Title
stringlengths
43
45
Keywords
stringlengths
3
239
Summary
stringlengths
73
7.24k
Text
stringlengths
778
682k
Mál nr. 13/2024
Kærumál Hæfi dómara Vanhæfi
Staðfestur var úrskurður Landsréttar þar sem hafnað var kröfu um að tveir landsréttardómarar vikju sæti í málinu.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. mars 2024 en kærumálsgögn bárust réttinum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 16. febrúar 2024 í máli nr. 636/2022 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að landsréttardómararnir Eiríkur Jónsson og Ragnheiður Harðardóttir vikju sæti í málinu. 3. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að fyrrgreindir landsréttardómarar víki sæti í málinu. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila. 4. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og að sóknaraðila verði gert að greiða kærumálskostnað. 5. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. 6. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, A, greiði varnaraðila, B, 300.000 krónur í kærumálskostnað. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=125bc805-18a2-4ec8-b8c9-61578bce020a&verdictid=2b87ede8-47a3-486a-a56d-3e51fbe0f4f2
Mál nr. 27/2023
Sifskaparbrot Börn Forsjá Heimfærsla Refsiheimild
X var ákærð fyrir brot gegn 193. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 fyrir að hafa svipt A valdi og umsjá yfir tveimur börnum þeirra með því að hafa farið með þau úr landi gegn vilja A og haldið þeim þar. Í dómi Hæstaréttar sagði að X og A hafi farið sameiginlega með forsjá barna sinna og átt sama lögheimili þegar hún fór með þau úr landi. Með vísan til umfjöllunar um refsinæmi og gildissvið 193. gr. almennra hegningarlaga, réttarþróunar í dönskum og norskum rétti, tilhögun hérlendrar löggjafar í forsjármálum og skýrleika refsiheimilda var það niðurstaða dómsins að sú háttsemi sem ákærðu var gefin að sök yrði ekki felld undir 193. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt því var X sýknuð af kröfum ákæruvaldsins.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 5. júní 2023 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að dómur Landsréttar verði staðfestur um sakfellingu ákærðu og að refsing hennar verði þyngd. 3. Ákærða krefst aðallega sýknu en til vara að henni verði ekki gerð refsing. Verði ákærða sakfelld krefst hún þess til þrautavara að hún verði aðeins dæmd til vægustu refsingar sem lög leyfa. Ágreiningsefni 4. Með ákæru héraðssaksóknara 3. júní 2021 var ákærðu gefið að sök sifskaparbrot með því að hafa frá […] 2019 til […] 2021 svipt A valdi og umsjá yfir börnum hans og ákærðu, B og C, með því að hafa farið með þau án leyfis A til […] og haldið þeim þar en ákærða og A fóru sameiginlega með forsjá barnanna sem voru skráð með sama lögheimili og A. Ætlað brot ákærðu var talið varða við 193. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 5. Meginágreiningur í málinu snýr að því hvort þá háttsemi sem ákærðu er gefin að sök megi heimfæra til 1. mgr. 193. gr. almennra hegningarlaga einkum með tilliti til þess að ákærða og brotaþoli fóru sameiginlega með forsjá barna sinna og áttu sama lögheimili þegar hún fór með börnin af landi brott. 6. Með hinum áfrýjaða dómi 24. febrúar 2023 var staðfest niðurstaða héraðsdóms 9. febrúar 2022 um að sakfella ákærðu. 7. Áfrýjunarleyfi var veitt 31. maí 2023, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2023-64, meðal annars á þeim grundvelli að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um skýringu 193. gr. almennra hegningarlaga. Málsatvik 8. Málavextir eru þeir að ákærða og brotaþoli kynntust hér á landi árið 2007. Ákærða er […] ríkisborgari en brotaþoli með […] ríkisborgararétt. 9. Árið 2013 festu þau kaup á íbúð og fluttu í hana. Þau eignuðust drenginn B í […] árið 2015 og skráðu sig í sambúð síðar í sama mánuði. Þá eignuðust þau dótturina C í […] árið 2018. Börnin eru með […] ríkisborgararétt. 10. Ákærða heldur því fram að brotaþoli hafi beitt hana ofbeldi á sambúðartímanum. Því til stuðnings hefur hún lagt fram afrit kæru sinnar á hendur honum til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 1. október 2019. Brotaþoli neitar ásökunum af þeim toga. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 2022 í máli aðila um forsjá barnanna kemur fram að engin gögn liggi fyrir um að brotaþoli hafi beitt ákærðu andlegu eða líkamlegu ofbeldi. Þar er jafnframt vísað til úrskurðar áfrýjunardómstóls í […] 8. desember 2020 en þar kemur fram að frásögn ákærðu um ofbeldi af hálfu brotaþola sé metin mjög „vafasöm og ósennileg“. 