðhöndlun vörunnar.          Af hálfu stefnda er því alfarið hafnað, að þótt hann sé reyndur flutningsaðili með sérþekkingu á varðveislu vöru, eins og t.d. matvælum, þá hvíli einhver skylda á honum að kanna sérstaklega hvaða vörur viðskiptavinir hans flytji til og frá landinu, umfram það að fylgja fyrirmælum sendanda hverju sinni. Hafi stefndi allan rétt til, og í rauninni hvíli á honum sú skylda, að treysta á að þau fyrirmæli séu rétt og gild sem honum séu gefin við flutninginn. Engin frekari skylda hvíli á stefnda. Það standi farmsendanda/móttakanda nær að veita fullnægjandi upplýsingar um farminn, m.a. í því skyni að tryggja að hann hljóti rétta meðhöndlun við flutning og geymslu og verði þar af leiðandi ekki fyrir tjóni, enda sá aðili sem þekki vöruna best.          Stefndi mótmælir því einnig að það sé viðurkennt og óumdeilt að varan hafi verið skemmd, eða að hún hafi skemmst í vöruhúsi hans. Stefndi mótmælir því einnig að varan hafi ekki verið geymd við lögbundið hitastig í vöruhúsi stefnda. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir þessum fullyrðingum sínum en stefndi kveður þá sönnun ekki hafa tekist. Stefnandi telur að hann hafi ekki lagt fram nein gögn til sönnunar þessum fullyrðingum sínum.          Af hálfu stefnda er þó viðurkennt að umrædd vara hafi ekki verið sett í kæli þegar henni hafi verið komið fyrir í vöruhúsi stefnda. Því er hins vegar mótmælt að stefndi hafi metið ástand vörusendingarinnar á þann veg að ekki hafi verið unnt að nota vörurnar eða selja þær. Það hafi aaamið fyrir í vöruhúsi stefnda.r ki verið sett a hverju sinni.n gi t.d. við ef varðveita eigi vöruna við að sjálfsögðu verið mat stefnanda sjálfs sem hafi óskað eftir því að vörusendingunni yrði fargað þar sem henni hafi verið komið fyrir með almennum hætti í vöruhúsi stefnda. Stefndi kveðst einungis hafa farið að skýrum fyrirmælum stefnanda um förgun vörunnar enda ekki í verkahring stefnda að leggja mat á það hvort vara sé skemmd eða uppfylli kröfur stefnanda.          Stefndi hafnar því alfarið að starfsemi hans falli undir ákvæði laga nr. 93/1995 um matvæli. Stefnandi vísi til þess að stefndi hafi gerst brotlegur við 13. gr. laganna er fjalli um geymslu matvæla. Stefndi tekur fram að ákvæðið leggi aðeins skyldu á framleiðanda eða eftir atvikum dreifanda vöru. Að mati stefnda sé ljóst af skýru orðalagi ákvæðisins að flutningsaðili sé ekki ábyrgur samkvæmt lögunum. Ábyrgð á geymslu vörunnar hvíli þvert á móti aðeins á framleiðanda eða dreifanda vörunnar.          Stefndi tekur fram að í stefnu segi að stefnda hafi borið að geyma umræddan varning við 0 til 4 gráður með vísan til reglugerðar nr. 103/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og -ráðsins (EB) nr. 852/2004 um hollustuhætti. Þessu mótmælir stefndi, ekki síst með vísan til flugfarmbréfs milli sömu aðila um sams konar vöru, sem stefndi hafi lagt fram, en þar séu skýr fyrirmæli um að geyma eigi vöruna við 2 til 8 gráður. Stefndi vísar til þess að hér beri augljóslega mikið í milli.          Stefndi byggir á því að Sælkerinn ehf., sem dreifandi vörunnar, hafi verið ábyrgur fyrir geymslu hennar, og á grundvelli þeirrar ábyrgðar hafi honum borið skylda til þess að veita stefnda, sem flutningsaðila, réttar upplýsingar um vöruna og geymsluskilyrði hennar. Stefnanda sé ekki stætt á því að flytja ábyrgð Sælkerans ehf. samkvæmt matvælalögum yfir á stefnda, enda eigi slíkt sér enga stoð í þeim lögum. Eina skyldan sem hvílt hafi á stefnda hafi verið að fylgja fyrirmælum um geymslu samkvæmt samningi aðila, sem hann og hafi gert. Með sama hætti hafnar stefndi alfarið tilvísun stefnanda til reglugerðar nr. 103/2010.          Stefndi vísar til lýsingar á farminum í flugfarmbréfi þar sem orðrétt hafi sagt: „COLD MEATS (SERRANO HAM/CHORIZO) 3PX-120X80X158 1P-120X80X129 1P-120X80X90CM? Vol. 6,6340 m3.2.“ Stefndi fullyrðir að ekki skipti máli hvernig lýsingin á farminum sé í farmbréfinu, enda komi þar einfaldlega engin flutningsfyrirmæli fram. Í slíkum fyrirmælum þurfi að koma fram með nákvæmum hætti það hitastig sem eigi að geyma farminn við, sé um slíkt sé að ræða.          Stefndi tekur fram að farmurinn hafi komið á fimm brettum sem hvert um sig hafi verið plastað þétt. Engar merkingar hafi verið sjáanlegar nema á einu brettanna, þar sem skýr fyrirmæli hafi verið gefin um geymslu farmsins. Hin fjögur brettin hafi ekki verið merkt með neinum hætti. Stefndi staðhæfir að umrædd merking með fyrirmælum á einu brettanna hafi komið þannig til stefnda, enda merki stefndi aldrei vörur.          Stefndi mótmælir því að ljósmyndir, sem stefnandi hafi lagt fram, hafi eitthvert sönnunargildi, þar sem augljóslega sé um að ræða ljósrit af miða sem stækkaður hafi verið. Um það vísar stefndi til frumrits og ljósrits af sams konar miða sem stefndi hafi lagt fram. Einnig hafi mynd á bls. 2 á sama dómskjali stefnanda ekkert sönnunargildi og mótmælir stefndi því alfarið að umræddar myndir séu af þeim farmi sem hér um ræði.          Stefndi hafnar því enn fremur alfarið að 105. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 eigi við í þessu máli. Því til stuðnings vísar stefndi til þess að það liggi fyrir að hið ætlaða tjón eigi að hafa orðið við geymslu vörunnar í vöruhúsi stefnda en ekki við flutning hennar. Samkvæmt orðalagi 1. og 2. mgr. 105. gr. laga nr. 60/1998 gildi ákvæðið þegar tjón verður meðan á loftflutningi stendur, eða ef flutningur á sér stað á landi, sjó eða skipgengum vatnaleiðum utan flugvallar, samkvæmt flutningssamningi, í þeim tilgangi að hlaða, afhenda eða áframsenda farm.          Því er haldið fram af hálfu stefnda að almennir þjónustuskilmálar Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) gildi um varðveislu farmsins. Í 2. gr. þeirra komi fram að skilmálarnir gildi um hvers konar þjónustu sem aðildarfélag SVÞ eða dótturfélög þess taki að sér að því marki sem þessi þjónusta falli ekki undir flutning samkvæmt farmbréfum félagsins. Stefndi sé dótturfélag Samskipa, sem sé aðili að SVÞ, og því gildi skilmálarnir í lögskiptum aðila þessa máls, enda ljóst að ekki hafði verið samið um annað milli þeirra. Þá sé vísað til skilmálanna í samningi aðila 7. febrúar 2011.          Stefndi vísar til þess að í grein 5.4 í framangreindum þjónustuskilmálum sé fjallað um ábyrgðarleysisástæður. Þar segi að félagið beri ekki undir neinum kringumstæðum ábyrgð á neins konar tjóni sem rekja megi m.a. til (i) rangra eða ófullnægjandi upplýsinga frá viðskiptamanni eða mönnum á hans vegum eða (ii) ófullnægjandi eða gallaðra umbúða eða merkinga á vöru. Með vísan til þessara ákvæða krefst stefndi þegar sýknu af öllum kröfum stefnanda þar sem stefnandi hafi veitt ófullnægjandi upplýsingar um vöruna og að umbúðir þeirra hafi verið merktar með ófullnægjandi hætti.          Stefndi kveður engin sérstök fyrirmæli hafa verið gefin um meðhöndlun vörunnar, hvorki af sendanda hennar né móttakanda. Stefnandi hafi haldið því fram að stefndi hafi átt að vita um eðli vörunnar og nauðsynleg geymsluskilyrði hennar með vísan til þess að stefndi hafi annast tollafgreiðslu vörunnar og hafi þar af leiðandi átt að vita að hana ætti að geyma í kæli. Stefndi sé reyndur flutningsaðili og felist starfsemi hans í flutningi á ýmiss konar varningi milli landa. Það sé hins vegar ekki þar með sagt að stefnda beri að geta sér til um það hvernig meðhöndla eigi vörur. Það standi farmsamningshafa nær að leiðbeina stefnda um það hvernig meðhöndla eigi vöru. Stefndi bendir á að það geti beinlínis verið skaðlegt og falið í sér brot gegn farmsamningi meðhöndli flutningsaðili vöru með öðrum hætti en fram komi í farmbréfi. Af þeim sökum séu allar vörur meðhöndlaðar með sama hætti, nema farmsamningshafi gefi sérstök fyrirmæli um annað. Stefndi tekur í þessu sambandi fram að sé vara t.d. flutt í sérstökum kælikössum eða með sérstökum kælibúnaði í umbúðum skemmist hún ef henni er komið fyrir í kæli.          Stefndi byggir á því að tollskýrslugerð og flutningur séu aðskildir þættir í starfsemi stefnda og að starfsmenn ólíkra deilda sjái um þessi verkefni. Stefndi bendir sérstaklega á það að engin skylda hvíli á tolladeild til að sjá til þess að vörur séu geymdar á réttan hátt í vöruhúsi. Þess utan komi hvergi fram á þeim vörureikningum eða öðrum skjölum í tengslum við tollun vörunnar, sem lágu til grundvallar tollafgreiðslu, að vörurnar ætti að geyma í kæli. Fullyrðingum þar að lútandi sé alfarið mótmælt af hálfu stefnda. Í öllu falli sé það ekki í verkahring tollafgreiðsludeildar að fylgjast með verkum flutningsdeildar, enda sé það almennt þannig að eigendur viðkvæms varnings setji sérstök fyrirmæli í farmbréf um varðveislu vörunnar. Varan hafi verið tollafgreidd í samræmi við fyrirmæli innflytjandans en stefndi getur þess að ekki komi fram á reikningunum að um kjötvöru sé að ræða eða að geyma þurfi vöruna við ákveðið hitastig.          Stefndi mótmælir enn fremur tilvísun stefnanda til umræddrar vöru í stefnu sem hins „kalda kjöts“ sem villandi framsetningar.          Stefndi tekur fram að í stefnu mótmæli stefnandi því sem ósönnuðu að vörur Sælkerans ehf. hafi ekki verið í viðeigandi umbúðum. Af þessu tilefni tekur stefndi fram að hann geri ekki athugasemdir við umbúðir varanna sem slíkar, heldur við það að merkingar hafi skort.          Af hálfu stefnda er því mótmælt sem algerlega ósönnuðu að skýrt hafi komið fram á merkimiðum utan á vörunum að um kælivörur væri að ræða. Það eina sem komið hafi fram á þeim hafi verið merking á einu brettanna um að varan ætti að fara í kæli.          Stefndi gerir að þessu tilefni sérstaka athugasemd við gagnaframlagningu stefnanda á dómskjali númer fjögur. Samkvæmt skjalaskrá stefnanda sé um að ræða „dæmi um merkingar á pökkum“. Stefnandi hafi í málatilbúnaði sínum vísað til þess að vörur Sælkerans ehf. hafi verið merktar „store in a cool and dry place“ (ísl. geymist á köldum og þurrum stað) og að þar af leiðandi hafi starfsmenn stefnda átt að koma farminum fyrir í kæligeymslu í vöruhúsi sínu.          Stefndi bendir í fyrsta lagi á það að mynd sem sýni „dæmi um merkingar á pökkum“ nægi ekki sem sönnun fyrir því hvernig vörurnar hafi verið merktar í umrætt sinn. Ekkert bendi til þess að um hafi verið að ræða vörur úr þessari tilteknu sendingu, og raunar hafi stefnandi ekki haldið því fram. Þá virðist sem umræddur límmiði sé á einni hlið þeirra kassa sem voru utan um vörur stefnanda, en ekkert liggi fyrir um það hvernig þeim hafi verið staflað upp á þeim brettum sem skemmdust. Þar af leiðandi liggi ekkert fyrir um það hvort viðkomandi límmiðar hafi snúið út á brettunum og verið sjáanlegir.          Þessu til frekari stuðnings bendir stefndi á að í tjónstilkynningu komi fram að vörurnar hafi verið vafðar í plast og að vörusendingunni hafi ekki fylgt nein fyrirmæli um að henni ætti að koma fyrir á köldum stað. Þá sé sú mynd sem lögð sé fram af hálfu stefnanda af merkingum afar villandi þar sem hún sýni ekki rétta stærð þeirra. Hið rétta sé að áletrunin um að vöruna eigi að geyma á köldum og þurrum stað sé skrifuð mjóum og smáum stöfum og sé lítt áberandi, auk þess sem stafirnir séu um það 1 til 1,5 millimetrar á hæð. Stefndi vekur enn fremur athygli á því að þegar kössum hafi verið staflað á vörubretti til flutnings, þá sé gengið frá þeim með því að þaulvefja plastfilmu utan um brettið til þess að kassarnir haldist á réttum stað meðan á flutningi stendur. Mjög erfitt, og í flestum tilvikum ómögulegt, sé að greina texta í gegnum plastið, sérstaklega þegar um svo fíngert og óskýrt letur sé að ræða, eins og í þessu tilviki. Að lokum heldur stefndi því fram að afgreiðslugeymsla stefnda myndi almennt geta talist kaldur og þurr staður.          Stefndi reisir sýknukröfu sína enn fremur á því að stefnanda hafi ekki tekist sönnun þess að stefndi eða starfsmenn hans hafi við flutning og meðhöndlun farmsins sýnt af sér saknæma háttsemi, sem sé grundvöllur skaðabótaábyrgðar samkvæmt almennu skaðabótareglunni. Þvert á móti þyki einsýnt að starfsmenn stefnda hafi í einu og öllu fylgt þeim fyrirmælum sem gefin hafi verið um meðhöndlun farmsins. Ekkert sé komið fram í máli þessu sem sýni fram á hið gagnstæða. Þessu til stuðnings bendir stefndi á að brettið sem merkt hafi verið sérstaklega sem kælivara hafi verið geymt í kæli, sem sýni að starfsmenn stefnda hafi verið meðvitaðir um það að vörur merktar með leiðbeiningum um sérstaka meðhöndlun fengju hana. Aðdróttanir stefnanda um að það hafi verið starfsmenn stefnda sem hafi merkt þetta tiltekna bretti séu með öllu haldlausar, enda sé það ekki í verkahring starfsmanna stefnda að merkja vörur sem þeir flytji. Stefndi fullyrðir að umrædd merking hafi verið til staðar þegar hann hafi tekið á móti farminum frá sendanda hennar.          Stefndi byggir á því að skylda starfsmanna hans nái ekki lengra en svo að fylgja þeim leiðbeiningum og merkingum sem settar séu, og hafi stefnandi ekki bent á neinar reglur því til stuðnings að starfsmenn stefnda hafi átt að hegða sér með öðrum hætti.          Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið kveðst stefndi fara fram á sýknu af öllum kröfum stefnanda.          Til vara krefst stefndi þess að krafa stefnanda verði lækkuð verulega. Því til stuðnings vísar stefndi til greinar 5.1 í almennum þjónustuskilmálum SVÞ en þar komi fram að reikna skuli fjárhæð bóta vegna taps eða skemmda á vöru eftir verðmæti hennar samkvæmt vörureikningi. Stefnandi hafi lagt fram vörureikning. Samkvæmt honum hafi verðmæti vörunnar verið samtals 6.847,66 evrur. Stefnandi geri kröfu um að verðmæti farmsins í evrum verði umreiknað í íslenskar krónur samkvæmt tollverðsgengi vörunnar. Þeirri forsendu sé harðlega mótmælt af hálfu stefnda.          Stefndi bendir á að á heimasíðu tollstjóra sé að finna leiðbeiningar um útfyllingu einstakra reita, dálka og lína aðflutningsskýrslu. Samkvæmt þeim sé tollverðsgengi fundið út með því að deila upphæð í reit 27 á tollskýrslu (tollverð) með upphæð í reit 22 á tollskýrslu (Fob-verð í erl. mynt). Með tollverði sé átt við samtölu fjárhæða í reitum 23 (Fob-verð í ísl. krónum), 24 (flutningskostnaður) og 26 (vátrygging). Fob-verð í erlendri mynt er heildarverð sendingarinnar í erlendri mynt, en Fob-verð í íslenskum krónum sé fundið út með því að margfalda hið erlenda verð við gengi í reit 18 (gengi) í tollskýrslu.          Stefndi kveður hið rétta verðmæti vörunnar vera fundið út með því að margfalda verðmæti vörunnar í erlendum gjaldmiðli við gengi. Þeir þættir sem teknir séu með þegar tollverðsgengi vöru sé reiknað út, þ.e. flutnings- og vátryggingarkostnaður, falli ekki undir það að vera verðmæti vöru skv. vörureikningi. Stefnandi hafi væntanlega fengið það endurgreitt sem hann hafi innt af hendi til tollyfirvalda við förgun á vörunum.          Sé tekið mið af miðgengi 21. nóvember 2013, þegar komutilkynning hafi verið send til móttakanda, telur stefndi rétta kröfufjárhæð vera: 6.847,66 x 162,45 = 1.112.402 krónur. Samkvæmt þessu sé Sælkerinn ehf. væntanlega búinn að fá hið ætlaða tjón ofbætt frá stefnanda málsins.          Stefnandi geri enn fremur kröfu um bætur fyrir 10% hagnaðartap. Stefndi byggir á því að í grein 5.3 í almennum þjónustuskilmálum SVÞ komi fram að bótaábyrgð nái ekki undir neinum kringumstæðum yfir óbeint eða afleitt tap eða ágóðatap. Kröfu um bætur fyrir hagnaðartap sé því alfarið hafnað. Með vísan til framangreinds geti krafa stefnanda um bætur ekki orðið hærri en sem nemur 1.112.402 krónum.          Að lokum hafnar stefndi kröfu stefnanda um dráttarvexti frá 4. janúar 2013 með öllu. Skýrt komi fram í grein 5.6 í almennum þjónustuskilmálum SVÞ að ekki skuli koma til greiðslu vaxta af kröfum á hendur félaginu fyrr en frá uppkvaðningu dóms. Stefndi byggir á því að lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu séu frávíkjanleg. Fari svo ólíklega að dómurinn fallist ekki á gildi umrædds ákvæðis sé upphafsdegi dráttarvaxtakröfu stefnanda mótmælt þar sem krafan hafi ekki verið rökstudd með neinum hætti fyrr en í stefnu. Þar vísar stefndi til 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.          Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna skaðabótaréttar um sök, sönnun og sönnunarbyrði. Þá vísar hann til almennra reglna flutninga-, kröfu- og skaðabótaréttar eftir því sem við eigi og almennra þjónustuskilmála Samtaka verslunar og þjónustu. Stefndi vísar einnig til 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Stefndi kveður kröfu sína um málskostnað styðjast við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. IV.          Eins og rakið hefur verið greiddi stefnandi Sælkeranum ehf. stefnufjárhæðina í skaðabætur vegna skemmda á vörusendingu til félagsins meðan hún var í vörslu stefnda. Stefnandi telur sig hafa öðlast við það rétt tjónþola á hendur stefnda með vísan til 22. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Skilyrði þess að vátryggingafélag öðlist slíkan rétt er að tjónvaldur beri skaðabótaábyrgð á tjóni sem félagið hefur bætt.          Í tjónaskýrslu 27. nóvember 2012, sem starfsmaður stefnda ritaði, er staðhæft að vörur á fjórum brettum af fimm séu ónothæfar eftir að þeim hafði verið komið fyrir í ókældri vörugeymslu stefnda. Stefndi fargaði síðan þessum vörum að beiðni stefnanda. Um var að ræða kjötvörur sem geyma þurfti í kæli til að þær héldu æskilegum gæðum í tilsettan tíma. Kjötið var ekki geymt í kæli í að minnsta kosti fimm sólarhringa. Eins og málið liggur fyrir verður að leggja til grundvallar að eftir það hafi kjötvörurnar ekki lengur verið hæfar til almennrar sölu. Ber því að fallast á að um altjón hafi verið að ræða eins og stefnandi heldur fram.          Stefnandi reisir kröfu sína á hendur stefnda í fyrsta lagi á hlutlægri ábyrgðarreglu í 105. gr. loftferðalaga nr. 60/1998, sbr. lög nr. 88/2004. Ákvæðið er í X. kafla laganna sem fjallar um loftflutninga. Ákvæði kaflans gilda um alla flutninga í loftfari á farþegum, farangri og farmi gegn greiðslu, sbr. 1. mgr. 86. gr. laganna. Í 1. mgr. 105. gr. kemur fram að flytjandi sé ábyrgur fyrir tjóni sem hlýst af því ef farmur eyðileggst, glatast eða skemmist meðan á loftflutningi stendur. Ábyrgðarregla þessi tekur ekki til flutnings á landi, á sjó eða eftir skipgengum vatnaleiðum sem eru utan flugvallar, sbr. 1. málslið 3. mgr. 105. gr. Í 3. mgr. er þó sett sérstök sönnunarregla vegna tjóns sem verður við flutning sem á sér stað samkvæmt flutningssamningi í þeim tilgangi að hlaða, afhenda eða áframsenda farm. Er þá tjónsatburður talinn hafa átt sér stað í loftflutningi nema annað sannist. Ágreiningslaust er að tjónið hafi ekki átt sér stað við loftflutning heldur við geymslu farmsins í vörugeymslu stefnda utan flugvallar. Sú hlutlæga ábyrgðarregla sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 105. gr. loftferðalaga kemur af þeim sökum ekki til álita.          Eins og rakið hefur verið gilti samningur frá 7. febrúar 2011 um þjónustu stefnda við Sælkerann ehf. og lögskipti þeirra að öðru leyti. Vikið er að efni þessa samnings í kafla II hér að framan. Í samningnum er tekið fram að flutningsskilmálar eigi meðal annars að taka mið af Incoterms 2010 og „skilmála flutningasviðs SVÞ (Samtök verslunar og þjónustu)“. Aðilar hafa ekki borið fyrir sig ákvæði Incoterms 2010. Stefndi ber hins vegar fyrir sig skilmála sem bera yfirskriftina „SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu / Almennir þjónustuskilmálar“. Í upphafi skilmálanna segir eftirfarandi: „„Félagið“, sem er aðili að flutningasviði SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu býður viðskiptamönnum sínum upp á fjölþáttaflutning og flutning frá höfn til hafnar samkvæmt öllum skilmálum, skilyrðum og undanþágum sem fram koma í flutningsskilmálum félagsins, sem eru meðal annars að finna á farmbréfum þess. Jafnframt býður félagið upp á aðra þjónustu, sem ekki fellur innan fjölþáttaflutnings og flutnings frá höfn til hafnar, en um þá þjónustu skulu eftirfarandi almennir þjónustuskilmálar gilda.“ Af þessu má ráða að um er að ræða skilmála flutningssviðs Samtaka verslunar og þjónustu sem vísað er til í samningnum 7. febrúar 2011. Með fyrirvaralausri undirritun samningsins gengust samningsaðilar, sem báðir starfa á sviði verslunar og þjónustu, undir framangreinda skilmála sem ætlast mátti til að þeir kynntu sér við samningsgerðina.          Í 1. gr. framangreindra skilmála eru ýmis hugtök skilgreind. Þar kemur fram að þjónusta samkvæmt skilmálunum taki meðal annars til vörugeymslu. Í 2. gr. skilmálanna, sem fjallar um gildissvið þeirra, segir að þeir skuli gilda um hvers konar þjónustu sem félagið eða dótturfélög þess taka að sér fyrir viðskiptamann að því marki sem slík þjónusta fellur ekki undir flutning samkvæmt farmbréfum félagsins, ófrávíkjanlegum lögum eða öðrum skilmálum félagsins sem sérstaklega hefur verið samið skriflega um að gilda skuli um réttarsamband aðila. Því hefur þegar verið hafnað að ábyrgðarregla loftferðalaga taki til tjónsins. Þá hefur því ekki verið borið við að aðrir skilmálar, sem hér er vísað til, gangi framar umræddum skilmálum. Ber því að ganga út frá því að þeir hafi gilt um geymslu stefnda á farminum uns Sælkerinn ehf. vitjaði hans.          Vörurnar sem skemmdust meðan þær voru í vörslu stefnda voru matvæli. Um framleiðslu og dreifingu á matvælum er fjallað í lögum nr. 93/1995 um matvæli. Tilgangur laganna er að tryggja, eftir því sem kostur er, gæði, öryggi og hollustu matvæla, sbr. 1. gr. laganna. Fram kemur í skilgreiningum í 4. gr. laganna að með dreifingu sé átt við hvers konar flutning, framboð og afhendingu, þar með talið innflutning, útflutning og sölu. Sérstaklega er tekið fram að hér sé einnig átt við geymslu og annað sem tengist dreifingu. Í 13. gr. laganna segir að matvæli skuli geyma þannig að þau verði ekki fyrir skemmdum eða spillist á annan hátt. Þá skuli geymsluskilyrði vera í samræmi við ákvæði sem sett eru með reglugerðum um geymslu matvæla. Þar kemur enn fremur fram að framleiðandi eða eftir atvikum dreifandi sé ábyrgur fyrir geymslu vörunnar. Þá er þar mælt fyrir um að eigandi eða umráðandi flutningatækis sé ábyrgur fyrir því að tækið uppfylli þær kröfur sem settar séu um flutning matvæla. Nánari fyrirmæli eru um geymslu matvæla í 2. gr. a í reglugerð nr. 103/2010, sbr. reglugerð nr. 506/2010. Þar segir að matvæli, sem geyma á í kæli eða framreiða köld, skuli kæla svo fljótt sem auðið er og geyma við 0 til 4°C, þannig að hitastig þeirra haldist á því bili.          Sú skylda hvílir á matvælafyrirtæki, eins og Sælkeranum ehf., að veita farmflytjanda fullnægjandi upplýsingar um þau matvæli sem verið er að flytja svo farmflytjandanum sé unnt að haga flutningi og geymslu þeirra þannig að framangreindum kröfum sé fullnægt og að þau verði ekki fyrir skemmdum. Verði tjónið þannig rakið til ófullnægjandi upplýsinga frá Sælkeranum ehf. eða aðila á hans vegum um innihald sendingarinnar verður stefndi ekki gerður ábyrgur fyrir því. Það er enn fremur í samræmi við grein 5.4 í fyrrgreindum skilmálum sem giltu milli Sælkerans ehf. og stefnda, en þar segir að „félagið“ beri „ekki undir neinum kringumstæðum ábyrgð á neins konar tjóni sem rekja má“ meðal annars til rangra eða ófullnægjandi upplýsinga frá viðskiptamanni eða mönnum á hans vegum eða ófullnægjandi eða gölluðum umbúðum eða merkingum á vöru. Stefndi telur að báðar þessar ábyrgðarleysisástæður eigi við í málinu og krefst sýknu á þeim grundvelli.          Alkunna er að kjötvörur verður almennt að geyma í kæli til að koma í veg fyrir að þær skemmist. Á fyrirliggjandi farmbréfi stóð að um væri að ræða „COLD MEATS“ eða kalt kjöt. Dómurinn telur að þessar upplýsingar hafi verið nægjanlegar til þess að stefnda hafi mátt vera ljóst að í vörusendingunni væri kjötvörur sem nauðsynlegt væri að geyma í kæli. Hafi stefndi talið vafa leika á því áttu þessar upplýsingar að gefa honum tilefni til þess að leita fyrirmæla frá Sælkeranum ehf. um hvort farmurinn ætti að fara í kæli. Af málatilbúnaði stefnda verður ráðið að upplýsingar á farmbréfi ráði einkum því hvernig geymslu á farmi er hagað í vörugeymslu. Ekki skiptir því máli þó að merkingu á fjórum vörubrettum af fimm kunni að hafa verið ábótavant. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki fallist á það með stefnda að fyrrgreindar ábyrgðarleysisástæður eigi við.          Af hálfu stefnda hefur því ekki verið borið við að sakarmat í lögskiptum aðila sé annað en leiðir af almennum reglum skaðabótaréttar. Geymsla farmsins hjá stefnda var ekki hagað í samræmi við kröfur 13. gr. laga 93/1995 og 2. gr. a í reglugerð nr. 103/2010. Þar sem viðhlítandi upplýsingar komu fram á farmbréfi um innihald farmsins, sem áttu að gefa stefnda tilefni til að álykta að nauðsynlegt væri að geyma farminn í kæli, sýndi stefndi af sér sök er leiðir til skaðabótaábyrgðar félagsins. Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið verður á það fallist að stefnda beri að bæta stefnanda það tjón svo langt sem réttur tjónþola á hendur stefnda náði.          Eins og fram hefur komið giltu almennir skilmálar flutningasviðs SVÞ um rétt tjónþola til skaðabóta úr hendi farmflytjanda. Í grein 5.1 í skilmálunum kemur fram að skaðabætur vegna skemmda á vöru skuli taka mið af verðmæti vörunnar samkvæmt vörureikningi. Ágreiningslaust er að það verð, sem greitt hafði verið fyrir vörurnar sem skemmdust, hafi samkvæmt framlögðum vörureikningi numið 6.847,66 evrum. Stefnandi hefur ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að miða beri við svonefnt tollverðsgengi þegar fjárhæðin er umreiknuð í íslenskar krónur. Af hálfu stefnda er í greinargerð talið að rétt sé að miða við miðgengi krónunnar gagnvart evru 21. nóvember 2013, er tilkynning var send tjónþola um komu vörunnar. Við munnlegan málflutning var því lýst yfir af hálfu stefnanda að fallist væri á að taka mið af skráðu miðgengi þennan dag ef ekki væri fallist á að miða við tollverðsgengi. Í ljósi þess sem hér er rakið verður gengið út frá framangreindu við útreikning á því fjártjóni sem stefnda ber að bæta. Miðgengi íslensku krónunnar gagnvart evru nam 162,45 krónum umræddan dag. Tjón miðað við verðmæti vörunnar samkvæmt vörureikningi nam samkvæmt framansögðu 1.112.402 krónum.          Í fyrrgreindum skilmálum er gert ráð fyrir því að farmflytjandi eigi ekki að greiða bætur fyrir óbeint eða afleitt tjón eða ágóðatap, sbr. grein 5.3. Stefnandi hefur heldur ekki sýnt fram á að tjón tjónþola hafi verið meira en sem nemur verðmæti vörunnar samkvæmt framansögðu. Stefnda verður því gert að greiða stefnanda 1.112.402 krónur.          Í skilmálunum kemur fram að ekki skuli koma til greiðslu vaxta fyrr en frá uppkvaðningu dóms, sbr. grein 5.6. Stefnandi telur þetta ákvæði ekki geta átt við enda megi rekja tjónið til stórkostlegs gáleysis og verulegra vanefnda á samningi aðila. Um þetta vísar hann meðal annars til tveggja dóma Hæstaréttar í málunum nr. 503/2008 og nr. 61/1998. Báðir dómarnir lúta að tjóni við sjóflutninga. Í þeim gilda ýmsar ábyrgðartakmarkanir siglingalaga nr. 34/1985 ekki verði tjón rakið til stórkostlegs gáleysis farmflytjanda. Skilmálar þeir sem hér eru til umfjöllunar eru ekki hliðstæðir. Eins og mál þetta liggur fyrir verður að leggja fyrrgreint samningsákvæði til grundvallar. Krafan ber því dráttarvexti frá og með dómsuppkvaðningardegi, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 243/2001.          Líta verður svo á að stefnandi hafi unnið málið í öllum aðalatriðum. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefndi því að greiða honum málskostnað. Í ljósi málavaxta þykir málskostnaðurinn hæfilega ákveðinn 1.000.000 króna.          Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð :          Stefndi, Jónar Transport hf., greiði stefnanda, Vátryggingafélagi Íslands hf. 1.112.402 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. október 2014 til greiðsludags.          Stefndi greiði stefnanda 1.000.000 króna í málskostnað.
Mál nr. 848/2014
Ráðningarsamningur Kjarasamningur Starfsréttindi Forföll
Talið var að um rétt I til forfallalauna, vegna vinnuslyss sem hann varð fyrir í í aukastarfi sínu sem sjúkraflutningamaður samhliða aðalstarfi sínu hjá hinu opinbera á grundvelli ótímabundins ráðningarsamnings, skyldi að virtum ráðningarsamningi hans vegna aukastarfsins og fyrirmælum kjarasamnings fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Kjalars, stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu, fara eftir þeirri grein kjarasamningsins sem ætti við um þá sem ráðnir væru til starfa í tímavinnu.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. desember 2014 og krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.444.695 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. júlí 2011 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður. Áfrýjandi var ráðinn sem fulltrúi á Skattstofu Norðurlandsumdæmis vestra 18. október 2003, en skattstofan er nú ein af starfsstöðvum embættis ríkisskattstjóra með aðsetur á Siglufirði. Áfrýjandi starfar þar á grundvelli ótímabundins ráðningarsamnings og er í fullu starfi. Þar sem starfið er aðalstarf gilda lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins um starfskjör hans að því leyti sem ekki er um annað samið í kjarasamningi eða ráðningarsamningi. Áfrýjandi er félagsmaður í SFR, stéttarfélagi í almannaþjónustu, og á aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins vegna þessa starfs. Áfrýjandi er í aukastarfi sem sjúkraflutningamaður hjá Heilbrigðisstofnuninni Fjallabyggð. Um það starf gildir ráðningarsamningur 1. febrúar 2006 og samkvæmt honum á áfrýjandi aðild að stéttarfélaginu Kili, stéttarfélagi starfsmanna í almannaþjónustu. Á launaseðlum kemur fram að áfrýjandi á aðild að Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda vegna þessa starfs. Samkvæmt ráðningarsamningnum er hann ekki í tilgreindu starfshlutfalli, en vinnutímaskipulag sagt bakvaktir. Um vinnuskyldu segir: ,,Bakvakt og útkallsskylda samkv. vaktarplani frá kl. 17.00 eh til kl. 8.00 að morgni virka daga ... og sólarhringsvaktir um helgar.“ Um starfskjör áfrýjanda vegna þessa starfs eru málsaðilar sammála um að fara beri eftir kjarasamningi fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Kjalars, stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu. Samkvæmt grein 1.6.2 í þeim kjarasamningi skal greiðsla fyrir bakvaktir reiknast sem ákveðið hlutfall af dagvinnukaupi, sbr. grein 1.4.1 en þar segir að tímavinnukaup skuli vera tilgreint hlutfall af mánaðarlaunum starfsmanns. Samkvæmt greinum 2.3.3 og 2.5.3 í kjarasamningnum falla bakvaktagreiðslur niður ef um útkall er að ræða en greitt er yfirvinnukaup fyrir útkallið að lágmarki fjórar klukkustundir. Ágreiningur aðila snýst um það hvort réttur áfrýjanda til forfallalauna, vegna vinnuslyss sem hann varð fyrir 22. desember 2010, skuli fara eftir grein 12.2.1 eða 12.2.2 í kjarasamningnum. Fyrrnefnda ákvæðið á við um þá sem ráðnir eru til starfa á mánaðarlaunum, en hið síðarnefnda um þá sem ráðnir eru í tímavinnu. Með framangreindum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms getur áfrýjandi ekki reist rétt til forfallalauna vegna slyssins á grein 12.2.1 í áðurgreindum kjarasamningi. Verður héraðsdómur því staðfestur. Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. september 2014.                 Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 16. desember 2013. Það var dómtekið 4. september 2014.                 Stefnandi er Ingvar Kristinn Hreinsson, Laugarvegi 14, Siglufirði.                 Stefndi er íslenska ríkið, Arnarhvoli, Reykjavík.                 Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 3.142.920 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af 206.385 krónum frá 1. júlí 2011 til 1. ágúst 2011, af 412.770 krónum frá þeim degi til 1. september 2011, af 619.155 krónum frá þeim degi til 1. október 2011, af 825.540 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2011, af 1.031.925 krónum frá þeim degi til 1. desember 2011, af 1.238.310 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2012, af 1.444.695 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2012, af 1.651.080 krónum frá þeim degi til 1. mars 2012, af 1.857.465 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2012, af 2.063.850 krónum frá þeim degi til 1. maí 2012, af 2.270.235 krónum frá þeim degi til 1. júní 2012, af 2.476.620 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2012, af 2.683.005 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2012, af 2.889.390 krónum frá þeim degi til 1. september 2012, af 3.095.775 krónum frá þeim degi til 1. október 2012 og af 3.142.920 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda.                 Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar, en til vara að stefnukröfurnar verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði látinn niður falla. I                 Stefnandi var ráðinn til starfa sem sjúkraflutningamaður við heilbrigðisstofnunina á Siglufirði frá 1. febrúar 2006. Fram kemur í ráðningarsamningnum að stéttarfélag stefnanda sé starfsmannafélagið Kjölur. Heilbrigðisstofnunin á Siglufirði sameinaðist heilsugæslu Ólafsfjarðar 1. janúar 2010 og tók þá til starfa sameinuð stofnun, Heilbrigðisstofnunin Fjallabyggð. Ráðningarsamningi stefnanda var ekki breytt vegna sameiningarinnar.                 Stefnandi sinnti sjúkraflutningum á bakvöktum, en starfaði í dagvinnu hjá skattstofunni á Siglufirði. Samkvæmt ráðningarsamningi var vinnuskylda hans „bakvakt og útkallsskylda samkv. vaktarplani frá kl. 17.00 eh til kl. 8.00 að morgni virka daga og sólarhringsvaktir um helgar“. Stefnandi sinnti bakvöktunum ásamt fjórum öðrum starfsmönnum. Þann 1. júní 2009 fækkaði Heilbrigðisstofnunin starfsmönnum sem sinntu sjúkraflutningum á dagvöktum. Frá þeim tíma var stefnanda falið að sinna bakvöktum alla daga vikunnar frá kl. 8:00 til kl. 17:00 og fimmtu hverja viku allan sólarhringinn.                 Hinn 22. desember 2010 slasaðist stefnandi við störf sín sem sjúkraflutningamaður. Tildrög slyssins voru þau að stefnandi var að bera sjúkrarúm en rann til með þeim afleiðingum að hann fékk hnykk á skrokkinn og rúmgaflinn lenti framan á brjóstkassa. Vegna slyssins hefur stefnandi ekki getað sinnt starfi sínu sem sjúkraflutningamaður frá og með 23. desember 2011.                 Stefnandi fékk greidd veikindalaun í 121 dag vegna vinnuslyssins. Réttur hans til launa vegna veikinda féll niður 31. maí 2011. Kröfu stefnanda um frekari veikindalaun vegna slyssins var hafnað. Heilbrigðisstofnunin Fjallabyggð byggði á því að stefnandi hefði verið ráðinn í tímavinnu samkvæmt grein 12.2.2 í kjarasamningi fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, og Kjalar, stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu.                 Í framhaldi af því að Heilbrigðisstofnunin hafnaði kröfu stefnanda leitaði hann til kjarasamningsbundinnar samráðsnefndar um veikindarétt, en nefndina skipuðu fulltrúar samningsaðila að samkomulagi BHM, BSRB og KÍ við fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og launanefndar sveitarfélaga (nú samningsnefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga) frá 24. október 2000, um tiltekin atriði, þ.m.t. veikindarétt launþega. Óskaði stefnandi eftir því að nefndin tæki til umfjöllunar hvort stefnandi nyti veikindaréttar samkvæmt grein 12.2.1 í umræddum kjarasamningi, sem starfsmaður á mánaðarlaunum, eða grein 12.2.2, sem starfsmaður ráðinn í tímavinnu.                 Nefndin komst ekki að sameiginlegri niðurstöðu, en nefndarmenn voru þó sammála um að réttindi starfsmanns, sem eingöngu væri ráðinn á bakvaktir, til veikinda væri ekki allskostar skýr í kjarasamningi. Fulltrúar samningsnefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Reykjavíkurborgar töldu stefnanda vera ráðinn í tímavinnu í skilningi kjarasamnings Kjalar og ríkissjóðs og vísuðu meðal annars til þess að stefnandi hefði ekki verið ráðinn til starfa á mánaðarlaunum og hann áynni sér ekki rétt til orlofstöku, orlofsuppbótar eða persónuuppbótar í desember. Þá væri starfið ekki aðalstarf stefnanda og vinnufyrirkomulagið bæri með sér að hann væri tímavinnumaður sem félli undir heimild atvinnurekanda samkvæmt kjarasamningi til að vera ráðinn í tímavinnu þar sem hann ynni afmörkuð verkefni. Fulltrúar BSRB, BHM og KÍ töldu stefnanda hins vegar hafa verið ráðinn á mánaðarlaun í skilningi kjarasamningsins. Vísuðu þeir meðal annars til þess að tilgreint væri að hann hefði verið ráðinn til starfa á bakvöktum en ekki í tímavinnu. Þá áréttuðu þeir skyldu atvinnurekenda til að upplýsa starfsmenn um ráðningarkjör með skriflegum ráðningarsamningi og sögðu að heimild atvinnurekanda til að ráða starfsfólk í tímavinnu samkvæmt áðurnefndum ákvæðum kjarasamnings ætti að nota í undantekningartilvikum og bæri að skýra þröngt. II                 Stefnandi byggir kröfu sína á því að hann eigi rétt til veikindalauna í samræmi við grein 12.2.1 í kjarasamningi fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og stéttarfélagsins Kjalar, sem gilt hafi frá 1. maí 2011 til 31. mars 2014. Grein 12.2.1 í kjarasamningnum, sé svohljóðandi: „Starfsmaður sem ráðinn er til starfa á mánaðarlaunum skv. gr. 1.1.1 í kjarasamningi í a.m.k. 2 mánuði, skal halda launum skv. gr. 12.2.6 - 12.2.7 svo lengi sem veikindadagar hans, taldir í almanaksdögum, verða ekki fleiri á hverjum 12 mánuðum en hér segir [...].“                 Stefnandi byggi á því að hann hafi verið ráðinn til starfa á mánaðarlaunum samkvæmt grein 1.1.1. Fyrirkomulag launa stefnanda skipti ekki máli í því sambandi, en hann hafi fengið greidd laun vegna þeirra bakvakta sem hann hafi sinnt í hverjum mánuði. Meginreglan samkvæmt kjarasamningnum sé sú að starfsmaður sé ráðinn til starfa á mánaðarlaunum. Einungis í undantekningartilvikum, sem séu tæmandi talin í kjarasamningnum, sé heimilt að ráða starfsmann á tímavinnukaup, sbr. grein 1.4.2, sem sé svohljóðandi: „Heimilt er að greiða tímavinnukaup í eftirfarandi tilvikum: 1. nemendum við störf í námshléum 2. starfsmönnum sem ráðnir eru til skamms tíma vegna sérstakra árvissra álagstíma ýmissa stofnana þó ekki lengur en 2 mánuði. 3. Starfsmönnum sem ráðnir eru til að vinna að sérhæfðum, afmörkuðum verkefnum. 4. Starfsmönnum sem starfa óreglubundið um lengri eða skemmri tíma þó aðeins í undantekningartilvikum. 5. Lífeyrisþegar sem vinna hluta úr starfi.“ Ljóst sé að töluliðir 1, 2 og 5 eigi ekki við um starf stefnanda, eins og það sé skilgreint í ráðningarsamningi og í lögum. Þá sé ekki hægt að halda því fram að hann hafi verið ráðinn til að vinna að „sérhæfðum, afmörkuðum verkefnum“ í skilningi 3. töluliðar eða að hann hafi starfað „óreglubundið um lengri eða skemmri tíma“ í skilningi 4 töluliðar. Sjúkraflutningar séu hluti af lögbundinni heilbrigðisþjónustu sem falli undir lög um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna og reglugerð um framkvæmd og skipulag sjúkraflutninga nr. 262/2011. Um lögbundna þjónustu sé að ræða sem stefnandi hafi sinnt frá árinu 2006. Starfið sé því ekki sérhæft, afmarkað verkefni. Þá uppfylli stefnandi ekki það skilyrði að hafa starfað „óreglubundið um lengri eða skemmri tíma“ enda hafi hann starfað á föstum vöktum sem hafi verið skipulagðar hálft ár fram í tímann.                 Stefnandi telji að þar sem svokallaðir tímavinnumenn í skilningi kjarasamningsins njóti lakari kjara en þeir starfsmenn sem ráðnir séu á mánaðarlaunum hafi stefnda verið skylt að tiltaka það í ráðningarsamningi stefnanda, með skýrum hætti, að hann hefði verið ráðinn til starfa í tímavinnu. Þar sem það hafi ekki verið gert geti stefndi ekki skert réttindi stefnanda á þeim grundvelli að hann hafi verið tímavinnumaður í skilningi kjarasamningsins. Framangreindu til stuðnings vísi stefnandi til þeirra grundvallarreglna sem gildi um túlkun ráðningarsamninga. Í fyrsta lagi skuli sérhver vafi túlkaður starfsmanni í hag. Í öðru lagi verði réttindi starfsmanns samkvæmt ráðningarsamningi ekki skert nema skerðingin komi fram með skýrum hætti í ráðningarsamningi. Í þriðja lagi sé vísað til 8. og 42. gr. laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, nr. 70/1996, sem geri þær kröfur að ráðningarsamningar séu skriflegir og að þeir tilgreini „ráðningarkjör“ starfsmannsins.                 Stefnandi sé og hafi verið í fullu starfi hjá skattstofu Norðurlandsumdæmis vestra. Stefnandi hafi því gegnt tveimur störfum fyrir sama launagreiðanda, stefnda, og reglubundin vinnuskylda hans hafi verið meiri en 100% á mánuði. Þar sem stefnandi hafi verið fastráðinn hjá stefnda og vinnuskylda hans hafi verið meiri en 100% á mánuði sé ljóst að stefnandi hafi ekki verið ráðinn í tímavinnu til að sinna sjúkraflutningum.                 Samkvæmt grein 12.2.1 í kjarasamningnum, skuli starfsmaður halda launum samkvæmt grein 12.2.6 – 12.2.7 svo lengi sem veikindadagar hans, taldir í almanaksdögum, verði ekki fleiri á hverjum 12 mánuðum en hér segi :                 Við framantalinn rétt bætist réttur til mánaðarlauna samkvæmt grein 1.1.1 í kjarasamningi í 13 vikur eða 91 dag ef óvinnufærni stafar af vinnuslysi eða atvinnusjúkdómi. Við þessi laun bætist ekki greiðslur skv. gr. 12.2.6 – 12.2.7.                 Í þessu sambandi vísi stefnandi til greinar 12.2.5 í kjarasamningnum, sem segi að við mat á ávinnslurétti starfsmanns samkvæmt grein 12.2.1 skuli auk þjónustualdurs hjá viðkomandi launagreiðanda einnig telja þjónustualdur hjá stofnunum ríkis. Við mat á fjölda veikindadaga stefnanda samkvæmt grein 12.2.1 beri því að líta til þess að starfsaldur stefnanda hjá íslenska ríkinu hafi verið 25 ár og fjórir mánuðir þegar umrætt vinnuslys hafi átt sér stað. Stefnandi hafi því áunnið sér rétt til að halda launum í 360 daga. Stefnandi hafi haldið launum sínum í 30 daga í samræmi við grein 12.2.2. Hann geri því kröfu um greiðslu sem nemi ígildi launa í 330 daga, sbr. grein 12.2.1. Auk þess telji stefnandi sig eiga rétt á að fá greitt meðaltal þeirra yfirvinnustunda sem hann hafi fengið greiddar síðustu 12 mánaðarleg uppgjörstímabil yfirvinnu eða 12 heilu almanaksmánuðina, sbr. greinar 12.2.1 og 12.2.7.                 Umsamin mánaðarlaun stefnanda hafi verið 419,8 krónur fyrir hverja klukkustund á „bakvakt I“ en 565,96 krónur fyrir hverja klukkustund á „bakvakt II“, eins og framlagðir launaseðlar stefnanda sýni fram á. Fyrstu fjóra mánuðina á árinu 2011 hafi stefnandi fengið greitt að meðaltali 253,3 klukkustundir á „bakvakt I“ og 80,105 klukkustundir á „bakvakt II“. Stefnandi byggi á því að meðaltal fyrstu fjóra mánuðina á árinu 2011 gefi rétta mynd af mánaðarlaunum hans. Mánaðarlaun stefnanda séu því samtals 171.366 krónur að meðtöldu orlofi (13,04%). Laun stefnanda fyrir hvern dag séu þá 7.908 krónur miðað við að meðaltalsfjöldi vinnudaga í mánuði sé 21,67, sbr. grein 1.1.2 í umræddum kjarasamningi.                 Umsamin yfirvinnulaun stefnanda hafi verið 2.123,74 krónur fyrir hverja yfirvinnustund. Stefnandi hafi fengið að meðaltali greitt fyrir 14,58 yfirvinnustundir síðustu tólf heilu almanaksmánuðina fyrir vinnuslysið. Laun stefnanda fyrir yfirvinnu hafi því verið 1.616 krónur að meðtöldu orlofi (13,04%) fyrir hvern dag miðað við að meðaltalsfjöldi vinnustunda í mánuði hafi verið 21,67, sbr. grein 1.1.2 í umræddum kjarasamningi.                 Umsamin veikindalaun stefnanda samkvæmt grein 12.2.1 séu því 3.142.920 krónur (7.908+1.616*330). Stefndi hafi hætt að greiða stefnanda veikindalaun 31. maí 2011. Umsamin veikindalaun stefnanda hafi fallið í gjalddaga sem hér segi:                 Kröfu um dráttarvexti byggi stefnandi á 1. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 en laun beri að greiða fyrsta hvers mánaðar eftir á, sbr. framlagðan ráðningarsamning málsaðila.                 Auk þeirra lagaákvæða sem vísað sé til hér að framan vísi stefnandi til 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda og laga nr. 30/1987 um orlof. Varðandi varnarþing vísi stefnandi til 1. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um málskostnað byggist á 130. gr. laga nr. 91/1991. Varðandi aðild stefnda vísi stefnandi til þess að heilbrigðisstofnunin Fjallabyggð sé rekin á ábyrgð og kostnað stefnda, sbr. 2. gr. laga nr. 40/2007, auk þess sem stofnunin sé rekin á A-hluta fjárlaga, sbr. 1. tölulið 3. gr. laga nr. 88/1997. III                 Stefndi hafnar kröfum stefnanda og vísar til þess að samkvæmt grein 2.5.3 í kjarasamningi Kjalar sé með bakvakt átt við það þegar starfsmaður sé ekki við störf en sé reiðubúinn að sinna útkalli. Samkvæmt grein 1.6.2, sbr. grein 1.4.1, í sama kjarasamningi sé greitt fyrir bakvaktir með tímakaupi, en komi til útkalls greiðist yfirvinna fyrir útkallið og falli þá bakvaktagreiðsla niður fyrir þann tíma, sbr. grein 2.5.3.                 Um laun í veikindaforföllum sé fjallað í grein 12.2 í kjarasamningnum. Í þeirri grein sé að finna mismunandi reglur um veikindarétt starfsmanna eftir því hvort þeir séu ráðnir til starfa á föstum mánaðarlaunum samkvæmt grein 1.1.1 í kjarasamningnum, en þá geti starfsmenn eftir 18 ára starfsaldur notið veikindalauna í allt að 360 daga, sbr. grein 12.2.1, eða hvort þeir séu ráðnir sem tímavinnumenn, en þá geti starfsmenn í mesta lagi notið veikindalauna í 121 dag, enda sé um að ræða veikindaforföll vegna vinnuslyss eða atvinnusjúkdóms, sbr. grein 12.2.2. Þar sem stefnandi hafi slasast í starfi sínu sem sjúkraflutningamaður og í kjölfarið verið óvinnufær hafi hann fengið greidd veikindalaun í samræmi við grein 12.2.2 í kjarasamningnum.                 Stefndi mótmæli því að stefnandi eigi rétt til greiðslu launa vegna veikinda á grundvelli greinar 12.2.1 í kjarasamningnum. Samkvæmt grein 1.1.1 í kjarasamningnum skuli mánaðarlaun starfsmanns sem gegnir fullu starfi greidd samkvæmt meðfylgjandi launatöflum í fylgiskjali sem taki nánar tilteknum breytingum á samningstímanum. Stefnandi hafi ekki verið ráðinn til starfa sem sjúkraflutningamaður á mánaðarlaunum, enda sé í ráðningarsamningi hans í reitnum „vinnutímaskipulag“ merkt við „annað“ og þar tiltekið „bakvaktir“. Þá komi einnig fram að um sé að ræða bakvakt og útkallsskyldu samkvæmt vaktaplani frá kl. 17:00 til kl. 8:00 að morgni virka daga og sólarhringsvaktir um helgar. Ekki hafi verið merkt við dagvinnu. Stefnandi hafi fengið greitt vaktaálag fyrir bakvaktir samkvæmt bakvaktarplönum. Þá hafi hann fengið greidda yfirvinnu þegar hann hafi verið kallaður út. Stefnandi hafi hvorki verið ráðinn í fullt starf né í ákveðið starfshlutfall. Þá hafi starf hans hjá Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar verið aukastarf, en hann hafi verið í fullu starfi hjá öðrum vinnuveitanda. Stefnandi hafi því eðli máls samkvæmt ekki getað verið í öðru fullu starfi á sama tíma.                 Stefndi telji að sjónarmið stefnanda um að ekki hafi verið heimilt samkvæmt kjarasamningnum að ráða stefnanda til starfa á tímakaupi standist ekki. Stefnda hafi verið heimilt að ráða stefnanda í tímavinnu samkvæmt 3. og 4. tölulið greinar 1.4.2 í áðurnefndum kjarasamningi, en samkvæmt þeim ákvæðum sé heimilt að greiða tímavinnukaup þeim starfsmönnum sem ráðnir hafi verið til að vinna að sérhæfðum, afmörkuðum verkefnum og starfsmönnum sem starfi óreglubundið um lengri eða skemmri tíma, þó aðeins í undantekningartilvikum.                 Verkefni stefnanda hafi verið bæði sérhæfð og afmörkuð. Hann hafi sinnt starfi við sjúkraflutninga, verið á bakvöktum og haft útkallsskyldu. Verkefni í starfi stefnanda sem sjúkraflutningamanns séu sérhæfð í þeim skilningi að þau krefjist ákveðinnar sérhæfingar, en sá einn hafi rétt til að kalla sig sjúkraflutningamann og starfa sem slíkur sem hafi fengið leyfi landlæknis til þess, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1110/2012 um menntun, réttindi og skyldur sjúkraflutningamanna og bráðatækna og skilyrði til að hljóta starfsleyfi. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. sömu reglugerðar megi veita þeim leyfi sem lokið hafa viðurkenndu námi í sjúkraflutningum samkvæmt námskrá sem landlæknir viðurkenni og starfsþjálfun sem uppfylli viðmið sem eru sett af fagráði sjúkraflutninga. Stefnandi hafi lokið grunnnámskeiði í sjúkraflutningum (EMT-B).                 Verkefni stefnanda sem sjúkraflutningamanns hafi verið afmörkuð að því leyti að hann sé samkvæmt ráðningarsamningi eingöngu ráðinn í sjúkraflutninga og þá eingöngu á bakvöktum. Stefnandi hafi fengið greidd laun fyrir starf sitt sem sjúkraflutningamaður samkvæmt kjarasamningi Kjalar við fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Sjúkraflutningamenn taki almennt laun samkvæmt kjarasamningum fjármálaráðherra og Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Það félag geri tvo samninga við fjármálaráðherra, annars vegar fyrir sjúkraflutningamenn í aðalstarfi og hins vegar fyrir hlutastarfandi sjúkraflutningamenn. Störf hlutastarfandi sjúkraflutningamanna, eins og stefnandi hafi verið, séu því afmörkuð að þessu leyti enda hafi verið talin þörf á að gerður yrði sérstakur kjarasamningur við hlutastarfandi sjúkraflutningamenn. Hlutastarfandi sjúkraflutningamenn eigi rétt til launa vegna veikinda og slysa sem tímavinnumenn samkvæmt grein 12.2.2 í kjarasamningi fyrir sjúkraflutningamenn.                 Starf stefnanda sem sjúkraflutningamanns sé jafnframt óreglubundið að því leyti að samkvæmt ráðningarsamningi hafi hann verið ráðinn á bakvaktir og með útkallsskyldu. Ekki sé um viðveruskyldu að ræða en hann hafi þurft að vera reiðubúinn að bregðast við þegar hann yrði kallaður út.                 Til vara mótmæli stefndi kröfum stefnanda sem alltof háum og krefjist stórkostlegrar lækkunar þeirra verði ekki alfarið sýknað. Stefnandi geri kröfu til greiðslu veikindalauna að fjárhæð 206.805 krónur á mánuði í alls 16 mánuði frá og með júní 2011 til og með september 2012 til viðbótar þeim veikindalaunum í fimm mánuði sem stefnandi hafi fengið greidd í kjölfar slyssins til 31. maí 2011. Ljóst sé að ef fallist yrði á að stefnandi hafi átt rétt á launum í veikindum samkvæmt grein 12.2.1 í 360 daga gæti sá réttur aldrei náð lengra en til desember 2011. Kröfur stefnanda vegna níu mánaða á árinu 2012 að fjárhæð 1.698.205 krónur fái þannig ekki staðist. Beri þegar af þeim ástæðum að lækka kröfu stefnanda um þá fjárhæð. IV                 Stefnandi gerir í máli þessu kröfu um vangreidd laun í veikindaleyfi. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort stefndi njóti réttar til veikindalauna samkvæmt grein 12.2.1 eða samkvæmt grein 12.2.2 í kjarasamningi fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, og Kjalar, stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu.                 Samkvæmt framangreindum ákvæðum kjarasamningsins gilda mismunandi reglur um veikindarétt starfsmanna eftir því hvort þeir eru ráðnir á föstum mánaðarlaunum eða sem tímavinnumenn. Stefndi hefur greitt stefnanda laun vegna veikindaleyfis í samræmi við ákvæði 12.2.2, sem á við um starfsmenn sem ráðnir eru í tímavinnu. Stefnandi heldur því hins vegar fram að hann eigi rétt til greiðslna í samræmi við ákvæði 12.2.1 þar sem hann hafi verið ráðinn á mánaðarlaunum.                 Í ráðningarsamningi stefnanda er um vinnutímaskipulag hvorki merkt við dagvinnu eða yfirvinnu, heldur „annað“ og þar skráð „bakvaktir“. Ekkert er merkt í reit þar sem ætlast er til að gerð sé grein fyrir starfshlutfalli. Þá hefur „dagleg og/eða mánaðarleg vinnuskylda og mörk reglubundins vinnutíma“ verið skilgreind sem „bakvakt og útkallsskylda samkv. vaktarplani frá kl. 17.00 eh til kl. 8.00 að morgni virka daga og sólarhringsvaktir um helgar“.                 Grein 12.2.1 í framangreindum kjarasamningi á við um starfsmenn sem ráðnir eru á mánaðarlaunum samkvæmt grein 1.1.1 í samningnum. Samkvæmt þeirri grein eru mánaðarlaun starfsmanns greidd samkvæmt meðfylgjandi launatöflum. Stefnandi fékk hins vegar greitt fyrir bakvaktirnar með tímakaupi sem reiknast af dagvinnukaupi, sbr. greinar 1.6.2 og 1.4.1 í framangreindum kjarasamningi. Við útkall var greidd yfirvinna og bakvaktargreiðsla féll niður fyrir þann tíma, sbr. greinar 2.3.3 og 2.5.3 í kjarasamningnum. Samkvæmt framangreindu var stefnandi ekki ráðinn til starfa á föstum mánaðarlaunum, heldur fékk hann greitt tímakaup fyrir þær bakvaktir og þau útköll sem hann sinnti.                 Stefnandi heldur því fram að ekki hafi verið heimilt að ráða hann í tímavinnu, en þau tilvik þar sem heimilt sé að greiða starfsmanni tímavinnukaup séu tæmandi talin í grein 1.4.2 í kjarasamningnum og tilvik stefnanda geti ekki fallið þar undir. Framangreint ákvæði er rakið í kafla II hér að framan, en samkvæmt því er meðal annars heimilt að greiða tímavinnukaup þeim starfsmönnum sem ráðnir eru til að vinna að sérhæfðum, afmörkuðum verkefnum og þeim sem starfa óreglubundið um lengri eða skemmri tíma, þó aðeins í undantekningartilvikum. Stefnandi starfaði við sjúkraflutninga hjá Heilbrigðisstofnuninni Fjallabyggð. Hann sinnti eingöngu sjúkraflutningum og einungis á bakvöktum. Hann hefur lokið viðurkenndu námi í sjúkraflutningum og hlotið leyfi landlæknis, sem er skilyrði þess að mega starfa sem sjúkraflutningamaður, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1110/2012 um menntun, réttindi og skyldur sjúkraflutningamanna og bráðatækna og skilyrði til að hljóta starfsleyfi. Með hliðsjón af þessu þykir sýnt að stefnandi hafi unnið að sérhæfðum, afmörkuðum verkefnum og því hafi verið heimilt að ráða hann til starfa á tímakaupi.                 Stefnandi heldur því fram að nauðsyn hafi borið til þess að það kæmi fram í ráðningarsamningi hans ef hann væri ráðinn í tímavinnu. Hann geti ekki notið lakari réttinda en fram komi í samningnum. Þá beri honum réttur til þess að fá upplýsingar um starfskjör sín, en hann hafi ekki verið upplýstur um að hann hafi verið ráðinn í tímavinnu eða hver réttur hans til launa vegna veikinda og slysa væri. Í ráðningarsamningi stefnanda er ekki tiltekið sérstaklega að hann sé ráðinn í tímavinnu. Þar er þó skýrt tilgreint að hann sé ráðinn á bakvaktir. Um launagreiðslur og önnur starfskjör er vísað til kjarasamnings starfsmannafélagsins Kjalar. Eins og hér hefur verið greint frá er í þeim samningi gerð grein fyrir því að tímakaup sé greitt fyrir bakvaktir. Þykir því ekki leika slíkur vafi um túlkun á ráðningarsamningi stefnanda að hann skuli njóta aukins réttar til veikindalauna. Þá þykja önnur atriði sem stefnandi hefur bent á, svo sem ákvæði um uppsagnarfrest, ekki benda til þess að stefnandi hafi verið ráðinn á mánaðarlaunum.                 Samkvæmt öllu framangreindu þykir stefnandi ekki eiga rétt til frekari greiðslna vegna veikindaleyfis en hann hefur þegar fengið og verður stefndi því sýknaður af kröfu hans.                 Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins.                 Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.                                                                               D Ó M S O R Ð :
Mál nr. 390/2015
Kærumál Farbann
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta áfram farbanni á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. júní 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. júní 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta farbanni allt til föstudagsins 26. júní 2015 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Varnaraðili er undir rökstuddum grun um að hafa gerst sek um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Að því gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurður verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 837/2014
Gjaldtaka Þjónustugjald Endurgreiðsla Ráðgefandi álit EES-samningurinn EFTA-dómstóllinn
C ehf. hefur með höndum starfsemi sem felst í skráningu og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust og ýmsa þjónustu því tengdu og hefur um langt skeið keypt upplýsingar og gögn hjá opinberum aðilum, þ. á m. Þ, og miðlað þeim áfram til viðskiptavina sinna gegn endurgjaldi. Gerðu C ehf. og forveri Þ með sér þrjá samninga þessu tengdu og í þeim öllum var mælt fyrir um að fyrir aðgang að hlutaðeigandi upplýsingum skyldi C ehf. greiða í samræmi við ákvæði gildandi laga, reglugerða eða gjaldskráa. C ehf. höfðaði mál á hendur Í og Þ og krafðist endurgreiðslu allra gjalda sem hann hefði greitt Þ á tilgreindu tímabili þar sem gjöldin hefðu ýmist verið innheimt án viðhlítandi lagastoðar eða heimildar í gjaldskrá. Hæstiréttur taldi að með samningunum hefði C ehf. skuldbundið sig að einkarétti til að greiða það endurgjald fyrir afnot upplýsinganna sem samningarnir kváðu á um. Jafnframt skírskotaði rétturinn til þess að það væri ekki á færi annars en löggjafans að gera breytingar á endurgjaldi fyrir nánar skilgreinda þjónustu ríkisstofnunar sem væri fastákveðið í lögum og væri slíkt endurgjald ákveðið í reglugerð eða gjaldskrá yrði slík gjaldtökuheimild að eiga sér viðhlítandi lagastoð og samrýmast grundvallarreglum og sjónarmiðum um töku þjónustugjalda. Þá vísaði Hæstiréttur til þess endurgjald fyrir endurnot upplýsinga samkvæmt 7. mgr. 27. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 tæki til kostnaðar, ásamt sanngjörnum hagnaðarhluta, sem yrði að tengjast meðferð hlutaðeigandi gagna hvort sem það væri vegna upphaflegrar söfnunar eða framleiðslu þeirra eða þess að liðkað væri fyrir endurnotkun þeirra með fjölföldun eða dreifinu og hafði rétturinn í því samhengi hliðsjón af fyrirmælum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2003/98/EB frá 17. nóvember 2003 um endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera og ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins sem aflað var undir rekstri málsins í héraði, sbr. dóm dómstólsins 16. desember 2013 í máli nr. E-7/13. Hæstiréttur tók í fyrsta lagi afstöðu til endurgreiðslukröfu vegna gjalda á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember sama ár fyrir upplýsingar sem sóttar voru úr þinglýsingabókum með vélrænum fyrirspurnum, nánar tiltekið veðbókarvottorð fyrir fasteignir og ökutæki úr þinglýsabók. Talið var að þar sem löggjafinn hefði ákveðið endurgjald fyrir þessar upplýsingar gæti gjaldið ekki talist ofgreitt í merkingu 1. mgr. 1. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Einnig var hafnað endurgreiðslukröfu vegna gjaldskyldu fyrir uppflettingar á eignum eftir kennitölu eiganda og uppflettingar á tölvuskjá við svonefnda fasteignaleit. Vísað var til þess að gjaldtakan hefði stuðst við gjaldskrá sem átti sér ótvíræða lagastoð og að gögn málsins bæru ekki með sér að með henni hefði verið innheimt hærra gjald en nægði til að standa straum af þeim kostnaði sem almennt hlaust af því að veita þjónustuna. Í öðru lagi var um að ræða tímabilið 1. janúar 2009 til 31. desember 2011 vegna vélrænna fyrirspurna úr þinglýsabók ökutækja, sem C ehf. kvað vera án lagaheimildar og án þess að eiga sér stoð í gjaldskrá. Hæstiréttur taldi að gjaldtakan hefði átt sér stoð í 24. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna, svo og að ljóst mætti vera að Þ hefði stuðst við tilgreint ákvæði í gjaldskrá nr. 1174/2008 vegna þjónustu Fasteignaskrár Íslands, sem sett var á grundvelli lagaákvæðisins. Var endurgreiðslukröfunni að þessu leyti hafnað með skírskotun til þess að C ehf. hefði undirgengist einkaréttarlega skuldbindingu um að greiða Þ fyrir aðgang að upplýsingunum og hefði C ehf. ekki getað vænst þess að afnotin yrðu honum endurgjaldslaus á gildistíma samningsins. Við gildistöku samningsins hefði löggjafinn ákveðið tiltekið gjald fyrir hlutaðeigandi þjónustu og þótt gjaldtakan sem endurgreiðslukrafan laut að hefði verið hærri gæti hún ekki talist óhófleg. Í þriðja lagi var um að ræða gjöld 1. janúar 2009 til 31. desember 2011 vegna sex nánar tilgreindra gjalda, sem reist var á gjaldskrá nr. 1174/2008. Hæstiréttur vísaði til þess að í lögum nr. 6/2001 fælist heimild Þ til töku þjónustugjalda og yrði skýring lagaákvæðanna og beiting þeirra í gjaldskrá að samrýmast grundvallarreglum og sjónarmiðum um töku slíkra gjalda. Taldi rétturinn að nægilega traustir útreikningar hefðu legið til grundvallar þeim áætlunum, sem fjárhæð hlutaðeigandi gjalda byggði á, og að kostnaðarliðir hefðu verið í efnislegum tengslum við þá þjónustu sem gjaldtökunni væri ætlað að standa undir. Væru forsendur gjaldskrárinnar fyrir töku gjaldanna því taldar nægjanlega traustar og samrýmanlegar grundvallarreglum og sjónarmiðum um fjárhæð þjónustugjalda. Voru Í og Þ því sýknaðir af endurgreiðslukröfu C ehf.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson og Ingibjörg Benediktsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. desember 2014 og krefst þess að stefndu verði óskipt gert að greiða sér 389.240.108 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 19. mars 2008 til 7. október 2009 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi stefndu. Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara lækkunar á kröfu áfrýjanda og þess að málskostnaður falli niður. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 2014. Mál þetta er höfðað með stefnu 24. febrúar 2012 af Creditinfo Lánstrausti hf., Höfðabakka 9, Reykjavík, gegn íslenska ríkinu og Þjóðskrá Íslands, Borgartúni 21, Reykjavík. Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda óskipt 389.240.108 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 7.752.652 krónum frá 19. mars 2008 til 14. apríl 2008, en af 16.986.850 krónum frá þeim degi til 14. maí 2008, en af 24.105.526 krónum frá þeim degi til 11. júní 2008, en af 31.004.016 krónum frá þeim degi til 14. júlí 2008, en af 36.889.676 krónum frá þeim degi til 28. ágúst 2008, en af 43.300.096 krónum frá þeim degi til 30. sept. 2008, en af 49.933.150 krónum frá þeim degi til 9. október 2008, en af 55.710.468 krónum frá þeim degi til 12. nóv. 2008, en af 65.087.002 krónum frá þeim degi til 17. des. 2008, en af 73.734.216 krónum frá þeim degi til 21. jan. 2009, en af 81.958.456 krónum frá þeim degi til 6. mars 2009, en af 86.939.308 krónum frá þeim degi til 31. mars 2009, en af 96.202.458 krónum frá þeim degi til 15. apríl 2009, en af 103.509.968 krónum frá þeim degi til 15. júní 2009, en af 109.053.478 krónum frá þeim degi til 18. júní 2009, en af 117.411.788 krónum frá þeim degi til 21. júlí 2009, en af 120.629.778 krónum frá þeim degi til 28. ágúst 2009, en af 126.805.068 krónum frá þeim degi til 15. sept. 2009, en af 132.223.698 krónum frá þeim degi til 7. okt. 2009, en ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð frá þeim degi til 14. okt. 2009, en af 137.609.898 krónum frá þeim degi til 9. nóv. 2009, en af 144.863.958 krónum frá þeim degi til 14. des. 2009, en af 151.627.468 krónum frá þeim degi til 15. jan. 2010, en af 158.967.728 krónum frá þeim degi til 12. feb. 2009, en af 164.346.888 krónum frá þeim degi til 12. mars 2010, en af 171.963.378 krónum frá þeim degi til 19. apríl 2010, en af 181.807.038 krónum frá þeim degi til 28. maí 2010, en af 193.069.548 krónum frá þeim degi til 8. júní 2010, en af 199.698.148 krónum frá þeim degi til 6. júlí 2010, en af 207.423.768 krónum frá þeim degi til 10. ágúst 2010, en af 215.606.868 krónum frá þeim degi til 15. sept. 2010, en af 221.440.168 krónum frá þeim degi til 7. okt. 2010, en af 228.404.628 krónum frá þeim degi til 30. nóv. 2010, en af 237.349.588 krónum frá þeim degi til 9. des. 2010, en af 246.785.378 krónum frá þeim degi til 13. des. 2010, en af 256.310.838 krónum frá þeim degi til 18. feb. 2011, en af 262.103.688 krónum frá þeim degi til 18. mars 2011, en af 270.602.518 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2011, en af 291.496.148 krónum frá þeim degi til 6. maí 2011, en af 303.908.618 krónum frá þeim degi til 31. maí 2011, en af 312.613.348 krónum frá þeim degi til 8. júlí 2011, en af 323.746.948 krónum frá þeim degi til 2. ágúst 2011, en af 334.205.098 krónum frá þeim degi til 31. ágúst 2011, en af 344.940.378 krónum frá þeim degi til 12. okt. 2011, en af 353.158.128 krónum frá þeim degi til 25. nóv. 2011, en af 362.045.228 krónum frá þeim degi til 8. des. 2011, en af 370.762.308 krónum frá þeim degi til 13. jan. 2012, en af 379.549.718 krónum frá þeim degi til 13. feb. 2012, og loks af 389.240.108 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi greiðslu málskostnaðar. Stefndu krefjast aðallega sýknu, en til vara að stefnukröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá krefjast stefndu greiðslu málskostnaðar. I Málsatvik eru óumdeild. Stefnandi hefur haft með höndum skráningu og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust og þjónustu sem því tengist. Gjöld sem stefnandi greiddi Þjóðskrá Íslands, fyrir upplýsingar út tölvukerfum Þjóðskrár, voru innheimt á mismunandi grundvelli á mismunandi tímabilum. Gjöld vegna tímabilsins 1. janúar 2008 til 31. desember 2008 voru innheimt á grundvelli 14. gr. laga nr. 88/1991 um aukatekjur ríkissjóðs, sbr. 2. gr. laga nr. 50/1994 og 11. lið 13. gr. laga nr. 144/2004 og er þar kveðið á um greiðslu á 550 krónum fyrir vélræna fyrirspurn „úr þinglýsingabókum“ og á grundvelli gjaldskrár nr. 17/2001, sbr. 24. gr. laga nr. 6/2001 eins og henni var breytt með lögum nr. 165/2007, er m.a. kveðið á um greiðslu á 700 krónum fyrir uppflettingu á eignum sem tengdust kennitölu og greiðslu á 14 krónum fyrir uppflettingu á tölvuskjá. Gjöld vegna tímabilsins 1. janúar 2009 til 31. desember 2011 voru innheimt á grundvelli gjaldskrár nr. 1174/2008, sbr. 24. gr. laga nr. 6/2001 eins og henni var breytt með lögum nr. 83/2008, sem mælti m.a. fyrir um greiðslu á 1.000 krónum fyrir uppflettingu á eignum sem tengdust kennitölu, greiðslu á 630 krónum fyrir vélræna fyrirspurn „úr þinglýsingahluta fasteignaskrár“, greiðslu á 20 krónum, 40 krónum, 60 krónum eða 80 krónum sem einingarverð fyrir upplýsingar úr „hverju svæði fasteignarhluta fasteignaskrár“ eftir fjölda svæða, og greiðslu á 1.000 krónum í „mánaðarlegt þjónustugjald“. Innheimt var hjá stefnanda á tímabilinu 1. janúar 2009 til 31. desember 2011 gjald að fjárhæð 630 krónur fyrir hverja vélræna fyrirspurn úr þinglýsingabók varðandi ökutæki. Gjöldin voru fyrst innheimt af Fasteignamati ríkisins. Með lögum nr. 83/2008 var nafni Fasteignamats ríkisins breytt í Fasteignaskrá Íslands samhliða breytingum á starfssviði stofnunarinnar. Með lögum nr. 77/2010 voru stofnanirnar Þjóðskrá og Fasteignaskrá Íslands sameinaðar í Þjóðskrá Íslands. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 77/2010 tók Þjóðskrá Íslands við eignum og skuldbindingum Fasteignaskrár Íslands. Í málinu hefur stefnandi uppi kröfu um endurgreiðslu gjalda fyrir aðganga upplýsinga fyrir þetta tímabil. II Stefnandi kveður gjöld sem hann hafi verið krafinn um vegna upplýsinga frá stefndu vera óhófleg með hliðsjón af ætluðum kostnaði við að veita upplýsingarnar. Af þeim sökum hafi hann sent erindi til umboðsmanns Alþingis 6. október 2009. Umboðsmaður Alþingis hafi tekið kvörtun stefnanda til meðferðar og kannað hvort gjaldskrá 1174/2008, sem varði tímabilið 1. janúar 2009 til 31. desember 2011, sem um ræði í málinu, hafi verið ákvörðuð með lögmætum hætti. Niðurstaða umboðsmanns, samkvæmt áliti frá 29. apríl 2011, hafi verið sú að gjaldheimtan væri ólögmæt. Hann hafi talið að við ákvörðun á fjárhæð gjalda fyrir: (a) vélrænar fyrirspurnir úr þinglýsingabók, (b) eignstöðuvottorð og (c) eignasöguvottorð fyrir kennitölu, hafi í öllum megindráttum verið litið til almenns rekstrarkostnaðar. Sá kostnaður hafi ekki verið í nánum og efnislegum tengslum við veitingu hins sérgreinda endurgjalds, þ.e. úrvinnslu og afhendingu upplýsinga. Af þessu hafi leitt að ákvörðun gjaldanna hafi verið í andstöðu við 1. mgr. 24. gr. laga nr. 6/2001 og hafi fjármálaráðherra verið óheimilt að staðfesta gjaldskrá á grundvelli laganna. Hins vegar hafi umboðsmaður ekki talið sig hafa forsendur til að fullyrða að gjöldin hafi verið of hátt ákvörðuð. Það væri verkefni dómstóla að skera úr um slíkt. Stefnandi geri kröfu um endurgreiðslu allra gjalda sem hann hafi greitt til Fasteignamats ríkisins, Fasteignaskrár Íslands og stefnda, Þjóðskrár Íslands, á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2011. Kröfur sínar byggi hann á eftirfarandi rökum. Hvað tímabilið 1. janúar 2008 til 31. desember 2008 varði, þ.e. í tengslum við vélrænar fyrirspurnir úr þinglýsingabók, hafi stefnandi, á umræddu tímabili, sótt 138.688 veðbókarvottorð fyrir fasteignir og 6.346 veðbókarvottorð fyrir ökutæki. Fyrir hvert vottorð hafi stefnandi greitt 536 krónur að teknu tilliti til 14 króna afsláttar sem honum hafi verið veittur vegna umfangs upplýsingakaupanna. Þannig hafi stefnandi greitt fyrir þessar upplýsingar samtals 77.734.672 krónur á því tímabili sem um ræði. Stefnandi byggi á því að þessi gjöld hafi verið innheimt án lagaheimildar. Samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2003/98/EB sé það m.a. yfirlýst markmið hennar að koma í veg fyrir „of háa verðlagningu“ hins opinbera á endurnotkun upplýsinga með setningu reglna um „efri mörk“ hennar. Þá segi í 6. gr. hennar að sé gjald tekið fyrir endurnotkun upplýsinga skuli „heildartekjurnar af því að láta í té og leyfa endurnotkun gagna ekki vera meiri en kostnaðurinn við söfnun, framleiðslu, fjölföldun og dreifingu auk sanngjarns hagnaðarhlutar af fjárfestingunni“. Tilskipunin hafi verið gerð að hluta EES-samningsins með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 105/2005 frá 8. júlí 2005 sem gengið hafi í gildi 9. júlí 2005. Tilskipunin hafi svo verið leidd í lög með ákvæðum laga nr. 161/2005 um breytingu á upplýsingalögum nr. 50/1996. Í ákvæði 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1996 sé því nú að finna ákvæði sem feli í sér þá meginreglu að engar greiðslur séu greiddar fyrir endurnot á upplýsingum. Frá þessu sé svo undanþága ef mælt sé fyrir um gjaldtökuna með lögum. Stefnandi byggi á því að gjaldheimtan, sem um ræði, fyrir vélrænu fyrirspurnirnar úr þinglýsingabók, brjóti í bága við fyrirmæli 6. gr. tilskipunar nr. 2003/98/EB. Ekkert bendi til þess að framkvæmd hafi verið skoðun á því hver væri kostnaður hins opinbera við söfnun, framleiðslu, fjölföldun og dreifingu upplýsinganna sem um ræði. Reyndar bendi ýmislegt til að hann sé enginn því upplýsingunum hafi verið safnað sem lið í að sinna lögbundnum skyldum ríkisins og ríkið hafi verulegar tekjur af þeirri starfsemi í formi þinglýsinga- og stimpilgjalda. Þá séu upplýsingarnar geymdar á tölvutæku formi og kostnaður við framleiðslu, fjölföldun og dreifingu upplýsinganna takmarkaður. Stefnandi byggi á því að 536 krónur, á árinu 2008, hafi falið í sér óhóflegt gjald í skilningi 6. gr. tilskipunarinnar.  Stefnandi byggi loks á því að ákvæði 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, leiði til þess að ákvæði 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1996 verði skýrt með þeim hætti, að gjaldtaka samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs geti því aðeins átt sér stað að hún sé í samræmi við ákvæði 6. gr. tilskipunarinnar. Þar sem svo sé ekki verði að líta svo á að gjaldtakan sem um ræði fái ekki fullnægjandi stoð í lögum. Af þeim sökum beri að endurgreiða stefnanda þau gjöld sem hafi verið oftekin, sbr. ákvæði 1. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Að því er varði uppflettingar á eignum tengdum kennitölu og uppflettingar á tölvuskjá hafi stefnandi, á umræddu tímabili, sótti 9.523 uppflettingar á eignum tengdum kennitölu („eignakönnun – veðbönd“) og 175.488 uppflettingar á tölvuskjá  („fasteignaleit“, „fasteignayfirlit“ og „landyfirlit“). Fyrir hverja uppflettingu á eignum tengdum kennitölu hafi stefnandi, á þessu tímabili, greitt 700 krónur en fyrir hverja uppflettingu á tölvuskjá greitt 14 krónur. Þannig hafi stefnandi greitt fyrir þessar upplýsingar samtals 9.402.636 krónur á því tímabili sem um ræði. Þessi gjaldheimta hafi byggst á gjaldskrá nr. 17/2001, líkt og fyrr greini. Stefnandi byggi á því að gjaldheimtan á þessu tímabili hafi brotið í bága við þágildandi 24. gr. laga nr. 6/2001 eins og þeirri grein hafi verið breytt með lögum nr. 165/2007. Samkvæmt henni skyldi gjaldheimta fyrir „upplýsingar úr Landskrá fasteigna“ byggjast á gjaldskrá sem fjármálaráðherra staðfesti, og hafi það verið gjaldskrá nr. 17/2001. Af 40. og 77. gr. stjórnarskrár og lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins leiði að við setningu gjaldskrárinnar hafi verið óheimilt að innheimta gjald sem væri hærra en nægði til að standa straum af þeim kostnaði sem almennt hlytist af því að veita þá þjónustu sem gjaldtökuheimildin næði til. Yrði þá einungis horft til beins kostnaðar eða kostnaðar sem væri í nánum og efnislegum tengslum við þá þjónustu eða starfsemi sem sérstaklega væri tilgreind í gjaldtökuheimildinni. Stefnandi byggi á því að með gjaldskrá nr. 165/2007 hafi, að því er varði þá liði sem falli hér undir, verið brotið gegn þessu. Því fari fjarri að kostnaður við að veita upplýsingarnar geti hafa numið umræddum fjárhæðum. Verði þar að horfa til þess að Fasteignamati ríkisins hafi verið skylt að halda Landskrá fasteigna og ríkið hafi, þar fyrir utan, tekjur af söfnun upplýsinga í skrána. Það hafi því sáralítill, ef einhver, kostnaður hlotist af því að leyfa stefnanda að sækja þangað upplýsingar. Þannig hafi þeir kostnaðarútreikningar sem legið hafi gjaldskránni til grundvallar ekki uppfyllt lagaskilyrði. Af þeim sökum beri að endurgreiða stefnanda þau gjöld sem hafi verið oftekin, sbr. ákvæði 1. gr. laga nr. 29/1995.  Í þessu sambandi bendi stefnandi á það misræmi sem hafi verið í gjaldtöku Þjóðskrár Íslands. Þannig hafi stefndi, Þjóðskrá Íslands, í sumum tilvikum innheimt nokkrar krónur fyrir rafrænar fyrirspurnir en í öðrum tilvikum mörg hundruð krónur, þrátt fyrir að afhendingarmátinn hafi verið sá sami. Verði ekki fallist á þetta byggi stefnandi á sömu sjónarmiðum og rakin séu að framan um gjaldheimtuna að breyttu breytanda og leiði það jafnframt til þess að taka beri kröfu hans til greina. Að því er varði tímabilið 1. janúar 2009 til 31. desember 2011 þá hafi stefnandi á umræddu tímabili gert 19.281 vélræna fyrirspurn um efni í þinglýsingabók ökutækja. Fyrir hverja fyrirspurn hafi stefnandi greitt 610 krónur í gjald, að teknu tilliti til 20 króna afsláttar sem hann hafi fengið fyrir hverja fyrirspurn. Þannig hafi stefnandi, á því tímabili sem um ræði, greitt samtals 11.761.410 krónur fyrir þessar upplýsingar. Stefnandi byggi á því að gjaldheimtan, sem hann hefði sætt vegna þessara fyrirspurna, hafi átt sér stað án allra lagaheimilda eða heimilda í gjaldskrá. Hún bryti því í bága við 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar og lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins. Fasteignaskrá Íslands, og síðar stefnda, Þjóðskrá Íslands, hefðu á því tímabili sem um ræði, hvorki haft heimild í lögum né í gjaldskrá til að innheimta gjald fyrir aðgang að upplýsingum um veðbönd ökutækja. Því beri að endurgreiða stefnanda þau gjöld sem hafi verið oftekin, sbr. ákvæði 1. gr. laga nr. 29/1995. Stefnandi byggi jafnframt á því, verði ekki fallist á þetta, að þau sjónarmið sem rakin séu að framan, að breyttu breytanda, eigi við um gjaldheimtuna og leiði það jafnframt til þess að taka beri kröfu hans til greina. Hvað varði gjöld samkvæmt gjaldskrá nr. 1174/2008 hafi stefnandi, á  umræddu tímabili, framkvæmt 44.522 uppflettingar á eignum sem tengst hafi kennitölu og greitt fyrir það 1.000 krónur á uppflettingu, 148.441 „fasteignaleitir“ á 20 krónur hverja leit, 361.777 „fasteignayfirlit“ á 60 krónur fyrir hvert yfirlit, 355.829 vélrænar fyrirspurnir úr veðbók fasteigna á 610 krónur fyrirspurnina (að teknu tilliti til 20 króna afsláttar fyrir hverja fyrirspurn), 21.374 „landyfirlit“ á 60 krónur hvert yfirlit, auk þess sem stefnandi hafi 35 sinnum greitt „mánaðarlegt þjónustugjald“. Samtals hafi því stefnandi greitt 290.539.390 krónur fyrir þessar upplýsingar. Þessi innheimta gjalda hafi byggst á gjaldskrá nr. 1174/2008 sbr. það sem fyrr greini. Stefnandi byggi á því að gjaldheimtan á þessu tímabili hafi brotið í bága við þágildandi 24. gr. laga nr. 6/2001 eins og þeirri grein hafi verið breytt með lögum nr. 83/2008. Samkvæmt henni skyldi gjaldheimta fyrir „upplýsingar úr fasteignaskrá“ byggjast á gjaldskrá sem fjármálaráðherra staðfesti. Síðan hafi verið tekið fram að í gjaldskránni skyldi kveðið á um gjaldskyldu vegna nánar afmarkaðra þátta í starfsemi Fasteignaskrár Íslands. Gjaldskráin sem sett hafi verið á þessum grundvelli hafi verið gjaldskrá nr. 1174/2008. Af 40. og 77. gr. stjórnarskrár og lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins leiði að við setningu gjaldskrárinnar hafi verið óheimilt að mæla fyrir um innheimtu gjalds sem væri hærra en nægði til að standa straum af þeim kostnaði sem almennt hlytist af því að veita þá þjónustu sem gjaldtökuheimildin næði til. Yrði þá einungis horft til beins kostnaðar eða kostnaðar sem væri í nánum og efnislegum tengslum við þá þjónustu eða starfsemi sem sérstaklega væri tilgreind í gjaldtökuheimildinni. Stefnandi byggi á því að með gjaldskrá nr. 165/2007 hafi, að því er varði þá liði sem falli hér undir, verið brotið gegn þessu. Því fari fjarri að kostnaður við að veita upplýsingarnar geti hafa numið umræddum fjárhæðum. Verði þar að horfa til þess að Fasteignamati ríkisins hafi verið skylt að halda Landskrá fasteigna og ríkið hafi, þar fyrir utan, tekjur af söfnun upplýsinga í skrána. Það hafi því sáralítill, ef einhver, kostnaður hlotist af því að leyfa stefnanda að sækja þangað upplýsingar. Þannig hafi þeir kostnaðarútreikningar sem legið hafi gjaldskránni til grundvallar ekki uppfyllt lagaskilyrði. Af þeim sökum beri að endurgreiða stefnanda þau gjöld sem hafi verið oftekin, sbr. ákvæði 1. gr. laga nr. 29/1995. Í þessu sambandi bendi stefnandi á það misræmi sem hafi verið í gjaldtöku stefnda, Þjóðskrár Íslands. Þannig hafi stefndi í sumum tilvikum innheimt nokkra tugi króna fyrir rafrænar fyrirspurnir en í öðrum tilvikum mörg hundruð krónur, þrátt fyrir að afhendingarmátinn hafi verið sá sami. Tekið skuli fram að umboðsmaður Alþingis hafi gefið út álit sitt á því að umrædd gjaldskrá og staðfesting hennar hafi byggst á ólögmætum sjónarmiðum. Horft hafi verið til heildarkostnaðar stofnunarinnar af rekstri án þess að leggja mat á þann kostnað sem sérstaklega falli til við veitingu upplýsinganna, líkt og viðurkennt hafi verið af Fjármálaráðuneytinu undir rekstri þess máls hjá umboðsmanni. Það standist ekki og því hafi gjaldskráin ekki gildi að lögum. Fari svo, að dómurinn fallist ekki á þetta, byggi stefnandi á sömu sjónarmiðum og fram komi að framan, sem leiði að breyttu breytanda til sömu niðurstöðu. Dómkrafa stefnanda feli í sér samtölu allra þeirra krafna sem gerðar séu að framan. Krafan sé reifuð sem endurgreiðslukrafa. Vextir miðist við 2. gr. laga nr. 29/1995 en þar sé vísað til 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Dráttarvaxta sé krafist frá 7. október 2009 þegar umboðsmaður Alþingis hafi móttekið kvörtun stefnanda vegna gjaldtökunnar. Stefnandi hafi um langt skeið átt í samskiptum við stefnda, Þjóðskrá Íslands, og gert kröfu um að staða hans vegna innheimtu gjaldanna verði rétt. Þeim kröfum hafi stefndi ekki sinnt og sjái stefnandi sig því knúinn til að höfða mál til heimtu krafna sinna. Um lagarök vísar stefnandi einkum til 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar, 24. gr. laga nr. 6/2001, almennra reglna stjórnsýsluréttarins, 3. gr. laga nr. 2/1993, upplýsingalaga og tilskipunar nr. 2003/98/EB sem er hluti EES-samningsins. Krafa stefnanda um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 1. mgr. 130. gr. Einnig sé vísað til 2. mgr. 1. gr. laga nr. 29/1995 sem feli í sér að stjórnvöld eigi að hafa frumkvæði að endurgreiðslu oftekinna gjalda. Um varnarþing er vísað til ákvæða 3. mgr. 33. gr., laga nr. 91/1991. III Stefndu kveða stefnanda gera kröfu um að stefndu endurgreiði ætluð oftekin gjöld að fjárhæð 389.240.108 krónur, auk vaxta og málskostnaðar. Til grundvallar fjárhæð dómkröfu stefnanda sé vísað til reikninga sem stefndi, Þjóðskrá Íslands, og forvera stofnunarinnar, Fasteignamat ríkisins og Fasteignaskrá Íslands, gáfu út vegna sölu á upplýsingum úr (réttindahluta) fasteignaskrá til stefnanda árin 2008 - 2011. Af samanburði á fjárhæðum umræddra reikninga við fjárhæð dómkröfu stefnanda megi ráða, að dómkröfur stefnanda byggist á því að framangreind gjöld hafi að öllu leyti verið oftekin. Kveðst stefnandi gera kröfu „um endurgreiðslu allra gjalda sem hann greiddi til Fasteignamats ríkisins, Fasteignaskrár Íslands og Þjóðskrár Íslands á tímabilinu 1. jan. 2008 til 31. des. 2011.“ Samkvæmt þessu virðist stefnandi reisa dómkröfur sínar og málatilbúnað á því að upplýsingar og þjónusta sem hann fékk aðgang að og sóttar voru eða miðlað úr fasteignaskrá og öðrum skrám á umræddu tímabili, hafi átt að vera honum að fullu án endurgjalds. Virðist stefnandi þannig byggja á því í stefnu að enginn eða takmarkaður kostnaður fylgi því fyrir stefnda, Þjóðskrá Íslands, að safna, framleiða, fjölfalda og dreifa upplýsingum úr fasteignaskrá stofnunarinnar og því ætti að veita upplýsingar og þjónustu að kostnaðarlausu til þriðja aðila. Ekki fylgi sögunni hvort umræddir þriðju aðilar, svonefndir miðlarar á borð við stefnanda, myndu þá miðla slíkum upplýsingum áfram til viðskiptavina sinna, án endurgjalds, en fyrir liggi að stefnandi sé í raun samningsbundinn milligönguaðili um innheimtu gjaldanna, svo sem fram komi í samningum sem hann hafi lagt fram. Stefndu mótmæli málatilbúnaði stefnanda alfarið og telji grundvöll fjárhæðar dómkröfu stefnanda vera rangan, þar sem hann gangi í berhögg við ákvæði laga nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna, og ákvæði tilskipunar 2003/98/EB, sbr. lög nr. 161/2006, um breytingu á upplýsingalögum. Helgist sú afstaða af því að skýrar gjaldtökuheimildir fyrir umræddum gjöldum hafi verið lögfestar annars vegar með 1. gr. laga nr. 165/2007 og hins vegar með 14. gr. laga nr. 83/2008. Séu þær lagaheimildir í fullu samræmi við ákvæði tilskipunarinnar. Fullnægjandi lagastoð hafi því verið fyrir gjaldtökunni á framangreindu tímabili og fjárhæð gjaldsins. Breyti innleiðing tilskipunar 2003/98/EB í íslenskan rétt með lögum nr. 161/2006 engu þar, enda séu umrædd lagaákvæði í fullu samræmi við fyrirmæli tilskipunarinnar, sbr. 6. gr. hennar. Þá telji stefndu að kröfur stefnanda fari gegn samningum þeim um upplýsingamiðlun sem stefnandi hefur gert við stefnda, Þjóðskrá, og fyrirrennara hennar. Stefndu byggi á því að þótt dómkrafa stefnanda sé sögð reifuð sem endurgreiðslukrafa séu engin skilyrði til að fallast á hana sem slíka. Stefnandi eigi ekki rétt til endurgreiðslu þar sem augljóst sé að öll þessi gjöld hafi verið borin af viðskiptamönnum hans með álagningu. Stefnandi hafi innheimt gjöldin af viðskiptamönnum sínum er hann hafi miðlað þeim og með álagningu. Stefnandi hafi ekki orðið fyrir tjóni heldur hafi hann þvert á móti verið verr settur ef hin umdeilda gjaldskrá og innheimta hefði ekki komið til, enda um að ræða viðskipti stefnanda sjálfs sem hann hafi byggt rekstur á. Þegar þetta sé virt telji stefndu að ekki sé fyrir hendi réttmæt krafa til endurgreiðslu jöfnunargjalds samkvæmt almennum reglum kröfu­réttar, enda myndi stefnandi auðgast með ósanngjörnum hætti á kostnað stefndu og þar með skattborgara, yrði á endurkröfuna fallist að hluta til eða í heild. Þá myndi stefnandi auðgast með ósanngjörnum hætti gagnvart viðskiptamönnum sínum, sem hann hafi látið bera gjöldin að fullu og ekki svo vitað sé heitið þeim endurgreiðslu eða sótt kröfuna í umboði þeirra. Krafa stefnanda sé því í reynd um óréttmæta auðgun. Sé einnig á því byggt í þessu sambandi, að í raun sé um aðildarskort að ræða, þar sem viðskiptamenn stefnanda hafi í raun staðið skil á jöfnunargjaldinu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Ennfremur telji stefndu, að með vísan til þessa hafi stefnandi ekki lögvarða hagsmuni af endurgreiðslum þeim, sem krafið sé um. Það eigi sér skýra stoð í dómaframkvæmd að hátti svo til sem að framan greini eigi sá sem greiða kunni gjöld, hvort sem um sé að ræða þjónustugjald eða skatta, ekki endurkröfurétt, sbr. t.d. hrd. 16. mars 2000 í málunum nr. 329 og 359/1999. Beri þegar af þessum ástæðum að sýkna stefndu. Þá sé einnig á því byggt að stefnandi eigi ekki aðild að umræddum endurgreiðslum, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, enda sé hann milligöngu­aðili um sölu upplýsinganna og hafi lagt gjaldið á viðskiptamenn sína. Þá sé einnig vísað til þess að fyrir liggi tveir samningar stefnanda við stefnda, Þjóðskrá Íslands, um miðlun þessara upplýsinga, annars vegar frá 2004 um sölu upplýsinga úr fasteignahluta Landskrár fasteigna og frá 2007 um sölu veðbandayfirlita úr þinglýsingahluta bifreiða. Af þessum samningum sé augljóst að stefnandi hafi samið við stefndu um miðlun upplýsinganna og viðurkennt allan lagagrundvöll umræddra gjalda. Sé einnig staðfest með umræddum samningum að um sé að ræða sölu stefnanda á umræddum upplýsingum til þriðju aðila. Í reynd sé stefnandi og hafi verið milligönguaðili fyrir hönd stefnda, Þjóðskrár, og áður Fasteignaskrá Íslands, sem séð hafi um með samningi að innheimta hjá viðskiptamönnum sínum umrædd gjöld og greiða þau mánaðarlega til Þjóðskrár. Komi þetta augljóslega fram í umræddum samningum, svo sem í grein 14 í samningi frá í september 2007 og greinum 3 og 11 í samningum frá í febrúar og mars 2004. Sé í umræddum samningum kveðið skýrt á um að stefnandi skuli greiða fyrir hverja uppflettingu í samræmi við ákvæði gildandi laga, reglugerða eða gjaldskrár. Þá séu í umræddum samningum skilmálar um að stefnandi skuldbindi sig til að veita aðeins viðskiptamönnum sínum upplýsingar úr umræddum kerfum, þ.á m. þinglýsingahluta bifreiðaskrár. Þannig sé á því byggt að í reynd hafi stefnandi komið fram í umboði stefndu eða með umsýslu. Engin stoð sé því fyrir endurgreiðslu umkrafinna gjalda í réttarsambandi aðila þessa máls og fari það gegn samningum þeirra. Auk þess sem umrædd gjaldtaka hafi verið í samræmi við lög telji stefndu að stefnandi hafi með þessu verið samningsbundinn til að innheimta gjaldið hjá viðskiptamönnum sínum. Engin stoð sé því fyrir endurkröfum eða bótakröfum stefnanda. Vísi stefndu meðal annars til meginreglu kröfu- og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga. Stefndu byggi auk þess á því að með sölufyrirkomulagi sínu og samningum við stefndu um langa hríð hafi stefnandi, ekki aðeins með tómlæti heldur og samþykki, fyrirgert rétti til endurgreiðslu eða bóta. Greiðslurnar hafi því verið inntar af hendi án fyrirvara og undir réttarsambandi því sem fyrr sé lýst. Í ljósi þessa telja stefndu að lög nr. 29/1995 geti ekki átt við. Oftekin gjöld samkvæmt þeim séu ekki þjónustugjöld eins og hér um ræði. Einnig sé á því byggt að lögin útrými ekki reglum kröfuréttar sem fyrr sé vikið að. Allt að einu verði ekki talið að um oftekin gjöld sé að ræða í ljósi þeirra reglna kröfuréttar sem lýst sé fyrr og ráðagerð stefnanda um óréttmæta auðgun með því að hafa innheimt gjöldin af viðskiptamönnum sínum og hagnast á. Ekki sé heldur unnt að líta á stefnanda sem gjaldanda í skilningi laganna við þessar aðstæður sem reifaðar hafi verið. Þá telji stefndu að síðustu að undantekningarregla 3. gr. laganna standi í vegi fyrir kröfum stefnanda. Stefndu byggi á því að gjöldin hafi verið löglega ákvörðuð og innheimt. Sé á því byggt að gjaldtökuheimildir 1. mgr. og c-liðar 24. gr. laga nr. 6/2001, sbr. 2. mgr. 9. gr. laganna, sem gilt hafi á framangreindu tímabili, feli í sér að gjaldtaka vegna seldra upplýsinga úr réttindahluta stofnunarinnar, þ.e. þinglýsing, eigendaskráning og afmörkun lands, skuli standa straum af rekstri fasteignaskrárinnar, en ekki einungis af kostnaði sem hljótist af úrvinnslu og afhendingu upplýsinga úr fasteignaskránni. Stefndu byggi á ákvæði 2. mgr. 9. gr. laga nr. 6/2001, en þar sé skýrt kveðið á um að gjaldskrá vegna þjónustunnar skuli taka mið af kostnaði einstakra rekstrarþátta stofnunarinnar. Orðalag 24. gr. laganna sé ótvírætt. Þar komi fram að heimilt sé að taka gjald fyrir vinnu og afhendingu upplýsinga úr fasteignaskrá, án þess að skýra það til samræmis við fyrirmæli í 2. mgr. 9. gr. laganna, sbr. breytingu ákvæðisins með 2. gr. laga nr. 83/2008, enda sé í ákvæði 24. gr. vísað til 2. mgr. 9. gr. laganna.  Vilji löggjafans hafi verið sá að málum skyldi skipað með þessum hætti. Komi það berlega í ljós þegar skoðuð séu lögskýringargögn sem liggi að baki gjaldtökuheimildum fyrir upplýsingar úr fasteignaskrá. Í almennum athugasemdum með frumvarpi um breytingu á lögum nr. 6/2001, sem varð að lögum nr. 165/2007, komi fram að frumvarpið sé byggt á vinnu starfshóps sem skipaður hafi verið til að fara heildstætt yfir þáverandi tilhögun við fasteignaskráningu á vegum hins opinbera, gera tillögur að breytingum og fjármögnun þessa kerfis. Jafnframt hafi komið fram er samning frumvarps sem varð að lögum nr. 165/2007 stóð yfir, að þá hafi legið fyrir að umsýslugjald myndi falla niður um áramótin 2007 til 2008, en umrætt gjald hafi verið lagt á fasteignaeigendur til að halda og þróa Landskrá fasteigna, auk þeirra tekna sem stofnunin hafi aflað með sölu upplýsinga. Af þeim sökum hafi verið talið nauðsynlegt að marka stofnuninni nýja tekjustofna og hafi við þá vinnu verið gengið út frá þremur meginforsendum til að standa straum af rekstri og þróun Landskrár fasteigna. Í fyrsta lagi hafi verið gert ráð fyrir því að hvert sveitarfélag skyldi greiða stofnuninni árlegt gjald fyrir afnot af fasteignamati stofnunarinnar. Í annan stað skyldu vátryggingar­félög innheimta sérstakt brunabótamatsgjald af fasteignaeigendum og í þriðja lagi hafi verið gerð tillaga um að tekjur sem aflað hafi verið af vinnslu og sölu upplýsinga úr Landskrá fasteigna, meðal annars vegna uppflettinga í skránni, skyldu renna til stofnunarinnar samkvæmt gjaldskrá. Áformað hafi verið að á grundvelli niðurstaðna starfshópsins skyldi vinna frumvarp til framlagningar á vorþingi 135. löggjafarþings, 2007 til 2008. Engu að síður hafi, á grundvelli og í samræmi við tillögur starfshópsins þegar á haustþingi, verið gerðar breytingar á 24. gr. laga nr. 6/2001, sbr. 1. gr. laga nr. 165/2007. Endanlegur afrakstur vinnu við að útfæra tillögur og niðurstöður starfshópsins hafi birst síðar í frumvarpi sem varð að lögum nr. 83/2008, um breyting á lögum nr. 6/2001. Í athugasemdum með frumvarpi, sem síðar varð að lögum nr. 83/2008, hafi verið vísað til frumvarpsins frá 2007 og lagt til að tekjur sem aflað væri vegna sölu rafrænna veðbandayfirlita skyldu ákvarðaðar í gjaldskrá og að þær skyldu renna til stofnunarinnar í samræmi við athugasemdir sem hafi komið fram í nefndaráliti efnahags- og skattanefndar. Loks hafi komið fram mikilvæg sjónarmið í athugasemdum við 14. gr. frumvarps laga nr. 83/2008, sem varð að 24. gr. laga nr. 6/2001. Af framangreindum ummælum í lögskýringargögnum megi þannig ráða, að bæði við setningu laga nr. 165/2007 og laga nr. 83/2008 hafi ætlun löggjafans verið sú að binda í lög þá skipan mála að gjöld samkvæmt gjaldskrá stefnda, Þjóðskrár Íslands, skyldu standa undir rekstrarkostnaði stofnunarinnar, hvort sem um væri að ræða kostnað vegna reksturs brunabótamats, fasteignamats eða fasteignaskrár.  Þrátt fyrir að orðalag 2. mgr. 9. gr. og 1. mgr. og c-liðar 24. gr. laga nr. 6/2001 og ummæli í lögskýringargögnum með ákvæðunum gefi skýrt til greina að þau hafi að geyma heimild til álagningar og töku þjónustugjalda sem taka skuli mið af kostnaði einstakra rekstrarþátta stefnda, Þjóðskrár Íslands, hafi umboðsmaður Alþingis komist að þeirri niðurstöðu að gjaldtökuheimild ákvæðanna næði ekki til annarra kostnaðarliða en grundvallarreglur stjórnsýsluréttar um þjónustugjöld gerðu ráð fyrir, þ.e. að hið sérgreinda endurgjald afmarkaðist við úrvinnslu og afhendingu upplýsinga. Stefnandi hafi gert niðurstöðu umboðsmanns að sinni í nokkrum atriðum og lagt fram álit hans. Þar virðist því slegið föstu að gjaldtaka samkvæmt 1. mgr. og c-lið 2. mgr. 24. gr. laga nr. 6/2001 skuli ekki endilega ákveðin með sama hætti og gjöld sem ákvörðuð séu á grundvelli a- og b-liðar 2. mgr. 24. gr., en í síðarnefndu ákvæðunum sé mælt fyrir um að gjald sveitarfélaga og vátryggingarfélaga fyrir afnot af fasteignamati, brunabótamati og kerfum því viðkomandi skuli að stærstum hluta standa straum af rekstrarkostnaði stofnunarinnar. Stefndu hafni því að unnt sé að álykta út frá framangreindum ákvæðum og lögskýringargögnum með þeim hætti sem umboðsmaður og stefnandi hafa gert. Samkvæmt orðanna hljóðan í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 6/2001 taki fyrirmæli ákvæðisins til gjaldskrár stofnunarinnar í heild sinni, þ.e. til allra gjalda sem stofnunin hafi heimild til að innheimta lögum samkvæmt. Ljóst þyki, að við ákvörðun fjárhæða einstakra gjalda í gjaldskrá skuli taka mið af kostnaði einstakra rekstrarþátta stofnunarinnar þannig að umrædd gjöld standi straum af rekstrarkostnaði fasteignaskrár stefnda, Þjóðskrár Íslands. Fasteignaskrá hafi verið  ætlað að standa alfarið undir eigin rekstri með tekjum af starfsemi sinni frá gildistöku laga nr. 83/2008 um breytingu á lögum nr. 6/2001, og á sama tíma gildistöku gjaldskrár nr. 1174/2008, þ.e. 1. janúar 2009. Stofnunin hafi því engra fjárframlaga notið, hvorki samkvæmt fjárlögum árið 2009 né fjárlögum 2010. Frá 1. júlí 2010 hafi Fasteignaskrá Íslands og stefndi, Þjóðskrá, verið sameinað, sbr. lög nr. 77/2010 um það efni. Fjárveitingar á árinu 2011 hafi hins vegar tekið til annarra óskyldra verkefna, svo sem vegabréfa, rafrænnar stjórnsýslu og almannaskráningar. Samkvæmt 24. gr. laga nr. 6/2001, eins og ákvæðinu hafi verið breytt með 1. gr. laga nr. 165/2007, sem gildi tóku 1. janúar 2008, sé stefnda, Þjóðskrá Íslands, heimilt að vinna úr og láta í té upplýsingar úr fasteignaskrá gegn gjaldi sem renni til stofnunarinnar samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra staðfesti, sbr. 2. mgr. 9. gr. laganna, sbr. 14. gr. laga nr. 83/2008 og 1. gr. laga nr. 165/2007. Þó að orðalag 1. mgr. 24. gr. laga nr. 6/2001 sé með þessum hætti telji stefndi, Þjóðskrá Íslands, að ekki sé unnt að líta svo á að í gjaldtökuheimildinni felist ekki jafnframt heimild til að ákvarða fjárhæð gjaldsins miðað við rekstrarkostnað fasteignaskrárinnar, enda sé mælt fyrir um það fyrirkomulag berum orðum í 2. mgr. 9. gr. laganna, sem 1. mgr. 24. gr. laganna vísi til. Stefndu byggi á því að skýra beri lögin þannig að heimilt hafi verið að láta fjárhæð gjalds fyrir afnot af fasteignaskrá taka mið af þeim kostnaði sem almennt liggi að baki rekstrarþætti skrárinnar. Stefndi, Þjóðskrá Íslands, telji þann skilning vera í fullu samræmi við fyrirmæli 1. mgr. og c-lið 24. gr. laganna, sbr. 2. mgr. 9. gr. Með hliðsjón af framangreindu hafni stefndu alfarið málsástæðum stefnanda sem speglist af áliti umboðsmanns Alþingis þess efnis, að almenn ummæli í lögskýringargögnum með 24. gr. laga nr. 6/2001, um að gjöld skuli standa straum af rekstri stofnunarinnar, dugi ekki til að víkja frá grundvallarreglum stjórnsýsluréttar um þjónustugjöld við útreikning gjalda samkvæmt c-lið 2. mgr. 24. gr. Þvert á móti telji stefndu rétt að skýra ákvæðið þannig að það feli í sér frávik frá meginreglum stjórnsýsluréttarins þannig að við ákvörðun fjárhæð gjalda samkvæmt ákvæðinu skuli líta til annarra kostnaðarliða en grundvallarreglur stjórnsýsluréttarins um þjónustu­gjöld geri almennt ráð fyrir. Raunar telji stefndu að önnur niðurstaða sé með öllu ótæk með hliðsjón af fyrirmælum 2. mgr. 9. gr. laganna, lögskýringargögnum og þeim markmiðum sem búi að baki gjaldtökuheimildunum. Stefnandi byggi á því að gjaldtakan hafi verið andstæð tilskipun nr. 2003/98/EB. Stefndu telji að innleiðing hennar breyti engu í þessu sambandi. Í 6. gr. tilskipunarinnar sé mælt fyrir um meginreglur um gjaldtöku. Hinar umdeildu gjaldtökuheimildir og ákvarðanir fjárhæða gjalda samkvæmt þeim hafi að mati stefndu verið í fullu samræmi við fyrirmæli 6. gr. tilskipunarinnar. Samkvæmt minnisblaði Fasteignaskrár Íslands og skýringum Fjármálaráðuneytisins, hafi fjárhæðir gjalda fyrir vélrænar fyrirspurnir úr þinglýsingabók, eignastöðuvottorð og eignasöguvottorð, byggst á rekstraráætlun stofnunarinnar og áætlaðri skiptingu kostnaðar á einstaka rekstrarþætti, eða með öðrum orðum á skynsamlegri áætlun. Stefndu byggi á því að samkvæmt dómaframkvæmd hafi verið gerðar tilteknar kröfur til þess hvernig fjárhæð þjónustugjalda á grundvelli laga sé ákveðin eða rökstudd. Verði hún almennt að byggja á almennri námundun við þann kostnað sem hljótist af því að veita tiltekna þjónustu. Sé ekki unnt að sérgreina nákvæmlega ákveðna kostnaðarliði, sé heimilt að byggja þá á skynsamlegri áætlun. Þar sem ekki megi taka hærra þjónustugjald en almennt nemi kostnaði vegna þjónustu og sem kveðið sé á um í gjaldtökuheimildinni, hafi það grundvallarþýðingu að afmarka þá kostnaðarliði sem felldir verði undir þjónustugjaldið, þegar metið sé hversu hátt það megi vera. Stefndu byggi á því að slík greining verði að byggjast á lögskýringu á gjaldtökuheimildinni. Sé almennt litið svo á að gjaldtakan í heild sé ekki óeðlilega há miðað við þann kostnað sem henni sé ætlað að mæta, sett sé gjaldskrá og tengsl séu á milli gjaldtöku og veittrar þjónustu. Stefndu telji að við útreikning á fjárhæð þjónustugjalda megi taka tillit til beins kostnaðar af þeirri þjónustu sem veitt sé, svo og öðrum kostnaði ef hann sé í nánum og efnislegum tengslum við þjónustuna. Á hinn bóginn sé sumum þjónustugjöldum ætlað að standa undir tiltekinni starfsemi og telji stefndi að svo eigi við um gjaldtökuheimildir laga nr. 6/2001. Sérstök sjónarmið eigi því við þegar stofnunum sé að lögum ætlað að standa undir rekstri sínum með sérstakri tekjuöflun. Stefndu hafni því að gjald sem innheimt hafi verið á grundvelli laga nr. 88/1991, hafi ekki verið í samræmi við fyrirmæli 6. gr. nefndrar tilskipunar. Fjárhæð gjaldsins hafi verið ákvarðað í lagaákvæðinu sjálfu. Löggjafinn hafi því verið búinn að taka afstöðu til hvaða þátta gjaldtökuheimildin skyldi ná. Löggjafinn hafi heimild til að leggja á „annars konar þjónustugjald“ þegar um sé að ræða gjald fyrir þjónustu sem sé valkvæð. Lög nr. 88/1991 heimili slíka gjaldtöku. Það sem sé umfram renni þá ekki í ríkissjóð heldur í rekstur viðkomandi stofnunar. Jafnvel þótt tilskipun 2003/98/EB hafi verið innleidd hér á landi með setningu laga nr. 161/2006, um breytingu á upplýsingalögum, sem gildi hafi tekið 1. janúar 2007, hafni stefndu því að með gildistöku laganna hafi ákvæðum laga um aukatekjur ríkissjóðs, sem mæli fyrir um gjaldtökuheimildir meðal annars fyrir leyfisveitingar og þjónustu, verið rutt burt. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 161/2006 komi fram, að frumvarpið sé samið annars vegar  til að auka möguleika einstaklinga og lögaðila til að endurnota og hagnýta upplýsingar frá hinu opinbera og hins vegar til að uppfylla skyldur íslenska ríkisins um að fella tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2003/98/EB inn í íslenskan rétt. Samkvæmt athugasemdum með fumvarpi sem varð að lögum nr. 161/2006, megi ráða, að gjaldtökuheimildir samkvæmt 6. gr. tilskipunarinnar einskorðist ekki undantekningarlaust við það, að gjald skuli einungis standa straum af kostnaði stjórnvalds af því að láta í té sérgreint endurgjald, heldur sé við ákvörðun fjárhæðar gjalds einnig heimilt að taka tilhlýðilegt tillit til rekstrar­kostnaðar viðkomandi opinbers aðila, krefjist viðkomandi landslög þess. Þá megi ráða af því af því sem að framan hafi verið rakið, að ætlun löggjafans með setningu laga nr. 161/2006 hafi verið að takmarka enn frekar heimildir til handa stjórnvöldum til gjaldtöku fyrir endurnotkun upplýsinga, og ganga þannig lengra en fyrirmæli tilskipunarinnar hafi gert ráð fyrir í þessum efnum. Með hliðsjón af framangreindu hafni stefndu því alfarið að tilskipun nr. 2003/98/EB hafi ekki verið innleidd í landsrétt með réttum hætti eða að gjaldtaka samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs hafi gengið í berhögg við 6. gr. tilskipunarinnar. Þvert á móti hafi gjaldtakan verið í fullu samræmi við ákvæði tilskipunarinnar. Þótt vilji löggjafans hafi verið sá að að þrengja gjaldtökuheimildir í landslögum enn frekar, miðað við það sem mælt hafi verið fyrir um í 6. gr. tilskipunarinnar, þá sé ekki grundvöllur til að skýra 27. gr. laga nr. 50/1996 og/eða 14. gr. laga nr. 88/1991, með svo þröngum hætti að 6. gr. tilskipunarinnar girði fyrir að umrædd ákvæði gætu falið í sér heimild til töku gjalds þar sem fjárhæð þess miðaðist við rekstrarkostnað Fasteignaskrár Íslands. Eða með öðrum orðum að heimilt hafi verið að taka tilhlýðilegt tillit til krafna landslaga um að stofnunin stæði undir sér fjárhagslega. Helgist sú niðurstaða af því að ákvæði tilskipunarinnar geri ráð fyrir að taka megi tillit til lagaákvæða viðkomandi lands sem mæli fyrir um að gjaldtaka standi straum af rekstrarkostnaði og af því að löggjafinn hafi með 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1996 kveðið á um að ákvæðið víki fyrir öðrum gjaldtökuákvæðum sem heimili víðtækari gjaldtöku. Þessu sjónarmiði til stuðnings skuli bent á að 24. - 28. gr. laga nr. 50/1996 myndi nýjan kafla sem innleiði ákvæði tilskipunar EB nr. 2003/98, um endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera. Athugasemdir við þessi ákvæði í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 161/2006, taki því í heild sinni til umræddra ákvæða. Með hliðsjón af framangreindu mótmæli stefndu því að 550 króna gjald fyrir vélræna fyrirspurn úr þinglýsingabókum, sem byggst hafi á útreikningi á kostnaðarliðnum samkvæmt rekstraráætlun Fasteignaskrár Íslands, hafi verið óhóflegt eða með einhverjum hætti gengið í berhögg við ákvæði tilskipunar nr. 2003/98/EB eða ákvæði landslaga á þeim tíma sem gjaldið hafi verið innheimt af stefnanda, 1. janúar 2008 til 31. desember 2008. Stefnandi haldi því fram í 21. tölulið í stefnu að gjaldheimta fyrir uppflettingar á eignum sem tengst hafi kennitölu úr þinglýsingabók (700 krónur fyrir hverja uppflettingu) og uppflettingar á tölvuskjá (14 krónur fyrir hverja uppflettingu) fyrir tímabilið 1. janúar 2008 til 31. desember 2008, hafi brotið í bága við þágildandi 24. gr. laga nr. 6/2001 eins og þeirri grein hafi verið breytt með lögum nr. 165/2007. Byggi stefnandi á því að ákvæði gjaldskrár nr. 17/2001, sem mælt hafi fyrir um gjaldtökuheimildirnar, hafi gengið í berghögg við fyrirmæli 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar og lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, þar eð af þeim ákvæðum leiði, að óheimilt sé að taka þjónustugjald sem nemi hærri fjárhæð en almennt kosti að veita hið sérgreinda endurgjald. Þá komi einnig fram í stefnu að kröfur sem að þessu lúti byggi einnig á málsástæðum undir töluliðum 13 - 18 í stefnu, um áhrif innleiðingar tilskipunar nr. 2003/98/EB í íslenskan rétt. Stefndu hafni þessum málsástæðum stefnanda og telja að umræddar gjaldtökuheimildir hafi haft fullnægjandi lagastoð í þágildandi 24. gr. laga nr. 6/2001, sbr. 2. mgr. 9. gr. laganna. Þá mótmæli stefndu því að ekki hafi hlotist neinn kostnaður af því að safna upplýsingunum og veita þær og/eða að kostnaðarútreikningar sem legið hafi gjaldtökuheimildum í gjaldskránni til grundvallar hafi brotið í bága við lög. Samkvæmt 7. gr. gjaldskrár Fasteignamats ríkisins fyrir upplýsingar úr Landskrá fasteigna o.fl., nr. 17/2001, hafi gjaldskráin verið sett með heimild í 24. gr. laga nr. 94/1976, en lögin hafi verið endurútgefin sem lög nr. 6/2001, sbr. lög nr. 47/2000. Með 1. gr. laga nr. 165/2007, um breytingu á lögum nr. 6/2001, sem gildi hafi tekið 1. janúar 2008, hafi 24. gr. laga nr. 6/2001, verið breytt. Með vísan til athugasemda með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 165/2007 og þeirra sjónarmiða sem að framan séu rakin um þá lögskýringarleið sem stefndu telji að beita eigi í þessu sambandi, sé á því byggt að fjárhæðir gjalda annars vegar fyrir hverja uppflettingu á eignum tengdum kennitölu og hins vegar fyrir hverja uppflettingu á tölvuskjá hafi verið réttilega reiknaðar og að gjaldskrá nr. 17/2001 brjóti ekki í bága við 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar eða lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins. Í stefnu byggi stefnandi kröfu sína um endurgreiðslu ætlaðra oftekinna gjalda vegna vélrænna fyrirspurna úr þinglýsingabók ökutækja á tímabilinu 1. janúar 2009 til 31. desember 2011 á því, að engin lagaheimild hafi verið til staðar til töku gjaldsins og því hafi gjaldtakan brotið í bága við 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar og lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins. Stefndu hafni því. Af fyrirliggjandi lögum og lögskýringargögnum verði ráðið, að löggjafinn hafi ætlað þeirri breytingu sem gerð var á lögum nr. 6/2001, með 14. gr. laga nr. 83/2008, að leysa af hólmi þá gjaldtökuheimild sem kveðið hafi verið á um í 25. tl. 14. gr. laga nr. 88/1991, þ.e. fyrir vélrænar fyrirspurnir úr þinglýsingabókum. Verði þetta meðal annars ráðið af greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 181/2011, um breytingu á lögum nr. 6/2001. Með nefndri 14. gr. laga nr. 83/2008 hafi verið gerðar breytingar á 24. gr. laga nr. 6/2001 og vísist einkum til c liðar breytingarinnar um gjald fyrir vélrænar fyrirspurnir úr þinglýsingabók. Stefndu telji að framangreindur c-liður gildi í málinu þar sem þar sé kveðið á um heimild til að innheimta gjald fyrir vélrænar fyrirspurnir í þinglýsingabók. Með þinglýsingabók sé ekki einungis átt við færslu meginatriða skjala, sem þinglýsa eigi um fasteignir, heldur jafnframt sams konar færslur skjala um lausafé, loftför, skip og ökutæki. Samkvæmt þinglýsingalögum sé gert ráð fyrir að færa megi þinglýsingabækur á tölvutæku formi. Öll skjöl sem komið sé með til þinglýsinga séu nú færð í þinglýsingahluta fasteignaskrár sem stefndi, Þjóðskrá Íslands, haldi og reki. Fasteignaskrá sé sameiginlegur gagnabanki þinglýsingaskráningar sýslumanna, stefnda, Þjóðskrár Íslands, og sveitarfélaga, þar sem séu fasteignir, ökutæki, skip og lausafé. Með því að löggjafinn hafi þannig heimilað með framangreindri breytingu á ákvæði 24. gr. laga nr. 6/2001, sbr. 14. gr. laga nr. 83/2008, innheimtu gjalda fyrir vélrænar fyrirspurnir með vísan til þinglýsingabóka, þá verði að telja að slík gjaldtökuheimild nái, eðli málsins samkvæmt, einnig til vélrænna fyrirspurna úr þinglýsingabók ökutækja. Verði heldur ekki ráðið af orðalagi lagaákvæðisins að það takmarkist með einhverjum hætti við ákveðnar þinglýsingabækur, svo sem vélrænar fyrirspurnir úr þinglýsingabók fasteigna. Svo sem áður segi þá njóti þessi skilningur stuðnings í lögskýringargögnum, en í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 83/2008, sé tekið fram að á meðal þeirra gjalda sem löggjafinn telji að kveða eigi á um í gjaldskrá stofnunarinnar til að standa straum af kostnaði vegna starfsemi hennar, sé gjald vegna rafrænna veðbandayfirlita sem áður hafi runnið í ríkissjóð og hafi gjöld vegna rafrænna veðbandayfirlita ökutækja verið þar á meðal. Þá sé bent á að í 8. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 sé að finna ákvæði um þinglýsingabækur og tilhögun þeirra. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. færi þinglýsingastjórar ferns konar bækur; fasteignabók um skjöl er varði fasteignir, skipabók um skjöl er varði öll skip sem skráningarskyld séu, bifreiðabók um skjöl er bifreiðar varði og lausafjárbók um öll skjöl er varði lausafé almennt. Jafnvel þó að framangreind gjaldtökuheimild hafi ekki ratað í gjaldskrár vegna þjónustu stefnda, Þjóðskrár Íslands, á framangreindu tímabili þá byggi stefndu á því og telji hafið yfir vafa að gjaldtökuheimildin hafi verið til staðar í lögum. Þegar af þeirri ástæðu sé því mótmælt að umrædd gjaldtaka hafi átt sér stað án lagaheimildar. Þvert á móti telji stefndu að fullnægjandi heimild hafi verið fyrir hendi, fyrst til handa Fasteignaskrár Íslands og síðar stefnda, Þjóðskrár Íslands. Stefnandi byggi á því að verði ekki fallist á þá málsástæðu stefnanda að lagaheimild fyrir innheimtu gjaldsins hafi ekki verið fyrir hendi, þá eigi sjónarmið sem rakin séu í töluliðum 36-39 í stefnu við að breyttu breytanda. Verði ekki fallist á það, þá eigi við sjónarmið sem rakin eru í töluliðum 13-18 í stefnu. Stefndu hafni þessum málsástæðum með vísan til þess sem rakið hafi verið að framan og þess er síðar komi fram. Í stefnu sé vikið að kröfu stefnanda um endurgreiðslu ætlaðra oftekinna gjalda úr hendi stefnda, Þjóðskrár Íslands, sem innheimt hafi verið á grundvelli gjaldskrár nr. 1174/2008 á tímabilinu frá 1. janúar 2009 til 31. desember 2011. Byggi stefnandi á því að því fari fjarri að kostnaður við að veita umræddar upplýsingar hafi getað numið þeim fjárhæðum, sem greiddar hafi verið. Virðist stefnandi í þessu sambandi einkum líta til þess að þar sem Fasteignamati ríkisins hafi verið skylt að halda Landskrá fasteigna hafi nánast enginn kostnaður hlotist af því að veita stefnanda umræddar upplýsingar. Stefndu hafni þessum fullyrðingum og málsástæðum stefnanda og byggi á að gjaldskrá nr. 1174/2008, vegna þjónustu Fasteignaskrár Íslands, hafi verið sett með heimild í 24. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 6/2001. Samkvæmt 14. gr. laga nr. 83/2008, sem breytt hafi ákvæði 24. gr. laga nr. 6/2001, hafi meðal annars átt að kveða á um innheimtu gjalda fyrir vélrænar fyrirspurnir úr þinglýsingabók í gjaldskrá stofnunarinnar. Samkvæmt athugasemdum um ákvæðið í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 83/2008 hafi verið gert ráð fyrir því, að umrætt gjald skyldi, ásamt öðrum þar tilgreindum gjöldum sem mæla hafi átti fyrir um í gjaldskránni, stæðu undir þeim kostnaði sem hlytist af því að reka starfsemi Fasteignaskrár Íslands, og síðar stefnda, Þjóðskrár Íslands. Vísist hér jafnframt til ákvæðis 9. gr. laganna. Ráðstöfun umrædds gjalds sé með öðrum orðum lögbundin og sé þjónustugjöldunum einungis varið til þeirra útgjaldaliða sem heimilt hafi verið að leggja til grundvallar við útreikning gjaldsins. Því hafi það grundvallarþýðingu að afmarka þá kostnaðarliði sem falli undir gjaldið. Eins og áður greini hafi gjaldtaka Fasteignaskrár Íslands, síðar stefnda, Þjóðskrár Íslands, byggst á rekstraráætlun stofnunarinnar og áætlunum við skoðun á því hvernig tekjur gætu mætt gjöldum, allt þar til nákvæm kostnaðargreining Deloitte ehf. á einstökum þjónustuþáttum stofnunarinnar hafi legið fyrir í upphafi árs 2012. Hafi það helgast af því að vegna fjölbreyttra verkefna stofnunarinnar hafi reynst afar flókið að reikna út fjölda eininga og þjónustuþátta svo að unnt væri að taka upp nákvæma greiningu á rekstrarkostnaði stofnunarinnar, svo sem lög nr. 6/2001, ásamt síðari breytingum, hafi gert áskilnað um. Stefndu telji það því engum vafa undirorpið, að vilji löggjafans hafi staðið til þess að umrædd gjöld skyldu standa undir rekstrarkostnaði starfsemi stofnunarinnar. Þegar af þeirri ástæðu telji stefndu að niðurstaða umboðsmanns Alþingis, sem fram komi í áliti hans í máli nr. 5769/2009, og stefnandi vísi til, geti ekki stutt kröfur stefnanda. Það að fjármögnun og starfsemi stofnunarinnar hafi verið breytt verulega með setningu laga nr. 165/2007 og 83/2008, sem breytt hafi lögum nr. 6/2001, þar sem meðal annars hafi verið gert ráð fyrir að stefndi, Þjóðskrá Íslands, fengi ekki sérstök fjárframlög til reksturs stofnunarinnar, heldur ættu notendur skrárinnar að bera kostnað af rekstri hennar, renni traustum stoðum undir málatilbúnað stefndu. Þá sé því mótmælt að með þessu fyrirkomulagi séu rofin tengsl milli gjaldtöku og veittrar þjónustu þannig að það sé háð óvissu hvort heildargjaldtaka svari til kostnaðar, sem af rekstri starfsemi stefndu, Þjóðskrár Íslands, leiði. Mótmæli stefndu því einnig að innheimta gjalda samkvæmt gjaldskrá nr. 1174/2008 brjóti með einhverjum hætti í bága við 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar, eða sé með einhverjum hætti notuð í skattalegu sjónarmiði um almenna tekjuöflun umfram þann kostnað sem henni sé ætlað að standa undir. Fyrir þjónustugjöld sem innheimt séu á grundvelli gjaldskrár nr. 1174/2008 komi sérgreint fyrirfram skilgreint endurgjald. Á hinn bóginn fái greiðendur skatta ekki í sinn hlut neitt sérgreint endurgjald, þó að þeir njóti óbeint góðs af skattgreiðslum sínum. Þegar ekki sé til staðar skattlagningarheimild í skilningi 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar sé óheimilt að byggja fjárhæð þjónustugjalds á sjónarmiðum um almenna tekjuöflun. Þegar um sé að ræða einfalda lagaheimild til töku þjónustugjalds sé talið að gjaldið megi ekki vera hærra en sá kostnaður sem almennt hljótist af því að veita umrædda þjónustu. Ákvörðun á fjárhæð þjónustugjalda verði jafnan að byggjast á traustri nálgun á þeim kostnaði sem almennt hljótist af því að veita umrædda þjónustu. Ef ekki sé unnt að sérgreina nákvæmlega ákveðna kostnaðarliði, sé heimilt að mati stefndu að byggja útreikninga og áætlun á skynsamlegri áætlun. Greining á kostnaðarliðum sem felldir verði undir þjónustugjaldið byggist á lögskýringu á gjaldtökuheimildinni. Þekkt sé að sumum þjónustugjöldum sé ætlað að standa undir tiltekinni starfsemi eða rekstri stofnana. Þjónustugjöld verði almennt ekki skýrð svo, að þeim sé ætlað að standa undir öllum rekstrarkostnaði stofnunar nema að það komi skýrt fram í lögum. Fordæmi séu fyrir slíkum gjaldtökuheimildum í lögum og megi í því sambandi vísa til 1. mgr. 7. gr. laga nr. 81/1992, um vatnsveitur, og 18. gr. laga nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu. Að mati stefndu eigi þetta einmitt við um þau gjöld sem deilt sé um, enda komi skýrt fram í 9. gr. laga nr. 6/2001, að við ákvörðun og setningu gjaldskrár skuli taka mið af kostnaði einstakra rekstrarþátta stefnda, Þjóðskrár Íslands. Eins og áður geti, þá telji stefndu að fyrirmæli 9. gr. taki til allra gjaldtökuheimilda sem tilgreind séu í 24. gr. laganna, þ.e. ákvæðisins í heild sinni. Á hinn bóginn sé við útreikning á fjárhæð gjalda í öðrum tilvikum yfirleitt einungis miðað við beinan kostnað af veittri þjónustu og annan kostnað að því gefnu að hann sé í nægjanlega nánum og efnislegum tengslum við þjónustuna. Til stuðnings framangreindu byggi stefndu á því að fyrir liggi í málinu greiningar á kostnaði við þau þjónustugjöld sem kröfur stefnanda taki til. Vísi stefndu í bréf stefnda, Þjóðskrár, frá 13. júlí 2010, þar sem gjöldin séu útskýrð með tilliti til rekstrarþátta stofnananna. Þá liggi fyrir minnisblað frá 18. janúar 2010 og yfirlit kostnaðar í ljósi tekjuáætlunar og skiptingar milli deilda. Enn vísist til kostnaðargreiningar Deloitte fyrir stefnda, Þjóðskrá, frá í janúar 2012. Stefndu hafi einnig bakreiknað þá kostnaðargreiningu. Í öllum tilvikum sjáist að umrædd gjöld hafi verið ákveðin og innheimt í samræmi við framangreindar lagaheimildir og þá námundun sem þjónustugjöld verði að taka mið af. Kostnaðargreining fyrir árið 2011 á 20 kr., 40 kr., 60 kr. og 80 kr. einingarverðs fyrir upplýsingar úr ,,hverju svæði fasteignarhluta fasteignaskrár” eftir fjölda svæða skv. gjaldskrá nr. 1174/2008 hafi verið 20 kr., 40 kr., 60 kr., og 80 kr. en ekki sé fyrirliggjandi bakreiknað kostnaðarverð vegna áranna 2009, 2010 og 2011 enda um mjög lágar upphæðir að ræða. Kostnaðargreining fyrir 2011 á 1000 króna mánaðarlegu þjónustugjaldi skv. gjaldskrá nr. 1174/2008 hafi verið 2731 krónur og sé kostnaður þeirrar þjónustu því margfalt hærri gjaldinu og því hafi það ekki þótt þjóna tilgangi að bakreikna gjaldið fyrir árin 2009, 2010 og 2011. Eins og sjáist af kostnaðargreiningunni sé kostnaður í reynd hærri þegar ekki sé um rafrænar fyrirspurnir að ræða. Þá verði einnig að hafa í huga þá upphaflegu greiningu sem byggt hafi á reynslu og fyrr hafi verið vikið að. Saman sýni gögnin fram á að gjaldskrár og gjöld samkvæmt þeim hafi ekki verið óeðlilega há miðað við heildarkostnað í ljósi þess hvernig löggjafinn hafi ætlað umræddum stofnunum að afla tekna til starfseminnar. Til vara sé krafist stórfelldrar lækkunar, með vísan til framangreindra málsástæðna, verði fallist á einhver sjónarmiða stefnanda sem leitt geti til endurgreiðslu, að því marki sem stefnandi hafi ekki innheimt gjöldin af viðskiptamönnum sínum. Meta verði að álitum, ef talið verði að þjónustugjöld hafi verið óeðlilega há og að því marki oftekin. Endurgreiðslukrafa verði því ekki umfram sem því nemi að mati dómsins. Beri þá einungis að fallast á kröfur stefnanda að álitum, að því leyti. Frá því verði einnig í öllum tilvikum að draga alla álagningu, tekjur eða hagnað sem stefnandi hafi sjálfur haft af gjaldtökunni. Einnig sé á því byggt, auk tómlætis stefnanda, að kröfur hans séu fyrndar að hluta, sbr. ákvæði fyrningarlaga nr. 50/2007 og laga 29/1995 ef á þeim verði byggt. Af hálfu stefndu sé kröfum um vexti og dráttarvexti mótmælt, einkum upphafstíma þeirra. Til stuðnings kröfum stefndu um málskostnað vísist til XXI. kafla laga nr. 91/1991. IV                 Í þinghaldi 21. september 2012 lagði stefnandi fram kröfu um öflun ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Í þinghaldi 7. desember sama ár var kveðinn upp úrskurður um öflun ráðgefandi álits. Leitað var ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á eftirfarandi: 1.       Er það samrýmanlegt EES-rétti, sérstaklega 6. gr. tilskipunar nr. 2003/98/EB, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 105/2005, að innheimta gjald fyrir hverja vélræna fyrirspurn úr þinglýsingabók ef þannig háttar til að við ákvörðun gjaldsins hefur ekki legið fyrir útreikningur á ,,heildartekjum“ og ,,kostnaði“ í skilningi 6. gr. tilskipunarinnar? 2.       Samrýmist það 6. gr. tilskipunarinnar ef við ákvörðun ,,kostnaðar“ í skilningi hennar er horft fram hjá: a.       tekjum hins opinbera, sem verða til við söfnun gagna, í formi gjalda sem einstaklingar og fyrirtæki greiða fyrir skráningu löggerninga í þinglýsingabók og b.       tekjum hins opinbera, sem verða til við söfnun gagna, í formi skatta sem eru innheimtir sem stimpilgjöld af skráðum löggerningum samtímis því að einstaklingar og fyrirtæki leita eftir skráningu þeirra í þinglýsingabók? Álit EFTA-dómstólsins er frá 16. desember 2013. Kvað dómstóllinn í fyrsta lagi upp það álit, að samkvæmt 6. og 7. gr. tilskipunar 2003/98/EB væri gerð krafa um það, í þeim tilvikum þar sem gjald væri innheimt vegna endurnotkunar upplýsinga frá hinu opinbera, að efnisleg athugun hafi farið fram þegar fjárhæð gjaldsins væri ákveðin. Athugunin yrði að sýna fram á að heildartekjur af slíkri gjaldtöku færu ekki fram úr kostnaði við söfnun, framleiðslu, fjölföldun og dreifingu gagna, auk sanngjarns hagnaðarhlutar af fjárfestingunni. Ef óvissa ríkti um þá þætti sem máli skiptu fyrir útreikningana, yrði í það minnsta að gera áætlun. Grundvöll útreikninga yrði þó aðeins að gera aðgengilegan þegar um hann væri beðið. Það gilti óháð því hvort fjárhæð gjaldsins væri ákveðin með lögum af þar til bæru yfirvaldi, eða með öðrum hætti.  Í annan stað kvað dómstóllinn upp það álit að þegar kostnaður í skilningi 6. gr. tilskipunarinnar væri ákveðinn, væri heimilt að telja með kostnað sem opinber aðili hefði af upphaflegri söfnun og framleiðslu þeirra gagna sem um ræddi. Skyldu þá allar tekjur sem yrðu til vegna þeirra, til dæmis gjöld og skattar eins og stimpilgjöld, sem lækkuðu eða kæmu til móts við þann kostnað, einnig teknar með í reikninginn.                 Í þriðja lagi kvað dómstóllinn upp það álit að líta mætti til krafna sem gerðar væru til opinberra stofnana um að þær stæðu undir sér fjárhagslega þegar lagt væri mat á kostnað samkvæmt 6. gr. tilskipunarinnar. Þetta ætti við að því marki að einungis væri litið til kostnaðarþátta, ásamt sanngjörnum hagnaðarhluta, sem tengdist þeirri gagnavinnslu sem nauðsynleg væri til að gera endurnotkun mögulega í samræmi við 6. gr.                 Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu fyrir dómi fyrirsvarsmaður stefnanda, fyrirsvarsmaður stefnda, Þjóðskrár Íslands, og fjármálastjóri stefnda, Þjóðskrár. V Stefndu telja málsgrundvöll stefnanda ekki standast lög. Þannig geti stefnandi ekki haft uppi endurkröfu á grundvelli laga nr. 29/1995, þar sem stefnandi sé milligönguaðili um miðlun upplýsinga og innheimtu gjalda vegna upplýsinga frá stefnda, Þjóðskrá Íslands, en ekki gjaldandi í skilningi laganna. Önnur niðurstaða myndi leiða til þess að stefnandi myndi auðgast með óréttmætum hætti, þar sem hann hafi endurkrafið viðsemjendur sína um umrætt gjald, auk álagningar. Stefnandi kveður stefnda, Þjóðskrá Íslands, selja stefnanda upplýsingar úr tölvuskrám sem stefndi haldi. Að baki samningssambandi stefnanda og stefnda, Þjóðskrár, séu samningar sem gerðir hafi verið á árunum 2004 og 2007, svo sem fyrirsvarsmaður stefnanda staðfesti fyrir dóminum í aðilaskýrslu. Byggt sé á málsástæðum um ólögmæta gjaldtöku og endurgreiðslu eftir lögum nr. 29/1995. Samkvæmt 1. gr. þeirra laga skulu stjórnvöld, sem innheimta skatta eða gjöld, endurgreiða fé það sem ofgreitt reynist, lögum samkvæmt. Samkvæmt 2. gr. laganna skal við endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda samkvæmt 1. gr. laganna, greiða gjaldanda vexti, sem skulu vera þeir sömu og Seðlabanki Íslands ákveður og birtir.  Samkvæmt samningum stefnanda og Fasteignamats ríkisins, frá 24. febrúar 2004, annars vegar og 30. mars 2004, hins vegar, gilda báðir samningar um framkvæmd á beinlínuaðgangi notenda stefnanda að fasteignahluta Landskrár fasteigna, samningsgerð við viðskiptavini, útreikning gjalda, útsendingu reikninga til viðskiptavina og innheimtu þeirra. Fram kemur að samningarnir gildi hins vegar ekki um aðgang starfsmanna stefnanda að fasteignahluta Landskrár fasteigna, né öðrum skrám Fasteignamats ríkisins. Er stefnanda heimilt að miðla upplýsingum til notenda sinna úr fasteignahluta Landskrár fasteigna með beinlínutengingu í gegnum vefsetur stefnanda. Stefnanda ber að annast samningsgerð við notendur, sem óska eftir beinlínuaðgangi að fasteignahlutanum. Sá samningur skal gerður á samningsformi sem Fasteignamat ríkisins hefur samþykkt. Skal miðlun stefnanda á upplýsingum úr fasteignahluta Landskrár fasteigna framkvæmd í sérstöku viðmóti á vefsetri stefnanda, þar sem fram kemur að um upplýsingar frá Fasteignamati ríkisins sé að ræða. Skal stefnandi sjá um innheimtu gjalda vegna uppflettinga og annarra gjalda hjá notendum vefseturs stefnanda. Ber stefnanda að greiða Fasteignamati ríkisins fyrir hverja uppflettingu í Landsskrá fasteigna, framkvæmda á vefsetri stefnanda, í samræmi við ákvæði gildandi laga, reglugerða eða gjaldskrár. Fasteignamat ríkisins skal senda stefnanda reikning eftir hver mánaðarmót fyrir heildaruppflettingar notenda í fasteignahluta Landskrár fasteigna í vefsetri stefnanda sem framkvæmdar hafa verið á undangengnum mánuði. Samningur á milli stefnanda og Fasteignamats ríkisins, frá 5. september 2007, um sölu veðbandayfirlita úr þinglýsingahluta bifreiða, hefur að geyma hliðstæða samningsskilmála. Samkvæmt því sem að framan greinir hafa viðskiptavinir stefnanda annars vegar beinlínutengingu við tölvukerfi stefnda, Þjóðskrár, eða þeir nýta sér vefsetur stefnanda, sem þá skal vera í sérstöku viðmóti þar sem fram kemur að um sé að ræða upplýsingar frá stefnda, Þjóðskrá Íslands. Er því í öllum tilvikum um það að ræða að upplýsingum úr tölvukerfum stefnda, Þjóðskrár Íslands, er miðlað áfram, af hálfu stefnanda, til viðskiptavina stefnanda, sem innheimtir gjöld fyrir upplýsingarnar hjá viðskiptavinunum og stendur skil á þeim mánaðarlega til stefnda, Þjóðskrár. Ákvæði laga nr. 29/1995 taka annars vegar til stjórnvalda og hins vegar gjaldenda. Lögin skilgreina ekki hverjir teljist gjaldendur.  Ætla verður þó að með því sé átt við þá einstaklinga eða lögaðila sem á endanum bera fjárhagslegar byrgðar af ofteknum sköttum eða gjöldum. Önnur niðurstaða kynni að leiða til ólögmæts ávinnings gjaldenda, á kostnað stjórnvalda. Ganga verður út frá því að stefnandi hafi lagt gjald á umræddar uppflettingar, til að standa straum af kostnaði við starfsemi sína, auk eðlilegs ávinnings af starfseminni. Að því gefnu hafi stefnandi því ekki borið fjárhagslegar byrgðar vegna starfsemi sinnar fyrir þau tímabil sem hann krefur stefnda um endurgreiðslu gjalda.  Viðurkenning á endurgreiðslu hinna umkröfðu gjalda myndi þar af leiðandi hafa í för með sér ólögmætan ávinning fyrir stefnanda. Í þessu ljósi er það niðurstaða dómsins að stefnandi hafi verið milligönguaðili og geti ekki, eins og hér háttar til, talist gjaldandi í skilningi laga nr. 29/1995. Þegar af þessari ástæðu verða stefndu sýknuð af kröfum stefnanda.  Rétt þykir að hver aðili beri sinn kostnað af málinu. Af hálfu stefnanda flutti málið Reimar Snæfells Pétursson hæstaréttarlögmaður, en af hálfu stefndu Einar Karl Hallvarðsson hæstaréttarlögmaður. Dóm þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari. D ó m s o r ð: Stefndu, íslenska ríkið og Þjóðskrá Íslands, eru sýkn af kröfum stefnanda, Creditinfo Lánstrausts hf. DÓMUR DÓMSTÓLSINS 16. desember 2013[1]  (Tilskipun 2003/98/EB um endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera – Meginreglur um gjaldtöku – Gagnsæi – Hugtakið „kostnaður“ – Kröfur um að opinber aðili standi undir sér fjárhagslega) Mál E-7/13, BEIÐNI samkvæmt 34. gr. samningsins milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, um ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins, frá Héraðsdómi Reykjavíkur, í máli Creditinfo Lánstraust hf. gegn Þjóðskrá Íslands og íslenska ríkinu varðandi túlkun á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/98/EB frá 17. nóvember 2003 um endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera. DÓMSTÓLLINN, skipaður dómurunum: Carl Baudenbacher, forseta, Per Christiansen, framsögumanni, og Páli Hreinssyni, dómritari: Gunnar Selvik, hefur, með tilliti til skriflegra greinargerða frá: -         Stefnanda, í fyrirsvari er Reimar Pétursson, hrl. -         Stefndu, í fyrirsvari sem umboðsmaður er Einar Karl Hallvarðsson, ríkislögmaður. -         Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), í fyrirsvari sem umboðsmenn eru Xavier Lewis, framkvæmdastjóri lögfræði- og framkvæmdasviðs, Auður Ýr Steinarsdóttir og Catherine Howdle, lögfræðingar á lögfræði- og framkvæmdasviði. -         Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, í fyrirsvari sem umboðsmenn eru Gerald Braun og Nicola Yerrell, hjá lagaskrifstofu framkvæmdastjórnarinnar. með tilliti til skýrslu framsögumanns, og munnlegs málflutnings lögmanns stefnanda, Reimars Péturssonar, umboðsmanns stefndu, Einars Karls Hallvarðssonar, fulltrúa ESA, Catherine Howdle, og fulltrúa framkvæmdastjórnarinnar, Nicola Yerrell, sem fram fór 23. október 2013, kveðið upp svofelldan Dóm I            Löggjöf EES-réttur 1               Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/98/EB frá 17. nóvember 2003 um endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera (Stjtíð. ESB 2003 L 345, bls. 90) (tilskipunin) var tekin upp í XI. viðauka EES-samningsins, lið 5k, samkvæmt ákvörðun Sameiginlegu EES-nefndarinnar 105/2005 frá 8. júlí 2005 (Stjtíð. ESB 2005 L 306, bls 41). Ákvörðunin tók gildi 1. september 2006. 2               Í 5., 9. og 14. lið formálsorða tilskipunarinnar segir: (5) Eitt af meginmarkmiðunum með því að koma á fót innri markaði er að skapa skilyrði sem stuðla að þróun þjónustu sem nær til alls Bandalagsins. Upplýsingar frá hinu opinbera eru mikilvægur efniviður í stafrænar vörur og þjónustu og verða jafnvel enn mikilvægari uppspretta efnis eftir því sem þráðlaus efnisþjónusta þróast. Víðtæk landfræðileg útbreiðsla yfir landamæri mun einnig skipta sköpum í þessu samhengi. Auknir möguleikar á að endurnota upplýsingar frá hinu opinbera ættu m.a. að gera evrópskum fyrirtækjum kleift að hagnýta möguleika þeirra og stuðla að hagvexti og atvinnusköpun. (9) Þessi tilskipun felur ekki í sér skyldu til að heimila endurnotkun gagna. Það er áfram ákvörðun aðildarríkisins eða hlutaðeigandi opinbers aðila hvort heimila skuli slíka endurnotkun eða ekki. Þessi tilskipun gildir um gögn sem gerð eru aðgengileg til endurnotkunar þegar opinberir aðilar gefa út leyfi fyrir upplýsingum, selja, dreifa, skiptast á eða gefa út upplýsingar. [...] (14) Ef gjald er tekið fyrir skulu heildartekjurnar ekki vera meiri en sem nemur heildarkostnaðinum við að safna, framleiða, fjölfalda og dreifa gögnunum auk sanngjarns hagnaðarhlutar af fjárfestingunni að teknu tilhlýðilegu tilliti til þeirra krafna sem gerðar eru til viðkomandi opinbers aðila, þar sem það á við, um að hann standi undir sér fjárhagslega. Framleiðsla felur í sér að búa til gögnin og setja þau saman, og dreifing getur einnig falið í sér stuðning við notendur. Þar eð koma ber í veg fyrir of háa verðlagningu skulu efri mörk gjalds miðast við endurheimt kostnaðar, auk sanngjarns hagnaðarhlutar af fjárfestingunni, í samræmi við gildandi reikningsskilareglur og viðeigandi aðferðir við kostnaðarútreikninga hlutaðeigandi opinberra aðila. Efri mörk gjalda, sem eru sett í þessari tilskipun, eru með fyrirvara um rétt aðildarríkjanna eða opinberra aðila til að innheimta lægri gjöld eða engin gjöld og aðildarríkin skulu hvetja opinbera aðila til að gera gögn aðgengileg gegn gjaldi sem er ekki hærra en lágmarkskostnaður við að fjölfalda gögnin og dreifa þeim. 3               Samkvæmt 1. gr. eru í tilskipuninni settar lágmarksreglur um endurnotkun og hagnýtar leiðir til að auðvelda endurnotkun gagna sem til eru og eru í vörslu opinberra aðila. 4               Í 4. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar er endurnotkun skilgreind með eftirfarandi hætti: „endurnotkun“: notkun einstaklinga eða lögaðila á gögnum í vörslu opinberra aðila í viðskiptaskyni eða tilgangi sem ekki er viðskiptalegs eðlis, sem er annar en upphaflegur tilgangur hins opinbera með því að búa gögnin til. Skipti á gögnum milli opinberra aðila sem einungis eru til að sinna opinberu starfssviði þeirra er ekki endurnotkun, 5               Í 6. gr. tilskipunarinnar segir, um meginreglur um gjaldtöku: Ef gjald er tekið skulu heildartekjurnar af því að láta í té og leyfa endurnotkun gagna ekki vera meiri en kostnaðurinn við söfnun, framleiðslu, fjölföldun og dreifingu auk sanngjarns hagnaðarhlutar af fjárfestingunni. Gjöld skulu vera kostnaðartengd á viðkomandi uppgjörstímabili og reiknuð út í samræmi við þær reikningsskilareglur sem gilda um þann opinbera aðila sem málið varðar. 6               Í 7. gr. tilskipunarinnar segir, um gagnsæi: Öll skilyrði sem gilda um endurnotkun á gögnum í vörslu opinberra aðila og stöðluð gjöld fyrir hana skulu ákveðin fyrir fram og birt með rafrænum hætti ef unnt er og við á. Ef þess er óskað skal opinber aðili tilgreina grundvöll útreikninga á gjaldinu sem birt er. Hlutaðeigandi opinberir aðilar skulu einnig tilgreina til hvaða þátta er tekið tillit við útreikninga á gjöldum í undantekningartilvikum. Opinberir aðilar skulu tryggja að umsækjendum um endurnotkun gagna sé gerð grein fyrir þeim leiðum sem tiltækar eru til að leggja fram kvartanir varðandi úrskurði eða venjur sem hafa áhrif á þá. Landsréttur 7               Tilskipun 2003/98/EB var innleidd í íslenska löggjöf með lögum nr. 161/2006 sem breyttu upplýsingalögum nr. 50/1996 og bættu við þau nýjum kafla (VIII. kafla um endurnot opinberra upplýsinga). Þann 1. janúar 2013, eftir að málaferli þau sem hér um ræðir voru hafin fyrir héraðsdómi tóku núverandi upplýsingalög nr. 140/2012 gildi. VII. kafli gildandi upplýsingalaga, um endurnot opinberra upplýsinga, svarar til VIII. kafla fyrri laga með áorðnum breytingum. 8               Samkvæmt 6. mgr. 27. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er heimilt að taka gjald fyrir að veita aðgang að upplýsingum úr opinberum skrám. Skal hlutaðeigandi stjórnvald setja sér gjaldskrá sem ráðherra staðfestir. 9               Þjóðskrá Íslands er ríkisstofnun sem heyrir undir innanríkisráðuneytið. Meðal verkefna sem Þjóðskrá hefur með höndum eru skráning margvíslegra upplýsinga um íbúa landsins og fasteignir. Þjóðskrá veitir ýmsa þjónustu sem við kemur matsgerðum, rafrænum aðgangi að skrám hennar og útgáfu vottorða, vegabréfa og nafnskírteina. Söluverð og greiðslumáti eru skráð í fasteignaskrá við hverja sölu lands og þær upplýsingar notaðar við útreikning hagvísa, á borð við vísitölu fasteignaverðs. 10          Í samræmi við 24. gr., samanber. 2. mgr. 9. gr., laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna, er Þjóðskrá heimilt að vinna úr og láta þriðja aðila í té upplýsingar úr fasteignaskrá. 11          Í sömu grein er Þjóðskrá veitt heimild til gjaldtöku vegna slíkrar vinnslu og upplýsingagjafar, samkvæmt sérstakri gjaldskrá sem staðfest er af innanríkisráðherra. Samkvæmt 9. gr. laganna skal taka mið af kostnaði einstakra rekstrarþátta við ákvörðun fjárhæða gjaldskrárinnar, og skulu þeir aðgreindir í bókhaldi. Í greininni er jafnframt kveðið á um að gjaldskráin skuli endurskoðuð árlega. 12          Í 14. gr. laga nr. 88/1991 um aukatekjur ríkissjóðs er kveðið á um fjárhæðir sem innheimta má vegna upplýsingagjafar úr þinglýsingarbók. II           Málavextir og meðferð málsins fyrir landsdómstólnum 13          Stefnandi hefur með höndum skráningu og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust og ýmsa þjónustu í tengslum við þá starfsemi. Vegna viðskipta sinna sækir hann um aðgang að gögnum og upplýsingum hjá opinberum aðilum, þar á meðal hjá stefnda, Þjóðskrá Íslands. 14          Á árunum 2004 til 2007 gerði stefnandi röð samninga við Fasteignamat ríkisins um aðgang að upplýsingum. Árið 2010 var Fasteignamat ríkisins sameinað Þjóðskrá og mynduð var stofnunin Þjóðskrá Íslands. 15          Þjóðskrá Íslands krafði stefnanda um gjöld vegna aðgangs að upplýsingum og gögnum og stefnandi gerir þá kröfu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að honum verði endurgreiddar þær greiðslur sem hann hafi innt af hendi á tímabilinu 11. janúar 2008 til 31. desember 2011. Þar sem gjaldskráin var samþykkt af fjármálaráðherra stefnir hann einnig íslenska ríkinu 16          Með beiðni, sem skráð var í málaskrá dómstólsins 29. apríl 2013, bar Héraðsdómur Reykjavíkur eftirfarandi spurningar undir dómstólinn: 1.             Er það samrýmanlegt EES-rétti, sérstaklega 6. gr. tilskipunar nr. 2003/98/EB um endurnotkun opinberra upplýsinga, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 105/2005 um breytingu á XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við EES-samninginn, að innheimta gjald fyrir hverja vélræna fyrirspurn úr þinglýsingarbók ef þannig háttar til að við ákvörðun gjaldsins hefur ekki legið fyrir útreikningur á „heildartekjum“ og „kostnaði“ í skilningi 6. gr. tilskipunarinnar? 2.             Samrýmist það 6. gr. tilskipunarinnar ef við ákvörðun „kostnaðar“ í skilningi hennar er horft fram hjá: a.             tekjum hins opinbera, sem verða til við söfnun gagna, í formi gjalda sem einstaklingar og fyrirtæki greiða fyrir skráningu löggerninga í þinglýsingarbók, og b.             tekjum hins opinbera, sem verða til við söfnun gagna, í formi skatta sem eru innheimtir sem stimpilgjöld af skráðum löggerningum samtímis því að einstaklingar og fyrirtæki leita eftir skráningu þeirra í þinglýsingarbók? 3.             Samrýmist það 6. gr. tilskipunarinnar ef við ákvörðun „kostnaðar“ í skilningi hennar er talinn með kostnaður sem opinber aðili hefur af söfnun gagna, sem honum er lögskylt að safna óháð því hvort einstaklingar og fyrirtæki óska eftir endurnotkun þeirra? 4.             Samrýmist það 6. gr. tilskipunarinnar ef við ákvörðun „kostnaðar“ í skilningi hennar væri löggjafanum játuð heimild til að ákveða með lögum fjárhæð gjaldsins án þess að ákveðin fjárhæð sæti efnislegri skoðun? 5.             Samrýmist það 6. gr. tilskipunarinnar ef við ákvörðun „kostnaðar“ í skilningi hennar væri tekið tilhlýðilegt tillit til almennra krafna landslaga um að stofnanir ríkisins standi undir sér fjárhagslega? 6.             Ef svarið við spurningu fimm er já, hvað felst í því nánar tiltekið og til hvaða kostnaðarþátta í rekstri hins opinbera má taka tillit í þessu samhengi? 17          Vísað er til skýrslu framsögumanns um frekari lýsingu löggjafar, málsatvika, meðferðar málsins og skriflegra greinargerða sem dómstólnum bárust, sem verða ekki nefnd eða rakin nema að því leyti sem forsendur dómsins krefjast. III         Fyrsta og fjórða spurningin 18          Fyrsta og fjórða spurningin varða báðar þær aðferðir sem beitt er við útreikning gjaldtöku vegna endurnotkunar upplýsinga frá hinu opinbera og kröfur um gagnsæi þar að lútandi samkvæmt 6. gr. tilskipunarinnar. Með fyrstu spurningunni leitar landsdómstóllinn svars við því hvort það samrýmist ákvæðinu að innheimta gjald fyrir hverja vélræna fyrirspurn ef útreikningur á heildartekjum eða kostnaði hefur ekki legið fyrir við ákvörðun gjaldsins. Með fjórðu spurningunni leitar landsdómstóllinn svars við því hvort það samrýmist sama ákvæði að löggjafinn mæli fyrir um fjárhæð gjaldsins í lögum, án þess að nein ákveðin fjárhæð sæti efnislegri skoðun. Dómstóllinn telur rétt að taka afstöðu til þessara tveggja spurninga í einu lagi. 19          Landsdómstóllinn hefur takmarkað spurningar sínar við túlkun á 6. gr. tilskipunarinnar. Í því skyni að svar dómstólsins til landsdómstólsins komi að sem mestu gagni, telur dómstóllinn rétt að líta svo á að tilvísanir landsdómstólsins til 6. gr. tilskipunarinnar í fyrstu og fjórðu spurningu taki einnig til 7. gr. tilskipunarinnar. Athugasemdir bornar fram við EFTA-dómstólinn 20          Stefnandi heldur því fram að fyrstu og fjórðu spurningunni verði að svara neitandi. Hann telur að tilskipunin leggi þá skyldu á aðildarríki að þau reikni út gjöld sem innheimt eru vegna endurnotkunar upplýsinga. Í 6. gr. sé kveðið á um að gjöld skuli reiknuð út í samræmi við þær reikningsskilareglur sem gilda um þann opinbera aðila er málið varðar. Ákvörðun gjalds vegna endurnotkunar sem á sér ekki stoð í útreikningi kostnaðar sé því ekki samþýðanleg 6. gr. 21          Að mati stefnanda eiga þessi sjónarmið hans stoð í 7. gr. tilskipunarinnar. Ákvæðið skyldi aðildarríki til að viðhafa gagnsæ vinnubrögð með áskilnaði um að gjöld fyrir endurnotkun skuli ákveðin fyrirfram. Enn fremur skuli sá opinberi aðili sem málið varðar tilgreina grundvöll útreikninga fyrir þeirri fjárhæð sem birt er, sé þess óskað, og þá einnig til hvaða þátta tekið er tillit við útreikninga á gjöldum sem eru frábrugðin þeim sem almennt tíðkast. 22          Stefnandi bendir á að hugsa megi sér aðstæður, einkum þegar stafræn gögn eiga í hlut, þar sem aðildarríki geti ákveðið gjöld á grundvelli jaðarkostnaðaraðferðar sem væru mun lægri en efri mörkin sem kveðið er á um í 6. gr. tilskipunarinnar. Það sé einungis við þess háttar aðstæður sem engin þörf er á útreikningi. 23          Að mati stefndu kveður 6. gr. á um að heildartekjur af því að láta gögn í té og leyfa endurnotkun þeirra skuli ekki vera umfram þann kostnað sem fellur til við að búa til upplýsingarnar. Útreikningur kostnaðar verði að einhverju marki að byggjast á sanngjarnri áætlun, í samræmi við þær reikningsskilareglur sem gilda um þann opinbera aðila sem í hlut á. Hins vegar sé ekki gerð krafa um það í 6. gr. að notandi fái útreikninga kostnaðaráætlunar í hendur eða þeir séu gerðir aðgengilegir á þeim tímapunkti sem fjárhæð gjaldsins er ákveðin. 24          Að mati stefndu leikur enginn vafi á því að upplýsingar um heildartekjur af því að láta upplýsingarnar í té og leyfa endurnotkun, þ.e. heildartekjur af gjaldtöku vegna þeirrar þjónustu sem um ræðir, liggja fyrir í máli þessu með þeim hætti að unnt er að sannreyna þær. Almennt séð hafi kostnaðarútreikningar verið gerðir á grundvelli áætlana um fjárþörf Þjóðskrár Íslands. Opinber yfirvöld geti kannað kostnaðinn fyrir fram og ákvörðunin sé háð endurskoðunarvaldi dómstóla eftir gildistöku. Útreikningar á kostnaði vegna söfnunar, framleiðslu, fjölföldunar og dreifingar upplýsinganna eru tiltækir og hafa verið lagðir fram fyrir héraðsdómi. 25          ESA heldur því fram að 6. og 7. gr. tilskipunarinnar verði að túlka hvora með hliðsjón af annarri. Í ákvæði 6. gr. sé kveðið á um efri mörk gjaldtökunnar, en ákvæði 7. gr. tryggi gagnsæi hennar. 26          Að mati ESA girðir 6. gr. tilskipunarinnar fyrir aðstæður þar sem heildartekjur fara fram úr kostnaði við söfnun, framleiðslu, fjölföldun og dreifingu gagna til endurnotkunar, auk sanngjarns hagnaðarhlutar af fjárfestingunni. Greinina verði að túlka svo að hún leggi sönnunarbyrðina á hinn opinbera aðila um að sýna fram á að gjaldtaka sé í samræmi við tilskipunina. 27          ESA telur 7. gr. skylda aðildarríki til að tryggja gagnsæi með tvennum hætti: Annars vegar með því að birta stöðluð gjöld, og hins vegar með því að skylda opinbera aðila til að tilgreina grundvöll útreikninga á gjöldum. Upplýsa beri um grundvöll útreikninganna þegar um er beðið, en slíkur útreikningur þurfi ekki að liggja fyrir áður en slík beiðni berst. 28          ESA telur að landsdómstóllinn geti komist að þeirri niðurstöðu að sú staðreynd, að Þjóðskrá byggi gjaldskrá sína á ákvæðum sem kveða nákvæmlega á um fjárhæð gjalda vegna tiltekinna upplýsinga, uppfylli kröfu 7. gr. tilskipunarinnar um að gjald sé ákveðið fyrir fram og upplýsingar um það birtar. 29          ESA telur þó ljóst af orðalagi tilskipunarinnar að ef fyrirspurn þar að lútandi berst Þjóðskrá Íslands beri henni skylda til að gera grein fyrir grundvelli útreikninganna að baki hinum birtu gjöldum. Landsdómstóllinn lætur þó ekkert uppi um það hvort stefndu hafi útskýrt til hlítar hver grundvöllur útreikninganna að baki gjöldunum sé. Í þessu sambandi bendir ESA á að landsdómstóllinn geti farið fram á það við Þjóðskrá Íslands, að hún rökstyðji notkun umræddrar gjaldskrár, með hliðsjón af starfseminni og gjöldunum. 30          Framkvæmdastjórnin telur að samkvæmt 6. gr. verði að reikna öll gjöld með þeim hætti að þau tryggi að heildartekjur vegna þeirra fari ekki fram úr skilgreindu þaki. Þar af leiðandi verður, við ákvörðun fjárhæðar gjaldsins, að fara fram efnisleg skoðun á heildarkostnaði og heildartekjum yfir ákveðið uppgjörstímabil. 31          Framkvæmdastjórnin viðurkennir að þetta geti skapað vandamál í framkvæmd, sérstaklega á fyrsta uppgjörstímabilinu eftir útgáfu upplýsinga til endurnotkunar, þegar lítil merki eru um þann fjölda notenda sem kann að hafa áhuga á upplýsingunum. Að mati framkvæmdastjórnarinnar verður að minnsta kosti að gera áætlun um heildartekjur til að uppfylla kröfur 6. gr. tilskipunarinnar. Sú ályktun styðst einnig við skyldur um gagnsæi samkvæmt 7. gr., úr því að þar sé ekki einungis kveðið á um að gjöldin skuli fyrirfram ákveðin, heldur einnig að grundvöllur útreikninganna skuli tilgreindur, ef þess er óskað. Það gerir óhjákvæmilega ráð fyrir því að mat hafi farið fram, bæði á heildartekjum og kostnaði. Ef útreikningurinn byggist á áætlunum sem síðar reynast rangar, er sú krafa gerð samkvæmt 6. gr. að gjaldtakan verði leiðrétt í samræmi við nýjar upplýsingar. 32          Loks telur framkvæmdastjórnin að viðeigandi kerfi verði að vera til staðar til að endurskoða fjárhæð gjaldsins. Álit dómstólsins 33          Í 5. lið formálsorða tilskipunarinnar segir að gögn frá hinu opinbera séu mikilvægur efniviður í stafrænar vörur og þjónustu. Gera eigi evrópskum fyrirtækjum kleift að hagnýta möguleika sína og stuðla að hagvexti og atvinnusköpun. 34          Upplýsingar frá hinu opinbera eru lykilþáttur í atvinnugreinum upplýsingasamfélagsins (sjá grænbók framkvæmdastjórnarinnar, COM(1998)585). Eitt meginmarkmiða lagasetningar á þessu sviði var að jafna stöðu evrópskra fyrirtækja gagnvart bandarískum keppinautum þeirra, sem notið hafa góðs af háþróuðu, skilvirku kerfi upplýsinga frá hinu opinbera á öllum stigum stjórnsýslunnar, allt frá gildistöku laga um aðgang að upplýsingum (e. Freedom of Information Act) 1966. Framkvæmdastjórnin leggur áherslu á að markviss stefna stjórnvalda í Bandaríkjunum til tryggja aðgang og notkun upplýsinga frá hinu opinbera í ábataskyni hefur mjög örvað þróun bandaríska upplýsingaiðnaðarins (sjá áður tilvitnaða grænbók framkvæmdastjórnarinnar, bls. 1). 35          Samkvæmt 1. gr. tilskipunarinnar eru í henni settar lágmarksreglur um endurnotkun og hagnýtar leiðir til að auðvelda endurnotkun gagna sem til eru og eru í vörslu opinberra aðila. Í 4. mgr. 2. gr. er „endurnotkun“ skilgreind sem öll notkun á gögnunum í viðskiptaskyni eða tilgangi sem ekki er viðskiptalegs eðlis, sem er annar en upphaflegur tilgangur hins opinbera með því að búa gögnin til. 36          Það er ljóst af 9. lið formálsorðanna, að þótt tilskipunin feli ekki í sér skyldu til að heimila endurnotkun gagna, skulu opinberir aðilar hvattir til að gera öll gögn í vörslu sinni aðgengileg til endurnotkunar. 37          Þegar endurnotkun er heimiluð og tekið er gjald vegna hennar, er það markmið tilskipunarinnar, eins og fram kemur í 14. lið formálsorðanna, að koma í veg fyrir of háa verðlagningu. Í þessu samhengi verður að hafa í huga að þeir opinberu aðilar sem um ræðir starfa jafnan í skjóli einokunar. 38          Í 6. gr. kemur því fram að gjaldtakan skuli ekki vera hærri en sem nemur kostnaðinum við söfnun, framleiðslu, fjölföldun og dreifingu auk sanngjarns hagnaðarhlutar af fjárfestingunni. 39          Verðlagning skiptir miklu máli þegar fjallað er um notkun stafræna upplýsingageirans á upplýsingum frá hinu opinbera. Hún ræður mestu um hvort fyrirtæki innan hans sýni áhuga á að fjárfesta í virðisaukandi vörum og þjónustu sem byggir á upplýsingum frá hinu opinbera. Bandarísk fyrirtæki hagnast á þeirri staðreynd að þau hafa ókeypis aðgang að upplýsingum hins opinbera þar í landi (sjá áður tilvitnaða grænbók framkvæmdastjórnarinnar, bls. 14). Ef evrópsk fyrirtæki eiga að standa jafnfætis keppinautum sem starfa annars staðar í heiminum geta útreikningar kostnaðarþátta og hagnaðarhluta af fjárfestingu ekki verið þannig að þau standi talsvert verr að vígi. Það er landsdómstólsins að meta staðreyndir þar að lútandi, sérstaklega með tilliti til þess hvaða vaxtastig á við hverju sinni. Landsdómstóllinn verður því að hafa í huga að 6. gr. tilskipunarinnar miðar ekki að því að opinberir aðilar hagnist. 40          Enn fremur skulu stöðluð gjöld fyrir endurnotkun á gögnum ákveðin fyrirfram og birt í samræmi við 7. gr. tilskipunarinnar. Ef þess er óskað, skal opinber aðili tilgreina grundvöll útreikninga á gjaldinu sem birt er. Þetta skal gert til að gera einstaklingum og rekstraraðilum kleift að sannreyna hvort umrædd gjöld samrýmist 6. gr. tilskipunarinnar. Ekki er gerð sú krafa samkvæmt tilskipuninni að grundvöllur útreikninganna sé gerður aðgengilegur á þeim tímapunkti sem fjárhæð gjaldsins er ákveðin. Krafan um að stöðluð gjöld, innan þeirra marka sem sett eru í 6. gr., skuli vera ákveðin fyrirfram gerir engu að síður ráð fyrir því að efnisleg skoðun hafi farið fram á þeim tíma sem fjárhæð gjaldsins er ákveðin. Sú krafa hlýtur að gilda hvort sem fjárhæð gjaldsins er ákveðin með lagasetningu þar til bærra yfirvalda, eða með öðrum hætti. 41          Ef óvissa ríkir um einhverja þætti útreikningsins, verður hinn opinberi aðili hið minnsta að gera sanngjarna áætlun, til dæmis í formi meðaltals af kostnaði við að heimila endurnotkun, líkt og framkvæmdastjórnin hefur bent á. Ef áætlunin reynist röng, og slíkt felur í sér að gjaldtakan er í ósamræmi við 6. gr. tilskipunarinnar, verður að leiðrétta útreikningana. 42          Það er landsdómstólsins að ákveða hvort aðferðirnar sem notaðar eru til að reikna gjöldin, og gagnsæi þeirra, uppfylli kröfur tilskipunarinnar í máli því sem rekið er fyrir honum. Landsdómstóllinn verður hins vegar að hafa í huga að sönnunarbyrðin um þetta atriði hvílir á hinu opinbera. 43          Til að öllu sé til haga haldið, bendir dómstóllinn á að einstaklingar og atvinnurekendur eiga rétt á endurgreiðslu gjalda sem innheimt hafa verið í EES-ríki, ef innheimtan reynist brot á reglum EES-réttar. Það leiðir af réttindum sem þeim hafa verið veitt. EES-ríkinu sem um ræðir er því að meginstefnu skylt að endurgreiða gjöld sem innheimt hafa verið í trássi við EES-rétt (sjá, til samanburðar, nýlegt mál, C‑191/12 Alakor, dómur frá 16. maí 2013, enn óbirtur, 22. og 33. málsgrein og dómaframkvæmd sem þar er vitnað til). 44          Undantekning er gerð frá endurgreiðsluskyldunni þegar endurgreiðsla hefði í för með sér óréttmæta auðgun. Endurgreiðsluskyldan á ekki við ef sannað er að sá, sem skyldaður var til að greiða ólögmæt gjöld, hafi í reynd velt þeim yfir á aðra (sjá, til samanburðar, áður tilvitnað mál, Alakor, 25. mgr. og dómaframkvæmd sem þar er vitnað til). Slík undantekning verður hins vegar að sæta þröngri túlkun (sjá, til samanburðar, nýlegt mál, C‑398/09 Lady & Kid and Others [2011] ECR I-7375, 20. mgr.). 45          Það er réttarkerfis hvers EES-ríkis að útfæra málsmeðferðarreglur varðandi slíkar endurgreiðslur. Hins vegar mega þær reglur hvorki vera óhagstæðari þeim sem gilda um sambærileg innlend mál (meginreglan um jafnræði við málsmeðferð), né með þeim hætti að það sé í reynd ómögulegt eða óhæfilega erfitt að sækja réttindi sem veitt eru samkvæmt EES-rétti (meginreglan um skilvirk áhrif EES-réttar) (sjá, til samanburðar, áður tilvitnað mál Alakor, 26. mgr. og dómaframkvæmd sem þar er vitnað til). Þar af leiðandi er það landsdómstólsins að meta hvort hinum innheimtu gjöldum hafi verið velt yfir á aðra, með hliðsjón af öllum atvikum málsins. 46          Hvort gjöldum, sem innheimt hafa verið í andstöðu við reglur EES-réttar, hafi verið velt áfram yfir á aðra, fer eftir atvikum hvers máls, sérstaklega aðstæðum á markaði. Vænta má þess að aðili sem hefur í reynd einokunarstöðu á markaði velti gjöldunum að fullu yfir á viðskiptavini. Ef um samkeppni er að ræða getur verið að rekstraraðili geti ekki velt neinum hluta gjaldanna yfir á aðra með sama hætti (sjá, til samanburðar, dóm Hæstaréttar Noregs frá 28. maí 2008 í málinu 2007/1738, Rt. 2008, bls. 738, 52. mgr.). Enn fremur skal þess gætt, að í þeim tilvikum þar sem gjöldunum hefur verið velt yfir á viðskiptavini, að fullu eða að hluta, þá þarf slíkt ekki nauðsynlega að fela í sér óréttmæta auðgun. Sá sem þurfti að greiða gjöldin getur engu að síður hafa orðið fyrir tapi, einkum vegna minnkandi sölu (sjá, til samanburðar, áður tilvitnað mál Lady & Kid and Others, 21. mgr., og dómaframkvæmd sem þar er vitnað til). 47          Hvað varðar hinar sérstöku aðstæður þar sem gjaldtaka vegna endurnotkunar upplýsinga frá hinu opinbera, sem ákveðin er með lögum, telst óhófleg, bendir dómstóllinn á að dómstólar aðildarríkis verða eftir fremsta megni að beita hverjum þeim lögskýringaraðferðum sem viðurkenndar eru samkvæmt landsrétti, í því skyni að niðurstaðan verði í samræmi við viðeigandi EES-reglu (sjá, meðal annars, mál E-7/11 Grund [2012] EFTA Ct. Rep. 191, 83. mgr., og dómaframkvæmd sem þar er vísað til). 48          Fyrstu og fjórðu spurningunni verður því að svara á þann veg, að samkvæmt 6. og 7. gr. tilskipunarinnar sé gerð krafa um það, í þeim tilvikum þar sem gjald er innheimt vegna endurnotkunar upplýsinga frá hinu opinbera, að efnisleg athugun hafi farið fram þegar fjárhæð gjaldsins er ákveðin. Athugunin verður að sýna fram á að heildartekjur af slíkri gjaldtöku fari ekki fram úr kostnaði við söfnun, framleiðslu, fjölföldun og dreifingu gagna, auk sanngjarns hagnaðarhlutar af fjárfestingunni. Ef óvissa ríkir um þá þætti sem máli skipta fyrir útreikningana, verður í það minnsta að gera áætlun. Grundvöll útreikninganna verður þó aðeins að gera aðgengilegan þegar um hann er beðið. Það gildir óháð því hvort fjárhæð gjaldsins er ákveðin með lögum af þar til bæru yfirvaldi, eða með öðrum hætti. IV         Önnur og þriðja spurningin 49          Önnur og þriðja spurningin varða báðar kostnaðarhugtak 6. gr. tilskipunarinnar. Með þriðju spurningunni leitar landsdómstóllinn í meginatriðum svars við því, hvort taka megi tillit til þess kostnaðar sem opinber aðili hefur af söfnun gagna sem honum er lögskylt að safna við ákvörðun kostnaðar í skilningi ákvæðisins. Með annarri spurningunni leitar landsdómstóllinn svars við því hvort tekjur hins opinbera, sem verða til við söfnun gagna, t.d. í formi gjalda og skatta, svo sem stimpilgjöld, hafi áhrif þegar kostnaður er ákveðinn í skilningi 6. gr. Dómstóllinn telur rétt að svara þessum spurningum í einu lagi. Athugasemdir bornar fram við EFTA-dómstólinn 50          Afstaða stefnanda er fyrst og fremst sú að einungis beri að líta til kostnaðar og tekna sem tengjast því að láta gögn í té og leyfa endurnotkun þeirra þegar kostnaður í skilningi 6. gr. er ákveðinn. Þar af leiðandi megi líta fram hjá kostnaði og tekjum sem skapast hafa við að útbúa gögn, sem til staðar eru, í upphaflegum tilgangi. 51          Ef dómstóllinn kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að það samrýmist 6. gr. að innheimta gjöld vegna kostnaðar sem kominn er til áður en gögnin eru látin í té og endurnotkun þeirra leyfð, telur hann að einnig beri að taka fyrri tekjur með í reikninginn. Kostnaðinn sem vísað er til í 6. gr. verði því að skilja sem nettókostnað. 52          Stefndu telja að 6. gr. viðurkenni kostnaðinn af söfnun upplýsinga. Á hinn bóginn hafi skattheimta, eins og innheimta stimpilgjalds, engin áhrif á meginreglurnar sem ákvæðið hefur að geyma. Skráningargjöld og stimpilgjöld séu ekki tekjur sem orðið hafa til við að láta skjöl í té og leyfa endurnotkun þeirra og þau ættu því ekki að vera tekin með í útreikningana. 53          ESA telur að við ákvörðun kostnaðar í skilningi 6. gr. sé heimilt að telja með kostnað sem opinber aðili hefur af söfnun gagna sem honum er lögskylt að safna óháð því hvort einstaklingar og fyrirtæki óska eftir endurnotkun þeirra. 54          Enn fremur er það álit ESA, að 6. gr. útiloki að líta megi framhjá tekjum sem til verði við söfnun gagnanna. Ef tekjur verða til á meðan á söfnuninni stendur muni það augljóslega hafa þau áhrif að þær lækki eða vegi á móti kostnaðinum af söfnuninni. 55          Framkvæmdastjórnin hafnar röksemdum stefnanda um að kostnaður, í skilningi 6. gr., verði eingöngu að tengjast framleiðslu gagnanna í þeim tilgangi að leyfa endurnotkun þeirra. Við munnlegan flutning málsins lagði framkvæmdastjórnin áherslu á að orðalag 6. gr. viki sérstaklega að tekjum af endurnotkun, en ákvæðið vísi jafnframt með mun almennari hætti til kostnaðar við söfnun, framleiðslu, fjölföldun og dreifingu. Ef Evrópulöggjöfinni hefði verið ætlað að þrengja umfang kostnaðarhugtaksins, hefði löggjafinn séð til þess. Framkvæmdastjórnin benti á að 6. gr. hafi nýlega verið breytt með tilskipun 2013/37/EU (Stjtíð. ESB 2013 L 175, p. 1). Um leið og nýtt ákvæði 6. gr. tekur gildi verði meginreglan sú að ekki megi taka kostnað af söfnun og framleiðslu með í reikninginn. Að mati framkvæmdastjórnarinnar gerir tilskipunin engan greinarmun á upplýsingum sem lögskylt er að safna og öðrum upplýsingum. 56          Þótt ekkert komi fram í texta 6. gr. um vægi tekna sem ríkið hefur af skráningargjöldum og stimpilgjöldum við söfnun gagna, telur framkvæmdastjórnin ljóst að heildartekjur af endurnotkun geti ekki verið umfram kostnað við söfnun, framleiðslu, fjölföldun og dreifingu þessara gagna, auk sanngjarns hagnaðar af fjárfestingunni. 57          Framkvæmdastjórnin er því þeirrar skoðunar að 6. gr. útiloki opinbera aðila frá því að endurheimta kostnað að fullu með gjaldtöku vegna endurnotkunar samhliða sérstakri gjaldtöku vegna upphaflegu söfnunarinnar. Slíkar aðstæður væru ekki einungis brot á þakinu sem sett er í 6. gr., heldur væru þær einnig í andstöðu við það markmið tilskipunarinnar að halda gjöldum vegna endurnotkunar eins lágum og kostur er til að styðja við nýsköpun og þróun stafrænnar efnisþjónustu, eins og fram kemur í 1. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar og 5. lið formálsorða hennar. Álit dómstólsins 58          Eins og fram er komið, kveður 6. gr. tilskipunarinnar á um að ef gjald er tekið skulu heildartekjurnar ekki fara fram úr kostnaðinum við söfnun, framleiðslu, fjölföldun og dreifingu umræddra gagna, auk sanngjarns hagnaðarhlutar af fjárfestingunni. 59          Það leiðir af orðalaginu, að kostnaður í merkingu ákvæðisins takmarkist ekki við kostnaðinn við að auðvelda endurnotkun, það er, fjölföldun og dreifingu. Heimilt er að telja með kostnað sem opinber aðili hefur af upphaflegri söfnun og framleiðslu umræddra gagna. Þetta gildir óháð því hvort hinum opinbera aðila hafi verið skylt að safna gögnunum samkvæmt lögum, þar sem enginn slíkur greinarmunur er gerður í tilskipuninni. 60          Í 14. lið formálsorðanna er lögð á það áhersla að aðildarríkin hvetji opinbera aðila til að gera gögn aðgengileg gegn gjaldi sem nemi ekki meira en lágmarkskostnaði við að fjölfalda gögnin og dreifa þeim. Einnig ber að hafa í huga að tilskipuninni var nýlega breytt með tilskipun 2013/37/EB. Um leið og sú breyting tekur gildi verður meginreglan samkvæmt hinni nýju 6. gr. að ekki megi telja með kostnað vegna söfnunar og fjölföldunar. 61          Hins vegar er gert ráð fyrir því í tilskipuninni, ef talinn er með kostnaður sem opinber aðili hefur af upphaflegri söfnun og framleiðslu gagna, að tekjur sem verða til vegna þeirra, til dæmis gjöld og skattar eins og stimpilgjöld, sem lækka eða koma til móts við þann kostnað, séu einnig teknar með í reikninginn. Þar af leiðandi verður að skilja kostnaðarhugtak 6. gr. með þeim hætti að það vísi til nettókostnaðar. Ef einungis væri tekið tillit til kostnaðar vegna söfnunar en ekki til tekna sem verða til vegna hennar, myndi það grafa undan áhrifum þess markmiðs tilskipunarinnar að koma í veg fyrir of háa verðlagningu. 62          Það er landsdómstólsins að taka afstöðu til atvika málsins sem rekið er fyrir honum og ákveða til hvaða kostnaðarhluta beri, samkvæmt framansögðu, að líta til í samræmi við 6. gr.  63          Annarri og þriðju spurningunni verður því að svara á þann veg að þegar kostnaður í skilningi 6. gr. tilskipunarinnar er ákveðinn, sé heimilt að telja með kostnað sem opinber aðili hefur af upphaflegri söfnun og framleiðslu þeirra gagna sem um ræðir. Skulu þá allar tekjur sem verða til vegna þeirra, til dæmis gjöld og skattar eins og stimpilgjöld, sem lækka eða koma til móts við þann kostnað, einnig teknar með í reikninginn. V           Fimmta og sjötta spurningin 64          Fimmta og sjötta spurning héraðsdóms varða það hvort, og þá að hve miklu leyti, beri að taka tillit til krafna sem gerðar eru til opinbers aðila um að hann standi undir sér fjárhagslega, hvort sem þær eru almennar eða sértækar, þegar kostnaður er ákveðinn samkvæmt 6. gr. tilskipunarinnar. Dómstóllinn telur rétt að taka afstöðu til þessara tveggja spurninga í einu lagi. Athugasemdir bornar fram við EFTA-dómstólinn 65          Stefnandi telur að skipt geti máli við ákvörðun hagnaðarhlutar, hvort gerðar séu kröfur um það að opinber stofnun standi undir sér fjárhagslega, að því gefnu að slíkar kröfur leiði ekki til gjaldtöku sem er hærri en þakið sem kveðið er á um í 6. gr. tilskipunarinnar. 66          Stefndu benda á að taka megi tilhlýðilegt tillit til krafna um að opinber stofnun standi undir sér fjárhagslega, þar sem þær eru gerðar, og telja það í samræmi við tilskipunina. Í 6. gr. tilskipunarinnar sé hvorki kveðið á um að hvaða marki skuli endurheimta viðurkenndan kostnað, né að hvaða marki slíkt skuli gert með almannafé, að því gefnu að efri mörkin sem sett eru í ákvæðinu séu virt. 67          Að sögn stefndu er hvergi í íslenskri löggjöf gerð almenn krafa um að stofnanir ríkisins standi undir sér fjárhagslega. Starfsemi opinberra aðila á Íslandi sé fjármögnuð með opinberu fé, með eigin tekjum eða blöndu af þessu tvennu. Hægt sé að taka tillit til tekna af gjaldtöku og annarra tekjulinda viðkomandi opinbers aðila, ef þær renna ekki beint til ríkissjóðs. Í máli því sem rekið er fyrir héraðsdómi eru aðstæður með þeim hætti að gerð hefur verið sérstök krafa til Þjóðskrár Íslands um að hún standi undir sér fjárhagslega. Það eru því endurnotendur, í stað skattborgara, sem látnir eru bera kostnaðinn af framleiðslu upplýsinganna. 68          ESA heldur því fram að tilskipunin útiloki ekki að gerð sé almenn krafa um að opinberar stofnanir standi undir sér fjárhagslega. Markmið tilskipunarinnar sé að hvetja opinbera aðila til að dreifa upplýsingum. Einnig sé það opinberum aðilum hvati til að auðvelda endurnotkun gagna, að þeir geti vænst sanngjarns hagnaðarhlutar af fjárfestingu sinni. Þær kröfur sem gerðar eru um að stofnun standi undir sér fjárhagslega verði þó að tengjast meðferð gagnanna. Ekki sé hægt að líta til kostnaðar við alla starfsemi opinbers aðila. 69          Framkvæmdastjórnin telur að þakið sem sett er í 6. gr. taki mið af sanngjörnum hagnaðarhluta fjárfestingar. Eins og komi fram í 14. lið formálsorða tilskipunarinnar sé heimilt að taka tilhlýðilegt tillit til krafna um að viðkomandi opinber aðili standi undir sér fjárhagslega, þegar það á við. Við mat á því hvað telst sanngjarn hagnaðarhlutur af fjárfestingunni ber að líta til þeirra kostnaðarþátta sem tengjast með beinum hætti söfnun, framleiðslu, fjölföldun og dreifingu gagna. Rýmri túlkanir væru andstæðar meginmarkmiði tilskipunarinnar um að hvatt skuli til að þjónustu með stafrænu efni sem byggist á upplýsingum í vörslu opinberra aðila verði komið á fót, og að auðvelda endurnotkun þeirra, eins og segir í 1. mgr. 1. gr. og 5. tölul. formálsorða tilskipunarinnar. Álit dómstólsins 70          Í 6. gr. tilskipunarinnar segir að tekjur megi ekki vera hærri en sem nemur kostnaðinum við söfnun, framleiðslu, fjölföldun og dreifingu þeirra gagna sem um ræðir, auk sanngjarns hagnaðarhlutar af fjárfestingunni, að virtum þeim kröfum sem kunna að vera gerðar til viðkomandi opinbers aðila um að standa undir sér fjárhagslega, eins og kveðið er á um í 14. lið formálsorða tilskipunarinnar. 71          Í samræmi við framangreint má taka tillit til almennra eða sértækra krafna um að opinber aðili standi undir sér fjárhagslega þegar kostnaður er ákveðinn samkvæmt 6. gr. tilskipunarinnar. Engu að síður verður kostnaður í skilningi 6. gr., ásamt sanngjörnum hagnaðarhluta, að tengjast meðferð gagnanna, hvort sem það er vegna upphaflegrar söfnunar eða framleiðslu þeirra eða þess að liðkað sé fyrir endurnotkun þeirra með fjölföldun og dreifingu, eins og ESA og framkvæmdastjórnin hafa bent á. Við innheimtu gjalda má því ekki líta til kostnaðarþátta og fjárfestinga sem eru ótengd þeirri gagnavinnslu sem óhjákvæmileg er í tengslum við endurnotkun í skilningi 6. gr. Þessar meginreglur um gjaldtöku samkvæmt 6. gr. eru hinar sömu, óháð kröfum um að umræddur opinber aðili standi undir sér fjárhagslega. 72          Við munnlegan málflutning gáfu stefndu í skyn, í svari við spurningu sem beint var til þeirra, að gjöldin sem innheimt eru vegna endurnotkunar gagna í málinu sem rekið er fyrir héraðsdómi, séu notuð til að standa straum af kostnaði við þjónustu Þjóðskrár Íslands sem stefnandi hefur ekki sjálfur notið. Ef sannreynt er að gjöldin séu notuð til að mæta öðrum kostnaði en þeim sem til fellur vegna söfnunar, framleiðslu, fjölföldun og dreifingar umræddra gagna, ásamt sanngjörnum hagnaðarhluta af því að auðvelda endurnotkun, er slík gjaldtaka andstæð 6. gr. Það er landsdómstólsins að meta hvort svo sé. 73          Fimmtu og sjöttu spurningunni verður því að svara á þann veg, að líta megi til krafna sem gerðar eru til opinberra stofnana um að þær standi undir sér fjárhagslega þegar lagt er mat á kostnað samkvæmt 6. gr. tilskipunarinnar. Þetta á við að því marki að einungis sé litið til kostnaðarþátta, ásamt sanngjörnum hagnaðarhluta, sem tengjast þeirri gagnavinnslu sem nauðsynleg er til að gera endurnotkun mögulega í samræmi við 6. gr. VI         Málskostnaður Með vísan til framangreindra forsenda lætur, DÓMSTÓLLINN uppi svohljóðandi ráðgefandi álit um spurningar þær sem Héraðsdómur Reykjavíkur beindi til dómstólsins: 1.      Samkvæmt 6. og 7. gr. tilskipunar 2003/98/EB er gerð krafa um það, í þeim tilvikum þar sem gjald er innheimt vegna endurnotkunar upplýsinga frá hinu opinbera, að efnisleg athugun hafi farið fram þegar fjárhæð gjaldsins er ákveðin. Athugunin verður að sýna fram á að heildartekjur af slíkri gjaldtöku fari ekki fram úr kostnaði við söfnun, framleiðslu, fjölföldun og dreifingu gagna, auk sanngjarns hagnaðarhlutar af fjárfestingunni. Ef óvissa ríkir um þá þætti sem máli skipta fyrir útreikningana, verður í það minnsta að gera áætlun. Grundvöll útreikninganna verður þó aðeins að gera aðgengilegan þegar um hann er beðið. Það gildir óháð því hvort fjárhæð gjaldsins er ákveðin með lögum af þar til bæru yfirvaldi, eða með öðrum hætti. 2.      Þegar kostnaður í skilningi 6. gr. tilskipunarinnar er ákveðinn, er heimilt að telja með kostnað sem opinber aðili hefur af upphaflegri söfnun og framleiðslu þeirra gagna sem um ræðir. Skulu þá allar tekjur sem verða til vegna þeirra, til dæmis gjöld og skattar eins og stimpilgjöld, sem lækka eða koma til móts við þann kostnað, einnig teknar með í reikninginn. 3.      Líta má til krafna sem gerðar eru til opinberra stofnana um að þær standi undir sér fjárhagslega þegar lagt er mat á kostnað samkvæmt 6. gr. tilskipunarinnar. Þetta á við að því marki að einungis sé litið til kostnaðarþátta, ásamt sanngjörnum hagnaðarhluta, sem tengjast þeirri gagnavinnslu sem nauðsynleg er til að gera endurnotkun mögulega í samræmi við 6. gr. Carl Baudenbacher                         Per Christiansen                  Páll Hreinsson Kveðið upp í heyranda hljóði í Lúxemborg 16. desember 2013 Gunnar Selvik                                                                          Carl Baudenbacher Dómritari                                                                                  Forseti
Mál nr. 599/2014
Læknir Skaðabætur Meðdómsmaður
G höfðaði mál á hendur Í og lækninum I til viðurkenningar á skaðabótaskyldu vegna líkamstjóns af völdum ætlaðra mistaka af hálfu starfsmanna Í, þ. á m. I, við sjúkdómsmeðferð G. Fyrir Hæstarétti hafði G uppi ómerkingarkröfu sem laut að því að nauðsyn hefði borið til þess að augnlæknir hefði tekið sæti sem sérfróður meðdómsmaður í dóminum í stað héraðsdómara, er skipaði dóminn ásamt dómsformanni og lækni sem sérfróðum meðdómanda. Hæstiréttur taldi að ekki hefði verið þörf á að kveðja í héraðsdóminn sérfræðing á sviði augnlækninga þar sem þau ágreiningsefni málsins, sem sérfræðiþekkingu þyrfti til að skera úr um, féllu undir sérfræðisvið læknisins sem kvaddur var í dóminn sem sérfróður meðdómsmaður. Þá staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms um að G hefði ekki tekist sönnun um að starfsmenn Í hefðu við eftirlit með blóðþrýstingi G og með viðbrögðum sínum við of háum blóðþrýstingi hans sýnt af sér saknæma háttsemi.Voru Í og I því sýknaðir af kröfum G.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson og Gunnlaugur Claessen fyrrverandi hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. september 2014 og krefst aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms og að málinu verði vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, en til vara „að viðurkennt verði með dómi að stefndu beri óskipt skaðabótaábyrgð á líkamstjóni ... sem hann varð fyrir vegna mistaka við sjúkdómsmeðferð á tímabilinu apríl til september 2010 á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Sauðárkróks og Landspítala Háskólasjúkrahúsi.“ Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndu krefjast, hvor fyrir sitt leyti, staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júní 2014.                 Mál þetta, sem er höfðað með stefnu birtri 22. október 2012, var dómtekið 4. júní sl. Stefnandi er Gunnar Heiðar Bjarnason, Sólvöllum í Varmahlíð. Stefndu er íslenska ríkið og Ingvar Teitsson læknir, Norðurbyggð 23 á Akureyri.                 Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefndu beri óskipt skaðabótaábyrgð á líkamstjóni stefnanda sem hann varð fyrir vegna mistaka við sjúkdómsmeðferð á tímabilinu apríl til september 2010 á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Sauðárkróks og Landspítala Háskólasjúkrahúsi. Þá krefst stefnandi málskostnaðar, að viðbættum virðisaukaskatti.                 Stefndi, íslenska ríkið, krefst sýknu af kröfum stefnanda og aðallega að honum verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati réttarins, en til vara að málskostnaður verði látinn niður falla. I                 Stefnandi, sem er 28 ára gamall, greindist með sykursýki af tegund 1 við 5 ára aldur. Hefur hann verið á lyfjameðferð vegna sjúkdómsins og fengið meðferð vegna fylgikvilla sykursýkinnar, þar á meðal vegna hás blóðþrýstings. Stefnandi undirgekkst margar aðgerðir á vinstra auga í október 2010, en án árangurs. Þá hefur stefnandi undirgengist fleiri aðgerðir, síðast í febrúar 2011 og varð niðurstaðan sú að stefnandi er alfarið blindur á báðum augum. Þá glímir stefnandi við alvarlega nýrnabilun. Hann undirgekkst aðgerð í Svíþjóð í ágúst 2012 þar sem skipt var um nýra og bris og er óljóst í dag hverjar afleiðingar og mögulegar fylgikvillar aðgerðarinnar verða.                 Sjúkrasaga stefnanda er rakin í stefnu og greinargerð. Atburðarrás í tímaröð er í þessum gögnum í flestu á sama veg og fær stoð í gögnum málsins, þ.e. vottorðum, læknabréfum og fleiri gögnum frá viðkomandi læknum og sjúkrastofnunum. Þar sem ágreiningur aðila snýst um það hvort mistök hafi átt sér stað við þá meðferð sem stefnandi fékk verður saga þessi rakin hér allítarlega.                 Frá árinu 1990 til ársins 2000 var stefnandi í eftirliti hjá Árna Þórssyni, barnalækni og innkirtlasérfræðingi. Stefnandi kom í fyrsta sinn í skoðun til stefnda Ingvars Teitssonar læknis, 14. apríl 2000 og síðan reglulega og óreglulega fram til ársins 2010. Ingvar er sérfræðingur í lyf- og gigtlækningum og starfaði á framangreindu tímabili á eigin ábyrgð sem sjálfstæður verktaki með starfsaðstöðu á fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri (FSA), þar sem hann sinnir meðal annars læknisþjónustu við sykursjúka á göngudeild sykursjúkra.                 Við fyrstu skoðun vegna sjúkdómsins, þann 14. apríl 2000 mældist stefnandi með eðlilegan blóðþrýsting, 118/66 (BMI=22.8), en allt of háan blóðsykur. Stefndi Ingvar lét þess getið í umfjöllun í sjúkraskrá stefnanda að ólag hafi þá verið á sjúkdóminum hjá stefnanda.                 Stefnandi hélt áfram að mæta nokkuð reglulega í eftirlit til Ingvars þar til í júní 2005. Í sjúkraskrá kemur fram að allt þetta tímabil hafi gengið illa að halda jafnvægi á blóðsykrinum, þar sem stefnandi passaði yfirleitt hvorki upp á að mæla blóðsykur né upp á mataræðið. Kveðst Ingvar jafnan hafa lagt fyrir stefnanda að mæla sig reglulega og færa niðurstöðurnar í sykursýkisdagbók, auk þess sem hann hafi frætt stefnanda og ítrekað brýnt fyrir honum nauðsyn þess að laga blóðsykurlagið með því að forðast sætindi og borða reglulega.                 Árið 2002, þegar stefnandi var 17 ára, voru komnar í ljós augnbotnsskemmdir auk þess sem hann var byrjaður að fá einkenni nýrnasjúkdóms af völdum sykursýki á árinu 2003. Stefndi Ingvar kveðst hafa brugðist við þessu ástandi stefnanda með því að setja hann á blóðþrýstingslækkandi lyf hinn 18. desember 2003, en þá mældist blóðþrýstingur hans 134/90. Þá setti stefndi stefnanda á blóðfitulækkandi lyf eftir skoðun hinn 27. maí 2005.                 Stefnandi kom næst í eftirlit til Ingvars tveimur og hálfu ári síðar, eða hinn 7. janúar 2008. Í læknabréfi Ingvars dagsett þann dag er haft eftir stefnanda að hann hafi farið einu sinni í millitíðinni í eftirlit hjá lækni vegna sjúkdómsins, á fyrri hluta árs 2007. Eftir þetta kveður stefndi Ingvar að stefnandi hafi komið nokkrum sinnum í eftirlit til hans á göngudeild sykursjúkra á FSA, en komur hans hafi verið mun stopulli og óreglulegri en ætlast var til.                 Í eftirliti 7. janúar 2008 kom í ljós að stefnandi var hættur að taka inn blóðþrýstingslækkandi lyf og kvaðst hann hvorki hafa sinnt því að mæla blóðsykur reglulega né að hafa farið í augnbotnaskoðun um lengri tíma. Í niðurstöðu læknabréfs dagsettu sama dag er lýst því mati stefnda Ingvars  að mjög slæmt lag sé á blóðsykrum stefnanda og honum hafi verið greint frá því. Stefnanda hafi verið ávísað blóðþrýstingslækkandi lyfjum að nýju, látin í té blóðsykursdagbók og gerð grein fyrir mikilvægi þess að mæla blóðsykrur a.m.k. tvisvar en helst fjórum sinnum á dag. Þá bókaði Ingvar stefnanda til viðtals 30. janúar 2008 hjá næringarfræðingi og hjúkrunarfræðingi á göngudeild sykursjúkra á FSA en þangað átti hann að hafa meðferðis niðurstöðu blóðsykursmælinga.                 Stefnandi mætti ekki í boðaða skoðun hjá næringarfræðingi og hjúkrunarfræðingi og mætti til eftirlits hjá Ingvari rúmu ári síðar, eða hinn 18. febrúar 2009. Ástandið á stefnanda var þá slæmt og mældist blóðþrýstingur hans 154/114, sem var mun hærri þrýstingur en stefnandi hafði áður mælst með. Stefnandi var þá byrjaður í sjómennsku og var ekki að taka inn nein blóðþrýstingslækkandi lyf. Ingvar taldi ástand stefnanda og meðferðarheldni hans vera óviðunandi, og setti hann á lyf til meðferðar á háþrýstingnum. Í læknabréfi hans dags sama dag kemur fram að stefnandi fari til fundar við næringarfræðing og hjúkrunarfræðing þennan sama dag og muni koma til Ingvars á ný til eftirlits eftir u.þ.b. þrjá mánuði.                 Stefnandi hætti vinnu til sjós vegna blæðinga í hægra auga í maí 2009. Hann undirgekkst þrjár augnaðgerðir á hægra auga í framhaldi af blæðingunni.                 Stefnandi kom næst til eftirlits hjá Ingvari 13. nóvember 2009. Þá mældist blóðþrýstingur stefnanda sem fyrr allt of hár, eða 152/118. Jók Ingvar þá blóðþrýstingslyfjaskammt stefnanda. Í læknabréfi Ingvars dags. sama dag segir að sjúkdómsástand stefnanda sé mjög slæmt, vísað er til aðgerða sem hann hafi gengist undir vegna sjónskemmda og segir jafnframt að stefnandi sé í einhvers konar afneitun gagnvart alvarleika sjúkdómsins, hirði ekki um að sinna blóðsykurlaginu neitt og sé sem stendur ekki að mæla blóðsykur. Í bréfinu kemur jafnframt fram að vandamálið sé rætt við móður stefnanda. Var gert ráð fyrir komu stefnanda til endurmats á göngudeild sykursjúkra FSA sex vikum síðar.                 Stefnandi mætti ekki í boðað eftirlit til stefnda Ingvars en kom næst til eftirlits hjá honum á göngudeild sykursjúkra FSA um hálfu ári síðar, eða hinn 14. apríl 2010. Stefnandi var þá á leið í aðgerð á hægra auga hjá Haraldi Sigurðssyni, augnlækni, en blætt hafði inn á augað og var sjónin á því þá nánast farin. Sjón stefnanda á vinstra auga var þá hins vegar talin vera góð. Kom í ljós í þessari skoðun að stefnandi hafði engin blóðþrýstingslækkandi lyf tekið í nokkra daga, þar sem þau höfðu klárast og hann ekki borið sig eftir því að fá ávísað nýjum lyfjaskammti. Stefnandi óskaði eftir því að fá insúlíndælu, en stefndi Ingvar taldi það óráðlegt, þar sem sjúklingar verði að mæla blóðsykur mjög reglulega, eða að jafnaði fjórum sinnum á dag, til að geta notað dæluna. Ingvar taldi því ótímabært að senda stefnanda í mat á því hvort hann gæti notað insúlíndælu, og fól honum að mæla blóðsykur fjórum sinnum á dag og hafa svo samband eftir nokkra daga til að unnt væri að stilla insúlínskammtana. Var það mat Ingvars að mjög slæmt lag væri á blóðsykrunum hjá stefnanda og að hann væri með óviðunandi háþrýsting. Að beiðni stefnanda, var gert ráð fyrir því að hann kæmi að nýju til eftirlits hjá stefnda að tveimur mánuðum liðnum.                 Fjórða aðgerðin á hægra auga stefnanda var gerð 21. maí 2010 á augndeild Landspítala Háskólasjúkrahúss (LSH). Hann var útskrifaður degi síðar og sagður við góða líðan og allt eðlilegt. Var bókuð endurkoma viku síðar. Móðir stefnanda hafði samband við lækni á Heilsugæslunni Sauðárkróki (HS) tveimur dögum síðar eða 23. maí 2010. Í sjúkraskrám segir að vakthafandi læknir hafi átt samskipti við móður stefnanda, en hann hafi kvartað undan verkjum í kjölfar aðgerðarinnar. Fram kemur að móðirin sé hvött til að heyra í þeim á augndeildinni, en þá segir hún að stefnandi sé ekki það slæmur. Voru stefnanda gefin verkjalyf.                 Þegar stefnandi mætti til endurkomu á dag- og göngudeild augnlækninga LSH 28. maí 2010 er skráð í skýrslur að sex dögum áður hafi hann fengið slæman verk í hægra auga ásamt ógleði og uppköstum sem hafi verið viðvarandi síðan þá. Greinir frá því að stefnandi hafi ekki haft samband við augndeild þrátt fyrir að hafa fengið leiðbeiningar um að hafa strax samband ef eitthvað bæri út af. Stefnandi reyndist vera með mjög háan augnþrýsting og var lagður inn á spítalann í einn sólarhring.                 Um sumarið er stefnandi í reglubundnu eftirliti hjá Haraldi Sigurðssyni augnlækni á stofu hans en einnig eru skráðar heimsóknir á augndeild LSH. Skráð er „acut“ skoðun 4. júní 2010 vegna óþols við ljósi. Ekki er bókað í sjúkraskrá að blóðþrýstingur hafi verið mældur. Stefnandi var síðan skoðaður á augnlæknastöðinni í Hamrahlíð 17 þann 8. júní 2010. Í sjúkraskrá eru ekki gögn um þá skoðun.                 Stefnandi kom í síðustu skoðun til stefnda Ingvars 23. júní 2010. Fram kemur í göngudeildarnótu að mjög slæmt ástand hafi þá verið á stefnanda að mati Ingvars. Hann sé slapplegur, hafi þyngst nokkuð frá síðustu skoðun og blóðþrýstingur hans sé 172/118, sem sé allt of hátt. Stefndi Ingvar jók lyfjaskammta og getur þess jafnframt að stefnandi sé á leið í í blóðprufu síðar um daginn. Stefnanda var gefinn tími til endurmats eftir tvo og hálfan mánuð.                 Haraldur Sigurðsson, augnlæknir á LSH, skoðaði stefnanda þann 24. júní og 7. júlí 2010 en þessar tvær heimsóknir eru ekki bókaðar í sjúkraskrá stefnanda. Í bréfi Haraldar til Niels Chr. Nielsen, framkvæmdastjóra lækninga, dags. 20. desember 2011, er getið um þessar skoðanir og lýst ástandi á augum. Stefnandi hafði samband við augndeild LSH í byrjun ágúst og fannst sjónin á vinstra auga vera að versna og var stefnanda gefinn tími á LSH þann 9. ágúst 2010.                 Stefnandi leitaði aftur til læknis á Heilsugæslu Sauðárkróks þann 5. ágúst 2010. Samkvæmt sjúkraskrá kom hann til þess að fá vottorð vegna umsóknar um örorkumat. Þá mældist blóðþrýstingur stefnanda 190/115. Segir einnig að stefnandi sé í eftirliti vegna sykursýki hjá Ingvari Teitssyni lækni og í reglubundnu eftirliti á tveggja vikna fresti hjá Haraldi Sigurðssyni augnlækni í Hamrahlíð 17.                 Stefnandi mætti á augndeild LSH þann 9. ágúst í þann tíma er hafði verið bókaður í byrjun mánaðarins og var þá sjónin 0,5 á vinstra auga. Samkvæmt sjúkraskrám kom stefnandi aftur á augndeild LSH þann 30 ágúst 2010 með versnandi sjón á vinstra auga og var aðgerð ákveðin í byrjun október.            Sjón á vinstra auga hélt áfram að versna og leitaði stefnandi til Maríu Soffíu Gottfreðsdóttur augnlæknis 7. september 2010 sem sendi stefnanda áfram til Einars Stefánssonar augnlæknis sem skoðaði hann daginn eftir. Kemur fram í áðurnefndu bréfi Haraldar Sigurðssonar að ”bæði blóðsykur og blóðþrýstingur voru í slæmu ásigkomulagi” þann 8. september 2010 og taldi Einar mikilvægt að koma þessum þáttum í lag áður en til aðgerðar kæmi.                 Stefnandi átti tíma hjá Ingvari Teitssyni þann 14. september 2010 í eftirlit, en sá tími var gefinn þann 23. júní 2010, svo sem áður er greint frá. Stefnandi veiktist hastarlega á leiðinni frá heimili sínu í Skagafirði til Akureyrar og var ákveðið að leggja stefnanda inn til frekari meðhöndlunar á blóðþrýstingi. Blóðþrýstingur við innlögn var 200/115. Í framhaldinu fékk stefnandi tilvísun til nýrnalæknis og innkirtlasérfræðings.                 Svo sem að framan er rakið hefur stefnandi nú misst sjón á báðum augum. Hann sótti um bætur úr sjúklingatryggingu en var hafnað, þar sem Sjúkratryggingar Íslands töldu atvikið ekki falla undir 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Var ákvörðunin nánar rökstudd með því að tjónið sé  afleiðing grunnsjúkdóms en ekki meðferðar. Stefnandi ritaði bréf til ríkislögmanns þann 7. nóvember 2011 og fór fram á afstöðu til bótaskyldu ríkisins. Bótaskyldu var hafnað með bréfi, dags. 18. janúar 2012. Stefnandi telur sig hafa orðið fyrir bótaskyldu tjóni og sé því knúinn til að höfða mál þetta.                 Við aðalmeðferð málsins var ennfremur upplýst að stefnandi hefði gengist undir aðgerð á árinu 2012 vegna nýrnabilunar og briskirtilsvandamála. Engin gögn liggja fyrir um þær aðgerðir.                 Aðalmeðferð máls þessa fór fyrst fram 27. janúar sl. Þá gáfu stefnandi og stefndi Ingvar Teitsson skýrslu fyrir dómi. Auk þeirra gáfu skýrslu Einar Stefánsson, yfirlæknir augndeildar LHS, Sigríður Eysteinsdóttir næringarfræðingur, Árúna Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur, Haraldur Sigurðsson augnlæknir og Helena Björk Gunnarsdóttir, móðir stefnanda. Dráttur varð á uppsögu dóms og var málið því endurflutt 4. júní sl. og dómtekið að nýju að því loknu. II Krafa stefnanda er byggð á því að stefndu beri óskipt skaðabótaábyrgð á líkamstjóni stefnanda á grundvelli sakarreglunnar og reglunnar um vinnuveitandaábyrgð á verkum starfsmanna sinna. Kröfu stefnanda er beint að íslenska ríkisins vegna heilbrigðisstarfsmanna á sjúkrahúsinu á Akureyri (FSA), Heilbrigðisstofnuninni Sauðárkróki (HS) og Landspítala Háskólasjúkrahúsi (LSH), og Ingvari Teitssyni, sem er sjálfstæður verktaki á FSA. Stefnandi kveðst ekki hafa haft vitneskju um að Ingvar Teitsson væri sjálfstæður verktaki að störfum á FSA fyrr en með bréfi ríkislögmanns 25. janúar 2012. Engar vísbendingar hafi verið um það í samskiptum við Ingvar við meðferð stefnanda að hann væri ekki starfsmaður FSA. Því sé bótakröfu vegna hans einnig beint að ríkinu.                 Stefnandi byggir á því að heilbrigðisstarfsmenn á FSA, HS og LSH og Ingvar Teitsson hafi með athöfnum sínum og athafnaleysi við sjúkdómsmeðferð stefnanda, á tímabilinu apríl til september 2010, sýnt af sér gáleysi sem falli undir almennu skaðabótaregluna og beri þannig ábyrgð á tjóni stefnanda.                 Stefnandi fer fram á viðurkenningu á bótaskyldu á líkamstjóni stefnanda. Tjón stefnanda felist í því að hann sé alfarið blindur á vinstra auga og með nýrnaskemmdir, hvoru tveggja hefði mátt koma í veg fyrir eða a.m.k. takmarka tjón stefnanda með réttri sjúkdómsmeðferð. Ekki hafi farið fram mat á afleiðingum tjónsins, enda afleiðingar þess enn að koma fram, eins og lýst hefur verið, en stefnandi undirgekkst í ágúst 2012 aðgerð á nýra og brisi og enn sé óljóst hvaða afleiðingar sú aðgerð muni hafa á hans heilsu til frambúðar.                 Tjón stefnanda megi rekja til ónógs eftirlits lækna með háum blóðþrýstingi og athafnaleysis þar sem ekki hafi verið brugðist við þegar ljóst hafi verið að lyfjagjöf skilaði ófullnægjandi árangri. Í ljósi sjúkdómssögu stefnanda, sem heilbrigðis-starfsmönnum hafi verið vel kunnugt um, hafi þeim borið að leita leiða til að ná niður blóðþrýstingi stefnanda til að koma í veg fyrir frekara tjón. Komast hefði mátt hjá tjóni stefnanda, hefði lyfjameðferð, eftirlit með lyfjameðferð og eftirlit með stefnanda verið með eðlilegum hætti af hálfu heilbrigðisstarfsmanna LSH, FSA og HS og af hálfu Ingvars Teitssonar, læknis.                 Nánar tiltekið byggir stefnandi á því að stefndu hafi sýnt af sér gáleysi með eftirfarandi hætti:                 Stefndi Ingvar Teitsson hafi sýnt af sér gáleysi með því að bregðast ekki við hættuástandi því er upp kom vegna háþrýstings stefnanda þann 14. apríl 2010. Í læknabréfi hans, dags. sama dag, komi fram að stefnandi hafi verið svo til blindur á hægra auga, en sjón hans á vinstra auga hafi verið góð. Blóðþrýstingur hafi mælst 152/118, “sem er alltof hátt” eins og segi í læknabréfinu. Stefnandi hafi farið fram á að fá insúlín dælu, en því hafi verið hafnað, þrátt fyrir að stefnandi hafi verið með “algjörlega óviðunandi háþrýsting” eins og komi fram í læknabréfinu. Að mati stefnanda bar stefnda Ingvari hér að bregðast við hinum háa blóðþrýstingi, ekki síst í ljósi þess að stefnandi hafi verið orðinn blindur á hægra auga, með það fyrir augum að koma í veg fyrir tjón á vinstra auga. Stefnda Ingvari hafi borið að þétta eftirlit með stefnanda, og boða hann í skoðun eða bregðast við með öðrum hætti. Það hafi hann ekki gert og það hafi verið stefnandi sjálfur sem hafi farið fram á það að fá tíma aftur á göngudeild hjá stefnda Ingvari og hafi fengið tíma tveimur mánuðum síðar.                 Þá hafi stefndi Ingvar Teitsson jafnframt sýnt af sér gáleysi með því að bregðast ekki við hættuástandi því sem kom upp vegna háþrýstings stefnanda þann 23. júní 2010 þegar stefnandi mætti í skoðun til hans á göngudeild FSA. Þá hafi blóðþrýstingur stefnanda verið 172/118. Í greinargerðinni stefnda Ingvars til FSA frá 7. febrúar 2011 komi eftirfarandi fram: ”Þarna lét ég Gunnar Heiðar auka blóðþrýstingslyfin upp í tabl. Presmin Combo (100+25), 1 x 1 og tabl. Seloken Zoc 95 mg x 1. Auk þess setti ég hann á tabl. Simvastatin 40 mg x 1. Ég gaf Gunnari Heiðari svo tíma til endurmats e. tvo og hálfan mánuð [......]” Að mati stefnanda hefði stefndi Ingvar átt að bregðast við hinum háa blóðþrýstingi stefnanda með því að boða hann mun fyrr í eftirlit. Miðað við sjúkdómssögu stefnanda og stöðu blóðþrýstings hans og með hliðsjón af því að stefnandi hafi þá þegar verið orðinn blindur á hægra auga, hafi Ingvari borið að bregðast við og þétta mjög eftirlit með blóðþrýstingi stefnanda. Um vítavert gáleysi sé að ræða að gefa stefnanda tíma eftir tvo og hálfan mánuð þegar ástand hans hafi verið orðið mjög tvísýnt og mikið hafi riðið á að ná blóðþrýstingi hans niður sem fyrst til að koma í veg fyrir frekara tjón.                 Starfsmenn stefnda Landspítala Háskólasjúkrahúss hafi sýnt af sér gáleysi með því að bregðast ekki við hættuástandi sem komið hafi upp vegna háþrýstings stefnanda. Stefnandi hafi verið skoðaður á göngudeild augnlækninga á LSH þann 4. júní 2010. Ekkert sé bókað um blóðþrýstingsmælingu í sjúkraskrám. Þá hafi stefnandi verið skoðaður þann 24. júní 2010 á LSH. Samkvæmt læknabréfi virðist einungis augnskoðun hafa farið fram, en ekki verið mældur blóðþrýstingur. Ekkert sé bókað um þessa komu í sjúkraskrá. Þá hafi stefnandi leitað til LSH þann 7. júlí 2010 en ekki hafi verið frekar brugðist við og engar skráningar í sjúkraskrá séu til um þá skoðun. Stefnandi hafi haft samband við augndeild LSH í byrjun ágúst 2010 og hafi fundist sjónin á vinstra auga vera að versna, en ekkert hafi verið aðhafst og hafi stefnanda verið gefinn tími 9. ágúst 2010. Stefnandi mætti á augndeild LSH í þann tíma og hafi sjónin þá verið orðin 0,5 á vinstra auga og hafi þá verið ákveðið að gera aðgerð á því auga. Engin viðbrögð hafi verið af hálfu starfsmanna LSH vegna hás blóðþrýstings stefnanda og engar ráðstafanir hafi verið gerðar til að lækka hann á þessum tíma. Stefnandi hafi síðan komið á LSH þann 30. ágúst 2010 með versnandi sjón á vinstra auga og hafi þá verið ljóst að þörf væri aðgerðar á því auga.  Stefnandi hafi síðan verið skoðaður á ný 8. september 2010. Þar kom fram að blóðsykur og blóðþrýstingur væru í slæmu ásigkomulagi. Ekkert sé hins vegar skráð um að blóðsykur og blóðþrýstingur hafi verið mældur og ekki að sjá að brugðist hafi verið við af hálfu starfsmanna LSH vegna þessa meinta ástands stefnanda.                 Gagnvart starfsmönnum Heilbrigðisstofnunar Sauðárkróks er byggt á því að þau hafi sýnt af sér gáleysi með því að bregðast ekki við þegar stefnandi leitaði til HS þann 23. maí 2010, eftir að hafa fengið slæman verk í hægra augað auk ógleði og uppkasta í kjölfar aðgerðar sem gerð hafi verið tveimur dögum áður.  Hafi honum verið gefin verkjalyf en ekki virðist hafa  verið mældur blóðþrýstingur hjá stefnanda, þrátt fyrir að einkenni hans gætu bent til háþrýstings. Þá hafi starfsmenn HS einnig sýnt af sér gáleysi með því að bregðast ekki við hættuástandi sem upp kom vegna háþrýstings stefnanda þann 5. ágúst 2010. Þann dag leitaði stefnandi til heilsugæslunnar á Sauðárkróki. Þá hafi blóðþrýstingur hans mælst 190/115 svo sem skráð sé í sjúkraskrá.  Ekki hafi verið brugðist við þeim háþrýstingi af hálfu starfsmanna HS.                 Stefnandi byggir á því að að allir ofangreindir heilbrigðisstarfsmenn beri óskipta (in solidum) ábyrgð á tjóni stefnanda. Um um samverkandi tjónsorsakir sé að ræða.                 Þá byggi stefnandi á því að stefndi Ingvar hafi ekki búið yfir nægri sérfræðiþekkingu til að meðhöndla stefnanda, en stefndi Ingvar sé sérfræðingur í lyf-og gigtarlækningum. Samkvæmt læknalögum nr. 53/1988 beri læknir ábyrgð á greiningu og meðferð þeirra sjúklinga sem til hans leiti eða hann hafi til umsjónar. Stefnda Ingvari hafi borið að vísa stefnanda til sérfræðings í innkirtlasjúkdómum og til nýrnasérfræðings, en það hafi hann fyrst gert í september 2010 eftir að stefnandi hafi veikst hastarlega.                 Sérfræðiábyrgð hvíli á starfsmönnum stefnda og stefnda Ingvari Teitssyni. Þar sem stefnandi hafi sannað mistök hvíli á stefndu að sanna að hin saknæma háttsemi þeirra hafi þrátt fyrir þau ekki valdið tjóni. Orsakasamband sé á milli athafnaleysis stefndu, þ.e. að hafast ekki nóg að við að ná niður blóðþrýstingi stefnanda, s.s. með innlögn og nánara eftirliti, og og þess tjóns sem hlaust af háttseminni. Þá sé tjónið sennilega afleiðing af háttseminni.                 Af skaðabótareglum um sérfræðiábyrgð leiði að sakarreglunni sé beitt með strangari hætti en almennt gerist, gera megi ríkari kröfur til vandaðra vinnubragða og aðgæslu hjá sérfræðingum, þ.m.t. læknum, sé nægilega sýnt fram á að um gáleysi af hálfu lækna hafi verið að ræða og því um að ræða skaðabótaábyrgð stefnda á mistökum starfsmanna sinna. Stefnandi hafi sýnt fram á, með framlagningu sjúkraskýrslna, að um hafi verið að ræða saknæma háttsemi af hálfu stefndu, sem hafi verið til þess fallin að auka hættuna á tjóni og að tjón hafi orðið af athöfnum þeirra. Þar af leiðandi, í samræmi við gildandi íslenskan rétt og dómaframkvæmd Hæstaréttar í málum um bótaábyrgð sjúkrastofnana, bera stefndu skaðabótaábyrgð, nema þau geti sýnt fram á að tjónið hefði orðið þó að fullrar aðgæslu hefði verið gætt við sjúkdómsmeðferð stefnanda.                 Stefnandi hafni því alfarið, að tjón hans hafi verið afleiðing grunnsjúkdóms, líkt og stefndu halda fram. Stefnandi sé með sykursýki og sé sú saga þekkt frá 5 ára aldri. Þegar afleiðingar sjúkdómsins hafi ágerst mjög á árinu 2010, hafi heilbrigðisstarfsmönnum borið að grípa í taumana. Miðað við mjög svo alvarlegt ástand stefnanda, sem hafi þá þegar misst sjón á hægra auga, hafi heilbrigðisstarfsmönnum borið að gera allt sem í þeirra valdi hafi staðið til að koma í veg fyrir frekara tjón. Þeir hafi getað haft áhrif á þær afleiðingar sem sjúkdómurinn hafi verið að valda, s.s. með eftirliti með lyfjagjöf, innlögn á sjúkrahús, reyna önnur lyf eða aðrar skammtastærðir. Tjón stefnanda sé því alfarið afleiðing meðferðar eða meðferðarleysis en ekki afleiðing grunnsjúkdóms hans. Stefnandi eigi að eiga kost á fullkominni heilbrigðisþjónustu, sbr. lög nr. 40/2007. Hann eigi ekki að þurfa að sæta því að fá verri þjónustu vegna þess að hann sé fyrir með grunnsjúkdóm, en sú virðist hafa verið raunin í tilfelli stefnanda sem hafi ekki fengið þá meðferð sem hann hafi þurfti á að halda. Stefnandi virðist hafa mætt fordómum vegna erfiðleika sinna við að halda sjúkdómnum í skefjum. Stefnandi vísar í þessu sambandi til skyldna lækna samkvæmt læknalögum og siðareglna lækna.                 Að öllu framangreindu telur stefnandi að stefndi, íslenska ríkið, sem vinnuveitandi heilbrigðisstarfsmanna á LSH, HSA og HS, beri ábyrgð tjóni stefnanda á grundvelli almennu skaðabótareglunnar og á grundvelli reglna um vinnuveitandaábyrgð. Þá beri stefndi Ingvar Teitsson, læknir, einnig ábyrgð á tjóni stefnanda á grundvelli almennu skaðabótareglunnar. Skilyrði skaðabótaábyrgðar séu því uppfyllt og beri að viðurkenna bótaskyldu stefndu gagnvart stefnanda.                 Um lagarök vísar stefnandi til skaðabótalaga nr. 50/1993, laga um lækna nr. 53/1988, laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997, m.a. 5. gr. laganna, laga um sjúkraskrár nr. 55/2009, laga um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007 og laga nr. 41/2007 um landlækni og lýðheilsu, auk þeirra sjónarmiða um ólögfestar reglur sem þegar er getið. Málskostnaðarkrafa stefnanda byggir á ákvæðum XX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála einkum 129. og 130. gr. laganna sbr. og lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Varðandi varnarþing vísast til 3. tölul. 33. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 42. gr. sömu laga og varðandi aðild til III. kafla sömu laga. III                 Stefndi, íslenska ríkið, mótmælir málatilbúnaði stefnanda og kröfum reistum á honum. Stefndi hafnar því að heilbrigðisstarfsmenn á Landspítala háskólasjúkrahúsi, Sjúkrahúsinu á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Sauðárkróks beri ábyrgð á tjóni stefnanda. Sé því mótmælt að viðkomandi starfsmenn hafi með athöfnum sínum og athafnaleysi við sjúkdómsmeðferð stefnanda á tímabilinu apríl til september 2010 sýnt af sér gáleysi sem falli undir almennu skaðabótaregluna.                 Forsendur bótaskyldu séu ekki fyrir hendi. Stefnandi hafi á engan hátt sýnt fram á, eða eftir atvikum leitt líkum að því, að starfsmönnum viðkomandi heilbrigðisstofnana hafi orðið á bótaskyld mistök við umönnun eða meðferð stefnanda. Þvert á móti sýna gögn málsins að starfsmenn viðkomandi stofnana hafi lagt sig fram um að veita stefnanda þá þjónustu sem hann hafi átti rétt á og ástand hans hafi gefið tilefni til á hverjum tíma, sbr. 3. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga. Vandamál stefnanda stafi af illvígum sjúkdómi sem ekki hafi tekist að lækna eða draga úr. Afleiðingarnar hafi ekkert með háttsemi starfsmanna stefnda eða meðstefnda að gera.                 Stefndi mótmæli því að komast hefði mátt hjá ástandi stefnanda hefði lyfjameðferð, eftirlit með lyfjameðferð og eftirlit með stefnanda verið með öðrum hætti. Stefnandi hafi greinst með sykursýki við 5 ára aldur. Í gögnum málsins komi fram að iðulega hafi gengið erfiðlega að stýra blóðsykrinum. Hann hafi ekki sinnt blóðsykurmælingum sem skyldi og oft hafi liðið langur tími án þess að hann hafi átt tilskilin lyf, þ. á. m. blóðþrýstingslyf, auk þess sem hann hafi alls ekki gætt að matarræði. Þá hafi stefnandi mætt illa í eftirlit til lækna vegna sykursýkinnar og ekki farið í augnskoðanir í mörg ár þrátt fyrir ábendingar þar um. Komi víða fram í áliti lækna að svo virtist sem stefnandi hafi ekki skynjað alvarleika málsins. Þá beri sjúkraskrár og læknabréf það með sér að ítrekað hafi verið rætt við hann, auk þess sem stefnandi hafi hitt næringarráðgjafa og hjúkrunarfræðinga á móttöku sykursjúkra, sem hafi séð um fræðslu.                 Árið 2002 hafi farið að bera á umtalsverðum augnbotnaskemmdum hjá stefnanda, sem síðar hafi ágerst. Hafi stefnandi að lokum fegið gríðarlega svæsinn augnsjúkdóm. Í bréfi Einars Stefánssonar, yfirlæknis og prófessors, komi fram að þetta hafi verið versta stig augnsjúkdómsins, nýæðamyndun í sjónhimnu (proliferative diabetes retinopatia), sem komi iðulega fram þegar sykursjúkir hafa haft sjúkdóminn í 10-20 ár, sérstaklega ef blóðsykur og blóðþrýstingur hafi verið of hár. Komi sjúkdómurinn þá oft fram skyndilega og með miklu offorsi. Skammtímaáhrif hás blóðþrýstings og blóðsykurs á augnsjúkdóminn séu hins vegar miklu minni og ólíklegt að blóðsykur eða blóðþrýstingur til skamms tíma hafi haft úrslitaáhrif á gang augnsjúkdómsins á þeim misserum sem um ræðir.                 Augnlæknar á augndeild LSH hafi gert allt sem í þeirra valdi hafi staðið til að bjarga sjón stefnanda. Þrátt fyrir að reynt hafi verið að gera allt sem hægt hafi verið við þessum sjúkdómi hafi útkoman verið sú sem raun ber vitni um. Hvergi verði séð að mistök hafi átt sér stað, sjúklingi hafi verið sinnt af samviskusemi og hann hafi haft aðgang að augndeild LSH og sérfræðistofu Hamrahlíð 17. Þá hafi nýrnalæknir og innkirtlasérfræðingur ætíð verið hafðir með í ráðum og fylgt stefnanda í gegnum aðgerðir sem hann hafi gengist undir.                 Stefndi byggir á því að engri bótaskyldu sé til að dreifa. Ekki sé fyrir að fara saknæmri eða ólögmætri háttsemi starfsmanna stefndu. Tjón stefnanda megi eingöngu rekja til langvarandi sykursýki og sé því afleiðing grunnsjúkdóms. Augnsjúkdómur stefnanda hafi byggst á háum blóðsykri og blóðþrýstingi til margra ára. Þegar hinn alvarlegi augnsjúkdómur sé kominn hafi stýring blóðsykurs og blóðþrýstings ekki lengur úrslitaáhrif á útkomuna heldur bein augnlæknismeðferð með laser og skurðaðgerðum. Í stefnu kemur komi fram að tjón stefnanda sé auk blindu falið í nýrnaskemmdum sem ekki sé þó frekar vikið að í stefnu. Sé á því byggt að þær séu einnig afleiðing sykursýkinnar. Af þessu sé ljóst að skilyrði bótareglna um orsakatengsl og sennilega afleiðingu séu ekki fyrir hendi og beri því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.                 Þá mótmælir stefndi því að hann beri ábyrgð á ætlaðir saknæmri háttsemi meðstefnda Ingvars Teitssonar við meðferð og eftirlit með stefnanda innan veggja FSA. Meðstefndi Ingvar reki sjálfstæða sérfræðimóttöku, þar sem hann tekur meðal annars á móti sykursýkissjúklingum. Stefndu gerðu með sér samning um heimild meðstefnda til sjálfstæðrar móttöku sjúklinga í húsakynnum FSA. Stefndi sé því aðeins leigusali meðstefnda og er meðstefndi ekki starfsmaður FSA. Ekkert ráðningarsamband sé því fyrir hendi milli stefndu. Þótt fallist yrði á málatilbúnað stefnanda, um að meðstefndi hafi ekki brugðist rétt við háþrýstingi stefnanda, byggi stefndi á því að ekkert vinnusamband hafi verið til staðar milli stefnda og meðstefnda og því beri að sýkna stefnda af kröfum sem byggja á ætlaði sök meðstefnda á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.                 Verði fallist á það, gegn mótmælum stefnda, að stefndi beri einnig ábyrgð á verkum meðstefnda byggir stefndi á því að meðstefndi hafi ekki sýnt af sér saknæma háttsemi við meðferð stefnanda. Meðstefndi hafði haft stefnanda í eftirliti á sérfræðimóttöku sinni frá árinu 2000 þegar stefnandi hafi verið tæplega 15 ára gamall. Stefnandi hafi sýnt mjög slæma meðferðarheldni í gegnum árin, mætt stopult í skoðanir og ekki sinnt tilmælum meðstefnda um að bæta úr því eða tekið leiðbeiningum. Stefndi mótmælir því að um gáleysi eða vítavert gáleysi hafi verið að ræða af hálfu meðstefnda vegna meðferðar sem hann veitti stefnanda í skoðunum þann 14. apríl og 23. júní 2010 svo sem stefnandi byggi á. Meðstefndi hafi meðhöndlað stefnanda á réttan hátt, ávísaði tilskildum lyfjum og rætt við hann um meðferðina og leiðbeint honum. Því sé hafnað að óeðlilega langur tími hafi verið á milli skoðana miðað við ástand stefnanda. Þá komi fram í læknabréfi meðstefnda frá 14. apríl 2010 að meðstefndi hafi auk eftirlits á stofu haft eftirlit með stefnanda í gegnum síma. Verði ekki séð að meðstefndi hafi sýnt af sér gáleysi sem leitt geti til bótaskyldu hans og stefnda.                 Þegar komið hafi verið fram á vor og sumar 2010 hafi stýring blóðsykurs og blóðþrýstings ekki lengur haft úrslitaáhrif á ástand stefnanda. Því fáist ekki séð að þéttara eftirlit með blóðþrýstingi stefnanda á þessum tíma hefði komið í veg fyrir blindu stefnanda eða nýrnaskemmdir. Stefnandi hafi ekki hrakið efni fyrirliggjandi greinargerða, álita og bréfa þar sem fram komi að vandamál stefnanda séu afleiðing grunnsjúkdóms hans.                 Þá sé því algerlega vísað á bug að meðstefndi hafi skort sérfræðiþekkingu til að annast stefnanda og vísað í því sambandi til menntunar, starfsréttinda og starfsreynslu meðstefnda.                 Stefndi mótmælir því að starfsmenn LSH hafi sýnt af sér gáleysi með því að bregðast ekki við hættuástandi því er upp kom vegna háþrýstings stefnanda. Stefnandi tilgreinir sérstaklega sex skipti á tímabilinu 4. júní til 8. september 2010. Tvær þessara skoðana hafi farið fram á sérfræðistofu Haraldar Sigurðssonar. Stefndi beri ekki ábyrgð á læknisverkum og starfsemi sem fram fer á sérfræðistofum utan spítalans og sé ábyrgð hafnað á þeirri forsendu hvað varðar skoðanir Haraldar Sigurðssonar á sérfræðistofu hans að Hamrahlíð 17. Þá sé því jafnframt mótmælt að skoðanir sem fóru fram á göngudeild augnlækninga á umræddu tímabili geti verið grundvöllur bótaskyldu en stefnandi byggi á því að skortur á blóðþrýstingsmælingum og viðbrögðum við of háum blóðþrýstingi hafi verið ábótavant. Stefndi bendi á að hár blóðþrýstingur og hár blóðsykur hafi langtímaáhrif á augnsjúkdóm í sykursýki og auki hættu á nýæðamyndun í sjónhimnu. Skammtímaáhrif þessara þátta á augnsjúkdóminn séu miklu minni. Ólíklegt sé að blóðsykur eða blóðþrýstingur til skamms tíma hafi haft úrslitaáhrif á gang augnsjúkdómsins við meðferð stefnanda á augndeild LSH 4. júní til 8. september 2010. Eina sem hafi getað haft áhrif á þessum tíma á augnsjúkdóminn hafi verið bein augnlæknismeðferð með laser og skurðaðgerðum. Af þessari ástæðu sé meðferð blóðsykurs og blóðþrýstings ekki áhersluatriði á augndeildinni, enda sé þeirri meðferð betur komið hjá sérfræðingum sem sérþekkingu hafa um slíka meðferð. Slík verkaskipting sé hefðbundin og eðlileg auk þess sem augnlæknar deildarinnar hafi ávallt haft samráð við nýrnasérfræðinga og innkirtlasérfræðinga. Þá hafi stefnandi ekki rökstutt hvernig meðferð stefnanda á þessu tímabili hafi leitt til aukinna nýrnaskemmda. Sé kröfu stefnanda að því er varðar háttsemi starfsmanna LSH því einnig mótmælt.                 Loks mótmæli stefndi staðhæfingum stefnanda um að vakthafandi læknir á Heilsugæslu Sauðárkróks hafi sýnt af sér gáleysi með því að bregðast ekki við þegar stefnandi leitaði þangað 23. maí 2010 og 5. ágúst sama ár. Stefnandi hafi ekki verið í eftirliti á HS vegna sykursýkinnar eða fylgikvilla hennar. Stefnandi hafi fyrst og fremst leitað til HS til að fá endurnýjuð lyf og vegna vottorðaskrifa. Starfsmenn á HS hafi þar af leiðandi ekki tekið neinar ákvarðanir um meðferð stefnanda og geti ekki talist hafa sýnt af sér gáleysi gagnvart honum. Í sjúkraskýrslu sé greint frá samskiptum móður stefnanda við vakthafandi lækni 23. maí 2010. Komi þar fram að stefnandi hafi verið í augnaðgerð þremur dögum fyrr og haft talsverða verki. Móðirin hafi verið hvött til að hafa samband við í starfsmenn augndeildar LSH auk þess sem hún hafi fengið verkjalyf fyrir stefnanda. Verði ekki annað séð en að um hárrétt viðbrögð hafi verið að ræða, en læknirinn hafi lagt áherslu á að haft yrði samband við þá lækna sem höfðu haft stefnanda til meðferðar. Auk þess hafi stefnandi verið hvattur til þess af starfsmönnum LHS eftir aðgerðina að hafa strax samband ef eitthvað bæri út af. Það hafi stefnandi hins vegar ekki gert.                 Á sama hátt sé því mótmælt að stefndi hafi bakað sér bótaskyldu með komu stefnanda á HS 5. ágúst 2010. Tilgangur komu hans hafi verið að fá vottorð vegna umsóknar um örorkubætur. Í sjúkraskýrslu komi fram að stefnandi sé í meðferð vegna sykursýki hjá meðstefnda, Ingvari Teitssyni, og vegna augnvandamála hjá Haraldi Sigurðssyni, augnlækni Hamrahlíð 17. Hafi því verið ljóst að stefnandi hafi verið í meðferð hjá sérfræðilæknum vegna sykursýkinnar og fylgikvilla hennar og hafi heimilislæknir því haft litlu við þá meðferð að bæta. Fram hafi farið læknisskoðun vegna endurnýjunar á örorkumati og hafi viðkomandi læknir brugðist rétt við ástandi stefnanda. Því sé vísað á bug að um gáleysi hafi verið að ræða.                 Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda, enda hafi ekki verið sýnt fram á að mistök hafi átt sér stað við meðferð hans eða að háttsemi starfsmanna stefnda hafi leitt til tjóns fyrir stefnanda. Saknæmri háttsemi sé ekki til að dreifa og hvorki séu uppfyllt skilyrði bótareglna um orsakatengsl né sennilega afleiðingu. Sönnunarbyrði þar að lútandi hvíli hún á stefnanda. Ástand stefnanda sé afleiðing grunnsjúkdóms hans. Stefnandi hafi ekki ekki leitt að því líkur að önnur meðferð hefði getað komið í veg fyrir ástand hans. Þá hvíldi sú skylda á stefnanda að fylgja fyrirmælum lækna um meðferð sjúkdóms síns, en af gögnum málsins að dæma hafi hann ekki haft góða meðferðarfylgni, ekki heldur á því tímabili þegar fylgikvillar sjúkdómsins höfðu færst í aukana. Undirliggjandi grunnsjúkdómur og skortur á meðferðarfylgni eru höfuðorsakir ástands stefnanda.                 Því sé jafnframt hafnað að bótareglur byggðar á sérfræðiábyrgð lækna breyti nokkru um bótaskyldu í málinu. Allir þeir sem komu að meðferð stefnanda sinntu starfi sínu af kostgæfni, sýndu vönduð vinnubrögð og aðgæslu. Hvorki sé fyrir að fara saknæmri hegðun, orsakatengslum milli athafna stefndu og tjóns stefnanda, né sennilegri afleiðingu.                 Með vísan til framangreinds sé krafist sýknu af kröfum stefnanda í málinu.                 Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað vísast til XXI. kafla laga nr. 91/1991. IV                 Stefndi, Ingvar Teitsson, byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi fengið rétta og vandaða læknismeðferð og að eftirliti og lyfjagjöf hafi í alla staði verið háttað í samræmi við bestu fáanlegu þekkingu og viðurkenndar reglur, og að auki tekið mið af ástandi, horfum og þörf stefnanda hverju sinni.                 Þá krefst stefndi sýknu af kröfum stefnanda sem varða athafnir eða athafnaleysi starfsmanna meðstefnda á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Samkvæmt samningi um sjálfstæða móttöku sérfræðinga, sem er dagsettur 11. janúar 1993, og er meðal dómskjala þá sé stefndi ekki starfsmaður FSA, heldur einungis leigutaki hjá meðstefnda. Fallist dómurinn á kröfur stefnanda sem lúta að verkum starfsmanna meðstefnda, byggir stefndi á því að ástand og tjón stefnanda geti ekki verið afleiðing háttsemi sem stefndi beri ábyrgð á. Vísast því til stuðnings til þess að ekkert vinnusamband hafi verið á milli stefnda og meðstefnda um aðgerðir og skoðanir starfsmanna meðstefnda á stefnanda. Þegar af þeirri ástæðu verði að sýkna stefnda af kröfum stefnanda um þetta efni.                 Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu, gegn mótmælum stefnda, að stefndi beri einnig ábyrgð á verkum starfsmanna meðstefnda, byggir stefndi á því að starfsmenn meðstefnda hafi ekki sýnt af sér neina saknæma háttsemi eða vanrækslu við veitingu heilbrigðisþjónustu til stefnanda. Þannig mótmælir stefndi því alfarið að starfsmenn meðstefnda hafi sýnt af sér saknæma háttsemi eða vanrækslu með því að bregðast ekki við hættuástandi því sem var hjá stefnanda vegna háþrýstings á tímabilinu frá 4. júní 2010 til 8. september s.á. Tekur stefndi að öllu leyti undir sjónarmið og varnir meðstefnda, íslenska ríkisins, um þetta efni, sem koma fram í greinargerð hans.                 Stefndi hafnar því að skilyrði bótaábyrgðar séu uppfyllt í málinu. Þá mótmælir stefndi því að orsakasamhengi sé milli athafna eða athafnaleysis hans og tjóns stefnanda. Þá byggir stefndi á því að engin saknæm háttsemi eða vanræksla hafi átt sér stað af hans hálfu við eftirlit eða meðferð stefnanda vegna sjúkdóms hans. Þvert á móti megi núverandi ástand stefnanda ekki rekja til mistaka við lyfjagjöf eða sjúkdómsmeðferð á árinu 2010, heldur til illvígs grunnsjúkdóms, sem stefnandi hafði þá glímt við um tveggja áratuga skeið, og afar slæmrar meðferðarheldni stefnanda.              Eins og áður greinir hafi augnbotnaskemmdir stefnanda (e. diabetic retinopathy) af völdum sykursýki hafist að nokkru leyti þegar árið 2002. Ennfremur hafi stefnandi verið byrjaður að fá einkenni nýrnasjúkdóms af völdum sjúkdómsins (e. diabetic nephropathy) þegar á árinu 2003, og hafi stefndi þá sett hann á blóðþrýstingslækkandi lyf. Það sé vel þekkt bæði að of hár blóðsykur til langs tíma stórauki líkurnar á því að sjúklingur fái alvarlegar augnbotnaskemmdir, og einnig að að nýru fara illa í sjúklingum með sykursýki. Hvoru tveggja hafi gerst í tilviki stefnanda.                 Fullyrðingum stefnanda um að önnur lyfjagjöf eða sjúkdómsmeðferð á tímabilinu apríl til september 2010 hefði skilað betri árangri er mótmælt sem rangri og ósannaðri enda hafi stefnandi ekki rökstutt þá staðhæfingu nánar. Stefnandi hafi með engum hætti sýnt fram á að stefnda hafi orðið á mistök með því að veita honum þá læknisþjónustu sem hann gerði á umræddu tímabili eða að sú heilbrigðisþjónusta, þ.e. eftirlit, lyfjagjöf og meðferð, hafi ekki verið fullkomin og í samræmi við bestu þekkingu sem völ hafi verið á á þeim tíma. Gögn málsins sýni með óyggjandi hætti að stefndi lagði sig allan fram um að veita stefnanda þá bestu fáanlegu læknisþjónustu sem unnt var að veita honum miðað við ástand hans og horfur hverju sinni, svo sem stefnandi átti rétt á samkvæmt 3. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga. Stefndi taki að öllu leyti undir sjónarmið meðstefnda um þetta efni, sem koma fram í greinargerð hans.                 Gögn málsins beri það skýrt með sér að nánast frá upphafi aðkomu stefnda að eftirliti og sjúkdómsmeðferð stefnanda árið 2000, hafi stefnandi átt í verulegum erfiðleikum með að stýra blóðsykurlaginu með því að forðast sætindi, borða reglulega og mæla blóðsykur með reglubundnum hætti. Þá hafi stefnandi oft og tíðum haft lítið sjúkdómsinnsæi og ekki fylgt læknisráði. Þannig hafi stefnandi margsinnis ekki sinnt því að taka inn nauðsynleg blóðþrýstingslækkandi lyf og látið hjá líða að mæta í boðuð eftirlit til lækna og mikilvægar augnskoðanir. Jafnvel þó að stefndi hafi ótal sinnum rætt við stefnanda um alvarleika sjúkdómsástands hans og jafnframt séð til þess að hann fengi sérstaka fræðslu hjá hjúkrunarfræðingi og næringarfræðingi á göngudeild sykursjúkra á FSA, þá hafi stefnandi ekki sýnt alvarleika ástandsins skilning og haldið áfram að sýna afar slæma meðferðarheldni, þrátt fyrir að einkenni hafi farið versnandi.                 Varðandi málsástæður stefnanda í stefnu sem beinast sérstaklega að stefnda, þá eru þær í fyrsta lagi að stefndi hafi sýnt af sér gáleysi með því að bregðast ekki við hættuástandi því er var til staðar hjá stefnanda vegna háþrýstings, annars vegar hinn 14. apríl 2010 og hins vegar hinn 23. júní s.á. Í annan stað byggir stefnandi á því að stefndi hafi ekki búið yfir nægri sérfræðiþekkingu til að meðhöndla stefnanda. Í þriðja og síðasta lagi heldur stefnandi því fram að stefnda hafi borið að vísa stefnanda til sérfræðings í innkirtlasjúkdómum og til nýrnasérfræðings, en það hafi stefndi fyrst gert eftir að stefnandi veiktist í september 2010. Stefndi mótmæli öllum framangreindum fullyrðingum og málsástæðum stefnanda sem röngum og ósönnuðum. Hvað lyfjagjöf og eftirlit varðar hafi stefnandi hvorki fært fram gögn né sönnur fyrir því að ef stefndi hefði boðað hann oftar til eftirlits eða veitt honum önnur lyf eða meðferð en stefndi gerði, að þá hefði verið unnt að takmarka eða koma í veg fyrir tjón stefnanda. Enda hafi eftirlit og sjúkdómsmeðferð stefnanda í hvívetna verið eðlileg, rétt og viðeigandi miðað við ástand hans og horfur hverju sinni. Þannig hafi stefndi ávísað stefnanda nauðsynlegum og tilskildum lyfjum í réttum lyfjaskömmtum, veitt honum fyrirmæli, fræðslu og læknisráð um meðferð hverju sinni og ávallt leitast við að ræða við stefnanda um meðferðina og sjúkdómsástand hans, auk þess að brýna fyrir honum mikilvægi þess að fylgja meðferðarfyrirmælum til að halda sjúkdóminum og fylgikvillum hans í skefjum. Stjórnun blóðsykurs stefnanda á árinu 2010 hafi ekki haft úrslitaáhrif um þær afleiðingar og tjón stefnanda sem hann búi við í dag af völdum sykursýkinnar, en tjónið felst í blindu og alvarlegri nýrnabilun. Enda hafi stefnandi þá um árabil verið með hækkaðan blóðsykur og hækkaðan blóðþrýsting, þar sem hann hafi ekki sinnt því að mæla og stjórna blóðsykri reglulega, gæta að mataræði og inntöku lyfja samkvæmt læknisráði. Vísast þessu til stuðnings meðal annars til vottorðs Einars Stefánssonar, yfirlæknis og prófessors á augndeild LSH, sem er dagsett 5. desember 2012, en þar segi eftirfarandi um langtímaáhrif hás blóðþrýstings og hás blóðsykurs á sjón hjá sykursýkissjúklingum: „Hár blóðþrýstingur og hár blóðsykur hafa langtímaáhrif á augnsjúkdóm í sykursýki og auka hættu á proliferatívri díabetrískri retínopatíu (nýæðamyndun í sjónhimnu). Skammtímaáhrif hás blóðþrýstings og blóðsykurs á augnsjúkdóminn eru miklu minni og ólíklegt verður að teljast að blóðsykur eða blóðþrýstingur til skamms tíma hafi haft úrslitaáhrif á gang augnsjúkdómsins á þeim misserum sem um ræðir.“Augnsjúkdóm stefnanda og afleiðingar megi samkvæmt þessu fyrst og fremst rekja til þess að stefnandi hafi um árabil verið með háan blóðsykur og háan blóðþrýsting. Í öðru læknabréfi Einars Stefánssonar, yfirlæknis og prófessors, sem er dagsett 17. janúar 2012, komi ennfremur fram, að stefnandi hafi verið kominn með versta stig þessa svæsna augnsjúkdóms af völdum sykursýki (e. proliferative diabetes retinopatia), en það gerist iðulega þegar sykursjúkir hafi haft sjúkdóminn í 10-20 ár og verið með of háan blóðsykur og blóðþrýsting á þeim tíma. Þá hafi sjúkdómurinn ágerst mjög hratt og einkenni hans komi afar skyndilega. Stefnandi hafi þegar verið kominn með fyrstu einkenni augnsjúkdómsins árið 2002. Verði því að telja að stýring á blóðsykri og blóðþrýstingi hafi ekki lengur skipt aðalmáli fyrir útkomuna hjá stefnanda árið 2010.                 Varðandi nýrnasjúkdóm stefnanda (e. diabetic nephropathy) árétti stefndi að stefnandi hafi þegar á árinu 2003 verið byrjaður að fá einkenni sjúkdómsins. Stefndi hafi þá brugðist við með því að setja stefnanda á blóðþrýstingslækkandi lyf, auk þess sem hann ræddi við stefnda um ástandið hinn 14. maí 2003 og 10. september s.á. Þá hafi stefndi gert ráðstafanir í því skyni að aðstoða stefnanda við að bæta lagið á sykursýkinni og hafi sent hann í ítarlegar blóðprufur og viðtöl hjá næringarráðgjafa. Í sjúkraskrá stefnanda komi fram að stefndi hafi varað hann sérstaklega við því í eftirliti á göngudeild fyrir sykursjúka á FSA í desember 2003, að hann væri byrjaður að fá skemmdir í nýrun þar sem blóðsykurinn hans væri alltaf of hár. Einungis stefnandi sjálfur hafi getað náð góðri stjórn á eigin blóðsykurslagi. Með hliðsjón af framangreindu sé því mótmælt harðlega að hin alvarlega nýrnabilun, sem stefnandi glímir við í dag, megi með einhverjum hætti rekja til ónógs eftirlits stefnda með háum blóðsykri og háum blóðþrýstingi stefnanda, eða meintu athafnaleysi stefnda við að bregðast við alvarlegu sjúkdómsástandi stefnanda og þessum fylgikvillum sykursýkinnar.                 Þá mótmælir stefndi alfarið fullyrðingum stefnanda þess efnis, að stefndi hafi ekki haft nægilegt eftirlit með háum blóðþrýstingi hans á tímabilinu apríl til september 2010 og látið hjá líða að bregðast við þegar ljóst hafi verið að lyf hafi ekki verið að skila tilætluðum árangri. Ennfremur hafni stefndi því að þéttara eftirlit með háum blóðþrýstingi stefnanda eða önnur eða breytt lyfjagjöf á þessum tíma hafi getað takmarkað eða komið í veg fyrir tjón stefnanda af völdum sjúkdómsins. Þegar stefnandi hafi komið í eftirlit til stefnda í fyrra skiptið, þ.e. hinn 14. apríl 2010, hafði stefnandi ekki komið í skoðun í hálft ár, þrátt fyrir að stefndi hafi boðað hann í endurkomu sex vikum eftir fyrra eftirlit sem fór fram hinn 13. nóvember 2009. Eins og áður greinir hafi stefnandi þá verið nánast orðinn blindur á hægra auga vegna alvarlegs augnsjúkdóms af völdum sykursýkinnar (e. diabetic retinopathy) og hafi verið á leið í skurðaðgerð hjá Haraldi Sigurðssyni, augnlækni. Við skoðun hafi blóðþrýstingur stefnanda mælst allt of hár (152/188) og viðurkenndi stefnandi að hann hafi ekki mælt blóðsykur reglulega, auk þess sem hann hafði ekki borið sig eftir því að fá nauðsynleg lyf sem þá höfðu klárast fyrir nokkru síðan. Stefndi hafi ávísað stefnanda blóðþrýstingslækkandi lyfjum, lagt fyrir hann að mæla blóðsykur u.þ.b. fjórum sinnum á dag og hafa samband innan fárra daga með niðurstöður mælinganna til að unnt væri að stilla insúlínskammtana af, en gert hafi verið ráð fyrir endurmati stefnanda eftir tvo mánuði.                 Varðandi síðara skiptið, þ.e. eftirlit sem stefnandi mætti til hjá stefnda hinn 23. júní 2010, komi fram í göngudeildarnótu stefnda að ástandið á stefnanda hafi þá verið mjög slæmt. Til að reyna að vinna bug á háum blóðþrýstingi stefnanda, sem hafi mælst þá 172/118, hafi stefndi látið hann auka við skammtinn af blóðþrýstingslækkandi lyfjum. Auk þess hafi stefndi sett stefnanda á lyf til að draga úr magni heildarkólesteróls. Stefndi hafi gefið stefnanda tíma til endurmats eftir um tvo og hálfan mánuð. Þegar að því kom hafi stefnandi veikst af miklum höfuðverk og uppköstum og af þeim sökum hafi hann ekki komið til stefnda, heldur hafi hann verið lagður inn á lyflækningadeild FSA hinn 14. september 2010.                 Samkvæmt framangreindu hafi hækkandi blóðþrýstingur stefnanda í bæði skiptin, þ.e. hinn 14. apríl 2010 og 23. júní s.á. verið meðhöndlaður með viðeigandi lyfjum. Núverandi sjúkdómsástand og tjón stefnanda megi því rekja til afar lélegrar meðferðarheldni hans, en ekki mistaka við lyfjagjöf af hálfu stefnda. Þá hafni stefndi því að hann hafi sýnt af sér vítavert gáleysi með því að þétta ekki eftirlit með háum blóðþrýstingi stefnanda enn frekar en gert var á vormánuðum árið 2010 enda hefði örara eftirlit þá engu breytt um núverandi tjón stefnanda af völdum sjúkdómsins.                 Stefndi mótmælir alfarið staðhæfingu stefnanda um að stefndi hafi ekki búið yfir nægri sérfræðiþekkingu til að taka á móti og veita sykursýkissjúklingum læknisþjónustu og að honum hafi borið að vísa stefnanda til sérfræðings í innkirtlasjúkdómum eða nýrnasérfræðings. Alvanalegt sé að lyflæknar sjái um meðferð sykursjúklinga. Stefndi sé sérmenntaður á sviði lyflækninga og hafi frá því í nóvember 1989 verið sjálfstætt starfandi sérfræðingur í lyf- og gigtarlækningum, með starfsaðstöðu á FSA þar sem hann hafi um árabil rekið sérfræðimóttöku á göngudeild fyrir sykursjúka og sinnt „ambulant“ þjónustu. Þá hafi stefndi verið aðstoðarsérfræðingur (e. senior registrar) og lektor (e. clinical lecturer) í lyflækningum við kennslusjúkrahúsin í Aberdeen í Skotlandi tímabilið frá febrúar 1987 til október 1989, og hafi þar m.a. sinnt móttöku sykursjúkra og fengið yfirgripsmikla þjálfun í meðferð sykursjúkra.                 Þá hafi ástand stefnanda ekki verið orðið jafn slæmt 23. júní 2010 og það var orðið í september það ár. Því hafi sjúkdómsástand stefnanda og horfur verið orðnar mun alvarlegri og verri í september 2010, heldur en þær hafi verið í byrjun sumars sama ár. Af gögnum málsins megi ráða að alvarlegir fylgikvillar sem stefnandi þjáðist af af völdum sykursýkinnar höfðu ágerst afar hratt og með mjög ágengum hætti á þessum mánuðum og að öll einkenni þeirra hafi komið fram mjög skyndilega og á þann veg að ekki varð neitt við ráðið. Stefnda hafi ekki gefist tækifæri til að skoða stefnanda haustið 2010 og hafi þar af leiðandi ekki getað lagt mat á möguleg meðferðarúrræði á þeim tíma.                 Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda um sýknu er þess krafist að stefndi verði aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta vegna þess líkamstjóns sem stefnandi varð fyrir á tímabilinu frá apríl til september 2010. Byggist sú krafa stefnda á því að tjón stefnanda megi að mestu leyti rekja til stórfellds athafnaleysis hans sjálfs, eða eftir atvikum til háttsemi annarra aðila en stefnda, sem stefndi ber ekki skaðabótaábyrgð á, og því verði stefnandi að bera tjón sitt að hluta til sjálfur vegna eigin sakar. Vísar stefndi til þess sem fram hefur komið hvað varðar lélega meðferðarheldni stefnanda til stuðnings varakröfu sinni og til málsástæðna sem raktar eru í aðalkröfu eftir því sem við eigi.                 Með hliðsjón af framangreindu og að öðru leyti með vísan til gagna málsins telur stefndi ljóst að hann hafi á engu tímamarki gert mistök eða sýnt af sér saknæma háttsemi eða vanrækslu við eftirlit, lyfjagjöf eða meðferð stefnanda vegna sykursýkissjúkdóms hans. Stefnandi ber sönnunarbyrðina fyrir því að skilyrði bótaskyldu séu uppfyllt í málinu. þ.e. að stefnda hafi orðið á mistök við meðferð hans og að orsakasamband eða sennileg afleiðing sé á milli þess og tjónsins sem stefnandi varð fyrir af völdum sjúkdómsins á tímabilinu apríl til september 2010. Ekkert af þessum atriðum hafi stefnandi fært fram sönnur á, og beri því að sýkna hann. Breyti engu þó að sakarreglunni kunni að vera beitt með strangari hætti í garð lækna vegna sérfræðiábyrgðar þeirra, þar sem skilyrði sakarreglunnar séu ekki uppfyllt í málinu og engin sönnun liggi fyrir á milli háttsemi stefnda og tjóns stefnanda.                 Stefndi byggir á því að stefnandi hafi á öllum stigum fengið bestu og fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma var unnt að veita honum miðað við sjúkdómsástand hans og horfur, sbr. ákvæði laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu. Tjón stefnanda, sem felst í blindu og nýrnabilun, megi rekja til illvígs grunnsjúkdóms hans sem hafi ágerst afar skyndilega og með svæsnum hætti, og einnig til mjög slæmrar meðferðarheldni stefnanda um árabil. Þegar stefnandi var kominn með hinn alvarlega augnsjúkdóm, en fyrstu einkenni hans voru greind árið 2002, þá hafi góð stjórnun á blóðsykri og blóðþrýstingi ekki lengur úrslitaáhrif um útkomuna fyrir hann, heldur gagnist þá einungis meðferð á augum með laser og skurðaðgerðum. Besta veitta læknisþjónusta geti þó aldrei tryggt góða útkomu og þaðan af síður lagað það sem út af beri þegar sjúklingur fylgi ekki meðferð og neiti þannig að bera ábyrgð á eigin heilsu og velferð.                 Um lagarök vísar stefndi einkum til skaðabótalaga nr. 50/1993 og meginreglna skaðabótaréttar um sönnun tjóns, orsakatengsl og sennilega afleiðingu og tómlæti tjónþola. Þá er vísað til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum til 16. gr. laganna, laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, einkum til 3. gr. laganna, læknalaga nr. 53/1988 og laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum til 1. mgr. 130. gr. laganna. Þar sem stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur aðili er þess krafist að tekið verði tillit til greiðslu virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar. V                 Í máli þessu krefst stefnandi viðurkenningar á því að stefndu beri óskipt skaðabótaábyrgð á líkamstjóni sem hann hefur orðið fyrir. Svo sem að framan er rakið hefur stefnandi nú misst sjón á báðum augum og er auk þess nýrnabilaður. Byggir stefnandi kröfu sína um viðurkenningu á bótaskyldu stefndu á því að þetta ástand sé um að kenna saknæmum athöfnum og athafnaleysi stefnda Ingvars Teitssonar og þeirra starfsmanna stefnda íslenska ríkisins sem hann leitaði til á tímabilinu apríl til september 2010. Vísast til atvikalýsingar varðandi þá meðferð og aðgerðir sem stefnandi gekkst undir á því tímabili. Stefnandi byggir á því að stefndu beri óskipta ábyrgð á grundvelli almennu skaðabótareglunnar og eftir atvikum reglunnar um vinnuveitandaábyrgð.                 Til þess að ábyrgð verði felld á aðila á grundvelli framangreindra reglna þarf að liggja fyrir sönnun þess að þeir hafi sýnt af sér saknæma háttsemi. Við mat á saknæmi háttsemi sérfræðinga er lagður strangur mælikvarði sem tekur mið af þeirri sérfræðiþekkingu og þjálfun sem gera má kröfu um að sérfræðingar búi yfir og beiti í hvívetna. Í því tilviki sem hér um ræðir gildir því að meðferð og eftirlit sem stefnandi fékk á að hafa verið í samræmi við viðteknar vinnuaðferðir sem grundvallaðar eru á bestu þekkingu sem völ er á varðandi meðferð og eftirlit með þeim sem greinst hafa með þann sjúkdóm sem stefnandi glímir við sbr. m.a. 3. gr. laga nr. 74/1997 og skyldur heilbrigðisstarfsmanna sem nú er kveðið er á um í 13. gr. laga nr. 34/2012. Sönnunarbyrði um það að stefndu hafi sýnt af sér saknæma háttsemi hvílir hins vegar á stefnanda í samræmi við almennar sönnunarreglur auk þess sem leiða verður líkur að því að orsakatengsl séu milli háttseminnar og tjónsins og að tjónið sé sennileg afleiðing hennar.                 Stefnandi heldur því fram að tjón hans megi rekja til þess að eftirlit lækna með háum blóðþrýstingi hans á tímabilinu apríl til september 2010 hafi verið ófullnægjandi og því að ekki var brugðist við þegar ljóst var að lyfjagjöf skilaði ekki nægilegum árangri í því að lækka blóðþrýstinginn. Verður nú tekin afstaða til þessara atriða hvað varðar hvern hinna stefndu.                 Stefnandi byggir á því að stefndi Ingvar hafi sýnt af sér gáleysi við meðferð stefnanda við nánar greindar tvær komur stefnanda til hans, annars vegar 14. apríl 2010 og hins vegar 23. júní s.á. Í báðum tilvikum hafi blóðþrýstingur hans mælst allt of hár, í fyrra sinnið hafi hann verið 152/118 og í síðara sinnið 172/118.                 Þann 14. apríl 2010 mætti stefnandi til skoðunar hjá stefnda Ingvari á göngudeild lyflækninga á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Þegar hér var komið sögu hafði stefnandi um nokkra hríð verið með allt of háan blóðþrýsting og höfðu honum verið ávísuð lyf vegna þessa allt frá árinu 2003. Stefnandi hafði síðast komið til Ingvars í eftirlit 13. nóvember 2009 og blóðþrýstingur hans þá mælst sá sami og í þessari skoðun. Í læknabréfi Ingvars vegna þeirrar komu, þ.e. 13. nóvember, segir að þá hafi skammtar blóðþrýstingslyfja verið auknir og gert ráð fyrir endurkomu hans á göngudeild sex vikum síðar. Stefnandi mætti hins vegar ekki fyrr en hálfu ári síðar eða þann 14. apríl. Í læknabréfi Ingvars vegna komu stefnanda þann dag eru tilgreindir þeir lyfjaskammtar sem stefnandi er á. Þau lyf sem honum eru ávísuð vegna blóðþrýstingsins voru T. Presmin combo (50+12.5) 1x1 og T. Seloken ZOC 47.5 mg. 1 x 1. Kemur fram að þessi lyf hafi klárast hjá stefnanda einhverjum dögum fyrir komu hans til stefnda. Um er að ræða sömu skammtastærðir og ákveðið hafði verið í síðustu skoðun. Þá kemur fram í bréfinu að stefnandi hafi rætt um að fá insúlíndælu. Í niðurstöðu bréfsins segir: „Það er mjög slæmt lag á sykrunum hjá þessum manni og hann er með algjörlega óviðunandi háþrýsting líka sem er væntanlega sekunder við diabetes nepropathiu. Hann fellst á að fara að mæla sykra 4x á dag og þá mun hann hringja í í mig eftir nokkra daga til að lofa mér að heyra hvernig gengur með sykrana. Þá gætum við stillt Insúlín skammtana af eftir því. Það er tæpast tímabært að senda þennan mann í mat á því hvort hann sé kandidat fyrir Insúnlín dælu. Hann á tíma á gd. hjá undirrituðum skv. hans eigin beiðni eftir 2 mán.“                 Í skýrslu stefnda Ingvars fyrir dómi kom fram hann hafi ekki talið rétt á þessu stigi máls að auka skammtastærðir framangreindra lyfja vegna blóðþrýstingsins í ljósi þess að fyrir hafi legið að stefnandi hafi ekki tekið inn lyfið í nokkurn tíma þar sem hann hafi klárað lyfjaskammtana og ekki borið sig eftir að fá meira. Hafi hann því tekið ákvörðun um að halda skammtastærðum óbreyttum þar til við næstu endurkomu.                 Þann 23. júní 2010 mætir stefnandi aftur hjá stefnda Ingvari, á göngudeild FSA, svo sem ákveðið var á síðasta fundi þeirra. Blóðþrýstingur mælist þá 172/118 sem er sagt allt of hátt. Í göngudeildarnótu, dagsettri sama dag, er eftirfarandi samantekt: „Það er mjög slæmt ástand hjá Gunnari Heiðari. Hann eykur Presmin combo skammtinn í 100+25 eina töflu að morgni og eykur Seloken ZOC skammtinn í 95 mg eina töflu að morgni. Hann hefur haft hypercholesterolemia undanfarið og fer nú á b. Simvastatin 40 mg. 1 töflu að kvöldi. Hann fer í blóðpr. í dag þar á meðal mælingu á HA1c og kemur á göngudeild til eftirlits eftir 2½ mánuð.“                 Stefnandi átti næst tíma hjá stefnda Ingvari til eftirlits 14. september s.á. en veikist á leiðinni til hans og leitar af þeim sökum á slysadeild FSA. Í sjúkraskrá FSA lyflækningasviðs segir að ákveðið sé að leggja hann inn til frekari meðhöndlunar á blóðþrýstingi. Jafnframt segir í skýrslunni að lyf við innlögn séu Tabl. Presmín Combo 50/12,5 mg x1, Tabl. Metaprolol 95 mg x1 og Simvastin 10 mg 1x auk fleiri lyfja. Af framangreindu má sjá að ekki er samræmi upplýsingum í göngudeildarnótu stefnda Ingvars frá 23. júní um skammtastærðir af lyfjunum Premsmin Combo og Simvastin og því sem fram kemur í sjúkraskránni varðandi það hvaða lyf stefnandi hafi verið að taka við innlögn þann 14. september. Enga skýringu er að finna á þessu misræmi í gögnum málsins og fyrir dómi kvaðst stefndi Ingvar ekki geta skýrt það en alveg áreiðanlegt væri að hann hefði ávísað lyfjunum í þeim skammtastærðum sem greint er frá í göngudeildarnótu hans.                 Í stefnu er staðhæft að viðbrögð og ákvarðanir stefnda sem að framan er lýst hafi falið í sér gáleysi sem sé vítavert hvað viðbrögð í síðari heimsókninni varðar. Er á því byggt að stefnda hafi borið að þétta eftirlit og boða stefnanda í skoðun, sér í lagi eftir síðari skoðunina. Þá er einnig tiltekið að stefnda hafi borið að skoða nánar beiðni stefnanda í heimsókninni 24. apríl um að fá insúlíndælu.                 Hvað fyrri heimsóknina varðar, þann 24. apríl 2010, ber að hafa í huga að þá hafði um nokkurt skeið verið reynt að bregðast við hækkuðum blóðþrýstingi stefnanda með lyfjagjöf sem lýst er að framan. Svo sem fram kemur í læknabréfi stefnda þann dag hafði stefnandi orðið uppiskroppa með þau blóðþrýstingslyf sem honum höfðu verið ávísuð áður en hann kom í eftirlitið til stefnda, og því hafði hann ekki tekið þau inn um hríð. Af þeim sökum kveðst stefndi hafa ákveðið að auka ekki lyfjaskammta stefnanda að svo stöddu heldur ávísar honum sömu lyfjum og leggur fyrir hann að taka þau inn í óbreyttum skömmtum fram að næsta eftirliti tveimur mánuðum síðar. Sú ákvörðun er eðlileg með hliðsjón af því að virkni lyfjanna verður ekki metin nema eftir að stefnandi hefur tekið þau inn. Verður þessi ákvörðun ekki metin stefnda Ingvari til gáleysis.                 Stefndi Ingvar heldur því fram að hann hafi jafnan, í samræmi við viðurkennd viðmið, haft reglubundið eftirliti með sykursýkissjúklingum á þriggja mánaða fresti en í þessu tilviki ákveðið að hafa það tíðara, í ljósi ástands stefnanda. Ekki er fallist á það með stefnanda að ákvörðun stefnda Ingvars um að hafa næsta eftirlit með stefnanda tveimur mánuðum síðar hafi falið í sér gáleysi af hálfu stefnanda. Engin gögn hafa verið lögð fyrir dóminn sem hrekja þá staðhæfingu stefnda Ingvars að hann hafi stuðst við viðurkennd viðmið varðandi tíðni eftirlits með stefnanda. Staðhæfingar um annað eru því ósannaðar. Þá er því hafnað að notkun insúlíndælu hefði nokkru breytt hvað varðar blóðþrýsting stefnanda auk þess sem það mat stefnda Ingvars, að ekki væri tímabært að meta hvort þetta úrræði hentaði stefnanda, er rökrétt með hliðsjón af erfiðleikum stefnanda við að mæla og skrá blóðsykur reglulega.                 Við síðari komu stefnanda til stefnda, þann 23. júní s.á. bregst stefndi við hækkuðum blóðþrýstingi stefnanda með því að auka lyfjaskammta á báðum þeim lyfjum sem hann áður hafði ávísað og boða stefnanda aftur til eftirlits tveimur og hálfum mánuði síðar. Svo sem að framan er rakið er ekki samræmi í upplýsingum um lyfjaskammta sem fram koma í göngudeildarnótu stefnda, dagsettri sama dag og stefnandi kom til eftirlits, og í sjúkraskýrslu hans, dagsettri 14. september s.á. Því er ekki ljóst af fyrirliggjandi gögnum hvort þeir lyfjaskammtar sem stefnandi í reynd tók inn hafi verið í samræmi við þá ákvörðun. Verður við það að miða að ákvörðun stefnda hafi verið sú sem skráð er í framangreindri göngudeildarnótu hans. Það er mat dómsins, á grundvelli fyrirliggjandi gagna, að sú ákvörðun stefnda hafi verið í eðlilegu samræmi við ástand stefnanda á umræddum tíma og forsvaranleg viðbrögð við hækkandi blóðþrýstingi hans.                 Þá er hafnað þeirri málsástæðu stefnanda að stefndi Ingvar hafi ekki búið yfir nægilegri sérfræðiþekkingu til að geta meðhöndlað stefnanda. Stefndi er sérfræðingur í lyflækningum og gigtlækningum sem er undirgrein almennra lyflækninga. Þegar hann hóf að veita stefnanda þjónustu ári 2000 hafði hann þá þegar nokkra ára reynslu af meðhöndlun og eftirliti með sykursjúklingum og hefur sinnt slíkum læknisstörfum allar götur síðar. Að mati dómsins er ekkert fram komið sem veitir vísbendingu um að hann hafi ekki haft fullnægjandi þekkingu og reynslu á því sviði sem reynir á í tilviki stefnanda á því tímabili sem um er deilt.                 Þá verður við mat á gáleysi stefnda Ingvars til þess að líta að stefnandi hefur hvorki aflað matsgerðar né annarra sérfræðiganga sem styðja staðhæfingar hans um að önnur lyfjagjöf, aðrar skammtastærðir, tíðara eftirlit eða innlögn á sjúkrahús hefðu breytt eða verið líklegar til að breyta neinu um varðandi þann háþrýsting sem stefnandi glímdi við á umræddum tíma.                 Af öllu framanröktu er það niðurstaða dómsins að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að stefndi Ingvar Teitsson hafi sýnt af sér gáleysi eða aðra saknæma háttsemi í tengslum við þá meðferð sem hann veitti stefnanda og eftirlit með honum á því tímabili sem deilt er um.                 Ekki verður séð að stefnandi beini kröfu sinni að sjúkrahúsinu á Akureyri að öðru leyti en því sem lýtur að verkum stefnda Ingvars Teitssonar. Að fenginni framangreindri niðurstöðu um að ósönnuð sé sök af hálfu stefnda Ingvars er því ekki þörf frekari umfjöllunar um bótaábyrgð FSA.                 Kröfur sínar gagnvart stefnda íslenska ríkinu vegna lækna Landspítala háskólasjúkrahúss, LHS byggir stefnandi á því að þeir hafi sýnt af sér gáleysi með því að bregðast ekki við of háum blóðþrýstingi hans við komu til augnlækna á umdeildu tímabili. Þá hafi verið látið undir höfuð leggjast að mæla blóðþrýsting stefnanda í sumum heimsóknunum. Stefnandi tilgreinir í þessu sambandi sex heimsóknir til augnlækna spítalans á tímabilinu 4. júní til 8. september 2010. Í fjórum tilvikum er um að ræða skoðun á göngudeild augnlækninga á LHS en í tveimur tilvikum, þann 24. júní og 7. júlí, á stofu Haraldar Sigurðssonar augnlæknis í Hamrahlíð 17. Fallist er á það með stefnda að hann beri hvorki ábyrgð á grundvelli reglunnar um vinnuveitandaábyrgð né á öðrum grundvelli á verkum sem unnin eru á stofu sérfræðinga utan spítalans. Kemur því ekki til frekari skoðunar sú meðferð sem stefnandi fékk í umræddum heimsóknum á stofu Haraldar Sigurðssonar í júní og júlí 2010. Í hin fjögur skiptin leitar stefnandi á göngudeild augnlækninga á LHS.                 Í fyrstu komu á göngudeild augnlækninga á umræddu tímabili, 4. júní 2010, hitti stefnandi Harald Sigurðsson augnlækni. Í göngudeildarnótu hans segir að stefnandi hafi leitað á spítalann í bráðatilviki vegna óþols við ljósi. Þess er jafnframt getið að hann sé á blóðþrýstingslækkandi meðferð en að öðru leyti er í göngudeildarnótunni fjallað um ástand á sjón hans og getið þeirrar meðferðar sem hann fær við því. Næst kom stefnandi á göngudeild augnlækninga þann 9. ágúst s.á. Ekki er getið um blóðþrýsting en sagt að stefnandi þurfi í augnaðgerð og settur á biðlista vegna þeirra. Þann 30. ágúst kemur stefnandi enn á göngudeild. Segir í göngudeildarnótu að sjón hans á vinstra auga hafi versnað skyndilega vikuna áður og hann sé blindur á hægra auga. Ekki sé annað að gera en „virtectomy“ og ákveðið að aðgerð fari fram þann 4. október. Í síðustu heimsókninni á umræddu tímabili, þann 8. september, hittir stefnandi Einar Stefánsson yfirlækni. Í læknabréfi til stefnda Ingvars fjallar Einar bæði um blóðsykur og blóðþrýsting stefnanda. Getur hann þess að langtímablóðsykur hafi lækkað nokkuð en blóðþrýstingur ekki. Þá segir í bréfinu: „Ég legg mikla áherslu á að það þurfi að ná blóðþrýstingsmeðferðinni undir stjórn því blóðþrýstingurinn getur verið að hafa bein áhrif á augnsjúkdóminn eins og er“. Einar Stefánsson gaf skýrslu fyrir dómi og var beðinn að útskýra framangreind ummæli í læknabréfinu. Kvað hann að stefnandi hafi á umræddum tíma verið á leið í skurðaðgerð og hann hafi viljað að almennt ástand hans væri sem best, þ.á.m. blóðþrýstingurinn. Slíkt dragi úr hættu á blæðingum í aðgerð. Hins vegar hefðu þessir þættir, þ.e. blóðsykur og blóðþrýstingur ekki mikil skammtímaáhrif heldur fyrst og fremst neikvæð langtímaáhrif, bæði á framgangshraða og alvarleika augnsjúkdómsins. Kvaðst hann ekki telja að blóðþrýstingur stefnanda á umræddu tímabili hafi haft úrslitaáhrif á augnsjúkdóm stefnanda. Þá liggur fyrir greinargerð Einars til framkvæmdastjóra lækninga á LHS, dags 5. desember 2012, þar sem fram kemur það álit læknisins að augnsjúkdómur stefnanda orsakist af of háum blóðsykri og of háum blóðþrýstingi til marga ára. Þegar hinn alvarlegi augnsjúkdómur sé kominn til þá hafi stýring á þessum þáttum ekki lengur úrslitaáhrif á útkomuna heldur bein augnlæknismeðferð með laser og skurðaðgerðum. Af þeim ástæðum sé meðhöndlun blóðsykurs og blóðþrýstings ekki áhersluatriði á augndeildinni heldur sé þeirri meðferð betur komið fyrir hjá sérfræðilæknum sem hafi sérþekkingu á því sviði.                 Fyrir liggur að í umræddum heimsóknum stefnanda á göngudeild augnlækninga var fyrst og fremst verið að meðhöndla versnandi sjón hans og undirbúa aðgerðir vegna þess sjúkdóms auk þess sem eitt tilvik var bráðatilvik vegna ljósóþols. Þá liggur fyrir, og er getið í göngudeildarnótu frá 4. júní, að starfmönnum LHS var kunnugt um almennt sjúkdómsástand stefnanda og að hann naut meðferðar undir stjórn stefnda Ingvars við of háum blóðþrýstingi. Verður að telja það eðlilegt, og í samræmi við hefðbundna verkaskiptingu sérfræðilækna, að grípa ekki inn í slíka meðferð, nema sýnt sé að hún sé röng eða henni sé ábótavant í einhverju.                 Með hliðsjón af því sem að framan er rakið og þar sem stefnandi hefur hvorki stutt staðhæfingar sínar með matsgerð dómkvadds matsmanns eða öðrum haldbærum gögnum verður hvorki talið að hann hafi fært sönnur á að augnlæknar LHS hafi á saknæman hátt látið undir höfuð leggjast að mæla og bregðast við of háum blóðþrýstingi er hann kom þangað til meðferðar á tilgreindu tímabili né að tjón hans megi rekja til slíkrar vanrækslu.                 Kröfur sínar gagnvart stefnda íslenska ríkinu, vegna starfmanna Heilbrigðisstofnunar Sauðárkróks, byggir stefnandi á því að starfsmenn HS hafi sýnt af sér gáleysi með því að grípa ekki til aðgerða til að lækka blóðþrýsting stefnanda í tveimur tilgreindum tilvikum þann 23. maí og 5. ágúst 2010.                 Í fyrra tilvikinu er um að ræða símatal sem móðir stefnanda átti við lækni á heilsugæslunni á Sauðárkróki. Segir hún frá því að stefnandi hafi nýlega farið augnaðgerð á LHS, sé með verki og bólgið auga og sofi lítið. Stefnanda var ávísað verkjalyfjum. Segir í gögnum læknisins að móðir stefnanda hafi eindregið verið hvött til að hafa samband við augndeild LHS en hún hafi svarað því til að hann væri ekki svo slæmur.                 Síðar tilvikið er heimsókn stefnanda á heilsugæsluna til að fá endurnýjað örorkuvottorð. Í sjúkraskýrslu eru skráðar almennar upplýsingar um ástand hans, m.a. niðurstöður blóðþrýstingsmælinga, 190/115. Jafnframt er getið um að stefnandi sé í eftirlitið hjá Ingvari Teitssyni og skráð hvaða lyf hann sé að taka.                 Ekki fallist á að starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Sauðárkróks hafi sýnt af sér gáleysi með því að grípa ekki til ráðstafana vegna of hás blóðþrýstings í framangreindum tilvikum. Á nefndu tímabili var stefnandi í meðferð hjá sérfræðingum, m.a. Ingvari Teitssyni vegna sykursýkinnar, og Haraldi Sigurðssyni og fleiri augnlæknum á LHS vegna augnsjúkdómsins. Verður ekki séð að eðlilegt hafi verið fyrir heimilislækni að grípa inn í þá meðferð sem hann naut hjá umræddum sérfræðingum nema vísbending lægi fyrir um að sú meðferð væri röng eða henni ábótavant. Svo sem rakið er að framan um kröfur stefnanda á hendur stefnda Ingvari og starfsmönnum LHS er ósannað að svo hafi verið. Þá verður með engu móti séð að starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Sauðárkróks hafi haft tilefni til grípa til sérstakra ráðstafana vegna blóðþrýstings stefnanda í fyrra tilvikinu, þ.e. þegar móðir hans hringir vegna verkja stefnanda í kjölfar augnaðgerðar. Verður kröfum á hendur stefnda íslenska ríkinu, vegna starfsmanna Heilbrigðisstofnunar Sauðárkróks því hafnað.                 Með vísan til þess sem að framan er rakið ber að sýkna stefndu af kröfum stefnanda. Með hliðsjón af atvikum máls er rétt að málskostnaður falli niður.                 Mál þetta dæmdu Ingibjörg Þorsteinsdóttir, héraðsdómari sem dómsformaður og meðdómsmennirnir Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Guðni Arnar Guðnason, sérfræðingur í lyflækningum og innkirtlasjúkdómum. D ó m s o r ð:                 Stefndu, íslenska ríkið og Ingvar Teitsson, eru sýknaðir af kröfum stefnanda, Gunnars Heiðars Bjarnasonar. Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 674/2014
Húsaleigusamningur
Aðilar deildu um þá réttarstöðu sem uppi var á milli þeirra, V ehf. sem leigutaka og E hf. sem leigusala, eftir að tímabundnum leigusamningi um atvinnuhúsnæði lauk samkvæmt efni sínu 1. apríl 2011. Óumdeilt var að V ehf. nýtti húsnæðið áfram til loka desember 2012 og greiddi leigu í samræmi við forsendur fyrrnefnds samnings. Í dómi Hæstaréttar kom fram að 59. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 yrði ekki túlkuð svo að á leigusala, eða eftir atvikum leigutaka, hvíldi skylda til formlegra aðgerða svo sem með sendingu tilkynningar með áskilnaði um framlengt gildi leigusamnings þegar því tímamarki væri náð að tveir mánuðir væru liðnir frá lokum tímabundins leigusamnings en húsnæðið áfram nýtt af leigutaka. Þvert á móti yrði talið að ákvæðið fæli í sér þann efnislega áskilnað sem leigusali eða leigutaki gæti haft uppi eftir að því tímamarki væri náð og án þess að til sérstakra formlegra tilkynninga kæmi af því tilefni. Ætti sá skilningur sér jafnframt stoð í meginreglu 10. gr. laganna. Með hliðsjón af framangreindu, samskiptum aðila á umræddu tímabili og að virtri kröfugerð E hf. var litið svo á að í gildi hefði verið ótímabundinn húsaleigusamningur með sex mánaða uppsagnarfrest, sbr. 3. tölulið 56. gr. laga nr. 36/1994, þegar V ehf. tilkynnti E hf. 31. desember 2012 um lok leigusambandsins af sinni hálfu.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. október 2014. Hann krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfu stefnda en til vara að tildæmd fjárhæð verði lækkuð. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara að málskostnaður á báðum dómstigum verði felldur niður. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júlí 2014. Mál þetta, sem dómtekið var 11. júní 2014 er höfðað með stefnu útgefinni 11. júní 2013 af Eik fasteignafélagi hf., Sóltúni 26, Reykjavík, á hendur Viðskiptastofunni Ármúla ehf., Bitruhálsi 2,110 Reykjavík. I. Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar samtals að fjárhæð 2.229.936 kr. ásamt dráttarvöxtum skv. 5. gr. laga nr. 38/2001 af 275. 519 kr. frá 1. september 2012 til 1. desember 2012, þá af 552.807 kr. frá þeim degi til 31. desember 2012, þá af 575.106 kr. frá þeim degi til 1. janúar 2013 en af 2.229.936 kr. frá þeim degi til greiðsludags. Allt að frádregnum 24.638 kr. sem dragast frá kröfunni þann 28. febrúar 2013. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu að mati réttarins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi lögmanns stefnanda. II. Málsatvik Mál þetta er tilkomið vegna leigu stefnda á hluta húsnæðis í eigu stefnanda að Ármúla 21, 105 Reykjavík. Þann 28. mars 2006 skrifaði stefndi undir leigusamning við stefnanda vegna húsnæðisins.  Samningurinn var tímabundinn til 1. apríl 2011 og lauk þá án sérstakrar uppsagnar. Leigugreiðslur voru 124.000 kr. á mánuði auk vsk. og kostnaðar. Leigan átti að taka breytingum í samræmi byggingavísitölu m.v. grunnvísitölu marsmánaðar 2006, 325,3. Leigusamningurinn var ekki endurnýjaður. Stefndi dvaldi hins vegar áfram í húsnæðinu án þess að gerður væri nýr leigusamningur. Voru honum sendir greiðsluseðlar vegna veru sinnar í húsnæðinu sem voru greiddir án athugasemda. Fyrir liggur að stefndi krafðist þess að ýmsar lagfæringar yrðu gerðar á húsnæðinu sem hann taldi í slæmu ástandi og krafðist jafnframt lækkunar leigufjárhæðar. Stefndi taldi að stefnandi hefði ekki staðið við lagfæringar á húsnæðinu sem hann hafði óskað eftir og með tölvupósti dags. 30. desember 2011 tilkynnti starfsmaður stefnda, Brynja Kristjánsdóttir, til staðfestingar á símtali við stefnanda fyrr um daginn að leigu á húsnæði stefnda að Ármúla 21 væri sagt upp. Þann 22. júní 2012 óskaði stefndi eftir framlengingu á leigusamningi til 30. september 2012. Með tölvupósti sama dag samþykkti stefnandi framlengingu og bauð stefnda að ef hann hefði áhuga á að vera áfram í húsnæðinu og gerði tveggja ára leigusamning þá gæti stefnandi lækkað leiguna úr 220.000 kr. á mánuði auk vsk. í 185.400 kr. auk vsk. Stefndi gerði síðan kröfur um verulegar úrbætur á húsnæðinu ef framlengja ætti leigusamninginn. Með tölvupósti starfsmanns stefnda dags. 11. október 2012 var skorað á stefnanda að ganga frá nýjum leigusamningi og tekið fram að stefndi hefði hug á að færa hann á annað félag í eigu Jóns Þ. Hilmarssonar, B.T. sf. Í póstinum sagði að stefndi hefði boðið lækkun ásamt endurbótum í júní og eins aftur þegar þau hefðu hist 6. september. Þá óskaði stefndi eftir því að lækkun leigugreiðslu yrði afturvirk frá 1. júní 2012. Stefnandi sendi stefnda nýjan leigusamning þann 15. október 2012 en stefndi neitaði að undirrita hann nema endurbætur yrðu gerðar. Í tölvupósti 22. október tilkynnti stefndi að verið væri að fara yfir samninginn en hann hefði viljað fá skriflegt hvaða endurbætur hefði verið ákveðið að gera á húsnæðinu. Jafnframt tilkynnti hann að alvarleg vandræði væru með rafmagnið í húsnæðinu. Einnig var tilkynnt um athugasemdir eldvarnareftirlits. Óskað var skjótra svara svo að unnt væri að ganga frá leigumálum. Með tölvupósti, dags. 25. október 2012, óskaði starfsmaður stefnda eftir því að fá upplýsingar um það hvaða endurbætur yrðu gerðar og hann vildi fá þessar upplýsingar áður en skrifað yrði undir leigusamning. Með tölvupósti stefnanda til stefnda dags. 27. nóvember 2012 tilkynnti stefnandi að allar endurbætur sem hann hefði hugsað sér hefðu farið fram. Stefndi yfirgaf síðan leiguhúsnæðið í lok desember 2012. Með bréfi dags. 12. febrúar 2013 frá stefnanda til stefnda var stefnda boðið að gera kröfu stefnanda upp án kostnaðar og vaxta, samtals 2.207.637 kr. en hún var vegna vangoldinnar húsaleigu vegna september og desember 2012 auk húsaleigu á uppsagnarfresti. Engin viðbrögð bárust við því. Var því sent innheimtubréf þann 27. febrúar 2013. Lögmenn aðila funduðu í kjölfarið og var stefnda sent sáttarboð með pósti, dags. 7. maí 2013, að fjárhæð 1.384.671 kr. Engin viðbrögð bárust við því og höfðaði stefnandi mál þetta með stefnu útgefinni 11. júní 2013. III. Málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi reisir kröfur sínar á meginreglum samningaréttar og kröfuréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga og á húsaleigulögum nr. 36/1994. Stefnandi hafi undirritað húsaleigusamning við stefnda í mars 2006 og hafi hann verið tímabundinn til 1. apríl 2011. Greidd hafi verið leiga samkvæmt honum þar til hann rann sitt skeið á enda. Samkvæmt ákvæðum samningsins hafi honum lokið án sérstakrar eða uppsagnar þann 1. apríl 2011. Stefndi hafi nýtt húsnæðið áfram án þess þó að gerður hafi verið nýr skriflegur leigusamningur við stefnanda. Hafi stefnda því áfram verið sendir greiðsluseðlar vegna húsaleigu. Þá hafi stefndi greitt án athugasemda. Stefnandi byggir á því að með því hafi komist á ótímabundinn leigusamningur í samræmi við 10. gr. laga nr. 36/1994. Stefnandi hafi síðan skilaði húsnæðinu án fyrirvara eða uppsagnar í lok árs 2012, nánar tiltekið þann 28. desember 2012. Vangreidd sé enn húsaleiga vegna september og desember 2012 auk sameiginlegs kostnaðar vegna desember. Stefnandi byggir á því að upphæð leigunnar eigi að taka mið af eldri samningi aðila og að stefndi hafi samþykkt það með athugasemdarlausri greiðslu slíkrar leigu síðan í apríl 2011. Þannig teljist stefndi hafa samþykkt fjárhæð leigunnar í skilningi 2. mgr. 10. gr. laga nr. 36/1994. Stefnandi byggir á því að um sé að ræða atvinnuhúsnæði og því gildi um samninginn 3. tl. 56. gr. laga nr. 36/1994 þar sem mælt sé fyrir um uppsagnarfrest ótímabundinna leigusamninga, sbr. einnig 1. mgr. 10. gr. laganna. Samkvæmt þeirri grein skuli leigusamningar sem ekki séu gerðir skriflega teljast ótímabundnir. Af því leiði að sex mánaða uppsagnarfrestur sé á samningi aðila. Þá leiði sama niðurstaða af samningnum sjálfum. Stefndi hafi yfirgefið húsnæðið án uppsagnar eða fyrirvara í lok desember 2012. Stefnanda hafi síðan ekki tekist að leigja húsnæðið eftir uppsögn þrátt fyrir reglubundnar auglýsingar í ýmsum miðlum. Stefnandi byggir á því að með því að auglýsa laust húsnæði með þessum hætti hafi hann reynt eftir fremsta megni að takmarka tjón sitt án árangurs. Stefnandi krefji stefnda því um húsaleigu út sex mánaða uppsagnarfrest skv. 3. tl. 56. gr. laga nr. 36/1994. Miðist fjárhæð leigu á uppsagnarfresti við síðasta greidda greiðsluseðil stefnanda vegna nóvember 2012 að fjárhæð 275.805 kr. Byggir stefnandi á því að með athugasemdalausri greiðslu þess seðils hafi stefnandi sýnt fram á að það væri hin samþykkta leigufjárhæð í skilningi 2. mgr. 10. gr. laga nr. 36/1994. Stefnda hafi hins vegar verið sendir greiðsluseðlar vegna mánaðanna frá janúar til júní 2013 en fjárhæð þeirra hafi tekið vísitölubreytingum og séu þeir því hærri en sú fjárhæð sem stefnandi krefji um greiðslu á í uppsagnarfresti. Stefnandi sundurliðar dómkröfur sínar sem hér segir: Vangreidd húsaleiga vegna september 2012                                         kr.              275.519,- Vangreidd húsaleiga vegna desember 2012                                          kr.              277.288,- Sameiginlegur kostnaður vegna desember 2012                                  kr.                 22.299,- Húsaleiga í uppsagnarfresti 275.805*6                                                  kr.           1.654.830,- Samtals                                                                                                         kr.           2.229.936,- Þá hafi stefndi þann 28. febrúar 2013 greitt 24.638 kr. sem dregnar séu frá kröfunni á innborgunardegi. Stefnandi vísar til þess að gjalddagi leigunnar sé fyrsti hvers mánaðar fyrir fram í samræmi við eldri leigusamning aðila sem og athugasemdalausa framkvæmd frá apríl 2011. Þá sé leiga í uppsagnarfresti öll gjaldfelld við uppsögn húsnæðisins þann 1. janúar 2013 í samræmi við 57. gr. laga nr. 36/1994. Eins og fram komi í greiðsluyfirliti á dskj. nr. 14 hafi stefndi greitt þrjá gjalddaga þann 28. desember 2012, nánar tiltekið hafi hann þá greitt greiðsluseðil vegna ágúst 2012, greiðsluseðil vegna október 2012 og greiðsluseðil vegna nóvember 2012. Ógreiddur sé greiðsluseðill vegna september 2012 sem og desember 2012. Þá sé ógreiddur greiðsluseðill vegna sameiginlegs kostnaðar í desember samanber V. grein leigusamnings aðila en stefndi hafði frá því að leigusamningi lauk einnig greitt slíka reikninga. Við aðalmeðferð mótmælti stefnandi þeim rökum stefnda að enginn samningur væri í gildi þar sem stefnandi hefði ekki nýtt sér rétt sinn skv. 59. gr. húsaleigulaga til að krefjast þess að stofnast hefði ótímabundinn samningur milli aðila eftir að fyrri samningur rann út. Þá tók hann fram að stefndi hefði aldrei hreyft riftunarkröfu vegna ágalla á húsnæðinu og hefði fyrirgert slíkum rétti, sbr. 60. gr. húsaleigulaga. Varðandi lagarök vísar stefnandi til þess að lagaskylda stefnda til að greiða stefnanda sé byggð á meginreglum kröfu- og samningaréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga og húsaleigulögum nr. 36/1994. Kröfur um vexti og dráttarvexti styður stefnandi við reglur III. kafla laga nr. 38/2001 en kröfu um málskostnað við 130. gr. laga nr. 91/1994. Málsástæður og lagarök stefnda Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda. Stefnandi hafi ekki nýtt sér heimild í 59. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 til þess að krefjast þess að stofnast hefði til ótímabundins samnings á milli aðila eftir að tímabundinn leigusamningur milli þeirra rann út 1. apríl 2011. Að sama skapi hafi stefndi ekki gert slíka kröfu enda hafi hann ekki viljað leigja húsnæðið áfram nema stefnandi gerði á því ákveðnar endurbætur. Stefndi hafi því verið í fullum rétti til að yfirgefa húsnæðið á þeim tíma sem hann gerði það og stefnandi eigi enga kröfu til leigugreiðslna. Hvað varði kröfur stefnanda um greiðslu úr hendi stefnda vegna vangoldinnar leigu þá mótmælir stefndi þeirri kröfu á þeirri forsendu að húsnæðið hafi verið algjörlega óhæft til þeirra nota er það var leigt til. Til dæmis hafi rafmagn í húsinu verið stórhættulegt, því hafi slegið út sem hafi skapað verulega hættu á að gögn glötuðust af tölvum þeim sem stefndi notaði. Eigandi stefnda sé Jón Þorbjörn Hilmarsson löggiltur endurskoðandi og starfsemi sú sem stefndi rak hafi verið bókhaldsþjónusta og endurskoðun fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Það gefi augaleið að slík starfsemi verði að vera í öruggu umhverfi og ekki megi vera fyrir hendi hætta á að gögn glatist. Með framangreindum rökum krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnanda. Við aðalmeðferð gáfu skýrslur fyrirsvarsmaður stefnda, Jón Þorbjörn Hilmarsson, og vitnið Brynja Kristjánsdóttir, starfsmaður stefnda. Jón Þorbjörn rakti samskipti við fyrirsvarsmann stefnanda, Vilhelm Patrick Bernhöft, og tilraunir sínar og starfsmanns síns, Brynju Kristjánsdóttur, til að ná sátt um nýjan leigusamning sem staðið hafi yfir allt fram til þess að stefndi yfirgaf húsnæðið. Tekist hafi verið á um kröfur stefnda um lagfæringar og fjárhæð leigu sem hafi verið alltof há miðað við ástand hússins. Hann kvaðst hafa orðið fyrir tjóni vegna bilana í rafmagni og hann gæti ekki sýnt fram á hversu mikið það tjón hafi verið. Vitnið Brynja Kristjánsdóttir gerði í skýrslu sinni grein fyrir ástandi húsnæðisins, sem hún kvað hafa verið mjög slæmt, m.a. ástand raflagna sem hafi verið upphaflegar og ekki staðist kröfur og rafmanginu hafi því oft slegið út sem hafi skapað hættu á því að gögn glötuðust af tölvum. Einnig rakti hún samskipti við Vilhelm Patrick varðandi kröfur stefnda um lagfæringar á húsnæðinu, en ekki hafi verið staðið við að framkvæma þær úrbætur sem farið hafi verið fram á. Einnig rakti hún samskipti varðandi nýjan leigusamning. Málskostnaðarkrafa stefnda er byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. IV. Niðurstaða Ágreiningur aðila í máli þessu snýst aðallega um það hvort í gildi hafi verið ótímabundinn leigusamningur milli aðila er stefndi yfirgaf leiguhúsnæðið í lok desember 2012. Stefnandi byggir á því að komist hafi á ótímabundinn leigusamningur í samræmi við 10. gr. laga nr. 26/1994 og uppsagarfrestur hafi verið mánuðir þar sem um atvinnuhúsnæði hafi verið að ræða, sbr. 3. tl. 56. gr. laga nr. 26/1994. Stefndi byggir aftur á því að stefnandi hafi ekki nýtt sér þá heimild sem sé í 59. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 að krefjast þess að stofnast hefði til ótímabundins samnings á milli aðila eftir að fyrri samningur rann út og því hafi enginn samningur verið í gildi milli aðila er hann yfirgaf húsnæðið. Fyrir liggur að leigusamningur milli aðila sem tímabundinn var til 1. apríl 2011 var ekki endurnýjaður. Stefndi dvaldi hins vegar áfram í húsnæðinu án þess að gerður væri nýr leigusamningur allt til loka desember 2012 og hélt áfram að greiða greiðsluseðla sem honum voru sendir vegna húsaleigunnar í samræmi við upphaflegan samning utan september og desember 2012. Þann 30. desember 2011 hafði starfsmaður stefnda, Brynja Kristjánsdóttir, tilkynnt stefnanda að leigu á húsnæði stefnda að Ármúla 21 væri sagt upp og þann 22. júní 2012 óskaði stefndi eftir framlengingu á leigusamningi til 30. september 2012. Ekki kom til þess að gerður væri nýr leigusamningur þrátt fyrir að í gangi væru samningaviðræður milli aðila um gerð samnings. Einkum virðist það hafa strandað á því að stefndi taldi að ástandi húsnæðisins væri verulega ábótavant og ekki hefðu verið gerðar lagfæringar á því sem hann hefði farið fram á. Samkvæmt 10. gr. laga nr. 36/1994 teljast aðilar hafa gert ótímabundinn leigusamning hafi þeir vanrækt að gera skriflegan leigusamning. Þá segir í 59. gr. laganna að nú líði tveir mánuðir frá því að leigutíma lauk samkvæmt uppsögn eða ákvæðum tímabundinn leigusamnings, en leigjandi heldur áfram að hagnýta hið leigða húsnæði og getur þá leigusali krafist þess að leigusamningurinn framlengist ótímabundið. Sömu kröfu geti leigjandi einnig gert enda hafi leigusali ekki skorað á hann að rýma húsnæðið eftir að leigutíma var lokið. Af þessu leiðir að ef leigjandi nýtir hið leigða í tvo mánuði eftir að leigutíma lýkur geta báðir aðilar krafist þess að hann framlengist tímabundið og verður þá að segja samningnum upp í samræmi við 56. gr. laganna. Í máli þessu er um atvinnuhúsnæði að ræða og er uppsagnarfrestur þá sex mánuðir í samræmi við 3. tl. greinarinnar. Í máli þessu liggur fyrir að samkomulag hafi verið milli aðila um leigu umrædds húsnæðis frá lokum tímabundins leigusamningsins, þann 1. apríl 2011, til þess tíma er stefndi yfirgaf húsnæðið í lok árs 2012 og greiddi stefndi athugasemdalaust leigu samkvæmt greiðsluseðlum sem voru í samræmi við tímabundna leigusamninginn sem áður gilti milli aðila að undanskildum september og desember. Telja verður því að á hafi komist ótímabundinn leigusamningur milli aðila þar sem vanrækt var að ganga frá nýjum leigusamningi, sbr. 10. gr. laga nr. 36/1994 og hafi uppsagnarfrestur því verið sex mánuðir frá því að stefndi yfirgaf húsnæðið í lok desember 2012, sbr. 3. tl. 56. gr. laga 36/1994. Fyrir liggur að stefnandi reyndi að leiga húsnæðið út að nýju á meðan á uppsagnarfresti stóð og reyni þannig að takmarka tjón sitt. Ber stefnda því að standa stefnanda skil á leigu til loka uppsagnarfrests. Stefndi hefur ekki gert grein fyrir því eða rökstutt með fullnægjandi hætti hvernig hann telur sér ekki skylt að inna af hendi leigugreiðslur fyrir september og desember 2012. Í því sambandi tilgreinir stefndi tjón vegna ástands raflagna ásamt öðru án þess að frekari grein sé gerð fyrir fjárhæðum í því sambandi og greip hann ekki til úrræða samkvæmt 60. gr. húsaleigulaga í því sambandi. Ber honum því að standa stefnanda skil á þeim leigugreiðslum sem ógreiddar voru þegar hann yfirgaf húsnæðið. Þá liggur fyrir að síðasta greiðsla sem stefndi innti af hendi samkvæmt greiðsluseðli var vegna nóvember 2012 að fjárhæð 275.805 kr. Með vísan til þess verður fallist á það með stefnanda að með athugasemdalausri greiðslu þess seðils hafi stefnandi sýnt fram á að það væri hin samþykkta leigufjárhæð í skilningi 2. mgr. 10. gr. laga nr. 36/1994, en á því grundvallar stefnandi fjárhæð leigu á uppsagnarfresti. Samkvæmt því sem rakið hefur verið ber að fallast á dómkröfur stefnanda eins og þær koma fram í stefnu. Að fenginni þessari niðurstöðu ber stefnda með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 að greiða stefnanda málskostnað eins og kveðið er á um í dómsorði. Uppkvaðning dóms hefur vegna embættisanna dómara dregist fram yfir frest skv. 1. mgr. 115. gr. laga um meðferð einkamála. Lögmenn aðila eru sammála dómara um að ekki sé þörf á endurflutningi. Dóminn kveður upp Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari. Dómsorð: Stefndi, Viðskiptastofan Ármúla ehf., greiði stefnanda Eik fasteignafélagi hf., 2.229.936 kr. ásamt dráttarvöxtum skv. 5. gr. laga nr. 38/2001 af 275. 519 kr. frá 1. september 2012 til 1. desember 2012, þá af 552.807 kr. frá þeim degi til 31. desember 2012, þá af 575.106 kr. frá þeim degi til 1. janúar 2013 en af 2.229.936 kr. frá þeim degi til greiðsludags. Allt að frádregnum 24.638 kr. sem dragast frá kröfunni þann 28. febrúar 2013. Stefndi greiði stefnanda 700.000 kr. í málskostnað.
Mál nr. 665/2014
Gjaldþrotaskipti Riftun Frestdagur
Þrotabú K ehf. höfðaði mál til riftunar á tilgreindum ráðstöfunum félagsins til V hf. á tímabilinu frá 18. maí til 12. október 2011, á meðan K ehf. naut heimildar til greiðslustöðvunar. K ehf. hafði í kjölfarið verið tekið til gjaldþrotaskipta, eftir að nauðasamningsumleitanir báru ekki árangur, og var frestdagur þeirra 3. maí 2011, sbr. 2. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Bar þrotabú K ehf. því við að ráðstafanirnar hefðu verið gerðar eftir frestdag til að standa skil á skuldum K ehf. við V hf. og leitaði riftunar þeirra, sbr. 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991, svo og endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem V hf. fékk á þennan hátt inn á kröfur sínar. V hf. hélt því fram að greiðslurnar hefðu ekki verið inntar af hendi til að standa skil á skuld K ehf. við sig, heldur hefðu þær falið í sér umsamda staðgreiðslu mánaðarlegra iðgjalda af vátryggingum félagsins á tímabilinu frá því það fékk heimild til greiðslustöðvunar og því brysti skilyrði 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991. Þá hefði staðgreiðslan verið forsenda þess að V hf. veitti K ehf. vátryggingar, eins og fjárhag þess var komið, en kaup þeirra hefðu verið félaginu nauðsynleg til að halda áfram starfsemi og komast þar með hjá tjóni. Hæstiréttur taldi að líta yrði svo á að K ehf. hefði með hinum umdeildu ráðstöfunum innt af hendi greiðslur inn á skuldir við V hf., enda lágu ekki fyrir í málinu samningar um breytingar sem V hf. kvað hafa verið gerðar á vátryggingum K ehf. eftir að félagið fékk heimild til greiðslustöðvunar, auk þess sem fyrir lá að iðgjöld voru ekki ákveðin og innheimt fyrir hvern mánuð, K ehf. hafði ekki staðgreitt þau fyrir upphaf vátryggingartímabils og greiðslur K ehf. vegna þeirra voru óreglulegar, bæði varðandi dagsetningar og fjárhæðir. Þá taldi rétturinn að skuldir K ehf. vegna iðgjaldanna hefðu ekki getað notið stöðu í réttindaröð við gjaldþrotaskipti á þrotabúi félagsins samkvæmt 4. tölul. 110. gr. laga nr. 21/1991 og að V hf. hefði ekki sýnt fram á að greiðsla iðgjaldanna hefði verið K ehf. nauðsynleg til að komast hjá tjóni. Var krafa þrotabús K ehf. samkvæmt 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 því tekin til greina ásamt fjárkröfu hans á hendur V hf.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. október 2014. Hann krefst þess að rift verði átta nánar tilgreindum greiðslum KNH ehf. til gagnáfrýjanda á tímabilinu frá 18. maí til 12. október 2011 á samtals 6.210.136 krónum og gagnáfrýjanda gert að greiða sér þá fjárhæð með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. desember 2012 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 5. janúar 2015. Hann krefst þess að dómurinn verði staðfestur um annað en málskostnað sem aðaláfrýjanda verði gert að greiða í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. september 2014. I. Mál þetta var höfðað 27. desember 2012 og dómtekið 4. september 2014 að loknum munnlegum málflutningi.                 Stefnandi er Þrotabú KNH ehf., Borgartúni 26, Reykjavík, en stefndi er Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.                  Stefnandi krefst þess í fyrsta lagi að eftirfarandi ráðstöfunum stefnanda til stefnda verði rift:                 1. Greiðslu stefnanda á skuld við stefnda 18. maí 2011 að fjárhæð 1.300.000 krónur.                 2. Greiðslu stefnanda á skuld við stefnda 23. júní 2011 að fjárhæð 1.000.000 króna.                 3. Greiðslu stefnanda á skuld við stefnda sem fram fór 21. júlí 2011 með afhendingu kröfu stefnanda á hendur Mjólkursamsölunni ehf. að fjárhæð 364.094 krónur.                 4. Greiðslu stefnanda á skuld við stefnda 2. ágúst 2011 að fjárhæð 910.000 krónur.                 5. Greiðslu stefnanda á skuld við stefnda að fjárhæð 294.300 krónur sem fram fór með skuldajöfnuði 30. ágúst 2011.                 6. Greiðslu stefnanda á skuld við stefnda 2. september 2011 að fjárhæð 1.000.000 króna.                 7. Greiðslu stefnanda á skuld við stefnda 12. október 2011 að fjárhæð 1.000.000 króna.                 8. Greiðslu stefnanda á skuld við stefnda að fjárhæð 341.742 krónur sem fram fór með skuldajöfnuði 12. október 2011.                 Þess er í öðru lagi krafist að stefndi greiði stefnanda 6.210.136 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá málshöfðunardegi til greiðsludags.                 Þess er í þriðja lagi krafist að stefndi greiði stefnanda málskostnað.                 Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar. Stefndi krefst jafnframt málskostnaðar. II. Málsatvik Stefnandi var verktakafyrirtæki sem vann í verktöku við vegagerð og jarðvinnu. Stefnanda var veitt heimild til greiðslustöðvunar með úrskurði Héraðsdóms Vestfjarða hinn 3. maí 2011. Skyldi greiðslustöðvunin standa frá úrskurðardegi til 24. maí 2011. Í skýrslu aðstoðarmanns í greiðslustöðvun, dags. 23. maí 2011, til Héraðsdóms Vestfjarða, kemur m.a. fram að á greiðslustöðvunartíma hafi verið stillt upp áætlun um starfsemi félagsins til skemmri tíma, til þess að bjarga mætti þeim verðmætum sem felist í verkefnastöðu félagsins og verkstöðum auk þess sem unnið hefði verið að því að fá nýtt fjármagn inn í félagið.                 Með úrskurðum 27. maí, 23. ágúst og 1. nóvember 2011 var greiðslustöðvun stefnanda framlengd, síðast til 24. nóvember 2011. Með bréfi, dags. 25. nóvember 2011, óskaði stefnandi eftir heimild til að leita nauðasamninga og var sú beiðni samþykkt. Með úrskurði, dags. 13. janúar 2012 var heimild stefnanda til að leita nauðasamninga felld úr gildi og bú stefnanda í kjölfarið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Vestfjarða, dags. 17. janúar 2012.                 Samkvæmt skýrslu endurskoðunarfyrirtækisins Ernst & Young, dags. 16. maí 2012, hafði stefnandi innt af hendi eftirfarandi greiðslur til stefnda á tímabili greiðslustöðvunar stefnanda:                 1. Greiðslu á skuld við stefnda 18. maí 2011 að fjárhæð 1.300.000 krónur.                 2. Greiðslu á skuld við stefnda 23. júní 2011 að fjárhæð 1.000.000 króna.                 3. Greiðslu á skuld við stefnda 2. ágúst 2011 að fjárhæð 910.000 krónur.                 4. Greiðslu á skuld við stefnda 2. september 2011 að fjárhæð 1.000.000 króna.                 5. Greiðslu á skuld við stefnda 12. október 2011 að fjárhæð 1.000.000 króna.                 6. Greiðslu á skuld við stefnda að fjárhæð 341.742 krónur 12. október 2011 með skýringunni „Tjónsbætur upp í lausafj.tryggingar“.                 Samkvæmt áðurgreindri skýrslu Ernst & Young, skuldajafnaði stefnandi enn fremur eftirfarandi reikningum á móti skuld stefnda á hendur sér:                 7. Reikningur gefinn út á stefnda 12. október 2011 með skýringunni „Tjónabætur v. þjófnaðar Suðurströnd“ að fjárhæð kr. 379.642.                 8. Reikningur gefinn út á stefnda 30. ágúst 2011 með skýringunni „Bætur vegna innbrots“ að fjárhæð kr. 294.300.                 9. Reikningur gefinn út á Mjólkursamsöluna ehf. 30. júní 2011 með skýringunni „RE-447. Mjólkurbíll réttur við og fluttur til Reykjavíkur“ að fjárhæð kr. 364.094.                 Einnig kemur fram í skýrslu Ernst & Young að tekjur stefnanda á greiðslustöðvunartímabilinu hafi numið u.þ.b. 634 milljónum króna með virðisaukaskatti. Er tekið fram að félagið hafi haft tekjur frá ýmsum aðilum á tímabilinu, en um 80% þeirra hafi verið frá Vegagerðinni.                 Skuld stefnanda við stefnda nam 13.359.305 krónum við upphaf greiðslustöðvunar hinn 3. maí 2011, sbr. yfirlit hreyfinga á lánardrottnareikningi stefnda hjá stefnanda fyrir tímabilið 3. maí til 31. desember s.á.                 Á þeim tíma sem stefnandi leitaði eftir greiðslustöðvun vann félagið að vegavinnu á Vopnafjarðarvegi og Suðurstrandarvegi og að framkvæmdum við snjóflóðavarnargarð á Ísafirði.                 Stefnandi hafði áður átt í viðskiptum við stefnda eða frá 29. apríl 2009 og námu iðgjöld vegna tryggingarþjónustu um 1.000.000 króna fyrir hvern mánuð. Um var að ræða lögbundnar ábyrgðartryggingar ökutækja og brunatryggingar húseigna, kjarasamningsbundnar tryggingar starfsmanna og aðrar samnings- og skyldubundnar tryggingar. Stefndi hafnaði frekari viðskiptum við stefnanda eftir að stefnandi var kominn í greiðslustöðvun, nema greidd yrði fyrir þjónustuna 1.000.000 króna á mánuði, fyrir fram fyrir hvern mánuð.                 Samkvæmt hreyfingaryfirliti stefnanda hjá stefnda fyrir tímabilið 1. maí til 31. desember 2011 s.á. var greiðslum sem krafist er riftunar á varið í tryggingariðgjöld vegna nýtrygginga auk vaxta og innheimtukostnaðar sem stofnað var til eftir að heimild til greiðslustöðvunar var veitt. Var um að ræða greiðslur vegna vátryggingartímabila frá 12. maí 2011 til 31. ágúst 2012, en að undanskilinni greiðslu samkvæmt 3. tölulið í dómkröfum stefnanda, þ.e.a.s. greiðslu á skuld við stefnanda sem fram fór 21. júlí 2011 með afhendingu á kröfu stefnanda á hendur Mjólkursamsölunni ehf. að fjárhæð 364.094 krónur. Kom fram við aðalmeðferð málsins að greiðsla þessi hefði fyrir mistök verið færð inn á tryggingartímabil árið 2010.                 Jón Ármann Guðjónsson, aðstoðarmaður í greiðslustöðvun stefnanda gaf skýrslu fyrir dóminum. Tók hann fram að veitt hefði verið leyfi til áframhaldandi viðskipta stefnanda. Lagt hefði verið upp með að ljúka ákveðnum verkefnum sem félagið var byrjað á. Félagið hefði verið komið langt með ákveðin verk og það hefði verið mat hans að ef þeim yrði ekki lokið myndu miklir fjármunir tapast. Ekki hafi verið rætt sérstaklega um heimildir stefnanda til þess að greiða fyrir tryggingar en ljóst hefði verið að félagið var með tæki í rekstri og því hefði hann gefið sér, og taldi nauðsynlegt, að félagið væri með tryggingar. Hann hefði ekki samþykkt að tæki og mannskapur væru ótryggt á meðan væri verið að ljúka þeim. Hann hefði á hinn bóginn ekki samþykkt hinar umþrættu greiðslur sérstaklega. III. 1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi krefst þess að rift verði greiðslum stefnanda á skuldum við stefnda á tímabili greiðslustöðvunar stefnanda. Vísar stefnandi til ákvæða 1. mgr. 19. gr., 1. mgr. 20. gr. og 1. mgr. 21. gr. gþl.                 Við upphaf greiðslustöðvunar hafi skuld stefnanda við stefnda numið 13.359.305 krónum. Kröfur vegna þessarar skuldar hafi stofnast fyrir frestdag og njóti réttarstöðu almennra krafna við gjaldþrotaskipti stefnanda. Þótt stefnandi hafi stofnað til einhverra skuldbindinga við stefnda á tímabili greiðslustöðvunar telur stefnandi það ekki skipta máli þar sem alltaf verði að ráðstafa greiðslu upp í elstu gjaldföllnu kröfu nema annað sé tekið fram við greiðsluna. Þannig hafi greiðslurnar átt að ganga upp í eldri skuldir stefnanda við stefnda sem urðu til fyrir greiðslustöðvunartímabilið. Kröfurnar sem greiddar voru hefðu því notið réttarstöðu almennrar kröfu í þrotabú stefnanda.                 Jafnvel þótt litið yrði svo á að greiðslunum hafi verið ráðstafað upp í kröfur sem stofnast höfðu eftir frestdag telur stefnandi að kröfurnar hefðu þrátt fyrir það með réttu notið réttarstöðu almennra krafna. Þá telur stefnandi að aðstoðarmaður hans við greiðslustöðvunina hafi ekki samþykkt þessar ráðstafanir, hvorki með sérstökum né almennum hætti. Stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir því að heimild hafi staðið til þessara ráðstafana og að aðstoðarmaður stefnanda hafi samþykkt þær. Í ljósi alls framangreinds telur stefnandi ljóst að kröfur stefnda á hendur stefnanda hefðu ekki notið réttastöðu búskrafna samkvæmt 4. tölulið 110. gr. gþl. við gjaldþrotaskipti, heldur réttarstöðu almennra krafna samkvæmt 113. gr. sömu laga.                 Enn fremur telur stefnandi, að þótt litið yrði svo á að kröfur stefnda hefðu notið réttarstöðu búskrafna samkvæmt 4. tölulið 110. gr. gþl., þá hefðu þær ekki fengist greiddar við gjaldþrotaskipti stefnanda. Búskröfur þær sem lýst var við skiptin nemi 227.112.092 krónum en bú stefnanda hafi nánast verið eignalaust þegar mál þetta hafi verið höfðað. Þannig hefði stefndi, miðað við stöðu búsins við málshöfðun þessa, ekki fengið kröfur sínar greiddar nema að takmörkuðu leyti þótt þær yrðu taldar til búskrafna.                 Tilgangur riftunarreglna XX. kafla gjaldþrotalaga sé að tryggja jafnræði kröfuhafa. Þó að talið verði að stefndi hafi allt að einu átt búskröfur á hendur stefnanda, sem gætu notið úthlutunar að einhverju leyti við skiptin, verði að jafna stöðu búskröfuhafa þannig að allir sem séu í sömu stöðu fái sama hlutfall búskrafna sinna greitt.                 Þrotabúið hafi orðið fyrir tjóni vegna þeirra ráðstafana sem krafist sé riftunar á og telur stefnandi að í þeim hafi falist i) greiðsla stefnanda á skuld stefnda í óvenjulegum greiðslueyri samkvæmt 1. mgr. 134. gr. gþl. í tilviki riftunarkröfu nr. 3; ii) greiðsla stefnanda á skuld við stefnda eftir frestdag samkvæmt 1. mgr. 139. gr. gþl. og iii) ótilhlýðileg ráðstöfun stefnda til hagsbóta samkvæmt 141. gr. gþl. Krefst stefnandi þess að greiðslunum verði rift samkvæmt framangreindum ákvæðum.                 Þá telur stefnandi að skilyrði skuldajafnaðar vegna dómkrafna nr. 5 og 8 hafi ekki verið uppfyllt. Vísar stefnandi til 100. gr. gþl. Frestdagur við skiptin á búi stefnanda hafi verið 3. maí 2011. Þar sem kröfur bæði stefnanda og stefnda, sem notaðar voru til að skuldajafna á greiðslustöðvunartímabilinu, hafi stofnast eftir frestdag, sé ljóst að ákvæði gjaldþrotalaga um riftun greiðslu gildi um þessa skuldajöfnuði, sbr. 136. gr. gþl. Telur stefnandi að í þessum skuldajöfnuðum hafi falist greiðslur stefnanda á skuld við stefnda sem stefnandi krefst að verði rift skv. 1. mgr. 139. gr. og 1. mgr. 141. gr. gþl., sbr. 136. gr. gþl.                 Stefnandi byggir sjálfstætt á því að í greiðslu stefnanda á skuld við stefnda sem fram fór 21. júlí 2011 með afhendingu kröfu stefnanda á hendur Mjólkursamsölunni ehf. að fjárhæð 364.094 krónur, sbr. riftunarkröfu nr. 3, hafi falist greiðsla stefnanda á skuld við stefnda með óvenjulegum greiðslueyri í skilningi 1. mgr. 134. gr. gþl. Krefst stefnandi þess að greiðslunni verði rift samkvæmt heimild í ákvæðinu. Stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir því að greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Það hafi ekki tíðkast áður í viðskiptum aðila að stefnandi greiddi með kröfum sem hann hafi átt á hendur öðrum aðilum. Framangreint greiðslufyrirkomulag geti því ekki talist venjulegt.                 Stefnandi byggir sjálfstætt á því að í öllum þeim greiðslum, sem krafist er riftunar á í máli þessu, hafi falist greiðslur á skuldum stefnanda við stefnda eftir frestdag sem heimilt sé að rifta samkvæmt 1. mgr. 139. gr. gþl. Frestdagur við skiptin hafi verið 3. maí 2011. Stefnandi greiddi skuldir sínar við stefnda á tímabilinu frá 18. maí 2011 til 12. október 2011. Skilyrði riftunar samkvæmt framangreindu ákvæði er því uppfyllt.                 Þá fær stefnandi ekki séð að greiðslurnar hafi verið nauðsynlegar til að forða stefnanda frá tjóni. Verði að líta til þess að grundvallarreglan er sú að á greiðslustöðvunartímabili á skuldari ekki að greiða neinar skuldir. Auk þess verði að hafa í huga að þær kröfur sem stefnandi greiddi nutu ekki veðtrygginga, forgangsréttar eða annarra trygginga. Enn fremur voru greiðslur skuldanna ekki nauðsynlegar í þágu atvinnurekstrar stefnanda á þeim tíma er þær voru inntar af hendi og skiluðu þær sér ekki í neinum auknum tekjum fyrir stefnanda á greiðslustöðvunartímabilinu, eða forðuð honum frá tjóni.                 Enn fremur telur stefnandi að stefnda hafi mátt vera fullljóst að komin var fram beiðni stefnanda um greiðslustöðvun. Ljóst er að stefnandi var í miklum vanskilum við stefnda við upphaf greiðslustöðvunar. Stefnandi telur að gera hafi orðið þær kröfur til stefnda að hann fylgdist með fjárhagsstöðu stefnanda og leitaði tiltækra upplýsinga um vanskil hans og framkomnar beiðnir og kröfur samkvæmt lögum nr. 21/1991, sbr. 9. gr. þeirra. Verði að meta það stefnda til gáleysis hafi hann ekki leitað slíkra upplýsinga.                 Að lokum telur stefnandi ljóst að aðstoðarmaður stefnanda við greiðslustöðvun hafi ekki samþykkti umræddar greiðslur stefnanda til stefnda á greiðslustöðvunartímabilinu, hvorki með sérstökum né almennum hætti. Jafnvel þótt hann hefði samþykkt greiðslurnar telur stefnandi að slíkt samþykki hefði verið bersýnilega gefið í andstöðu við heimildir gjaldþrotalaga til ráðstafana, sbr. 3. mgr. 139. gr. laganna.                 Stefnandi byggir sjálfstætt á því að í greiðslum stefnanda til stefnda hafi falist ráðstafanir sem á ótilhlýðilegan hátt voru stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa. Krefst stefnandi þess að greiðslunum verði rift samkvæmt heimild í 141. gr. gþl.                 Stefnandi byggir kröfu sína, um greiðslu 6.210.136 króna úr hendi stefnda, á 1. og 3. mgr. 142. gr. gþl. Verði fallist á kröfu stefnanda um riftun á greiðslu stefnanda á skuld við stefnda, sem fram fór með afhendingu á kröfu stefnanda á hendur Mjólkursamsölunni ehf. að fjárhæð 364.094, krónur sbr. riftunarkröfu nr. 3, á grundvelli 134. gr. gþl. byggir stefnandi á því að hann eigi rétt á að krefja stefnda um endurgreiðslu á 364.094 krónum samkvæmt 1. mgr. 142. gr. gþl.                 Stefnandi byggir einnig á því að stefnda beri að endurgreiða þá fjárhæð sem hann auðgaðist um vegna hinna riftanlegu greiðslna á grundvelli 3. mgr. 142. gr. gþl. Í því ákvæði segir að fari riftun fram samkvæmt 139. eða 141. gr. skuli sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun greiða bætur eftir almennum reglum. 2. Helstu málsástæður og lagarök stefnda Stefndi vísar til 2. mgr. 20. gr. og 21. gr. laga nr. 21/1991 til stuðnings sýknukröfu sinni. Skuldara sé heimilt, meðan á greiðslustöðvun stendur, að inna af hendi greiðslur til að standa straum af nauðsynlegum útgjöldum af rekstri hans, sbr. 2. tölulið.- 20. gr. Það sama eigi við sé eignum varið í að greiða skuldir að því leyti sem heimilt sé samkvæmt 21. gr. laganna, sbr. 3. tölulið og til að greiða óumflýjanlegan kostnað af tilraunum til að koma nýrri skipan á fjármál skuldarans, sbr. 4. tölulið Í 5. tölulið er loks mælt fyrir um að undantekningin eigi við sé verið að kosta aðgerðir sem má telja víst að séu nauðsynlegar til að koma í veg fyrir verulegt tjón.                 Samkvæmt 2. máls. 1. mgr. 21. gr. sé skuldara heimilt að greiða skuldir eða efna aðrar skuldbindingar sínar meðan á greiðslustöðvun stendur ef telja má víst að það sé nauðsynlegt til að varna verulegu tjóni. Þá sé í 2. mgr. 21. gr. ákvæði um undantekningar frá almennu banni skuldara við að stofna til nýrra skulda, taka á sig aðrar skuldbindingar eða leggja höft á eignir sínar eða réttindi meðan á greiðslustöðvun stendur. Undantekningar frá banninu séu m.a. þær að slíkar ráðstafanir séu nauðsynlegar til að halda áfram atvinnurekstri skuldara eða til þess að varna verulegu tjóni. Þá sé það skilyrði að aðgerðirnar þyki lánardrottnum skuldarans til hagsbóta.                 Telur stefndi að framangreind atvik eigi við um þær greiðslur sem stefndi tók á móti frá stefnanda á tímabilinu. Greiðslur sem inntar voru af hendi til stefnda á tímabilinu og greinir í töluliðum 1-8 í stefnu hafi ekki verið uppgjör eldri skulda við stefnda heldur séu þær tilkomnar vegna þeirra skuldbindinga sem stofnuðust á greiðslustöðvunartímabilinu. Greiðslurnar fólu í sér óhjákvæmileg útgjöld stefnda til að geta haldið atvinnustarfsemi sinni gangandi og lokið vinnu við þau verkefni sem voru á borðinu, sem var jafnframt forsenda þess að markmiðum greiðslustöðvunar yrði náð. Með því væri hagur lánardrottna jafnframt best tryggður. Ljóst sé að án viðkomandi þjónustu frá stefnda hefði stefnandi og síðar kröfuhafar félagsins við gjaldþrotaskipti orðið af miklum verðmætum.                 Stefnandi hafi haft heimild og samþykki umsjónarmanns í greiðslustöðvun fyrir því að rekstri félagsins yrði áfram haldið og nauðsynlegur kostnaður því samfara yrði greiddur. Áframhaldandi samningssamband og greiðslur til stefnda hafi verið svo beintengdar rekstri stefnanda og slík grundvallarforsenda að ekki verði litið svo á að stefnandi hafi með greiðslunum farið út fyrir samþykki aðstoðarmanns, sbr. 1. mgr. 19. gr. gjaldþrotalaga. Útgjöld vegna trygginga voru stefnanda jafn nauðsynleg og olía á vinnuvélarnar og efniviður í framkvæmdirnar.                 Stefndi byggir á því að greiðslur til hans séu ekki riftanlegar á grundvelli 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Til greiðslu á skuld í skilningi ákvæðisins teljast ekki greiðslur þegar efni samninga er með þeim hætti að greiða á smátt og smátt gegn sambærilegu endurgjaldi gagnaðila svo sem á við t.a.m um leigusamninga, ráðningarsamninga og verksamninga. Byggir stefndi á því að sömu sjónarmið eigi við um tryggingarsamninga. Greiðslur til stefnda voru tilkomnar vegna nauðsynlegra tryggingariðgjalda sem greiða þurfti á greiðslustöðvunartímabilinu til að viðhalda tryggingum á því tímabili.                  Stefndi byggir í öðru lagi á því að um greiðslur til hans eigi við undantekningar sem getið er um í ákvæði 139. gr. Ákvæðið mælir fyrir um þrjú tilvik þess að ekki sé unnt að gera kröfu um riftun á greiðslu skuldar eftir frestdag. Þar með talið að nauðsynlegt hafi verið að greiða til að komast hjá tjóni. Hefði stefndi ekki fengið greidd iðgjöld á tímabilinu sé ljóst að samningssambandi aðila hefði þá þegar verið rift, þ.e. vanskil myndu leiða til þess að hætt yrði að veita þjónustuna. Hlotist hefði af því mikið tjón fyrir stefnanda og kröfuhafa en telja verði ólíklegt að önnur tryggingarfélög hefðu verið tilbúin að stofna til viðskipta við stefnanda og veita honum þjónustuna án þess að fá greitt.                 Stefnandi byggir á því að greiðslur til stefnda, sbr. dómkröfur 1-8, verði ekki taldar ótilhlýðileg ráðstöfun í skilningi 141. gr. gjaldþrotalaga. Stefnandi hafi haft heimild og samþykki umsjónarmanns síns í greiðslustöðvun fyrir því að rekstri félagsins yrði fram haldið og nauðsynlegur kostnaður því samfara yrði greiddur. Greiðslur voru ekki inntar af hendi til stefnda í því skyni að gera hlut hans betri en annarra lánardrottna heldur voru þær greiðsla fyrir þjónustu sem var stefnanda nauðsynleg til að auka sem mest eignasafn sitt og voru þannig til þess fallnar og urðu raunverulega til þess að hægt var að bæta hag annarra lánardrottna. Þá mátti stefndi undir þessum kringumstæðum ekki ætla að greiðslur til hans væru ótilhlýðilegar.                  Um greiðslur sem fengust með skuldajöfnun, sbr. dómkröfur 5 og 8, tekur stefndi fram að skuldajöfnun sé ekki sérstök riftunarástæða, heldur verði riftun slíkra greiðslna að grundvallast á riftunarreglum laga nr. 21/1991. Stefndi ítrekar að greiðslum til hans á tímabilinu, hvort sem er með innborgun stefnanda eða skuldajöfnun, verði ekki rift á grundvelli ákvæða XX. kafla gjaldþrotalaga. Vísar stefndi til fyrri umfjöllunar sinnar um ákvæði 139. gr. og 141. gr. gjaldþrotalaga.                 Stefndi tekur fram að gagnkröfur hans séu vegna réttar hans til tjónagreiðslna frá stefnda vegna tjóns á vátryggðum eignum á greiðslustöðvunartímabilinu. Ljóst sé að stefnandi hefði ekki eignast umræddar kröfur á hendur stefnda nema vegna þess að iðgjöld tímabilsins voru greidd. Eðlilegt er að tjónagreiðslur þessar séu skuldajafnaðar við iðgjöld í vanskilum.                 Til stuðnings kröfu sinni um sýknu byggir stefndi auk þess á því í öllum tilvikum að greiðslum til hans verði ekki rift og honum gert að endurgreiða féð þar sem reglur XVII. kafla laganna um skuldaröð hefðu leitt til þess að umræddar kröfur stefnda fengjust greiddar við gjaldþrotaskipti. Grundvallarskilyrði riftunarkröfu er að þrotabúið hafi orðið fyrir tjóni vegna ráðstöfunar. Stefndi byggir á því að svo hafi ekki verið í máli þessu.                 Verði ekki fallist á framangreint byggir stefndi á því að fjárkröfur stefnanda beri að lækka verulega með vísan til þeirra röksemda sem raktar eru í greinargerð þessari.    IV. Niðurstaða Samkvæmt kröfugerð stefnanda á hendur stefnda, er krafist riftunar á átta greiðslum stefnanda til stefnda samtals að fjárhæð 6.210.136 krónur, sem inntar voru af hendi á greiðslustöðvunartímabili stefnanda, en félaginu var veitt heimild til greiðslustöðvunar á tímabilinu 3. maí 2011 til og með 24. nóvember s.á, með úrskurðum Héraðsdóms Vestfjarða, dags. 3. maí, 27. maí, 23. ágúst og 1. nóvember 2011. Með bréfi, dags. 25. nóvember 2011, óskaði stefnandi eftir heimild til að leita nauðasamninga og var sú beiðni samþykkt. Með úrskurði, dags. 13. janúar 2012 var heimild stefnanda til að leita nauðasamninga felld úr gildi og bú stefnanda í kjölfarið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Vestfjarða, dags. 17. janúar 2012.                 Samkvæmt gögnum málsins var greiðslum ráðstafað til kaupa á nýjum tryggingum stefnanda hjá stefnda og án þess að eldri skuldir væru greiddar, að undanskilinni greiðslu stefnanda sem fram fór 21. júlí 2011 með afhendingu á kröfu stefnanda á hendur Mjólkursamsölunni ehf. að fjárhæð 364.094 krónur, sbr. tölulið 3 í dómkröfum stefnanda. Samkvæmt skýringum stefnda við aðalmeðferð málsins var síðastgreindri greiðslu fyrir mistök ráðstafað inn á vangoldnar tryggingar frá árinu 2010.                 Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti er aðstoðarmanni skuldara heimilt að veita skuldaranum fyrir fram almennt samþykki til að verja fjármunum innan tiltekinna marka til að afla sér og fjölskyldu sinni daglegra nauðsynja eða til að standa straum af reglubundnum eða nauðsynlegum útgjöldum til að halda áfram rekstri sínum […].                 Fram kom í skýrslutöku aðstoðarmanns við greiðslustöðvun fyrir dóminum að veitt hefði verið leyfi til áframhaldandi viðskipta stefnanda á greiðslustöðvunartíma. Ekki hefði verið rætt sérstaklega um heimildir stefnanda til þess að greiða tryggingariðgjöld, en ljóst hefði verið að stefnandi hafi verið með tæki í rekstri og að hann hefði því gefið sér og talið nauðsynlegt að félagið væri með tryggingar. Telur dómurinn að líta verði svo á að með þessu hafi verið fullnægt skilyrðum 2. mgr. 19. gr. laga nr. 21/1991 um ráðstafanir stefnanda samkvæmt dómkröfuliðum 1-2 og 4-8.                 Víkur þá að ráðstöfunum stefnanda til stefnda samkvæmt dómkröfulið 3. Samkvæmt 21. gr. laga nr. 21/1991, er skuldaranum óheimilt að greiða skuldir eða efna aðrar skuldbindingar sínar meðan á greiðslustöðvun stendur nema að því leyti sem víst er að skuldbindingin yrði efnd eða skuldin yrði greidd eftir stöðu sinni í skuldaröð ef til gjaldþrotaskipta kæmi á búi hans í kjölfar greiðslustöðvunar. Heimilt er þó annars að greiða skuld eða efna aðra skuldbindingu ef telja má víst að það sé nauðsynlegt til að varna verulegu tjóni. Ákvæði þetta þykir ekki eiga við í málinu. Með vísan til þessa og áðurgreindra skýringa stefnda um greiðslu fjárhæðarinnar vegna mistaka, er með vísan til 1. mgr. 139. gr. laga nr. 91/1991, fallist á kröfu stefnanda um riftun umræddrar greiðslu að fjárhæð 364.094 krónur. Ber stefnda að endurgreiða stefnanda greinda fjárhæð ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. desember 2012 til greiðsludags.                 Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, fellur málskostnaður milli aðila niður.                 Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan. DÓMSORÐ: Rift er greiðslu stefnanda á skuld við stefnda sem fram fór 21. júlí 2011 með afhendingu kröfu stefnanda á hendur Mjólkursamsölunni ehf. að fjárhæð 364.094 krónur. Að öðru leyti er stefndi sýkn af kröfum stefnanda.                 Stefndi greiði stefnanda 364.094 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. desember 2012 til greiðsludags.                 Málskostnaður er felldur niður.
Mál nr. 742/2014
Veðleyfi Brostnar forsendur Ógilding samnings Málsástæða
Í mars 2008 rituðu B o.fl. undir leyfi til veðsetningar nánar tiltekinnar fasteignar vegna veðskuldabréfs í tilgreindum erlendum myntum að jafnvirði 8.250.000 króna, en skuldari þess var T ehf. Í janúar 2013 endurútreiknaði Í hf. lánið þar sem það taldi að um hefði verið að ræða ólögmætt lán bundið gengi erlendra gjaldmiðla. Í apríl sama ár var T ehf. tekið til gjaldþrotaskipta og lýsti Í hf. kröfu í búið samkvæmt veðskuldabréfinu. Engar eignir fundust í búinu og lauk skiptum samkvæmt því á grundvelli 155. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í maí 2013 krafði Í hf. B o.fl. um greiðslu eftirstöðva veðskuldabréfsins að fjárhæð 11.248.785 krónur auk vaxta og kostnaðar. Í dómi Hæstaréttar var hafnað þeirri málsástæðu B o.fl. að veðsetningin hefði verið ógild samkvæmt óskráðum reglum kröfuréttar um brostnar forsendur þar sem í ljós hefði komið að um ólögmætt gengistryggt lán hefði verið að ræða, enda hafði veðsetningin hið minnsta náð til höfuðstóls skuldarinnar, eins og hann hafði verið endurreiknaður, og lögmætra vaxta af honum. Þá stoðaði B o.fl. ekki að bera fyrir sig að það hefði verið forsenda þeirra fyrir veðsetningunni að bú T ehf. yrði ekki tekið til gjaldþrotaskipta. Þá hefðu þau engin haldbær rök fært fyrir því að lánveitingin hefði verið refsiverð eða að ósanngjarnt væri og andstætt góðri viðskiptavenju samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga að bera veðskuldabréfið fyrir sig eða að það væri óheiðarlegt eftir ákvæðum 33. gr. sömu laga. Var því hafnað kröfu B o.fl. um ógildingu samningsins. Að lokum var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að tilteknar málsástæður B o.fl. hefðu verið of seint fram komnar, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 20. nóvember 2014. Þau krefjast þess að viðurkennt verði að trygging þeirra samkvæmt nánar tilgreindu veðskuldabréfi, útgefnu af Trégaur ehf. 1. mars 2008, í eigninni Reynihvammi 5 í Kópavogi, fastanúmer 206-4724, skuli felld niður og að gagnáfrýjanda verði gert að aflýsa veðskuldabréfinu af eigninni. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Eins og í héraðsdómi greinir rituðu aðaláfrýjendur 1. mars 2008 undir leyfi til veðsetningar fasteignarinnar að Reynihvammi 5 í Kópavogi vegna veðskuldabréfs í tilgreindum erlendum myntum, að jafnvirði 8.250.000 króna, en skuldari þess var einkahlutafélagið Trégaur. Þar sem gagnáfrýjandi taldi í kjölfar dóma Hæstaréttar að um væri að ræða ólögmætt lán, bundið gengi erlendra gjaldmiða, endurreiknaði hann það og krafði skuldara 7. maí 2013 um greiðslu eftirstöðva veðskuldabréfsins að fjárhæð 11.248.785 krónur auk vaxta og kostnaðar. Hafði lánið þá verið fært niður um 9.536.279 krónur samkvæmt endurútreikningi gagnáfrýjanda. Fyrrgreint einkahlutafélag var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 11. apríl 2013 að kröfu sýslumannsins í Hafnarfirði og lýsti gagnáfrýjandi kröfu í búið samkvæmt  veðskuldabréfinu að fjárhæð 11.743.228 krónur. Lýstar kröfur í búið námu samtals 22.142.184 krónum. Engar eignir fundust í búinu og lauk skiptum samkvæmt því á grundvelli 155. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Aðaláfrýjendur rituðu undir leyfi til veðsetningar áðurnefndrar fasteignar fyrir láni, sem nam að höfuðstól jafnvirði 8.250.000 króna. Enda þótt í ljós hafi komið að um ólögmætt gengistryggt lán væri að ræða fær það því ekki breytt að veðsetningin náði hið minnsta til höfuðstóls skuldarinnar, eins og hann var endurreiknaður samkvæmt framansögðu, og lögmætra vaxta af honum. Geta aðaláfrýjendur því ekki með réttu byggt á því að veðsetningin hafi verið ógild samkvæmt óskráðum reglum kröfuréttar um brostnar forsendur vegna þess að í ljós kom að um ólögmætt gengistryggt lán var að ræða. Þá stoðar aðaláfrýjendur ekki að bera fyrir sig að það hafi verið forsenda þeirra fyrir veðsetningunni að bú skuldara yrði ekki tekið til gjaldþrotaskipta. Þeir hafa heldur engin haldbær rök fært fyrir því að lánveitingin hafi verið refsiverð eða að ósanngjarnt sé og andstætt góðri viðskiptavenju samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, að bera veðskuldabréfið fyrir sig eða það sé óheiðarlegt eftir ákvæðum 33. gr. sömu laga. Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað, sem aðaláfrýjendum verður eftir úrslitum málsins gert óskipt að greiða stefnda á báðum dómstigum eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað. Aðaláfrýjendur, Bergþóra Eiríksdóttir, Jónína Eggertsdóttir og Jón Heimir Örvar, greiði óskipt gagnáfrýjanda, Íslandsbanka hf., 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjaness 13. október 2014. Mál þetta, sem var dómtekið 16. september 2014, var þingfest 2. apríl 2014. Stefnendur eru Bergþóra Eiríksdóttir, Reynihvammi 5, Kópavogi, Jónína Eggertsdóttir, Reynihvammi 5, Kópavogi, og Jón Heimir Örvar, Reynihvammi 5, Kópavogi. Stefndi er Íslandsbanki hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík. Dómkröfur stefnenda eru að viðurkennt verði með dómi að trygging stefnenda samkvæmt veðskuldabréfi nr. 101ERLB08067003/4, nú með nýtt lánsnúmer 545-192571 (192572), útgefnu af Trégaur ehf., kt. [...], þann 1. mars 2008 í eigninni Reynihvammi 5, fastanúmer 206-4724, 200 Kópavogi, skuli felld niður og stefnda gert að aflýsa veðskuldabréfinu af eigninni. Þá er krafist málskostnaðar. Stefndi krefst þess að vera sýkn af kröfum stefnenda. Þá er gerð krafa um málskostnað. I. Málsatvik eru þau að hinn 1. mars 2008 rituðu stefnendur undir leyfi til veðsetningar fasteignarinnar að Reynihvammi 5 í Kópavogi, vegna veðskuldabréfs í erlendum myntum að jafnvirði 8.250.000 kr., í hlutföllum mynta þannig að 50% voru í svissneskum frönkum en 50% í japönskum jenum. Skuldari að bréfinu var Trégaur ehf. Stefnendur Jónína og Bergþóra rituðu undir veðskuldabréfið sem þinglýstir eigendur fasteignarinnar og samþykkir veðsetningu Reynihvamms 5, 200 Kópavogi, en stefnandi Jón Heimir sem samþykkur maki Bergþóru. Samkvæmt ákvæðum veðskuldabréfsins skyldi það hvíla á 3. veðrétti eignarinnar. Lánveitandi var Byr sparisjóður, en stefndi hefur tekið yfir réttindi og skyldur sparisjóðsins samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 17. október 2011, með gildistöku 29. nóvember 2011. Samkvæmt skilmálum bréfsins var lánstíminn sex ár. Lánið skyldi greiðast til baka með 72 afborgunum á mánaðarfresti, í fyrsta sinn 1. apríl 2008. Með skilmálabreytingu 22. október 2008 var vöxtum og gjaldföllnum afborgunum bætt við höfuðstól lánsins og lengt í lánstímanum. Undir skilmálabreytinguna rita stefnendur Bergþóra og Jónína en ekki Jón Örvar. Skilmálum veðskuldabréfsins var aftur breytt 24. ágúst 2009, m.a. með því að mánaðarlegar greiðslur voru festar í 104.000 kr. á mánuði á tilteknu tímabili. Undir skilmálabreytinguna rituðu allir stefnendur sem þinglýstir eigendur Reynihvamms 5. Veðskuldabréfinu var svo skilmálabreytt 12. apríl 2010. Voru mánaðarlegar greiðslur festar í 29.000 kr. á tilteknu tímabili. Undir skilmálabreytinguna rita allir stefnendur sem þinglýstir eigendur Reynihvamms 5. Hinn 10. september 2011 var gert árangurslaust fjárnám hjá Trégaur ehf., sem var lántaki samkvæmt ofangreindu veðskuldabréfi. Aftur var gert árangurslaust fjárnám hjá félaginu 16. desember 2012. Með bréfi 20. desember 2012 var Trégaur ehf. tilkynnt að umrætt veðskuldabréf, auk annars láns sem félagið hafði tekið hjá stefnda, hefða að geyma skilmála sambærilega þeim sem Hæstiréttur hefði dæmt ólöglega og yrðu lánin því endurreiknuð. Í bréfinu kemur fram að stefndi muni ekki senda út greiðsluseðla fyrir janúar, febrúar og mars 2013. Með bréfi 8. janúar 2013 tilkynnti stefndi um endurútreikning erlends láns samkvæmt ákvæðum laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, með síðari breytingum. Voru eftirstöðvar lánsins 11.043.785 kr. og mynduðu nýjan höfuðstól lánsins í íslenskum krónum. Óverðtryggðir vextir Seðlabanka Íslands skyldu reiknast af nýjum höfuðstól frá 2. janúar 2013. Lánið skyldi vera með 61 afborgun á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn 1. apríl 2013. Staða lánsins fyrir endurútreikninginn var 20.580.054 kr. Í stefnu segir að hinn 20. mars 2013 hafi öllum stefnendum borist tilkynningar og yfirlit yfir áhvílandi lánsveð í lok árs 2012, en í yfirlitum frá mars 2013 sé ekki að finna upplýsingar um nýja stöðu lána og staða veðskuldabréfs með veði í Reynihvammi 5 tilgreind 20.728.164 kr. Með bréfi, dags. 27. mars 2013, var Trégaur ehf. tilkynnt að endurútreikningur lána félagsins lægi ekki fyrir og að ekki væri unnt að standa við fyrra boðað tímamark um að hann lægi fyrir í mars 2013. Var í bréfinu tilkynnt að ekki yrðu gefnir út greiðsluseðlar vegna gjalddaga í apríl, maí og júní 2013, nema endurútreikningi yrði lokið fyrir þann tíma. Trégaur ehf. var úrskurðað gjaldþrota 11. apríl. 2013, með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness. Stefndi lýsti  kröfu í búið samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991, á grundvelli veðskuldabréfsins að fjárhæð 8.124.711 kr., auk annarra skulda óviðkomandi máli þessu. Var skiptum lokið í búinu á grundvelli 155. gr. laga nr. 21/1991 þar sem búið var eignalaust. Stefndi lýsti kröfu í búið á grundvelli endurútreiknings. Stefndi sendi stefnendum innheimtubréf, dags. 7. maí 2013, þar sem skorað var á þau sem veðsala að greiða 11.844.991 kr. innan 15 daga frá dagsetningu bréfsins þar sem skuldin væri öll gjaldfallin. Innheimtubréfinu var mótmælt með bréfi, dags. 17. maí 2013. Þá var stefnendum send greiðsluáskorun, dags. 4. júlí 2013, á grundvelli veðs stefnda í Reynihvammi 5. Var skorað á stefnendur að greiða 12.103.050 kr., innan 15 daga frá dagsetningu bréfsins. Stefndi brást við erindinu með svari 16. september 2013 þar sem fram kom að eftirstöðvar veðskuldabréfs máls þessa, með veði í Reynihvammi 5, hefði verið endurreiknað og væru eftirstöðvar bréfsins hinn 16. september 2013 að fjárhæð 10.534.915 kr. Með bréfi 23. september 2013 var óskað viðræðna við bankann vegna uppgjörs á skuldum Trégaurs ehf. Ekki hefur náðst samkomulag um gildi veðsetningar stefnda og hafa stefnendur því höfðað mál þetta til að fá umræddum veðréttindum aflýst af eign þeirra. II. Stefnendur byggja á því að það hafi verið brostnar forsendur fyrir samþykki þeirra á veðsetningu Reynihvamms. Stefnendur hafi veitt samþykki sitt fyrir veðsetningu í íbúðarhúsnæði þeirra út frá þeim forsendum sem fyrir lágu við undirritun veðskuldabréfsins. Við útgáfu veðskuldabréfsins hafi fjárhæð þess í íslenskum krónum verið tilgreind 8.250.000 kr. Við veitingu samþykkis síns hafi stefnendur m.a. litið til þess að vextir á umræddu láni hafi verið lægri en vextir á íslenskum lánum. Til samanburðar megi geta þess að vextir samkvæmt kjörvaxtaþrepi 1 hjá Landsbankanum hafi í mars verið 19,07% á óverðtryggðum lánum en á verðtryggðum lánum 9,55%. Vextir bankanna á þessum tíma hafi verið mjög sambærilegir. Vegnir meðaltalsvextir á undirritunardegi skuldabréfsins hafi verið 6,58% og hafi gengi þeirra gjaldmiðla sem lánið var tengt við, þ.e. svissneska franka og japönsk jen, styrkst verulega gagnvart krónunni. Samkvæmt áætluðu greiðsluflæði veðskuldabréfsins, sem sjá megi á kaupkvittun frá upphaflegum lánveitanda, hafi afborgun og vextir af jen-hluta lánsins verið áætluð miðað við þáverandi gengi 0,6602, 73.868 kr., og af svissneska franka-hluta lánsins miðað við þáverandi gengi 66,0, 78.485 kr. Samtals því 152.354 kr. á 1. gjalddaga lánsins 1. apríl 2008, sbr. fyrirliggjandi útreikning stefnenda miðað við forsendur lánveitanda. Óumdeilt sé að verðtryggðir vextir á Íslandi á umræddum tíma hafi verið mun hærri sem og óverðtryggðir vextir. Forsvarsmaður Trégaurs ehf., þ.e. lántaki, hafi enn fremur sagt stefnendum að samkvæmt þeim ráðleggingum sem stefndi hafi veitt honum væri afar líklegt að gengi íslensku krónunnar hefði náð lágmarki sínu og myndi taka að styrkjast að nýju fljótlega, sem myndi gera það að verkum að afborganir yrðu enn lægri í krónum talið. Nú liggi fyrir að veðskuldabréf nr. 101ERLB080670003/4 hafi verið ólöglegt gengistryggt lán sem hafi brotið gegn ákvæðum VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 13. og 14. gr. laganna. Hafi stefndi endurreiknað lánið í samræmi við þá Hæstaréttardóma sem um slík lán hafi fallið. Í kjölfar efnahagshrunsins á Íslandi hafi gengi íslensku krónunnar hrunið og þær skuldbindingar sem hafi verið ólöglega tengdar gengi erlendra gjaldmiðla hafi hækkað gríðarlega. Stefnendur hafi ekki vitað betur, þegar þeir veittu samþykki sitt fyrir veðsetningunni í íbúðarhúsnæði þeirra til tryggingar á skuldum Trégaurs ehf., sem var fyrirtæki í eigu tengdasonar stefnanda Jónínu, en að umrætt veðskuldabréf væri lögleg fjárskuldbinding. Í dag liggi hins vegar fyrir að um ólögmæta gengistryggingu hafi verið að ræða í veðskuldabréfinu og þar með brot á ófrávíkjanlegum reglum VI. kafla laga um vexti og verðtryggingu. Brot á ákvæðum þess kafla laganna varði sektum nema þyngri refsing liggi við broti samkvæmt öðrum lögum, sbr. 17. gr. laga um vexti og verðtryggingu. Á meðan skuld samkvæmt hinu ólöglega veðskuldabréfi hafi hækkað stórkostlega hafi greiðsluerfiðleikar skuldara bréfsins, Trégaurs ehf., aukist jöfnum höndum og sú stökkbreyting sem hafi orðið á láninu frá því að vera að jafnvirði 8.250.000 kr. á útgáfudegi skuldabréfsins 1. mars 2008 og 20.728.164 kr. hinn 20. mars 2013, hafi orðið til þess að félagið hefði engan rekstrargrundvöll og farið í þrot og skilið stefnendur eftir með ábyrgð sína. Ljóst sé því að hin ólögmæta gengistrygging og refsiverð háttsemi stefnda hafi orðið til þess að stefnendur sitji nú uppi með veð í íbúðarhúsnæði þeirra sem orðið hafi til vegna þess að stefnendur hafi veitt tryggingu fyrir fjárskuldbindingu sem frá upphafi hafi verið bundin við ólögmæta gengistryggingu. Allar forsendur fyrir samþykki stefnenda á veðsetningu íbúðar­húsnæðis þeirra að Reynihvammi 5 séu því brostnar. Hin ólögmæta gengistrygging hafi orðið þess valdandi að lántaki hafi ekki getað greitt fjárskuldbindingar sínar og stefndu sitji því uppi með ábyrgð sína. Stefnendur halda því fram að stefndi sem lánastofnun geti ekki borið fyrir sig að veð stefnda í íbúðarhúsnæði þeirra haldi gildi sínu, þegar fyrir liggi að veðskuldabréf stefnda hafi verið bundið ólöglegri gengistryggingu. Gera verði kröfu til stefnda um að þeir löggerningar sem hann leggi fram og fái tryggingarréttindi þriðja aðila fyrir standist í fyrsta lagi lög, séu skýrir og glöggir og breytist ekki á samningstímanum að efni eða skuldbindingargildi. Sú niðurstaða fái ekki staðist í réttarríki að stefnendur sem neytendur og ábyrgðarveitendur og aðilar sem ekki hafi haft nein tök á að koma að samningsgerðinni verði áfram bundnir við samning sem haldinn sé ólöglegri gengistryggingu eða samning sem á samningstímanum er gjörbreyttur hvað varðar lánakjör, vexti og gjaldmiðil, hvort sem umbreyting í íslenskar krónur er í samræmi við lög eða ekki. Forsendur þeirra fyrir veitingu veðsins séu algerlega brostnar. Fyrir liggi nú að umræddu skuldabréfi hafi verið breytt í lán í íslenskum krónum. Samkvæmt yfirliti yfir greiðslur á því láni, nr. 192572, hafi áætluð greiðslubyrði þess á gjalddaga 1. ágúst 2013 verið 239.447 kr. og á gjalddaga 1. mars 2014 verið 216.166 kr. Slík greiðslubyrði sé mun hærri en sú sem fyrirhuguð hafi verið á upphaflega láninu. Forsendur stefnenda fyrir veitingu veðs síns fyrir láninu séu því allt aðrar að teknu tilliti til þessa þáttar eingöngu að öllu öðru slepptu. Hin ólögmæta gengistrygging í umræddu veðskuldabréfi hafi haft það í för með sér að gríðarleg óvissa hafi verið í mörg ár um eðli fjárskuldbindingar lántaka, þ.e. félagsins Trégaurs ehf. Fjölmargir viðaukar hafi verið gerðir við veðskuldabréfið þar sem lengt hafi verið í greiðslum og vaxtagreiðslur höfuðstólsfærðar. Á endanum hafi þetta haft það í för með sér að félagið hafi orðið gjaldþrota 11. apríl 2013. Hin ólögmæta gengistrygging sé því bein orsök þess að stefnendur sitji nú uppi með veð í íbúðarhúsnæði þeirra, sem veitt hafi verið til stefnda á grundvelli allt annarra forsendna en síðar hafi komið í ljós og stefnda hafi verið ljósar. Þó að lán félagsins Trégaurs ehf. hafi síðar verið endurreiknuð í íslenskar krónur í kjölfar dóma Hæstaréttar Íslands um ólögmæti gengistryggðra lána breyti það engu um stöðu stefnenda. Þeir séu nú krafðir um greiðslu samkvæmt nýrri uppreiknaðri stöðu lánanna í íslenskum krónum með annarri greiðslubyrði með öðrum vöxtum en á grundvelli veðs stefnda í eign þeirra. Stefnendur halda því fram að þrátt fyrir hina almennu reglu um að samningar skuli standa sé það enn fremur viðurkennt sjónarmið að einstaklingar eigi ekki að vera bundnir við samninga sem gangi gegn almennum reglum, lögum og almennu siðferði. Frá sjónarhóli laga uppfylli krafa þeirra um ógildingu á skuldbindingu þeirra á grundvelli brostinna forsendna öll skilyrði forsendubrests. Stefnendur byggja jafnframt á ákvæðum 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.  Stefnendur telja að það sé bersýnilega ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju, að stefndi haldi rétti sínum til tryggingar í eign stefnenda, þrátt fyrir að sá samningur sem stefndi byggir rétt sinn á hafi verið haldinn ólöglegum skilmálum og tekið grundvallarbreytingum á samningstímanum. Enn fremur er á því byggt að bæði atvik sem voru til staðar við samningsgerðina, sem stefnendum hafi verið ókunnugt um, og síðari atvik eftir samningsgerðina, geri það bersýnilega ósanngjarnt að stefndi haldi tryggingarrétti sínum í eign þeirra, enda hafi orðið grundvallarbreyting á skuldbindingu þeirra sem ekki sé í samræmi við réttmætar forsendur þeirra fyrir veitingu ábyrgðarinnar. Í þessu sambandi vísa stefnendur til þess að stefndi hafi ekki fallist á að koma til móts við stefnendur að neinu leyti þrátt fyrir að vegna atvika er vörðuðu ólögmæt skilyrði samnings sem stefndi beri ábyrgð á séu stefnendur nú í afar slæmri stöðu. Telja stefnendur að skilyrði 36. gr. laga nr. 7/1936 heimili að ákvæði veðskuldabréfs stefnda um tryggingarréttindi í íbúðarhúsnæði þeirra verði vikið til hliðar. Staða samningsaðila við samningsgerð sé með þeim hætti að stefndi verði að bera hallann af því að hafa lagt fyrir stefnendur að ábyrgjast fjárskuldbindingu sem haldin hafi verið ólögmætri gengistryggingu. Sú háttsemi stefnda hafi beinlínis leitt til þess að aðalskuldara hafi verið ómögulegt að uppfylla skuldbindingar sínar og orðið gjaldþrota og stefnendur sitji nú eftir með veð í íbúðarhúsnæði þeirra. Stefnendur byggja jafnframt á því að það sé óheiðarlegt í skilningi 33. gr. laga nr. 7/1936, sbr. lög nr. 11/1986, að bera fyrir sig ákvæði umrædds skuldabréfs, enda sé ljóst að stefndi hafi hinn 29. nóvember 2011, þegar hann hafi tekið yfir réttindi og skyldur fyrri lánveitanda, mátt vita að skuldabréfið innihélt ólögmæt skilyrði og geti því ekki borið fyrir sig öll ákvæði skuldabréfsins eins og á stendur í máli þessu. Stefndi hefði fyrir yfirtöku á umræddu skuldabréfi getað gætt réttar síns og kunni jafnvel að hafa yfirtekið skuldbindinguna með afföllum, þótt stefnendum sé ókunnugt hvort svo sé. Byggt er á því að það sé óheiðarlegt af hálfu stefnda að bera fyrir sig ákvæði veðskuldabréfsins í ljósi þess forsendubrests sem orðið hafi fyrir veitingu tryggingarinnar af hálfu stefnenda. Enn fremur er byggt á því að það sé andstætt viðurkenndum réttarsjónarmiðum og eðli máls ef stefnendur verði í ljósi allra aðstæðna bundnir við veitingu tryggingar í íbúðarhúsi sínu. Það fái ekki staðist þær meginreglur sem íslenskt réttarkerfi byggist á. Stefndi, sem sé með yfirburðastöðu gagnvart stefnendum, hafi tekið yfir réttindi samkvæmt umræddu veðskuldabréfi og hafi við það haft tækifæri til að gæta réttar síns með mati á réttindum samkvæmt bréfinu og tryggingum þess. Þar sem stefndi beri að stórum hluta ábyrgð á því hvernig komið sé fyrir lántaka og stefnendum er byggt á því að það fá ekki staðist meginreglur laga og eðli máls að stefndi geti nú, þrátt fyrir allt sem á undan er gengið, haldið fast í veðréttindi sín og séu þau því í rauninni það eina í málinu sem haldist óbreytt. Slík niðurstaða fari gegn meginreglum íslensks réttar, eðli máls og réttlætisvitund sem íslenskt samfélag byggist á. Þá er byggt á því í máli þessu að það sé andstætt jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands að stefndi haldi tryggingarréttindum sínum. Stefndi hafi yfirtekið skuldbindingar samkvæmt veðskuldabréfi máls þessa og haft aðkomu að þeirri yfirtöku. Hann hafi haft tækifæri til að fá hina upphaflegu skuld metna og tryggingarréttindin metin samhliða yfirtöku sinni á skuldinni. Stefnendur hafi aldrei haft aðkomu að ákvörðunartöku hvað þetta varðar og hafi stefnda þannig verið veitt sérstök réttindi umfram stefnendur máls þessa. Fari þetta í bága við nefnd ákvæði stjórnarskrár og Mannréttindasáttmála Evrópu. Er enn fremur á því byggt að ákvæði laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, þar sem kveðið sé á um útreikning og meðferð mála þar sem kröfuhafi hefur með ólögmætum hætti tekið vexti eða beitt ólögmætri verðtryggingu, séu andstæð ofangreindum ákvæðum stjórnarskrár og mannréttindasáttmála. Telja stefndu ljóst að jafnræðis sé ekki gætt í ofangreindum lögum.  Ákvæði laganna taki ekki á því með neinum hætti hvernig hagsmunum þeirra sem veita veð eða tryggingar á grundvelli ólöglegra lána samkvæmt lögunum skuli gætt. Fari það í bága við ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála þar sem réttindi þessara aðila séu með engum hætti tryggð í lögum eins og 65. gr. stjórnarskrár og 14. gr. mannréttindasáttmálans kveði á um. Um lagarök vísa stefnendur til meginreglna kröfuréttar og samningaréttar og óskráðu meginreglunnar um brostnar forsendur og til ákvæða laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum 33. gr. og 36. gr. Einnig er vísað til meginreglna laga og eðlis máls. Þá er vísað til 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Krafan um málskostnað er studd við 130. gr. laga og 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. III. Stefndi mótmælir öllum málsástæðum stefnenda. Hvað varðar þá málsástæðu stefnenda að forsendur fyrir veðsetningunni séu brostnar byggir stefndi á því að almennt hafi verið talið að skilyrðin fyrir brostnum forsendum séu einkum þrenns konar: Í fyrsta lagi þurfi forsendan að vera ákvörðunarástæða loforðsgjafa, þ.e. veruleg forsenda. Í öðru lagi þurfi forsendan að hafa verið ljós eða mátt vera ljós gagnaðila við samningsgerð. Í þriðja lagi þurfi ástæðan að vera mikilvæg og hér þurfi að líta til hagsmuna beggja aðila þannig að reglan leiði ekki til óréttlátrar réttarskerðingar fyrir annan aðilann. Uppfylla þurfi öll skilyrðin en stefndi andmælir því að stefnendum hafi tekist að sanna að þessi skilyrði séu uppfyllt. Að mati stefnda sé í stefnu fjallað um fyrsta skilyrðið án þess að gerð sé tilraun til að sýna fram á að seinni tvö skilyrðin séu uppfyllt í málinu. Þegar af þessum sökum beri að sýkna stefnda af kröfum stefnenda. Hvað varðar fyrsta skilyrðið, um að forsendan hafi verið ákvörðunarástæða loforðsgjafa, séu í stefnu ákvörðunarástæður stefnenda raktar nokkuð handahófskennt og margt tínt til. Stefnendur haldi því fram að það hafi annars vegar verið hinir lágu vextir sem hafi verið ástæða þess að þau samþykktu veðsetninguna. Einnig hafi þau gert það í þeirri trú að lánin væru lögmæt auk þess sem skilja verði stefnu þannig að stefnendur hafi gengið út frá því að afborganir og skuldin myndu ekki hækka verulega, sem og að aðalskuldari myndi greiða skuldbindingu sína. Stefndi hafnar þessu sem röngu og ósönnuðu. Telja verði ljóst að stefnendur hafi samþykkt, bæði í upphafi og síðar, að vilji þeirra hafi verið sá að veðsetja eignina fyrir a.m.k. höfuðstól lánsins sem hafi að jafnvirði verið 8.250.000 kr., auk vaxta og annars kostnaðar. Beri að hafa í huga í þessu sambandi að vöxtum hafi verið bætt við höfuðstól með skilmálabreytingum sem stefnendur samþykktu. Þá verði ekki hjá því litið að forsenda stefnda fyrir veitingu lánsins, á þeim kjörum sem veitt voru, hafi verið hin ólögmæta gengistrygging og að ekki hafi verið möguleiki á að fá þessi kjör vegna lána í íslenskum krónum. Þetta sjónarmið hafi verið staðfest í dómum Hæstaréttar, t.d. dómi réttarins frá 16. september 2010 í máli nr. 471/2010. Stefndi telur málflutning í stefnu mótsagnakenndan þegar kemur að frekari útlistun á forsendum stefnenda er lúti að trú þeirra á að um lögmætt lán væri að ræða og því að hin ólögmæta gengistrygging hafi valdið gjaldþroti aðalskuldara og þar með orðið til þess að skuldabréfið féll á stefnendur. Mótsögn stefnenda sé fólgin í því að lögmætt lán í erlendum myntum hefði haft sambærileg áhrif á stöðu þess láns í íslenskum krónum og hið ólögmæta gengistryggða lán. Hið sama gildi um greiðslubyrði lánsins ef hún væri metin í íslenskum krónum. Þó svo að fallist yrði á það með stefnendum að gengistryggingin hafi valdið því að aðalskuldari fór í þrot þá hefði það engu breytt ef lánið hefði verið lögmætt erlent lán. Þessi forsenda geti því hvorki talist veruleg né svo mikilvæg að fyrsta og þriðja skilyrði þess að ógilda samning vegna brostinna forsendna geti átt við. Ekki sé hægt að velja eftir því hvernig litið er á málið hvaða forsendur hafi verið verulegar. Stefnendur geti m.ö.o. ekki bæði haldið og sleppt í þessu samhengi. Þá verði ekki hjá því litið að fjárhæð skuldabréfsins hafi verið leiðrétt u.þ.b. um helming við endurreikning, m.a. vegna þess að tekið hafi verið tillit til sjónarmiða um fullnaðarkvittanir, og reiknaðir samningsvextir (þ.e. LIBOR-vextir) á lánið fram að því að endurreikningur hafi verið framkvæmdur. Þannig hafi bæði aðalskuldari og stefnendur notið þess hagræðis að fá vexti af svissneskum frönkum og japönsku jeni á lán í íslenskum krónum um nokkurra ára skeið. Ein af frumforsendum stefnda hafi því brostið við lánveitinguna, þ.e. hin órjúfanlega tenging milli vaxtakjaranna sem í boði voru og gengistryggingarinnar. Niðurstaðan sé því mun lægri skuld samkvæmt skuldabréfinu en nokkrar forsendur eða væntingar sem stefnendur hafi getað með réttu haft til skuldarinnar og þar með ábyrgðar sinnar. Þá sé ljóst af gögnum málsins að það hafi ekki verið hin ólögmæta gengistrygging sem hafi valdið því að aðalskuldari, Trégaur ehf., fór í þrot. Raunar hafi úrskurður um gjaldþrotaskipti félagsins farið fram á meðan verið var að vinna að endurreikningi og ekki hafi verið gefnir út greiðsluseðlar vegna bréfsins. Þá komi fram í fundargerð skiptafundar í þb. Trégaurs ehf. að skiptastjóri teldi félagið vera eignalaust og af bókhaldi þess væri ljóst að lítil starfsemi hafi verið í félaginu um nokkra hríð. Verði varla önnur ályktun dregin af þessu en að verkefnaskortur hjá félaginu hafi valdið því að það fór í þrot. Auk þess verður ekki hjá því litið að það hafi ekki verið stefndi sem hafi sett félagið í þrot heldur embætti sýslumannsins í Hafnarfirði vegna opinberra gjalda. Þannig standist ekki sú fullyrðing stefnenda að stefndi hafi með veitingu ólögmæts láns að endingu orðið félaginu að falli. Aðalskuldari hafi ekki nýtt sér, eða ekki getað nýtt sér, það svigrúm sem hafi myndast við frestun greiðslna af hinu umdeilda skuldabréfi til að greiða af öðrum skuldum sínum. Slíkt geti ekki verið á ábyrgð eða kostnað stefnda. Þá hafi dómstólar margsinnis staðfest að almennar efnahagslegar aðstæður á Íslandi geti ekki talist til brostinna forsenda, sjá t.d. í máli nr. E-260/2010 hjá Héraðsdómi Suðurlands. Auk þessa hafnar stefndi því alfarið að hann hafi með refsiverðri háttsemi valdið því að stefnendur sitja uppi með ábyrgð sína. Stefnda hafi ekki verið gerð refsing vegna skuldabréfs þess sem gefið var út í málinu né vegna annarra sambærilegra útlána. Raunar sé ekki neitt slíkt mál yfir höfuð í rannsókn. Dylgjum stefnenda hvað þetta varðar sé því hafnað sem alröngum og ósönnuðum. Stefnendur halda fram að breytt kjör á láninu í kjölfar endurreiknings valdi því að allar forsendur þeirra fyrir veitingu veðsins hafi brostið. Þessu hafnar stefndi, enda fór breytingin fram á grundvelli skýrra dómafordæma og laga. Þá er einnig alþekkt að gengi íslensku krónunnar sveiflast mjög þannig að ef lánið hefði verið lögmætt erlent lán og aðalskuldari eingöngu með tekjur í íslenskum krónum er ljóst að áhrifin á fjárhag aðalskuldara væru þau sömu auk þess sem skuldin væri mun hærri, svo sem áður var rakið. Stefndi telur fullljóst að stefnendum hafi ekki tekist að sýna fram á eða sanna að skilyrði fyrir ógildingu samnings á grundvelli brostinna forsendna séu til staðar. Umfjöllun í stefnu um tvö seinni skilyrði þess að hægt sé að ógilda samninga vegna brostinna forsendna sé lítil sem engin. Stefnendur víki raunar ekkert að því að stefnda hafi verið kunnugt um eða mátt vera kunnugt um meintar forsendur þeirra þegar ritað var undir samning. Hins vegar sé alveg ljóst að forsenda stefnda fyrir veitingu lánsins hafi verið að fá tryggingu í fasteign stefnenda. Ógilding veðsins myndi því þýða að önnur frumforsenda stefnda fyrir veitingu lánsins myndi bresta, þ.e. auk gengistryggingarinnar. Þegar af þessum sökum sé ljóst að þriðja skilyrði fyrir beitingu reglna um brostnar forsendur sé ekki uppfyllt, enda myndi beiting reglunnar leiða til óréttlátrar réttarskerðingar fyrir stefnda. Auk þess hafi stefnendur í engu sýnt fram á að skilyrði þess, að forsendan sem ákvörðunarástæða sé mikilvæg, eigi við í málinu. Í ljósi þess sem rakið er að framan og meginreglunnar um að samninga beri að halda verði að hafna kröfum stefnenda og sýkna stefnda af kröfum um ógildingu samnings vegna brostinna forsendna. Þá hafnar stefndi því að 36. gr. laga nr. 7/1936 eigi við í máli þessu. Skilyrði fyrir beitingu ákvæðisins séu talin upp í stefnu án þess að heimfæra þau upp á málsatvik málsins og sýna þannig fram á að ákvæðið eigi við í málinu. Gera verði ríka kröfu til þess, í ljósi meginreglunnar um að samninga beri að halda, að aðilar sem beri fyrir sig 36. gr. laga nr. 7/1936 sýni með óyggjandi hætti fram á að ákvæðið eigi sannarlega við. Þá bendir stefndi á að stefnendur geri ýtrustu kröfur um að samningur verði ógildur (þ.e. vikið til hliðar í heild). Engar kröfur séu um að víkja samningi til hliðar að hluta eða breyta honum. Ein af aðalforsendum þess að stefndi veitti lán til Trégaurs ehf. hafi verið trygging í fasteign stefnenda. Telur stefndi að skilyrði til beitingar greinarinnar séu ekki uppfyllt, enda geti það ekki talist „ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju“ að bera samninginn fyrir sig því að ljóst sé að vilji stefnenda hafi verið að veita veð fyrir a.m.k. jafnvirði 8.250.000 kr., auk vaxta og kostnaðar. Stefndi áréttar að stefnendum hafi ekki tekist að sanna að orsakasamhengi sé milli gengistryggingar og gjaldþrots aðalskuldara. Auk þess ítrekar stefndi að alþekkt sé að gengi íslensku krónunnar geti sveiflast mikið, en um þetta megi m.a. vísa til dóms Hæstaréttar frá 30. janúar 2014 í máli nr. 670/2013, sbr. forsendur héraðsdóms sem hafi verið staðfestar í Hæstarétti. Þá geti það ekki talist ósanngjarnt af stefnda að bera fyrir sig samninginn af þeim sökum að nú þegar hafi stefnendur notið góðs af endurreikningi með hliðsjón af sjónarmiðum um fullnaðarkvittanir og þannig fengið vexti m.v. erlenda gjaldmiðla á lán í íslenskum krónum þannig að lánið hafi lækkað um helming. Sú lækkun hljóti að vera langt umfram eðlilegar væntingar eða forsendur stefnenda í upphafi, þ.e. m.v. að lánið væri gengistryggt eða erlent lán. Þegar af þessum sökum geti 36. gr. laga nr. 7/1936 ekki átt við og beri því að sýkna stefnda af kröfum stefnenda. Enn fremur hafnar stefndi því alfarið að 33. gr. laga nr. 7/1936 geti átt við, enda ekki óheiðarlegt að bera samninginn fyrir sig í skilningi ákvæðisins. Megi um það m.a. vísa til þeirrar verulegu lækkunar sem stefnendur hafi notið umfram réttmætar væntingar vegna endurreiknings lánsins. Þá sé ljóst að stefndi ber ekki fyrir sig öll ákvæði skuldabréfsins eins og þau komi fyrir á bréfinu, þ.e. þau ákvæði er varða gengistryggingu. Einnig hafnar stefndi því að einhverju máli skipti hvort krafan hafi verið keypt með afföllum eða ekki. Meginregla íslensks réttar sé sú að kröfuhafaskipti geti farið fram án samþykkis skuldara (eða veðsala) og breytir „söluverð“ kröfu engu um fjárhæð skuldbindingar skuldara eða ábyrgðarmanna. Með hliðsjón af þessu og viðskiptabréfareglum er gilda um skuldabréfið sé málsástæða stefnenda ótæk, sbr. og dóm Hæstaréttar frá 10. febrúar 2014 í máli nr. 805/2013 en þar segi í forsendum héraðsdóms sem staðfestar hafi verið í Hæstarétti: „Jafnvel þó svo hefði verið að varnaraðili hefði fengið kröfuna á undirverði hefði það ekki haggað gildi bréfsins sem slíks og heimildum kröfuhafa vegna vanefnda skuldara.“ Telja verði að hið sama gildi gagnvart ábyrgðarmönnum eða veðsölum. Þá bendir stefndi á að stefnendur vísi reglulega til þess að stefndi hafi átt að meta kröfuna og tryggingar að baki henni, m.a. við yfirfærslu skuldabréfsins. Stefndi vill í þessu samhengi benda á að óformlegt mat starfsmanna stefndu þyki benda til þess að krafan sé að fullu tryggð í eign stefnenda. Þá vísar stefndi í þessu sambandi til þess sem áður segir um að stefnendur hafi þegar notið verulegs hagræðis til lækkunar á skuldinni vegna gengistryggingarinnar og að vilji stefnenda á sínum tíma hafi verið að tryggja skuld upp á a.m.k. jafnvirði 8.250.000 kr., auk vaxta og kostnaðar. Stefnendur hafi ekki sýnt fram á að skilyrði til ógildingar samningsins séu uppfyllt á grundvelli brostinna forsendna og það geti því ekki verið óheiðarlegt í skilningi 33. gr. laga nr. 7/1936 að bera fyrir sig samninginn vegna brostinna forsendna. Hvað varðar málsástæður stefnenda um meginreglur laga og eðli máls og hins vegar ákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar og 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu vísar stefndi til þess sem áður segir um að engu breyti um skuldbindingu stefnenda hvort stefndi hafi haft möguleika til að meta kröfuna samhliða yfirtöku hennar. Um sé að ræða viðskiptabréf auk þess sem skuldarar/ábyrgðarmenn hafi almennt ekkert um það að segja hver sé eigandi að kröfu á þá. Eigi það sérstaklega við þegar um er að ræða viðskiptabréf líkt og í þessu máli en það sé beinlínis gengið út frá því, í viðskiptabréfa­reglum, að slík bréf skipti um eigendur án verulegra vandkvæða. Stefndi hafnar því að veðréttindin standi ein eftir óbreytt í bréfinu. Líkt og áður hefur verið rakið hafi stefnendur notið góðs af þeim breytingum sem urðu á skuldinni við endurreikning, þ.e. verulegrar lækkunar kröfunnar auk þess að fá lága LIBOR-vexti á skuld í íslenskum krónum um nær fimm ára tímabil. Vert sé í þessu samhengi að líta til þess að upphaflega hafi átt að endurgreiða skuldabréfið á sex árum og ætti það því að vera uppgreitt í dag samkvæmt upphaflegum skilmálum þess. Stefndi hafnar því alfarið að hann beri ábyrgð á því hvernig komið er fyrir aðalskuldara bréfsins og áréttar að það hafi ekki verið hann sem setti aðalskuldara í þrot. Stefndi telur að tilvísanir stefnenda til 65. gr. stjórnarskrárinnar og 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu hafi enga þýðingu fyrir málið. Hvorugt ákvæðið geti takmarkað rétt kröfuhafa til að kaupa eða selja kröfur né geti framsal eða yfirfærsla krafna talist brot á ákvæðunum. Fráleitt sé að telja að veita beri skuldurum eða ábyrgðarmönnum aðkomu að ákvörðunum um hvort kröfur séu seldar eða færðar á milli aðila. Þá verði að telja að ef stefnendur telji að ákvæði laga hafi valdið þeim tjóni og brjóti gegn framangreindum ákvæðum stjórnarskrár og Mannréttindasáttmála Evrópu þá geti það ekki verið stefnda til tjóns, sem fari ekki með löggjafarvald. Stefnendur verði þá að leita réttar síns gagnvart löggjafanum, þ.e. með því að fara í skaðabótamál við íslenska ríkið. Í ljósi alls ofangreinds telur stefndi að sýkna beri hann af kröfum stefnenda, enda hafi þeim ekki tekist að sýna fram á eða sanna að skilyrði til ógildingar séu fyrir hendi. Engar forsendur séu til að lækka kröfuna verulega, enda krefjist stefnendur ógildingar í heild á samningi en ekki að hluta eða breytingu á samningi. Krafa vegna brostinna forsendna geti að auki aldrei falið í sér annað en ógildingu samnings í heild sinni. Um lagarök vísar stefndi einkum til meginreglna fjármuna- og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga og réttar efndir fjárskuldbindinga. Þá er vísað til ákvæða samningalaga nr. 7/1936, einkum 33. og 36. gr. auk ólögfestra reglna samningaréttar um brostnar forsendur. Jafnframt vísast til viðskiptabréfareglna. Um málskostnað vísast til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. IV. Eins og rakið hefur verið veittu stefnendur veð í eign sinni að Reynihvammi 5 í Kópavogi til tryggingar veðskuldabréfi útgefnu af Trégaur ehf. Stefnendur krefjast þess að viðurkennt verði með dómi að tryggingin verði felld niður og stefnda gert að aflýsa veðskuldabréfinu af eigninni. Kröfu sína byggja stefnendur í fyrsta lagi á því að forsendur hafi brostið fyrir samþykki þeirra á umræddri veðsetningu. Það er grundvallarregla samningaréttar að menn verða almennt að standa við samninga sína og bera áhættuna af því að forsenda þeirra fyrir samningsgerð getur brostið. Það eitt að umrætt lán hafi reynst ólögmætt gengistryggt lán leysir stefnendur ekki undan ábyrgð sinni og að mati dómsins er ljóst að veðið var grundvallarforsenda af hálfu stefnda fyrir veitingu lánsins. Stefnendur gátu ekki vænst þess að greiðslubyrði af láninu yrði ávallt óbreytt, enda geta sveiflur verið á gengi og heimild var í 5. tl. veðskuldabréfsins til að breyta vaxtaálagi til hækkunar. Gegn mótmælum stefnda er ósannað að stefndi hafi sagt fyrirsvarsmanni Trégaurs ehf. þegar lánið var tekið að líklegt væri að gengi íslensku krónunnar hefði náð lágmarki og að krónan færi að styrkjast og afborganir af láninu myndu lækka. Eftir að fyrir lá að lánið væri ólögmætt gengistryggt lán var greiðslum af láninu frestað tímabundið og á tilteknum tímabilum voru mánaðarlegar greiðslur festar. Ekki var greitt af láninu í langan tíma. Lánið var svo endurútreiknað í samræmi við lög og dómafordæmi Hæstaréttar og skuldari og stefnendur nutu góðs af því. Stefnendur geta í máli þessu ekki byggt á því að stefndi hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi, enda hefur stefnda ekki verið gerð refsing vegna umrædds láns eða sambærilegra lána. Þá hafa stefnendur ekki sýnt fram á að hið ólögmæta lán eða önnur slík lán hafi valdið því að Trégaur ehf. varð gjaldþrota, enda var það ekki stefndi sem fór fram á gjaldþrotaskiptin heldur sýslumaðurinn í Hafnarfirði vegna opinberra gjalda og svo virðist sem meginástæðan fyrir vanda Trégaurs ehf. hafi verið verkefnaskortur. Samkvæmt öllu framansögðu hafa stefnendur ekki sýnt fram á að fella beri trygginguna niður á grundvelli reglna um brostnar forsendur. Með vísan til framangreindra sjónarmiða verður jafnframt að hafna því að það sé ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera veðskuldabréfið fyrir sig, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936, eða óheiðarlegt, sbr. 33. gr. sömu laga. Yfirburðastaða stefnda sem banka gegn stefnendum sem einstaklingum getur ekki ein og sér leitt til þess að ákvæðin eigi við. Þá verður að hafna því að það hafi þýðingu hvernig yfirfærslan á láninu fór fram á milli stefnda og Byrs sparisjóðs og að stefnendur hafi ekki getað gætt réttar síns þegar stefndi tók við réttindum samkvæmt veðskuldabréfinu af Byr sparisjóði, enda fóru kröfuhafaskiptin fram á grundvelli ákvörðunar Fjármála­eftirlitsins 17. október 2011, sem tók gildi 29. nóvember 2011, og það er meginregla kröfuréttar að kröfuhafi getur framselt öðrum kröfuréttindi sín án aðkomu skuldara. Er málsástæðum stefnenda um eðli máls eða brot gegn jafnræðisreglu hafnað.  Við aðalmeðferð málsins var enn fremur byggt á því af hálfu stefnenda að hver og einn þeirra hafi staðið í þeirri trú að hann væri aðeins að veðsetja eignarhlutdeild sína í umræddri eign. Af hálfu stefnda var þessu mótmælt sem nýrri málsástæðu sem væri of seint fram komin. Í stefnu er ekki byggt á þessu sem málsástæðu og gegn mótmælum stefnda kemst hún ekki að í málinu, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.   Einnig var á því byggt í málflutningsræðu lögmanns stefnenda að stefnendur séu ekki bundnir af veðsetningunni þar sem þeim hafi ekki verið sendar tilkynningar um ábyrgðir þeirra fyrr en í til stefnanda Jónínu 20. mars 2013. Vísaði lögmaður stefnenda í þessu sambandi til d-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðar­menn, en þar er kveðið á um að lánveitandi skuli senda ábyrgðarmanni tilkynningu skriflega svo fljótt sem kostur er eftir hver áramót með upplýsingum um stöðu láns, sem ábyrgð stendur fyrir, og yfirliti yfir ábyrgðir. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 skal ábyrgðarmaður vera skaðlaus af vanrækslu lánveitanda á tilkynningar­skyldu skv. 1. mgr. og ef vanræksla er veruleg skal ábyrgð falla niður. Af hálfu stefnda var bent á að ekki væri byggt á þessu sem málsástæðu í stefnu, ekki væri vísað þar til laga nr. 32/2009 og stefndi hafi ekki getað brugðist við þessari málsástæðu, s.s. með því að leggja fram gögn um fleiri tilkynningar sem kunna að hafa verið sendar stefnendum. Í stefnu málsins er ekki byggt á því sem málsástæðu að ábyrgð eigi að falla niður á grundvelli þess að stefndi hafi vanrækt skyldur sínar samkvæmt d-lið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 og að ábyrgð stefnenda eigi því að falla niður, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Þá er í stefnu hvergi vísað til laga nr. 32/2009. Að þessu virtu og þar sem stefndi mótmælir þessari málsástæðu sem of seint fram kominni kemst hún ekki að í málinu og verður ekki tekin afstaða til hennar, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með vísan til alls framangreinds verður stefndi sýknaður af kröfum stefnenda. Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður. Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari. D ó m s o r ð:                 Stefndi, Íslandsbanki hf., er sýkn af kröfum stefnenda, Bergþóru Eiríksdóttur, Jónínu Eggertsdóttur og Jóns Heimis Örvar.                 Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 387/2015
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. júní 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júní 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 15. júní 2015 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Varnaraðili er undir rökstuddum grun um brot sem getur varðað fangelsisrefsingu eftir 226. gr. og 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Rannsókn málsins er á frumstigi og er fullnægt skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til gæsluvarðhalds yfir varnaraðila og einangrun meðan á því stendur, sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.     
Mál nr. 376/2015
Kærumál Nálgunarbann
Lögreglustjórinn á Vesturlandi hefur krafist þess að Héraðsdómur Vesturlands staðfesti með úrskurði þá ákvörðun lögreglustjórans frá 15. maí sl. að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni gagnvart A, kt. [...], til og með 15. maí 2016, þannig að lagt sé bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili brotaþola að [...],[...], á svæði sem afmarkist við 50 m radíus umhverfis heimili hennar, mælt frá miðju hússins. Enn fremur að lagt sé bann við því að varnaraðili veiti brotaþola eftir­för, nálgist hana á almanna­færi, vinnu­stað hennar, hringi í heima-, vinnu- eða farsíma hennar, sendi henni SMS-skeyti eða tölvu­póst, riti á síður hennar á samskiptasíðum á inter­netinu eða setji sig á annan hátt í samband við hana til og með 15. maí 2016.
Dómur Hæstaréttar Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. júní 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 29. maí 2015 þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 15. sama mánaðar um að varnaraðili sætti nálgunarbanni, eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að nálgunarbanni verði markaður skemmri tími og taki eingöngu til ,,samskipta í síma og sms skilaboða“. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Samkvæmt 4. gr. laga nr. 85/2011 er heimilt að beita nálgunarbanni ef  rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða hætta er á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna skal nálgunarbanni aðeins beitt þegar ekki þykir sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti. Við mat á því er heimilt samkvæmt 2. mgr. sömu greinar að líta til þess hvort sakborningur hafi áður þurft að sæta nálgunarbanni sem og þess hvort háttsemi hans á fyrri stigum hafi verið þannig að hætta sé talin á að hann muni gerast brotlegur á þann hátt sem lýst er í 4. gr. laganna. Varnaraðili hefur tvisvar hlotið dóm fyrir brot gegn brotaþola þar sem hann var sakfelldur samkvæmt 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. dóma Héraðsdóms Suðurlands [...] og [...] sama ár. Þá hefur honum tvisvar verið gert að sæta nálgunarbanni gagnvart brotaþola, fyrst í kjölfar sambúðarslita þeirra haustið 2012 og aftur í janúar 2014. Að því virtu og þegar litið er til fjölda og efnis þeirra samskipta sem um ræðir í beiðni sóknaraðila og tilkomin eru eftir að nálgunarbanni lauk í janúar 2015 er fallist á það með héraðsdómi að fullnægt sé skilyrðum 4. gr. laga nr. 85/2011 til að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni á þann veg sem í úrskurðarorði greinir, enda verður ekki talið að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðru og vægara móti, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur. Þóknun verjanda varnaraðila í Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Þóknun verjanda varnaraðila, X, Óskars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, fyrir Hæstarétti, 186.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Mál nr. 336/2015
Kærumál Afhending gagna Matsgerð Sératkvæði
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu O um að G eða dómkvöddum matsmönnum yrði gert að afhenda honum afrit allra gagna sem G hafði afhent matsmönnum á tilteknum matsfundi. Fyrir Hæstarétti beindi O kröfu sinni eingöngu að G. Í dómi Hæstaréttar kom fram að aðili, sem vildi krefja gagnaðila um að láta af hendi gögn til afnota í máli, hefði þau úrræði ein, sem mælt væri fyrir um í X. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að fylgja kröfunni eftir. Þar sem O hafði ekki farið þá leið var staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar að því leyti sem hann hafði verið kærður til Hæstaréttar.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. maí 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. apríl 2015, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila eða dómkvöddum matsmönnum yrði gert að afhenda sér afrit allra gagna sem sóknaraðili hafi afhent matsmönnunum á matsfundi 30. janúar 2015. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til c. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann krefst þess að „kveðinn verði upp dómur Hæstaréttar þar sem viðurkennd er skylda varnaraðila að afhenda sóknaraðila afrit allra þeirra gagna sem sóknaraðili afhenti matsmönnum á matsfundi hinn 30. janúar 2015.“ Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði fékk sóknaraðili 15. maí 2014 dómkvadda tvo menn til að leggja mat á tilgreind atriði í tengslum við mál sem varnaraðili höfðaði á hendur honum 15. október 2012. Á matsfundi sem matsmenn efndu til 21. október 2014 beindu þeir til varnaraðila ósk um að þeim yrðu látin í té nánar tiltekin gögn vegna framkvæmdar matsins og varð hann að mestu við því á fundi 30. janúar 2015. Varnaraðili afhenti á hinn bóginn ekki sóknaraðila eintak af þessum gögnum á fundinum og neitaði síðan með tölvubréfi 31. mars sama ár að verða við beiðni þess síðarnefnda um það. Við þessu brást sóknaraðili með því að krefjast þess við dómara í málinu að varnaraðila „eða matsmönnum, eftir atvikum“ yrði gert að afhenda sér eintak af gögnunum til þess að sér gæfist kostur á að tjá sig um efni þeirra eftir þörfum, en um heimild til þessa vísaði sóknaraðili til 2. mgr. 62. gr. og 1. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991. Með hinum kærða úrskurði var þeirri kröfu hafnað. Samkvæmt fyrrgreindri kröfugerð sóknaraðila fyrir Hæstarétti beinir hann kröfu sinni um afhendingu gagna nú eingöngu að varnaraðila en ekki jafnframt að dómkvöddu matsmönnunum eins og hann gerði í héraði. Í IX. kafla laga nr. 91/1991 er hvergi að finna stoð fyrir því að aðili máls geti afhent matsmönnum gögn við framkvæmd matsgerðar með áskilnaði um að gagnaðili sinn fái ekki aðgang að þeim eða að matsmenn geti farið á svig við meginreglu einkamálaréttarfars um jafnræði aðila með því að verða við slíkum áskilnaði. Þetta fær því á hinn bóginn ekki breytt að aðili, sem krefja vill gagnaðila um að láta af hendi gögn til afnota í máli, hefur þau úrræði ein, sem mælt er fyrir um í X. kafla sömu laga, til að fylgja slíkri kröfu eftir. Þá leið hefur sóknaraðili ekki farið í máli þessu og verður því að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar að því leyti sem hann hefur verið kærður til Hæstaréttar. Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af kærumáli þessu. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Kærumálskostnaður fellur niður. Sératkvæði Ólafs Barkar Þorvaldssonar Eins og greinir í atkvæði meirihluta dómenda er í IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hvergi að finna stoð fyrir því að aðili máls geti afhent matsmönnum gögn við framkvæmd matsgerðar með áskilnaði um að gagnaðili fái ekki aðgang að þeim eða að matsmenn geti farið á svig við meginreglu einkamálaréttarfars um jafnfræði aðila með því að verða við slíkum áskilnaði. Í þessu máli er sú aðstaða uppi að varnaraðili hefur þegar afhent dómkvöddum matsmönnum umrædd gögn. Af þeim sökum ber sóknaraðila réttur til að kynna sér gögnin á matsfundi svo matið komi að gagni samkvæmt 2. mgr. 62. gr. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. hér einnig dóm Hæstaréttar 11. nóvember 1999 bls. 4199 í dómasafni réttarins það ár. Hafa bæði matsmenn og varnaraðili umrædd gögn undir höndum. Eins og atvikum er háttað tel ég að fallast eigi á kröfu sóknaraðila um afhendingu á afritum gagnanna.
Mál nr. 369/2015
Kærumál Innsetningargerð Börn
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var kröfu K um að dóttir hennar og M yrði tekin úr umráðum M og fengin henni með beinni aðfarargerð á grundvelli laga nr. 160/1995 um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl. Aðilar kynntust í Danmörku árið 2007 og eignuðust þar dóttur ári síðar. Slitnaði upp úr sambandi þeirra og var þá ákveðið að lögheimili stúlkunnar yrði í Danmörku hjá K. Samkvæmt samkomulagi aðila, sem gert var í ágúst 2014, var lögheimili stúlkunnar flutt tímabundið til M sem búsettur var á Íslandi. Snéri stúlkan ekki aftur til Danmerkur að þeim tíma liðnum. Var talið að M hefði haldið stúlkunni frá K með ólögmætum hætti í skilningi 11. gr. laga nr. 160/1995. Þá hefði ekki verið sýnt fram á að skilyrði 2., 3., eða 4. töluliðs 12. gr. laganna, fyrir því að synja mætti um afhendingu barns, væru til staðar.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. maí 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. maí 2015, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að henni yrði heimilað að fá dóttur málsaðila tekna úr umráðum sóknaraðila og afhenta sér með beinni aðfarargerð. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að „veittur verði þriggja mánaða aðfararfrestur.“ Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Rétt er að kærumálskostnaður falli niður. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Kærumálskostnaður fellur niður.
Mál nr. 731/2014
Vörumerki Samkeppni Óréttmætir viðskiptahættir
Í málinu krafðist I hf. þess að viðurkennt yrði að I ehf. væri óheimilt að nota og hagnýta í atvinnustarfsemi sinni skráð vörumerki I hf. „ICELAND GLACIER“ á kynningarefni og vatnsflöskum sem það framleiddi. Í dómi Hæstaréttar kom fram að I hf. hefði ekki fengið framangreint orðmerki skráð fyrir ölkeldu- og lindarvatn þar sem merkið hefði skort sérkenni fyrir þær vörur, sbr. 13. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki. Af því leiddi að I hf. gæti ekki helgað sér þessi orð og komið í veg fyrir að öðrum framleiðendum yrði kleift að lýsa vatnsvörum með þessum almenna hætti. Var því ekki talið að I ehf. hefði brotið gegn vörumerkjarétti I hf. til orðmerkisins þótt fram hefði komið á vatnsflöskum I ehf. auðkennið „ICELAND GLACIER WATER“. Á hinn bóginn hefði I hf. fengið skráð orð- og myndmerkið „ICELAND GLACIER“ fyrir ölkeldu- og lindarvatn, en um væri að ræða merki sem myndað væri úr orðum þess með sérstakri lögun á bókstafnum „A“ í bláum lit í fyrra orðinu. Við mat á því hvort villst yrði á merkjunum tveimur leit Hæstiréttur á það að merkin tækju til sömu vöru og því yrði að gera auknar kröfur til þess að merkin væru ólík, en vörumerki I ehf. hafði að geyma tákn sem líktist krystalli úr snjókorni og þar fyrir neðan stóð með stórum stöfum „SNO“ og þar undir með mun smærra letri fyrrgreint auðkenni „ICELAND GLACIER WATER“. Hæstiréttur taldi að sjónlíking merkjanna væri verulega frábrugðin og þá væri hljóðlíking ekki fyrir hendi að því er varðaði auðkennið „SNO“, en á því upphafsorði lægi aðaláherslan. Þá væri hljóðlíking ekki heldur fyrir hendi að því er varðaði viðbótina „WATER“ á vöru I ehf., en auðkennið „ICELAND GLACIER“ í því samhengi fæli í sér lýsingu á uppruna vatnsins og því lægi áherslan á viðbótinni „WATER“. Að öllu þessu virtu var I ehf. ekki heldur talinn hafa brotið gegn rétti I hf. til orð- og myndmerkisins. Loks var ekki talið að I ehf. hafði gerst brotlegur gegn 15. gr. a. laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Var I ehf. því sýknað af kröfum I hf.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. nóvember 2014. Hann krefst þess að viðurkennt verði annars vegar að stefnda sé óheimilt að nota og hagnýta sér eftirtalin vörumerki áfrýjanda: „ICELAND GLACIER“ orðmerki, sbr. vörumerkjaskráningu nr. 674/2008 og „ICELAND GLACIER“ orð- og myndmerki, sbr. vörumerkjaskráningu nr. 1175/2007, og hins vegar skylda hans til að fjarlægja af heimasíðu sinni, starfsstöðvum og verslunum, allar vörur, merkingar, auglýsingar og tilkynningar í hvaða formi sem er þar sem vörumerkin koma fyrir. Jafnframt krefst hann þess að staðfest verði annars vegar lögbann sýslumannsins í Reykjavík 1. nóvember 2013 við notkun og hagnýtingu stefnda á fyrrgreindum vörumerkjum og hins vegar ákvörðun sýslumannsins sama dag um að stefndi skuli fjarlægja af heimasíðu sinni, starfsstöðvum og verslunum, allar vörur, merkingar, auglýsingar og tilkynningar í hvaða formi sem er þar sem vörumerkin koma fyrir. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi fékk áfrýjandi 9. apríl 2013 framseld réttindi yfir tveimur vörumerkjum frá þrotabúi Iceland Glacier Products ehf. Annars vegar var um að ræða orð- og myndmerkið „ICELAND GLACIER“ sem skráð var í vörumerkjaflokk nr. 32 fyrir bjór, ölkeldu- og lindarvatn, gosdrykki og aðra óáfenga drykki, orku- og heilsudrykki, ávaxtadrykki og ávaxtasafa, þykkni og önnur efni til drykkjargerðar, ókolsýrt vatn og kolsýrt vatn, sbr. 16. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki og þágildandi auglýsingu nr. 100/2007, sbr. nú auglýsingu nr. 1190/2011. Hins vegar var um að ræða orðmerkið „ICELAND GLACIER“ sem skráð var í nokkra flokka, þar með talinn fyrrgreindan flokk nr. 32. Við skráningu á því merki hafði Einkaleyfastofa með bréfi 4. október 2007 synjað að svo stöddu að skrá orðmerkið fyrir ölkeldu- og lindarvatn í flokki nr. 32. Var það reist á því að merkið skorti sérkenni, sbr. 13. gr. laga nr. 45/1997. Umsækjanda var gefinn kostur á að gera athugasemdir við þetta en þær bárust ekki. Með bréfi stofunnar 7. mars 2008 var umsóknin síðan felld úr gildi fyrir ölkeldu- og lindarvatn í flokki nr. 32 með vísan til 19. gr. laga nr. 45/1997. Eftir að áfrýjandi hafði öðlast rétt yfir vörumerkjunum taldi hann sig verða þess áskynja að stefndi notaði þau í atvinnurekstri sínum. Með bréfi 2. maí 2013 mótmælti áfrýjandi því að stefndi hefði vörumerki hans í firmaheiti sínu og að þau væru á vörum sem hann framleiddi. Um firmaheiti stefnda hefur áfrýjandi rekið sérstakt mál og var það til úrlausnar hér fyrir dómi samhliða þessu máli, sbr. dóm sem kveðinn var upp sama dag í máli nr. 721/2014. Að því er varðar vörur sem stefndi framleiddi lutu andmælin að því að hann framleiddi vatnsflöskur þar sem fram kæmi auðkennið „ICELAND GLACIER“ sem væri í vörumerkjum hans. Svo sem nánar er rakið í héraðsdómi lagði sýslumaðurinn í Reykjavík lögbann 29. október 2013 við því að stefndi notaði og hagnýtti sér vörumerki áfrýjanda. Jafnframt lagði sýslumaður fyrir stefnda við gerðina að fjarlægja af heimasíðu sinni, starfsstöðvum og verslunum, allar vörur, merkingar, auglýsingar og tilkynningar í hvaða formi sem væri þar sem vörumerkin kæmu fyrir. II Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. október 2014.                 Mál þetta var höfðað 6. nóvember 2013 og dómtekið 7. október2014.                 Stefnandi er Icelandic Water Holdings hf., Hlíðarenda, Ölfus.                 Stefndi er Iceland Glacier Wonders ehf., Skeifunni 19, Reykjavík.                 Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé óheimilt að nota og hagnýta sér eftirtalin vörumerki stefnanda:                 Að viðurkennd verði með dómi skylda stefnda til að fjarlægja af heimasíðu sinni, starfsstöðvum og verslunum, allar vörur, merkingar, auglýsingar og tilkynningar í hvaða formi sem er þar sem vörumerki gerðarbeiðanda nr. 1175/2007 og 674/2008 koma fyrir.                 Að staðfest verði með dómi lögbann Sýslumannsins í Reykjavík 1. nóvember 2013 við notkun og hagnýtingu stefnda á eftirtöldum vörumerkjum stefnanda:                 Að staðfest verði með dómi ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík við lögbannsgerð 1. nóvember 2013 um að stefndi skuli fjarlægja af heimasíðu sinni, starfsstöðvum og verslunum, allar vörur, merkingar, auglýsingar og tilkynningar í hvaða formi sem er þar sem vörumerki gerðarbeiðanda nr. 1175/2007 og 674/2008 koma fyrir. Þá krefst stefndi málskostnaðar.                 Af hálfu stefnda er þess aðallega krafist að lögbannsgerð Sýslumannsins í Reykjavík, nr. L-24/2013, sem fram fór á skrifstofu sýslumannsembættisins hinn 29. október 2013, að kröfu stefnanda, verði felld úr gildi og að kröfum stefnanda verði hafnað. Þá krefst stefndi málskostnaðar. I. Málavextir                 Með kaupsamningi, dagsettum 9. apríl 2013, keypti stefnandi Icelandic Water Holdings hf., öll vörumerki Iceland Glacier Products ehf. og fékk þau framseld til sín sama dag. Það félag hafði verið úrskurðað gjaldþrota á árinu 2011. Á meðal þeirra vörumerkja sem stefnandi keypti voru orðmerkið ICELAND GLACIER og orð- og myndmerkið ICELAND GLACIER. Vörumerkin eru bæði skráð í vörumerkjaskrá Einkaleyfastofu. Hið fyrrnefnda hefur nú skráningarnúmerið 674/2008 en umsókn var dagsett 24. ágúst 2007 og skráning gerð 15. júlí 2008. Það er skráð í flokkum nr. 3, 25, 30, að undanskildum ís og 32, að undanskildu ölkeldu- og lindarvatni. Hið síðarnefnda hefur nú skráningarnúmerið 1175/2007 en umsókn var dagsett 28. ágúst 2007 og skráning gerð 15. október 2007. Er það skráð í flokk nr. 32.                 Samkvæmt Nice flokkunarkerfinu, sbr. auglýsingu nr. 100/2007, falla undir flokk 3 ilmvörur, ilmolíur, snyrtivörur, hárvötn, tannhirðuvörur, undir flokk 25 fellur fatnaður, skófatnaður, höfuðfatnaður og íþrótta- og útivistarfatnaður, undir flokk 30 fellur ís með bragðtegundum og undir flokk 32 fellur ölkeldu- og lindarvatn, bjór, gosdrykkir og aðrir óáfengir drykkir, ávaxtadrykkir og safar, vítamín- og orkudrykkir, þykkni og önnur efni til drykkjargerðar.                   Samkvæmt skráningu í hlutafélagaskrá hefur stefnandi þá starfsemi að framleiða gosdrykki, ölkelduvatn og annað átappað vatn. Tilgangur félagsins er m.a. nýting vatnsréttinda, átöppun og útflutningur vatns. Skráð starfsemi stefnda er heildverslun með drykkjarvörur en tilgangur félagsins er m.a. útflutningur og markaðssetning á vatni og vatnsafurðum.                 Fyrir liggur að stefndi var stofnað á árinu 2007. Félagið hét þá Iceland Global Water ehf. en breytti firmaheiti sínu í Iceland Glacier Wonders ehf. á árinu 2013. Stefnandi taldi félagið brjóta gegn rétti sínum og fór þess ítrekað leit við stefnda að félagið léti af allri notkun á auðkenninu en án árangurs. Í júlí og ágúst 2013 var í fjölmiðlum fjallað um umsvif stefnda í útlöndum. Taldi stefnandi þá ljóst orðið að stefndi framleiddi og flytti úr landi vörur með vörumerki stefnanda.                 Með beiðni, dagsettri 2. september 2013, fór stefnandi fram á það við Sýslumanninn í Reykjavík að lagt yrði lögbann við notkun og hagnýtingu stefnda á vörumerkjum stefnanda samkvæmt vörumerkjaskráningum nr. 674/2008, „ICELAND GLACIER“, orðmerki, og nr. 1175/2007, „ICELAND GLACIER“, orð- og myndmerki. Kveðst stefnandi jafnframt hafa gert þá kröfu að stefnda yrði gert að fjarlægja af heimasíðu sinni, starfsstöðvum og verslunum, allar vörur, merkingar, auglýsingar og tilkynningar í hvaða formi sem væri, þar sem ofangreind vörumerki stefnanda kæmu fyrir. Lögbannsbeiðnin var fyrst tekin fyrir hjá sýslumanni þann 17. október 2013 eftir að stefnandi lagði fram 1.500.000 kr. í tryggingu til bráðabirgða í samræmi við ákvörðun sýslumanns þar um. Þann 29. október 2013 var lögbannsbeiðnin tekin fyrir að nýju og fallist á beiðni stefna um að lagt yrði lögbann við notkun og hagnýtingu stefnda á ofangreindum vörumerkjum eftir að stefnandi lagði fram 33.500.000 kr. í viðbótartryggingu. Þá var jafnframt fallist á kröfu stefnanda um að stefnda yrði gert að fjarlægja af heimasíðu sinni, starfsstöðvum og verslunum, allar vörur, merkingar, auglýsingar og tilkynningar í hvaða formi sem væri þar sem vörumerki stefnanda kæmu fyrir. Var gerðinni lokið 1. nóvember 2013 með greiðslu tryggingarfjár.                 Mál þetta er höfðað af stefnanda til viðurkenningar á réttindum sínum og staðfestingar lögbanninu, sbr. 1. og 2. mgr. 36. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. nr. 31, 1990. II. Málsástæður og lagarök stefnanda                 Stefnandi kveðst vera eigandi vörumerkjanna „ICELAND GLACIER“ orðmerkis og „ICELAND GLACIER“ orð- og myndmerkis. Um sé að ræða skrásett vörumerki hjá Einkaleyfastofu til samræmis við ákvæði laga um vörumerki nr. 45/1997 þar um. Kveður stefnandi að í því felist að öðrum en honum sé óheimilt að nota eins eða lík vörumerki eða tákn, taki notkunin til eins eða svipaðrar vöru eða þjónustu og hætt er við ruglingi á milli merkjanna, þ.m.t. að tengsl séu milli merkjanna, sbr. 1. og 2. tl. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 45/1997. Kveður stefnandi Einkaleyfastofu hafa fallist á að orðin ICELAND GLACIER væru skráningarhæf sem vörumerki og þar með til þess fallin að auðkenna þær vörur frá vörum annarra. Hafi stefnandi því með skráningum sínum einkarétt á notkun umræddra vörumerkja fyrir þær vörur sem tilgreindar eru í skráningunni, þ.m.t. drykkjarvörur.                 Stefnandi kveður notkun samkvæmt ofangreindu m.a. felast í því að merki sé sett á vöru eða umbúðir hennar, að vara eða þjónusta auðkennd með merki sé boðin til sölu, markaðssett eða markaðssetning undirbúin, vara eða þjónusta auðkennd með merki er flutt inn eða út eða merki er notað í auglýsingum, bréfhausum eða á annan sambærilegan hátt, sbr. 1.–4. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45, 1997.                 Kveðst stefnandi í því sambandi benda á að stefndi hafi a.m.k. með tvenns konar hætti heimildarlaust notað vörumerki stefnanda „ICELAND GLACIER“. Annars vegar hafi stefndi notað vörumerki stefnanda í heiti sínu og þá með viðbótinni „Wonders“ og hins vegar á vörur sínar og þá sem undirtitil á heiti vörunnar með viðbótinni „water“.  Kveður stefnandi að í báðum tilvikum sé skráð vörumerki hans notað í heild sinni og feli notkun stefnda því í sér freklegt brot á vörumerkjarétti stefnanda.                 Kveður stefnandi þannig í fyrsta lagi ljóst að stefndi sé að nota skráð vörumerki stefnanda í atvinnustarfsemi sinni, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 45/1997, enda noti hann merkið bæði í eigin heiti og sem heiti á framleiðsluvöru sína. Þá sé í öðru lagi ljóst að heimildarlaus notkun stefnda taki til eins eða svipaðrar vöru eða þjónustu og vörumerkjaréttur stefnanda, enda hafi þeir báðir með höndum sömu starfsemi, þ.e. framleiðslu, átöppun, sölu og útflutning á drykkjarvatni, sbr. 1. tölul. nefndrar 4. gr. laga nr. 45/1997. Kveður stefnandi í þriðja lagi að af því leiði að mikil ruglingshætta verði fyrir hendi.                 Stefnandi kveður að við mat á ruglingshættu milli tveggja vörumerkja sé annars vegar litið til þess hvort merkjalíking sé með merkjunum og hins vegar hvort vöru- og þjónustulíking sé með þeim, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 45/1997. Mati á merkjalíkingu megi svo skipta í tvennt. Skuli þá annars vegar meta hvort sjónlíking sé með merkjunum og hins vegar líta til þess hvort hljóðlíking sé til staðar. Þá geti merkingalíking einnig komið til skoðunar. Stefnandi kveður hins vegar að grundvallarreglan við mat á ruglingshættu sé sú að meta skuli heildarmynd þeirra merkja sem um er deilt.                 Stefnandi telur ljóst að bæði sjónlíking og hljóðlíking sé með merkjum stefnanda og stefnda, enda noti stefndi vörumerki stefnanda í heild sinni líkt og áður greinir. Þó svo að notkun stefnda eigi sér stað með viðbótunum „Wonders“ og „water“ séu þær viðbætur ekki til þess fallnar að aðgreina notkun stefnda frá vörumerki stefnanda og sé því mikil hætta á að tengsl verði talin vera með merkjunum í skilningi 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 45/1997. Kveðst stefnandi í því sambandi árétta að hann og stefndi hafa með höndum sömu starfsemi.                 Stefnandi kveðst benda sérstaklega á að notkun stefnda á vörumerki stefnanda falli undir alla flokka 1.–4. tölul. áðurnefndrar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1997. Sé stefndi þannig að nota merki stefnanda á vöru sína, sem m.a. sé ætluð til útflutnings og sölu, m.a. á sömu mörkuðum og stefnandi selji vöru sína. Þá noti stefndi sömuleiðis vörumerki stefnanda í auglýsingum og til auðkenningar vöru sinnar, sem m.a. megi sjá af útprentun af heimasíðu og fésbókarsíðu stefnda.                 Samkvæmt ofansögðu álíti stefnandi að notkun stefnda fari með afdráttarlausum hætti gegn skráðum vörumerkjarétti stefnanda samkvæmt ákvæðum laga nr. 45/1997. Þá brjóti notkun stefnda einnig gegn réttindum stefnanda samkvæmt öðrum lögum. Þannig komi fram í 15. gr. a í lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005 að óheimilt sé að nota í atvinnu­starfsemi firmanafn, verslunarmerki eða því um líkt, sem sá hefur ekki rétt til er notar, eða reka atvinnu undir nafni sem gefi villandi upplýsingar um eignarrétt eða ábyrgð atvinnurekanda. Enn fremur sé sérhverjum bannað að nota auðkenni, sem hann á tilkall til, á þann hátt að leitt geti til þess að villst verði á því og öðru einkenni sem annað fyrirtæki noti með fullum rétti.                 Stefnandi kveður ljóst að stefndi fari gegn ofangreindu ákvæði laga nr. 57/ 2005 með notkun sinni á vörumerki stefnanda í heiti sínu, á framleiðsluvörur sínar og við hvers konar kynningu á þeim. Sé stefndi enda heimildarlaust að nota skráð vörumerki stefnanda í atvinnustarfsemi sinni, sem aukinheldur gefi vægast sagt villandi upplýsingar um eignarrétt merkisins og tilurð þeirrar vöru sem verið sé að auglýsa og selja, og þar með einnig um ábyrgð atvinnurekanda.                 Þá kveður stefnandi að enn sé til þess að líta að samkvæmt 6. mgr. 1. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, fari um heiti á slíkum félögum eftir ákvæðum laga um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð nr. 42/1903. Vísar hann í þessu samandi jafnframt til 1. mgr. 10. gr. síðastnefndra laga.                 Með vísan til þess sem nú hafi verið rakið kveður stefnandi ljóst að notkun stefnda á skráðum vörumerkjum stefnanda sé bæði heimildarlaus og ólögmæt, enda fari hún gegn a.m.k. þremur lagabálkum. Með vísan til þess, sbr. og 2. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1990, kveðst stefnandi því gera þá kröfu að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé óheimilt að nota og hagnýta sér skráð vörumerki stefnanda, sbr. vörumerkjaskráningar nr. 674/2008 og 1175/2007. Þá krefst stefnandi að viðurkennd verði skylda stefnda til að fjarlægja af heimasíðu sinni, starfsstöðvum og verslunum, allar vörur, merkingar, auglýsingar og tilkynningar í hvaða formi sem er þar sem greind vörumerki stefnanda koma fyrir.                 Stefnandi telur engum vafa undirorpið að notkun stefnda á umræddum skráðum vörumerkjum stefnanda brjóti með afdráttarlausum hætti gegn lögvörðum réttindum stefnanda. Þar sem stefndi hafi í engu sinnt kröfum stefnanda um að láta af notkun vörumerkjanna hafi stefnanda verið nauðugur einn sá kostur að fara fram á lögbann á hagnýtingu og notkun stefnda á skráðum vörumerkjum stefnanda. Hafi hin heimildarlausa notkun enda ekki aðeins verið yfirvofandi heldur þegar byrjuð til tjóns fyrir stefnanda. Kveður stefnandi að samkvæmt því hafi öll skilyrði fyrir álagningu lögbannsins verið uppfyllt, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990, en stefnandi kveðst jafnframt benda á að sérstaklega sé áréttað í 41. gr. laga nr. 45/1997 að unnt sé að notast við lögbann sem úrræði við brotum gegn vörumerkjarétti.                 Stefnandi kveður og ljóst samkvæmt ofansögðu að öll lagaskilyrði standi til þess að staðfesta hið álagða lögbann. Kveður stefnandi ljóst að hann hafi þegar orðið fyrir verulegu tjóni vegna óheimillar notkunar og hagnýtingar stefnda á skráðum vörumerkjum stefnanda og muni það aukast enn frekar verði lögbannið ekki staðfest. Kveður stefnandi að hafa verði í huga í því sambandi að hvern dag, sem stefndi komist upp með að reka starfsemi sína með þeim hætti að framleiða og selja vörur sínar undir skráðum vörumerkjum stefnanda, verði stefnandi fyrir tjóni í formi tapaðrar viðskiptavildar og lakari markaðsstöðu þar sem notkun stefnda sé að sjálfsögðu til þess fallin að draga úr sölu á vörum stefnanda og vitneskju neytenda á vörum hans og tilvist. Þá sé bæði tímafrekt og kostnaðarsamt að byggja upp orðspor og vörumerki og sé heimildarlaus notkun annarra á slíkum merkjum því að sjálfsögðu til þess fallin að valda rétthöfum þeirra tjóni.                 Stefnandi gerir kröfu um málskostnað úr hendi stefnda vegna reksturs dómsmálsins ásamt undanfarandi málsmeðferð vegna lögbanns hjá sýslumanni, auk virðisaukaskatts á málflutnings­þóknun.                 Stefnandi styður kröfur sínar við ákvæði laga um vörumerki nr. 45, 1997, einkum 3., 4., 5. og 41. gr. laganna. Þá vísar stefnandi til laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005, einum 15. gr. a í lögunum. Kveðst stefnandi enn fremur vísa til ákvæða laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, einkum 1. gr., svo og til ákvæða laga um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð nr. 42/1903, einkum 10. gr. Einnig vísar stefnandi til ákvæða laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. nr. 31/1990, einkum 24., 25. og 36. gr. laganna. Um varnarþing vísast til 1. mgr. 33. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og 5. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1990. Þá vísar stefnandi til laga um meðferð einkamála nr. 91, 1991, en krafa um málskostnað styðjist við XXI. kafla þeirra laga. Um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun vísar stefnandi til ákvæða laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. III. Málsástæður og lagarök stefnda                 Stefnandi hafnar því að hafa brotið gegn vörumerkjarétti stefnanda og krefst þess að lögbanni verði aflétt. Ekkert þeirra skilyrða sem sett er í 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann séu uppfyllt, sérstaklega með vísan til 3. mgr. lagaákvæðisins. Í 24. gr. l. nr. 31/1990 segir að lögbann megi leggja við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn. Stefnandi lagði fram lögbannsbeiðni sína 2. september 2013 en viðurkennir í henni að hann hafi vitað af starfsemi stefnda mánuðum saman. Í millitíðinni eða hinn 8. júlí 2013 hafi stefnandi gefið út stefnu þar sem hann gerði nánast sömu kröfur og í þessu lögbannsmáli. Með þessu hefur stefnandi sjálfur staðfest að skilyrðum 24. gr. l. nr. 31/1990 er ekki fullnægt til að leggja megi lögbann við því sem stefnandi gerir nú kröfu um. Vísað er til þess að réttur stefnanda sé óljós og einnig þess að 1. tl. 3. mgr. 24. gr. l. nr. 31/1990 tryggi rétt stefnanda fullkomlega. Með því að vita mánuðum saman af starfsemi stefnda, höfða svo venjulegt einkamál til þess að reyna að fá staðfestingu Héraðsdóms Reykjavíkur á því að starfsemi stefnda brjóti gegn meintum rétti stefnanda hafi hann staðfest þetta. Lögbann sé í eðli sínu bráðabirgðaaðgerð til að tryggja rétt sem annars færi forgörðum. Ef svo væri í þessu tilfelli hefði stefnandi að sjálfsögðu lagt fram lögbannsbeiðni sína tafarlaust þegar er honum varð starfsemi stefnda ljós. Stefnandi kvæðist ekki getað sannað tjón sitt með neinum gögnum, að svo stöddu, og sé stefnda því ómögulegt að sjá hvaða rétt verið sé að tryggja með þessari bráðabirgðaaðgerð.                 Í málinu sé deilt um rétt stefnda til að nota orðin Iceland Glacier til þess að lýsa vörum sínum, en áréttað sé að skrásett vörumerki stefnda er SNO. Stefndi noti síðan réttilega orðin Iceland glacier water til að lýsa vörunni. Stefndi noti þannig tvö orð, ÍSLAND sem sé það land sem stefndi hefur aðsetur sitt í og þar sem hann rekur framleiðslu sína og hitt orðið JÖKULL sem segi til um hvaðan stefndi fái hráefni til framleiðslu sinnar. Á þessum orðum getur stefnandi einfaldlega ekki öðlast einkarétt, hvort heldur þau eru sett fram á íslensku eða þýdd á önnur tungumál, s.s. ensku, Iceland Glacier eða spænsku Glaciar de Islandia.                  Í máli þessu sé annars vegar um að ræða meintan fyrri rétt stefnanda til vörumerkjanna ICELAND GLACIER, orðmerki annars vegar og orð- og myndmerki hins vegar. Skráning á orðmerkinu ICELAND GLACIER, sbr. skráning nr. 674/2008, er skráð fyrir ýmsar vörur í flokkum 3, 25, 30 og 32. Merkið sé hins vegar ekki skráð fyrir vatni í flokki 32. Skráning á orð- og myndmerkinu ICELAND GLACIER í lit, með ákveðinni stafagerð, sé eingöngu vernduð fyrir vörur í flokki 32 en þar sé að finna tilgreiningu á vatni, sbr. ölkeldu og lindarvatn.                 Til að unnt verði að meta hvort um brot sé að ræða verði að skoða í hverju einkaréttur stefnanda sé fólginn. Vísar stefnandi í þessu sambandi til bréfaskipta umsækjanda um þau vörumerki sem stefnandi ber fyrir sig og skráningaryfirvalda í umsóknarferli merkjanna. Þann 4. okt. 2007 hafi Einkaleyfastofa sent frá sér ákvörðun varðandi skráningarhæfi vörumerkisins ICELAND GLACIER (orðmerki) þar sem skráningu vörumerkisins ICELAND GLACIER (orðmerki), skv. umsókn nr. 2819/2007 var synjað að svo stöddu fyrir ís í flokki 30 og ölkelduvatn í flokki 32 með þeim rökstuðningi að orðin ICELAND GLACIER yrðu að teljast „lýsandi“, í skilningi 1. mgr. 13. gr. vörumerkjalaga fyrir ís í flokki 30 og ölkeldu- og lindarvatn í flokki 32 og fullnægi þar með ekki kröfum laganna um sérkenni. Jafnframt hafi skráningaryfirvöld lýst því yfir að það væri talið andstætt tilgangi vörumerkjalaganna að einstakir aðilar gætu með skráningu vörumerkis helgað sér orð, skammstafanir eða orðatiltæki sem væru mjög almenns eðlis.                 Þar sem engar athugasemdir hafi borist frá umsækjanda við ofangreindri ákvörðun Einkaleyfastofu hafi umsóknin verið felld úr gildi fyrir ís í flokki 30 og ölkeldu- og lindarvatn í flokki 32, með ákvörðun Einkaleyfastofu þann 7. mars 2008. Þá sé einnig tekið fram í ákvörðuninni að merkið verði hins vegar skráð í flokkum 3, 25 og 32 í bjór, gosdrykkjum og óáfengum drykkjum                 Sú meginregla gildi í vörumerkjarétti að ekki sé hægt að öðlast vörumerkjarétt á lýsandi eða almennum heitum. Meginregla þessi komi skýrt fram í 13. gr. laga um vörumerki nr. 45/1997, þar sem kveðið sé á um að það sé skilyrði skráningar á vörumerki að það sé til þess fallið að greina vörur eins aðila frá vörum annarra. Í þeim tilfellum þar sem um sé að ræða vörumerki sem samsett kunni að vera úr hlutum sem eru sérkennandi og hlutum sem ekki uppfylla skilyrði um sérkenni beri við túlkun á einkarétti þeim sem slíkar skráningar veita að horfa til 1. mgr. 15. gr. laga nr. 45/1997.                 Framangreint leiði af sér að ekki verði talið að einkaréttur stefnanda taki til orðanna ICELAND GLACIER þegar þau orð eru notuð sem vörumerki fyrir „vatn“. Þetta sé í samræmi við þá ákvörðun skráningaryfirvalda að taka vatn og aðrar sambærilegar vörur út úr vörulistanum í umsókninni fyrir orðmerkið ICELAND GLACIER. Við túlkun á einkaréttinum hvað varði ICELAND GLACIER sem orð- og myndmerki, þá sé það myndhluti merkjanna sem gefi sérkennið og sé það sem einkarétturinn nái til, sér í lagi fyrir vatn og aðrar vörur, sem slegið hefur verið föstu að orðin ICELAND GLACIER hafi ekki til að bera nægileg sérkenni fyrir.                 Til þess að ruglingshætta geti verið fyrir hendi þurfi að vera til staðar bæði merkjalíking sem og vöru og/eða þjónustulíking. Meta verði alla þessa þætti saman og það sem ráði úrslitum sé hvort heildarmynd merkjanna sé svo lík að ruglingi geti valdið. Við matið verði að gæta þess að ekki sé tekið mið af þeim þáttum í viðkomandi merkjum sem séu óskráningarhæfir einir og sér. Það sé sjónarmið hins almenna neytenda sem beri að hafa í huga við slíkt mat.                 Einkaréttur stefnanda til vörumerkis síns takmarkist því við orð- og myndmerkið ICELAND GLACIER í tengslum við vatn í flokki 32. Um sé að ræða stílfært merki í lit. Sérkenni merkjanna takmarkast við heildarmynd þeirra en ekki einstaka orðhluta þeirra. Engin ruglingshætta sé með vörumerki stefnanda (orð- og myndmerki) og vörumerki stefnda.                 Sé litið til síðari ml. ákvæðis 15. gr. a í lögum nr. 45/1997. megi sjá að grundvallaratriði er notkun. Geti stefnandi ekki sýnt fram á notkun, sé ekki um að ræða óréttmæta viðskiptahætti í skilningi laganna. Stefndi telji að sú staðreynd að stefnandi hefur ekki sýnt fram á notkun merkjanna varpi frekara ljósi á þann veika grunn sem stefnandi byggi mál sitt á.                 Stefnandi eigi aðeins orð- og myndmerkið ICELAND GLACIER skráð fyrir ölkeldu- og lindarvatn. Ef ekki tekst að sýna fram á notkun merkisins sl. 5 ár geti réttur stefnanda til auðkennis síns í tengslum við vatn verið mjög takmarkaður ef nokkur.                 Stefndi styður kröfur sínar við ákvæði laga um vörumerki nr. 45/1997, sérstaklega er vísað til 13. gr., 15. gr. og 25. gr. Þá er vísað til laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. nr. 31/1990, einkum 24. gr. Varðandi málskostnað er vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Um virðisaukaskatt af málsþóknun er vísað til ákvæða laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Einnig er vísað til þeirra lagaákvæða sem fram koma í málavöxtum og málsástæðum. IV. Niðurstaða                 Í máli þessu krefst stefnandi þess að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé óheimilt að nota og hagnýta sér skráð vörumerki stefnanda ICELAND GLACIER, sbr. vörumerkjaskráningarnúmerið 674/2008 fyrir orðmerki og 1175/2007 fyrir orð- og myndmerki. Jafnframt er þess krafist að viðurkennd verði skylda stefnanda til að fjarlægja af heimasíðu sinni, starfstöðvum og verslunum, allar vörur, auglýsingar og tilkynningar í hvaða formi sem er þar sem vörumerki stefnandi kemur fram. Af kröfugerð stefnanda að öðru leyti og málatilbúnaði hans er ljóst að ætlun hans er að hin umkrafða viðurkenning nái til notkunar og hagnýtingar vörumerkisins í atvinnustarfsemi stefnanda, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 45/1997.                 Þá krefst stefnandi þess að staðfest verði með dómi lögbann Sýslumannsins í Reykjavík frá 1. nóvember 2013 við notkun og hagnýtingu á vörumerkinu. Réttarstefna til viðurkenningar á ofangreindum réttindum og til staðfestingar á lögbanninu var gefin út 5. nóvember 2013. Því er fullnægt skilyrðum 1. og 2. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann um málshöfðun þessa, þ.e. að mál til viðurkenningar efnislegum réttindum stefnanda er höfðað samhliða kröfu hans um staðfestingu lögbanns.                 Með dómi í máli E-3003/2013 var stefndi sýknaður af kröfum stefnanda um að honum yrði með dómi bannað að nota í firmaheiti sínu vörumerki stefnanda ICELAND GLACIER, sbr. vöruskráningarmerki 1175/2007 og 674/2008 og að honum bæri innan tiltekins frests, að viðlögðum dagsektum, að afmá úr firmaheiti sínu vörumerki stefnanda.                 Eins og kröfugerð stefnanda er háttað í máli þessu lýtur úrlausn ekki að notkun stefnda á skráðum vörumerkjum stefnanda í firmanafni sínu. Umfjöllun stefnanda í stefnu er því að þessu leyti í ósamræmi við kröfugerð hans og fyrri málshöfðun.                  Stefnandi byggir á því notkun stefnda á vörumerkinu brjóti gegn rétti hans sem njóti vörumerkjaverndar. Ljóst sé að aðilar hafi með höndum sömu atvinnustarfsemi, þ.e  framleiðslu, átöppun, sölu og útflutning á íslensku vatni. Notkun stefnda á vörumerkinu hafi í för með sér augljósa ruglingshætta en allt sé þetta skaðlegt fyrir atvinnurekstur stefnanda.                 Óumdeilt er að stefnandi eignaðist vörumerkin með framsali 9. apríl 2013 frá Iceland Glacier products ehf. og að vörumerkjaréttur hafi stofnast við skráningu í vörumerkjaskrá á árunum 2007 og 2008. Fyrir liggur að stefndi breytti firmanafni sínu á árinu 2013 í Iceland Glacier Wonders ehf. án þess að séð verði að stefnandi hafi gert athugasemdir við það þá.                 Stefndi byggir á því að vörumerkjavernd stefnanda afmarkist af skráningu í vörumerkjaskrá. Vörumerkjavernd orðmerkisins 674/2008 sé takmörkuð að því leyti að hún nái hvorki til íss eða ölkeldu- né lindarvatns. Fram kom í málflutningi lögmanns stefnanda að varast ætti að draga of víðtækar ályktanir af synjun Einkaleyfastofu 4. október 2007 á skráningu orðmerkisins.                 Skylda til að skrá vörumerki í ákveðna flokka var í lög leidd með vörumerkjalögum nr. 47/1968. Lögin voru endurskoðuð í heild og meðal veigamestu nýmæla vörumerkjalaga nr. 45/1997 voru ákvæði um alþjóðlega skráningu vörumerkja. Í II. kafla laganna er að finna ítarlegar reglur um skráningu vörumerkja og málsmeðferð en í 16. gr. laganna er kveðið á um að vörumerki skuli skrá í ákveðinn flokk eða ákveðna flokka vöru og þjónustu. Í 12. gr. laganna segir að umsókn um skráningu vörumerkis skuli skila skriflega til Einkaleyfastofunnar sem annist skráninguna og haldi vörumerkjaskrá. Í umsókn skuli m.a. tilgreina viðkomandi merki, með mynd ef við á, og fyrir hvaða vöru eða þjónustu merkið óskast skráð. Er þá vísað til flokkaskrár, sbr. auglýsingu nr. 100/2007. Eins og fram kemur í frumvarpi til laga nr. 45/1995 er skráning vörumerkja hér á landi byggð á Nice-samningnum um alþjóðlega flokkun vöru og þjónustu vegna skráningar vörumerkja, sem fylgt hefur verið um árabil. Samkvæmt sáttmálanum er allri vöru og þjónustu skipt í 42 flokka. Hver flokkur hefur síðan að geyma skylda vöru eða þjónustu.                 Fyrir liggur að á sínum tíma var skráningu orðmerkisins ICELAND GLACIER synjað fyrir ís í flokki 30 og ölkeldu- og lindarvatn í flokki 32. Eigandi merkjanna gerði hvorki athugasemdir við tilkynningu Einkaleyfastofu þess efnis né gerði reka að því að fá skráningunni hnekkt með öðrum hætti. Í athugasemdum í frumvarpi við 12. gr. laga nr. 45/1997, segir að umfang vörumerkjaréttar ráðist m.a. af vörumerkinu sjálfu og þeim vörum eða þjónustu sem óskað er skráningar fyrir. Þar sem skráning vörumerkis öðlast gildi frá og með umsóknardegi er ófrávíkjanleg krafa að umfang skráningarinnar sé ljós strax þegar umsókn er lögð inn.                 Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið liggur fyrir að vörumerkjaréttur stefnanda er takmarkaður hvað orðmerkið varðar. Er því ekki fallist á málsástæður hans um að með notkun stefnda á orðunum ICELAND GLACIER sé ruglingshætta til staðar enda á hann ekki vörumerki fyrir ís og ölkeldu- og lindarvatn í ofangreindum flokkum. Þegar af þessi ástæðu eru ekki efni til að fjalla um ætlað brot stefnda gegn lögum nr. 57/2005.                 Hvað orð- og myndmerki stefnanda nr. 1175/2007 varðar, liggur fyrir að það er skráð í flokk nr. 32 og er ölkeldu- og lindarvatn þar ekki undanskilið. Í staðfestri útskrift úr vörumerkjaskrá er að finna lýsingu á merkinu og útliti þess, sem er sérkennandi. Af þeim gögnum sem liggja frammi í málinu er merkið hins vegar ekki notað af stefnda í atvinnurekstri hans en í þessu sambandi verður að líta til heildarmyndar þess en ekki einstakra hluta, eins og fram kemur í athugasemdum við 4. gr. í frumvarpi til laga nr. 45/1997. Þá verður að telja að sjónlíking merkis stefnanda í samanburði við merkingar stefnda sé það sem einkum skiptir máli við mat á hættu á ruglingi en ekki þau orð sem í myndmerkinu standa. Ber jafnframt að líta til þess að orð- og myndmerkið hefur að geyma lýsandi orð en samkvæmt 15. gr. laga nr. 45/1997 nær vörumerkjaréttur sá, er menn öðlast við skráningu, ekki til þeirra hluta merkis sem ekki er heimilt að skrá eina sér.                 Með vísan til ofangreindra röksemda er jafnframt hafnað kröfu stefnanda um að viðurkennd verði skylda stefnda til að fjarlægja af heimasíðu sinni, starfstöðvum og verslunum, allar vörur, merkingar, auglýsingar og tilkynningar í hvaða formi sem er þar sem vörumerkin nr. 1175/2007 og 674/2008 koma fyrir.                 Að öllu ofangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að notkun stefnda á vörumerkjunum ICELAND GLACIER, með skráningarnúmerin 674/2008 og 1175/2007, feli ekki í sér brot á vörumerkjarétti stefnanda samkvæmt 4. gr. laga nr. 45/1997. Þar sem stefnandi hefur ekki fært sönnur fyrir því að hann eigi þann lögvarða rétt sem lögbann var lagt við röskun á, eru ekki uppfyllt skilyrði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann. Ber því að fella úr gildi lögbannsgerð Sýslumannsins í Reykjavík sem tekin var fyrir á skrifstofu sýslumannsembættisins þann 29. október 2013 og lokið 1. nóvember 2013.                 Með hliðsjón af niðurstöðu málsins ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem þykir hæfilegur 700.000 krónur og er þá tekið tillit til kostnaðar stefnanda af lögbannsmálinu.                 Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp þennan dóm. D Ó M S O R Ð:                 Stefndi, Iceland Glacier Wonders ehf., skal vera sýkn af þeirri kröfu stefnanda, Icelandic Water Holdings hf., að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé óheimilt að nota og hagnýta sér vörumerkin ICELAND GLACIER, orðmerki, sbr. vörumerkjaskráningu nr. 674/2008 og ICELAND GLACIER, orð- og myndmerki, sbr. vörumerkjaskráningu nr. 1175/2007.                 Stefndi skal vera sýkn af þeirri kröfu stefnanda að viðurkennd verði með dómi skylda stefnda til fjarlægja af heimasíðu sinni, starfsstöðvum og verslunum, allar vörur, merkingar, auglýsingar og tilkynningar í hvaða formi sem er þar sem vörumerki nr. 1175/2007 og 674/2008 koma fyrir.                 Felld er úr gildi lögbannsgerð Sýslumannsins í Reykjavík, nr. L-24/2013, sem tekin var fyrir á skrifstofu sýslumannsembættisins hinn 29. október 2013 og lokið var 1. nóvember 2013, þar sem lagt var bann við notkun og hagnýtingu stefnda á vörumerkjunum ICELAND GLACIER, orðmerki, sbr. vörumerkjaskráningu nr. 674/2008 og ICELAND GLACIER, orð- og myndmerki, sbr. vörumerkjaskráningu nr. 1175/2007.                 Felld úr úr gildi ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík við lögbannsgerðina um að stefndi skuli fjarlægja af heimasíðu sinni, starfsstöðvum og verslunum, allar vörur, merkingar, auglýsingar og tilkynningar í hvaða formi sem er, þar sem vörumerki nr. 1175/2007 og 674/2008 koma fyrir.  Stefnandi greiði stefnda 700.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 475/2014
Skip Eignarréttur Forkaupsréttur Sveitarfélög Lögskýring Stjórnarskrá
Með samningi 28. ágúst 2012 festi S hf. kaup á öllum hlutum í BH ehf. af Q ehf., en BH ehf. gerði út fiskiskip í Vestmannaeyjum. Sveitarfélagið V taldi sig njóta forkaupsréttar vegna kaupanna á grundvelli 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða og gerði S hf. og Q ehf. viðvart um það, en félögin höfnuðu beiðni V um að lagt yrði fram tilboð um forkaupsrétt með þeirri röksemd að lagaákvæðið tæki ekki til kaupanna. V höfðaði í kjölfarið mál á hendur S hf. og Q ehf. með stoð í 5. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 og krafðist þess að kaupsamningurinn yrði ógiltur. Með hinum áfrýjaða dómi var sú krafa tekin til greina. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að textaskýring á orðinu fiskiskip í 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 gæti engum vafa valdið og að kaupsamningurinn hefði ekki verið gerður um fiskiskip heldur hlutabréf í BH ehf. Þar sem forkaupsréttur samkvæmt lagaákvæðinu horfði til takmörkunar á stjórnarskrárvörðum eignarrétti girti það þegar fyrir að því yrði gefin rýmri merking með skýringu, svo og til verulegra takmarkana á því að efnisregla ákvæðisins yrði með lögjöfnun færð yfir á önnur atvik en þau sem beinlínis ættu undir það. Þá leit rétturinn til þess að ekki væri í lögum nr. 116/2006 mælt fyrir um forkaupsrétt sveitarfélaga að aflahlutdeild skips, þrátt fyrir að þar væri í 12. gr. að finna reglur um frelsi til að framselja slík verðmæti, sem stæði lögjöfnun í vegi að því er aflahlutdeild varðaði. Loks var skírskotað til þess að bókfært verðmæti skipa BH ehf. væri aðeins rúmur fimmtungur heildareigna félagsins, samkvæmt síðasta ársreikningi sem gerður var fyrir kaupin, en andvirði varanlegra fiskveiðiheimilda næmi meira en 2/3 af verðmæti heildareigna þess. Taldi Hæstiréttur að ekki hefðu verið leiddar nokkrar líkur að því að kaupsamningur S hf. og Q ehf. hefði í reynd miðað að því sem meginatriði að koma fram yfirfærslu eignarréttar að fiskiskipum BH ehf., en klæða þau viðskipti í annan búning. Brast því lagastoð til að verða við kröfu V og voru S hf. og Q ehf. sýknaðir af henni.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson settur hæstaréttardómari og Gunnlaugur Claessen fyrrverandi hæstaréttardómari. Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 9. og 15. júlí 2014. Þeir krefjast hvor fyrir sitt leyti sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi áfrýjenda. I Eftir gögnum málsins hafði Bergur-Huginn ehf. um langt árabil gert út fiskiskip og haft heimili í Vestmannaeyjum. Samkvæmt ársreikningi félagsins 2008 varð tap þess á því ári 4.625.702.181 króna. Þetta tap varð til þess að eigið fé félagsins í lok ársins var orðið neikvætt um 4.255.249.418 krónur, en eftir reikningnum mátti að mestu rekja það til gengismunar af langtímalánum og framvirkum samningum. Á þessum tíma munu hluthafar í félaginu hafa verið þrír, Magnús Kristinsson með 81,24% hlut, BK 44 ehf. með 14,11% og Smáey ehf. með 4,65%. Fyrstnefndi hluthafinn mun hafa gert samning 8. apríl 2009 við Landsbanka Íslands hf. um uppgjör skulda sinna og afsalað á þeim grunni til bankans 1. júlí sama ár 40,35% hlut í Bergi-Hugin ehf., en veðsett um leið til bankans þann hlut í félaginu sem hann átti þá eftir. Sama dag fékk bankinn afsal fyrir áðurnefndum hlut Smáeyjar ehf. í félaginu. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. maí 2014. Stefnandi krefst þess að ógiltur verði með dómi samningur um kaup stefnda Síldarvinnslunnar hf. á öllum eignarhlutum í Bergi-Hugin ehf. af stefnda Q44 ehf., dagsettur í ágúst 2012. Jafnframt krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu. Af hálfu beggja stefndu er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda, auk málskostnaðar úr hendi stefnanda. I. Málavextir Með fréttatilkynningu 30. ágúst 2012 greindi stefndi Síldarvinnslan hf. frá því að félagið hefði „undirritað kaupsamning um kaup á öllu hlutafé í útgerðarfélaginu Bergur-Huginn ehf.“ í Vestmannaeyjum. Fram kom í tilkynningunni að seljandi væri „hlutafélag í eigu Magnúsar Kristinssonar útgerðarmanns og fjölskyldu“. Um kaupverð kom ekki annað fram en að það væri „trúnaðarmál milli kaupanda og seljanda“. Með kaupunum mun stefndi Síldarvinnslan hf. hafa aukið aflaheimildir sínar í bolfiski umtalsvert og öðlast yfirráð yfir fjórum skipum til bolfiskveiða, en fyrir liggur að Bergur-Huginn ehf. hafi gert út tvo nýlega togara, Bergey VE-544 og Vestmannaey VE-444. Einkahlutafélagið Bergur-Huginn er skrásett í Vestmannaeyjum og er yfirlýstur tilgangur þess að „reka útgerð fiskiskipa og skyldur atvinnurekstur, svo og rekstur fasteigna, fjármálastarfsemi og eignaumsýsla“. Meðal stofnenda félagsins er Magnús Kristinsson útgerðarmaður. Félagið var lengst af að stærstum hluta í eigu Magnúsar en á því mun hafa orðið breyting árið 2009 þegar LBI hf. (gamli bankinn, hér eftir „Landsbankinn“) leysti til sín u.þ.b. 45% hlut í félaginu til niðurgreiðslu skulda Magnúsar við Landsbankann. Eftir það voru hluthafar félagsins þrír, þ.e. Landsbankinn (45%), Magnús Kristinsson (40,89%) og félag tengt Magnúsi að nafni Cappa ehf. (14,11%). Á árinu 2012 mun Magnús Kristinsson og fjölskylda hans hafa öðlast yfirráð yfir Bergi-Hugin ehf. á ný og mun það hafa gerst í tengslum við skuldauppgjör Magnúsar við Landsbankann með því að allir eignarhlutir í félaginu voru framseldir félagi í fullri eigu Magnúsar, stefnda Q44 ehf.. Í kjölfarið fór fram sú ráðstöfun, sem mál þetta lýtur að, nánar tiltekið þegar Q44 ehf. seldi meðstefnda Síldarvinnslunni ehf. alla framantalda eignarhluti í Bergi-Hugin ehf. samkvæmt samningi þar að lútandi 28. ágúst 2012.   Stefnandi kveðst, strax í kjölfar þess að tilkynnt var um ofangreinda sölu, hafa hafist handa við að tryggja að bæjarfélaginu yrði boðið að ganga inn í kaupin í samræmi við 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Meðal gagna málsins er ábyrgðarbréf 5. september 2012 sem geymir áskorun stefnanda gagnvart stefnda Síldarvinnslunni hf., þess efnis að lagt yrði fram forkaupsréttartilboð þar sem söluverð og aðrir skilmálar væru tilgreindir á tæmandi hátt sem og að lögð yrðu fram öll gögn sem máli kynnu að skipta til að stefnandi gæti tekið afstöðu til forkaupsréttartilboðsins innan fjögurra vikna, með vísan til umrædds lagaákvæðis. Samdægurs beindi stefnandi sams konar áskorun til Magnúsar Kristinssonar persónulega og fyrir hönd þeirra félaga sem kynnu að hafa verið skráðir hluthafar í Bergi-Hugin ehf. þegar félagið var selt. Hefur afrit af áskorun þessari einnig verið lagt fram meðal skjala málsins. Skýrir stefnandi þetta með skírskotun til þess að á þessu tímamarki hafi ekki legið fyrir hvernig eignarhaldi Bergs-Hugins ehf. væri nákvæmlega háttað. Með lokaorðum nefndra áskorana var móttakendum veittur frestur til hádegis föstudagsins 7. september 2012. Með ódagsettu bréfi, undirrituðu af lögmönnum beggja stefndu, sem barst stefnanda 7. september 2012, var hafnað þeirri beiðni að stefnanda yrði gefinn kostur á að ganga inn í kaupin. Sama dag gaf Bergur-Huginn ehf. út fréttatilkynningu þar sem kröfu stefnanda um forkaupsrétt var hafnað. Í henni segir jafnframt að eignarhald að hlutum í Bergi-Hugin ehf. hafi verið „á hendi félaga, sem öll eru skráð með heimilisfesti í Reykjavík. Við það voru engar athugasemdir gerðar af hálfu [stefnanda]. Eignarhald að hlutunum í Bergur-Huginn [sic.] ehf. er því að færast frá Reykjavík til Neskaupstaðar.“ Í niðurlagi fréttatilkynningarinnar er svo tekið fram „að engin áform [séu] uppi um að flytja heimilisfesti Bergur-Huginn ehf. [sic.] frá Vestmannaeyjum“. Í framhaldi af þessu mun stefnandi hafa fengið það staðfest, frá stjórnarformanni stefnda Q44 ehf., að Q44 ehf. hafi verið seljandi að öllu hlutafé í Bergi-Hugin ehf. í ofangreindum viðskiptum við stefnda Síldarvinnsluna hf. Stefndu töldu nauðsynlegt að tilkynna ofangreind kaup á hlutum í útgerðarfélaginu Bergi-Hugin ehf. til Samkeppniseftirlitsins. Mun kaupsamningur stefndu því hafa verið undirritaður með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins og ítarleg samrunatilkynning send til þeirrar stofnunar 19. október 2012. Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins var sú að ekki væri ástæða til að aðhafast frekar vegna samrunans, sbr. ákvörðun þess nr. 10/2013. Að lokum ber þess að geta að í þinghaldi 29. maí 2013 lagði lögmaður stefnanda fram bókun þar sem skorað var á stefndu „og um leið áréttuð áskorun sama efnis í stefnu á dskj. 1, að leggja fram afrit af áðurgreindum kaupsamningi um kaup Síldarvinnslunnar hf. á hlutafé í Bergi-Hugin ehf. og eftir atvikum önnur skjöl tengd sölunni. Telur stefnandi framlagningu kaupsamningsins einkum munu renna stoðum undir þá málsástæðu sína að meginefni samningsins snúi að því að eignarhald umræddra fiskiskipa færist á hendur útgerðar í öðru sveitarfélagi, þrátt fyrir að hann lúti að formi til að sölu á hlutafé í nefndu félagi. Verði stefndu ekki við áskorun þessari er byggt á því að leggja beri til grundvallar staðhæfingar stefnanda um efni kaupsamningsins og önnur atriði í tengslum við sölu alls hlutafjár í Bergi-Hugin, sbr. 68. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.“ Í þinghaldi við næstu fyrirtöku málsins í héraðsdómi 18. júní 2013 létu lögmenn beggja stefndu færa eftirfarandi orð til bókar: „Stefndu hafna áskorun um að leggja fram kaupsamning þeirra í millum um allt hlutafé í Bergi-Hugin ehf., þar sem það hefur enga þýðingu fyrir úrlausn málsins. Andlag kaupanna var allt hlutafé félagsins og þar með allar eignir og skuldbindingar þess eins og þær stóðu hinn 30. júní 2012. Einu breytingar á eignahlið félagsins frá því sem ársreikningur 2011 sýnir felst í sölu Smáeyjar VE 144 sem seld var frá félaginu á 1. ársfjórðungi 2012 svo sem stefnanda mun kunnugt.“ Af hálfu stefnanda var þessu í sama þinghaldi svarað með því að bóka um áréttingu fyrri áskorunar. II. Málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að sveitarfélagið eigi rétt á að ganga inn í kaupsamning milli stefndu um sölu á öllum eignarhlutum í Bergi-Hugin ehf. til stefnda Síldarvinnslunnar hf. á grundvelli forkaupsréttar sveitarfélags að fiskiskipum samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Vísar stefnandi til þess að stefndu hafi ekki virt forkaupsrétt stefnanda samkvæmt ákvæðinu. Af því leiði að stefnanda hafi verið gert ókleift að taka afstöðu til þess hvort forkaupsréttar skuli neytt. Því sé stefnanda heimilt að krefjast þess að salan, þ.e. sá löggerningur sem liggur henni til grundvallar, verði ógiltur með dómi á grundvelli 5. mgr. sömu lagagreinar. Að mati stefnanda verður sú niðurstaða í öllu falli reist á lögjöfnun frá sömu lagaákvæðum. Stefnandi vísar til þess að í 3. mgr. 12. gr. laga um stjórn fiskveiða sé mælt fyrir um lögbundinn forkaupsrétt að skipi sem ráðstafað er með sölu til útgerðarfélags í öðru sveitarfélagi en við þær aðstæður sé forkaupsrétturinn á hendi þess sveitarfélags þar sem seljandi skips er til heimilis. Neyti sveitarstjórn forkaupsréttar samkvæmt ofangreindu ákvæði skal hún þegar gefa útgerðaraðilum, sem heimilisfesti eiga í sveitarfélaginu, kost á að kaupa skipið ásamt aflahlutdeildum, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006, og skal opinberlega leita tilboða í það, sbr. 4. mgr. sömu lagagreinar. Af hálfu stefnanda er á því byggt að forkaupsréttur stefnanda samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga um stjórn fiskveiða hafi orðið virkur við sölu stefnda Q44 ehf. á öllum eignarhlutum í útgerðarfélaginu Bergi-Hugin ehf. til stefnda Síldarvinnslunnar hf. Að mati stefnanda verður að líta svo á að ráðstöfun hlutafjárins til stefnda Síldarvinnslunnar hf. hafi í reynd falið í sér sölu á tveimur fiskiskipum, Bergey VE-544 og Vestmannaey VE-444, til útgerðar sem heimilisfesti hefur í öðru sveitarfélagi, í skilningi ofangreinds lagaákvæðis. Hafi stefndu því borið að bjóða stefnanda skriflega að neyta forkaupsréttar síns og tilgreina þar söluverð hlutanna og aðra skilmála sölunnar á tæmandi hátt.  Stefnandi styður framangreint við það að löggjafinn hafi miðað að því með nefndu ákvæði að forkaupsrétturinn sé „hemill á sölu skipa milli byggðarlaga og þar með koma til móts við sjónarmið um aukin tengsl skipa við byggðarlög“ sem og að tryggja „að heimaaðilum gefist svigrúm til að ganga inn í kaup“, sbr. einnig 1. gr. laga um stjórn fiskveiða. Stefnandi byggir á því að skýra beri ákvæðið rúmt með hliðsjón af markmiðum þess á þann veg að forkaupsréttur verði virkur þegar eignarhald yfir lögaðila sem fer með eignarhald skips færist á hendur útgerðar í öðru sveitarfélagi. Við þær aðstæður verði að líta svo á að forkaupsrétturinn taki til hlutafjárins sem selt er, eðli máls samkvæmt, en stefndu hafi að minnsta kosti borið að aðgreina skipin ásamt aflaheimildum, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006, frá öðrum seldum eignum og bjóða stefnanda forkaupsrétt að þeim sérstaklega, sbr. framangreinda umfjöllun. Þar sem hvorugt hafi verið gert telur stefnandi að sveitarfélaginu hafi verið ókleift að taka afstöðu til þess hvort forkaupsréttar skyldi neytt og því sé óhjákvæmilegt að ógilda söluna í samræmi við 5. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006. Ofangreindu til stuðnings vísar stefnandi til þess að í ársreikningum Bergs-Hugins ehf. fyrir árin 2010-2011 komi skýrt fram að nær eina starfsemi félagsins sé rekstur umræddra skipa: „Bergur-Huginn ehf. er sjávarútvegsfyrirtæki sem rekur þrjú togskip, Smáey VE 144, Vestmannaey VE 444 og Bergey VE 544.“ Að mati stefnda leiðir þetta til þess að þótt kaupsamningur aðila varði að formi til hlutafé í Bergi-Hugin sé augljóst að meginefni löggerningsins snúi að því að eignarhald umræddra fiskiskipa ásamt aflahlutdeildum færist á hendur útgerðar í öðru sveitarfélagi. Stefnandi telur því að rétt hefði verið samkvæmt ofangreindu lagaákvæði að bjóða stefnanda forkaupsrétt að þessum eignum. Stefnandi telur að ekki fái staðist að samningsaðilar geti með einhliða ráðstöfunum sín í milli vikið sér undan lögbundnum forkaupsrétti sveitarfélags. Aðilum sé ekki unnt að að sniðganga þennan rétt með því að færa sölu fiskiskips í búning hlutafjárkaupa líkt og hér hafi verið gert. Á stefndu hvíli sú skylda, einkum þegar fiskiskip eru seld með öðrum eignum hlutafélags, að aðgreina skipin sérstaklega og gera hlutaðeigandi sveitarfélagi kleift að taka afstöðu til þess hvort forkaupsréttar skuli neytt. Önnur niðurstaða myndi í reynd þýða að ákvæði laganna um forkaupsrétt væru með öllu marklaus, en slíkur skýringarkostur er, að mati stefnanda, ótækur. Stefnandi tekur fram í þessu samhengi að forkaupsréttur stefnanda hafi fyrst orðið virkur þegar stefndi Q44 ehf. framseldi alla hluti í Bergi-Hugin ehf. til stefnda Síldarvinnslunnar hf. en í því hafi falist að fiskiskipin voru framseld „til útgerðar sem heimilisfesti hefur í öðru sveitarfélagi“, sbr. 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006. Ráðstafanir með hluti í félaginu sem á undan fóru og vörðuðu meðal annars skuldauppgjör Magnúsar Kristinssonar við Landsbankann hafi aftur á móti ekki leitt til þess að skipin væru framseld til útgerðar utan sveitarfélagsins og hafi þær því ekki þýðingu með tilliti til forkaupsréttar stefnanda. Stefnandi bendir einnig á að þrátt fyrir að eignarhald félagsins hafi tímabundið flust yfir til Landsbankans og félaga í Reykjavík hafi félagið sjálft ætíð haft heimilisfesti í Vestmannaeyjum og útgerð skipanna farið fram þaðan. Verði ekki fallist á að ákvæði 12. gr. nefndra laga taki til umræddrar ráðstöfunar samkvæmt efni sínu, byggir stefnandi á því að sama niðurstaða verði reist á lögjöfnun frá ákvæðinu. Telur stefnandi að þau sjónarmið, sem búa að baki ákvæðinu og að framan er lýst, eigi fyllilega við um það tilvik sem hér um ræðir. Sömu sjónarmið hljóti að gilda um ráðstöfun fiskiskips til útgerðar í öðru sveitarfélagi hvort sem eigendaskipti verða að skipinu sjálfu eða þeim lögaðila sem á beinan eignarrétt yfir viðkomandi skipi, enda feli hvort tveggja í sér að yfirráð og eignarhald yfir fiskiskipi færist til útgerðar í öðru sveitarfélagi. Sú niðurstaða feli jafnframt í sér hallkvæma, eðlilega og sanngjarna réttarreglu sem fái auk þess skýra stoð í markmiðum laga nr. 116/2006. Að mati stefnanda myndi gagnstæð niðurstaða leiða til þess að forkaupsrétturinn yrði í raun markleysa. Stefnandi telur samkvæmt framansögðu að skilyrði lögjöfnunar séu fyrir hendi með tilliti til 3. mgr. 12. gr. laganna og beri því að líta svo á að bjóða hafi átt stefnanda forkaupsrétt við umrædda sölu í samræmi við það sem að framan greinir. Fyrst svo hafi ekki verið gert teljist salan ógild á grundvelli lögjöfnunar frá 5. mgr. sömu lagagreinar. Um lagarök fyrir kröfum sínum um forkaupsrétt og ógildingu vísar stefnandi til 2. og 3. mgr., sbr. 5. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006, eða eftir atvikum lögjöfnun frá þeim ákvæðum. Einnig er vísað til 1. gr. sömu laga. Um aðild stefndu er vísað til 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um varnarþing skírskotar stefnandi til 1. mgr. 33. gr., sbr. 1. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hvað málskostnað áhrærir vísar stefnandi til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Áður en skilið er við málatilbúnað stefnanda skal tekið fram að stefnandi hefur bæði fyrir og eftir höfðun málsins skorað á stefndu að leggja fram afrit kaupsamningsins milli Q44 og Síldarvinnslunnar, sem gerður var í ágúst 2012, um kaup á öllum hlutum í Bergi-Hugin, upplýsa um efni samningsins eða leggja fram önnur skjöl tengd sölunni. Áskorun þessa hefur stefnandi sett fram með vísan til X. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Við þessum áskorunum hafa stefndu ekki orðið. Í því ljósi byggir stefnandi á því að leggja beri til grundvallar staðhæfingar stefnanda um efni kaupsamningsins og önnur atriði í tengslum við sölu alls hlutafjár í Bergi-Hugin, sbr. 68. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. III. Málsástæður stefnda Síldarvinnslunnar hf. Sýknukrafa stefnda Síldarvinnslunnar hf. er aðallega byggð á aðildarskorti, þar sem stefnandi eigi engra lögvarðra hagsmuna að gæta í málinu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Vísar stefndi í þessu samhengi til þess að í 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða komi fram að forkaupsréttur eigi að vera boðinn „sveitarstjórn í sveitarfélagi seljanda“. Stefndi Q44 ehf., seljandi hlutanna í Bergi-Hugin ehf., sé félag með heimilisfesti í Reykjavík. Stefndi tiltekur að áður en allt eignarhald færðist á hendur Q44 ehf., hafi Landsbanki Íslands í Reykjavík átt stærstan hlut í félaginu, en aðrir hlutir hafi verið í eigu hlutafélaga sem öll séu skráð í Reykjavík. Eignarhald að hlutunum í Bergi-Hugin ehf. hafi því verið að færast frá Reykjavík til Neskaupstaðar. Hafi forkaupsréttur orðið virkur, hefði átt að bjóða hann Reykjavíkurborg. Af þessu leiði að sýkna beri stefnda vegna aðildarskorts stefnanda. Að þessu frágengnu byggir stefndi sýknukröfu sína á því að forkaupsréttur samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða hafi ekki orðið virkur í umrætt sinn. Hið ráðandi lögskýringarsjónarmið í íslenskum rétti sé að skýra beri ákvæði laganna samkvæmt orðanna hljóðan og að hlíta beri orðalagi ákvæðisins. Í ákvæði 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða komi skýrt fram að „[e]igi að selja fiskiskip, sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni, til útgerðar sem heimilisfesti hefur í öðru sveitarfélagi en seljandi á sveitastjórn í sveitarfélagi seljanda forkaupsrétt að skipinu‟. Í ákvæðinu sé einungis tekið fram að forkaupsréttur sé til staðar þegar selja eigi fiskiskip. Ákvæðið eigi ekki við um sölu á hlutafé í útgerðarfélagi eða sölu á aflaheimildum. Í þessu samhengi vísar stefndi til þess að forkaupsréttarákvæðið hafi fyrst gengið í gildi með lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða sem voru síðan endurútgefin með lögum nr. 116/2006. Í frumvarpi til laga, sem varð að lögum nr. 38/1990, hafi ekki verið tillaga að ákvæði um forkaupsrétt sveitarfélaga. Þar hafi verið ákvæði um tilkynningarskyldu, sbr. 11. gr. frumvarpsins. Í meðförum efri deildar þingsins hafi verið lögð fram breytingartillaga sem varðaði m.a forkaupsrétt. Í breytingartillögunni hafi þetta komið fram: „[l]agt er til að 11. gr. verði breytt þannig að sveitarstjórnum verði veittur forkaupsréttur við sölu fiskiskips úr byggðarlagi‟. Í flutningsræðu þáverandi sjávarútvegsráðherra megi finna sambærilega nálgun á forkaupsréttinum þ.e. slíkur réttur nái aðeins til sölu á skipum úr byggðarlagi. Löggjafinn hafi því einungis horft til þess að forkaupsrétturinn yrði virkur við sölu fiskiskips. Löggjafarvaldinu var hins vegar í lófa lagið að taka fram að forkaupsréttur laga um stjórn fiskveiða tæki einnig til sölu á útgerðarfélögum og aflaheimildum, en slíkt var ekki gert. Af hálfu stefnda er vísað til þess að tilgangur laga um stjórn fiskveiða hafi verið að auka hagkvæmni í fiskiskipaflotanum. Því hafi verið veittar víðtækar heimildir til að færa aflaheimildir milli skipa og auka þar með möguleika útgerða til að draga úr sóknarkostnaði við veiðar. Á sínum tíma hafi margir viljað bregðast við með því að hefta framsal aflaheimilda verulega og binda þær við tiltekin byggðarlög. Í flutningsræðu þáverandi sjávarútvegsráðherra fyrir neðri deild þingsins, sbr. 112. lþ. N.S fundur 352. mál, hafi komið fram að í slíkum tilvikum væri hætta á að þróun og framvinda væri stöðvuð og hagkvæmni aflamarkskerfisins að litlu gerð. Að mati stefnda einkennir þetta forkaupsréttarákvæðið, þ.e. það hafi aldrei verið ætlun löggjafans með umræddu ákvæði að hagkvæmni aflamarkskerfisins væri að engu gerð. Í því tilliti sé óhugsandi að ætlunin með ákvæðinu hafi verið að takmarka stofnun eða sölu hlutafélaga né viðskipti með hlutabréf eða hluti í einkahlutafélögum. Stefndi mótmælir því að bjóða hefði átt stefnanda forkaupsrétt að eignum Bergs-Hugins ehf. þ.e. skipunum ásamt aflahlutdeildum. Forkaupsréttarákvæði í lögum um stjórn fiskveiða hafi aldrei verið ætlað svo víðtækt gildi sem stefnandi heldur fram. Þannig hafi stefnandi aldrei átt forkaupsrétt að skipunum eða aflaheimildum félagsins. Í því samhengi bendir stefndi á að í 6. mgr. gr. 12. gr. laga um stjórn fiskveiða sé heimild til að framselja aflahlutdeild skips að hluta eða að öllu leyti. Í frumvarpi til laganna kemur fram að meginmarkmið ákvæðisins sé að gefa færi á sameiningu aflaheimilda til þess að fækka fiskiskipum. Þar af leiðandi sé óhugsandi að forkaupsréttarákvæðinu hafi verið ætlað að taka til aflaheimilda. Þessu til stuðnings vísar stefndi til frumvarps til laga um breytingu á lögum nr. 38/1990 sbr. 122. lþ. 222. mál – 191 þskj. Í athugasemdum við lagafrumvarpið er þess sérstaklega getið að forkaupsréttur nái ekki til aflahlutdeildarinnar. Því hafi tilgangur löggjafans alltaf verið sá að láta ákvæðið einungis ná til atvika þegar fiskiskip eru seld. Kaupsamningur á milli stefndu varði ekki sölu á fiskiskipum heldur hlutum í einkahlutafélagi sem hefur aðsetur í Vestmannaeyjum. Ekki séu uppi áætlanir um að flytja félagið á milli byggðarlaga og forkaupsréttarákvæðið í lögum um stjórn fiskveiða verði því ekki virkt nema stefndi, sem eigandi, að Bergi-Hugin ehf. ákveði að selja skip félagsins. Stefndi hafi keypt útgerðarfélag sem rekur m.a. tvö fiskiskip. Ekki sé unnt að fallast á það með stefnanda að ráðstöfun hlutafjárins hafi í reynd falið í sér sölu á tveim fiskiskipum. Vegna þess að löggerningurinn á milli stefndu var einungis um allt hlutafé í einkahlutafélaginu hafi forkaupsréttur laga um stjórn fiskveiða aldrei orðið virkur og því ekki ástæða til að bjóða stefnanda að neyta forkaupsréttar að fiskiskipum, aflaheimildum eða hlutafé í félaginu. Stefndi vísar til þess að á 122. löggjafarþingi. 189. mál – 191 þskj. Hafi verið lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða nr. 38/1990, með síðari breytingum. Í 4. gr. frumvarpsins var tillaga að breytingu á 11. gr. þágildandi fiskveiðistjórnunarlaga sem fjallaði um forkaupsrétt sveitarfélaga. Í breytingartillögunni fólst m.a. að styrkja forkaupsrétt sveitarfélaga í þá átt að ákvæðið næði einnig til aflahlutdeildar skipsins eða þorskaflamarks. Jafnframt var lagt til að bætti yrði við nýrri málsgrein, þess efnis að forkaupsrétturinn gæti náð á milli aðila innan sama sveitarfélags t.d. þegar kaupandi stofnar hlutafélag í sveitarfélagi seljanda og að lokinni sölu er félagið flutt til sveitarfélags kaupanda. Löggjafarvaldið hafi ekki samþykkt umrædda breytingartillögu sem bendir, að mati stefnda, til þess að ekki hafi verið vilji til að styrkja forkaupsréttarákvæðið svo það næði til aflahlutdeildar, þorskaflamarks, hlutafélaga og einkahlutafélaga. Að mati stefnda rennir þetta stoðum undir það að núverandi ákvæði nái einungis til þess þegar fiskiskip eru seld. Stefndi hafnar þeim skilningi stefnanda á forkaupsréttarákvæði 3. mgr. 12. gr. laga nr. 38/1990 að ákvæðið nái einnig til þess að sveitarfélag ætti forkaupsrétt að hlutum í félögum. Túlkun stefnanda leiði til þess að hlutir í útgerðarfyrirtækjum væru ekki tækir til skráningar í kauphöll sbr. 1. mgr. 22. gr. laga um kauphallir nr. 110/2007 og lífeyrissjóðum væri óheimilt að fjárfesta í hlutabréfunum, sbr. 3. mgr. 36. gr. laga nr. 129/1997. Öll ákvæði um forkaupsrétt þurfi að vera skýr og ótvíræð. Orðalag 12. gr. laga um stjórn fiskveiða er skýrt að mati stefnda. Í ákvæðinu kemur fram að forkaupsréttur verði virkur þegar fiskiskip eru seld og því takmarkist ákvæðið við fiskiskip. Auk þess eru forkaupsréttarákvæði íþyngjandi og setja hömlur á eignar- og ráðstöfunarrétt einstaklinga á eignum sínum. Af þessu leiðir, að mati stefnda, að túlka beri öll forkaupsréttarákvæði þröngt. Stefndi reisir varnir sínar einnig á því að samningsfrelsi sé ein af grundvallarreglum réttarskipunarinnar. Víða megi að vísu finna lagaákvæði sem þrengi samningsfrelsið en öll slík ákvæði eigi að túlka þröngt. Ljóst sé að 12. gr. laga um stjórn fiskveiða geti skert samningsfrelsið umtalsvert og því verði að skýra ákvæðið þröngt. Í 4. mgr. 12. gr. laga um stjórn fiskveiða sé kveðið á um að ef sveitarstjórn neytir forkaupsréttar skuli gefa útgerðaraðilum sem hafa heimilisfesti í sveitarfélaginu kost á að kaupa skipið. Umrætt ákvæði geri það að verkum að túlkun stefnanda á forkaupsrétti laga um stjórn fiskveiða gangi ekki upp. Í þessu samhengi vísast til þess að ef forkaupsréttur hefur verið virkur hefði stefnandi þurft að gefa útgerðaraðilum í Vestmannaeyjum kost á að kaupa skipin ásamt aflaheimildum eða hlutafénu sem selt var, þ.e. miðað við túlkun stefnanda. Hins vegar sé Bergur-Huginn ehf. með heimilisfesti í Vestmannaeyjum sem geri það að verkum að stefnandi hefði þurft að bjóða því félagi að kaupa skipin eða hlutafé í sjálfum sér. Samkvæmt þessu sé óhugsandi að túlka ákvæði laga um stjórn fiskveiða svo rúmt að forkaupsrétturinn taki til hlutafjárins í Bergi-Hugin ehf. eða að stefndi hefði átt að aðgreina skipin ásamt aflaheimildum. Því geti krafa stefnanda um að ógilda samninginn ekki náð fram að ganga. Stefndi mótmælir þeirri málsástæðu stefnanda að stefnda hafi borið að aðgreina skipin sérstaklega. Að mati stefnda er slík túlkun afar framsækin og jafngildi banni við sölu á sjávarútvegsfyrirtækjum. Stefndi telur, að þrátt fyrir að forkaupsréttur laga um stjórn fiskveiða hafi ekki verið virkur í umræddu tilviki hafi sveitarfélög, þ. á m stefnandi, nýtt sér þennan rétt þegar fiskiskip eru seld. Hins vegar sé ákvæðið gagnslítið enda nái það einungis til skipsins. Í þessu samhengi hafi starfshópur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins komist að þeirri niðurstöðu að vegna skilyrðis um að forkaupsrétturinn nái aðeins til skipsins sé ákvæðið í 12. gr. laga um stjórn fiskveiða gagnslaust eins og það standi og megi að ósekju falla niður. Að mati stefnda staðfestir þetta enn frekar það að forkaupsréttarákvæði laga um stjórn fiskveiða nái einungis til fiskiskipa og því geti vart komið til greina að taka kröfu stefnanda til greina. Samkvæmt ofangreindu telur stefndi að forkaupsréttur laga um stjórn fiskveiða hafi aldrei orðið virkur og því sé ótækt að ógilda löggerninginn, sem var gerður á milli stefndu. Telji dómurinn að forkaupsréttur hafi verið virkur ítrekar stefndi að Q44 ehf., sem er seljandi hlutanna í Bergi-Hugin ehf., sé félag með heimilisfesti í Reykjavík. Af því leiði að stefndi hafi aldrei átt að bjóða stefnanda forkaupsrétt að hlutum í Bergi-Hugin ehf. Að mati stefnda er áðurnefnt forkaupsréttarákvæði skýrt og ótvírætt. Telur stefndi það andstætt eðlilegri lagaframkvæmd að beita lögjöfnun frá ákvæði 3. mgr. 12. gr. laga um stjórn fiskveiða, svo forkaupsréttur nái einnig til einkahlutafélaga eða aflaheimilda. Eðlilegt sé að skýra ákvæðin samkvæmt orðanna hljóðan og gagnálykta frá 3. mgr. 12. gr. laga um stjórn fiskveiða, að forkaupsréttur nái eigi til annarra atvika svo sem þegar einkahlutafélög eru seld eða aflaheimildir eru seldar. Í þessu samhengi ítrekar stefndi að ákvæði sem taka á forkaupsrétti eiga að vera túlkuð þröngt. IV. Málsástæður stefnda Q44 ehf. Af hálfu stefnda Q44 ehf. er því mótmælt að forkaupsréttur samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga 116/2006 um stjórn fiskveiða vegna sölu stefnda Q44 á hlutum í Bergi-Hugin ehf. hafi getað legið hjá stefnanda þar sem umrætt lagaákvæði tiltaki skýrlega að það sé „sveitarstjórn í sveitarfélagi seljanda“ sem njóta skuli forkaupsréttar. Seljandi í tilvitnuðum viðskiptum sé Q44 ehf. sem heimilisfesti á í Reykjavík.  Meirihluti eignarhluta í Bergi-Hugin ehf. hafi áður verið í eigu félaga í Reykjavík um árabil. Samkvæmt þessu telur stefndi að „sveitarfélag seljanda“ samkvæmt fyrrgreindu ákvæði væri Reykjavíkurborg en ekki stefnandi, Vestmannaeyjabær. Samkvæmt þessu telur stefndi að tilvitnað lagaákvæði geti ekki markað grundvöll málareksturs þessa af hálfu stefnanda. Því beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga 91/1991. Fallist dómurinn ekki á að sýkna beri sökum aðildarskorts hafnar stefndi því, að fram hafi komið lögmælt skilyrði forkaupsréttar stefnanda. Kaupsamningur stefndu hafi snúist um hluti í Bergi-Hugin ehf. og stefndu hafi því verið óskylt að bjóða stefnanda forkaupsrétt að þeim hlutum eða eignum þess félags. Því séu engin skilyrði fyrir því að ógilda kaupsamning stefndu um alla hluti í umræddu félagi, sbr. 5. mgr. 12. gr. laga 116/2006. Stefndi byggir á því, að ákvæði 3. mgr. 12. gr. laga 116/2006 lúti, samkvæmt skýru orðalagi, eingöngu að viðskiptum með fiskiskip: „ Eigi að selja fiskiskip, sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni, til útgerðar sem heimilisfesti hefur í öðru sveitarfélagi en seljandi á sveitastjórn í sveitarfélagi seljanda forkaupsrétt að skipinu.‟   Forkaupsréttur samkvæmt ákvæðinu sé þannig bundinn við „fiskiskip“ og ekkert annað. Andlag kaupa stefndu sé ekki fiskiskip heldur hlutir í félagi í fullum rekstri. Þegar af þeirri ástæðu geti stefnandi ekki átt hér lögbundinn forkaupsrétt, sem gæfi honum færi á að ganga inn í samning stefndu og taka þar stöðu kaupanda.                   Stefndi mótmælir því að hafa fært sölu fiskiskips í búning hlutafjárkaupa og að sala hlutafjár í umrætt sinn hafi verið til málamynda í því skyni að komast undan ákvæðum laga um forkaupsrétt á sölu skipa. Þá mótmælir stefndi þeirri staðhæfingu stefnanda um meginefni kaupsamnings stefnu að hann  snúi  „að því að eignarhald  umræddra  fiskiskipa ásamt aflahlutdeildum færist á hendur útgerðar í öðru sveitarfélagi“. Þetta telur stefndi vera rakalaust, því salan snúist um hluti í félagi, sem auk áðurnefndra tveggja fiskiskipa á aflaheimildir, fasteignir, ökutæki, búnað af ýmsum toga og annað það sem þarf til að reka félag með á fjórða tug starfsmanna. Stefndi bendir í þessu sambandi á að samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2011 hafi bókfært verðmæti þeirra tveggja fiskiskipa sem félagið átti við sölu hlutafjárins í ágúst 2012 verið 1.491 milljón króna sem svarað hafi til þriðjungs af heildareignum félagsins. Sú málsástæða stefnanda að félagið sé umbúnaður um áðurnefnd fiskiskip sé því röng.  Stefndi hafnar því, að ákvæði 3. mgr. 12. gr. laga 116/2006 verði túlkað á þann veg, að því sé ætlað að hamla gegn breytingum á eignarhaldi útgerðarfélaga. Ekkert í umfjöllun málsins á Alþingi gefi tilefni til að álykta sem svo, að ákvæðinu hafi verið ætlað að reisa skorður við því hverjir gætu eignast hluti í útgerðarfélögum. Af fátæklegri umfjöllun um tilgang lögfestingar umrædds ákvæðis verði helst ráðið að marmiðið hafi verið að gefa bæjarfélögum færi á því að ganga inn í kaup á fiskiskipum við þær aðstæður að útgerðarfélag í öðru bæjarfélagi vildi kaupa fiskiskip til að flytja útgerð þess til annars bæjarfélags. Kaup Síldarvinnslunnar hf. á hlutafé Bergs-Hugins ehf. feli ekki í sér ákvörðun um flutning á starfsemi félagsins frá Vestmannaeyjum né heldur um sölu skipa félagsins. Segir stefndi að skipin séu eftir sem áður eign Bergs Hugins ehf. sem heimilisfesti hefur í Vestmannaeyjum. Af þessu leiði að ekki hafi komið fram það skilyrði fyrir beitingu heimildar áðurnefnds ákvæðis 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 að fiskiskip hafi verið selt til útgerðarfélags í öðru bæjarfélagi. Stefndi mótmælir því að forkaupréttarákvæði 3. mgr. 12. gr. laga 116/2006 verði skýrt rýmkandi lögskýringu, þannig að gildissvið forkaupsréttar verði víkkað umfram það sem ákvæðið beinlínis tiltekur. Ekkert í tiltækum lögskýringargögnum færi rök að slíkri túlkun. Telur stefndi að nærtækara væri að gagnálykta frá skýrum texta ákvæðisins þannig að ákvæðið taki ekki til annarra skipa en „fiskiskipa“ og þó aðeins þeirra sem leyfi hafi til veiða í atvinnuskyni. Forkaupsréttar verði því ekki krafist með stoð í ákvæðinu við sölu annarra skipa. Stefndi vísar einnig til þess að í 6. mgr. sömu lagagreinar séu fortakslaus ákvæði um heimild útgerðar til að selja og framselja að hluta eða öllu leyti aflaheimildir útgerðar án þess að forkaupsréttur vakni við það. Slíkt hefði þó verið nærtækt ef ætlan löggjafans hefði verið sú að torvelda hagræðingu í útgerð eða breytingu á eignarhaldi útgerðarfélaga. Samhengi fortakslausrar reglu nefndrar 6. mgr. um ráðstöfunarrétt veiðiheimilda og skýr afmörkun andlags forkaupsréttar samkvæmt 3. mgr. 12. gr. greindra laga styðji þá lögskýringu, að forkaupsrétti verði ekki beitt um neitt annað en sölu þeirra fiskiskipa, sem greinin tiltekur og það aðeins við þar tilgreindar aðstæður. Sú málsástæða stefnanda að umræddu ákvæði verði beitt um sölu á eignarhlutum í félagi á sér því enga stoð að mati stefnda. Stefndi hafnar því, að lögjöfnun sé tæk út frá þröngri undantekningu 3. mgr. 12. gr. frá óskráðum meginreglum laga um frjálsan ráðstöfunarrétt manna á eignum sínum og samningafrelsi almennt.  Stefndi byggir enn fremur á því, að svo víðtæk takmörkun á eignarrétti eigenda hluta í sjávarútvegsfyrirtækum, sem leiða myndi af skilningi stefnanda á umræddu forkaupsréttarákvæði 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 hefði krafist mikillar umfjöllunar löggjafans. Ef skilningur stefnanda á ákvæðinu ætti við rök að styðjast, þ.e. að sveitarfélag ætti forkaupsrétt að hlutum í félögum, sem eiga fiskiskip, telur stefndi að hlutir í sjávarútvegsfyrirtækjum séu ekki tækir til skráningar í kauphöll, sbr. 1. mgr. 22. gr. laga um kauphallir nr. 110/2007. Þá væri lífeyrissjóðum óheimilt að fjárfesta í slíkum hlutabréfum, sbr. 3. mgr. 36. gr.  laga 129/1997. Stefndi telur það hafið yfir vafa, að hefði Alþingi ætlað að setja í lög ákvæði sem tálmuðu starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja eða möguleikum þeirra til að afla sér áhættufjár með þeim hætti sem að framan er lýst, þá hefði þurft að kveða mjög skýrt á um það í löggjöfinni. Að mati stefnda rýrði slík lagasetning eignarréttindi þeirra sem hluti eiga í útgerðarfélögum og myndi varða ríkið bótaskyldu samkvæmt 72. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944. Ákvæði 3. mgr. 12. gr. laga 116/2006 færir því, að mati stefnda, engum forkaupsrétt að hlutum við sölu hlutafélaga eða einkahlutafélaga sem stunda útgerð. Stefndi hafnar þeim málsástæðum stefnanda að á honum hafi hvílt skylda „til að aðgreina skipin sérstaklega og gera hlutaðeigandi sveitarfélagi kleift að taka afstöðu til þess hvor forkaupsréttar skuli neytt“. Stefndi telur að þessi málsástæða stefnanda eigi sér enga lagastoð, þar sem hún fæli það í sér að útgerðarfélög yrðu ekki seld sem félög í rekstri heldur sem safn rekstrarfjármuna, þar sem þau verðmæti sem felast í blómlegum rekstri, skipulagi, fjárhagsskipan, skattskuldbindingum o.s.frv. yrðu að engu gerð. Stefndi telur það svo alþekkt að ekki þurfi sönnunar við, að verðmæti félags í rekstri er meira og oftast miklu meira en hrakvirði eigna þess, fasteigna, lausafjár og annarra fjárhagsréttinda. Sú málsástæða stefnanda, að stefnda hafi borið að sérgreina hlut fiskiskipanna í kaupum meðstefnda á öllum hlutum í Bergi-Hugin ehf., og bjóða honum að ganga inn í þann hluta kaupanna, jafngildir að áliti stefnda banni við sölu útgerðarfélags í rekstri. Leiðir stefndi þessa ályktun sína af því að almennt sé það forsenda fyrir kaupum félags í rekstri, að félagið haldi framleiðslutækjum sínum og rekstri óbreyttum án þess að þriðji aðili geti gengið inn í kaupin og hirt þar út mikilvægar eignir að geðþótta. Slíkir viðskiptatálmar verði ekki leiddir af ákvæðum gildandi laga enda færi það í bága við eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.  Stefndi bendir á að sveitarstjórn sem kysi að hagnýta sér forkaupsrétt að fiskiskipi samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 beri samkvæmt 4. mgr. 12. gr. sömu laga að bjóða viðkomandi skip falt til útgerðaraðila með heimilisfesti í sveitarfélaginu. Bergur-Huginn ehf. ætti því, samkvæmt kröfum stefnanda, í senn að vera þolandi forkaupsréttarins að fiskiskipum félagins og rétthafi til að bjóða í skipin aftur í sveitarfélaginu, því þar sé heimilisfesti félagsins. Telur stefndi þetta sýna að málatilbúnaður stefnanda sé fráleitur og ólögmætur. Stefndi andmælir því, að á honum hafi hvílt skylda til að bjóða stefnanda til kaups aflaheimildir Bergs-Hugins ehf. ásamt með fiskiskipum félagins. Staðhæfing stefnanda hér um eigi sér enga lagastoð, enda sé skýrt af 6. mgr. 12. gr. laga 116/2006 að engar skorður eru settar við framsali aflaheimilda, utan það að ekki verði framseld á skip aflahlutdeild sem er bersýnilega umfram veiðigetu þess. Bergur-Huginn ehf. hafi keypt miklar aflaheimildir á liðnum árum án afskipta sveitarfélaga. Félaginu sé með sama hætti heimilt að selja frá sér aflaheimildir án þess að bæjarfélagið öðlist við það forkaupsrétt. Forkaupréttur þess takmarkist við fiskiskipið og þá þær aflaheimildir sem seljandinn kýs að láta fylgja skipinu. Ákvæði 3. mgr. nefnds ákvæðis nái því ekki til aflaheimilda almennt eins og ætla mætti af framsetningu á málsástæðum stefnanda. Forkaupsréttur sveitarfélags samkvæmt nefndri grein verði hvorki með rýmkandi lögskýringu né lögjöfnun talinn ná til annarra aflaheimilda. Næði ógildingarkrafa stefnanda fram að ganga öðlaðist stefnandi því engan forkaupsrétt að aflaheimildum. V. Lagarök stefndu Um lagarök vísa stefndu til ákvæða 2. mgr. til 6. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Einnig er vísað til 1. mgr. 22. gr. laga um kauphallir nr. 110/2007, 3. mgr. 36. gr. laga um starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997. Um aðildarskort stefnanda er vísað til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málskostnaðarkröfur stefndu eru reistar á tilvísun til 129., sbr. 130., gr. laga nr. 91/1991. Vörnum sínum til frekari stuðnings skírskotar stefndi jafnframt til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, auk meginreglna samninga- og eignaréttar. VI. Niðurstaða Eins og málið hefur verið lagt fyrir héraðsdóm snýst ágreiningur aðila fyrst og síðast um ákvæði 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða, nánar tiltekið hvort ákvæðið nái til þeirra atvika sem hér liggja til grundvallar og þá hvernig skýra beri orðalag ákvæðisins, sem er svo hljóðandi: Eigi að selja fiskiskip, sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni, til útgerðar sem heimilisfesti hefur í öðru sveitarfélagi en seljandi á sveitarstjórn í sveitarfélagi seljanda forkaupsrétt að skipinu. Forkaupsréttur skal boðinn skriflega þeirri sveitarstjórn sem hlut á að máli og söluverð og aðrir skilmálar tilgreindir á tæmandi hátt. Sveitarstjórn skal svara forkaupsréttartilboði skriflega innan fjögurra vikna frá því henni berst tilboð og fellur forkaupsréttur niður í það sinn sé tilboði ekki svarað innan þess frests. Auk þessa varðar deila málsaðila ákvæði 4. mgr. og 5. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006, sem hljóða svo: Neyti sveitarstjórn forkaupsréttar skv. 3. mgr. þessarar greinar skal hún þegar gefa útgerðaraðilum, sem heimilisfesti eiga í sveitarfélaginu, kost á að kaupa skipið og skal opinberlega leita tilboða í það. Sé skipi ráðstafað andstætt ákvæðum þessarar greinar um forkaupsrétt getur forkaupsréttarhafi krafist þess að salan verði ógild enda sé málsókn hafin innan sex mánaða frá því að hann fékk vitneskju um söluna. Forkaupsréttur gildir ekki sé skip selt á opinberu uppboði. Ákvæði þessarar greinar um forkaupsrétt gilda ekki við sölu opinna báta. Áður en tekið er til við að leysa úr nokkru öðru er varðar efni málsins þarf að taka afstöðu til þeirrar viðbáru stefndu að stefnandi geti ekki átt aðild að máli um kaupsamning þann sem hér um ræðir og gerður var 28. ágúst 2012. Samningur þessi hefur ekki verið lagður fram af hálfu stefndu, þrátt fyrir áðurgreindar áskoranir stefnanda þar um. Út frá því sem fram hefur komið um efni samningsins má þó leggja til grundvallar, að þar hafi allir hlutir í einkahlutafélaginu Bergi-Hugin verið framseldir stefnda Síldarvinnslunni hf. Spurningin um aðild stefnanda snýst um það hvort líta beri svo á að verðmætin sem hér um ræðir hafi verið seld frá Reykjavík, þar sem stefndi einkahlutafélagið Q44 hefur verið skráð, eða frá Vestmannaeyjum, þar sem einkahlutafélagið Bergur-Huginn hefur heimilisfesti. Stefndi Síldarvinnslan hf. hefur lýst aðdraganda kaupanna með þeim hætti að Magnús Kristinsson og félag hans, stefndi Q44 ehf., hafi átt „samningsbundinn kauprétt“ að þeim 45 % hlut í Bergi-Hugin ehf. sem Landsbanki Íslands eignaðist í síðastnefnda félaginu árið 2009. Af hálfu stefnda Síldarvinnslunnar hf. hefur því enn fremur verið lýst að Magnús Kristinsson hafi selt alla hluti í Q44 ehf., í árslok 2011, félagi í eigu barna hans, Fjárfestingarfélaginu Bliki ehf., kt. 440907-0240. Þá er fram komið af hálfu stefnda Q44 ehf. að það félag hafi í upphafi árs 2012 (nánar mun hér vera vísað til 6. janúar 2012), keypt alla hluti Magnúsar, alls 40,89 %, í Bergi-Hugin ehf. Fyrir liggur einnig að Birkir Kristinsson, bróðir Magnúsar, átti 14,11 % hlut í síðastnefnda félaginu og fór félag Birkis, Cappa ehf., kt. 680409-0480, með það eignarhald á seinni árum. Af hálfu stefnda Q44 ehf. hefur komið fram að það félag hafi síðar á árinu 2012 keypt alla hluti Cappa ehf. í Bergi-Hugin ehf. Þá hefur því verið lýst svo af hálfu Q44 ehf. að félagið hafi loks gert samning „um hagnýtingu kaupréttar sem félagið átti gagnvart Landsbanka Íslands um 45% eignarhlut Landsbanka Íslands hf. í félaginu“. Eftir gerð samninga þessara á stefndi Q44 ehf. að hafa farið með alla eignarhluti í Bergi-Hugin ehf. Með kaupsamningi 28. ágúst 2012 framseldi stefndi Q44 ehf. alla þá hluti til stefnda Síldarvinnslunnar hf. og hefur Q44 ehf. lýst því svo í greinargerð til héraðsdóms að helstu eignir Bergs-Hugins hafi verið tveir togarar, Bergey VE 544 og Vestmannaey VE 444 ásamt fiskveiðiheimildum og öllum fylgibúnaði. Enn fremur eigi félagið fasteignir á Geirseyri og við Básaskersbryggju í Vestmannaeyjum. Fyrir liggur að Bergur-Huginn ehf. hefur um langt árabil stundað skipaútgerð frá Vestmannaeyjum. Meðal þeirra skjala sem lögð hafa verið fram undir rekstri málsins eru ársreikningar þessa félags fyrir árin 2010-2011. Þar má meðal annars lesa, í skýrslum félagsstjórnar, að lögmaður sá sem flutt hefur mál stefnda Q44 ehf. hér fyrir dómi hafi setið í stjórn Bergs-Hugins ehf. og að meginstarfsemi félagsins hafi verið útgerð þriggja togskipa; Smáeyjar VE 144, Vestmannaeyjar VE 444 og Bergeyjar VE 544. Það vekur hins vegar athygli dómsins að samkvæmt framlagðri útprentun úr hlutafélagaskrá fyrir Q44 ehf. er tilgangur þess félags ekki útgerð fiskiskipa, heldur „verðbréfaviðskipti, kaup, sala og umsýsla fasteigna svo og lánastarfsemi og skyldur rekstur“. Áður en lengra er haldið þykir dómara rétt að tiltaka að í áðurnefndri fréttatilkynningu 30. ágúst 2012 lýsti stefndi Síldarvinnslan hf. kaupsamningnum sem gerður var 28. ágúst 2012 meðal annars með þeim orðum að seljandi væri „hlutafélag í eigu Magnúsar Kristinssonar útgerðarmanns og fjölskyldu“. Af þessu verður að álykta, að af hálfu stefndu sjálfra hafi ekki ætíð verið dregin skýr mörk milli Magnúsar Kristinssonar, Bergs-Hugins ehf. og Q44 ehf. Í því sem hér fer á eftir hefur ekki verið litið fram hjá samningum fyrirsvarsmanna Bergs-Hugins ehf. við Landsbankann á sínum tíma. Með vísan til þess hvernig stefndu hafa sjálfir lýst þessum þætti málsins má leggja til grundvallar að eigendur Bergs-Hugins hafi átt samningsbundinn rétt á að kaupa umrædda hluti í einkahlutafélaginu til baka. Þegar litið er heildstætt yfir þau atvik og málsástæður sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan er engin ályktun nærtækari en sú að menn sem hér eiga hagsmuna að gæta hafi sjálfir átt mestan þátt í því að binda þá hnúta sem nú er komið til kasta héraðsdóms að leysa. Kemur þá til skoðunar hversu þröngt sjónarhorn skuli viðhaft við slíka úrlausn. Eins og hér háttar til þykir dómara ekki unnt að beita þeirri aðferðarfræði að velja eitt tiltekið tímamark og miða dómsúrlausn einungis við atburði eða löggerninga sem þá komu fram. Í því sem hér fer á eftir verður þess í stað leitast við að leysa úr málinu með því að horfa til heildarsamhengis og leita yfirsýnar. Með þetta í huga telur dómari ekki unnt að slíta kaupsamninginn 28. ágúst 2012 út úr heildarsamhengi málsatvika og horfa einungis á þann löggerning við úrlausn málsins. Með kaupsamningnum 28. ágúst 2012 var, samkvæmt lýsingu stefnda Síldarvinnslunnar hf., andlag kaupanna „allt hlutafé í einkahlutafélaginu Bergur-Huginn“. Tilvitnuð ákvæði 12. gr. laga nr. 116/2007 eiga við um framsal fiskiskipa til útgerðar sem heimilisfesti hefur í öðru sveitarfélagi. Ekki verður talið að stefndu hafi verið komnir út fyrir gildissvið þessara ákvæða á kaupsamningsdegi í ágústlok 2012, því jafnvel þótt hlutafé í Bergi-Hugin ehf. kunni að hafa verið framselt til Q44 ehf. liggur að mati dómsins ekkert fyrir sem réttlætt gæti að síðastnefnt félag verði flokkað sem „útgerð“ í skilningi nefnds lagaákvæðis. Stefndu hafa sjálfir um það rætt undir rekstri málsins að skipin séu áfram gerð út frá Vestmannaeyjum og í greinargerð stefnda Q44 ehf. kemur m.a. fram að kaup stefnda Síldarvinnslunnar hf. á hlutafé Bergs-Hugins ehf. feli ekki sér sér „ákvörðun um flutning á starfsemi félagsins frá Vestmannaeyjum né heldur sölu skipa félagsins. Skipin eru eftir sem áður eign [Bergs-Hugins ehf.] sem heimilisfesti hefur í Vestmannaeyjum.“ Af hálfu stefndu er þessu teflt fram til að rökstyðja að ekkert fiskiskip hafi verið selt útgerðarfélagi í öðru sveitarfélagi og því séu ekki skilyrði fyrir beitingu heimildar 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006. Stefndi Q44 ehf. hefur nánar orðað þetta þannig í greinargerð að „andlag kaupa stefndu [sé] ekki fiskiskip heldur hlutir í félagi í fullum rekstri“. Hér er að mati héraðsdóms á ferð rökvilla þar sem gefið er til kynna að hið meira feli ekki í sér hið minna. Er aðilum ekki hald í slíkri viðbáru. Með hliðsjón af því sem að framan hefur verið reifað, forsögu málsins og náinna eignatengsla, þykir örðugt að líta á Q44 ehf. sem hvern annan óháðan seljanda verðmæta eða sem sjálfstæða útgerð í skilningi þeirra ákvæða sem hér um ræðir. Verður samkvæmt þessu ekki talið að téð verðmæti hafi, áður en stefndi Síldarvinnslan ehf. kom til skjalanna í ágústlok 2012, verið framseld til útgerðar í öðru sveitarfélagi en Vestmannaeyjum. Verður því ekki fallist á það með stefndu að sýkna beri stefndu af þeirri ástæðu að um aðildarskort stefnanda sé að ræða, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kemur þessu næst til skoðunar hvort atvikum hafi að öðru leyti verið þannig háttað að ákvæði 12. gr. laga nr. 116/2006 um forkaupsrétt eigi hér ekki við.   Hið tilvitnaða ákvæði 3. mgr.12. gr. laga nr. 116/2006 gekk upphaflega í gildi með lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, sem síðar voru endurútgefin sem núgildandi lög nr. 116/2006 um sama efni. Í 11. gr. frumvarps til fyrrnefndu laganna var í upphafi aðeins gert ráð fyrir að seljanda fiskiskips yrði skylt að birta tilkynningu um fyrirhugaða sölu skips í Lögbirtingablaði og gefa út sérstaka tilkynningu, meðal annars til sveitarstjórnar á útgerðarstað skips. Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð er tilgangi ákvæðisins lýst þannig að „næsta víst [sé] að tilkynningarskyldan muni verða nokkur hemill á sölu skipa milli byggðarlaga og þar með koma til móts við sjónarmið um aukin tengsl skipa við byggðarlög án þess að kostum markaðshagkerfis sé fórnað á altari miðstýringar“. Undir meðferð málsins á Alþingi var ákvæði þessu breytt á þann veg að í stað tilkynningarskyldu var mælt fyrir um að sveitarfélög skyldu njóta forkaupsréttar að fiskiskipi sem selt væri úr viðkomandi byggðarlagi, ásamt því að tveimur nýjum málsgreinum var aukið við greinina. Í nefndaráliti, sem breytingin á rætur að rekja til, segir að með því fyrirkomulagi sé „betur tryggt að heimaaðilum gefist svigrúm til að ganga inn í kaup“. Ákvæðin þannig breytt urðu að 3.-5. mgr. 11. gr. laga nr. 38/1990, sem samhljóða eru núgildandi 3.-5. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Með vísan til þess sem áður hefur verið reifað um tilgang 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 verður ekki annað séð en að nefndu lagaákvæði hafi verið ætlað að þjóna lögmætu markmiði. Eins ráða má af framangreindu telur dómurinn að fallast megi á það með stefnanda að mikilvægt sé að þau markmið löggjafans sem hér um ræðir verði ekki auðveldlega fyrir borð borin. Gera verður ráð fyrir því að ef kaupsamningur sá sem styr stendur hér um fær að standa óhaggaður geti stefndi Síldarvinnslan hf. hvenær sem er, sem eigandi allra hluta í Bergi-Hugin ehf. flutt útgerð viðkomandi skipa annað, t.d. í nafni hagræðingar. Í ljósi þeirra hagsmuna sem ákvæðum 12. gr. laga nr. 116/2006 var ætlað að vernda verður samkvæmt þessu ekki fallist á það með stefndu að forkaupsréttarákvæðin feli í sér ólögmætar viðskiptatálmanir. Stefndu hafa mótmælt því að samningurinn sem til umræðu er í máli þessu hafi miðað að því að sniðganga lögbundinn forkaupsrétt stefnanda samkvæmt nefndum ákvæðum laga nr. 116/2006. Meðan upplýsingar skortir um þau samningsákvæði sem hér um ræðir er erfiðleikum bundið fyrir dómstólinn að taka af skarið í þessum efnum. Frammi fyrir þeim vandkvæðum er til þess að líta að þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir stefnanda um framlagningu téðs samnings hafa stefndu neitað að leggja fram afrit hans. Af þessum staðreyndum og almennum sönnunarreglum leiðir að virða verður vafa um efni samningsins stefnanda í vil. Út frá þeim hagsmunum sem við almenna lögstjórn eru bundnir, þ.m.t. sjónarmið um fyrirsjáanleika og tiltrú almennings á lögum og rétti, ber dómstólum auk þess að gjalda varhug við því að ljá þeirri háttsemi stuðning sem með sérsniðnum viðskiptagerningum miðar að því að sniðganga ákvæði settra laga, sértækum hagsmunum til framdráttar en gegn til dæmis þeim almennu markmiðum sem liggja viðeigandi lagaákvæðum til grundvallar. Hið sama gildir um ágreining málsaðila sem lýtur að því sem áður hefur verið nefnt, þ.e. hvort félagið sem selt var hafi einungis verið umbúnaður um fiskiskipin sem um ræddi og hvort meginefni hans hafi verið að færa eignarhald skipanna ásamt aflahlutdeild í hendur útgerðar í öðru sveitarfélagi. Ekkert af því sem fram hefur komið undir rekstri málsins eyðir, að mati réttarins, vafa um það hvort yfirfærsla eignarhluta í Bergi-Hugin ehf. til Q44 ehf. hafi miðað gagngert að því að gera títtnefnt forkaupsréttarákvæði laga nr. 116/2006 óvirkt gagnvart stefnanda. Meðan umræddur kaupsamningur hefur ekki verið lagður fram þykir, samkvæmt framanskráðu, verða að virða vafa í þessum efnum stefnanda í hag. Við þetta mat hefur dómurinn haft hliðsjón af þeim hagsmunum sem ákvæðum 3. mgr.–5. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 var ætlað að vernda. Með vísan til þess sem áður greinir um markmið löggjafans með umræddu ákvæði verður ekki fullyrt að þar séu ólögmæt eða ómálefnaleg sjónarmið á ferðinni. Þvert á móti hefur dómstóllinn skilning á þeim markmiðum sem þar var stefnt að. Af ofangreindum ákvæðum leiðir að þegar fiskiskip eru seld með öðrum eignum hlutafélags ber að aðgreina skipin sérstaklega og gera hlutaðeigandi sveitarfélagi kleift að taka afstöðu til þess hvort forkaupsréttar skuli neytt. Þar sem þetta var ekki gert verður að telja, samkvæmt öllu framanrituðu, að forkaupsréttur stefnanda hafi fyrst orðið virkur þegar stefndi Q44 ehf. framseldi alla hluti í Bergi-Hugin ehf. til stefnda Síldarvinnslunnar hf. Samræmist þetta því sem áður hefur verið gerð grein fyrir, þ.e. að rétt þyki að hafa heildarsamhengi þeirra löggerninga sem mál þetta er sprottið af fyrir augum við úrlausn málsins og að kaup á öllum hlutum í félagi hljóti að fela í sér að allar eignir félagsins fylgi með í þeim kaupum. Undir rekstri málsins hafa stefndu staðhæft að „afkáralegt“ og „óhugsandi“ hafi verið að bjóða Vestmannaeyjabæ forkaupsréttinn þar sem þá hefði þurft að gefa Bergi-Hugin ehf. kost á að „kaupa skipin sem þeir eiga eða hlutafé í sjálfum sér“. Þessu ber að hafna. Vestmannaeyjar hafa frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar verið ein helsta verstöð landsins. Þrátt fyrir þá samþjöppun sem orðin er hérlendis á sviði útgerðar – og mál þetta ber að nokkru leyti vitni um – er fákeppnin ekki orðin slík að unnt sé að bera á borð við málflutning fyrir dómstólum landsins að vart sé nokkrum öðrum útgerðaraðilum til að dreifa í Vestmannaeyjabæ sem keypt gætu skipin. Samkvæmt öllu framanskráðu ber að taka til greina kröfu stefnanda um ógildingu samnings um kaup stefnda Síldarvinnslunnar hf. á öllum eignarhlutum í Bergi-Hugin ehf. af stefnda Q44 ehf., sbr. ákvæði 5. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006, enda var málið höfðað innan þess sex mánaða tímafrests sem mælt er fyrir um í því lagaákvæði. Eftir þessum úrslitum verður stefndu sameiginlega gert að greiða stefnanda málskostnað sem, með hliðsjón af umfangi málsins, telst hæfilega metinn 3.000.000 kr. Arnar Þór Jónsson, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan. DÓMSORÐ: Ógiltur er samningur um kaup stefnda, Síldarvinnslunnar hf., á öllum eignarhlutum í Bergi-Hugin ehf. af stefnda, Q44 ehf., dagsettur í ágúst 2012.
Mál nr. 327/2015
Kærumál Dánarbú Opinber skipti Kaupmáli Erfðaskrá
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A um að dánarbú föður hans, C, sem lést í september 2014, yrði tekið til opinberra skipta. C og B, sem sat í óskiptu búi eftir hann, höfðu í febrúar 2013 gert með sér kaupmála þar sem nánar tilgreindar eignir þeirra voru gerðar að séreignum hvors um sig. Í ágúst sama ár höfðu þau hins vegar ritað undir skjal þar sem fram kom að fyrrgreindur kaupmáli væri ógildur og að enginn arfur yrði greiddur út fyrr en að þeim báðum látnum. Þá rituðu þau undir erfðaskrá í september 2013 þar sem fram kom að eftir fráfall beggja skyldu eignir þeirra skiptast jafnt milli fimm barna þeirra, A, D, E, F og G. Krafa A um dánarbúið yrði tekið til opinberra skipta var á því reist að afturköllun B og C á fyrrgreindum kaupmála hefði verið haldin tilteknum form- og efnisgöllum og því hefði B ranglega verið veitt leyfi til setu í óskiptu búi. Í dómi Hæstaréttar kom fram að vottar á skjalinu, sem B og C höfðu ritað undir í ágúst 2013 og ætlað var að ógilda umræddan kaupmála, hefðu verið börn þeirra, D og E, sem hefðu hagsmuna að gæta og gætu því ekki verið staðfestingarhæf í skilningi réttarfarslaga. Afturköllun kaupmálans væri því ógild og bæri samkvæmt því að leggja hann til grundvallar við skipti á dánarbúi C. Þar sem kaupmálinn hefði ekki kveðið á um að séreign samkvæmt honum skyldi hlíta reglum um hjúskapareign að öðru hjóna látnu hefði brostið heimild til að veita B leyfi til setu í óskiptu búi eftir C. Var búið því tekið til opinberra skipta.
Dómur Hæstaréttar Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. apríl 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. apríl 2015 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að dánarbú föður hans, C, yrði tekið til opinberra skipta. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný en til vara að áðurgreind krafa um opinber skipti verði tekin til greina. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. I Atvik málsins eru skilmerkilega rakin í hinum kærða úrskurði. Eins og þar greinir gerðu foreldrar sóknaraðila, hjónin C og varnaraðili, með sér kaupmála 17. febrúar 2013 þar sem nánar tilgreindar eignir þeirra voru gerðar að séreignum hvors um sig. Kaupmálinn var móttekinn hjá sýslumanni degi síðar, skrásettur í kaupmálabók sama dag og innfærður í bækur sýslumanns 20. sama mánaðar. Í handrituðu skjali, dagsettu 24. ágúst 2013 og undirrituðu af C og varnaraðila, sagði að þau hjónin hefðu „fulla dómgreind um að sjá um sín fjármál sjálf. Við hjónum ætlum að ógilda samning sem (kaupmála) gerður var 17. febrúar 2013. Og engin arfur verður greiddur út fyrr en við erum - bæði látin.“ Á undan meginmáli skjalsins kom fram að vottar „að kaupmála“ væru „D og E“ en þau eru börn varnaraðila. Þetta skjal var móttekið hjá sýslumanni 26. ágúst 2013, skrásett samdægurs í kaupmálabók og innfært í bækur sýslumanns 29. sama mánaðar. Meðal gagna málsins er handrituð yfirlýsing varnaraðila og C 4. september 2013, sem þau nefndu erfðaskrá. Þar var mælt fyrir um að eftir fráfall beggja skyldu eignir þeirra skiptast jafnt milli nafngreindra fimm barna hjónanna, þeirra E, D, F, G og sóknaraðila. Á undan meginmáli skjalsins stóð að hjónin hefðu „fulla dómgreind um að sjá um sín fjármál sjálf. 4.9.2013 H“ og var kennitala hans tilgreind. Undir skjalið ritaði sem vottur „I“ og var kennitala hennar tilgreind. C lést 15. september 2014 og fékk varnaraðili leyfi til setu í óskiptu búi eftir hann með bréfi sýslumannsins í Reykjavík 30. sama mánaðar. Sóknaraðili bar fram við Héraðsdóm Reykjavíkur 10. nóvember 2014 kröfu um að dánarbú C yrði tekið til opinberra skipta. Varnaraðili andmælti þeirri kröfu í greinargerð sem hún lagði fram á dómþingi 7. janúar 2015 og er málið rekið um þann ágreining. II Um heimild sína til að krefjast opinberra skipta á dánarbúi C vísar sóknaraðili til 3. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 og 11. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Er krafan á því reist að varnaraðila hafi ranglega verið veitt leyfi til setu í óskiptu búi eftir C þar sem afturköllun hans og varnaraðila 24. ágúst 2013 á kaupmálanum 17. febrúar sama ár hafi verið haldin þeim form- og efnisgöllum sem nánari grein er gerð fyrir í hinum kærða úrskurði. Af því leiði að síðargreindur kaupmáli sé í fullu gildi og beri að leggja hann til grundvallar við skipti á dánarbúi C. Samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 getur erfingi krafist þess að dánarbú verði tekið til opinberra skipta, þótt maki hins látna hafi fengið leyfi til setu í óskiptu búi, ef erfingjanum er heimilt að krefjast skipta sér til handa eftir ákvæðum erfðalaga. Þurfa samkvæmt þessu að vera fyrir hendi einhver þau atvik sem veita erfingjanum heimild samkvæmt ákvæðum 13. til 17. gr. erfðalaga til að krefjast þess að skipti fari fram. Þá stendur 3. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 því ekki í vegi að erfingi, sem telur að langlífari maka hins látna hafi ranglega verið veitt leyfi til setu í óskiptu búi, geti sett fram kröfu um opinber skipti líkt og sóknaraðili gerir. D og E rituðu sem vottar á skjalið 24. ágúst 2013, þar sem kaupmálinn 17. febrúar 2013 var afturkallaður, en þau eru eins og áður getur börn varnaraðila. Samkvæmt 80. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 skal kaupmáli vera skriflegur. Þá segir í lagagreininni að undirritun hjóna eða hjónaefna skuli staðfest af lögbókanda, héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmanni eða fulltrúa þeirra eða af tveimur vottum sem skulu vera samtímis viðstaddir og rita nöfn sín og kennitölur á kaupmálann. Í vottorði þeirra skuli koma fram að hið vottaða skjal sé kaupmáli og skulu vottarnir vera lögráða og staðfestingarhæfir samkvæmt réttarfarslögum. Samkvæmt 88. gr. hjúskaparlaga skal við breytingu eða afturköllun á kaupmála gæta sömu reglna og áður koma fram en af því leiðir að þeir sem votta afturköllun kaupmála skulu vera staðfestingarhæfir samkvæmt réttarfarslögum með sama hætti og þeir sem vottuðu kaupmála í öndverðu. Í e. lið 2. mgr. 57. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála kemur fram að vitni verður ekki látið staðfesta framburð sinn fyrir dómi með eiði eða drengskaparheiti ef dómari telur það svo tengt aðila eða hafa slíka hagsmuni af málsúrslitum að staðfesting sé óviðeigandi. Þar sem vottarnir á skjali því sem afturkallaði kaupmálann 17. febrúar 2013 voru börn varnaraðila og höfðu þeirra hagsmuna að gæta sem áður getur voru þeir ekki staðfestingarhæfir samkvæmt réttarfarslögum og afturköllunin samkvæmt því ógild. Af því leiðir að kaupmálinn 17. febrúar 2013 er í gildi og ber að leggja hann til grundvallar við skipti á dánarbúi C. Í síðargreindum kaupmála var ekki kveðið á um það að séreign samkvæmt honum skyldi hlíta reglum um hjúskapareign að öðru hjóna látnu, sbr. 11. gr. erfðalaga. Brast samkvæmt þessu að lögum heimild til að veita varnaraðila leyfi til setu í óskiptu búi eftir C. Getur skjalið frá 4. september 2013, sem einungis var undirritað af einum votti, engu breytt í þeim efnum þegar af þeirri ástæðu að það fullnægði ekki fyrirmælum laga um form erfðaskráa, sbr. ákvæði 40. til 43. gr. og 2. mgr. 45. gr. erfðalaga. Er sóknaraðila að þessu virtu heimilt samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 að leita opinberra skipta á dánarbúinu og verður samkvæmt því fallist á þá kröfu hans. Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af rekstri málsins í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Bú C er tekið til opinberra skipta. Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Mál nr. 374/2015
Kærumál Gæsluvarðhald Einangrun
X var gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldi hennar stæði með vísan til 2. mgr. 98. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. b. lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.   Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. júní 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. júní 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 10. júní 2015 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að ákvæði hins kærða úrskurðar um að hún sæti einangrun verði fellt úr gildi.   Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 371/2015
Kærumál Kæruheimild Frávísun frá Hæstarétti Aðfinnslur
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu L um heimild til að taka munnvatnssýni úr X á grundvelli 5. gr. laga nr. 88/2001 um erfðaefnaskrá lögreglu. Þar sem heimild brast til kæru úrskurðarins var málinu vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. maí 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. maí 2015, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um heimild til að taka munnvatnssýni úr varnaraðila. Um kæruheimild er vísað til h. liðar 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að framangreindri kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Samkvæmt h. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 sætir kæru til Hæstaréttar úrskurður héraðsdóms um heimild til leitar og annarra aðgerða samkvæmt X. kafla laganna, svo og framkvæmd þeirra aðgerða. Kröfur varnaraðila lúta á hinn bóginn að lögmæti lífsýnatöku að gengnum fullnaðardómi á grundvelli 5. gr. laga nr. 88/2001 um erfðaefnaskrá lögreglu og fellur slík sýnataka ekki undir gildissvið X. kafla laga nr. 88/2008 sem er bundinn við slík úrræði undir rannsókn sakamáls. Úrskurður þess efnis sætir því ekki kæru eftir fyrrgreindri heimild h. liðar eða öðrum stafliðum 1. mgr. 192. gr. laganna. Kæruheimild er því ekki fyrir hendi og verður málinu vísað frá Hæstarétti. Það athugist að heimild 5. gr. laga nr. 88/2001 til lífsýnatöku við þær aðstæður, sem þar eru tilgreindar, á sér sjálfstæða og fullnægjandi lagastoð, sbr. niðurlag 1. málsliðar 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár. Lagaskilyrði stóðu því ekki til þess að héraðsdómur felldi úrskurð á málið. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.                       
Mál nr. 361/2015
Kærumál Skýrslugjöf Vitni
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu Á um að X og Y yrði gert að víkja úr þinghaldi á meðan vitni gæfi skýrslu þar sem talið var að nærvera þeirra við skýrslugjöfina gæti orðið því sérstaklega íþyngjandi og haft áhrif á framburð þess.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari. Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 21. maí 2015, sem bárust réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 18. maí 2015, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að varnaraðilum yrði gert að víkja úr þinghaldi á meðan tiltekið vitni gæfi skýrslu við aðalmeðferð máls sóknaraðila á hendur þeim. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti en brotaþoli krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Að virtu fyrirliggjandi vottorði sálfræðings, sem vikið er að í hinum kærða úrskurði, og að teknu tilliti til sakargifta í málinu verður hinn kærði úrskurður staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 813/2014
Lögregla Handtaka Tjáningarfrelsi Stjórnarskrá Mannréttindasáttmáli Evrópu
Haustið 2013 fór Vegagerðin í framkvæmdir við lagningu svokallaðs Álftanesvegar í Garðabæ sem að hluta lá um Gálgahraun. Framkvæmdirnar sættu mótmælum, einkum þar sem þær hefðu í för með sér óafturkræf náttúruspjöll á hrauninu og umhverfi þess, auk þess sem uppi var ágreiningur um lögmæti framkvæmdanna. Mótmælin fóru að öllu leyti friðsamlega fram en mótmælendur höfðu komið sér fyrir í hrauninu, meðal annars innan vinnusvæðis, og neituðu að hlíta fyrirmælum lögreglunnar um að víkja vegna framkvæmdanna. Fór svo að lögreglan fjarlægði mótmælendur með valdi og voru nokkur þeirra handtekin, þar á meðal T. Eftir að T hafði verið látin laus sneri hún aftur í Gálgahraun og þar var hún handtekin að nýju. Var deilt um það hvort T hefði neitað að hlýða ítrekuðum fyrirmælum lögreglu um að yfirgefa umrætt vinnusvæði í aðdraganda síðari handtökunnar. Talið var að mótmæli T og annarra mótmælenda teldust ótvírætt til tjáningar í skilningi 73. gr. stjórnarskrárinnar og að sá réttur þeirra til að hafa uppi slík mótmæli yrði eingöngu takmarkaður eftir þeim skilyrðum sem greinir í 3. mgr. greinarinnar, sbr. 10. og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem hefði verið veitt lagagildi með lögum nr. 62/1994. Fyrir lægi að framkvæmdirnar hefðu átt sér viðhlítandi stoð að lögum þegar í þær hefði verið ráðist. Lögreglu hefði því borið, í samræmi við fyrirmæli e. og f. liða 2. mgr. 1. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, að ljá Vegagerðinni aðstoð við að tryggja framkvæmd þeirra og grípa til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar hefðu verið til þess að tryggja allsherjarreglu, sbr. 15. gr. laganna. Af gögnum málsins sem og vætti lögreglumanna teldist sannað að T hefði ekki hlýtt ítrekuðum fyrirmælum um að færa sig af vinnusvæði þar sem hún hafði verið stödd. Með þessum hætti hefði hún brotið gegn 19. gr. lögreglulaga enda yrði réttur hennar til að mótmæla að víkja að því marki sem hann hefði staðið því í vegi að framkvæmdir gætu haldið áfram, sbr. 60. og 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Var sérstaklega áréttað að  aðgerðir lögreglu á vettvangi hefðu ekki gengið lengra en þörf krafðist og að T hefði ekki verið bannað að mótmæla framkvæmdunum með öllum tiltækum og löglegum ráðum, heldur eingöngu á vinnusvæðinu. Við ákvörðun refsingar, sem frestað var skilorðsbundið í tvö ár, var litið til þess að T hefði ekki áður hlotið refsingu, að fyrir henni hefði vakað að standa vörð um náttúruverðmæti og að það hefði hún gert með því að nýta á friðsaman hátt stjórnarskrárvarinn rétt sinn til að mótmæla þó svo að í þessu tilviki hefði hún gengið lengra en heimilt var.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari. Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað. Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærðu, Skúla Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns, 124.000 krónur. Dómur Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 9. október  2014. Mál þetta, sem þingfest var 28. janúar 2014 og dómtekið 12. september sl., var höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 21. desember 2013, á hendur Tinnu Þorvaldsdóttur Önnudóttur, kt. [...], [...], [...], fyrir brot gegn lögreglulögum, með því að hafa mánudaginn 21. október 2013, um kl. 13:20, í Garðahrauni í Garðabæ, neitað að hlýða ítrekuðum fyrirmælum lögreglu um að flytja sig um set, en ákærða var stödd á vinnusvæði, þar sem unnið var að lagningu nýs Álftanesvegar, rétt norðnorðvestan við Garðastekk. Telst brotið varða við 19. gr., sbr. 41. gr., lögreglulaga nr. 90/1996. Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.  Ákærða mætti við þingfestingu málsins þann 28. janúar sl. og neitaði sök. Skilaði ákærða greinargerð þann 24. febrúar sl. og krafðist þá þess að málinu yrði vísað frá dómi en til vara sýknu. Þá krafðist ákærða þess að sækjandi málsins, Karl Ingi Vilbergsson aðstoðarsaksóknari, viki sæti í málinu með vísan til 26. gr., sbr. 6. gr., laga nr. 88/2008, en ákærða hygðist leiða sækjanda sem vitni í væntanlegri aðalmeðferð málsins. Fór málflutningur um þessa kröfu ákærðu fram, í máli nr. S-2/2014 sem er nákvæmlega eins og þetta mál, þann 24. mars sl. og var kröfum ákærða í því máli hafnað. Var sú niðurstaða staðfest í dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 254/2014 þann 8. maí sl. Ákærða óskaði í framhaldi eftir fresti til að leggja fram frekari gögn, sem hún gerði í þinghaldi 5. júní sl. Fór aðalmeðferð fram þann 11. og 12. september sl. og var málið dómtekið að málflutningi loknum. Málsatvik. Óumdeilt er að unnið var um þessar mundir í Garðahrauni, eða Gálgahrauni eins og það er nefnt, í Garðabæ við lagningu nýs vegar til Álftaness. Hefur sú vegalagning sætt mótmælum og einstaklingar mótmælt henni með því að mæta á vinnusvæði Vegagerðarinnar og reynt að tefja eða stöðva vegalagninguna. Undir rekstri málsins lýstu ákærðu öll, í málum S-1/2014 til og með S-9/2014, að þau hafi verið í Gálgahrauni umrætt sinn í mótmælaskyni og hafi mótmælin verið friðsamleg en það sé stjórnarskrárbundinn réttur hvers manns að tjá sig opinberlega og halda uppi friðsamlegum mótmælum. Enginn ágreiningur er um það að þátttaka ákærðu í ofangreindum mótmælum hafi verið á friðsamlegum nótum. Þá er ekki ágreiningur um það að umræddan dag hafi Vegagerðin hafið ruðning í Gálgahrauni fyrir nýju vegastæði. Samkvæmt því sem næst verður komist hafi lögreglu verið gert viðvart deginum áður eða samdægurs um að hætta væri á að mótmælin, sem voru daglega í Gálgahrauni, myndu hugsanlega tefja eða koma í veg fyrir framkvæmdir. Hafi lögreglan því verið með viðbúnað og komið á svæðið umræddan morgun.                 Þá liggur fyrir að eftir að verktakar hófu vinnu þá hafi merkingar utan um fyrirhugað vinnusvæði, eftir framgangi verksins, verið færðar til þannig að ljóst væri hvar vinnuvélar færu um. Við þá framkvæmd hafi mótmælendur verið komnir inn fyrir merkt vinnusvæði og á svæði þar sem jarðvinna færi fram.                 Þá er ekki um það deilt að lögreglan hafi gefið fyrirmæli í gjallarhorn um að mótmælendum væri gert að rýma vinnusvæðið. Sumir gerðu það en aðrir ekki. Þá er það sammerkt með öllum málunum að öll ákærðu höfðu verið handtekin fyrr um morguninn fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglunnar. Ágreiningur er um hvort lögreglan hafi gefið hverjum og einum ákærðu fyrirmæli og viðvörun um handtöku ef þau hlýddu ekki þessum fyrirmælum og þá hvort þau hafi verið innan eða utan merkts vinnusvæðis.                  Í upplýsingaskýrslu lögreglu um atvikið segir að lögreglan hafi verið að sinna lokunum á vettvangi og búið hafi verið að tilkynna fólki að halda sig fyrir utan vinnusvæði sem búið var að girða af með keilum og strengja band á milli. Ítrekað hafi verið búið að gefa fólki fyrirmæli um að yfirgefa vinnusvæðið og virða lokanir og fyrirmæli lögreglu. Þegar jarðýta hafi verið að vinna hafi lögreglan séð hvar tvær konur hlupu inn á vinnusvæðið og í áttina að jarðýtunni. Hafi lögreglan farið ásamt fleiri lögreglumönnum að þeim og þær verið handteknar fyrir að hlýða ekki fyrirmælum um að fara ekki inn á vinnusvæðið. Var ákærða handtekin og færð á lögreglustöð.                 Í yfirheyrslu hjá lögreglu kvaðst ákærða ekki hafa talið sig vera að brjóta lög og ekki hafa verið inni á lokuðu vinnusvæði. Ákærða hafi fengið skýr fyrirmæli frá lögreglunni um að yfirgefa svæðið en hún kvaðst hafa setið áfram þar sem hún hafi verið þreytt.                 Þá liggur fyrir að ákærða hafði verið handtekin fyrr um morguninn fyrir sömu háttsemi og þurfti þá að bera hana út af svæðinu.  Skýrslur fyrir dómi. Ákærða gaf skýrslu fyrir dóminum og kvaðst hafa fengið „svona“ fyrirmæli yfir hópinn um að yfirgefa merkt vinnusvæði en hún kvað þau fyrirmæli ekki hafa átt við sig. Ákærða kvaðst hafa sest niður nokkuð langt fyrir framan jarðýtuna sem var þarna en alls ekki inni á merktu svæði. Þess vegna hafi hún verið þar í fullum rétti. Jarðýtan hafi stefnt að þeim en nokkuð langt frá. Aðspurð um það hvort hún muni til þess að lögreglan hafi beðið hana um að standa upp og fara kvaðst ákærða kannast við það. Aðspurð hvort hún hafi gert það kvaðst ákærða hafa verið þarna í fullum rétti og ekki ætla að tjá sig neitt frekar um það. Síðar í skýrslunni kvaðst ákærða ekki kannast við það að hafa persónulega fengið slík fyrirmæli og ekki muna eftir því núna eins og hún kvaðst hafa sagt í skýrslutöku hjá lögreglunni. Þá kvað ákærða fjóra lögreglumenn hafa borið sig af vettvangi á börum þar sem henni hafi verið ofboðið og hún ekki getað gengið.                 Vitnið A lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa komið að handtöku ákærðu, bæði fyrir og eftir hádegi. Kvaðst vitnið persónulega hafa beðið ákærðu um að yfirgefa vinnusvæðið, sem hún hafi ekki hlýtt.                 Vitnið B lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst ekki muna sérstaklega vel eftir handtökunni sjálfri. Kannaðist vitnið við að ákærða hafi fengið fyrirmæli um að yfirgefa vinnusvæðið, sem hún hafi ekki hlýtt. Fyrst hafi verið gefin almenn fyrirmæli í gegnum gjallarhorn um að yfirgefa vettvang og þeir sem ekki hlýddu yrðu handteknir. Þau, sem ekki hlýddu, hafi fengið fyrirmæli hvert og eitt um að yfirgefa svæðið en að öðrum kosti yrði viðkomandi handtekinn. Vinnusvæðið hafi verið vel afmarkað.  Vitnið C, lögreglumaður og stjórnandi á vettvangi, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið stjórnandi aðgerða á vettvangi. Kvaðst vitnið aðspurt ekki muna hversu lengi undirbúningur aðgerða hafi staðið en lögregla hefði margoft verið búin að fara á svæðið vegna mótmæla á fyrri stigum. Aðspurt um sektargerðir frá föstudeginum 18. september 2013 kvaðst vitnið ekki geta svarað fyrir um tilkomu sektargerða í málinu. Aðspurt um það hvort búið hafi verið að ákveða fyrirfram hvaða einstaklinga ætti að handtaka á mánudeginum, kvað vitnið það alls ekki vera rétt. Vitnið hafi ekkert vitað um það á föstudeginum hvað myndi gerast á mánudeginum en vitnið hafi fengið fyrirmæli á mánudagsmorgninum um að fara á vettvang vegna mótmælanna. Þá hafi enginn vitað um það hvernig verkefni lögreglunnar yrði eða myndi þróast. Vitnið kvað lögregluna hafa margítrekað reynt að fá fólkið til að fara af vettvangi en það ekki gengið eftir. Þegar ákærðu hafi verið handtekin, höfðu þau öll áður verið handtekin fyrr um morguninn og færð af svæðinu, svo að lögreglan hafi verið búin að reyna vægari úrræði áður en til handtöku kom. Þau sem hafi verið handtekin hafi öll verið innan vinnusvæðis en hins vegar skipti það yfirleitt ekki máli hvort fólk sé innan afmarkaðs svæðis eða ekki sé á annað borð nauðsynlegt að beita 19. gr. lögreglulaga. Kvað vitnið að í þessu tilviki hafi öllum verið gefin almenn fyrirmæli um að yfirgefa vinnusvæðið. Þeir sem ekki hafi hlýtt þeim fyrirmælum hafi fengið í framhaldi skýr fyrirmæli frá lögreglu um að yfirgefa svæðið og hafi því ekki verið hlýtt hafi fólk verið handtekið og flutt af svæðinu.                 Vitnið D kom fyrir dóminn og kvaðst hafa heyrt þegar lögregla beindi þeim fyrirmælum til mótmælenda að yfirgefa vinnusvæðið. Vinnusvæðið hafi eingöngu verið markað með keilum og böndum og hafi svæðið sífellt verið á hreyfingu og vegslóði verið afmarkaður fyrir vinnuvélarnar. Taldi vitnið að bæði mótmælendum og lögreglu hafi stundum stafað hætta af vinnuvélum  innan svæðisins.                 Vitnið E kom fyrir dóminn og kvaðst hafa orðið vitni að mörgum handtökum umrætt sinn. Kvaðst vitnið einnig hafa tekið mikið af ljósmyndum og þær því hjálpað sér að muna atvik. Vitnið kvað mótmælendur hafa fært sig til og síðar hafi bönd verið sett utan um þá. Þegar kom að handtökum hafi fólk lagst niður á jörðina. Lögreglan hafi kallað að mótmælendur ættu að færa sig en þeir sagst ekki vera innan merkts svæðið. Lögreglan hafi neitað því „og auðvitað hafi þetta verið merkt svæði þar sem lögreglan hafi verið búin að merkja utan um þau áður en þau voru handtekin“.  Lögreglan hafi sífellt verið að kalla til mótmælenda að yfirgefa svæðið og vísað til 19. gr. lögreglulaga. Vitnið kvaðst örugglega hafa verið vitni að handtöku ákærðu en kvaðst ekki geta lýst því á annan hátt en að ákærða hafi verið með rauða skotthúfu. Ákærða hafi verið fyrir innan borða og verið í þeim hópi sem fyrst lagðist niður. Vitnið kvað vinnuvélar hafa stundum keyrt ansi nærri fólkinu. Vitnið kvaðst ekki hafa heyrt orðaskipti á milli ákærðu og lögreglu þar sem vitnið hafi verið utan merkts svæðis. Önnur sönnunargögn. Upplýsingaskýrsla lögreglu liggur fyrir í málinu og er hún rakin í kaflanum „málsatvik“. Var ákærða þá borin út af vinnusvæði, sem búið var að loka af og ákærða neitaði að yfirgefa, handtekin og flutt á lögreglustöð. Ákærða lagði fram fjölda ljósmynda sem teknar voru umræddan dag en eru þó ótímasettar. Þá lagði ákærða einnig fram myndband, sem sett hafði verið saman um mótmælin í Gálgahrauni og handtökur og úr fréttatíma RÚV. Að auki lagði ákærða fram útskrift úr fésbókarsíðu F og athugasemdir við fésbókarsíðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Forsendur og niðurstöður. Ekki er ágreiningur um að ákærða, ásamt fleira fólki, var í Gálgahrauni umrætt sinn í þeim tilgangi að mótmæla væntanlegri vegagerð í gegnum hraunið. Samkvæmt 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 eru allir frjálsir skoðana sinna og sannfæringar og skv. 2. mgr. á hver maður rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Þetta segir að tjáningarfrelsið er takmarkað þannig að það gengur ekki lengra en önnur stjórnarskrárvarin réttindi manna, t.d. varðandi eignarétt og almannaheill. Í máli þessu höfðu þar til bær stjórnvöld tekið ákvörðun um að leggja veg um Gálgahraun og ekki liggur annað fyrir í málinu en að þau hafi haft þar til bær réttindi og heimildir til að leggja umþrættan veg. Þá liggur fyrir að lögregla eða framkvæmdaraðili Vegagerðarinnar færði til merkingar, sem voru keilur og borðar, eftir því sem verkið vannst. Þýddi það að færa þurfti merkingar til sem afmörkuðu fyrirhugað vinnusvæði. Við það hafi einhver hluti mótmælenda lent innan merkinga á væntanlegu vinnusvæði. Af myndbandi því, sem ákærða lagði sjálf fram, má sjá og heyra lögreglu ítrekað í gegnum gjallarhorn biðja mótmælendur að fara út af vinnusvæðinu. Hefur það ekki farið fram hjá neinum þeirra sem voru í næsta nágrenni lögreglu.  Ákærða krefst sýknu í máli þessu og kveðst ekki hafa óhlýðnast fyrirmælum lögreglu. Í málinu liggur fyrir fjöldi ljósmynda sem ákærða lagði fram. Eru þær teknar af fréttaveitum og af einstaklingum sem ekki liggur fyrir hverjir eru. Verður að taka ljósmyndum þessum með fyrirvara um sönnunargildi þeirra, en ekki er ljóst af þeim hvenær dags eða í hvaða tilgangi þær voru teknar en fyrir liggur að ákærða var handtekin bæði fyrir og eftir hádegi þennan sama dag.                 Málsvörn ákærðu byggist á því að aðgerðir lögreglu hafi stangast á við stjórnarskrá Íslands og Mannréttindasáttmála Evrópu. Vísar ákærða í 73. og 74. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944 og 10. og 11. gr. Mannréttindasáttmálans. Hafi aðgerðir lögreglu haft það eina markmið að koma í veg fyrir friðsamleg mótmæli ákærðu og annarra sem þar hafi verið staddir. Þá hafi aðgerðir lögreglu haft annarlegan tilgang sem hafi verið sá að fá fólk til að gerast brotlegt við lög og í þeim tilgangi að geta brotið mótmælin á bak aftur. Í því skyni hafi lögregla stækkað afmarkað svæði jafnóðum og búið var að vísa fólki út fyrir fyrra svæði. Í kjölfarið hafi lögregla gripið til alvarlegra aðgerða sem hafi verið handtökur og frelsissviptingar og í mörgum tilfellum vistun í fangaklefa. Ákærða byggir á því að hún hafi átt stjórnarskrárbundinn rétt til að mótmæla, svo framarlega sem það væri gert á friðsaman hátt. Engu ofbeldi hafi verið beitt í umrætt sinn og þá hafi hún ekki veitt neinn mótþróa þegar lögreglan handtók hana. Þá taldi ákærða þá hagsmuni sína og réttindi til að halda uppi lögmætum mótmælum meiri en þá hagsmuni Vegagerðarinnar að eyðileggja Gálgahraun. Þá hafi skilyrði 19. gr. lögreglulaga ekki verið uppfyllt, enda hafi ákærða mátt vera þarna þar sem um lögmætan tilgang var að ræða og hún hafi verið utan merkts svæðis og að auki hafi hún ekki verið ógnandi né hafi verið um uppþot að ræða. Af myndskeiði sem ákærða lagði fram má sjá að nokkrir mótmælendur leggjast flötum beinum á jörðina rétt fyrir framan tönn jarðýtunnar og hlusta á lögreglumann vísa þeim burt af svæðinu en þau mótmæla. Engar tímasetningar eru á myndbandinu svo að ekki er ljóst hvort um var að ræða mótmæli fyrir eða eftir hádegi. Hins vegar sjást vel afmarkanir svæðisins með keilum og borðum, sem átti ekki að dyljast neinum sem horfði yfir athafnasvæðið. Þá heyrist einnig á myndskeiðinu að lögregla hvetur fólk ítrekað í gjallarhorni til að fara út fyrir vinnusvæðið.                 Ákærðu Tinnu er gefið að sök að hafa ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu í umrætt sinn en hún kvaðst fyrir dóminum ekki muna eftir því að henni hafi verið gefin nein sérstök fyrirmæli, það hafi verið „svona fyrirmæli“ yfir hópinn sem ekki hafi átt sérstaklega við hana. Ákærða kannaðist þó við að lögreglan hafi beðið sig um að standa upp og fara. Við skýrslutöku hjá lögreglu kvaðst ákærða hafa fengið skýr fyrirmæli um að yfirgefa vinnusvæðið en hún ekki talið sig vera innan merkts svæðis. Vitnin C og D staðfestu báðir fyrir dóminum að ákærðu hafi verið gefin skýr fyrirmæli um að yfirgefa svæðið áður en til handtöku kom. Þá staðfestu vitnin C og B lögreglumenn að ákærða hafi fengið bein fyrirmæli frá þeim um að yfirgefa vinnusvæðið, sem hún hafi ekki hlýtt áður en hún var handtekin og hafi lögreglan þurft að bera hana út af svæðinu í framhaldi.  Í ákærunni er ákært fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu og brotið talið varða við 19. gr., sbr. 41. gr., lögreglulaga. Margar lærðar greinar hafa verið skrifaðar um rétt einstaklinga til skoðana- og tjáningarfrelsis og er sá réttur bundinn í 73. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33 frá 1944 en þar segir í 1. mgr.: „Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.“ Í 2. mgr. segir að hver maður eigi rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verði hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi megi aldrei í lög leiða. Í 3. mgr. segir að tjáningarfrelsi megi aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.  Samkvæmt 15. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 er lögreglu heimilt að hafa afskipti af borgurunum í því skyni að halda uppi almannafriði og allsherjarreglu, til að gæta öryggis einstaklinga og almennings eða til að afstýra brotum eða stöðva þau. Í þessu skyni er lögreglu m.a. heimilt að vísa fólki á brott eða fjarlægja það og fara inn á svæði í einkaeign og fyrirskipa brottflutning fólks af þeim. Í 19. gr. er síðan að finna almennt ákvæði sem kveður á um skyldu borgaranna til að hlýða fyrirmælum lögreglunnar. Það er meginregla íslenskrar stjórnskipunar að enginn geti komið sér hjá því að hlýða yfirvaldsboði í bráð þótt hann vefengi heimildir stjórnvalda, sbr. 60. gr. stjórnarskrárinnar. Þótt ákærða teldi sig hafa ástæðu til að draga í efa að heimilt væri að ganga svo langt sem raun ber vitni við vegaframkvæmdir, veitti það ekki rétt til að  hindra framkvæmdir hennar á þann hátt, sem ákærða gerði. Í máli þessu liggur fyrir að ákærða hlýddi ekki augljósum fyrirmælum lögreglu um að fara út af vinnusvæðinu og láta af aðgerðum sínum að því marki sem hún gekk á rétt annarra til að halda áfram lögmætum framkvæmdum og voru aðgerðir lögreglu því nauðsynlegar í umrætt sinn og samrýmast heimildum 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Ákærðu átti að vera fullljóst að hún var að fara gegn fyrirmælum lögreglu, enda hafði hún verið handtekin fyrr um morguninn vegna sömu háttsemi. Þá er með framburði vitnanna A og B, C og D færð fram lögfull sönnun þess að ákærða hafi í fyrstu fengið almenn fyrirmæli frá lögreglu um að færa sig af vinnusvæði og síðar beint frá lögreglumönnum en hún ekki hlýtt því. Styðst sá framburður við framburð ákærðu fyrir lögreglu þann sama dag.  Telur dómurinn engu máli skipta hvort merkingar hafi verið komnar áður eða eftir að ákærða lagðist niður á svæðið, þar sem henni mátti vera fullljóst að þegar lögreglan bað hana að fara af svæðinu var ákærða þá þegar innan merkinga um vinnusvæði. Þá breytir engu þótt ákærða hafi ekki neitað að yfirgefa svæðið, heldur felast í þeirri háttsemi einni að standa ekki upp og yfirgefa svæðið þegar henni var fyrirskipað það, með þeim afleiðingum að lögregla þurfti að bera ákærðu út af svæðinu, mótmæli við fyrirmælum lögreglu. Að auki hafði ákærða verið handtekin og borin út af svæðinu fyrr um morguninn og mátti því vera fullljóst í hverju aðgerðir lögreglu fólust. Telur dómurinn ákæruvaldið hafa fært fram lögfulla sönnun þess að ákærða hafi gerst brotleg eins og greinir í ákæru og verður henni gerð refsing fyrir. Er háttsemin réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Ákærðu hefur ekki verið gerð refsing áður. Þrátt fyrir að ákærða hafi verið í friðsamlegum mótmælum í Gálgahrauni umrætt sinn, þá verður sá tilgangur ekki metinn henni til refsilækkunar í máli þessu þar sem mótmæli ákærðu gengu lengra en stjórnarskrárvarinn réttur hennar var. Er þeirri málsástæðu ákærðu hafnað.   Er refsing ákærðu ákveðin 100.000 krónur í sekt til ríkissjóðs, sem ákærðu ber að greiða innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa en sæta ella fangelsi í átta daga. Ákærða greiði allan sakarkostnað, sem eru málflutningslaun skipaðs verjanda hennar, Ragnheiðar E. Þorsteinsdóttur hdl., sem þykja hæfilega ákveðin 150.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.  Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Dómsorð:  Ákærða, Tinna Þorvaldsdóttir Önnudóttir, greiði 100.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa en sæti ella fangelsi í átta daga. Ákærða greiði allan sakarkostnað, sem eru málflutningslaun skipaðs verjanda hennar, Ragnheiðar E. Þorsteindóttur hdl., 150.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. 
Mál nr. 40/2015
Birting Áfrýjunarstefna Frávísun frá Hæstarétti
K höfðaði faðernismál á hendur M, portúgölskum ríkisborgara sem búsettur var þar í landi. K fékk útgefna áfrýjunarstefnu, en málið var ekki þingfest sökum þess að fyrirséð var að birting stefnunnar tækist ekki innan frestdags samkvæmt e. lið 1. mgr. 155. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Fékk K við svo búið stefnuna endurútgefna samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en birting tókst ekki heldur í það sinnið sökum þess að sýslumaður synjaði um að senda gögnin til birtingar í Portúgal því ekki væri raunhæft að birting tækist innan frestdags. Var áfrýjunarstefnan þá birt í Lögbirtingablaði á grundvelli 1. mgr. 89. gr. laga nr. 91/1991. Hæstiréttur taldi að skilyrði lagaákvæðisins væru ekki uppfyllt til að birta hefði mátt stefnuna í Lögbirtingablaði og vísaði jafnframt til þess að ekkert hefði verið því til fyrirstöðu að frestur samkvæmt e. lið 1. mgr. 155. gr. laga nr. 91/1991 hefði verið ákveðinn svo rúmur að birta hefði mátt áfrýjunarstefnuna fyrir stefnda í tæka tíð. Var málinu vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson. Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 11. desember 2014. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 28. janúar 2015 og var áfrýjað öðru sinni 15. þess mánaðar samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann krefst þess að viðurkennt verði að stefndi sé faðir sinn og honum gert að greiða sér einfalt meðlag frá fæðingardegi sínum til fullnaðs 18 ára aldurs. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt. Stefndi hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Samkvæmt 3. mgr. 158. gr. laga nr. 91/1991 ber að líta svo á að hann krefjist staðfestingar héraðsdóms. Eftir ákvörðun Hæstaréttar var málið skriflega flutt fyrir réttinum. I Áfrýjandi höfðaði faðernismál á grundvelli barnalaga nr. 76/2003 á hendur stefnda, portúgölskum ríkisborgara sem búsettur er þar í landi. Samkvæmt gögnum málsins var stefna birt fyrir stefnda sjálfum 16. febrúar 2011 í Portúgal og málið í framhaldi af því þingfest í héraði 7. apríl sama ár. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 2014 var stefndi sýknaður af kröfu áfrýjanda um viðurkenningu á að hann væri faðir drengsins svo og um skyldu til greiðslu meðlags. Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 11. desember 2014. Með bréfi áfrýjanda til réttarins 12. janúar 2015 óskaði hann eftir því að málið yrði fellt niður fyrir réttinum og áfrýjunarstefna endurútgefin með skírskotun til þess að hann hefði „fengið þær upplýsingar að birting stefnunnar í Portúgal geti tekið 2-3 mánuði.“ Óskaði áfrýjandi jafnframt eftir því að frestur til að þingfesta málið yrði ákveðinn „eftir þrjá mánuði frá útgáfu stefnunnar að telja.“ Með bréfi Hæstaréttar til áfrýjanda 14. sama mánaðar var málið fellt niður fyrir réttinum. Héraðsdómi var áfrýjað öðru sinni 15. janúar 2015 samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 og frestur samkvæmt e. lið 1. mgr. 155. gr., sbr. 1. mgr. 156. gr. sömu laga, ákveðinn til 22. apríl 2015. Með bréfi áfrýjanda til Hæstaréttar 25. febrúar 2015 óskaði hann á nýjan leik eftir því að málið yrði fellt niður fyrir réttinum og áfrýjunarstefna endurútgefin þar sem hann „hefur nú fengið þær upplýsingar að birting stefnunnar í Portúgal muni taka að lágmarki 6 mánuði, og allt upp í 9 mánuði.“ Beiddist áfrýjandi þess að frestur til að þingfesta málið yrði ákveðinn í desember 2015. Með þessu bréfi áfrýjanda fylgdi bréf sýslumannsins á Suðurnesjum 23. febrúar 2015 þar sem upplýst var að gögn vegna birtingar áfrýjunarstefnu í málinu væru endursend áfrýjanda sökum þess að stefnufrestur væri of skammur. Þar sagði jafnframt að þótt miðstjórnarvald Portúgals áskildi sér 30 til 60 daga „til að birta gögn“ sýndi reynslan að mál sem send hefðu verið til birtingar í Portúgal hefðu tekið allt að níu mánuðum. Með bréfi Hæstaréttar til áfrýjanda 11. mars 2015 var beiðni hans hafnað með vísan til þess að samkvæmt lokamálslið 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 væri ekki heimilt að gefa enn á ný út áfrýjunarstefnu í málinu. Með bréfi lögmanns áfrýjanda til Hæstaréttar 17. mars 2015 var þess farið á leit að áfrýjunarstefnu, sem útgefin var 15. janúar 2015, yrði breytt á þá leið að  frestur til að þingfesta málið fyrir réttinum yrði endurákvarðaður. Í bréfinu sagði meðal annars: „Óskaði undirrituð eftir dagsetningu þingfestingar í samræmi við útgefin tilmæli frá miðstjórnaryfirvöldum í Portúgal, sem annast um birtingu stefna. Samkvæmt þeim upplýsingum áskilja yfirvöld í Portúgal sér 30-60 daga til framkvæmdar á birtingu. Þegar undirrituð hafði fengið áfrýjunarstefnu þýdda yfir á Portúgölsku var hún send til birtingar til Sýslumannsins á Suðurnesjum, sem annast milligöngu um birtingar skv. alþjóðasamningum þar um. Hafnaði embættið hins vegar því að birta gögnin í Portúgal, með vísan til þess að í reynd hefði aldrei tekist að birta gögn innan hins tilgreinda 30-60 daga tímaramma, en rauntími birtinga í Portúgal væri allt að 9 mánuðir. Voru undirritaðri því endursend gögnin, og í símtölum var þess hafnað að birting yrði reynd í Portúgal. Miðað við þær upplýsingar sem áður voru gefnar þá var ekki óeðlilegt að óskað væri eftir þingfestingardegi að liðnum 2-3 mánuðum í fyrra erindi til réttarins, en í ljósi þess sem nú er fram komið þá verður að óska eftir endurákvörðun í málinu. Varðar það umbjóðanda minn, og barnungan son hennar miklu að leyst verði úr um faðerni barnsins, og eru hagsmunirnir af úrlausn málsins því miklir. Fyrirséð er að ekki fáist leyst úr ágreiningi um faðerni barnsins, nema með úrlausn Hæstaréttar, en útséð er um að birting takist í Portúgal fyrir áætlaðan þingfestingardag.“ Með bréfi Hæstaréttar til áfrýjanda 20. mars 2015 var erindi hans synjað þar sem rétturinn hefði enga heimild til að breyta þegar útgefnum áfrýjunarstefnum. Í kjölfarið var áfrýjunarstefnan birt í Lögbirtingablaði og hefur áfrýjandi stutt þá tilhögun við b. lið 1. mgr. 89. gr. laga nr. 91/1991. II Í 1. mgr. 89. gr. laga nr. 91/1991 er mælt fyrir um heimild til að birta stefnu í Lögbirtingablaði ef upplýsinga verður ekki aflað um hvar megi birta stefnu eftir almennum reglum, sbr. a. lið 1. mgr. 89. gr., ef erlend yfirvöld neita eða láta hjá líða að verða við ósk um birtingu samkvæmt 90. gr. sömu laga, sbr. b. lið sömu málsgreinar, eða ef stefnu er beint að óákveðnum manni, sbr. c. lið málsgreinarinnar. Eiga þessi ákvæði einnig við um birtingu stefnu vegna áfrýjunar til Hæstaréttar samkvæmt 166. gr. laga nr. 91/1991. Þegar áfrýjandi leitaði eftir birtingu stefnu til héraðsdóms fyrir stefnda á tilgreindu heimilisfangi í heimalandi hans tókst sú birting. Ekkert liggur fyrir um að upplýsinga hefði ekki mátt afla um hvar birta mætti honum áfrýjunarstefnu og samkvæmt því er skilyrði a. liðar 1. mgr. 89. gr. laga nr. 91/1991 til þess að birta stefnu í Lögbirtingablaði ekki fullnægt. Þá verður ekki ráðið af gögnum málsins að yfirvöld í Portúgal hefðu neitað eða látið hjá líða að birta áfrýjunarstefnu fyrir stefnda, ef eftir því hefði verið leitað, og er því heldur ekki fullnægt skilyrði b. liðar 1. mgr. 89. gr. laganna til að birta áfrýjunarstefnuna í Lögbirtingablaði. Ákvæði c. liðar málsgreinarinnar eiga ljóslega ekki við í málinu. Skýrt er kveðið á um hvernig standa skal að áfrýjun einkamála í XXV. kafla laga nr. 91/1991. Samkvæmt e. lið 1. mgr. 155. gr. laganna skal í áfrýjunarstefnu greina hvenær stefndi verði í síðasta lagi að tilkynna Hæstarétti að hann hafi í hyggju að halda uppi vörnum í málinu. Þótt skrifstofa Hæstaréttar ákveði dagsetningu í þessu skyni við útgáfu stefnunnar er það jafnan gert í samræmi við ósk áfrýjanda. Var ekkert því til fyrirstöðu að þessi frestur yrði ákveðinn svo rúmur að birta hefði mátt áfrýjunarstefnuna fyrir stefnda í tæka tíð. Samkvæmt öllu framansögðu verður málinu vísað frá Hæstarétti. Með vísan til 11. gr. barnalaga greiðist málskostnaður áfrýjanda úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns hans eins og í dómsorði greinir. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 2014. Mál þetta, sem dómtekið var 20. október sl. er höfðað af K, kt. [...], [...], [...], fyrir hönd ólögráða sonar hennar, A, kt. [...], með stefnu birtri 16. febrúar 2011 á hendur M, kt. [...], [...], [...], [...], Portúgal. Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði að stefndi sé faðir stefnanda, A, og að stefnda verði gert að greiða einfalt meðlag með honum frá fæðingardegi til fullnaðs 18 ára aldurs. Loks krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, eins og þetta mál væri eigi gjafsóknarmál. Stefndi sótti hvorki þing við þingfestingu málsins 7. apríl 2011 né við fyrirtöku þess 1. júní sama ár. Dómari skipaði þá Sif Thorlacius hdl. málsvara stefnda með heimild í 13. gr. barnalaga nr. 76/2003. Gerir hún þær kröfur fyrir hönd stefnda að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður úr hans hendi.  Málavextir                 Stefnandi lýsir málavöxtum í stefnu þannig að kynni hafi tekist með móður hans, Hrafnhildi, og stefnda haustið 2006 en stefndi hafi þá starfað í Reykjavík. Sambandi þeirra hafi lokið endanlega 31. janúar 2007. Meðan á því stóð hafi þau stundað kynlíf án getnaðarvarna. Móðir stefnanda hafi orðið þess áskynja 1. febrúar 2007 að hún væri með barni og sagt stefnda frá því skömmu síðar. Stefndi hafi ekki neitað því að vera faðir barnsins. Móðir stefnanda og stefndi hafi hist í byrjun mars 2007 og rætt m.a. um þungun stefnanda og meðlag með barninu. Stefndi hafi farið til Portúgal í sumarfrí sama ár og ekki snúið aftur til Íslands. Móðir stefnanda hafi á getnaðartíma haft samfarir við stefnda en enga aðra karlmenn. Stefnandi hafi fæðst [...]. október 2007 eftir fulla meðgöngu. Ekki hafi verið gengið frá faðernisviðurkenningu við fæðinguna. Móðir stefnandi hafi því leitað til Sýslumannsins í Reykjavík, kennt stefnda barn sitt og krafist meðlags úr hendi stefnda. Sýslumaður hafi tvívegis boðað stefnda á sinn fund með bréfum, en stefndi hafi hvorugu bréfinu svarað. Þar sem stefndi hafi neitað að viðurkenna á lögbundinn máta faðernið verði stefnandi að fá það viðurkennt með dómi. Með úrskurði dómsins uppkveðnum 11. október 2011 var málsaðilum og móður stefnanda gert að sæta blóðrannsókn og mannerfðafræðilegri rannsókn í þeim tilgangi að unnt yrði að staðreyna faðerni stefnanda. Úrskurðurinn var birtur fyrir stefnda 20. apríl 2012 í Portúgal ásamt bréfi þar sem fram kom krafa um að hann leitaði til næstu sjúkrastofnunar og gæfi blóðsýni. Ekkert blóðsýni barst frá stefnda. Óskaði því dómari eftir því í september 2012, með vísan til Haag-samningsins um öflun sönnunargagna erlendis í einkamálum og verslunarmálum frá 18. mars 1970, að portúgölsk yfirvöld hlutuðust til um að framangreindum úrskurði yrði fullnægt hvað varðar stefnda. Samkvæmt gögnum sem bárust dóminum frá portúgölskum yfirvöldum í júní 2013 neitaði stefndi að gangast undir umrædda lífsýnatöku. Í greinargerð stefnda, sem fylgdi gögnunum, kemur m.a. fram að hann hafi sent málsvara sínum, Sif Thorlacius hdl., tölvubréf en engin svör fengið. Þá hafi hann ekki fengið lögfræðilega aðstoð í heimlandi sínu. Telji hann sig í afar veikri stöðu í dómsmálinu þar sem hann geti ómögulega varið sig gegn ósannindum móður stefnanda. Á sama tíma og hann sé beðinn um að gefa blóðsýni, sem senda eigi til Íslands, viti hann ekki hvernig þessi rannsókn verði gerð varðandi aðra málsaðila. Auk þessi vilji hann síður láta taka úr sér lífsýni þar sem það brjóti gegn trúarlegum sannfæringum hans. Hann væri fullur efasemda í garð móður stefnanda sem hafi alla tíð hagað sér af illvilja gagnvart honum og því væri sýnataka honum mjög á móti skapi. Þá liggur fyrir í málinu tölvubréf stefnda til móður stefnanda frá 10. maí 2012, þar sem ekki verður annað ráðið en að stefndi kannist við að hafa haft samræði við hana. Í framburði móður stefnanda við aðalmeðferð málsins kom fram að hún hefði kynnst stefnda á veitingastaðnum Café Cultura. Þau hefðu verið í sambandi frá október 2006 til 31. janúar 2007. Á tímabilinu hefðu þau haft samræði án þess að nota getnaðarvarnir. Hún hafi komist að því að hún væri ófrísk daginn eftir að þau hafi endanlega slitið sambandi sínu. Skömmu síðar hefði hún sagt stefnda frá því að hún væri barnshafandi og hafi hann viljað að hún færi í fóstureyðingu. Í framburði hennar kom jafnframt fram að hún hefði haft samræði við annan mann í byrjun desember 2006. Hefði hún sagt stefnda frá því. Hún kvaðst samt viss um að stefndi væri faðir barnsins. Maður sá sem hún hefði haft mök við í desember 2006 hefði verið svartur á hörund en sonur hennar væri hvítur. Umræddur maður hefði látist árið 2008. Málsástæður aðila                 Stefnandi byggir á því að stefndi sé án nokkurs vafa faðir hans. Hann eigi því kröfu á að fá faðerni sitt viðurkennt með dómi. Fyrir liggi viðurkenning stefnda á því að hanni hafi haft samræði við móður stefnanda á getnaðartíma barnsins. Stefndi hafi neitað að gangast undir DNA rannsókn eins og dómurinn hafi fyrirskipað og verði að meta það honum í óhag við mat á sönnun. Þótt fram hafi komið fyrir dóminum að stefnandi hafi haft kynmök við annan mann í desember 2006 verði að horfa til þess að sá maður hafi verið dökkur á hörund en stefnandi sé hvítur. Enn fremur vísar móðir stefnanda til þess að fram komi í meðgönguskrá að hún hafi síðast haft tíðir 20. desember 2006 sem sé eftir þann tíma sem hún hafi haft mök við hinn manninn. Stefnandi byggir dómkröfur sínar á II. kafla barnalaga nr. 76/2003. Um lögsögu dómsins sé vísað til 8. og 9. gr. barnalaga, en málið sé höfðað á heimilisvarnarþingi móður og barns. Krafist sé málskostnaðar úr hendi stefnda, eins og þetta mál væri eigi gjafsóknarmál, sbr. 11. gr. barnalaga og 129. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Af hálfu málsvara stefnda var vísað til þess að móðir stefnandi hefði tjáð honum að hún notaði getnaðarvarnarpillu þegar þau áttu kynferðislegt samneyti. Stefndi hefði aldrei viðurkennt fyrir henni að hann væri faðir stefnanda. Þá væri óhjákvæmilegt að horfa til þess að við aðalmeðferð málsins hefði komið í ljós, þvert á það sem haldið var fram í stefnu, að hún hefði haft samræði við annan mann á getnaðartíma stefnanda. Hefði í raun borið að stefna þeim mann jafnframt til viðurkenningar á faðerni stefnanda, sbr. 10. gr. barnalaga. Niðurstaða Í 17. gr. barnalaga nr. 76/2003 segir að maður skuli talinn faðir barns ef niðurstöður mannerfðafræðilegra rannsókna benda eindregið til þess að hann sé faðir þess. Ekki má þó gagnálykta frá ákvæðinu þannig að maður geti aðeins verið dæmdur faðir barns ef niðurstöður slíkrar rannsóknar liggja fyrir. Verði mannerfðafræðilegri rannsókn ekki komið við getur niðurstaða í slíku máli byggst á öðrum sönnunargögnum samkvæmt hinni almennu reglu um frjálst sönnunarmat, eins og fram kemur í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi að framangreindum lögum. Stefnandi, A, er fæddur [...]. október 2007. Í tilkynningu ljósmóður um fæðingu hans kemur fram að lengd meðgöngu (skv. ómun) sé 42 vikur. Þar sem gert er ráð fyrir upplýsingum um föður í tilkynningunni er ekkert ritað. Í meðgönguskrá kemur fram að síðustu tíðir móður stefnanda hafi verið [...]. desember 2006. Samkvæmt ómskoðun sé fæðingartíminn áætlaður [...]. október 2007. Af þessu má því ráða að móðir stefnanda hafi gengið með hann fulla meðgöngu og að hann hafi verið getinn í janúar 2007 eða um það leyti. Stefndi, sem er portúgalskur ríkisborgari, búsettur í Portúgal, kom ekki fyrir dóminn. Stefndi hefur neitað að hlýða úrskurði dómara um að gangast undir blóðrannsókn og mannerfðafræðilega rannsókn í þeim tilgangi að unnt verði að staðreyna faðerni stefnanda en beiðni dómara um að fullnægja úrskurðinum var send portúgölskum yfirvöldum. Af tölvubréfi sem stefndi sendi móður stefnanda í maí 2012 má þó ráða að hann kannist við að hafa haft kynmök við hana á getnaðartíma stefnanda. Hann efast samt um að hann sé faðir barnsins þar sem hún hafi tjáð honum að hún tæki getnaðarvarnarpilluna og þá telur stefndi að fleiri menn komi til greina sem faðir barnsins. Afrit af tölvubréfinu var sent dóminum. Í framburði móður stefnanda fyrir dóminum kom fram að hún hefði átt kynmök við annan mann en stefnda í byrjun desember 2006. Hún teldi hins vegar að hann væri ekki faðir barnsins þar sem að hann hefði verið dökkur á hörund en barnið hvítt. Sá maður mun vera látinn en lögerfingjum hans hefur ekki verið stefnt í málinu, sbr. 2. mgr. 10. gr. barnalaga, en eins og fram hefur komið var í stefnu á því byggt að móðir stefnanda hefði ekki haft kynmök við aðra á getnaðartíma hans. Stefndi mun eiga eina dóttur  sem er undir hans forsjá í Portúgal. Miðað við fyrirliggjandi afstöðu stefnda til blóðrannsóknar og mannerfðafræðilegar rannsóknar í málinu telur dómari að það muni ekki þjóna tilgangi að úrskurða að slík rannsókn verði gerð á dótturinni, sbr. 1. mgr. 15. gr. barnalaga. Annarra gagna eða framburðar vitna nýtur ekki við til stuðnings kröfu stefnanda um að viðurkennt verði með dómi að stefndi sé faðir stefnanda. Af þessu leiðir að ekki er komin fram full sönnun fyrir því að stefndi sé faðirinn eins og hér háttar til. Því er óhjákvæmilegt að hafna kröfum stefnanda. Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður. Með vísan til 11. gr. barnalaga greiðist allur kostnaður stefnanda af málinu, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Þorbjargar Ingu Jónsdóttur hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 878.500 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti. Þóknun skipaðs málsvara stefnda, Sifjar Thorlacius hdl., 351.400 kr., þar með talinn virðisaukaskattur, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 13. gr. barnalaga. Dómari tekur fram að meðferð málsins fyrir dóminum hafi dregist m.a. vegna tilrauna til að afla lífsýna úr stefnda, tilrauna málsvara stefnda til að hafa samband við hann og þýðinga gagna. Kolbrún Sævarsdóttir, héraðsdómari, kveður upp þennan dóm. D Ó M S O R Ð :                 Stefndi, M, er sýknaður af kröfum stefnanda, A, í máli þessu. Málskostnaður fellur niður. Málskostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns hans, Þorbjargar I. Jónsdóttur hrl., 878.500 kr. krónur. Þóknun málsvara stefnda, Sifjar Thorlacius hdl., 351.400 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Mál nr. 760/2014
Samningur Jörð Umferðarréttur
S og G, eigendur spildu úr landi Haga í Rangárþingi ytra, deildu um umferðarrétt um Hólaveg, sem liggur um spilduna frá Hagavegi að Burstabrekku, sem er í eigu K og stendur á Ketilstaðahnjúki og var á sínum tíma skipt úr landi Haga. Eignarrétt sinn að spildunni úr landi Haga höfðu S og G eignast 1997 með makaskiptasamningi við GH í Haga og báru þau því við að samkvæmt orðalagi þess samnings tilheyrði spildunni landið sem vegurinn liggur eftir. Hæstiréttur taldi að með makaskiptasamningnum árið 1997 hefðu S og G öðlast eignarhald á allri spildunni úr landi Haga sem þeim var seld og þar með talið því landi innan hennar sem síðar fór undir Hólaveg. Þá taldi rétturinn að í þeim orðum afsals GH árið 1999 til þeirra sem K leiddi rétt sinn frá, að meðfylgjandi væri vegur frá Hagabraut og heim að bústað, gæti í samræmi við efnislegan rétt GH ekki falist annað og meira en yfirlýsing um umferðarrétt þeim til handa eftir vegslóðanum. Þar sem GH hefði brostið að lögum heimild til að afsala afsalshöfum eignarrétti að vegstæði Hólavegar, hafi slíkt á annað borð verið tilætlan hans, ætti sami heimildarbrestur við um þá sem leiddu rétt sinn til lóðarinnar frá afsalshöfunum við síðari sölur hennar, þ. á m. K. Var að virtri kröfugerð S og G tekin til greina varakrafa þeirra um umferðarrétt um veginn. 
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 15. september 2014. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu 29. október 2014 og var áfrýjað öðru sinni 26. nóvember sama ár. Áfrýjandi krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 2014. Mál þetta, sem dómtekið var 23. maí 2014, var höfðað 18. júní 2013 af Sólveigu Ólafsdóttur, Forsölum 1, Kópavogi og Grétari Jóhannesi Sigvaldasyni, Þingaseli 5, Reykjavík gegn Konráði G. Gottliebssyni, Þórðarsveig 2, Reykjavík, til viðurkenningar á dómkröfum, og gegn Gottlieb Konráðssyni, Burstabrekku, Rangárþingi ytra, til réttargæslu. Stefnendur krefjast þess aðallega að viðurkennt verði með dómi eignarhald þeirra á landi því sem svonefndur Hólavegur liggur eftir, á landspildu stefnenda, en spilda þessi, sem er úr jörðinni Haga í Rangárþingi ytra, hefur landnúmerið 198458, nánar tiltekið frá línu sem dregin er milli punkta 1 og 20 á hnitsettri loftmynd (dskj. 3) um eftirtalin hnit, en að gættum umferðarrétti stefnda Konráðs og réttargæslustefnda Gottliebs eftir Hólavegi: Frá punkti 1 (hnit austur (A) 428524,2 / norður (N) 385762,8) að punkti 2 (hnit A-428525,0 / N-385774,7), en þaðan að punkti 3 (hnit A-428542,9 / N-385786,9), en þaðan að punkti 4 (hnit A-428568,4 / N-385810,6), en þaðan að punkti 5 (hnit A-428577,4 / N-385821,9), en þaðan að punkti 6 (hnit A-428595,8 / N-385854,0), en þaðan að punkti 7 (hnit A-428623,6 / N-385910,1), en þaðan að punkti 8 (hnit A-428631,7 / N-385928,6), en þaðan að punkti 9 (hnit A-428651,5 / N-385982,3), en þaðan að punkti 10 (hnit A-428668,5 / N-386015,0), en þaðan að punkti 11 (hnit A-428694,8 / N-386000,7), en þaðan að punkti 12 (hnit A-428679,2 / N-385970,6), en þaðan að punkti 13 (hnit A-428659,4 / N-385917,1), en þaðan að punkti 14 (hnit A-428650,9 / N-385897,6), en þaðan að punkti 15 (hnit A-428622,4 / N-385839,9), en þaðan að punkti 16 (hnit A-428602,0 / N-385804,7), en þaðan að punkti 17 (hnit A-428590,9 / N-385790,7), en þaðan að punkti 18 (hnit A-428561,4 / N-385763,2), en þaðan að punkti 19 (hnit A-428536,8 / N-385746,6), en þaðan að punkti 20 (hnit A-428522,8 / N-385741,5), en þaðan að punkti 1. Þá krefjast stefnendur þess að viðurkenndur verði umferðar- og nýtingarréttur þeirra á Hólavegi, allt frá þjóðvegi, Hagabraut, að línu sem dregin er milli punkta 10 og 11 á dómskjali nr. 3. Til vara krefjast stefnendur þess að viðurkennt verði með dómi að landspilda þeirra með landnúmerinu 198458, þar sem hún liggur með Hólavegi, nái allt að spildu sem afmarkast á loftmynd á dskj. nr. 4 með eftirgreindum hnitum: Frá punkti a (hnit austur (A) 428524,0 / norður (N) 385759,5), að punkti b (hnit A-428529,5 / N-385761,1), en þaðan að punkti c (hnit A-428551,2 / N-385775,9), en þaðan að punkti d (hnit A-428578,9 / N-385801,2), en þaðan að punkti e (hnit A-428588,2 / N-385813,0), en þaðan að punkti f (hnit A-428622,9 / N-385876,3), en þaðan að punkti g (hnit A-428636,2 / N-385904,0), en þaðan að punkti h (hnit A-428649,2 / N-385936,2), en þaðan að punkti i (hnit A-428663,9 / N-385977,0), en þaðan að punkti j (hnit A-428680,4 / N-386008,6), en þaðan að punkti k (hnit A-428683,0 / N-386007,1), en þaðan að punkti l (hnit A-428666,7 / N-385975,9), en þaðan að punkti m (hnit A-428652,0 / N-385935,1), en þaðan að punkti n (hnit A-428638,9 / N-385902,8), en þaðan að punkti o (hnit A-428625,6 / N-385875,0), en þaðan að punkti p (hnit A-428590,7 / N-385811,3), en þaðan að punkti q (hnit A-428581,2 / N-385799,2), en þaðan að punkti r (hnit A-428553,1 / N-385773,5), en þaðan að punkti s (hnit A-428530,9 / N-385758,4), en þaðan að punkti t (hnit A-428523,8 / N-385756,2). Þá krefjast stefnendur þess að viðurkenndur verði umferðar- og nýtingarréttur þeirra á Hólavegi, allt frá þjóðvegi, Hagabraut, að línu sem dregin er milli punkta j og k á dómskjali nr. 4. Stefnendur krefjast þess að stefndi Konráð verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað að mati dómsins samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti. Ekki eru gerðar kröfur á hendur réttargæslustefnda Gottlieb, en stefnendur skora á hann að gæta hagsmuna sinna í málinu, telji hann vera þörf á því. Stefndi krefst þess að vera sýknaður af öllum kröfum stefnenda. Þá krefst stefndi þess að stefnendur verði dæmdir til að greiða honum málskostnað að skaðlausu. Af hálfu réttargæslustefnda eru engar kröfur gerðar, en réttargæslustefndi styður kröfur og málflutning stefnda. Málavextir Stefnendur lýsa málavöxtum svo að þeir eigi í óskiptri sameign landspildu með landnúmerinu 198458, úr landi Haga í Rangárþingi ytra, en Hólavegur liggi um land þeirra. Stefndi Konráð G. Gottliebsson sé skráður lóðarhafi sumarhúsalóðar með landnúmer 165224, er nefnist Burstabrekka, en Hólavegur liggi frá þjóðvegi, Hagabraut, og upp að þeirri lóð. Réttargæslustefndi Gottlieb Konráðsson, sem sé leigutaki eða afnotahafi og byggingarleyfishafi á þeirri lóð, njóti sem slíkur umferðarréttar um Hólaveg. Samkvæmt gögnum málsins og lýsingu í stefnu eru málsatvik þau að 2. nóvember 1997 gerðu stefnendur makaskiptasamning við Guðmund Halldórsson, fyrrum eiganda jarðarinnar Haga í Holta- og Landsveit, nú Rangárþingi ytra, um landspildur. Samkvæmt samningnum keyptu stefnendur landspildu af Guðmundi, með landnúmerið 198458, en létu af hendi aðra spildu, svo og beitarrétt á enn annarri landspildu. Skipulagsuppdráttur sem unninn var á tímabilinu frá nóvember 1991 til febrúar 1992 var hluti samningsins. Mörkum landspildunnar sem stefnendur keyptu var lýst í makaskiptasamningi. Um vesturmörkin segir þar svo: Í vestur meðfram núverandi sumarhúsagirðingum og að landamerkjum Ketilsstaða. Undanskilið sölunni var skiki í suðvesturhorni spildunnar, um 3 ha að flatarmáli, en að öðru leyti var spildan seld ásamt öllu sem eigninni fylgir og fylgja ber að engu undanskildu í því ásigkomulagi sem kaupandi hefur þegar kynnt sér með skoðun og sættir sig við í einu og öllu. Makaskiptasamningurinn var samþykktur athugasemdalaust í jarðanefnd hinn 7. nóvember 1997 og af sveitarstjórn Holta- og Landsveitar hinn 8. desember 1997. Makaskiptasamningnum var þinglýst athugasemdalaust hinn 19. desember 1997. Innan marka landspildunnar var frístundalóð, sem Guðmundur Halldórsson hafði á sínum tíma leigt bróður sínum, Daníel Halldórssyni. Lóðin var afgirt og talin vera um 0,25 ha að flatarmáli. Daníel seldi Ólínu Kjartansdóttur sumarhús sitt á lóðinni á árinu 1995. Þann 25. ágúst 1995 leigði Guðmundur Ólínu og Guðjóni B. Sigurðssyni lóðina. Samkvæmt leigusamningnum var lóðin sögð u.þ.b. einn hektari að flatarmáli. Í samningnum var kveðið á um viðhaldsskyldu leigutaka á vegi að bústaðnum. Þremur árum áður hafði Guðmundur gert leigusamning við Arnar Magnússon um þrjár lóðir nær þjóðvegi, með aðkomu upp eftir Hólavegi og inn á lóðirnar, með viðhaldsskyldu leigutaka. Með afsali 31. júlí 1999, sem virðist gefið út á grundvelli óþinglýsts kaupsamnings, dags. 15. mars 1999, seldi Guðmundur Halldórsson og afsalaði leigulóðinni til leigutaka, Ólínu Kjartansdóttur og Guðjóns B. Sigurðssonar. Á prentað eintak afsalsins er handskrifuð stærð lóðarinnar, 10.000 fermetrar, og handskrifað er á skjalið að meðfylgjandi lóðinni sé vegur frá Hagabraut og heim að bústað. Undirritanir breytinga þessara á prentaða skjalinu eru ekki sérstaklega vottaðar. Landnúmer lóðarinnar er sagt 165224. Afsalið var afhent til þinglýsingar 27. júní 2005 og þinglýst næsta dag. Engin lýsing eða hnitsetning er á mörkum lóðarinnar og umlykjandi spildu stefnenda og staðfest mörk er hvergi að finna á uppdráttum eða loftmyndum. Þann 10. september 2007 afsalaði Guðjón B. Sigurðsson, þá orðinn ekill, rétti sínum að sumarhúsi og sumarhúsalóð (landnúmer 165224) til Guðnýjar Óskar Gottliebsdóttur. Samkvæmt afsalinu er stærð lóðarinnar 10.000 fermetrar og tilgreint að meðfylgjandi sé vegur frá Hagabraut heim að bústað. Afsal þetta var afhent til þinglýsingar 11. september 2007 og innfært daginn eftir. Í stefnu segir að það hafi verið fyrst í október 2007 sem stefnendur hafi fengið vitneskju um gerning Guðmundar Halldórssonar frá 1999 (afsal leigulóðar) og þar með um ráðstöfun hans á hluta af spildu stefnenda, þ.e. þeim hluta spildunnar sem leigulóðin hafi verið á og þess hluta sem verið hafi hinn upphaflegi Hólavegur. Á sama tíma, í október 2007, hafi stefnendum fyrst orðið kunnugt um afsal Guðjóns B. Sigurðssonar til Guðnýjar Óskar Gottliebsdóttur. Þegar stefnendur hafi tekið við eignarhaldi spildunnar í nóvember 1997 hafi Hólavegur ekki verið annað en moldarslóði, í raun aðeins fólksbílahjólför, tæplega þriggja metra breið. Bróðir Guðmundar, Daníel, hafi haft viðhaldsskyldu á slóðanum. Sú viðhaldsskylda hafi færst yfir á Ólínu Kjartansdóttur og Guðjón B. Sigurðsson, þegar þau hafi tekið yfir lóðarleigusamninginn á árinu 1995. Hvorki Daníel né Ólína og Guðjón hefðu sinnt viðhaldinu á slóðanum eða gert á honum endurbætur þegar stefnendur hafi keypt landspilduna af Guðmundi Halldórssyni. Stefnendur hafi fljótlega hafist handa við að endurbæta slóðann vegna aðgengis að jarðræktarframkvæmdum sínum (túnrækt) með fram og út frá honum. Þeir hafi fengið verktaka til þess að aka möl í hjólförin á árinu 1998. Verktakinn hafi útbúið tvö stæði fyrir heysátur, annað hægra megin við slóðann, ofan við sumarhúsalóð á hægri hönd, en hitt ofarlega við slóðann, einnig hægra megin við hann. Jarðræktarframkvæmdir stefnenda hafi hafist árið 1998 með því að jarðvegi hafi verið ýtt til, sléttað úr allstórum landspildum (u.þ.b. 16-18 ha að flatarmáli) vestan og austan við Hólaveg og sáð grasfræi. Stefnendur hafi samtímis látið grafa um 300-400 metra langan skurð austan við Ketilsstaðahnjúk, frá norðurmörkum spildunnar og í suðurátt, inn í mitt túnið. Stefnendur hafi fyrst hirt hey af túnum sínum haustið 1998 og síðan árlega eftir það. Á árinu 2004 hafi stefnendur látið aka möl í slóðann (veginn) frá þjóðvegi og nokkuð upp fyrir neðra sátustæðið (sem er við punkt t á loftmynd á dskj. 4). Allar þessar lagfæringar og endurbætur á veginum hafi auðveldað stefnendum mjög nýtingu á landi sínu, bæði til jarðræktarframkvæmda, til áburðargjafar á túnin, til heysláttar og hirðingar og til þess að gefa hestum sínum hey yfir vetrartímann. Allt hey hafi verið geymt á sátustæðunum og rúllur teknar þaðan og hestum gefið. Þá hafi stefnendur rekið, eftir því sem þurft hafi, hross upp veginn og í beitarhólf inni á landspildu sinni, bæði vestan og austan vegarins. Þannig hafi Ketilsstaðahnjúkur, allt að og umhverfis afgirtu leigulóðina, og svæðið kringum hnjúkinn, sem ekki hafi verið brotið undir túnrækt, verið notað sem beitarhólf fyrir hesta stefnenda allt frá árinu 1998. Stefnendur hafi þannig haft, allan ársins hring, mikil not af vegi sínum í þessum störfum og framkvæmdum, allt frá því þeir eignuðust spilduna og þar til á árinu 2008, þegar þeim hafi skyndilega verið meinuð för um veginn af réttargæslustefnda Gottlieb, veginn sem þeir telji sig eiga, veginn sem þeir hafi betrumbætt, haldið við og notað frá árinu 1997. Hafi réttargæslustefndi Gottlieb girt fyrir veginn, úti við þjóðveg, með sverri keðju og lás og komið þannig í veg fyrir að stefnendur gætu farið um veginn með hross sín og heyvinnslutæki. Réttargæslustefndi Gottlieb hafi borið efni í veginn, hækkað hann töluvert og ýtt efninu út til hliða og þannig tekið sífellt stærra ræktar- og beitarland frá stefnendum undir vegstæðið. Loks hafi réttargæslustefndi Gottlieb tekið sig til og girt veginn af, með girðingu allt upp að lóðinni á Ketilsstaðahnjúki. Hafi hann þannig helgað sér umtalsvert af landi stefnenda og jafnframt hafnað tilmælum stefnenda um að rífa upp girðingar sínar með fram veginum. Réttargæslustefndi Gottlieb hafi hlotið refsidóm í sakamálinu nr. S-239/2009 fyrir Héraðsdómi Suðurlands vegna áverka á fæti sem hann veitti stefnanda Grétari Jóhannesi þann 13. ágúst 2008, þegar hann hafi meinað stefnanda Grétari Jóhannesi og Þorgrími Ólafssyni, eiginmanni stefnanda Sólveigar, för eftir veginum. Stefnendur telja sölu Guðmundar Halldórssonar á sumarhúsalóðinni til Ólínu Kjartansdóttur og Guðjóns B. Sigurðssonar á árinu 1999 hafa verið í andstöðu við makaskiptasamning hans við stefnendur tveimur árum fyrr. Þá séu mörk þessarar lóðar gagnvart umlykjandi landspildu stefnenda fullkominni óvissu háð og algjörlega óskilgreind. Með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands 22. maí 2008 var kröfu stefnenda um aflýsingu afsalsins hafnað og með úrskurði sama dómstóls 6. nóvember 2008, sem staðfestur var í Hæstarétti 8. desember s.á., var hafnað kröfu stefnenda um að þau yrðu með beinni aðfarargerð sett inn í óhindruð umráð eða óhindraðan umferðarrétt um Hólaveg frá Hagabraut, m.a. vegna þess að mörk lands þeirra væru að ýmsu leyti óljós. Stefnendur höfðuðu dómsmál 9. mars 2010 gegn börnum Guðmundar Halldórssonar og fleiri einstaklingum, til viðurkenningar á legu vesturmarka landspildu sinnar. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-1934/2010, sem kveðinn var upp 25. október 2012, var viðurkennt að vesturmörk landspildunnar lægju eins og þeim hafi verið lýst í makaskiptasamningnum, með sumarhúsagirðingum og að landamerkjum Ketilsstaða. Dóminum var ekki áfrýjað. Ágreiningur máls þessa snýst um eignarrétt að svonefndum Hólavegi, frá Hagabraut (þjóðvegi) að lóð stefnda, sem nú nefnist Burstabrekka og réttargæslustefndi nýtir, og um nýtingar- og umferðarrétt stefnenda um veginn. Við aðalmeðferð málsins gekk dómari málsins á vettvang ásamt lögmönnum aðila, stefnanda Grétari Jóhannesi Sigvaldasyni og réttargæslustefnda Gottlieb Konráðssyni. Málsástæður og lagarök stefnenda 1. Aðalkrafa Stefnendur haldi því fram að með makaskiptasamningi sínum við Guðmund Halldórsson þann 2. nóvember 1997 hafi þeir eignast spilduna með landnúmerinu 198458 með þeim ytri mörkum sem lýst er í samningnum, sbr. og niðurstöðu í héraðsdómsmálinu nr. E-1934/2010. Hið eina sem Guðmundur hafi undanskilið í viðskiptunum hafi verið þriggja hektara svæði í suðvesturhorni spildunnar. Að öðru leyti hafi eignin verið seld „ásamt öllu sem eigninni fylgir og fylgja ber að engu undanskildu í því ásigkomulagi sem kaupandi hefur þegar kynnt sér með skoðun og sættir sig við í einu og öllu“ eins og tilgreint hafi verið í samningnum. Stefnendur telji að í niðurstöðu héraðsdóms í málinu nr. E-1934/2010 felist viðurkenning á því að þann 2. nóvember 1997 hafi þeir eignast allt land innan þeirra marka, sem landamerkjalýsingin í samningnum sjálfum tilgreindi, svo og sem komi fram á skipulagsuppdrætti þeim, sem hafi verið hluti samningsins. Ekkert hafi verið undanskilið í samningnum utan 3 ha spildan í suðvesturhorni landspildunnar. Stefnendur telji því að fyrir liggi dómsniðurstaða um eignarrétt þeirra á öllu landi austan vesturmarka spildunnar og vestan austurmarka hennar. Þessari dómsniðurstöðu héraðsdóms hafi ekki verið áfrýjað til Hæstaréttar Íslands og verði því að telja að um bindandi niðurstöðu sé að ræða. Stefnendur benda á að samkvæmt skipulagsuppdrætti, sem verið hafi hluti samnings þeirra við Guðmund, hafi ætlunin verið að Hólavegur yrði umferðarleið fyrir sumarhúsaeigendur sunnan og norðan við veginn, auk þess sem vegurinn hafi átt að vera aðkomuleið lóðarhafa sumarhúsalóðarinnar á Ketilsstaðahnjúki (lnr. 165224). Stefnendur bendi í þessu sambandi á yfirlýsingu Daníels Halldórssonar, þar sem fram komi að hann hafi notið umferðarréttar um vegarslóðann að bústað sínum, gegn viðhaldsskyldu. Einnig bendi stefnendur á að samkvæmt leigusamningi Guðmundar Halldórssonar við Ólínu Kjartansdóttur og Guðjón B. Sigurðsson frá árinu 1995 hafi þau sem leigutakar átt að halda veginum við. Óþarft hefði verið að taka þetta fram hefði vegurinn fylgt sumarhúsalóðinni. Stefnendur haldi því fram að umferðarréttur sumarhúsaeigenda hafi verið og sé eingöngu afnotaréttur og breyti engu um eignarhald stefnenda á veginum og landinu undir honum. Vegurinn og vegstæðið, þ.e. landið undir veginum, sé hluti þeirrar spildu sem liggi innan skilgreindra marka samkvæmt makaskiptasamningnum. Stefnendur haldi því fram að vegna þess að Hólavegur hafi á þessum tíma (1997-1998) ekki verið eiginlegur vegur, heldur fremur vegslóði eða hjólför upp að sumarhúsi Daníels Halldórssonar, hafi í sjálfu sér ekki verið sérstök þörf á að tilgreina slóðann eða hjólförin sérstaklega í makaskiptasamningnum. Hjólförin hafi alveg fallið að landinu og ekki verið á neinn hátt aðgreinanleg sem sérstakur hluti landsins. Augljóst hafi verið að hjólförin tilheyrðu spildunni sem stefnendur keyptu. Stefnendur haldi því fram að hafi Guðmundur Halldórsson ætlað að undanskilja Hólaveg (hjólförin) í sölunni til þeirra í nóvember 1997 hefði hann þurft að taka það sérstaklega fram í lýsingu á vesturmörkum spildunnar. Það hafi ekki verið gert enda hafi ætlunin aldrei verið sú að Hólavegur tengdist á þann hátt lóðinni með lnr. 165224, sem hluti þeirrar lóðar. Þess í stað hafi stefnendur frá upphafi kostað lagningu vegarins og síðar nýtt og endurbætt veginn sem eigendur að honum, án athugasemda frá Guðmundi, Daníel bróður hans eða síðari leigutökum að sumarhúsalóðinni. Allt beri þetta með sér og staðfesti að allir hlutaðeigendur, þar á meðal Guðmundur Halldórsson, hafi litið á og viðurkennt stefnendur sem eigendur Hólavegar, að minnsta kosti innan marka landspildunnar. Stefnendur haldi því fram að handrituð yfirlýsing á afsali Guðmundar Halldórssonar til Ólínu Kjartansdóttur og Guðjóns B. Sigurðssonar, dags. 15. mars 1999, um að meðfylgjandi lóðinni nr. 165224 sé vegur frá Hagabraut (Holtavegi) og heim að bústað, hafi hvorki skapað afsalshöfum né síðari lóðarhöfum eignarrétt að veginum, enda hafi vegurinn og landið undir honum þá þegar verið þinglýst eign stefnenda samkvæmt makaskiptasamningnum. Stefnendur bendi hér á að það hafi verið þeir sem hafi breytt hjólförunum, langleiðina upp að lóð nr. 165224, í veg, með því að láta aka möl í hjólförin og þannig raunverulega að búa til veginn á sinn kostnað. Með yfirlýsingunni hafi þannig verið reynt að ráðstafa vegi sem stefnendur hefðu látið gera á sínu landi. Um vanheimild hafi því verið að ræða af hálfu Guðmundar að þessu leyti, ef textinn stafar á annað borð frá honum, sem ekki hafi getað skapað hlutaðeigandi betri rétt til vegarins og landsins undir honum er gengi framar þinglýstum eignarrétti stefnenda til hans. Líta beri því á yfirlýsinguna í afsali Guðmundar til Ólínu og Guðjóns sem yfirlýsingu um umferðarrétt um Hólaveg, en sá umferðarréttur hafi aldrei verið vefengdur af stefnendum. Þá haldi stefnendur því fram að hin handritaða yfirlýsing á afsalið sé óvottuð og því sé ekki unnt að leggja hana til grundvallar við mat á stofnun réttinda til vegarins. Að auki sé fullkomlega óvíst að um undirskrift Guðmundar sjálfs sé að ræða. Textinn hafi því ekkert lagalegt gildi. Stefnendur haldi því fram að eldri, þinglýstur réttur þeirra gangi framar yngri, meintum rétti að því er varðar landspildu stefnenda og hvað henni tilheyri. Um eignarrétt stefnenda sé að ræða sem sé varinn af eignarréttarákvæði 72. gr. íslensku stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944. Þannig falli Hólavegurinn að öllu leyti innan landspildu stefnenda, allt frá línunni milli punkta 1 og 20, að mörkum spildunnar og lóðar með lnr. 165224. Niðurstaða í héraðsdómsmálinu nr. E-1934/2010 staðfesti þetta og hún hafi ekki sætt vefengingu eða endurskoðun. Í kröfu stefnenda í aðalsök nái tilgreind efri mörk landræmunnar svo nærri lóðinni nr. 165224 sem stefnendum þykir gerlegt nú. Þeir bendi á að afmörkun lóðarinnar hafi aldrei farið fram og mörk hennar og landspildunnar nr. 198458 séu því óljós og óákveðin. Þótt ekki liggi þannig fyrir hversu langt í suður lóðin nái sé þó ljóst að hin afmarkaða landræma í kröfugerð stefnenda nái ekki alla leið að mögulegum syðstu mörkum lóðarinnar. Stefnendur áskilji sér rétt til þess að fá síðar í dómsmáli viðurkenndan eignarrétt sinn á þeim hluta Hólavegar sem kröfugerð þeirra nái ekki til nú, svo og til lóðarinnar nr. 165224. Stefnendur haldi því fram, auk þess að krefjast viðurkenningar á eignarrétti sínum að hinni afmörkuðu spildu í kröfugerð aðalkröfunnar, að þeir eigi óskoraðan umferðar- og nýtingarrétt að öllum Hólavegi, allt frá Hagabraut, á grundvelli eignarréttar síns og á grundvelli þeirrar ætlunar Guðmundar Halldórssonar að aðgengi að spildunni yrði um Hólaveginn. Bendi stefnendur í þessu sambandi á framburð Ólafs Þorsteinssonar, bónda í Guttormshaga, fyrir héraðsdómi í málinu nr. E-1934/2010, en þar hafi komið fram að þegar Guðmundur hafi áformað að selja landspildu þá sem stefnendur síðar hafi keypt hafi hann upplýst Ólaf, sem hafði hugleitt að kaupa spilduna, um að aðgengi að spildunni yrði um tunguna við lóð Hólmfríðar Geirdal, en á þeirri tungu liggi Hólavegur frá Hagabraut og inn á spilduna. Að mati stefnenda taki þessi framburður Ólafs, svo og athugasemdalaus og óslitin afnot og uppbygging þeirra sjálfra á veginum, af öll tvímæli um rétt þeirra til umferðar og nýtingar á Hólavegi, allt frá Hagabraut. Að auki sé stefnendum ómögulegt að komast með öðrum hætti með tæki að túnum sínum til ræktunar og heyskapar. 2. Varakrafa Varakrafa stefnenda byggist á þeim rökum að fallist rétturinn ekki á að Hólavegurinn og landið undir honum, eins og það er afmarkað í kröfugerð í aðalkröfunni, tilheyri stefnendum, geti vegurinn, sem Guðmundur Halldórsson hafi talið sig geta ráðstafað á árinu 1999 með afsalinu til Ólínu Kjartansdóttur og Guðjóns B. Sigurðssonar, ekki hafa verið breiðari en sem numið hafi breidd venjulegrar fólksbifreiðar á þeim tíma, eða um 2,5 metrum. Guðmundur hafi ekki getað gengið á þinglýstan, stjórnarskrárvarinn eignarrétt stefnenda með því að veita öðrum viðsemjendum sínum skerf af því sem hann áður hafi verið búinn að selja stefnendum. Í handrituðum texta á afsalinu til Ólínu og Guðjóns komi einungis fram að vegur frá Hagabraut og heim að bústað sé meðfylgjandi lóðinni. Þessi lýsing geti ekki átt við annað en veginn, eins og hann þá hafi verið, þ.e.a.s. breidd malartroðnings (hjólfara) sem rétt hafi rúmað venjulega fólksbifreið. Í varakröfu stefnenda sé miðað við algenga breidd fólksbifreiða, sem er um 2,5 metrar. Landræman sé afmörkuð á dskj. 4 miðað við þessa breidd bifreiða, með viðbót sitt hvorum megin, alls 3 metra, eða 1,5 metra út frá miðlínu vegar, enda verði að telja það vera ljóst að viðsemjendur Guðmundar hafi ekki getað eignast breiðara svæði. Stefnendur haldi því fram að réttargæslustefndi Gottlieb hafi í vegaframkvæmdum sínum farið langt út fyrir mörk vegslóðans og hann hafi þannig á ólögmætan og saknæman hátt tekið undir sig og/eða lóðarhafann allverulega sneið af landi stefnenda, ásamt því að girða síðan langt utan við veginn, upp með honum, og helgað sér þannig enn meira af landi stefnenda. Afmörkun efri marka landræmunnar á dskj. 4 skýrist á sama hátt og afmörkun efri marka landræmunnar í aðalsök. Krafa stefnenda um umferðar- og nýtingarrétt að Hólavegi í varakröfu máls þessa styðjist við sömu málsástæður og aðalkrafa málsins. Lagarök Stefnendur styðji dómkröfur sínar m.a. við almennar reglur íslensks réttar um stofnun eignarréttinda og vernd þeirra réttinda, þar á meðal samkvæmt eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrár íslenska lýðveldisins nr. 33/1944. Einnig styðjist dómkröfur stefnenda við ákvæði þinglýsingarlaga nr. 39/1978, þar á meðal ákvæði III. kafla laganna um forgangsáhrif þinglýsingar og ákvæði IV. kafla laganna um þinglýsingu réttinda yfir fasteignum. Um varnarþing vísist til 32. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, en stefndi Konráð eigi lögheimili í Reykjavík. Krafa stefnenda um málskostnað úr hendi stefnda styðjist við ákvæði 21. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, sérstaklega 129. og 130. gr. laganna. Stefnendur skori á réttargæslustefnda að meðalgöngustefna sér inn í málið telji hann sig hafa beinna hagsmuna að gæta í málinu, til sóknar eða varnar. Málsástæður og lagarök stefnda og réttargæslustefnda Stefndi byggi á því að allt það land sem afmarkað sé í aðal- og varakröfu stefnenda sé eign stefnda á grundvelli þinglýstra gagna. Jafnframt eigi stefnendur ekki lögvarinn umferðar- og nýtingarrétt um hinn umþrætta Hólaveg. Stefndi mótmæli öllum málsástæðum stefnenda. Stefndi byggi í fyrsta lagi á því að hann sé þinglýstur eigandi að eigninni Burstabrekku, landnr. 165224. Allt frá því lóðin hafi fyrst verið stofnuð sem eignarlóð úr landi jarðarinnar Haga hafi henni fylgt svonefndur Hólavegur. Þannig segi í upphaflegu afsali um lóðina frá 1999 að meðfylgjandi lóðinni sé vegur frá Hagabraut og heim að bústað. Landnr. 165224 skv. skrám FMR. Byggt sé á því að orðalagið sé afdráttarlaust um yfirfærslu afsalsgjafa á beinum eignarrétti að því landi sem vegurinn liggi um. Um sé að ræða fullgilt vottað afsal sem þinglýst hafi verið án athugasemda. Sérstaklega sé mótmælt því að vottun afsalsins hafi ekki tekið til þeirrar yfirlýsingar afsalsgjafa að meðfylgjandi væri umræddur vegur. Þá sé dylgjum um að umrædd yfirlýsing stafi ekki frá afsalsgjafa mótmælt sem röngum og ómaklegum. Fyrir liggi að afsalsgjafi hafi sérstaklega ritað undir þessa setningu í afsalinu. Enda þótt komist yrði að þeirri niðurstöðu að vafi væri um vottun þessarar yfirlýsingar þá leiði það vitanlega ekki til þess að horfa beri fram hjá yfirlýsingunni. Í öðru lagi ætti að vera hafið yfir vafa að afsalshafar að eigninni Burstabrekku hafi á hverjum tíma verið í góðri trú um að landi þeirra fylgdi eignarréttur að landi Hólavegar. Þegar stefndi hafi eignast lóðina hafi þegar verið þinglýst án athugasemda þremur afsölum þar sem sérstaklega hafi verið tekið fram að eigninni tilheyrði umræddur vegur. Eigendur lóðarinnar á hverjum tíma hafi því mátt treysta því að eignarhald vegarins væri með þessum hætti. Traustfangsreglur leiði því til þess að hafna verði kröfum stefnenda. Dómur héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-1934/2010 breyti engu þar um enda hafi í forsendum dómsins ekki verið vikið að eignarhaldi á þeim vegi sem mál þetta snúist um. Þá skipti einnig höfuðmáli að stefndi, Konráð, hafi ekki verið aðili að umræddu máli og því sé dómurinn ekki bindandi fyrir hann. Bæði efni dómsins og vitneskja stefnda hafi því ekki gefið honum ástæðu til að ætla að áhöld væru um eignarrétt hins umþrætta vegar. Vakin sé athygli á því að stefnendur hafi ekki gert tilraun til þess að þinglýsa dóminum inn á fasteign stefnda. Málshöfðun stefnenda staðfesti einnig að þeir líti sjálfir svo á að dómurinn taki ekki til eignarhalds á vegstæði Hólavegar. Bent sé á að hinn þinglýsti makaskiptasamningur sé afar óljós og vandséð hvernig hægt hafi verið að komast að þeirri niðurstöðu að land stefnenda næði að mörkum þeirra sumarhúsalóða sem tilgreind séu í dómsorði í máli nr. E-1934/2010. Stefndi telji því dóminn beinlínis efnislega rangan. Í makaskiptasamningnum frá 2. nóvember 1997 segi að land stefnenda sé 90 hektarar en sé skilningur stefnenda á dómsniðurstöðunni réttur þá hafi það land verið aukið í allt að 130 hektara. Niðurstaðan sé ekki aðeins í ósamræmi við upp gefna hektaratölu heldur sé hún einnig í ósamræmi við þá lengdarmetra sem gefnir séu upp í makaskiptasamningnum. Í makaskiptasamningi segi að með fram vesturhlið skuli landið ná, mælt frá miðju þess sumarhúss sem nyrst standi og efst í Hagalandi, í beinni loftlínu 1.615 lengdarmetra. Milli þessara hnita austur- og vesturhliðar skuli bein lína dregin og afmarki hún landið frá vestri til austurs. Þá sé vísað til þess að orðalag í makaskiptasamningi um norðurmörk þýði einungis að mörk séu í áttina að áður seldu Hagalandi. Stefndi vísi í þessu sambandi til þeirrar greinargerðar sem Elín Erlingsdóttir landfræðingur hafi unnið í marsmánuði 2008 þar sem hún hafi túlkað ákvæði makaskiptasamningsins. Stefndi geri sjónarmið Elínar að sínum. Í þriðja lagi sé því alfarið hafnað að vanheimild hafi komið í veg fyrir að Guðmundur Halldórsson hafi árið 1999 getað afsalað upphaflegum eigendum Burstabrekku hinum svonefnda Hólavegi. Guðmundi hafi að sjálfsögðu verið ljóst hvaða landi hann hafi ráðstafað með makaskiptasamningnum 1997. Jafnframt sé ljóst að á þeim uppdrætti sem legið hafi fyrir við gerð makaskiptasamningsins hafi sumarhúsið í Burstabrekku verið teiknað inn og jafnframt hinn umþrætti vegur. Vegurinn sé þar teiknaður inn jafn breiður og heimreiðarnar að Ketilstöðum og Haga. Þegar makaskiptasamningurinn hafi verið undirritaður hafi lóð stefnda þegar verið orðin sjálfstæð eign. Ljóst sé að stefnendur hafi með engu móti getað vænst þess við undirskrift makaskiptasamnings 1997 að þau væru að eignast það vegstæði sem teiknað hafi verið inn á uppdráttinn og liggi að þeirri sumarhúsalóð sem þau sannarlega hafi ekki verið að kaupa. Í fjórða lagi sé vísað til þeirra tveggja dómsúrlausna sem fjalli beinlínis um þann veg sem hér sé til umfjöllunar. Stefnendur hafi átt aðild að báðum málunum. Fyrra málið sé úrskurður Héraðsdóms Suðurlands í máli nr. T-5/2007. Í forsendum úrskurðarins segi svo um hinn umþrætta veg: Á uppdrætti er fylgdi makaskiptasamningi þann 2. nóvember 1997 er vegur greinilega teiknaður frá Hagavegi að sumarbústaðalandinu. Hafa kaupendur samkvæmt makaskiptasamningnum því verið upplýstir um þann veg. Þess vegar er þó í engu getið í texta makaskiptasamningsins. Stefndi byggi á því að þessi dómur hafi bindandi sönnunaráhrif um að stefnendur hafi verið upplýstir um umræddan veg við gerð makaskiptaafsalsins. Niðurstaða Hæstaréttar frá 8. desember 2010 í máli nr. 640/2008 skipti enn meira máli en þar hafi verið talið að fyrirliggjandi gögn málsins nægðu ekki til að sýna fram á að hinn umþrætti vegur lægi innan lands stefnenda. Hafi því bæði verið hafnað aðalkröfu um að stefnendur yrðu sett inn í umráð vegarins og varakröfu um að þau yrðu sett inn í umferðarrétt. Það liggi því fyrir að Hæstiréttur Íslands hafi talið í dómi sínum árið 2010 að makaskiptasamningur væri ekki nægjanlega skýr til að hægt væri að viðurkenna umferðarrétt stefnenda um veginn. Stefnendur tefli nú fram sama makaskiptasamningi og telji hann nú geta orðið grundvöll kröfu þeirra um að vera taldir eigendur vegarins. Stefndi byggi á því að dómur Hæstaréttar hafi bindandi réttaráhrif fyrir stefnendur um skýrleika og gildi makaskiptasamningsins. Í því sambandi sé minnt á forsendur héraðsdómsins sem staðfestur hafi verið í Hæstarétti, en þar segi: Þegar litið er til hinnar óskýru lýsingar í makaskiptasamningnum á vestur- og norðurmörkum spildu sóknaraðila telur dómurinn að ekki verði með ótvíræðum hætti af honum ráðið að hinn umdeildi vegur liggi innan marka þeirra. Hvað sem öðru líði sé a.m.k. ljóst að hinn óskýri makaskiptasamningur hefði aldrei getað vakið hjá stefnendum réttmæta og góða trú um að Hólavegur fylgdi landi þeirra. Þinglýst gögn um Burstabrekku hafi hins vegar vakið réttmæta og góða trú hjá stefnda og fyrri eigendum lóðarinnar um að Hólavegur væri hluti eignarinnar með landnr. 165224. Stefndi mótmæli harðlega þeirri ósönnu fullyrðingu að stefnendur hafi lagt í framkvæmdir við að byggja upp Hólaveg. Hið rétta sé að réttargæslustefndi, Gottlieb Konráðsson, hafi unnið við viðhald vegarins að beiðni fyrrum eigenda Burstabrekku, þeirra Guðjóns Ben og Ólínu Kjartansdóttur. Þá sé því mótmælt að umræddur vegur hafi einungis verið hjólför þegar makaskiptasamningur 1997 hafi verið gerður. Í því sambandi vísist til þess uppdráttar sem legið hafi frammi við gerð makaskiptasamnings. Þar sé vegurinn heim að Burstabrekku sýndur jafn breiður og heimreiðarnar heim að Ketilstöðum og Haga. Byggi stefndi á því að málatilbúnaður stefnenda um tilurð og viðhald vegarins sé um margt þversagnarkenndur. Það virðist þó vera óumdeilt að réttargæslustefndi sem íbúi í Burstabrekku hafi lagt í mikla vinnu við framkvæmdir við veginn. Jafnframt sé því mótmælt að stefnendum sé í dag ómögulegt að komast með tæki að landi sínu. Síðast í lok nóvember 2013 hafi stefnendur flutt mikið magn heyrúlla eftir veginum án athugasemda. Engar hindranir hafi verið settar upp. Loks sé afstöðu stefnenda til afmörkunar lóðar stefnda mótmælt en sú afstaða hafi með óbeinum hætti birst í staðsetningu punkta 10 og 11 í dómkröfu stefnenda. Framangreindar málsástæður eigi einnig við um mótmæli við varakröfu stefnenda. Vísað sé á bug því að það geti staðist að sá vegur sem eigandi Haga hafi afsalað til upphaflegra lóðareigenda hafi einungis verið þriggja metra breiður. Svo mjór vegur þekkist vart og því sé útilokað að taka varakröfuna til greina. Um lagarök fyrir sýknukröfu sé byggt á meginreglum eignarréttar og jafnframt á ákvæðum þinglýsingarlaga nr. 39/1978 og lögum um skráningu og mat eigna nr. 6/2001. Krafan um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Niðurstaða Í máli þessu er deilt um eignarrétt að svonefndum Hólavegi, sem liggur frá Hagabraut, sem er þjóðvegur, að lóð stefnda, sem réttargæslustefndi nýtir og nefnist Burstabrekka. Þá er deilt um umferðarrétt stefnenda um Hólaveg, en umferðarréttur stefnda og réttargæslustefnda um sama veg er óumdeildur. Fyrir liggja dómsúrlausnir sem snerta ágreiningsefni máls þessa og hafa þær fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í þeim greinir, þar til það gagnstæða er sannað, sbr. 4. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Með makaskiptasamningi 2. nóvember 1997 eignuðust stefnendur landspildu, en það var fyrst nákvæmlega afmarkað með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október 2012 í máli E-1934/2010, hvar ytri mörk eignarlands stefnenda samkvæmt samningnum liggja. Áður hafði í dómi Hæstaréttar 8. desember 2010 í máli nr. 640/2008 verið staðfest, með vísun til forsendna, sú niðurstaða Héraðsdóms Suðurlands frá 8. nóvember 2008, í málinu nr. A-15/2008, að makaskiptasamningurinn teldist ekki nægilega skýr til að fallast mætti á kröfu stefnenda í máli um innsetningu í umráð eða óhindraðan umferðarrétt um fyrrnefndan Hólaveg, sem hér er deilt um. Í úrskurði sama héraðsdóms 22. maí 2008 í málinu nr. T-5/2007 var einnig talið að mörk landsins sem stefnendur hefðu eignast með fyrrnefndum makaskiptasamningi væru að ýmsu leyti óljós. Á uppdrætti sem fylgt hafi samningnum hafi vegur greinilega verið teiknaður frá Hagabraut að sumarbústaðarlandi (nú Burstabrekka) og hafi stefnendur því verið upplýstir um þann veg (Hólaveg). Þá hafi þess verið getið á upphaflegum lóðarsamningi (1995) að leigutaki skyldi sjá um viðhald á vegi að bústað og sá vegur sé síðan tilgreindur á afsali frá 31. júlí 1999. Í málinu var hafnað kröfum stefnenda um aflýsingu afsalsins þar sem ekki hefðu verið þeir vankantar á eignayfirfærslunni að varðaði frávísun skjalsins eða að því bæri að þinglýsa með athugasemd. Óumdeilt er að sú landareign, sem var í lóðarleigu þegar makaskiptasamningurinn var gerður, væri undanskilin því landi sem stefnendur eignuðust við makaskiptin 1997 og fyrir liggur að þá lá vegarslóði að þeirri lóð, frá þjóðvegi, sem lóðarhafi hafði viðhaldskyldu á samkvæmt þinglýstum lóðarleigusamningi. Vegurinn var teiknaður inn á uppdrátt, sem fylgdi makaskiptasamningnum og unninn var í nóvember 1991 til febrúar 1992 og stefnendum var kunnugt um veginn, svo sem getið er um í fyrrgreindum úrskurði Héraðsdóms Suðurlands í málinu nr. T-5/2007. Í afsali um lóðina 31. júlí 1999 er yfirlýsing um meðfylgjandi veg frá Hagabraut og heim að bústað, sem stefndi og réttargæslustefndi telja vera eignarheimild um veginn, en um þýðingu yfirlýsingarinnar er deilt í máli þessu. Með ákvæði í lóðarleigusamningi árið 1995, við sömu aðila og síðar keyptu lóðina, var viðhaldskylda á vegi að bústað lögð á leigutaka, en landeigandi átti þá sjálfur einnig það land sem vegurinn liggur um. Það land seldi hann stefnendum í makaskiptum árið 1997. Þegar litið er til staðhátta og atvika allra verður að telja að með yfirlýsingu um veg í afsali um lóðina á árinu 1999 hafi aðilar viljað tryggja að eigendur hefðu aðgengi að lóðinni, með sama hætti og þau höfðu áður en eigendaskiptin urðu að landinu sem vegurinn liggur um, í samræmi við skipulag svæðisins, en lóðin hefur ekki aðra vegtengingu við þjóðveg en umræddan Hólaveg. Í því felst því ekki yfirfærsla á eignarrétti landsins sem undir veginum er. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október 2012 var staðfest að landið, sem stefnendur höfðu eignast með makaskiptasamningi 1997, liggur umhverfis lóð stefnda og liggur hluti vegarins sem nefndur hefur verið Hólavegur um land það sem telst eign stefnenda samkvæmt dóminum. Í málinu var byggt á sömu skjölum og atvikum og fyrir liggja í þessu máli varðandi Hólaveg. Bar kröfugerð stefnenda þess merki að viðurkennt væri af þeirra hálfu að sú kvöð fylgdi vegarstæðinu að lóðarhafi ætti óhindraðan umferðarrétt um veginn. Í kröfu um viðurkenningu á eignarhaldi á landinu, sem fallist var á, sagði m.a. „en að gættum umferðarrétti stefndu og réttargæslustefndu Lilju, Sigrúnar og Gottliebs eftir Hólavegi“. Meðal þeirra sem stefnt var í því máli var fyrri afsalshafi lóðarinnar, Sigrún Bára Eggertsdóttir, sem stefndi leiðir rétt sinn frá og telst dómurinn bindandi um úrslit sakarefnis fyrir stefnda um þær kröfur sem þar voru dæmdar að efni til, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála, og fyrir réttargæslustefnda svo sem við á.  Fyrri hluti aðalkröfu stefnenda í máli þessu er um viðurkenningu á eignarhaldi þeirra á spildu sem tilgreind er með hnitum, sbr. dskj. nr. 3. Spildan liggur að fullu innan þeirrar landspildu, sem merkt er 198458 úr jörðinni Haga Rangárþingi ytra, sem eignarhald stefnenda var viðurkennt á, að gættum umferðarrétti stefnda og réttargæslustefnda, samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október 2012. Þessi krafa er því þegar dæmd að efni til og verður henni, með vísun til 2. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála, því vísað frá dómi. Varakrafa stefnenda á við, samkvæmt því sem greinir í stefnu, fallist rétturinn ekki á að landið sem afmarkað er í aðalkröfu tilheyri þeim. Svo sem að framan greinir er frávísun aðalkröfu á því byggð að landið tilheyrir nú þegar stefnendum samkvæmt fyrirliggjandi dómi. Kemur varakrafan því ekki til skoðunar að þessu leyti. Þá standa eftir síðari kröfuliðir stefnenda í aðal- og varakröfu um umferðar- og nýtingarrétt stefnenda á Hólavegi. Um þessar kröfur, sem stefnendur hafa lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr, hefur ekki áður verið dæmt og verður þeim ekki vísað frá dómi. Í niðurstöðu dóms Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október 2012 var ekki vikið að umferðarrétti stefnenda frá þjóðvegi, Hagabraut, að því landi sem ákveðið var með dóminum að væri eignarland þeirra. Í dóminum var hafnað kröfulið stefnenda um viðurkenningu á eignarhaldi þeirra á landi að þjóðveginum, Hagabraut, en fallist var á varakröfu B-liðar í kröfugerð þeirra í málinu, um landamerki í vestur, sem liggja yfir Hólaveg frá norðri til suðurs um punkta merkta 1 og 20 á dómskjali nr. 3 í þessu máli. Samkvæmt framansögðu nær eignarland stefnenda aðeins að þeim mörkum í vestur, en ekki að þjóðveginum. Á teikningu sem fylgdi bréfi Skipulags ríkisins til oddvita Holtahrepps 11. júní 1992, sem fyrir liggur í málinu, er Hólavegur merktur samkvæmt deiliskipulagi með sama hætti og á þeim uppdrætti sem fylgdi makaskiptasamningnum sem þinglýst var 19. desember 1997 og vikið er að í úrskurði Héraðsdóms Suðurlands í málinu nr. T-5/2007. Í því felst að vegtenging lands stefnenda við þjóðveg hafði verið ákveðin í skipulagi að yrði um Hólaveg áður en stefnendur eignuðust landið. Á báðum þessum teikningum er einnig gert ráð fyrir aðkomu að sumarhúsum austan Hagabrautar og norðan Hólavegar, frá Hagabraut um Hólaveg að vesturmörkum lands stefnenda, en þaðan er gert ráð fyrir vegi í norður eftir mörkum lóðanna og lands stefnenda. Á uppdrættinum sem fylgdi makaskiptasamningnum var einnig gert ráð fyrir aðkomu að sumarhúsalóðum sunnan Hólavegar, um Hólaveg frá Hagabraut, en með fyrrnefndu bréfi Skipulags ríkisins frá 11. júní 1992 var fallist á breytta aðkomu að þeim lóðum frá þjóðveginum. Samkvæmt deiliskipulaginu var áfram gert ráð fyrir aðgengi að fyrrnefndum lóðum norðan Hólavegar og að landi stefnenda, um þann hluta Hólavegar sem næst liggur Hagabraut. Þegar makaskiptasamningur stefnenda var samþykktur af jarðanefnd Rangárvallasýslu 7. nóvember 1997 og af sveitarstjóra Holta- og Landsveitar 8. desember 1997 var því eina vegtengingin, frá Hagabraut að því landi sem stefnendur eiga, um Hólaveg, samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Fyrir liggur að stefnendur nýttu umferðarrétt um þann eina veg sem að landi þeirra liggur frá þjóðvegi allt frá árinu 1997 þar til réttargæslustefndi tók að hindra umferð þeirra um veginn árið 2008. Stefndi, sem eignaðist þá eign sem nú kallast Burstabrekka með afsali 6. nóvember 2012, leiðir rétt sinn til nýtingar vegarins frá þjóðvegi að lóð sinni, af lóðarleigusamningi frá 1995 og afsali um eignina frá 31. júlí 1999, en í þeim heimildum felst samkvæmt framansögðu ekki beinn eignarréttur að veginum. Orðið „meðfylgjandi“ í afsalinu verður ekki túlkað svo að um einkaafnot vegarins sé að ræða, sem gangi þvert gegn réttindum landeigenda eða annarra lóðarhafa samkvæmt gildandi skipulagi. Engin rök standa til annars en að stefndi og réttargæslustefndi verði að una sameiginlegum umferðarrétti stefnenda og annarra lóðarhafa nærliggjandi lóða, um þann hluta Hólavegar sem næstur er Hagabraut, í samræmi við skipulag svæðisins. Samkvæmt framansögðu og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar frá 8. apríl sl. í máli nr. 203/2014, verður fallist á kröfu stefnenda, gagnvart stefnda og réttargæslustefnda, um viðurkenningu á rétti þeirra til að nýta Hólaveg og fara um hann allt frá þjóðvegi að landi sínu, en landeiganda og öðrum sem kunna að eiga umferðarrétt um veginn er ekki stefnt í málinu. Þessi vegtenging er, í samræmi við gildandi skipulag, nauðsynleg til þess að stefnendur hafi eðlilegt aðgengi að landi sínu frá þjóðvegi. Þá verður einnig svo sem krafist er kveðið á um umferðar- og nýtingarrétt stefnenda á veginum þar sem hann liggur á landi þeirra, eins og nánar greinir í dómsorði. Óumdeilt er að þeim vegi hafa stefndi og réttargæslustefndi haldið veglega við, og þykir eftir atvikum rétt að kveða sérstaklega á um það í dómi þessum að þeir skuli deila umferðarrétti sínum um veginn með landeigendum, stefnendum í máli þessu. Eftir atvikum og með vísun til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu. Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð Kröfu stefnenda um að viðurkennt verði með dómi, að gættum umferðarrétti stefnda Konráðs og réttargæslustefnda Gottliebs eftir Hólavegi, eignarhald þeirra á landi því sem svonefndur Hólavegur liggur eftir, á landspildu stefnenda, sem er úr jörðinni Haga í Rangárþingi ytra og hefur landnúmerið 198458, er vísað frá dómi. Viðurkenndur er umferðar- og nýtingarréttur stefnenda á Hólavegi, allt frá þjóðvegi, Hagabraut, að línu sem dregin er milli punkta 10 (hnit A-428668,5 / N-386015,0) og 11 (hnit A-428694,8 / N-386000,7), á dómskjali nr. 3. Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 802/2014
Handtaka Frelsissvipting Lögregla Miskabætur Stjórnarskrá
S höfðaði mál á hendur íslenska ríkinu til heimtu miskabóta vegna þess að hún hefði verið handtekin tvívegis, án þess að lagaskilyrði hefðu verið til þess, auk þess sem handtakan hefði í bæði skiptin verið framkvæmd á óþarflega særandi og meiðandi hátt og hún sætt frelsissviptingu í lengri tíma en ástæða hefði verið til. S hafði í fyrra sinnið verið handtekin 20. janúar 2009 og bar hún því við að hún hefði tekið þátt í friðsamlegum pólitískum mótmælum við Alþingishúsið í Reykjavík. Hæstiréttur taldi að handtaka S og annarra mótmælenda umrætt sinn hefði verið nauðsynleg þegar þeir neituðu að fara að fyrirmælum lögreglu, sem sett voru fram á grundvelli laga, og gerðu aðsúg að lögreglumönnum, sem hefðu haft það hlutverk að vernda stjórnarskrárbundna friðhelgi Alþingis sem var að störfum þennan dag. Þá taldi rétturinn að frelsissvipting S hefði ekki varað lengur en óhjákvæmilegt var og að ósannað væri að handtaka hennar hefði af hálfu lögreglu falið í sér meira harðræði eða vanvirðu en nauðsyn bar til vegna hinna óvenjulegu aðstæðna. Í seinna skiptið var S handtekin aðfaranótt 21. maí 2009 og kvaðst hún þá hafa án réttmæts tilefnis verið handtekin og færð á lögreglustöð þar sem hún var svipt frelsi sínu fram til hádegis þennan dag. Hæstiréttur vísaði til þess að S hefði verið sýknuð af ákæru um brot gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940 vegna háttsemi hennar gagnvart lögreglumönnum sem voru við skyldustörf umrætt sinn og leiddi til handtökunnar. Taldi Hæstiréttur að ekki hefði legið fyrir lögmætt tilefni til handtöku S og eftirfarandi flutnings hennar á lögreglustöð að því virtu að S hefði ekki verið drukkin þegar atvik urðu og að leggja yrði til grundvallar að ósannað væri að S hefði reynt að tálma því að lögreglumennirnir gegndu skyldustörfum sínum. Vegna hinnar ólögmætu handtöku voru S dæmdar miskabætur að fjárhæð 400.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. desember 2014. Hún krefst þess að stefndi greiði sér 3.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. maí 2013 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. september 2014. Mál þetta, sem dómtekið var 1. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Sunnevu Ásu Weisshappel (kt. [...]) til heimilis að Laugavegi 41a, Reykjavík, gegn íslenska ríkinu, með stefnu áritaðri um birtingu 25. júní 2013.                  Dómkröfur stefnanda eru að stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda 3.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. maí 2013 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar auk virðisaukaskatts úr hendi stefnda eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál. Stefndi krefst þess aðallega að verða sýknaður af kröfum stefnanda og að honum verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati réttarins, en til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og málskostnaður látinn niður falla. I. Stefnandi höfðar mál þetta til greiðslu bóta vegna tveggja aðskilinna atvika. Fyrra atvikið átti sér stað 20. janúar 2009. Alþingi var þá að koma saman eftir jólaleyfi og hafði fjöldi manns safnast saman í miðborg Reykjavíkur en afar fjölmennur útifundur fór þá fram á Austurvelli. Lögreglan var með umtalsverðan viðbúnað enda ástæða til að ætla að mikill mannfjöldi yrði á fundinum. Var götum lokað við Austurvöll og bílaumferð ekki leyfð um Kirkjustræti, Templarasund og Kirkjutorg. Gert var ráð fyrir mannfjölda á Austurvelli og kom lögregla fyrir lokunarborðum framan við Alþingishúsið til að afmarka það svæði sem ætlað var almenningi á útifundinum. Mikill mannfjöldi var saman kominn á Austurvelli strax um hádegisbil, en samkvæmt fyrirliggjandi greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags 21. maí 2013, kemur fram að í dagbók lögreglu hafi verið skráð kl. 12.58 að 300 manns hið minnsta hafi þá verið við þinghúsið og byrjað væri að rífa niður borðana sem lögregla hafði sett upp. Fólki hafi svo fjölgað verulega eftir því sem leið á daginn og útifundurinn breyst úr friðsamlegum fundi í kröftug mótmæli þar sem nokkur fjöldi manna hafi m.a. gert aðsúg að þinghúsinu og lögreglu. Lögreglan hafi því ákveðið vegna aðstæðna að leggja áherslu á að verja þinghúsið en hafi þó haft takmarkaðan mannafla til að halda mannfjöldanum frá. Fyrr en varði hafi fólk verið komið að þinghúsinu frá öllum hliðum auk þess sem Alþingisgarðurinn hafi verið fullur af fólki. Hafi lögregla óttast að fólki tækist að ryðja sér leið í þinghúsið. Þegar leið á daginn hafi orðið ljóst að hópur fólks hafi ekki haft í hyggju að fara að fyrirmælum lögreglu og halda sig frá dyrum og gluggum þrátt fyrir ítrekuð fyrirmæli og loks hafi farið svo að lögregla hafi þurft að handtaka nokkra menn sem hún taldi hafa haft sig þannig mest í frammi. Á meðal þeirra sem handteknir voru í mótmælunum við Alþingishúsið var stefnandi þessa máls en í gögnum lögreglu kemur fram að hún hafi verið handtekin kl. 15.25. Enn fremur kemur fram í ofangreindri greinargerð lögreglustjórans að vegna aðstæðna á vettvangi hafi ekki reynst gerlegt að flytja hina handteknu á lögreglustöð til yfirheyrslu þegar í stað og hafi þeir því þurft að bíða í vörslu lögreglu á staðnum. Hafi verið farið með hina handteknu í bílastæðiskjallara undir þinghúsinu en samkvæmt greinargerð lögreglustjórans varði sú frelsissvipting stefnanda frá kl. 15.25 og til kl. 18.35 þegar hún var færð á lögreglustöð. Stefnandi hafi þar verið yfirheyrð kl. 19.40 og sleppt að því loknu kl. 20.07. Stefnandi var þannig í haldi lögreglu í um það bil fjóra og hálfa klukkustund, þar af fyrstu þrjár klukkustundirnar á vettvangi. Eins og nánar er lýst í þeim kafla dómsins þar sem raktar eru málsástæður stefnanda, upplifði hún handtökuna þannig að henni hefði verið hrint fast að glervegg nýbyggingar Alþingishússins af lögreglu á meðan hún hafi verið handjárnuð. Að því búnu hafi stefnandi ásamt öðrum handteknum mótmælendum verið flutt niður í bílakjallara undir Alþingishúsinu þar sem henni hafi verið komið fyrir í röð ásamt öðrum sem einnig voru handjárnaðir. Hafi handteknum einstaklingum verið gert að sitja þar á gólfi gegnt hvert öðru í gleiðri stöðu þannig að fætur krossuðu fætur annarrar handtekinnar manneskju. Af hálfu stefnanda er því lýst að þar sem stefnandi hafi setið handjárnuð í þessari stöðu hafi tilteknir lögreglumenn á staðnum viljað  ræða við hana önnur óskyld mál að öðrum áheyrandi og það hafi henni þótt bæði auðmýkjandi og óviðeigandi. Stefnandi telur einnig að henni hafi ekki verið greint frá ástæðum þess að hún hafi verið tekin út úr hópi mótmælenda og handtekin, auk þess sem hún hafi ekki fengið tilkynningu um niðurfellingu málsins né aðrar upplýsingar um afdrif þess.    Síðara tilvikið sem stefnandi byggir bótakröfu sína á er vegna handtöku sem átti sér stað aðfaranótt fimmtudags 21. maí 2009. Tildrög voru þau að stefnandi var þá stödd í húsasundi við Laugaveg 64 ásamt vini sínum Snorra Páli Jónssyni. Höfðu þau verið að skemmta sér og var stefnandi að sækja reiðhjól sem hún hafði skilið þar eftir. Kom þá lögreglubíll aðvífandi með tveimur lögreglumönnum á vettvang. Eftir því sem næst verður komist fóru lögreglumennirnir þess á leit að Snorri Páll kæmi með þeim inn í lögreglubílinn þar sem þeir vildu ræða við hann um meinta framkomu hans fyrr um kvöldið. Hafði Snorri að sögn lögreglumannanna ítrekað verið að skyrpa í átt að lögreglubifreiðinni þar sem hún hafi verið við vettvangseftirlit í miðbæ Reykjavíkur. Ber málsaðilum ekki allskostar saman um framvindu samskipta þeirra upp úr þessu. Bæði stefnandi og Snorri Páll bera því við að Snorri Páll hafi þá umsvifalaust verið snúinn niður af lögreglumönnunum á vettvangi og hann síðan dreginn inn í lögreglubifreiðina. Lögreglumennirnir lýsa atvikum hins vegar svo að samskiptin við Snorra hafi verið þannig að hann hafi í fyrstu sjálfur fylgt þeim að lögreglubifreiðinni og án nokkurra átaka við hann þá. Í framhaldi af þessum afskiptum lögreglu af Snorra Páli hafi stefnanda hins vegar lent harkalega saman við lögreglumennina. Kom fram af hálfu lögreglumannanna tveggja að stefnandi hafi haft sig mjög í frammi og í engu sinnt fyrirmælum þeirra um að leyfa lögreglu að sinna starfi sínu og að endingu hafi hún veist að þeim og hún þá verið handtekin á vettvangi. Af hálfu stefnanda er þessum atvikum hins vegar lýst svo að hún hafi gert athugasemdir við framferði lögreglunnar gagnvart Snorra Páli, en fyrir vikið sætt sjálf harkalegri meðferð og handtöku þar sem hún hafi verið keyrð niður í jörðina og snúið upp á hendur hennar fyrir aftan bak á meðan annar lögreglumannanna hafi rekið hné harkalega í bak hennar við handtökuna.  Í frumskýrslu lögreglu, dags 21. maí 2009, kemur fram að stefnandi og Snorri Páll hafi í framhaldi verið færð til yfirheyrslu á lögreglustöðina að Hverfisgötu og töldust þau hafa verið handtekin kl. 4.58. Kemur þar einnig fram að stefnandi hafi enn verið afar æst þegar komið var á lögreglustöð og m.a. neitað að gera þar grein fyrir sér. Þar hafi stefnanda verið kynnt sakarefnið og ákveðið að hún og Snorri Páll skyldu vistuð í fangaklefa þar til áfengisvíma væri runnin af þeim og hægt væri að taka af þeim skýrslu vegna málsins. Er rétt að halda því til haga að stefnandi hefur viðurkennt að hafa drukkið áfengi þá um kvöldið en kveðst þó ekki hafa verið mjög ölvuð. Enn fremur er því haldið fram af hálfu stefnanda að hún hafi upplifað aðfarir lögreglunnar þegar komið var á lögreglustöðina sem afar niðurlægjandi þar sem fjórir lögreglumenn hafi staðið þar yfir henni og m.a viðhaft afar persónuleg og óviðurkvæmileg ummæli á borð við það að þeir myndu skammast sín fyrir að vera faðir hennar. Liggur fyrir að stefnandi hafi svo verið færð til skýrslutöku kl. 11.23 og svo látin laus að því afloknu. Fyrir liggur að 21. janúar 2011 var gefin út ákæra á hendur stefnanda vegna atburðanna er áttu sér stað umrædda nótt. Í ákæruskjali, dags. 20. janúar 2011, var henni gefið að sök að hafa brotið gegn 19. gr., sbr. 41. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og 2. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa óhlýðnast fyrirmælum lögreglu, ítrekað reynt að draga samferðarmann sinn, sem einnig var þá ákærður, frá lögreglumönnum, sem hefðu verið við skyldustörf og hugðust ræða við hann og reynt að ýta lögreglumönnum frá og þannig tálmað því að þeir gætu sinnt skyldustörfum. Liggur fyrir að stefnandi var síðan sýknuð af ákærunni með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-26/2011, sem kveðinn var upp 7. apríl 2011. II.                 Stefnandi byggir á því að frelsissvipting hennar 20. janúar 2009 hafi verið óréttmæt þar sem hún hafi þá, með friðsamlegum hætti, verið að tjá pólitískar skoðanir sínar. Sá réttur sé verndaður af 73. gr. stjórnarskrár lýðveldis Íslands, sbr. einnig 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur hafi verið með lögum nr. 62/1994. Að auki sé handtaka við mótmæli viðamikil skerðing á tjáningar- og fundafrelsi, sem verndað sé af ákvæðum 74. gr. stjórnarskrár, sbr. 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt lögregluskýrslu í máli nr. 007-2009-16252, dags. 20. janúar 2009, hafi stefnandi verið handtekin fyrir utan Alþingishúsið kl. 11, grunuð um að hafa brotið gegn lögreglusamþykkt Reykjavíkurborgar. Hafi stefnandi verið handjárnuð með plastreipi og látin sitja með hendur fyrir aftan bak í ankannalegri og vanvirðandi líkamsstellingu ásamt öðrum handteknum einstaklingum, sem hafi verið gert að sitja útglennt gegnt hvert öðru án ástæðu. Hafi stefnandi ekki verið færð til yfirheyrslu fyrr en mörgum klukkustundum síðar eða kl. 19.40. Í lögregluskýrslu séu fátæklegar skýringar á handtöku. Komi þar aðeins fram að ástæða handtöku hafi verið grunur um að stefnandi hafi brotið gegn 3. gr. lögreglusamþykktar Reykjavíkurborgar. Í þeirri grein segi að uppþot, áflog, óspektir eða önnur háttsemi, sem raskar allsherjarreglu, megi ekki eiga sér stað á almannafæri, og ekki megi menn þyrpast þar saman, ef það truflar umferð eða veldur vegfarendum öðrum óþægindum. Þá segi í samþykktinni að enginn megi áreita aðra á almannafæri eða sýna þar af sér ósæmilega háttsemi. Stefnandi hafi ekki gerst sek um slíka háttsemi og ekki verið ákærð fyrir slík brot. Stefnandi byggi á að um ólögmæta handtöku hafi verið að ræða í skilningi laga. Handtaka þurfi að grundvallast á skýrri lagaheimild, sbr. 90. gr. laga um meðferð sakamála. Sem sjá megi af lögregluskýrslum sé ekki ljóst fyrir hvaða saknæmu háttsemi stefnandi hafi verið handtekin. Ekki hafi verið rökstuddur grunur um að stefnandi hefði framið brot sem gæti sætt ákæru enda ekki refsivert að mótmæla. Þá geri ákvæði 90. gr. laganna kröfu um að handtaka sé nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot eða til að tryggja návist eða öryggi eða koma í veg fyrir að spillt sé sönnunargögnum. Þessi skilyrði hafi ekki verið uppfyllt í tilfelli stefnanda. Þá sé ljóst að stefnandi hafi ekki ærst á almannafæri né valdið hneyksli eða hættu á óspektum, enda bendi málsskjöl ekki til þess. Handtakan hafi ekki uppfyllt skilyrði laga og því verið óheimil. Brotið hafi verið gegn stjórnarskrárvörðum rétti stefnanda, en í 67. gr. stjórnarskrár segi að engan megi svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum. Þá sé ljóst að frelsissviptingin hafi varað óhóflega lengi og við aðstæður sem hafi verið fullkomlega óásættanlegar og teljist bæði vanvirðandi og ómannlegar í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá segi í 2. mgr. sömu greinar að hver sá sem sviptur hefur verið frelsi eigi rétt á að fá að vita tafarlaust um ástæður þess. Stefnandi hafi ekki verið upplýst um ástæður frelsissviptingar, enda virðist gögn lögreglu benda til að ástæður hafi verið óljósar. Beri að líta til þess að 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sé notuð til túlkunar á fyrrgreindri grein stjórnarskrár en þar séu skýrt upptalin skilyrði sem réttlæti handtöku. Lagastoð hafi skort til handtöku á stefnanda og eigi slík staðreynd að vega þungt við ákvörðun bótaréttar henni til handa. Engar skýringar hafi verið gefnar í lögregluskýrslu á því hvers vegna svo miklu valdi hafi verið beitt í þessu máli né hvers vegna svo mjög hafi dregist að sleppa stefnanda úr haldi. Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 21. maí 2013, segi að ekki hafi verið hægt að komast burt úr Alþingisgarðinum og því hafi hin handteknu verið flutt inn í þinghúsið, niður í bílageymslu og þaðan út. Ekki sé ljóst hvers vegna beðið hafi verið með það að fara með fólk út úr húsinu klukkustundum saman. Sé því enn með öllu óljóst hvers vegna stefnandi hafi verið frelsissvipt í bílakjallara í margar klukkustundir. Þá sé hvergi tilgreind sú ólögmæta háttsemi sem stefnanda hafi verið gefin að sök og orsakað hafi handtöku. Þess í stað sé talað um það í greinargerðinni að stefnandi hafi með framferði sínu og hegðun orsakað handtökuna. Sé í þessu samhengi vísað til 14. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 þar sem segi að handhafar lögregluvalds megi aldrei ganga lengra í beitingu valds en þörf sé á hverju sinni. Handtaka án tilgreinds lögbrots og frelsissvipting stefnanda klukkustundum saman, handjárnuð og sitjandi í klofi ókunnugrar manneskju, sé brot á meðalhófsreglu lögreglulaga og stjórnsýslulaga, sbr. 12. gr. laga nr. 37/1993. Enn fremur séu aðgerðir lögreglu gegn stefnanda í ósamræmi við 2. mgr. 13. gr. lögreglulaga sem segi að handhafar lögregluvalds skuli ávallt gæta fyllstu hlutlægni og réttsýni í störfum sínum. Hvað varði síðara atvikið, þann 21. maí 2009, sé byggt á því að um ólögmæta handtöku hafi verið að ræða þegar þau atvik gerðust og sem stefnandi hafi verið ákærð fyrir og síðan sýknuð af í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. S-26/2011. Handtaka sé einn einstakur og afmarkaður atburður sem þurfi að grundvallast á skýrri lagaheimild, sbr. 90. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Eins og sjá megi af lögregluskýrslum í málinu sé alls ekki ljóst hver hafi verið ástæða handtöku stefnanda og stefnandi byggi á því að handtakan hafi verið ástæðulaus og óheimil. Ekki hafi verið fyrir hendi rökstuddur grunur um að stefnandi eða vinur hennar hefðu framið brot sem sætt gæti ákæru. Ósannað sé með öllu að Snorri Páll hafi í raun skyrpt í átt að lögreglubifreiðinni, slík háttsemi sé enda ekki refsiverð og a.m.k. sé óumdeilt að stefnanda hafi aldrei verið gefin nein slík háttsemi að sök. Þá geri ákvæði 90. gr. sakamálalaga kröfu um að handtaka sé nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot eða til að tryggja návist eða öryggi eða koma í veg fyrir að sakborningur spilli sönnunargögnum. Þessi skilyrði hafi með öllu verið óuppfyllt í tilfelli stefnanda. Ekki hafi heldur verið nauðsynlegt að handtaka hana í þágu rannsóknar fyrir að segja ekki deili á sér enda óljóst hvað nákvæmlega hafi verið til rannsóknar hér. Þá sé ljóst að stefnandi hafi ekki ærst á almannafæri né valdið hneyksli eða hættu á óspektum, enda bendi málsskjöl ekki til að svo hafi verið. Stefnandi mótmæli sem röngum fullyrðingum lögreglu þess efnis að hún hafi verið ölvuð. Það sé rangt og ósannað og hefði lögreglu reynst auðvelt að taka sýni úr stefnanda til sönnunar slíkum fullyrðingum en það hafi ekki verið gert. Umrædd handtaka hafi ekki uppfyllt skilyrði laga og því verið óheimil. Brotið hafi verið á stjórnarskrárvörðum réttindum stefnanda en í 67. gr. stjórnarskrár segi að engan megi svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum. Þá segi í 2. mgr. þeirrar greinar að hver sá sem sviptur hafi verið frelsi eigi rétt á að fá að vita tafarlaust um ástæður þess. Stefnandi hafi ekki verið upplýst um ástæður frelsissviptingar, enda sýni gögn frá lögreglu að slíkar ástæður hafi ekki verið fyrir hendi á þeim tímapunkti sem handtakan hafi átt sér stað þegar umræddir lögreglumenn hafi snúið stefnanda niður með ofbeldi. Beri í þessu samhengi að líta til þess að 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sé notuð til túlkunar á fyrrgreindri grein stjórnarskrár en þar séu skýrt upptalin þau skilyrði sem geti réttlætt handtöku. Lagastoð hafi skort til handtöku stefnanda og eigi slík staðreynd að vega þungt við ákvörðun bótaréttar henni til handa. Uppgefnar ástæður í gögnum lögreglu virðist ekki á nokkurn hátt renna stoðum undir heimild til handtöku stefnanda. Greinargerð lögreglustjóra geri tilraun til að réttlæta atburði en lögreglan hafi ekki brugðist við áskorunum stefnanda um að afla upptöku frá atburðum og eigi því að bera hallann af því enda í mjög sterkri stöðu til að afla slíkra sönnunargagna. Í greinargerð lögreglustjórans sé fullyrt að lögregla hafi ekki misbeitt valdi en ekki virðist þó hafa verið gerð rannsókn á ásökunum stefnanda og vinar hennar um ofbeldi við handtöku og sé því með öllu óljóst hvernig greinargerðarhöfundur telji sig þess umkominn að fullyrða um þá atburði með jafn afdráttarlausum hætti og raun beri vitni. Fram komi í greinargerðinni að lögregluskýrslur séu yfirleitt skráðar í beinu framhaldi af atburðum og séu því áreiðanlegar heimildir. Ekki hafi sú verið raunin í tilfelli stefnanda þar sem annar lögreglumaðurinn hafi skrifað skýrslu sína 14 mánuðum eftir þá atburði sem um ræðir.   Handtaka og frelsissvipting stefnanda að morgni 21. maí 2009 hafi brotið gegn meðalhófsreglu 14. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda megi handhafar lögregluvalds aldrei ganga lengra í beitingu valds en þörf sé á hverju sinni. Háttsemin hafi einnig brotið gegn 2. mgr. 13. gr. lögreglulaga. Stefnandi hafi orðið fyrir líkamlegu og andlegu tjóni sökum framferðis lögreglunnar. Hafi það mikilli hörku verið beitt við handtökuna að stefnandi hafi haft áhyggjur af því að hún myndi handleggsbrotna. Hún hafi ekki aflað áverkavottorðs en Snorri Páll Jónsson hafi orðið vitni að hluta þess harðræðis sem hún hafi verið beitt af hálfu lögreglu. Þá hafi nákomnir aðilar stefnanda orðið vitni að áverkum þeim sem hún hafi hlotið vegna framferðis lögreglu. Leggi stefnandi áherslu á að líkamlegir áverkar hafi þó verið vægari en það andlega tjón sem hún hafi orðið fyrir vegna umræddra atburða. Hafi henni verið tjáð af lögreglu að Snorri hefði verið handtekinn og honum haldið vegna hegðunar hennar. Þá hafi hún verið yfirheyrð af fjórum lögreglumönnum samtímis sem hafi talað til hennar á afar ógnandi og niðrandi hátt. Hafi þeir m.a. viðhaft ummæli á borð við það að þeir myndu skammast sín fyrir að vera faðir hennar. Þegar litið sé til heildarmyndar þeirra atburða sem hafi átt sér stað umrætt kvöld sé ljóst að aðfarir lögreglu gagnvart stefnanda hafi ekki verið í nokkru samhengi við þá háttsemi sem henni hafi verið gefin að sök og hvað þá raunverulegar gjörðir hennar. Ítrekaðar séu ofangreindar tilvísanir til lagaákvæða um réttmætar aðgerðir lögreglu og meðalhófsreglu. Vísað sé til 68. gr. stjórnarskrár og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, um bann við ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá sé vísað til 5. gr. mannréttindasáttmálans um rétt allra manna til frelsis og mannhelgi. Vísað sé til ákvæðis b-liðar 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 um ólögmæta meingerð gegn frelsi, friði, æru og persónu stefnanda. Hafi réttur til miskabóta stofnast vegna aðgerða lögreglu og skuli íslenska ríkið, sem vinnuveitandi lögreglumannanna, greiða miskabætur til handa stefnanda þar sem lögreglan hafi valdið af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu stefnanda. Í kjölfar ólögmætrar frelsissviptingar hafi stefnandi þurft að þola óhóflega langa frelsissviptingu. Hún hafi verið frelsissvipt yfir nótt á lögreglustöð og ekki verið sleppt fyrr en á hádegi daginn eftir. Sé því ekki aðeins um óheimila frelsissviptingu að ræða heldur hafi hún einnig varað óhóflega lengi. Við vitnaleiðslur í máli S-26/2011 hafi komið í ljós að rök fyrir vistun í fangageymslum skorti alveg. Hafi lögreglumenn orðið margsaga um tilgang vistunar og upplýst sé að uppgefnar ástæður í lögregluskýrslum ættu ekki að nægja til að fólk yrði vistað svo lengi í fangageymslum gegn vilja sínum. Þannig hafi ein af uppgefnum ástæðum fyrir að halda stefnanda yfir nótt verið meint ölvun. Hins vegar hafi stefnandi þá ekki verið ölvuð og standist sú ástæða því ekki. Eins og fram hafi komið við aðalmeðferð í því máli, hafi engin tilraun verið gerð af hálfu lögreglu til að mæla meinta ölvun eins og reglur geri ráð fyrir, eigi að byggja frelsissviptingu á slíku. Hafi aðgerðir lögreglu hvað fangelsisvist stefnanda varði verið með öllu heimildarlausar og brotið gegn 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 67. gr. stjórnarskrár, og meðal annars 2. mgr. 16. gr. lögreglulaga, enda sé óheimilt að frelsissvipta lengur en nauðsyn krefji. Reglan um réttláta málsmeðferð hafi verið brotin þar sem mikill dráttur hafi orðið á ákæru í máli S-26/2011. Hafi liðið 21 mánuður frá ætluðu broti og þar til ákært hafi verið. Um hinn óhóflega drátt á málinu sé vísað til 70. gr. stjórnarskrár, 6. gr. mannréttindasáttmála, og 2. mgr. 53. gr. laga um meðferð sakamála. Sú háttsemi sem stefnanda hafi verið gefin að sök sé smávægileg og auðrannsakanleg og því með öllu óréttlætanlegt að gefin hafi verið út ákæra nær tveimur árum eftir að meint brot hafi átt sér stað. Við málsmeðferð fyrir dómi hafi komið í ljós að ákæruvaldið hafi ekki talið málið nægilega rannsakað, en þó ákært á grundvelli sömu rannsóknarstöðu. Brjóti slíkt gegn rannsóknarreglu og hlutlægnireglu 53. gr. laga um meðferð sakamála.  Í samantekt lögreglu til ákæranda, sem lögmaður stefnanda hafi loks fengið afrit af eftir ítrekaðar tilraunir, komi fram að vinur stefnanda hafi hrækt tvisvar á lögreglubifreiðina rétt fyrir handtöku hans. Við yfirheyrslur hafi lögreglumennirnir viðurkennt að meintur hráki á lögreglubifreiðina hafi átt sér stað talsvert fyrr um kvöldið og á allt öðrum stað heldur en handtakan hafi farið fram. Sé því ljóst að engin réttlæting hafi verið fyrir afskiptum lögreglu af stefnanda og vini hennar í umrætt skipti, hvað þá fyrir harkalegri handtöku þeirra. Enn alvarlegri sé sú staðreynd að lögreglan hafi hagrætt atburðarás í gögnum til ákæruvaldsins til að ýkja samhengi á milli meintrar háttsemi vinar stefnanda og handtöku þeirra. Sé um vítaverða hegðun að ræða af hálfu lögreglu sem með þessu hafi brotið alvarlega gegn hlutlægnisskyldu. Ekki sé refsivert að skyrpa í átt að lögreglubifreið og því hafi aldrei legið fyrir rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi af hálfu vinar stefnanda, hvað þá stefnanda sjálfrar. Þrátt fyrir þetta hafi lögreglan ákveðið að viðhafa ólögmæt og ofbeldisfull afskipti af stefnanda og vini hennar og notað svo mótmæli þeirra við slíkri meðferð sem ástæðu til harkalegrar handtöku og frelsissviptingar í yfir átta klukkustundir. Í stað þess að láta svo þar við sitja hafi lögregla lagt fram tillögu um ákæru á hendur stefnanda 21 mánuði síðar þar sem atburðarás virðist hafa verið hagrætt til að auka líkur á sakfellingu. Slíkt framferði af hálfu lögreglu sé með öllu ólögmætt og ólíðandi.  Þau atvik sem stefnt sé vegna hafi valdið stefnanda miklum miska þar sem bæði tilfelli frelsissviptingar hafi verið framkvæmd með óþarflega miklu harðræði. Hafi verið vegið að frelsi, friði, æru og persónu stefnanda með þeim hætti sem gengið hafi verið fram gagnvart henni af lögreglu sem hafi beitt hana vanvirðandi meðferð og ofbeldi við handtöku og óeðlilegum þrýstingi við yfirheyrslu. Hafi framganga lögreglu gagnvart stefnanda einkennst af virðingarleysi og hroka og hún hafi fyrir vikið misst alla trú á lögreglu sem hlutlausu yfirvaldi sem veiti henni vernd í samfélaginu. Sé slíkt til þess fallið að valda henni óöryggi og kvíða um að hún fái ekki hlutlausa meðferð og geti sætt afskiptum, ógnum, ofbeldi og eða frelsissviptingu án sakar. Áfallið sem hafi tengst þeim atburðum sem stefnt sé vegna hafi haft afar neikvæð áhrif á stefnanda sem skömmu síðar hafi fengið taugaáfall og þjáðst um skeið af ofsakvíða. Lagt sé fram vottorð sálfræðings sem staðfesti að umrædd handtaka hafi valdið stefnanda vanlíðan. Stefnandi hafi beint bótakröfu, dags. 16. apríl 2013, vegna þessara atburða til embættis ríkislögmanns. Með bréfi dags 14. júní 2013 hafi bótaskyldu verið hafnað með vísan til álits lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Sé stefnanda því sú ein leið fær að höfða mál þetta. Sé um að ræða tvö alvarleg og aðskilin atvik þar sem lögregla hafi misbeitt valdi gagnvart stefnanda og geri stefnandi kröfu um 1.500.000 krónur í bætur fyrir hvort tilvik um sig, eða alls 3.000.000 króna utan vaxta. Verði að hafa í huga að frelsissvipting stefnanda í janúar 2009 hafi varað lengi við vanvirðandi og ómannúðlegar aðstæður og án þess að hún væri grunuð um skilgreint brot gegn lögum. Ekki hafi verið saksótt fyrir meint brot gegn lögreglusamþykkt sem þýði án vafa að stefnandi eigi rétt á bótum skv. 228. gr. laga um meðferð sakamála enda hafi málið væntanlega verið fellt niður þó stefnandi kannist ekki við að hafa verið upplýst um það líkt og lög geri ráð fyrir. Auk þess verði sú meðferð, að láta manneskju liggja bundna á höndum í klofi ótengds handtekins aðila, að teljast ólögmæt meingerð gegn frelsi, friði, æru og persónu stefnanda í skilningi 26. gr. skaðabótalaga. Í síðara tilvikinu hafi stefnandi verið sýknuð eftir íþyngjandi málsmeðferð og ofbeldisfulla handtöku sem virðist alfarið hafa byggst á meintum brotum vinar hennar en ekki saknæmrar hegðunar hennar sjálfrar. Hafi lögreglumenn virst viljandi hafa haft yfirheyrslur yfir stefnanda auðmýkjandi og þrúgandi með fjölda yfirheyrsluaðila og ummælum sem hafi verið viðhöfð um hana við yfirheyrslu. Sú framkvæmd teljist ólögmæt meingerð gegn frelsi, friði, æru og persónu stefnanda í skilningi 26. gr. skaðabótalaga. Sé um að ræða alvarleg inngrip í mannhelgi sem hafi haft varanleg áhrif á sálarlíf stefnanda og sem hún kljáist enn við afleiðingar af. Með ákvörðun, dags. 2. september 2011, hafi stefnanda verið veitt gjafsókn vegna málareksturs þessa. Bótakrafa í málinu sé byggð á 228. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Vísað sé til 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrár lýðveldis Íslands. Einnig sé vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 vegna líkamstjóns og ólögmætrar meingerðar gegn frelsi, friði, æru og persónu stefnanda. Vísað sé til XXXVII. kafla laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 hvað bótakröfu stefnanda varði. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styðji stefnandi við reglur IV. kafla, sbr. 1. mgr. 6 gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Kröfu um málskostnað styðji stefnandi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kröfur um virðisaukaskatt séu byggðar á lögum nr. 50/1988 með síðari breytingum, en þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili beri nauðsyn til að tekið verði tillit til skattsins við ákvörðun málskostnaðar. III.                 Af hálfu stefnda er mótmælt málatilbúnaði stefnanda og kröfum á honum reistum. Stefndi mótmæli því að brotið hafi verið gegn stjórnarskrárvörðum mannréttindum stefnanda. Sé byggt á því að allar aðgerðir lögreglu hafi verið réttmætar og í samræmi við lög. Enn fremur hafi meðalhófs verið gætt í hvívetna. Aðgerðir lögreglu hafi verið fyllilega lögmætar og réttmætt tilefni til þeirra. Handtaka stefnanda hafi byggst á skýrum lagaheimildum og hafi verið framkvæmd í því skyni að halda uppi allsherjarreglu og almannafriði. Sé því mótmælt að stefnandi geti átt rétt til bóta, hvort heldur sé á grundvelli 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, eða almennra reglna. Stefndi krefjist sýknu af kröfum sem séu til komnar vegna atvika 20. janúar 2009. Stefndi leggi áherslu á að aðstæður við þinghúsið þann dag hafi verið afar óvenjulegar. Búsáhaldabyltingin hafi verið í hámarki og þessi dagur verið sá fyrri af tveimur þar sem mótmælin hafi orðið hvað hörðust. Mikilvægt hafi því verið að lögregla næði að hafa stjórn á ástandinu og gæti haldið uppi lögum og reglu. Markmið lögreglu hafi verið að tryggja starfsfrið Alþingis. Hafi aðgerðarstjórn lögreglu lagt upp með að handtaka ekki fólk heldur verja þinghúsið, enda þótt hegningarlagabrot liggi við því að ráðast á Alþingi, sbr. 1. mgr. 100. gr. almennra hegningarlaga. Sú ákvörðun hafi svo verið endurskoðuð þegar ljóst hafi verið orðið að lögregla næði ekki að verja þinghúsið með öðrum hætti en með því að handtaka þá einstaklinga sem hafi haft sig þá mest í frammi. Nauðsynlegt hafi verið að koma þeim burt af svæðinu, enda hafi þeir gengið lengra heldur en hægt var að líða, og stefnandi hafi verið í þeirra hópi. Stefndi mótmæli því að handtaka stefnanda 20. janúar 2009 hafi verið óréttmæt þar sem hún hafi í umrætt sinn aðeins verið að tjá pólitískar skoðanir með friðsamlegum hætti. Það sé ekki rétt þar sem aðeins örfáir menn hafi verið handteknir í þetta sinn og hafi ástæða verið fyrir handtöku þeirra. Þessir aðilar hafi ekki mótmælt með friðsamlegum hætti heldur gert aðsúg að lögreglunni og farið gegn fyrirmælum hennar, sem þeim hafi þó borið skýr skylda til að fylgja, sbr. t.d. 19. gr. lögreglulaga. Stefndi taki undir að réttur til að tjá pólitískar skoðanir sé varinn af ákvæðum 73. gr. stjórnarskrár og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Enn fremur að fundafrelsið sé verndað af ákvæðum 74. gr. stjórnarskrár, sbr. 11. gr. mannréttindasáttmálans. Stefndi byggi hins vegar á því að ákvæði þessi mæli fyrir um rétt manna til að koma saman og tjá sig með friðsamlegum hætti. Það hafi stefnandi ekki gert og sé lögreglu þá heimilt að grípa inn í í því skyni að halda uppi almannafriði og allsherjarreglu. Séu lögreglu þannig veittar heimildir til að handtaka þá sem viðhafi óspektir, sbr. meðal annars a-lið 1. mgr. 16. gr. lögreglulaga og 2. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008. Gangi síðara ákvæðið lengra, en samkvæmt því sé lögreglu heimilt, ef ekki verður með vissu bent á þá seku, að handtaka hvern þann sem sé nærstaddur við uppþot eða fjölmennar óeirðir og ástæða sé til að gruna um refsiverða háttsemi. Stefndi byggi á því að lögregla hafi gætt meðalhófs í aðgerðum með því að handtaka þá sem hafi valdið hættu á frekari óspektum, í þeim tilgangi að halda uppi lögum og reglu. Lögregla hafi ekki gripið til þess að stöðva eða banna útifundinn. Stefndi árétti að heimilt sé að takmarka tjáningar- og fundafrelsi í þágu allsherjarreglu og almannahagsmuna. Hafi sú staða verið fyrir hendi á Austurvelli 20. janúar 2009. Stefndi vísi til þess að lögregla hafi ýmsar heimildir á grundvelli lögreglulaga til að halda uppi lögum og reglu. Megi í því sambandi nefna 15. gr. laganna, þar sem mælt sé fyrir um aðgerðir í þágu almannafriðar og allsherjarreglu sem kunni að setja fundafrelsi skorður. Þannig sé lögreglu meðal annars heimilt að banna dvöl á ákveðnum svæðum, sem hún hafi gert í þetta sinn. Þá sé henni einnig heimilt að vísa á brott eða fjarlægja fólk og fyrirskipa stöðvun eða breytingar á aðgerðum. Stefndi byggi jafnframt á 21. gr. lögreglulaga, sem mæli fyrir um bann við að hindra lögreglu í störfum sínum. Lögregla hafi verið að sinna starfi sínu með því að verja Alþingishúsið og hafi stefnandi hindrað lögreglu í störfum sínum. Sá sem tálmi því að handhafi lögregluvalds gegni skyldustörfum sínum skuli sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum, sbr. 2. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga. Loks megi uppþot, áflog, óspektir eða önnur háttsemi sem raski allsherjarreglu, ekki eiga sér stað á almannafæri, sbr. 3. gr. lögreglusamþykktar fyrir Reykjavíkurborg nr. 1097/2008. Stefndi mótmæli því að handtakan hafi verið framkvæmd á meiðandi hátt. Hafi fyllsta meðalhófs verið gætt, sbr. meðal annars 13. og 14. gr. lögreglulaga, og hafi handtakan verið í samræmi við lög. Sem fyrr greini hafi aðstæður verið afar óvenjulegar og ekki reynst fært að færa stefnanda og aðra handtekna fyrr á lögreglustöð. Ástæðan hafi verið sú að ekki hafi verið hægt að verja fólkið fyrir ágangi mótmælenda og þessi ráðstöfun því eingöngu gerð til að tryggja öryggi allra hlutaðeigandi. Þá hafi verið ljóst að fara hafi þurft fram lágmarksrannsókn til að ákæruvaldið gæti tekið afstöðu til máls hvers og eins. Stefndi telji að það hafi verið eðlileg ráðstöfun að færa stefnanda á lögreglustöð til yfirheyrslu. Hafi henni verið sleppt strax að yfirheyrslu lokinni og aðgerðir lögreglu tekið skamman tíma eins og á hafi staðið. Stefndi mótmæli sem röngu og ósönnuðu að handtakan hafi verið framkvæmd á meiðandi hátt og með óþarflega miklu harðræði. Hafi framkvæmd verið í fullu samræmi við það sem gerist í fjöldahandtökum, enda hafi viðkomandi aðilar ekki séð ástæðu til að kæra lögregluna fyrir refsiverða háttsemi. Allt hafi verið gert af hálfu lögreglu til að vanda til málsmeðferðar, hraða rannsókn eftir megni og leitast við að ganga ekki lengra við beitingu þvingunarúrræða en brýna nauðsyn hafi borið til. Stefndi byggi sýknukröfu á því að vinnubrögð lögreglu hafi verið í fullu samræmi við viðeigandi lagaheimildir, bæði hvað varði ákvæði laga nr. 88/2008, lögreglulaga og lögreglusamþykktar. Stefndi telji að fullt tilefni hafi verið til handtöku stefnanda. Handtaka stefnanda hafi ekkert haft með tjáningarfrelsi hennar að gera, heldur grundvallast á að stefnandi hafi hindrað störf lögreglu við að verja Alþingishúsið og gengið hvað harðast fram við að stofna þar til uppþota og gera aðsúg að lögreglu. Þá hafi hún í engu sinnt fyrirmælum lögreglu og skilyrði til handtöku því verið uppfyllt. Stefndi vísi því alfarið á bug að stefnandi eigi rétt til bóta hvort heldur sé á grundvelli 228. gr. laga nr. 88/2008 eða 26. gr. skaðabótalaga. Handtaka stefnanda hafi verið byggð á lögmætum ástæðum og framkvæmdin eðlileg eins og á hafi staðið. Ekki hafi verið haldið áfram með mál þeirra sem handteknir hafi verið þennan dag. Aðeins hafi verið ákært í örfáum tilvikum sem upp hafi komið í mótmælum eða á mótmælafundum í Reykjavík á árunum 2008 til 2010 og nánast eingöngu þar sem ráðist hafi verið á annað fólk og það beitt líkamlegu ofbeldi. Stefndi mótmæli því að stefnandi eigi bótarétt á grundvelli 228. gr. laga nr. 88/2008. Ljóst sé að stefnandi hafi verið valdur að eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hún reisi kröfur sínar á. Því eigi stefndi ekki rétt á bótum á grundvelli ákvæðisins, sbr. 2. mgr. 228. gr. laganna. Af öllum þeim fjölda manna sem hafi verið samankomnir við Alþingishúsið 20. janúar 2009 hafi aðeins örfáir verið handteknir. Stefnandi hafi verið þeirra á meðal. Stefnandi hafi stuðlað að handtökunni með framferði sínu og hegðun. Hafi þessi hegðun leitt til þess að lögregla hafi þurft að grípa til þess að handtaka fólk, þrátt fyrir að í upphafi aðgerða hafi lögregla ekki ætlað að beita handtökum. Þegar stefnanda hafi boðist að standa fyrir máli sínu og tjá sig um þær sakir sem á hana hafi verið bornar hafi hún kosið að svara ekki og enga tilraun gert til að réttlæta framferði sitt, né gert athugasemdir við aðgerðir lögreglu. Byggi stefndi á að stefnandi hafi sjálf átt sök á handtökunni. Sé því alfarið hafnað að stefnandi eigi nokkurn rétt á bótum vegna aðgerða lögreglunnar 20. janúar 2009 á grundvelli 228. gr. laga nr. 88/2008. Einnig beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda sem séu að rekja til atvika sem hafi átt sér stað 21. maí 2009 og lokið með sýknudómi héraðsdóms í máli nr. S-26/2011. Stefndi mótmæli því sem röngu og ósönnuðu að sú handtaka stefnanda hafi verið að ósekju og lagastoð skort. Almenningi sé ávallt skylt að hlýða fyrirmælum sem lögregla gefi, sbr. 19. gr. lögreglulaga. Lögregla hafi beðið stefnanda ítrekað að halda sig til hlés þegar hún hafi ætlað að ræða við samferðamann hennar. Því hafi hún ekki sinnt heldur reynt að draga manninn burt frá lögreglu og þar með hindra lögreglu í störfum sínum, sbr. 21. gr. lögreglulaga og 2. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga. Lögreglu sé heimilt að handtaka mann og færa á lögreglustöð í þeim tilgangi að halda uppi lögum og reglu, svo sem ef maður ærist á almannafæri, sbr. a-lið 1. mgr. 16. gr. lögreglulaga. Þá sé lögreglu heimilt að hafa afskipti af borgurunum til að halda uppi almannafriði og almannareglu, sbr. 1. mgr. 15. gr. lögreglulaga. Þá sé lögreglu heimilt að handtaka mann ef hann neitar að segja til nafns eða deili á sér að öðru leyti, sbr. a-lið 3. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008. Stefndi byggi á því að lögreglan hafi haft skýra lagastoð við handtöku stefnanda. Stefnandi hafi haldið uppteknum hætti, látið öllum illum látum, öskrað og verið ósamvinnuþýð við lögreglu eftir að komið hafi verið á lögreglustöð. Varðstjóri hafi tekið ákvörðun um að vista hana í fangaklefa vegna frekari rannsóknar málsins því ekki hafi verið talið unnt að taka af henni skýrslu sökum ölvunarástands hennar. Stefnandi hafi verið upplýst um ástæðu handtökunnar og henni kynnt upplýsingablað fyrir handtekna menn, sem hún hafi neitað að skrifa undir. Skýrsla hafi svo verið tekin af stefnanda vel fyrir hádegi og hún síðan látin laus þegar að því loknu. Stefndi hafni því að stefnandi hafi dvalist óhóflega lengi á lögreglustöðinni. Stefnandi hafi verið handtekin rétt undir morgun. Hafi ástand hennar verið þess eðlis að ekki hafi verið hægt að taka af henni skýrslu strax og hafi hún verið látin laus um leið og það hafði verið gert. Hafni stefndi því að stefnandi hafi verið óeðlilega lengi í haldi lögreglu. Stefndi mótmæli staðhæfingum stefnanda um að óþarfa harðræði hafi verið beitt við handtöku. Ekkert í gögnum málsins styðji þá málsástæðu. Þó sé ekki hægt að útiloka að minni háttar áverkar hljótist af handtöku láti handtekinn maður ófriðlega. Aðgerðir lögreglu hafi verið innan ramma laga og reglna sem hún starfi samkvæmt og meðalhófs gætt, sbr. 13. og 14. gr. lögreglulaga og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Stefndi byggi á að aðgerðir lögreglu hafi verið réttmætar og í samræmi við lög. Stefnandi eigi ekki rétt til bóta á grundvelli 228. gr. laga nr. 88/2008, enda þótt hún hafi verið sýknuð í sakamáli. Stefnandi hafi sjálf stuðlað að þeim aðgerðum sem hún reisi kröfu sína á. Stefnanda hefði verið í lófa lagið að komast hjá afskiptum lögreglu með því að fara að fyrirmælum og hindra ekki störf hennar. Það hafi hún hins vegar ekki gert. Þá hafi hún ekki látið staðar numið eftir að búið hafi verið að handtaka hana heldur haldið áfram að öskra, neitað að segja til nafns og verið ósamvinnuþýð, en í frumskýrslu lögreglu komi meðal annars fram að hún hafi öskrað nánast út í eitt. Verði því ekki séð að stefnandi eigi rétt til bóta á grundvelli 228. gr. laga nr. 88/2008. Stefnandi hafi sannanlega stuðlað að aðgerðum lögreglu, hvort sem litið sé til 228. gr. laga nr. 88/2008, eða almennra reglna um fébætur, líkt og sýnt hafi verið fram á. Skýrt sé kveðið á í dómsúrlausnum Hæstaréttar Íslands að ákvæði stjórnarskrár eða mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, veiti ekki ríkari bótarétt en ákvæði 228. gr. laga nr. 88/2008, og beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda. Stefndi hafni því að grundvöllur sé fyrir miskabótakröfu samkvæmt b-lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á eða stutt með gögnum að aðgerðir lögreglu hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn frelsi hennar, friði, æru eða persónu. Þá sé því mótmælt að vottorð sálfræðings, sem liggi fyrir í málinu, sýni fram á miska stefnanda. Fram komi í vottorðinu að handtaka hafi ekki verið það sem unnið hafi verið með og byggi stefndi á því að alls sé ósannað að handtakan hafi leitt til nokkurs miska fyrir stefnanda. Kjarni málsins sé sá að aðgerðir lögreglu hafi verið lögmætar og réttmætar. Ósannað sé að miski umfram það sem almennt megi ætla að leiði af þvingunarráðstöfunum og rannsókn sakamála hafi hlotist af málsmeðferðinni og aðgerðum lögreglu. Stefndi telji skilyrði miskabóta samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga ekki vera uppfyllt. Sök sé hugtaksskilyrði þeirrar bótaskyldu en engri slíkri sé hér til að dreifa. Sé því þar af leiðandi mótmælt að bótaskylda sé fyrir hendi hvort heldur sem er á grundvelli almennra reglna eða ákvæðis 26. gr. skaðabótalaga. Stefnandi krefjist miskabóta að fjárhæð 3.000.000 króna, en sú kröfugerð sé með öllu órökstudd. Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda sé á því byggt að lækka beri kröfur stefnanda til muna með vísan til framangreindra málsástæðna, auk þess sem kröfur stefnanda séu í miklu ósamræmi við dómaframkvæmd þar sem fallist hafi verið á bótaskyldu. Sé þetta ósamræmi hér í engu rökstutt né útskýrt hvers vegna bætur til stefnanda ættu að vera miklum mun hærri en í sambærilegum málum. Af hálfu stefnda sé kröfum um vexti og dráttarvexti mótmælt, þá einkum upphafstíma þeirra. Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað vísist til XXI. kafla laga nr. 91/1991. IV. Stefnandi reisir bótakröfu á hendur stefnda á tveimur aðgreindum atvikum, en í báðum framangreindum tilvikum er á því byggt að stefnandi hafi mátt sæta ólögmætri handtöku af hálfu lögreglunnar, þ.e. annars vegar í mótmælum við Alþingishúsið þann 20. janúar 2009, en hins vegar að nóttu til við Laugaveg 46, þann 21. maí hið sama ár. Í báðum tilvikum greinir málsaðila nokkuð á um staðreyndir máls og þá einkum um það hvort stefnandi hafi í greindum tilvikum með framkomu sinni gefið tilefni til þess að sæta handtöku sem og hvort sú valdbeiting hafi verið forsvaranleg í framkvæmd.    Í báðum tilvikum byggir stefnandi bótakröfu sína í málinu aðallega á því að ákvæði 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála eigi við um framangreind tilvik, en enn fremur er af hálfu stefnanda vísað til b-liðar 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Hvað varðar fyrra tilvikið, þriðjudaginn 20. janúar 2009, þá liggur fyrir að stefnandi var handtekin þá um daginn um kl. 15.25 í mótmælum við Alþingishúsið. Af fyrirliggjandi frumskýrslu lögreglu sama dags má greina að ástæða handtökunnar hafi verið grunur um brot stefnanda gegn 3. gr. lögreglusamþykktar fyrir Reykjavíkurborg. Nánari útskýringar á þessum aðgerðum lögreglu er síðan að finna í fyrirliggjandi greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags 21. maí 2013. Kemur þar meðal annars fram að stefnandi hafi verið í hópi þeirra manna sem neituðu að fara að fyrirmælum lögreglu og hafi gert aðsúg að lögreglu og hvatt aðra áfram. Upphaflega hafi lögregla lagt upp með að verja þinghúsið, en síðan hafi verið talið nauðsynlegt að fjarlægja af vettvangi þá sem verst hafi látið með því að handtaka þá. Af hálfu stefnda hefur verið vísað til þess að heimildir til handtöku stefnanda við þessar aðstæður hafi verið lögmætar og réttlæst af ákvæðum í 14.-21. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, en enn fremur hefur af hálfu stefnda verið vísað til 1. og 2. mgr. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008. Fallist er á með stefnanda að ákvæði 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 eigi við þegar metinn er réttur hennar til bóta eins og hér stendur á, en fyrir liggur í málinu að af hálfu lögreglu hafi verið ákveðið að fara ekki með mál hennar eða önnur sambærileg mál þeirra sem handteknir voru við Alþingishúsið í ákærumeðferð. Við mat á bótarétti stefnanda á þessum grundvelli þarf þá jafnframt að leggja mat á það hvort bætur beri að skerða eða fella niður með vísan til þess að stefnandi hafi sjálf valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hún reisir kröfu sína á, sbr. 2. mgr. 228. gr. sömu laga.                  Í framburði KHÞ-9804 lögregluvarðstjóra fyrir dómi, er stjórnaði aðgerðum á vettvangi við Alþingishúsið umræddan dag, kom fram að lögreglan hefði þá í lengstu lög reynt að forðast að þurfa að beita handtökum á vettvangi vegna mannfæðar. Af þeim mikla fjölda sem hafi verið við mótmælin hafi afar fáir verið handteknir og þá einungis þeir sem mest hafi haft sig í frammi við að gera aðsúg að lögreglunni. Er það mat dómsins að framangreind lýsing varðstjórans verði að teljast trúverðug og að á henni verði að byggja við mat á því tilviki sem hér um ræðir. Þykir því ekki grundvöllur til að stefnandi geti við svo búið reist bótarétt á 228. gr. laga nr. 88/2008. Af hálfu stefnanda er einnig byggt á því að framkvæmd handtökunnar 20. janúar 2009 hafi ekki verið forsvaranleg, sbr. einkum 13.-14. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Er meðal annars vísað til þess að stefnandi hafi verið látin sitja á vettvangi í bílakjallara Alþingis með hendur bundnar fyrir aftan bak í vanvirðandi stellingu gegnt öðrum handteknum mönnum, auk þess sem óhóflegan tíma hafi tekið að flytja hina handteknu af vettvangi og frelsissviptingin því varað mun lengur en ella. Af hálfu stefnda er hins vegar vísað til þess að fyllsta meðalhófs hafi verið gætt í greint sinn gagnvart stefnanda með hliðsjón af hinum mjög svo erfiðu og óvenjulegu aðstæðum sem hafi þá verið fyrir hendi á vettvangi. Aðstæður hafi verið slíkar að ekki hafi verið unnt að færa hina handteknu af vettvangi fyrr en gert hafi verið og þær ráðstafanir sem gripið hafi verið til á vettvangi hafi einkum miðað að því að tryggja öryggi hinna handteknu. Er af hálfu dómsins fallist á framangreindar skýringar af hálfu stefnda, auk þess sem ekkert haldbært liggur fyrir í málinu um meint óhóflegt harðræði lögreglu við handtökuna sjálfa, eða um ósæmilega framkomu lögreglumanna í garð stefnanda á vettvangi. Með hliðsjón af ofangreindu er það því niðurstaða dómsins að ekki hafi verið sýnt fram á að í þeirri valdbeitingaraðgerð sem stefnandi þurfti að sæta í umrætt sinn hafi falist ólögmæt meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu hennar, eins og á stóð, og er því ekki fallist á að grundvöllur til miskabóta verði reistur á þeim grunni.   Hvað varðar síðara tilvikið, þann 21. maí 2009, þá ber aðilum alls ekki saman um málsatvik í tengslum við handtöku stefnanda í það sinn. Af hálfu stefnanda er byggt á því að hún hafi þá mátt sæta harkalegri handtöku þar sem hún hafi aðeins verið að gera athugasemdir við gróf og tilefnislaus afskipti lögreglumannanna af vini hennar. Lögreglumennirnir ESE-0428 og HSÞ-0604, sem framkvæmdu handtökuna á vettvangi, lýstu atvikum hins vegar svo fyrir dómi að stefnandi hafi þá í engu sinnt ítrekuðum boðum þeirra um að halda sig til hlés og þráfaldlega reynt að draga manninn burt og þar með hindrað lögreglu við störf og hafi stefnandi síðan orðið það æst að nauðsynlegt hafi reynst að handtaka hana á vettvangi við svo búið.    Í frumskýrslu lögreglu sama dags kemur meðal annars fram að stefnandi hafi verið handtekin þar sem hún hafi hindrað lögreglu við störf, og ekki farið að fyrirmælum lögreglu, auk þess sem hún hafi verið ölvuð og ekki viljað segja nokkur deili á sér. Kemur þar einnig fram að stefnandi hafi tekið framangreindum afskiptum lögreglunnar af samferðamanni hennar afar illa og að lokum hafi komið til ryskinga stefnanda við lögreglumenn er leitt hafi til handtöku hennar á vettvangi laust fyrir kl. 5 þá um nóttina. Enn fremur liggur fyrir að stefnandi var í framhaldi af handtökunni færð á lögreglustöð þar sem varðstjóri tók ákvörðun um að vista hana í fangaklefa uns ætluð áfengisvíma rynni af henni, en samkvæmt framangreindri frumskýrslu lögreglu var hún afar æst þegar á lögreglustöðina var komið og neitaði að segja til nafns. Sé tekið mið af ofangreindu verður að leggja hér til grundvallar að þó svo að stefnandi hafi verið sýknuð af ákæru með dómi þann 7. apríl 2011 í máli nr. S-26/2011, hafi hún engu að síður í umrætt skipti sýnt af sér slíka framkomu að forsvaranlegt hafi verið að handtaka hana eins og á stóð. Er fallist á með stefnda, að hvað sem leið réttmæti afskipta lögreglu af samferðamanni hennar, hafi stefnanda þó eftir sem áður borið að fara eftir ítrekuðum tilmælum lögreglumanna á vettvangi um að láta af afskiptum sínum þegar lögregla hafði afskipti af samferðamanni hennar, en hún varð þá ekki við því heldur reyndi að draga hann burt og hindraði með því lögreglumenn við störf sín. Verður að telja þessa framgöngu stefnanda á vettvangi við svo búið fullnægjandi grundvöll fyrir handtöku hennar, sbr. einkum a-lið 1. mgr. 16. gr. laga nr. 90/1996. Að því virtu verður enn fremur að líta svo á að framangreint fyrirbyggi rétt stefnanda til bóta á grundvelli 228. gr. laga nr. 88/2008, eins og hér stóð á. Af hálfu stefnanda er enn fremur byggt á því að framkvæmd handtökunnar þann 21. maí 2009 hafi ekki verið forsvaranleg og hefur þá einkum verið vísað til 13. og 14. gr. laga nr. 90/1996. Virðist byggt á því að handtakan hafi verið tilefnislaus og óhóflega harkaleg og að stefnandi hafi orðið fyrir líkamlegu og andlegu tjóni sökum framferðis lögreglunnar. Hér verður hins vegar að fallast á með stefnda, að ekki hafi verið sýnt fram á að stefnandi hafi sætt óforsvaranlegu harðræði við umrædda handtöku, en fyrir liggur í gögnum málsins að stefnandi hafi sjálf afráðið að verjast handtöku af nokkurri hörku. Hvað varðar ætluð samskipti stefnanda við lögreglumenn á lögreglustöð í framhaldi af handtökunni, þá liggur ekkert haldbært fyrir um þau í málinu, auk þess sem ekki verður talið að sú ákvörðun varðstjóra að vista stefnanda í fangaklefa hafi verið óforsvaranleg eins og á stóð og rakið er í gögnum málsins. Þótt ekki sé að efa að ofanlýst samskipti við lögregluna hafi sannarlega hlotið að vera þungbær reynsla fyrir stefnanda liggur þó ekkert haldbært fyrir í málinu um að hún hafi sannanlega borið líkamlegan eða sálrænan skaða af. Með vísan til alls ofangreinds hlýtur það því að verða niðurstaða dómsins að ekki hafi verið sýnt fram á að í þeirri valdbeitingaraðgerð sem stefnandi þurfti að sæta þann 21. maí 2009 hafi falist ólögmæt meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu hennar eins og á stóð og verður því ekki fallist á að grundvöllur til miskabóta verði reistur á slíkum grunni.     Með hliðsjón af því sem að framan er rakið er, eins og hér stendur á, ekki unnt að fallast á stefnukröfur stefnanda og með vísan til alls ofangreinds ber því að sýkna stefnda af dómkröfum stefnanda í máli þessu.  Eins og málið liggur fyrir þykir þó rétt að málskostnaður falli niður, en gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Sigríðar Rutar Júlíusdóttur hrl., alls 1.200.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði, en í málinu liggja fyrir gjafsóknarleyfi til handa stefnanda til höfðunar máls þessa, dags 2. september 2011 og 3. desember 2013.                     Málið flutti Katrín Oddsdóttir héraðsdómslögmaður, í umboði Sigríðar Rutar Júlíusdóttur hæstaréttarlögmanns, fyrir hönd stefnanda, en Fanney Rós Þorsteinsdóttir héraðsdómslögmaður, fyrir hönd stefnda.                 Pétur Dam Leifsson, settur héraðsdómari, kvað upp dóminn.  D ó m s o r ð Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af dómkröfum stefnanda, Sunnevu Ásu Weisshappel, í máli þessu. Málskostnaður fellur niður, en gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Sigríðar Rutar Júlíusdóttur hæstaréttarlögmanns, 1.200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Mál nr. 817/2014