11. Ákærða og brotaþoli höfðu sama lögheimili og fóru sameiginlega með forsjá barna sinna í […] 2019 þegar atburðarás sú hófst sem mál þetta hverfist um. 12. Dagana […] og […] […] 2019 áttu faðir ákærðu og brotaþoli í samskiptum á samskiptamiðlinum Facebook Messenger um fyrirhugaða ferð hennar með börnin til […]. Í þeim kom fram að brotaþoli vildi ekki að börnin færu þangað. Um þrjúleytið […] 2019 sendi brotaþoli tölvupóst til lögreglunnar á Suðurnesjum þar sem fram kom að hann væri andvígur því að ákærða tæki börn þeirra með sér til […]. Í fyrirsögn vísaði hann til 28. gr. a barnalaga nr. 76/2003. Í framhaldinu áttu sér stað frekari tölvupóstsamskipti brotaþola og lögreglunnar þar. 13. Brotaþoli ók ákærðu og börnum þeirra á Keflavíkurflugvöll […] 2019 en þaðan flaug hún með börnin til […]. Í héraðsdómi sem vísað er til í niðurstöðu hins áfrýjaða dóms var talið sannað að brotaþoli hefði verið mótfallinn ferð þeirra og ákærðu verið kunnugt um þá afstöðu hans. 14. Í skýrslu fyrir héraðsdómi kvaðst ákærða hafa tilkynnt brotaþola á flugvellinum að sambúð þeirra væri lokið. Í skýrslu sem hún gaf fyrir Landsrétti kvaðst hún hafa ákveðið „þremur, fjórum mánuðum“ eftir að hún fór til […] að koma ekki aftur til Íslands. 15. Brotaþoli krafðist þess 30. september 2019 fyrir undirrétti í […] að börnin yrðu flutt aftur til Íslands, þar sem ákærða hefði numið þau á brott með ólögmætum hætti og flutt til […]. Kröfu hans var hafnað 9. júlí 2020. Skaut hann þeirri niðurstöðu til áfrýjunardómstóls í […] sem kvað upp úrskurð 8. desember 2020. Í honum var mælt fyrir um að börnin skyldu snúa aftur til Íslands innan 14 daga frá þeim degi sem úrskurðurinn yrði bindandi. Ákærða sótti um heimild til þess að áfrýja málinu til Hæstaréttar […] en 21. janúar 2022 komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að ekki væru skilyrði til þess að fjalla frekar um áfrýjunarbeiðnina. Með því varð niðurstaða áfrýjunardómstólsins endanleg. 16. Lögmaður brotaþola lagði 7. október 2019 fram kæru fyrir hans hönd hjá lögreglu á hendur ákærðu vegna brots gegn 193. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa […] 2019 svipt hann valdi og umsjón yfir börnum þeirra með því að fara með þau án hans leyfis til […]. 17. Brotaþoli höfðaði forsjármál gegn ákærðu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 2. desember 2020. Með úrskurði dómsins 26. október 2021 var brotaþola falið til bráðabirgða að fara með forsjá barnanna þar til dómur gengi um forsjá þeirra til frambúðar. Með fyrrgreindum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 2022 var brotaþola falin forsjá barnanna frá uppsögu dómsins til 18 ára aldurs þeirra. Ákærða skal hafa umgengnisrétt við þau í sex vikur á hverju sumri, um önnur hver jól og aðra hverja páska. Jafnframt skal ákærða greiða brotaþola einfalt meðlag með hvoru barni fyrir sig. 18. Sem fyrr segir var ákærða með hinum áfrýjaða dómi sakfelld í samræmi við ákæru fyrir brot gegn 193. gr. almennra hegningarlaga. Hún mun enn dvelja í […] með börnin. Helstu röksemdir ákæruvalds og ákærðu 19. Ákæruvaldið vísar til þess að hugtökin vald og umsjá í 193. gr. almennra hegningarlaga svari til hugtaksins forsjá í skilningi barnalaga og við beitingu þess verði að líta til dómaframkvæmdar um inntak sameiginlegrar forsjár í skilningi sömu laga. Ekkert standi í vegi fyrir því að ákvæðið geti átt við í því tilviki þegar foreldrar fara sameiginlega með forsjá barns og annað þeirra sviptir hitt umsjá og valdi yfir barni þeirra. 20. Ákærða telur háttsemi sína ekki refsinæma samkvæmt 193. gr. almennra hegningarlaga. Í fyrsta lagi í ljósi túlkunar ákvæðisins í dómi Hæstaréttar 18. nóvember 2021 í máli nr. 27/2021. Í öðru lagi í ljósi efnisþátta þess og ásetningsstigs sem þar er krafist og í þriðja lagi í ljósi krafna um skýrleika refsheimilda. Ákærða ber einnig fyrir sig að hún hafi ekki brotið gegn umræddu ákvæði með för sinni til […] þar sem hún hafi haldið sig þar vegna hættulegra aðstæðna og ofbeldisfullrar hegðunar brotaþola. Þá byggir ákærða á því að hún hafi hlotið samþykki hans fyrir ferð úr landi í […] 2019. Fari svo að talið verði yfir allan vafa hafið að ákærða hafi gerst sek um það brot sem henni er gefið að sök er gerð krafa um refsibrottfall á grundvelli neyðarréttar. Löggjöf og réttarframkvæmd Forsaga 193. gr. almennra hegningarlaga og dómaframkvæmd 21. Ákvæði 193. gr. má rekja til 215. gr. almennra hegningarlaga handa Íslandi frá 25. júní 1869 en þau voru að mestu leyti þýðing á dönsku hegningarlögunum frá 1866. Þar kom fram að „ef að nokkur með brögðum eða valdi sviptir foreldra eða aðra vandamenn barni, sem er yngra en 15 ára, eða heldur því fyrir þeim“ beri að refsa viðkomandi og geti refsing numið allt að átta ára hegningarvinnu ef sakir væru miklar „einkum ef það er gert í ábata skyni eða í ósiðlegum tilgangi”. 22. Með gildandi hegningarlögum frá árinu 1940 var ákvæðið flutt úr þeim kafla laganna sem lýtur að brotum gegn frjálsræði manna í kaflann um sifskaparbrot. Þá var verknaðarlýsingin færð í núverandi horf í 193. gr. sem hljóðar svo: Hver, sem sviptir foreldra eða aðra rétta aðilja valdi eða umsjá yfir barni, sem ósjálfráða er fyrir æsku sakir, eða stuðlar að því, að það komi sér undan slíku valdi eða umsjá, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 16 árum eða ævilangt. 