Lögregla Handtaka Tjáningarfrelsi Stjórnarskrá Mannréttindasáttmáli Evrópu
Haustið 2013 fór Vegagerðin í framkvæmdir við lagningu svokallaðs Álftanesvegar í Garðabæ sem að hluta lá um Gálgahraun. Framkvæmdirnar sættu mótmælum, einkum þar sem þær hefðu í för með sér óafturkræf náttúruspjöll á hrauninu og umhverfi þess, auk þess sem uppi var ágreiningur um lögmæti framkvæmdanna. Mótmælin fóru að öllu leyti friðsamlega fram en mótmælendur höfðu komið sér fyrir í hrauninu, meðal annars innan vinnusvæðis, og neituðu að hlíta fyrirmælum lögreglunnar um að víkja vegna framkvæmdanna. Fór svo að lögreglan fjarlægði mótmælendur með valdi og voru nokkur þeirra handtekin, þar á meðal R. Eftir að R hafði verið látin laus sneri hún aftur í Gálgahraun og þar var hún handtekin að nýju. Var deilt um það hvort R hefði neitað að hlýða ítrekuðum fyrirmælum lögreglu um að yfirgefa umrætt vinnusvæði í aðdraganda síðari handtökunnar. Talið var að mótmæli R og annarra mótmælenda teldust ótvírætt til tjáningar í skilningi 73. gr. stjórnarskrárinnar og að sá réttur þeirra til að hafa uppi slík mótmæli yrði eingöngu takmarkaður eftir þeim skilyrðum sem greinir í 3. mgr. greinarinnar, sbr. 10. og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem hefði verið veitt lagagildi með lögum nr. 62/1994. Fyrir lægi að framkvæmdirnar hefðu átt sér viðhlítandi stoð að lögum þegar í þær hefði verið ráðist. Lögreglu hefði því borið, í samræmi við fyrirmæli e. og f. liða 2. mgr. 1. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, að ljá Vegagerðinni aðstoð við að tryggja framkvæmd þeirra og grípa til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar hefðu verið til þess að tryggja allsherjarreglu, sbr. 15. gr. laganna. Af gögnum málsins sem og vætti lögreglumanna teldist sannað að R hefði ekki hlýtt ítrekuðum fyrirmælum um að færa sig af vinnusvæði þar sem hún hafði verið stödd. Með þessum hætti hefði hún brotið gegn 19. gr. lögreglulaga enda yrði réttur hennar til að mótmæla að víkja að því marki sem hann hefði staðið því í vegi að framkvæmdir gætu haldið áfram, sbr. 60. og 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Var sérstaklega áréttað að  aðgerðir lögreglu á vettvangi hefðu ekki gengið lengra en þörf krafðist og að R hefði ekki verið bannað að mótmæla framkvæmdunum með öllum tiltækum og löglegum ráðum, heldur eingöngu á vinnusvæðinu. Við ákvörðun refsingar, sem frestað var skilorðsbundið í tvö ár, var litið til þess að R hefði ekki áður hlotið refsingu, að fyrir henni hefði vakað að standa vörð um náttúruverðmæti og að það hefði hún gert með því að nýta á friðsaman hátt stjórnarskrárvarinn rétt sinn til að mótmæla þó svo að í þessu tilviki hefði hún gengið lengra en heimilt var.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari. Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað. Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærðu, Skúla Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns, 124.000 krónur. Dómur Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 9. október 2014. Mál þetta, sem þingfest var 28. janúar 2014 og dómtekið 12. september sl., var höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 21. desember 2013, á hendur Rögnu Dagbjörtu Davíðsdóttur, kt. [...], [...], [...], fyrir brot gegn lögreglulögum, með því að hafa mánudaginn 21. október 2013, um kl. 13:40, í Garðahrauni í Garðabæ, neitað að hlýða ítrekuðum fyrirmælum lögreglu um að flytja sig um set, en ákærða var stödd á vinnusvæði, þar sem unnið var að lagningu nýs Álftanesvegar, rétt norðnorðvestan við Garðastekk. Telst brotið varða við 19. gr., sbr. 41. gr., lögreglulaga nr. 90/1996. Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.  Ákærða mætti við þingfestingu málsins þann 28. janúar sl. og neitaði sök. Skilaði ákærða greinargerð þann 24. febrúar sl. og krafðist þá þess að málinu yrði vísað frá dómi en til vara sýknu. Þá krafðist ákærða þess að sækjandi málsins, Karl Ingi Vilbergsson aðstoðarsaksóknari, viki sæti í málinu með vísan til 26. gr., sbr. 6. gr., laga nr. 88/2008, en ákærða hygðist leiða sækjanda sem vitni í væntanlegri aðalmeðferð málsins. Fór málflutningur um þessa kröfu ákærðu fram, í máli nr. S-2/2014, sem er nákvæmlega eins mál og þetta mál, þann 24. mars sl. og var kröfum ákærða í því máli hafnað. Var sú niðurstaða staðfest í dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 254/2014 þann 8. maí sl. Ákærða óskaði í framhaldi eftir fresti til að leggja fram frekari gögn, sem hún gerði í þinghaldi 5. júní sl. Fór aðalmeðferð fram þann 11. og 12. september sl. og var málið dómtekið að málflutningi loknum. Málsatvik. Óumdeilt er að unnið var um þessar mundir í Garðahrauni eða Gálgahrauni eins og það er nefnt í Garðabæ við lagningu nýs vegar til Álftaness. Hefur sú vegalagning sætt mótmælum og einstaklingar mótmælt henni með því að mæta á vinnusvæði Vegagerðarinnar og reynt að tefja eða stöðva vegalagninguna. Undir rekstri málsins lýstu ákærðu öll, í málum S-1/2014 til og með S-9/2014, að þau hafi verið í Gálgahrauni umrætt sinn í mótmælaskyni og hafi mótmælin verið friðsamleg en það sé stjórnarskrárbundinn réttur hvers manns að tjá sig opinberlega og halda uppi friðsamlegum mótmælum. Enginn ágreiningur er um það að þátttaka ákærðu í ofangreindum mótmælum hafi verið á friðsamlegum nótum. Þá er ekki ágreiningur um það að umræddan dag hafi Vegagerðin hafið ruðning í Gálgahrauni fyrir nýju vegastæði. Samkvæmt því sem næst verður komist hafi lögreglu verið gert viðvart deginum áður eða samdægurs um að hætta væri á að mótmælin, sem voru daglega í Gálgahrauni, myndu hugsanlega tefja eða koma í veg fyrir framkvæmdir. Hafi lögreglan því verið með viðbúnað og komið á svæðið umræddan morgun.                 Þá liggur fyrir að eftir að verktakar hófu vinnu þá hafi merkingar utan um væntanlegt vinnusvæði, eftir framgangi verksins, verið færðar til þannig að ljóst væri hvar vinnuvélar færu um. Við þá framkvæmd hafi mótmælendur verið komnir inn fyrir merkt vinnusvæði og á svæði þar sem jarðvinna færi fram.                 Þá er ekki um það deilt að lögreglan hafi gefið fyrirmæli í gjallarhorn um að mótmælendum væri gert að rýma vinnusvæðið. Sumir gerðu það en aðrir ekki. Þá er það sammerkt með öllum málunum að öll ákærðu höfðu verið handtekin fyrr um morguninn fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglunnar. Ágreiningur er um hvort lögreglan hafi gefið hverjum og einum ákærðu fyrirmæli og viðvörun um handtöku ef þau hlýddu ekki þessum fyrirmælum og þá hvort þau hafi verið innan eða utan merkts vinnusvæðis.                 Í upplýsingaskýrslu lögreglu segir að ákærða hafi verið handtekin fyrr um morguninn og aftur síðdegis. Lögregla hafi verið að sinna lokunum á vettvangi í Garðahrauni og búið hafi verið að tilkynna fólki sem var á staðnum að halda sig fyrir utan vinnusvæði, sem búið var að girða af með keilum og strengja band á milli. Ítrekað hafi verið búið að gefa fólki fyrirmæli um að yfirgefa vinnusvæðið og virða lokanir og fyrirmæli lögreglu. Hafi lögreglumenn farið til ákærðu og handtekið hana þar sem hún hafi neitað að yfirgefa vinnusvæðið. Hafi henni verið kynnt ástæða handtökunnar. Ákærða hafi neitað að ganga óstudd út af svæðinu í fylgd lögreglu og hafi verið borin á börum að lögreglubifreið og síðan flutt á lögreglustöð.                 Í yfirheyrslu hjá lögreglu kvaðst ákærða ekki hafa verið inni á afmörkuðu svæði og hafi hún verið nýbúin að færa sig til að þóknast lögreglumönnum sem hafi verið búnir að segja henni að færa sig. Í hvorugt skiptið sem hún var handtekin hafi hún verið inni á afmörkuðu svæði. Aðspurð hvort lögregla hafi gefið henni fyrirmæli um að yfirgefa vinnusvæðið sagði ákærða að henni hafi verið sagt að yfirgefa svæðið sem hún hafi setið á og fyrirmælin hafi verið skýr. Kvaðst ákærða ekki hafa hlýtt síðari fyrirmælum lögreglu um að færa sig. Skýrslur fyrir dómi. Ákærða gaf skýrslu fyrir dóminum og kvaðst kannast við að hafa fengið fyrirmæli lögreglu um að yfirgefa vinnusvæði. Þau sem voru með henni hafi ekki áttað sig á því að fyrirmælin hafi átt við þau og þau ekki áttað sig á því að þau voru komin inn fyrir vinnusvæðið, en enginn hafi neitað að fara þegar þeim var tilkynnt að fara. Þau hafi verið nokkurn tíma að átta sig á því að búið var að girða í kringum þau. Allt í einu hafi einhverjir lögreglumenn sett ákærðu á börur og borið hana burt af svæðinu. Ákærða hafi ekki fengið neitt tækifæri á að yfirgefa svæðið af sjálfsdáðum. Aðspurð um framburð ákærðu hjá lögreglu kvað ákærða þau sem sátu saman líklega hafa verið svifasein en það hafi verið girt í kringum þau langt frá vinnuvélunum. Ákærða kvað sennilega rangt eftir sér haft í lögregluskýrslu að hún hafi neitað að yfirgefa vinnusvæðið. Ákærða kvaðst hafa séð seinna á ljósmynd að verktakinn var að girða af svæðið en hún hafi ekki áttað sig á því þegar það var gert. Ákærða hafi ekki sýnt mótþróa við handtöku og vissi ekki af hverju hafi þurft að setja hana á börur og bera hana burtu. Ákærða kvað rétt vera að hún hafi verið handtekin vegna sömu háttsemi fyrr um daginn.                 Vitnið A lögreglumaður gaf skýrslu fyrir dóminum og kvaðst hafa gefið ákærðu ítrekuð skýr fyrirmæli um að yfirgefa afmarkað vinnusvæði. Ákærða hafi svarað því til að ef hún ætti að fara út af svæðinu yrði að bera hana burtu. Ákærða hafi ekki hlýtt fyrirmælum sem hún fékk frá lögreglu. Kvað vitnið hlutverk þess hafa verið að tryggja að framkvæmd, sem var að hefjast í hrauninu, gæti farið af stað auk þess að tryggja að starfsmenn verksins gætu unnið óhindrað. Kvað vitnið vinnusvæðið hafa stækkað eftir því sem vinnuvélarnar fóru lengra inn í hraunið.                    Vitnið B lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa haft afskipti af ákærðu umrætt sinn en hún hafi verið fyrir innan merkt vinnusvæði. Ákærða hafi fengið ítrekuð fyrirmæli almennt auk þess að hafa fengið bein fyrirmæli sjálf um að færa sig en hún ekki virt þau og þóttist hún ekki geta gengið. Hún hafi örugglega móttekið fyrirmælin en neitaði að færa sig. Vitnið C, lögreglumaður og stjórnandi á vettvangi, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið stjórnandi aðgerða á vettvangi. Kvaðst vitnið aðspurt ekki muna hversu lengi undirbúningur aðgerða hafi staðið en lögregla hefði margoft verið búin að fara á svæðið vegna mótmæla á fyrri stigum. Aðspurt um sektargerðir frá föstudeginum 18. september 2013 kvaðst vitnið ekki geta svarað fyrir um tilkomu sektargerða í málinu. Aðspurt um það hvort búið hafi verið að ákveða fyrirfram hvaða einstaklinga ætti að handtaka á mánudeginum, kvað vitnið það alls ekki vera rétt. Vitnið hafi ekkert vitað um það á föstudeginum hvað myndi gerast á mánudeginum en vitnið hafi fengið fyrirmæli á mánudagsmorgninum um að fara á vettvang vegna mótmælanna. Þá hafi enginn vitað um það hvernig verkefni lögreglunnar yrði eða myndi þróast. Vitnið kvað lögregluna hafa margítrekað reynt að fá fólkið til að fara af vettvangi en það ekki gengið eftir. Þegar ákærðu hafi verið handtekin, höfðu þau öll áður verið handtekin fyrr um morguninn og færð af svæðinu, svo að lögreglan hafi verið búin að reyna vægari úrræði áður en til handtöku kom. Þau sem hafi verið handtekin hafi öll verið innan vinnusvæðis en hins vegar skipti það yfirleitt ekki máli hvort fólk sé innan afmarkaðs svæðis eða ekki sé á annað borð nauðsynlegt að beita 19. gr. lögreglulaga. Kvað vitnið að í þessu tilviki hafi öllum verið gefin almenn fyrirmæli um að yfirgefa vinnusvæðið. Þeir sem ekki hafi hlýtt þeim fyrirmælum hafi fengið í framhaldi skýr fyrirmæli frá lögreglu um að yfirgefa svæðið og hafi því ekki verið hlýtt hafi fólk verið handtekið og flutt af svæðinu.                 Vitnið D kom fyrir dóminn og kvaðst hafa heyrt þegar lögregla beindi þeim fyrirmælum til mótmælenda að yfirgefa vinnusvæði. Kvaðst vitnið sjálft hafa sætt handtöku. Vinnusvæðið hafi eingöngu verið markað með keilum og böndum og hafi svæðið sífellt verið á hreyfingu. Taldi vitnið að bæði mótmælendum og lögreglu hafi stundum stafað hætta af vinnuvélum innan svæðisins. Vitnið E kom fyrir dóminn og kvaðst hafa orðið vitni að mörgum handtökum umrætt sinn. Kvaðst vitnið einnig hafa tekið mikið af ljósmyndum og þær því hjálpað sér að muna atvik. Kvað vitnið ákærðu hafa setið í rólegheitum eins og allir aðrir hafi gert. Mótmælendur hafi fært sig til og síðar hafi bönd verið sett utan um þá. Þegar kom að handtökum hafi fólk lagst niður á jörðina. Lögreglan hafi kallað að mótmælendur ættu að færa sig en þeir sagst ekki vera innan merkta svæðisins. Lögreglan hafi neitað því „og auðvitað hafi þetta verið merkt svæði þar sem lögreglan hafi verið búin að merkja utan um þau áður en þau voru handtekin.“ Vitnið Tinna Þorvaldsdóttir Önnudóttir, ákærð í máli nr. S-9/2014, gaf skýrslu sem vitni í þessu máli og kvaðst hafa verið vitni að handtöku ákærðu. Þær hafi sest nokkuð langt frá jarðýtunni á ómerktu svæði. Þær hafi setið og spjallað þegar lögreglumenn komu að þeim og bent þeim á að fara. Augljóst hafi verið að þær hafi verið utan merkts vinnusvæðis. Vitnið kvaðst muna eftir lögreglumönnum koma að þeim með lágstemmd tilmæli, auk þess sem vitnið minnti að fyrirmæli hafi verið gefin í gjallarhorn. Þær hafi engan tíma fengið áður en þær voru handteknar.  Önnur sönnunargögn. Upplýsingaskýrsla lögreglu liggur fyrir í málinu og er hún rakin undir kaflanum „málsatvik“. Þá liggur fyrir skýrsla lögreglu um handtöku ákærðu fyrr um morguninn eða kl. 11:48. Var ákærða þá borin út af vinnusvæði, sem búið var að loka af og ákærða neitaði að yfirgefa, handtekin og flutt á lögreglustöð. Skýrsla lögreglu vegna síðari handtökunnar liggur einnig fyrir og þá mótmælti ákærða því að hafa farið inn á merkt vinnusvæði. Ákærða lagði fram fjölda ljósmynda sem teknar voru umræddan dag en eru þó ótímasettar. Þá lagði ákærða einnig fram myndband, sem sett hafði verið saman um mótmælin í Gálgahrauni og handtökur og úr fréttatíma RÚV. Að auki lagði ákærða fram útskrift úr fésbókarsíðu F og athugasemdir við fésbókarsíðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ákærða lagði fram ljósmyndir sem sýna hvar hún er borin út af svæðinu.  Forsendur og niðurstöður. Ekki er ágreiningur um að ákærða, ásamt fleira fólki, var í Gálgahrauni umrætt sinn í þeim tilgangi að mótmæla væntanlegri vegagerð í gegnum hraunið. Samkvæmt 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 eru allir frjálsir skoðana sinna og sannfæringar og skv. 2. mgr. á hver maður rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Þetta segir að tjáningarfrelsið er takmarkað þannig að það gengur ekki lengra en önnur stjórnarskrárvarin réttindi manna, t.d. varðandi eignarétt og almannaheill. Í máli þessu höfðu þar til bær stjórnvöld tekið ákvörðun um að leggja veg um Gálgahraun og ekki liggur annað fyrir í málinu en að þau hafi haft þar til bær réttindi og heimildir til að leggja umþrættan veg. Þá liggur fyrir að lögregla eða framkvæmdaraðili Vegagerðarinnar færði til merkingar, sem voru keilur og borðar, eftir því sem verkið vannst til. Þýddi það að færa þurfti merkingar til sem afmörkuðu fyrirhugað vinnusvæði. Við það hafi einhver hluti mótmælenda lent innan merkinga á væntanlegu vinnusvæði. Af myndbandi því, sem ákærða lagði sjálf fram, má sjá og heyra lögreglu ítrekað í gegnum gjallarhorn biðja mótmælendur að fara út af vinnusvæðinu. Hefur það ekki farið fram hjá neinum sem var í næsta nágrenni lögreglu.  Ákærða krefst sýknu í máli þessu og kveðst ekki hafa óhlýðnast fyrirmælum lögreglu. Í málinu liggur fyrir fjöldi ljósmynda sem ákærða lagði fram. Eru þær teknar af fréttaveitum og af einstaklingum sem ekki liggur fyrir hverjir eru. Verður að taka ljósmyndum þessum með fyrirvara um sönnunargildi þeirra, en ekki er ljóst af þeim hvenær dags eða í hvaða tilgangi þær voru teknar en fyrir liggur að ákærða var handtekin bæði fyrir og eftir hádegi þennan sama dag.                 Málsvörn ákærðu byggist á því að aðgerðir lögreglu hafi stangast á við stjórnarskrá Íslands og Mannréttindasáttmála Evrópu. Vísar ákærða í 73. og 74. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944 og 10. og 11. gr. Mannréttindasáttmálans. Hafi aðgerðir lögreglu haft það eina markmið að koma í veg fyrir friðsamleg mótmæli ákærðu og annarra sem þar hafi verið staddir. Þá hafi aðgerðir lögreglu haft annarlegan tilgang sem hafi verið sá að fá fólk til að gerast brotlegt við lög og í þeim tilgangi að geta brotið mótmælin á bak aftur. Í því skyni hafi lögregla stækkað afmarkað svæði jafnóðum og búið var að vísa fólki út fyrir fyrra svæði. Í kjölfarið hafi lögregla gripið til alvarlegra aðgerða sem hafi verið handtökur og frelsissviptingar og í mörgum tilfellum vistun í fangaklefa. Ákærða byggir á því að hún hafi átt stjórnarskrárbundinn rétt til að mótmæla, svo framarlega sem það væri gert á friðsaman hátt. Engu ofbeldi hafi verið beitt í umrætt sinn og þá hafi hún ekki veitt neinn mótþróa þegar lögreglan handtók hana. Þá taldi ákærða þá hagsmuni sína og réttindi til að halda uppi lögmætum mótmælum meiri en þá hagsmuni Vegagerðarinnar að eyðileggja Gálgahraun. Þá hafi skilyrði 19. gr. lögreglulaga ekki verið uppfyllt, enda hafi ákærða mátt vera þarna þar sem um lögmætan tilgang var að ræða og hún hafi verið utan merkts svæðis og að auki hafi hún ekki verið ógnandi né hafi verið um uppþot að ræða. Af myndskeiði sem ákærða lagði fram má sjá að nokkrir mótmælendur leggjast flötum beinum á jörðina rétt fyrir framan tönn jarðýtunnar og hlusta á lögreglumann vísa þeim burt af svæðinu en þau mótmæla. Engar tímasetningar eru á myndbandinu svo að ekki er ljóst hvort um var að ræða mótmæli fyrir eða eftir hádegi. Hins vegar sjást vel afmarkanir svæðisins með keilum og borðum sem átti ekki að dyljast neinum sem horfði yfir athafnasvæðið. Þá heyrist einnig á myndskeiðinu að lögregla hvetur fólk ítrekað í gjallarhorni til að fara út fyrir vinnusvæðið.                 Ákærðu Rögnu er gefið að sök að hafa ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu í umrætt sinn en hún kvaðst hafa verið í hrauninu í lögmætum tilgangi þegar hún var handtekin. Samkvæmt framburði vitnanna A og B lögreglumanna var ákærða innan merkts svæðis þegar henni voru gefin skýr fyrirmæli um að færa sig en hún hafi neitað með því að hreyfa sig ekki. Þá staðfesti vitnið E að mótmælendur hafi verið innan merkts svæðis þegar lögregla handtók þá og færði þá út af svæðinu. Auk þess staðfesti vitnið C að mótmælendum hafi verið gefin skýr fyrirmæli í gjallarhorn um að færa sig út af afmörkuðu vinnusvæði áður en lögreglumönnum hafi verið gefin fyrirmæli um að hafa afskipti af hverjum og einum og þá handtaka þá ef þeir færu ekki að fyrirmælum lögreglu. Vitnið D staðfesti einnig fyrir dóminum að lögregla hafi beint þeim fyrirmælum til mótmælenda að yfirgefa vinnusvæðið og vinnusvæðið hafi verið afmarkað með keilum og böndum.  Í ákærunni er ákært fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu og brotið talið varða við 19. gr., sbr. 41. gr., lögreglulaga. Margar lærðar greinar hafa verið skrifaðar um rétt einstaklinga til skoðana- og tjáningarfrelsis og er sá réttur bundinn í 73. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33 frá 1944 en þar segir í 1. mgr.: „Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.“ Í 2. mgr. segir að hver maður eigi rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verði hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi megi aldrei í lög leiða. Í 3. mgr. segir að tjáningarfrelsi megi aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.  Samkvæmt 15. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 er lögreglu heimilt að hafa afskipti af borgurunum í því skyni að halda uppi almannafriði og allsherjarreglu, til að gæta öryggis einstaklinga og almennings eða til að afstýra brotum eða stöðva þau. Í þessu skyni er lögreglu m.a. heimilt að vísa fólki á brott eða fjarlægja það og fara inn á svæði í einkaeign og fyrirskipa brottflutning fólks af þeim. Í 19. gr. er síðan að finna almennt ákvæði sem kveður á um skyldu borgaranna til að hlýða fyrirmælum lögreglunnar. Það er meginregla íslenskrar stjórnskipunar að enginn geti komið sér hjá því að hlýða yfirvaldsboði í bráð þótt hann vefengi heimildir stjórnvalda, sbr. 60. gr. stjórnarskrárinnar. Þótt ákærða teldi sig hafa ástæðu til að draga í efa að heimilt væri að ganga svo langt sem raun ber vitni við vegaframkvæmdir, veitti það ekki rétt til að  hindra framkvæmdir hennar á þann hátt, sem ákærða gerði. Í máli þessu liggur fyrir að ákærða hlýddi ekki augljósum fyrirmælum lögreglu um að fara út af vinnusvæðinu og láta af aðgerðum sínum að því marki sem hún gekk á rétt annarra til að halda áfram lögmætum framkvæmdum og voru aðgerðir lögreglu því nauðsynlegar í umrætt sinn og samrýmast heimildum 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Telur dómurinn engu máli skipta hvort merkingar hafi verið komnar áður eða eftir að ákærða lagðist niður á svæðið, þar sem henni mátti vera fullljóst að þegar lögreglan bað hana að fara af svæðinu var ákærða þá þegar innan merkinga um vinnusvæði. Þá breytir engu hvort ákærða hafi neitað að yfirgefa svæðið eða ekki, heldur felast í þeirri háttsemi einni að standa ekki upp og yfirgefa svæðið þegar henni var fyrirskipað það, með þeim afleiðingum að lögregla þurfti að bera ákærðu út af svæðinu, mótmæli við fyrirmælum lögreglu. Telur dómurinn ákæruvaldið hafa fært fram lögfulla sönnun þess að ákærða hafi gerst brotleg eins og greinir í ákæru og verður henni gerð refsing fyrir. Er háttsemin réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Ákærðu hefur ekki verið gerð refsing áður. Þrátt fyrir að ákærða hafi verið í friðsamlegum mótmælum í Gálgahrauni umrætt sinn, þá verður sá tilgangur ekki metinn henni til refsilækkunar í máli þessu þar sem mótmæli ákærðu gengu lengra en stjórnarskrárvarinn réttur hennar var. Er þeirri málsástæðu hafnað.   Er refsing ákærðu ákveðin 100.000 krónur í sekt til ríkissjóðs, sem ákærðu ber að greiða innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa en sæta ella fangelsi í átta daga. Ákærða greiði allan sakarkostnað, sem eru málflutningslaun skipaðs verjanda hennar, Ragnheiðar E. Þorsteinsdóttur hdl., sem þykja hæfilega ákveðin 150.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.  Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Dómsorð:  Ákærða, Ragna Dagbjört Davíðsdóttir, greiði 100.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa en sæti ella fangelsi í átta daga. Ákærða greiði allan sakarkostnað, sem eru málflutningslaun skipaðs verjanda hennar, Ragnheiðar E. Þorsteinsdóttur hdl., 150.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Mál nr. 752/2014
Leigusamningur Vanefnd Riftun
Með leigusamningi 23. október 2000 við S, félag í eigu tilgreinda sameigenda jarðarinnar Fells, tók E á leigu spildu úr landi Fells við austurbakka Jökulsárlóns á Breiðamerkursandi undir rekstur ferðaþjónustu við lónið. S höfðaði mál á hendur E og krafðist þess að staðfest yrði riftun sín 30. ágúst 2012 á leigusamningnum og viðurkennd skaðabótaskylda E gagnvart sér vegna vanefnda á samningnum. S reisti málatilbúnað sinn á margvíslegum ætluðum vanefndatilvikum af hálfu E. Ekki var talið að E hefði vanefnt leigusamninginn með verulegum hætti og var hann því sýknaður af kröfum S.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson. Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 15. september 2014. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 29. október 2014 og var áfrýjað öðru sinni 24. nóvember sama ár. Áfrýjandi krefst þess að staðfest verði riftun sín 30. ágúst 2012 á leigusamningi við stefnda 23. október 2000 og viðurkennd skaðabótaskylda stefnda gagnvart sér vegna vanefnda á samningnum. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Með vísan til forsendna héraðsdóms um þær dómkröfur, sem áfrýjandi gerir nú fyrir Hæstarétti, verður niðurstaða dómsins staðfest. Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júní 2014.                 Mál þetta, sem var dómtekið 28. maí sl. er höfðað 10. október 2013. Stefnandi er Sameigendafélag Fells, Fornhaga 24, Kópavogi, en stefndi er Einar Björn Einarsson, Kirkjubraut 7, Höfn í Hornafirði.                 Stefnandi krefst þess aðallega, að staðfest verði með dómi riftun leigusamnings, dags. 23. október 2000, á milli stefnda og stefnanda sem lýst var yfir í bréfi til stefnda, dags. 30. ágúst 2012 og stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 18.734.000 krónur með vöxtum skv. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 18. maí 2012 til 18. júní 2012 og með dráttarvöxtum skv. 9. gr. s.l. frá þ.d.til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að leigusamningur, dags. 23. október 2000, á milli stefnda og stefnanda verði ógiltur með dómi, en að því frágengnu krefst hann þess að ákvæði 2. gr. fyrrgreinds leigusamnings á milli stefnda og stefnanda verði vikið til hliðar og breytt á þann veg að leigufjárhæðin verði ákveðin 30.000.000 krónur á ári, eða önnur fjárhæð skv. mati dómsins, frá og með 18. maí 2012. Þá krefst stefnandi málskostnaðar í öllum tilvikum.                 Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar. I                 Stefndi hefur frá árinu 2000 rekið ferðaþjónustu við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi. Er starfsstöð hans í landi jarðarinnar Fells sem liggur að austurbakka lónsins en á vesturbakkanum er þjóðlenda. Stefndi rekur veitinga- og minjagripasölu á staðnum en meginstarfsemi hans felst í því að sigla með ferðamenn útsýnisferðir um Jökulsárlón. Eru ferðirnar farnar m.a. á svokölluðum hjólabátum sem taka 25 farþega. Eru þessir bátar á hjólum og geta ekið á landi. Bátunum mun vera ekið að svokölluðum „landgangi“ sem staðsettur er í nágrenni við þjónustuhús stefnda. Þar stíga ferðamenn um borð. Þá er bátnum ekið niður að lóninu og út í það og síðan siglt um lónið. Samkvæmt reglum skal vera fylgdarbátur meðferðis þegar siglt er með farþega. Munu vera notaðir svokallaðir slöngubátar ( sem eru gúmmíbátar með utanborðsmótor, einnig nefndir Zodiac bátar) til þessa verks sem sigla þá í humátt á eftir hjólabátnum. Að siglingu lokinni er bátnum ekið upp úr lóninu og að fyrrnefndum landgangi þar sem ferðamenn fara frá borði. Í málinu deila aðilar m.a. um það að hvað marki það hafi tíðkast að fara með farþega í útsýnissiglingar á gúmmíbátum, auk siglinga á hjólabátum.                 Stefnandi máls þessa er almennt félag sem tilteknir sameigendur jarðarinnar Fells í sveitarfélaginu Hornafirði eru meðlimir í. Jörðin Fell liggur að austanverðu Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi. Umræddir sameigendur gerðu með sér sameignarsamning og ber hann með sér að hafa verið ætlað að gilda milli allra sameigenda jarðarinnar og eru þeir taldir upp í 1. gr. samningsins. Hefur samningurinn verið undirritaður fyrir hönd allra utan Guðbrands Benediktssonar (10,3583% eignarhlutur). Undirritanir á samninginn fóru fram frá september 1994 til apríl 1995.                 Í samningnum er í 2. gr. kveðið á um það að sameigendur jarðarinnar Fells hafi með sér hagsmunafélag um hina sérstöku sameign sem nefnist Sameigendafélag Fells. Tilgangur félagsins er sagður að gæta hagsmuna eigenda í samskiptum við aðra aðila, opinbera jafnt sem einkaaðila að því er varði málefni jarðarinnar og sameignar um hana. Í 3. og 4. gr. er mælt fyrir um fjölda manna í stjórn og mælt fyrir um að hlutverk stjórnarinnar sé að boða til sameigendafunda og framfylgja þeim ákvörðunum sameigenda sem á slíkum fundum séu teknar. Nauðsynlegar ákvarðanir sem teljist minniháttar geti stjórnin tekið milli funda.                 Í 5. gr. er mælt fyrir um fyrirkomulag ákvarðana um málefni sameignarinnar. Er þar mælt m.a. fyrir um að ákvarðanir um málefni sameignarinnar skuli teknar á sameignarfundum sem boða skyldi til með nánar greindum hætti og með nánar greindum fyrirvara. Mælt er fyrir um að fundur sé lögmætur ef mætt sé fyrir 66% eigenda. Rísi ágreiningur teljist ákvörðun samþykkt ef eigendur að minnsta kosti 66% jarðarinnar gjaldi henni samþykki.                 Í 6. gr. samningsins er mælt fyrir um að í stað þess að boða til sameigendafundar geti stjórn sent sameigendum tillögur um einstök málefni, svo sem samningsgerð við nýtendur jarðarinnar eða hluta hennar, til samþykktar. Til að slíkar tillögur teljist samþykktar verði eigendur að minnst 66% jarðarinnar að greiða þeim atkvæði. Einnig er kveðið á um að stjórn sé skylt að boða til sameigendafundar ef 66% sameigenda krefjist þess.                 Þá er mælt fyrir um í samningnum að milli sameigenda skuli gilda gagnkvæmur forkaupsréttur með nánar tilgreindum hætti. Þá eru og ákvæði um fleiri atriði sem ekki þykir ástæða til að tíunda nánar hér.                 Í skýrslu Fjölnis Torfasonar fyrir dómi kom fram að hann hefði byrjað rekstur báta til útsýnissiglinga með ferðamenn á Jökulsárlóni árið 1987 og hafi rekstur hans staðið allt þar til stefndi festi kaup honum um áramótin 1999/2000. Hann kvað reksturinn lengst af hafa verið á sínu nafni en árið 1999 hafi hann stofnað einkahlutafélagið Jökulsárlón um reksturinn. Hann kvaðst fyrst hafa gert leigusamning við stefnanda 1994 en eftir það hafi aldrei komist á „alvöru samningur“. Samningurinn hafi samkvæmt efni sínu náð til loka árs 1994 og einnig til tímans fram að því. Fjölnir kvað að eftir árið 1996 hafi hann notað í rekstri sínum þrjá hjólabáta (láðs- og lagarbáta), einn Sóma 1000 bát og einnig 21 feta flugfisk. Svo hafi hann verið með fjóra Zodiac báta og einn 17 feta plastbát sem nánast eingöngu hafi verið notaður til þess að halda ísnum frá og einn Terry 440 bát sem einnig hafi verið notaður á ísinn og sem fylgdarbátur. Fjölnir kvaðst hafa notað Zodiac bátana til að sigla með farþega utan háannartíma en á háannatíma hafi umræddir bátar þjónað því hlutverki að fylgja hjólabátunum eftir. Þá lýsti Fjölnir því að slóðar sem nýttir hafi verið að Lækjarvík og Hjólabátavík hafi verið gerðir þegar hlaðinn hafi verið varnargarður þegar brúin hafi verið byggð til að koma í veg fyrir að áin félli í gamlan farveg. Fjölnir lýsti því að starfsemi hans hafi farið þannig fram að hjólabátum væri ekið að landgangi sem sjáist á myndum af svæðinu. Þar hafi farþegar farið um borð en bátnum hafi síðan verið ekið á landi eftir þeim slóða sem fyrr er nefndur ýmist í Hjólabátavík eða Lækjarvík eftir því hvernig ís hafi legið í lóninu. Fyrst hafi verið ekið stystu leið ofan í lónið en eftir að varnargarður hafi verið gerður við lónið 1994 þá hafi ekki verið hægt að fara á bátunum þar og því hafi eftir þann tíma verið ekið í Hjólabátavík eða Lækjarvík eins og fyrr segir til að komast ofan í lónið.                 Í málinu liggur fyrir kaupsamningur 29. desember 1999 milli Fjölnis Torfasonar sem seljanda og stefnda sem kaupanda um þar greindar eignir sem tengjast rekstri ferðaþjónustu sem seljandi hafði rekið við Jökulsárlón. Voru í samningnum taldar upp þær eignir sem um var að ræða, m.a. söluskáli 146 fermetrar, byggður 1991, Kuntab sumarhús byggt 1997 og gámur frá 1996 sem notaður sé sem vörugeymsla. Einnig er getið um rafmagnsheimtaug og rotþrær frá árinu 1987 og vatnslagnir og dælu frá 1995 og 1997. Þá eru taldir upp fimm bátar með skipaskrárnúmerum, þar af þrír hjólabátar, og fjórir gúmmíbátar með mótor. Kaupverðið er tilgreint 28.500.000 krónur. Samningurinn er gerður með fyrirvara um að stefnda takist að ná samningi við stefnanda um leigu á jörðinni Felli til reksturs starfseminnar. Þá er mælt fyrir um að þegar slíkur samningur liggi fyrir skuldbindi stefndi sig til að kaupa fyrirtækið Jökulsárlón ehf. og greiða fyrir það 15.000.000 krónur og eignarhluta Fjölnis Torfasonar og Þorbjargar Antonsdóttur í jörðinni Felli og greiða fyrir hann 1.500.000 krónur. Framangreindar forsendur gengu eftir og gerði stefndi samning þann við stefnanda sem um er deilt í máli þessu 23. október 2000. Stefndi eignaðist umræddan eignarhlut í jörðinni Felli (10,3583%) og Jökulsárlón ehf. eins og kveðið var á um í fyrrgreindum kaupsamningi.                 Í aðdraganda samningsgerðarinnar sendi stefndi öllum sameigendum jarðarinnar bréf sem dagsett er 3. maí 2000. Fjallar hann þar um kaup sín á umræddum rekstri og árangurslausar tilraunir til að ná samkomulagi um leigu á landi undir starfsemina. Kemur m.a. fram í bréfinu að það sem beri á milli sé fyrst og fremst leigufjárhæð og lengd leigutímans. Gerir hann í bréfinu tilboð um greiðslu leigu árlega að fjárhæð 1.400.000 krónur, sem hækki með vísitölu, og kemur fram að það sé hækkun á fyrra tilboði. Þá lýsir stefndi því að honum sé nauðsynlegt að leigutími verði til 25 ára. Tiltekur stefndi að á leigutímanum muni leigugreiðslur nema alls 35.000.000 krónum. Þá segir: „Auk þess hefðu landeigendur áfram allan annan rétt til tekjuöflunar og landnýtingar á jörðinni, utan þeirrar lóðar sem mér yrði leigð.“                 Eins og fyrr segir var samningur aðila undirritaður 23. október 2000. Þykir nauðsynlegt hér að rekja ítarlega efni samningsins. Stefnandi er í aðfararorðum samningsins sagður leigusali en stefndi leigutaki. Samningurinn er svohljóðandi: „1. gr.                 Leigusali er félag eigenda jarðarinnar Fells í Borgarhafnarhreppi og eru í félaginu 89,6417% eigenda jarðarinnar, en innan hennar telst m.a. svæðið við Jökulsárlón. Leigutaki er eigandi að 10,3583% jarðarinnar og rekur þjónustu fyrir ferðamenn við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi með siglingum um lónið og rekstri söluskála við það. Í dag eru við lónið veitingahús (söluskáli) ca. 146,0 fm., Knutab sumarhús ca. 20,0 fm., vörugeymsla/gámur og bryggja/landgangur. 2. gr.                 Fyrir afnot þau sem leigutaki hefur af hluta svæðisins á og við Jökulsárlón, lofar hann að greiða leigusala árlega kr. 1.400.000,00 –fjórtánhundruðþúsund 00/100- án virðisaukaskatts. Upphæðin er verðtryggð miðað við vísitölu neysluverðs til verðtrygginga, miðað við grunnvísitölu 199,1 stig í júlí 2000. Grunnupphæðin lækkar ekki þótt vísitalan lækki. Gjalddagi greiðslu er 15. september ár hvert, í fyrsta sinn 15. september 2000 vegna ársins 2000. Hæstu lögleyfðu dráttarvextir reiknast á vanskil frá gjalddaga. 3. gr.                 Leigutaka er kunnugt um að Jökulsárlón og landið í kring er náttúruperla sem er á náttúruminjaskrá. Svæðið hefur verið skipulagt af Skipulagsþjónustu Austurlands sbr. meðfylgjandi fylgiskjal dags. í júní 1988 sem fylgir samningi þessum og telst hluti hans, merkt fylgiskjal I. Í 4. kafla þess kemur m.a. fram að ekki er heimilt að koma niður neinum föstum byggingum á svæðinu en að yfir sumartímann sé heimilt að staðsetja þar færanlegt timburhús ásamt skýli með snyrtingum á nánar tilgreindu svæði. Ennfremur að leita skuli samþykkis bygginganefndar sveitarfélagsins þótt byggingar séu ekki á föstum grunni. Byggingarnefnd skal leita afstöðu Náttúruverndarráðs áður en afstaða er tekin til bygginga á svæðinu.                 Í 5. kafla skipulagsins kemur m.a. fram að heimilt sé á svæðinu að starfrækja á sumrin greiðasölu og verslun með algengan ferðamannavarning, svo sem minjagripi o.fl. Þá sé einnig heimilt að reka bát til skemmtiferða um lónið og gera hann út frá sama stað og verið hefur. Ennfremur að þess skuli gætt svo sem kostur er, að starfsemi sem fram fari valdi ekki mengun, óþarfa jarðraski eða truflun. Að lokum kemur fram að einungis sé heimilt að stunda þann rekstur sem um er getið í eða við þær byggingar, sem settar verða upp. Á öðrum stöðum verði landið látið ósnert.                 Leigutaka er kunnugt um að samkvæmt ákvæðum 19. gr. landskiptalaga nr. 46/1941 er bygging húsa og annarra varanlegra mannvirkja óheimil á jörðum sem eru í óskiptri sameign. 4. gr.                 Óski leigutaki eftir að breyta rekstri sínum og/eða auka umsvif sín á landinu umfram það sem nú er, skal hann áður en hann leitar til hlutaðeigandi yfirvalda, leita samþykkis leigusala. 5. gr.                 Kvikmynda- og ljósmyndataka í atvinnuskyni við Jökulsárlón er háð samþykki leigusala sem innheimtir gjald vegna þessa samkv. gjaldskrá leigusala. Leigutaki lofar að gæta þess að eftir þessum reglum sé farið og vísa á fulltrúa leigusala sem þann aðila sem tekur við greiðslu og veitir nánari upplýsingar. Leigusali mun láta leigutaka vita um þá aðila sem hafa fengið heimild til myndatöku. Leigutaki lofar að láta leigusala vita ef hann verður var við aðila sem eru að mynda í atvinnuskyni í heimildarleysi. Leigutaka er kunnugt um að leigusali hefur í athugun að setja upp skilti þar sem vakin er athygli á reglum um leyfi til myndatöku í atvinnuskyni. 6. gr.                 Samningur þessi gildir frá 1. janúar 2000 til 31. desember 2024. Framsal samningsins er óheimilt nema með samþykki leigusala.                 Að samningstíma liðnum hefur leigutaki forleigurétt að aðstöðu við lónið. Í því felst að hann skal svara innan þriggja vikna frá móttöku tilkynningar til hans, hvort hann vill ganga inn í hæsta tilboð um gjald fyrir aðstöðu við lónið.                 Leigusali skal hafa forkaupsrétt að rekstri leigutaka og/eða hluta hans í jörðinni komi til sölu þess. Skal hann svara innan þriggja vikna frá móttöku tilkynningar til hans, hvort hann vill ganga inn í hæsta tilboð. 7. gr.                 Leigutaki samkvæmt samningi þessum lofar að nafninu á fyrirtækinu Jökulsárlóni ehf. verði breytt í annað nafn fyrir 1. janúar 2001 og verði ekki notað af honum eða fyrirtækjum hans.“                 Í samningnum er vitnað til deiliskipulags frá árinu 1988. Í deiliskipulaginu er það sagt taka til bakka Jökulsár á Breiðamerkursandi og næsta nágrennis þeirra, frá þjóðvegi og upp að útfalli árinnar úr lóninu. Ekki þykir ástæða til að rekja efni skipulagsins frekar hér.                 Stefndi hefur rekið umrædda ferðaþjónustu frá því að hann keypti hana. Liggur og fyrir að árið 2006 festi hann kaup á fjórða hjólabátnum og tók í notkun.                 Deilur risu milli aðila 2008 í kjölfar þess að stefndi keypti aukinn hlut í jörðinni Felli, annars vegar af einstaklingi en hins vegar með því að festa kaup á Reynivöllum ehf. sem á hlut í jörðinni. Taldi stefnandi að þessi kaup hefðu farið fram í andstöðu við ákvæði sameignarsamnings stefnanda um forkaupsrétt. Voru höfðuð dómsmál vegna þessa en þeim var vísað frá dómi, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 290/2008 og 291/2008. Eftir umrædd kaup fer stefndi ásamt fyrrnefndu félagi sínu með 23,6605% eignarhlut í jörðinni Felli.                 Með bréfi 19. mars 2008 frá stefnanda til stefnda kvartaði hann yfir að rekstur stefnda væri ekki í samræmi við samning aðila og að stefndi hefði tekið undir sig stærra landsvæði en honum hefði verið leigt samkvæmt samningnum. Skiptust aðilar á allmörgum bréfum næstu árin og mótmælti stefndi því ávallt að um vanefndir af hans hálfu væri að ræða. Stefnandi lýsti yfir riftun á samningi aðila með bréfi 30. ágúst 2012.                 Stefnandi gerði 2010 samning við Must Visit Iceland ehf. (nefnt hér eftir MVI ehf.) um aðstöðu til siglinga um Jökulsárlón fyrir tvo slöngubáta. Var hugmyndin að umrætt fyrirtæki fengi aðstöðu á svæði því á austurbakka Jökulsárlóns sem deiliskipulagið frá 1988 nær til og þar sem stefndi hefur starfsaðstöðu sína. Af hálfu sveitarfélagsins var fallist á að umrætt fyrirtæki fengi stöðuleyfi á viðkomandi stað fyrir starfsemi sína að því gefnu að eigendur jarðarinnar væru því samþykkir. Stefndi veitti ekki samþykki sitt og varð því ekki af umræddum samningi.    Umrætt fyrirtæki hóf síðan starfsemi sína á vesturbakka Jökulsárlóns í þjóðlendu og mun hafa starfað síðan. Á árinu 2012 mun stefnandi hafa gert leigusamning við sama fyrirtæki og mun það greiða leigu til stefnanda vegna starfsemi sinnar. Fyrirtækið hefur þó ekki fengið aðstöðu í landi jarðarinnar Fells.                 Samkvæmt gögnum málsins hóf stefndi að kynna ferðir á slöngubátum á árinu 2011 og fékk þá starfsleyfi til að sigla með ferðamenn á slíkum bátum. Stefnandi telur að með þessu hafi stefndi aukið við starfsemi sína í andstöðu við leigusamning aðila en stefndi telur að siglingar með ferðamenn á þessari tegund báta hafi alla tíð tíðkast í rekstri hans og forvera hans.                 Málsaðilar þessa máls hafa átt í samningaviðræðum um framtíðarskipulag á umræddu landsvæði. Gerðu þeir með sér samkomulag 13. apríl 2011 um framtíðarskipan mála en samkomulagið var bundið skilyrðum af hálfu beggja um að öll atriði þess gengju eftir. Samkomulagið kom ekki til framkvæmda og vísa báðir aðilar til þess að það hafi verið af ástæðum sem varðað hafi hinn.                 Nýtt deiliskipulag tók gildi á svæðinu 31. ágúst 2013 og komu báðir málsaðilar að undirbúningi þess. Málsaðilar hafa verið í samningaviðræðum til að freista þess að leysa deilur sínar og marka samskiptum sínum farveg til framtíðar. Þær viðræður hafa ekki skilað fullnægjandi árangri.                 Þykir ekki nauðsynlegt að gera hér frekari grein fyrir málavöxtum en þeim er lýst með mun ítarlegri hætti í stefnu og greinargerð. Auk þess liggja fyrir í málinu ítarlegri gögn um samskipti aðila í aðdraganda málshöfðunar, sem ekki er ástæða til að tíunda nánar.                 Eins og fyrr greinir lýsti stefnandi yfir riftun leigusamnings aðila 30. ágúst 2012 og krafðist jafnframt skaðabóta. Taldi hann stefnda hafa vanefnt samning aðila verulega og lýsti vanefndum hans svo í sex töluliðum:                 „1. Stóraukin starfsemi við Jökulsárlón með fjölgun hjólabáta frá því sem upphaflega var samið um, ásamt nýrri starfsemi sem felst í rekstri slöngubáta sem fellur undir annað starfsleyfi heldur en hjólabátarekstur.                 2. Nýting landsvæðis til aksturs með ferðamenn utan hins deiliskipulagða svæðis í tengslum við hjólabátasiglingar þrátt fyrir að skýrt komi fram í 3. gr., sbr. 4. gr. samningsins að leigutakinn hafi einungis hluta deiliskipulagða svæðisins til umráða.                 3. Brot gegn 7. gr. samningsins um afdráttarlausa skyldu til þess að nota ekki heitið Jökulsárlón í rekstrinum.                 4. Brot gegn 6. gr. samningsins sem leggur skýlaust bann við framsali réttinda skv. samningi þessum. Núverandi rekstur á svæðinu er á vegum einkahlutafélags sem hefur ekki gert samning við Sameigendafélagið.                 5. Brot gegn 5. gr. samningsins með því að bjóða upp á myndatökur í atvinnuskyni í stað þess að framvísa þessum viðskiptum til Sameigendafélagsins eins og skýrt er tekið fram í greininni.                 6. Brot gegn 3. gr. samningsins með því að virða ekki gildandi deiliskipulag og með því að leita ekki eftir samþykki byggingarnefndar fyrir þeim framkvæmdum sem ráðist hefur verið í á samningstímanum.“                 Stefnandi krafðist skila á landinu fyrir ákveðinn tíma.                            Stefndi hafnaði því að skilyrði riftunar væru til staðar. Fyrir liggur að stefnandi gaf út reikning til stefnda fyrir leigu vegna ársins 2013 sem stefndi greiddi í september það ár. Telur stefndi að vegna þessa séu réttaráhrif riftunar fallin niður.                 Stefnandi höfðaði mál þetta 10. október 2013 og byggir í málinu á sömu lýsingu vanefnda og rakin eru hér að ofan, eins og nánar kemur fram í kafla hér á eftir þar sem raktar eru málsástæður hans. II                 Af hálfu stefnanda er byggt á því að stefndi hafi ítrekað brotið gegn samningsskyldum sínum samkvæmt samningi, 23. október 2000, um afnot landsvæðis við Jökulsárlón sem hafi falið í sér verulegar vanefndir af hans hálfu. Byggt sé á ólögfestri meginreglu kröfuréttarins um riftun gagnkvæms samnings vegna verulegra vanefnda stefnda.                 Stefnandi hafi rift umræddum samningi með bréfi 30. ágúst 2012 með vísan til þess að stefndi hefði vanefnt samningsskyldur sínar verulega. Riftunaryfirlýsing stefnanda hafi réttarhrif frá þeim degi, sbr. 2. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda gerninga. Í riftunarbréfinu sé þess krafist að stefndi afhendi hið leigða 1. október 2012 á sama tíma og stefndi loki starfsemi sinni yfir vetrartímann. Stefndi hafi ekki orðið við því og hafi hafnað því að afhenda landsvæðið. Stefnandi byggi á því að stefndi hafi vanefnt verulega skyldur sínar skv. samningnum og hafi brotið gegn 3. gr., 4. gr., 5. gr., 6. gr., og 7. gr. hans.                 Stefnandi byggi á því að með umræddum leigusamningi 23. október 2000 hafi stefndi einungis tekið á leigu hluta hins deiliskipulagða svæðis við Jökulsárlón til þess að reka starfsemi tengda rekstri hjólabáta fyrir ferðamenn gegn greiðslu að fjárhæð 1.400.000 krónur árlega, vísitölutryggða, sbr. 2. gr. samningsins. Afmörkun svæðisins hafi ekki verið nánar tilgreind í samningnum enda hafi markmiðið verið að sníða samninginn að þeirri starfsemi sem þá hafi verið starfrækt á svæðinu og stefndi hafði nýlega fest kaup á. Hins vegar hafi legið fyrir við samningsgerðina að svæðið innan deiliskipulagsins yrði líka leigt til annarra aðila til tekjuöflunar fyrir landeigendur. Stefndi hafi hins vegar á leigutímanum tekið undir sig allt deiliskipulagða svæðið og miklu meira en það og hafi þannig komið í veg fyrir að landeigendur gætu aflað sér leigutekna frá öðrum rekstraraðilum, auk þess sem hann hafi ekki greitt leigu fyrir hin auknu not svæðisins undir rekstur sinn. Í 4. gr. samningsins sé skýrt tekið á því að óski leigutaki eftir því að auka umsvif sín eða breyta rekstri skuli hann leita eftir samþykki leigusala og semja svo eðli málsins samkvæmt í framhaldinu um heimild til frekari rekstrar á svæðinu gegn greiðslu leigugjalds. Stefnandi byggi á því að hvort sem horft sé til einstakra samningsbrota eða þau virt öll saman sé um verulega vanefnd á samningnum að ræða og því sé riftun heimil.                 Stefnandi telji að stefndi hafi brotið gegn 4. gr., sbr. 2. gr. samningsins með því að stórauka starfsemi sína við Jökulsárlón með fjölgun hjólabáta um a.m.k einn frá því sem upphaflega hafi verið samið um, ásamt því að hefja nýja starfsemi sem felist í rekstri slöngubáta sem falli undir annað starfsleyfi heldur en hjólabátarekstur. Hafa beri í huga að hver hjólabátur stórauki starfsemina á svæðinu eins og sjá megi af ársreikningum Jökulsárlóns ehf. sem liggi fyrir í málinu. Á heimasíðu félagsins sem stefndi reki megi sjá að stefndi hafi tekið fjórða bátinn í notkun á árinu 2006. Jafnframt vilji stefnandi benda á að með því að taka aukið landsvæði undir starfsemina utan hins deiliskipulagða svæðis hafi stefnda gefist kostur á að reka fleiri báta því um helmingur hverrar bátsferðar sé akstur á landi utan deiliskipulagðs svæðis. Óumdeilt sé að stefndi hafi nýlega fest kaup á sérstökum slöngubátum til útleigu í samkeppni við MVI ehf. sem hafi rekið starfsemi sína frá vesturbakkanum vegna mótmæla stefnda.                 Þá hafi stefndi brotið gegn 3. gr. samningsins með nýtingu landsvæðis til aksturs með ferðamenn utan hins deiliskipulagða svæðis í tengslum við hjólabátasiglingar, þrátt fyrir að skýrt komi fram í 2. mgr. 3. gr. leigusamningsins að einungis sé heimilt að stunda þann rekstur sem samið hafi verið um innan hins deiliskipulagða svæðis og á öðrum stöðum skuli landið látið ósnert. Vísað sé til gildandi deiliskipulags frá árinu 1988 sem sérstaks fylgiskjals og áréttað að Jökulsárlón og landið í kring sé náttúruperla sem sé á náttúruminjaskrá og gæta verði sérstakrar varkárni á svæðinu sér í lagi m.t.t. jarðrasks, mengunar og framkvæmda. Stefndi hafi þrátt fyrir skýran áskilnað 3. gr. samningsins gert vegarslóða í landið þar sem hann aki með farþega á hjólbátunum áður en hann fari út á lónið. Notkun hans á þessu landi sé óheimil og brjóti gegn ofangreindu ákvæði samningsins auk eldra deiliskipulags. Stefnandi hafi án árangurs skorað á stefnda að láta af þeirri háttsemi.                 Stefndi hafi jafnframt brotið gegn 7. gr. samningsins um afdráttarlausa skyldu til þess að nota ekki heitið Jökulsárlón í rekstrinum. Stefnandi hafi ítrekað það margsinnis við stefnda að hann breytti því. Stefnandi hafi ekki getað markaðssett svæðið undir þessu vörumerki vegna brota stefnda á samningsskyldum sínum.                 Þá hafi stefndi brotið gegn 6. gr. samningsins sem leggi skýlaust bann við framsali réttinda skv. samningi. Núverandi rekstur á svæðinu sé á vegum einkahlutafélags í eigu stefnda, Jökulárárlóns ehf., sem sé ekki með samning við stefnanda. Af hálfu stefnanda sé alveg skýrt, enda komi það fram í inngangi samningsins frá 23. október 2000, að það sé stefndi sem sé leigutaki og enginn annar.                 Brot gegn 5. gr. samningsins felist í því að bjóða upp á myndatökur í atvinnuskyni í stað þess að beina þessum viðskiptum til stefnanda eins og skýrt sé tekið fram í greininni. Undanfarin misseri hafi stefndi, í stað þess að vísa væntanlegum viðskiptavinum til stefnda eins og honum beri skv. 5. gr. samningsins, boðið upp á sérstakar siglingar þar sem jafnframt sé heimilt að taka myndir.                 Brot gegn 3. gr. samningsins felist í því að virða ekki gildandi deiliskipulag og með því að leita ekki eftir samþykki byggingarnefndar fyrir þeim framkvæmdum sem ráðist hafi verið í á samningstímanum eða endurnýjað leyfi. Stefndi hafi ekki sótt um leyfi fyrir stórum hluta þeirrar starfsemi sem félög á hans vegum reki þar í trássi við gildandi leigusamning. Í bréfi sveitarfélagsins frá 27. október 2011, komi m.a. fram að ekki liggi fyrir heimild til byggingar Knautab sumarhúss, færanleg starfsmannaðstaða hafi einungis fengið árs stöðuleyfi árið 2004, framkvæmdaleyfis hafi ekki verið aflað fyrir borholu til ferskvatnsöflunar skv. 27. gr. skipulagslaga nr. 73/1997, ekki hafi verið aflað stöðuleyfis fyrir hjólabáta, ekki hafi verið aflað leyfis fyrir pramma eða bryggju við eystri bakka Jökulsárlóns, landgangur hafi ekki verið samþykktur auk þess sem ekki liggi fyrir framkvæmdaleyfi fyrir þeim vegi sem liggi inn með Jökulsárlóni og nýttur sé af stefnda og félögum í hans eigu. Sama gildi um ólögmæta förgun á olíu á svæðinu.                 Stefnandi byggi á því að öll skilyrði til riftunar séu fyrir hendi enda ljóst að stefndi hafi ítrekað brotið samningsskyldur sínar samkvæmt skýru orðalagi samningsins frá 23. október 2000 og því sé áskilnaður almennu riftunarreglu kröfuréttarins um verulega vanefnd á samningsskyldum fyrir hendi. Líta verði til almennra sjónarmiða við túlkun ólögfestu lagareglunnar. Í tilviki stefnda þurfi m.a að horfa til þess hvort vanefndin leiði til þess að tilgangur samningsins raskist verulega. Í þeim efnum vísi stefnandi til bréfs stefnda, 3. maí 2000 sem sent hafi verið öllum landeigendum í aðdraganda að gerð samnings aðila. Í tilgreindu bréfi hafi stefndi fullvissað aðra landeigendur um að þrátt fyrir gerð samnings við sig hefðu aðrir landeigendur eftir sem áður fullan rétt til tekjuöflunar og landnýtingar á jörðinni utan þeirrar lóðar sem honum yrði leigð innan deiliskipulagsins. Þetta hafi verið grundvallarforsenda stefnanda fyrir samningnum þ.e. að geta leigt fleiri aðilum aðstöðu við Jökulsárlón til tekjuöflunar fyrir landeigendur. Við þetta hafi stefndi ekki staðið heldur þvert á móti tekið undir starfsemi sín og aðra einkaaðila, sem séu þó í eigu hans, allt hið deiliskipulagða svæði og rúmlega það, sem hafi haft það í för með sér að stefnandi hafi ekki getað nýtt svæðið til frekari tekjuöflunar fyrir aðra landeigendur eins og stefnt hafi verið að. Með þessari háttsemi sinni hafi hann valdið stefnanda umtalsverðu fjárhagslegu tjóni.                 Stefnda hafi verið það ljóst í langan tíma að vanefndir hans hafa haft veruleg áhrif á stefnanda og hafi í engu sinnt umkvörtunum stefnanda um úrbætur á samningsbrotum sínum, heldur þvert á móti mótmælt þeim af hörku og haldið háttsemi sinni áfram. Stefndi viti að brot hans á samningsskyldum sínum gagnvart stefnanda hafi haft veruleg áhrif á hagsmuni stefnanda og stefndi hafi vitað það við gerð samningsins 23. október 2000 að frekari tekjuöflun landeigenda hafi verið fyrirhuguð enda hafi það verið grundvallarforsenda stefnanda fyrir samningnum. Stefndi hafi sjálfur lýst yfir í bréfi, 3. maí 2000, að þrátt fyrir að samið yrði við hann um afnot hluta landssvæðisins þá kæmi það ekki í veg fyrir frekari tekjuöflun stefnanda á svæðinu. Síendurtekin samningsbrot geti ekki annað en talist veruleg vanefnd á samningi. Vanefndir stefnda séu verulegar þegar litið sé til samningsins í heild enda brotið gegn nánast öllum ákvæðum samningsins. Hagnýting hins leigða og vanræksla á umhirðu svæðisins sé slík að ekki sé hægt að líta á það öðruvísi en að um verulegar vanefndir sé að ræða. Þrátt fyrir að samkvæmt meginreglum kröfuréttarins sé sök ekki skilyrði riftunar hafi það hins vegar þýðingu við mat á vanefndunum og hvort um verulega vanefnd sé að ræða hvort gagnaðili hafi sýnt af sér saknæma háttsemi. Grandsemi stefnda verði í þessu tilviki til þess að hafa áhrif á það mat.                 Ákvörðun stefnanda um riftun framangreinds samnings við stefnda hafi verið tekin á aðalfundi stefnanda miðvikudaginn 20. júní 2012 og ákvörðun um málshöfðun til staðfestingar riftuninni hafi verið tekin á fundi stefnanda 9. febrúar 2013. Ákvarðanirnar hafi verið teknar í samræmi við 5. gr. sameignarsamningsins þar sem áskilið sé að a.m.k 66% félagsmanna mæti svo fundurinn sé lögmætur. Á fyrri fundinn hafi verið mætt af hálfu 96,24% félagsmanna og á seinni fundinn hafi verið mætt af hálfu 80,01% félagsmanna sem jafngildi því að meirihluti landeiganda að jörðinni Felli hafi tekið með lögmætum hætti ákvörðun um að gefa stjórn umboð til þess að rifta leigusamningi við stefnda og höfða mál til staðfestingar riftuninni. Jörðin Fell sé í sérstakri sameign eins og fram hafi komið sem feli það í sér að hver og einn sameigandi hafi allar þær eignarheimildir sem fylgi landinu með ákveðnum takmörkunum. Þegar um sé að ræða eignir í sérstakri sameign megi flokka heimildir sameigenda til ráðstafana í þrjá flokka.                 Í fyrsta lagi sé um að ræða nýtingu sem hverjum og einum sé heimil. Meginreglan sé sú að hver sameigandi geti nýtt eða ráðstafað sameign ef nýtingin eða ráðstöfunin sé öðrum sameigendum bagalaus. Ljóst sé að í tilviki stefnda eigi þessi heimild ekki við enda sé nýting stefnda á landsvæðinu byggð á leigusamningi og sé sameigendum ekki bagalaus enda hafi nýting hans á svæðinu verið sjálftaka sem hafi haft þau áhrif að aðrir sameigendur hafi ekki notið arðs af landinu.                       Í öðru lagi gildi sú regla í íslenskum rétti að meirihluti sameigenda geti staðið að baki ráðstöfunum sem séu venjulegar jafnvel þótt þær séu öðrum sameigendum ekki bagalausar. Sem dæmi um slíkar ráðstafanir sé útleiga o.fl. Af dómafordæmum Hæstaréttar megi sjá að meirihlutinn hafi rýmra ákvörðunarvald eftir því sem sameigendur séu fleiri. Í þessu máli standi ríflega 75% landeigenda sem séu um 96% af félagsmönnum stefnanda sameiginlega að þeirri ákvörðun að rifta leigusamningi við stefnda eftir að hafa reynt til þrautar að semja við stefnda. Ekki sé hægt að líta framhjá þeirri staðreynd að ráðstöfun stefnanda hafi á bak við sig bæði aukinn meirihluta sem og að sameigendur séu mjög margir og allir nema einn séu hlynntir ráðstöfuninni. Auk þess liggi fyrir að stefndi hafi viðurkennt að meirihluti sameigenda geti ráðstafað eigninni með gerð leigusamnings við sig 23. október 2000, enda um að ræða venjulega ráðstöfun í samræmi við meginregluna. Stefndi hafi jafnframt lýst því yfir við gerð samningsins, í bréfi 3. maí 2000, að stefnandi hefði umboð meirihluta landeigenda og af þeim sökum leitaði hann eftir samningi við stefnanda. Það væri ótæk niðurstaða að stefnandi gæti gert skuldbindandi samning að lögum sem væri svo ókleift að rifta vegna verulegra vanefnda viðsemjandans.                 Í þriðja lagi gildi sú regla í íslenskum rétti að samþykki allra þurfi til ef ráðstöfun sé mjög óvenjuleg. Regla þessi eigi ekki við um ráðstafanir stefnanda, enda sé gerð leigusamnings og riftun hans venjuleg ráðstöfun og fyrir henni liggi samþykki aukins meirihluta sameigenda. Ljóst sé að markmið eigenda jarðarinnar Fells sé að afla tekna af jörðinni vegna ferðaþjónustu á svæðinu og stefnda sé fullkunnugt um það, enda lýsi hann þeirri skoðun sinni í bréfi sínu 3. maí 2000 þegar hann hafi óskað eftir samningi við stefnanda. Þær ráðstafanir sem falli undir að samþykki allra þurfi séu mjög víðtækar ráðstafanir, svo sem veðsetning og sala sameignarinnar eða ráðstöfun sem breyti tilgangi hennar.                 Stefnandi kveður að umfjöllun um málsástæður vegna skaðabótakröfu eigi jöfnum höndum við um aðalkröfu, varakröfu og þrautvarakröfu hans.                 Kveður stefnandi að beint orsakasamband sé á milli saknæmrar háttsemi stefnda og tjóns stefnanda eins og rakið hafi verið. Með því að vanefna samningsskyldur sínar skv. samningi aðila og sölsa undir sig mestan hluta hins deiliskipulagða svæðis og koma þannig í veg fyrir að stefnandi gæti aflað frekari tekna af jörðinni hafi stefndi valdið stefnanda fjárhagslegu tjóni. Af gögnum málsins megi sjá að háttsemi stefnda og afstaða sem lýst hafi verið sé meginorsök þess að stefnandi hafi ekki getað aflað aukinna tekna af landsvæðinu, hvorki frá stefnda né nýjum aðilum. Tjón stefnanda sé skerðing á lögvörðum hagsmunum annarra landeigenda.                 Stefnandi hafi á samningstímanum orðið fyrir umtalsverðu fjártjóni eins og rakið hafi verið. Tjóni stefnanda megi skipta niður með þessum hætti:                 1)Tjón vegna missis tekna af starfsemi MVI ehf. á árunum 2010 og 2011 samtals kr. 3.000.0000, en ársleiga skv. samningi sé kr. 1.500.000. Tjónsfjárhæðin vegna missis tekna af útleigu til MVI ehf. byggist á þeim samningi sem gerður hafi verið við félagið.                 2)Tjón vegna reksturs stefnda á slöngubátum til útleigu á árinu 2012 - 2013 samtals kr. 4.000.000. Tjónsfjárhæðin vegna missis tekna af slöngubátaútgerð stefnda byggist á samningi þeim sem gerður hafi verið við MVI ehf. að viðbættu auknu umfangi stefnda sem felist í rekstri tveggja báta í stað eins.                 3) Vangreidd leiga vegna fjórða hjólabátsins frá árinu 2006-2013 samtals kr. 3.734.000. Tjónsfjárhæðin vegna fjölgunar hjólabáta úr þremur í fjóra byggist á því að upphafleg leigufjárhæð hafi miðast við þrjá báta, samtals 1.400.000 krónur, sem verið hafi vísitölutryggð, sem þýði að árlega hafi verið samið að greiddar yrðu kr. 467.000 fyrir hvern bát. Innheimt sé fyrir fjórða bátinn hlutfallslega sama fjárhæð sem geri á tímabilinu samtals kr. 3.734.000.                 4) Leiga vegna aukinna afnota bæði innan og utan hins deiliskipulagða svæðis á árunum 2006 til 2012 samtals kr. 8.000.000. Tjónsfjárhæðin vegna aukinna afnota miðist við að 75% af umsaminni leigu vegna stærðar þess landsvæðis sem stefndi hafi tekið undir starfsemi sína.                 Tjón stefnanda sem hlotist hafi af vanefndum stefnda nemi því samtals kr. 18.734.000 ásamt vöxtum.                 Stefnandi byggi varakröfu sína um ógildingu á að brostnar forsendur séu fyrir því að stefnandi geti efnt leigusamning aðila skv. efni sínu. Með gildistöku nýs deiliskipulags, 31. ágúst 2013 sem auglýst hafi verið í B deild Stjórnartíðinda hafi deiliskipulag þess svæðis sem stefnandi hafi leigt af stefnda á sínum tíma að hluta verið fellt úr gildi og stefnanda því óheimilt lögum skv. að leigja það svæði undir starfsemi stefnda. Byggt sé á meginreglum samningaréttarins um brostnar forsendur sem Hæstiréttur hafi staðfest ítrekað með dómum sínum.                 Ólögfest meginregla samningaréttarins um brostnar forsendur taki til atvika sem aðilum samnings verði kunn eftir að samningur sé gerður og hafi afgerandi áhrif á getu samningsaðila til þess að efna meginskyldu sína skv. samningi vegna þess að sú forsenda sem bresti hafi verið grundvallarforsenda samningsins í upphafi. Það deiliskipulag sem tekið hafi gildi á árinu 1988 og fellt hafi verið úr gildi 31. ágúst sl. hafi verið grundvallarforsenda stefnanda fyrir leigusamningnum við stefnda. Með því að fella deiliskipulagið brott sé stefnanda gert ómögulegt að efna meginskyldu leigusamningsins frá 23. október 2000. Með öðrum orðum stefnanda sé það óheimilt skv. gildandi lögum um skipulagsmál nr. 123/2010 að leigja stefnda áfram það landsvæði sem honum hafi verið leigt á sínum tíma.                 Stefnandi byggi jafnframt á því að stefnda hafi verið kunn sú grundvallarforsenda stefnanda enda sé vísað til deiliskipulagsins í leigusamningi aðila, þar sem fram komi að allar fasteignir skuli vera færanlegar og óheimilt sé að byggja varanlegar byggingar. Þessar staðreyndir sýni svo ekki verði um villst að stefndi hafi verið grandsamur um áðurnefnda grundvallarforsendu stefnanda og hafi mátt vita að til þess gæti komið að deiliskipulagið yrði fellt úr gildi. Ljóst sé að gildi eldra deiliskipulagsins hafi verið grundvallarforsenda leigusamningsins. Af dómum Hæstaréttar í máli nr. 26/2000 og máli nr. 557/2002 megi sjá að Hæstiréttur horfi til þess hvort hin brostna forsenda skv. almennu mati geti leitt til þess að annar samningsaðila verði ekki bundinn við annars gildan samning. Eins vegi það þungt ef viðsemjandi hafi vitað eða hafi mátt vita af forsendunni. Í þessu máli séu bæði þessi skilyrði uppfyllt.                 Stefnandi hafi sett sig í samband við stefnda vegna hins nýja deiliskipulags og hafi formlegar samningaviðræður hafist 8. maí 2013. Samningaviðræðunum hafi verið markaður ákveðinn tími og hafi samningsaðilar sammælst um ákveðnar samningsforsendur. Stefndi hafi hins vegar hafnað samningi við stefnanda á fundi þann 9. júlí 2013 og hafi ekki lagt fram neina tillögu þrátt fyrir að aðilar hafi sammælst um að marka samningaviðræðunum tíma til 15. júní 2013. Af þeim sökum sé einsýnt að stefnandi glími við almennan ómöguleika þ.e bæði vegna deiliskipulagsins og viljaleysis stefnda.                 Stefnandi byggi þrautvarakröfu sína á því að leigugjaldið fyrir landsvæðið við Jökulárlón, samkvæmt samningi aðila, sé ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju af stefnda að bera fyrir sig að greiða svo lágt afgjald þegar hann hafi í raun tekið undir sig allt hið deiliskipulagða svæði, stóraukið starfsemi sína og tekið undir afnot sín stórt landsvæði til viðbótar, án þess að greiða landeigendum fyrir þau afnot. Byggt sé á 36. gr. laga nr. 7/1936. Samkvæmt lagaákvæðinu megi víkja samningi til hliðar í heild eða hluta, eða breyta ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Í 2. mgr. komi fram að við mat lagareglunnar skuli líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar hafi komið til.                 Við gerð samnings aðila hafi stefndi lýst því yfir að landeigendur gætu þrátt fyrir þennan samning aflað tekna af landsvæðinu og hafi stefndi jafnframt lýst yfir að mikil uppbygging ferðaþjónustu væri nauðsynleg fyrir alla á svæðinu þ.e. landeigendur, íbúa og sveitarfélagið. Meginforsenda stefnanda hafi verið að samningurinn tæki eingöngu til hluta deiliskipulagða svæðisins svo hægt væri að afla frekari leigutekna. Af þeim sökum hafi leigufjárhæðin verið ákveðin lægri. Í umfjöllun um aðalkröfu hafi því verið lýst ítarlega hvernig stefndi hafi tekið undir sig allt landsvæðið við Jökulsárlón og hafi þannig brotið gegn samningi á milli aðila. Hér vísist til þess eftir því sem við eigi.                 Stefnandi geri þá kröfu að í stað leigufjárhæðarinnar kr. 1.400.000 í 2. gr. samningsins verði leigufjárhæðin ákveðin kr. 30.000.000. Þannig sé hluta ákvæðis 2. gr. vikið til hliðar með vísan til þess að ósanngjarnt sé af hálfu stefnda að bera fyrir sig ákvæðið vegna breyttra nota á hans á landssvæðinu. Aukin umsvif stefnda í kjölfar sjálftöku hans á landsvæðinu hafi leitt til þess að stefndi hafi haft mun hærri tekjur síðustu árin af starfseminni og hafi vöxturinn verið mikill. Verði að teljast með ólíkindum að stefndi hafi ekki séð sóma sinn í því að setjast að samningaborðinu með stefnanda og semja um sanngjarnt afgjald í stað þess að brjóta samningsskyldur sínar. Þegar litið sé til efnis samningsins, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar hafi komið til og lýst hafi verið ítarlega sé alveg ljóst að heimilt sé að víkja frá verðákvæði samningsins í 2. gr. þar sem öll skilyrði 36. gr. laga nr. 7/1936 séu uppfyllt.                 Við mat á auknu umfangi stefnda á landsvæðinu á grundvelli ólögmætrar sjálftöku landsvæðisins við Jökulsárlón sé nærtækast að líta til þess hvernig tekjur einkahlutafélagsins Jökulsárlón, sem starfræki starfsemina á svæðinu í andstöðu við samning aðila, hafi stórhækkað á tímabilinu. Á árinu 2000 hafi heildartekjur félagsins skv. ársreikningi verið kr. 57.272.000. Á árinu 2011 hafi heildartekjur félagsins skv. ársreikningi verið kr. 234.355.247. Þá séu ótaldar tekjur stefnda sjálfs sem sé með samninginn við stefnanda. Stefnandi telji einsýnt að núverandi ákvæði í 2. gr. samningsins sem kveði á um kr. 1.400.000 í leigufjárhæð sé bersýnilega ósanngjarnt og víkja eigi því til hliðar með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 vegna atvika við samningsgerðina og atvika sem komið hafi upp eftir samningsgerðina.                 Stefnandi vísi til almennrar riftunarreglu kröfuréttarins og 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, auk meginreglu samningaréttarins um ógildi samninga vegna brostinna forsenda. Um skaðabætur vísist til meginreglna skaðabótaréttarins innan og utan samninga. Vísað sé til 2. mgr. 25. gr. einkamálalaga nr. 91/1991. Um vexti sé vísað til 8. gr., sbr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafan um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Þá styðjist krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun við lög nr. 50/1988. Varðandi varnarþing vísist til 3. mgr. 42 gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.                 Við munnlegan málflutning mótmælti stefnandi því að hann hefði þar sett fram nýja málsástæðu um framleigu eins og stefndi mótmælti með bókun í þingbók. III                 Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda. Stefndi kveðst telja að málatilbúnaður stefnanda sé órökstuddur og engan veginn í samræmi við staðreyndir málsins og skjalleg sönnunargögn sem lögð hafi verið fyrir dóminn. Stefndi byggi sýknukröfu sína á þeim málsástæðum 1) að stefnandi hafi með aðgerðum sínum og athafnaleysi fallið frá yfirlýsingu um riftun, 2) að ekki sé tilefni til þess að fallast á riftun samningsins og 3) í öllu falli að réttur til riftunar hafi fallið niður vegna tómlætis stefnanda. Stefndi hafni ennfremur skaðabótakröfu stefnanda, enda sé hún algerlega vanreifuð og ósönnuð. Þá hafni stefndi vara- og þrautavarakröfum stefnanda.                 Ekki sé ljóst af fundargerð aðalfundar stefnanda, 20. júní 2012, að tillaga um heimild til riftunar hafi verið réttilega lögð fram á fundinum eða að hún hafi hlotið lögformlega afgreiðslu og verið samþykkt sem slík.                 Stefnandi hafi lýst yfir riftun leigusamnings aðila 30. ágúst 2012 og hafi áréttað um leið að yfirlýsingin hefði réttaráhrif þá þegar frá þeim degi. Þessi afstaða stefnanda sé áréttuð í stefnu. Stefnandi hafi hins vegar haldið áfram að innheimta leigu samkvæmt leigusamningi og hafi stefndi síðast greitt leigu vegna ársins 2013 í september 2013 samkvæmt reikningi sem stefnandi hafi gefið út 26. ágúst 2013. Með áframhaldandi innheimtu leigu samkvæmt leigusamningi í 14 mánuði áður en mál þetta hafi verið höfðað og jafnframt í kjölfar málshöfðunar, hafi stefnandi fallið frá yfirlýsingu sinni um riftun. Í samræmi við meginreglur kröfuréttar um riftun og tómlæti hafi fallið niður þau réttaráhrif sem riftunin hafi mögulega haft í för með sér og sé ekki lengur til staðar riftun sem dómurinn geti staðfest. Þegar af þessari ástæðu beri að sýkna stefnda af aðalkröfu stefnanda um staðfestingu á nefndri riftun.                 Verði ekki fallist á sýknu þegar af framangreindum ástæðum mótmæli stefndi allt að einu efnislegum forsendum riftunarkröfu stefnanda sem röngum. Órökstudd sé með öllu margendurtekin fullyrðing stefnanda um að stefndi hafi tekið undir sig meira svæði en hann hafi á leigu og að hann hafi þannig og með fjölgun báta og nýjum bátategundum aukið umsvif sín á svæðinu. Óljóst sé til hvaða svæðis stefnandi vísi landfræðilega hvað þetta varði. Ferðaþjónusta stefnda sé ekki á öðrum stað en þeim er ferðaþjónusta hafi verið fyrir þegar stefndi hafi tekið við rekstrinum. Hún sé í engu frábrugðin þeim rekstri er fyrirrennari stefnda hafi haft með höndum á svæðinu. Þá hafi bátum í rekstri stefnda fækkað á leigutímanum. Sérstaklega árétti stefndi eftirfarandi:                 1. Fyrir liggi yfirlýsing Fjölnis Torfasonar, dags. 21. september 2012, um báta sem hann hafi notað í rekstri sínum. Þegar stefndi hafi tekið við rekstrinum hafi verið notaðir fjórir slöngubátar, þrír hjólabátar, einn flugfiskbátur og einn Sómabátur. Í dag séu notaðir í farþegaflutningum fjórir hjólabátar og tveir slöngubátar og tveir Sómabátar. Bátum sem notaðir séu til siglinga um lónið hafi þannig fækkað og umsvif stefnda fráleitt aukist. Þá sé því alfarið hafnað að breyting á fjölda og gerð þeirra báta sem sigli um lónið geti talist breyting á rekstri fyrirtækisins í skilningi 4. gr. leigusamningsins. Ljóst sé enda að með „breytingu á rekstri“ í skilningi ákvæðisins sé átt við einhver þau atvik sem feli í sér raunverulega rekstrarbreytingu, t.d. að stefndi fari að sinna annars konar starfsemi samhliða rekstri bátasiglinga. Ákvæðið geti ekki átt við um hvers konar minniháttar breytingar á því hvernig stefndi kjósi að haga starfsemi sinni. Jafnvel þótt dómurinn kæmist að þeirri niðurstöðu að breyting á bátaflota hafi átt sér stað, og að sú breyting fæli í sér breytingu á rekstrinum, standi engin rök til þess að telja þá breytingu þvílíka aukningu á umsvifum stefnda að um sé að ræða brot gegn 4. gr. leigusamnings. Því síður sé um að ræða svo verulega vanefnd að það veiti stefnanda heimild til að beita jafn íþyngjandi vanefndaúrræði og riftun. Breyting og endurnýjun bátaflota stefnda sé eðlileg og óhjákvæmileg í tímans rás. Stefnandi hafi ekki mátt gera ráð fyrir öðru en að á 25 ára leigutíma yrði einhver breyting á því hvernig bátum væri siglt um lónið. Hafi fjöldi báta eða tegund þeirra verið veruleg forsenda af hálfu stefnanda fyrir samningi aðila, eða forsenda fyrir leiguverði, hafi stefnanda borið að tilgreina það sérstaklega í leigusamningi sem hann sjálfur hafi samið, líkt og gert hafi verið í 1. gr. samningsins varðandi mannvirki á svæðinu. Að lokum megi nefna að stefndi hafi tekið fjórða hjólabátinn í notkun á árinu 2006 og hafi ekki verið gerð athugasemd við það fyrirkomulag af hálfu stefnanda fyrr en á árinu 2012. Sé því hvað sem öðru líði um að ræða slíkt tómlæti að stefnandi hafi fyrirgert rétti til þess að bera þetta atriði fyrir sig.                 2. Ásakanir stefnanda um að stefndi hafi gert vegarslóða á landinu eigi ekki við nein rök að styðjast og veiti málatilbúnaður stefnanda enga vísbendingu um til hvaða vegarslóða sé vísað. Sá vegarslóði sem sé á svæðinu hafi verið þar í áratugi þótt vissulega hafi hann fest í sessi með hverju árinu. Vísist um þetta til ljósmynda sem liggi fyrir í málinu en þar á meðal sé loftmynd Vegagerðarinnar frá árinu 1996.                 3. Í stefnu sé því haldið fram að 7. gr. samningsins kveði á um skyldu til þess að nota ekki heitið Jökulsárlón í rekstrinum. Það sé ekki nákvæm lýsing á ákvæðinu því þar segi að stefndi lofi að nafninu á fyrirtækinu Jökulsárlóni ehf. verði breytt í annað nafn fyrir 1. janúar 2001. Hvergi sé mælt fyrir um að stefndi skuldbindi sig til þess að „nota ekki heitið Jökulsárlón í rekstrinum“, eins og stefnandi haldi fram. Óumdeilt sé að stefndi hafi haldið áfram að nota heitið Jökulsárlón ehf. í rekstri sínum. Nafnið sé eðlilegt í ljósi rekstrarins og hafi stefnandi enga hagsmuni af því sérstaklega að fyrirtæki stefnda heiti ekki Jökulsárlón ehf. Nafngift þessi hafi ekki valdið stefnanda nokkru tjóni og fráleitt að 7. gr. samningsins hafi verið slík veruleg forsenda fyrir samningi aðila að varðað geti riftun samnings sé vikið frá henni. Megi í því sambandi nefna að stefnandi hafi ekki gert reka að því að stefndi breytti þessu heiti fyrr en á árinu 2006 og hafi því sýnt af sér mikið tómlæti um hagsmuni sem augljóslega hafi ekki varðað hann miklu. Allt að einu, til samræmis við 7. gr. leigusamnings og að kröfu stefnanda, hafi stefndi breytt nafninu á félaginu í febrúar 2012. Félagið heiti eftirleiðis Jökulsárlón ferðaþjónusta ehf. Þar sem það hafi verið gert áður en stefndi hafi lýst yfir riftun leigusamnings sé þegar af þeirri ástæðu ljóst að þetta atriði geti ekki verið forsenda riftunar.                 4. Stefndi hafni því að hann hafi framselt réttindi sín samkvæmt leigusamningi aðila. Stefndi komi fram í einu og öllu gagnvart stefnanda sem leigutaki og megi sjá á gögnum málsins að stefnandi sjálfur líti ekki öðruvísi á. Rekstur ferðaþjónustu stefnda fari hins vegar fram í einkahlutafélaginu Jökulsárlón ferðaþjónusta ehf. sem stefndi eigi einn. Í því felist ekki framsal á leigusamningnum heldur rekstrarfyrirkomulag sem varði stefnda einan. Leigusamningurinn geri beinlínis ráð fyrir því að stefndi hafi rekstur sinn í einkahlutafélagi, sbr. 7. gr. Jafnframt sé ljóst að Fjölnir Torfason rak starfsemi sína í þessu einkahlutafélagi. Ef svo ólíklega fari að fallist verði á sjónarmið stefnanda um framsal á réttindum samkvæmt samningnum, sé ljóst af tómlæti stefnanda að ákvæði 6. gr. samningsins hafi ekki verið veruleg forsenda leigusamnings af hans hálfu. Þá hafi stefnandi enga hagsmuni af einu rekstrarformi umfram öðru.                 5. Stefndi hafni órökstuddum og algerlega ósönnuðum ásökunum stefnanda um að stefndi hafi boðið upp á myndatökur í atvinnuskyni á lóninu. Stefndi hafi ávallt vísað öllum sem óskað hafi eftir leyfi til myndatöku í atvinnuskyni á stefnanda í samræmi við 5. gr. leigusamnings.                 6. Endurnýjun svokallaðra stöðuleyfa hafi aldrei verið til umræðu af hálfu leigusala eða sveitarfélagsins. Sveitarfélagið hafi ekki gert athugasemd við fyrirkomulag á svæðinu en hafi haft leyfismál til almennrar skoðunar, þó ekki fyrr en frá árinu 2011. Telji stefndi augljóst að þetta atriði skipti engu máli og hafi stefnandi enga hagsmuni af því umfram stefnda að leyfi sveitarfélagsins fyrir starfsemi stefnda liggi fyrir. Þá áhættu beri stefndi alfarið sjálfur. Eins og áður sé lýst hafi stefndi tekið við mannvirkjum og lausafé vegna rekstursins við Jökulsárlón í því sama réttarástandi og enn sé til staðar, með tilliti til stöðuleyfa og fleiri þátta. Vanhöld að þessu leyti séu ekki veruleg vanefnd á samningi aðila og varði ekki riftun á samningnum þótt stöðuleyfi hafi ekki verið endurnýjuð. Stefndi hafi hins vegar ekki þurft að óska eftir leyfi byggingaryfirvalda vegna framkvæmda á svæðinu því engar leyfisskyldar framkvæmdir hafi átt sér stað á svæðinu eftir að stefndi hafi byrjað þar rekstur og hafi tekið svæðið á leigu. Þau mannvirki sem talin séu upp í bréfi sveitarfélagsins, dags. 27. október 2011, eigi rætur að rekja til þess tíma áður en stefndi hafi leigt svæðið, sbr. 1. gr. leigusamnings. Þá sé förgun olíu á svæðinu ekki með ólögmætum hætti og athugsemdalaus af hálfu stefnanda fram til þessa. Stefndi hafi því í engu brotið gegn 3. gr. leigusamningsins. Ítreki stefndi það sem áður hafi komið fram að öll mannvirkin á svæðinu séu þau sömu og Fjölnir Torfason hafi notað í atvinnustarfsemi sinni.                 Stefndi árétti að eigendur jarðarinnar Fells eigi fullan rétt til tekjuöflunar og landnýtingar á jörðinni utan þess svæðis sem stefndi hafi á leigu, að gættum meginreglum eignarréttar um samþykki fyrir ráðstöfun réttinda í sérstakri sameign. Engin áform um slíkt hafi þó verið kynnt stefnda sem stærsta einstaka eiganda sameignarlandsins. Einu hugmyndir stefnanda um auknar tekjur af jörðinni sýnist felast í því að tvíleigja það land sem stefndi hafi nú þegar til umráða og þar að auki undir samkeppnisrekstur! Það hafi fráleitt verið grundvallarforsenda stefnanda fyrir samningnum við stefnda að fleiri aðilum yrði leigð aðstaða við lónið. Aldrei hafi verið getið um slíka fyrirætlan í samningaviðræðum aðila og samningurinn sem lögmaður stefnanda hafi samið beri slíkt ekki með sér. Það hefði enda stangast á við leigusamning aðila og þá hagsmuni sem stefnda hafi verið ætlaðir með samningnum. Með vísan til þess sem hér hafi verið rakið, málavaxta að öðru leyti og hinnar ólögfestu meginreglu samningaréttar um að samninga skuli halda og meginreglna kröfuréttar um að vanefnd verði að vera veruleg til þess að rifta gildum samningi sé ljóst að engin skilyrði séu til riftunar stefnanda á leigusamningi aðila. Stefndi hafni alfarið því sem fram komi í stefnu um að ætlaðar vanefndir hans hafi haft veruleg áhrif á stefnanda, m.a. með því að stefndi hafi komið í veg fyrir tekjuöflun fyrir landeigendur. Stefndi telji þetta fjarstæðukennda röksemdafærslu, enda augljóst að stefndi, sem einn af sameigendum jarðarinnar, þurfi að samþykkja allar ráðstafanir um frekari leigu á svæðinu. Þá stangist þessi fullyrðing stefnanda á við yfirlýsingu hans um að hann hafi árum saman ráðstafað landinu með margvíslegum samningum. Stefnandi hafi hingað til aldrei kynnt neinar tekjuöflunarhugmyndir fyrir stefnda. Það eina sem stefnandi hafi vísað til sé missir leigutekna frá MVI ehf. vegna hluta svæðisins, en sá leigusamningur sé að mati stefnda ógildur þegar af þeirri ástæðu að samþykki stefnda fyrir honum hafi ekki verið aflað.                 Með vísan til framangreinds beri dóminum því að sýkna stefnda af kröfu stefnanda um staðfestingu á riftun af hans hálfu frá árinu 2012. Um leið falli niður tilefni til að fallast á skaðabótakröfu stefnanda sem sett sé fram sem aðalkrafa.                 Fari svo ólíklega að dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að stefndi hafi vanefnt leigusamning aðila svo verulega að stefnanda yrði alla jafna viðurkenndur réttur til riftunar beri dómnum eftir sem áður að sýkna stefnda vegna tómlætis stefnanda. Að mati stefnda eigi 61. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 við um samningssamband aðilanna, hvort sem henni sé beitt með lögjöfnun eða með vísan til þess að um sé að ræða ólögfesta reglu leiguréttarins. Í bréfum stefnanda til stefnda, að minnsta kosti frá árinu 2010, komi ítrekað fram að stefnandi telji að stefndi hafi brotið gegn samningi aðila, án þess þó að brotin væru nánar tilgreind. Hafi stefnandi viljað neyta réttar síns til riftunar á samningi aðila hafi honum borið að gera það strax, eða í síðasta lagi innan tveggja mánaða frá því að honum hafi orðið kunnugt um þau atvik sem hann sjálfur kjósi að skilgreina sem vanefnd af hálfu stefnda, sbr. 2. mgr. 61. gr. laga nr. 36/1994. Stefnandi hafi þannig glatað riftunarrétti sínum fyrir tómlæti og beri þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda.                 Skaðabótakröfu, eins og henni sé lýst í stefnu, mótmæli stefndi sérstaklega. Stefndi veki athygli á því að skaðabótakrafan sé svo vanreifuð og óljós að mögulega beri að vísa henni frá dómi án kröfu. Hagsmunir stefnda séu aftur á móti þeir að fá sýknu af hinum fráleita málatilbúnaði stefnanda og krefjist hann þess vegna ekki frávísunar þó svo að á þennan annmarka sé bent.                 Stefnandi byggi tjón sitt í fyrsta lagi á missi tekna af starfsemi MVI ehf. á árunum 2010 og 2011. Leigusamningur stefnanda við MVI ehf. hafi aftur á móti aldrei öðlast gildi því samþykki stefnda hafi skort. Samþykki allra sameigenda þurfi fyrir gerð leigusamnings þessa efnis um jörðina, sbr. meginreglur íslensks eignarréttar um sérstaka sameign. Komi þar bæði til form- og efnisreglur. Stefndi geti ekki borið skaðabótaábyrgð á efndum ólögmæts samnings stefnanda við MVI ehf. sem þar að auki hafi gengið í berhögg við samningsbundin réttindi stefnda. Stefnda hafi sem einum sameigenda jarðarinnar Fells, og þar að auki þeim stærsta, verið í sjálfsvald sett hvort að hann féllist á að gera samninga um landnot við þriðja mann. Aðra aðkomu hafi stefnandi ekki átt að málinu og verði hann fráleitt gerður skaðabótaskyldur á þeim grundvelli. Ætluð bótakrafa sé að öðru leyti algjörlega vanreifuð tölulega og því jafnframt mótmælt á þeim grundvelli.                 Í öðru lagi sé það þannig að ætlað tjón stefnanda vegna rekstrar á slöngubátum á árunum 2012-2013 megi skilja sem svo að það verði rakið til þess að stefndi hafi með höndum slöngubátaútgerð sem ekki hafi verið samið um. Slöngubátar hafi verið notaðir til siglinga á lóninu frá því löngu áður en stefndi hafi byrjað rekstur sinn. Leigusamningur aðila geri því ráð fyrir slöngubátaútgerð stefnda. Leigufjárhæð hafi auk þess ekki tekið mið af tilteknum fjölda eða tegundum báta og sé fullyrðing stefnda um annað ósönnuð og tjónið algerlega vanreifað.                 Í þriðja lagi hafi stefnandi ekki orðið fyrir nokkru tjóni vegna fjórða hjólabáts stefnda, líkt og hann byggi á. Leigufjárhæð skv. samningi aðila hafi ekki tekið mið af tilteknum fjölda báta, tegundum eða umsvifum hvað það varði. Fullyrðing stefnda um annað sé ósönnuð. Skaðabótakrafa stefnda sé algerlega vanreifuð að þessu leyti.                 Loks styðji stefnandi kröfu sína við ætlað tjón vegna ætlaðra aukinna afnota innan og utan deiliskipulags svæðis á tilgreindu árabili. Miði hann við 75% af umsaminni leigu vegna stærðar þess landsvæðis sem stefndi sé í stefnu talinn hafa tekið undir starfsemina. Engin tilraun sé gerð til þess að útlista nánar þetta reikningsdæmi eða sýna með einhverjum hætti til hvaða svæðis stefnandi vísi. Stefndi mótmæli öllum útreikningi skaðabótakröfu með vísan til málsatvika og þeirra málsástæðna sem þegar séu raktar, en eins og áður segi sé starfssvæði stefnda það sama og alltaf hafi verið. Stefnandi hafi ekki gert nokkra tilraun til þess að sanna tjón sitt með þeim úrræðum sem honum séu tæk að lögum og sé tjónið því algerlega ósannað og vanreifað.                 Það undirstriki síðan þær ógöngur sem stefnandi sé kominn í með málatilbúnað sinn allan og ætlaðan bótagrundvöll að engar kröfur séu gerðar á hendur stefnda vegna ársins 2013 en allt það ár hafi starfræksla stefnda farið fram með óbreyttum hætti og í samræmi við samning aðila frá 2000. Samt byggi stefnandi á því að réttaráhrif riftunar miðist við 30. ágúst 2012. Þetta helgist auðvitað af þeirri óþægilegu staðreynd fyrir stefnanda að hann hafi þrátt fyrir umrædda riftun haldið áfram og athugasemdalaust að vinna eftir samningi aðila sem gildur væri, þ.á m. innheimt leigu vegna áranna 2012 og 2013. Svo sem fyrr sé rakið og byggt á af stefnda hálfu leiði þessi óumdeilda staðreynd þá þegar til þess að framkomin riftun stefnda frá 30. ágúst 2012 sé fullkomið nullitet að lögum.                 Að mati stefnda verði dómurinn einnig að hafna varakröfu stefnanda með vísan til málsatvika og þeirra málsástæðna sem þegar séu raktar.                 Stefnandi byggi fyrst og fremst á því til stuðnings varakröfu sinni að grundvallarforsenda hans fyrir leigusamningnum við stefnda hafi verið deiliskipulagið frá árinu 1988. Haldi stefnandi því fram að með nýju deiliskipulagi sem samþykkt hafi verið sumarið 2013 sé stefnanda gert óheimilt að leigja stefnda það landsvæði sem honum hafi verið leigt á sínum tíma.                 Að mati stefnda sé verulega erfitt að átta sig á þessari málsástæðu stefnanda. Þannig verði ekki séð að deiliskipulag frá árinu 1988 hafi verið forsenda samningsins frá árinu 2000 og að forsendan hafi falist í því að ekki mætti gera breytingu á deiliskipulaginu. Sé þetta fráleitt sjónarmið af hálfu stefnanda, enda skipulagsvald alfarið á höndum sveitarfélaga samkvæmt ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 og ekki nema að verulega takmörkuðu leyti á færi aðila þessa máls að hafa áhrif á þá vinnu, hvað þá ákvarðanir, sveitarfélagsins.                 Þá virðist stefnandi byggja á því að óheimilt sé samkvæmt hinu nýja deiliskipulagi að leigja stefnda það landsvæði sem honum hafi verið leigt á sínum tíma. Þessu hafni stefndi alfarið. Tilgangur hins nýja deiliskipulags sé ekki að banna þá starfsemi sem nú sé á svæðinu. Þvert á móti sé tilgangurinn sá að skilgreina ramma um mannvirkjagerð og aðgerðir svo hægt sé að taka á móti vaxandi fjölda ferðamanna án þess að spilla svæðinu, eins og komi fram í greinargerð deiliskipulagsins. Starfsemi stefnda sé að öllu leyti í samræmi við hið nýja deiliskipulag sem geri ráð fyrir að núverandi þjónustubygging verði fjarlægð og húsrými í þjónustuhlaði stækkuð verulega til að mæta vaxandi gestafjölda og breyttum hugmyndum um viðbúnað og framboð á þjónustu. Segi jafnframt í skipulagsuppdrætti deiliskipulagsins að við fjarlægingu eldri þjónustubyggingar og bílastæða eigi bæjarstjórn Hornafjarðar að semja við eigendur og rekstraraðila um tímamörk þessa. Samkvæmt þessu sé augljóst að rekstur stefnda á svæðinu sé alls ekki í ósamræmi við deiliskipulagið. Þvert á móti sé gert ráð fyrir núverandi starfsemi og núverandi mannvirkjum en að samið verði um að fjarlægja mannvirkin þegar fram líði stundir.                 Órökstudd sé fullyrðing í stefnu um að stefnanda sé óheimilt að lögum að leigja svæðið við lónið undir starfsemi stefnda. Engin lög banni slíka leigu. Leigusamningur aðila sé ekki bundinn við þágildandi deiliskipulag þótt vísað hafi verið til þess í samningnum til skýringar. Deiliskipulagið frá 1988 hafi ekki verið forsenda stefnanda fyrir leigusamningi við stefnda.                 Stefndi hafi unnið mjög að framgangi nýs deiliskipulags enda í þágu reksturs hans að uppbygging fari fram á svæðinu. Í því ljósi og eftir að fyrir hafi legið drög að nýju deiliskipulagi hafi stefndi átt í viðræðum við stefnanda, án allra skuldbindinga, um mögulegan nýjan leigusamning til lengri tíma. Þær viðræður hafi ekki á neinn hátt raskað gildi fyrirliggjandi samnings og það geri nýtt deiliskipulag ekki heldur.                 Þrautavarakröfu sína styður stefnandi við 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga en einnig við þær málsástæður sem hann telji að leitt geti til vanefndaúrræða af hans hálfu og aðal- og varakrafa hans styðjist við. Með vísan til þess sem að framan sé rakið telji stefndi sýnt að hafna verði þrautavarakröfu stefnanda.                 Málatilbúnaður stefnanda til stuðnings þrautavarakröfu hans sé fullkomlega óskiljanlegur. Stefnandi haldi því fram að það hafi verið forsenda hans fyrir leigugjaldinu á sínum tíma að samningurinn tæki eingöngu til „hluta deiliskipulagða svæðisins svo hægt væri að afla frekari leigutekna“. Stefnandi haldi því síðan áfram og fullyrði að vöxtur í starfsemi stefnda sé vegna þess að hann jók umsvif sín og tók til sín stærra landsvæði. Stefndi hafni alfarið þessum málatilbúnaði.                 Í fyrsta lagi bendi stefndi á að stefnandi kjósi vísvitandi að horfa framhjá þeirri staðreynd í málatilbúnaði sínum, sem honum sé fullkunnugt um, að vöxtur í starfsemi stefnda sé að mestu leyti aukningu ferðamanna að þakka. Starfsemi stefnda felist aðallega í því að sigla með erlenda ferðamenn um Jökulsárlón og sé því augljóst að aukning ferðamanna hafi haft jákvæð áhrif á rekstur hans. Í þessu sambandi skuli þó minnt á að samkvæmt samningnum hafi það verið stefndi sem borið hafi alla áhættuna af þeim óvissuþætti sem fjöldi ferðamanna sé. Fjöldi ferðamann hafi verið breytilegur á leigutímanum. Stundum hafi ferðamönnum fjölgað en stundum fækkað á milli ára. Stefndi telji því fráleitt af hálfu stefnanda að halda því fram að aukin velta í starfsemi hans sé tilkomin vegna þess að hann hafi tekið til sín stærra landsvæði undir starfsemi sína en horfa alfarið framhjá aðaláhrifaþættinum, sem sé fjölgun ferðamanna.                 Í öðru lagi hafi stefndi ekki sölsað undir sig svæði sem hann hafi ekki á leigu samkvæmt leigusamningi aðila, eins og stefnandi haldi fram. Þvert á móti sé um nákvæmlega sama svæði að ræða og hafi verið notað til þessa atvinnureksturs um árabil.                 Í þriðja lagi sé því hafnað að stefndi standi í vegi fyrir tekjuöflun á svæðinu. Eins og áður sé rakið þurfi stefndi, sem stærsti sameigandi jarðarinnar Fells, að samþykkja allar ráðstafanir um frekari leigu á svæðinu. Stefnandi hafi ekki kynnt neinar tekjuöflunarhugmyndir fyrir stefnda. Það eina sem stefnandi hafi bent á sé að hann hafi misst af leigutekjum MVI ehf. vegna hluta svæðisins, en eins og áður segi sé sá leigusamningur ógildur þegar af þeirri ástæðu að samþykkis stefnda fyrir honum hafi ekki verið aflað.                 Í fjórða lagi verði ekki fallist á það að leigusamningi sé vikið til hliðar, í heild eða hluta, með vísan til aðstæðna sem stefnandi hafi ekki mátt sjá fyrir við gerð leigusamnings eins og þrautavarakrafa stefnanda virðist byggja á að hluta. Í því sambandi sé rétt að árétta að samningar um leigu til 25 ára hafi tekist eftir langar og ítarlegar viðræður um fjárhæð leigu og leigutíma. Hið leigða svæði hafi þá verið í útleigu um árabil. Stefnandi hafi haft mikla reynslu af leigu svæðisins og þeim rekstri sem þar hafi verið í mörg ár. Sú yfirburðastaða stefnanda yfir stefnda, þekking stefnanda á svæðinu og reynsla hans af útleigu svæðisins útiloki með öllu að stefnandi geti nú borið fyrir sig einhvers konar forsendubrest sem leiða eigi til þess að 2. gr. leigusamningsins verði vikið til hliðar með dómi og stefnanda ákvarðað hærra leigugjald með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936. Ekkert í aðdraganda samninga aðila geti leitt til ógildingar á ákvæðum samningsins. Þá hafi engin þau atvik orðið eftir að samningar tókust sem leitt geti til ógildingar samningsins eða einstökum ákvæðum hans.                 Með vísan til málavaxta, þeirra er lúti að umfangi starfseminnar við lónið fyrr og nú, sé útilokað að nokkuð í rekstri stefnda geti leitt til þess að vikið sé frá ótvíræðum ákvæðum leigusamnings aðila. Tekjuaukning stefnda stafi af fjölgun ferðamanna. Þess háttar breyting á högum leigutaka geti aldrei orðið tilefni til riftunar eða ógildingar leigusamnings nema samningurinn hafi byggst á forsendu um tilteknar tekjur og um það hafi verið samið með skýrum hætti. Því sé ekki til að dreifa í þessu máli.                 Stefndi telji að þessi þrautavarakrafa stefnanda sé augljós tilraun hans til þess að fá hlutdeild í aukinni veltu stefnda sem stafað hafi af fjölgun ferðamanna og aðhaldi í rekstri stefnda. Þessi fyrirætlan stefnanda skíni raunar í gegnum allan hans málatilbúnað og lýsi þá eingöngu vonbrigðum stefnanda yfir því að hafa að eigin dómi samið af sér í samningunum við stefnanda árið 2000. Samningum þar sem stefnandi hafi verið í yfirburðarstöðu. Þessi grundvallarforsenda stefnanda sé hins vegar að lögum með öllu óeðlileg og ómálefnaleg og geti ekki orðið grundvöllur fyrir því að víkja til hliðar gildum samningi milli aðila.                 Dómurinn geti því ekki annað en hafnað þrautavarakröfu stefnanda eins og öðrum dómkröfum hans. Ef svo ólíklega færi að fallist yrði á umrædda kröfu stefnanda krefjist stefndi þess að leigufjárhæðin verði ákveðin mun lægri en 30.000.000 krónur. Stefnandi hafi ekki gert neina tilraun til þess að sanna hvers vegna sú fjárhæð teljist sanngjörn með hliðsjón af atvikum málsins. Telji stefndi enda fráleitt að ætlaðar og lögmætur forsendur stefnanda hafi brostið svo verulega að réttlæti u.þ.b. tuttuguföldun á leiguverðinu.                 Um lagarök vísi stefnandi til ólögfestrar meginreglu samningarréttar um skuldbindingargildi samninga, meginreglna kröfuréttar um vanefndarúrræði, riftun og tómlæti, meginreglna eignarréttar um sérstaka sameign, húsaleigulaga nr. 36/1994, einkum 2. mgr. 61. gr., laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús og ólögfestra meginreglna leiguréttar um áhrif tómlætis leigusala. Krafa um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.                 Við munnlegan málflutning var bókað í þingbók um mótmæli stefnda við nýrri málsástæðu stefnanda sem komið hafi fram við munnlegan málflutning um að stefndi hafi framleigt Jökulsárlóni ehf. umrætt landsvæði. Taldi hann málsástæðu í þessa veru of seint fram komna. IV                 Stefnandi krefst þess aðallega að staðfest verði riftun á samningi málsaðila sem hann lýsti yfir 30. ágúst 2012 og stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta. Byggir stefnandi á því að stefndi hafi vanefnt samning aðila verulega hvort sem litið sé til einstakra vanefndatilvika eða samningsins í heild.                 Fyrst er til þess að líta að mat á því hvort samningur aðila hafi verið vanefndur og þá í kjölfarið hvort þær vanefndir geti talist verulegar verður að byggja á efni þess samnings sem aðilar undirrituðu 23. október 2000. Verður og við túlkun samningsins að líta til almennra sjónarmiða um túlkun slíkra gerninga. Skiptir hér m.a. máli sú meginregla að samningsákvæði ber að túlka með hliðsjón af vitneskju samningsaðila um samningsforsendur gagnaðila síns og skyldu beggja til að ganga til samninga með hliðsjón af sjónarmiðum um sanngirni og góða trú.                 Stefndi gerði eins og áður er rakið, kaupsamning sem laut að yfirtöku hans á rekstri fyrirtækis sem selur útsýnissiglingar með ferðafólk á Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi, með bækistöðvar í landi jarðarinnar Fells. Hafði þessi starfsemi farið fram um árabil með vitneskju stefnanda og hafði hann þegið leigugreiðslur fyrir. Verður að leggja til grundvallar að stefnandi hafi, með hliðsjón af framangreindu, verið í þeirri stöðu við samningsgerð við stefnda, sem nýlega hafði fest kaup á umræddum rekstri, að vera sá aðili sem betur hafi átt að þekkja aðstæður og umbúnað. Er það mat dómsins að miðað við þessar aðstæður verði ekki talið að stefnandi geti gagnvart stefnda réttilega byggt á því að sá rekstur sem stefndi keypti hafi verið í því horfi að verið hafi í andstöðu við samning aðila. Það er því mat dómsins að stefndi hafi mátt treysta því að honum væri heimilt á grundvelli samningsins að halda áfram þeim rekstri sem hann keypti. Liggur ekkert fyrir í málinu sem bendir til þess að stefnandi hafi í öndverðu beint áskorunum til stefnda um að breyta þyrfti rekstrinum þannig að hann félli að deiliskipulagi frá 1988 eða að hann hafi upplýst um það við samningsgerðina. Þá liggur ekki fyrir að opinberir aðilar hafi gert athugasemdir við starfsemina. Verður ekki annað séð en að öll þau mannvirki sem stefndi festi kaup á og finna má á starfssvæði hans hafi verið reist áður en hann keypti reksturinn. Liggur ekki fyrir að hann hafi aukið umsvif sín á svæðinu með framkvæmdum og verða fullyrðingar stefnanda í þessa veru að teljast ósannaðar.                 Stefnandi hefur ekki sýnt fram á hvaða hluta hins deiliskipulagða svæðis hann telji með réttu vera í leiguumráðum stefnda og hvaða hluta utan þeirra. Þá hefur hann ekki tilgreint hvaða landsvæði stefndi hafi tileinkað sér, innan hins deiliskipulagða svæðis, í andstöðu við samning aðila. Með hliðsjón af framaburði Fjölnis Torfasonar verður að telja sýnt að notkun hjólabáta á vegslóða að Hjólabátavík og Lækjarvík hefur verið tíðkuð löngu áður en stefndi festi kaup á rekstrinum. Hefur stefndi engum sönnunargögnum teflt fram sem hnekkja umræddri frásögn Fjölnis. Er það því mat dómsins að heimild til umræddrar notkunar hafi í raun falist í samningi aðila. Verður ekki talið að stefnandi geti með réttu byggt á því í þessu sambandi að mismunur er á milli þeirrar landnýtingar sem greinir í deiliskipulagi frá árinu 1988 og þess ástands sem uppi var þegar stefndi keypti reksturinn. Er það mat dómsins að stefnanda hafi mátt vera kunnugt um þessi frávik frá ákvæðum deiliskipulags og hefði borið að gera stefnda strax viðvart hygðist hann gera kröfu til breytingar á rekstri í tilefni af þessu.                 Með vísan til þess sem að framan greinir er það mat dómsins að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að stefndi hafi tekið undir starfsemi sína meira landsvæði en samið var um í upphafi. Þá er ekki fallist á með stefnanda að not stefnda á vegarslóða utan hins deiliskiplagða svæðis til aksturs hjólabáta á leið frá landgangi að þeim stað sem hjólabátar fara ofan í lónið geti talist vanefnd á samningi aðila enda mátti stefnanda vera ljóst að umræddur vegslóði væri þegar nýttur í þessu skyni þegar stefndi festi kaup á rekstrinum og gerði samning við stefnanda. Þá verður ekki séð að stefndi hafi staðið í neinum framkvæmdum í andstöðu við gildandi deiliskipulag en þvert á móti hafi allur búnaður og byggingar þegar verið til staðar þegar hann festi kaup á rekstrinum. Hefði stefnanda borið að vekja athygli stefnda á annmörkum að þessu leyti við gerð samningsins, teldi hann þá vera fyrir hendi, en geti ella ekki síðar byggt á sem vanefnd sem heimili riftun samningsins.                 Í leigusamningi aðila kemur fram í 1. gr. að hann sé gerður milli stefnanda sem fari með hagsmuni eigenda 89,6417% og stefnda sem sé eigandi 10,3583% jarðarinnar. Felur samningurinn því í sér samkvæmt efni sínu að allir sameigendur jarðarinnar hafi verið að ráðstafa umræddum hagsmunum þannig að stefndi tæki yfiráð þeirra gegn gjaldi. Hinn umdeildi samningur getur því ekki talist sambærilegur þeim samningi sem stefnandi gerði, án aðkomu stefnda, við MVI ehf. Fallist er á með stefnda að ekki verði litið svo á að synjun hans á því að umrætt félag fengi stöðuleyfi á austurbakka Jökulsárlóns, í samræmi við nefndan leigusamning, feli í sér vanefnd á leigusamningi hans við stefnda. Ber umræddur leigusamningur aðila frá 23. október 2000 ekki með sér að stefndi hafi með honum afsalað sér þeim rétti sem hann nýtur sem landeigandi og er ekki unnt að fallast á það með stefnanda að orðalag bréfs sem hann sendi sameigendum 3. maí 2000 verði talið fela í sér loforð í þessa veru. Er því litið svo á að sú deila sem staðið hefur með aðilum vegna leigusamnings stefnanda við MVI ehf. geti ekki talist varða sakarefni máls þessa og að stefnandi geti ekki með réttu sótt röksemdir fyrir riftunaryfirlýsingu sinni til þeirra samskipta. Er því með öðrum orðum ekki unnt að líta svo á að með afstöðu sinni varðandi framangreind atriði sé stefndi að taka undir sig ríkari hagsmuni, eða stærra landsvæði, en hann samdi um afnot af við stefnanda.                 Í gögnum málsins liggur fyrir að rekstur þeirrar ferðaþjónustu sem stefndi festi kaup á var í einkahlutafélagi. Er einnig vísað til þess félags í samningi aðila og kveðið á um að nafni þess skuli breyta fyrir tiltekinn tíma. Af þessu má sjá að stefnanda var fullkunnugt um umrætt rekstrarfyrirkomulag. Getur hann því ekki með réttu byggt á því nú að í þessu fyrirkomulagi felist brot á banni við framsali réttinda samkvæmt samningnum. Er því ekki fallist á að stefndi hafi vanefnt samning aðila að þessu leyti.                 Ósannað er í málinu að stefndi hafi boðið upp á myndatökur í atvinnuskyni í andstöðu við 5. gr. samnings aðila enda hefur stefnandi engin gögn lagt fram til stuðnings málsástæðum sínum í þessa veru.                 Þá byggir stefnandi á því að kaup stefnda á fjórða hjólabátnum árið 2006 og sala á ferðum með slöngubátum frá árinu 2011 feli í sér brot gegn fyrirmælum 4. gr. samnings aðila um að leigutaki skuli leita samþykkis leigusala, áður en hann sæki um leyfi til viðkomandi yfirvalda til að breyta rekstri sínum og/eða auka umsvif sín á landinu. Þá vísar stefnandi til þess í þessu sambandi að ársreikningar Ferðaþjónustunnar Jökulsárlóni ehf. sýni að hagnaður hafi aukist verulega og auk þess liggi fyrir að gríðarleg fjölgun hafi verið á ferðamönnum síðari ár. Tengir stefnandi þessar málsástæður sínar einnig fullyrðingum um aukin landnot sem fyrr er fjallað um. Með samningi aðila veitti stefnandi stefnda réttindi m.a. til að sigla með ferðamenn um Jökulsárlón gegn árlegu leigugjaldi að fjárhæð 1.400.000 krónur, sem hækka skyldi til samræmis við tilgreinda vístölu. Samningurinn var tímabundinn til 25 ára. Í samningnum er ekki uppsagnarákvæði og heldur ekki kveðið á um að endurgjaldið sé með einhverjum hætti tengt afkomu þess rekstrar sem stefndi hugðist hafa með höndum við lónið. Þá er hvergi vísað til þess í samningi aðila að gengið sé út frá tilteknu sætaframboði í þeim siglingum sem stundaðar séu. Það er mat dómsins að með hliðsjón af framangreindu standi ekki rök til þess að telja kaup á fjórða hjólabátnum breytingu á rekstri sem verið hafi óheimil nema með samþykki stefnanda og þá gegn hækkun á leigugreiðslu. Þá verður og ekki horft framhjá því að slöngubátar voru nýttir í rekstri þeim sem stefnandi festi kaup á og bar vitnið Fjölnir um að utan háannatíma hafi slíkir bátar alla tíð verið notaðir til farþegaflutninga. Er því ekki fallist á að með því að hefja sérstakar kynningar á slíkum siglingum á árinu 2011 hafi stefndi vanefnt samning aðila eða gerst brotlegur við ákvæði 4. gr. samningsins. Varðandi umrædda málsástæðu stefnanda verður að hafa skýrlega í huga að megintilgangur samnings aðila var að veita stefndi heimild til rekstrar útsýnissiglinga um Jökulsárlón gegn greiðslu tiltekinnar leigu til sameigenda hans að jörðinni Felli. Hvergi er í þeim samningi vísað til þess að leigufjárhæð skuli taka mið af hagnaði stefnda af rekstri sínum. Verður með vísan til þess sem að framan greinir að hafna því að stefndi hafi vanefnt samning aðila með framagreindri háttsemi.                  Fyrir liggur að stefndi breytti ekki nafni einkahlutafélagsins Jökulsárlón fyrir 1. janúar 2001 eins og mælt var fyrir um í 7. gr. samnings aðila. Ákvæðið mælir ekki fyrir um að orðið Jökulsárlón megi ekki koma fyrir í nafninu eins og stefnandi virðist telja og er því ekki unnt að fallast á að í ákvæðinu felist bann við notkun orðsins í nafni umrædds félags. Stefndi var ekki minntur á umrædda samningsskyldu sína fyrr en mörgum árum eftir að samningur aðila komst á. Stefndi brást ekki við fyrr en að nokkrum tíma liðnum en fyrir liggur að nafninu var breytt í Ferðaþjónustan Jökulsárlóni ehf. 8. febrúar 2013. Sú vanefnd sem í þessu getur falist, annars vegar sem lítur að þeim drætti sem varð á því að nafninu var breytt og hins vegar hvort breytingin sé að fullu í samræmi við áskilnað ákvæðisins, getur ekki talist það veruleg að heimilað gæti riftun. Þá eru enginn liður skaðabótakröfu stefnanda sem talist getur leiddur af tjóni vegna umræddra vanefndar. Eru því ekki efni til að fjalla sérstaklega um það hvort krafa stefnanda vegna nafnbreytingarinnar gæti talist fallin niður fyrir tómlæti.                 Með vísan til þess sem að framan er rakið hefur stefnandi ekki sýnt fram á að stefndi hafi vanefnt leigusamning aðila verulega þannig að riftun geti varðað. Verður því hafnað aðalkröfu hans um staðfestingu á riftun sem hann lýsti yfir 30. ágúst 2012. Er þá ekki tilefni til að fjalla sérstaklega um það hvort réttaráhrif riftunar hafi fallið niður vegna útgáfu stefnanda á reikningi til stefnda á árinu 2013. Framangreind niðurstaða og áður raktar röksemdir leiða og til þess að sýkna verður stefnanda af skaðabótakröfu stefnanda.                 Stefnandi byggir á því til vara að ógilda beri samning aðila þar sem forsendur samningsins séu brostnar. Vísar stefnandi einkum til þess að með því að nýtt deiliskipulag hafi tekið gildi 31. ágúst 2013 sé brostin forsenda fyrir leigusamningi aðila þar sem stefnanda sé að lögum óheimilt að leigja stefnda hið umdeilda svæði. Fallist er á með stefnda að tilvísun leigusamnings aðila til þágildandi deiliskipulags verði ekki túlkuð með þeim hætti að sú breyting á deiliskipulagi sem gerð hefur verið feli í sér forsendubrest á þann hátt að stefnandi geti vikið sér undan gildi samningsins. Verður hér að hafa í huga að aðilar hafa unnið sameiginlega að gerð hins nýja skipulags og er því m.a. ætlað að ramma betur inn starfsemi á svæðinu og stuðla að uppbyggingu þess. Verður krafa stefnanda um ógildingu samnings aðila á þessum grundvelli ekki tekin til greina.                 Loks krefst stefnandi þess að öðrum kröfum hans frágengnum að ákvæði samnings aðila um endurgjald fyrir hið leigða landsvæði verði vikið til hliðar og árlegt leigugjald verði ákveðið 30.000.000 krónur eða önnur lægri fjárhæð að mati dómsins. Vísar stefnandi til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga þessu til stuðnings. Byggir stefnandi á því að tekjur stefnda hafi aukist verulega á undanförnum árum og fjöldi ferðamanna margfaldast og telur að þetta leiði af sér aukinn ágang á landið. Þá sé það sanngjarnt að landeigendur njóti réttmæts arðs af landi sínu. Eins og fyrr greinir eru engin ákvæði um endurskoðun leigugjalds í samningi aðila og ekki er þar fyrir að fara tengingu leigugjalds við afkomu rekstrar stefnda. Á hinn bóginn er mælt fyrir um hækkun gjaldsins í samræmi við tilgreinda vísitölu. Þegar einnig er haft í huga að samningur aðila var ritaður af lögmanni stefnanda þykir ekki varhugavert að leggja til grundvallar að stefnandi hafi átt að vera vel meðvitaður um efni þess samnings sem gerður var. Hafi aðilar báðir tekið á sig áhættu um framtíðarþróun rekstrar við Jökulsárlón sem þeir verði annaðhvort að bera hallan af eða njóta af hagnaðar eftir atvikum. Rekstur stefnda hefur samkvæmt gögnum málsins gengið vel og skilað hagnaði. Er fallist á það með honum að eins og samningi aðila er háttað sem og með hliðsjón af atvikum séu ekki efni til að víka endurgjaldsákvæði samningsins til hliðar með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936. Verður þrautavarakrafa stefnda því ekki heldur tekin til greina.                 Með vísan til þess sem að framan greinir verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda í máli þessu.                 Með hliðsjón af málsúrslitum verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn, með hliðsjón af umfangi málsins, sú fjárhæð sem nánar greinir í dómsorði.                 Af hálfu stefnanda flutti málið Hermann Jónasson hdl., en af hálfu stefnda flutti málið Víðir Smári Petersen hdl. fyrir hönd Karls Axelssonar hrl.                 Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð:                 Stefndi, Einar Björn Einarsson, er sýkn af kröfum stefnanda, Sameigendafélags Fells, í máli þessu.                 Stefnandi greiði stefnda 750.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 367/2015
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stæði.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. maí 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. maí 2015 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 27. maí 2015 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Til vara krefst hann þess að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og honum ekki gert að sæta einangrun. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. maí 2015.                 Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess fyrir dóminum í dag, að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til laugardagsins 30. maí 2015 kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.                 Í greinargerð lögreglustjóra segir að í gærdag hafi lögregla handtekið kærða vegna gruns um kynferðisbrots gegn barni. Meintur brotaþoli, A, sé tíu ára gömul og sé stjúpdóttir kærða. Aðdragandi málsins sé sá að skömmu áður hafi B, sambýliskona C, föður A, hringt í lögreglu og tilkynnt að kærði hefði gert eitthvað kynferðislegt við stúlkuna nóttina áður. Muni C hafa borist tilkynning þess efnis frá D, móður A. B kvað sig og C ekki hafa mikið meiri vitneskju um málið en að stúlkan hafi sagt að kærði hafi káfað á henni og potað í hana.                 Barnaverndaryfirvöldum hafi verið gert viðvart um málið og stúlkan verið færð til læknisskoðunar á barnaspítalanum. Framkvæmd hafi verið leit á og rannsókn á heimili kærða. Teknar hafi verið ljósmyndir og tölvugögn og fleiri munir haldlagðir.                 Rannsóknarlögreglumaður hafi rætt við D sem hafi sagst hafa undrast að A hafi ekki verið komin á fætur og því kallað í hana. Þegar A hafi komið á neðri hæðina hafi D tekið eftir því að hún hafi verið mjög þreytuleg og spurt hvort hún hefði svikist um að fara að sofa á réttum tíma. A hefði sagt við hana „spurðu hann“ og bent á kærða sem hafi sofið í hjónarúmi, sem sé í opnu rými á neðri hæð hússins. D hafi síðan farið með A afsíðis og spurt hana hvað hefði gerst. Þá hafi A sagt henni að um nóttina hefði kærði komið í herbergi hennar og systur hennar. Yngri systirin hafi verið sofandi. Kærði hafi kropið við hlið rúmsins og haldið í hendi hennar og verið að kyssa höndina. Einnig hafi hann kysst magann á henni. Þá hafi hann reynt að kyssa hana á munninn en hún sett hendurnar fyrir og varnað því. D hefði sagt að A hefði líka greint frá því að kærði hafi strokið henni um rassinn og potað í „hitt“ en ekki viljað útskýra það nánar.                 Rannsóknarlögreglumaður hafi ekki talið rétt að kveða D til formlegrar skýrslutöku þar sem hún hafi verið í talsverðu uppnámi vegna málsins.                 Við yfirheyrslu hafi kærði greint frá því að hann hefði setið við tölvuna og verið að drekka vodka. D hafi verið að horfa á sjónvarpið. D hafi farið um klukkan 23:30 í rúmið en hann haldið áfram að horfa og drekka vodka. Hann hafi sagt að hann myndi ekkert eftir því að D hafi farið í háttinn.                 Borið hafi verið undir hann lýsing D á frásögn dóttur hennar en kærði kvaðst ekkert muna.                 Aðspurður hafi kærði neitað að hann væri haldinn barnagirnd. Hann hafi verið spurður hvort hann hefði einhvern tímann leitað kynferðislega á börn. Hann hafi neitað því og sagt að fyrir um það bil tíu árum hefði hann verið sakaður að ósekju um kynferðisbrot gegn barni, en það hafi verið rannsakað af lögreglu og hann verið hreinsaður öllum grun. Þá hafi kærði neitað því að í tölvubúnaði væri að finna klámfengið efni gegn börnum.                 C hafi mætt til skýrslutöku og þar hafi m.a. komið fram að hann hefði farið og sótt A og farið með hana og systkini hennar á heimili sitt. Þegar þangað var komið hafi A beðið hann um að koma og ræða við sig í herbergi hennar. Þar hafi hún spurt hann hvort mamma hennar hafi sagt honum það sem hún hafi sagt henni. C kvað svo vera. Hún hafi nefnt við C að hún hafi haldið að kærði hafi verið fullur og vitlaus, en samt ekki þar sem hann hafi ekki verið þvoglumæltur. Þá hafi C sagt að A hefði nefnt það sérstaklega að hún hefði sagt við kærða: „Þetta eru mínir einkastaðir og ég ræð yfir þeim.“                 Með vísan til framangreinds og til gagna málsins sé að mati lögreglu rökstuddur grunur um að kærði brotið gegn stúlkunni.                 Rannsókn málsins sé á frumstigi. Enn sé ekki að fullu upplýst hversu gróf hin meinta misnotkun hafi verið þar sem ekki hafi enn farið fram skýrslutaka yfir stúlkunni í Barnahúsi. Niðurstöður tæknirannsókna liggi ekki fyrir og ekki hafi gefist tími til að yfirfara tölvugögn.                 Rannsókn málsins sé á frumstigi. Enn sé ekki að fullu upplýst hversu gróf hin meinta misnotkun hafi verið þar sem ekki hafi enn farið fram skýrslutaka yfir stúlkunni í Barnahúsi. Niðurstöðu tæknirannsókna liggi ekki fyrir og ekki hafi gefist tími til að yfirfara tölvugögn.                 Megi ætla að ef kærði verði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að hafa samband við brotaþola og vitni og valda þannig réttarspjöllum. Lögregla telur brýnt fyrir framgang málsins að fallist verði á framkomna kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna til að koma í veg fyrir að sakborningur geti spillt rannsókn málsins Af framangreindum ástæðum sé einnig farið fram á að sakborningur sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.                 Meint sakarefni sé brot gegn 1. og/eða 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en brot gegn ákvæðinu varði allt að 16 ára fangelsi en því síðara allt að 6 ára fangelsi. Þá sé sérstök þyngingarheimild í 4. mgr. 202. gr. þegar um sé að ræða geranda sem sé nákominn brotaþola líkt og í því tilviki sem hér greinir. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Um heimild til einangrunar á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur sé vísað til b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga.                  Eins og rakið hefur barst lögreglu í gærmorgun tilkynning um meint kynferðisbrot kærða gegn tíu ára gamalli stjúpdóttur sinni nóttina áður. Ákærði var í kjölfarið handtekinn og hefur hann verið yfirheyrður hjá lögreglu. Þá er búið að framkvæma húsleit á vettvangi og leggja hald á muni, s.s. tölvu. Kærði hefur enga möguleika á að torvelda tæknirannsóknir og verður kærða því ekki gert að sæta gæsluvarðhaldi þótt þeim sé ólokið. Hins vegar verður að fallast á að haldi kærði óskertu frelsi sínu er hætta á því að hann geti haft áhrif á brotaþola eða vitni. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti gæsluvarðhaldi og einangrun. Ljóst er að lögreglu ber að hraða rannsókn máls þegar sakborningur sætir gæsluvarðhaldi og einangrun. Verður gæsluvarðhaldinu markaður tími til miðvikudagsins 27. maí 2015 kl. 16:00, en sá tími ætti að nægja lögreglu til að taka skýrslu af brotaþola og þeim tveimur vitnum sem eftir á að taka skýrslu af.                 Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Úrskurðarorð:                 Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi, allt til miðvikudagsins 27. maí 2015 kl. 16:00.                 Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur.
Mál nr. 355/2015
Kærumál Frávísun frá héraðsdómi
K kærði úrskurð héraðsdóms, þar sem gagnsök sem hún höfðaði í forsjármáli B á hendur henni, var vísað frá dómi. Í úrskurði héraðsdóms kom fram að samkvæmt 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála yrði að höfða gagnsök innan mánaðar frá þingfestingu aðalsakar nema það yrði ekki metið aðila til vanrækslu að hafa ekki gert gagnkröfu sína í tæka tíð. Gagnstefna K hefði verið lögð fram að liðnum rúmum fimm vikum frá þingfestingu málsins og hefðu þær ástæður, sem K byggði á, ekki réttlætt að það hefði ekki verið gert fyrr. Væri því óhjákvæmilegt að vísa gagnsökinni frá dómi. Í dómi hæstaréttar var hinn kærði úrskurður staðfestur með þeirri athugasemd að samkvæmt 53. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 giltu ákvæði laga nr. 91/1991 um meðferð mála eftir X. kafla fyrrnefndu laganna, með þeim frávikum sem í lögunum greindi og hér ættu ekki við.   
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. maí 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2015, þar sem gagnsök sem sóknaraðili höfðaði í máli varnaraðila á hendur honum, var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka gagnsök til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.   Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Mælt er fyrir um það í 53. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 að um meðferð mála eftir X. kafla laganna gildi ákvæði laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, með þeim frávikum sem í lögunum greinir og hér eiga ekki við. Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 362/2015
Kærumál Kæra Frávísun frá Hæstarétti
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem staðfest var ákvörðun L um að X skyldi sæta nálgunarbanni á grundvelli laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Málinu var vísað frá Hæstarétti þar sem kæran uppfyllti ekki áskilnað 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. 
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru, sem barst héraðsdómi 22. maí 2015 og réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2015, þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 4. sama mánaðar um að varnaraðili sætti nálgunarbanni, eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að nálgunarbanni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Mælt er fyrir um það í 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að vilji maður kæra úrskurð skuli hann lýsa því yfir innan þriggja sólarhringa frá því að hann fékk vitneskju um úrskurðinn. Sé kæru lýst yfir á dómþingi má kærandi láta við það sitja að bókað verði um hana í þingbók, þar á meðal í hvaða skyni kært er. Að öðrum kosti skal hann afhenda héraðsdómara skriflega kæru, þar sem greint skal frá því hvaða úrskurður sé kærður, kröfu um breytingu á honum og ástæður sem kæra er reist á. Skipaður verjandi varnaraðila var viðstaddur uppsögu hins kærða úrskurðar og lýsti því þá yfir að hann tæki sér lögboðinn frest til að taka ákvörðun um hvort varnaraðili kærði úrskurðinn til Hæstaréttar. Kæra barst héraðsdómi 22. maí 2015, en þá var liðinn kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008. Verður málinu því vísað frá Hæstarétti. Kærumálskostnaður dæmist ekki. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Mál nr. 354/2015
Kærumál Börn Forsjá Matsgerð
K krafðist þess að lagt yrði fyrir B að afla nýs forsjárhæfnismats í máli B gegn henni og reisti þá kröfu á því að neikvætt viðmót sitt við fyrirliggjandi forsjárhæfnismat hefði haft áhrif á þátttöku sína í þeim prófum sem hún undirgekkst. Í dómi Hæstaréttar, sem staðfesti niðurstöðu hins kærða úrskurðar um að hafna kröfu K, kom fram að B hefði aflað forsjárhæfnismats áður en málið var höfðað og með því rækt þá lagaskyldu að sjá til þess að málið væri nægjanlega upplýst, sbr. 1. mgr. 56. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Gætu fyrrnefndar ástæður, sem K bæri við að leitt hefðu til þess að forsjárhæfnismatið gæfi ekki rétta mynd af forsjárhæfni hennar, ekki valdið því að fram færi nýtt mat. Teldi dómari hins vegar ástæðu til að afla frekari gagna gæti hann mælt fyrir um það, sbr. 2. mgr. fyrrgreindrar lagagreinar.  
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. maí 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2015, þar sem kröfu sóknaraðila um að lagt yrði fyrir varnaraðila að afla nýs forsjárhæfnismats í máli hans gegn sóknaraðila var hafnað. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa verði tekin til greina. Þá krefst hún kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Samkvæmt 1. mgr. 56. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 ber barnaverndarnefnd, áður en hún höfðar mál til sviptingar forsjár eftir 29. gr. laganna, að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst. Í málinu liggur fyrir mat sérfróðs manns 27. október 2014 um forsjárhæfni sóknaraðila, en varnaraðili höfðaði 4. febrúar 2015 mál á hendur henni til sviptingar forsjár nafngreinds sonar hennar, sbr. a. og d. lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Sóknaraðili ber því við að neikvætt viðmót sitt við forsjárhæfnismatið hafi haft áhrif á þátttöku sína í þeim prófum sem hún fór í vegna þess. Sé ljóst að forsjárhæfnismat, sem gert sé við aðstæður þar sem matsþoli er ekki samvinnufús og sýni hroka og mótþróa, sé ekki til þess fallið að sýna rétta niðurstöðu. Sem fyrr segir aflaði varnaraðili forsjárhæfnismats áður en hann höfðaði fyrrgreint mál. Verður að telja að með því hafi hann rækt þá lagaskyldu að sjá til þess að málið væri nægjanlega upplýst áður en það var höfðað, sbr. 1. mgr. 56. gr. barnaverndarlaga. Geta fyrrnefndar ástæður, sem sóknaraðili ber við að leitt hafi til þess að forsjárhæfnismatið gefi ekki rétta mynd af forsjárhæfni hennar, ekki valdið því að fram fari nýtt mat. Telji dómari á hinn bóginn ástæðu til að afla frekari gagna getur hann mælt fyrir um það, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Samkvæmt þessu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 695/2014
Sjómaður Ráðningarsamningur Ávana- og fíkniefni Brottrekstur úr starfi
Í febrúar 2013 var H, sem gegndi stöðu 1. stýrimanns á tilgreindu skipi V hf., látinn undirgangast vímuefnapróf eftir komu skipsins til landsins. Í þvagsýninu greindist tetrahýdrókannabínólsýra og var sú niðurstaða staðfest af Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði. H var umsvifalaust sagt upp starfi sínu og höfðaði hann í kjölfarið mál gegn V hf. til heimtu skaðabóta. Talið var að H hefði mátt vera fyllilega ljóst hverju það varðaði ef reglur V hf. um vímuefnalausan vinnustað yrðu brotnar, en hann hafði gengist undir þessar reglur ári áður með undirritun sinni. Þá hefði hann veitt samþykki sitt til töku sýnisins, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Var því ekki fallist á með H að framangreint lyfjapróf hefði falið í sér brot á friðhelgi einkalífs hans. Þar sem að ólögmætt ávana- og fíkniefni hafði mælst í þvagi H og með hliðsjón af ákvæðum 2. og 3. mgr. 238. gr. siglingalaga nr. 34/1985 hefði hann verið óhæfur til að stjórna skipinu umrætt sinn. Var V hf. því sýknað af kröfum H.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. október 2014. Hann krefst þess aðallega að stefndi greiði sér 10.584.462 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. febrúar 2013 til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að stefnda verði gert að greiða sér skaðabætur að álitum, en að því frágengnu að skaðabótaskylda stefnda verði viðurkennd. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Suðurlands 22. september 2014.             Mál þetta, sem dómtekið var þann 16. september sl., er höfðað með stefnu birtri 2. október sl.             Stefnandi er Halldór Jón Andersen, kt. [...], Hrauntúni 25, Vestmannaeyjum.             Stefndi er Vinnslustöðin hf., kt. [...], Hafnargötu 2, Vestmannaeyjum.             Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi greiði stefnanda skaðabætur að fjárhæð krónur 10.584.462 með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 4. febrúar 2013 til greiðsludags. Til vara gerir stefnandi þá kröfu að stefnda verði gert að greiða honum skaðabætur að álitum. Til þrautavara er þess krafist að skaðabótaábyrgð stefnda verði viðurkennd. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.             Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda en til vara að verði lækkaðar verulega. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.             Málið var upphaflega dómtekið að lokinni aðalmeðferð þann 5. maí sl. en það var endurupptekið og endurflutt þann 16. september sl. Málavextir.             Stefndi er útgerðarfyrirtæki og gerir m.a. út togbátinn Drangavík, en stefnandi var 1. stýrimaður á bátnum þar til honum var fyrirvaralaust sagt um störfum þann 4. febrúar 2013. Ári áður gaf stefndi út starfsmannahandbók þar sem starfsmannastefna félagsins var kynnt. Þar eru tíundaðar þær kröfur sem gerðar eru í öryggismálum til starfsmanna, bæði til sjós og lands. Samkvæmt handbókinni er stefndi vímuefnalaus vinnustaður og varða brot á reglunum brottrekstri án aðvörunar. Stefndi segir reglur þessar hafa verið kynntar starfsfólki á árinu 2012 og hafi starfsmenn undirritað yfirlýsingu í framhaldinu um að þeir hefðu fengið kynningu á þeim og úrræðum og afleiðingum þess ef reglurnar væru brotnar. Stefndi segir framkvæmd vímuefnaprófsins hafa verið í höndum þjónustuaðila sem hafi fengið útgefið starfsleyfi frá Landlæknisembættinu. Þeir séu bundnir þagnarskyldu skv. 12. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga. Þann 2. febrúar 2013 var gert vímuefnapróf á stefnanda og samkvæmt niðurstöðu prófsins greindist tetrahýdrókannabínólsýra í þvagi hans. Með undirritun sinni gekkst stefnandi við niðurstöðu prófsins. Þann 4. febrúar sama ár var stefnandi boðaður á fund með skipstjóra Drangavíkur og sviðsstjórum stefnda þar sem honum var afhent uppsagnarbréf og honum skýrt frá ástæðum uppsagnarinnar, sem hafi verið niðurstaða prófsins. Stefnandi undirritaði uppsagnarbréfið til staðfestingar móttöku þess og daginn eftir óskaði stefnandi eftir afriti af ráðningarsamningi sínum, niðurstöðum úr fíkniefnaprófinu og afriti af uppsagnarbréfinu. Stefnanda voru afhent framangreind gögn að öðru leyti en því að ráðningarsamningur hans fannst ekki. Sýnið sem tekið var úr stefnanda var sent til frekari rannsóknar til Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði og samkvæmt henni reyndist heildarmagn kannabínóíða í þvagi vera meira en 135 ng/ml og var staðfest að tetrahýdrókannabínólsýra hefði mælst í þvagi. Stefnandi fór fram á það þann 5. febrúar sama ár að honum yrði tekið blóðsýni til rannsóknar en stefndi segir að stefnanda hafi ekki verið neitað um það heldur hefði honum verið gerð grein fyrir því að niðurstaða hennar myndi engu breyta um niðurstöðu þvagsýnisins. Hefði beiðni um blóðrannsókn þurft að koma innan 48 klukkustunda frá því þvagsýni var tekið. Stefnandi hafnar því alfarið að hafa með nokkrum hætti brotið starfsskyldur sínar hjá stefnda. Hafi stefnandi að eigin mati og annarra verið fyrirmyndar starfsmaður og góður stýrimaður og geti fjöldi manns vitnað um það.             Lagt hefur verið fram í málinu skjal dagsett þann 22. mars 2012 og undirritað af stefnanda þar sem fram kemur að stefndi sé vímuefnalaus vinnustaður og reykingar séu takmarkaðar. Áskilji stefndi sér allan rétt til að kanna með hverjum þeim hætti sem hann telji viðeigandi hvort reglum um reykingar og vímuefnalausan vinnustað sé framfylgt, t.d. með læknisskoðun eða öðrum rannsóknum, svo sem þvag- eða blóðsýnatökum. Þá segir í skjalinu að brot á reglum um vímuefnalausan vinnustað eða neitun að taka þátt í vímuefnaprófi varði brottrekstri án aðvörunar. Jafnframt segir að starfsmaður staðfesti með undirritun sinni að hafa fengið kynningu á stefnu stefnda um notkun vímuefna á vinnustað og fyrirvaralausar vímuefnaprófanir. Þá liggur fyrir að stefnandi veitti með undirritun sinni þann 2. febrúar 2013 samþykki sitt fyrir því að framkvæmt yrði áfengis- og vímuefnapróf í samræmi við reglur stefnda um forvarnir og viðbrögð vegna gruns um áfengis- eða vímuefnanotkun starfsmanna. Þá liggur fyrir undirritun stefnanda þar sem hann gengst við niðurstöðum áfengis- og vímuefnaprófs. Á skjalinu er gert ráð fyrir að starfsmaður geti neitað að staðfesta niðurstöður og jafnframt að hann geti neitað að staðfesta niðurstöður og óskað eftir því að þær verði staðfestar af Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði. Ekki er að sjá af skjalinu að stefnandi hafi nýtt sér þessi úrræði með undirritun sinni. Málsástæður og lagarök stefnanda.             Stefnandi byggir á því að hann hafi aldrei neytt vímuefna á vinnustað eða í störfum sínum fyrir stefnda. Ekkert liggi fyrir um það hvernig staðið hafi verið að lyfjaprófi stefnanda, hverjir hafi framkvæmt prófið, hvernig staðið hafi verið að sýnatöku, mælingum eða vörslum sýnanna. Stefnandi neitar því að hafa verið undir áhrifum vímuefna þegar sýnið hafi verið tekið eða að hafa neytt vímuefna í umræddri veiðiferð Drangavíkur. Standist því ekki niðurstaða lyfjaprófsins sem einungis hafi farið fram á þvagi. Þá byggir stefnandi á því að lyfjaprófið sem framkvæmt hafi verið af stefnda hafi falið í sér brot á friðhelgi einkalífs stefnanda og hafi yfirlýsingin frá því í mars 2012 ekkert gildi vegna yfirburðastöðu stefnda. Stefnandi vísar til álits Persónuverndar um vímuefnapróf nr. 315/2013 og gerir þær röksemdir sem þar komi fram að sínum. Stefnandi bendir á dóm Hæstaréttar í máli nr. 683/2008 þar sem staðfest hafi verið að óbeinar hassreykingar gætu leitt til þess að kannabisefni fyndust í þvagi. Stefnandi hafi ítrekað óskað eftir því að blóðrannsókn yrði framkvæmd svo  hægt væri að taka af allan vafa um ætlaða kannabisneyslu stefnanda en stefndi hafi ítrekað hafnað því. Verði stefndi að bera hallann af því.             Stefnandi segir óumdeilt að hann hafi ekki fengið greidd laun frá stefnda í uppsagnarfresti, sem hafi verið sex mánuðir og hafi samkvæmt almennum reglum vinnuréttar tekið gildi næstu mánaðamót eftir uppsögnina, eða 1. mars 2013. Eigi stefnandi því inni laun hjá stefnda fyrir sjö mánuði eða fyrir tímabilið 1. febrúar til 31. ágúst 2013. Stefnandi byggir á því að uppsögnin hafi verið ólögmæt og þá um leið saknæm og því eigi stefnandi skaðabótakröfu á hendur stefnda sem nemi fjárhæð vangoldinna vinnulauna stefnanda í uppsagnarfresti. Miðist skaðabótakrafa stefnanda vegna fjárhagslegs tjóns því við framangreint tímabil. Meðalmánaðarlaun stefnanda á 10 mánuðum ársins 2012 og 1 mánuð árið 2013 hafi verið 1.512.066 krónur. Skaðabótakrafa stefnanda miðist við að hann hafi átt rétt á greiðslu launa í uppsagnarfresti í sex mánuði frá næstu mánaðamótum eftir að stefnanda hafi verið sagt upp störfum. Þá eigi stefnandi rétt á skaðabótum vegna launamissis í febrúar 2013 þar sem honum hafi ekki verið sagt upp störfum fyrr en sá mánuður hafi verið hafinn.             Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnanda gerir hann þá varakröfu að skaðabætur verði ákvarðaðar að álitum og verði þá höfð hliðsjón af framangreindum forsendum og launaseðlum stefnanda. Þrautavarakrafa er á því byggð að skaðabótaskylda stefnda verði viðurkennd, enda verði að telja sannað að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda.             Dráttarvaxtakrafa er á því byggð að allar kröfur stefnanda á hendur stefnda hafi gjaldfallið við starfslok stefnanda, en þá hafi stefnda borið að gera tafarlaust upp við stefnanda.             Stefnandi byggir á lögum nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups, lögum nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda og lögum nr. 30/1987 um orlof. Þá vísar hann til meginreglna kröfuréttar, vinnuréttar og kjarasamninga. Krafa um dráttarvexti er byggð á reglum III. og V. kafla laga nr. 38/2001 og krafa um málskostnað er reist á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991. Málsástæður og lagarök stefnda.              Stefndi byggir á því að vímuefnaprófið, framkvæmd þess og úrvinnsla hafi verið í samræmi við lög. Hafi niðurstaða þess leitt í ljós að stefnandi hafi haft í líkama sínum leifar af ólögmætu fíkniefni sem leitt hafi til þess að stefnda hafi verið heimilt að segja honum fyrirvaralaust upp störfum án greiðslu á uppsagnarfresti. Hafi það rúmast innan stjórnunarréttar stefnda sem vinnuveitanda, sbr. 33. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og verið í samræmi við skyldur stefnda að tryggja öryggi á vinnustað. Í 24. gr. laganna segi að skipstjóri geti vikið skipverja úr skiprúmi ef hann er ítrekað drukkinn um borð, nema brot sé því alvarlegra eða hann er undir áhrifum fíkniefna um borð. Samkvæmt 2. mgr. 238. gr. siglingalaga nr. 34/1985 megi enginn stjórna eða reyna að stjórna skipi, stjórna skipaferðum eða veita öryggisþjónustu vegna skipaferða ef hann vegna neyslu áfengis, ávana- eða fíkniefna eða annarra örvandi eða deyfandi efna, vegna sjúkdóms eða þreytu eða af öðrum orsökum, er óhæfur til að rækja starfann á fullnægjandi hátt. Varði brot gegn þessu ákvæði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Í 3. mgr. sömu lagagreinar segi að mælist ávana- og fíkniefni, sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni og reglugerðum settum samkvæmt þeim, í blóði eða þvagi skipverja eða þess annars sem nánar greinir í 2. mgr., telst hann vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna og ekki hæfur til þess starfa sem getur í 2. mgr. Stefnandi hafi því samkvæmt íslenskum lögum verið algjörlega ófær um að gegna stöðu sem 1. stýrimaður Drangavíkur þegar skipið kom til hafnar í Vestmannaeyjum þann 2. febrúar 2013. Hæstiréttur hafi í málum varðandi ölvunarakstur komist að þeirri niðurstöðu að sambærileg regla í umferðarlögum nr. 45/1987 feli ekki í sér sakarlíkindareglu sem sé í andstöðu við 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Stefndi bendir á að í forsendum dóms Hæstaréttar í máli nr. 638/2008 segi að það sé mjög fjarlægur möguleiki að tetrahýdrókannabínólsýra geti fundist í þvagi vegna óbeinna reykinga. Þar hafi verið um sakamál að ræða og telur stefndi af þessum sökum að dómurinn hafi ekki fordæmisgildi og þaðan af síður leiðbeiningargildi í máli þessu.             Stefndi byggir á því að vímuefnaprófanir á starfsmönnum stefnda fái samrýmst ákvæðum persónuverndarlaga nr. 77/2000, einkum 8. og 9. gr. laganna líkt og Persónuvernd hafi fallist á. Vímuefnapróf á þvagi ákærða  hafi gefið jákvæða svörun við marihuana sem sé ólöglegt fíkniefni hér á landi og hafi sú niðurstaða verið staðfest af Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði. Framkvæmd mælingar og vörslur prófsins hafi verið í höndum prófunaraðila sem hafi fengið vottun frá Landlæknisembættinu og sé bundinn trúnaði samkvæmt lögum. Sé því í ljós leitt að stefnandi hafi brotið gegn reglum stefnda og starfsskyldum sínum og á þeim grundvelli hafi stefnda verið heimilt að segja honum fyrirvaralaust upp störfum án greiðslu á uppsagnarfresti.             Stefndi telur að horfa verði til eðlis þess starfs sem um ræði við mat á heimildum til að framkvæma vímuefnapróf á starfsmönnum. Stefnandi hafi verið 1. stýrimaður um borð í Drangavík og þar með yfirmaður á skipinu, sbr. 2. mgr. 5. gr. sjómannalaga. Stýrimenn gegni veigamiklu hlutverki um borð í skipum og séu næstráðendur um borð á eftir skipstjóra, sbr. 50. – 52. gr. laganna. Stefndi hafnar því að lyfjaprófið feli í sér brot á friðhelgi einkalífs stefnanda. Þá hafnar stefndi því að yfirlýsing stefnanda tæpu ári áður en prófið var tekið þar sem stefnandi samþykkir slíka könnun hafi ekkert gildi vegna yfirburðastöðu stefnda gagnvart stefnanda. Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 sé vinnsla persónupplýsinga heimil hafi hinn skráði ótvírætt samþykkt vinnsluna eða veitt samþykki skv. 7. tl. 2. gr. Vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga sé heimil hafi hinn skráði samþykkt vinnsluna, sbr. 1. tl. 1. mgr. 9. gr. laganna. Með viðkvæmum persónuupplýsingum í skilningi laganna sé m.a. átt við upplýsingar um heilsuhagi, þar á meðal um erfðaeiginleika, lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun, sbr. c-lið 8. tl. 1. mgr. 2. gr. laganna. Þá bendir stefndi á að stefnandi hafi veitt afdráttarlaust samþykki sitt fyrir vímuefnaprófunum með undirritun sinni 22. mars 2012 og aftur tæpu ári síðar þegar prófið var framkvæmt.             Stefndi byggir á því að ekki verði byggt á röksemdum í áliti Persónuverndar um vímuefnapróf nr. 315/2013, enda þar um almennt álit að ræða og leiðbeiningargildi þess því takmarkað og þá eigi það alls ekki við um starfsemi stefnanda þar sem sérlög gildi um hana. Stefndi bendir á að Persónuvernd hafi í áliti sínu viðurkennt að réttlætanlegt geti verið að láta starfsmenn undirgangast lyfjapróf á vinnustöðum þar sem lyfjaneysla geti beinlínis verið hættuleg öðru starfsfólki. Um starfsemi stefnda gildi ákvæði siglingalaga og þegar svo sé ástatt með stefnanda eins og í þessu tilviki hafi honum verið óheimilt að sinna því starfi sem hann hafi verið ráðinn til auk þess sem brotið geti varðað hann refsingu og eftir atvikum sviptingu starfsréttinda.             Stefndi vísar til stefnu félagsins í vímuefnamálum og heimild til fyrirvaralausra vímuefnaprófana sem fram komi í starfsmannahandbók og stefnandi hafi samþykkt með undirritun sinni. Sé því ljóst að stefnandi hafi sem launþegi gengist undir ríkar skyldur um að virða reglur stefnda um vímuefni. Með tilliti til starfsemi stefnda og þeirra laga sem um hana gilda verði ekki með nokkru móti fallist á að þessar reglur hafi gengið lengra en eðlilegt hafi verið eða að þær hafi á einhvern hátt verið ómálefnalegar.             Stefndi bendir á að stefnandi hafi unað niðurstöðu vímefnaprófsins með undirritun sinni. Hefði hann haft efasemdir um gildi prófsins eða niðurstöður þess hefði honum verið í lófa lagið að merkja við reit á blaðinu þar sem fram kemur að starfsmaður neiti að staðfesta niðurstöðurnar. Stefnandi hafi hins vegar kosið að halda sig við niðurstöður prófsins burtséð frá því hvaða afleiðingar það kynni að hafa fyrir framtíð hans hjá stefnda.             Stefndi bendir á að ríkar kröfur séu gerðar til þess að sjómenn geti brugðist rétt við á neyðarstundu og það sé forsenda þess að skipverji sé lögskráður á íslenskt skip að hann hafi hlotið viðeigandi öryggisfræðslu, sbr. 5. gr. laga nr. 35/2010. Horfa verði til eðlis starfsins og þeirra öryggiskrafna sem gerðar séu til starfsmanna við mat á því hvort vinnuveitandi geti krafist þess að starfsmenn undirgangist reglur fyrirtækis varðandi vímuefnanotkun. Þá bendir stefndi á að almennt sé að finna í áhafnartryggingum sjómanna og skipatryggingum ákvæði þess efnis að tjón fáist ekki bætt sem valdið sé af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi og við mat á því sé horft til þess hvort vátryggður/starfsmenn vátryggðs hafi verið undir áhrifum áfengis eða fíkniefna þegar vátryggingaratburður varð. Það varði því stefnda og almannaheill miklu að ekki sé brotið gegn reglunum.             Stefndi byggir á almennum reglum vinnumarkaðsréttar, lögum um persónuvernd og ákvæðum sjómanna- og siglingalaga. Krafa um málskostnað er reist á 130. gr. laga nr. 91/1991.      Niðurstaða.             Stefnandi gerir þær kröfur í máli þessu að stefnda verði gert að greiða honum skaðabætur vegna fyrirvaralausrar uppsagnar stefnanda úr starfi sem 1. stýrimaður á togbátnum Drangavík í kjölfar vímuefnaprófs sem gert var á stefnanda eftir veiðiferð þann 2. febrúar 2013. Óumdeilt er að stefnandi fékk engin laun greidd í uppsagnarfesti en uppsögnin tók gildi þann 4. febrúar sama ár eftir fund stefnanda með skipstjóra Drangavíkur og sviðsstjórum stefnda.             Samkvæmt starfsmannastefnu stefnda og handbók sem kynnt var starfsfólki árið 2012, þar á meðal stefnanda, er stefndi vímuefnalaus vinnustaður og segir í reglunum að brot á þeim varði brottrekstri án aðvörunar.  Samkvæmt gögnum málsins gekkst stefnandi undir þessar reglur með undirritun sinni og mátti honum því vera fyllilega ljóst hverju það varðaði ef reglur þessar yrðu brotnar.  Ber því að hafna þeirri málsástæðu stefnanda að lyfjaprófið hafi falið í sér brot á friðhelgi einkalífs stefnanda og hafi yfirlýsingin frá því í mars 2012 ekkert gildi vegna yfirburðastöðu stefnda. Með sömu rökum ber að hafna því að stefndi hafi brotið gegn lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, enda lá fyrir ótvírætt samþykki stefnanda til vinnslu upplýsinga með þeim hætti sem raun bar vitni.  Þann 2. febrúar 2013 var gert vímuefnapróf á stefnanda og samkvæmt niðurstöðu prófsins greindist tetrahýdrókannabínólsýra í þvagi hans. Með undirritun sinni gekkst stefnandi við niðurstöðu prófsins og nýtti sér við það tækifæri ekki þá möguleika annars vegar að neita að staðfesta niðurstöður eða að neita að staðfesta niðurstöður og óska eftir að þær yrðu staðfestar af Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði. Eftir athugasemdir stefnanda síðar var sýnið þó sent til rannsóknastofunnar og staðfesti hún framangreinda niðurstöðu.             Samkvæmt 24. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 getur skipstjóri vikið skipverja úr skiprúmi ef hann reynist óhæfur til þess starfa sem hann var ráðinn til, m.a. ef hann er undir áhrifum fíkniefna um borð.  Samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar á skipverji sem vikið er úr skiprúmi samkvæmt þessari grein ekki rétt á kaupi lengur en hann gegndi starfi sínu.  Samkvæmt 2. mgr. 238. gr. siglingalaga nr. 34/1985 má enginn  stjórna eða reyna að stjórna skipi, stjórna skipaferðum eða veita öryggisþjónustu vegna skipaferða, ef hann vegna neyslu áfengis, ávana- og fíkniefna eða annarra örvandi eða deyfandi efna, vegna sjúkdóms eða þreytu eða af öðrum orsökum, er óhæfur til að rækja starfann á fullnægjandi hátt. Stefnandi gegndi stöðu 1. stýrimanns um borð og var því yfirmaður á skipinu skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 35/1985 og jafnframt var hann næstráðandi um borð á eftir skipstjóra með vísan til 50.-52. gr. sömu laga. Með hliðsjón af þessu eðli starfsins og öryggissjónarmiðum verður samkvæmt framansögðu að játa stefnda heimild til þess að geta með fullnægjandi hætti gengið úr skugga um hvort starfsmenn í stöðu stefnanda séu undir áhrifum áfengis eða fíkniefna við störf sín.             Stefnandi gerði hvorki athugasemdir við framkvæmd sýnatökunnar né fyrstu niðurstöðu hennar. Hafi hann talið sig saklausan af neyslu fíkniefna var honum í lófa lagið að neita að staðfesta niðurstöðuna eins og hann átti kost á. Það gerði hann hins vegar ekki og verður hann að bera hallann af því. Stefnandi hefur vísað til fordæmis Hæstaréttar þar sem staðfest hafi verið að óbeinar hassreykingar gætu leitt til þess að kannabisefni fyndust í þvagi. Stefnandi hefur á hinn bóginn á engan hátt reynt að leiða í ljós að hann hafi lent í slíkum aðstæðum og verður ekki á því byggt í máli þessu. Þá er ekkert fram komið sem bendir til þess að mistök hafi orðið við töku eða varðveislu þvagsýnisins og engar athugasemdir komu fram af hálfu stefnanda þegar sýnið var tekið. Er því nægilega í ljós leitt með vísan til þeirra lagaákvæða er að framan greinir að stefnandi hafi verið óhæfur til þess að gegna þeim starfa sem hann var ráðinn til og var stefnda því heimilt samkvæmt þeim reglum sem hann setti og stefnandi gekkst undir af fúsum og frjálsum vilja að segja honum fyrirvaralaust upp störfum án launa í uppsagnarfresti. Verður því ekki hjá því komist að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.             Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda 400.000 krónur í málskostnað.             Hjörtur O. Aðalsteinsson  dómstjóri kvað upp dóminn. DÓMSORÐ:             Stefndi, Vinnslustöðin hf., skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Halldórs Jóns Andersen, í máli þessu.             Stefnandi greiði stefnda 400.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 736/2014
Kröfugerð Áfrýjunarfjárhæð Lán Fyrning
A hf. höfðaði mál á hendur A til heimtu greiðslukortaskuldar sem féll í gjalddaga á fyrri hluta árs 2009. Talið var að kröfurnar A hf. á hendur A teldust lán í merkingu 2. málsliðar 2. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda og fyrndust á fjórum árum samkvæmt 3. gr. laganna. Samkvæmt fyrirmælum laganna hefði nýr fyrningarfrestur tekið að líða þegar A innti síðast af hendi innborgun á kröfurnar í september 2009, en hann var liðinn þegar A hf. höfðaði málið á hendur A í febrúar 2014. Voru kröfur A hf. af þeim sökum fallnar niður samkvæmt 24. gr. laga nr. 150/2007 og A því sýknaður af kröfu A hf. Fyrir Hæstarétti hafði A uppi kröfu um frávísun málsins frá réttinum með skírskotun til þess að krafa A hf. næði ekki áfrýjunarfjárhæð samkvæmt 1. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hæstiréttur hafnaði þeirri kröfu einkum þar sem A hafði ekki teflt fram röksemdum um að A hf. hefði að virtum fyrirmælum 2. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 verið óheimilt að haga kröfugerð sinni á þann veg sem gert var, með því að miða áfrýjunarfjárhæð við samtölu greiðslukortaskuldar A án tillits til innborgana hans.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. nóvember 2014. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.075.824 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 2. janúar 2009 til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum stefnda 12. febrúar 2009 og 6. september sama ár samtals að fjárhæð 609.813 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara staðfestingar héraðsdóms. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Krafa stefnda um frávísun málsins frá Hæstarétti er á því reist að höfuðstóll kröfu áfrýjanda nái ekki áfrýjunarfjárhæð samkvæmt 1. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem á árinu 2014 hafi verið 761.423 krónur. Kveður stefndi höfuðstól kröfu áfrýjanda í raun vera 466.011 krónur þegar tekið hafi verið tillit til þeirra tveggja innborgana stefnda sem áður greinir. Telur hann að við mat á því hvort krafa uppfylli skilyrði til áfrýjunar að þessu leyti skuli eingöngu miða við höfuðstól hennar, en ekki taka tillit til vaxta eða kostnaðar sem á hana hefur fallið. Takmarkanir á heimildum til að skjóta málum til Hæstaréttar hafa lengi verið við lýði hér á landi og hefur helsta takmörkunin falist í reglum sem áskilja að hagsmunir þeir, sem um er deilt í máli, nái tilteknu lágmarki. Slíkar reglur fela í sér takmarkanir á því að málsaðilar eigi þess kost að fá mál sitt prófað á tveimur dómstigum. Í 2. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 er mælt fyrir um að áfrýjunarfjárhæð skuli ákveða eftir höfuðstól kröfu í áfrýjunarstefnu. Af skýringum í almennum hluta athugasemda með frumvarpi sem varð að lögum nr. 38/1994, um breyting á lögum nr. 91/1991, en þau lög fólu meðal annars í sér verulega hækkun áfrýjunarfjárhæðar, kom fram að þegar metið sé hvort krafa nái áfrýjunarfjárhæð beri aðeins að líta til höfuðstóls hennar, án vaxta eða framreiknings vegna verðlagsbreytinga frá því að hún féll í gjalddaga. Áfrýjandi hagaði kröfugerð sinni í héraði með sama hætti og í áfrýjunarstefnu. Sú tilhögun sætti engum athugasemdum af hálfu stefnda við meðferð málsins í héraði og ekki er um það deilt að sá höfuðstóll, sem tilgreindur er, sé samtala úttekta stefnda samkvæmt reikningsyfirlitum VISA greiðslukorts hans, án tillits til þeirra tveggja innborgana sem áður greinir. Í héraði tefldi stefndi ekki fram röksemdum um að áfrýjanda hafi verið óheimilt að haga kröfugerð sinni á þennan veg. Samkvæmt því verður kröfu stefnda um frávísun málsins frá Hæstarétti hafnað. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir, en við ákvörðun hans er tekið tillit til þess að kröfu stefnda um frávísun málsins frá Hæstarétti er hafnað. I.          Mál þetta, sem var dómtekið 25. september sl., er höfðað 5. febrúar 2014 af Arion banka hf., Borgartúni 19 í Reykjavík, gegn Ágústi Þór Árnasyni, Oddeyrargötu 8 á Akureyri.          Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 1.075.824 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 242.391 krónu frá 2. janúar til 2. febrúar 2009, af 417.400 krónum frá þeim degi til 2. mars 2009, af 566.760 krónum frá þeim degi til 2. apríl 2009, af 670.306 krónum frá þeim degi til 4. maí 2009, af 1.075.824 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum 12. febrúar 2009 að fjárhæð 224.000 krónur og 6. september 2009 að fjárhæð 385.813 krónur, samtals að fjárhæð 609.813 krónur. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.          Stefndi krefst sýknu auk málskostnaðar. II.          Stefndi var handhafi VISA greiðslukorts sem veitti honum rétt til úttekta á vöru og þjónustu. Þá gat hann tekið út reiðufé í bönkum, sparisjóðum og hraðbönkum með kortinu. Stefnandi var útgefandi greiðslukortsins. Samkvæmt 4. gr. kortaskilmála stefnanda, sem hann hefur lagt fram í málinu, er korthafi ábyrgur fyrir öllum úttektum sem staðfestar eru með undirritun hans eða PIN-númeri nema að hann sanni að vara eða þjónusta hafi ekki verið afhent. Þá segir 7. gr. skilmálanna að útgefandi hafi heimild til þess að færa á reikningsyfirlit korthafa allar úttektir sem berast á kortið og að korthafi sé ábyrgur fyrir greiðslu á þeim úttektum. Þar kemur einnig fram að útgefandi sendi korthafa eða birtir rafrænt í netbanka viðskiptavinar mánaðarlega reikningsyfirlit yfir úttektir tímabils sem gjaldfalla á næsta eindaga. Segir þar að korthafa beri að greiða útgefanda að fullu í síðasta lagi annan dag hvers mánaðar nema að daginn beri upp á almennan lokunardag banka og sparisjóða. Í greininni kemur jafnframt fram að úttektir korthafa séu vaxtalausar fram að gjalddaga, en greiði korthafi ekki úttektir tímabilsins á eindaga beri skuldin dráttarvexti frá þeim degi til greiðsludags.          Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um skuld vegna notkunar stefnda á umræddu korti í lok árs 2008 og fyrri hluta árs 2009. Stefnandi sundurliðar kröfuna á eftirfarandi hátt og vísar þar til reikningsyfirlita:          Nr.                    Útgáfudagur                               Gjalddagi                          Fjárhæð          1.                      19.12.2008                                 02.01.2009                       243.391          2.                      21.01.2009                                 02.02.2009                       175.009          3.                      20.02.2009                                 02.03.2009                       149.360          4.                      20.03.2009                                 02.04.2009                       103.546          5.                      21.04.2009                                 04.05.2009                       405.518          Fram kemur í stefnu og greinargerð að stefndi hafi greitt 224.000 krónur inn á kortaskuldina 12. febrúar 2009 og 385.813 krónur 6. september 2009.          Hinn 24. janúar 2011 sótti stefnandi um heimild til þess að leita samnings um greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga. Hófst þá tímabundin frestun greiðslna í samræmi við 11. gr. og ákvæði II til bráðabirgða í lögunum, sbr. lög nr. 128/2010. Hinn 5. september 2011 samþykkti embætti umboðsmanns skuldara umsóknina og var Jón Bjarni Kristjánsson hdl. skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlöguninni. Innköllun til kröfuhafa birtist 19. september 2011 í Lögbirtingablaði og var frestur til þess að lýsa kröfum fjórar vikur frá birtingu innköllunarinnar. Stefnandi sendi umsjónarmanni kröfulýsingu, dags. 4. október 2011, þar sem kröfu var lýst er byggðist á fyrrgreindri kortaskuld. Umsjónarmaður mun hafa nýtt heimild í 15. gr. laga nr. 101/2010 og sent málið aftur til embættis umboðsmanns skuldara þar sem komið hefðu fram upplýsingar sem talið var að bentu til þess að skilyrðum væri ekki fullnægt til að ljúka greiðsluaðlögun. Með ákvörðun 25. febrúar 2013 mun umboðsmaður skuldara hafa fellt niður heimild stefnda til þess að leita greiðsluaðlögunar.          Með bréfi stefnanda 2. desember 2013 var skorað á stefnda að greiða fyrrgreinda kröfu, sem þar var nánar sundurliðuð. Honum var enn fremur ritað innheimtubréf 18. desember 2013 og skorað á hann að greiða skuldina. Ekki verður séð að stefndi hafi brugðist við þessum áskorunum. III. 1. Málsástæður og lagarök stefnanda          Stefnandi byggir á því að skuld stefnda, sem er nánar sundurliðuð í stefnu og lýst í kafla II, sé til komin vegna úttekta hans með umræddu VISA greiðslukorti. Samkvæmt skilmálum kortsins hafi stefnda borið að greiða stefnanda úttektir hvers tímabils í síðasta lagi annan dag næsta mánaðar eftir lok viðkomandi tímabils. Skuldin hafi ekki verið greidd af hálfu stefnda. Honum hafi verið tilkynnt um vanskilin eins og framlögð innheimtubréf beri með sér.          Í stefnu er þess getið að bankakostnaður, eða áfallinn innheimtukostnaður, sé að fjárhæð 5.440 krónur. Krafa um bankakostnað sé vegna kostnaðar stefnanda við að halda kröfu sinni til haga vegna vanskila stefnda fram að löginnheimtu og kveður stefnandi fjárhæðina byggjast á framlagðri gjaldskrá stefnanda, reikningsyfirlitum og viðskiptaskilmálum stefnanda vegna VISA kreditkorta. Stefnandi kveður stefnda hafa greitt inn á skuldina neðangreindar innborganir og getur þess í stefnu að tekið verði tillit til þeirra við uppgjör kröfunnar: 12. febrúar 2009 224.000 krónur; 6. september 2009 385.813 krónur.          Stefndi kveður almennar reglur kröfuréttarins og meginreglu samningaréttarins um skuldbindingagildi loforða og skyldu til að efna samninga leiða til þess að stefnda beri að greiða kröfuna. Skuldin hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og því sé nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar. Óskar stefnandi sérstaklega eftir því að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til áfallins innheimtukostnaðar stefnanda fram að löginnheimtu.          Við aðalmeðferð málsins hélt stefnandi því enn fremur fram að kröfurnar væru ófyrndar þar sem þær væru reistar á peningaláni sem eigi að fyrnast á tíu árum, sbr. 1. málslið 2. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Stefnandi færði einkum þau rök fyrir þessari afstöðu að andlag lánsins væru peningar sem stefndi hefði fengið að láni með úttektum til að greiða fyrir vörur og þjónustu auk þess sem unnt hafi verið að nota kortið til þess að taka út peninga t.d. í hraðbönkum. Væri lánið hliðstætt yfirdráttarláni sem væri skilgreint sem peningalán í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 150/2007. Yrði ekki á það fallist byggir stefnandi á því að fyrning kröfunnar hafi verið rofin með umsókn stefnda um greiðsluaðlögun, sbr. 16. gr. laga nr. 150/2007. Þá er á því byggt af hálfu stefnanda að túlka beri 4. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 á þann veg að þegar frestun greiðslna hefjist sé krafan undanskilin lögbundnum fyrningarfresti. Telji dómurinn að ákvæðið gefi ekki tilefni til svo rúmrar túlkunar byggir stefnandi á því að lögjafna beri frá ákvæðinu um þá aðstöðu sem hér sé fyrir hendi. Þá telur stefnandi efni til þess að lögjafna frá 2. mgr. 45. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. þar sem mælt er fyrir um það að þegar kröfu er lýst fyrir umsjónarmanni við nauðasamningsumleitanir sé fyrningu slitið gagnvart skuldaranum. Stefnandi vísaði í þessu sambandi enn fremur til 18. gr. laga nr. 150/2007 þar sem kveðið er á um það að fyrningu kröfu sé slitið þegar henni er lýst við gjaldþrotaskipti og við skipti á dánarbúi.          Um lagarök vísar stefnandi að öðru leyti til almennra reglna kröfuréttarins og meginreglu samningaréttarins um skuldbindingagildi loforða og skyldu til að efna samninga en reglur þessar fái meðal annars stoð í lögum nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við ákvæði laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Kröfu um málskostnað styður hann við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um varnarþing er í stefnu vísað til 35. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Undir rekstri málsins vísaði stefnandi enn fremur til 3. mgr. 42. gr. sömu laga um heimild til að höfða málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. 2. Málsástæður og lagarök stefnda          Í greinargerð stefnda áskildi hann sér rétt til þess að krefjast frávísunar málsins þar sem málið hafði ekki höfðað á heimilisvarnarþingi hans. Eftir að stefnandi lagði fram skilmála fyrir greiðslukortið, þar sem kveðið er á um heimild stefnanda til að höfða mál út af brotum á skilmálunum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, var því lýst yfir af hálfu stefnda að ekki væri krafist frávísunar málsins.          Stefndi reisir sýknukröfu sína á því að kröfur stefnanda séu fyrndar. Gjalddagar krafnanna hafi verið 2. janúar, 2. febrúar, 2. mars, 2. apríl og 4. maí 2009. Stefndi hafi greitt inn á kröfurnar 12. febrúar 2009 og aftur 6. september 2009. Því hafi þær fyrnst í síðasta lagi 6. september 2013, þ.e. fjórum árum eftir síðustu innborgun. Stefnan hafi verið birt fyrir stefnda eftir þann tíma og fyrningarfrestur samkvæmt framansögðu því liðinn.          Um lagarök fyrir þessari niðurstöðu vísar stefndi til 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, en þar komi fram að almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda sé fjögur ár. Umræddar kröfur eigi undir þessa meginreglu, enda séu þær með skýrum gjalddaga líkt og rakið sé í stefnu, og hafi stefnandi þannig átt ótvíræðan rétt til efnda frá þeim degi. Ekki sé um að ræða peningalán í skilningi 2. mgr. 5. gr. laganna. Rökstyður hann það meðal annars með því að slíkar kröfur hafi ekki ákveðinn gjalddaga. Við aðalmeðferð taldi stefndi enn fremur að skilgreina beri peningalán sem lán þar sem peningar eru veittir að láni, en eftir það væru þeir til frjálsrar ráðstöfunar og eignar lántaka. Það eigi ekki við um úttektir á vöru og þjónustu með kreditkorti, enda fái hann ekki með því fé til eigin ráðstöfunar. Vísar stefndi meðal annars til þess að slíkar úttektir séu vaxtalausar fram að eindaga og að gefinn sé út mánaðarlega reikningur vegna úttekta en ekki greiðsluseðill.          Þá byggir stefndi á því að stefnandi hafi ekki slitið fyrningu í skilningi IV. kafla laganna á fyrningartíma kröfunnar. Umsókn um greiðsluaðlögun og heimild sem embætti umboðsmanns skuldara hafi veitt stefnda til að leita greiðsluaðlögunar teljist ekki rjúfa fyrningu. Þótt ákveðnar takmarkanir séu á möguleikum kröfuhafa til þess að innheimta kröfuna hjá skuldara meðan greiðsluskjól er til staðar, sbr. 1. mgr. 11. gr. laganna, hafi kröfuhafar eftir sem áður fullar heimildir til að sækja sér dóm fyrir kröfum sínum og tryggja þannig að þær fyrnist ekki. Gagnálykta megi frá ákvæði 4. mgr. 11. gr. greiðsluaðlögunarlaganna þar sem fram komi sérregla um lögveðskröfur, en þar segi að sá tími, sem frestun greiðslna er í gildi, skuli vera undanskilinn lögbundnum fyrningarfresti lögveðs. Um fyrningarfrest annarra krafna hljóti því að fara samkvæmt almennum lögum.          Stefndi telur að þótt kröfu hafi verið lýst fyrir umsjónarmanni í greiðsluaðlögun rjúfi sú kröfulýsing ekki fyrningu. Kröfulýsing rjúfi aðeins fyrningu þegar lýst sé í þrotabú eða dánarbú, sem tekið hafi verið til opinberra skipta, sbr. 2. mgr. 18. gr. laganna. Í 13. gr. laganna sé fjallað um þá aðstöðu þegar kröfu sé lýst í kjölfar opinberrar innköllunar. Þar komi fram að sé kröfu lýst fyrnist hún ekki fyrr en liðið sé ár frá því að kröfulýsingarfresti hafi verið lokið. Þar sem kröfulýsingarfresti hafi lokið í október 2011 í tilviki greiðsluaðlögunarumleitana stefnda hafi þetta ákvæði ekki þýðingu í þessu máli.          Við aðalmeðferð hafnaði stefndi því enn fremur að unnt væri að byggja á því að fyrningu hafi verið slitið á grundvelli 16. gr. eða 2. mgr. 18. gr. laga nr. 150/2007 með lögjöfnun. Sama eigi við um fyrirmæli 2. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 sem og 2. mgr. 45. gr. laga nr. 21/1991. Því séu umræddar kröfur fyrndar. Í samræmi við 24. gr. laga nr. 150/2007 hefði stefnandi þar með glatað rétti sínum til efnda auk þess sem vextir og aðrar tengdar greiðslur falli þá niður.          Um lagarök vísar stefndi til framangreindra ákvæða laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, einkum 3. og 24. gr. laganna. Þá vísar hann til ákvæða laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga, einkum 11. og 15. gr. Um réttarfarsleg atriði vísar hann til laga nr. 91/191 um meðferð einkamála. Um ákvörðun málflutningsþóknunar vísar stefndi til 130. gr. laganna og um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili og því beri að taka tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar í málinu. IV.          Stefndi reisir sýknukröfu sína alfarið á því að krafa stefnanda, sem stofnaðist með notkun hans á kortinu frá nóvember 2008 til apríl 2009, sé fallin niður sökum þess að fjögurra ára fyrningarfrestur hafi verið liðinn þegar málið var höfðað. Stefnandi hafnar því að krafan sé fyrnd og byggir þá afstöðu sína á tveimur atriðum. Annars vegar vísar stefnandi til þess að krafan fyrnist ekki á fjórum árum heldur á tíu árum, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2007. Hins vegar er á því byggt að fyrningu hafi verið slitið í tengslum við umsókn stefnda um greiðsluaðlögun.          Samkvæmt 3. gr. laga nr. 150/2007 er almennur fyrningarfrestur fjögur ár frá þeim degi er kröfuhafi gat fyrst átt rétt til efnda. Í öðrum greinum II. kafla laganna eru ákvæði sem víkja frá framangreindri meginreglu. Þar er í 2. mgr. 5. gr. meðal annars kveðið á um að kröfur sem byggjast á peningalánum fyrnist á tíu árum. Tekið er fram í málsgreininni að þetta gildi þó ekki um lán sem seljandi eða annar aðili hefur veitt til fjármögnunar á kaupum með greiðslufresti. Þá kemur fram í ákvæðinu að fyrningarfrestur þessi gildi ekki um vexti og verðbætur. Í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 150/2007 eru þau rök færð fyrir þessari reglu að ýmis peningalán séu veitt án þess að tiltekinn sé ákveðinn gjalddagi, t.d. lán milli venslamanna. Eðlilegt sé að fyrningarfrestur slíkra lána sé ríflegur, meðal annars með hliðsjón af meginreglu 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins, sem geti falið í sér að fyrningarfrestur byrji að líða strax þegar lánið er veitt. Fram kemur í athugasemdunum að reglan taki bæði til peningalána, sem veitt eru í atvinnuskyni, þar með talið yfirdráttarlána, og lána milli einstaklinga, hvort sem um formlegan lánagerning sé að ræða eða ekki. Ákvæðinu sé hins vegar ekki ætlað að taka til annars konar fjármögnunar, sem fyrnist á fjórum árum eftir almennu reglunni í 3. gr. frumvarpsins.          Þegar handhafi kreditkorts notar það við kaup á vöru eða þjónustu fær hann greiðslufrest á úttekt sinni. Seljandinn framselur útgefanda kortsins síðan kröfuna á hendur korthafa á grundvelli skilmála milli seljandans og útgefandans. Útgefandinn gerir því næst korthafa reikning vegna úttekta hans. Eindagi reikningsins er umsaminn samkvæmt skilmálum sem korthafinn hefur gengist undir og ber krafan ekki vexti fyrr en frá þeim tíma.          Seljandinn veitir korthafa með þessu lán fyrir andvirði hinnar keyptu vöru eða þjónustu sem útgefandi kortsins yfirtekur. Lánið er samkvæmt framansögðu veitt til fjármögnunar á kaupum með greiðslufresti. Samkvæmt skýrum fyrirmælum 2. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2007 gildir 10 ára fyrningarfrestur á kröfum sem byggjast á peningalánum ekki um lán af þessu tagi. Því fyrnast slíkar kröfur á fjórum árum í samræmi við almennan fyrningarfrest kröfuréttinda í 3. gr. laganna.          Stefnandi hefur ekki fært rök fyrir því að kröfur hans á hendur stefnda vegna úttekta hans með kortinu eigi rætur að rekja til annars en fjármögnunar á kaupum á vöru eða þjónustu með greiðslufresti. Af þessu leiðir að fyrningarfrestur þeirra er fjögur ár.          Eins og rakið hefur verið sótti stefnandi 24. janúar 2011 um greiðsluaðlögun á grundvelli laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga. Þegar tekið var við umsókninni hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. laganna, sbr. bráðabirgðaákvæði II í lögunum, sbr. 11. gr. laga nr. 135/2010. Í 11. gr. laganna kemur fram að meðan tímabundin frestun greiðslna varir sé lánardrottnum meðal annars óheimilt að krefjast eða taka við greiðslum á kröfum sínum, sbr. a-lið 1. mgr. ákvæðisins. Með málshöfðun gegn skuldara er hann krafinn um greiðslu skuldarinnar og er það liður í löginnheimtu kröfunnar, sbr. 2. mgr. 1. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 og 24. gr. a í lögum nr. 77/1998 um lögmenn. Samkvæmt þessu virðist ákvæði 11. gr. laga nr. 101/2010 meðal annars hafa verið ætlað að koma í veg fyrir að kröfuhafar höfðuðu dómsmál til innheimtu á kröfum sínum meðan greiðsluaðlögunarumleitanir stæðu yfir.          Þrátt fyrir framangreinda ályktun um ætlan löggjafans er í lögum nr. 101/2010 ekki mælt fyrir um það að unnt sé á einhvern annan hátt en með málshöfðun að slíta fyrningu kröfu á hendur þeim sem æskir greiðsluaðlögunar. Þar kemur einungis fram að sé krafa tryggð með lögveði, þegar frestun greiðslna hefst, skuli sá tími sem sú frestun er í gildi vera undanskilinn lögbundnum fyrningarfresti lögveðs, eins og segir í 4. mgr. 11. gr. laganna, sbr. 5. gr. laga nr. 135/2010. Athugasemdir við ákvæðið í nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar um frumvarp það er varð að lögum nr. 135/2010 gefa til kynna að tilefni lagabreytingarinnar hafi verið að lögveðum væri oft „áskilin tímabundin lögvernd“. Ákvæði þetta tekur samkvæmt efni sínu aðeins til krafna sem tryggðar eru með lögveði og framlengir einungis gildistíma lögveðsréttarins, eins og lýst í nefndarálitinu. Þær aðstæður sem ákvæðið fjallar um eru því ekki efnislega sambærilegar þeim aðstæðum sem uppi eru í þessu máli er lýtur að fyrningu almennrar kröfu. Því er skilyrðum ekki fullnægt til þess að láta ákvæðið gilda með lögjöfnun um fyrningu þeirrar kröfu sem stefnandi kveðst eiga á hendur stefnda. Breytir engu í því sambandi þó að áætlanir löggjafans um tímalengd greiðsluaðlögunarumleitana hafi ekki reynst raunhæfar.          Opinber innköllun var gefin út af umsjónarmanni vegna umsóknar stefnda um greiðsluaðlögun. Þar var skorað á kröfuhafa stefnda að lýsa kröfum sínum innan ákveðins frests. Stefnandi lýsti þeirri kröfu sem um ræðir innan kröfulýsingarfrests. Ákvæði 13. gr. laga nr. 150/2007 gildir um fyrningu kröfu sem þannig hefur verið lýst fyrir umsjónarmanni. Samkvæmt ákvæðinu fyrnist hún ekki fyrr en eitt ár er liðið frá því að kröfulýsingarfresti lauk. Við gjaldþrotaskipti og opinber skipti dánarbúa gilda hins vegar sérstakar reglur, sbr. 18. gr. og 2. mgr. 22. gr. laganna, sem og við nauðasamningsumleitun, sbr. 2. mgr. 45. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í öllum þessum tilvikum er kveðið á um það að fyrningu sé slitið ef kröfunni er lýst áður en kröfulýsingarfrestur er á enda runninn. Útilokað er að beita þessum ákvæðum með rýmkandi skýringu eða lögjöfnun um það tilvik þegar kröfu er lýst fyrir umsjónarmanni með greiðsluaðlögun, enda lögákveðið hvaða áhrif slík kröfulýsing hefur á fyrningu kröfunnar, sbr. fyrrgreint ákvæði 13. gr. laga nr. 150/2007.          Stefnandi byggir málatilbúnað sinn enn fremur á því að fyrningu krafna stefnanda hafi verið slitið við það að stefndi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun fyrir umboðsmann skuldara. Um það vísar hann til 16. gr. laga nr. 150/2007. Þar kemur fram að fyrningu sé slitið þegar kröfuhafi leggur málið til ákvörðunar fyrir stjórnvald sem hefur sérstakt ákvörðunarvald til þess að ljúka deilu um ágreininginn. Sama regla gildir þegar kröfur eru lagðar fyrir kæru- og úrskurðarnefndir sem settar hafa verið á fót af skuldara eða starfsgreinasamtökum sem hann á aðild að eða með þátttöku þeirra. Eins er fyrningu kröfu slitið sé hún lögð fyrir kæru- eða umkvörtunarnefnd sem hefur verið sett á fót á grundvelli fyrirmæla í lögum eða ef skuldari samþykkir að krafan sé lögð fyrir starfandi kæru- eða umkvörtunarnefnd.          Dómurinn fær ekki séð að þessi lögákveðnu tilvik taki til þess þegar óskað er greiðsluaðlögunar hjá umboðsmanni skuldara. Því til stuðnings ber í fyrsta lagi að taka fram að það er skuldari, en ekki kröfuhafi, sem æskir greiðsluaðlögunar. Þá er hvergi gert ráð fyrir því í lögum nr. 101/2010 að afstaða sé tekin til réttmætis lýstra krafna, einungis að leitað sé heildstæðrar lausnar á greiðsluvanda skuldara með samningum við kröfuhafa. Því er hvorki unnt að líta á umboðsmann skuldara né umsjónarmann með greiðsluaðlögun sem stjórnvald sem hafi sérstakt ákvörðunarvald til þess að ljúka ágreiningi um kröfuna. Því síður eru þessir aðilar kæru- eða úrskurðarnefndir sem hægt er að leggja ágreining um kröfuna fyrir. Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið verður ekki fallist á að fyrningu krafna stefnanda hafi verið slitið á grundvelli 16. gr. laga nr. 150/2007.          Þær kröfur sem hér eru til umfjöllunar áttu að koma til greiðslu 2. janúar, 2. febrúar, 2. mars, 2. apríl og 4. maí 2009. Stefndi greiddi inn á kröfurnar síðast 6. september 2009 og hófst þá nýr fyrningarfrestur, sbr. 14. gr. og 20. gr. laga nr. 150/2007. Í samræmi við 3. gr. sömu laga fyrndust kröfurnar á fjórum árum eins og nánar hefur verið rökstutt hér að framan. Fyrningu er slitið við lögákveðnar aðstæður. Ekki eru lagarök fyrir því að fyrningu krafnanna hafi verið slitið með því að stefndi sótti um greiðsluaðlögun, með samþykkt umboðsmanns skuldara samkvæmt 7. gr. laga nr. 101/2010 eða með því að stefnandi lýsti kröfum sínum fyrir umsjónarmanni með greiðsluaðlögun. Kröfurnar voru ófyrndar þegar ár var liðið frá kröfulýsingarfresti í október 2012. Þær voru einnig ófyrndar þegar umboðsmaður skuldara ákvað að fella niður heimild stefnda til að leita greiðsluaðlögunar í febrúar 2013. Fyrningarfrestur þeirra var aftur á móti liðinn þegar mál þetta var höfðað 5. febrúar 2014 og kröfurnar því fallnar niður samkvæmt 24. gr. laga nr. 150/2007. Því ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.          Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem þykir, með hliðsjón af eðli málsins og meðferð þess fyrir dómi, og að teknu tilliti til virðisaukaskatts, hæfilega ákveðinn 500.000 krónur.          Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð :          Stefndi, Ágúst Þór Árnason, er sýkn af kröfum stefnanda, Arion banka hf.          Stefnandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 353/2015
Kærumál Ákæra
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem framhaldsákæru sóknaraðila í máli hans gegn varnaraðilum var vísað frá dómi með vísan til þess að ekki voru uppfyllt skilyrði 1. mgr. 153. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til þess að auka mætti við ákæru málsins. Með framhaldsákærunni hafði sóknaraðili ætlað að koma að einkaréttarkröfu brotaþola, sem láðst hafði að taka upp í ákæru málsins. Fram kom að umrædd einkaréttarkrafa hefði legið fyrir þegar ákæra var gefin út og að því hefði sóknaraðili átt að taka hana upp í ákæruna. Að því virtu, og þar sem ekki væri um augljósa villu að ræða í skilningi fyrrgreinds ákvæðis, var talið að skilyrði til útgáfu framhaldsákæru hefðu ekki verið uppfyllt.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. maí 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 15. maí 2015, þar sem framhaldsákæru sóknaraðila í máli hans gegn varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í u. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.  Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 726/2014
Lánssamningur Gengistrygging Sveitarfélög Ógilding samnings Brostnar forsendur
Talið var að tveir lánssamningar milli L og sveitarfélagsins F væru um lögmæta skuldbindingu í erlendum myntum. Þá var því hafnað að reglur um brostnar forsendur gætu haft áhrif á gildi samninganna þar sem talið var ósannað að það hefði verið ákvörðunarástæða F að gengisþróun yrði á tiltekinn veg. Skilyrði ógildingar samninganna á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga voru heldur ekki talin uppfyllt sökum þess að ekki væri fram komið í málinu um að upplýsingaskyldu L hefði verið ábótavant og ekki fallist á að aðstöðumunur milli aðila leiddi til annarrar niðurstöðu.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson. Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 23. september 2014. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 5. nóvember það ár og áfrýjaði hann öðru sinni 12. sama mánaðar samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Áfrýjandi krefst viðurkenningar á því að skuld hans við stefnda 3. september 2012 vegna tveggja tilgreindra lánssamninga hafi samtals verið aðallega að fjárhæð 420.715.202 krónur, til vara 451.650.338 krónur, en að því frágengnu 656.925.525 krónur. Verði ekki á það fallist krefst áfrýjandi viðurkenningar þess að umræddir lánssamningar séu bundnir ólögmætri gengistryggingu samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Með lögum nr. 150/2006 um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga var rekstrarformi sjóðsins breytt. Hefur stefndi tekið við þeim réttindum og skyldum Lánasjóðs sveitarfélaga sem á reynir í þessu máli. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 2014. Mál þetta, sem höfðað var með stefnu birtri 12. mars 213, var dómtekið 26. maí sl. Stefnandi er Sveitarfélagið Fjarðabyggð, Hafnargötu 2 á Reyðarfirði. Stefndi er Lánasjóður Sveitarfélaga, Borgartúni 30 í Reykjavík. Aðalkrafa stefnanda er að viðurkennt verði að skuld stefnanda við stefnda hafi þann 3. september 2012 verið 276.644.202 kr. vegna lánssamnings 32/2006 og 144.071.000 kr. vegna lánssamnings 42/2006 eða samtals 420.715.202 kr. Varakrafa stefnanda er að viðurkennt verði að skuld stefnanda við stefnda hafi þann 3. september 2012 verið 292.237.671 kr. vegna lánssamnings 32/2006 og 159.412.667 kr. vegna lánssamnings 42/2006 eða samtals 451.650.338 kr. Fyrsta þrautavarakrafa stefnanda er að viðurkennt verði að skuld stefnanda við stefnda hafi þann 3. september 2012 verið 427.038.322 kr. vegna lánssamnings 32/2006 og 229.887.203 kr. vegna lánssamnings 42/2006 eða samtals 656.925.525 kr. Önnur þrautavarakrafa stefnanda er að viðurkennt verði að lánssamningar aðila 32/2006 og 42/2006 , dagsettir 4. september 2006 séu bundnir ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í þriðju þrautavarakröfu krefst stefnandi þess að ógilt verði eftirtalin ákvæði lánssamninga milli stefnda sem lánveitanda og stefnanda sem lántaka: Ákvæði greinar 2.1 í lánssamningi 32/2006 um að lánaðar verði „EUR 6.000.000 – sexmilljónir“. Eftirtalin orð í grein 3.1 í lánssamningi 32/2006 „eða 157.894,74 EUR hver“ og „3.157.894,68 EUR“. Ákvæði greinar 2.1 í lánssamningi 42/2006 um að lánaðar verði „USD 3.800.000 – þrjármilljónirogáttahundruðþúsund“. Eftirtalin orð í grein 3.1 í lánssamningi 42/2006 „100.000 USD hver“ og „2.000.000 USD“. Í fjórðu þrautavarakröfu krefst stefnandi viðurkenningar á því að skilyrði 36. gr. laga nr. 7/1936, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986 um að víkja til hliðar að hluta eða breyta lánssamningum 32/2006 og 42/2006 milli stefnda sem lánveitanda og stefnanda sem lántaka séu til staðar. Þess er jafnframt krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað.                 Dómkröfur stefnda eru aðallega þær að þriðju og fjórðu þrautavarakröfu stefnanda verði vísað frá dómi og stefndi sýknaður af öðrum kröfum stefnanda. Til vara krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.                 Með úrskurði dómsins 26. nóvember 2013 var fallist á kröfu stefnda um frávísun þriðju og fjórðu þrautavarakröfu stefnanda. Atvik máls og ágreiningsefni Á árinu 2006 tók stefnandi lán hjá stefnda til að framkvæmda. Lánssamningarnir eru tveir, báðir undirritaðir 4. september 2006. Samningarnir eru samhljóða varðandi annað en lánsfjárhæðina. Í samningi nr. 32/2006 er lánsfjárhæðin 6.000.000 evra en í samningi nr. 42/2006 er fjárhæðin 3.800.000 Bandaríkjadalir. Samhliða samningsgerðinni undirritaði bæjarstjóri stefnanda óútfylltar beiðnir um útborgun lánanna. Á forsíðu beggja lánasamninganna er handritað annars vegar EUR og hins vegar USD, en prentaður texti á forsíðu tekur ekki annað fram en að um lánssamning sé að ræða, númer hans og nöfn samningsaðila. Lánsfjárhæð er í grein 2.1 í samningunum tilgreind í viðkomandi mynt og þar kemur fram að útborgun sé í einu lagi eigi síðar en fimm bankadögum eftir að beiðni lántaka um útborgun lánsins berst lánveitanda. Í grein 2.3 kemur fram að tilgangur lánanna sé að fjármagna framkvæmdir samkvæmt fjárhagsáætlun stefnanda árið 2006. Endurgreiða beri lánin með 19 afborgunum, þar af 18 jöfnum afborgunum á sex mánaða fresti sem samtals nema ríflega helmingi lánsfjárhæðarinnar en afganginn skuli greiða í einu lagi á 19. gjalddaganum, sbr. 3. gr. samninganna. Fjárhæð endurgreiðslna er tilgreind í sömu mynt og lánsfjárhæðin. Vextir samkvæmt 4. gr. samninganna eru annars vegar EURIBOR + 0,13% álag á lánið í evrum og LIBOR + 0,13% álag á lánið í Bandaríkjadölum. Vextir eru breytilegir. Til tryggingar lánunum setti stefnandi, með heimildi í 73. gr. laga nr. 45/1998, tekjur sínar, þ.e. framlög úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga og útsvarstekjur sbr. 5. gr. samninganna. Komi til vanskila er stefnda heimilt á grundvelli ákvæðis sömu greinar að ganga að framangreindum tekjum án undangengins dóms, sáttar eða aðfarar, sbr. einnig ákvæði reglugerðar nr. 123/2006. Lánin voru greidd út þann 1. september 2006 í viðkomandi myntum. Á skjöl, sem undirrituð voru af því tilefni, eru handritaðar upplýsingar um fjárhæð lánanna og viðmiðunargengi í íslenskum krónum. Á tímabilinu fram að 11. september 2006 skipti stefnandi lánsfjárhæðinni í íslenskar krónur. Endurgreiðslur virðast í öllum tilvikum nema einu, þann 1. september 2007, hafa verið inntar af hendi í íslenskum krónum. Greitt var af lánunum á sex mánaða fresti í samræmi við samningsskilmála. Síðasta afborgun fyrir málshöfðun þessa var innt af hendi í september árið 2012.                 Stefndi, sem er í eigu sveitarfélaga, þ. á m. stefnanda, tók lán erlendis í sömu myntum og hann lánaði stefnanda til að fjármagna lánin til hans. Í útlánareglum stefnda, samþykktum 2. febrúar 2005, er kveðið á um að útlánavextir af endurlánafé skuli vera með 0,05% álagi á vaxtakostnað sjóðsins. Ágreiningur reis milli aðila um lögmæti lánanna. Í bréfaskiptum í júní 2012 lýstu aðilar sjónarmiðum sínum í þessu efni. Telur stefnandi að lánin séu lán í íslenskum krónum sem bundin eru með ólögmætum hætti við gengi erlendra gjaldmiðla og beri því að endurreikna þau í samræmi við fordæmi Hæstaréttar þar að lútandi. Þá leiði sjónarmið um brostnar forsendur og grunnrök 36. gr. laga nr. 7/1936 einnig til þess að ósanngjarnt sé að hann einn beri gengisáhættu lánanna. Sjónarmið stefnda er það að lánin séu fullkomlega lögmæt og hefur hann hafnað öllum kröfum um endurútreikning þeirra. Ágreiningur þessi er ástæða málaferla nú.                 Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, gaf aðilaskýrslu fyrir dómi og sömu leiðis Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri stefnda. Í skýrslu Páls kom fram að hann hefði gegnt stöðu fjármálstjóra hjá stefnda þegar umdeild lán voru tekin. Við undirbúning lántökunnar hafi verið skoðaðir ýmsir lánamöguleikar og hliðsjón höfð af heildarskuldbindingum sveitarfélagsins, hlutfalli innlendra og erlendra lána og áætlunum um tekjur á lánstímanum. Aðspurður af hverju lán með þessum skilmálum hefði verið tekið svaraði hann því til að það hefði verið til að lágmarka fjármagnskostnað. Hann staðfesti að hafa gert greiðsluáætlun vegna lánanna og sent stefnda. Í greiðsluáætluninni sé miðað við gengi viðkomandi gjaldmiðla á þeim tíma sem áætlunin var gerð. Hann sagði þó að alltaf hefði verið gert ráð fyrir einhverjum gengisbreytingum og óvissan af því kunn en engan hefði órað fyrir að hún yrði jafnmikil og raun varð á. Þá kvaðst hann ekki geta fullyrt að stefnda hafi mátt vera ljóst að tiltekin gengisþróun væri forsenda lántökunnar. Hann einfaldlega myndi ekki nákvæmlega hvað þeim fór á milli. Þá sagði hann að forsvarsmaður stefnda hefði sent honum drög að bókun bæjarráðs þar sem lánveitingin var heimiluð. Í bókuninni kemur fram að bæjarráð samþykki að taka allt að 800.000.000 kr. lán hjá stefnda í erlendri mynt. Þá heimilaði ráðið að lánið yrði í upphafi að hluta eða í heild í íslenskum krónum enda yrði því breytt í lán í erlendum myntum ekki síðar en 1. október þ.á. Jafnframt kemur fram í bókuninni að tekjur sveitarfélagsins muni standa til tryggingar láninu sbr. heimild í 3. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og að lánið sé tekið til framkvæmda á vegum sveitarfélagsins, sbr. 2. gr. laga um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 136/2004. Málsástæður og lagarök stefnanda                 Stefnandi byggir kröfur sínar á þremur meginmálsástæðum. Í fyrsta lagi að lánasamningarnir hafi verið með ólögmætri gengistryggingu, í öðru lagi að veruleg forsenda stefnanda hafi brostið fyrir lánssamningunum sem leiði til ógildingar þeirra að hluta og í þriðja lagi að fyrir hendi séu skilyrði 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, til að víkja samningsákvæði til hliðar eða breyta því.                 Í aðalkröfu er farið fram á að viðurkennt verði að staða skuldbindinga stefnanda samkvæmt lánssamn­ing­um 32/2006 og 42/2006 við stefnda hafi þann 3. september 2012 hafi verið 420.715.202 kr. og er byggt á útreikningi frá KPMG og gert ráð fyrir því að sjónarmið um gildi fullnaðarkvittana vegna hverra afborgana eigi við, samanber dóma Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012.                 Í varakröfu er byggt á útreikningum miðað við að lánin hafi borið vexti skv. 4. gr. sbr. 10. gr. laga nr. 38/2001 frá gildistöku laga nr. 151/2010 en fram að gildistöku laganna, eða til og með gjalddaga þann 1. september 2010, hafi greiðslur stefnanda vegna vaxta verið fullnaðargreiðslur og því skuli draga höfuðstólsgreiðslur frá skuld í íslenskum krónum. Í þrautavarakröfu er þess krafist að sanngirnismati verði beitt og eftirstöðvar lánssamninganna metnar þannig að aðilar skipti að jöfnu á milli sín þeirri hækkun sem orðið hefur á lánunum vegna gengisbreytinga.                 Til nánari stuðnings þessari málsástæðu vísar stefnandi til þess að lánið hafi verið tekið til að sinna lögbundnum verkefnum sveitarfélags, það hafi verið tryggt með veði í tekjum stefnanda í íslenskum krónum sem hafi veitt stefnda aukna réttarvernd. Stefndi sjálfur hafi talið lánið gengistryggt í umfjöllun í ársreikningi sínum árið 2006. Báðir aðilar hafi nálgast viðfangsefnið þannig að verið væri að lána ákveðna upphæð í íslenskum krónum, að veðið væri tekjur í íslenskum krónum og að endurgreiðsla yrði með íslenskum krónum. Það hafi verið raunverulegt inntak samnings aðila. Meginreglan hafi verið sú að endurgreiðslur yrðu í íslenskum krónum, nema beiðni kæmi fram um annað frá stefnanda. Samningarnir séu því í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu. Sé fallist á það byggir stefnandi á því að reikna beri eftirstöðvar lánsins í samræmi við dóma Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012 og miði aðalkrafan við það.                 Verði ekki fallist á að um ólögmætt gengistryggt lán sé að ræða byggir stefnandi í öðru lagi á því að að ógilda beri samning aðila á grundvelli reglna kröfuréttar um brostnar forsendur. Sú forsenda hafi brostið, að endurgreiðsla lánsins í íslenskum krónum yrði í samræmi við áætlun sem gerð var við lántökuna. Sú forsenda hafi verið veruleg og verið ákvörðunarástæða sem stefnda hafi verið ljós auk þess sem sanngjarnara sé að leggja áhættuna af henni á stefnda.                 Í þriðja lagi byggir stefnandi á því að víkja beri samningi aðila til hliðar að hluta eða breyta þannig að ákvæði um endurgreiðslu verði ógilt og í staðinn fari um endurgreiðslu með sama hætti og ef lánið hefði verið með ólögmætri gengistryggingu eða þannig að miðað verið við stöðu lánsins 3. september 2012. Vísar stefnandi til 36. gr. laga nr. 7/1936 til stuðnings þessari málsástæðu. Byggir hann á því að það sé bæði ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera lánssamn­ingana fyrir sig með þeim hætti sem stefndi gerir. Til frekari rökstuðnings vísar stefnandi til fjárhæðar lánsins, þess að hann hafi eingöngu tekjur í íslenskum krónum, lánið sé tryggt með öruggu veði í tekjum stefnanda, augljós aðstöðumunur sé á aðilum stefnda í hag, auk þess sem stefndi hafi samið lánsskilmálana og þess gengishruns krónunnar sem kom til eftir samningsgerðina. Jafnframt vísar hann til laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti og nú laga 108/2007 um sama efni, sem og þeirra Evrópureglna sem þessir lagabálkar byggja á varðandi þær kröfur sem eðlilegt sé að gera til stefnda sem fjármálafyrirtækis.                 Stefnandi byggir á því að ástæða þess að lánssamningar aðila hafi verið tengdir við þróun erlendra gjaldmiðla hafi verið sú að vaxtakjör yrðu ella óásættanleg, þ.e. að vaxtakjör í samræmi við 4. og 10. gr. vaxta­laga 38/2001 væru óásættanleg. Eins og gögn málsins beri með sér hafi staða lánanna samkvæmt útreikn­ingi stefnda, eftir greiðslu gjalddaga 1. september 2012, verið ríflega 986 milljónir króna eða 124 milljónum hærri en ef þessi útreikningur sem aðilar beinlínis vildu komast hjá væri lagður til grundvallar. Sé fallist á að forsendur hafi brostið með þeim afleiðingum að ákvæði um erlenda gjaldmiðla í láns­samn­ingunum séu ógild, þá sé byggt á því að dómur geti kveðið upp úr um það hvaða kjör miða skuli við á grundvelli 36. gr. samningalaga. Við slíkt mat beri að horfa til aðalkröfu og varakröfu annars vegar og stöðu lánssamninga 32/2006 og 42/2006 ef þeir eru reiknaðir með vöxtum skv. 4. og 10. gr. vaxta­laga 38/2001 hins vegar. Síðan sé eðlilegt að skipta áhættunni af þessari ófyrirsjáanlegu þróun á milli aðila að teknu tilliti til efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til. Í fyrstu þrautavarakröfu byggir stefnandi á því að sanngirnismat eigi að leiða til þess að þessari áhættu sé skipt milli aðila að jöfnu, hafi ekki verið fallist á fyrri kröfur, og eftirstöðvar lánsins teljist samkvæmt því vera 656.925.525 krónur.                 Önnur þrautavarakrafan er sett fram sem viðurkenningarkrafa á grundvelli sömu málsástæðna og koma fram í aðalkröfu fari svo að dómurinn fallist á málsástæður að baki aðalkröfu en telji ekki unnt að fallast á þá útreikninga sem lagðir eru til grundvallar þeirri kröfu.                 Um málskostnaðarkröfu stefnanda vísast til 130. gr. og annarra ákvæða XXI. kafla laga nr. 91/1991. Málsástæður og lagarök stefnda                 Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að lán stefnanda hafi verið lögmæt lán í erlendum myntum. Í öðru lagi séu skilyrði almennra reglna samningaréttar um brostnar forsendur ekki fyrir hendi. Í þriðja lagi eigi 36. gr. samningalaga ekki við í málinu. Loks, í fjórða lagi, séu gerðar athugasemdir við fjárhæð einstakra krafna stefnanda, einkum hvað varðar sjónarmið um gildi fullnaðarkvittana. Eigi þessar málsástæður við um allar kröfur stefnanda.                 Líta beri til raunverulegs inntaks samninganna og taka mið af þeirri meginreglu samningaréttar að aðilum sé frjálst að ákveða inntak samninga sinna. Af þessum ástæðum geti það ekki ráðið úrslitum í málinu þótt orðið gengistrygging hafi komið fyrir í skýringum við ársreikning stefnda fyrir árið 2006. Sé það raunar svo að hugtökin erlend lán og gengistryggð lán hafi verið notuð jöfnum höndum í ársreikningnum. Raunverulegt inntak samninga aðila komi fram í 2.1 gr. þeirra, þar sem stefnandi skuldbindi sig til að taka að láni og stefndi að lána tilgreindar fjárhæðir í tilteknum erlendum gjaldmiðlum. Lánsfjárhæðin hafi því verið tilgreind í erlendum gjaldmiðlum og stefnandi fengið afhent lánsféð í erlendri mynt. Raunverulegar efndir samningsins hafi því verið í samræmi við inntak hans. Því eigi VI. kafla laga um vexti og verðtryggingu ekki við í málinu og nægi hvort þessara atriða eitt og sér til að lánin teljist vera í erlendri mynt með hliðsjón af dómaframkvæmd Hæstaréttar. Til viðbótar þessu veiti öll samskipti aðila í aðdraganda samningsgerðarinnar, auk bókunar bæjarráðs stefnanda, skýrar vísbendingar um að ávallt hafi staðið til að taka lán í erlendum gjaldmiðlum. Jafnframt sé gjaldmiðill viðkomandi láns tilgreindur á forsíðu hvors samnings fyrir sig. Að lokum séu vextir samkvæmt lánssamningunum til samræmis við það að um erlent lán sé að ræða tilgreindir LIBOR- og EURIBOR-vextir. Geti að mati stefnda enginn vafi leikið á því að um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum hafi verið að ræða. Fái þau atriði sem rakin séu í stefnu ekki haggað því.                 Stefndi byggir einnig á því að almennar reglur samningaréttar um brostnar forsendur eigi ekki við í málinu. Í stefnu sé á því byggt að það hafi verið forsenda stefnanda fyrir töku lánanna frá stefnda „að höfuðstóll lánsins og endurgreiðslur væri í samræmi við þær áætlanir sem gerðar voru þar um við lántökuna“. Framangreind áætlun sé skjal sem stefnandi hafi útbúið þar sem sett sé fram greiðsluáætlun, jafnt í viðkomandi erlendum myntum sem íslenskum krónum. Í sjálfum samningum aðila, gr. 3.1, komi síðan fram skýr greiðsluáætlun í þeim erlendu gjaldmiðlum sem lánin samanstóðu af. Bæði höfuðstóll lánsins og endurgreiðslur hafi verið í samræmi við greiðsluáætlun í erlendum myntum, jafnt þá skýru greiðsluáætlun sem fram komi í gr. 3.1 lánssamninganna sjálfra, sem í greiðsluáætluninni sem stefnandi hafi sjálfur gert. Verði umfjöllun stefnanda því ekki skilin á annan veg en þann að það hafi verið forsenda stefnanda fyrir töku lánanna að gengi íslensku krónunnar gagnvart viðkomandi erlendu myntum héldist óbreytt út lánstímann. Þessu hafnar stefndi alfarið og telur þennan málatilbúnað ótrúverðugan. Engin skilyrða fyrir ógildingu á grundvelli brostinna forsendna séu uppfyllt. Stefnanda hafi verið fullkunnugt um mögulegar gengissveiflur íslensku krónunnar og sé því hafnað að forsenda lántökunnar hafi verið að gengi hennar héldist óbreytt út samningstímann og einnig því að það hafi verið ákvörðunarástæða hans fyrir gerð þeirra. Þvert á móti hafi ákvörðunarástæðan að öllum líkindum verið sú að mun hagstæðari kjör hafi boðist á lánum í erlendum gjaldmiðlum en í íslenskum krónum á þessum tíma. Stefnandi hafi valið að taka áhættu sem fylgi slíkum lánum gegn því að fá mun betri kjör. Þar sem óbreytt gengi íslensku krónunnar geti ekki hafa verið forsenda stefnda fyrir lántökunni, hvað þá ákvörðunarástæða, beri þegar af þeirri ástæðu að hafna þessari málsástæðu stefnanda. Af sömu ástæðum geti stefnda ekki hafa verið þessi ætlaða ákvörðunarástæða ljós. Loks geti það ekki talist sanngjarnara að leggja áhættuna af ætluðum forsendubresti á stefnda fremur en stefnanda. Stefndi sé í eigu sveitarfélaga landsins og sé hlutverk hans að endurlána til þeirra lánsfé sem stefndi sjálfur taki að láni. Sé tilgangur þessa fyrirkomulags m.a. sá að auðvelda sveitarfélögum, líkt og stefnanda, að eiga kost á betri lánskjörum á innlendum og erlendum lánsfjármörkuðum. Stefnandi sé meðal eigenda stefnda og ætti eðli máls samkvæmt að vera fullkunnugt um þetta eðli starfsemi hans.                 Stefndi hafi tekið erlend lán sérstaklega til að fjármagna lánveitinguna til stefnanda, líkt og rakið hafi verið að framan. Stefnandi þurfi að standa full skil á þessum lánum. Þar af leiðandi sé því alfarið hafnað sem röngu að tjón stefnda af því að fallist yrði á kröfur stefnanda nemi aðeins lægri ávöxtun, eins og staðhæft sé af hálfu stefnanda. Þvert á móti muni tap stefnanda nema verulegum fjárhæðum. Yrði slík niðurstaða ekki sanngjörn í garð stefnda í ljósi framangreinds hlutverks hans, og þeirrar staðreyndar að hann hafi aðeins tekið 0,05% vaxtamismun á lánveitingunni, til að standa undir eigin rekstri.                 Stefndi mótmælir því einnig að það sé ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju af hálfu stefnda að bera samninga fyrir sig. Stefnandi hafði val um það hvernig lán hann tæki. Honum hafi staðið til boða lán í íslenskum krónum eða erlendum myntum og honum hafi verið ljós mismikil áhætta sem fylgdi lántöku. Þá feli krafa stefnanda í sér afar lága raunvexti af láninu miðað við vísitölu krónunnar. Engin sanngirnisrök mæli með því að viðurkenna slík lánskjör. Stefnandi sé stórt sveitarfélag með greiðan aðgang að sérfræðiþekkingu. Hann hafi tekið upplýsta ákvörðun um að velja áhættumeiri leiðina gegn lægri vöxtum, eftir að hafa kannað rækilega þá kosti sem í boði voru. Stefndi sé hins vegar í raun ekkert annað en milligönguaðili, sem hafi gefið stefnda kost á greiðari aðgangi að erlendum lánsfjármörkuðum á betri kjörum en hann hefði notið ella. Stefndi muni þurfa að standa full skil á lánum sem hann hafi tekið til að fjármagna lán til stefnanda. Í ljósi þessa yrði það gríðarlega ósanngjarnt að hann bæri mikið tap af þessu milligönguhlutverki sínu. Það sé því bæði eðlilegt og sanngjarnt að stefnandi endurgreiði lánsféð með umsömdum hætti, rétt eins og stefndi þurfi að gera.                 Með vísan til alls framangreinds beri því að sýkna stefnda af öðrum kröfum stefnanda en krafist er frávísunar á.                 Þá mótmælir stefndi forsendum útreikninga stefnanda. Verði fallist á að samningarnir feli í sér ólögmæta gengistryggingu verði að líta með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð og miða við að skuldin beri vexti frá upphafi sem taki mið af 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 sem beri að leiðrétta með hliðsjón af þeirri meginreglu kröfuréttar að kröfuhafi, sem fengið hefur minna greitt en hann átti rétt til í lögskiptum aðila, eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt er. Sjónarmið um gildi fullnaðarkvittana eigi ekki við í málinu. Í öllu falli beri lánið framangreinda vexti frá 16. júní 2010, þar sem stefnandi geti ekki talist hafa verið í afsakanlegri lögvillu frá þeim tíma.                 Þá mótmælir stefndi þeirri staðhæfingu stefnanda að augljós aðstöðumunur sé á milli aðila. Stefndi sé ekki viðskiptabanki eða fjármálafyrirtæki á almennum markaði heldur starfi eingöngu á grundvelli lögbundins hlutverks síns. Stefndi hafi verið opinber stofnun þegar lánið hafi verið veitt og hafi verið bundinn af takmörkuðu starfsleyfi, lögbundnum tilgangi sínum og samþykktum sem eigendur samþykktu, þar með talið stefnandi. Það sé því ekki augljós aðstöðumunur á lánveitanda og lántaka í umræddum viðskiptum aðila máls þessa.                 Öll framangreind sjónarmið leiði jafnframt til þess að almennar reglur um brostnar forsendur eða 36. gr. samningalaga geti ekki gert það að verkum að stefnandi fái lán í íslenskum krónum á afar lágum erlendum vöxtum. Geti það aldrei hafa verið forsenda eða ákvörðunarástæða stefnanda fyrir lántökunni. Telja yrði ósanngjarnt að samningsvextir stæðu óhaggaðir, yrðu lánin af einhverjum ástæðum talin í íslenskum krónum.                 Varakrafa stefnanda grundvallast á því að stefnda sé heimilt að reikna vexti á lánssamninga aðila skv. 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 frá gildistöku laga nr. 151/2010. Líkt og rakið hafi verið hér að framan byggir stefndi á því, verði af einhverjum ástæðum talið að um íslenskt lánsfé hafi verið að ræða, að það beri slíka vexti frá upphafi. Í öllu falli beri það slíka vexti frá 16. júní 2010, enda hafi stefnandi ekki getað verið í afsakanlegri lögvillu frá þeim tíma, sbr. bréfaskrif stefnanda. Ber því að sýkna stefnda af varakröfu stefnanda.                 Stefndi mótmælir því að sanngirnisrök mæli með því að fyrsta þrautavarakrafa stefnanda verði tekin til greina. Þvert á móti yrði afar ósanngjarnt að hann bæri tap af því milligönguhlutverki sínu sem lýst hefur verið hér að framan, þ.e. að veita stefnanda aðgang að erlendum lánsfjármörkuðum á betri kjörum. Stefndi muni þurfa að endurgreiða það lán sem hann tók til að endurlána stefnanda að fullu. Þá leiði af því að sé um að ræða ólögmæta gengistryggingu, beri að líta fram hjá ákvæðum samninganna um vexti, enda ákvæðin í órjúfanlegum tengslum við gengistrygginguna, sbr. fjölda dóma Hæstaréttar þar að lútandi, og miða þess í stað við Seðlabankavexti. Með því að miða við slíka vexti væri stefnandi að fá íslenskt lánsfé á lægstu mögulegu vöxtum á hverjum tíma. Það virðist hins vegar ekki duga stefnanda í þrautavarakröfu, heldur vilji hann ganga lengra og miða stöðu lánsins miðja vegu frá þeirri fjárhæð og fjárhæð lánsins miðað við samningsvexti. Stefndi fái ekki séð hvernig slík kröfugerð samræmist þessari dómaframkvæmd Hæstaréttar. Þá fái stefndi ekki séð hvaða sanngirnissjónarmið eiga að leiða til þeirrar niðurstöðu að stefnandi fái lánsfé á tvöfalt betri kjörum en þau bestu sem buðust hverju sinni. Beri því að sýkna stefnda af þrautavarakröfu stefnanda.                 Krafa stefnda um málskostnað er reist á 129. gr., 130. gr. og 131. gr. laga nr. 91/1991. Forsendur og niðurstaða dóms                 Stefnandi byggir málatilbúnað sinn í fyrsta lagi á því að lán sem hann tók hjá stefnanda á árinu 2006 hafi verið lán í íslenskum krónum, bundin við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti. Stefndi heldur því fram að lánið hafi verið löglegt lán í erlendum gjaldmiðlum.                 Fjöldi dóma liggur fyrir þar sem reynt hefur á framangreint álitaefna. Hefur Hæstiréttur í dómum sínum fyrst og fremst lagt til grundvallar skýringu á texta lánssamnings þar sem lýst er skuldbindingunni sem lántaki tekst á hendur. Koma önnur atriði tengd samnings­gerðinni þá fyrst til skoðunar ef samningsákvæðin sjálf taka ekki af vafa um þetta atriði. Af mörgum dómum um þetta efni má nefna dóma réttarins í málum nr. 524/2011, 337/2013 og 602/2013. Umdeild lán eru í lánasamningum sögð vera í tilgreindum erlendum myntum, fjárhæð þeirra er tilgreind í þeim myntum án þess að tilgreint sé jafnvirði þess í íslenskum krónum. Þá eru vextir tilgreindir sem EURIBOR- eða LIBOR-vextir með tilteknu álagi. Afborganir og vextir voru reiknaðir af lánunum í erlendum myntum á greiðsluseðlum í samræmi við ákvæði samningsins þar að lútandi og staða lánanna sömuleiðis tilgreind í þeim myntum. Engar vísbendingar eru í öðrum skjölum tengdum lánveitingunni sem benda til annars  en að um erlend lán sé að ræða. Þá er ekki fallist á það með stefnanda að framkoma aðila í aðdraganda samningsgerðarinnar sýni fram á að ætlunin hafi verið að taka lán í íslenskum krónum. Þvert á móti verður ekki annað ráðið af gögnum málsins og aðilaskýrslu forsvarsmanns stefnanda fyrir dómi en að ætlunin hafi verið sú að taka lán í erlendri mynt. Í þessu sambandi skiptir tilgangur lántökunnar ekki máli og heldur ekki sú staðreynd að tekjur stefnanda voru í íslenskum krónum og þar með einnig veð stefnda. Umdeild lán eru samkvæmt framansögðu lán í erlendum myntum og breytir það ekki þeirri niðurstöðu þótt stefndi hafi greitt afborganir í íslenskum krónum.                 Þá er hafnað þeirri málsástæðu stefnanda að reglur um brostnar forsendur samninga geti haft áhrif á gildi lánasamninganna. Af málatilbúnaði stefnanda verður ekki annað ráðið en að þær forsendur sem hann byggir á að hafi brostið, með þeim afleiðingum að ógilda eigi samninga aðila, séu þær að gengi íslensku krónunnar hafi fallið meira en hann gerði ráð fyrir. Ekki er um það deilt að gengi krónunnar féll gríðarlega. Á hinn bóginn er ósannað að það hafi verið forsenda eða ákvörðunarástæða stefnanda að gengisþróun yrði með tilteknum hætti og að stefnda hafi mátt vera ljós sú forsenda þegar samningar voru gerðir. Af framlögðum gögnum má ráða að stefnandi hafi tekið ákvörðun um lánskjör með hliðsjón af lánakjörum á markaði og metið eða átt að meta áhættu og ávinning af mismunandi lánakjörum sem honum stóðu til boða. Verður því að líta svo á að gengisþróun hafi verið áhætta sem stefnandi tók en ekki forsenda sem leitt geti til ógildingar samkvæmt reglum kröfuréttar um brostnar forsendur samninga. Ekki verður séð að greiðsluáætlun stefnanda, sem hann sendi stefnda 28. ágúst 2006, hafi þýðingu í þessu sambandi en í umræddri greiðsluáætlun eru afborganir lánsins umreiknaðar í íslenskar krónur miðað við tiltekið gengi sem er nálægt gengi viðkomandi gjaldmiðla á lántökudegi.                 Þá hefur stefnandi ekki sýnt fram á að skilyrði 36. gr. laga nr. 7/1936 geti leitt til ógildingar samninga aðila að hluta eða í heild. Byggir sú niðurstaða á því að stefnanda hafi verið eða mátt vera kunnugt um eðli þeirrar áhættu sem erlend lán fela í sér. Ekkert er fram komið í málinu um að stefnandi hafi ekki búið yfir fullnægjandi upplýsingum um eðli og áhættu af lántöku í erlendri mynt eða að minnsta kosti verið í aðstöðu til að afla sér slíkra upplýsinga. Stefnandi hafði tök á að meta, eftir atvikum með aðstoð sérfræðinga, hvort sú áhætta væri ásættanleg. Jafnframt verður, með hliðsjón af skyldum og ábyrgð stjórnenda sveitarfélags, ekki fallist á að aðstöðumunur milli aðila eigi að leiða til annarrar niðurstöðu. Þá er stefnandi sjálfur einn eigandi stefnda og mátti honum af þeim sökum vera ljóst að lánveitingar stefnda til hans voru fjármagnaðar með erlendum lántökum hans. Sanngirnisök mæla því ekki með því að áhætta stefnanda verði lögð á stefnda.                 Með framagreindum rökstuðningi verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað. Með hliðsjón af umfangi málsins og hagsmunum sem deilt er um er hann hæfilega ákveðinn 800.000 kr.                 Ingibjörg Þorsteinsdóttir kvað upp þennan dóm. D ó m s o r ð :
Mál nr. 791/2014
Einkahlutafélag Ársreikningur Endurskoðandi Lögvarðir hagsmunir Frávísun frá héraðsdómi að hluta
M höfðaði máli á hendur A ehf. og krafðist þess aðallega að ógiltir yrðu aðalfundir A ehf. 14. október 2011 fyrir starfsárin 2009 og 2010, en til vara að ógiltar yrðu ákvarðanir á þeim fundum um samþykki ársreikninga A ehf. fyrir sömu ár. Í fundargerðum vegna aðalfundanna var bókað um deilu sem reis um hlutaskrá í A ehf. og atkvæðisrétt á grundvelli hennar. Þá hafði M fyrir fundina komið á framfæri margvíslegum athugasemdum við ársreikningana ásamt skýrslum félagsstjórnar, sem fylgdu reikningnum, og voru athugasemdirnar áréttaðar á fundunum. Hæstiréttur vísaði aðalkröfu M frá héraðsdómi, með skírskotun til þess að 1. mgr. 71. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög veitti ekki heimilt til að ógilda hluthafafund í heild, heldur einungis tilgreindar ákvarðanir sem þar hafa verið teknar, sbr. dóm réttarins 11. mars 2004 í máli nr. 360/2003. M studdi varakröfu sína meðal annars málatilbúnaði um hvernig borið hefði að standa að endurskoðun ársreikninga A ehf., svo og hvort A ehf. hefði verið skylt að færa þar verðmæti eignarhluta í dótturfélögum sínum eftir hlutdeildaraðferð samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga og gera samstæðureikning eftir ákvæðum VII. kafla sömu laga. Hæstiréttur taldi að A ehf. hefði verið heimilt samkvæmt 1. mgr.  68. gr. laga nr. 3/2006, eins og atvikum var háttað, að víkja frá meginreglu 1. mgr. 67. gr. sömu laga um skyldu móðurfélags til að gera samstæðureikning fyrir öll dótturfélög sín, svo og að ef skylda hefði á annað borð verið til að gera slíkan samstæðureikning yrði að líta svo á að fullnægt hefði verið skilyrðum 4. tölul. 1. mgr. 70. gr. laganna til að halda tilgreindum dótturfélögum A ehf., þ. á m. AP AB utan reikningsins. Af því leiddi samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 40. gr. laga nr. 3/2006 að A ehf. hefði verið óskylt að tilgreina verðmæti eignarhluta síns í AP AB með hlutdeildaraðferð. Var A ehf. talinn hafa mátt láta við það sitja að kjörinn yrði á aðalfundi skoðunarmaður eftir þágildandi ákvæðum IX. kafla laga nr. 3/2006 sem ekki var skylt að endurskoða í eiginlegum skilningi ársreikninga A ehf. Loks vísaði Hæstiréttur til þess að héraðsdómur, sem skipaður hefði verið tveimur sérfróðum meðdómendum, hefði tekið afstöðu til málsástæðna M um önnur atrið sem hann taldi valda því að ársreikningum A ehf. fyrir 2009 og 2010 hefði verið áfátt. Taldi rétturinn að M hefði ekki hnekkt niðurstöðu héraðsdóms að þessu leyti. Var því staðfest niðurstöðu héraðsdóm um að sýkna A ehf. af varakröfu M.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. desember 2014 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst þess aðallega að ógiltir verði aðalfundir stefnda 14. október 2011 fyrir starfsárin 2009 og 2010, en til vara að ógiltar verði ákvarðanir á þeim fundum um samþykki ársreikninga stefnda fyrir sömu ár. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst þess aðallega að aðalkröfu áfrýjanda verði vísað frá héraðsdómi og hann sýknaður af varakröfu áfrýjanda, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá krefst stefndi málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Samkvæmt gögnum málsins var stefndi stofnaður í mars 2009 og bar þá heitið Dalasúla ehf. Með samningi 31. sama mánaðar framseldi stofnandi félagsins alla hluti í því til áfrýjanda og þriggja annarra, Vilhelms Róberts Wessman, Magnúsar Jaroslav Magnússonar og Árna Harðarsonar. Átti Vilhelm að eignast 94% hlutanna en hver hinna þriggja 2%. Viðauki dagsettur sama dag var gerður við þennan samning, en samkvæmt honum skyldi Árni eignast þann hlut í félaginu, sem Vilhelm hafði verið ætlaður, þannig að hlutur þess fyrrnefnda yrði 96%. Fyrirtækjaskrá var tilkynnt 1. apríl 2009 um breytt heiti stefnda og nýja stjórn hans, en Vilhelm var þar formaður og áfrýjandi meðstjórnandi ásamt Árna, sem var ráðinn framkvæmdastjóri. Þeirri skipan var breytt 2. mars 2010 þegar áfrýjandi vék úr stjórninni og Magnús var kjörinn í hans stað, en um það var fyrirtækjaskrá tilkynnt 5. sama mánaðar. Í málatilbúnaði áfrýjanda er staðhæft að á árinu 2011 hafi honum fyrst orðið kunnugt um viðaukann við samninginn frá 31. mars 2009 og það eignarhald yfir hlutum í stefnda, sem þar hafi verið kveðið á um. Við þessu hafi hann brugðist með því að tilkynna 16. september 2011 að hann nýtti sér forkaupsrétt samkvæmt samþykktum stefnda að þeim 94% hlut í félaginu, sem viðaukinn átti að færa úr höndum Vilhelms til Árna. Samkvæmt fundarboði 26. september 2011 voru 14. október sama ár haldnir aðalfundir stefnda fyrir starfsárin 2009 og 2010, þar sem meðal annars voru fluttar skýrslur stjórnar félagsins um starfsemi þess þau ár og lagðir fram til samþykktar ársreikningar. Í fundargerðum var greint frá deilu sem reis á fundunum um hlutaskrá í stefnda og atkvæðisrétt á grundvelli hennar. Hafnað var kröfu áfrýjanda um að hann færi á fundunum með atkvæði sem eigandi 96% hluta í stefnda, en þess í stað ákveðið að Árni færi með það hlutfall atkvæða og áfrýjandi og Magnús hvor með atkvæði sem eigendur 2% hlutar. Fyrir fundina hafði áfrýjandi komið á framfæri margvíslegum athugasemdum við ársreikninga stefnda fyrir 2009 og 2010 ásamt skýrslum félagsstjórnar, sem fylgdu reikningunum, og voru þessar athugasemdir áréttaðar á fundunum, en reikningarnir voru samþykktir þar með atkvæðum Árna og Magnúsar gegn atkvæði áfrýjanda. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júlí 2014.                 Mál þetta höfðaði Matthías H. Johannessen, kt. [...], Bollagörðum 49, Seltjarnarnesi, með stefnu birtri 13. desember 2011, á hendur Aztiq Pharma Partners ehf., kt. [...], Smáratorgi 3, 200 Kópavogi.  Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 10. júní sl.                  Stefnandi krefst þess aðallega að aðalfundir hins stefnda félags fyrir starfsárin 2009 og 2010, sem haldnir voru 14. okt. 2011, verði dæmdir ógildir.  Til vara að samþykkt reikninga félagsins fyrir árin 2009 og 2010 á aðalfundunum 14. okt. 2011 verði dæmd ógild. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu.                  Stefndi krefst sýknu bæði af aðal- og varakröfu stefnanda.  Þá krefst hann málskostnaðar að mati dómsins.                  Einkahlutafélagið Dalasúla var stofnað í mars 2009 og var Lögvit ehf. eini hluthafinn.  Með samningi dags. 31. sama mánaðar keyptu Vilhelm Róbert Wessman, Árni Harðarson, Magnús Jaroslav Magnússon og stefnandi allt hlutafé í félaginu.  Samkvæmt framsalssamningnum átti Vilhelm Róbert Wessman 94% hlutafjárins, en Árni Harðarson, Magnús Jaroslav Magnússon og stefnandi áttu 2% hver.                  Í framsalssamningnum kom í 3. gr. fram að afhending hlutanna teldist fara fram við undirritun samnings þessa. Þar sagði jafnframt að öll réttindi skyldu fylgja hlutunum frá afhendingunni.  Í lok samningsins sagði að stefnandi, Vilhelm Róbert, Árni og Magnús væru löglegir eigendur að öllum eignarhlutum í stefnda Aztiq og væru bærir til að fara með öll réttindi og skyldur í tengslum við hina framseldu eignar­hluti.  Meðal ákvæða í samþykktum félagsins var ákvæði um forkaupsrétt að hlutum.  Fyrst átti félagið forkaupsrétt, en síðan aðrir hluthafar í hlutfalli við hlutafjáreign.                  Þeir Vilhelm Róbert og Árni gerðu með sér samning sem þeir nefndu viðauka við framsalssamning um hlutabréf í einkahlutafélaginu Dalasúlu.  Með þeim samningi var allt hlutafé Vilhelms framselt Árna á nafnverði.                  Stefnandi hélt því fram að hann hefði ekki frétt af þessu framsali frá Vilhelm Róberti til Árna fyrr en löngu síðar.  Reis ágreiningur milli aðila um framsalið, en hann var leystur með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2013, sem var stað­festur í Hæstarétti 28. nóvember sama ár.  Þar var viðurkennt að stefnandi Matthías ætti forkaupsrétt að umræddum hlutum ásamt þeim Árna Harðarsyni og Magnúsi Jaroslav Magnússyni, að stefnda frágengnum.  Upplýst er að stefndi nýtti sér forkaupsrétt að hlutum þessum þann 2. desember 2013.                  Á sama tíma og stefnandi lýsti vilja sínum til að nýta forkaupsrétt að hlutum í félaginu krafðist hann þess að haldnir yrðu aðalfundir vegna áranna 2009 og 2010.  Voru aðalfundirnir haldnir 14. október 2011.                  Á fundunum lagði stjórn félagsins fram hlutaskrá.  Var þar gert ráð fyrir að stefnandi ætti 2% hlut í félaginu, en Árni Harðarson 96%.  Er bókað að ágreiningur sé um hlutaskrána, en stefnandi telji sig eiga 96% hlutafjár.  Fundarstjóri ákvað að atkvæði á fundinum færu eftir framlagðri hlutaskrá stjórnar félagsins.                  Þá voru lagðir fram ársreikningar fyrir árin 2009 og 2010.  Þeir höfðu ekki verið endurskoðaðir, en voru áritaðir af löggiltum endurskoðanda sem kvaðst hafa aðstoðað við gerð reikninganna.  Þá sagði í áritun endurskoðanda að þeir hefðu skipulagt og hagað vinnu sinni í samræmi við viðurkenndar aðferðir á Íslandi við gerð óendurskoðaðra ársreikninga með það að markmiði að aðstoða félagið við að leggja fram ársreikning sem væri í samræmi við lög og góða reikningsskilavenju á Íslandi.                  Lúðvík Þráinsson endurskoðandi, sem áritaði reikningana, gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins.  Hann kvaðst hafa áritað ársreikningana sem skoðunarmaður, en reikningarnir hefðu ekki verið endurskoðaðir.  Hann sagði að það hefði verið ákvörðun stjórnar félagsins að færa ekki hlutinn í Aztiq Pharma Partners AB eftir hlutdeildaraðferð, enda hefði hluturinn verið seldur árið eftir.  Þá hefði stjórnin ákveðið að færa ekki niður verðmæti krafna á hendur Salt Investments.  Þá hefði sala á Aztiq Partners AB ekki komið fram í yfirliti um sjóðstreymi þar sem engir peningar hefðu verið greiddir til félagsins vegna sölunnar á árinu.                  Í fundargerð aðalfundar fyrir árið 2009 er greint frá athugasemdum sem umboðsmaður stefnanda á fundinum gerði, en hann hafði einnig sent skriflegar athugasemdir fyrir fundinn.  Þá eru bókuð ítarlega svör stjórnarformanns við athuga­semdum þessum.  Þetta kemur einnig fram í fundargerð aðalfundar fyrir árið 2010.  Á báðum fundunum voru reikningarnir samþykktir með 98% atkvæða, en 2% atkvæða voru á móti.  Þótt þess sé ekki getið má gera ráð fyrir að allir aðrir en stefnandi hafi samþykkt reikningana, en að stefnandi hafi greitt atkvæði á móti.                  Þá gerði stefnandi athugasemdir við skýrslu stjórnar á báðum fundunum.                  Málsástæður og lagarök stefnanda                 Stefnandi kveðst byggja aðalkröfu sína á því að hlutaskrá félagsins sem lögð hafi verið til grundvallar á fundunum hafi verið röng.  Af því leiði að framkvæmd fundarins hafi verið ólögmæt og að allar samþykktir fundanna teljist ógildar.                  Stefnandi rekur í stefnu í nokkrum liðum að Árni Harðarson hefði keypt hluti af Vilhelm Wessman og að við þessi kaup hafi forkaupsréttur félagsins og síðan annarra hluthafa orðið virkur.  Eins og áður segir hefur nú verið staðfest með dómi að forkaupsréttur hafi orðið virkur og félagið hefur nú nýtt sér þann rétt.  Stefnandi byggir á því að dómurinn staðfesti að hlutaskráin sem lá til grundvallar aðalfundunum 14. okt. 2011 hafi verið röng.  Af því leiði að aðalfundirnir teljist ógildir og beri því að taka aðalkröfu stefnanda til greina og ógilda fundina í heild sinni.                  Þá byggir stefnandi aðalkröfu sína á því að ársreikningar þeir sem voru lagðir fyrir aðalfundina fyrir rekstrarárin 2009 og 2010, hafi veitt ófullnægjandi mynd af starfsemi félagsins og ekki uppfyllt lögbundnar kröfur um reikningsskil félagsins.  Rekur hann helstu atriðin nánar.                  Stefnandi segir að skýrsla stjórnar hafi ekki fullnægt þeim kröfum sem gerðar séu í 1. og 5. mgr. 65. gr. laga um ársreikninga.  Ekki hafi verið þar að finna upplýsingar um aðalstarfsemi félagsins, mikilvæg atriði til að byggja mat á stöðu félagsins og afkomu, þróun í starfsemi félagsins, markverða atburði eftir að reiknings­ári lauk eða upplýsingar um samstæðu félagsins í heild.  Þá hafi fyrirmæli 40. gr. sömu laga um að eignarhlutir í dótturfélögum skyldu færðir samkvæmt hlutdeildar­aðferð verið virt að vettugi.  Þá hafi ekki verið saminn samstæðureikningur, sbr. 67. gr. sömu laga.  Meðferð skammtímakrafna hafi ekki verið í samræmi við áskilnað 35. gr., sbr. 3. mgr. og 1. málsl. 4. mgr. 30. gr.  Loks hafi ekki verið veittar upplýsingar um viðskipti við tengda aðila, en þau virðist hafa verið umfangsmikil, sbr. 53. og 63. gr.                  Þá gerir stefnandi tvær athugasemdir við áritun endurskoðanda á reikningana og vísar hann til 102. og 104. gr. laga um ársreikninga.  Segir hann að endur­skoðandinn hafi ekki sannreynt grundvöll ársreikninganna eða endurskoðað hann.  Þá hafi hann „aðstoðað við gerð“ reikninganna, en það brjóti í bága við 19. gr. laga nr. 79/2008 og kafla 390 í siðareglum endurskoðenda.                  Stefnandi segir að þessir annmarkar á ársreikningunum leiði til þess að fundirnir teljist ógildir í heild, en reikningarnir hafi verið helsta fundarefnið.                  Varakröfu sína byggir stefnandi á sömu málsástæðum og aðalkröfuna.  Er hún miðuð við að fundirnir teljist ekki ógildir í heild, heldur einungis samþykkt reikninganna.                  Stefnandi vísar til laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, laga nr. 2/2006 um ársreikninga og laga nr. 79/1008 um endurskoðendur.  Þá vísar hann til meginreglna samninga- og kröfuréttar.  Loks vitnar hann í siðareglur endurskoðenda og góða reikningsskilavenju.                  Í lok stefnu er gerð athugasemd um ráðstafanir sem sagt er að stjórn stefnda hafi gripið til og boðað að annað mál verði höfðað af því tilefni.                  Málsástæður og lagarök stefnda                 Í greinargerð stefnda eru höfð uppi andmæli við þeim staðhæfingum stefnanda að Vilhelm Wessman hafi framselt Árna Harðarsyni hlut sinn í félaginu og að forkaupsréttur hafi því orðið virkur.  Þá er einnig byggt á tómlæti stefnanda í því sambandi.  Úr þessum ágreiningi hefur þegar verið leyst.                  Stefndi segir að stefnandi hafi ekki átt nema 2% hlut þegar aðalfundirnir voru haldnir.  Engu skipti þótt hann hafi lagt tiltekna fjárhæð inn á vörslureikning hjá lög­manni sínum og telji sig eiga rétt til að nýta forkaupsrétt.  Stefnandi hafi ekki átt lög­bundinn rétt til hlutanna þegar fundirnir voru haldnir.  Hlutahafaskráin sem byggt hafi verið á hafi verið rétt.  Því sé ekkert tilefni til að ógilda fundina eða ákvarðanir hans.                  Stefnandi hafi einungis átt forkaupsrétt ásamt öðrum, að félaginu frágengnu.  Hann hefði því ekki haft meirihluta atkvæða á fundinum.  Aðrir hluthafar hefðu haft nægt vægi atkvæða til að greiða atkvæði með öllum þeim tillögum sem lagðar hafi verið fram til samþykktar.  Bæði Árni Harðarson og Magnús Jaroslav Magnússon hafi mætt á fundinn og greitt atkvæði með tillögum þeim sem lagðar hafi verið fram.  Því skipti í raun engu máli þótt skilyrði hafi verið til nýtingar forkaupsréttar.                  Þá telur stefndi að niðurstaða héraðsdóms og Hæstaréttar um forkaupsrétt að hlutum í félaginu staðfesti ekki að hlutaskráin sem lá frammi á fundinum hafi verið röng.  Niðurstaða um forkaupsréttinn og beitingu hans hafi ekki verið komin.                  Stefndi mótmæli því að ársreikningarnir hafi gefið ófullnægjandi mynd af starfsemi félagsins, en staðhæfingar stefnanda um það efni séu ósannaðar.  Þá mótmælir hann því að skýrsla stjórnar hafi verið ófullnægjandi og ekki fullnægt kröfum laga nr. 3/2006.  Þá telur hann sig hafa fylgt fyrirmælum 40. og 67. gr. laga um ársreikninga.  Hluta í Aztiq Partners AB hafi eingöngu verið aflað til að endurselja þá.  Sú hafi og orðið raunin, þeir hafi verið seldir á árinu 2010.                  Stefndi mótmælir fullyrðingum í stefnu um tilgreiningu skammtímakrafna í reikningunum.  Það sé háð mati hvort færa skuli kröfur niður vegna hættu á að þær muni ekki fást greiddar eða af öðrum ástæðum.  Þá vanti ekki upplýsingar um við­skipti við tengda aðila og þá sé sú staðhæfing ekki rökstudd að sjóðsstreymi og eign í öðrum félögum í ársreikningi 2010 sé ranglega tilgreint.                  Stefndi byggir á því að ekki hafi verið skylt að endurskoða reikningana, þar sem ekki sé fullnægt skilyrðum 1. mgr. 98. gr. laga um ársreikninga.  Ekki hafi verið skylt að kjósa endurskoðanda fyrir félagið.  Áritun skoðunarmanns, sem reyndar sé löggiltur endurskoðandi, hafi verið í samræmi við venjur hjá minni fyrirtækjum.  Hann hafi því ekki brotið gegn hlutleysisskyldu endurskoðenda eða siðareglum.  Slíkt myndi heldur ekki leiða til ógildingar aðalfundanna.                  Stefndi bendir á að athugasemdum stefnanda hafi verið svarað á aðalfundunum og reikningarnir því næst verið samþykktir af hluthöfum.  Því sé ekki tilefni til að ógilda aðalfundi félagsins.  Þá telur stefndi að þótt einhverjir annmarkar kynnu að hafa verið á ársreikningunum sé ósannað að þeir hafi ekki veitt nægilega skýra mynd af starfsemi félagsins.  Jafnvel þótt svo hefði verið varði það ekki ógildingu aðalfunda.  Ekki komi fram í lögum að annmarkar á ársreikningum valdi ógildi þeirra eða aðal­funda þar sem þeir hafi verið samþykktir.                  Stefndi vísar til framangreindra málsástæðna til stuðnings kröfu um sýknu af varakröfu stefnanda.                  Stefndi kveðst byggja kröfur sínar og málsástæður m.a. á lögum nr. 138/1994 um einkahlutafélög, almennum reglum samninga og kröfuréttar, þar á meðal reglum um tómlæti.  Þá vísar hann til laga nr. 3/2006 og nr. 79/2008 um endurskoðendur.                  Niðurstaða                 Í áðurgreindum dómi um forkaupsrétt að hlutum í hinu stefnda einka­hlutafélagi er komist að þeirri niðurstöðu að forkaupsréttur félagsins sjálfs hefði orðið virkur við sölu hluta frá Vilhelm Wessman til Árna Harðarsonar.  Þessi forkaupsréttur var staðfestur með dóminum sem var staðfestur í Hæstarétti í nóvember 2013.  Nokkrum dögum síðar nýtti félagið forkaupsréttinn, þannig að félagið sjálft eignaðist 94% hlutafjár.                  Þegar umræddir aðalfundir voru haldnir höfðu farið fram þau viðskipti sem gerðu forkaupsréttinn virkan.  Honum hafði ekki verið beitt og því höfðu ekki orðið eigendaskipti að hlutum þannig að félagið eignaðist sjálft hlutina sem Árni Harðarson hafði keypt.  Þannig var Árni Harðarson eigandi þessara hluta og því rétt að skrá hann í hlutaskrá félagsins sem eiganda 96% hlutafjár eins og gert var.  Á fundinum var því miðað við rétta hlutaskrá og verður því hafnað kröfu stefnanda um ógildingu fundarins sem hann byggir á því að skráin hafi verið röng.                  Stefnandi telur að endurskoða hafi átt ársreikninga stefnanda, ekki hafi dugað að endurskoðandi áritaði þá sem skoðunarmaður eins og gert var.  Samkvæmt 96. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga, eins og hún hljóðaði þegar umræddir aðalfundir voru haldnir, skyldi kjósa endurskoðendur, endurskoðunarfyrirtæki eða skoðunarmenn.  Skylt var að kjósa endurskoðanda samkvæmt 98. gr. þegar félagið náði tiltekinni stærð.  Óumdeilt er að stefndi náði ekki þessari stærð.  Ekki er hægt að skýra ákvæði laganna svo að skoðunarmönnum hafi verið skylt að endurskoða reikninga.  Lögin gera skýran mun á minni félögum og stærri í þessu sambandi og þótt í 102. gr. laganna hafi verið notað orðið endurskoðun um verkefni skoðunarmanna, telur dómurinn með hliðsjón af öðrum ákvæðum kaflans, svo og lögum nr. 79/2008 um löggilta endur­skoðendur, að skoðunarmanni hafi ekki verið skylt að endurskoða í eiginlegum skilningi ársreikning í félagi þar sem annars var ekki skylt að kjósa endurskoðanda.  Þá breytist skylda skoðunarmanns ekki þótt sá sem kosinn er sé löggiltur endur­skoðandi.  Áritun skoðunarmanns á ársreikninga stefnda þessi ár var því fullnægjandi.                  Dómurinn telur að í ársreikningum stefnda komi fram nauðsynlegar upplýsingar til að unnt sé að greina rekstur og efnahag félagsins og því séu athuga­semdir stefnanda um skýrslu stjórnar ekki á rökum reistar.  Fallast verður þó á að veita hefði átt frekari upplýsingar um lánveitingar félagsins en felast í sundurliðunum undir liðnum aðrar skammtímakröfur.                  Stefndi telur að sér hafi ekki verið skylt að beita svokallaðri hlutdeildaraðferð er eignarhluti í Aztiq Partners AB var tilgreindur.  Má fallast á að honum hafi ekki verið skylt að færa eignarhlutann með öðrum hætti en hann gerði.  Þó hefði verið rétt að skýra þessa ákvörðun í skýringum.  Þá má fallast á að heimilt hafi verið að sleppa gerð samstæðureikningsskila samkvæmt 70. gr. laga nr. 3/2006, en á sama hátt og með eignarhlutann í Aztiq Partners hefði verið rétt að skýra þessa ákvörðun.  Í þessu sambandi verður að líta til þess að fjárbindingin í viðkomandi dótturfélagi var ekki mikilvæg þar sem hún nam aðeins einni og hálfri milljón króna, eða sem svarar 3,7% af heildareignum í árslok 2009.                  Stefnandi telur að skammtímakröfur hefði átt að færa niður.  Þessar kröfur eru tvenns konar, annars vegar viðskiptakröfur og hins vegar aðrar skammtímakröfur.  Í árslok 2009 voru engar viðskiptakröfur, þ.e. kröfur vegna sölutekna fyrirtækisins, en þær námu rúmlega 6 milljónum króna í árslok 2010, sem svarar til um 70% af meðal­veltu hvers mánaðar á árinu.  Þessar upplýsingar einar og sér gefa ekki vísbendingu um að þörf hafi verið á sérstakri niðurfærslu.  Í sundurliðun með ársreikningum 2009 og 2010 eru veittar upplýsingar um aðrar skammtímakröfur (kröfur sem ekki stafa af söluviðskiptum félagsins) og hækkuðu þær talsvert á milli áranna eða um 63 milljónir króna.  Eru kröfurnar aðallega á hendur félögunum Salt Investment og Salt Development.  Ekki verður annað ráðið af reikningsskilunum en að hér sé um lán­veitingar að ræða sem ekki bera vexti, eða a.m.k. lága vexti.  Þá ákvörðun að færa kröfurnar ekki niður verður að skilja svo að forstjóri og stjórn félagsins, sem báru ábyrgð á reikningsskilunum, hafi talið óþarft að færa þessar kröfur niður í verði.  Skoðunarmanni bar ekki skylda til að leggja í sjálfstæða rannsókn á horfum um inn­heimtu þessara krafna.  Engar upplýsingar er að finna í reikningsskilunum um að ekki hafi verið unnt að innheimta þessar kröfur.  Að þessu virtu þykir ekki vera hægt að halda því fram að reikningsskilin séu röng að þessu leyti eða í ósamræmi við lög, þ.e. að aðrar kröfur hefði borið að færa niður í verði.  Rétt hefði þó verið að upplýsa tilefni lánveitinga félagsins í reikningsskilunum.  Þá hefur ekki verið sýnt fram á að lánað hafi verið til tengdra aðila.                  Að síðustu gerir stefnandi athugasemd um upplýsingar um sjóðstreymi félagsins.  Hún beindist að því að ekki hafi komið fram innstreymi fjár við sölu á félaginu Aztiq Partners AB í ársreikningi 2010.  Skoðunarmaður félagsins bar fyrir dómi að söluandvirðið hefði ekki verið innheimt í árslok 2010.  Er sú skýring fullnægjandi, en rétt hefði verið að segja frá viðskiptunum í sjóðstreymisyfirlitinu sem fjárfestingarhreyfingu sem ekki hefði sjóðstreymisáhrif.  Þá þykir mega finna þann galla á gerð sjóðstreymisins að lánveitingar sem getið er að framan, eru flokkaðar sem rekstrartengdar.  Því er handbært fé frá rekstri rangfært og til mótvægis eru fjár­festingarhreyfingar ranglega tilgreindar í sjóðstreymi beggja áranna sem hér er um fjallað.  Þessi athugasemd þykir þó ekki skipta sköpum og rangfærslan ekki til þess fallin að gefa villandi mat á rekstri og efnahag félagsins.                  Þessir ágallar á reikningsskilum félagsins eru ekki umtalsverðir og engin forsenda er til þess að ógilda aðalfundina vegna þeirra.  Þá duga þeir heldur ekki til þess að ógilt verði samþykkt reikninganna á aðalfundum fyrir árin 2009 og 2010.  Umfram það sem að framan er rakið hefur heldur ekki verið sýnt fram á að umtalsverðar frásagnir hafi vantað í skýrslu stjórnar.                  Stefndi verður sýknaður af kröfum stefnanda.  Stefnanda verður gert að greiða stefnda málskostnað, sem er hæfilega ákveðinn 600.000 krónur.  Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.                  Dóm þennan kveða upp Jón Finnbjörnsson héraðsdómari og Guðmundur Óskarsson og Stefán Svavarsson, löggiltir endurskoðendur.  D ó m s o r ð                 Stefndi, Aztiq Pharma Partners ehf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Matthíasar H. Johannessen. 
Mál nr. 335/2015
Kærumál Vitni Aðför
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu H ehf. um að leiða tiltekið vitni fyrir héraðsdóm við aðalmeðferð í máli F ehf. gegn H ehf. Var ekki talið að H ehf. hefði fært rök fyrir því að í málinu stæði svo sérstaklega á að efni væru til að víkja frá meginreglu 1. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 um aðför um að vitnaleiðslur skyldu að jafnaði ekki fara fram í málum sem rekin væru á grundvelli 13. kafla laganna.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. apríl 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. apríl 2015, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fá að leiða Ólöfu Rún Tryggvadóttur sem vitni við aðalmeðferð málsins. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa verði tekin til greina. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 skulu mats- og skoðunargerðir og vitnaleiðslur að jafnaði ekki fara fram þegar mál er rekið eftir 13. kafla laganna. Í athugasemdum með frumvarpi því, er varð að nefndum lögum, kemur fram að regla þessi eigi sér stoð í því viðhorfi að ætlast er til að aðfararhæfar kröfur séu það skýrar að þær þarfnist ekki stuðnings af sönnunargögnum sem þessum. Ef brestur er á því beri að jafnaði að hafna aðför, sbr. 3. mgr. 83. laganna. Eftir venju beri að skýra heimild til að víkja frá banni við sönnunarfærslu af þessu tagi þröngt. Sóknaraðili hefur ekki fært rök fyrir því að í máli þessu standi svo sérstaklega á að efni séu til að víkja frá áðurnefndri meginreglu 1. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, Heimahúsið ehf., greiði varnaraðila, Fasteignafélaginu Einari Farestveit ehf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Mál nr. 350/2015
Kærumál Farbann
Fallist var á kröfu L um að X yrði bönnuð brottför af landinu um nánar tilgreindan tíma enda væri fullnægt skilyrðum 1. mgr. 100. gr., sbr. b. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. maí 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. maí 2015 þar sem varnaraðila var gert að sæta farbanni allt til miðvikudagsins 10. júní 2015 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.   Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 348/2015
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. og d. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stæði.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. maí 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 29. maí 2015 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Til vara krefst hann þess að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími, en að því frágengnu að honum verði ekki gert að sæta einangrun. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Í skýrslutöku fyrir héraðsdómi vegna kröfu um gæsluvarðhald yfir varnaraðila var haft eftir honum að hann hafi sagt lögreglu að hann „myndi vilja rústa lífi“ brotaþola. Þetta hafi verið í reiði sagt og myndi varnaraðili „ekki gera meira til þess.“ Að virtum gögnum málsins er fallist á með héraðsdómi að þrátt fyrir fyrrgreindan dómsframburð varnaraðila verði að telja gæsluvarðhald nauðsynlegt til að verja brotaþola fyrir árásum hans, sbr. d. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.  
Mál nr. 697/2014
Niðurfelling máls Málskostnaður
Eftir kröfu I ehf. var mál þess á hendur H ehf. fellt niður fyrir Hæstarétti. Var I ehf. dæmt til greiðslu málskostnaðar fyrir réttinum að kröfu H ehf. 
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. október 2014. Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 13. janúar 2015. Með bréfi 20. apríl 2015 tilkynnti aðaláfrýjandi að hann felldi málið niður af sinni hálfu en hann gerir allt að einu kröfu um málskostnað. Með bréfi 28. sama mánaðar tilkynnti gagnáfrýjandi að hann félli frá gagnáfrýjun héraðsdóms en krafðist þess að dómur gengi um málskostnað úr hendi aðaláfrýjanda. Með vísan til c. liðar 1. mgr. 105. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður málið fellt niður fyrir Hæstarétti. Samkvæmt 2. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.  Mál þetta er fellt niður. Aðaláfrýjandi, Iceland Excursions Allrahanda ehf., greiði gagnáfrýjanda, Hugsmiðjunni ehf., 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. ágúst 2014. Mál þetta, sem dómtekið var 1. júlí 2014, var höfðað með stefnu sem þingfest var þann 1. október 2013 af Hugsmiðjunni ehf., Snorrabraut 56, 105 Reykjavík, á hendur Iceland Excursions Allrahanda ehf., Klettagörðum 4, 104 Reykjavík. Með gagnstefnu sem þingfest var 5. nóvember 2013 höfðaði aðalstefndi gagnsakarmál gegn aðalstefnanda. I. Aðalstefnandi gerir þær dómkröfur að aðalstefndi verði dæmdur til að greiða aðalstefnanda 13.270.778 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga vaxtalaga nr. 38/2001 af 39.533 kr. frá 1.1.2013 til 1.3.2013, af 79.067 kr. frá 1.3.2013 til 30.4.2013, af 4.460.893 kr. frá 30.4.2013 til 1.5.2013, af 4.504.191 kr. frá 1.5.2013 til 1.6.2013, af 4.552.509 kr. frá 1.6.2013 til 1.7.2013, af 4.600.832 kr. frá 1.7.2013 til 28.8.2013, af 13.270.778 kr. frá 28.8.2013 til greiðsludags.          Þá krefst aðalstefnandi þess að aðalstefndi verði dæmdur til að greiða aðalstefnanda málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, sem lagður verði fram undir rekstri málsins.         Aðalstefndi krefst sýknu af öllum kröfum aðalstefnanda. Þá krefst aðalstefndi þess að aðalstefnandi verði dæmdur til að greiða aðalstefnda málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.          Í gagnsök gerir gagnstefnandi þá kröfu að gagnstefndi verði dæmdur til að endurgreiða gagnstefnanda innborganir samkvæmt samningi, 16.669.667 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001 frá 29. nóvember 2013 til greiðsludags.          Þá krefst gagnstefnandi þess að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda gagnstefnda vegna tjóns sem gagnstefnandi hefur beðið vegna vanefnda gagnstefnda á verksamningi aðila, dags. 7. og 8. mars 2012.         Þá krefst gagnstefnandi þess að gagnstefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins og að gagnsök verði sameinuð aðalsök.         Gagnstefndi gerir eftirtaldar dómkröfur í gagnsök: II. Málsatvik         Í samningnum var kostnaðaráætlun, þar sem taldir voru upp helstu vinnuliðir í tengslum við verkið. Sá fyrirvari var gerður af hálfu aðalstefnanda að stóri óvissuþátturinn í verkinu væri vefþjónustusamskipti við bókunarvél aðalstefnda. Þau væru þess eðlis að erfitt væri fyrir aðalstefnanda að áætla nákvæmlega vinnu við þau þar sem ekki væru til svokallaðar WSDL-lýsingar á vefþjónustunni og því væri eina leiðin fyrir aðalstefnanda sú að byrja að forrita á móti þeim til að prófa þær. Það gæti orðið til þess að kostnaðurinn við þann lið gæti orðið hærri eða lægri en gert væri ráð fyrir í samningnum.         Samkvæmt kostnaðaráætlun skyldi vinna við vefsíðugerðina taka 383 klukkustundir á tímagjaldinu 14.200 krónur og 10 klukkustundir á tímagjaldinu 12.200 krónur, samtals 5.560.600 krónur, án vsk. Að auki var samið um að veittur skyldi yrði 14% afsláttur þannig að til greiðslu kæmu 4.782.116 krónur, án vsk. eða 6.001.556 krónur auk 30.014 króna á mánuði. Áætlaðar voru 176 klukkustundir af framangreindum 393 klukkustundum í vinnu við vefþjónustusamskipti við bókunarvél aðalstefnda. Greiðslufyrirkomulag samkvæmt samningnum var þannig að 30% af tilboði skyldu greiðast við undirskrift samnings, 40% þegar hönnun yrði afhent og 30% við afhendingu veflausnar. Öll aukaverk skyldu rukkuð samkvæmt verðskrá aðalstefnanda. Þá var aðalstefnda gert að greiða fast gjald mánaðarlega vegna kerfisleigu, þjónustusamnings, vefhýsingar, DND-hýsingar, leitarvélar og áskriftargjalds. Ekki var kveðið á um það í samningi aðila hvenær verki skyldi lokið.         Þann 23. maí 2012 hófst vinna við verkið og stóð fyrsta lota verksins yfir til 20. ágúst 2012. Þann dag sendi forsvarsmaður aðalstefnda, Erla Vignisdóttir, forsvarsmanni aðalstefnanda tölvupóst og falaðist eftir upplýsingum um verkstöðu. Forsvarsmaður aðalstefnanda sendir svohljóðandi svar þann 21. ágúst 2012:   Þann 9. september 2013 sendi lögmaður aðalstefnda yfirlýsingu um riftun verksamnings til aðalstefnanda. Mál þetta var síðan þingfest þann 1. október 2013 og gagnstefna var þingfest 5. nóvember 2013. Gagnsök var sameinuð aðalsök þann 27. nóvember 2013.         Þann 27. nóvember 2013 lagði lögmaður aðalstefnda fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns, en hún hljóðaði svo:     „Þess er óskað að matsmaður láti í té skriflegt og rökstutt álit um þau atriði sem tilgreind eru hér á eftir. Er þess óskað að við matið verði höfð hliðsjón af verksamningi aðila, framlögðum dómskjölum og góðum venjum við sambærilega vefsíðugerð. Er þess óskað að matsmaður skoði og meti vefsíðu sem matsþoli útbjó fyrir matsbeiðanda og kanni eftirfarandi atriði með tilliti til þess hvort um galla sé að ræða, orsök þeirra og afleiðingar, leiðir til úrbóta og kostnað við úrbætur. Nánar tiltekið er óskað eftir því að matsmaður skoði eftirfarandi liði og meti: Þess er óskað að matsmaður fjalli einnig um önnur atriði sem hann telur máli skipta í tengslum við framangreind atriði. Þess er óskað að matsmaður meti hver er ástæða fyrir göllum sé og hvað fór úrskeiðis.“  Aðalstefndi  lagði jafnframt fram bókun þar sem fram kom að þann 12. nóvember 2013 hefði helsti samkeppnisaðili, Reykjavík Excursions – Kynnisferðir, opnað nýja heimasíðu sem útbúin hefði verið af aðalstefnanda. Þannig eigi fullyrðingar aðalstefnda, sem fram komi í greinargerð í gagnsök, um að sú vinna sem innt hafi verið af hendi fyrir aðalstefnda geti á engan hátt nýst aðalstefnanda við riftun, ekki við rök að styðjast. Lögmaður aðalstefnanda mótmælti bókuninni sem hann kvað vera nýja málsástæðu og óskaði eftir fresti til að kynna sér framkomin gögn. Aðalstefnandi lagði síðan fram bókun þann 11. desember 2013 þar sem hann mótmælti bókun stefnda frá 12. nóvember 2013 sem skriflegum málflutningi og nýrri málsástæðu. Aðalstefndi lagði jafnframt fram bókun þar sem hann gerði athugasemdir við beiðni aðalstefnda um dómkvaðningu matsmanns. Þann 15. janúar 2014 var dómkvaddur matsmaður, skv. framangreindri matsbeiðni og til að framkvæma hið umbeðna mat, skipaður Ásmundur Bjarnason tölvunarfræðingur, forstöðumaður upplýsingasviðs Sjóvár.  Matsgerð dómkvadds matsmanns, dags. 18. mars 2014, var síðan lögð fram 15. apríl 2014 og voru niðurstöður matsmanns sem hér segir: Skv. gögnum málsins, þá er vinnu við vefsíðuna er ekki lokið, en vinna við vefsíðuna var stöðvuð af hálfu matsþola eftir 25. júní 2013. Það er rétt að byrja á því að skýra út í hvaða stöðu verkefnið var á þeim tímapunkti m.v. sýn matsmanns. Matsmaður lítur svo á að búið hafi verið að afhenda verkkaupa vefinn til efnisinnsetningar og prófunar. Verkinu er hinsvegar ekki lokið, þ.e. ekki var búið að klára endanlega alla virkni vefsins og framkvæma allar prófanir. Á gögnum málsins verður ekki annað séð en að verkefnið hafi verið í eðlilegum farvegi, þ.e. prófanir stóðu yfir og vinna við lagfæringar á athugasemdum úr prófunum. Þá stóð einnig yfir vinna við efnisinnsetningu en í því felst m.a. innsetning á almennu efni, tengja saman ferðir og ítarefni milli vefsíðu og bókunarvélar ásamt nánari skilgreiningum. Skv. verkefnavef matsþola voru á þeim tímapunkti nokkrar útistandandi athugasemdir sem komið höfðu út úr prófunum. Verður ekki annað séð en að þær athugasemdir séu ennþá opnar og í fullu gildi m.v. stöðu verksins og virkni vefsins á þessum tímapunkti. Mat á vefsíðunni fór þannig fram að fyrsta yfirferð fór fram á fundi 10. mars hjá matsþola og í framhaldinu fékk matsmaður aðgang að síðunni til að gera sjálfstæðar athuganir sem framkvæmdar voru 10. – 16. mars.  Ein bókun var kláruð til enda með því að greiða með kreditkorti en þrátt fyrir að vefurinn eigi að keyra á móti bókunarvélinni í prófunarumhverfi, þá virðist öll kortameðhöndlun bókunarvélarinnar vera raunkeyrð, þ.e. pöntunin var raunverulega skuldfærð af viðkomandi kreditkorti. Öll sú virkni/vinnsla gekk hinsvegar athugasemdalaust og pöntunar- og greiðslukvittun skiluðu sér hratt og örugglega. Í ljósi þessa, var ekki látið reyna á frekari prófanir með kreditkortum, heldur stöðvað á greiðslusíðunni (e. Customer information & payment). Vefsíðan lítur ágætlega út, það hefur greinilega verið lögð mikil vinna í hönnun og uppsetningu vefsíðunnar. Boðið er upp á skemmtilegar framsetningar á dagsferðum (Day tours) og pakkaferðum (Tour Packages) ásamt tengingum við Google Maps, umsögnum viðskiptavina, ítarlegri lýsingum á ferðum o.fl. Aðeins vantar þó upp á endanlega virkni vefsins en það er að mestu í samræmi við opnar athugasemdir á verkefnavef matsþola. Það skal tekið fram að matsmanni var ekki  alltaf ljóst hvers kyns var ef virkni reyndist ekki alveg sem skyldi, en þar gat verið um eitt af eftirtöldum atriðum til að dreifa : Beiðni matsbeiðanda: „Hvort matsþola hafi tekist með fullnægjandi hætti að tengja vefsíðuna við bókunarvél matsbeiðanda svo unnt sé að panta ferðir með eðlilegum hætti þ.á.m. með spjaldtölvum og snjallsímum.“ Þessi matsliður er nátengdur matslið 1 og ber að skoða í því samhengi. Á fundi með matsþola þ. 10. mars s.l. kom fram að planið var að klára fyrst þann hluta sem snýr að borð- og fartölvum en eftir væri að slípa viðmótið betur til fyrir spjaldtölvur og snjallsíma; skala myndir og prófa/klára forritsköll en vefsíðan er hönnuð sem  s.k. „snjall vefur“ sem á að aðlaga sig að ólíkum skjástærðum (e. responsive). Niðurstaða: Eins og fram kemur í matslið 1 hér fyrir ofan, þá er verkinu ekki lokið. Almennt gekk þó ágætlega að finna ferðir og panta (greiðsluhluta að mestu sleppt sbr. matslið 1) úr borð- og fartölvu en úr spjaldtölvu og snjallsíma skalast vefsíðan ágætlega en ekki reyndist  hægt að klára pöntunina af fyrrgreindum ástæðum. Beiðni matsbeiðanda: „Hvort unnt sé að rekja hvort matsþoli hafi unnið að lagfæringum í vefsíðunni síðan að forsvarsmenn matsþola lýstu því yfir, á sáttafundi dags. 25. júní 2013, að þeir hygðust ekki vinna frekar í vefsíðunni án frekari greiðslna. Jafnframt hvenær unnið var síðast í vefsíðunni skv. fyrirliggjandi skrám.“ Verkefnavefur matsþola  (BaseCamp) Á verkefnavefnum voru þrjár uppfærslur sem eiga sér stað eftir 25. júní sem mögulega gátu bent til þess að unnið hafi verið í verkefninu eftir 25. júní. Á fundi með matsþola þ. 10. mars upplýsti Guðmundur Þorvaldsson að þessi atriði hefðu verið kláruð löngu áður en gleymst hafi að merkja þau sem „completed“  eða lokuð. Skoðun á tímaskráningum matsþola bendir til að a.m.k. tvö af þessum atriðum hafi verið  unnin í maí 2013. Aðrar uppfærslur á verkefnavefnum ganga að mestu leyti út á að taka hlutaðeigandi aðila úr viðkomandi athugasemd (assignment). Ástæðan er sú að verkefnavefurinn er notaður í fleiri verkefnum þar sem starfsmenn matsþola sjá allar athugasemdir sem skráðar eru á þá. Þegar stefndi í að einhver bið yrði á frekari vinnu í verkefninu fyrir matsbeiðanda, þá grípa menn til þess ráðs að taka athugasemdirnar (ígildi verkbeiðni) af sér til að þeir sjái eingöngu athugasemdir í verkefnum í vinnslu. SVN (vefútgáfustjórnunarkerfi matsþola) Matsþoli notar vefútgáfustjórnunarkerfi sem nefnist SVN til að halda utan um allar hugbúnaðarbreytingar sem eru framkvæmdar. Þar voru tvær færslur skráðar eftir 25. júní 2013. Á fundi með matsþola þ. 10. mars upplýsti Margeir Ingólfsson og Atli Páll að þessar færslur stöfuðu frá almennum uppfærslum á SVN útgáfustjórnunarkerfinu, þvert á öll verkefni. Matsmaður fékk að skoða þessar færslur og það sem á baki þeim lá og var það staðfest í þeirri skoðun að skv. útgáfustjórnunarkerfinu eru síðustu hugbúnaðarbreytingar á vefsíðunni frá 11. júní 2013. Tímaskráningar Sundurliðaðar tímaskráningar eru hluti af dómsskjölum en þar verður ekki séð að skráður hafi verið tími vegna vinnu við vefsíðuna eftir 25. júní 2013. Niðurstaða: Matsmaður getur ekki séð að matsþoli hafi unnið að lagfæringum í vefsíðunni eftir 25. júní 2013. Verkefnið sem hér um ræðir var tvíþætt. Annars vegar fólst það í hönnun, uppsetningu og forritun á vefsíðu fyrir matsbeiðanda. Hins vegar að samþætta bókunarvél matsbeiðanda við vefinn. Kostnaður vegna vefsíðugerðar og samþættingu fellur nánast eingöngu til vegna vinnu. Það er einkum tvennt sem hefur áhrif á hækkun kostnaðar í slíkum verkefnum; aukaverk og ófyrirsjáanleg vinna. Bókunarvél matsbeiðanda er ákveðin þungamiðja í öllu þessu verkefni, en mikil vinna í vefsíðunni fellur til vegna samþættingar við bókunarvélina. Eftirfarandi eru nokkur dæmi úr matsgögnum sem matsmaður telur geta valdið ófyrirsjáanlegri vinnu. Það er ekki annað að sjá en að matsbeiðandi sé vel upplýstur um öll þau vandamál og takmarkanir á  bókunarvélinni sem upp koma í ferlinu en niðurstaðan virðist alltaf vera sú sama; að matsþoli haldi áfram vinnu við við forritun og samþættingu við bókunarvéli matsbeiðanda en bókunarvélin virðist ekki uppfylla „best practices“ varðandi högun og útfærslu. Það er ljóst að vinna vegna samþættingar við bókunarvélina vegur mjög þungt í þessu verkefni. Hér að ofan hafa verið rakin nokkur af þeim atriðum sem  valda því að vinnuþátturinn verður umtalsvert meiri en eðlilegt gæti talist, sem verður að skrifast að miklu leyti á högun og útfærslu bókunarvélarinnar. Það er einnig ljóst að matsþoli tekur að sér talsverða vinnu í verkefninu sem eðlilegra hefði verið að útfæra í bókunarvél matsbeiðanda. Niðurstaða: Matsmaður telur að kostnaður við hugbúnaðarverkefni af þessu tagi geti auðveldlega farið úr böndunum. Varðandi almennar venjur í vefsíðugerð, þá telur matsmaður að matsþoli hafa gert vel í því að halda matsbeiðanda vel upplýstum varðandi um framgang verkefnisins og þeim áskorunum sem matsþoli stóð frammi fyrir í verkefninu. Beiðni matsbeiðanda: „Þess er óskað að matsmaður fjalli einnig um önnur atriði sem hann telur máli skipta í tengslum við framangreind atriði. Þess er óskað að matsmaður meti hver er ástæða fyrir göllum sé og hvað fór úrskeiðis.“ Niðurstaða: Matsmaður vísar til matsliða 1 og  4.“         Í sama þinghaldi og matsgerð lagði aðalstefndi  fram bókun þar sem hann gerði athugasemdir við matsgerðina, matspurningum hefði ekki öllum verið svarað og svör ekki vel rökstudd og matsmann hafi skort þekkingu og kunnáttu til að meta það sem meta hafi átt.          Dómkvaddur matsmaður kom fyrir dóm þann 20. maí 2013 og urðu lögmenn aðila sammála um að matsmanni yrði falið að endurskoða matsgerð sína. Þann 30. maí var síðan lög fram ósk um endurmat á matsgerð. Í ósk um endurmat á matsgerð kemur fram að aðilar hafi komist að samkomulagi um að óska eftir endurmati á 4. lið matsbeiðnar til fyllingar því svari sem nú liggi fyrir og rétt sé að taka fram að orðalag spurningarinnar standi í samhengi við þann inngang sem sé að finna í matsbeiðni matsbeiðanda í 4. lið. Þess var óskað að matsmaður svaraði eftirfarandi spurningum:         Í sama þinghaldi var lagður fram viðauki við matsgerðina, dags. 30. maí 2014. Í inngangi kemur fram að matsmaður vísi til nánari fyllingar fyrirliggjandi matsgerðar til skýrslu sinnar fyrir dóminum. Í kjölfar þeirrar skýrslugjafar hafi matsbeiðandi og matsþoli orðið sammála um að leggja fyrir matsmanninn að umorðaða matspurningu í a hluta 4. matsliðar en b hluti 4. matsliðar skal standa óhaggaður eins og hann sé í upphaflegri matsbeiðni.  4. matsliður hljóðar því svo: „Kostnaður vegna vefsíðugerðarinnar Umfjöllun matsmanns: Verkefnið sem hér um ræðir var tvíþætt. Annars vegar fólst það í hönnun, uppsetningu og forritun á vefsíðu fyrir matsbeiðanda. Hins vegar að samþætta bókunarvél matsbeiðanda við vefinn. Kostnaður vegna vefsíðugerðar og samþættingu fellur nánast eingöngu til vegna vinnu. Það er einkum tvennt sem hefur áhrif á hækkun kostnaðar í slíkum verkefnum; aukaverk og ófyrirsjáanleg vinna. Bókunarvél matsbeiðanda er ákveðin þungamiðja í öllu þessu verkefni, en mikil vinna í vefsíðunni fellur til vegna samþættingar við bókunarvélina. Eftirfarandi eru nokkur dæmi úr matsgögnum sem matsmaður telur að hafi beinlínis valdið ófyrirsjáanlegri vinnu. Það er ekki annað að sjá en að matsbeiðandi sé vel upplýstur um öll þau vandamál og takmarkanir á  bókunarvélinni sem upp koma í ferlinu en niðurstaðan virðist alltaf vera sú sama; að matsþoli haldi áfram vinnu við við forritun og samþættingu við bókunarvéli matsbeiðanda en bókunarvélin virðist ekki uppfylla „best practices“ varðandi högun og útfærslu. Það er ljóst að vinna vegna samþættingar við bókunarvélina vegur mjög þungt í þessu verkefni. Hér að ofan hafa verið rakin nokkur af þeim atriðum sem  valda því að vinnuþátturinn verður umtalsvert meiri en eðlilegt gæti talist, sem verður að skrifast að miklu leyti á högun og útfærslu bókunarvélarinnar. Það er einnig ljóst að matsþoli tekur að sér talsverða vinnu í verkefninu sem eðlilegra hefði verið að útfæra í bókunarvél matsbeiðanda. Þegar kemur að almennum venjum í vefsíðugerð, þá er viðskiptavinurinn í öndvegi og reynt að uppfylla allar óskir hans. Ekki er til neinn almennur verðmiði á vefsíðu en kostnaður vegna vefsíðugerðar (og þar með samþættingu við önnur kerfi sbr. bókunarvélina) fellur nánast eingöngu til vegna vinnu. Óvissuþættir tengdir bókunarvélinni eru margir en óvissunni er  flaggað af matsþola allt frá greiningarfasa, í verksamningi (vísað til þess sem „Stóri óvissuþátturinn“) og svo ítrekað á meðan unnið var í verkefninu. Niðurstaða: Sé tekið tillit til allra ofangreindra atriða, þá telur matsmaður að eðlilegt geti talist að greiða kr. 29.940.445 fyrir alla þá vinnu sem matsþoli hefur unnið í þágu matsbeiðanda og að slíkt samrýmist almennum venjum í vefsíðugerð.“     III.         Aðalstefnandi byggir málatilbúnað sinn fyrst og fremst á meginreglum kröfuréttar og samningaréttar og lögum um lausafjárkaup, nr. 50/2000. Aðalstefnandi og aðalstefndi hafi gert með sér samkomulag um að aðalstefnandi tæki annars vegar að sér að hanna og forrita nýja vefsíðu fyrir aðalstefnda og hins vegar um mánaðarlega vefumsjónarþjónustu.         Í aðalsök byggir aðalstefndi kröfu sína um sýknu á því í fyrsta lagi að verksamningnum hafi verið rift með lögmætum hætti vegna verulegra vanefnda aðalstefnanda og af þeirri ástæðu beri aðalstefnda ekki að inna frekari greiðslur af hendi. Í öðru lagi byggir hann hana á þeim grundvelli að aðalstefndi hafi nú þegar innt af hendi svo verulega hátt gjald að það sé komið langt út fyrir umsamda kostnaðaráætlun á grundvelli verksamnings aðila.         Aðalstefndi byggir kröfu sína um sýknu á því í fyrsta lagi að verksamningnum hafi verið rift og þannig hafi frekari greiðsluskylda fallið niður. Aðalstefndi hafi rift verksamningnum þann 9. september 2013 og krafist þess að greiðslur myndu ganga til baka. Aðalstefndi telur ljóst að skilyrðum riftunar hafi verið fullnægt með vísan til tafa á afhendingu vefsvæðisins og þeirra galla er hafi komið í ljós við vinnu á vefsvæðinu.         Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. lkpl. sé kaupanda heimilt að rifta kaupum þegar greiðsludráttur hafi í för með sér verulegar vanefndir. Líkt og rakið hafi verið í málsatvikum hafi ekki sérstaklega verið samið um hvenær afhending vefsíðunnar átti að fara fram. Hins vegar megi ráða af samskiptum aðila að stefnt hafi verið að því að vefurinn færi í loftið í lok september 2012, sbr. dskj. nr. 30. Af því leiði að væntingar aðalstefnda hafi staðið til þess að vefsíðan yrði tilbúin haustið 2012. Í kostnaðaráætlun verksamningsins hafi verið gert ráð fyrir því að samtals yrðu unnar 393 vinnustundir í verkinu, flestar á tímagjaldinu 14.200 krónur. Aðalstefndi hafi nú þegar greitt 16.669.667 krónur á sama tímagjaldi og hefur aðalstefnandi því unnið samtals um það bil 751 vinnustund meira en gert var ráð fyrir í upphafi.         Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. lkpl. sé unnt að rifta kaupum ef seljandi afhendir ekki söluhlut og efndir dragast fram yfir sanngjarnan viðbótarfrest sem kaupandi setji. Með bréfi, dags. 9. ágúst 2013, skoraði aðalstefndi á aðalstefnanda að inna skyldur sínar samkvæmt verksamningnum af hendi innan eins mánaðar. Aðalstefnandi hafi látið hjá líða að inna skyldur sínar af hendi og eftir stendur að verkinu er ólokið um það bil ári eftir að stefnt var að lokum þess. Af 26. gr. lkpl. leiði að aðalstefndi geti einungis rift kaupum þegar greiðsludráttur hefur raskað tilgangi með kaupunum verulega. Aðalstefndi telur einsýnt að því efnisskilyrði ákvæðisins sé fullnægt enda sé ljóst að tafirnar á afhendingu hafi valdið aðalstefnda verulegu óhagræði og tjóni. Þannig hafi aðalstefndi orðið fyrir miklu tekjutapi á því tímabili sem vefsíðan hefur verið í bígerð enda sé meirihluti pantana aðalstefnda framkvæmdur á vefsíðu fyrirtækisins. Helsta sölutímabil aðalstefnda sé frá vori fram á haust, en tafir aðalstefnanda á að skila af sér vefsíðunni hafi verið það verulegar að aðalstefndi hafi orðið af miklum tekjum á árinu 2013. Samkvæmt framangreindu sé ljóst að tilgangur aðalstefnda með kaupunum hafi raskast svo verulega að það heimilar honum riftun samningsins. Þá sé annað efnisskilyrði 26. gr. lkpl., um að seljandi geti ráðstafað söluhlut án verulegs tjóns, einnig uppfyllt enda fáist aðalstefnandi við heimasíðugerð og ætti því hæglega að geta nýtt unna vinnu við önnur verk, auk þess sem telja verður að skilyrðið horfi öðruvísi við rafrænum hugverkum en söluhlutum í efnislegu formi. Skilyrði riftunar: Gallar á söluhlut         Aðalstefndi byggir sýknukröfu sína öðrum þræði á því að þeir verkþættir sem aðalstefnandi hafi lokið vinnu við séu haldnir svo verulegum göllum að það hafi heimilað aðalstefnda riftun verksamningsins. Þannig fullnægi verkþættirnir ekki þeim kröfum sem leiði af samningi og séu gallaðir í skilningi 17. gr. lkpl. Gallarnir séu að meginstefnu til fólgnir í því að þeir verkþættir sem aðalstefndi hafi fengið að skoða virki ekki með því bókunarkerfi sem aðalstefndi notast við. Þá séu að auki ýmsar tengingar á vefsvæðinu sjálfu sem virki ekki sem skyldi. Af því leiði að verkþættirnir séu aðalstefnda ónothæfir. Samkvæmt 1. mgr. 39. gr. lkpl. geti kaupandi rift kaupum ef meta má galla til verulegra vanefnda. Af 2. mgr. 39. gr. leiði að kaupandi geti rift kaupum eftir að sanngjarn frestur hafi verið veittur til úrbóta. Aðalstefndi hafi staðið í þeirri trú við samningsgerðina að aðalstefnandi væri sérfróður aðili á sviði hönnunar vefsíðna og þannig væri það á forræði aðalstefnanda að koma auga á þá erfiðleika og hindranir sem kynnu að verða við vefsíðugerðina.         Aðalstefndi bendir á að fram hafi farið greiningarvinna af hálfu aðalstefnanda í desember 2011 til þess að honum væri unnt að átta sig á þeim efnisþáttum sem að málinu kæmu. Meðan á vinnu hafi staðið hafi aðalstefnandi kvartað yfir því að eiga í vandræðum með bókunarkerfið „Ticket“ jafnvel þótt honum hefði verið kunnugt um að nefnt bókunarkerfi væri í notkun hjá aðalstefnda þegar hann tók verkið að sér og þrátt fyrir veitta aðstoð hönnunaraðila bókunarkerfisins, Tommy Wiberg. Rétt sé að taka fram að bókunarkerfið sé í notkun hjá fjölmörgum aðilum á samgöngumarkaði á Íslandi og ætti því að vera sérfróðum aðilum í vefsíðugerð vel kunnugt. Þrátt fyrir framangreint hafi aðalstefnandi ekki getað ráðið fram úr framangreindu sem leitt hefur til þess að verkið hefur tafist úr hófi fram ásamt því að tilbúnir verkþættir séu gallaðir og hafi ekki búið yfir þeirri virkni sem ætlast sé til af þeim.         Að framangreindu virtu sé ljóst að skilyrðum riftunar sé fullnægt enda hafi vanefndir aðalstefnanda verið gífurlega íþyngjandi fyrir aðalstefnda. Þannig hafi aðalstefnandi fyrirgert rétti sínum til frekara endurgjalds á grundvelli samningsins þar sem vanefndir aðalstefnanda hafi orsakað að aðalstefndi hafi engra annarra kosta átt völ en að rifta samningnum til þess að takmarka tjón sitt af fremsta megni. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Um nánari umfjöllun um skilyrði riftunar og eðli vanefndanna vísar aðalstefndi til gagnstefnu sem aðalstefndi hyggst höfða á hendur aðalstefnanda.          Í öðru lagi byggir aðalstefndi kröfu sína um sýknu á því að aðalstefndi hafi nú þegar innt af hendi svo verulega hátt gjald að það sé komið langt út fyrir umsamda kostnaðaráætlun á grundvelli verksamnings aðila. Af þeirri ástæðu telur aðalstefndi ósanngjarnt að krefjast frekari greiðslna á grundvelli samningsins og því sé aðalstefndi óskuldbundinn af frekari kröfum aðalstefnanda.         Í málavaxtalýsingu aðalstefnda sé rakið að samkvæmt kostnaðaráætlun skyldi vinna við vefsíðugerðina taka 383 klukkustundir á tímagjaldinu 14.200 krónur og 10 klukkustundir á tímagjaldinu 12.200 krónur, samtals 5.560.600 krónur, án vsk. Að auki hafi verið samið um að veittur skyldi 14% afsláttur þannig að til greiðslu kæmu 4.782.116 krónur, án vsk., eða 6.001.556 krónur, með vsk. Þá hafi verið áætlaðar 176 klukkustundir af framangreindum 393 klukkustundum í vinnu við vefþjónustusamskipti við bókunarvél aðalstefnda.         Meðan á vinnu stóð hafi aðalstefndi gert óformlegar athugasemdir við þann gífurlega kostnað sem hann þurfti að bera en svör aðalstefnanda hafi ávallt verið þau sömu, að einungis væri örlítil vinna eftir af verkinu. Af þeirri ástæðu taldi aðalstefndi sig nauðbeygðan að halda áfram að greiða til þess að ljúka verkinu enda væri mikill kostnaður fólginn í því að slíta viðskiptunum og þurfa að hefja framkvæmdir að nýju hjá öðru fyrirtæki.          Aðalstefndi hafi í góðri trú reitt fram 16.669.667 krónur í von um að fá afhenta nothæfa vefsíðu sem starfsemi aðalstefnda grundvallist á. Þrátt fyrir að hafa greitt ríflega 10.000.000 króna umfram kostnaðaráætlun krefjist aðalstefnandi þess að stefndi greiði til viðbótar 13.270.778 krónur. Slík ráðagerð geti ekki staðist á grundvelli almennra sjónarmiða kauparéttar um að hönd selji hendi og um sanngjarnt kaupverð, sbr. 10. og 45. gr. lkpl. né á grundvelli 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936 (sml.). Meginregla kauparéttar sé sú að hönd selji hendi. Aðalstefnda hafi því verið óskylt að inna af hendi frekari greiðslur en þær sem óskað var eftir nema gegn því að fá endurgjaldið, þ.e. nothæfa vefsíðu, afhent. Líkt og komið hafi fram hafi aðalstefndi innt af hendi margfalt umsamið kaupverð samkvæmt kostnaðaráætlun án þess að fá afhenta nothæfa vefsíðu. Þannig geti aðalstefnda ekki verið skylt að inna af hendi frekari greiðslur án nokkurrar vissu fyrir því að vefsíðan verði afhent samstundis. Þá standist það ekki samkvæmt 45. gr. lkpl. að sanngjarnt kaupverð fyrir vefsíðu sem aðalstefnandi hafi upplýst aðalstefnda um að kostaði u.þ.b. 6.000.000 króna geti nú kostað aðalstefnda 29.940.445 krónur (=16.669.667+13.270.778). Þannig séu kröfur aðalstefnanda svo verulega úr hófi að ekki teljist sanngjarnt að bera þær fyrir sig né teljist það samrýmast góðri viðskiptavenju, sbr. 36. gr. samningalaga.         Þá gerir aðalstefndi alvarlega athugasemd við dómkröfur aðalstefnanda með vísan til þeirrar fjárhæðar sem stefndi sé krafinn um með hliðsjón af áðursendu innheimtubréfi og fyrri samskiptum aðila. Á sáttafundi aðila þann 29. júlí 2013 hafi aðalstefnandi greint aðalstefnda frá meintum skuldum aðalstefnda sem numið hafi án afslátta u.þ.b. 9.000.000 króna. Nokkru síðar, eða þann 5. september 2013, hafi aðalstefnandi sent aðalstefnda innheimtubréf þar sem greint hafi verið frá því að vangoldin fjárhæð væri samtals 9.497.933 krónur. Samkvæmt stefnu krefjist aðalstefnandi nú 13.270.778 króna. Þannig veki það furðu aðalstefnda að meint vangoldin greiðsluskylda félagsins hafi hækkað um sem nemur 3.772.845 krónum á innan við mánuði. Að auki gerir aðalstefndi athugasemd við útgáfudaga þeirra reikninga sem liggi að baki kröfum aðalstefnanda. Þannig séu útgefnir reikningar af hálfu aðalstefnanda í ágúst 2013 samtals 8.669.946 krónur þegar vinna við vefsíðugerðina hafi verið löngu hætt. Þessum málatilbúnaði og kröfugerð sé mótmælt með vísan til meginreglna kauparéttar um sanngjarnt kaupverð og 36. gr. sml.        Að öllu framangreindu virtu telur aðalstefndi einsýnt að hann sé óskuldbundinn af kröfum aðalstefnanda, í fyrsta lagi á þeim grundvelli að hann hafi rift verksamningi aðila og í öðru lagi vegna þess að hann hafi nú þegar innt af hendi svo verulega hátt gjald að það sé komið langt út fyrir umsamda kostnaðaráætlun á grundvelli verksamnings aðilanna.        Til stuðnings kröfum sínum vísar aðalstefndi til almennra reglna kaupa-, kröfu-, samninga- og skaðabótaréttar. Þá vísar hann til laga um lausafjárkaup, nr. 50/2000, laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936 og meginreglna laga um þjónustukaup nr. 42/2000. Málskostnaðarkröfu reisir aðalstefndi á 129. gr. og 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.         Í gagnsök byggir aðalstefndi á því að aðalstefnandi hafi vanefnt verulega verksamning þann sem aðalstefnandi gerði við aðalstefnda og sé skaðabótaskyldur gagnvart aðalstefnda vegna þess tjóns sem aðalstefndi hafi orðið fyrir vegna vanefnda hans. Aðalstefndi byggir kröfur sínar í gagnsök á eftirfarandi málsástæðum.         Aðalstefndi byggir á því í fyrsta lagi að verkið hafi tafist svo verulega að honum hafi verið heimilt að rifta verksamningnum. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. lkpl. sé kaupanda heimilt að rifta kaupum þegar greiðsludráttur hafi í för með sér verulegar vanefndir. Líkt og rakið hafi verið í málsatvikum hafi ekki verið samið sérstaklega um hvenær afhending vefsíðunnar hafi átt að fara fram. Hins vegar má ráða af samskiptum aðila að stefnt hafi verið að því að vefurinn færi í loftið í lok september 2012. Af því leiði að væntingar aðalstefnda hafi staðið til þess að vefsíðan yrði tilbúin haustið 2012. Í kostnaðaráætlun verksamningsins var gert ráð fyrir því að samtals yrðu unnar 393 vinnustundir í verkinu, flestar á tímagjaldinu 14.200 krónur. Aðalstefndi hefur nú þegar greitt 16.669.667 krónur á sama tímagjaldi og hafi aðalstefnandi því unnið samtals um það bil 751 vinnustund meira en gert var ráð fyrir í upphafi. Þá sé rétt að ítreka að verkinu sé ekki lokið og aðalstefnandi hafi tilkynnt sér að hann skuldaði aðalstefnanda 9.497.933 krónur sem eðlilegt sé að álykta að stafi af enn frekari vinnustundum við verkið. Meintar vangoldnar greiðslur hafi síðan hækkað í 13.270.778 krónur samkvæmt stefnu í aðalsök. Þrátt fyrir að ekki hafi verið samið sérstaklega um afhendingu vefsíðunnar verði að leggja til grundvallar eðlilegar væntingar aðalstefnda til þess hvenær verkinu yrði lokið. Aðalstefnda sé ljóst að um kostnaðaráætlun hafi verið að ræða þar sem einungis var áætlaður tímafjöldi við verkið. Hins vegar hafi aðalstefndi hvorki mátt gera ráð fyrir né sjá fyrir að unnar vinnustundir myndu þrefaldast með tilheyrandi töfum á afhendingu vefsíðunnar.         Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. lkpl. sé unnt að rifta kaupum ef seljandi afhendir ekki söluhlut og efndir dragast fram yfir sanngjarnan viðbótarfrest sem kaupandi setur. Með bréfi, dags. 9. ágúst 2013, hafi aðalstefndi skorað á aðastefnanda að inna skyldur sínar samkvæmt verksamningnum af hendi innan eins mánaðar. Aðalstefnandi hafi látið hjá líða að inna skyldur sínar af hendi og eftir standi að verkinu sé ólokið um það bil ári eftir að stefnt hafi verið að lokum þess.         Af 26. gr. lkpl. leiði að aðalstefndi geti einungis rift kaupum hafi greiðsludráttur raskað tilgangi með kaupunum verulega. Aðalstefndi telur einsýnt að því efnisskilyrði ákvæðisins sé fullnægt enda sé ljóst að tafir á afhendingu hafi valdið sér verulegu óhagræði og tjóni. Þannig hafi aðalstefndi orðið fyrir miklu tekjutapi á því tímabili sem vefsíðan hafi verið í bígerð enda sé meirihluti pantana aðalstefnda framkvæmdur á vefsíðu fyrirtækisins. Helsta sölutímabil aðalstefnda sé frá vori fram á haust, en tafir aðalstefnanda á að skila af sér vefsíðunni hafi verið það verulegar að aðalstefndi hafi orðið af miklum tekjum á árinu 2013. Samkvæmt framangreindu sé ljóst að tilgangur aðalstefnda með kaupunum hafi raskast svo verulega að það heimili honum riftun samningsins. Þá sé annað efnisskilyrði 26. gr. lkpl., um að seljandi geti ráðstafað söluhlut án verulegs tjóns, einnig uppfyllt enda fáist aðalstefnandi við heimasíðugerð og ætti því hæglega að geta nýtt unna vinnu við önnur verk, auk þess sem telja verði að skilyrðið horfi öðruvísi við rafrænum hugverkum en söluhlutum í efnislegu formi.         Í öðru lagi byggir aðalstefndi á því að þeir verkþættir sem aðalstefnandi hafi lokið vinnu við séu haldnir svo verulegum göllum að þeir heimili gagnstefnanda riftun verksamningsins. Þannig fullnægi verkþættirnir ekki þeim kröfum sem leiði af samningi og séu gallaðir í skilningi 17. gr. lkpl. Gallarnir séu að meginstefnu til fólgnir í því að þeir verkþættir sem aðalstefndi hafi fengið að skoða virki ekki með því bókunarkerfi sem aðalstefndi notist við. Þá séu að auki ýmsar tengingar á vefsvæðinu sjálfu sem virki ekki sem skyldi. Af því leiði að verkþættirnir séu aðalstefnda ónothæfir. Samkvæmt 1. mgr. 39. gr. lkpl. geti kaupandi rift kaupum ef meta má galla til verulegra vanefnda. Af 2. mgr. 39. gr. leiði að kaupandi geti rift kaupum eftir að sanngjarn frestur hefur verið veittur til úrbóta. Aðalstefndi hafi staðið í þeirri trú við samningsgerðina að aðalstefnandi væri sérfróður aðili á sviði hönnunar vefsíða og þannig væri það á forræði aðalstefnanda að koma auga á þá erfiðleika og hindranir sem kynnu að verða við vefsíðugerðina. Rétt sé að ítreka að fram hafi farið greiningarvinna af hálfu aðalstefnanda í desember 2011 til þess að honum væri unnt að átta sig á þeim efnisþáttum sem að málinu komu. Meðan á vinnu hafi staðið hafi aðalstefnandi kvartað undan því að eiga í vandræðum með bókunarkerfið „Ticket“ jafnvel þótt honum hefði verið kunnugt um að nefnt bókunarkerfi væri í notkun hjá aðalstefnda þegar hann tók verkið að sér og þrátt fyrir veitta aðstoð hönnunaraðila bókunarkerfisins, Tommy Wiberg. Rétt sé að taka fram að bókunarkerfið sé í notkun hjá fjölmörgum aðilum á samgöngumarkaði á Íslandi og ætti því að vera sérfróðum aðilum í vefsíðugerð nokkuð kunnugt. Þrátt fyrir framangreint hafi aðalstefnandi ekki getað ráðið fram úr framangreindu sem leitt hafi til þess að verkið hafi tafist úr hófi fram ásamt því að tilbúnir verkþættir séu gallaðir og hafi ekki búið yfir þeirri virkni sem ætlast sé til af þeim.         Að framangreindu virtu sé ljóst að skilyrðum riftunar sé fullnægt enda hafi vanefndir aðalstefnanda verið gífurlega íþyngjandi fyrir aðalstefnda. Aðalstefndi hafi greitt rúmlega 10.000.000 króna umfram áætlað verð. Ætluð skuld aðalstefnda sé samkvæmt stefnu aðalstefnanda í aðalsök 13.270.778 krónur, þrátt fyrir að verkinu sé ekki lokið og þeir verkþættir, sem að mati aðalstefnanda séu tilbúnir, séu gallaðir í skilningi lkpl. Þá hafi afhending verksins tafist um rúmlega ár frá því að stefnt var að afhendingu vefsíðunnar. Vanefndir aðalstefnanda á aðalskyldum samkvæmt verksamningnum hafi raskað hagsmunum aðalstefnda svo verulega að þær heimili aðalstefnda riftun samningsins. Á þeim grundvelli krefjist aðalstefndi þess að honum verði endurgreiddar allar innborganir sem framkvæmdar hafi verið af hálfu hans, alls 16.669.667 krónur, enda feli staðfesting riftunar í sér að skyldur aðila til þess að efna samninginn falli niður og að staða aðalstefnda verði sú sama og ef enginn samningur hefði verið gerður. Af því leiði að aðalstefnandi verði skuldbundinn til þess að endurgreiða aðalstefnda greiddar innborganir sem raktar hafa verið í málsatvikum. Með sama hætti falli aðalstefndi frá þeirri kröfu sinni að aðalstefnandi efni verksamninginn og afhendi aðalstefnda vefsíðu líkt og samið hafi verið um.         Þá byggir aðalstefndi á því í þriðja lagi að vanefndir aðalstefnanda hafi bakað aðalstefnanda bótaskyldu á grundvelli 27. og 40. gr. lkpl. og gerir því kröfu um að viðurkennd verði skaðabótaskylda aðalstefnanda. Samkvæmt 5. mgr. 27. gr. og 3. mgr. 40. gr. lkpl. geti kaupandi krafist skaðabóta ef greiðsludrátt, galla eða tjón má rekja til mistaka eða vanrækslu af hálfu seljanda. Aðalstefndi krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda aðalstefnanda vegna tapaðs hagnaðar og útlagðs kostnaðar aðalstefnda frá því að verksamningurinn var undirritaður. Aðalstefndi leggur áherslu á að aðalstefnandi gefi sig út fyrir að vera sérfróður aðili við vefsíðugerð hér á landi og beri þar af leiðandi ábyrgð eftir því. Aðalstefnandi hafi framkvæmt greiningarvinnu í desember 2011 og hafi mátt, eftir hana, vera ljóst hve viðamikið verkefnið væri. Aðalstefndi hafi verið í góðri trú um að sú kostnaðar- og tímaáætlun sem lögð hafi verið fram af aðalstefnanda væri áreiðanleg og myndi ekki skeika nema innan eðlilegra marka. Þá hafi aðalstefndi einnig verið í góðri trú um að tilbúnir verkþættir myndu sýna eðlilega virkni og vera aðalstefnda nothæfir. Aðalstefnandi hafi brugðist skyldum sínum með tvenns konar hætti. Annars vegar með verulegum afhendingardrætti og hins vegar með því að afhenda verkþætti haldna verulegum göllum. Slík háttsemi verði ekki skilin öðruvísi en svo að tjóni aðalstefnda sé valdið af starfsmönnum aðalstefnanda og stafi ekki af hindrun sem þeir fengu ekki ráðið við, gátu ekki með sanngirni haft í huga við samningsgerð eða hafi getað komist hjá, eða sigrast á afleiðingum hennar. Verði að telja að starfsmenn aðalstefnanda hafi gert mistök eða sýnt af sér vanrækslu við vinnu við verkið í skilningi framangreindra lagaákvæða.         Tjón aðalstefnda sé að mestu leyti fólgið í töpuðum hagnaði og útlögðum kostnaði meðan á vinnu hefur staðið. Útreikningur tapaðs hagnaðar grundvallast á þeirri staðreynd að á tímabilinu 1. október 2012 (þegar aðalstefndi gerði ráð fyrir að vefsvæðið yrði tilbúið til notkunar) til 9. september 2013 (þegar aðalstefndi rifti verksamningnum) hafi farþegar á vegum aðalstefnda verið alls 267.363. Samkvæmt hóflegri áætlun hafi aðalstefndi gert ráð fyrir 5% aukningu í sölu þegar ný heimasíða færi í loftið eða sem nemi 13.368 farþegum aukalega, meðal annars vegna þess að vefsvæðið hafi átt að henta snjallsímum og spjaldtölvum betur. Sé tekið mið af meðalverði, 4.500 krónum fyrir ferð hjá aðalstefnda, þá nemi heildartekjutap 60.126.675 krónum. Samkvæmt ársreikningi félagsins árið 2012 sé rekstrarafkoma án fjármagnsliða 8,35% sem geri þá tapaðan hagnað af viðbótarsölu 5.023.084 krónur. Útlagður kostnaður aðalstefnda vegna vinnu eigin starfsmanna við innsetningar og umsjón verkefnisins nemi 3.921.455 krónum. Þar til viðbótar sé greiddur kostnaður vegna aðstoðar Tommy Wiberg, alls 2.184 evrur sem á miðgengi Seðlabanka Íslands, dags. 19. september 2013, nemi alls 353.349 krónum. Samtals sé tapaður hagnaður og útlagður kostnaður aðalstefnda því að minnsta kosti 9.297.886 krónur, en aðalstefndi áskilji sér rétt til þess að afla mats dómkvadds matsmanns til þess að leiða nánar í ljós umfang tjónsins verði fallist á viðurkenningarkröfu aðalstefnda.        Verði ekki fallist á kröfur aðalstefnda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu á grundvelli 5. mgr. 27. gr. og 3. mgr. 40. gr. lkpl., byggir aðalstefndi viðurkenningarkröfu sína á grundvelli 1. mgr. 27. gr. og 1. mgr. 40. gr. lkpl.         Til stuðnings kröfum sínum vísar aðalstefndi til almennra reglna kröfu-, samninga- og skaðabótaréttar. Þá er vísað til laga um lausafjárkaup, nr. 50/2000, og meginreglna laga um þjónustukaup, nr. 42/2000. Kröfur aðalstefnda um dráttarvexti eru byggðar á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Viðurkenningarkrafa aðalstefnda er gerð með vísan til 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Um heimild til höfðunar gagnstefnu vísast til 28. gr. sömu laga. Málskostnaðarkrafa er reist á 129. gr. og 130. gr. sömu laga. Niðurstaða       Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu fyrirsvarsmenn aðila og starfsmenn aðila vitnaskýrslur auk Ásmundar Bjarnasonar dómkvadds matsmanns sem staðfesti matsgerð sína og viðauka við hana. Ekki er þó ástæða til að rekja sérstaklega það sem fram kom við skýrslugjöf þessara aðila að öðru leyti en því að vikið verður að einstökum atriðum í rökstuðningi fyrir niðurstöðu dómsins eftir því sem þörf þykir.        Í máli þessu byggir aðalstefnandi málatilbúnað sinn aðallega á því að hann hafi í einu og öllu staðið við verksamning milli aðila þar sem hann tók annars vegar að sér að hanna og forrita nýja vefsíðu fyrir aðalstefnda og hins vegar að annast mánaðarlega vefumsjónarþjónustu auk samþættingar við bókunarvél aðalstefnda. Ekki hafi verið samið um að aðalstefnandi afhenti vefinn fyrir ákveðinn dag. Ljóst hafi verið frá upphafi að vandkvæði við forritunarvinnu í tengslum við bókunarvél aðalstefnda væri stór óvissuþáttur og ómögulegt hafi verið fyrir aðalstefnanda að gera sér grein fyrir umfangi þeirrar vinnu. Þetta hafi aðalstefndi verið meðvitaður um frá upphafi. Allir liðir í verkáætlun aðalstefnda að öðru leyti hafi staðist. Aðalstefnda hafi reglulega verið sendar framvinduskýrslur varðandi verkstöðu og hafi hann ekki hreyft mótmælum við reikningum eða óskað eftir því að stefndi hyrfi frá verkinu. Á öllum reikningum hafi verið tekið fram að athugasemdir bæri að gera innan 20 daga annars teldust reikningarnir samþykktir. Ekki hafi tekist að klára verkið endanlega vegna verulegra vanefnda aðalstefnda á að greiða fyrir vinnu aðalstefnanda í samræmi við verksamninginn. Þá mótmælir hann því að skilyrði til riftunar verksamnings aðila séu fyrir hendi. Við aðalmeðferð vísaði aðalstefnandi til matsgerðar og viðauka við matsgerð dómkvadds matsmanns kröfum sínum til stuðnings en henni hefði ekki verið hrundið.         Aðalstefndi byggir kröfu sína um sýknu í fyrsta lagi á því að hann hafi rift verksamningi aðila þann 9. september 2013 og krafist þess að greiðslur sínar gengju til baka. Þannig hafi frekari greiðsluskylda sín fallið niður og þá hafi hann höfðað mál í gagnsök og krafist endurgreiðslunnar. Þá hafi aðalstefndi ekki mótmælt riftun. Í öðru lagi byggir aðalstefndi á því að hann hafi þegar innt af hendi verulega hátt endurgjald, eða 16.669.667 krónur, fyrir vinnu aðalstefnanda og sé hann með því kominn langt út fyrir umsamda kostnaðaráætlun á grundvelli verksamnings aðila. Þá mótmælir hann reikningum sem gefnir hafi verið út í ágúst 2013 eftir að vinna hafði verið stöðvuð við verkið.         Varðandi skilyrði riftunar vísar aðalstefndi til þess að þótt ekki hafi sérstaklega verð samið um hvenær afhending færi fram megi ráða af samskiptum aðila að stefnt hafi verið að því að vefurinn færi í loftið í lok september 2012. Með bréfi 9. ágúst hafi hann skorað á aðalstefnanda að inna skyldur sínar af hendi innan eins mánaðar. Aðalstefnandi hafi látið hjá líða að efna skyldur sínar. Þá hafi afgreiðsludráttur aðalstefnanda valdið sér verulegu óhagræði og tjóni, sbr. 26. gr. lkpl. Þá byggir aðalstefndi á því að þeir verkþættir sem aðalstefnandi hafi lokið vinnu við séu haldnir svo verulegum göllum að það hafi heimilað stefnda riftun verksamningsins, sbr. 1. gr. lkpl., gallarnir hafi verið verulegir og sanngjarn frestur hafi verið veittur til úrbóta.         Í verksamningi milli aðila er ekki kveðið á um það að vefinn skuli afhenda fyrir ákveðinn dag. Í verksamningi aðila er tekið fram af hálfu aðalstefnanda að stóri óvissuþátturinn í verkefninu séu vefþjónustusamskiptin við bókunarvél verkkaupa en útfærslan á þeim sé með þeim hætti að erfitt sé fyrir hann að áætla nákvæmlega vinnu við þau og rekur hann í hverju þessi vandkvæði séu fólgin. Þetta geti orðið til þess að kostnaðurinn við þennan lið geti annaðhvort hækkað eða lækkað umfram þá áætlun sem verksamningur byggi á. Verkefni aðalstefnanda fólst annars vegar í hönnun, uppsetningu og forritun á vefsíðu fyrir matsbeiðanda og hins vegar í að samþætta bókunarvél matsbeiðanda við vefinn. Af samskiptum aðila sem fram koma í gögnum málsins, bæði áður en samningurinn var gerður og eins eftir að hann var undirritaður og vinna hófst við verkið, verður ráðið að aðalstefndi hafi verið vel upplýstur um þá vankanta sem voru á bókunarvélinni. Bókunarkerfi aðalstefnda var svokallað „Ticket“ kerfi sem hannað var af sænskum aðila, Tommy Wiberg. Þessi aðili, sem veitti aðalstefnda bókunarþjónustu, upplýsti aðalstefnanda um að ekki væru til skilgreiningar á virkni bókunarvélarinnar og hún byði ekki upp á prufusvæði til að gera aðilum kleift að forrita á móti henni.       Varðandi þennan óvissuþátt þá svaraði fyrirsvarsmaður aðalstefnda með tölvupósti þann 31. janúar 2012 til aðalstefnanda og kvaðst gera sér fulla grein fyrir því að liðurinn varðandi vefþjónustusamskiptin við bókunarvélinu væri „ekki fastur liður í tilboðinu“. Þá liggur einnig fyrir að starfsmaður aðalstefnda, Pétur Blöndal Gíslason kerfisstjóri, sem gaf vitnaskýrslu við aðalmeðferð málsins, fékk nefndan Tommy Wiberg til fundar við sig og starfsmann aðalstefnanda vegna þessara vandkvæða með bókunarvélina.          Tveir forritarar hjá aðalstefnanda, Guðmundur Stefán Þorvaldsson og Atli Páll Hafsteinsson, gáfu vitnaskýrslur við aðalmeðferð og lýstu vanköntum á bókunarvélinni og vandkvæðum við að vinna á móti bókunarvélinni.                                                                     
Mál nr. 737/2014
Vinnusamningur Uppsögn
H höfðaði mál gegn K ehf. og krafðist greiðslu launa í uppsagnarfresti. H hafði verið sagt upp störfum af fyrirsvarsmanni K ehf. Við það tilefni lét fyrirsvarsmaðurinn H afhenda fartölvu og farsíma, sem hún hafði haft yfir að ráða í störfum sínum fyrir félagið, svo og lykla að vinnustaðnum. Óumdeilt var að H mætti ekki frekar til vinnu. Aðilar deildu um hvort K ehf. hefði leyst H undan þeirri skyldu að vinna út þriggja mánaða uppsagnarfrest, en af hálfu H var á því byggt að fyrirsvarsmaður K ehf. hefði sent sér símskilaboð þar sem fram hefði komið að hún fengi greidd full laun í uppsagnarfresti án þess að inna vinnuframlag af hendi. K ehf. byggði á hinn bóginn á því að stéttarfélag H hefði, í umboði H, boðið fram starfskrafta hennar í uppsagnarfrestinum og þar sem H hefði ekki komið til starfa hefði hún fyrirgert rétti sínum til launa í uppsagnarfresti. Talið var að sú framganga fyrirsvarsmanns K ehf., að segja H upp störfum og krefjast þess að hún afhenti lykla að vinnustaðnum, fartölvu og farsíma, yrði ekki skilin öðruvísi en svo að um riftun á vinnusamningi aðila hefði verið að ræða, sem leiddi til fyrirvaralausrar brottvikningar H úr starfi. Sú niðurstaða fengi og stoð í fyrrgreindum símskilaboðum fyrirsvarsmannsins. Að þessu gættu hefðu heimildir stéttarfélags H ekki náð til að stofna til nýrrar skuldbindingar hennar um vinnuframlag í þágu K ehf. Var því fallist á kröfu H um greiðslu launa fyrir þrjá mánuði að frádregnum atvinnuleysisbótum sem hún hafði fengið á tímabilinu. 
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. nóvember 2014. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Ágreiningslaust er með aðilum að fyrirsvarsmaður áfrýjanda hafi 12. júní 2012 sagt stefndu upp störfum og látið hana afhenda sér lykla að vinnustaðnum, farsíma og fartölvu. Af þessari framgöngu fyrirsvarsmannsins verður ekki annað ráðið en að um riftun á vinnusamningi aðila hafi verið að ræða, sem leiddi til fyrirvaralausrar brottvikningar stefndu úr starfi. Sú niðurstaða fær enn fremur stoð í eftirfarandi símskilaboðum fyrirsvarsmannsins til stefndu tveimur dögum síðar: „Viltu hringja? Mundi vilja hitta tig kl 15.30 í dag til ad afhenda tér uppsagnabréf. Tú færd greidd full laun. Trátt fyri ad vinna ekki vinnu tina.“ Að þessu gættu náðu heimildir stéttarfélags stefndu ekki til að stofna til nýrrar skuldbindingar hennar um vinnuframlag í þágu áfrýjanda. Samkvæmt þessu verður niðurstaða héraðsdóms staðfest. Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.  Héraðsdómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Kolbrún grasalæknir ehf., greiði stefndu, Helgu Dögg Björgvinsdóttur, 450.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. september 2014. Mál þetta, sem dómtekið var 19. september sl., er höfðað 20. janúar sl. af  Helgu Dögg Björgvinsdóttur, Sævarlandi 16, Reykjavík gegn Kolbrúnu grasalækni ehf., Freyjugötu 30, Reykjavík. Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.498.695 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 310.000 krónum frá 1. júlí. 2013 til 1. ágúst 2013, af 826.250 krónum frá þeim degi til 1. september 2013 og af 1.498.696 krónum frá þeim degi greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar. Stefndi krefst aðallega sýknu en til vara að stefnukrafan verði lækkuð verulega. Þá krefst stefndi greiðslu málskostnaðar. I.                    Stefnandi kveður málatilbúnað sinn byggðan á meginreglum samningaréttarins um að samninga skuli halda svo og reglum vinnuréttarins. Ráðningarsamningur aðila, sem eigi stoð í kjarasamningi VR, hafi verið brotinn af hálfu stefnda. Stefnandi byggi á því að hún hafi áunnið sér 3ja mánaða uppsagnarfrest og skuli uppsagnarfrestur miðast við mánaðamót. Þann 12. júní 2013 hafi fyrirsvarsmaður stefnda, Kolbrún Björnsdóttir, vikið stefnanda fyrirvaralaust úr starfi og farið þess á leit við hana að hún yfirgæfi vinnustaðinn þá þegar. Hafi hún verið krafin um fartölvu og farsíma og gert að skila af sér lyklum. Við þetta tækifæri hafi stefnandi spurt að því hvort verið væri að segja sér upp og fyrirsvarsmaður stefnda sagt það ekki vera, heldur væri verið að reka hana. Stefnandi hafi orðið við þessum tilmælum, tekið saman hluti sína og yfirgefið fyrirtækið. Stefnandi hafi tveimur dögum síðar fengið símskilaboð frá fyrirsvarsmanni stefnda þar sem hún hafi beðið hana að koma á fund til sín til að fá afhent uppsagnarbréf og tekið fram að hún fengi greidd full laun þrátt fyrir að vinna ekki vinnuna. Þremur dögum eftir það hafi hún fengið tilkynningu frá símafélagi sínu um að vinnuveitandinn greiddi ekki lengur farsímareikning sem greiddur hefði verið samkvæmt samkomulagi. Samningaumleitanir VR hafi ekki báru ekki árangur. Stefnandi hafi fengið uppgerð laun vegna vinnu sinnar fram til 12. júní 2013 svo og áunnið orlof fram til þess dags. Hún hafi hins vegar ekki fengið greidd nein laun í uppsagnarfresti. Stefnandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur og fengið greiddar bætur samtals 584.406 krónur, sem hafi verið dregnar frá kröfu á hendur stefnda.  Innheimtubréf vegna kröfunnar hafi fyrst verið sent 23. júlí 2013 og síðan leiðrétt bréf sent 28. október 2013 þegar ljóst hafi verið hverjar atvinnuleysisbætur væru.  Stefnandi eigi rétt til þriggja mánaða uppsagnarfrests samkvæmt kjarasamningi og skuli uppsögn miðast við mánaðamót. Við ólögmætan brottrekstur úr starfi öðlist stefnandi rétt til skaðabóta sem nemi launum fyrir þann tíma auk umsamins orlofs, sem séu 28 dagar á ári. Sá dagafjöldi jafngildi 12,07% ofan á laun. Dómkrafan um laun í uppsagmarfresti sundurliðist með eftirfarandi hætti: Laun vegna júní 2013                                                                                     310.000 krónur Laun vegna júlí-september 516.250 x 3                                1.548.750 krónur Orlof 12,07 % af kr. 1.858.750                                                      224.351 krónur   Frá dragast atvinnuleysisbætur                                               584.406 krónur                                                                         Samtals                                1.498.695 krónur Krafist sé dráttarvaxta af framangreindri fjárhæð frá 23. ágúst 2013 og til greiðsludags. Dráttarvaxtakrafa vegna skaðabóta byggi á 9. gr. vaxtalaga nr. 38/2001.  Miðað sé við að dráttarvexti á skaðabætur sé einungis hægt að krefja frá því að einn mánuður sé liðinn frá því að innheimtubréf hafi verið sent til stefnda. Þá sé krafist vaxtavaxta skv. 12. gr. laga nr. 38/2001 er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti. Stefnandi vísar í meginreglur samningaréttar um að samninga skuli halda og varðandi rétt til skaðabóta vegna riftunar til ráðningarsamnings aðila. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 með síðari breytingum. Kröfur um orlof, 12,07% ofan á laun, eigi stoð í orlofslögum nr. 30/1987 og ráðningarsamningi. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er byggð á lögum númer 50/1988. Um varnarþing vísist til 33. gr. laga nr. 91/1991. III.                 Stefndi kveður stefnanda hafa verið ráðna í starf framkvæmdastjóra hjá stefndu, sem m.a. reki jurtaapótek, heilsuráðgjöf o.fl. Meðal verkefna stefnanda hafi verið að halda utan um fjármál og bókhald félagsins. Þann 12. júní 2013 hafi fyrirsvarsmaður stefnda tilkynnt stefnanda að hún yrði að segja henni upp störfum. Hafi stefnanda m.a. verið gerð grein fyrir því að launakostnaður hennar væri of hár miðað við veltu, en jafnframt hafi fyrirsvarsmaðurinn haft orð á því við stefnanda að bókhald virtist ekki vera í góðu horfi. Stefnandi hafi tekið þessum orðum illa og horfið af starfsvettvangi. Því hafi ekki komið til þess að henni yrði afhent uppsagnarbréf. Stefnandi hafi ekki mætt til starfa 13. júní 2013 og ekki heldur 14. júní 2013. Fyrirsvarsmaðurinn hafi þá haft samband við stefnanda og boðað hana samdægurs á fund til þess að ræða uppsögnina og afhenda henni uppsagnarbréf. Stefnandi hafi ekki mætt á þann fund, en sent þess í stað skilaboð um að hún vildi fá uppsagnarbréfið í pósti. Í millitíðinni hafi stefnda borist bréf VR, dagsett 14. júní 2013, þar sem sagði að yrði stefnandi ekki kölluð til starfa innan 7 daga yrði litið svo á að um fyrirvaralausa uppsögn væri að ræða og launþeginn áskildi sér þá launa á uppsagnarfresti. Fyrirsvarsmaður stefnda hafi haft sambandi við starfsmann VR og benti honum á að stefnandi hefði farið í fússi vegna uppsagnarinnar og að henni bæri að vinna uppsagnarfrest sinn eins og öðrum. Þann 18. júní 2013 hafi stefnda borist svofellt tölvubréf starfsmanns VR: ,,Sæl Kolbrún. Ég hef látið Helgu Dögg vita og mun hún mæta til starfs í fyrramálið“.  Stefnandi hafi ekki mætti til vinnu 19. júní 2013 eins og hún hafði þó boðað. Í kjölfarið hafi verið boðað til fundar 21. júní 2013 hjá VR, en auk starfsmanns VR hafi stefnandi, fyrirsvarsmaður stefnda og lögmaður stefnda setið fundinn. Á fundinum hafi verið rætt um þá skyldu stefnanda að mæta til starfa, en hún hafnað því alfarið þar sem hún kvaðst ekki getað hugsað sér að vinna áfram með stefnda. Kom fram hjá starfsmanni VR að félagið myndi ekki hafa frekari afskipti af málinu. Í lok júní 2013 hafi stefndi gert upp mánaðarlaun stefnanda miðað við 13. þess mánaðar, er stefnandi lét af störfum, og jafnframt hafi verið gengið frá orlofsuppgjöri við stefnanda vegna starfslokanna. Hefði hún því fengið greitt laun að fullu í samræmi við vinnuframlag. Stefnanda hafi ekki verið fyrirvarlaust rekin úr starfi, en ráðningarsamningi hennar hafi ekki verið rift. Þegar starfsmanni sé sagt upp störfum hefði hann alltaf þá skyldu að vinna uppsagnarfrestinn, nema samkomulag næðist um annað. Ekkert samkomulag hafi verið gert við stefnanda um að hún losnaði undan vinnuskyldu sinni heldur, þvert á móti, hafi orðið að samkomulagi að stefnandi myndi mæta til starfa og vinna uppsagnarfrest sinn. Með því að gera það ekki hafi hún með ólögmætum hætti slitið ráðningarsamning sinn við stefnda og bakað sér skyldu til að greiða skaðabætur, sem samkvæmt dómvenju næmi hálfum uppsagnarfresti. Varakröfu um lækkun byggi stefndi á því, verði ekki fallist á sýknu, að draga beri frá stefnufjárhæðinni launagreiðslur frá öðrum vinnuveitendum í ætluðum uppsagnarfresti. Þannig verði stefnandi því að upplýsa um allar launagreiðslur til sín eftir 12. júní 2013 og jafnframt um verktakagreiðslur, ef um þær hafi verið að tefla. Orlofskröfu stefnanda sé sérstaklega mótmælt sem rangri. Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna kröfuréttar, samningaréttar og vinnuréttar og reglna um vanefndir og ólögmæta riftun samninga og afleiðingar þeirra. IV. Í málinu deila aðilar um hvort stefndi hafi leyst stefnanda undan þeirri skyldu sinni að vinna út uppsagnarfrest. Stefnandi staðhæfir að fyrirsvarsmaður stefnda hafi komið á sinn fund 12. júní 2013 og sagt stefnanda upp störfum. Um leið hafi fyrirsvarsmaðurinn krafið stefnanda um fartölvu, farsíma og lykla að vinnustað, allt í eigu stefnda. Þá staðhæfir stefnandi að fyrirsvarsmaður stefnda hafi 14. júní 2013 sent stefnanda símaskilaboð með þeim skilaboðum að fyrirsvarsmaðurinn vildi afhenda stefnanda uppsagnarbréf. Í skilaboðunum hafi komið fram að stefnandi fengi greidd full laun og að hún þyrfti ekki að vinna út uppsagnarfrestinn. Stefndi hefur viðurkennt að hafa krafið stefnanda um fartölvu, farsíma og lykla að vinnustað. Þá hefur stefndi viðurkennt að hafa sent stefnanda símaskilaboð er frammi liggja í málinu. Í málinu er óumdeilt að stefnandi hafði áunnið sér 3ja mánaða uppsagnarfrest, miðað við mánaðarmót. Stefndi er atvinnurekandi og hefur starfsmenn í vinnu. Stefnda máttu vera ljósar skyldur sínar í tengslum við uppsagnir starfsmanna. Sú ákvörðun stefnda að krefja stefnanda um fartölvu, farsíma og lykla að vinnustað stefnda gaf stefnanda til kynna að ekki væri óskað eftir vinnuframlagi hennar í uppsagnarfresti. Símaskilaboð sem stefndi sendi stefnanda 14. júní 2013 verða ekki skilin á annan veg en að stefnandi þyrfti ekki að vinna út uppsagnarfrest sinn. Með þessu komst á bindandi samkomulag á milli stefnanda og stefnda um vinnu í uppsagnarfresti. Stefndi heldur því fram að stéttarfélagið VR hafi haft umboð fyrir stefnanda til að semja um starfslok stefnanda. Hafi stéttarfélagið, í umboði stefnanda, boðið fram starfskrafta stefnanda í uppsagnarfresti. Stefnandi hafi ekki komið til starfa og þar með fyrirgert rétti sínum til launa í uppsagnafresti. Þessu hefur stefnandi mótmælt og kveður stéttarfélagið ekki hafa haft umboð til að bjóða fram vinnuframlag sitt í uppsagnarfresti. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að stéttarfélagið VR hafi haft stöðuumboð til að koma fram fyrir hönd stefnanda og ráðstafa þar hennar hagsmunum. Þá liggur ekkert umboð frammi í málinu sem bindur stefnanda gagnvart stefnda. Er stefnandi því óbundinn af yfirlýsingum stéttarfélagsins í málinu. Er tölulegur útreikningur kröfunnar í samræmi við launaseðla stefnanda. Frá eru dregnar atvinnuleysisbætur er stefnandi naut í uppsagnarfresti. Verða stefnukröfur stefnanda því teknar til greina eins og þær eru fram settar. Í samræmi við niðurstöðu málsins greiði stefndi stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.  Mál þetta flutti af hálfu stefnanda Lára V. Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður en af hálfu stefnda Sigrún Ingibjörg Gísladóttir héraðsdómslögmaður. Dóm þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari. Dómsorð: Stefndi, Kolbrún grasalæknir ehf., greiði stefnanda, Helgu Dögg Björgvinsdóttur, 1.498.695 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 310.000 krónum frá 1. júlí 2013 til 1. ágúst 2013, af 826.250 krónum frá þeim degi til 1. september 2013 og af 1.498.695 krónum frá þeim degi greiðsludags. Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 53/2015
Eignarréttur Stjórnarskrá Eignarnám Matsnefnd eignarnámsbóta Lögskýring Raforka
L, sem fengið heimild til eignarnáms á spildum úr landi G o.fl. í tilefni af framkvæmdum við að reisa og reka flutningsvirkið Suðurnesjalínu 2 á Reykjanesi, studdi eignarnámið rökum um almenningsþörf samkvæmt áskilnaði 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Í kjölfarið fór L þess á leit við matsnefnd eignarnámsbóta að sér yrði heimiluð umráðataka hins eignarnumda lands samkvæmt heimild í 14. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, áður en fram færi mat á fjárhæð eignarnámsbóta, og studdi hann þá kröfu sína sömu rökum og áður var getið. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að þegar L beindi erindum til matsnefndar eignarnámsbóta um umráðatöku samkvæmt 14. gr. laga nr. 11/1973 hefði honum borið að færa fyrir því rök að skilyrðum þeirrar lagagreinar væru fullnægt. Þótt vera kynni að saman gætu farið í ákveðnum tilvikum sjónarmið sem byggju að baki mati á almenningsþörf samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar og sjónarmið því til stuðnings að fullnægt væri skilyrðum 14. gr. laga nr. 11/1973 væri ekki sjálfgefið að svo væri. Réðist niðurstaðan af atvikum hverju sinni og væri þá til þess að líta að mat samkvæmt stjórnarskrárákvæðinu réðist oftar ekki af langtímahagsmunum en mat samkvæmt 14. gr. á hinn bóginn eingöngu af sjónarmiðum þar sem hagsmunir til skemmri tíma réðu för. Af þessu leiddi að almennt stoðaði það eignarnema ekki í beiðni um umráðatöku samkvæmt 14. gr. laga nr. 11/1973 að láta við það eitt sitja að endurtaka þau rök sem hann hefði áður fært fram fyrir því að fullnægt væri áskilnaði 72. gr. stjórnarskrárinnar, heldur yrði hann hið minnsta að rökstyðja að þeir hagsmunir færu saman við hagsmuni hans af því að fá með stoð í 14. gr. laga nr. 11/1973 fljótt umráð hins eignarnumda. Var L ekki talinn hafa fært fram fyrir matsnefnd eignarnámsbóta rök sem að lögum gátu leitt til þeirrar niðurstöðu að fallist yrði á beiðni hans um umráðatöku. Af þeim sökum var talið að brostið hefði lagaskilyrði af hálfu matsnefndar eignarnámsbóta til að verða við beiðnum L um umráðatöku hins eignarnumda lands og var úrskurður nefndarinnar sem reistur var á röngum lagagrundvelli því felldur úr gildi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson. Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 16. janúar 2015 og krefjast þess hver fyrir sitt leyti að ógiltir verði eftirtaldir úrskurðir matsnefndar eignarnámsbóta 29. júlí 2014 vegna lands innan nánar tilgreindra jarða á Reykjanesi: Áfrýjandinn Margrét Guðnadóttir vegna úrskurðar í máli nr. 6/2014 varðandi Landakot, áfrýjandinn Sauðafell sf. vegna úrskurðar í máli nr. 4/2014 varðandi Hvassahraun, áfrýjendurnir Reykjaprent ehf., Ólafur Þór Jónsson og Sigríður S. Jónsdóttir vegna úrskurðar í máli nr. 8/2014 varðandi Heiðarland Vogajarða, áfrýjendurnir Bjarney Guðrún Ólafsdóttir, Ólafur Þór Jónsson og Sigríður S. Jónsdóttir vegna úrskurðar í máli nr. 7/2014 varðandi Stóra Knarranes I og áfrýjendurnir STV ehf., Geirlaug Þorvaldsdóttir, Katrín Þorvalsdóttir og Skúli Þorvaldsson vegna úrskurðar í máli nr. 5/2014 varðandi Stóru-Vatnsleysu og Minni-Vatnsleysu. Þá krefjast áfrýjendur hver fyrir sitt leyti málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. janúar 2015.    Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi 16. desember 2014, er höfðað með réttarstefnu, áritaðri um birtingu 13. ágúst 2014. Málið var þingfest 18. ágúst 2014 og sætir flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.    Stefnendur eru Geirlaug Þorvaldsdóttir, Stigahlíð 80, Margrét Guðnadóttir, Rofabæ 29, Ólafur Þór Jónsson, Sléttuvegi 31, Reykjaprent ehf., Síðumúla 14, Sauðafell sf., Meistaravöllum 31, Sigríður S. Jónsdóttir, Hvassaleiti 56-58, Bjarney Guðrún Ólafsdóttir, Safamýri 47, öll í Reykjavík, STV ehf., Stóru-Vatnsleysu, Vogum, Skúli Þorvaldsson og Katrín Þorvaldsdóttir, bæði í Lúxemborg.    Stefndu eru Landsnet hf., Gylfaflöt 9, Reykjavík og íslenska ríkið, Arnarhvoli, einnig í Reykjavík, og er innanríkisráðherra stefnt fyrir hönd íslenska ríkisins. Dómkröfur stefnenda    Margrét Guðnadóttir krefst þess að úrskurður matsnefndar eignarnámsbóta í máli nr. 6/2014 frá 29. júlí 2014, þar sem stefnda Landsneti hf. var veitt heimild til umráðatöku lands innan jarðarinnar Landakots, landnr. 130865, verði ógiltur með dómi. Sauðafell sf. krefst þess að úrskurður matsnefndar eignarnámsbóta í máli nr. 4/2014 frá 29. júlí 2014, þar sem stefnda Landsneti hf. var veitt heimild til umráðatöku lands innan jarðarinnar Hvassahrauns, landnr. 206748, verði ógiltur með dómi. Reykjaprent ehf., Ólafur Þór Jónsson og Sigríður S. Jónsdóttir krefjast þess hvert um sig að úrskurður matsnefndar eignarnámsbóta í máli nr. 8/2014 frá 29. júlí 2014, þar sem stefnda Landsneti hf. var veitt heimild til umráðatöku lands innan Heiðarlands Vogajarða, landnr. 206748, verði ógiltur með dómi.    Bjarney G. Ólafsdóttir, Ólafur Þór Jónsson og Sigríður S. Jónsdóttir krefjast þess hvert um sig að úrskurður matsnefndar eignarnámsbóta í máli nr. 7/2014 frá 29. júlí 2014, þar sem stefnda Landsneti hf. var veitt heimild til umráðatöku lands innan jarðarinnar Stóra Knarrarness I, landnr. 130884, verði ógiltur með dómi. STV ehf., Geirlaug Þorvaldsdóttir, Katrín Þorvaldsdóttir og Skúli Þorvaldsson krefjast þess hvert um sig að úrskurður matsnefndar eignarnámsbóta í máli nr. 5/2014 frá 29. júlí 2014, þar sem stefnda Landsneti hf. var veitt heimild til umráðatöku lands innan jarðanna Stóru-Vatnsleysu, landnr. 130886 og Minni-Vatnsleysu, landnr. 130869, verði ógiltur með dómi.    Hver um sig krefjast stefnendur einnig málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefndu in solidum.  Dómkröfur stefndu    Landsnet hf. krefst sýknu af öllum kröfum stefnenda og málskostnaðar að óskiptu úr þeirra hendi, að mati dómsins.    Íslenska ríkið krefst einnig sýknu af öllum kröfum stefnenda og að stefnendum verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins. Málsatvik Samkvæmt 2. gr. laga nr. 75/2004, um stofnun Landsnets hf., er hlutverk þess að annast flutning raforku og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum III. kafla raforkulaga nr. 65/2003. Landsnet hf. ber ábyrgð á rekstri og kerfisstjórnun raforkukerfisins, sbr. 8. gr. raforkulaga. Hefur fyrirtækið eitt heimild til að reisa ný flutningsvirki og ber því að byggja flutningskerfið upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar og gæða raforku, sbr. 1. mgr. 9. gr. sömu laga. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar þarf leyfi Orkustofnunar fyrir nýjum raflínum sem flytja eiga raforku á 66 kV spennu eða hærri, og getur Orkustofnun bundið leyfið skilyrðum er lúta að þeim atriðum sem greinir í 1. mgr., auk skilyrða er lúta að umhverfisvernd og landnýtingu. Árið 2005 hóf Landsnet hf. undirbúning að verkefni sem nefnt er Suðvesturlínur, en það tekur til meginflutningskerfis raforku frá Hellisheiði að Geithálsi og Hafnarfirði og áfram út á Reykjanes. Markmið framkvæmdarinnar er að byggja upp og styrkja til framtíðar raforkuflutningskerfið á Suðvesturlandi þannig að það geti mætt áformum um orkuflutning á svæðinu, jafnt fyrir atvinnustarfsemi og til almannanota. Á undirbúningsstigi var haft samráð við sveitarfélög, stofnanir og aðra hagsmunaaðila, en framkvæmdin varðar 12 sveitarfélög. Á árinu 2007 var fyrirhuguð framkvæmd kynnt landeigendum bréflega, þ. á m. stefnendum þessa máls, og gerð grein fyrir mögulegum valkostum við lagningu háspennulínu um jarðir þeirra. Í kynningarbréfinu kom fram að umrædd framkvæmd hefði í för með sér öruggari tengingu núverandi notenda á Reykjanesi, aukna flutningsgetu kerfisins og tengingu nýrra notenda og framleiðslu á svæðinu við meginflutningskerfi raforku. Tekið var fram að einungis ein lína tengdi svæðið við meginflutningskerfið og þrátt fyrir framleiðslu raforku á svæðinu ylli bilun á henni rafmagnsleysi á Suðurnesjum. Í febrúar 2009 voru haldnir kynningarfundir um tillögu að matsáætlun Landsnets hf. vegna Suðvesturlínu, þ. á m. í Reykjanesbæ. Skipulagsstofnun féllst á tillöguna í mars 2009 og var endanleg matsskýrsla send stofnuninni í ágúst sama ár. Með útgáfu álits 17. september 2009 féllst Skipulagsstofnun á mat Landsnets hf. á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Fyrri hluta árs 2011 var hafinn undirbúningur að styrkingu raforkuflutningskerfisins á Suðurnesjum, frá Hafnarfirði að Reykjanesbæ. Er sá hluti framkvæmdarinnar nefndur Suðurnesjalína 2 og felur í sér að reist verður ný 32,4 kílómetra löng 220 kV háspennulína frá tengivirki við Hamranes í Hafnarfirði, um Voga, Reykjanesbæ og Grindavíkurbæ að tengivirki við Rauðamel, um 5 kílómetrum norðan við Svartsengi. Mun línan liggja um eignarlönd tuga jarða, þ.m.t. jarða stefnenda. Frá landamerkjum Lónakots og Hvassahrauns, við mörk sveitarfélaganna Voga og Hafnarfjarðar, mun línan fylgja núverandi Suðurnesjalínu 1 að sunnanverðu, að tengivirkinu við Rauðamel. Samkvæmt framlögðum gögnum er Suðurnesjalína 1, sem þjónar Suðurnesjum og rekin er á 132 kV spennu, fulllestuð í dag, þrátt fyrir að hafa verið tekin í notkun árið 1991. Fullyrt er að öryggi raforkuflutningskerfisins á svæðinu sé ófullnægjandi, þar sem aðeins ein tenging sé nú frá Reykjanesskaganum við 220 kV meginflutningskerfi Landsnets hf. í Hamranesi við Hafnarfjörð. Þá sé svæðið ekki tengt svokallaðri N-1 tengingu, en slíkt sé óviðunandi að mati Landsnets hf. fyrir jafn stór byggðarlög og á Suðurnesjum. Hafi það valdið vandkvæðum og straumleysi á svæðinu þegar núverandi háspennulína hafi farið úr rekstri vegna viðhalds eða truflana. Í júní 2011 hóf stefndi Landsnet hf. formlegar samningaviðræður við landeigendur um landnot vegna lagningar Suðurnesjalínu 2. Samkvæmt greinargerð Landsnets hf. hafa samningar tekist við alla landeigendur á fyrirhugaðri línuleið, að frátöldum stefnendum þessa máls og eigendum jarðarinnar Sjónarhóls. Ítrekaðar samningaviðræður hafi reynst árangurslausar. Stefnendur telja hins vegar að raunhæfar samningaviðræður hafi aldrei átt sér stað þar sem Landsnet hf. hafi ætíð slegið út af borðinu hugmynd þeirra um að kannað verði að leggja Suðurnesjalínu 2 í jörð. Á árinu 2013 fór stefndi Landsnet hf. þess á leit, með vísan til 1. mgr. 23. gr. raforkulaga nr. 65/2003, að atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra veitti fyrirtækinu heimild til eignarnáms á nauðsynlegum landsréttindum stefnenda vegna fyrirhugaðrar línulagnar. Með beiðnum fyrirtækisins fylgdi greinargerð, þar sem nánar var lýst fyrirhuguðum framkvæmdum á hverri jörð, lengd línulagnar og umfangi fyrirhugaðs eignarnáms. Jarðirnar, sem allar eru innan marka sveitarfélagsins Voga á Vatnsleysuströnd, eru eftirfarandi, taldar frá austri til vesturs: 1.      Hvassahraun. Eigandi jarðarinnar er stefnandi Sauðafell sf. Áformað er að háspennulínan liggi yfir land jarðarinnar á 2.795 metra löngum kafla og var krafist heimildar til eignarnáms á  12,53 hektörum landsins. 2.      Óskipt land jarðanna Stóru- og Minni-Vatnsleysu. Stefnandi, STV ehf., er eigandi að 6/10 hlutum, en stefnendurnir Geirlaug Þorvaldsdóttir, Katrín Þorvaldsdóttir og Skúli Þorvaldsson eru eigendur að 4/10 hlutum. Áformuð háspennulína mun liggja yfir hið óskipta land á 3.650 metra löngum kafla. Krafist var heimildar til eignarnáms á 17,235 hektörum lands í eigu stefnenda. 3.      Landakot. Stefnandi, Margrét Guðnadóttir, er eigandi jarðarinnar. Háspennulínan mun liggja yfir land jarðarinnar á 418 metra löngum kafla. Krafist var heimildar til eignarnáms á 1,9642 hektara lands. 4.      Stóra Knarrarnes I. Eigendur eru fjölmargir einstaklingar sem eiga landið í óskiptri sameign með eigendum Minna Knarrarness og Stóra Knarrarness II. Stefnendur, Bjarney Guðrún Ólafsdóttir, Sigríður S. Jónsdóttir og Ólafur Þór Jónsson eiga samanlagt 6,0485% hins óskipta lands. Áformað er að háspennulínan liggi yfir hið óskipta land á 437 metra löngum kafla. Krafist var heimildar til eignarnáms á 0,1241 hektara lands í eigu stefnenda. 5.      Heiðarland Vogajarða. Eigendur jarðarinnar eru 11 talsins, en stefnendur, Reykjaprent ehf., Sigríður Jónsdóttir og Ólafur Þór Jónsson, eiga samanlagt 33,375% jarðarinnar. Ráðgert er að háspennulínan liggi yfir landið á 4.463 metra löngum kafla og lýtur krafa um eignarnám að 6,957 hektörum lands í eigu stefnenda.     Með ákvörðun 24. febrúar 2014 veitti atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra Landsneti hf. heimild til umbeðins eignarnáms á framantöldum jörðum til ótímabundinna afnota. Stefnendur hafa nú allir höfðað mál á hendur stefndu og krafist ógildingar á ákvörðun ráðherra. Er krafa þeirra á því reist að ákvörðunin sé í andstöðu við 72. gr. stjórnarskrárinnar, 1. mgr. 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 23. gr. raforkulaga. Jafnframt telja þeir að við töku umræddrar ákvörðunar hafi verið brotið gegn 10. og 13. gr. stjórnsýslulag nr. 37/1993.  Á grundvelli 2. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003 var stefnda Landsneti hf. hinn 5. desember 2013 veitt leyfi Orkustofnunar til að reisa og reka flutningsvirkið Suðurnesjalínu 2. Í bréfi Orkustofnunar, sem fylgdi umræddu leyfi, er afstaða stofnunarinnar ítarlega rökstudd, meðal annars með vísan til þeirra yfirlýstra markmiða raforkulaga nr. 65/2003 að stuðla að þjóðhagslegu hagkvæmu raforkukerfi og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu, sbr. 1. gr. laganna. Þá segir þar eftirfarandi: „Orkustofnun ber að líta til þessara þátta í mati sínu á því hvort framkvæmd, eins og lagning Suðurnesjalínu 2, þjóni markmiði laganna og að kostnaður við framkvæmdina sé ekki óeðlilegur út frá hagsmunum almennings, en þá er litið til almennra sjónarmiða um viðmið og kostnað, kostnaðarmun á loftlínu eða jarðstreng og til annarra sjónarmiða sem að gagni koma við þessa túlkun um hvað sé hagkvæmt og hvað ekki, m.a. pólitíska stefnumörkun ríkis og sveitarfélaga um atvinnuuppbyggingu og umhverfisvernd og álit annarra þar til bærra stofnana, svo sem þeirra sem fjalla um málefni náttúruverndar. Þó að ekki sé fyrirséð að þörf sé fyrir alla þá flutningsgetu sem felst í Suðurnesjalínu 2, þ.e. 220 kV loftlínu, á allra næstu árum nema til komi orkufrekur iðnaður, ber að hafa í huga að slíkur orkufrekur iðnaður hefur verið pólitískt stefnumarkaður til atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum af þar til bærum stjórnvöldum auk aukinnar orkuframleiðslu á Reykjanesi samkvæmt rammaáætlun. Fyrst um sinn verður línan því rekin sem 132 kV lína þar til flutningsþörfin eykst. Einnig ber að hafa í huga að þróun byggðar á næstu fjörutíu til sjötíu árum mun leiða til þéttingar byggðar og aukinnar orkuþarfar.“ Um mat á flutningsþörf raforku og hagkvæmni framkvæmdarinnar segir síðan: „[...] þá er það mat Orkustofnunar að afhendingaröryggi verði ekki aukið nema með því að tengja Suðurnes við flutningskerfið með annarri línu en þeirri sem fyrir er. Ófullnægjandi er að svo stórt svæði sé einungis tengt meginflutningskerfinu með einni tengingu. Varðandi flutningsþörfina bendir Orkustofnun á að viðskiptavinir Landsnets eru samkvæmt raforkulögum dreifiveitur, stórnotendur, virkjanir og þeir aðilar sem hafa leyfi til að stunda viðskipti með raforku. [...] Þá tekur Orkustofnun undir þau rök Landsnets að jarðstrengur sé óhagkvæmari framkvæmd en loftlína miðað við 220 kV línu og að hvorki umhverfissjónarmið  né annað í forsendum framkvæmdarinnar réttlæti þann kostnaðarauka sem af slíku myndi hljótast.“ Fram kemur í stefnu að stefnendur séu alfarið ósammála ákvörðun Orkustofnunar og hafi þeir af þeim sökum höfðað mál á hendur stofnuninni, Landsneti hf. og fleirum. Í því máli er byggt á því að umrædd ákvörðun sé haldin slíkum annmörkum, bæði að formi og efni til, að óhjákvæmilegt sé að hún verði felld úr gildi.  Með bréfum til matsnefndar eignarnámsbóta 14. mars 2014 fór stefndi Landsnet hf. þess á leit að matsnefndin heimilaði fyrirtækinu umráðatöku þess lands stefnenda sem taka mátti eignarnámi samkvæmt fyrrnefndri ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. Stefnendur mótmæltu kröfunni og kröfðust þess í staðinn að málunum yrði frestað ótiltekið á meðan rekin væru dómsmál um lögmæti eignarnámsins. Matsnefnd eignarnámsbóta kvað upp úrskurði sína 29. júlí 2014. Niðurstaða matsnefndar í öllum málunum var sú að hafnað var kröfu eignarnámsþola, stefnenda í þessu máli, um frestun málsmeðferðar. Eignarnema, stefnda Landsneti hf., var þess í stað heimiluð umráðataka á nauðsynlegum landsréttindum stefnenda gegn tryggingu fyrir væntanlegum eignarnámsbótum. Stefnendur eru ósammála afstöðu matsnefndar eignarnámsbóta til umráðatöku lands þeirra, svo og þeim rökstuðningi sem fram kemur í úrskurðum nefndarinnar þar að lútandi. Er mál þetta því höfðað til ógildingar á úrskurðum nefndarinnar. Í greinargerð stefnda Landsnets hf. kemur fram að fyrirtækið hafi 14. ágúst 2014 lagt fram tryggingar fyrir væntanlegum eignarnámsbótum, samtals að fjárhæð 132 milljónir króna. Einnig segir þar að 18. ágúst 2014 hafi lögmaður stefnenda tilkynnt matsnefnd eignarnámsbóta að stefnda Landsneti hf. yrði ekki veittur aðgangur að landi stefnenda nema að undangenginni aðför, sbr. 13. gr. laga um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973. Dómarar, ásamt lögmönnum aðila og meirihluta stefnenda, gengu á vettvang 15. desember 2014 og kynntu sér aðstæður svo sem kostur var. Málsástæður stefnenda og lagarök Stefnendur telja í fyrsta lagi að rökstuðningur í fyrirliggjandi úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta sé með öllu ófullnægjandi. Þannig sé til að mynda ekki fjallað efnislega um rök þeirra fyrir því að fresta beri málinu og telja þeir að matsnefndin geti ekki komið sér undan því að fjalla um þá kröfu þeirra. Ekki verði heldur séð að nefndin hafi skoðað með sjálfstæðum hætti hvort lagarök hafi staðið til þess að beita undantekningarreglu 14. gr. laga nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms, til umráðatöku landsins á þessu stigi. Þvert á móti hafi nefndin tekið upp einhliða staðhæfingar stefnda Landsnets hf., án raunverulegrar skoðunar, og það þótt gögn styddu ekki staðhæfingar fyrirtækisins. Stríði þetta gegn rannsóknarskyldu nefndarinnar og skyldu til að rökstyðja ákvarðanir sínar, sbr. til hliðsjónar 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að dómi stefnenda séu þetta verulegir annmarkar á úrskurðum nefndarinnar sem, ásamt öðru því sem hér verður talið, eigi að leiða til þess að fella verði þá úr gildi. Í öðru lagi byggja stefnendur á því að ekki séu uppfyllt skilyrði 1. mgr. 14. gr. laga nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms, um umráðatöku landsins. Vísa þeir til þess að samkvæmt 2. gr. sömu laga sé það almennt ekki hlutverk matsnefndarinnar að veita eignarnemum umráð hins eignarnumda, heldur fyrst og fremst að skera úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald sem ákveða beri samkvæmt lögunum. Þannig eigi matsnefndin að meta fjárhæð bóta, sbr. 13. gr. laganna, en síðan eigi eignarnemi sjálfur að sjá um að fá umráð hins eignarnumda eftir að hann er búinn að greiða eignarnámsbæturnar, eftir atvikum með atbeina sýslumanns. Í undantekningartilvikum geti matsnefndin þó ákveðið að eignarnema verði heimilað að taka umráðin, þrátt fyrir að mati sé ekki lokið, sbr. 14. gr. sömu laga. Þar sem um undantekningarreglur sé að ræða beri samkvæmt almennum lögskýringarreglum að skýra þær þröngt. Reglur þessar eigi að vera sem eins konar öryggisventill og megi aðeins beita þeim í algerum undantekningartilvikum, enda sé í þeim tilvikum verið að leggja í hendur matsnefndar að taka afar íþyngjandi ákvarðanir, sem kunni að hafa afgerandi áhrif á eignarnámsþola. Þannig hafi fræðimenn lagt til grundvallar að undantekningarregla 1. mgr. 14. gr. laga nr. 11/1973 eigi einungis við þegar eignarnema er mikil nauðsyn á að fá fljótt umráð eignarnumins verðmætis til að geta ráðist í þær framkvæmdir sem eru tilefni eignarnámsins, svo og að verulegt óhagræði sé af því að bíða eftir ákvörðun bóta. Þurfi þá bæði skilyrðin að vera uppfyllt. Telja stefnendur að hvorugu sé að heilsa í þessu tilviki, en stefndi Landsnet hf. beri sönnunarbyrði fyrir því. Einhliða fullyrðingar fyrirtækisins geti ekki talist fullnægjandi í því efni. Ekki dugi heldur að vísa til þess að í framtíðinni sé þörf á því að styrkja raforkuflutningskerfi á svæðinu. Í þessu sambandi benda stefnendur á að undirbúningur að lagningu Suðurnesjalínu 2 hafi staðið yfir í langan tíma, eða allt frá árinu 2007. Álit Skipulagsstofnunar hafi legið fyrir í september 2009, en stefndi Landsnet hf. hafi fyrst á árinu 2011 hafið samningaviðræður við stefnendur. Seint á árinu 2012 og snemma árs 2013 hafi fyrirtækið síðan sótt um leyfi til Orkustofnunar og heimild til eignarnáms. Virðist stefnendum því sem stefnda Landsneti hf. hafi ekki legið neitt á að klára þetta mál fyrr en allt í einu við meðferð málsins hjá matsnefnd eignarnámsbóta. Í því ljósi, en einnig þegar haft er í huga að stefndi Landnet hf. óskaði aldrei eftir því að málið sætti flýtimeðferð, hvorki í meðferð þess hjá ráðuneytinu né Orkustofnun, telja stefnendur að ekki sé uppfyllt fyrrnefnt skilyrði um mikla nauðsyn á að fá fljótt umráð hins eignar-numda. Jafnframt mótmæla þeir sérstaklega rökstuðningi matsnefndarinnar fyrir því að stefnda Landsneti hf. sé nauðsyn á að fá umráð hins eignarnumda sem fyrst, þar sem sýnt þyki að flutningsgeta um núverandi raflínu sé fullnýtt og að ekki sé nægilega öruggt að flytja raforku á jafnstórt svæði um einungis eina línu. Sú niðurstaða sé grundvölluð á þeirri fullyrðingu stefnda Landsnets hf. að svæðið sé ekki tengt með svokallaðri N-1 tengingu, án þess þó að sú fullyrðing sé studd gögnum af hálfu fyrirtækisins. Hafi matsnefnd eignarnámsbóta að þessu leyti ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, og litið fram hjá þeirri ríku sönnunarbyrði sem hvíli á eignarnema. Staðhæfa stefnendur þvert á móti að umrædd fullyrðing sé röng og úrskurðir matnefndarinnar því byggðir á röngum grundvelli. Hið rétta sé að Suðurnesjalína 1 hafi svokallaða N-1 tengingu með Fitjalínu, sem flytji rafmagn frá virkjunum á Reykjanesi og í Svartsengi. Falli Suðurnesjalína 1 út megi því nýta það rafmagn sem framleitt sé á svæðinu til raforkunotkunar þar. Með eðlilegu skipulagi á nýtingu núverandi virkjana á Reykjanesi og í Svartsengi telja stefnendur að Suðurnes séu sjálfbær um raforku, án nýrrar tengingar við meginflutningskerfið. Auk ofanritaðs byggja stefnendur á því að stefndi Landsnet hf. hafi ekki lagt fram nein gögn eða sýnt fram á hvaða verulega óhagræði fyrirtækið muni verða fyrir fái það ekki nú þegar umráð landa stefnenda. Sönnunarbyrðin um það hvíli að sjálfsögðu á eignarnema. Vekja stefnendur athygli á því að Landsnet hf. hafi enn ekki aflað allra nauðsynlegra leyfa fyrir lagningu háspennulínunnar, en framkvæmdaleyfi hjá viðkomandi sveitarfélögum sé forsenda fyrir því að ráðist verði í framkvæmdina, sbr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þar sem leyfi sveitarfélaganna liggi ekki fyrir telja stefnendur að fráleitt sé að fyrirtækið hafi sýnt fram á óhagræði af því að umráðataka fáist ekki nú þegar. Í ljósi ofanritaðs hafna stefnendur því alfarið að uppfyllt séu skilyrði til þess að beita megi 14. gr. laga nr. 11/1973 til umráðatöku lands þeirra. Því beri að fella úr gildi úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu. Kröfur stefnenda eru í þriðja lagi á því reistar að ákvarðanir matsnefndar um heimild Landsnets hf. til umráðatöku landa stefnenda séu meðal annars í andstöðu við lög nr. 11/1973, stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Þessu til stuðnings vísa stefnendur til þess að enn leiki vafi á um lögmæti eignarnámsins, en af lögum nr. 11/1973 megi ráða að ekki sé gert ráð fyrir því að matsnefnd eignarnámsbóta fjalli um eignarnámsbætur þegar slíkur vafi sé uppi. Vísa stefnendur hér til 5. gr. laganna og  telja að af henni verði ráðið að matsnefnd eignarnámsbóta eigi ekki að fjalla um mál nema fyrir liggi alveg skýr eignarnámsheimild. Þá segi í 17. gr. sömu laga að leita megi úrlausnar dómstóla um ágreining út af lögmæti eignarnáms. Sé þetta í samræmi við hið takmarkaða hlutverk matsnefndar eignarnámsbóta, sem og almenn sjónarmið stjórnsýslu¬réttarins um meðalhóf, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Umrædd ákvæði endurspegli jafnframt þau viðhorf að eðlilegt sé að stjórnsýslunefndir gæti varfærni við töku íþyngjandi ákvarðana og gangi ekki lengra en nauðsynlegt er til þess að tryggja þau markmið sem að er stefnt. Stefnendur minna jafnframt á að þeir hafi þegar höfðað dómsmál til ógildingar á ákvörðun Orkustofnunar og eignarnámsákvörðunum ráðherra. Í þeim málum lúti málatilbúnaður þeirra að kjarnaatriðum eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar um almenningsþörf og meðalhóf. Samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sé eignarrétturinn friðhelgur. Aðgangur að dómstólum og réttur til raunhæfrar endurskoðunar á úrskurðum stjórnvalda njóti einnig verndar stjórnarskrár og Mannréttindasáttmálans, sbr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmálans. Í umræddum dómsmálum byggi stefnendur á því að lagning háspennulínunnar í jörðu sé miklum mun hóflegri og mun minna íþyngjandi framkvæmd en að leggja línuna í lofti um land þeirra. Eigi þeir rétt á því að fá úrlausn dómstóla um hvort efnisleg skilyrði séu uppfyllt til þess að eignarnám fari fram í landi þeirra. Stefnendur byggja einnig á því að þær framkvæmdir sem Landsnet hf. ætlar sér að ráðast í muni koma til með að hafa veruleg og óafturkræf áhrif á eignir þeirra. Þannig gæti sú staða komið upp að dómstólar myndu komast að þeirri niðurstöðu að eignarnámið væri reist á ólögmætum grundvelli, en að óafturkræft jarðrask væri þá þegar yfirstaðið á jörðum þeirra á grundvelli ólögmætrar eignarnámsheimildar. Matsnefnd eignarnámsbóta hefði þá að engu gert þau réttindi stefnenda að geta leitað til dómstóla til þess að fá skorið úr um lögmæti eignarnámsins. Ekki sé heldur útilokað að í áðurnefndum dómsmálum muni stefnendur vilja afla sér mats dómkvaddra matsmanna, eða að dómurinn vilji ganga á vettvang til þess að skoða aðstæður. Landsvæðið sem færi undir loftlínur yrði því eðli máls samkvæmt að vera óhreyft, þar sem sönnunarstöðu stefnenda væri ella spillt. Samkvæmt framanrituðu telja stefnendur að það hafi verið í ósamræmi við lög nr. 11/1973 og í andstöðu við meðalhófsreglur stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttarins að heimila stefnda Landsneti hf. umráðatöku á landi þeirra, enda hafi legið fyrir að stefnendur höfðu þegar höfðað dómsmál til ógildingar á eignarnámsákvörðunum ráðherra og ætluðu að láta reyna á stjórnarskrárvarinn rétt sinn fyrir dómstólum. Því beri að ógilda úrskurði matsnefndarinnar. Að endingu telja stefnendur að stefndi Landsnet hf. hafi frá upphafi brotið gróflega gegn skyldu sinni til samráðs við þá við undirbúning framkvæmdarinnar. Því til stuðnings vísa þeir til 4. mgr. 6. gr. tilskipunar 2011/92/EB, um mat á umhverfisáhrifum, sem sé hluti af EES-samningnum, 4. mgr. 6. gr. Árósasamningsins, um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum, sem Ísland hafi fullgilt og sé hluti af EES-rétti, sem og tilskipunar 2003/5/EB, um þátttöku almennings við gerð skipulags og framkvæmdaáætlana í tengslum við umhverfismál. Stefnendum hafi í upphafi ákvarðanatökuferilsins aðeins verið kynntur einn valkostur og með því hafi réttur þeirra til þátttöku verið virtur að vettugi. Telja þeir að þetta undirstriki hversu alvarlega hafi verið brotið gegn rétti þeirra til aðgangs að dómstólum og til raunhæfs réttarúrræðis. Vegna sameiginlegrar aðildar til sóknar í máli þessu vísa stefnendur til 19. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Málskostnaðarkrafa þeirra styðst við 1. mgr. 130. gr. sömu laga. Málsástæður og lagarök stefnda Landsnets hf. Stefndi Landsnet hf. hafnar málsástæðum stefnenda í heild sinni sem röngum og ósönnuðum. Leggur hann áherslu á að umrædd framkvæmd, lagning Suðurnesjalínu 2, varði almannahagsmuni, hún sé lögbundin og hvíli á ákvæðum raforkulaga nr. 65/2003, sérstaklega III. kafla þeirra, svo og eignarnámsheimildum sömu laga. Stefnendur séu fámennur hópur landeigenda sem eigi land sem nauðsynlegt sé að fá afnot af vegna framkvæmdarinnar, hvort sem um loftlínu eða jarðstreng sé að ræða og óháð spennustigi. Þau atriði er varði val á tilhögun framkvæmdarinnar byggist á ákvæðum raforkulaga, lögbundnum skyldum Landsnets hf., mati á umhverfisáhrifum og áliti Skipulagsstofnunar, lögmætum skipulagsákvörðunum viðkomandi sveitarstjórna og lögbundinni ákvörðun Orkustofnunar. Fyrir matsnefnd eignarnámsbóta hafi verið lagðar gildar og lögmætar stjórnvaldsákvarðanir sem falið hafi í sér eignarnámsheimildir stefnda og hafi matsnefndinni borið að taka þær til afgreiðslu, sbr. 5. gr. laga um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973. Matsnefndin hafi ekki heimild að lögum til þess að endurskoða þær stjórnvaldsákvarðanir. Stefndi mótmælir fullyrðingum stefnenda um að rökstuðningur í umþrættum úrskurðum sé ófullnægjandi og að matsnefndin hafi tekið upp einhliða staðhæfingar stefnda, án raunverulegrar skoðunar, og það enda þótt gögn styddu ekki staðhæfingar fyrirtækisins. Hinu sama gegnir um þá staðhæfingu stefnenda að matsnefndin hafi ekki skoðað með sjálfstæðum hætti hvort lagarök hafi staðið til þess að beita undantekningarreglu 14. gr. laga nr. 11/1973, eða að matsnefndin hafi brotið með öðrum hætti gegn 10. eða 22. gr. stjórnsýslulaga. Bendir stefndi á að matsnefnd eignarnámsbóta geti að sjálfsögðu lagt til grundvallar sínum úrlausnum þær upplýsingar sem komi frá stefnda, enda starfi Landsnet hf. eftir lögbundnu starfsleyfi og hafi fyrirtækið skyldur að lögum. Stefndi hafi lagt fyrir matsnefndina öll sömu gögn og lögð séu fram í þessu máli og hafi matsnefndin tekið afstöðu til þeirra, sem og þeirra gagna sem stefnendur lögðu fram við meðferð málanna fyrir nefndinni. Gildi úrskurða matsnefndarinnar verði ekki metið eftir fjölda dálksentimetra, né verði þeir ógiltir á þeim grundvelli einum að nefndin hafi ekki fallist á málsástæður stefnenda. Stefndi hafnar jafnframt þeirri túlkun stefnenda á lögum nr. 11/1973 að það sé almennt ekki hlutverk matsnefndar eignarnámsbóta að veita eignarnemum umráð yfir hinu eignarnumda. Bendir hann á að hafi eignarnámi verið beitt samkvæmt 23. gr. raforkulaga beri að leggja ákvörðun um bætur fyrir matsnefnd eignarnámsbóta, sbr. 1., 2. og 4. gr. laga nr. 11/1973. Slíkt sé og nauðsynlegt skilyrði fyrir umráðatöku hafi landeigandi ekki veitt samþykki sitt fyrir henni. Umráðataka geti farið fram heimili matsnefndin slíkt og sé það hlutverk nefndarinnar að meta slíka beiðni komi hún fram. Vísar stefndi í þessu sambandi til 13. og 14. gr. tilvitnaðra laga, sem hann telur að sýni glöggt að lögin geri ráð fyrir að umráðataka sé almennt heimiluð ef trygging er sett. Jafnframt vísar hann til greinargerðar með frumvarpi því er síðar var að lögum nr. 11/1973, þar sem fram komi það viðhorf að ekki megi einblína um of á hagsmuni eignarnámsþola, heldur verði að taka hæfilegt tillit til hagsmuna eignarnema. Þá segi þar orðrétt: „Honum [þ.e. eignarnema] má ekki íþyngja með óhóflegri greiðslubyrði vegna eignarnáms og ekki má eignarnám tefja um of framkvæmdir eignarnema.“ Af þessu telur stefndi ljóst að ekki beri síður að taka tillit til lögvarinna hagsmuna og málefnalegra sjónarmiða eignarnema við ákvarðanir matsnefndar eignarnámsbóta. Þá mótmælir stefndi þeirri fullyrðingu stefnenda að matsnefndin hafi með úrskurðum sínum tekið ákvarðanir sem séu utan valdsviðs hennar eða feli í sér meiri háttar íþyngjandi ákvörðun. Hér sé ekki um að ræða ákvörðun um eignarnám heldur ferli til ákvörðunar eignarnámsbóta. Matsnefndin hafi tekið matsmálin til meðferðar, en í því felist ákvörðun um að bótafjárhæð verði ákveðin. Jafnframt hafi matsnefndin fallist á kröfu stefnda um umráðatöku landsins, gegn því að stefndi legði fram tryggingu, samtals að fjárhæð 132 milljónir króna, og hafi stefndi þegar reitt þá tryggingu fram. Stefnendur hafi í engu sýnt fram á að mat matsnefndarinnar við beitingu skýrrar heimildar sinnar samkvæmt 14. gr. laga nr. 11/1973 hafi verið ómálaefnalegt eða byggt á ólögmætum sjónarmiðum. Ekki hafi þeir heldur fært nein rök fyrir hagsmunum sínum af því að halda umráðum hins eignarnumda svæðis þar til matsferli er endanlega lokið. Á hinn bóginn telur stefndi að hagsmunir hans af því að fá umráð landsins séu brýnir, enda knýjandi nauðsyn að ráðist verði í framkvæmdir sem fyrst. Jafnframt telur hann að þar sem stefnendur kröfðust þess að stefndi legði fram tryggingu fyrir hugsanlegum eignarnámsbótum, og matsnefndin hafi fallist á þá kröfu, kunni verulegur vafi að leika á því hvort stefnendur hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn krafna sinna í þessu máli. Vísar hann í því efni til 17. gr. laga nr. 11/1973. Stefndi mótmælir því að hann hafi á nokkurn hátt stuðlað að því að umrædd framkvæmd hafi dregist á langinn, eins og stefnendur láti liggja að. Tekur hann fram að unnið hafi verið í málinu frá árinu 2007 og endurspegli tímalend verkefnisins hin ýmsu lögbundnu ferli sem skylt hafi verið að vinna eftir, svo sem mat á umhverfisáhrifum og gerð skipulagsáætlana. Tímalengdin hafi ekki verið á valdi stefnda þótt hann hafi um árabil verið reiðubúinn til að hefja framkvæmdir. Mótmælt er einnig sem röngum og ósönnuðum staðhæfingum stefnenda um að matsnefnd eignarnámsbóta hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga með því að taka trúanlegar ástæður stefnda fyrir uppbyggingu flutningskerfisins á Suðurnesjum. Til grundvallar ákvörðunum sínum hafi matsnefndin litið til þeirrar staðreyndar að takmörkuð flutningsgeta Suðurnesjalínu 1 og afhendingaröryggi raforku til og frá Suðurnesjum kalli á að ráðast verði sem fyrst í framkvæmdina. Byggist sú niðurstaða á heildarmati málsins, en ljóst sé að öll gögn stefnda og allar stjórnvaldsákvarðanir sem teknar hafi verið staðfesti að framkvæmdin sé bæði brýn og nauðsynleg út frá almannahagsmunum. Þá fullyrðir stefndi að aldrei í sögu matsnefndar eignarnámsbóta hafi komið til þess að hafnað hafi verið beiðni eignarnema um umráðatöku á grundvelli 14. gr. laga nr. 11/1973. Áréttar hann að núverandi tenging Reykjaness við flutningskerfi raforku uppfylli ekki kröfu um svokallaða N-1 tengingu og því sé brýnt að hefja framkvæmdir sem fyrst, enda miklir hagsmunir í húfi, bæði hvað varðar afhendingaröryggi á raforku sem og fjárhagslegir hagsmunir stefnda og alls samfélagsins. Um leið vísar stefndi á bug þeim málflutningi stefnenda að með eðlilegu skipulagi á nýtingu núverandi virkjana á Reykjanesi og í Svartsengi séu Suðurnes sjálfbær um raforku, án nýrrar tengingar við meginflutningskerfið. Ekkert í gögnum málsins styðji slíkt. Vegna umfjöllunar stefnenda um að ekki verði séð að neitt óhagræði sé af því fyrir stefnda þótt hann fái ekki nú þegar umráð hins eignarnumda, þar sem framkvæmdaleyfi hafi enn ekki fengist hjá viðkomandi sveitarfélögum, tekur stefndi fram að hann hafi nú þegar sótt um öll framkvæmdaleyfi vegna lagningar háspennulínunnar. Eitt leyfi hafi þegar verið gefið út, en önnur séu til meðferðar hjá viðkomandi sveitarfélögum. Hins vegar bendir hann á að veiting framkvæmdaleyfis á grundvelli skipulagslaga sé ekki forsenda umráðatöku á grundvelli laga nr. 11/1973. Stefndi Landsnet hf. byggir á því að ákvarðanir matsnefndar eignarnámsbóta um að heimila fyrirtækinu umráðatöku hins eignarnumda séu að öllu leyti lögmætar. Til grundvallar störfum sínum beri matsnefndinni að horfa til ákvarðana ráðherra um eignarnám og hafi nefndin enga heimild til að endurskoða þær ákvarðanir. Um leið mótmælir stefndi þeim málatilbúnaði stefnenda að lög nr. 11/1973 geri ekki ráð fyrir því að matsnefnd fjalli um eignarnámsbætur þegar vafi leiki á um lögmæti eignarnámsins. Í því sambandi bendir stefndi á að umfjöllun stefnenda um málsástæður í þeim dómsmálum sem þeir hafi höfðað vegna leyfisveitingar Orkustofnunar og eignarnámsákvarðana ráðherra séu máli þessu óviðkomandi, en ákvörðun stefnenda um þær málshöfðanir geti ein og sér ekki orðið til þess að verulegur  vafi teljist um lögmæti eignarnámsins. Þá fresti þau dómsmál heldur ekki réttaráhrifum stjórnvaldsákvarðana er varði framkvæmdina, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 60. gr. stjórnarskrárinnar. Af málatilbúnaði stefnenda telur stefndi ljóst að stefnendur vilji breyta stjórnvaldsákvörðunum sem teknar hafi verið vegna Suðurnesjalínu 2, fremur en að þeir telji að brotið sé á einstaklegum og lögvörðum hagmunum þeirra. Fari þeir þannig fram á að sæta annarri meðferð að lögum en þeir sem eru í sambærilegri stöðu. Leggur stefndi áherslu á að eignarréttur stefnenda sæti almennum takmörkunum laga og staðhæfir að við meðferð málsins hafi í engu verið brotið gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 70. gr. hennar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt er því mótmælt að framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2 muni hafa veruleg og óafturkræf áhrif á eignir stefnenda, enda hafi stefnendur ekki með neinu móti rökstutt slíkar fullyrðingar með gögnum. Hins vegar sé hér um að ræða almenna kvöð á eignarrétti sem allir landeigendur á línuleiðinni, sem fari um skipulagt mannvirkjabelti á Reykjanesi, þurfi að sæta. Stefndi mótmælir loks þeirri fullyrðingu stefnenda að hann hafi brotið gróflega gegn skyldu sinni til samráðs við stefnendur við undirbúning umræddrar framkvæmdar. Þvert á móti staðhæfir hann að öllum lögbundnum kynningarferlum hafi verið fylgt og það umfram skyldu. Raunar fær stefndi ekki séð hvaða þýðingu þessi fullyrðing stefnenda hafi við úrlausn málsins. Engu að síður þykir honum ástæða til að benda á að Árósasamningurinn hafi verið  fullgiltur hér á landi árið 2011, en tilskipun 2003/35/EB tekin upp í EES-samninginn 10. febrúar 2012 með ákvörðun Sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þá hafi tilskipun 2011/92/EB, er varði mat á umhverfisáhrifum, verið birt í EES-viðbæti Stjórnartíðinda Evrópusambandsins nr. 14, 20. árgangi, 7. mars 2013. Geri stefnendur enga grein fyrir því á hvern hátt íslensk lög sem taki mið af EES-rétti hafi verið brotin, sér í lagi lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Umhverfismati hafi hins vegar verið lokið árið 2009. Með vísan til alls ofanritaðs byggir stefndi á því að stefnendum hafi á engan hátt tekist að sýna fram á að ógilda beri umþrætta úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta. Krefst hann því sýknu af kröfum þeirra. Um lagarök kveðst stefndi einkum vísa til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, aðallega 60. og 72. gr., mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, raforkulaga nr. 65/2003, aðallega 1. gr., III. og VI. kafla, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, laga um stofnun Landsnets hf. nr. 75/2004, laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, skipulagslaga nr. 123/2010, einkum 13. og 15. gr., laga um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973 og laga um úrskurðarnefnd í umhverfis- og auðlindamálum nr. 130/2011. Um málskostnað vísar stefndi til 129., sbr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Málsástæður og lagarök stefnda íslenska ríkisins Í upphafi máls síns vekur stefndi íslenska ríkið athygli á því að ekki verði séð að nauðsyn hafi borið til að stefna íslenska ríkinu í máli þessu, enda varði málið aðeins hagsmuni stefnda Landsnets hf., sem eignarnema í skilningi laga nr. 11/1973. Íslenska ríkið telur því að til álita komi að vísa málinu frá dómi að því er það varðar. Sýknukrafa íslenska ríkisins byggist á því að ekkert sé fram komið í málinu sem valdið geti ógildingu umræddra úrskurða matsnefndar eignarnámsbóta. Þannig séu ákvarðanir matsnefndarinnar rökstuddar eins og tilefni hafi verið til og hafi málið verið reifað og rökstutt munnlega af hálfu aðila fyrir nefndinni, að undangengnum skriflegum málflutningi. Jafnframt hafi verið gengið á vettvang. Ekki verði heldur séð að nefndin hafi horft fram hjá gögnum um málið eða upplýsingum er það varði. Telur stefndi því að meðferð og ákvarðanir matsnefndarinnar hafi uppfyllt skilyrði um rannsókn og rökstuðning, sbr. 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Mat nefndarinnar hafi verið að eignarnema væri brýn nauðsyn á að fá landsvæðið til umráða strax. Stefndi tekur fram að alla jafna þurfi sérstaka heimild í lögum ef kærur eða málshöfðun eiga að fresta framkvæmd ákvörðunar. Meginreglan sé sú sem 2. málsliður 60. gr. stjórnarskrár kveði á um, sbr. einnig 29. gr. stjórnsýslulaga. Á sama hátt sé því óraunhæf sú málsástæða stefnenda að matsnefndin hafi ekki mátt heimila umráðatöku þótt ekki væri leyst úr dómsmálum um gildi eignarnámsins. Ákvæði 1. mgr. 14. gr. laga nr. 11/1973 mæli sérstaklega fyrir um að heimila megi eignarnema að taka eign til umráða þótt mati sé ekki lokið. Af því leiði sjálfkrafa að heimila megi það þótt ekki hafi verið leyst úr um gildi eignarnámsins fyrir dómi. Stefndi hafnar því að ákvarðanir matsnefndarinnar stríði gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar. Gildi eignarnámsins velti að endingu á þeirri grein kjósi aðili að bera málið undir dóm. Þótt eignarnema sé heimiluð umráðataka telur stefndi það í reynd ekki frekara inngrip í eignarrétt. Því verði tæplega séð að umráðatakan njóti sérstakrar eignarréttarverndar svo lengi sem eignarnám stendur óhaggað. Að sama skapi hafnar stefndi því að ákvarðanir matsnefndarinnar brjóti í bága við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og meðalhófsreglu stjórnarskrárinnar. Þá hafi stefnendur ekki sýnt fram á hvaða hagsmuni þeir hafi af því að stefndi Landsnet hf. fái ekki umráð landsins meðan eignarnámið stendur óhaggað og því hafi ekki verið hrundið eða það staðfest með dómi. Ekki sé heldur rökstutt á hvern hátt umráðatakan kunni að spilla matsstörfum, en augljóslega sé unnt að meta eignarnámsbætur þótt eignarnemi fái umráð landsins. Á hinn bóginn sé ekkert í ákvörðunum matsnefndarinnar sem komi í veg fyrir að stefnendur geti lagt mál sín fyrir dómstóla, sbr. 60. gr. stjórnarskrárinnar. Að áliti stefnda voru uppfyllt að öllu leyti skilyrði 14. gr. laga nr. 11/1973 þegar matsnefnd ákvað að veita stefnda Landsneti hf. heimild til umráðatöku nauðsynlegra landsréttinda stefnenda. Telur hann að málatilbúnaður stefnenda gangi þvert á orð laganna. Með vísan til fyrri röksemda byggir stefndi einnig á því að matsnefndin hafi að réttu lagi hafnað kröfu stefnenda um að fresta málinu. Málskostnaðarkrafa stefnda íslenska ríkisins byggist á ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Niðurstaða Í máli þessu krefjast stefnendur ógildingar á úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta í málum nr. 4/2014, 5/2014, 6/2014, 7/2014 og 8/2014, sem allir voru kveðnir upp 29. júlí 2014. Með úrskurðum þessum var stefnda Landsneti hf. veitt heimild til umráðatöku lands innan jarða stefnenda vegna áforma fyrirtækisins um að leggja svokallaða Suðurnesjalínu 2 í lofti. Kröfur stefnenda eru meðal annars á því reistar að rökstuðningur og rannsókn matsnefndar eignarnámsbóta sé með öllu ófullnægjandi og hafi nefndin til að mynda ekki fjallað efnislega um þá aðalkröfu stefnenda að fresta bæri meðferð málanna þar til leyst hefði verið úr ágreiningi um lögmæti eignarnámsins fyrir dómstólum. Samkvæmt meginreglu stjórnsýsluréttar um skilvirka málsmeðferð bar matsnefnd eignarnámsbóta að taka fram komnar kröfur stefnda Landsnets hf. um umráðatöku til meðferðar eins fljótt og kostur var, sbr. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þau sjónarmið sem stefnendur færðu fram því til stuðnings að matsnefnd bæri að fresta málunum, í stað þess að taka þau til efnislegrar meðferðar og kveða upp í þeim úrskurð að lokinni gagnaöflun, lutu í reynd að lagalegum skilyrðum fyrir umráðatöku samkvæmt lögum nr. 11/1973, en ekki að atriðum sem leitt gátu til frestunar stjórnsýslumáls. Í samræmi við þetta hafa stefnendur hér fyrir dómi vísað til þessara sjónarmiða til stuðnings því að lagalegum skilyrðum hafi ekki verið fullnægt til umráðatöku, svo og að úrskurðir matsnefndar eignarnámsbóta hafi brotið gegn nánar tilteknum ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, þ. á m. rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar, og 6. og 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Í þessu ljósi telur dómurinn að matsnefndinni hafi ekki borið að rökstyðja frekar en gert var þá afstöðu sína að hafna bæri kröfum stefnenda um frestun málanna. Eins og mál þetta hefur nú verið lagt fyrir dóminn koma þau atriði sem stefnendur færðu fram til stuðnings kröfu sinni um frestun málsmeðferðar matsnefndar hins vegar til skoðunar við úrlausn um lögmæti fyrrgreindra úrskurða. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms, getur matsnefnd eignarnámsbóta, þótt mati sé ekki lokið, heimilað eignarnema að taka umráð verðmætis, sem taka á eignarnámi, og ráðast í þær framkvæmdir, sem eru tilefni eignarnámsins. Komi krafa um það fram af hálfu eignarnámsþola, skal eignarnemi setja tryggingu fyrir væntanlegum bótum samkvæmt ákvörðun nefndarinnar. Sama á við ef vandkvæði eru á að ákveða bætur fyrir fram eða mat er að öðru leyti vandasamt, sbr. 2. mgr. Téð ákvæði fela í sér frávik frá þeirri meginreglu 13. gr. laganna að eignarnemi fái einungis umráð eignarnumins verðmætis gegn greiðslu matsfjárhæðar og kostnaðar af mati. Einnig verður hér að líta til þess að eignarnám felur í sér skerðingu á stjórnskipulega vernduðum réttindum manna sem getur aðeins farið fram á grundvelli laga og að því tilskildu að almenningsþörf krefji og fullt verð komi fyrir, sbr. 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Í þessu ljósi verður að skýra 1. mgr. 14. gr. laga nr. 11/1973 á þá leið að heimild ákvæðisins sé bundin við þá aðstöðu að eignarnema sé nauðsyn á að fá fljótt umráð eignarnumins verðmætis og sé verulegt óhagræði af því að bíða eftir ákvörðun bóta. Er eignarnema þannig ekki nægilegt að sýna fram á að eignarnám hans þjóni almennt almannahagsmunum þannig að fullnægt sé fyrrgreindum áskilnaði stjórnarskrár um almannaþörf, heldur verður hann einnig að færa að því rök að tafarlaus umráðataka sé nauðsynleg, svo og að slík ráðstöfun gangi ekki lengra en nauðsynlegt er með hliðsjón af þeim hagsmunum sem um er að tefla. Með vísan til þessa ber mati samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laganna að vera heildstætt og taka til allra þátta sem þýðingu hafa um hagsmuni aðila, þ. á m. hvort fyrirsjáanlegt er að mat á eign verði flókið og tímafrekt þannig að umráðataka samkvæmt 13. gr. laganna kunni að dragast umtalsvert, sbr. til hliðsjónar þau sjónarmið sem liggja til grundvallar fyrrgreindri 2. mgr. 14. gr. laganna. Jafnframt er eðlilegt að líta til eðlis þeirra hagsmuna eignarnámsþola sem skertir verða með eignarnámi og tafarlausri umráðatöku, meðal annars hvort tafarlaus umráðataka kunni í reynd að skerða möguleika eignarnámsþola til að fá skorið úr um lögmæti ákvörðunar um að heimila eignarnám fyrir dómi. Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 bar matsnefnd eignarnámsbóta að taka rökstudda afstöðu til þeirra lagalegu skilyrða sem hér um ræðir og jafnframt greina frá þeim meginsjónarmiðum sem réðu mati nefndarinnar á hagsmunum aðila. Í áðurgreindum úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta er vísað til þess að flutningsgeta núverandi raflínu sé fullnýtt og ekki þyki nægilega öruggt að flytja raforku til jafnstórs svæðis um einungis eina línu. Samkvæmt þessu telur nefndin að sýnt hafi verið fram á þörfina á að styrkja línuna með þeirri nýju línu sem heimilað hafi verið að leggja og lítur nefndin svo á að stefnda Landsneti hf. sé nauðsyn á að fá umráð hins eignarnumda sem fyrst. Verður að skilja þennan rökstuðning nefndarinnar þannig að í meginatriðum hafi verið tekið undir þau sjónarmið sem fram komu í beiðni stefnda Landsnets hf. um umráðatöku og eftirfarandi greinargerð, en í þessum gögnum var um þetta einkum vísað til fyrrgreindra ákvarðana atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um heimild til eignarnáms, svo og forsendna Orkustofnunar fyrir veitingu leyfis til að reisa Suðurnesjalínu 2. Í forsendum fyrir téðu leyfi Orkustofnunar kemur fram að fyrirhuguð framkvæmd stefnda muni þjóna þjóðhagslegri hagkvæmni með því að tryggja afhendingaröryggi raforku frá framleiðendum raforku til neytenda um flutnings- og dreifikerfi með raflínum, en í því sambandi er talið ófullnægjandi að stór svæði séu tengd meginflutningskerfinu með einungis einni tengingu. Segir í forsendum Orkustofnunar að „þannig verði með uppbyggingu flutningskerfisins að horfa til lengri tíma og framtíðarþarfa allra notenda samkvæmt raforkulögum sem eru dreifiveitur, stórnotendur, virkjanir og þeir aðilar sem hafa leyfi til að stunda viðskipti með raforku“. Með svipuðum hætti er í áðurnefndum ákvörðunum atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um heimild til eignarnáms litið til þess að við framtíðaruppbyggingu flutningskerfis raforku séu áreiðanlegar tengingar fyrir svæðið inn á meginflutningskerfi raforku nauðsynlegar, ekki síst þegar höfð sé hliðsjón af þegar starfandi virkjunum og virkjanakostum á Reykjanesi. Í ákvörðunum ráðherra er hins vegar einnig vísað til sjónarmiða stefnda Landsnets hf. um að sú lína sem nú þjóni svæðinu sé fulllestuð og öryggi kerfisins ófullnægjandi þar sem svæðið sé ekki tengt meginflutningskerfi Landsnets hf. með svokallaðri N-1 tengingu. Jafnframt er fullyrt að það hafi valdið vandkvæðum og straumleysi á svæðinu þegar Suðurnesjalína 1 hafi farið úr rekstri vegna viðhalds og truflana. Út frá lágmarks afhendingaröryggi raforku sé um brýna og óumflýjanlega framkvæmd að ræða og er í því sambandi bent á að helsti millilandaflugvöllur landsins sé staðsettur á svæðinu. Þá kemur fram í ákvörðunum ráðherra að landeigendur taki almennt undir þá meginforsendu stefnda Landsnets hf. að tenging Suðurnesja við meginflutningskerfi raforku sé ófullnægjandi. Af framlögðum gögnum málsins verður dregin sú ályktun að lagning Suðurnesjalínu 2 sé ætlað að tryggja öruggan flutning raforku frá raforkuverum á Reykjanesi inn á meginflutningsnet stefnda Landsnets hf. Til framtíðar litið mun lagning línunnar einnig skapa forsendur fyrir flutningi raforku frá mögulegum framtíðarvirkjunum á svæðinu. Í þessu sambandi er til þess að líta að á Reykjanesi eru nú tvær jarðvarmavirkjanir sem framleiða samtals 175 MW. Er það meira en heildarnotkun raforku á Reykjanesi og því er stór hluti þeirrar orku fluttur um Suðurnesjalínu 1 til höfuðborgarsvæðisins. Í málinu liggja ekki fyrir gögn um að núverandi fyrirkomulag hafi valdið stefnda Landsneti hf. sérstöku óhagræði, svo sem í samningsgerð við stórnotendur eða framkvæmd samninga, eða leitt til tjóns eða jafnvel hættu fyrir samfélagið. Engu að síður telur dómurinn hafið yfir vafa að við núverandi aðstæður sé afhendingaröryggi raforku á Reykjanesi ábótavant. Þannig mun ljóst að slái Suðurnesjalína 1 óvænt út vegna bilunar mun algjört rafmagnsleysi verða á því svæði. Við slíkar aðstæður munu virkjanir á svæðinu ekki geta séð því fyrir raforku þar sem ómögulegt er að reka jarðvarmavirkjanir í svonefndum eyjarekstri sökum eðliseiginleika þeirra. Líklegt er að við slíka truflun myndu þær leysa út og yrði ekki mögulegt að ræsa þær aftur fyrr en rafmagnstenging kæmist á að nýju frá meginflutningskerfinu. Að öllu þessu virtu telur dómurinn að fallast verði á það mat stefnda Landsnets hf. að þörfin á að bæta tengingu þess svæðis sem hér um ræðir við meginflutningskerfi stefnda sé ekki einungis nauðsynleg vegna langtímasjónarmiða, heldur sé hún einnig aðkallandi til skemmri tíma litið. Dómurinn telur ljóst að mat á bótum vegna eignarnáms á nauðsynlegum landsréttindum stefnenda kann að reynast flókið og tímafrekt. Er því fyrirsjáanlegt að bygging Suðurnesjalínu 2 kann að dragast umtalsvert ef stefnda Landsneti hf. er synjað um tafarlausa umráðatöku. Að þessu virtu, svo og með hliðsjón af eðli þeirrar skerðingar sem fyrirhuguð er á fasteignaréttindum stefnenda, verður á það fallist að efnislegum skilyrðum 1. mgr. 14. gr. laga nr. 11/1973 hafi verið fullnægt. Ekki verður á það fallist að málsmeðferð matsnefndar eignarnámsbóta hafi verið ábótavant með tilliti til rannsóknar málsins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þótt rökstuðningur matsnefndar eignarnámsbóta í áðurgreindum úrskurðum nefndarinnar sé vissulega fábrotinn með tilliti til þeirra skilyrða sem leiða af 14. gr. laga nr. 11/1973 og áður greinir, er engu að síður vísað þar til afhendingaröryggis raforku sem meginrökstuðnings fyrir niðurstöðu nefndarinnar. Þegar litið er til þess, aðdraganda málsins og efnis úrskurðanna í heild, er það álit dómsins að annmarkar á rökstuðningi matsnefndar eignarnámsbóta séu ekki svo stórvægilegir að nægi til ógildingar úrskurðanna með vísan til 22. gr. laga nr. 37/1993. Samkvæmt þessu verður heldur ekki á það fallist að úrskurðir matsnefndar eignarnámsbóta hafi verið andstæðir þeim ákvæðum stjórnarskrár og ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu sem stefnendur vísa til. Samkvæmt ítrekuðum fordæmum Hæstaréttar er ljóst að íslenska ríkið á ekki varnaraðild að máli sem höfðað er til ógildingar ákvörðunar sjálfstæðrar stjórnsýslunefndar. Ber því að vísa kröfum stefnenda á hendur stefnda íslenska ríkinu frá dómi án kröfu. Þrátt fyrir niðurstöðu málsins þykir rétt, í ljósi atvika og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, að bæði stefnendur og stefndi Landsnet hf. beri hver sinn kostnað af málinu. Hins vegar verða stefnendur á grundvelli 2. mgr. 130. gr. sömu laga dæmdir til að greiða stefnda íslenska ríkinu málskostnað, sem telst hæfilega ákveðinn 250 þúsund krónur. Dóminn kváðu upp Ingimundur Einarsson dómstjóri, sem dómsformaður, og meðdómsmennirnir Skúli Magnússon héraðsdómari og Gnýr Guðmundsson rafmagnstæknifræðingur. D Ó M S O R Ð: Kröfum stefnenda, Geirlaugar Þorvaldsdóttur, Margrétar Guðnadóttur, Ólafs Þórs Jónssonar, Reykjaprents ehf., Sauðafells sf., Sigríðar S. Jónsdóttur, Bjarneyjar Guðrúnar Ólafsdóttur, STV ehf., Skúla Þorvaldssonar og Katrínar Þorvaldsdóttur, gegn stefnda, íslenska ríkinu, er vísað frá dómi. Stefnendur greiði óskipt stefnda, íslenska ríkinu, 250.000 krónur í málskostnað. Stefndi, Landsnet hf., er sýkn af kröfum stefnenda. Málskostnaður milli stefnenda og stefnda, Landsnets hf., fellur niður.
Mál nr. 678/2014
Niðurlagning stöðu Samningur Stjórnsýsla Miskabætur
Starf D sem sérlegur erindreki alþjóðaheilbrigðismála hjá Í var lagt niður 1. febrúar 2009 og naut hann biðlauna til 1. febrúar 2010. Hann höfðaði mál gegn Í og krafðist launa og orlofs vegna námsleyfis fyrir tímabilið 1. febrúar 2010 til 1. ágúst 2011, en þá kröfu reisti hann á minnisblaði heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og utanríkisráðherra þar sem fram kom að í störfum sínum nyti D, sem áður gegndi stöðu ráðuneytisstjóra, alls áunnins réttar til framhalds- og endurmenntunar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að með starfslokum væri endi bundinn á rétt starfsmanns til námsleyfis, enda væri námsleyfi ætlað að gera starfsmann hæfari til að sinna verkum sínum er hann kæmi aftur til starfa úr leyfi. D hefði ekki fært sönnur á að samkomulag hafi tekist milli aðila um greiðslu launa í námsleyfi eftir starfslok hans og því hefði réttur hans til endurmenntunar fallið niður við starfslok hans hjá Í. D hélt því einnig fram að hann ætti rétt á miskabótum og byggði þá kröfu meðal annars á því að umboðsmaður Alþingis hefði komist að því að ekki hefði verið nægjanlega gætt að því að fylgja sjónarmiðum sem leiði af vönduðum stjórnsýsluháttum og lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins við starfslok hans. Í því sambandi kom fram í dómi Hæstaréttar að jafnvel þótt Í hefði mátt standa betur að tilkynningu til D um starfslokin yrði ekki talið að með tilkynningunni hefði verið brotið gegn óskráðri meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar þannig að í því hefði falist ólögmæt meingerð gegn æru eða persónu D. Var miskabótakröfu D því hafnað. Þá var hafnað kröfu hans um greiðslu kostnaðar vegna reksturs málsins hjá umboðsmanni Alþingis.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Eiríkur Tómasson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. október 2014. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að tildæmd fjárhæð verði lækkuð og málskostnaður felldur niður. Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 4. desember 2014. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 15.067.886 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. mars 2010 til greiðsludags, en til vara af sömu fjárhæð með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna af sömu fjárhæð frá 1. febrúar 2009 til 29. janúar 2013 og dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt krefst hann þess að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 5.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. fyrrgreindra laga frá 1. febrúar 2009 til 29. janúar 2013, en dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags, og 300.000 krónur með dráttarvöxtum frá 29. janúar 2013 til greiðsludags. Loks krefst gagnáfrýjandi hærri málskostnaðar en honum var dæmdur í héraði auk málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Starf það, er gagnáfrýjandi hafði gegnt sem sérlegur erindreki alþjóðaheilbrigðismála, samkvæmt samkomulagi milli hans og þáverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og utanríkisráðherra 31. ágúst 2007, var lagt niður 1. febrúar 2009 og naut hann biðlauna til 1. febrúar 2010. Gagnáfrýjandi krefst í máli þessu launa og orlofs vegna námsleyfis fyrir tímabilið 1. febrúar 2010 til 1. ágúst 2011. Hann reisir þá kröfu meðal annars á ódagsettu minnisblaði heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og utanríkisráðherra, sem gagnáfrýjandi undirritaði, en í niðurlagi minnisblaðsins sagði: ,,Davíð skal í hinu nýja embætti eiga kost á framhalds- og endurmenntun í efnum tengdum þessum málaflokki, sbr. m.a. 4. gr. úrskurðar Kjararáðs um almenn starfskjör frá 30. maí 2007. Kostnaður vegna framangreinds, að því marki sem hann byggir á áunnum rétti fyrir 1. september 2007, skal borinn af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.“ Þá bendir gagnáfrýjandi á bréf heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 31. ágúst 2007 til stuðnings þessari kröfu, en þar sagði: ,,Með vísan til minnisblaðs heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og utanríkisráðherra, dags 31. ágúst 2007, heimilar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að Davíð Á. Gunnarsson, ráðuneytisstjóri, njóti alls áunnins réttar síns til framhalds- og endurmenntunar sbr. grein 4.1. í úrskurði Kjararáðs um almenn starfskjör frá 30. maí 2007, og greiða honum dagpeninga á námstímanum samkvæmt reglum ferðakostnaðarnefndar.“ Fallist er á þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að ofangreind skjöl verði ekki túlkuð rýmra en samkvæmt orðanna hljóðan á þann veg að gagnáfrýjandi hafi í hinu nýja embætti átt kost á framhalds- og endurmenntun og að um þann rétt færi samkvæmt 4. gr. reglna kjararáðs um starfskjör 30. maí 2007.  Líta verður svo á að með starfslokum sé endi bundinn á rétt starfsmanns til námsleyfis, nema um annað sé sérstaklega samið, enda er námsleyfi ætlað að gera starfsmann hæfari til að sinna verkum sínum er hann snýr aftur úr leyfinu þannig að það komi vinnuveitanda jafnt sem starfsmanni að notum. Fallist er á með héraðsdómi að gagnáfrýjanda hafi ekki fært sönnur á að samkomulag hafi tekist milli aðila um greiðslu launa í námsleyfi eftir starfslok hans hjá aðaláfrýjanda. Samkvæmt framansögðu féll því niður réttur gagnáfrýjanda til endurmenntunar þegar hann lauk störfum hjá aðaláfrýjanda. Í samræmi við það verður aðaláfrýjandi sýknaður af kröfu gagnáfrýjanda um laun og orlof vegna námsleyfis á fyrrgreindu tímabili og jafnframt af kröfu hans um skaðabætur sem jafngildi launum ráðuneytisstjóra á því tímabili. II Kröfu sína um miskabætur reisir gagnáfrýjandi á því að umboðsmaður Alþingis hafi 30. desember 2010 komist að því í tilefni kvörtunar sinnar til hans að ekki hafi verið nægjanlega gætt að því að fylgja sjónarmiðum, sem leiði af vönduðum stjórnsýsluháttum og 1. mgr. 14. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, við starfslok sín. Þá er krafan rökstudd með því að gagnáfrýjandi hafi orðið af störfum sem hann hafi haft hug á, vegna þess hvernig starfslokin hafi borið að. Stjórnvöld hafi enga skýringu gefið á brotthvarfi gagnáfrýjanda úr starfi og með framferði sínu grafið undan trausti á persónu hans. Um lagarök fyrir kröfunni vísar gagnáfrýjandi til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga er heimilt að láta þann sem ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert er við. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að skaðabótalögum sagði að í skilyrðinu um ólögmæta meingerð fælist að um saknæma hegðun væri að ræða. Gáleysi myndi þó þurfa að vera verulegt til þess að tjónsatvik yrði talið ólögmæt meingerð. Af dómafordæmum Hæstaréttar verður ráðið að lægsta stig gáleysis uppfylli ekki kröfu þessa ákvæðis um ólögmæta meingerð. Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi var gagnáfrýjanda tilkynnt með bréfi 28. janúar 2009 að ákveðið hafi verið að leggja niður embætti hans frá og með 1. febrúar sama ár og var þar vísað til breyttra forsendna vegna samdráttar í ríkisfjármálum og þess að fyrirhugað væri að draga verulega úr fjárframlögum til utanríkismála. Umrædd ákvörðun aðaláfrýjanda um starfslok gagnáfrýjanda tengdist því hvorki starfshæfni hans né persónu. Jafnvel þótt aðaláfrýjandi hefði mátt standa betur að tilkynningu til gagnáfrýjanda um starfslok hans, með því að gefa honum rýmri tíma og ráðrúm til að bregðast við henni, verður ekki talið að aðaláfrýjandi hafi þar með brotið gegn óskráðri meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Samkvæmt framangreindu fólst ekki ólögmæt meingerð af hálfu aðaláfrýjanda gegn æru eða persónu gagnáfrýjanda með tilkynningunni um starfslokin og verður hann því sýknaður af kröfu um miskabætur af þeim sökum. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að sýkna aðaláfrýjanda af kröfu gagnáfrýjanda um kostnað vegna rekstur máls síns hjá umboðsmanni Alþingis er staðfest með vísan til forsendna hans. Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu á báðum dómstigum. Dómsorð: Aðaláfrýjandi, íslenska ríkið, er sýknað af kröfum gagnáfrýjanda, Davíðs Á. Gunnarssonar. Málskostnaður fyrir héraðsdómi og Hæstarétti fellur niður. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júlí 2014.                 Mál þetta, sem var dómtekið 20. júní sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Davíð Á. Gunnarssyni Selbraut 76 á Seltjarnarnesi á hendur íslenska ríkinu með stefnu birtri 23. janúar 2013. Í stefnu er tiltekið að Katrínu Júlíusdóttur fjármálaráðherra, Guðbjarti Hannessyni velferðarráðherra og Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra, sé öllum stefnt fyrir hönd stefnda, íslenska ríkisins.                 Stefnandi krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér vangreidd laun og orlof vegna námsleyfis fyrir tímabilið 1. febrúar 2010 til 1. september 2011, samtals 15.984.923 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 874.200 kr. frá 1. mars 2010 til 1. apríl 2010, af 1.748.400 kr. frá 1. apríl 2010 til 1. maí 2010, af 2.622.600 kr. frá 1. maí 2010 til 1. júní 2010, af 3.496.800 kr. frá 1. júní 2010 til 1. júlí 2010, af 4.371.000 kr. frá 1. júlí 2010 til 1. ágúst 2010, af 5.245.200 kr. frá 1. ágúst 2010 til 1. september 2010, af 6.119.400 kr. frá 1. september 2010 til 1. október 2010, af 6.993.600 kr. frá 1. október 2010 til 1. nóvember 2010, af 7.867.800 kr. frá 1. nóvember 2010 til 1. desember 2010, af 8.812.812 kr. frá 1. desember 2010 til 1. janúar 2011, af 9.687.012 kr. frá 1. janúar 2011 til 1. febrúar 2011, af 10.561.212 kr. frá 1. febrúar 2011 til 1. mars 2011, af 11.435.412 kr. frá 1. mars 2011 til 1. apríl 2011, af 12.309.612 kr. frá 1. apríl 2011 til 1. maí 2011, af 13.183.812 kr. frá 1. maí 2011 til 1. júní 2011, af 14.150.849 kr. frá 1. júní 2011 til 1. júlí 2011, af 15.067.886 kr. frá 1. júlí 2011 til 1. ágúst 2011 og af 15.984.923 kr. frá 1. ágúst 2011 til greiðsludags.                 Til vara krefst stefnandi skaðabóta sem jafngilda launagreiðslum fyrir tímabilið 1. febrúar 2010 til 1. september 2011, samtals að fjárhæð 15.984.923 kr. auk vaxta af þeirri fjárhæð skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá 1. febrúar 2009 til þingfestingardags, og dráttarvaxta frá þingfestingardegi til greiðsludags.                 Þá gerir stefnandi kröfur um greiðslu miskabóta að fjárhæð 5.000.000 kr. auk vaxta af þeirri fjárhæð skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá 1. febrúar 2009 til þingfestingardags, og dráttarvaxta frá þingfestingardegi til greiðsludags.                 Einnig gerir stefnandi kröfu um greiðslu kostnaðar við málarekstur fyrir umboðsmanni Alþingis samtals að fjárhæð 300.000 kr. ásamt dráttarvöxtum, frá þingfestingardegi og til greiðsludags samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.                 Loks krefst stefnandi greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnda í samræmi við gjaldskrá Lögmanna Laugavegi 3 ehf. auk lögmælts virðisaukaskatts samkvæmt lögum nr. 50/1988 samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.                 Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefndu málskostnað samkvæmt mati dómsins en til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður í því tilviki felldur niður. Málavextir                 Stefnandi tók við starfi í utanríkisráðuneytinu þann 1. september 2007 sem sérstakur erindreki alþjóðaheilbrigðismála „Special Envoy for Global Health“ og gegndi því starfi þar til það var lagt niður 1. febrúar 2009. Tilkynningu þess efnis fékk stefnandi frá þáverandi utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, með bréfi dags. 28. janúar það ár en stefnandi kveðst hafa verið upplýstur um ákvörðun þessa á fundi með ráðherra sama dag.                 Stefnandi gegndi áður starfi ráðuneytisstjóra í heilbrigðis- og tryggingamála- ráðuneytinu en hann var skipaður í það embætti 11. október 1995 og áður var hann aðstoðarforstjóri og síðar forstjóri Ríkisspítalanna og Landspítalans, forvera Landspítala – háskólasjúkrahúss (LSH), samtals í tæp 25 ár. Um árabil starfaði stefnandi jafnframt að heilbrigðismálum á alþjóðlegum vettvangi, m.a. með setu í fastanefnd Evrópusvæðis Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) á árunum 1997-2000 og átti sæti í aðalstjórn WHO á árunum 2002-2006, þar af eitt ár sem formaður og var kjörinn í stjórn eftirlaunasjóðs WHO árið 2006. Auk framangreinds var stefnandi allt frá árinu 1998 sérstakur ráðgjafi utanríkisráðuneytisins varðandi mál sem snertu heilbrigðismál og þróunarsamvinnu, m.a. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og annarra alþjóðastofnana.                 Gengið var frá flutningi á starfi stefnanda með minnisblaði sem er undirritað af þáverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, þáverandi utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og stefnanda. Minnisblaðið er ódagsett en það mun hafa verið undirritað 31. ágúst 2007 og segir í því að fyrirkomulagið taki gildi frá og með 1. september 2007. Í inngangi minnisblaðsins kemur fram að ríkisstjórn Íslands hafi ákveðið að auka þátttöku landsins á sviði þróunarverkefna í heilbrigðismálum á alþjóðlegum vettvangi. Segir síðan að stefnandi hafi fallist á beiðni ríkisstjórnarinnar um að leiða framangreint starf stjórnvalda en um leið sé starfsskyldum hans sem ráðuneytisstjóra í heilbrigðis- og tryggingamála- ráðuneytinu létt af honum. Aðila greinir á um hvort í þessu hafi falist tímabundinn eða varanlegur tilflutningur stefnanda í starfi.                 Nánar um réttarstöðu stefnanda á meðan hann sinni þessu verkefni segir í minnisblaðinu að á grundvelli 36. gr. laga nr. 70/1996 hafi heilbrigðis- og trygginga- málaráðherra, utanríkisráðherra og stefnandi komist að samkomulagi um að stefnandi flytjist úr embætti ráðuneytisstjóra í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu í utanríkisráðuneytið, í embættið „Special Envoy for Global Health“, sem sé sérlegur erindreki í skilningi 2. tl. 22. gr. sömu laga og sinni umbeðnum störfum á vettvangi alþjóða heilbrigðismála, með sérstakri áherslu á málefni Alþjóðaheilbrigðismála- stofnunarinnar, WHO. Þá segir jafnframt um starfskjör stefnanda: „Á embættistímanum heldur Davíð öllum starfskjörum ráðuneytisstjóra eins og þau eru á hverjum tíma, sbr. 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar. Ennfremur heldur Davíð öllum áunnum réttindum, þ. á. m. ótímabundinni skipun sinni (æviráðningu), sbr. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 70/1996.“ Loks er svohljóðandi málsgrein um endurmenntun stefnanda: „Davíð skal í hinu nýja embætti eiga kost á framhalds- og endurmenntun í efnum tengdum þessum málaflokki, sbr. m. a. 4. gr. úrskurðar Kjararáðs um almenn starfskjör frá 30. maí 2007. Kostnaður vegna framangreinds, að því marki sem hann byggir á áunnum rétti fyrir 1. september 2007, skal borinn af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu.“ Með bréfi utanríkisráðherra dags. 31. ágúst 2007 er stefnanda formlega tilkynnt um flutning hans úr starfi ráðuneytisstjóra í utanríkisráðuneytið í embætti „Envoy for Global Health“. Áréttað er í bréfinu að stefnandi haldi óskertum launum og starfskjörum og vísað að öðru leyti til framangreinds minnisblaðs um þau atriði. Þá ritaði heilbrigðis- og tryggingamála- ráðherra einnig bréf til stefnanda sama dag þar sem vísað er til minnisblaðsins auk þess sem þar segir að ráðherra heimili að stefnandi njóti alls áunnins réttar síns til framhalds- og endurmenntunar sbr. grein 4.1 í úrskurði kjararáðs um almenn starfskjör frá 30. maí 2007, og að honum verði greiddir dagpeningar á námstímanum samkvæmt reglum ferðakostnaðarnefndar. Í tilvitnuðum gögnum er vísað til úrskurðar kjararáðs en mun vera átt við reglur kjararáðs um starfskjör embættismanna sem samþykktar voru af ráðinu 30. maí 2007 og tóku gildi 1. júní sama ár.                 Stefnandi tók við hinu nýja starfi í samræmi við ofangreint þann 1. september 2007 en hann kveðst hafa haldið áfram að vinna fyrir heilbrigðis- og tryggingamála- ráðuneytið að störfum sem sneru að skyldum íslenska ríkisins gagnvart WHO og annast samningagerð fyrir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið vegna endurskoðunar samnings við Department of Health and Human Services og National Institute of Health (NIH). Í ágúst 2008 kveðst stefnandi hafa skilað skýrslu til utanríkisráðherra og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra með tillögum um stefnumótun varðandi aukna þátttöku Íslendinga í heilbrigðismálum á alþjóða- vettvangi. Skýrslan hafi hafi verið unnin í samráði við WHO og stefnandi kveðst hafa gert ráð fyrir því að sinna áfram að fullu þessum og öðrum störfum tengdum WHO. Á árinu 2008 kveðst stefnandi hafa hafið undirbúning að töku námsleyfis en taka þess hafi frestast þar sem ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins hafi óvænt falið honum að fylgjast með framkvæmd forsetakosninganna í Bandaríkjunum.                 Hinn 28. janúar 2009 barst stefnanda bréf frá utanríkisráðherra þar sem tilkynnt var að ákveðið hefði verið að leggja niður embætti hans í utanríkisráðuneytinu frá og með 1. febrúar 2009. Í bréfinu var vísað til breyttra forsendna vegna samdráttar í ríkisfjármálum. Tekið var fram að stefnandi ætti rétt á 12 mánaða biðlaunum og að við starfslokin yrði gjaldfallið orlof sem og áunnið en ógjaldfallið orlof gert upp. Ekki er getið annarra áunninna réttinda.                 Stefnandi kveðst hafa verið á leið í námsleyfi þegar honum var afhent uppsagnarbréfið. Ágreiningur aðila í máli þessu lýtur að því hvort stefnandi eigi rétt til greiðslu launa og orlofs vegna námsleyfis á tímabilinu 1. febrúar 2010 til 1. september 2011.                 Stefnandi kvartaði til umboðsmanns Alþingis þann 29. desember 2009 vegna þeirrar ákvörðunar utanríkisráðherra að leggja stöðu hans niður. Umboðsmaður lauk meðferð þess máls 30. desember 2010. Í niðurstöðu umboðsmanns kemur fram að hann telji sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá ákvörðun utanríkisráðherra að leggja niður starf stefnanda. Hins vegar gerði umboðsmaður ráðherra grein fyrir því, með bréfi sama dag, að hann teldi að ekki hefði verið nægjanlega gætt að því að fylgja þeim sjónarmiðum sem leiða af vönduðum stjórnsýsluháttum og 1. mgr. 14. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, við starfslok stefnanda.                 Aðalmeðferð máls þessa fór fyrst fram 26. febrúar sl. Þá gaf stefnandi skýrslu fyrir dómi og vitnin Guðlaugur Þór Þórðarson, fyrrverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Garðar Garðarsson hæstaréttarlögmaður og Ragnheiður Haraldsdóttir, fyrrverandi skrifstofustjóri og staðgengill ráðuneytisstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Framburður þeirra er rakinn eftir því sem tilefni er til í niðurstöðukafla dómsins. Þar sem ekki tókst að leggja dóm á málið innan frests skv. 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 var málið endurflutt þann 20. júní og dómtekið að nýju að því loknu. Málsástæður og lagarök stefnanda                 Í máli þessu er fjármálaráðherra stefnt fyrir hönd íslenska ríkisins sem launagreiðanda. Enn fremur er velferðarráðherra stefnt sem arftaka heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og utanríkisráðherra er stefnt sem þeim aðila sem lagði niður starf það er stefnandi hafði með höndum. Stefnandi byggir á því að þessir aðilar, þ.e. ráðherrarnir sjálfir fyrir hönd sinna ráðuneyta, hafi komið beint að gerð samkomulags við stefnanda og skuldbundið ráðuneyti sín til að greiða kostnað og laun hans eins og lýst sé í gögnum málsins.                 Stefnandi byggir á því að stefndu hafi vanefnt loforð sem stefnanda hafi verið gefin í tengslum við tilfærslu hans í starfi. Vegna þessa geri hann aðallega kröfu um að fá fá greidd laun jafnlangan tíma og áunnu námsleyfi hans nam við starfslok eða til vara að fá greiddar skaðabætur jafnháar launum þann tíma sem áunnu námsleyfi hans nam við starfslok. Auk þess gerir stefndi kröfu um greiðslu miskabóta og greiðslu vegna kostnaðar vegna eftirfylgni máls hans hjá umboðsmanni Alþingis og málskostnaðar vegna málareksturs þessa.                 Krafa stefnanda um að stefndi greiði honum laun og orlof vegna námsleyfis fyrir tímabilið 1. febrúar 2010 til 1. ágúst 2011 byggir hann annars vegar á minnisblaði heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og utanríkisráðherra frá 31. ágúst 2007 sem stefnandi hafi samþykkt með áritun sinni. Þar segi eftirfarandi: „Davíð skal í hinu nýja embætti eiga kost á framhalds- og endurmenntun í efnum tengdum þessum málaflokki, sbr. m .a. 4. gr. úrskurðar Kjararáðs um almenn starfskjör frá 30. maí 2007. Kostnaður vegna framangreinds, að því marki sem hann byggir á áunnum rétti fyrir 1. september 2007, skal borinn af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.“                 Hins vegar byggi krafan á bréfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra frá 31. ágúst 2007. Þar segi: „Með vísan til minnisblaðs heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og utanríkisráðherra dags 31. ágúst 2007, heimilar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að Davíð Á. Gunnarsson, ráðuneytisstjóri, njóti alls áunnins réttar síns til framhalds- og endurmenntunar sbr. grein 4.1. í úrskurði Kjararáðs um almenn starfskjör frá 3. maí 2007, og greiða honum dagpeninga á námstímanum samkvæmt reglum ferðakostnaðarnefndar.“ Auk þáverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, hafi Ragnheiður Haraldsdóttir, skrifstofustjóri í ráðuneytinu undirritað bréfið.                 Þessi gögn sýni að hluti af því samkomulagi sem gert var milli aðila um flutning stefnanda úr embætti í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu yfir í utanríkisráðuneytið hafi lotið því að stefnandi færi í námsleyfi. Þetta hafði verið rætt af aðilum á þeim fundi þar sem gengið var frá ofangreindum gögnum. Fundinn hafi setið, auk stefnanda og þáverandi ráðherra, Garðar Garðarsson hrl., sem hafi verið á fundinum að ósk stefnanda og Þórhallur Vilhjálmsson, lögfræðingur í forsætisráðuneytinu. Komi þetta fram í minnisblaði Garðars frá fundinum. Í minnisblaðinu er Páll Þórhallsson sagður hafa verið á fundinum en það rétta er að það mun hafa verið Þórhallur sem sat fundinn og var það leiðrétt við aðalmeðferð málsins.                 Grundvöllur námsleyfisins séu reglur kjararáðs um starfskjör frá 30. maí 2007. Þar segi í grein 4.1: Embættismaður sem stundar sérnám eða sækir framhalds- og/eða endurmenntunarnámskeið, með samþykki ráðherra, heldur launum og fær greiddan ferða- og dvalarkostnað samkvæmt reglum ferðakostnaðarnefndar. Lengd leyfis samkvæmt þessu er allt að tveimur vikum á ári. Unnt er að veita lengra námsleyfi á lengra árabili.                 Þegar komið hafi verið að töku námsleyfis stefnanda hafi hann unnið hjá ríkinu í 34 ár, 7 mánuði og 2 vikur. Miðað við þann starfsaldur sé áunninn réttur til námsleyfis um 17 mánuðir. Það sé það tímabil sem stefnandi hafði áætlað sem námsleyfi og hann geri kröfu um að fá greidd laun fyrir. Miðað sé við laun ráðuneytisstjóra á þessum tíma, þ.e. frá 1. febrúar 2009 til loka ágúst 2010, sem sé það tímabil sem stefnandi áformaði að vera í námsleyfi. Krafist sé dráttarvaxta frá gjalddaga hverrar launagreiðslu og til greiðsludags, svo sem nánar er getið í kröfugerð.                 Verði ekki fallist á að stefnandi eigi rétt til launa, krefjist hann skaðabóta sem jafngildi launum ráðuneytisstjóra fyrir sama tímabil, þ.e. það tímabil sem hann áformaði að fara í námsleyfi. Sú krafa byggi á því fjártjóni sem stefnandi varð fyrir við það að staða hans var lögð niður. Byggt sé á því að niðurlagning stöðunnar án þess að stefnanda hafi verið gefinn kostur á að nýta sér áunninn rétt til námsleyfis hafi verið óheimil og brot á samningi milli aðila málsins. Krafan miði að því að gera stefnanda eins settan fjárhagslega og ef hann hefði notið þess réttar að fara í námsleyfi og í framhaldi af því á biðlaun. Um rökstuðning fyrir fjárhæð bóta vísast að auki til þess sem að framan greinir varðandi kröfu um greiðslu launa og orlofs fyrir nefnt tímabil að breyttu breytanda. Krafist sé vaxta frá tjónsdegi, sem sé sá dagur er uppsögn taki gildi, og dráttarvaxta frá þingfestingu.                 Krafa um miskabætur að fjárhæð 5.000.000 kr. byggir á þeim rökum sem fram koma í bréfi umboðsmanns Alþingis til lögmanns stefnanda, dags. 30. desember 2010. Þar segi að telji stefnandi að umrædd framkvæmd og þau atriðið sem umboðsmaður víkur að í bréfi sínu til utanríkisráðuneytisins hafi leitt til tjóns fyrir hann, verði það að vera verkefni dómstóla að taka afstöðu til slíkra krafna. Stefnanda hafi á árinu 2011 boðist tímabundið starf skólastjóra Norræna heilsufræðaháskólans í Gautaborg. Stjórnarformaður skólans hafi boðið stefnanda starfið og stefnandi hafi gefið þau svör að hann myndi taka það að sér. Þegar málið hafi verið borið undir stjórn skólans, stutt af fulltrúa Íslands og Norrænu ráðherranefndinni, nægði það ekki til, því fulltrúi Norðmanna, sem verið hafði í góðu sambandi við stefnanda í WHO-samstarfi í Genf, treysti sér ekki til að styðja hann til starfsins. Stefnandi hafi leitað víðar fyrir sér eftir nýju starfi en svo virðist sem viðmælendur hans telji að hann njóti ekki trausts stjórnvalda og hafi það valdið því að hann hefur ekki valist til nýrra starfa. Eðli málsins samkvæmt hefur þessi staða og sú staðreynd að stjórnvöld gáfu enga skýringu á brotthvarfi hans úr starfi, heldur létu það liggja á milli hluta hvort hann hefði verið starfshæfur, ekki gegnt starfsskyldum sínum eða jafnvel brotið af sér í starfi, valdið stefnanda ómældu tjóni. Enn fremur beri að geta þess að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið lét hjá líða að tilnefna stefnanda til endurkjörs í lífeyrissjóð WHO árið 2009 þegar yfirstjórn WHO leitaði eftir því við ráðuneytið. Í stjórn sjóðsins sitja einungis fulltrúar sem njóta mests trausts og virðingar innan WHO. Algengt sé að einstaklingar gegni slíkri stjórnarsetu þrátt fyrir að hafa látið af störfum heima fyrir. Þessi staðreynd varð því enn frekar til að grafa undan trausti á persónu stefnanda. Miskabótakrafan byggi á 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og krafist sé dráttarvaxta frá þingfestingardegi, þar sem hún hafi ekki verið sett fram áður. Miskabótakrafan er hófleg sé miðað við þann álitshnekki og skaða sem framkoma stefnda hefur valdið stefnanda. Málsástæður og lagarök stefnda                 Stefndi hafnar málatilbúnaði stefnanda og kröfum á honum reistum og mótmælir því að stefnandi eigi vangreidd laun og orlof hjá stefnda vegna námsleyfis fyrir tímabilið 1. febrúar 2010 til 1. september 2011.                 Stefndi byggir á því að stefnandi, sem hafi verið ráðuneytisstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, hafi tekið að sér nýtt embætti sérlegs erindreka alþjóðaheilbrigðismála (e. Special Envoy of Global Health) í utanríkisráðuneytinu haustið 2007. Hafi embættinu verið komið á fót í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar um að auka áherslu á þátttöku Íslendinga á sviði þróunarverkefna í heilbrigðismálum á alþjóðlegum vettvangi. Í kjölfar mikils niðurskurðar og hagræðingar í ríkisrekstri á árinu 2009 hafi reynst nauðsynlegt að draga verulega úr fjárframlögum ríkisins til utanríkismála, ekki síst við um framlög til þróunarmála sem voru dregin saman um rúmlega þriðjung frá áður ráðgerðum útgjöldum. Forsendur til að auka og efla þátttöku Íslands í verkefnum á sviði alþjóða heilbrigðismála hafi því brostið. Af þeim sökum hafi verið talið óhjákvæmilegt að leggja niður nýtt embætti sérlegs erindreka alþjóða heilbrigðismála í byrjun árs 2009. Þetta hafi stefnanda verið tilkynnt með bréfi utanríkisráðuneytisins 28. janúar 2009. Í bréfinu sé tekið fram að stefnandi eigi rétt á 12 mánaða biðlaunum, sbr. 34. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Jafnframt komi fram að við starfslokin verði gjaldfallið orlof og áunnið en ógjaldfallið orlof gert upp. Vinnuréttarsambandi stefnanda við stefnda hafi því lokið 1. febrúar 2009 þegar stefnandi lét af störfum. Við slit á vinnuréttarsambandinu falli réttindin brott rétt eins og skyldurnar. Meðal þeirra réttinda sem stefnandi hafi notið í vinnuréttarsambandi sínu við stefnda hafi verið réttur til endurmenntunar samkvæmt grein 4.1 í reglum kjararáðs. Sá réttur hafi hins vegar falllið niður þegar staða stefnanda hafi verið lögð niður og vinnuréttarsambandi hans við stefnda lauk.                 Nánar segir í greinargerð stefnda að byggt sé á því að það sé forsenda þess að embættismaður njóti réttar til endurmenntunar samkvæmt grein 4.1 í reglum kjararáðs að viðkomandi hafi gilda embættisskipun, enda sé gildissvið ákvæðisins bundið við embættismenn samkvæmt 22. gr. laga nr. 70/1996 sem hafi gilda skipun til að gegna embætti samkvæmt 23. gr. laganna eða á grundvelli eldri laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Sá sem ekki hafi slíka skipun teljist ekki embættismaður og geti því ekki byggt rétt á ákvæðinu.                 Vinnuréttarsambandi stefnanda við stefnda hafi verið slitið 1. febrúar 2009. Stefnandi hafi ekki snúið aftur til annarra starfa hjá hinu opinbera á grundvelli embættisskipunar sinnar sem ráðuneytisstjóri. Ekki sé unnt að líta á starfslok hans í utanríkisráðuneytinu sem flutning embættismanns á grundvelli 36. gr. laga nr. 70/1996. Eftir 1. febrúar 2009 hafi stefnandi þar af leiðandi ekki verið embættismaður í skilningi laga nr. 70/1996 og reglna kjararáðs um starfskjör. Enn síður hafi hann notið þeirrar réttarstöðu heilu ári síðar, 1. febrúar 2010, sem sé upphaf þess tímabils sem stefnandi krefur stefnda um greiðslu fyrir.                 Stefndi byggir jafnframt á því að lokamálsgrein í minnisblaði því, sem gert var milli þáverandi utanríkisráðherra og þáverandi heilbrigðisráðherra í lok ágúst 2007, verði heldur ekki skilin svo að réttur til endurmenntunar hafi átt á lifa lengur en störf stefnanda í utanríkisráðuneytinu. Sjáist þetta af orðalagi málsgreinarinnar: „Davíð skal í hinu nýja embætti“ og þess að vísað sé til 4. gr. reglna kjararáðs um starfskjör. Hvort tveggja feli í sér þá forsendu fyrir rétti til endurmenntunar að stefnandi sé við störf og embættisskipun hans sé í gildi.                 Stefndi byggir enn fremur á því að réttur embættismanns til endurmenntunar verði fyrst virkur þegar hann ákveði að nýta sér hann. Kjósi hann að gera það ekki skapist hins vegar ekki sjálfstæður réttur til launaðrar fjarveru, sem hægt sé að taka út síðar. Við starfslok hafi ekki skapast skylda til að gera upp rétt til endurmenntunar, líkt og gildir um orlof samkvæmt 8. gr. laga nr. 30/1987 um orlof.                 Þá mótmælir stefndi skilningi stefnanda á ákvæði 4.1 í reglum kjararáðs. Ákvæðið sé heimildarákvæði og sé beiting þess háð því skilyrði að ráðherra samþykki að embættismaður stundi nám á launum. Það feli því ekki í sér skilyrðislausan, einhliða rétt fyrir embættismanninn. Ráðherra hafi alltaf úrslitavald um það hvort embættismaður geti farið í slíkt leyfi og geti synjað beiðni um launað námsleyfi á ýmsum málefnalegum forsendum, til dæmis með vísan til þess að fjárhagsstaða ráðuneytis eða staða í starfsmannamálum veiti ekki svigrúm til slíks. Réttur til námsleyfis skapist því ekki með sjálfvirkum hætti óháð aðstæðum hverju sinni. Ákvæðið í reglum kjararáðs verði að skýra með hliðsjón af skyldum kjararáðs skv. 3. málslið 1. mgr. 8. gr. laga nr. 47/2006, um að gæta samræmis í kjörum þeirra sem falla undir úrskurðarvald þess og þeirra sem ákveðin eru í kjarasamningum. Því verði að líta til túlkunar reglna um endurmenntun í kjarasamningum við túlkun reglna kjararáðs, enda sé ákvæðið efnislega samhljóða eldra ákvæði í kjarasamningum aðildarfélaga BHM við ríkið, en í yngri samningum hefur heimildarákvæði verið breytt í rétt starfmanns til tiltekinnar endurmenntunar. Stefndi hafi túlkað ákvæði kjarasamninga starfsmanna ríkisins, um heimild þeirra til námsleyfis, svo að hún safnist ekki ótakmarkað upp og jafnframt að hún falli niður við starfslok óháð aðstæðum starfsloka. Er heimildinni hafi verið breytt í rétt starfsmanns, með samkomulaginu frá 6. júní 2011, hafi þessi túlkun stefnda verið áréttuð og segi nú í 3. mgr. greinar 10.1.1 í kjarasamningi aðildarfélaga BHM frá sama tíma að uppsafnaður réttur geti aldrei orðið meiri en 6 mánuðir og hann greiðist ekki út við starfslok. Ákvæði reglna kjararáðs beri að túlka með sama hætti.                 Þá byggir stefndi á því að málsgrein í minnisblaði þáverandi utanríkisráðherra og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um heimild stefnanda til námsleyfis, gefi ekki til kynna að önnur sjónarmið en hér voru rakin hafi átt að gilda um það. Hún feli ekki í sér annað en staðfestingu á því mögulegur uppsafnaður réttur stefnanda til námsleyfis miðað við starfslengd hafi ekki verið tæmdur á þeim tíma er minnisblaðið var gert í ágúst 2007. Hið sama megi segja um ummæli í bréfi sem stefnandi vísar til í stefnu. Stefndi leggur jafnframt áherslu á að í gögnum málsins komi hvorki fram að stefnandi hafi sótt um námsleyfi á starfstíma né liggi fyrir samþykki ráðherra fyrir slíku námsleyfi.                 Í ljósi framangreinds getur stefndi ekki fallist á að stefnandi hafi átt rétt til launaðs námsleyfis eftir að greiðslu 12 mánaða biðlauna lauk 1. febrúar 2010. Með sömu rökum telur stefndi heldur ekki að stefnandi hefði átt rétt á námsleyfi eftir að hann lét af störfum hjá stefnda 1. febrúar 2009. Sönnunarbyrðin um að réttur til endurmenntunar hafi átt að lifa áfram eftir starfslok hvíli á stefnanda og hafi honum ekki tekist slík sönnun.                 Verði fallist á það gegn mótmælum stefnda að réttur vegna námsleyfis hafi ekki fallið að fullu niður við starfslok stefnanda sé því mótmælt að stefnandi eigi á grundvelli greinar 4.1 í reglum kjararáðs, rétt til uppsafnaðs námsleyfis með þeim hætti sem stefnandi byggi á. Af orðalagi greinarinnar verði ekki ráðið að námsleyfi safnist upp eins og stefnandi heldur fram, heldur að embættismenn eigi rétt til tveggja vikna námsleyfis á ári. Sé sóst eftir lengra leyfi, er unnt með samþykki ráðherra, að safna nokkrum vikum til töku námsleyfis og þá með lengra árabili. Um heimildarákvæði sé að ræða en ekki skyldu til að veita námsleyfi eða lengra námsleyfi á lengra árabili, sbr. orðalagið í grein 4.1 „með samþykki ráðherra“ og „Unnt er að veita“. Orðalag greinar 4.1 verði því ekki túlkað á annan hátt en þann að námsleyfi sé tvær vikur á ári, en leyfið geti verið lengra á lengra árabili með samþykki ráðherra, og falli námsleyfið niður ef embættismaður nýtir sér ekki námsleyfi í samræmi við ákvæði greinarinnar með samþykki ráðherra.                 Stefndi byggir þannig á því til vara ef fallist verður á kröfu stefnanda um að námsleyfið hafi ekki fallið niður við starfslok að stefnandi geti samkvæmt orðalagi greinar 4.1 í mesta lagi átt rétt á tveggja vikna námsleyfi vegna ársins 2009. Stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn sem sýni fram á að ráðherra hafi samþykkt það námsleyfi sem stefnandi fyrirhugaði á árinu 2009 og sem sem hann vísar til í tölvupósti sínum til ráðherra 30. október 2008.                 Stefndi mótmælir varakröfu stefnanda um skaðabætur sem jafngildi launum fyrir það tímabil sem hann hafi áformað að fara í námsleyfi. Varakrafan sé vanreifuð, ekki sé sýnt fram á að skilyrði skaðabóta séu uppfyllt, hvergi sé rökstutt á hvern hátt stefndi hafi brotið gegn stefnanda með ólögmætum og saknæmum hætti, ekki sé rakið hver hin saknæma háttsemi sé né leiddar líkur að tjóni stefnanda eða orsakasambandi þar á milli.                 Stefndi skilur kröfu stefnanda á þann hátt að hún byggist á fjártjóni sem hann hafi orðið fyrir við það að staða hans hafi verið lögð niður. Stefndi hafnar þessum staðhæfingum stefnanda. Ekki sé um að ræða ólögmæta eða saknæma háttsemi af hálfu stefnda. Þá liggi ekki fyrir að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni, enda hafi hann ekki átt rétt til námsleyfis. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi sótt um námsleyfi í samræmi við það sem hann kveðst hafa fyrirhugað né að hann hafi fengið samþykki ráðherra fyrir því svo sem skilyrt sé í reglum kjararáðs. Ljóst er að stefnandi átti ekki rétt á námsleyfi eftir að staða hans var lögð niður. Ef það teldist sannað að hann hefði ætlað í námsleyfi á árinu 2009, hann hefði óskað eftir leyfi og það hefði verið samþykkt bendir stefndi á að á árinu 2009 fékk stefnandi biðlaun og bar engar vinnuskyldur. Námsleyfi hefði því leitt til þess að stefnandi hefði notið tvöfaldra launa á þessu tímabili, þar sem biðlaunatíminn hófst eftir að staða hans var lögð niður. Krafa á þessum grundvelli geti þar af leiðandi ekki staðist. Beri af þessum sökum að hafna varakröfu stefnanda.                 Stefndi mótmælir miskabótakröfu stefnanda og telur engar forsendur til þess að fallast á slíka kröfu. Forsenda miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sé ólögmæt meingerð gegn æru eða persónu annars manns. Stefndi mótmælir því að ákvörðun sem byggð hafi verið á málefnalegum sjónarmiðum geti orðið forsenda miskabóta á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga. Ákvörðun stefnda um að leggja niður stöðu stefnanda hafi verið byggð á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum og hafi það verið staðfest í áliti umboðsmanns Alþingis í tilefni af kvörtun stefnanda. Engar þær hvatir eða ástæður er stefnandi nefni í stefnu hafi legið að baki niðurlagningu embættisins. Ákvörðun stefnda hafi á engan hátt beinst gegn stefnanda persónulega, starfsheiðri hans, æru eða persónu, hvað þá að í henni hafi falist meingerð í garð hans. Ákvörðun stefnda hafi lotið að hagræðingu í rekstri utanríkisþjónustunnar vegna gjörbreyttra rekstrarforsendna í ríkisins.                 Í stefnu komi fram að krafan byggist á því að að það hafi valdið stefnanda ómældu tjóni að veljast ekki til nýrra starfa og orsökin sé sú að „svo virðist sem viðmælendur hans telji að hann njóti ekki trausts stjórnvalda“ enda hafi stjórnvöld enga skýringu gefið á brotthvarfi hans úr starfi og séu nefnd tvö dæmi þessu til stuðnings. Hafi stefnandi takmarkað atvinnuumsóknir sínar við svo þröngt svið að sækjast eingöngu eftir störfum þar sem skilyrði hefur verið sett um stuðning stjórnvalda við umsækjanda, geti það ekki verið á ábyrgð fyrrum vinnuveitenda hans með þeim hætti að bótaskylt sé. Ætla megi að frá því að stefnandi lét af störfum snemma árs 2009 hljóti allmörg störf að hafa losnað sem hæft hafi menntun hans og starfsreynslu og ekki var gerð krafa um stuðning íslenskra stjórnvalda við umsækjanda. Þá séu engin ákvæði í lögum nr. 70/1996 sem kveði á um fresti til niðurlagningar á embætti og sé það því undir stjórnvaldi komið að ákveða frá hvaða tíma það leggur embætti niður. Í ákvörðun stefnda fól því ekki í sér ólögmæta meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu stefnanda í skilningi 26. gr. skaðabótalaga.                 Stefnandi mótmælir einnig fjárhæð miskabótakröfu stefnda sem of hárri og í engu samræmi við dómaframkvæmd. Verði talið að stefnandi eigi rétt til miskabóta sé því til vara krafist verulegrar lækkunar á henni.                 Stefndi mótmælir einnig kröfulið stefnanda um greiðslu kostnaðar sem hann kveðst hafa haft af því að bera álitamál vegna starfsloka sinna undir umboðsmann Alþingis. Meginreglan sé að borgarar skuli sjálfir bera kostnað vegna reksturs mála í stjórnsýslunni. Krafa stefnanda sé ekki studd neinum gögnum eða rökum. Engar réttarheimildir séu fyrir kröfunni. Fjárhæðin sé heldur ekki studd neinum gögnum eða sundurliðuð eftir útgjaldaliðum. Menntun og starfsreynsla stefnanda gefi ekki tilefni til að álykta annað en að hann hafi verið í stakk búinn til að annast sjálfur kvörtun sína til umboðsmanns. Tilvísun stefnanda til námsleyfis tilgreinds fyrrverandi ráðuneytisstjóra styðji ekki kröfu stefnanda til greiðslu kostnaðar af kvörtun til umboðsmanns.                 Loks mótmælir stefndi kröfum stefnanda um vexti og dráttarvexti af dómkröfum, einkum upphafstíma þeirra. Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað vísar hann til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Forsendur og niðurstaða                 Í máli þessu er deilt um það hvort stefnandi hafi átt rétt til launaðs námsleyfis í 17 mánuði þegar starf hans í utanríkisráðuneytinu var lagt niður í febrúar 2009. Stefnandi byggir á því að í ódagsettu minnisblaði sem gert var í tengslum við tilfærslu stefnanda úr starfi ráðuneytisstjóra í heilbrigðis- og tryggingarráðuneytinu yfir í stöðu sérstaks erindreka alþjóða heilbrigðismála (e. Special Envoy for Global Health) í utanríkisráðuneytinu, hafi verið samið um rétt hans til slíks námsleyfis. Minnisblaðið er undirritað af þáverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, utanríkisráðherra og stefnanda. Þá vísar stefnandi til þess að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hafi gefið út yfirlýsingu í bréfi til stefnanda, dags. 31. ágúst 2007, í tengslum við tilflutning stefnanda í starfi, þar sem framangreindur réttur hans sé áréttaður. Aðalkrafa stefnanda felur í sér kröfu um greiðslu launa í námsleyfi frá 1. febrúar 2010 til 1. september 2011, þ.e. í 17 mánuði frá þeim tíma þegar greiðslu 12 mánaða biðlauna lauk. Varakrafa stefnanda byggist á því að hann hafi eigi rétt til skaðabóta jafnháum þeim launagreiðslum.                 Í umræddu minnisblaði segir um námsleyfi stefnanda: „Davíð skal í hinu nýja embætti eiga kost á framhalds og endurmenntun í efnum tengdum þessum málaflokki, sbr. m.a. 4. gr. úrskurðar kjararáðs um almenn starfskjör frá 30. maí 2007. Kostnaður vegna framangreinds, að því marki sem hann byggir á áunnum rétti fyrir 1. september 2007, skal borinn af heilbrigðis- og tryggingarmálaráðuneyti.“ Í bréfi ráðherra til stefnanda er vísað til framangreinds minnisblaðs og segir þar að ráðherra heimili að stefnandi njóti alls áunnins réttar síns til framhalds- og endurmenntunar með vísan til sama ákvæðis í úrskurði Kjararáðs og að honum skuli greiða dagpeninga á námstímanum samkvæmt reglum ferðakostnaðarnefndar.                 Stefndi andmælir því að framangreind gögn feli í sér samning um að stefnandi eigi rétt til launaðs námsleyfis eins og stefnandi krefst. Byggir stefndi aðalkröfu sína um sýknu á því að réttur til námsleyfis hafi fallið niður um leið og staða hans hafi verið lögð niður í febrúar 2009.                 Umrætt minnisblað, skipunarbréf stefnanda og bréf heilbrigðisráðherra verða samkvæmt orðum sínum ekki skilin öðruvísi en svo að þar sé staðfest að stefnandi hafi öðlast rétt til námsleyfis vegna áralangra starfa sinna hjá heilbrigðisráðuneytinu og að sá réttur falli ekki niður við flutning hans yfir í embætti hjá utanríkisráðuneytinu. Jafnframt verður að telja afar líklegt, með hliðsjón af orðalagi í minnisblaðinu, bréfi heilbrigðis- og tryggingaráðherra og framburði stefnanda og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, fyrrum heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fyrir dómi og þeirra vitna sem gáfu skýrslu, að allir samningsaðilar hafi gengið út frá því að stefnandi myndi óska eftir að nýta sér þann rétt. Á hinn bóginn er í framangreindum gögnum ekki fjallað nánar um námsleyfið, svo sem hvenær það eigi að fara fram, lengd þess eða til hvaða endurmenntunar það verði nýtt. Látið er við það sitja að vísa til greinar 4.1 í reglum kjararáðs um starfskjör embættismanna frá 30. maí 2007. Gegn eindregnum mótmælum stefnda, og með vísan til orðalags í framangreindum gögnum, verður því ekki fallist á það með stefnanda að þau feli í sér bindandi samning eða samkomulag um rétt stefnanda til námleyfis í 17 mánuði. Tilvísun til greinar 4.1 í reglum kjararáðs verður að skilja svo að átt sé við að réttur stefnanda til námsleyfis í hinu nýja starfi í utanríkisráðuneytinu, hafi átt að fara eftir því ákvæði að teknu tilliti til þess hvað starfstími hans í fyrra starfi, sem ráðuneytisstjóri í heilbrigðis- og tryggingaráðuneytinu, veitti honum á grundvelli þessara reglna.                 Í grein 4.1 er kveðið á um rétt embættismanna til að stunda sérnám eða sækja framhalds- og/eða endurmenntunarnámskeið í allt að tvær vikur á ári og halda launum og fá greiddan ferða- og dvalarkostnað samkvæmt reglum ferðakostnaðarnefndar. Ekki er hægt að draga þá ályktun af orðalagi ákvæðisins að réttur til námsleyfis safnist upp fyrir hvert starfsár, svo sem stefnandi byggir á, þótt í ákvæðinu komi fram að unnt sé að semja um lengra námsleyfi á lengra tímabili. Þá hefur stefnandi heldur ekki sýnt fram á að slíkan rétt megi byggja á venjubundinni túlkun ákvæðisins eða á öðrum grundvelli. Í ákvæðinu kveðið á um að réttur til launaðs námsleyfis sé háður samþykki ráðherra. Á það við um öll leyfi á grundvelli ákvæðisins, óháð lengd þeirra. Svo sem að framan er rakið verður ekki talið að minnisblaðið frá 30. ágúst 2007, eða þau bréf sem ráðherrar sendu stefnda á sama tíma, feli í sér samning eða samþykki fyrir tilteknu námsleyfi. Stefnandi hefur ekki lagt fram önnur gögn sem veita vísbendingu um að gengið hafi verið frá slíkum samningi. Þó er getið um fyrirhugað námsleyfi í tölvuskeyti stefnanda til þáverandi utanríkisráðherra þann 30. október 2008. Það gagn veitir enga vísbendingu um afstöðu ráðherra til þeirra fyrirætlana eða samþykkis hans fyrir leyfinu en það var á valdsviði utanríkisráðherra að semja um töku námsleyfis við stefnanda, jafnvel þótt ráða megi af gögnum málsins að samkomulag væri um það milli ráðherranna að ráðuneyti hins síðarnefnda myndi bera mestallan kostnaðinn. Gegn eindregnum mótmælum stefnda verður ekki talið að stefnanda hafi tekist að færa sönnur á að samningur hafi komist á milli aðila um námsleyfi stefnanda. Grein 4.1 í framangreindum reglum kjararáðs verður að skilja svo að forsenda þess að réttur til námsleyfis stofnist sé að samþykki ráðherra liggi fyrir. Þegar af þeirri ástæðu er aðalkröfu stefnanda hafnað. Jafnframt verður varakröfu hans um skaðabætur hafnað þar sem sú krafa byggir á því að slíkur réttur hafi verið til staðar.                 Auk kröfu um greiðslu launa í námsleyfi gerir stefnandi kröfu um greiðslu miskabóta vegna þess hvernig staðið var að uppsögn hans. Vísar hann til þess að starf hans hafi verið lagt niður með afar skömmum fyrirvara og engin skýring hafi verið gefin á þeirri ákvörðun opinberlega til að öllum mætti vera ljóst að starfslok hans væru óháð frammistöðu hans sjálfs.                 Fyrir liggur að stefnanda var tilkynnt um þá ákvörðun að leggja niður starf hans á fundi með utanríkisráðherra þann 28. janúar 2009 og einnig með bréfi sama dag og að ákvörðunin kom til framkvæmda nokkrum dögum síðar, eða þann 1. febrúar sama ár. Er því nánast um fyrirvaralausa uppsögn að ræða. Þá hefur stefndi ekki mótmælt því að ákvörðun um niðurlagningu starfsins hafi verið tekin 6. janúar, eða þremur vikum áður en stefnanda var tilkynnt um hana. Stefndi hefur ekki gefið viðhlítandi skýringar á því hvers vegna stefnanda var ekki tilkynnt um ákvörðunina þá þegar hún lá fyrir. Þá hefur því ekki verið mótmælt af hálfu stefnda að utanríkisráðuneytið gaf engar opinberar skýringar á skyndilegu brotthvarfi stefnanda úr starfi, hvorki á innlendum né erlendum vettvangi, og fyrir liggur að hann var ekki tilnefndur af hálfu íslenskra stjórnvalda til endurkjörs í stjórn lífeyrissjóðs WHO árið 2009. Þá má ljóst vera, með hliðsjón af því hve brátt starfslok stefnanda bar að, að honum hefur sjálfum tæpast gefist ráðrúm til að sinna eðlilegum starfslokastörfum, s.s. að tilkynna þau nánustu samstarfsmönnum sínum.                 Þegar stefnandi lét af störfum í utanríkisráðuneytinu hafði hann um áratuga skeið sinnt margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir íslensk stjórnvöld bæði innanlands og á alþjóðlegum vettvangi. Stefnandi átti að baki nærri 40 ára starfsferil í opinberri þjónustu lengst af í ábyrgðarmiklum störfum. Hann var m.a. ráðuneytisstjóri í 12 ár, var í fastanefnd Evrópusvæðis WHO frá 1997 – 2000, sat í aðalstjórn WHO frá 2002 – 2006, þar af eitt ár sem formaður stjórnar, og tók sæti í stjórn eftirlaunasjóðs sömu stofnunar árið 2006. Þá kemur fram í margumræddu minnisblaði að stefnandi hafi átt sæti í fleiri alþjólegum nefndum á vettvangi heilbrigðismála þegar hann fluttist yfir til utanríkisráðuneytisins. Má gera ráð fyrir að stefnandi hafi með störfum sínum skapað sér orðspor og traust sem hann hafði réttmætar væntingar til að yrði ekki að óþörfu skaðað með framgöngu stefnda. Í augum þeirra sem ekki var kunnugt um forsendur ákvörðunar utanríkisráðherra ber aðferðin og framganga ráðuneytisins við niðurlagningu starfs hans ýmis einkenni þess að stefnanda hafi verið vikið fyrirvaralaust úr starfi vegna ávirðinga hans sjálfs fremur en að um ákvörðun vegna samdráttar í þróunarsamstarfi íslenskra stjórnvalda væri að ræða. Verður að telja að þessi framganga ráðherra hafi verið til þess fallin að valda stefnanda óþægindum og álitshnekki, umfram það sem óhjákvæmilega leiddi af þeirri í íþyngjandi ákvörðun að leggja niður starf hans. Var hún til þess fallin að veikja traust til stefnanda og kasta rýrð á orðstír hans, ekki síst á erlendum starfsvettvangi þar sem menn kunna að hafa haft aðrar forsendur til að skilja gangverk stjórnsýslunnar á Íslandi við þær aðstæður sem uppi voru í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008. Stefndi hefur ekki mótmælt staðhæfingum stefnanda um að aðstæður eftir starfsmissi hans hafi torveldað honum að hasla sér völl á erlendum starfsvettvangi og telja verður afar líklegt að það stafi a. m. k. að einhverju leyti af því hvernig staðið var að starfslokum hans. Styðst sú niðurstaða m.a. við skýrslu Ragnheiðar Haraldsdóttur fyrir dómi, en hún sat um tíma í stjórn Norræna heilsufræðiháskólans í Gautaborg, þar sem kom fram að stjórn skólans hefði snúist hugur um að ráða stefnanda til stjórnunarstarfa við skólann án þess að henni hefði tekist að fá viðhlítandi skýringar á því. Þá var framkvæmd ákvörðunar einnig einkar tillitslaus í ljósi langs starfsaldurs stefnanda hjá stefnda og þess starfs sem hann gegndi. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða dómsins að stefndi hafi brotið gegn grunnreglu um meðalhóf sem kveðið er á um í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við framkvæmd niðurlagningar starfs stefnanda og með því valdið honum miska sem er bótaskyldur á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi á því rétt til miskabóta sem metnar verða að álitum. Með hliðsjón af málavöxtum þykja þær hæfilega ákveðnar 2.000.000 kr. með dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði með vísan til 9. gr. laga nr. 38/2001.                 Loks gerir stefnandi kröfu um greiðslu kostanaðar við málarekstur fyrir umboðsmanni Alþingis að fjárhæð 300.000 kr. Fjárkrafa þessi er ekki studd gögnum. Almennt gildir sú regla að borgarar verða sjálfir að bera kostnað af málarekstri sínum fyrir stjórnvöldum. Stefnandi hefur ekki lagt fram haldbær rök sem styðja kröfu hans um að víkja beri frá þeirri reglu. Er þessari kröfu hans því hafnað.                 Með hliðsjón af úrslitum málsins þar sem stefnandi vinnur málið að hluta er rétt að stefnda greiði honum hluta málskostnaðar síns með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Verður stefnda því gert að greiða stefnanda 350.000 kr. í málskostnað.                 Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan dóm. D ó m s o r ð:                 Stefndi, íslenska ríkið skal greiða stefnanda, Davíð Á. Gunnarssyni, 2.000.000 króna í miskabætur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 23. febrúar 2013 til greiðsludags og að auki 350.000 krónur í málskostnað. Stefndi er sýkn af öðrum kröfum stefnanda.
Mál nr. 738/2014
Lánssamningur Fjármálafyrirtæki Slit Gengistrygging Kröfugerð Lögvarðir hagsmunir Vanreifun Frávísun frá héraðsdómi
Lánssamningur. Fjármálafyrirtæki. Slit. Gengistrygging. Kröfugerð. Lögvarðir hagsmunir. Vanreifun. Frávísun frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júní 2014.                 Mál þetta, sem dómtekið var hinn 28. maí sl., að lokinni aðalmeðferð, var höfðað fyrir dómþinginu af KSÍ ehf., Laugardalsvelli, Reykjavík, á hendur Landsbankanum hf., Austurstræti 11, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 24. september 2013.                 Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkennt verði að samningur stefnda við stefnanda, dagsettur 22. september 2006, feli í sér gengistryggingu í andstöðu við lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu.                 Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnda. II                 Málavextir eru þeir, að hinn 22. september 2006 gengu Landsbanki Íslands hf., og stefnandi frá svokölluðum viðskiptasamningi um reiknislánalínu að fjárhæð 1.000.000.000 króna.  Samkvæmt samningnum skyldi Landsbanki Íslands hf. hafa til reiðu fyrir stefnanda lán í íslenskum krónum svo og öllum algengum gjaldmiðlum, sem bankinn ætti viðskipti með.  Í 17. gr. samningsins sagði undir lið 17.1 að hann gilti frá undirritun til 1. ágúst 2007.  Í lið 17.2 sagði svo að ef annar hvor samningsaðila hefði ekki sagt samningnum upp með skriflegum hætti með þriggja mánaða fyrirvara framlengdist hann um sex mánuði.                 Stefnandi dró átta sinnum á lánið frá 25. september 2006 til og með 30. júlí 2007 samtals að höfuðstól 635.000.000 krónur.  Samkvæmt lánsbeiðnum var mynt og upphæð tilgreind 50% svissneskir frankar og 50% japönsk jen og fjárhæðin í íslenskum krónum.  Landsbanki Íslands hf. greiddi lánsféð allt út í íslenskum krónum inn á reikning stefnanda hjá bankanum nr. 101-26-501202, en samkvæmt framlögðum kaupnótum fóru fram gjaldeyrisviðskipti við útgreiðslu lánsins, þar sem tilgreindar voru þær erlendu myntir sem stefnandi seldi fyrir íslenskar krónur.  Öll lánin voru ítrekað framlengd með undirritun stefnanda á lánsbeiðnir, en í þeim var lánsfjárhæðin einungis tilgreind í erlendum myntum.  Númer lánsins hjá Landsbanka Íslands hf. var 5756.  Hélst það við flutning lánsins til stefnda.  Stefnandi kveður lánsféð hafa verið notað til framkvæmda við Laugardalsvöll.                 Endurgreiðsla lánsins miðaðist við gengi erlendra gjaldmiðla.  Endurgreiðslan fór fram á árunum 2007 og lauk henni 22. desember 2009.  Stefnandi hafði þá samtals greitt 1.016.697.669 krónur.  Af þeirri fjárhæð voru 533.070.004 krónur greiddar stefnda á árinu 2009.                 Lögmaður stefnanda sendi stefnda bréf, dagsett 27. júlí 2011 og svo aftur 13. ágúst 2012, þar sem þess var kafist að lánin samkvæmt lánssamningunum yrðu endurreiknuð og stefnanda endurgreitt það sem honum hefði verið gert að greiða umfram skyldu.                 Með bréfi stefnda, dagsettu 26. júlí 2012, tilkynnti stefndi stefnanda að lánið yrði ekki endurreiknað. III                 Stefnandi byggir kröfur sínar á því að óheimilt hafi verið að binda skuldbindingar stefnanda samkvæmt lánssamningnum við gengi erlendra gjaldmiðla.  Samkvæmt 14. gr., sbr. 13. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sé einungis heimilt að verðtryggja sparifé og lánsfé þegar grundvöllur verðtryggingarinnar sé vísitala neysluverðs, sem Hagstofa Íslands reikni eða að miðað sé við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna sem ekki mæli breytingar á almennu verðlagi.                 Litið hafi verið svo á að annars konar verðtrygging en ofangreind sé í andstöðu við lög.  Vísar stefnandi um það til dóma Hæstaréttar Íslands frá 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010, þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að í nefndum lögum hafi falist bann við því að „lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla“.  Reglur laganna um þetta séu ófrávíkjanlegar og verði því ekki samið um grundvöll verðtryggingar sem ekki sé stoð fyrir  í lögum.  Í dómunum komi einnig fram með skýrum hætti að „lán í erlendri mynt falli ekki undir reglur um heimildir til verðtryggingar lánsfjár í íslenskum krónum í VI. kafla laga nr. 38/2001.“  Í þessu felist að skuldbindingar í lánasamningum um greiðslu í erlendri mynt teljist gildar að lögum.  Hæstiréttur hafi eftir að þessir dómar gengu, leyst úr því í allmörgum öðrum dómsmálum hvort skuldbindingar í lánasamningum teldust vera í erlendum myntum eða íslenskum krónum og miðað við gengi erlendra gjaldmiðla.  Vísar stefnandi til dóms réttarins frá 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011 og frá 17. janúar 2013 í máli nr. 286/2012, en þar segi m.a.: „með því að eina fjárhæðin sem beint eða óbeint var tilgreind í lánssamningnum, var í íslenskum krónum getur engum vafa verið háð að hann tók eingöngu til skuldbindingar í þeim gjaldmiðli, sem óheimilt var samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001, að binda við gengi erlendra gjaldmiðla“.  Í lánssamningi Landsbanka Íslands hf. og stefnanda hafi það verið svo að eina lánsfjárhæðin sem beinlínis sé nefnd hljóði upp á íslenskar krónur.  Byggir stefnandi á því að vegna þessa verði að líta svo á að skuldbindingar hans samkvæmt samningnum hafi verið í íslenskum krónum og að ekki hafi verið heimilt að miða þær við gengi erlendra gjaldmiðla.                 Við mat á því hvort lán sé gengistryggt eða það sé í erlendri mynt hafi dómstólar m.a. litið til heitis lánssamnings, tilgreiningar lánsfjárhæðar og vaxta auk þess sem litið hafi verið til tilhögunar á útborgun lánsfjárhæðar og greiðslu afborgana og vaxta.  Heiti samningsins sem Landsbanki Íslands hf. hafi gert við stefnanda „KR. 1.000.000.000, - Viðskiptasamningur um reikningslánalínu“.  Heiti samningsins bendi því til þess að lánið hafi verið veitt í íslenskum krónum.                 Lánsfjárhæðin sé tilgreind bæði í heiti samningsins og í 2. kafla samningsins.  Í grein 2.1 segi: „Bankinn skal hafa til reiðu fyrir lántaka reikningslánalínu að fjárhæð kr. 1.000.000.000, - eittþúsund milljónir 00/100.“  Í grein 2.2 komi svo fram að innan þessara marka sé lántaka heimilt að taka lán hjá bankanum í íslenskum krónum svo og öllum algengum erlendum gjaldmiðlum sem bankinn eigi viðskipti með.  Því virðist samningurinn aðallega gera ráð fyrir því að lánið sé í íslenskum krónum en að stefnanda sé heimilt að óska eftir láni í erlendum gjaldmiðlum.                 Í 5. kafla lánssamningsins sé fjallað um vexti af láninu.  Í grein 5.1 komi fram að lánshlutar sem stefnandi tæki í íslenskum krónum skyldu miðast við Reibor-vexti eins og þeir væru skráðir að morgni þess dags sem lánið sé greitt út að viðbættu 0,70% álagi.  Samkvæmt grein 5.2 (síðari greinin sem beri það nafn) í lánssamningnum skyldu vaxtakjör lánshluta í erlendum gjaldmiðlum vera LIBOR-vextir eins og þeir ákvörðuðust fyrir viðkomandi gjaldmiðil fyrir hvert vaxtatímabil hverju sinni, tveimur bankadögum fyrir upphaf hvers vaxtatímabils að viðbættu 0,70% álagi.                 Þegar komi að mati á því hvernig útborgunum yrði hagað, greiðslum af láninu og vöxtum af því, hljóti að skipta mestu máli hvort útborganir af láninu hafi verið í íslenskum krónum eða í erlendum gjaldeyri.  Allir lánshlutar hafi verið greiddir út í íslenskum krónum.  Kaupnótur, sem bankinn hafi gefið út og sýni einhver meint gjaldeyrisviðskipti, geti vart haft þýðingu, vegna þess að bankinn hafi aldrei lánað stefnanda gjaldeyri sem félagið hafi getað haft viðskipti með.  Stefnandi hafi fyllt út lánsbeiðnir, þar sem óskað hafi verið eftir lánum í öðrum gjaldmiðlum og endurgreitt hluta lánsins í öðrum gjaldmiðlum en íslenskum krónum.  Stefnandi hafi átt gjaldeyrisreikning hjá Landsbanka Íslands hf. en lánið hafi engu að síður alltaf verið greitt út í íslenskum krónum.  Að öllu ofangreindu virtu telji stefnandi að lánssamningur nr. 5756, milli Landsbanka Íslands hf. og stefnanda, hafi verið lán í íslenskum krónum sem hafi á ólögmætan hátt verið bundið gengi erlendra gjaldmiðla.                 Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála nr. 91/1991.                 Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. IV                 Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að með undirritun sinni á útborgunarbeiðnir hafi stefnandi skuldbundið sig til þess að taka lán í erlendum gjaldmiðlum, nánar tiltekið í svissneskum frönkum og japönskum jenum.  Stefndi telur að krafa hans á hendur stefnanda, samkvæmt hinum umdeildu lánssamningum séu skuldbindingar í erlendri mynt og falli þess vegna utan gildissviðs VI. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 13. gr. þeirra laga.  Byggir stefndi á því, að viðskiptasamningurinn og framkvæmd lánveitingarinnar, þ.e. útgreiðsla lánsins og endurgreiðsla þess, beri það með sér að um skuldbindingu í erlendri mynt sé að ræða.                 Stefndi telur útilokað að líta á viðskiptasamning aðila frá 22. september 2006, sem eiginlegan lánssamning.  Á forsíðu samningsins sé skýrt tekið fram að um sé að ræða „reikningslánalínu“.  Þá vísar stefndi til þess að í grein 3.1 í samningnum segi, að „hver lánshluti sem lántaki tekur innan lánsheimildar reikningslánalínunnar telst vera sjálfstætt lán“.  Í ljósi þessa sé ljóst að viðskiptasamningur aðila sé ekki sjálfstætt lán heldur sé um að ræða lánalínu, en á grundvelli hennar hafi stefnandi átt þess kost að óska eftir láni.  Líkt og fyrr greini hafi stefnandi óskað eftir láni í átta skipti á tímabilinu 22. september 2006 til 30. júlí 2007.  Verði að líta á hverja þessara átta útborgana sem sjálfstæða lántöku og löggerning.                 Stefnandi hafi fyllt út lánsbeiðnir, þar sem óskað hafi verið eftir láni í erlendri mynt og hafi hver lánshluti verið greiddur út í hinum umbeðnu erlendu myntum.  Þá hafi afborganir af lánunum einnig verið inntar af hendi í erlendri mynt.  Staðfesti þetta að umrædd átta lán aðila hafi verið veitt stefnanda í erlendri mynt.  Stefndi vísar í þessu sambandi einnig til kaupnótna og millifærslukvittana, sem liggi að baki hverri útborgun, og sýni svart á hvítu að raunveruleg viðskipti hafi átt sér stað með gjaldeyri við lánveitinguna.  Stefnandi hafi fengið framangreind gögn en aldrei gert athugasemdir við efni þeirra.                 Í ljósi framangreinds sé haldlaust fyrir stefnanda að vísa til dómafordæma Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 155/2011 og 386/2012, en í þeim báðum hafi verið um að ræða eiginlega lánssamninga þar sem eina tilgreining lánsfjárhæðar hafi verið í íslenskum krónum.  Í máli þessu sé hins vegar ekki til að dreifa eiginlegum lánssamningi heldur séu lánsskuldbindingar aðila reistar á útborgunarbeiðnum, þar sem skýrlega sé óskað eftir láni í erlendri mynt.                 Enn fremur beri að líta til þess að í framangreindum dómum hafi afborganir af umdeildum lánum ætíð verið inntar af hendi í íslenskum krónum, sem ekki sé reyndin í þessu máli.  Í málinu liggi fyrir að stefnandi hafi ætíð greitt af lánunum í erlendri mynt, en þar sem stefnandi hafi ekki átt gjaldeyrisreikning í japönskum jenum og svissneskum frönkum hafi hann keypt umræddar myntir ýmist með dollurum, evrum eða íslenskum krónum, líkt og framlagðar kaupnótur beri með sér.  Að mati stefnda sé fráleitt að ætla að skuldbinding sem greidd sé til baka í erlendum myntum verði metin sem skuldbinding í íslenskum krónum.  Stefnandi hafi þannig efnt aðalskyldu sína samkvæmt samningum aðila í erlendum gjaldmiðlum.                 Þá kveður stefndi að tekjustreymi stefnanda sé og hafi verið að miklu leyti í erlendri mynt, m.a. vegna styrkja frá Alþjóðlega knattspyrnusambandinu, FIFA, og Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA, sbr. ársreikninga stefnanda frá árinu 2007, en þar sé beinlínis tekið fram að stefnandi hafi fengið styrki frá FIFA og UEFA vegna bygginga nýrra höfuðstöðva við Laugardalsvöll.  Hafi stefnandi því tekið umþrætt lán hjá stefnda vitandi það að félagið ætti von á styrkjum í erlendri mynt.  Í ljósi erlendu styrkjanna sé ekki óeðlilegt að stefnandi hafi viljað takmarka gengisáhættu sína með því að taka lán til framkvæmdanna einnig í erlendri mynt.  Vísar stefndi í þessu tilliti til áritunar stjórnenda stefnanda í ársreikningi félagsins frá 2008, en þar segi orðrétt: „Rekstrarhagnaður sambandsins nam um 278 m.kr. samanborið við tap á árinu á undan að fjárhæð 35 m.kr.  Þessi mikla breyting á rekstrarhagnaði skýrist af stórauknum tekjum í erlendri mynt.  Tap samstæðu Knattspyrnusambands Íslands á árinu 2008 nam um 163 m.kr.  Tap skýrist af miklu gengistapi af erlendu láni vegna framkvæmda á Laugardalsvelli en gengistap vegna þess nam á árinu tæpum 390 m.kr.“  Að mati stefnda sýni tilvitnaður texti vel tilgang og markmið stefnanda með lántöku sinni í erlendri mynt en með henni hafi félagið getað stýrt gengisáhættunni.  Lánssamning aðila beri að skýra í þessu ljósi sem og í ljósi þeirra samtímagagna sem sýni skýrt að stefnandi hafi ætíð litið svo á að um væri að ræða lántökur í erlendri mynt.                 Stefndi telur að einnig beri að líta til beiðna stefnanda um framlengingu lána en í þeim sé eina tilgreining lánsfjárhæðar í erlendri mynt, þ.e. í japönskum jenum og svissneskum frönkum.  Í þessu samhengi vísar stefndi til dóms Hæstaréttar Íslands frá 14. nóvember 2013 í málinu nr. 337/2013, en í því hafi verið fallist á að samningsformið hafi verið eins og í dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 155/2011, svokölluðu Mótormax-máli.  Á hinn bóginn hafi Hæstiréttur talið að líta bæri til fimm viðauka sem gerðir hafi verið við samninginn í því skyni að breyta skilmálum hans um gjalddaga höfuðstóls og vaxta.  Í þeim viðaukum hafi í öllum tilvikum verið tilgreindar eftirstöðvar lánsins í evrum.  Í engu tilviki hafi eftirstöðvar verið tilgreindar í íslenskum krónum.  Hafi Hæstiréttur talið þessar breytingar gefa vísbendingu um það viðhorf samningsaðila að lánið hafi verið veitt í evrum.  Stefndi telur að nákvæmlega sömu sjónarmið eigi við í þessu máli enda sé vandséð hvaða tilgangi það þjóni að tilgreina lánsfjárhæðina í erlendri mynt í beiðnum um framlengingu, hafi lánið í reynd verið í íslenskum krónum.                 Stefndi byggir á því að framangreind atriði varpi skýru ljósi á þá staðreynd að skuldbindingar stefnanda samkvæmt hinum umþrættu lánssamningum séu sannarlega í erlendum myntum en ekki í íslenskum krónum.  Þá verði heldur ekki annað ráðið af ársreikningum stefnanda fyrir árin 2007 til 2009 en að stefnandi hafi sjálfur litið á hinar umþrættu skuldbindingar sem skuld í erlendum gjaldmiðlum og viðurkenni með því lögmæti lánanna, enda beri stjórnendur hlutafélags ábyrgð á ársreikningi félags og útgáfu hans, sbr. 3. mgr. 44. gr. laga nr. 3/1995, um einkahlutafélög og 3. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga.                 Teljist skuldbindingar stefnanda samkvæmt umþrættum lánssamningum vera í íslenskum krónum byggir stefndi á því að honum hafi verið heimilt, samkvæmt 2. gr. laga nr. 38/2001, að víkja frá ákvæðum VI. kafla laganna þar sem lánssamningarnir hafi sannarlega verið stefnanda til hagsbóta.  Vísar stefndi í því samhengi til vaxtakjara stefnanda samkvæmt lánssamningunum, sem hafi verið umtalsvert betri en honum hefði ella boðist og vísar stefndi til þess að LIBOR-vextir hafi verið umtalsvert hagstæðari fyrir stefnanda en REIBOR-vextir á íslenskar krónur á því tímabili sem vaxtagreiðslur hafi verið inntar af hendi.                 Stefndi byggir enn fremur á því, að hann hafi ekki haft neinar forsendur til að ætla, þegar lánin hafi verið veitt stefnanda, að lánveitingarnar kynnu að reynast stefnanda óhagstæðari heldur en aðrar þær leiðir sem val hafi staðið um, enda hafi tekjustreymi stefnanda mest verið í erlendri mynt.  Vegna tekjustreymis stefnanda í erlendum gjaldmiðlum hafi engan veginn falist sama áhætta í því að taka erlent lán eins og fyrir þá sem njóti einungis tekna í íslenskum krónum.  Byggir stefndi á því að ljóst hafi verið að stefnandi yrði ekki fyrir tjóni af gengisfalli krónunnar, m.a. vegna þess að stefnandi hafi átt erlendan gjaldeyri tiltækan á gjalddögum afborgana, sbr. ársreikning stefnanda árið 2008.  Hafi því ekki verið fyrirsjáanleg gengisáhætta tengd lánunum hjá stefnanda þegar þau hafi verið veitt.                 Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, almennra reglna samninga- og kröfuréttar, um samningsfrelsi, skuldbindingargildi loforða og efndaskyldu krafna.                 Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. V                 Mál þetta varðar ágreining um hvort lánssamningur sem stefnandi gerði við Landsbanka Íslands hf., hinn 22. september 2006, varði lánsfé í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum.                 Um er að ræða svokallaðan viðskiptasamning um reikningslánalínu.  Ákvæðum samningsins, sem mestu ráða við úrlausn ágreinings aðila, er lýst hér að framan.  Eins og að framan er lýst er samningurinn á forsíðu sagður vera viðskiptasamningur um reikningslánalínu að fjárhæð 1.000.000.000 krónur og í upphafsorðum hans segir að bankinn lofi að veita lántaka framkvæmdafjármögnun í formi reikningslánalínu að fjáræð 1.000.000.000, eittþúsund milljónir 00/100, í íslenskum krónum eða þeim erlendu myntum sem bankinn á viðskipti með.  Í samningnum er hins vegar hvergi sagt til um hvort lánið komi til með að verða í einhverjum erlendum gjaldmiðlum fremur en íslenskum krónum, hverjir þeir gjaldmiðlar þá yrðu.  Fjárhæð lánsins er þannig í grunninn ákveðin og tilgreind í íslenskum krónum.  Hins vegar er gert ráð fyrir því að hver lánshluti sem lántaki taki innan lánsheimildar reikningslánalínunnar teljist vera sjálfstætt lán og gert ráð fyrir sérstakri lánsbeiðni um einstaka lánshluta.  Þrátt fyrir það verður að líta svo á að með undirritun aðila á hinn svokallaða viðskiptasamning hafi komist á lánssamningur milli þeirra með þeim skilmálum sem þar greinir.                  Óumdeilt er að stefnandi dró átta sinnum á lánið samkvæmt framlögðum lánsbeiðnum, þar sem mynt og upphæð lánsins var tilgreind 50% svissneskir frankar og 50% japönsk jen og fjárhæðin í íslenskum krónum.   Í samræmi við dóma Hæstaréttar Íslands gefa ákvæði sambærilegra samninga ekki skýrt til kynna hvort skuldbinding aðila sé í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum og þarf þá að meta heildstætt, m.a. eftir efndum aðila, hvort samið hafi verið um lán í erlendum gjaldmiðlum eða íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla. Fyrir liggur að lánsfjárhæðirnar voru greiddar út í íslenskum krónum inn á íslenskan reikning stefnanda, og að láninu var ætlað að fjármagna byggingaframkvæmdir á Íslandi.  Samkvæmt ákvæðum viðskiptasamningsins skuldbatt stefnandi sig til þess að endurgreiða lánin í þeim gjaldmiðlum sem það samanstæði af.  Stefnandi greiddi af láninu í erlendum gjaldmiðlum, enda átti hann gjaldeyrisreikning hjá Landsbankanum, en hann naut erlendra styrkja við þær framkvæmdir sem láninu var ætlað að fjármagna.  Með því að einu fjárhæðir sem beint eða óbeint voru tilgreindar í lánsamningi og lánsbeiðnum, voru í íslenskum krónum og stefnandi fékk í samræmi við það greiddar íslenskar krónur, verður að líta svo á að hér sé um að ræða lán sem ákveðið var í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla, sbr. og til hliðsjónar dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 386/2012.  Breytir það ekki þessari niðurstöðu þótt stefnandi hafi greitt af láninu í ýmsum erlendum myntum sem og síðari tilgreining lánsfjárhæðarinnar á beiðnum um framlengingu lánanna og enn síður þótt tilgreining lánsins sé svo í ársreikningum stefnanda.   Samkvæmt 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og dómafordæmi Hæstaréttar Íslands er lánabinding eða annars konar skuldbinding í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla óheimil.  Slík verðtrygging er ólögmæt og ógild.  Stefndi hefur ekki sýnt fram á með gögnum eða á annan hátt að undantekningarákvæði í lokamálslið 2. gr. laga nr. 38/2001 um að óheimilt sé að semja um grundvöll verðtryggingar, sem ekki er stoð fyrir í lögum, en stefndi ber sönnunarbyrði fyrir því, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 603/2010.  Þá getur forsenda stefnda fyrir lánveitingunni ekki breytt þeirri niðurstöðu.  Þar af leiðandi er fallist á dómkröfu stefnanda um að viðurkennt verði með dómi að lánssamningur aðila, dagsettur 22. september 2006, sé bundinn ólögmætri gengistryggingu samkvæmt lögum nr. 38/2001. Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefndi dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 600.000 krónur og hefur þá verið litið til virðisaukaskattsskyldu stefnanda.                 Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð: Viðurkennt er að samningur stefnda við stefnanda, dagsettur 22. september 2006, feli í sér gengistryggingu í andstöðu við lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Stefndi Landsbankinn hf., greiði stefnanda, KSÍ ehf., 600.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 786/2014
Börn Forsjársvipting Gjafsókn
Í dómi héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, var K svipt forsjá þriggja barna sinna á grundvelli a. og d. liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Var sú niðurstaða meðal annars reist á forsjárhæfnismati og undirmatsgerð sálfræðinga um að K væri óhæf til að fara með forsjá þeirra og sinna forsjárskyldum sínum gagnvart þeim. Þá hefðu önnur og vægari úrræði sömu laga ekki skilað viðunandi árangri. Í dómi Hæstaréttar kom fram að niðurstaða yfirmatsgerðar tveggja sálfræðinga, sem K hafði aflað eftir að dómur héraðsdóms hafði verið kveðinn upp, hefði samrýmst fyrrgreint forsjárhæfnismat og undirmatsgerð sálfræðinga. Með þessari athugasemd var hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. desember 2014. Hún krefst sýknu af kröfu stefnda. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt. Þá krefst hún þess sérstaklega að fjárhæð gjafsóknarkostnaðar í héraði verði hækkuð. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Eftir að hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp aflaði áfrýjandi yfirmatsgerðar tveggja sálfræðinga. Niðurstöður hennar samrýmdust forsjárhæfnimati 4. mars 2014 og undirmatsgerð sálfræðings 8. september sama ár um að áfrýjandi væri ófær um að fara með forsjá þriggja barna sinna og að önnur og vægari úrræði samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002 hafi verið fullreynd áður en krafa var gerð um sviptingu forsjár þeirra. Með þessum athugasemdum verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans um annað en gjafsóknarkostnað, en um hann fer samkvæmt því sem í dómsorði segir. Málskostnaður fyrir Hæstarétti verður ekki dæmdur. Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en gjafsóknarkostnað. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, K, fyrir héraðsdómi greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanna hennar, Guðmundar St. Ragnarssonar héraðsdómslögmanns, 439.250 krónur, og Þuríðar Halldórsdóttur héraðsdómslögmanns, 800.000 krónur. Þá greiðist úr ríkissjóði allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 1.500.000 krónur. Dómur Héraðsdóms Reykjaness 17. nóvember 2014. I. Mál þetta, sem tekið var til dóms 7. október sl., er höfðað með þingfestingu stefnu 14. maí 2014. Stefnandi er Barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar, Tjarnargötu 12, Reykjanesbæ. Stefnda er K, kt. [...],[...],[...]. Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda, K, verði með dómi svipt forsjá yfir börnunum A, kt. [...], B, kt. [...], og C, kt. [...]. Jafnframt er þess krafist að málskostnaður verði felldur niður hver sem úrslit málsins verða. Stefnda krefst þess „að kröfu stefnanda verði hafnað og að stefndu verði ákvörðuð áframhaldandi forsjá barna sinna, A, kt. [...], B og C, kt. [...].“ Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins úr hendi stefnanda að meðtöldum virðisaukaskatti. II. Stefnda í máli þessu er móðir barnanna A, B og C og fer með forsjá þeirra. Faðir A og B er D, fæddur [...], en skráður faðir B er E, fæddur [...]. Faðir C er F, fæddur [...]. Í stefnu segir að stefnda hafi lítið sem ekkert verið á vinnumarkaði. Hún hafi verið á endurhæfingarlífeyri og farið í starfsendurhæfingu, en njóti í dag fjárhagsaðstoðar. Stefnda hafi neytt fíkniefna á því tímabili er stefnandi hafi haft afskipti af henni, en hætt þar sem hún hafi óttast að missa börn sín. Í gögnum málsins komi fram að þeir fagaðilar sem hafi verið í samskiptum við stefndu af hálfu barnaverndar hafi orðið varir við alvarleg depurðareinkenni hjá stefndu ásamt almennu sinnuleysi, bæði gagnvart eigin umhirðu, börnunum og umhverfinu. Í gögnunum komi fram að stefnda hafi sjálf greint frá því að vera þunglynd og kvíðin. Í skýrslu tilsjónaraðila komi fram að erfitt sé að fá stefndu til samvinnu, að ræða við hana og fá hana til að svara spurningum. Þá segir í stefnu að F hafi verið á vinnumarkaði og í námi en njóti í dag fjárhagsaðstoðar. Hann eigi einn dreng af fyrra sambandi sem komi til hans í umgengni aðra hverja helgi. F hafi setið í fangelsi í fjögur ár, m.a. fyrir nauðgun og sifjaspell. Hann eigi sér langa neyslusögu eða allt frá 15 ára aldri og hafi m.a. ítrekað sprautað sig. Þá eigi F langan afbrotaferil að baki. Í gögnum frá barnavernd [...] komi fram að hann hafi sætt lögreglurannsókn þar sem hann hafi verið undir grun um að hafa beitt A kynferðislegri misnotkun, en þeirri rannsókn hafi verið hætt. A sé [...] ára. Um töluvert skeið hafi kennarar í skóla (og leikskóla) telpunnar haft áhyggjur af vanlíðan hennar. Í tilkynningu frá skóla, dags. 22. nóvember 2013, komi fram að A hafi sýnt töluverða vanlíðan í skólanum, hún hafi grátið mikið og virst vansæl. Þá komi einnig fram að hún komi sjaldnast með nesti og sé ekki með nauðsynleg námsgögn meðferðis. B sé [...] ára. Áhyggjur hafi vaknað á leikskóla barnsins vegna vanlíðunar hans, sem og um að umhirðu og aðbúnaði drengsins væri ábótavant. Drengurinn hafi átt í erfiðleikum í samskiptum við önnur börn, sýnt mikla reiði og oft lent í útistöðum við börn og starfsfólk leikskóla þegar honum hafi verið sett mörk. B eigi í erfiðleikum með mál og hafi veruleg frávik í málþroska. Stefnda hafi ekki fylgt því eftir að mæta með drenginn til talmeinafræðings. C sé [...] mánaða. Snemma hafi vaknað áhyggjur um velferð stúlkunnar. Foreldrar hafi ekki mætt með hana í ungbarnaeftirlit á réttum tíma og þyngd stúlkunnar hafi staðið í stað þegar hún var fimm til sex mánaða. Fram komi í greinargerð barnaverndar [...] að móðirin hafi lítið farið út með stúlkuna og gefið upp þá ástæðu að hún nennti ekki að klæða hana og setja í bílstólinn. Mál fjölskyldunnar hafi fyrst komið til kasta barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar á árunum 2007 til 2010. Í janúar 2013 hafi málefni fjölskyldunnar verið tekin til meðferðar hjá barnavernd [...], en þá hafi verið óttast um velferð barnanna vegna vanrækslu á umsjón og eftirliti, sem og vegna líkamlegrar vanrækslu og vanrækslu varðandi nám. Eftir að málið fluttist aftur til stefnanda í ágúst 2013 hafi barnavernd Reykjanesbæjar borist tilkynningar um andlegt og líkamlegt ofbeldi, sem og kynferðislegt ofbeldi. Einnig um vanrækslu á umsjón og eftirliti, um líkamlega og tilfinningalega vanrækslu og vanrækslu varðandi nám. Starfsmönnum stefnanda hafi gengið erfiðlega að fá stefndu til samstarfs. Erfiðlega hafi gengið að ná í stefndu símleiðis og hún hafi afboðað viðtöl hjá starfsmönnum. Í vitjunum hafi stefnda ekki verið til samstarfs, heldur hafi hún lokað sig inni í herbergi og breytt teppi yfir höfuð sér. Þrátt fyrir að starfsmenn stefndu hafi veitt foreldrum barnanna ráðgjöf, leiðbeiningar og fjárhagsaðstoð, líti stefnda svo á að þau fái enga aðstoð af hálfu stefnanda. Af þeim fjölmörgu tilkynningum og bréfum sem stefnandi hefur lagt fram í málinu sé ljóst að börnin hafi búið við óstöðugleika sem hafi valdið þeim vanlíðan, enda bendi gögn málsins til þess að stefnda hafi hvorki getu né þá innsýn sem þurfi til að veita börnunum það uppeldi sem þau þarfnist. Þannig hafi borist tilkynningar vegna ótta um velferð A þar sem foreldrar hafi ekki mætt með stúlkuna í reglulegt ungbarnaeftirlit á tilskildum tíma. Þá hafi komið fram tilkynningar frá leikskóla vegna stöðu og þroska B. Fjölmargar tilkynningar hafi borist um líkamlega vanrækslu barnanna og vegna gruns um að móður skorti hæfni til að sinna þörfum barnanna. Einnig megi nefna tilkynningu um að stúlkan A hafi greint frá því að eiga leyndarmál, sem enginn megi vita um, og að stjúpfaðir meiði móður, en vegna tilkynningarinnar hafi verið óttast um líðan og heilsu stúlkunnar. Þá liggi fyrir í málinu að mikil átök hafi átt sér stað milli foreldra að börnunum viðstöddum, en í greinargerð, dags. 24. mars 2014, komi fram að börnin hafi m.a. greint frá því að þau hafi ekki fengið að borða og að þau hafi verið læst inni í herbergi á meðan á slagsmálum stefndu og F stóð. Þessi háttsemi hafi vitaskuld bitnað harkalega á börnunum sem hafi þurft að horfa upp á ofbeldi á heimilinu, bæði líkamlegt og andlegt. Vart þurfi að fara um það mörgum orðum að slíkt sé til þess fallið að valda börnunum mikilli vanlíðan og því sé nauðsynlegt að grípa inn í með þeim hætti sem nú sé krafist dóms um. Í stefnu segir að frá því að barnaverndaryfirvöld hófu afskipti af fjölskyldunni hafi ýmis stuðningsúrræði verið reynd. Helstu áherslur barnaverndar [...]  hafi verið þær að veita foreldrum uppeldisráðgjöf, ráðgjöf varðandi fjármál, tilsjón og óboðað eftirlit á heimili. Auk þess hafi verið lögð áhersla á að móðir færi í sálfræðiviðtöl, en faðir hafi sótt sálfræðiviðtöl á vegum fangelsismálastofnunar. Fyrir liggi að stefnandi hafi ítrekað reynt ýmis stuðningsúrræði til að tryggja hagsmuni barnanna. Líkt og fram komi í gögnum málsins hafi stefndu þannig verið veitt fjölbreytt aðstoð af hálfu barnaverndaryfirvalda, svo sem í formi fjárhagsaðstoðar og stuðnings á heimili, án þess að þau úrræði hafi skilað tilætluðum árangri. Einnig hafi stefnda fengið ráðgjöf varðandi uppeldi, sem og persónulega ráðgjöf og þá hafi hún sótt sálfræðiviðtöl. Víða í gögnum málsins komi fram að þau stuðningsúrræði sem reynd hafi verið hafi ekki skilað tilætluðum árangri og að óttast megi um líðan barnanna í umsjón stefndu. Af hálfu stefnanda hafi á öllum stigum málsins verið gætt að rétti stefndu til andmæla. Stefnda hafi þannig haft tækifæri til að kynna sér öll gögn málsins og tjá sig um þau. Af gögnum málsins megi ráða að andlegt ástand stefndu sé ekki stöðugt og að þeir hlutlausu aðilar sem komið hafi að málinu hafi lýst áhyggjum af líðan barnanna. Þannig lýsi G hjúkrunarfræðingur í bréfi, dags. 11. janúar 2013, áhyggjum af velferð A. Í bréfinu komi fram að stefnda þjáist af þunglyndi, kvíða og fælni og sé að eigin sögn í meðferð hjá geðlækni. Þá sé tekið fram að faðirinn sé nýbúinn af afplána dóm, en hann sé óvirkur fíkill og eigi líka að vera í viðtölum hjá geðlækni vegna ofvirkni og athyglisbrests. Að mati G þyki sýnt að þessi fjölskylda þurfi talsverðan stuðning. Í skýrslu H sálfræðings, dags. 21. apríl 2013, vegna B, komi fram að lýst hafi verið erfiðri hegðun heima fyrir og í leikskóla, en einkenni athyglisbrests og ofvirkni komi fram á báðum stöðum. Þá sé tilfinningalegur vandi einnig til staðar. Í skýrslu I sálfræðings og J sálfræðings, dags. 8. febrúar 2011, komi fram að stefnda eigi erfitt með að opna sig fyrir ókunnugum og finnist ógnvekjandi að þurfa að hitta ókunnuga manneskju. Ætla megi að ekki hafi tekist að koma á meðferðarsambandi við sálfræðing vegna þess. Í umsögn frá K, skólastjóra [...] a, dags. 28. október 2013, komi m.a. fram að A sé oft döpur og sýni sjaldan gleðiviðbrögð og að hún setji oft í brýnnar. Umhirða og aðbúnaður sé ekki góður og hún komi ekki alltaf með nesti. Þá komi fram að stefnda hafi áhyggjur af A þar sem pabbi hennar sé í mikilli dópneyslu. Í skýrslu tilsjónaraðila, L dags. 14. mars 2014, komi fram í niðurstöðukafla að stefnda og F hafi ekki verið til samvinnu við tilsjónaraðila og að tilsjónaraðili hafi upplifað streitu á milli þeirra þar sem þau hafi ekki verið sammála um uppeldisaðferðir. Enn fremur komi fram að stefnda hafi ekki farið á SOS-námskeið og ekki sýnt áhuga á að vilja bæta ástand heimilisins. Loks komi fram að mikið rótleysi sé á heimilinu, börnin séu mikið í pössun og stefnda og F séu að slíta sambandinu. Stefnda sé marklaus og ekki í andlegu jafnvægi. Tilsjónaraðili lýsi K sem mjög þungri í skapi og að erfitt sé að eiga samræður við hana. Tilsjónaraðili meti það svo að F beri ekki skynbragð á þarfir barnanna. Þar sem móðir hafi verið mjög ósátt við að hafa tilsjón á heimili hafi verið ákveðið að koma til móts við hana og draga úr tilsjóninni, en gerð hafi verið sú krafa að í staðinn yrði hún til samstarfs þar sem mikilvægt hafi þótt að tilsjónaraðili væri á heimilinu til þess að leiðbeina foreldrum og fylgjast með aðbúnaði barnanna. Þrátt fyrir að barnavernd hafi viljað koma til móts við K hafi hún ekki sýnt samstarfsvilja og ekki tekið leiðbeiningum. Það sé mat stefnanda að stefnda hafi hvorki vilja né getu til þess að nýta sér þann stuðning til fullnustu sem henni hafi staðið til boða af hálfu stefnanda. Þar að auki sé það mat stefnanda að stefnda hafi ekki náð að nýta sér stuðning og leiðbeiningar barnaverndar, m.a. vegna skorts á samstarfi. Í gögnum málsins komi fram að börnin séu illa hirt, illa öguð, að öryggis þeirra sé ekki gætt og að þau séu skilin eftir án eftirlits. Vart þurfi að fara um það mörgum orðum að framangreind lýsing á andlegu ástandi stefndu og aðstæðum barnanna bitni harkalega á börnunum. Með vísan til þessa telji stefnandi að stefnda sé ekki fær um að veita börnunum viðeigandi uppeldisaðstæður í skilningi 1. gr. barnaverndarlaga. Í málinu liggi fyrir foreldrahæfnismat M sálfræðings, dags. 4. mars 2014. Þar komi fram að matsaðili telji ljóst að forsjárhæfni stefndu og F sé verulega skert og að þau virðist hvorki hafa áhuga né getu til þess að bæta sig. Matsmaður telji þau bæði, hvort um sig og saman, vanhæf um að fara með forsjá barna. Þá telji matsmaður að aðstæður sem börnin búi við séu bæði ófullnægjandi og skaðlegar. Að öðru leyti en að framan greini kveðst stefnandi vísa til ítarlegrar málavaxtalýsingar í framlögðum gögnum málsins. Sérstaklega sé vísað til greinargerðar starfsmanna barnaverndar Reykjanesbæjar og úrskurðar 24. mars 2014, þar sem ítarlega sé farið yfir öll afskipti barnaverndar af málefnum barnanna, sem og samskipti stefndu og barnaverndar vegna málsins. Í greinargerð stefndu segir að ljóst sé að upphaf máls þessa megi rekja til tilkynningar, sem barnaverndaryfirvöldum hafi borist 28. ágúst sl. og hafi varðað ætlað andlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi F, barnsföður stefndu og nú fyrrverandi sambýlismanns hennar, gagnvart stjúpdóttur sinni, A. Eftir þá tilkynningu hafi stefnandi leynt og ljóst hafið aðgerðir sem hafi miðað að því að svipta stefndu forsjá barna sinna. Aðeins sjö mánuðum síðar hafi með úrskurði stefnanda verið kveðið á um vistun barna stefndu utan heimilis. F hafi sætt lögreglurannsókn og verið tekinn í skýrslutöku vegna málsins þar sem hann hafi staðfastlega neitað hvers kyns ofbeldi á hendur barninu. Tekin hafi verið skýrsla af A í Barnahúsi undir stjórn dómara, en þar hafi ekkert komið fram sem stutt hafi fullyrðingar tilkynnanda. Hafi málið verið fellt niður hjá lögreglu. Stefnda heldur því fram að hvorki hún né F, fyrrverandi sambýlismaður hennar, hafi verið upplýst um rétt þeirra til að fá aðstoð lögmanns við meðferð málsins. Stefndu og fyrrverandi sambýlismanni hennar hafi fyrst verið gerð grein fyrir því 12. mars sl. að til stæði á fundi 24. mars að leggja til að börnin yrðu vistuð utan heimilis og þá fyrst hafi þau verið upplýst um rétt þeirra til að fá aðstoð lögmanns. Stefnandi hafi þá þegar verið búinn að taka ákvörðun um lyktir málsins. Stefnda og F hafi leitað til lögmanns föstudaginn 14. mars. Þrátt fyrir beiðni þar um hafi lögmanninum ekki verið veittur frekari frestur til að kynna sér gögn málsins sem hafi verið mikil að vöxtum, og hafi úrskurður verið kveðin upp 24. mars 2014. Bendir stefnda á að þessi málsmeðferð sé í andstöðu við ákvæði 1. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga. Lýsi þessi afstaða best þeirri ómálefnalegu hörku sem stefnda hafi frá upphafi þurft að sæta af hendi stefnanda. Stefnda bendir á að barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar hafi ákveðið að umgengni stefndu við börn sín skuli vera undir eftirliti og aðeins í þrjár klukkustundir tvisvar í mánuði. Bendi allt til þess að stefnandi vinni markvisst að því að slíta endanlega tengsl á milli stefndu og barna hennar áður en niðurstaða liggi fyrir í málinu. Þrátt fyrir þetta fullyrði stefnandi að gætt hafi verið meðalhófs við vinnslu málsins. Samkvæmt framlögðum forsjárvottorðum fer stefnda ein með forsjá barna sinna A og C, en stefnda og E  fóru sameiginlega með forsjá B. Með yfirlýsingu, dags. 17. mars 2014, samþykkti E að afsala sér forsjá barnsins til stefnanda. Þá hefur verið lagt fram í málinu bréf barnaverndar Reykjavíkur, dags. 18. mars 2014, um staðfestingu á samkomulagi á milli barnaverndar Reykjavíkurborgar og stefnanda um að málefni barna stefndu verði áfram til vinnslu hjá stefnanda þrátt fyrir að lögheimili þeirra hafi verið flutt í [...] í [...], sbr. 3. mgr. 15. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Stefnda kom fyrir dóminn og gaf aðilaskýrslu. Þá komu fyrir dóminn sem vitni N geðlæknir, M sálfræðingur, P sálfræðingur, R ráðgjafi, S tilsjónaraðili, T og U. III. Stefnandi kveðst byggja á því að það þjóni best hagsmunum barnanna A, B og C að svipta stefndu forsjá yfir þeim. Það teljist til frumréttinda barna að búa við stöðugleika í uppvexti og þroskavænleg skilyrði. Að mati stefnanda hafi það sýnt sig, svo ekki verði um villst, að stefnda geti ekki búið börnum sínum þau uppeldisskilyrði sem þau eigi rétt á. Það sé mat stefnanda að þrátt fyrir víðtækan stuðning hafi stefndu ekki tekist að koma aðstæðum á heimili sínu í viðunandi horf og hafi stefnda reynst treg til að þiggja ýmis stuðningsúrræði sem henni hafi staðið til boða. Eins og áður hafi verið rakið hafi afskipti barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar af málefnum barnanna staðið yfir á árunum 2007 til 2010 og hafi málið komið að nýju til kasta nefndarinnar í byrjun september 2013 eftir að hafa verið flutt frá barnavernd [...]. Af málavaxtalýsingunni hér að framan og gögnum málsins megi ráða að fjölmargar meðferðaráætlanir hafi verið gerðar í gegnum tíðina án þess að þær hafi skilað tilætluðum árangri. Af meðferðaráætlunum og greinargerð sem tekin hafi verið saman af starfsmönnum stefnanda sé einnig fullljóst að leitast hafi verið við að beita eins vægum úrræðum gagnvart stefndu og unnt hafi verið hverju sinni og að reynt hafi verið að aðstoða hana og börn hennar þannig að stefnda gæti haldið börnunum hjá sér. Að mati stefnanda sé alveg ljóst að við meðferð málsins hafi verið kappkostað að gæta meðalhófs og að öll úrræði hafi verið tæmd áður en sú viðurhlutamikla ákvörðun hafi verið tekin að höfða þetta mál. Einnig hafi stefnandi leitast við að upplýsa málið eins og frekast sé unnt og í því skyni m.a. aflað upplýsinga frá sérfræðingum sem komið hafi að málinu. Stefnandi kveðst telja að önnur barnaverndarúrræði en forsjársvipting séu ekki tiltæk, enda sé brýn nauðsyn á því að skapa börnunum öryggi og uppeldi sem þau fái ekki hjá stefndu. Það sé því mat stefnanda að stuðningsúrræði á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002 séu fullreynd og dugi ekki til að tryggja börnunum þroskavænleg uppeldisskilyrði til frambúðar á heimili stefndu. Á því sé byggt af hálfu stefnanda að rannsóknar-, andmæla- og  meðalhófsreglna hafi verið gætt í hvívetna við meðferð málsins og ekki hafi verið gripið til viðurhlutameiri úrræða en nauðsyn hafi krafist. Nú sé hins vegar svo komið að vægari úrræði en forsjársvipting dugi ekki til og því sé nauðsynlegt að stefnda verði svipt forsjá barnanna. Krafa stefnanda um forsjársviptingu sé reist á a- og d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Á því sé byggt af hálfu stefnanda að daglegri umönnun, uppeldi og samskiptum stefndu við börnin sín sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri barnanna og þroska. Enn fremur sé á því byggt að fullvíst sé að líkamlegri og andlegri heilsu barnanna og þroska þeirra sé hætta búin sökum þess að stefnda sé augljóslega vanhæf til að fara með forsjána líkt og gögn málsins beri með sér. Í fyrsta lagi liggi fyrir í gögnum málsins að stefndu hafi ekki tekist að vinna bug á þeim ófullnægjandi og skaðlegu aðstæðum sem börnin hafi búið við um árabil og vísar stefnandi þar um til forsjárhæfnismats M sálfræðings. Í öðru lagi bendir stefnandi á að stefnda hafi um langa hríð glímt við þunglyndi sem hafi bitnað harkalega á þroska barnanna. Líkt og rakið hafi verið hér að framan og í úrskurði stefnanda 24. mars 2014 hafi stefnda ítrekað skilið börnin sín eftir án eftirlits og þá skorti hana vilja til að vinna að betri aðbúnaði og aðstæðum barna sinna. Í þriðja lagi, sem vitaskuld tengist þeim atriðum sem nefnd hafi verið hér að framan, sé það mat stefnanda að stefnda sé ekki fær um að rækja móðurhlutverkið og ala önn fyrir börnum sínum. Víða í gögnum málsins megi sjá nöturlegar lýsingar á þeim heimilisaðstæðum sem börnin hafi búið við hjá móður sinni, sbr. t.d. dskj. 3, 27 og 30. Enn fremur sé vísað til áðurnefnds foreldrahæfnismats M þar sem m.a. komi fram að stefnda eigi erfitt með að stjórna daglegu lífi sínu og barna sinna. Þannig sé ljóst að stefnda eigi erfitt með að skilja þarfir barna og geti ekki sett sig í þeirra spor og vegna þessa sé stefnda á mörkum þess að geta talist hæfur uppalandi. Þær aðstæður sem börnin búi við séu bæði ófullnægjandi og skaðlegar. Það sé því mat stefnanda að stefndu hafi ekki tekist að vinna bug á sínum vandamálum og sé þar af leiðandi vanhæf til að fara með forsjá barnanna. Það sé mat stefnanda að hjá stefndu búi börnin við óviðunandi uppeldisaðstæður. Öll börnin séu á viðkvæmum aldri og í brýnni þörf fyrir stöðugleika þannig að persónueiginleikar þeirra og þroski fái að njóta sín. Með hliðsjón af öllu framansögðu telji stefnandi að hagsmunum barnanna til framtíðar sé best borgið með því að stefnda verði svipt forsjá þeirra. Forsjárréttur foreldra takmarkist af þeim mannréttindum barna að njóta forsvaranlegra uppeldisskilyrða. Þegar hagsmunir barns og foreldra vegist á séu hagsmunir barnsins þyngri á vogarskálunum. Þessi regla sé grundvallarregla í íslenskum barnarétti og komi einnig fram í þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland er aðili að. Hinu opinbera sé og skylt að veita börnum vernd svo sem fyrir sé mælt í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, barnaverndarlögum nr. 80/2002 og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Þá eigi reglan sér stoð í 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfestur hafi verið með lögum nr. 62/1994, sem og í alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. IV. Stefnda bendir á að frá því að formleg vinnsla málsins hófst hafi það tekið barnaverndaryfirvöld í Reykjanesbæ mjög skamman tíma að úrskurða um vistun barna stefndu utan heimilis og ákveða að móðir skyldi svipt forsjá þeirra. Svo skamman tíma að gera verði alvarlegar athugasemdir við stjórnsýslulega meðferð málsins. Engar tilraunir hafi verið gerðar af hálfu barnaverndaryfirvalda til að ná markmiðum sínum með öðrum og vægari úrræðum en tillögu um flýtimeðferð við sviptingu forsjár, t.d. um tímabundna vistun barnanna utan heimilis í samræmi við nánar tilgreind lagaákvæði VI. kafla barnaverndarlaga. Fari þetta í berhögg við skýrt ákvæði 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 um að kröfu um sviptingu forsjár skuli því aðeins gera að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs. Sú harka í garð stefndu sem einkennt hafi vinnslu málsins af hálfu stefnanda og það að stefnandi telji sig umkominn til að virða hvorki ákvæði barnaverndarlaga né lögfestar meginreglur stjórnsýslulaga veki furðu í máli þessu. Því sé mótmælt þeirri fullyrðingu í stefnu að rannsóknar-, andmæla- og meðalhófsreglna hafi verið gætt í hvívetna við meðferð málsins. Það séu mikil öfugmæli. Stefnandi haldi því fram í stefnu að öll úrræði hafi verið tæmd áður en sú viðurhlutamikla ákvörðun hafi verið tekin að höfða þetta mál. Það sé rangt. Heldur stefnda því fram að stefnanda hafi verið í lófa lagið að beita tilteknum ákvæðum VI. kafla barnaverndarlaga um tímabundin úrræði, t.d. um tímabundið fóstur barnanna á meðan á vinnslu málsins stæði og stefndu væri veitt aðstoð. Stefnda kveðst ekki vera fullkomin frekar en aðrir og hún hafi gert sín mistök á lífsleiðinni. Hún eigi sína slæmu daga og lífið sé ekki alltaf auðvelt. Eins og fyrr greini sé hún öryrki og hafi glímt við andlega erfiðleika, þunglyndi og kvíða. Hún sé heldur ekki fullkominn uppalandi. Þeirri lýsing sem dregin sé upp af stefndu sem persónu og móður í stefnu af hálfu stefnanda sé þó mótmælt harðlega. Því sé t.d. mótmælt að stefnda vanræki börn sín og sé áhugalaus um velferð þeirra og líðan eða geti ekki búið börnum sínum þroskavænleg uppeldisskilyrði, hvað þá að stefnda sé vond við börn sín og að líkamlegri og andlegri heilsu barnanna og þroska hafi verið hætta búin vegna vanhæfni stefndu. Stefnandi fari offari í neikvæðum fullyrðingum og ályktunum sínum í garð stefndu. Stefnda kveðst mótmæla sérstaklega fullyrðingum um að hún láti A bera ábyrgð á yngri systur sinni. Atvik þar sem A hafi tekið C úr rúminu hafi verið einstakt og hafi slíkt ekki átt sér stað aftur. Hið sama megi segja um fullyrðingar í forsjárhæfnismati sem unnið hafi verið af sálfræðingi á vegum stefnanda. Í forsjárhæfnismatinu hafi sálfræðingurinn séð ástæðu til að nefna að stefnda hafi verið ómáluð og lítt til höfð og klæðst íþróttafötum. Séu þetta auðmýkjandi ummæli og lítt til þess fallin að skapa traust um að hlutlægni hafi verið viðhöfð við vinnslu forsjármatsins. Þá veki það furðu sálfræðingsins að stefnda hafi verið í vörn eða lítt vingjarnleg. Að sögn stefndu séu miklar rangfærslur í mati sálfræðingsins. Það sé rétt að stefnda hafi verið ósátt við að fá tilsjón inn á heimili sitt, en það sé algengt í barnaverndarmálum. Það sé líklega ekki óalgengt að aðilar barnaverndarmáls séu í vörn eða ósáttir við að þurfa að undirgangast forsjárhæfnismat. Ekkert af þessu þurfi að koma á óvart. Það sé hins vegar algjörlega útilokað að stefnda hafi gert sér grein fyrir alvarleika málsins á meðan á vinnslu þess stóð hjá stefnanda eða að hún hafi verið upplýst um það af hálfu stefnanda að til stæði að svipta hana forsjá barna sinna áður en önnur og vægari úrræði yrðu reynd til þrautar. Hafi stefnda ekki fengið hagsmunagæslu í málinu fyrr en stefnandi hafði þegar ákveðið málalok eins og áður greini. Stefnda kveðst vera ákveðin í að taka sig á þar sem þess sé þörf og bæta sig sem einstaklingur og uppalandi. Í meðferð málsins hjá stefnanda hafi hún ekki fengið tækifæri til þess heldur hafi verið beitt flýtimeðferð til að svipta hana börnum sínum. Við munnlegan málflutning var mati M sálfræðings á forsjárhæfni stefndu, sem og matsgerð P sálfræðings, mótmælt. Bent var á að samkvæmt framburði N geðlæknis, sem stefnda hefði gengið til, hefðu orðið miklar og jákvæðar breytingar á persónulegum högum stefndu. Ekki væri því ástæða til að svipta hana forsjá barnanna. Stefnda væri nú reiðubúin til að fallast á að börnin yrðu vistuð utan heimilis á meðan hún væri að vinna í sjálfri sér. Jafnframt væri hún nú fús til samvinnu við barnaverndaryfirvöld. Þá kvaðst stefnda gera alvarlegar athugasemdir við það að börnin hefðu ekki öll verið vistuð á sama stað og að systkinahópnum hefði verið tvístrað. Með hliðsjón af betri aðstæðum og heilsu stefndu væru ekki lagaskilyrði til að svipta hana forsjá barnanna. Varðandi lagarök vísar stefnda til 24. gr. laga nr. 80/2002 varðandi það atriði að úrræði sem þar séu nefnd séu ekki fullreynd. Jafnframt sé vísað til meginreglna og tilgangs laga nr. 80/2002 og þess að aðbúnaður barna stefndu sé í samræmi við 1. gr. laga nr. 80/2002. Þá sé vísað til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, mannréttindakafla stjórnarskrár Íslands, einkum 71. gr., mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1992, og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, einkum 8. gr. um skyldu stjórnvalda til að sameina fjölskyldur. Þá sé einnig vísað til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, eftir því sem við eigi, sem og 60. gr. laga nr. 80/2002 um lögbundna gjafsókn. V. Í stefnu kemur fram að málefni stefndu og tveggja eldri barna hennar, sem fædd eru 2006 og 2008, hafi fyrst komið til kasta stefnanda á árunum 2007 til 2011, en þá bjó stefnda í [...]. Könnun fór fram vegna tilkynninganna, en engar meðferðaráætlanir voru gerðar. Þegar stefnda var ófrísk að þriðja barni sínu, sem fætt er [...], flutti hún í [...]. Hófust afskipti barnaverndar [...]  af málefnum stefndu og barna hennar þriggja í janúar 2013 og stóðu fram í ágúst sama ár, en þá flutti stefnda að nýju til [...]. Var málið flutt frá barnavernd [...]  til stefnanda með bréfi, dags. 22. ágúst 2013. Fram kemur í gögnum málsins að á þessum tíma, þ.e. frá árinu 2006 og þar til börnin voru vistuð utan heimilis stefndu í mars 2014, hafi fjölmargar tilkynningar borist stefnanda og barnavernd [...] um vanrækslu stefndu varðandi umönnun og eftirlit með börnunum. Fjölluðu tilkynningarnar m.a. um ófullnægjandi aðbúnað barnanna, svo sem varðandi ástundun í skóla, hreinlæti barnanna sjálfra og á heimilinu, næringu þeirra, öryggi og stöðugleika í aðstæðum. Fram kemur í gögnunum að stefnda hóf sambúð með föður yngsta barnsins, F, í lok október 2012, sem þá hafði nýlokið afplánun dóms, en fram hefur komið í málinu að sambúð þeirra sé nú lokið. Einnig kemur fram í málinu að stefnda flutti á höfuðborgarsvæðið í byrjun mars á þessu ári og býr nú ein í leiguíbúð í [...]. Þá hefur komið fram í málinu að hún hóf vinnu á veitingastaðnum [...] í [...] í byrjun september sl. Í byrjun þessa árs gerði M sálfræðingur að beiðni stefnanda mat á forsjárhæfni stefndu og F, sem þá bjuggu enn saman. Er skýrsla M dagsett 4. mars 2014. Í niðurstöðukafla skýrslunnar kemur m.a. fram að stefnda sé flöt og fálát gagnvart börnunum, hún sæki í að losna við þau af heimilinu og reyni að fá frið frá þeim og að öll samskipti við börnin séu neikvæð og skilyrt. Stefnda hafi hugsað illa um börnin, en þau hafa verið illa hirt og nærð og allt eftirlit og umönnun mjög slakt. Þá segir að stefnda hafi skilið A og B eftir ein með C frá því að hún var nokkurra mánaða gömul. Þrátt fyrir að öll börnin séu erfið hafi stefnda ekki farið á uppeldisnámskeið og hafi hún ekki nýtt leiðbeiningar sem hún hafi fengið um að kenna börnunum að fylgja eftir fyrirmælum og um samband hegðunar og afleiðinga. Einnig kemur fram í matinu að heimili stefndu og F hafi iðulega verið draslaralegt svo óviðunandi sé, sóðalegt og lyktað illa. Yngri börnin hafi ekki átt viðunandi fatnað og föt þeirra hafi verið óhrein og illa lyktandi. Börnin séu öll grannvaxin og hafi þau lýst því að ekki hafi verið til peningur fyrir mat eða nesti á heimilinu. Heilsuvernd barnanna, þ. á m. tannvernd, hafi verið illa sinnt og stefnda hafi hvorki sinnt því að koma B í talþjálfun, sem honum hafi staðið til boða í [...], né örvað hann heima eins og henni hafi veri leiðbeint um, en B sé með málþroskaröskun. Þá segir að stefnda virðist hafa lítinn áhuga á að styðja börnin til sjálfstæðis eða efla þroska þeirra á umhyggjusaman og verndandi hátt og leggi sig ekki fram um að styðja börnin við verkefni þeirra. Þá segir að stefnda kenni börnum sínum hvorki hegðun, mannasiði né samskipti. Börnin hagi sér afar illa án þess að hún grípi inn í. Almennt virðist stefnda ekki sýna einlægni í samskiptum, umhyggju fyrir öðrum né áhuga á að leggja sig fram í þágu annarra. Stefnda taki ekki ábyrgð á eigin velferð eða fjölskyldu sinnar og muni ekki ala börn sín upp við metnað eða dugnað. Þannig telji matsaðili ljóst að forsjárhæfni bæði stefndu og F sé verulega skert og þau virðist hvorki hafa áhuga né getu til þess að bæta sig. Matsmaður telji þau bæði, hvort um sig og saman, vanhæf um að fara með forsjá barna. Þrátt fyrir stuðning barnaverndar hafi ekki orðið merkjanleg breyting til batnaðar á heimilislífi þeirra. Matsmaður telji aðstæður sem börnin búi við bæði ófullnægjandi og skaðlegar. Þá segir í skýrslunni að sálfræðileg próf sýni að greind stefndu sé í lágu meðallagi og yrt greind hennar sé mun slakari en óyrt. Persónuleikapróf bendi til slakrar sjálfsmyndar og að stefnda tengi ekki eigin frammistöðu við árangur en líti frekar svo á að það sé öðrum að kenna eða þakka hvernig fór. Ólíklegt sé að stefnda nýti sér meðferð. Í geðgreiningarviðtali uppfylli stefnda skilmerki fyrir endurteknu þunglyndi (ekki yfirstandandi) og andfélagslegri persónuleikaröskun. Félagsmótunarpróf sýni mjög slaka félagsmótun sem vísi til persónuleikatruflunar og mikilla erfiðleika í félagslegum samskiptum. Að beiðni stefndu var kvaddur til matsmaður í málinu til að meta forsjárhæfni stefndu. Var matsgerð hins dómkvadda matsmanns, P sálfræðings, sem dagsett er 8. september 2014, lögð fram í málinu 17. sama mánaðar. Í niðurstöðukafla matsgerðarinnar er því lýst að stefnda hafi átt erfiða skólagöngu og ekki haldið áfram námi eftir grunnskóla. Hún hafi eignast elsta barnið sitt sextán ára gömul, miðbarnið átján ára og yngsta barnið hafi hún eignast með þriðja sambýlismanni sínum þegar hún var 22 ára gömul. Hann hafi verið í fangelsi þegar þau kynntust og lokið afplánun skömmu eftir að barnið fæddist. Hún hafi aldrei búið með föður tveggja eldri barnanna og drengurinn hafi verið rangfeðraður fyrstu árin. Atvinnusaga stefndu sé stutt og takmarkist fram undir daginn í dag við tímann kringum fæðingu elsta barnsins. Hún hafi prófað að vinna á mörgum stöðum en hætt fljótlega að mæta. Þá hafi hún flutt nokkrum sinnum milli staða í [...], síðan til [...] þar sem hún bjó í eitt ár og þá aftur í Reykjanesbæ í rúmlega hálft ár. Þá hafi hún flutt til Reykjavíkur í febrúar/mars síðastliðnum og flutt á milli íbúða innan hverfis skömmu síðar. Í matsgerðinni segir að börn stefndu séu öll á þeim aldri að almennar þarfir þeirra snúist um að eiga ástrík tengsl við foreldra sína og njóta verndar þeirra og öryggis, þar með talið að búa við stöðugleika í aðstæðum, auk þess sem þau þurfi líkamlega umönnun og atlæti, örvun og hvatningu, stuðning, fyrirmynd og siðun. Hjá drengnum hafi auk þess verið greindar sérstakar þarfir eins og áður hafi komið fram. Í viðtali matsmanns við stefndu hafi hún gefið stuttorðar upplýsingar um sig og hagi sína og hafi þversagnir verið áberandi. Hún hafi fegrað mynd sína og fundið ýmsar utanaðkomandi ástæður fyrir vanlíðan sinni. Skoðanir hennar og ályktanir séu sjálfmiðaðar og beri búferlaflutningar skýrt vitni um að að hún hugsi ekki um hagsmuni barnanna. Þá hafi stefnda skýrt rangt frá málum í ýmsum augljósum atriðum. Stefnda eigi í erfiðleikum með yfirsýn og dragi ályktanir af takmörkuðum upplýsingum. Þá taki hún duttlungafullar ákvarðanir sem sýni slaka dómgreind. Um persónulega hagi stefndu segir í skýrslunni að hún leigi ágætis íbúð á almennum markaði og að engar athugasemdir séu gerðar við heimili hennar. Hún hafi örorkustyrk og meðlög auk launa fyrir starfið sem hún hafi byrjað í fyrir skömmu. Að sögn stefndu hafi hún slitið sambandi við síðasta sambýlismann sinn en sterkar vísbendingar séu um að sambandi þeirra sé ekki lokið. Hún hafi hitt geðlækni sinn með reglubundnum hætti undanfarna mánuði og noti lyf við athyglisbresti, þunglyndi og kvíða. Þessir þættir séu jákvæðir, en séu nokkuð nýtilkomnir og að mestu frá því eftir að börnin fóru frá henni og því sé ekki hægt að segja til um hversu varanlegir þeir séu. Þá segir að niðurstöður greindarprófs sýni að heildargreind stefndu sé í meðallagi, en veikleiki sé á málsviði, varðandi staðreyndaþekkingu og félagslega dómgreind. Niðurstöður séu nokkuð hærri en við prófun árið 2011, sem skýrist að öllum líkindum af betra dagsformi. Þá segir að niðurstöður persónuleikaprófs gefi skýrar vísbendingar um langvarandi og erfið geðræn vandamál og persónuleikaraskanir og að ólíklegt sé að stefnda nýti sér meðferð. Ætla megi að persónuleikaraskanir hefðu fengist staðfestar ef ekki kæmi til tilhneiging stefndu til að gefa jákvæða mynd af sér. Einnig segir að niðurstöður prófana matsmanns, saga stefndu og prófanir annarra gefi til kynna að stefnda uppfylli skilmerki fyrir blandaðar eða óskilgreindar persónuleikaraskanir og endurtekið þunglyndi sem sé ekki yfirstandandi. Í matsgerðinni segir að matsmaður telji allt benda til þess að persónuleikaraskanir stefndu séu undirliggjandi vandi og hafi verið frá unglingsárum. Raskanir þessar hafi leitt til margvíslegra erfiðleika hennar og haft í för með sér slitrótta atvinnusögu, ótímabærar barneignir, sambönd við karlmenn sem hún hafi farið hratt út í og alvarlega vangetu við barnauppeldi. Einkenni persónuleikaraskana hennar birtist m.a. í skorti á innsæi í þarfir barnanna, skorti á skilningi á uppeldisverkefnum og afneitun á þeirri vanrækslu sem felist í því að sinna þeim ekki. Enn fremur birtist þau í skorti hennar á samvinnu við þá sem hafi viljað leiðbeina og aðstoða. Hvað framtíðaráform varði hafi stefnda greint frá menntunaráformum sem matsmanni þyki ómarkviss og ólíkleg til að ganga upp með hliðsjón af vinnutíma stefndu og óskum hennar um að fá börnin til sín aftur. Matsmaður telji að áform hennar lýsi fyrst og fremst óskhyggju stefndu og óraunsæi ásamt tilhneigingu til að láta sínar langanir ganga framar þörfum barnanna. Hvað varði tengsl stefndu við börn sín segir að margvísleg og umfangsmikil gögn málsins sýni margháttaða vanrækslu stefndu gagnvart börnunum, sem M sálfræðingur nefni t.d. í sinni skýrslu og komi einnig fram í öðrum gögnum málsins, og að stefnda sýni merki um að hafa aðeins myndað grunn tilfinningatengsl við börnin. Það sé hafið yfir vafa að verulega hafi skort á að stefnda hafi sem uppalandi brugðist við merkjum frá börnum sínum á þann hátt sem börn þurfi á að halda til að geta myndað öryggistengsl með viðunandi hætti. Greinileg merki séu um það í lýsingu fósturforeldra að A vilji bera ábyrgð á móður sinni, en umsnúningur af þessu tagi á ábyrgðarhlutverkum gefi til kynna tengsl af því tagi sem séu neikvæð og óheppileg fyrir þroska barna. Lýsing fósturforeldra á því hvernig C geri ekki mannamun, heldur snúi sér jafnt að hverjum sem er, þyki gefa til kynna að viðkomandi barn hafi ekki myndað fullnægjandi öryggistengsl gagnvart einum aðila, heldur leiti jafnt til hvers sem er. Þá segir að tilhneiging stefndu til að annast ekki um börnin sjálf heldur láta þau í hendur annarra styðji það að tengsl hennar við börnin séu grunn og ófullnægjandi. Í matsgerðinni segir að tilfinningatengsl í frumbernsku við meginuppalendur sína, svokölluð geðtengsl, séu mikilvæg fyrir velferð barnsins í framtíðinni og leggi grundvöll að persónulegum þroska þess og geðheilsu. Að lokum segir í matsgerðinni að á grundvelli þeirra upplýsinga, sem rakin séu í matsgerðinni, telji matsmaður einsýnt að stefnda hafi ekki sinnt daglegri umönnun og uppeldi barna sinna með þeim hætti sem þroski þeirra og velferð þarfnist. Á því rúma ári sem reynt hafi verið að koma á margvíslegum stuðningsúrræðum hafi enginn árangur náðst. Því telji matsmaður að forsjárhæfni stefndu sé verulega ábótavant og að vægari úrræði hafi verið fullreynd. Þótt líðan stefndu virðist nú betri en oft áður sé ekki að sjá að breytingar hafi orðið á skilningi hennar á þörfum barnanna og ekki sé hægt að draga þá ályktun að hún sé orðin hæfari til þess að vera til samstarfs um viðunandi uppeldisskilyrði fyrir börnin vegna persónuleikaröskunar sinnar. Allt eins líklegt sé að líðan hennar sé nú betri af því að hún beri ekki ábyrgð á uppeldi þeirra og að fara myndi í sama farið að nýju ef börnin færu til hennar. Fullvíst megi því teljast að verulegar líkur séu á að andlegri heilsu barnanna og þroska þeirra yrði hætta búin ef þau færu aftur til móður sinnar vegna vanhæfni hennar til að sinna almennum þörfum þeirra, sem og sértækum þörfum drengsins. Þær M sálfræðingur og Valgerður Magnúsdóttir sálfræðingur komu báðar fyrir dóminn og staðfestu áðurgreindar matsskýrslur sínar. Vitnið M bar um það að það væri sama hvar borið væri niður, forsjárhæfni stefndu væri stórlega ábótavant. Stefnda hefði vanrækt börnin og hefði ekki innsæi í þarfir þeirra. Hún hefði ekki forgangsraðað í þeirra þágu og ekki verið til samvinnu við barnaverndaryfirvöld í því skyni að bæta sig sem uppalanda. Hún sagði að stuðningsúrræði hefðu ekki skilað árangri. Vitnið P bar um að forsjárhæfni stefndu væri verulega skert vegna undirliggjandi alvarlegra persónuleikaraskana og þunglyndis með köflum. Hún sagði að börnin hefðu sætt alvarlegri vanrækslu í umsjón stefndu. Úrræði barnaverndaryfirvalda hefðu ekki skilað neinum árangri og stefnda hefði ekki verið til neinnar samvinnu. Önnur og vægari úrræði væru því fullreynd. Hún kvaðst hafa fengið upplýsingar um líðan barnanna í haust til að gera samanburð á líðan þeirra nú og þegar þau voru hjá móður. Samkvæmt þeim upplýsingum líði börnunum mun betur nú og sýni meira öryggi og þá væri skólasókn og allt utanumhald þeirra í mun betra horfi. Hún sagði að ekki væri raunhæft að ætla að stefnda gæti snúið við blaðinu og orðið hæf sem foreldri á tiltölulega skömmum tíma. Kvaðst hún telja að stefndu liði betur nú af því að hún væri ekki með börnin hjá sér og bæri ekki ábyrgð á þeim. Fyrir dóminn kom einnig sem vitni N geðlæknir. Hann sagði að stefnda hefði farið að mæta nokkuð reglulega til hans síðastliðið vor, þ.e. þegar til hefði staðið að taka börnin af henni. Þá hefði hún verið mjög þunglynd, en væri nú að svara þunglyndismeðferð hægt og bítandi. Kvaðst hann telja að létt hefði á stefndu við að skilja við barnsföður sinn og kannski við það að bera ekki ábyrgð á börnunum. Hann sagði að stefnda væri nokkuð óraunsæ í áformum sínum varðandi vinnu, umönnun barnanna og eigin getu. Kvaðst hann telja að auk þunglyndis væri stefnda með undirliggjandi persónuleikaraskanir. Kvaðst hann sjá merkjanlegan mun á stefndu, en tók fram að hún væri enn brothætt eins og fólk væri eftir langvarandi þunglyndi. Ef hún fengi börnin aftur yrði hún að fá mikinn stuðning og vera tilbúin til að taka á móti stuðningi. Sagðist hann ekki geta sagt til um hversu líkleg stefnda væri til samvinnu nú, en kvaðst telja hana samvinnuþýðari nú en áður. Sagðist hann telja að stefnda þyrfti sjálf á sterku langtímameðferðarsambandi að halda í nokkur ár. Eins og er ætti stefnda langt í land með að geta búið börnunum gott heimili og góðar aðstæður. Með hliðsjón af öllu framangreindu og með sérstakri skírskotun til forsjárhæfnismats M sálfræðings og matsskýrslu P sálfræðings og framburðar þeirra fyrir dóminum þykir sýnt að stefnda sé óhæf til að fara með forsjá barna sinna og sinna forsjárskyldum sínum gagnvart þeim. Brýna nauðsyn þykir bera til þess að skapa börnunum til frambúðar það öryggi og þá umönnun sem þau þurfa á að halda og eiga rétt á lögum samkvæmt, sbr. 1. og 2. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Samkvæmt 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga skal því aðeins gera kröfu um sviptingu forsjár að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs. Af gögnum málsins er ljóst að önnur og vægari úrræði barnaverndarlaga hafa verið reynd allt frá byrjun árs 2013 án þess að þau hafi skilað viðunandi árangri. Þá er fallist á með stefnanda að rannsóknar-, andmæla- og meðalhófsreglna stjórnsýsluréttarins hafi verið gætt við meðferð málsins. Samkvæmt því sem að framan er rakið og með hagsmuni barnanna A, B og C að leiðarljósi verður að fallast á það með stefnanda að uppfyllt séu skilyrði a- og d-liða 29. gr. barnaverndarlaga til að svipta stefndu forsjá barnanna. Verður krafa stefnanda því tekin til greina. Rétt þykir að málskostnaður falli niður. Gjafsókn í máli þessu er lögbundin, sbr. 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun talsmanns hennar, Þuríðar Halldórsdóttur hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 263.550 krónur, og talsmanns hennar á fyrri stigum, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 439.250 krónur, hvort tveggja að meðtöldum virðisaukaskatti. Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp dóminn ásamt meðdómsmönnunum Guðfinnu Eydal sálfræðingi og Helga Viborg sálfræðingi. Við uppkvaðningu dómsins var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Dómsorð: Stefnda, K, er svipt forsjá yfir börnunum A kt. [...], B, kt. [...], og C, kt. [...]. Málskostnaður fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun talsmanns hennar, Þuríðar Halldórsdóttur hdl., 263.550 krónur, og talsmanns hennar á fyrri stigum, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 439.250 krónur.
Mál nr. 662/2014
Lausafjárkaup Galli Skoðunarskylda Riftun
S, sem keypt hafði dráttarvél og flutningavagn af H ehf., höfðaði mál gegn H ehf. og krafðist riftunar á kaupsamningnum vegna galla sem hann taldi vera á dráttarvélinni. S hafði aflað matsgerðar dómkvadds manns, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að dráttarvélin hefði verið haldin verulegum ágöllum sem ekki hefðu verið sýnilegir venjulegum kaupanda. Í dómi héraðsdóms var talið að S hefði vanrækt skoðunarskyldu sína við kaupin, enda hefði hann mátt sjá að vélin væri ekki í því ástandi sem ætla hefði mátt af auglýsingu H ehf. Var H ehf. því sýknað af kröfum hans. Hæstiréttur komst hins vegar að gagnstæðri niðurstöðu og staðfesti riftun S á kaupsamningnum. Í dómi hans kom fram að þrátt fyrir að S hefði látið undir höfuð leggjast að skoða dráttarvélina nákvæmlega hefði hann mátt treysta því sem fram kom í auglýsingu H ehf. um ástand vélarinnar og ekki þurft að staðreyna það með skoðun á vélinni, sbr. 2. mgr. 20. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Hann gæti því borið fyrir sig þá galla sem vélin var haldin og ekki voru augljósir honum sem kaupanda, en hann bjó ekki yfir sérþekkingu á slíkum vélum. Með vísan til niðurstöðu matsgerðarinnar um ástand vélarinnar var krafa S um riftun tekin til greina og H ehf. gert að endurgreiða honum kaupverðið.    
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Eiríkur Tómasson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. október 2014. Hann krefst þess aðallega að staðfest verði riftun 15. ágúst 2011 á kaupsamningi sínum og stefnda 25. júlí sama ár um dráttarvélina Massey Ferguson 4245, árgerð 1997, með skráningarnúmerið MJ-238, gegn afhendingu vélarinnar í núverandi ástandi. Þá krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.339.156 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. júlí 2011 til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.316.516 krónur með dráttarvöxtum frá 25. júlí 2011 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Málsatvik eru í stuttu máli þau að í júlímánuði 2011 sá áfrýjandi, sem er eigandi jarðarinnar Ósgerði í Ölfusi, dráttarvél auglýsta til sölu í Bændablaðinu. Í auglýsingunni sagði meðal annars: „Til sölu Massey Ferguson 4245 dráttarvél 90 hö. árg. ´97, öll nýuppgerð og yfirfarin. Allt rafkerfi nýtt. Er í Borgarfirði. Einnig til sölu öflugur flutningavagn“. Þá kom fram í auglýsingunni að upplýsingar væru veittar í tveimur tilgreindum símanúmerum. Að beiðni áfrýjanda hringdi Ólafur Hafsteinn Einarsson í annað númerið og mun Jón Þórðarson, sem að sögn stefnda þekkti vel til dráttarvélarinnar, hafa orðið fyrir svörum. Í framburði Ólafs fyrir héraðsdómi kvaðst hann hafa spurst „aðeins út í vélina“. Hafi viðmælandi sinn lýst „henni bara sem góðum grip og lítið notaðri með nýtt rafkerfi eins og hann orðaði það og í topp standi.“ Í framhaldinu hringdi áfrýjandi í hitt númerið og ræddi við fyrirsvarsmann stefnda, Svein Eyjólfsson. Í því símtali falaðist áfrýjandi eftir að kaupa dráttarvélina og sagðist hann í símtalinu auk annars hafa spurt um verð hennar. Af hálfu stefnda er því haldið fram að áfrýjandi hafi „ólmur“ viljað kaupa vélina óséða, en honum hafi verið gerð grein fyrir því að hún yrði ekki seld fyrr en væntanlegur kaupandi hefði kynnt sér ástand hennar. Daginn eftir að síðastgreint símtal átti sér stað, 15. júlí 2011, kom áfrýjandi að Efranesi í Borgarfirði í þeim tilgangi að sækja dráttarvélina og flutningavagninn sem hann ætlaði að festa kaup á. Áðurnefndur fyrirsvarsmaður stefnda sagði fyrir dómi að áfrýjandi hafi strax viljað fá upp gefið reikningsnúmer stefnda og viljað borga vélina þá þegar. Fórust fyrirsvarsmanninum meðal annars svo orð: „Ég sagði honum að hann yrði að skoða hana fyrst, hún stæði þarna fyrir neðan hús og hann skyldi fara og setja hana í gang og skoða hana áður en hann keypti hana. Hann sagðist ekkert hafa vit á vélum og ég sagði ég hef það ekki heldur en farðu samt og skoðaðu vélina ef þú ert að kaupa hana.“ Hafi áfrýjandi síðan kallað í Ámunda Sigurðsson sem hafi verið nærstaddur við smíðar og beðið hann um að kenna sér að setja dráttarvélina í gang. Hafi Ámundi gert það. Fyrir dómi bar Ámundi að hann hafi sett vagninn aftan í vélina og ekið henni síðan upp á veg. Þar hafi áfrýjandi tekið við, en átt „bágt með“ að setja vélina í gír og verið greinilega óvanur. Hafi hann sýnt áfrýjanda helstu stjórntæki hennar og beðið hann um að fara varlega „því þetta er náttúrulega viðkvæmt tæki.“ Fyrir dómi var áfrýjandi spurður hvort það hefði komið til tals að hann skoðaði vélina áður en gengið yrði frá kaupunum. Því svaraði hann: „Alls ekki man ég eftir því, en útiloka það ekki.“ Fyrir liggur í málinu að áfrýjandi greiddi kaupverð dráttarvélarinnar og flutningavagnsins, samtals 2.500.000 krónur, umræddan dag. Í héraðsdómsstefnu er staðhæft að kaupverð vélarinnar hafi numið 2.200.000 krónum og vagnsins 300.000 krónum og hefur stefndi ekki mótmælt því. Eftir að kaupin voru um garð gengin ók áfrýjandi vélinni ásamt vagninum að Ósgerði og fór um Uxahryggi á þeirri leið. Hinn 25. júlí 2011 var svo undirritaður kaupsamningur milli aðila um dráttarvélina þar sem meðal annars var tekið fram: „Vélin er öll nýuppgerð og yfirfarin. Allt rafkerfi nýtt.“ Að sögn áfrýjanda bilaði vélin tveimur dögum síðar og kvaðst hann þá hafa farið með hana í „söluskoðun“ hjá Vélaverkstæði Þóris ehf. á Selfossi. Við skoðunina hafi komið í ljós fjöldi galla á vélinni og hafi það engan veginn samrýmst þeirri lýsingu sem stefndi hafi gefið á ástandi og gæðum hennar. Með bréfi til stefnda 15. ágúst 2011 lýsti áfrýjandi yfir riftun á kaupum dráttarvélarinnar, en þeirri kröfu var mótmælt af hálfu stefnda 31. sama mánaðar. Af hálfu stefnda er því haldið fram að dráttarvélin hafi verið yfirfarin áður en hún var auglýst til sölu og fært fram gögn því til staðfestingar, þar á meðal reikninga fyrir viðgerð á vélinni hjá Vélabæ ehf. í Borgarfirði sem fram fór í febrúarmánuði 2011. Samkvæmt þeim reikningum var skipt um framrúðu í vélinni og að auki skipt um nokkra aðra hluti og einhverjar lagfæringar gerðar á henni. II Hinn 3. október 2011 fór áfrýjandi fram á að dómkvaddur yrði sérfróður matsmaður til að svara sex nánar greindum spurningum um ástand dráttarvélarinnar. Í matsgerð hins dómkvadda manns 8. maí 2012 var komist að svofelldri niðurstöðu um hverju hafi verið ábótavant við vélina við afhendingu hennar: „Með tilvísun í framangreinda greiningu á ástandi dráttarvélar MJ-238 ... er ástand ljósa, spegla, hlífa, rúðusprautu framrúðu, fóðringar fyrir moksturstæki, miðliðs framhásingar, sætis, tröppu vinstra megin, framfelgu vinstra megin, pumpu fyrir afturhlera, stjórnstangar fyrir beisli, gírskiptistangar, kúplingar, pakkninga fyrir vökvatengi og vél, ásamt vélarhljóðs, ábótavant. Dráttarvélin er tiltæk, virði hennar er skert og hætta er á frekara tjóni. Notkun tækisins veldur slysahættu.“ Þá taldi matsmaðurinn að smellir frá vél dráttarvélarinnar væru „annað hvort ventlabank eða of mikil rýmd stimpla í stimpilshúsi.“ Einnig kom fram í matsgerðinni að viðgerð, sem áfrýjandi hafi látið fara fram á vélinni, hafi verið „fólgin í því að skipta út vökvahraðtengjum sem láku, vökvasíum og pakkningum.“ Í matsbeiðni var meðal annars óskað eftir því að lagt yrði mat á hverjar úrbætur þyrfti að gera á dráttarvélinni og hver yrði kostnaður vegna þeirra. Niðurstaða matsmannsins var að mikil óvissa væri um það hver viðgerðarkostnaður yrði og gæti hann numið á bilinu 922.000 til 2.177.000 krónum að meðtöldum virðisaukaskatti. Þeirri spurningu hvort dráttarvélin hafi við afhendingu 15. júlí 2011 verið nýuppgerð og yfirfarin með nýju rafkerfi svaraði matsmaðurinn að ástand hennar hafi „ekki verið í samræmi við það að hún væri nýuppgerð og yfirfarin. Það skal tekið fram að hluti af því sem ábótavant er var augljós galli þegar vélin var keypt en aðrir þættir eru einungis greinanlegir fyrir sérfræðinga“. Að lokum var á það bent í matsgerðinni að samkvæmt akstursmæli hafi dráttarvélin verið keyrð í 8 klukkustundir frá því að hún var keypt. Taldi matsmaður að framangreind „frávik“ væru þess eðlis að þau hafi ekki getað stafað af keyrslu vélarinnar frá Borgarfirði í Ölfus. Hinn dómkvaddi matsmaður kom síðar fyrir dóm og staðfesti þar skýrslu sína. Ennfremur skýrði hann út þá aðferð sem hann kvaðst hafa notað við að meta ástand dráttarvélarinnar. Spurður hvort rafkerfi hennar væri nýtt svaraði matsmaðurinn að svo væri ekki miðað við nánar tilgreinda þætti. Ef rafkerfið hefði verið yfirfarið og endurnýjað „hefði verið búið að laga þessa þætti.“ Þá kom fram hjá matsmanninum að bilanir í vélinni hafi allar verið „vegna slits eða öldrunar ... ekki vegna óhapps.“ Átta klukkustunda akstur gæti valdið óhappi, en engar bilanir í vélinni væru þess eðlis. Matsmaðurinn taldi að sumt af því sem ábótavant hafi verið væri sýnilegt og því átt að koma í ljós við skoðun vélarinnar. Önnur „frávik“ hafi verið þess eðlis að fagmaður hefði átt að sjá þau, svo sem við „söluskoðun“ þar sem „bróðurparturinn“ af göllunum á vélinni hefði átt að koma fram. Stefndi hefur ekki aflað yfirmats eða reynt að hnekkja matsgerð hins dómkvadda manns með öðrum hætti. Verður því að leggja hana til grundvallar við úrlausn málsins. III Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, sem gilda um kaup áfrýjanda á dráttarvélinni af stefnda, skal söluhlutur, hvað varðar gæði og eiginleika að öðru leyti, fullnægja þeim kröfum sem leiðir af samningi. Eins og áður greinir var í kaupsamningi aðila tekið fram, í samræmi við auglýsingu stefnda, að dráttarvélin væri öll nýuppgerð og yfirfarin, auk þess sem allt rafkerfi hennar væri nýtt. Samkvæmt íslenskri orðabók merkir „uppgerður“ fullreistur, fullsmíðaður, sem hefur verið endurnýjaður. Með matsgerð hins dómkvadda manns og framburði hans fyrir héraðsdómi telst sannað að vélin hafi ekki fullnægt þeim kröfum sem leiddi af samningnum þegar hún var afhent 15. júlí 2011, þar á meðal hafi  rafkerfi hennar ekki verið nýtt. Vélin var því gölluð samkvæmt 3. mgr. 17. gr. laga nr. 50/2000, sbr. og 1. mgr. 18. gr. sömu laga. Af því sem áður greinir verður að ganga út frá því að áfrýjandi hafi látið undir höfuð leggjast að skoða dráttarvélina nákvæmlega áður en kaupin voru gerð þrátt fyrir hvatningu fyrirsvarsmanns stefnda. Á hinn bóginn mátti áfrýjandi treysta því sem fram hafði í komið í auglýsingu stefnda um ástand vélarinnar og hafði því ekki ástæðu til að staðreyna það með skoðun á henni, sbr. fyrri málslið 2. mgr. 20. gr. laga nr. 50/2000. Samkvæmt því getur áfrýjandi borið fyrir sig þá galla sem vélin var haldin og ekki voru augljósir honum sem kaupanda, en hann bjó ekki yfir sérþekkingu á slíkum vélum.  Af áðurgreindri matsgerð er ljóst að þegar dráttarvélin var afhent var hún haldin mjög verulegum ágöllum, sem ekki voru sýnilegir venjulegum kaupanda, þar á meðal mátti áfrýjandi ganga út frá því samkvæmt framansögðu að vél hennar væri sem ný og því kæmi ekki til álita að taka þyrfti hana upp. Af þeim sökum verður krafa áfrýjanda um riftun á kaupum dráttar vélarinnar gegn afhendingu hennar í núverandi ástandi tekin til greina samkvæmt 1. mgr. 39. gr. og 2. mgr. 64. gr. laga nr. 50/2000, en hann lýsti eins og áður er fram komið yfir riftun kaupanna án ástæðulauss dráttar, sbr. 2. mgr. fyrrnefndu lagagreinarinnar. Samkvæmt þessu verður jafnframt fallist á kröfu áfrýjanda um að stefndi endurgreiði honum kaupverðið, 2.200.000 krónur. Þar sem stefndi hefur ekki mótmælt kröfu áfrýjanda um dráttarvexti, þar á meðal upphafstíma þeirra, verður sú krafa tekin til greina óbreytt. Samkvæmt framansögðu verður ráðið að áfrýjandi hafi haft einhver not af dráttarvélinni eftir að hann festi kaup á henni þótt þau hafi verið takmörkuð. Að teknu tilliti til þess verður stefndi sýknaður af skaðabótakröfu hans. Eftir þessum málsúrslitum verður stefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi á báðum dómstigum eins og fram kemur í dómsorði. Dómsorð: Staðfest er riftun áfrýjanda, Skúla Gunnars Sigfússonar, á kaupsamningi hans og stefnda, Hólsfells ehf., 25. júlí 2011 um dráttarvélina Massey Ferguson 4245, með skráningarnúmer MJ-238, gegn því að afhenda stefnda hana í núverandi ástandi. Stefndi greiði áfrýjanda 2.200.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. júlí 2011 til greiðsludags. Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Vesturlands 11. júlí 2014. Mál þetta sem dómtekið var 23. maí sl. er höfðað með stefnu birtri 18. desember 2012. Stefnandi er Skúli Gunnar Sigfússon, Ósgerði, Ölfusi. Stefndi er Hólsfell ehf., Efra-Nesi, Búðardal. Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur: Aðallega að staðfest verði með dómi riftun stefnanda 15. ágúst 2011 á kaupsamningi aðila, sem gerður var 25. júlí 2011 um dráttarvélina Massey Ferguson 4245, árgerð 1997 með skráningarnúmerið MJ-238 gegn alhendingu dráttarvélarinnar i núverandi ástandi. Einnig er gerð krafa um að stefndi endurgreiði stefnanda 2.200.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2011 um vexti og verðtryggingu frá 25. júlí 2011 til greiðsludags og krafa um greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 139.516,- auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2011 um vexti og verðtryggingu frá. 25. júlí 2011 til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 2.316.516 í bætur eða afslátt af kaupverði dráttarvélarinnar Massey Ferguson 4245, árgerð 1997 með skráningarnúmerið MJ-238 auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2011 um vexti og verðtryggingu frá. 25. júlí 2011. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu. Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara krefst stefndi sýknu af riftunarkröfu stefnanda og að afsláttarkrafa stefnanda verði stórlega lækkuð og aðeins tekin til greina að óverulegu leyti. Þá er krafist málskostnaðar. MÁLSATVIK Hinn 7. júlí 2011 birtist svohljóðandi auglýsing í Bændablaðinu:  „Til sölu Massey Ferguson 4245 dráttarvél 90 hö. árg. '97, öll nýuppgerð og yfirfarin. Allt rafkerfi nýtt. Er í Borgarfirði. Einnig til sölu öflugur flutningavagn, Deves GV100, 10 tonn, einnig í Borgarfirði. Upplýsingar í símum 893-3892 og 899- 6855." Stefnandi sem kvaðst hafa verið að leita að dráttarvél þessarar gerðar hafði samband við fyrirsvarsmann stefnda, Svein R. Eyjólfsson. Kveður forsvarsmaður stefnda stefnanda hafa óskað eftir upplýsingum um bankareikning sem hann gæti lagt kaupverð tækjanna inn á. Honum hafi verið var gerð grein fyrir því að vélin yrði ekki seld án þess að kaupandinn skoðaði hana fyrst. Stefnandi hafi ólmur viljað festa sér tækið, en stefndi ekki gefið sig með það að vélin yrði ekki seld án þess að kaupandi kynnti sér ástand hennar fyrst. Kom og fram í skýrslu stefnanda að hann hafi verið mjög áhugasamur um að kaupa vélina. Stefnanda hafi verið gerð grein fyrir því að nokkrir menn væru búnir að boða komu sína næstu daga til að kynna sér ástand vélarinnar með kaup í huga. Stefnanda hafi einnig verið gefin upp nöfn þeirra manna og verkstæða sem komið hefðu að viðgerðum og viðhaldi vélarinnar. Hann hafi einnig fengið upp gefið nafn bónda sem hefði haft umráð vélarinnar undanfarin misseri, en sá væri einnig vélvirki og hefði m. a. notað vélina fyrir fyrirsvarsmann stefnda í sambandi við hrossahald í Efra-Nesi í Stafholtstungum. Fór stefnandi að Efra-Nesi þar sem dráttarvélin og vagninn voru 15. júlí 2011. Varð úr að stefnandi keypti dráttarvélina og flutningavagninn á 2.500.000 krónur. Tók hann við hinu selda þar og þá. Illa gekk að koma vélinni í gang en stefnandi þurfti aðstoð við það og að koma henni í gír og einnig að aka af stað með vagninn sem var tengur við dráttarvélina.  Ók hann síðan að Reykholti og síðan um Uxahryggi að Ósgerði í Ölfusi þar sem hann býr. Kveður stefnandi fyrirsvarsmann stefnda hafi gefið þær upplýsingar áður en gengið var frá kaupunum að búið væri að aka vélinni í 3.900 klst. Einnig að fugl hefði gert sér hreiður í vélarhólfi dráttarvélarinnar sem hafi gert það að verkum að rafkerfi vélarinnar hafi brunnið yfir og því hafi verið skipt um allt rafkerfið í vélinni. Þá hafi hann sagt að vélin hefði öll verið nýuppgerð og yfirfarin. Gengið var frá undirritun kaupsamnings um dráttarvélina og flutningavagninn 25. júlí 2011. Fram kemur í kaupsamningnum að staða á mæli dráttarvélarinnar væri 3.900 klst. og ástandslýsingu seljanda í kaupsamningnum segir að vélin sé öll nýuppgerð og yfirfarin og allt rafkerfi nýtt. Ekki hafi verið gengið frá afsali um vélina þar sem seljandi hafi þá átt eftir að aflétta veðskuldabréfi að fjárhæð 1.500.000 krónur sem hvíldi á 1. veðrétti í vélinni. Stefnandi kveður verulega galla hafa komið í ljós eftir afhendingu dráttarvélarinnar. Lýsi þeir sér m.a. í göllum á vél og rafkerfi en olía leki af gírkassa og vökvakerfi. Stefnandi fór með dráttarvélina á vélaverkstæði Þóris á Selfossi og bað þá jafnframt um söluskoðun á vélinni. Í skýrslu um skoðunina eru gerðar ýmsar athugasemdir varðandi ástand vélarinnar, t.d. um slag í spindli hægra megin, slit í fóðringu á miðjuhlið á framhásingu, kúpling taki ofarlega sem bendi til þess að kúpling sé orðin döpur, leka með vökvadælukerfi, tikk sé í mótor, ljós virki ekki, rúðuþurrkur og rúðusprautur virki ekki o.fl. Lét stefnandi laga aðalleka á gírkassa og vökvakerfi vélarinnar en eftir er að laga leka víðar og rífa þarf út vökvadælu til að koma í veg fyrir leka. Hafi stefnandi fengið þær upplýsingar að viðgerðarkostnaður kunni að nema á bilinu 1.000.000  til 1.500.000 króna. Með bréfi lögmanns stefnanda dags. 15. ágúst 2011 var lýst yfir riftun kaupanna og gerð krafa um endurgreiðslu kaupverðsins gegn skilum á dráttarvélinni og flutningavagni sem og kröfu um endurgreiðslu á viðgerðarkostnaði. Bauð hann jafnframt að hann héldi vélinni gegn endurgreiðslu 1.139.516 krónum og annaðist þá sjálfur viðgerð á vélinni. Með bréfi lögmanns stefnda, dags. 31. ágúst 2011 á dskj. nr. 12 var riftun mótmælt. Stefnandi óskaði eftir dómkvaðningu matsmanns vegna dráttarvélarinnar og lagði fyrir hann sex spurningar og 21. nóvember 2011 var Magnús Þór Jónsson prófessor í vélaverkfræði dómkvaddur til að meta hvort ástand og frágangur á dráttarvélinni MJ-238 hafi verið fullnægjandi ofl. Í niðurstöðu hans í matsgerð dagsettri 8. maí 2012 segir að ástand ljósa, spegla, hlífa, rúðusprautu framrúðu, fóðringar fyrir moksturstæki, miðliðs framhásingar, sætis, tröppu vinstra megin, framfelgu vinstra megin, pumpu fyrir afturhlera, stjórnstangar fyrir beisli, gírskiptistangar, kúplingar, pakkninga fyrir vökvatengi og vél, ásamt vélarhljóði væri ábótavant. Virði dráttarvélarinnar væri skert og hætta á frekara tjóni. Jafnframt, að notkun tækisins ylli slysahættu. Um orsök leka frá vökvadæluhúsi og vél hægra megin segir að það væri vegna ófullnægjandi þéttinga í samskeytum. Á vélinni séu það samskeyti í smurolíurás væntanlega við olíupönnu en á vökvadæluhúsi væru það pakkningar, rörasamskeyti eða pakkdósir sem lækju. Smellir frá vél væru annað hvort ventlabank eða of mikil rýmd stimpla i stimpilhúsi. Um það hvers vegna stefnandi þurfti að láta framkvæma viðgerð vegna olíuleika á kassa og skipta um olíur og síur á gírkassa og skipta um vökvahraðtengi á ámoksturstækjum þá tilgreinir matsmaður að hann hafi ekki verið viðstaddur viðgerð og geti því ekki lagt mat á ástæðum viðgerðar en samkvæmt reikningi hafi viðgerðin verið fólgin í því að skipta út vökvahraðtengjum sem láku, vökvasíum og pakkningum. Kostnaður vegna úrbóta væri 2.177.000 krónur. Um það hvort vélin hafi við afhendingu hennar þann 15. júlí 2011 öll verið nýuppgerð og yfirfarin og rafkerfi í vélinni nýtt hafi svo ekki verið. Um það hvort gallar hafi getað komið til vegna aksturs hennar frá Efra-Nesi að Ósgerði segir að samkvæmt akstursmæli hefði dráttarvélin verið keyrð 8 klst. frá kaupum. Frávik væru þess eðlis að þau geti ekki verið talin vegna þess aksturs. MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK Stefnandi byggir kröfu sína um riftun á því að hin selda dráttarvél hafi við afhendingu verið haldin verulegum göllum og ástand hennar ekki það sem auglýst hafi verið og stefnandi gert ráð fyrir. Er á því byggt að jafnvel þótt stefnda hafi ekki verið kunnugt um galla á vélinni sé um svo verulega vanefnd að ræða að skilyrði riftunar séu til staðar enda hið selda ekki í samræmi við afdráttarlausa lýsingu um eiginleika hins selda í auglýsingu og kaupsamningi. Hið keypta hafi verið auglýst þannig að vélin hafi öll verið nýuppgerð og yfirfarin og rafkerfi í vélinni nýtt sem síðar kom í ljós að var rangt og vélin beinlínis hættuleg þar sem hún getur valdið slysahættu. Beri stefndi ábyrgð á því að þessir kostir hafi ekki reynst vera til staðar en ástand vélarinnar reyndist til muna verra en stefnandi hafið ástæðu til að ætla miðað við kaupverð og atvik að öðru leyti. Gallar á vélinni séu verulegir eins og framlögð matsgerð sýni fram á og hefðu haft úrslitaáhrif á ákvörðun stefnanda um kaupin hefði honum verið kunnugt um þá. Stefnandi sé ekki sérfræðingur um dráttarvélar og eru gallarnir þess eðlis að þeir fari auðveldlega fram hjá venjulegum kaupanda sem ekki er sérfróður um dráttarvélar. Stefnandi hafi strax tilkynnt stefnda um gallanna er hann varð þeirra var. Á því er byggt að gallar á dráttarvélinni feli í sér verulega vanefnd af hálfu stefnda á kaupsamningi aðila og eigi stefnandi því skýlausan rétt til að rifta kaupunum og krefjast fullrar endurgreiðslu kaupverðsins. Jafnframt sé gerð krafa um skaðabætur vegna þess útlagða kostnaðar sem hann hafi orðið fyrir vegna vanefnda stefnda, en útlagður viðgerðarkostnaður nemi nú 139.516 krónum.  Verði ekki krafist á kröfu stefnanda um viðurkenningu á yfirlýsingu hans um riftun dags. 15. ágúst 2011 og greiðslu skaðabóta sé gerð varakrafa um greiðslu skaðabóta og/eða afsláttar að mati dómsins. Krafan byggi á sömu málsástæðum og aðalkrafan. Er á því byggt að hin selda dráttarvél hafi við afhendingu verið haldin verulegum göllum. Hafi hið selda ekki verið búið þeim kostum sem auglýstir hafi verið og tilgreindir séu í kaupsamningi um að vélin væri nýuppgerð og yfirfarin og rafkerfi í vélinni nýtt. Með lýsingu í auglýsingu um vélina og kaupsamningi felist yfirlýsing, sem jafna megi til ábyrgðar á tilteknum kostum hins selda, sem ekki reyndust vera fyrir hendi. Beri stefndi því skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda á því tjóni sem rekja má til þessara galla á vélinni. Um galla á vélinni vísast til matsgerðar. þar sem fram komi að viðgerðarkostnaður nemi samtals 2.177.000 krónum. Jafnframt sé á því byggt að bifreiðin hafi verið haldin leyndum göllum og vísist þar um til 30.- 40. gr. kaupalaga. Stefnandi hafi orðið fyrir miklu fjárhagslegu tjóni vegna viðskipta sinna við stefnda en dráttarvélin sé í dag nánast verðlaus. Skaðabótakrafa stefnanda sem byggi að stærstum hluta á matsgerð nemi samtals 2.316.516 krónum auk dráttarvaxta frá kaupsamningsdegi. Verði ekki fallist á að stefnandi eigi rétt til skaðabóta sé gerð sú krafa að stefnda verði gert að greiða honum sömu fjárhæð sem afslátt af kaupverði enda hafi gallarnir valdið verðrýrnun á dráttarvélinni sem nemi því að gallarnir væru ekki fyrir hendi. Á því er byggt að um beint fjártjón sé að ræða sem sé fullsannað með matsgerðinni og framlögðum reikningi. Stefnandi vísar til almennra reglna kröfuréttar, skaðabótaréttar og reglna samningaréttar um gagnkvæma samninga, skuldbindingargildi loforða og efndir fjárskuldbindinga, vanefndir og afleiðingar þeirra. Þá vísar hann til samningalaga nr. 7/1936, laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, einkum 17., 18., 19., 21., 25., 27., 30., 37., 38., 39., 40., 67. og 71. gr. laganna. Um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti er vísað til III. kafla laga nr. 38/2011 um vexti og verðtryggingu með síðari breytingum. Um malskostnaðarkröfu vísast til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr. laganna. Krafa um virðisaukaskatt byggir á á lögum nr. 50/1988.             Sýknukrafa stefnda  aðalkröfu stefnanda er á því reist að hin selda dráttarvél hafi ekki verið haldin neinum þeim göllum þegar kaupin fóru fram sem geti verið grundvöllur riftunar á viðskiptunum. Afhending söluhlutar í skilningi 2. mgr. 6. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 hafi farið fram 15. júlí 2011. Um leið hafi áhættan af söluhlutnum flust yfir til kaupandans, sbr. 13. gr. sömu laga. Athygli kaupanda hafi verið rækilega á því vakin áður en afhent var að nauðsyn bæri til að rannsaka söluhlut áður en kaupin yrðu afráðin. Nánast megi segja að stefnanda hafi verið þröngvað til að kynna sér ástand tækisins fyrir afhendingu þess. Hann hafi þó ekki hirt um að hafa samband við þá menn sem honum hafi verið tjáð að gætu veitt honum allar upplýsingar um vélina, ástand hennar og viðhald, áður en kaupin voru gerð. Hafi þó verið sérstök ástæða til þess í ljósi þeirrar augljósu staðreyndar að um var að ræða 14 ára gamla dráttarvél sem stefnandi hafði aldrei augum litið áður. Getur stefnandi því ekki borið fyrir sig neitt það sem hann hefði með forsvaranlegri skoðun getað áttað sig á áður en kaupin voru afráðin. Um þetta vísar stefndi til 2. mgr. 20. gr. laga nr. 50/2000 og til 3. mgr. sömu lagagreinar eftir því sem við á. Samkvæmt 21. gr. laga nr. 50/2000 skuli við mat á því hvort söluhlutur er gallaður miðað við það tímamark þegar áhættan af söluhlut flytjist yfir til kaupanda, jafnvel þótt gallinn komi ekki fram síðar. Í þessu sambandi vísar stefndi til þess að stefnandi hafi verið alvarlega varaður við því að leggja í ferðalag um hálendisvegi á vélinni um leið og hann veitti henni viðtöku. Stefndi hafi ekki getað aftrað því vegna þess að stefnandi hafi verið búinn að greiða kaupverðið og hafi haft fulla heimild til að fara með vélina eins og honum sýndist. Enginn galli hafi komið fram á ferðalaginu, svo kunnugt sé, a. m. k. hafi stefnandi engan áskilnað gert um slíkt þegar formlegur kaupsamningur var undirritaður 10 dögum síðar. Stefndi telur þess vegna augljóst að stefnandi beri sjálfur alla áhættu af vélinni eftir afhendingu hennar og hafi alla sönnunarbyrði um að vélin hafi ekki verið búin áskildum kostum þegar hún var afhent í Efra-Nesi 15. júlí 2011. Þá sönnunarbyrði hafi stefnandi ekki axlað og ekki lagt fram nein haldbær sönnunargögn um að vélin hafi á því tímamarki verið haldin göllum í skilningi laga nr. 50/2000. Ekki verði því þó haldið fram að stefnandi hafi ekki reynt að færa fram sönnun um galla á hinu selda. Hann hafi fengið dómkvaddan matsmann til að meta tiltekin atriði varðandi hina seldu dráttarvél. Stefndi telur að matsgerð þessi renni engum stoðum undir kröfugerð stefnanda í málinu. Vélin sé metin miðað við ástand hennar við skoðun matsmanns 20. janúar 2012. Matsmaður geti augljóslega ekki metið hvert ástand umræddra hluta hafi verið við afhendingu vélarinnar hálfu ári fyrr, eftir þá meðferð sem hún hafi hlotið hjá stefnanda strax eftir að hann festi kaup á henni. Stefndi telji augljóst að fjölmörg þeirra atriða sem fram komi í upptalningunni séu þess eðlis að þau hafi verið augljós um leið eða ekki síðar en stefnandi hafi sest upp í vélina, t. d. ástand á gírstöng, stjórnstöng, rúðuþurrkur, rafgeymi, ámoksturstæki o. fl.  Ekkert verði ráðið af svörum hans um það að,,... orsök leka með vökvadæluhúsi og víðar og tikks í mótor." hafi verið ófullnægjandi þegar afhending vélarinnar fór fram. Um hverjar úrbætur þurfi að gera á dráttarvélinni og hver sé kostnaður vegna þeirra endurbóta sé til þess að líta að ekki hafi verið áskilnaður um það að vél og kúpling væru nýupptekin í vélinni þegar viðskiptin fóru fram. Stefnandi hafi tekið mikla áhættu varðandi meðferð bæði vélar og kúplingar þegar hann hafi ákveðið að fara þá leið á vélinni sem hann fór í framhaldi af kaupum á tækinu. Þá sé ekki heldur tekið tillit til þess í þessu kostnaðarmati hvað af þessum ágöllum hljóti að hafa komið í ljós við venjulega skoðun á vélinni, enda ekki um það spurt í matsbeiðninni. Svar matsmannsins taki þess vegna ekki aðeins til kostnaðar við að gera við það sem virðist hafa farið aflaga eftir viðtöku stefnanda á vélinni, heldur einnig kostnað við aðgerðir sem gera vélina miklu verðmeiri en hún var þegar hún var seld. Um það hvort dráttarvélin hafi við afhendingu hennar verið „öll nýuppgerð og yfirfarin og rafkerfi í vélinni nýtt" segi að ástand dráttarvélarinnar hafi ekki verið í samræmi við það að hún væri nýuppgerð og yfirfarin en tekið sé fram að hluti af því sem ábótavant sé hafi verið augljós galli þegar vélin hafi verið keypt en aðrir þættir séu einungis greinanlegir fyrir sérfræðinga. Hér verði að gæta þess að matsmaðurinn hafi ekki skoðað vélina fyrr en hálfu ári eftir afhendingu hennar. Um akstur frá Efranesi til Ósgerðis í Ölfusi sé þess að gæta að í matsspurningu hafi verið spurt um akstur frá Borgarnesi til Ölfuss en akstursleiðin frá Borgarnesi um þjóðveg 1 til Ölfuss sé verulega frábrugðin hálendisveginum um Uxahryggi. Hafi mat matsmannsins á hugsanlegum orsökum þess sem ábótavant taldist við vélina ekki byggst á réttum forsendum og verði því ekki lagt til grundvallar í málinu um ástand vélarinnar við afhendingu hennar 15. júlí. 2011. Stefndi mótmælir því samkvæmt framansögðu að skilyrði 39. gr. laga nr. 50/2000 um riftun kaupa séu fyrir hendi, en skilyrði riftunar samkvæmt því ákvæði sé að söluhlutur sé haldinn galla sem seljandi beri ábyrgð á og verði jafnað til verulegra vanefnda á samningi aðila. Stefndi mótmælir því sérstaklega að honum verði gert að greiða reikning fyrir skoðun eftir kaupin án samráðs við stefnda. Hér sé um að ræða skoðun sem stefnandi hefði sjálfsagt átt að láta framkvæma áður en kaupin voru afráðin og meðan vélin var enn í því ástandi sem hún var þegar afhending fór fram. Þessi kostnaður sé stefnda óviðkomandi. Samkvæmt 66. gr. laga nr. 50/2000 sé það forsenda riftunar að kaupandi geti skilað söluhlutnum að öllu verulegu leyti í sama ástandi og hluturinn var í þegar kaupandi veitti honum viðtöku. Samkvæmt því geti riftun ekki náð fram að ganga í þessu tilviki nema því aðeins að lagt verði fyrir stefnanda að skila dráttarvélinni á þann stað sem hann tók við henni og í því ástandi sem hún þá var í. Stefndi telur raunar að þetta sé verulegum vandkvæðum bundið vegna meðferðar stefnanda á vélinni eftir viðtöku hennar og að það geti engum komið koll öðrum en honum sjálfum. Hann hafi allt frá því í ágúst 2011 látið vélina standa eftirlitslausa á útistæði við verkstæði á Selfossi og ekkert hirt um hana, trúlega aldrei gangsett hana hvað þá meir (nema þegar matsmaðurinn skoðaði hana). Stefndi byggir sýknukröfu sína ennfremur á þeirri málsástæðu að tómlæti stefnanda um að fylgja eftir ætluðum kröfum sínum á hendur stefnda valdi því að hann hafi fyrirgert riftunarrétti sínum, hafi hann einhvern tíma verið til staðar. Stefnandi hafi sent stefnda tilkynningu 15. ágúst 2011 þar sem hann hafi lýst yfir riftun kaupanna en gert stefnda jafnframt boð um að leysa málið með greiðslu afsláttar að fjárhæð 1.139.516 krónur. Bréfinu hafi verið svarað 31. sama mánaðar og því mótmælt að skilyrði riftunar væru til staðar. Stefnandi hafi fengið dómkvaddan matsmann 23. nóvember 2011 til að meta ástand dráttarvélarinnar og matsgerðin legið fyrir í maí 2012. Með bréfi 21. maí 2012 hafi stefnandi gert kröfu með vísan til matsgerðarinnar og boðað að dómsmál yrði höfðað um kröfurnar innan. 7 daga ef greiðsla bærist ekki. Ekkert hafi síðan heyrst frá stefnanda í heila sjö mánuði, en stefnda hafi verið birt stefnda 18. desember 2012, en hafi verið liðið tæpt 1 ½ ár frá afhendingu vélarinnar. Telur stefndi að þessi langi dráttur á því að fylgja riftunarkröfunni eftir valdi því að riftunarkrafa geti ekki komið til greina, enda ljóst að verðmæti slíks tækis sem allan tímann sé væntanlega látið standa ónotað hljóti að rýrna verulega. Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda gerir hann kröfu um að kröfur stefnanda verði aðeins teknar til greina að hluta, þ. e. að stefndi verði dæmdur til að veita stefnanda afslátt af kaupverði vélarinnar, sbr. 37. gr. laga nr. 50/2000. Afsláttur geti þó aldrei orðið vegna annarra þátta en þeirra sem sannað teljist að hafi verið áfátt við vélina á þeim tíma er stefnandi tók við henni og dómurinn telur að ekki hefðu komið fram við vandlega skoðun ef kaupandi hefði látið framkvæma hana áður en kaupin fóru fram. Raunar telur stefndi að sönnun um slík atriði sé nánast útilokuð, og að stefnandi beri hallann af því. Í kröfu um riftun felist eins og áður segir að hvor aðili skuli skila til baka því sem hann tók við í viðskiptunum. Fari svo, gegn væntingum stefnda, að riftunarkrafa stefnanda verði tekin til greina gerir stefndi kröfu til þess að hvor aðili um sig skili því sem hann tók við. Í því felst að leggja verði skyldu á stefnanda að skila umræddri dráttarvél til stefnda þangað sem hann tók við henni og í því ástandi sem hún þá var. Verði af einhverjum ástæðum talið að slíkt sé ekki unnt hljóti slíkt að leiða til þess að endurgreiðslukrafa stefnanda verði lækkuð sem nemi kostnaði við að koma vélinni á áfangastaðinn, svo og kostnaði við að lagfæra það sem aflaga hafi farið eftir að stefnandi tók við vélinni. Gerir stefndi kröfu um að dómurinn meti þessi atriði sjálfstætt, verði riftunarkrafan á annað borð samþykkt. Stefndi vísar um málskostnaðarkröfu sína til 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Þess er krafist að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til þess að stefndi ber kostnað af virðisaukaskatti vegna þóknunar lögmanns. NIÐURSTAÐA Eins og hér að framan er rakið kom stefnandi að Efra-Nesi 15. júlí 2011 til þess að sækja dráttarvél þá og vagn sem hann hugðist kaupa. Sjálfur sagðist hann ekki hafa þekkingu á dráttarvélum, hefði þó ekið Massey Fergusson traktor hjá ömmu sinni í sveit. Hann skoðaði vélina í stuttan tíma, kannski hálftíma, að því er hann sagði og var ekki búinn að aka henni áður en hann keypti. Hann greiddi kaupverðið á staðnum og að því búnu bjó hann sig til farar frá Stafholtstungum í Borgarfirði að Ósgerði í Ölfusi. um Uxahryggi. Fram kom hjá vitninu Magnúsi Þór Jónssyni dómkvöddum matsmanni að fagmaður myndi sjá greinilega hvað að var við söluskoðun og vitnið Þórir L. Þórarinsson sem framkvæmdi söluskoðun hinn 27. júlí 2011 sagði að þetta hafi blasað við um leið og litið var á vélina. Stefnandi tók þannig við hinu selda og greiddi kaupverð eftir að hafa skoðað dráttarvélina í einungis um hálftíma og án þess að hafa reynt að aka henni. Það er álit dómsins að þegar litið er til framburðar vitnanna Þóris og Magnúsar hafi stefnandi mátt sjá að gallar voru á vélinni og hún ekki í því ástandi sem ætla hafi mátt af auglýsingu. Þá er fram komið að forsvarsmaður stefnda beindi því til stefnanda að láta skoða vélina áður en hann keypti hana en stefnandi skeytti því engu og tók við henni við svo búið. Þykir stefnandi hafa vanrækt skoðunarskyldu sína í þeim mæli að hafna ber öllum kröfum hans á hendur stefnda og samkvæmt þessu verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda og með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefnda 500.000 krónur í málskostnað þ.m.t. virðisaukaskattur.                 Við uppkvaðningu dóms er gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Allan Vagn Magnússon dómstjóri kvað upp þennan dóm. DÓMSORÐ Stefndi, Hólsfell ehf., skal sýkn af krögum stefnanda, Skúla Gunnars Sigfússonar. Stefnandi greiði standa 500.000 krónur í málskostnað.                                                                                              
Mál nr. 585/2014
Gjaldtaka Endurgreiðsla Höfundarréttur Fyrirvari
M ehf. krafðist þess að I yrði gert að endurgreiða höfundarréttargjöld sem innheimt voru á árunum 2009 til 2013 á grundvelli 11. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. 2. gr. laga nr. 60/2000, vegna geisladiska sem M ehf. flutti til landsins. Aðilar deildu um hvort I væri heimilt að innheimta gjaldið vegna geisladiskanna, svo og hvort og ef svo væri að hve miklu leyti M ehf. bæri endurgreiðsla á þeim gjöldum sem hann hafði innt af hendi. Hæstiréttur taldi að virtum lögskýringargögnum laga nr. 78/1984, sem leiddu áðurgreinda gjaldtöku í höfundalög, að gengið hefði verið út frá því að gjald fyrir upptöku verka höfunda til einkanota yrði endurgreitt af tækjum og böndum ef sönnur yrðu færðar á að þau væri ekki notuð til upptöku á höfundaréttarvörðu efni. Þá taldi rétturinn að ekki yrði séð að lög nr. 60/2000 hefðu breytt eldra réttarástandi á þann veg að fortakslaust væri kveðið á um gjaldskylduna þannig að ekki bæri að endurgreiða gjald í þeim tilvikum er hlutir, í hvaða formi sem er, væru sannanlega ekki notaðir til upptöku verka höfunda. Vísaði rétturinn til þess að tilgangur höfundalaga væri að vernda höfundarétt og að sú tækni sem leitt hefði til skerðingur á endurgjaldi til höfunda vegna afritunar á höfundaréttarvörðu efni hefði einnig gert það mögulegt að nota sömu tækni til óskyldrar starfsemi, en ekki stæði lagaheimild til að gera síðargreindri starfsemi að bæta höfundum tap vegna einkanota á verkum þeirra. Með því að ágreiningslaust var að geisladiskar þeir sem málið varðaði væru ekki yfirskrifanlegir og yrðu ekki nýttir til upptöku á höfundaréttarvörðu efni bæri M ehf. réttur til endurgreiðslu vegna gjalda sem af honum höfðu verið tekin vegna geisladiskanna á grundvelli 3. mgr. 11. gr. höfundalaga. M ehf. var á hinn bóginn talinn hafa glatað endurkröfurétti sínum vegna áranna 2009 og 2010 sökum þess að hann hafði fyrst gert kröfu um endurgreiðslu um miðbik ársins 2006, sem I hafnaði síðar sama ár, en áfram greitt gjaldið án fyrirvara allt þar til hann setti á ný fram kröfu um endurgreiðslu árið 2011. Var fjárkrafa M ehf. því tekin til greina að hluta.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Hjördís Hákonardóttir fyrrverandi hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. september 2014. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 3.173.730 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. janúar 2010 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Við meðferð málsins í héraði var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. I Málavöxtum, málsástæðum og lagarökum aðilanna er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir gerir áfrýjandi kröfu um að stefndi endurgreiði sér höfundarréttargjöld sem innheimt voru á árunum 2009 til og með 2013 vegna geisladiska sem hann flutti til landsins. Stefndi reisir heimild sína til gjaldtökunnar á 11. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. 2. gr. laga nr. 60/2000. Samkvæmt 6. mgr. 11. gr. höfundalaga hefur stefndi með höndum innheimtu gjaldanna og ráðstöfun þeirra, en  hann hefur falið tollstjóra samkvæmt sömu lagaheimild að annast innheimtu á þeim hluta gjaldanna er falla til vegna innflutnings geisladiska, sem áfrýjandi flytur inn til landsins. Óumdeilt er að diska þá sem um ræðir seldi áfrýjandi unna, skrifaða eða áletraða, til einstaklinga, fyrirtækja eða stofnana. Eru kaupendur diskanna annars vegar þeir sem nota þá ekki til vörslu höfundaréttarvarins efnis en hins vegar þeir sem nota diskana til útgáfu á slíku efni sem þeir eiga sjálfir höfundarétt eða útgáfurétt á. Eins og rakið er í héraðsdómi snýst ágreiningur málsaðila um hvort stefnda sé heimilt að innheimta gjald vegna þeirra innfluttu geisladiska, sem nýttir eru í þjónustu- og framleiðslustarfsemi áfrýjanda og að hve miklu leyti áfrýjandi eigi rétt á endurgreiðslu þess gjalds sem hann hefur innt af hendi.  II Umrætt gjald kom fyrst inn í höfundalög með 1. gr. laga nr. 78/1984 um breytingu á þeim lögum, þar sem bætt var við nýrri 2. mgr. 11. gr. höfundalaga sem var svofelld: „Höfundar verka, sem útvarpað hefur verið eða gefin hafa verið út á hljóðriti eða myndriti, eiga rétt á sérstöku endurgjaldi vegna upptöku verka þeirra á hljóð- eða myndbönd til einkanota með heimild í 1. mgr. þessarar greinar. Greiða skal gjald af tækjum til upptöku verka á hljóð- og myndbönd til einkanota, svo og af auðum hljóð- og myndböndum og öðrum böndum sem telja má ætluð til slíkra nota. Gjaldið skal greitt af tækjum og böndum sem flutt eru til landsins eða framleidd eru hér á landi og hvílir skylda til að svara gjaldi þessu á innflytjendum og framleiðendum. Gjald af tækjum nemi 4% af innflutningsverði eða framleiðsluverði ef um innlenda framleiðslu er að ræða. Gjald af auðum hljóðböndum nemi kr. 10,00, en kr. 30,00 ef um auð myndbönd er að ræða. Menntamálaráðherra setur nánari reglur um gjald þetta, þ. á m. um verðtryggingu gjaldsins.“ Í athugasemdum með frumvarpi til laganna sagði meðal annars að tækniframfarir á síðari árum hefðu haft í för með sér stórfellda röskun á hagsmunum og réttindum höfunda, listflytjenda og annarra rétthafa samkvæmt höfundalögum. Frá sjónarmiði höfundaréttar væru ofangreind not með tvennum hætti. Í fyrsta lagi væri um að ræða einkanot, sem lögmæt og heimil væru samkvæmt 11. gr. höfundalaga. Svo mikið kvæði hins vegar að slíkum notum að ekki yrði lengur ætlast til þess að höfundar yndu því bótalaust. Væri með frumvarpinu gert ráð fyrir að lagt yrði sérstakt gjald á tæki og tilfæringar til upptöku verka á hljóðbönd eða myndbönd í þágu einkanota en heimil einkanot yrðu ekki þrengd frá því sem væri í lögum. Í öðru lagi hefðu ýmiss konar ólögmæt not af verkum höfunda farið sívaxandi. Yrði af þeim sökum að gera ráðstafanir til að auka vernd höfundaréttinda.  Jafnframt sagði meðal annars svo um meginefni og forsendur fyrir upptöku gjaldsins: „Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því, að ofangreint gjald verði bæði greitt af tækjum og af böndum, sem nota má til upptöku verka í þágu einkanota. Slíkt gjald verður að sjálfsögðu ekki heimt af böndum, sem geyma verk, er rétthafar hafa þegið greiðslu fyrir. Sömuleiðis er gengið út frá því, að tæki og bönd séu undanþegin gjaldi eða innheimt gjald verði endurgreitt, ef sönnur eru færðar á, að tæki eða bönd séu ekki notuð til upptöku verka vegna einkaþarfa, svo sem diktafónar og hljóðbönd fyrir slík tæki. Hins vegar er ekki fært að láta það breyta neinu um gjaldskyldu, þótt í einstaka tilvikum sé sýnt fram á, að ekki hafi verið um upptöku verndaðra verka að ræða, ef einkanot liggja engu að síður fyrir. Menntamálaráðuneytinu er ætlað að setja nánari reglur um gjaldið, þar á meðal um viðmiðun þess og fjárhæð, að undangengnum samningaviðræðum við hagsmunasamtök rétthafa og við framleiðendur og innflytjendur.“   Með 2. gr. laga nr. 60/2000 var ákvæðum 3. mgr. 11. gr. höfundalaga breytt í gildandi horf. Samkvæmt 3. mgr. 11. gr. skal sérstakt endurgjald til höfunda vegna upptöku höfundaverka til einkanota ná til upptöku „á bönd, diska, plötur eða aðra þá hluti, í hvaða formi sem er, sem taka má upp á hljóð og/eða myndir með hliðrænum eða stafrænum hætti.“ Enn fremur skal greiða endurgjald „af tækjum sem einkum eru ætluð til slíkrar upptöku.“ Þá segir svo í 4. mgr. greinarinnar um fjárhæð gjaldsins: „Gjöld skv. 3. mgr. skulu nema: 1. Af tækjum skal endurgjaldið vera 4% af innflutningsverði eða framleiðsluverði ef um innlenda framleiðslu er að ræða. 2. Af böndum, diskum, plötum eða öðrum hlutum til upptöku hljóðs eingöngu skal gjaldið nema 35 kr. 3. Af böndum, diskum, plötum eða öðrum hlutum til upptöku mynda, eftir atvikum ásamt hljóði, skal gjaldið nema 100 kr. 4. Gjöld skv. 2. og 3. tölul. eru miðuð við að lengd flutningstíma sé allt að 180 mínútur fyrir hluti til hljóðupptöku og allt að 240 mínútur fyrir hluti til myndupptöku. Sé flutningstími lengri hækkar gjaldið hlutfallslega sem því nemur.“ Loks er kveðið á um í 5. mgr. 11. gr. að ráðherra skuli setja nánari reglur um gjöld samkvæmt 3. og 4. mgr. „þar á meðal af hvaða hlutum og tækjum gjöldin skuli greidd.“ Þá segir: „Lækka má fjárhæðir, sem greindar eru í 4. mgr., af böndum, diskum, plötum eða öðrum hlutum ef ætla má að einungis hluti þeirra sé ætlaður til upptöku skv. 3. mgr.“ Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 60/2000 kom fram að breyting með þeim væri einkum gerð til að aðlaga lögin tilskipunum Evrópuréttar, en jafnframt sagði að það væri fyrirsjáanlegt að hið fyrsta þyrfti að breyta ákvæðum laganna varðandi gjöld fyrir upptöku verka til einkanota til samræmis við gjörbreytta upptökutækni. Í 1. gr. reglugerðar nr. 125/2001 um innheimtu höfundaréttargjalda samkvæmt 3. og 4. mgr. 11. gr. höfundalaga var kveðið á um að gjöld á geisladiska yrðu þau sömu og greindi í lögunum, en með 1. gr. reglugerðar nr. 186/2001 um breytingu á þeirri reglugerð nýtti ráðherra sér heimild í 5. mgr. 11. gr. höfundalaga og lækkaði gjöldin um helming. Kveður stefndi þá breytingu hafa verið gerða í samráði við sig og fleiri hagsmunaaðila vegna nýrrar upptökutækni og án tillits til þess hvort heimild til upptöku væri nýtt. Hafi þetta verið gert til hægðarauka við innheimtuna í stað þess að innheimta hærra gjald með tilheyrandi vandkvæðum við sönnunarfærslu um skilyrði endurgreiðslu. Í kjölfarið ákvað stjórn stefnda að hætta að endurgreiða höfundaréttargjöld sem greidd höfðu verið af geisladiskum nema í þeim tilvikum að þeir hefðu að geyma höfundaréttarvarið efni. Setti stjórnin sér verklagsreglur á árinu 2006  með því efni sem rakið er í héraðsdómi, en þær hafa ekki verið birtar opinberlega. III Sú tilhögun, að tollyfirvöldum hafi verið falin innheimta umrædds gjalds, eins og áður er rakið, raskar í engu því að líta verður á endurgreiðslukröfu, á borð við þá er áfrýjandi gerir í máli þessu, sem eðlilegan þátt í framkvæmd við álagningu gjalds samkvæmt 3. mgr. 11. gr. höfundalaga. Að virtum þeim lögskýringargögnum sem hér hafa verið rakin verður því slegið föstu að með lögum nr. 78/1984 hafi verið gengið út frá því að gjald fyrir upptöku verka höfunda til einkanota yrði endurgreitt af tækjum og böndum ef sönnur yrðu færðar á að þau væru ekki notuð til upptöku á höfundaréttarvörðu efni. Fallast verður á það með stefnda að lækkun sú á gjaldi, sem ákveðin var með reglugerð nr. 186/2001 í samræmi við heimild í 5. mgr. 11. gr. höfundalaga, hafi verið hugsuð til hægðarauka við innheimtu og í hag sumra gjaldenda, auk þess sem ákvæði laga nr. 60/2000 miðuðu að því að víkka gildissvið laganna hvað varðar þau tæki og tól sem gjaldið tók til. Á hinn bóginn verður ekki séð að lög nr. 60/2000 hafi breytt eldra réttarástandi á þann veg að fortakslaust væri kveðið á um gjaldskylduna á þann veg að ekki bæri að endurgreiða gjald í þeim tilvikum er hlutir, í hvaða formi sem er, væru sannanlega ekki notaðir til upptöku verka höfunda. Tilgangur höfundalaga er að vernda höfundarétt. Sú tækni sem leitt hefur til skerðingar á endurgjaldi til höfunda vegna afritunar á höfundaréttarvörðu efni hefur einnig gert það mögulegt að nota sömu tækni til óskyldrar starfsemi. Ekki er í höfundalögum að finna heimild fyrir því að síðargreindri starfsemi verði gert að bæta höfundum tap vegna einkanota á verkum þeirra. Sem fyrr segir er ágreiningslaust að geisladiskar þeir sem um ræðir í málinu eru ekki yfirskrifanlegir og verða ekki nýttir til upptöku á höfundaréttarvörðu efni. Samkvæmt þessu ber áfrýjanda réttur til endurgreiðslu vegna gjalda sem af honum hafa verið tekin á grundvelli 3. mgr. 11. gr. höfundalaga vegna þeirra geisladiska sem hér um ræðir. Geta fyrrgreindar reglur, sem stefndi hefur sett sér um verklag við endurgreiðslu gjaldanna, engu breytt um þá niðurstöðu. Á það verður ekki fallist með stefnda að áfrýjandi myndi auðgast með óréttmætum hætti ef gjaldið yrði endurgreitt, þar sem hann hefði þegar velt því út í verðlagið og innheimt af sínum viðskiptavinum. Verður eðli máls samkvæmt að miða við að álagning gjaldsins hafi haft áhrif á rekstur áfrýjanda. Kröfu áfrýjanda verður því ekki hafnað af þessari ástæðu. Eins og rakið er í héraðsdómi sendi áfrýjandi stefnda fyrst athugasemdir vegna gjaldtökunnar með bréfi 18. júlí 2006 þar sem hann boðaði jafnframt kröfu um endurgreiðslu vegna gjalda sem hann hafði innt af hendi á árunum 2005 og 2006. Var sjónarmiðum hans hafnað með bréfi stefnda 24. október það ár. Í kjölfarið var gjaldið áfram lagt á og greitt án fyrirvara allt þar til áfrýjandi með bréfi 8. mars 2011 setti á ný fram kröfu um endurgreiðslu tilgreindrar fjárhæðar. Eftir það fóru fram bréfaskipti milli aðila en þeim lyktaði með því að stefndi hafnaði öllum kröfum áfrýjanda með bréfi 23. apríl 2012.  Að þessu virtu hefur áfrýjandi glatað endurkröfu sinni vegna áranna 2009 og 2010, en tekin verður til greina krafa hans vegna áranna 2011 til og með 2013, samtals að fjárhæð 1.859.730 krónur. Í kröfugerð sundurliðar áfrýjandi höfuðstól kröfu sinnar miðað við lok hvers gjaldárs og skulu dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 taka mið af því með þeim hætti sem í dómsorði greinir. Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og segir í dómsorði. Dómsorð: Stefndi, IHM, innheimtumiðstöð gjalda, greiði áfrýjanda, MBV ehf., 1.859.730 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.039.125 krónum frá 1. janúar 2012 til 1. janúar 2013, af 1.508.090 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2014, en af 1.859.730 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2014. I.          Mál þetta, sem var dómtekið 23. maí sl., er höfðað af MBV ehf., Hátúni 6a-b, Reykjavík, gegn Innheimtumiðstöð gjalda, Laufásvegi 40, Reykjavík, með stefnu birtri 26. júní 2013.          Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi. II. Málavextir          Stefnandi er innflytjandi og framleiðandi geisladiska. Hann kveðst flytja inn óátekna geisladiska til eigin framleiðslu fyrir einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir, en jafnframt til sölu til almennra einkanota. Frá árinu 2001 hefur stefnanda, með vísan til 3. mgr. 11. gr. höfundalaga nr. 73/1972, eins og ákvæðinu var breytt með 2. gr. laga nr. 60/2000, verið gert að greiða höfundaréttargjöld af innfluttum geisladiskum. Í nefndu ákvæði höfundalaga er kveðið á um það að höfundar verka, sem útvarpað hafi verið eða gefin hafi verið út á hljóðriti eða myndriti, eigi rétt á sérstöku endurgjaldi vegna upptöku verka þeirra til einkanota á bönd, diska, plötur eða aðra þá hluti, í hvaða formi sem er, sem taka megi upp á hljóð og/eða myndir með hliðrænum eða stafrænum hætti. Enn fremur skuli greiða endurgjald af tækjum sem einkum séu ætluð til slíkrar upptöku. Gjöld þessi skuli greidd hvort sem um innlenda eða innflutta framleiðslu sé að ræða og hvíli skylda til að svara gjöldunum á innflytjendum og framleiðendum. Í 4. mgr. 11. gr. laganna er kveðið á um fjárhæð gjaldsins. Þannig skal gjaldið nema 35 kr. af böndum, diskum, plötum eða öðrum hlutum til upptöku hljóðs eingöngu og 100 kr. af böndum, diskum, plötum eða öðrum hlutum til upptöku mynda, eftir atvikum ásamt hljóði. Ráðherra er falið að setja nánari reglur um gjöldin, þar á meðal af hvaða hlutum og tækjum gjöldin skuli greidd. Þá er honum heimilt að lækka fjárhæðir af böndum, diskum, plötum eða öðrum hlutum ef ætla má að einungis hluti þeirra sé ætlaður til upptöku skv. 3. mgr. Með reglugerð nr. 186/2001 nýtti ráðherra sér umrædda lækkunarheimild og lækkaði gjöld á geisladiskum um helming. Innheimta gjaldsins og ráðstöfun þess er skv. 6. mgr. 11. gr. laganna í höndum samtaka höfundaréttarfélaga, sem eru hagsmunasamtök höfunda, listflytjenda og framleiðenda, þ.e. stefnda. Með heimild í sama ákvæði hefur stefndi falið tollyfirvöldum innheimtu á gjöldum þeim sem innflytjendur skulu standa skil á.          Stefnandi sendi stefnda bréf, dagsett 18. júlí 2006, með ósk um endurgreiðslu höfundaréttargjalda sem hann hafði innt af hendi á árunum 2005 og 2006, samtals að fjárhæð 2.272.777 kr. Vísaði stefnandi til þess að hann hefði orðið þess áskynja að stefndi hefði samþykkt ósk samkeppnisaðila stefnanda um endurgreiðslu höfundaréttargjalda af óáteknum geisladiskum sen notaðir hefðu verið við fjölföldun eigin efnis einstaklinga og fyrirtækja. Í svarbréfi stefnda 24. október sama ár var kröfu stefnanda um endurgreiðslu gjaldsins hafnað. Vísaði stefndi m.a. til þess að samkvæmt verklagsreglum stefnda væru gjöldin endurgreidd af diskum sem framleiddir væru til sölu á almennum markaði. Endurgreiðslan væri til þeirra sem sýndu fram á að þeir hefðu þegar greitt hlutaðeigandi rétthöfum efnisins á diskunum fyrir eintakið.          Með bréfi stefnanda til stefnda frá 8. mars 2011 krafðist stefnandi endurgreiðslu á höfundaréttargjöldum á geisladiskum sem notaðir hefðu verið til eigin framleiðslu á tímabilinu 6. mars 2001 til 22. október 2010, samtals að fjárhæð 22.486.957 kr. Hafnaði stefndi því með bréfi 7. apríl sama ár að stefndandi ætti lögbundinn rétt til endurgreiðslu gjaldanna. Hann lýsti sig hins vegar reiðubúinn til viðræðna við stefnanda. Færi svo að það upplýstist í þeim viðræðum að samkeppnisaðilar stefnanda hefðu fengið gjaldið endurgreitt, eins og stefnandi hefði látið í veðri vaka, væri stefndi reiðubúinn til að taka það til skoðunar að leiðrétta slíka mismunun. Mun hafa náðst sátt með aðilum hvað varðar endugreiðslu gjalda vegna ónýtra diska. Með bréfi dagsettu 12. janúar 2012, sem ítrekað var 4. apríl 2012, gerði stefnandi stefnda tilboð um að stefndi greiddi 2/3 af framangreindri endurgreiðslukröfu. Því tilboði hafnaði stefndi með bréfi 23. apríl 2012 og vísaði m.a. til þeirra röksemda sem fram komu í ofangreindu bréfi hans frá 7. apríl 2011. Tók stefndi jafnframt fram að hann hefði enga heimild til þess að ganga til samningaviðræðna um endurgreiðslur á höfundaréttargjöldum sem notuð hefðu verið til eintakagerðar fyrir þriðja aðila. Yrði krafa um endurgreiðslu að koma frá viðkomandi aðilum með viðhlítandi rökstuðningi.          Í máli þessu gerir stefnandi kröfu um endurgreiðslu vegna innflutnings samtals 117.555 óátekinna geisladiska af gerðinni CD og DVD fyrir þar tilgreinda aðila á tímabilinu júní 2009 til fyrrihluta árs 2013. Tæplega helmingur endurgreiðslukröfunnar er tilkominn vegna geisladiska fyrir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu sem notaðir eru til að taka upp skýrslur.          Við meðferð málsins gáfu skýrslu Kristján Ottó Andrésson, fyrirsvarsmaður stefnanda, Gunnar Guðmundsson, fyrirsvarmaður stefnda, og Gunnar Gunnarsson. III. Málsástæður stefnanda          Af hálfu stefnanda er á því byggt að innheimta stefnda fái ekki stoð í 3. mgr. 11. gr. höfundalaga nr. 73/1972, með síðari breytingum, eða öðrum réttarheimildum. Annars vegar hafi diskar þeir, sem endurgreiðslukrafan varði, verið fluttir inn og notaðir í framleiðslu fyrir eigendur höfundaréttinda á þeirra eigin efni eða útgáfu höfundaréttarvarins efnis sem greitt hafi verið fyrir til rétthafa. Hins vegar hafi diskarnir verið fluttir inn og notaðir í framleiðslu stefnanda vegna starfsemi sem hafi engin tengsl við verndarhagsmuni höfundalaga. Endurgreiðslukrafa stefnanda lúti ekki að óáteknum geisladiskum sem seldir hafi verið til almennra einkanota. Notkun geisladiskanna falli því augljóslega utan gildissviðs 3. mgr. 11. gr. höfundalaga. Af því leiði að stefndi geti ekki byggt gjaldtöku af stefnanda vegna innflutnings þessara diska á greininni. Gjaldtakan verði ekki byggð á annarri réttarheimild og sé því ólögmæt.          Stefnandi telur að innheimta stefnda sé í andstöðu við tilgang og markmið höfundalaga. Vísar stefnandi í því samhengi sérstaklega til athugasemda með frumvarpi sem orðið hafi að lögum nr. 78/1985, um breytingu á höfundalögum. Þar komi fram að gengið sé út frá því að gjaldið yrði ekki heimt af böndum, sem geymdu verk, sem rétthafar hafi þegið greiðslu fyrir, sem og að tæki og bönd væru undanþegin gjaldi eða innheimt gjald yrði endurgreitt, ef sönnur yrðu færðar á að þau yrðu ekki notuð til upptöku verka vegna einkaþarfa, svo sem diktafónar og hljóðbönd fyrir slík tæki. Allt frá setningu laga nr. 78/1985 hafi þeirri meginreglu verið fylgt og sú venja skapast, að álögð höfundarréttargjöld á tónbönd og myndbönd séu ýmist endurgreidd, eða ekki innheimt, þegar sýnt sé fram á að notkun óátekinna tón- og myndbanda sé ekki gjaldskyld. Stefndi hafi þá ýmist endurgreitt gegn staðfestingu á greiðslu eða fallið frá innheimtu með yfirlýsingu, sem innflytjendur hafi þá lagt fram hjá tollstjóra við tollafgreiðslu vöru. Hafi stefnandi notið þessa jafnt og aðrir, en þessi framkvæmd sé óbreytt að því er tón- og myndbönd snertir þótt vissulega hafi notkun geisladiska rutt notkun hinna fyrrnefndu að umtalsverðu leyti úr vegi. Telja verði að skapast hafi réttarvenjur í framkvæmd að þessu leyti, sem leiða m.a. af þeim athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laga nr. 78/1985. Ekki hafi hins vegar verið gert ráð fyrir því í lögum að höfundaréttargjald yrði innheimt af innfluttum, óáteknum geisladiskum fyrr en með lögum nr. 60/2000 um breytingu á höfundalögum. Eftir að ráðherra hafi með reglugerð nr. 186/2001 lækkað gjaldið hafi skyndilega orðið breyting á framkvæmd stefnda í innheimtu og endurgreiðslu höfundarréttargjalds. Frá þeim tíma hafi stefnandi ekki fengið fellt niður eða endurgreitt gjald vegna innfluttra geisladiska til eigin framleiðslu eða annarra nota eins og þegar um tón- og myndbönd hafi verið að ræða. Umrædd breyting hafi hvorki leitt af breytingu á lögum frá Alþingi, né reglugerð settri af ráðherra. Hún hafi heldur ekki leitt af samningi eða annarri gildri réttarheimild sem hin breytta framkvæmd gat stuðst við. Engin eðlisbreyting hafi heldur orðið á starfsemi stefnanda, sem réttlætti breytinguna, þótt framleiðsluafurðin væri afhent á öðru formi en áður. Hafi ákvörðun um þetta grundvallarfrávik frá þeim venjum sem skapast höfðu verið tekin einhliða af stefnda án tilefnis. Telur stefnandi að framkvæmd þessi sé ólögmæt.          Stefnandi bendir á að þrátt fyrir framangreinda breytingu hafi stefndi endurgreitt höfundaréttargjöld af geisladiskum. Geri hann það í dag samkvæmt reglum um endurgreiðslu gjaldanna sem stjórn stefnda hafi sett einhliða hinn 9. febrúar 2006. Feli reglurnar í sér miklum mun strangari skilyrði fyrir endurgreiðslu en áður hafi gilt. Umræddar reglur sem stefndi vinni eftir við endurgreiðslur lögbundinna gjalda hafi ekki stoð í ákvæðum settra laga eða reglugerða. Þær hafi heldur ekki hlotið staðfestingu ráðherra eða annarra þar til bærra yfirvalda. Reglurnar hafi heldur ekki verið birtar í samræmi við lög um birtingu stjórnvaldsfyrirmæla. Reglurnar og framkvæmd þeirra séu ólögmætur grundvöllur synjunar á endurgreiðslu til stefnanda.          Stefnandi byggir endurgreiðslukröfu sína aðallega á almennum reglum kröfuréttar þess efnis að aðili sem greitt hafi umfram lagaskyldu eigi endurkröfurétt á hendur viðtakanda greiðslunnar. Stefnandi hafi gert ítrekaðar kröfur og athugasemdir við innheimtu stefnda og hafi stefnda því verið fullkunnugt um afstöðu stefnanda til innheimtunnar í þeim tilvikum sem hér um ræði. Kröfur um höfundaréttargjald stofnist skv. 11. gr. höfundalaga í þeim tilgangi að tryggja að þeir sem noti verðmæti, sem höfundar eigi sannanlega eignarréttarlegt tilkall til, sbr. 1. gr. höfundalaga, greiði höfundum fyrir þá notkun. Vegna þess hversu miklum vandkvæðum sé bundið að leiða saman höfunda og notendur hugverka með samningi hafi þessi leið verið valin til hagræðis. Ekki felist í því opinber skattur eða gjöld. Engin rök standi til þess að greiðsla gjaldsins eigi sér stað í öðrum tilvikum en þeim sem skýrt megi leiða af ákvæðum laganna.          Verði ekki fallist á að almennar reglur kröfuréttar eigi við byggir stefnandi á því að eins og mál hafi þróast í framkvæmd hafi höfundaréttargjaldið breyst í skatt sem lagður sé á aðrar vörur, aðila og lögskipti en 3. mgr. 11. gr. höfundalaga fjalli um.  Geri hann því kröfu um endurgreiðslu  á grundvelli laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Vísar stefnandi að til þess að slík gjaldtaka fái staðist, í þeim tilvikum sem hér reyni, á verði hún að uppfylla kröfur um heimild til skattlagningar, sbr. 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 en það geri hún ekki. Í fyrsta lagi falli starfsemi stefnanda ekki undir ákvæði höfundalaganna. Í öðru lagi sé ekki verið að þjóna neinni almannaþörf með gjaldtökunni heldur sé einungis um sérhagsmuni takmarkaðs hóps manna að ræða. Í þriðja lagi sé ákvörðun um skattinn í höndum samtaka aðila, sem eigi framangreinda sérhagsmuni, sem feli í sér brot á framangreindum ákvæðum stjórnarskrár. Stefndi hafi þannig sett reglur um endurgreiðslur og framkvæmt þær, án þess að hafa til þess fullnægjandi lagaheimildir eða vera bær að lögum til að gera það. Fá hvorki reglur stefnda né framkvæmd þeirra staðist. Í samhengi við framkvæmd endurgreiðslna stefnda og ströng skilyrði um umsóknir og endurgreiðslur höfundarréttargjalda, sem sett séu fram í þeim reglum, byggir stefnandi á að stjórnvöldum – og þá þeim sem fara á hverjum tíma með opinbert vald – sé skylt að hafa frumkvæði að endurgreiðslu oftekinna gjalda, skv. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 29/1995. Þá bendir stefnandi á að í gildandi samþykktum sem staðfestar hafi verið af ráðherra sé aðeins kveðið á um skiptingu tekna sem innheimtar hafi verið á grundvelli 11. gr. vegna hljóðbanda, hljóðbandstækja, myndbanda og myndbandstækja, en ekki vegna geisladiska sem mál þetta varði. Gjaldið sé því innheimt, án þess að því formskilyrði um innheimtuna sé fullnægt, að settar hafi verið reglur um skiptingu tekna sem af innheimtunni leiði. Stefnandi byggir kröfur sínar enn fremur á því, verði litið svo á að um opinbert gjald sé að ræða, að í framkvæmd stefnda sé fólgin mismunun í andstöðu við almenna jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá telur stefnandi að innheimta gjaldanna sé brot á friðhelgi eignarréttar, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.          Að lokum byggir stefnandi á því að innheimta höfundaréttargjalda af innlendum aðilum við tollafgreiðslu feli í sér ólögmæta mismunun í skilningi EES-réttar. Ekki þurfi að greiða höfundaréttargjald af innfluttum geisladiskum með höfundarvörðu efni, framleiddum erlendis, á meðan þeir aðilar sem flytji inn diska og setji efni á þá hér á landi þurfi að ganga í gegnum endurgreiðsluferli stefnda. Slík mismunun sé í andstöðu við 1. mgr. 5. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 11. og 36. gr. EES samningsins. Stefnandi telur enn fremur að verði litið svo á að um opinber gjöld sé að ræða, megi jafna þeim við tolla. Í framkvæmd innheimti tollayfirvöld gjaldið með sambærilegum hætti og um aðra tollskylda vöru sé að ræða. Gjaldið sé lagt á þegar umræddar vörur fara yfir landamæri Íslands. Stefnandi telur að þetta brjóti gegn 10. gr. EES-samningsins.          Um lagarök vísar stefnandi til höfundalaga nr. 72/1973 eins og þeim hafi verið breytt með lögum nr. 78/1985 og lögum nr. 60/2000 og lögskýringagagna sem þeim hafi fylgt. Einnig vísar hann til reglugerða nr. 125/2001 og nr. 186/2001 sem settar hafi verið á grundvelli laganna. Um birtingu á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum vísar stefndi til ákvæða laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað er varði birtingu stjórnvaldsfyrirmæla. Þá vísar stefnandi til almennra meginreglna kröfuréttar um endurkröfurétt á hendur viðtakanda greiðslu vegna greiðslu umfram lagaskyldu. Um endurgreiðslu á ofteknum sköttum og gjöldum vísar stefnandi til ákvæða laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Um heimildir til skattinnheimtu vísar stefnandi til 40. gr. og 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Þá vísar stefnandi til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og til 11. gr. EES samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um ólögmæta mismunun. Varðandi grundvöll tollálagningar vísar stefnandi til 1. mgr. 5. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 36. gr. EES samningsins nr. 2/1993. Um kröfu til dráttarvaxta vísar stefnandi til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2011 um vexti og verðtryggingu og 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 um kröfur um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Krafa stefnanda um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 1. mgr. 130. gr. Málsástæður stefnda          Af hálfu stefnda er á því byggt að skýr lagastoð sé fyrir hendi til innheimtu höfundarréttargjalds af innfluttum óáteknum geisladiskum. Vísar hann til þess að höfundaréttargjaldið, sem hér um ræði, skuli inna af hendi fyrir „heimild“ til upptöku á höfundarréttarvörðu efni, án tillits til þess hvort sú heimild sé nýtt. Skv. skýru orðalagi gjaldtökuheimildar í 3. mgr. 11. gr. höfundalaga skuli gjaldið leggjast á  „bönd, diska, plötur eða aðra þá hluti, í hvaða formi sem er, sem taka má upp á hljóð og/eða myndir með hliðrænum eða stafrænum hætti“.  Bendir stefndi á að ekki sé á því byggt af hálfu stefnanda að þeir diskar sem hann hafi flutt inn hafi verið ónothæfir til upptöku. Stefndi hafi nýtt sér lögbundna heimild í 6. mgr. 11. gr. höfundalaga til þess að fela tollstjóra að annast innheimtu á gjöldum vegna innfluttra diska. Eðli málsins samkvæmt leggi tollstjóri gjöldin á við komu diskanna til landsins og á þeim tíma liggur ekkert fyrir um hverjir muni kaupa diskana eða í hvaða tilgangi þeir verði notaðir. Þannig sé ljóst að gjaldið sé réttilega lagt á stefnanda og hafi hann engan rétt til endurgreiðslu þess enda sé enga lagaheimild að finna fyrir slíkri endurgreiðslu.           Stefndi fellst á þann skiling stefnanda að með lögum nr. 78/1984, hafi verið gengið út frá því að gjaldið yrði endurgreitt af tækjum og böndum ef sönnur yrðu færðar á að þau væru ekki notuð til upptöku. Til þess að koma til móts við vilja löggjafans að þessu leyti hafi verið farin sú leið, þegar 11. gr. höfundalaga hafi verið breytt með 2. gr. laga nr. 60/2000, að heimila ráðherra að lækka gjöldin ef ætla megi að einungis hluti þeirra banda, diska eða annarra hluta, sem gjaldið sé greitt af, væri í raun og veru notaður til upptöku á höfundarverkum (5. mgr. 11. gr. höfundalaga). Umrædda heimild hafi menntamálaráðherra nýtt þegar með reglugerð nr. 186/2001 er hann lækkaði gjald af auðum geisladiskum um helming frá því sem áður var. Þetta hafi ráðherrann gert að undangengnu samráði við innflytjendur geisladiska sem hafi talið að þetta væri æskilegri leið en að innheimta fullt gjald og endurgreiða gjaldið í einstaka tilvikum á grundvelli sönnunarfærslu vegna einstakra diska, sem yrði mjög tafsamt og kostnaðarsamt.          Stefndi hafnar því að réttarvenja hafi myndast fyrir 2001, sem geti skapað nokkurn rétt til handa stefnanda. Ráðherra hafi lækkað umrædd gjöld á geisladiska árið 2001 til þess að koma til móts við það sjónarmið að ekki beri að greiða gjöldin af þeim diskum, sem sannanlega hafi ekki verið notaðir til upptöku. Eðli málsins samkvæmt hafi stefndi hætt að endurgreiða gjöld vegna einstakra diska. Stefndi hafnar þar af leiðandi þeirri staðhæfingu stefnanda að breyting á framkvæmd endurgreiðslna hafi ekki leitt af lagabreytingum eða reglugerð settri af ráðherra.          Stefndi byggir á því að innanhússreglur stefnda geti aldrei skapað rétt til handa stefnanda um endurgreiðslu gjaldsins. Gjaldskylda stefnanda sé og hafi verið til staðar þrátt fyrir að stefndi hafi sjálfur kosið að endurgreiða gjöld ef ákveðin skilyrði hafi verið uppfyllt án þess að honum bæri skylda til þess. Þá hafi stefnandi ekki sýnt að hann hafi uppfyllt þau skilyrði sem stefndi hafi sett til endurgreiðslu. Stefndi hafi einungis endurgreitt innflytjendum diska í þeim tilvikum þegar sannanlega sé sýnt fram á að viðkomandi diskar hafi ekki verið notaðar til upptöku á höfundarréttarvörðu efni. Umrædd lækkun gjaldsins hafi verið gerð til að vinna gegn erfiðleikum við að framkvæma gjaldtökuna. Þrátt fyrir þessa lækkun hafi stefndi gefið stefnanda, og öðrum sem stundi innflutning af sama meiði, möguleika á að fá þessi gjöld endurgreidd ef uppfylltar séu ákveðnar kröfur skv. reglum stefnda sem hann hafi birt stefnanda sem og öðrum innflutningsaðilum. Reglur þessar séu til þess fallnar að tryggja jafnræði meðal innflutningsaðila og veita möguleika á endurgreiðslu. Krafan stefnanda um endurgreiðslu skorti þannig viðhlítandi lagagrundvöll.          Stefndi hafnar þeirri málsástæðu stefnanda að innheimt gjaldanna kunni að fela í sér álagningu skatts eða opinber gjöld. Hlutverk höfundalaga sé m.a. að veita höfundum vernd á tilteknum óáþreifanlegum verðmætum. Vegna tækniframfara síðustu áratuga hafi átt sér stað stórfelld röskun á hagsmunum og réttindum höfunda, listflytjenda og annarra rétthafa sem eigi að njóta réttarverndar skv. höfundalögum. Einkanot þau sem heimiluð séu með 11. gr. laganna eru nú svo umfangsmikil að talið hafi verið, við setningu laga nr. 78/1984, að höfundar þyrftu ekki að una þeim bótalaust. Réttur sá er gert hafi verið ráð fyrir með 3. mgr. 11. gr. laganna feli í sér tiltekin réttindi til höfunda, listflytjenda og framleiðenda. Þrátt fyrir heimild rétthafa skv. höfundalögum til að fá aðstoð tollstjóra til að innheimta viðkomandi gjöld séu rétthafar ekki stjórnvald eða framkvæmdarvald skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og því geti hvorki verið um að ræða skattlagningu né opinber gjöld.          Stefndi mótmælir því að umrædd innheimta feli í sér ólögmæta mismunun í skilningi EES-réttar. Gjöldin séu innheimt jafnt á innlenda sem erlenda aðila og sé stefndi einungis að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Ef svo ólíklega reynist að umrædd lagaregla brjóti í bága við EES- samninginn gæti stefnandi mögulega átt skaðabótakröfu á íslenska ríkið en það geti ekki stofnað til endurgreiðslukröfu á hendur stefnda. Varðandi það hvort innheimta gjaldanna sé brot á friðhelgi eignarréttar sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 þá vísi stefndi til þess að gjaldtökunni sé einmitt ætlað að vernda þann eignarrétt er höfundar, listflytjendur og aðrir rétthafar eiga á verkum sínum sem annars væri lítils virði.          Stefndi byggir enn fremur sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni af framangreindri innheimtu höfundarréttargjaldsins eða það meinta tjón sé í öllu falli ósannað. Stefnandi hafi nú þegar krafið viðskiptavini sína um gjaldið og fengið þannig meintan skaða sinn bættan. Ef stefnandi fengi nú endurgreitt frá stefnda á grundvelli þessarar málssóknar myndi hann því auðgast með ólögmætum hætti nema að hann skilaði viðskiptamönnum ávinningnum.           Að lokum byggir stefndi á því að þar sem stefnandi hafi greitt umrætt gjald án fyrirvara þá hafi hann glatað rétti sínum til endurgreiðslu, hafi hann einhvern tíma verið fyrir hendi. Það liggi fyrir að stefnandi hafi verið ósáttur við álagningu gjaldsins löngu áður en hann hafi innt af hendi gjöld vegna þess tímabils, sem hann krefji nú um endurgreiðslu á. Full ástæða hafi því verið fyrir hann að setja fyrirvara við gjaldið áður en greitt hafi verið eða í það minnsta að gera fyrirvara um að viðkomandi diskar yrðu ekki notaðir til upptöku á höfundaréttarvörðu efni.          Um lagarök vísar stefnandi til höfundalaga nr. 72/1973 eins og þeim hafi verið breytt með lögum nr. 78/1984 og lögum nr. 60/2000 og lögskýringargagna sem þeim hafi fylgt. Stefndi vísar einnig til stjórnvaldsfyrirmæla sem sett hafi verið á grundvelli þessara laga, nánar tiltekið nr. 125/2001 og nr. 186/2001. Varðandi það hvort stefndi sé stjórnvald vísar stefndi til stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Krafa stefnda um málskostnað styðst við XXI kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 1. mgr. 130. gr. IV. Niðurstaða          Í máli þessu deila aðilar um hvort stefnandi eigi rétt til endurgreiðslu á höfundaréttagjöldum, skv. 3. mgr. 11. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. 2. gr. laga nr. 60/2000, sem honum hefur verið gert að inna af hendi við innflutning til landsins á  óáteknum geisladiskum. Umrædd gjöld, sem eru innheimt af stefnda, með milligöngu tollyfirvalda við innflutning geisladiskanna, renna til aðildarfélaga stefnda. Af hálfu stefnda eru ekki gerðar athugsemdir við útreikninga stefnanda á fjárkröfunni eða þau gögn sem liggja útreikningunum til grundvallar heldur byggjast varnir stefnda fyrst og fremst á því að stefnandi eigi ekki lögvarinn rétt til endurgreiðslu gjaldanna.          Umræddum höfundaréttargjöldum er ætlað að bæta rétthöfum upp þá tekjuskerðingu sem þeir verða fyrir þegar eintak af verkum þeirra er fjölfaldað til einkanota án þess að endurgjald komi fyrir en einstaklingum er samkvæmt 1. mgr. 11. gr. höfundalaga heimilt að gera eintök af birtu verki til einkanota. Heimild til gjaldtökunnar var fyrst bætt við 11. gr. höfundalaga með lögum nr. 78/1984 en þá var kveðið á um sérstakt gjald á upptökutæki og hljóðbönd eða myndbönd til einkanota. Í athugsemdum í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 78/1984 kemur fram að tækni við eintakagerð sem hafi rutt sér til rúms auðveldi einstaklingum æ meir að gera eintök af hugverkum í stað þess að kaupa þau af höfundum eða útgefendum en á þann hátt verði höfundar, listflytjendur og hljóð- og myndritaframleiðendur af hefðbundnum greiðslum fyrir afnot verkanna. Jafnframt kemur fram að gengið yrði út frá því að gjaldið yrði ekki innheimt af böndum, sem geymdu verk, er rétthafar hefðu þegar þegið greiðslu fyrir. Sömuleiðis væri gengið út frá því að tæki og bönd væru undanþegin gjaldi eða innheimt gjald yrði endurgreitt, ef sönnur væru færðar á, að tæki eða bönd væru ekki notuð til upptöku verka vegna einkaþarfa, svo sem diktafónar og hljóðbönd fyrir slík tæki. Þá var kveðið á um að menntamálaráðuneytið setti nánari reglur um gjaldið.           Með lögum nr. 78/1984, var sameiginlegri innheimtumiðstöð samtaka rétthafa, þar með talin félög listflytjenda og framleiðenda, jafnframt falið að sjá um innheimtu á umræddum höfundaréttagjöldum og ráðstöfun þeirra. Innheimtumiðstöðinni skyldu settar samþykktir í samvinnu við menntamálaráðuneytið og væru þær háðar staðfestingu þess. Í samþykktunum skyldi meðal annars ákveða skiptingu tekna með aðildarfélögum og þar mátti einnig mæla fyrir um framlög til styrktar útgáfu hljóð- og myndrita. Á þessum grunni starfar stefndi og hefur ráðherra staðfest samþykktir stefnda sem hafa verið birtar í B-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt samþykktunum, sem eru að stofni til nr. 333/1996, hefur stefndi það ekki að markmiði að safna eignum í eigin þágu. Í samþykktunum er jafnframt kveðið á um meðferð fjármála og hvernig rekstrarafgangi skuli skipta milli aðildarfélaga. Ekki er að finna í samþykktunum sérstakt ákvæði um endurgreiðslu innheimtra höfundaréttagjalda.          Í 6. mgr. 11. gr. höfundalaga er nú kveðið á um að stefnda sé heimilt að fela tollstjóra innheimtu gjalda sem innflytjendur skulu standa skil á.          Með lögum nr. 60/2000 var aftur gerð breyting á 11. gr. höfundalaga. Þannig var ákvæði 3. mgr. 11. gr. höfundalaga um gjaldtökuna breytt á þann veg að hún skyldi ekki einungis ná til upptökutækja og myndbanda heldur einnig diska, platna eða annarra hluta, í hvaða formi sem þeir væru, þar sem taka mætti upp hljóð eða myndir með stafrænum hætti. Í nefndaráliti, sem fylgdi frumvarpi sem varð að lögunum, var til stuðnings breytingunum vísað til þess að komin væri til sögunnar stafræn eintakagerð til einkanota. Slíkar upptökur væru orðnar mjög góðar og segja mætti að eintak sem fjölfaldað væri stafrænt væri mjög svipað að gæðum og frumeintakið. Með lögum nr. 60/2000 var í 2. til 4. tl. 4 mgr. 11. gr. höfundalaga sett ákvæði um fjárhæð gjaldsins. Þannig skyldu gjöldin nema 35 kr. af böndum, diskum, plötum eða öðrum hlutum til upptöku hljóðs eingöngu en 100 kr. af böndum, diskum, plötum eða öðrum hlutum til upptöku mynda, eftir atvikum ásamt hljóði. Gjöldin voru miðuð við tiltekna lengd flutningstíma en væri hann lengri hækkaði gjaldið hlutfallslega sem því næmi. Í 5. mgr. 11. gr. laganna var kveðið á um að ráðherra væri heimilt að lækka fjárhæðir af böndum, diskum, plötum eða öðrum hlutum ef ætla mætti að einungis hluti þeirra væri ætlaður til upptöku. Með reglugerð nr. 125/2001, sem sett var 29. janúar 2001 með stoð í 5. mgr. 11. höfundalaga, var höfundaréttargjald á geisladiskum ákveðið það sama og greinir í lögum nr. 60/2000. Með reglugerð nr. 186/2001, sem sett var 6. mars 2001, um breytingu á framangreindri reglugerð, nýtti ráðherra sér framangreinda heimild höfundalaga til lækkunar gjaldanna og lækkaði þau um helming, þ.e. í 17 kr. annars vegar en 50 kr. hins vegar. Ekki liggur fyrir í gögnum málsins ástæða lækkunarinnar en af hálfu stefnda er því haldið fram að þetta hafi verið gert í samráði við innflytjendur geisladiskanna sem hafi talið að þetta væri æskilegri leið en sú að innheimta fullt gjald og endurgreiða það í einstaka tilvikum á grundvelli sönnunarfærslu vegna einstakra diska, sem yrði mjög tafsamt og kostnaðarsamt. Í kjölfarið hafi stjórn stefnda ákveðið að hætta að endurgreiða höfundaréttagjöld sem greidd höfðu verið af geisladiskum nema vegna höfundarvarins efnis. Fram kom í framburði fyrirsvarsmanns stefnda að ástæða þess hafi verið hin mikla tekjuskerðing stefnda vegna lækkunar gjaldanna. Stjórn stefnda hefur sett sér verklagsreglur um endurgreiðslu höfundaréttargjalda af geisladiskum. Reglurnar, sem eru frá 2006, hafa ekki verið birtar opinberlega en liggja fyrir í málinu. Samkvæmt þeim er nauðsynlegt að geisladiskarnir, sem endurgreiðslukrafan varðar, séu sannanlega notaðir til útgáfu á efni sem nýtur höfundaréttarverndar. Þannig er ekki heimilt að endurgreiða gjaldið af geisladiskum sem notaðir eru til útgáfu á tölvuforritum, þ.m.t. tölvuleikjum. Greiðsla höfundaréttargjalda af hinu útgefna efni til hluteigandi rétthafa verður að liggja fyrir til þess að gjaldið verði endurgreitt. Skal krafa um endurgreiðslu hafa borist stefnda í síðasta lagi þremur mánuðum eftir að diskarnir hafa verið fluttir inn.          Stefnandi byggir endurgreiðslukröfu sína á hendur stefnda á því að hann hafi greitt umfram lagaskyldu og eigi því rétt til endurgreiðslu. Að mati dómsins byggir gjaldtaka höfundaréttargjaldsins á skýrri lagaheimild 3. mgr. 11. gr. höfundalaga. Gerir ákvæðið ráð fyrir því að andlag þess sem sem gjaldið er sett á, í þessu tilviki óáteknir geisladiskar, kunni ekki að vera notað í tengslum við höfundavarið efni, sbr. orðalag ákvæðisins um að gjaldið sé sett á bönd, diska, plötur eða aðra þá hluti, í hvaða formi sem er, sem taka má upp á hljóð og/eða myndir með hliðrænum eða stafrænum hætti. Er því ekki unnt að fallast á að stefnandi hafi greitt umfram lagaskyldu.           Kemur þá til skoðunar hvort stefnandi eigi rétt á endurgreiðslu gjaldsins úr hendi stefnda á þeim grunni að geisladiskanir hafi ekki verið notaðir til að setja inn höfundavarið efni eða einungis verið notaðir í eigin framleiðslu eigenda viðkomandi höfundaréttinda. Stefnandi vísar til þess að skapast hafi réttarvenjur í framkvæmd sem leiddar séu m.a. af þeim athugasemdum sem hafi fylgt frumvarpi til laga nr. 78/1985 sem að ofan er getið, þ.e. að innheimt gjald verði endurgreitt, ef sönnur væru færðar á, að tæki eða bönd væru ekki notuð til upptöku verka vegna einkaþarfa, svo sem diktafónar og hljóðbönd fyrir slík tæki. Að mati dómsins getur stefnandi ekki byggt rétt sinn til endurgreiðslu á framangreindum athugasemdum með lagafrumvarpinu eða framkvæmd sem kann að hafa verið fyrir setningu reglugerðar nr. 186/2001, enda snýr sú framkvæmd einkum að endurgreiðslu gjalda vegna tón- og myndbanda. Í þeim efnum verður enn fremur að horfa til þess að frá því að athugsemdirnar voru settar fram hefur tækni til upptöku fleygt mjög fram. Þannig hefur hin stafræna tækni haft í för sem sér miklar breytingar hvað varðar möguleika á endurritun, bæði hljóðs og mynda. Sú staðreynd að stefndi hefur, á grundvelli reglna sem hann hefur sett sér, endurgreitt höfundaréttargjöld af tilteknum geisladiskum, getur heldur ekki skapað stefnda rétt til endurgreiðslu. Umræddar reglur eiga eingöngu við ef fyrir liggur að höfundaréttargjöld til hlutaðeigandi rétthafa hafi þegar verið greidd af efni því sem vista á á geisladiskunum og þarf staðfesting þess efnis að liggja fyrir. Reglunum virðist þannig vera ætlað að koma í veg fyrir að höfundaréttargjöld séu tvígreidd. Verður ekki annað séð en að málefnaleg sjónarmið búi að baki endurgreiðslu stefnda í þessum tilvikum. Samkvæmt framangreindu eru því hafnað að athugasemdir með lagafrumvarpi sem varð að lögum nr. 78/1985 eða venja til endurgreiðslu gjaldanna skapi stefnanda lögmætan rétt til endurgreiðslu úr hendi stefnda.          Stefnandi byggir jafnframt endugreiðslukröfu sína á hendur stefnda á lögum nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Telur stefnandi að eins og málin hafi þróast í framkvæmd hafi gjaldið breyst í skatt. Dómurinn getur ekki fallist á að umrædd höfundaréttargjöld séu ígildi skatts heldur er um að ræða bætur til rétthafa vegna upptöku verka þeirra til einkanota. Þá verður að líta til þess að samkvæmt 1. gr. nefndra laga ber stjórnvöldum, sem innheimta skatt eða gjöld, að endurgreiða það sem oftekið er. Stefndi getur ekki fallið undir það að vera stjórnvald í skilningi laganna heldur eru um að ræða frjáls félagasamtök sem hafa það að markmiði að innheimta höfundaréttargjöld skv. 3. mgr. 11. gr. höfundalaga. Nær krafa stefnanda ekki fram að ganga á þessum grunni.          Stefnandi byggir enn fremur endurgreiðslukröfu sína á því að innheimta höfundaréttagjaldanna af innlendum aðilum við tollafgreiðslu fari gegn 10., 11. og 36. gr.  samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Við mat á þessari málsástæðu er til þess að líta að innheimta gjaldanna styðst við skýra lagaheimild 3. mgr. 11. gr. höfundalaga. Jafnvel þótt viðurkennt yrði að lögin gengju gegn samningnum þá leiddi það ekki til þess að stefnda bæri að endurgreiða stefnanda gjöldin heldur kynni það að skapa stefnanda rétt til skaðabóta á hendur íslenska ríkinu á þeim grunni að það hefði með lagasetningunni brotið gegn reglum samningsins. Verður stefndi ekki heldur dæmdur til endurgreiðslu gjaldanna á þessari málsástæðu.          Samkvæmt öllu framangreindu er stefndi sýknaður af kröfum stefnanda.          Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.          Af hálfu stefnanda flutti málið Birgir Tjörvi Pétursson hdl. Af hálfu stefnda flutti málið Tómas Jónsson hrl. Dóminn kvað upp Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari. D Ó M S O R Ð Stefndi, Innheimtumiðstöð gjalda, er sýknaður af kröfum stefnanda, MBV ehf., í máli þessu. Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 316/2015
Kærumál Skýrslugjöf Vitni
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem annars vegar var hafnað kröfu L um að X, Y og Z yrði gert að víkja úr þinghaldi á meðan brotaþolinn A gæfi skýrslu við aðalmeðferð málsins en hins vegar fallist á kröfu um að X, Þ og Æ yrði gert að víkja úr þinghaldi á meðan brotaþolinn B gæfi skýrslu.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. apríl 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. apríl 2015, þar sem annars vegar var hafnað kröfu sóknaraðila um að varnaraðilunum X, Y og Z yrði gert að víkja úr þinghaldi á meðan vitnið A gæfi skýrslu við aðalmeðferð málsins en hins vegar fallist á kröfu vitnisins B um að varnaraðilunum X, Þ og Æ yrði gert að víkja úr þinghaldi á meðan vitnið gæfi skýrslu fyrir dómi. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðilarnir X, Y og Z víki úr þinghaldi á meðan vitnið A gefur skýrslu fyrir dómi. Varnaraðilarnir X og Y krefjast staðfestingar ákvæða hins kærða úrskurðar um að þeim verði ekki gert að víkja úr þinghaldi meðan vitnið A gefur skýrslu fyrir dómi. Þá krefst varnaraðilinn Y kærumálskostnaðar. Varnaraðilinn Z hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Í 1. mgr. 166. gr. laga nr. 88/2008 kemur fram sú meginregla að ákærði eigi rétt á að vera viðstaddur aðalmeðferð máls. Ákvæði 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 er frávik frá þeirri reglu en samkvæmt því getur dómari samkvæmt kröfu ákæranda eða vitnis ákveðið að ákærða verði vikið úr þinghaldi meðan það gefur skýrslu ef dómari telur að nærvera ákærða geti orðið því sérstaklega til íþyngingar og haft áhrif á framburð þess. Af hálfu sóknaraðila hafa ekki verið færð fram haldbær rök fyrir því að uppfyllt séu skilyrði til þess að víkja frá fyrrgreindri meginreglu við skýrslugjöf vitnisins A. Varnaraðilarnir X, Þ og Æ hafa 30. apríl og 1. maí 2015 kært úrskurðinn fyrir sitt leyti. Krefjast þeir þess að ákvæði hans um að þeim verði gert að víkja úr þingsal á meðan vitnið B gefur skýrslu fyrir dómi verði fellt úr gildi. Varnaraðilum er meðal annars gefin að sök líkamsárás, ólögmæt nauðung og að hafa svipt vitnið frelsi sínu. Samkvæmt vottorði sálfræðings 29. september 2014 hefur ætluð háttsemi varnaraðila valdið vitninu, sem er 18 ára að aldri, mikilli streitu og kvíða auk þess sem vitnið hefur verið greint með alvarlega áfallastreituröskun. Þrátt fyrir að nokkuð sé liðið frá því að umrædds vottorðs var aflað verður með vísan til þess sem þar kemur fram og ungs aldurs vitnisins að fallast á það mat héraðsdómara að nærvera varnaraðila geti orðið því sérstaklega til íþyngingar og haft áhrif á framburð þess, sbr. áðurnefnda 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008. Í samræmi við 3. mgr. sömu greinar skal varnaraðilum gert kleift að fylgjast með skýrslutöku vitnisins utan þingsalar og koma að spurningum á meðan hún fer fram. Með þessum athugasemdum verður hinn kærði úrskurður staðfestur. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 85/2015
Fasteignakaup Galli Tómlæti Skriflegur málflutningur
J og A kröfðu B ehf. um greiðslu skaðabóta vegna galla í múrsteinsklæðningu fasteignar sem þau keyptu af B ehf. á árinu 2004, en skemmdir komu fram í klæðningunni á árunum 2006 og 2007. Í málinu lá fyrir matsgerð dómkvadds matsmanns um að gallar væru fyrir hendi í hvoru tveggja múrsteini og múrsteinshleðslu fasteignarinnar. Bar B ehf. því m.a. við að J og A hefðu fyrirgert rétti sínum til skaðabóta sökum tómlætis og vísaði hann um það sérstaklega til laga nr. 40/2002 um fasteignakaup. Í niðurstöðu Hæstaréttar var lagt til grundvallar að J og A hefðu tilkynnt B ehf. um skemmdir í klæðningunni á árinu 2007. Allt að einu yrði að telja að J og A hefðu sýnt af sér verulegt tómlæti með því að hafa ekki án ástæðulauss dráttar haft uppi kröfur á hendur B ehf. vegna gallans, en það gerðu þau ekki fyrr en að liðnum rúmum fimm árum frá því þau urðu hans fyrst vör. Með hliðsjón af meginreglu 48. gr. laga nr. 40/2002 yrði því að telja að J og A hefðu fyrirgert rétti sínum til að bera fyrir sig gagnvart B ehf. að múrsteinsklæðningunni hefði verið áfátt. Var niðurstaða héraðsdóms um sýknu B ehf. því staðfest.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.   Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 29. janúar 2015. Þau krefjast þess að stefnda verði gert að greiða sér 2.848.850 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. nóvember 2013 til greiðsludags. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Samkvæmt 3. mgr. 158. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að líta svo á að hann krefjist staðfestingar héraðsdóms. Áfrýjanda var með bréfi Hæstaréttar 19. mars 2015 veittur frestur til að ljúka gagnaöflun í málinu. Með vísan til fyrrgreinds lagaákvæðis er kveðinn upp dómur í málinu án munnlegs málflutnings. I Áfrýjendur keyptu fasteignina Hafnarberg 20 í Þorlákshöfn af stefnda á síðari hluta ársins 2004 og var hún afhent þeim 1. október það ár. Húsið er parhús og er hinn hluti þess númer 22. Í héraðsdómsstefnu kom fram að nokkrum árum eftir afhendingu fasteignarinnar hafi farið að bera á sprungum í múrsteinsklæðningu hússins. Hafi áfrýjendur haft samband við stefnda og leitað leiða til að komast að samkomulagi við hann um að fá tjónið bætt. Er það hafi ekki borið árangur hafi þau leitað til verkfræðings hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem hafi látið frostþolsprófa múrstein sem tekinn hafi verið úr klæðningu hússins. Í niðurstöðu hans, sem samkvæmt gögnum málsins eru frá því í júní og september 2012, hafi komið fram að frostþíðuálag gæti verið orsök þeirra skemmda sem orðið hefðu á múrsteinsklæðningunni. Þar sem stefndi hafi þrátt fyrir þessa niðurstöðu ekki viljað bæta tjón áfrýjenda hafi þau óskað eftir dómkvaðningu matsmanns í apríl 2013. Í matsgerð hins dómkvadda manns frá 1. október sama ár sagði að um galla í múrsteini og múrsteinshleðslu væri að ræða svo sem nánar er gerð grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi. Höfðuðu áfrýjendur mál þetta 21. mars 2014.   II Í greinargerð sinni til héraðsdóms byggði stefndi meðal annars á því að áfrýjendur hefðu fyrirgert rétti sínum til skaðabóta sökum tómlætis og vísaði hann um það sérstaklega til laga nr. 40/2002 um fasteignakaup svo sem nánar er gerð grein fyrir í héraðsdómi. Í 1. mgr. 48. gr. þeirra laga segir að kaupandi fasteignar glati rétti til að bera fyrir sig vanefnd ef hann tilkynni seljanda ekki innan sanngjarns frests, eftir að hann varð eða mátti verða hennar var, um eðli og umfang hennar og að hann ætli að bera hana fyrir sig. Þá segir í 2. mgr. sömu greinar að réttur til að senda tilkynningu falli niður að liðnum fimm árum frá afhendingu fasteignarinnar, nema seljandi hafi ábyrgst hana í lengri tíma. Með hinum áfrýjaða dómi var stefndi sýknaður af kröfu áfrýjenda. Byggði héraðsdómur niðurstöðu sína á því að af gögnum málsins yrði ekki annað ráðið en að áfrýjendur hefðu fyrst tilkynnt stefnda um galla á fasteigninni á árinu 2012. Hefði þá verið liðinn frestur samkvæmt 2. mgr. 48. gr. laganna. Fyrir Hæstarétt hafa áfrýjendur lagt yfirlýsingu Aðalsteins Brynjólfssonar, eiganda fasteignarinnar að Hafnarbergi 22. Í yfirlýsingunni kemur fram að vorið 2006 hafi komið í ljós sprungur í vatnsbrettum undir gluggum hússins. Haft hafi verið samband við fyrirsvarsmann stefnda sem hafi boðið fram stein til lagfæringar á húsinu en samist hafi um að Aðalsteinn myndi vinna verkið þar sem einungis hefði verið um tvo steina að ræða. Ári síðar hafi komið fram fleiri sprungur í hleðslusteini hússins, þó heldur meiri í þeim hluta þess sem tilheyrði Hafnarbergi 20. Hafi áfrýjendur af þeim sökum haft samband við stefnda sem lofað hafi úrbótum. Þar sem engar úrbætur hafi átt sér stað sumarið 2007 hafi aftur verið rætt við stefnda á árinu 2008. Hið sama hafi átt sér stað árin 2009, 2010 og 2011 án þess að úrbætur hafi verið gerðar. Vorið 2012 hafi eigendur fasteignanna Hafnarbergs 20 og 22 ákveðið að „tala við lögfróða menn“ vegna málsins. Þá verður einnig ráðið af bréfi til stefnda 22. júní 2012, sem undirritað var af framangreindum Aðalsteini, að eigendur Hafnarbergs 20 og 22 hafi átt í símasamskiptum við stefnda fyrir framangreint tímamark vegna galla sem þeir töldu vera á klæðningu hússins. Með bréfinu fylgdi umsögn verkfræðings hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands er varðaði mat á ástandi múrsteinsklæðningarinnar og var stefndi inntur eftir því hvað hann legði til svo sættir gætu náðst í málinu.  Í kjölfar þess að frostþolspróf voru gerð á múrsteini úr klæðningunni kröfðu áfrýjendur stefnda um úrbætur með bréfum 8. og 19. október 2012. Þeim bréfum svaraði stefndi bréflega 4. desember sama ár og kom þar fram að hann teldi sig ekki bera ábyrgð á þeim skemmdum sem komið hefðu fram í klæðningunni. Engu að síður og án þess að hann teldi sig bera ábyrgð samkvæmt framangreindu, kvaðst stefndi vera tilbúinn til að endurgera vatnsbretti á suður- og vesturhlið hússins. Í greinargerð stefnda í héraði er tilgreint að áfrýjendur hafi ekki tilkynnt stefnda um „hugsanlega kröfugerð sína“ fyrr en á árinu 2012 en af greinargerð hans verður ekki ráðið hvort hann hafi átt í samskiptum við áfrýjendur vegna ætlaðra galla fyrir það tímamark. III Ekki er áskilið í 48. gr. laga nr. 40/2002 að tilkynning um galla á fasteign sé gerð með skriflegum hætti. Kaupandi ber sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi fullnægt tilkynningarskyldu sinni og getur slík sönnun reynst örðug séu ekki fyrir hendi skjalfestar heimildir, enda liggur þá ekki annað til grundvallar en framburður þeirra sem í hlut eiga. Að virtu því sem hér að framan greinir verður þó lagt til grundvallar að áfrýjendur hafi tilkynnt stefnda um skemmdir á múrsteinsklæðningu húss síns fyrri hluta árs 2007. Á hinn bóginn verður að telja að áfrýjendur hafi sýnt af sér verulegt tómlæti með því að hafa ekki án ástæðulauss dráttar haft uppi kröfur á hendur stefnda vegna gallans, en það gerðu þau ekki fyrr en að liðnum rúmum fimm árum frá því þau urðu hans fyrst vör. Með hliðsjón af meginreglu 48. gr. laga nr. 40/2002 verður því að telja að áfrýjendur hafi fyrirgert rétti sínum til að bera fyrir sig gagnvart stefnda að múrsteinsklæðningunni hafi verið áfátt. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest. Málskostnaður fyrir Hæstarétti verður ekki dæmdur. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Dómur Héraðsdóms Suðurlands 29. október 2014.             Mál þetta, sem dómtekið var þann 1. október sl., er höfðað af Júlí Heiðari Hjörleifssyni, kt. [...], og Auði Helgu Jónsdóttur, kt. [...], báðum til heimilis að Hafnarbergi 20, Þorlákshöfn, með stefnu birti þann 21. mars sl., á hendur stefnda B. Gíslasyni ehf., kt. [...], með lögheimili að Klængsbúð 15, Þorlákshöfn, fyrirsvarsmaður Böðvar Gíslason, kt. [...], til heimilis að sama stað, og á hendur réttargæslustefnda Kælitækni ehf., kt. [...], með lögheimili að Rauðagerði 25, Reykjavík, fyrirsvarsmaður Erlendur Hjaltason, kt. [...], til heimilis að Auðarstræti 3, Reykjavík.             Dómkröfur stefnenda eru þær að hið stefnda félag B. Gíslason ehf. verði dæmt til að greiða stefnendum skaðabætur að fjárhæð kr. 2.848.850,- ásamt dráttarvöxtum samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags sbr. 1. mgr. 6. gr. og 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af kr. 2.848.850 frá 11. nóvember 2013 til greiðsludags.             Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda B. Gíslasonar ehf., að fjárhæð kr. 412.000,00- auk málskostnaðar vegna þóknunar lögmanns samkvæmt mati dómsins eða skv. málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram við aðalmeðferð málsins ef til hennar kemur auk dráttarvaxta samkvæmt ákvörðum Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. og 9. gr. laga nr. 38/25001 um vexti og verðtryggingu, af málskostnaði frá 11. nóvember 2013.             Dómkröfur hins stefnda félags B. Gíslasonar ehf., eru aðallega þær að félagið verði sýknað af dómkröfum stefnenda. Til vara gerir stefndi kröfu um lækkum á dómkröfum stefnenda. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnenda að mati dómsins, í samræmi við málskostnaðarreikning þannig að stefndi komist skaðlaus frá málarekstrinum.             Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda, og þá hefur réttargæslustefndi engar kröfur haft uppi í málinu. Málavextir.             Mál þetta á rætur að rekja til þess er stefnendur keyptu fasteignina Hafnarberg 20 í Þorlákshöfn af hinu stefnda félagi B. Gíslasyni ehf., sem byggði húsið, með kaupsamningi dags. 4. september 2004, og var afsal gefið út þann 15. desember sama ár.             Kveða stefnendur að nokkrum árum eftir kaupin hafi orðið vart við sprungur í múrsteinsklæðningu hússins, mest á vatnsbrettum undir gluggum er hafi komið stefnendum á óvart enda hafi þau keypt nýtt hús og viðhald þess hafi verið í fullu samræmi við þær upplýsingar sem þau hafi fengið frá seljanda. Hafi stefnendur árangurslaust reynt að komast að samkomulagi við stefnda um bætur fyrir tjónið sem þau telji vera á fasteigninni og því nauðsyn til að höfða mál þetta til heimtu skaðabóta.             Stefndi vísar um málsatvik til þess er fram kemur í stefnu, þó með þeirri athugasemd að ástand utanhússklæðningar hafi vart komið stefnendum í opna skjöldu eftir tíu ára veðrun án nokkurra aðgerða af þeirra hálfu varðandi eðlilegt viðhald.             Þann 13. maí 2013 var Samúel Smári Hreggviðsson byggingatæknifræðingur  dómkvaddur til að meta fasteignina Hafnarberg 20 í Þorlákshöfn í samræmi við matsbeiðni stefnenda og skilaði hann matsgerð sinni í september sama ár. Varðandi galla á múrsteinum á útveggjum hússins er það „álit matsmanns að þar sem svo miklar sprungur eru í steininum sem raun ber vitni, uppfylli steinninn ekki þær kröfur sem gerðar eru og að hann sé gallaður hvað þetta varðar.“ Varðandi galla á múrsteinshleðslu segir í matsgerðinni: „Víðast hvar má sjá rýrnun á fúgunum sem bendir til þess að fúguefnið hefur frosið og ekki náð að bindast við múrsteininn. Þessar rifur taka nú í sig vatn og við víxlverkun frosts og þíðu stækka þær og steinarnir halda áfram að molna og springa. Það er álit matsmanns að múrhleðslan sé gölluð hvað þetta varðar.“ Varðandi það hvort múrsteinninn hafi íslenska vottun til klæðningar utanhúss telur matsmaður að „að ekki sé hægt að fullyrða að múrsteinninn sé með íslenska vottun til klæðningar utanhúss.“ Varðandi það hvort múrsteinninn sé gerður fyrir íslenska veðráttu er það niðurstaða matsmanns að „múrsteinninn geti hentað við íslenskar aðstæður ef múrsteinshleðslan eigi sér stað við bestu aðstæður.“ Loks er það niðurstaða hins dómkvadda matsmanns að kostnaður við að taka múrsteinsklæðninguna af og setja nýja fullnægjandi múrsteinklæðningu í staðinn nemi samtals 2.848.850 krónum. Kostnaður af viðgerð á þeim skemmdum sem þegar hafi orðið á múrsteinsklæðningunni og þeim úrbótum sem fullnægjandi væru til að koma í veg fyrir frekari skemmdir áætlar matsmaður að myndi að öllum líkindum nema um 80% af ofangreindri fjárhæð, enda áætli matsmaður að um sé að ræða um það bil alla múrsteinsklæðninguna, ekki minna en 80% að flatarmáli og allar gluggasyllur.             Samandregin niðurstaða hins dómkvadda matsmanns er að heildarmatsfjárhæð, miðað við nauðsynlegar úrbætur, sé áætluð 2.848.850 krónur, en frá þeirri upphæð dragist væntanleg endurgreiðsla 60% af virðisaukaskatti af vinnu manna á byggingarstað sem nemi 256.672 krónum. Málsástæður og lagarök stefnenda.             Stefnendur byggja á því að fasteignin að Hafnarbergi 20, sé haldin stórfelldum galla sem felist í því að múrsteinn og múrsteinsklæðning sé ekki í samræmi við þær kröfur og staðla sem gera verði til slíkrar byggingar. Hafi þetta fengist staðfest með matsgerð dómkvadds matsmanns.             Í fyrsta lagi sé múrsteinninn gallaður þar sem hann uppfylli ekki kröfur sem gerðar eru í ljósi þess hve margar sprungur er að finna. Verði stefndi að bera bótaábyrgð á þessum galla þar sem óforsvaranlegt sé að nota múrstein í klæðningu sem fullnægi ekki þeim kröfum sem gera verði til byggingarefnis. Í öðru lagi sé múrsteinsklæðningin gölluð þar sem fúguefnið sem notað var við klæðningu hússins hafi verið óheppilegt. Afleiðingin sé sú að rýrnun sé að finna í fúgunni sem taki í sig vatn og þannig verði víxlverkun frosts og þíðu til þess að steinarnir haldi áfram að molna og springa. Beri stefndi bótaábyrgð á því tjóni sem af þessu hlýst enda fullnægi slíkur frágangur ekki þeim kröfum sem gera verði til slíkrar klæðningar. Í þriðja lagi sé umræddur múrsteinn ekki með vottun fyrir íslenskar aðstæður en ljóst megi vera að vottun sem byggi á dönskum aðstæðum sé gerð á allt öðrum forsendum en aðstæður á Íslandi bjóði upp á.             Um fjárhæð kröfunnar vísa stefnendur til niðurstöðu hins dómkvadda matmanns. Kveða stefnendur ljóst að stefndi beri skaðabótaábyrgð á gallanum gagnvart stefnendum, enda hafi hann bæði byggt fasteignina og selt hana stefnendum. Skaðabótaábyrgðina beri stefndi samkvæmt almennum meginreglum samninga- og kröfuréttar og samkvæmt ákvæðum fasteignakaupalaga. Byggja stefnendur kröfur sínar á reglum skaðabótaréttar innan samninga og á dómvenjum íslensks réttar um bótaskyldu seljanda á göllum í fasteignaviðskiptum. Sé bótaskylda stefnda ríkari í þessu tilviki þar sem hann hafi einnig byggt húsið.             Varðandi dráttarvaxtakröfu sína byggja stefnendur á því að þann 11. nóvember 2013 hafi verið liðinn mánuður frá því að lögmanni stefnda hafi verið sent bréf þar sem skorað var á hann að gera nauðsynlegar úrbætur í samræmi við matsgerð hins dómkvadda matsmanns, eða greiða stefnendum stefnufjárhæð máls þessa. Þá var og krafist greiðslu vegna matskostnaðar að fjárhæð 412.000 kr.             Um lagarök vísa stefnendur til meginreglna skaðabótaréttar og laga nr. 26/1994 [sic] um fasteignakaup. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti styðja stefnendur við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum. Um aðild réttargæslustefnda vísa stefnendur til 1. mgr. 21. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kröfu um málskostnað styðja stefnendur við 130. og 131. gr. laga nr. 91/1991, og um varnarþing er vísað til 33. gr. sömu laga. Málsástæður og lagarök stefnda.             Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann beri ekki skaðabótaábyrgð á tjóni á klæðningu fasteignar stefnenda. Þá telur stefndi óljóst á hvaða grunni kröfugerð stefnenda sé byggð en engin nákvæm tilgreining sé á þeim reglum sem krafa þeirra byggi á. Þó virðist stefnda stefnendur byggja mál sitt á sakarreglu skaðabótaréttar og þar með að stefndi hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið tjóni stefnenda. Telji stefndi skilyrði sakarreglunnar ekki uppfyllt að þessi leyti og því beri stefndi ekki skaðabótaábyrgð gagnvart stefnendum vegna ástands klæðningar fasteignarinnar. Þá byggir stefndi sýknukröfu sína á því að ósannað sé að hann hafi unnið sér nokkuð til sakar sem varðað geti bótaábyrgð gagnvart stefnendum. Þá verði heldur ekki séð hvaða háttsemi stefnda það sé sem talist geti verið ólögmæt í skilningi sakarreglunnar.             Stefndi hafi staðið að byggingu fasteignarinnar að Hafnarbergi 20 í Þorlákshöfn, og hafi hún verið fullbúin árið 2004. Múrsteinsklæðning hússins hafi verið sett upp á tímabilinu frá 7. maí til 15. júní 2004, s.s. fyrir um tíu árum síðan, en hvorki sé þess getið í stefnu né gögnum málsins hvernig viðhaldi hafi verið háttað á þessum tíma. Múrsteinninn sem notaður hafi verið í klæðningu hússins hafi verið keyptur hjá réttargæslustefnda, Kælitækni ehf., sem framvísað hafi skjali um vottun steinsins. Þá hafi engar athugasemdir verið gerðar við val á klæðningarefni hjá byggingarfulltrúa né heldur krafist vottunar á múrsteininum. Hins vegar beri úttektir með sér að fullnægt sé skilyrðum skipulags- og byggingarlaga, sem og kröfum þeim sem gerðar séu um frágang og umbúnað fasteigna í ÍST-51:2001 um byggingarstig húsa. Þá hafi stefnendur ekki fært rök fyrir því að um saknæma háttsemi hafi verið að ræða hjá stefnda varðandi val á byggingarefnum eða meðhöndlun þeirra.             Stefndi hafnar því að múrsteinninn sem notaður hafi verið í klæðningu hússins hafi verið ófullnægjandi og uppfylli ekki kröfur sem gera verði til byggingarefnis. Ekki sé þó vikið að því hverjar kröfur það eru, eða hverjar séu lágmarkskröfur í því sambandi.             Þá kveður stefndi að ekkert komi fram um það í málatilbúnaði stefnenda hvað hafi verið gert til þess að takmarka eða koma í veg fyrir tjón á klæðningu hússins. Er þá og vísað til bréfs stefnda til stefnenda dags. 4. desember 2012, þar sem stefnendum er bent á mikilvægi þess að húsið sé sílanborið reglulega, enda sé það þáttur í eðlilegu og reglubundnu viðhaldi húsa af þeirri gerð sem hér um ræðir.             Stefndi vísar og til þess að af skýrslu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, sem gerð var að beiðni stefnenda, megi ráða að eftir ítrekaðar og afar stórkostlegar frostþíðusveiflur (samtals 28, 40 hitastiga sveiflur) hafi einungis annað af tveimur sýnum af múrsteini þeim er notaður var í klæðningu hússins, sýnt sprungumyndum. Þá sé í niðurstöðum rannsóknarinnar ekki tekið dýpra í árinni en svo að frostþíðuálag geti framkallað sprungur í múrsteininn. Þá er og á það bent að ekki liggi fyrir gögn í málinu er sýni slíkar veðurfarssveiflur er um ræði í rannsókninni, þ.e. hitasveiflur upp á 40 hitastig. Sönnur hafi því ekki verið lagðar fram um að sprungumyndun á múrsteinum í klæðningu hússins megi rekja eingöngu til sambærilegrar frostþíðu og framangreind rannsókn nái til.             Kveður stefndi að af gögnum málsins megi ráða að stefnendur hafi engan reka gert að því að takmarka hugsanlegt tjón sitt, með því að sinna eðlilegu viðhaldi húseignar sinnar, á þeim langa tíma er líður frá kaupum eignarinnar árið 2004, og þar til stefnendur tilkynna stefnda um hugsanlega kröfugerð sína árið 2012. Með því hafi stefnendur komið í veg fyrir að stefndi gæti neytt hugsanlegs úrbótaréttar síns, og hafi þeir í öllu falli þannig fyrirgert rétti sínum til skaðabóta úr hendi stefnda.             Loks byggir stefndi sýknukröfu sína á því að stefnendur hafi vegna tómlætis glatað hugsanlegum rétti sínum til skaðabóta, sbr. 45. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup.             Um lagarök vísar stefndi til almennra óskráðra reglna skaðabótaréttar, sérstaklega sakarreglunnar, kröfuréttar og samningaréttar, sem og reglna fasteignakauparéttar og ákvæða laga nr. 40/2002 um fasteignakaup. Þá er vísað til almennra reglna kröfuréttar um tómlæti og einnig í því sambandi til ákvæða 45. gr. [sic] áðurnefndra fasteignakaupalaga um tilkynningar, tómlæti og fyrningu. Loks er vísað til ákvæða laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sérstaklega ákvæða XXI. kafla laganna, sbr. 129., 130. og 131. gr. Frekari málatilbúnaður stefnenda. Við fyrirtöku málsins þann 1. október 2014, eftir að þingsókn stefnda hafði fallið niður, lögðu stefnendur fram sókn í málinu, skv. 3. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Koma þar fram athugasemdir stefnenda við greinargerð stefnda. Í fyrsta lagi virðist stefnendum stefndi álíta sem svo að málatilbúnaður stefnenda byggi á sakarreglunni og skaðabótum utan samninga, en svo sé ekki líkt og greinilega komi fram í stefnu. Séu vangaveltur stefnda um sök og ólögmæti gagnslausar, en stefnendur hafi sýnt fram á galla með matsgerð sem ekki hafi verið hnekkt. Þá kveða stefnendur engar upplýsingar hafa fengið frá stefnda um hvernig viðhaldi á fasteigninni skyldi háttað. Tilvísun stefnda til bréfs dags. 4. nóvember 2012, sýni að leiðbeiningar um viðhald séu allt of seint fram komnar. Þá ítreka stefnendur að málatilbúnaður þeirra byggi á matsgerð hins dómkvadda matsmanns, en ekki niðurstöðum skýrslu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, sem stefndi dragi efa. Loks hafna stefnendur því að 45. gr. laga um fasteignakaup eigi við í máli þessu, enda eigi ákvæðið við um sprangkröfur. Niðurstaða.             Við fyrirtöku máls þessa þann 17. september sl. féll þingsókn stefnda niður og var málið dómtekið þann 1. október sl., skv. 3. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verður málið því dæmt eftir framkomnum kröfum, gögnum og sókn stefnenda með tilliti til þess sem hefur komið fram af hálfu stefnda.                      Mál þetta snýst um kröfu stefnenda um greiðslu skaðabóta vegna galla á fasteign, er stefndi byggði og seldi stefnendum árið 2004. Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnenda á þeim grundvelli að hann beri ekki bótaábyrgð gagnvart stefndu, auk þess sem hugsanlegur bótaréttur sé niður fallinn.  Í málinu liggur fyrir matsgerð dómkvadds matsmanns, Samúels Smára Hreggviðssonar byggingatæknifræðings, sem ekki hefur verið hnekkt. Helstu niðurstöður matsgerðarinnar eru þær að bæði múrsteinn sá er notaður var í klæðningu fasteignarinnar Hafnarbergs 20 í Þorlákshöfn, sem og múrsteinshleðslan, séu gölluð. Þá telur matsmaðurinn að kostnaður af nauðsynlegum úrbótum nemi 2.848.850 krónum, miðað við að klæðningin sé öll fjarlægð og endurgerð við bestu aðstæður.             Þó fallast megi á það með stefnda að engin nákvæm tilgreining sé á þeim réttarreglum sem krafa stefnenda byggi á, auk þess að lagatilvísun í stefnu er röng, þar sem vísað er til laga nr. 26/1994, sem eru lög um fjöleignahús, verður ekki fram hjá því litið að skilmerkilega kemur fram í stefnu að stefnendur byggi skaðabótaábyrgð stefnda á almennum meginreglum samninga- og kröfuréttar sem og ákvæðum fasteignakaupalaga.             Af málatilbúnaði stefnenda og atvikum málsins verður ráðið að galli sá er stefnendur telja vera á fasteigninni Hafnarbergi 20 í Þorlákshöfn, hafi fyrst komið í ljós eftir afhendingu eignarinnar. Stefnendur kveða umrædda fasteign vera gallaða, þar sem múrsteinn og múrsteinsklæðning sé ekki í samræmi við þær kröfur og staðla sem gera verður til slíkrar byggingar. Hvorki er í stefnu vísað til hverra krafna eða staðla byggt sé á, né er slíkt að finna í matsgerð hins dómkvadda matsmanns. Aftur á móti hefur niðurstöðu hins dómkvadda matsmanns, þess efnis að múrsteinn og múrsteinshleðsla fasteignarinnar séu gölluð, ekki verið hnekkt og ekki er í sjálfu sér deilt um það í máli þessu hvort niðurstaða hins dómkvadda matsmanns sé rétt. Aftur á móti lýtur ágreiningur aðila að því hvort stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnenda, sem og hvort stefnendur hafi fyrirgert bótarétti sínum.                Stefndi byggir sýknukröfu sína meðal annars á því að hann beri ekki skaðabótaábyrgð á tjóni stefnenda, enda séu ekki uppfyllt skilyrði sakarreglu skaðabótaréttar. Stefnendur kveða stefnda bera ábyrgð á tjóninu samkvæmt almennum reglum samninga- og kröfuréttar, sem og reglum fasteignakauparéttar. Fallast ber á það með stefnda að ekki hafi, gegn neitun hans,  verið sýnt fram á það í máli þessu að stefndi hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið stefnendum tjóni. Aftur á móti kveður 1. mgr. 43. gr. fasteignakaupalaga nr. 40/2002, á um það að kaupandi fasteignar geti krafist skaðabóta vegna annars tjóns en óbeins tjóns, þótt seljandi hafi ekki sýnt af sér saknæma háttsemi. Verður því fallist á það með stefnendum að stefndi geti borið ábyrgð á tjóni stefnenda vegna galla á fasteigninni.             Stefndi byggir sýknukröfu sína og á því að stefnendur hafi glatað rétti sínum til skaðabóta úr hendi stefnda annars vegar með því að koma í veg fyrir að stefndi gæti neytt hugsanlegs úrbótaréttar og hins vegar sökum tómlætis. Vísar stefndi í greinargerð sinni til 45. gr. laga nr. 40/2002, um tilkynningar, tómlæti og fyrningu, er stefnendur kveða í sókn sinni ekki eiga við í málinu. Verður litið svo á að um augljósa ritvillu sé að ræða í greinargerð stefnda, enda ber ákvæði 48. gr. laganna yfirskriftina „tilkynningar, tómlæti, fyrning“.             Samkvæmt 2. mgr. 48. gr. laganna fellur réttur kaupanda til að senda tilkynningu, um að hann ætli að bera fyrir sig vanefnd, niður að liðnum fimm árum frá afhendingu fasteignar, nema seljandi hafi ábyrgst hana í lengri tíma. Á þessu gildir þó sú undantekning samkvæmt 3. mgr. greinarinnar, að seljandi geti ekki borið fyrir sig að tilkynning hafi verið send of seint, hafi hann sýnt af sér stórkostlegt gáleysi eða framferði hans stríði með öðrum hætti gegn heiðarleika og góðri trú.             Í málinu liggur fyrir kaupsamningur aðila, dagsettur 4. september 2004, þar sem tilgreindur afhendingadagur eignar er 1. október sama ár. Þá liggur og fyrir að afsal var útgefið af stefnda til handa stefnendum þann 15. desember 2004. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en stefnendur hafi fyrst tilkynnt stefnda um meinta galla á fasteigninni árið 2012, eða tæpum átta árum eftir afhendingu eignarinnar. Var þá liðinn frestur samkvæmt 2. mgr. 48. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup, enda liggur ekkert fyrir um það í málinu að stefndi hafi ábyrgst eignina í lengri tíma. Þá er það mat dómsins að stefnendur hafi hvorki sýnt fram á að stefndi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi, né að framferði hans stríði með öðrum hætti gegn heiðarleika og góðri trú, líkt og kveðið er á um í 3. mgr. 48. gr. fasteignakaupalaga. Þá verður og fallist á það með stefnda að ósannað sé að stefnendur hafi sinnt eðlilegu viðhaldi á eigninni, líkt og haldið er fram í stefnu. Að framangreindu virtu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnenda.              Með hliðsjón af þessari niðurstöðu verður stefnendum gert að greiða stefndu 150.000 krónur í málskostnað.             Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp þennan dóm. DÓMSORÐ: Hið stefnda félag B. Gíslason ehf., er sýknað af kröfum stefnenda, Júlí Heiðars Hjörleifssonar og Auðar Helgu Jónsdóttur.                 Stefnendur greiði stefnda 150.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 835/2014
Skuldabréf Gengistrygging
D ehf. krafðist viðurkenningar á því að skuldabréf Í hf. og DR ehf. hefði verið um lán í íslenskum krónum bundið gengi erlendra gjaldmiðla. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að í heiti viðkomandi skuldabréfs kæmi fram að um væri að ræða skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum, auk þess sem lánsfjárhæðin væri fyrst tilgreind í tveimur erlendum gjaldmiðlum og síðan jafnvirði lánsins í íslenskum krónum. Þá væru vextir tilgreindir Libor vextir og hefði, við áritun bréfsins um skuldaraskipti, eingöngu verið getið fjárhæðar þess í hinum erlendu gjaldmiðlum. Með vísan til þessa var talið að um væri að ræða skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum.  