23. Í skýringum við ákvæðið í frumvarpi til laganna kemur fram að með því sé lögð refsing við broti sams konar því sem getið er um í 226. gr. Er með því vísað til almenna ákvæðisins um frelsissviptingu en það er enn óbreytt í tilvitnaðri grein. Þar er sú regla í 1. mgr. að hver sá sem sviptir annan mann frelsi sínu skuli sæta fangelsi allt að 4 árum en í 2. mgr. er mælt fyrir um nánar tilgreindar refsiþyngingarástæður. Í skýringum við 193. gr. kemur jafnframt fram að þar sem barn sé enn ekki sjálfrátt taki ákvæðið til réttar foreldris til umráða yfir því. Af þeim sökum sé því skipað í kafla sifskaparbrota. 24. Í dómi Hæstaréttar 23. mars 2006 í máli nr. 206/2005 háttaði þannig til að móðir fór ein með forsjá barns til bráðabirgða auk þess sem lagt hafði verið bann við för þess af landi brott. Var faðir barnsins dæmdur fyrir brot gegn 193. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa svipt móður valdi og umsjá yfir barninu með því fara með það til Frakklands og halda því þar. Með héraðsdómi, sem staðfestur var með vísan til forsendna hvað það atriði varðar, var því slegið föstu að orðin vald og umsjá í 193. gr. almennra hegningarlaga svöruðu til forsjár í skilningi barnalaga. 25. Við gildistöku eldri barnalaga nr. 9/1981 leysti hugtakið forsjá af hólmi hugtökin foreldravald og forræði sem notast hafði verið við fram að því í lögum nr. 85/1947 um lögræði. Inntak forsjár er skilgreint í 28. gr. barnalaga og samkvæmt 5. mgr. þeirrar greinar felur forsjá barns í sér rétt og skyldu fyrir foreldri til að ráða persónulegum högum barns, ákveða búsetustað þess sem og lögformlegt fyrirsvar. 26. Sameiginleg forsjá foreldra sem ekki búa saman kom fyrst til sem úrræði við gildistöku barnalaga nr. 20/1992. Nú er mælt fyrir um inntak hennar í 1. mgr. 28. gr. a barnalaga en greinin er tilkomin með 5. gr. laga nr. 61/2012 um breytingu á barnalögum. Greininni var breytt nokkuð með 1. gr. laga nr. 28/2021. Eins og greinin var á þeim tíma sem ákæra tekur til var mælt fyrir um í 1. mgr. 28. gr. a að þegar foreldrar færu sameiginlega með forsjá barns skyldu þeir sameiginlega taka allar meiri háttar ákvarðanir sem það varðaði. Byggju foreldrar ekki saman skyldi það foreldri sem það ætti lögheimili hjá hafa heimild til að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf þess, svo sem hvar barnið ætti lögheimili innan lands, velja fyrir það leikskóla, grunnskóla og daggæslu, venjulega eða nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og reglubundið tómstundastarf. Í niðurlagi 1. mgr. 28. gr. a, nú 2. mgr. ákvæðisins, var þó áréttað að forsjárforeldrar skyldu ávallt leitast við að hafa samráð áður en framangreindum málefnum barns væri ráðið til lykta. 27. Fram kemur í skýringum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 61/2012, þar sem reglum um inntak sameiginlegrar forsjár var með 5. gr. komið í framangreint horf, að nauðsynlegt þætti að afmarka frekar en gert væri í barnalögum hvenær annað foreldra gæti ráðið ákveðnum málefnum barns til lykta. Yrði í því sambandi að leggja til grundvallar þarfir barnsins fyrir öryggi, stöðugleika, þroskavænleg skilyrði og samfellu í umönnun. Rétt eins og þegar um forsjá væri að ræða hefði búseta barns tiltekin réttaráhrif. Væri réttarstaða foreldra ekki sú sama við þær aðstæður. Lögheimilisforeldri hefði þannig ríkari rétt til að taka ákvarðanir um málefni barns. 28. Í 5. mgr. 28. gr. a barnalaga, áður 3. mgr. sömu greinar, er þá reglu að finna að fari foreldrar með sameiginlega forsjá barns sé öðru þeirra óheimilt að fara með það úr landi án samþykkis hins. Reglan var upphaflega lögfest með lögum nr. 23/1995 um breytingu á þágildandi barnalögum nr. 20/1992 í tengslum við fullgildingu Evrópuráðssamnings frá 20. maí 1980 um viðurkenningu og fullnustu ákvarðana varðandi forsjá barna og endurheimt forsjár barna og Haagsamningsins frá 25. október sama ár um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl., sbr. lög nr. 160/1995. Einkaréttarlegt úrræði eru þannig til staðar fyrir foreldri sem telur á sér brotið með flutningi hins foreldrisins á barni þeirra milli landa. 29. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 27/2021 háttaði svo til að móðir var ákærð fyrir brot gegn 193. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa á tilgreindu tímabili svipt tvo barnsfeður sína valdi og umsjá barna þeirra með því að fara með þau úr landi án leyfis og vitundar þeirra. Lagt var til grundvallar að foreldrar barnanna hefðu farið sameiginlega með forsjá þeirra en að börnin hefðu átt lögheimili hjá konunni. Í dóminum var sérstaklega tekið fram að málið væri ólíkt því sem dæmt var með dómi Hæstaréttar í máli nr. 206/2005 þar sem í því máli hefði móðirin ein haft forsjá barns en í því máli sem væri til úrlausnar færu foreldrar sameiginlega með forsjá barna sinna. Auk þess lægi fyrir að þrátt fyrir sameiginlega forsjá hefði móðirin verið aðalumönnunaraðili barnanna og þau átt lögheimili hjá henni eftir að upp úr slitnaði milli hennar og barnsfeðra. Enda þótt 1. mgr. 28. gr. a barnalaga mælti svo fyrir að foreldrar sem færu saman með forsjá barns skyldu ávallt leitast við að hafa samráð áður en þeim málum sem í ákvæðinu greinir væri ráðið til lykta taldi Hæstiréttur ljóst af ákvæðinu og lögskýringargögnum að það foreldri sem barn væri með lögheimili hjá hefði ríkari rétt til að taka ákvarðanir um málefni þess. Með vísan til refsinæmis 193. gr. almennra hegningarlaga, inntaks sameiginlegrar forsjár og skýrleika refsiheimilda var það niðurstaða réttarins að sýkna móðurina af broti gegn ákvæðinu. Um þróun í dönskum og norskum rétti 30. Svo sem fram er komið hafa dönsk refsilög haft að geyma ákvæði hliðstætt 193. gr. almennra hegningarlaga frá árinu 1866. Gildandi dönsk hegningarlög eru að stofni til frá árinu 1930 en þeim hefur þó, eðli málsins samkvæmt, eins og íslensku hegningarlögunum frá árinu 1940, margoft verið breytt í tímans rás. 31. Í 1. mgr. 215. gr. dönsku laganna er enn að finna ákvæði sem er efnislega samhljóða 193. gr. íslensku laganna. Af þarlendri réttarframkvæmd verður ráðið að ákvæði 1. mgr. 215. gr. hefur ekki verið talið ná, svo að vafalaust sé, yfir það tilvik þegar foreldri sem deilir sameiginlegri forsjá með hinu foreldrinu sviptir það valdi eða umsjón yfir barninu. Með lagabreytingu í Danmörku árið 1990 var nýrri málsgrein bætt við ákvæðið sem varð 2. mgr. 215. gr. dönsku hegningarlaganna. Þar er mælt fyrir um að með sama hætti og kveðið sé á um í 1. mgr. greinarinnar skuli sá sæta refsingu sem flytur barn ólöglega úr landi. Lögfesting 2. mgr. 215. gr. fól þannig í sér viðbrögð við þessari stöðu og er nú hafið yfir vafa að dönskum rétti að hverjum þeim sem ólöglega flytur barn úr landi, þar með talið foreldri sem deilir forsjá, verður refsað á grundvelli þessa ákvæðis. 32. Forsaga og þróun refsiákvæðis um efnið í norskum refsilögum var áþekk því sem var í dönskum rétti. Þannig var 1. mgr. 216. gr. norsku hegningarlaganna frá árinu 1902 sambærileg framangreindu ákvæði íslensku og dönsku laganna. Árið 2012 var bætt sérákvæði við 216. gr. norsku laganna um að refsivert væri að flytja barn úr landi eða halda því þar með ólögmætum hætti frá þeim sem hefði forsjá eða umsjá þess. Síðar var sett mun ítarlegra refsiákvæði um háttsemina í 261. gr. gildandi hegningarlaga. Samkvæmt 2. málslið 1. mgr. greinarinnar nær refsinæmi nú meðal annars til aðstæðna þar sem foreldrar fara með sameiginlega forsjá og annað þeirra flytur barn ólöglega úr landi eða heldur því þar. Niðurstaða 33. Svo sem fram hefur komið er ákærðu gefið að sök sifskaparbrot, sbr. 193. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa frá […] 2019 til […] 2021 svipt brotaþola valdi og umsjá yfir tveimur börnum þeirra með því að hafa farið með þau án leyfis brotaþola til […] og haldið þeim þar. Óumdeilt er að við brottför ákærðu með börnin frá Íslandi […] 2019 fóru hún og brotaþoli með sameiginlega forsjá þeirra, sbr. 1. mgr. 29. gr. barnalaga og öll voru þau skráð með sama lögheimili. Ákærða og brotaþoli hafa ekki haldið sameiginlegt heimili frá þeim tíma en forsjá var sameiginleg allt þar til fyrrnefndur úrskurður til bráðabirgða gekk í héraði 26. október 2021. 34. Hæstarétti er þröngur stakkur skorinn við endurskoðun á sönnunarmati Landsréttar að því leyti sem það byggist á heildarmati á sönnunargildi fram kominna sönnunargagna, þar á meðal munnlegs framburðar ákærðu og vitna fyrir dómi, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Að því gættu sætir sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms ekki endurskoðun að sannað teljist að brotaþoli hafi verið því mótfallinn að ákærða færi með börnin til […] 2019 og hún verið meðvituð um þá afstöðu hans. Sama máli gegnir um þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að staðhæfingar ákærðu þess efnis að brotaþoli hafi beitt hana ofbeldi á sambúðartímanum séu engum gögnum studdar. Koma þær og málatilbúnaður á þeim reistur því ekki til frekari skoðunar við úrlausn málsins. Liggur því næst fyrir réttinum að taka til þess afstöðu hvort sú háttsemi ákærðu að fara í óþökk brotaþola með börn þeirra til […] og halda þeim þar verði heimfærð undir 193. gr. almennra hegningarlaga. 