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. desember 2014. Hann krefst þess að viðurkennt verði að skuldabréf 8. ágúst 2007, útgefið af Birki Leóssyni, sem Drómundur ehf. gerðist skuldari að með skuldskeytingu 15. október sama ár, hafi verið um lán í íslenskum krónum bundið gengi erlendra gjaldmiðla. Þá krefst hann málskostnaðar til handa þrotabúi Drómundar ehf. í héraði en sér fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Með hinum áfrýjaða dómi var stefndi sýknaður af kröfu Drómundar ehf. um að viðurkennt yrði að fyrrgreint skuldabréf hefði verið um lán í íslenskum krónum bundið gengi erlendra gjaldmiðla. Eftir að málið var dómtekið í héraði 16. september 2014 var bú félagsins tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 23. sama mánaðar. Samkvæmt yfirlýsingu skiptastjóra 10. desember 2014 var tekin sú ákvörðun af hálfu búsins að áfrýja ekki málinu. Aftur á móti hefur áfrýjandi, sem lýst hefur kröfu í búið, áfrýjað dóminum í eigin nafni á grundvelli heimildar í 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar, þar sem fjallað hefur verið um hvort samningur sé um lán í erlendri mynt eða íslenskum krónum bundið gengi erlendrar myntar, hefur fyrst og fremst verið byggt á skýringu á texta þeirrar skuldbindingar sem lántaki hefur gengist undir. Koma önnur atriði við lánveitinguna ekki til álita ef textaskýring tekur af skarið um efni skuldbindingarinnar að þessu leyti. Við úrlausn þess hvort um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum er að ræða eða ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum er í fyrsta lagi að líta til heitis skuldabréfsins en fyrirsögn þess er: „Skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum“. Í öðru lagi að lánsfjárhæðin er samkvæmt orðalagi skuldabréfsins fyrst tilgreind í tveimur erlendum gjaldmiðlum, svissneskum frönkum og japönskum yenum, og síðan jafnvirði lánsins í íslenskum krónum. Í þriðja lagi eru vextir samkvæmt skuldabréfinu til samræmis við að um erlent lán sé að ræða tilgreindir Libor vextir. Í fjórða lagi var í áritun um skuldaraskipti 15. október 2007 eingöngu getið fjárhæðar bréfsins í hinum erlendu gjaldmiðlum, en með árituninni gekkst Drómundur ehf. undir skuldbindingu samkvæmt bréfinu. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. október 2014. Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 2. apríl 2013 og dómtekið 16. september sl. að lokinni aðalmeðferð. Stefnandi er Drómundur ehf., Fannafold 176, Reykjavík. Stefndi er Íslandsbanki hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík.                 Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að skuldabréf útgefið af Birki Leóssyni 8. ágúst 2007, sem stefnandi gerðist skuldari að fyrir skuldskeytingu 15. október sama ár, hafi verið lán sem ákveðið var í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla. Hann krefst einnig málskostnaðar.                 Stefndi krefst sýknu auk málskostnaðar.                 Málinu var úthlutað til dómara 12. maí sl. og fór aðalmeðferð málsins fram tveimur dögum síðar. Málið var endurflutt 16. september sl. og dómtekið að nýju. Við meðferð málsins hefur verið tekið tillit til fyrirmæla laga nr. 80/2013 um breytingu á lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála, með síðari breytingum, á þá leið að hraða skuli meðferð dómsmála sem lúta að lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu eða að uppgjöri slíkra skuldbindinga. Málsatvik Ágreiningur aðila lýtur einvörðungu að því hvort lán sem Birkir Leósson, stjórnarmaður og eini hluthafi stefnanda, tók með útgáfu skuldabréfs til Glitnis banka hf. 8. ágúst 2007 hafi verið lán í íslenskum krónum, bundið ólögmætri gengistryggingu, eða hvort um hafi verið að ræða lögmætt erlent lán. Ekki er um það deilt að stefndi hefur tekið við réttindum og skyldum lánveitanda samkvæmt skuldabréfinu. Umrætt skuldabréf var auðkennt „Skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum”. Þá sagði að undirritaður útgefandi viðurkenndi með undirritun sinni að skulda bankanum „eftirfarandi erlendar fjárhæðir eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum eða mynteiningum, sem birtar eru í almennri gengistöflu Glitnis banka hf., eða í íslenskum krónum.“ Því næst voru tilgreindar fjárhæðirnar 289.631 svissneskir frankar og 28.636.884 japönsk jen. Jafnvirði í íslenskum krónum hinn 3. ágúst 2007 var feitletrað 30 milljónir í tölustöfum og bókstöfum. Í reitum á skuldabréfinu voru tilgreindir bankareikningar til ráðstöfunar og skuldfærslu. Er ekki um það deilt að reikningur sem tilgreindur var til skuldfærslu var í íslenskum krónum. Þá er þar að finna tilvísun til LIBOR-vaxta af framangreindum myntum og fast vaxtaálag sem og vegna meðalvexti. Fram kemur að afborgun sé ein, vaxtagjalddagar sex og lánstími 36 mánuðir. Í skilmálum skuldabréfsins koma fram nánari ákvæði um vexti, breytingar á vöxtum og afborganir. Í 7. tölulið segir að lánveitandi geti leyft færslu skuldarinnar yfir á aðra gjaldmiðla og/eða breytt skiptingu á milli þeirra síðar á lánstíma. Í 8. tölulið var fjallað um framkvæmd myntbreytingar og meðal annars kveðið á um að við umreikning í aðra mynt skyldi taka mið af kaup- og sölugengi samkvæmt síðustu almennu gengisskráningu bankans á íslensku krónunni miðað við þá mynt/þær myntir sem myntbreyting tæki til. Í 10. tölulið var að finna heimild lánveitanda til gjaldfellingar vegna vanskila og tekið fram að við þær aðstæður væri honum heimilt að umreikna skuldina í íslenskar krónur miðað við skráð sölugengi bankans. Í málinu liggur einnig fyrir lánsumsókn Birkis Leóssonar auk tölvupóstsamskipta hans við bankann vegna lántökunnar. Í tölvupósti 26. júlí 2007 er rætt um „körfulán í CHF og JPY”. Í svari starfsmanns bankans 31. sama mánaðar segir að beiðni um lánveitingu hafi verið samþykkt og er þar rétt um „30.000.000 IKR” í fyrrgreindri myntsamsetningu. Í lánssamningi kemur fram upphæð í íslenskum krónum og skipting í erlendar myntir. Þá kemur fram eftirfarandi texti: „Lántaki hefur leitað sér ráðgjafar og gerir sér grein fyrir þeim áhrifum sem þróun gengis og vaxta getur haft á höfuðstól og greiðslubyrði.“ Ágreiningslaust er að þótt að á lánsumsókn og skuldabréfi hafi tiltekið reikningsnúmer verið tilgreint sem ráðstöfunarreikningur var lánið í reynd verið greitt inn á reikning lántaka í bandaríkjadölum. Hinn 15. október 2007 samþykkti Glitnir banki hf. skuldaraskipti á láninu þannig að stefnandi yrði skuldari. Skilmálum skuldabréfsins þar að lútandi var breytt með skjalinu „Áritun um skuldaraskipti“, þar sem koma fram upphaflegar fjárhæðir í svissneskum frönkum og japönskum jenum og eftirstöðvar þess miðað við 12. október 2007 í sömu fjárhæðum. Í gögnum málsins er gerð grein fyrir ágreiningi aðila um gildi handveðsetningar á verðbréfaeign sem stóð til tryggingar framangreindu skuldabréfi og lyktaði með dómi Hæstaréttar 29. nóvember 2012 í máli nr. 207/2012. Með hliðsjón af því að aðilar eru sammála um að sá ágreiningur hafi ekki þýðingu fyrir sakarefni málsins er ekki ástæða til að gera sérstaka grein fyrir þessu atriði. Samkvæmt stefnu greiddi stefnandi skilvíslega vexti af bréfinu 19. nóvember 2007, 19. maí 2008 og 17. nóvember þess árs, en hætti að greiða bréfinu vegna þess ágreinings aðila sem lauk með fyrrnefndum hæstaréttardómi. Í framhaldi af dómi Hæstaréttar var bréfið hins vegar greitt að fullu samkvæmt útreikningum stefnda með þremur nánar tilteknum greiðslum með fyrirvara um réttmæti kröfu stefnda og rétt stefnanda til endurgreiðslu. Ekki var um að ræða munnlegar skýrslur við aðalmeðferð málsins. Málsástæður og lagarök stefnanda                  Stefnandi byggir á því að taka beri viðurkenningarkröfu hans til greina vegna þess að ógild sé skuldbinding Birkis Leóssonar um að lánsfjárhæð sú sem upphaflega var tekin að láni hjá Glitni banka hf. eigi að taka breytingum í samræmi við breytingar á gengi svissneskra franka og japanskra jena. Skuldbindingin hafi verið ógild við undirritun skuldabréfsins hinn 8. ágúst 2007 með vísun til ófrávíkjanlegra ákvæða 13. gr. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001, eins og þau hafi verið skýrð með dómum Hæstaréttar. Á því er því byggt að um hafi verið að ræða lán í íslenskum krónum, sem bundið var gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti, og ákvæði 18. gr. laga nr. 38/2001 eigi því við.                  Stefnandi vísar til þess orðalags í skuldabréfinu þar sem skuldari viðurkenni að skulda „eftirfarandi erlendar fjárhæðir eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum eða mynteiningum, sem birtar eru í almennri gengistöflu Glitnis banka hf., eða í íslenskum krónum“ og „Jafnvirði í íslenskum krónum“. Einnig vísar hann til þess að fjárhæð bréfsins í íslenskum krónum, þrjátíu milljónir, hafi verið bæði feitletruð og með stærri leturgerð en annar texti. Þá hafi vextir verið tilgreindir jöfnum höndum Libor, Eurobor og Reibor. Vísað er til tölvupóstsamskipta við aðdraganda lánsumsóknar og texta lánsumsóknarinnar sjálfrar þar sem rætt sé um upphæð í íslenskum krónum og ákveðna skipingu lánsins í erlenda mynt. Þá geri umsóknin ráð fyrir því að lánið verði greitt út í íslenskum krónum inn á reikninga lántaka. Það hafi því aldrei staðið til að neinar greiðslur yrðu í svissneskum frönkum eða japönskum jenum. Þá er vísað til þess að í umsókn segi skýrum stöfum að lántaki hafi „leitað sér ráðgjafar og gerir sér grein fyrir þeim áhrifum sem þróun gengis og vaxta getur haft á höfuðstól og greiðslubyrði.“ Þetta ákvæði samræmist því aðeins að um hafi verið að ræða gengistryggt lán enda geti „þróun gengis“ aðeins haft áhrif við þær aðstæður að svo sé. Byggt er á að í skuldabréfi sé höfuðstóll alltaf nefndur í eintölu, t.d. í 1. og 3. tölulið. Niðurstaðan sé skýr um að hér sé um að ræða einn höfuðstól í íslenskum krónum. Einnig er vísað til 7. og 8. töluliða í skuldabréfi þar sem kveðið sé á um heimild til að breyta gjaldmiðlum. Af ákvæðunum verði dregin sú ályktun að gjaldmiðlar hafi verið til viðmiðunar um höfuðstól skuldarinnar í íslenskum krónum enda hafi við breytingar borið að miða við kaup- og sölugengi á íslensku krónunni.  Ljóst sé að ekki hafi verið gert ráð fyrir raunverulegum gjaldeyrisviðskiptum, heldur einungis færslu, breytingu, myntbreytingu og umreikning sem taka hafi átt mið af gengi viðkomandi gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni.  Þarna sé því ekki verið að tala um að einn gjaldmiðill sé keyptur fyrir söluandvirði annars gjaldmiðils eins og þegar um raunveruleg gjaldeyrisviðskipti er að ræða. Við myntbreytingu hefði sami skuldari skuldað, eftir sem áður, lánið á nýjum lánsnúmerum með nýjum útgáfudegi og nýjum skráðum myntum. Á greiðsluskjölum hefði staðið „myntbreyting“, „umreikningur í aðra mynt“ eða eitthvað álíka án nokkurra raunverulegra peningalegra hreyfinga. Vísað er til 10. töluliðar skuldabréfs þar sem lánveitanda er heimilt að umreikna skuldina í íslenskar krónur í lok gjaldfellingardags miðað við skráð sölugengi hans á þeim myntum sem skuldin er skráð gengistryggð við hverju sinni.  Strax þar á eftir segi í greininni að greiða beri dráttarvexti af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndarálag sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.  Dráttarvaxtarákvæðið gildi þannig einungis um skuldina í íslenskum krónum, enda hafi aldrei annað staðið til en að skuldin væri í íslenskum krónum. Greiðslufjárhæð allra gjalddaga skuldabréfsins hafi verið reiknaðar í íslenskar krónur á gjalddaga og ekki breyst eftir það.  Það sé nákvæmlega hið sama og gildi um verðtryggð lán og sýni að skuldabréfið hafi verið bundið við gengi erlendra gjaldmiðla. Allar greiðslur vaxta og afborgana af láninu hafi verið í íslenskum krónum í reynd. Stefnandi telur að áðurgreint yfirlit 8. janúar 2011 sýni að skuldin hafi verið í íslenskum krónum og tekið breytingum í samræmi við breytingar á gengi erlendra mynta.  Á yfirlitinu komi fram „Gengismunur“ á afborgun og einnig vextir (af uppreiknuðum gengistryggðum höfuðstól hverju sinni), dráttarvextir og annar kostnaður og að lokum samtala.  Þetta sé nákvæmlega sama meðferð og framsetning og á verðtryggðu láni, með því smávægilega fráviki að rætt sé um „gengismun“ í stað „verðbóta“. Tilvísun til gengismunar og grunngengis sýni að um sé að ræða gengistryggt lán.                 Stefnandi vísar til þess að umrætt skuldabréf eigi túlka með hliðsjón af ákvæðum  laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum 36. gr. a. og b., eins og lögunum hefur verið síðar breytt. Hann vísar auk þess til ákvæða laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá hefur stefnandi vísað til ýmissa dóma Hæstaréttar við reifun málsins.                 Við aðalmeðferð málsins mótmælti stefnandi sérstaklega fullyrðingum stefnda um að þegar hefði verið fjallað um sambærilegt lánsform í dómum Hæstaréttar, sbr. einkum dóm Hæstaréttar 7. júní 2012 í máli nr. 524/2011. Einnig mótmælti hann því að reglur um viðskiptabréf hefðu þýðingu um úrlausn málsins. Málsástæður og lagarök stefnda                 Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum sé að ræða. Hann vísar til heitis skuldabréfsins og þess að höfuðstóll hafi verið sérstaklega tilgreindur í erlendum gjaldmiðlum. Telur stefndi að samkvæmt fordæmum Hæstaréttar leiði þetta til þess að skuldbindingin teljist vera í erlendum myntum. Þá vísar stefndi til þess að í tilteknum dómum Hæstaréttar hafi verið fjallað um sambærilegt lánsform og hér um ræðir. Er einkum vísað til dóms Hæstaréttar 7. júní 2012 í máli nr. 524/2011. Stefndi telur það gæti ekki haft þýðingu þótt lánið hefði verið greitt út í íslenskum krónum en svo hafi þó ekki verið. Hins vegar breyti engu þótt greitt hafi verið af láninu í íslenskum krónum. Stefndi vísar sérstaklega til þess að við útgreiðslu lánsins hafi andvirði hinnar erlendu lánsskuldbindingar verið greitt út í bandaríkjadölum til samræmis við gengi þeirra gjaldmiðla sem tilgreindir voru í skuldabréfinu. Hins vegar hafi ekki verið miðað við gengi íslenskrar krónu. Stefndi vísar einnig til þess að stefnandi hafi tekið yfir skýra skuldbindingu í erlendum gjaldmiðlum með yfirlýsingu um skuldaraskipti. Hann hafnar því að ákvæði skuldabréfsins um vexti gefi til kynna að lánið hafi verið í íslenskum krónum. Stefndi hafnar því einnig að yfirlýsing á lánsumsókn sé til marks um þetta. Það orðalag sem stefnandi vísi til hafi það að markmiði að vekja athygli lántaka á þeirri áhættu sem fylgi lántöku í erlendum gjaldmiðlum og því að áhrif gengisbreytinga geti haft áhrif á lánsfjárhæð og greiðslubyrði lánsins ef miðað er við jafnvirði íslenskra króna, enda sé ekki annað vitað en að  lántaki hafi haft tekjur í þeirri mynt. Stefndi mótmælir einnig þeirri fullyrðingu að það hafi þýðingu að orðið ,,höfuðstóll“ sé í upphafi skuldabréfsins notað í eintölu í skuldabréfinu. Þá er mótmælt hugleiðingum stefnanda um að ákvæði um myntbreytingar gefi vísbendingu um að lánið hafi verið í íslenskum krónum. Sama eigi við um heimild lánveitanda til þess að reikna skuldina í íslenskar krónur við gjaldfellingu og beita íslenskum dráttarvöxtum. Að mati stefnda er þetta ákvæði þvert á móti til frekari stuðnings á því að lánið sé raunverulega í erlendum gjaldmiðlum en ekki íslenskum krónum, enda væri engin þörf á því að umreikna eða breyta skuldinni úr erlendum gjaldmiðlum í íslenskar krónur ef lánið væri frá öndverðu í íslenskum krónum og eingöngu bundið við gengi erlendra gjaldmiðla. Að því er varðar yfirlit yfir stöðu lánsins sem stefnandi hefur vísað til bendir stefndi á að um sé að ræða yfirlit sem sé kallað fram úr lánakerfi stefnda og ekki sent lántökum nema samkvæmt sérstakri beiðni. Umrætt lánakerfi stefnda sé þannig úr garði gert að sérstaklega þurfi að óska eftir því að yfirlitið sé kallað fram úr kerfinu í íslenskum krónum en mögulegt sé að kalla fram slík yfirlit í jafnvirði íslenskra króna eða í þeim gjaldmiðlum sem lánið raunverulega samanstendur af. Einnig er bent á að lánið hafi verið gjaldfallið þegar yfirlitið var gert og þá búið að umreikna það í íslenskar krónur. Tilvísun stefnanda til 36. gr. a. og b. laga nr. 7/1936 er mótmælt sem þýðingarlausri í málinu. Þá verði jafnframt í þessu tilliti að líta til þess að um sé að ræða viðskiptabréf sem hafi að geyma geyma tæmandi lýsingu á þeim réttindum sem það veitti og þeim takmörkunum sem á þeim réttindum kunna að vera. Telji dómurinn lánssamninginn ekki vera lán í japönskum jenum og svissneskum frönkum telur stefndi að miða eigi við að lánið hafi verið í bandaríkjadölum. Niðurstaða Í samræmi við þau viðmið sem lögð hafa verið til grundvallar í dómum Hæstaréttar er í máli þessu fyrst til þess að líta að heiti áðurlýsts skuldabréfs bendir til þess að um sé að ræða lán í erlendum gjaldmiðlum. Í annan stað eru fjárhæðir í erlendum myntum tilgreindar í meginmáli bréfsins en jafnvirði þessara fjárhæða í íslenskum krónum. Í þriðja lagi samrýmast vaxtaákvæði bréfsins því að um lán í erlendum myntum sé að ræða, þ.á m. ákvæði sem gera ráð fyrir REIBOR-vöxtum í því tilviki að lán eða hluti láns sé í íslenskum krónum. Að mati dómara benda skilmálar skuldabréfsins, svo sem heimildir til skuldfærslu afborgana í aðra gjaldmiðla, ákvæði um mynbreytingar og umreikning í íslenskar krónur við gjaldfellingu, ekki til þess að um hafi verið að ræða gengistryggt lán í íslenskum krónum. Á það verður fallist að gögn vegna umsóknar lántaka um téð lán hafi ekki verið fyllilega skýr um það hvort um var að ræða lán í erlendum gjaldmiðlum eða lán í íslenskum krónum. Einnig liggur fyrir að greitt var af láninu í íslenskum krónum og það tilgreint í íslenskum krónum á stöðuyfirliti sem gefið var út eftir lokagjalddaga þess. Þessi atriði nægja þó ekki til þess að líta beri á lánið sem gengistryggt lán þegar efni skuldabréfs er fortakslaust, svo sem hér um ræðir. Í því máli sem hér um ræðir fær sú niðurstaða enn frekari stoð í því að umrætt lán var greitt út í bandaríkjadölum og var því aldrei um það að ræða að íslenskar krónur skiptu um hendur við afgreiðslu lánsins til lántaka. Að öllu virtu er það álit dómsins að atvik málsins séu í reynd efnislega sambærileg atvikum þess máls sem skorið var úr með dómi Hæstaréttar 7. júní 2012 í máli nr. 524/2011 og laut að skuldabréfi með samskonar orðalagi. Í ljósi síðari dómaframkvæmdar Hæstiréttur, sbr. t.d. dóma 5. desember 2013 í máli nr. 446/2013, 19. desember 2013 í máli nr. 499/2013 og 27. mars 2014 í máli nr. 750/2013, getur fordæmisgildi dómsins fyrir úrlausn málsins ekki orkað tvímælis. Samkvæmt þessu verður stefndi sýknaður af kröfu stefnanda. Eftir úrslitum málsins verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 750.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Af hálfu stefnanda flutti málið Ásgeir Þór Árnason hrl. Af hálfu stefnda flutti málið Magnús Fannar Sigurhansson hdl. Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð Stefndi, Íslandsbanki hf., er sýkn af kröfu stefnanda, Drómundar hf.                 Stefnandi greiði stefnda 750.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 580/2014
Sveitarfélög Skattur Gatnagerðargjald
A ehf. stóð að því að hús á lóð að Stakkholti 2 til 4 voru rifin og nýtt fjöleignarhús reist í þeirra stað. Ágreiningur aðila stóð um álagningu gatnagerðargjalds vegna nýbyggingarinnar. R hafði á grundvelli fyrri málsliðar 5. mgr. 3. gr. laga nr. 153/2006 um gatnagerðargjöld lagt á fullt gatnagerðargjald vegna fermetrafjölda sem svaraði til mismunar á stærð nýbyggingarinnar og þeirra bygginga sem fyrir voru. A ehf. bar því hins vegar við að haga skyldi útreikningi í slíkum tilvikum á annan veg, þannig að „inneign“ gatnagerðargjalda vegna húsanna, sem áður stóðu á lóðinni og voru í hærri gjaldflokki, kæmi til skuldajafnaðar á móti álögðu gatnagerðargjaldi. Hæstiréttur sýknaði R af fjárkröfu A ehf. með skírskotun til þess að skýra bæri upphafsmálslið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 153/2006 svo, með hliðsjón af 2. og 5. mgr. sömu greinar, sbr. og lokamálslið 4. mgr., að innheimta skyldi fullt gjald af þeim fermetrafjölda byggingar, sem stækkun hennar næmi, þegar notkun húsnæðis væri breytt þannig að byggingin færðist úr hærri gjaldflokki í lægri.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. september 2014. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 53.073.534 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. mars 2013 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Snýst ágreiningur aðila meðal annars um það hvernig skýra beri ákvæði laga nr. 153/2006 um gatnagerðargjöld, einkum 5. mgr. 3. gr. þeirra. Heldur áfrýjandi því fram að samkvæmt síðastgreindu lagaákvæði hafi stefnda borið að taka fullt tillit til „inneignar“ sinnar í formi hærri gjaldflokks gatnagerðargjalda vegna niðurrifs atvinnuhúsnæðis og endurbyggingar íbúðarhúsnæðis í þess stað. Stefndi telur aftur á móti að honum hafi verið heimilt að innheimta óskert gatnagerðargjald af húsnæðinu, sem stækkuninni nam, á grundvelli áðurgreindra laga. Í 3. gr. laga nr. 153/2006 er kveðið á um gjaldstofn gatnagerðargjalds sem sveitarstjórn skal innheimta af fasteignum í þéttbýli. Samkvæmt 2. mgr. þeirrar lagagreinar er meginreglan sú að stofn til álagningar gatnagerðargjalds er fermetrafjöldi byggingar á tiltekinni lóð. Í 3. til 5. mgr. greinarinnar er þessi regla nánar útfærð eins og tekið var fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 153/2006. Verður við skýringu á þeim ákvæðum að taka mið af því. Þannig er í 5. mgr. 3. gr. fjallað um gjaldtöku vegna breytinga á notkun húsnæðis. Í fyrri málslið hennar segir að þegar veitt sé byggingarleyfi fyrir endurbyggingu, breytingu eða breyttri notkun byggingar þannig að hún færist í hærri gjaldflokk samkvæmt samþykkt sveitarfélagsins, sbr. 4. gr. laganna, skuli greiða gatnagerðargjald af fermetrafjölda viðkomandi húsnæðis sem svari til mismunar hærri og lægri gjaldflokksins. Í síðari málsliðnum er kveðið á um að lóðarhafi, eða byggingarleyfishafi þar sem það eigi við, eigi ekki rétt á endurgreiðslu ef bygging færist í lægri gjaldflokk við slíka breytingu. Eins og umrædd málsgrein er úr garði gerð er þar augljóslega verið að mæla fyrir um tvær ólíkar reglur um álagningu gatnagerðargjalds þegar notkun húsnæðis er breytt. Ef breytingin leiðir til þess að bygging færist úr lægri gjaldflokki í hærri skal greiða gatnagerðargjald af fermetrafjölda hennar sem svarar til mismunar gjaldflokkanna, en ef hið gagnstæða gerist að bygging færist úr hærri gjaldflokki í lægri stofnast ekki neinn réttur til endurgreiðslu. Leggja verður til grundvallar að ástæðan fyrir því að síðastgreint orð sé notað í því sambandi sé að verið er að útfæra meginreglu 2. mgr. lagagreinarinnar miðað við að engin önnur breyting eigi sér stað, til dæmis við endurbyggingu húsnæðis, en að notkun þess sé breytt þannig að byggingin færist úr hærri gjaldflokki í lægri. Í því tilviki kemur ekki til neinnar endurgreiðslu til lóðar- eða byggingarleyfishafa úr hendi sveitarfélags. Í upphafsmálslið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 153/2006 segir að gatnagerðargjald skuli innheimt ef reist er ný og stærri bygging í stað annarrar á sömu lóð sem stækkuninni nemur. Skýra ber þetta ákvæði svo, með hliðsjón af 2. og 5. mgr. lagagreinarinnar, sbr. og lokamálslið 4. mgr., að innheimta skuli fullt gjald af þeim fermetrafjölda byggingar, sem stækkun hennar nemur, þegar notkun húsnæðis er breytt þannig að byggingin færist úr hærri gjaldflokki í lægri. Þegar af þeirri ástæðu ber að staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms, þar með talið um málskostnað. Eftir þessum málsúrslitum verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2014.                 Mál þetta, sem var dómtekið 9. apríl sl. er höfðað 4. október 2013. Stefnandi er Arcus ehf., Fossaleyni 16, Reykjavík en stefndi er Reykjavíkurborg, Ráðhúsi Reykjavíkur, Reykjavík.                 Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 53.073.534 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð frá 15. mars 2013 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar.                 Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar. I                 Ekki er teljandi ágreiningur um málsatvik í máli þessu. Stefnandi málsins er byggingaverktaki sem á lóðina Stakkholt 2-4 í Reykjavík. Á lóðinni stóðu áður hús Hampiðjunnar sem munu hafa verið byggð 1934 og á árunum þar á eftir. Lóðin að Stakkholti 3 var sameinuð Stakkholti 2-4 þann 5. febrúar 2013 en á þeirri lóð stóð „Gamli Málleysingjaskólinn“ sem mun hafa verið reistur árið 1927. Veitt var heimild til að rífa hús á fyrrnefndum lóðum 12. september 2006 og voru húsin rifin í kjölfarið. Byggingaleyfi var samþykkt fyrir Stakkholt 2-4 þann 12. febrúar 2013 og samkvæmt því heimilað að reisa þar íbúðarhúsnæði. Vegna útgáfu þess byggingaleyfis lagði stefndi gatnagerðargjöld á stefnanda að fjárhæð 59.989.477 krónur með gjalddaga 4. mars 2013. Stefnandi greiddi umrætt gjald 15. sama mánaðar en gerði fyrirvara um réttmæti þess. Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um endurgreiðslu gjaldsins að því marki sem hann telur það ólögmætt, en hann fellst á að hann eigi að greiða 888.846 krónur.                 Eftir breytingar sem stefnandi gerði á kröfu sinni undir rekstri málsins er ekki ágreiningur um tölur eða fjárhæðir. Ágreiningur málsins lýtur eingöngu að því hvernig haga skal frádrætti frá álögðu gatnagerðagjaldi vegna þess að byggingar þær sem reisa á eru umtalsvert stærri en þær sem voru rifnar en eru einnig í lægri gjaldflokki. Liggur fyrir að sá hluti hinna eldri bygginga sem voru rifnar og töldust atvinnuhúsnæði voru samtals 7.437,5 fermetrar. Samkvæmt gjaldskrá þegar hin umdeildu gatnagerðargjöld voru lögð á nam gjald fyrir fermetra atvinnuhúsnæðis 17.050 krónum en gjald fyrir hvern fermetra í íbúðarhúsnæði nam 9.795 krónum. Byggir stefnandi á að margfalda beri fjölda rifinna fermetra atvinnuhúsnæðis með mismun umræddra gjaldflokka og draga þá tölu sem þá fæst að fullu frá heildarfjárhæð álagðra gjalda á hið nýja húsnæði. Stefndi telur á hinn bóginn að leggja beri full gatnagerðargjöld á þann fermetrafjölda sem hin nýja bygging er stærri en sú sem rifin var. II                 Stefnandi byggir á því að stefndi hafi ranglega lagt á hann gatnagerðargjald vegna byggingarleyfis á lóðinni Stakkholt 2-4 í Reykjavík. Telur stefnandi að inneign gatnagerðargjalda vegna húsa sem áður stóðu á lóðinni eigi að koma að fullu til skuldajafnaðar á móti álögðum gatnagerðargjöldum. Nemur dómkrafa stefnanda í málinu þeirri fjárhæð sem hann telur stefnda hafa ofkrafið hann um.                 Undir rekstri málsins lækkaði stefnandi kröfu sína og færði þannig til samræmis við útreikning stefnda á fjölda fermetra hinna eldri bygginga sem töldust atvinnuhúsnæði. Gerir stefnandi því ekki ágreining um að stefndi hafi reiknað rétt við álagningu gatnagerðargjaldsins en ber aðeins brigður á lagalegar forsendur álagningarinnar. Telur hann að samkvæmt réttri álagningu hefði honum borið að greiða 888.466 krónur í gatnagerðargjald. Stefnandi hafnar sjónarmiðum stefnda um að gjaldið skuli reikna þannig að borga skuli fullt gatnagerðargjald af þeim fermetrum húsnæðis sem séu umfram þá fermetra sem rifnir hafi verið.                 Kveður stefnandi að munur á inneign skv. hærra gjaldi á eldra hús og lægra gjaldi af nýju húsi sem sé lögvarin eign stefnanda falli með aðferð stefnda niður dauð og ómerk. Grundvöllur álagningar stefnda á gatnagerðagjaldi sé samþykkt um gatnagerðargjald í Reykjavíkurborg nr. 725/2007 sbr. samþykkt nr. 311/2010.  Þessi samþykkt sé sett með stoð 12. gr. l. nr. 153/2006 um gatnagerðargjald.  Í 3. mgr. 5. gr. samþykktar um gatnagerðargjald í Reykjavík  kemur fram:  „þegar veitt er leyfi fyrir endurbyggingu, breytingu eða breyttri notkun byggingar þannig að hún á undir hærri gjaldflokk samkvæmt 6. gr., skal greiða gatnagerðargjald af flatarmáli viðkomandi húsnæðis sem svarar til mismunar hærri og lægri gjaldflokksins.  Lóðarhafi eða byggingarleyfishafi þar sem það á við á ekki rétt á endurgreiðslu ef bygging færist í lægri gjaldflokk við slíka breytingu“.                  Ákvæðið sé nánast samhljóða 5. mgr. 3. gr. laga nr. 153/2006 um gatnagerðargjald sem sé svohljóðandi:  „Þegar veitt er byggingaleyfi fyrir endurbyggingu, breytingu eða breyttri notkun byggingar þannig að hún færist í hærri gjaldflokk samkvæmt samþykkt sveitarfélagins sbr. 4. gr., skal greiða gatnagerðargjald af fermetrafjölda viðkomandi húsnæðis sem svarar til mismunar hærri og lægri gjaldflokksins.  Lóðarhafi, eða byggingaleyfishafi þar sem það á við, á ekki rétt á endurgreiðslu ef bygging færist í lægri gjaldflokk við slíka breytingu“.                 Stefnandi kveðst byggja á því að gatnagerðargjald sé skattur og álagning þess verði að vera í samræmi við fyrirmæli 40. gr. og 77. gr. stjórnarskrárinnar.  Lagaheimild til skattálagningar verði að vera skýr og afdráttarlaus, og óheimilt sé að fela stjórnvöldum, þ.m.t. sveitarstjórnum skattlagningarvald.  Þannig verði að túlka óljós fyrirmæli laga skattþola í vil, enda ella verið að fela stjórnvaldi skattlagningarvald sem standist ekki fyrirmæli tilvitnaðra stjórnarskrárákvæða.                 Í þessu máli sé ágreiningslaust að húsnæði í hærra gjaldflokki hafi verið rifið og veitt byggingaleyfi fyrir stærra húsnæði í lægri gjaldflokki.  Ennfremur liggi fyrir að inneign í hærra gjaldi sé mun hærri heldur en sú fjárhæð sem stefndi hafi fallist á að draga frá álögðum skatti á nýbyggingu stefnanda.  Stefnandi byggi á því að samþykkt um gatnagerðargjald í Reykjavíkurborg veiti stefnda ekki rýmri skattlagningarheimild en geti falist í lögum nr. 153/2006 um gatnagerðargjald.  Jafnframt sé á því byggt að túlka verði skattlagningarheimildir stefnda skv. lögum nr. 153/2006 til samræmis við grundvallarreglu þá sem fram komi í 40. gr., sbr. 77. gr. stjórnarskrárinnar.                 Á því sé byggt að inneign stefnanda vegna hærri gjaldflokks byggingarinnar sem rifin hafi verið eigi að koma að fullu til frádráttar við álagningu gatnagerðargjalds vegna þeirrar byggingar sem stefnandi sé nú að reisa í stað þeirrar sem rifin hafi verið.  Hins vegar sé fallist á að stefnandi geti aldrei átt rétt til endurgreiðslu inneignar sem sé umfram það sem nemi ætluðu gjaldi af nýbyggingu.  Stefnandi telji útreikning og álagningu stefnda ólögmæta þar sem stefndi virði í aðferðafræði sinni í engu inneign stefnanda á hærra gjaldi sem honum beri skv. fyrirmælum laga.  Á því sé byggt að inneign stefnda sem honum sé áskilinn í 5. mgr. 3. gr. l. nr. 153/2006 sé eign sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar og verði ekki af honum tekin með einfaldri einhliða ákvörðun, eða geðþótta stefnda.                 Stefnandi byggi kröfur sínar á 5. mgr. 3. gr. l. nr. 153/2006 og að túlka beri ákvæðið með þeim hætti að réttur til skuldajafnaðar hærra gjalds við það lægra haldist en afdráttarlaust sé kveðið á um að lóðarhafi eða byggingaleyfishafi þegar það eigi við eigi ekki rétt til endurgreiðslu eftirstöðva ef bygging sé rifin og ný bygging færist í lægri gjaldflokk við slíka breytingu.  Á því sé byggt að heimildarlaust sé að álykta að inneign vegna hærri gjaldflokks byggingar falli niður og miða eigi við fermetra á móti fermetra, enda ákvæði 5. mgr. 3. gr. ekki orðað með þeim hætti.                 Þá sé á því byggt að lögskýringagögn styðji málsástæður og dómkröfur stefnanda.  Í upphaflegu frumvarpi, sem orðið hafi að lögum nr. 153/2006, hafi 5. mgr. 3. gr. verið orðuð svo:  „Þegar veitt er byggingaleyfi fyrir endurbyggingu, breytingu eða breyttri notkun byggingar þannig að hún færist í hærri gjaldflokk samkvæmt samþykkt sveitarfélagsins sbr. 4. gr., skal greiða gatnagerðargjald að því marki sem það er ekki innifalið í því gatnagerðargjaldi sem þegar hefur veri greitt.  Lóðarhafi, eða byggingarleyfishafi þar sem það á við, á ekki rétt á endurgreiðslu ef bygging færist í lægri gjaldflokk við slíka breytingu“.                 Í greinargerð með þessu ákvæði frumvarpsins sagði m.a.:  „Ef sveitarfélag kýs að nýta sér heimildir 5. gr. frumvarpsins og ákvarða mismunandi álagningu gatnagerðargjalds á einstakar tegundir húsnæðis er jafnframt gert ráð fyrir að eigandi húsnæðisins eigi inneign sem nemur gatnagerðargjaldi af samskonar húsnæði og rifið var, miðað við gildandi gjaldskrá þess tíma þegar nýtt byggingaleyfi er gefið út.  Ef gatnagerðargjald af nýju húsnæði er hærra en framangreind inneign skal mismunur innheimtur.“                  Af þessu verði ekki önnur ályktun dregin en að vilji löggjafans hafi staðið til þess að full inneign hærra gjaldsins nýttist lóðar- eða byggingaleyfishafanum, en hann ætti ekki rétt til endurgreiðslu mismunar inneignar sinnar úr hendi sveitarfélags, en inneign nýttist að öðru leyti til fulls til skuldajafnaðar.                 Ákvæðið hafi breyst í meðförum þingsins þar sem í nefndaráliti félagsmálanefndar hafi verið lögð til minniháttar breyting á 5. mgr. 3. gr. frumvarpsins þar sem það hafi verið sagt orðað með skýrari hætti en verið hafi í upphaflegu frumvarpi.  Ekki hafi verið vikið að því að um efnisbreytingu á ákvæðinu væri að ræða.  Stefnandi byggi á því að í fyrsta málslið 5. mgr. 3. gr. frumvarpsins sé einungis vikið að þeirri aðstöðu ef bygging færist í hærri gjaldflokk, þá skuli innheimt viðbótargjald.  Ástæða þess sé sú að ef bygging færist í lægri gjaldflokk þá leiði það ekki sjálfkrafa til þess að gjaldskylda stofnist.  Þess vegna sé einungis kveðið á um í síðasta málslið ákvæðisins að lóðarhafi eða byggingaleyfis hafi eigi ekki rétt til endurgreiðslu úr hendi sveitarfélags ef inneign eldra gjalds sé hærri en reiknað væntanlegt gjald vegna endurbyggingar í lægri gjaldflokki.  Ef ætlunin hefði verið að svipta eiganda inneignar hærra gjalds skuldajöfnunarrétti hefði þurft að taka það fram berum orðum.                 Á því sé byggt að skattlagningarheimildir beri að túlka þröngt og í ljósi banns stjórnarskrárinnar við framsali skattlagningarvalds til stjórnvalda verði skattar ekki lagðir á stefnanda á grundvelli svo óskýrrar og langsóttrar lagatúlkunar sem felist í túlkun stefnda á 3. mgr. 5. gr. samþykktar um gatnagerðargjald í Reykjavíkurborg nr. 725/2007 sbr. ákvæði 5. mgr. 3. gr. laga nr. 153/2006.  Ekki sé í lögum að finna beina heimild til álagningar viðbótargatnagerðargjalds umfram „mismun hærri og lægri gjaldflokksins“ eins og orðað sé í 5. mgr. 3. gr. laga nr. 153/2006.  Jákvæð inneign hærri gjalda umfram lægri álögð gjöld sé hins vegar ekki til útborgunar í reiðufé sbr. lokamálsliður 5. mgr. 3. gr. laga nr. 153/2006.                 Á því sé byggt að ákvæði 5. mgr. 3. gr. laga nr. 153/2006 kveði berum orðum á um að greiða skuli gatnagerðargjald af fermetrafjölda viðkomandi húsnæðis sem svari til mismunar hærri og lægri gjaldflokksins.  Innheimta viðbótagjaldsins sem stefnanda hafi verið gert að greiða stefnda umfram 888.466 krónur hafi því verið ólögmæt og endurgreiðsluskylda stefnda fyrir stefnufjárhæðinni því ótvíræð.                  Stefnandi hafi greitt hina ofteknu skatta 15. mars 2013 með fyrirvara um réttmæti kröfunnar sem sendur hafi verið stefnda með tölvupósti 14 mars 2013.  Stefnandi byggi á því að hann eigi rétt til dráttarvaxta af hinum ofteknu sköttum frá greiðsludegi vegna þess og vísi því til stuðnings til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.  Réttur stefnanda til endurgreiðslu oftekinna skatta sé skýr og ótvíræður sbr. 1. gr. laga nr. 29/1995 og beri stefnda skilyrðislaust að endurgreiða stefnanda stefnufjárhæðina.                 Stefnandi kveðst vísa til 40. gr. 72. gr.  og 77 gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, til 5. mgr. 3. gr. laga nr. 153/2006, til 1. og 2. gr. laga nr. 29/1995 og til ákvæða laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.  Þá vísar stefnandi til 5. gr. samþykktar um gatnagerðargjald í Reykjavíkurborg nr. 725/2007 sbr. samþykkt nr. 311/2010.                 Við munnlegan málflutning mótmælti stefnandi því að krafa hans um málskostnað yrði ekki tekin til greina þó skort hefði á að hann vísaði í stefnu til lagaákvæða kröfunni til stuðnings. Krafan styddist við ákvæði 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. III                 Í greinargerð stefnda byggir hann á því kröfum sínum til stuðnings að skattamálum sé skipað með lögum, sbr. 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og að sveitarfélögum sé skylt á grundvelli núgildandi laga um gatnagerðargjald nr. 153/2006 að innheimta gatnagerðargjald af fasteignum í þéttbýli og ákveða innan marka laganna hvernig sá gjaldstofn sé nýttur, sbr. 1. gr. og 1. mgr. 3. gr. laganna Innheimta gatnagerðargjalds sé í eðli sínu almenn skattheimta, bæði á grundvelli laga nr. 153/2006 og eldri laga nr. 17/1996, þó svo að ákvæði 2. gr. laga nr. 17/1996 svipi til þjónustugjaldaheimildar.                 Þegar stefndi hafi innheimt gatnagerðargjald af byggingunni að Stakkholti 2-4 með greiðsluseðli með gjalddaga 4. mars 2013 hafi verið gengið út frá því að vegna heimildar til niðurrifs eldri byggingar sem veitt hafi verið í september 2006 hafi stefnandi átt „inneign“ eða rétt til afsláttar á heildar gatnagerðargjöldum eins og lög nr. 17/1996, sem í gildi hafi verið þegar heimild til niðurrifs hafi verið veitt, hafi kveðið á um. Í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 17/1996 komi fram að heimilt sé að innheimta gatnagerðargjald ef reist sé nýtt hús á áður byggðri lóð að því er stækkun nemi. Ákvæðið hafi nánar tiltekið falið í sér þá reglu að þegar búið hafi verið að greiða gatnagerðargjald í eitt skipti hafi ekki verið greitt gatnagerðargjald á sömu lóð, nema því sem numið hafi stækkun, hvort sem um hafi verið að ræða nýtt stærra hús eða stækkun við eldra hús á sömu lóð.                 Eins og fyrir liggi í gögnum málsins hafi lóðinni að Stakkholti 2-4 verið úthlutað til Hampiðjunnar hf. og hafi verið leigð henni árið 1934 og hafi bygging á lóðinni verið reist það sama ár. Það hafi aftur á móti ekki verið fyrr en með samþykkt borgarráðs 15. júlí 1958 að þeir sem hafi fengið úthlutað lóðum hafi skuldbundið sig að taka þátt í kostnaði við gatnagerð. Litið hafi verið svo á að um væri að ræða samningsbundna greiðslu í tengslum við úthlutun leigulóða en ekki skattheimtu. Það hafi síðan verið með lögum um gatnagerðargjöld nr. 51/1974 sem sveitarfélögum hafi verið heimilað að innheimta gatnagerðargjald af hverri lóð áður en þar hafi verið veitt byggingarleyfi. Í 2. málsl. 1. gr. laga nr. 51/1974 komi fram að heimilt sé „að krefja gatnagerðargjald, ef reist er nýtt hús á lóð, sem áður var byggð“.                 Við yfirferð þessa máls og öflunar gagna í kjölfar málshöfðunar hafi komið í ljós að gatnagerðargjöld af þeirri byggingu sem áður hafi verið hús Hampiðjunnar hf. á lóð nr. 2-4 við Stakkholt hafi hvorki verið lögð á né þau greidd enda hafi lóðinni verið úthlutað til leigu og hús á henni byggð fyrir þann tíma er stefndi hafi byrjað að innheimta og/eða hafi með lögum verið gert skylt að leggja gatnagerðargjöld á allar byggingar. Ófrávíkjanleg forsenda þess að „inneign“ eða afsláttur myndist sé sú að greidd hafi verið gatnagerðargjöld af byggingu sem fyrir hafi verið á lóðinni og því einvörðungu greitt fyrir þá fermetra sem ný bygging sé umfram þá eldri. Í máli þessu hafi stefndi ranglega gert ráð fyrir því að stefnandi ætti ekki að greiða full gatnagerðargjöld eins og meginregla laga nr. 153/2006 kveði á um. Þegar af þeirri ástæðu að engin inneign hafi verið fyrir hendi og fyrir liggi að stefnandi hefði með réttu átt að greiða fullt gatnagerðargjald vegna nýbyggingar beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.                        Verði ekki fallist á framangreinda málsástæðu sé á því byggt að stefnda hafi borið að innheimta gatnagerðargjöld á grundvelli 2. mgr. 3. gr. laga nr. 17/1996 sem nemi stækkun nýrrar byggingar sem reist sé á þegar byggðri lóð m.v. eldri hús enda hafi þau atvik sem ráði skattskyldu, þ.e. heimild til niðurrifs, orðið til í gildistíð þeirra laga. Heimild til niðurrifs húss á lóðinni Stakkholt 2-4 hafi verið veitt í september 2006. Lög um gatnagerðargjald nr. 153/2006 hafi tekið gildi 1. júlí 2007. Ljóst sé að „inneign“ eða réttur stefnanda til afsláttar hafi myndast í tíð eldri laga nr. 17/1996. Útgáfa byggingarleyfis og álagning gatnagerðargjalds hafi farið fram eftir að núgildandi lög nr. 153/2006 hafi verið sett.                 Í öðru ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 153/2006 sé kveðið svo á að samningar um gatnagerðargjöld af tilteknum lóðum, sem lóðarhafar eða lóðareigendur hafi gert við sveitarstjórnir, svo og skilmálar varðandi gatnagerðargjald sem sveitarstjórn hafi sett og lóðarhafi eða lóðareigandi hafi undirgengist, haldi gildi sínu þrátt fyrir ákvæði laga nr. 153/2006, nema aðilar séu um annað sáttir.                 Ákvæði 2. mgr. 3. gr. laga nr. 17/1996 feli, eins og fram hafi komið, í sér þá reglu að þegar búið sé að greiða gatnagerðargjald af húsi í eitt skipti sé ekki greitt gatnagerðargjald af því, nema að því leyti sem nemi stækkun, hvort sem um sé að ræða nýtt stærra hús eða stækkun við eldra hús. Í þessu sambandi sé áréttuð framangreind málsástæða um að gatnagerðargjöld hafi ekki verið greidd af eldra húsnæði á lóðinni Stakkholt 2-4. Við ákvörðun gatnagerðargjalds skuli miða við lóðarstærð, rúmmál húss og/eða flatarmál húss skv. nánari reglugerð ráðherra nr. 543/1996. Þá sé heimilt að taka mismunandi gjald eftir notkun lóðar. Í 8. gr. reglugerðarinnar sé kveðið á um heimild til innheimtu gatnagerðargjalds sem nemi stækkun m.v. það hús sem rifið hafi verið eða fjarlægt.                 Með lögum nr. 153/2006 hafi löggjafinn aftur á móti nú ákveðið að fullt gatnagerðargjald skuli innheimt af byggingum sem reistar séu á grunni eldri bygginga þegar liðin séu fimm ár frá því að heimild hafi verið veitt til niðurrifs eldri byggingar, sbr. 4. mgr. 3. gr. Þegar stefndi hafi fengið útgefið byggingarleyfi vegna Stakkholts 2-4 hafi verið liðin meira en fimm ár frá því að heimild til niðurrifs hafi verið veitt. Þar sem heimild til niðurrifs hafi verið veitt í gildistíð eldri laga nr. 17/1996 fari um „inneign“ eða rétt til afsláttar eftir þeim lögum enda hafi hann skapast á þeim grundvelli. Um fjárhæð gjaldsins þegar búið sé að taka tillit til „inneignar“ eða afsláttar fari aftur á móti eftir núgildandi lögum nr. 153/2006 enda hafi skylda til greiðslu skapast í tíð þeirra laga.                 Með vísan til þessa hafi því stefnda borið að innheimta gatnagerðargjöld og hafi farið um „inneign“ eða rétt til afsláttar eftir ákvæði 2. mgr. 3. gr. laga nr. 17/1996 sem nemi stækkun nýrrar byggingar sem reist sé á þegar byggðri lóð m.v. eldri hús enda hafi þau atvik sem ráði skattaskyldu, þ.e. heimild til niðurrifs, orðið í gildistíð þeirra laga. Vegna þessa hafi því einungis verið innheimt gatnagerðargjald sem numið hafi stækkun húss í fermetrum m.v. eldri hús eins og lagaákvæðið kveði skýrt á um en ekki t.a.m. fullt gatnagerðargjald á grundvelli 4. mgr. 5. gr. laga. nr. 153/2006 eins og skylt sé nú þegar liðin séu meira en fimm ár frá niðurrifi byggingar. Vegna þessa beri að sýkna stefnda.                 Stefnandi grundvalli málatilbúnað sinn alfarið á núgildandi lögum um gatnagerðargjald nr. 153/2006 og á því að samþykkt um gatnagerðargjald í Reykjavík nr. 725/2007, sem birt hafi verið í B-deild Stjórnartíðinda 12. júlí 2007 ásamt breytingum sem birtar hafi verið á sama stað 4. mars 2010, sé í andstöðu við lögin. Þrátt fyrir þá afstöðu stefnda að „inneign“ eða réttur stefnanda til afsláttar hafi ekki verið fyrir hendi og ef ekki verði fallist á það að framangreint hafi myndast í tíð eldri laga nr. 17/1996 og fari því um hana eftir þeim lögum þyki rétt að fjalla einnig um núgildandi lög. Sé það gert svo unnt sé að svara rangfærslum í málatilbúnaði stefnanda.                 Sú meginregla gildi að sveitarfélögum sé skylt að innheimta skattinn gatnagerðargjald af öllum nýbyggingum í sveitarfélaginu hvort sem um sé að ræða nýjar byggingar í heild eða að hluta s.s. stækkanir bygginga. Stofn til álagningar gatnagerðargjalds sé fermetrafjöldi byggingar á tiltekinni lóð og þá skuli gatnagerðargjald innheimt vegna stækkunar byggingar sem nemi fermetrafjölda stækkunar, sbr. 2. og 3. mgr. 3. gr. laga nr. 153/2006.                 Í 4. mgr. 3. gr. laga nr. 153/2006 sé undantekning frá framangreindri meginreglu en þar komi fram að innheimta skuli gatnagerðargjald ef reist sé ný og stærri bygging í stað annarrar á sömu lóð sem stækkuninni nemi og gildi sú regla um byggingar sem samþykkt sé byggingarleyfi fyrir allt að fimm árum eftir að leyfi hafi verið gefið út fyrir niðurrifi byggingar en að öðrum kosti skuli greiða fullt gagnagerðargjald. Einnig komi fram að ef hin nýja bygging sé annarrar tegundar eða til annarrar notkunar en hið eldra húsnæði gildi ákvæði 5. mgr. sama lagaákvæðis. Nauðsynlegt þyki að árétta að fimm ára reglan feli í raun í sér afslátt af gatnagerðargjaldi á grundvelli nýs byggingarleyfis og að greiðsla eftir það tímamark feli í sér fulla greiðsluskyldu á grundvelli nýs byggingarleyfis enda taki gjaldskyldan til lóðarhafa eða byggingarleyfishafa þar sem það eigi við, sbr. 2. gr. laga nr. 153/2006.                 Í 1. ml. 5. mgr. 3. gr. segi að þegar „veitt [sé] byggingarleyfi fyrir endurbyggingu, breytingu eða breyttri notkun byggingar þannig að hún færist í hærri gjaldflokk samkvæmt samþykkt sveitarfélagsins, sbr. 4. gr., [skuli] greiða gatnagerðargjald af fermetrafjölda viðkomandi húsnæðis sem [svari] til mismunar hærri og lægri gjaldflokksins.“ Framangreint geti ekki átt við þegar bygging færist úr hærri gjaldflokki í lægri skv. skýru orðalagi ákvæðisins. Sú bygging sem heimild hafi verið veitt til að rífa hafi flokkast til atvinnuhúsnæðis meðan hin nýja bygging sé íbúðarhúsnæði. Óumdeilt sé að íbúðarhúsnæðið sé í lægri gjaldflokki en atvinnuhúsnæði og því sé um að ræða tilfærslu úr hærri gjaldflokki í lægri. Eigi framangreindur málsliður lagaákvæðisins því ekki við í máli þessu.                 Í 2. ml. 5. mgr. 3. gr. komi síðan fram að „lóðarhafi, eða byggingarleyfishafi þar sem það [eigi] við, [eigi] ekki rétt á endurgreiðslu ef bygging færist í lægri gjaldflokk við slíka breytingu“. Þar sem 1. ml. 5. mgr. 3. gr. eigi einvörðungu við þegar bygging færist úr lægri gjaldflokki í hærri gjaldflokk þá verði að ætla að í öllum öðrum tilvikum gildi við frádrátt „inneignar“ eða afsláttar meginregla laganna, þ.e. að stofn til álagningar gatnagerðargjalds sé fermetrafjöldi og þá sé greitt það sem nemi fermetraaukningu. Af framangreindri reglu 2. ml. 5. mgr. 3. gr. sé ljóst að endurgreiðsluréttur geti aldrei verið fyrir hendi. Eigi það við hvort sem um sé að ræða beina endurgreiðslu eða endurgreiðslu í formi frekari „inneignar“ eða afsláttar ef sú bygging sem byggð sé í stað þeirrar sem hafi verið rifin sé bæði í lægri gjaldflokki en jafnframt umtalsvert stærri. Meginreglan um að stofn til álagningar gatnagerðargjalds sé fermetrafjöldi sé skýr hvað þetta varði og beri að túlka allar undanþágur frá skýrum skattlagningarheimildum þröngt.                 Eins og fram hafi komið vísi stefnandi til þess að samþykkt Reykjavíkurborgar um gatnagerðargjöld standist ekki ákvæði laga nr. 153/2006. Með 12. gr. laganna sé sveitarfélögum gert skylt að setja sér samþykkt um gatnagerðargjald fyrir sveitarfélagið þar sem eftir atvikum verði kveðið á um álagningu gjaldsins, undanþágur frá því og afslætti o.fl. Ljóst sé að „inneign“ eða réttur til afsláttar sem skapast geti vegna niðurrifs byggingar sé undanþága frá þeirri meginreglu að greiða skuli gatnagerðargjald af öllum nýbyggingum í sveitarfélaginu hvort sem um sé að ræða nýjar byggingar í heild eða að hluta, s.s. stækkanir bygginga.                 Í 2. mgr. 5. gr. samþykktarinnar komi fram að greiða skuli gatnagerðargjald ef reist sé ný bygging í stað annarrar á sömu lóð að því er nemi flatarmálsaukningu ef byggingarleyfi sé samþykkt innan fimm ára frá því að leyfi til niðurrifs hafi verið gefið út en að öðrum kosti sé greitt fullt gatnagerðargjald. Í 3. mgr. sömu greinar komi fram að ekki komi til endurgreiðslu ef bygging færist í lægri gjaldflokk vegna breytingar á notkun.                 Framangreind regla um greiðslu gatnagerðargjalds vegna flatarmálsaukningar sé talin vera í fullu samræmi við ákvæði laga nr. 153/2006 enda ljóst að sú meginregla gildi að stofn til álagningar gjaldsins sé fermetrafjöldi byggingar.                 Þegar „inneign“ eða réttur til afsláttar vegna niðurrifs skapist hafi stefndi ávallt miðað við að í „inneign“ eða rétti til afsláttar felist fermetrafjöldi þeirrar byggingar sem rifin hafi verið og komi þeir til frádráttar m.v. fermetrafjölda hinnar nýju byggingar að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna. Greitt sé fyrir umfram fermetra m.v. þann gjaldflokk sem nýja byggingin tilheyri en ef stærð hinnar nýju byggingar sé minni en þeirrar sem sé fyrir komi ekki til endurgreiðslu. Framkvæmd stefnda sé skýr hvað þetta varði og sé afgreiðsla sambærilegra mála ávallt með sama hætti og því í fullu samræmi við bæði ákvæði stjórnskipunar- og stjórnsýslulaga um jafnræði. Vísist í þessu sambandi til gagna um sambærileg mál sem stefndi hafi lagt fram.                      Stefndi mótmæli dráttarvaxtakröfu stefnanda sérstaklega sem ódómtækri þar sem hún byggi á röngum lagagrundvelli. Í kröfu vísi stefnandi einvörðungu til 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 án þess að geta þess í kröfugerðinni sjálfri að krafan byggi á lögum um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda nr. 29/1995, n.t.t. á 2. mgr. 2. gr. eins og tiltekið sé í stefnu. Sýkna beri stefnda af dráttarvaxtakröfu stefnanda.                 Verði ekki fallist á framangreint geri stefndi sérstaka athugasemd við upphafstíma dráttarvaxta en stefnandi miði upphafstíma dráttarvaxta við þann dag sem greiðsla gatnagerðargjalds vegna Stakkholts 2-4 hafi verið innt af hendi. Stefndi mótmæli þessu og telji að miða eigi upphafstíma dráttarvaxta í fyrsta lagi við dómsuppsögu. Stefndi vísi að öðru leyti til þess, verði talið að um dráttarvexti fari eftir lögum nr. 38/2001, að miða eigi upphafstíma dráttarvaxta við 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 þar sem m.a. komi fram að þegar ekki sé samið um gjalddaga kröfu sé heimilt að reikna dráttarvexti frá og með þeim degi þegar liðinn sé mánuður frá því að kröfuhafi sannanlega hafi krafið skuldara með réttu um greiðslu. Verði að telja að það hafi verið í fyrsta lagi með málshöfðun. Þá vísi stefndi til þess að ef talið verði að ákvæði 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 eigi við í þessu sambandi þá komi þar fram að greiða skuli dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim tíma er gjaldandi sannanlega hafi lagt fram kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra skatta eða gjalda. Krafa stefnanda um endurgreiðslu gatnagerðargjalds hafi sannarlega ekki komið fram fyrr en í fyrsta lagi með málshöfðun þessari.                 Þá mótmæli stefndi málskostnaðarkröfu stefnanda enda sé henni ekki markaður lagagrundvöllur í stefnu, s.s. með tilvísun til þar til gerðra ákvæða laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.                 Með vísan til alls framangreinds sé krafa stefnda um sýknu ítrekuð enda ekkert komið fram um að stefndi hafi beitt rangri eða beinlínis ólöglegri aðferð við útreikning á gatnagerðargjöldum vegna Stakkholts 2-4. Þvert á móti hafi umrædd álagning gatnagerðargjalds verið í fullu samræmi við lög og önnur stjórnvaldsfyrirmæli.                  Stefndi kveðst byggja málatilbúnað sinn m.a. á lögum nr. 153/2006 um gatnagerðargjald, eldri lögum um gatnagerðargjald nr. 51/1974 og nr. 17/1996, reglugerð um gatnagerðargjald nr. 543/1996, samþykkt um gatnagerðargjald í Reykjavíkurborg nr. 725/2007 og breytingu á henni nr. 311/2010 og meginreglum í skattarétti. Þá byggi stefndi á ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og lögum nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Enn fremur byggi stefndi á ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæðum stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 auk almennra ólögfestra réttarreglna stjórnsýslu- og stjórnskipunarréttar ásamt meginreglum sveitarstjórnarréttar.  Málskostnaðarkrafa stefnda byggi á 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. IV                 Eins og fyrr er komið fram veitti stefndi heimild til niðurrifs þeirra bygginga sem stóðu á lóðunum nr. 2-4 og nr. 3 við Stakkholt 12. september 2006. Stefnda var tilkynnt með bréfi byggingastjóra 20. desember 2006 að umrædd hús hefðu verið rifin. Umræddar lóðir voru síðar sameinaðar í lóðina Stakkholt 2-4. Á þessum tíma voru í gildi lög nr. 17/1996 um gatnagerðargjald. Í 2. mgr. 3. gr. þeirra laga var kveðið á um að heimilt væri að innheimta gatnagerðargjald ef reist væri nýtt hús á áður byggðri lóð að því er stækkuninni næmi. Sama gilti ef eldra hús væri stækkað.                 Þann 1. júlí 2007 tóku gildi lög nr. 153/2006 um gatnagerðargjald. Í 1. mgr. 3. gr. laganna kemur m.a. fram að stofn til álagningar gatnagerðargjalds sé fermetrafjöldi byggingar á tiltekinni lóð. Í 4. mgr. sömu lagagreinar greinir að gatnagerðargjald skuli innheimt ef reist er ný og stærri bygging í stað annarrar á sömu lóð sem stækkuninni nemi. Gildi þessi regla um byggingar sem samþykkt sé byggingarleyfi fyrir allt að fimm árum eftir að leyfi hafi verið gefið út fyrir niðurrifi byggingar. Að öðrum kosti skuli greiða fullt gatnagerðargjald. Ef hin nýja bygging sé annarrar tegundar eða til annarrar notkunar en hið eldra húsnæði gildi ákvæði 5. mgr. lagagreinarinnar. Í nefndri 5. mgr. segir að þegar veitt sé byggingarleyfi fyrir endurbyggingu, breytingu eða breyttri notkun byggingar þannig að hún færist í hærri gjaldflokk samkvæmt samþykkt sveitarfélagsins skuli greiða gatnagerðargjald af fermetrafjölda viðkomandi húsnæðis sem svari til mismunar hærri og lægri gjaldflokksins. Lóðarhafi eða byggingaleyfishafi, þar sem það eigi við, eigi ekki rétt á endurgreiðslu ef bygging færist í lægri gjaldflokk við slíka breytingu.                 Eins og ráða má af fyrrnefndu ákvæði laga nr. 17/1996 voru ekki í þeim lögum sambærilegar reglur um „inneign“ eða afslátt af gatnagerðargjaldi sem settar voru í 4. og 5. mgr. 3. gr. laga nr. 153/2006.  Þegar stefnandi lét rífa umrædd hús síðla árs 2006 var því ekki í gildi sambærileg lagaregla og nú gildir, en á grundvelli 2. mgr. 3. gr. laga nr. 17/1996 mátti hann búast við að af honum yrði innheimt gatnagerðargjöld að því marki sem ný hús á umræddri lóð yrðu stærri en þau hús sem rifin voru. Af málatilbúnaði stefnda verður ráðið að hann telji að ákvörðun hans um að innheimta gatnagerðargjöld að því marki sem ný hús hafi verið stærri þeim sem fyrir hafi verið eigi rætur að rekja til nefnds ákvæðis laga nr. 17/1996.                 Eins og fyrr er rakið er í 4. mgr. 3. gr. laga nr. 153/2006 kveðið á um að heimild til að innheimta aðeins gatnagerðargjald, að því marki sem ný bygging sé stærri en sú sem áður hafi staðið á lóð, sé bundin við að byggingarleyfi hafi verið samþykkt áður en fimm ár hafi liðið frá því leyfi hafi verið gefið til niðurrifs. Það er mat dómsins að síðastnefnd regla eigi við um aðstæður stefnanda og að regla 5. mgr. sömu lagagreinar eigi einnig við. Liggur enda fyrir að stefnandi fékk leyfi til að byggja nýtt hús sem var stærra en þau hús sem áður stóðu á umræddri lóð en var einnig í öðrum gjaldflokki. Verður því í málinu að miða við að ákvæði bæði 4. og 5. mgr. 3. gr. laga nr. 153/2006 eigi við um aðstæður stefnanda. Þegar stefnandi fékk byggingaleyfi sitt voru liðin meira en 5 ár frá því niðurrif var heimilað á húsum á lóðinni. Gat stefnandi þegar af þeirri ástæðu ekki átt rétt á frádrætti frá álögðum gatnagerðargjöldum með vísan til ákvæða 4. og 5. mgr. 3. gr. laga nr. 153/2006. Verður sýknukrafa stefnda því tekin til greina.                 Með hliðsjón af þessum málsúrslitum verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn sú fjárhæð sem nánar greinir í dómsorði.                 Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 en dómsuppsaga hefur dregist vegna embættisanna dómara. D Ó M S O R Ð:                 Stefnda, Reykjavíkurborg, er sýkn af kröfum stefnanda, Arcusar ehf., í máli þessu.
Mál nr. 690/2014
Vörumerki
Hæstiréttur staðfesti héraðsdóm þar sem teknar voru til greina kröfur G ehf. á hendur P, um viðurkenningu þess að P væri óheimilt að nota í atvinnustarfsemi sinni auðkennið „gagnaeyðing Norðurlands“ og önnur auðkenni sem innihéldu vörumerkið og firmaheitið „gagnaeyðing“.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. október 2014 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar. Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 15. maí 2014. Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð fimmtudaginn 20. marz 2014, er höfðað 3. október 2013, af Gagnaeyðingu ehf., Bæjarflöt 4, Reykjavík, á hendur Pétri Axel Valgeirssyni, Valagili 2, Akureyri. Dómkröfur Stefnandi gerir þær kröfur að viðurkennt verði að stefnda sé óheimilt að nota í atvinnustarfsemi sinni auðkennið GAGNAEYÐING NORÐURLANDS eða önnur auðkenni sem innihalda vörumerkið og firmaheitið GAGNAEYÐING hvort sem sé á bréfhausum, nafnspjöldum í kynningu, munnlegri eða skriflegri, á heimasíðu, auglýsingum eða á annan sambærilegan hátt.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda. Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnanda. Málavextir Stefnandi er einkahlutafélag og samkvæmt skráningu í hlutafélagaskrá er tilgangur þess „eyðing gagnamiðla og annarra verðmæta með öruggum hætti“.  Kveðst stefnandi hafa verið stofnaður 4. desember 1991 og hafa unnið að starfsemi sinni síðan. Starfsaðstaða stefnanda er í Reykjavík. Stefndi rekur einkafirmað Gagnaeyðingu Norðurlands og mun hafa gert frá ársbyrjun 2013.  Samkvæmt vikublaðsauglýsingu um starfsemina sem liggur fyrir í málinu annast firmað „gagnaeyðingu á bókhalds- og trúnaðargögnum“. Stefnandi er eigandi vörumerkisins GAGNAEYÐING sem skráð er í vöruflokka 7, 8, 16, 39, 41 og 45.  Umsókn um skráninguna var dagsett 17. nóvember 2006 en skráning var gerð 3. ágúst 2007. Samkvæmt frétt sem birtist 12. maí 2011 í vikublaðinu Vikudegi, sem gefið er út á Akureyri, hafði stefnandi haustið áður „þróað nýja þjónustu sem felur í sér að viðhalda póstlista yfir tengiliði fyrirtækja og stofnana á Suður- og Vestur- og Norðurlandi.“  Hefði nafngreindur maður verið ráðinn „starfsmaður Gagnaeyðingar á Norðurlandi“ og er haft eftir honum að hann hafi kynnt fyrirtækið „fyrir stofnunum og fyrirtækjum á svæðinu“.  Sé „hugmyndin að koma upp aðstöðu til móttöku gagna á Akureyri, fyrir Norðurland og jafnvel stærra svæði.“ Í bréfi til stefnda, dagsettu 21. febrúar 2013, sagði stefnandi að stefndi hefði, með því að auglýsa þjónustu undir nafninu GAGNAEYÐING NORÐURLANDS, brotið gegn rétti stefnanda.  Var þess krafizt að stefndi léti tafarlaust af notkun heitisins. Með bréfi til stefnanda, dagsettu 14. marz 2013, hafnaði stefndi kröfunni. Málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi segist byggja málsókn sína á lögum nr. 45/1997 um vörumerki, lögum nr. 42/1903 um verslunarskrár firmu og prókúruumboð og lögum nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Stefnandi segist hafa notað auðkennið GAGNAEYÐING frá stofnun, bæði sem vörumerki og firmaheiti en heitið sé sérkennandi fyrir þjónustu sem stefnandi veiti.  Hafi stefnandi jafnframt verið í forystu hvað varði kröfur til upplýsingaöryggis við meðhöndlun gagna. Sjónarmið um brot gegn lögum nr. 45/1997 um vörumerki. Stefnandi segist byggja kröfur sínar á því að notkun stefnda á auðkenninu GAGNAEYÐING NORÐURLANDS fyrir starfsemi sína feli í sér brot á vörumerkjarétti stefnanda og sé í andstöðu við 1. mgr. 4. gr. laga nr. 45/1997. Stefnandi segir að vörumerkjaréttur sinn byggist á vörumerkjaskráningu nr. 902/2007, GAGNAEYÐING, sem taki meðal annars til flutnings, pökkunar og geymslu vöru í flokki 39, og á notkun merkisins fyrir þann hluta þjónustunnar sem felist í meðhöndlun gagna í flutningum og við eyðingu, en sú þjónusta falli undir flokk 40. Sé vísað til 1. og 2. tl. 3. gr. laga nr. 45/1997 í þessu sambandi, en þjónusta stefnanda við flutning, pökkun, geymslu og eyðingu gagna sé samofin og í flestum tilvikum veitt sem ein heild.  Þá byggist vörumerkjaréttur stefnanda jafnframt á rétti er hann hafi stofnað til með áralangri notkun á orðmerkinu GAGNAEYÐING, sbr. 2. tl 3. gr. laganna. Stefnandi segir að í vörumerkjarétti sínum, samkvæmt þessum lagaákvæðum, felist að öðrum sé óheimilt að nota í atvinnustarfsemi tákn sem séu eins eða lík vörumerkjum hans, taki notkunin til eins eða svipaðrar þjónustu, og ef hætta sé á ruglingi, þar með talið að tengsl séu með merkjunum.  Ekki þurfi að fjölyrða um að augljós hætta sé á ruglingi í því tilviki sem hér um ræði. Auðkenni stefnda innihaldi vörumerki stefnanda í heild sinni.  Sé viðskeytið ,,Norðurlands“ fráleitt til þess fallið að veita því aðgreiningarhæfi.  Verði að hafa í huga varðandi ruglingshættu að þeim mun skyldari sem sú atvinnustarfsemi sé, sem viðkomandi merkjum sé ætlað að auðkenna, þeim mun meiri kröfur þurfi að gera við mat á ruglingshættu og þeim mun ólíkari verði merkin að vera til þess að ruglingshætta teljist ekki vera fyrir hendi.  Sé hér ljóst að þjónusta stefnda sé á nákvæmlega sama sviði og þjónusta stefnanda og í beinni samkeppni við hana, þótt stefnandi telji þjónustu stefnda ekki sambærilega við þjónustu sína að gæðum og innihaldi.  Líkindi með merkjunum séu augljós, merki stefnda innifeli merki stefnanda í heild sinni og landfræðilegt heiti til viðbótar í auðkenni stefnda sé hið eina sem greini merkin að.  Megi því vera ljóst að notkun stefnda á auðkenninu GAGNAEYÐING NORÐURLANDS rúmist innan verndarsviðs vörumerkis stefnanda. Stefnandi segist hafa tekið að bjóða þjónustu sína á Norðurlandi árið 2010, raunverulegur ruglingur hafi átt sér stað með tilheyrandi óþægindum.  Þannig séu dæmi þess að viðskiptavinur hafi verið í vafa um hvort auglýsing stefnda stafaði frá stefnanda.  Stefnandi segir að þess misskilnings virðist gæta hjá stefnda að stefnandi eigi ekki vörumerkjarétt til vörumerkisins GAGNAEYÐING í flokki 40 sem innihaldi eyðingu gagna og skuli því áréttað að vörumerkjaréttur geti stofnast við notkun vörumerkis sem sé og hafi verið notað hér á landi fyrir vöru eða þjónustu sbr. 2. málslið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 45/1997.  Óumdeilt sé að stefnandi hafi í rúm tuttugu ár notað vörumerki sitt fyrir slíka þjónustu og njóti merkið því verndar í samræmi við fyrrgreint ákvæði.  Vörumerki stefnanda, GAGNAEYÐING, hafi til að bera sérkenni enda sé um að ræða heiti sem ekki hafi verið til í orðabókum þegar vörumerkið hafi verið skráð.  Orðið hafi aldrei verið tekið upp í íslenzka orðabók og sé það ekki að finna í gagnasöfnum orðabókar Háskólans, hvorki ritmálsafni né textasafni né öðrum söfnum.  Í 2. málslið 2. mgr. 3. gr. laga nr. 45/1997, komi fram að vörumerki, sem ekki teljist uppfylla skilyrði laga um sérkenni við upphaf notkunar geti skapað vörumerkjarétt ef það öðlist sérkenni við notkun. Þó svo stefnandi telji ólíklegt að litið yrði þannig á að orðmerkið GAGNAEYÐING hafi skort sérkenni þegar stefnandi hafi tekið að nota það fyrir tuttugu árum, sé ljóst að það hafi sannarlega öðlazt sérkenni á þeim tíma, meðal annars vegna óslitinnar notkunar af hálfu stefnanda og ríkrar markaðsfestu.  Á þeim rúmlega tuttugu árum sem liðin séu frá stofnun stefnanda hafi fyrirsvarsmenn hans kynnt félagið með ýmsum hætti, auglýsingum í fjölmiðlum, með kynningum í fjölmiðlum, með því að standa fyrir ráðstefnu um öryggi gagna og með fleiri aðferðum.  Auglýsingar stefnanda hafi birzt jafnt og þétt frá stofnun félagsins og megi þar nefna auglýsingar í útvarpi sem hafi hin síðustu ár birzt að jafnaði í hverjum mánuði.  Á árinu 2011 hafi auglýsingar stefnanda birzt alls 166 sinnum í útvarpi. Þannig sé vörumerkið GAGNAEYÐING sérkennandi fyrir starfsemi stefnanda og aðrir þeir, er kjósi að bjóða svipaða eða sambærilega þjónustu og stefnandi, geti hæglega valið önnur heiti fyrir sína starfsemi. Vegna sjónarmiða um brot gegn lögum nr. 42/1903 Stefnandi segir að ljóst sé að háttsemi stefnda falli undir 2. kafla laga um verslunarskrár, firma og prókúruumboð, enda stundi stefndi atvinnurekstur og noti við atvinnuna auðkennið GAGNAEYÐING NORÐURLANDS í skilningi 8. gr. laganna. Firmaheiti stefnanda sé GAGNAEYÐING.  Á grundvelli 2. ml. 1. mgr. og 2. málsliðar 10. gr. laga nr. 42/1903 sé öðrum óheimilt að nota firmaheiti stefnanda eða orðmerki sem líkjast firmaheitinu sem heiti á atvinnustarfsemi sinni.  Af ákvæðum þessum verði því leiddur sérstakur réttur til firma stefnanda, firmaréttur.  Yrði af einhverjum ástæðum talið að firmaheiti stefnanda hefði í byrjun verið almennt eða lýsandi sé ljóst að með langvarandi notkun þess hafi það áunnið sér markaðsfestu.  Sé dómkrafa stefnanda þannig einnig stutt við þá markaðsfestu sem stefnandi hafi áunnið sér af firmaheitinu.  Kveðst stefndi hér vísa meðal annars til dóms Hæstaréttar Íslands frá árinu 1973, bls. 771.  Firmaheitið GAGNAEYÐING NORÐURLANDS innihaldi firmaheiti stefnanda í heild sinni og sé því svo líkt firmaheiti stefnanda að ruglingshætta sé ótvírætt fyrir hendi. Vegna sjónarmiða um brot gegn lögum nr. 57/2005 Stefnandi segist hafa á rúmlega tuttugu ára starfstíma sínum skapað auðkenninu GAGNAEYÐING markaðsfestu og unnið því viðskiptavild.  Telji hann ennfremur að notkun stefnda á þessu auðkenni feli í sér óréttmæta viðskiptahætti sem séu til þess fallnir að afla stefnda viðskipta með ótilhlýðilegum hætti á kostnað áralangrar markaðssetningar stefnanda og gerist stefndi þar með sekur um ótvírætt brot gegn ákvæðum laga nr. 57/2005. Stefnandi segir að í 1. mgr. 15. gr. a laganna komi meðal annars fram að óheimilt sé að nota í atvinnustarfsemi firmanafn, verzlunarmerki eða slíkt sem sá, er noti, hafi ekki rétt til.  Stefnandi segist telja alla notkun stefnda á firmaheiti hans með þessum hætti fela í sér skýrt brot á ákvæði þessu. Þá segir stefnandi að í 2. málslið 15. gr. a laganna segi að sérhverjum sé bannað að nota auðkenni, sem hann eigi tilkall til, á þann hátt að leitt geti til þess að villzt verði á því og öðru einkenni sem annað fyrirtæki noti með fullum rétti.  Stefnandi segir að yrði talið að stefndi ætti rétt að nota orðið GAGNAEYÐING sem heiti á þjónustu sinni sé ljóst að í notkun stefnda á þessu auðkenni felist jafnframt brot á þessu ákvæði, og kveðst stefnandi þar meðal annars vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 538/2012, enda sé augljóst að það skapi bæði ruglingshættu við vörumerki stefnanda og firmaheiti. Stefnandi kveðst árétta að lagaákvæðinu sé ætlað að veita auðkenni vernd, til fyllingar þeirri vernd sem þau njóti samkvæmt ákvæðum vörumerkjalaga.  Hafi stefnda verið fullkunnugt um firmaheiti stefnanda, vörumerki og lén þegar hann hafi hafið notkun auðkennisins GAGNAEYÐING NORÐURLANDS, og hafi hann því ekki verið í góðri trú þegar hann hafi tekið það upp. Það sé ljóst að stefndi nýti sér þrotlausa markaðssetningarvinnu stefnanda og það góða orðspor sem stefnandi hafi skapað sér.  Þá sé raunverulega hætta á því að neytendur telji starfsemi stefnda útibú eða á annan hátt tengda starfsemi stefnanda og sé notkunin því til þess fallin að villa um fyrir þeim.  Þjónusta stefnanda sé vottuð af alþjóðlegu samtökunum NAID og í því felist að stefnandi hafi hátt öryggisstig við alla meðhöndlun gagna, allt frá því að tekið sé við gögnum og þar til þeim hafi verið eytt.  Þjónusta annarra aðila sem bjóði eða hafi reynt að bjóða upp á eyðingu trúnaðarskjala hér á landi sé ekki sambærileg að gæðum að þessu leyti.  Valdi það því stefnanda sérstaklega miklu tjóni að stefndi skuli, með því að nýta sér auðkennið GAGNAEYÐING, nýta sér þá viðskiptavild sem auðkennið hafi áunnið sér og með því stuðla að því að viðskiptivinir ruglist á þjónustu stefnanda og stefnda. Stefnandi segist vísa til laga nr. 45/1997, einkum 3. og 4. gr. laganna, laga nr. 42/1903, einkum 8. og 10. gr. laganna og laga nr. 57/2005  einkum 5., 13., 14. og 15. gr. a laganna. Málskostnaðarkrafa stefnanda sé reist á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991, sbr. einkum 129. og 130. gr. laganna. Málsástæður og lagarök stefnda Stefndi segir að í 1. gr. laga nr. 45/1997 sé vörumerki skilgreint þannig að um sé að ræða sérstakt auðkenni fyrir vöru og þjónustu sem ætlað sé til notkunar í atvinnustarfsemi.  Í 1. mgr. 2. gr. laganna segi að vörumerki geti verið hverskonar tákn sem séu til þess fallin að greina vöru og þjónustu eins aðila frá vörum og þjónustu annarra.  Af þessum ákvæðum megi álykta að almennt lýsandi heiti verði ekki skráð sem vörumerki.  Lýsandi heiti á þeirri starfsemi sem rekin sé verði því ekki skráð sem vörumerki.  Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laganna sé það skilyrði skráningar vörumerkis að merkið sé til þess fallið að greina það frá vörum og þjónustu annarra.  Síðan segi að merki sem aðeins gefur til kynna tegund þjónustu skuli ekki teljast sem nægilegt sérkenni. Stefndi segist spyrja hvað heitið gagnaeyðing segi, annað að vísa til þeirrar þjónustu sem boðin sé.  Segir stefndi að augljóst sýnist að heitið gagnaeyðing, eitt og sér, fullnægi ekki áskilnaði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 45/1997, því það sé ekki til þess fallið að greina þjónustu stefnanda frá þjónustu annarra sem stundi sambærilega eða sömu þjónustu. Tilgangur vörumerkis hljóti að vera að aðgreina þjónustu merkiseiganda frá svipaðri þjónustu sem aðrir veiti. Stefnda sé ljóst að stefnandi hafi fengið heitið skráð sem vörumerki en telur að það skipti ekki máli því að dómstólar skeri úr um hvort vörumerkið hafi verið hæft til skráningar og njóti þannig vörumerkjaréttar. Heitið gagnaeyðing sé mjög algengt í íslenzku máli og hafi þá merkingu að eyða allskyns gögnum.  Það lýsi tiltekinni starfsemi sem aðilar stundi og sé ekki til þess fallið að aðgreina starfsemi stefnanda frá starfsemi annarra, og uppfylli því ekki skilyrði 13. gr. laga nr. 45/1997 til skráningar og njóti því ekki vörumerkjaréttar samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 45/1997. Stefndi segir að stefnandi byggi á því að vörumerkjaréttur sinn sé jafnframt byggður á áralangri notkun á heitinu gagnaeyðing og að stefnandi vísi í því sambandi til 2. tl. 3. gr. laga nr. 45/1997. Stefndi segist þegar hafa lýst því að heitið gagnaeyðing hafi ekki þau sérkenni að það sé hæft til skráningar.  Í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 45/1997 sé meginregla sem kveði á um að vörumerki, sem ekki uppfylli skilyrði til skráningar samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laganna, geti ekki fengið vörumerkjarétt við notkun.  Heitið gagnaeyðing sé almennt lýsandi fyrir ákveðna starfsemi án séreinkenna og sé því langsókt að stefnandi hafi öðlazt vörumerkjarétt fyrir notkun.  Hafi stefnandi auk þess ekki sannað að vörumerki sitt hafi öðlazt markaðsfestu fyrir notkun. Stefndi segir að í vörumerkjarétti felist samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 45/1997 að aðrir en eigendur vörumerkis megi ekki heimildarlaust nota í atvinnustarfsemi sinni tákn sem séu eins eða lík vörumerki, taki notkunin til svipaðrar þjónustu og hætta sé á ruglingi, þar með talið að tengsl séu með merkjunum, sbr. 1. og 2. tl. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 45/1997. Stefndi segist telja að það heiti, sem hann hafi valið starfsemi sinni, sé alls ekki líkt því sem stefnandi hafi fengið skráð og engin ruglingshætta sé því á milli merkjanna.  Við mat á því hvort um ruglingshættu sé að ræða sé ekki unnt að slá því föstu að hún sé fyrir hendi vegna þess að um svipaða starfssemi sé að ræða.  Matið helgist meðal annars af því hvort merkin gefi til kynna hvort tengsl séu á milli þeirra, sem þau noti.  Í þessu tilviki sé notað lýsandi orð yfir þau verkefni sem aðilar málsins fáist við, gagnaeyðingu.  Orðið gagnaeyðing sé án allra sérkenna sem vörumerki þurfi almennt að uppfylla til að njóta vörumerkjaréttar.  Engin sjónlíking sé með merkjunum sem hljóti að skipta verulegu máli við mat á ruglingshættu.  Þá gefi heitið Gagnaeyðing Norðurlands, til kynna staðbundna þjónustu, en það eitt að lýsa í hverju þjónustan felist geti eitt og sér ekki valdið hættu á ruglingi. Stefndi segir að við skráningu vörumerkis séu þau skráð þannig að þau taki til ákveðinna flokka, vörumerkjarétturinn nái þá aðeins til þeirra flokka sem vörumerki taki til samkvæmt skráningu.  Í gögnum málsins komi fram til hvaða flokka vörumerki stefnanda taki.  Hafi stefndi lagt fram skrá um flokkun vörumerkja og af henni verði ráðið að starfsemi stefnda falli undir flokk 40.  Stefnandi eigi ekki vörumerki í þeim flokki. Af því leiði að hann geti ekki bannað stefnda að nota heitið Gagnaeyðing Norðurlands fyrir starfsemi sína.  Stefndi segir, að í stefnu segi að óumdeilt sé að stefnandi hafi notað vörumerki sitt um þjónustu sem falli undir flokk 40 í tuttugu ár.  Stefndi segjast mótmæla þessari fullyrðingu enda hafi stefnandi ekki sýnt fram á að svo sé og kveðst stefndi ekki þekkja til starfsemi stefnanda. Vörumerki stefnanda hafi verið skráð 3. ágúst 2007.  Sé einkennilegt að hann hafi ekki sókt um að vörumerki hans taki til þjónustu í flokki 40, sé það svo að meginstarfsemi hans falli í þann flokk.  Það sem hér skipti máli sé að stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að vörumerki hans taki til þjónustu í flokki 40.  Stefndi segist þegar hafa fjallað um að stefnandi geti ekki fengið vörumerkjarétt á heitinu gagnaeyðing fyrir notkun og kveðst stefndi vísa til þess hér. Þá kveðst stefndi benda á að mjög langsókt sé að vörumerkjaréttur í ákveðnum flokki stofnist fyrir notkun, svo skömmu eftir skráningu vörumerkis. Stefndi segir að stefnandi byggi kröfur sína einnig á 1. og 2. mgr. 10. gr. laga nr. 42/1903.  Samkvæmt orðanna hljóðan sé vandséð að þau ákvæði geti átt við hér.  Stefndi segir að málsástæður sínar séu byggðar á því að heitið gagnaeyðing sé lýsandi og almenns eðlis og fullnægi því ekki skilyrðum 1. mgr. 13. gr. laga nr. 45/1997 til skráningar sem vörumerki.  Lög nr. 42/1903 veiti stefnanda ekki vernd umfram það sem lög nr. 45/1997 kveði á um.  Stefndi telji því vísun til firmalaganna ekki hafa sjálfstæða þýðingu um úrlausn málsins. Loks segir stefndi að stefnandi byggi á 15. gr. a laga nr. 57/2005.  Það ákvæði geti í vissum tilvikum veitt frekari vernd en lög nr. 45/1997 geri.  Í þeim tilvikum sem það komi til álita verði að hafa hliðsjón af samkeppnissjónarmiðum.  Í þessu sambandi sé rétt að benda á að verði krafa stefnanda tekin til greina, megi fullyrða að það yrði til þess að takmarka möguleika annarra til að hefja þjónustu við gagnaeyðingu.  Ástæðan sé sú að slíkt bann hefði í för með sér að óheimilt væri að taka þetta orð upp í nafn fyrirtækis, sem hefði hug á að veita þessa þjónustu.  Heitið gagnaeyðing lýsi þeirri þjónustu sem boðin sé og því sé eðlilegt og sjálfsagt að hægt sé að taka það upp í nafn fyrirtækis sem bjóði hana.  Engum detti í hug að banna heitið hótel, á félag sem reki slíka starfsemi.  Líta beri til þess hvort heitið Gagnaeyðing Norðurlands gefi til kynna að það sé tengt stefnanda, stefndi geti nýtt sér hugsanlega viðskiptavild stefnanda eða skaðað hana.  Stefndi segist spyrja hvort hægt sé að leggja mat á það í þessu tilviki, þar sem stefndi hafi aðeins rekið starfsemi frá þarsíðustu áramótum. Stefndi segist telja ákaflega ólíklegt að neytendur tengi þessi fyrirtæki saman vegna þess eins að stefndi hafi tekið upp, sem hluta af nafni fyrirtækis síns, orð sem lýsir þeirri þjónustu sem hann bjóði.  Slíkt lýsandi orð geti ekki vakið hugmyndir um tengsl aðila.  Það lýsi því einfaldlega hvaða þjónusta sé boðin, starfsstöð stefnda sé á Akureyri og starfsemi hans bundin við Norðurland eins og nafnið gefi til kynna. Stefndi kveðst spyrja hvort sérstök hætta sé á að ruglazt verði á fyrirtækjum sem beri heitið Gagnaeyðing og Gagnaeyðing Norðurlands.  Stefndi telji svo ekki vera og verði þá litið til þess meðal annars að starfsemi stefnda sé bundin við Norðurland en starfsstöð stefnanda sé í Reykjavík.  Stefnandi verði auk þess að sanna eða sýna fram á ruglingshættu, en það hafi hann ekki gert. Sé því ekki unnt að fallast á að stefnda verði bannað að nota heitið. Niðurstaða Í málinu liggja fyrir gögn um að í fjölmiðlum hafi birzt fréttir um upphaf starfsemi stefnanda á árinu 1991, og síðan ýmsar aðrar fréttir af eða auglýsingar um starfsemi hans á sviði eyðingar gagna.  Þar á meðal eru fréttir á árinu 2011 um að fyrirtækið fagni tuttugu ára afmæli starfsemi sinnar. Ekkert hefur komið fram í málinu sem að mati dómsins vekur efasemdir um að stefnandi hafi í raun starfað óslitið á þessu sviði frá árinu 1991, og auglýst þjónustu sína opinberlega fyrir almenningi, með tíðkanlegum hætti.  Verður við þetta miðað. Stefnandi byggir á því að orðið „gagnaeyðing“ hafi ekki verið notað í íslenzku máli fyrr en stofnendur stefnanda hafi sett það saman.  Hafa þeir lagt fram gögn um að ekki finnist eldri dæmi þess í íslenzku ritmáli, og hafa ekki önnur gögn verið lögð fram sem hnekkt geta því, og verður við það miðað að orðið hafi ekki verið notað opinberlega í íslenzku ritmáli fyrr en starfsemi stefnanda hófst. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki getur vörumerkjaréttur stofnast með skráningu vörumerkis eða fyrir notkun þess hér á landi. Þá getur, samkvæmt 2. mgr. sömu greinar, vörumerki sem ekki telst uppfylla skilyrði laganna um sérkenni við upphaf notkunar, skapað vörumerkjarétt ef merkið öðlast sérkenni við notkun. Eins og áður er getið er stefnandi skráður eigandi vörumerkisins GAGNAEYÐING í vöruflokkum 7, 8, 16, 39, 41 og 45.  Samkvæmt auglýsingu nr. 100/2007 taka þessir flokkar til véla og smíðavéla, hreyfla, vélatengsla og drifbúnaðar, landbúnaðarvéla, klakvéla, eggjárns, hnífapara, höggvopna, lagvopna, rakvéla, bókbandsefnis, ljósmynda, ritfanga, bréflíms, líms til heimilisnota, vara fyrir listamenn, málningarpensla, ritvéla, skrifstofutækja, plastefnis til pökkunar, leturstafa, myndmóta, flutninga, pökkunar og geymslu vöru, ferðaþjónustu, skemmtistarfsemi, íþrótta- og menningarstarfsemi, persónu- og félagslegrar þjónustu í þágu einstaklinga og öryggisþjónustu til verndar einstaklingum og eignum. Stefnandi er hins vegar ekki skráður eigandi vörumerkisins í flokki 40, en samkvæmt auglýsingunni tekur hann til vinnslu og meðferðar efna og hluta. Fyrir dómi sagði forsvarsmaður stefnanda að félagið hefði sókt um „einkarétt á vörumerkinu í öllum þeim flokkum sem komu til greina að við féllum undir og samkvæmt ráðleggingum Einkaleyfastofunnar um það hvaða flokkar það gætu verið.“  Félagið hefði ekki notið lögfræðiaðstoðar við umsóknina að öðru leyti. Við munnlegan málflutning var á því byggt af hálfu stefnanda að Einkaleyfastofa hefði ekki bent stefnanda á að sækja um skráningu í flokk 40, og ætti stefnandi, sem ekki hefði notið lögfræðiaðstoðar á þeim tíma, ekki að gjalda þeirrar ráðgjafar stofunnar. Telja verður að stefnandi verði sjálfur að bera ábyrgð á umsókn sinni um skráningu.  Hefur ekki verið sýnt fram á að sú starfsemi, sem stefndi mun sinna undir nafninu Gagnaeyðing Norðurlands, falli undir þá flokka þar sem stefnandi á skráð vörumerkið GAGNAEYÐING, heldur virðist mega miða við að þessi starfsemi stefnda eigi undir flokk 40.  Verður að líta svo á, að stefnandi eigi ekki umrætt vörumerki skráð í þeim flokki. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 47/1997 geta vörumerki verið hvers konar sýnileg tákn sem eru til þess fallin að greina vörur eða þjónustu eins aðila frá vörum og þjónustu annarra. Þótt ekki sé vitað til þess að orðið gagnaeyðing hafi verið notað opinberlega áður en stefnandi tók að nota það í starfsemi sinni, er ekki þar með sagt að orðið sé til þess fallið að greina vörur eða þjónustu stefnanda frá vörum eða þjónustu annarra.  Verður að telja að orðið gagnaeyðing sé án sérkenna en lýsandi um þá athöfn að eyða gögnum, en í því mun starfsemi beggja aðila málsins felast.  Verður ekki talið að orðið gagnaeyðing hafi við upphaf notkunar verið til þess fallið að greina vörur eða þjónustu stefnanda frá vörum eða þjónustu annarra. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 47/1997 er það skilyrði skráningar vörumerkis að það sé til þess fallið að greina meðal annars þjónustu eiganda þess frá þjónustu annarra.  Skal ekki skrá vörumerki nema það hafi nægjanleg sérkenni eða greini sig á annan hátt frá öðrum auðkennum.  Þá kemur fram í 2. mgr. 3. gr. laganna að vörumerki, sem ekki uppfyllir skilyrði fyrir skráningu, getur ekki öðlazt þann rétt fyrir notkun.  Frá þessari reglu er hins vegar gerð sú undantekning, sem áður hefur verið getið, að vörumerki, sem ekki uppfyllir skilyrði laganna um sérkenni við upphaf notkunar, geti skapað vörumerkjarétt ef merkið öðlast sérkenni við notkun.  Gera verður ríkar kröfur til notkunar merkis svo það teljist hæft til skráningar, hafi það skort öll sérkenni í öndverðu.  Við úrlausn um það hefur meðal annars verið litið til þess hvort umtalsverður hluti þeirra, sem áhuga kynnu að hafa á að notfæra sér þjónustuna, geti tengt hana við það auðkenni sem sá, er veitir þjónustuna, notar í starfsemi sinni.  Má um þetta vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 538/2012. Þegar metið er hvort stefndi brjóti gegn vörumerkjarétti stefnanda með notkun sinni á heitinu Gagnaeyðing Norðurlands, verður að horfa til þess hvort orðmerkið GAGNAEYÐING hafi fyrir notkun stefnanda öðlazt slík sérkenni að það verði hæft til skráningar sem vörumerki.  Stefnandi ber sönnunarbyrði af því. Eins og áður segir má miða við að stefnandi hafi rekið starfsemi sína frá árinu 1991 og jafnan kynnt hana undir heitinu Gagnaeyðing.  Verður einnig miðað við að orðið hafi ekki verið notað í íslenzku ritmáli fyrr en stefnandi hóf að nota það með þessum hætti. Stefnandi hefur lagt fram ýmis gögn er sýna kynningu á fyrirtækinu og starfsemi þess í fjölmiðlum á starfstíma félagsins, bæði með auglýsingum í útvarpi og á prenti, en einnig blaðaviðtölum við forsvarsmenn félagsins.  Þá hefur stefnandi lagt fram gögn um að félagið hafi efnt til og auglýst opinberlega ráðstefnu um öryggi gagna.  Í stefnu segir að stefnandi hafi frá árinu 2006, eitt íslenzkra fyrirtækja, haft sérstaka vottun alþjóðlegra samtaka fyrirtækja er bjóða upp á örugga eyðingu trúnaðargagna.  Hefur því ekki verið mótmælt.  Þykir allt þetta veita veita líkur fyrir því að starfsemi stefnanda, undir heitinu Gagnaeyðing, sé orðin þekkt meðal talsverðs hluta þeirra sem líklegir séu til vilja nýta sér þjónustu á þessu sviði. Fram kom hjá stefnda í skýrslu hans fyrir dómi að honum var kunnugt um tilvist stefnanda undir heitinu Gagnaeyðing, þegar hann hóf starfsemi sína og valdi henni heitið Gagnaeyðing Norðurlands.  Í greinargerð sinni segir stefndi að stefnandi hafi ekki sannað að vörumerki hans hafi öðlazt markaðsfestu fyrir notkun.  Að mati dómsins hefur stefndi hins vegar ekki fært neitt fram sem dregur úr gildi þess, sem telja má til stuðnings því sem áður var rakið og þykir styðja við þá fullyrðingu stefnanda að orðmerki hans hafi öðlazt markaðsfestu fyrir notkun. Þegar á framanritað er horft verður að líta svo á að stefnandi hafi rennt stoðum undir þau sjónarmið sín, að vegna notkunar um rúmlega tuttugu ára skeið og kynningar á henni á opinberum vettvangi hafi orðmerki hans öðlazt slík sérkenni að það verði hæft til skráningar.  Þykir stefnandi hafa axlað sönnunarbyrði sína, en ekkert í málatilbúnaði stefnda þykir styðja gagnstæða niðurstöðu um þetta atriði.  Verður í ljósi framanritaðs að fallast á að stefndi hafi, með notkun heitisins Gagnaeyðing Norðurlands á starfsemi sína brotið gegn vörumerkjarétti stefnanda.  Verður því fallizt á kröfu stefnanda um að viðurkennt verði að slíkt sé stefnda óheimilt, og sama niðurstaða verður um aðra notkun vörumerkisins GAGNAEYÐING, en því atriði dómkrafna stefnanda hefur ekki verið mótmælt sérstaklega.  Í ljósi þessara úrslita verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 200.000 krónur.  Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.  Af hálfu stefnanda fór Elsa S. Árnadóttir hrl. með málið en Árni Pálsson hrl. af hálfu stefnda. Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð Viðurkennt er að stefnda, Pétri Axel Valgeirssyni, sé óheimilt að nota í atvinnustarfsemi sinni auðkennið GAGNAEYÐING NORÐURLANDS og önnur auðkenni sem innihalda vörumerkið og firmaheitið GAGNAEYÐING, hvort sem er á bréfhausum, nafnspjöldum, í kynningu, munnlegri eða skriflegri, á heimasíðu sinni, í auglýsingum eða á annan sambærilegan hátt. Stefndi greiði stefnanda, Gagnaeyðingu ehf., 200.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 748/2014
Gjafsókn Forsjársvipting Börn
Barnaverndarnefnd R krafðist þess að K yrði svipt forsjá sonar síns. Í dómi héraðsdóms, sem skipaður var sérfróður meðdómsmönnum, kom meðal annars fram að brestir í persónugerð K og sambýlismanns hennar leiddu til þess að ólíklegt væri að þau gætu annast og tekið tillit til þarfa drengsins, sem byggi við fjölþættan vanda sem krefðist mikillar uppeldishæfni. K hefði ekki nýtt sér þau úrræði sem henni hefðu staðið til boða til þess að þroska forsjárhæfni sína og óljóst væri hvort geðtengsl hennar og sonarins væru góð. Var því talið að uppfyllt væru skilyrði 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 til að svipta K forsjá sonar síns og tekið fram í því sambandi að önnur og vægari úrræði væru fullreynd. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms með skírskotun til þeirrar meginreglu 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga að í störfum barnaverndaryfirvalda skuli hagsmunir barnsins sem í hlut á ávallt hafðir í fyrirrúmi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.   Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. nóvember 2014. Hún krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt. Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 gildir sú meginregla að í starfsemi barnaverndaryfirvalda skulu hagsmunir barnsins, sem í hlut á, ávallt hafðir í fyrirrúmi og ber þeim í því skyni að grípa til þeirra ráðstafana, sem ætla má að barninu séu fyrir bestu, sbr. og 1. mgr. 3. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem hefur lagagildi hér á landi, sbr. 2. gr. laga nr. 19/2013. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Málskostnaður fyrir Hæstarétti dæmist ekki, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer eins og greinir í dómsorði.    Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. október 2014. Mál þetta var höfðað 9. júlí 2014 og dómtekið 9. október 2014. Stefnandi er barnaverndarnefnd Reykjavíkur en stefnda er K, [...], [...].                 Stefnandi krefst þess að stefnda verði svipt forsjá sonar síns, A, sem fæddur er árið 2006, sbr. a-, c- og d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.                 Stefnda krefst sýknu af kröfu stefnanda. Þá krefst hún málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. Mál þetta hefur sætt flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. fyrirmæli 53. gr. b í barnaverndarlögum nr. 80/2002. I. Málavextir                 Með úrskurði stefnanda barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 13. maí 2014 var ákveðið á grundvelli b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, að A, fæddur 2006, yrði vistaður á vegum nefndarinnar í allt að tvo mánuði frá þeim degi að telja. Með bókun sama dag var borgarlögmanni falið að gera þá kröfu, sem gerð er í máli þessu, að stefnda verði svipt forsjá drengsins á grundvelli a-, c- og d- liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Drengurinn lýtur sameiginlegri forsjá foreldra sinna en faðir hans átti við fíkniefnavanda að stríða og hafði því lítil sem engin samskipti við hann. Þau mæðgin hafa alla tíð búið í íbúð stefndu að [...]. Á árinu 2009 hóf stefnda sambúð með B sem flutti inn til þeirra. Saman eiga þau tvö börn C fædda 2011 og D fæddan 2013.                 Fyrir liggur samkvæmt gögnum málsins að Barnavernd Reykjavíkur hafði afskipti af málefnum drengsins á árinu 2011 í kjölfar 10 tilkynninga á tímabilinu júlí 2010 til maí 2011, sumar nafnlausar en aðrar frá ömmu drengsins, þar sem áhyggjum var lýst af aðstæðum hans, m.a. vegna vanrækslu á umsjón og eftirliti, drykkju á heimilinu og vegna andlegs og líkamlegs ofbeldis. Var m.a. vísað í frásögn drengsins um að kærasti mömmu hans væri alltaf að meiða hann. Stefnda var boðuð í viðtöl í tengslum við þessar tilkynningar en vísaði ásökunum um vanrækslu á bug. Eru skýringar hennar raktar, m.a. á því hvers vegna umhirða drengsins hefði breyst til hins verra. Viðurkenndi hún aðeins að reykt væri á heimilinu. Farið var í vitjun á heimili stefndu og m.a. gerð tilraun til að ræða við drenginn en án árangurs. Í tengslum við ofangreindar tilkynningar fór fram könnun máls í samræmi við 21. og 22. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 en í tengslum við hana og í samræmi við 43. og 44. gr. laganna var aflað gagna frá leikskólanum [...] þar sem drengurinn var í dagvistun. Fram kemur í bréfi frá leikskólanum, dagsettu 19. ágúst 2010, að drengurinn kæmi vel búinn en sl. mánuði hefði umhirðu hans verið ábótavant, hann hefði verið óhreinn og reykingalykt verið af honum og fötum hans. Samkvæmt upplýsingum leikskólans bar á reiðiviðbrögðum hjá drengnum við ákveðnar aðstæður. Hafi leikskólinn óskað eftir aðkomu þjónustumiðstöðvar vegna málörðugleika, tilfinningalegra erfiðleika og erfiðleika í félagatengslum. Greining lá fyrir 10. desember 2010 hjá sálfræðingi þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis sem staðfesti ákveðna veikleika í mállegri færni drengsins auk þess sem erfiðleikar komu fram í tengslum við hegðan og líðan og þá sérstaklega í leikskólanum. Í bréfi sálfræðingsins er að finna tillögur í 11 liðum er lúta að stuðningi við drenginn og eru leiðbeinandi m.a. fyrir foreldra. Sérstaklega var tekið fram að mælt hefði verið með því við stefndu að hún sækti sér uppeldisfræðslu til að styrkja sig í foreldrahlutverkinu og var bent á tiltekið námskeið í því sambandi. Þá var drengnum vísað í nánari athugun til Talþjálfunar Reykjavíkur auk þess sem mál hans voru sett í farveg á leikskólanum í gegnum sérkennsluráðgjafa þjónustumiðstöðvar. Eftir könnun barnaverndaryfirvalda var málinu lokað á þeim forsendum að um misfellur í aðbúnaði drengsins gæti verið að ræða en eigi væri unnt að staðfesta slíkt. Af þeim sökum var ekki talinn grundvöllur fyrir gerð áætlunar. Stefndu var hins vegar fylgt á þjónustumiðstöð þar sem sótt var um Stuðninginn heim, sem er þjónusta fyrir foreldra sem þurfa tímabundinn stuðning og ráðgjöf við uppeldi og umönnun barna sinna, en þjónustan er veitt á heimili fjölskyldunnar.                 Afskipti Barnaverndar Reykjavíkur hófust að nýju í október 2012 eftir að bréf barst frá skólastjóra [...]skóla þar sem lýst var verulegum áhyggjum af drengnum. Vísað var til sálfræðigreiningar frá árinu 2010 og hefði niðurstöðu í vitsmunaþroskaprófi svipað til frammistöðu barna með málhömlunarmynstur í þroska. Jafnframt kæmu fram erfiðleikar með hegðun og tilfinningar heima fyrir og í skóla. Mælt hafi verið með því að sótt væri um talþjálfun fyrir drenginn en umsókn hefði ekki borist enn. Hefði stefnda verið hvött til að sækja sér fræðslu og stuðning á tilteknu uppeldisnámskeiði en hún hafi ekki talið þörf á því þar sem hún hafði starfað á leikskóla. Þá var frá því greint að í umræðu við drenginn, um efni bókar sem lesin var fyrir hann, hafi hann sagt að mamma hans og B meiddu hann. Hafi hann lýst því frekar svo og annarri ofbeldisfullri hegðun B. Þá kvaðst hann látinn sofa einn í stofunni. Lýst var afar erfiðri hegðun drengsins í skóla og þáttökuleysi í öllu skólastarfi vegna hegðunarvandamála. Jafnframt væri félagsleg staða hans ekki góð í hópi skólafélaga.                 Bréfi þessu var fylgt eftir með símtali skólastjórans 5. nóvember 2012 og enn lýst áhyggjum af drengnum sem engan veginn gæti sinnt námi. Þroskaþjálfi hefði unnið með honum frá byrjun en drengurinn hafi greint henni frá því að hann og stefnda byggju við ofbeldi. Vísað var í samtal við þroskaþjálfann sem hafi staðfest frásögn drengsins en kvaðst þó ekki hafa séð áverka á drengnum. Þá kvaðst hún ítrekað hafa bókað viðtal hjá sálfræðingi á þjónustumiðstöð þar sem drengurinn færi í greiningu en stefnda hafi ekki mætt. Vegna tilkynninga skólans kom stefnda til viðtals hjá Barnavernd Reykjavíkur hinn 16. nóvember 2012. Kvaðst hún ekki kannast við það sem kom fram í tilkynningum skólans og sagði ekkert ofbeldi eiga sér stað á heimilinu. Hún kvað B drekka en þó aðeins aðra hverja helgi. Jafnframt gaf hún skýringar á atvikum sem borin voru undir hana. Einnig greindi stefnda frá því að drengnum hefði verið vísað á Þroska- og hegðunarstöð til frekari greiningar en grunur væri um ADHD og kæmist hann þá á lyf. Þá kvaðst hún hafa sótt um talþjálfun og format hefði farið fram. Kvaðst stefnda geta hugsað sér að fá stuðningsfjölskyldu fyrir drenginn og nefndi í þessu sambandi frænku sína sem hann hefði verið mikið hjá á árunum 2009-2010. Kvað hún drenginn hafa verið mjög kvíðinn síðan afi hans dó á árinu 2010 og að hann syrgði hann mjög. Í tengslum við könnun málsins leitaði stefnandi upplýsinga hjá ýmsum aðilum. Í bréfi skólastjóra [...]skóla frá 23. nóvember 2012 er lýst miklum áhyggjum af líðan og skólagöngu drengsins. Talin er brýn nauðsyn á því að bæði honum og foreldrum verði veittur stuðningur til þess að takast á við vanlíðan hans. Námsleg staða hans sé slæm og hann dragist mikið aftur úr. Lítil þjálfun eigi sér stað bæði í skóla og heima. Hvorki er fundið að umhirðu né aðbúnaði hans og hann mæti á réttum tíma í skólann. Í bréfi frá Heilsugæslunni [...], 27. nóvember 2012, kom fram að drengurinn hefði, í framhaldi af viðræðum við sálfræðing og greiningarferli í þjónustumiðstöð, fengið lyf vegna svefntruflana og tíðra næturþvagláta. Fram kemur að stefnda hafi leitað eftir stuðningi vegna talörðugleika drengsins og væri á biðlista. Hún hefði sinnt heilbrigðiseftirliti barnanna og hefði ekki vaknað grunur um áfengis- eða fíkniefnaneyslu foreldra. Í bréfi frá Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis frá 14. desember 2012 kom fram að stefnda hefði ekki mætt í boðað viðtal á árinu 2011 í tengslum við úrræðið Stuðninginn heim og hefði í tvígang verið reynt að ná í hana í síma en án árangurs. Stefnda hafi í júlí 2011 sótt um fjárhagsaðstoð og kom þá fram að hún teldi ekki þörf á að fá stuðning á heimilið. Stefndu var veitt fjárhagsaðstoð í apríl 2012 en hún mætti ekki í viðtal fyrr en í nóvember og kom þá fram að hún vildi gjarnan fá stuðningsfjölskyldu fyrir drenginn. Valdi hún til þess frænku sína. Þá kom fram að hún vildi gjarnan bæta samskipti sín við móður sína og fékk hún tíma hjá fjölskylduráðgjafa en stefnda afboðaði þann tíma síðar og var ekki óskað eftir nýjum tíma. Stefnda sótti tíma með A hjá sálfræðingi á þjónustumiðstöð vegna endurmats drengsins en nokkur misstyrkur kom fram hvað þroska hans varðaði. Var hann greindur með ADHD og einnig var einkennum á einhverfurófi lýst sem þó kynnu að tengjast erfiðleikum vegna ADHD-einkenna og tjáskiptavanda vegna málhömlunar. Mál drengsins voru sett í frekari farveg og var stefnda skráð á biðlista fyrir PMT-námskeið á þjónustumiðstöð en það er ætlað foreldrum sem eiga börn með hegðunarerfiðleika eða eru í hættu á að þróa með sér erfiða hegðun. Jafnframt voru boðin úrræðin Stuðningurinn heim og Ráðgjafinn heim en markmið þeirrar þjónustu er að veita faglega ráðgjöf og leiðbeiningar til einstaklinga með fötlun af margvíslegum toga er hafa þörf fyrir aðstoð og stuðning til að takast á við ýmis verkefni daglegs lífs. Þjónustan getur bæði farið fram á heimili viðkomandi og utan þess. Í niðurlagi bréfsins er tekið fram að stefnda hafi mætt í bókuð viðtöl er lúta að greiningarferli vegna A en önnur viðtöl hafi hún ekki mætt vel í. Að mati þjónustumiðstöðvar megi því ráða að líkur séu á því að erfitt yrði fyrir stafsmenn að fylgja málinu eftir í því skyni að tryggja drengnum þá þjónustu er Barnavernd telji að grípa þurfi til. Niðurstöður Þroska- og hegðunarstöðvar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins lágu fyrir 9. apríl 2013 og var A þá greindur með ADHD, málfrávík, kvíðaeinkenni, þá helst áráttu- og þráhyggjueinkenni, kæki, veikleika í málstarfi, álag í félagsumhverfi og sögu um svefntruflanir. Mælt var með áframhaldandi úrræðum og stuðningi í skóla, talþjálfun og að foreldrar sæktu námskeið í PMT-foreldrahæfni. Ýmsar tillögur ætlaðar foreldrum fylgdu bréfinu. Í kjölfar greiningarinnar óskaði skólastjóri [...]skóla eftir því að ástand A yrði metið hjá BUGL. Taldi hún það aðkallandi enda hefði hún miklar áhyggjur af drengnum.                 Hinn 10. apríl 2013 bárust enn upplýsingar frá skólastjóranum um að drengurinn talaði um að vilja ekki lifa lengur þar sem stefnda væri vond við sig, auk þess sem greint var frá því að hann ætti það til að sýna af sér áhættuhegðun á skólatíma eins og að hlaupa út á götu. Næsta dag barst nafnlaus tilkynning sama efnis. Fleiri tilkynningar bárust frá skóla drengsins í aprílmánuði 2013 og var það enn mat skólans að mikilvægt væri að meta ástand drengsins á BUGL. Hafi móðir veitt samþykki fyrir því. Lýstu starfsmenn skólans miklum áhyggjum af drengnum þar sem hann langaði til að deyja því að stefnda og sambýlismaður hennar væru vond við sig og til þess að geta verið „á himnum með afa sínum því að það væri svo leiðinlegt að lifa á jörðinni“. Starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur fóru á heimili stefndu og ræddu við hana hinn 29. maí 2013. Um er að ræða litla íbúð með einu svefnherbergi. Stefnda neitaði því að ofbeldi ætti sér stað á heimilinu og kvað hún vanlíðan drengsins vera til komna vegna litarháttar hans. Stefndu var aftur bent á að gott væri að fá stuðning heim og ætlaði hún að skoða það. Þrjár nafnlausar tilkynningar bárust Barnavernd Reykjavíkur í ágúst 2013 um að drengurinn væri beittur andlegu og líkamlegu ofbeldi af hálfu stefndu. Þá kom fram að hann gætti stundum einn tveggja yngri systkina sinna á meðan stefnda færi að versla. Mál A var rætt á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur 27. ágúst 2013 og var þar bókað að sökum alvarleika tilkynninganna væri nauðsynlegt að ræða við drenginn, án vitneskju stefndu. Gerð var tilraun til að ræða við drenginn í skóla en hann brást illa við, klóraði tvo starfsmenn skólans til blóðs og var ekki viðræðuhæfur. Næsta dag tókst að ræða við drenginn og lýsti hann því m.a. hvernig stefnda hefði rifið í hár hans og slegið hann í augað. Sagðist drengurinn einnig stundum gæta bróður síns, þá sex mánaða gamals, á meðan stefnda færi út ýmist í lengri eða skemmri tíma. Fékk hann þá leiðbeiningar um hvernig skyldi bera sig að með sex mánaða gamlan bróður sinn. A kvaðst ekki alltaf fá morgunmat og/eða kvöldmat og að stefnda bannaði honum að borða hádegismat í skólanum þar sem hún ætti ekki peninga til að borga fyrir skólamáltíðir. Þá tiltók hann að hann færi stundum til E frænku sinnar þar sem allir væru góðir við hann en þó væri ekki gaman að vera þar. Þegar drengurinn var spurður hvers hann myndi helst óska sér sagðist hann vilja deyja.                 Á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur 2. september 2013 var bókað að gerð skyldi áætlun um meðferð máls skv. 23. gr. barnaverndarlaga auk þess sem lagt var til að drengurinn yrði vistaður á Vistheimili barna að Laugarásvegi og að þar skyldi fara fram greiningar- og kennsluvistun með stefndu. Einnig var lagt til að stefnda yrði aðstoðuð við að bæta tengsl sín við drenginn. Stefnda kom í viðtal hjá Barnavernd Reykjavíkur 18. september 2013 þar sem hún kvaðst ætla að vera til fullrar samvinnu og skrifaði undir áætlun um meðferð málsins. Á meðal þeirra atriða sem þar er gert ráð fyrir er að stefnda skuli fara í greiningar- og kennsluvistun, þiggja stuðningsúrræði, s.s. PMT-úrræðið, sjá til þess að A fari í talþjálfun, samþykkja sálfræðilegan stuðning fyrir drenginn og taka á móti starfsmönnum Barnaverndar Reykjavíkur í boðuðu og óboðuðu eftirliti.                 Þroskaþjálfi í skóla drengsins hafði samband símleiðis við Barnavernd Reykjavíkur þann 20. september 2013 og var aftur rætt við hann 24. sama mánuð. Fram kom að drengnum hefði liðið illa dagana þar á undan, hann hefði verið óhirtur, illa lyktandi og lagt hendur á fólk í kringum sig. Einnig greindi þroskaþjálfinn frá því að drengurinn talaði ítrekað um að vilja deyja. Starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur ræddi við drenginn 25. september 2013 og lýsti drengurinn þá vilja til þess að vera hjá móðurömmu sinni eða stuðningsfjölskyldu og óskaði hann þess að hægt væri að aðstoða stefndu við að hætta að vera reið.                 Í kjölfar þessa var rætt við stefndu um tímabundna vistun drengsins utan heimilis. Tók hún því vel og viðurkenndi að hegðun drengsins væri henni erfið. Stefnda samþykkti vistun drengsins utan heimilis, hjá frænku sinni og eiginmanni hennar sem stuðningsfjölskyldu frá 30. september 2013 til 30. desember 2013. Óskaði stefnda eftir því að hafa drenginn á afmæli hans og um jól. Á meðferðarfundi Barnaverndar Reykjavíkur þann 10. október 2013 var lagt til að gerður yrði umgengnissamningur við stefndu vegna drengsins í október og nóvember og væri hann þá hjá henni hvern laugardag frá kl. 14.00 til 19.00. Áður en umgengni færi fram var gert ráð fyrir eftirliti á heimilinu.                 Á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur þann 31. október 2013 var lagt til að umgengni drengsins við stefndu yrði stytt vegna hans eigin vilja, sem m.a. hefði komið fram í samtali við sálfræðing hans. Þá var vísað til upplýsinga frá skóla um hegðun hans þar sem kvíði hans var áberandi vegna þess sem fram undan væri, svo sem jólanna. Rætt var við stefndu um þessa fyrirætlun en hún kvaðst ekki samþykk því að dregið yrði úr umgengni í því skyni að greina líðan drengsins. Á meðferðarfundi þann 7. nóvember 2013 var ákveðið í ljósi þeirrar stöðu sem upp var komin að leggja málið fyrir Barnaverndarnefnd Reykjavíkur. Þá yrði sótt um Greiningu og ráðgjöf á heimili stefndu og lagt til að stefnda og sambýlismaður hennar færu í forsjárhæfnismat. Stefndu var tilkynnt þetta 11. nóvember 2013 og jafnframt rætt við hana um stuðning inn á heimilið en stefnda taldi sig ekki þurfa á honum að halda. Undirritaði hún ekki nýja meðferðaráætlun. Þann 25. nóvember 2013 var mál drengsins enn tekið fyrir og var ákveðið að reynt yrði að ná samvinnu við stefndu um nýja meðferðaráætlun og vistun drengsins utan heimilis til 1. mars 2014 en kynfaðir drengsins hafði veitt samþykki fyrir sitt leyti. Í greinargerð starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur frá 28. nóvember 2013 komu fram tillögur í samræmi við þetta en á vistunartímanum skyldi fara fram forsjárhæfnismat stefndu og sambýlismanns hennar auk þess sem stefnda þægi Greiningu og ráðgjöf heim. Málið var lagt fyrir fund stefnanda 10. desember 2013 og samþykkti stefnda þá vistun utan heimilis í umræddan tíma, forsjárhæfnismat og meðferðaráætlun þar sem kveðið yrði á um að stefnda tæki á móti Greiningu og ráðgjöf heim. Var samþykkið bundið því skilyrði að umgengni yrði 5 klst. eins og verið hefði og óskað var eftir umgengni um jól, þ.e. 19. desember frá kl. 17.00 til 21.00 og á gamlárskvöld frá kl. 16.00 til 22.00. Skyldi meðferðaráætlunin gilda til 28. febrúar 2014.                 Þann 10. febrúar 2014 barst nafnlaus tilkynning um vanrækslu A og systkina hans í umsjá stefndu, m.a. vegna áfengisneyslu sambýlismanns hennar. Málefni A voru rædd að nýju á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur hinn 18. febrúar 2014. Þar kom fram að rætt hefði verið við stefndu um að framlengja vistun drengsins utan heimilis þar til forsjárhæfnismatið lægi fyrir en hún hefði alfarið hafnað því fyrirkomulagi. Á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur 28. sama mánaðar var ákveðið að grípa til neyðarráðstöfunar skv. 31. gr. barnaverndarlaga vegna tilfinningalegra erfiðleika og vanlíðunar drengsins, og jafnframt sökum innlagnar hans á BUGL, en fagaðilar þar töldu brýnt að drengurinn byggi við stöðugleika í búsetu á tímabili innlagnar. Var drengurinn í framhaldinu kyrrsettur hjá vistunaraðilum til 4. mars 2014. Þann dag kvað stefnandi upp úrskurð á grundvelli b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga um að drengurinn skyldi vistaður utan heimilis í tvo mánuði frá þeim degi að telja. Umgengni drengsins við stefndu féll niður um tíma en var endurvakin að hennar beiðni þann 29. mars 2014. Þá var ákveðin umgengni um páska á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur þann 10. apríl 2014. A var á göngudeild BUGL frá 6. mars til 23. maí 2014 en fram kemur í vottorði F læknis að unnið hafi verið út frá umhverfis- og atferlismeðferð þar sem áhersla hafi verið lögð á samskipti og virkni auk þess sem hafin var lyfjameðferð. Það hafi dregið úr hömlun drengsins. Forsjárhæfnismat G sálfræðings lá fyrir 22. apríl 2014 Niðurstaða hans var sú að forsjárhæfni stefndu væri verulega skert sökum persónuleikabresta hennar og vangetu til að takast á við almenn samskipti, erfiðar aðstæður og álag. Kom fram að stefnda hefði lítið innsæi í eigin tilfinningar eða hegðun og ætti það til að sveigja sannleikann sér í hag. Hún ætti erfitt með tilfinningastjórn gagnvart börnum sínum og verulega skorti á alla samskiptafærni en hún ætti í deilum við flesta sem tengjast henni. Þá væri stefnda mjög hvatvís. Greind stefndu væri á tornæmisstigi og taldi sálfræðingurinn það skýra að einhverju leyti framangreinda erfiðleika. Stefnda var einnig talin hafa töluverða veikleika varðandi uppeldi drengsins, t.d. hafi hún átt í erfiðleikum með að sinna hreinlæti hans. Þá hafi hún ítrekað ekki mætt á boðaða fundi vegna málefna hans eða mætt of seint auk þess sem drengurinn hafi lýst ofbeldi af hennar hálfu. Stefnda setji einnig þarfir sínar framar þörfum barna sinna og láti deilur sínar við annað fólk bitna á drengnum. Niðurstaða sálfræðingsins um forsjárhæfni sambýlismanns stefndu var einnig á þá leið að hún væri verulega skert vegna viðhorfa hans og persónuleika. Vísbendingar væru um að hann drykki meira en hann vildi vera láta, hefði andfélagsleg viðhorf, viðhorf sem vikju frá almennum félagslegum gildum, sýndi mótþróa gagnvart yfirvaldi og væri ósamvinnuþýður. Þá er hann talinn hafa lítil tengsl við drenginn og takmörkuð tengsl við sín eigin börn. Var það mat sálfræðingsins að drengurinn þyrfti á sérstakri umönnun að halda, líklega vegna þroskavandamála og sálrænna vandamála, sem stefnda væri ófær um að sinna vegna þeirra persónuleikavandamála sem einkenna hana. Mat sálfræðingurinn það sem svo að í ljósi gagna um batnandi líðan og umhirðu drengsins í fóstri, sem og í ljósi alvarlegra ásakana um ofbeldi og vanrækslu á heimili stefndu, væri velferð drengsins best borgið í varanlegu fóstri. Þann 13. maí sl. kvað stefnandi upp úrskurð um að drengurinn skyldi vistaður á heimili á vegum stefnanda í tvo mánuði frá þeim degi að telja auk þess sem ákveðið var að fela borgarlögmanni að annast fyrirsvar og gerð kröfu um forsjársviptingu stefndu, sbr. a-, c- og d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Til grundvallar þeirrar niðurstöðu lá það mat að úrræði barnaverndaryfirvalda hefðu ekki leitt til þess að uppeldisaðstæður á heimili stefndu yrðu fullnægjandi og var talið að stuðningsúrræði á grundvelli barnaverndarlaga myndu ekki megna að breyta uppeldisaðstæðum hjá stefndu. Þau væru því fullreynd. Á sama fundi stefnanda samþykkti kynfaðir drengsins að hann yrði vistaður utan heimilis þar til niðurstaða dómstóla í máli þessu lægi fyrir. Þá kom fram vilji hans til að drengurinn yrði í varanlegu fóstri til 18 ára aldurs hjá núverandi fósturforeldrum. Þar sem stefnda samþykkir ekki varanlega vistun drengsins til 18 ára aldurs var tekin ákvörðun um að fela borgarlögmanni að höfða þetta mál. Eftir þingfestingu máls þessa fór stefnda fram á að nýtt forsjárhæfnismat yrði framkvæmt. Þegar litið er til hagsmuna í máli þessu ákvað dómari að samþykkja beiðni stefndu um dómkvaðningu matsmanns þrátt fyrir að um flýtimeðferðmál væri að ræða. Var H sálfræðingur dómkvaddur til þess að framkvæma hið umbeðna mat. Sálfræðileg matsgerð hans lá fyrir þann 5. október 2014. Fram kom að persónuleikapróf stefndu var ómarktækt og ekki túlkunarhæft þar sem réttmætismælikvarðar prófsins bentu til þess að hún hafi viljað gefa betri mynd af sér en efni stóðu til og viðurkenndi ekki misfellur í sínu fari sem algengt væri hjá fólki sem augljóslega vill fegra ímynd sína. Persónuleikapróf B var marktækt en sýndi tilhneigingu til að fegra ímynd sína og afneita neikvæðum þáttum í fari sínu. Talið var að niðurstöður bæri að túlka af varfærni þar sem svörum bæri ekki fyllilega saman við forsögu. Að mati sálfræðingsins er ljóst að þeir erfiðleikar sem hafi verið til staðar hafi reynt talsvert á veikleika stefndu þar sem hún virtist oft úrræðalítil og hvatvís og hafi átt það til að reiðast þegar A sýndi erfiða hegðun. Hún hafi sýnt ákveðna styrkleika og virtist hafa ágætt innsæi gagnvart sérþörfum A í þroskafræðilegu samhengi. Persónugerð hennar sjálfrar virðist hins vegar einkennast af tortryggni, mótþróa og ósveigjanleika þegar hún stæði frammi fyrir gagnrýni og aga. Hafi hún því tilhneigingu til að vera í varnarstöðu og afneitað gagnrýni á eigin hegðun. Þá virðist hún vera tölvuvert hvatvís þar sem skortir á getu og hæfni til að hugsa lengra en líðandi stund og sjá afleiðingar aðgerða. Eiginleikar þessir séu líklegir til að ýta undir erfiðleika í samskiptum. Þeir rýra að mati sálfræðingsins að einhverju marki forsjárgetu stefndu en séu þó ekki þess eðlis að hún teljist óhæf til að sinna daglegri umönnun A með hliðsjón af aldri hans og þroska. Hvað varðar B þá er hann talinn búa yfir veikleikum sem séu umtalsverðir í uppeldislegu tilliti en virðist þó ekki vera þess eðlis að hann sé ófær um að sinna daglegri umönnun A. Við aðalmeðferð málsins kom stefnda fyrir dóminn, B sambýlismaður stefndu, G sálfræðingur, I starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur, F læknir á BUGL, J þroskaþjálfi, K talsmaður A og H sálfræðingur. Dómarar ræddu ekki við drenginn fyrir aðalmeðferð málsins en að virtum þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu var talið ólíklegt að það myndi þjóna tilgangi og til þess eins fallið að auka á vanlíðan drengsins. II. Málsástæður og lagarök stefnanda                 Stefnandi vísar til þess sem rakið er í stefnu um málavexti og aðdraganda þessa máls sem leiddi til þess að stefnandi fól borgarlögmanni, með bókun 13. maí 2014, að gera þá kröfu að stefnda verði svipt forsjá drengsins á grundvelli a-, c- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Hafi þessi ákvörðun verið tekin með hliðsjón af ítrekuðum tilkynningum um vanlíðan drengsins, vanrækslu á honum í umsjá stefndu og vegna gruns um að hann væri beittur andlegu og líkamlegu ofbeldi á heimili stefndu svo og með tilliti til niðurstöðu forsjárhæfnismats á stefndu. Úrræði barnaverndaryfirvalda hefðu ekki leitt til þess að uppeldisaðstæður á heimili stefndu yrðu fullnægjandi og var talið að stuðningsúrræði á grundvelli barnaverndarlaga myndu ekki megna að breyta uppeldisaðstæðum hjá stefndu og væru þau því fullreynd. Að mati stefnanda væri mikil áhætta tekin gagnvart barninu ef fallist yrði á kröfu stefndu um að fá barnið í sína forsjá. Stefnandi telur að daglegri umönnun, uppeldi og samskiptum stefndu og drengsins sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri hans og þroska. Líkur séu á því að drengurinn megi þola alvarlega andlega eða líkamlega áreitni eða niðurlægingu á heimilinu og fullvíst er að andlegri heilsu drengsins og þroska hans er hætta búin þar sem breytni stefndu er til þess fallin að valda drengnum alvarlegum skaða. Með hliðsjón af þessu telur stefnandi að skilyrði a-, c- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga séu uppfyllt í máli þessu. Frekari rökstuðningur fyrir heimfærslu undir ofangreinda liði kom fram í málflutningi lögmanns stefnanda. Stefnandi telur að gögn málsins sýni, svo ekki verði um villst, að stuðningur samkvæmt barnaverndarlögum sé fullreyndur. Þrátt fyrir að ítrekað hafi verið reynt að veita stefndu aðstoð við að bæta forsjárhæfni sína hafi það ekki leitt til framfara þar að lútandi og greinilegt sé að drengnum líði illa í umsjá hennar auk þess sem hegðun hans og geta til að umgangast aðra versni í kjölfar þess að hann dvelur hjá henni. Virðist afar mikið skorta á innsýn stefndu í þá annmarka sem eru á uppeldisaðferðum hennar og samskiptum við drenginn og virðist hún ekki fær um að tileinka sér þær aðferðir sem henni hafa verið kenndar til að bæta sig. Stefnda njóti afar takmarkaðrar aðstoðar við uppeldi barna sinna af hálfu sambýlismanns síns, allra síst hvað varðar A, og þá tekur stefnda hagsmuni sína fram yfir hagsmuni drengsins. Ljóst sé af gögnum málsins, og forsjármati G sálfræðings, að forsjárhæfni stefndu sé verulega skert og að hagsmunir drengsins séu ekki tryggðir hjá stefndu. Þann tíma sem drengurinn hafi verið vistaður utan heimilis sýni hann takmarkaðan vilja til að vera í samskiptum við stefndu. Ljóst sé að um mikinn samskiptavanda sé að ræða af hálfu stefndu sem ekki hafi tekist að leysa þrátt fyrir tilraunir fagaðila sem að málinu hafa komið. Í viðtölum við talsmann sinn hafi drengurinn lýst því yfir að hann vilji dveljast hjá þeim aðilum sem vista hann nú og telur stefnandi rétt að hafa hliðsjón af þessum vilja drengsins, sbr. 2. mgr. 46. gr. barnaverndarlaga. Það sé mat stefnanda að drengurinn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður í umsjá stefndu og að þær stuðningsaðgerðir sem reyndar hafa verið ítrekað á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002 hafi ekki megnað að breyta því ástandi. Þar sem brýnt sé að tryggja drengnum öryggi, stöðugleika og viðunandi uppeldisskilyrði, sé það mat stefnanda að hagsmunum hans sé best borgið með því að stefnda verði svipt forsjá sinni yfir honum. Það séu grundvallarréttindi barna að búa við stöðugleika í uppvexti og þroskavænleg skilyrði. Stefnandi telur að það hafi sýnt sig að stefnda sé óhæf til að tryggja syni sínum þá vernd og umönnun sem hann eigi skýlausan rétt á. Forsjárréttur foreldra takmarkist af þeim mannréttindum barna að njóta forsvaranlegra uppeldisskilyrða. Þegar hagsmunir foreldris og barns vegist á, séu hagsmunir barnsins, hvað því sé fyrir bestu, þyngri á vogarskálunum. Í því máli sem hér um ræði sé drengnum fyrir bestu að alast upp við stöðugleika og umhyggju og séu þeir hagsmunir þyngri en hagsmunir stefndu. Þessi regla sé grundvallarregla í íslenskum barnarétti og komi einnig fram í þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland sé aðili að. Hinu opinbera sé skylt að veita börnum vernd svo sem fyrir er mælt um í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, barnaverndarlögum nr. 80/2002 og lögum um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins nr. 19/2013. Þá eigi reglan sér einnig stoð í 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og í alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem Ísland hafi fullgilt. III. Málsástæður og lagarök stefndu Stefnda telur málavaxtalýsingu í stefnu og í úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur þegar tekin er ákvörðun um að krefjast forsjársviptingu einhliða og að þar sé ekki greint frá báðum hliðum málsins. Þá sé málavaxtalýsing afar ýkt hvað varði annmarka á forsjárhæfni stefndu ef miðað sé við þau gögn sem liggja henni til grundvallar. Rekur stefnda í greinargerð athugasemdir sínar þar að lútandi. Af gögnum málsins megi sjá að A þjáist af verulegum geðrænum erfiðleikum. Stefnda telji sig hafa gert það sem hún hafi getað til þess að hjálpa A við að takast á við vandamál í samvinnu við skóla og fagfólk. Hún hafi í öllum meginatriðum fengið og nýtt þá þjónustu sem í boði hafi verið fyrir A. Í undantekningartilvikum hafi stefnda ekki getað farið með barnið í þá tíma sem það þurfi að sækja vegna veikinda annarra barna sinna. Þá virðist mega ráða af gögnum málsins að tilfinningalegt ástand A hafi batnað á undanförnum mánuðum. Í stefnu sé því haldið fram að það sé fyrst og fremst því að þakka að drengurinn hafi verið vistaður utan heimilis undanfarna mánuði. Því sé stefnda verulega ósammála. Stefnda telur að í kjölfar þess að drengurinn hafi farið í meðferð á BUGL, barna- og unglingageðdeild Landspítalans, hafi framfarir verið verulegar. Einnig megi sjá af gögnum málsins að verulegir hegðunarerfiðleikar séu enn til staðar hjá drengnum sem hafi leitt til þess að hann var vistaður á BUGL og fékk viðeigandi lyfjameðferð. Telur stefnda því að hegðunarerfiðleikar barnsins hafi ekkert með aðstæður á heimili hennar að gera, heldur fyrst og fremst með skapgerð barnsins að gera og þá bresti sem til staðar séu. Samskipti stefndu við skóla og aðra fagaðila hafi að mestu leyti verið góð og megi sjá það af gögnum málsins. Þá megi sjá að aðstæður á heimili stefndu hafi í flestum tilvikum verið afar góðar þegar þær hafi verið kannaðar af hálfu barnaverndaryfirvalda og jafnframt komi fram í samtali starfsmanns þeirra, sem stefndu hafi verið ókunnugt um, að honum líði vel heima hjá sér og lýsi samskiptum sínum við sambýlismann stefndu. Þá virðist A ekki alltaf líða vel í fóstri, hann viðist sakna fjölskyldu sinnar og hafi lýst því að honum finnist leiðinlegt á fósturheimili og vilji fara aftur heim til móður sinnar. Stefnda telji sig hafa gott stuðningsnet og nefnir í þessu sambandi fjölskyldu sambýlismanns síns, ýmsa góða vini þeirra og frændur og frænkur úr föðurfjölskyldu. Stefnda viðurkenni að hún sé ekki fullkomin móðir. Hún telur hins vegar þær tilkynningar sem sendar hafa verið barnaverndaryfirvöldum ekki í samræmi við sannleikann. Stefnda telur að einstakir ættingjar hennar, sérstaklega móðir hennar, sendi tilhæfulausar tilkynningar til barnaverndarnefndar. Þá vísar stefnda til þess að tengsl hennar og A séu veruleg en það komi fram í gögnum málsins og niðurstöðum í forsjárhæfnismati. Þegar krafa stefnanda er metin sé einnig nauðsynlegt að líta til þess að verulegar líkur séu á því að tengslarof verði milli annarra barna stefndu og A verði hún svipt forsjá barnsins. Stefnda telur gögn málsins sýna að veruleg tengsl séu milli barnanna. Umgengni á meðan barnið hefur verið í vistun utan heimilis hefur gengið að mestu leyti vel þó að stefnda telji ákvarðanir um skertan umgengnistíma hennar við barnið ekki eðlilegar. Stefnda krefst þess að kröfu stefnanda, um að hún verði svipt forsjá, verði hafnað og telur hana andstæða hagsmunum sonar síns. Skilyrði 29. gr. barnaverndarlaga séu ekki uppfyllt svo hægt sé að svipta stefndu forsjá. Styðja eigi stefndu til þess að fá A aftur inn á heimili stefndu, barni og foreldri til hagsbóta.  Hvað varði a-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga telur stefnda gögn málsins sýna að hún geti séð um A með viðeigandi stuðningi. Hún hafi samþykkt að sækja námskeið í foreldrafærni að áeggjan starfsmanna barnaverndar og í samræmi við áætlun um meðferð máls og hafi sótt það vel. Telur stefnda námskeiðið ekki hafa nýst sér þar sem drengurinn hafi ekki verið inni á heimili hennar eins og alvanalegt er þegar farið sé á námskeið af þessu tagi. Varðandi þann hluta ákvæðisins um samskipti foreldra og barns telur stefnda að þeim sé ekki ábótavant. Hvað varði c-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga virðist sem byggt sé á andlegri áreitni stefndu gagnvart barninu og jafnvel að barninu sé misþyrmt líkamlega. Ítrekað hafi verið rætt við A á undanförnum mánuðum meðan á meðferð málsins hefur staðið. Af gögnum málsins megi sjá að frásagnir hans af meintri vanrækslu og líkamlegu ofbeldi hafi í raun breyst frá mánuði til mánaðar. Stefnda telur að upplifun hans á vanrækslu og ofbeldi sé öðru fremur viðleitni stefndu til þess að hafa hemil á barninu og beita það aga. Þá sé einnig ljóst að A eigi það til að taka æðisköst og getur verið af þeim sökum nauðsynlegt að halda honum við slík tækifæri til þess að koma í veg fyrir að hann skaði sig eða aðra. Þegar framburður hans að þessu leyti sé metinn telur stefnda að líta verði til aldurs barnsins sem og þeirra erfiðleika sem hann eigi við að etja og því sé ekki unnt að taka orð hans bókstaflega að öllu leyti. Stefnda telur engin raunveruleg gögn, önnur en orð barnsins, benda til þess að hún eða sambýlismaður hennar hafi beitt barnið líkamlegu ofbeldi. Þá hafi engin kæra verið gefin út á hendur stefndu eða sambýlismanns vegna ofbeldis gegn drengnum. Hvað varði d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga sé ljóst af forsjárhæfnismati að hvorki stefnda né sambýlismaður hennar þjást af geðrænum truflunum. Stefnda sé ósammála niðurstöðu mats um að hún sé með svo skerta greind sem þar greinir en telur að jafnvel þótt niðurstaða prófsins sé rétt eigi það ekki að leiða til þess að hún verði svipt forsjá barnsins. Jafnframt verði að líta til þess að sambýlismaður stefndu sé með greind töluvert yfir meðallagi og ætti því að geta vegið upp á móti hugsanlegri greindarskerðingu stefndu við uppeldi barna þeirra. Á BPI-persónuleikaprófi komi skýrlega fram að engin vandamál hafi komið fram miðað við niðurstöðu prófsins ef frá er talin sjálfsfegrun sem sé alvanaleg í málum af þessu tagi. Í niðurstöðukafla í matsgerð sé því jafnframt haldið fram að stefnda sé haldin ýmiss konar skapgerðarbrestum og óskilgreindum persónuleikavandamálum sem umræddur matsmaður telji að séu til staðar og skerði forsjárhæfni hennar. Stefnda telji matið haldið verulegum göllum þegar látið sé liggja á milli hluta að greina nákvæmlega umrædda persónugalla eða skapgerðarbresti og byggja jafnframt mat á forsjárhæfni að stórum hluta á þessari óljósu greiningu. Þegar forsjársvipting samkvæmt þessu ákvæði sé metin sé nauðsynlegt að líta til þess að stefnda sé talin fullkomlega hæf til þess að hafa önnur börn sín inni á heimilinu án þess að nokkrar athugasemdir séu gerðar við uppeldi hennar á þeim börnum. D-liður 1. mgr. 29. gr. er orðaður með þeim hætti að ef hann á við um aðstæður aðila hljóti viðkomandi að vera óhæfur til þess að fara með forsjá hvaða barns sem er. Orðalagið er almennt og snýr ekki að samskiptum eða erfiðleikum milli barns og foreldris heldur fyrst og fremst að því að eiginlegar foreldris séu þess eðlis að það sé ekki hæft til að fara með forsjá barna. Telur stefnda því skilyrði ákvæðisins ekki uppfyllt þar sem stefnda telst almennt hæf til þess að fara með forsjá barna. Skylda hvíli á Barnavernd Reykjavíkur skv. 1. mgr. 41. gr. barnaverndarlaga, 1. mgr. 56. gr. s.l. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 til að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en tekin sé ákvörðun í því. Stefnda telur stjórnvaldið ekki hafa sinnt skyldu sinni áður en starfsmenn Barnaverndar ákveða að leggja til forsjársviptingu skv. 29. gr. laganna. Fjölmörg atriði hafi ekki verið könnuð til hlítar. Í fyrsta lagi hafi átt að kanna forsjárhæfni stefndu og heimilisaðstæður nánar áður en lagt hafi verið til að svipta stefndu forsjá. Stefnda telur til að mynda að það mat sem gert var á henni sé ekki nægilega ítarlegt og að mörgu leyti sé órökstutt hvers vegna matsmaður telur forsjárhæfni skerta. Af þessu tilefni óskaði stefnda eftir dómkvaðningu matsmanns til að framkvæma nýtt mat. Í öðru lagi hafi ekki verið kannað til hlítar hver afstaða barnsins til búsetu sé en starfsmenn stefnanda og talsmaður barnsins hafi nær undantekningarlaust ekki náð neinu eða lágmarkssambandi við drenginn. Staðhæfingar hans um vilja til búsetu séu því misvísandi eða óljósar. Stefnda telur að einhver þeirra fagmanna sem hafi séð um barnið á undanförnum mánuðum og það þekki og treystir hefði átt að vera valinn í það verkefni að fá fram afstöðu barnsins. Á stefnanda hvíli sú skylda, skv. 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að gera ekki kröfu um sviptingu forsjár fyrir dómstólum nema ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs. Þrátt fyrir að einhverjar vægari aðgerðir hafi verið reyndar á undanförnum mánuðum og árum telur stefnda augljóst að þær aðgerðir séu ekki fullreyndar. Í því augnamiði megi líta til þess að mál þetta hafi verið til meðferðar í verulega skamman tíma. Hafi í raun aldrei verið gerð tilraun til þess að koma barninu aftur inn á heimili stefndu frá þeim tíma þrátt fyrir að hún sé með önnur börn sín athugasemdalaust á heimilinu. Fyrsta áætlun um meðferð máls hafi síðan verið gerð á haustdögum 2013, örfáum mánuðum áður en samþykkt er af hálfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur að gera kröfu fyrir dómstólum um sviptingu forsjár gagnvart stefndu. Stefnda telur að stefnandi hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru gagnvart stjórnvaldinu um að láta alla meðferð málsins þegar barn er vistað utan heimilis stefna að því að barnið komi aftur inn á heimili. Stefnda telur að það hefði átt að láta reyna á búsetu barnsins hjá stefndu, sérstaklega samhliða því að barnið fór inn á BUGL í meðferð þar. Hafi þar verið fullkomið tækifæri til þess að láta reyna á forsjárhæfni stefndu. Hægt hefði verið að hafa verulegt eftirlit fyrst um sinn, stuðning inni á heimilinu og jafnvel stuðningsfjölskyldu sem barnið þekkt, t.d. núverandi fósturfjölskyldu, sem hefði getað tekið barnið reglulega til þess að hvíla fjölskylduna. Ekkert af þessu hafi verið reynt. Telur stefnda af þeim sökum augljóst að skilyrði meðalhófsreglu sé ekki uppfyllt. Verði komist að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt sé að vista barnið lengur utan heimilis telur stefnda þrátt fyrir það að skilyrði meðalhófsreglu séu ekki uppfyllt. Stefnda telur að ef komist verður að þeirri niðurstöðu hefði átt að vista barnið tímabundið utan heimilis með vísan til 27. gr. barnaverndarlaga. Telur stefnda því ekkert benda til þess að skilyrði meðalhófsreglu stjórnsýslu- og barnaverndarlaga séu uppfyllt í máli þessu. Stefnda byggir kröfu um sýknu á barnaverndarlögum nr. 80/2002, m.a. 29., 41. og 56. gr. laganna. Stefnda byggir einnig á 10. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Krafa um málskostnað styðst aðallega við 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. IV. Niðurstaða                 Í máli þessu er til úrlausnar krafa stefnanda um að stefnda, K, verði svipt forsjá 8 ára gamals sonar síns, A á grundvelli a-, c- og d- liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Um er að ræða það úrræði sem gengur lengst af lögmæltum úrræðum laganna. Til þess að réttlætanlegt sé að beita úrræðinu þurfa að liggja fyrir sérstaklega ríkar ástæður sem taka mið af hagsmunum og þörfum barnsins. Auk þess þarf að liggja fyrir að vægara úrræði hafi ekki dugað til að tryggja hagsmuni þess.                  Í a-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga er barnaverndarnefnd veitt heimild til að krefjast þess fyrir dómi að foreldrar skuli sviptir forsjá telji nefndin að daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum foreldra og barns sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þess og þroska. Samkvæmt c-lið málsgreinarinnar, telji nefndin að barninu sé misþyrmt, misboðið kynferðislega eða það megi þola alvarlega andlega eða líkamlega áreitni eða niðurlægingu á heimilinu og samkvæmt d-lið, telji hún fullvíst að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess sé hætta búin sökum þess að foreldrar eru ljóslega vanhæfir til að fara með forsjána, svo sem vegna vímuefnaneyslu, geðrænna truflana eða greindarskorts eða vegna þess að breytni foreldranna sé líkleg til að valda barni alvarlegum skaða. Ekki er um tæmandi talningu þeirra atvika að ræða sem geta valdið því að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess sé hætta búin. Í þessu sambandi nægir að uppfylltur sé einn af ofantöldum stafliðum 1. mgr. 29. barnaverndarlaga. Samkvæmt 2. mgr. 29. gr. skal kröfu um sviptingu forsjár því aðeins gera að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðundandi árangurs.                 Á meðal gagna máls þessa eru fjölmörg gögn, m.a. um afskipti og aðkomu barnaverndaryfirvalda að máli þessu og þau úrræði sem gripið hefur verið til af þeirra hálfu í þeim tilgangi að styrkja stefndu til að gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum. Þá er að finna gögn frá leikskóla og sér í lagi grunnskóla A um hegðun hans, líðan og aðbúnað. Einnig eru á meðal gagna málsins tvær sálfræðilegar matsgerðir sem aflað var af stefnanda annars vegar og stefndu hins vegar en til þeirra var vísað í kafla um málavexti. Ekki þykja efni til að rekja allt það sem fram kom í skýrslu stefndu og vitna í málinu en vikið verður að einstökum atriðum eftir því sem ástæða þykir til.                 Eins og rakið hefur verið á málið nokkra forsögu en tilkynningar bárust Barnavernd Reykjavíkur á árunum 2010 og 2011, um vanrækslu, skort á umönnun og grunsemdir um að A væri beittur líkamlegu og andlegu ofbeldi af stefndu og sambýlismanni hennar. Málinu var lokað eftir að könnun hafði farið fram en sótt var um úrræðið Stuðninginn heim hjá þjónustumiðstöð. Það úrræði nýtti stefnda sér ekki en fyrir liggur í gögnum málsins og er staðfest af stefndu og sambýlismanni hennar að á þessum tíma hafi sambýlismaður stefndu átt við áfengisvanda að stríða. Hafði lögregla þá afskipti af honum, m.a. á þeim tíma er stefnda var barnshafandi. Fyrir liggur að móðir stefndu og nágrannar höfðu verulegar áhyggjur af þróun mála og voru á meðal þeirra sem stóðu að tilkynningum til lögreglu. Kom fram í skýrslu af stefndu fyrir dómi að kaflaskil hefðu orðið í samskiptum hennar og móður hennar þegar hún hóf sambúð með B en fram að þeim tíma hefði hún verið henni stuðningur og þá sérstaklega í tengslum við A. Tengsl drengsins við blóðföður sinn voru engin en frænka stefndu E, nú fósturmóðir, var mikið með drenginn að ósk stefndu.                 Á þessum árum var þegar orðið ljóst að A glímdi við fjölþættan vanda. Áberandi voru málörðugleikar hans, tilfinningalegur vandi og erfiðleikar við að mynda félagsleg tengsl og var máli hans vísað á þjónustumiðstöð af leikskóla. Greining á árinu 2010 og árinu 2011 leiddi í ljós verulega veikleika sem áður segir. Vandi hans varð æ meira áberandi og samskipti við önnur börn fóru versnandi þegar í grunnskóla var komið. Þrátt fyrir leiðbeiningar þjónustumiðstöðvar og barnaverndaryfirvalda var eftirfylgni stefndu verulega ábótavant og hún þáði ekki stuðning inn á heimilið. Aðstæður hennar voru þó vissulega erfiðar á þessum tíma auk þess sem hún eignaðist barn á árinu 2011.                 Mál A kom til kasta Barnaverndar Reykjavíkur eftir bréf skólastjóra [...]skóla frá 18. október 2012. Þá fór að bera á áhættuhegðun drengsins á árinu 2013 og sjálfsvígshugsanir hans urðu áberandi bæði í skóla og heima fyrir en þá lá greining fyrir um ADHD-einkenni. Fram kemur í gögnum málsins og var staðfest fyrir dómi af J þroskaþjálfa, sem hefur haft með málefni A að gera frá því að hann byrjaði í [...]skóla, að vanlíðan drengsins hafi verið það mikil að hann hafi nánast ekkert getað lært í tvö ár. Hafi hann einfaldlega ekki ráðið við venjulegar aðstæður. Hann hafi jafnframt verið mjög á varðbergi gagnvart því sem hann taldi ekki þóknanlegt stefndu. Hann hafi átt mjög erfitt með að ræða persónulega hluti en hafi þó greint henni frá því sem síðar var tilkynnt. Í gegnum lestur bóka hafi hann sagt frá vanlíðan sinni og að stefnda og B meiddu hann. Eins og ástatt var með drenginn var talin brýn nauðsyn að greina vanda hans og undirritaði stefnda meðferðaráætlun 2. september 2013 sem m.a. laut að því að styrkja uppeldishæfni hennar og efla stuðning við heimilið í þeim tilgangi að mæta sérþörfum A. Vegna bersýnilegrar vanlíðunar drengsins var ákveðið að vista hann tímabundið utan heimilis hjá stuðningsfjölskyldu sinni, E og eiginmanni hennar L, frá 30. september 2013 og var það í fyrstu í fullri samvinnu við stefndu. Hefur stefnda aðeins verið í takmarkaðri umgengni við hann síðan þá. Ástæða vistunarinnar var ekki síst sú að breytingar til hins betra sáust á drengnum í skólanum þegar hann kom frá stuðningsfjölskyldu. Á þeim tíma undirritaði stefnda meðferðaráætlanir þar sem gert var ráð fyrir því að hún fengi Greiningu og ráðgjöf heim en í skýrslu þeirra kemur fram að þegar upp var staðið taldi stefnda ekki þörf á að fá stuðning inn á heimili sitt fyrr en drengurinn kæmi aftur úr fóstri. Einnig má sjá að oftar en ekki var ekki unnt að fá hana til viðtals hjá Barnavernd Reykjavíkur. Kom ítrekað fyrir að hún mætti ekki í boðaða tíma eða svaraði ekki í síma. Í skýrslu I, starfsmanni Barnaverndar Reykjavíkur, kom fram að stefnda hefði hvað þetta varðar ekki sýnt samstarfsvilja. Eftir að A var kominn í tímabundið fóstur varð jákvæðra breytinga vart. Samkvæmt upplýsingum frá J virtist hann þó kvíða jólunum og kvaðst „hata jólin“. Hann hafi þó sýnt miklar og jákvæðar breytingar og var farinn að lita og teikna sem var nokkuð sem hann ekki gerði áður. Þá kemur fram í staðfestingu frá skóla, frá 31. október 2013, að greinilegur munur væri á líðan barnsins til hins betra. Hann væri glaðari, tjáði sig meira og væri ánægðari með sjálfan sig. Um námslega stöðu segir að hann hafi sýnt töluverðar framfarir og aukinn áhuga á náminu. Félagsleg staða hans hafi batnað og þó að upp komi árekstrar á milli hans og annarra barna heyri til undantekninga að hann beiti börn líkamlegu ofbeldi. Fram kom að kvíða gætti hjá A gagnvart jólunum og óöryggi varðandi framtíðina. Í gögnum koma jafnframt fram upplýsingar frá sálfræðingi stefnanda um að virtist sem A líði vel á fósturheimilinu, hann sýni meira traust en áður en tjái sig lítið. Hann forðist að ræða um móður sína og þegar hann er spurður um samskipti við hana beri hann fyrir sig gleymsku eða svari að allt sé fínt. Þá spyrji hann hversu margir dagar séu eftir af vistuninni og svo virðist sem hann vilji ekki fara til móður sinnar nema í stuttar heimsóknir í einu. Einnig velti hann mikið fyrir sér framhaldi mála og tali um „að þegar hann væri búinn að vera 90 daga hjá vistunaraðilanum vildi hann vera 1000 daga í viðbót“. Samkvæmt gögnum virtist koma bakslag hjá A í byrjun nóvember 2013. Ekki er vitað hvað kom honum úr jafnvægi en hegðun hans fór versnandi. Fyrir kom að hann tók köst og beitti ofbeldi þegar reynt var að hafa hemil á honum. Ljóst er þó af gögnum að hann fékk skilaboð í umgengni við stefndu sem hann vissi ekki hvernig hann átti að vinna úr og voru til þess fallin að valda honum hugarangri. Fram kom í skýrslu J og I að sjáanlegar breytingar hafi verið á A eftir að hann kom úr umgengni. Þá kvað I hann hafa hann komist upp á lagið með að láta illa í skólanum, enda vissi hann að þá yrði hringt í E og hann yrði sóttur. Þegar hún hafi komið og sótt hann hafi drengurinn ljómað og glaður farið með henni. Vegna hegðunar drengsins þrýsti skólinn á fyrirhugaða daginnlögn á BUGL en þar var hann frá 6. mars til 23. maí 2014.                 Samkvæmt gögnum frá Talþjálfun Reykjavíkur mældist málþroski A mjög slakur. Vegna hegðunar hans var á tímum ekki hægt að prófa hann og hann sýndi ekki samvinnu. Unnt var að prófa hann í júní og júlí 2014 og voru niðurstöður prófa þær að málþroski reyndist eðlilegur og orðaforði rétt undir meðallagi jafnaldra hans. Talþjálfun var í framhaldinu ekki talin nauðsynleg en þörf væri á að styðja vel við drenginn með það að markmiði að auka orðaforða hans og styðja málþroskann. Samkvæmt prófum á málþroska hefur drengurinn, frá því að hann fór í fóstur, farið frá því að mælast með málhömlun yfir í eðlilegan málþroska. Upplýsingar frá [...]skóla sem mótteknar voru 2. október 2014 bera með sér að mikil umskipti hafa orðið á A á milli ára. Líkja skólayfirvöld breytingunum við kraftaverk. Fram kemur að hann sé allt annar drengur, spjalli og biðji um hjálp. Ljótt orðbragð sem var mjög algengt hafi ekki heyrst um haustið. Félagslega sé hann sterkari og lendi í fáum árekstrum en áður hafi ofbeldisleg hegðun verið algeng og árekstrar daglegt brauð. Staðfesti J þetta fyrir dóminum og lýsti þeim jákvæðu breytingum sem hún hefði upplifað á drengnum. Fram kom í skýrslu stefndu fyrir dómi að A væri allt annar drengur í dag. Undir það mat tók B sambýlismaður hennar í sinni skýrslu sem kvað drenginn hafa breyst enda hafði hann fengið það sem hann þyrfti. Rekja þau breytingarnar til þeirra lyfja sem hann fékk á BUGL en ekki til fósturvistunarinnar sem slíkrar. Telur stefnda að hún eigi að fá tækifæri til þess að ala upp drenginn. Þá kom fram hjá stefndu að hún teldi sig og sambýlismann sinn ekki þurfa á utanaðkomandi stuðningi að halda en hún myndi ekki slá hendinni á móti honum ef til kæmi. Þá kom fram að hún væri ekki fylgjandi því að A hefði samskipti við ömmu sína og telur þau óæskileg. Kvaðst hún þó sætta sig við E sem stuðningsforeldri áfram enda ljóst að drengurinn hefði tengst henni undanfarið ár. Hins vegar vildi drengurinn vera hjá henni og systkinum sínum. Hvað varðar framtíðarbúsetu kvað stefnda aðspurð líklegt að fjölskyldan flytti í annað sveitarfélag og hafi Selfoss verið ofarlega í huga þeirra. B kannaðist við að hafa haldið sig til baka í uppeldi A enda væri hann ekki blóðfaðir drengsins. Viðurkenndi hann að hann hefði getað gert betur í því sambandi. Kvaðst hann nú fús til þess að þiggja stuðning barnaverndaryfirvalda auk þess sem hann myndi setja þarfir drengsins í forgang. A hefur ekki átt auðvelt með að tjá sig um líðan sína. Vanlíðan hans hefur brotist út með öðrum hætti. Hann hefur þó ítrekað tjáð sig um að stefnda og B séu ekki góð við hann, beitt hann ofbeldi og lýst atvikum sem hafa haft veruleg áhrif á hann. Í viðtali við barnaverndarstarfsmann kannaðist B við að stefnda og drengurinn ættu ekki skap saman og að hann væri mikið skammaður af henni. Vildi hann þó ekki kannast við ofangreinda lýsingu fyrir dóminum. Þótt ljóst sé að á litlu öðru sé að byggja en frásögn drengsins sjálfs um þessi atriði verður ekki fram hjá henni litið. A var tvívegis skipaður talsmaður en báðir áttu í verulegum vandræðum með að ná til hans sem og barnaverndarstarfsmenn. Hann hefur ýmist sagt að hann vilji vera hjá stefndu eða E en eins og áður segir þykja ýmsar athugasemdir hans benda til þess að þær séu ekki frá honum komnar. Í skýrslu K, talsmanns A frá 10. maí 2014, kemur fram að drengurinn hafi sagt við hana að hann vildi vera hjá E og manni hennar og er heimsókninni nánar lýst í gögnum málsins. A virðist þó gera sér grein fyrir því sem framundan er og kom fram í skýrslutöku af I og J að kvíði hefði gert vart við sig að nýju. Af þessu er ljóst að skýr afstaða drengsins liggur ekki fyrir og verður því að draga ályktanir um hana af öðrum þáttum er honum viðkoma. Samkvæmt framburði F, læknis á BUGL, var kvíðinn sá þáttur sem var mest hamlandi fyrir drenginn við komu og þyrfti því að vinna mikið með hann. Ýmsir álagsþættir í umhverfi barna hefðu oft mikil áhrif á líðan þeirra. Þarfir A væru slíkar að hann þyrfti sérstaklega styðjandi umhverfisþætti. og í reynd þyrfti að laga umhverfið að hans þörfum. Ekki hafi tekist að ljúka athugun á því hvort vandi hans lægi í einhverfurófsröskun en til standi að  framkvæma slíka athugun. Óumdeilt er að hinn margþætti vandi A kallaði á margþætta meðhöndlun og eftirfylgni. Drengurinn var áður á lyfjum við svefnvandamáli og vegna tíðra þvagláta á næturnar og jafnframt voru reynd kvíðastillandi lyf. Ljóst var að meira þurfti og langt frá því að hegðunarbreytinga væri að vænta á svipstundu. Af því sem rakið er hér að ofan er hins vegar ljóst að frá þeim tíma er drengurinn var vistaður utan heimilis fór framfara að gæta í þroska hans, hegðun og félagsmynstri. Stuðningsnet heimilis og skóla var þétt og við bættist aðkoma BUGL þar sem hann fékk lyf og meðferð sem hann brást vel við. Tíminn vann augljóslega með drengnum eins og sjá má af gögnunum. Telur dómurinn ekki unnt að líta svo á að lyfin ein hafi valdið þeim stakkaskiptum sem raun ber vitni og kom þetta jafnframt fram í framburði vitna fyrir dóminum. Allar aðstæður á heimili, örvun og uppeldi eru mikilvæg atriði enda endurspeglast líðan barns af þeim þáttum. Öll eftirfylgni á heimili er aukinheldur mikilvæg ef vel á að takast til. Að mati dómsins kemur þetta t.d. fram í þeirri framför sem varð í málþroska hans þrátt fyrir að hann hefði ekki sótt talþjálfun nema að takmörkuðu leyti. Ljóst er að A þarf mikinn stöðugleika og fjölþætta aðstoð ef vel á að takast til um framtíð hans. Verða hagsmunir hans af því að svo verði að teljast afar ríkir. Kröfur til umönnunaraðila hans eru því ríkari en til þeirra sem ala upp börn sem ekki glíma við fjölþættan vanda eins og hann á við að stríða. Meðal annars þurfa þeir að búa yfir innsæi til þess að gera sér grein fyrir eigin göllum og til hvaða úrræða þurfi að grípa svo vel takist til hjá þeim í uppeldinu. Eins og fyrr segir eru tvö sálfræðimöt á meðal gagna málsins. Þær matsspurningar sem lagðar voru fyrir hinn dómkvadda matsmann eru ítarlegri en þær sem lagðar voru fyrir matsmann sem stefnandi leitaði til. Miðað við umfang þeirra og með hliðsjón af þeim tíma sem matsmaður hafði til að ljúka matinu var ekki unnt að svara þeim til hlítar eða leggja fyrir öll þau próf sem æskilegt hefði verið.    Matsmenn eru í niðurstöðum sínum samstiga um tiltekin atriði þegar litið er til niðurstöðu matslista og prófa. Telja þeir að ekkert bendi til þess að stefnda eigi við geðræn vandamál að stríða. Þá er stefnda með greind á tornæmisstigi og töluverður misstyrkur kom fram í prófum. Af niðurstöðum matsgerða verður ráðið að þroskafrávik þessi hafi reynt talsvert á veikleika hennar auk þess sem hún hefur tilhneigingu til að afneita hvers konar erfiðleikum í eigin fari hvað varðar geðræna og persónulega þætti. Matsgerð hins dómkvadda matsmanns er ekki afdráttarlaus um þau atriði sem dómurinn telur hér skipta mestu máli þegar litið er til velferðar A. Niðurstaða hans þegar kemur að þeirri matsspurningu hvernig hæfni og geta stefndu og sambýlismanns hennar til að nýta sér meðferð og stuðningsúrræði sé háttað, er sú að forsenda fyrir því að þau séu móttækileg fyrir því að þiggja aðstoð og nýta sér meðferð sé að þau gangist við vandanum og setji þarfir A í forgang. Til þess þurfi þau að læra að byggja upp traust en einn stærsti vandi stefndu og sambýlismanns hennar sé hversu tortryggin þau séu gagnvart stuðnings- og meðferðaraðilum. Fram kemur að þau hafi bæði verið í mikilli varnarstöðu þegar kemur að samvinnu við barnavernd og þau hafi ýmist afneitað vandamálinu eða sýnt fremur slakt innsæi gagnvart eðli vandans. Ljóst er að greind er forsenda innsæis. Innsæi í þarfir barns og eigin getu er forsenda góðrar foreldrahæfni. Skortur á innsæi í eigin getu gerir að verkum að viðkomandi á erfitt með að hafa innsæi í þarfir annarra. Báðir matsmenn komast að þeirri niðurstöðu að á skorti í eigið innsæi stefndu sem og hæfileika til að taka gagnrýni og þar með þiggja leiðsögn. Innsæisskortur stefndu kemur meðal annars fram í því að hún hefur í reynd aldrei talið sig þurfa á neinum úrræðum eða leiðbeiningum að halda vegna uppeldis og umönnunar A. Einnig hefur hún eignað litarafti A og fráfalli afa hans mörgum árum áður alla vanlíðan drengsins. Fram kemur í báðum matsgerðum að stefnda er að eðlisfari hvatvís og með slaka tilfinningastjórn sem kemur niður á samskiptum hennar. Skortur á innsæi, slök tilfinningastjórn og hvatvísi eru til þess fallin að foreldri á erfitt með að sýna yfirvegun gagnvart hegðunarerfiðleikum barns. Fram kemur í báðum matsgerðum að B býr yfir ágætri greind en hefur ekki sýnt tilburði til að tengjast drengnum, taka á vanda hans eða leiðbeina og liðsinna móður drengsins í uppeldi hans. Þrátt fyrir að fram komi í báðum matsgerðum að hvorki stefnda né B séu haldin alvarlegum geðsjúkdómum eða fíknivanda eru þeir brestir sem fram koma í persónugerð þeirra beggja þess eðlis að ólíklegt er að þau geti annast og tekið tillit til þarfa A á fullnægjandi hátt. Hann er eins og áður segir barn með fjölþættan vanda og umönnun hans reynir sérstaklega mikið á uppeldishæfni og almenna getu umönnunaraðila. Að mati dómsins breytir niðurstaða matsmanna, um góða tengslahæfni stefndu og náin tengsl á milli hennar og A annars vegar og hans og systkina hans hins vegar, ekki þeirri staðreynd að þarfir hans eru slíkar að góð tengsl ein og sér fullnægja þeim ekki. Að auki skortir, að mati dómsins, á að rök séu færð fyrir því að geðtengsl stefndu við A séu örugg og góð. Tengsl þeirra á millum voru eingöngu metin með viðtölum við stefndu, sjálfsmatslistum sem hún svaraði og með stuttu áhorfi á samskipti á heimili stefndu þegar drengurinn var þar staddur. Samkvæmt lýsingu J þroskaþjálfa fyrir dóminum, var framkoma stefndu í garð drengsins kuldaleg og einkenndist af gagnrýni og jafnvel niðurlægingu. Lýsti hún því að A virtist óttast mjög að brjóta gegn fyrirmælum móður sinnar og að hann sýndi ekki fögnuð við að mæta henni eftir langan aðskilnað. Að mati dómsins virðast gæði tengsla stefndu við A þannig vafa undirorpin.  Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið er það mat dómsins að stefnda hafi brugðist uppeldisskyldum sínum gagnvart A þannig að telja verði að daglegri umönnun og uppeldi hans hafi verið alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri hans og þroska, sbr. a-lið 1. mgr. 29. gr. laga nr. 80/2002. Fær niðurstaða þessi stoð í matsgerð G sálfræðings. Að mati dómsins var nauðsynlegt og í samræmi við hlutverk barnaverndarnefnda að grípa til aðgerða til hagsbóta fyrir drenginn með það fyrir augum að greina vanda hans frekar. Til þess að svo mætti vera var eðlilegt að aðskilja hann frá fjölskyldu sinni. Fór stefnandi ekki gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga eða 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga með íhlutun sinni. Bar stefndu samhliða þessu að þiggja öll þau úrræði sem talin voru æskileg til þess að efla uppeldisfærni hennar en lykilatriði í þessu sambandi var góð samvinna við Barnavernd Reykjavíkur. Því var ekki fyrir að fara þó að ítrekað væri eftir því gengið og er þar helst um að kenna hugarfari stefndu og B sambýlismanns hennar. Hefur ekki úrslitaþýðingu að stefnda hafi loks sótt PTM-námskeið og verið samstarfsfús um meðferð drengsins á BUGL. Má í þessu samhengi nefna að meðferðaraðilar á BUGL lögðu einnig áherslu á að stefnda nýtti sér stuðningsúrræði á meðferðartímanum. Þá telur dómurinn hina jákvæðu afstöðu B, sem fram kom í skýrslu hans fyrir dómi, til uppeldis A og samvinnu við Barnavernd Reykjavíkur ekki trúverðuga, enda ný af nálinni. Verður í þessu sambandi að líta til gagna málsins og niðurstöðu á persónuleikaprófi hans sem sýnir ríka tilhneigingu hans til þess að fegra sig. Eins og áður segir voru niðurstöður stefndu á prófinu ómarktækar. Stefnda og B eru því að mati dómsins ekki líkleg til þess að setja uppeldislegar þarfir A í forgang. Að virtum gögnum málsins og framburði stefndu og vitna fyrir dómi telur dómurinn að fullreynd hafi verið vægari úrræði til úrbóta en án viðunandi árangurs. Að öllu ofangreindu virtu verður að telja að hagsmunir A krefjist þess að stefnda verði svipt forsjá hans. Þykja skilyrði a liðar 1. mgr. 29.gr. og 2. mgr. sömu greinar uppfyllt. Þegar af þeirri ástæðu verður fallist á kröfu stefnanda um forsjársviptingu. Ekki er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu. Stefnda hefur gjafsókn í málinu sem er takmörkuð við rekstur málsins fyrir dómi. Allur gjafsóknarkostnaður hennar greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Flosa Hrafns Sigurðssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðinn, 796.000 krónur. Dóminn kveður upp Sigríður Hjaltested héraðsdómari ásamt Guðrúnu Oddsdóttur sálfræðingi og Rögnu Ólafsdóttur sálfræðingi. D Ó M S O R Ð:                 Stefnda, K, er svipt forsjá sonar síns, A.                 Gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Flosa Hrafns Sigurðssonar, sem þykir hæfilega ákveðinn 796.000 krónur.                
Mál nr. 315/2015
Kærumál Vitni
Með ákæru ríkissaksóknara 4. febrúar 2014 var ákærða gefið að sök  kynferðisbrot. Var brotið talið varða við 1. og 2. mgr. 194. gr. laga nr. 19/1940. Með dómi héraðsdóms 5. júní 2014 var ákærði sakfelldur og dæmdur í 4 ára fangelsi. Ákærði áfrýjaði héraðsdómi til Hæstaréttar, sem með dómi í máli nr. 488/2014 ómerkti héraðsdóm og vísaði málinu heim í hérað á ný til löglegrar meðferðar og dómsálagningar.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. apríl 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. apríl 2015, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að þrjú nafngreind vitni yrðu leidd fyrir dóminn. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að framangreind krafa verði tekin til greina. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með dómi Hæstaréttar 5. mars 2015 í máli nr. 488/2014, þar sem héraðsdómur var ómerktur, var lagt fyrir sóknaraðila að leiða D fyrir dóm um þau atvik er hann lýsti hjá lögreglu. Þar sem ekki var þar mælt fyrir um frekari munnlega sönnunarfærslu verður þegar af þeirri ástæðu staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar.  Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 314/2015
Kærumál Nálgunarbann
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun lögreglustjóra frá 23. apríl 2015 þess efnis að X, kt. [...] skuli sæta nálgunarbanni í 6 mánuði þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, kt. [...] að [...] í Reykjavík, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið, mælt frá miðju hússins. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. apríl 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2015 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að staðfest yrði ákvörðun hans 23. sama mánaðar um að varnaraðili sætti nálgunarbanni í sex mánuði. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og fallist verði á framangreinda kröfu hans. Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar en til vara að nálgunarbanni verði markaður skemmri tími. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var ákvörðun Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 23. apríl 2015 um nálgunarbann reist á beiðni brotaþola 22. sama mánaðar, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 85/2011. Ákvörðunin var því ekki byggð á heimild lögreglu til að leggja bannið á að eigin frumkvæði, sbr. 3. mgr. sömu greinar, og ekki rökstudd á þeim grundvelli í samræmi við 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 7. gr. laganna. Að þessu gættu og þar sem brotaþoli hefur fallið frá kröfu sinni verður að staðfesta hinn kærða úrskurð. Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011. Dómsorð Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Þóknun verjanda varnaraðila, Bjarna Haukssonar hæstaréttarlögmanns, fyrir Hæstarétti, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Mál nr. 605/2014
Kaupleiga Aðild Kröfugerð Málsástæða Vanreifun Frávísun frá héraðsdómi
S falaðist eftir kaupum á bifreið í eigu Þ og var útbúinn kaupsamningur og afsal þar sem Þ var tilgreindur seljandi, L hf. kaupandi og S umráðamaður bifreiðarinnar. Jafnhliða gerðu L hf. og S með sér kaupleigusamning um bifreiðina. Um tveimur mánuðum eftir að S fékk umráð bifreiðarinnar kom upp bilun í henni og á grundvelli kostnaðarmats vegna viðgerðar lýsti S yfir riftun á kaupleigusamningnum við L hf. sem L hf. hafnaði með vísan til þess að vanefndir teldust ekki slíkar að rifta skyldi samningnum. Þá hafnaði Þ því jafnframt að hann yrði gerður ábyrgur fyrir göllum á bifreiðinni. S höfðaði því mál á hendur L hf. og Þ og krafðist þess aðallega að viðurkennd yrði riftun sín á kaupleigusamningi við L hf. og að L hf. yrði gert að endurgreiða sér þá fjárhæð sem hann hafði greitt á grundvelli samningsins. Til vara krafðist hann þess að L hf. og Þ yrði óskipt gert að greiða sér afslátt af kaupverði bifreiðarinnar. Að auki krafðist hann þess að L hf. og Þ yrði óskipt gert að greiða sér skaðabætur að álitum. Héraðsdómur sýknaði L hf. af kröfu S, en dæmdi Þ til þess að greiða S tiltekna fjárhæð vegna gallans. Hæstiréttur taldi S ekki hafa í héraðsdómsstefnu gert nægjanlega grein fyrir því á hvaða grundvelli Þ hefði verið stefnt í málinu, en þar hefði verið staðhæft að ekki væri samningssamband milli S og Þ. Þá væri enga skýringu að finna á því við hvaða lagaheimild væri stuðst þegar L hf. og Þ væri stefnt sameiginlega til greiðslu afsláttar og skaðabóta. Væri aðild málsins, að því er varðaði Þ, því svo vanreifuð að vísa bæri kröfum S á hendur honum frá héraðsdómi. Þá var kröfum S á hendur L hf. vísað frá héraðsdómi af sjálfsdáðum þar sem málatilbúnaður hans á hendur L hf. uppfyllti ekki kröfur d. og e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Eiríkur Tómasson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar. I Málsatvik eru þau að aðaláfrýjandi falaðist eftir kaupum á bifreiðinni Nissan Double Cab með fastanúmer AT-631 hjá Bílasölunni Ósi, Akureyri, og útbjó bifreiðasalan kaupsamning og afsal fyrir bifreiðinni 30. mars 2011. Gagnáfrýjandi var tilgreindur seljandi, stefndi kaupandi og aðaláfrýjandi umráðamaður hins selda, en allir undirrituðu þeir samninginn. Í honum kom fram að ökutækið væri selt í núverandi ástandi sem kaupandi hefði kynnt sér, en seljandi kynni að vera ábyrgur gagnvart kaupanda vegna galla samkvæmt almennum reglum. Þá var kaupverð tilgreint 1.600.000 krónur. Jafnhliða var gerður samningur milli aðaláfrýjanda og stefnda 29. mars 2011, sem bar yfirskriftina ,,Bílasamningur Lýsingar“. Í samningnum var aðaláfrýjandi greindur leigutaki og stefndi leigusali og þeir sagðir gera með sér kaupleigusamning um hið leigða, sem var framangreind bifreið. Samkvæmt samningnum var gagnáfrýjandi seljandi bifreiðarinnar, en hann undirritaði hann ekki. Í umræddum kaupleigusamningi var leigutími sagður vera frá 5. apríl 2011 til 5. júlí 2014, fjöldi greiðslna 38 og kaupverð bifreiðarinnar tilgreint 1.600.000 krónur. Í 5. gr. samningsins sem fjallaði um upphaf og lok leigutíma sagði meðal annars að væri leigumunur skráningarskylt ökutæki eða vinnuvél, veitti leigutaki með undirskrift sinni leigusala fullt umboð til þess að undirrita tilkynningu um eigendaskipti við lok samningstíma fyrir hönd leigutaka svo unnt væri að skrá ökutækið á hans nafn hjá Umferðarstofu. Jafnframt sagði þar að leigusali bæri enga eigandaábyrgð á leigumun gagnvart leigutaka, enda hefði leigutakinn haft leigumun til umráða frá upphafi samnings. Í 8. gr. samningsins kom fram að leigusali væri eigandi leigumunar og að leigutaka væri óheimilt að stofna til hvers konar löggerninga um leigumun. Við síðustu leigugreiðslu eða greiðslu eftirstöðva samnings á hverjum tíma gæfi leigusali út afsal til leigutaka fyrir leigumun, sbr. 5. gr. samningsins, enda væri samningurinn að öðru leyti í skilum. Þá var tekið fram í 9. gr. hans að leigutaki bæri áhættuna af því, færist leigumunur eða skemmdist, eftir að leigumunur hefði verið afhentur leigutaka. Leigutaki sæi um að velja leigumun og annast fyrir hönd leigusala skoðun hans svo sem kaupanda væri skylt samkvæmt lögum nr. 50/2002 um lausafjárkaup. Leigusali tæki enga ábyrgð á leigumun. Leigutaki staðfesti að hið leigða væri afhent honum og hann tæki við því án fyrirvara og hefði sannreynt með nauðsynlegri skoðun og prófun að hið leigða væri gallalaust og hefði umsamda eiginleika. Í 11. gr. samningsins, sem fjallaði um vanefndir seljanda, sagði að leigutaka bæri að tilkynna leigusala skriflega eða með öðrum jafn tryggilegum hætti, reyndist leigumunur gallaður, svo unnt væri að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir gagnvart seljanda munarins vegna vanefnda hans. Leigutaka bæri að greiða leigu þótt seljandi vanefndi samning sinn við leigusala eða leigutaka. Leigutaki gæti þó átt rétt til afsláttar, skaðabóta eða endurgreiðslu. Nánar var þar rakið að leiddu vanefndir seljanda til afsláttar af kaupverði eða til skaðabóta úr hans hendi skyldi það koma leigutaka að fullu til góða í formi innborgunar á samning. Jafnframt kom fram að væru vanefndir seljanda svo verulegar að rifta mætti kaupum skyldi leigusali taka þá ákvörðun og tilkynna seljanda hana. Greiddi leigutaki þá kostnað við kröfugerð á hendur seljanda vegna vanefnda þess síðarnefnda hvort sem sú kröfugerð væri gerð í nafni leigusala eða krafan framseld til leigutaka. Samkvæmt 12. gr. samningsins bar leigutaka að halda leigumun vel við og láta gera við allar skemmdir og bilanir, jafnframt því að fylgja reglum seljanda og framleiðanda við notkun hans. Í niðurlagi 28. gr. sagði að greiðsluáætlun sem var fylgiskjal samningsins skoðaðist sem hluti hans. Þar var gerð grein fyrir mánaðarlegum greiðslum samkvæmt samningnum og tilgreint að um væri að ræða lán nr. 70081521. Aðaláfrýjandi var þar sagður vera kaupandi bifreiðarinnar og gagnáfrýjandi seljandi hennar. Undir greiðsluáætlun var ritað af hálfu stefnda og aðaláfrýjanda. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi kom fram bilun í bifreiðinni um tveimur mánuðum eftir að aðaláfrýjandi fékk umráð hennar. Á grundvelli kostnaðarmats vegna viðgerðar á henni, sem nam 2.410.000 krónum, lýsti aðaláfrýjandi yfir riftun 11. júlí 2011 gagnvart stefnda á áðurgreindum kaupleigusamningi auk þess sem í bréfinu var óskað eftir afstöðu stefnda til kröfunnar. Vísaði aðaláfrýjandi meðal annars til ákvæða 11. gr. samningsins. Með bréfi stefnda  9. ágúst 2011 var því lýst yfir að hann teldi í ljósi 9. og 11. gr. samningsins ,,vanefndir ekki slíkar að rifta skuli samningnum“ og hafnaði því kröfu aðaláfrýjanda um riftun hans. Þá tilkynnti aðaláfrýjandi gagnáfrýjanda um ætlaða galla með bréfi 30. september 2011, en með svarbréfi þess síðarnefnda 18. október sama ár var því hafnað að hann yrði gerður ábyrgur fyrir göllum á bifreiðinni. Í niðurstöðu matsgerðar 10. maí 2012, sem unnin var að beiðni aðaláfrýjanda, kom fram að orsök bilunar bifreiðarinnar væri sú að sveifarás væri brotinn við fremstu stangarlegu og að gömul sprunga hafi leynst í sveifarásnum þar sem vélin hefði brætt úr sér hjá fyrri eiganda. Áætlaður kostnaður af viðgerð var annars vegar metinn 436.634 krónur, miðað við að skipta einungis um sveifarás og legur, og hins vegar 1.236.229 krónur, en í því tilviki yrði vélin nánast gerð upp. Þá sagði jafnframt í niðurstöðu matsmanns að gagnáfrýjandi hefði látið gera við vél bifreiðarinnar á verkstæði um áramótin 2010 til 2011. Vélin hafi verið úrbrædd á sveifarás, tekin úr og í sundur að hluta. Að viðgerð lokinni hafi vélin verið sett aftur í bifreiðina. Hafi aðaláfrýjandi getað ,,engan veginn komið í veg fyrir að sveifarás brotnaði.“ II Eins og að framan er rakið afsalaði gagnáfrýjandi samkvæmt kaupsamningi framangreindri bifreið til stefnda 30. mars 2011 og var aðaláfrýjanda getið þar sem umráðamanns hennar. Samhliða þessu gerðu aðaláfrýjandi og stefndi með sér kaupleigusamning. Í 8. gr. hans var kveðið svo á um að stefndi væri eigandi bifreiðarinnar, enda var hann kaupandi hennar samkvæmt fyrrgreindum kaupsamningi. Af ákvæðum kaupleigusamningsins, sem rakin eru að framan, verður ráðið að samningurinn hafi verið lánssamningur. Komu aðilar samningsins þar fram sem leigusali og leigutaki, auk þess sem gert var ráð fyrir að aðaláfrýjandi eignaðist bifreiðina í lok leigutímans. Í 5. gr. kaupleigusamningsins sagði að stefndi sem leigusali bæri enga eigandaábyrgð á hinu leigða gagnvart aðaláfrýjanda sem leigutaka og í 9. gr. var hnykkt á því að hann bæri enga ábyrgð á leigumun. Samkvæmt 11. gr. samningsins var leigusali einn bær um að taka ákvörðun um riftun samnings vegna vanefnda seljanda og átti leigutaki enga aðkomu að þeirri ákvörðun. Í samræmi við fortakslaust orðalag ákvæðisins var leigusala ekki skylt að hafast neitt að gagnvart seljanda, enda þótt leigutaki sýndi fram á verulegar vanefndir hans. Virtist leigutaka því ekki hafa verið fært eftir samningnum að krefjast riftunar vegna verulegra galla á bifreiðinni, hvorki gagnvart leigusala né seljanda. Fól þetta í sér víðtækt afsal á réttarvernd aðaláfrýjanda sem leigutaka. III Í héraðsdómsstefnu gerði aðaláfrýjandi þær dómkröfur aðallega á hendur stefnda að viðurkennd yrði riftun á kaupleigusamningi þeirra og að stefnda yrði gert að endurgreiða sér leigugjald sem hann hefði greitt að fjárhæð 985.053 krónur auk dráttarvaxta. Yrði ekki fallist á þá kröfu gerði aðaláfrýjandi til vara þá kröfu á hendur stefnda og gagnáfrýjanda að þeim yrði ,,in solidum“ gert að greiða sér 1.236.229 króna afslátt af kaupverði bifreiðarinnar og til þrautavara að þeim yrði gert ,, in solidum“ að greiða sér 436.634 króna afslátt af kaupverðinu. Þá var þess krafist að þeim yrði ,,in solidum gert að greiða ... skaðabætur að fjárhæð 200,000.- kr. að álitum auk dráttarvaxta“. Í upphafi þess kafla stefnunnar þar sem er að finna málsástæður og lagarök aðaláfrýjanda sagði: ,,Stefnandi telur að um samskipti hans og stefnda Lýsingar hf. fari eftir ákvæðum laga um neytendakaup nr. 48/2003. Þó samningur milli aðila sé nefndur kaupleigusamningur, þá sé ljóst af ákvæðum hans að leigumunur átti að falla til stefnanda þegar skilyrði leigusamningsins höfðu verið uppfyllt. Kaupleigusamningurinn sé því í raun kaupsamningur með greiðsludreifingu og eignarréttarfyrirvara. Kröfum sínum um riftun og endurgreiðslu beinir stefnandi eingöngu að stefnda Lýsingu hf. enda er samningsréttarsamband vegna kaupa stefnanda á bifreiðinni ... eingöngu á milli stefnanda og stefnda Lýsingar hf. Varakröfu og þrautavarakröfu er beint gegn stefndu in solidum, þar sem samningur um kaup stefndu Lýsingar á bifreiðinni er milli stefndu, en stefnandi ekki beinn aðili að þeim gerningi.“ Síðastnefndar kröfur studdi aðaláfrýjandi samkvæmt stefnunni við 31. gr. laga nr. 48/2003. Í stefnunni er ekki gerð frekari grein fyrir því á hvaða grundvelli gagnáfrýjanda var stefnt, en eins og að framan er rakið var þar staðhæft að ekki væri samningssamband milli aðaláfrýjanda og gagnáfrýjanda. Þá er enga skýringu að finna á því við hvaða lagaheimild er stuðst þegar stefnda og gagnáfrýjanda er stefnt sameiginlega til greiðslu afsláttar og skaðabóta. Þegar af þessum ástæðum er aðild málsins, að því er gagnáfrýjanda varðar, svo vanreifuð að vísa ber kröfum aðaláfrýjanda á hendur honum frá héraðsdómi. Í stefnunni ber aðaláfrýjandi því við að stefndi hafi neitað að verða við kröfu sinni um riftun og borið fyrir sig ákvæði 11. gr. samningsins um takmarkaðan rétt leigutaka til að grípa til vanefndaúrræða. Þrátt fyrir það byggir aðaláfrýjandi ekki á ógildingarreglum III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, heldur reisir hann kröfur sínar á hendur stefnda á því að samningur aðila sé í raun kaupsamningur. Sá skilningur á sér hins vegar ekki stoð í efnisákvæðum samningsins og verður því hvorki lögum nr. 48/2003 né lögum nr. 50/2000 um lausafjárkaup beitt við túlkun hans. Þegar tilvísun aðaláfrýjanda til ákvæða þeirra laga sleppir, hefur hann ekki reifað hvar fundin verði stoð í samningnum fyrir riftunarkröfu sinni á hendur stefnda. Þá hefur aðaláfrýjandi ekki verið samkvæmur sjálfum sér um eðli samningsins, þar sem víða er til þess vísað í stefnunni að hann sé leigusamningur. Samkvæmt d. og e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að greina í stefnu svo glöggt sem verða má dómkröfur og málsástæður sem málsókn er byggð á, svo og önnur atvik sem þarf að geta til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst. Samkvæmt framansögðu uppfyllir málatilbúnaður aðaláfrýjanda ekki þessar kröfur og eru því svo verulegir annmarkar á honum að ekki verður hjá því komist að vísa kröfum aðaláfrýjanda á hendur stefnda sjálfkrafa frá héraðsdómi. Eins og að framan var rakið eru samningar þeir, sem liggja að baki lögskiptum aðaláfrýjanda og stefnda og sá síðarnefndi hefur einhliða samið, að ýmsu leyti óljósir og misvísandi. Af þeim sökum eru uppi í málinu veruleg vafaatriði er snúa að samningssambandi þeirra og þykir því rétt að þeir beri hvor um sig sinn kostnað af málinu. Á hinn bóginn verður aðaláfrýjanda gert að greiða gagnáfrýjanda málskostnað sem ákveðinn er í einu lagi á báðum dómstigum eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá héraðsdómi. Aðaláfrýjandi, Sverrir Þór Skaftason, greiði gagnáfrýjanda, Þórhalli M. Kristjánssyni, 700.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Málskostnaður fellur að öðru leyti niður. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. apríl 2014. I. Mál þetta, sem dómtekið var þann 12. febrúar 2014, var höfðað með stefnu útgefinni 17. september 2012 af Sverri Þór Skaftasyni, Áshamri 75, Vestmannaeyjum, gegn Lýsingu hf., Ármúla 3, Reykjavík, og Þórhalli M. Kristjánssyni, Huldugili 39, Akureyri. Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega á hendur stefnda Lýsingu hf.: - Að viðurkennd verði riftun á kaupleigusamningi stefnanda og stefnda Lýsingar hf., sem gerður var 29. mars 2011 vegna bifreiðarinnar AT-631, og tilkynnt var stefnanda með bréfi þann 11. júlí 2011. - Að stefnda Lýsingu hf. verði gert að endurgreiða stefnanda leigugjald sem hann hefur greitt stefnda Lýsingu hf. að upphæð 985.053 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt l. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 þannig: af 500.000 kr. frá 29. mars 2011 til 26. maí s.á. en af 547.488 kr. frá þeim degi til 27. júlí s.á., en af 616.437 kr. frá þeim degi til 29. nóvember s.á en af 726.376 kr. frá þeim degi til 1. janúar 2012 en af 797.720 kr. frá þeim degi til 5. mars s.á. en af 869.108 kr. frá þeim degi til 1. júní s.á., en af stefnufjárhæðinni allri frá þeim degi til greiðsludags. Til vara á hendur báðum stefndu sameiginlega: - Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnanda krefst hann þess til vara að stefndu verði sameiginlega gert að greiða stefnanda afslátt af kaupverði bifreiðarinnar að fjárhæð 1.236.229 kr. Til þrautavara: - Að stefndu verði sameiginlega gert að greiða stefnanda afslátt af kaupverði bifreiðarinnar að fjárhæð 436.634 kr. Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði sameiginlega gert að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 200.000 kr. að álitum auk dráttarvaxta eins og að framan var getið frá 29. mars 2011 til greiðsludags. Að lokum krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu, að skaðlausu að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi lögum samkvæmt. Af hálfu stefnda Lýsingar hf. er þess krafist að félagið verið sýknað af öllum kröfum stefnanda. Jafnframt krefst stefndi Lýsing hf. þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda Lýsingu hf. málskostnað skv. framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins. Af hálfu stefnda Þórhalls er þess krafist að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi Þórhallur þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða sér málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati réttarins eða síðar framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun. Í upphaflegri kröfugerð stefnda Þórhalls M. Kristjánssonar var þess krafist að máli þessu yrði vísað frá dómi hvað hann varðar. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann16. október 2013 var frávísunarkröfunni hafnað. II. Málsatvik Stefnandi keypti með milligöngu stefnda Lýsingar hf. bifreiðina AT-631 sem er af gerðinni Nissan Double Cab, árgerð 2005. Viðskiptin fóru þannig fram að gerður var kaupsamningur sem dagsettur er 30. mars 2011, milli stefnda Lýsingar annars vegar og stefnda Þórhalls hins vegar, þar sem Lýsing hf. var skráður sem kaupandi og stefndi Þórhallur sem seljandi ofangreindrar bifreiðar. Á sama skjali var stefnanda getið sem umráðamanns bifreiðarinnar. Samhliða þessum kaupum var gengið frá kaupleigusamningi milli stefnanda og stefnda Lýsingar hf., dags. 29. mars 2011, þar sem stefnandi var skráður leigutaki og umráðamaður bifreiðarinnar og tók að sér greiðslu á kaupleigusamningi við stefnda Lýsingu hf. Samkvæmt kaupleigusamningnum var kaupverð bifreiðarinnar 1.600.000 kr. og greiddi stefnandi við undirritun samningsins 500.000 kr. inn á samninginn. Eftirstöðvar bar að greiða með mánaðarlegum afborgunum á tímabilinu 5. júní 2011 til 5. júlí 2012. Stefnandi greiddi afborganir sem féllu á gjalddaga fram til 1. júní 2012. Í byrjun júní 2011 eða rúmum tveimur mánuðum eftir að stefnandi fékk umráð bifreiðarinnar kom fram bilun í henni og lýsti hún sér í því að hljóð heyrðist frá vélinni sem skv. skoðun hjá Ingvari Helgasyni hf. var talið stafa frá stangarlegu og talið var nauðsynlegt að opna vélina. Samkvæmt grófu kostnaðarmati frá Ingvari Helgasyni hf. dags. 29. júní 2011 var talið að viðgerðarkostnaður gæti numið allt að 2.410.000 kr.  Með bréfi til stefnda Lýsingar hf., dags. 11. júlí, krafðist stefnandi riftunar á kaupleigusamningi sínum við félagið auk þess sem hann óskaði eftir afstöðu félagsins til kröfu stefnanda og vísaði stefnandi m.a. til 11. gr. ofangreinds kaupleigusamnings.  Stefndi Lýsing hf. hafnaði riftun samningsins og vísaði m.a. til 9. gr. og 11. gr. kaupleigusamningsins og lýsti því yfir að í ljósi þeirra ákvæða væru vanefndir ekki slíkar að þær heimiluðu riftun. Með bréfi til stefnda Þórhalls, dags. 30. september 2011, óskaði stefnandi eftir afstöðu hans til framkominna galla og bréfs stefnda Lýsingar hf. Með bréfi dags. 18. október s.á. var af hálfu stefnda Þórhalls alfarið hafnað ábyrgð á ætluðum göllum á bifreiðinni. Að fenginni afstöðu stefndu óskaði stefnandi, með beiðni dags. 28. nóvember 2011, eftir því að Héraðsdómur Reykjavíkur dómkveddi einn hæfan og sérfróðan mann til að skoða og meta bilun vélarinnar. Dómkvaddur matsmaður, Harald P. Hermanns bifvélavirki, skilaði mati sínu dags. 10. maí 2012 og í matsgerðinni kom fram að matsmaður teldi orsök bilunarinnar vera þá að sveifarás væri brotinn við fremstu stangarlegu og teldi hann að leynst hefði gömul sprunga í sveifarásnum. Viðgerðarkostnað áætlaði matsmaður vera frá 436.000 kr. til 1.236.000 kr. eftir því hve mikið þurfti að gera við í vélinni. Þá kom fram í niðurstöðum matsmanns að í ljós hafi komið að fyrri eigandi, stefndi Þórhallur, hefði látið gera við vél bifreiðarinnar á verkstæðinu Vélvirkjanum ehf. um áramótin 2010-2011, en þá hafi vélin verið úrbrædd á sveifarási. Vélin hafi verið tekin úr og í sundur að hluta og blokk send í Vélaverkstæðið Kistufell ehf. þar sem sveifarás var renndur, „cylendrar hónaðir“, skipt um stimpilhringi, eina stimpilstöng og nýjar legur. Blokkin hafi síðan verið sett saman hjá Kistufelli og send á Vélvirkjann ehf. á Dalvík þar sem vélin var sett saman og sett í bifreiðina. Það var álit matsmanns að núverandi eigandi hefði á engan hátt getað komið í veg fyrir að sveifarás brotnaði. Bifreiðin mun hafa verið ónothæf frá því að umræddur galli kom upp í byrjun júní 2011. Stefnandi bauð síðan stefnda Lýsingu hf. sem leigusala bifreiðina til ráðstöfunar gegn endurgreiðslu á þegar greiddu leigugjaldi. III. Málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi byggir á því að um samskipti hans og stefnda Lýsingar hf. fari eftir ákvæðum laga um neytendakaup nr. 48/2003. Þó að samningur milli aðila sé nefndur kaupleigusamningur sé ljóst af ákvæðum hans að leigumunur hafi átt að falla til stefnanda þegar skilyrði leigusamnings væru uppfyllt og þannig hafi í raun verið um að ræða kaupsamning með eignarréttarfyrirvara. Kröfum sínum um riftun kveðst stefnandi eingöngu beina að stefnda Lýsingu hf. enda sé samningsréttarsamband vegna kaupa hans á bifreiðinni eingöngu milli stefnanda og stefnda Lýsingar hf. Varakröfu og þrautavarakröfu beinir stefnandi gegn stefndu sameiginlega þar sem samningur um kaup stefnda Lýsingar hf. á bifreiðinni sé á milli stefndu en stefnandi sé ekki aðili að þeim gerningi. Kröfu sína um riftun á hendur stefnda Lýsingu hf. byggir stefnandi á því að um verulegan og alvarlegan galla á bifreiðinni AT-631 sé að ræða í skilningi 16. gr. og 15. gr. 1, sbr. 2. mgr. stafliðum a) og b), í lögum nr. 48/2003 um neytendakaup. Umræddur galli sé með þeim hætti að útilokað sé að stefnandi geti borið ábyrgð á honum. Með öllu hafi verið útilokað að stefnandi yrði gallans var við eðlilega skoðun á bifreiðinni eins og leiða megi af niðurstöðum dómkvadds matsmanns. Varðandi varakröfu og þrautavarakröfu um afslátt úr hendi stefndu sameiginlega af kaupverði bifreiðarinnar vísar stefnandi til 31. gr. neytendakaupalaga og 38. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 og nemi afsláttur áætluðum kostnaði af viðgerð á öllum þeim göllum sem bifreiðin var haldin samkvæmt mati hins dómkvadda matsmanns, alls 1.236.229 kr., en til þrautavara krefst stefnandi afsláttar að upphæð 436.634 kr. sbr. mat hins dómkvadda matsmanns. Kröfur sínar um skaðabætur að álitum á hendur stefndu sameiginlega vegna afnotamissis byggir stefnandi á því að hann hafi ekki getað notað umrædda bifreið frá því bilunin varð í henni í byrjun júní 2011. Varðandi rökstuðning fyrir vara- og þrautavarakröfu er af hálfu stefnanda vísað til rökstuðnings með aðalkröfu að breyttu breytanda og 84. gr. laga um lausafjárkaup.  Stefnandi vísaði jafnframt í stefnu og við flutning um frávísunarkröfu til almennra reglna samninga- og kauparéttarins um efndir samninga og fjárskuldbindingar, svo og til ákvæða 15., 16., 18., 26., 31.-33. gr. og 35. gr. neytendakaupalaga.       Um málskostnað vísar stefnandi til ákvæða 129. gr., sbr. 130. gr. eml. og um varnarþing vísar stefnandi til 33. gr. s.l. Málsástæður og lagarök stefnda Lýsingar hf. Stefndi Lýsing hf. byggir sýknukröfu sína aðallega á því að félagið beri enga ábyrgð á meintum göllum umræddrar bifreiðar. Byggja kröfur stefnanda einkum á því að stefndi Lýsing hf. beri tilteknar skyldur gagnvart stefnanda á grundvelli laga um neytendakaup nr. 48/2003. Stefndi Lýsing hf. mótmælir því að umrædd lög eigi við um viðskipti stefnanda og stefnda Lýsingar hf., enda geti Lýsing hf. hvorki talist seljandi bifreiðarinnar í umræddum viðskiptum stefnanda né hafa haft atvinnu af sölu bifreiða, sbr. 1. gr. laga nr. 48/2003. Þar sem kröfur stefnanda grundvallist á ábyrgð stefnda Lýsingar hf. skv. umræddum lögum og umrædd lög eiga ekki við, beri að sýkna stefnda Lýsingu hf. af kröfum stefnanda. Stefndi Lýsing hf. byggir jafnframt sérstaklega á því að sýkna beri félagið á grundvelli aðildarskorts, þar sem stefndi Lýsing hf. hafi ekki verið seljandi bifreiðarinnar og að umræddur bílasamningur geti ekki undir neinum kringumstæðum talist kaupsamningur á milli stefnanda og stefnda Lýsingar hf. Að endingu byggir stefndi Lýsing hf. sýknukröfu sína jafnframt á því að félagið geti aldrei talist bera ábyrgð á meintum göllum bifreiðarinnar á grundvelli bílasamnings aðila, enda sé sérstaklega kveðið á um það í samningnum að slík ábyrgð sé ekki til staðar. Jafnframt er dráttarvaxtakröfum stefnanda sérstaklega mótmælt, sem og kröfu hans um greiðslu skaðabóta. Stefndi, Lýsing hf., byggir á því að lög nr. 48/2003 um neytendakaup eigi ekki við, stefnandi grundvalli málssókn sína gagnvart stefnda Lýsingu á þeim lögum. Kröfur stefnanda byggi á þröngum ákvæðum er gildi í þeim lögum varðandi gallahugtakið og úrræði kaupanda vegna vanefnda seljanda, þ.e. afsláttarkröfur og riftunarheimildir kaupanda. Stefndi Lýsing hf. mótmælir því harðlega að lög nr. 48/2003 um neytendakaup eigi við um lögskipti stefnda Lýsingar hf. og stefnanda. Byggir stefndi Lýsing hf. einkum á því að hann hafi ekki selt stefnanda umrædda bifreið og geti því ekki talist seljandi hennar, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 48/2003. Þá byggir stefndi, Lýsing hf., jafnframt á því að hann hafi ekki ,,atvinnu sína af sölu“, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Þar sem umrædd lög eigi ekki við og kröfur stefnanda á hendur stefnda Lýsingu hf. grundvallist að öllu leyti á því að umrædd viðskipti falli undir hugtakaskilgreiningu og skilyrði laga nr. 48/2003, beri að sýkna stefnda Lýsingu hf. af kröfum stefnanda. Stefndi Lýsing hf. telur fráleitt að litið sé svo á að í viðskiptum stefnanda og Lýsingar hf. felist að Lýsing hf. sé að selja stefnanda bifreið, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 48/2003. Stefndi, Lýsing hf., sé fjármálafyrirtæki með gilt starfsleyfi og stefnandi hafi leitað til fyrirtækisins sem slíks. Þá hafi dómstólar almennt talið að hliðstæðir samningar feli í sér annaðhvort lánssamning eða leigusamning, ekki kaupsamning. Telur stefndi Lýsing hf. þannig ljóst að viðskiptin geti ekki fallið undir ákvæði laga nr. 48/2003. Í I. kafla laga nr. 48/2003 er kveðið á um gildissvið laganna. Þar kemur eftirfarandi fram í 1. gr. laganna: Lög þessi gilda um neytendakaup að svo miklu leyti sem ekki er á annan veg mælt fyrir í lögum. Með neytendakaupum sé átt við sölu hlutar til neytanda þegar seljandi eða umboðsmaður hans hefur atvinnu sína af sölu. Stefndi hafnar því að í viðskiptum aðila hafi falist að stefndi selji stefnanda ofangreinda bifreið. Samkvæmt gögnum málsins virðist málsatvik vera á þá leið að stefndi, Þórhallur M. Kristjánsson, hafi sett ofangreinda bifreið í sölumeðferð hjá bílasölunni Ósi ehf., Akureyri. Þar hafi stefnandi séð bílinn, væntanlega skoðað hann og reynsluekið honum. Stefnandi hafi síðan væntanlega ákvarðað hvað hann væri tilbúinn að greiða fyrir bifreiðina og gert tilboð í hana. Eins og fram kemur í stefnu máls þessa, sem og greinargerð stefnda, Þórhalls M. Kristjánssonar, var seljandi bifreiðarinnar áðurnefndur Þórhallur M. Kristjánsson. Eftir að kauptilboði stefnanda hafði verið tekið hafi stefnandi leitað til stefnda Lýsingar hf. um fjármögnun kaupverðs. Stefndi, Lýsing hf., skilur ekki hvernig stefnandi á að geta haft réttmætar væntingar um að í þessu ferli fælist að Lýsing hf. tæki ábyrgð á ástandi bifreiðarinnar og þeim göllum sem hafi, eða hafi ekki, verið til staðar í bifreiðinni við kaup hennar. Stefndi Lýsing hf. lítur svo á að í þessum viðskiptum geti félagið ekki talist seljandi bifreiðarinnar. Stefndi Lýsing hf. mótmælir því að í bílasamningi aðila dags. 29. mars 2011 felist að stefndi Lýsing hf. sé að selja stefnanda umrædda bifreið. Fjármálastofnanir bjóði upp á ýmsa valkosti til að fjármagna afnot viðskiptavina sinna af tækjum og lausafé. Þannig bjóði stefndi Lýsing hf. upp á fjármögnunarleigusamninga, kaupleigusamninga o.fl. Umrædd samningsform séu mjög mismunandi að efni. Í kjölfar gengishruns íslensku krónunnar á árunum 2007 og 2008 hafi komið upp ákveðin réttaróvissa um lögmæti þess að fjárhæðir lánssamninga tækju mið af breytingum á gengi erlendra gjaldmiðla. Á síðustu árum hafi reynt á þetta atriði fyrir dómstólum og hafi Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að í sumum tilfellum feli samningur í sér leigu tækis frá fjármálastofnun til málsaðila, en í öðrum tilfellum sé talið að um sé að ræða lánssamning í búningi leigusamnings. Stefndi veit ekki til þess að í neinu tilfelli hafi verið talið að í slíkum samningi felist að fjármálastofnun sé að kaupa og selja aftur umrædda bíla eða tæki, og með þeim ábyrgðum og skyldum sem í því felist. Umræddir samningar teljist annaðhvort leigusamningar eða lánssamningar og geti ekki fallið undir ákvæði laga nr. 48/2003 um neytendakaup. Stefndi, Lýsing hf., bendir á að aðili sem selur skráningarskyld ökutæki í eigu seljanda, og þegar slík viðskipti séu þáttur í atvinnustarfsemi seljanda, þurfi seljandi að hafa til þess leyfi sýslumanns, sbr. 12. gr. laga nr. 28/1998 um verslunaratvinnu, en stefndi, Lýsing hf., hafi ekki slíkt leyfi. Með hliðsjón af ofangreindu telur stefndi, Lýsing hf., ljóst að umrædd viðskipti geti ekki falið í sér að Lýsing hf. teljist selja stefnanda umrædda bifreið og geti því lög nr. 48/2003 ekki átt við um viðskipti stefnanda og stefnda, Lýsingar hf., sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Þó svo að talið væri að stefndi Lýsing hf. hefði selt stefnanda umrædda bifreið, telur stefndi Lýsing hf. ljóst að félagið hafi ekki atvinnu af því að selja bifreiðar og falli því ekki undir gildissvið laga nr. 48/2003 um neytendakaup. Eins og fram kemur á framlögðu yfirliti frá Ríkisskattstjóra felist atvinnustarfsemi stefnda, Lýsingar hf., einkum í tvenns konar starfsemi, þ.e. leigu atvinnuhúsnæðis (ÍSAT nr. 68.20.2) og fjármögnunarleigu (ÍSAT nr. 64.91.0). Til viðbótar hinni ofangreindu opinberu skráningu stefnda, vísar stefndi, Lýsing hf., til ákvæða laga nr. 28/1998 um verslunaratvinnu. Í lögunum séu sérstakar reglur hvað varðar sölu notaðra, skráningarskyldra ökutækja. Um sé að ræða leyfisskylda starfsemi, sbr. 12. gr. laganna, og stefndi, Lýsing hf., hafi ekki leyfi til sölu bifreiða með þeim hætti. Því sé ljóst að félagið geti ekki talist hafa atvinnu af því að selja bifreiðar, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 48/2003.  Stefnandi hafi grundvallað málatilbúnað sinn að öllu leyti á ákvæðum laga nr. 48/2003 og þeirri þröngu hugtakanotkun sem þar sé að finna. Hvergi í stefnu máls þessa sé reynt að undirbyggja kröfugerð stefnanda á neinn annan hátt og ekki t.d. tilgreint á hvaða grunni stefnandi gæti byggt kröfur sínar gagnvart stefnda Lýsingu hf. ef niðurstaðan yrði sú að umrædd lög nr. 48/2003 ættu ekki við um lögskipti aðila. Telur stefndi Lýsing hf. því ljóst að þar sem umrædd lög eigi ekki við um lögskipti aðila, og þar sem stefnandi reyni ekki að neinu leyti að byggja kröfur sínar á öðrum grunni, beri að sýkna stefnda Lýsingu hf. af öllum kröfum stefnanda. Stefndi Lýsing hf. telur rétt að halda því til haga að þó svo að byggt væri á ákvæðum annarra laga en laga um neytendakaup nr. 48/2003 bæri samt sem áður að sýkna stefnda Lýsingu hf. á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Stefndi Lýsing hf. seldi stefnanda ekki umrædda bifreið og ber enga ábyrgð á þeim göllum sem gætu hafa verið til staðar við kaup stefnanda á henni og vísar til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2938/2011, máli sínu til stuðnings. Sé niðurstaðan sú, þrátt fyrir ofangreint, að stefndi Lýsing hf. teljist eiga aðild að þessu máli og kröfur stefnanda komi til skoðunar að einhverju leyti, þá sé á því byggt að stefndi Lýsing hf. hafi sérstaklega undanþegið sig ábyrgð á ástandi hins selda, sbr. ákvæði bílasamnings stefnanda og stefnda Lýsingar hf. Stefndi, Lýsing hf., vísar til ákvæða bílasamnings aðila, einkum 5. og 9. gr. samningsins, en þar segir: 5. gr. Upphaf og lok leigutíma ... Þegar leigutaki hefur greitt allar leigugreiðslur skv. 4. gr. og samningurinn að öðru leyti í skilum... skal leigusali afsala leigumun til leigutaka. Umskráning ökutækis yfir á nafn leigutaka gildir sem afsal... Leigusali ber enga eigendaábyrgð á leigumun gagnvart leigutaka, enda hefur leigutakinn haft hann til umráða frá upphafi samnings... 9. gr. Afhending leigumunar og skoðunarskylda Leigutaki velur leigumun og annast fyrir hönd leigusala skoðun hans svo sem kaupanda er skylt skv. lögum um lausafjárkaup nr. 50/2002 og/eða öðrum réttarreglum. Leigusali tekur enga ábyrgð á leigumun. Leigutaki staðfestir að hið leigða, sem greint er hér að framan, sé afhent honum og hann taki við því án fyrirvara og hafi sannreynt með nauðsynlegri skoðun og prófun að hið leigða sé gallalaust og hafi umsamda eiginleika. Leigugreiðslur skulu greiddar þó að leigutaki sé óánægður með leigumun eða í ljós komi að leigumunur hafi ekki þá eiginleika sem leigutaki reiknaði með. Stefndi telur ljóst af ofangreindum ákvæðum að viðskipti stefnanda og stefnda Lýsingar hf. taki ekki mið af ástandi bifreiðarinnar. Skyldur stefnda Lýsingar hf. hafi falist í fjármögnun á kaupunum. Kröfur stefnanda í máli þessu byggi á meintum galla á umræddri bifreið, en skýrt sé tekið fram í samningi aðila að stefndi, Lýsing hf., beri enga ábyrgð á ástandi leigumunarins. Beri því að sýkna stefnda Lýsingu hf. af kröfum stefnanda.  Varðandi kröfu stefnanda um greiðslu dráttarvaxta og skaðabóta, þá mótmælir stefndi Lýsing hf. sérstaklega kröfum stefnanda hvað varðar greiðslu dráttarvaxta vegna endurgreiðslukröfu stefnanda að fjárhæð 985.053 kr., órökstutt sé af hverju stefndi Lýsing hf. ætti að greiða dráttarvexti á umræddar kröfur. Þá sé ekki rökstutt hvernig upphafsdagur dráttarvaxta sé fundinn út í hverju tilfelli fyrir sig. Því sé ekki hægt að sjá með hvaða hætti stefnda Lýsingu hf. verði gert að greiða dráttarvexti þó svo að félagið yrði dæmt til greiðslu kröfunnar. Beri því að sýkna stefnda Lýsingu hf. af öllum kröfum stefnanda um greiðslu dráttarvaxta.   Á sama hátt mótmælir stefndi, Lýsing hf., kröfu stefnanda um greiðslu skaðabóta að fjárhæð 200.000 kr. vegna afnotamissis og greiðslu dráttarvaxta á þá kröfu frá 29. mars 2011. Skaðabótakrafan sé algjörlega órökstudd og telur stefndi Lýsing hf. að engar forsendur séu fyrir henni. Þá verði ekki séð hvernig hægt yrði að fallast á aðalkröfu stefnanda um riftun og endurgreiðslu, og jafnframt dæma stefnanda skaðabætur vegna afnotamissis bifreiðarinnar. Þá sé ekki rökstutt af hverju greiða ætti dráttarvexti á skaðabótakröfuna og hvers vegna 29. mars 2011 sé talinn upphafsdagur dráttarvaxta. Með hliðsjón af þessu ber að sýkna stefnda Lýsingu hf. af umræddum kröfum.  Kröfum sínum til stuðnings vísar stefndi Lýsing hf. aðallega til ákvæða laga um neytendakaup nr. 48/2003, einkum 2. mgr. 1. gr. laganna, en einnig til ákvæða 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá vísar stefndi Lýsing hf. jafnframt til almennra reglna samningaréttar og kröfuréttar máli sínu til stuðnings. Varðandi kröfu um málskostnað vísar stefndi til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 og ákvæða 21. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málsástæður og lagarök stefnda Þórhalls M. Kristjánssonar Stefndi Þórhallur M. Kristjánsson byggir á því að hann sé ekki réttur aðili að skyldu í því samningssambandi sem mál stefnanda fjallar um. Eins og stefnandi rökstyðji mál sitt snúist það um efndir á samningi milli stefnanda annars vegar og stefnda Lýsingar hf. hins vegar. Engar þær réttarreglur sem stefnandi vísi til máli sínu til stuðnings leiði til þess að einhverjar skyldur í því samningssambandi geti hvílt á stefnda Þórhalli. Verði sér því ekki gert að veita stefnanda afslátt sökum meints galla vegna kaupa stefnanda á lausafé af stefnda, Lýsingu hf., þ.e. viðskipta samkvæmt samningssambandi stefnanda og stefnda, Lýsingar hf. Hafi því ekkert réttarsamband stofnast milli stefnanda annars vegar og sín hins vegar. Verði þegar af þessari ástæðu að sýkna sig af öllum kröfum í máli þessu vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91, 1991. Vísar stefndi Þórhallur varðandi þetta til dóma Hæstaréttar Íslands, sbr. t.d. dóm réttarins frá 25. október 2012 í máli nr. 96/2012. Þá byggir stefndi Þórhallur á því að ekkert réttarsamband sé milli stefnanda og sín. Verði þrátt fyrir ofangreint talið að stefnandi geti hagað málatilbúnaði sínum með þeim hætti sem greini í stefnu og haldið kröfum sínum á hendur sér til streitu, sé á því byggt af sinni hálfu að með öllu sé ósannað að bilanir í bifreiðinni AT-631 megi rekja til fyrri viðgerðar á bifreiðinni. Þá sé í öllu falli ljóst að hann hvorki geti né eigi að bera nokkra ábyrgð á hinni meintu bilun sem slíkri eða tjóni sem af henni hafi hlotist. Þá sé hann ekki aðili að samningssambandi stefnda, Lýsingar hf., og stefnanda í máli þessu. Tilgreiningu á sér í 2. gr. samnings þeirra sé sérstaklega mótmælt, enda hafi hann enga aðkomu haft að gerð eða undirskrift þess samnings og verði með engu móti bundinn við efni hans að neinu leyti og vísist um þetta atriði til almennra meginreglna íslensks samningaréttar, sbr. ákvæði laga nr. 7/1936. Samningur þessi sé saminn einhliða af starfsmanni stefnda, Lýsingar hf., og tilgreining á sér í 2. gr. samningsins sé efnislega röng þar sem hann hafi þá þegar undirritað og gengið frá afhendingu bifreiðarinnar AT-631 til stefnda, Lýsingar hf. Stefndi Lýsing hf. hafi því verið réttmætur eigandi bifreiðarinnar þegar félagið gerði samning sinn við stefnanda. Þá megi einnig sjá af undirskriftum samningsins að hann hafi ekki verið aðili að honum með neinum hætti. Stefndi Þórhallur byggi á því að umráðum sínum yfir bifreiðinni AT-631 hafi lokið 30. mars 2011 með undirskrift fyrirliggjandi kaupsamnings og afsals bifreiðarinnar til stefnda, Lýsingar hf. Stefndi Þórhallur kveðst starfa sem grafískur hönnuður og hafði notað bifreið þessa til einkanota. Sala hans á bifreiðinni og samningssamband hans og viðsemjanda hans, stefnda Lýsingar hf., falli ekki undir gildissvið ákvæða laga nr. 48, 2003 um neytendakaup eins og ítrekað sé haldið fram í stefnu, heldur ákvæði laga nr. 50, 2000 um lausafjárkaup. Stefndi Þórhallur vísar til þess að síðari kaupandi söluhlutar geti ekki samkvæmt meginreglum íslensks kröfuréttar öðlast ríkari kröfuréttindi á hendur seljanda en fyrri kaupandi. Í þessu ljósi geti síðari kaupandi ekki haldið því fram að um fyrra réttarsambandið gildi ákvæði laga um neytendakaup sér til hagsbóta, enda ljóst af gildissviði laga nr. 48, 2003, sbr. 1. gr. laganna, að þau gilda ekki um samningssamband stefnda Þórhalls og stefnda Lýsingar hf. Þannig sé ljóst að allar málsástæður og lagatilvísanir í stefnu eiga ekki við um meint réttarsamband stefnanda og stefnda Þórhalls í málinu. Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 13. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50, 2000 flytjist áhættan af söluhlut yfir á kaupanda við afhendingu hlutarins, en slík afhending hafi átt sér stað samhliða undirritun kaupsamnings og afsals til stefnda Lýsingar hf. 30. mars 2011. Af 1. mgr. 21. gr. sömu laga sé ljóst að við mat á því hvort söluhlutur sé gallaður skuli miða við þann tíma þegar áhættan flyst yfir til kaupanda, jafnvel þó svo að galli komi síðar fram. Þá sé ótvírætt af gögnum málsins, ástandsskoðun og öðru að bifreiðin AT-631 var ekki haldin galla þegar hann hafi afhent hana viðsemjanda sínum, stefnda Lýsingu hf., á Akureyri 30. mars. 2011. Stefndi Þórhallur vísar til þess að hann hafi látið gera við bilun í bifreiðinni AT-631 árið 2010 á verkstæði Vélvirkjans ehf. Vélvirkinn ehf. hafi sent vélina áfram til vélaverkstæðisins Kistufells ehf., sem hafi séð um skoðun og viðgerð á vélinni sjálfri, en ísetning að nýju hafi farið fram hjá Vélvirkjanum ehf. Stefndi Þórhallur vísar til þess að hann sé ekki menntaður á sviði bifvélavirkjunar og hafi enga sérþekkingu á bifreiðaviðgerðum. Hann hafi því leitað til fagmanna um viðgerð á vél bifreiðar­innar og ekki komið með neinum hætti sjálfur að viðgerð á bifreiðinni. Hann hafi þannig keypt þjónustu tveggja viðurkenndra fagaðila á sviði vélaviðgerða og því verið í góðri trú um ágæti viðgerðarinnar. Stefndi Þórhallur hafnar því með öllu að hann beri ábyrgð á meintri bilun í bifreiðinni rúmum átta mánuðum eftir framangreinda viðgerð enda hafi farið fram fullnaðarviðgerð á bifreiðinni í höndum fagaðila. Hann hafi selt bifreiðina stefnda Lýsingu hf., sem hafi kynnt sér ástand bifreiðarinnar sem var notuð og hafi stefndi Lýsing hf. haft vitneskju um það frá upphafi að gert hafi verið við vél bifreiðarinnar árið 2010. Stefndi Þórhallur byggir á því að annað verði ekki ályktað en að bilanir í bifreiðinni síðar á árinu 2011 megi rekja til atvika sem gerðust eftir ástandsskoðunina í byrjun apríl 2011, þ.e. atvika sem gerðust eftir að stefnandi tók við vörslum og meðferð bifreiðarinnar og áhættuskipti höfðu átt sér stað milli sín og stefnda Lýsingar hf., sbr. 13. og 21. gr. laga nr. 50/2000. Með vísan til gildandi réttarreglna sé ljóst að bifreiðin AT-631 hafi ekki verið  haldin galla 30. mars 2011 þegar stefndi Þórhallur seldi hana, sbr. 1. mgr. 21. gr. laga nr. 50, 2000. Ber því að miða við ástand bifreiðarinnar á söludegi 30. mars 2011, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 50, 2000. Með ástandsskoðun bifreiðarinnar hjá viðurkenndum fagaðila á sviði bifreiðaskoðunar og athugasemdalausri viðtöku stefnda Lýsingar hf. og síðar stefnanda á bifreiðinni sé ljóst að bifreiðin var ekki haldin galla á þessum tíma. Stefndi Þórhallur vísar jafnframt til þess að fyrir liggi að með engu móti verði sannað hvert ástand bifreiðarinnar og aflvélar hennar var 30. mars 2011 með skoðun vélarinnar mörgum mánuðum seinna eftir viðamikla notkun stefnanda á henni. Á stefnda Lýsingu hf., svo og stefnanda máls þessa, hvílir skoðunarskylda. Stefndi Þórhallur geti ekki borið ábyrgð á því ef báðum þessum aðilum hefur láðst að sinna skoðunarskyldu sinni. Hann hafi upplýst um ástand bifreiðarinnar í hvívetna og verið í góðri trú um ágæti hennar. Þá sé ósannað að bifreiðin hafi verið haldin einhverjum galla þegar stefndi Lýsing hf. keypti hana. Samkvæmt öllu framansögðu megi vera ljóst að stefndi Þórhallur geti með engu móti borið ábyrgð á meintum bilunum í bifreiðinni AT-631 í júní 2012. Jafnframt sé útilokað að sá málatilbúnaður sem stefnandi haldi fram í stefnu sinni sé í samræmi við gildandi lagaákvæði á sviði samninga- og kröfuréttar, frekar en almennar meginreglur sömu réttarsviða. Stefndi Þórhallur mótmælti við aðalmeðferð vísan stefnanda til laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 sem of seint fram kominni. Verður því að sýkna stefnda Þórhall af öllum kröfum stefnanda. Máli sínu til stuðnings vísar stefndi Þórhallur til ákvæða laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 16., 80. og 100. gr. laganna, svo og til almennra meginregla einkamálaréttarfars um skýra og glögga kröfugerð og málatilbúnað. Þá vísar stefndi Þórhallur til ákvæða laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, einkum 1., 13. og 21. gr., sem og til V. og XIV. kafla laganna. Jafnframt vísar stefndi Þórhallur til laga um neytendakaup nr. 48, 2003. Stefndi Þórhallur vísar enn fremur til almennra meginreglna íslensks kröfu-, samninga- og skaðabótaréttar sem og ákvæða laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7, 1936. III IV Niðurstaða Aðalkröfu sínu um riftun á kaupleigusamningi stefnanda og stefnda Lýsingar hf., dags. 29. mars 2011 vegna bifreiðarinnar AT-631 og endurgreiðslu leigugjalds sem hann hafi greitt stefnda, Lýsingu hf., byggir stefnandi á því að þótt samningur aðila sé nefndur kaupleigusamningur, sé ljóst af ákvæðum hans að leigumunur hafi átt að falla til stefnanda þegar skilyrði leigusamningsins hafi verið uppfyllt og samningurinn því í raun kaupsamningur með greiðsludreifingu og eignarréttarfyrirvara. Kröfu sinni um riftun beinir stefnandi að Lýsingu hf. þar sem um verulegan og alvarlegan galla á bifreiðinni AT-631 hafi verið að ræða í skilningi neytendakaupalaga nr. 48/2003. Af hálfu stefnda, Lýsingar hf., er krafist sýknu og byggist sýknukrafan aðallega á því að félagið beri enga ábyrgð á meintum göllum umræddrar bifreiðar, lög um neytendakaup nr. 48/2003 eigi ekki við um viðskipti stefnanda og stefnda, Lýsingar hf. Þá geti stefndi, Lýsing hf., hvorki talist seljandi bifreiðarinnar í umræddum viðskiptum við stefnanda né talist hafa atvinnu af sölu bifreiða, sbr. 1. gr. laga nr. 48/2003. Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi og af lýsingu hans á kaupum á bifreiðinni má ráða að hann hafi leitað til sölumanns á bílasölunni Ósi á Akureyri og falast eftir kaupum á bifreiðinni AT-631. Sölumaðurinn hafi síðan haft samband við stefnda, Lýsingu hf., og gengið frá fjármögnun kaupanna. Stefnandi hafi undirritað samning um fjármögnun hjá bílasalanum og yfirskrift samningsins verið Bílasamningur Lýsingar. Stefnandi kvaðst engin samskipti hafa átt við stefnda Lýsingu hf. í tengslum við kaupin. Stefnandi kvaðst aðspurður fyrir dómi hafa litið svo á að hann hefði keypt bifreiðina af stefnda Þórhalli M. Kristjánssyni. Vitnið Jón Hafþór Þórisson, bifreiðasali hjá Bílasölunni Ósi, gaf símaskýrslu fyrir dómi og lýsi með sama hætti og stefnandi sölu á bifreiðinni AT-631 í greint sinn. Umræddur Bílasamningur Lýsingar hf. liggur fyrir í málinu og er undirritaður af stefnanda og stefnda Lýsingu hf. Í samningnum segir að Lýsing hf. sé leigusali og stefnandi leigutaki og að um sé að ræða kaupleigusamning. Hið leigða er Nissan Double Cab, fastanr. AT-631. Leigutími er frá 5. apríl 2011 til 5. júlí 2014. Í 4. gr. samningsins, sem ber heitið Leigugrunnur og leigugjald, er kaupverð bifreiðarinnar tilgreint 1.600.000 krónur, en til frádráttar kemur svokölluð leigugreiðsla við undirritun, 500.000 krónur. Við upphæðina bætist stofngjald, 8.296 krónur. og verður samningsfjárhæð þannig 1.108.296 krónur. Þá segir að mánaðarlegar leigugreiðslur fari fram á tímabilinu 5. júní 2011 til 5. júlí 2014, greiðslufjöldi sé 38 og upphæðin hverju sinni 33.803 krónur. Þá kemur þar fram að samningurinn sé óverðtryggður og vextir breytilegir. Í 5. gr. samningsins segir að þegar leigutaki hefur greitt allar greiðslur verði bifreiðin umskráð á hans nafn og umskráningin gildi sem afsal. Tekið er fram að Lýsing hf. beri enga eigendaábyrgð á bifreiðinni gagnvart leigutaka, enda hafi hann hana til umráða. Þó er áréttað í 8. gr. samningsins að Lýsing hf. teljist eigandi leigumunar þangað til honum verður afsalað til leigutaka eftir greiðslu síðustu leigugreiðslu. Í 9. gr. samningsins segir að leigutaki beri áhættuna af því ef leigumunur ferst eða skemmist eftir að hann hefur verið afhentur leigutaka og hann teljist afhentur í síðasta lagi við undirritun samningsins. Þá segir í 9. gr. að leigutaki velji leigumun og annist fyrir hönd leigusala skoðun hans svo sem kaupanda sé skylt samkvæmt lögum um lausafjárkaup nr. 50/2002 eða öðrum réttarreglum. Leigusali beri enga ábyrgð á leigumun. Þá segir jafnframt að leigutaki staðfesti að hið leigða sé afhent honum, hann taki við því án fyrirvara og hafi sannreynt með nauðsynlegri skoðun og prófun að hið leigða sé gallalaust og hafi umsamda eiginleika. Leigugreiðslur skulu greiddar þó að leigutaki sé óánægður með leigumun eða í ljós komi að leigumunur hafi ekki þá eiginleika sem leigutaki reiknaði með. Í 11. gr. samningsins segir að leigutaka beri að tilkynna leigusala skriflega eða með öðrum jafn tryggilegum hætti reynist leigumunur gallaður svo unnt sé að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir gagnvart seljanda vegna vanefnda hans. Leigutaka ber að greiða leigu þó að seljandi vanefni samning sinn við leigusala og/eða leigutaka. Þó geti leigutaki átt rétt til afsláttar, skaðabóta eða endurgreiðslu, en fram kemur að leiði vanefnd til afsláttar á kaupverði eða til skaðabóta úr hendi seljanda skuli það koma leigutaka að fullu til góða í formi lækkaðrar leigu, en að hann eigi ekki frekari rétt á hendur leigusala Í samningnum er síðan mælt fyrir um að leigutaki annist allt viðhald bifreiðarinnar á sinn kostnað. Við vanefnd leigutaka gagnvart Lýsingu hf., sem nánar er lýst í 21. gr. samningsins, hafi félagið heimild til að rifta samningnum án fyrirvara og ber leigutaka þá að skila bifreiðinni. Í kjölfarið fari fram uppgjör samkvæmt 23. gr. samningsins, þar sem leigutaka beri að greiða bæði gjaldfallna og ógjaldfallna leigu samkvæmt 4. gr. samningsins. Eins og rakið hefur verið leitaði stefnandi eftir kaupum á bifreiðinni af stefnda Þórhalli og bílasalinn hafði samband við stefnda Lýsingu hf. fyrir stefnanda varðandi fjármögnun kaupanna en ekki til að leita samninga um leigu á bifreið í eigu stefnda Lýsingar hf. Stefnandi samdi um verð án þess að séð verði að stefndi Lýsing hf. kæmi þar nærri. Bílasamningurinn ber einnig með sér fjölmörg einkenni lánssamnings. Þannig er í skilmálum samningsins mælt fyrir um að við leigugreiðslur bætist vextir, sem samkvæmt greiðsluyfirliti áttu að greiðast mánaðarlega samhliða afborgun af höfuðstól, en almennt eru ekki greiddir vextir af leigu. Þá var jafnframt gengið út frá því að við vanefnd samningsins gæti Lýsing hf. rift samningi, en allt að einu krafið leigutaka um fullar greiðslur út samningstímann, öndvert við það sem gildir um leigusamning, þar sem skylda leigutaka til greiðslu leigu fellur niður þegar honum er rift. Þá skyldi stefnandi verða eigandi bifreiðarinnar þegar hann hefði lokið við að greiða allar greiðslur samningsins. Auk þess voru í honum ákvæði sem komu í veg fyrir að Lýsing hf. þyrfti að bera ábyrgð sem eigandi bifreiðarinnar gagnvart stefnanda sem leigutaka.        Að öllu þessu virtu telur dómurinn að líta verði svo á að stefnandi hafi keypt bifreiðina af stefnda Þórhalli, en fjármagnað kaupin með láni frá stefnda Lýsingu hf., sem stefndi Lýsing hf. kaus í orði kveðnu að klæða í búning leigusamnings, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 153/2010. Ekki verður því fallist á það sem stefnandi byggir á að kaupleigusamningurinn sé í raun kaupsamningur með greiðsludreifingu og eignarréttarfyrirvara. Samkvæmt þessari niðurstöðu eiga lög um neytendakaup nr. 48/2003 ekki við um viðskipti stefnanda og stefnda Lýsingar hf. Í 5. gr. í umræddum samningi aðila eru skýr ákvæði um að leigusali beri enga ábyrgð á leigumun gagnvart leigutaka og í 9. gr. hans er mælt fyrir um skoðunarskyldu leigutaka og tekið fram að leigugreiðslur skuli greiddar þó að leigutaki sé óánægður með leigumun eða í ljós komi að hann hafi ekki þá eiginleika sem leigutaki reiknaði með. Samkvæmt því sem rakið hefur verið er ljóst að viðskipti stefnanda og stefnda Lýsingar hf. tóku ekki mið af ástandi umræddrar bifreiðar og skyldur stefnda Lýsingar hf. fólust í fjármögnun á kaupum stefnanda á bifreiðinni. Kröfur stefnanda byggja á meintum galla á bifreiðinni en skýrt er tekið fram í samningi aðila að stefndi Lýsing hf. beri enga ábyrgð á ástandi hins leigða. Ber því að sýkna stefnda Lýsingu hf. af aðalkröfu stefnanda og leiðir þessi niðurstaða jafnframt til þess að sýkna beri stefnda Lýsingu hf. af öllum kröfum stefnanda þar sem varakrafa, þrautavarakrafa og skaðabótakrafa byggja allar á ábyrgð stefnda Lýsingar á meintum galla. Í framhaldi af því sem rakið hefur verið verður nú fjallað um aðrar kröfur stefnanda. Stefnandi sækir varakröfu, þrautavarakröfu og skaðabótakröfu á hendur þeim er hann telur bera ábyrgð gagnvart sér á meintum göllum á bifreiðinni AT-631, en skv. framangreindri niðurstöðu varðandi aðalkröfu geta þessar kröfur aðeins beinst að stefnda Þórhalli. Samkvæmt því sem rakið hefur verið verður litið svo á að stefndi Þórhallur hafi verið seljandi bifreiðarinnar AT-631 og stefnandi kaupandi og verður því ekki fallist á þá málsástæðu stefnda Þórhalls að ekkert réttarsamband hafi stofnast milli sín og stefnanda sem leiða eigi til sýknu vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Ljóst er hins vegar samkvæmt gildissviði laga um neytendakaup nr. 48/2003 að þau eiga ekki við um viðskipti stefnanda og stefnda Þórhalls, sbr. 1. gr. laganna þar sem stefndi Þórhallur hefur ekki atvinnu sína af sölu. Stefnandi byggir á því að um verulegan og alvarlegan galla á bifreiðinni AT-631 sé að ræða og hann hafi verið með þeim hætti að útilokað hafi verið að stefnandi gæti borið ábyrgð á biluninni. Stefnandi vísaði í stefnu varðandi kröfur sínar einkum til ákvæða laga um neytendakaup nr. 48/2003, en að öðru leyti um lagarök vísaði hann til almennra reglna samninga- og kauparéttarins um efndir samninga og fjárskuldbindinga. Varðandi varakröfu um afslátt og þrautavarakröfu byggði stefnandi á 38. gr. kaupalaga nr. 50/2000 og 1. mgr. 31. gr. neytendakaupalaga nr. 48/2003. Við aðalmeðferð mótmælti stefndi Þórhallur vísan stefnanda til laga um lausafjárkaup sem of seint fram kominni. Stefnandi vísaði í stefnu almennt til almennra reglna samningaréttarins og kröfuréttar og jafnframt til laga um lausafjárkaup við flutning um frávísunarkröfu. Þá er reglan í 5. mgr. 101. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 bundin við málsástæður og mótmæli, en þar er tilvísunar til réttarreglna ekki getið. Vísan til laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 á við þær málsástæður sem byggt er á af hálfu stefnanda í í stefnu. Um viðskipti stefnanda og stefnda Þórhalls gilda ákvæði laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 og tók stefndi Þórhallur til varna á grundvelli þeirra. Verður því ekki fallist á að þessi lagarök stefnanda séu of seint fram komin. Samkvæmt 38. gr. laga um lausafjárkaup segir að ef hlutur sé gallaður geti kaupandi krafist afsláttar af kaupverði. Skuli afslátturinn reiknaður þannig að hlutfallið milli hins lækkaða verðs og samningsverðsins svari til hlutfallsins milli verðgildis hlutarins í gölluðu og umsömdu ástandi á afhendingartíma. Í málinu liggur fyrir matsgerð dómkvadds matsmanns, Harald P. Hermanns vélvirkja, dags. 10. maí 2012. Samkvæmt niðurstöðu dómkvadds matsmanns var orsök bilunar sú að sveifarás var brotinn við fremstu stangarlegu og taldi hann að leynst hefði gömul sprunga í sveifarásnum þar sem vélin hefði brætt úr sér hjá fyrri eiganda.´ Matsmaður áætlaði kostnaðinn af viðgerð á þeirri bilun sem væri í bifreiðinni samkvæmt lausn I. Matsmaður kom fyrir dóm og staðfesti matsgerð sína. Matsmaður kvað leynda sprungu hafa verið í sveifarásnum og að ekki hefði verið mögulegt að sjá hana við venjulega skoðun. Litamunur í sári hafi bent til eldri sprungu og hún ótvírætt verið frá fyrra atburði. Varðandi mismun á kostnaðaráætlun skv. mati kvað hann skýringuna þá að ekki hefði verið hægt að kaupa stakan sveifarás, en fengist hafi notaður sveifarás og við það væri miðað í lausn 1, en í lausn 2 væri miðað við að kaupa þyrfti svokallaðan kjallara, þ.e. blokk með stimplum og sveifarás. Það var jafnframt mat matsmanns að stefnandi hefði ekki getað komið í veg fyrir að sveifarásinn brotnaði. Stefnandi hafi tekið við bifreiðinni 29. mars 2011 og framangreind bilun í bifreiðinni komið fram í byrjun júní eða rúmum tveimur mánuðum eftir að stefnandi fékk umráð bifreiðarinnar. Ljóst er því að hér var um leyndan galla að ræða og að sá galli var til staðar við áhættuskiptin og að með öllu var útilokað að stefnandi yrði gallans var við eðlilega skoðun á bifreiðinni. Fyrir liggur að dómkvaddur matsmaður telur að unnt sé að gera við vélina fyrir 436.634 kr., en nefnir jafnframt að hægt sé að endurnýja vélina fyrir 1.236.229 kr. Miðað við kaupverð bifreiðarinnar, aldur og ástand, er það mat dómsins að eðlilegt sé að miða við lægri fjárhæðina þar sem hin feli í sér gagngera endurnýjun á vélinni. Ekki verður því fallist á varakröfu stefnanda, en fallist er á þrautavarakröfu stefnanda á hendur stefnda Þórhalli. Stefnandi hefur ekki sett fram  dráttarvaxtakröfu vegna þrautavarakröfu. Krafa stefnanda um skaðabætur vegna afnotamissis að fjárhæð 200.000 kr. auk dráttarvaxta frá kaupdegi bifreiðarinnar er órökstudd og er henni því hafnað. Samkvæmt framangreindu verður stefndi Þórhallur M. Kristjánsson dæmdur til að greiða stefnanda 436.634 kr. auk málskostnaðar með vísan til 129. gr. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 eins og í dómsorði greinir. Þá er stefndi Lýsing hf. sýkn af kröfum stefnanda sem áður er rakið. Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 eins og atvikum málsins er háttað verður hvor aðilinn látinn bera sinn kostnað af rekstri málsins fyrir dómi. Vegna embættisanna dómara hefur uppkvaðning dóms dregist umfram frest skv. 1. mgr. 115. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Lögmenn eru sammála dómara um að ekki sé þörf á endurflutningi málsins. Dóm þennan kveður upp Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari ásamt sérfróðu meðdómendunum Kristjáni Gr. Tryggvasyni bifvélavirkjameistara og Magnúsi Þór Jónssyni, dósent í vélhlutafræði við Háskóla Íslands. Dómsorð: Stefndi, Lýsing hf., er sýkn af öllum kröfum stefnanda, Sverris Þórs Skaftasonar. Málskostnaður fellur niður milli þessara aðila.. Stefndi Þórhallur M. Kristjánsson greiði stefnanda, Sverri Þór Skaftasyni, 436.634 kr. Stefndi Þórhallur M. Kristjánsson greiði stefnanda 700.000 kr. í málskostnað.
Mál nr. 655/2014
Fjármálafyrirtæki Veðleyfi Ógilding samnings Gjafsókn
C höfðaði mál á hendur A hf. til ógildingar á samþykki sínu á tryggingarbréf um að veita veð í fasteign sinni til tryggingar á öllum skuldum E og krafðist þess einnig að A hf. yrði gert að aflýsa tryggingarbréfinu. Talið var að greiðslumat sem gert var vegna útgáfu tryggingarbréfsins hefði verið rangt um ráðstöfunartekjur E og ef miðað hefði verið við réttar launatekjur hefði niðurstaða matsins verið sú að E gæti ekki staðið við þær skuldbindingar sem á honum hvíldu þá. Vegna hins ranga greiðslumats hefði aldrei komið til þess að C þyrfti að taka afstöðu til þess hvort hún hefði viljað veita veðleyfi þótt E hefði ekki staðist greiðslumatið, sbr. fyrirmæli samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Þannig var talið sannað að greiðslumatið hefði verið rangt í veigamiklum atriðum sem forveri A hf. hefði borið ábyrgð á og hefði hann ekki sinnt mikilvægri upplýsingaskyldu sinni gagnvart C. Var talið að A hf. yrði að bera hallann af óvissu um það hvort hún hefði veitt samþykki fyrir veðsetningunni ef greiðslumatið hefði verið rétt og forveri A hf. að öðru leyti sinnt skyldum sínum við gerð þess. Að virtum þeim aðstöðumun sem var á aðilum svo og því að forveri A hf. hefði við samningsgerð vanrækt skyldur sínar samkvæmt áðurgreindu samkomulagi og lögum var veðleyfi C vikið til hliðar á grundvelli 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 og A hf. gert skylt að aflýsa tryggingarbréfinu.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson og Viðar Már Matthíasson. Stefnda gekkst í sjálfskuldarábyrgð á lánum samkvæmt þremur skuldabréfum, samtals að fjárhæð 5.550.000 krónur, sem Egill Rúnar Sigurðsson gaf út til Búnaðarbanka Íslands hf. 30. ágúst 2002 og 7. janúar 2003 og til Kaupþings Búnaðarbanka hf. 4. september sama ár, en sá banki fékk síðar heitið Kaupþing banki hf. og er óumdeilt að áfrýjandi hafi í október 2008 tekið yfir réttindi hans sem málið varðar. Stefnda og Egill Rúnar eiga eitt barn saman og munu hafa verið í sambandi um skeið en ekki í sambúð. Ekki er ágreiningur um að í engu tilviki var greiðslugeta skuldara metin í tilefni af töku lánanna, þótt fjárhæð hvers þeirra hefði verið hærri en 1.000.000 krónur. Stefnda setti í öllum tilvikum kross í reit á skuldabréfunum og fangamark sitt við þar sem því var lýst yfir að ekki væri óskað greiðslumats á skuldaranum. Lánin munu fljótlega hafa farið í vanskil og verið í vanskilum öðru hverju, en þeim komið í skil aftur fljótlega. Samkvæmt gögnum málsins voru stefndu sendar tilkynningar 1. september 2005 um vanskil allra skuldabréfanna og var samanlagt uppgreiðsluverðmæti þeirra þá tilgreint 4.322.849 krónur. Í september 2005 mun Egill Rúnar hafa leitað til Kaupþings banka hf. um frekara lán. Í framhaldinu var útbúið tryggingarbréf að fjárhæð 4.500.000 krónur sem tryggt skyldi með veðrétti í fasteign stefndu að Lautasmára 6, Kópavogi, en fjárhæð bréfsins átti að taka breytingum í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs. Stefnda samþykkti með áritun sinni 24. september 2005 veðsetningu samkvæmt tryggingarbréfinu sem þinglýstur eigandi. Samkvæmt því skyldi það vera til tryggingar öllum skuldum og fjárskuldbindingum Egils Rúnars við bankann. Fjórum dögum síðar gaf Egill Rúnar út skuldabréf að fjárhæð 750.000 krónur til bankans. Í málinu liggur fyrir greiðslumat sem gert hafði verið í tilefni af gerð tryggingarbréfsins. Samkvæmt því voru ráðstöfunartekjur Egils Rúnars taldar vera 430.000 krónur á mánuði og að teknu tilliti til framfærslukostnaðar, greiðslubyrði af lánum, meðal annars því sem hann átti þá í vændum að fá, hafði hann til ráðstöfunar 119.573 krónur. Í því fólst samkvæmt texta greiðslumatsins að það benti til þess að hann gæti efnt fjárskuldbindingar sínar. Á hinn bóginn kom fram að hann skuldaði 5.307.875 krónur umfram eignir. Stefnda ritaði samþykki sitt sem eigandi veðs undir greiðslumatið. Áfrýjandi felldi 17. febrúar 2012 niður sjálfskuldarábyrgð stefndu á þeim þremur skuldabréfum, sem Egill Rúnar hafði gefið út á árunum 2002 og 2003 og áður er getið. Áfrýjandi hefur hafnað því að falla frá rétti sínum samkvæmt veðleyfinu sem stefnda gaf með áritun sinni á tryggingarbréfið, sem áður greinir. Stefnda höfðaði mál þetta til ógildingar á samþykki sínu 24. september 2005 á tryggingarbréfið um að veita veð í fasteign sinni Lautasmára 6, Kópavogi, til tryggingar á öllum skuldum Egils Rúnars. Gerði hún jafnframt þá kröfu að áfrýjanda yrði gert að aflýsa tryggingarbréfinu. II Stefnda reisir kröfu sína einkum á því að ógilda eigi samþykki hennar við veðsetningunni þar sem það hafi verið veitt á grundvelli upplýsinga sem voru rangar og ófullnægjandi og að áfrýjandi beri ábyrgð á því. Hún telur það fara í bága við 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga að áfrýjandi beri fyrir sig veðleyfið. Í Samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, 1. nóvember 2001, sem samtök er nú tilheyra Samtökum fjármálafyrirtækja áttu aðild að ásamt Neytendasamtökunum og viðskiptaráðherra, og var bindandi fyrir Kaupþing banka hf. þegar stefnda veitti veðleyfi fyrir tryggingarbréfinu, segir í 3. gr. að sé sett veð til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu skuli meta greiðslugetu greiðanda. Undantekning frá því tekur ekki til tilvika þegar fjárhæð veðskuldbindingar er hærri en 1.000.000 krónur. Í samkomulaginu er mælt fyrir um ýmsar skyldur fjármálafyrirtækis við gerð greiðslumatsins og upplýsingaskyldu þess gagnvart þeim er veitir slíkt veðleyfi. Í greiðslumatinu 20. september 2005 var sem fyrr greinir við það miðað að svonefndar ráðstöfunartekjur Egils Rúnars væru 430.000 krónur á mánuði. Hafði þá verið tekið tillit til frádráttar vegna tekjuskatts og annarra gjalda af launum hans. Áfrýjandi kveður upplýsingar um launatekjur Egils Rúnars komnar frá honum sjálfum, auk þess hafi bankinn stuðst við innborganir á launareikning hans, en yfirlit um reikninginn hefur þó ekki verið lagt fram í málinu. Áfrýjandi hefur ekki leitast við að afla samþykkis Egils Rúnars við því að leggja fram gögn til að renna stoðum undir framangreindar staðhæfingar sínar. Þau laun, sem Egill Rúnar hefur haft á árinu 2005 samkvæmt skattframtali, eru í heild einungis um fjórðungur af þeim ráðstöfunartekjum, sem greiðslumatið miðar við. Verður fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að greiðslumatið hafi verið haldið verulegum annmörkum að þessu leyti. Þá hefur áfrýjandi ekki fært sönnur á að hann hafi kynnt stefndu efni bæklings um skuldaábyrgðir sem fjármálafyrirtækjum var skylt að gefa út samkvæmt áðurnefndu samkomulagi. Í bæklingi þessum áttu samkvæmt 1. mgr. 4. greinar samkomulagsins að vera upplýsingar um hvaða skyldur fælust í ábyrgðinni og ýmis önnur atriði. Þá leiddi af 2. mgr. sömu greinar að með undirritun lánsumsóknar eða annarra gagna sem fyllt væru út í tengslum við afgreiðslu láns skyldi ábyrgðarmaður eða sá sem veitti veðleyfi staðfesta að hann hefði kynnt sér efni upplýsingabæklingsins um ábyrgðir. Engin slík staðfesting liggur fyrir af hálfu stefndu. Eins og fram er komið var greiðslumatið rangt um ráðstöfunartekjur Egils Rúnars og niðurstaða þess fjarri því sem orðið hefði ef launatekjur hans samkvæmt skattframtali hefðu verið lagðar til grundvallar. Ef miðað hefði verið við réttar launatekjur hefðu þær ekki dugað fyrir tilgreindum framfærslukostnaði hans og því hefði ekkert verið eftir til greiðslu skulda. Niðurstaða um greiðslugetu hefði verið sú að hann gæti ekki staðið við þær skuldbindingar sem á honum hvíldu þá. Í 3. mgr. 4. greinar samkomulagsins segir að sé niðurstaða greiðslumats sú að greiðandi geti ekki efnt skuldbindingar sínar, en ábyrgðarmaður óski þess engu að síður að lán eða veðleyfi verði veitt, skuli hann staðfesta það skriflega. Vegna hins ranga greiðslumats kom aldrei til þess að stefnda þyrfti að taka afstöðu til þess, hvort hún hefði viljað veita veðleyfið þótt Egill Rúnar hefði ekki staðist greiðslumatið. III Á fjármálafyrirtækjum hvílir samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um þau skylda til þess að starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði. Eins og fyrr greinir reisir stefnda kröfu sína um ógildingu einkum á 36. gr. laga nr. 7/1936. Samkvæmt þeirri grein má víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Við mat á því hvort skilyrði séu til þess að víkja samningi til hliðar skal líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerð og atvika sem síðar komu til. Eins og fram er komið veitti stefnda samþykki fyrir veðsetningu fasteignar sinnar samkvæmt tryggingarbréfinu eftir að greiðslumat hafði farið fram á Agli Rúnari. Sannað er að það var rangt í veigamiklum atriðum, sem Kaupþing banki hf. bar ábyrgð á, og sinnti hann ekki mikilvægri upplýsingaskyldu sinni gagnvart stefndu. Verður áfrýjandi að bera hallann af óvissu um það hvort hún hefði veitt samþykki fyrir veðsetningunni ef greiðslumatið hefði verið rétt og bankinn að öðru leyti sinnt skyldum sínum við gerð þess.   Verulega hallaði á stefndu í samskiptum hennar við bankann. Hún hefur ekki sérstaka menntun eða þekkingu á fjármálagerningum. Hún hefur auk þess átt við veikindi að stríða og verið öryrki í langan tíma. Bankinn bjó yfir sérfræðiþekkingu á þeim viðskiptum sem um ræðir og á honum hvíldu lögbundnar skyldur um vönduð vinnubrögð og heilbrigða viðskiptahætti. Við samningsgerðina vanrækti bankinn skyldur sínar svo sem rakið hefur verið bæði samkvæmt samkomulagi því er áður greinir og samkvæmt lögum. Atvik sem komið hafa til eftir samningsgerð hafa í þessu máli ekki áhrif á sanngirnismatið samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936. Samkvæmt framansögðu er ósanngjarnt af hálfu áfrýjanda að bera fyrir sig samþykki stefndu á veðsetningunni og verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest. Stefnda naut gjafsóknar í héraði og krafðist málskostnaðar þar fyrir dómi án tillits til gjafsóknarinnar. Héraðsdómara láðist að taka afstöðu til kröfu stefndu um gjafsóknarkostnað úr ríkissjóði. Við flutning málsins í Hæstarétti krafðist stefnda staðfestingar á héraðsdómi og kvaðst una við niðurstöðu dómsins um málkostnað úr hendi áfrýjanda. Lýsti hún því yfir að hún félli frá rétti sínum samkvæmt gjafsókninni í héraði. Er því ekki þörf á að ómerkja héraðsdóm. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti í ríkissjóð eins og segir í dómsorði. Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júlí 2014.                 Mál þetta, sem var dómtekið 11. júní sl., var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Charlottu Maríu Guðmundsdóttur, Lautasmára 6 í Kópavogi, á hendur Arion banka hf., Borgartúni 19 í Reykjavík, með stefnu birtri 7. júní 2013.                 Stefnandi krefst þess að ógilt verði með dómi samþykki hennar 24. september 2005 á tryggingarbréfi nr. 0313-63-455, um að veita veð í fasteign sinni að Lautasmára 6 í Kópavogi til tryggingar á öllum skuldum Egils Rúnars Sigurðssonar. Þess er einnig krafist að stefnda verði gert að aflýsa tryggingarbréfinu af fasteigninni.                 Þá krefst stefnandi greiðslu málskostnaðar að teknu tilliti til virðisaukaskatts, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. Atvik og ágreiningur                 Hinn 30. ágúst 2002 gaf Egill Rúnar Sigurðsson, kt. [...], út skuldabréf til Búnaðarbanka Íslands hf., síðar Kaupþings banka hf. Skuldabréfið var að fjárhæð 1.200.000 kr. og skyldi endurgreiða á sjö árum með 84 mánaðarlegum afborgunum. Skuld samkvæmt veðskuldabréfinu var verðtryggð miðað við vísitölu neysluverðs. Hinn 7. janúar 2003 gaf Egill aftur út skuldabréf til Búnaðarbanka Íslands hf. að fjárhæð 2.500.000 kr. sem skyldi endurgreiða á átta árum með 96 mánaðarlegum afborgunum. Skuld samkvæmt veðskuldabréfinu var verðtryggð miðað við vísitölu neysluverðs. Hinn 4. september 2003 gaf Egill út skuldabréf til Kaupþings Búnaðarbanka hf., síðar Kaupþings banka hf., að fjárhæð 1.850.000 kr. sem skyldi endurgreiða á átta árum með 96 mánaðarlegum afborgunum. Skuld samkvæmt veðskuldabréfinu var verðtryggð miðað við vísitölu neysluverðs. Stefnandi tók sig sjálfskuldarábyrgð á öllum þremur skuldabréfunum með undirritun sinni á bréfin. Greiðslugeta skuldara var ekki metin í tilefni þessara lánveitinga og í skuldabréfunum er að finna staðlaðan texta þar sem spurt er hvort ábyrgðarmenn óski eftir mati á greiðslugetu skuldara. Stefnandi hakaði við „nei“ á öllum skuldabréfunum.                 Í september 2005 mun Egill hafa leitað til Kaupþings banka hf. og óskað eftir láni til að greiða upp vanskil eldri lána. Stefndi mun hafa fallist á að veita Agli lán að fjárhæð 750.000 kr. Egill mun þá hafa leitað á ný til stefnanda um að ábyrgjast skuldir sínar. Hinn 24. september 2005 gaf Egill út tryggingarbréf til Kaupþings banka hf. og er bréfið auðkennt nr. 0313-63-455. Með tryggingarbréfinu var fasteign stefnanda að Lautasmára 6 í Kópavogi, íbúð merkt 01-0102, fastanúmer 222-8058, veðsett með 5. veðrétti og uppfærslurétti til tryggingar greiðslu á öllum skuldum og fjárskuldbindingum Egils, að hámarki 4.500.000 kr. og var sú fjárhæð verðtryggð miðað við vísitölu neysluverðs til hækkunar. Stefnandi undirritaði tryggingarbréfið um samþykki sitt sem veðsali.                 Í tengslum við útgáfu tryggingarbréfsins var greiðslugeta Egils metin og er niðurstaða greiðslumatsins dagsett 20. september 2005. Heimilisfang Egils er í greiðslumatinu sagt vera Lautasmári 6 í Kópavogi. Í greiðslumatinu er gerð grein fyrir annars vegar tekjum og greiðslubyrði á mánuði, hins vegar eru taldar upp ,,heildar eignir og skuldir“. Í greiðslumatinu segir að ,,ráðstöfunartekjur“ nemi 430.000 kr. ,,Áætl. framfærslukostnaður“, ,,áætl. rekstrarkostnaður bifreiðar“ og ,,önnur gjöld“ eru sögð nema samtals 202.540 kr. Við liðinn ,,áætl. rekstrarkostnaður húsnæðis“ er færð talan núll. Að öllum þessum liðum frádregnum er ,,áætluð greiðslugeta án skulda“ sögð nema 237.460 kr. Frá síðastnefndu fjárhæðinni er dregin ,,áætl. greiðslubyrði núverandi fasteignalána“, sem er sögð vera núll krónur, ,,áætl. greiðslubyrði annarra núverandi lána“ og ,,áætl. greiðslubyrði væntanlegra lána“, samtals að fjárhæð 117.888 kr. og að þessum liðum frádregnum standa eftir 119.573 kr., sem eru sagðar vera ,,áætl. greiðslugeta með skuldum“. Tekið er fram að neikvæð niðurstaða bendi til þess að ,,greiðandi geti ekki efnt fjárskuldbindingar sínar“. Undir liðnum ,,Helstu eignir og skuldir“ eru eignir sagðar engar vera. Við liðinn ,,Fasteignalán“ er færð talan núll. ,,Önnur lán“ eru sögð nema 4.657.875 kr. og ,,væntanleg lán“ eru sögð að fjárhæð 650.000 kr., samtals 5.307.875 kr. ,,Þar af vanskil“ eru sögð vera 241.330 kr. Tekið er fram, varðandi síðastnefnda liðinn, að ábyrgðarmönnum sé ,,sérstaklega bent á að kynna sér stöðu vanskila, ef einhver eru“. Tekið er fram að neikvæð niðurstaða merki ,,að greiðandi skuldar meira en eignum hans nemur“. Í greiðslumatinu er svohljóðandi fyrirvari: ,,Framangreindar upplýsingar um skuldir og fjárhagsstöðu greiðanda eru að hluta til frá honum sjálfum. Að því leyti eru forsendur mats á greiðslugetu hans og niðurstöður/ályktanir dregnar af þeim upplýsingum á hans ábyrgð. Þær eru því án ábyrgðar fyrir KB banka. Upplýsingar um áætlaðan framfærslukostnað, rekstur húsnæðis og bifreiðar eru byggðar á neyslukönnun Hagstofu Íslands og þurfa ekki endilega að endurspegla neyslukostnað greiðanda“. Þá kemur fram í greiðslumatinu að ,,Greiðandi [hafi] fengið afhent, kynnt sér og skilið þetta mat [...] og samþykkt það sem fullnægjandi fyrir sig og [geri] sér grein fyrir að breytt neysluhegðun [geti] haft áhrif á greiðslugetu“. Stefnandi og Egill undirrita niðurstöðu greiðslumatsins, auk starfsmanns bankans.                 Meðal gagna málsins eru skattframtöl Egils frá 2005 fyrir tekjuárið 2004, og 2006 fyrir tekjuárið 2005. Í fyrra skattframtalinu kemur fram að reiknað endurgjald við eigin atvinnurekstur nemi 800.000 kr. og hreinar tekjur af eigin atvinnurekstri nemi 376.051 kr. Að frádregnu iðgjaldi í lífeyrissjóð að fjárhæð 32.000 kr. sé stofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars 1.144.051 kr. Í skattframtalinu er ekki getið um neinar bankainnstæður eða fasteignir. Þess er hins vegar getið að hann eigi bifreið og festivagn, samtals að verðmæti 2.113.000 kr. Í síðara skattframtalinu kemur fram að Egill hafi haft 1.400.000 kr. í launatekjur og starfstengdar greiðslur frá Ökukennslu EOS ehf. Að frádregnu iðgjaldi í lífeyrissjóð að fjárhæð 56.000 kr. sé stofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars 1.344.000 kr. Í skattframtalinu er ekki getið um neinar bankainnstæður eða fasteignir. Þess er hins vegar getið að hann eigi bifreið og festivagn, samtals að verðmæti 1.926.700 kr. Þá kemur fram að Egill eigi hlutabréf í Ökukennslu EOS ehf. að verðmæti 250.000 kr.                 Óumdeilt er að stefndi tók við réttindum og skyldum Kaupþings banka hf. vegna þessara löggerninga á grundvelli ákvarðana Fjármálaeftirlitsins í október 2008.                 Í febrúar 2012 leitaði stefnandi til umboðsmanns skuldara og óskaði aðstoðar við að kanna gilda ábyrgða sem hún hafði tekið á sig. Af því tilefni óskaði umboðsmaður eftir því að stefndi skoðaði ábyrgðaryfirlýsingar hennar og tæki rökstudda afstöðu til gildis þeirra. Í svari stefnda, sem hann sendi umboðsmanni í tölvuskeyti, dags. 17. febrúar 2012, er yfirlýsing hans um að hann felli niður ábyrgð stefnanda á þeim þremur skuldabréfum sem Egill gaf út 30. ágúst 2002, 7. janúar 2003 og 4. september 2003, en jafnframt upplýst að stefndi telji tryggingarbréfið í gildi enda hafi greiðslumat verið undirritað af veðsala. Stefnandi leitaði í kjölfarið til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Úrskurðarnefndin kvað upp úrskurð 16. október 2012 og hafnaði kröfu stefnanda um niðurfellingu veðsetningar fasteignar hennar með tryggingarbréfinu.                 Mál þetta var fyrst dómtekið 4. febrúar sl. en endurflutt 11 júní sl. vegna tafa á dómsuppsögu. Við munnlegan flutning þess í febrúar gaf stefnandi aðilaskýrslu og einnig gaf Egill Rúnar Sigurðsson, skuldari umdeilds tryggingarbréfs, skýrslu fyrir dómi. Þau báru bæði að á þeim tíma sem veðleyfið var veitt hafi þau verið í sambandi um tíma og búið saman um skamma hríð en aldrei verið með sameiginlegan fjárhag. Egill kvaðst ekki hafa gefið stefnda upplýsingar um þær tekjur sem tilgreindar eru í greiðslumati og kveður þær hafa verið fjarri raunveruleikanum. Hann kvaðst ekki geta skýrt það hvaðan þessar upplýsingar hafi verið fengnar og minnist þess ekki að hafa lagt fram nein gögn til staðfestingar á tekjum sínum. Málsástæður og lagarök stefnanda                 Stefnandi byggir í fyrsta lagi á því að mat Kaupþings banka hf. á greiðslugetu Egils Rúnars Sigurðssonar hafi verið rangt. Í greiðslumatinu, sem sé miðað við september 2005, hafi verið miðað við að Egill hefði 430.000 kr. í ráðstöfunartekjur á mánuði. Meðalmánaðartekjur hans árið 2004 hafi numið 95.337 kr. samkvæmt skattframtali hans frá 2005. Á sama tíma hafi síðustu launaseðlar Egils væntanlega sýnt fram á u.þ.b. 112.000 kr. meðalmánaðartekjur, sé tekið mið af skattframtali hans frá 2006. Niðurstaða greiðslumatsins um að Egill ætti tæplega 120.000 kr. aflögu í hverjum mánuði eftir að hafa greitt framfærslukostnað og afborganir af öllum lánum sínum, þ. á m. því láni sem þá stóð til að taka, hafi því byggst á röngum upplýsingum. Miðað við óumdeild gögn um raunverulegar tekjur Egils hefði rétt niðurstaða greiðslumatsins verið að hann skorti u.þ.b. 200.000 kr. til þess að geta efnt skuldbindingar sínar í hverjum mánuði. Með slíka niðurstöðu fyrir framan sig hefði stefnandi ekki gengist í umrædda ábyrgð. Kaupþing banki hf. hafi borið fulla ábyrgð á því að þessi ranga niðurstaða var borin fyrir stefnanda. Hún hefði á sínum tíma engar forsendur haft til annars en að ætla að niðurstöður bankans byggðu á forsvaranlegu og raunverulegu mati. Stefndi geti ekki borið fyrir sig fyrirvara í greiðslumatinu þess efnis að upplýsingar um Egil væru ,,að hluta til“ frá honum sjálfum og að að því leyti sem niðurstöður byggðu á þeim upplýsingum væri það án ábyrgðar fyrir bankann. Fráleitt sé að þessi fyrirvari geti átt við um grundvallarforsendur greiðslumats, eins og t.d. um tekjur skuldara. Stefndi haldi því í raun fram í fyrsta lagi að hver lántakandi, sem hafi óskað eftir lánafyrirgreiðslu hjá bankanum, hafi getað borið munnlega fyrir bankann þær tekjuupplýsingar sem lántakanda hentaði, án þess að bankinn kannaði frekar réttmæti þeirra upplýsinga. Stefndi geti ekki haldið því fram að bankar hafi stundað slík vinnubrögð. Hefðu vinnubrögðin verið slík hefði verið tilgangslaust að greiðslumeta lántakendur yfirleitt. Í öðru lagi felist í þessu sjónarmiði stefnda að raunverulegt greiðslumat hafi í raun aldrei farið fram. Það geti vart talist fela í sér mat eða rannsókn bankans á greiðslugetu skuldara þegar bankinn leggi saman og dragi frá upphæðir sem skuldarinn sjálfur leggi til. Málsaðilar hljóti að vera sammála um að slík vinnubrögð við gerð greiðslumats væru óeðlileg og órökrétt, og að greiðslumat sé ekki gert með þessum hætti, hvorki árið 2005 né í dag. Stefndi geri kunnugt á heimasíðu sinni að hann geri ekki greiðslumat nema lántakandi skili inn afriti af síðasta skattframtali sínu og afriti af síðustu þremur launaseðlum, ásamt fleiri gögnum. Við gerð ábyrgðarinnar hafi hvílt á bankanum skyldur samkvæmt samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá árinu 2001. Í 1. gr. samkomulagsins sé lýst því markmiði að draga úr vægi ábyrgða einstaklinga, ,,að lánveitingar verði miðaðar við greiðslugetu greiðanda og eigin tryggingar hans“, og að með samkomulaginu hafi verið ,,settar meginreglur til verndar ábyrgðarmönnum í þeim tilvikum er ... veð í eign annars einstaklings er sett til verndar fjárhagslegri skuldbindingu“. Í ákvæðinu felist því skylda og samþykki fjármálafyrirtækja fyrir því að miða lánveitingar sínar við greiðslugetu lántaka og að reglum samkomulagsins, þ. á m. um gerð greiðslumats, skuli fylgt með hliðsjón af því að þær séu til verndar ábyrgðarmönnum. Við gerð umrædds greiðslumats hafi bankinn gengið gegn þessum skyldum sínum og megintilgangi samkomulagsins. Samkvæmt 3. gr. samkomulagsins hafi bankanum borið að meta greiðslugetu Egils. Í greininni sé ekki útlistað í smáatriðum hvernig matið skuli framkvæmt en þar komi fram að við matið skuli tekið tillit til neyslu og annarra fastra útgjalda áður en ráðstöfunarfé til greiðslu skuldbindinga sé reiknað út. Þar segi enn fremur að við áætlun á útgjöldum til neyslu skuli að lágmarki nota viðmiðun Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna eða Íbúðalánasjóðs. Ljóst sé að sá fyrirvari sem stefndi byggir á geti einungis átt við um upplýsingar frá skuldara um neyslu og föst útgjöld, enda væri óeðlilegt og erfitt fyrir fjármálafyrirtæki að fá allar slíkar upplýsingar staðfestar. Það eigi hins vegar ekki við um grundvallarupplýsingar eins og upplýsingar um tekjur skuldarans, enda sé auðvelt að finna slíkar upplýsingar eða fá þær staðfestar í skattframtölum og launaseðlum. Því geti fjármálafyrirtæki ekki borið fyrir sig fyrirvara um að þau beri ekki ábyrgð á því ef þau taka gildar rangar munnlegar upplýsingar skuldara um tekjur. Slíkur fyrirvari væri í andstöðu við meginreglur og megintilgang samkomulagsins, enda væri vernd ábyrgðarmanna ella úr sögunni. Í ljósi þessa hafi bankinn ekki uppfyllt þá skyldu sína skv. 3. gr. samkomulagsins að gera raunverulegt greiðslumat á skuldaranum. Stefnandi hafnar þeirri fullyrðingu stefnda að sökum fyrirvarans hafi það verið á ábyrgð stefnanda að kanna forsendur greiðslumatsins betur ef hún hefði einhverjar athugasemdir. Það liggi skýrt fyrir að bankanum hafi verið skylt að vinna greiðslumatið og hann geti ekki fært þá skyldu yfir á stefnanda. Þess utan hafi málsaðilar verið í mismunandi stöðu. Bankinn sé sérfræðingur í lánaviðskiptum en stefnandi hafi enga sérþekkingu á viðskiptum eða gerningum af þessu tagi. Stefnandi hafi gengið út frá því að bankinn byggði greiðslumatið á staðfestum upplýsingum um tekjur Egils. Stefnandi hafi því engar forsendur haft til að draga í efa að fyrirliggjandi upplýsingar um tekjur skuldarans væru réttar. Eðlilegt sé að ábyrgðarmenn beri traust til þess að forsendur greiðslumats banka séu réttar. Í 4. gr. samkomulagsins segi að ábyrgðarmaður skuli staðfesta það skriflega, bendi niðurstaða greiðslumats til þess að skuldarinn geti ekki efnt skuldbindingar sínar. Óumdeilt sé að rétt framkvæmd greiðslumatsins og raunverulegt mat bankans hefði leitt til slíkrar niðurstöðu og að gild ábyrgð gæti ekki stofnast nema stefnandi hefði samþykkt sérstaklega að veita hana þrátt fyrir neikvætt greiðslumat. Þessu skilyrði samkomulagsins fyrir stofnun ábyrgðarinnar hafi því ekki verið fullnægt. Rétt greiðslumat hefði sýnt að skuldarann hefði vantað um 200.000 kr. um hver mánaðamót til að geta efnt skuldbindingar sínar. Stefnandi hefði ekki gengist í ábyrgð við slíkar aðstæður enda hefði það verið ígildi þess að stefnandi tæki að sér allar skuldir skuldarans. Engu máli skipti þó að á þessum tíma hafi stefnandi þegar gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir þremur lánum skuldarans, enda liggi fyrir að við stofnun þeirra hafi stefnanda aldrei verið kynntar skyldur sínar og réttindi sem ábyrgðarmanns, eins og stefndi hafi viðurkennt með því að fella ábyrgðirnar niður. Umrætt samkomulag sé þriðja manns löggerningur. Í slíkum gerningum felist að þau loforð og þær skyldur sem þar sé kveðið á um gildi ekki aðeins á milli aðila gerningsins, heldur hafi gerningurinn einnig gildi gagnvart þriðju aðilum. Bankinn/stefndi sé einn af aðilum samkomulagsins en stefnandi sé þriðji maður sem geti byggt rétt á gerningnum. Þau loforð sem bankinn gaf með aðild sinni að samkomulaginu séu þar af leiðandi bindandi loforð gagnvart stefnanda. Með því að vanrækja það loforð að gera raunverulegt greiðslumat á lántakendum og að afla sérstaks samþykkis ábyrgðarmanns fyrir því að gangast í ábyrgð fyrir skuldara sem ekki stæðist greiðslumat, sem væri forsenda gildrar ábyrgðar við þær aðstæður, hafi bankinn ekki efnt skuldbindandi loforð sitt gagnvart stefnanda og þar með geti ábyrgð hans ekki hafa stofnast með lögmætum hætti. Þá telji stefnandi að með því að byggja grundvallaratriði greiðslumats á orðum skuldarans sjálfs án frekari staðfestingar hafi bankinn brotið gegn þeirri skyldu sinni, sem fram komi í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og 4. gr. þágildandi laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti, að starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti. Vinnubrögðin hafi verið óheilbrigð þar sem þau hafi gengið gegn meginmarkmiðum áðurnefnds samkomulags um að lánveitingar skyldu miðaðar við greiðslugetu og að gætt skyldi að vernd ábyrgðarmanna. Þá verði einnig að telja vinnubrögðin óeðlileg þar sem þau hafi verið í ósamræmi við þau vinnubrögð og vinnureglur sem fjármálafyrirtæki fylgi við gerð greiðslumats. Stefnandi byggir á því að sú forsenda hans að skuldarinn gæti, samkvæmt greiðslumati, staðið við skuldbindingar sínar sé brostin, enda hafi rangt/ekkert greiðslumat verið unnið. Þá hafi stefndi viðurkennt að allar fyrri sjálfskuldarábyrgðir stefnanda hafi verið ógildar og hafi þær allar verið felldar niður. Sú staðreynd að stefnandi hafi ekki vitað betur en að hún væri þegar í sjálfskuldarábyrgð fyrir öllum skuldum skuldara hafi verið ein grundvallarforsenda þess að hún samþykkti að veita þá ábyrgð sem þetta mál snúist um. Við þær aðstæður hafi veiting veðréttarins hvergi nærri verið jafn stórvægilegur eða áhrifamikill gerningur og ella, enda hafi hann falið í sér að allar sjálfskuldarábyrgðirnar væru teknar saman í eitt lánsveð. Stefnandi hafi því ekki vitað betur en að með því að undirrita tryggingarbréfið væri hún að veita bankanum veðrétt í samræmi við fyrri sjálfskuldarábyrgðir en ekki að taka á sig auknar ábyrgðir. Þessi forsenda stefnanda fyrir því að veita bankanum veðrétt í fasteign hennar sé einnig brostin, enda hafi umræddar ábyrgðir verið ógildar. Á því hafi bankinn einn borið ábyrgð. Aðili geti borið fyrir sig sjónarmið um brostnar forsendur, hafi forsendan haft úrslitaáhrif um það að viðkomandi löggerningur var gerður, þannig að hún hafi verið meðvituð eða ómeðvituð ákvörðunarástæða hans fyrir samningsgerðinni og að gagnaðila hans hafi verið það ljóst. Það eigi við í þessu máli. Á grundvelli alls ofangreinds krefjist stefnandi ógildingar á veitingu umræddrar ábyrgðar, með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Við skoðun hvers og eins þáttar í sanngirnismati megi telja ósanngjarnt af hálfu stefnda að bera samninginn fyrir sig. Um efni samningsins liggi fyrir að greiðslumatið hafi verið rangt. Samningsaðilar hafi verið í mismunandi stöðu, enda hafi bankinn verið hinn sérfróði aðili og samið öll skjöl málsins. Varðandi atvik við samningsgerðina hafi bankinn sóst eftir því að stefnandi gengist í ábyrgð fyrir skuldunum. Stefnandi hafi engan hag haft af því að veita umrædda ábyrgð. Við samningsgerðina hafi bankinn að auki brotið gegn ákvæðum fyrrgreinds samkomulags um notkun ábyrgða. Varðandi atvik sem síðar urðu hafi stefnanda síðar orðið kunnugt um að grundvallaratriði greiðslumatsins um tekjur skuldarans byggði á röngum upplýsingum og að stefnandi hefði undirgengist ábyrgðina óafvitandi um að fyrri ábyrgðir hennar væru ógildar. Á báðum þessum atriðum hafi bankinn borið fulla ábyrgð. Fallist dómurinn á ógildingu samþykkis stefnanda fyrir umræddri ábyrgð krefjist stefnandi þess að stefnda verði gert skylt að aflýsa umræddu tryggingarbréfi af fasteign stefnanda, en það hvíli nú á 5. veðrétti eignarinnar. Stefnandi vísar til ákvæða þágildandi samkomulags frá 1. nóvember 2001 um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, einkum 1., 2., 3. og 4. gr. samkomulagsins, 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og 4. gr. þágildandi laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003. Um málskostnað vísar stefnandi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málsástæður og lagarök stefnda Niðurstaða                 Í máli þessu er krafist ógildingar á veðleyfi vegna tryggingarbréfs sem gefið var út 24. september 2005 með veði í fasteign stefnanda til tryggingar á skuldum Egils Rúnars Sigurðssonar allt að 4.500.00 kr.                 Stefnandi byggir á því að greiðslugeta skuldara hafi verið ranglega metin í greiðslumati sem gert var í tilefni af útgáfu tryggingarbréfsins. Þar séu ráðstöfunartekjur skuldara sagðar vera 430.000 kr. á mánuði og greiðslugeta hans jákvæð um rúmlega 119.000 kr. að teknu tilliti til afborgana allra skulda. Samkvæmt skattframtali hans árið 2006, vegna tekna ársins 2005 voru launatekjur hans og aðrar starfstengdar greiðslu hins vegar 1.400.000 kr. á því ári og árið á undan var reiknað endurgjald af eigin atvinnurekstri 800.000 kr. og tekjur af eigin atvinnurekstri 376.051 kr. Með hliðsjón af upplýsingum úr skattframtölum skuldara telur stefnandi augljóst að tekjur skuldara hafi verið stórlega ofmetnar í greiðslumati stefnda.                 Stefndi kveðst hafa byggt á tekjuupplýsingum frá skuldara sjálfum við gerð greiðslumatsins. Þær upplýsingar hafi einnig komið heim og saman við veltu á launareikningi hans hjá stefnda og af þeim sökum hafi stefndi ekki talið ástæðu til að kalla eftir öðrum gögnum til að staðreyna upplýsingarnar. Það hafi verið verklagsregla hjá stefnda á umræddum tíma að staðreyna upplýsingar um tekjur eigin viðskiptavina með því að skoða launareikninga þeirra en krefja þá ekki um frekari gögn til staðfestingar á launagreiðslum.                 Fyrir liggur að skuldari stundaði sjálfstæða atvinnustarfsemi á umræddum tíma í gegnum einkahlutafélagið Ökukennsla EOS ehf. Í ársreikningum þess félags fyrir árið 2005 kemur fram að tekjur félagsins árið 2005 hafi verið 17.159.555 kr. og rekstargjöld 13.472.415 kr., þar af greidd verktakalaun 3.101.610 kr. Í ársreikningi félagsins fyrir árið á undan, 2004, voru rekstrartekjur félagsins liðlega 14 milljónir króna, rekstargjöld um 12 milljónir króna, þar af verktakalaun 3.213.000. Í framburði skuldara fyrir dómi sagði hann að fjórir aðilar hefðu fengið verktakagreiðslur frá fyrirtækinu auk hans sjálfs.                 Í greinargerð stefnda er staðhæft að óumdeilt sé að upplýsingar um launatekjur skuldara í greiðslumati hafi komið frá honum sjálfum. Svo sem rakið er í atvikalýsingu mótmælir skuldari því að þessar upplýsingar stafi frá honum og kveðst ekki geta skýrt það á hverju stefndi byggði þessar upplýsingar.                 Þá er í greinargerð staðhæft að skuldari hafi staðið í skilum með afborganir af lánum sem tryggingarbréfið hafi átt að tryggja og það hafi ekki farið í vanskil fyrr en 1. maí 2009. Kröfurnar hafi því verið í skilum í rúmlega þrjú ár frá gerð greiðslu­matsins og útgáfu tryggingarbréfsins. Af gögnum málsins má ráða að sú staðhæfing er ekki allskostar rétt en meðal þeirra er að finna tilkynningu stefnda til stefnanda um vanskil skuldabréfs 139855 á árinu 2006, m.a. tilkynningu frá 1. ágúst það ár um vanskil þriggja afborgana af láninu.                 Í málinu liggja ekki fyrir upplýsingar um veltu á launareikningi skuldara á umræddu tímabili. Önnur gögn málsins eða skýrslutökur fyrir dómi leiddu heldur ekki í ljós skýringar á því hvers vegna mikið misræmi er á tekjum skuldara samkvæmt skattframtölum og þeim tekjum sem lagðar eru til grundvallar í greiðslumatinu. Í greinargerð stefnda er skorað á stefnanda að leggja fram upplýsingar um innborganir á launareikning skuldara. Stefndi staðhæfir að þau gögn muni sýna fram á að raunverulegar tekjur skuldara hafi verið þær sem hann lagði til grundvallar í greiðslumatinu. Það stendur stefnda nær en stefnanda að afla gagna um þriðja aðila sem stafa frá stefnda enda er tilgangur með framlagningu þeirra að styðja staðhæfingu hans sjálfs. Verður hann að bera hallann af því að upplýsingar þessar liggja ekki fyrir í málinu. Telja verður ósannaða þá staðhæfingu stefnda að upplýsingar um laun skuldara í greiðslumati stefnda hafi verið í samræmi við veltu á launareikningi skuldara.                 Þá verður almennt að gera þá kröfu til fjármálafyrirtækja að þau vandi til gerðar greiðslumats enda er tilgangur þess að afla traustra upplýsinga fyrir þá sem gangast í ábyrgð fyrir lánum skuldara. Verður greiðslumatið því að byggja á upplýsingum sem gera fólki kleift að meta raunverulega áhættu af því að gengið verði að ábyrgð þeirra. Fjármálafyrirtæki geta ekki vísað til almenns fyrirvara um að upplýsingar sem þeir afla frá skuldara séu á hans ábyrgð hvað varðar atriði sem gera má kröfu um að fjármálafyrirtæki afli sjálf upplýsinga um eða krefji skuldara um staðfestingu á að séu réttar. Í ljósi þess að tekjur skuldara eru einn mikilvægasti mælikvarðinn á getu hans til að standa við skuldbindingar sínar verður að gera kröfu til fjármálafyrirtækja um að þau afli staðfestinga á því að þær upplýsingar séu réttar, eftir því sem tök eru á. Þegar greiðslumatið var gert lág m.a. fyrir ársreikningur fyrirtækis skuldara frá árinu áður og skattskýrsla vegna tekna þess árs. Þessi gögn báru með sér að tekjur skuldara væru mun lægri en þær sem lagðar voru til grundvallar í greiðslumatinu. Sömu sögu er að segja um tekjur skuldara á grundvelli skattframtals og ársreiknings fyrirtækis hans fyrir árið 2005. Ganga verður út frá því að framangreind gögn, þ.e. skattframtöl og ársreikningar fyrirtækis skuldara séu rétt nema leiddar séu líkur að öðru með sannfærandi gögnum. Það hefur ekki verið gert. Svo sem fram er komið aflaði stefndi ekki framangreindra gagna við gerð greiðslumatsins. Á grundvelli þeirra verður ekki önnur ályktun dregin en að upplýsingar um tekjur skuldara í greiðslumatinu hafi ekki verið í neinu samræmi við raunverulegar tekjur hans. Á því misræmi ber stefndi ábyrgð og verður að telja að hann hafi ekki staðið með réttum hætti að upplýsingaöflun við gerð greiðslumatsins, með hliðsjón af eðlilegum viðskiptaháttum og skyldum hans á grundvelli samnings um notkun ábyrgðarskuldbindinga. Af því leiðir að greiðslumat stefnda var haldið göllum sem gerðu stefnanda erfitt um vik að meta raunverulega áhættu af því að takast á hendur veðábyrgðina.                 Þá liggur fyrir að þegar stefnandi tók á sig umdeilda veðábyrgð hafði hún áður gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir þremur skuldabréfum útgefnum af sama skuldara sem öll voru í vanskilum þegar veðábyrgðin var veitt. Stefndi felldi umrædda sjálfsábyrgð stefnanda niður í febrúar 2012. Af gögnum málsins má ráða að það hafi verið gert í kjölfar fyrirspurnar frá umboðsmanni skuldara sem spurðist fyrir um það hvaða gögn lægju til grundvallar greiðslumati skuldara þegar þær ábyrgðir voru veittar. Þegar veðábyrgðin var veitt lá því ekki annað fyrir en að stefnandi væri í sjálfskuldarábyrgð fyrir lánum sem samanlagt námu hærri fjárhæð en tryggingarbréfið sem hún gekkst í veðábyrgð fyrir. Á þeirri forsendu gat stefnandi ályktað að hún væri í reynd ekki að taka á sig nýja ábyrgð þegar veðleyfið vegna tryggingarbréfsins var veitt. Síðar kom á daginn að sú ályktun var röng. Þær aðstæður voru því uppi við samningsgerðina að stefnandi hélt ranglega að hún hefði með gildum hætti þegar gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir lánum sem námu hærri fjárhæð en sem nam veðábyrgðinni. Stefndi hefur ekki sannað eða gert sennilega þá staðhæfingu sína að stefnandi hefði engu að síður viljað gangast í veðábyrgðina hefði henni verið ljóst að aðrar ábyrgðir hennar væru ógildar.                 Með vísan til framangreindrar niðurstöðu dómsins um að greiðslumat stefnda hafi verið haldið göllum sem leiddu til þess að af því mátti draga þá ályktun að skuldari væri vel fær um að standa undir afborgunum lána sinna, þegar raunin var sú að tekjur hans voru miklum mun lægri en svo að það gæti talist tryggt, og í ljósi þess að stefnandi taldi ranglega að hún stæði þegar í ábyrgðum fyrir skuldum skuldara eru að mati dómsins fyrir hendi þær aðstæður að ósanngjarnt er af hálfu stefnda að bera fyrir sig samning við stefndu um að gangast í veðábyrgð á grundvelli umdeilds tryggingarbréfs. Styðst sú niðurstaða einnig við þann aðstöðumun sem er með aðilum og þeim skyldum sem hvíla á stefnda sem fjármálafyrirtæki, bæði á grundvelli laga nr. 161/2002, sbr. m.a. 1. mgr. 19. gr. þeirra laga, og á grundvelli þeirra skyldna sem stefndi tókst á herðar með samkomulagi um notkun veðábyrgða frá 1. nóvember 2001, um að viðhafa eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og virða reglur sem miða að því að veita ábyrgðarmönnum tiltekna vernd. Verður að telja að á þessu hafi orðið misbrestur í þessu tilviki. Er því fallist á það með stefnanda að víkja beri til hliðar ábyrgð hennar á grundvelli veðleyfis sem hún veitti vegna tryggingarbréfs Egils Rúnars Sigurðssonar þann 25. september 2005 með vísan til 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936. Verða dómkröfur hennar því teknar til greina eins og nánar greinir í dómsorði.                 Með hliðsjón af úrslitum málsins verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 650.000 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti.                 Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn. D ó m s o r ð:
Mál nr. 301/2015
Kærumál Nauðungarvistun
Með kröfu, sem barst Héraðsdómi Reykjaness 20. apríl 2015, hefur sóknaraðili, A, kt. [...], [...], krafist þess að felld verði úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins dagsett 16. apríl 2015, um að sóknaraðili skuli vistast á sjúkrahúsi í 21 dag, með vísan til 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. apríl 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. apríl 2015 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fella úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins 16. sama mánaðar um nauðungarvistun hans á sjúkrahúsi. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun innanríkisráðuneytisins verði felld úr gildi. Þá krefst hann þóknunar til handa skipuðum talsmanni sínum vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur með þeim hætti sem í dómsorði greinir. Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun verjanda sóknaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Staðfest er ákvörðun innanríkisráðuneytisins, frá 16. apríl 2015 um að sóknaraðili, A, skuli vistast á sjúkrahúsi. Ákvörðun héraðsdóms um málskostnað skal vera óröskuð. Þóknun verjanda sóknaraðila, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Mál nr. 827/2014
Gjaldþrotaskipti Riftun
Talið var að uppfyllt væru skilyrði 2. mgr.  134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. til þess að rifta ráðstöfun þrotabús S ehf., sem fólst í greiðslu til T ehf. ríflega sjö mánuðum fyrir frestdag, þ. á m. áskilnaður um að aðilarnir væru nákomnir í merkingu 5. tölul. 3. gr. laga nr. 21/1991 þar sem lagt yrði til grundvallar að H, hluthafi í báðum aðilum, hefði stýrt daglegum rekstri S ehf.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Viðar Már Matthíasson. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. september 2014.                 Mál þetta höfðaði þrotabú Sumó ehf., kt. [...], Lágmúla 7, Reykjavík, með stefnu birtri 28. desember 2012 á hendur Tryggingum og ráðgjöf ehf., kt. [...], Skeifunni 19, Reykjavík, til riftunar á peningagreiðslum.  Málið var dómtekið 2. september sl.                  Stefnandi krefst þess að rift verði tveimur greiðslum til stefnda, annars vegar á 9.000.000 króna þann 19. apríl 2011, hins vegar á 1.000.000 króna þann 3. júní 2011.  Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða 10.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 15. júlí 2012 til greiðsludags.  Loks krefst stefnandi málskostnaðar.                 Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.  Til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar mikið.  Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu.                  Í greinargerð krafðist stefndi frávísunar málsins, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði 14. júní 2013.                  Einkahlutafélagið Sumó var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðs­dóms Reykjavíkur þann 15. febrúar 2012.  Landsbankinn hf. krafðist gjaldþrotaskipta með beiðni sem barst dóminum 25. nóvember 2011, sem telst því vera frestdagur við skiptin.  Innköllun birtist 28. febrúar 2012 og kröfulýsingarfresti lauk því 28. apríl 2012.                  Þau atvik sem máli skipta eru þessi helst:                  Sumó ehf. var stofnað 2007 og sama ár keypti félagið þrjú sumarhús að Heiðarbraut 2, 4 og 6 í Bláskógabyggð.  Félagið fékk fyrirgreiðslu hjá Landsbanka Íslands við þessi kaup.  Með yfirlýsingu dags. 14. janúar 2008 veitti stefndi, Tryggingar og ráðgjöf, Landsbanka Íslands handveðrétt í innistæðu á tilteknum innlánsreikningi í bankanum, til tryggingar skuld Sumó ehf. vegna yfirdráttar á myntveltureikningi.  Gengið var að veðinu og 13.166.431 króna tekin upp í skuld Sumó þann 21. desember 2010.                  Þann 17. desember 2007 gaf Sumó ehf. út tryggingarbréf til Landsbanka Íslands að fjárhæð 30.000.000 króna.  Var bréfið til tryggingar öllum skuldum félagsins við bankann.  Fasteignirnar við Heiðarbraut voru veðsettar, allar með 2. veðrétti.                  Í stefnu segir að félagið hafi glímt við rekstrarerfiðleika.  Forsendur þeirra verkefna sem félagið hefði ráðist í hefðu brostið.  Skuldir hefðu hækkað verulega um leið og fasteignir félagsins hefðu lækkað í verði.  Lausna hafi verið leitað í samráði við Landsbankann og hafi Hákon Hákonarson komið fram fyrir hönd félagsins í þeim viðræðum.                  Aðilar eru ekki alveg sammála um það hvaða stöðu nefndur Hákon hafi haft hjá félaginu.  Óumdeilt er að hann var annar stofnenda félagsins á árinu 2007.  Hann var í sjálfsskuldarábyrgð fyrir skuld á tékkareikningi félagsins og hafði sérstakt umboð til úttekta og skuldfærslu á bankareikninga þess.  Stefnandi heldur því fram að Hákon hafi átt 50% í félaginu.  Stefndi hefur lagt fram ljósrit kaupsamnings þar sem Hákon selur Kristmanni Árnasyni hlutabréf í Sumó að nafnverði 200.000 krónur.  Stefnandi heldur því fram að þessi samningur sé málamyndagerningur, en hvorki Hákon né Kristmann voru leiddir fyrir dóm til skýrslugjafar.                  Lögð hafa verið fram afrit af nokkrum skeytasendingum milli starfsmanna Landsbankans og Hákonar frá árinu 2010.  Virðist Hákon hafa komið fram sem fulltrúi Sumó ehf. við þær samningaviðræður sem fram fóru við bankann vegna rekstrarerfiðleika félagsins.  Í greinargerð stefnda er vísað til þess að stefndi hafi verið í ábyrgð fyrir skuldum Sumó og þess vegna hafi Hákon komið að þessum samninga­viðræðum.  Gerð voru drög að samkomulagi milli Sumó, Hákonar og Landsbanka Íslands.  Í því fólst að fasteignunum yrði afsalað til Hamla ehf., dótturfélags Lands­bankans.  Samning um þessa ráðstöfun undirritaði Hákon einn fyrir hönd Sumó, en hann er dags. 18. ágúst 2010.                  Kaupsamningurinn og afsalið fyrir fasteignunum var sent í þinglýsingu, auk þess sem áðurnefnt tryggingarbréf með veði í eignunum var sent til aflýsingar.  Kaup­samningnum og afsalinu var ekki þinglýst, þar sem Hákon hafði ekki heimild til að skuldbinda Sumó með slíkri ráðstöfun.  Það voru aðrir sem rituðu firmað.  Tryggingarbréfinu var hins vegar aflýst.                  Stefnandi segir að bankinn hafi skorað á stjórnarmenn Sumó og Hákon að leið­rétta kaupsamninginn og afsalið, annað hvort með beinni undirritun eða með því að gefa Hákoni umboð.  Þeir hafi ekki orðið við þessu.  Þessari fullyrðingu stefnanda er mótmælt í greinargerð stefnda og bent á að engin gögn liggi frammi um þessar áskoranir.                  Þann 2. desember 2010 var afhent til þinglýsingar tryggingarbréf að fjárhæð 17.000.000 króna.  Það var gefið út af Sumó til Trygginga og ráðgjafar.  Í texta bréfsins segir að það sé vegna til tryggingar tjóni vegna ábyrgðarskuldbindinga Trygginga og ráðgjafar.  Fasteignirnar við Heiðarbraut voru allar veðsettar samkvæmt bréfinu, með öðrum veðrétti og uppfærslurétti á eftir áðurgreindu tryggingarbréfi Landsbankans.  Í prentuðum texta bréfsins var það dagsett 12. ágúst 2010, en strikað er yfir mánaðarheitið og skrifað okt. í staðinn.                  Með kaupsamningi, dags. 13. apríl 2011, seldi félagið Óðni bílaleigu ehf. fast­eignirnar við Heiðarbraut fyrir 22.000.000 króna.  Í samningnum kemur fram að við samningsgerðina hafi legið frammi veðbandslausn vegna áhvílandi veðskuldar, en eignirnar skyldu afhentar veðbandalausar.  Í kjölfarið greiddi Sumó stefnda samtals 10.000.000 króna.  Þann 19. apríl 2011 voru 9.000.000 króna greiddar og 1.000.000 króna þann 3. júní sama ár.  Málsástæður og lagarök stefnanda                 Stefnandi telur að tvær greiðslur félagsins til stefnda sem áður getur séu riftanlegar í skilningi gjaldþrotalaga.  Byggir hann á 134. og 141. gr. laganna.                  Stefnandi byggir á því að félagið hafi verið ógjaldfært þegar greiðslurnar voru inntar af hendi.  Þær hafi verið til þess fallnar að skerða greiðslugetu félagsins og raska jafnræði kröfuhafa.  Greidd hafi verið 1.000.000 króna 3. júní 2011, minna en sex mánuðum fyrir frestdag.  Greiðsla að fjárhæð 9.000.000 króna hafi verið framkvæmd rúmlega sjö mánuðum fyrir frestdag.  Hún sé riftanleg samkvæmt 2. mgr. 134. gr., en félögin Sumó og stefndi, Tryggingar og ráðgjöf, séu nákomin í skilningi 4.-6. tl. 3. gr. gjaldþrotalaga.                  Stefnandi byggir á því að Sumó ehf. og stefndi Tryggingar og ráðgjöf ehf. hafi verið nákomin.  Hákon Hákonarson hafi verið stofnandi Sumó og átt 50% í félaginu.  Hann hafði verið í stjórn og verið prókúruhafi.  Þá hafi hann verið í persónulegum ábyrgðum fyrir félagið gagnvart Landsbankanum og komið fram fyrir hönd félagsins í samningaviðræðum við bankann.  Loks hafi hann undirritað kaupsamning og afsal fyrir fasteignum félagsins.  Hákon sé eigandi stefnda og sé prókúruhafi.  Þá sitji eigin­kona hans í stjórn og riti firmað.                  Stefnandi byggir á því að stefndi hafi þekkt fjárhagsstöðu Sumó þar sem eigandi stefnda hafi komið fram í samningaviðræðum um fjárhagslega endur­skipulagningu félagsins.                  Um þau rök stefnda að þessar greiðslur hafi gengið upp í skuldir sem voru tryggðar með veði í fasteignum félagsins bendir stefnandi á að tryggingarbréfið hafi ekki verið gefið út fyrr en stefndi hafði komst að því að tryggingarbréfi Landsbankans hefði verið aflýst.  Þá hafi líka verið skorað á Hákon og fyrirsvarsmenn félagsins að lagfæra undirskriftir á kaupsamningi og afsali.  Stefndi hafi því ekki verið í góðri trú þegar tryggingarbréfið að fjárhæð 17.000.000 króna var gefið út 12. október 2010 og afhent til þinglýsingar 2. desember sama ár.                  Stefnandi segir ljóst að ekki hafi verið stofnað til  umræddrar tryggingar­ráðstöfunar um leið og stefndi gekkst undir ábyrgðarskuldbindingu sína gagnvart Landsbankanum.  Ef ekki hefði komið til sölu á fasteignum Sumó áður en til gjald­þrotaskipta kom, hefði tryggingarráðstöfunin verið riftanleg samkvæmt 2. mgr. 137. gr. gjaldþrotalaga.                  Þá byggir stefnandi á því að greiðslunum megi rifta samkvæmt 141. gr. gjald­þrotalaga.  Málavextir vitni um að greiðslunum hafi verið ráðstafað á ótilhlýðilegan hátt og verið stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa.  Ljóst sé að Sumó hafi verið ógjaldfært þegar greiðslurnar voru inntar af hendi.  Vísar hann um það til árs­reiknings félagsins fyrir árið 2010.  Þá hafi eigandi stefnda komið fram fyrir Sumó og því sé ljóst að stefndi hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni félagsins.                  Þá segir stefnandi að ekki sé annað að sjá en að stefndi hafi hagnýtt sér það ástand sem skapaðist þegar tryggingarbréfi Landsbankans var aflýst, fyrir mistök starfsmanna bankans.  Í stað þess að verða við áskorunum um að leiðrétta mistökin með því að staðfesta kaupsamninginn og afsalið hafi tryggingarbréfi verið þinglýst og síðan hafi verið tekið við umræddum greiðslum þegar eignirnar höfðu verið seldar.  Þessi tryggingarráðstöfun og móttaka greiðslna hafi ekki verið gerðar í góðri trú.                  Fjárkröfu byggir stefnandi á 1. mgr. 142. gr. gjaldþrotalaga, verði fallist á riftun samkvæmt 134. gr.  Segir hann að fé það sem greitt var stefnanda hefði komið þrotabúinu að notum.                  Verði fallist á riftun samkvæmt 141. gr. byggist fjárkrafa á 3. mgr. 142. gr. Stefnandi segir að slík krafa sé skaðabótakrafa, en fjárhæð hennar sé hin sama og endurgreiðslukrafan.                  Stefnandi krefst dráttarvaxta frá 15. júlí 2012 og vísar til 3. mgr. 5. gr. vaxta­laga því til stuðnings.  Hann kveðst hafa krafið um fjárhæðina þann 15. júní 2012.                  Stefnandi vísar til XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991, einkum 3., 134., 141. og 142. gr.  Hann vísar um málshöfðunarfrest til 148. gr., sbr. 2. mgr. 194. gr. sömu laga og um fyrirsvar skiptastjóra til XIX. kafla laganna.  Málsástæður og lagarök stefnda                 Stefndi mótmælir því að aðilar hafi verið nákomnir í skilningi 3. gr. gjaldþrota­laga þegar greiðslurnar voru framkvæmdar þann 19. apríl og 3. júní 2011.  Hann segir rangt að Hákon Hákonarson hafi átt 50% hlut í félaginu.  Hann hafi á þessum tíma átt um 10% hlut.  Hann hefði selt 40% hlut í félaginu þann 30. desember 2008.  Þá hafi hann ekki verið í stjórn félagsins eða haft prókúruumboð.  Þá hafi hann ekki haft önnur þau áhrif á málefni félagsins að rétt sé að telja að hann hafi verið nákominn.                  Stefndi kveðst árétta að Hákon hafi komið að viðræðum við Landsbankann vegna þess að hann hafi gætt hagsmuna stefnda, félags í sinni eigu, sem hafði veitt handveð til tryggingar skuldum félagsins við bankann.                  Stefndi byggir á því að fyrri greiðslan hafi verið innt af hendi meira en sex mánuðum fyrir frestdag.  Því verði henni ekki rift þar sem aðilar hafi ekki verið ná­komnir og riftun geti því ekki byggst á 2. mgr. 134. gr.                 Stefndi mótmælir því að greiðslugeta félagsins hafi skerst verulega við um­ræddar greiðslur.  Það sé í það minnsta ósannað.  Verði greiðslan sem innt var af hendi 19. apríl 2011 talin vera innan fresta 134. gr. mótmælir stefndi því sérstaklega að hún hafi skert greiðslugetu félagsins verulega.  Þá sé ekki unnt að telja að síðari greiðslan hafi skert fjárhagsstöðu félagsins.  Stefndi leggur áherslu á að hér sé um tvær greiðslur að ræða sem ekki verði metnar saman.                  Stefndi segir að ekki hafi verið færð fram nein rök eða sannanir fyrir því hvernig greiðslugeta félagsins hafi verið skert.  Eðli máls samkvæmt verði stefnandi að sanna hver greiðslugetan hafi verið þegar greitt var, til að metið verði hvort hún hafi skerst verulega.                  Stefndi segir það rangt, í það minnsta ósannað, að félagið hafi verið ógjaldfært þegar greiðslurnar voru inntar af hendi.  Einu upplýsingarnar um fjárhagsstöðu félagsins séu ársreikningur þess fyrir árið 2010.                  Þá hafi greiðslur þessar verið nauðsynlegar til þess að félagið gæti selt fast­eignirnar og leyst þannig til sín umtalsverða fjármuni.  Greiðslurnar hafi því í raun bætt greiðslugetuna.  Þá hafi greiðslurnar af sömu ástæðu verið venjulegar eftir atvikum í skilningi 134. gr.  Leggur hann áherslu á að túlka verði skilyrði ákvæðisins um venjulegar greiðslur rúmt.  Í það minnsta hafi greiðslurnar virst vera venjulegar eftir atvikum.                  Stefndi mótmælir því að skilyrðum 141. gr. gjaldþrotalaga til riftunar sé full­nægt.  Hann mótmælir því að greiðslurnar hafi verið ótilhlýðilegar.  Þá sé ósannað að félagið hafi verið ógjaldfært þegar greitt var.  Loks hafnar hann þeim ásökunum að stefndi hafi hagnýtt sér ástand sem skapaðist vegna þeirra mistaka starfsmanna Lands­bankans að láta aflýsa tryggingarbréfi bankans af fasteignunum.  Ekki sé stutt neinum rökum að stefndi hafi hagnýtt sér þessi meintu mistök, hann hafi ekki verið í neinni aðstöðu til að nýta sér þau.  Hann hafi hins vegar átt kröfu á hendur félaginu sem hafi verið tryggð með veði.                  Stefndi segir að fullyrðingar stefnanda stangist á við gögn málsins.  Hann bendir á að í tryggingarbréfi sínu hafi eignirnar verið veðsettar með 2. veðrétti og upp­færslurétti á eftir veðrétti bankans.  Þegar eignirnar hafi verið seldar þann 13. apríl 2011 hafi tryggingarbréf stefnda verið á 1. veðrétti.  Til að unnt væri að selja eignirnar hafi skuldin verið greidd.  Þessar greiðslur hafi gert félaginu kleift að leysa til sín umtalsverð verðmæti og þess vegna verið því til hagsbóta.  Því hafi greiðslurnar ekki verið ótilhlýðilegar á nokkurn hátt.                  Verði talið að greiðslurnar hafi verið ótilhlýðilegar byggir stefndi á því að hann hafi hvorki vitað né mátt vita um þau atvik sem gera þær ótilhlýðilegar.  Almennt sé greiðsla á veðskuld hagstæð fyrir skuldara og þannig venjuleg eftir atvikum.                  Þá telur stefndi að félagið hafi ekki verið ógjaldfært, eða ógjaldfærni þess að minnsta kosti verið ósönnuð.  Fullyrðing stefnanda um ógjaldfærni sé einungis studd við ársreikning fyrir árið 2010.  Byggir stefndi á því að ársreikningur fyrir árið 2010 geti ekki sannað ógjaldfærni félagsins í apríl og júní 2011.  Loks byggir stefndi á því að öðrum skilyrðum 141. gr. sé ekki fullnægt og málsástæður stefnanda um þau séu vanreifaðar.                  Varakröfu sína um lækkun stefnukröfu byggir stefndi á sömu málsástæðum og aðalkröfu sína.  Vísar hann þá sérstaklega til þess að aðilar hefi ekki verið nákomnir í skilningi gjaldþrotalaga og því verði að hafna riftun á greiðslunni sem fór fram 19. apríl 2011.                  Stefndi vísar til 3., 134., 141. og 142. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Niðurstaða                 Stefnandi byggir á því að félögin Sumó og Tryggingar og ráðgjöf hafi verið nákomin í skilningi gjaldþrotalaga.  Óumdeilt er að Hákon Hákonarson er eigandi eða stærsti hluthafi í Tryggingum og ráðgjöf og prókúruhafi, en eiginkona hans situr í stjórn.  Aðilar deila um hvort hann átti 10% hlut eða 50% hlut í Sumó.  Gögn málsins bera með sér að Hákon kom fram eins og hann væri í raun stjórnandi Sumó.  Hann gekk til viðræðna við Landsbankann um skuldaskil.  Fallast má á að það hefði verið eðlilegt að fylgjast með þeim viðræðum og taka þátt með raunverulegum stjórnendum, en það að annast viðræðurnar einn og skrifa undir samninga í nafni félagsins bendir til þess að hann hafi í raun verið stór hluthafi í félaginu.  Hann var í persónulegum ábyrgðum fyrir félagið.  Þá hafði hann ekki prókúruumboð fyrir félagið, en hann hafði umboð til að ráðstafa bankainnstæðum félagsins.  Að þessu virtu þarf ekki að leysa úr því hvort skjal það sem sýnir framsal stórs hluta hlutafjáreignar Hákonar sé málamyndagerningur eða ekki, afskipti hans og hagsmunir af málefnum félagsins vegna persónulegra ábyrgða leiða til þess að hann telst hafa verið nákominn Sumó.  Leiðir því af 5. tl. 3. gr. gjaldþrotalaga, sbr. 3. gr. laga nr. 95/2010, að félögin Sumó og Tryggingar og ráðgjöf voru nákomin.                  Greiðslur þær sem krafist er að verði rift voru inntar af hendi 19. apríl og 3. júní 2011.  Frestdagur við skiptin er 25. nóvember sama ár.  Greiðslurnar voru því báðar inntar af hendi minna en tveimur árum fyrir frestdag, sbr. 2. mgr. 134. gr. gjaldþrotalaga.                  Stefnandi byggir riftun á því skilyrði 134. gr. að greidd hafi verið fjárhæð sem skerti greiðslugetu þrotamanns verulega.  Hann hefur lagt fram ársreikning félagsins fyrir árið 2010.  Samkvæmt honum hafði félagið engar tekjur, en rekstrarkostnaður og vaxtagjöld námu rúmlega 2 milljónum króna.  Eignir voru taldar að verðmæti 39 milljónir króna, en skuldir samtals 82.589.753 krónur.  Stefndi hefur ekki mótmælt því að þessi ársreikningur hafi gefið rétta mynd af stöðu félagsins í árslok 2010.  Mótmæli hans við því að þetta gefi rétta mynd af fjárhag félagsins þegar umræddar greiðslur voru inntar af hendi, eru að engu hafandi.  Ljóst er af gögnum málsins að engin starf­semi fór fram í félaginu og það aflaði engra tekna.  Því eru engar líkur á að fjárhagur félagsins hafi breyst á árinu 2011, nema þá til hins verra.  Var félagið ógjaldfært er greiðslurnar voru inntar af hendi og hafði svo verið um langa hríð.  Greiddar voru samtals 10 milljónir króna um það leyti sem fasteignir félagsins voru seldar fyrir 22 milljónir króna.  Félagið átti ekki aðrar eignir.  Greiðslurnar skertu því greiðslugetu félagsins verulega.  Líta verður á greiðslurnar sem eina heild þegar metin eru áhrif þeirra á greiðslugetu félagsins.                  Stefndi byggir á því að greiðslan hafi verið venjuleg eftir atvikum, þar sem hún hafi verið nauðsynleg til að unnt væri að selja fasteignir félagsins.  Segir hann einnig að greiðslugeta félagsins hafi batnað við þessa ráðstöfun.                  Á þessar mótbárur stefnda er ekki hægt að fallast.  Ársreikningur fyrir árið 2010, svo og samanburðartölur hans úr ársreikningi 2009, sýnir að sú staða var fyrir löngu komin upp að stjórnendum félagsins var skylt að gefa bú þess upp til gjaldþrota­skipta, sbr. 2. mgr. 64. gr. gjaldþrotalaga.  Sú ráðstöfun að veita nákomnu félagi veð­rétt til tryggingar eldri skuld var augljóslega riftanleg samkvæmt 2. mgr. 137. gr. laganna.  Með því að greiða þessu nákomna félagi skuld var kröfuhöfum mismunað.  Það var ekki greiðslugeta félagsins sem var styrkt með ráðstöfuninni, heldur fyrst og fremst fjárhagsstaða annarra.  Því getur þessi greiðsla ekki talist venjuleg í skilningi 134. gr.                  Að þessu virtu verður fallist á kröfu stefnanda um riftun á greiðslum til stefnda samkvæmt 2. mgr. 134. gr. gjaldþrotalaga.                  Stefnandi krefst greiðslu sem er jafn há og sú fjárhæð sem stefndi fékk greidda, sbr. 1. mgr. 142. gr. gjaldþrotalaga.  Þessu er ekki mótmælt sérstaklega.  Verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 10.000.000 króna.  Stefnandi lýsti yfir riftun og krafði stefnda um greiðslu með bréfi sem var birt stefnda 20. júní 2012.  Með hliðsjón af reglu 9. gr. laga nr. 38/2001 verða dráttarvextir dæmdir frá 20. júlí 2012.                  Í samræmi við niðurstöðuna og hagsmuni af málinu og umfang þess verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 1.600.000 krónur í málskostnað.  Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts og þess að málið var flutt sérstaklega um frávísunarkröfu stefnda.                  Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.  D ó m s o r ð                 Framangreindum greiðslum Sumó ehf. til stefnda Trygginga og ráðgjafar ehf. er rift. 
Mál nr. 302/2015
Kærumál Nálgunarbann Ómerking
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem felld var úr gildi ákvörðun L, um að X skyldi sæta nálgunarbanni í 6 mánuði, með vísan til þess að brotaþoli hefði fallið frá kröfu sinni um nálgunarbann. Taldi Hæstiréttur að af misvísandi bókunum við fyrirtöku málsins yrði ekki ráðið hvort brotaþoli hefði í raun fallið frá framangreindri kröfu sinni eða ekki. Af því leiddi að ekki yrði lagður dómur á málið og væri því óhjákvæmilegt að ómerkja hinn kærða úrskurð og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. apríl 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. apríl 2015 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að staðfest yrði ákvörðun hans 23. sama mánaðar um að varnaraðili sætti nálgunarbanni í sex mánuði. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og fallist verði á framangreinda kröfu hans. Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar en til vara að nálgunarbanni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði var ákvörðun Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um nálgunarbann byggð á beiðni brotaþola 22. apríl 2015, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 85/2011, en ekki undantekningarreglu 3. mgr. sömu greinar, þar sem mælt er fyrir um að lögreglustjóri geti að eigin frumkvæði tekið mál til meðferðar samkvæmt lögunum ef hann telur ástæðu til. Við fyrirtöku málsins í héraðsdómi 27. apríl 2015 var eftirfarandi bókað: „Réttargæslumaður lýsti því yfir að hann hefði talað við brotaþola í síma nú í morgun og hefði hún þar lýst því yfir að hún félli frá kröfunni um nálgunarbann.“ Eftir að sækjandi hafði tjáð sig um málið var á hinn bóginn gerð svofelld bókun: „Réttargæslumaður brotaþola tekur undir kröfu sækjanda og gerir kröfu um málskostnað.“ Af þessum misvísandi bókunum er allsendis óljóst hvort brotaþoli hafi í raun fallið frá beiðni sinni um nálgunarbann eða ekki, en af því leiðir að ekki verður lagður dómur á málið. Er því óhjákvæmilegt að ómerkja hinn kærða úrskurð og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur samkvæmt 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 18. gr. laga nr. 85/2011. Dómsorð Hinn kærði úrskurður er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Mál nr. 578/2014
Fasteign Fjöleignarhús Galli Ábyrgðartrygging Vátryggingarsamningur Skaðabætur Aðildarskortur
Húsfélagið Þ krafðist bóta úr hendi R, hönnuðar húseignarinnar, og V hf. vegna ætlaðra hönnunargalla. Í dómi Hæstaréttar var sú niðurstaða héraðsdóms staðfest að hönnun bílageymslu húseignarinnar fullnægði ekki byggingarreglugerð að því leyti að þar vantaði sjálfvirkt vatnsúðakerfi. Hluti þess kostnaðar, sem húsfélagið vísaði til, væri hins vegar kostnaður sem húsfélagið hefði hvort eð er þurft að greiða ef hönnun hefði fullnægt kröfum um brunavarnir. Var sá kostnaður því dreginn frá kröfunni og R og V hf. dæmdir til að greiða 870.438 krónur vegna umrædds kröfuliðar. Hins vegar voru R og V hf. sýknaðir af kröfu húsfélagsins sem reist var á því að hurðir, sem skilja ættu séreignir frá sameign, hljóðeinangruðu ekki með fullnægjandi hætti og í því sambandi vísað til þess að samkvæmt 6. tölulið 5. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús féllu hurðir, sem skilja séreign frá sameign, undir séreign. Húsfélagið ætti því ekki bótakröfu á þeim grundvelli sem byggt væri á.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.   Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 15. júlí 2014. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 27. ágúst sama ár og áfrýjaði hann öðru sinni 1. september 2014. Hann krefst þess að stefndu verði sameiginlega gert að greiða sér 9.590.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. ágúst 2011 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 14. júlí 2014 að fjárhæð 870.438 krónur. Þá krefst hann hærri málskostnaðar en honum var dæmdur í héraði og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Stefndu krefjast aðallega sýknu af kröfu áfrýjanda hér fyrir dómi, en til vara að krafan verði lækkuð. Þá krefjast þeir málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Í málflutningi hér fyrir dómi kom fram að stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. unir niðurstöðu héraðsdóms um skaðabótaábyrgð stefnda Ríkarðs, að því er varðar hönnun á brunavörnum bílageymslu hússins að Þórðarsveig 17 til 21 í Reykjavík, enda hefur félagið greitt bætur til áfrýjanda í samræmi við hinn áfrýjaða dóm. Á hinn bóginn sættir stefndi Ríkarð sig ekki við þá niðurstöðu héraðsdóms og krefst endurskoðunar á henni. Með því að hann hefur ekki áfrýjað málinu fyrir sitt leyti kemur þetta atriði ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti. Hinn áfrýjaði dómur verður staðfestur með vísan til forsendna hans. Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Þórðarsveigur 17-21 húsfélag, greiði stefndu, Ríkarð Oddssyni og Vátryggingafélagi Íslands hf., sameiginlega 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. apríl 2014. I.          Mál þetta, sem var dómtekið 20. mars sl., er höfðað 20. júní 2013 af húsfélaginu að Þórðarsveig 17-21, Þórðarsveig 17 í Reykjavík, gegn Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3 í Reykjavík, og 21. júní 2013 gegn Ríkarði Oddssyni, Bröttutungu 6 í Kópavogi.          Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir til þess að greiða stefnanda óskipt (in solidum) 22.520.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. ágúst 2011 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.          Stefndu krefjast aðallega sýknu en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar. Þá krefjast stefndu málskostnaðar.          Í öndverðu gerðu stefndu kröfu um frávísun málsins, en féllu frá kröfunni í þinghaldi 9. desember sl. II.          Stefnandi er húsfélag eigenda íbúða í fjöleignarhúsinu að Þórðarsveig 17 til 21 í Reykjavík. Í húsinu eru þrír stigagangar og þar eru alls 26 íbúðir. Þá er bílageymsla undir hluta hússins og lóðar. Húsið mun hafa verið byggt á árinu 2006 og það tekið í notkun á árunum 2007 og 2008. Í málflutningsskjölum er tekið fram að seljandi íbúðanna hafi verið Fasteignafélagið Hlíð ehf. sem hafi keypt húsið af Frjálsa fjárfestingabankanum í janúar 2005.          Stefndi Ríkarð var aðalhönnuður hússins. Í málinu liggur fyrir byggingarlýsing hans af húsinu, sem er dagsett 30. maí 2003, ásamt afstöðumynd, en skjalið er merkt A-1. Á hana er skráð að breyting hafi verið gerð á byggingarlýsingunni 14. desember 2005 og að hún hafi verið samþykkt af byggingarfulltrúa 7. mars 2006.          Í byggingarlýsingunni segir að þak skuli einangrað með „100+100 MM POLYSTERN EINANGRUN (U-gildi 0,2 W/m²)“. Jafnframt kemur þar fram að þak eigi að klæða með „PVC DÚK 1,2 MM“ og að ofan á dúkinn skuli leggja 50 til 70 millimetra lag af „NÚNUM SJÁVARSTEINUM, KORNASTÆRÐ 30-60 MM“. Nánari lýsing á frágangi þaksins kemur fram á teikningu, sem merkt er S-18, dags. 20. júní 2003, en hún sýnir sniðmynd af þaki og þakkanti. Teikningin ber með sér að ofan á steypta, flata þakplötu átti að setja rakavörn, t.d. þolplast, og ofan á hana tvær 10 cm þykkar frauðplasteinangrunarplötur, annars vegar 16 kg/m³ og hins vegar 24 kg/m³. Ofan á þær átti að leggja 1,2 mm þykkan PVC þakdúk. Sjávarmölin kæmi síðan ofan á dúkinn sem farg. Ekki var sýnt á teikningunni hvernig tryggja ætti vatnshalla að niðurföllum á þakinu.          Um hljóðvist segir í byggingarlýsingunni að eftirfarandi kröfur séu gerðar: „MILLI ÍBÚÐAR OG RÝMIS UTAN ÍBÚÐAR 52 db SEM UPPFYLLIST MEÐ 150mm STEINSTEYPTUM VEGG OG 200mm STEYPTRI GÓLFPLÖTU. MILLI FORSTOFU OG SAMEIGINLEGS GANGS 39 db SEM UPPFYLLIST MEÐ HURÐ Í HLJÓÐEINANGRUNARFLOKKI 35 db.“          Fjallað er um bílageymslu í byggingarlýsingunni. Þar kemur fram að undir lægri byggingunni og á lóð sé niðurgrafið bílastæðahús fyrir 24 bifreiðar. Um brunavarnir í bílageymslunni segir í byggingarlýsingunni að þær skuli vera í samræmi við byggingarreglugerð. Meðal annars þurfi bílageymslan að uppfylla eftirfarandi kröfu: „BÍLAGEYMSLAN ER EIN SJÁLFSTÆÐ BRUNASAMSTÆÐA SEM AÐSKILST MEÐ EI 90 VEGGJUM OG EICS 60 HURÐUM. FLÓTTALEIÐIR ÚR BÍLAGEYMSLUM ERU 2. KOMA SKAL FYRIR BRUNAVIÐVÖRUNARKERFI Í BÍLAGEYMSLU OG TENGDUM GEYMSLUM INNAN SÖMU BRUNASAMSTÆÐU.“          Á teikningu af bílakjallara, sem ber númerið A-2 og er dagsett 30. maí 2003, kemur fram að breyting hafi verið gerð á henni 14. desember 2005. Þar segir að breytingin felist meðal annars í því að sett hafi verið kvöð um brunaviðvörunarkerfi í stað fellihurðar. Í innrömmuðum athugasemdum á teikningunni segir að koma skuli fyrir viðbótarbrunavörnum sem geri „brunaöryggið jafn gott og ef stærðin væri innan 600m²“. Um heimild til þessarar breytingar var vísað til 142. gr. byggingarreglugerðar um tækniskipti. Síðan segir í athugasemdunum: „Ef sett væri sjálfvirkt brunaviðvörunarkerfi í bílageymsluna væri þetta uppfyllt að mínu mati þegar haft er í huga að stærðaraukningin umfram 600m² er í raun mjög lítil.“ Teikningin með þessari breytingu var samþykkt af byggingarfulltrúa 7. mars 2006.          Gögn málsins bera það með sér að stefndi Ríkarð hafi leitað álits sérfræðings í brunahönnun hjá Línuhönnun hf. áður en framangreind breyting var gerð á hönnun bílakjallarans. Í minnisblaði brunahönnuðarins, dags. 26. september 2005, sem lagt var fyrir byggingarfulltrúa áður en breytingin var samþykkt, kemur fram að upphafleg teikning geri ráð fyrir því að bílageymslunni sé skipt í tvö brunahólf með EI60 vegg og EICS60 sjálflokandi rennihurð á segli. Þá segir þar að um bílageymsluna gildi 114. gr. byggingarreglugerðar. Samkvæmt gr. 114.12 skuli bílageymsla „með gólfi undir yfirborði jarðar en loft í eða við yfirborð búin tilteknum brunavörnum (skv. 114.13) ef gólfflötur er yfir 600 fermetrar“. Þá er tekið fram að með því að skipta geymslunni í tvo hluta, sem hvor um sig er undir 600 fermetrum, þurfi ekki að fullnægja þessum kröfum. Síðan kemur fram að sé „brunahólfandi“ veggur fjarlægður verði stærð bílageymslunnar „í einu hólfi“ 612 fermetrar auk nokkurra geymslurýma, sem alls væru um 40 fermetrar, og væru „hólfuð frá með EI60 veggjum og EICS30 hurðum“. Væru þá eftirfarandi valkostir fyrir hendi að mati brunahönnuðarins: „1.    Koma fyrir brunavörnum skv. 114.13. þ.e. a) vatnsúðakerfi, b) föstum reykræstiopum 5% af gólffleti, eða c) sjálfvirku reykútsogi. 2.      Stækka geymslurýmin og hólfa þau með EI90 veggjum og EICS60 hurðum þannig að heildarstærð brunasamstæðunnar sem inniheldur bílageymsluna verði ekki yfir 600 m². Þetta gæti þýtt það að bílastæðum fækkaði um eitt, enda nemur stærðarmunurinn nálægt einu stæði. 3.      Koma fyrir viðbótarbrunavörnum sem gera brunaöryggið jafn gott og ef stærðin væri innan 600 m². Um væri að ræða tækniskipti skv. 142. grein byggingarreglugerðar. Ef sett væri sjálfvirkt brunaviðvörunarkerfi í bílageymsluna væri þetta uppfyllt að mínu mati þegar haft er í huga að stærðaraukningin umfram 600 m² er í raun mjög lítil. Brunaviðvörunarkerfið  ætti einnig að ná til geymslurýmanna sem eru innan sömu brunasamstæðu, eða að öðrum kosti yrðu þau hólfuð frá með EICS60 hurðum.“          Tveir byggingarstjórar munu hafa verið skráðir fyrir verkinu meðan á byggingu hússins stóð. Annar var með ábyrgðartryggingu hjá Sjóvá hf. en hinn hjá Tryggingamiðstöðinni hf. og síðar hjá Verði hf. Stefndi Ríkarð var með ábyrgðartryggingu hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf.          Í gögnum málsins kemur fram að engin lokaúttekt hafi farið fram á fasteigninni.          Ýmsir ágallar hafa komið fram á húseigninni eftir að hún var tekin í notkun. Hinn 4. mars 2011 var dómkvaddur matsmaður að ósk stefnanda til að meta þau atriði sem hann taldi ábótavant við bygginguna. Matsmaðurinn, Hjalti Sigmundsson byggingatæknifræðingur og húsasmíðameistari, skilaði matsgerð 22. júlí 2011. Þar er komist að þeirri niðurstöðu að ýmsir ágallar séu á húsinu, meðal annars á hönnun og frágangi þaksins, brunavörnum bílakjallarans og á hljóðeinangrun milli sameignar og íbúða. Hann fann að fjölmörgum fleiri atriðum og mat heildarkostnað við úrbætur 37.303.000 krónur með virðisaukaskatti. Samkvæmt matsgerð áætlaði hann kostnað við lagfæringar á þakinu samtals 12.930.000 krónur, við uppsetningu á vatnsúðakerfi og tengdar framkvæmdir í bílakjallara samtals 6.708.000 krónur og við uppsetningu á tvöföldum hurðum inn í íbúðir samtals 2.990.000 krónur.          Gögn málsins bera með sér að stefnandi hafi á grundvelli matsgerðarinnar fengið greiddar hámarksbætur úr ábyrgðartryggingu byggingarstjóra hjá Tryggingamiðstöðinni, 6.512.000 krónur, en heildarkrafa stefnanda úr þeirri tryggingu nam 25.978.000 krónum. Við greiðsluna var ekki ákveðið inn á hvaða matsliði bæturnar  skyldu greiddar. Enn fremur liggur fyrir að Sjóvá hf. hefur greitt samtals 1.935.487 krónur úr ábyrgðartryggingu byggingarstjóra á grundvelli matsgerðarinnar vegna metins kostnaðar að fjárhæð 2.231.667 krónur með virðisaukaskatti.          Með bréfi, dags 25. ágúst 2011, krafði lögmaður stefnanda hið stefnda vátryggingafélag um samtals 26.813.000 krónur úr ábyrgðartryggingu stefnda Ríkarðs, þar á meðal 12.930.000 krónur vegna galla á hönnun þaksins, 6.625.000 krónur vegna úrbóta á brunhönnun bílageymslunnar og 2.990.000 krónur vegna ófullnægjandi hljóðeinangrunar milli sameignar og íbúða. Kröfunum var hafnað með tölvuskeyti 15. nóvember 2011. Meginhluti kröfuliða var borinn undir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu 8. janúar 2013 að ekki hefði verið sýnt fram á bótaskyldu á grundvelli vátryggingarinnar, þar sem ósannað væri að hönnuðurinn bæri skaðabótaábyrgð á þessum liðum. III. 1. Málsástæður og lagarök stefnanda          Stefnandi kveðst reisa kröfur sínar á því að stefndu beri skaðabótaábyrgð á grundvelli almennu skaðbótareglunnar vegna umfangsmikilla hönnunargalla á fasteigninni að Þórðarsveig. Stefnandi kveðst vísa til sjónarmiða um sérfræðiábyrgð, en strangt sakarmat gildi um hönnuðinn sem sérfræðing í hönnun mannvirkja. Stefnandi kveðst byggja aðallega á matsgerð hins dómkvadda matsmanns og telur að helstu niðurstöður hans um galla á sameign, sem rekja megi til þess að hönnun fasteignarinnar hafi verið ábótavant, séu eftirfarandi: 1) Matsliður 3 – leki frá þaki          Í matsgerð komi fram að ekki sé halli á yfirborði þakplötu á fasteigninni, en í samþykktum teikningum aðalhönnuðar segi að þakið sé flatt. Þannig sé ekki halli á þaki að niðurföllum, en það sé nauðsynlegt svo vatn standi ekki uppi á þeim og liggi við samskeyti á dúkum og við frágang þar sem hætta geti verið á að vatn berist inn með tímanum. Matsmaður vísi til þágildandi reglugerðar nr. 441/1998, þar sem gerðar séu kröfur um lágmarkshalla á þökum. Í gr. 136.2 segi að til þess að tryggja vatnsþéttleika ysta byrðis þakflatar skuli þak eða hluti þaks aldrei halla minna en 1:50 og að velja skuli þakefni og frágang með tilliti til þakhalla. Þá segi í gr. 118.1 að hús og önnur mannvirki skuli gerð úr haldgóðum og hentugum byggingarefnum sem þoli íslenskt veðurfar og þá áraun sem ætla megi að húsið eða mannvirkið verði fyrir. Enn fremur skuli tryggt að framkvæmdir séu með tæknilega og faglega fullnægjandi hætti. Að þessu virtu telji matsmaður að þak sé ófullnægjandi að því leyti að þakhalli sé ekki nægur og vatn renni því ekki nægilega vel af þakinu.          Stefnandi kveðst byggja á þeirri niðurstöðu matsmanns að þakfletir á húsinu halli ekki í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar. Þannig telji matsmaður að uppbygging þaksins sé röng eins og hún komi fram í samþykktum teikningum hönnuðar, enda leiði hönnun þess til þess að raki, sem streymi frá húsinu með dreifð, safnist fyrir í því. Þá sé ónóg farg á þaki sem tryggi ekki nægilega að þakdúkur og einangrun geti ekki fokið af húsinu. Til þess að bæta úr gallanum telji matsmaður að taka þurfi farg af þökum, þakdúk og steinullareinangrun. Taka þurfi frauðplasteinangrun upp og koma fyrir rakavörn ofan á steyptri plötu. Einnig þurfi að setja nýja einangrun sem skorin sé misþykk til að fá halla að niðurföllum, en þykktarmunur á einangrun þurfi að minnsta kosti að vera 10 cm til að fá nægan halla á þakfleti. Þá þurfi að leggja nýjan þakdúk og gera við rakaskemmdir. Matsmaður telji hæfilega metinn kostnað við endurbætur vegna þessa nema 12.930.000 kr. 2. Matsliður 8 – brunavarnakerfi í bílageymslu          Stefnandi heldur því fram að á samþykktum aðalteikningum af bílageymslu sé ekki gert ráð fyrir vatnsúðakerfi í geymslunni, en samkvæmt gr. 114.11 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 skuli verja bílageymslu, sem sé með lofti undir yfirborði jarðar, með sjálfvirku vatnsúðakerfi. Að því virtu telji matsmaður að sjálfvirkt vatnsúðakerfi eigi að vera í bílageymslunni og að ekki hafi verið sýnt fram á að unnt hafi verið að sleppa því, t.d. með viðeigandi brunahönnun, í samræmi við gr. 142.1 í byggingarreglugerð. Matsmaður bendi á að ákvæði reglugerðarinnar sé afdráttarlaust og að ekki sé hægt að víkjast undan því nema með því að sýna fram á að öryggi fólks og fasteignarinnar sé tryggt með öðrum hætti. Í þessu samhengi hafi matsmaður vísað til minnisblaðs frá brunahönnuði sem virðist hafa leitt til þess að fyrirkomulag bílageymslu hafi verið samþykkt, en matsmaður telji þó að ekki hafi verið sýnt fram á að öryggi væri tryggt með öðrum hætti. Þetta hafi matsmaður fengið staðfest frá fulltrúa Mannvirkjastofnunar Íslands.          Stefnandi kveðst byggja á þeirri niðurstöðu matsmanns að brunavarnir í bílageymslu séu með öllu ófullnægjandi og ekki í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar. Brunasamstæða sem sé með lofti undir yfirborði jarðar skuli búin sjálfvirku vatnsúðakerfi og taki ákvæði gr. 114.13 í byggingarreglugerð ekki til slíkrar geymslu. Stefnandi telur að á samþykktum teikningum af geymslunni hafi verið litið fram hjá þessu. Til þess að bæta úr þessum galla telji matsmaður að gera þurfi endurbætur á eldvörnum bílageymslunnar sem felist í því að setja vatnsúðakerfi í geymsluna. Leggja þurfi nýtt vatnsinntak að húsinu sem geti flutt nægilegt vatnsmagn og tengja flæðiloka á stjórnbúnað vatnsúðakerfis við stjórnstöð brunaviðvörunarkerfis sem sé tengt vaktstöð. Matsmaður telji hæfilega metinn kostnað við endurbætur vegna þessa nema 6.600.000 krónum. 3. Matsliður 15 – hljóðeinangrun í veggjum          Stefnandi vísar til matsgerðar um að vegið hljóðeinangrunargildi fyrir lofthljóð skuli vera 52 dB milli íbúðar og sameiginlegs rýmis utan íbúðar, sbr. gr. 173.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Milli forstofu (innan við ganghurð) og sameiginlegs gangs eða stigahúss sé krafan hins vegar 39 dB. Matsmaður bendi á að ekki séu forstofur í íbúðunum heldur sé inngangshurð beint inn í íbúðirnar. Því gildi hærri krafan, þ.e. 52 dB.          Í byggingarlýsingu á aðalteikningum hönnuðar komi fram að milli forstofu íbúða og sameiginlegs gangs sé krafan 39 dB sem skuli uppfyllt með hurð í hljóðeinangrunarflokki 35 dB. Matsmaður telji þessar forsendur rangar að því leyti að krafan um hljóðeinangrun sé of lág þar sem ekki séu forstofur í íbúðunum með innri hurð. Af þeim sökum verði hurð að hæfa kröfu um 52 dB hljóðkröfu.          Stefnandi kveðst byggja á niðurstöðu matsmanns um að hljóðeinangrun milli íbúða og rýmis utan íbúða sé ófullnægjandi og ekki í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar. Þannig sé ljóst að hönnuninni sem slíkri sé ábótavant samkvæmt árituðum teikningum aðalhönnuðar með tilheyrandi óþægindum fyrir íbúa hússins, hvort sem er á sameiginlegum stigagangi eða í íbúðum. Reglugerðin sé afdráttarlaus að þessu leyti, en úr þessu megi bæta með því að skipta út hurðum fyrir nýjar sem standist ákvæði reglugerðar. Matsmaður telji hæfilega metinn kostnað við endurbætur vegna þessa nema 2.990.000 krónum, en miðað sé við að settar séu tvöfaldar hurðir. Samantekt          Með vísan til framangreinds telur stefnandi að stefndu beri ábyrgð á þeim göllum sem falli undir matsliði nr. 3, 8 og 15 þar sem matsmaður telji að hönnun fasteignarinnar uppfylli ekki kröfur sem gerðar séu til hönnunar í lögum nr. 73/1997 og byggingarreglugerð nr. 441/1998. Kröfum stefnanda sé jafnframt beint að hinu stefnda vátryggingafélagi á grundvelli 44. gr. laga um vátryggingasamninga nr. 30/2004 sem vátryggjanda hönnuðar. Bótakrafa stefnanda byggist á mati við endurbætur í öllum liðum, en þeir varði allir galla á sameign hússins. Stefnandi kveðst byggja á því að aðalhönnuður fasteignarinnar hafi með áritun sinni á teikningar ábyrgst að hönnun eignarinnar væri faglega unnin og í samræmi við lög og reglur um byggingarmál, sbr. 1. mgr. 47. gr. þágildandi laga nr. 73/1997 og gr. 17.1 í þágildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998. Hafi hann jafnframt borið ábyrgð á því að samræmi væri milli aðaluppdrátta og séruppdrátta af fasteigninni, sbr. gr. 17.2 í byggingarreglugerð og ábyrgð gagnvart byggingaryfirvöldum á því að séruppdrættir væru í samræmi innbyrðis, sbr. gr. 17.3 sömu reglugerðar. Sambærileg ákvæði sé að finna í 23. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og kafla 4.1 í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Stefnandi bendir á að strangt sakarmat gildi um hönnuðinn sem sérfræðing í hönnun mannvirkja, en gera megi ríkari kröfur til sérfræðinga um vönduð vinnubrögð og aðgæslu. Þannig telur stefnandi, þegar allt framangreint er virt, að enginn vafi leiki á því að hönnuðurinn hafi sýnt saknæma vanrækslu í störfum sínum sem aðalhönnuður fasteignarinnar og beri stefndu þar af leiðandi skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda.          Um lagarök vísar stefnandi til almennu skaðabótareglunnar um skaðabótaábyrgð stefndu og reglunnar um sérfræðiábyrgð. Stefnandi vísar jafnframt til ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993 og laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004. Þá kveðst stefnandi byggja á skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, lögum um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerðum nr. 441/1998 og 112/2012. Um dráttarvexti vísar stefnandi til laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Um aðild stefnanda vísar stefnandi til laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 og laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Kröfu sína um málskostnað reisir stefnandi á 129. og 130. gr. einkamálalaga og lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Um varnarþing vísar stefnandi til 33. gr., sbr. 1. mgr. 42. gr., einkamálalaga. 2. Málsástæður og lagarök stefndu          Stefndu byggja sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að krafa stefnanda sé fyrnd. Er þá á því byggt af hálfu stefndu að tjónsatvikið hafi orðið þegar teikningar hönnuðarins hafi verið gerðar eða 30. maí 2003. Hafi eitthvað verið athugavert við teikningarnar svo að saknæmt geti talist hljóti tjónið að hafa orðið þegar þær hafi verið fullgerðar.          Stefndu taka fram að í þeim skilmálum sem gilt hafi um starfsábyrgðartryggingu hönnuðarins á árinu 2003 sé ákvæði í 12. gr. um fyrningu skaðabótakrafna sem falli undir trygginguna. Segir þar að slíkar kröfur fyrnist á tveimur árum frá lokum þess almanaksárs þegar kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar.          Stefndu telja að þetta tímamark hafi verið komið í apríl 2010, þegar stefnandi hafi sent bréf til tryggingarfélaga þar sem tilkynnt hafi verið um galla í fasteignunum. Fyrningarfresturinn hafi því byrjað að líða í ársbyrjun 2011 og lokið í árslok 2012. Krafan hafi því verið fyrnd þegar málið hafi verið höfðað í júní 2013.          Verði ekki fallist á framangreint byggja stefndu á því að krafan sé eftir sem áður fyrnd samkvæmt 10 ára fyrningareglu 2. mgr. 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda o.fl. Upphaf þess frests miðist við tjónsatvikið sem hafi, eins og áður segir, orðið þegar teikningar hafi verið tilbúnar 30. maí 2003. Mál þetta hafi ekki verið höfðað fyrr en í júní 2013 en þá hafi kröfurnar verið fyrndar.          Verði ekki fallist á framangreint byggja stefndu sýknukröfu sína á því að saknæm háttsemi sé ósönnuð. Í málinu sé deilt um það hvort stefndu hafi með saknæmum og ólögmætum hætti bakað stefnanda tjóni sem sé bótaskylt úr starfsábyrgðartryggingu sem hafi tekið til stefnda og hafi verið tekin hjá hinu stefnda vátryggingafélagi. Málið snúist nánar tiltekið um það hvort stefndi Ríkarð hafi, sem hönnuður hússins að Þórðarsveig 17-21, sýnt af sér saknæma háttsemi sem leiði til þess að hann beri skaðabóta­ábyrgð gagnvart stefnanda á tjóni sem hafi hlotist af þeirri hegðun. Einnig hvort ætlaðir gallar á húsinu séu sannaðir með fullnægjandi hætti og þá einnig hvort sannað sé að þá megi rekja til saknæmrar háttsemi þessa stefnda sem hönnuðar. Þá sé ágreiningur um stefnufjárhæð og einnig mögulega bótafjárhæð, verði litið svo á að bótaréttur stefnanda sé fyrir hendi.          Stefndu taka fram að í málinu gildi almennar sönnunarreglur skaðabótaréttar. Af því leiði að sönnunarbyrðin hvíli öll á stefnanda, bæði um meinta saknæma háttsemi stefnda Ríkarðs sem og hið meinta tjón sem eigi að hafa hlotist af henni. Það nái bæði til þess að sanna að stefnandi hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni sem og hvert umfang þess hafi verið. Takist slík sönnun ekki komi ekki til þess að stefndi Ríkarður beri skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda eða að stefnandi eigi rétt til greiðslu bóta úr starfsábyrgðartryggingu hans hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf.          Stefndu telja ósannað með öllu að stefndi Ríkarður hafi sýnt af sér saknæma háttsemi með þeim hætti sem stefnandi haldi fram og byggi kröfur sínar á. Hvorki sé um hönnunargalla á húsinu að ræða sem hafi leitt til tjóns fyrir stefnanda né að umstefnd atriði séu þess eðlis að stefnda Ríkarði verði gert að bera ábyrgð á þeim sem hönnuði hússins.          Stefndu mótmæla fyrsta kröfulið stefnanda er byggist á ætluðum galla á hönnun þaksins. Þeir hafna því að um sé að ræða atriði sem hönnuði verði gert að bera sakarábyrgð á. Þá er því hafnað að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna ætlaðs skorts á halla á þakinu.          Stefndu vekja athygli á því að þessi kröfuliður sé í stefnu sagður vera vegna leka frá þaki. Hér sé því gerð krafa um skaðabætur vegna tjóns sem hafi hlotist af þeim leka og úrbóta sem þörf sé á til þess að koma í veg fyrir að áfram leki frá þaki. Stefndu telja í því sambandi rétt að benda á að í umfjöllun matsmanns í matsgerð sé ekki annað að sjá en að matsmaður taki til skoðunar ýmis önnur atriði en þau sem snúi að leka frá þaki. Kostnað við úrbætur vegna þeirra kveða stefndu innifalinn í þessum kröfulið.          Stefndu benda á að niðurstaða matsmanns sé sú að leki af þaki stafi af ófullnægjandi og ófaglegum frágangi á niðurfallsbrunnum á þaki sem lýsi sér í því að ekki sé halli að niðurföllum og tenging niðurfallsbrunna við frárennslispípur sé óþétt. Þá megi skilja umfjöllun matsmanns sem svo að rakavörn skorti ofan á steypta plötu. Þau atriði sem valda leka koma því hönnun þaksins ekki á nokkurn hátt við. Þetta séu atriði sem byggingarstjórar beri ábyrgð á.          Stefndu telja að niðurstaða matsmanns um nauðsynlegar úrbætur og kostnað vegna þeirra snúi því eingöngu að því að lagfæra ágalla sem hafi hlotist af vanrækslu byggingarstjóra en komi hönnun þaksins og meintum göllum á henni á engan hátt við. Sérstaklega sé bent á að á samþykktum teikningum komi fram að rakavörn skuli vera ofan á steypu undir einangrun. Hafi slíka rakavörn skort sé augljóslega ekki við hönnuðinn að sakast.          Stefndu benda á að ekki sé annað að sjá af málsgögnum en að stefnandi sé þessu sammála. Það komi skýrt fram í bréfi stefnanda til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Þar sé umfjöllun um nákvæmlega þennan lið stefnukröfunnar. Þar segi að niðurstaða matsmanns sé sú að galla á þaki sé fyrst og fremst að rekja til ófullnægjandi og ófaglegs frágangs á niðurfallsbrunnum á þaki og að metinn kostnaður matsmanns vegna þessa þáttar sé 12.930.000 krónur, eða sama fjárhæð og gerð sé krafa um á hendur stefndu. Þá segi þar að þetta sé á ábyrgð byggingarstjóra og hafi tryggingarfélag hans þegar bætt hluta þess tjóns eða rúmar 6.000.000 króna.          Stefndu telja því augljóst að ágallar á þaki, sem leitt hafi til þess leka sem kröfuliðurinn snúist um, hafi alfarið verið á ábyrgð byggingarstjóra hússins og hafi þegar verið bættir úr tryggingu hans eða þeirra. Hafi eitthvað verið athugavert við hönnun þaksins sé ljóst að ekkert tjón hafi hlotist af því. Í það minnsta sé það með öllu ósannað.          Í þessu sambandi vekja stefndu athygli á því að í stefnu sé á engan hátt gerð grein fyrir þeim skaðabótum sem stefnandi hafi fengið úr tryggingu byggingarstjóra og þá hvort byggingarstjóri hafi verið krafinn um það sem upp á vantaði ef um hámarks tryggingarbætur hafi verið að ræða. Stefndu telja af þessu augljóst að stefnandi hafi fengið tjón sitt vegna þessa kröfuliðar bætt frá byggingarstjóra hússins og því staðfest að það hafi verið á hans eða þeirra ábyrgð. Ekki sé hægt að yfirfæra þá ábyrgð yfir á hönnuð hússins þó að tjónið hafi ekki fengist að fullu bætt.          Stefndu hafna því að þeir ágallar á þaki, sem stefnandi byggi á að hafi valdið lekanum, séu á ábyrgð hönnuðarins. Engin slík sönnun liggi fyrir í málinu. Það eina sem matsgerðin sýni sé að byggingarstjóri beri ábyrgðina enda hafi tjónið fengist bætt úr starfsábyrgðartryggingu hans eða þeirra. Til að ábyrgð hönnuðar komi til álita þurfi að sýna fram á að hönnun standist ekki þær kröfur sem gerðar séu samkvæmt lögum og reglum sem í gildi séu á hverjum tíma og að tjón hafi orðið vegna þess. Ekki liggi neitt fyrir í málinu sem sýni fram á og sanni slíkt. Það eina sem fyrirliggjandi matsgerð sýni sé að ekki hafi verið byggt í samræmi við teikningar og það sem lög og reglur kveði á um. Ekki liggi því fyrir að tjón hefði ekki orðið ef byggt hefði verið í samræmi við hönnunina.           Stefndu taka fram að það sé vitaskuld á ábyrgð byggingarstjórans að sjá til þess að þak sé byggt í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar, hvort sem það varði halla eða önnur atriði. Þar undir falli til að mynda að gæta að því að halli sé að niðurföllum, en eins og fyrir liggi í málinu hafi frágangur að því leyti verið ófullnægjandi sem og frágangur í kringum niðurföll. Það hafi valdið leka frá þaki.          Varðandi matslið nr. 2, er lýtur að brunavarnakerfi í bílageymslu, vekja stefndu athygli á því að undir þessum lið í matsgerð fjalli matsmaður um mörg önnur atriði er lúti að bílageymslunni en eingöngu úðunarkerfi og snúi kostnaðarmat hans einnig að þeim liðum. Ekki sé sundurgreint í stefnu hvaða liðir það séu sem stefnandi geri kröfu um undir þessum kröfulið eða hvað eigi undir önnur atriði sem mál þetta fjalli ekki um.          Stefndu hafna því alfarið að um saknæma háttsemi stefnda Ríkarðs hafi verið að ræða hvað þennan kröfulið varði, sem og að stefnandi hafi orðið fyrir einhverju tjóni vegna þess að úðunarkerfi sé ekki í bílageymslunni.           Eins og komi fram í umfjöllun matsmanns í matsgerð þá hafi byggingarfulltrúi staðfest bílageymsluna þannig útbúna sem hún hafi verið og að svokölluð tæknibýtti skv. 142. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 hefðu átt sér stað sem hafi falist í því að sjálfvirku brunaviðvörunarkerfi hafi verið komið fyrir þar.          Stefndu taka fram að tölvupóstur Guðmundar Gunnarssonar hjá Mannvirkjastofnun breyti þessu ekki á nokkurn hátt. Þar sé eingöngu að finna almenna umfjöllun um helstu reglur enda komi fram hjá honum að hann hafi ekki séð uppdrætti af bílageymslunni og hafi því engar forsendur til að mynda sér skoðun á henni. Það eina sem þessi póstur segi í raun sé að brunahönnun, eins og sú sem komi fram á minnisblaði brunahönnuðar, þurfi að samþykkjast af byggingarfulltrúa. Stefndu benda á að svo hafi einmitt verið gert, hönnunin hafi verið samþykkt af byggingarfulltrúa með þeim brunavörnum sem þar séu.          Stefndu telja allt framangreint sýna að hafi eitthvað skort á að bílageymslan uppfyllti kröfur vegna brunavarna hafi það ekki á nokkurn hátt verið hönnuði að kenna. Megi hönnuður treysta því að ef opinberir fagaðilar á sviði eldvarna og brunaeftirlits telja breytingar í lagi og að þær standist þær kröfur sem gerðar séu samkvæmt lögum og reglum, þá séu breytingar í lagi. Þannig hafi það einmitt verið í þessu tilviki, þeir aðilar sem hafi sérfræðiþekkingu á þessu sviði hafi talið þetta fyrirkomulag í lagi. Saknæm háttsemi hönnuðar að því er varði bílageymsluna sé því með öllu ósönnuð og af þeim sökum beri að sýkna stefndu af þessum kröfulið.          Stefndu telja þar að auki með öllu ósannað að skylt sé að hafa úðunarkerfi í bílageymslunni en sönnunarbyrðin um það hvíli á stefnanda. Stefndu telja skoðun matsmanns á þessu ekki fullnægjandi sönnun um slíka skyldu heldur þurfi annað og meira að koma til.          Þar fyrir utan telja stefndu meint fjártjón stefnanda vegna þessa með öllu ósannað. Niðurstaða matsmanns um kostnað við uppsetningu vatnsúðunarkerfis í bílageymslu sé ekki tjón stefnanda, heldur eingöngu kostnaður við verk sem e.t.v. hafi átt eftir að ráðast í. Árétta stefndu hér að bílageymslan hafi verið útbúin eins og hún hafi verið samþykkt af byggingaryfirvöldum. Því sé á engan hátt um að kenna saknæmi af hálfu hönnuðar. Þá liggi ekkert fyrir í málinu um að brunaeftirlitið eða aðrir opinberir fagaðilar hafi gert athugasemdir vegna þessa. Það sé því með öllu ósannað að fjártjón hafi orðið enda verði það eingöngu ef brunaeftirlit krefst breytinga frá samþykktum teikningum.          Stefndu byggja sýknukröfu sína vegna kröfuliðar nr. 3 í fyrsta lagi á aðildarskorti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi sé húsfélag alls hússins og sé valdsvið þess og hagsmunagæsla bundin við sameignina og ákvarðanir sem hana varði, sbr. 2. mgr. 57. gr. og 1. mgr. 70. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Möguleg aðild stefnanda sem húsfélags að dómsmáli skv. 3. mgr. 71. gr. laganna afmarkast því við mál sem snerti sameign hússins.          Eftir því sem fram komi í stefnu þá snúi þessi kröfuliður að því að hurðir á milli forstofu íbúða og stigagangs í sameign uppfylli ekki kröfur um hljóðeinangrun. Samkvæmt 6. tölulið 5. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús falli hurðir sem skilja séreign frá sameign undir séreign. Stefndu telja stefnanda því skorta aðild til að setja fram kröfu sem tilheyri einstökum séreignarhlutum hússins. Það sé einstakra eigenda séreigna að setja fram slíka kröfu og taka við bótum. Af þessum aðildarskorti leiði að sýkna beri stefndu af þessum kröfulið.          Verði ekki fallist á aðildarskort byggja stefndu sýknukröfu sína vegna þessa kröfuliðar í öðru lagi á því að saknæm háttsemi sé með öllu ósönnuð. Stefndu hafna því sem röngu og ósönnuðu að hurðir frá stigapalli sameignar inn í forstofur íbúða séu ófullnægjandi hvað hljóðeinangrun varði.          Eins og reifað sé í matsgerðinni sé gerð krafa um tiltekið hljóðeinangrunargildi hurða milli íbúðar og rýmis þar fyrir utan og sé lægri krafa gerð þegar gengið sé úr sameign inn í forstofu íbúðar en þegar gengið er beint inn í íveruherbergin, sbr. gr. 173.1. í byggingarreglugerð nr. 441/1998.          Stefndu byggja á því að ósannað sé með öllu að á teikningum hafi ekki verið gert ráð fyrir lokuðum forstofum þannig að hurðir með lægra hljóðeinangrunargildi væru fullnægjandi. Á þeim sönnunarskorti beri stefnandi alla ábyrgð. Hafi verið gerðar breytingar við byggingu hússins, þannig að forstofur séu ekki lengur lokaðar, sé það á ábyrgð byggingaraðila hússins og byggingarstjóra þess.           Þá mótmæla stefndu því sem skilja megi af málatilbúnaði stefnanda að lægra hljóðeinangrunargildi hurða eigi eingöngu við þegar um lokaða forstofu er að ræða, þ.e. forstofu þar sem hurð sé á milli hennar og annarra íveruherbergja íbúða. Hvergi í reglugerðinni segi að það verði að vera forstofa sem sé lokuð frá öðrum íveruherbergjum með hurð, til að lægra hljóðeinangrunargildi sé nægjanlegt. Það nægi að um sé að ræða forstofu sem að einhverju leyti sé aðskilin frá öðrum vistarverum og að gengið sé úr henni í þær, til að lægra hljóðeinangrunargildið eigi við. Að mati stefndu geti annað ekki staðist, hvorki samkvæmt almennum skilningi sem lagður sé í þetta orð né eins og það sé notað í reglugerðinni. Enda megi ætla að í því tilviki hefði það verið sérstaklega tekið fram því þá sé vikið frá því sem telst vera venjulegt og almennt.          Stefndu telja því ósannað að hurðir á milli forstofu og sameignar uppfylli ekki skilyrði gr. 173.1 í byggingarreglugerð og því beri að sýkna stefndu af þessum lið stefnukröfunnar. Þar að auki benda stefndu á að ekki liggi neitt fyrir um það í málinu hvernig fyrirkomulagið sé í þeim íbúðum hússins sem málið snúist um. Ekkert liggi fyrir um það hvort í þeim séu forstofur og þá hvort þær séu aflokaðar eða ekki. Á þeim sönnunarskorti beri stefnandi alla ábyrgð.          Stefndu telja með öllu ósannað að notkun þessara tilteknu hurða sé saknæmi af stefnda hálfu. Sömuleiðis sé með öllu ósannað að þessi hurðanotkun hafi valdið stefnanda eða eigendum séreignanna fjártjóni. Hér gildi það sama og áður hafi verið rakið um bílageymsluna, að skaðabótaábyrgð, og greiðsluskylda úr ábyrgðartryggingunni, stofnist eingöngu ef saknæm háttsemi tjónvalds er sönnuð og að sú háttsemi hafi leitt til tjóns. Hér gildi einnig það sama og komið hafi fram að sönnunarbyrðin hvíli á stefnanda um saknæmið og tjónið.          Til að réttur til skaðabóta stofnist dugi ekki að hurðirnar hafi e.t.v. ekki verið með fullnægjandi hljóðeinangrun heldur verði stefnandi að hafa orðið fyrir fjártjóni vegna þess. Engin sönnun liggi fyrir í málinu um fjártjón af þessum sökum. Niðurstaða matsmanna um annað fyrirkomulag hurðanna og kostnað því tengdan sé ekki tjón í skilningi skaðabótaréttar, heldur sé hér eingöngu um aukakostnað að ræða fyrir íbúa ef þeir vilja breyta því fyrirkomulagi sem fyrir hendi sé og ná þannig fram meiri hljóðeinangrun en almennt gerist og reglugerðin kveði á um. Af þessum sönnunarskorti leiði að sýkna beri stefndu af þessum kröfulið.          Stefndu benda jafnframt á að í matsgerðinni taki matsmaður fram að ekki hafi tíðkast hér á landi að setja hurðir með hærri hljóðeinangrunarkröfu í íbúðir og að ekki séu fluttar inn slíkar hurðir. Notkun inngangshurða af þeirri gerð sem notuð hafi verið hafi því verið alþekkt og tíðkanlegt fyrirkomulag hér á landi. Þá hafi ekki verið gerðar athugasemdir við það af byggingaryfirvöldum að hurðir með þetta hljóðeinangrunargildi væru notaðar, hvorki í þessu tilviki né almennt séð, enda hurðir með meira hljóðeinangrunargildi ekki fluttar til landsins, eftir því sem matsmaður segi í matsgerðinni. Hér hafi því ekkert saknæmt verið á ferðinni heldur það sem almennt tíðkist í byggingum hér á landi.          Stefndu vilja einnig taka fram að með kröfum sínum sé stefnandi í raun að fara fram á að hönnuður beri ábyrgð á efndum á kaupsamningi en ábyrgð hönnuðarins sé vitaskuld alls ekki svo víðtæk að hún nái yfir það. Ábyrgð hönnuðar taki eingöngu til fjártjóns sem hljótist af því að teikningar fullnægi ekki skilyrðum reglugerða.          Verði ekki fallist á sýknukröfuna gera stefndu þá kröfu til vara að stefnukröfur verði lækkaðar og er sú krafa reist á eftirfarandi málsástæðum:          Bætur til stefnanda geti aldrei numið hærri fjárhæð en sem nemi vátryggingarfjárhæð vegna hvers tjóns sem kveðið sé á um í vátryggingarskírteini þeirrar tryggingar hjá VÍS sem gerð sé krafa um enda um einn tjónsatburð að ræða.          Stefndu telja að í fyrsta lagi beri að miða við vátryggingarfjárhæð árið sem teikningar hafi verið gerðar en það hafi verið árið 2003. Hafi eitthvað verið athugavert við hönnun hússins hljóti að eiga að miða við að tjón hafi átt sér stað þegar teikningarnar, þannig gallaðar, hafi orðið til. Vátryggingarfjárhæð vegna hvers tjóns það árið nam samkvæmt vátryggingarskírteini 6.046.666 krónum. Bætur til stefnanda geti því aldrei numið hærri fjárhæð en það.          Verði ekki fallist á framangreint telja stefndu að miða eigi við árið þegar teikningar hafi verið samþykktar af byggingarfulltrúa en það hafi verið árið 2006. Hafi eitthvað verið athugavert við hönnun hússins hljóti í síðasta lagi að eiga að miða við að tjón hafi átt sér stað þegar teikningar, þannig gallaðar, hafi verið samþykktar. Einnig megi hér líta til byggingarárs hússins enda hljóti að verða að líta svo á að hafi teikningar verið haldnar ágalla hafi sá ágalli komið fram þegar byggingu lauk. Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá hafi byggingarár þess verið 2006 eða sama ár og teikningar hafi verið samþykktar. Uppreiknuð vátryggingarfjárhæð það árið hafi numið 6.890.000 krónum. Bætur til stefnanda vegna þessa liðar, að því leyti sem hann verði rakinn til ábyrgðar hönnuðar, geti því aldrei numið hærri fjárhæð en þetta.          Að því er varði matslið er tengist leka frá þaki taka stefndu eftirfarandi sérstaklega fram:          Í fyrsta lagi beri að lækka þennan lið kröfunnar um þær rúmlega 6.000.000 króna sem fyrir liggi að stefnandi hafi þegar fengið greiddar vegna hans eða einhverja aðra fjárhæð sem greidd hafi verið. Stefndu geti ekki gert nánar grein fyrir því hver lækkunarfjárhæð skuli vera þar sem stefnandi gefi engar upplýsingar um það, hvorki í stefnu né málsgögnum, hvaða fjárhæð það sé sem hann hafi fengið greidda. Skorað sé á stefnanda að upplýsa um þetta.          Í öðru lagi telja stefndu að greina verði á milli ábyrgðar hönnuðar og ábyrgðar byggingarstjóra vegna þessa kröfuliðar enda stefnda Ríkarði eingöngu gert að bera ábyrgð sem hönnuður. Hluti hönnuðar í þessum lið sé augljóslega óverulegur og því komi aldrei til álita að stefndu beri ábyrgð gagnvart stefnanda nema í samræmi við það. Hins vegar skorti á að gerð sé fullnægjandi grein fyrir skiptingu tjónsins í stefnu og málsgögnum og verði stefnandi að bera hallann af því.          Hvað aðra kröfuliði varðar þá mótmæla stefndu þeim sem allt of háum og í engu samræmi við þær úrbætur sem e.t.v. þurfi að gera.          Stefndi byggir einnig á því að lækka beri alla kröfuliði vegna réttar til að fá virðisaukaskatt af vinnu á verkstað endurgreiddan. Ekki verði séð að í kröfugerð stefnanda sé tekið tillit til þessarar lækkunarheimildar.          Stefndu reisa kröfu sína um málskostnað á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá sé krafist virðisaukaskatts á málskostnað með vísan til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni en stefndi Ríkarð sé sem einstaklingur ekki virðisaukaskattskyldur. IV.          Í máli þessu greinir aðila á um hvort stefndi Ríkarð, sem var hönnuður húseignarinnar að Þórðarsveig 17 til 21, beri skaðabótaábyrgð á annmörkum, sem stefnandi telur að hafi verið á hönnun hússins, og hvort stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., beri, ásamt stefnda Ríkarð, að bæta stefnanda það tjón sem húsfélagið telur sig hafa orðið fyrir af þeim sökum.          Þeir ágallar sem kröfur stefnanda á hendur stefndu byggjast á lúta að þremur atriðum. Í fyrsta lagi heldur stefnandi því fram að þak hússins sé ekki hannað með réttum hætti, einkum þar sem ekki hafi verið gætt að því að yfirborð þaksins hallaði að niðurföllum í samræmi við kröfur í grein 136.2 í þágildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998. Í öðru lagi hafi ekki verið gert ráð fyrir vatnsúðakerfi á uppdráttum af bílageymslu eins og krafist sé í grein 114.11 í fyrrgreindri byggingarreglugerð þegar bílageymsla er með lofti undir yfirborði jarðar. Í þriðja lagi hafi hönnuðurinn ekki gert ráð fyrir að hurðir milli sameignar og íbúða væru þannig gerðar að fullnægt yrði kröfum greinar 173.1 um hljóðeinangrun í sömu byggingarreglugerð.          Miðað við framlögð gögn verður að ganga út frá því að stefndi Ríkarð hafi unnið að hönnun hússins árið 2003 og gert breytingar á uppdráttum þess árið 2005. Samþykki byggingarfulltrúa fyrir aðaluppdráttum lá fyrir 7. mars 2006. Á þessum tíma voru í gildi skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997. Samkvæmt 47. gr. þeirra laga bar hönnuði að árita teikningar sínar og þannig ábyrgjast að hönnunin væri faglega unnin og í samræmi við lög og reglugerðir um byggingamál. Þá skyldi sá sem áritaði aðaluppdrátt vera samræmingarhönnuður og bar hann ábyrgð gagnvart byggingaryfirvöldum á því að séruppdrættir, sem lagðir væru fram til samþykktar, væru í samræmi innbyrðis og við aðaluppdrætti.          Jafnframt var kveðið á um það í 47. gr. laganna að löggiltum hönnuðum, eða fyrirtækjum sem þeir störfuðu hjá, bæri að hafa fullnægjandi ábyrgðartryggingu. Er þá gengið út frá því að hönnuður felli á sig skaðabótaábyrgð eftir almennum reglum ef færðar eru sönnur á að hann hafi sýnt af sér saknæma vanrækslu við hönnun bygginga þannig að henni hafi verið ábótavant. Almennt eftirlit byggingarfulltrúa með uppdráttum hönnuða leysir þá ekki undan þessari skaðabótaábyrgð.          Stefndu krefjast sýknu meðal annars á grundvelli fyrningar. Um það atriði er meðal annars vísað til 12. gr. almennra skilmála starfsábyrgðartryggingar löggiltra hönnuða aðal- og séruppdrátta sem í gildi hafi verið árið 2003 þegar uppdrættirnir voru gerðir. Rétt er að taka fram að í 1. gr. skilmálanna segir að vátryggt sé gegn bótaskyldu sem fellur á vátryggingartaka, sem löggiltan hönnuð uppdrátta fyrir byggingarnefnd, verði þriðji maður fyrir almennu fjártjóni, sem rakið verður til hönnunarstarfs vátryggingartaka og hann hefur ábyrgst með áritun á teikningu sína.           Í 12. gr. skilmálanna segir að skaðabótakröfur, sem falla undir vátrygginguna, sem og endurkröfur vátryggingafélags, fyrnist á tveimur árum frá lokum þess almanaksárs er kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Leggja verður þá merkingu í þetta ákvæði að krafa vátryggingartaka á hendur vátryggingafélaginu fyrnist er tvö ár eru liðin frá lokum þess almanaksárs er  hann hefur fengið vitneskju um að hann beri skaðabótaábyrgð gagnvart tjónþola og unnt er að fara fram á að vátryggingafélagið bæti það tjón sem vátryggingartakinn verður fyrir af þeim sökum. Þá vitneskju fékk vátryggingartakinn í þessu tilviki ekki fyrr en í fyrsta lagi þegar matsgerð dómkvadds matsmanns lá fyrir 22. júlí 2011. Þegar af þessari ástæðu verður ekki séð að krafa stefnanda hafi verið fyrnd samkvæmt skilmálum vátryggingarinnar þegar fyrningu var slitið með málshöfðun stefnanda gegn hinu stefnda vátryggingafélagi 20. júní 2013 .          Að öðru leyti fer um fyrningu skaðabótakröfu stefnanda eftir eldri lögum um fyrningu, nr. 14/1905, sbr. 28. gr. núgildandi laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, enda stofnaðist krafan fyrir gildistöku síðargreindu laganna 1. janúar 2008. Skaðabótakröfur fyrnast á 10 árum frá þeim degi er krafan varð gjaldkræf, sbr. 2. mgr. 4. og 5. gr. laga nr. 14/1905. Í dómaframkvæmd er gengið út frá því að skaðabótakrafa verði gjaldkræf í þessum skilningi þegar tjón hlýst af þeirri saknæmu háttsemi sem er grundvöllur skaðabótakröfunnar, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar Íslands frá 24. október 2013 í málum nr. 226/2013 og 227/2013. Eigandi mannvirkis verður ekki fyrir tjóni sökum galla á hönnun fyrr en í fyrsta lagi þegar mannvirkið hefur verið byggt í samræmi við hönnunina. Eins og rakið hefur verið mun húsið að Þórðarsveig hafa verið byggt árið 2006. Skaðabótakrafan var því ófyrnd þegar fyrningu hennar var slitið með málshöfðuninni 20. og 21. júní 2013.          Samkvæmt grein 136.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, sem var í gildi þegar húsið var hannað og byggt, skal þak eða hluti þaks aldrei halla minna en 1:50 til þess að tryggja vatnsþéttleika ysta byrðis þakflatar. Þá ber samkvæmt ákvæðinu að velja þakefni og frágang með tilliti til þakhalla. Hvorki í framlagðri sniðmynd af þakkanti við gafl og flötu þaki, sem merkt er S-18, né í byggingarlýsingu, er vikið að því að þakið eigi að halla í samræmi við framangreint ákvæði. Þannig er hvorki vikið að því í hönnunargögnum að skera eigi einangrunarplast misþykkt til að ná fram þessum vatnshalla að niðurföllum, né að steypt þakplata eigi að halla með þessum hætti. Ef byggt væri samkvæmt þessari hönnun stefnda Ríkarðs yrði þakið hallalaust með öllu og ekki í samræmi við grein 136.2 í byggingarreglugerð.          Með matsgerð dómkvadds matsmanns, sem ekki hefur verið hnekkt, er í ljós leitt að enginn halli er á yfirborði þakplötunnar að Þórðarsveig 17 til 21. Þá er einangrun jafn þykk alls staðar og fylgir að mestu yfirborði plötunnar. Af þessu leiðir að þakið hallar ekki að niðurföllum þannig að vatnsþéttleiki ysta byrðis þakflatar er ekki tryggður nægjanlega í samræmi við grein 136.2 í byggingarreglugerð. Bygging þaksins er að þessu leyti í samræmi við hönnunargögn þó að útfærsla og efnisval sé annað en þar er gert ráð fyrir. Verður að virða það stefnda Ríkarði til sakar að hafa hannað þakið á þennan hátt. Skilyrðum er því fullnægt til að hann beri skaðabótaábyrgð á tjóni sem af þessu hefur hlotist.          Eins og fram kemur í matsgerð hefur þakið lekið. Af matsgerðinni og framburði matsmanns fyrir dómi verður hins vegar ráðið að lekinn verður ekki rakinn til skorts á þakhalla, heldur fyrst og fremst til þess að ekki var gengið nægjanlega vel frá þakniðurföllum þar sem þakbrunnar og frárennslispípur passa ekki saman. Stefndi Ríkarð ber ekki sök á þessari missmíð á niðurföllunum og verður hann því ekki látinn bera skaðabótaábyrgð á tjóni af völdum lekans.          Samkvæmt útreikningi matsmanns á rakastreymi í gegnum þak, miðað við stöðugt ástand og gefnar forsendur, streymir meiri raki í gegnum þakplötu með dreifð en streymir upp úr einangrun og þakdúk. Matsmaður kemst þess vegna að þeirri niðurstöðu að raki safnist fyrir og þéttist á neðra borði þakdúksins. Rakinn setjist síðan í einangrun og dragi úr einangrunargildi hennar með tímanum. Að áliti matsmanns getur þetta valdið rakaskemmdum, jafnvel leka inn í húsið.          Matsgerð tekur að þessu leyti mið af byggingu þaksins en ekki þeim hönnunargögnum sem fylgja bar við framkvæmdirnar. Þakið víkur frá hönnun þess að því leyti að ekki var sett rakavörn ofan á þakplötu undir einangrun auk þess sem notast var við asfaltdúk í stað PVC-dúks. Stefnandi hefur ekki fært sönnur á að raki hefði safnast fyrir í einangrun ef fylgt hefði verið fyrirmælum í hönnunargögnum. Stefndi Ríkarð ber því heldur ekki skaðabótaábyrgð á þessu atriði.          Í matsbeiðni, dags. 6. desember 2010, var matsmaður meðal annars spurður hvort rétt hafi verið staðið að hönnun og vinnu við þak fasteignarinnar og hvort vinnulag og verkskil hafi verið í samræmi við góða og vandaða verkhætti, samþykkta uppdrætti og ákvæði laga og reglugerða. Ef matsmaður kæmist að því að tilteknir gallar væru á fasteigninni var enn fremur óskað eftir því að hann legði fram „tillögur að úrbótum og áætla kostnað vegna þeirra og vegna þess afleidda tjóns“. Þetta gerir matsmaður með því að leggja til eftirfarandi úrbætur á þakinu:          Þær úrbætur sem hér eru lagðar til helgast ljóslega af því að endurgera þarf þakið frá grunni meðal annars vegna ófullnægjandi frágangs á niðurföllum af þakinu og leka sem af því stafar og uppsöfnun raka í einangrun sem með tímanum mun leiða til rakaskemmda og jafnvel leka. Stefndi Ríkarð ber ekki skaðabótaábyrgð á þessum ágöllum. Ekki verður betur séð en að úrbætur vegna hönnunargalla á þakinu sem hann ber ábyrgð á yrðu umtalsvert kostnaðarminni en samkvæmt matsgerð. Matsgerðin leiðir hins vegar þennan kostnað ekki í ljós. Tjón stefnanda sem rakið verður til hönnunargalla á þaki er því svo vanreifað af hálfu stefnanda að óhjákvæmilegt er að vísa þessum hluta dómkröfunnar frá dómi án kröfu.           Í 114. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 er fjallað um með hvaða hætti bílageymslur sem eru stærri en 100 fermetrar skuli úr garði gerðar. Samkvæmt grein 114.11 skal verja bílageymslu með lofti undir yfirborði jarðar með sjálfvirku vatnsúðakerfi. Sé bílageymslan hins vegar með gólfi undir yfirborði jarðar, en lofti við eða yfir yfirborði jarðar, skal hún búin brunavörnum samkvæmt a-, b- eða c-lið greinar 114.13, enda sé gólfflöturinn stærri en 600 fermetrar, sbr. grein 114.12 í reglugerðinni. Þessir valkostir eru í fyrsta lagi að bílageymslan sé með sjálfvirku vatnsúðakerfi, sbr. a-lið greinar 114.13, í öðru lagi að í lofti eða uppi við loft séu op út undir bert loft samanlagt a.m.k. 5% af gólffleti og að þau uppfylli nánar tilgreindar kröfur samkvæmt b-lið greinar 114.13 í reglugerðinni, eða í þriðja lagi að komið sé fyrir sjálfvirkum reykræstibúnaði sem uppfyllir kröfur samkvæmt c-lið sömu greinar.          Samkvæmt matsgerð dómkvadds matsmanns, sem reist er á skoðun hans á aðstæðum, er bílageymslan að Þórðarsveig 17 til 21 niðurgrafin á öllum hliðum þannig að loftaplata er um 30 til 40 cm undir yfirborði jarðar. Í henni er brunaviðvörunarkerfi sem tengt er við vaktstöð Securitas. Ekki er hins vegar vatnsúðakerfi í bílageymslunni, en fram kemur í matsgerð að ekki sé gert ráð fyrir því á samþykktum aðalteikningum af geymslunni. Komist er að þeirri niðurstöðu í matsgerðinni að eins og bílageymslan sé úr garði gerð eigi að vera sjálfvirkt vatnsúðakerfi í henni samkvæmt grein 114.11 og að ekki hafi verið sýnt fram á að unnt sé að sleppa því t.d. með viðeigandi brunahönnun. Lagðar eru til úrbætur á þessu sem felast í því að setja upp vatnsúðakerfi í bílageymsluna.          Í kafla II er vikið að þeim breytingum sem gerðar voru á hönnun bílageymslunnar samkvæmt teikningu sem ber númerið A-2. Þar virðast byggingaryfirvöld hafa samþykkt svonefnd tækniskipti á grundvelli 142. gr. byggingarreglugerðar, þar sem heimilað er að víkja frá einstökum ákvæðum reglugerðarinnar um brunahönnun, enda sé önnur lausn fundin sem sé a.m.k. jafn góð og/eða betri að mati byggingaryfirvalda. Tækniskiptin fólust í því að setja upp brunaviðvörunarkerfi í stað þess að skipta bílageymslunni í tvö brunahólf með sjálfvirkri rennihurð á segli, en með þeirri breytingu varð gólfflötur geymslunnar stærri en 600 fermetrar. Dómurinn fær ekki betur séð en að breytingin hafi byggst á þeirri forsendu að bílageymslan félli undir grein 114.12 í byggingarreglugerð, sem eins og áður segir tekur til geymslu með lofti við eða yfir yfirborði jarðar þar sem gólfflötur er 600 fermetrar eða stærri.          Með matsgerð, sem ekki hefur verið hnekkt, er sannað að bílageymslan er með lofti undir yfirborði jarðar. Í stefnu er skýrlega á því byggt að grein 114.11 í byggingarreglugerð hafi af þessum sökum gilt um bílageymsluna. Í greinargerð stefndu var því ekki mótmælt að bílageymslan væri með lofti undir yfirborði jarðar. Staðhæfing stefnda Ríkarðs í aðilaskýrslu fyrir dómi, um að bílageymslan hafi samkvæmt hönnunarögnum átt að vera með lofti við eða yfir yfirborði jarðar, er of seint fram komin, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991. Þær fáu teikningar sem lagðar hafa verið fyrir dóminn virðast enn fremur gefa til kynna að loft bílageymslunnar eigi að vera lítillega undir yfirborði jarðar.          Af þessu leiðir að grein 114.11 í byggingarreglugerð tók til bílageymslunnar eins og hún var hönnuð, en ekki grein 114.12. Bílageymsla af þessari gerð átti því að vera varin með sjálfvirku vatnsúðakerfi. Eins og áður segir lutu tækniskiptin ekki að því að sjálfvirkt brunaviðvörunarkerfi kæmi í stað vatnsúðakerfis. Þau breyta því engu um þetta skilyrði greinar 114.11 og var hönnun brunavarna í bílageymslunni því áfátt að þessu leyti. Stefndi Ríkarð bar ábyrgð á því að hönnunin stæðist meðal annars kröfur um brunavarnir samkvæmt byggingarreglugerð. Ber hann sök á því að hönnun bílageymslunnar fullnægði ekki þeim kröfum.           Eins og rakið hefur verið ábyrgist hönnuður að hönnunargögn samrýmist kröfum byggingarreglugerðar um brunavarnir. Verði misbrestur á því, þannig að bæta verður við búnaði sem hönnunin hefur ekki gert ráð fyrir, getur það valdið húseiganda tjóni vegna aukins kostnaðar sem hönnuðurinn ber skaðabótaábyrgð á. Bótaábyrgð hans nær hins vegar ekki til kostnaðar húseiganda við úrbætur sem hann hefði hvort sem er þurft að bera ef hönnunin hefði fullnægt kröfum um brunavarnir.          Kröfugerð stefnanda nær til alls kostnaðar við að gera bílageymsluna þannig úr garði að brunavarnir í henni fullnægi grein 114.11 í byggingarreglugerð, samtals 6.600.000 krónur. Augljóst er að húseigandinn hefði þurft að bera kostnað við að setja upp vatnsúðakerfi með öllum stjórnbúnaði, sem í matsgerð er áætlaður 4.200.000 krónur. Þá hefði húseigandinn orðið að greiða heimæðagjald fyrir nýju vatnsinntaki, en í matsgerð er sá kostnaður talinn nema 1.090.000 krónum. Hann hefði einnig þurft að bera kostnað við að tengja flæðiloka við öryggiskerfi að fjárhæð 70.000 krónur. Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið fellur allur framangreindur kostnaður utan skaðabótaábyrgðar stefnda Ríkarðs og verður krafa stefnanda því ekki tekin til greina að þessu leyti.          Eftir stendur kostnaður sem í matsgerð er skilgreindur annars vegar sem „gröftur, fylling“ og hins vegar kostnaður sem lýst er með eftirfarandi hætti: „Sögun á malbiki, uppúrtekt og förgun. Malbika að nýju.“ Fyrri kostnaðarliðurinn nemur 270.000 krónum en sá síðari 970.000 krónum. Ekki er ljóst af málatilbúnaði stefnanda eða framlögðum gögnum hvort fyrri verkliðurinn hafi verið óhjákvæmilegur óháð því hvort annmarkar væru á hönnun bílageymslunnar. Verður stefnandi að bera hallann af því og er því ekki unnt að fallast á þennan kröfulið. Síðari kröfuliðurinn að fjárhæð 970.000 krónur byggist aftur á móti á kostnaði sem hlýst af því brjóta upp malbik og fjarlægja það og malbika að nýju eftir að nýjar lagnir hafa verið tengdar vatnsúðakerfinu. Dómurinn telur upplýst að þessi kostnaður hefði ekki fallið til hefði hönnun brunavarna í bílageymslunni tekið mið af því sem fram kemur í grein 114.11 í byggingarreglugerð. Verður stefndi Ríkarð að bera bótaábyrgð á þessu tjóni stefnanda.          Stefndu bera því meðal annars við að tjónið sé ekki komið fram þar sem byggingaryfirvöld hafi ekki farið fram á úrbætur. Í þessu sambandi tekur dómurinn fram að reglur um gerð mannvirkja eru sett í almannaþágu til að tryggja öryggi og notagildi þeirra. Tjón sem húseigendur verða fyrir sökum þess að mannvirki í þeirra eigu fullnægja ekki þessum kröfum, verður til þegar þegar þau hafa verið byggð, ekki þegar stjórnvöld gera kröfu um úrbætur. Ekki er því hald í þessum vörnum stefndu.          Stefnandi, sem er húsfélag eigenda fjöleignarhússins að Þórðarsveig 17 til 21, krefst enn fremur skaðabóta vegna kostnaðar, sem hlýst af því að skipta út hurðum milli sameignar og séreignar, þar sem hurðir samkvæmt byggingarlýsingu, og notaðar voru, veita ekki næga hljóðeinangrun. Samkvæmt 6. tölulið 5. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús falla hurðir, sem skilja séreign frá sameign, undir séreign. Hver einstakur eigandi í húsinu á því bótakröfu á þeim grundvelli sem byggt er á, en ekki húsfélag eigenda. Engu breytir í því efni þó að húsfélagið eigi ákvörðunarvald um útlit og gerð þeirra hurða sem ætlunin er að setja í stað þeirra sem taldar eru gallaðar. Þegar af þessari ástæðu ber að sýkna stefndu af þessum kröfulið á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.          Samkvæmt framansögðu verður kröfu stefnanda, sem reist er á annmarka á hönnun þaksins, vísað frá dómi sökum vanreifunar á því tjóni sem af honum leiðir. Þá ber að sýkna stefndu af kröfu stefnanda sem reist er á því að hurðir, sem skilja séreign frá sameign, hljóðeinangri ekki nægilega vel. Aftur á móti er fallist á að stefndi Ríkarð beri skaðabótaábyrgð á tjóni sem hlotist hefur af því að ekki var við hönnun bílageymslu undir húsinu gert ráð fyrir sjálfvirku vatnsúðakerfi í samræmi við grein 114.11 í byggingarreglugerð. Það tjón sem stefndi Ríkarð ber skaðabótaábyrgð á af þeim sökum nær þó aðeins til þess aukakostnaðar sem húseigandi hefði ekki þurft að bera ef hönnun bílageymslunnar hefði samrýmst framangreindri kröfu. Af matsgerð verður ráðið að þessi kostnaður nemi 970.000 krónum með virðisaukaskatti. Ber að leggja matsgerðina til grundvallar um umfang tjónsins að þessu leyti, enda hefur henni ekki verið hnekkt.          Stefndu krefjast lækkunar bótagreiðslunnar vegna réttar stefnanda til að fá virðisaukaskatt af vinnu á verkstað endurgreiddan. Í matsgerð er framangreindum kostnaði skipt í efni og tæki annars vegar, en hann nemur 480.000 krónum, og hins vegar í vinnu á verkstað sem nemur 490.000 krónum. Þó að þess sé ekki getið í matsgerðinni verður að ætla að þessi skipting helgist af rétti stefnanda til að fá virðisaukaskatt af vinnu á verkstað endurgreiddan, sbr. 42. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og XV. bráðabirgðaákvæði sömu laga, sem og reglugerð nr. 449/1990 og reglugerð nr. 440/2009 sem fjalla nánar um þennan rétt. Stefnandi, sem reisir rétt sinn til skaðabóta á umræddri matsgerð, hefur ekki fært fyrir því rök að hann geti ekki krafist fullrar endurgreiðslu virðisaukaskatts af þeim kostnaði sem matsmaður hefur fellt undir vinnu á verkstað, sbr. framangreint ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 50/1988. Í samræmi við dómaframkvæmd ber að draga fjárhæð sem nemur þeirri endurgreiðslu frá bótum til stefnanda.          Stefndi Ríkarð var með starfsábyrgðartryggingu hjá hinu stefnda vátryggingafélagi. Með því að sýnt hefur verið fram á bótaskyldu vátryggingartaka, stefnda Ríkarðs, vegna hönnunarvinnu hans, stofnast til bótaskyldu hins stefnda vátryggingafélags úr ábyrgðartryggingunni. Þær bætur sem hér er fallist á eru vel undir hámarksgreiðslu úr ábyrgðartryggingunni. Stefndu verður því gert að greiða stefnanda óskipt 870.438 krónur (480.000 + (490.000/1,255=390.438)). Dráttarvaxtakröfu stefnanda er ekki mótmælt og ber því að fallast á hana eins og hún er fram sett.          Með vísan til ofangreindrar niðurstöðu og á grundvelli heimildar í 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda hluta málskostnaðar hans sem þykir hæfilega ákveðinn 700.000 krónur.          Dóminn kveða upp Ásmundur Helgason héraðsdómari, Ásmundur Ingvarsson byggingarverkfræðingur og Þorkell Magnússon arkitekt. D Ó M S O R Ð :          Kröfu stefnanda, Húsfélagsins Þórðarsveig 17 til 21, um greiðslu skaðabóta að fjárhæð 12.930.000 krónur vegna hönnunargalla á þaki húseignarinnar að Þórðarsveig 17 til 21, er vísað frá dómi.          Stefndu, Ríkarð Oddsson og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda óskipt 870.438 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. ágúst 2011 til greiðsludags.          Stefndu eru sýknaðir af öðrum kröfum stefnanda.          Stefndu greiða stefnanda óskipt 700.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 612/2014
Skaðabætur Fasteign Líkamstjón
A krafðist þess að viðurkennd yrði skaðbótaskylda S hf. vegna líkamstjóns sem hann hlaut við bensínstöð félagsins við Hörgárbraut á Akureyri þegar honum skrikaði fótur á brún upphækkunar við eldsneytisdælu stöðvarinnar og féll til jarðar. Talið var að umbúnaður pallsins, sem bensíndælum hafði verið komið fyrir á, hefði verið forsvaranlegur og að starfsmönnum S hf. hefði, með hliðsjón af veðurfarslegum aðstæðum á svæðinu, ekki verið unnt að grípa til neinna aðgerða sem komið gátu í veg fyrir mögulega slysahættu. Í ljósi veðurfars hefði A, sem var reyndur atvinnubílstjóri, borið að sýna sérstaka aðgæslu. Var S hf. því sýknað af kröfum A.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. september 2014. Hann krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda Skeljungs hf. á líkamstjóni sem hann hlaut 1. nóvember 2010 við bensínstöð stefnda við Hörgárbraut á Akureyri. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Áfrýjandi hefur stefnt Tryggingamiðstöðinni hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti. Með vísan til forsenda hins áfrýjaða dóms er fallist á þá niðurstöðu að umbúnaður palls sem bensíndælum var komið fyrir á hafi verið forsvaranlegur sem og að slys áfrýjanda verði ekki rakið til óforsvaranlegrar staðsetningar ruslafötu sem staðsett var á pallinum. Svo sem nánar er rakið í dóminum átti bylta sú sem leiddi til tjóns áfrýjanda sér stað í eftirmiðdaginn 1. nóvember 2010 en samkvæmt gögnum málsins höfðu snjó- og slydduél gengið samfellt yfir á slysstað frá hádegi þess dags. Við þær aðstæður bar áfrýjanda, sem var reyndur atvinnubílstjóri er margoft hafði verslað á umræddri bensínstöð, að sýna sérstaka aðgæslu við för sína frá bifreiðinni og inn á bensínstöðina sjálfa. Verður ekki talið með hliðsjón af þeim veðurfarslegu aðstæðum sem voru fyrir hendi að starfsmönnum stefnda hafi verið tækt að grípa til neinna þeirra aðgerða sem afstýrt gátu mögulegri slysahættu. Að þessu gættu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur. Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.      Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.       Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júní 2014. Mál þetta var höfðað 4. mars 2013, þingfest 7. sama mánaðar og tekið til dóms 22. maí sl. að loknum munnlegum málflutningi.                 Stefnandi er A, kt. […], […].                 Stefndi er Skeljungur hf., kt. […], Borgartúni 26, 105 Reykjavík. Til réttargæslu hefur verið stefnt Tryggingamiðstöðinni hf., kt. […], Síðumúla 24, 108 Reykjavík.                 Af hálfu stefnanda er þess krafist að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda stefnda, Skeljungs hf. vegna líkamstjóns, sem stefnandi hlaut þann 1. nóvember 2010 við bensínstöð Skeljungs hf. við Hörgárbraut, Akureyri. Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda að mati héraðsdóms og að við þá ákvörðun verði tekið tillit til þess að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.                 Á hendur réttargæslustefnda eru engar kröfur gerðar og gerir tryggingafélagið heldur engar sjálfstæðar kröfur í málinu. I. Málavextir Stefnandi þessa máls varð fyrir líkamstjóni 1. nóvember 2010 í starfi sínu sem bifreiðarstjóri hjá fólksflutningafyrirtækinu B ehf. Nefndan dag mun stefnandi hafa verið í áætlunarferð milli Reykjavíkur og Akureyrar. Samkvæmt gögnum málsins kom stefnandi síðdegis þennan dag við á bensínafgreiðslu stefnda við Hörgárbraut á Akureyri til að dæla eldsneyti á bifreið þá er hann stjórnaði. Aðstæðum er lýst þannig að snjómugga hafi verið í lofti og snjóföl á jörðu. Eftir að hafa hafið bensíndælingu steig stefnandi upp á þar til gerða upphækkun, sem eldsneytisdælur stöðvarinnar standa á, og gekk með fram ökutækinu í átt að bensínafgreiðsluhúsinu. Á myndskeiði sem lagt hefur verið fram og sýnir stefnanda við bensíndæluna í umrætt sinn má sjá hvernig stefnanda skrikaði fótur á brún upphækkunarinnar með þeim afleiðingum að hann féll til jarðar. Samkvæmt læknisfræðilegum gögnum sem lögð hafa verið fram hlaut stefnandi við fallið beinbrot á vinstri lærlegg.                 Stefnandi gaf aðilaskýrslu við aðalmeðferð málsins. Greindi hann meðal annars frá því að hann hefði margoft komið á þessa bensínstöð áður en slysið varð, bæði að sumarlagi og að vetri. Kvaðst hann ekki hafa munað eftir kanti á þessum stað í þeirri andrá sem hann datt. Aðspurður kvaðst stefnandi hafa starfað með hléum sem atvinnubílstjóri síðan árið 1998 og hefði tekið meiraprófið árið 1993.                 Fyrir liggur að lögmaður stefnanda ritaði Vinnueftirliti ríkisins bréf vegna málsins 10. desember 2010. Í svarbréfi Vinnueftirlitsins 2. febrúar 2011 kemur fram að af gögnum málsins verði ekki séð að gerðar hafi verið ráðstafanir til hálkuvarna, en að engar athugasemdir séu gerðar við upphækkunina eða járnvinkil á brún hennar. Meðal gagna málsins er einnig afrit af bréfi sömu stofnunar 11. apríl 2011, sem virðist hafa verið ritað í kjölfar bréfs lögmanns stefnanda 4. mars s.á. Í þessu seinna bréfi Vinnueftirlitsins kemur fram að stofnunin hafi skoðað upphækkun við umræddar bensíndælur að fyrra erindi lögmannsins mótteknu, en ítrekað er að engar athugasemdir hafi verið gerðar við upphækkunina eða járnvinkilinn. Þá segir að þar sem slysið hafi átt sér stað 11. nóvember 2010 sé of langur tími liðinn til að unnt sé að rannsaka orsakir slyssins frekar en gert var í fyrri skoðun Vinnueftirlitsins á málinu.                 Lögð hafa verið fram í málinu skjöl er varða áverka stefnda og þá læknismeðferð sem hann hefur fengið vegna þeirra. Í matsgerð Sveinbjörns Brandssonar læknis, 18. mars 2013, kemur meðal annars fram að stefnandi finni fyrir verkjum og stirðleika í vinstri mjaðmarlið. Vátryggingafélag Íslands hf. hefur viðurkennt að slys stefnanda sé bótaskylt úr slysatryggingu launþega, sbr. bréf félagsins 10. maí 2011, en vinnuveitandi stefnanda var með launþegatryggingu þar. Með tölvubréfi 9. nóvember 2011 fór lögmaður stefnanda fram á það við réttargæslustefnda að viðurkennd yrði bótaskylda stefnda úr frjálsri ábyrgðartryggingu. Þessari málaleitan var hafnað af hálfu réttargæslustefnda með bréfi 8. mars 2012. Um rökstuðning fyrir þeirri afstöðu var vísað til þess af hálfu réttargæslustefnda að starfsmenn stefnda hefðu ekki sýnt af sér saknæma háttsemi, auk þess sem ekki væri sýnt að slysið mætti rekja til vanbúnaðar af hálfu stefnda. Með málshöfðun þessari freistar stefnandi þess að fá þessari afstöðu hnekkt. II. Málsástæður og lagarök stefnanda Viðurkenningarkrafa stefnanda á hendur stefnda byggist á því að stefndi beri ábyrgð á og eigi sök á slysinu, sem stefnandi varð fyrir á bensínafgreiðslustöð stefnda við Hörgárbraut á Akureyri.                 Stefnandi rekur slysið til þess að snjór hafi hulið járnkant á brún upphækkunar við bensíndælur og því hafi stefnandi ekki vitað af kantinum. Hafi hann neyðst til að ganga eftir brúninni þar sem einhver starfsmaður stefnda hafi látið ruslastamp fyrir „eðlilegan gangveg frá bensíndælunni“. Á framlögðum myndum og myndskeiði sjáist móta fyrir sporum annarra sem gengið hafi í snjónum á brún upphækkunarinnar, án þess að hafa fallið þar eins og stefnandi. Af hálfu stefnanda er gerð athugasemd við að járnin hafi ekki verið krossriffluð til hálkuvarnar.                 Stefnandi telur að staðsetning ruslafötunnar sem áður var nefnd hafi valdið óþarfri slysahættu því viðskiptavinir hafi þurft að þræða fyrir stampinn á leið sinni í bensínafgreiðsluna. Af hálfu stefnanda er gagnrýnt að skort hafi á ráðstafanir af hálfu stefnda til að reyna að koma í veg fyrir hálkuslys svo sem með því að sanda eða salta svæðið. Ekki hafi heldur verið sett upp aðvörunarskilti. Aðstæður hafi verið óforsvaranlegar svo að saknæmt verði að teljast. Þá leggur stefnandi áherslu á það að stefndi reki þjónustustarfsemi fyrir almenning og verði því að krefjast þess af félaginu að það tryggi öryggi viðskiptamanna sinna. Telur stefnandi að með því að stilla ruslastampinum upp í gangvegi viðskiptavina bensínstöðvarinnar hafi skapast hætta og í raun verið búin til slysagildra. Máli sínu til stuðnings vísar stefnandi einnig til þess að stefndi hafi ekki tilkynnt slysið til Vinnueftirlitsins, eins og félaginu hafi borið skylda til að lögum.                 Af framangreindum ástæðum telur stefnandi að slys það sem hann varð fyrir verði eingöngu rakið til saknæmrar háttsemi starfsmanna stefnda og ófullnægjandi fyrirkomulags við bensíndælurnar. Aðstæður hafi verið óviðunandi og beinlínis hættulegar fyrir viðskiptavini stefnda. Með vísan til þessa telur stefnandi að stefndi beri einn ábyrgð á slysinu samkvæmt „almennu sakarreglunni og húsbóndaábyrgð“. Stefnandi hafnar því að slysið verði rakið til óhappatilviks eða gáleysis stefnanda.                 Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna skaðabótaréttar um skaðabætur utan samninga. Auk þess skírskotar hann til sakarreglunnar og reglna um ábyrgð vinnuveitenda á saknæmum verkum og aðgæsluleysi þeirra sem undir hann heyra. Einnig er byggt á skaðabótalögum nr. 50/1993 með síðari breytingum og á sama hátt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Um málskostnað vísar stefnandi til XXI kafla laga um meðferð einkamála, einkum 1. mgr. 130. gr. Um heimild til höfðunar viðurkenningarmáls er vísað til 25. gr. eml. Um virðisaukaskatt vísast til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. III. Málsástæður og lagarök stefnda Af hálfu stefnda er mótmælt þeirri staðhæfingu stefnanda að staðsetning ruslastamps við bensíndælu hafi verið varasöm. Af fyrirliggjandi gögnum verði ekki séð að staðsetning ruslafötunnar hafi eitthvað haft með slysið að gera. Hvorki í lögregluskýrslu né í umsögn Vinnueftirlitsins sé minnst á það að eitthvað sé athugavert við staðsetningu stampsins eða að staðsetning hans sé eitthvað verri eða hættulegri en hver önnur.                 Viðvíkjandi hálku og hálkuvörnum vísar stefndi til þess að yfir vetrarmánuðina geti aðstæður breyst mjög skyndilega og í því tilviki sem hér er til skoðunar hafi snjóað á Akureyri frá hádegi þennan dag, sbr. framlagt vottorð Veðurstofu, en slysið hafi verið tilkynnt lögreglu um kl. 17.00. Stefndi byggir á því að kröfur til þjónustuaðila verði að vera raunhæfar og í því tilviki sem hér um ræðir hafi verið algerlega útilokað að gera einhverjar sérstakar ráðstafanir sem hefðu komið í veg fyrir að hálka gæti myndast, enda hafi snjónum kyngt niður. Upphækkun af þeirri tegund sem finna mátti á staðnum samræmist því hefðbundna fyrirkomulagi sem fyrir hendi sé við bensínstöðvar um allt land og allir þekki, ekki síst atvinnubílstjórar eins og stefnandi.                 Stefnandi leggur áherslu á að Vinnueftirlitið hafi engar athugasemdir gert, hvorki við upphækkunina sem slíka né járnkantinn sem þarna var, enda sé með þessu verið að fullnægja lagaskyldu um varnir gegn olíumengun sbr. t.d. 1. mgr. 66. gr. reglugerðar nr. 35/1994 um varnir gegn olíumengun vegna starfsemi í landi. Því hafi búnaðurinn í kringum bensíndæluna ekki verið óforsvaranlegur, heldur beinlínis í samræmi við opinber fyrirmæli um fyrirkomulag slíkra mannvirkja. Að sama skapi verði ekki séð á hvern hátt hefði verið hægt að vara sérstaklega við hættu á hálku í umrætt sinn. Hún hafi blasað við öllum sem þarna voru á ferð, þ.á m. stefnanda.                 Stefndi leggur áherslu á að það hafi hingað til verið talin gildandi regla í íslenskum rétti að menn skuli almennt kunna fótum sínum forráð og geti ekki, ef illa fer í þeim efnum, komið ábyrgðinni yfir á aðra. Hálka yfir vetrarmánuðina sé staðreynd á Íslandi og þurfi engum að koma á óvart sem hér býr. Mönnum beri að haga ferðum sínum samkvæmt því. Með vísan til þessa telur stefndi að ekki hafi verið sýnt fram á að stefndi hafi gerst sekur um saknæmt gáleysi eða vanrækslu vegna slyss stefnanda. Því beri að hafna kröfum hans.                 Varakrafa stefnda um lækkun byggist fyrst og fremst á því að verði ekki fallist á sýknukröfuna þá hljóti stefnandi að þurfa að bera meginhluta tjóns síns sjálfur vegna eigin sakar. Stefnandi sé reyndur atvinnubílstjóri og sé því þaulkunnugur þeim aðstæðum sem hér um ræðir. Óhappið hafði orðið í nóvember á Akureyri þegar alltaf megi búast við snjókomu og hálku. Stefnandi hafi vitað mætavel, eða mátt vita, að hálku kynni að gæta við bensíndæluna eins og aðstæðum var háttað. Með eðlilegri aðgæslu hefði stefndi auðveldlega getað komið í veg fyrir slysið sem hér er til skoðunar. Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda telur stefndi ljóst að eigin sök stefnanda sé ljós og eigi að leiða til þess að stefnandi beri meginhluta sakarinnar. IV. Niðurstaða Mál þetta hefur stefnandi höfðað sem viðurkenningarmál á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og með hliðsjón af atvikum öllum eru ekki efni til annars en að líta svo á að uppfylltur sé hér áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni eins og það lagaatriði hefur verið skýrt í dómum Hæstaréttar Íslands.                 Svo sem áður greinir hefur undir rekstri málsins verið lögð fram upptaka úr öryggismyndavél sem sýnir meðal annars fall stefnanda sem leiddi til líkamsmeiðsla hans. Samkvæmt upptökunni átti slysið sér stað klukkan rúmlega 16.30 1. nóvember 2010. Á myndbandinu sést hvar stefnandi ekur bifreið sinni að bensíndælu og stígur út úr bílnum. Myndskeiðið sýnir að bifreiðinni var í umrætt sinn lagt svo nálægt dælunni að stór baksýnisspegill, bílstjóramegin, þrengdi töluvert gangveginn milli bílsins og upphækkunarinnar sem bensíndælan stendur á. Ekki verður annað séð en að þrengslin sem við þetta sköpuðust hafi leitt til þess að stefndi kaus að stíga upp á stallinn á leið sinni að bensínafgreiðsluhúsinu. Gekk hann svo með fram dælunni eftir stallbrúninni í átt að afgreiðslustöðinni. Vel má á upptökunni sjá hvar stefnandi stingur höndum í vasa sína eftir að hafa hafið dælingu og jafnframt hvernig hann gengur með hendur í vösum eftir brún upphækkunarinnar. Þegar honum svo skrikar fótur á stallinum hefur hann af þessum sökum ekki fullt ráðrúm til að bera hendurnar fyrir sig og skellur fyrir vikið af meiri þunga á horn upphækkunarinnar en ella, með þeim afleiðingum sem áður hefur verið gerð grein fyrir.                 Í stefnu eru gerðar athugasemdir við það að stefndi hafi ekki tilkynnt slysið til Vinnueftirlits ríkisins. Fyrir liggur þó, að Vinnueftirlitið fór yfir ofannefnda myndbandsupptöku og skoðaði upphækkun við bensíndælurnar. Niðurstaða þeirrar skoðunar var, sbr. bréf stofnunarinnar 11. apríl 2011, að engar athugasemdir voru gerðar við upphækkunina eða járnvinkil á brún hennar. Eins og mál þetta er vaxið verður ekki fullyrt að atvikin sem snerta tjónsatburðinn sjálfan séu óljós. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að máli skipti fyrir úrlausn málsins hvernig tilkynningum til Vinnueftirlits ríkisins kunni að hafa verið háttað.                    Við sakarmat er til þess að taka að umbúnaður á bensínstöðvum hefur verið samræmdur hér á landi með ákvæðum reglugerðar nr. 35/1994 um varnir gegn olíumengun frá starfsemi í landi. Fyrir sakarefni þessa máls skiptir ekki síst máli ákvæði 1. mgr. 66. gr. reglugerðar þessarar, en þar er mælt fyrir um að afgreiðslutæki skuli staðsetja á upphækkun til að verja þau fyrir hnjaski. Við skýrslugjöf hér fyrir dómi við aðalmeðferð málsins kvaðst stefnandi margoft hafa tekið olíu og bensín á þessari tilteknu bensínstöð áður en umrætt slys varð. Fram kom jafnframt í máli stefnanda að hann hafi ekki munað eftir kanti á þessum stað í þeirri andrá sem hann datt. Stefnandi hefur, að eigin sögn starfað atvinnubílstjóri með hléum síðan 1998. Ganga má út frá því að stöðu sinnar vegna þekki stefnandi vel þann aðbúnað við bensíndælur sem hér var lýst og almennt er viðhafður hér á landi, þótt útfærslur geti verið með ýmsum hætti frá einni bensínstöð til annarrar. Stallurinn sem bensíndælurnar standa á við títtnefnda bensínstöð er augljóslega allþröngur, raunar svo að stefnanda mátti vera ljóst að stallur þessi væri ekki hannaður sem göngubraut. Stefnandi hefur í málatilbúnaði sínum meðal annars gert athugasemdir við staðsetningu ruslafötu sem á stallinum var, en með vísan til framburðar stefnanda sjálfs getur dómurinn ekki fallist á að staðsetning fötunnar geti með einhverjum hætti talist hafa átt þátt í slysi stefnanda.                 Samkvæmt framlagðri lögregluskýrslu 7. desember 2010 var blaut snjókoma þegar slysið varð „og nokkurt slabb komið á yfirborð vettvangsins sem gerði stallinn mjög hálan“. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands, sem stefndi hefur aflað og lét fylgja með bréfi til stefnda 8. mars 2012 voru snjó- og slydduél á Akureyri frá hádegi 1. nóvember 2010. Við slíkar aðstæður má öllum vera ljóst, án þess að við því sé sérstaklega varað, að meiri hætta er á hálku en þegar þurrt er í veðri og jörð auð.                 Svo sem áður greinir komst Vinnueftirlitið að þeirri niðurstöðu, að lokinni skoðun á málinu, að ekki væru efni til að gera athugasemdir við nefnda upphækkun eða járnvinkil á brún hennar. Af hálfu stefnanda hefur ekkert verið lagt fram sem rýrir gildi þeirrar ályktunar.                 Samkvæmt öllu ofangreindu verður ekki á það fallist að slys stefnanda verði rakið til umbúnaðar við oftnefndar bensíndælur eða vanrækslu af hálfu stefnda að öðru leyti. Ber því að hafna kröfu stefnanda um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda vegna þess líkamstjóns sem stefnandi hlaut 1. nóvember 2010 við bensínstöð Skeljungs hf. við Hörgárbraut, Akureyri.                 Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.                 Dóm þennan kveður upp Arnar Þór Jónsson, settur héraðsdómari. Dómsorð:                 Stefndi, Skeljungur hf., er sýkn af kröfum stefnanda, A, í máli þessu.                 Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 594/2014
Fjármálafyrirtæki Slit Riftun Endurgreiðslukrafa Aðild Skaðabætur Viðskiptabréf Skuldabréf Framsal
Forveri sparisjóðsins B, SH, gaf árið 1998 út verðtryggð skuldabréf sem gengu kaupum og sölum á skipulögðum verðbréfamarkaði allt til ársins 2009 og keypti verðbréfasjóðurinn S, sem ÍS hf. annaðist rekstur á, slík skuldabréf árin 1998, 1999 og 2002. S seldi  hluta skuldabréfanna á árunum 2008 og 2009 og í kjölfar þess að B var tekinn til slita lýsti hann yfir riftun á tveimur greiðslum vegna innlausnar bréfanna. Viðskiptin voru framkvæmd á þann veg annars vegar að uppreiknað verðmæti skuldabréfanna var greitt til A hf. og fært þar á reikning H hf. og hins vegar með því að skuldabréfin voru færð á svonefnda millibók hjá Í hf., þaðan sem þau voru framseld til H hf. Í kjölfarið höfðaði B mál aðallega á hendur Í hf., til vara á hendur H hf., en að því frágengnu á hendur ÍS hf., til riftunar á greiðslunum tveimur og endurgreiðslu þeirra. Fyrir Hæstarétti undi B þeirri niðurstöðu héraðsdóms að H hf. hefði verið miðlari í viðskiptunum fyrir hönd S og hefði A hf. séð um uppgjör vegna þeirra. Fyrir réttinum beindi B því riftunar- og endurgreiðslukröfum sínum aðallega að Í hf., en ÍS hf. til vara. Í dómi Hæstaréttar var rakið að áritun um framsal þeirra skuldabréfa sem málið varðaði, þar sem forveri Í hf. ritaði sem framsalshafi undir framsal bréfanna frá ÍS hf. til H hf., væri þeim annmörkum háð að þar kæmi ekki fram berum orðum að forveri Í hf. hefði áritað bréfin fyrir hönd ÍS hf. um framsalið til H hf. Bæru framsöl bréfanna því ekki annað með sér en að framsalsröðin væri gölluð þar sem rof hefði orðið á henni. Að virtu því hvernig framsali skuldabréfanna var háttað taldi rétturinn að forveri Í hf. hefði ekki verið aðili að viðskiptunum. Var Í hf. því sýknaður af kröfum B. ÍS hf. bar fyrir sig aðildarskort með þeirri skírskotun að hann annaðist einungis rekstur og stýringu verðbréfasjóða í samræmi við starfsleyfi sitt, þ. á m. S, en væri hvorki eigandi þeirra fjármálagerninga sem sjóðirnir ættu viðskipti með né bæri ábyrgð á skuldbindingum þeirra. Hæstiréttur vísaði til þess að S væri eigandi þeirra skuldabréfa sem málið varðaði og starfaði sem verðbréfasjóður á grundvelli laga nr. 128/2011 um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, áður laga nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, en ÍS hf. væri sjálfstætt starfandi fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og ræki meðal annars S samkvæmt heimild í lögum nr. 128/2011. Að virtum fyrirmælum laga nr. 128/2011 og lögskýringargögnum forvera þeirra laga, nr. 30/2003, taldi Hæstiréttur að ÍS hf. væri réttur aðili til að koma fram fyrir hönd S í dómsmálum varðandi sjóðinn, sbr. einnig dóm réttarins 27. september 2012 í máli nr. 702/2011. Því næst taldi Hæstiréttur að B væri heimilt að krefjast riftunar á þeim ráðstöfunum sem málið varðaði, sbr. 4. mgr. 103. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., og voru skilyrði riftunar samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laganna talin uppfyllt. Í því samhengi tiltók rétturinn að skuldara væri því aðeins heimilt að greiða lán hraðar upp að um það hefði verið ótvírætt samið og hefðu skuldabréfin ekki haft að geyma slíka uppgreiðsluheimild B, en greiðslur B hefðu eigi að síður átt sér stað fjórum árum fyrir gjalddaga skuldabréfanna. Væru greiðslurnar því ekki venjulegar eftir atvikum í merkingu 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 eins og ÍS hf. hélt fram, né heldur væru uppfyllt skilyrði 145. gr. laganna til niðurfellingar eða lækkunar endurgreiðslukröfunnar. Var því rift tveimur greiðslum B til S og endurgreiðslukrafa B á hendur ÍS hf. tekin til greina.  
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. september 2014. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 17. september 2014. Hann krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti úr hendi aðaláfrýjanda. Til vara gerir gagnáfrýjandi svofelldar kröfur á hendur varastefnda í gagnsök: Að rift verði greiðslum frá gagnáfrýjanda til varastefnda í gagnsök 23. febrúar 2009 að fjárhæð 33.026.000 krónur og 10. mars sama ár að fjárhæð 128.881.000 krónur. Að varastefnda í gagnsök verði gert að greiða gagnáfrýjanda 161.907.000 krónur með vöxtum samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu með nánar tilgreindri vaxtahæð af tilgreindum fjárhæðum frá 23. febrúar 2009 til 18. apríl 2013, en dráttarvöxtum af 161.907.000 krónum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti úr hendi varastefnda í gagnsök. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júní 2014. Mál þetta var höfðað 8. apríl 2013, þingfest 18. sama mánaðar og tekið til dóms að loknum munnlegum málflutningi 2. júní 2014.                 Stefnandi er Byr sparisjóður, kt. 610269-2229, Smáratorgi 3 í Kópavogi.                 Aðallega er stefnt Íslandsbanka hf., kt. 491008-0160, Kirkjusandi 2 í Reykjavík.                 Til vara er dómkröfum beint að H.F. Verðbréfum ehf., kt. 581203-2760, Skólavörðustíg 11 í Reykjavík og Íslandssjóðum hf., kt. 690694-2719, Kirkjusandi 2 í Reykjavík.                 Stefnandi gerir þær dómkröfur á hendur Íslandsbanka hf. Verði ekki fallist á kröfur stefnanda gagnvart stefnda Íslandsbanka hf. eru gerðar eftirfarandi dómkröfur settar fram til vara gagnvart H.F. Verðbréfum ehf.                 Verði hvorki fallist á kröfur stefnanda gagnvart stefnda Íslandsbanka hf., né varastefnda H.F. Verðbréfum hf. eru gerðar dómkröfur til þrautavara gagnvart Íslandssjóðum hf.  og er þar um sjálfstæða kröfu að ræða en ekki sameiginlega með öðrum stefndu.                 Af hálfu stefnda Íslandsbanka er krafist sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda.                 Endanlegar dómkröfur varastefnda H.F. verðbréfa hf. eru þær aðallega varastefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda um riftun og endurgreiðslu greiðslna að fjárhæð samtals 161.907.000 kr. Til vara krefst stefndi þess að félaginu verði gert að greiða stefnanda 39.745 krónur, en varastefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda um greiðslu almennra vaxta og dráttarvaxta. Í öllum framangreindum tilvikum krefst varastefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að teknu tilliti til 25,5% virðisaukaskatts á lögmannsþóknun, auk álags á málskostnað eftir mati dómsins. Að þessu frágengnu krefst stefndi þess að felld verði niður krafa stefnanda um endurgreiðslu eða hún lækkuð verulega, sbr. 145. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991. Einnig er krafist sýknu af kröfum stefnanda um greiðslu almennra vaxta og dráttarvaxta. Í þessu tilviki er þess jafnframt krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða varastefnda málskostnað að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Síðasta varakrafa stefnda er sú að félagið verði sýknað af kröfu stefnanda um almenna vexti og af kröfum stefnanda um dráttarvexti af 128.881.000 kr., auk þess sem þess er krafist að dráttarvextir af 33.026.000 kr. verði greiddir frá málshöfðun. Jafnframt er þess krafist að málskostnaður falli niður.                 Af hálfu varastefnda Íslandssjóða hf. er krafist sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda. I. Málsatvik                 Ekki mun vera um það deilt í málinu að Sjóður 1 – Skuldabréf, kt. 540489-5059, (þá VÍB Sjóður 1) hafi keypt skuldabréf í flokki SPH 98/2 að nafnverði 60.000.000 kr. þann 24. ágúst 1998, að nafnverði 50.000.000 kr. þann 18. janúar 1999 og að nafnverði 50.000.000 kr. þann 6. september 2002. Af hálfu Íslandsbanka hf. hefur í þessu samhengi verið vísað beinlínis til afrits af skuldabréfum á dskj. 28 til staðfestingar á því að framsöl til ofangreinds sjóðs hafi verið rituð á bakhlið þeirra.                 Stefndi Íslandsbanki hf. hefur við meðferð málsins upplýst að bankinn eigi 99,7% eignarhlut í varastefnda Íslandssjóðum hf. og að síðarnefnda félagið sé sérhæft á sviði eignastýringar og annist rekstur og stýringu verðbréfasjóða, fjárfestingarsjóða og fagfjárfestasjóða. Varastefndi Íslandssjóðir hf. lýsir starfsemi sinni með þeim orðum að það sé fjármálafyrirtæki og starfi á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og laga um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði nr. 128/2011. Íslandssjóðir hf. sé félag sem standi óháð Íslandsbanka hf. og meirihluti stjórnarmanna sé óháður (dskj. 42). Af hálfu stefnda Íslandsbanka hf. og varastefnda Íslandssjóða hf. er því lýst svo, að Sjóður 1 – Skuldabréf hafi verið í umsjá varastefnda Íslandssjóða hf. Í kjölfar falls viðskiptabankanna þriggja hinn 6. október 2008 hafi reynst nauðsynlegt að loka sjóðnum með það að markmiði að gæta jafnræðis meðal sjóðsfélaga. Með bréfi 28. nóvember 2008 var óskað eftir heimild Fjármálaeftirlitsins til þess að skipta sjóðnum í tvennt, A- og B-hluta þar sem B-hlutinn yrði leystur upp strax með þeim hætti að laust fé yrði greitt út þar til allar eignir yrðu seldar. Samsetning eigna sjóðs A og B varð hlutfallslega jöfn miðað við þáverandi stöðu sjóðsins, sbr. dskj. 68.  Beiðnin var samþykkt og fyrstu útgreiðslur úr sjóðnum til sjóðsfélaga hófust í janúar árið 2009, sbr. dskj. 69.                 Meðal dómskjala eru fjórar kvittanir útgefnar á árunum 2008 og 2009 af stefnda Íslandsbanka hf. til Íslandssjóða hf. Kvittanir þessar, sem lagðar voru fram með greinargerð stefnda Íslandssjóða hf. til héraðsdóms, bera með sér að Sjóður 1-Skuldabréf hafi selt skuldabréf í flokki SPH 98/2 í fjórum hlutum, 24. nóvember 2008 að nafnverði 20.000.000 kr. (sbr. dskj. 80), 20. febrúar 2009 að nafnverði 20.000.000 kr. (sbr. dskj. 81), 11. mars 2009 að nafnvirði 60.000.000 kr. (sbr. dskj. 82) og þann 12. mars að nafnverði 20.000.000 kr. (sbr. dskj. 83). Uppreiknað verðmæti skuldabréfanna var greitt til Verdis (síðar Arion verðbréfavarsla hf.) með skýringunni ,,Innlausn HF Verðb“ (dskj. nr. 18-19).                  Af framlögðum skjölum, þ. á m. áðurnefndum dómskjölum nr. 18 og 19, má ráða að H.F. Verðbréf hf. hafi annast um miðlun viðskiptanna fyrir hönd Sjóðs 1 og að verðbréfavarsla Arion mun hafa séð um uppgjörið. Af hálfu stefnda Íslandsbanka hf. og varastefnda Íslandssjóða hf. hefur þessu ferli verið lýst svo að uppgjöri vegna þessara viðskipta hafi verið háttað svo að bréfin hafi fyrst verið færð á svonefnda millibók stefnda Íslandsbanka hf.,  þar sem bankinn hafi verið uppgjörsaðili Sjóðs 1, en þaðan hafi skuldabréfin verið framseld til H.F. Verðbréfa hf.                 Þann 22. apríl 2010 skipaði Fjármálaeftirlitið stefnanda bráðabirgðastjórn með heimild í 100. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, sbr. 4. gr. laga nr. 44/2009 (dskj. nr. 23). Störfum bráðabirgðastjórnar lauk þann 2. júlí 2010 er Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði stefnanda slitastjórn samkvæmt heimild í 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009, (dskj. nr. 24). Frestdagur í slitameðferð sparisjóðsins var 16. júní 2009, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009, en á þeim degi veitti Fjármálaeftirlitið Byr sparisjóði fyrst frest til að auka eiginfjárgrunn sinn að lágmarki skv. 84. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 4. mgr. 86. gr. laganna (dskj. nr. 23). Upphafsdagur slitameðferðar er 2. júlí 2010 og miðast við uppkvaðningu úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur um skipun slitastjórnar, sbr. 2. ml. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 2. ml. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 44/2009. Slitastjórnin gaf út innköllun til skuldheimtumanna sem birtist í fyrra sinn í Lögbirtingablaði 13. júlí 2010, (dskj. nr. 25). Kröfulýsingarfrestur rann út 13. október 2010.                 Við könnun slitastjórnar á fjárreiðum stefnanda mun slitastjórn stefnanda hafa orðið kunnugt um ofangreindar innlausnir. Með bréfi til varastefnda, H.F. Verðbréfa hf., 10. janúar 2013 lýsti slitastjórn stefnanda yfir riftun á innlausn ofangreindra skuldabréfa að nafnvirði 20.000.000 kr. (dskj. nr. 26). Varastefndi H.F. Verðbréf hf., svaraði ofangreindri riftun með bréfi 24. janúar 2013 (dskj. nr. 27) þar sem hann lýsti því yfir að viðskiptin hefðu verið gerð fyrir hönd tiltekins viðskiptamanns félagsins. Taldi varastefndi H.F. Verðbréf hf. sér ekki heimilt að upplýsa um nafn viðkomandi aðila. Eftir nánari leit hjá stefnanda fundust frumrit skuldabréfanna (dskj. 28). Með bréfi til stefnda Íslandsbanka hf. 7. mars 2013 var ofangreindri greiðslu rift gagnvart bankanum (dskj. nr. 29).                 Með bréfi til Arion banka hf., vegna Arion verðbréfavörslu hf., 10. janúar 2013 lýsti slitastjórn stefnanda yfir riftun á innlausn framangreindra skuldabréfa að nafnvirði 80.000.000 kr. (dskj. nr. 30). Arion banki hf. svaraði þessu með bréfi 21. janúar 2013 (dskj. nr. 31). Í bréfinu kemur fram að í umræddum viðskiptum hafi Arion verðbréfavarsla hf. ekki verið kröfuhafi bréfsins, heldur í hlutverki uppgjörsaðila. Uppgjörið hafi verið gert fyrir hönd varastefnda, H.F. Verðbréfa hf., sem sá um verðbréfamiðlun í viðskiptunum, en seljandi bréfanna hefði verið aðalstefndi, Íslandsbanki hf. Með bréfinu fylgdu markaðspantanir sem stöfuðu frá varastefnda H.F. Verðbréfum hf. (dskj. nr. 20). Með bréfi til stefnda Íslandsbanka hf., sem dagsett er 1. mars 2013, var ofangreindri greiðslu rift gagnvart aðalstefnda Íslandsbanka hf. (dskj. nr. 32). Stefndi Íslandsbanki hf. svaraði ofangreindum kröfum stefnanda með bréfi 11. mars 2013 (dskj. nr. 33). Þar hélt aðalstefndi því fram að ofangreind viðskipti væru ekki riftanleg með vísan til 134. gr. l. 21/199 og var riftunarkröfum stefnanda hafnað.                 Stefnandi kveðst ekki hafa talið útilokað að aðrir en stefndi Íslandsbanki hf. ættu aðild að þessum viðskiptum. Af þeim sökum sendi stefnandi bréf til stefnda Íslandsbanka hf. 2. apríl 2013 (dskj. 40) þar sem óskað var eftir því að upplýst yrði um mótaðila stefnanda í áðurnefndum viðskiptum.                 Bréfinu var svarað með tölvupósti Odds Ólasonar hdl. hjá Íslandsbanka hf. 4. apríl 2013 (dskj. 47). Þar kemur m.a. fram að Íslandssjóðir hafi „vissulega“ verið „eigendur bréfanna á ákveðnu tímabili eins og bréfin sýna“. Nefndur Oddur gaf vitnaskýrslu við aðalmeðferð málsins. Staðfesti hann við það tækiæri að hafa sent ofangreindan tölvupóst og jafnframt að líta mætti á þennan póst sem svar beggja, þ.e. bæði stefnda Íslandsbanka hf. og varastefnda Íslandssjóða hf.. Aðspurður sagði hann tilvitnað orðalag í tölvuskeytinu hafa verið frekar ónákvæmt en þar hafi hann verið að vísa til Íslandssjóða sem rekstraraðila Sjóðs 1. Vitnið kvaðst telja að á árinu 2007 hafi verið gerður þjónustusamningur milli Glitnis banka hf. og Glitnis sjóða þar sem bankinn hafi m.a. tekið að sér vörslur og uppgjör fyrir sjóðina. Vitnið Oddur tók þó fram að hann væri ekki að vinna fyrir Íslandssjóði, heldur sinnti fyrst og fremst viðskiptabankanum. Spurður um „viðskiptanótur“ frá H.F. Verðbréfum hf. á dskj. 18 og 20, er sýna viðskipti milli Íslandsbanka hf. sem seljanda og stefnanda sem kaupanda, kvaðst Oddur telja eðlilegt að bankinn væri þar tilgreindur sem seljandi enda væri það á grundvelli fyrrnefnds þjónustusamnings. Kvaðst vitnið telja það rökrétt vegna náinna tengsla bankans, sem móðurfélags við sjóðina eða rekstrarfélögin. Vitninu var að því búnu sýnt dskj. 55, sem sýnir skjámyndir Arion banka af inn- og útborgunum „vegna milligöngu H.F. Verðbréfa 23. febrúar 2009 í SPH 98/2 nv. 20.000.000“ og „vegna milligöngu H.F. Verðbréfa 11. mars 2009 í SPH 98/2 nv. 80.000.000“. Kvaðst vitnið hafa athugað þessar færslur beinlínis þótt hann væri ekki almennt að vinna fyrir Íslandssjóði. Um væri að ræða reikning, sem „í dag“ væri merktur „Íslandsbanki-Fjárstýring“ sem væri í raun „geymslureikningur í örfáa daga vegna peninga sem koma inn til bankans vegna sölu á verðbréfum og öðru“ og sagði að fjármunir þeir sem hér um ræðir hafi verið millifærðir yfir á Sjóð 1 í kjölfarið, en vildi þó ekki staðfesta að það hefði verið gert sama dag og greiðslurnar bárust. Vitnið staðfesti jafnframt að hafa ritað tölvupóstinn á dskj. 47 í samráði við framkvæmdastjóra Íslandssjóða hf., sem ekki hafi gert athugasemdir við efni svarsins. II. Málsástæður og lagarök stefnanda III. Málsástæður og lagarök stefnda Íslandsbanka hf. Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála enda hafi stefndi hvorki verið eigandi skuldabréfanna sem hér um ræðir né seljandi þeirra, heldur Sjóður 1 – Skuldabréf, sbr. 28 og 80, 81, 82 og 83.                 Stefndi vísar til þess að Sjóður 1 – Skuldabréf hafi starfað á grundvelli laga nr. 30/2003 og notið samkvæmt þeim ýmissa réttinda og borið skyldur á grundvelli þeirra. Í þessu samhengi vísar stefndi til þess að Sjóði 1 – Skuldabréf hafi verið úthlutað sérstakri kennitölu, sbr. dskj. 42. Þá sé verðbréfasjóðurinn álitinn endanlegur eigandi viðkomandi fjármálagerninga sem hann hefur keypt. Þannig sé viðkomandi verðbréfasjóður skráður sem hluthafi í hlutaskrá hlutafélaga og fari sjálfur með atkvæðisrétt á hluthafafundum en ekki stefndi. Stefndi vekur athygli á því að takmarkanir sem reistar voru við aðildarhæfi verðbréfasjóða í lögum nr. 20/1989 hafi verið felldar brott með gildistöku laga nr. 10/1993 um verðbréfasjóði. Af þessu leiði að Sjóður 1 – Skuldabréf njóti aðildarhæfis í skilningi laga nr. 91/1991. Stefndi telur því að stefnanda hefði borið að beina kröfu sinni að honum.                 Stefndi hafi á engum tímapunkti verið eigandi skuldabréfanna og hafi þar af leiðandi ekki getað selt þau. Þá beri að hafa í huga að eina tenging stefnda við fyrrum eiganda skuldabréfanna sé sú að hann eigi meginpart hlutafjár í rekstrarfélagi því sem þjónustar eigendur hlutdeildarskírteina útgefnum af Sjóði 1 – Skuldabréf.                 Verði ekki fallist á framangreint krefst stefndi sýknu á grundvelli þess að hann sé ekki sá aðili sem hafði hag af hinum ætluðu riftanlegu ráðstöfunum í skilningi 142. gr. laga nr. 21/1991. Við slit Sjóðs 1 – Skuldabréf hafi öllu andvirði hinna seldu skuldabréfa verið ráðstafað til eigenda hlutdeildarskírteina. Því hafi aldrei komið til þess að stefndi hagnaðist á þeim ráðstöfunum sem hér um ræðir.                  Verði ekki fallist á kröfu stefnda um sýknu á grundvelli aðildarskorts byggir stefndi m.a. á því að ekki sé um riftanlega ráðstöfun að ræða í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991. Umræddar ráðstafanir hafi ekki falið í sér greiðslu á skuld í skilningi 134. gr. heldur hafi verið um að ræða hefðbundin viðskipti tveggja ótengdra aðila með viðskiptabréf. Í þessu sambandi vísar stefndi til þess að skuldabréf stefnanda höfðu verið skráð á Verðbréfaþing Íslands til að auðvelda viðskipti með þau. Frumkvæði að viðskiptunum hafi komið frá stefnanda sem skráði kauptilboð í kerfi Kauphallar Íslands sem Sjóður 1 - Skuldabréf tók fyrir milligöngu  H.F. Verðbréfa hf. Sjóður 1 – Skuldabréf hafi þannig gengið að þeim kauptilboðum sem lágu fyrir og skuldabréfin verið framseld í kjölfar greiðslu. Viðskipti stefnanda með bréfin hafi þannig farið fram sem liður í samningsbundinni viðskiptavakt stefnanda og geti því ekki talist fela í sér ,,greiðslu á skuld“ í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991.                 Verði það niðurstaða dómsins að um hafi verið að ræða greiðslu á skuld sem greidd hafi verið fyrr en eðlilegt var er sýknukrafa stefnda í öðru lagi á því byggð að greiðslan hafi verið venjuleg eftir atvikum þannig að ekki sé um riftanlega ráðstöfun að ræða í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991.  Byggir stefndi á því að umrædd viðskipti hafi að öllu leyti verið eðlileg og venjuleg eftir atvikum. Um það vísar stefndi sérstaklega til eftirfarandi atriða:                 Í fyrsta lagi sé því mótmælt, sem látið er að liggja í stefnu, að venjuleg viðskipti með skuldabréf felist í því að andvirði skuldabréfsins sé staðgreitt með peningum á gjalddaga þess. Atvik þessa máls voru, að sögn stefnda, með allt öðrum hætti og beinlínis gert ráð fyrir því frá útgáfu skuldabréfanna að þau gætu gengið kaupum og sölum á eftirmarkaði enda nauðsynlegt fyrir fagfjárfesta að geta breytt eignasamsetningu sinni með auðveldum hætti til að bregðast við breyttum aðstæðum. Til að gera það auðveldara hafi skuldabréfin í flokki SPH98/2 verið skráð á Verðbréfaþing Íslands og tvær tilteknar fjármálastofnanir hafi tekið að sér þjónustu viðskiptavaka. Með þessu fyrirkomulagi hafi átt að skapa skilvirkan eftirmarkað með skuldabréfin. Sala Sjóðs 1 – Skuldabréf fór fram á markaði eins og að framan er lýst. Hinar umþrættu ráðstafanir hafi ekki farið fram með öðrum hætti eða við aðrar aðstæður, en upphaflega var gert ráð fyrir. Þá hafi hinar umþrættu ráðstafanir ekki verið einu viðskiptin með skuldabréfin því viðskipti með þau höfðu átt sér stað með reglulegu millibili allt frá því þau voru skráð á markað, sbr. dskj. 38. Hinar umþrættu ráðstafanir hafi á engan hátt verið frábrugðnar öðrum viðskiptum með bréfin og að öllu leyti venjuleg.                 Í öðru lagi vísar stefndi til þess að hinn 6. október 2008 hafi Sjóði 1 – Skuldabréf verið lokað og í kjölfarið ákveðið að skipta honum upp í tvo hluta, A og B hluta. B hlutanum var lokað og eignir hans seldar. Þegar af þeirri ástæðu hafi sjóðnum verið nauðsynlegt að selja skuldabréfin svo hægt væri að greiða hlutdeildarskírteinishöfum eign þeirra í sjóðnum. Ástæðu viðskiptanna megi þannig rekja til Sjóðs 1 - Skuldabréf en ekki stöðu stefnanda og hún sé því á allan hátt eðlileg. Hinar umþrættu ráðstafanir hafi þannig verið alls ótengdar fjárhagsstöðu hans. Aðstæður hafi því með engu móti verið þannig að Sjóður 1 – Skuldabréf væri að þvinga fram greiðslu gagnvart stefnanda. Sjóður 1 - Skuldabréf vissi þvert á móti ekki hver var gagnaðili hans í viðskiptunum.                  Í þriðja lagi beri að líta til þess að á þeim tíma þegar hinar umdeildu ráðstafanir voru framkvæmdar hafi ekkert annað legið fyrir en að stefnandi væri stöndug fjármálastofnun sem gæti staðið skil á skuldbindingum sínum, sbr. dskj. 70-76, 78 og 79. Skipti miklu máli í þessu sambandi það sem fram hefur komið að nokkrum mánuðum eftir hin umþrættu viðskipti hafi  stefnandi greitt á gjalddaga af skuldabréfaflokki SPH 98/2, sbr. dskj. 77. Því er mótmælt sem fram kemur í stefnu að á þeim tíma þegar viðskiptin áttu sér stað hafi verið ljóst að stefnandi væri á sömu leið og stóru viðskiptabankarnir þrír. Við mat á riftanleika hinna umþrættu viðskipta verði að líta til þess að það var ekki fyrr en rúmlega ári eftir að viðskiptin áttu sér stað sem Fjármálaeftirlitið skipaði stefnanda bráðabirgðastjórn með heimild í 100. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 4. gr. laga nr. 44/2009. Sjóður 1 - Skuldabréf hafi þannig ekki búið yfir upplýsingum um meiriháttar fjárhagsvandræði stefnanda þegar hann seldi skuldabréf sín. Þá hafi Sjóður 1 – Skuldabréf ekki búið yfir meiri eða ítarlegri upplýsingum um stefnanda en hver annar markaðsaðili. Breyti þar engu þótt stefnandi og Glitnir banki hf. hafi rætt sín á milli um samruna félaganna. Þær viðræður hafi verið mjög skammt á veg komnar þegar þeim lauk, sbr. dskj. 85. Þá hafi stefnandi engin gögn lagt fram sem sanni að starfsmenn Glitnis banka hf. hafi fengið aðgang að þess háttar gögnum sem komu að notum við mat á greiðslugetu stefnanda. Þó svo slíkar fjárhagsupplýsingar hafi verið afhentar starfsmönnum Glitnis banka hf. leyfir stefndi sér að vísa til þess að þær upplýsingar gátu ekki borist þeim starfsmönnum sem ákvörðun tóku um viðskiptin. Stefndi sé fjármálafyrirtæki með óháða stjórn og sé sjálfstætt í störfum sínum frá meðstefnda Íslandssjóðum. Mikil aðgreining sé á milli starfsmanna stefnda og starfsmanna Íslandssjóða og séu þær ráðstafanir stundum kenndar við „Kínamúra“. Aðgreiningin nái meðal annars til húsnæðis, tölvukerfa og verkferla. Ennfremur vinni Sjóður 1 – Skuldabréf og stefndi eftir ítarlegum reglum, sbr. ákvæði II. kafla laga nr. 108/2007 og reglugerðar 995/2007 sem ætlað er að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra.                 Þá er í fjórða lagi á því byggt af hálfu stefnda að dómar sem stefnandi vísar til hafi ekki fordæmisgildi í þessu máli.                  Í ljósi alls framangreinds telur stefndi ljóst að viðskipti Sjóðs 1 - Skuldabréf hinn 23. febrúar 2009 og 10. mars 2009 með skuldabréf í flokki SPH 98/2 hafi átt sér eðlilegar skýringar og verið venjuleg eftir atvikum.                    Stefndi telur að krafa stefnanda um riftun á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991 sé vanreifuð og mótmælir henni efnislega. Skilyrði tilgreinds lagaákvæðis séu ekki fyrir hendi í málinu.Viðskiptin geti því ekki talist vera gjöf í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991.                  Stefndi mótmælir því einnig að ráðstöfunin sé riftanleg á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991 og því eigi það ákvæði ekki við. Umrædd viðskipti hafi ekki verið ótilhlýðileg og vísar stefndi í því samhengi til aðdraganda viðskiptanna. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi verið ógjaldfær þegar hin umþrættu viðskipti áttu sér stað. Um það beri stefnandi sönnunarbyrði. Þó svo Fjármálaeftirlitið hafi krafist þess að stefnandi yki við eiginfjárgrunn sinn sé það ekki sönnun þess að stefnandi hafi verið ógjaldfær í skilningi laga nr. 21/1991 á framangreindu tímabili.                  Stefndi mótmælir því jafnframt að Sjóður 1 – Skuldabréf, eða eftir atvikum stefndi, hafi vitað, eða mátt vita, um ætlaða ógjaldfærni stefnanda og þær aðstæður sem stefnandi telur að hafi leitt til þess að ráðstöfunin var ótilhlýðileg.                 Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið krefst stefndi sýknu á endurgreiðslukröfu stefnanda enda liggi ljóst fyrir að hann hafði með engu móti hag af hinum umþrættu viðskiptum og stefndi hafi á engum tímapunkti verið eigandi skuldabréfanna.                 Fari svo að dómur fallist á kröfur stefnanda er á því byggt af hálfu stefnda að atvik þessa máls séu með þeim hætti að fella skuli kröfuna niður eða lækka hana með vísan til 145. gr. laga nr. 21/1991.                 Af hálfu stefnda er því mótmælt að endurgreiðslukrafan skuli bera innlánsvexti. Inntak endurgreiðslureglu 142. gr. laga nr. 21/1991 sé skýrt, að sá sem þola þarf riftun, verði að endurgreiða þrotabúinu fé, þ.e. peningagreiðslu, sem svarar til þeirra verðmæta, sem hann fékk. Þannig sé ekki til staðar lagaheimild fyrir greiðslu vaxta á kröfuna. Þá liggi einnig fyrir að eigandi skuldabréfanna, Sjóður 1 - Skuldabréf, sé í slitameðferð og hafi andvirði skuldabréfanna verið úthlutað til þeirra sem áttu hlutdeildarskírteini í sjóðnum. Því hafi andvirði skuldabréfanna ekki legið á vaxtaberandi innlánsreikningi.                 Um lagarök er vísað til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, aðallega 16. gr., laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., aðallega kafla XX og laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Krafa stefnda um málskostnað er studd við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. IV. Málsástæður og lagarök varastefnda H.F. verðbréfa hf. Að mati varastefnda snúa kröfur stefnanda að riftun á sölu skuldabréfa og endurgreiðslu á þeirri auðgun sem kom í hlut seljanda vegna sölunnar. Varastefndi byggir á því að kröfum stefnanda sé beint gegn röngum aðila og því um aðildarskort að ræða. Nánar vísar varastefndi til þess að fyrirtækið sé verðbréfafyrirtæki sem hafi afmarkaðar starfsheimildir, sbr. 25. gr. laga nr. 161/2002. Þannig hafi varastefndi m.a. heimild til verðbréfamiðlunar en ekki heimild til að stunda viðskipti með fjármálagerninga fyrir eigin reikning (dómsskjal 49). Þegar af þeirri ástæðu hafi varastefndi ekki getað verið eigandi þeirra fjármálagerninga, sem um ræðir, og þar af leiðandi ekki aðili að þeirri ráðstöfun sem riftun stefnanda beinist að.                  Varastefndi byggir á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hluti hinna umþrættu skuldabréfa séu í hans eigu. Hann telur jafnframt að skilyrði 142. gr. laga nr. 21/1991 séu ekki uppfyllt gagnvart varastefnda. Þá hafi stefnandi engin rök fært fram fyrir því að skilyrði séu fyrir skaðabótakröfu samkvæmt 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 á hendur varastefnda og hafnar varastefndi því að nokkur grunnur sé fyrir slíkri kröfu. Varastefndi heldur því einnig fram að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að riftunarskilyrði séu fyrir hendi og færir fyrir því margvísleg rök. Riftunarheimild 134. gr. laga nr. 21/1991 eigi við um greiðslur sem eru óvenjulegar í sjálfu sér eða fari fram við óvenjulegur aðstæður, en sú aðstaða hafi ekki verið uppi á tímamarki þeirra ráðstafana sem hér um ræðir. Stefnandi mótmælir því einnig að skilyrði riftunar samkvæmt 131. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt. Engin merki séu um það að gjafatilgangur hafi verið að baki hinni umþrættu ráðstöfun. Varastefndi telur ljóst að skuldabréfin hafi verið markaðshæf á þeim tíma sem viðskiptin áttu sér stað. Jafnframt hafi skuldabréfin haft markaðsverðmæti og stefnandi, sem kaupandi, átt möguleika á því að selja þau aftur. Varastefndi telur að verð skuldabréfanna í umræddum viðskiptum hafi verið í eðlilegu samræmi við ávöxtunarkröfu á skuldabréfamarkaði. Varastefndi byggir á því að engin eignaaukning hafi orðið hjá honum vegna hinnar umþrættu rástöfunar, enda var hann einungis milligönguaðili um viðskiptin. Varastefndi vísar einnig til þess að aðkoma félagsins að viðskiptunum sem hér um ræðir hafi ekki verið ótilhlýðileg heldur hafi varastefndi einungis sinnt milligöngu í samræmi við starfsleyfi sitt. Varastefndi telur að þær „aðstæður“ á íslenskum fjármálamarkaði sem stefnandi vísar til hafi engu skipt fyrir þá skyldu stefnanda, að standa við loforð í skráningarlýsingu, eins og aðrar skuldbindingar sem hann hafði tekið að sér sem starfandi fjármálafyrirtæki. Vísar varastefndi í þessu sambandi m.a. til tilkynningar um ársuppgjör stefnanda sem birt var í mars 2009 og sýndi að eigið fé nam 16.200 milljónum króna (dskj. 61). Varastefndi byggir einnig á því að hann hafi á engan hátt mátt vita um ætlaða ógjaldfærni stefnanda eða meintan ótilhlýðileika ráðstöfunarinnar á þeim tíma sem hún átti sér stað. Með hliðsjón af framangreindu telur varastefndi að ekki séu uppfyllt skilyrði riftunar gagnvart honum skv. 141. gr. laga nr. 21/1991 og því beri að sýkna hann af kröfum stefnanda.                 Ef ekki verður fallist á sýknukröfu varastefnda, gerir hann þá dómkröfu að honum verði gert að greiða stefnanda 39.745 krónur. Sú fjárhæð nemur þeirri þóknun sem varastefndi fékk greidda frá seljanda fyrir miðlun umræddra skuldabréfa og þ.a.l. fyrir milligöngu á hinni umþrættu ráðstöfun. Varastefndi byggir á því að fjárhæð miðlunarþóknunar hans sé eina mögulega auðgun hans vegna hinna umþrættu ráðstafana. Er þá ekki tekið tillit til kostnaðar hans af viðskiptunum, s.s. rekstrarkostnaðar vegna launa, húsnæðis o.fl., auk þess sem aðild að kauphöllinni árið 2009 fyrir miðlara kostaði 1.350.000 kr. Varastefndi vísar að öðru leyti til þeirra lagasjónarmiða sem áður voru sett fram varðandi skilyrði fyrir endurkröfu vegna auðgunar skv. 142. gr. laga nr. 21/1991. Varðandi kröfu um vexti og dráttarvexti er vísað til þess sem síðar segir í sérstökum kafla um vexti og dráttarvexti.                 Verði ekki á ofangreindar kröfur varastefnda fallist krefst félagið þess að krafa stefnanda um endurgreiðslu verði felld niður eða lækkuð verulega, skv. 145. gr. laga nr. 21/1991. Varastefndi byggir á því að hann hafi ekki haft neina ákvarðandi aðkomu að hinum umþrættu ráðstöfunum. Hann hafi einungis verið milligönguaðili um skuldabréfaviðskiptin og sú háttsemi hafi verið lögmæt og eðlileg. Varastefndi heldur því fram að taka verði tillit til þess að hann fékk aldrei söluandvirði umræddra skuldabréfa í sinn hlut heldur rann það beint til seljanda skuldabréfanna, að frádreginni þóknun að fjárhæð 39.745 krónur.                 Verði ekki á ofangreint fallist gerir varastefndi kröfu um sýknu af kröfu stefnanda um almenna vexti og dráttarvexti af 128.881.000 kr., auk þess sem krafist er að dráttarvextir af 33.026.000 kr. verði dæmdir frá málshöfðun.                 Varastefndi byggir á því að ekki sé heimild til þess að krefjast almennra vaxta á grundvelli 142. gr. laga nr. 21/1991, eins og stefnandi byggir á. Þannig sé það skilyrði fyrir kröfu um almenna vexti samkvæmt 3. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, að slíkt leiði af samningi, venju eða lögum. Engin ákvæði eru í lögum um vexti af endurgreiðslukröfu skv. 142. gr. laga nr. 21/1991, enginn samningur stofnaðist um slíka vexti og stefnandi hefur ekki sýnt fram á almenna venju í þessu sambandi. Varastefndi telur einnig að vaxtakrafa verði ekki studd með óljósri staðhæfingu um „auðgun sem nemur þeim vöxtum sem falla til á því tímabili“, enda liggi fyrir að varastefndi fékk aldrei söluandvirði umræddra skuldabréfa í sinn hlut. Af því leiðir að varastefndi átti þess aldrei kost að ávaxta umrædda fjárhæð og verði því ekki krafinn um leigugjald fyrir fjármuni sem hann réð aldrei yfir. Þannig sé krafa um almenna vexti á hendur varastefnda ekki í samræmi við lagasjónarmið að baki 142. gr. um endurheimtu fjár að því marki sem greiðsla þrotamanns kom riftunarþola að notum.                 Varastefndi telur einnig að stofndagur kröfu geti aldrei verið ákveðinn þegar hinar umþrættu ráðstafanir áttu sér stað, enda sinnti stefnandi starfsemi sem fjármálafyrirtæki í 13 mánuði eftir viðskiptin. Varastefndi hafi verið grandlaus um ætlaðan riftanleika þessara ráðstafana, og sérstaklega gagnvart sér sem milligönguaðila, allt til þess er honum barst bréf frá stefnanda þann 10. janúar 2013 varðandi viðskipti þann 10. febrúar 2009. Að síðustu telur varastefndi, í ljósi atvika málsins og með vísan til sjónarmiða í ofangreindri umfjöllun um almenna vexti, að ekki beri að reikna dráttarvexti af 33.026.000 krónum fyrr en við tímamark málshöfðunar, þ.e. 5. apríl 2013. Er um það efni einnig vísað til 4. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.                 Um lagarök vísar varastefndi til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991, laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, laga um kauphallir nr. 110/2007, laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. V. Málsástæður og lagarök stefnda Íslandssjóða hf. Varastefndi Íslandssjóðir hf. byggir varnir sínar í öllu verulegu á sömu málsástæðum og lagarökum og stefndi Íslandsbanki hf. Eins og hér háttar til verður því látið nægja að vísa um þetta til kafla III hér að ofan.                 Að gefnu tilefni má taka fram að við munnlegan málflutning gat lögmaður stefnanda þess að Íslandssjóðum hf. væri stefnt inn í málið „vegna Sjóðs 1“, en lögmaður Íslandssjóða hf. mótmælti þessu sem of seint fram komnu. VI. Niðurstaða Svo sem áður greinir hefur stefndi Íslandsbanki hf., og raunar einnig varastefndi Íslandssjóðir hf., freistað þess hér fyrir dómi að víkja sér undan spjótalögum stefnanda með því að benda á Sjóð 1 – skuldabréf sem réttan varnaraðila í sinn stað. Gögn málsins bera með sér að nefndur sjóður, sem mun hafa verið í umsjá Íslandssjóða hf., hafi verið tekinn til slitameðferðar síðan atburðir þeir urðu sem hér eru til umfjöllunar.                 Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem ofangreindir málsaðilar hafa sett fram sér til varnar í þessu tilliti þykir ekki ástæða til að draga sérstaklega í efa að verðbréfasjóður þessi geti talist persóna að lögum og þar með hæfur til þess, fræðilega séð, að eiga aðild að dómsmáli. Á hinn bóginn – og hvað sem hugleiðingum um aðildarhæfi nefnds sjóðs líður – þarf samt sem áður að taka afstöðu til þess hvort atvikum málsins sé þannig háttað að kröfum stefnanda teljist hér réttilega beint að stefnda og eftir atvikum varastefndu.                 Við úrlausn um þetta er fyrst til þess að taka að í svarbréfi Íslandsbanka hf. 11. mars 2013 við riftunaryfirlýsingum stefnanda, dags. 1. mars 2013 og 7. mars 2013, voru engar athugasemdir gerðar við aðild bankans að þrætu um þetta efni. Með bréfi lögmanns stefnanda til bankans 2. apríl 2013 var sérstaklega skorað á bankann að upplýsa stefnanda um það hvort bankinn teldi sig ekki réttan aðila að dómsmáli um það sakarefni sem hér um ræðir. Erindinu fylgdi lögmaður stefnanda eftir með tölvupósti 4. sama mánaðar þar sem lögmaður Íslandsbanka hf. var spurður hvort bankinn og Íslandssjóðir hf. gætu gefið út sameiginlega yfirlýsingu um það að síðarnefnda félagið væri „raunverulegur“ eigandi greindra skuldabréfa. Í svarskeyti lögmanns bankans, sem sent var með tölvupósti síðar sama dag, segir m.a. orðrétt: „Hvað varðar yfirlýsingu um eignarhald, þá liggur fyrir eftir samráð við framkvæmdastjóra Íslandssjóða hf., að sjóðurinn getur ekki gefið út slíka yfirlýsingu að svo komnu máli. Vissulega voru Íslandssjóðir eigendur bréfanna á ákveðnu tímabili eins og bréfin sýna. Íslandssjóðir eru hins vegar ekki tilbúnir til að gefa neinar yfirlýsingar á þessu stigi um að aðildin sé nú rétt. Áskilinn er réttur til að koma að öllum vörnum á síðari stigum, aðild þar með talin. Auk þess sem rakið hefur verið í fyrri bréfaskriftum verður því eftir atvikum byggt á því hver var framsalshafi í framsalinu. Íslandsbanki hf. tekur sömu afstöðu í öllu framangreindu.“                 Að teknu tilliti til þeirra skýringa sem höfundur ofangreinds tölvupósts gaf í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins þykir verða að skýra eignarhaldið með hliðsjón af gögnum málsins. Við það mat vegur allþungt sú staðreynd að afrit skuldabréfanna sem stefnandi hefur lagt fram sem dskj. 28 bera vott um að framseljandi bréfanna hafi í öllum tilvikum verið Íslandsbanki hf. en ekki Sjóður 1, enda er kennitala bankans skráð þar sem „kennitala framseljanda“. Í ljósi ofangreindrar tregðu Íslandsbanka hf. og Íslandssjóða hf. til að taka af tvímæli um eignarhald að skuldabréfunum og upplýsa stefnanda um málsaðild þykir rétt að túlka allan vafa í þessum efnum stefnanda í vil. Því verður bankinn sjálfur, sem stendur hér í fremstu varnarlínu, að bera hallann af óvissu um þetta, enda er óupplýst í hverju sú ætlaða vangeta fólst sem vísað var til í ofangreindum tölvupósti.                   Af hálfu stefnanda hafa, á dskj. 28, verið lögð fram afrit af fjórum skuldabréfum í flokki SPH 98/2, nánar tiltekið nr. 98-2415 til 98-2418, samtals að nafnverði 20.000.000 kr. Öll bera þessi bréf með sér að hafa verið framseld VÍB Sjóði 1, kt. 540489-5059, (síðar Sjóði 1) þann 6. september 2002, en framseld áfram af hálfu Íslandsbanka hf., kt. 491008-0160, 20. febrúar 2009 til H.F. Verðbréfa hf., sem lét stefnanda bréfin í té. Athygli vekur að við síðastgreint framsal til stefnanda hefur Arion verðbréfavarsla hf. stimplað skjalið sem framseljandi „samkvæmt varðveittu umboði“. Í bréflegum skýringum Arion banka til lögmanns stefnanda 21. janúar 2013 var tekið fram að Arion verðbréfavarsla hefði einungis verið í hlutverki uppgjörsaðila í tilvísuðum viðskiptum að fjárhæð 128.881.000 kr. þar sem kaupandi hafi verið Byr verðbréf hf. „en seljandi var Íslandsbanki hf.“ Nánar er þessu lýst þannig í bréfinu að 11. mars 2009 hafi verið „skráð viðskipti hjá Arion verðbréfavörslu þar sem Íslandsbanki seldi í tveimur viðskiptum SPH 98 2 til Byr verðbréfa hf. í einum viðskiptum“. Áritun stefnda Íslandsbanka hf. á skjölin er engu sambærilegu fororði undirorpin og hjá Arion verðbréfavörslu hf. Því er hér við að bæta að engin gögn hafa verið lögð fram sem gefa tilefni til að ætla að annar háttur hafi verið hafður á við framsal annarra skuldabréfa í sama flokki sem dómkröfur stefnanda taka til. Stefndi Íslandsbanki hf. hefur raunar, sem fyrr segir, beinlínis vísað til dómskjals nr. 28 til staðfestingar á því hvernig framsölum var háttað.                  Af hálfu Íslandssjóða hf. hafa, á dskj. 80-83 og 86, verið lögð fram afrit yfirlita frá stefnda Íslandsbanka hf. um „viðskipti skráð á vörslureikning 153“. Eftirfarandi yfirskrift er að finna í öllum þessum skjölum: „Íslandssjóðir hf, sjóður 1 – Skuld“. Af hálfu Íslandsbanka hf., sem og Íslandssjóða hf., hefur um varnir verið vísað til dómskjala þessara, þ.e. 80-83 og 86, til stuðnings því að Sjóður 1 hafi verið sá aðili sem seldi skuldabréfin, sem hér um ræðir, á tímabilinu 20. febrúar 2009 til 12. mars 2009.                 Við mat á sönnunargildi dómskjala 80-83 og 86 verður í fyrsta lagi að horfa til þess að stefndi hefur engan þjónustusamning lagt fram til stuðnings því að bankinn hafi skuldbundið sig til að annast innlausn eða vörslur og uppgjör fyrir Sjóð 1. Í öðru lagi þykir í þessu samhengi óhjákvæmilegt að hafa hliðsjón af þeirri staðreynd, að samkvæmt opinberum upplýsingum um Íslandssjóði hf., sbr. dskj. 42, er Íslandsbanki hf. skráður fyrir 99,7% eignarhlut í Íslandssjóðum hf. Þrátt fyrir að fram komi í sömu upplýsingum að „meirihluti stjórnarmanna“ í Íslandssjóðum hf. sé óháður, er tengslum milli síðastgreindra þriggja lögpersóna þannig háttað að dskj. 80-83 og 86 geta vart, með tilliti til sönnunar, vegið þyngra en gögn um viðskiptin sem upprunnin eru hjá fyrirtækjum sem fjær standa. Ber hér, auk þess sem áður hefur verið um getið, að nefna gögn frá Arion banka hf. sem fylgdu dskj. 31 og geyma yfirlit yfir viðskipti þau sem framangreind orðræða í bréfi Arion banka 21. janúar 2013 lýtur að. Yfirlitin sýna viðskipti með skuldabréf í flokki SPH 98/2 10. mars 2009 að sömu fjárhæð og getið er um í kröfugerð stefnanda. Yfirlit þessi, sem bera með sér að hafa verið gefin út af H.F. Verðbréfum hf., eru stíluð á nafn Íslandsbanka hf. sem seljanda með sömu kennitölu og greinir á áðurgreindum afritum skuldabréfanna sjálfra, auk þess sem heildaryfirlit hefur sjáanlega verið sent stefnanda sem kaupanda. Við það mat sem hér þarf að fara fram vegur einnig þungt framlagt yfirlit H.F. Verðbréfa hf. á dskj. 55 sem sýnir að greiðslur fyrir ofangreind viðskipti hafi verið lagðar inn á reikning stefnda Íslandsbanka hf. Síðast en ekki síst ber að árétta, að við mat á því hvorum megin hryggjar ábyrgð liggur í þessu samhengi skiptir vitaskuld einna mestu máli það hvernig áritun á skuldabréfin sjálf var háttað, en um það hefur þegar verið fjallað.                 Samkvæmt framangreindu liggur fyrir að Íslandsbanki hf. veitti endurgjaldi fyrir bréfin viðtöku á sinn reikning og jafnframt voru bréfin framseld í nafni bankans með kennitölu hans, en ekki með kennitölu Sjóðs 1 eða Íslandssjóða. Leggja má til grundvallar að fulltrúum bankans hafi verið fyllilega ljóst að fyrirvaralaus áritun á skuldabréf er ekki án réttaráhrifa. Að auki gildir í samningarétti sú regla, að ætli umboðsmaður að standa utan við réttarsamband sem skapast gagnvart viðsemjanda hans verður umboðsmaður að hafa gefið ótvírætt til kynna við viðsemjandann að hann komi fram í nafni annars manns og ekki í eigin nafni, því að öðrum kosti verður hann sjálfur bundinn af þeim löggerningum sem hann stofnar til. Að þessu virtu þykir ekki þurfa fleiri blöðum um það að fletta hvernig telja beri að eignarhaldi að umræddum bréfum hafi verið háttað. Það hvernig stefndi Íslandsbanki hf. kann að hafa ráðstafað andvirði greindra skuldabréfa í kjölfar viðskiptanna getur með hliðsjón af öllu framangreindu ekki valdið því að dómkröfum stefnanda teljist ranglega að bankanum beint.                 Með vísan til framanritaðs og með því að mál þetta telst með réttu höfðað á hendur stefnda Íslandsbanka hf. er þarflaust að taka hér afstöðu til krafna stefnanda á hendur H.F. Verðbréfum hf. og Íslandssjóðum hf.  Eftir stendur þó að leysa efnislega úr þeim kröfum sem stefnandi hefur hér sett fram á hendur Íslandsbanka hf.                   Af framlögðum gögnum má telja ljóst að eignir stefnanda munu ekki nægja til að uppfylla skuldbindingar hans að fullu. Því er stefnanda heimilt, sbr. 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, að krefjast hér riftunar eftir sömu reglum og gilda um riftun ráðstafana við gjaldþrotaskipti. Málið telst einnig höfðað innan þess frests sem lög áskilja.                 Riftunarkröfu sína reisir stefnandi sem fyrr segir aðallega á 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt því ákvæði má krefjast riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamannsins verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Stefndi Íslandsbanki hf. hefur borið því við að ekki hafi verið um greiðslu á skuld að ræða þar sem viðskipti stefnanda hafi verið liður í þeirri viðskiptavakt sem stefnandi hafði tekið að sér. Í skilmálum skuldabréfa þeirra sem hér um ræðir kom fram að Sparisjóður Hafnarfjarðar (síðar stefnandi) skuldbindi sig til að vera viðskiptavaki bréfanna og setja fram daglega kauptilboð að lágmarki 20 m.kr. og leitast jafnframt við að setja fram sölutilboð. Af þessu má álykta að gengið hafi verið út frá því að stefnandi kynni sjálfur að eiga viðskipti með skuldabréf sem hann hafði gefið út. Þegar stefnandi leysti til sín þau skuldabréf sem um ræðir í máli þessu komust réttindi og skyldur samkvæmt bréfunum á sömu hendi. Þrátt fyrir framangreinda skuldbindingu stefnanda til að annast svonefnda viðskiptavakt standa engin haldbær lagarök til þess að víkja við þessar aðstæður frá þeirri meginreglu fjármunaréttar að kröfuréttindi falli niður með því að réttindi og skyldur komist á sömu hendi. Getur þar engu breytt þótt stefnandi hefði í kjölfar kaupa á nefndum skuldabréfum getað stofnað aftur til til skuldar með því að selja þau öðrum. Má í þessu samhengi vísa til dóms Hæstaréttar Íslands 16. apríl 2010 í máli nr. 162/2010. Í samræmi við framangreint þykir mega slá því föstu að stefnandi hafi greitt stefnda Íslandsbanka hf. kröfur bankans á hendur stefnanda. Áður er fram komið að frestdagur við slit stefnanda var 16. júní 2009, en greiðslur stefnanda voru inntar af hendi 23. febrúar 2009 og 10. mars 2009. Nefndar greiðslur stefnanda voru því inntar af hendi vel innan tímamarka ofangreinds ákvæðis 134. gr. laga nr. 21/1991. Gjalddagi skuldabréfanna var 25. maí 2013 og geymdu þau enga uppgreiðsluheimild á fyrra tímamarki. Að þessu virtu greiddi stefnandi skuld sína fyrr en eðlilegt var í skilningi 134. gr. laganna.                 Af hálfu stefnda Íslandsbanka hf. hefur því verið haldið fram að greiðslurnar sem hér um ræðir séu ekki riftanlegar þar sem þær hafi verið venjulegar eftir atvikum. Sönnunarbyrði um þetta atriði hvílir á stefnda. Ráðstafanir þær sem um er deilt í máli þessu áttu sér stað snemma árs 2009, nokkrum mánuðum eftir fall þriggja stærstu viðskiptabanka landsins, þ.m.t. stefnda, og mjög skömmu áður en stærsti sparisjóðurinn hér á landi var tekinn til slita. Ekki verður heldur fram hjá því litið að degi áður en síðari innlausnin sem hér um ræðir átti sér stað birti Fjármálaeftirlitið auglýsingu þar sem tilkynnt var um skipan skilanefndar fyrir Straum-Burðarás fjárfestingarbanka. Allt endurspeglar þetta þá grafalvarlegu stöðu sem upp var komin í íslensku fjármálalífi þegar umrædd viðskipti fóru fram og telja má ljóst að tvísýnt hafi þá verið orðið um gjaldfærni sparisjóðanna, þ.m.t. Byrs. Þegar greiðslur stefnanda eru settar í þetta samhengi hefur stefnda ekki tekist sönnun um að innlausn bréfanna á þessum tíma, rúmlega fjórum árum fyrir gjalddaga þeirra 25. maí 2013, og við þær aðstæður sem uppi voru að öðru leyti hafi verið venjuleg ráðstöfun. Að öllu framangreindu virtu er fullnægt skilyrðum 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 til að rifta greiðslum þeim sem dómkrafa stefnanda lýtur að vegna innlausnar á skuldabréfunum.                 Samkvæmt 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 skal sá sem hefur hag af riftanlegri ráðstöfun greiða þrotabúinu fé sem svarar til þess sem greiðsla þrotabúsins hefur komið honum að notum. Áður hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að stefndi Íslandsbanki hf. hafi verið eigandi skuldabréfanna þegar stefnandi innleysti þau og greiddi með því að leggja andvirðið inn á reikning bankans. Ekki eru rök til annars en að telja að sú greiðsla hafi komið stefnda að fullum notum í rekstri hans. Með því að stefndi Íslandsbanki hf. hefur ekki með haldbærum rökum sýnt fram á að hér standi svo sérstaklega á að skilyrði séu til að beita undantekningarákvæði 145. gr. laga nr. 21/1991 verður hafnað kröfu stefnda um niðurfellingu eða lækkun kröfu stefnanda. Samkvæmt öllu framansögðu verður endurgreiðslukrafa stefnanda tekin til greina.                 Krafa stefnanda um dráttarvexti verður tekin til greina miðað við málshöfðunardag, þ.e. frá 8. apríl 2013, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Ekki leiðir af samningi, venju eða lögum að greiða beri almenna vexti eftir II. kafla laga nr. 38/2001 til þess tíma.                 Eftir þessum úrslitum verður stefnda Íslandsbanka hf. gert að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 2.000.000 króna, að teknu tilliti til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun. Með hliðsjón af atvikum öllum þykir rétt að málskostnaður milli stefnanda og beggja varastefndu, Íslandssjóða hf. og H.F. Verðbréfa hf., falli niður.                 Arnar Þór Jónsson, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.                                                                               Dómsorð:                 Rift er greiðslu á 33.026.000 kr. frá stefnanda, Byr sparisjóði, til stefnda, Íslandsbanka hf., sem fram fór þann 23. febrúar 2009 og til kom vegna innlausnar fyrir gjalddaga á skuldabréfum, útgefnum af stefnanda, í flokki SPH 98/2, Isin nr. IS0000002335, að nafnverði 20.000.000 kr.                 Rift er greiðslu á 128.881.000 kr. frá stefnanda til stefnda, Íslandsbanka hf., sem fram fór þann 10. mars 2009 og til kom vegna innlausnar fyrir gjalddaga á skuldabréfum, útgefnum af stefnanda, í flokki SPH 98/2, Isin nr. IS0000002335, að nafnverði 80.000.000 kr.                 Stefndi, Íslandsbanki hf., greiði stefnanda 161.907.000 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af kr. 128.881.000 frá 8. apríl 2013 til greiðsludags.                 Varastefndu, H.F. Verðbréf hf. og Íslandssjóðir hf., eru sýknaðir af kröfum stefnanda í máli þessu.                 Stefndi, Íslandsbanki hf., greiði stefnanda, Byr sparisjóði, 2.000.000 kr. í málskostnað. Að öðru leyti fellur málskostnaður niður.
Mál nr. 577/2014
Lánssamningur Gengistrygging
B hf. og fjármálafyrirtækið G hf. gerðu með sér lánssamning 22. júní 2007, sem H Ltd. gerðist samningsaðili að fyrir kröfuhafaskipti gagnvart G hf. H Ltd. höfðaði mál á hendur B hf. til viðurkenningar á því að lánssamningurinn fæli í sér lögmætt erlent lán. Talið var að orðalag lánssamningsins benti ekki til annars en að um væri að ræða skuldbindingu í erlendri mynt en ekki íslenskum krónum. Að auki lægi fyrir að lánið hefði verið greitt með millifærslu á erlendum myntum af gjaldeyrisreikningum G hf. inn á gjaldeyrisreikninga B hf. og vextir greiddir reglulega í hinum erlendu myntum. Um framkvæmd samningsins og efndir eftir efni hans var talið að atvik væru í öllum atriðum sem máli skipti sambærileg atvikum i dómi Hæstaréttar 27. mars 2014 í máli nr. 750/2013 og gæti orðalag í kvittunum fyrir vaxtagreiðslum ekki leitt til þess að talið yrði að skuldbinding B hf. samkvæmt samningnum hefði verið í íslenskum krónum. Var krafa H Ltd. því tekin til greina um viðurkenningu þess að lánssamningur aðilanna væri lögmætt erlent lán. 
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. september 2014. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Áfrýjandi, Brim hf., greiði stefnda, Haf Funding 2008 – 1 Ltd., 1.500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júní 2014. Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 9. október 2012 og dómtekið 22. maí sl. að lokinni aðalmeðferð. Stefnandi er HAF Funding 2008-1 Ltd., Harbourmaster Place, Dyflini, Írlandi. Stefndi er Brim hf., Bræðraborgarstíg 16, Reykjavík.                 Stefnandi krefst þess aðallega að viðurkennt verði að lánssamningur 22. júní 2007 að fjárhæð að jafnvirði 2.000.000.000 króna í erlendum myntum, upphaflega milli Glitnis banka hf. og Brims hf. og auðkenndur með lánsnúmerunum 309980, 309981, 309982, 309983 og 309984 sé lögmætt erlent lán sem falli utan gildissviðs VI. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, sbr. 1. mgr. 13. gr. þeirra laga. Til vara gerir stefnandi þá dómkröfu að viðurkennt verði að honum hafi verið heimilt skv. 2. gr. laga nr. 38/2001 að víkja frá ákvæðum VI. kafla þeirra þar sem lánssamningurinn hafi sannarlega verið stefnda til hagsbóta. Hann krefst einnig málskostnaðar.                 Stefndi krefst sýknu auk málskostnaðar. Við meðferð málsins hefur verið tekið tillit til fyrirmæla laga nr. 80/2013 um breytingu á lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála, með síðari breytingum, á þá leið að hraða skuli meðferð dómsmála sem lúta að lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu eða að uppgjöri slíkra skuldbindinga, en dómari fékk málið fyrst til meðferðar 12. maí sl. Málsatvik Atvik málsins eru að meginstefnu óumdeild, en ágreiningur aðila lýtur að meginstefnu að því hvort lán það sem greinir í kröfugerð stefnanda sé lögmætt erlent lán eða lán í íslenskum krónum bundið gengistryggingu. Stefndi stundar útgerð og hefur að verulegu leyti tekjur sínar í erlendum gjaldmiðlum. Hinn 22. júní 2007 undirritaði stefndi lánssamning við Glitni banka hf. sem ágreiningslaust er að er kröfuhafi samkvæmt þeim lánssamningum sem greinir í kröfugerð. Samkvæmt forsíðu lánssamningsins var um að ræða „lán í erlendum gjaldmiðlum“. Í inngangsorðum samningsins kom fram að um lánssamning til 5 ára væri að ræða „að fjárhæð jafnvirði allt að, ISK 2.000.000.000,- tvöþúsundmilljónir 00/100 íslenskra króna - í erlendum myntum“. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lánssamningsins skyldi lánið laust til útborgunar frá undirritun  samnings til 20. júlí 2007 og 2. mgr. samningsins sagði að „[l]ánið, að uppfylltum útborgunarskilmálum, lofar lánveitandi að greiða til lántaka með 1 greiðslu eigi síðar en þann 20. júlí 2007]. Samkvæmt 3. mgr. greinarinnar skyldi lántaki senda lánveitanda beiðni um útborgun með a.m.k. tveggja virkra bankadaga fyrirvara þar sem tiltekin væri reikningur sem leggja skyldi lánið eða lánshlutann inn á. Í henni skyldi lántaki tilkynna lánveitanda í hvaða erlendu gjaldmiðla hann myndi umbreyta lánsfjárhæðinni og í hvaða hlutföllum. Fjárhæð hvers gjaldmiðils skyldi ekki ákveðast fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgun lánsins. Á því tímamarki áttu fjárhæðirnar að verða endanlegar og ekki breytast innbyrðis þaðan í frá. Lánið átti eftirleiðis að tilgreina með fjárhæð þeirra erlendu mynta, eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum eða íslenskum krónum, samkvæmt heimildum í 3. og 4. gr. samningsins. Samkvæmt 2. gr. lánssamningsins skuldbatt stefndi sig til þess að endurgreiða lánið með einni greiðslu 10. júlí 2012 en samkvæmt sömu grein skyldi lánið endurgreiðast í þeim gjaldmiðlum sem það samanstóð af. Í 2. mgr. 2. gr. lánssamningsins sagði einnig að stefnda bæri að endurgreiða lánið í þeim gjaldmiðlum sem það samanstóð af. Þá segir í 7. mgr. 2. gr. að lánveitandi hafi heimild, en ekki skyldu, til þess að skuldfæra „innlenda gjaldeyrisreikninga“ lántaka hjá lánveitanda fyrir greiðslum samkvæmt samningnum. Um vexti og vaxtabreytingar voru ákvæði í 3. gr. samningsins en vextir áttu að taka mið af LIBOR- eða EURIBOR-vöxtum með nánar tilgreindu álagi eftir gjaldmiðli viðkomandi lánshluta. Samkvæmt d-lið greinarinnar var lánveitanda heimilt að umreikna lánið í íslenskar krónur miðað við skráð sölugengi við vanefnd lántaka. Í 4. gr. samningsins var kveðið á um heimildir til myntbreytingar. Segir þar meðal annars að stefnandi geti óskað eftir því á vaxtagjalddögum lánsins að „lánið miðist við aðra mynt eða reikningseiningu, eina eða fleiri frá og með upphafi næsta vaxtatímabils“.  Um framkvæmd þessarar breytingar á viðmiðunarmynt eða reikningseiningu segir í sama ákvæði að miða skuli við „sölugengi þess gjaldmiðils sem hætt er að miða við og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis skal miða við, samkvæmt síðustu gengisskráningu lánveitanda á íslensku krónunni“. Ekki er ástæða til að rekja önnur ákvæði samningsins sem eru í alls 14 greinum . Í málinu liggur ekki fyrir formleg beiðni um útborgun lánsins af hálfu stefnda. Hins vegar er óumdeilt að á grundvelli lánssamningsins barst Glitni banka hf. frá stefnda skjal auðkennt „gjaldeyrispöntun“ 12. júlí 2007 og var lánið greitt út á grundvelli þess skjals. Samkvæmt þessu skjali er „grunnmynt láns“ íslenskar krónur, heildarfjárhæð tveir millljarðar króna og „heildarfjárhæð mynthluta“ sú sama. Fjöldi lánshluta er sagður fimm talsins. Í stefnu segir að í samræmi við þessa útgreiðslubeiðni stefnda hafi eftirfarandi fjárhæðir verið lagðar inn á nánar tilgreinda gjaldeyrisreikninga hans: 1) 1.214.358.142,36 japönsk jen (JPY). Lánshluti númer 309980; 2) 22.911.146,61 norskar krónur (NOK). Lánshluti númer 309981; 3) 55.046.276,38 sænskar krónur (SEK). Lánshluti númer 309982; 4) 5.979.628,52 svissneskir frankar (CHF). Lánshluti númer 309983; 5) 6.276.729,56 kanadískir dalir (CAD). Lánshluti númer 309984. Stefndi gerir þá athugasemd við lýsingu málsatvika að þeir gjaldeyrisreikningar sem fjárhæðirnar hafi verið greiddar inn á (svonefndir IG-reikningar) séu innlendir gjaldeyrisreikningar og í raun gengistryggðir reikningar í íslenskum krónum.                 Í málinu liggja fyrir nokkrar kvittanir fyrir greiðslu vaxta. Á kvittunum vegna greiðslu lánshluta í svissneksum frönkum sem stefndi fékk sendar allt þar til í júlí 2010 segir eftirfarandi: „Verðtrygging  Svissneskur franki“; „Grunnverðtrygging 50.7.“; ,,Núgildandi verðtrygging  119,76“.  Sambærilegt orðalag kemur fram í kvittunum vegna annarra hluta lánsins. Á kvittunum sem gefnar voru út 12. júlí 2010 og síðar er hins vegar að finna eftirfarandi orðalag: „Mynt Svissneskur franki“; „Grunngengi 50.7“ og „Gengi CHF“.                  Hinn 30. september 2009 gaf Glitnir banki hf. út yfirlit um stöðu lánssamningsins. Í því yfirliti er láninu skipt upp í fimm ,,skuldabréf.“ Um ,,skuldabréf“ nr. 309980 segir að lánið hafi upphaflega verið 600.000.000 krónur „í mynt JPY 1.216.791.725,82“. Í línu auðkennd „grunnverðtrygging“ er vísað til japanskra jena og „grunngengi“ er tilgreint 0,4931. Undir liðunum „kjör“ er tilgreind vaxtaprósenta og gengi japansks jens. Undir liðnum uppreikningur skuldabréfs eru tilgreindar „uppfærðar eftirstöðvar“ og áfallnir vextir í krónum auk samtölu í sama gjaldmiðli. Þá eru tilgreindir áfallnir vextir í japönskum jenum.  Sambærilega lýsingu, að breyttum breytanda, er að finna um aðra hluta lánsins. Með samningi 31. júlí 2008 framseldi Glitnir banki hf. öll réttindi sín samkvæmt framangreindum lánssamningi til stefnanda með samþykki stefnda. Glitnir banki hf. fór þó áfram með umsýslu lánsins og tók við vaxtagreiðslum. Frá og með gjalddaga 10. október 2008 til og með gjalddaga 10. janúar 2010 greiddi stefndi hins vegar samningsvexti lánsins beint til stefnanda. Frá og með gjalddaga 10. apríl 2010 tók Glitnir banki hf. aftur tekið að sér umsýslu lánsins. Framangreint lán var í skilum til og með gjalddaga 10. júlí 2011 en eftir þá greiðslu reis ágreiningur með aðilum um hvort lánið teldist lögmætt lán í erlendum gjaldmiðlum eða lán í íslenskum krónum bundið ólögmætri gengistryggingu. Samkvæmt gögnum málsins er mál þetta höfðað með samkomulagi aðila í stað þess að stefnandi höfði mál til greiðslu þess sem hann telur vera vangreiddar eftirstöðvar lánsins. Ekki var um að ræða munnlegar skýrslur við aðalmeðferð málsins. Málsástæður og lagarök stefnanda                 Aðalkrafa stefnanda er á því byggð að krafa hans á hendur stefnda samkvæmt lánssamningnum sé skuldbinding í erlendri mynt og falli þess vegna utan gildissviðs VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 13. gr. þeirra laga. Af hálfu stefnanda er á því byggt að lánssamningur aðila sem og framkvæmd lánveitingarinnar, þ.e. útgreiðsla lánsins og endurgreiðsla þess, beri það með sér að um skuldbindingu í erlendri mynt sé að ræða. Stefnandi vísar til dóma Hæstaréttar sjónarmiðum sínum til stuðnings.                 Stefnandi vísar til þess að við mat á því hvort skuldbinding teljist vera í erlendri mynt eða ekki verði að horfa til grundvallarreglu samningaréttar um samningsfrelsi aðila. Hann vísar til þess að samningur aðila beri það skýrlega með sér að um sé að ræða erlent lán. Á forsíðu lánssamningsins komi fram að um sé að ræða „lán í erlendum gjaldmiðlum“ og á fyrstu blaðsíðu lánsins komi fram að um sé að ræða lán í „erlendum myntum“. Í 3. mgr. 1. gr. lánssamningsins segi sérstaklega að í útborgunarbeiðni skuli lántaki tilkynna lánveitanda í hvaða erlendu gjaldmiðlum hann vilji fá lánið greitt út í og í hvaða hlutföllum. Af ákvæði 3. mgr. 1. gr. lánssamningsins sem og forsíðu hans og upphafsorðum leiði að aldrei hafi ætlunin verið að lána stefnda íslenskar krónur. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. lánssamningsins hafi lántaka borið að endurgreiða lánið „í þeim gjaldmiðlum sem það samanstendur af“. Þá segi í 7. mgr. 2. gr. að lánveitandi hafi heimild til þess að skuldfæra „innlenda gjaldeyrisreikninga“ lántaka hjá lánveitanda fyrir greiðslum samkvæmt samningnum. Í 2. gr. lánssamningsins sé þannig skýrlega mælt fyrir um að endurgreiða skuli lánið í þeim erlendum gjaldmiðlum sem lánaðir voru og tilgreindir sérstaklega gjaldeyrisreikningar stefnda í því sambandi. Samkvæmt 3. gr. lánssamningsins beri lánshlutar í öðrum myntum en evrum vexti sem séu þriggja mánaða LIBOR-vextir, en lánshluti í evrum beri þriggja mánaða EURIBOR-vexti. Stefndi hafi samkvæmt framangreindu ekki átt að greiða vexti á íslenskar krónur. Ef svo hefði verið hefði skuldbinding stefnda að grunni til byggst á stýrivöxtum Seðlabanka Íslands og vextirnir orðið umtalsvert hærri en um var samið enda hvorki LIBOR né EURIBOR vextir ákvarðaðir á íslenskar krónur. Framkvæmd útgreiðslu lánsins og endurgreiðsla vaxta af láninu beri einnig vitni um að lánið hafi verið í erlendum gjaldmiðlum. Aðalskylda lánveitanda hafi þannig verið efnd með þeim hætti að greiddur var út erlendur gjaldeyrir í samræmi við lánssamning. Stefndi hafi greitt allar vaxtaafborganir sínar af hinu umþrætta láni í þeim gjaldmiðlum sem það samanstóð af svo sem útskrift gjaldeyrisreikninga stefnda beri glögglega merki og hafi starfsmenn hans óskað sérstaklega eftir að þessi háttur yrði hafður á. Þannig hafi stefndi uppfyllt aðalskyldu sína samkvæmt samningnum einnig í erlendum myntum í samræmi við ákvæði lánssamningsins. Þá hafi stefndi greitt innágreiðslu sína á lánið 27. september 2011 í erlendum gjaldmiðlum. Af hálfu stefnanda er á því byggt að framangreind atriði varpi skýru ljósi á þá staðreynd að skuldbinding stefnda samkvæmt hinum umþrætta lánssamningi hafi sannarlega verið í erlendum myntum en ekki íslenskum krónum. Stefnandi vísar einnig til ársreikninga stefnda og telur að af þeim verði ráðið að stefndi sjálfur hafi litið á hina umþrættu skuld sem lán í erlendum gjaldmiðlum. Varakrafa stefnanda er á því byggð að heimilt hafi verið samkvæmt 2. gr. laga nr. 38/2001 að víkja frá ákvæðum VI. kafla laganna þar sem lánssamningurinn hafi sannarlega verið stefnda til hagsbóta. Vaxtakjör stefnda samkvæmt lánssamningnum hafi verið umtalsvert betri en honum hefði ella boðist. Þá sé um að ræða eitt stærsta útgerðarfélag landsins með stærstan hluta tekna sinna í erlendum gjaldeyri. Af hálfu stefnanda er þannig á því byggt að stefndi hafi ekki orðið fyrir tjóni af gengisfalli íslensku krónunnar. Óveruleg gengisáhætta hafi verið tengd láninu. Að lokum verði einnig að hafa í huga að stefnda hafi verið heimilt að gera myntbreytingu á lánssamningnum og aðlaga hann að rekstri sínum. Við framangreint bætist að stefndi hafi um árabil stundað gríðarlega mikil viðskipti með gjaldmiðla með það fyrir augum að verja tekjur sínar og hagnast á verðbreytingum þeirra, en tilteknir stjórnendur stefnda búi yfir sérþekkingu á gjaldeyrismálum. Málsástæður og lagarök stefnda                 Stefndi byggir á því að samningur aðila og önnur atvik gefi til kynna að um sé að ræða gengistryggðan lánssamning í íslenskum krónum. Hann leggur áherslu á að tilgreining lánsfjárhæðar sé einungis í íslenskum krónum. Samkvæmt fordæmum Hæstaréttar eigi við þessar aðstæður að líta svo á að um sé að ræða lán í íslenskum krónum. Stefndi vísar einnig til þess orðlags í 1. gr. lánssamnings að lántaki skuli tilkynna lánveitanda í hvaða erlenda gjaldmiðil hann muni „umbreyta lánsfjárhæðinni og í hvaða hlutföllum“. Einnig segi að „[f]járhæð hvers gjaldmiðils fyrir sig ákvarðast þó ekki fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgun lánsins.“ Að mati stefnda gefur framangreint orðalag ótvírætt til kynna að verið sé að gengistryggja lánsfjárhæðina enda sé með „umbreytingu lánsfjárhæðar“ augljóslega átt við tengingu við erlenda gjaldmiðla.                  Stefndi vísar til 4. gr. samningsins um heimild til myntbreytingar. Að mati stefnda gefur þetta ákvæði bersýnilega til kynna að verið sé að gengistryggja lán í íslenskum krónum enda komi beinlínis fram í ákvæðinu að hægt sé að greiða eftirstöðvar skuldarinnar þannig að þær „miðist“ við aðrar myntir. Að mati stefnda er vandséð af hverju erlent lán ætti að miðast við aðrar myntir ef það væri í raun í erlendri mynt. Með þessu ákvæði hafi lántaka verið veitt heimild til að óska þess að breyta „vísitölu“ lánsins á meðan lánstíma standi. Sýni þetta glöggt að lánið hafi aldrei verið í erlendri mynt heldur í íslenskum krónum með tengingu við gengi erlendra gjaldmiðla. Þá sé einnig í 4. gr. samningsins nánar útfært með hvaða hætti skuli staðið að málum komi til breytingar á vísitölu lánsins. Segi þar að „[v]ið myntbreytingu skal við umreikning nota sölugengi þess gjaldmiðils sem hætt er að miða við og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis skal miða við, samkvæmt síðustu gengisskráningu lánveitanda á íslensku krónunni, tveimur virkum bankadögum fyrir myntbreytinguna nema um annað sé sérstaklega samið.“ Að mati stefnda staðfestir tilvitnaður texti enn betur, þar sem segir „miðist við“, að verið sé að miða við tiltekna erlenda gjaldmiðla. Stefndi vísar einnig til þess að í 6. gr. lánssamnings þar sem segi að lántaki gefi út tryggingarbréf til lánveitanda til tryggingar greiðslu lánsins ,,uppreiknað nú ISK 5.573.700,00.-“. Lánsfjárhæðin sé því ákveðin í íslenskum krónum. Í samningnum sé hvergi minnst á ákveðna erlenda gjaldmiðla. Þá eru hlutföll erlendra gjaldmiðla ekki greind í lánssamningi. Hafa beri í huga að lánssamningur hafi verið saminn einhliða af lánveitanda og verði hann að bera hallan af vafa um efni samningsins.                 Að því er varðar útgreiðslu lánsins telur stefndi að útborgunarbeiðni geti ekki breytt skýru efni lánssamningsins, þ.e. úr því að vera lán í íslenskum krónum yfir í lán í erlendum gjaldmiðlum. Þá liggi ekki fyrir í málinu útborgunarbeiðni, heldur aðeins gjaldeyrispöntun og kaupnóta lánssamnings. Ekki skipti heldur máli þótt lánið hafi verið greitt inn á svokallaða IG reikninga, þar sem í samningi aðila sé ekki fjallað um fjárhæð né hlutföll hinna erlendu gjaldmiðla. Stefndi bendir á að IG reikningar séu innlendir gjaldeyrisreikningar og í raun gengistryggðir reikningar í íslenskum krónum. Stefndi byggir á því að þegar lán sé lagt inn á innlánsreikning með höfuðbók 38 felist ekki í því afhending á erlendum gjaldeyri heldur greiðsla í íslenskum krónum sem bundnar eru gengi erlendra gjaldmiðla. Innlendir viðskiptabankar hafi til marga ára boðið upp á sparireikninga í erlendri mynt, svokallaða IG-reikninga og það sé útbreiddur misskilningur að með því að fá millifærslu inn á  IG reikninga þá flytjist gjaldeyrir til Íslands og verði sérgreindur í eigu viðkomandi aðila á viðkomandi reikningi. Vísar stefndi til þess að gjaldeyrir þjóðarinnar sé aldrei geymdur á Íslandi heldur sé hann í því landi sem gefi út viðkomandi gjaldmiðil. Stefndi vísar til þess að í umræddri gjaldeyrispöntuninni segi að grunnmynt láns sé ISK og að heildarfjárhæð láns séu tveir milljarðar íslenskra króna án þess að minnst sé erlendar fjárhæðir í því sambandi. Þá er einnig vísað til þess að í kaupnótu sé að finna eftirfarandi orðalag: ,,Samtals ráðstöfun í ISK.  Ráðstöfun á láni ISK 1.996.000.000,00.  Lántökugjald ISK 4.000.000,00.  Samtals ISK. 2.000.000.000,00“. Skjal þetta staðfesti að lánið hafi verið veitt í íslenskum krónum og þeim ráðstafað til kaupa á erlendum gjaldmiðlum eða eftir atvikum verið lagt inn á IG reikninga. Engin þörf hafi verið fyrir stefnda að kaupa erlenda gjaldmiðla ef verið var að lána stefnda erlenda gjaldmiðla og greiða honum þá beint. Þá er byggt á því af hálfu stefnda að stefnandi hafi, eftir undirritun samnings aðila, ítrekað viðurkennt í verki að samningurinn sé um lán í íslenskum krónum og fjárhæð þess láns sé bundin við gengið erlendra gjaldmiðla. Stefndi vísar þessu til stuðnings til kvittana fyrir greiðslu vaxta sem sýni, svo ekki verður um villst, að um gengistryggt lán sé að ræða og stefnandi hafi sjálfur litið svo á. Stefndi vísar einnig til þess að stefnandi hafi breytt texta kvittana í kjölfar dóma Hæstaréttar 16. júní 2010. Augljóst sé að stefnandi hafi viljað freista þess að breiða yfir að lánið væri gengistryggt og jafnframt þá staðreynd að hann væri sjálfur þeirrar skoðunar. Stefndi vísar einnig til yfirlits 30. september 2009 um stöðu lánssamnings aðila sem áður greinir. Framangreind yfirlit Glitnis hf. séu skýr um að lánið hafi verið veitt í íslenskum krónum og bundið gengi erlendra gjaldmiðla. Einnig vísar stefndi til yfirlits 6. apríl 2010. Stefndi byggir á því að með framangreindum gögnum og yfirlýsingum hafi upprunalegur lánveitandi og stefnandi viðurkennt að lánið sé bundið við gengi erlendra gjaldmiðla og því ólögmætt. Þá viðurkenningu beri að meta í því ljósi að upprunalegur lánveitandi sé stórt fjármálafyrirtæki, sem bjó og býr yfir sérfræðiþekkingu á sviði fjármála og lögfræði. Stefnandi beri ábyrgð á yfirlýsingum sínum gagnvart stefnda og geti ekki nú haldið hinu gagnstæða fram, enda þótt hann telji það þjóna hagsmunum sínum. Verði ekki fallist á að í fyrrgreindum yfirlýsingum stefnanda felist viðurkenning á því að um gengistryggt lán sé að ræða byggir stefndi á því að líta beri til þeirra við heildarmat á því hvort um sé að ræða íslenskt lán sem bundið er gengi erlenda gjaldmiðla eða lán í erlendum gjaldmiðlum. Stefndi leggur á það áherslu að yfirlýsingar Glitnis banka hf. bindi stefnanda enda hafi bankinn framselt lánssamninginn til stefnanda 31. júlí 2008 með öllum þeim réttindum og skyldum sem honum fylgdu. Stefndi bendir á að í samningi um framsals lánssamningsins segi að lánssamningurinn sé um lán í íslenskum krónum (sbr. ,,for the original loan amount ISK 2.000.000.000“). Stefndi telur að með skjölum sem gefin voru út eftir undirritun lánssamnings hafi sérfræðingar Glitnis banka hf. staðfest að um var að ræða lán í íslenskum krónum. Stefndi hafnar því að greiðsla inn á svokallað IG reikninga og skuldfærsla þeirra leiði til þess að lánssamningurinn verði talinn vera í erlendum gjaldmiðlum. Telur hann að slík atvik við framkvæmd samningsins hafi ekki þýðingu þar sem efni samningsins sé skýrt. Hann bendir einnig á að gjaldeyrispöntun og kaupnóta lánssamnings séu gögn einhliða samin af Glitni banka hf. án samþykkis stefnda. Ef líta ætti svo á að þessi gögn hefðu vægi fælist í reynd breyting á efni lánssamnings, en til slíkrar breytingar þyrfti samþykki stjórnar stefnda. Að því er varðar varakröfu stefnanda leggur stefndi áherslu á að gengistrygging lánssamningsins hafi ekki verið stefnda til hagsbóta heldur til mikils tjóns. Um það tali veruleg hækkun lánsins skýru máli svo og auknar skuldir stefnda samkvæmt ársreikningum. Stefndi mótmælir sjónarmiðum stefnanda um að hann hafi í reynd notið hagsbóta af ólögmætri gengistryggingu lánsins og telur auk þess að þeim hafi þegar verið hafnað með fordæmum Hæstaréttar. Stefndi mótmælir því sérststaklega sem röngu að hann hafi sjálfur óskað eftir erlendu láni. Stefndi vekur athygli á því að stefnandi hafi ekki brugðist við áskorun hans um að leggja fram fundargerðir lánanefndar Glitnis banka hf. um téða lánveitingu og telur að það eigi að meta stefnanda í óhag. Niðurstaða Að mati dómsins eru áðurlýst atvik í öllum atriðum, sem máli skipta, sambærileg atvikum þess máls sem skorið var úr með dómi Hæstaréttar 27. mars 2013 í máli nr. 750/2013. Líkt og í áðurnefndu hæstaréttarmáli ber heiti heiti og meginmál áðurlýsts lánssamnings þannig skýrlega með sér að um er að ræða lán í erlendum gjaldmiðlum að jafnvirði ákveðinnar fjárhæðar, en ekki lán í íslenskum krónum, svo sem haldið er fram af hálfu stefnda. Jafnvel þótt litið yrði svo á að orðalag samningsins væri að einhverju leyti óskýrt um þetta atriði þannig að dómur Hæstaréttar 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011 ætti við, er á það að líta að lánið var greitt út í erlendum gjaldmiðlum inn á gjaldeyrisreikninga stefnda í samræmi við óskir hans sjálfs þar að lútandi. Telur dómurinn fjarstæðukennt að líta beri svo á að lánið hafi í reynd verið greitt út í íslenskum krónum inn á reikninga sem séu í raun gengistryggðir reikningar í íslenskum krónum en ekki gjaldeyrisreikningar. Að lokum er til þess að líta að fyrir liggur að stefndi greiddi vexti af láninu í hlutaðeigandi erlendum gjaldmiðlum. Samkvæmt framangreindu er ekki komið fram að á nokkru stigi viðskipta málsaðila hafi íslenskar krónur skipt um hendur. Eins og efni samnings aðila var háttað og meginskyldur samningsaðila efndar getur óljóst orðalag í einstökum gögnum sem stafa frá stefnanda, svo sem kvittunum, ekki ráðið úrslitum um niðurstöðu málsins. Þá verður ekki á það fallist að Glitnir banki hf. eða stefnandi hafi á einhverju stigi viðurkennt með beinum eða óbeinum hætti að um væri að ræða gengistryggt lán. Samkvæmt framangreindu verður fallist á aðalkröfu stefnanda. Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 750.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Af hálfu stefnanda flutti málið Aðalsteinn Jónasson hrl. Af hálfu stefnda flutti málið Þorsteinn Einarsson hrl. Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð Viðurkennt er að lánssamningur að lánssamningur 22. júní 2007 að fjárhæð að jafnvirði 2.000.000.000 króna í erlendum myntum, upphaflega milli Glitnis banka hf. og stefnda, Brims hf., auðkenndur með lánsnúmerunum 309980, 309981, 309982, 309983 og 309984 sé lögmætt erlent lán.                 Stefndi greiði stefnanda, HAF Funding 2008-1 Ltd., 750.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 675/2014
Börn Forsjársvipting Barnavernd Gjafsókn Hæfi dómara
B krafðist þess að M og K yrðu svipt forsjá dóttur sinnar. Í dómi héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, kom m.a. fram að M og K ættu bæði langa sögu um neyslu fíkniefna, auk þess sem K hefði glímt við geðrænan vanda, átröskun og geðhvarfasýki. Þá hefði M átt við andlega erfiðleika að stríða og verið greindur með þunglyndi, kvíða og áfallaröskun. Væri forsjárhæfni þeirra mjög skert vegna þessa. Þá kom fram að aðilarnir hefðu haft lítil samskipti við barnið og væru frumgeðtengsl því ekki til staðar. Á hinn bóginn lægi fyrir að barnið hefði tengst fósturforeldrum sínum afar vel. Var með vísan til þessa, og þess að önnur úrræði höfðu ekki borið árangur, talið að uppfyllt væru skilyrði 29. gr. barnaverndarlaga til að svipta M og K forsjá barnsins. Í dómi Hæstaréttar var niðurstaða héraðsdóms staðfest og tekið fram að til þess yrði að líta að barnið hefði ekki verið í umsjá M og K frá því það var nokkurra vikna gamalt. Það væri 16 mánaða gamalt og hefði aðlagast vel þar sem það dveldi í tímabundnu fóstri og myndað geðtengsl við fósturforeldra. Brýnir hagsmunir barnsins stæðu því til þess að þau tengsl yrðu ekki rofin. Þá var ekki fallist á það með M og K að ómerkja bæri dóm héraðsdóms með vísan til þess að einn dómari málsins hefði, í samræðum dómara og lögmanna um mögulegar sættir, látið falla ummæli sem bentu til þess að niðurstaða lægi þá þegar fyrir og að dómarinn væri þar með ósjálfstæður í dómstörfum. Var í því sambandi tekið fram að þar sem bæði dómarar málsins í héraði og B teldu frásögn og upplifun lögmanna M og K hvað þetta varðaði ekki rétta M og K sönnunarbyrði fyrir hinu gagnstæða. Þá sönnunarbyrði hefðu þeir ekki axlað.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar. Fallist er á það með héraðsdómi að áfrýjendur geti ekki vegna fjölþættra erfiðleika sinna farið með forsjá barnsins. Jafnframt því verður að líta til þess að barnið hefur ekki verið í umsjá þeirra frá því það var nokkurra vikna gamalt, en það er nú 16 mánaða og hefur aðlagast vel þar sem það dvelur í tímabundnu fóstri og myndað tengsl við fósturforeldra. Standa brýnir hagsmunir barnsins til þess að þau tengsl verði ekki rofin, en við barnavernd ber jafnan að taka upp það ráð sem barni er fyrir bestu í samræmi við grundvallarreglu barnaverndarlaga nr. 80/2002. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Málskostnaður fyrir Hæstarétti verður ekki dæmdur. Um gjafsóknarkostnað áfrýjenda fer eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjenda, M og K, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanna þeirra, 700.000 krónur til hvors um sig. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. október 2014.                 Mál þetta, sem dómtekið var 15. september sl., var höfðað með stefnu útgefinni 28. maí sl.                 Stefnandi er Reykjavíkurborg fyrir hönd Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, Ráðhúsinu við Tjarnargötu í Reykjavík.                 Stefndu eru K, kt. [...], [...] í [...] og M, kt. [...], [...] í [...].                 Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði svipt forsjá dóttur sinnar, stúlku [...], kt. [...], sem er nú vistuð á heimili á vegum Barnaverndar Reykjavíkur, sbr. a- og d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.                 Stefnda, K, gerir þær kröfur að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og hún fari ein með forsjá dóttur aðila, A, kt. [...]. Til vara krefst stefnda þess að forsjársviptingu verði markaður skemmri tími. Til þrautavara krefst hún þess, verði hún svipt forsjá barnsins, að kveðið verði á um umgengni hennar við barnið í samræmi við tillögur hennar. Þá krefst hún málskostnaðar úr hendi stefnanda eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.                 Dómkröfur stefnda, M, eru þær að hafnað verði þeirri kröfu stefnanda að stefndu verði, saman og hvort í sínu lagi, svipt forsjá barns þeirra, A, kt. [...]. Til vara er þess krafist að forsjársviptingu verði markaður skemmri tími. Til þrautavara krefst stefndi þess að stefndu, K, verði einni falin forsjá barnsins. Til þrautaþrautavara er þess krafist að verði stefndi sviptur forsjá dóttur sinnar verði í dómi kveðið á um umgengni hans við barnið í samræmi við tillögur hans. Þá krefst hann málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.                 Mál þetta hefur sætt flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 53. gr. b. barnaverndarlaga nr. 80/2002. I                 Mál þetta varðar forsjá stúlku [...], sem nefnd hefur verið A. Telpan er fædd [...] og er því nú um níu mánaða gömul. Telpan lýtur sameiginlegri forsjá foreldra sinna, stefndu, M og K.                 Stefnda, K, er 33 ára gömul, móðir tveggja barna. Hún hefur undanfarin ár verið í óskráðri sambúð með stefnda, M, en þau hafa ekki haft sameiginlegt lögheimili. Stefndu hafa nú slitið samvistir. Fyrir á stefnda drenginn B, sem er 11 ára gamall. Stefnda fer ein með forsjá hans en drengurinn er tímabundið vistaður utan heimilis á grundvelli barnaverndarlaga hjá stjúpföður stefndu. Stefnda hefur notið ýmiss konar stuðnings frá þjónustumiðstöð Miðgarðs frá árinu 2004 í formi tilsjónar, fjárhagsaðstoðar og stuðningsfjölskyldu fyrir son hennar. Stefnda var í félagslegu leiguhúsnæði í Grafarvogi þar til í október 2013 að hún flutti með stefnda og syni sínum til [...]. Stefnda fékk úthlutað á ný félagslegu leiguhúsnæði í Reykjavík í desember 2013, þar sem hún býr í dag. Stefnda hefur glímt við fjölþættan vanda, en hún hefur verið greind með geðhvarfasýki, auk þess að hafa glímt við fíknivanda og átröskun.                 Stefndi, M, er 30 ára gamall, faðir tveggja barna. Fyrir á stefndi drenginn C, sem er 7 ára gamall og býr hjá móður sinni. Stefndi var sjálfur tímabundið vistaður utan heimilis sem barn. Hann hefur notið stuðnings frá þjónustumiðstöð Miðgarðs með hléum frá árinu 2004, einkum í formi fjárhagsaðstoðar. Stefndi á langa sögu um áfengis- og vímuefnaneyslu.                 Afskipti barnaverndaryfirvalda á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002 af málefnum ófædds barns stefndu hófust í október 2013. Tilkynning barst frá mæðravernd Landspítalans, samkvæmt 30. gr. barnaverndarlaga, þar sem talið var að heilsu og lífi ófædds barns stefndu væri hætta búin vegna lífernis hennar. Í tilkynningunni kom fram að áhyggjur væru af stöðu verðandi móður sem hefði ekki mætt sem skyldi í bókaða tíma í mæðravernd. Þar sem stefnda var flutt til [...] þegar tilkynning barst var tilkynningin áframsend til barnaverndaryfirvalda í Norðurþingi og málinu lokað hjá Barnavernd Reykjavíkur um miðjan nóvember 2013.                 Tilkynning skv. 30. gr. barnaverndarlaga barst til Barnaverndar Reykjavíkur 11. desember 2013, frá þjónustumiðstöð Miðgarðs, þar sem tilkynnt var að stefnda, ófætt barn hennar og 10 ára sonur væru flutt aftur til Reykjavíkur eftir stutta búsetu á [...]. Aðstæður væru bágbornar, peninga- og húsnæðisleysi. Í kjölfar tilkynningarinnar var haft samband við þjónustumiðstöð Miðgarðs og kom fram að stefnda hefði fengið úthlutað félagslegri leiguíbúð 18. desember 2013.                 Könnun máls samkvæmt 21. gr., sbr. 22. og 43. gr., barnaverndarlaga hófst 18. desember 2013. Stefndu komu til viðtals hjá Barnavernd Reykjavíkur daginn eftir. Stefnda upplýsti að hún hefði hætt að taka geðlyfin sín, í samráði við lækni, þar sem þau væru ekki talin æskileg fyrir fóstrið. Hún hafi þá fljótlega farið að finna á ný fyrir þunglyndi og hafi fagfólk hjá mæðravernd Landspítalans, í samráði við stefndu, tekið ákvörðun um að vísa henni til stuðnings í FMB teymi (foreldrar, meðganga, barn) á Landspítalanum. Í gögnum málsins kemur fram að stefnda hafi verið illa haldin af átröskun, lítið nærst og því lítið þyngst á meðgöngunni. Vímuefnapróf sem tekin voru af stefndu annars vegar hjá mæðravernd á [...] og í tvígang á Landspítalanum eftir flutning hennar frá [...] voru öll neikvæð.                 Stefnda fæddi dóttur sína 22. desember 2013 og var telpan rúmar 11 merkur. Stefnda útskrifaðist af meðgöngu- og sængurkvennadeild tveimur dögum síðar og fékk heimaþjónustu frá ljósmóður á Heilsugæslu Glæsibæjar í vikutíma. Hinn 13. janúar sl. hafði ljósmóðir mæðraverndar Landspítalans samband við barnavernd. Upplýsingar hefðu borist mæðraverndinni frá ljósmóður á Heilsugæslu Glæsibæjar, um áhyggjur af stöðu stefndu og af börnum hennar tveimur. Tilkynning barst til barnaverndar 22. janúar sl. frá Heilsugæslu Glæsibæjar. Tilkynnt var um áhyggjur af heilsufari stefndu og aðstæðum. Jafnframt kom fram að litla telpan hefði dafnað vel frá fæðingu og að stefndu hugsuðu vel um barnið. Stuðningsnet þeirra væri hins vegar slakt og ljóst að stefnda þyrfti á miklum áframhaldandi stuðningi að halda, bæði andlega og félagslega.                 Starfsmaður barnaverndar hafði símasamband við stefnda 10. febrúar sl. Stefndi upplýsti þá að stefnda væri fallin og væri í neyslu á heimilinu. Hún hefði fallið tíu dögum áður og væri nú í sprautuneyslu. Stefndi kvaðst sjálfur hafa neytt kannabis og væri að bíða eftir að komast í meðferð á Vogi. Hann kvaðst deginum áður hafa farið með son stefndu til móðurafa og telpuna til föðurafa. Í kjölfar símtalsins var farið á heimili stefndu.                 Telpan var vistuð á Vistheimili barna 10. febrúar sl. með samþykki stefndu, sbr. 1. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga, en stefndu voru þá bæði í vímuefnaneyslu. Stefndu undirrituðu áætlun um meðferð máls. Málið var til umfjöllunar á meðferðarfundi starfsmanna barnaverndar 11. febrúar sl. Niðurstaða meðferðarfundarins var á þá leið að lagt  yrði til að stefndu samþykktu vistun telpunnar á Vistheimili barna í allt að tvo mánuði og tíminn yrði nýttur til að aðstoða stefndu við að sækja sér meðferð. Á vistunartíma barnsins utan heimilis væri ætlast til þess af stefndu að þau sinntu telpunni á vökutíma hennar, héldu vímuefnabindindi og færu í vímuefnapróf. Þá var lagt til að ný meðferðaráætlun yrði útbúin. Barnavernd óskaði eftir innlögn stefndu á deild 33A á Landspítalanum og í kjölfar þeirrar innlagnar fengi hún að leggjast inn á deild 33C, þar sem sérhæfing er til staðar varðandi vinnu með tengsl barns og foreldris, og myndi telpan vera á deildinni með henni. Þar sem stefndu höfðu slitið sambandi sínu á þeim tíma kom það til skoðunar að telpan væri á spítalanum hjá stefndu yfir daginn en færi seinni part dags á vistheimilið og væri þar til morguns með stefnda. Með því yrði báðum stefndu gert kleift að annast telpuna.                 Málið var tekið fyrir á fundi stefnanda 18. febrúar sl. Stefndu undirrituðu í kjölfarið nýja áætlun um meðferð máls, og samþykktu áframhaldandi vistun telpunnar utan heimilis í tvo mánuði. Að mati stefnanda nýttu stefndu sér ekki úrræðin með viðunandi hætti. Viðvera þeirra hjá telpunni á Vistheimili barna var í algjöru lágmarki þrátt fyrir að þeim stæði til boða að vera hjá henni allan sólarhringinn á tímabili. Samkvæmt gögnum málsins féllu stefndu á vímuefnabindindi 28. febrúar sl. og voru því fallin á vímuefnabindindi þegar þau fóru með telpuna í fjölskylduafmæli 2. mars sl. Í kjölfarið yfirgáfu stefndu telpuna á Vistheimili barna og fóru í mikla vímuefnaneyslu. Þau nýttu sér ekki þau meðferðarúrræði sem í boði voru. Þrjár tilkynningar um vanrækslu varðandi umsjón og eftirlit bárust 6. og 10. mars sl. Auk þess hafði lögregla afskipti af stefndu 11. mars sl. Stefndu fóru á bráðamóttöku Landspítalans 12. mars sl. og var ástand þeirra alvarlegt vegna vímuefnaneyslu.                 Málið var til umfjöllunar á meðferðarfundi starfsmanna barnaverndar 13. mars sl. Niðurstaða meðferðarfundarins var á þá leið að stefndu væru ekki í stakk búin til að sinna nú, eða til framtíðar litið, telpunni, en þar yrði að taka til greina ungan aldur hennar. Þörf telpunnar fyrir myndun tilfinningatengsla við umönnunaraðila væri mjög brýn nú og talið að barnið gæti borið skaða af yrði töf á því. Starfsmenn barnaverndar lögðu því til að óskað yrði eftir því við stefndu að þau afsöluðu sér forsjá telpunnar.                 Eftir að stefndu yfirgáfu telpuna á vistheimilinu og ekki voru lengur taldar forsendur fyrir tengslaeflandi vinnu með stefndu þar var það mat starfsmanna barnaverndar að það þjónaði hagsmunum telpunnar betur að vistast á einkaheimili í stað vaktaskipts heimilis þar sem margir væru um umönnun hennar. Telpan fór því til tímabundinnar vistunar utan heimilis 15. mars sl. og er vistuð þar skv. 84. gr. barnaverndarlaga. Stefndi kom á vistheimilið sama dag og kvaddi dóttur sína, en hann hafði þá að mestu lokið afeitrun á deild 33A á Landspítala.                 Í greinargerð starfsmanna barnaverndar, dags. 20. mars sl., kemur fram það mat starfsmanna að stefndu hafi með háttalagi sínu sýnt af sér stórkostlegt grandvaraleysi gagnvart dóttur sinni. Tilefni sé til verulegra og alvarlegra áhyggna af öryggi og þroska telpunnar í umsjá stefndu. Starfsmenn telji að þau eigi langt í land í endurhæfingu sinni. Það sé engan veginn nægjanlegt að stefndu ljúki meðferð heldur verði þau að geta sýnt fram á samfellt vímuefnabindindi í a.m.k. eitt ár til að vera í stakk búin til þess að annast um telpuna og veita henni það öryggi sem hún eigi rétt á. Stefndu eigi bæði langa sögu um vímuefnaneyslu. Stefnda hafi haldið vímuefnabindindi í þrjú til fjögur ár áður en hún hafi fallið eftir fæðingu telpunnar. Fyrir þann tíma hafi stefnda verið meira og minna í neyslu vímuefna frá unglingsaldri. Eftir að hún hafi eignast son sinn, hafi hún verið í mikilli vímuefnaneyslu með stuttum hléum. Stefndi hefur, að eigin sögn, lengst haldið vímuefnabindindi í u.þ.b. fjóra mánuði. Telpan sé á afar viðkvæmu skeiði varðandi geðtengslamyndun við umönnunaraðila sína. Að mati starfsmanna barnaverndar sé það ljóst að hún geti ekki beðið þess að stefndu verði í stakk búin til að annast hana.                 Málið var tekið fyrir á fundi stefnanda 1. apríl 2014. Stefnandi tók undir framangreint mat starfsmanna sinna, stuðningur væri fullreyndur og það þjónaði hagsmunum telpunnar best að vera í varanlegu fóstri til 18 ára aldurs. Þar sem samþykki stefndu fyrir vistun telpunnar utan heimilis lá ekki fyrir var málið tekið til úrskurðar, samkvæmt b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga. Var kveðinn upp úrskurður þess efnis að stúlkan skyldi vistuð á heimili á vegum stefnanda í tvo mánuði frá þeim degi að telja, á grundvelli b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga. Borgarlögmanni var falið að krefjast þess fyrir dómi að stefndu yrðu svipt forsjá dóttur sinnar á grundvelli a- og d-liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.                 Stefndi fór í afeitrun á deild 33A á Landspítalanum 13. mars sl. og þaðan fór hann til meðferðar í Hlaðgerðarkot og lauk meðferð 28. apríl sl. Samkvæmt stefnda er hann í Grettistaki þrisvar í viku og sækir AA fundi. Stefnda fór til innlagnar á Vog, í framhaldi af því á Vík og útskrifaðist 6. maí sl. Stefnda vill fara í Kvennasmiðjuna og kveðst sækja AA fundi. Stefnda bar fram þá ósk að sækja tíma hjá sálfræðingi og hefur barnavernd fallist á að greiða sálfræðitíma fyrir hana. Stefnda hefur undirritað yfirlýsingu um vistun sonar síns utan heimilis í sex mánuði og samþykkt sálfræðitíma fyrir drenginn.                 Stefndu óskuðu eftir umgengni við telpuna og fór hún fram 26. maí sl. Umgengnin fór fram undir eftirliti í húsnæði barnaverndar og varði í klukkustund. Fósturforeldrar telpunnar voru viðstaddir. Stefndu voru með telpuna allan tímann og sýndu henni mikla athygli. Þau spurðu mikið út í aðstæður hennar og þroska. Telpan var óörugg í fyrstu en virtist svo vera nokkuð sátt. Samkvæmt eftirlitsaðila fylgdist hún vel með því að fósturforeldrarnir væru nálægir. Umgengnin gekk vel, samskiptin voru jákvæð og snerust öll um litlu telpuna.                 Við aðalmeðferð málsins gáfu stefndu skýrslu ásamt D sálfræðingi og E og F, ráðgjöfum hjá Barnavernd Reykjavíkur. II                 Stefnandi byggir kröfu sína um forsjársviptingu á því að skilyrði a- og d-liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 séu uppfyllt í máli þessu. Það sé mat stefnanda, með hliðsjón af gögnum málsins og forsögu, að fullvíst sé að líkamlegri og andlegri heilsu telpunnar sé hætta búin fari stefndu með forsjá hennar. Stefnandi telji að stuðningsaðgerðir á grundvelli laganna dugi ekki til að tryggja öryggi telpunnar og fullnægjandi uppeldisskilyrði til frambúðar á heimili stefndu. Stefndu hafi staðið til boða að vera með telpunni á Vistheimili barna. Þau hafi ekki nýtt sér úrræðið með viðunandi hætti og hafi fallið á vímuefnabindindi. Ítrekað hafi verið reynt að aðstoða stefndu á víðtækan hátt, en sú aðstoð hafi ekki gagnast þeim sem skyldi. Afskipti barnaverndaryfirvalda hafi staðið frá því telpan hafi verið í móðurkviði í október 2013. Stefnandi telji að gögn málsins sýni, svo ekki verði um villst, að daglegri umönnun telpunnar verði stefnt í verulega hættu, fari stefndu með forsjá hennar. Heilsu og þroska telpunnar sé hætta búin fari stefndu með forsjá hennar eins og málum sé háttað.                 Með hagsmuni telpunnar að leiðarljósi og með tilliti til ungs aldurs hennar sé mikilvægt að finna henni framtíðarheimili og umönnunaraðila þar sem öryggi hennar og þroskavænlegar uppeldisaðstæður séu tryggðar. Telpan dvelji nú á heimili fósturforeldra þar sem vel sé hlúð að henni og réttur hennar til viðunandi uppeldis og umönnunar sé tryggður, auk þess sem öryggi hennar verði tryggt. Um ungt barn sé að ræða og mikilvægur tími framundan varðandi tengslamyndun. Langflest börn myndi sterk geðtengsl við umönnunaraðila sína í frumbernsku, en góð tengsl séu undirstaða alls þroska. Með vísan til alls þessa sé það mat stefnanda að það þjóni hagsmunum telpunnar best að þeim stöðugleika sem kominn sé á verði ekki raskað, enda sé það í fullu samræmi við meginreglu barnaverndarlaga, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna, um að barnaverndarstarf skuli stuðla að því að stöðugleiki ríki í uppvexti barna. Krafa stefnanda byggist á því að of mikil og óforsvaranleg áhætta felist í því að láta stefndu fara með forsjá dóttur sinnar.                 Leitast hafi verið við að eiga eins góða samvinnu við stefndu um málið og aðstæður hafi leyft. Þá hafi verið leitast við að beita eins vægum úrræðum gagnvart þeim og unnt hafi verið hverju sinni. Stefnandi telji stuðningsaðgerðir fullreyndar í því skyni að bæta forsjárhæfni stefndu. Forsaga gefi forspárgildi og ef litið sé til forsögu stefndu sé forspárgildi fyrir áframhaldandi vímuefnabindindi þeirra ekki gott, samkvæmt fyrirliggjandi málsgögnum. Vandi stefndu sé langvarandi, alvarlegur og djúpstæður. Þau séu ekki í stakk búin til að veita telpunni viðunandi og traust uppeldisskilyrði í nánustu framtíð. Önnur barnaverndarúrræði en forsjársvipting séu því ekki tæk nú, en brýna nauðsyn beri til að skapa telpunni til frambúðar það öryggi og umönnun sem hún eigi rétt á að búa við lögum samkvæmt. Geti þau stuðningsúrræði sem stefnandi hafi yfir að ráða ekki megnað að skapa telpunni þau uppeldisskilyrði sem hún eigi skýlausan rétt til hjá stefndu. Að mati stefnanda hafi vægustu ráðstöfunum ávallt verið beitt til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt og sé krafa stefnanda sett fram samkvæmt fortakslausu ákvæði 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Meðalhófsreglunnar hafi verið gætt í hvívetna við meðferð málsins og ekki gripið til viðurhlutameiri úrræða en nauðsynlegt hafi verið.                 Það séu frumréttindi barna að búa við stöðugleika í uppvexti og þroskavænleg skilyrði. Það sé almenn skylda foreldra, sem lögfest sé í 2. mgr. 1. gr. barnaverndarlaga að sýna börnum virðingu og umhyggju, auk þess sem óheimilt sé með öllu að beita börn ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Forsjárréttur foreldra takmarkist af þeim mannréttindum barna að njóta forsvaranlegra uppeldisskilyrða. Þegar hagsmunir foreldris og barns vegist á séu hagsmunir barnsins, hvað því sé fyrir bestu, þyngri á vogarskálunum. Þessi regla sé grundvallarregla í íslenskum barnarétti og komi einnig fram í þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland sé aðili að. Hinu opinbera sé og skylt að veita börnum vernd svo sem mælt sé fyrir um í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, barnaverndarlögum nr. 80/2002 og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Þá eigi reglan sér einnig stoð í 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og í Alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. lög nr. 10/1979.                 Með skírskotun til alls framanritaðs, meginreglna í barnaverndarrétti, sbr. 4. gr. barnaverndarlaga og gagna málsins, geri stefnandi þá kröfu að stefndu verði svipt forsjá dóttur sinnar, stúlku [...], sbr. a- og d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, enda muni önnur og vægari úrræði ekki skila tilætluðum árangri. Ósk um flýtimeðferð byggist á 53. gr. b. barnaverndarlaga nr. 80/2002. III Stefnda, K, andmælir málsástæðum stefnanda. Hún sé ekki ófær um að hafa forsjá dóttur sinnar. Þá sé líkamlegri og andlegri heilsu telpunnar ekki hætta búin fari hún með forsjá hennar. Framsetningu málsástæðna í stefnu sé sérstaklega mótmælt. Ummæli þar séu óeðlilega stóryrt í garð stefndu. Því sé sérstaklega mótmælt að fullvíst sé að líkamlegri og andlegri heilsu telpunnar sé hætta búin. Stefnda árétti að hún hafi átt mun fleiri ár án vímuefnaneyslu en í neyslu frá því að hún hafi farið að taka sig á árið 2002.                 Stefnda hafi glímt við vímuefnavanda frá 14 ára aldri. Neysla hennar hafi þróast hratt frá þeim tíma til 22 ára aldurs er hún hafi farið í langtímameðferð í Byrginu árið 2002. Stefnda hafi eignast soninn B í október 2003 og fari ein með forsjá hans. Drengurinn hafi ávallt búið hjá stefndu, sem hafi hugsað vel um hann. Þau mæðgin séu mjög náin. Stefnda hafi haldið bindindi í þrjú ár eða frá 2002 til 2005 er hún hafi fallið í stuttan tíma það ár. Hún hafi farið í meðferð og verið án vímuefna frá 2005 til 2009 er hún hafi aftur fallið og farið í tvær meðferðir. Á þeim tíma hafi hún sótt endurhæfingarnámskeið í Kvennasmiðjunni og verið í átröskunarprógrammi í 18 mánuði. Árið 2011 hafi hún tekið eina önn í Fjölbrautarskólanum við Ármúla og hafi bætt við sig einu og einu fagi síðan. Hún hafi þannig lokið 25 einingum, eða sem samsvari tveimur önnum. Stefnda hyggist ljúka menntaskóla. Hún hafi sótt námskeið í áfengis- og vímuefnaráðgjöf á vegum SÁÁ og verið ráðin tímabundið á Vogi frá 15. september til 28. desember 2012. Hún hafi haldið bindindi frá því í desember 2009 þar til hún hafi fallið í byrjun febrúar 2014, stuttu eftir fæðingu dóttur sinnar. Hún hafi því haldið vímuefnabindindi í rúm fjögur ár þegar hún hafi fallið í byrjun febrúar 2014. Þá hafi hún frá árinu 2002 til ársins 2014, eða á 12 ára tímabili, haldið vímuefnabindindi í 9 eða 10 ár af þeim tíma. Þótt stefnda hafi fallið í nokkur skipti á þessum árum sé sá tími miklu styttri en sá tími sem hún hafi verið án vímuefna. Stefnandi hafi litið fram hjá þessu.                 Stefnda hafi búið í Grafarvogi ásamt syni sínum í fimm ár áður en þau hafi flutt í núverandi húsnæði að [...] í desember 2013. Sonur stefndu hafi verið í skóla í Grafarvogi og sé mjög félagslega sterkur. Stefnda hafi verið fjárhagslega sjálfstæð og gengið vel að ná endum saman. Hún hafi kynnst stefnda, M, árið 2012. Hann hafi flutt inn til hennar í ágúst 2103, en þá hafi farið að síga á ógæfuhlið stefndu. Stefndi, M, hafi verið í neyslu, en stefndu hafi tekist að halda sér frá vímuefnum þrátt fyrir það.                 Áður en stefnda hafi orðið ófrísk af dóttur sinni hafi hún verið á geðlyfjum, en hún sé greind með væga geðhvarfasýki. Stefnda hafi ákveðið, í samráði við lækni, að hætta á geðlyfjunum þar sem þau hafi ekki verið talin æskileg fyrir fóstrið. Stefnda hafi fljótlega farið að finna fyrir þunglyndi að nýju. Meðgangan hafi því verið mjög erfið. Þrátt fyrir það hafi hún haldið sig alfarið frá vímuefnum á meðgöngunni. Eins og fram komi í stefnu hafi vímuefnapróf, sem tekin hafi verið af stefndu á meðgöngu, öll verið neikvæð. Stefndi, M, hafi hins vegar verið í neyslu allan meðgöngutímann og eftir fæðingu barnsins, en lengsti tími hans frá fíkniefnum sé fjórir mánuðir.                 Eftir fæðingu barnsins hafi stefnda ákveðið að vera ekki með barnið á brjósti svo hún gæti farið aftur á geðlyfin sín. Lyfin hafi þó ekki virkað sem skyldi og stefndu hafi liðið mjög illa andlega eftir fæðingu barnsins. Í ofanálag hafi stefndu liðið illa yfir því að ná ekki tengslum við dóttur sína eins og son sinn. Jafnframt hafi verið komnir brestir í samband stefndu og stefnda. Stefnda telji að hún hafi í raun fengið fæðingarþunglyndi þótt hvergi sé um það getið í gögnum málsins eða verið tekið tillit til þess í málinu. Stefnda telji að fæðingarþunglyndið og sambandsbrestirnir hafi aukið líkurnar á því að hún hafi fallið í þetta sinn. Það sé vel þekkt að mæður fái fæðingarþunglyndi en það sé ekki nægjanleg ástæða þess að þær verði sviptar forsjá yfir börnum sínum. Þær þurfi að fá viðeigandi aðstoð.                 Fylgst hafi verið með stefndu við umönnum barnsins eftir fæðingu þess. Eins og fram komi í stefnu hafi telpan dafnað vel frá fæðingu og stefndu hugsað vel um hana. Til að byrja með hafi stefndu vaknað saman með barninu á næturnar, en síðan hafi stefnda, K, gert það ein. Stefnda hafi haft áhyggjur af því að hún tengdist ekki barninu sem skyldi, en það gæti skýrst af því að hún hafi ekki verið með hana á brjósti. Stefnda hafi ekki farið leynt með þessar áhyggjur og viljað fá aðstoð við að tengjast barninu. Þær aðstæður sem hafi verið uppi þegar stefnda hafi fallið í febrúar hafi því verið margvíslegar. Megi þar nefna fæðingarþunglyndi, hræðslu móður yfir að tengjast ekki barni sínu og bresti í sambúð aðila, auk undirliggjandi veikleika stefndu sem hafi leitt til þess að hún hafi ekki ráðið við aðstæður.                 Stefnda sé ekki ósátt við inngrip barnaverndaryfirvalda varðandi barnið þegar stefndu hafi verið í neyslu þessa mánuði. Hún hafi ávallt verið til fullrar samvinnu við barnaverndarnefnd. Stefnda neiti því ekki að hún hafi átt erfiða tíma fyrstu mánuði barnsins. Hún óski þess í dag að hún hefði staðið sig betur þegar henni hafi verið gefið tækifæri. Hún hafi hins vegar verið alvarlega veik á þessum tíma og því ekki í stakk búin til að standa undir þeim úrræðum sem nefndin hafi lagt til. Veikindi hennar séu nú í rénun, meðferðin gangi vel og henni líður miklu betur. Stefnda sé hins vegar verulega ósatt við þá ákvörðun barnverndarnefndar að svipta stefndu alfarið forsjá barnsins og hafni því alfarið að hún sé um alla framtíð ófær um að sinna forsjá dóttur sinnar þrátt fyrir þessi mistök.                 Stefnda og stefndi hafi nú slitið samvistum og stefnda telji að það geri henni betur kleift að standa sig. Hún búi í leiguíbúð á [...]. Hennar einlæga ósk sé að vera ein og búa sér og börnunum fallegt og öruggt heimili. Stefnda telji sig fullfæra um það, enda hafi hún sýnt að hún hugsi vel um börnin sín þegar hún sé edrú. Krafa barnaverndaryfirvalda um að svipta stefndu forsjá barnsins hafi verið mikið áfall fyrir hana. Hún telji að botninum sé nú náð og sé staðráðin í að standa sig. Stefnda telji þó að barnaverndaryfirvöld hafi gengið of langt og mótmæli því að fall hennar stuttu eftir fæðingu barnsins sé forspá um framtíðina.                 Stefnda hafi hugsað mjög vel um barnið frá fæðingu og það hafi dafnað vel hjá henni áður en það hafi verið tekið úr umsjá hennar. Hún hafi annast son sinn í 11 ár sem sé fordæmi fyrir því að hún geti annast um barn sitt. Stefndu hafi haft umgengni við dóttur sína 26. maí sl. undir eftirliti í húsnæði barnaverndar. Í umsögn eftirlitsaðila komi fram að stefndu hafi verið með telpuna allan tímann, sýnt henni mikla athygli og spurt mikið út í aðstæður hennar og þroska. Telpan hafi verið óörugg í fyrstu en síðan virst mjög sátt. Umgengnin hafi gengið vel, samskiptin hafi verið jákvæð og snúist öll um litlu telpuna.                 Það sé einlægur vilji stefndu að vera án vímuefna, hafa bæði börnin hjá sér og halda heimili fyrir sig og börn sín þar sem hún finni frið og öryggi. Stefnda hafi farið í meðferð 7. júní sl. og útskrifast af deild 33A þann 18. júní sl. Meðferð hennar gangi vel. Hún hafi fengið að fara með son sinn í vikuferð í sumarbústað nýverið. Stefnda sé í sálfræðimeðferð, sæki AA fundi og samkomur og sé á biðlista til að komast að hjá Hvítabandinu. Stefndu langi til að ljúka framhaldsskóla og stefni á að fara í kvöldskóla í haust, en ætli að byrja mjög rólega. Stefnda byggi sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að skilyrði a- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 séu uppfyllt. Þannig hafi í engu verið sýnt fram á að hún sé óhæf til að fara með forsjá telpunnar, eins og byggt sé á í stefnu. Þvert á móti séu í gögnum málsins upplýsingar um það að stefnda sé fær um að fara með forsjá barns þar sem hún hafi farið ein með forsjá eldri sonar síns og aldrei hafi komið til álita að svipta hana forsjá yfir honum. Þá byggi stefnda á því að orðalag 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga beri með sér að mjög mikið þurfi að koma til svo skilyrði fyrir forsjársviptingu séu fyrir hendi. Slíkt hið sama komi iðulega fram í dómum Hæstaréttar í málum varðandi forsjársviptingu. Taka verði tillit til þess að telpan hafi verið rúmlega mánaðar gömul er stefnda hafi fallið og það hafi meðal annars verið að rekja til fæðingarþunglyndis stefndu. Hún hafi verið frá telpunni í nokkra mánuði á stuttri ævi hennar. Stefnda sé ekki að gera lítið úr alvarleika þess að hafa ekki verið til staðar fyrir dóttur sína í þann tíma vegna veikinda sinna, en því sé algerlega mótmælt að það réttlæti að hún verði alfarið svipt forsjá dóttur sinnar. Með þessu sé alltof langt gengið. Ekki sé hægt að sjá það á gögnum málsins að fullvíst sé að líkamlegri eða andlegri heilsu telpunnar eða þroska hennar sé hætta búin. Orðalag fyrrnefnds ákvæðis og athugasemdir við ákvæði í greinargerð beri með sér að hér dugi ekki til að vísbendingar séu í þá áttina heldur verði að liggja fyrir lögfull sönnun þess efnis og fullvissa um að þær aðstæður skapist. Ekki sé tilefni til að draga svo víðtækar ályktanir af gögnum málsins. Stefnda geti þar af leiðandi ekki fallist á það orðalag í stefnu að þeim stöðugleika sem komin sé á telpuna nú verði ekki raskað næstu 17 til 18 árin. Stefnda telji að það sé ekki of seint að tengjast dóttur sinni. Hún sé tilbúin til að þiggja alla aðstoð í þeim efnum með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Hér sé einfaldlega of langt gengið. Það geti ekki talist hagsmunir barnsins að svipta foreldrana forsjá og svipta barnið uppeldi með systkinum sínum. Barnið eigi rétt á að þekkja og kynnast foreldrum sínum og alast upp hjá þeim og systkinum sínum. Með vísan til alls framangreinds telji stefnda að skilyrði a- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga séu ekki uppfyllt og krefjist sýknu af kröfum stefnanda. Þá sé byggt á því að stefnandi hafi ekki beitt öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða að slík úrræði hafi verið reynd án viðunandi árangurs, sbr. 2. mgr. 29. gr. sömu laga. Það skorti því á að lagaskilyrði forsjársviptingar séu fyrir hendi. Þannig sé á því byggt að samkvæmt 7. mgr. 4. gr. laganna skuli stefnandi gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið sé til annarra úrræða. Þá skuli þau jafnframt ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt. Samkvæmt 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga skuli aðeins krefjast sviptingar forsjár að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta. Slíkt hafi ekki verið fullreynt. Ekkert í gögnum málsins bendi til þess að ekki sé hægt að beita vægara úrræði nú en forsjársviptingu. Raunverulegur stuðningur við stefndu og dóttur hennar hafi einungis farið fram í u.þ.b. þrjá mánuði, meðan stefnda hafi í raun og veru enn verið veik og því ekki í stakk búin til að takast á við þann stuðning. Þetta sé stuttur tími og geti ekki talist vera forsenda þess að grípa til jafn viðurhlutamikilla úrræða og forsjársvipting sé. Stefnda hafi nú lokið meðferð og sé komin á lyf sem henti henni. Henni líði vel og sé nú í stakk búin til að takast á við móðurhlutverkið. Ekki hafi verið sýnt fram á það með málatilbúnaði stefnanda að veikindi stefndu séu þess eðlis að engin von sé um bata. Stefnda hafi sýnt fram á mjög langan tíma án vímuefnaneyslu sem sé vísbending um að hún geti haldið sig frá henni. Þá byggi stefnda sýknukröfu sína einnig á því að ekki hafi verið reynd úrræði 28. gr. barnaverndarlaga um lengri vistun utan heimilis en til tveggja mánaða og mótmæli því þeirri staðhæfingu stefnanda að reynt hafi verið til þrautar að leita annarra úrræða en að forsjársvipta foreldra. Ekkert í gögnum málsins styðji þær staðhæfingar stefnanda að stefnda sé um alla framtíð ófær um að sinna forsjá dóttur sinnar. Þá hafi stefnda ekki neitað aðstoð eða úrræðum sem hún eigi rétt til, svo hún geti alið önn fyrir dóttur sinni, og muni ekki gera það. Stefnandi hafi ekki nema að mjög litlu leyti látið reyna á samvinnu við stefndu. Þá hafi stefnandi ekki lagt fram kröfu hjá dómara um að beita úrræðum 28. gr. barnaverndarlaga um lengri vistun utan heimilis. Stefnda telji að skilyrði 1. mgr. 56. gr. barnaverndarlaga hafi ekki verið uppfyllt. Þar sé kveðið á um að mál skuli vera nægilega upplýst áður en höfðað sé mál til sviptingar forsjár. Hvorki liggi fyrir álit óháðs sérfræðings um að það sé sannarlega barninu fyrir bestu að foreldrar verði sviptir forsjá né heldur um áhrif þess að með þeim hætti verði slitið á tengsl þeirra og barnsins. Stefnda telji forsjársviptingu skaðlega barninu og til þess fallna að raska högum þegar litið sé til ungs aldurs barnsins. Aðalkrafa stefndu um sýknu og að hún fari ein með forsjá barnsins sé að auki byggð á því að hún eigi lengri tíma án vímuefnanotkunar en stefndi og sé því líklegri en hann til að halda sig frá vímuefnum í framtíðinni. Þá byggi stefnda á því að hún hafi ein farið með forsjá sonar síns, B, frá fæðingu og hafi því þegar sýnt fram á forsjárhæfni sína. Hún hafi hugsað vel um drenginn, fylgst vel með námi hans, mætt á foreldrafundi og haldið honum heimili þar sem hann hafi þrifist vel. Þau séu mjög tilfinningalega tengd, hún hafi gott innsæi í þarfir hans og drengurinn sé mjög félagslega sterkur. Sú staðreynd sé því forspá um að stefnda geti veitt dóttur sinni sömu uppeldisskilyrði. Þá sé á því byggt að mikilvægt sé að systkinin fái að alast upp saman en drengurinn spyrji sífellt um litlu systur sína og vilji og þurfi að kynnast henni. Þá sé á því byggt að stefnda sé í öruggu húsnæði á vegum Reykjavíkurborgar, en hún búi í þriggja herbergja íbúð að [...] í Reykjavík. Stefndi búi hins vegar hjá föður sínum. Stefnda hafi þó óskað eftir húsnæðisflutningi til að hefja nýtt og betra líf og vilji búa börnum sínum fallegt og öruggt heimili. Í kringum hana sé ágætisstuðningsnet, en hún eigi föður á lífi og þrjú systkini á aldrinum 20 til 25 ára sem öll búi hjá föður. Stefnda sé því sterkari aðilinn við umönnum og uppeldi telpunnar. Stefnda byggi varakröfu sína á sömu sjónarmiðum og aðalkröfu og telji að ekkert í lögum bindi dómara við það að taka til greina kröfu stefnanda að öllu leyti eða engu. Verði hins vegar fallist á kröfu stefnanda sé gerð krafa um að í dómi verði kveðið á um umgengni stefndu við telpuna í samræmi við tillögur stefndu. Samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga eigi foreldrar rétt á umgengi við barn sitt, nema það sé bersýnlega andstætt hagsmunum og þörfum barnsins. Vísað sé til barnaverndarlaga nr. 80/2002, einkum 28. gr., a- og d-liða 1. mgr. og 2. mgr. 29. gr., 7. mgr. 4. gr., 1. mgr. 56. gr. og 74. gr. Málskostnaðarkrafa byggist á 60. gr. sömu laga, en sótt hafi verið um gjafsóknarleyfi fyrir stefndu vegna málarekstursins. IV                 Stefndi, M, bendir á að hann hafi sem barn verið vistaður á vegum félagsþjónustunnar til lengri tíma. Hann þekki af eigin raun hvernig það sé að alast upp við slíkar aðstæður. Hann berjist því fyrir því að skapa dóttur sinni boðlegar aðstæður. Stefndi telji neyslu sína á kannabisefnum eina og sér ekki gera hann óhæfan til þess að annast um hagsmuni barna sinna. Í ljósi hugleiðinga löggjafans um vægari afstöðu til kannabisreykinga sem og vegna lögleiðingar kannabisefna í nágrannalöndum sé það sérstakt skoðunarefni hvort fyrir fram mótaðar hugmyndir manna vegi of þungt í mati á hæfni hans til að annast um barn sitt. Í gögnum málsins komi fram að stefndi hafi á einhverjum tímapunkti neytt bæði amfetamíns og kókaíns. Slík tilvik séu tilfallandi og ekki til marks um neyslu hans. Stefndi hafi markvisst unnið í því að losa sig úr vítahring neyslu. Hann hafi lokið meðferð frá Hlaðgerðarkoti og innritast í Grettistak, verkefni á vegum félagsþjónustunnar. Illu heilli liggi það verkefni niðri yfir sumarmánuðina. Stefndi viðhaldi því edrúmennsku sinni með því að sækja reglulega AA fundi.                 Stefndi vilji veita dóttur sinni allan þann stuðning sem honum sé fært að veita. Hann hafi í langan tíma upplýst starfsmenn stefnanda um aðkomu og stuðning fjölskyldu fyrrum barnsmóður við mál hans. Þau hafi verið boðin og búin til þess að taka barnið að sér, en stefnandi hafi ekki verið til viðræðu um slíka lausn. Sérstaklega sé bent á að stefndi hafi mætt daglega til dóttur sinnar á Vistheimili barna. Þá komi það fram í gögnum málsins að stefndi sé natinn í umgengni við barnið. Af þessu megi draga þá ályktun að stefndi sé sterkari aðilinn í umönnunarsambandi við barnið og hann geti verið fær um að annast um og sinna þörfum stúlkunnar einn.                 Stefndi byggi aðalkröfu sína á því að ekki hafi verið reynt til þrautar að leita annarra úrræða. Samkvæmt 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 skuli barnaverndaryfirvöld ávallt beita vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt og því aðeins grípa til íþyngjandi ráðstafana að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti. Stefndi telji ljóst að vilji löggjafans, með því að skipa málum með þeim hætti, hafi verið sá að ávallt séu könnuð önnur og vægari úrræði og þeim beitt áður en gripið sé til þess að svipta foreldra forsjá. Ekki liggi fyrir mat á áhrifum þess að slitið sé á tengsl föður og barns með þeim hætti sem lagt sé til. Ákvæði barnaverndarlaga geymi ákvæði um að barnaverndarnefnd sé heimilt, með samþykki foreldris, að taka við forsjá eða umsjá barns og vista það utan heimilis, sbr. b-lið 1. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga. Með tilliti til hagsmuna barns geti slík vistun varað til þess tíma er barnið verði lögráða. Stefnda hafi ekki verið boðið slíkt úrræði og grundvöllur fyrir samkomulagi milli aðila hafi ekki verið kannaður. Barnaverndarnefnd hafi borið að kanna áhrif og kosti slíks áður en ráðist hafi verið í kröfu um forsjársviptingu fyrir dómi. Með þessu hafi ekki verið gætt meðalhófs við málsmeðferðina.                 Þá telji stefndi að skilyrði 1. mgr. 56. gr. barnaverndarlaga hafi ekki verið uppfyllt. Þar sé kveðið á um að mál skuli vera nægjanlega upplýst áður en mál sé höfðað til sviptingar forsjár. Ekki liggi fyrir álit óháðs sérfræðings um að það sé barninu sannarlega fyrir bestu að foreldrar verði sviptir forsjá, né heldur um áhrif þess að með þeim hætti verði slitið á tengsl þeirra og barnsins. Stefndi telji forsjársviptingu skaðlega barninu og einungis til þess fallna að raska högum þess ef litið sé til ungs aldurs þess.                 Varakrafa stefnda byggist á sömu röksemdum og aðalkrafa. Ekkert í lögum bindi dóm við það að taka til greina kröfu stefnanda að öllu leyti eða engu.                 Þrautavarakröfu sína styðji stefndi við það að stefnda, K, sé mörgum kostum gædd. Hún hafi til lengri tíma náð að viðhalda edrúmennsku og þá annast um eldra barn sitt. Ekkert liggi fyrir um styrkleika hennar til að standa ein að uppeldi telpunnar.                 Verði fallist á kröfu stefnanda sé þess krafist að kveðið verði á um umgengni í dóminum. Í 74. gr. barnaverndarlaga sé fjallað um rétt foreldris til umgengni við barnið, nema það sé bersýnilega andstætt hagsmunum og þörfum þess. Stefndi áskilji sér rétt til þess að leggja fram tillögur sínar um umgengni við barnið.                 Í 3. og 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga komi fram að barnaverndarnefndir hafi úrskurðarvald um ágreiningsefni er varði umgengni. Stefndi byggi kröfu sína á því að hann telji óeðlilegt að sömu aðilar og standi að kröfu um forsjársviptingu eigi síðar að fjalla um rétt hans til umgengni, byggt á mati á hagsmunum og þörf barns. Ágreining um þann umgengnistíma eða rétt sem dómur ákveði sé þá heimilt að bera undir barnaverndarnefnd ef þurfa þykir. V                 Stefnandi byggir kröfu sína um að stefndu verði svipt forsjá dóttur sinnar, A, á a- og d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Samkvæmt þeim ákvæðum er barnaverndarnefnd heimilt að krefjast þess fyrir dómi að foreldrar skuli sviptir forsjá ef hún telur að daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum foreldra og barns sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þess og þroska eða ef fullvíst er að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska sé hætta búin sökum þess að foreldrar séu augljóslega vanhæfir til að fara með forsjána, svo sem vegna vímuefnaneyslu, geðrænna truflana eða greindarskorts eða að breytni foreldra sé líkleg til að valda barni alvarlegum skaða. Samkvæmt 2. mgr. 29. gr. skal því aðeins gera kröfu um sviptingu forsjár að ekki sé unnt að beita öðrum vægari úrræðum til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs.                 Stefndu byggja á því að skilyrðum a- og d-liða 1. mgr. 29. gr. laga nr. 80/2002 sé ekki fullnægt í málinu og að hægt sé að beita vægari úrræðum samkvæmt lögunum, svo sem 28. gr. þeirra, þar sem kveðið sé á um að unnt sé að vista börn utan heimilis tímabundið til allt að tólf mánaða í senn. Þá telja þau að skilyrði 1. mgr. 56. gr. laganna, um að mál skuli vera nægjanlega upplýst áður en mál sé höfðað til sviptingar forsjár, sé ekki fullnægt.                 Í 1. gr. barnaverndarlaga er kveðið á um réttindi barna og skyldur foreldra. Þar segir að börn eigi rétt á vernd og umönnun. Þau skuli njóta réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska. Foreldrum beri að sýna börnum sínum umhyggju og nærfærni og gegna forsjár- og uppeldisskyldum við þau svo sem best henti hag og þörfum þeirra. Þeim beri að búa börnum sínum viðunandi uppeldisaðstæður og gæta velfarnaðar þeirra í hvívetna. Samkvæmt 2. gr. laganna er markmið þeirra að tryggja að börn sem búi við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofni heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Leitast skuli við að ná markmiðum laganna með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það eigi við. Í 4. gr. laganna er kveðið á um ýmsar meginreglur sem gilda skuli í barnaverndarstarfi, meðal annars að beita skuli þeim ráðstöfunum sem ætla megi að séu barni fyrir bestu, en hagsmunir barna séu ávallt hafðir í fyrirrúmi. Barnaverndarstarf skuli stuðla að stöðugleika í uppvexti barna. Þá skuli þess gætt eftir föngum að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið sé til annarra úrræða. Þau skuli jafnframt ávallt miðast við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt. Því aðeins skuli gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti.                 Dóttir stefndu, sem nefnd hefur verið A, fæddist [...]og er því um níu mánaða gömul. Hún lýtur forsjá beggja foreldra sinna. Stefndu voru í óskráðri sambúð frá árinu 2013 sem lauk á vormánuðum þessa árs. Á heimili þeirra bjó einnig sonur stefndu, K, frá fyrra sambandi, B, sem fæddur er í október 2003. A var vistuð á Vistheimili barna 10. febrúar sl., með samþykki stefndu, sbr. 25. gr. barnaverndarlaga, en þann 15. mars sl. var hún flutt á fósturheimili til tímabundinnar vistunar, sbr. 84. gr. laganna. Þann 1. apríl sl. var kveðinn upp úrskurður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur um vistun telpunnar á heimili á vegum nefndarinnar í tvo mánuði, sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga. Þar sem krafist var forsjársviptingar áður en vistunartíma lauk helst sú ráðstöfun þar til dómur liggur fyrir, sbr. 2. mgr. 28. gr. laganna.                 Í gögnum málsins kemur fram að stefndu eigi bæði langa sögu um neyslu fíkniefna. Þá hafi stefnda, K, einnig glímt við geðrænan vanda, átröskun og geðhvarfasýki og verið greind öryrki vegna þessa. Fram kemur að barnaverndaryfirvöld hafi haft afskipti af stefndu, K, allt frá árinu 2004, vegna sonar hennar, B, til desember 2012. Hann hafi verið vistaður utan heimilis frá janúar 2009 til apríl 2010 eftir að stefnda hafi fallið á vímuefnabindindi. Stefnda lýsti því fyrir dóminum að sonur hennar hefði einnig verið vistaður utan heimilis þrisvar sinnum, í stuttan tíma í senn, á árunum 2005, 2007 og 2008. B er nú vistaður tímabundið utan heimilis hjá fósturföður stefndu, K. Stefndu hafa bæði notið ýmiss konar stuðnings félagsmálayfirvalda allt frá árinu 2004.                 Afskipti barnaverndaryfirvalda af málefnum stefndu vegna dóttur þeirra hófust í október 2013, er stefnda, K, var ófrísk. Samkvæmt tilkynningu frá mæðravernd voru uppi áhyggjur af því að lífi eða heilsu barnsins væri hætta búin vegna lífernis móður. Fram kom að stefnda hefði ekki mætt í bókaðan tíma í mæðravernd og sónar 17. október og væri að flytja til [...]. Til hafi staðið að gera vímuefnaleit í skoðuninni. Þá hafi hún nokkrum sinnum ekki mætt í bókaða tíma í mæðravernd. Hún hafi verið í meðferð á geðdeild undanfarnar vikur vegna átröskunar og verið í viðtölum hjá hjúkrunarfræðingi á fíknigeðdeild vegna fíknihugsana. Starfsfólk geðdeildar hefði lýst áhyggjum vegna þess að stefnda hefði ekki mætt vel í prógramm vegna átröskunar og hætt að taka þau lyf sem henni hefðu verið ráðlögð. Þá hafi hún mætt strjált í viðtöl hjá hjúkrunarfræðingi á fíknigeðdeild.                 Þann 11. desember 2013 tilkynnti þjónustumiðstöðin Miðgarður um að stefndu og B væru flutt aftur til Reykjavíkur og byggju við bágar aðstæður. Drengurinn væri hjá fósturföður stefndu, K, en stefndu, K og M, hefðu sofið einhverjar nætur í bifreið sinni. Þann 18. desember fékk stefnda, K, úthlutað félagslegu húsnæði á [...] í Reykjavík, þar sem hún býr enn.                 Stefndu, K, var vísað til stuðnings í FMB teymi Landspítalans (foreldrar meðganga barn). Í vottorði mæðraverndar, 23. desember sl., kemur fram að fíkniefnapróf sem tekin voru af stefndu á meðgöngunni hafi öll reynst neikvæð. Dóttir stefndu hafi fæðst 22. desember og verið 11 merkur. Stefnda, K, hafi ákveðið að hafa hana ekki á brjósti þar sem hún ætlaði að fara aftur á geðlyf sem hún hafi verið á fyrir þungun. Þá kemur fram að stefnda, K, hafi virst í ágætu jafnvægi daginn eftir fæðinguna. Hún virtist vera sæl og bera sig eftir leiðbeiningum um pelagjöf og umönnun barnsins.                 Fram kemur í gögnum málsins að ljósmóðir mæðraverndar hafi haft samband við barnavernd 13. janúar sl. vegna áhyggna af stefndu og börnum hennar. Taldi ljósmóðir hana illa stefnda og sýna pirring gagnvart telpunni og stefnda, M. Þegar haft var símasamband við stefndu þremur dögum síðar kom fram að hún hefði hafið töku á lyfjum sínum að nýju, en þau hefðu virkað öfugt á hana og hún væri þunglynd. Hún hefði því aftur hætt töku lyfjanna. Þá afþakkaði stefnda þjónustu á geðdeild Landspítalans þar sem hún væri ekki sátt við hana og ætlaði að finna sér nýjan geðlækni.                 Í vottorði heilsugæslu vegna ungbarnaeftirlits, 22. janúar sl., kom fram að telpan dafnaði vel. Foreldrarnir hugsuðu bæði vel um barnið. Þau væru dugleg að spyrja og leita sér ráða. Hins vegar kom fram að miklar áhyggjur væru af heilsufari stefndu, K, og aðstæðum. Hún reykti talsvert og nærðist mjög illa. Hún ætti að vera á geðlyfjum vegna sjúkdóms síns, tæki ekki lyfin. Hún greindi frá slæmri andlegri líðan og áhyggjum af fjárhagsstöðu. Hún væri án síma og hefði mjög slakt stuðningsnet.                 Þann 10. febrúar sl. var haft símasamband við stefnda, M. Hann lýsti því að stefnda, K, hefði fallið tíu dögum fyrr og neytti nú vímuefna á heimili þeirra. Hann viðurkenndi sjálfur að hafa neytt kannabis, en stefnda væri komin í sprautuneyslu. Hann kvaðst hafa séð um börnin einn þar til óforsvaranlegt hafi verið að hafa þau á heimilinu. Hann upplýsti um að hann hefði farið með drenginn til fósturföður stefndu, en telpuna til föður síns. Í framhaldi var farið á heimilið. Stefnda vaknaði ekki við dyrabjöllu, en svaraði síma. Hún viðurkenndi fíkniefnaneyslu og kvaðst hafa sprautað sig með amfetamíni, metamfetamíni og rítalíni. Þau hafi bæði notað kókaín nokkrum dögum fyrr og hún væri einnig að drekka spritt. Hún kvaðst tilbúin að fara í meðferð og ætlaði að fara á bráðamóttöku geðsviðs Landspítala samdægurs. Ekki varð hins vegar af því. Eins og greint hefur verið frá hér að framan var dóttir stefndu þennan sama dag vistuð á Vistheimili barna með samþykki þeirra.                 Í kjölfarið fór stefnda, K, í afeitrun á deild 33A á Landspítala og því næst á deild 33C þar sem unnið var að tengslaeflingu milli hennar og dóttur hennar. Samkvæmt gögnum málsins féll stefnda fljótlega aftur í neyslu. Hún fór aftur í meðferð frá lokum mars til byrjunar maí, en féll að nýju skömmu síðar. Hún fór enn í meðferð í júní og hefur haldið bindindi frá þeim tíma.                 Stefnandi kveður að óskað hafi verið eftir forgangi fyrir stefnda, M, á Vog, en stefndi kveðst hafa farið þangað og enginn hafi kannast við erindið. Hann fór í meðferð í mars, en kveðst hafa hætt allri neyslu í júní sl.                 Stefnda, K, greindi frá því fyrir dóminum að hún væri edrú frá því í júní sl. Hún sækti sálfræðiviðtöl, færi á AA-fundi og væri á biðlista fyrir Hvítabandið. Hún væri að byggja upp tengsl við fjölskyldu sína. Hún væri á þyngdaraukandi lyfjum og myndi þiggja pláss á Hvítabandinu yrði henni boðið það. Hún væri einnig komin á lyf vegna geðrænna erfiðleika sinna. Þá hefði hún hugsað sér að sækja nám í menntaskóla. Hún kvaðst myndu þiggja alla þá aðstoð sem henni væri boðin og myndu leita sér hjálpar hjá FMB-teyminu héldi hún forsjá dóttur sinnar. Hún hafi áður fengið „stuðninginn heim“ og haft tilsjónarkonu sem hafi gengið vel. Hún kvað erfiðar aðstæður sínar hafa valdið því að hún hafi fallið á fíkniefnabindindi í byrjun febrúar sl. Hún hafi ekki verið að taka lyfin sín. Það hefðu verið samskiptaörðugleikar í sambandi hennar við stefnda, M, og fjárhagserfiðleikar. Hún hafi ekki hvílst vel eða borðað nægilega. Hún telji sig hins vegar geta náð bata. Stefnda kvað samband sitt við son sinn mjög gott og vel hafi gengið í heimsóknum til dótturinnar.                 Stefndi, M, lýsti erfiðum uppeldisaðstæðum sínum fyrir dóminum og fíkniefnaneyslu. Hann kvaðst telja að kannabisneysla hafi bjargað sér frá geðveiki. Hann lýsti því þegar stefnda féll í upphafi ársins. Vel hafi gengið hjá þeim að sjá um dóttur þeirra fram að því. Hann skýrði frá því að ástæða þess að hann hafi lítið verið hjá dóttur sinni á vistheimilinu hafi verið sú að hann hafi verið í fráhvörfum og honum hafi ekki fundist rétt að vera í því ástandi innan um börn. Stefndi kvaðst nú búa á [...] þar sem hann leigði íbúð með vini sínum sem væri AA-maður. Þá hefði hann stuðning frá fyrrverandi tengdamóður sinni sem búi á Skagaströnd. Hann kvaðst hafa verið edrú í tvo mánuði. Hann ynni í edrúmennsku sinni með því að fara í gönguferðir, hreyfa sig mikið, borða reglulega og skrifa dagbók. Hann fari tvisvar í viku á AA-fundi og tali við félagsráðgjafa og sálfræðing. Þá sé hann að reyna að fá tíma hjá geðlækni. Hann kvaðst reiðubúinn að gera hvaðeina sem þyrfti til. Hann væri tilbúinn til að fara í langtímameðferð og afsala sér forsjá í eitt til tvö ár. Hann taldi sig þó ekki þurfa á áfengis- og vímuefnameðferð að halda, en hann þyrfti á sálfræðimeðferð að halda til þess að taka á vandamálum sínum. Umfram allt vildi hann fá að vera þátttakandi í lífi dóttur sinnar. Hann kvaðst ósáttur við barnaverndaryfirvöld þar sem ekki hafi verið hlustað á tillögur hans og hann hafi einungis einu sinni fengið umgengni við dóttur sína.                 Undir meðferð málsins var D sálfræðingur dómkvaddur til þess að meta forsjárhæfni stefndu. Í niðurstöðum matsgerðar hans kemur fram að stefnda, K, uppfylli greiningarskilmerki áfengis- og vímuefnaröskunar. Samkvæmt greiningarviðtali og útfylltum matslistum uppfylli hún hins vegar ekki greiningarviðmið annarra geðgreininga, en fyrir liggi að hún hafi verið greind með geðhvarfasýki, átröskun og jaðarpersónuleikaröskun. Hún hafi glímt við kvíða og þunglyndi til margra ára en hafi verið í ágætu jafnvægi á meðan á matinu hafi staðið, þrátt fyrir streitu vegna núverandi ástands. Stefnda virðist búa yfir mikilvægum styrkleikum í uppeldislegu tilliti þrátt fyrir langvarandi erfiðleika. Hún hafi ágætt innsæi gagnvart erfiðleikum sínum. Hún hafi unnið heilmikla sjálfsvinnu og virðist hafa burði til að tileinka sér meðferðarstarf. Þá virðist hún hafa verið fær um að leita sér aðstoðar þegar hún hafi átt bakslög í neyslu og talið aðbúnað sonar síns óviðunandi. Stefnda hafi greinilega náð að mynda góð tengsl við son sinn. Hún virðist, þegar hún hafi verið allsgáð, hafa verið næm á andlegar og líkamlegar þarfir sonar síns. Hún tjái eðlileg viðhorf og viðmið til barnauppeldis og virðist fær um að mæta aldurssamsvarandi þörfum þegar hún sé í jafnvægi. Hún virðist búa yfir eðlilegri greind þar sem hún búi yfir góðum grundvallareiginleikum eins og félagslegri dómgreind og almennri skynsemi þó hún hafi sýnt af sér bæði sjálfmiðaða og dómgreindarlausa hegðun þegar hún hafi verið í neyslu.                 Veikleikar stefndu varðandi forsjárhæfni séu ýmsir og vafalítið langvarandi neyslusaga þar sem hún hafi sprautað sig í æð með amfetamíni og rítalíni. Hún eigi margar innlagnir að baki á meðferðarstofnanir og hafi endurtekið fallið á vímuefnabindindi þó svo hún hafi náð 3-4 ára bindindi inn á milli. Hún hafi verið tilfinningalega óstöðug og eigi langa sögu um tilfinningalega erfiðleika, kvíða og þunglyndi og hafi glímt við átröskun. Þá hafi hún verið greind með væga geðhvarfasýki árið 2007. Hún hafi verið í þokkalegu jafnvægi eftir að hún hafi fengið viðeigandi lyfjameðferð. Brestir í skapgerð og persónuleika hafi verið skilgreindir á geðsviði Landspítala. Þau persónuleikaeinkenni séu líkleg til að auka á dýpt og varanleika vandans og þar með torvelda meðferðarárangur. Ljóst megi vera að þeir veikleikar sem séu til staðar rýri forsjárhæfni stefndu verulega, þrátt fyrir að hún búi yfir ýmsum styrkleikum. Hvað framtíðarforspá varði verði því miður að segja að líkur á bakslagi verði að teljast umtalsverðar í ljósi forsögunnar. Haldi hún hins vegar bindindi búi hún yfir viðunandi forsjárhæfni og getu til að búa börnum sínum viðeigandi uppeldisskilyrði, en það sé algerlega háð því að hún haldi áfengis- og vímuefnabindindi. Falli hún í neyslu sé ljóst að leiðir hennar og barnanna muni skilja til frambúðar.                 Varðandi stefnda, M, kemur fram í matsgerðinni að hann hafi nokkra styrkleika í uppeldislegu tilliti. Hann virðist fær um að mynda tilfinningaleg tengsl og taka ábyrgð á hagsmunum barna sinna þegar illa gangi. Hann hafi til að mynda tekið frumkvæði og farið sjálfur með dóttur sína út af heimilinu þegar hann hafi talið aðbúnað hennar óviðunandi og sagt frá því þegar stefnda hafi fallið í neyslu. Hann hafi virst opinn, heiðarlegur og samviskusamur í samskiptum. Hann hafi til að mynda virst draga lítið undan í því skyni að fegra ímynd sína, sem sé algengt í málum sem þessum. Hann hafi fengið góða umsögn frá fyrri barnsmóður sinni. Hins vegar hefðu lítil samskipti verið við hann undanfarin tvö ár þar sem erfiðleikar hans hefðu aukist. Stefndi hafi verið opinn og einlægur í matsvinnu og virst hafa ágætt innsæi hvað varði alvarleika málsins. Hann virðist raunsær gagnvart eigin stöðu og viðurkenni að hann treysti sér ekki til að taka ábyrgð á barnauppeldi eins og staðan sé í dag. Þá virðist hann búa yfir greind í meðallagi og hafi þannig margvíslega góða eiginleika, eins og ágæta hæfni til rökleiðslu og ályktunarfærni.                 Margvíslegir þættir rýri hins vegar forsjárhæfni stefnda. Hann eigi langa og alvarlega neyslusögu að baki allt frá barns- og unglingsaldri. Hann eigi fjölda innlagna á meðferðarstofnanir að baki og hafi ítrekað fallið á vímuefnabindindi. Viðhorf hans til neyslu kannabisefna hafi verið þess eðlis að hann hafi ekki fyrr en nýlega látið af daglegri neyslu. Hann virðist með neyslu sinni hafa viðhaldið vítahring alvarlegra geðrænna erfiðleika, kvíða, þunglyndis og áfallaröskunar. Stefndi glími við alvarlega geðræna erfiðleika þar sem samsláttur ýmissa geðgreininga fari saman. Hann uppfylli greiningarskilmerki áfallaröskunar, kvíða, þunglyndis og vímuefnaröskunar. Félagslegur aðlögunarvandi og hegðunarerfiðleikar hafi verið til staðar í mörg ár. Stefndi uppfylli greiningarskilmerki andfélagslegrar persónuleikaröskunar. Þol hans gagnvart mótlæti sé lítið. Hann lýsi miklum skapsveiflum sem hann hafi lengi vel haldið í skefjum með fíkniefnaneyslu. Hann lýsi reiðistjórnunarvanda og samskiptaerfiðleikum og gangist við hegðun og viðhorfum sem víki talsvert frá hefðbundnum félagslegum gildum og virðist í gegnum tíðina hafa haft tilhneigingu til að hegða sér á siðferðilega rangan og óábyrgan hátt. Hann hafi verið óstöðugur í vinnu og hafi að eigin sögn oft komið sér í vanda í samskiptum við vinnuveitendur vegna skapgerðarbresta, mótþróa og ögrandi hegðunar. Hann hafi í einkalífi haft tilhneigingu til félagslegrar einangrunar, kvíða og vanlíðunar. Eins og staðan sé í dag sé mikill óstöðugleiki í félags- og tilfinningalífi stefnda. Hann sé í mikilli endurhæfingar- og meðferðarþörf. Hann hafi sýnt vilja til að taka á sínum málum, hafi haldið sig frá fíkniefnum í tvo mánuði og stundi reglulega fundi. Hann sé nýlega kominn í vinnu og hafi sest að á [...] þar sem hann telji sig betur í stakk búinn til að viðhalda bindindi. Erfiðleikar hans virðist hins vegar vera af þeirri stærðargráðu af forsjárhæfni hans sé verulega skert. Eins og staðan sé í dag virðist hann engan veginn fær um að taka ábyrgð á ungu barni, hvað sem síðar verði. Þá kemur fram að langvarandi dagleg kannabisneysla hafi verulega skert hæfni stefnda til að takast á við foreldrahlutverkið, en hafa beri í huga að erfiðleikar hans einskorðist ekki við það að hann hafi reykt kannabis.                 Sálfræðingurinn lýsti því fyrir dóminum að stefndu ættu við flókinn samsettan vanda að etja, sem ætti sér langa sögu. Eins og málin stæðu væri stefndi, M, í mikilli meðferðarþörf, ekki bara vegna fíkniefna, heldur líka vegna andlegrar heilsu. Aðbúnaður hans í dag væri þannig að hann væri ekki í stöðu til að taka við ungu barni. Hvað stefndu, K, varði þá sé hún í meira jafnvægi um þessar mundir. Hún hafi í greiningarviðtali og matslistum ekki uppfyllt greiningarviðmið geðgreininga, en miðað hafi verið við síðustu sex vikurnar áður. Hún hafi tekið áræðnari skref í að sinna meðferð og virtist vera að gera það ágætlega um þessar mundir. Hún þurfi fíknimeðferð og meðferð innan Hvítabandsins, þar sem unnið sé með átröskunarsjúkdóm hennar og ákveðna þætti í persónuleika hennar. Saga hennar sé grafalvarleg, en þó geti hún staðið upp og staðið undir sér. Sonur hennar virðist vel gerður og hafa myndað góð tengsl við móður sína þrátt fyrir mikla erfiðleika, en vitnið hafi framkvæmt tengslamat í tengslum við málefni drengsins. Hann væri í fóstri hjá fósturföður stefndu og mælt væri með því að hann væri þar a.m.k. til áramóta. Stefnda hafi ákveðna góða getu. Hún hafi þó mikla bresti, svo sem að falla í neyslu, vera fjarverandi og sjálfmiðuð og annað sem neyslunni fylgi. Ef horft sé til forsögunnar séu sannarlega miklir áhættuþættir á að sagan endurtaki sig. Þetta ráðist allt af því hvort stefnda haldi bindindi. Aðspurður kvaðst vitnið ekki geta fullyrt hvort sú aðstaða sem stefnda væri í í dag myndi auka líkurnar á því að hún myndi halda bindindi. Eins og sakir standi í dag sé barninu best komið hjá fósturforeldrum, enda hafi stefndu bæði þörf fyrir að ná mun betri stöðugleika. Ekki væri góður kostur að rjúfa nú tengsl sem hefðu myndast við fósturforeldra, en hann óskaði þess stefndu vegna að um einhverja umgengni væri að ræða.                 Stefnda, K, hefur leitað til G sálmeðferðarfræðings og í málinu liggur frammi vottorð hans, dags. 2. september sl. Í því kemur fram að stefnda, K, hafi undanfarið sótt viðtöl hjá honum. Hún hafi verið að kljást við persónulega erfiðleika um langt skeið og hafi fyrir vikið misst forræði yfir dóttur sinni. Þrátt fyrir erfiðleika hennar hafi hún ótvírætt sýnt miklar tilfinningar til barna sinna í viðtölum sem bendi til þess að hún sé tilfinningalega tengd þeim.                 Stefndu eiga bæði að baki mjög langa sögu um neyslu áfengis og fíkniefna. Stefndi, M, hóf neyslu áfengis við níu ára aldur árið 1993 og þróaðist neyslan fljótlega út í fíkniefni. Frá þeim tíma hefur hann lengst náð fjögurra mánaða bindindi. Stefnda, M, hóf neyslu árið 1994, við 14 ára aldur. Hún hefur átt einhver hlé frá neyslu, það lengsta í um fjögur ár, frá því að hún hóf meðferð sem lauk í apríl 2010 til upphafs árs 2014. Stefnda hefur einnig glímt við geðræna erfiðleika. Hún hefur átt við átröskun að stríða og sótt meðferðir vegna þess. Þá var hún árið 2007 greind með geðhvarfasýki og var árið 2010 metin öryrki af þeim völdum. Bæði stefndu hafa farið margoft í meðferðir. Stefndi, M, hefur sjálfur talið að hann hafi farið í meðferð um 15-20 sinnum. Á síðustu vikum hafa þau náð þeim árangri að halda sig frá vímuefnum, stefnda, K, í um þrjá mánuði, en stefndi, M, í um tvo mánuði.                 Stefnda, K, féll í neyslu í upphafi febrúar sl., þegar dóttir hennar var einungis örfárra vikna gömul. Þegar barnaverndaryfirvöld komu á staðinn 10. febrúar viðurkenndi hún að hafa sprautað sig með amfetamíni, metamfetamíni og rítalíni, auk þess að hafa notað kókaín og drukkið spritt. Hún var því komin í mjög harða neyslu á stuttum tíma. Hún kvaðst þá tilbúin til að fara í meðferð og hefði í hyggju að fara á bráðamóttöku geðsviðs Landspítalans. Hún fór ekki á spítalann eins og hún hafði lýst vilja til, en fór í meðferð 13. febrúar á deild 33A. Að lokinn afeitrun 21. febrúar stóð til að stefnda færi á deild 33C þar sem hún gæti verið ásamt dóttur sinni. Þar sem um föstudag var að ræða og innlagnir barna voru miðaðar við mánudag stóð stefndu til boða að vera á 33A yfir helgina en flytjast á deild 33C á mánudegi. Stefnda kvaðst þá vera orðin þreytt á innilokuninni og vilja fara heim yfir helgina og vera með dóttur sinni á vistheimilinu. Var stefndu báðum þá heimilt að vera með dóttur sinni alla helgina á vistheimilinu. Þau voru hins vegar hjá henni í klukkustund á föstudeginum, um fjórar klukkustundir á laugardegi og þrjár á sunnudegi.                 Mánudaginn 24. febrúar fór stefnda, K, með dóttur sína á deild 33C, og dvaldi þar til 28. sama mánaðar. Í vottorði læknis á deild 33C, dags. 15. apríl sl., kemur fram að stefnda hafi lýst því að hún næði ekki tengslum við dóttur sína. Ekki væru merki um geðrof, en hún væri ekki á lyfjum. Hún hafi verið mjög vannærð með lélega sjálfsmynd. Var talið að stefnda þyrfti að vinna með sálræna erfiðleika sína, t.d. á Hvítabandinu. Stefnda hefði hins vegar ekki áhuga á meðferð þar, en vildi gjarnan fá einstaklingsviðtöl hjá sálfræðingi. Niðurstaða læknis var að stefnda væri að kljást við umtalsverðan geðrænan og sálrænan vanda sem væri samsettur, það er fíknivanda, átröskun og sjálfsmyndarvanda, auk erfiðleika við að tengjast telpunni og erfiðleika í sambandi við barnsföður. Hún þyrfti á áframhaldandi meðferð að halda og aðstoð við tengsl, en ljóst væri að horfur hennar og framtíð réðust fyrst og fremst af því hvort hún næði stöðugleika frá fíknisjúkdómnum til að byrja með. Lagt hafi verið upp með áframhaldandi meðferð með lyfjum ásamt meðferð í FMB teyminu. Þá buðust stefndu einstaklingsviðtöl á vegum barnaverndar. Það var mat læknisins að vandi stefndu hefði mikil áhrif á hana í móðurhlutverkinu. Þó væri það einkum og aðallega fíknivandinn sem segja mætti að gæti gert hana vanhæfa til að annast um börn sín, yrði hann áfram virkur vandi. Aðrir þættir í veikindum hennar veikli hana sem móður og þarfnist athygli og aðstoðar, en myndu ekki einir og sér gera hana vanhæfa með öllu. Sjálfsmyndarvandi hennar og saga um erfitt samband við móður sína geri henni erfitt fyrir um að mynda tengsl.                 Í vottorði deildarstjóra og félagsráðgjafa á deild 33C, dags. 16. apríl sl., kemur fram að stefnda hafi verið móttækileg fyrir leiðsögn varðandi umönnun dóttur sinnar og það hafi fljótlega farið að ganga betur. Hún hafi hins vegar sagst vera óörugg og ekki höndla það þegar barnið gréti. Þá hafi henni fundist erfitt að vakna til barnsins á nóttunni. Talsvert hafi borið á eirðarleysi og stefnda hafi virst óróleg, stutt í spuna, með lélegt úthald til að sinna barninu og í mikilli spennu. Fram kemur að starfsfólk deildarinnar hafi reynt að sannfæra stefndu um að vera lengur á deildinni og þiggja tengslaeflandi vinnu með barnið. Hún hafi hins vegar ekki treyst sér til þess og kveðist vera komin með nóg af sjúkrahúsinu í bili og vilja komast heim til sín. Starfsfólk þar hafi metið það svo að stefnda þyrfti mikinn stuðning í framhaldinu til þess að valda foreldrahlutverkinu. Var gert ráð fyrir stuðningi FMB teymis til lengri tíma inni á Vistheimili barna. Þá var lagt upp með sálfræðiviðtöl í gegnum barnavernd og paraviðtöl fyrir bæði stefndu saman. Þau hafi hins vegar afboðað fyrsta tímann í paraviðtalið og ekki haft samband aftur. Þá kemur fram að svo hafi virst sem stefndu lægi mikið á að komast út af deildinni og heim til sín. Starfsfólkinu hafi ekki liðið vel með að útskrifa stefndu, nema af því að barnið hafi verið vistað á Vistheimili barna og hefja hafi átt ákafa meðferð með stefndu og tengsl hennar við barnið. Það var mat þeirra að verkleg færni stefndu til að annast barnið væri góð og henni hafi farið fram á meðan á innlögn hafi staðið. Hún hafi þó verið óörugg. Þær treysti sér ekki til að meta umönnunarhæfni hennar að öðru leyti þar sem til hafi staðið að hún færi í frekari tengslavinnu og betur væri hægt að meta hæfni hennar eftir hana. Hún hafi tekið leiðbeiningum vel og lagt sig fram að því marki sem henni var unnt miðað við andlega líðan, sem hafi ekki verið góð. Hún hafi þurft mikinn stuðning við umönnun barnsins í upphafi. Hæfni hennar hafi aukist, en ekki náð því að verða fullnægjandi eða góð í þann skamma tíma sem mæðgurnar hafi dvalið á deildinni.                 Næstu daga eftir dvöl á deild 33C heimsóttu stefndu bæði dóttur sína í stuttan tíma daglega og fóru tvisvar sinnum með hana út. Þeim stóð hins vegar til boða að vera með henni frá kl. 9 að morgni til kl. 21 að kvöldi. Stefndu voru boðuð í fíkniefnapróf þann 5. mars sl. en mættu ekki. Daginn eftir tilkynnti stefndi, M, barnavernd að þau hefðu bæði verið í neyslu frá útskrift stefndu, K, af sjúkrahúsinu 28. febrúar. Þau hefðu reykt kannabis og neytt MDMA og spítts. Degi síðar var stefndu báðum boðið pláss í meðferð, sem þau þáðu ekki. Þau þáðu hins vegar pláss sem þeim voru boðin nokkrum dögum síðar, 10. mars, en mættu ekki til meðferðarinnar. Ástand beggja stefndu á þessum tíma var alvarlegt og hafði lögregla afskipti af þeim þann 11. mars. Þann 12. mars fóru stefndu á bráðamóttöku Landspítalans og var stefndi, M, lagður inn á deild 33A. Hann fór í framhaldi af því í meðferð á Hlaðgerðarkoti. Stefnda, K, hélt áfram í neyslu, en þann 17. mars hringdi hún til lögreglu með ranghugmyndir. Hún fór í meðferð á Vogi og í kjölfarið á deild 33A á Landspítalanum 27. mars til 6. maí sl.                 Stefndu fengu að hitta dóttur sína þann 26. maí sl. og gekk það vel. Fyrir heimsóknina gengust þau undir vímuefnapróf. Við nánari rannsókn mældist rítalín hjá báðum stefndu og hafa þau viðurkennt að hafa þá verið komin í neyslu. Þann 5. júní barst tilkynning frá sálmeðferðarfræðingi um að stefnda, K, hefði ekki mætt í tíma til hans. Henni var veitt annað tækifæri til þess að mæta. Þann 7. júní var stefnda handtekin í slæmu ásigkomulagi og færð á geðdeild þar sem hún dvaldi til 18. júní. Stefnda fékk aftur að hitta dóttur sína, að undangengnu vímuefnaprófi, 12. júlí sl. og gekk sú umgengni vel. Ekki greindust vímuefni hjá stefndu.                 Eins og lýst hefur verið hér að framan voru stefndu veitt ítrekuð tækifæri til að taka á vanda sínum. Þeim voru boðin ýmis úrræði, svo sem fíkniefnameðferðir, sálfræðiviðtöl, pararáðgjöf, tengslaefling o.fl. Þau nýttu sér þessi úrræði ekki nema að takmörkuðu leyti. Stefndu var sérstaklega boðið upp á úrræði sem stuðluðu að tengslum þeirra við unga dóttur sína. Þeim stóð báðum til boða að dvelja með dóttur sinni á Vistheimili barna, auk þess sem stefnda, K, fékk að liggja með barnið inni á deild 33C á Landspítalanum þar sem unnið var að því að koma á tengslum milli hennar og barnsins og styrkja hana í umönnun þess. Hún þáði ekki boð um lengri dvöl þar, en fór af deildinni og hóf fíkniefnaneyslu. Stefndu voru bæði í neyslu frá þeim tíma og nýttu ekki vel möguleika sína á dvöl með barninu á vistheimilinu. Þá fóru þau með dóttur sína út af vistheimilinu á meðan þau voru í neyslu.                 Stutt er síðan stefndu náðu tökum á neyslu sinni. Stefndi, M, kveðst ekki hafa neytt fíkniefna í tvo mánuði. Hann hefur hins vegar ekki farið í meðferð og telur sig ekki þurfa á fíkniefnameðferð að halda, einungis sálfræðimeðferð. Dómurinn telur ljóst að stefndi sé í mikilli þörf fyrir meðferð. Mikilvægt sé að hann leiti sér meðferðar vegna vímuefnavanda, auk sálræns vanda, en án þess sé vonlítið um árangur. Ljóst er að stefndi á talsvert langt í land til þess að ná bata og ná þeim tökum á lífi sínu að hann sé fær um umönnun ungs barns. Þau skref sem stefndi hefur tekið til þess að koma lífi sínu á réttan kjöl eru jákvæð, en duga engan veginn til. Af gögnum málsins, og framburði þeirra sem gáfu skýrslu fyrir dómi, þykir sýnt að hæfni stefnda til þess að annast um ungt barn er mjög skert. Er það einkum af völdum vímuefnaneyslu, en einnig vegna andlegra erfiðleika, kvíða, þunglyndis og áfallaröskunar.                 Vandi stefndu, K, er víðtækur og langvarandi, en án vafa á fíkniefnaneysla þar stærstan þátt. Stefnda hefur, eins og að framan greinir, átt við margvíslega geðræna erfiðleika af alvarlegum toga að stríða og hefur verið metin öryrki af þeirra völdum. Stefnda hefur ekki neytt fíkniefna í um þrjá mánuði, eða frá því hún lauk meðferð í júní sl. Hún kveðst nú sækja AA-fundi og vera í sálfræðimeðferð. Samkvæmt framangreindu vottorði sækir hún meðferð hjá sálmeðferðarfræðingi, en ekki er um meðferð við fíknivanda hennar að ræða. Þá kemur fram í gögnum málsins að stefnda hefur ekki mætt til áfengisráðgjafa á Landspítala eins og lagt var upp með. Stefnda er enn á biðlista til þess að komast að hjá Hvítabandinu, þar sem í boði er sérhæfð meðferð sem hentar hennar þörfum, en hún virðist ekki hafa sótt það fast að komast þangað. Eins og að framan greinir féll stefnda í fíkniefnaneyslu í þrígang eftir fæðingu dóttur sinnar og var hún fljótt komin í alvarlega neyslu, þrátt fyrir að hafa haldið bindindi í nokkur ár fram að þeim tíma. Af gögnum málsins og framburði fyrir dómi er ljóst að hæfni stefndu til þess að annast dóttur sína er mjög skert af völdum langvarandi vímuefnaneyslu, auk þeirra andlegu erfiðleika sem hún á við að etja.                 Eins og að framan greinir er mjög stutt síðan bæði stefndu hættu neyslu vímuefna. Þá var um fleiri en eitt fall að ræða hjá þeim á síðustu mánuðum. Verður því að telja ótvírætt að þau séu bæði í þó nokkurri hættu á að falla aftur í neyslu vímuefna enn um sinn. Ljóst þykir að stefndu þurfa bæði mun lengri tíma til þess að ná þannig tökum á lífi sínu að þeim sé unnt að veita ungri dóttur sinni öruggar uppeldisaðstæður. Það er álit sérfræðinga sem komið hafa að málefnum stefndu að þau þurfi bæði að gangast undir langvarandi vímuefnameðferð og að henni lokinni meðferð vegna margvíslegra geðrænna vandamála. Stefndu virðast þó hvorugt sýna alvarleika vanda síns fullnægjandi skilning og vera tilbúið að sinna meðferð sem sérfræðingar mæla með.                 Stefnda hefur forsjá sonar síns, B, sem fæddur er árið 2003. Eins og að framan greinir hafa barnaverndaryfirvöld haft afskipti af málefnum hans frá árinu 2004. Dómurinn telur að stefnanda hefði verið rétt að leggja fram nánari gögn í málinu um son stefndu, en við aðalmeðferð málsins kom fram að unnið hefði verið tengslamat milli stefndu og sonar hennar, þar sem málefni hans væru einnig til meðferðar hjá stefnanda. Fram kom þó að um vel gerðan dreng er að ræða sem er tengdur stefndu. Hins vegar hefur komið fram að hann hefur verið vistaður utan heimilis a.m.k. fimm sinnum, að meðtalinni núverandi vistun hans.                 A, dóttir stefndu, hefur verið vistuð á heimili á vegum Barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá því hún var nokkurra vikna gömul, en þá hafði stefnda verið í neyslu fíkniefna í u.þ.b. tíu daga. Stefndi hugsaði um dóttur sína þennan tíma, en hefur viðurkennt að hafa neytt einhverra fíkniefna á þeim tíma. Ljóst er af gögnum málsins að stefndi annaðist um dóttur sína og myndaði tengsl við hana. Stefnda, K, virðist hins vegar frá upphafi hafa átt erfitt með að tengjast dóttur sinni, en hún virðist hafa átt við mikla vanlíðan að stríða eftir fæðingu hennar. Hún leitaði aðstoðar vegna þessa, en virðist þó ekki hafa getað nýtt sér hana nægjanlega. Þá nýttu stefndu sér takmarkað möguleika sína á því að vera hjá dóttur sinni á meðan hún dvaldi á Vistheimili barna. Ljóst er að hluta þess tíma voru stefndu í neyslu og þegar það uppgötvaðist var tekið fyrir heimsóknir þeirra. Stefndi fékk að hitta dóttur sína einu sinni í mars, er hann hafði lokið afeitrun. Stefndu fengu svo bæði umgengni við hana í maí í klukkustund og stefnda ein í júlí. Allar þessar heimsóknir gengu vel fyrir sig. Eftir heimsóknina í maí kom þó í ljós að stefndu höfðu bæði neytt rítalíns. Samkvæmt framangreindu hafa stefndu lítið komið að umönnun dóttur sinnar frá fæðingu hennar.                 Öll börn þarfnast umhyggju, öryggis og stöðugleika í umhverfi sínu. Á fyrsta ári er þetta sérlega mikilvægt, en þá byrjar barn að mynda geðtengsl við nánustu umönnunaraðila sína. Eru slík tengsl ákaflega mikilvæg og nauðsynlegur grundvöllur fyrir áframhaldandi þroska barnsins. Mikilvægt er að stuðlað sé að því að þetta ferli fái að þróast án þess að rof verði þar á. Við tengslarof skapast hætta á margvíslegum misfellum í þroska og tengslarof er veruleg ógn við geðheilsu barns. Eins og fram hefur komið sýndi stefnda, K, ekki skilning né áhuga á að vinna með tengsl sín við barnið þegar það var boðið á vegum geðdeildar LSH. Vegna lítilla samskipta við barnið hafa ekki náðst að myndast frumgeðtengsl á milli barns og stefndu, K. Þá hefur orðið rof á tengslum milli barnsins og stefnda, M. Samkvæmt gögnum málsins hefur barnið hins vegar tengst fósturforeldrum sínum afar vel.                 Stefndu telja að ekki hafi verið gætt meðalhófs í málinu, en rétt hefði verið að beita vægari úrræðum, svo sem tímabundinni vistun barnsins. Þá hafi þeim ekki verið gefin nægjanleg tækifæri til þess að bæta ráð sitt og tengjast barninu. Dómurinn telur að ráðið verði af gögnum málsins að stefndu hafi í reynd báðum verið veitt fjölmörg tækifæri til þess að leita meðferðar við fíkniefnavanda sínum og andlegum erfiðleikum til þess að þeim væri kleift að sinna uppeldishlutverki sínu. Þau féllu hins vegar ítrekað á bindindi sínu. Þá bera gögn málsins með sér að allt hafi verið gert til að aðstoða stefnda, M, við að halda tengslum við dóttur sína og aðstoða stefndu, K, við að koma á tengslum við hana, á meðan á dvöl hennar á Vistheimili barna og deild 33C stóð. Þær tilraunir báru hins vegar ekki árangur. Hagsmunir svo ungs barns sem dóttir stefndu er krefjast þess að hún komist sem fyrst í öruggt umhverfi og geti myndað tengsl við umönnunaraðila sína. Þar eð í ljós kom að stefndu voru fallin í neyslu á ný í byrjun mars þykir ekki hafa verið forsvaranlegt að reyna lengur að viðhalda eða koma á tengslum milli barnsins og stefndu.                 Stefnandi gerir ekki kröfu um málskostnað. Rétt þykir að hver aðila beri sinn kostnað af málinu. Stefndu hafa bæði gjafsókn í málinu, sbr. bréf innanríkisráðuneytisins, dags. 21. júlí og 22. september sl.                 Gjafsóknarkostnaður stefndu, K, sem er málflutningsþóknun lögmanns hennar, Gunnhildar Pétursdóttur hdl., 950.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.                 Gjafsóknarkostnaður stefnda, M, sem er málflutningsþóknun lögmanns hans, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 1.050.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tilliti til virðisaukaskatts.                 Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn ásamt meðdómendunum Guðfinnu Eydal og Helga Viborg sálfræðingum. D Ó M S O R Ð :                 Stefndu, M og K, eru svipt forsjá dóttur sinnar, A, kt. [...].                 Málskostnaður fellur niður.                 Gjafsóknarkostnaður stefndu, K, sem er þóknun lögmanns hennar, Gunnhildar Pétursdóttur héraðsdómslögmanns, 950.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.                 Gjafsóknarkostnaður stefnda, M, sem er þóknun lögmanns hans, Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, 1.050.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.                                                                                              
Mál nr. 634/2014
Skaðabætur Slysatrygging Sjómaður Líkamstjón Vextir Fyrning Gjafsókn
A höfðaði mál á hendur T hf. til greiðslu bóta vegna líkamstjóns sem hann hlaut við störf um borð í skuttogara í desember 2007. Hæstiréttur leysti úr ágreiningi um frádrátt vegna greiðslna úr lífeyrissjóði og um vexti og dráttarvexti af skaðabótakröfunni. Talið var að T hf. hefði verið rétt að draga frá bótum A vegna slyssins 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði, sbr. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, og var T hf. að virtum útreikningi og útskýringum tryggingastærðfræðings á þeirri fjárhæð sem koma ætti til frádráttar á þeim grunni talinn hafa sýnt nægilega fram á réttmæti útreikningsins. Var T hf. því sýknaður af kröfu A um frekari bætur vegna varanlegrar örorku og miska af völdum slyssins. Við uppgjör bótanna á grundvelli yfirmatsgerðar hafði T hf. einungis greitt vexti af höfuðstól þeirra samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga og bar því við að krafa um eldri vexti væri fyrnd. Var T hf. sýknaður af kröfu um frekari vexti með skírskotun til fjögurra ára fyrningartíma samkvæmt 2. tölul. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda sökum þess að fyrningu hefði fyrst verið slitið við málshöfðun í október 2012. Þá var upphafstími dráttarvaxta ákveðinn eftir almennri reglu 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Ágreiningur um bætur fyrir sjúkrakostnað A og annað fjártjón hans kom ekki til úrlausnar fyrir Hæstarétti, þar sem héraðsdómur hafði vísað þeim hluta kröfunnar frá dómi og A kærði ekki þá úrlausn sérstaklega.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Viðar Már Matthíasson . Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. september 2014. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 18.074.771 krónu með 4,5% ársvöxtum frá 12. desember 2007 til 23. júní 2012, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum stefnda 15. apríl 2013 að fjárhæð 3.000.000 krónur, 6. desember sama ár að fjárhæð 12.136.202 krónur og 7. maí 2014 að fjárhæð 575.824 krónur. Þá krefst áfrýjandi hækkunar á dæmdum málskostnaði í héraði og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí 2014. I.                 Mál þetta, sem var dómtekið að loknum endurflutningi 26. júní sl. er höfðað af A, […], gegn Tryggingamiðstöðinni hf., Síðumúla 24, Reykjavík, með stefnu birtri 10. október 2012.          Endalegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða stefnanda 18.074.771 kr. með 4,5% ársvöxtum frá slysdegi, 12. desember 2007 til 23. júní 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum stefnda, 3.000.000 kr. þann 15. apríl 2013 og 12.136.202 kr. þann 6. desember 2013. Til vara er þess krafist að stefnufjárhæðin [svo] beri dráttarvexti frá þingfestingardegi til greiðsludags, að frádregnum fyrrnefndum innborgunum. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda eins og málið sé ekki gjafsóknarmál.           Endalegar kröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað II. Málavextir Málavextir eru þeir að stefnandi varð hinn 12. desember 2007 fyrir slysi um borð í […] en hann starfaði þar sem […]. Útgerðarfélagið var tryggt hjá stefnda sem viðurkenndi bótaskyldu í málinu og var læknunum B og C falið að meta líkamstjón stefnanda með sameiginlegri beiðni beggja aðila. Í matsgerð þeirra frá 12. janúar 2009 var varanlegur miski stefnanda metinn 30 stig og varanleg örorka 55%. Á grundvelli matsgerðarinnar var tjón stefnanda gert upp í apríl 2009. Af hálfu þáverandi lögmanns stefnanda var gerður fyrirvari um rétt tjónþola til frekari bóta yrði varanleg örorka og/eða miski síðar metinn hærri en samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð. Eftir að framangreint uppgjör hafði farið fram taldi stefnandi sig hafa orðið fyrir frekari tjóni vegna slyssins. Af því tilefni óskaði núverandi lögmaður hans eftir mati þar að lútandi frá sérfræðingunum D bæklunarlækni og E, sérfræðingi í líkamstjónarétti. Stefndi hafnaði aðkomu að endurmatinu. Í mati sérfræðinganna, frá 23. maí 2012, er varanlegur miski stefnanda metinn 45 stig og varanleg örorka 90%. Stefnandi krafði stefnda sama dag um frekari bætur á grundvelli matsins. Ekki liggja fyrir í málinu afgerandi svör frá stefnda vegna kröfunnar en hann fór hann fram á það 19. september 2012 að dómkvaddir yrðu sérfræðingar til að láta í té álit um varanlegar afleiðingar slyssins. Hinn 9. nóvember 2012 voru F bæklunarlæknir og G lektor dómkvaddir til að framkvæma hið umbeðna mat. Í millitíðinni höfðaði stefnandi mál þetta. Í mati hinna dómkvöddu matsmanna frá 8. apríl 2013 er varanlegur miski stefnanda metinn 35 stig og varanleg örorka 75%. Í kjölfarið greiddi stefndi stefnanda 3.000.000 kr. Stefnandi fór fram á að dómkvaddir yrðu þrír sérfræðingar til að framkvæma yfirmat og voru H bæklunarskurðlæknir, I lögfræðingur, og J prófessor dómkvaddir til starfans 5. júní 2013. Í mati þeirra frá 21. október 2013 er varanlegur miski stefnanda metinn 35 stig og varanleg örorka 80%. Í desember 2013 greiddi stefndi stefnanda bætur í samræmi við yfirmatið. Stefnandi tók við greiðslunni með fyrirvara um frádrátt vegna greiðslna frá lífeyrissjóðum, ársvaxta og dráttarvaxta, útlagðs kostnaðar og lögmannsþóknunar. Stefndi greiddi síðar stefnanda viðbótarvexti þar sem í ljós kom að ársvextir höfðu verið reiknaðir til of skamms tíma. II. Málsástæður stefnanda Af hálfu stefnanda er á því byggt að stefnda sé óheimilt að draga frá skaðabótum greiðslur til stefnanda úr lífeyrissjóði. Vísar stefnandi til þess að krafa hans byggist á sérstökum tryggingasamningi stefnda og útgerðar þess skips sem stefnandi hafi unnið á er hafi slasaðist, svokallaðri sjómannatryggingu (slysatryggingu sjómanna skv. kjarasamningi 16. maí 2001). Tryggingin byggist á úrskurði gerðardóms, skv. 2. grein laga nr. 34/2001 frá 30. júní 2001. Ekki sé á því byggt að útgerðin hafi sýnt af sér sök og sé skaðabótaskyld gagnvart stefnanda, heldur á því, að um sé að ræða slysaáverka, sem hið stefnda tryggingafélag hafi skuldbundið sig til að bæta á grundvelli 172. greinar siglingalaga og ákvæðum almennra kjarasamninga sjómanna, samanber þann tryggingasamning sem gerður hafi verið samkvæmt ofangreindum gerðardómsúrskurði. Geti því ekki orðið um frekari frádrátt að ræða, enda hafi áætlaðar bætur samkvæmt þágildandi 4. mgr. 5. greinar skaðabótalaga, þegar verið dregnar frá bótakröfum stefnanda. Ekki geti komið til endurskoðunar á þeirri bótaákvörðun nú, sbr. meginreglu 11. greinar skaðabótalaga, en enginn fyrirvari hafi verið gerður við uppgjörið að hálfu hins stefnda félags.                 Stefnandi byggir einnig á því að hann eigi rétt á að fá bótakröfu óskerta, þar sem 4. mgr. 5. greinar skaðabótalaga eigi aðeins við „hreinar skaðabótakröfur“. Slíkt eigi ekki við í þessu tilviki, þar sem hér sé í raun um að ræða samningsbundnar bætur, sem séu framlenging af launþegatryggingunni svonefndu, sem stoð hafi í 172. grein siglingalaga og framangreindum úrskurði (víðtæk launþegatrygging) og um leið kjarasamningsbundin tryggingarréttindi. Byggi stefnandi á því að hið stefnda félag leggi á útgerðir í landinu iðgjöld, sem séu byggð á ákveðinni tjónareynslu, sem og alla starfandi sjómenn þeirra útgerða sem tryggja hjá félaginu, sem útgerðin haldi síðan eftir af hlut viðkomandi sjómanns og greiði til félagsins. Þar af leiðandi geti hið stefnda félag ekki knúið stefnanda til að krefja aðra aðila um þær tryggingabætur, sem félagið hafi sjálft tekið sér á hendur að greiða stefnanda samkvæmt kjarasamningi og álagningu iðgjalda. Gerður hafi verið sérstakur slysatryggingasamningur milli útgerðarinnar og hins stefnda tryggingarfélags, sem byggi á ákveðnum skilmálum tryggingarfélagsins. Ekki sé hefðbundið í slíkum samningum að fram komi að bætur til tjónþola séu takmarkaðar eða að fyrir hendi sé sérstök ábyrgðartakmörkun. Ábyrgðartakmörkun hins stefnda félags í formi frádráttar, skv. þágildandi 4. mgr. 5. greinar skaðabótalaga sé því óheimil. Túlka verði vátryggingasamninginn (skilmála tryggingarinnar) stefnanda í vil að þessu leyti, samanber lög nr. 14/1995, sbr. og 1. mgr. 36. greinar b, laga nr. 7/1936 með síðari breytingum. Stefnandi vísar enn fremur til 122. greinar laga um vátryggingasamninga nr. 30/2004, þar sem fram komi sú meginregla, að ekki megi lækka bætur til vátryggðs, með greiðslum til tjónþola úr öðrum tryggingum, samanber einnig 49. grein sömu laga og greinargerð með lögunum.                 Stefnandi vísar til þess að þegar hafi verið dregnar frá þeim bótum sem hann hafi fengið framtíðarbætur frá lífeyrisjóðum, samkvæmt mati og útreikningi tryggingarstærðfræðings sem stefnandi hafi alltaf mótmælt sem röngum. Hið stefnda félag hafi sönnunarbyrði um allan hugsanlegan frádrátt frá bótakröfu stefnanda, samkvæmt grundvallarreglum um sönnun í skaðabótamálum.                 Stefnandi byggir á því að með því að draga ætlaðar bætur stefnanda frá  lífeyrissjóðum, í slíkum mæli sem gert sé, frá bótum fyrir varanlega örorku, sé verið að samsama bætur frá lífeyrissjóðunum við bætur frá tryggingarfélagi, sem sé óheimilt skv. grundvallarreglum vátryggingarréttar og lögum um vátryggingastarfsemi. Sé um það meðal annars vísað til 1. mgr. 5. greinar laga um vátryggingastarfsemi nr. 60/1994, sbr. nú lög nr. 56/2010. Ljóst sé að sú vátryggingaráhætta, sem hið stefnda tryggingarfélag hafi tekið að sér með álagningu iðgjalda á þá útgerð sem stefnandi vann hjá og stefnandi greiddi einnig, sé í raun ekki hjá viðkomandi vátryggingafélagi, þar sem tryggingarfélagið greiði aðeins hluta af bótum stefnanda fyrir varanlega örorku.                  Stefnandi byggir enn fremur á því að bætur hans frá lífeyrissjóðum séu bætur vegna algerrar skerðingar á vinnugetu, en ekki vegna læknisfræðilegrar örorku. Þá byggir stefnandi á því að Sjúkratryggingar Íslands hafi tekið stjórnvaldsákvörðun um bætur samkvæmt almannatryggingalögum og eigi stefnandi ekki rétt á frekari bótum úr þeim ranni eða frá Tryggingastofnun ríkisins, þar sem læknisfræðileg örorka stefnanda nái ekki 50 stigum.                 Stefnandi vísar til þess að hann hafi á sínum tíma tekið við bótum með öllum fyrirvara miðað við það sem síðar kæmi í ljós, varðandi miska og varanlega örorku. Byggir stefnandi, varðandi þessa málsástæðu, ekki á 11. grein skaðabótalaga, sem sé sérregla eins og staðfest hafi verið af Hæstarétti, heldur almennum reglum kröfuréttarins um rangar og brostnar forsendur sem og á þeirri meginreglu kröfuréttar að kröfuhafi, sem fengið hafi minna greitt en hann átti rétt á, eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt sé. Til vara byggir stefnandi kröfu sína um frekari greiðslu úr hendi stefnda á 11. grein skaðabótalaga.                 Endanleg dómkrafa stefnanda er um bætur fyrir varanlegan miska að fjárhæð 489.650 kr., bætur fyrir varanlega örorku að fjárhæð 16.084.199 kr. og sjúkrakostnað og annað tjón að álitum að fjárhæð 1.500.000 kr. Samtölu þessa kveður stefnandi vera 18.074.771 kr. en rétt samtala er aðeins lægri eða 18.073.849 kr. Til frádráttar bótum dregur stefnandi innborganir stefnda, 3.000.000 kr. þann 15. apríl 2013 og 12.136.202 kr. þann 6. desember 2013.                 Hvað varðar kröfu um dráttarvexti vísar stefnandi til þess að hann hafi sent stefnda kröfubréf á grundvelli sérfræðimatsgerðar 23. maí 2012. Sé því rétt að miða upphafstíma dráttarvaxta við 23. júní sama ár, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um lagarök að öðru leyti vísar stefnandi til laga nr. 34/2001, sbr. úrskurð gerðardóms sbr. 2. gr. laga nr. 34/2001 frá 30. júní 2001. Þá vísar stefnandi til 172. gr. siglingalaga og þeirra kjarasamninga sem stefnandi er aðili að. Krafan um málskostnað er reist á 129. grein og 130. grein laga nr. 91/1991. Málsástæður stefnda                 Af hálfu stefnanda er vísað til þess að samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 skuli m.a. draga frá skaðabótakröfu bætur frá Tryggingastofnun (sjúkratryggingar) og 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði og skuli við útreikninginn miðað við 4,5% ársávöxtun. Þegar tjón stefnanda hafi verið gert upp árið 2009 hafi greiðslur frá Tryggingastofnun (sjúkratryggingar) og lífeyrissjóði verið dregnar frá eins og kveðið sé á um í skaðabótalögunum.                 Stefndi hafnar greiðsluskyldu vegna útlagðs sjúkrakostnaðar o.fl. á þeim grunni að krafan sé með öllu órökstudd.                 Við munnlegan málflutning vísaði stefndi til þess að vextir sem stefnandi krefst, til viðbótar þegar greiddum vöxtum, væru fyrndir. Þá taldi stefnandi ekki unnt að horfa til kröfu stefnanda frá 23. maí 2012, sem hafi byggst á matsgerð E og D frá sama degi, við ákvörðun um upphaf dráttarvaxta, þar sem stefnandi hafi aflað þeirrar matsgerðar einhliða. Þessum málsástæðum var ekki mótmælt af hálfu stefnanda sem of seint fram komnum.                 Stefndi hafnar kröfu stefnanda um frekari lögmannsþóknun. Stefndi samþykkir hins vegar að greiða stefnanda útlagðan kostnað annan en kostnað við öflun framangreindrar matsgerðar. IV. Niðurstaða          Í máli þessu deila aðilar um uppgjör vegna slyss sem stefnandi varð fyrir um borð í […], en hann starfaði þar sem […]. Áhöfn skipsins var á slysdegi slysatryggð hjá stefnda sem viðurkenndi bótaskyldu í málinu. Í matsgerð tveggja sérfræðinga frá 12. janúar 2009 var varanlegur miski stefnanda metinn 30 stig og varanleg örorka 55%. Stefnanda voru greiddar skaðabætur í samræmi við matið í apríl 2009. Stefnandi taldi sig hafa orðið fyrir frekara tjóni vegna slyssins og er í málavaxtalýsingu gerð grein fyrir framhaldi málsins og þeim matsgerðum sem aðilar hafa aflað, m.a. undir rekstri málsins, til sönnunar á frekari tjóni stefnanda. Á grundvelli matsgerðar dómkvaddra yfirmatsmanna, þar sem miski stefnanda var metinn 35 stig og varanleg örorka 80%, greiddi stefndi viðbótarbætur í desember 2013. Stefnandi tók við greiðslunni með fyrirvara um frádrátt vegna greiðslna frá lífeyrissjóðum, ársvaxta og dráttarvaxta, útlagðs kostnaðar og lögmannsþóknunar. Er ágreiningur um þessi atriði til úrlausnar í máli þessu. Stefndi greiddi síðar stefnanda frekari ársvexti en í framlögðu skjali kemur fram að þeir hafi verið vanreiknaðir.          Um frádrátt vegna greiðslna úr lífeyrissjóði          Við fyrra uppgjör bóta til stefnanda vegna varanlegrar örorku sem, með hliðsjón af árslaunaviðmiði 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, reiknuðust 35.385.238 kr., voru dregnar frá 1.720.024 kr. vegna eingreiðsluverðmætis örorkulífeyris frá lífeyrissjóði hans. Byggðist fjárhæðin á útreikningi tryggingastærðfræðings frá 28. febrúar 2009. Fram kemur í forsendum fyrir niðurstöðu hans að reiknað sé eingreiðsluverðmæti bóta eftir stöðugleikadag miðað við að stefnandi haldi óbreyttum bótarétti til loka þriggja ára tímabils eftir slys en bætur falli niður eftir það. Eftir að matsgerð dómkvaddra yfirmatsmanna lá fyrir í október 2013 reiknaði tryggingastærðfræðingurinn, að beiðni stefnda, að nýju út umrætt eingreiðsluverðmæti. Í útreikningi tryggingastærðfræðingsins frá 16. nóvember 2013 kemur fram að fyrir liggi upplýsingar um að stefnandi hafi verið metinn til fullrar örorku hjá lífeyrissjóði til janúar 2012 en 50% eftir það. Þar sem stefnandi hafði til janúar 2012 fengið greiddar hærri bætur frá lífeyrissjóði en útreikningurinn frá 2009 gerði ráð fyrir hækkuðu reiknaðar eingreiðslur vegna þessa tímabils í hinum nýja útreikningi. Þannig voru reiknaðar eingreiðslur vegna 100% örorkulífeyris á tímabilinu janúar 2009 til janúar 2012 að fjárhæð 2.586.244 kr., þ.e. 866.200 kr. hærri. Þá bættist við 50% örorkulífeyrir frá febrúar 2012 út starfsævi stefnanda sem reiknaður var að andvirði samtals 3.495.234 kr. en eins og áður sagði var í fyrri útreikningum gert ráð fyrir að örorkulífeyrir félli niður eftir janúar 2012. Við greiðslu viðbótarbóta til stefnanda í desember 2013 fyrir varanlega örorku, sem reiknaðist 16.084.199 kr., dró stefndi því frá 4.361.454 kr. (866.200+3.495.234 kr.) vegna eingreiðsluverðmætis örorkulífeyris. Hins vegar bættust við greiðsluna 16.679 kr. vegna eingreiðslu örorkubóta frá Sjúkratryggingum Íslands en þær höfðu verið ofáætlaðar við fyrra uppgjör. Samtals greiddi stefndi því stefnanda, 6. desember 2013, 11.739.424 kr. fyrir varanlega örorku (16.084.199 kr.+16.679 kr.-4.361.454 kr.). Til frádráttar kom 3.000.000 kr. innborgun sem stefndi innti af hendi í apríl 2013.          Stefnandi vísar til þess að þar sem bótakrafa hans byggi á sérstakri slysatryggingu sjómanna hafi verið óheimilt að draga frá skaðabótakröfu hans fyrir varanlega örorku greiðslur sem hann kunni að eiga rétt á úr lífeyrissjóði. Að mati dómsins er ákvæði 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, þess efnis að frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns skuli m.a. dragast 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði, fortakslaust hvað þetta varðar. Breytir engu þótt skaðabætur til stefnanda byggist á slysatryggingu sem vinnuveitandi hans bar að taka með vísan til 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Um uppgjör til stefnanda gilda ákvæði skaðabótalaga enda byggir hann kröfu sína að öðru leyti á ákvæðum laganna, m.a. hvað varðar árslaunaviðmið og ársvexti. Önnur rök, sem stefnandi hefur teflt fram því til stuðnings að umræddur frádráttur sé óheimill, eru haldlaus.Verður því fallist á það með stefnda að honum sé heimilt að draga eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá bótum til stefnanda.          Kemur þá til skoðunar hvort stefnda hafi verið heimilt, við greiðslu viðbótarbóta til stefnanda vegna varanlegrar örorku, að draga frá greiðslunni eingreiðsluverðmæti lífeyrisgreiðslna samkvæmt hinum nýju útreikningum og þar með endurskoða fyrri frádrátt. Að mati dómsins verður með hliðsjón af þeirri meginreglu skaðabótaréttar að tjónþoli eigi ekki rétt á hærri bótum en svara raunverulegu tjóni hans, sem og þeirri meginreglu kröfuréttar að sá sem hefur ofgreitt fé eigi rétt til endurgreiðslu þess sem ofgreitt er, að telja að stefnda hafi, eins og á stóð í máli þessu, verið þetta heimilt. Hafa verður í huga að endurútreikningarnir fóru fram vegna þess að stefnandi hafði sannanlega orðið fyrir meira tjóni en talið var er fyrra uppgjör fór fram og bætur til hans úr lífeyrissjóði hækkuðu eðli málsins samkvæmt í samræmi við það. Skiptir þá engu þótt stefndi hafi við fyrra uppgjör ekki gert fyrirvara um þetta atriði. Ekki er fallist á það með stefnanda að útreikningar tryggingastærðfræðingsins séu haldnir einhverjum þeim annmörkum sem leiða til þess að ekki sé unnt að leggja þá til grundvallar. Útreikningarnir byggja, samkvæmt því sem fram kemur í málinu, á gögnum sem stafa frá stefnanda sjálfum, m.a. rauntölum um greiðslur til hans úr  lífeyrissjóði. Stefnandi krafðist þessi ekki að viðkomandi tryggingastærðfræðingur gæfi skýrslu fyrir dóminum til að gefa nánari skýringu á útreikningum né hefur stefnandi gert tilraun til að hrekja þá með því að óska eftir nýjum útreikningum.          Um annað fjártjón          Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér að álitum 1.500.000 kr. vegna sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns. Kröfuliður þessi er svo vanreifaður að dómur verður ekki á hann lagður. Verður honum vísað frá dómi.          Um vexti samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga          Um fyrningu vaxta gildir hinn almenni frestur 3. gr. laga nr. 20/2007 um fyrning kröfuréttinda og fyrnast þeir því á fjórum árum. Stefndi hefur lagt fram útreikninga, sem ekki hefur verið mótmælt af hálfu stefnanda, þar sem fram kemur að stefndi hafi greitt ársvexti skv. 16. gr. skaðabótalaga í samræmi við framangreint og er því krafa stefnanda um frekari vexti fallin niður fyrir fyrningu. Verður stefndi því sýknaður af vaxtakröfu stefnanda.          Um dráttarvexti          Stefnandi krefst þess að upphaf dráttarvaxta miðist við 23. júní 2012. Vísar stefnandi til þess að þá hafi verið liðinn mánuður frá því að hann krafði stefnda um frekari bætur á grundvelli matsgerðar D og E. Eins og fram hefur komið aflaði stefnandi þessa mats einhliða. Í kröfubréfi stefnanda til stefnda frá 23. maí 2012 var ekki gert ráð fyrir frádrætti vegna eingreiðsluverðmætis örorkulífeyris frá lífeyrissjóði, líkt og skylda stendur til skv. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, né fylgdu bréfinu gögn til þess að stefnda væri unnt að láta reikna það út. Í dómkröfum stefnanda hefur heldur ekki verið gert ráð fyrir frádrættinum en skattframtöl og gögn frá lífeyrissjóði voru hins vegar lögð fram við þingfestingu málsins 23. október 2012. Þótt stefnandi hafi byggt upphaflegar dómkröfur sínar á einhliða mati þykir, með hliðsjón af framangreindu og meginreglu 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, rétt að upphaf dráttarvaxta reiknist 23. nóvember 2012, enda staðfesti matið að stefnandi hefði orðið fyrir frekara tjóni þótt það hafi þar verið metið meira en skv. yfirmatsgerð dómkvaddra matsmanna. Verður stefnda því gert að greiða stefnanda dráttavexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 12.282.984 kr. (489.560 v/varanlegs miska+11.739.424 kr. v/varanlegrar örorku) frá 23. nóvember 2012 til 15. apríl 2013, en af 9.282.984 kr. frá þeim degi til 6. desember 2013. Til frádráttar dráttarvöxtunum koma vextir sem stefndi hefur greitt samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga vegna sama tímabils.          Um málskostnað          Stefnandi nýtur gjafsóknar í máli þessu, sbr. gjafsóknarleyfi innanríkisráðuneytisins frá 3. janúar 2013.          Stefndi hefur fallist á að greiða útlagðan kostnað stefnanda, skv. framlögðum málskostnaðareikningi, annan en 316.488 kr. vegna matsgerðarinnar frá 23. maí  2012. Vísar stefndi til þess að stefnandi hafi aflað matsgerðarinnar einhliða og á eigin ábyrgð. Þó að matsgerðin hafi ekki verið lögð til grundvallar endanlegu uppgjöri skaðabóta þá var hún, eins og áður sagði, því til styrktar að stefnandi hefði orðið fyrir frekara tjóni vegna slyssins. Fyrir liggur að stefndi hafnaði með bréfi, frá 14. október 2011, kröfu stefnanda um að standa að endurmati á tjóni hans. Verður rökstuðningur stefnda sem fram kemur í bréfinu ekki skilinn öðruvísi en svo að hann hafi talið að fyrirliggjandi læknisvottorð gæfu ekki til kynna versnun á heilsufari stefnanda, tengda slysinu. Með hliðsjón af framangreindu verður stefndi því dæmdur til að greiða allan útlagðan kostnað stefnda en hann er samkvæmt framlögðum reikningum samtals 1.886.096 kr. Dómari tekur fram að útgjöld vegna öflunar skattframtala eru vanreiknuð í málskostnaðaryfirliti, þ.e. eru sögð 5.000 kr. en eru 6.000 kr. skv. fyrirliggjandi reikningum.          Stefndi greiddi stefnanda 510.595 kr. í innheimtuþóknun lögmanns, þ.m.t virðisaukaskatt við uppgjörið í desember 2013. Hafnar stefndi því að greiða frekari þóknun og vísar til þess að þegar tekið hafi verið tillit til fyrra uppgjörs hafi stefnandi fengið samtals 1.856.715 kr. í innheimtuþóknun til lögmanna. Af gögnum málsins má ráða að töluverð vinna hafi þegar verið innt af hendi í málinu af hálfu núverandi lögmanns stefnanda er uppgjörið fór fram í desember 2013 en þá hafði málið verið til meðferðar hér fyrir dóminum í rúmt ár. Telst lögmannsþóknun vegna vinnu við málið þar til framangreint uppgjör fór fram hæfilega ákveðin 850.000 kr. þ.m.t. virðisaukaskattur. Verður því stefndi dæmdur til að greiða mismuninn á því og innheimtuþóknun þeirri sem stefnanda var greidd í desember 2012, þ.e. 339.405 kr. Hins vegar hefur stefnandi, með niðurstöðu dóms þessa, tapað málinu að öllu verulegu leyti hvað varðar þá fyrirvara sem hann setti við uppgjörið, og verður stefndi því ekki dæmdur til greiðslu frekari lögmannsþóknunar honum til handa.          Samkvæmt framangreindu verður stefndi því dæmdur til að greiða samtals 2.225.501 kr. í málskostnað sem rennur í ríkissjóð.          Þóknun lögmanns stefnanda vegna rekstur málsins eftir að framangreint uppgjör fór fram, þ.e. vegna aðalmeðferðar og undirbúnings hennar, telst hæfilega ákveðin 400.000 kr., þ.m.t. virðisaukaskattur.          Með hliðsjón af framangreindu greiðist því gjafsóknarkostnaður stefnanda, samtals 2.624.501 kr., sem er þóknun lögmanns stefnanda 739.405 kr., auk útlagðs kostnaðar að fjárhæð 1.886.096 kr., úr ríkissjóði.                 Af hálfu stefnanda flutti málið Þormóður Skorri Steingrímsson hdl.                 Af hálfu stefnda flutti málið Hjörleifur Kvaran hrl. Dóminn kvað upp Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari. D Ó M S O R Ð: Kröfu stefnanda, A, um greiðslu sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns úr hendi stefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., er vísað frá dómi.          Fallist er á kröfu stefnanda um greiðslu dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu úr hendi stefnda af 12.282.984 kr. frá 23. nóvember 2012 til 15. apríl 2013, en af 9.282.984 kr. frá þeim degi til 6. desember 2013. Til frádráttar dráttarvöxtunum koma 4,5% ársvextir sem stefndi hefur greitt stefnanda á sama tíma. Stefndi greiði 2.225.501 kr. í málskostnað sem rennur í ríkissjóð. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, samtals 2.625.501 kr., þ.m.t. þóknun lögmanns stefnanda 739.405 kr., greiðist úr ríkissjóði.
Mál nr. 269/2015
Kærumál Fjárnám Skuldabréf Traustfang Viðskiptabréf
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu D ehf. um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumanns um að stöðva framkvæmd fjárnáms hjá B. Var fjárnámsbeiðnin studd við skuldabréf sem B hafði gefið út til G, en bréfið var síðar framselt til D ehf. Deildu aðilar um hvort B og G hefðu samið um að gera skuld samkvæmt bréfinu endanlega upp með tiltekinni greiðslu en bréfið var ekki áritað um hana. Hélt D ehf. því fram að enginn slíkur samningur hefði verið gerður og B stæði því enn í skuld vegna bréfsins. Talið var að fyrirliggjandi tölvupóstsamskipti milli G og B gæfu til kynna að þau hefðu litið svo á að skuldabréfið hefði með umræddri greiðslu verið að fullu greitt. Þá var talið að þar sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður D ehf. væri maki G, yrði að ganga út frá því að D ehf. hefði einnig verið grandsamt um atvik sem G var kunnugt um og yrði það því að sæta mótbáru B.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Þorgeir Örlygsson og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. mars 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. mars 2015, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 13. ágúst 2014 um að stöðva framkvæmd fjárnáms, sem sóknaraðili krafðist að gert yrði hjá varnaraðila. Kæruheimild er í 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi og lagt fyrir hann að halda gerðinni áfram. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði á málið rætur að rekja til þess að sóknaraðili krafðist með beiðni, sem barst sýslumanni 2. júní 2014, að gert yrði fjárnám hjá varnaraðila fyrir skuld að fjárhæð samtals 1.865.166 krónur. Beiðnin var studd við skuldabréf, sem varnaraðili gaf út til Gunnars Árnasonar 30. júní 2007 og var upphaflega að fjárhæð 7.300.000 krónur bundið vísitölu neysluverðs, en greiða átti þá fjárhæð í einu lagi ásamt 5% ársvöxtum á gjalddaga 1. júlí 2012. Í skuldabréfinu var jafnframt mælt fyrir um heimild kröfuhafa til að leita fjárnáms fyrir kröfu samkvæmt því án undangengins dóms eða sáttar, sbr. 7. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989. Óumdeilt er að samkomulag tókst í maí 2008 milli varnaraðila og Gunnars um að lækka fjárhæð kröfu samkvæmt skuldabréfinu í 2.500.000 krónur, sem varnaraðili myndi greiða í tvennu lagi, annars vegar 1.500.000 krónur 4. júní 2008 og hins vegar 1.000.000 krónur 31. desember sama ár. Þá er óumdeilt að varnaraðili innti af hendi fyrri greiðsluna, en ágreiningur er um hvernig farið hafi um þá síðari. Varnaraðili heldur því fram að hún hafi í september 2008 samið við Gunnar um að gera skuldina endanlega upp með greiðslu á 700.000 krónum, sem hún hafi svo gert 15. sama mánaðar. Sóknaraðili ber því á hinn bóginn við að enginn slíkur samningur hafi verið gerður og standi varnaraðili þannig enn í skuld vegna skuldabréfsins sem þessu nemi, en sóknaraðili kveðst hafa fengið skuldabréfið framselt úr hendi Gunnars 1. september 2013. Samkvæmt vottorði úr hlutafélagaskrá um sóknaraðila er Hlédís Sveinsdóttir allt í senn stjórnarmaður í félaginu, framkvæmdastjóri þess og prókúruhafi. Í málatilbúnaði varnaraðila er vísað til þess að Hlédís sé maki áðurnefnds Gunnars Árnasonar og er ekki að sjá að ágreiningur standi um það. Við úrlausn málsins verður að ganga út frá því að Hlédís og sóknaraðili þar með einnig sé vegna þessara tengsla grandsamur um atvik, sem upphaflegum eiganda skuldabréfsins var kunnugt um. Getur sóknaraðili því ekki unnið rétt gagnvart varnaraðila á grundvelli meginreglna fjármunaréttar um viðskiptabréf. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða hans að varnaraðili hafi fært slík rök að því að Gunnar hafi sem eigandi skuldabréfsins tekið við fullnaðargreiðslu á því í september 2008 að varhugavert verði talið að láta fjárnám ná fram að ganga á grundvelli þess. Samkvæmt framansögðu verður sóknaraðili að sæta mótbáru varnaraðila á þessum grunni þótt skuldabréfið beri ekki með sér tilefni hennar. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, Dragon eignarhaldsfélag ehf., greiði varnaraðila, Bryndísi Guðmundsdóttur, 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Mál nr. 225/2015
Kærumál Hæfi dómara
Mál þetta var höfðað 27. apríl 2012 og dómtekið 17. mars 2015. Stefnandi er LBI hf., Austurstræti 16 í Reykjavík, en stefndi er Sigurjón Þorvaldur Árnason, Granaskjóli 28 í Reykjavík.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. mars 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. mars 2015, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að Sigríður Hjaltested héraðsdómari viki sæti í málinu. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa verði tekin til greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðili hefur ekki látið málið til sína taka fyrir Hæstarétti. Ekki liggja fyrir atvik eða aðstæður, sem valda því að héraðsdómarinn verði talin vanhæf til að fara með framangreint mál vegna ákvæðis g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur. Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður verður ekki dæmdur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 671/2014
Bifreið Slysatrygging ökumanns Líkamstjón Skaðabætur
A höfðaði mál á hendur T hf. til heimtu greiðslu úr lögboðinni slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, vegna líkamstjóns sem A hlaut er hann var að ferma tengivagn bifreiðar gámi. Í dómi Hæstaréttar var rakið að orsök slyss A hefði verið sú að þegar A hefði verið að fara upp á pall bifreiðarinnar hefði hann fallið aftur fyrir sig og til jarðar. Var talið að þótt A hefði sem stjórnandi bifreiðarinnar unnið við að ferma bifreiðina þegar slysið varð þá hefði bifreiðin verið kyrrstæð og slysið yrði að virti dómaframkvæmd réttarins ekki rakið til notkunar hennar, sérstaks búnaðar hennar eða eiginleika sem ökutækis. Þegar af þeirri ástæðu var T hf. sýknað af kröfu A.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. október 2014. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 5.078.750 krónur með 4,5% ársvöxtum af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 2. maí 2008 til 19. desember 2013, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi starfaði áfrýjandi sem stjórnandi bifreiðarinnar […] sem var með tengivagni og notuð til gámaflutninga. Til þess að ferma og afferma tengivagninn gámum var notaður krani, áfastur bifreiðinni og knúinn af vélarafli hennar. Við fermingu og affermingu var notast við keðjur sem komið var fyrir í festingum á hornum gámanna og þeir síðan hífðir með krananum, sem stjórnað var með fjarstýringu. Slys áfrýjanda 2. maí 2008 varð við þær aðstæður að hann var að ferma tengivagn bifreiðarinnar gámi. Hafði hann komið gámnum fyrir og hugðist því næst losa keðjurnar af honum. Þegar áfrýjandi fór í því skyni upp á pallinn aftan við bifreiðina féll hann aftur fyrir sig og á jörðina. Við byltuna brotnaði hægri úlnliður hans. Er í málinu deilt um ábyrgð á afleiðingum þess líkamstjóns en áfrýjandi reisir kröfu sína á lögboðinni slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Svo sem rakið hefur verið var orsök slyssins sú að þegar áfrýjandi var að fara upp á pall bifreiðarinnar féll hann aftur fyrir sig og til jarðar. Þó svo áfrýjandi hafi sem stjórnandi bifreiðarinnar unnið við að ferma hana þegar slysið varð þá var hún kyrrstæð og verður slysið ekki rakið til notkunar hennar, sérstaks búnaðar hennar, þar með talið umrædds krana, eða eiginleika sem ökutækis, sbr. dóm Hæstaréttar 13. nóvember 1997 í máli nr. 47/1997, sem birtur var í dómasafni réttarins það ár á bls. 3287 og dóma réttarins 21. október 1999 í máli nr. 116/1999, 9. desember sama ár í máli nr. 274/1999 og 16. sama mánaðar í máli nr. 307/1999, sem birtir voru í dómasafni það ár á bls. 3734, 4717 og 4965. Þegar af þeirri ástæðu verður niðurstaða héraðsdóms staðfest.  Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júlí 2014. Mál þetta, sem dómtekið var 19. júní sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af A (kt. […]), til heimilis að […], gegn Tryggingamiðstöðinni hf., (kt. […]), Síðumúla 24, Reykjavík, með stefnu sem birt var 26. nóvember 2013.                  Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 5.078.750 krónur, auk 4,5% vaxta, af 1.076.150 krónum frá 2. maí 2008 til 2. ágúst 2008, en af 5.078.750 krónum frá 2. ágúst 2008 til 19. desember 2013, og með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga um vexti og verðtryggingu  nr. 38/2001, af 5.078.750 krónum frá 19. desember 2013 til greiðsludags.  Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun. Stefndi krefst þess aðallega að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Stefndi krefst þess jafnframt að stefnanda verði gert að greiða sér málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.   Ágreiningsefni og málsatvik                 Tildrög máls þessa er slys er stefnandi varð fyrir við stjórn kranabifreiðarinnar […] á Nýbýlavegi í Kópavogi, 2. maí 2008. Stefnandi virðist þó einn til frásagnar um tildrög slyssins sem dómsmál þetta lýtur að. Bifreiðin var í eigu vinnuveitanda hans, B ehf., kt. [...], en var tryggð lögbundnum tryggingum hjá stefnda. Við bifreið þessa eru festir tengivagnar og á þeim fluttir gámar, sem komið er fyrir á vögnunum með krana sem er áfastur bifreiðinni og knúinn af vél hennar. Þegar gámar eru settir á og teknir af tengivagni þarf að fara upp á pall bifreiðarinnar aftan við bifreiðarhús, klifra þaðan upp á gáminn á tengivagninum og losa eða koma fyrir keðjum í festingar á hornum gámsins. Eru keðjurnar festar í krana bifreiðarinnar og notaðar þegar verið er að hífa gáma á og af vagninum með krananum, sem er áfastur bifreiðinni og gengur fyrir vélarafli hennar. Er krananum stjórnað með fjarstýringu sem stjórnandi kranans, þ.e. ökumaður kranabifreiðarinnar, hefur um mitti sér. Þegar slysið varð var bifreiðin í gangi og stefnandi að nota krana hennar við að hífa gám á tengivagn bifreiðarinnar. Stjórnaði hann krananum með fjarstýringu sem hann hafði um mitti sér. Hafði hann þegar komið gáminum fyrir á tengivagninum og var að fara upp á pallinn fyrir aftan bifreiðarhúsið þaðan sem hann hugðist fara upp á gáminn og húkka keðjur úr honum. Ætlaði hann svo að setja kranann niður, taka keðjur úr honum og koma honum fyrir á sínum stað fyrir aftan hús bifreiðarinnar. Þegar stefnandi var að fara upp á pallinn vildi hins vegar ekki betur til en svo að hann féll aftur fyrir sig og í jörðina með þeim afleiðingum að hann brotnaði á hægri úlnlið. Stefnandi kveðst síðan hafa verið aumur og stífur í hægri úlnlið og eiga í erfiðleikum með beitingu hægri handar, en hann hafi verið frá vinnu vikum saman vegna slyssins. Ágreiningslaust er að stefnandi var slysatryggður í gegnum slysatryggingu ökumanns hjá stefnda. Eigandi bifreiðarinnar, B ehf., sem var vinnuveitandi stefnanda, hafði keypt lögboðna vátryggingu fyrir ökumann ofangreindrar bifreiðar samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 hjá stefnda.   Með tölvupósti lögmanns stefnanda til stefnda, dags 20. júlí 2011, var óskað eftir afstöðu stefnda til bótaskyldu úr slysatryggingu ökumanns. Stefndi hafnaði bótaskyldu vegna slyssins með bréfi, dags 2. september 2011. Var afstaða stefnda rökstudd með vísan til þess að ekki yrði talið að slys stefnanda hefði verið í tengslum við „notkun“ ökutækis í skilningi 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Stefnandi telur hins vegar að túlkun stefnda á ,,notkun“ ökutækis sé of þröng og samrýmist ekki framkvæmd Hæstaréttar Ísland og kenningum fræðimanna um skýringu hugtaksins.         Með stefnu, birtri 31. ágúst 2012, höfðaði stefnandi mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur stefnda til viðurkenningar á bótaskyldu vegna þess líkamstjóns sem hann varð fyrir í greint sinn og krafðist viðurkenningar á rétti til skaðabóta úr slysatryggingu ökumanns bifreiðarinnar […] hjá stefnda, sbr. 92 gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Málinu var að kröfu stefnda vísað frá dómi með úrskurði 27. maí 2013. Með matsbeiðni, dagsettri 21. júní 2013, óskaði stefnandi eftir dómkvaðningu matsmanns til að meta líkamstjón hans vegna ofangreinds slyss. Var C bæklunarlæknir dómkvaddur til að framkvæma matið og í málinu liggur nú fyrir matsgerð hans dags. 9. desember 2013. Dómkröfur stefnanda samkvæmt stefnu voru alls upphaflega 18.169.701 króna, auk vaxta og dráttarvaxta. Til samræmis við matsgerð dómkvadds matsmanns hefur stefnandi breytt kröfugerð sinni frá og með 19. desember 2013 og er dómkrafan nú 5.078.750 krónur. Af hálfu stefnda eru ekki gerðar athugasemdir við þá útreikninga. Eru málsaðilar sammála um að ágreiningur þeirra í þessu dómsmáli snúist einungis um það afmarkaða álitaefni hvort hér sé um að ræða bótaskylt slys samkvæmt slysatryggingu ökumanns hjá stefnda eða ekki. Nánar tiltekið snýst ágreiningurinn um það hvort tjón stefnanda verði rakið til ,,notkunar“ ofangreindrar bifreiðar í skilning 2. mgr. 92. gr., sbr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Málsástæður og lagarök stefnanda                 Stefnandi byggir á því að slys hans sé bótaskylt úr ökumannstryggingu bifreiðarinnar […] , sbr. 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Eigandi bifreiðarinnar hafi keypt lögboðnar vátryggingar samkvæmt nefndum lögum hjá stefnda, þar á meðal slysatryggingu fyrir ökumann bifreiðarinnar sbr. 92. gr. laganna, og stefnda beri í samræmi við það að bæta tjónið sem stefnandi hafi orðið fyrir sem ökumaður hennar. Stefnandi hafi verið að nota áfastan krana bifreiðarinnar við að hífa gám á tengivagn hennar, en kraninn gengið fyrir vélarafli bifreiðarinnar og hún verið í gangi. Stefnandi, sem hafi verið ökumaður og við stjórn bifreiðarinnar þegar gáminum hafi verið komið fyrir á vagninum, hafi verið að fara upp á pallinn fyrir aftan bifreiðarhúsið þaðan sem hann hugðist fara upp á gáminn og húkka keðjur úr honum áður en hann lyki hífingarverkinu og kæmi krananum fyrir á sínum stað aftan við bifreiðarhúsið. Kranabifreiðin og tengivagn sem festur var við hana hafi verið notuð til að flytja gáma milli staða. Kraninn sé eðlilegur og nauðsynlegur hluti af kranabifreiðinni og þeirri notkun sem henni sé ætluð. Sama sé að segja um tengivagninn sem gámurinn hafi verið hífður á. Vinna stefnanda við kranann og gáminn á tengivagninum, þar með talið að fara upp á gáminn og húkka keðjur í og af honum, hafi verið nauðsynlegur og óhjákvæmilegur hluti af störfum ökumanns kranabifreiðarinnar í skilningi 92. gr. umferðarlaga og í svo nánum tengslum við akstur og notkun kranabifreiðarinnar, að hún hljóti að falla, líkt og akstur, undir notkunarhugtak 2. mgr. 92. gr., sbr. 88. gr. laganna. Hafi stefnandi, sem þurfti sérstök ökuréttindi til að stjórna bifreiðinni, verið í miðjum klíðum við hífingu þegar hann hafi slasast. Án umrædds búnaðar og vinnu stefnanda við hann hefði ekki verið unnt að flytja gámana með umræddri kranabifreið. Það hafi verið hlutverk stefnanda sem stjórnanda bifreiðarinnar að húkka keðjurnar úr gáminum. Hann hefði ekki getað húkkað keðjurnar úr gáminum án þess að fara sjálfur upp á pallinn fyrir aftan hús bifreiðarinnar. Hafi þetta verið hluti af notkun og stjórn stefnanda á bifreiðinni og krana þeim sem gangi fyrir vélarafli hennar. Hafi ekki verið sýnt fram á að stefnandi hefði getað farið öðruvísi að en hann gerði. Að fara upp á pall fyrir aftan bifreiðarhúsið í tengslum við notkun kranans falli því jafnframt undir hugtakið „stjórn bifreiðar“, í skilningi 92. gr. umferðarlaga.   Bifreiðin hafi verið í venjulegri og eðlilegri notkun sem kranabifreið þegar slysið hafi átt sér stað og hann hafi verið að störfum við notkun hennar í skilningi 92. gr. ofangreindra laga. Sé umrætt slys því bótaskylt úr slysatryggingu ökumanns. Notkun hafi í dómaframkvæmd og fræðiskrifum verið túlkuð svo að hún takmarkist ekki við akstur eða hreyfingu ökutækis. Hafi hugtakið samkvæmt dómvenju verið talið ná til ýmissa tilvika þar sem tjón hafi hlotist af kyrrstæðu ökutæki, svo sem af losunarbúnaði vörubifreiða eða öðrum vélknúnum hjálpartækjum, t.d. krana. Slík tæki séu gjarnan notuð við fermingu og affermingu flutningabifreiða eins og hér var og sé almennt stjórnað af ökumanni bifreiðar sem til þess hafi sérstök ökuréttindi, annaðhvort úr stýrishúsi eða utan þess. Hafi verið talið að vinna við slík tæki, svo og ferming og afferming, teljist til notkunar slíkrar bifreiðar enda þótt hún sé ekki á ferð.  Stefnandi bendi á þá hugsun sem búi að baki hinum ströngu ábyrgðarákvæðum umferðarlaga, að bifreiðar séu hættuleg tæki og að búnaður þeirra sé almennt til þess fallinn að valda þeim, sem í henni séu eða umhverfis hana, ákveðinni hættu. Við mat á því hvort vinna ökumanns við bifreið falli undir hugtakið „notkun“ eða „stjórn“ bifreiðar verði því að hafa að leiðarljósi það grundvallarmarkmið að vernda þá hagsmuni sem hætta sé búin vegna hættueiginleika bifreiða. Stefnandi árétti að slys hans hafi orðið vegna vinnu við notkun krana bifreiðarinnar, sem hafi gengið fyrir aflvél hennar, en notkun þess vélknúna búnaðar hafi verið órjúfanleg forsenda fyrir notkun bifreiðarinnar sem kranabifreiðar og staðið þannig a.m.k. í nánum tengslum við notkun hennar í skilningi. 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga. Verði lagt til grundvallar að vinna stefnanda við bifreiðina hafi í greint sinn ekki talist til venjubundinnar notkunar bifreiðarinnar sé ljóst að ofangreindu markmiði sé stefnt í voða. Sé í öllu falli ljóst að slík þröng túlkun á hugtakinu notkun myndi stangast í verulegum atriðum á við þá verndarhagsmuni sem liggi að baki ábyrgðarákvæðum 88. gr. og 92. gr. umferðarlaga. Enn fremur færi slík þröng túlkun í bága við dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands.  Þá telji stefnandi rétt að benda á að mat á því hvort slys hafi orðið vegna búnaðar sem teljist eðlilegur og nauðsynlegur hluti af viðkomandi bifreið og eðlilegri notkun hennar sé mismunandi eftir því hvaða bifreið sé um að ræða hverju sinni. Þannig verði að meta hvert tilvik fyrir sig með hliðsjón af venjubundinni notkun viðkomandi bifreiðar að teknu tilliti til sérstakra eiginleika hennar. Hafi bifreiðin, sem stefnandi ók í greint sinn, verið þannig búin að hann hafi þurf að fara upp á pall hennar og upp á gám, sem hafi staðið á tengivagni hennar, til að húkka umræddar keðjur af. Öðruvísi hafi stefnandi ekki getað unnið verkið með fullnægjandi hætti. Í ljósi eðlis bifreiðarinnar og þess starfa, sem stefnandi hafi gegnt í greint sinn, verði að leggja til grundvallar að um hafi verið að ræða venjulega notkun bifreiðarinnar.                 Stefndi hafi ekki gert tilraunir til að útskýra með hvaða hætti slys stefnanda á að hafa átt sér stað ef ekki hafi verið fyrir venjubundna notkun bifreiðarinnar. Af hans hálfu sé eingöngu látið við það sitja að slá því föstu að slysið verði ekki rakið til notkunar ökutækisins, en stefndi hafi á engan hátt gert grein fyrir því hvað hann telji þá að hafi valdið slysinu eða við hvaða aðstæður, óskyldar hættueiginleikum bifreiðarinnar sem kranabifreiðar, slysið hafi átt sér stað sem leiði til þess að stefndi sé ekki bótaskyldur.  Sé því mótmælt að slysið sé ekki bótaskylt úr slysatryggingu ökumanns hjá stefnda vegna þess að það uppfylli ekki það skilyrði að eiga rætur að rekja til notkunar umræddrar bifreiðar. Hafi enda ekkert komið fram sem renni stoðum undir að fall stefnanda hafi verið vegna annars en eðlilegrar notkunar og vinnu við bifreiðina. Af bréfi stefnda, dags 2. september 2011, verði ekki annað ráðið en að ekki sé ágreiningur um bótaskyldu stefnda teljist slysið hafa átt sér stað við notkun bifreiðarinnar.  Stefnandi byggi á umferðarlögum nr. 50/1987, einkum 92. gr. um slysatryggingu ökumanns, auk skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 3.-7. gr., 9. gr., 15. gr. og 16. gr. Krafa um málskostnað styðjist við 21. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styðjist við lög nr. 50, 1988, en um varnarþing vísist til 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991. Málsástæður og lagrök stefnda                 Samkvæmt 1. mgr. 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 skuli ökumaður sem stjórni ökutæki tryggður sérstakri slysatryggingu, en ágreiningslaust sé að stefnandi njóti slíkrar tryggingar hjá stefnda. Í 2. mgr., sé kveðið á um að vátryggingin skuli tryggja bætur fyrir líkamstjón af völdum slyss, sem ökumaður verði fyrir við stjórn ökutækis, enda verði slysið rakið til notkunar ökutækis í merkingu 88. gr. sömu laga. Í 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga sé kveðið á um að sá sem beri ábyrgð á skráningarskyldu vélknúnu ökutæki skuli bæta tjón sem hljótist af notkun þess enda þótt tjónið verði ekki rakið til bilunar eða galla í tækinu eða ógætni ökumanns. Hér sé um hlutlæga bótareglu að ræða en með því sé átt við að bótaskylda stofn ist, jafnvel þótt enginn hafi sýnt af sér saknæma háttsemi. Það sé meginskilyrði reglunnar um hlutlæga ábyrgð að sanna þurfi orsakatengsl á milli þeirrar háttsemi sem hin hlutlæga regla taki til og tjóns. Til að bótaábyrgð stofnist á grundvelli reglunnar verði tjónþoli að sanna orsakatengsl á milli tjóns og notkunar bifreiðar í skilningi 1. mgr. 88. gr. Af dómum Hæstaréttar Íslands, þar sem reynt hafi á gildissvið hinnar sérstöku bótaábyrgðarreglu umferðarlaga um tjón af notkun skráningarskyldra vélknúinna ökutækja, hafi verið lagt til grundvallar að lestun og losun vörubifreiða sé þáttur í notkun. Hæstiréttur hafi og mótað þá dómvenju að verði slys ekki við sjálfa fermingu eða affermingu bifreiðarinnar, þá teljist það ekki hafa orðið við notkun ökutækis. Í þessu tilviki hefði stefnandi lokið við að hífa gám upp á tengivagn og ætlað upp á gáminn til að losa keðjur sem notaðar hafi verið við hífinguna. Hann hafi fallið til jarðar þegar hann hafi verið kominn upp á pall bifreiðarinnar. Slysið verði með engu móti rakið til gangsetningar bifreiðarinnar eða þeirra tækja sem áföst væru við hana. Slys stefnanda falli því utan notkunarhugtaks 1. mgr. 88. gr. umferðarlaganna. Stefnandi byggi á því að slysið hafi orðið í svo nánum tengslum við akstur og notkun bifreiðarinnar að það hljóti að falla undir notkunarhugtak 2. mgr. 92. gr., sbr. 88. gr. umferðarlaga. Hafi stefnandi verið í miðjum klíðum við hífingarverk sitt þegar hann hafi slasast. Stefndi bendi á að þegar stefnandi hafi fallið niður af palli bifreiðarinnar hafi bifreiðin verið kyrrstæð. Kraninn sem notaður hafði verið við hífingu gámsins hafi þá ekki verið í notkun. Slysið verði ekki rakið til notkunar vélarafls bifreiðarinnar í merkingu 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga. Fall stefnanda hafi verið óhappatilvik og sé ekki bótaskylt úr slysatryggingu ökumanns. Vísi stefndi þar um til dóma Hæstaréttar Íslands frá 1999, bls. 3734 og 1999, bls. 4717. Stefnandi byggi á því að hugtakið notkun hafi í dómaframkvæmd og fræðaskrifum verið túlkað svo að það takmarkist ekki við akstur eða hreyfingu ökutækis. Stefndi ítreki að til að tjón verði bótaskylt verði að rekja það til notkunar vélarafls ökutækis sem hafi ekki verið til að dreifa hér. Stefndi telji, þvert á það sem stefnandi fullyrði, að dómaframkvæmd og fræðaskrif styðji þessi sjónarmið.  Stefnandi bendi á að við mat á því hvort vinna ökumanns við bifreið falli undir notkun eða stjórn bifreiðar verði að hafa að leiðarljósi það grundvallarmarkmið að vernda þá hagsmuni sem hætta sé búin vegna hættueiginleika bifreiða. Hlutlægar bótareglur séu undantekningar frá þeirri meginreglu að sá sem vilji fá tjón sitt bætt verði að sýna fram á saknæma háttsemi tjónvalds. Hlutlæg bótaregla umferðarlaganna sé einmitt tilkomin vegna hættulegra eiginleika ökutækja og þeirra tækja sem þeim kunna að tilheyra. Reglan veiti tjónþola rétt án þess að hann þurfi að sanna sök eða benda á tiltekinn tjónvald. En reglan hafi jafnframt verið skýrð þannig, að vinna við kyrrstæðar bifreiðar sé ekki bótaskyld nema atvikið verði rakið til vélarafls bifreiðar en þau tæki sem kunni að vera tengd bifreið séu undantekningarlaust knúin af vélarafli bifreiðarinnar. Tjón stefnanda sé því ekki bótaskylt úr slysatryggingu ökumanns. Stefnandi telji að í ljósi eðlis kranabifreiðarinnar og þess starfa sem hann hafi gegnt í umrætt sinn verði að leggja til grundvallar að um hafi verið að ræða venjulega notkun bifreiðar. Stefndi fallist á að vinna við krana sem áfastur sé ökutæki kunni að vera bótaskyld úr slysatryggingu ökumanns eða ábyrgðartryggingu ökutækis. Í því tilviki sem hér sé til meðferðar hafi kraninn þó alls ekki verið nauðsynlegt tæki til að húkka af keðjur sem notaðar hafi verið til að hífa upp gám. Stefnandi hafi ekki þurft að nota kranann til að komast upp á pall bifreiðarinnar. Þvert á móti hafi kraninn ekki verið í notkun og stefnandi farið af sjálfsdáðum upp á pall bifreiðarinnar. Engin hjálpartæki hafi komið þar við sögu og vélarafl bifreiðarinnar ekki verið nýtt. Fall stefnanda niður af pallinum hafi því með öllu verið ótengt notkunarhugtaki 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga. Vísist hér til dóms Hæstaréttar Íslands frá 1997, bls. 3287. Í fimmta lagi byggi stefnandi bótakröfu sína á því að stefndi hafi ekki gert neinar tilraunir til að útskýra með hvaða hætti slys stefnanda hafi átt sér stað ef ekki hafi verið fyrir venjubundna notkun bifreiðarinnar. Þessu mótmæli stefndi harðlega og vísi til svarbréfs til lögmanns stefnanda þar um. Þar sé bótaskyldu úr slysatryggingu ökumanns hafnað og vísað til dómaúrlausna Hæstaréttar Íslands þar sem hugtakið notkun sé skilgreint. Jafnframt hafi stefndi þar bent á að afstöðu stefnda mætti skjóta til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum en það úrræði hafi stefnandi ekki nýtt sér. Með vísan til alls framanritaðs sé þess krafist að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Stefndi vísi máli sínu til stuðnings til umferðarlaga nr. 50/1987, einkum 13. kafla. Þá vísi stefndi til skaðabótalaga nr. 50/1993, meginreglna skaðabótaréttarins, sem og almennra reglna kröfuréttar. Málskostnaðarkrafa stefnda byggist á 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Niðurstaða Málsatvik liggja ljós fyrir auk þess sem ekki er tölulegur ágreiningur um stefnukröfur né um forsendur þeirra. Ágreiningsefnið afmarkast alfarið við það álitaefni hvort umrætt tjón stefnanda, vegna slyssins 2. maí 2008, sem liggur óumdeilt fyrir, sbr. stefnukröfuna í málinu, verði eins og hér stendur á heimfært undir hlutlæga skylduábyrgðartryggingu ökumanns fyrir bifreiðina […] hjá stefnda. Nánar tiltekið snýst ágreiningurinn um hvort tjón stefnanda verði rakið til notkunar ofangreindrar bifreiðar, og hvort hann geti talist hafa orðið fyrir slysinu við stjórn ökutækisins í skilningi 2. mgr. 92. gr., sbr. 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, eins og stefnandi byggir á, eða hvort um sé að ræða óhappatilvik er falli utan marka slíkrar tryggingar samkvæmt ofangreindum lagaákvæðum eins og byggt er á af hálfu stefnda. Í 1. málslið, 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 segir: „Sá sem ábyrgð ber á skráningarskyldu vélknúnu ökutæki skal bæta það tjón sem hlýst af notkun þess enda þótt tjónið verði ekki rakið til bilunar eða galla á tækinu eða ógætni ökumanns.“ Síðan segir í 1. og 2. mgr. 92. gr. sömu laga, sbr. lög nr. 32/1998: „Auk ábyrgðartryggingar skv. 91. gr. skal hver ökumaður sem ökutækinu stjórnar tryggður sérstakri slysatryggingu, enda hafi hann ekki notað ökutækið í algeru heimildarleysi, sbr. 2. mgr. 90. gr. Vátryggingin skal tryggja bætur fyrir líkamstjón af völdum slyss, sem ökumaður verður fyrir við stjórn ökutækisins, enda verði slysið rakið til notkunar ökutækisins í merkingu 88. gr.“   Ekki er deilt um að hin hlutlæga slysatrygging hafi til þessa verið talin taka til tjóns er leiðir af losun og lestun farms bifreiðar, sem sé þáttur í venjulegri og eðlilegri notkun hennar. Ekki virðist heldur vera áskilið að búnaður bifreiðar sem slys stafar af sé knúinn aflvél bifreiðar, sé um að ræða hluta af sérhæfðum og nauðsynlegum fylgibúnaði slíkra bifreiða sem um ræðir, og ferming eða afferming stendur yfir. Eins og hér stendur á verður að telja að það að fara upp á pall bifreiðarinnar og þaðan upp á gáminn til að losa keðjurnar hafi verið eðlilegur og nauðsynlegur liður í notkun þeirrar bifreiðar sem hér um ræðir og að affermingu hafi ekki verið lokið þegar slysið varð. Hvað varðar orsakasamhengi, þá virðist hins vegar enn fremur vera áskilið að tjónsatvik verði rakið til aksturs bifreiðar, sérstaks búnaðar eða eiginleika hennar sem ökutækis. Eins og hér háttar til verður að fallast á  með stefnda að ekki hafi verið sýnt fram á af hálfu stefnanda að umrætt slys hans, þegar hann fellur af palli bifreiðarinnar, og þar með óumdeilt tjón hans vegna þess, hafi hlotist af sérstökum hættueiginleikum bifreiðarinnar sem ökutækis né hafi það beinlínis tengst sérstökum búnaði hennar sem vörubifreiðar. Af því leiðir, að slysið og afleiðingar þess, getur ekki talist hafa hlotist af notkun umrædds ökutækis í skilningi 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og fellur því utan gildissviðs vátryggingar samkvæmt 2. mgr. 92. gr. laganna.  Með vísan til alls ofangreinds ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.  Eins og málið liggur fyrir þykir þó rétt að málskostnaður falli niður.                    Málið flutti Guðjón Ólafur Jónsson hæstaréttarlögmaður fyrir hönd stefnanda en Hjörleifur Kvaran hæstaréttarlögmaður fyrir hönd stefnda.                 Pétur Dam Leifsson, settur héraðsdómari, kvað upp dóminn.  D ó m s o r ð : Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., skal vera sýkn af dómkröfum stefnanda, A, í máli þessu.   Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 682/2014
Börn Forsjá Lögheimili Gjafsókn
M og K deildu um forsjá dætra þeirra og lögheimili, en forsjáin hafði frá árinu 2012 við skilnað þeirra að borði og sæng verið sameiginleg. Í héraðsdómi, sem staðfestur var í Hæstarétti, var talið að það samræmdist best högum stúlknanna að forsjáin yrði áfram sameiginleg og að lögheimili þeirra yrði hjá M. Var sú niðurstaða meðal annars rökstudd með því að M teldist hæfari til að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf stúlknanna, fylgja þeim eftir með jákvæðum aga og tryggja þeim stöðugleika. Með hliðsjón af tengslum K við stúlkurnar var hins vegar talið rétt að umgengni við hana yrði ákveðin rýmri en verið hafði eða frá miðvikudegi til mánudags aðra hvora viku. Þá var K gert að greiða einfalt meðlag með hverri stúlku um sig til 18 ára aldurs þeirra.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. október 2014. Hún krefst þess að lögheimili dætra aðila, A, B og C, verði hjá sér og að stefndi verði dæmdur til að greiða sér einfalt meðlag með hverri stúlku frá dómsuppkvaðningu til 18 ára aldurs þeirra. Þá krefst hún þess að kveðið verði á um fyrirkomulag umgengisréttar og að sá sem hans njóti beri af honum allan kostnað. Loks krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti en um gjafsóknarkostnað fer svo sem í dómsorði greinir. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, K, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 600.000 krónur. Gjafsóknarkostnaður stefnda, M, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 600.000 krónur. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. september 2014. Mál þetta var höfðað 22. júní 2013 og dómtekið 3. september 2014. Stefnandi er M, [...],[...]. Stefndi er K, [...],[...]. Stefnandi krefst þess að aðilar fari sameiginlega með forsjá barnanna A, fæddrar [...], B, fæddrar [...] og C, fæddrar [...], til 18 ára aldurs. Þess er krafist að lögheimili þeirra verði hjá stefnanda. Þá er þess krafist að í dómi verðið kveðið á um umgengni við stefndu og að henni verði gert að greiða kostnað við hana. Jafnframt er þess krafist að áfrýjun fresti ekki réttaráhrifum dóms verði krafa stefnanda tekin til greina. Stefnandi krefst þess einnig að stefndu verði gert að greiða stefnanda meðlag til framfærslu hvers barns um sig eins og barnalífeyrir er ákveðinn hverju sinni til 18 ára aldurs þeirra frá 1. ágúst 2013 að telja. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu að mati réttarins eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. Stefnda krefst þess að henni verði með dómi einni falin forsjá barnanna til 18 ára aldurs þeirra. Stefnda krefst þess jafnframt að hafnað verði kröfu stefnanda um sameiginlega forsjá og að lögheimili barnanna verði hjá stefnanda. Verði ákveðið að forsjáin verði sameiginleg krefst hún þess að lögheimili barnanna verði hjá stefndu. Þá krefst stefnda að stefnanda verði gert að greiða stefndu meðlag með hverju barni til 18 ára aldurs eins og baralífeyrir er ákveðinn hverju sinni. Stefnda krefst þess jafnframt að kveðið verði á um fyrirkomulag umgengni og að sá sem umgengni nýtur beri af henni allan kostnað. Stefnda krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. I. Málavextir Aðilar máls þessa gengu í hjónaband í ágúst 2007. Þau eignuðust dætur sínar, A árið [...], B árið [...] og C árið [...]. Þann 5. ágúst 2012 var sambúð aðila endanlega lokið en fram að því höfðu þau nokkrum sinnum slitið samvistum. Þann 17. ágúst 2012 gaf sýslumaðurinn í Reykjavík út leyfi til skilnaðar að borði og sæng. Urðu þau ásátt um að fara áfram sameiginlega með forsjá dætra sinna sem eiga skyldu lögheimili hjá stefnda, sem þá var að [...] í [...]. Stefnanda var gert að greiða með þeim einfalt meðlag frá 1. ágúst 2012 til 18 ára aldurs. Fram kemur í gögnum málsins að barnaverndarnefnd [...] hafi haft afskipti af málefnum fjölskyldunnar frá því í ágúst 2012 en þá hafi aðilar verið að skilja og hafi það reynst stefnda sérlega þungbært. Á tímabilinu október 2012 til apríl 2013 bárust lögreglu tilkynningar vegna harðvítugra deilna aðila, m.a. þegar dætur þeirra voru nærstaddar. Þá tilkynntu ýmsir aðilar, sem sumir vildu ekki láta nafns síns getið, að þeir hefðu áhyggjur af velferð telpnanna. Barnaverndarnefnd ráðgerði í apríl 2012 að vista þær utan heimilis hjá stuðningsfjölskyldu með umgengni þeirra við aðila til skiptis. Tillögur þess efnis voru fyrst og fremst byggðar á því að nauðsyn krefði að aðilar næðu tökum á sjálfum sér og leystu úr ágreiningi og deilum sínum. Var efast um að þau hefðu næga innsýn í þarfir telpnanna og ljóst að þau væru ófær um að halda þeim utan við deilurnar. Horfið var frá þessum fyrirætlunum og var tekin sú ákvörðun að veita stefnda sérhæfðan stuðning með ýmsum hætti með velferð telpnanna í huga. Þá hafði barnaverndarnefndin frumkvæði að því að reyna að sætta aðila og veita þeim stuðning og leiðsögn með það í huga að þau gætu afhent telpurnar án þess að til átaka kæmi á milli þeirra. Mun það hafa borið lítinn árangur. Þá tókst ekki að ná sáttum hjá sýslumanni og ganga frá ítarlegum umgengnissamningi. Að beiðni barnaverndarnefndar gengust aðilar undir forsjárhæfnismat og samhliða var þeim veitt margháttuð aðstoð er laut að umönnun dætra þeirra auk þess sem reynt var að tryggja þeim umgengni við báða foreldra sína. Þann 13. mars 2013 féllst lögreglan á Suðurnesjum á beiðni sóknaraðila um að lagt yrði nálgunarbann á stefnda í sex mánuði en staðfestingu þeirrar ákvörðunar var hafnað með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness þann 20. mars 2013. Í úrskurðinum segir að ljóst sé að miklir samskiptaerfiðleikar séu á milli aðila sem eigi þrjú börn saman. Þyki brýnt að þau leiti sér aðstoðar við að bæta samskipti sín, en þau hljóti óhjákvæmilega að þurfa að eiga samskipti í framtíðinni vegna telpnanna. Að mati dómsins þóttu ekki skilyrði, eins og málið var vaxið, til að úrskurða stefnda til að sæta nálgunarbanni enda ljóst að gæta yrði varúðar þegar slíku íþyngjandi réttarúrræði yrði beitt. Með úrskurði 22. júlí 2013 ákvað barnaverndarnefnd að vista telpurnar utan heimilis stefnda í tvo mánuði með vísan til b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og fela sóknaraðila umsjá þeirra um tíma, sbr. b-lið 67. gr. sömu laga. Mun sú ákvörðun hafa verið tekin þar sem úrræði fram að þessu voru ekki talin hafa skilað nægilegum árangri og þar sem uppeldisskilyrði telpnanna voru ekki talin viðhlítandi. Samhliða var tekin sú ákvörðun að veita aðilum báðum persónulegan stuðning, sálfræðiviðtöl og ráðgjöf, auk þess sem stefnda undirritaði tvo samninga, annars vegar um umgengni hennar við telpurnar, þ.e. aðra hverja helgi frá föstudegi og fram á mánudag og hins vegar um að láta af óæskilegri hegðun í garð sóknaraðila. Til grundvallar ákvörðun um vistun telpnanna hjá stefnanda lá m.a. ítarlegt forsjárhæfnismat á aðilum báðum en það annaðist D sálfræðingur. Hvað varðar aðila málsins var niðurstaða sálfræðingsins sú að þeir væru báðir almennt hæfir til að sinna líkamlegum og daglegum grunnþörfum telpnanna. Hins vegar taldi hann hæfni stefndu ónóga um þær mundir sem matið var framkvæmt þegar horft væri til tilfinningalegra hagsmuna og velferðar telpnanna í ljósi markalausrar hegðunar hennar gagnvart sóknaraðila oft að þeim ásjáandi og meðvitandi um aðstæður og samskipti þeirra. Talsvert hafi vantað upp á svo unnt væri að kalla uppeldishætti stefndu eðlilega. Báðir aðilar ættu að mati sálfræðingsins við sálrænan vanda að stríða, en uppeldisár þeirra beggja voru erfið og sjálfsmynd þeirra brotin. Taldi hann ljóst að báðir aðilar þyrftu að vera í sálfræði-/geðmeðferð sem drægi úr persónulegum röskunum og efldi þá í foreldrahlutverkinu. Tvenns konar persónuleikapróf voru lögð fyrir aðila, MMPI-persónuleikaprófið og PAI- persónuleikaprófið sem sýndu ólíkar niðurstöður hvað stefndu varðar. Hið fyrra var mjög afgerandi hvað varðaði neikvæð persónueinkenni stefndu og taldi sálfræðingur niðurstöðu samsvara að mörgu leyti einkennum sem eiga við „hambrigðapersónuleikaröskun“. Í ofangreindum úrskurði barnaverndarnefndar um tímabundna vistun telpnanna hjá stefnanda er jafnframt vísað til bréfs E sálfræðings en beiðni um sálfræðiaðstoð hennar við stefndu barst í gegnum Samvinnu starfsendurhæfingu á Suðurnesjum. Í bréfinu kom fram gagnrýni á mat D sálfræðings á persónuleikaröskun stefndu og færði hún rök fyrir því að ályktun hans um „hambrigðapersónuleikaröskun“ samkvæmt MMPI prófinu byggðist ekki á sterkum forsendum. Taldi hún stefndu hafa sýnt einlæga löngun til að hafa betri stjórn á líðan sinni og hafi hún greint fúslega frá því að hún hefði farið út yfir öll mörk í reiði, hvatvísi. Auk þess hafi hún verið í andlegu ójafnvægi sem því miður hafi bitnað á telpunum. Þá lýsti sálfræðingurinn þeim úrræðum sem stefnda hefði nýtt til þess að ná markmiðum sínum. Í niðurstöðu úrskurðar barnaverndarnefndar er á því byggt að gögn málsins bæru með sér að telpurnar byggju við tilfinningalegt óöryggi og hlúa yrði að tilfinningalífi þeirra. Taldi nefndin mikilvægt að tryggja þeim öryggi og stöðugleika og foreldar næðu að vinna úr tilfinningum sínum og vanlíðan. Var stefnandi frekar talinn geta mætt þessum þörfum telpnanna fengi hann frið fyrir áreiti stefndu. Stefnda krafðist þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness að ofangreindur úrskurður barnaverndarnefndar yrði felldur úr gildi en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði dómsins 13. september 2013 og fallist á að telpurnar yrðu vistaðar utan heimilis til 22. september 2013. Í úrskurðinum segir svo að stefnda hafi ekki náð að hemja tilfinningar sínar og á meðan svo sé muni telpurnar búa við skapsveiflur hennar og ofsaköst sem skapi óstöðugleika í umhverfi þeirra og valdi þeim vanlíðan. Þann 16. september 2013 kvað barnavernd Reykjaness upp úrskurð að nýju um að telpurnar yrðu vistaðar áfram utan heimilis, í allt að tvo mánuði, og að föður yrði falin umsjá þeirra en í framhaldi þeirrar ráðstöfunar fari nefndin fram á það fyrir Héraðsdómi Reykjaness að telpurnar verði vistaðar áfram utan heimilis samkvæmt 28. gr. laga nr. 80/2002 í tólf mánuði. Í úrskurðinum segir m.a. að stefnda hafi ekki virt þá samninga sem gerðir hafi verið við hana í tengslum við úrskurð nefndarinnar frá 22. júlí 2013. Var talið að gögn málsins bæru með sér að telpurnar byggju við mun meira tilfinningalegt öryggi og stöðugleika hjá stefnanda og hafi honum tekist að hlúa að tilfinningalífi þeirra og veita þeim vernd og umönnun. Taldi nefndin hagsmunum telpnanna best borgið í umsjá hans. Ofangreindum úrskurði var framfylgt með aðstoð lögreglu þann 14. október 2013 en þá voru telpurnar sóttar á leikskólann [...] í Reykjavík og færðar stefnanda. Þann 23. október 2013 var tekin til úrskurðar krafa stefndu um að ofangreindur úrskurður yrði felldur úr gildi en barnaverndarnefnd [...] krafðist staðfestingar úrskurðarins og að dómurinn úrskurðaði  um áframhaldandi vistun telpnanna hjá stefnanda í allt að 12 mánuði, sbr. 28. gr. og b-lið 67. gr. barnaverndarlaga. Með úrskurði þann 30. október 2013 var felldur úr gildi úrskurður barnaverndarnefndar [...] auk þess sem hafnað var kröfu um vistun telpnanna utan heimilis. Taldi dómurinn að úrskurð barnaverndarnefndar hefði skort lagastoð þar sem nefndinni bar að gera sjálfstæða kröfu um úrskurð héraðsdóms um vistun telpnanna með vísan til 28. gr. laga nr. 80/2002. Auk þess hefði barnaverndarnefndin ekki haft vald til að úrskurða í málinu eftir að stefnda flutti með dætur aðila í annað umdæmi. Eins og áður segir höfðaði stefnandi mál á hendur stefnda sem var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 3. október sl. Þann 19. desember 2013 var kveðinn upp úrskurður vegna kröfu stefnanda um fulla forsjá dætra aðila til bráðabirgða. Dómurinn féllst ekki á kröfu hans þar að lútandi en ákvað þess í stað að lögheimili þeirra yrði hjá stefnanda til bráðabirgða. Úrskurðurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar [...] í máli nr. [...]. Að beiðni stefndu var þess óskað að dómkvaddur yrði sérfróður matsmaður til þess að meta forsjárhæfni málsaðila. Þann 10. febrúar 2014 var F sálfræðingur dómkvaddur í því skyni en matsgerð hans er dagsett 2. júní 2014. Niðurstöður hans eru þær helstar að hann telur aðila báða hæfa til þess að fara með forsjá telpnanna og að þær séu allar jákvætt og sterkt tengdar foreldrum sínum tilfinningalega. Ekkert bendi til þess að þeim sé hætta búin hjá öðru hvoru þeirra. Niðurstöður athugana bendi ekki til þess að stefnda sé með heilkenni hambrigðapersónuleikaröskunar. Matsmaður taldi mikilvægt að telpurnar væru í rúmri eða jafnri umgengni við foreldra sína. Þá taldi matsmaður ástæðu til að huga að möguleika um sameiginlega forsjá enda hefðu skapast skilyrði til þess sem áður voru ekki fyrir hendi. Sættir voru reyndar með aðilum undir rekstri málsins en án árangurs. Í kjölfar ofangreindrar matsgerðar var ljóst af samtali við aðila að grundvöllur var til frekari sáttaviðræðna. Lýsti stefnda því yfir, til samræmis við það sem fram kom í matsgerðinni sjálfri, að hún væri reiðubúin til þess að samþykkja að aðilar hefðu sameiginlega forsjá telpnanna þeirra. Stefnandi var sömuleiðis reiðubúinn til þess en þegar á reyndi stóð ágreiningur um lögheimili og umgengni sem stefnda vildi að yrði jöfn. Ákveðið var að leitað yrði sátta með aðilum með aðstoð G sálfræðings en án tilætlaðs árangurs. Stóð ágreiningur þá um lögheimili telpnanna en stefnda óskaði eftir því að lögheimili einnar telpunnar yrði hjá henni. Þá óskaði hún þess að umgengni yrði jöfn en stefnandi vildi að telpurnar yrðu til skiptis í 6 daga hjá stefndu en 8 daga hjá honum. Í kjölfar sáttaumleitana fóru fram óformlegar sáttatilraunir aðila í tölvubréfum á milli lögmanna þeirra en án árangurs. Við aðalmeðferð málsins komu málsaðilar fyrir dóminn, F sálfræðingur og H leikskólakennari. Dómurinn taldi ekki þörf á að ræða við dætur aðila en það var gert af hálfu matsmanns og því ekki ástæða til að endurtaka það. Litið er til þess að þær eru allar ungar að árum og talið var að samræður við þær myndu ekki þjóna tilgangi. Við aðalmeðferð málsins voru enn reyndar sættir en aðilar voru ekki fúsir til að draga úr kröfum sínum. Lagði stefnandi til að í sátt yrði kveðið á um endurskoðun á umgengni með tilteknu millibili og viljayfirlýsingu um að aðilar leituðu sér fagaðstoðar. Á þetta féllst stefnda ekki og vildi sem fyrr að umgengi yrði jöfn og að lögheimili einnar telpu yrði hjá henni. II. Málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi reisir aðalkröfu sína á 34. gr. barnalaga nr. 76/2003 og byggir á því að ekki séu skilyrði til að ákvarða að forsjáin verði sameiginleg enda muni það ekki þjóna hagsmunum barnanna. Eins og gögn málsins beri með sér hafi aðilum ekki tekist þrátt fyrir stuðningsúrræði barnaverndar [...] að vinna saman að málefnum barnanna. Þvert á móti beri gögnin með sér að börnin hafa liðið fyrir samskipti foreldranna. Gögn málsins sýni enn fremur að ástæðu þess ástands sem ríkt hefur á milli aðila megi fyrst og fremst rekja til stefndu sem ekki hafi getað sætt sig við skilnaðinn. Þá skuli ákvörðun um fyrirkomulag forsjár taka mið af því sem barni sé fyrir bestu. Stefnandi byggir kröfu sína jafnframt á því að það sé börnunum fyrir bestu að lúta forsjá hans eins. Í fyrsta lagi á því að stefnandi sé hæfari til að fara með forsjá barnanna en stefnda. Stefnandi hafi góða innsýn í þarfir barnanna og eigi auðvelt með að mæta þeim. Vísar stefnandi í þessu sambandi til þess sem fram kemur í niðurstöðum foreldrahæfismats D.                 Byggt er á því að stefnda sé hins vegar vanhæf til að fara með forsjá barnanna og vera aðalumönnunaraðili þeirra. Ofangreint foreldrahæfismat sýni, svo ekki verið um villst, að stefnda hafi ekki burði til að tryggja börnunum viðunandi aðstæður og því sé hún vanhæf til uppeldisins. Stefnandi telji líklegt að hugsanleg geðveila stefndu komi í veg fyrir að hún geti annast hlutverk sitt sem aðalumönnunaraðili ungra barna. Hann bendi á að sú atburðarás sem lýst hefur verið í málavöxtum sýni að stefnda sé ekki heil heilsu. Stjórnleysi hennar, ranghugmyndir, og ofsóknir sýni að hún sé trufluð á geði og því sé óábyrgt og óásættanlegt að fela henni svo ábyrgðarfullt hlutverk sem felst í því að tryggja öryggi, heilsu og þroskavænleg skilyrði kornungra barna. Niðurstaða persónuleikaprófana styðji þessar áhyggjur stefnanda. Þannig telur stefnandi ljóst að þrátt fyrir að stefnda geti sinnt þeim þáttum umönnunar sem snúi að ytri aðbúnaði barnanna, skorti hana getu til að tryggja andlega vellíðan þeirra, sem sé forsenda áframhaldandi þroska. Í öðru lagi byggir stefnandi á því að litlar líkur séu til þess að aðstæður barnanna breytist til hins betra verði stefndu falin forsjá þeirra enda komi fram í tveimur skýrslum tilsjónarmanns og foreldrahæfismati að stefnda virðist ekki geta nýtt sér stuðning barnaverndaryfirvalda þar sem hana skorti innsýn í þarfir telpnanna. Þetta styðji önnur gögn málsins, s.s. greinargerð barnaverndarnefndar [...] frá 18. apríl 2013 en þar komi fram að þau margvíslegu úrræði sem nefndin hafi beitt sér fyrir og snúi einkum að stuðningi við móðurina við umönnun barnanna, hafi ekki borið tilskilinn árgangur. Stefnandi hafi hins vegar nýtt sálfræðitíma vel, mætt í þá alla og sé á góðri leið með að ná jafnvægi. Hann hafi nú kannast við kynhneigð sína sem hafi valdið nokkru umróti í lífi hans og ekki hikað við að leita sér stuðnings þegar hann hefur þurft á stuðningi að halda. Þá séu sterkar vísbendingar um að stuðningur við hann beri árangur enda komi fram í greinargerð Barnaverndar frá 18. apríl 2013 að hann hafi tekið leiðbeiningum vel og haft frumkvæði að því að leita sér aðstoðar hjá presti og samtökum 78. Hann hafi mætt reglulega í sáfræðiviðtöl og farið á HAM námskeið sem hann telji að hafi hjálpað sér við að setja stefndu mörk sem hann viti að sé mikilvægt fyrir telpurnar. Þá hafi hann undirgengist foreldrahæfisnámskeið sem hann hafi lært mikið af. Í þriðja lagi er byggt á því að telpurnar séu orðnar mun tengdari stefnanda en stefndu. Stefnandi telji sig hafa annast börnin allt frá fæðingu þeirra til jafns á við stefndu fram til þess að hann sleit sambúð. Hafi hann verið sá sem veitti þeim skjól þegar hömluleysi stefndu hafi komið í ljós. Eftir að telpurnar hafi farið að vera meira hjá föður sínum hafi öryggi þeirra aukist en það hefur dýpkað tengsl þeirra við stefnanda. Í fjórða lagi sé krafa stefnanda reist á því að persónulegar og félagslegar aðstæður hans falli betur að uppeldi telpnanna en aðstæður stefndu. Hann sé reglusamur, rólegur, hlýr og staðfastur og því eigi hann auðvelt með að veita þeim það öryggi sem þau þarfnast til að geta þroskast eðlilega. Til að mæta þörfum telpnanna hafi stefnandi sagt vinnu sinni lausri vegna vinnutíma sem ekki hafi samræmst daglegri rútínu þeirra.  Stefnandi hafði safnað töluverðum fjármunum í sjóð til að mæta óvæntum útgjöldum þar til hann finnur nýtt starf. Krafa stefnanda er enn fremur reist á því að hann sé líklegri en stefnda til að veita börnunum þann stöðugleika sem þeim er nauðsynlegur. Verði stefndu hins vegar falin forsjá barnanna eða ef ákveðið verður að lögheimili þeirra skuli vera hjá stefndu séu meiri en minni líkur til þess að börnin búi áfram við óviðundandi aðstæður samkvæmt skilningi barnaverndaryfirvalda, sem sé að mati stefnanda óásættanlegt.  Þá telji stefnandi ekki koma til greina að skilja telpurnar að. Mikilvægt sé að þær fái að alast upp saman enda séu þær mjög samrýmdar. Verði ekki fallist á að stefnandi fari einn með forsjá barnanna er þess krafist að ákveðið verði með dómi að lögheimili barnanna skuli vera hjá stefnanda með sömu rökum og fram hafi komið. Krafa stefnanda um meðlag er reist á 54. gr. sbr. 53. gr. barnalaga nr. 76/2003. Upphafstími meðlagskröfu miðast við þann tíma sem börnunum var komið fyrir hjá stefnanda, en hann hefur frá þeim tíma séð einn um framfærslu barnanna. Samkvæmt 2. mgr. 57. gr. er gert ráð fyrir að meðlag skuli ákveðið með hliðsjón af þörfum barns og fjárhagsstöðu og öðrum högum beggja foreldra, þar á meðal aflahæfi þeirra. Krafan um forsjá er reist á V. kafla barnalaga nr. 76/2003, einkum 34. gr.  laganna. Varakrafa stefnanda er reist á 3. mgr. 34. gr. barnalaga en þar segir að ef dómari dæmir sameiginlega forsjá beri jafnframt að kveða á um hjá hvoru foreldra barn skuli eiga lögheimili. Krafan um greiðslu málskostnaðar er reist á 3. mgr. 129. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 en krafan um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1998. III. Málsástæður og lagarök stefndu Stefnda byggir kröfu sína um fulla forsjá telpnanna á því að allt aðrar aðstæður séu fyrir hendi nú en voru þegar aðilar máls þessa stóðu í skilnaði og hafi sífellt verið að rekast á hvort annað auk þess sem skiptum á milli þeirra hafi verið ólokið.  Þá hafði ekki heldur verið komið skipulag á umgengni. Stefnda hafi gert mikið til að forða árekstrum milli aðila og eiga þau í raun ekki að þurfa að hittast nú. Stefnda telur verulega ágalla hafa verið á úttekt og rannsókn sem gerð hafi verið af hálfu barnaverndarnefndar [...] og hafi það verið viðurkennt með því að fela öðrum sálfræðingi gerð forsjárhæfismats. Þá verði að líta til valdníðslu barnaverndarnefndar [...] og starfsmanna barnaverndar [...] sem hafi ekki virt lög um barnavernd þó þeim væri bent á nýjan Hæstaréttardóm þeim til stuðnings.  Ekki geti talist traustvekjandi að byggja frekari ákvarðanir varðandi börnin á neinum gögnum frá nefndinni eða starfsmönnum hennar. Þá byggir stefnda á því að hagsmunum telpnanna sé betur borgið hjá stefndu og að hún sé hæfari til að fara með forsjá þeirra. Ekkert hafi komið fram nú sem bendi til að stúlkunum líði ekki vel hjá móður, engar tilkynningar hafa borist barnavernd Reykjavíkur, frá Leikskólanum [...] þar sem allar stúlkurnar voru í dagvistun eða leikskóla þeirra nú. Hvað varði varakröfu stefnanda um sameiginlega forsjá telpnanna telur stefnda í ljós leitt að aðilar málsins geti ekki farið saman með forsjá barnanna og því engar forsendur fyrir slíkum dómi.  Einnig gerir stefnda kröfu um að kveðið verði á um fyrirkomulag umgengni og að stefnandi beri kostnað af umgengni sinni við börnin. Stefnda telur það telpunum fyrir bestu að föst skipan sé á umgengni, þær séu til jafns hjá aðilum og fylgist að. Stefnda krefst að stefnanda verði gert að greiða stefndu meðlag vegna framfærslu barnanna til 18 ára aldurs þeirra eins og barnalífeyrir er ákveðinn hverju sinni. Þá krefst stefnda greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnanda  samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að teknu tilliti til virðisaukaskatts eins og eigi væri um gjafsóknarmál að ræða.                  Stefnda byggir kröfu sína um að hafnað verði kröfu stefnanda um forsjá stúlknanna og að henni verði með dómi einni falin forsjá þeirra  á 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Krafa um meðlag og ákvörðun umgengni byggir á 4. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Málskostnaðarkrafan styðjist við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 1. mgr. 130. gr. laganna.  Krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. IV. Niðurstaða Í máli þessu gerir stefnda aðallega kröfu um fulla forsjá dætra sinna A, B og C. Stefnandi féll frá aðalkröfu sinni sem var sama efnis og krefst nú að forsjáin verði sameiginleg eins og verið hefur frá því að sambúð lauk í ágúst 2012. Þá krefst hann að lögheimili telpnanna verði hjá honum. Aðilar máls gera hvor um sig kröfu um að dómurinn kveði á um inntak umgengnisréttar og meðlag. Atvikum og aðdraganda máls þessa hefur áður verið líst, svo og því ástandi sem ríkti frá þeim tíma er sambúð aðila lauk og þar til úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur var kveðinn upp 19. desember 2013, þar sem fallist var á varakröfu stefnanda um að flytja lögheimili telpnanna til bráðabirgða til hans þar til dómur gengi í málinu. Til grundvallar þeirri niðurstöðu var fyrst og fremst það sem talið var telpunum fyrir bestu en samskipti aðila voru með þeim hætti að það kom niður á þeim með merkjanlegum hætti. Vegna vanstillingar stefndu reyndist henni ekki kleift að halda þeim utan við deilur hennar við stefnanda. Þegar af þeirri ástæðu var stefnandi talinn vera betur í stakk búinn til að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf telpnanna og betur til þess fallinn að halda eðlilegum samskiptum í skorðum. Þessari niðurstöðu til stuðnings var auk þess forsjárhæfnismat Einars Inga Magnússonar sálfræðings sem framkvæmt hafði verið að beiðni barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar. Ekki þóttu forsendur til þess að fella niður til bráðabirgða sameiginlega forsjá málsaðila en fallist var á kröfu stefnanda um takmarkaða umgengni stefndu við telpurnar. Til þess að fallast megi á að hverfa skuli frá sameiginlegri forsjá telpnanna eins og hún er nú og fela stefndu forsjána að öllu leyti þurfa að liggja fyrir þau rök að það sé telpunum fyrir bestu rétt eins og kveðið er á um í 2. mgr. 34. gr. barnalaga. Í ákvæðinu er að finna vegvísa sem dómari skal líta til þegar leist er úr ágreiningi um forsjá eða lögheimili, þ.e. hæfi foreldra, stöðugleika í lífi barns, tengsla barns við báða foreldra, skyldu þeirra til að tryggja rétt barnsins til umgengni, hættu á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi og vilja barns að teknu tilliti til aldurs og þroska. Samkvæmt 4. mgr. 34. gr. laganna skal dómari við mat á því hvort forsjá skuli vera sameiginleg, auk ofangreindra atriða, taka mið af því hvort forsjáin hafi áður verið sameiginleg og af aldri og þroska barns. Þá ber sérstaklega að líta til þess hvort ágreiningur eða samskipti foreldra séu líkleg til að koma í veg fyrir, hindra eða draga úr möguleikum barns til að alast upp við þroskavænleg skilyrði. Staða málsaðila er áþekk þegar kemur að vissum þáttum. Uppeldisár þeirra beggja voru erfið og hafa þau bæði gengið í gegnum mikla erfiðleika þó af ólíkum toga sé. Þau eru einstæð í dag en njóta stuðnings fjölskyldu og vina. Ekki liggur annað fyrir en að þau séu bæði reglusöm og vinna þau bæði að því að styrkja sjálf sig með ýmsum úrræðum, m.a. félagslegum og sálfræðilegum. Hvorugt þeirra er í föstu starfi um þessar mundir og fá þau því bæði bætur frá hinu opinbera. Óumdeilt er, og staðfest í matsgerð F sálfræðings, að málsaðilar báðir eru hæfir foreldrar. Stefnda telur hins vegar að hún sé hæfari og því beri að fallast á aðalkröfu hennar. Hvað varði mat á persónuleika hennar hafi D sálfræðingur ranglega greint hana með hambrigðapersónuleikaröskun. Gagnrýni var sett fram á greininguna með rökstuddum hætti af hálfu sálfræðings stefndu E og undir þá gagnrýni tekur F í sínu mati en engin merki hafa sést í prófum stefndu um geðveiki eða persónuleikaröskun. Hins vegar telur hann ljóst að stefnda hafi orðið fyrir áfalli þegar stefnandi sleit sambúð þeirra sem hafi vakið upp undirliggjandi einkenni áfallastreituröskunar. Hvað varðar uppeldislega þætti sem hér skipta mestu máli er hæfni foreldra til þess að gera sér grein fyrir þeim áhrifum sem neikvæð hegðun hefur á telpurnar, svo og eftirfylgni þar að lútandi. Þetta er það atriði sem stóð stefndu sérstaklega fyrir þrifum. F gaf skýrslu fyrir dóminum og staðfesti að frá þeim tíma er síðasta mat var framkvæmt og þar til stefnda kom í viðtöl og próf til hans hefði hún náð verulegum árangri í að bæta hugarfar sitt, jafna sig á kvíða, sorg og reiði eftir skilnað og bæta samskipti sem fóru úr skorðum. Fram kemur í mati hans að stefnda mælist nú laus við þunglyndi og kvíðaröskun, en þau einkenni voru til staðar samkvæmt fyrra forsjárhæfnismati. Þær niðurstöður benda til þess að hún finni sig standast aðsteðjandi álag og hafi tekist að aðlaga sig og skapa sér nokkurn stöðugleika. Telur hann að stefnda búi nú yfir nægri hæfni til að hafa með höndum forsjá barna sinna og hlúa að velferð þeirra rétt eins og stefnandi. F kvaðst treysta foreldrunum báðum fyrir telpunum og að þeim væri ekki hætta búin í umsjá þeirra. Stefnandi gaf skýrslu fyrir dóminum og staðfesti að stefnda hefði tekið sig á og væri í betra jafnvægi. Þau vandi sig bæði í samskiptum barnanna vegna og hafi því ekki orðið árekstrar í sama mæli og áður. Þó sé enn mikil spenna þeirra á milli og þurfi því ævinlega að stíga varlega til jarðar. Stefnda bar á sama veg og kvaðst í dag „komin á annan stað“, hún hafi tekið á reiðivanda sínum og sé enn að vinna í sjálfri sér. Málsaðilar báðir kváðust meðvitaðir um þörf á að halda telpunum utan við ágreining þeirra og sögðust þegar merkja jákvæð áhrif þess á telpunum. Væri það sér í lagi þegar þær skynjuðu að foreldrar þeirra gætu átt eðlileg samskipti og talað á afslöppuðum nótum um hvort annað. Vildu þau bæði hlúa að telpunum til að stuðla að aukinni öryggistilfinningu þeirra og vellíðan. Fyrir dóminn kom leikskólakennari telpnanna sem bar um að þær væru allar í góðu jafnvægi og hefðu hver um sig náð miklum framförum bæði í þroska og félagslega. Nefndi hún einstaka þætti í þessu sambandi. Kvað hún leikskólann hafa haft áhyggjur af eldri telpunum fyrir skilnaðinn enda hafi ágreiningur foreldra komið greinilega niður á þeim. Í dag væru þær „rosalega flottar“ og allt sem viðkæmi telpunum væri í góðri samvinnu við báða foreldra en það væri breyting frá því sem áður var hvað stefndu varðaði. Eins og fram er komið flutti stefnda aftur til [...] í sumar. Telpurnar voru í um tvo og hálfan mánuð á leikskóla í Reykjavík og var umönnun og aðbúnaði telpnanna á þeim tíma ekki ábótavant. Stöðugleiki telpnanna hingað til hefur hins vegar oft verið lítill og eftir skilnaðinn voru þær ýmist hjá stefnanda eða stefndu í lengri eða skemmri tíma. Hins vegar er ljóst að líðan telpnanna nú er allt önnur en hún var fyrir skilnað aðila. Ástæða þess er eflaust aðlögunarhæfni þeirra og bætt andleg líðan beggja aðila málsins. Tilfinningaleg tengsl telpnanna við aðila báða eru að mati F sálfræðings talin sterk og jákvæð. Athugun á samskiptum aðila við börnin sýni að þau beri ást og umhyggju til þeirra og eigi auðvelt með að tjá sig um það og sýna í verki. Ekki voru framkvæmd tengslapróf á telpunum sem þóttu of ungar til þess. Taldi sálfræðingurinn þá elstu, A, hafa að hans mati gefið skýr skilaboð um að hún vildi njóta rýmri samvista við móður sína. Aðspurður kvaðst hann ekki greina merki þess að tengsl stefndu við börnin væru óheilbrigð, þ.e. að hún notaði telpurnar sem sálusorgara og ekki væri heldur sýnt fram á innrætingu. Ekki var framkvæmt sérstakt tengslapróf á foreldrum líkt og í forsjárhæfnismati D sálfræðings. Var þá framkvæmt próf á foreldraálagi og tengslum en niðurstöður þeirra voru innan eðlilegra marka eða vel innan eðlilegra marka hjá aðilum báðum. Frá því að úrskurður héraðsdóms var kveðinn upp í desember sl. hafa telpurnar verið aðra hverja helgi frá föstudegi til mánudags hjá stefndu en annað fyrirkomulag var um jól og páska. Í sumar gerðu aðilar samkomulag um að hafa telpurnar hjá sér til skiptis hálfan mánuð í senn. Fyrir dómi nefndu þau dæmi um að stefnda hefði fengið rýmri umgengni þegar hún gekk eftir því og gátu þau haft eðlileg samskipti um það. Fram kom að ekki hefði komið formleg beiðni um rýmri umgengni frá stefndu á tímabilinu. Í skýrslutökum af aðilum fyrir dómi og í samræðum við þá í sáttaumleitunum kom glögglega fram gagnkvæmt vantraust þeirra sem er orsök veikleika í samskiptum þeirra í dag. Bæði telja þau að þegar máli þessu ljúki sé hætta á að hinn aðilinn muni ekki tryggja rétt telpnanna til umgengni og jafnvel að hinn aðilinn muni flytja í burtu með telpurnar. Vísa þau bæði til atvika úr fortíðinni og draga af því ályktanir til framtíðar. Að mati dómsins eru engin teikn um að þau hafi ástæðu til að óttast þetta og það án samráðs við hinn aðilann. Hvað varðar viðhorf þeirra til umgengni telpnanna við hitt foreldrið kveðst stefnandi nú viðurkenna og sjá þörf telpnanna til þess að vera meira hjá stefndu en verið hefur. Kvaðst hann sjá fyrir sér að með tíð og tíma yrði hún til jafns. Hann telji hagsmunum þeirra þó betur borgið ef sú rýmkun yrði í áföngum og að aðilar myndu á tímabilinu fá aðstoð sameiginlega við að bæta samskiptin þeirra á milli með hag telpnanna í huga. Hafi þessi hugmynd verið viðruð við hann af stefndu upphaflega. Stefnda hefur frá upphafi talað fyrir rúmri umgengni við hitt foreldrið og telur að hún eigi að vera jöfn. Stefnda byggir á að vilji telpnanna komi glöggt fram í athugunum F sálfræðings og vísar til umfjöllunar í matsgerð um heimsókn á heimili stefndu og teikninga A. Að mati dómsins verða ekki dregnar af þessum atriðum aðrar ályktanir en þær sem áður eru raktar að A þarfnist þess að vera meira með móður sinni en verið hefur. Hún var sú eina sem var fædd þegar stefndi flutti út í tvígang, annars vegar á árinu 2009 og hins vegar á árinu 2010. Hins vegar verður ekki hjá því litið að hún er á þeim aldri er barn leggur sig fram við að þóknast foreldrum sínum. Af hegðun barnanna á þessum aldri er því varhugavert að draga of víðtækar ályktanir. Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laga nr. 76/2003 á barn rétt á forsjá beggja foreldra sem eru í hjúskap eða hafa skráð sambúð sína í þjóðskrá. Samkvæmt þessu er sameiginleg forsjá meginregla þegar svo er ástatt og færa þarf fram sérstök rök fyrir því að réttlætanlegt sé að víkja frá henni. Að mati dómsins hefur stefnda ekki sýnt fram á að hún sé hæfari til þess að fara með forsjá telpnanna og að það réttlæti frávik frá ofangreindri meginreglu. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 61/2012 þar sem gerðar voru breytingar á barnalögum, m.a. með ákvæðum um sameiginlega forsjá, segir að ganga verði út frá því að gott samstarf sé alla jafna forsenda þess að vel takist til með sameiginlega forsjá foreldra sem ekki búa saman og þetta fyrirkomulag leggi foreldrum ríkar skyldur á herðar. Hins vegar megi ekki líta fram hjá því að sameiginleg forsjá geti átt rétt á sér þótt aðilar séu ekki sammála um allt í lífi barns, takist á og þurfi jafnvel að leita aðstoðar til að leysa úr ágreiningi. Þá verði að taka tillit til þess að forsjá hefur mikilvæg réttaráhrif jafnvel þegar um lítil samskipti er að ræða, t.d. á réttarstöðu forsjárforeldris við andlát hins foreldrisins. Lykilatriði sé að foreldrum takist að halda barni utan við ágreining og tryggja að ágreiningurinn, eða það hvernig foreldri beiti forsjánni, komi ekki í veg fyrir, hindri eða dragi úr möguleikum barns að alast upp við örugg og þroskavænleg skilyrði. Stefnda byggir kröfu sína um fulla forsjá m.a. á því að ekki sé lengur grundvöllur fyrir sameiginlegri forsjá enda telji hún vafasamt að aðilar geti haft góð samskipti um málefni telpnanna til framtíðar. Í samræðum við stefndu við sáttaumleitanir undir meðferð málsins og við aðalmeðferð málsins kom fram hjá henni að hún teldi sig hafa stigið skref í átt að bættum samskiptum en stefnandi hefði hins vegar ekki gert hið sama. Þau jákvæðu áhrif sem bersýnileg væru á telpunum væru því hennar vegna. Þá taldi hún það einnig hafa haft jákvæð áhrif á þær að hún hefði flutt aftur til [...]. Greina mátti þörf hjá henni fyrir að eiga vináttu við stefnanda og á hún erfitt með að skilja hvers vegna hann býður hana ekki fram en það er að hennar mati börnunum fyrir bestu. Kemur þetta viðhorf einnig fram í matsgerð F. Að mati dómsins verður ofangreindri málsástæðu stefndu ekki fundin stoð í gögnum málsins eða framburðum vitna. Í þessu sambandi nægir að nefna framburð málsaðila sjálfra um bætt samskipti sín á milli og jákvæð áhrif þeirrar framþróunar á telpurnar. Samræmist það framburði leikskólakennara telpnanna, svo og mati F sálfræðings sem telur að með góðum sátta- og samstarfsvilja aðila geti þau haft með sér sameiginlega forsjá dætra sinna. Telur dómurinn sýnt að ekki sé aðalatriði hvaða þættir það eru helstir sem leiddu til þessarar jákvæðu breytinga á telpunum, heldur breytingin sjálf sem er fólgin í því að telpunum er haldið utan við ágreining aðila. Slíkt gerist aðeins með samstarfi á einn eða annan hátt. Fallast má á það með stefndu að nauðsynlegt sé að telpurnar skynji áfram bætt samskipti aðila en skilyrði þess er þó ekki endilega að aðilar séu í sérstöku vinfengi hvort við annað heldur að þau viðurkenni samábyrgð sína gagnvart telpunum. Af framburði stefnanda fyrir dómi verður skýrt ráðið að hann vilji axla þá ábyrgð þrátt fyrir að hann vilji ekki vinasamband við stefndu. Með vísan til ofangreinds telur dómurinn að áframhaldandi sameiginleg forsjá þjóni best hagsmunum telpnanna. Í samræmi við vilja aðila beggja leggur dómurinn áherslu á að þeir fái fagaðstoð til þess að bæta samskipti sín með hið sameiginlega hlutverk að leiðarljósi. Fram kom í skýrslu F sálfræðings fyrir dómi að hann teldi þetta mjög æskilegt. Í samræmi við 3. mgr. 34. gr. barnalaga ber dómara að kveða á um hjá hvoru foreldra barn skuli eiga lögheimili. Í 28. gr. a segir að þegar foreldrar fari sameiginlega með forsjá barns skuli þeir taka sameiginlega allar meiri háttar ákvarðanir er varða barn. Ef foreldrar búi ekki saman hafi það foreldri sem barn á lögheimili hjá heimild til þess að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf þess. Í ákvæði eru talin upp í dæmaskyni nokkrar ákvarðanir af þeim meiði. Þá segir að foreldrar sem fari saman með forsjá barns skuli þó ávallt leitast við að hafa samráð áður en þessum tilteknu málefnum barns er ráðið til lykta. Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 61/2012 segir um þessa grein að með þessu orðalagi séu foreldrar hvattir til að taka tillit til skoðana og sjónarmiða hvors annars.                 Við mat á því hvar lögheimili telpnanna sé best fyrir komið er litið til sömu sjónarmiða og þeirra sem þegar hafa verið rakin. Í þessu sambandi ber jafnframt að líta til þess er fram kemur í mati F um niðurstöður persónuleikaprófs. Þar segir m.a. um stefnanda að ekki séu merki um þunglyndi, kvíða eða reiðivanda. Honum gæti hætt til stífni í samskiptum, að ofgera hlutum eða dæma ef honum mislíkar. Hann hafi fulla trú á eigin dómgreind, skorti ekki sjálfstraust, treysti öðrum varlega og geti farið sínu fram af ákveðni og festu.                 Hvað stefndu varðar bendir útkoman til þess að henni hætti til að bregðast við mótlæti með fljótfærni eða reiði. Hún treysti vel eigin dómgreind og eigi ekki erfitt með að taka ákvarðanir. Þá geti hún orðið óörugg undir streituálagi eða ráðalaus og finnst þá mikilvægt að geta treyst á aðra. Hún treysti öðrum yfirleitt vel.                 Aðspurður fyrir dómi kvað sálfræðingurinn það einkenna stefnanda sem uppalanda að hann fylgdi hlutum betur eftir, en stefnda væri hlýrri. Bæði væru hæf til þess að örva telpurnar til þroska en það samræmist framburði leikskólastjóra um þær breytingar sem orðið hafa á því sviði undanfarið.                 Á meðal gagna málsins er bréf E sálfræðings, dagsett 15. október 2013, þar sem hún lýsir framförum stefndu við að styrkja sjálfa sig. Taldi hún hana því hafa til að bera þá forsjárhæfni sem til þyrfti til að annast dætur sína. Af hálfu stefndu var þess ekki óskað að E kæmi fyrir dóminn og gæfi skýrslu. Því er óupplýst um áframhaldandi vinnu og árangur í þessum efnum.                 Það er mat dómsins að það þjóni hagsmunum telpnanna best að lögheimili þeirra verði hjá stefnanda. Má þar helst nefna ofangreinda þætti í persónugerð stefnanda sem gera hann hæfari til þess að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barnsins, fylgja þeim eftir með jákvæðum aga og tryggja þeim stöðugleika. Þá verður ekki hjá því litið að þrátt fyrir að stefnda hafi gert mikið til þess að styrkja sjálfa sig og efla forsjárhæfni sína, eru ákveðnir óvissuþættir tengdir því hvernig hún bregst við mótlæti og álagi. Fram kom hjá stefndu við sáttaumleitanir og við aðalmeðferð málsins að hún teldi ákveðna tryggingu vera fólgna í því ef lögheimili einnar telpunnar yrði hjá henni og meira jafnræði með aðilum. Dómurinn telur, með vísan til þess sem áður er rakið, ekki rök standa til þess að líta til þessara sjónarmiða. Telpurnar eru allar áþekkar að aldri og mynda samstilltan hóp. Er eðlilegt að þær fylgist að og skal lögheimili þeirra allra því vera hjá stefnanda.                 Í málinu gera aðilar kröfu um að dómurinn kveði á um inntak umgengnisréttar í samræmi við 5. mgr. 34. gr. barnalaga. Við mat á því skal litið til þeirra sjónarmiða sem tilgreind eru í 1.-4. mgr. 47. gr. barnalaga en um þau sjónarmið má vísa til þess sem áður er rakið. Þegar litið er til tengsla stefndu við telpurnar, svo og annarra sjónarmiða sem ber að líta til við mat þetta, telur dómurinn rétt að umgengni telpnanna við hana verði ákveðin rýmri en verið hefur, þ.e. aðra hverja helgi frá föstudegi til mánudags. Telpurnar hafa þörf fyrir hana hver á sinn hátt en eins og áður segir viðurkennir stefnandi þessa þörf þeirra og tekur tillaga hans um umgengni mið af henni. Hann telur hins vegar varhugavert að ákveða nú þegar jafna umgengni, í samræmi við tillögu stefndu, og vísar í því sambandi til jákvæðra framfara telpnanna í þroska og líðan. Til þess er mælst í matsgerð F, að telpurnar verði í rúmri eða jafnri umgengni við foreldra sína. Aðspurður fyrir dómi taldi hann vel koma til greina að auka umgengnina smám saman eftir því sem samstarf aðila þróaðist með velferð dætra þeirra í huga. Við mat á því hvort rúm eða jöfn umgengni sé æskileg fyrir barn ber sérstaklega að líta til þess hvort það hafi jákvæð áhrif á þroska þess miðað við aðstæður. Til þess er að líta að aðilar búa nú í sama sveitarfélagi og telpurnar eru saman á leikskóla. Þær eru allar á forskólaaldri en sú elsta byrjar í grunnskóla á næsta ári. Á þessum mikilvægu mótunarárum eru börn viðkvæm og þarfnast stöðugleika. Of miklar breytingar geta valdið streituviðbrögðum, óöryggi og afturför eða stöðnun í þroska. Til þessa hafa uppeldisár þeirra einkennst af tilfinningalegu róti foreldra þeirra og óstöðugleika, sem sýnilega kom niður á þroska þeirra. Samkvæmt 3. mgr. 47. gr. barnalaga er heimilt þegar sérstaklega stendur á að úrskurða um umgengni allt að 7 daga af hverjum 14 dögum. Orðalag ákvæðisins bendir til þess að þessari heimild skuli beita af varfærni. Almennt er ekki mælt með því fyrirkomulagi fyrir ung börn, af þeim ástæðum sem raktar voru og sér í lagi ekki þar sem togstreita ríkir á milli foreldra. Með hliðsjón af þessu telur dómurinn rétt að telpurnar dvelji hjá stefndu frá miðvikudegi til mánudags. Telpurnar verði sóttar í leikskóla og skilað þangað aftur. Fyrirkomulag umgengni skal að öðru leyti vera í samræmi við tillögur stefnanda og eins og í dómsorði greinir. Dómurinn telur mikilvægt að málsaðilar vinni saman með það fyrir augum að auka umgengni telpnanna við stefndu samfara aldri og þroska þeirra. Bent skal á að samkvæmt 6. mgr. 47. gr. barnalaga hefur sýslumaður heimild til breytinga á umgengnisákvörðun þessari verði þess krafist. Aðilar geta þó ævinlega samið um umgengni án milligöngu sýslumanns. Fram kom fyrir dóminum að ekki væri ágreiningur um að það foreldri sem njóti umgengni greiði kostnað vegna umgengninnar í samræmi við meginreglu 2. mgr. 47. gr. b. Með vísan til 1. mgr. 53. gr., sbr. 3. mgr. 57. gr., barnalaga er stefndu gert að greiða einfalt meðlag með telpunum hverri um sig frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þeirra. Dómurinn telur ekki forsendur til þess að dæma afturvirkt meðlag með telpunum frá 1. ágúst 2013 í samræmi við kröfu stefnanda. Liggur m.a. ekkert fyrir um það hvort réttur til meðlagsgreiðslna hafi verið virkur frá þeim tíma talið. Í ljósi niðurstöðu málsins þykir rétt að hvor málsaðila beri sinn kostnað af rekstri málsins. Með bréfi innanríkisráðuneytisins, dagsettu 8. apríl 2014, var stefnanda veitt gjafsókn í málinu og var þá jafnframt felld úr gildi gjafsókn til handa stefnanda frá 22. janúar 2014. Gjafsóknin er takmörkuð við rekstur málsins fyrir héraðsdómi, réttargjöld, þóknun lögmanns og undirmatsgerð. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.m.t. þóknun lögmanns hans Katrínar Theódórsdóttir hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 1.957.800 kr., greiðist úr ríkissjóði. Með bréfi innanríkisráðuneytisins, dagsettu 6. mars 2014, var stefndu veitt gjafsókn í málinu og var þá jafnframt felld úr gildi gjafsókn til handa stefnanda frá 16. desember 2013. Gjafsóknin er takmörkuð við rekstur málsins fyrir héraðsdómi, réttargjöld, þóknun lögmanns og undirmatsgerð. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, þ.m.t. þóknun lögmanns hans Þuríðar Halldórsdóttur hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 1.827.280 kr., greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun gjafsóknarkostnaðar er litið til umfangs málsins, sem var talsvert, auk þess sem við bætist þóknun lögmanna vegna flutnings um kröfu stefndu um bráðabirgðaforsjá. Dóminn kveða upp Sigríður Hjaltested héraðsdómari, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Þorgeir Magnússon sálfræðingur. D Ó M S O R Ð: Stefnandi, M, og stefnda, K, skulu fara sameiginlega með forsjá barna sinna, A, B og C, til 18 ára aldurs þeirra. Lögheimili barnanna skal vera hjá stefnanda. Börnin dveljist hjá stefndu frá miðvikudegi til mánudags aðra hverja viku. Móðir sæki börnin í leikskóla á miðvikudögum og skili þeim þangað aftur. Um páska dveljist börnin hjá foreldrum til skiptis, hjá föður sínum um páskana 2015 en hjá móður sinni páskana 2016 og þannig koll af kolli. Miða skal við páskaleyfi í grunnskólum. Um jól og áramót dveljist börnin til skiptis hjá foreldrum sínum, hjá móður sinni jólin 2014-2015, á aðfangadegi jóla og jóladag en hjá föður sínum gamlársdag og nýársdag. Jólin 2015-2016 dveljist þær hjá föður sínum á aðfangadegi jóla og jóladag en hjá móður sinni á gamlársdag og nýársdag og svo koll af kolli. Í sumarleyfum dveljist börnin hjá hvoru foreldri um sig í fjórar vikur og fellur umgengni niður á þeim tíma nema samið verði um annað. Tímasetning sumarleyfa verði ákveðin af foreldrum fyrir 15. apríl ár hvert. Stefnda skal greiða einfalt meðlag með hverju barni fyrir sig frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs. Málskostnaður fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.m.t. þóknun lögmanns hans Katrínar Theódórsdóttir hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 1.957.800 kr., greiðist úr ríkissjóði. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, þ.m.t. þóknun lögmanns hennar Þuríðar Halldórsdóttur hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 1.827.280 kr., greiðist úr ríkissjóði.