35. Hér að framan er gerð grein fyrir tveimur hæstaréttardómum sem sérstaka þýðingu hafa fyrir úrlausn máls þessa. Í dómi réttarins í máli nr. 206/2005 fór ákærði ekki með forsjá barns síns og var dæmdur fyrir brot gegn 193. gr. almennra hegningarlaga með því að svipta móður og forsjáraðila valdi og umsjá barns þeirra og fara með það til Frakklands og halda því þar. Leikur ekki vafi á að ákvæðið nær til þess tilviks þegar foreldri sem ekki fer með forsjá barns síns fer fram með þeim hætti sem lýst er refsivert samkvæmt ákvæðinu. Öndverð niðurstaða varð sem fyrr segir með dómi réttarins í máli nr. 27/2021 þegar móðir var sýknuð af broti gegn 193. gr. Sýnist niðurstaða um sýknu einkum hafa ráðist af því að hún fór sameiginlega með forsjá með feðrum barna sinna en auk þess áttu börnin lögheimili hjá henni og hún var talin hafa verið aðalumönnunaraðili þeirra. Í tilvitnuðum dómum er vissulega ekki uppi fyllilega sambærileg aðstaða og í þessu máli þar sem ákærða og brotaþoli deildu ekki aðeins forsjá heldur var lögheimili þeirra það sama á því tímamarki þegar konan fór með börnin til […] og eiginlegri sambúð lauk. 36. Hér fyrr hefur verið rakin tilurð og saga 193. gr. almennra hegningarlaga síðan ákvæðið var fyrst leitt í lög árið 1869. Í því samhengi verður ekki fram hjá því litið að við lögfestingu refsiákvæðis af þessum toga í öndverðu var samfélags- og fjölskyldugerð með allt öðrum hætti en síðar varð og verndarhagsmunir um margt aðrir. Af lögskýringargögnum með 193. gr. almennra hegningarlaga frá árinu 1940 má sem fyrr segir ráða að ákvæðið taki til brota sams konar þeim sem almenna ákvæðið um frelsissviptingu í 226. gr. laganna varðar en á þrengra og afmarkaðra sviði svo sem fyrr er rakið. Við skýringu 193. gr. laganna er því ástæða til þess að líta jafnframt til efnis og gildissviðs ákvæðis 226. gr. Í lögskýringargögnum var hún skýrð á þann veg að átt væri við skerðingu á athafnafrelsi manna og frelsi til þess að ráða sjálfir verustað sínum eða dvalarstað. Á hinn bóginn er til þess að líta að reglur um sameiginlega forsjá voru fyrst lögfestar hérlendis meira en hálfri öld eftir gildistöku núgildandi hegningarlaga. Má af þessu ljóst vera að uppi er nokkur vafi um það hvort innan verknaðarlýsingar 193. gr. rúmist sú háttsemi foreldris að fara með barn sitt til útlanda þegar foreldrar fara sameiginlega með forsjá þess. 37. Þá þykir jafnframt við mat á refsinæmi og gildissviði 193. gr. sem refsiheimildar við þessar aðstæður rétt að líta til danskrar og norskrar réttarþróunar, sbr. það sem fyrr er rakið um sameiginlegan uppruna lagareglna þeirra sem hér um ræðir. Til að mynda er ljóst að án þeirrar breytinga sem gerðar voru á sambærilegu ákvæði dansks réttar, með viðbótinni í 2. mgr. 215 gr. dönsku hegningarlaganna, hefði tilvik það sem hér um ræðir ekki verið talið falla undir óbreytt ákvæði 215. gr. þeirra. 38. Við mat á inntaki refsiheimildar 193. gr. almennar hegningarlaga í núverandi horfi er jafnframt til þess að líta, þótt það orki ekki beinlínis á skýringu refsiheimildarinnar, að tilhögun hérlendrar löggjafar í forsjármálum og úrlausn deilna þar um er einkum ætlaður sá einkaréttarlegi farvegur sem mælt er fyrir um í ákvæðum barnalaga. Má í því sambandi árétta að ekki liggur refsing við broti gegn 5. mgr. 28. gr. a barnalaga þar sem mælt er fyrir um að fari foreldrar með sameiginlega forsjá sé öðru þeirra óheimilt að fara með barnið úr landi án samþykkis hins. Má í þessu samhengi benda á að brotaþoli hefur nú þegar neytt ýmissa einkaréttarlegra úrræða. Annars vegar með því að afla sér dóms um forsjá yfir börnunum til 18 ára aldurs þeirra og hins vegar úrskurðar dómstóls í […] um skyldu ákærðu til þess að koma börnunum aftur til Íslands. 39. Af tilvitnuðum dómi Hæstaréttar í máli nr. 27/2021 verður ráðið að ekki sé útilokað að ákvæði 193. gr. almennra hegningarlaga geti náð yfir tilvik þar sem sá brotlegi deilir forsjá með því foreldri sem brotið er þá talið beinast að. Hvað sem þeirri niðurstöðu líður og án þess að í þessu máli verði tekin endanleg afstaða til gildissviðs 193. gr. laganna í öllum tilvikum þegar foreldri fer með sameiginlega forsjá verður ekki talið að sá munur sé á sakarefni og aðstöðu í fyrrnefndu máli og þessu að það sé hafið yfir vafa að háttsemi ákærðu verði felld undir 193. gr. almennra hegningarlaga. 40. Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 verður engum gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð samkvæmt lögum á þeim tíma þegar hún átti sér stað eða megi fullkomlega jafna til slíkrar háttsemi. Refsiheimild skal einnig vera svo skýr og ótvíræð að ljóst sé af lestri lagaákvæðis hvaða háttsemi sé refsiverð. Reglan um lögbundnar refsiheimildir er áréttuð í 1. gr. almennra hegningarlaga þar sem fram kemur að ekki skuli refsa manni nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem refsing er lögð við í lögum eða megi öldungis jafna til hegðunar sem þar er afbrot talin. Sambærilega reglu er jafnframt að finna í 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá ber sérstaklega að árétta að réttmætan vafa um skýringu refsiákvæða skal meta sakborningi í hag, sbr. í dæmaskyni dóma Hæstaréttar 14. desember 1995 sem birtur er á bls. 3149 í dómasafni réttarins það ár, 27. september 2018 í máli nr. 639/2017, fyrrgreindu máli nr. 27/2021 og 31. janúar 2024 í máli nr. 31/2023. 41. Að öllu framangreindu virtu verður sú háttsemi sem ákærðu er gefin að sök ekki felld undir 193. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt því verður hún sýknuð af kröfum ákæruvaldsins. 42. Sakarkostnaður eins og hann var ákveðinn í héraði og fyrir Landsrétti greiðist allur úr ríkissjóði. Þá ber að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda fyrir Hæstarétti að virðisaukaskatti meðtöldum eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Ákærða, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins. Sakarkostnaður, eins og hann var ákveðinn í héraði og fyrir Landsrétti, greiðist allur úr ríkissjóði. Allur áfrýjunarkostnaður málsins fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærðu, Magnúsar M. Norðdahl lögmanns, 1.240.000 krónur. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=6929f86e-435e-408d-81db-4a0f026e1490&verdictid=8ddfa90d-3152-4eb0-a6cd-2c5baa5131d3
Mál nr. 30/2023
Almannatryggingar Félagsleg aðstoð Óvígð sambúð Stjórnsýsla Lögskýring Stjórnarskrá Kröfugerð Aðild
A höfðaði mál á hendur T og krafðist þess að ógiltur yrði úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti ákvörðun T um að synja henni um greiðslu heimilisuppbótar. Umsókn A um heimilisuppbót 9. mars 2020 hafði verið synjað með vísan til þess að samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands væri A í skráðri sambúð og uppfyllti því ekki skilyrði 8. gr. laga nr. 99/2007 um að vera einhleyp og búa ein. Óumdeilt var í málinu að A og fyrrverandi sambýlismaður hennar höfðu slitið samvistir á fyrri hluta árs 2015. Þar sem þau höfðu ekki komið sér saman um forsjá og umgengni barna sinna voru þau hins vegar enn skráð í sambúð í þjóðskrá og með lögheimili á sama stað á því tímabili sem umsókn A um heimilisuppbót náði til. Varðandi aðild málsins komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að það hefði ekki verið á forræði T að leiðrétta skráningu á sambúðarstöðu A í þjóðskrá væri unnt að leysa úr dómkröfu A án aðildar Þjóðskrár Íslands. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu, að teknu tilliti til markmiðs með greiðslu heimilisuppbótar eins og það yrði skýrt í ljósi fyrirmæla 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, yrði að túlka 8. gr. laga nr. 99/2007 með þeim hætti að þar væri að finna efnisleg lagaskilyrði um raunverulega félagslega og fjárhagslega stöðu lífeyrisþega og hvort hann væri í reynd einn um heimilisrekstur. Þá taldi Hæstiréttur að meðferð á máli A hefði verið í andstöðu við 37. og 38. gr. laga nr. 100/2007 svo og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga með því stefndi og úrskurðarnefndin hefðu láta hjá líða að taka tillit til gagna um aðstæður og hagi áfrýjanda og skoða stöðu hennar heildstætt. Taldi rétturinn að óheimilt hefði verið að hafna umsókn A um heimilisuppbót af þeirri ástæðu einni að hún væri enn skráð í sambúð í þjóðskrá. Var því fallist á kröfu A um ógildingu úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon og Þorgeir Örlygsson fyrrverandi hæstaréttardómari. 2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. júní 2023. Hún krefst þess að ógiltur verði úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála 16. september 2020 sem staðfesti ákvörðun stefnda 24. mars sama ár um að synja henni um greiðslu heimilisuppbótar. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar á öllum dómstigum án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt. 3. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Ágreiningsefni 4. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort við ákvörðun um heimilisuppbót til áfrýjanda, samkvæmt 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, hafi borið að líta til raunverulegra aðstæðna hennar í stað skráningar á sambúðarstöðu í þjóðskrá við mat á hvort hún uppfyllti skilyrði ákvæðisins um að vera einhleyp. Í því sambandi deila aðilar um hvort skýring ákvæðisins hafi verið í andstöðu við rétt áfrýjanda til aðstoðar samkvæmt 1. mgr. 76. gr. og jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. 5. Stefndi var sýknaður af kröfum áfrýjanda með héraðsdómi 14. febrúar 2022. Með hinum áfrýjaða dómi Landsréttar 24. mars 2023 var sú niðurstaða staðfest. 6. Áfrýjunarleyfi var veitt 16. júní 2023, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2023-60, meðal annars á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um hvort leggja beri skráningu sambúðar til grundvallar úrlausn um réttindi einstaklinga samkvæmt lögum nr. 99/2007 og lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar óháð raunverulegri sambúðarstöðu. Málsatvik 7. Áfrýjandi og fyrrverandi sambýlismaður hennar og barnsfaðir voru skráð í óvígða sambúð í þjóðskrá 1. janúar 2000. Þau eignuðust saman þrjú börn, fædd árin 2000, 2003 og 2009. Ágreiningslaust er með aðilum málsins að áfrýjandi og fyrrverandi sambýlismaður hennar slitu samvistir á fyrri hluta árs 2015. Eftir samvistarslitin tóku við deilur þeirra í milli um fjárslit og forsjá barna þeirra og hófst sáttameðferð hjá sýslumanni 11. desember 2015. Forsjárdeilu þeirra lauk 30. júlí 2020 þegar þau komust að samkomulagi fyrir sýslumanni um sameiginlega forsjá. Á árinu 2015 var ákveðið með úrskurði héraðsdóms að opinber skipti færu fram til fjárslita milli þeirra og er þeim ólokið. 