Mál nr. 633/2014
Skaðabætur Líkamstjón Fasteign
A, starfsmaður L hf., krafðist þess að viðurkennd yrði skaðabótaskylda L og L hf. vegna líkamstjóns sem hún hlaut er hún datt í stiga í húsnæði L. Talið var að A hefði fært sönnur á að hálkuvörnum og umbúnaði stigans þar sem hún féll hefði verið ábótavant og að L og L hf. hefðu ekki gert viðhlítandi ráðstafanir til að varna því að menn sem leið ættu þar um rynnu á hálum flísum ef blautt væri í veðri en ágreiningslaust var að mikið rigndi umræddan dag. Var talið í ljós leitt að ekki hefði verið um einstakt óhappatilvik að ræða. Var krafa A því tekin til greina. 
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari, Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari og Gunnlaugur Claessen fyrrverandi hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. september 2014. Hún krefst þess að viðurkennd verði óskipt skaðabótaskylda stefndu, Landsnets hf. og Landsvirkjunar, vegna líkamstjóns sem áfrýjandi varð fyrir í vinnu sinni hjá stefnda Landsneti hf. 20. mars 2007. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að aðeins verði viðurkennd skaðabótaskylda stefndu að hluta og að málskostnaður verði felldur niður. Áfrýjandi hefur stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti. I Samkvæmt gögnum málsins slasaðist áfrýjandi, sem þá starfaði hjá stefnda Landsneti hf., er hún féll þriðjudaginn 20. mars 2007 í stiga í húsnæði Landsvirkjunar að Krókhálsi 5 c í Reykjavík. Breidd stigans er 125 cm og handrið meðfram stiganum vinstra megin þegar niður er gengið. Hæðarmunur frá stigapalli upp á anddyrisgólfið er um 150 cm. Ágreiningslaust er að mikið rigndi þennan dag. Áfrýjandi hefur haldið því fram að ekki hafi verið motta í anddyrinu við útidyr hússins og mikil bleyta á gólfi innan við dyrnar, en því hafa stefndu mótmælt. Áfrýjandi hélt áfram vinnu sinni eftir slysið og fór ekki til læknis fyrr en laugardaginn 24. mars 2007. Slysið var tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins 27. ágúst sama ár og fór engin rannsókn fram á aðstæðum á slysstað af hálfu þess. Stefndi Landsnet hf. gerði með þátttöku stefnda Landsvirkjunar svokallaða ÖHU skýrslu 9. maí 2007 um atburðinn. Þar er haft eftir áfrýjanda að mikil rigning hafi verið á slysdegi og ekki ósennilegt að gólfflísarnar hafi verið hálar vegna bleytu sem barst inn. Var viðfangsefni þeirra er komu að skýrslunni fyrir hönd stefndu meðal annars að kanna hvort gera þyrfti úrbætur í anddyri og stigahúsi til að fyrirbyggja slys af því tagi sem áfrýjandi varð fyrir. Fóru öryggisstjóri stefnda Landsnets hf., B, og fulltrúi stefnda Landsvirkjunar, C umsjónarmaður fasteignarinnar, á vettvang og skoðuðu aðstæður. Var það niðurstaða þeirra að ekkert væri hægt að gera til lagfæringar á staðnum, þar sem allur frágangur í stigaganginum væri eins og best yrði á kosið. Í niðurlagi skýrslunnar kom fram að í tilviki áfrýjanda væri um einstakt óhapp að ræða sem engin ástæða væri til að ætla að myndi endurtaka sig. Rúmum sjö mánuðum eftir að áfrýjandi slasaðist féll áðurnefndur B við efsta þrep stigans á sama stað og áfrýjandi hafði fallið og rann niður tröppurnar. Hlaut hann áverka við fallið, en þó ekki eins alvarlega og áfrýjandi. Var hann fenginn til að gera ÖHU skýrslu um atvikið ásamt fyrrgreindum C. Samkvæmt skýrslunni 26. október 2007 var haft eftir öryggisstjóranum að þegar komið var að fyrsta þrepi stigans sem liggur niður á næstu hæð, hafi honum virst eins og fótunum væri kippt undan sér og hann runnið harkalega niður stigann. Þennan dag hafi verið mjög blautt á. Ekki hafi verið að sjá neina bleytu á gólfflísunum við stigann, nema eftir skóför hans. Í skýrslunni sagði að sams konar óhapp hefði átt sér stað nánast með nákvæmlega sama hætti ,,23.3. 2007.“ Þeir C mátu það svo að ,,nauðsynlegt væri að setja borða með grófu yfirborði á allar gólfflísar við hvert niðurstig trappanna“ og að með þeim aðgerðum yrði ekki betur gert til ,,að koma í veg fyrir að slíkt óhapp endurtaki sig.“ Öryggisstjórinn bar fyrir dómi að bleyta hefði borist inn í anddyrið er hann féll í stiganum og það verið ástæða þess að hann rann. Af ljósmyndum, sem teknar voru eftir að framangreindar úrbætur voru gerðar, sést að fjórir samsíða borðar voru settir á stigapall í anddyri hússins, auk borða sem límdir voru á sjálf þrepin. Fyrir dómi bar áfrýjandi að umrætt sinn hafi verið bleyta á ganginum ,,bara pollur þarna“ og hún tekist á loft í efsta þrepi stigans og ekki haft neitt til að grípa í. Hún hafi sennilega gengið hægra megin niður stigann. Þá kvað hún að sér væri mjög minnisstætt að engar mottur hafi verið í anddyrinu. Fyrrnefndur C bar hins vegar fyrir dómi að hann hefði keypt mottur um sumarið 2003 sem settar hafi verið við útidyr fasteignarinnar. Hann kvaðst aldrei hafa orðið var við bleytu sem bærist inn, en sagði að sér hafi alltaf fundist ,,sjálfar gólfflísarnar svolítið hálar“, en eins konar ,,hálkuvörn“ hefði hins vegar verið á öllum þrepunum, því brúnir þeirra voru með rákum í. Þá kvað hann að eftir slys áfrýjanda hafi verið settur upp miði við hlið lyftunnar, sem varaði við hálum flísum þegar komið væri inn á blautum skóm. Vitnið C kvað áðurnefnda límborða virka sem hálkuvörn, en yfirborð þeirra væri ekki ólíkt sandpappír og þeir væru notaðir víða. II Samkvæmt grein 202.10 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, sem ágreiningslaust er að tók til umræddrar fasteignar, telst einföld gangbreidd í tröppum vera 0,90 m. Á tröppum sem fara yfir einfalda gangbreidd skulu ávallt vera handrið beggja megin. Ágreiningslaust er að stiginn þar sem áfrýjandi féll var um 125 cm breiður. Áfrýjandi bar fyrir dómi að hún hafi gengið hægra megin niður stigann, þar sem ekki var handrið og því ekkert til að grípa í. Var umbúnaður stigans samkvæmt framangreindu ekki í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðarinnar um handrið beggja megin og með því dregið úr öryggi þeirra er leið áttu um stigann. Vinnueftirliti ríkisins var ekki gert viðvart um slysið fyrr en 27. ágúst 2007. Jafnvel þótt ekki hafi verið fært að tilkynna um það innan sólarhrings, eins og áskilið er í 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, hefði tilkynning stefnda Landsnets hf. í kjölfar vitneskju hans um afleiðingar slyss áfrýjanda, er hún kom ekki til vinnu 26. mars 2007, getað varpað ljósi á hvort motta hafi verið við útidyr, en um það er ágreiningur í málinu. Þar sem ekki var tilkynnt um slysið fyrr en löngu síðar og áfrýjandi heldur því fram að engin motta hafi verið í anddyrinu, verður að leggja til grundvallar framburð hennar um það atriði og hlaut því vatn að eiga greiðari leið en ella inn í anddyri hússins. Öryggisstjóri stefnda Landsnets hf. bar fyrir dómi að bleyta sem borist hafi inn í anddyrið hafi verið ástæða þess að hann missti fótanna í efsta þrepi stigans, um sjö mánuðum eftir að áfrýjandi féll í stiganum. Áfrýjandi lýsti atvikinu á sama veg í svokallaðri ÖHU skýrslu stefnda Landsnets hf. 9. maí 2007. Í kjölfar slyss öryggisstjórans voru gerðar úrbætur á umbúnaði stigans sem fólust í því að límdir voru fjórir samsíða borðar á stigapall í anddyri, auk þess sem límdir voru borðar á þrep stigans sem draga áttu úr hálku. Þá var sett upp aðvörun um hálar flísar í blautu veðri við hlið lyftu. Með vísan til alls þess sem að framan er rakið hefur áfrýjandi fært sönnur á að hálkuvörnum og umbúnaði stigans þar sem hún féll hafi verið ábótavant og stefndu ekki gert viðhlítandi ráðstafanir til að varna því að menn sem leið ættu þar um rynnu á hálum flísunum ef blautt væri í veðri. Í ljós hefur verið leitt að ekki var um einstakt óhappatilvik að ræða. Bera báðir stefndu sök á tjóni hennar og eru ekki efni til þess að skipta sök milli þeirra og áfrýjanda eins og atvikum er háttað. Samkvæmt framansögðu verður krafa hennar tekin til greina og viðurkennt að stefndu beri sameiginlega skaðabótaábyrgð á líkamstjóni því sem áfrýjandi hlaut. Stefndu verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði, en ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað verður staðfest. Dómsorð: Viðurkennt er að stefndu, Landsnet hf. og Landsvirkjun, beri sameiginlega skaðabótaábyrgð á líkamstjóni því er áfrýjandi, A, varð fyrir 20. mars 2007 að Krókhálsi 5c í Reykjavík. Stefndu greiði sameiginlega 850.000 krónur í málskostnað í héraði er renni í ríkissjóð. Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað áfrýjanda skal óraskað. Stefndu greiði áfrýjanda sameiginlega 850.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júlí 2014. I. Mál þetta, sem dómtekið var 23. júní sl., er höfðað af A, […], á hendur Landsneti hf., Gylfaflöt 9, Reykjavík, og Landsvirkjun, Háaleitisbraut 68, Reykjavík, með stefnu birtri 22. júlí 2013. Sjóvá-Almennum tryggingum hf. er stefnt til réttargæslu.       Stefnandi gerir þá dómkröfu að viðurkennd verði óskipt skaðabótaskylda stefndu, Landsnets hf. og Landsvirkjunar, vegna líkamsáverka er hún varð fyrir í vinnuslysi 20. mars 2007. Þá verði stefndu gert að greiða stefnanda málskostnað óskipt samkvæmt málskostnaðaryfirliti. Stefndi, Landsnet hf., krefst þess aðallega að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmd til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins. Til vara krefst stefndi þess að hann verði aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta vegna slyss stefnanda hinn 20. mars 2007 og að málskostnaður verði felldur niður. Stefndi, Landsvirkjun, krefst þess aðallega að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmd til að greiða honum málskostnað samkvæmt mati dómsins. Til vara krefst stefndi þess að hann verði aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta vegna slyss stefnanda hinn 20. mars 2007 og að málskostnaður verði felldur niður. Réttargæslustefndi gerir engar sjálfstæðar kröfur í málinu en tekur fram að hann taki undir málatilbúnað og málsástæður stefndu. II. Málsatvik Atvik máls þessa eru þau að um kl. 13.15, þriðjudaginn 20. mars 2007, var stefnandi, sem þá var starfsmaður stefnda Landsnets hf., á leið á fund í höfuðstöðvum þess fyrirtækis að Krókhálsi 5c þegar hún féll í stiga sem liggur frá anddyri hússins niður á næstu hæð. Féll hún niður á stigapall fyrir neðan með þeim afleiðingum að hún slasaðist og var óvinnufær um tíma af þeim sökum. Fasteignin var í eigu stefnda Landsvirkjunar en stefndi Landsnet hf. leigði skrifstofuhúsnæði á neðstu hæð. Aðstæður á vettvangi eru þær að á gólfum og þrepum eru gegnheilar gólfflísar og á köntum þrepanna eru sérstakar þrepaflísar með riffluðum brúnum. Beint á móti innganginum eru lyftudyr en hægra megin við lyftuna er stigi niður á næstu hæð þar sem skrifstofur stefnda Landsnets hf. voru. Handrið er með stiganum vinstra  megin þegar gengið er niður og er það fest við vegg lyftuhússins. Umræddan dag mun hafa rignt töluvert. Stefnandi heldur því fram að útidyrnar hafi verið búnar að standa lengi opnar, engin motta hafi verið þar fyrir innan og mikil bleyta og hálka því myndast innan við dyrnar. Báðir stefndu hafna þessu hins vegar alfarið sem röngu. Segja þeir að stór gólfmotta hafi verið þarna á gólfinu, auk þess sem á hurðinni hafi verið hurðapumpa þannig að dyrnar lokuðust sjálfkrafa. Í kjölfar slyssins, eða 9. maí 2007, var gerð svokölluð ÖHU-skýrsla stefnda Landsnets hf. um slysið. Kemur þar meðal annars fram að hinn 11. júní sama ár hafi öryggisstjóri fyrirtækisins, ásamt starfsmanni stefnda Landsvirkjunar, farið á vettvang og skoðað aðstæður. Hafi það orðið niðurstaða þeirra að ekkert væri hægt að gera til lagfæringar á staðnum þar sem allur frágangur í stigaganginum væri eins og best yrði á kosið. Stefndi Landsnet hf. tilkynnti Vinnueftirlitinu um slysið hinn 27. ágúst 2007. Samkvæmt læknisvottorði frá Landspítala-háskólasjúkrahúsi, dags. 25. september 2007, leitaði stefnandi á slysa- og bráðadeildina í Fossvogi hinn 24. mars 2007. Kemur þar meðal annars fram eftirgreind sjúkdómsgreining slysa- og bráðadeildar: Brot á öðrum og ótilgreindum hlutum úlnliðs og handa, mar á öxlum og upphandlegg, tognun og ofreynsla á axlarlið og tognun og ofreynsla á lendhrygg. Samkvæmt örorkumatsgerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 29. júlí 2009, var stefnandi metin til 16% varanlegrar örorku vegna umrædds slyss. Hinn 19. nóvember 2009 tóku Sjúkratryggingar Íslands endurskoðaða ákvörðun um slysaörorku stefnanda vegna afleiðinga slyssins og var hún þá hækkuð í 23%. Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum hafnaði rétti stefnanda til bóta úr húseigendatryggingu stefnda Landsnets hf. hjá réttargæslustefnda í úrskurði sínum hinn 26. september 2008. Stefnandi sendi réttargæslustefnda bréf, dags. 11. desember 2012, þar sem þess var krafist að viðurkennd yrði bótaskylda úr almennri ábyrgðartryggingu tryggingarfélagsins vegna slyss stefnanda. Var bréf þetta ítrekað með bréfum, dags. 19. sama mánaðar og 16. janúar 2013. Með kæru til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, dags. 23. janúar 2013, krafðist stefnandi þess að viðurkennd yrði skaðabótaskylda stefndu og greiðsluskylda réttargæslustefnda úr ábyrgðartryggingum stefndu hjá réttargæslustefnda vegna slyss stefnanda. Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar, uppkveðnum 19. mars 2013, var kröfu stefnanda vegna ábyrgðartryggingar stefnda Landsnets hf. hafnað þar sem ekki hefði verið sýnt fram á að rekja mætti óhapp stefnanda til vanrækslu eða ófullnægjandi aðstæðna sem stefndi bæri ábyrgð á. Breytti í því sambandi engu þótt óhappið hefði ekki verið tilkynnt til Vinnueftirlitsins á sínum tíma. Stefnandi fékk hins vegar greiddar bætur úr almennri slysatryggingu, sem stefndi Landsnet hf. hafði keypt fyrir starfsmenn sína, samtals að fjárhæð 9.159.476 krónur, með tveimur greiðslum hinn 5. október 2009 og 10. desember 2009, auk útlagðs kostnaðar.  Við aðalmeðferðina voru teknar skýrslur af stefnanda og vitnunum B, öryggisstjóra stefnda Landsnets hf., D, skrifstofustjóra stefnda Landsnets hf., og C, starfsmanni stefnda Landsvirkjunar. III. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að stefndi Landsnet hf. beri skaðabótaábyrgð á líkamstjóni stefnanda vegna umrædds vinnuslyss á grundvelli vinnuveitandaábyrgðar og sakarábyrgðarreglu skaðabótaréttar. Þá sé og byggt á því að stefndi Landsvirkjun beri ábyrgð á líkamstjóni stefnanda á grundvelli sakarábyrgðar, sem eigandi fasteignarinnar þar sem slysið varð og sem atvinnurekandi í húsnæðinu, sem beri ábyrgð á að gönguleiðir séu þar greiðar og öruggar. Vegna opinbers hlutverks stefnda Landsvirkjunar eigi fjölmargir þangað erindi og því sé enn mikilvægara en ella að aðkomuleiðir að húsnæðinu séu hættulausar með öllu.   Bendir stefnandi á að bæði hin stefndu félög séu opinber félög í eðli sínu, en þau hafi verið stofnuð á grundvelli laga, sbr. lög um stofnun Landsnets nr. 75/2004 og lög um Landsvirkjun nr. 42/1983, þau starfi í þágu almannahagsmuna og séu bæði í meirihlutaeigu ríkisins. Þá verði að gera ríkar kröfur til vinnuveitenda og umráðaaðila fasteignar þar sem margir starfi, þannig að öryggi gangandi starfsmanna og viðskiptavinafyrirtækisins sé tryggt. Stefnandi telji að aðstæður í umræddum stigagangi hafi verið ófullnægjandi og slysahætta mikil. Hafi stefndu því ekki sinnt skyldu sinni og þar með orsakað slys stefnanda í greint sinn. Stefnandi vísi til 17. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, en þar komi fram að þar sem fleiri atvinnurekendur eigi aðild að starfsemi á sama vinnustað skuli þeir og aðrir sem þar starfi sameiginlega stuðla að því að tryggja góðan aðbúnað og heilsusamleg og örugg starfsskilyrði á vinnustaðnum. Varðandi kröfu sína um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefndu Landsvirkjunar og Landsnets hf. kveðst stefnandi einnig vísa til þeirra meginreglna sem fram koma í reglugerð nr. 581/1995, um húsnæði vinnustaða. Sérstaklega sé vísað til 2. og 4. tl. 3. gr. sem og 5. tl. 6. gr. Einnig skírskotar stefnandi til laga nr. 46/1980, sérstaklega til 4., 5., 12. og 13. gr., sem og c-liðar 43. gr. og  1. tl. 52. gr. Stefnandi byggir á því að stiginn þar sem stefnandi féll fullnægi ekki ákvæðum 10. kafla byggingarreglugerðar nr. 441/1988, um hættulausa aðkomuleið að vinnustað, einkum 199. og 202. gr. Samkvæmt skýrslu stefnda Landsnets um slysið komi fram að sams konar slys hafi átt sér stað nánast með nákvæmlega sama hætti sjö mánuðum síðar, eða 26. október 2007. Í kjölfar seinna slyssins hafi verið farið í lagfæringar á stigaganginum. Komi fram í skýrslunni að haft hafi verið samband við húsráðanda að Krókhálsi 5c og ákveðið að skoða hvað væri til ráða svo unnt væri að koma í veg fyrir álíka slys. Komi og fram í skýrslu, dags. 14. nóvember 2007, sem nefnist „úrbætur“, að C, starfsmaður stefnda Landsvirkjunar, ásamt öryggisstjóra stefnda Landsnets hf. hafi skoðað vettvang mjög vel og metið það svo að nauðsynlegt væri að setja borða með grófu yfirborði á allar gólfflísar við hvert niðurstig trappanna. Settir hafi verið þrír til fjórir 25 mm límborðar á allar flísar, við upp- og niðurstig í stigaganginum. Með þessum aðgerðum hafi þeir metið það svo að ekki yrði betur gert til að koma í veg fyrir að slík óhöpp myndu endurtaka sig. Muni verkið hafi verið unnið hinn 30. október 2007. Í ljósi ofangreinds liggi fyrir að starfsmenn stefnda Landsvirkjunar hafi verið sammála um að augljós hætta stafaði af inngangi húsnæðisins og stigaganginum og að öryggi á vinnustaðnum hefði verið verulega ábótavant. Umræddar ráðstafanir hafi fyrst komi til eftir að tvö slys hefðu orðið með svipuðum hætti í stigaganginum. Auðvelt hefði verið að fara í umræddar úrbætur til að draga verulega úr slysahættu, eins og fram komi í áðurnefndri skýrslu. Hins vegar hafi þær ráðstafanir komið of seint. Samkvæmt þessu megi ljóst vera í fyrsta lagi að raunveruleg hætta hafi stafað af stiganum, eins og hann hafi verið útbúinn, er stefnandi slasaðist. Í öðru lagi megi telja líklegt að líkamstjón gæti hlotist af því að einhver félli í stiganum. Í þriðja geti geti það vart hafa verið erfiðleikum bundið fyrir eiganda og rekstraraðila í húsnæðinu að gera sér grein fyrir hættuástandi því sem þarna hafi skapast þegar bleyta barst inn í anddyrið því stiginn sé þar í seilingarfjarlægð. Loks blasi við að auðvelt hafi verið að bæta úr og gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir tjón. Samkvæmt því liggi fyrir að bæði sé um að ræða huglæga ábyrgð stefndu gagnvart stefnanda en einnig hlutlæga ábyrgð á grundvelli reglugerðarbrots.  Lögð sé áhersla á að engan veginn hafi verið auðvelt fyrir stefnanda að gera sér grein fyrir því hættuástandi sem myndast hafi sökum bleytunnar þennan dag, enda hafi verið um að ræða byggingu þar sem fyrirtæki í opinberri þjónustu höfðu aðsetur sitt og margir áttu leið um. Þegar slysið varð hafi engin skilti verið uppi til að vara gangandi vegfarendur við þeirri hættu sem stafað gæti af blautu gólfinu og aðbúnaði stigans. Úr þessu hafi síðan verið bætt í kjölfar seinna slyssins og með því verið viðurkennt að aðvörunar og úrbóta hefði verið þörf. Stefnandi hafi ekki haft neina ástæðu til að gæta sín sérstaklega þegar hún gekk inn um anddyri byggingarinnar í greint sinn, enda hafi hún mátt treysta því að gönguleiðir í byggingu hálfopinberra aðila væru öruggar.  Bent sé á að engin motta hafi verið til staðar við útidyrahurðina á slysdegi og því hafi vatnið átt greiðan inngang inn í anddyrið, þar sem hurðin virðist hafa verið opin talsvert lengi. Bætt hafi verið úr þessu nokkru eftir slysið og mottu þá komið fyrir við útidyrahurðina. Hljóti það að teljast til alvarlegrar vanrækslu að skilja dyrnar eftir opnar, sérstaklega í ljósi veðurs og þess að engin motta hafi verið við útidyrahurðina til að hindra flæði vatns inn um dyrnar. Hefði starfsmönnum Landsvirkjunar mátt vera ljós sú slysahætta sem af kynni að hljótast. Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið telji stefnandi að sök stefndu sé fyrir hendi, enda hafi þeir viðurkennt að stiginn hafi verið hættulegur og að fara þyrfti í úrbætur til að draga úr slysahættunni. Þá bendi stefnandi á að einungis hafi verið handrið öðrum megin í umræddum stigagangi. Stefnandi hafi því ekki haft möguleika á því að stöðva fall sitt með því að grípa í handrið þeim megin sem hún féll og hún hafi ekki náð í handriðið hinum megin.  Á því sé byggt að skv. 79. gr. laga nr. 46/1980 sé skylt að tilkynna til Vinnueftirlits ríkisins, án ástæðulausrar tafar, öll slys þar sem starfsmaður verði óvinnufær í einn eða fleiri daga. Þar sem líkur séu á að starfsmaður hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni skuli tilkynna það eftirlitinu eigi síðar en innan sólahrings. Fram komi í gögnum málsins að slysið hafi ekki verið tilkynnt fyrr en 27. ágúst 2007 og því hafi slysið ekki verið rannsakað af vinnueftirlitinu. Sé í þessu sambandi bent á að fram komi í læknisvottorði til atvinnurekanda, dags. 24. mars 2007, að stefnandi hafi verið óvinnufær með öllu frá slysdegi. Ljóst sé að vinnuveitanda hennar hafi mátt vera það ljóst að hún hefði orðið fyrir varanlegu heilsutjóni og að aðstæður væru með þeim hætti að tilkynna þyrfti slysið og rannsaka það. Þar sem slysið hafi ekki verið tilkynnt með réttum hætti hafi ekki verið rannsakað hvernig bleytan barst inn í anddyrið á slysadegi og hvort aðstæður hafi verið forsvaranlegar er slysið varð. Auðvelt hefði verið að rannsaka orsakir slyssins og með slíkri rannsókn hefði mátt leiða í ljós hvort aðbúnaður hafi verið í samræmi við lög og skráðar hátternisreglur. Sé á því byggt að þar sem slys stefnanda hafi ekki verið tilkynnt með réttum hætti og rannsakað hljóti að verða að taka mið af lýsingu hennar af tjónsatburðinum. Samkvæmt matsgerð E læknis vegna bóta úr launþegatryggingu, dags, 14. apríl 2009, hafi stefnandi tognað illa í baki, hálsi og öxlum í slysinu. Hafi einkenni og skoðun komið heim og saman við tognunaráverka af ýmsu tagi. Hafi hún alls verið metin til 25% varanlegrar læknisfræðilegrar örorku og tímabundin örorka hennar hafi verið metin 100% frá slysdegi til 1. apríl 2008, en 50% frá þeim tíma til 15. september sama ár. Liggi því fyrir að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að gera viðurkenningarkröfu í málinu, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. IV. Helstu málsástæður og lagarök stefnda Landsnets hf. Stefndi Landsnet hf. byggir aðalkröfu sína um sýknu á því að óhapp stefnanda sé ekki að rekja til atvika sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á að lögum, hvorki á grundvelli vinnuveitandaábyrgðar né sakarábyrgðar, eins og stefnandi byggi á. Þá mótmæli stefndi því að húsnæðið hafi verið vanbúið á nokkurn hátt. Inngangur, stigagangur og frágangur stiga að Krókhálsi 5c hafi verið hefðbundinn og viðurkenndur. Gólfmotta hafi verið innan við aðalinngang, anddyri hafi verið lagt hefðbundnum gólfflísum og stiginn verið lagður sérstökum þrepaflísum með riffluðum brúnum. Vinstra megin við stigann hafi verið handrið í 90 cm hæð. Hafi aðbúnaður og frágangur því verið í góðu lagi og gönguleiðir greiðar og öruggar. Með hliðsjón af þessu sé því mótmælt að brotið hafi verið gegn lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, eða gegn reglum settum með stoð í þeim lögum. Aðstæður í stigagangi húsnæðisins hafi uppfyllt allar opinberar kröfur sem gerðar séu til vinnustaða. Því sé og mótmælt að brotið hafi verið með einhverjum hætti gegn reglum nr. 581/1995, um húsnæði vinnustaða. Telji stefndi að ákvæði 2. og 4. tl. 3. gr. reglugerðarinnar, sem varði vinnurými, sem og 5. tl. 6. gr., sem varði gólf, séu uppfyllt að því marki sem ákvæðin geti átt við um húsnæðið. Þá sé ljóst að yfirborð gólfsins og stigans og allur frágangur hafi verið í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 441/1988 og að engar athugasemdir hafi verið gerðar við frágang anddyris eða stigans af hálfu byggingaryfirvalda. Stefndi telji því fullljóst að tjón stefnanda verði ekki rakið til atvika sem hann sem vinnuveitandi beri skaðabótaábyrgð á eða hafi valdið með saknæmum hætti og sé því sérstaklega mótmælt að augljós hætta hafi stafað af inngangi húsnæðisins eða stigaganginum.  Stefndi mótmælir því að gerðar verði ríkari kröfur til hans sem vinnuveitanda þar sem um opinbert fyrirtæki sé að ræða sem sé í meirihluta eigu ríkisins. Ekki sé um að ræða opinbert húsnæði þar sem fjöldi fólks þurfi að sækja þjónustu. Viðskiptavinir stefnda séu fáir og stórir notendur raforku sem ekki eigi oft leið um húsnæðið og verði því ekki lagðar sömu kvaðir á stefnda og aðila sem margir sæki sér þjónustu til, svo sem verslun eða opinbera þjónustuaðila. Þá sé því alfarið mótmælt að á stefnda hvíli hlutlæg ábyrgð vegna slyss stefnanda. Rétt sé að annað óhapp hafi orðið hálfu ári seinna, er öryggisstjóri stefnda hafi fallið í stiganum. Hafi þá verið mjög blautt úti en enga bleytu hafi verið að sjá á gólfflísunum við stigann nema bleytu eftir hans eigin skóför. Í kjölfar síðara slyssins hafi verið settir borðar með grófu yfirborði fremst á stigaþrepin. Stefndi mótmæli því að frekari öryggisráðstafanir, borðar og skilti, í kjölfar síðara slyssins feli í sér viðurkenningu á að aðstæðum hafi verið ábótavant. Þá sé því mótmælt að starfsmenn stefnda hafi verið sammála um að augljós hætta hafi stafað af inngangi húsnæðisins og stigaganginum og að vinnustaðnum hafi verið verulega ábótavant. Þegar stefnandi hafi slasast hefði ekkert slys orðið í stiganum áður og engin vitneskja legið fyrir hjá stefnda um að tröppurnar gætu reynst hálar í bleytu, önnur en almenn vitneskja um að allar flísar gætu reynst hálar í bleytu. Yfir þeirri vitneskju hafi stefnandi búið eða mátt búa. Ítrekað sé í þessu sambandi að hefðbundnar þrepaflísar með riffluðum brúnum hafi verið á stiganum en slíkar flísar sé að finna mjög víða í byggingum hér á landi. Hafi því ekki verið um að ræða hálli flísar en almennt tíðkist. Mótmælt sé þeim fullyrðingum stefnanda að útidyrnar hafi staðið lengi opnar þennan dag, sem og að motta hafi ekki verið fyrir innan dyrnar. Báðar þessar fullyrðingar séu rangar og ósannaðar. Stefndi vísi til þess að byggingarreglugerð geri ekki kröfu um að handrið sé beggja vegna stiga sem þessa. En að auki sé á því byggt að stefnandi hafi vitað að ekki væri handrið beggja vegna og því hafi henni borið að sýna tilhlýðilega aðgæslu og ganga niður stigann þeim megin sem handriðið sé. Komist dómurinn hins vegar að þeirri niðurstöðu að aðbúnaði fasteignarinnar hafi verið ábótavant sé á því byggt að meðstefndi beri skaðabótaábyrgð á því sem eigandi fasteignarinnar en ekki stefndi. Mótmælt sé þeirri staðhæfing stefnanda að leggja verði lýsingu hennar til grundvallar þar sem slysið hafi ekki verið tilkynnt fyrr en síðar. Fyrir liggi að stefnandi hafi haldið áfram vinnu sinni þennan þriðjudag og út vikuna en leitað til læknis á laugardegi. Hafi yfirmenn hennar ekki vitað af slysinu fyrr en síðar og því ekki haft tök á að tilkynna það til vinnueftirlitsins samdægurs. Ljóst sé að þegar stefnandi hafi tilkynnt um atvikið til stefnda hafi öll hugsanleg bleyta verið þornuð upp, hafi hún á annað borð verið á gólfinu. Hefði því rannsókn Vinnueftirlits ekkert frekar leitt í ljós en fyrir liggi í máli þessu. Séu því engin skilyrði að lögum til að draga úr sönnunarkröfu í garð stefnanda, sem beri sönnunarbyrðina um orsök tjóns síns og umfang þess. Fyrir liggi að blautt hafi verið úti þennan dag. Stefnandi hafi því vitað, eða mátt vita í ljósi almennrar þekkingar, að flísar gætu verið hálar í bleytu og að sýna bæri fyllstu varkárni í samræmi við það. Hún hafi þekkt aðstæður að Krókhálsi 5c og ekki verið að koma þar í fyrsta sinn, en hún hafi starfað hjá stefnda sem umsjónarmaður fasteignar hans á […]. Í ljósi þekkingar hennar og reynslu hafi henni borið að sýna tilhlýðilega aðgæslu í umrætt sinn. Stefndi telji að slys stefnanda sé einkum að rekja til óhappatilviks og hugsanlegrar óaðgæslu hennar sjálfrar en ekki á nokkurn hátt til saknæmrar háttsemi af hálfu stefnda eða starfsmanna hans. Varakrafa stefnda byggi í fyrsta lagi á því að stefnandi verði að bera mestan hluta tjóns síns sjálf vegna eigin sakar og skorts á tilhlýðilegri aðgæslu. Um nánari rökstuðning vísist til rökstuðnings aðalkröfu eftir því sem við eigi. Í öðru lagi sé á því byggt að stefndi sé ekki skaðabótaábyrgur vegna þess tjóns sem rakið verði til vanbúnaðar fasteignarinnar. V. Helstu málsástæður og lagarök stefnda Landsvirkjunar Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína á því að fyrirtækið beri ekki ábyrgð lögum samkvæmt á líkamstjóni stefnanda, hvorki á grundvelli sakarábyrgðar, sem eigandi fasteignarinnar þar sem stefnandi slasast, né sem atvinnurekandi í húsnæðinu. Einnig sé á því byggt að ósannað sé að slysið megi rekja til vanbúnaðar á fasteigninni, ófullnægjandi aðstæðna í stigagangi eða annarra þátta sem stefndi beri ábyrgð á lögum samkvæmt. Stefndi sé sameignarfyrirtæki í eigu ríkissjóðs og Eignarhluta ehf., sem sé sjálfstæður réttaraðili er stundi starfsemi á orkusviði ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni, á grundvelli laga nr. 42/1983 um Landsvirkjun. Stefndi stundi ekki starfsemi sem talist geti til hefðbundinnar opinberrar starfsemi, þrátt fyrir að vera í meirihlutaeigu íslenska ríkisins, og sé fyrirtækinu ætlað að lúta lögmálum samkeppnismarkaðar samkvæmt raforkulögum nr. 65/2003. Starfsemi stefnda og starfsstöðvar hans verði því ekki lagðar að jöfnu við húsnæði opinberra stofnana eða bygginga ætluðum almenningi, s.s. pósthús, verslanir, sjúkrahús, skóla, leikhús og sundlaugar. Þá bendi stefndi á að hann hafi haft með höndum mjög takmarkaða starfsemi í húsnæðinu og þangað hafi viðskiptamönnum hans að jafnaði ekki verið stefnt. Sé því mótmælt að við lýði sé strangara sakarmat en ella vegna eignarhalds, tilgangs eða annarra þátta sem snúi að starfsemi stefnda og að á honum hvíli hlutlæg ábyrgð vegna slyssins. Stefndi byggi á því að hann hafi uppfyllt allar skyldur sem á honum hafi hvílt sem eiganda húsnæðisins að Krókhálsi 5c, með tilliti til laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og reglugerðar nr. 581/1995, um húsnæði vinnustaða. Allar aðstæður og aðbúnaður hafi verið í samræmi við þær kröfur sem lögin og reglurnar geri ráð fyrir og sé því mótmælt sem röngu og ósönnuðu að stefndi hafi sem húseigandi gerst brotlegur við eða ekki uppfyllt tilvísuð ákvæði þeirra. Harðlega sé mótmælt þeim fullyrðingum stefnanda að aðstæður í stigagangi fasteignarinnar hafi verið ófullnægjandi og slysahætta mikil og hafi það orsakað slys stefnanda. Engin vitni hafi verið að slysinu en stefnandi hafi sjálf lýst aðstæðum með þeim hætti að mögulega hafi bleyta borist inn í anddyri húsnæðisins og gert flísarnar þar hálar, án þess að slíkt sé fullyrt eða því haldið beinlínis fram. Fyrir liggi að útidyr hússins hafi á slysdegi verið útbúnar með hurðapumpu sem hafi séð til þess að dyrnar lokuðust sjálfkrafa. Umræddan dag hafi vindur staðið upp á austurgafl hússins en útidyr snúi hins vegar í suður og því ómögulegt að vindur hafi nokkur áhrif haft á vatnsburð inn í húsið. Að auki hafi verið stór motta til staðar í anddyri hússins. Stefndi hafi því gætt þess að aðstæður væru eins öruggar og kostur væri. Gólfflísar í anddyri og stigagangi húsnæðisins uppfylli allar þær kröfur sem gerðar séu til þess háttar gólfbúnaðar og yfirborð gólfflísa í stiganum, sem stefnandi hafi fallið í, séu með riffluðu yfirborði til að auka viðnám. Breidd stigans sé 118 cm frá vegg í handrið stigans, sem sé vinstra megin þegar gengið sé niður, og sé handriðið í 90 cm hæð. Í stiganum séu níu þrep og sé hæð hvers þreps á bilinu 16,5-17 cm og hæð stigans frá efsta þrepi að stigapalli, sé 150 cm. Stigflötur hvers þreps sé á bilinu 27-28 cm og uppfylli stiginn því öll viðeigandi ákvæði byggingarreglugerðar nr. 441/1998, þar með talið ákv. 199. og 202. gr. Þar sem rigning hafi verið á slysdegi hafi stefnanda mátt vera ljóst á grundvelli almennrar þekkingar að flest gólfefni geti verið hál í bleytu, án þess að um nokkurn vanbúnað sé að ræða. Stefnandi hafi starfað sem umsjónarmaður fasteigna hjá meðstefnda og því þekkt til húsnæðisins að Krókhálsi 5c. Stefndi telji að fall stefnanda hafi verið óhappatilvik sem enginn beri skaðabótaábyrgð á, en hugsanlega megi rekja óhappið til óvarkárni stefnanda, sem verði undir þeim kringumstæðum að bera tjón sitt sjálf vegna eigin sakar. Rúmu hálfu ári síðar, eða hinn 26. október 2007, hafi orðið annað óhapp í húsnæðinu, þegar öryggisstjóri meðstefnda hafi fallið í sama stiga. Fram komi í lýsingu hans á atburðinum, sem liggi fyrir í málinu, að þennan dag hafi verið mjög blautt og skór hans því blautir. Ekki hafi þó verið að sjá neina bleytu á gólfflísum við stigann nema bleytu eftir skóför hans. Í kjölfar þessa óhapps hafi verið settir límborðar á allar flísar við upp- og niðurstig í stigaganginum til þess að koma í veg fyrir að slíkt óhapp endurtæki sig, eins og segir í framkvæmdalýsingu í sama skjali, en öryggisstjóri meðstefnda og fulltrúi stefnda hafi annast framkvæmdina. Starfsmaðurinn hafi því metið fallið sem óhappatilvik en ekki rakið það til vanbúnaðar á fasteigninni. Sé því mótmælt að framkvæmdir í kjölfar óhappsins hafi falið í sér viðurkenningu á að öryggi á vinnustaðnum hafi verið ábótavant eða að augljós hætta hafi stafað af inngangi húsnæðisins og stigaganginum. Þá sé því mótmælt að lýsing stefnanda á tjónsatburðinum verði lögð til grundvallar í málinu, þar sem slysið hafi ekki verið tilkynnt með réttum hætti til Vinnueftirlitsins og rannsakað. Þannig sé fram komið að tilkynning stefnanda til meðstefnda um slysið hafi ekki borist fyrr en nokkrum dögum eftir atburðinn og því hafi meðstefnda ekki verið mögulegt að tilkynna um það samdægurs, enda hafi stefnandi haldið áfram störfum næstu daga. Komist dómurinn þrátt fyrir það að þeirri niðurstöðu að taka skuli mið af atvikalýsingu stefnanda verði meðstefndi að bera hallann af því en ekki stefndi, þar sem tilkynningarskyldan hvíli á honum skv. 79. gr. laga nr. 46/1980 en ekki stefnda. Til stuðnings varakröfu sé í fyrsta lagi á því byggt að stefnandi verði að bera hluta tjóns síns sjálf vegna eigin sakar. Vísist til málsástæðna og rökstuðnings um aðalkröfu, eftir því sem við eigi um nánari rökstuðning. Einnig sé á það bent að blautt hafi verið úti í greint sinn og mögulegt að einhver bleyta hafi verið á skóm stefnanda. Stefnandi hefði því átt að sýna tilhlýðilega aðgæslu og notast við lyftuna í stað þess að ganga stigann, án þess að sýna þar nægjanlega aðgæslu, með þeim afleiðingum að hún hafi fallið. Verði stefnandi að bera hallann af eigin óvarkárni. Komist dómurinn hins vegar að þeirri niðurstöðu að slys stefnanda verði með einhverjum hætti rakið til vanbúnaðar eða ófullnægjandi öryggisþátta húsnæðisins sé í öðru lagi á því byggt, með vísan til 17. gr. laga nr. 46/1980, að skaðabótaábyrgð skuli skipt milli stefndu. VI. Niðurstaða Eins og fram er komið á ágreiningur málsaðila rætur að rekja til slyss er varð þegar stefnandi féll í stiga húseignarinnar að Krókhálsi 5c, þriðjudaginn 20. mars 2007. Var húseignin á þeim tíma í eigu stefnda Landsvirkjunar en stefndi Landsnet hf. leigði skrifstofuhúsnæði á neðstu hæðinni undir höfuðstöðvar sínar. Stefnandi var á þeim tíma starfsmaður Landsnets hf. og átti því oft leið þarna um, að hennar sögn, þó fastur vinnustaður hennar væri annars staðar. Fyrir liggur að slysið var ekki tilkynnt til Vinnueftirlits ríkisins fyrr en 27. ágúst 2007 og fór því ekki fram nein rannsókn á vegum eftirlitsins á slysstaðnum. Hafa stefndu haldið því fram að þeir hafi ekki haft tök á því að tilkynna slysið samdægurs þar sem stefnda hafi ekki látið vinnuveitanda sinn, stefnda Landsnet hf., vita um slysið fyrr en nokkru síðar. Hafi þá öll hugsanleg bleyta verið þornuð upp hafi hún á annað borð verið á gólfinu þegar slysið var. Fram kom hjá stefnanda fyrir dóminum, og sömuleiðis í tilkynningu hennar til Tryggingastofnunar ríkisins um slysið, að hún hafi mætt til vinnu sinnar næstu daga eftir slysið og ekki leitað til læknis vegna þess fyrr en laugardaginn á eftir, hinn 24. mars 2007. Hins vegar kvaðst hún hafa sagt tilteknum samstarfsmanni sínum frá slysinu er hún kom á vinnustað sinn á ný strax eftir slysið, en engin staðfesting kom þó fram á því fyrir dóminum. Þar sem ekkert annað er komið fram í málinu verður hér við það miðað að stefndu hafi í fyrsta lagi fengið vitneskju um slysið þann dag er stefnandi var fyrst fjarverandi frá vinnu sinni vegna afleiðinga slyssins, mánudaginn 26. sama mánaðar. Með hliðsjón af framangreindu verður hér lagt til grundvallar að stefndu hafi verið ómögulegt að sinna þeirri skyldu sem á þeim hvíldi skv. 79. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og aðbúnað á vinnustöðum, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga sömu laga, að tilkynna um umrætt slys innan sólarhrings til Vinnueftirlitsins. Að því virtu þykir eins og hér háttar, og þrátt fyrir þann drátt sem eftir það varð á því að umræddri tilkynningarskyldu væri sinnt, ekki efni til að láta það hafa áhrif á sönnunarstöðu aðila í málinu. Í kjölfar slyssins var gerð svokölluð ÖHU-skýrsla Landsnets um atburðinn. Er annars vegar um að ræða skráða lýsingu stefnanda á slysinu og aðdraganda þess, dags. 9. maí 2007, og hins vegar skýrslu B, öryggisstjóra stefnda Landsnets hf., um könnun sem gerð var á aðstæðum á staðnum og hugsanlegar úrbætur til að koma í veg fyrir slys af þessu tagi. Í skýrslu stefnanda kemur fram eftirfarandi: „Vildi ekki betur til en svo að ég féll úr efstu tröppu og niður á stigapallinn fyrir neðan. Hæðarmunur er um það bil 1,5 m og þrepin 9. Þennan dag var mjög mikil rigning og ekki ósennilegt að flísarnar inni hafi verið hálar, vegna bleytu sem barst inn.“ Þá kemur fram í skýrslu öryggisstjórans að vegna slyssins hafi hann og C, fulltrúi stefnda Landsvirkjunar, skoðað aðstæður þar sem atvikið gerðist hinn 11. júní 2007. Hafi það verið niðurstaða þeirra að ekkert væri hægt að gera til lagfæringar á staðnum þar sem allur frágangur í stigaganginum væri eins og best yrði á kosið. Loks kemur fram í lok skýrslunnar að D, skrifstofustjóri stefnda Landsnets hf., hefði rýnt þessa niðurstöðu skýrslunnar og að það væri hans mat að ekki yrði frekar aðhafst í málinu hvað húsnæðið varðaði. Þar væri allt eins og best yrði á kosið og að um einstakt óhapp hefði verið að ræða sem engin ástæða væri til að þyrfti að endurtaka sig. Í vitnaskýrslum framangreindra manna fyrir dómi staðfestu þeir allt framangreint. Í málinu liggja frammi ljósmyndir af vettvangi auk þess sem dómari skoðaði sjálfur vettvang, eins og áður er fram komið. Anddyrið er lagt hefðbundnum gólfflísum og stiginn er lagður sérstökum þrepaflísum með riffluðum brúnum. Í miðju anddyrinu er lyfta en til hægri við hana liggur umræddur stigagangur niður á neðri hæð hússins og er handrið í 90 cm hæð, vinstra megin við stigaþrepin. Var allur umbúnaður stigagangsins og anddyrisins sagður vera sá hinn sami og þegar slysið varð, að því undanskildu að umdeilt er hvort motta, sem nú er til staðar fyrir innan innganginn í húsið, hafi verið þar þegar slysið varð. Þá höfðu til viðbótar verið límdir svartir límborðar á allar gólfflísar við hvert niðurstig trappanna. Er fram komið að það hafi verið gert í kjölfar annars slyss sem varð á sama stað hinn 26. október sama ár þegar fyrrgreindur öryggisstjóri stefnda Landsnets hf. rann til og féll efst í stiganum og niður á stigapallinn fyrir neðan. Kemur fram í fyrirliggjandi ÖHU-skýrslu stefnda Landsnets hf. um þann atburð, og í skýrslu öryggisstjórans fyrir dómi, að borðarnir hafi verið settir á í tilraunaskyni til að reyna enn frekar að draga úr líkum á að fólk rynni í tröppunum, þó menn hafi gert sér grein fyrir því að slíkir borðar með stömu yfirborði gætu hugsanlega verið varasamir ef fólk kæmi þar hratt að. Þrátt fyrir að tvö slys hafi orðið með svipuðum eða sama hætti á umræddum stað er það mat dómsins að stefnandi hafi ekki sýnt fram á annað en að allur frágangur við innganginn í húsið, anddyrið og stigann þar sem slysið varð hafi verið með hefðbundnum og viðurkenndum hætti. Verður stefnandi ekki talin hafa sýnt fram á þá fullyrðingu sína að engin motta hafi verið innan við útidyrahurðina og því hafi bleytupollur verið þar á, enda hefur vitnið B borið fyrir dómi að hann hafi löngu áður keypt og komið þarna fyrir mottu innan við dyrnar. Fram er komið að húsnæðið var að hluta starfsstöð vinnuveitanda stefnanda, stefnda Landsnets hf., og að stefnandi hafði í fjölmörg skipti átt þar leið um og þekkti því vel allar aðstæður. Umræddan dag var rigning og bleyta úti og því mátti stefnandi búast við að flísar í inngangi og tröppum hússins gætu verið hálar. Skiptir þá ekki máli hvort einhver bleyta hafi borist inn, þannig að flísarnar við dyrnar væru blautar, eða hvort bleyta sem stefnandi hafi borið inn með sér hafi leitt til þess að hún rann til og féll. Var allt að einu brýnt fyrir hana að sýna ýtrustu varkárni fyrst hún valdi við þær aðstæður að ganga niður stigann í stað þess að taka lyftuna, sem einnig var möguleiki. Er það álit dómsins að ekki hafi verið ljós slysahætta vegna aðstæðna í stigaganginum í greint sinn og hefur ekki verið leitt í ljós að vanbúnaður hafi átt þátt í slysi stefnanda. Samkvæmt öllu framangreindu er það niðurstaða dómsins að aðstæður í anddyri og stigagangi hússins að Krókhálsi 5c hafi ekki verið með þeim hætti að á stefndu verði lögð ábyrgð á því slysi sem stefnandi varð fyrir og að það verði ekki rakið til annars en óhappatilviljunar og aðgæsluleysis stefnanda. Verða stefndu því sýknaðir af kröfu stefnanda. Rétt þykir að málskostnaður falli niður. Stefnandi hefur fengið gjafsókn í máli þessu og greiðist allur málskostnaður hans úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Þormóðs Skorra Steingrímssonar hdl., 850.000 krónur. Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Dómsorð: Stefndu, Landsnet hf. og Landsvirkjun, eru sýknaðir af kröfu stefnanda, A. Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 850.000 krónur.
Mál nr. 219/2015
Kærumál Lögvarðir hagsmunir Frávísunarúrskurður staðfestur
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem máli M ehf. á hendur P, G ehf. og O var vísað frá dómi. M ehf. krafðist þess í málinu að ákvörðun P, þar sem fallist var á beiðni G ehf. um samþykki fyrir hlutafjáraukningu í G ehf. sem O átti að verða greiðandi að, yrði felld úr gildi. Í dómi Hæstaréttar kom fram að eftir að hlutafé G ehf. hefði verið hækkað samkvæmt ákvörðun hluthafafundar hefði M ehf. ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að krefjast ógildingar á umræddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. mars 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. febrúar 2015 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Eftir að hlutafé varnaraðilans Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. var hækkað 28. mars 2014 hafði sóknaraðili ekki lengur lögvarða hagsmuni af því, með skírskotun til 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, að krefjast ógildingar á þeirri ákvörðun varnaraðilans Póst- og fjarskiptastofnunar 24. sama mánaðar að fallast á beiðni varnaraðilans Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. um samþykki fyrir hlutafjáraukningunni. Samkvæmt því og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, Míla ehf., greiði varnaraðilum, Póst- og fjarskiptastofnun, Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. og Orkuveitu Reykjavíkur, hverjum um sig 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Mál nr. 218/2015
Kærumál Gjaldþrotaskipti Meðalganga
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfu A o.fl., um að þeim yrði heimiluð meðalganga í máli þar sem U ehf. krafðist þess að bú G hf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta, var hafnað. Krafa A o.fl., sem voru kröfuhafar í G hf., beindist eins og krafa G hf. að því að kröfu U ehf. yrði vísað frá dómi eða hafnað. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, kom fram að telja yrði að hagsmunir A o.fl. væru nægilega tryggðir með því að G hf. hefði tekið til varna í málinu og haldið þar fram tilteknum málsástæðum máli sínu til stuðnings. Var því talið að A o.fl. hefðu ekki lögvarða hagsmuni af því að eiga aðild að málinu.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 13. mars 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2015, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að þeim yrði heimiluð meðalganga í máli, sem rekið er um kröfu varnaraðila um að bú Glitnis hf. verði tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að þeim verði heimiluð meðalganga. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Sóknaraðilum verður gert óskipt að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðilar, ACMO S.a.r.l., AIO III Finance (Ireland) Ltd., AIO III S.a.r.l., AIO IV Finance (Ireland) Ltd., AIO S.a.r.l., Allen Global Partners LP, Allen Global Partners Offshore, Altair Global Credit Opportunities Fund (A) LLC, Anchorage IO II S.a.r.l., Andromeda Global Credit Fund LTD, Aristeia European Investments S.a.r.l., Aspen Creek Partners LP, Barclays Bank PLC, Bayerische Landesbank, Black Diamond Offshore, Black Diamond Arbitrage Offshore Ltd., Blue Mountain Credit Alternatives Master Fund LP, Blue Mountain Distressed Master Fund LP, Blue Mountain Kicking Horse Fund LP, Blue Mountain Long/Short Credit and Distressed Reflection Fund, Blue Mountain Long/Short Credit Master Fund LP, Blue Mountain Montenvers Master Fund SCA SICAV-SIF, Blue Mountain Timberline Ltd., Burlington Loan Management Ltd., Candlewood Special Situations Master Fund Ltd., Canyon Capital Finance S.a.r.l., Castlelake III Lu S.a.r.l., CCP Credit Acquisitions Holdings Luxco S.a.r.l., Citigroup Financial Products Inc., Citigroup Global Markets Ltd., Compass ESMA LP, Compass TSMA LP, Contrarian Funds LLC, Cornell University, Crown Managed Accounts SPC, CWD OC 522 Master Fund Ltd., Deutsche Bank AG, Double Black Diamond Offshore, Entrust PC Segregated Portfolio Company 2, GGI Lux S.a r.l., GGIE Lux S.a r.l., GMO Credit Opportunities Fund LP, GOF Lux S.a r.l., GS Raven Holdings LP, Halcyon Loan Trading Fund LLC, Hayman Capital Master Fund LP, HHLF LP, Howard Hughes Medical Institute, Indaba Capital Fund LP, JMB Capital Partners Master Fund LP, Latigo Advisors Master Fund Ltd., Latigo Partners MA2 LP, Latigo Ultra Master Fund Ltd., LLSM LP, LMA SPC, Luminous Capital Global Credit Opportunities Fund (A) LP, Luminous Capital Senior Credit Fund-A LP, Luminous Capital Senior Credit Fund LP, Lyxor/Andromeda Global Credit Fund, Managed Accounts Master Fund Services- MAP 15, Map 139 Segregated Portfolio of LMA SPC, Max Participations II S.a.r.l., Merrill Lynch International, Nomura Corporate Funding Americas LLC, North Atlantic Investors L.L.C., OCP Investment Trust, Onex Debt Opportunity Fund Ltd., Owl Creek Investments I LLC, PAC Credit Fund Ltd., PAC Merger Fund I Ltd., PAC Merger Fund II Ltd., PAC Merger Fund III Ltd., PAC Meerger Fund IV Ltd., Paulson Partners Premium LP, PCI Fund LLC, Permal Stone Lion Fund Ltd., Pine River Credit Relative Value Master Fund Ltd., Pine River Fixed Income Master Fund Ltd., Pine River Master Fund Ltd., Pine River Fixed Income LUX Investments S.a.r.l., Pine River LUX Investments S.a.r.l., Pine River Structured Credit Opportunities Master Fund LP, PP Opportunities Ltd., Recovery Opportunities S.a.r.l., Regiment Capital Ltd., RKV Holdings LLC, SB Special Situations Fund Ltd., Scoggin International Fund Ltd., Scoggin Capital Management II LLC, Scoggin Worldwide Fund Ltd., Serengeti Manyara Cooperatief U.A., Silver Point Luxembourg Platform S.a.r.l., SL Investments S.a r.l., SL Liquidation Fund LP, SL Portfolio Investments LLC, Sola Ltd., Solus Core Opportunities LP, Solus Opportunities Fund 1 LP, Solus Opportunities Fund 2 LP, Solus Opportunities Fund 3 LP, Solus Recovery Fund II Master LP, Solus Recovery Fund III Master LP, Solus Recovery Fund LP, Solus Recovery Fund Offshore Master LP, Solus Recovery LH Fund LP, Southpaw Credit Opportunity Master Fund LP, TCA Event Investments S.a.r.l., TCA Opportunity Investments S.a.r.l., TCA Sidecar I S.a.r.l., TCS II Lu S.a.r.l., TCS II Opportunities Lu S.a.r.l., TCW/Scoggin Event Driven Master Fund LP, Third Point Loan LLC, TP Lux HoldCo S.a.r.l., Ultra Master Ltd., Venor Capital Master Fund Ltd., Whilton Holdings LLC, Windermere Ireland Fund plc og XL Re Ltd., greiði varnaraðila, Ursusi ehf., óskipt 1.000.000 krónur í kærumálskostnað.
Mál nr. 235/2015
Kærumál Brottvísun af heimili Nálgunarbann
Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur, með vísan til 1. mgr. 12. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, krafist þess að staðfest verði ákvörðun lögreglustjórans sem tekin var þann 16. mars 2015, með vísan 4. og 5. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. mars 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 18. mars 2015 þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 16. sama mánaðar um að varnaraðili sætti brottvísun af heimili og nálgunarbanni, eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að brottvísun af heimili og nálgunarbanni verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011. Dómsorð Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Þóknun verjanda varnaraðila, Auðuns Helgasonar héraðsdómslögmanns, fyrir Hæstarétti, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Mál nr. 236/2015
Kærumál Vitni
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var beiðni X, Y og Z um að tveir af dómendum í sakamáli á hendur þeim og einum öðrum manni, sem lauk með dómi í héraði í júní 2014, skyldu gefa skýrslu fyrir héraðsdómi í tengslum við rekstur málsins fyrir Hæstarétti. Í dómi Hæstaréttar kom fram að engin heimild stæði til að leiða fyrir dóm til skýrslugjafar dómendur sakamáls til að beina til þeirra spurningum um meðferð þess. Þegar af þessari ástæðu var hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar. Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 25. mars 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. mars 2015, þar sem hafnað var beiðni varnaraðila um að tveir af dómendum í máli á hendur þeim og einum öðrum manni, sem lauk með dómi í héraði 5. júní 2014, skyldu gefa skýrslu fyrir héraðsdómi í tengslum við rekstur málsins fyrir Hæstarétti. Kæruheimild er q. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar krefjast þess að fyrrgreind krafa þeirra verði tekin til greina. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008 er hverjum manni, sem orðinn er 15 ára, lýtur íslenskri lögsögu og er ekki ákærði eða fyrirsvarsmaður hans, skylt að koma fyrir dóm sem vitni til að svara munnlegum spurningum sem beint er til hans um málsatvik. Jafnframt stendur heimild til að leiða fyrir dóm til skýrslugjafar þann sem veitt hefur lögreglu sérfræðilega aðstoð eða ráðgjöf áður en mál var höfðað. Hið sama gildir um matsmann, sbr. 132. gr. laganna. Á hinn bóginn stendur engin heimild til að leiða fyrir dóm til skýrslugjafar dómendur sakamáls til að beina til þeirra spurningum um meðferð þess. Þegar af þessari ástæðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 597/2014
Fasteignakaup Galli Gagnkrafa Gagnsök Gjaldþrotaskipti Frávísun frá héraðsdómi að hluta
Þrotabú K ehf. höfðaði mál á hendur G og S til heimtu eftirstöðva kaupverðs vegna fasteignar, en G og S báru meðal annars fyrir sig ætlaða galla á hinu selda. Fyrir Hæstarétti höfðu aðilarnir uppi ýmsar kröfur. Hæstiréttur tiltók að þrotabú K ehf. hefði ekki gagnáfrýjað héraðsdómi  og kæmu því ekki til álita kröfur hans um annað en staðfestingu héraðsdóms og málskostnað fyrir réttinum. Þá var í dómi Hæstaréttar rakið að G og S hefðu í héraði höfðað gagnsök á hendur þrotabúinu vegna ætlaðra galla á hinni seldu fasteign. Taldi Hæstiréttur að G og S hefði samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. verið óheimilt að höfða gagnsök á hendur þrotabúinu, þótt þeim hefði verið heimilt að hafa uppi gagnkröfu til skuldajafnaðar í máli þrotabúsins á hendur þeim, en að auki hefði gagnsök ekki verið höfðuð innan lögboðins frests, sbr. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Var gagnsök G og S því vísað frá héraðsdómi. Stóð deila aðila fyrir Hæstarétti því einungis um fjárhæð gagnkröfu G og S til skuldajafnaðar við kröfu þrotabús K ehf. um greiðslu eftirstöðva kaupverðs hinnar seldu fasteignar. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms, með vísan til forsendna hans, um að taka til greina gagnkröfu G og S tiltekinnar fjárhæðar, er nam tjóni G og S samkvæmt tveimur matsgerðum að frádregnum tryggingarbótum sem féllu þeim til vegna galla á fasteigninni, og skyldi gagnkrafan koma til frádráttar kröfu þrotabús K ehf.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari. Dómur Héraðsdóms Reykjaness 11. júní 2014. Mál þetta, sem dómtekið var 7. maí sl., er í aðalsök höfðað 14. febrúar 2012 af þrotabúi KO-96 ehf., Knarrarvogi 4, Reykjavík, gegn Guðlaugu F. Stephensen og Sigurði Tyrfingssyni, báðum til heimilis að Nýhöfn 3, Garðabæ. Í aðalsök eru dómkröfur stefnanda þær að gagnstefnendur verði dæmdir in solidum til að greiða aðalstefnanda skuld að fjárhæð 46.000.000 króna, ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla, sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.000.000 króna frá 30. október 2007 til 29. febrúar 2008, af 22.000.000 króna frá þeim degi til 1. mars 2008, af 33.000.000 króna frá þeim degi til 1. júní 2008, af 43.000.000 króna frá þeim degi til 30. júlí 2008, en af 46.000.000 króna frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum 30. október 2007 að fjárhæð 2.000.000 króna, 23. september 2008 að fjárhæð 17.500.000 krónur, 2. október 2008 að fjárhæð 5.000.000 króna og 26. janúar 2009 að fjárhæð 2.825.000 krónur, eða samtals að fjárhæð 27.325.000 krónur, sem dragist frá skuldinni miðað við stöðu hennar á hverjum innborgunardegi.  Þá krefst aðalstefnandi vaxtavaxta skv. 12. gr. laga nr. 38/2001 er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, auk málskostnaðar. Í aðalsök krefjast gagnstefnendur aðallega sýknu af öllum kröfum aðalstefnanda og að þeim verði dæmdur málskostnaður úr hendi aðalstefnanda. Til vara krefjast gagnstefnendur þess að gegn greiðslu 1.995.349 króna gefi aðalstefnandi út kvaðalaust afsal til gagnstefnenda fyrir fasteigninni Nýhöfn 3, íbúð 102, fastanúmer 229-1595 og að gagnstefnendum verði dæmdur málskostnaður úr hendi aðalstefnanda. Til þrautavara krefjast gagnstefnendur þess í aðalsök að kröfur aðalstefnanda verði lækkaðar og kröfur gagnstefnenda verði teknar til greina, hvoru tveggja að álitum dómsins, og að gagnstefnendum verði dæmdur málskostnaður úr hendi aðalstefnanda. Gagnstefnendur höfðuðu mál gegn aðalstefnanda 22. maí 2013. Kröfur stefnenda í gagnsök eru þessar: Aðallega að viðurkennd verði krafa gagnstefnenda á hendur aðalstefnanda að fjárhæð 223.285.151 króna, sem sé metið tjón á sameign fasteignarinnar Nýhöfn 1-3-5 samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna og metið tjón á séreignarhlutum íbúða 102, 302 og 304, sbr. matsgerðir dómkvaddra matsmanna. Jafnframt að viðurkennd verði krafa gagnstefnenda til að skuldajafna kröfu sinni við kröfu stefnanda í aðalsök. Þá krefjast gagnstefnendur þess einnig að aðalstefnandi verði dæmdur til að greiða gagnstefnendum 183.397.556 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr.  III. kafla, laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. mars 2011 til greiðsludags. Hefur þá verið tekið tillit til ógreiddra eftirstöðva kaupverðs, samkvæmt kaupsamningi, 18.675.000 króna, úr starfsábyrgðartryggingu byggingarstjóra og hönnuðar, samtals 21.212.595 krónur, vegna húsfélagsins að Nýhöfn 1-3-5, vegna tjóns á sameign fasteignar. Enn fremur krefjast gagnstefnendur þess að aðalstefnanda verði gert skylt að gefa út kvaðalaust afsal fyrir fasteigninni Nýhöfn 3, íbúð 102, fastanúmer 229-1595 til gagnstefnenda. Til vara krefjast gagnstefnendur þess að viðurkennd verði krafa þeirra á hendur aðalstefnanda að fjárhæð 52.856.792 krónur, sem séu 3/15 hlutar metins tjóns á sameign fasteignarinnar Nýhöfn 1-3-5 samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna og metið tjón á séreignarhlutum íbúða 102, 302 og 304, sbr. matsgerðir dómkvaddra matsmanna. Jafnframt að viðurkennd verði krafa gagnstefnenda til að skuldajafna kröfu sinni við kröfu stefnanda í aðalsök. Þá krefjast gagnstefnendur þess einnig að aðalstefnandi verði dæmdur til að greiða gagnstefnendum 29.939.073 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. III. kafla, laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. mars 2011 til greiðsludags. Hefur þá verið tekið tillit til ógreiddra eftirstöðva kaupverðs samkvæmt kaupsamningi 18.675.000 króna ásamt greiðslum úr starfsábyrgðartryggingu byggingarstjóra og hönnuðar, sem samtals nemi 3/15 hlutum vegna metins tjóns á sameign fasteignar, samtals 4.242.519 krónur. Enn fremur krefjast gagnstefnendur þess að aðalstefnanda verði gert skylt að gefa út kvaðalaust afsal fyrir fasteigninni Nýhöfn 3, íbúð 102, fastanúmer 229-1595 til gagnstefnenda. Til þrautavara krefjast gagnstefnendur þess að viðurkennd verði krafa gagnstefnenda á hendur aðalstefnanda að fjárhæð 18.093.824 krónur, sem sé 1/15 hluti metins tjóns á sameign fasteignarinnar Nýhöfn 1-3-5 samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna og metið tjón á séreignarhluta íbúðar 102, sbr. matsgerð dómkvaddra matsmanna. Jafnframt að viðurkennd verði krafa gagnstefnenda til að skuldajafna kröfu sinni við kröfu stefnanda í aðalsök. Þá krefjast gagnstefnendur þess einnig að aðalstefnanda verði gert skylt að gefa út kvaðalaust afsal fyrir fasteigninni Nýhöfn 3, íbúð 102, fastanúmer 229-1595 til gagnstefnenda gegn greiðslu að fjárhæð 1.995.329 krónur. Í öllum tilvikum gera gagnstefnendur kröfu um málskostnað úr hendi stefnda í gagnsök. Aðalstefnandi krefst sýknu af kröfum stefnenda í gagnsök og málskostnaðar úr þeirra hendi. I Með kaupsamningi 30. október 2007 keyptu gagnstefnendur fasteign að Nýhöfn 3 í Garðabæ, íbúð 102, af Byggingarfélagi Óskars og Árna ehf., síðar KO-96 ehf. Umsamið kaupverð íbúðarinnar var 46.000.000 króna. Í kaupsamningnum var tekið fram að afhendingardagur eignarinnar væri „júní 2008 eða fyrr“. Bar seljanda að afhenda eignina „... skv. skilalýsingu í meðfylgjandi sölugögnum“. Um sama leyti og gagnstefnendur keyptu fyrrnefnda íbúð festi Sigrún Guðnadóttir, móðir gagnstefnandans Sigurðar, kaup á íbúð 302 í sama húsi. Þá keyptu Viðar Halldórsson og Ragna Bogadóttir íbúð 304 í húsinu. Allir munu þessir aðilar tilheyra sömu fjölskyldunni. Upplýst er í málinu að gagnstefnendur greiddu 2.000.000 króna við undirritun kaupsamnings 30. október 2007, 17.500.000 krónur 23. september 2008, 5.000.000 króna 2. október 2008 og 2.825.000 krónur 26. janúar 2009. Samtals hafa gagnstefnendur greitt 27.325.000 krónur fyrir íbúðina. Í endanlegri kröfugerð stefnanda í aðalsök er tekið tillit til þessara innborgana gagnstefnenda. Í málatilbúnaði gagnstefnenda er fullyrt að þeir hafi ekki fengið hina keyptu íbúð afhenta „til framkvæmda“ fyrr en í mars 2009. Í greinargerð aðalstefnanda í gagnsök er því mótmælt „... að afhending fasteignar hafi verið fram úr hófi ...“ Hvorki verður hins vegar ráðið af stefnu í aðalsök né greinargerð aðalstefnanda í gagnsök hvenær hann telji að íbúðin hafi verið afhent gagnstefnendum. Með matsbeiðni 5. júlí 2011 óskaði Húsfélagið Nýhöfn 1-3-5 eftir því við Héraðsdóm Reykjaness að dómkvaddir yrðu „... tveir hæfir og óvilhallir aðilar til að meta og skoða meinta ágalla við fasteignirnar nr. 1-3-5 við Nýhöfn í Garðabæ ...“ Hinn 12. september sama ár voru Hjalti Sigmundsson, húsasmíðameistari og byggingatæknifræðingur, og Freyr Jóhannesson tæknifræðingur dómkvaddir til að framkvæma hið umbeðna mat. Þeir skiluðu matsgerð sinni 1. febrúar 2012. Var niðurstaða matsmanna sú að sameign fjöleignarhússins að Nýhöfn 1-3-5 í Garðabæ væri haldin nánar tilteknum göllum. Í krónum talið var heildarniðurstaða matsins 52.378.000 krónur með virðisaukaskatti. Með matsbeiðni 21. október 2011 óskuðu gagnstefnendur eftir því við Héraðsdóm Reykjaness að dómkvaddur yrði „... hæfur og óvilhallur aðili til að meta og skoða meinta ágalla á íbúðinni nr. 102 í fasteigninni nr. 3 við Nýhöfn í Garðabæ fastanr. 2291595 ...“ Hinn 2. nóvember sama ár var Freyr Jóhannesson tæknifræðingur dómkvaddur til að framkvæma hið umbeðna mat. Hann skilaði matsgerð sinni 29. febrúar 2012. Var niðurstaða matsmanns sú að íbúð gagnstefnenda væri haldin nánar tilteknum göllum. Í krónum talið var heildarniðurstaða matsins 3.025.750 krónur með virðisaukaskatti, en virðisaukaskattur af vinnu á byggingarstað var sagður nema 409.707 krónum. Í málinu liggja einnig frammi matsgerðir Freys Jóhannessonar byggingatækni­fræðings vegna íbúða nr. 302 og 304 í umræddu fjöleignarhúsi. Matsgerðirnar eru báðar dagsettar 29. febrúar 2012 og varða íbúðir í eigu Sigrúnar Guðnadóttur annars vegar og Viðars Halldórssonar og Rögnu Bogadóttur hins vegar. Bú KO-96 ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 31. maí 2012. Skiptabeiðandi var Íslandsbanki hf. Með bréfi 2. ágúst 2012 lýsti lögmaður gagnstefnenda meintum kröfum þeirra í þrotabú KO-96 ehf. Í bréfinu var einnig lýst meintum kröfum Sigrúnar Guðnadóttur, eiganda íbúðar 302 samkvæmt áðursögðu, og Viðars Halldórssonar og Rögnu Bogadóttur, eigenda íbúðar 304, í þrotabúið. Hinn 14. febrúar 2012 höfðaði aðalstefnandi síðan mál þetta gegn gagnstefnendum til innheimtu á ætluðu ógreiddu kaupverði íbúðar 102 í fjöleignarhúsinu að Nýhöfn 1-3-5. Hér að framan er málsatvikum lýst í aðalatriðum. Atvik eru hins vegar um margt umdeild með aðilum og vísast um nánari lýsingu aðila á þeim, eins og þau horfa við aðilum, til kafla II-V hér á eftir. II Aðalstefnandi segir kröfur sínar í aðalsök byggjast á kaupsamningi, dagsettum 30. október 2007. Með samningnum hafi gagnstefnendur keypt fasteign að Nýhöfn 3 í Garðabæ, fastanúmer 229-1595, af aðalstefnanda. Kaupverð eignarinnar hafi verið 46.000.000 króna, sem hafi átt að greiðast þannig að við gerð kaupsamnings skyldi greiða 2.000.000 króna og hafi gjalddagi þeirrar greiðslu verið 30. október 2007. Við fokheldi fasteignarinnar hafi átt að greiða 20.000.000 króna og hafi gjalddagi greiðslunnar verið 29. febrúar 2008. Hinn 1. mars 2008 hafi átt að greiða 11.000.000 króna og 10.000.000 króna við afhendingu eignarinnar 1. júní sama ár. Að síðustu hafi gagnstefnendur átt að greiða 3.000.000 króna 30. júlí 2008 í tengslum við lokafrágang og útgáfu afsals. Stefndu hafi greitt 2.000.000 króna við undirritun kaupsamnings 30. október 2007, 17.500.000 krónur 23. september 2008, 5.000.000 króna 2. október 2008 og 2.825.000 krónur 26. janúar 2009, eða samtals 27.325.000 krónur. Hafi aðalstefnandi tekið tillit til þeirra innborgana við gerð dómkrafna. Eftirstöðvar skuldarinnar hafi hins vegar ekki fengist greiddar þrátt fyrir innheimtutilraunir. Aðalstefnandi tekur fram að bú KO-96 ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 31. maí 2012 að beiðni Íslandsbanka hf. og hafi Jón Egilsson hrl. verið skipaður skiptastjóri aðalstefnanda. Gagnstefnendur hafi lýst kröfu í búið og krafist þess að afsal yrði gefið út þeim til handa fyrir áðurnefndri fasteign gegn skuldajöfnun við meintar kröfur stefndu á grundvelli tveggja matsgerða, dags. 1. og 29. febrúar 2012. Aðalstefnandi kveðst hins vegar ekki geta fallist á það með gagnstefnendum að gallakröfur nemi hærri fjárhæð en eftirstöðvum kaupverðs, en gagnstefnendur hafi ekki getað sætt sig við þá niðurstöðu að fá útgefið afsal gegn greiðslu mismunar á eftirstöðvum kaupverðs og gallakröfum samkvæmt matsgerð. Sé fallist á allar gallakröfur samkvæmt niðurstöðu matsgerðar nemi gallakrafa gagnstefnenda 3.025.750 krónum, en þar af fengjust 409.707 krónur endurgreiddar vegna virðisaukaskatts af vinnu á byggingarstað. Þá segir aðalstefnandi liggja fyrir að gagnstefnendur hafi, auk annarra eigenda íbúða að Nýhöfn 1–5, gert kröfu í starfsábyrgðartryggingu Árna Jóhannessonar hjá Sjóvá almennum tryggingum hf. Sjóvá hafi talið ábyrgð byggingarstjóra á grundvelli matsgerðar nema 8.196.300 krónum og hafi boðið eigendunum greiðslu á þeirri fjárhæð, auk mats- og lögmannskostnaðar, samtals 8.634.094 krónur en tilboðinu hafi ekki verið svarað. Þá liggi fyrir að eigendur umræddra fasteigna hafi einnig beint kröfum að Tryggingamiðstöðinni, Vátryggingafélagi Íslands hf. og Íslandsbanka hf., aðalstefnanda sé ókunnugt um afdrif þeirra krafna og hvort greiðsla hafi borist frá nefndum aðilum. Meint gallakrafa gagnstefnenda á hendur aðalstefnanda lækki sem nemi greiðslum þessara aðila. Hvað málskostnaðarkröfu varðar tekur aðalstefnandi sérstaklega fram að hann sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili og honum beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi gagnstefnenda. Til stuðnings kröfum sínum vísar aðalstefnandi meðal annars til meginreglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga. III Til stuðnings kröfu sinni um sýknu af kröfum stefnanda í aðalsök vísa gagnstefnendur til þess að aðalstefnandi hafi framselt kröfurétt sinn vegna viðskipta aðila málsins til Byrs sparisjóðs, nú Íslandsbanka hf. Gagnstefnendur benda á að samkvæmt ákvæðum kaupsamnings aðila hafi verið skilyrt að gagnstefnendum bæri að inna allar kaupsamningsgreiðslur samkvæmt samningi aðila af hendi inn á reikning aðalstefnanda nr. 1135-05-409791. Umræddur reikningur hafi verið handveðsettur Byr sparisjóði sem einn hafi haft óskoraðan rétt til ráðstöfunar á honum, enda hafi bankinn átt að annast fjármögnun verksins. Á fasteigninni sé áhvílandi tryggingarbréf í eigu Íslandsbanka hf. en ekki virðist vera á valdi skiptastjóra að aflýsa bréfinu, enda þótt því sé haldið fram að þrotabúið eigi kröfuna en ekki bankinn. Með vísan til þessa telji gagnstefnendur að sýkna beri þá á grundvelli aðildarskorts með vísan til 2. mgr. 16. gr. l. nr. 91/1991 um meðferð einkamála, enda liggi ekki fyrir að aðalstefnandi sé réttilega að kröfunni kominn. Gagnstefnendur segjast jafnframt reisa sýknukröfuna á því að ekkert liggi fyrir um afstöðu aðalstefnanda til lýstra krafna gagnstefnenda í þrotabúið, en kröfulýsing þeirra sé meðal gagna málsins. Enn fremur liggi ekki fyrir samkvæmt áðursögðu afstaða skiptastjóra til vanefnda, galla og krafna vegna sameignar húseignarinnar Nýhöfn 1-3-5. Gagnstefnendur segja aðalstefnanda byggja kröfur sínar á kaupsamningi frá 30. október 2007 og skilalýsingu. Fyrir liggi að aðalstefnandi hafi sjálfur alls ekki staðið við ákvæði umrædds kaupsamnings eða skilalýsingar. Því verði að telja ljóst að hann geti ekki haft uppi kröfur umfram skyldur. Á því sé byggt af hálfu gagnstefnenda að sýkna beri þá af öllum kröfum aðalstefnanda þar sem aðilar hafi stofnað til viðskipta en óumdeilt sé að þeim viðskiptum sé ekki lokið. Staðreynd sé að aðalstefnandi hafi ekki staðið við ákvæði kaupsamnings um afhendingu hins selda í fyrirfram umsömdu ástandi og því hafi gagnstefnendur beitt stöðvunarrétti í samræmi við heimildir og ákvæði í lögum um fasteignakaup. Telji gagnstefnendur að sýkna beri þá af einhliða kröfugerð aðalstefnanda, enda blasi við vanefndir af hans hálfu. Verði ekki fallist á aðalkröfu gagnstefnenda í aðalsök krefjist þeir þess til vara að gegn greiðslu 1.995.349 króna gefi aðalstefnandi út kvaðalaust afsal til gagnstefnenda fyrir fasteigninni Nýhöfn 3, íbúð 102, fastanúmer 229-1595, og að gagnstefnendum verði dæmdur málskostnaður úr hendi aðalstefnanda. Til þrautavara krefjast gagnstefnendur þess í aðalsök að kröfur aðalstefnanda verði lækkaðar og kröfur gagnstefnenda verði teknar til greina, hvort tveggja að álitum dómsins, og að gagnstefnendum verði dæmdur málskostnaður úr hendi aðalstefnanda. Hvað kröfu um málskostnað varðar sérstaklega vísa gagnstefnendur til þess að þeir séu ekki virðisaukaskattsskyldir aðilar og þeim beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi aðalstefnanda. Um röksemdir sínar til stuðnings kröfum í aðalsök, að öðru leyti en að framan sé rakið, vísa gagnstefnendur til gagnstefnu. Til stuðnings kröfum sínum í aðalsök vísa gagnstefnendur til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum  2. mgr. 16. gr. varðandi aðild. Vísa þeir jafnframt til meginreglna kröfuréttar um réttar efndir, ákvæða laga nr. 40/2002 um fasteignakaup, sérstaklega 18., 20. og 27. gr. um galla og 30., 35., 37., 44., 53. og 56. gr. um vanefndarúrræði og stöðvunarrétt. Einnig vísa gagnstefnendur til meginreglna samninga- og kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga og loforða. Þá vísa gagnstefnendur til XVI. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti og laga nr. 40/2002 um fasteignakaup. Gagnstefnendur vísa enn fremur til 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, sem og meginreglna laga um sönnun og réttarfar. IV Hvað kröfur sínar í gagnsök varðar vísa gagnstefnendur til þess að 30. október 2007 hafi þeir gert kaupsamning við Byggingarfélag Óskars og Árna ehf., í dag aðalstefnanda í málinu, um fasteignina Nýhöfn 3, íbúð 102. Umsamið kaupverð hafi verið 46.000.000 króna. Aðalstefnandi hafi lofað að afhenda kaupendum eignina í síðasta lagi í júní 2008 samkvæmt skilalýsingu er fylgt hafi sölugögnum. Á sama tíma hafi móðir gagnstefnandans Sigurðar keypt íbúð 302 og Viðar Halldórsson og Ragna Bogadóttir íbúð 304. Allir tilheyri þessir einstaklingar sömu fjölskyldu og hafi það verið forsenda þeirra fyrir kaupunum að allar íbúðirnar væru í sama húsinu. Kaup þeirra hafi verið reist á því. Telji þau sig eiga samaðild og hafi lýst kröfum sínum saman í þrotabúið, sbr. framlagða yfirlýsingu og kröfulýsingar þar að lútandi. Fljótlega eftir að samningur komst á hafi gagnstefnendum orðið ljóst að aðalstefnandi var orðinn verulega á eftir með byggingarframkvæmdir að Nýhöfn 1-3-5. Af þeim sökum hafi gagnstefnendum verið nauðugur einn sá kostur að beita stöðvunarrétti sínum og hafi þeir því dregið að greiða kaupsamningsgreiðslur í samræmi við ákvæði kaupsamnings aðila. Er á árið 2008 leið hafi gagnstefnendum orðið ljóst að framkvæmdir aðalstefnanda við Nýhöfn 1-3-5 höfðu nær alveg stöðvast. Á þeim tíma hafi verið orðið ljóst að aðalstefnandi myndi alls ekki geta staðið við skuldbindingar sínar um afhendingu eignarinnar í réttu ástandi á umsömdum tíma. Gagnstefnendur hafi því neyðst til að beita stöðvunarrétti sínum að nýju og þeir ákveðið að halda eftir eftirstæðum kaupsamningsgreiðslum að fjárhæð 21.500.000 krónur. Gagn­stefnendur hafi upplýst aðalstefnanda um þá ákvörðun sína. Er þarna var komið sögu hafi gagnstefnendur verið búnir að greiða ríflega helming umsamins kaupverðs þrátt fyrir stórfelldar vanefndir af hálfu aðalstefnanda, sem ekki hafi séð fyrir endann á. Þegar fram kom á árið 2008 hafi gagnstefnendur upplýst aðalstefnanda um að vegna dráttar á afhendingu eignarinnar væru þau sjálf komin í veruleg vandræði með sölu á tveimur fasteignum í sinni eigu, sem til hafi staðið að selja þegar fasteignin að Nýhöfn yrði afhent. Aðra af þessum tveimur fasteignum segja gagnstefnendur enn óselda. Hina eignina hafi þeim tekist að selja, en með verulegu fráviki frá áður uppsettu verði. Ásett verð þeirrar eignar hafi í október 2007 verið 29.000.000 króna, en söluverð hennar eftir efnahagshrunið í október 2008 hafi hins vegar numið 22.000.000 króna. Gagnstefnendur segja forsendur þær sem þeir hafi lagt upp með við kaup á fasteigninni af aðalstefnanda hafa breyst verulega, í öllum atriðum til hins verra. Þannig hafi áhvílandi veðskuldir á íbúðum gagnstefnenda, sem áformað hafi verið að selja samkvæmt áðursögðu til að fjármagna kaupverð fasteignarinnar að Nýhöfn 3, stökkbreyst. Gagnstefnendur hafi þurft að horfa upp á virði eigna sinna rýrna og brenna upp á verðbólgubáli á sama tíma og þær hafi orðið illseljanlegar. Allt þetta megi rekja til hinna stórkostlegu vanefnda aðalstefnanda. Ljóst megi vera að markaðsástæður á fasteigna­markaði hafi til muna versnað frá því sem var í lok árs 2007 og á fyrri hluta árs 2008. Frá október 2008 hafi neytendalán, sem veitt hafi verið til kaupa á íbúðarhúsnæði, stökkbreyst og stigmagnast vegna óðaverðbólgu og hás vaxtastigs fjármálastofnana og fasteignamarkaðurinn fallið saman. Gagnstefnendur segja aðalstefnanda hafa upplýst að meginorsök tafa á verkframkvæmdum við fasteignina megi fyrst og síðast rekja til stöðvunar á fyrirgreiðslu frá fjármögnunaraðila og viðskiptabanka hans, Byr-sparisjóði, nú Íslandsbanka hf. Þannig hafi sparisjóðurinn nánast hætt fjármögnum verkefnisins við Nýhöfn 1-3-5. Verktakinn hafi upplýst að hann hafi lagt bankanum til fullnægjandi veðtryggingar í eignum á móti fyrirgreiðslu og beri því við að Byr-sparisjóður hafi nánast verið orðinn ógjaldfær, að minnsta kosti ófær um að standa að frekari fjármögnun. Loks þegar verktakanum hafi tekist, meira eða minna án aðkomu Byrs- sparisjóðs, að halda áfram framkvæmdum og hefjast handa við afhendingu íbúða, ári of seint, hafi það verið gert af of litlum efnum og ekki í neinu samræmi við samningsbundna skilalýsingu, sbr. kaupsamning aðila frá 30. október 2007. Benda gagnstefnendur á að samkvæmt ákvæðum kaupsamnings aðila hafi það verið skilyrði að gagnstefnendur inntu allar greiðslur samkvæmt kaupsamningnum af hendi inn á reikning aðalstefnanda nr. 1135-05-409791. Umræddur reikningur hafi verið handveðsettur Byr-sparisjóði, sem einn hafi haft óskoraðan rétt til ráðstöfunar á reikningnum, enda hafi bankinn átt að annast fjármögnun verksins. Reyndar sé óljóst í dag hvernig kröfurétti aðalstefnanda sé háttað, svo sem vikið sé að í greinargerð í aðalsök. Þegar gagnstefnendur hafi loks fengið íbúðina afhenta til framkvæmda í mars 2009 hafi strax legið fyrir að ástandi hússins, hvort heldur um var að ræða einstaka séreignarhluta í húsinu eða sameign þess, var verulega áfátt. Af hálfu gagnstefnenda hafi þá legið fyrir að engar forsendur væru til frekari efnda samningsskuldbindinga fyrr en búið væri að staðreyna umfang meintra galla og vanefndir aðalstefnanda. Hinn 21. október 2011 hafi verið lagðar fram við Héraðsdóm Reykjaness matsbeiðnir vegna meintra galla á séreign og sameign fasteignarinnar Nýhöfn 1-3-5. Niðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna hafi verið á þá leið að gallar á sameign yrðu virtir á 213.035.699 krónur, sbr. matsgerð í máli nr. M-25/2011. Gallar á séreign íbúðar 102 yrðu virtir á 3.891.444 krónur, allt að teknu tilliti til kostnaðar, sbr. matsmál nr. M-39/2011. Gallar á séreign íbúðar 302 yrðu virtir á 3.659.902 krónur, allt að teknu tilliti til kostnaðar, sbr. matsmál nr. M-42/2011. Þá yrðu gallar á séreign íbúðar 304 virtir á 2.698.106 krónur, allt að teknu tilliti til kostnaðar, sbr. matsmál nr. M-44/2011. Í gagnsök segja stefnendur aðalkröfu sína þá að fallist verði á kröfusamlag eigenda íbúða 102, 302 og 304, og að viðurkennd verði krafa þeirra sem nemi galla á allri sameign fasteignarinnar Nýhöfn 1-3-5, og galla á séreignarhlutum íbúða 102, 302 og 304. Þar sé um að ræða sömu fjölskylduna, sbr. kröfulýsingu dagsetta 2. ágúst 2012 í þrotabú KO-96 ehf., aðalstefnanda, en kaup þeirra hafi verið háð sömu forsendum frá upphafi, eins og samaðild sé reifuð. Aðalkrafa stefnenda í gagnsök sundurliðist svo: Tjón á séreignarhluta íbúðar 102, 3.891.444 krónur. Tjón á séreignarhluta íbúðar 302, 3.659.902 krónur. Tjón á séreignarhluta íbúðar 304, 2.698.106 krónur. Heildartjón sameignar, 213.035.699 krónur. Að teknu tilliti til ógreiddra eftirstöðva kaupverðs, 18.675.000 krónur, og að frádregnu tjónauppgjöri vegna byggingarstjóra og hönnuðar, samtals 21.212.595  krónur, nemi fjárkrafa stefnenda í gagnsök 183.397.556 krónum. Loks krefjist stefnendur í gagnsök þess að aðalstefnandi gefi út kvaðalaust afsal fyrir íbúð 102, enda sé ekki um að tefla neina skuld gagnstefnenda við aðalstefnanda. Verði ekki fallist á aðalkröfu gagnstefnenda sé varakrafa þeirra í gagnsök sú að viðurkennd verði krafa gagnstefnenda um kröfusamlag með eigendum íbúða 302 og 304 og að viðurkennd verði krafa gagnstefnenda sem nemi 3/15 hlutum galla á sameign fasteignarinnar Nýhöfn 1-3-5. Töluleg sundurgreining á varakröfu sé undir III. og IV. tölulið framlagðrar kröfulýsingar og nemi samtals 52.856.592 krónum. Frá dragist eftirstöðvar kaupverðs, 18.675.000 krónur, og 3/15 hlutar tjónauppgjörs vegna byggingarstjóra og hönnuðar, 4.242.519 krónur. Loks krefjist gagnstefnendur þess að aðalstefnandi gefi út kvaðalaust afsal fyrir íbúð 102, enda sé ekki um að tefla neina skuld gagnstefnenda við aðalstefnanda. Verði ekki fallist á varakröfu gagnstefnenda byggist þrautavarakrafa þeirra í gagnsök á því að viðurkenna beri kröfu sem byggist á matsgerð dómkvaddra matsmanna, sbr. matsgerð í málinu nr. M-39/2011 um íbúð 102, að fjárhæð 3.891.444 krónur með kostnaði og 1/15 hluta galla á sameign, sbr. matsgerð dómkvaddra matsmanna í málinu nr. M-25/2011, en 1/15 hluti galla á sameign nemi samkvæmt matinu 14.202.380 krónum. Frá nefndum fjárhæðum beri síðan að draga 1/15 hluta tjónauppgjörs vegna byggingarstjóra og hönnuðar. Gagnstefnendur vísa til þess að öll skilyrði stöðvunarréttar hafi verið til staðar, um hafi verið að ræða vanefnd af hálfu viðsemjanda, gagnstefnendur hafi haft forræði á greiðslu sinni og að greiðslur hafi verið samrættar. Einnig vísa gagnstefnendur til þess að til staðar séu öll skilyrði skuldajafnaðar. Þannig séu gagnkrafa og aðalkrafa gagnkvæmar, þ.e. skuldari gagnkröfunnar sé jafnframt kröfuhafi aðalkröfunnar, gagnkrafa og aðalkrafa séu sambærilegar, kröfurnar séu hæfar til að mætast hvað greiðslutíma varði. Þá liggi fyrir mat dómkvaddra matsmanna, sem ekki hafi verið hnekkt. Því sé krafa gagnstefnenda gild, skýr og ótvíræð. Gagnstefnendur segjast reisa kröfur sínar á meginreglum kröfuréttar um réttar efndir, ákvæðum laga nr. 40/2002 um fasteignakaup, sérstaklega 18., 20. og 27. gr. um galla og 30., 35., 37., 44., 53. og 56. gr. um vanefndaúrræði og stöðvunarrétt. Gagnstefnendur vísa einnig til meginreglna samninga- og kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga og loforða, sem og 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og til XVI. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun lögmanns gagnstefnenda styðjist við lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. V Aðalstefnandi kveðst mótmæla málavaxtalýsingu í gagnstefnu að því leyti sem hún samrýmist ekki málatilbúnaði aðalstefnanda. Mótmælir aðalstefnandi því sérstaklega að um einhvers konar samaðild hafi verið að ræða með gagnstefnendum og kaupendum tveggja annarra íbúða, þ.e. íbúða númer 302 og 305, og að kaup þeirra hafi verið bundin forsendu um kröfusamlag. Því sé og mótmælt að afhending fasteignarinnar hafi dregist úr hófi, sem og að sala tveggja íbúða gagnstefnenda hafi verið háð afhendingu á þeirri eign sem mál þetta snúist um. Enn fremur mótmæli aðalstefnandi því að tilgreint markaðsvirði fasteigna í gagnstefnu sé rétt. Af hálfu aðalstefnanda er til þess vísað að gagnstefnendur byggi aðal- og varakröfur sínar í gagnsök á því að kröfusamlag sé með eigendum íbúða 102, 302 og 304 þar sem um sömu fjölskylduna sé að ræða og kaup þeirra hafi verið háð þeirri forsendu að um samaðild væri að ræða. Ekki sé með nokkru móti hægt að fallast á þennan skilning gagnstefnenda og í raun skilji aðalstefnandi ekki málatilbúnað gagnstefnenda hvað þetta varðar. Samkvæmt orðanna hljóðan virðist svo sem krafa gagnstefnenda sé sú að dómurinn viðurkenni kröfusamlag krafna þeirra og krafna annarra aðila, sem ekki komi að málinu, og sé þannig ekki krafa um eiginleg réttindi gagnstefnenda heldur um formsatriði. Aðalstefnandi segir kröfusamlag vera réttarfarslegt atriði og sé vandséð hvernig það geti stutt kröfur gagnstefnenda í málinu. Ákvæði 27. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála fjalli um kröfusamlag en þar segi að sækja megi allar kröfur á hendur sama aðila sem séu samkynja eða eigi rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Með þessu sé að sjálfsögðu átt við þau tilvik þegar kröfurnar tilheyri sömu aðilum en því sé alls ekki til að dreifa í þessu máli. Gagnstefnendur virðist gera kröfu um að aðalstefnanda verði gert að þola viðurkenningu á kröfu sem aðrir aðilar eigi, þ.e.a.s. húsfélagið að Nýhöfn 1-5 og eigendur íbúða 302 og 304, og jafnframt viðurkenningu á að gagnstefnendur eigi kröfurnar. Samkvæmt þessu krefjist aðalstefnandi sýknu af kröfum gagnstefnenda í gagnsök vegna aðildarskorts, enda eigi gagnstefnendur ekki kröfurnar. Meinta kröfu sína byggi gagnstefnendur á því að kröfusamlag sé með þeim og eigendum tveggja annarra íbúða í fjöleignarhúsinu. Hvað það varði bendi aðalstefnandi í fyrsta lagi á að réttarfarslegt atriði eins og kröfusamlag geti ekki verið efnislega til stuðnings kröfu. Hugtakið kröfusamlag sé skilgreint sem tilvik þegar fleiri en ein krafa sé gerð í dómsmáli á milli sömu aðila. Kröfusamlag sé því ekki til þess fallið að styðja efnislega kröfur stefnenda í gagnsök. Í öðru lagi hafni aðalstefnandi því að kaup gagnstefnenda og kaupenda tveggja annarra íbúða í fasteigninni hafi verið háð þeirri forsendu að um samaðild væri að ræða. Samaðild sé einnig réttarfarslegt atriði, auk þess sem ekki sé unnt að fallast á að fjölskyldu- eða vinatengsl leiði til þess að líta beri á þrjá aðila, er kaupi þrjár mismunandi íbúðir, sem sama aðilann. Sömu röksemdir og að framan greini eigi við um varakröfu stefnenda í gagnsök. Aðalstefnandi hafni þeim röksemdum. Hann geti hvorki fallist á að um kröfusamlag sé að ræða né að gagnstefnendur hafi forræði á meintri kröfu húsfélagsins í heild eða íbúða 302 og 304 á hendur gagnstefnda. Kröfusamlag geti ekki réttlætt slíkt. Líkt og fram komi í stefnu í aðalsök hafi aðalstefnandi frá upphafi boðið gagnstefnendum afsal gegn greiðslu eftirstöðva kaupverðs að frádregnum göllum vegna séreignarhluta stefndu og hlutar gagnstefnenda í gallakröfu vegna sameignar, allt að frádregnum bótum frá Sjóvá vegna byggingarstjóraábyrgðar og því sem nemi endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna vinnu á verkstað. Því hafi engin ástæða verið til höfðunar sérstakrar gagnsakar, enda eftirstöðvar kaupverðs hærri fjárhæð en gallakröfur samkvæmt matsgerðum. Varakrafa gagnstefnenda sé þannig hluti af sýknukröfu í aðalsök, en aðalstefnandi telji fjárhæð gallakröfu þó mun lægri en gagnstefnendur krefji um í gagnstefnu. Til stuðnings kröfum sínum í gagnsök vísar aðalstefnandi til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem og 1. mgr. 27. gr. laganna. Þá vísar hann til reglna fasteignakauparéttar og meginreglna um skuldbindingargildi samninga. VI Með kaupsamningi 30. október 2007 keyptu gagnstefnendur fasteign að Nýhöfn 3 í Garðabæ, íbúð 102, af Byggingarfélagi Óskars og Árna ehf., síðar KO-96 ehf. Umsamið kaupverð íbúðarinnar var 46.000.000 króna. Upplýst er í málinu að gagnstefnendur greiddu 2.000.000 króna við undirritun kaupsamnings 30. október 2007, 17.500.000 krónur 23. september 2008, 5.000.000 króna 2. október 2008 og 3.000.000 króna 26. janúar 2009. Samtals hafa gagnstefnendur því greitt 27.325.000 krónur af kaupverði íbúðarinnar. Mál þetta hefur aðalstefnandi höfðað til innheimtu eftirstöðva kaupverðsins. Fullyrðing gagnstefnenda um að aðalstefnandi hafi framselt kröfu sína á hendur gagnstefnendum vegna sölu íbúðarinnar er engum gögnum studd. Þá verður veðsetningu á reikningi, sem gagnstefnendum bar að greiða kaupverðið inn á, til Byrs sparisjóðs, nú Íslandsbanka hf., ekki jafnað til framsals kröfunnar. Umrædd fullyrðing gagnstefnenda er því ósönnuð. Ekki liggur því annað fyrir en aðalstefnandi sé eigandi stefnukröfunnar. Hann er því réttur aðili að málinu. Bú KO-96 ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 31. maí 2012. Afstaða skiptastjóra í búinu til krafna gagnstefnenda liggur fyrir, bæði í stefnu í aðalsök og greinargerð í gagnsök. Þá hafa gagnstefnendur ekki sýnt fram á meint tjón sitt vegna afhendingardráttar af hendi aðalstefnanda með framlagningu haldbærra gagna. Dráttur á afhendingu eignarinnar getur því ekki, eins málið liggur fyrir dómnum, haft áhrif á niðurstöðu þess að öðru leyti en hvað varðar úrlausn um dráttarvaxtarkröfu aðalstefnanda, svo sem að verður vikið síðar. Fær dómurinn ekki séð hvernig atvik þessi geta leitt til þeirrar niðurstöðu að sýkna beri gagnstefnendur að svo stöddu af kröfum aðalstefnanda. Verður sú krafa því ekki tekin til greina. Hluti dómkrafna gagnstefnenda í máli þessu byggist á því að þeir eigi alla skaðabótakröfu eigenda íbúða í húsinu á hendur seljanda fasteignarinnar, aðalstefnenda í máli þessu, vegna galla á sameign fasteignarinnar Nýhöfn 1-3-5. Gagnstefnendur hafa ekki skýrt með hvaða hætti þeir eru komnir að þessari kröfu og er málatilbúnaður þeirra að þessu leyti engum haldbærum gögnum studdur. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki fallist á kröfur gagnstefnenda í málinu á þeim grunni. Í málinu byggja gagnstefnendur einnig á yfirlýsingu, dagsettri 5. ágúst 2012, undirritaðri af eigendum íbúða 0302 og 0304, Sigrúnu Guðnadóttur, Viðari Halldórssyni og Rögnu Bogadóttur. Í yfirlýsingunni segir meðal annars svo: „Viðar, Ragna og Sigrún veita Sigurði og Guðlaugu fulla heimild til að ráðstafa kröfum okkar vegna tjóns á eignarhluta okkar í fjárhagslegu uppgjöri þeirra við seljanda vegna íbúðar 0102 og að seljandi afhendi afsal af öllum þrem íbúðunum samhliða. “. Að mati dómsins felst í yfirlýsingunni skilyrt framsal til gagnstefnenda á skaðabótakröfum eigenda íbúða 0302 og 0304 vegna galla á séreign íbúðanna, sem og hlutdeild íbúðanna í skaðabótakröfu vegna tjóns á sameign fjöleignarhússins Nýhöfn 1-3-5. Verður að skilja yfirlýsinguna svo að með henni hafi eigendur íbúða 0302 og 0304 veitt gagnstefnendum heimild til þess að ráðstafa skaðabótakröfum þeirra á hendur aðalstefnanda í fjárhagslegu uppgjöri við hann sem seljanda íbúðar 0102. Yfirlýsingin verður hins vegar ekki skilin svo að um hafi verið að ræða fyrirvaralaust framsal á bótakröfunum til gagnstefnenda. Gagnstefnendur byggja á því í aðalsök að þeim sé heimilt að skuldajafna skaðabótakröfu sinni vegna galla á séreign og hlutdeildar íbúðar 0102 í sameign fjöleignarhússins gegn kröfu aðalstefnanda um greiðslu eftirstöðva kaupverðs. Aðalstefnandi hefur ekki andmælt skuldajafnaðarrétti gagnstefnenda hvað þetta varðar að svo miklu leyti sem skaðabótakröfurnar hafi verið staðreyndar í matsgerðum dómkvaddra matsmanna. Aðalstefnandi hefur hins vegar mótmælt víðtækari rétti gagnstefnenda í málinu til skuldajafnaðar. Fyrir liggur að gagnstefnendur eignuðust hin skilyrtu kröfuréttindi samkvæmt áðurnefndri yfirlýsingu rúmum tveimur mánuðum eftir að bú KO-96 ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta. Þá er af efni yfirlýsingarinnar ljóst að hennar var aflað gagngert í því skyni að nota hana til að lýsa yfir skuldajöfnuði. Þegar að þessu gættu er ljóst að lagaskilyrði eru ekki uppfyllt fyrir skuldajöfnuði þeim sem sóknaraðili hefur lýst yfir og krafist viðurkenningar á gegn kröfum aðalstefnanda. Eins og rakið er í kafla I hér að framan óskaði Húsfélagið Nýhöfn 1-3-5 eftir því við Héraðsdóm Reykjaness með matsbeiðni 5. júlí 2011 að dómkvaddir yrðu „... tveir hæfir og óvilhallir aðilar til að meta og skoða meinta ágalla við fasteignirnar nr. 1-3-5 við Nýhöfn í Garðabæ ...“ og voru Hjalti Sigmundsson, húsasmíðameistari og byggingatæknifræðingur, og Freyr Jóhannesson tæknifræðingur dómkvaddir til að framkvæma hið umbeðna mat. Þeir skiluðu matsgerð sinni 1. febrúar 2012. Var niðurstaða matsmanna sú að sameign fjöleignarhússins að Nýhöfn 1-3-5 í Garðabæ væri haldin göllum, sem ítarlega er lýst í matsgerðinni, en í krónum talið var heildarniðurstaða matsins sú að gallar á sameigninni næmu 52.378.000 krónum. Þá óskuðu gagnstefnendur jafnframt eftir því við dóminn með matsbeiðni 21. október 2011 að dómkvaddur yrði „... hæfur og óvilhallur aðili til að meta og skoða meinta ágalla á íbúðinni nr. 102 í fasteigninni nr. 3 við Nýhöfn í Garðabæ fastanr. 2291595 ...“ og var fyrrnefndur Freyr Jóhannesson tæknifræðingur dómkvaddur til að framkvæma hið umbeðna mat. Hann skilaði matsgerð sinni 29. febrúar 2012. Var niðurstaða matsmanns sú að íbúð gagnstefnenda væri haldin ákveðnum göllum og var heildarniðurstaða matsins í krónum talið 3.025.750 krónur. Kröfur gagnstefnenda í málinu byggjast, hvað séreignarhluta íbúðar 102 varðar, að hluta á niðurstöðu dómkvadds matsmanns, Freys Jóhannessonar tæknifræðings. Þá byggjast kröfur þeirra einnig að hluta á niðurstöðu matsgerðar Freys og Hjalta Sigmundssonar, húsasmíðameistara og byggingatæknifræðings, vegna sameignar fjöleignarhússins að Nýhöfn 1-3-5. Gagnstefnendur reisa kröfur sínar enn fremur á bréfi hinna dómkvöddu matsmanna til lögmanns gagnstefnenda, dags. 27. apríl 2012. Gagnstefnendur fóru ekki þá leið að afla yfirmats. Matsgerðum hinna dómkvöddu matsmanna hefur ekki verið hnekkt og verða þær því lagðar til grundvallar við úrlausn málsins. Hvað varðar gildi tilvitnaðs bréfs matsmannanna frá 27. apríl 2012 við úrlausn málsins verður ekki fram hjá því litið að í bréfinu árétta matsmenn niðurstöður sínar samkvæmt framlögðu mati um hvað teljist til galla og hvað ekki. Þegar að því athuguðu getur bréfið ekkert vægi haft við úrlausn málsins. Gagnstefnendur halda því fram að verulegur dráttur hafi orðið á því að þeir fengju íbúð sína afhenta. Aðalstefnandi hefur hvað það varðar svarað því einu til að hann mótmæli því „... að afhending fasteignar hafi verið fram úr hófi ...“, sbr. ummæli í greinargerð hans í gagnsök. Af þessum orðum má ráða að gagnstefnendur hafi ekki fengið íbúðina afhenta á umsömdum tíma, en af gögnum málsins verður ekki skýrlega ráðið hvenær gagnstefnendur fengu íbúðina afhenta. Samkvæmt því og öðru framansögðu er ekki við annað að miða hvað afhendingu íbúðarinnar varðar en hún hafi farið fram í mars 2009, svo sem gagnstefnendur hafa haldið fram í málinu. Fyrir dómi hélt gagnstefnandinn Sigurður því fram að gagnstefnendur hefðu vegna dráttar á afhendingu greitt allar greiðslur af íbúðinni í fullu samkomulagi við fyrirsvarsmann Byggingarfélags Óskars og Árna ehf. Umsömdum gjalddögum hefði með öðrum orðum verið breytt með munnlegu samkomulagi kaupenda og seljanda. Telja verður að þessi fullyrðing fái nokkra stoð í því að ekki verður séð af gögnum málsins að aðalstefnandi hafi gert nokkurn reka að því að innheimta eftirstöðvar kaupverðs íbúðarinnar fyrr en með höfðun máls þessa 14. febrúar 2013. Enn fremur liggur fyrir með framlögðum matsgerðum að íbúðin, sem og sameign fjöleignarhússins, var haldin göllum. Lá umfang gallanna ekki fyrir fyrr en með matsgerðum hinna dómkvöddu matsmanna í febrúar 2012. Samkvæmt áðursögðu er ekkert fram komið um innheimtutilraunir seljandans að fengnum niðurstöðum hinna dómkvöddu matsmanna. Að öllu þessu gættu þykir ekki verða fallist á kröfu aðalstefnanda um dráttarvexti fyrr en frá höfðun málsins, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Ekki kemur til álita að taka kröfur stefnenda í gagnsök til greina að neinu leyti á grundvelli hins skilyrta framsals sem áður var nefnt, sbr. yfirlýsingu eigenda íbúða 0302 og 0304 frá 5. ágúst 2012. Þá leiðir af niðurstöðu dómsins hér að framan að gagnkröfur þeirra eru lægri en krafa stefnanda í aðalsök. Verður aðalstefnandi því sýknaður af öllum kröfum stefnenda í gagnsök. Eins og áður var rakið nema ógreiddar eftirstöðvar kaupverðs íbúðar gagnstefnenda 18.675.000 krónum. Til frádráttar kemur gallakrafa gagnstefnenda vegna séreignar þeirra, íbúðar 0102, að fjárhæð 2.616.043 krónur að teknu tilliti til réttar gagnstefnenda til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað. Einnig kemur til frádráttar hlutdeild gagnstefnenda í skaðabótakröfu vegna galla á sameign fjöleignarhússins Nýhöfn 1-3-5, að fjárhæð 3.491.867 krónur. Frá bótakröfum þessum ber að draga þegar greiddar bætur frá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. vegna byggingarstjóra, 660.316 krónur, og bætur frá VÍS hf. vegna hönnuðar, 514.173 krónur. Samkvæmt þessu og öllu framangreindu dæmast gagnstefnendur (stefndu í aðalsök) til að greiða aðalstefnanda óskipt 13.741.579 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. febrúar 2013 til greiðsludags. Með vísan til úrslita málsins, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verða gagnstefnendur dæmdir til greiðslu málskostnaðar sem að atvikum öllum virtum þykir hæfilega ákveðinn 600.000 krónur. Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. D Ó M S O R Ð: Stefndu í aðalsök, Sigurður Tyrfingsson og Guðlaug F. Stephensen, greiði aðalstefnanda, þrotabúi KO-96 ehf., óskipt 13.741.579 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð frá 14. febrúar 2013 að telja til greiðsludags. Aðalstefnandi skal sýkn af öllum kröfum gagnstefnenda, Sigurðar Tyrfingssonar og Guðlaugar F. Stephensen, í gagnsök. Gagnstefnendur greiði aðalstefnanda 600.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 583/2014
Fasteign Eignarnám Eignarréttur Meðalhóf Stjórnarskrá
H ehf. höfðaði mál á hendur V og Í til ógildingar á þeirri ákvörðun V að taka eignarnámi spildu úr landi Hjarðarhaga á Fljótsdalshéraði í þágu vegagerðar, þ. á m. til brúunar á Ysta-Rjúkanda, og einnig ákvörðunum innanríkisráðuneytisins og matsnefndar eignarnámsbóta vegna eignarnámsins. H ehf. gerði einnig kröfu um viðurkenningu þess að V væri skylt að taka boði H ehf. um endurgjaldslausan afnotarétt af landspildunni ótímabundið á meðan V hefði þörf fyrir landið undir vegsvæði. Talið var að samkvæmt 37. gr. vegalaga nr. 80/2007 væri V veitt heimild til eignarnáms og annars konar skerðingar á eignarrétti til þjóðvegagerðar og hvers kyns veghalds og að líta yrði svo á að ákvæðin uppfylltu skilyrði 2. og 3. málsliðar 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þó yrðu ákvæði 37. gr. ekki skýrð á þann hátt að þau fælu í sér fortakslausan rétt og jafnframt skyldu V til að öðlast beinan eignarrétt að landi til vegagerðar, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, heldur yrði í því efni að líta til sjónarmiða um meðalhóf. Slík skerðing á eignarrétti H ehf., sem málið varðaði, kæmi aðeins til álita að ekki væri með öðrum úrræðum unnt að ná þeim tilgangi sem hún miðaði að, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar 19. mars 2009 í máli nr. 425/2008 og 15. nóvember 2012 í máli nr. 60/2012. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að H ehf. hefði haldið því fram að nauðsyn hefði ekki borið til að V öðlaðist með eignarnámi beinan eignarrétt yfir landi til að leggja veg og um land H ehf. ásamt byggingu brúar, þar sem H ehf. hefði boðið endurgjaldslaus afnot svæðis undir veginn svo lengi sem þörf krefði. Við úrlausn þessa var skírskotað til þess að um væri að ræða kostnaðarsama og þýðingamikla framkvæmd við þjóðveg í samræmi við þingsályktun Alþingis um samgönguáætlun. Þingsályktunin veitti vísbendingu um að eignarnám V hefði samrýmst því skilyrði eignarnáms að til þess yrði aðeins gripið að almenningsþörf krefði, sbr. 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þá virtist ágreiningslaust að eignarnámið hefði ekki tekið til vatns- og veiðiréttinda, auk þess sem H ehf. hefði hafnað boði V um rétt til endurgjaldslausrar endurheimtu landsins ef vegsvæðið yrði síðar aflagt. H ehf. var samkvæmt þessu ekki talinn hafa leitt rök að því að sérstök nauðsyn væri fyrir hann eins og aðstæðum væri háttað að halda beinum eignarrétti að landspildunni, meðan þörf væri á landinu undir þjóðveg. Á hinn bóginn var V talinn hafa sýnt fram á að staða vegamannvirkjanna væri að lögum og í reynd tryggari færi hann með beinan eignarrétt yfir landinu í stað afnotaréttar. Taldi Hæstiréttur því að þeir almannahagsmunir sem byggju að baki 37. gr. vegalaga yrðu ekki nægilega tryggðir með öðru móti en því að játa V heimild til að taka landspildu H ehf. eignarnámi á þann hátt sem gert var og sýknaði V og Í af kröfum H ehf. 
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júní 2014. I. Mál þetta sem dómtekið var 9. apríl sl. var höfðað með stefnu útgefinni 14. mars 2014 af Hjarðarhaga ehf., Hjarðarhaga, 701 Egilsstöðum, á hendur Vegagerðinni, Borgartúni 5-7, 105 Reykjavík, og íslenska ríkinu Sölvhólsgötu 7, 150 Reykjavík. Stefnandi krefst þess að ógilt verði með dómi sú ákvörðun stefnda, Vegagerðarinnar, dags 3. maí 2011, að taka 2,19 ha landspildu úr landi Hjarðarhaga (landnr. 156-909) eignarnámi, á 540 metra kafla undir vegsvæði með áningarstað m.v. 40 metra breitt vegsvæði, að ógiltur verði með dómi úrskurður innanríkisráðuneytisins í máli nr. IRR 11070218 sem kveðinn var upp 29. júní 2012, að ógiltur verði með dómi úrskurður matsnefndar eignarnámsbóta í máli nr. 2/2011 sem kveðinn var upp 18. nóvember 2011, að viðurkennt verði að Vegagerðinni sé skylt að taka boði stefnanda um endurgjaldslausan afnotarétt af þeirri 2,19 ha landspildu úr landi Hjarðarhaga (landnr. 156-909) sem ákvörðun um eignarnám frá 3. maí 2011 náði til, á 540 metra kafla undir vegsvæði með áningarstað m.v. 40 metra breitt vegsvæði ótímabundið á meðan stefndi Vegagerðin hefur þörf fyrir landið undir vegsvæði, að stefndu verði sameiginlega (in solidum) dæmd til að greiða stefnanda 2.704.540 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 557.815 kr. frá 19. október 2011 til 30. júní 2012, en af 2.704.540 kr. frá þeim degi til greiðsludags. Stefnandi krefst þess jafnframt að stefndu verði dæmd til að greiða sameiginlega (in solidum) stefnanda málskostnað samkvæmt mati dómsins eða síðar framlögðum málskostnaðar­reikn­ingi. Stefndi, Vegagerðin, krefst þess aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara krefst stefndi, Vegagerðin, þess að kröfur stefnenda verði lækkaðar verulega og málskostnaður látinn niður falla. Þá krefst stefndi, Vegagerðin, þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins eða síðar framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun. Stefndi, íslenska ríkið, krefst þess aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati réttarins. Til vara krefst stefndi, íslenska ríkið, þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður verði látinn niður falla. II. Málsatvik Stefnandi er eigandi jarðarinnar Hjarðarhaga, Fljótsdalshéraði. Upphaf máls þessa verður rakið til þess að með bréfi stefnda, Vegagerðarinnar, dags. 24. mars 2009, tilkynnti stefndi Vegagerðin stefnanda um fyrirhugaða vegaframkvæmd í samræmi við ákvæði VII. kafla vegalaga nr. 80/2007. Stefnda, Vegagerðinni, hafði verið falið í samræmi við vegáætlun samgönguáætlunar 2009-2012 að byggja nýja brú yfir Ysta-Rjúkanda á hringvegi nr. 1, sem kæmi í stað eldri einbreiðrar brúar frá 1971 og gera tilheyrandi lagfæringar á vegsvæði sínu hvorum megin brúarinnar. Vegarkaflinn sem um ræðir er í heild um 900 metra langur og tilgangur framkvæmdarinnar var að auka umferðaröryggi á hringveginum og tryggja greiðari samgöngur á svæðinu. Fljótsdalshérað gaf út framkvæmdaleyfi og gerðar voru athugasemdir við það að leyfið var bundið skilyrðum sem ekki áttu sér lagastoð. Sveitarstjórnin brást þá þannig við að fella skilyrðin brott og gefa út óskilyrt framkvæmdaleyfi. Stefnandi kærði leyfisveitinguna til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sem með úrskurði, dags. 30. desember 2011 í máli nr. 72/2011, hafnaði öllum kröfum stefnanda og taldi leyfisveitinguna lögmæta. Verkið var boðið út 18. maí 2009 og átti þá að ljúka framkvæmdum 1. desember 2009.. Verkinu var hins vegar slegið á frest en boðið út haustið 2010 og var þá miðað við að framkvæmdir hæfust eigi síðar en um páska 2011 og myndi verkinu ljúka þá um sumarið. Samningar tókust ekki milli landeigenda og stefnda, Vegagerðarinnar, og var niðurstaðan  sú að stefndi, Vegagerðin, tók ákvörðun um eignarnám á því landi sem nauðsyn bar til vegna framkvæmdanna. III. Málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi telur að meginatriði máls þessa sé ágreiningur aðila um það hvort stefndi, Vegagerðin, hafi haft heimild til að ákveða að neyta eignarnámsheimildar vegalaga þar sem stefnandi hafði formlega og með óafturkræfum hætti gert stefnda, Vegagerðinni, tilboð um endurgjaldslaus afnot af því landi sem stefndi, Vegagerðin, taldi sig þurfa eins lengi og stefndi teldi sig þurfa vegna vegahalds á umþrættri spildu.         Stefnandi vísar til þess að grundvallarréttarheimild íslensks réttar um eignarnám sé að finna í 1. mgr. 72. gr. stjskr., en þar segi að eignarrétturinn sé friðhelgur. Engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji og þurfi til þess lagafyrirmæli og að fullt verð komi fyrir. Stefndi byggir á því að ákvörðun stefnda, Vegagerðarinnar, um eignarnám, hafi verið ólögmæt þar sem hún hafi hvorki staðist kröfur stjórnskipunarreglna né stjórnsýslureglna sem gildi við töku stjórn­valds­­ákvörð­unar og vísar til eftirfarandi: 1)       Vegagerðin hafi ekki haft lagaheimild til slíkrar ákvörðunartöku (valdþurrð), 2)       ákvæði vegalaga um ákvarðanatöku við eignarnám séu andstæð stjórnarskránni og/eða framkvæmd stefnda Vegagerðarinnar við þá ákvörðunartöku, 3)       skilyrði stjórnarskrárinnar um almenningsþörf hafi ekki verið fullnægt, 4)       ekki hafi verið gætt meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar, 5)       ekki hafi verið farið eftir meginreglum stjórnsýsluréttar, einkum um meðalhóf en einnig um málsmeðferð að öðru leyti, og 6)       að ákvörðun Vegagerðarinnar hafi byggt á ólögmætum sjónarmiðum. Þessar málsástæður séu að mörgu leyti nátengdar og stefnandi byggir á því að hver og ein þeirra eða fleiri saman eigi að leiða til þess að fallast beri á kröfur stefnanda. Stefnandi byggir á því að vegamálastjóri hafi ekki haft heimild til að taka ákvörðun um eignarnám samkvæmt lögum 80/2007 og að túlka verði ákvæði laganna samkvæmt orðanna hljóðan. Þar sem ekkert komi fram í 5. mgr. 37. gr. laganna um það hver taki ákvörðun um eignarnám, leiði samanburðarskýring við 6. mgr. sömu greinar og 1. ml. 4. gr. laganna til þess að líta beri svo á að stefndi, Vegagerðin, hafi átt að leita til ráðherra og óska ákvörðunar um eignarnám. Einnig styðji það sjónarmið eignarnámsréttar sem fræðimenn hafa sett fram að þegar eignarnámsheimild taki ekki af skarið um það hver geti tekið ákvörðun um eignarnám, þá skuli það vera viðkomandi ráðherra sem fari með þann málaflokk sem um ræði. Þessi regla sé leidd af þeirra staðreynd að um stjórnarskrárvarin réttindi sé að ræða og þegar stjórnvöld skerði slík réttindi skuli vandað sérstaklega til verka.  Stefnandi byggir á því að túlkun sín sé í samræmi við meginreglur hæfisreglna og málsmeðferðarreglna stjórnsýslulaga, enda stefndi, Vegagerðin, sá aðili sem annist framkvæmdir vegamála og því óeðlilegt að sami aðili taki ívilnandi ákvarðanir fyrir sig sem lúti að stjórnarskrárvörðum réttindum borgaranna og friðhelgum réttindum þeirra. Stefnandi kveður ljóst að í athugasemdum með frumvarpi er orðið hafi að vegalögum nr. 80/2007 sé í umfjöllun um þá grein sem varð að 37. gr. laganna, rætt um að það sé stefndi, Vegagerðin, sem fari með eignarnáms­heimildina. Engu að síður telur stefnandi að líta beri fram hjá þeim lögskýringargögnum við túlkun 5. mgr. 37. gr. laganna, þar sem þau gangi gegn þeim grunnreglum sem gildi um friðhelgi eignarréttarins og meginreglum stjórnsýsluréttar um meðferð og lögmæti einstakra ákvarðana. Þá eigi dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 425/2008 um ákvæði fyrri vegalaga, og hér sé byggt á af hálfu stefnda, Vegagerðarinnar, ekki við að þessu leyti. Í dómi þessum hafi við úrlausn þessa álitaefnis ekki verið vikið að hæfissjónarmiðum, sbr. 3. gr. laga 37/1993. Sé talið að túlka beri ákvæði vegalaga nr. 80/2007 þannig að stefndi Vegagerðin hafi farið með það vald að ákveða hvort eignarnámi væri beitt, þá byggir stefnandi á því að sú skipan að stefndi, Vegagerðin, eigi um það sjálfdæmi að meta í eigin sök hvort skilyrði eignarnáms séu til staðar andstæð íslenskri stjórnskipan og vernd mannréttinda, sbr. einkum 72. gr. og 65. gr. stjskr., og hæfisreglum stjórnsýsluréttarins. Því beri að virða ákvæði vegalaga um þetta að vettugi. Stefnandi byggir sérstaklega á því að með þeirri skipan að ætla stefnda, Vegagerðinni, að ákveða hvort skilyrði séu til staðar fyrir því að hann fái eign eignarnumda, hafi löggjafinn framselt vald sitt með of víðtækum og óljósum hætti. Stefnandi telur það óumdeilt að ákvörðun sú sem krafist er ógildingar á, hafi verið stjórnvaldsákvörðun. Stjórnvalds­ákvörðun sé ákvörðun sem tekin sé í skjóli stjórnsýsluvalds og sé beint milliliðalaust út á við að tilteknum aðila eða aðilum og með henni sé kveðið á bindandi hátt um rétt eða skyldur þeirra í ákveðnu og fyrirliggjandi máli. Stefnandi telur stefnda Vegagerðina því hafa verið aðila máls, átt einstaklegra hagsmuna að gæta um þá ákvörðun að ráðast í eignarnám. Í 1. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga 37/1993 sé ákvæði sem ætlað sé að hindra að þessi staða geti komið upp. Einnig sé vísað til annarra töluliða sömu málsgreinar því til stuðnings að vegamálastjóri hafi verið vanhæfur þegar hann tók ákvörðun við eignarnám. Stefnandi byggir á því að eðlilegt sé að annað stjórnvald en það sem njóti góðs af eignarnámsákvörðun, eigi að meta hvort skilyrðum eignarnáms sé fullnægt. Slík framkvæmd teljist til góðrar stjórnsýslu og sé krafa um það rík þegar um friðhelg mannréttindi sé að ræða.  Í 37. gr. vegalaga nr. 80/2007 sé að finna almenna eignarnámsheimild. Stefnandi mótmælir því ekki að nauðsynlegt geti reynst að hafa slíka heimild svo að unnt sé að leggja vegi í samræmi við almenn­ings­þörf. Án slíkrar heimildar gætu yfirvöld ekki þvingað fram hagstæða legu vegsvæða vegna skilyrðis 72. gr. stjskr. um að lagafyrirmæli skuli heimila eignarnám. Því sé 37. gr. vegalaga almenn eignar­náms­heimild, þ.e. löggjafinn hafi einungis tekið afstöðu til þess að þeir almannahagsmunir sem felist í öruggum og greiðum samgöngum geti réttlætt eignarnám. Löggjafinn hafi hins vegar ekki tekið neina afstöðu til þess hvort það tilvik sem hér um ræðir hafi réttlætt eignarnám. Stefnandi telur það andstætt íslenskri réttarskipan að líta svo á, án þess að skoða málavexti í hverju tilviki, að eignarnámsheimild vegalaga veiti stefnda, Vegagerðinni, ótakmarkaða heimild til að þvinga fram kaup á hvaða landi sem er. Engan veginn sé hægt að líta svo á, að löggjafinn hafi, með því að treysta stefnda, Vegagerðinni, fyrir þeirri miklu ábyrgð að fá að ákveða eignarnám, metið hvert einasta tilvik svo, að þegar Vegagerðin ákveði eignarnám þá sé til staðar almenningsþörf. Hafa þurfi í huga að hugtakið eignarnám sé víðtækara en svo að það nái eingöngu til fullkomins eignarafsals á hinu eignarnumda. Hugtakið sé skilgreint svo í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 11/1973 að leiði ekki annað af heimildarlögum þá nái hugtakið yfir tímabundna skerðingu eða ótímabundna og það sem hér skipti mestu, takmörkuð eignarréttindi. Af þessu leiði að í hverju máli þurfi að fara fram rannsókn á því hvort skilyrðum eignarnáms sé fullnægt og ef svo er, hvers konar eignarnám eigi að framkvæma. Stjórnvöldum beri því fyrst og fremst að kanna, hvort lagaheimild sé til staðar og ef svo er, hvort almenningsþörf krefji, sbr. 72. gr. stjskr. Stefnandi telur að við mat á almenningsþörf verði að horfa til tilgangs vegalaga og hlutverks stefnda, Vegagerðarinnar. Stefnandi byggir á því að almenningsþörfin felist í því, að samgöngur séu greiðar og öruggar, sbr. 1. gr. vegalaga. Stefnandi dregur ekki í efa að heppilegt sé að veghaldari hafi forræði á vegsvæði. Þess vegna hafi stefnandi boðið stefnda, Vegagerðinni, slíkt forræði án nokkurrar greiðslu eða skilyrða annarra en að forræðið standi á meðan stefndi, Vegagerðin, telur að þörf sé á því og falli niður að þeim tíma liðnum. Stefnandi telur það engan veginn felast í hugtakinu almenningsþörf hvernig raunverulegu eignarhaldi sé háttað á því landsvæði sem veghaldari noti til að sinna hlutverki sínu, hvað þá hvernig þinglýsingu á því sé háttað, enda sé óumdeilt að stefnandi sé eigandi allrar jarðarinnar Hjarðarhaga og að stefndi, Vegagerðin, geti engu að síður sinnt skyldum sínum og hlutverki. Líklega séu sterkustu rök stefnanda fyrir því að ákvörðun um eignarnám hafi ekki verið byggð á almennings­þörf þau, að í ákvörðun stefnda Vegagerðarinnar og úrskurðum matsnefndar eignarnáms­bóta og innanríkisráðuneytisins sé enga umfjöllun að finna um hugtakið almenningsþörf. Hafi því í engu tilviki við stjórnsýslulega meðferð málsins verið farið eftir rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslu­laga nr. 37/1993 í þessu máli. Stefnandi byggir á því, að við túlkun lagaákvæða, sem sé ætlað að þrengja að mannréttindum, beri að líta til meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar. Í þeirri reglu felist hér að vald almenna löggjafans sé takmarkað þannig að honum sé ekki heimilt að mæla fyrir um eignarnám (þ.e. fullkomið framsal eignarréttar) nema önnur vægari úrræði komi ekki til greina. Skilyrði 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar um almenn­ings­þörf, lagastoð og fullt verð séu augljós, en að auki hvíli sérstök skylda á löggjafanum um að gæta meðalhófs við veitingu eignarnámsheimilda með lögum. Í dönskum eignarnámsrétti hafi þessu sjónarmiði verið lýst þannig að löggjöf sem mæli fyrir um fullkomið eignarafsal, þar sem markmiði því sem stefnt er að sé unnt að ná með minna íþyngjandi inngripi – t.d. með eignarnámi á takmörkuðum eignarrétti (leigunám, afnotanám) – gangi gegn þessari reglu. Í þessari reglu felist annars vegar krafa um nauðsyn og hins vegar krafa um hlutfallslegt hagsmunamat. Með nauðsyn sé átt við að þar sem önnur vægari úrræði nægi til að ná lögmæltum markmiðum þá beri að velja þau. Með hlutfallslegu hagsmunamati sé átt við að því aðeins megi grípa til þeirra fyrirsjáanlegu réttaráhrifa eignarnáms að þau séu í eðlilegu samhengi við hagsmuni aðila og þau markmið sem stefnt sé að. Í íslenskum rétti hafi verið talið að skilyrði um almenningsþörf sé í raun önnur birtingarmynd sömu sjónarmiða. Í úrskurðum sínum hafi matsnefnd eignarnámsbóta og innanríkisráðuneytið litið svo á, að fyrst lög heimili fullkomið eignarnám þurfi stefndi Vegagerðin ekki að sætta sig við takmörkuð eignar­réttindi, jafnvel þótt ekki sé útilokað að þau séu nægileg til að ná lögmæltum markmiðum. Virðist því í þessum úrskurðum vera litið svo á að löggjafinn hafi fyrirskipað að stefndi Vegagerðin þurfi ekki að huga að þessari meðalhófs­reglu stjórnskipunarréttar. Stefnandi telur þessa meðalhófsreglu eiga að leiða til þess, að ákvæði vegalaga, t.d. 3. mgr. 40. gr. laganna, verði að túlka samkvæmt orðanna hljóðan en ekki rúmri skýringu eins og stefndi Vegagerðin hafi gert og tekið sé undir í áðurnefndum úrskurðum. Þannig beri að túlka ákvæði 3. mgr. 40. gr. vegalaga svo, að þau réttindi sem komi í hlut stefnda, Vegagerðarinnar, eða stefnda, íslenska ríkisins, skuli getið í þinglýsingarbókum. Engu breyti hins vegar hvort þau séu um takmörkuð eignarréttindi eða fullan eignarrétt, enda samræmist slík túlkun meginreglum þinglýsingalaga, sbr. t.d. 31. gr. laga nr. 39/1978. Stefnandi telur að við mat á því hvort farið hafi verið að meðalhófsreglu verði að vega og meta þá kosti sem í stöðunni hafi verið og færa rök fyrir slíku mati. Fyrir liggi að stefndi, Vegagerðin, hafi ekki framkvæmt slíkt mat og heldur ekki talið sig þurfa að sætta sig við neitt minna en fullan eignarrétt af því að lögin heimiluðu slíkt. Sama gildi um matsnefnd eignarnámsbóta og innanríkisráðuneytið, báðir þessir aðilar virðist leggja til grundvallar að löggjafinn hafi metið þetta í eitt skipti fyrir öll og engu skipti þó að landeigandi bjóði endurgjaldslaus og ótakmörkuð afnot af umræddu landi fyrir veghaldara. Í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé sérstök meðalhófsregla sem stefnda, Vegagerðinni, hafi borið að fara eftir við töku stjórnsýsluákvörðunar um eignarnám þann 3. maí 2011. Lagaákvæðið sé skýrt, því aðeins skuli taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði sem að sé stefnt verði ekki náð með öðru og vægara móti. Skuli þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Ákvæði um meðalhóf sé gagngert sett sem ein af grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins til þess að koma í veg fyrir að stjórnvöld geti ótakmarkað beitt valdheimildum sínum með þeim rökum að þau þurfi ekki að „sætta sig við“ takmarkaðri réttindi. Matsnefnd eignarnámsbóta og innanríkisráðuneytið virðast líta svo á, að af því að löggjafinn hafi sett inn heimild sem nái yfir ýtrustu tilvik, geti stjórnvöld ekki endurskoðað það mat. Stefnandi telur þetta rangt. Æðra stjórnvald geti metið hvort lægra sett stjórnvald hafi við framkvæmd stjórnsýsluákvörðunar farið að stjórnsýslulögum. Í því felist að ef vægara úrræði hefur verið tækt, þá þurfi sérstaklega að rökstyðja hvers vegna því hafi ekki verið beitt. Fara hafi átt fram mat á því hvort stefnda Vegagerðinni hefðu ekki dugað fullkomin, ótakmörkuð afnot af umræddri spildu í stað eignarafsals. Þá byggir stefnandi á því að niðurstaða allra þeirra stjórnvalda sem fjallað hafa um málið, þ.e. stefnda,Vegagerðar­innar, með ákvörðun 3. maí 2011, matsnefndar eignarnámsbóta, með úrskurði 18. nóvember 2011, og innanríkisráðuneytisins, með úrskurði sínum þann 29. júní 2012, hafi verið fengin án þess að tekin hafi verið til skoðunar og rökstudd niðurstaða um þörfina á því að taka landið eignarnámi, en það sé brot á 10. gr. stjórnsýslulaga. Stefnandi telur að með því að sjónarmið um meðalhóf hafi ekki verið tekin til skoðunar, heldur hafi verið gengið eins langt og heimilt kynni að vera í ýktustu tilvikum, hljóti önnur sjónarmið en þau sem lúti að greiðum og öruggum samgöngum að búa að baki ákvörðuninni. Sú staðreynd, að stefndi Vegagerðin hafi fengið fullkomið eignarafsal fyrir spildum í Skriðdal og framselt þær íslenska ríkinu, gefi tilefni til að ætla að annarleg sjónarmið búi að baki þessum mála­til­búnaði. Fjölmörg fasteignatengd réttindi hafi ekkert með veghald að gera, s.s. veiðiréttindi í ám, orkunýtingar­réttindi, hreindýraarður, möguleg gullvinnsla og fleira. Á meðan stefndu færi ekki fyrir því rök að almenningsþörf krefjist þess að þessi réttindi færist til stefnda, Vegagerðarinnar, verði að gagnálykta svo að skortur sé á lögmætum sjónarmiðum að baki ákvörðuninni um eignarnám. Stefnandi telur annað óhjákvæmilegt en að krefjast þess að þeir úrskurðir sem byggja á eignarnámsákvörðun stefnda Vegagerðarinnar verði ógiltir í dómsorði, verði fallist á málatilbúnað stefnanda. Að öðrum kosti kynni að skapast vafi á því hvert réttarástandið væri. Málsástæður og lagarök að baki ógildingarkröfunum hvíli á sömu rökum og hér hafi verið reifuð vegna ákvörðunar stefnda Vegagerðarinnar frá 3. maí 2011 og vísar stefnandi því til fyrri umfjöllunar. Í máli þessu setur stefnandi fram kröfu um að viðurkennt verði að stefndi, Vegagerðin, þurfi að taka boði stefnanda um endurgjaldslausan afnotarétt af þeirri landspildu sem um ræðir. Stefndi vísar til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um rétt stefnanda til viðurkenningardóms. Óháð því hvort fallist hafi verið á fyrri kröfur eða þeim hafnað, þá standi þessi krafa sem sjálfstætt úrlausnarefni. Krafan byggi á málsástæðum og lagarökum sem reifuð hafi verið og þeirri grunnhugsun að nálgunin skuli vera út frá hagsmunum borgarans en ekki ríkisvaldsins. Fjárkrafa stefnanda er tvíþætt. Annars vegar sé um að ræða sannanlega útlagðan kostnað vegna vinnu lögmanns við rekstur málsins fyrir stjórnvöldum, þ.e. stefnda, Vegagerðinni, matsnefnd eignarnáms­bóta og innanríkisráðuneytinu. Hins vegar sé um að ræða kröfu vegna vinnu fyrirsvarsmanns stefnanda við málið á meðan það var til meðferðar hjá stjórnvöldum. Varðandi kröfu vegna vinnu lögmanns stefnanda fyrir stjórnvöldum vísar stefnandi til reikninga og tímaskýrslna lögmanns stefnanda kröfunni til stuðnings. Af hálfu stefnanda sé litið svo á að vinna lögmanns frá uppkvaðningu úrskurðar innanríkisráðuneytisins skuli teljast til málskostnaðar í máli þessu og því sé ekki gerð sjálfstæð dómkrafa um greiðslu þess kostnaðar. Krafan byggi á þeirri meginreglu eignarnámsréttar að greiða skuli fullar bætur. Í því hugtaki felist greiðsla sem stefnandi verði að greiða í samræmi við 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, sbr. einnig 11. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms. Stefnandi hafi greitt lögmanni sínum í samræmi við tímaskráningu lögmannsins og samkvæmt gjaldskrá Sóknar lögmannsstofu. Greiddar hafi verið 16.500 kr. auk virðisaukaskatts vegna hverrar klukkustundar á tímabilinu fram að mars 2011, 16.900 kr. auk vsk. frá mars 2011 til ársloka 2011 og 17.900 kr. auk vsk. á árinu 2012. Byggt sé á því að slíkt tímagjald sé hæfilegt í skilningi laga nr. 77/1998 og byggir stefnandi á því að stefndu verði beinlínis að sýna fram á að það hafi verið ósanngjarnt, sbr. 2. mgr. 24. gr. laganna. Telur stefnandi reyndar að engar athugasemdir hafi verið settar fram við tímagjald lögmanns hans. Í úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta sé vikið að því að lögmaður stefnanda hafi eytt óþarflega miklum tíma í vinnu í málinu og virðast það vera rök nefndarinnar fyrir því að ekki hafi verið fallist á kröfu um málskostnað þar að fullu. Stefnandi telur að öll sú vinna sem unnin var hafi verið nauðsynleg vegna þess hvernig haldið hafi verið á málinu af hálfu stefnda Vegagerðarinnar. Stefndu beri að sýna fram á að svo hafi ekki verið. Stefnandi krefst dráttarvaxta vegna þessa hluta fjárkröfu stefnanda frá 30. júní 2012, þegar úrskurður innanríkisráðuneytisins hafi verið sendur stefnanda. Krafa um þessa greiðslu hafi verið sett fram áður, við flutning málsins fyrir matsnefnd eignarnámsbóta og í kæru til innanríkisráðuneytisins, en stefnandi sætti sig við að dráttarvextir reiknist frá þessum tíma. Auk þess að byggja kröfuna á 72. gr. stjórnarskrárinnar, lögum um lögmenn og lögum um framkvæmd eignarnáms, telur stefnandi að hún byggi einnig sjálfstætt á almennum skaðabótareglum, enda sé um bótaskylt tjón að ræða sem stefndu beri ábyrgð á gagnvart stefnanda. Tjónið hafi verið fyrirsjáanlegt, enda ríkur réttur eignarnámsþola að leita aðstoðar lögmanns. Stefnandi hafi takmarkað tjón sitt með því að hafa sama lögmann og eigendur Skjöldólfsstaða I. Varðandi kröfu vegna vinnuframlags fyrirsvarsmanns stefnanda þá hafi stefnandi sett fram þessa kröfu að fjárhæð 557.815 krónur við flutning málsins fyrir matsnefnd eignarnámsbóta þann 19. október 2011. Áður hafði krafan verið sett fram, án þess að fjárhæð væri nákvæmlega tilgreind. Krafa þessi byggi á því að fyrirsvarsmaður stefnanda, Hafliði Hjarðar, hafi þurft að eyða 101 klst. í fundi og gagnaöflun vegna ásóknar stefnda Vegagerðarinnar í eignarréttindi stefnanda á tímabilinu 2009 til 2011. Eingöngu sé krafist 3.800 króna auk virðisaukaskatts fyrir hverja klukkustund, en fyrirsvarsmaðurinn sé húsasmíðameistari og samsvari þessi fjárhæð útseldri vinnu hjá honum. Eingöngu sé um að ræða tíma sem fallið hafi til á virkum dögum og á vinnutíma, sem hafi leitt til þess að hann hafi orðið af tekjum við að selja út sambærilegan fjölda vinnustunda. Fyrirsvarsmaðurinn búi að Hjarðarhaga, í 49 km. fjarlægð frá Egilsstöðum og hafi sjö sinnum þurft að gera sér ferð á fundi á Egilsstöðum vegna málsins. Samtals hafi hann ekið 49 * 2 * 7 = 686 km og sé krafist 111 kr. fyrir hvern kílómetra í samræmi við ákvörðun ferðakostnaðarnefndar ríkisins á þeim tíma sem krafan var sett fram. Stefnandi hafi því þurft að bæta fyrirsvarsmanninum þetta tjón og krefjist bóta fyrir það tjón. Krafa þessi byggi einnig á þeirri meginreglu eignarnámsréttar að greiða skuli fullar bætur fyrir það tjón sem menn verði fyrir í eignarnámsmálum. Auk þess að byggja kröfu þessa á ákvæðum 72. gr. stjskr. og 11. gr. laga 11/1973, sé sjálfstætt byggt á því að stefndu beri ábyrgð á þessu tjóni stefnanda á grundvelli almennra skaðabótareglna með vísan til umfjöllunar um hinn hluta fjárkröfunnar. Um málskostnaðarkröfu vísar stefnandi til 130. gr. og annarra ákvæða XXI. kafla laga nr. 91/1991. Þá sé á því byggt að málskostnaður verði dæmdur skv. mati dómsins um vinnu lögmanns og þann kostnað sem fylgt hafi máli þessu, að teknu tilliti til niðurstöðu dómara um hvernig skuli fara með kostnað sem féll til í sérstöku matsmáli á milli aðila áður en mál þetta var höfðað. Verði talið að fjárkrafa í stefnu sé í raun hluti af málskostnaðarkröfu stefnanda sé þess krafist að fullt tillit verði tekið til þess kostnaðar sem þar sé rakinn. Málsástæður og lagarök stefnda, Vegagerðarinnar Stefnandi virðist byggja á því að eignarnámsákvæði Vegalaga stangist að einhverju leyti á við 72. gr. stjórnarskrárinnar þannig að löggjafinn hafi ekki haft heimild til að setja hin umdeildu ákvæði, þ.e. að löggjafinn hafi ekki gætt meðalhófs við veitingu eignarnámsheimilda með lögum. Því sé til að svara að eignarnámsheimildir vegalaga standi á gömlum merg og komin sé áratugalöng framkvæmd. Með lögum nr. 80/2007, sem leyst hafi af hólmi eldri lög nr. 45/1994, hafi ekki verið gerð efnisbreyting á eignarnámsheimildinni sem slíkri, en ákvæði um málsmeðferðina sem slíka gerð skýrari. Stefnandi færi engin haldbær rök fyrir staðhæfingum sínum.  Heimildir stefnda til eignarnáms byggist á 1. mgr. 37. gr. vegalaga nr. 80/2007, sem kveði á um skyldu landeiganda til að láta af hendi land sem þurfi til þjóðvegagerðar og hvers kyns veghalds, svo sem breytinga, breikkunar eða viðhalds, enda komi fullar bætur fyrir. Í 3. mgr. 40. gr. vegalaga sé svo gert ráð fyrir þinglýsingu eignarheimildar að vegsvæði, en þar sé kveðið á um að eignarheimild að vegsvæði verði þinglýst og skráð í samræmi við ákvæði þinglýsingalaga og laga um skráningu og mat fasteigna með sama hætti og eignarheimildir að öðrum fasteignum. Eignarnámsheimildir vegalaga sé að finna í VII. kafla laganna. Í kaflanum sé gert ráð fyrir eignarnámi ef ekki takast samningar við landeigendur. Heimildir vegalaga kveði ekki á um að land sé fengið að láni eða leigu undir þjóðvegi enda ekki gert ráð fyrir leigunámi. Mjög fá dæmi séu til í íslenskum lögum um heimild til leigunáms. Ekkert í kafla laganna bendi til þess að eignarnemi hafi heimild til að taka land undir veg leigunámi. Í athugasemdum, sem hafi fylgt frumvarpi því sem varð að lögum nr. 80/2007, komi skýrt fram að ekki hafi verið ætlunin að breyta áratugalangri framkvæmd við eignarnám vegna vegagerðar. Ákvæði þetta hafi verið nýmæli í vegalögum nr. 80/2007. Um þetta ákvæði segi svo í athugasemdum sem fylgdu frumvarpinu: Málsástæður og lagarök stefnda íslenska ríkisins Stefndi íslenska ríkið vísar til þess að í máli þessu hafi stefnandi auk málskostnaðarkröfu, samhliða uppi kröfur í fimm ótölusettum liðum og virðist eingöngu kröfu um ógildingu úrskurðar ráðuneytisins og kröfu um greiðslu á 2.704.540 kr. beint að stefnda. Aðkoma stefnda íslenska ríkisins að ágreiningsmálum milli stefnanda og meðstefnda sé eingöngu sá að innanríkisráðuneytið, sem æðra stjórnvald, hafi úrskurðað samkvæmt kæruheimild í 57. gr. vegalaga í deilu milli stefnanda og meðstefnda um lögmæti þeirrar ákvörðunar meðstefnda frá 3. maí 2011 að taka beinan eignarrétt að landi vegna vegarins eignarnámi og þá kröfu stefnanda að sá þáttur ákvörðunarinnar yrði ógiltur. Vandséð sé að sú aðkoma kalli á aðild stefnda að öllum þeim kröfum sem gerðar séu í máli þessu. Hvergi í stefnu sé sérstaklega rökstudd aðild íslenska ríkisins að máli þessu við hlið meðstefnda. Eingöngu sé með óbeinum hætti vikið að því í stefnu að stefnandi telji nauðsynlegt til að koma í veg fyrir vafa um réttarástand, að úrskurðir sem stefnandi og meðstefndi hafi átt aðild að, þ.e úrskurðir matsnefndar eignarnámsbóta og úrskurður innanríkisráðuneytisins, verði ógiltir. Stefnandi kveður að málsástæður og lagarök að baki ógildingarkröfum á úrskurðunum séu hinar sömu og byggt sé á til stuðnings fyrsta kröfulið um að ógilt verði með dómi sú ákvörðun meðstefnda frá 3. maí 2011, að taka 2,19 ha landspildu úr landi Hjarðarhaga (landnr. 156-909) eignarnámi, á 540 metra kafla undir vegsvæði með áningastað m.v. 40 metra breitt vegsvæði. Engan rökstuðning sé að finna í stefnu fyrir því að beina fjárkröfu vegna kostnaðar á stjórnsýslustigum að íslenska ríkinu með meðstefnda. Krafa stefnanda um ógildingu úrskurðar innanríkisráðuneytisins virðist reist á því að ráðuneytinu hafi borið að ógilda ákvörðun Vegagerðarinnar um að taka landspildu úr landi Hjarðarhaga eignarnámi, þar sem sú ákvörðun hafi ekki verið tekin af þar til bærum aðila, að skipan vegalaga um eignarnám og framkvæmd sé andstæð stjórnarskrá og hæfisreglum stjórnsýslulaga, að ekki hafi verið sýnt fram á mat á almenningsþörf og að við mat á almenningsþörf hafi ekki verið farið að rannsóknarreglu stjórnsýslulaga og loks að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu stjórnskipunarréttarins og 12. gr. stjórnsýslulaga við ákvörðunartökuna sjálfa og hjá úrskurðaraðila. Stefndi vísar þessum sjónarmiðum stefnanda og kröfum á þeim reistum eindregið á bug. Stefnandi reisi kröfu um ógildingu úrskurðar ráðuneytisins í fyrsta lagi á því að meðstefnda Vegagerðina hafi brostið vald til að taka ákvörðun um eignarnám lands undir vegsvæðið. Komi þar hvort tveggja til að ráðherra hafi borið að lögum að taka þá ákvörðun en jafnvel þó að því yrði hafnað, þá feli slíkt lagaákvæði í sér brot á 65. og 72. gr. stjórnarskrár og hæfisskilyrðum 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og beri að virða að vettugi. Stefndi vísar þessum sjónarmiðum stefnanda eindregið á bug. Ákvæði 4. gr. og 37. gr. vegalaga nr. 80/2007 og athugasemdir er fylgdu frumvarpi til laganna séu skýr og ótvíræð um það að eignarnámsheimild vegna þjóðvega sé hjá meðstefnda. Jafnframt séu ákvæði laganna skýr og ótvíræð um það að slíkri stjórnsýsluákvörðun verði skotið til ráðherra, sbr. 57. gr. laganna eins og gert hafi verið í þessu tilviki. Í dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 424/2008 (Brekka) hafi því verið borið við að vegamálastjóri væri ekki bær að þágildandi vegalögum nr. 45/1994 til að taka ákvörðun um eignarnám vegna þjóðvega og væri vanhæfur til að taka slíka ákvörðun. Ákvörðunarvaldið væri í höndum ráðherra sem ekki væri framseljanlegt til vegamálastjóra. Á þessi sjónarmið var ekki fallist. Með dómi Hæstaréttar var staðfest að vegamálastjóri eða löglærður fulltrúi í umboði hans væri bær að lögum til að taka ákvörðun um eignarnám á grundvelli IX. kafla eldri vegalaga nr. 45/1994. Á engan hátt fái þannig staðist sjónarmið stefnanda og engir annmarkar séu á eignarnámsákvörðun Vegagerðarinnar né lögum að þessu leyti sé fyrir að fara svo sem ítarlega sé rakið í greinargerð meðstefnda og sé tekið undir þá umfjöllun og vísast til hennar. Stefnandi haldi því fram í stefnu að eignarnámið hafi ekki byggst á almenningsþörf. Þá haldi stefnandi því fram að engan veginn felist í hugtakinu almenningsþörf, hvernig raunverulegu eignarhaldi sé háttað á því landsvæði sem veghaldari notar. Umfjöllun um hugtakið almenningsþörf sé hvorki að finna í ákvörðun meðstefnda né úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta og innanríkisráðuneytisins. Hjá þeim hafi ekki farið fram mat á þörf fullkomins eignarréttar í samræmi við meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar og meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og þannig hafi einnig verið brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, af því verði að gagnálykta að skortur sé á lögmætum sjónarmiðum að baki ákvörðun um eignarnám. Stefndi vísar þessum sjónarmiðum stefnanda eindregið á bug. Stefndi vísar til þess í kærumálinu sé enginn ágreiningur um legu vegarins eða þörf á bráðabirgðaafnotum lands í því sambandi. Ágreiningur hafi eingöngu lotið að heimild fyrir meðstefnda til að taka beinan eignarrétt að landi undir vegsvæðið eignarnámi. Af hálfu stefnanda hafi aðallega verið byggt á því, að þar sem Vegagerðinni stæði til boða endurgjaldslaus afnot landsins, væru ekki uppfyllt skilyrði um almenningsþörf og meðalhóf til að beita eignarnámsheimild 1. mgr. 37. gr. vegalaga nr. 80/2007. Í úrskurði ráðuneytisins hafi verið tekin rökstudd afstaða til þessara atriða og lögmætra sjónarmiða og vísar stefndi til umfjöllunar í úrskurði ráðuneytisins um þessi atriði og tekur undir þau.   Stefndi byggir á því að á úrskurði ráðuneytisins sé engum efnislegum annmörkum fyrir að fara að lögum sem leitt gætu til ógildingar hans. Þá hafi í hvívetna verið gætt að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga við úrskurð ráðuneytisins Skýrlega sé greint í ákvæðum VII. kafla vegalaga milli eignarnáms lands og bráðabirgðaafnota lands og hafi löggjafinn tekið afstöðu til nauðsynjar almenningsþarfa til beins eignarréttar að landi sem þurfi til þjóðvegagerðar og til veghalds þeirra í 37. gr. vegalaga vegna þeirra þarfa sem standa munu um ótiltekinn tíma, sbr. og athugasemdir við þá grein og við 3. mgr. 40. gr. laganna í frumvarpi. Jafnframt hafi löggjafinn kveðið á um það í 4. mgr. 39. gr. laganna að fari svo að eldri vegur leggist niður við lagningu nýs vegar, skuli hann falla aftur til landeiganda. Engum annmörkum á löggjöfinni sé fyrir að fara svo sem einnig sé ítarlega rakið í greinargerð meðstefnda og tekur stefndi undir þá umfjöllun. Stefndi vísar til 1. mgr. 37. gr. vegalaga um skyldu landeiganda til að láta af hendi land til þjóðvegagerðar og hvers kyns veghalds og til 2.-5. mgr. 37. gr. vegalaga sem og 38. gr. þeirra varðandi málsmeðferð. Þá bendir stefndi á að löggjafinn hafi ákveðið í 1. mgr. 37. gr. skyldu landeiganda  til að láta af hendi land undir þjóðvegi þannig að þegar slíkir vegir séu lagðir þá sé hið stjórnarskrárbundna skilyrði eignarnáms uppfyllt og það sæti ekki endurskoðun ráðuneytisins. Ráðuneytið geti hins vegar skorið úr um það hvort skilyrðum vegalaga fyrir eignarnámi sé fullnægt. Ágreiningur í málinu snúist ekki um framkvæmdina sem slíka, heldur aðallega um það hvernig eignarhaldi á hinu eignarnumda svæði skuli háttað. Ef litið er til 1. mgr. 37. gr. vegalaga sé ljóst að það feli í sér ótvíræða heimild meðstefnda til eignarnáms á landi þegar leggja þurfi þjóðveg. Meðstefndi þurfi ekki að sætta sig við minni réttindi en full eignarréttindi yfir því landi sem stofnunin þurfi á að halda. Þá beri gögn málsins það með sér að meðstefndi hafi eftir fremsta megni reynt að ná samningum við stefnanda. Stefndi telur að meðstefndi hafi í hvívetna gætt málsmeðferðarreglna vegalaga og ákvæði stjórnsýslulaga um andmælarétt. Þá fellst stefndi ekki á það að ákvörðun meðstefnda hafi byggst á ólögmætum sjónarmiðum samkvæmt 1. mgr. 37. gr. vegalaga. Samkvæmt framangreindu byggir stefndi á því að það séu engir þeir annmarkar á ákvörðun Vegagerðarinnar frá 3. maí 2011 er leitt gætu að lögum til ógildingar hennar og ógildingar á úrskurði innanríkisráðuneytisins frá 29. júní 2012 á þeim grundvelli. Kröfur stefnanda um ógildingu á úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta, sem ekki verður séð að beinist að stefnda, fái því heldur ekki staðist né krafa á hendur meðstefnda um skyldu til að taka boði stefnanda um endurgjaldslausan afnotarétt svo sem skilmerkilega sé rakið í greinargerð meðstefnda og vísar stefni um það til þess er þar greini. Kröfu stefnanda um að stefndu verði sameiginlega (in solidum) dæmdir til að greiða stefnanda 2.704.540 kr. vísar stefndi eindregið á bug. Samkvæmt málsútlistun í stefnu sé annars vegar um að ræða lögmannskostnað stefnanda að fjárhæð 2.146.725 kr. m/vsk. á tímabilinu frá 31. mars 2011 til 30 júní 2012 og hins vegar vinnu og akstur fyrirsvarsmanns stefnanda að sögn í stefnu á tímabilinu frá 2009-2011. Samkvæmt yfirliti á dskj. nr. 86 sé þar um að ræða kostnað að fjárhæð 557.815 kr. m/vsk. eins og um aðkeypta útselda vinnu væri að ræða sem vandséð sé að geti átt við og þá sé heldur engum reikningum til að dreifa til stuðnings. Einnig sé yfirlitið án sundurliðunar og frekari skýringa. Stefnandi byggi fjárkröfur sínar á 11. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms og 72. gr. stjórnarskrárinnar en einnig á almennum skaðabótareglum. Fyrir liggi að aðkoma annarra stjórnvalda en Vegagerðarinnar hafi hafist með því að matsnefnd eignarnámsbóta tók fyrir matsbeiðni meðstefnda Vegagerðarinnar hinn 8. júní 2011. Nefndin hafi lokið starfi sínu með úrskurði uppkveðnum 18. nóvember 2011 í kjölfar munnlegs málflutnings 19. október s.á. Í þeim úrskurði hafi verið úrskurðað um kostnað stefnanda af meðferð málsins úr hendi Vegagerðarinnar. Stefnandi hafi þegar fengið greiddan þann kostnað eins og lög standi til svo sem gerð sé grein fyrir í greinargerð meðstefnda. Í kröfugerð stefnanda sé ekki tekið tillit til þeirrar greiðslu. Í úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta komi fram að af hálfu stefnanda hafi verið mætt eftir atvikum, lögð fram gögn og reifað mál við fyrirtökur 8/6, 6/7, 8/8, 9/8, 14/9 og 19/10 2011. Jafnframt liggi fyrir að stefnandi kærði framkvæmdaleyfi sveitarfélagsins til kærunefndar skipulags- og byggingamála hinn 22. september 2011 og lauk sú kærunefnd störfum með úrskurði hinn 30. desember 2011. Rekstur þess kærumáls er varði ákvörðun sveitarstjórnar sé stefnanda óviðkomandi. Aðkoma stefnda hafi hafist eins og rakið sé í málavaxtalýsingu hér að framan, með móttöku kæru lögmanns stefnanda hinn 22. júlí 2011. Stefnandi hafi síðan með atbeina lögmann síns sent inn athugasemdir hinn 10/8 og 13/10 2011 og skarist sú aðkoma lögmannsins, eins og að framan greinir, í tíma við störf bæði matsnefndar eignarnámsbóta og kærunefndar skipulags- og byggingamála á árinu 2011. Lokaathugasemd lögmanns stefnanda hafi síðan borist ráðuneytinu 26. janúar 2012 og í kjölfarið hafi málið verið tekið til úrskurðar í ráðuneytinu án frekari aðkomu deiluaðila málsins. Samkvæmt dómskjali nr. 95 sé gerð krafa vegna lögmannskostnaðar eftir að síðustu aðkomu lögmanns stefnanda að kærumálinu lauk. Stefndi byggir á því að fjárkrafa stefnanda á hendur sér sé vanreifuð og beri að vísa henni frá dómi, sbr. d- og e-liði 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Engan rökstuðning sé að finna í stefnu fyrir því að beina þessari fjárkröfu að stefnda og enga umfjöllun eða rökstuðning sé að finna í stefnu fyrir kröfum þessum á grundvelli almennra skaðabótareglna. Hvorki í stefnu né á yfirlitum á dskj. nr. 86 og nr. 95 sé heldur að finna sundurliðun og skýringar á því hvaða verkefni liggja að baki þessum kröfum. Engin gögn fylgi dskj. nr. 86 og rangt sé sem greini í stefnu á bls. 8 að tímaskýrslur lögmanns fylgi reikningum á dskj. nr. 95 til stuðnings þess þáttar kröfunnar. Fjárkrafa stefnanda sé þannig svo vanreifuð hvernig sem á sé litið að vísa beri henni frá dómi. Verði fjárkröfu stefnanda ekki vísað frá dómi sé krafist sýknu af þeirri kröfu. Stefndi vísar til þess að stefnandi hefi þegar fengið greiddan kostnað úr hendi meðstefnda sem 11. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms og 72. gr. stjórnarskrár standi til og vísar um það til umfjöllunar í greinargerð meðstefnda og tekur undir þá umfjöllun og vísar til hennar. Lög standi ekki til að stefnandi eigi rétt á frekari greiðslum á meintum kostnaði við málarekstur á stjórnsýslustigi. Þá hafnar stefndi því alfarið að fjárkröfur stefnanda verði reistar á almennum skaðabótareglum. Kröfur stefnanda á þeim grundvelli séu vanreifaðar, órökstuddar og með öllu ósannaðar. Ber þannig að sýkna af öllum fjárkröfum stefnanda. Verði ekki á það fallist krefst stefndi til vara stórkostlegrar lækkunar á fjárkröfum stefnanda vegna lögmannskostnaðar og á kröfum vegna aðkomu fyrirsvarsmanns stefnanda verði ekki alfarið sýknað af báðum þeim kröfum. Í því sambandi sé byggt á framangreindum málsástæðum og lagarökum til stuðnings lækkunar krafnanna verði ekki fallist á að þau leiddu til frávísunar eða sýknu af þeim kröfum. Þá hafi stefnandi þegar fengið greiddan kostnað vegna rekstur máls á stjórnsýslustigi sem eiga að koma til frádráttar kröfum hans. Dráttarvaxtakröfu stefnanda er mótmælt og þess krafist að dráttarvextir dæmist ekki frá fyrri tíma en dómsuppsögu, verði þeirri kröfu ekki vísað frá dómi. IV. Niðurstaða Fyrsta krafa stefnanda er að ógilt verði með dómi ákvörðun stefnda Vegagerðarinnar frá 3. maí 2011 um að taka eignarnámi 2,19 ha landspildu úr landi Hjarðarhaga, landnr. 156-909, á 540 metra kafla undir vegsvæði með áningarstað miðað við 40 metra breitt vegsvæði. Stefnandi byggir á því að ekki hafi þurft að koma til eignarnáms þar sem hann hafi formlega og með óafturkræfum hætti gert stefnda Vegagerðinni tilboð um endurgjaldslaus afnot af því landi sem stefndi Vegagerðin hafi talið sig þurfa á að halda eins lengi og stefndi hafi talið sig þurfa vegna veghalds á umþrættri spildu og um þetta snúist ágreiningur aðila í málinu. Kröfu um ógildingu ákvörðunar stefnda Vegagerðarinnar byggir stefnandi á því í fyrsta lagi að ógilda beri ákvörðunina, að stefndi, Vegagerðin, hafi ekki haft lagaheimild til slíkrar ákvörðunartöku (valdþurrð), í öðru lagi á því að ákvæði vegalaga um ákvarðanatöku við eignarnám séu andstæð stjórnarskránni og/eða framkvæmd stefnda Vegagerðarinnar við þá ákvarðanatöku. Í þriðja lagi að skilyrðum stjórnarskrár um almenningsþörf hafi ekki verið fullnægt, í fjórða lagi að ekki hafi verið gætt meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, í fimmta lagi að ekki hafi verið farið eftir meginreglum stjórnsýsluréttar, einkum hvað snertir meðalhóf en einnig málsmeðferð að öðru leyti og í sjötta lagi að ákvörðun stefnda Vegagerðarinnar hafi byggt á ólögmætum sjónarmiðum. Öllum þessum málsástæðum stefnanda er mótmælt af báðum stefndu eins og rakið er hér að framan. Varðandi þá málsástæðu stefnanda, að stefnda Vegagerðina hafi skort vald til að taka ákvörðun um eignarnám 3. maí 2011, þá var ákvörðunin tekin af vegamálastjóra á grundvelli 37. gr. vegalaga nr. 80/2007. Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 425/2008 var staðfest með ótvíræðum hætti að vegamálastjóri eða löglærður fulltrúi hans geti tekið ákvörðun um eignarnám á grundvelli vegalaga. Með þessum dómi staðfesti Hæstiréttur áralanga framkvæmd, en í eldri vegalögum nr. 45/1994 voru ákvæði vegalaga ekki eins skýr og núgildandi lög. Með setningu núgildandi laga var kveðið skýrt á um að eignarnámsheimildin væri hjá stefnda Vegagerðinni. Ekki verður því fallist á þau rök sem stefnandi færir fyrir því að stefndi Vegagerðin hafi ekki haft heimild til að taka ákvörðun um eignarnám í greint sinn. Stefnandi byggir á því, verði fallist á að túlka beri ákvæði vegalaga nr. 80/2007 þannig að stefndi Vegagerðin fari með vald til að ákveða hvort eignarnámi sé beitt, að sú skipan sé andstæð íslenskri stjórnskipan og vernd mannréttinda, sbr. einkum 72. og 65. gr. , og hæfisreglum stjórnsýsluréttarins. Því beri að virða ákvæði vegalaga um þetta að vettugi. Í þessu felist of víðtækt framsal löggjafans á valdi sínu og það fari gegn 3. gr. stjórnsýslulaga. Litið hefur verið svo á að löggjafanum sé heimilt að setja almenn lög um eignarnám í tilteknum tilvikum og hefur verið metið að almenningsþörf krefjist þess að tiltekin réttindi verði tekin eignarnámi við vissar aðstæður sem tilteknar eru í lögunum. Löggjafanum sé þannig heimilt að fela öðrum aðila með lögum að taka ákvarðanir um eignarnám á grundvelli laganna í stað þess að löggjafinn þurfi að fjalla um það í hvert skipti. Eins og rakið hefur verið fer stefndi Vegagerðin með eignarnámsheimildir vegalaga skv. ótvíræðum dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 425/2008. Í vegalögum er ítarlega mælt fyrir um málsmeðferð við undirbúning og meðferð máls og jafnframt gilda ákvæði stjórnsýslulaga. Þá gilda vegalög um efnisleg skilyrði eignarnáms og ákvæði stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins. Ákvörðun vegamálstjóra um eignarnám er heimilt að skjóta til úrskurðar innanríkisráðherra og er frestur til þess þrír mánuðir frá því ákvörðun var tekin. Ákvörðun ráðherra er síðan hægt að bera undir dómstóla skv. 60. gr. stjórnarskrárinnar og 17. gr. laga um framkvæmd eignarnáms. Samkvæmt því sem rakið hefur verið verður ekki fallist á málsástæður stefnanda þetta varðandi og er þeim því hafnað. Stefnandi byggir á því að ákvörðun stefnda Vegagerðarinnar um eignarnám hafi ekki byggst á almenningsþörf og ekki hafi við meðferð málsins verið farið eftir rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýsluaga. Þessu er mótmælt af báðum stefndu sem áður segir. Í 1. mgr. 37. gr. vegalaga er mælt fyrir um skyldu til að láta land af hendi til þjóðvegagerðar og hvers kyns veghalds, svo sem breytinga, breikkunar eða viðhalds, enda komi fullar bætur fyrir. Líta verður svo á þegar slíkir vegir eru lagðir að stjórnarskrárbundið skilyrði eignarnáms um að almenningsþörf krefji sé uppfyllt. Með þingsályktun Alþingis um fjögurra ára samgönguáætlun árin 2009-2012, sem samþykkt var á löggjafarþingi þann 15. júní 2010, var stefnda Vegagerðinni veitt heimild til að ráðast í þá framkvæmd sem um er deilt í máli þessu. Ágreiningur aðila í máli þessu snýst einkum um það hvernig eignarhald á hinu eignarnumda svæði skuli háttað, en ágreiningur snerist ekki um vegaframkvæmdina sem slíka. Stefnandi byggir á því að skilyrði eignarnáms hafi ekki verið til staðar þar sem stefnda Vegagerðinni hafi staðið til boða endurgjaldslaus afnot þess lands sem hin kærða ákvörðun nær til og því hafi meðalhófs ekki verið gætt. Varðandi boð stefnanda til stefnda , með bréfi dags. 15. mars 2011, á lokastigi samningaviðræðna verður að líta til þess að í tilboði stefnanda voru boðin afnot af landi sem er 12 metra breitt vegsvæði þess hluta vegarins sem fyrir var, 0,648 ha að flatarmáli sem stefndi Vegagerðin taldi til réttar yfir, gegn samningi við stefnanda um heildarvegsvæðið, en eldri vegur hafði verið þarna um áratuga skeið og verið haldið við af almannafé. Á þetta gat stefndi Vegagerðin ekki fallist þar sem samkvæmt fordæmum Hæstaréttar Íslands tilheyrði eldra vegsvæði íslenska ríkinu þó að ekki lægi fyrir formleg eignarheimild, sbr. Hrd. 1980:920, sbr. jafnframt Hrd. 644/2006. Eignarnámsheimildir vegalaga eru í VII. kafla laganna og ekki er að finna í lögunum ákvæði um skyldu eignarnema til að sætta sig við óbein eignarréttindi þegar heimild til fulls eignarnáms er fyrir hendi eins og í máli þessu. Í 3. mgr. 40. gr. vegalaga er kveðið á um að eignarheimild að vegsvæði verði þinglýst og skráð i samræmi við ákvæði þinglýsingalaga og laga um skráningu fasteigna., sbr. og athugasemdir um þetta ákvæði sem fylgdu frumvarpi að vegalögum nr. 80/2007. Samkvæmt þessu verður litið svo á að löggjafinn hafi ætlast til þess að eignarrétturinn flyttist að fullu til stefnda Vegagerðarinnar en ekki aðeins afnotaréttur. Telja verður óásættanlegt að umráðaheimildir að vegsvæði séu í óvissu ef gera þarf lagfæringar eða úrbætur og eins rísa á vegsvæði kostnaðarsöm mannvirki, sbr. byggingu brúar yfir Ysta-Rjúkanda, sem óeðlilegt væri að yrðu sjálfkrafa veðsett með eignum stefnanda. Varðandi þá málsástæðu stefnanda að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar og stjórnsýsluréttar þá liggur fyrir að við meðferð málsins var skýrt tekið fram að eignarnámið næði ekki til vatnsréttinda skv. 2. mgr. 16. gr. vatnalaga nr. 15/1923 eða veiðiréttinda sem kynnu annars hugsanlega að tilheyra hinu eignarnumda, hvort sem um væri að ræða veiðar á villtum dýrum, sbr. lög nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum eða fiskveiðar, sbr. lög nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði og tók eignarnámið því ekki til þessara réttinda. Varðandi nauðsyn þess að stefndi fengi beinan eignarrétt að landi undir vegsvæðið vísast til þess sem rakið var hér að framan. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að ákvörðun stefnda Vegagerðarinnar hafi byggst á ólögmætum sjónarmiðum eða að annarleg sjónarmið hafi ráðið för. Þá verður með hliðsjón af gögnum málsins talið að stefndi Vegagerðin hafi af fremsta megni leitast við að ná samningum við stefnanda í samræmi við fyrirmæli 38. gr. vegalaga og þá hafi ekki verið tekin eignarnámi umfangsmeiri réttindi en nauðsynlegt var. Því hafi meðalhófs verið gætt. Þá hefur ekki verið sýnt fram á það af stefnanda að málsmeðferð stefnda Vegagerðarinnar hafi ekki verið í fullu samræmi við málsmeðferðarreglur vegalaga og ákvæði stjórnsýslulaga. Á öllum stigum málsins var stefnanda gefinn kostur á að koma að athugsemdum og andmælum. Því verður ekki fallist á að ákvörðun stefnda Vegagerðarinnar hafi byggst á ólögmætum sjónarmiðum. Að öllu því virtu sem rakið hefur verið er hafnað þeirri kröfu stefnanda að ógilt verði sú ákvörðun stefnda Vegagerðarinnar, dags. 3. maí 2011, að taka 2,19 ha landspildu úr landi Hjarðarhaga, landnr. 156 909, eignarnámi, á 540 metra kafla undir vegsvæði með áningarstað m.v. 40 metra breitt vegsvæði. Stefnandi byggir kröfur sínar um ógildingu úrskurðar innanríkisráðuneytisins í máli IRR 11070218, uppkveðnum 29. júní 2012, og ógildingu úrskurðar matsnefndar eignarnámsbóta í máli nr. 2/2011, uppkveðnum 18. nóvember 2011, á meintu ólögmæti eignarnámsákvörðunar stefnda Vegagerðarinnar en ekki á því að úrskurðir innanríkisráðuneytisins og matsnefndar eignarnámsbóta hafi verið haldnir formannmörkum. Með vísan til þess sem rakið hefur verið varðandi kröfu stefnanda um ógildingu ákvörðunar stefnda, Vegagerðarinnar, um eignarnám verður að telja að málsmeðferðarreglna stjórnsýsluréttar hafi verið gætt í hvívetna og engir efnis- eða formannmarkar séu á úrskurðum þessum. Því ber að hafna kröfum stefnanda um ógildingu þessara úrskurða. Þá leiðir það af niðurstöðu dómsins varðandi framangreindar dómkröfur stefnanda að sýkna verður stefnda Vegagerðina af kröfu stefnanda um að stefnda Vegagerðinni verð gert að taka boði um endurgjaldslaus afnot af umþrættri 2,19 ha landspildu úr landi Hjarðarhaga sem eignarnám frá 3. maí 2011 náði til. Varðandi fjárkröfu stefnanda, en hann krefst þess að stefndu verði sameiginlega dæmdir til að greiða sér 2.704.540 krónur auk dráttarvaxta, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/, af 557.815 kr. frá 19. október 2011 til 30. júní 2012 en af 2.704.540 kr. frá þeim degi til greiðsludags. Annars vegar er um að ræða útlagðan kostnað vegna vinnu lögmanns við rekstur málsins fyrir stjórnvöldum og hins vegar útlagðan kostnað vegna vinnu stefnanda við málið meðan málið var til meðferðar hjá stjórnvöldum. Báðir stefndu telja að vísa beri fjárkröfum stefnanda, sem séu vanreifaðar, frá dómi á grundvelli d- og e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Verði fjárkröfum ekki vísað frá dómi krefjast stefndu sýknu eins og rakið hefur verið hér að framan. Fjárkröfu vegna kostnaðar lögmanns við rekstur málsins fyrir stjórnvöldum, byggir stefnandi á yfirliti yfir vinnu lögmanns sem lagt var fram í fyrirtöku 21. mars 2013. Um sé að ræða vinnu lögmannsins vegna málsins fram að úrskurði innanríkisráðuneytisins þann 29. júní 2012. Við meðferð málsins fyrir matsnefnd eignarnámsbóta lagði lögmaður stefnanda fram málskostnaðaryfirlit upp á 1.370.280 kr. og fyrirsvarsmaður eignarnámsþola gerði kröfu um 557.815 kr. vegna tapaðra tekna og kostnaðar við málið. Í úrskurði matsnefndarinnar þann 18. nóvember 2011 komst nefndin að þeirri niðurstöðu að lögmaður eignarnámsþola hefði lagt alltof mikla vinnu í málið miðað við umfang þess og taldi hæfilega þóknun til hans 800.000 kr. Kröfu vegna vinnu lögmanns stefnanda fyrir stjórnvöldum byggir stefnandi á lögum um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973 auk þess sem hann byggir á 72. gr. stjórnarskrárinnar og einnig sjálfstætt á almennum reglum skaðabótaréttar, enda sé um að ræða skaðabótaskylt tjón sem stefndu beri ábyrgð á gagnvart stefnanda. Kröfu um vinnu fyrirsvarsmanns stefnanda byggir stefnandi á 72. gr. stjórnarskrár og 11. gr. laga nr. 11/1973 auk þess sem stefndu beri ábyrgð á þessu tjóni stefnanda á grundvelli almennra skaðabótareglna. Í stefnu er ekki að finna neina sundurliðun á einstökum fjárhæðum í kröfugerð stefnanda og vísað í yfirlit á tilteknum dómskjölum. Á dómskjali 95 er yfirlit um málskostnað sem stefnandi hafi greitt lögmanni sínum og fylgir með fjöldi reikninga á tímabilinu 31. mars 2011 til 30. júní 2012. Hins vegar fylgdi ekki með tímaskýrsla lögmanns eins og sagði í stefnu að fylgdi með reikningum lögmannsins. Samtals eru þessir reikningar að fjárhæð 2.146.725 kr. án nokkurra skýringa eða sundurliðunar utan hvað einn reikningur ber með sér að um hafi verið að ræða vinnu við stjórnsýslukæru þann 31 ágúst 2011, 172 tímar. Vegna umfangs málsins og með hliðsjón af hagsmunum þeim sem í húfi voru verður að telja að þessir reikningar hefðu kallað á frekari útskýringar af hálfu stefnanda en fyrir liggi. Þá er einnig til þess að líta að fyrir liggur að í úrskurði matsnefndarinnar þann 18. nóvember 2011 var ákveðin þóknun 800.000 kr., vegna reksturs málsins fyrir nefndinni. Ekki verður séð að tillit hafi verið tekið til þess varðandi fjárkröfu stefnanda. Krafa stefnanda vegna vinnu fyrirsvarsmanns stefnda er byggð á yfirlitsblaði á dómskjali 86, en þar kemur fram yfirlit um vinnu fyrirsvarsmannsins vegna málsins í 101 klst. og um aksturskostnað án frekari sundurliðunar eða skýringa. Engir reikningar eða önnur gögn er sýna að stefnandi hafi innt þessar greiðslu af hendi liggja fyrir í málinu. Krafan er því vanreifuð, órökstudd og ekki studd neinum gögnum. Fyrir liggur að aðkoma íslenska ríkisins að málinu hófst ekki fyrr en með móttöku kæru lögmanns stefnanda hinn 22. júlí 2011. Lokaathugasemd lögmanns stefnanda barst síðan ráðuneytinu 26. janúar 2012 og málið var tekið til úrskurðar án frekari aðkomu deiluaðila. Samkvæmt tilvitnuðu yfirlitsblaði um vinnu lögmanns stefnanda er gerð krafa vegna lögmannskostnaðar eftir að síðustu aðkomu lögmanns stefnanda að kærumálinu lauk. Í málinu er ekki að finna neinn rökstuðning fyrir því hvernig stefndu verði dæmd til að bera sameiginlega ábyrgð á meintum kostnaði stefnanda vegna málsins Grundvöllur fjárkröfu er óljós í stefnu og vanreifaður. Engar skýringar er að finna á meðfylgjandi reikningum eða nánari umfjöllun um það hvernig stefndu verði gerðir greiðsluskyldir gagnvart stefnanda. Þá er bótagrundvöllur vanreifaður og ekkert fjallað um skilyrði skaðabótaábyrgðar eða bótagrundvöll eða hvernig stefndu geti sameiginlega borið fébótaábyrgð gagnvart stefnanda. Af þeim sökum verður að telja vandkvæðum bundið fyrir stefndu að taka til varna varðandi grundvöll þessara fjárkrafna stefn Að öllu ofanskráðu athuguðu og virtu verður að telja framsetningu fjárkröfu stefnanda vanreifaða og að hún uppfylli ekki kröfu d- og e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Ber því að vísa henni frá dómi. Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála ber að dæma stefnanda til að greiða stefndu málskostnað sem þykir eftir atvikum hæfilegur 300.000 kr. til hvors þeirra. Vegna embættisanna dómara hefur uppkvaðning dóms dregist umfram frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga um meðferð einkamála. Dómari og lögmenn aðila eru sammála um að ekki sé þörf á endurflutningi. Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp dóminn. Dómsorð: Hafnað er kröfu stefnanda, Hjarðarhaga ehf., um ógildingu ákvörðunar stefnda, Vegagerðarinnar 3. maí 2011 um að taka 2,19  landspildu úr landi Hjarðarhaga (landnr. 156-909) eignarnámi, á 540 metra kafla undir vegsvæði með áningarstað m.v. 40 metra breitt vegsvæði. Hafnað er kröfu stefnanda um ógildingu úrskurðar matsnefndar eignarnámsbóta í máli nr. 2/2011 sem kveðinn var upp 18. nóvember 2011. Hafnað er kröfum stefnanda um ógildingu úrskurðar innanríkisráðuneytisins í máli nr. IRR 11070218 sem kveðinn var upp 29. júní 2012. Hafnað er kröfu stefnanda um að viðurkennt verði að stefnda Vegagerðinni sé skylt að taka boði stefnanda um endurgjaldslausan afnotarétt af þeirri 2,19 ha landspildu úr landi Hjarðarhaga (landnr. 156-909) sem ákvörðun um eignarnám frá 3. maí 2011 náði til, á 540 metra kafla undir vegsvæði með áningarstað m.v. 40 metra breitt vegsvæði ótímabundið á meðan stefndi Vegagerðin hefur þörf fyrir landið undir vegsvæði. Fjárkröfum stefnanda á hendur stefndu Vegagerðinni og íslenska ríkinu er vísað frá dómi. Stefnandi greiði málskostnað 300.000 kr. til hvors stefndu um sig.                                                                              
Mál nr. 230/2015
Kærumál Nálgunarbann
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem staðfest var ákvörðun L um að X skyldi sæta nálgunarbanni í sex mánuði á grundvelli laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Í dómi Hæstaréttar kom fram að brotaþoli hefði 2. mars 2015 farið fram á að varnaraðili sætti nálgunarbanni, en í þinghaldi 23. sama mánaðar hefði verið bókað eftir réttargæslumanni hennar að hún hefði fallið frá þeirri kröfu og óskað eftir að X „kæmi til sín.“ Af þeirri ástæðu og eins og atvikum málsins var háttað var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. mars 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. mars 2015, þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 17. sama mánaðar um að varnaraðili sætti nálgunarbanni, eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að nálgunarbanni verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 85/2011 getur sá maður sem misgert er við, brotaþoli, fjölskylda hans eða annar honum nákominn, borið fram beiðni um að maður, sakborningur, sem brotið hefur gegn honum eða raskað friði hans á annan hátt, sæti nálgunarbanni og/eða brottvísun af heimili. Brotaþoli fór 2. mars 2015 fram á að varnaraðili sætti nálgunarbanni, en í þinghaldi 23. sama mánaðar var bókað eftir réttargæslumanni brotaþola að hún hafi fallið frá þeirri kröfu og óskað eftir að varnaraðili „kæmi til sín.“ Af þeirri ástæðu og eins og atvikum málsins er háttað verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi. Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011. Dómsorð Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi. Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur héraðsdómslögmanns, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Mál nr. 227/2015
Kærumál Nálgunarbann
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem felld var úr gildi ákvörðun L um að X skyldi sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni í fjórar vikur á grundvelli laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Féllst Hæstiréttur á með L að skilyrðum 4. og 5. gr. laganna væri fullnægt og að friðhelgi brotaþola yrði ekki vernduð með öðrum og vægari hætti. Var því ákvörðun L staðfest.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. mars 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. mars 2015 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að staðfest yrði ákvörðun hans 10. sama mánaðar um að varnaraðila yrði gert að sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni í fjórar vikur gagnvart A og B. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Sóknaraðili krefst þess að staðfest verði framangreind ákvörðun, þannig að lagt verði bann við því að varnaraðili komi á eða í námunda við heimili A og B að [...] í [...] á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis húsið. Jafnframt að lagt verði bann við því að varnaraðili veiti A og B eftirför, nálgist þau á almannafæri eða setji sig í samband við þau með öðrum hætti. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði hefur lögregla ítrekað þurft að hafa afskipti af varnaraðila og eiginkonu hans, A, vegna heimilisófriðar. Nágrannar hjónanna hafa allt frá 2. maí 2014 kvatt til lögreglu nokkrum sinnum vegna hávaða og láta í íbúð þeirra og hafa tjáð lögreglu að eiginkona varnaraðila hafi oft þurft að flýja fram á gang vegna hræðslu við hann. Af gögnum málsins verður ráðið að þegar lögreglan kom á heimili þeirra  9. nóvember 2014 hafi varnaraðili verið með hníf í hendi og beint honum að eiginkonunni og syni hennar, B, sem býr hjá þeim. Sögðu þau að varnaraðili hafi otað hnífnum að þeim og verið með hótanir. Konan kærði þetta tilvik ekki sökum ótta við að hún missti dvalarleyfi sitt hér á landi í kjölfarið. Eiginkonan sagði að varnaraðili hafi oft lagt hendur á sig en að mestu hefði þetta verið andlegt ofbeldi. Að mati sóknaraðila er varnaraðili undir „sterkum“ grun um að hafa aðfaranótt 7. mars 2015 sparkað í bak konunnar með þeim afleiðingum að hún hlaut af því áverka. Samkvæmt bráðabirgðavottorði frá slysadeild hlaut A mar á 5x5 cm svæði, sem samsvarar lýsingu hennar á því hvar varnaraðili sparkaði í hana. Hinn 9. sama mánaðar tilkynnti nágranni enn um heimilisófrið í íbúð hjónanna og væri varnaraðili búinn að henda konunni og föggum hennar út á gang. Degi síðar krafðist eiginkonan nálgunarbanns á hendur varnaraðila. Að virtum gögnum málsins, sem rakin eru í hinum kærða úrskurði, verður fallist á með sóknaraðila að skilyrði 4. og 5. gr. laga nr. 85/2011 til nálgunarbanns og brottvísunar af heimili séu uppfyllt, enda verður ekki talið að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008  um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011. Dómsorð Staðfest er ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 10. mars 2015 um að varnaraðili, X, skuli sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni í fjórar vikur, þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili hans og A og B að [...] í [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið. Jafnframt er lagt bann við því að varnaraðili veiti A og B eftirför, nálgist þau á almannafæri eða setji sig í samband við þau með öðrum hætti. Þóknun verjanda varnaraðila, Helgu Völu Helgadóttur héraðsdómslögmanns, fyrir Hæstarétti, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Mál nr. 209/2015
Kærumál Vanreifun Frávísunarúrskurður staðfestur
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli G og L á hendur V og B ehf. var vísað frá dómi. Höfðu G og L krafist þess að viðurkennd yrði sameiginleg bótaábyrgð V og B ehf. á tjóni sem þau hefðu orðið fyrir vegna framkvæmda á vegi sem lá í gegnum jörð þeirra og tilgreint var í 11 liðum í kröfugerð þeirra. Þá kröfðust þau þess að V og B ehf. afhentu þeim 60 rúmmetra af möl sem þau héldu fram að teknir hefðu verið í leyfisleysi af landi þeirra. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, kom fram að hvorki væri samaðild með V og B ehf. í málinu né heldur væri gerð grein fyrir því á hvaða grundvelli hvorum um sig væri stefnt til að þola dómkröfur G og L. Þá væri sá annmarki á málatilbúnaði G og L að ekki væri gerð grein fyrir því hver væri hlutur V annars vegar og B ehf. hins vegar í þeim 11 tilvikum sem talin væru upp í stefnu og áttu að hafa valdið þeim tjóni. Þóttu kröfur G og L vanreifaðar um þetta í þeim mæli að á skorti að skilyrði e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála væri fullnægt. Þá þótti ekki ráðið af málatilbúnaði G og L að nægilega væri sýnt fram á að þau hefðu beðið tjón af völdum V og B ehf.
Dómur Hæstaréttar Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar. Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 9. mars 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 23. febrúar 2015, sem sóknaraðilar kveðast ekki hafa fengið vitneskju um fyrr en 27. sama mánaðar, en með honum var máli þeirra á hendur varnaraðilum vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar, svo og að varnaraðilum verði gert að greiða kærumálskostnað. Til vara krefjast sóknaraðilar þess að málskostnaður í héraði verði látinn falla niður, en að því frágengnu verði lækkaðar fjárhæðirnar, sem varnaraðilum voru dæmdar með hinum kærða úrskurði. Varnaraðilar krefjast hvor fyrir sitt leyti staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðilar, Grétar Jónsson og Lilja Grétarsdóttir, greiði varnaraðilum, Vegagerðinni og Borgarverki ehf., hvorum fyrir sig 300.000 krónur í kærumálskostnað.
Mál nr. 535/2014
Ómerking Heimvísun
Aðilar deildu um efndir á samningi um skilnað og skilnaðarkjör sem þau höfðu gert á árinu 2010. Í stefnu málsins setti M fram kröfur í sjö liðum og var sjöundi töluliðurinn vegna millifærslna K sem hann taldi að henni hefði verið óheimilt að framkvæma. Í héraðsdómi var gerð grein fyrir umræddum kröfulið en í niðurstaðakafla dómsins var engin afstaða tekin til kröfunnar. Var því óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til meðferðar og dómsálagningar að nýju.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari. Aðaláfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 11. júní 2014. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu málsins 23. júlí 2014 og áfrýjaði hann því öðru sinni 11. ágúst sama ár. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, en til vara að gagnáfrýjandi verði dæmd til að greiða sér 6.653.977 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. mars 2013 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 24. september 2014. Hún krefst aðallega sýknu af varakröfu aðaláfrýjanda og að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 5.063.742 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. júlí 2013 til greiðsludags, allt að frádregnum 292.234 krónum. Þá krefst hún þess að viðurkennt verði að hún eigi 50% eignarhlut af inneign í séreignarlífeyrissparnaði aðaláfrýjanda hjá Allianz sem myndaðist á meðan aðilarnir voru í hjúskap. Til vara krefst hún sýknu af varakröfu aðaláfrýjanda og hann verði dæmdur til að greiða sér 5.245.404 krónur krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 15. júlí 2013 til greiðsludags, allt að frádregnum 292.234 krónum. Loks krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar er málið nú eingöngu til úrlausnar um aðalkröfu aðaláfrýjanda. Gagnáfrýjandi krefst þess að henni verði hafnað. Ágreiningur máls þessa snýst um efndir á samningi um skilnað og skilnaðarkjör sem aðilar gerðu sín á milli 17. maí 2010. Í stefnu setti aðaláfrýjandi kröfur sínar fram í sjö liðum. Var sjöundi kröfuliðurinn vegna millifærslna af tékkareikningi aðaláfrýjanda að fjárhæð 170.285 krónur. Í hinum áfrýjaða dómi, þar sem fjallað er um kröfugerð aðaláfrýjanda, er gerð grein fyrir þessari kröfu, en í niðurstöðukafla dómsins er engin afstaða tekin til hennar. Af þeim sökum verður ekki komist hjá því að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til meðferðar og dómsálagningar að nýju. Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar og dómsálagningar að nýju. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Dómur Héraðsdóms Reykjaness 13. mars 2014.       Mál þetta, sem dómtekið var 13. febrúar 2014, var þingfest 26. júní 2013. Gagnstefna var birt 15. júlí 2013. Aðalstefnandi er M, [...],[...]. Gagnstefnandi er K, [...],[...].                 Dómkröfur aðalstefnanda í aðalsök eru þær að gagnstefnandi greiði aðalstefnanda 6.982.569 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. mars 2013 til greiðsludags. Í gagnsök krefst aðalstefnandi aðallega sýknu af öllum kröfum gagnstefnanda. Til vara er þess krafist að aðalstefnandi verði sýknaður af kröfu gagnstefnanda um viðurkenningu á hlutdeild gagnstefnanda í lífeyrisréttindum aðalstefnanda, en aðrar kröfur gagnstefnanda verði lækkaðar verulega. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar.                 Gagnstefnandi krefst í aðalsök sýknu af kröfum aðalstefnanda. Í gagnsök gerir gagnstefnandi aðallega eftirfarandi dómkröfur: 1) Að aðalstefnanda verði gert að greiða gagnstefnanda skuld að fjárhæð 6.747.843 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu frá stefnubirtingardegi til greiðsludags. 2) Að viðurkennt verði með dómi að gagnstefnandi eigi 50% eignarhlut af inneign í séreignarlífeyrissparnaði hjá Allianz sem skráð er á nafn aðalstefnanda og myndaðist meðan gagnstefnandi og aðalstefnandi voru í hjúskap. Til vara krefst gagnstefnandi þess að aðalstefnanda verði gert að greiða gagnstefnanda skuld að fjárhæð 6.929.505 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu frá stefnubirtingardegi til greiðsludags. Í öllum tilvikum krefst gagnstefnandi þess að aðalstefnanda verði gert að greiða gagnstefnanda málskostnað. I.                 Málsatvik eru þau að hinn 17. maí 2010 gerðu aðilar með sér samning um skilnað og skilnaðarkjör. Samkvæmt 1. gr. samningsins voru aðilar sammála um að miða eignaskiptin við þann dag, sbr. 1. mgr. 101. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Aðilar voru einnig sammála um að eignir búsins við það tímamark væru í fyrsta lagi fasteignin að [...], [...], að fjárhæð 47.000.000 kr., og í öðru lagi innbú og lausafjármunir, 5.000.000 kr. Í 2. gr. kom fram að skuldir búsins væru eftirfarandi: 1) Lán nr. [...] að höfuðstólsfjárhæð                                3.000.000 kr. 2) Lán nr. [...] að höfuðstólsfjárhæð                              12.000.000 kr. 3) Lán nr. [...] að höfuðstólsfjárhæð                              46.000.000 kr. 4) Lán nr. [...] að höfuðstólsfjárhæð                              11.600.000 kr. Samkomulag var um að hvor aðila bær ábyrgð á þeim skuldum sem hann stofnaði til eftir 17. maí 2010 og að aðilar óskuðu ekki eftir samsköttun vegna framtals fyrir árið 2010. Í 3. gr. samningsins var kveðið á um eignaskipti. Með vísan til 110. gr. hjúskaparlaga gerðu aðilar samkomulag um að víkja frá helmingaskipta­reglu hjúskaparlaga með þeim hætti að aðalstefnandi fengi fasteignina að [...] (sic). Ástæðan fyrir frávikum frá helmingaskiptareglunni var sú að aðilar höfðu gert kaupmála 2. mars 2005 um að fasteign að [...], nr. [...], yrði séreign gagnstefnanda og að andvirði þeirrar eignar yrði jafnframt séreign hennar. Þá voru aðilar sammála um að aðalstefnandi greiddi lán hjá [...]  nr. [...] og nr. [...]og að gagnstefnandi greiddi lán hjá [...] nr. [...] og nr. [...]. Aðilar voru einnig sammála um skiptingu á innbúi, en hvor aðili skyldi taka persónulega muni og gjafir sem hefðu persónulegt gildi fyrir viðkomandi. Hvort hjóna um sig skyldi halda sínum séreignarlífeyris­sparnaði. Samkvæmt 4. gr. samningsins var samkomulag um að hvorugt hjóna greiddi lífeyri með hinu. Í 5. gr. var ákvæði um varnarþing og að lokum sagði í 6. gr. að með staðfestingu samningsins teldist fjárfélagi aðila slitið og hvorugt þeirra ætti frekari kröfu á hendur hinu.  Aðalstefnandi kveðst hafa flutt hinn 15. október 2010 úr fasteigninni að [...], en gagnstefnandi hafi búið þar áfram til 15. mars 2012. Aðalstefnandi heldur því fram að hann hafi eignast kröfu á hendur gagnstefnanda vegna afnota hennar af fasteigninni og kostnaðar sem aðalstefnandi hafi lagt út, enda hafi aldrei verið samið um að gagnstefandi nyti þessara verðmæta endurgjaldslaust. Þessu mótmælir gagnstefnandi og kveður að aðilar hafi staðið illa fjárhagslega og rætt hafði verið um að selja fasteignina í [...]. Gagnstefnandi hafi hugsað sér að flytja í lítið og ódýrara húsnæði en aðalstefnandi hins vegar verið á þeirri skoðun að betra væri fyrir börn þeirra að hún byggi áfram í [...]. Þá hafi aðalstefnandi ekki viljað að fasteignin stæði auð þar til hún yrði seld. Gagnstefnandi kveðst hafa gert aðalstefnanda það ljóst frá upphafi að hún myndi ekki greiða leigu vegna fasteignarinnar og hafi aðilar verið um það sáttir. Í janúar 2012 hafi gagnstefnanda orðið ljóst að aðalstefnandi hefði hug á að flytja aftur í [...] í mars 2012 hafi hún flutt úr fasteigninni. Með bréfi 26. febrúar 2013 fór aðalstefnandi fram á það við gagnstefnanda að hún greiddi aðalstefnanda skuld að fjárhæð 6.812.284 kr., sem sundurliðaðist þannig: 2.    Útlagður kostnaður vegna rafmagns og hita                                             292.234 kr. 3.    Útlagður kostnaður vegna SKY sjónvarpsáskriftar                      189.401 kr. 4.    Innbú samkvæmt skilnaðarsamningi                                       2.500.000 kr. 5.    Úttektir af greiðslukorti                                                                       132.596 kr. 6.    Sjónvarpstæki                                                                                         98.053 kr. Með bréfi 13. mars 2013 hafnaði gagnstefnandi greiðsluskyldu, ef frá er talinn kostnaður fyrir rafmagn og hita, og hafði uppi gagnkröfur, sem aðalstefnandi hafnaði. Aðalstefnandi höfðaði því mál þetta þar sem hann gerði sömu kröfur og raktar eru hér að framan í tölulið 1-6, en auk þess hafði aðalstefnandi uppi kröfu vegna heimildarlausra millifærslna gagnstefnanda af tékkareikningi aðalstefnanda, að fjárhæð 170.285 kr., samtals 6.982.569 kr. Eins og fram hefur komið var gagnstefna birt 15. júlí 2013, en þar hefur gagnstefnandi uppi kröfu á hendur aðalstefnanda, aðallega að fjárhæð 6.747.843 kr., sem sundurliðast þannig. 1.       Lán hjá Landsbankanum nr. [...]                                          5.082.767 kr. 2.       Lán hjá Landsbankanum nr. [...]                                         1.087.711 kr. 3.       Bensínkort hjá Olíuverslun Íslands hf.                                   328.592 kr. 4.       Vatnsskattur og fráveitugjöld vegna [...]                                   83.773 kr. 5.       Tölvukaupalán hjá Landsbankanum                                     165.000 kr. Þá gerir gagnstefnandi kröfu um að viðurkennt verði að hún eigi 50% eignarhlut af inneign í sjóðnum á nafni aðalstefnanda. Varakrafan í gagnsök er byggð á sömu kröfuliðum og rakin eru í 1.-5. tölul. hér að framan, auk þess sem krafist er endurgreiðslu á 181.662 kr., en það sé sú fjárhæð sem gagnstefnandi hafi greitt í séreignasparnað hjá Allianz eftir 17. maí 2010. II. Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilar skýrslu. Aðalstefnandi sagði aðilar hefðu búið saman í fasteigninni að [...] sumarið 2010 og ástandið verið erfitt. Í ágúst 2010 hafi hann óskað eftir því að gagnstefnandi færi úr húsinu. Gagnstefnandi hafi átt séreign sem hún hafi getað farið í. Gagnstefnandi hefði neitað því og sagt að hún færi aldrei þangað. Á endanum hafi aðalstefnandi því flutt út úr húsinu, í október 2010, og sagt að honum þætti rétt að gagnstefnandi borgaði leigu og hún hafi samþykkt það. Aðalstefnandi kvaðst hafa þurft að leigja sér húsnæði fyrir um 170.000 krónur á mánuði og að hún hefði samþykkt að borga svipaða leigu fyrir [...], en þegar á hefði reynt hafi hún ekki borgað neitt. Sumarið 2011 hefði aðalstefnandi farið vestur að vinna og þá sagt að hún yrði að vera búin að koma sér úr húsinu í október s.á. Það hefði ekki tekist betur til en það að hún hafi ekki farið fyrr en um miðjan mars 2012. Enn fremur sagði aðalstefnandi að allan þennan tíma hefði gagnstefnandi verið með eign sína að [...] í útleigu og haft af henni tekjur. Aðalstefnandi sagði að allan þennan tíma hefði hann margbeðið gagnstefnanda um að fara út úr [...] en hún sagt að hún ætlaði að hafa þetta eins og henni sýndist. Þegar hann hafi farið að rukka hana hafi hún sagt að auðvitað ætlaði hún að borga og gera upp en aldrei gert það. Aðalstefnandi greindi einnig frá því að í ágúst 2011 hefði hann átt fund með gagnstefnanda og lögmanninum sem hefði gengið frá skiptasamningnum og áréttað að gagnstefnandi færi úr húsnæðinu í október 2011. Um meint tómlæti sagði aðalstefnanda að hann hefði sýnt gagnstefnanda umburðarlyndi og ekki trúað því fyrr en á reyndi að hún myndi ekki standa við það sem hún lofaði. Lögmaðurinn sem gekk frá skiptasamningnum hefði reynt að hafa milligöngu í máli þessu en án árangurs. Þá sagði aðalstefnandi að synir hans, sem væru fullorðnir menn, hefðu getað búið hjá honum og að þeir hefðu búið hjá honum fyrir vestan sumarið 2011. Jafnframt sagði aðalstefnandi að eftir sumarið 2011 hefði annar sonurinn búið í[...] með kærustu sinni og hinn hefði búið til skiptis hjá kærustu sinni og hjá móður sinni. Þeim hafi alltaf staðið til að búa hjá aðalstefnanda.                  Gagnstefnandi sagði fyrir dómi að aðalstefnandi hefði verið atvinnulaus vorið 2010 og þau hefðu ákveðið að vera saman í fasteigninni [...] á meðan hann væri atvinnulaus. Þegar hann hafi svo fengið atvinnu hafi það verið eindregin ósk hans að gagnstefnandi yrði þarna áfram og honum hafi verið umhugað um að hugsað væri vel um syni þeirra. Jafnframt sagði gagnstefnandi að þau hefðu haft áhyggjur af því að hún væri ekki nógu tekjuhá til að leigja húsnæði sem hentaði fyrir þau. Það hefði aldrei komið til tals að hún myndi greiða húsaleigu fyrir að vera í [...] og miðað við þær tekjur sem hún hafði hefði hún aldrei getað borgað 200.000 krónur á mánuði. Þá sagði gagnstefnandi að hún hafi aldrei neitað því að fara út úr húsnæðinu þegar aðalstefnandi hafi beðið um það. Samskipti þeirra hefðu verið góð fyrst eftir skilnaðinn en það breyst eftir að aðalstefnandi fór að vera með nýrri konu á árinu 2011 og í janúar 2012 hafi komið einhverjar „bommertur“ um að gagnstefnandi hafi átt að vera flutt. Á endanum hafi gagnstefnandi flutt með látum í mars 2012.                   Ekki er ástæða til að rekja nánar framburð aðila fyrir dómi hér en vísað verður til framburðar þeirra síðar eftir því sem ástæða er til. Þá er ekki ástæða til að rekja sérstaklega vitnisburð sona aðila fyrir dómi, [...] og [...], og sambýliskonu aðalstefnanda, [...]. III. Aðalstefnandi byggir á því að með fjárskiptasamningi aðila hafi verið gert ráð fyrir ákveðinni skiptingu eigna og skulda sem gagnstefnanda beri að framfylgja. Aðalstefnandi rökstyður einstaka kröfuliði í aðalsök með eftirfarandi hætti. Fyrsti kröfuliður aðalstefnanda er reistur á því að sanngjarnt endurgjald sé 200.000 kr. á mánuði fyrir afnot af fasteign hans að [...]. Fasteignin sé 223 fm parhús og því ljóst að fjárhæðin sé mjög hófleg enda ekki nema 897 kr. á fm. Til samanburðar bendir stefnandi á að meðalverð samkvæmt leigugagnagrunni Þjóðskrár Íslands fyrir 4-5 herbergja fasteign í [...],[...],[...],[...] og [...], hafi í október 2012 verið 1.352 kr. á fm. Eftir fjárskipti aðila hafi gagnstefnandi ekki getað ætlast til þess að fá afnot af fasteigninni endurgjaldslaust enda hafi ekki verið um það samið. Að liðnum hæfilegum umþóttunartíma frá viðmiðunardegi fjárskipta sé sanngjarnt og eðlilegt að gagnstefnandi greiði aðalstefnanda fyrir afnotin. Einnig sé rétt í þessu sambandi að halda því til haga að fjárskiptasamningur aðila hafi ekki kveðið á um neina framfærsluskyldu aðalstefnanda. Krafan sé því réttmæt og sanngjörn. Annar kröfuliðurinn er byggður á því að aðalstefnandi hafi greitt fyrir rafmagn og hita á búsetutíma gagnstefnanda og þannig eignast kröfu á hendur gagnstefnanda. Krafan byggist á greiðsluyfirliti og hafi því ekki verið mótmælt. Þriðji kröfuliðurinn er byggður á því að gagnstefnandi hafi óskað eftir því að halda svokallaðri SKY-áskrift sem aðalstefnandi hafi haldið áfram að greiða fyrir. Geri aðalstefnandi þess vegna kröfu um að gagnstefnandi greiði sér fyrir afnotin. Krafan nemi þeim útlagða kostnaði sem af áskriftinni hafi hlotist á búsetutíma gagnstefnanda og byggist hún á greiðsluyfirliti. Fjórði kröfuliðurinn er reistur á því að samkvæmt fjárskiptasamningi aðila hafi innbú og lausafé aðila verið metið á samtals 5.000.000 kr. Í framkvæmd hafi það farið svo að gagnstefnandi hafi tekið við því öllu. Aðalstefnandi hafi átt tilkall til helmings þess og geri þess vegna kröfu um greiðslu úr hendi gagnstefnanda sem því nemi, að fjárhæð 2.500.000 kr. Fimmti kröfuliðurinn er rökstuddur með því að eftir fjárskipti aðila hafi gagnstefnandi notað greiðslukort aðalstefnanda án heimildar. Hér sé bæði um refsiverða og saknæma háttsemi að ræða af hálfu gagnstefnanda. Krafan sé byggð á færsluyfirliti. Um sjötta kröfuliðinn segir aðalstefnandi að gagnstefnandi hafi beðið hann um að kaupa sjónvarpstæki, eftir að fjárskiptum aðila lauk, þar sem aðalstefnandi hafi notið góðra kjara í Hátækni. Hvorki hafi verið um gjöf að ræða né nokkurt samkomulag verið um að aðalstefnandi keypti tækið fyrir gagnstefnanda án þess að fá kaupverðið endurgreitt. Að lokum byggir aðalstefnandi á því að á tímabilinu maí til og með september 2010 hafi gagnstefnandi millifært í heimildarleysi fimm sinnum út af tékkareikningi aðalstefnanda, 14.057 kr. í hvert skipti, eða samtals 70.285 kr., til þess að greiða húsfélagsgjöld fasteignar gagnstefnanda að [...], [...], en fasteignin hafi verið séreign gagnstefnanda í hjúskap aðila. Fyrsta millifærslan hafi átt sér stað 17. maí 2010 eða sama dag og skilnaðarsamningur aðila hafi verið undirritaður, en sú síðasta 15. september 2010. Hér hafi gagnstefnandi gerst sek um refsiverða og saknæma háttsemi auk þess sem gagnstefnandi virðist hafa misnotað sér aðstöðu sína sem starfsmaður [...] til þess að framkvæma millifærslurnar. Þá hafi gagnstefnandi millifært eða látið millifæra 100.000 kr. af bankareikningi aðalstefnanda inn á eigin bankareikning 20. desember 2010. Í stefnu er skorað á gagnstefnanda að upplýsa hvers vegna þessi millifærsla hafi verið framkvæmd, hver framkvæmdi hana og með hvaða heimild. Aðalstefnandi krefst dráttarvaxta frá 26. mars 2013, þegar liðinn var mánuður frá því að hann krafði gagnstefnanda með réttu um greiðslu með bréfi 26. febrúar 2013, sbr. 3. mgr. 5. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um lagarök vísar aðalstefnandi til meginreglna kröfu- og samningaréttarins um efndir og skuldbindingargildi samninga. Þá er vísað til samnings aðila um skilnað og skilnaðarkjör 17. maí 2010. Jafnframt vísar aðalstefnandi til þess að eðlilegt sé að sá sem nýtir verðmæti í eigu annars manns greiði honum fyrir afnotin nema um annað sé samið. Krafa stefnanda um dráttarvexti er byggð á III. og IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Málkostnaðarkrafa aðalstefnanda byggist á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá er gerð krafa um 25,5% virðisaukaskatt á dæmdan málskostnað. Aðalstefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og sé honum því nauðsyn að fá skattinn tildæmdan úr hendi gagnstefnanda. Hvað varðar gagnsök, vegna láns hjá[...] nr. [...], byggir aðalstefnandi sýknukröfu sína á því að hann hafi greitt þær afborganir sem gagnstefnandi kveðst ranglega hafa greitt. Lánið sé uppgert að því er snertir aðalstefnanda. Í lok árs 2009 hafi aðalstefnandi fengið launagreiðslu fyrir vinnu á erlendri grundu að fjárhæð 41.733,17 GBP, eða jafnvirði rúmlega 8,5 milljóna kr., miðað skráð gengi GBP á þeim tíma. Hafi aðalstefnandi gert grein fyrir greiðslunni í skattframtali sínu 2010, fyrir árið 2009, að því marki sem hún hafi varðað það skattár. Hinn 27. janúar 2010 hafi aðalstefnandi lagt 30.000 GBP inn á gjaldeyrisreikning aðila nr. [...]. Hafi innistæðunni verið ætlað að standa undir afborgunum af lánum aðila, umræddu láni nr. [...] og láni nr. [...]. Til marks um þá staðreynd hafi 1.431,74 GBP verið teknar út af framangreindum reikningi sama dag og samningur aðila um skilnaðarkjör var undirritaður, 17. maí 2010, og í skýringu færslunnar verið vísað til láns númer [...]. Þann 16. ágúst 2010 hafi umrætt lán (0186-74-862480) verið „fryst“ á meðan [...] hafi unnið að úrræðum fyrir aðila. Hafi mál staðið þannig þar til eftirstöðvar lánsins, þá 2.494.843 kr., hafi verið greiddar svo sem gagnstefnandi hafi staðfest með tölvupósti til aðalstefnanda 27. mars 2010. Þessar niðurstöður hafi verið færðar inn í skattframtal aðalstefanda 2012, fyrir árið 2011. Þannig hafi lánið verið uppgert af hálfu aðalstefnanda og í samræmi við fjárskipta­samning aðila. Aðalstefnanda varði ekki um síðari atvik eða ætluð samskipti gagnstefnanda við [...] eftir að lánið var gert upp. Aðalstefnandi hafnar gagnkröfu gagnstefnanda vegna láns hjá [...]  nr. [...], með sömu rökum og um lán nr. [...]. Þannig byggir aðalstefnandi á því að með launagreiðslum hans í GBP hafi umþrættar afborganir verið greiddar með fjármunum aðalstefnanda. Auk þess bendir aðalstefnandi á að útilokað sé að launatekjur gagnstefnanda á þeim tíma sem um ræðir hafi staðið undir þeim greiðslum sem gagnstefnandi kveðst hafa greitt, sé litið til annarra skuldbindinga hennar. Þessu til stuðnings vísar aðalstefnandi til tölvupóstsamskipta gagnstefnanda 14. júlí 2010 við [...] þar sem gagnstefnandi fjalli um takmarkaða greiðslugetu. Þá mótmælir aðalstefnandi gagnkröfum gagnstefnanda vegna bensínkorts frá Olíuverzlun Íslands hf.  og vatnsskatts og fráveitugjalda vegna [...]með sömu rökum og færð eru hér að framan. Gagnstefnandi hafi haft fjármuni aðalstefnanda til að greiða umræddan kostnað og sé því hafnað að gagnstefnandi hafi lagt nokkuð út fyrir aðalstefanda. Þvert á móti hafi því verið öfugt farið. Einnig mótmælir aðalstefnandi gagnkröfu gagnstefnanda vegna tölvukaupaláns sem rangri og ósannaðri. Aðalstefnandi hafi enga tölvu keypt fyrir milligöngu gagnstefnanda, hvorki um fjármögnun né almennt. Í skuldaviðurkenningu, dagsettri 4. mars 2010, hafi verið tiltekið að um væri að ræða „einkatölvukaup“ gagnstefnanda og að afborganir skyldu dregnar af launum hennar. Hvergi hafi verið vísað til aðalstefnanda eða tölvukaupa hans enda hafi engu slíku verið fyrir að fara. Gagnstefnandi beri alla sönnunarbyrði fyrir staðhæfingum sem gangi í aðra átt, en hún hafi ekki einu sinni gert líklegt að skuldaviðurkenninguna hafi mátt rekja til tölvukaupa í þágu aðalstefnanda og beri því að hafna kröfu gagnstefnanda. Um kröfu gagnstefnanda um viðurkenningu á hlutdeild í persónulegum lífeyrisréttindum gagnstefnda segir aðalstefnandi að um sé að ræða persónulega söfnunarlíftryggingu aðalstefnanda hjá Allianz. Byggir aðalstefnandi á því að engar forsendur séu fyrir kröfunni og beri því að sýkna hann. Umrædd réttindi séu og hafi alla tíð verið persónuleg og sérgreind réttindi aðalstefnanda sem gagnstefnandi eigi ekkert tilkall til, hvorki á grundvelli laga né samninga aðila. Aðalstefnandi mótmælir því sem röngu að réttindin séu aðeins í „hans nafni“ eins og haldið sé fram í gagnstefnu. Í fjárskiptasamningi aðila hafi verið skýrt tekið fram að „hvort hjóna um sig [ætti] verðmæti í séreignarlífeyrissparnaði“ og að „hvort hjóna um sig [skyldi] halda sínum séreignarlífeyrissparnaði“. Hvergi hafi verið minnst á sameiginleg lífeyrisréttindi eða að aðilar ættu hlutdeild í slíkum réttindum hvors annars. Hafi það verið óumdeilt er samningurinn var gerður að aðeins væri um að ræða aðgreindan og persónulegan séreignarlífeyrissparnað aðila. Samningur aðila sé enn fremur í samræmi við þá meginreglu hjúskaparréttar, sem birtist m.a. í dóma­framkvæmd Hæstaréttar, að komi fram krafa um að halda lífeyrisréttindum utan skipta þá skuli það gert enda sé það ekki ósanngjarnt gagnvart hinum makanum, sbr. 2. tl. 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1991. Gagnstefnandi hafi ekki sýnt fram á að fjárskipta­samningurinn hafi verið ósanngjarn í garð hennar. Enda þótt gagnstefnandi kunni að hafa greitt einhverjar greiðslur til Allianz skapi það henni ekki tilkall til umræddra lífeyrisréttinda aðalstefnanda enda sé það í andstöðu við skýr ákvæði fjárskipta­samnings aðila. Verði ekki fallist á aðalkröfu aðalstefnanda í gagnsök er þess krafist að kröfur gagnstefnanda verði lækkaðar verulega. Varakrafan er reist á sömu málsástæðum og færðar eru fram fyrir sýknukröfu að breyttu breytanda. Allt að einu verði þó að sýkna gagnstefnda af viðurkenningarkröfu gagnstefnanda. Um lagarök í gagnsök byggir aðalstefnandi á meginreglum samninga- og kröfuréttar um efndir og skuldbindingargildi samninga. Þá er vísað til meginreglna einkamálaréttarfars um sönnun og sönnunarbyrði. Jafnframt er vísað hjúskaparlaga nr. 31/1993, o.fl. Krafa um málskostnað er byggð á sömu rökum og í aðalsök. IV.                 Gagnstefnandi hafnar í aðalsök kröfu aðalstefnanda um húsaleigu á tímabilinu 15. október 2010 – 15. mars 2012, þar sem ekkert samkomulag hafi verið gert í þá veru að gagnstefnandi ætti að greiða leigu af eigninni. Það hafi verið ljóst frá upphafi og aðilar væru um það sáttir að gagnstefnandi myndi ekki greiða leigu fyrir [...]. Vilji gagnstefnanda hafi verið að flytja út og fá sér minna og ódýrara húsnæði. Það hafi hins vegar verið vilji aðalstefnanda að gagnstefnandi dveldi áfram í húsnæðinu svo börnin hefðu gott rými og aðbúnað á meðan þau væru í skóla. Aðilar hefðu rætt það á fyrri stigum að vilji þeirra væri að veita börnunum frítt fæði og húsnæði á meðan þau menntuðu sig, svo þau kæmust í gegnum námið án námslána. Aðalstefnanda hafi verið það ljóst frá upphafi að gagnstefnandi myndi ekki greiða neitt fyrir veru sína í [...].                 Þá hafnar gagnstefnandi kröfu aðalstefnanda um hita og rafmagn, en ekkert samkomulag hafi verið gert í þá veru að gagnstefnandi ætti að greiða fyrir hita og rafmagn á meðan hún bjó í eigninni. Í svarbréfi gagnstefnanda til aðalstefnanda, dags. 13. mars 2013, hafi hún fallist á að greiða fyrir hita og rafmagn í þeirri viðleitni að ljúka máli þessu. Aðilum hafi hins vegar ekki tekist að ljúka málinu með samkomulagi og sé greiðsluskyldu því alfarið hafnað.                  Einnig hafnar gagnstefnandi kröfulið aðalstefnanda vegna SKY sjónvarps­áskriftar. Gagnstefnandi hafi aldrei óskað eftir þessari þjónustu og hafi ekki nýtt hana. Sjálfur hafi aðalstefnandi haft aðgang að [...] og komið þangað af og til og fylgst með fréttum og fótbolta, ásamt sonum sínum, svo sem um jólin 2010. Aðalstefnanda hafi verið í lófa lagið að stöðva þessar greiðslur enda teknar út af hans eigin greiðslukorti.                 Jafnframt hafnar gagnstefnandi kröfulið vegna innbús, enda hafi verið tekið fram í skilnaðarsamningi aðila að þeir væru sammála um skiptingu innbús og hafi aðalstefnandi þegar fengið sinn hlut í því. Gagnstefnandi kveður að skipting innbús hafi í stórum dráttum verið þannig að hún hafi fengið sófasett, borðstofusett, borðstofuskáp, matarstell (hálft og fylgihluti), potta og pönnur, glös og áhöld, rúm, sjónvarp, antik skáp, antik sófaborð, þvottavél (keypt notuð 2001), þurrkara (keyptur notaður 2001), ísskáp og frystiskáp, járnhillur í geymslu og málverk (gjafir). Aðalstefnandi hafi fengið sófasett, borðstofusett, eldhúsborð og stóla, matarstell (12 manna og fylgihlutir), pottar og pönnur, glös og áhöld, rúm (arfur frá foreldrum), sjónvarp, antik skápur, sófaborð, hliðarborð, uppþvottavél, öll ljós, bókaskápur (2x), bókaskápur frístandandi, skrifborð (2x), járnhillur í geymslu, geymsluhillueiningar úr tré, nokkrar veiðistangir og annað veiðidót, málverk (gjafir), ýmislegt sem hafi komið með syni aðalstefnanda frá Englandi og ýmislegt sem hafi verið skilið þar eftir. Öðru smálegu hafi verið skipt á milli aðila eins og kostur hafi verið.                 Gagnstefnandi hafnar kröfu aðalstefnanda um úttektir á greiðslukorti. Aðalstefnandi hafi beðið gagnstefnanda reglulega um að greiða eitt og annað fyrir sig og í hvert skipti hafi aðalstefnandi gefið gagnstefnanda upp þann reikning sem hafi átt að nota. Þessar greiðslur hafi undantekningarlaust farið fram að hans beiðni. Þær meintu óheimilu úttektir sem hér um ræði tilheyri „Time share“ réttindum sem aðilar hafi átt í Bandaríkjunum. Samtals hafi þau átt 4 ½ viku. Þar af hafi fjórar vikur verið skráðar á þau bæði en þessi auka hálfa vika hafi verið skráð á gagnstefnanda. Þessar greiðslur af kortinu tilheyri þeirri hálfu viku. Öll þessi réttindi hafi verið sameign þeirra og þeim beri báðum að borga kostnaðinn sem af þeim hafi hlotist.                 Kröfu vegna sjónvarps er hafnað. Gagnstefnandi hafi ekki beðið aðalstefnanda um að kaupa umrætt sjónvarpstæki heldur hafi það verið gjöf til gagnstefnanda. Aðalstefnandi hafi ekkert lagt fram sem sýni fram á greiðsluskyldu gagnstefnanda. Um millifærslur af tékkareikningi aðalstefnanda segir gagnstefnandi að aðilar hafi búið saman á þeim tíma sem hér um ræðir. Aðilar hafi verið í góðu sambandi á þessum tíma og hjálpast að við að greiða eitt og annað. Gagnstefnandi hafi greitt ýmislegt fyrir aðalstefnanda og hann gefið samþykki sitt fyrir greiðslu húsfélagsgjalda vegna [...]. Því er harðlega mótmælt af hálfu gagnstefnanda að um heimildarlausar millifærslur hafi verið að ræða. Hvað varðar millifærsluna í desember 2010 þá hafi hún verið framkvæmd af gagnstefnanda að beiðni aðalstefnanda. Ástæðan hafi verið sú að gagnstefnandi var að fara ásamt sonum sínum til Bandaríkjanna yfir jólin 2010. Aðalstefnandi hafi beðið gagnstefnanda um að kaupa ýmis vítamín og verkjalyf fyrir sig sem hún hafi gert. Þessi greiðsla, að fjárhæð 100.000 kr., hafi verið greiðsla fyrir umrædd vítamín og lyf auk helmingshlutar aðalstefnanda í jólagjöfum fyrir fjölskylduna sem gagnstefnandi keypti í Bandaríkjunum. Á þessum tíma hafi aðilar sameinast um gjafir, s.s. jólagjafir, afmælisgjafir og brúðargjafir.                 Verði litið svo á að aðalstefnandi hafi af einhverjum ástæðum á einhverjum tímapunkti átt réttmæta kröfu á hendur gagnstefnanda sé ljóst að hann hafi með aðgerðarleysi sínu glatað rétti sínum til efnda. Samningur aðila um skilnað og skilnaðarkjör sé dagsettur 17. maí 2010. Með þeim samningi hafi aðilar slitið fjárfélagi sínu og skuli samkvæmt samningnum hvorugur aðilinn eiga frekari kröfu á hendur hinum. Varðandi aðgerðarleysi aðalstefnanda er vísað til reglna kröfuréttarins um tómlæti. Þá er í þessu sambandi einnig vísað til 2. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 þar sem kveðið sé á um tímamörk varðandi ógildingu skilnaðarkjarasamninga en skilnaðarleyfi aðila hafi verið gefið út 18. maí 2010, eða fyrir rúmum þremur árum.                 Nánar um málsástæður og lagarök í aðalsök vísar gagnstefnandi til meginreglu samningaréttarins um skuldbindingagildi samninga og meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga. Varðandi atriði er tengjast skilnaðarsamningi aðila er vísað til hjúskaparlaga nr. 31/1993 og meginreglu sifjaréttar um helmingaskiptareglu við skilnað hjóna. Málskostnaðarkrafan byggir á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.                 Gagnstefnandi byggir gagnkröfur sínar á eftirtöldum atriðum. Gagnstefnandi heldur því fram að aðalstefnandi skuldi henni samtals 6.747.843 kr., sem samanstandi að fjárhæðum sem gagnstefnandi hafi ýmist þegar greitt út eða fyrirsjáanlegt sé að lendi á henni þrátt fyrir að samningur aðila um skilnað og skilnaðarkjör hafi gert ráð fyrir því að aðalstefnandi tæki að sér greiðslu viðkomandi skulda.                 Gagnstefnandi gerir kröfu vegna láns hjá [...] nr. [...]. Samkvæmt samningi aðila um skilnað og skilnaðarkjör skyldi aðalstefnandi taka yfir lán hjá [...] nr. [...], sem hafi upphaflega verið á nafni beggja aðila. Lán þetta hafi upphaflega hvílt á fasteigninni að [...]en hvíli nú á [...], sem sé þinglýst eign gagnstefnanda. Þar sem aðalstefnandi hafi ekki greitt af láni þessu hafi það verið tekið af hans nafni og sé nú einungis á nafni gagnstefnanda. Lán þetta hafi ekki verið fært yfir á nafn aðalstefnanda og af nafni gagnstefnanda eins og samningur aðila um skilnað og skilnaðarkjör geri ráð fyrir vegna ástæðna er lúti að aðalstefnanda. Þá hafi aðalstefnandi ekkert greitt af láninu frá viðmiðunardegi skilnaðarins og hafi þær greiðslur sem inntar hafa verið af hendi síðan þá komið frá gagnstefnanda sem hér segir:  Dags. greiðslu       Fjárhæð 17.05.2010                          kr. 76.963 28.06.2010                          kr. 77.154 28.06.2010                          kr.   1.331 15.07.2010                          kr. 77.471 16.08.2010                          kr. 77.217 Eftirstöðvar umrædds láns hinn 16. september 2011 hafi numið 4.772.631 kr., sbr. tölvupóst frá útibústjóra [...] 4. september 2012. Lánið hafi farið í svokallaða 110% leið í september 2011 og fengið árið 2012 nýtt lánsnúmer, [...]. Gagnstefnandi hafi krafist þess að aðalstefnandi greiði sér framangreindar fjárhæðir, samtals 5.082.767 kr. Fyrirséð sé að gagnstefnandi verði fyrir tjóni komi ekki til þess að lán þetta verði fært yfir á nafn aðalstefnanda, eins og samningur aðila um skilnað og skilnaðarkjör geri ráð fyrir, enda sé lánið á nafni gagnstefnanda, auk þess sem það hvílir sem veð á fasteign hennar [...], fnr. [...].                 Þá gerir gagnstefnandi kröfu vegna láns hjá [...] nr. [...]. Samkvæmt samningi aðila um skilnað og skilnaðarkjör skyldi aðalstefnandi yfirtaka lán hjá [...] nr. [...]. Á árinu 2010 hafi gagnstefnandi hins vegar greitt afborganir af umræddu láni, samtals að fjárhæð 1.087.711 kr., sem sundurliðist þannig: Dags. greiðslu       Fjárhæð 17.05.2010                          kr. 270.485 28.06.2010                          kr. 273.573 15.07.2010                          kr. 272.274 16.08.2010                          kr. 271.379           Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnanda verði gert að endurgreiða henni umrædda fjárhæð enda sé kveðið á um það með skýrum hætti í samningi aðila að aðalstefnandi skyldi greiða af umræddu láni, en ekki gagnstefnandi. Þá gerir gagnstefnandi kröfu vegna bensínkorts frá Olíuverzlun Íslands hf. Aðalstefnandi sé skráður fyrir bensínkorti hjá Olís. Á tímabilinu maí 2010 til febrúar 2011 hafi aðalstefnandi notað umrætt kort til ýmissa úttekta í verslunum Olís, samtals að fjárhæð 328.592 kr. Reikningar vegna úttektanna hafi verið sendir á gagnstefnanda sem hafi greitt þá enda sé bensínkort aðalstefnanda tengt við greiðslukort gagnstefnanda. Gerð sé sú krafa að aðalstefnanda verði gert að endurgreiða gagnstefnanda umræddar fjárhæðir, sem sundurliðist þannig: Dags. reiknings   Fjárhæð 31.05.2010                          kr. 43.642 30.06.2010                          kr. 44.976 31.07.2010                          kr. 41.848 31.08.2010                          kr. 47.100 30.09.2010                          kr. 30.835 31.10.2010                          kr. 57.127 30.11.2010                          kr. 10.266 31.12.2010                          kr.   1.260 31.01.2011                          kr. 28.999 28.02.2011                          kr. 22.539 Gagnstefnandi gerir einnig kröfu vegna vatnsskatts og fráveitugjalda fyrir  [...]fyrir tímabilið 2. maí 2011 til 3. október 2011, en samkvæmt samningi aðila um skilnað og skilnaðarkjör hafi sú eign komið í hlut gagnstefnda við skilnaðinn. Gjöldin séu hluti af skattheimtu vegna fasteignarinnar og því ljóst að aðalstefnanda hafi borið að greiða þau. Gjöldin hafi verið komin í innheimtu hjá Gjaldheimtunni og hafi kröfufjárhæðin verið samtals að fjárhæð 83.773 kr. með dráttarvöxtum og innheimtuþóknun fram að innborgunardegi, 8. desember 2011. Jafnframt gerir gagnstefnandi kröfu vegna tölvukaupalána hjá [...]. Hinn 4. mars 2010 hafi gagnstefnandi undirritað skulda­viðurkenningu að fjárhæð 165.000 kr. vegna tölvukaupa. Endurgreiðsla lánsins hafi verið miðuð við 24 mánaðarlegar jafnar greiðslur og lánið hafi verið vaxtalaust. Umrætt lán hafi verið tekið til kaupa á tölvu fyrir aðalstefnanda. Ástæða þess að umrætt lán hafi verið skráð á nafn gagnstefnanda sé sú að hún sé starfsmaður [...] og boðist umrætt lán án vaxta, en það hafi verið hluti af starfskjörum starfsmanna bankans. Þau kjör væru ekki í boði fyrir viðskiptavini bankans, sem ekki væru jafnframt starfsmenn. Eina ástæða þess að gagnstefnandi hafi greitt umrætt lán hafi verið fyrrnefnd kjör sem henni hafi boðist, en umrædd tölva hafi verið keypt fyrir aðalstefnanda og hafi hann haft umráð hennar frá upphafi. Er gerð sú krafa að aðalstefnanda verði gert að endurgreiða gagnstefnanda umræddar fjárhæðir, sem sundurliðast þannig: Dags. greiðslu       Fjárhæð 06.04.2010                          kr. 6.875 03.05.2010                          kr. 6.875 01.06.2010                          kr. 6.875 01.07.2010                          kr. 6.875 03.08.2010                          kr. 6.875 01.09.2010                          kr. 6.875 01.10.2010                          kr. 6.875 01.11.2010                          kr. 6.875 01.12.2010                          kr. 6.875 03.01.2011                          kr. 6.875 01.02.2011                          kr. 6.875 01.03.2011                          kr. 6.875 01.04.2011                          kr. 6.875 02.05.2011                          kr. 6.875 01.06.2011                          kr. 6.875 01.07.2011                          kr. 6.875 02.08.2011                          kr. 6.875 01.09.2011                          kr. 6.875 03.10.2011                          kr. 6.875 01.11.2011                          kr. 6.875 01.12.2011                          kr. 6.875 02.01.2012                          kr. 6.875 01.02.2012                          kr. 6.875 01.03.2012                          kr. 6.875 Samkvæmt framansögðu sundurliðast krafa gagnstefnanda að fjárhæð 6.747.843 kr. þannig: Enn fremur gerir gagnstefnandi kröfu á hendur aðalstefnanda vegna séreignarlífeyrissparnaðar. Í hjúskap sínum hafi aðilar greitt hvort um sig í séreignar­lífeyris­sparnað. Samkvæmt samningi um skilnað og skilnaðarkjör skyldi hvort hjóna halda sínum séreignarlífeyrissparnaði. Auk þess að greiða hvort í sinn séreignar­lífeyris­sparnað hafi aðilar greitt sameiginlega í séreignarlífeyrissparnað hjá Allianz. Gagnstefnandi hafi tekið saman hluta af þeim greiðslum sem hún hafi innt af hendi til sjóðsins. Samtala þeirra greiðslan nemi 1.031.597 kr. og sundurliðast þannig: Dags. greiðslu       Fjárhæð 27.02.2008                          kr. 23.163 37.03.2008                          kr. 28.558 28.04.2008                          kr. 26.880 29.07.2008                          kr. 29.039 27.08.2008                          kr. 28.281 26.09.2008                          kr. 33.404 29.10.2008                          kr. 35.004 26.11.2008                          kr. 42.295 23.12.2009                          kr. 41.561 28.01.2009                          kr. 34.661 25.02.2009                          kr. 33.579 27.03.2009                          kr. 37.153 28.04.2009                          kr. 39.556 27.05.2009                          kr. 40.911 26.06.2009                          kr. 41.747 29.07.2009                          kr. 42.305 27.08.2009                          kr. 42.024 28.09.2009                          kr. 42.555 28.10.2009                          kr. 43.027 26.11.2009                          kr. 42.866 27.01.2010                          kr. 41.671 29.03.2010                          kr. 40.116 28.04.2010                          kr. 39.579 27.05.2010                          kr. 37.020 28.06.2010                          kr. 36.517 28.07.2010                          kr. 36.549 27.08.2010                          kr. 35.632 28.09.2010                          kr. 35.944 Aldrei hafi staðið annað til við skilnað aðila en að inneign í Allianz myndi skiptast jafnt á milli aðalstefnanda og gagnstefnanda, enda hafi gagnstefnandi greitt verulegar fjárhæðir í sjóðinn. Inneignin í sjóðnum sé hins vegar skráð á nafn aðalstefnanda og hafi gagnstefnandi því ekki getað aflað sér upplýsinga um fjárhæð inneignarinnar. Í gagnstefnu skorar gagnstefnandi á aðalstefnanda að leggja fram yfirlit með upplýsingum um fjárhæð inneignar í sjóðnum. Þar sem ekkert liggi fyrir um fjárhæð lífeyrissparnaðar í Allianz sé farið fram á að viðurkennt verði að gagnstefnandi eigi 50% eignarhlut af inneign í sjóðnum á nafni aðalstefnanda. Varakröfu sína í gagnstefnu byggir gagnstefnandi á því að aðalstefnandi skuldi henni samtals 6.929.505 kr. sem samanstandi af fjárhæðum sem gagnstefnandi hafi ýmist þegar greitt út eða fyrirsjáanlegt sé að lendi á henni þrátt fyrir að samningur aðila um skilnað og skilnaðarkjör hafi gert ráð fyrir því að gagnstefndi tæki að sér greiðslu viðkomandi skulda. Er varakrafa gagnstefnanda byggð á sömu rökum og sjónarmiðum og í aðalkröfu í gagnstefnu. Auk þess er á því byggt að gagnstefnandi eigi rétt á endurgreiðslu að fjárhæð 181.662 sem sé samanlögð fjárhæð þeirra greiðslna sem gagnstefnandi hafi greitt í séreignar­lífeyrissparnað hjá Allianz eftir 17. maí 2010. Eins og fram hafi komið sé inneignin í sjóðnum skráð á nafn aðalstefnanda. Sundurliðist greiðslurnar sem hér segir: Dags. greiðslu       Fjárhæð 27.05.2010                          kr. 37.020 28.06.2010                          kr. 36.517 28.07.2010                          kr. 36.549 27.08.2010                          kr. 35.632 28.09.2010                          kr. 35.944 Krafa sé gerð um að aðalstefnanda verði gert að endurgreiða gagnstefnanda umrædda fjárhæð, 181.662 kr., enda sé kveðið á um það í samningi aðila um skilnað og skilnaðarkjör að eignaskipti aðila skuli miðast við 17. maí 2010 og geti aðalstefnandi ekki ætlast til þess að eftir það tímamark greiði gagnstefnandi í séreignarlífeyrissparnað sem sé ætlaður aðalstefnanda. Samantekt fjárhæða vegna varakröfu gagnstefnanda sé eftirfarandi: Gagnstefnandi gerir gagnkröfur sínar með vísan til 2. mgr. 28. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Um lagarök vísar gagnstefnandi til meginreglu samningaréttarins um skuldbindingagildi samninga og meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga. Varðandi atriði er tengjast skilnaðarsamningi aðila og lífeyrisinneign hjá Allianz vísast til hjúskaparlaga nr. 31/1993 og meginreglu sifjaréttar um helmingaskiptareglu við skilnað hjóna. Krafa gagnstefnanda um dráttarvexti er byggð á 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu 38/2001. Málskostnaðarkrafan styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. V.                 Eins og rakið hefur verið gerðu aðilar með sér samning um skilnað og skilnaðarkjör hinn 17. maí 2010, en ýmislegt fór í reynd á annan veg en samningurinn kvað á um. Óumdeilt er að gagnstefnandi bjó áfram í [...] þrátt fyrir að aðalstefnandi hafi átt að fá fasteignina í sinn hlut samkvæmt samningnum. Gagnstefnandi heldur því fram að samkomulag hafi verið um að hún fengi að dvelja í eigninni án þess að greiða nokkurt endurgjald fyrir afnotin af henni. Til stuðnings þessari málsástæðu leiddi gagnstefnandi fyrir dóm sem vitni syni aðila, A og B en þeir sögðu að þeir hefðu aldrei heyrt aðalstefnanda tala um að gagnstefnandi ætti að greiða fyrir að vera í húsinu. Að mati dómsins er þetta engin sönnun um hvað aðilum hefur farið á milli og að samkomulag hafi verið um að gagnstefnandi fengi að búa í húsinu endurgjaldslaust. Auk þess verður að líta til þess að þegar synir aðila báru vitni fyrir dómi var greinilegt að þeir hafa tekið afstöðu með gagnstefnanda og þeir skýrðu frá því að þeir hefðu slitið öll tengsl við aðalstefnanda, en þeir vildu ekki gefa upp hver væri ástæðan fyrir því. Að mati dómsins er því við úrlausn máls þessa ekki unnt að byggja á framburði sona aðila. Það sama gildir um vitnisburð C enda er hún sambýliskona aðalstefnanda. Hvað varðar rök gagnstefnanda fyrir því að hún hafi mátt búa í eigninni endurgjaldslaust til að geta sinnt sonum aðila er til þess að líta að þeir voru uppkomnir og ekki liggur annað fyrir en að þeir hafi einnig átt þess kost að búa hjá aðalstefnanda.                  Þegar litið er til alls framangreinds, einkum þess að aðalstefnandi fékk samkvæmt samningi aðila í sinn hlut fasteignina að [...], engin sönnunar­gögn eða vitnisburðir liggja fyrir sem sýna fram á að samkomulag hafi verið um að gagnstefnandi þyrfti ekki að greiða neitt fyrir afnotin, og með hliðsjón af dómi Hæstarétti í máli nr. 41/2005, er fallist á með aðalstefnanda að gagnstefnanda beri að greiða endurgjald fyrir afnot af húsinu. Kröfufjárhæðinni hefur ekki verið mótmælt eða tímabilinu sem aðalstefnandi gerir kröfu um. Gagnstefnandi flutti út úr húsinu í mars 2012 og var mál þetta höfðað í júní 2013. Að þessu virtu og aðstæðum í máli þessu er því hafnað að aðalstefnandi hafi með tómlæti glatað rétti til að hafa uppi kröfu um endurgjald fyrir afnot gagnstefnanda af fasteign hans. Samkvæmt framansögðu ber gagnstefnanda að greiða aðalstefnanda þá fjárhæð sem hann gerir kröfu um, 3.600.000 krónur.                 Gagnstefnandi sagði fyrir dómi að hún teldi rétt að greiða hita og rafmagn meðan hún bjó að [...] og að hún samþykkti þann kröfulið aðalstefnanda. Í samræmi við þetta ber henni að greiða stefnanda 292.234 krónur vegna hita og rafmagns. Ósannað er að gagnstefnandi hafi óskað eftir því að hafa SKY sjónvarps­áskrift eða að það hafi verið í hennar þágu. Verður þeim kröfulið aðalstefnanda hafnað. Það sama gildir um kröfu aðalstefnanda vegna sjónvarpstækis. Þá er ósannað að aðalstefnandi hafi á sínum tíma ekki getað fengið sinn hlut í innbúi aðila og að innbúi hafi ekki verið skipt. Auk þess er óljóst um hvaða muni er að ræða og verðmæti einstakra hluta. Verður að hafna kröfulið aðalstefnanda vegna innbús. Hvað varðar kröfulið að fjárhæð 132.596 krónur, vegna úttekta af greiðslukorti, er til þess að líta að um er að ræða úttektir sem gagnstefnandi framkvæmdi af korti aðalstefnanda eftir skilnað aðila og liggur ekkert fyrir í málinu um að þær hafi verið að beiðni gagnstefnanda eða að hún hafi haft heimild frá honum til að taka út af korti hans. Ber gagnstefnanda því að greiða þennan kröfulið.                   Í gagnstefnu hefur gagnstefnandi uppi kröfu á hendur aðalstefnanda vegna tveggja lána hjá[...], annars vegar láns nr. [...]og hins vegar nr. [...]. Krafan vegna fyrrnefnda lánsins er að fjárhæð 5.082.767 krónur og samanstefndur af greiðslum sem gagnstefnandi hefur innt af hendi af láninu eftir skilnað aðila, samtals 310.136 krónur, og eftirstöðvum lánsins, 4.772.631 króna. Þá er krafan vegna láns nr. [...] vegna greiðslna sem gagnstefnandi hefur innt af hendi af láninu eftir skilnað aðila, samtals 1.087.711 krónur. Við aðalmeðferð málsins var því lýst yfir af hálfu gagnstefnanda að fallið væri frá kröfu vegna greiðslu sem var innt af hendi 17. maí 2010 af láni [...] 76.963 krónur, og greiðslu af fjárhæð 270.485 krónur vegna láns nr. [...]. Þannig er endanleg krafa gagnstefnanda vegna fyrra lánsins að fjárhæð 5.005.804 krónur og vegna seinna lánsins 817.226.                  Samkvæmt samningi aðila frá 17. maí 2010 átti aðalstefnandi að taka yfir lán nr. lán nr. [...] og lán nr. [...]. Fyrir liggur í gögnum málsins að það var ekki fyrr en með viðauka við veðskuldabréf 16. febrúar 2012 sem gagnstefnandi var felld niður sem skuldari af síðarnefnda láninu og aðalstefnandi varð einn greiðandi af láninu. Þá hefur það komið fram að það gekk ekki eftir að aðalstefnandi tæki yfir lán [...], af ástæðum sem varða aðalstefnanda. Fram kemur í gögnum málsins að það lán fór í svokallaða 110% leið í september 2011 og fékk nýtt lánsnúmer og var lánsnúmerið [...] því eðli máls samkvæmt fært á skattframtal með eftirstöðvar 0. Það þýðir ekki það að aðalstefnandi hafi verið laus allra mála hvað varðar efndir á samningi aðila frá 17. maí 2010 sem sneru að þessu láni. Lánið sem var upphaflega nr. [...], og fékk nýtt lánsnúmer, hvílir nú á fasteign gagnstefnanda. Aðalstefnandi heldur því fram að hann hafi þegar greitt lán nr. [...] og lán nr. [...] með reikningi sínum í enskum pundum (GBP). Á yfirliti yfir umræddan reikning er hvergi vísað til þess að útborganir af reikningum hafi verið sérstaklega ætlaðar til að greiða af láni nr. [...]og er ósannað að innborgun 27. janúar 2010, að fjárhæð 30.000 GBP, hafi verið sérstaklega ætluð til að greiða af því láni, eins og aðalstefnandi heldur fram. Á yfirlitinu kemur hins vegar fram tilvísun í einni útborgun í seinna lánið, nr. [...], að fjárhæð 1.431,74 GBP, sem samsvarar kröfulið gagnstefnanda vegna greiðslu af láni [...] hinn 17. maí 2010, en eins og áður segir féll gagnstefnandi frá þeim kröfulið við meðferð málsins.                 Með vísan til alls framangreinds og staðfestingar sem gagnstefnandi hefur lagt fram frá [...], um að eftirstöðvar láns nr. [...]eftir niðurfellingu með 110% leiðinni hafi verið 4.772.631 króna, verður aðalstefnanda gert að greiða gagnstefnanda þá fjárhæð og greiðslur sem hún innti af hendi af láninu eftir skilnað aðila, samtals 233.173 krónur. Jafnframt verður fallist á að aðalstefnanda beri að greiða kröfu gagnstefnanda vegna greiðslna sem hún innti af hendi eftir skilnað aðila af láni nr. nr. [...], samtals 817.226 krónur.                 Við aðalmeðferð málsins samþykkti aðalstefnandi kröfu gagnstefnanda vegna úttekta á bensínkorti, samtals 328.592 krónur. Ber honum því að greiða gagnstefnanda þann kröfulið. Einnig ber aðalstefnanda að greiða kröfu gagnstefnanda að fjárhæð 83.773 krónur vegna vatnskatts og fráveitugjalda af [...], enda um gjöld að ræða sem hvíldu á aðalstefnanda sem eiganda fasteignarinnar. Ósannað er að tölvukaupalán, sem var í nafni gagnstefnanda, hafi verið tekið í þágu aðalstefnanda og er þeim kröfulið hafnað. Jafnframt verður að hafna kröfu gagnstefnanda um að viðurkennt verði að hún eigi 50% eignarhlut af inneign aðalstefnanda í lífeyris­sparnaði hjá Allianz, enda fær sú krafa ekki staðist í ljósi 3. gr. samnings aðila frá 17. maí 2010, þar sem kveðið var á um að hvor aðila skyldi halda sínum séreignarlífeyris­sparnaði. Aftur á móti er rétt að aðalstefnandi greiði varakröfu gagnstefnanda, vegna greiðslna sem hún innti af hendi til Allianz eftir skilnað aðila, samtals 181.662 krónur.                     Af framangreindu leiðir að gagnstefnanda ber að greiða aðalstefnanda 3.600.000 krónur fyrir afnot af [...], 292.234 krónur vegna rafmagns og hita og 132.596 krónur vegna úttekta af greiðslukorti, samtals 4.024.830 krónur. Gagnstefnandi á hins vegar kröfu á hendur aðalstefnanda vegna láns hjá Landsbankanum nr. [...], 5.005.804 krónur, 817.226 krónur vegna afborgana af láni nr. [...], 328.592 krónur vegna bensínkorts, 83.773 krónur vegna greiðslu á vatnsskatti og fráveitugjöldum af [...] og 181.662 krónur vegna greiðslu til Allianz vegna séreignarlífeyrissparnaðar aðalstefnanda, samtals 6.417.057 krónur. Verður niðurstaða málsins því sú að aðalstefnanda ber að greiða gagnstefnanda 2.392.227 krónur með dráttarvöxtum frá dómsuppsögu til greiðsludags, eins og nánar greinir í dómsorði.                 Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.                 Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari. D ó m s o r ð:                 Aðalstefnandi, M, greiði gagnstefnanda, K,   2.392.227 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá uppsögu dóms þessa til greiðsludags.                 Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 566/2014
Skaðabótamál Samningur Sameignarfélag Erlend réttarregla Erlendur dómur Réttaráhrif dóms Vanreifun
R og H höfðuðu skaðabótamál á hendur G og C fyrir dómstól í Georgíuríki í Bandaríkjunum vegna ætlaðra vanefnda G og C á persónulegum skuldbindingum þeirra samkvæmt munnlegu samkomulagi um þarlent sameignarfélag. Bandaríski dómstóllinn tók kröfur R og H til greina með dómi að undangenginni einfaldri málsmeðferð.  Höfðuðu R og H síðar mál á hendur G og C á Íslandi til heimtu dómkrafna þeirra samkvæmt hinum erlenda dómi, eftir að innheimtutilraunir þeirra höfðu ekki borið árangur. Undir meðferð málsins í héraði féll H frá kröfum sínum á hendur G og C sem að virtum atvikum málsins var ekki talið koma að sök. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að sú meginregla gilti samkvæmt íslenskum rétti að erlendir dómar hefðu ekki réttaráhrif hér á landi nema svo væri fyrir mælt í lögum. Þar sem svo væri ekki varðandi dóma sem kveðnir væru upp af dómstólum í Bandaríkjunum væru áhrif þeirra takmörkuð þegar leyst væri úr málum sem rekin væru fyrir íslenskum dómstólum. Í dómaframkvæmd hefði einkum verið horft til slíkra dóma við skýringu á bandarískum réttarreglum þegar ljóst væri að þeim reglum bæri að beita um lögskipti aðila sem til úrlausnar væru auk þess sem þeir gætu haft visst sönnunargildi um málsatvik sem um væri deilt. Hæstiréttur dró þá ályktun af 2. tölul. 34. gr. Lúganósamningsins, sbr. lög nr. 7/2011, að erlendur dómur hefði enn takmarkaðri þýðingu en ella væri ef stefnda í málinu hefði ekki gefist kostur á að taka til varna áður en dómurinn var kveðinn upp. Taldi rétturinn að virtri málsmeðferðinni fyrir hinum bandaríska dómstóli umrætt sinn að aðstaðan hefði verið hliðstæð þeirri sem vísað væri til í 3. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Við úrlausn málsins lagði Hæstiréttur til grundvallar tilgreindar niðurstöður bandaríska dómstólsins, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991, og taldi að þau G og C hefðu ekki hnekkt þeirri niðurstöðu hans að komist hefði á samkomulag milli R og þeirra um stofnun sameignarfélags um rekstur annars félags og að G og C hefðu þar með skuldbundið sig persónulega til að bera 51% af tapi sameignarfélagsins. Á hinn bóginn taldi rétturinn að niðurstaða bandaríska dómstólsins um skaðabótakröfu R hefði ekki sönnunargildi hér á landi. Um þá kröfu vísaði Hæstiréttur til þess að heildarskuldbindingar bandaríska sameignarfélagsins væru í héraðsstefnu taldar upp í ellefu nánar tilgreindum kröfuliðum og að R héldi því fram að G og C bæru ábyrgð á 51% þeirra. Var þessi málatilbúnaður R talinn svo vanreifaður að ekki yrði dómur á hann lagður og vísaði Hæstiréttur málinu frá héraðsdómi með skírskotun til meginreglu einkamálaréttarfars um ákveðna og ljósa kröfugerð og skýran málatilbúnað af hálfu stefnanda. 
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. Dómsorð: Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. maí 2014. Mál þetta, sem dómtekið var 26. maí  sl., var höfðað fyrir dómþinginu af Rupal Patel og Harish Mamtani, 1357 Woodcutt Place, Marietta, GA 30062, Bandaríkjunum, á hendur Gunnari Gunnarssyni og Chandriku Gunni Gunnarsson, báðum til heimilis að Vatnsstíg 15, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 23. nóvember 2012. Við aðalmeðferð málsins féll Harish Mamtani frá kröfum sínum á hendur stefndu. Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði dæmd til greiðslu 1.069.398 Bandaríkjadala að viðbættum vöxtum frá 17. ágúst 2011 til greiðsludags, samkvæmt vaxtalögum Georgíuríkis í Bandaríkjunum.  Stefnandi krefst einnig málskostnaðar úr hendi stefndu. Dómkröfur stefndu eru þær, að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda.  Þá krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda. II Málavextir eru þeir, að málsaðilar voru í viðskiptasambandi allt frá árinu 2000.  Árið 2002 urðu upphaflegir stefnendur, Rupal Patel og Harish Mamtani, og Austur-Indíafélagið ehf., þá í eigu stefndu, eigendur bandaríska félagsins Bluefish Home LLC (áður East India Distributing LLC og Bluefish Trading LLC).  Austur-Indíafélagið ehf. fór með 51% eignarhlut en stefnendur 49% eignarhlut.  Frá árinu 2000 hafa stefnandi, Rupal, og Harish fjárfest í og gengist í persónulegar ábyrgðir fyrir félagið. Snemma árs 2006 ákváðu stefnandi, Rupal, ásamt Harish og stefndu, að sækja um lán í Bandaríkjunum, svokallað „Small Business Administration“ lán, til að fjármagna rekstur Bluefish.  Stefnandi kveður reglur Georgíuríkis um slík lán kveða á um vissar takmarkanir sem varði eignarhald erlendra aðila og slíkar takmarkanir hafi tekið til eignarhluta Austur-Indíafélagsins ehf. í Bluefish.  Stefnandi, ásamt Harish, og stefndu hafi því gert með sér munnlegt samkomulag um að stefndu myndu tímabundið afsala sér eignarrétti sínum í Bluefish á meðan skilmálar lánsins væru í gildi, en eignarhald stefndu hafi staðið í vegi fyrir umræddu láni til Bluefish.  Samkomulagið hafi þó gert ráð fyrir að stefndu myndu þrátt fyrir allt halda áfram að eiga fjárhagslega hagsmuni í rekstri Bluefish og bera ábyrgð á skuldbindingum þess.  Nánar tiltekið hafi munnlegt samkomulag orðið með aðilum í apríl 2006 um myndun sameignarfélags sem tæki til rekstrar Bluefish, þar sem stefndu skyldu persónulega fara saman með 51% hlutdeild og stefnandi, ásamt Harish, með 49% hlutdeild.  Jafnframt hafi aðilar samþykkt að sameignarfélagið myndi reka starfsemi sína í gegnum rekstur Bluefish.  Í samræmi við samkomulagið hafi stefnandi síðan eignast eignarhlut Austur-Indíafélagsins ehf. í Bluefish, í þeim tilgangi að mögulegt væri að fá lánveitinguna.  Í kjölfarið hafi Bluefish fengið lánið. Samkvæmt munnlegum skilmálum sameignarfélagsins skyldu aðilar eiga tilkall til hagnaðar og bera ábyrgð á tapi sameignarfélagsins í hlutfalli við framangreinda eignarhlutdeild.  Stefnandi kveður að jafnframt hafi verið samið svo um að aðilar skyldu endurgreiða hvor öðrum það viðbótarfjármagn sem þeir myndu leggja fram til sameignarfélagsins, allt í hlutfalli við eignarhlut hvers um sig.  Tilgangur sameignar­félagsins hafi verið að auka sameiginlega hagsmuni jafnt stefnanda og Harish Mamtami, sem og stefndu.  Aðilar myndu jafnframt leggja sitt af mörkum til stuðnings rekstri Bluefish.  Samkvæmt stefnanda málsins hafi þeir Harish í kjölfarið lagt út verulegt fjármagn til sameignarfélagsins vegna rekstrar Bluefish í góðri trú um að stefndu myndu standa við skuldbindingar sínar um að endurgreiða viðbótarfjárframlög í samræmi við hlutfallslega eign sína.  Þrátt fyrir áskoranir stefnanda um að stefndu legðu fjármuni til rekstursins, líkt og skilmálar sameignarfélagsins hafi gert ráð fyrir, vegna taprekstrar og fjárframlags stefnanda, hafi stefndu ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart honum og Harish. Vegna þessa hafi stefnandi, ásamt Harish, neyðst til að höfða mál fyrir dómstólum Georgíuríkis í Bandaríkjunum til innheimtu á kröfum sínum.  Felldi yfirréttur Cobb-sýslu í Georgíuríki dóm í málinu 16. ágúst 2011, og var stefndu gert að greiða stefnendum málsins skaðabætur að fjárhæð 1.234.066 Bandaríkjadali, auk lögfræðikostnaðar að fjárhæð 25.195 Bandaríkjadali, ásamt vöxtum samkvæmt lögum Georgíuríkis.  Þessi fjárhæð hafi síðan lækkað töluvert, meðal annars vegna þess að stefnandi, ásamt Harish, hafi samið við kröfuhafa um ákveðna kröfuliði til lækkunar. Í kjölfarið leitaði stefnandi atbeina lögmanns við innheimtu framangreindrar dómkröfu á Íslandi og var bréf þess efnis sent stefndu 27. október 2011, þar sem skorað var á stefndu að greiða kröfuna.  Stefndu greiddu ekki kröfuna og í framhaldi af því lagði stefnandi fram beiðni um kyrrsetningu hjá sýslumanninum í Reykjavík, 29. nóvember 2011, en féllu síðan frá þeirri beiðni. Hinn 31. desember 2011 sendi stefnandi áskorun til stefndu þess efnis að þau lýstu því skriflega yfir, innan þriggja vikna frá móttöku áskorunar, að þeim væri fært innan skamms tíma að greiða kröfuna.  Með bréfi stefndu, 30. desember 2001, var kröfunni hafnað.  Í kjölfarið kröfðust stefnandi og Harish gjaldþrotaskipta á búum stefndu, með vísan til 5. tölul. 2. mgr. 65. gr. gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991, en með úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur var þeim kröfum hafnað. III Stefnandi, Rupal Patel, byggir kröfu sína á sönnunargildi hins erlenda dóms.  Stefnandi eigi lögmæta og gilda kröfu á hendur stefndu samkvæmt erlendum dómi, sem kveði á um greiðsluskyldu stefndu.  Um sé að ræða lögvarða kröfu samkvæmt lögum Georgíuríkis, Bandaríkjunum, sem stefnandi hafi lögmætar væntingar til að verði greidd.  Sú lögvarða krafa, sem styðjist við erlendan dóm, komi til vegna þess að í gildi hafi verið munnlegur samningur milli aðila um að stefndu gæfu eftir eignarhlutdeild sína í Bluefish.  Bluefish hafi í kjölfarið verið rekið í gegnum sameignarfélag í eigu aðila.  Hafi það verið munnlegir skilmálar sameignarfélagsins að aðilar skyldu eiga tilkall til hagnaðar og bera ábyrgð á tapi sameignarfélagsins í hlutfalli við eignarhlutdeild þeirra.  Jafnframt hafi verið munnlegt samkomulag milli aðila samkvæmt skilmálum sameignarfélagsins að aðilar skyldu endurgreiða hver öðrum það viðbótarfjármagn sem þeir myndu leggja fram til sameignarfélagsins vegna reksturs Bluefish, allt í hlutfalli við eignarhlut hvers um sig.  Stefnandi hafi síðan lagt fram verulegt fjármagn til rekstrar Bluefish, vegna erfiðra rekstraraðstæðna í kjölfar alþjóðlegrar efnahagskreppu síðari hluta árs 2008, í góðri trú um að stefndu myndu standa við skuldbindingar sínar.  Stefndu hafi hins vegar ekki staðið við skuldbinding­ar um endurgreiðslu á viðbótarfjárframlagi í samræmi við hlutfallslega eign sína.  Í rökstuddri niðurstöðu hins erlenda dóms megi sjá að um sé að ræða brot á samkomulagi samkvæmt lögum Georgíuríkis, sem síðan hafi leitt til niðurstöðu dómsins um greiðsluskyldu stefndu. Í skjölum málsins megi sjá að málsaðilar hafi árið 2006 rætt áform sín um eftirgjöf eignarhluta stefndu í Bluefish vegna bandaríska lánsins, sem og að stefndi Gunnar hafi sérstaklega óskað eftir því við Harish Mamtani að hlutföllum í drögum að skriflegu samþykki um sameignarfélag vegna reksturs Bluefish yrði breytt í 51% á móti 49% í stað helmingaskipta.  Þá megi og sjá af skjölum málsins að stefndu hafi árið 2008 viðurkennt að aðilar gerðu með sér samkomulag um að báðir væru helmings eigendur sameignarfélags um rekstur Bluefish.  Þessi samskipti aðila árið 2008 sýni með óyggjandi hætti að munnlegt samkomulag hafi verið í gildi milli aðila málsins um fyrrgreint sameignarfélag.  Það mikla traust sem stefnandi og Harish hafi borið til stefndu, sem og munnlegar yfirlýsingar stefndu á tímabilinu, hafi leitt til þess að skriflegt samkomulag hafi aldrei verið undirritað. Ljóst sé, að sú leið sem hafi verið farin, að gefa eftir eignarhlutdeild stefndu, hafi verið gerð í því augnamiði að geta tekið bandarískt lán árið 2006.  Stefndu hafi í kjölfarið verið mjög virk í rekstri Bluefish.  Hafi aðilar rætt hin ýmsu smáatriði varðandi rekstur Bluefish ásamt því að skipta með sér verkum.  Stefndu hafi verið eins virk í rekstri félagsins og ætla megi af eigendum félags, sem þau hafi og verið samkvæmt hinu munnlega samkomulagi um sameignarfélagið.  Hafi það fyrirkomulag eignarhalds félagsins verið forsenda rekstrar þess á nefndu tímabili og aðilar gert sér grein fyrir því.  Þá megi og sjá af gögnum málsins að stefndu hafi komið fram gagnvart þriðja aðila eins og eigendur Bluefish á umræddu tímabili.  Til að mynda megi sjá í blaðagrein að stefnda, Chandrika, hafi verið titluð eigandi Bluefish og sögð skipuleggja kynningu fyrir mögulega fjárfesta.  Jafnframt sé stefndi, Gunnar, sagður ræða við mögulega fjárfesta fyrir hönd Bluefish.  Þá sé í skjölum málsins yfirlýsing starfsmanns auglýsingaskrifstofu hér á landi, sem stefndi, Gunnar, hafi haft samskipti við sem eigandi Bluefish árin 2006 til 2008.  Á grundvelli þessara sönnunargagna hafi hinn bandaríski dómstóll komist að þeirri niðurstöðu að í gildi væri munnlegt samkomulag milli aðila um sameignarfélag vegna reksturs Bluefish, sem ekki hafi verið virt af stefndu og leiddi til greiðsluskyldu þeirra. Stefnandi telur að líta verði til forsendna og niðurstöðu hins bandaríska dómstóls við sönnun á lögmæti kröfunnar og viðeigandi beitingu erlendra laga.  Það sé almenn meginregla íslensks réttar að dómstólar hér á landi leggi til grundvallar úrlausnum sínum, í málum sem varði erlenda dóma, að hinn erlendi dómstóll hafi beitt viðeigandi réttarreglum sem beita beri samkvæmt íslenskum lagaskilareglum, að réttarreglum hafi verið réttilega beitt og að sönnunarmat erlenda dómstólsins sé rétt.  Þannig fari endurskoðun ekki fram á framangreindum atriðum nema því aðeins að málsaðilar beri verulegar brigður á hinn erlenda dóm að þessu leyti ásamt því að sanna staðhæfingar þess efnis.  Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, skuli sá sem beri fyrir sig erlenda réttarreglu leiða tilvist hennar í ljós.  Hinn erlendi dómur sé að mati stefnanda ítarlegt sönnunargang um staðreyndir, efni erlendra réttarreglna og viðeigandi beitingu þeirra.  Enn fremur sé ljóst að dómurinn kveði  á um réttindi og skyldur aðila máls samkvæmt lögum Georgíuríkis í Bandaríkjunum.  Sönnunarbyrði fyrir annarri niðurstöðu en fram komi í hinum erlenda dómi hvíli alfarið á herðum stefndu. Stefnandi kveður fjárhæð dómkröfu sinnar á hendur stefndu grundvallast á því að stefndu hafi verið gert að greiða stefnanda tilteknar skaðabætur samkvæmt dómi yfirréttar Cobb-sýslu í Georgíuríki vegna samningsbrota stefndu á samkomulagi aðila, auk lögfræðikostnaðar, ásamt vöxtum.  Krafa samkvæmt dómsorði hins erlenda dóms hafi lækkað töluvert, meðal annars vegna þess að stefnendur hafi samið við kröfuhafa um ákveðna kröfuliði til lækkunar.  Því sé stuðst við lægri fjárhæð í kröfugerð þessari en dæmd hafi verið í hinum erlenda dómi. Stefnandi byggir á því að stefndu hafi annars vegar brotið gegn fyrrgreindu samkomulagi sínu við stefnendur með því að standa ekki skil á skuldbindingum Bluefish í samræmi við hlutfallslega eign sína.  Stefnandi, ásamt Harish, hafi því orðið að standa skil á hlut stefndu sem valdið hafi þeim tjóni að verðmæti 51% af fjárhæð þessara tilteknu krafna. Hins vegar hafi stefndu brotið gegn samkomulagi sínu við stefnanda og Harish með því að endurgreiða þeim ekki það viðbótarfjármagn sem þeir hafi lagt til rekstrar Bluefish, í þeirri trú að stefndu myndu virða samkomulagið og endurgreiða framlagið í hlutfalli við eign sína.  Af  gögnum málsins megi sjá þær fjárhæðir þeirra skuld­bindingar sem stefnandi og Harish hafi gengist undir fyrir hönd Bluefish, fjárhæðir þeirra greiðslna sem þeir hafi innt af hendi, sem og fullyrðingar stefndu um að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt samkomulagi aðila. Stefndu hafi neitað að endurgreiða stefnanda og Harish það fjármagn sem þeir hafi lagt af mörkum, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir, og innheimta kröfunnar á Íslandi, í kjölfar hins bandaríska dóms, hafi ekki tekist. Stefnandi kveður tjón sitt vegna ótvíræðs brots stefndu á skuldbindingum sínum vera að fjárhæð 1.044.203 Bandaríkjadalir og er fjárhæðin sundurliðuð svo í stefnu: Kröfu stefnanda vegna 1. liðar í sundurliðun kveður hann vera vegna rekstrar­láns sem Bluefish hafi fengið í kringum 1. apríl 2006.  Vegna rekstrarerfiðleika Bluefish hafi stefnandi, ásamt Harish, komist að samkomulagi um uppgjör lánsins við kröfuhafa vegna persónulegra ábyrgða þeirra.  Þetta hafi verið gert í kringum 10. apríl 2010.  Höfuðstóll lánsins hafi á þeim tíma verið 303.529 Bandaríkjadalir og krafan í fullu gildi.  Hins vegar hafi verið gert það samkomulag milli kröfuhafans og stefnanda að ef þau Harish greiddu 74.580 Bandaríkjadali ásamt vöxtum fyrir 1. maí 2015 myndi kröfuhafinn ekki nýta sér vanefndarúrræði lánasamkomulagsins.  Þessu samkomulagi fylgi hins vegar persónulegar takmarkanir á lánveitingu frá hinu opinbera ásamt því að stefnandi og Harish séu báðir á vanskilaskrá.  Með því að greiða lánið að fullu losni þeir undan þeim takmörkunum.  Þar sem krafan sé að fullu greidd gagnvart stefnanda, og því fylgi verulegar persónulegar takmarkanir að greiða aðeins uppgjörsfjárhæð, sé krafist nefndrar fjárhæðar svo honum sé mögulegt að efna skuldbindingar sínar gagnvart kröfuhafa að fullu og losna undan nefndum takmörkunum. Kröfu vegna 2. liðs í sundurliðun kveður stefnandi vera vegna rekstrarláns frá Deepak Raghaven sem Bluefish hafi fengið í kringum 1. ágúst 2006 og þau Harish hafi verið í persónulegum ábyrgðum fyrir. Krafa samkvæmt 3. lið sundurliðunar sé vegna yfirdráttar sem Bluefish hafi haft hjá Bank of America sem þau Harish hafi verið í persónulegum ábyrgðum fyrir. Liður 4 sé vegna greiðslna frá ráðgjafafyrirtækinu, Bluefish Capital, sem sé í eigu Harish Mamtani, til Bluefish vegna skorts Bluefish á lausafé.  Nánar tiltekið sé um að ræða greiðslur frá viðskiptavinum ráðgjafafyrirtækisins fyrir vinnu þess en stílaðar á Bluefish í þeim tilgangi að mögulegt væri fyrir Bluefish að nýta fjármagnið til eigin nota.  Stefndu hafi samþykkt þessa tilhögun. Liður 5 sé vegna fjárframlaga stefnanda af persónulegu greiðslukorti hans vegna skorts Bluefish á lausafé frá árinu 2000 allt þar til Bluefish hafi verið selt. Liður 6 sé vegna greiðslu ráðgjafafyrirtækis Harish á útgjöldum Bluefish með greiðslukortum hans, vegna skorts á lausafé, frá 19. nóvember 2005 allt til sölu félagsins.  Stefndu hafi samþykkt þessa tilhögun. Liður 7 sé vegna fjárframlaga Link Capital Partners, fjárfestingar­fyrirtæki í eigu Harish, sem lagt hafi fé til Bluefish vegna skorts á lausafé. Liður 8 sé vegna kostnaðar við opnun heildsölunnar Global Living, sem hafi verið í eigu Bluefish.  Kostnaður þessi hafi verið greiddur af fjárfestingarfyrirtæki Harish og hafi tilgangur heildsölunnar verið að útvega lausafé með því að selja vörulager. Liður 9 sé vegna ógreiddra launa Harish fyrir vinnu hans í þágu Bluefish frá mars 2008 þar til félagið hafi verið selt.  Þetta komi til vegna þess að stefndu hafi dregið sig út úr rekstrinum og vinnuframlag Harish þá orðið meira en ella. Liður 10 sé vegna ógreiddra launa stefnanda sem framkvæmdastjóra félagsins frá árinu 2002 til 2010.  Aðilar hafi samið um að bíða með launagreiðslur til stefnanda vegna skorts Bluefish á lausafé. Liður 11 sé vegna kostnaðar við notkun á persónulegri bifreið stefnanda og Harish í þágu Bluefish.  Aðilar hafi samið um að stefnandi fengi 400 Bandaríkjadali greidda á mánuði fyrir rekstur bifreiðarinnar. Framangreindar fjárhæðir séu samtals 2.431.771 Bandaríkjadalur sem sé heildartala skuldbindingar félagsins sem stefnandi, ásamt Harish, hafi greitt fyrir, sem og fjármagn og/eða vinna sem þau hafi lagt fram til félagsins.  Stefndu hafi á fyrrgreindu tímabili lagt fram 400.000 Bandaríkjadali til reksturs félagsins.  Heildarframlag aðila hafi því verið 2.831.771 Bandaríkjadalur. Í stefnu er gerð eftirfarandi grein fyrir útreikningi á heildarskuld stefndu.  Miðað er við samkomulag um að þau beri ábyrgð á 51% af framangreindri heildarfjárhæð og framlag þeirra dregið frá: Skuld stefndu við stefnanda og Harish sé því 1.044.203 Bandaríkjadalir.  Við þessa fjárhæð bætist síðan 25.195 Bandaríkjadalir sem sé sá málskostnaður sem yfirréttur Cobb-sýslu í Georgíuríki hafi dæmt stefnendum í vil. Þá krefst stefnandi áfallinna vaxta af höfuðstól kröfunnar sem séu 1.069.398 Bandaríkjadalir.  Vaxtanna sé krafist frá uppkvaðningu dómsins í yfirrétti Cobb-sýslu, 17. ágúst 2011, til greiðsludags, samkvæmt lögum Georgíuríkis í Bandaríkjunum.  Vaxtahlutfall á dómkröfum þar hafi verið óbreytt, 6,25% á ársgrundvelli miðað við 360 daga frá því dómur gekk í því máli sem varðar umræddar kröfur á hendur stefndu, sbr. framlögð skjöl um vexti sem gildi um dómkröfuna og vaxtastig sem notast sé við, útgefið af Seðlabanka Bandaríkjanna. Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sérstaklega 2. mgr. 44. gr. laganna.  Stefnandi byggir kröfur sínar jafnframt á lögum Georgíuríkis í Bandaríkjunum. IV Stefndu byggja kröfu sína um sýknu, sem og kröfu um verulega lækkun á fjárhæð dómkrafna, í fyrsta lagi á því að Bluefish LLC hafi verið hlutafélag sem eigendur hafi borið takmarkaða ábyrgð á.  Skráð heiti félagsins hafi verið Bluefish LLC og standi LLC fyrir „Limited Liability Company“, sem á íslensku þýði félag með takmarkaðri ábyrgð.  Félagið hafi ávallt verið hlutafélag sem hluthafar hafi ekki borið persónulega ábyrgð á.  Fjárhagsleg ábyrgð eigenda Bluefish vegna reksturs félagsins hafi takmarkast við hlutafé hvers og eins hluthafa.  Fullyrðingum stefnanda um að Bluefish hafi verið rekið í gegnum sameignarfélag í eigu aðila sé því mótmælt sem tilhæfulausum.  Rekstur félagsins hafi verið í samræmi við samþykktir Bluefish LLC og opinbera skráningu.  Af fullyrðingum stefnanda verði það helst ráðið að hið meinta sameignarfélag hafi í raun verið sama félag og Bluefish LLC. Í öðru lagi byggja stefndu á því að stefnandi, ásamt Harish, hafi ekki samþykkt persónulega ábyrgð vegna skuldbindinga.  Stefndu hafna öllum fullyrðingum stefnanda um að aðilar hafi gert munnlegt eða skriflegt samkomulag þar að lútandi.  Þvert á móti hafi stefndu hafnað öllum slíkum umleitunum stefnanda í maí 2006.  Lögmaður stefnanda hafi lagt það formlega til, 4. maí 2006, að stefndu undirrituðu ýmis skjöl, sem hafi meðal annars falið í sér persónulega ábyrgðaryfirlýsingu stefndu vegna allra útgjalda í þágu Bluefish, sbr. framlagðan tölvupóst lögmannsins ásamt viðhengjum.  Stefndi, Gunnar, hafi svarað þessum umleitunum sex dögum síðar á þann veg að hann skyldi lesa yfir gögnin og reyna að skilja þau.  Í kjölfarið hafi borist svar frá Harish, sem kvaðst samþykkja tillögur eigin lögmanns.  Stuttu síðar hafi stefndu neitað, munnlega, að rita undir persónulega yfirlýsingu um ábyrgð enda hefðu þau með því tekið á sig mun þyngri byrðar en áður vegna reksturs Bluefish.  Stefndi, Gunnari, hafi ritað lögmanni sínum tölvupóst stuttu síðar og lýst áhyggjum sínum vegna þess hve tillögurnar hafi verið hagstæðar stefnendum á kostnað stefndu.  Lögmaður stefndu hafi sent bréf 21. júlí 2006 og hafnað tillögum stefnanda.  Þess í stað hafi verið stungið upp á því að Austur Indíafélagið ehf. gæti borið ábyrgð með þeim hætti sem lagt hafi verið til að stefndu skyldu gera.  Gögn málsins sanni það að stefndu hafi beinlínis neitað umleitunum stefnenda um persónulegar ábyrgðir, bæði formlega og munnlega, sem og með athöfnum sínum.  Fjölmörg atriði renni stoðum undir framangreint, til að mynda framlögð tölvupóstsamskipti frá 24. mars 2008.  Í þeim segi Mike Harmon, fjármálaráðgjafi stefnanda og Bluefish, að Harish gæti viljað nýta sér gildandi lánalínu til nýrra viðskipta en hann vilji ekki vera eini aðilinn sem ábyrgist þágildandi lán, sér í lagi, hafi staðið til að hækka yfirdráttinn til að auka viðskiptin.  Framangreind samskipti, frá því um tveimur árum eftir meint samkomulag aðila um sameiginlega fjárhagslega ábyrgð, gefi það ótvírætt til kynna að Harish hafi litið svo á að hann væri sá sem ábyrgðin á þágildandi lánum lenti á.  Framlögð tölvupóstsamskipti frá 26. mars 2008 bendi til hins sama enda höfðu stefndu þá þegar hafnað því formlega, með skriflegum og munnlegum hætti, að semja um sameiginlegar ábyrgðir vegna skuldbindinga og fjárfestinga í þágu Bluefish.  Þá hafi stefndu enga ástæðu haft til þess að gangast í persónulegar ábyrgðir vegna reksturs Bluefish.  Aðkoma þeirra að rekstri félagsins hafi ávallt verið í gegnum Austur Indíafélagið ehf.  Ábyrgð þeirra vegna rekstrarins hafi því verið takmörkuð, bæði sökum þess að Bluefish hafi verið hlutafélag með takmarkaðri ábyrgð og vegna þess að eigandi þess hafi ávallt verið Austur Indíafélagið ehf. en ekki stefndu persónulega.  Staðhæfingar stefnanda um persónulegar ábyrgðir stefndu séu því ósennilegri fyrir vikið.  Því sé jafnframt mótmælt að eignarhlutur í fyrirtæki bendi til þess að eigandi hlutarins vilji að sama skapi vera í fjárhagslegum ábyrgðum vegna félagsins í réttu hlutfalli við eign sína.  Slíkar fullyrðingar séu órökréttar.  Eðli málsins samkvæmt kjósi eigendur félags með takmarkaða ábyrgð slíkt rekstrarfyrirkomulag einmitt vegna takmarkaðrar ábyrgðar vegna rekstursins.  Ekkert samhengi eða samræmi sé á milli þess að eiga helmingshlut í fyrirtæki og bera helming allra skulda sem rekstur þess kunni að leiða af sér. Í þriðja lagi byggja stefndu á því að fullyrðingar stefnanda um persónulega ábyrgð stefndu séu ósannar og ósannaðar.  Sem fyrr greini hafi stefndu hafnað umleitunum stefnanda um persónulega ábyrgð stefndu á skuldbindingum félagsins Bluefish.  Fullyrðingar stefnanda um hið gagnstæða séu ósannar og stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir fullyrðingum sínum.  Engin gögn liggi fyrir í málinu sem sýni fram á réttmæti fullyrðinga stefnanda.  Þvert á móti sýni gögn málsins það að stefndu hafi hafnað formlegri beiðni stefnanda um persónulega ábyrgð.  Ólíklegt sé að svo miklir hagsmunir, sem deilt sé um í þessu máli, hefðu verið tryggðir með munnlegu samkomulagi einu saman, enda hafi það ekki verið raunin, sbr. framangreinda umfjöllun.  Það sé enn fremur ótrúverðugt að stefnandi hafi ekki í það minnsta kannað hvort stefndu hafi verið gjaldfær um greiðslu tæplega 1.1 milljóna Bandaríkjadala.  Málatilbúnaður stefnanda bendi eindregið til þess að stefnandi reyni nú að takmarka eigið tjón vegna óarðbærra fjárfestinga sinna.  Staðreyndin sé sú að stefnandi hafi aldrei reynt að krefja stefndu um fé vegna Bluefish fyrr en þeim hafi verið ljóst að fjárfestingar þeirra í félaginu myndu ekki skila hagnaði.  Útskýringar og fullyrðingar stefnanda á samskiptum málsaðila virðist því alfarið fundnar til eftir á.  Dómurinn sem hafi gengið í yfirrétti Cobb-sýslu árið 2011 hafi ekkert gildi og sé ekki aðfararhæfur hér á landi.  Stefndu hafi ekki haldið uppi vörnum fyrir dómstólnum og því hafi verið kveðinn upp útivistardómur á grundvelli einhliða framburðar stefnanda.  Dómurinn hafi því heldur ekkert gildi sem sönnunargagn um samskipti aðila eða skuldbindingar þeirra.  Þar sem dómurinn sé aðeins byggður á málatilbúnaði stefnanda geti hann aðeins haft þýðingu sem sönnunargagn í málinu, að því leyti sem yfirlýsingar stefnanda, sem gefnar hafi verið fyrir dómstólnum, séu stefnanda sjálfum í óhag. Vildi svo til að fallist yrði á það með stefnanda að munnlegt samkomulag hefði komist á, beri stefnandi eftir sem áður sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni af þeim toga sem greini í stefnu.  Gögn málsins sýni ekki fram á að stefnandi eigi þær kröfur á hendur stefndu sem hann fullyrðir.  Jafnframt megi benda á að í framlögðu bréfi frá Mike Harmon, fjármálaráðgjafa sem hafi starfað fyrir Bluefish og stefnanda, til allra aðila málsins, dagsett 24. mars 2008, segi meðal annars að Harish telji að hann geti komið birgðum í verð á einhverjum tíma í gegnum smásöluverslun til að greiða til baka allar bankaskuldir, skuldir vina hans og eiga einhvern afgang til að greiða eigendum hluta af þeirra fjárfestingu.  Af bréfinu sé ljóst að á svipuðum tíma og stefndu hafi horfið frá rekstri félagsins hafi nægar eignir verið á lager til þess að greiða allar skuldbindingar félagsins við banka, auk afgangs.  Stefndu hafi aldrei fengið í sinn hlut neina fjármuni vegna sölu lagersins.  Ágóði sölunnar hafi því runnið til stefnanda og Harish.  Ljóst sé því að stefnandi geti ekki haldið því fram að hann eigi kröfu á hendur stefndu um greiðslu skaðabóta vegna samningsrofs um sameiginlega ábyrgð á skuldbindingum, enda hafi stefnandi sjálfur tekið til sín næga fjármuni úr félaginu til að gera upp slíkar skuldbindingar sínar.  Þvert á móti beri gögn málsins með sér að stefndu eigi kröfu á hendur stefnanda.  Loks skuli bent á að stefnandi sé ekki réttur aðili til að krefjast greiðslu vegna upphæða sem koma fram í kröfuliðum 4, 6, 7 og 8, enda sé þar tiltekinn kostnaður sem hafi verið borinn af öðrum en stefnanda.  Stefnandi sé því ekki réttur aðili til að krefjast greiðslu vegna nefndra kröfuliða og því ber að sýkna stefndu um greiðslur þeirra. Í fjórða lagi byggja stefndu á því að samkvæmt stefnu séu kröfur stefnanda, að hans eigin sögn, að rekja til ábyrgða sem hafi fallið á stefnanda árið 2006, til útlagðs kostnaðar í þágu Bluefish, allt frá árinu 2000, greiðslukortagreiðslna allt frá 2005, fjárfestinga þriðja aðila í félaginu, sem frekari upplýsingar skorti um, fjárframlaga stefnanda til félagsins og yfirdráttarláns, sem einnig skorti upplýsingar um, og til launakostnaðar frá 2008.  Óljóst sé hvenær þorri þeirra krafna, sem myndi dómkröfu stefnanda, hafi fallið á gjalddaga.  Þó sé ljóst að meiri hluti þeirra hafi fallið til fyrir mun lengri tíman fjórum árum áður en málshöfðun hafi hafist á hendur stefndu.  Með vísan til ákvæða laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, sem og til laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, byggi stefndu á því að þær kröfur sem stefnandi gæti mögulega átt á hendur þeim hafi fyrnst áður en fyrningarfrestur hafi verið rofinn með málshöfðun.  Erfitt sé fyrir stefndu að byggja varnir sínar með nákvæmari hætti, á grundvelli þessarar málsástæðu, enda engar upplýsingar að finna í stefnu málsins um gjalddaga krafnanna. Stefndu byggja í fimmta lagi á því að kröfur stefnanda séu niður fallnar sökum tómlætis, sem hann hafi sýnt af sér við að halda fram kröfum sínum.  Sem fyrr greini standi dómkrafa stefnanda saman af kröfuliðum sem nái allt aftur til ársins 2000.  Stefnanda hafi borið ótvíræð skylda til þess að halda uppi kröfum sínum fyrr en raun hafi verið enda ljóst að stefndu hafi hafnað með öllu umleitunum um persónulegar ábyrgðir strax árið 2006. Í sjötta lagi byggja stefndu á því að kröfur stefnanda eigi sér enga stoð í raunveruleikanum og að upphæðir þeirra séu rangar.  Stefnanda beri að sýna fram á réttmæti upphæða krafna sinna.  Til að mynda megi benda á að launakröfur og kröfur um rekstrarkostnað bifreiða séu í engu samræmi við raunveruleikann og virðist algjörlega úr lausu lofti gripnar.  Þá hafi nær engar upplýsingar verið veittar um aðra kröfuliði stefnanda og sé þeim öllum mótmælt sem röngum og of háum.  Í þessu samhengi sé ítrekuð sú málsástæða stefndu að stefnandi sé ekki réttur aðili til að krefjast greiðslu vegna kostnaðar sem að hans eigin sögn sé kominn til vegna kröfuliða 4, 6, 7 og 8 í stefnu.  Að auki sé vísað til þess að sönnun skorti fyrir upphæð krafna stefnanda.  Eignir Bluefish hafi verið seldar en engir fjármunir greiddir stefndu í kjölfar sölunnar.  Ljóst sé að kröfur stefnanda munu ávallt þurfa að miðast við ágóða hans af sölu þeirra eigna og kröfur á hendur stefndu lækka til samræmis við gagnkröfur stefndu.  Kröfur stefnanda sem kæmu til skuldajafnaðar hafi verið tilgreindar í framlögðu bréfi, sendu Bluefish 11. apríl 2008, og hafi á þeim tíma numið 847.766 Bandaríkjadölum, auk áfallinna dráttarvaxta.  Í fyrrgreindum tölvupósti frá Harish hafi það verið staðfest að stefndu hafi lagt félaginu til 400.000 Bandaríkjadali.  Til viðbótar framangreindri fjárhæð eigi stefndu kröfu um skuldajöfnuð vegna vinnu sinnar í þágu Bluefish áður en Harish hafi tekið við rekstri félagsins.  Í ljósi þess að stefnandi og Harish virðist reikna sér laun sem nemi um 630.000 Bandaríkjadölum fyrir tveggja til þriggja ára vinnu, áskilji stefndu sér rétt til sams konar launa og krefjast skuldajafnaðar launakrafna sinna við kröfur stefnanda. Til viðbótar við allt sem að framan greinir mótmæla stefndu öllum fullyrðingum stefnanda, sem ekki hafi verið sérstaklega vikið að, sem röngum og ósönnuðum. Um lagarök vísa stefndu einkum til meginreglna samninga- og kröfuréttar, meðal annars um samþykki og höfnun tilboða og skuldbindingargildi samninga.  Einnig er byggt á almennum reglum íslensks réttarfars um sönnun og sönnunarbyrði.  Byggt er á ákvæðum laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda og ákvæðum laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, meginreglum kröfuréttarins og ákvæðum laga um lausafjárkaup sem varða skuldajöfnuð.  Einnig byggja stefndu á reglum kröfuréttarins um brottfall krafna vegna tómlætis. V Í máli þessu er deilt um fjárkröfu stefnanda, Rupal Patel, á hendur stefndu, Gunnari Gunnarssyni og Chandriku Gunnarsson, sem nánar er sundurliðuð í stefnu málsins.  Upphaflega var fyrrgreindur Harish Mamtani einnig stefnandi í málinu en hann féll frá kröfum sínum í þinghaldi 27. september 2013.  Kröfugerðin var áður óskipt og standa dómkröfur stefnanda eftir óbreyttar á hendur stefndu. Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sker dómari úr því hverju sinni, eftir mati á þeim gögnum sem fram hafi komið í máli, hvort staðhæfing um umdeild atvik teljist sönnuð, enda bindi fyrirmæli laga hann ekki sérstaklega um mat í þeim efnum.  Líta verður svo á að þrátt fyrir að hinn erlendi dómur geti verið til sönnunar um erlenda réttarreglu, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991, þá verði dómari að meta það sjálfstætt hvort sýnt hafi verið fram á það í þessu máli, með fullnægjandi hætti, að atvik þau sem stefnandi tefli fram, teljist sönnuð. Krafa stefnanda er sundurliðuð í 11 liði í stefnu.  Stefnandi virðist byggja á því að stefndu séu greiðsluskyld vegna sameignarfélags aðila, samkvæmt lögum Georgíufylkis í Bandaríkjunum.  Í málinu er hins vegar ekkert það fram komið sem sýnir fram á að stefndu hafi samþykkt að taka á sig persónulega ábyrgð á ofangreindum skuldbindingum, sem  stefnandi ásamt áðurnefndum Harish Mamtani kveða vera skuldir sameignarfélagsins, en ekki liggur fyrir í málinu hverjar eru nettóskuldir hins meinta sameignarfélags aðila. Sé tekið mið af framangreindri sundurliðun fjárkröfu stefnanda, eins og hún kemur fram í stefnu málsins, má sjá að kröfuliðir 4 og 6-9 eru vegna fjárframlaga Harish úr sjóðum Bluefish Capital, skuldfærslu af greiðslukorti Bluefish Capital, færslu fjármagns og skuldfærslu frá Link Capital Partners og vinnuframlags Harish.  Af sundurliðun stefnanda sjálfs á fjárkröfum sínum verður ekki annað ráðið en að hann sé ekki réttur kröfuhafi hvað varðar kröfuliði 4 og 6-9.  Þvert á móti má ætla að réttir kröfuhafar séu ýmist Harish Mamtani, Bluefish Capital, sem er í eigu Harish, eða Link Capital Partners, einnig í eigu Harish.   Þá er hvergi vikið að því í stefnu málsins á hvaða grundvelli stefnandi telji sig eiga aðild hvað framangreinda kröfuliði varðar og ekki færð fyrir því rök eða sýnt fram á með öðrum hætti að sameignarfélagið eigi kröfurnar.  Virðist málatilbúnaður stefnanda reyndar byggjast á því að hinn erlendi dómur Georgíufylkis í Bandaríkjunum sé fullnægjandi sönnun um greiðsluskyldu stefndu.  Það mál var höfðað á hendur stefndu af stefnanda þessa máls og Harish Mamtani sameiginlega en eins og fram hefur komið hefur Harish fallið frá kröfum sínum í þessu máli. Kröfuliður 1, að fjárhæð 303.530 Bandaríkjadalir, er vegna CIT rekstrarláns.  Fram kemur að fjárhæð kröfunnar sé miðuð við stöðu lánsins við samkomulag um uppgjör þess 16. apríl 2010, sem þá var 303.529 Bandaríkjadalir.  Framlagt samkomulag er milli Bluefish Homes, LLC, Harish Mamtani og stefnanda, Rupal Patel, annars vegar og CIT Small Business Lending Corporation annars vegar.  Kemur þar fram að eftirstöðvar skuldar samkvæmt lánssamningi milli þeirra aðila séu 303.529,88 Bandaríkjadalir og áfallnir vextir 6.891,05 Bandaríkjadalir.  Stefndu eru ekki aðilar að þessu samkomulagi.  Stefnandi byggir greiðsluskyldu stefndu á því að munnlegt samkomulag hafi komist á milli hans og Harish annars vegar og stefndu hins vegar um að stefndu færu með 51% eignarhlut í Bluefish Homes, LLC, og að stefndu bæru persónulega fjárhagslega ábyrgð í samræmi við þau hlutföll.  Krafan um greiðslu 303.530 Bandaríkjadala á grundvelli CIT lánsins virðist hins vegar ekki vera krafa um endurgreiðslu fjárhæðar sem stefnandi hafi þegar lagt út eða skaðabætur í samræmi við fjárútlát hans heldur krafa um að stefndu greiði fyrirfram eftirstöðvar lánsins sem þó hefur ekki fallið í gjalddaga, samkvæmt framlögðu samkomulagi.  Þá tekst stefnanda ekki, hvorki með umfjöllun í stefnu né framlögðum gögnum, að sýna fram á kröfur sínar samkvæmt kröfuliðum 2, 3, 5, 10 og 11.  Undirritað frumrit skuldabréfs, samkvæmt kröfulið 2, er ekki lagt fram en samkvæmt framlögðu skjali var lán veitt til Bluefish Capital, LLC, að fjárhæð 250.000 Bandaríkjadalir.  Stefnandi leggur ekkert frekar fram um stöðu lánsins samkvæmt skuldabréfinu eða hvað hann sjálfur hafi greitt af láni samkvæmt því.  Þá eru engin gögn lögð fram um yfirdráttarlánið eða persónulega ábyrgð stefnanda samkvæmt kröfulið 3 né heldur um skuldfærslur af greiðslukorti samkvæmt kröfulið 5.  Engin gögn eru heldur lögð fram um ógreidd laun til stefnanda, unna tíma eða um samkomulag aðila um launagreiðslur til hans, sbr. kröfulið 10.  Sama á við um kröfulið 11 en stefnandi leggur ekkert fram því til sönnunar að samkomulag hafi verið með aðilum um að hann fengi greidda 400 Bandaríkjadali á mánuði fyrir rekstur bifreiðar sinnar.  Hvað varðar kröfuliði nr. 2,3,5,10 og 11 kemur hinn erlendi dómur Georgíu­fylkis ekki heldur að gagni þar sem í honum er ekki fjallað um sönnun fyrir einstökum kröfuliðum.  Í ljósi alls framangreinds hefur stefnanda ekki tekist að sanna að hann eigi hinar umdeildu kröfur og verða stefndu því sýknuð af öllum kröfum stefnanda í máli þessu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Eftir þessari niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnandi dæmdur til þess að greiða stefndu in solidum málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 600.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur. Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð : Stefndu, Gunnar Gunnarsson og Chandrika Gunnarsson, eru sýkn af kröfum stefnanda, Rupal Patel. Stefnandi greiði stefndu in solidum 600.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 570/2014
Líkamstjón Skaðabætur Örorkubætur Miskabætur Gjafsókn
A höfðaði mál á hendur ábyrgðartryggjandanum V hf. til bótauppgjörs vegna líkamstjóns sem hann hlaut í starfi sínu við nýbyggingu húss að […] í Reykjavík árið 2006. Fyrir Hæstarétti greindi aðila einungis á um við hvaða árslaun skyldi miða ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku, sbr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. A taldi að miða ætti við meðallaun verkamanna  árið 2007 en til vara við uppreiknuð laun sín þann eina og hálfa mánuð sem hann starfaði á Íslandi árið 2006. V hf. taldi á hinn bóginn að miða skyldi við lágmarksárslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. A var ekki talinn hafa sýnt fram á að svo óvenjulegar aðstæður hefðu verið fyrir hendi að annar mælikvarði en lágmarksárslaunaviðmiðið væri réttari á líklegar framtíðartekjur hans, en samkvæmt upplýsingum sem lögð voru fyrir Hæstarétt um laun hans fyrir byggingarvinnu í […] árin 2004 og 2005 námu þau aðeins broti af lágmarksárslaunum og ekkert lá fyrir um að A hefði á slysdegi markað sér ákveðinn starfsvettvang á Íslandi. Var V hf. því sýknað af kröfu A.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. ágúst 2014. Hann krefst þess að stefnda verði aðallega gert að greiða sér 35.562.189 krónur, en til vara 29.142.060 krónur, í báðum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. júní 2009 til greiðsludags. Þá krefst hann þess að ákvæði héraðsdóms um málskostnað verði staðfest, en stefnda gert að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt. Ágreiningsefni málsins hér fyrir dómi lýtur einvörðungu að því hvaða árslaunaviðmið skuli leggja til grundvallar við útreikning skaðabóta til áfrýjanda fyrir varanlega örorku, en hann telur að miða eigi við meðallaun verkamanna árið 2007 og til vara við uppreiknuð laun sín í þann eina og hálfa mánuð sem hann starfaði hér á landi á árinu 2006. Stefndi telur að miða eigi við lágmarksárslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Af gögnum málsins verður ráðið að áfrýjandi hafi komið til Íslands í apríl 2006 til þess að vinna í byggingariðnaði og safna sér fyrir frekari námi. Á slysdegi 6. júní 2006 hafði hann unnið í um einn og hálfan mánuð við byggingarvinnu og hafði áður unnið við slík störf í […]. Hann hefur í málinu lagt fram gögn er sýna fram á að laun hans þar fyrir árin 2004 og 2005 hafi aðeins numið broti af lágmarkslaunum samkvæmt 3. mgr. 7.gr. skaðabótalaga. Hann hefur ekki sýnt fram á að svo óvenjulegar aðstæður hafi verið fyrir hendi að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur hans en lagt er til grundvallar í hinum áfrýjaða dómi, enda liggur ekkert fyrir um að hann hafi á slysdegi markað sér ákveðinn starfsvettvang á Íslandi. Með þessum athugasemdum verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans en þó þannig að stefndi verður vegna þess sem að framan greinir sýknaður af kröfu áfrýjanda. Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýkn af kröfu áfrýjanda, A. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 1.000.000 krónur.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júní 2014.                 Mál þetta höfðaði A, kt. [...], […], með stefnu birtri 10. júní 2013 á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. [...], Ármúla 3, Reykjavík.  Málið var dómtekið 7. maí sl., en endurupptekið og dómtekið á ný fyrr í dag.                  Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 43.367.422 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 10. júní 2009 til greiðsludags.  Til vara krefst stefnandi skaðabóta að fjárhæð 36.947.293 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001frá 10. júní 2009 til greiðsludags.                 Þá krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.                  Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar að mati dómsins, til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður falli niður.                  Stefnandi vann við nýbyggingu húss að […] í Reykjavík.  Hann var starfsmaður Byggingafélagsins B ehf.  Þann 6. júní 2006 var verið að undirbúa að steypa plötu yfir bílakjallara hússins.  Stefnandi mun hafa stigið á lausan þverbita sem sporðreistist, þannig að stefnandi féll niður á steypt gólf tæplega sex metra fall.  Hlaut hann margvíslega og alvarlega áverka.                  Stefnandi var fluttur á Landspítalann í Fossvogi.  Þar gekkst hann undir fjöl­margar aðgerðir og dvaldi ýmist á gjörgæsludeild eða legudeild til 23. október 2006, er hann var fluttur á Grensásdeild.  Endurhæfingarmeðferð hans þar stóð allt til 15. júní 2007.  Stefnandi flutti aftur til […] 19. júní 2007 og hefur meðferð hans verið haldið áfram þar.  Stefnandi hefur upp frá því búið í […] ásamt móður sinni, en faðir hans er nú látinn.                  Byggingafélagið B var með ábyrgðartryggingu hjá stefnda Vátrygginga­félagi Íslands.  Viðurkennir stefndi bótaskyldu, en ágreiningur er um nokkra þætti bótaákvörðunar.                  Aðilar sammæltust um að fela C bæklunarskurðlækni og D hæstaréttarlögmanni að meta afleiðingar slyssins.  Matsgerð þeirra er dagsett 20. október 2008.  Varanlegur miski stefnanda var metinn 90 stig og varanleg örorka 100%.  Tímabil þjáningabóta var talið hafa staðið frá 6. júní 2006 til 30. ágúst 2007, var stefnandi rúmfastur allan þann tíma.  Tímabundið atvinnutjón var metið 100% frá 6. júní 2006 til 30. ágúst 2007.  Heilsufar stefnanda var talið hafa verið orðið stöðugt þann 30. ágúst 2007.                  Í matsgerð segir m.a. að stefnandi hafi við slysið hlotið lífshættulega fjöl­áverka.  Alvarlegastur hafi verið höfuðáverki, sem hafi leitt til verulegra heila­skemmda með mikilli skerðingu á andlegu atgervi og áhrif á hreyfifærni, sérstaklega í vinstri helmingi líkamans.  Telja matsmenn að heyrn á hægra eyra hafi skerst svo og sjón á hægra auga.  Hægri augntóft hafi brotnað og andlit aflagast.  Stefnandi sé með dofa vinstra megin í andliti og skekkju á nefi.  Hann hafi fjölmörg ör eftir barkaskurð með inndrætti, ventilaðgerð á höfði, höfuðaðgerð og vegna aðgerðar á vinstri fæti.  Vinstra hné sé kreppt og einnig vinstri mjöðm að hluta til vegna afleiðinga brots á lærlegg, heilaáverka og brots á vinstri hnéskel.                  Aðilar hófu umræður um bótauppgjör í kjölfar kröfubréfs lögmanns stefnanda í desember 2008.  Kom fram að ágreiningur stóð einkum um þrjú atriði, álag á miska­bótagreiðslu, árslaun til viðmiðunar um ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku og loks um frádrátt reiknaðs eingreiðsluverðmætis bóta frá Tryggingastofnun ríkisins.                  Þann 4. desember 2009 var gengið frá uppgjöri og greiðslu bóta, en stefnandi samþykkti þó ekki að allir liðir bótakröfu hans væru greiddir að fullu.  Hann fékk greiddar bætur fyrir tímabundið vinnutap og er ekki ágreiningur um þann lið.  Þá voru greiddar miskabætur með 15% álagi, sbr. 3. mgr. 4. gr. skaðabótalaga, en stefnandi krafðist 50% álags.  Bætur fyrir varanlega örorku voru reiknaðar eftir lágmarks­viðmiðun um tekjur samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, en stefnandi vildi miða við meðallaun verkamanna.  Þá var dregin frá bótum fjárhæð sem svaraði til eingreiðsluverðmætis bóta frá Tryggingastofnun ríkisins í samræmi við útreikning tryggingastærðfræðings stefnda.  Í útreikningnum kemur fram að eingreiðslu­verðmætið sé reiknað miðað við stöðugleikadag 30. ágúst 2007.  Gert væri ráð fyrir að stefnandi ætti rétt á örorkulífeyri, aldurstengdum örorkulífeyri, tekjutryggingu og heimilisuppbót.  Mat tryggingastærðfræðingurinn þannig eingreiðsluverðmæti bótanna samtals 36.568.046 krónur  Frádráttur næmi 67% af þeirri fjárhæð, 24.500.591 krónum, að teknu tilliti til eingreiðslu- og skatthagræðis.  Ekki var deilt um frádrátt vegna innborgunar að fjárhæð 500.000 krónur og bóta úr slysatryggingu launþega að fjárhæð 13.648.489 krónur.                  Frádráttur vegna bóta frá Tryggingastofnun var endurskoðaður í nóvember 2011 og frádrátturinn þá lækkaður um 675.080 krónur.  Komið hafði í ljós að stefnandi fengi ekki allar þær bætur sem reiknað hafði verið með.                  Málsástæður og lagarök stefnanda                 Stefnandi byggir á því að ekki skuli reikna bætur fyrir varanlega örorku eftir lágmarksviðmiðun 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, heldur verði að ákveða viðmiðunina sérstaklega, sbr. 2. mgr.                  Hann vísar til þess að hann hafi starfaði í um einn og hálfan mánuð hér á landi sem ófaglærður byggingaverkamaður.  Hann hafi haft reynslu á þessu sviði í heima­landi sínu.  Hann hafi lært bifvélavirkjun, en ekki starfað við þá iðn.  Hann hafi haft væntingar um frekara nám, en óvíst hafi verið hvað hann vildi leggja fyrir sig.  Hann hafi á slysdegi verið fullfrískur við störf í byggingariðnaði, sem hann hafi haft reynslu af.  Ekkert annað hafi legið fyrir en að hann myndi halda áfram á þeirri braut.  Aðstæður sínar hafi verið óvenjulegar.  Hann hafi verið nýkominn hingað til starfa sem verkamaður.  Því séu meðaltekjur verkamanna réttari mælikvarði um líklegar framtíðartekjur heldur en lágmarkslaun.  Því krefjist hann þess að bætur verði reiknaðar eftir meðallaunum verkamanna árið 2007.  Miðar hann því við árslaunin 4.367.520 krónur.                  Í stefnu voru hafðar uppi ýmsar röksemdir um frádrátt frá bótum vegna greiðslna Tryggingastofnunar.  Undir rekstri málsins jafnaðist ágreiningur aðila um þennan þátt, en uppi er ágreiningur um hvernig fara skuli með félagslegar bætur sem stefnandi fær greiddar í […].  Stefndi telur að ekki skuli draga þær frá bóta­kröfunni, en þær verði ekki felldar undir ákvæði 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.  Segir hann að með hugtakinu almannatryggingar sé átt við bætur samkvæmt lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar og eldri lögum um sama efni.  Ef ætlun löggjafans hefði verið sú að horfa bæri til réttinda utan Íslands hefði borið að víkja að slíku berum orðum í ákvæðinu.  Hér skipti einnig máli það mat löggjafans að með setningu laga nr. 53/2009 hafi alfarið verið horfið frá því að beita frádrætti frá skaðabótakröfu vegna réttinda tjónþola úr almannatryggingum samkvæmt lögum nr. 100/2007 í alvarlegri slysum líkt og slysi stefnanda.  Þó svo að Hæstiréttur hafi kveðið úr um að lögum nr. 53/2009 verði ekki beitt með afturvirkum hætti um slys sem áttu sér stað fyrir gildistöku laganna þann 1. maí 2009, þá verki lögin til skýringar 4. mgr. 5. gr. laganna í eldri gerð.                  Þá krefst stefnandi 50% álags á varanlegan miska samkvæmt 3. mgr. 4. gr. skaðabótalaga.  Hann hafi við slysið hlotið alvarlega fjöláverka, sem leitt hafi til verulegrar andlegrar og líkamlegrar skerðingar.  Stefnandi búi þannig við mikla líkamlega og andlega fötlun eftir slysið.  Hann sé öðrum háður um flestar daglegar athafnir og ófær um að búa einn.  Þá hafi hann á árinu 2012 greinst með flogaveiki.                  Grunnfjárhæð miska að teknu tilliti til hækkunar lánskjaravísitölu frá gildistöku skaðabótalaga fram til 18. apríl 2009, sem marki upphafsdag dráttarvaxta samkvæmt uppgjöri aðila þann 4. desember 2009, nemi 8.097.500 krónum.  Að viðbættu 50% álagi nemi grunnmiski 12.146.250 kr., eða 10.931.625 kr. miðað við 90 stiga miska.                  Stefnandi sundurliðar aðalkröfu sína þannig: Eftirst. þjáningarbóta                                                            617.337 kr. Bætur vegna varanlegrar örorku:   4.367.520 kr. * 14,836 * 100%                                     64.796.527 kr. Bætur vegna varanlegs miska:   12.146.250 kr. * 90%                                                     10.931.625 kr.                                                                                Samtals                 76.345.489 kr. Frádráttur: Eingreiðsluverðmæti bóta SÍ/TR                                      -4.371.362 kr. Bætur úr slysatryggingu launþega                                  -13.731.884 kr. Innborgun stefnda VÍS 4.10.2013                                  -14.874.821 kr.                                                                                Samtals                 -32.978.067 kr.                                                                Aðalkrafa samtals                43.367.422 kr.                 Varakrafa stefnanda byggir á því, fallist héraðsdómur ekki á forsendur aðal­kröfu varðandi árslaunaviðmið, að við ákvörðun árslaunaviðmiðs beri með vísan til 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og nýlegra dóma Hæstaréttar að leggja til grundvallar upp­reiknuð laun stefnanda þann tíma sem hann starfaði hjá hjá Byggingafélaginu B ehf. á árinu 2006.  Fyrir liggi að meðal mánaðarlaun stefanda með orlofi fyrir slys hafi numið 305.333 kr. Sú fjárhæð hafi verið lögð til grundvallar uppgjöri tímabundins tekjutaps.  Meðal mánaðarlaun stefnanda árið 2006 án orlofs hafi numið 277.148 krónum.  Samkvæmt því hafi árslaun numið 3.591.838 krónum að teknu tilliti til mót­framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð.  Verðbætt til stöðugleikadags þann 30. ágúst 2007 nemi árslaunaviðmið 3.971.554 krónum.  Varakröfu sína sundurliðar stefnandi svo: Eftirst. þjáningarbóta                                                             617.337 Bætur vegna varanlegrar örorku:     3.934.780 * 14,836 * 100%                                        58.376.398 Bætur vegna varanlegs miska:                                                           12.146.250 * 90%                                                           10.931.625 .                                                                                               Samtals 69.925.360 Frádráttur: Eingreiðsluverðmæti bóta SÍ/TR                                    -4.371.362 Bætur úr slysatryggingu launþega                                  -13-731.884 Innborgun stefnda VÍS 4.10.2013                                  -14.874.821                                                                                               Samtals -32.978.067 Varakrafa samtals 36.947.293 krónur.                  Stefnandi vísar til almennu skaðabótareglunnar og þeirrar meginreglu að skaðabætur eigi að gera tjónþola eins settan og ef slys hefði ekki orðið.  Um forsendur og útreikning bótakröfunnar vísar hann til skaðabótalaga, einkum 1. gr., 5. gr., 6. gr., 7. gr., og 15. gr.  Þá vitnar hann til laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, einkum I. til IV. kafla, svo og ákvæða eldri laga um sama efni nr. 119/1993, laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, einkum 1., 8. og 9. gr., svo og eldri laga um sama efni nr. 118/1993.                 Stefnandi krefst nú dráttarvaxta frá 10. júní 2009.  Vextir sem féllu á fyrir þann dag séu fyrndir, en mál þetta var höfðað 10. júní 2013.  Hann mótmælir því sérstaklega að málshöfðun hafi verið dregin til að afla dráttarvaxta fyrir langt tímabil, eins og stefndi heldur fram.                  Málsástæður og lagarök stefnda                 Stefndi byggir á því að stefnandi hafi fengið greiddar að fullu þær bætur sem hann eigi rétt á úr hendi stefnda.                  Stefndi mótmælir því að unnt sé að miða við meðallaun verkamanna hér á landi á árinu 2007 við útreikning bóta fyrir varanlega örorku stefnanda.  Stefnandi hafi verið 24 ára gamall á slysdegi.  Hann hafi lokið námi í grunn- og framhaldsskóla í […] og lært bifvélavirkjun, en aldrei starfað í faginu.  Hann hafi verið í bygginga­vinnu í […].                  Stefndi bendir á að stefnandi hafi ekki ætlað sér að vinna hér á landi til fram­búðar, heldur ætlað að vinna hér um tíma til að safna peningum fyrir frekara námi.  Því geti meðalárslaun verkamanna hér á landi ekki endurspeglað líklegar framtíðar­tekjur stefnanda.  Ekkert bendi til þess að stefnandi hafi ætlað sér að starfa hér á landi í framtíðinni, heldur þvert á móti.                  Þar sem stefnandi hafi áður en hann kom hingað til lands verið í bygginga­vinnu í […] væri nærtækast að miða við vinnutekjur stefnanda í […] síðustu þrjú ár fyrir slysið í samræmi við meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.  Stefnandi hafi ekki upplýst hvaða tekjur hann hafi haft og því ekki sýnt að þær tekjur séu umfram lágmarksárslaun skv. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.  Því séu ekki efni til annars en að miða við lágmarksárslaun 3. mgr. 7. gr.                   Stefndi mótmælir því einnig að unnt sé að reikna framtíðartekjur eftir launum stefnanda í það stutta tímabil, einn og hálfan mánuð, sem hann vann hér fyrir slysið, en á því er varakrafa stefnanda byggð.  Almennt sé einn og hálfur mánuður allt of skammur tími til að byggja á sem viðmiðun um framtíðartekjur, a.m.k. þegar ekki liggi fyrir að um framtíðarstarf sé að ræða.  Þá hafi þessi vinna stefnanda ekki verið hugsuð sem framtíðarstarf, heldur starf til bráðabirgða til fjáröflunar til frekara náms annars staðar.  Það geti því ekki orðið marktækur mælikvarði á framtíðartekjur.                  Stefndi segir að við bótauppgjörið 4. desember 2009 hafi verið dregið frá bótum fyrir varanlega örorku eingreiðsluverðmæti félagslegra bóta frá Trygginga­stofnun.  Gert hafi verið ráð fyrir því að stefnandi nyti örorkulífeyris, aldurstengdrar örorkuuppbótar, tekjutryggingar og heimilisuppbótar.  Þetta hafi verið byggt á þágildandi 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.  Hins vegar hafi komið í ljós að stefnandi nyti aðeins örorkulífeyris.  Þá hafi stefnandi átt rétt til félagslegra bóta í […] vegna slyssins frá 1. júlí 2010 til 31. des. 2015.                  Stefndi byggir á því að draga beri félagslegar bætur stefnanda í […] frá skaðabótum samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.  Sama eigi við um greiðslur úr lífeyrissjóðum.  Þá sé það meginregla að bætur sem tjónþoli fái frá þriðjamanni skuli koma til frádráttar skaðabótum úr hendi tjónvalds.  Undantekningar frá þeirri reglu verði því að skýra þröngt.  Þá sé það andstætt jafnræðissjónarmiðum, að mismunandi reglur gildi um frádrátt við uppgjör skaðabóta eftir því hvort tjónþoli er erlendur eða íslenskur og fái félagslegar bætur frá erlendum eða innlendum almannatryggingum og lífeyrissjóðum.                  Stefndi byggir á því að 15% álag á varanlegan miska sé hæfilegt í tilviki stefnanda, en mótmælir því að álagið verði hærra.  Skilyrði þess að heimilt sé að bæta álagi við miskabætur sé að „sérstaklega standi á“, sbr. 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. skaðabótalaga.  Fram komi í athugasemdum í frumvarpi til skaðabótalaga að heimilt skuli vera í undantekningartilvikum að veita hærri bætur, einkum þegar tjónþoli hafi orðið fyrir margvíslegum líkamsspjöllum, t.d. bæði orðið fyrir mikilli sköddun á útlimum og jafnframt misst sjón á báðum augum.                  Ekki sé um það að ræða að stefnandi hafi tapað sjón á báðum augum og orðið jafnframt fyrir lömun líkamans eða missi útlima.  Þá sé hann ekki ófær um að sinna frumþörfum daglegs lífs.  Því sé álitamál hvort yfirleitt hafi verið tilefni til þess að hækka miskabætur til stefnanda.  Það hafi þó verið gert með 15% álagi.  Krafa um hámarksálag sé hins vegar úr öllu hófi og ekki í samræmi við dómvenju.  Það sé rétt að stefnandi hafi orðið fyrir mikilli andlegri skerðingu auk þess sem vinstri fótur sé krepptur og nýtist lítið.  Hann geti ekki búið einn eða haldið heimili án aðstoðar.  Á móti komi að stefnandi sé sjálfbjarga með frumþarfir daglegs lífs (hreinlæti, klæðnað, borðhald), hann hafi ekki lamast og ekki misst útlimi.  Hann geti gengið við hækjur. Sjón hafi skerst aðeins að hluta á öðru auga og heyrn að hluta á öðru eyra.  Í örorku­mati sé tekið fullt tillit til andlegrar og líkamlegrar skerðingar stefnanda og félagslegra aðstæðna hans við mat á varanlegum miska.                  Stefndi mótmælir því að dráttarvextir verði reiknaðir fyrr en að liðnum mánuði frá birtingu stefnu, en þrjú og hálft ár hafi liðið frá því að bætur voru gerðar upp og þar til stefna var birt.  Ekki sé rétt að tjónþoli geti ávaxtað kröfur sínar með dráttar­vöxtum með því að draga málshöfðun um árabil.  Með birtingu stefnunnar hafi stefndi fyrst séð endanlega kröfugerð stefnanda.                 Í greinargerð stefnda er vísað til meginreglna skaðabótaréttar, 4. og 7. gr. skaðabótalaga og lögskýringargagna með þeim, 2. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905 og lokamálsgreinar 9. gr. laga nr. 38/2001.                  Í munnlegum málflutningi mótmælti stefndi því að tekið yrði tillit til frásagna um flogaveiki stefnanda.  Taldi hann að ósannað væri samband milli þess og slyssins.  Stefnandi mótmælti þessari málsástæðu sem of seint fram kominni.                  Niðurstaða                 Áður en fjallað verður um þau þrjú ágreiningsefni sem enn eru uppi milli aðila verður að fjalla um frásagnir af flogaveiki sem greinst hafi hjá stefnanda.  Þetta atriði getur eins og kröfugerð er háttað eingöngu komið til skoðunar ásamt öðru varðandi hækkun miskabóta.  Frásögn af þessu kom fram í stefnu og er vikið að því í greinar­gerð stefnda, án þess að mótmælum sé hreyft sérstaklega, en svo sem venja er þá er öllum kröfum og málsástæðum mótmælt með almennri yfirlýsingu.  Að þessu virtu verður að hafa hliðsjón af þessum upplýsingum um flogaveiki við ákvörðun um miskabótakröfu stefnanda.                  Stefnandi krefst þess að miskabætur verði reiknaðar í samræmi við 4. gr. skaðabótalaga og að þær verði hækkaðar um helming samkvæmt 3. mgr.  Við uppgjör það sem stefndi vill telja endanlegt voru miskabætur hækkaðar um 15%.  Nokkur dæmi eru um það í dómaframkvæmd að fallist er á hækkun miskabóta, en almennt skal hækkun einungis beitt þegar um fjölþætta áverka er að ræða, sem hver um sig veldur verulegum miska sem heildarmiskastig nær ekki að sýna með réttu.  Er gjarnan tekið dæmi um að viðkomandi sé ósjálfbjarga um flestar athafnir daglegs lífs.                  Stefnandi er samkvæmt gögnum málsins ekki ósjálfbjarga um hreinlæti, mat og klæði.  Hann hefur hins vegar hlotið verulega bæði líkamlega og andlega skerðingu.  Verður einnig að líta til þess að hann hefur fengið flogaveikikast.  Er að þessu virtu rétt að hækka miskabætur til hans samtals um 30%.  Verða honum því dæmdar 1.093.995 krónur undir þessum lið.                  Stefndi hefur greitt stefnanda bætur fyrir varanlega örorku sem hann reiknaði eftir lágmarksviðmiðun 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.  Í þessu ákvæði er fjallað um það sem nefnt er í upphafsorðum 1. mgr. árslaun til ákvörðunar bóta.  Bætur eru reiknaðar eftir tilteknum árslaunum.  Þegar þessi viðmiðun er ákveðin á að leita eftir því sem í lok 2. mgr. er kallað líklegar framtíðartekjur tjónþola.  Skaðabótum vegna varanlegrar örorku er ætlað að bæta tekjutap sem vænta má vegna minni starfsorku, í þessu tilviki engrar starfsorku.  Meta verður hvaða laun stefnandi hefði að óbreyttu haft.  Þannig er fundin sú fjárhæð sem bætt skal.                  Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skulu líklegar framtíðartekjur reiknaðar sem meðaltal atvinnutekna tjónþola síðustu þrjú almanaksárin áður en hann slasaðist, framreiknað með tilteknum hætti.  Á þessi regla ágætlega við um þorra fólks, en gert er ráð fyrir því að tekjur séu tiltölulega jafnar milli ára.  Í 2. mgr. segir að árslaun skuli metin sérstaklega þegar aðstæður eru óvenjulegar og ætla megi að annar mælikvarði sé réttari.  Ágreiningur aðila þessa máls snýst um það hvort unnt er að miða við laun sem vænta má að stefnandi hefði fengið hér á landi, eða hvort miða beri við laun sem hann hafði síðustu árin fyrir slysið, í […].  Stefnandi hefur kosið að segja ekki hvaða laun hann hafði í […].                  Engin haldbær gögn eru til um framtíðaráform stefnanda er hann slasaðist.  Hann hefur sennilega velt ýmsu fyrir sér, eins og títt er um unga menn, en ekki er augljóst hvert hugur hans stefndi.  Þá er hann ekki til frásagnar um hugmyndir þær sem hann gerði sér.  Ekki er hægt að útiloka að stefnandi hefði sest að hér á landi og unnið í byggingavinnu eða öðrum störfum ófaglærðra.  Hann hafði alla möguleika til þess og ekki hægt að búast við öðru en að hann hefði fljótt náð þeim tökum á tungu­málinu að hann gæti bjargað sér vel.  Hann átti hins vegar ekki fjölskyldu hér á landi, foreldrar hans voru búsettir í […].  Fjölskylduaðstæður ungs fólks geta þó breyst með skömmum fyrirvara.                  Þegar haft er í huga að stefnandi hafði einungis verið hér á landi í um sex vikur er ekki hægt að miða áætlun um árslaun við þau laun sem hann hafði fengið hér eða meðallaun verkamanna annars.  Verður stefnandi að bera hallann af því að ekki eru fram komnar nægilega skýrar vísbendingar til að draga af ályktanir.  Verður ekki hjá því komist að notast við lágmarksviðmiðun 3. mgr. 7. gr.  Stefndi hefur þegar greitt bætur fyrir varanlega örorku samkvæmt þeirri viðmiðun og verður því hafnað kröfu um frekari bætur samkvæmt þessum lið.                  Loks deila aðilar um frádrátt vegna bóta er stefnandi fær frá félagsmála­yfirvöldum í […].  Um þetta gildir 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.  Það er ekki alveg nákvæmt þegar stefndi heldur því fram að það sé meginreglan að draga bætur frá þriðjamanni frá skaðabótakröfu.  Það er meginreglan um tjón á munum, en ekki um bætur vegna líkamstjóns.  Ákvæði 4. mgr. 5. gr. er tæmandi og í lokamálsliðnum segir að aðrar greiðslur en þar eru taldar upp verði ekki dregnar frá.  Frádráttarliðirnir eru að sönnu víðtækir, en til þess að draga frá þær bætur er stefnandi fær frá félagsmála­yfirvöldum í […] yrði að beita hér lögjöfnun.  Þegar ákvæðið er skoðað tiltekur það mjög nákvæmlega hvaða bætur skuli dragast frá og er frádráttur að forminu til undantekning, þ.e. ekki er annað dregið frá en það sem talið er upp.  Í því ljósi er ótækt að beita hér lögjöfnun eða rýmkandi lögskýringu.  Verður að skýra ákvæðið eftir orðanna hljóðan og fallast á kröfu stefnanda samkvæmt þessum lið.  Sjónarmið um jafnræði hagga ekki þessari niðurstöðu.                  Í endanlegri kröfugerð stefnanda er krafist eftirstöðva þjáningabóta að fjárhæð 617.337 krónur.  Þessa kröfuliðar er ekki getið í stefnu, en stefndi samþykkti að kröfu­liðurinn kæmist að og mótmælir hann honum ekki.  Verður þessi krafa því tekin til greina.                  Samkvæmt framansögðu verða stefnanda dæmdar hærri miskabætur en hann hefur þegar fengið greiddar, 1.093.995 krónur til viðbótar.  Þá verða bætur hækkaðar um 5.254.408 krónur frá fyrra uppgjöri stefnda, þar sem ekki er fallist á að draga skuli frá bætur frá […] félagsmálayfirvöldum.  Þá eru þjáningabætur hækkaðar eins og áður segir um 617.337 krónur.                  Krafan ber dráttarvexti eins og stefnandi krefst, þó þannig að dráttarvextir af þjáningabótum reiknast frá 16. desember 2013, er sú krafa var fyrst höfð uppi fyrir dómi.  Ekki verður fallist á andmæli stefnda sem byggjast á því að málið hafi legið óhreyft um langt skeið, en stefnandi hefur skýrt frá því að óformlegar viðræður hafi verið í gangi mikinn hluta þess tíma sem leið frá uppgjörinu þar til stefna var birt.                  Fallist er á hluta af kröfum stefnanda, en þeirri sem er hæst er hafnað.  Verður litið til þessa við ákvörðun málskostnaðar.  Stefnandi hefur gjafsókn og er þóknun lögmanns hans ákveðin með virðisaukaskatti 1.500.000 krónur.  Stefndi verður dæmdur til að greiða 500.000 krónur í málskostnað til ríkissjóðs.                  Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.  D ó m s o r ð                 Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda, A, 6.965.740 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 6.348.403 krónum frá frá 10. júní 2009 til 16. desember 2013, en af 6.965.740 krónum frá þeim degi til greiðsludags.                  Þóknun lögmanns stefnanda, 1.500.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.                  Stefndi greiði 500.000 krónur í málskostnað til ríkissjóðs.