8. Áfrýjandi hefur frá árinu 2018 fengið greiddan örorkulífeyri frá stefnda samkvæmt lögum nr. 100/2007. Hún sótti 9. mars 2020 um heimilisuppbót frá honum á grundvelli 8. gr. laga nr. 99/2007 afturvirkt frá 10. mars 2018, sbr. þágildandi 4. mgr. 53. gr. laga nr. 100/2007. Í bréfi áfrýjanda sem fylgdi umsókninni kom fram að hún hefði slitið samvistir við barnsföður sinn 15. apríl 2015. Þar sem þau hefðu ekki komið sér saman um forsjá og umgengni barna sinna væru þau enn skráð í sambúð í þjóðskrá og með lögheimili á sama stað. Fram kom að áfrýjandi hefði ítrekað reynt að fá breytt skráningu á lögheimili hjá Þjóðskrá Íslands en verið synjað á þeim grundvelli að ganga þyrfti frá sambúðarslitum og forsjá barnanna hjá sýslumanni. 9. Með ákvörðun 24. mars 2020 synjaði stefndi umsókn áfrýjanda um heimilisuppbót með vísan til þess að samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands væri hún í skráðri sambúð og uppfyllti því ekki skilyrði 8. gr. laga nr. 99/2007 um að vera einhleyp og búa ein. Í frekari rökstuðningi stefnda 3. apríl 2020 kom fram að byggt væri á lögheimilis- og hjúskaparskráningu áfrýjanda hjá Þjóðskrá Íslands, sbr. lög nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur, við mat á umsóknum um heimilisuppbót. Samkvæmt þeim upplýsingum væru áfrýjandi og barnsfaðir hennar í skráðri sambúð, deildu sama lögheimili og hefðu gert það á því tímabili sem umsóknin varðaði. Þau gögn sem áfrýjandi hefði sent með umsókn sinni högguðu því ekki að hún væri skráð í sambúð hjá Þjóðskrá Íslands sem stefnda væri skylt að miða við. 10. Áfrýjandi skaut þessari niðurstöðu til úrskurðarnefndar velferðarmála 16. apríl 2020. Með úrskurði 16. september sama ár staðfesti nefndin niðurstöðu stefnda. Vísað var til þess að áfrýjandi hefði ekki verið einhleyp í skilningi 8. gr. laga nr. 99/2007 þegar hin kærða ákvörðun var tekin og engin heimild væri til að víkja frá því skýra skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar. 11. Samkomulag áfrýjanda og fyrrverandi sambýlismanns hennar um forsjá, lögheimili og meðlag vegna ólögráða barna þeirra var staðfest hjá sýslumanni 30. júlí 2020. Áfrýjandi sótti að nýju um heimilisuppbót sama dag og aftur 26. maí 2021 en var í bæði skiptin synjað af sömu ástæðum og fyrr. Loks sótti áfrýjandi um heimilisuppbót 3. ágúst 2021 afturvirkt frá og með 1. ágúst 2020. Skráningu á sambúðarstöðu áfrýjanda og fyrrverandi maka hennar var breytt í þjóðskrá 4. ágúst 2020 og tekið fram að óvígðri sambúð þeirra hefði verið slitið 30. júlí 2020. Stefndi samþykkti loks umsókn áfrýjanda um greiðslu heimilisuppbótar 25. október 2021 frá og með 1. ágúst 2020. Málsástæður Helstu málsástæður áfrýjanda 12. Áfrýjandi telur að með því að synja henni um heimilisuppbót, einvörðungu á grundvelli skráningar á sambúðarstöðu hennar í þjóðskrá, hafi stefndi og síðar úrskurðarnefnd velferðarmála brotið gegn rétti hennar til aðstoðar samkvæmt 1. mgr. 76. gr. og jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Túlka verði skilyrði til greiðslu heimilisuppbótar samkvæmt 8. gr. laga nr. 99/2007 um að lífeyrisþegi sé einhleypur á þann veg að líta beri til raunverulegra aðstæðna hans. 13. Ágreiningslaust sé að hún hafi ekki verið í sambúð með barnsföður sínum þegar hún sótti um heimilisuppbót og hafi haldið heimili ein með börnum þeirra frá samvistarslitum árið 2015. Stefndi hafi þrátt fyrir það byggt ákvörðun sína á formlegri skráningu óvígðrar sambúðar samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands í stað þess að líta til efnislegrar merkingar sambúðarhugtaksins eins og skýra beri 7. tölulið 2. gr. og þágildandi 2. mgr. 49. gr. laga nr. 100/2007. Í þeim ákvæðum sé berum orðum byggt á efnislegu mati á sambúðarstöðu einstaklings án tillits til opinberrar skráningar. Ekki hafi farið fram slíkt mat á aðstæðum áfrýjanda eða staða hennar og réttindi metin heildstætt svo sem skylt hefði verið samkvæmt þágildandi 37. gr. laga nr. 100/2007, sbr. 14. gr. laga nr. 99/2007. 14. Við beitingu lagaákvæða sem ætlað sé að útfæra stjórnarskrárverndaðan rétt einstaklinga til aðstoðar samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar verði að líta til þess að takmarkanir á slíkum réttindum þurfa að vera skýrt orðaðar í lögum en ekki handahófskenndar og án sýnilegrar ástæðu. Umræddrar skýrleikakröfu hafi ekki verið gætt við ákvörðun í máli hennar. 