Mál nr. 602/2014
Samningur Riftun
Talið var að Æ ehf. hefði verið heimilt að rifta samstarfssamningi félagsins við J ehf., og viðauka við samninginn, sem laut að samstarfi þeirra um framleiðslu og dreifingu á niðursoðinni þorsklifur, en J ehf. bar því við að riftunin hefði verið óheimil og að Æ ehf. hefði bakað sér skaðabótaskyldu vegna hennar. Skírskotað var til þess að það hefði verið ósamrýmanlegt gagnkvæmum tillitsskyldum J ehf. gagnvart Æ ehf. og falið í sér verulega vanefnd af hálfu J ehf. að koma á fót eigin rekstri í beinni samkeppni við Æ ehf. á meðan samningur þeirra var í gildi, en talið var ósannað gegn eindreginni neitun fyrirsvarsmanna Æ ehf. að þeim hefði við samningsgerðina verið kunnugt um að J ehf. hefði hug á að hefja sams konar rekstur í eigin verksmiðju í samkeppni við Æ ehf.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. Dómsorð: Dómur Héraðsdóms Reykjaness 16. apríl 2014. Mál þetta, sem var dómtekið 1. apríl 2014, var höfðað 14. desember 2013. Stefnandi er JS Seafood ehf., Bakkagötu 11, Kópaskeri. Stefndi er Ægir sjávarfang ehf. (áður Ice-W ehf.), Hafnargötu 29, Grindavík. Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur, að fjárhæð 104.659.054 krónur, eða aðra lægri fjárhæð að mati dómsins, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. ml. 4. gr. sömu laga frá 27. febrúar 2013 til 18. desember 2013, en ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga, sbr. 9. gr., frá þeim degi til greiðsludags. Þess er krafist til vara að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda á tjóni stefnanda vegna riftunar stefnda á samstarfssamningi aðila, dags. 15. desember 2011, eins og honum var breytt með viðauka, dags. 7. febrúar 2012. Í báðum tilfellum er krafist málskostnaðar, að skaðlausu, úr hendi stefnda, að mati dómsins.                 Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum gerir stefndi þá kröfu að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu.                 Í þinghaldi 24. febrúar 2014 var ákveðið að skipta sakarefninu þannig að fyrst verði dæmt um það hvort bótaskylda sé fyrir hendi í málinu og ef svo er verði leyst úr ágreiningi um bótafjárhæðina. Er því hér til úrlausnar varakrafa stefnanda, um að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda á tjóni stefnanda vegna riftunar stefnda á samstarfssamningi aðila, dags. 15. desember 2011, eins og honum var breytt með viðauka, dags. 7. febrúar 2012. I. Í stefnu segir að stefnandi sé félag sem hafi verið stofnað í febrúar 2011 og hafi þann tilgang að kaupa og sjóða niður þorsklifur og annað sjávarfang til útflutnings, einkum til Úkraínu og Rússlands. Stefnandi hafi séð viðskiptatækifæri í því að kaupa notuð, uppgerð verksmiðjutæki á hagstæðu verði og flytja til Íslands og hefja rekstur. Hafi stefnandi fest kaup á tækjum fyrir 230 g dósir. Stefndi, sem þá hét Ice-W ehf. og rak niðursuðuverksmiðju í Grindavík, þar sem þorsklifur var soðin niður til útflutnings, hafi haft spurnir af fyrirætlunum stefnanda og haft samband við stefnanda og leitað eftir samvinnu eða samstarfi. Ástæða þess hafi verið sú að tækja­búnaður sá sem stefnandi var að flytja til landsins hafi soðið þorsklifur niður í vinsælar og vel þekktar dósir á mörkuðum í Austur-Evrópu, svokallaðar 230 g „round can“ dósir.                 Samkvæmt gögnum málsins gerðu stefnandi og Ice-W ehf., sem nú heitir Ægir Seafood ehf., með sér samning 15. desember 2011, ásamt G. Ingasyni hf. sem umsýsluaðila. Samningurinn ber yfirskriftina: „Samstarfssamningur um framleiðslu á niðursoðinni lifur í 230 gr. tindósir til Úkraínu og Rússlands ofl. landa.“                  Í téðum samstarfssamningi frá 15. desember 2011 var Ice-W ehf. tilgreindur sem framleiðandi, G. Ingason sem umsýsluaðili og stefnandi samstarfsaðili. Samkvæmt 1. gr. samningsins bar Ice-W ehf. að sjá um framleiðslu og niðursuðu á þorsklifur í 230 g tindósir sem stefnandi útvegaði og flutti inn. Dósirnar skyldu merktar með miðum sem stefnandi útvegaði. Í 2. gr. var framleiðslukostnaður áætlaður með tilteknum hætti og kveðið á um að verð umfram framleiðslukostnað myndi skiptast jafnt á milli Ice-W ehf. og stefnanda. Jafnframt var kveðið á um að endurskoðun á framleiðslukostnaði gæti farið fram ef breytingar yrðu á kostnaðar­liðum. Samkvæmt 3. gr. bar stefnanda að útvega á sinn kostnað umbúðir og tæki til þessarar framleiðslu. Stefnandi átti einnig að útvega eftirlitsaðila, sem yrði á launaskrá hjá Ice-W ehf., og hugsanlega einnig tæknimann ef nauðsyn krefði. Þá var í 4. gr. ákvæði um það hvað Ice-W ehf. ætti að framleiða mikið í hverjum mánuði og að umsýsluaðili annaðist útflutning framleiðslunnar til kaupenda sinna eða til kaupenda á vegum stefnanda. Samkvæmt 5. gr. samningsins var hann gerður til fimm ára og uppsegjanlegur með a.m.k. tólf mánaða fyrirvara fyrir lok samningstímans. Sami fyrirvari átti að gilda ef samningsaðilar vildu framlengja samninginn. Stefnt var að því að framleiðsla gæti hafist í janúar 2012.  Núverandi eigendur festu kaup á Ice-W ehf. hinn 3. febrúar 2012, nú Ægir Seafood. Tækin til framleiðslunnar voru þá ekki komin til landsins og hinn 7. s.m. gerðu aðilar viðauka við samstarfssamninginn frá 11. desember 2011. Með viðaukanum voru gerðar ýmsar breytingar á samstarfi aðila. Nánar tiltekið voru gerðar breytingar á áætluðum framleiðslukostnaði og skiptingu á verði umfram framleiðslu­kostnað, en hann átti að skiptast þannig að stefndi fengi 70% og stefnandi 30%. Ákvæði um endurskoðun á áætluðum framleiðslukostnaði var óbreytt. Umtalsverðar breytingar voru gerðar á 3. gr. samstarfssamningsins. Stefndi átti að kaupa dósirnar og miða fyrir framleiðsluna, í stað stefnanda. Stefnandi átti sem fyrr að útvega tæki til framleiðslunnar, en stefndi átti að greiða sex milljónir króna fyrir hluta af þeim tækjum sem notuð yrðu við framleiðslu á 230 g dósum. Tækjabúnaður vegna framleiðslunnar á 230 g dósum átti að verða sameign stefnda og stefnanda og áttu báðir að eiga forkaupsrétt á hluta hvors annars. Þá var í viðaukanum sett ákvæði um að stefndi gerði ráðningar­samning við Sarunas Raila sem framleiðslustjóra í verksmiðjunni til þriggja ára með sex mánaða uppsagnarfresti af beggja hálfu. Laun yrðu ákveðin í samráði við viðkomandi. Umræddur Sarunas Raila er eigandi stefnanda, ásamt Jóni Erni Jakobssyni. Að öðru leyti en að framan greinir áttu ákvæði samstarfssamningsins frá 11. desember 2011 að vera óbreytt. Sérstakur kaupsamningur var síðar gerður um vélarnar og tækin til niðursuðu, dags. 18. desember 2012. Samkvæmt honum var stefndi kaupandi og stefnandi seljandi. Kaupverðið var sex milljónir króna og skyldi stefndi eignast 45,5% eignarhlut í hinu selda með greiðslu kaupverðsins. Tækin skyldu vera nýtt í starfsemi stefnda. Enn fremur var kveðið á um í kaupsamningnum að aðilar skyldu fara sameiginlega með eignaryfirráð yfir tækjunum og taka í sameiningu allar meiri háttar ákvarðanir, þ. á m. ákvörðun um að veðsetja tækin.              Með yfirlýsingu 27. febrúar 2013 lýsti stefndi yfir riftun á samningi aðila vegna meintra vanefnda stefnanda. Í yfirlýsingunni er vísað til þess að stefndi hafi farið þess á leit að endurskoðun á söluverði og framleiðslukostnaði yrði gerð, sbr. 2. gr. samnings aðila, en stefnandi hafi hafnað því. Vegna þeirrar afstöðu væru forsendur brostnar fyrir frekara samstarfi. Einnig var riftunin byggð á því að stefnandi og G. Ingason hf. ætluðu að koma á fót verksmiðju á Kópaskeri og hefja starfsemi í beinni samkeppni við stefnda, en samstarfs­samningurinn hefði aldrei verið gerður hefði þessi staða verið uppi og taldi stefndi sig ekki þurfa að una við þá hagsmunaárekstra sem fælust í þessari nýju stöðu. Enn fremur var byggt á því að starfsmanni stefnanda, Sarunas Raila, sem sinnti störfum fyrir stefnda, hefði áskotnast upplýsingar um birgja, framleiðsluferli, viðskiptavini og samninga stefnda sem kynnu að nýtast stefnanda í beinni samkeppni hans við stefnda. Stefndi taldi sig ekki þurfa að una við að trúnaðarupplýsingar stefnda bærust með framangreindum hætti til stefnanda. Í máli þessu heldur stefnandi því fram að stefnda hafi verið fullkunnugt um að stefnandi væri að flytja tvær verksmiðjur til landsins og hugðist reisa aðra þeirra á Kópaskeri, eftir að hinni hefði verið ráðstafað til reksturs stefnda í Grindavík á grundvelli samnings aðila. Stefndi kveðst fyrst hafa heyrt af áformum stefnanda um aðra verksmiðju þegar unnið hafi verið að því að koma tækjunum fyrir starfsemi stefnda til landsins í janúar 2012, en þá hefði komið í ljós að stefnandi hefði pantað tvö sett af tækjunum og hygðist hefja eigin rekstur samhliða samstarfssamningnum við stefnda. Framkvæmdastjóri stefnda hefði þá tjáð stefnanda að hann liti svo á að þessi áform stefnanda fælu í sér algeran forsendubrest fyrir samstarfi aðila. Í framhaldinu hefði framkvæmdastjóri stefnda verið upplýstur um að stefnandi hefði látið af þessum áformum sínum og þetta hefði ekki verið frekar rætt fyrr en Sarunas Raila lét af störfum í febrúar 2013 til að stofna nýja lifrarniðursuðu á Kópaskeri á vegum stefnanda. Stefnandi mótmælti riftunaryfirlýsingu stefnda með bréfi 9. mars 2013. Í bréfinu segir að hann telji enga heimild standa til riftunar á samstarfssamningi aðila og að stefnandi héldi samningnum að stefnda og að hann ætli samninginn í fullu gildi. Þá hafnaði stefnandi öllum ásökunum um vanefndir af hans hálfu. Skoraði stefnandi á stefnda að afturkalla riftunaryfirlýsinguna og kvaðst stefndi vilja leita eftir samkomulagi í málinu. Þá skoraði stefnandi á stefnda hinn 12. júní 2013 að draga riftunaryfirlýsinguna til baka, ella myndi stefnandi höfða mál á hendur stefnda. Með bréfi sama dag krafði stefnandi G. Ingason ehf., umsýsluaðila samstarfssamnings aðila, um fjármuni sem félagið hélt vegna innheimtu söluverðs, 5.247.860 krónur, og mun G. Ingason ehf. hafa greitt stefnanda þessa kröfu, þrátt fyrir að stefndi hefði mótmælt því að það yrði gert. Fram kemur í tölvuskeyti lögmanns stefnda 9. apríl 2013 að stefndi hefði gert stefnanda munnlegt sáttatilboð um það hvernig aðilar gætu haldið áfram samstarfi en því hafi ekki verið svarað af hálfu stefnanda. Voru tillögur stefnda settar fram í téðu tölvuskeyti. Með tölvuskeyti lögmanns stefnda 13. júní 2013 var svo skorað á stefnanda að upplýsa hvernig hann ætlaði að uppfylla samningsskyldur sínar. Áskorun þessi var ítrekuð með bréfi lögmanns stefnda 30. júlí 2013. Stefnandi svaraði ekki þessum erindum og höfðaði mál þetta.  II                 Verða nú rakin helstu atriði í aðilaskýrslum fyrir dómi og vitnaskýrslum.  Jón Örn Jakobsson, stjórnarmaður stefnanda, var spurður hvort stefnandi hefði útvegað eftirlitsmann og tæknimann í samræmi við ákvæði samstarfssamningsins og sagði hann að það hefði verið gert. Vélarnar hefðu verið keyptar af erlendum aðila sem hefði sett þær upp og útvegað vélamann sem hafi orðið eftir á Íslandi og eftirlitsaðila. Spurður um ástæðu riftunar stefnda sagði Jón Örn að stefndi hefði farið fram á endurskoðun á kostnaðarverði dósanna, en samstarfs­samningurinn hafi verið byggður á því að reiknað hafi verið út ákveðið kostnaðarverð og það sem hafi verið umfram kostnaðarverð á dósunum hafi verið skipt í ákveðnum hlutföllum. Stefndi hafi viljað fá hærra kostnaðarverð pr. dós. Stefndi hafi verið beðinn um útreikninga á því en þeir hafi ekki verið lagðir fram. Stefnandi hefði hins vegar sýnt fram á að kostnaðarverðið samkvæmt samningnum hafi verið nægilegt og stefnandi hafi ekki viljað breyta kostnaðarverðinu nema stefndi færði fram rök fyrir því. Einnig sagði Jón Örn að önnur ástæða riftunar hefði verið sú að stefnandi ætlaði að setja upp aðra niðursuðuverksmiðju, en hann hefði ekki talið það ástæðu til riftunar, enda hefði alltaf verið vitað að stefnandi ætlaði að setja upp aðra verksmiðju og hún væri hinum megin á landinu. Jafnframt sagði hann að það væru sex verksmiðjur á landinu og að stefnandi hafi ekki ætlað að sækjast eftir lifur í Grindavík. Jafnframt sagði hann að Sarunas hefði rætt það við fyrri eigendur Ice-W ehf. að það stæði til hjá stefnanda að setja upp aðra verksmiðju. Fram kom að stefnandi hefði ekki útvegað kaupendur að framleiðslunni samkvæmt samstarfssamningnum heldur hefði umsýsluaðilinn, G. Ingason hf., og stefndi valið hverjum þeir vildu selja vöruna. Einnig kom fram að stefnanda væri kunnugt að markaðsverð á þorsklifur hefði hækkað verulega. Á þeim tíma sem stefndi fór fram á að kostnaðarverð á dósunum yrði endurskoðað, haustið 2012, hefði markaðsverð á þorsklifur hins vegar enn ekki hækkað og það hefði ekki staðið á stefnanda að endurskoða verðið ef stefndi hefði sýnt fram á að hann væri með aukinn kostnað. Jóni Erni voru kynnt gögn um verðhækkanir á þorsklifur og svaraði hann því til að þegar kostnaðarverðið á framleiðslunni í samstarfssamningnum hefði verið reiknað út hafi verið haft mjög ríflegt verð fyrir lifrina og þó verðið á lifrinni hefði verið enn hærra en það var hafi kostnaðarverðið samt verið nægilega hátt í samningnum til þess að dekka þann kostnað sem hafi þurft til framleiðslunnar. Jón Örn kvaðst aldrei hafa séð neina kostnaðarútreikninga frá stefnda. Jón Örn sagði að hann hefði sagt fyrri eiganda Ice-W ehf. frá áformum stefnanda um að reisa aðra verksmiðju. Hann kvaðst ekki muna hvenær núverandi framkvæmdastjóri stefnda hefði frétt af því fyrst en þetta hefði aldrei verið neitt leyndarmál. Inntur eftir ástæðu þess að Sarunas hætti að starfa fyrir stefnda sagði Jón Örn að hann hefði litið svo á að Sarunas hafi átt að fylgja framleiðslunni úr hlaði, en hann hafi haft mikla þekkingu á niðursuðu. Sarunas hefði unnið í verksmiðjunni í Grindavík í einhvern tíma og haft í huga að vinna þar áfram en átt í einhverjum samstarfsörðugleikum við Ingvar, framkvæmdastjóra stefnda. Sarunas hefði svo farið að vinna hjá stefnanda, en hann væri þar eigandi. Spurður hvernig samstarf aðila hafi átt að þróast eftir að stefnandi kom á fót verksmiðjunni á Kópaskeri, s.s. varðandi tilboð í þorsklifur á markaði o.þ.h., sagði Jón Örn að það hefði verið talað um það að stefnandi myndi ekki bjóða í lifur í Grindavík og hjá þeim viðskiptavinum sem stefndi keypti lifur af. Jón Örn var þá spurður hvort aðilar hafi ætlað að hafa samráð um að skipta með sér markaðnum og sagði hann þá að það væru sex eða sjö verksmiðjur í landinu og „það eru allir að keppa við alla náttúrulega“ og þetta væri eins og með fiskvinnslu, það væru allir að keppa um hráefni á landinu. Það hefði verið talað um að stefnandi myndi alla vega skilja eftir viðskiptavini stefnda í Grindavík, en þetta hefði ekki verið rætt í smáatriðum. Spurður hvernig samstarf aðila hafi átt að ganga fyrir sig, hefði riftunar­yfirlýsing stefnda verið dregin til baka eins og stefnandi gerði kröfu um, sagði Jón Örn að samstarfið hefði átt að halda áfram eins og það var, að óbreyttum forsendum. Það hefði verið hægt að endurskoða kostnaðarverðið en þá hefðu þurft að vera rök fyrir því að hækka kostnaðarverðið. Þá greindi Jón Örn frá því að það væri hægt að framleiða meira en gert er í verksmiðju stefnanda á Kópaskeri og að vonir stæðu til þess.                 Sarunas Raila, varastjórnarmaður stefnanda, kvaðst hafa hafið störf hjá stefnda í apríl eða byrjun maí 2012. Eftir að hann hefði starfað þar í um tvo mánuði hafi hann farið í sumarfrí og byrjað aftur í lok ágúst. Hann hefði svo alveg hætt að starfa þar í janúar 2013. Ástæða starfsloka hans hafi verið sú að hann hefði ekki fengið greidd laun fram að þeim tíma sem hann fór í sumarfrí, þ.e. fyrir maí og júní 2012. Fram kom að hann starfaði hjá stefnda sem framleiðslustjóri. Sarunas kvaðst ekki hafa byrjað að vinna í verksmiðjunni hjá stefnanda á Kópaskeri fyrr en fjórum mánuðum eftir að hann hætti störfum hjá stefnanda en í millitíðinni hafi hann verið atvinnulaus. Spurður hvort þekking sem hann hafi aflað sér hjá stefnda um birgja og kaupendur að vörunni hafi nýst honum í störfum sínum hjá stefnanda svaraði hann því til að hann hefði komið með sína reynslu til stefnda og upphaflegi samstarfssamningurinn hefði verið gerður við fyrri eigendur Ice-W ehf. Nýr eigandi Ice-W ehf. hafi viljað fá hann í fyrirtæki sitt til að hjálpa honum og vinna hjá honum. Aðspurður kannaðist Sarunas við að hann hefði verið mjög mikilvægur fyrir stefnda.                 Ingvar Vilhjálmsson, núverandi framkvæmdastjóri stefnda, greindi frá því að hafa komið að Ice-W ehf. í ársbyrjun 2012. Þá hafi umræddur samstarfssamningur legið fyrir og verið hluti af kaupunum á félaginu. Ingvar kvaðst hafa í janúar 2012 grennslast fyrir um stöðu mála og hitt Guðmund Ingason, sem hefði haft milligöngu um samninginn, og verið tjáð að einhverjar vöflur væru á stefnanda. Ingvar kvaðst hafa hitt Sarunas hjá Guðmundi og Sarunas sagt að stefnandi væri hugsanlega með önnur áform. Í kjölfarið hafi verið gerður viðauki við samstarfssamninginn svo að stefnandi gæti efnt hann, þ.e. flutt tækin heim. Þá hafi stefndi þurft að taka á sig þá skyldu að kaupa dósirnar og lagt hafi verið að stefnda að ráða Sarunas sem gæðastjóra. Tækin hefðu ekki komið til landsins fyrr en í lok maí eða byrjun júní 2012 og verið sett upp í verksmiðju stefnda í júní og svo hafi byrjað sumarfrí og í raun hafi framleiðsla ekki hafist fyrr en í lok ágúst. Spurður hvort það hefði komið til tals að stefnandi hefði uppi ráðagerðir um að fara í sambærilega framleiðslu sagði Ingvar að svo hefði ekki verið á þessum tímapunkti. Það hefði komið miklu seinna fram að stefnandi ætti önnur tæki og hann hefði gert fyrirsvarsmönnum stefnanda strax ljóst að stefnda hugnaðist það ekki og það væri ekki í anda samstarfssamnings aðila. Honum hefði þá verið tjáð að stefnandi hefði látið af þessum áformum sínum. Jafnframt sagði hann að samskipti hefðu verið við Sarunas og Guðmund Ingason og það hefði ekki verið vitað fyrr en á seinni stigum að Jón Örn ætti aðkomu að stefnanda, þ.e. ekki fyrr en tækin komu til landsins í lok maí. Þá lýsti Ingvar því hvernig kostnaður við framleiðsluna hefði hækkað, t.d. kaup á hráefni og launakostnaður, og að hann hefði talað fyrir daufum eyrum að kostnaðarverðið samkvæmt samstarfssamningnum yrði endur­skoðað. Jafnframt sagði hann að markaðurinn sem stefndi selur vörur sínar á, Austur Evrópa, væri þekktur fyrir að borga ekki mjög hátt verð. Stefnda hefði því ekki tekist að ná hækkunum fram í afurðaverði og á árinu 2013 hafi dósin verið orðin óhagkvæm í framleiðslu. Þá greindi Ingvar frá því að stefnandi hefði ekki komið að öflun hráefnis og ekki verið með kaupanda. Stefnandi hefði talið sig hafa kaupanda en hann hafi borgað miklu lægra verð en aðilar sem umsýsluaðili hafði. Stefnandi hefði heldur ekki útvegað dósir. Hlutverk stefnanda eftir að Sarunas fór hafi því í raun ekki verið neitt. Þá sagði Ingvar að gæðaeftirlitsmaður á vegum stefnanda hefði komið í byrjun júní 2012 og verið í einhverja daga í framleiðslunni en svo hafi komið í ljós að eftirlitsmaðurinn hafi ekki haft menntun til að votta vöru fyrir aðra kaupendur en á þeirra vegum. Jafnframt sagði Ingvar að meðan Sarunas starfaði hjá stefnda hafi hann verið gæðastjóri og hann hafi setið alla fundi með erlendum kaupendum. Hann hefði verið lykilmaður hjá stefnda. Starfslok Sarunas hefði borið tiltölulega brátt að. Í ársbyrjun 2013 hafi Sarunas tjáð honum að hann yrði ekki mikið lengur hjá stefnda og þá hafi hann sagt að hann væri með áform um að setja upp aðra verksmiðju. Ingvar kvaðst hafa haldið að það væri fyrir einhvern annan aðila en svo hafi hann frétt að stefnandi væri að setja upp verksmiðju á Kópaskeri. Þá kom fram hjá Ingvari að markaður erlendis fyrir niðursoðna þorsklifur hefði verið hagfelldur en það væri að breytast vegna mikillar samkeppni, en framboð á þorsklifur annaði ekki eftirspurn. Ingvar var spurður af hverju ekki hafi verið tekið á áformum stefnanda um að koma á fót annarri verksmiðju í viðaukanum frá 7. febrúar 2012 og kvaðst hann hafa treyst því sem þeim hefði farið á milli í janúar 2012. Ingvar kvaðst hafa verið upplýstur í janúar 2012 um að stefnandi ætti tvö sett af tækjum en hann hefði ekki verið upplýstur um að stefnandi ætlaði að setja þau upp heldur hafi honum verið sagt að stefnandi ætlaði að falla frá því að taka þau tæki til landsins, vegna þess að aðilar hefðu gert umræddan samning og að Sarunas hefði sagt að hann ætlaði að selja þessi tæki aftur. Spurður hvort hann hefði lagt fram útreikninga til stuðnings því að endurskoða ætti kostnaðarverðið kvaðst hann ekki hafa sýnt excel-skjalið sem beðið hafi verið um. Vísaði hann til þess að gögn hefðu verið lögð fram fyrir dómi sem sýna hækkun á hráefnisverði og öðru.    Vitnið Guðmundur Ingason, framkvæmdastjóri G. Ingasonar hf., skýrði frá því að hafa aðstoðað frænda sinn, Óttar Oweby, fyrrverandi stjórnarformann Ice-W ehf., frá því hann keypti Ice-W ehf. Vitnið sagði að samningaviðræður um samstarfs­samning hefðu verið við Sarunas og vitnið hefði ekki áttað sig á því að JS Seafood hafi í raun verið viðsemjandinn. Jón Örn hefði ekki komið að málinu fyrr en eftir að samningarnir tveir hefðu verið gerðir. Jón Örn og Ingvar, nýr eigandi Ice-W ehf., hafi virst ekki geta unnið saman og umræddur samstarfs­samningur farið í baklás. Þá kom fram hjá vitninu að Ingvar hefði borið við auknum framleiðslukostnaði, nánar tiltekið hærri hráefniskostnaði, en Jóni Erni hafi hins vegar fundist gjaldið í samningi aðila ríflegt. Vitnið kvaðst hafa reynt að miðla málum en án árangurs. Jafnframt sagði vitnið að það hefðu ekki verið margir fundir um þetta, kannski tveir eða þrír, en vitnið hefði ekki verið á þeim fundum. Vitnið sagði jafnframt að því hefði fundist vanta að boðað hefði verið til fundar með formlegum hætti með öllum aðilum samningsins, þar sem hægt hefði verið að fara í gegnum það hvernig væri hægt að laga þetta, í stað þess að fara í málaferli. Spurt hvort krafa stefnda um endurskoðun hefði verið ósanngjörn sagði vitnið að það teldi ekki svo vera. Þá kom fram að vitnið héldi eftir hlut stefnanda samkvæmt samningi aðila á meðan mál þetta er rekið og að 40.000 evrur væru á reikningi sem væru ætlaðar stefnanda. Einnig greindi vitnið frá því að samkeppni verksmiðja hér á landi um hráefni hafi aukist mjög og að það væri ekki alltaf hægt að velta auknum kostnaði á kaupanda vörunnar. Vitnið Birkir Kristjánsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Ice-W ehf., greindi frá því að haustið 2011 hefði Sarunas boðið samning. Vitnið kvaðst ekki muna hvor aðilinn hafi haft frumkvæði að samningnum og sagði vitnið að það hefði ekki komið að samningagerðinni. Þá sagði vitnið að það hefði haldið að Sarunas hefði verið samningsaðili en ekki JS Seafood, stefnandi máls þessa. Spurt hvort vitnið hefði við samningsgerðina vitað að Sarunas ætlaði sjálfur, eða í félagi við aðra, að flytja inn tæki í aðra verksmiðju sagði vitnið að eftir á hefði verið talað um að Ice-W ehf. ætti að fá tæki sem ættu að fara í einhverja aðra verksmiðju á Kópaskeri, en Ice-W ehf. hefði haft forgang. Aðalatriðið fyrir Ice-W ehf. hafi verið að fá tækin og geta hafið framleiðslu. Afhending tækjanna hefði dregist og vitnið hefði hætt hjá Ice-W ehf. áður en framleiðsla hófst. Nánar tiltekið hefði vitnið hætt í febrúar 2012 þegar nýir eigendur tóku við og vitnið hefði ekki komið að viðauka sem gerður var við samstarfs­samninginn. Vitnið Zilvinas Capas, framkvæmdastjóri Sekantis Zingsnis UAB, staðfesti yfirlýsingu, dags. 7. febrúar 2014, sem lögð hefur verið fram í málinu, þar sem fram kemur að stefnandi keypti vélar af fyrirtækinu og að fyrirtækið hefði að beiðni stefnanda sent vélamann til Íslands til að starfa hjá Ice-W ehf. Einnig hefði fyrirtækið sent eftirlitsaðila, Tamara Bachcevnikova, til að vinna hjá Ice-W ehf. Eftirlitsaðilinn hafi starfað þar frá miðjun maí til júlí 2012, en eftir það hafi Ice-W ehf. ekki viljað fá hana aftur til starfa heldur viljað sjá sjálft um gæðaeftirlit. Spurt um menntun Tamöru sagði vitnið að hún væri háskólamenntuð en gat ekki sagt hver menntun hennar væri.   Vitnið Darius Genutis vélstjóri skýrði frá því að hann hefði verið sendur á vegum Sekantis Zingsnis UAB til að vinna hjá Ice-W ehf., en hann hefði hætt þar í maí 2013 og farið að vinna hjá stefnanda. Um ástæðu þess að vitnið hætti hjá Ice-W ehf. sagði vitnið að það hefði verið vegna lágra launa.    Vitnið Friðrik Björnsson, starfsmaður stefnda, sagði að Sarunas hafi átt að vera gæðastjóri hjá stefnda en hann hafi horfið dag einn án nokkurs fyrirvara. Þá sagði vitnið að Tamara hafi átt að vera gæðastjóri fyrir einhvern kaupanda en hún hefði starfað stutt hjá stefnda.  Vitnið Guðmundur Davíðsson, framkvæmdastjóri Ican ehf., sem rekur niðursuðuverksmiðju í Sandgerði, greindi frá því að verulegar hækkanir hafi orðið á hráefni og að mikil samkeppni sé um lifur og að nánast sé barist upp á líf og dauða um hverja lifur. Þá kvaðst vitnið hafa fundið verulega fyrir því þegar stefnandi setti upp verksmiðjuna á Kópaskeri og að stefnandi hafi sótt í hráefnismarkaðinn bæði í Hafnarfirði, Sandgerði, Bolungarvík o.fl.  Vitnið Hólmgrímur Sigvaldason, framkvæmdastjóri HSS fiskverkunar ehf., greindi einnig frá því að það væri aukin samkeppni um lifur og að stefnandi hafi sóst eftir lifur hjá vitninu. III.                 Stefnandi heldur því fram í stefnu að hann eigi rétt á efndabótum þar sem stefndi hafi vanefnt samningsskyldur sínar. Stefnandi byggir á því að komist hafi á bindandi samn­ingur á milli aðila sem feli í sér skuldbindingu af hálfu stefnda um að framleiða 200.000 stk. af 230 g dósum af niðursoðinni þorsklifur í mánuði hverjum og skipta hagnaði af hverri dós með stefnanda og gildi sú skuld­binding til fimm ára frá undirritun samningsins.  Stefnda hafi verið óheimilt að rifta samningnum, enda hafi engar lögmætar ástæður legið að baki riftuninni. Þær riftunarástæður sem stefndi telji upp í yfirlýsingu sinni séu tylliástæður og eigi hvorki stoð í samningi aðila né lögum. Í fyrsta lagi hafi stefndi byggt riftun sína á því að stefnendur hafi hafnað að endurskoða söluverðið á grundvelli 2. gr. samningsins. Það sé rangt því að samningurinn hafi þá þegar verið endurskoðaður einu sinni, þ. á m. varðandi söluverð, með viðauka, dags. 7. febrúar 2012. Þá hafi ekki hvílt á stefndu nokkur skylda til þess að verða við kröfum stefnda um endurskoðun, enda segi í 2. gr. samningsins, eins og honum hafi verið breytt með viðauka, dags. 7. febrúar 2012: „Endurskoðun á söluverði getur farið fram ef …“ Í öðru lagi hafi stefndi byggt riftun sína á því að stefnendur hyggi á starfsemi í beinni samkeppni við stefnda með rekstri á sambærilegri verksmiðju á Kópaskeri. Haldlaust sé fyrir stefnda að byggja riftun á fyrrgreindri  ástæðu, enda hafi honum verið fullkunnugt um áform stefnanda um rekstur verksmiðju á Kópaskeri þegar gengið var til samninga. Þá álítur stefnandi að rekstur hans á Kópaskeri sé alls ekki í samkeppni við stefnda enda á allt öðru markaðssvæði og landfræðilega gætu verksmiðjur aðila vart verið lengra hvor frá annarri. Síðast en ekki síst þá sé ekkert samkeppnishamlandi ákvæði í samningi aðila og stefnanda því frjálst að stunda þann atvinnurekstur sem hann kjósi án þess að áhrif hafi á gilda samninga hans við stefnda. Í þriðja lagi hafi stefndi byggt riftun sína á því að Sarunas Raila, sem starfi hjá stefnanda, hafi í störfum sínum fyrir stefnda komist að einhverjum óskilgreindum trúnaðarupplýsingum sem stefndi þurfi ekki að sæta að berist til samkeppnisaðila. Stefnandi kveðst algjörlega hafna þessari röksemdafærslu og í raun snúi stefndi öllu á hvolf. Í reynd hafi stefndi aflað sér trúnaðarupplýsinga frá Sarunas, enda hafi hann haft yfirumsjón með uppsetningu tækjabúnaðar stefnanda í starfstöð stefnda og rekið verksmiðjuna þangað til helstu vankantar höfðu verið sniðnir af henni. Fyrirsvarsmenn stefnda hafi ekki búið yfir nokkurri þekkingu um reksturs slíks búnaðar fyrr en Sarunas hafi kennt þeim það. Þá beri þess og að geta að í viðauka við samstarfs­samning aðila, dags. 7. febrúar 2012, hafi stefndi skuldbundið sig til þess að gera ráðningarsamning við Sarunas með samþykki stefnanda sem vinnuveitanda Sarunas. Það hafi stefndi hins vegar látið undir höfuð leggjast og því aldrei komist á ráðningarsamband milli stefnda og Sarunas. Sarunas hafi því eftir sem áður verið starfsmaður stefnanda og hafi engum trúnaðarskyldum gegnt gagnvart stefnda. Þessari riftunarástæðu stefnda sé því harðlega mótmælt. Þá komi fram í riftunaryfirlýsingu stefnda að samningur aðila hafi verið ótímabundinn. Því mótmælir stefnandi sérstaklega sem röngu, enda komi skýrt fram í samningnum sjálfum að hann hafi verið tímabundinn til fimm ára hið minnsta. Vanhöld stefnda á því að framleiða umsamið magn af tegundarákveðinni vöru og skipta hagnaði með stefnanda fari í bága við meginreglu samninga­réttar um að samningar skuli standa og efna skuli loforð. Með því hafi skapast bótaréttur fyrir stefnanda á grundvelli reglna um efndabætur. Samningi aðila hafi verið markaður gildistími í fimm ár hið minnsta og stefnandi hafi mátt gera ráð fyrir og haft réttmætar væntingar til þess að stefndi myndi framleiða umsamda vöru og magn, auk þess að skipta hagnaði með stefnanda eins og um hafi verið samið á gildistíma samningsins. Gerð sé krafa um að stefndi bæti stefnanda tjón hans svo að stefnandi verði eins settur og ef samningurinn hefði verið réttilega efndur. Því miðist dómkrafan við missi hagnaðar á samningstímanum.  Í stefnu er gerð grein fyrir útreikningi á kröfunni, en ekki er ástæða til að rekja útreikninginn hér þar sem á þessu stigi málsins er aðeins til úrlausnar hvort skaðabótaskylda stefnda sé fyrir hendi. Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna skaðabótaréttar um efndabætur, sem og til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi loforða. Krafa um vexti og dráttarvexti byggist á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Upphafsdagur dráttarvaxta miðast við þingfestingardag. Krafa um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, aðallega 129. og 130. gr. IV.                 Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að riftun hafi verið lögmæt og að skilyrði fyrir bótaskyldu séu ekki fyrir hendi. Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi vanefnt samninginn og forsendur samstarfsins hafi brostið. Samstarfssamningurinn hafi falið í sér ramma um samstarf samningsaðilanna sem ætlað hafi verið til langs tíma. Eðli málsins samkvæmt hvíli rík tillits- og trúnaðarskylda á aðilum slíks samnings. Auk þess sé samningurinn fáorður og nánast óframkvæmanlegur nema samningsaðilar vinni að samningsmarkmiðum í góðri trú. Riftun stefnda hafi grundvallast á því að stefnandi hafi vanefnt samnings­skuldbindingar sínar verulega og brotið gegn tillits- og trúnaðarskyldum í meiri háttar atriðum, og hafi því verið fyllilega lögmæt. Í fyrsta lagi hafi samningsaðilum borið að endurskoða í góðri trú áætluð verð í samstarfs­samningnum. Samningurinn kveði afdráttarlaust á um það hvernig framlegð framleiðslunnar skuli skipt á milli aðilanna þar sem segi í 3. gr. að „verð umfram framleiðslu­­kostnað skiptist á milli framleiðanda og samstarfsaðila þannig að framleiðandi fær 70% og samstarfsaðili 30%.“ Til þess að uppfylla þennan skýra og afdráttarlausa lykilskilmála í samningnum hafi vitaskuld þurft að aðlaga reglulega útreikning á kostnaðarþáttum og markaðsverð vörunnar. Verðin sem sett eru fram í ákvæðinu séu því að sjálfsögðu áætluð, eins og í samningnum komi skýrt fram. Hinum áætluðu verðum hafi augljóslega ekki verið ætlað að standa til frambúðar óháð þróun verðlags og aðstæðna á markaði. Enda sé kveðið á um endurskoðun kostnaðar­liða við breyttar aðstæður. Sú hækkun sem hafi orðið á markaðsverði lifur í febrúar 2013, þ.e. u.þ.b. 10%, teljist veruleg og ótvírætt tilefni fyrir endurskoðun. Þá hafi laun þennan febrúarmánuð hækkað um 3,25%, auk þess sem almennt verðlag hafi hækkað. Þar sem áætlaður framleiðslukostnaður hafi ekki verið leiðréttur hafi verið ókleift að afreikna framlegð framleiðslunnar miðað við hina umsömdu hagnaðar­skiptingu (70/30). Stefndi útskýrir þetta með dæmi á framlögðu skjali þar sem reiknuð sé út hlutdeild stefnanda í afrakstri af sölu 80.640 dósa í janúar 2013 með þeim skilningi sem lagt sé upp með af stefnanda. Þar sé söluverð hverrar dósar EUR 0.99 að frádregnum sölukostnaði. Framlegð af hverri sölu sé áætluð EUR 0.31 miðað við áætlaðan framleiðslukostnað EUR 0.68 per dós, þar af séu EUR 0.093 (30% af reiknaðri framlegð) þá útreiknaður hluti stefnanda af sölu hverrar dósar. Framlegð sölunnar hafi hins vegar í reynd verið minni því að framleiðslukostnaður hafi hækkað um u.þ.b. 10% eins og rakið hafi verið. Ef framleiðslukostnaður hefði verið leiðréttur miðað við breyttar forsendur hefði verið réttara að áætla framleiðslukostnað u.þ.b. EUR 0.75 per dós og útreiknuð framlegð af hverri dós hefði verið EUR 0.24 og hlutdeild stefnanda af framlegð hverrar dósar EUR 0.072. Í janúarmánuði hafi því rangar forsendur í afreikningi verið farnar að leiða til þess að stefnandi hafi fengið í sinn hluta tæplega 30% hærri fjárhæð en samningar aðila um hagnaðarskiptingu gerðu ráð fyrir. Í annan stað hafi stefnandi vanrækt mikilvægar samningsskyldur sínar. Stefnandi hafi enga aðkomu haft að öflun hráefnis eða fjármögnun hráefniskaupa, sem hafi alfarið og einvörðungu verið á hendi stefnda, þrátt fyrir sameiginlega ábyrgð samstarfs­aðilanna á þessu lykilverkefni. Í þriðja lagi hafi stefnandi ekki aflað viðskiptavina en það hafi verið skylda stefnanda í samstarfinu samkvæmt 4. gr. samningsins. Að lokum hafi brostið forsendur fyrir samstarfi með óbreyttu sniði þegar ljóst hafi verið að stefnandi hygðist hefja samkeppnisrekstur í nýrri verksmiðju. Hagsmuna­­árekstrarnir sem hafi skapast með þessari ákvörðun stefnanda séu þess eðlis að stefnda hafi ekki verið skylt að una við stöðuna. Eitt að því sem þurfi að hafa í huga sé að framboð hér á landi af þorsklifur til niðursuðu sé  takmarkað, eins og fram komi t.d. í ummælum framkvæmdastjóra Lýsis hf. í frétt DV 17. janúar 2014, sem lögð hefur verið fram í málinu. Samkeppni um hráefni til framleiðslunnar sé mikil og hafi farið harðnandi. Enda hafi komið á daginn að stefnandi hafi ítrekað reynt að ná til sín viðskiptamönnum/birgjum stefnda, þar á meðal á Reykjanesi. Ummæli í stefnu um að verksmiðjurnar starfi á sitt hvorum markaðnum séu því hæpin í meira lagi. Einnig segir stefndi að samstarfssamningur keppinauta á markaði um framleiðslu og innkaup hráefnis geti varðað við 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Hér verði að hafa í huga að fáir aðilar á innlendum markaði keppi um þá fersku þorsklifur sem sé í boði á hverjum tíma, en aðilar sem kaupi þessa vöru í umtalsverðu magni á innlendum markaði séu 5-6 talsins. Því verði að teljast líklegt að áframhaldandi samstarf teldist beinlínis ólögmætt. Þá hafi formálalaust brotthvarf Sarunas Raila verið skýlaust samningsbrot. Sarunas hafi í störfum sínum fengið aðgang að lykilupplýsingum um rekstur stefnda, svo sem um birgja, viðskiptamenn, framleiðsluaðferðir o.fl. Í stefnu sé því haldið fram að Sarunas Raila hafi ekki verið starfsmaður stefnda og engar trúnaðarskyldur borið gagnvart stefnda. Þó sé staðfest að Sarunas hafi gegnt lykilhlutverki í verksmiðju stefnda þar til hann hafi horfið skyndilega til starfa í verksmiðju stefnanda. Upplýsingar um launagreiðslur til Sarunas Raila séu enn fremur lagðar fram í málinu, þ.e. launamiði og launaseðlar. Ummæli í stefnu um þennan þátt standist því ekki. Stefndi kveður að gerð skriflegs ráðningarsamnings sé ekki skilyrði fyrir því að ráðningarsamband teljist hafa stofnast að lögum. Jafnframt sé rétt að ítreka að frá upphafi samstarfs stefnda og stefnanda hafi það verið ljóst að það hafi verið forsenda af hálfu stefnda að stefnandi myndi ekki hefja sams konar rekstur. Enda liggi í eðli málsins að samstarf við þær aðstæður sé bundið meiri háttar vandkvæðum og sé háð alvarlegum hagsmunaárekstrum. Enn fremur byggir stefndi á því að samstarfssamningurinn hafi hvorki verið verksamningur né kaupsamningur og sé óframkvæmanlegur nema samningsaðilar vinni að markmiðum hans í góðri trú. Í stefnu sé byggt á verulegri rangtúlkun á eðli og tilgangi þess samnings sem hér er til umfjöllunar. Á því virðist byggt að á stefnda hafi hvílt skylda um afhendingu á tiltekinni vöru í tilteknu magni, eins og um væri að ræða verksamning eða kaupsamning. Allur málatilbúnaður stefnanda í stefnu litist af þessari rangtúlkun. Samstarfs­­samningurinn sé af sama meiði og svokallaðir „joint venture“ samningar þar sem tveir eða fleiri aðilar taki saman höndum um tiltekið verkefni til þess að ná í sameiningu tilteknum árangri eða markmiðum. Af þessum sökum, og í ljósi þess hve fáorður samningurinn sé, hafi tillits- og trúnaðarskyldur aðilanna sérstakt vægi. Samningurinn sé beinlínis óframkvæmanlegur ef aðilar hans vinni ekki að markmiðum hans og tilgangi í góðri trú. Á því hafi hins vegar orðið verulegur misbrestur af hálfu stefnanda og því hafi riftun verið óhjákvæmileg. Stefndi telur að túlkun stefnanda á samningsskilmálum fái ekki staðist og stríði gegn viðteknum venjum um samningstúlkun. Sú regla gildi um túlkun samninga að gerðar séu sérstakar kröfur til skýrleika ákvæða sem að mati samningsaðila feli í sér óvenjulega hagstæð samningskjör í hans þágu. Stefnandi byggi á því að upphafleg fjárfesting hans í tækjakosti fyrir framleiðslu á 230 g dósum (langt innan við 10 milljónir króna) veiti skýlausan rétt til fastra greiðslna frá stefnda í fimm ár. Stefnandi byggi á því að samningurinn feli í sér að hann njóti réttar til viðvarandi greiðslna frá stefnda án þess að þurfa að leggja til framlag af sinni hálfu til framleiðslunnar á gildistíma samningsins, en að stefnda beri að afla hráefnis, fjármagna hráefniskaup, útvega og fjármagna umbúðir og dósir fyrir framleiðsluna, framleiða vöruna, standa að og fjármagna flutning vörunnar og afla kaupenda. Stefnandi byggi á því að greiðsluskylda stefnda eigi að byggjast á verðlagi í upphafi árs 2012 algerlega óháð raunverulegri framlegð af framleiðslunni. Þessi einhliða og ósanngjarna samnings­túlkun stefnanda, sem birtist og í framgöngu stefnanda á gildistíma samningsins, byggist ekki á skýrum og ótvíræðum ákvæðum í samstarfssamningnum. Samkvæmt almennum sjónarmiðum fái þessi samningstúlkun ekki staðist, heldur verði að túlka hinn opna og fáorða samning þannig að jafnvægi ríki um réttindi og skyldur samningsaðila og í samræmi við tilgang og eðli samningsins sem ramma utan um samstarf. Hin sérdrægna samningstúlkun stefnanda, sem stríði gegn viðteknum venjum um samningstúlkun, hafi verið rótin að riftun samningsins og ástæða þess að ekki náðist samkomulag um framhald samstarfsins. Þá byggir stefndi á því að stefnandi hafi ekki boðið fram réttar efndir af sinni hálfu. Sú meginregla sé ótvíræð að aðili að gagnkvæmum samningi geti aldrei krafið gagnaðila um efndir samnings án þess að bjóða fram réttar efndir af sinni hálfu. Viðbrögð stefnanda við riftunaryfirlýsingu stefnda hafi verið þau að krefjast afturköllunar hennar og efnda in natura. Af því tilefni hafi stefndi ítrekað farið fram á að stefnandi gerði grein fyrir því hvernig hann hygðist efna samninginn fyrir sitt leyti, m.a. í skriflegum áskorunum, en þeim hafi ekki verið svarað af hálfu stefnanda. Hafi stefnandi annaðhvort ekki getað eða viljað efna samninginn réttilega fyrir sitt leyti geti hann vitaskuld ekki krafist bóta vegna samningsslita. Stefndi telur að stefnandi hafi getað takmarkað tjón sitt með framleiðslu í eigin verksmiðju. Meginhlutverk stefnda samkvæmt hinum umþrætta samstarfssamningi hafi verið niðursuða og framleiðsla vörunnar í neytendaumbúðir. Stefnandi hafi sjálfur komið sér upp verksmiðju til slíkrar framleiðslu. Þáttur stefnda í samstarfinu hafi m.a. átt að felast í því að afla kaupenda og útvega aðföng til framleiðslunnar. Með tilkomu eigin verksmiðju hafi stefnanda verið kleift að framleiða vöruna sjálfur og selja til kaupenda á sínum vegum. Riftunin hefði því ekki þurft að leiða af sér neitt tjón, ef stefnandi hefði gætt hagsmuna sinna með eðlilegum hætti. Hafi stefnandi orðið fyrir tjóni, leiði framangreint enn fremur til þeirrar niðurstöðu að fullnægjandi orsakasamhengi milli tjónsins og riftunarinnar teljist ekki vera fyrir hendi. Stefndi heldur því jafnframt fram að skilyrði sakarreglunnar séu ekki uppfyllt. Skilyrði sakarreglunnar, svo sem um saknæma háttsemi af hálfu stefnda, séu ekki uppfyllt og því geti skaðabótaábyrgð ekki stofnast á grundvelli hinnar almennu sakarreglu. Telur stefndi tjón stefnanda ósannað og að útreikningur stefnda á meintu tjóni sé einhliða ágiskun stefnanda og hann sé haldinn svo alvarlegum ágöllum að bótakrafa stefnanda teljist í reynd órökstudd og fullkomlega vanreifuð. Engin sönnun liggi því fyrir um meint tjón. Í þinghaldi 7. febrúar 2014 lagði stefndi fram bókun þar sem segir að stefndi hafi með beiðni 1. nóvember 2013 farið fram á nauðungarsölu til slita á sameign stefnanda og stefnda á tilteknum vélum og tækjum. Komið hafi í ljós að stefnandi hafi veðsett tækin án vitneskju stefnda, með veðskuldabréfi 14. maí 2012, til tryggingar skuldum stefnanda við Arion banka að fjárhæð 8 milljónir króna, auk vaxta og kostnaðar. Umrædd veðsetning hafi verið gerð eftir að umrædd tæki komust í sameign stefnanda og stefnda, sbr. viðauka við samstarfssamning aðila frá 7. febrúar 2012. Telur stefndi þetta alvarlegt brot gagnvart stefnda og byggir hann á því að hin ólögmæta veðsetning stefnanda og skortur á upplýsingagjöf þar að lútandi feli í sér verulegt brot stefnanda á skuldbindingum sem fólust í samstarfssamningi málsaðila. Séu því enn frekar lagarök sem réttlæta samningsslit af hálfu stefnda. Byggir stefndi á þessu sem málsástæðu í málinu.   Um lagarök vísar stefndi til meginreglna samningaréttar og kröfuréttar, sem og meginreglna á sviði skaðabótaréttar og kröfuréttar um skilyrði bótaskyldu og sönnun tjóns. Þá er sérstaklega vísað til meginreglna og venja um túlkun gagnkvæmra samninga. Einnig er vísað í meginreglur vinnuréttar um stofnun ráðningarsambands, og 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Málskostnaðarkrafa stefnda styðst við ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 1. mgr. 130. gr. laganna. V.                 Samkvæmt því sem rakið hefur verið er ágreiningur um það hvort riftun stefnda á samstarfssamningi aðila og viðauka við hann hafi verið réttmæt og hvort stefndi hafi bakað sér skaðabótaskyldu með riftuninni.                 Í riftunaryfirlýsingu stefnda frá 27. febrúar 2012 er riftun í fyrsta lagi byggð á því að stefnandi hafi hafnað því að endurskoða framleiðslukostnað í samningi aðila, en verðhækkanir á hráefni hafi kallað á slíka endurskoðun. Samkvæmt þeim gögnum sem stefndi hefur lagt fram í máli þessu hefur stefndi nokkuð til síns máls í því að ástæða hafi verið til að endurskoða framleiðslukostnaðinn. Vitnisburður Guðmundar Ingasonar, framkvæmdastjóra G. Ingasonar hf., sem var umsýsluaðili samkvæmt samningi aðila, styður þetta einnig, en hann taldi kröfu stefnda um endurskoðun ekki ósanngjarna. Það verður hins vegar ekki horft framhjá því að fyrir dómi kom fram í framburði Ingvars Vilhjálmssonar, framkvæmdastjóra stefnda, að hann hefði ekki sýnt stefnanda útreikninga til stuðnings því að endurskoða þyrfti framleiðslu­kostnaðinn. Þá kom fram hjá Guðmundi Ingasyni að allir aðilar samningsins hefðu ekki verið boðaðir á fund þar sem hægt væri að fara í gegnum þetta ágreiningsefni stefnda og stefnanda. Að þessu virtu hefur stefndi að mati dómsins ekki sýnt nægilega fram á að honum hafi verið rétt að rifta samningi aðila á þeim grundvelli að stefnandi hafi hafnað því að framleiðslukostnaður yrði endurskoðaður, sbr. 2. gr. samnings aðila.                 Stefndi byggði í riftunaryfirlýsingu sinni í öðru lagi á því að stefnandi hefði hafið starfsemi í beinni samkeppni við stefnda, með því að koma á fót verksmiðju á Kópaskeri. Stefnandi mótmælir þessari riftunarástæðu þar sem stefnda hafi verið kunnugt um þessi áform stefnanda og ekki væri um samkeppni að ræða þar sem verksmiðjan á Kópaskeri væri á öðru markaðssvæði. Stefndi mótmælir þessum fullyrðingum. Samkvæmt vitnisburði Birkis Kristjánssonar, sem var framkvæmda­stjóri Ice-W ehf. þegar samstarfssamningurinn var gerður 15. desember 2011, var það ekki fyrr en eftir á sem talað var um að önnur tæki stefnanda ættu að fara í „einhverja“ verksmiðju. Þannig virðast áform stefnanda um rekstur í samkeppni við stefnda ekki hafa legið ljóst fyrir við samningsgerðina í desember 2011. Þegar viðaukinn var gerður 7. febrúar 2012 voru komnir nýir eigendur í Ice-W ehf. og kveðst Ingvar Vilhjálmsson hafa gert stefnanda það ljóst þegar hann frétti af áformum stefnanda að þau samrýmdust ekki samstarfi aðila. Ingvari hefði þá verið tjáð að ekki yrði af þessum áformum stefnanda, heldur ætti að selja hitt settið af tækjunum. Standa hér í raun orð gegn orði og er gegn mótmælum stefnda ósannað að stefndi hafi vitað að stefnandi ætlaði að koma á fót og starfrækja verksmiðju í beinni samkeppni við stefnda. Þá verður að hafna því að stefnandi og stefndi starfi ekki á sama markaði, enda kaupa þeir lifur um allt land og selja vörur sínar á sama markaði. Jón Örn Jakobsson, stjórnarmaður stefnanda, sagði sjálfur fyrir dómi að það væru „allir að keppa við alla“ um hráefni á landinu. Þá er ekki unnt að fallast á með stefnanda að þar sem ekki hafi verið samkeppnishamlandi ákvæði í samningi aðila hafi hann haft frjálsar hendur með að hefja rekstur á samningstímanum í samkeppni við stefnda. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að samstarfi aðila var ætlað að standa í langan tíma og um var að ræða samstarfssamning en ekki samning um kaup á vöru eins og stefnandi virðist líta á. Með því að stefnandi ákvað að hefja samkeppnisrekstur komu augljóslega upp hagsmunaárekstrar. Eins og fram kemur í viðtali við framkvæmda­stjóra Lýsis hf. í frétt DV 17. janúar 2014, sem stefndi hefur lagt fram í málinu, er mikil samkeppni um hráefni og að hún fari harðnandi. Þetta kom einnig fram hjá vitnunum Guðmundi Ingasyni, Guðmundi Davíðssyni, sem er framkvæmdastjóri niðursuðuverksmiðju í Sandgerði, og Hólmgrími Sigvaldasyni, framkvæmdastjóra HSS Fiskverkunar ehf. Hugmyndir stefnanda um að aðilar hafi getað haldið samstarfi sínu óbreyttu þrátt fyrir samkeppnisrekstur stefnanda með því að skipta með sér markaðinum eru óraunhæfar og beinlínis í andstöðu við 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Sú háttsemi stefnanda að koma á fót samkeppnisrekstri á meðan samstarfs­samningurinn við stefnda var í gildi var ósamrýmanleg þeim trúnaðarskyldum sem stefnandi bar gagnvart samstarfsaðila sínum, stefnda í máli þessu. Enn fremur verður fallist á með stefnda að brotthvarf Sarunas Raila hafi falið í sér samningsbrot og skiptir þá engu máli þótt ekki hafi verið gengið frá skriflegum ráðningarsamningi við hann, enda er óumdeilt að hann hóf þar störf og stofnaðist þannig ráðningarsamband við stefnda. Hafði Sarunas því trúnaðarskyldur við stefnda. Einnig er til þess að líta að það var Sarunas sjálfur sem undirritaði viðaukann 7. febrúar 2012 f.h. stefnanda, þar sem kveðið var á um að hann ætti að vera framleiðslustjóri hjá stefnda. Að mati dómsins er framburður Sarunas um að hann hafi hætt hjá stefnda vegna vangoldinna launa í maí og júní 2012 ótrúverðugur í ljósi þess að hann starfaði þar til í lok janúar 2013 og ekkert hefur áður komið fram um að laun hafi verið vangoldin. Jafnvel þótt svo væri heimilar það honum ekki að brjóta gegn trúnaðarskyldum sínum gagnvart stefnda. Sarunas gegndi lykilhlutverki hjá stefnda og með því að hefja störf hjá stefnanda var hætta á því að samkeppnisaðili fengi aðgang að og nýtti trúnaðarupplýsingar um rekstur stefnda.                 Þá verður að fallast á með stefnda að stefnandi hafi brotið gegn samningi aðila með því að veðsetja tæki sem voru í sameign aðila samkvæmt viðaukanum frá 7. febrúar 2012, vegna skulda stefnanda. Því er hins vegar hafnað að stefnandi hafi brotið gegn öðrum samningsskyldum sínum þannig að réttlætt hafi riftun, s.s. hvað varðar öflun hráefnis, kaupenda eða útvegun eftirlitsaðila.  Með vísan til alls framangreinds og með hliðsjón af dómum Hæstaréttar, m.a. í málum nr. 500/1998, 336/2006 og 111/2009, var riftun stefnda á samningi aðila réttmæt. Af þessu leiðir að hafna ber kröfu stefnanda um að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda á tjóni stefnanda vegna riftunar stefnda á samstarfssamningi aðila, dags. 15. desember 2011, eins og honum var breytt með viðauka, dags. 7. febrúar 2012.                 Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir miðað við umfang málsins hæfilega ákveðinn 1.500.000 krónur.                 Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari. D ó m s o r ð: Kröfu stefnanda, JS Seafood ehf., um að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda, Ægis sjávarfangs ehf., á meintu tjóni stefnanda vegna riftunar stefnda á samstarfssamningi aðila, dags. 15. desember 2011, eins og honum var breytt með viðauka, dags. 7. febrúar 2012, er hafnað. Stefnandi greiði stefnda 1.500.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 592/2014
Veitingaleyfi Stjórnsýsla Sveitarfélög Andmælaréttur Skaðabætur
S ehf. og C ehf., eigendur tveggja veitingahúsa í Reykjavík, höfðuðu skaðabótamál á hendur sveitarfélaginu R og báru því við að R hefði annars vegar með umsögnum sínum samkvæmt 1. tölul. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og hins vegar með ólögmætri málsmeðferð valdið félögunum fjárhagstjóni með saknæmum og ólögmætum hætti sem R bæri bótaábyrgð á. Í héraðsdómi, sem Hæstiréttur staðfesti með vísan til forsendna hans, var vísað til þess R gæfi umsögn samkvæmt áðurgreindu lagaákvæði, en lögreglustjóri færi með leyfisveitingarvald og yrði ákvörðunum hans skotið til innanríkisráðuneytisins, en í þeim tilvikum sem málið varðaði hefði ráðuneytið fellt úr gildi ákvarðanir lögreglustjóra meðal annars með skírskotun til annmarka á umsögnum og málsmeðferð R. Talið var að R hefði verið heimilt að líta til löggæslusjónarmiða í umsögnum sínum, svo og að slík sjónarmið væru meðal þeirra sem líta bæri til við veitingu leyfa á grundvelli laga nr. 85/2007. Voru S ehf. og C ehf. ekki talin hafa sýnt fram á að afgreiðsla lögreglustjóra hefði orðið með öðrum hætti þótt allar umsagnir R hefðu verið jákvæðar. Þá var ekki talið sýnt að málsmeðferð R við veitingu umsagna hefði brotið í bága við reglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þ. á m. 13. gr. þeirra um andmælarétt. S ehf. og C ehf. voru því hvorki talin hafa sýnt fram á að saknæm og ólögmæt háttsemi R hefði bakað sveitarfélaginu bótaskyldu, né heldur að skilyrði um orsakasamband og sennilega afleiðingu væru uppfyllt. Var R því sýknað af kröfum félaganna.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2014. I.         Mál þetta sem dómtekið var þann 15. apríl 2014 var höfðað með stefnu útgefinni 22. júní 2013 af Sextán ehf., Stapaseli 7,109 Reykjavík, og Casino ehf., Stapaseli 7, 109 Reykjavík, á hendur Reykjavíkurborg, Tjarnargötu 11, 101 Reykjavík.         Dómkröfur stefnanda, Sextán ehf., eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnda 6.149.963 krónur í skaðabætur með vöxtum skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af fyrrgreindri fjárhæð frá 10. október 2007 til þess dags þegar mánuður er liðinn frá því að bótakrafan var kynnt stefnda, en dráttarvaxta eftir þann dag skv. 1. ml. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Þá er krafist vaxtavaxta skv. 12. gr. sömu laga er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, auk málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda skv. framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.         Dómkröfur stefnanda, Casino ehf., eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 8.377.133 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af fyrrgreindri fjárhæð frá 10. október 2007 til þess dags þegar mánuður er liðinn frá því að bótakrafan var kynnt stefnda, en dráttarvaxta eftir þann dag skv. 1. ml. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Þá er krafist vaxtavaxta skv. 12. gr. sömu laga er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, auk málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda skv. framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.        Stefndi, Reykjavíkurborg, gerir þá kröfu að verða sýknaður af öllum dómkröfum stefnenda.         Þá krefst stefndi þess að stefnendum, hvorum fyrir sig, verði gert að greiða stefnda málkostnað að mati dómsins.         Upphafleg fjárhæð dómkröfu Sextán ehf. í stefnu var að honum yrðu greiddar 6.272.074 kr. í skaðabætur, en með sókn framlagðri 15. apríl 2014 af lögmanni stefnanda er gerð leiðrétting á fjárhæðinni og gerð grein fyrir því að tveir framlagðir reikningar frá Lögfræðiskrifstofu Reykjavíkur hafi verið framlagðir tvisvar og verði dregnir frá stefnufjárhæðinni, nánar tiltekið reikningar nr. T05067 og T05177, dsk. 44., og lækki stefnufjárhæð sem því nemur.         Í framlagðri sókn kemur jafnframt fram að reikningur nr. 243 á dskj. 46 vegna vinnu vegna málsins fyrir stefnendur komi fram að hann hafi einnig verið vegna vinnu óviðkomandi máli þessu og því sé fallið frá kröfu vegna þessa reiknings og lækki fjárhæð dómkröfu sem því nemi. Fjárhæð dómkröfu stefnanda Casino ehf. verði því 8.387.133 kr.         Í sókn kemur fram breyting á upphafstíma dráttavaxta í 27. júlí 2013 þegar mánuður hafi verið liðinn frá stefnu, en þessari breytingu var mótmælt af hálfu stefnda og er henni hafnað sem of seint fram kominni.           II. Málsatvik         Stefnendur máls þessa eru eigendur og rekstraraðilar að veitingastöðunum Monte Carlo (Sextán ehf.) og Mónakó (Casino ehf.) sem báðir eru á Laugaveginum.         Þann 5. júlí 2007 sótti fyrirsvarsmaður veitingastaðanna um rekstrarleyfi, sbr. III. kafli laga 85/2007, til Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Um var að ræða hefðbundna umsókn um endurnýjun rekstrarleyfis sem sækja þarf um á fjögurra ára fresti. Með bréfum, dags. 19. júlí 2007, óskaði lögreglustjórinn eftir umsögnum frá lögboðnum umsagnaraðilum, sbr. 4. mgr. 10. gr. áðurgreindra laga, þ. á m. frá stefnda. Umsagnir umsagnaraðila, umhverfissviðs stefnda, Vinnueftirlitsins, Heilbrigðiseftirlitsins og Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, voru allar jákvæðar. Umsögn stefnda, dags. 20. ágúst 2007, var jákvæð, en í henni voru tilmæli til Lögreglustjórans höfuðborgarsvæðisins um „að hann (lögreglustjóri) kanni ítarlega hvort hafna beri leyfisveitingu með tilvísun til þess fjölda kvartana sem borist hafa til embættis lögreglustjóra vegna ónæðis sem hlotist hefur af rekstri veitingastaðarins“.         Í framhaldi af þessu sendi lögreglustjórinn yfirlit yfir mál sem voru skv. dagbókum lögreglunnar skráð tengd veitingastöðunum og meðfylgjandi bréf, dags. 13 september 2007, þar sem óskað var eftir nýrri umsögn frá stefnda. Í framhaldi af þessu bréfi gaf stefndi út nýja umsögn, dags. 10.október 2007, þar sem vísað var til ummæla lögreglustjóra, til rökstuðnings tillögu um takmörkun á áfengisveitingartíma.         Lögreglustjóri gaf í kjölfarið þann 27. febrúar 2008 út leyfi til beggja veitingastaðanna með takmörkuðum veitingartíma, frá kl. 19:00 öll kvöld, til kl. 01:00 virka daga, en til kl. 03:00 um helgar. Þessa ákvörðun kærðu stefnendur til dómsmálaráðuneytisins með bréfi, dags. 6 mars 2008, og gerð var krafa um að felld yrði úr gildi ákvörðun lögreglustjórans og enn fremur að kæra frestaði réttaráhrifum. Afrit af kærunni var sent til borgarráðs og lögreglustjóra.          Daginn fyrir skírdag sama ár, um kl 16:00, bannaði lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu sölu á áfengi frá kl 11:00 til kl. 19:00 yfir páskahátíðina á veitingastöðum stefnenda. Strax eftir páska, með úrskurði 31. mars 2008, frestaði dómsmálaráðherra réttaráhrifum ákvörðunarinnar og heimilaði stefnendum að veita áfengi eins og áður ,,með tilliti til réttaröryggissjónarmiða og í ljósi þess að hér er um verulega íþyngjandi ákvörðun að ræða sem er til þess fallið að valda kæranda tjóni“.         Með úrskurði þann 20 október 2008 felldi dómsmálaráðherra ákvörðunina úr gildi vegna annmarka á málsmeðferð og fyrirskipaði Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að taka umsókn veitingahúsanna til meðferðar á ný að fenginni nýrri umsögn borgarráðs. Í úrskurðinum var tekið fram að lögreglustjóraembættinu  bæri að taka málið til meðferðar að nýju og í framhaldinu óskaði lögregluembættið eftir nýrri umsögn Reykjavíkurborgar.         Umsagnarbeiðni lögreglustjórans var dags. 30.11.2008 og henni fylgdu að frumkvæði lögregluembættisins yfirlit úr málaskrá lögreglu fyrir tímabilið frá október 2007 til 27 október 2008. Stefndi sendi hina nýju umsögn með bréfi þann 4. september 2009 til stefnenda þar sem fram kom að umsögnin væri jákvæð með því skilyrði að opnunartími yrði takmarkaður, enn fremur að leyfið yrði gefið út til eins árs til reynslu og ef sú takmörkun reynist ekki „duga til að draga úr ónæði af veitingastaðnum“ mætti búast við því að borgarráð myndi gefa neikvæða umsögn að þeim tíma liðnum. Afgreiðslu málsins var frestað og stefnendum gefinn kostur á að koma að athugasemdum eigi síðar en 16. september 2009.         Lögmaður stefnenda fundaði með nefnd/stýrihópi stefnda sem fjallar um veitingahúsarekstur í Reykjavík, fulltrúum í borgarráði stefnda og enn fremur Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu til að koma á framfæri mótmælum og athugasemdum við umsögn og meðferð málsins. Niðurstaða málsins var síðan að Reykjavíkurborg gaf skilyrta umsögn og á grundvelli hennar gaf Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu út bráðabirgðaleyfi til eins árs til reynslu. Var gildistíminn frá 2. mars 2010 til 2 mars 2011.         Stefnendur sóttu um endurnýjun á rekstrarleyfi veitingastaðanna með umsóknum í janúar. Með bréfum í febrúar 2011 óskaði Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu eftir umsögnum frá lögboðnum umsagnaraðilum, sbr. 4. mgr. 10. gr. áðurgreindra laga þ. á m. frá Reykjavíkurborg. Í kjölfarið bárust Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu umsagnir stefnda, Vinnueftirlitsins, Heilbrigðiseftirlitsins og Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu og voru allar umsagnirnar jákvæðar að frátalinni umsögn borgarráðs stefnda.           Þann 21. mars 2011 lagði skrifstofustjóri stefnda fyrir borgarráð tillögu að umsögn. Vísað var til þess að samkvæmt gögnum frá lögreglustjóranum væri ekki unnt að sjá að dregið hefði úr ónæði af stöðunum eða kvörtunum vegna ónæðis á reynslutímanum og hefðu fjölmargar kvartanir vegna ónæðis borist frá ýmsum tilgreindum aðilum. Af þeim sökum mælt með neikvæðri umsögn. Lögmaður stefnenda ítrekaði áður gerðar athugasemdir, dags. 20.4.2011, fyrir hönd rekstraraðilans vegna gagna frá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og meintra brota stjórnvalda á stjórnsýslulögum, tölfræði sem var fyrirliggjandi ásamt því að gera athugasemdir við meint brot stjórnvalda á stjórnsýslulögum. Vísað var til þess að í gögnum frá lögreglustjóra væri um að ræða skýrslur sem hefðu ekkert með veitingarekstur stefnenda að gera.         Stefnendur óskuðu eftir frekari gögnum og nánari upplýsingum um þýðingu mála ásamt samanburði við aðra veitingastaði og var málinu frestað meðan gagna var beðið. Skýrslur bárust síðan í byrjun september með sömu upplýsingum og áður en tímabils sem náði yfir eitt ár. Ekki var í þeim gögnum samanburður við aðra veitingastaði og ekki var greint í sundur hvað væru eðlileg verkefni eða hvað teldist brot rekstraraðilans.         Vegna langs málsmeðferðartíma óskuðu stefnendur eftir endurnýjun leyfisins þann 11. febrúar 2011 þrátt fyrir að umsögn borgarráðs lægi ekki fyrir. Umsókn þessari var hafnað af hálfu Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu með bréfi þann 3. júní 2011.         Þann 16. nóvember 2011 var lögð fram ný tillaga að umsögn stefnda sem var síðan samþykkt 1. desember 2011. Stefnendum var veittur frestur til andmæla. Fyrir liggur ódagsett bréf stefnenda til stefnda þar sem fram koma athugasemdir hans.         Á fundinum þann 16. nóvember var ákveðið að fresta málinu og óska eftir frekari upplýsingum frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vegna athugasemda lögmanns stefnenda varðandi skráningarkerfi lögreglunnar á málum/verkefnum sem skráð væru á veitingastaði stefnenda.           Í umsögninni sem samþykkt var á fundinum þann 1. desember kemur síðan fram að Reykjavíkurborg hafi einnig óskað eftir frekari gögnum frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu varðandi mála- og verkefnaskrá fyrir tímabilið 2.3.2011 til nóvember 2011. Í umsögnum kemur fram að það sé niðurstaða skrifstofu borgarstjórnar að ekki verði á nokkurn hátt séð að rekstraraðilar veitingastaðanna Monte Carlo og Mónakó hafi uppfyllt þau skilyrði sem borgarráð hafi sett fyrir áframhaldandi rekstri veitingastaðanna. Að sama skapi hafi ekkert nýtt komið fram í fyrirliggjandi gögnum, þ.m.t. greinagerð lögmanns rekstraraðila sem hafi nokkur áhrif á málsmeðferðina og sé því mælt með því við borgarráð að veita neikvæða umsögn um endurnýjun rekstrarleyfisins með vísan til ofangreindra raka.      Með bréfum dags. 2. desember voru stefnendum sendar umsagnir Reykjavíkurborgar, dags. 1. desember og í framhaldinu veitti Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu stefnendum frest til andmæla til 3. janúar 2012. Andmæli voru send af hálfu lögmanns stefnenda til Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu með bréfi, dags. 3. janúar 2012.         Á grundvelli fyrirliggjandi umsagna tók Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu málið til afgreiðslu og var ákvörðun tilkynnt með bréfi dagsettu 18 janúar 2012. Ákvörðun Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu var að hafna endurnýjun rekstrarleyfis veitingastaðarins með vísan til neikvæðrar umsagnar Reykjavíkurborgar.         Í kjölfarið kærðu stefnendur ákvörðun lögreglustjóra til innanríkisráðuneytisins auk þess sem gerð var krafa um frestun réttaráhrifa. Í kærunni var jafnframt fjallað um annmarka á málsmeðferð borgarráðs.         Með bréfi dags. 20. janúar 2012 lagði innanríkisráðuneytið fyrir embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að gefa út nýtt bráðabirgðaleyfi fyrir veitingastaðina skv. 2. mgr. 13. gr. nr. 85/2007 með gildistíma miðað við þann tíma er ráðuneytið hefði kæruna til meðferðar en þó ekki lengur en til 20. apríl 2012.         Með úrskurði innanríkisráðuneytisins, dags. 11. maí 2012, var ákvörðun Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 18 janúar 2012, um að synja stefnendum um endurnýjun rekstrarleyfa fyrir veitingastaðina Monte Carlo og Mónakó, felld úr gildi og lagt fyrir lögreglustjóra að taka málið til nýrrar meðferðar. Niðurstaða ráðuneytisins grundvallaðist á því að þeir annmarkar væru á málsmeðferð stefnda að hún hefði ekki verið í samræmi við 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 og 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga. III. Málsástæður og lagarök stefnenda         Stefnendur reka mál þetta á grundvelli 19. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, þar sem dómkröfur þeirra eigi rætur að rekja til sömu atvika og aðstöðu skv. 19. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð einkamála. Kröfurnar séu jafnframt rökstuddar með sömu málsástæðum og byggðar á sömu lagareglum.         Stefnendur byggja dómkröfur sínar um skaðabætur á því að þeir hafi orðið fyrir fjártjóni vegna ólögmætrar málsmeðferðar af hálfu starfsmanna Reykjavíkurborgar, sem hafi verið viðvarandi frá árinu 2007. Við meðferð málsins hafi stefnendur orðið að ráða lögmenn til að halda uppi vörnum gegn ólögmætri málsmeðferð stefnda og sé það hluti skaðabótakröfunnar.         Stefnendur byggja á því að við meðferð mála veitingahúsa stefnenda hafi verið brotið gegn rétti þeirra á margvíslegan hátt. Ákvarðanir stefnda hafi falið í sér ákvarðanir um rétt og skyldu stefnenda og hafi þar af leiðandi verið stjórnvaldsákvarðanir. Þetta sé áréttað í 16. gr. málsmeðferðarreglna borgarráðs um veitingastaði og gististaði frá 16. júlí 2009 en þar segi: „Gætt skal viðeigandi ákvæða stjórnsýslulaga við afgreiðslu umsagna. Skal þess m.a. gætt að umsagnir séu byggðar á fullnægjandi upplýsingum.“         Stefnendur byggja á því að brotið hafi verið gegn réttmætisreglu stjórnsýsluréttar í máli þessu. Í réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins felist að ávallt þurfi að byggja stjórnvaldsákvarðanir á málefnalegum sjónarmiðum. Því hefði stefnda borið að leggja frekara mat á gögn og skýrslur lögreglu áður en hann gaf neikvæða umsögn árið 2008 og 2012. Ekkert komi fram í gögnum málsins um fjölda kvartana eða hvort tilefni hafi verið til afskipta o.s.frv. Auk þess hafi stefndi átt að byggja umsögn sína sem fyrr greinir á lögskyldum sjónarmiðum en ekki á sjónarmiðum sem voru á valdsviði lögreglu eða annarra umsagnaraðila. Af þeim sökum hafi umsögnin ekki verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum.         Stefnendur byggja á því að brotið hafi verið á rétti þeirra til andmæla. Rannsóknarreglan sé nátengd andmælarétti samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga, en mál verði ekki nægilega upplýst nema aðila hafi verið gefinn kostur á að kynna sér gögn máls svo og að koma að frekari upplýsingum um málsatvik. Jafnframt sé kveðið á um þetta í 2. ml. 16. gr. málsmeðferðarreglna um veitingastaði og gististaði dags. 16.7.2009, en skv. honum skuli aðilum gefinn kostur á að tjá sig um umsagnir áður en þær eru afgreiddar. Það sé sérstaklega brýnt þar sem umsagnirnar séu bindandi, sbr. 5. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 og 2. mgr. 23. reglugerðar nr. 585/2007.        Forsvarsmanni stefnenda hafi hins vegar ekki verið gefinn kostur á að neyta andmælaréttar áður en borgarráð Reykjavíkurborgar veitti umsagnir sínar árið 2008 og 2012. Auk þess hafi hann ekki fengið að kynna sér gögn máls, tjá sig um fram komnar upplýsingar og koma að frekari upplýsingum um málsatvik áður en stefndi tók ákvörðun í málinu. Í umsögn borgarráðs Reykjavíkur komi fram að því hafi borist ályktun stjórnar Íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkurborgar, þar sem skorað sé á borgaryfirvöld að mæla gegn endurnýjun rekstrarleyfis fyrir veitingarstaðinn Monte Carlo og þar sé m.a. vísað til ítrekaðra kvartana íbúa og verslunareigenda í nágrenni staðarins. Þá hafi borgarráði borist upplýsingar frá félaginu Miðborgin okkar um að málefni veitingastaðarins hefðu ítrekað borist inn á borð félagsins undanfarin ár og séu þar nefndar kvartanir vegna ónæðis af gestum veitingastaðarins og óþrifnaðar. Þá hafi borgaryfirvöldum borist fjölmargar munnlegar kvartanir vegna rekstrar veitingastaðarins og hafi síst dregið úr þeim. Stefnendur vísa í þessu sambandi til niðurstöðu úrskurðar innanríkisráðuneytisins frá árinu 2008 sem staðfesti að brotið hafi verið gegn andmælarétti stefnenda. Ekkert komi hins vegar fram í gögnum málsins um fjölda kvartana, hver hafi kvartað eða hvenær, hvort farið hafi verið á staðinn, hvort tilefni hafi verið til afskipta o.s.frv. Stefnendur hafi þar af leiðandi ekki getað gætt andmælaréttar síns, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, enda hafi málsatvik verið næsta óljós, sbr. úrskurð innanríkisráðuneytisins frá 11 maí 2012. Ótækt hafi því verið að leggja þessar upplýsingar til grundvallar ákvörðun sem voru stefnendum í óhag án þess að þeim gæfist tækifæri til að tjá sig um þær og koma að athugasemdum.         Stefnendur byggja á því að aðgangur að gögnum málsins og annars varðandi meðferð málsins hafi verið takmarkaður. Forsenda þess að aðili geti gætt hagsmuna sinna og tjáð sig um mál sé að hann hafi aðgang að gögnum máls. Í stjórnsýslulögum sé mælt fyrir um rétt aðila máls til að kynna sér gögn er mál hans varði, sbr. 15. gr. stjórnsýslulaga. Í því felist ekki eingöngu réttur til að kynna sér gögn málsins, heldur að jafnaði einnig réttur til að fá afrit eða ljósrit af málsskjölum. Stefnanda hafi verið veittur andmælaréttur þegar lögð var fram tillaga í mars 2011 og í því sambandi hafi hann fengið afrit af þeirri tillögu sem lögð var fram. Þegar málið var aftur lagt fram fyrir nýtt borgarráð með nýrri tillögu í nóvembermánuði 2011 hafi stefnandi ekki verið upplýstur um innihald tillögunnar sem leggja átti fyrir borgarráð og var neitað um þær upplýsingar. Enn fremur hafi verið óskað eftir gögnum frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nóvembermánuði sem stefnandi fékk ekki að sjá en vísað sé til í umsögn stefnda sem bréfs frá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu með yfirliti yfir mál/verkefni fyrir tímabil á árinu 2011. Með þessu hafi þar fyrir utan verið brotið gegn 15. gr. stjórnsýslulaga varðandi upplýsingarrétt.            Stefnendur byggja á því að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins. Jafnræðisreglan sé lögfest í 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga og í henni felist að stjórnvöldum beri að gæta samræmis og jafnræðis við töku stjórnvaldsákvarðana. Reglan skiptist í tvo þætti, þ.e. samræmisþátt og jafnræðisþátt. Í samræmisþætti jafnræðisreglunnar felist að efnisreglur tveggja eða fleiri stjórnvaldsákvarðana séu bornar saman. Því hafi verið haldið fram að þegar stjórnvald hafi byggt matskennda stjórnvaldsákvörðun á tilteknum sjónarmiðum og lagt áherslu á ákveðin sjónarmið leiði þessi samræmisregla til þess að þegar sambærilegt mál komi aftur til úrlausnar stjórnvalds á grundvelli sama lagaákvæðis beri almennt að leysa úr því á grundvelli sömu sjónarmiða og með sömu áherslu og gert hafi verið við úrlausn eldri sambærilegra mála.                 Ljóst sé að umsögn borgarráðs hafi ekki verið í samræmi við 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 og jafnframt hafi í umsögninni ekki verið getið um þau atriði sem borgarráði hafi verið lögskylt að fjalla um í umsögn sinni sbr. úrskurði ráðuneytisins frá 11 maí 2012. Telja verði því að stefndi hafi gerst brotlegur við 11. gr. stjórnsýslulaga þar sem samræmis hafi ekki verið gætt gagnvart stefnendum við veitingu vínveitingarleyfa til stefnenda og annarra vínveitingastaða með tilliti til fyrrgreindra laga.         Stefnendur byggja á því enn fremur að brotið hafi verið gegn rétti þeirra með óeðlilegum málsmeðferðartíma. Í 9. gr. stjórnsýslulaga sé kveðið á um að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt sé. Þá segi eftirfarandi í 2 mgr. 23. gr. reglugerðar nr. 585/2007: „Umsagnir framangreindra aðila eru bindandi og skulu að jafnaði veittar eigi síðar en 45 dögum frá móttöku erindis leyfisveitanda þar að lútandi. Berist umsagnir ekki innan þess frests sem leyfisveitandi tilgreinir er leyfisveitanda heimilt að gefa út leyfi.“                 Svipuð sjónarmið séu uppi í 2 .mgr. 16. gr. málsmeðferðarreglna borgarráðs um veitingastaði og gististaði, þar segi: „Almennt skal málsmeðferðartími ekki fara yfir 3 vikur frá því umsagnarbeiðni hefur borist“.         Málsmeðferðartími í málum stefnenda feli í sér ótvírætt brot á fyrrgreindum    lagagreinum hvað þetta varðar að ótöldum þeim tíma sem meðferð veitingastaðanna hafi hlotið allt frá 2007. Fundargerðir borgarráðs og önnur dómskjöl sem fylgi stefnu staðfesti ofangreint. Með tilliti til úrskurðarins og fyrrgreindra lagaákvæða sé ljóst að drátturinn í þessu máli sé verulegur, en 14 mánuðir hafi liðið frá því sótt var um endurnýjun á vínveitingarleyfi uns tilkynnt var um synjun á útgáfu leyfisins.       Með tilliti til þess og ofangreindra raka sé ljóst að háttsemi starfsmanna stefnda hafi verið ólögmæt og saknæm sem leitt til þess að stefnendur hafi orðið fyrir tjóni. Háttsemi þessi og meðferð málsins sé andstæð lögum og meginreglum stjórnsýsluréttar og lögum nr. 85/2007 og beri stefndi skaðabótaábyrgð á því tjóni skv. reglum um vinnuveitendaábyrgð. Reglan sé ekki lögfest en hún sé óumdeild í skaðabótarétti og feli í sér að vinnuveitandi geti orðið skaðabótaskyldur vegna tjóns sem starfsmaður hans hafi valdið með saknæmum hætti.        Um lagarök vísa stefnendur einkum til stjórnsýslulaga nr. 37/1993, aðallega 9., 10., 13. og 15 gr. laga nr. 85/2007 um veitingahús og gististaði, einkum 10. gr. Þá vísa stefnendur til almennra reglna skaðabótaréttarins, einkum sakarreglunnar. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styðja stefnendur við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu með síðari breytingum.          Um varnarþing vísa stefnendur til 3. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991 og um samlagsaðild til 19. gr. laga nr. 91/1991. Kröfu um málskostnað styðja stefnendur við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. XXI kafli laganna.     Málsástæður og lagarök stefnda         Stefndi vísar til þess að stefnendur geri hvor um sig kröfu um greiðslu skaðabóta vegna meintrar saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda sem, eins og segi í stefnu, hafi verið viðvarandi frá árinu 2007. Kröfurnar séu settar fram í þremur liðum hvað hvorn stefnanda varði og lúti að meintu almennu fjártjóni, sem skiptist í rekstrarstöðvun (missi hagnaðar) og tapaða viðskiptavild, lögmannskostnað á stjórnsýslustigi og vinnutap fyrirsvarsmanns félaganna. Stefndi byggir á því að ekki sé fyrir hendi saknæm og ólögmæt háttsemi stefnda, sem gæti hafa leitt til tjóns fyrir stefnendur og að meint tjón stefnenda sé ósannað og ekki hafi verið sýnt fram á orsakatengsl eða hvernig skilyrði um sennilega afleiðingu séu óuppfyllt.         Í 3. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald komi fram að Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gefi út leyfi á grundvelli laganna. Stefndi sé á grundvelli 1. töluliðs 4. mgr. 10. gr. laganna einn sex umsagnaraðila um rekstrarleyfi. Mál þetta virðist lúta að því að með umsögnum sínum um endurnýjun rekstrarleyfa vegna veitingastaða, sem stefnendur reki, hafi stefndi bakað sér bótaskyldu gagnvart stefnendum með saknæmri og ólögmætri háttsemi. Stefnendur hafi lagt fram á dskj. nr. 3, 5, 12 og 28 umsagnir stefnda sem leyfisveitandi, Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, aflaði á grundvelli tilvitnaðs lagaákvæðis. Stefnendur haldi því fram að með umsögnum sínum hafi stefndi farið út fyrir valdsvið sitt og fjallað um sjónarmið, sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi átti að veita umsögn um sem einn umsagnaraðilanna sex og hafi umsögn stefnda því ekki byggst á lögskyldum sjónarmiðum eins og þau komi fram í lagaákvæðinu. Í stefnu á bls. 12-17 á dskj. nr. 1 sé fjallað í löngu máli um hvaða réttarreglur stefndi á að hafa brotið með veitingu umsagna sinna og að það sé sennileg afleiðing meints tjóns stefnenda.          Stefnendur haldi því annars vegar fram að stefndi hafi ekki mátt byggja á löggæslusjónarmiðum í umsögnum sínum, heldur hafi það verið hlutverk lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar byggi stefnendur á því að stefndi hafi brotið ýmsar réttarreglur við umfjöllun um þetta sama sjónarmið.         Stefndi hafnar því að hann hafi í umsögnum sínum byggt á sjónarmiðum sem honum hafi verið óheimilt að vísa til. Stefndi bendir á að ekki sé um tæmandi upptalningu að ræða í 1. tölul. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 á þeim atriðum sem umsögn sveitarstjórnar eigi að taka til, heldur segi að í umsögn sveitarstjórnar eigi sveitarstjórnin m.a. að staðfesta að afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lúti að sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins segi til um. Til samanburðar segir í 6. tölul. sama ákvæðis að í umsögn lögreglu skuli m.a. kveðið á um nauðsyn til dyravörslu. Það sé langt í frá að umsögn lögreglustjóra verði bundin við þörf á dyravörslu. Með sama hætti hljóti sveitarstjórn að vera heimilt að leggjast gegn rekstrarleyfi ef reynslan af rekstri staðarins hefur verið með þeim hætti að ekki þyki verjandi miðað við staðsetningu viðkomandi veitingastaðar í sveitarfélaginu.         Verði það þó niðurstaðan að stefndi teljist hafa farið út fyrir valdsvið sitt og byggt á sjónarmiðum sem honum hafi verið óheimilt að byggja á, bendir stefndi á að löggæslusjónarmið er eitt þeirra sjónarmiða sem nauðsynlegt er eðli máls samkvæmt að horfa til við veitingu leyfa á grundvelli tilvísaðra laga nr. 85/2007, sbr. einnig 24. gr. reglugerðar nr. 585/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Í úrskurðum innanríkisráðuneytisins sem liggi fyrir í málinu komi fram að það sé afstaða ráðuneytisins að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sé umsagnaraðili um löggæsluatriði en ekki stefndi. Eftirfarandi kemur m.a. fram á bls. 22 beggja úrskurða: „Með öðrum orðum getur lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu enn synjað um leyfi þrátt fyrir að aðrar umsagnir séu allar jákvæðar telji hann að þau atriði er honum ber að líta til skuli leiða til þess.“         Framangreint sýnir að þrátt fyrir að litið yrði svo á að stefndi hafi farið út fyrir valdsvið sitt við gerð umsagna og byggt á sjónarmiðum, sem öðru stjórnvaldi hafi verið rétt að leggja mat á, þá sé um að ræða sjónarmið sem hafi borið að horfa til við veitingu leyfisins. Stefnendur hafi ekki sýnt fram á að leyfisveitandi hefði afgreitt mál þeirra með öðrum hætti þótt legið hefðu fyrir jákvæðar umsagnir stefnda, sem hefðu ekki byggt á sjónarmiðum um löggæslu. Það sé því ekkert komið fram um að orsakasamband sé á milli þess að stefndi veitti neikvæðar umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir stefnenda og meints tjóns stefnenda, hvað þá að um sennilega afleiðingu sé að ræða sem stefndi beri ábyrgð á. Þá vekur stefndi athygli á því að ef stefndi hefur farið út fyrir valdsvið sitt með því að byggja umsagnir sínar á ólögmætum sjónarmiðum, þá hefur leyfisveitandanum, lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, væntanlega verið skylt að líta fram hjá slíkri umsögn.         Þá vísi stefnendur til brots á rannsóknarreglu, andmælareglu og reglu um aðgang að gögnum. Stefndi mótmælir því að hann hafi brotið framangreindar reglur en bendir jafnframt á þá þversögn sem fellist í málatilbúnaði stefnenda. Ef stefnda var óheimilt að byggja umsagnir sínar á tilteknu sjónarmiði þá hafi stefnda vart verið skylt að rannsaka það, veita andmælarétt og afhenda gögn í tengslum við það. Þá byggi stefnendur á því að brotið hafi verið gegn réttmætisreglu og jafnræðisreglu en færi engin haldbær rök fyrir ætluðum brotum á þeim reglum. Stefnendur vísi til þess að samræmis hafi ekki gætt hjá stefnda við veitingu leyfa en styðja þá fullyrðingu sína hvorki með gögnum né dæmum. Stefndi minnir á að það sé ekki hlutverk stefnda að veita umrætt leyfi. Enn fremur byggi stefnendur á því að málsmeðferðartími hafi verið of langur og vísa í því sambandi til þess að fjórtán mánuðir hafi liðið frá því að sótt hafi verið um endurnýjun á leyfi þar til tilkynnt hafi verið um synjun á útgáfu leyfisins. Ekki fæst séð hvernig umsagnaraðili líkt og stefndi geti borið ábyrgð á málsmeðferðartíma við útgáfu leyfis nema hvað varðar þann tíma sem tekur að veita umsögn. Stefndi sé ekki leyfisveitandi og stefndi hafi þ.a.l. ekki forræði fyrir málsmeðferðinni og þeim tíma sem hún taki.      Í tengslum við þær fullyrðingar stefnenda að með tilvitnuðum úrskurðum innanríkisráðuneytisins hafi verið staðfest að stefndi hafi brotið framangreindar réttarreglur, áréttar stefndi að ekki hafi verið kvartað yfir háttsemi stefnda í þeim málum heldur leyfisveitandanum, Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Úrskurðirnir geti því ekki með nokkrum hætti staðfest meint brot stefnda.          Að ofangreindu virtu telur stefndi ljóst að stefnendur hafi ekki sýnt fram á að stefndi hafi brotið lög eða með öðrum hætti sýnt af sér saknæma eða ólögmæta háttsemi sem kynni að baka stefnda bótaábyrgð. Þá hafi stefnendur því síður sýnt fram á að orsakasamhengi sé milli ætlaðra brota stefnda og ætlaðs tjóns stefnenda. Stefndi bendir á að stefnendur beri alla sönnunarbyrði í málinu. Þegar af þessum ástæðum verði að sýkna stefnda af öllum dómkröfum í málinu. Verði af einhverjum ástæðum ekki fallist á sýknu á þessum grundvelli vísar stefndi til eftirfarandi umfjöllunar um kröfuliði stefnenda.         Varðandi fjárkröfur vegna almenns fjártjóns stefnenda, annars vegar vegna rekstrarstöðvunar (missis hagnaðar) og hins vegar vegna tapaðrar viðskiptavildar, byggir stefndi á því að þær séu órökstuddar.          Kröfur stefnenda vegna rekstrarstöðvunar (missis hagnaðar) séu grundvallaðar á gögnum endurskoðenda stefnenda og þá útreikninga sé að finna í dskj. nr. 9. Samkvæmt útreikningum í dskj. nr. 9 sé tap stefnanda Sextán ehf. sagt vera 532.080 kr. og tap stefnanda Casino ehf. 617.500 kr. eða samtals 1.149.580 kr. Umræddar tölur séu fengnar með því að bera saman heildarsölutölur frá tilteknu tímabili í kringum páska annars vegar árið 2007 og hins vegar árið 2008. Um sé að ræða 10 daga tímabil frá miðvikudegi fyrir skírdag og til föstudags næstu viku. Stefnendur telja að meint saknæm og ólögmæt háttsemi hafi leitt til sölutaps milli ára.         Vegna þessa vekur stefndi athygli á að þar sem páskadagur er haldinn fyrsta sunnudag eftir fyrsta fulla tungl frá og með 21. mars ber páskana ekki upp á sama mánaðardag ár hvert. Bornar séu saman sölutölur á 10 daga tímabili í kringum páskahátíðina. Tímabilið hafi staðið frá 4.-13. apríl árið 2007 en frá 19.-28. mars árið 2008. Ef sölutölur áranna 2007 og 2009 eru hins vegar bornar saman megi sjá að þær séu keimlíkar en viðmiðunartímabil ársins 2009 stóð frá 8.-17. mars. Viðmiðunartímabil áranna 2007 og 2009 eigi það sameiginlegt að vera mun fyrr í mánuðinum en tímabil ársins 2008. Stefnda þykir augljóst að meginskýring á minni sölu páskavikuna 2007 en sögð sé reyndin 2008, sé hversu langt hafi verið liðið frá mánaðamótum þegar páskavikuna bar upp á árinu 2007. Stefnendur beri því saman ósambærileg tímabil. Þá þyki rétt að benda á að sölutekjur endurspegla ekki hagnað fyrirtækjanna heldur rekstrarafkoman í heild sinni. Mörg fyrirtæki með miklar sölutekjur séu engu að síður rekin með miklum halla og eigendur væru betur settir í stöðvun rekstrar áður en hallarekstur hefur étið upp allt eigið fé. Stefnendur hafi ekki lagt fram nein gögn sem sýna hver var hagnaður þeirra umrætt tímabil og til samanburðar á sama tímabili árið áður og næstu ár á eftir. Þá hafi ekki verið lagt fram fram endurskoðað uppgjör félaganna kröfunum til staðfestingar.         Stefndi byggir á því að ekki hafa verið færðar sönnur fyrir því að meint tjón stefnenda megi reka til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda. Jafnvel þótt litið yrði svo á að einhver háttsemi stefnda hafi verið saknæm og ólögmæt sé með öllu ósannað eitthvert orsakasamhengi milli háttsemi stefnda og meints tjóns stefnenda eða að það hafi verið sennileg afleiðing þeirrar háttsemi. Kröfum stefnenda sé því mótmælt þar sem tjón stefnenda sé ósannað, ekki hafi verið sýnt fram á orsakatengsl við meinta saknæma og ólögmæta háttsemi stefnda og skilyrði um sennilega afleiðingu séu ekki uppfyllt.         Þá byggir stefndi á því að skaðabótakröfur fyrnist á fjórum árum frá þeim degi er tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgð ber á því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Stefndi telur að upphaf fyrningarfrests krafnanna sé 19.-28. mars 2008. Verði ekki séð að þeirri fyrningu hafi verið slitið fyrr en með birtingu stefnu 26. júní sl. Meintar kröfur um skaðabætur eru því fyrndar.         Stefnendur gera hvor um sig kröfu um greiðslu 3.000.000 kr. vegna tapaðrar viðskiptavildar eða samtals 6.000.000 kr. Kröfurnar séu settar fram sem almennar fjárkröfur utan samninga en rökstuddar í stefnu eins og um væri að ræða kröfur um greiðslu fyrir ófjárhagslegt tjón en slíkar bætur geti augljóslega ekki komið til greina.         Stefndi tekur fram að viðskiptavild megi skipta annars vegar í keypta viðskiptavild og hins vegar viðskiptavild sem nefna má innbyggða viðskiptavild. Keypt viðskiptavild sé mismunur á kaupverði fyrirtækis og verðmæti eigna þess. Slíka viðskiptavild sé aðeins hægt að bókfæra sem óefnislega eign í efnahag ef fyrirtæki er keypt í heilu lagi. Hún myndist því ekki við kaup á einstökum rekstrarfjármunum, við sameiningu tveggja félaga eða við endurmat eigna í félagi. Innbyggða viðskiptavild megi skýra sem kostnað sem sé til þess fallinn að auka hag viðkomandi fyrirtækis til framtíðar án þess að til verði óefnisleg eign. Innbyggð viðskiptavild geti m.a. verið fólgin í því að hópur viðskiptamanna kjósi að skipta við fyrirtæki vegna einhverra sérstakra kosta þess. Ekki sé hægt að setja mælistiku á innbyggða viðskiptavild og geti hún því ekki talist eign í bókhaldslegum skilningi. Hana sé því ekki hægt að bókfæra. Í stefnunni sé ekki getið um hvort hin meinta tapaða viðskiptavild sé keypt eða innbyggð. Jafnframt sé engin tilraun gerð til þess að styðja kröfurnar með neinum gögnum. Fjárkröfur um bætur vegna tapaðrar viðskiptavildar séu því með öllu órökstuddar og því eigi stefndi erfitt með að átta sig á því hvort og hvenær hið meinta tjón hafi átt sér stað og hvernig rekja megi það til meintrar saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda. Meint tjón stefnenda sé ósannað, ekki hefur verið sýnt fram á orsakatengsl við meinta saknæma og ólögmæta háttsemi stefnda og skilyrði um sennilega afleiðingu sé ekki uppfyllt.         Þá er á því byggt að kröfur um skaðabætur vegna meintrar tapaðrar viðskiptavildar séu fyrndar, að hluta eða öllu leyti, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda.          Stefndi bendir á að stefnendur geri kröfu um greiðslu lögmannskostnaðar á stjórnsýslustigi og séu kröfurnar grundvallaðar á reikningum á dskj. nr. 44, 45 og 46. Í stefnu séu færð rök fyrir kröfunni og m.a. vísað til þess að útlagður kostnaður hafi ónýst stefnendum vegna þeirra annmarka sem voru á málsmeðferð og niðurstöðu stefnda. Í þessu sambandi áréttar stefndi sérstaklega að annars vegar sé það Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu sem gefi út leyfi á grundvelli laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sbr. 3. mgr. 7. gr. laganna eins og fram hafi komið. Hins vegar gildir sú meginregla í íslenskum rétti að borgararnir verði sjálfir að bera þann kostnað sem þeir hafi af erindum sínum til stjórnvalda og málarekstri fyrir þeim, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar Íslands frá 30. október 2008, nr. 70/2008. Kjósi þeir að nota aðstoð sérfræðinga við slík erindi og hafi af því kostnað geti þeir ekki krafist þess að sá kostnaður verði þeim bættur, þótt erindið eða málareksturinn verði árangurslaus.         Stefnandi Sextán ehf. gerir kröfu um greiðslu 820.399 kr. vegna lögmannskostnaðar. Við yfirferð framlagðra reikning sem allir eru undir dskj. nr. 44 fæst séð að þeir nema alls fjárhæð 1.273.478 kr. en reikningar T05067 að fjárhæð 164.340 kr. og T05177 að fjárhæð 123.255 kr. séu tvívegis lagðir fram. Af því er virðist hefði krafa vegna allra framlagðra reikninga því hæst átt að vera 985.833 kr.        Stefndi byggir á því að krafa um greiðslu lögmannskostnaðar sem grundvölluð sé á reikningum sem greiddir hafi verið fyrir 26. júní 2009 sé fyrnd, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Samkvæmt viðskiptayfirliti sem er ónúmeruð bls. 1 á dskj. nr. 44 á það við eftirtalda reikninga:; T03639 að fjárhæð 153.446 kr., T04032 að fjárhæð 147.533 kr., T05067 að fjárhæð 164.340 kr., T05177 að fjárhæð 123.255 kr., T06110 að fjárhæð 57.581 kr. og T06293 að fjárhæð 63.339 kr.         Þá gerir stefndi athugasemdir við eftirfarandi reikninga, enda ekki á þeim að sjá að þeir hafi nokkur tengsl við sakarefnið eins og stefnandi Sextán ehf. hafi markað því farveg: Reikningur T03639 að fjárhæð 153.446 kr., texti á reikningi beri ekki með sér að hann sé tilkominn vegna vinnu vegna sakarefnisins, að auki sé hann tilkominn vegna vinnu Sveins Andra Sveinssonar hrl. en aðrir reikningar séu sagðir vegna vinnu Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl.         Reikningar T06110 að fjárhæð 57.581 kr., T06293 að fjárhæð 63.339 kr., T06398 að fjárhæð 109.404 kr., T06499 að fjárhæð 92.130 kr. og T06675 að fjárhæð 195.776 kr. beri það ekki með sér að þeir séu tilkomnir vegna vinnu í tengslum við sakarefnið. Þá vísi þeir til vinnuskýrslna sem ekki séu meðal dómskjala málsins.        Krafa stefnanda Sextán ehf. vegna lögmannskostnaðar sé því órökstudd, ósönnuð og án tengsla við sakarefnið eins og stefnandi hafi markað því farveg og sé henni því mótmælt. Meint tjón stefnanda sé ósannað, ekki hafi verið sýnt fram á orsakatengsl við meinta saknæma og ólögmæta háttsemi stefnda og skilyrði um sennilega afleiðingu séu ekki uppfyllt.            Stefnandi Casino ehf. gerir kröfu um greiðslu 3.237.633 kr. vegna lögmannskostnaðar. Krafan grundvallist á reikningum sem annars vegar eru á dskj. nr. 45 sem séu samtals 1.212.755 kr. og á dskj. nr. 46 sem séu samtals 2.689.389 kr. Framlagðir reikningar hljóði því upp á 3.902.144 kr., sem samrýmist ekki þeirri fjárkröfu sem höfð sé uppi í málinu.           Allir reikningar á dskj. nr. 45, að frátöldum T040310, eru lagðir fram tvisvar. Reikningar T04718 og T04719, sem hvor um sig eru lagðir fram tvisvar, séu gefnir út sama dag með sama texta og beri þeir með sér að um sé að ræða rukkun tvívegis fyrir sömu vinnuna. Á viðskiptayfirliti sem sé ónúmerað bls. 1 á dskj. nr. 45 sé ekki að sjá bakfærslu á öðrum reikningnum. Krafa vegna reikninga á dskj. nr. 45 ætti því hæst að vera 557.636 kr. m.v. að hver reikningur sé lagður fram einu sinni og að reikningar T04718 og T04719 feli í raun í sér tvírukkun fyrir sömu vinnu.        Þá eru gerðar eftirfarandi athugasemdir við reikninga á dskj. nr. 46 sem fæst ekki séð að hafi nokkur tengsl við sakarefnið eins og stefnandi Casino ehf. hefur markað því farveg: Reikningar nr. 87 að fjárhæð 526.287 kr., nr. 203 að fjárhæð 298.445 kr., nr. 282 að fjárhæð 158.722 kr., nr. 277 að fjárhæð 175.213 kr., nr. 265 að fjárhæð 175.2013 kr. og nr. 247 að fjárhæð 206.134 kr. beri ekki með sér að þeir séu tilkomnir vegna vinnu í tengslum við sakarefnið, heldur sé almennt vísað til lögfræðilegrar ráðgjafar.        Fyrir utan þær athugasemdir sem gerðar hafa verið við framlagða reikninga á dskj. nr. 45 og 46 byggir stefndi á því að krafa um greiðslu lögmannskostnaðar sem grundvölluð sé á reikningum sem greiddir hafi verið fyrir 26. júní 2009 sé fyrnd, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Samkvæmt viðskiptayfirliti, sem sé ónúmeruð bls. 1 á dskj. nr. 45, eigi það við um alla reikninga á dskj. nr. 45.        Krafa stefnanda Casino ehf. vegna lögmannskostnaðar sé því órökstudd, ósönnuð og án tengsla við sakarefnið eins og stefnandi hafi markað því farveg og sé henni því mótmælt. Meint tjón stefnanda sé ósannað, ekki hafi verið sýnt fram á orsakatengsl við meinta saknæma og ólögmæta háttsemi stefnda og skilyrði um sennilega afleiðingu séu ekki uppfyllt.        Stefndi vísar til þess að stefnendur geri hvor um sig kröfu um greiðslu 1.632.000 kr. eða samtals 3.264.000 kr. vegna vinnutaps starfsmanna félaganna. Í stefnu sé því haldið fram að vinnutap starfsmanna félaganna, einkum fyrirsvars­manns þeirra, hafi numið um 3.000 vinnustundum á sex ára tímabili, einkum vegna samskipta fyrirsvarsmanns stefnenda við stefnda og vegna samskipta við lögmann vegna háttsemi stefnda.         Hvorki í stefnunni sjálfri né í gögnum málsins geri stefnendur tilraun til þess að sýna fram á hvernig skert vinnuframlag sé fundið út. Þá séu ekki lögð fram gögn sem sýnt geti fram á að launakostnaður félaganna hafi aukist. Kröfurnar séu því að öllu leyti órökstuddar og ósannaðar. Í þessu sambandi bendir stefndi á að á umræddu tímabili keyptu stefnendur lögmannsþjónustu til þess að vinna í málum félaganna og sé í stefnu krafist samtals 4.477.527 kr. vegna þess. Ef fjöldi tíma samkvæmt framlögðum reikningum sé lagður saman sé um að ræða 286,25 klst. Hvað tilvitnaða fjárhæð og fjölda tíma varðar sé vísað til þess sem fram komi í umfjöllun um kröfur vegna lögmannskostnaðar. Í keyptri lögmannsþjónustu hafi falist m.a. fundarseta með fyrirsvarsmanni stefnenda, fundir lögmanna með borgarfulltrúum og fundir lögmanna með starfsmönnum ráðuneyta. Er því dregið í efa að tapaðar vinnustundir fyrirsvarsmanns stefnenda séu 3.000 klst. Ef gert er ráð fyrir því að fyrirsvarsmaðurinn hafi setið með lögmönnum sínum allan þann fjölda stunda sem kröfur vegna lögmannskostnaðar grundvallist á standi eftir ríflega 2.700 vinnustundir sem fyrirsvarsmaður stefnenda eigi að hafa unnið að málinu án atbeina lögmanna. Ef unnin er 40 klst. vinnuvika er um að ræða 67,5 vikna vinnutap eða sem nemur tæplega einu og hálfu ári. Blasi því við að það fái ekki staðist.        Í tengslum við kröfur stefnenda er vísað til dóms Hæstaréttar Íslands frá árinu 2002, bls. 4363 er laut að kröfu um greiðslu skaðabóta úr hendi íslenska ríkisins vegna þess að vinna starfsmanna stefnanda við að fá ólögmæt gjöld felld niður hafi skert vinnuframlag þeirra í hans þágu. Í niðurstöðu Hæstaréttar Íslands komi eftirfarandi m.a. fram: „Af framlögðum gögnum verður ekki annað ráðið en að gagnaöflun hans og bréfaskriftir hafi verið eins og hver annar þáttur í starfsemi hans. Fyrirtæki sem þetta þurfa jafnan að eiga samskipti við stjórnvöld, þar á meðal til þess að fá leiðréttingar sinna mála.“ Íslenska ríkið hafi verið sýknað af bótakröfunni. Fyrirtæki í leyfisskyldum rekstri líkt og stefnendur þurfi að vera í samskiptum við stjórnvöld, m.a. til þess að afla tilskilinna leyfa. Draga verði þá ályktun af tilvísuðum dómi að vinna fyrirsvarsmanns stefnenda vegna fundahalda og gagnaöflunar hafi verið eins og hver annar þáttur í starfsemi félaganna.         Stefndi telur því að kröfur stefnenda um greiðslu kostnaðar vegna vinnutaps starfsmanna séu órökstuddar og ósannaðar og mótmælir þeim. Meint tjón stefnenda sé ósannað, ekki hefur verið sýnt fram á orsakatengsl við meinta saknæma og ólögmæta háttsemi stefnda og skilyrði um sennilega afleiðingu séu ekki uppfyllt.        Kröfum stefnenda um greiðslu vaxta, dráttarvaxta og vaxtavaxta er mótmælt sérstaklega af stefnda. Í því sambandi er bent á að upphafstími vaxta sé sagður vera 10. október 2007 en hluti krafna byggi á gögnum og atvikum eftir þann dag. Dráttarvaxtakröfurnar séu ódómtækar þar sem upphafstími dráttarvaxta er ekki tilgreindur og því ekki unnt að taka dómkröfurnar upp í dómsorð. Stefndi mótmælir kröfum stefnenda um greiðslu vaxta sem eru eldri en fjögurra ára frá málshöfðunardegi sérstaklega sem fyrndum, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Hvað sem öðru líður er þess krafist af stefnda að upphafstími vaxta verði ekki fyrr en við dómsuppsögu.             Með vísan til alls framangreinds er sýknukrafa ítrekuð enda með öllu órökstutt og ósannað að stefndi hafi með saknæmri og ólögmætri háttsemi valdið stefnendum tjóni sem honum beri að bæta.        Stefndi byggir málatilbúnað sinn á réttarreglum skaðabótaréttar utan samninga. Þá byggir stefndi á ákvæðum laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og reglugerð nr. 858/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Enn fremur byggir stefndi á ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ákvæðum stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 auk almennra ólögfestra réttarreglna stjórnsýslu- og stjórnskipunarréttar og meginreglum sveitarstjórnarréttar.         Jafnframt byggir stefndi á ákvæðum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, ákvæðum laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda og ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.         Málskostnaðarkrafa stefnda byggir á 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. IV. Niðurstaða         Stefnendur byggja á því í máli þessu að stefndi hafi með umsögnum sínum samkvæmt 1. tölulið 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og ólögmætri málsmeðferð valdið stefnendum fjárhagstjóni með saknæmum og ólögmætum hætti sem stefndi beri bótaábyrgð á samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð og sjónarmiðum sakarreglunnar. Eins og rakið hefur verið er öllum málsástæðum stefnenda mótmælt af hálfu stefnda og á því byggt að ekki sé fyrir hendi saknæm og ólögmæt háttsemi stefnda sem leitt hafi til tjóns fyrir stefnendur. Þá sé ætlað tjón stefnenda ósannað og ekki sé af hálfu stefnenda sýnt fram á orsakatengsl eða hvernig skilyrði um sennilega afleiðingu séu uppfyllt.         Við aðalmeðferð gáfu skýrslu Margrét Jóna Margeirsdóttir, rekstrarstjóri Mónakó og Monte Carlo og Margeir Margeirsson, starfsmaður og eigandi stefnenda. Margrét kvaðst hafa starfað við rekstur og afgreiðslu á stöðunum frá því í maí 2005. Hún kvað staðina frá því á árinu 2007 hafa verið rekna á bráðabirgðarekstarleyfum og allt fram til ársins 2012. Hún kvað föður sinn hafa annast samskipti varðandi umsóknir um rekstrarleyfi og mikill tími hafi farið í það vegna þess óöryggis sem leitt hafi af því að staðirnir hafi verið reknir á bráðabirgðaleyfum. Þá hafi afskipti lögreglu af veitingastöðunum verið mikil. Um páska 2008 hafi lögregla komið á skírdag og bannað sölu á áfengi frá kl. 11.00 til kl. 19.00 yfir páskahátíðina og komið ítrekað að fylgjast með því hvort áfengi væri selt þrátt fyrir bannið. Þetta hafi valdið óþægindum og rekstrartapi.         Margeir kvað ómældan tíma hafa farið í snúninga sína og erindrekstur vegna umsókna og endurnýjunar á rekstarleyfa vegna tregðu yfirvalda við að veita leyfi í samræmi við það sem þeim hafi borið. Fjölmiðlaumfjöllun hafa verið mjög neikvæð vegna þess að staðirnir hafi ekki fengið leyfi til 4 ára eins og venjan sé og þetta hafi skaðað verulega allt rekstarumhverfi staðanna og leitt til tekjutaps.         Varðandi mat á því hvort stefndi hafi með saknæmum og ólögmætum hætti  bakað stefnendum tjón eins og byggt er á af hálfu stefnenda verður að líta til þess að stefndi var umsagnaraðili samkvæmt 1. tölulið 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 og Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu fór með leyfisveitingar, sbr. 3. mgr. 7. gr. laganna. Úrskurðir innanríkisráðuneytisins, sem byggt er á af hálfu stefnenda, beinast ekki að stefnda í máli þessu sem kærða þó að í þeim sé byggt á því að annmarkar hafi verið á umsögnum og málsmeðferð stefnda. Þeir fella þannig úr gildi ákvarðanir lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á þeim forsendum að annmarkar hafi verið á umsögnum stefnda.         Varðandi það að stefndi hafi ekki í umsögnum sínum mátt byggja á löggæslusjónarmiðum er til þess að líta að fram kemur í 24. gr. reglugerðar nr. 585/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, þar sem fjallað er um það hvað skuli koma fram í umsögnum umsagnaraðila, sé upptalning ekki tæmandi. Í 1. tölulið 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 segir að það séu sveitarstjórnir sem m.a. staðfesti að afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lýtur að sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins kveða á um. Í málsmeðferðarreglum stefnda varðandi veitinga- og gististaði segir að borgarráð skuli horfa til reynslu sem fengist hafi af rekstri viðkomandi veitingastaðar sem sækir um leyfi. Telja verður eðlilegt að stefndi taki í umsögnum sínum mið af því hver reynslan hafi verið af rekstri viðkomandi staðar og hvernig hann fellur inn í umhverfið. Varðandi veitingastaði stefnenda lágu fyrir fjölmargar kvartanir vegna ónæðis af völdum gesta staðanna, bæði kvartanir frá rekstraraðilum og ályktanir Íbúasamtaka miðborgar Reykjavík þegar umsögn var samþykkt 1. desember 2011. Þegar leyfi hafði verið veitt þann 2. mars 2010 til eins árs voru sett skilyrði sem byggðust á umsögn borgarráðs stefnda með vísan til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga um að veitt yrði óbreytt rekstrarleyfi til eins árs til reynslu með hefðbundnum skilyrðum. Með þessu móti gaf stefndi stefnendum möguleika á að sýna fram á bætt umhverfi veitingastaðanna og þannig var gætt meðalhófs. Í umsögn stefnda kom fram að á reynslutímanum yrði af hálfu lögreglu fylgst grannt með þróun mála og reyndist það ónæði sem reksturinn ylli ekki minnka svo að unandi væri við, mætti búast við því að gefin yrði neikvæð umsögn þegar endurnýjun rekstrarleyfis kæmi til meðferðar í borgarráði að ári liðnu. Eðli máls samkvæmt eru löggæslusjónarmið eitt þeirra sjónarmiða sem líta ber til við veitingu leyfa á grundvelli laga nr. 85/2007. Samkvæmt 6. tl. 4. mgr. 10. gr. laganna veitir lögregla m.a. umsögn um nauðsyn á dyravörslu. Hafi stefnda verið óheimilt að vísa til þeirra atriða sem stefndi byggði á í umsögnum sínum hefði leyfisveitandi, Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, væntanlega átt að líta fram hjá umsögnum stefnda. Það breytir því ekki að leyfisveitanda hefði borið að horfa til þessara atriða á grundvelli löggæslusjónarmiða. Stefnendur hafa ekki sýnt fram á að Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefði afgreitt mál þeirra með öðrum hætti þótt allar umsagnir væru jákvæðar þar sem hann gat synjað um leyfi þrátt fyrir að aðrar umsóknir væru jákvæðar teldi hann það þau atriði sem honum bar að líta til leiddu til þess.         Varðandi vísan stefnenda til rannsóknarreglu og andmælareglu stjórnsýslulaga og reglur um aðgang að gögnum liggur fyrir í gögnum málsins að stefnendum var gefinn kostur á að koma að athugasemdum og andmælum en stefndi var ekki leyfisveitandi eins og áður er rakið. Ekki verður annað ráðið af gögnum en stefnendur hafi haft vitneskju um þær kvartanir sem lágu til grundvallar umsögnum stefnda. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að stefndi hafi ekki gætt jafnræðis varðandi umsagnir sínar skv. 1. tl. 4. mgr. 10. gr. l. 85/2007. Þá verður ekki litið svo á að stefndi sem umsagnaraðili geti borið ábyrgð á málsmeðferðartíma við útgáfu leyfis þar sem hann hafði ekki forræði fyrir leyfisveitingunni, heldur Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu. Þá hafa stefnendur ekki sýnt fram að leyfisveitandi hefði afgreitt mál þeirra með öðrum hætti hefðu umsagnir stefnda verið jákvæðar.         Samkvæmt því sem rakið hefur verið hafa stefnendur ekki sýnt fram á að stefndi hafi með umsögnum sínum sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi sem bakað hafi stefnda bótaábyrgð. Þá hafa stefnendur ekki sýnt fram á orsakasamband milli umsagna og málsmeðferðar stefnda og ætlaðs tjóns stefnenda og skilyrði um sennilega afleiðingu eru ekki uppfyllt. Þegar af þessum ástæðum verður að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnenda í málinu.         Að fenginni þessari niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnendum, hvorum um sig, gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins eins og kveðið er á um í dómsorði.         Vegna embættisanna dómara hefur uppkvaðning dóms dregist umfram frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Dómari og lögmenn aðila eru sammála um að ekki sé þörf á endurflutningi.         Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp dóminn. Dómsorð:         Stefndi, Reykjavíkurborg, er sýkn af öllum dómkröfum stefnenda, Sextán ehf. og Casino ehf.         Stefnendur greiði stefnda hvor um sig 250.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 558/2014
Fjármálafyrirtæki Samningsveð Handveð Samningur Lánssamningur Gengistrygging
L hf. og B greindi annars vegar á um hvort samkomulag hefði verið með þeim um heimild L hf. til að ráðstafa söluandvirði fjármálagerninga á vörslureikningi, sem B hafði sett L hf. að handveði til tryggingar skuldum D ehf. við L hf., þ. á m. um hvort L hf. hefði glatað handveðréttindum sínum. Hæstiréttur taldi sannað, meðal annars að virtum samskiptum aðilanna, að samkomulag hefði tekist þeirra í millum um sölu hinna handveðsettu fjármálagerninga í þeim tilgangi að greiða tilgreinda skuld D ehf. við L hf. Var réttarvernd handveðsins ekki talin hafa fallið niður við það eitt að andvirði veðandlagsins hefði í þessum tilgangi verið lagt inn á kvaðalausa bankareikninga B í skamman tíma. Hins vegar stóð deila aðilanna um hvort lánssamningur milli D ehf. og L hf. hefði væri bundinn ólögmætri gengistryggingu. Hæstiréttur taldi að þegar textaskýring lánssamnings tæki ekki af skarið um hvers efnis skuldbinding hans væri, eins og ætti við um hinn umdeilda lánssamning, yrði að líta til atriða sem lytu að því hvernig hún hefði verið efnd og framkvæmd að öðru leyti, en að því virtu komst rétturinn að niðurstöðu um lögmæti samningsins, sem staðið hefði um skuldbindingu í erlendum myntum.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. ágúst 2014. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. maí 2014. I.         Mál þetta, sem dómtekið var 1. apríl 2014, er höfðað með stefnu útgefinni 27. júlí 2012 af Birki Leóssyni, Fannafold 176, Reykjavík, á hendur Landsbankanum hf., Austurstræti 11, Reykjavík.           Stefnandi gerir aðallega svofelldar dómkröfur á hendur stefnda: Til vara gerir stefnandi svofelldar dómkröfur á hendur stefnda: Að stefnda verði gert að greiða stefnanda 232.654,54 Bandaríkjadali (USD) með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. mars 2009 til greiðsludags, en til vara að stefnda verði gert að greiða stefnanda 26.089.880 krónur með sömu vöxtum frá sama degi til greiðsludags, og er þess í báðum tilvikum jafnframt krafist að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað eftir mati dómsins.         Í upphaflegri kröfugerð krafðist stefndi þess að málinu yrði vísað frá dómi en til vara að hann yrði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda. Þá krafðist stefndi þess að stefnandi yrði dæmdur til að greiða sér málskostnað að mati dómsins auk virðisaukaskatts. Stefnandi krafðist þess að frávísunarkröfu yrði hafnað. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2013 var frávísunarkröfu hafnað og ákvörðunar um málskostnað frestað til efnisdóms. II. Málsatvik         Í máli þessu er deilt um það hvort stefnda hafi verið heimilt að ráðstafa innistæðu á tveimur bankareikningum stefnanda, annars vegar gjaldeyrisreikningi og hins vegar tékkareikningi, til greiðslu skulda Drómundar ehf., áður Hverafoldar ehf., einkahlutafélagi í eigu stefnanda. á grundvelli handveðsyfirlýsingar sem stefnandi gaf út þann 25. apríl 2007 til handa Landsbanka Íslands hf. Samkvæmt yfirlýsingunni setti og afhenti stefnandi Landsbanka hf. að handveði tilgreinda fjármálagerninga.          Stefndi var stofnaður 9. október 2008 með lögum nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði. Fólu lögin meðal annars í sér breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og var Fjármálaeftirlitinu meðal annars fengnar heimildir til að grípa til sérstakra ráðstafana, vegna sérstakra aðstæðna eða atvika, í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði. Þann 7. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið þá ákvörðun á grundvelli 100. gr. a. laga um fjármálafyrirtæki að taka yfir vald hluthafafundar Landsbanka Íslands hf. og víkja félagsstjórn í heild sinni frá störfum. Skipaði Fjármálaeftirlitið skilanefnd sem tók við öllum heimildum stjórnar félagsins samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög nr. 2/1995 og í samræmi við 100. gr. a. laga um fjármálafyrirtæki. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dags. 9. október 2008, var Nýi Landsbanki Íslands hf., nú Landsbankinn hf., stofnaður.         Stefnandi byggir á því í stefnu að handveðsyfirlýsingin, sem stefnandi gaf út þann 25. apríl 2007 til handa Landsbanka Íslands hf., hafi verið gefin út til stefnda en ekki forvera hans Landsbanka Íslands hf., en skýrt má ráða af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu að hér er ekki um sama aðila að ræða. Ekki er ágreiningur um það milli málsaðila til hvers henni var beint heldur byggir stefnandi málssókn sína á því að handveðið hafi ekki átt að ná til söluandvirðis bréfanna.         Stefnandi hafði tvo bankareikninga hjá stefnda, annars vegar gjaldeyrisreikning í Bandaríkjadollurum (USD) nr. 0116-38-100800 og hins vegar tékkareikning nr. 0116-26-001704. Þá hafði stefnandi á vörslureikningi nr. 961905 hjá stefnda ýmsa fjármálagerninga, m.a. eignarhluti í „Landsbanki Global Equity Fund“, eignarhluti í „Global Value Portfolio-A-USD“ og eignarhluti í „Global Growth Trends Portfolio-A-USD“. Hinn 27. febrúar 2009 seldi stefndi greinda eignarhluti stefnanda í „Landsbanki Global Equity Fund“ og lagði söluverðið 27.710.315 krónur inn á tékkareikning stefnanda og hinn 2. mars 2009 seldi stefndi annars vegar greinda eignarhluti stefnanda í „Gobal Value Portfolio-A-USD“ og lagði söluverðið USD 115.420,39 inn á gjaldeyrisreikning stefnanda, og hins vegar greinda eignarhluti stefnanda í „Global Growth Trends Portfolio-A-USD“ og lagði söluverðið USD 129.819,18 inn á gjaldeyrisreikning stefnanda, samtals lagði stefndi því inn á gjaldeyrisreikninginn USD 245.239,57 vegna sölu verðbréfa stefnanda. Stefndi tók síðan þessa fjárhæð hinn 6. mars 2009 út af gjaldeyrisreikningnum og lagði hana inn á tékkareikning stefnanda sem 27.501.166 krónur. Sama dag tók stefndi síðan til sín 51.630.533 krónur af tékkareikningnum og greiddi sér með þeim ætlaða skuld Drómundar ehf. við sig að sömu fjárhæð.         Sú skuld Drómundar ehf. (áður Hverafold ehf.), sem stefndi greiddi sér með  úttekt af tékkareikningi stefnanda nr. 0116-26-001704, var samkvæmt lánasamningi við Landsbanka Íslands hf. sem var nr. 7837, dags. 2. maí 2007, að fjárhæð 25.000.000 kr. og átti höfuðstóll skuldarinnar að breytast í réttu hlutfalli við gengi tveggja erlendra gjaldmiðla, þ.e. svissneskra franka (CHF) og japanskra jena (JPY). Stefnandi hafði óskað eftir þessu láni hjá stefnda og að lántakandi yrði einkahlutafélagið Hverafold ehf., sem væri í 100% eigu stefnanda.                Lánið var veitt í japönskum jenum og svissneskum frönkum, sbr. kaupnótu, dags. 4. maí 2007. Félagið óskaði eftir því að fá lánið greitt út í bandarískum dollurum og að andvirði lánsins yrði lagt inn á gjaldeyrisreikning stefnanda nr. 0116-38-100800 en hann er í bandarískum dollurum og stefnandi hafði stofnað  reikning þennan þann 30. apríl 2007. Þann 2. maí 2007 óskaði starfsmaður lánavinnslu Landsbanka Íslands hf. eftir því við starfsmenn gjaldeyrisborðs bankans að fengið yrði gengi á CHF og JPY á móti USD. Þann 4. maí 2007 voru svo erlendu myntirnar seldar (CHF og JPY) og fyrir andvirði þeirra voru keyptir dollarar sem voru lagðir inn á gjaldeyrisreikning stefnanda nr. 0116-38-100800.         Lánið bar Drómundi ehf. að endurgreiða með einni afborgun í lok lánstímans þann 16. maí 2009.          Stefnandi hafði samband við Kristján Guðmundsson, þáverandi útibússtjóra stefnda, með tölvupósti, dags. 11. febrúar 2009, þar sem hann staðfesti að Drómundur ehf. ætti ekki fyrir skuldum  og upplýsti  að hann væri að reyna að bjarga félaginu og hefði hug á að forða félaginu frá gjaldþroti. Í tölvupósti þessum gerði stefnandi grein fyrir þeirri hugmynd sinni að hann myndi persónulega kaupa lánasamning Landsbankans á Drómund ehf. og greiða fyrir með því að selja þær eignir sínar sem bankinn hafði að veði. Síðan segir í tölvupóstinum: „Með þessari hugmynd um að ég kaupi kröfu Landsbankans á Drómund er ég að gera ráð fyrir að Landsbankinn fái alla kröfu sína greidda uppreiknaða með áföllnum vöxtum en bæti ekki á neinum aukakostnaði. Hver er afstaða bankans, er þetta eitthvað sem kæmi til greina að gera?“                   Þann 17. febrúar 2009 svaraði þáverandi útibússtjóri stefnda erindi stefnanda með tölvupósti þar sem hann segir, „þetta gengur, ég læt innleysa bréfin.“         Stefnandi svaraði sama dag og þakkaði fyrir svör hans og sagði að hann legði mikla áherslu á að þetta væri framkvæmt eins og hann hefði mælt fyrir um, það er að hann eignaðist persónulega skuldabréfið eða lánasamninginn á Drómund ehf. „Þ.e ég kaupi þá pappíra af bankanum og fæ þá framselda og grundvalla síðan mína kröfu á Drómund á þeim lánasamningum. Þarf ég að koma við hjá þér til að skrifa undir eitthvað eða sendir þú mér pappírana. Viltu þá innleysa að fulla báða ACM sjóðina mína og það sem þarf af Landsbanka Global Equity fund upp í restina af kaupverðinu fyrir skuldabréfinu.“         Með tölvupósti daginn eftir tilkynnti lögmaður stefnda að bankinn hefði tekið þá stefnu að framselja ekki lánsskjöl samhliða uppgjöri. Þetta var stefnandi ekki sáttur við og málið dróst. Tölvusamskipti fóru fram milli stefnanda og starfsmanna stefnda þar sem reynt var að ná samkomulagi um það hvernig hægt væri að ganga frá málinu og útbúa skjöl varðandi greiðslu lánasamningsins þannig að stefnandi væri sáttur við það.        Í tölvupósti stefnanda til starfsmanns stefnda þann 24. febrúar 2009 kemur fram að stefnandi, samkvæmt ráðleggingum lögmanna, sætti sig alls ekki við yfirlýsingu sem fæli í sér að litið yrði svo á eða að túlkað yrði að hann ætti endurkröfu á Drómund ehf., enda væri það ekki það sem væri að gerast, heldur yrði hann að eignast kröfuna á Drómund ehf.           Þann 24. febrúar 2009 sendi útibússtjóri stefnda stefnanda tölvupóst þar sem segir: „Sæll Birkir, hvað segir þú um framhaldið?“          Með tölvupósti til stefnda þann 25. febrúar 2009 segist stefndi vera sammála stefnanda í grunninn varðandi endurkröfurétt, en vafi sé þar sem hann hafi ekki verið í persónulegri ábyrgð.            Stefnandi svarar síðan með tölvupósti, dags. 26. febrúar 2009 og segir: „Er ekki rétt að drífa í þessu og klára málið, innleysa sjóðina greiða fyrir lánið. Viltu láta mig vita hvenær ég má vænta þess að þessi mál verði frágengin.“            Daginn  eftir, þann 27. febrúar 2009, byrjaði stefndi að selja hina handveðsettu fjármálagerninga og kláraði hann sölu þeirra þann 2. mars 2009.         Í handveðsyfirlýsingu stefnanda, dags. 25. apríl 2007, sem gefin var út til Landsbanka Íslands hf., kom fram að eftirtaldir fjármálagerningar, sem geymdir væru á vörslureikningi veðsala nr. 961905, væru settir að handveði til tryggingar skaðlausri greiðslu á skuldum þeim, sem Hverafold ehf., nú eða síðar standi í við veðhafa, en þessir fjármálagerningar voru:   Global Growth Trends Portfolio-A-USD að nafnvirði ISK 4.753,650, Global Value Portfolio-A-USD að nafnvirði ISK 17.330,840, Landsbankinn Global Equity Fund að nafnvirði ISK 30.413,8415, American Value Portf.– A-USD að nafnvirði 22.916,333.         Fjármálagerningar þessir voru á vörslureikningi í umsjón stefnda og náði handveðrétturinn til hvers konar endurgreiðslna af handveðsettum fjármálagerningum. Þá er ákvæði um það að stefnanda væri óheimilt að ráðstafa hinum veðsettu fjármálagerningum nema með skriflegu samþykki stefnda og þá skyldi söluandvirði ganga til lækkunar á skuld þeirri sem handveðið átti að tryggja. Þá var stefnda við vanskil á skuldum Drómundar ehf. heimilt að nota andvirði hinna veðsettu fjármálagerninga í heild eða að hluta til fullnustu þeirra skulda og kostnaðar sem handveðið átti að tryggja enda hefði stefndi áður skorað á stefnanda að greiða vanskilin og gefið honum eigi skemmri frest en 15 sólarhringa. Þá var jafnframt ákvæði um það að stefndi tæki hina veðsettu fjármálagerninga til sín til fullnustu kröfum sínum skyldi tilteknum aðferðum beitt við að ákveða verð þeirra. Þá var og ákvæði um að tæki stefndi andvirði hinna veðsettu fjármálagerninga til fullnustu á kröfum sínum skyldi undirritun stefnanda undir handveðsyfirlýsinguna jafngilda framsali á fjármálagerningnum til stefnda.              Með bréfi, dags. 12. maí 2009, krafðist stefnandi þess að stefndi skilaði sér fjármunum þessum. Stefndi hafnaði því og taldi að sér hefði verið heimilt að slá eign sinni á þessa fjármuni vegna þess að stefnandi hefði hinn 25. apríl 2007 veitt honum handveð í fjármálagerningunum með útgáfu sérstakrar handveðsyfirlýsingar til tryggingar öllum skuldum Drómundar ehf. við bankann. Stefndi hélt því fram að handveðið hefði færst yfir á bankainnstæðureikninga stefnanda. Stefnandi hélt því aftur á móti fram að handveðréttindi stefnda í fjármálagerningunum hefðu fallið niður við sölu þeirra og ráðstöfun andvirðisins inn á bankareikninga hans og stefnanda því verið óheimilt að taka fjármuni sína af bankareikningunum og höfðaði hann mál þetta til þess að stefndi yrði dæmdur til að greiða sér þá til baka með vöxtum.         Sú skuld Drómundar ehf., sem stefndi greiddi sér með fjármunum stefnanda hinn 6. mars 2009, eins og áður er rakið, var samkvæmt lánasamningi, útgefnum 2. maí 2007, að fjárhæð 25.000.000 króna og átti höfuðstóll skuldarinnar að breytast í réttu hlutfalli við gengi tiltekinna tveggja erlendra gjaldmiðla, þ.e. svissneskra franka (CHF) og japanskra jena (JPY). Stefndi reiknaði út skuld Drómundar ehf. á grundvelli þeirra forsendna og greiddi sér skuldina þannig reiknaða. Stefnandi telur að skuldin hafi frá upphafi verið ólöglega tengd við gengi þessara gjaldmiðla.      Stefnandi bar ágreining sinn við stefnda varðandi aðalkröfu sína undir úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki hinn 29. desember 2009, sem féllst á að stefndi hefði glatað veðréttindum sínum en hafnaði allt að einu kröfum stefnanda með þeim rökum að stefnandi myndi ella „auðgast með óréttmætum hætti“ á kostnað stefnda. III. Málsástæður og lagarök stefnanda        Stefnandi byggir á því að samkvæmt handveðsyfirlýsingu þeirri sem hann gaf út til 25. apríl 2007 hafi veðréttur tekið til tiltekinna fjármálagerninga en þar hafi hins vegar ekki verið kveðið á um að veðrétturinn skyldi færast yfir á andvirði þeirra ef til sölu þeirra kæmi. Að lögum þurfi sérstaka yfirlýsingu veðsala ef svo eigi að vera, sbr. Hrd. í máli nr. 666/2010. Liggi þannig fyrir að stefndi hafi glatað handveðréttindum sínum í fjármálagerningunum þegar þeir voru seldir og andvirðinu ráðstafað inn á óveðsetta og kvaðalausa bankareikninga stefnanda. Beri stefnda því að endurgreiða stefnanda það fé sem hann hafi þannig ranglega af honum tekið eins og krafist sé í aðalkröfu.         Enginn samningur hafi verið gerður milli stefnanda og stefnda um að andvirði fjármálagerninganna, ef til sölu þeirra kæmi, væri veðsett bankanum. Stefnandi hafi heldur ekki með öðrum hætti heimilað stefnda að taka til sín umrædda fjármuni. Stefnandi vísar til skilmála sparireikninga hjá stefnda þar sem því sé lýst að skilyrði fyrir úttekt sé að viðkomandi hafi heimild til úttektar af reikningnum, viti leyninúmer og sýni fullgild persónuskilríki. Því sé ljóst að stefndi hafi hvorki haft samningsbundinn né lögbundinn rétt til að ráðstafa fjármununum af reikningum stefnanda eins og raun varð á. Engin heimild til handa stefnda til að slá eign sína á innstæður á bankareikningum stefnanda sé að finna í lögum nr. 75/1997 um samningsveð. Þvert á móti séu gerðar ríkar kröfur til þess að tryggilega sé gengið frá samningum ef stofna eigi til veðréttinda í fjármálagerningum. Stefnandi byggir á því að strangar kröfur séu gerðar til fjármálafyrirtækja og lánastofnana um að þær tryggi sér skýrar og ótvíræðar sannanir fyrir tilvist veðréttinda sinna, umfangi þeirra og heimildir að öðru leyti. Beri lánastofnanir að öðrum kosti halla af sönnunarskorti í þeim efnum, sbr. Hrd., 1990 bls. 1250, Hrd. 1993 bls. 1882, Hrd. 1995 bls. 1807, Hrd. 1997 bls. 2805 og í sambærilegu máli og þessu Hrd. nr. 666/2010. Stefnda hafi verið í lófa lagið að ráðstafa söluandvirði fjármálagerninganna inn á reikning í sinni eigu hafi hann litið svo á að hann ætti andvirðið. Engu skipti í þessu sambandi þótt Drómundur ehf. hafi á greindum tíma skuldað stefnda einhverja fjármuni því stefnda hafi verið óheimilt að greiða þær skuldir með fjármunum stefnanda án hans samþykkis eftir að þeir voru komnir inn á kvaðalausa bankareikninga hans. Ráðstöfun stefnda hafi því verið ólögmæt og honum beri að endurgreiða stefnanda fjármunina ásamt dráttarvöxtum frá þeim degi er þeir voru frá honum teknir. Þá mótmælir stefnandi því sérstaklega að unnt sé að líta svo á að handveð stefnda í fjármálagerningum stefnanda hafi flust yfir á innlánsreikninga stefnanda við bankann þegar andvirði þeirra var lagt inn á þá. Stefnandi byggir á því að hafa skuli ákvæði 36. gr. a. og b. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936 að leiðarljósi við túlkun samnings aðila.         Við aðalmeðferð mótmælti lögmaður stefnanda öllum rökum stefnda fyrir því að stefnandi myndi auðgast með ólögmætum hætti á kostnað stefnda yrði fallist á endurgreiðslukröfu hans og sýkna ætti stefnda af þeim sökum.         Stefnandi sundurliðar aðalkröfur sínar þannig að hann krefst annars vegar endurgreiðslu á 24.129.367 krónum og hins vegar endurgreiðslu á 245.239,57 Banaríkjadollurum (USD).  Annars vegar byggir stefnandi á því að stefnda hafi verið óheimilt að taka 245.239,57 Banaríkjadollara (USD) af gjaldeyrisreikningi hans nr. 0116-38-100800 hinn 6. mars 2009 og beri honum að endurgreiða sér þá fjárhæð, alveg án tillits til þess að þeir fjármunir hafi samdægurs verið lagðir inn á tékkareikning stefnanda og síðan teknir af þeim reikningi, einnig með ólögmætum hætti. Hins vegar byggir stefnandi á að stefnda hafi verið óheimilt þann sama dag og hann lagði inn að taka til sín 51.630.533 krónur af tékkareikningi stefnanda nr. 0116-26-001704. Aðallega er því krafist endurgreiðslu á greindri fjárhæð í Bandaríkjadollurum og endurgreiðslu á 24.129.367 krónum, sem er mismunur á þeirri fjárhæð sem stefndi tók út af tékkareikningi stefnanda og þeim 27.501.166 krónum, sem hann hafði lagt inn á reikninginn sama dag sem andvirði hinnar erlendu fjárhæðar. Verði ekki fallist á að stefnandi geti krafið stefnda um endurgreiðslu á 245.239,57 banaríkjadollurum (USD) er þess til vara krafist að þess í stað verði stefnda gert að endurgreiða stefnanda andvirði þeirrar fjárhæðar í íslenskum krónum eins og stefndi reiknaði það sjálfur 6. mars 2009, þ.e. 27.501.166 krónur.  Fyrsta aðalkrafa og varakrafa annarrar aðalkröfu séu jafnar þeirri fjárhæð sem stefandi tók út af tékkareikningi stefnanda 6. mars 2009, þ.e. samtals 51.630.533 krónur (kr. 24.129.367 + kr. 27.501.166).         Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda dráttarvexti af kröfðum fjárhæðum frá 6. mars 2009 en þann dag hafi stefndi tekið heimildarlaust hinar kröfðu fjárhæðir út af bankareikningum stefnanda.         Verði ekki fallist á aðalkröfur stefnanda og á því byggt að stefnda hafi verið heimilt að slá eign sinni á innstæður stefnanda svo sem að framan sé rakið, vegna þess að hann hafi notið veðréttinda í þeim eða af öðrum ástæðum, þá krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að skila stefnanda fjárhæð sem svari til mismunar þess sem hann tók af reikningunum og fjárhæðar, sem hann átti réttmæta kröfu á hinn 6. mars 2009, til uppgreiðslu á skuld Drómundar ehf., samkvæmt lánssamningnum frá 2. maí 2007, sem stefandi setti fjármálagerninga sína að veði fyrir. Stefnandi byggir á því að lánssamningurinn, sem upphaflega var að fjárhæð 25.000.000 króna, hafi ólöglega verið bundinn við gengi erlendra gjaldmiðla og að stefndi hafi hinn 6. mars 2009 tekið sér 51.630.533 krónur til uppgreiðslu þess í stað 25.540.653 króna, sem hann hafi að réttu lagi átti rétt til.         Stefnandi byggir á því að taka beri varakröfu hans til greina vegna þess að sú skuldbinding Drómundar ehf. í greindum lánssamningi að lánsfjárhæð sú sem upphaflega var tekin að láni hjá stefnda, 25.000.000 króna, ætti að taka breytingum í samræmi við breytingar á gengi svissneskra franka (CHF) og japanskra jena (JPY) sé ógild. Skuldbindingin hafi verið ógild við undirritun lánssamningsins hinn 2. maí 2007, með vísun til ófrávíkjanlegra ákvæða 13. gr. og 14. gr., sbr. 2. gr., laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, sbr. fordæmi Hæstaréttar í málum nr. 92/2010, 153/2010, 471/2010, 603/2010, 604/2010, 30/2011, 31/2011 og 155/2011 en lánssamningur sá sem lýst sé í síðastgreinda málinu sé sambærilegur þeim lánssamningi sem mál þetta tekur til. Á því sé byggt að raunverulega hafi verið um að ræða lán í íslenskum krónum, sem ólöglega var bundið gengi erlendra gjaldmiðla. Þessu til stuðnings vísar stefnandi sérstaklega til:         Þá vísaði stefnandi til þess að hann hefði hvorki afrit lánsumsóknar undir höndum né önnur gögn varðandi lánsbeiðnina sem hafi orðið til þess að stefndi veitti Drómundi ehf. (hét þá Hverafold) gengistryggt lán að fjárhæð 25.000.000 íslenskra króna. Í varakröfu byggi stefnandi á því að stefndi geti ekki talist hafa átt veðréttindi í fjármálagerningum stefnanda umfram fjárhæð þeirrar skuldar sem þau hafi átt að tryggja. Stefnda beri því að skila stefnanda ofteknum fjármunum.         Varakröfu sína sundurliðar stefnandi þannig að Drómundur ehf. hafi verið í skilum með greiðslur gjaldfallinna vaxta af láninu en höfuðstólinn hafi félaginu borið að greiða í lok lánstímans með einni greiðslu þann 16. maí 2009. Samtals hafi Drómundur ehf. greitt vexti í samræmi við ákvæði lánssamningsins hinn 16. nóvember 2007, 16. maí 2008 og 17. nóvember 2008 á grundvelli greiðsluseðla frá stefnda og fengið fullnaðarkvittanir við greiðslu þeirra fyrir greiðslu vaxtanna og kostnaðar, samtals að fjárhæð 2.316.374 krónur. Áður en til næsta gjalddaga kom, sem vera átti 16. maí 2009, hafi stefndi hins vegar gjaldfellt lánssamninginn hinn 6. mars 2009 og tekið sér 51.630.533 krónur til uppgreiðslu hans svo sem að framan sé rakið. Á þeim tíma hafi réttmæt krafa stefnda á hendur Drómundi ehf. samkvæmt lánssamningnum hins vegar verið að fjárhæð 25.540.653 krónur, annars vegar höfuðstóllinn að fjárhæð 25.000.000 króna og hins vegar áfallnir vextir frá 17. nóvember 2008 til 6. mars 2009 að fjárhæð 540.653 krónur. Varakrafan sé því mismunur þeirrar fjárhæðar sem stefndi hafi tekið sér hinn 6. mars 2009 og þeirrar fjárhæðar sem hann hafi átt réttmæt tilkall til úr hendi Drómundar ehf. á þeim degi eða 26.089.880 krónur ( 51.630.533 krónur– 25.540.653 krónur).          Þá krefst stefnandi þess að stefndi greiði sér dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 6. mars 2009 en þann dag hafi stefndi tekið sér umkrafða fjármuni með ólögmætum hætti frá stefnanda.         Stefnandi vísar til almennra reglna samninga- og kröfuréttar innan og utan samninga og til samningalaga nr. 7/1936,  til laga nr. 75/1997 um samningsveð og laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Um varnarþing vísar stefndi til 33. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og til 129. gr., 130. gr. og 131. gr. sömu laga varðandi málskostnað.  Málsástæður og lagarök stefnda         Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og byggir á því að komist hafi á samningur milli stefnanda og stefnda þess efnis að stefndi myndi selja hina handveðsettu fjármálagerninga og nota andvirði þeirra til þess að greiða upp lán Drómundar ehf. Uppgreiðsla  á láni Drómundar ehf. hafi farið fram eftir nákvæmum fyrirmælum og leiðbeiningum stefnanda, sem komi fram í tölvupóstsamskiptum milli hans og starfsmanna bankans. Stefnandi geri þar ákveðnar kröfur um framgang uppgjörsins og vísar stefndi þar sérstaklega til þess að stefnandi hafi haft hug á því að fá viðskiptaskjölin framseld svo hann gæti örugglega haldið uppi kröfu vegna uppgreiðslunnar gagnvart Drómundi ehf. Einnig komi fram í þessum tölvupóstsamskiptum að stefnandi hafi notið ráðgjafar lögmanns við uppgreiðsluna. Stefndi hafi reynt til koma á móts við óskir stefnanda að svo miklu leyti sem honum hafi verið unnt en hann hafi ekki getað orðið við ósk hans um að framselja honum lánssamninginn. Aðdragandi uppgreiðslunnar eigi því rætur sínar að rekja til þess að stefnandi hafi sjálfur óskað eftir því að fá að greiða upp lán Drómundar ehf. í tengslum við endurskipulagningu félagsins, sbr. tölvupóst, dags. 11. febrúar 2009. Salan á fjármálagerningunum og uppgreiðsla lánsins hafi farið fram að frumkvæði stefnanda og í samræmi við óskir hans. Stefndi hafi ekki verið að leysa til sín hina handveðsettu fjármálagerninga heldur að selja þá að beiðni stefnanda og nota andvirði þeirra til að greiða upp lánið. Stefndi hafi því selt fjármálagerningana og lagt andvirði þeirra í USD inn á gjaldeyrisreikning stefnanda og það sem seldist í íslenskum krónum inn á tékkareikning stefnanda. Þannig hafi stefnandi getað séð hvert var söluandvirði þeirra. Stefndi hefði getað lagt andvirði fjármálagerninganna inn á reikning í sínu nafni en í ljósi samnings aðila um uppgreiðslu lánsins hafi verið ákveðið að leggja inn á framangreinda reikninga svo stefnandi sæi hvert söluandvirði þeirra væri og gæti fylgst með framvindu uppgreiðslunnar.          Stefndi telur að stefnandi leitist við í stefnu sinni að setja aðdraganda og atburðarás málsins í búning atburðarásar dóms Hæstaréttar Íslands nr. 666/2010 sem stefnandi vísi til í stefnu en hún sé afar ólík aðdraganda þessa máls og telur stefndi að sá dómur hafi ekkert fordæmisgildi í þessu máli. Fyrir liggi í þessu máli að stefnandi hafi óskað eftir því að stefndi seldi hina handveðsettu fjármálagerninga og notaði andvirði þeirra til þess að gera upp lánið. Stefndi hafi lagt fram tölvupóstsamskipti stefnanda og starfsmanna stefnda þessu til sönnunar. Stefnandi hafi sent tölvupóst á starfsmann stefnda þann 26. febrúar 2009 með eftirfarandi skilaboðum: „Sæll Kristján. Er ekki rétt að drífa í þessu og klára málið, innleysa sjóðina og greiða fyrir lánið. Viltu láta mig vita hvenær ég má vænta þess að þessi mál verði frágengin. Kveðja, Birkir.“         Í kjölfarið hafi stefndi framfylgt þessum fyrirmælum stefnanda, innleyst sjóðina og greitt upp  lánið. Stefndi hafnar því að nokkuð í viðskiptum stefnanda við stefnda hafi verið framkvæmt án heimildar eins og komi fram í stefnu og ítrekar að allar aðgerðir hafi verið framkvæmdar í samræmi við kröfur stefnanda. Það sé því ljóst að um var að ræða uppgreiðslu lánsins að frumkvæði stefnanda og því hafi aldrei komið til skoðunar að leysa handveðið eða andvirði þess til stefnda á grundvelli skilmála handveðssamningsins og/eða lánssamningsins.          Ef ekki verður fallist á það með stefnda að  sala á fjármálagerningum stefnanda og uppgreiðsla lánsins hafi verið í samræmi við vilja og óskir stefnanda þá telur stefndi að handveð hans hafi náð yfir andvirði hinna seldu fjármálagerninga. Slík túlkun sé í fullkomnu samræmi við handveðsyfirlýsingu þá sem fyrir liggi í máli þessu og skilmála hennar. Þar komi fram að handveðsetningin nái til hvers konar endurgreiðslna handveðsettra fjármálagerninga, sjá dskj. nr. 3, bls. 2. Jafnframt komi fram að: „Verði vanskil á þeim skuldum sem handveðið á að tryggja eða veðsali hefur brotið gegn ákvæðum þessarar yfirlýsingar er veðhafa heimilt að nota andvirði hinna veðsettu fjármálagerninga í heild að hluta til fullnustu þeirra skulda og kostnaðar sem handveðið á að tryggja.“ Stefndi telur því að veðhafi hafi skv. skilmálum þessum getað selt í heild sinni eða að hluta handveðsetta hlutum veðsala í fjármálagerningum til þess að greiða það sem handveðsetningin var sett til að tryggja. Því til stuðnings bendir stefndi á að væri sú staða uppi að aðeins þyrfti að selja hluta þeirra fjármálagerninga sem handveðsettir væru stæði næst að selja einungis nægilegt magn hluta verði það best gert með því að selja þá í nafni veðsala og séu þá hans réttindi best varin varðandi þá hluti og andvirði þeirra sem eftir standi við uppgjör.         Stefndi bendir jafnframt á að þó að skilmálar handveðsyfirlýsingar séu ekki með þeim hætti að þeir næðu yfir andvirði seldra fjármálagerninga þá færist veðsetningin yfir á bankareikning þann sem andvirðið er lagt inn á, jafnvel þó aðhann sé ekki læstur eða tryggður með öðrum sambærilegum hætti enda væri það hluti af uppgjöri samningsins og hafi legið fyrir að um var að ræða andvirði handveðsettu eignanna og að það myndi einungis vera í mjög stutta stund á reikningnum en það byggist á ígildisreglu veðréttar. Stefndi hafnar því alfarið að ákvæði handveðsyfirlýsingarinnar og lánssamningsins stangist á við 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936. Stefnandi hafi á engan hátt fært rök fyrir þeirri fullyrðingu sinni og bendir stefndi á að stefnandi sé reynslumikill löggiltur endurskoðandi  eigandi einnar stærstu endurskoðendaskrifstofu landsins og geti ekki með trúverðugum hætti haldið því fram að skilmálar lánssamnings sem hann undirritar séu honum torskildir eða að hann myndi undirrita viðskiptaskjöl sem væru honum óhagstæð eða andstæð lögum. Í þessu samhengi vísar stefndi til tölvupóstsamskipta stefnanda við starfsmenn Landsbanka Íslands hf. í aðdraganda lánveitingarinnar og kröfur hans um breytingar á einstökum ákvæðum lánssamningsins.         Stefndi telur að ef krafa stefnanda nær fram að ganga muni það leiða til ólögmætrar auðgunar hans. Að mati stefnda  hefði  stefnanda verið óheimilt að reyna að ráðstafa andvirði handveðsettu eignanna áður en það yrði nýtt til uppgreiðslu lánsins. Kæmist dómurinn að þeirri niðurstöðu að stefndi hefði ekki viðhaft rétta aðferð við uppgreiðslu lánsins krefst stefndi þess samt sem áður að hann verði sýknaður á grundveli þess að stefnandi myndi með óréttmætum hætti auðgast á kostnað stefnda. Í íslenskri löggjöf má finna þess dæmi að byggt sé á viðhorfum um óréttmæta auðgun, sbr. t.d. 74. gr. víxillaga nr. 93/1933 og 57. gr. laga nr. 94/1933 um tékka og samkvæmt eðli máls verði að líta til þess að stefnandi geri kröfu um að sér verði greiddir fjármunir sem hann óskaði eftir að yrði ráðstafað til greiðslu láns sem hann hafði veitt handveð fyrir. Stefndi vísar til stuðnings máli sínu til úrskurðar úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki frá 27. apríl 2010 í máli nr. 66/2009 þar sem úrskurðarnefndin fjallaði um kvörtun stefnanda við stefnda. Stefndi vísar í þessu samhengi í dóm Hæstaréttar frá 19. júní 2003 í máli Samtaka um kvennaathvarf gegn Auði Einarsdóttur í máli nr. 39/2003. Stefndi telur ljóst að ef stefnda væri gert að greiða fjárhæðina myndi það valda samsvarandi tapi fyrir hann og á sama tíma myndi stefnandi auðgast um sömu fjárhæð enda hafi hann verið skuldbundinn að lögum til að tryggja efndir lánsins sem félagi hans var veitt. Það liggi fyrir að lánið hafi verið veitt til persónulegra fjárfestinga stefnanda en hann hafi kosið að taka lánið í nafnið einkahlutafélags sem var 100% í hans eigu og hafi stefnandi veitt handveð í eignum sínum til tryggingar láninu. Andvirði lánsins hafi verið lagt inn á persónulega reikninga stefnanda og stefnandi notað það í fjárfestingar sem ætlaðar hafi verið til þess að hann auðgaðist. Hvort sem þær fjárfestingar hafi reynst stefnanda arðbærar eða ekki komi ekki til skoðunar í máli þessu, heldur að hann fékk fjármunina afhenta og hafi greitt þá til baka, sbr. umdeilt uppgjör lánsins. Fái hann fjármunina afhenta á nýjan leik muni hann því auðgast um þá fjárhæð á kostnað stefnda þar sem það liggi fyrir að Drómundur hf. eigi engar eignir og geti ekki greitt kröfuna.         Stefndi hafnar því að stefnandi geti krafið hann um endurgreiðslu á 245.239,45 USD. Ofangreind fjárhæð hafi verið tekin út af gjaldeyrisreikningi stefnanda þann 6. mars 2009 og hafi dollararnir verið seldir og andvirði þeirra, 27.501.166 kr. lagðir inn á tékkareikning stefnanda. Hugsanlegt tjón stefnanda getur því aldrei verið meira en sem nemi andvirði dollaranna, 27.501.166 kr.            Stefndi krefst sýknu af varakröfu stefnanda vegna aðildarskorts samkvæmt 2. mgr. 16. gr. eml. Stefnandi sé ekki aðili að lánasamningi nr. 7837 og geti því ekki verið aðili að máli sem varði það hvort lánasamningurinn sé löglegt erlent lán eða innihaldi ákvæði sem feli í sér ólögmæta gengistryggingu.         Stefndi telur að lánasamningur nr. 7837 sé lögmætt erlent lán. Stefndi hafnar fullyrðingum stefnanda um að lánssamningurinn feli í sér ákvæði sem tengi hann með ólögmætum hætti við gengi erlendra gjaldmiðla. Lánssamningurinn kveði á um lán að jafnvirði 25.000.000 kr. í japönskum jenum (50%) og í svissneskum frönkum (50%), sbr. kaup á þeim gjaldmiðlum á kaupnótu. Fyrir liggi beiðni, undirrituð af stefnanda f.h. Drómundar ehf. (þá. Hverafold ehf.), þar sem hann geri kröfu á grundvelli lánssamningsins um að lánsfjárhæðin verði greidd inn á persónulegan gjaldeyrisreikning stefnanda nr. 116-38-100800, sem hann stofnaði fyrir það tilefni sbr. umsókn dags. 30. apríl 2007. Félagið hafi óskað eftir að lánið yrði greitt út í bandarískum dollurum enda væri það hagræði fyrir stefnanda, sem hafi verið 100% eigandi þess, þar sem hann ætlaði þá til fjárfestinga í bandarískum félögum eða hlutabréfasjóðum utan Bandaríkjanna en skráðum á bandarískum mörkuðum. Ljóst sé af framlögðum gögnum í málinu að stefndi hafi efnt skyldu sína samkvæmt lánasamningnum með því að greiða erlenda mynt, USD, inn á gjaldeyrisreikning stefnanda. Félagið hafi skuldbundið sig til að greiða það til baka í erlendum gjaldmiðlum og heimilað að tékkareikningur stefnanda yrði gjaldfærður fyrir fjárhæð vaxta og höfuðstóls lánsins. Stefndi hafi því tekið íslenskar krónur út af reikningnum og keypt USD og greitt inn á lánið en stefndi hafi ekki talið sig geta neitað stefnanda um það að skuldfæra íslenskan tékkareikning fyrir greiðslunum enda séu íslenskar krónur lögmætur greiðslueyrir á Íslandi. Lánasamningurinn hafi því falið í sér skyldu beggja samningsaðila til að efna samningsskyldu sína í erlendum myntum.          Skuldbindingar samningsaðila á grundvelli lánssamningsins hafi því verið skuldbinding í erlendri mynt sem falli utan gildissviðs VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 13. gr. þeirra laga. Lántaka og stefnanda hafi borið að efna gerða samninga og virða skuldbindingu þeirra. Stefndi mótmælir fullyrðingum stefnanda sem fram komi í stefnu um að lánið hafi verið „tekið“ í íslenskum krónum sem taka ættu breytingum í samræmi við gengi svissneskra franka og japanskra jena. Í því samhengi sé því sérstaklega mótmælt að dómar sem stefnandi vísi til í stefnu sinni hafi fordæmisgildi í máli þessu og bendir hann á að nýjasti dómurinn af þeim sem stefnandi vísar til sé dómur í máli  nr. 155/2011, Landsbanki Íslands gegn þrotabúi Mótormax. Eftir þetta hafi Hæstiréttur Íslands kveðið upp marga dóma sem skýri betur réttarsviðið. Í Mótormax dómnum hafi verið um að ræða lánssamning sem kveðið hafi á um íslenskar krónur sem tækju mið af erlendum gjaldmiðlum og efndir beggja aðila hafi verið í íslenskum krónum. Í máli þessu hafi útgreiðsla lánsins verið í erlendri mynt og lántakinn átt kost á að greiða lánið í erlendri mynt eða íslenskum krónum. Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 332/2012, Íslandsbanki hf. gegn Asknesi hf., hafi Hæstiréttur Íslands komist að þeirri niðurstöðu að lán sem greitt sé út í erlendri mynt teljist lögmætt erlent lán þó svo að lánssamningurinn kveði á um íslenskar krónur að jafnvirði erlendra gjaldmiðla. Jafnframt vísi stefndi til dóms Hæstaréttar Íslands í máli, nr. 3/2012, Arion banki hf. gegn Hætti ehf.            Stefndi bendir einnig á að stefnandi, sem sé löggiltur endurskoðandi og eigandi einnar stærstu endurskoðendaskrifstofu landsins, hafi greitt upp lánið án nokkurs fyrirvara um það að lánið innihéldi ákvæði um ólögmæta gengistryggingu. Stefnandi hafi þannig sýnt í verki að hann teldi að aðilar lánasamningsins hefðu tekið á sig skuldbindingar í erlendri mynt enda hafi hann fengið lánið greitt út í USD á gjaldeyrisreikning sinn.         Ef ekki verður fallist á það með stefnda að lánið sé lögmætt erlent lán heldur lán sem innihaldi ólögmæta gengistryggingu og að stefnda beri að endurreikna lánið þá telur stefndi að endurreikna verði lánið í samræmi við ákvæði 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.         Stefndi bendir á að ákvæði laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, kveði skýrt á um það hvernig standa eigi að endurreikningi lána sem innihaldi ólögmæta gengistryggingu. Þar komi fram í 3. mgr. 18. gr. að við endurreikninginn skuli nota vexti Seðlabanka Íslands samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laganna. Þessi aðferð við endurreikning hafi verið staðfest með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 471/2010, sem kveðinn var upp 16. september 2010, en þar hafi rétturinn komist að þeirri niðurstöðu að óhjákvæmilegt væri að ógildi ákvæðisins um gengistryggingu leiddi til þess að líta verði með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð. Niðurstaða réttarins hafi verið sú að samið hafði verið um að greiða vexti af peningakröfu án þess að tiltaka hverjir þeir skyldu vera. Segi síðan orðrétt í dómnum um hvaða vexti eigi þá að miða við: “Samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 skulu vextir þegar svo stendur á vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum, sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir eru samkvæmt 10. gr. laganna.          Stefndi telur að niðurstaða Hæstaréttar Íslands í máli nr. 600/2011 hafi ekkert fordæmisgildi við endurreikning á láni stefnanda og að við endurreikning eigi að reikna vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu allt frá lántökudegi. Stefndi vísi til meginreglu kröfuréttar um að kröfuhafi sem fengið hafi minna greitt en hann átti rétt til í lögskiptum við skuldara, eigi tilkall til viðbótargreiðslu. Atvik séu ekki með þeim hætti varðandi lán stefnanda að víkja beri frá meginreglu þessari.          Stefndi mótmælir sérstaklega upphafstíma á dráttarvaxtakröfum stefnanda, bæði í aðal- og varakröfu. Stefndi telur að upphafstími dráttarvaxta eigi að taka mið af ákvæði 3. mgr. 5. gr. vaxtalaga.         Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 75/1995, um samningsveð, laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og meginreglna samninga- og veðréttar.         Krafa stefnda um málskostnað byggir á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi stefnanda. IV. Niðurstaða          Ágreiningur aðila í máli þessu snýst um það hvort stefnda hafi verið heimilt að ráðstafa innistæðu á tveimur bankareikningum stefnanda, annars vegar gjaldeyrisreikningi og hins vegar tékkareikningi, til greiðslu lánasamnings Drómundar ehf., áður Hverafoldar ehf.               Umræddir fjármálagerningar stefnanda voru eins og rakið hefur verið settir að handveði til tryggingar lánasamnings Drómundar ehf. við Landsbanka Íslands hf., en stefndi tók síðan við lánasamningi þessum eins og rakið hefur verið. Samkvæmt ákvæðum handveðsyfirlýsingarinnar var stefnanda óheimilt að ráðstafa þeim nema að fyrir lægi skriflegt samþykki veðhafa og skyldi söluandvirði þá ganga til lækkunar á þeirri skuld sem veðið átti að tryggja. Veðhafi átti við vanskil að fá fjármálagerningana framselda, en undirritun stefnanda undir handveðsyfirlýsinguna skiydi jafngilda framsali hans á fjármálagerningunum. Áður en veðhafi gæti gripið til þessa úrræðis bar honum að skora á stefnanda að greiða vanskilin innan að minnsta kosti 15 sólarhringa frests. Að þeim fresti liðnum væri veðhafa heimilt að selja eða ráðstafa fjármálagerningunum með öðrum hætti eða nota andvirði þeirra til lækkunar á skuldum Drómundar ehf. Ekkert liggur fyrir um að stefndi hafi beint slíkri áskorun að stefnanda.                 Stefnandi byggir á því að stefndi hafi glatað handveðréttindum sínum í fjármálagerningunum þegar stefndi, eftir sölu þeirra, ráðstafaði söluandvirðinu inn á óveðsetta og kvaðalausa bankareikninga stefnanda.         Stefndi byggir á því að þó að skilmálar handveðsyfirlýsingarinnar væru ekki með þeim hætti að þeir næðu yfir andvirði seldra fjármálagerninga þá hafi veðsetningin færst yfir á bankareikning þann sem andvirðið var lagt inn á þó að  hann væri ekki læstur eða tryggður með  öðrum sambærilegum hætti.         Samkvæmt handveðsyfirlýsingunni tók veðréttur stefnda til tiltekinna fjármálagerninga en ekki var kveðið á um að veðrétturinn skyldi færast yfir á andvirði þeirra ef til sölu kæmi, en að lögum þarf slík yfirlýsing af hálfu veðsala að liggja fyrir ef svo á að vera.         Ekki er í lögum 75/1997 um samningsveð heimild til handa stefnda til að slá eign sinni á innistæður á bankareikningum stefnanda eins og hann gerði. Gerðar eru ríkar kröfur til fjármálafyrirtækja og lánastofnana um að tryggja sér skýrar og ótvíræðar sannanir fyrir tilvist veðréttinda sinna og heimildir að öðru leyti. Í 3. tölulið 1. gr. laga um samningsveð er handveð skilgreint þannig að átt sé við veðrétt þar sem veðsali er sviptur umráðum hins veðsetta. Verður því að líta svo á að stefndi hafi glatað handveðréttindum sínum þegar hann ráðastafaði söluandvirði fjármálagerninganna inn á óveðsetta og kvaðalausa bankareikninga stefnanda.          Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því  að uppgreiðsla á láni Drómundar ehf. hafi farið fram eftir nákvæmum fyrirmælum og leiðbeiningum stefnanda, sem komi fram í tölvupóstsamskiptum milli hans og starfsmanna bankans þannig að komist hafi á samningur milli stefnanda og hans þess efnis að stefndi myndi selja hina handveðsettu fjármálagerninga og nota andvirði þeirra til þess að greiða upp lán Drómundar ehf.          Stefnandi byggir á því að enginn samningur hafi verið gerður milli stefnanda og stefnda um að andvirði fjármálagerninganna ef til sölu kæmi væri veðsett bankanum eða hafi hann með öðrum hætti heimilað stefnda að taka til sín umrædda fjármuni.         Með vísan til þess sem rakið hefur verið um samskipti stefnda og stefnanda í aðdraganda þess að stefndi greiddi vanskil Drómundar ehf. við stefnda með fé af bankareikningum stefnanda er ekki hægt að líta svo á að komist hafi á samningur um heimild stefnda til að taka söluandvirði fjármálagerninganna út af bankareikningum stefnanda í þessu skyni. Stefnda hafi því verið óheimilt að  taka 245.239,57 USD út af gjaldeyrisreikningi stefnanda og leggja inn á tékkareikning stefnda sem 27.501.166 krónur þann 6. mars 2009 og taka sama dag til sín 51.630.533 krónur af tékkareikningnum og greiða sér með þeim ætlaða skuld Drómundar ehf. við sig að sömu fjárhæð.         Stefndi byggir á því að verði fallist á endurgreiðslu kröfur stefnanda leiði það til óréttmætrar auðgunar hans og líta verði til þess að stefnandi gerði kröfu um að sér yrði greiddir fjármunir sem hann hafi óskað eftir að ráðstafað yrði til greiðslu láns sem hann hafi veitt handveð fyrir. Stefndi vísar til þess að hann hefði getað lagt andvirði fjármálagerninganna inn á reikning í sínu nafni en í ljósi samnings aðila um uppgreiðslu lánsins hafi verið ákveðið að leggja inn á framangreinda reikninga svo að stefnandi sæi hvert söluandvirði þeirra væri og gæti fylgst með framvindu uppgreiðslunnar.         Varðandi þetta verður að líta til þess að stefnda var í lófa lagið að fara þá leið sem mælt var fyrir um í skilmálum handveðsyfirlýsingarinnar og leggja söluandvirði inn á eigin reikning. Ekki verður fallist á þau rök stefnda að í ljósi samningsaðila hafi verið rétt að leggja söluandvirðið inn á reikninga stefnda. Ljóst er að kvittanir fyrir sölu og innborgunum hefðu þjónað sama tilgangi. Stefnandi var eigandi umræddra fjármálagerninga sem hann setti að handveði til tryggingar skuld þriðja aðila. Stefnandi hafði boðist til að greiða upp umræddan lánasamning Drómundar ehf. gegn því að hann fengi lánasamninginn framseldan og útibússtjóri stefnda hafði samþykkt það í tölvupósti. Það samþykki var síðan afturkallað eins og rakið hefur verið.         Við mat á því hvort um óréttamæta auðgun stefnanda sé að ræða í máli þessu verður að líta til allra aðstæðna. Tjón stefnda af því að endurgreiða þá fjármuni sem hann tók án heimildar af bankareikningum stefnanda verður fyrst og fremst rakið til þess að ekki var staðið rétt að málum af hálfu stefnda við sölu umræddra fjármálagerninga í nafni stefnanda og millifærslu og úttektir af reikningum hans hjá stefnda. Gera verður þá kröfu til fjármálastofnunar að rétt sé staðið að málum í tilvikun eins og hér um ræðir og verður ekki fallist á að um óréttamæta auðgun stefnanda sé að ræða þó að stefndi hafi glatað handveðrétti sínum vegna eigin mistaka.        Að öllu framanskráðu athuguðu og virtu er það niðurstaða dómsins að fallast beri á þær dómkröfur stefnanda, sbr. kröfu 1 og varakröfu í lið 2, að stefnda beri að endurgreiða stefnanda þá fjármuni sem hann tók út af tékkareikningi stefnanda nr. 0116-26-001704, samtals að fjárhæð 51.630.533 krónur. Ekki verður hins vegar fallist á að stefnandi eigi rétt á endurgreiðslu í Bandaríkjadölum vegna þeirra 245.239,45 USD sem stefndi tók út af  gjaldeyrisreikningi stefnanda þann 6. mars 2009 og seldi og lagði andvirði þeirra, 27.501.166 krónur, inn á tékkareikning stefnanda þar sem hugsanlegt tjón hans vegna þessa verður ekki metið hærra en nemur söluandvirði dollaranna.         Fyrir liggur að með bréfi, dags. 12. maí 2009, krafðist stefnandi þess að stefndi skilaði sér fjármunum þeim sem hér um ræðir og reiknast upphafstími dráttarvaxta því samkvæmt 3. mgr. 5. gr. vaxtalaga nr. 38/2001.         Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins að stefndi greiði stefnanda 51.630.533 krónur auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. júní 2009.         Í samræmi við þessa niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn eins og kveðið er á um í dómsorði.         Vegna embættisanna dómara hefur uppkvaðning dóms dregist umfram frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Dómari og lögmenn aðila eru sammála um að ekki sé þörf á endurflutningi málsins.         Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Dómsorð:         Stefndi, Landsbankinn hf., greiði stefnanda, Birki Leóssyni, 51.630.533 krónur auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. júní 2009 til greiðsludags.         Stefndi greiði stefnanda 2.400.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 567/2014
Húsaleigusamningur Skaðabætur Tómlæti
L ehf. sagði upp leigusamningi við B ehf. en hélt áfram að hagnýta húsnæðið og greiða leigu eftir að uppsagnarfresti lauk. Með símskeyti til L ehf. krafðist B ehf. þess því að leigusamningurinn framlengdist ótímabundið, sbr. 59. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994, en L ehf. mótmælti því og skilaði lyklum að húsnæðinu skömmu síðar. Talið var að leigusamningurinn hefði framlengst ótímabundið með fyrrgreindri tilkynningu B ehf. og að níu mánaða uppsagnarfrestur hafi byrjað að líða. Var hann því dæmdur til að greiða B ehf. bætur til loka uppsagnarfrestsins að frádregnum leigutekjum sem B ehf. hafði haft af eigninni eftir að nýr leigusali tók við henni.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. ágúst 2014. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 19.546.671 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.287.959 krónum frá 6. maí 2011 til 6. júní sama ár, af 4.591.754 krónum frá þeim degi til 6. júlí sama ár, af 6.948.618 krónum frá þeim degi til 6. ágúst sama ár, af 9.324.312 krónum frá þeim degi til 6. september sama ár, af 11.694.872 krónum frá þeim degi til 6. október sama ár, af 14.082.122 krónum frá þeim degi til 6. nóvember sama ár, af 16.471.084 krónum frá þeim degi til 6. desember sama ár, af 17.495.861 krónu frá þeim degi til 6. janúar 2012, af 18.525.975 krónum frá þeim degi til 6. febrúar sama ár, en af 19.546.671 krónu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 21. júní 2012 að fjárhæð 16.696.139 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og að áfrýjanda verði gert að greiða sér málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi hefur ekki áfrýjað héraðsdómi fyrir sitt leyti og kemur því ekki til álita krafa hans um málskostnað í héraði. Svo sem nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi gerðu aðilar með sér leigusamning 26. janúar 2006 um fasteignina Flatahraun 31 í Hafnarfirði. Með símskeyti 30. júlí 2010 sagði stefndi uppi leigunni með sex mánaða fyrirvara samkvæmt heimild í samningnum. Að liðnum uppsagnarfresti 31. janúar 2011 hélt stefndi áfram að hagnýta sér húsnæðið og stóð skil á leigu til áfrýjanda fyrir febrúar, mars og apríl það ár. Með símskeyti 17. maí 2011 krafðist áfrýjandi þess að leigusamningurinn framlengdist ótímabundið, sbr. 59. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994. Stefndi andmælti þessu með bréfi 31. sama mánaðar en tók jafnframt fram að til varúðar væri ótímabundnum leigusamningi um eignina sagt upp. Sama dag mun stefndi hafa skilað lyklum að húsnæðinu til áfrýjanda. Í kjölfar þessa hófst áfrýjandi handa við að finna nýjan leigutaka og veitti leigumiðlun umboð 1. júlí sama ár í því skyni. Fyrir milligöngu hennar komst á leigusamningur 21. september 2011 um eignina við HBT International hf. frá 1. nóvember það ár. Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður fallist á þá niðurstöðu hans að með tilkynningu áfrýjanda 17. maí 2011 til stefnda hafi leigusamningur aðila framlengst ótímabundið og að níu mánaða uppsögn hafi byrjað að líða 1. júní það ár við uppsögn stefnda 31. maí sama ár. Eins og áður er vikið að rýmdi stefndi eignina, skilaði lyklum að henni til áfrýjanda 31. maí 2011 og hætti að greiða leigu samkvæmt leigusamningi. Í þessu fólst að stefndi hafnaði efndum samkvæmt leigusamningnum en með því felldi hann á sig bótaskyldu gagnvart áfrýjanda eftir almennum reglum. Á grundvelli gagnkvæmrar tillitsskyldu samningsaðila og samkvæmt meginreglu sem gildir um skaðabætur innan samninga bar áfrýjanda hins vegar að gera það sem með sanngirni yrði ætlast til af honum til að draga úr tjóninu og getur hann aðeins beint kröfu að stefnda fyrir mismuninum. Þessa skyldu sína rækti áfrýjandi með því að fela leigumiðlun að finna leigutaka og verður fallist á það með héraðsdómi að áfrýjandi hafi ekki sýnt af sér tómlæti í þeim efnum. Af þessu leiðir að þær leigutekjur sem áfrýjandi hafði á tímabilinu nóvember 2011 til loka febrúar 2012, þegar fyrrgreindur uppsagnarfrestur gagnvart honum rann út, koma til frádráttar kröfu áfrýjanda sem svarar til umsaminnar leigu. Þó koma ekki til frádráttar leigutekjur vegna fyrsta mánaðarins, en umsamin þóknun leigumiðlunarinnar nam þeirri fjárhæð. Á áfrýjandi rétt á að fá þann kostnað bættan, en hann hefur ekki fallið frá þeirri kröfu sinni eins og ranglega greinir í hinum áfrýjaða dómi. Samkvæmt þessu verður krafa áfrýjanda tekin til greina eins og hún er fram sett og sundurliðuð í hinum áfrýjaða dómi, en ekki er tölulegur ágreiningur með aðilum. Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest. Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði. Dómsorð: Stefndi, Logaland ehf., greiði áfrýjanda, Blikási ehf., 19.546.671 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.287.959 krónum frá 6. maí 2011 til 6. júní sama ár, af 4.591.754 krónum frá þeim degi til 6. júlí sama ár, af 6.948.618 krónum frá þeim degi til 6. ágúst sama ár, af 9.324.312 krónum frá þeim degi til 6. september sama ár, af 11.694.872 krónum frá þeim degi til 6. október sama ár, af 14.082.122 krónum frá þeim degi til 6. nóvember sama ár, af 16.471.084 krónum frá þeim degi til 6. desember sama ár, af 17.495.861 krónu frá þeim degi til 6. janúar 2012, af 18.525.975 krónum frá þeim degi til 6. febrúar sama ár, en af 19.546.671 krónu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 21. júní 2012 að fjárhæð 16.696.139 krónur. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað er staðfest. Stefndi greiði áfrýjanda 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjaness 26. maí 2014.                 Mál þetta, sem dómtekið var 29. apríl síðastliðinn, er höfðað 24. október 2013.                 Stefnandi er Blikás ehf., Reynibergi 1, Hafnarfirði.                 Stefndi er Logaland ehf., Tunguhálsi 8, Reykjavík. Stefnandi krefst þess að stefndi greiði stefnanda 19.546.671 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.287.959 krónum frá 6. maí 2011 til 6. júní 2011, en af 4.591.754 krónum frá þeim degi til 6. júlí 2011, en af 6.948.618 krónum frá þeim degi til 6. ágúst 2011, en af 9.324.312 krónum frá þeim degi til 6. september 2011, en af 11.694.872 krónum frá þeim degi til 6. október 2011, en af 14.082.122 krónum frá þeim degi til 6. nóvember 2011, en af 16.471.084 krónum frá þeim degi til 6. desember 2011, en af 17.495.861 krónu frá þeim degi til 6. janúar 2012, en af 18.525.975 krónum frá þeim degi til 6. febrúar 2012, en af 19.546.671 krónu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 16.696.139 krónum greiddum inn á kröfuna 21. júní 2012. Þá krefst stefnandi þess að stefndi greiði sér málskostnað. Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar. I Stefnandi er eigandi að fasteigninni Flatahrauni 31 í Hafnarfirði. Með samningi, sem undirritaður var 26. janúar 2006, tók stefndi alla fasteignina á leigu til tíu ára frá 1. febrúar 2006 til 1. febrúar 2016 að telja. Í samningum er tekið fram að húsaleigulög nr. 36/1994 gildi um samninginn. Mánaðarlegt leigugjald skyldi vera 1.080.000 krónur auk virðisaukaskatts. Umsaminn gjalddagi leigunnar var 1. hvers mánaðar og eindagi 5. hvers mánaðar. Skyldi leiga greiðast fyrirfram einn mánuð í senn samkvæmt gíróseðli frá banka. Fjárhæð leigu var miðuð við byggingarvísitölu, grunnvísitölu 316,7 stig í janúar 2006. Samkvæmt 10. gr. leigusamningsins skyldi stefndi leggja fram tryggingarvíxil að fjárhæð 16.135.000 krónur við undirritun samningsins, en sú fjárhæð skyldi jafngilda 12 mánaða leigugjaldi með virðisaukaskatti. Skyldi endurskoða fjárhæð tryggingarvíxilsins á fimm ára fresti með hliðsjón af breytingum á vísitölu. Segir að víxillinn sé til tryggingar vegna vanefnda á leigu og ef um skemmdir á hinu leigða verði að ræða. Stefnandi fékk víxillinn afhentan í umsömdu horfi, en ekki kom til breytinga á víxilfjárhæðinni samkvæmt endurskoðunarákvæðinu. Í 14. gr. samningsins segir eftirfarandi: “Leigusamningur þessi er uppsegjanlegur með ½ árs fyrirvara. Uppsögn getur farið fram hið fyrsta 31.07.2010. Uppsögn skal vera gerð skriflega. Mjög alvarleg ástæða skal vera fyrir uppsögn.”  Með símskeyti 30. júlí 2010 sagði stefndi leigusamningnum upp með sex mánaða fyrirvara. Í skeytinu er vísað til 14. gr. samningsins, heimildar í húsaleigulögum nr. 36/1994 og tekið fram að starfsemin muni flytjast úr húsnæðinu eigi síðar en 31. janúar 2011 án frekari tilkynningar. Um ástæður uppsagnarinnar er vísað til þess að umfang rekstrarins hafi vaxið á undanförnum árum og sé nú svo komið að húsnæðið sé of lítið og takmarki vöxt og aðstöðu stefnda. Uppsögnin var ekki birt fyrir fyrirsvarsmanni stefnanda en tilkynning um ábyrgðarbréf vegna uppsagnarinnar mun hafa verið sett inn um póstlúgu á heimili hans. Ábyrgðarbréfið var sótt og kvittað fyrir móttöku 4. ágúst 2010. Deilt er um það hvenær stefndi rýmdi húsnæðið að Flatahrauni 31 í Hafnarfirði. Stefnandi heldur því fram að stefndi hafi ekki flutt starfsemi sína úr húsnæðinu fyrir lok janúar 2011. Hafi hann ekki rýmt húsnæðið fyrr en seinnipart maímánaðar 2011. Hafi starfsmaður stefnda hringt í fyrirsvarsmann stefnanda 18. maí 2011 og tilkynnt honum að sækja mætti lykla að húsnæðinu á nýtt aðsetur stefnda. Lyklum að húsnæðinu hafi í raun verið skilað 31. maí 2011 og umráðin að húsnæðinu sjálfu þá fyrst látin af hendi. Stefndi hafi þó skilið eftir 40 feta geymslugám á lóðinni við Flatahraun 31, auk ruslagáms og fjölmargra vörubretta, en þessar eigur stefnda hafi verið til trafala og takmarkað möguleg afnot annarra að lóðinni og húsnæðinu. Geymslugámurinn hafi staðið fyrir tvennum dyrum húsnæðisins og takmarkað nýtingarmöguleika þess. Hafði gámurinn staðið þar í rúm fimm ár og væntanlega hýst hluta af vörulager stefnda. Eimskip Flytjandi hf., fjarlægði gáminn fyrir stefnda 1. júní 2011 en stefndi hafði fjarlægt ruslagáminn nokkru fyrr, eða 23. maí 2011. Vörubrettin hafi stefndi á hinn bóginn ekki fjarlægt. Hafi stefnandi því sjálfur orðið að fjarlægja þau og koma í geymslu, enda hafi brettin verið háð eignarrétti stefnda og hafi stefnandi því ekki talið sér heimilt að farga þeim. Hafi raunveruleg hagnýting stefnda á hinu leigða því að minnsta kosti staðið fram í júnímánuð 2011. Stefndi hafi aldrei leitað eftir samþykki stefnanda, hvorki fyrir uppsögninni eða réttmæti hennar né fyrir því að nota hina leigðu eign fram yfir 31. janúar 2011. Stefndi greiddi leigu fyrir húsnæðið fyrir mánuðina febrúar, mars og apríl 2011, en hætti því við svo búið. Í greinargerð stefnda segir að flutningur úr húsnæðinu hafi dregist nokkuð þar sem stefnda hafi gengið illa að finna hentugt húsnæði fyrir starfsemi sína. Stefndi hafi því haldið starfsemi sinni áfram í húsnæðinu án athugasemda fyrirsvarsmanns stefnanda. Stefndi hafi rýmt húsnæðið að Flatahrauni 31 að fullu síðasta dag aprílmánaðar 2011. Fyrirsvarsmaður stefnanda hafi ekki viljað taka við lyklum að húsnæðinu og hafi afhending þeirra ekki farið fram fyrr en lögmaður stefnanda hafi fengið þá afhenta 31. maí 2011. Með símskeyti til stefnda 17. maí 2011 krafðist stefnandi þess að leigusamningur aðila framlengist ótímabundið samkvæmt 59. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994. Um ástæður þess segir að samkvæmt upplýsingum stefnda í símskeyti 30. júlí 2010 hafi stefndi skuldbundið sig til að rýma húsnæðið eigi síðar en 31. janúar 2011. Ekki hafi enn orðið af afhendingu húsnæðisins þrátt fyrir uppsögnina og hafi nýtingu húsnæðisins verið haldið áfram fram yfir það tímamark sem nefnt lagaákvæði tilgreini. Í svarbréfi stefnda 31. maí 2011 var kröfu stefnanda hafnað. Jafnframt er tekið fram í bréfinu að stefndi hafi rýmt húsnæðið “um síðustu mánaðamót” en leigusali hafi ekki viljað taka við lyklum af húsnæðinu og því hafi þeir verið afhentir á skrifstofu lögmanns hans. Þá segir enn fremur að stefndi hafi nýtt húsnæðið með fullri vitneskju stefnanda og greitt leigu fyrir mánuðina febrúar, mars og apríl 2011 á gjalddaga. Ekki verði ráðið af 59. gr. húsaleigulaga að stefndi sé skuldbundinn til að fallast á kröfu stefnanda um ótímabundna framlengingu leigusamningsins við þessar kringumstæður. Loks er tekið fram í bréfi stefnda “… að hann segir upp leigusamningnum miðað við daginn í dag að telja.” Sé uppsögninni beint að lögmanni stefnanda sem hafi vísað á hann sem fulltrúa sinn í málinu. Uppsögnin sé varúðarráðstöfun af hálfu stefnda. Stefnandi sendi stefnda innheimtubréf 7. júlí 2011 með kröfu um vangoldna húsaleigu fyrir maí, júní og júlí 2011, samtals að fjárhæð 6.871.428 krónur auk dráttarvaxta og innheimtuþóknunar. Samkvæmt framlögðu yfirliti 7. mars 2012 um stöðu á fjárkröfu stefnanda á hendur stefnda fyrir tímabilið frá 1. maí 2011 til 1. febrúar 2012 nemur höfuðstóll kröfunnar 21.976.765 krónum. Stefnandi leitaði til Hraunhamars ehf., fasteignasölu og leigumiðlunar, og Atvinnueigna ehf. til að finna annan leigutaka og gera við hann leigusamning. Gengið var frá skriflegu umboði til Atvinnueigna ehf. 1. júlí 2011 og var þá samið um að þóknun fyrir verkið með virðisaukaskatti skyldi vera jafnhá fyrstu leigugreiðslu til stefnanda með virðisaukaskatti. Þann 21. september 2011 fékkst leigjandi að húsnæðinu frá og með 1. nóvember 2011. Leigutakinn var HBT International hf. og var samið um leiguafnot til fimm ára. Umsamið leigugjald var lægra en verið hafði gagnvart stefnda. Þótt grunnleigufjárhæðin, 1.080.000 krónur héldist óbreytt, var sú fjárhæð bundin öðrum vísitölugrunni. Leigutakinn lenti  í rekstrarvanda og hætti leigugreiðslum eftir 10 mánuði. Þann 8. febrúar 2012 sendi stefnandi stefnda tilkynningu um sýningu fyrrnefnds tryggingarvíxils og var gjalddagi ákveðinn 7. mars 2012 og greiðslustaður í Landsbanka Íslands. Stefndi og aðrir víxilskuldarar kröfðust þess í aðfararmáli fyrir Héraðsdómi Reykjaness að víxillinn yrði tekin úr höndum stefnanda og afhentur gerðarbeiðendum með innsetningargerð. Var kröfunni hafnað með úrskurði uppkveðnum 7. júní 2012. Úrskurðurinn var ekki kærður til Hæstaréttar Íslands. Stefndi greiddi víxilkröfuna ásamt vöxtum og kostnaði 21. júní 2012 með samtals 17.446.309 krónum, sem sundurliðast þannig: Víxilfjárhæðin, 16.135.000 krónur; banka- og stimpilkostnaður 40.337 krónur; birtingarkostnaður 6.000 krónur, dráttarvextir 561.139 krónur, lögfræðikostnaður vegna víxilinnheimtunnar, 703.833 krónur.  II Stefnandi kveðst byggja dómkröfu sína á því að gildur samningur hafi verið á milli aðila um leiguafnot stefnda af húsnæði stefnanda að Flatahrauni 31. Byggt sé á því að leigusamningur aðila hafi verið gagnkvæmur og falið í sér samningsloforð beggja aðila sem þeim hafi verið og sé skylt að efna. Stefnandi hafi efnt samningsskyldur sínar í hvívetna, en stefndi hafi á hinn bóginn vanefnt sínar samningsskyldur. Annars vegar með því að rýma ekki leiguhúsnæðið á áður tilkynntum tíma í samræmi við eigin uppsögn og afhenda stefnanda vörslur þess, væri uppsögnin á annað borð lögmæt. Hins vegar með því að greiða ekki leigu frá og með 1. maí 2011 samkvæmt þeirri lágmarksskyldu, sem stefndi hafði fellt á sig samkvæmt ákvæðum húsaleigulaga nr. 36/1994, með því að halda áfram notkun hins leigða fram yfir tvo mánuði eftir lok þess tímabils, er stefndi hafði sjálfur ákvarðað hvenær lyki.   Stefnandi kveður málið einnig byggjast á þeirri málsástæðu að hafi uppsagnir stefnda á annað borð verið lögmætar og þá einkum hin fyrri, hafi engu að síður stofnast á vormánuðum 2011 ótímabundinn leigusamningur með níu mánaða uppsagnarfresti við það að rýming og skil hins leigða hafi dregist úr hömlu. Þeim ótímabundna leigusamningi hafi verið sagt upp með bréfi stefnda 31. maí 2011 og reiknist því níu mánaða uppsagnarfresturinn frá og með 1. júní 2011 til loka febrúarmánaðar 2012, sbr. 3. tölulið 56. gr.,1. mgr. 57. gr. og 59. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994.  Byggist fjárkrafa stefnanda á því að skuld stefnda sé leiga vegna þessa níu mánaða uppsagnarfrests og maímánaðar 2011 auk útlagðs kostnaðar við gerð nýs leigusamnings, að frádreginni greiðslu vegna víxilsins og leigutekna frá nýjum leigjanda, auk vaxta og kostnaðar vegna þessa tímabils. Fjárkrafa stefnanda er við það miðuð að uppsögnin hafi verið lögmæt. Beri að miða við, að hinum ótímabundna leigusamningi, sem stofnast hafi þegar stefndi skilaði húsnæðinu ekki á tilsettum tíma, hafi fyrst getað verið sagt upp löglega með bréfi lögmanns stefnda 31. maí 2011, þannig að upphafstími níu mánaða uppsagnarfrestsins hafi verið 1. júní 2011 og uppsagnarfrestur staðið til loka febrúar 2012. Hin ótímabundna framlenging húsaleigusamnings aðila hafi stofnast með tilkynningu stefnanda til stefnda 17. maí 2011 í kjölfar vanefnda stefnda á að rýma og skila húsnæðinu í samræmi við umdeilda eigin uppsögn. Uppsagnarfrestur hinnar ótímabundnu framlengingar sé þá níu mánuðir frá og með 1. júní 2011 að telja, sbr. 3. tölulið 56. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994, enda hafi leiguafnot stefnda þá staðið lengur en í 5 ár og meira en tveir mánuðir höfðu þá liðið fram yfir, sbr. 59. gr. laganna, frá því að stefndi hafði lofað að rýma hið leigða og skila því og þar til hann gerði það í raun. Stefnandi hafi strax hafist handa við að leita eftir nýjum leigutaka með öllum tiltækum ráðum til að takmarka þannig tjón sitt, stefnda til hagsbóta. Hann hafi þó mætt hindrun af hálfu stefnda, þegar stefndi hafi synjað stefnanda um leyfi til að hengja í glugga leiguhúsnæðisins auglýsingar eftir nýjum leigutaka á meðan afnot stefnda stóðu enn. Þann 21. september 2011 hafi stefnanda loks tekist að fá nýjan leigutaka að fasteigninni, HBT International hf., sem hafi tekið eignina á leigu til fimm ára frá 1. nóvember 2011 fyrir mun lægra leigugjald en stefndi hafi verið skuldbundinn til að greiða, enda hafi markaðsaðstæður verið slæmar við útleigu atvinnuhúsnæðis. Umsamin grunnleiga hafi verið 1.080.000 krónur á mánuði að viðbættri hækkun samkvæmt breytingum byggingarvísitölu frá september 2011, þá 110,5 stig, auk 25,5% virðisaukaskatts. Stefnandi telur að stefndi beri ábyrgð á kostnaði sínum til leigumiðlunar fyrir að koma á samningnum við HBT International hf. vegna þess hvernig framgöngu stefnda hafi verið háttað Sá kostnaður hafi numið andvirði fyrstu mánaðargreiðslu leigutaka fyrir nóvember 2011, 1.355.400 krónur Við kröfugerð sína í málinu kveðst stefnandi hafa dregið viðkomandi leigugreiðslur HBT International hf., frá þeim leigugreiðslum, sem stefndi hafi skuldað sér - að frátaldri nóvembergreiðslu, sem hafi gengið til leigumiðlarans. Með þessum greiðslum hafi tjón stefnanda minnkað, en það hafi jafnframt verið til hagsbóta fyrir stefnda. Leiguskuld stefnda í 10 mánuði (maí + níu mánaða uppsagnarfrestur) hafi eins og fram sé komið verið frá og með maí 2011 til og með febrúar 2012, og sé krafan á stefnda samkvæmt þessu lækkuð fyrir desember 2011 og janúar og febrúar 2012.  Frá dómkröfunni og vöxtum af henni séu dregnar 16.696.139 krónur miðað við 21. júní 2012, en þann dag greiddi stefndi  tryggingarvíxil fyrir leiguvanskilum,16.135.000 krónur, auk áfallinna dráttarvaxta, 561.139 krónur, samtals 16.696.139 krónur fyrir utan víxilkostnað og innheimtulaun vegna víxilsins. Stefnandi kveður sundurliðun dómkröfu sinnar vera svofellda:                 Hvað lagarök varðar vísar stefnandi til ákvæða húsaleigulaga nr. 36/1994, einkum 2. mgr. 2. gr., 9. gr. og 13. gr., og um fjárkröfuna sérstaklega til 3. töluliðar 56. gr., 57. gr. og 59. gr. Þá vísar stefnandi til meginreglna samningaréttar, sbr. lög nr. 7/1936, um að loforð skuli halda og með lögjöfnun til 30. gr. laganna um réttaráhrif blekkinga, svo og til almennra reglna kröfuréttarins. Auk þess vísar stefnandi til reglna einkamálaréttarfars um sönnunarfærslu, sönnunarbyrði og sönnunarmat. Einnig vísar stefnandi til 1., 2. og 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og um varnarþing til 42. gr. og 1. mgr. 35. gr. laganna. Um málskostnaðarkröfu vísast til XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 129. og 1. mgr. 130. gr. Stefnandi er skattaðili samkvæmt lögum um virðisaukaskatt og gerir því ekki kröfu um virðisaukaskatt úr hendi stefnda.  III                 Stefndi kveðst hafna þeim málsástæðum og lagarökum sem stefnandi teflir fram til stuðnings dómkröfu sinni. Stefndi hafni því að húsnæðið að Flatahrauni 31 hafi ekki verið rýmt innan tveggja mánaða frá því leigutíma hafi lokið samkvæmt leigusamningi um húsnæðið. Leigusamningurinn hafi því ekki framlengst ótímabundið eins og stefnandi haldi fram. Af þeim sökum hafi stefndi ekki skyldu til að greiða leigugjald til stefnanda í níu mánuði frá 1. maí 2011 að telja auk útlagðs kostnaðar stefnanda við gerð nýs leigusamnings. Stefndi vísi til þess að upphafleg uppsögn, sem hafi verið dagsett 30. júlí 2010, hafi ekki borist til vitundar fyrirsvarsmanns stefnanda fyrr en 4. ágúst sama ár. Um það vitni tilkynning Íslandspósts til fyrirsvarsmanns stefnanda 30. júlí 2010 og því hafi uppsagnarfrestur ekki byrjað að líða fyrr en 1. september 2010, sbr. 57. gr. húsaleigulaga. Lok uppsagnarfrests hafi þannig verið 28. febrúar 2011 en stefnandi hafi rýmt hið leigða húsnæði í lok aprílmánaðar það ár. Í framlögðum tölvubréfum sem send hafi verið á milli starfsmanna aðila sé að finna margvísleg gögn sem sýni með óyggjandi hætti að húsnæðið hafi verið rýmt fyrir lok apríl 2011. Að mati stefnda verði alls ekki talið að túlka megi áframhaldandi staðsetningu tveggja gáma á lóðinni við Flatahraun 31 fram í maí 2011 á þann hátt sem stefnandi geri. Hafi stefnandi hvorki fært  sönnur á að stefndi hafi haldið áfram rekstri sínum í hinu leigða húsnæði né að hann hafi látið hjá líða að rýma húsnæðið fyrr en seinni hluta maímánaðar 2011 eins og staðhæft sé í stefnu. Megi í þessu sambandi vísa til þess að húsaleigulög gildi um samninga sem fjalli um afnot af húsi eða hluta af húsi gegn endurgjaldi, sbr. 1. gr. laganna. Verði því ekki byggt á ákvæðum laganna þegar tveir gámar standi utandyra á opinni lóð en húsnæðið hafi verið rýmt. Þá verði við mat á dómkröfu stefnanda að hafa í huga athafnir og athafnaleysi stefnanda sjálfs þegar uppsagnarfrestur leigusamningsins hafi verið að renna út. Augljóslega hafi verið skilningur stefnda að uppsagnarfrestur teldist frá 1. september 2010 og samkvæmt trúnaðarskyldu samningaréttarins hafi stefnanda borið að taka nokkurt tillit til hagsmuna stefnda í samningssambandinu. Honum hafi þannig borið skylda til að ræða við stefnda um stöðu mála og framhald húsaleigunnar þegar honum hafi orðið ljóst að stefndi hafði ekki rýmt húsið fyrir lok janúar 2011. Þessi skylda stefnanda hafi orðið enn ríkari eftir því sem á hafi liðið. Stefnandi hafi ekki aðhafst neitt þótt hann hafi sífellt komið að húsnæðinu og fylgst með. Þess í stað hafi hann beðið með öll samskipti við stefnda uns hann hafi talið að leigusamningurinn hefði framlengst ótímabundið. Stefnandi hafi því ekki komið fram við stefnda af þeim heiðarleika sem trúnaðarskyldan áskilji. Þá verði að telja að háttsemi stefnanda á tímabilinu janúar til maí 2011 hafi einnig brotið gegn meginreglu 33. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og 36. gr. sömu laga. Beri því að sýkna stefnda af þessari dómkröfu.  Verði ekki fallist á framangreint sé ljóst að stefnanda hafi verið send önnur uppsögn með bréfi 31. maí 2011. Samkvæmt 14. gr. leigusamnings hafi uppsagnarfrestur verið sex mánuðir eða til loka nóvembermánaðar 2011. Gangi þetta sérákvæði samningsins framar ákvæði 3. töluliðar 56. gr. húsaleigulaga, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna. Af því leiði að einungis geti verið um sex mánaða uppsagnarfrest að ræða en ekki níu mánaða frest eins og stefnandi haldi fram. Símskeyti lögmanns stefnanda 17. maí 2011, breyti hér engu um enda séu ákvæði húsaleigulaga frávíkjanleg að því er varðar atvinnuhúsnæði. Hluti dómkröfu stefnanda byggi á því að stefnandi hafi strax hafið leit að nýjum leigutaka að húsnæðinu við Flatahraun 31. Til stuðnings þessari staðhæfingu sé lagt fram svonefnt leiguumboð frá fasteignasölunni Atvinnueignum ehf. sem fyrirsvarsmaður stefnanda hafi undirritað 1. júlí 2011 eða 11 mánuðum eftir að honum hafi borist upphafleg uppsögn leigusamningsins frá stefnda. Verði ekki betur séð en að verulegur dráttur hafi orðið hjá stefnanda við að hefja leit að nýjum leigutaka og hafi hann því sýnt af sér tómlæti. Sá missir leigutekna, sem stefnandi telji sig hafa orðið fyrir, sé því hans eigin sök og verði hann sjálfur að bera þann skaða sem af því kann að hafa hlotist. Ljóst sé að eftir að leigusamningur hafi verið útrunninn hafi stefnandi ekkert aðhafst í þessu efni. Þá verði að telja að með gerð leigusamnings við  HBT International hf. til fimm ára hafi stefnandi í verki slitið endanlega meintu samningssambandi sínu við stefnda um leiguafnot þess síðarnefnda af Flatahrauni 31 en leiguafnot fyrirtækisins munu hafa hafist 1. október 2011 en ekki 1. nóvember það ár eins og fram komi í stefnu. Beri að leiðrétta útreikninga stefnanda vegna þessa. Ennfremur sé því hafnað að stefndi geti borið greiðsluábyrgð á samningi stefnanda við tiltekna leigumiðlun. Stefnandi tefli fram þeirri málsástæðu og lagarökum að atvik og efnisatriði, sem Héraðsdómur Reykjaness hafi kveðið á um í úrskurði sínum 7. júní 2012 verði ekki borin undir dómstóla á nýjan leik samkvæmt res judicata reglu 116. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Stefndi mótmæli þessu enda taki ákvæði 116. gr. einungis til dóma og því eigi þessi málsástæða ekki við auk þess sem umræddur úrskurður hafi lotið að beiðni um beina aðfarargerð en um þær aðfarargerðir gildi að hluta sérstakar réttarfarsreglur. Hvað lagarök varðar vísar stefndi til ákvæða húsaleigulaga nr. 36/1994 og ákvæða laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, svo og til meginreglna samningaréttar og kröfuréttar. Þá vísar stefndi til ákvæða laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um málskostnaðarkröfu er vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála, einkum 129 gr. og 1. mgr. 130. gr. IV Aðilar máls þessa gerðu með sér tímabundinn leigusamning 26. janúar 2006 til tíu ára um húseignina Flatahraun 31 í Hafnarfirði. Samkvæmt 14. gr. samningsins var heimilt að segja honum upp hið fyrsta 31. júlí 2010 með sex mánaða fyrirvara. Stefndi sagði upp leiguafnotum af húsnæðinu með símskeyti 30. júlí 2010 og miðaði uppsögnina og sex mánaða uppsagnarfrestinn við næstu mánaðamót þar á eftir. Með uppsögninni tilkynnti stefndi að hann myndi nýta húsnæðið til loka janúar 2011. Fyrirsvarsmaður stefnanda, Björgvin Björgvinsson, veitti skeytinu viðtöku 4. ágúst 2010 en þá sótti hann skeytið á pósthús og kvittaði fyrir móttöku þess. Kemur þetta fram á framlagðri tilkynningu Póstsins um skeytið og í aðfararbeiðni stefnda til héraðsdóms 7. mars 2012. Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 lýkur tímabundnum leigusamningi á umsömdum degi án sérstakrar uppsagnar eða tilkynningar aðila. Kveðið er á um það að tímabundnum leigusamningi verði ekki slitið með uppsögn á umsömdum leigutíma, en þó sé heimilt að semja um að segja megi slíkum samningi upp á grundvelli sérstakra forsendna, atvika eða aðstæðna sem þá skuli tilgreind í samningnum. Samkvæmt fyrrgreindum leigusamningi er ljóst að aðilar málsins sömdu um að hann væri uppsegjanlegur með tilteknum tilgreindum hætti, það er 31. júlí 2010 eða síðar með skriflegri uppsögn og sex mánaða uppsagnarfresti. Var þeim það heimilt samkvæmt greindu ákvæði húsaleigulaga. Þá segir í leigusamningnum að mjög alvarleg ástæða skuli vera fyrir uppsögn. Í símskeyti stefnda til stefnanda er sú ástæða tilgreind fyrir uppsögninni að húsnæðið sé allt of lítið en það takmarki vöxt og aðstöðu fyrirtækisins.  Skömmu fyrir aðalmeðferð máls þessa féll stefnandi frá kröfu sinni um að stefndi greiddi honum leigu fyrir tímabilið frá mars 2012 til og með október 2013 og kröfu um að viðurkennd yrði greiðsluskylda stefnda gagnvart stefnanda á húsaleigu frá 1. nóvember 2013 til loka janúar 2016 og kröfu um kostnað við að leigja öðrum aðila eignina. Samkvæmt dómkröfum stefnanda eftir breytinguna er ekki lengur byggt á því í málinu af hálfu stefnanda að uppsögn stefnda hafi verið ólögmæt. Eftir stendur að aðilar deila um það hvort stofnast hafi ótímabundinn leigusamningur um eignina vegna nýtingar stefnda á húsnæðinu eftir lok uppsagnarfrests 31. janúar 2011. Í 57. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 segir að uppsagnarfrestur hefjist fyrsta dag næsta mánaðar eftir að uppsögn var send. Á framlögðu símskeyti sem stefndi sendi stefnanda til að tilkynna uppsögn leigusamningsins má sjá að skeytið er bæði dagsett og stimplað um afhendingu sama dag, eða 30. júlí 2010. Samkvæmt því og fyrrgreindu ákvæði 57. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 var uppsögn stefnda send 30. júlí og breytir þá engu hvenær fyrirsvarsmaður stefnanda veitti skeytinu viðtöku. Aðilar málsins deila um það hvenær stefndi flutti starfsemi sína úr húsnæðinu að Flatahrauni 31. Stefnandi heldur því fram að það hafi verið í lok maí 2011 en stefndi fullyrðir að það hafi verið gert í lok apríl en þá hafi stefndi tæmt húsnæðið að fullu og öllu og verið fluttur að Tunguhálsi 8 með starfsemi sína. Fyrirsvarsmaður stefnanda, áðurnefndur Björgvin Björgvinsson, gaf aðilaskýrslu fyrir dómi og fullyrti að hann hefði séð starfsmenn stefnda vera í húsnæðinu um miðjan maí 2011 að taka niður gardínur. Þá hefði ruslagámur fyrir utan húsið verið tæmdur og fylltur á ný. Einnig kom fram í skýrslu Björgvins að Bessi, þá starfsmaður stefnda, hefði hringt í hann 18. maí og óskað eftir því að hann kæmi og tæki við lyklum að húsnæðinu. Kvaðst Björgvin hafa vísað á lögmann sinn enda hefði hann ekki tök á að sækja lyklana. Fyrirsvarsmaður stefnda, Ingibergur Erlingsson, gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Hann kannaðist við að gardínur í eigu stefnda hefðu verið teknar niður en vissi ekki hvaða dag það hefði verið gert. Þá kom fram í skýrslunni að stefndi hefði haft vörugám fyrir utan húsið á leigutímanum sem hefði verið nýttur sem geymsla af því húsnæðið hefði verið orðið of lítið. Enn fremur greindi Ingibergur frá því að stefndi hefði hreinlega gleymt að skila lyklum að húsnæðinu þar til farið var með þá á skrifstofu lögmanns stefnanda 31. maí 2011. Í svonefnda “atburðasögu” Orkuveitunnar er skráð að Bessi Jónsson, sem mun vera fyrrverandi starfsmaður stefnda, hafi lesið af mæli fyrir heitt vatn að Flatahrauni 31 og tilkynnt um notendaskipti 16. maí 2011. Í tölvubréfi frá starfsmanni HS veitna 9. maí 2012 til Bessa Jónssonar segir að stefndi hafi greitt orkureikninga frá 20. maí til 31. október 2011 vegna Flatahrauns 31. Ástæða þess er sögð sú að reikningar hafi verið sendir áfram á stefnda því Björgvin Björgvinsson, eigandi húsnæðisins, hafi neitað að samþykkja flutninginn þar sem hann hafi talið leigusamning um húsnæðið enn í gildi. Samkvæmt framlögðum gögnum frá Gámaþjónustunni hf. var gerð aukalosun á sorpgámi með blönduðum úrgangi frá Flatahrauni 31 þann 2. maí 2011. Þá var gámurinn einnig losaður 18. maí en 23. sama mánaðar voru ílát þrifin og flutt frá Flatahrauni 31. Fyrir dómi greindi vitnið Gunnar Bragason, starfsmaður Gámaþjónustunnar hf., frá því að Bessi hefði pantað sorpgám að Tunguhálsi 8 29. apríl 2011 fyrir stefnda. Hann hefði einnig pantað aukalosun á sorpgámi við Flatahraun 31 2. maí og flutning á sorpgámi frá sama stað 23. maí 2011. Vitnið staðfesti fyrir dómi að framlögð skjöl um þetta stöfuðu frá Gámaþjónustunni hf. Vitnið Björn Smári Sigurðsson starfsmaður Eimskips hf. gaf skýrslu fyrir dómi og greindi frá því að Eimskip hefði tekið 40 feta gám í eigu stefnda af lóðinni Flatahrauni 31 1. júní 2011. Hefði það verið gert samkvæmt beiðni frá stefnda og hefði gámurinn verið fluttur að Tunguhálsi 8. Eimskip hefði flutt gáminn en ekki hefði verið athugað hvort eitthvað hafi verið í honum. Skráð þyngd gámsins hafi verið tíu tonn og benti það til þess að hann hefði ekki verið tómur. Þá liggur fyrir, eins og fram er komið, að stefndi skilaði lyklum að húsnæðinu á skrifstofu lögmanns stefnda 31. maí 2011. Samkvæmt því sem að framan er rakið þykir stefnandi hafa rennt stoðum undir þá fullyrðingu sína að stefndi hafi hagnýtt sér húsnæðið að Flatahrauni 31 í maímánuði 2011. Að mati dómsins hefur stefnandi fært fyrir því fullgild rök að stefndi hafi haldið umráðum eignarinnar allt þar til hann afhenti stefnanda lykla að húsnæðinu. Verður við úrlausn máls þessa við það miðað að stefndi hafi hagnýtt eignina og haldið stefnanda frá umráðum hennar í febrúar, mars, apríl og maí 2011. Sú fullyrðing stefnda að lóðin við húsið að Flatahrauni 31 hafi ekki verið hluti af hinu leigða og því skipti ekki máli þótt fyrrnefndur vörugámur stefnda og sorpílát hafi staðið á lóðinni í maí, er ekki studd haldbærum rökum. Auk þess er nefnd fullyrðing í andstöðu við tilgreiningu hins leigða samkvæmt leigusamningi aðila og fylgiskjali með samningnum, það er opinbera skráningu Fasteignamats ríkisins, sem tilgreinir 2.260 fermetra lóð við húsið með landnúmerið 120487 sem stefndi hafði umráð yfir á leigutímanum og nýtti meðal annars undir vörugám í hans eigu sem notaður var sem geymsla við húsnæðið. Með símskeyti til stefnda 17. maí 2011 tilkynnti stefnandi að félagið krefðist þess samkvæmt 59. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 að leigusamningur um húsnæðið að Flatahrauni 31 framlengdist ótímabundið. Með bréfi stefnda 31. maí 2011 svaraði stefndi fyrrgreindu símskeyti stefnanda og hafnaði kröfunni með þeim rökum að hann hefði rýmt húsnæðið “um síðustu mánaðamót.”   Fram er komið að stefndi sagði nefndum leigusamningi upp með sex mánaða fyrirvara og skyldi afnotum hans að húsnæðinu ljúka eigi síðar en 31. janúar 2011. Af því varð ekki og liggur fyrir að stefndi hagnýtti sér eignina áfram mánuðina febrúar, mars, apríl og maí 2011 og greiddi umsamda leigu fyrir afnotin í febrúar, mars og apríl 2011. Í 59. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 segir að líði tveir mánuðir frá því að leigutíma lauk samkvæmt uppsögn, en leigjandi heldur áfram að hagnýta hið leigða húsnæði geti leigusali þá krafist þess að leigusamningurinn framlengist ótímabundið. Getur leigutaki gert sömu kröfu enda hafi leigusali ekki skorað á hann að rýma húsnæðið eftir lok leigutíma. Fyrir liggur að stefndi nýtti sér hið leigða húsnæði lengur en tvo mánuði eftir að leigutíma skyldi ljúka samkvæmt uppsögn stefnda sjálfs. Af því leiðir og samkvæmt tilvitnuðu ákvæði 59. gr. húsaleigulaga að stefnanda var heimilt að krefjast þess að samningur aðila framlengdist ótímabundið. Ekki verður annað séð en að stefndi hafi að lögum verið skuldbundinn til að fallast á þá kröfu stefnanda sem beint var til stefnda með símskeyti 17. maí 2011. Í bréfi stefnda til stefnanda 31. maí 2011 lýsti stefndi þeirri afstöðu sinni að hann hafnaði kröfu stefnanda um ótímabundna framlengingu leigusamningsins. Jafnframt sagði stefndi samningnum upp miðað við dagsetningu bréfsins. Í bréfinu segir meðal annars orðrétt: “Uppsögnina ber einungis að skilja sem varúðarráðstöfun af hálfu umbjóðanda míns og felst í henni engin viðurkenning á réttmæti kröfu umbjóðanda yðar.” Stefnandi krefur stefnda um vangreidda húsaleigu fyrir tímabilið frá maí 2011 til og með febrúar 2012, alls í 10 mánuði, það er fyrir maímánuð 2011 og níu mánaða uppsagnarfrest frá og með 1. júní 2011, að teknu tilliti til leigugreiðslna frá HBT International hf. frá 1. nóvember 2011 með þeim hætti að hann lækkar kröfu sína á hendur stefnda fyrir sama tímabil, allt samkvæmt nánari sundurliðun í kafla II að framan. Samtals nemur krafa stefnanda 19.546.671 krónu. Stefndi hafnar því að leigusamningurinn hafi framlengst ótímabundið og því sé ekki til staðar skylda hjá stefnda til greiðslu leigugjalds til stefnanda. Ekki er deilt um fjárhæð umkrafinnar húsaleigu eða kröfu stefnanda um dráttarvexti.  Að framan er komist að þeirri niðurstöðu að samkvæmt tilkynningu stefnanda í símskeyti 17. maí 2011 hafi leigusamningur aðila framlengst ótímabundið að kröfu stefnanda. Samningssamband aðila hélst þannig óslitið vegna áframhaldandi nýtingar stefnda á húsnæðinu eftir 31. janúar 2011 og þegar stefndi sagði samningnum upp á ný með bréfi 31. maí hafði samningssamband aðila staðið samfellt frá 1. febrúar 2006 að telja eða í fimm ár og þrjá mánuði. Samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 56. gr. skal uppsagnarfrestur af beggja hálfu vera níu mánuðir hafi leigutími staðið lengur en fimm ár. Í máli því sem er til úrlausnar byrjaði uppsagnarfrestur að líða 1. júní 2011 samkvæmt síðari uppsögn stefnda. Fyrir liggur að stefnandi leigði húsnæðið að Flatahrauni 31 til félagsins HBT International hf. frá og með 1. nóvember 2011 að telja. Um það vitnar leigusamningur 21. september 2011. Samkvæmt framburði þáverandi fyrirsvarsmanns félagsins, vitnisins Jóhanns R. Benediktssonar fyrir dómi, greiddi félagið fyrstu leigugreiðsluna 31. október 2011 og þá vegna nóvember 2011. Vitnið bar að félagið hefði þó fengið heimild Björgvins Björgvinssonar til að geyma muni í húsnæðinu fyrir upphaf leigutímans og gat vitnið ekki útilokað að það hefði verið frá því skömmu eftir undirritun samningsins. Með hinum nýja leigusamningi um eignina við HBT International hf. sleit stefnandi samningssambandi sínu við stefnda og verður stefndi að mati dómsins ekki krafinn um leigu fyrir hið leigða eftir 1. nóvember 2011 og skiptir engu fyrir þá niðurstöðu þótt hinn nýi leigutaki hafi greitt lægri leigu en stefndi fyrir eignina eða hafi fengið að nýta einhvern hluta eignarinnar skömmu eftir undirritun leigusamningsins, enda ósannað að leiguafnotin hafi hafist fyrr en greinir í áðurnefndum samningi 21. september 2011, það er 1. nóvember 2011.   Varnir stefnda lúta öðrum þræði að því að stefnandi hafi sýnt af sér tómlæti og dregið það að hefja leit að öðrum leigutaka eignarinnar. Nefnir stefndi í því sambandi að leiguumboð sem fyrirsvarsmaður stefnanda undirritaði við leigumiðlun 1. júlí 2011 eða 11 mánuðum eftir að hin upphaflega uppsögn stefnda var send til stefnanda. Á þetta verður ekki fallist með stefnda, enda var stefndi bundinn af tilkynningu stefnanda 17. maí 2011 um ótímabundna framlengingu á leigusamningi aðila. Við þær aðstæður bar stefnanda engin skylda til þess að hefja leit að öðrum leigutaka fyrr en hann gerði. Þá verður heldur ekki á það fallist með stefnda að stefnandi hafi með „háttsemi sinni“ á tímabilinu frá janúar – maí 2011 brotið gegn meginreglu laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga eða 36. gr. laganna. Samkvæmt öllu framangreindu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda húsaleigu fyrir tímabilið frá 1. maí til 1. nóvember 2011, eða í sex mánuði, samtals 14.082.122 krónur með dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði, að frádreginni greiðslu stefnda að fjárhæð 16.696.139, sem stefndi greiddi stefnanda 21. júní 2012, það er kröfu samkvæmt tryggingavíxli ásamt vöxtum.   Með vísan til framangreindrar niðurstöðu málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað. Að gættu umfangi málsins og því að skömmu fyrir aðalmeðferð málsins féll stefnandi frá tveimur kröfuliðum af þremur samkvæmt stefnu þykir málskostnaður með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hæfilega ákveðinn 800.000 krónur. Jón Höskuldsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan. D ó m s o r ð: Stefndi, Logaland ehf., greiði stefnanda, Blikási ehf., 14.082.122 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.287.959 krónum frá 6. maí 2011 til 6. júní 2011, en af 4.591.754 krónum frá þeim degi til 6. júlí 2011, en af 6.948.618 krónum frá þeim degi til 6. ágúst 2011, en af 9.324.312 krónum frá þeim degi til 6. september 2011, en af 11.694.872 krónum frá þeim degi til 6. október 2011, en af 14.082.122 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 16.696.139 krónum greiddum inn á kröfuna 21. júní 2012. Stefndi greiði stefnanda 800.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 206/2015
Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. mars 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 2015 þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 18. mars 2015 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 205/2015
Kærumál Skýrslugjöf Vitni
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu Á um að X yrði gert að víkja úr þinghaldi á meðan vitni gæfi skýrslu þar sem talið var að nærvera hans við skýrslugjöfina gæti orðið því sérstaklega íþyngjandi og haft áhrif á framburð þess.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. mars 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. mars 2015, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að víkja úr þinghaldi á meðan tiltekið vitni gæfi skýrslu við aðalmeðferð málsins. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 120/2015
Kærumál Vanreifun Frávísunarúrskurður staðfestur
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfu S, um að viðurkennt yrði með dómi að hann væri einn af hluthöfum H ehf., var vísað frá dómi. Samkvæmt fylgiskjali með ársreikningi H ehf. fyrir árið 2011 var félagið J Ltd. skráð eini hluthafi H ehf. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að S hefði getað beint málsókn að H ehf. með dómkröfu um að í hluthafaskrá félagsins yrði fært að S væri hluthafi í því og ætti þar þriðjung heildarhlutafjár. Hann hefði einnig getað beint máli að J Ltd. og haft uppi sömu kröfu og hann gerði í máli þessu á hendur H ehf. og SR. Hvorugt hefði S hins vegar gert. Þá yrði hvergi í málatilbúnaði hans fundin viðhlítandi skýring á ástæðum þess að hann hefði uppi fyrrgreinda kröfu í málinu og beindi henni þar að auki að H ehf. og SR. Var það því niðurstaða dómsins að reifun málsins væri svo áfátt af hendi S að staðfesta yrði niðurstöðu hins kærða úrskurðar.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Þorgeir Örlygsson og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. febrúar 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. febrúar 2015, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. I Samkvæmt gögnum málsins gerðu sóknaraðili og varnaraðilinn Skorri Rafn Rafnsson ásamt Gísla Rúnari Rafnssyni stofnskrá fyrir varnaraðilann Hraðpeninga ehf. 16. desember 2009 og héldu þá jafnframt stofnfund, en samþykktir höfðu þeir áður gert fyrir félagið 16. ágúst sama ár. Eftir þessum gögnum áttu stofnendurnir þrír hver sinn þriðjung í félaginu og tóku allir sæti í stjórn þess, varnaraðilinn Skorri sem formaður og hinir sem meðstjórnendur, en að auki var þeim hverjum fyrir sig veitt prókúruumboð. Í tilkynningu 16. desember 2009 um stofnun félagsins til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra kom meðal annars fram að allt hlutafé, 1.500.000 krónur, hafi verið innborgað með peningum. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði halda varnaraðilar því fram að hvorki hafi þó sóknaraðili né Gísli efnt hlutafjárloforð sín og kveðst varnaraðilinn Skorri því hafa staðið skil á hlutafé þeirra beggja. Um þetta vísar sá síðastnefndi til framlagðrar yfirlýsingar löggilts endurskoðanda varnaraðilans Hraðpeninga ehf. frá 17. september 2013, þar sem fram kemur að varnaraðilinn Skorri hafi innt af hendi sitt hlutafé í desember 2009, en hlutafé hinna hluthafanna tveggja 27. janúar 2010. Fyrirtækjaskrá barst 7. janúar 2010 tilkynning um breytingu á stjórn varnaraðilans Hraðpeninga ehf., þar sem fram kom að varnaraðilinn Skorri sæti orðið einn í stjórn félagsins og væri varamaður hans Þorgeir Þorgeirsson, en tilkynning þessi var undirrituð af sóknaraðila, varnaraðilanum Skorra, Þorgeiri og fyrrnefndum Gísla. Sama dag var einnig tilkynnt til fyrirtækjaskrár að varnaraðilinn Skorri væri framkvæmdastjóri varnaraðilans Hraðpeninga ehf. svo og að hann færi einn með prókúruumboð fyrir félagið. Í málinu liggur fyrir ársreikningur varnaraðilans Hraðpeninga ehf. fyrir 2009, sem dagsettur var 21. september 2010. Samkvæmt fylgiskjali með reikningnum var eini hluthafinn í félaginu á þeim tíma varnaraðilinn Skorri, sem átti jafnframt sæti í stjórn þess ásamt áðurnefndum Þorgeiri. Einnig liggur fyrir ársreikningur 2010, dagsettur 7. október 2011, en í hliðstæðu fylgiskjali með því kom fram að varnaraðilinn Skorri ætti allt hlutafé í félaginu, svo og að hann ætti ásamt Fjölvari Darra Rafnssyni sæti í stjórn þess. Loks er þess að geta að í fylgiskjali með ársreikningi félagsins 2011, sem var dagsettur 19. febrúar 2013, kom fram að stjórnarmenn í því væru fyrrnefndur Fjölvar og Óskar Þorgils Stefánsson, en eini hluthafinn í félaginu væri Jumdon Micro Finance Ltd. á Kýpur. Í málinu liggja ekki fyrir nýrri ársreikningar fyrir varnaraðilann Hraðpeninga ehf. en sá, sem hér var síðast getið, en í málatilbúnaði varnaraðila er staðhæft að umrætt erlent félag sé enn eini hluthafinn í Hraðpeningum ehf. Í bréfi, sem sóknaraðili beindi 15. júlí 2013 til varnaraðilans Hraðpeninga ehf., var vísað til þess að nokkru áður hafi birst í fjölmiðli frétt um að eignarhald að félaginu „hafi verið flutt til eignarhaldsfélags á Kýpur.“ Hann kvaðst ekki kannast við að hafa selt hlut sinn í félaginu, en hann hafi verið meðal stofnenda þess og átt þriðjung hlutafjár. Af þessum sökum krefðist hann þess að haldinn yrði hluthafafundur í félaginu en því var hafnað. Að undangengnum frekari bréfaskiptum aðilanna höfðaði sóknaraðili mál þetta á hendur varnaraðilum 23. júní 2014 og krafðist þess að viðurkennt yrði að hann væri eigandi að hlutafé í varnaraðilanum Hraðpeningum ehf. að fjárhæð 500.000 krónur. Með hinum kærða úrskurði var orðið við kröfum varnaraðila um að málinu yrði vísað frá dómi. II Svo sem ráðið verður af áðursögðu byggir sóknaraðili á því í málinu að hann hafi sem einn af stofnendum varnaraðilans Hraðpeninga ehf. orðið hluthafi í félaginu í öndverðu og sé hann enn í röðum hluthafa, enda hafi hann ekki ráðstafað hlutafé sínu til annarra. Í málinu leitar hann dóms til viðurkenningar á því. Málsókn í þeim tilgangi, sem að framan greinir, hefði sóknaraðili getað beint að varnaraðilanum Hraðpeningum ehf. með dómkröfu um að í hlutaskrá félagsins yrði fært að sóknaraðili væri hluthafi í því og ætti þar þriðjung heildarhlutafjár, sbr. að nokkru til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 12. febrúar 2008 í máli nr. 68/2008. Hann hefði einnig getað beint máli að Jumdon Micro Finance Ltd. og haft þar uppi sömu dómkröfu og hann gerir í þessu máli á hendur varnaraðilum. Hvorugt þetta hefur sóknaraðili gert. Í málatilbúnaði hans verður hvergi fundin viðhlítandi skýring á ástæðum þess að hann hafi uppi fyrrgreinda kröfu í máli þessu og beini henni að auki að varnaraðilum. Reifun málsins er af þessum sökum svo áfátt af hendi sóknaraðila að staðfesta verður niðurstöðu hins kærða úrskurðar. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur Sóknaraðili, Sverrir Einar Eiríksson, greiði varnaraðilum, Hraðpeningum ehf. og Skorra Rafni Rafnssyni, hvorum fyrir sig 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Mál nr. 185/2015
Kærumál Dómkvaðning matsmanns Afhending gagna
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X um dómkvaðningu matsmanna og kröfu Y um að sér yrði afhent nánar tilgreind skjöl. Í dómi Hæstaréttar kom fram að tilgangur X með hinu umbeðna mati væri að sýna fram á að tvö hugtaksskilyrði 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 væru ekki uppfyllt, en hvort tveggja væri lögfræðilegt úrlausnarefni sem dómari legði sjálfur mat á, sbr. 2. mgr. 127. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Krafa Y laut í fyrsta lagi að afhendingu tiltekins hluta bréfs, í öðru lagi að nafngreindum yfirlögregluþjónum Á yrðu gert að afhenda sér gögn um samskipti þeirra við nánar tilgreinda aðila og í þriðja lagi að nánar tilgreint félag yrði gert að afhenda sér pósthólf og önnur gögn nafngreindra einstaklinga. Með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 739/2014, þar sem hafnað var afhendingu umþrætts bréfs í heild sinni, var talið að sömu sjónarmið ættu að gilda um hluta þess. Hvað varðaði annar kröfuliður Y var talið að gögnin gætu aldrei talist sönnunargögn um atvik máls sem Á væri skylt að leggja fram, sbr. 2. mgr. 134. gr. sömu laga. Loks var talið að meðal þeirra gagna sem vísað væri til í þriðja kröfulið Y væru eðli málsins samkvæmt í ríkum mæli upplýsingar sem leynd yrði að ríkja um. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar. Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 4. og 6. mars 2015, sem bárust réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2015, þar sem hafnað var kröfu varnaraðilans Y um að sér verði afhent nánar tilgreind skjöl og kröfu varnaraðilans X um dómkvaðningu matsmanna. Kæruheimild er í c. og o. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilinn X krefst þess að umbeðin dómkvaðning fari fram. Varnaraðilinn Y krefst þess að sér verði afhent nánar tilgreind skjöl. Í I. kafla ákæru sóknaraðila 10. febrúar 2014 eru varnaraðilanum X gefin að sök umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa 16. nóvember 2007 sem forstjóri og formaður áhættunefndar [...] misnotað aðstöðu sína með því að fara út fyrir heimildir sínar til lánveitinga og stefna fjármunum bankans í verulega hættu þegar hann lét veita [...], síðar [...], 19.538.481.818 króna lán, án fullnægjandi trygginga og í andstöðu við reglur stjórnar bankans og lánareglur hans, þar sem lánið rúmaðist ekki innan viðskiptamarka sem áhættunefnd og ákærði gátu ákveðið. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var með dómi Hæstaréttar 8. desember 2014 í máli nr. 739/2014 hafnað beiðni varnaraðilans X um dómkvaðningu matsmanna til að meta nánar tilgreind atriði vegna þeirrar háttsemi sem honum er gefin að sök í fyrrnefndum ákærukafla. Af hálfu varnaraðilans kom fram að tilgangur matsins væri að sýna fram á að hann hafi ekki stofnað fjármunum [...] í verulega hættu, en veruleg fjártjónshætta er eitt þriggja hugtaksskilyrða 249. gr. almennra hegningarlaga. Um tilgang matsbeiðni þeirrar, sem hér til úrlausnar, er af hálfu varnaraðilans vísað til þess að hugtaksskilyrði umboðssvika samkvæmt fyrrgreindu ákvæði almennra hegningarlaga séu að „umboðsmaður (ákærði X) hafi misnotað aðstöðu sína og skapað umbjóðanda sínum ([...]) að minnsta kosti verulega fjártjónshættu“. Geti varnaraðilinn ekki fallist á að háttsemi sín, sem lýst sé í ákæru, falli undir framangreind hugtaksskilyrði lagagreinarinnar, en upplýsingar um þau atriði, sem meta eigi, liggi ekki fyrir í málinu. Sé tilgangur matsins að bæta úr því og leitast þannig við að sýna fram á að áðurnefnd hugtaksskilyrði séu ekki uppfyllt. Þá kemur skýrlega fram í greinargerð varnaraðilans til Hæstaréttar að hin nýja matsbeiðni lúti að báðum fyrrgreindum hugtaksskilyrðum umboðssvika. Tilgangur umbeðins mats er samkvæmt framangreindu að sýna fram á að tvö fyrrgreind hugtaksskilyrði 249. gr. almennra hegningarlaga séu ekki uppfyllt í stað eins samkvæmt fyrri beiðni, en hvort tveggja er lögfræðilegt úrlausnarefni, sem dómari leggur sjálfur mat á, sbr. 2. mgr. 127. gr. laga nr. 88/2008. Varnaraðilinn Y krefst þess meðal annars að [...], en til vara sóknaraðila, verði gert að afhenda „verjanda ákærða“ gögn þriggja fyrrverandi starfsmanna [...] á tímabilinu frá 1. til 31. ágúst 2008, en um sé að ræða „outlook“ hólf þeirra, sem innihaldi meðal annars alla tölvupósta, dagbókarfærslur og verkefnafærslur, öll vistuð MSN-samskipti og hljóðrituð borðsímtöl, sem þeir hafi átt aðild að á umræddu tímabili. Þessi gögn eru meðal þeirra rafrænu gagna, sem sóknaraðili lagði hald á við rannsókn málsins, og eru þau því í vörslum hans, enda þótt [...] kunni einnig að hafa þau í fórum sínum. Þá er þess að gæta að meðal þessara gagna eru eðli máls samkvæmt í ríkum mæli orðsendingar varðandi fjárhagsmálefni fjölmargra viðskiptamanna bankans, sem leynd verður að ríkja um, og að auki persónulegar orðsendingar, sem starfsmenn félagsins fengu eða sendu og vörðuðu einkalíf þeirra. Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Mál nr. 137/2015
Kærumál Réttaráhrif dóms Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfu H um ógildingu sjálfskuldarábyrgðar, sem hann hafði tekist á hendur vegna skuldar F ehf. við L hf., var vísað frá dómi á grundvelli 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að í máli, sem L hf. hafði áður höfðað gegn H og F ehf., hefði með áritun á stefnu verið fallist á þá kröfu L hf. að H skyldi greiða L hf. nánar tilgreinda upphæð á grundvelli yfirlýsingar um sjálfskuldarábyrgðina. Nú krefðist H hins vegar meðal annars ógildingar á ábyrgðaryfirlýsingunni. Þar sem sú krafa hefði ekki verið höfð uppi í fyrrgreinda máli aðilanna var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að ekki bæri að vísa málinu frá dómi á grundvelli 2. mgr., sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Í niðurstöðu réttarins kom jafnframt fram að í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefði máli verið vísað frá héraðsdómi á grundvelli 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 ef stefnandi þess máls hefði áður höfðað mál og látið undir höfuð leggjast að færa fyrir kröfu sinni málsástæður, sem hann hefði getað teflt fram í því máli. Að virtum rétti manna til að bera mál um réttindi sín og skyldur undir dómstóla, sem þeim væri áskilinn í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, yrði ekki talið að aðili, sem áður hefði verið stefnt fyrir dóm, hefði fyrirgert rétti sínum til að höfða mál síðar gegn stefnanda fyrra málsins, jafnvel þótt hann hefði getað í því máli teflt fram sömu málsástæðum og hann gerir í síðara málinu. Á hinn bóginn kynni sú afstaða hans, að taka ekki til varna í fyrra málinu, að hafa þýðingu þegar leyst væri efnislega úr kröfu hans í síðara málinu. Með vísan til þessa var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfu H til úrlausnar.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. febrúar 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. janúar 2015, þar sem kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfuna til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Dómsorð:
Mál nr. 631/2014
Virðisaukaskattur Endurgreiðsla Stjórnsýsla Skaðabætur Vextir Fyrning
Sveitarfélagið F höfðaði mál á hendur Í og krafðist endurgreiðslu hluta virðisaukaskatts sem lagður hefði verið á sölu hitaveitu F á heitu vatni til hitunar húsa og laugarvatns á árunum 2005 til 2010. Málsatvik voru þau að mælt hafði verið fyrir um heimild til slíkrar endurgreiðslu í 4. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 60. gr. laga nr. 11/1992, þar til heimildin var felld brott með 11. gr. laga nr. 163/2010. Í ákvæðinu hafði fjármálaráðherra verið fengin heimild til að setja nánari ákvæði um framkvæmd endurgreiðslunnar í reglugerð, að fenginni tillögu iðnaðarráðherra. Á þeim grundvelli setti fjármálaráðherra reglugerð nr. 484/1992, en í 2. gr. hennar var að finna upptalningu á orkufyrirtækjum sem rétt áttu til endurgreiðslu virðisaukaskatts og var þar jafnframt ákveðið hversu hátt hlutfall af álögðum virðisaukaskatti skyldi endurgreitt til hvers fyrirtækis. Hitaveita F var ekki þar á meðal, en hún tók til starfa árið 2005. Hæstiréttur tók fjárkröfu F til greina  með vísan til þess að löggjafinn hefði ekki framselt fjármálaráðherra vald til að taka bindandi ákvörðun um hvaða orkufyrirtæki meðal þeirra, sem fullnægðu almennum skilyrðum til endurgreiðslu, ættu að fá að njóta hennar, enda hefðu fyrirmæli 4. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 verið án nokkurrar aðgreiningar af þeim toga. Taldi Hæstiréttur að með 2. gr. reglugerðar nr. 484/1992 með síðari breytingum hefði F verið svipt  tilkalli til greiðslu úr hendi Í, sem F hefði notið lögbundinnar heimildar til, og hefði fjármálaráðherra bakað F skaðabótaskyldu vegna tjóns sem rakið yrði til þessa. Í var á hinn bóginn sýknað af hluta kröfu F um vexti sökum fyrningar.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. september 2014. Hann krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 12.341.443 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 13. janúar 2007 til 6. febrúar 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Að þessu frágengnu krefst áfrýjandi þess að viðurkennt verði að hann hafi átt rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts úr hendi stefnda af sölu Hitaveitu Fjarðabyggðar á heitu vatni til hitunar húsa og laugarvatns á tímabilinu 1. janúar 2005 til 31. desember 2010, aðallega á þann hátt að endurgreiðsla nemi 53% af álögðum virðisaukaskatti, en til vara þannig að „álagður virðisaukaskattur að frádreginni endurgreiðslu nemi eigi hærri fjárhæð en 11% af vegnu meðalverði rafveitna og hitaveitna á kílówattstund.“ Að öðrum kosti krefst áfrýjandi þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna tjóns, sem hafi hlotist „af saknæmri og bótaskyldri framkvæmd fjármálaráðuneytisins á endurgreiðslu hluta virðisaukaskatts af sölu hitaveitu Fjarðabyggðar … á heitu vatni til hitunar húsa og laugarvatns“. Í öllum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2014. I. Mál þetta var höfðað 7. mars 2013 og dómtekið 12. júní 2014 að loknum munnlegum málflutningi. Þann 17. október 2013, var kveðinn upp úrskurður um frávísunarkröfu stefnda.                 Stefnandi er Sveitarfélagið Fjarðabyggð, Hafnargötu 2, Reyðarfirði, en stefndi er íslenska ríkið.                 Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 12.341.443 krónur auk vaxta skv. 1. mgr. 8. gr. laga 38/2001 af krónum 237.366 frá 13. janúar 2007 til 5. febrúar 2007, af krónum 2.609.907 frá þeim degi til 5. apríl 2007, af krónum 3.234.164 frá þeim degi til 5. febrúar 2008, af krónum 4.884.667 frá þeim degi til 5. febrúar 2009, af krónum 7.058.789 frá þeim degi til 5. febrúar 2010, af krónum 9.772.083 frá þeim degi til 5. apríl 2010, af krónum 10.320.326 frá þeim degi til 5. júní 2010, af krónum 10.878.256 frá þeim degi til 5. ágúst 2010, af krónum 11.384.162 frá þeim degi til 5. október 2010, af krónum 11.879.659 frá þeim degi til 5. desember 2010, af krónum 12.341.443 frá þeim degi til 6. febrúar 2011 og auk dráttarvaxta af kr. 12.341.443 skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að áfallnir vextir höfuðstóls færist á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 5. febrúar 2007, samkvæmt 12. gr. vaxtalaga nr. 38/2001.                 Til vara er þess krafist að viðurkennt verði að stefnandi hafi átt rétt til endurgreiðslu úr hendi stefnda á 53% af álögðum virðisaukaskatti af sölu hitaveitu Fjarðabyggðar (Eskifjarðar) á heitu vatni til hitunar húsa og laugarvatns á tímabilinu 1. janúar 2005 til 31. desember 2010.                 Til þrautavara er þess krafist að viðurkennt verði að stefnandi hafi átt rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts af sölu hitaveitu Fjarðabyggðar (Eskifjarðar) á heitu vatni til hitunar húsa og laugarvatns á tímabilinu 1. janúar 2005 til 31. desember 2010 þannig að álagður virðisaukaskattur að frádreginni endurgreiðslu nemi eigi hærri fjárhæð en 11% af vegnu meðalverði rafveitna og hitaveitna á kílówattstund.                  Til þrautaþrautavara er þess krafist að viðurkennt verði að stefndi beri skaðabótaskyldu á tjóni stefnanda sem hlaust af saknæmri og bótaskyldri framkvæmd fjármálaráðuneytisins á endurgreiðslu hluta virðisaukaskatts af sölu hitaveitu Fjarðabyggðar (Eskifjarðar) á heitu vatni til hitunar húsa og laugarvatns til stefnanda. Stefnandi krefst jafnframt málskostnaðar.                 Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda. Stefndi krefst jafnframt málskostnaðar. Til vara er þess krafist að fjárkröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði felldur niður.                 Við aðalmeðferð málsins gaf aðilaskýrslu Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri stefnanda. Vitnaskýrslur gáfu Helga Jónsdóttir, fyrrverandi bæjarstýra stefnanda, Guðjón Axel Guðjónsson, fyrrverandi skrifstofustjóri í iðnaðarráðuneyti, Kristján Skarphéðinsson ráðuneytisstjóri og Ingvi Már pálsson, fyrrverandi lögfræðingur í fjármálaráðuneyti. II. Málsatvik Í 4. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 60. gr. laga nr. 111/1992, um breytingar í skattamálum var mælt fyrir um skyldu til endurgreiðslu virðisaukaskatts til ríkis, sveitarfélaga og stofnana þeirra vegna sölu á heitu vatni og/eða rafmagni til hitunar húsa og laugarvatns. Þar sagði m.a. svo: Endurgreiða skal hluta virðisaukaskatts af sölu á heitu vatni og/eða rafmagni til hitunar húsa og laugarvatns þannig að álagður virðisaukaskattur að frádreginni endurgreiðslu nemi eigi hærri fjárhæð en 11% af vegnu meðalverði rafveitna og hitaveitna á kílóvattstund. Fjármálaráðherra ákveður með reglugerð, að fenginni tillögu iðnaðarráðherra, nánar um framkvæmd endurgreiðslunnar. Í athugasemdum um 53. gr. í frumvarpi að lögum nr. 111/1992 segir eftirfarandi: Þessi grein kveður á um endurgreiðslur á hluta virðisaukaskatts vegna sölu á orku til húshitunar. Í ræðu flutningsmanns frumvarpsins kemur m.a. fram, sbr. 116. lþ. 1992-1993, 286. mál: Til þess að draga úr áhrifum virðisaukaskatts á húshitunarkostnað verður hluti skattsins endurgreiddur þannig að skatturinn fari aldrei fram úr tilteknu hámarki sem tekur mið af meðaleiningarverði í húshitun á landinu öllu. […] Þetta gerist með þeim hætti að til þess að tryggja að þeir sem greiða hæstan grunnkostnaðinn í orkuverðinu greiði ekki að sama skapi háan skatt. Niðurstaðan í frv. er á þá leið að engin hitaveita né rafmagnsveita greiðir hærri skatt miðað við núverandi verðlag en 13,2 aura á kílóvattstund. Þetta kemur auðvitað mjög misjafnlega niður en til þess að lýsa þessu má geta þess að allar ódýrari hitaveiturnar bera skattinn að fullu, þar á meðal Hitaveita Reykjavíkur og greiða þess vegna þeir sem eru á háhitasvæði Reykjavíkur 14% ofan á það gjald sem þeir greiða fyrir heitt vatn í dag, en til samanburðar má geta þess fyrir Orkubú Vestfjarða, ef það er tekið allt saman, þá er verið að tala um alla rafhitasöluna í einu lagi, mun skatthlutfallið vera 4,47% ofan á orkuverðið. Með öðrum orðum munu þeir sem búa við rafhitun á Vestfjörðum, ekki við kynntar veitur, greiða 4,47% á sama tíma og Reykvíkingar greiða 14%. Þetta er auðvitað gert vegna þess að grunnkostnaðurinn víðast hvar þar sem ekki er um að ræða ódýrar hitaveitur er mun hærri heldu en á svokölluðum heitum svæðum. […] Það þýðir í reynd á báðum stöðum 13,2 aurar.                 Í 2. gr. reglugerðar nr. 484/1992, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af sölu á heitu vatni og rafmagni til hitunar húsa og laugarvatns sem sett var með heimild í 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, var að finna upptalningu á þeim orkufyrirtækjum sem féllu undir reglugerðina og þann hundraðshluta sem gilti við endurgreiðslu hjá hverju og einu fyrirtækjanna. Reglugerð nr. 484/1992 tók nokkrum breytingum á gildistíma sínum og átti það einkum við um 2. gr. hennar, sbr. reglugerðir nr. 332/1993, 671/1994, 110/1995 og 117/1996 en með þeim voru m.a. gerðar breytingar á hundraðshlutum ákvæðisins í kjölfar nýrra útreikninga.                 Ákvæði 4. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 var fellt brott með 11. gr. laga nr. 163/2010 um breyting á lögum um virðisaukaskatt. Tók lagabreytingin gildi frá 1. janúar 2011. Í skýringum við 11. gr. frumvarpsins segir eftirfarandi: Í c-lið er lagt til að endurgreiðsla virðisaukaskatts af sölu á heitu vatni og rafmagni til hitunar húsa og laugarvatns verði felld niður. Ljóst hefur verið í nokkurn tíma að endurskoða þyrfti endurgreiðslur þessar þar sem veitur hafa breyst, þær verið sameinaðar og nýjar verið stofnaðar. Iðnaðarráðuneytið hefur látið gera nýja útreikninga samkvæmt reglugerð nr. 484/1992, um endurgreiðslur virðisaukaskatts af sölu á heitu vatni og rafmagni til hitunar húsa og laugarvatns, og kom þá í ljós að engin af hitaveitunum á lengur rétt til endurgreiðslu. Það skýrist af því að hlutfall virðisaukaskatts af sölu á heitu vatni og rafmagni til hitunar húsa og laugarvatns hefur lækkað úr 14% í 7% en hámark endurgreiðslnanna er enn þá 11% af vegnu meðalverði. Rafhitun og kyntar veitur eiga rétt á endurgreiðslu en í nokkuð lægra hlutfalli en áður. Þar sem ljóst er að upphaflegu forsendurnar fyrir þessu endurgreiðslukerfi eru brostnar er lagt til að endurgreiðsluheimild þessi verði felld niður og hitun húsa og laugarvatns á landsbyggðinni styrkt samkvæmt nánari ákvörðun iðnaðarráðuneytisins sem hefur forræði á málefnum veitna. Endurgreiðslur virðisaukaskatts samkvæmt þessu ákvæði voru á árinu 2009 216.838.724 kr.                 Með 3. gr. laga nr. 175/2006, var virðisaukaskattur af tilgreindum vörum og þjónustu lækkaður úr 14% í 7% frá og með 1. mars 2007. Lækkunin tók m.a. til sölu á heitu vatni, rafmagni og olíu til hitunar húsa og laugarvatns, sbr. 7. tölul. 14. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.                 Á því tímabili sem endurgreiðslukrafa stefnanda tekur til gaf iðnaðarráðuneytið út þrjár gjaldskrár fyrir Hitaveitu Fjarðabyggðar, nr. 909/2005, 1201/2008 og nr. 62/2010.                 7. gr. gjaldskrár nr. 909/2005, var svohljóðandi: Virðisaukaskattur á húshitun er 14%. Endurgreidd eru 53% af álögðum virðisaukaskatti og er því vsk. 6,58%.                 Ákvæði 1. gr. gjaldskrár nr. 1201/2008 og gjaldskrár nr. 62/2010, eru svohljóðandi: Virðisaukaskattur á sölu á heitu vatni er 7% en reiknuð endurgreiðsla virðisaukaskatts er 53% og er virðisaukaskattur því 3,29%.                 Í máli þessu er deilt um rétt stefnanda, Sveitarfélagsins Fjarðabyggðar, til endurgreiðslu á álögðum virðisaukaskatti samkvæmt greindu ákvæði 4. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt vegna sölu hitaveitu Fjarðabyggðar á heitu vatni til hitunar húsa og laugarvatns á árunum 2005-2010. Stefnandi krefst þess að hitaveitunni verði endurgreidd 53% af álögðum virðisaukaskatti á grundvelli fyrrgreinds ákvæðis laganna, og með vísan til 4. gr. reglugerðar nr. 484/1992, með síðari breytingum frá þeim tíma er hitaveitan hóf starfsemi.                 Hitaveita Fjarðabyggðar tók til starfa á árinu 2005 og er hún sjálfstæð rekstrareining innan orkuveitu Fjarðabyggðar, með sjálfstæða stjórn og fjárhag. Yfirstjórn hitaveitunnar er í höndum bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, en sveitarfélagið er eigandi hennar. Er hitaveitan rekin á kennitölu stefnanda. Sérstök reglugerð hefur verið gefin út fyrir hitaveituna, nr. 908/2005 og er heiti hennar Hitaveita Fjarðabyggðar. Bæjarráði hefur verið falið að gegna starfi stjórnar hitaveitunnar, sbr. 5. gr. reglugerðarinnar.                 Með bréfi iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins, dags. 13. desember 2006 til fjármálaráðuneytisins, var þess farið á leit að Hitaveitu Fjarðabyggðar yrði bætt við upptalningu í 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 484/1992, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af sölu á heitu vatni og rafmagni til hitunar húsa og laugarvatns. Tók iðnaðarráðuneytið fram að endurgreiða bæri hitaveitunni 53% af álögðum virðisaukaskatti með stoð í 4. gr. reglugerðarinnar frá þeim tíma sem hún hóf starfsemi, þ.e. í ársbyrjun 2005. Í kjölfar tölvuskeyta á milli ráðuneytanna og stefnanda, sendi stefnandi ríkisskattstjóra, með bréfi dags. 6. janúar 2011, formlegar beiðnir (RSK 10.34) um endurgreiðslu virðisaukaskatts af sölu á heitu vatni og/eða rafmagni til hitunar húsa og laugarvatns vegna áranna 2005-2010, samtals að fjárhæð 12.341.435 krónur. Ríkisskattstjóri tók ekki formlega afstöðu til bréfsins og greindra endurgreiðslubeiðna, en með tölvuskeyti, dags. 24. mars 2011, framsendi ríkisskattstjóri stefnanda tölvuskeyti fjármálaráðuneytisins til ríkisskattstjóra þar sem fram kom eftirfarandi afstaða fjármálaráðuneytisins til endurgreiðslukröfu stefnanda: Þar sem Hitaveita Eskifjarðar (Fjarðabyggðar) [hafi ekki verið] tilgreind í 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 484/1994 […] um endurgreiðslu virðisaukaskatts af sölu á heitu vatni og rafmagni til hitunar húsa og laugarvatns, er það niðurstaða okkar að hitaveitan eigi ekki rétt á endurgreiðslu skv. reglugerðinni. Hitaveitan geti ekki byggt rétt á samskiptum fjármálaráðuneytisins og iðnaðarráðuneytisins á fyrri stigum málsins, enda ekkert í þeim gögnum sem bendir til þess að fjármálaráðuneytið hafi ákveðið að hitaveitan ætti rétt á endurgreiðslu skv. reglugerðinni. Þar sem ljóst er að ávallt var þörf á skýrri reglugerðarheimild vegna endurgreiðslu þess virðisaukaskatts sem um ræðir í máli þessu er það álit okkar að heimild Hitaveitu Fjarðabyggðar til endurgreiðslu virðisaukaskatts af sölu á heitu vatni til hitunar húsa og laugarvatns fyrir tímabilið janúar til október 2010 sé ekki til staðar.                 Með bréfi stefnanda, dags. 27. júní 2011, til fjármálaráðuneytisins krafðist stefnandi þess að erindi hans fengi formlega afgreiðslu. Í svari ráðuneytisins, dags. 23. september 2011, var stefnanda bent á að snúa sér til iðnaðarráðuneytisins vegna styrkja til hitaveitu. Stefnandi ítrekaði kröfur sínar með bréfi til fjármálaráðuneytisins, dags. 4. október 2011. Þá sendi stefnandi ríkisskattstjóra bréf, dags. 5. október 2011, þar sem krafist var formlegrar afstöðu embættisins til erindis stefnanda. Með bréfi ríkisskattstjóra, dags. 15. nóvember 2011, var kröfu stefnanda um endurgreiðslu hafnað. Vísaði embættið til áðurgreinds bréfs fjármálaráðuneytisins, dags. 23. september 2011, og benti stefnanda á kæruheimild til ríkisskattstjóra. Með bréfi, dags. 10. janúar 2012 til fjármálaráðuneytisins, ítrekaði stefnandi kröfur sína um endurgreiðslu og að stefnandi teldi sig að öðrum kosti knúinn til að leita atbeina dómstóla til þess að ná fram rétti sínum. III. 1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda Aðalkröfu byggir stefnandi í fyrsta lagi á því að á stefnda hafi hvílt sú skylda samkvæmt 4. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, sbr. 60. gr. laga 111/1992, að endurgreiða hluta virðisaukaskatts af sölu á heitu vatni frá því að hitaveita Eskifjarðar hóf starfsemi sína og þar til ákvæðið var fellt úr gildi þann 1. janúar 2011. Í öðru lagi telur stefnandi að um ótvíræða lagaskyldu hafi verið að ræða sem iðnaðar- eða fjármálaráðuneyti hafi ekki getað ákveðið að aðilar ættu ekki rétt á. Stefndi hafi ekki hlutast til um að bæta nafni Hitaveitu Fjarðabyggðar í 2. gr. reglugerðar 484/1992 og á því beri stefndi alla ábyrgð.                 Samkvæmt 4. mgr. 42. gr. laga 50/1988, sbr. 60. gr. laga 111/1992 skyldi endurgreiðsla reiknuð þannig, að álagður virðisaukaskattur að frádreginni endurgreiðslu næmi eigi hærri fjárhæð en 11% af vegnu meðalverði rafveitna og hitaveitna á kílóvattstund. Iðnaðarráðuneytið hafi annast útreikning á því hve mikill hluti virðisaukaskatts skyldi endurgreiddur þannig að viðmiði laganna um 11% yrði náð. Niðurstaðan hafi verið 53%, sbr. bréf iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins til fjármálaráðherra, dags. 13. des. 2006. Þar hafi einnig verið lagt til að endurgreiðslan skyldi miðast við það tímamark er rekstur hófst hjá stefnanda, þ.e. í ársbyrjun 2005. Krefst stefnandi í öllum tilvikum endurgreiðslu á 53% af þeim virðisaukaskatti sem var greiddur hverju sinni af hitaveitu stefnanda.                 Vaxtakröfu styður stefnandi við ákvæði laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 skuli greiða vexti frá þeim tíma sem greiðsla átti sér stað og þar til endurgreiðsla hafi farið fram (skaðabótavexti). Dráttarvexti skuli greiða frá þeim tíma er krafa um endurgreiðslu hafi verið lögð fram, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995. Krafa stefnanda gangi skemur, þar sem starfsmönnum fjármálaráðuneytisins hafi fyrst verið ætlaður 30 daga frestur til að framkvæma endurgreiðsluna frá móttöku bréfs iðnaðar- og viðskipta­ráðu­neyt­isins þann 13. desember 2006. Síðan hafi verið stuðst við ákvæði 3. mgr. 5. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 og veittur mánaðarfrestur frá því að krafa hafi verið sett fram um endurgreiðslu þar til dráttarvextir reiknist á kröfuna. Krafan hafi verið sett fram 6. janúar 2011 og sé krafist dráttar­vaxta frá 6. febrúar það ár.                 Aðalkröfu sína byggir stefnandi einnig á því að stefndi hafi með skaðabótaskyldri háttsemi/athafnaleysi valdið stefnanda tjóni, en stefndi beri húsbóndaábyrgð á því tjóni sem starfsmenn ráðuneyta valdi. Telur stefnandi að starfsmenn fjármálaráðuneytisins hafi valdið honum tjóni með því að aðhafast ekkert til að tryggja framkvæmd endurgreiðslu til stefnanda eftir móttöku tillögu iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins í desember 2006. Starfsmenn fjármálaráðuneytisins hafi ekki útskýrt hvers vegna nafn og hlutfall hitaveitu Fjarðabyggðar hafi ekki verið tekið upp í 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 484/1992. Sú skylda hafi hvílt á starfsmönnum fjármálaráðuneytisins að tilkynna stefnanda ef ekki stæði til að fallast á tillögu iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins um endurgreiðslu. Stefnandi var og hefði mátt vera í góðri trú um að með bréfi iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins í desember 2006, væri málið í höfn. Stefnandi telur fjárhæð tjónsins vegna hinnar bótaskyldu starfsemi nema 53% af greiddum virðisaukaskatti á tímabilinu frá því að starfsemi hitaveitunnar hófst þar til ákvæði 4. mgr. 42. gr. laga 50/1988 hafi verið fellt úr gildi, eða frá janúar 2005 til 31. desember 2010. Hið skaðabótaskylda tjón hafi orðið þann 13. desember 2006 þegar fjármálaráðuneytið hafði fengið tillögu frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu til afgreiðslu. Stefnandi hafi talið sanngjarnt að veita starfsmönnum fjármálaráðuneytisins 30 daga frest frá móttöku bréfsins frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu til að tryggja framkvæmd endurgreiðslunnar, með því að tilgreina hitaveitu stefnanda í 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 484/1992. Því sé krafist vaxta skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 13. janúar 2007, en eftir það frá því tímamarki þegar stefnandi greiddi virðisaukaskatt vegna hvers tímabils um sig. Hinn 6. janúar 2011 hafi stefnandi sett fram kröfu um endurgreiðslu og því sé krafist dráttarvaxta frá 6. febrúar 2011, sbr. 3. mgr. 5. gr. vaxtalaga nr. 38/2001.                 Í varakröfu er krafist viðurkenningar á skyldu stefnda til að endurgreiða stefnanda 53% af greiddum virðisaukaskatti af sölu á heitu vatni til hitunar húsa og laugarvatns á tímabilinu 1. janúar 2005 til 31. desember 2010. Er varakrafa sett fram fari svo að dómur telji ekki unnt að fallast á fjárkröfu, en telji sig geta kveðið upp úr með greiðsluskyldu. Það hafi verið hlutverk iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins að reikna út hvert hlutfall endurgreiðslunnar skyldi vera, svo viðmiði laganna um 11% af vegnu meðalverði yrði náð. Það hlutfall hafi verið mjög mis­mun­andi eins og sjá megi af upptalningu í 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 484/1992, en þar sé hlutfall endur­greiðslunnar frá 6% upp í 62%. Niðurstaða iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins hafi verið sú að hlutfallið skyldi vera 53%. Stefnandi sættir sig við þann útreikning og leggur hann til grundvallar.                 Þrautavarakröfu styður stefnandi við 2. mgr. 25. gr. laga 91/1991 um rétt til að fá viðurkenningu á rétti sínum. Krafan byggi á sömu lagarökum og málsástæðum og varakrafa. Þrautavarakrafa komi aðeins til skoðunar ef ekki verði fallist á að miða við það hlutfall sem iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið reiknaði út og tilkynnti fjármálaráðuneytinu í bréfi þann 13. desember 2006.                 Verði ekki fallist á framanritað gerir stefnandi þá þrautaþrautavarakröfu að viðurkennt verði með dómi skaðabóta­skylda stefnda á tjóni stefnanda vegna þess að engar endurgreiðslur hafi borist á hluta virðisauka­skatts vegna sölu á heitu vatni til húshitunar og laugarvatns hjá hitaveitu stefnanda. Um skaðabótaskylduna vísar stefnandi til aðalkröfu. Vísað er til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um rétt stefnanda til að fá viðurkenningardóm um skaðabótaskyldu. 2. Helstu málsástæður og lagarök stefnda Stefndi byggir á því að sýkna beri hann af öllum kröfum stefnanda. Engin skilyrði séu til endurgreiðslu, greiðslu skaðabóta eða viðurkenningarkrafna stefnanda.                 Um endurgreiðslur virðisaukaskatts vegna sölu á heitu vatni og/eða rafmagni til hitunar húsa og laugarvatns hafi verið fjallað í 4. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, sbr. 60. gr. laga nr. 111/1992, um breytingar í skattamálum. Með lögum nr. 111/1992 hafi einnig verið lögfest það nýmæli að tekið var upp 14% þrep í virðisaukaskatti, sbr. 50. gr. laga nr. 111/1992. Þessi atriði verði að skoða í samhengi enda mælti 4. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 fyrir um skyldu til endurgreiðslu virðisaukaskatts við ákveðnar aðstæður, þ.e. eins og orðrétt segir í ákvæðinu þannig að álagður virðisaukaskattur að frádreginni endurgreiðslu nemi eigi hærri fjárhæð en 11% af vegnu meðalverði rafveitna og hitaveitna á kílóvattstund.                 Tilgangurinn með lagaákvæðinu hafi verið sá að leitast við að draga úr áhrifum virðisaukaskatts á húshitunarkostnað, sérstaklega á þeim svæðum landsins þar sem kostnaður við húshitun sé hvað mestur. Þannig hafi viðmiðið í lögunum um það að virðisaukaskattur næmi ekki hærri fjárhæð en 11% af vegnu meðalverði hjá Hitaveitu Reykjavíkur í reynd verið núllstilling á endurgreiðslukerfinu miðað við verð hjá Hitaveitu Reykjavíkur. Með því móti hafi verið reynt að tryggja að Reykjavíkursvæðið nyti ekki endurgreiðslu samhliða því að jafna húshitunarkostnað milli landshluta.                 Við útreikninga á árinu 2004 hafi komið í ljós að meðalverð hjá Orkuveitu Reykjavíkur hafi verið komið inn fyrir 11% mörkin og því í reynd brostnar forsendur fyrir því að nota það sem viðmið á grundvelli ákvæðis 4. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988. Engin stoð hafi því verið fyrir tillögum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins um að hitaveitan yrði talin upp í reglugerðinni, þar sem forsendur höfðu brostið fyrir endurgreiðslu þegar árið 2002.                 Með 3. gr. laga nr. 175/2006 hafi lægra þrep virðisaukaskatts verið lækkað úr 14% í 7%. Þessi breyting hafi öðlast gildi 1. mars 2007. Þar með hafi endanlega verið brostnar forsendur fyrir ákvæði 2. gr. reglugerðar nr. 484/1992 um endurgreiðslur virðisaukaskatts af sölu á heitu vatni og rafmagni til hitunar húsa og laugarvatns, og ákvæðum laga um endurgreiðsluna. Kröfugerð stefnanda taki mið af því að „tjón“ hafi stofnast í desember 2007. Engin stoð sé því fyrir dómkröfum stefnanda í ljósi breytts hlutfalls virðisaukaskatts.                 Með hliðsjón af framangreindu sé ljóst að þegar á árinu 2004 hafi verið kominn upp forsendubrestur fyrir umræddu endurgreiðslukerfi, þ.m.t. þágildandi 2. gr. reglugerðar nr. 484/1992. Það hafi því í öllum tilvikum verið málefnalegar ástæður fyrir því að hitaveitunni hafi ekki verið bætt inn í reglugerðina eftir að hún tók til starfa á árinu 2005.                 Stefndi byggir á því að sýkna beri hann af öllum kröfum stefnanda þar sem Hitaveita Fjarðabyggðar hafi ekki fallið undir 2. gr. reglugerðar nr. 484/1992 á gildistíma hennar. Réttur til endurgreiðslna virðisaukaskatts verði ekki byggður á loforðum eða munnlegum samskiptum.                 Í 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 484/1992, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 332/1993, hafi verið afmarkað hvaða aðilar hafi átt rétt á endurgreiðslu samkvæmt reglugerðinni. Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 1. gr. gátu þeir aðilar átt rétt á endurgreiðslu skv. 1. mgr. sem störfuðu eftir einkaleyfi sem iðnaðarráðuneyti hafði veitt og samkvæmt sérstakri reglugerð, sbr. orkulög, nr. 58/1967.                 Stefndi mótmælir því að skilyrði séu til greiðslu skaðabóta. Engri saknæmri né ólögmætri háttsemi er til að dreifa af hálfu stefnda eða starfsmanna hans í ljósi þess sem að framan greinir. Stefnandi hafi ekki reynt að sýna fram á að hann hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni.                 Stefndi byggir á því að grundvallarforsenda fyrir endurgreiðslum samkvæmt 4. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 og reglugerð nr. 484/1992 sé sú að þar sé kveðið á um endurgreiðslur á hluta af álögðum virðisaukaskatti af sölu á heitu vatni og rafmagni til hitunar húsa eða laugarvatns. Með stefnu fylgi engin gögn sem staðfesta það að stefnufjárhæðin endurspegli þann virðisaukaskatt sem innheimtur hafi verið í viðskiptum hitaveitunnar. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á með reikningum að hann hafi hagað sölu á heitu vatni á þann hátt sem sagði í 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 484/1992, en þar hafi verið kveðið á um að tilgreina bæri sérstaklega á sölureikningi endurgreiðslu­fjárhæð og mismun álagðs virðisauka­skatts og endurgreiðslu­fjárhæðar. Hafi stefnandi eða hitaveitan hagað sölureikningum á þann hátt sem getið var í 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 484//1992 hafi það verið umfram skyldu og á ábyrgð hans eða hitaveitunnar, enda tók reglugerðin ekki til fyrirtækisins. Þetta atriði sé hins vegar ekki upplýst í málinu og ekki heldur það hvort farið hafi verið eftir 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar, þar sem ráðgert var að hlutaðeigandi hitaveita sendi skattstjóra greinargerð um sölu á heitu vatni innan tilskilinna tímamarka.                 Hafa beri í huga að reglur um endurgreiðslu virðisaukaskatts á grundvelli 4. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 hafi varðað hagsmuni viðskiptamanna hitaveitunnar, en ekki stefnanda. Ákvæðin hafi verið sett miðað við tilteknar forsendur um að jafna orkuverð til notenda en ekki sérstaklega til hagsbóta fyrir orkufyrirtæki. Hafi stefnandi eða hitaveitan lækkað orkuverð sem nam virðisaukaskattinum frá árinu 2005 hafi það verið umfram skyldu og á ábyrgð hennar eða stefnanda sem fyrr segir. Hafi svo ekki verið og hitaveitan innheimt fullan virðisaukaskatt hafi ekki verið um tjón stefnanda að ræða eða grundvöll endurgreiðslu, enda sé virðisaukaskattur vörsluskattur sem skilað sé í ríkissjóð. Í því tilviki, og að því gefnu að hitaveitan hafi í reynd átt að falla undir reglugerðina, sé um að ræða hagsmuni viðskiptamanna hitaveitunnar en ekki hennar eða stefnanda. Krafa stefnanda væri þá um óréttmæta auðgun og engin rök til endurgreiðslu. Stefnandi hefði í því tilviki orðið fyrir tjóni og gert viðskiptamönnum sínum að greiða skattinn.                 Stefnandi hafi ekki getað verið í þeirri trú að málið yrði klárað, eins og það er orðað í stefnu. Það hafi átt undir fjármálaráðherra að ákveða hvernig færi um endurgreiðslu, en ekki iðnaðarráðherra. Þá hafi það ekki verið sjálfgefið að hundraðshlutinn yrði 53% allan tímann eins og aðstæður voru á þessum tíma og ekki síst þegar leið á árið 2007 og eftir það. Hafa beri í huga í þessu sambandi endurskoðunarákvæði 7. gr. reglugerðarinnar. Ákvæði laganna og reglugerðarinnar hafi snúist um orkuverð til notenda en ekki hafi verið um að ræða sérstakan styrk til orkufyrirtækja sem þau ættu skilyrðislausa kröfu til.                 Stefndi byggir einnig á því að telji dómurinn Hitaveituna vera hæfa til að vera aðili að lögum beri að sama skapi að sýkna vegna aðildarskorts stefnanda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.                 Stefndi byggir einnig á því að krafan sé fallin niður fyrir fyrningu, hvort sem litið sé til 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda eða gildandi fyrningarlaga nr. 150/2007. Hið sama gildi um lög nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Varðandi endurgreiðslukröfur beri að miða við fjögurra ára fyrningartíma. Málið sé höfðað 26. febrúar 2013. Af því leiði að allar kröfur eldri en frá 26. febrúar 2009 séu fallnar niður fyrir fyrningu.                 Engin efni séu til þess að mati stefnda að umbreyta kröfunni í skaðabótakröfu eða reifa hana ýmist sem slíka eða sem endurgreiðslukröfu. Lagaákvæðið sem byggt er á í stefnu varði endurgreiðslu en ekki skaðabætur orkuveitum til handa. Krafa sem fallin sé niður fyrir fyrningu stofnist ekki að nýju undir merkjum skaðabótareglna. Njóti þess háttar krafa ekki réttarverndar skaðabótareglna ef lögvarið tilkall til endurgreiðslu, hafi það verið fyrir hendi, er liðið undir lok sökum fyrningar.                 Verði ekki á sýknukröfu fallist er krafist verulegrar lækkunar fjárkröfu með vísan til allra framangreindra málsástæðna. Jafnframt er kröfum um vexti og dráttarvexti mótmælt, einkum upphafstíma þeirra. Þá er mótmælt vaxtakröfum sem fallnar eru niður fyrir fyrningu, sbr. ákvæði fyrrgreindra laga. IV. Stefndi hefur sett fram athugasemdir varðandi aðild stefnanda að máli þessu en ekki gert sérstakar kröfur í þeim efnum. Ekki þykir því þurfa að víkja að henni sérstaklega.                 Í máli þessu er deilt um rétt stefnanda til endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt þágildandi 4. mgr. 42. gr. laga nr. 40/1988, um virðisaukaskatt með síðari breytingum, sbr. 60. gr. laga nr. 111/1992,  um breytingar í skattamálum. Tilgangurinn með ákvæðinu var að leitast við að draga úr áhrifum virðisaukaskatts á húshitunarkostnað, sérstaklega á þeim svæðum landsins þar sem kostnaður við húshitun var hvað mestur.                 Stefnandi krefst  þess samkvæmt aðalkröfu að stefndi verði dæmdur til endurgreiðslu fjárhæðar er sé miðuð við 53% af álögðum virðisaukaskatti af sölu hitaveitu Fjarðabyggðar á heitu vatni til hitunar húsa og laugarvatns á tímabilinu 1. janúar 2005 til 31. desember 2010, eða samtals að fjárhæð 12.341.443 krónur.                 Í þágildandi 4. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, var mælt fyrir um skyldu til endurgreiðslu virðisaukaskatts til ríkis, sveitarfélaga og stofnana þeirra vegna sölu á heitu vatni og/eða rafmagni til hitunar húsa og laugarvatns. Þar kemur fram að endurgreiða skuli hluta virðisaukaskatts af sölu á heitu vatni og/eða rafmagni til hitunar húsa og laugarvatns þannig að álagður virðisaukaskattur að frádreginni endurgreiðslu nemi eigi hærri fjárhæð en 11% af vegnu meðalverði rafveitna og hitaveitna á kílóvattstund. Þar kemur einnig fram að fjármálaráðherra ákveði með reglugerð, að fenginni tillögu iðnaðarráðherra, nánar um framkvæmd endurgreiðslunnar. Í 2. gr. reglugerðar nr. 484/1992, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af sölu á heitu vatni og rafmagni til hitunar húsa og laugarvatns, sem sett var með heimild í 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, var síðan að finna upptalningu á þeim orkufyrirtækjum sem féllu undir reglugerðina og þann hundraðshluta sem gilti við endurgreiðslu hjá hverju og einu þeirra fyrirtækja sem þar voru nefnd. Reglugerðin tók nokkrum breytingum á gildistíma sínum. Meðal annars voru gerðar breytingar á hundraðshlutum ákvæðisins í kjölfar nýrra útreikninga. Þessar breytingar voru þó gerðar fyrir þann tíma sem hér skiptir máli. Ákvæði 4. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 var síðar fellt brott með 11. gr. laga nr. 163/2010, um breyting á lögum um virðisaukaskatt, og endurgreiðslur af þessu tagi lagðar niður frá og með 1. janúar 2011.                 Dómurinn telur að með 4. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 hafi löggjafinn með lögmætum hætti framselt vald sitt til þess að setja reglugerð um endurgreiðslurnar þar sem m.a. voru ákvæði um það hvaða aðilar skyldu eiga rétt til endurgreiðslu og hvaða hundraðshluti skyldi endurgreiddur þeim. Samkvæmt þessu þykir ljóst að réttar til endurgreiðslu virðisaukaskatts skyldu þeir einir aðilar njóta sem fjármálaráðuneytið hafði ákveðið að ættu rétt til endurgreiðslu, að fenginni tillögu iðnaðarráðherra, og með þeim hundraðshluta og skilyrðum sem þar er nánar getið. Er hvorki í viðkomandi lögum né í reglugerðinni að finna neina stoð fyrir því að stefnandi hafi átt sjálfstæðan rétt til endurgreiðslu óháð því hvort fjármálaráðuneytið hafi fallist á og birt reglugerðarbreytingu að því er hann varðar sérstaklega.                 Ekki verður heldur fallist á með stefnanda að um ótvíræða lagaskyldu hafi verið að ræða óháð aðkomu iðnaðar- eða fjármálaráðuneytis. Hér að framan hafa verið raktar ástæður þess að á árinu 2004 hafi stjórnvöldum orðið ljóst að forsendur voru brostnar fyrir því að nota 11% viðmiðið sem tilgreint var í þágildandi 4. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 og kerfið þess vegna í heild tekið til endurskoðunar. Þann 1. mars 2007 lækkaði lægra þrep virðisaukaskatts úr 14% í 7% sem gerði endanlega út um endurgreiðslukerfið. Þótt afgreiðsla málsins á erindi stefnanda kunni að hafa dregist á langinn verður ekki séð að það eitt skjóti stoðum undir kröfur stefnanda að þessu leyti. Loks verður fyrrgreind krafa stefnanda ekki byggð á bréfi iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins til fjármálaráðherra, dags. 13. desember 2006, þar sem það ráðuneyti var einungis umsagnaraðili.                 Aðalkröfu sína reisir stefnandi enn fremur á því að stefndi hafi með skaðabótaskyldri háttsemi/athafnaleysi valdið stefnanda tjóni sem nemi stefnufjárhæðinni sem hann beri húsbóndaábyrgð á. Telur stefnandi þannig að starfsmenn fjármálaráðuneytisins hafi valdið honum tjóni með því að aðhafast ekkert til að tryggja framkvæmd endurgreiðslu til stefnanda eftir móttöku tillögu iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins í desember 2006. Hér að framan er það rakið að lög leiði ekki til þess að stefnandi eigi rétt til þeirrar fjárkröfu sem getið er í aðalkröfu. Stefnandi getur þegar af þeirri ástæðu ekki átt skaðabótakröfu fyrir fjárhæð sem hann átti ekki rétt til. Af því leiðir að aðalkrafan verður heldur ekki tekin til greina á þessari forsendu.                 Loks eru varakrafa og þrautavarakröfur í raun byggðar upp á sömu forsendum og aðalkrafa en settar fram sem viðurkenningarkröfur. Eins og fram er komið telur dómurinn að aðalkrafan hafi ekki lagagrundvöll. Af því leiðir að varakrafa og þrautavarakröfur hafa það ekki heldur. Verða þær því ekki teknar til greina.                 Samkvæmt framangreindu er stefndi, íslenska ríkið, sýknað af öllum kröfum stefnanda, Sveitarfélagsins Fjarðabyggðar.                 Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt að hvor aðili beri sinn hluta af þeim kostnaði sem hlotist hefur af rekstri málsins.                 Af hálfu stefnanda flutti máli Hilmar Gunnlaugsson hrl.                 Af hálfu stefnda flutti málið Einar Karl Hallvarðsson hrl.                 Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan. DÓMSORÐ: Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af öllum kröfum stefnanda, Sveitarfélagsins Fjarðabyggðar.
Mál nr. 431/2014
Skaðabætur Símahlerun Friðhelgi einkalífs
G krafði Í um bætur vegna ólögmætrar símahlerunar lögreglu við rannsókn máls á hendur eiginmanni hennar. Við rannsóknina aflaði lögreglan dómsúrskurðar þar sem henni var veitt heimild til að hlusta á og hljóðrita símtöl úr og í þrjú tilgreind símanúmer, svo og önnur númer sem eiginmaður hennar hefði í eigu sinni eða umráðum á tilgreindu tímabili. Var sími G hleraður í kjölfar þess að eiginmaður hennar bað viðmælanda sinn í símtali, sem sætti hlustun á grundvelli fyrrnefnds úrskurðar, að hringja í hennar síma. Talið var að Í hefði ekki hnekkt þeirri staðhæfingu G að hún hafi ekki lánað eiginmanni sínum símann á þeim tíma þegar hlustað var á símtöl úr og í umræddan síma, heldur notað hann sjálf. Því hefði sú aðgerð, að hlusta á síma G á umræddu tímabili, ekki verið heimil á grundvelli fyrirliggjandi dómsúrskurðar. G ætti því rétt á bótum samkvæmt 3. mgr., sbr. 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála þar sem mælt væri fyrir um hlutlæga bótaábyrgð Í ef maður sem ekki væri borinn sökum um refsiverða háttsemi hefði beðið tjón af aðgerðum á borð við símahlustum. Var Í því dæmt til að greiða G 300.000 krónur í bætur. 
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. júní 2014 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafan verði lækkuð og málskostnaður fyrir Hæstarétti felldur niður. Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 1. september 2014. Hún krefst þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 1.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem henni var veitt í héraði. I             Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi heimilaði héraðsdómur Sérstökum saksóknara með úrskurði 9. júní 2011 að hlusta á og hljóðrita símtöl úr og í þrjú tilgreind símanúmer og „önnur símanúmer og símtæki (IMEI númer)“ sem eiginmaður gagnáfrýjanda „hefur í eigu sinni eða umráðum frá og með 10. júní 2011 til og með 19. júní 2011“. Jafnframt var heimilað að „nema SMS-sendingar, þar með taldar SMS-sendingar á lesanlegu formi, sem sendar eru eða mótteknar með símanúmerunum á sama tíma og hlusta og hljóðrita samtöl við talhólf greindra númera á sama tíma.“ Laust fyrir miðnætti 12. júní 2011 svaraði eiginmaður gagnáfrýjanda símtali í farsíma sinn, sem var einn af þeim þremur símum sem vísað var sérstaklega til í dómsúrskurðinum. Viðmælandi hans hringdi úr síma er einnig sætti hlustun lögreglu samkvæmt öðrum úrskurði. Símtalið hafði ekki staðið lengi yfir er viðmælandinn sagði síma sinn að verða straumlausan og kvaðst vilja hringja úr öðrum síma sem hann tiltók ekki hver væri. Spurði viðmælandinn jafnframt hvort hann ætti að hringja aftur í sama síma. Eiginmaður gagnáfrýjanda bað hann þá að hringja í annað símanúmer og gaf upp númer farsíma gagnáfrýjanda. Samkvæmt upplýsingaskýrslu 13. júní 2011, gerðri af þeim lögreglumanni sem hlustaði á símtalið, taldi hann með hliðsjón af atvikum nauðsynlegt að fá þegar í stað hlustun á síma þann sem eiginmaður gagnáfrýjanda gaf viðmælanda sínum upp og hefði „auðsjáanlega aðgang að og fá jafnframt data upplýsingar á það númer svo hægt sé að sjá hvort sé hringt í það númer í beinu framhaldi og þá úr hvaða númeri.“ Einnig þyrfti að fá hlustun á það símanúmer sem væntanlega væri það sem viðmælandi eiginmanns gagnáfrýjanda hefði aðgang að. Samkvæmt annarri upplýsingaskýrslu lögreglu síðar þennan dag munu þessir tveir menn hafa kvöldið áður átt langt samtal úr símum maka sinna. Það símtal sætti aftur á móti ekki hlustun. Í kjölfarið var farsími gagnáfrýjanda hlustaður og er því ómótmælt að svo hafi verið gert til loka þess tímabils sem dómsúrskurðurinn 9. júní 2011 tók til.   II Samkvæmt 81. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er heimilt í þágu rannsóknar að leggja fyrir fjarskiptafyrirtæki að leyfa að hlustað sé á símtöl við síma í eigu eða umráðum tilgreinds manns. Sams konar heimild var tekin upp í eldri lög um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, með lögum nr. 86/2004. Í athugasemdum með frumvarpi til þeirra laga og umfjöllun um það á Alþingi kom fram að ástæðan fyrir þeirri breytingu, að heimild til símahlustunar yrði ekki framvegis einskorðuð við símtöl við tiltekinn síma eins og áður hafði verið, væri sú að tíð skipti á símum og símanúmerum hjá þeim sem sættu símahlustun gæti leitt til réttarspjalla. Með breytingunni fengi lögregla heimild til að hlusta á símtöl úr síma sem viðkomandi ætti eða hefði sannanlega yfir að ráða. Símtal eiginmanns gagnáfrýjanda að kvöldi 12. júní 2011, þar sem hann bað viðmælanda sinn um að hringja í sig í farsíma gagnáfrýjanda, veitti vísbendingu um að eiginmaðurinn hefði símann í umráðum sínum í skilningi 81. gr. laga nr. 88/2008, en ekki eingöngu aðgang að honum umrætt sinn. Í stað þess að leita dómsúrskurðar í því skyni að afla heimildar til að hlusta á símtöl við símann var ákveðið að leggja fyrir hlutaðeigandi fjarskiptafyrirtæki 13. júní 2011 að veita þann aðgang. Gagnáfrýjandi heldur því fram að hún hafi ekki lánað eiginmanni sínum símann á þeim tíma þegar hlustað var á símtöl við símann, heldur notað hann sjálf. Hefur aðaláfrýjandi ekki hnekkt þeirri staðhæfingu, svo sem með því að leggja fram gögn um símtölin eins og honum hefði verið unnt, en miða verður við að sími hennar hafi sætt hlustun frá 13. til og með 19. júní 2011 er heimild til hlustunar síma eiginmanns gagnáfrýjanda rann út. Samkvæmt því verður fallist á með héraðsdómi að sú aðgerð að hlusta síma gagnáfrýjanda á umræddu tímabili hafi ekki verið heimil á grundvelli fyrirliggjandi dómsúrskurðar. Af þeim sökum á hún rétt til bóta samkvæmt 3. mgr., sbr. 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 þar sem mælt er fyrir um hlutlæga bótaábyrgð aðaláfrýjanda ef maður sem ekki hefur verið borinn sökum um refsiverða háttsemi hefur beðið tjón af aðgerð á borð við símahlustun. Gagnáfrýjandi krefst bóta sökum miska sem hún kveðst hafa orðið fyrir vegna þess að sími hennar var hlustaður, sbr. 5. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Með því að mannréttindi hennar voru skert með þeirri aðgerð verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur. Aðaláfrýjandi verður dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Aðaláfrýjandi, íslenska ríkið, greiði gagnáfrýjanda, Guðrúnu Sigurðardóttur, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. febrúar 2014.                 Mál þetta höfðaði Guðrún Sigurðardóttir, kt. [...],[...],[...], með stefnu birtri 14. janúar 2013, á hendur íslenska ríkinu, kt. 550169-2829, Arnarhvoli, Reykjavík.  Innanríkisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra er stefnt fyrir hönd ríkisins.  Málið var dómtekið 7. febrúar sl.                  Stefnandi krefst greiðslu á 1.000.000 króna auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 12. júní 2011 til 30. september 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en henni var veitt gjafsókn 19. febrúar 2013.                 Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar, til vara að kröfur hennar verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.                  Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2011 var Sérstökum saksóknara heimiluð símhlerun.  Náði heimildin til að hlusta á og hljóðrita símtöl úr og í þrjú tiltekin símanúmar Jóhannesar Baldurssonar, eiginmanns stefnanda, auk þess að nema SMS-sendingar og hlusta og hljóðrita samtöl við talhólf þessara símanúmera.  Auk hinna tilgreindu símanúmera var aðgerð þessi heimiluð gagnvart öðrum símanúmerum og símtækjum „sem [eiginmaður stefnanda] hefur í eigu sinni eða umráðum ...“.  Heimildir þessar voru veittar fyrir tímabilið frá og með 10. júní 2011 til 19. sama mánaðar.                  Í skjóli þessa úrskurðar lét lögreglan hlera farsíma stefnanda.  Ekki hafa verið lögð fram í dóminum nákvæm gögn um þá aðgerð.  Einungis liggja frammi tvær upp­lýsingaskýrslur lögreglu.  Önnur er skráð 13. júní 2011 kl. 14.45.  Þar segir frá samtali eiginmanns stefnanda við annan mann kvöldið áður, en sími þess manns virðist einnig hafa verið hleraður vegna rannsóknar sama máls.  Kemur fram að þeir hafi þurft að skipta um síma og bað eiginmaður stefnanda viðmælanda sinn þá að hringja í farsíma eiginkonu sinnar, stefnanda.  Er að sjá sem lögregla hafi ekki heyrt næsta samtal þeirra, en fram kemur að viðmælandinn hafi ekki hringt úr neinu því númeri sem þá var hlerað.  Síðan segir orðrétt í skýrslunni:  „Nauðsynlegt er því að fá strax hlustun á símanúmerið 696-0570 sem [eiginmaður stefnanda] hefur auðsjáanlega aðgang að ...“                  Síðari skýrslan er skráð sama dag kl. 16.20.  Þar segir að samkvæmt áreiðanlegum upplýsingum rannsóknaraðila hafi áðurgreindir aðilar notast við farsíma maka sinna.  Hafi þeir átt rúmlega 45 mínútna samtal í síma þessa um miðnætti kvöldið áður.                  Frekari gögn hafa ekki verið lögð fram um aðdraganda þess að sími stefnanda var hleraður.                  Fyrir dómi kom fram hjá Aldísi Hilmarsdóttur lögreglufulltrúa að hún hefði skrifað fyrri skýrsluna sem nefnd var.  Hún hefði verið afhent stjórnanda rannsóknarinnar.  Hún hafði ekki vitneskju um hver hefði ákveðið að hlera síma stefnanda.  Hún sagði að símtöl sem væru hlustuð væru skráð í dagbók og þar kæmu helstu upplýsingar fram.  Jónatan Guðbjartsson lögreglufulltrúi staðfesti að hann hefði ritað síðarnefndu skýrsluna.  Hann mundi ekki eftir einstökum atriðum varðandi rannsóknina, þ. á m. hver hefði ákveðið að láta hlera síma stefnanda.                  Jakob Þór Guðbjartsson, forstöðumaður hjá Fjarskiptum hf., sagði að beiðni um hlerun síma stefnanda hefði borist 13. júní kl. 15.45.  Slíkar beiðnir bærust ætíð í tölvupósti og með fylgdi úrskurður sem veitti heimildina.  Hann taldi að hlerun hefði staðið eins lengi og heimilað hefði verið í úrskurðinum.                  Stefnandi sagði fyrir dómi að hún væri hjúkrunarfræðingur og starfaði sem deildarstjóri á geislameðferðardeild Landspítalans.  Hún kvaðst hafa haft farsíma­númerið 6960570 frá því að hún fékk fyrst farsíma, fyrir a.m.k. fjórtán árum síðan.  Hún kvaðst ekki muna eftir því að hún hafi lánað símann sinn á þeim tíma sem hlerunin stóð yfir í júní 2011.  Þá kvaðst hún ekki muna eftir því að hafa lánað eiginmanni sínum símann að kvöldi 11. júní 2011.  Málsástæður og lagarök stefnanda                 Stefnandi kveðst krefjast miskabóta vegna ólögmætrar hlustunar, upptöku og öflunar upplýsinga um símtöl hennar á tímabilinu 12. til 19. júní 2011.  Hún telur að bótaábyrgðin sé hlutlæg, sbr. 228. gr. laga nr. 88/2008.  Til vara byggir hún á því að aðgerðirnar hafi verið saknæmar og ólögmætar.                  Stefnandi segir að rannsókn Sérstaks saksóknara hafi beinst að eiginmanni hennar, en ekki að henni.  Í júní 2012 hafi eiginmaður hennar fengið upplýsingar um símhlerun þessa.  Hafi lögmaður sinn þá fengið þær upplýsingar frá embætti Sérstaks saksóknara að hlerunin hefði byggst á framangreindum úrskurði Héraðsdóms Reykja­víkur.  Hafi embættið talið sér heimilt að hlera síma stefnanda þar sem eiginmaður hennar hefði haft umráð símans.  Mótmælir stefnandi þessum skilningi.  Hún hafi sjálf haft umráð þessa síma og símanúmer hennar sé ekki tilgreint í úrskurðinum.                  Stefnandi vísar til 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.  Undanþágur verði að skýra þröngt og þær verði að byggjast á lögum.  Samkvæmt 1. mgr. 84. gr. laga nr. 88/2008 verði símhlerun aðeins beitt eftir sérstakri heimild í dómsúrskurði.  Stefnandi byggir á því að hlerun á síma sínum og aðrar aðgerðir hafi ekki staðist þessar lögmæltu kröfur.  Hún eigi umræddan síma og hafi hann í sínum umráðum.  Úrskurðurinn hafi því ekki heimilað hlerun símans og hljóti rannsakendum að hafa verið það ljóst.  Því hafi aðgerðir lögreglu brotið gróflega gegn einkalífi stefnanda.                  Þá telur stefnandi að óheimilt hefði verið að heimila hlerun með úrskurði.  Rannsökuð hafi verið meint brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga og lögum nr. 145/1994 um bókhald.  Hefðu því ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir þurft að standa til þess að heimila hlerun.  Útilokað sé að slíkir hagsmunir hafi staðið til þess að hlera síma hennar.  Ekkert hafi bent til annars en að hún hafi heimilað eigin­manni sínum afnot símans einu sinni.                  Stefnandi krefst miskabóta vegna þess tjóns sem aðgerðirnar hafi valdið henni.  Ábyrgðin sé hlutlæg eins og áður segir samkvæmt 3. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008.  Til vara byggir stefnandi á því að aðgerðin hafi farið fram án heimildar í dómsúrskurði og hafi því verið ólögmæt.  Bótaskylda byggist þá á almennu sakarreglunni.  Verði talið að heimild til hlerunar hafi falist í úrskurðinum byggir stefnandi til þrautavara á því að sá úrskurður hafi verið ólögmætur og stefndi sé því bótaskyldur samkvæmt almennu sakarreglunni.                  Stefnandi segir að aðgerðirnar hafi valdið sér miska.  Með hlerun síma hennar hafi verið brotið gróflega og alvarlega á rétti hennar til friðhelgi einkalífs.  Málið sé enn alvarlegra þar sem hún sé hjúkrunarfræðingur og ræði einatt viðkvæm heilbrigðis­málefni um einstakar persónur í símann.  Hún sé sár og reið, upplifi öryggisleysi og sér líði illa.  Þá hafi hún ekki fengið neinar upplýsingar um aðgerðirnar og verið mætt af fullkomnu virðingarleysi af hálfu embættis Sérstaks saksóknara.                  Fjárhæð kröfu sinnar miðar stefnandi við að um hafi verið að ræða sérstaklega alvarlega og ólögmæta meingerð gegn persónu og einkalífi hennar.  Þá hafi hún ekki valdið eða stuðlað að þessum aðgerðum.                  Auk áðurgreindra lagareglna vísar stefnandi til XI. og XXXVII. kafla laga nr. 88/2008.  Loks vísar hún til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Málsástæður og lagarök stefnda                 Stefndi mótmælir því að aðgerðir sérstaks saksóknara hafi verið ólögmætar og að stefnandi eigi kröfu til miskabóta.  Sími stefnanda hafi verið í umráðum eigin­manns hennar, en samkvæmt úrskurði héraðsdóms hafi verið heimilt að hlera síma sem hann hafði umráð yfir.                  Stefndi byggir á því að ekki felist hlutlæg bótaregla í 3. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008.  Þá séu heldur ekki uppfyllt þau skilyrði að aðgerðin hafi verið saknæm eða ólögmæt.  Aðgerðin hafi verið lögmæt og uppfyllt skilyrði XI. kafla laga nr. 88/2008.  Aðgerðin hafi verið heimil eins og áður segir samkvæmt úrskurði héraðsdóms.  Þá hafi ekki verið brotið gegn 71. gr. stjórnarskrárinnar eða 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.                  Þá mótmælir stefndi því að engar forsendur hafi verið til að veita heimild til hlerunar eins og gert var með úrskurðinum.                  Stefndi mótmælir því að aðgerðirnar hafi valdið stefnanda miska.  Þá hafi ekki verið brotið gegn friðhelgi einkalífs hennar.  Þá mótmælir stefndi þeirri fullyrðingu í stefnu að um hafi verið að ræða sérstaklega alvarlega ólögmæta meingerð gegn persónu og einkalífi stefnanda.  Ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni, en sönnun tjóns sé skilyrði bóta samkvæmt 3. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008.  Þá mótmælir stefndi því að skilyrði séu til að dæma bætur samkvæmt 26. gr. skaðabóta­laga.                  Stefndi telur að framlagðar upplýsingaskýrslur lögreglu og endurrit af samtali eiginmanns stefnanda og annars manns sem lá undir grun sýni að nauðsynlegt var að hlera síma stefnanda.                  Varakrafa um lækkun er byggð á öllum framangreindum málsástæðum, en bent á að dómkrafa sé of há og ekki í neinu samræmi við dómvenju.  Þá mótmælir stefndi því að vextir reiknist fyrr en frá þingfestingardegi.  Niðurstaða                 Samkvæmt 81. gr. laga nr. 88/2008 er heimilt í dómsúrskurði að leyfa lögreglu hlustun eða upptöku símtala og annarra fjarskipta við síma í eigu eða umráðum tiltekins aðila.  Í framkvæmd hefur þessi heimild verið nýtt þannig að lögreglu er heimiluð hlerun tiltekinna símanúmera, en auk þess allra símtækja í eigu og umráðum viðkomandi, án þess að önnur símanúmer séu tilgreind í úrskurði.  Áðurnefndur úrskurður, er heimilaði hlerun á símum eiginmanns stefnanda, er dæmi um þessa beitingu 81. gr.                  Ekki þarf að leysa úr því hvort heimilt hafi verið að hlera síma eiginmanns stefnanda eins og heimilað var með úrskurðinum.  Hins vegar er öldungis ljóst og óumdeilt að ekki var heimiluð hlerun á síma stefnanda.                  Sími stefnanda var hleraður.  Samkvæmt úrskurðinum var heimilt að hlera síma sem eiginmaður hennar hefði í sínum umráðum.  Hvað í því felst er ekki skýrt nánar í lögunum og lögskýringargögn gefa ekki skýrar vísbendingar.  Almennt verður að ætlast til þess að hinn grunaði hafi símann í vörslum sínum og fari með sem sinn eigin, þótt hann sé skráður á nafn annars aðila.                  Vísbending sú sem lögregla byggði á þegar hún hóf hlerun síma stefnanda var sú að eiginmaður stefnanda hafði beðið viðmælanda sinn að hringja í númer símans.  Í framangreindum skýrslum lögreglu er ekki fullyrt að hann hafi haft símann í umráðum sínum, einungis er sagt að hann hafi aðgang að honum..  Af því sem lögregla hafði í höndum þegar hlerun var fyrirskipuð verður ekki dregin sú ályktun að eiginmaður stefnanda hafi haft umráð símans.  Þá hefur ekki verið sýnt fram á að svo hafi verið í reynd.  Var því ekki heimilt að hefja hlerun á síma stefnanda.                  Það athugast í þessu sambandi að stefndi hefur ekki reynt með framlagningu gagna að sýna fram á að eiginmaður stefnanda hafi í raun haft umráð símans og notað hann á tímabilinu.  Kom fram í skýrslum lögreglumanna fyrir dómi að öll símtöl í hleraða síma væru skráð, einnig þau sem er eytt.  Var ekkert upplýst um notkun á síma stefnanda á tímabilinu.                  Þar sem sími stefnanda var hleraður án heimildar á hún rétt á bótum fyrir fjár­tjón og miska sem af því leiðir, sbr. 3. mgr., sbr. 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008.  Þarf ekki að leysa úr því hvort bótaregla þessi er hlutlæg, en aðgerðin var ólögmæt gagnvart stefnanda.  Þegar 3. mgr. áskilur að viðkomandi hafi orðið fyrir tjóni af aðgerðunum er með því vísað bæði til fjártjóns og miska.  Af sjálfu leiðir að hlustun á einkasímtöl er rof á friðhelgi einkalífs og þarf ekki frekari sönnun um tjón að koma hér til.                  Samkvæmt gögnum málsins hófst hlerun á síma stefnanda 13. júní, en ekki þann 12., eins og miðað er við í kröfugerð hennar.                  Dæma verður stefnanda miskabætur samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabóta­laga nr. 50/1193, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999.  Eru þær hæfilega ákveðnar 300.000 krónur.  Ber sú fjárhæð vexti frá þeim degi er hlerun hófst, 13. júní 2011.  Stefnandi krafðist bóta með bréfi lögmanns síns 31. ágúst 2012 og ber því að reikna dráttarvexti frá 30. september, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.                  Stefnandi hefur gjafsókn og ber ríkissjóði að greiða málskostnað hans.  Er því rétt að málskostnaður milli aðila málsins falli niður, en gjafsóknarkostnaður stefnanda er ákveðinn 550.000 krónur.  Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.                  Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.  D ó m s o r ð                 Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Guðrúnu Sigurðardóttur, 300.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 13. júní 2011 til 30. september 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.                  Málskostnaður fellur niður.                  Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 550.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. 
Mál nr. 167/2015
Kærumál Þinglýsing Fasteign Afnotaréttur Dánarbú
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem annars vegar var hafnað kröfu SKS og K, afkomenda SKL, um að fasteignin V yrði tilgreind í fasteignabók sem „jörðin“ V þannig að þinglýsingarvottorð tæki ótvírætt til jarðarinnar V og að eignarheimildir dánarbús SKL að jörðinni yrðu tilgreindar með vísan til heimildarskjala, það er annars vegar erfðaskrár og hins vegar dóms Hæstaréttar í máli nr. 701/2012. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að í veðbókarvottorði sýslumanns kæmi fram að samkvæmt fasteignabók væri dánarbú SKL þinglýstur eigandi að V, sem væri „jörð“ með tilteknu fasteignanúmeri. Þá kæmi þar fram að eignarheimildir þinglýsta eigandans væru annars vegar „erfðaskiptayfirlýsing“ og hins vegar umræddur dómur Hæstaréttar. Samkvæmt því væri engan veginn séð hvað skorti á að færslur í fasteignabók væru í því horfi sem dómkrafa SKS og K hljóðaði á um. Var því staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að hafna kröfum þeirra að þessu leyti. Í úrskurði héraðsdóms var hins vegar fallist á kröfu SKS og K um að lagt yrði fyrir sýslumann að afmá úr fasteignabók skiptayfirlýsingu um réttindi Þ yfir fasteigninni V sem erfingjar M höfðu gert með sér. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í dómi réttarins í máli nr. 701/2012 hefði því verið slegið föstu að beinn eignaréttur að jörðinni V væri enn á hendi dánarbús SKL og að færslur í fasteignabók væru nú í samræmi við það. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 751/2014 hefði jafnframt verið leyst úr því að sá beini eignaréttur gengi ekki erfðum við skipti á dánarbúi SKL eftir fyrirmælum erfðaskrár ME heldur eftir lögerfðareglum. Hins vegar leiddi af eldri dómum réttarins að um „umráð og afnot fasteignarinnar“ V, færi að SKL látnum eftir ákvæðum erfðaskrárinnar. Óumdeilt væri að eftir erfðaskránni ættu réttindin að M látnum að ganga til elsta sonar hans, Þ. Kom fram að þótt þessi aðilaskipti að umráðum og afnotum fasteignarinnar ættu sér stoð í erfðaskrá ME hefðu þeir, sem við réttindum hefðu tekið eftir lát SKL, fengið þau í hendur frá næsta forvera sínum en ekki frá ME. Til að koma fram aðilaskiptum að þessum réttindum eftir lát M hefði því verið óumflýjanlegt að gerð yrði umrædd skiptayfirlýsing. Að gengnum dómi Hæstaréttar í máli nr. 701/2012 yrði að líta svo á að sú skiptayfirlýsing hefði eingöngu fært í hendur Þ réttindi til umráða og afnota fasteignarinnar V en ekki beinan eignarétt að henni. Þau réttindi fælu á hinn bóginn í sér afnotarétt að fasteign sem væri háður þinglýsingu samkvæmt gagnályktun frá 1. mgr. 31. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Hafnaði Hæstiréttur því kröfu SKS og K um að umrædd skiptayfirlýsing yrði afmáð úr fasteignabók.
Dómur Hæstaréttar í máli nr. 701/2013 hafi kveðið upp úr um það að beinn eignarréttur, bundinn kvöðum samkvæmt erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested, sé enn á hendi dánarbús Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested. Það sé hann á grundvelli upprunalegrar eignarheimildar Sigurðar, þ.e. erfðaskrá Magnúsar. Dómur Hæstaréttar í máli 701/2013 sé ekki sjálfstæð eignarheimild dánarbús Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested, heldur dómur um framvindu skipta. Í ljós sé leitt að umráð og afnot Vatnsenda, samkvæmt þeim réttindum sem erfingjanum Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested hafi verið úthlutað 7. maí 1968, teljist óbein eignaréttindi. Í því ljósi beri að skilja dóm Hæstaréttar í máli nr. 740/2013. Af þeim sökum sé á því byggt af hálfu varnaraðila Þorsteins að þinglýsingarstjóri hafi brugðist rétt við með því að færa db. Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested sem eiganda jarðarinnar á grundvelli þinglýstrar erfðaskrár. Þá hafi þinglýsingarstjóri átt að gæta að því að ekki orkaði tvímælis að réttindi á grundvelli dóms Hæstaréttar í máli 99/1969, uppkveðnum 30. maí 1969, væru óbein eignaréttindi. Telji varnaraðilinn að þinglýsingarstjóri hafi einnig farið að þeim fyrirmælum Hæstaréttar. Samkvæmt framansögðu beri dómnum að hafna kröfum sóknaraðila um aflýsingu skiptayfirlýsingarinnar frá 29. nóvember 2000, sem stimpluð hafi verið og árituð af sýslumanninum í Kópavogi 7. desember 2000, móttekin til þinglýsingar frá skiptadeild 12. sama mánaðar og innfærð í þinglýsingarbækur tveimur dögum síðar.  Þá geti sú málsástæða sóknaraðila, að skiptayfirlýsingunni beri að aflýsa þar sem hún sé ekki gefin út af skiptastjóra dánarbús Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested, ekki leitt til þess að aflýsa beri skjalinu. Umrædd réttindi séu ekki eign í dánarbúi Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested. Sá beini eignaréttur sem dánarbúið teljist enn hafa á hendi sé án umráða- og afnotaréttar, án réttar til arðs af Vatnsenda og án réttar til að taka við bótum fyrir skerðingum á eigninni. Með öðrum orðum, án allra þeirra helstu efnislegu réttinda sem erfingja samkvæmt erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested séu áskilin.  Til stuðnings kröfum sínum vísar varnaraðili Þorsteinn til 3. gr. þinglýsingarlaga nr. 38/1979, til 11. gr., 1. mgr. 67. gr., 3. og 4. mgr. 68. gr., 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.  Þá vísar varnaraðili til ákvæða 130. gr., sbr. a-lið 131 gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. B Varnaraðili dánarbú Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested telur að krafa sóknaraðila, sem tilgreind er í staflið a) hér að framan, þess efnis að fasteignin Vatnsendi 116957, Kópavogi, fastanúmer 206-6737, verði tilgreind í fasteignabók sýslumannsins í Kópavogi sem „Jörðin Vatnsendi“, hljóti að vera á misskilningi byggð. Í því sambandi vísi dánarbúið einkum til forsendna og dómsorðs Hæstaréttar í máli nr. 740/2013, en í dómsorði sé lagt fyrir sýslumanninn í Kópavogi að færa heiti dánarbús Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested sem eiganda á blaði í fasteignabók fyrir jörðina Vatnsenda í Kópavogi. Dómsorðið sé skýrt og ekki vafa undirorpið að dánarbúið skuli vera skráð eigandi að umræddri fasteign. Dómur Hæstaréttar lúti eingöngu að eigandaskráningu eignarinnar en fjalli ekkert um heiti hennar eða hvernig það sé sett fram í þinglýsingabók. Fasteign sú sem um ræði heiti Vatnsendi, en fasteignin sé jörð. Hún heiti ekki „Jörðin Vatnsendi“ og því væri það beinlínis rangt að tilgreina hana þannig í fasteignabók. Eignin hafi landnúmer og fasteignanúmer og því sé það skýrt og afmarkað hvaða land og hvaða mannvirki tilheyri eigninni. Ekki verði séð að nokkur þörf sé á að breyta þeirri skráningu. Sýslumaðurinn í Kópavogi hafi brugðist við í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar og breytt skráningu eiganda fasteignarinnar þannig að dánarbú Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested sé skráð eigandi eignarinnar, eins og sjá megi á framlögðu veðbókarvottorði. Vottorðið beri enn fremur með sér að dánarbúið sé undir opinberum skiptum og á forræði skiptastjóra. Varnaraðili dánarbú Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested tekur ekki efnislega afstöðu til þeirrar kröfu sóknaraðila sem tilgreind er í kröfulið b) hér að framan. Lítur varnaraðilinn svo á að hann eigi ekki lögvarða hagsmuni af niðurstöðu málsins hvað það atriði varði. Í því sambandi er af hálfu dánarbúsins til þess vísað að með úrskurði skiptaréttar 24. júlí 1967 hafi Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested verið fengin umráð og afnot jarðarinnar Vatnsenda í Kópavogi. Sá úrskurður hafi verið staðfestur af Hæstarétti. Umráða- og afnotaréttinum hafi fylgt allur réttur til að heimta lóðaleigu, veiðileyfagjöld og aðrar tekjur af jörðinni. Þessum óbeinu eignaréttindum hafi því með endanlegum hætti verið ráðstafað úr dánarbúi Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested og séu þau því ekki á hendi dánarbúsins nú. Það varði því hagsmuni þess engu hvernig þessum réttindum hafi verið eða verði ráðstafað eftir daga Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested. Af hálfu varnaraðila dánarbús Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested er enn fremur til þess vísað að Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu í dómi sínum í málinu nr. 701/2012 að beinn eignarréttur að jörðinni Vatnsenda væri enn á hendi dánarbúsins.  Rétturinn hafi því lagt fyrir sýslumanninn í Kópavogi að breyta eigendaskráningu eignarinnar í fasteignabók, með þeim hætti sem áður var rakið. Skiptayfirlýsingin sem kröfuliður b) lúti að stafi frá erfingjum í dánarbúi Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested.  Hún geti því eingöngu varðað ráðstöfun á óbeinum eignarréttindum að jörðinni og geti ekki haft áhrif á ráðstöfun beinna eignarréttinda að henni. Frá sjónarhóli varnaraðila dánarbús Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested skipti því engu máli hvort yfirlýsingin fái að vera áfram skráð í fasteignabók, eða hvort henni verði aflýst. Hvað varðar kröfur sóknaraðila um málskostnað úr hendi dánarbúsins er af hálfu búsins tekið fram að ekki verði talin brýn þörf á því að dánarbúið eigi aðild að málinu. Verði reyndar að líta svo á að sóknaraðilar telji sig vera að sækja hagsmuni dánarbúsins í málinu. Málskostnaðarkrafa þeirra á hendur dánarbúinu sé því mjög óeðlileg og henni beri að hafna. Af hálfu dánarbúsins sé gerð krafa um málskostnað að skaðlausu úr hendi sóknaraðila. Krafan styðjist við 1. mgr. 130. gr., sbr. 129. gr., laga nr. 91/1991 um með­ferð einka­mála, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991. IV Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 38/1978 má bera úrlausn þinglýsingar­stjóra um þinglýsingu samkvæmt lögunum undir héraðsdómara í lögsagnarumdæmi þinglýsingarstjóra. Heimild til þess hefur hver sá sem á lögvarinna hagsmuna að gæta vegna ákvörðunar þinglýsingarstjóra. Úrlausnin skal borin undir dóm áður en fjórar vikur eru liðnar frá henni ef þinglýsingarbeiðandi eða umboðsmaður hans var við hana staddur, en ella áður en fjórar vikur eru liðnar frá þeim tíma er hann eða umboðsmaður hans fékk vitneskju um hana. Af tilvitnuðum orðum 1. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga verður ráðið að umræddur fjögurra vikna frestur til að bera úrlausn um þinglýsingu undir héraðsdómara miðast við það tímamark sem þinglýsingarbeiðanda eða umboðsmanni hans varð kunnugt um úrlausn þinglýsingarstjóra. Skiptir í því sambandi engu hvort það er þinglýsingar­beiðandi sjálfur eða þriðji maður sem bera vill úrlausnina undir héraðsdómara. Kemur þessi skilningur á ákvæðinu einnig skýrlega fram í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 6/1992 um breyting á þinglýsingalögum og hefur hann verið staðfestur í dómaframkvæmd, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 74/2010, sem kveðinn var upp 11. mars 2010. Fyrir liggur að þinglýsingarbeiðendur, þ.e. sóknaraðilar Sigurður Kristján og Karl Lárus, báru hina umdeildu úrlausn þinglýsingarstjóra undir héraðsdómara innan þess frests sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga og með þeim hætti sem mælt er fyrir um í 3. mgr. 3. gr. laganna. Nefndur frestur var hins vegar  löngu liðinn þegar sóknaraðilar Sigríður og Markús Ívar sóttu þing í máli þessu og freistuðu þess þannig, í bága við fyrirmæli 4. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga, að bera fyrrnefnda úrlausn þinglýsingarstjóra undir héraðsdómara fyrir sitt leyti. Þegar að þessu gættu þykir dómurinn ekki eiga þess annan kost en vísa kröfum sóknaraðila Sigríðar og Markúsar Ívars frá dómi ex officio. Í dómsorði Hæstaréttar Íslands í dómi réttarins í máli nr. 740/2013 var lagt fyrir sýslumanninn í Kópavogi að færa heiti dánarbús Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested sem eiganda á blað í fasteignabók fyrir jörðina Vatnsenda í Kópavogi. Verður ekki annað séð að dómur Hæstaréttar lúti eingöngu að því hvern skrá beri eiganda fasteignarinnar í þinglýsingabók en hann fjalli ekki um heiti eignarinnar eða hvernig það sé sett fram í þinglýsingabók. Af gögnum málsins má ráða að fasteign sú sem um ræðir í máli þessu ber heitið Vatnsendi og hefur eignin borið það nafn um langa hríð. Þá er óumdeilt að fasteignin er jörð. Fasteigna- og landnúmer fasteignarinnar eru skráð í þinglýsingabók. Verður að telja að skýrt sé og afmarkað samkvæmt þinglýsingabók hvaða land og hvaða mannvirki tilheyra fasteigninni. Að því gættu og að virtum framlögðum gögnum fær dómurinn ekki annað séð en breyting þinglýsingarstjóra á skráningu Vatnsenda­jarðarinnar hafi verið í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 740/2013. Með vísan til þeirrar niðurstöðu og annars þess sem að framan er rakið verður ekki séð að nokkur efni séu til þess að dómurinn kveði á um breytingu á tilgreiningu eignarinnar í þinglýsingabók. Þá kemur skýrlega fram í þinglýsingarvottorði eignarinnar að þinglýst eignarheimild dánarbús Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested sé erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 4. janúar 1938, er þinglýst var 9. janúar 1941. Dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 701/2012 er ekki eignarheimild dánarbúsins og því engin efni til þess að vísa til dómsins í þinglýsingarbók varðandi eignarheimild dánarbúsins. Samkvæmt öllu þessu verður hafnað kröfum sóknaraðila Sigurðar Kristjáns og Karls Lárusar samkvæmt staflið a) í dómkröfum þeirra, svo sem þær eru reifaðar hér að framan. Sóknaraðilar Sigurður Kristján og Karl Lárus eru þinglýsingabeiðendur í máli þessu í skilningi 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Þá eru þeir jafnframt meðal erfingja í dánarbúi Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested. Þegar að þessu gættu var þeim rétt að bera úrlausn þinglýsingarstjóra við embætti sýslumannsins í Kópavogi frá 9. maí 2014 undir héraðsdómara á grundvelli tilvitnaðs ákvæðis þinglýsingalaga. Ákvæði 1. mgr. 67. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. getur engu breytt í því sambandi. Þá liggur fyrir að skiptum á dánarbúi Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested er ekki lokið. Þó svo skiptastjóri hafi með frumvarpi úthlutað beinum eignarrétti að Vatnsenda til varnaraðila Þorsteins verður ekki framhjá því litið að afdrif frumvarpsins fyrir dómstólum liggja enn ekki fyrir, en úrskurður héraðsdóms hvað frumvarpið varðar sætir nú kæru til Hæstaréttar. Að þessu gættu þykir 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991 ekki standa í vegi málsskoti sóknaraðila Sigurðar Kristjáns og Karls Lárusar á grundvelli 3. gr. þinglýsingalaga.   Hin umdeilda skiptayfirlýsing frá 21. nóvember 2000 stafar frá varnaraðila Þorsteini, ekkju Magnúsar Hjaltested, Kristrúnu Ólöfu Jónsdóttur, og öðrum erfingjum Magnúsar, þeim Vilborgu Hjaltested, Marteini Hjaltested og Sigurði Kristjáni Hjaltested. Óumdeilt er að varnaraðili Þorsteinn er handhafi víðtækra óbeinna eignarréttinda að jörðinni Vatnsenda. Þann eignarrétt leiðir hann af erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 4. janúar 1938 en ekki hinni umdeildu skiptayfirlýsingu. Að mati dómsins verður skiptayfirlýsingin ekki skilin öðruvísi en svo en skjalinu hafi verið ætlað að koma því til leiðar að varnaraðili Þorsteinn yrði skráður þinglýstur eigandi Vatnsenda í þinglýsingabók. Samkvæmt því sem áður var rakið er dánarbú Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested hins vegar skráður eigandi Vatnsenda í þinglýsingabók, sbr. dóm Hæstaréttar  í máli nr. 740/2013.  Þegar að þessu gættu þykir verða að fallast á kröfu sóknaraðila Sigurðar Kristjáns og Karls Lárusar um afmáningu skiptayfirlýsingarinnar úr þinglýsingabók, sbr. 2. mgr. 7. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Eftir úrslitum málsins verður sóknaraðilum Sigríði og Markúsi Ívari gert að greiða varnaraðilum málskostnað með þeim hætti sem í úrskurðarorði greinir og sem þar þykir hæfilega ákveðinn. Rétt þykir að málskostnaður falli niður milli varnaraðila og sóknaraðila Sigurðar Kristjáns og Karls Lárusar. Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. Ú R S K U R Ð A R O R Ð: Kröfum sóknaraðila Sigríðar Hjaltested og Markúsar Ívars Hjaltested er vísað frá dómi ex officio. Nefndir sóknaraðilar greiði óskipt varnaraðilum, Þorsteini Hjaltested og dánarbúi Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested, hvorum fyrir sig, 100.000 krónur í málskostnað. Kröfum sóknaraðila Sigurðar Kristjáns Hjaltested og Karls Lárusar Hjaltested samkvæmt staflið a) í kröfugerð þeirra er hafnað. Lagt er fyrir sýslumanninn í Kópavogi að afmá úr þinglýsingabók fasteignarinnar Vatnsenda, landnúmer 116957, fasteignanúmer 206-6737, skipta­yfirlýsingu, útgefna af varnaraðila Þorsteini Hjaltested 21. nóvember 2000, með þinglýsinganúmerið H-310/00. Málskostnaður fellur niður milli sóknaraðila Sigurðar Kristjáns Hjaltested og Karls Lárussonar Hjaltested annars vegar og varnaraðila, Þorsteins Hjaltested og dánarbús Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested, hins vegar.