15. Áfrýjandi byggir á að henni hafi verið ókleift að leiðrétta skráningu á sambúðarstöðu sinni í þjóðskrá meðan ekki hafði náðst samkomulag um forsjá og lögheimili ólögráða barna. Eina leið hennar til að fá skráningunni breytt hefði verið að fallast á kröfur barnsföður síns sem hún hafði kært fyrir heimilisofbeldi. Ekki hafi því verið um raunverulegt val að ræða heldur hafi stjórnvöld sett hana í ómögulega stöðu þar sem hún hefði aðeins getað notið réttar síns til félagslegrar aðstoðar samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar með því að gefa eftir réttindi sín og barna sinna til fjölskyldulífs samkvæmt 1. mgr. 71. gr. hennar. 16. Loks telur áfrýjandi að skýring á ákvæðum laga nr. 99/2007 og 100/2007 í máli hennar, sem byggðist einungis á skráningu í þjóðskrá hafi falið í sér mismunandi meðferð á henni og öðrum einstaklingum í öldungis sömu stöðu andstætt jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Helstu málsástæður stefnda 17. Stefndi telur að réttilega hafi verið komist að þeirri niðurstöðu í hinum áfrýjaða dómi að óheimilt hafi verið samkvæmt 1. mgr. 31. gr. barnalaga nr. 76/2003 að slíta skráðri sambúð áfrýjanda og barnsföður hennar fyrr en ágreiningi þeirra hafði verið ráðið til lykta með staðfestingu sýslumanns 30. júlí 2020. Reglan stefni að því að tryggja hagsmuni barns í samræmi við skyldu löggjafans samkvæmt 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar til að börnum sé í lögum tryggð sú vernd sem velferð þeirra krefst. Foreldrar beri ábyrgð á að leiða til lykta slíkan ágreining í þágu hagsmuna barna og þannig annast börn sín á þann hátt sem best henti hag þeirra og þörfum, sbr. 2. mgr. 28. gr. barnalaga. 18. Auk þess bendir stefndi á að það sé ekki á forræði hans að leiðrétta synjun Þjóðskrár Íslands um breytingu á sambúðarskráningu áfrýjanda eftir samvistarslit. Það veki spurningar um lögvarða hagsmuni hennar af úrlausn málsins og hvort vísa beri því frá dómi án kröfu. 19. Synjun um að greiða áfrýjanda heimilisuppbót samkvæmt 1. mgr. 8 gr. laga nr. 99/2007 hafi byggst á að hún uppfyllti ekki skilyrði um að teljast einhleyp að lögum, enda hafi hún verið skráð í sambúð í þjóðskrá á þeim tíma sem umsóknin tók til. Stefndi hafnar því að vegið hafi verið að lágmarksréttindum áfrýjanda samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar en í löggjöf um almannatryggingar séu réttaráhrif víða bundin við hjúskaparstöðu fólks og sambúð, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 15. nóvember 2018 í máli nr. 795/2017. Þá hafi áfrýjandi fengið sömu meðferð og aðrir umsækjendur í sömu stöðu sem skráðir væru í sambúð og því ekki verið brotið gegn rétti hennar samkvæmt 65. gr. stjórnarskrárinnar. 20. Stefndi tekur fram að ákvörðun um heimilisuppbót samkvæmt 8. gr. laga nr. 99/2007 sé í eðli sínu ekki matskennd heldur byggist á fastmótuðum skilyrðum um sambúðarstöðu umsækjanda samkvæmt þjóðskrá og þau skilyrði séu bæði hlutlæg og reist á málefnalegum forsendum. Í 51. gr. laga nr. 100/2007 sé mælt fyrir um upplýsingaskyldu Þjóðskrár Íslands um þessi atriði. Lögformleg skráning einstaklinga í þjóðskrá, þar á meðal um hjúskaparstöðu, sé grundvöllur ýmissa réttaráhrifa samkvæmt löggjöf um almannatryggingar og félagslega aðstoð. 21. Almannaskráning hafi það markmið að endurspegla raunverulega og rétta stöðu einstaklinga og stefndi hafi ekki heimild til að horfa fram hjá sambúðarskráningu í þjóðskrá. Þá hafi þágildandi 2. mgr. 49. gr. laga nr. 100/2007 ekki falið í sér heimild fyrir stefnda til að líta á skráð sambúðarfólk sem einhleypa heldur aðeins til að meta hvort einstaklingar sem ekki eru skráðir í sambúð samkvæmt þjóðskrá séu engu að síður í sambúð eftir ótvíræðum gögnum enda teljist þeir þá ekki einhleypir. Um markmið þeirrar reglu vísar stefndi til að brögð séu að því að sambýlisfólk virði ekki lögheimilislög og skrái sig annars staðar en það hafi fasta búsetu í því skyni að öðlast rétt til hærri vaxta- og barnabóta. Löggjöf Ákvæði almannatryggingarlöggjafar 22. Meginágreiningsefni málsins lýtur að skýringu á skilyrðum til greiðslu heimilisuppbótar samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð en ákvæðið er svohljóðandi: Heimilt er að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem býr einn og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. 23. Samkvæmt 14. gr. laga nr. 99/2007 gilda ákvæði laga nr. 100/2007 um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. 24. Í 7. tölulið 2. gr. laga nr. 100/2007 er sett fram eftirfarandi skilgreining á hugtakinu óvígð sambúð eins og það er notað í lögunum: Óvígð sambúð: Sambúð tveggja einstaklinga, sem skráð er í þjóðskrá, enda eigi þeir barn saman, eigi von á barni saman eða hafi verið í sambúð samfleytt lengur en eitt ár. 25. Um réttarstöðu sambúðarfólks var að finna sérákvæði í 49. gr. laga nr. 100/2007 þegar atvik máls urðu, sbr. nú 37. gr. þeirra, sem hljóðaði svo: Einstaklingar sem eru í óvígðri sambúð, sbr. 7. tölul. 2. gr., njóta sömu réttinda og bera sömu skyldur og hjón samkvæmt lögum þessum. […] Sameiginlegt lögheimili eða sambúð eftir öðrum ótvíræðum gögnum lengur en eitt ár skal lagt að jöfnu við skráningu sambúðar í þjóðskrá. 26. Í V. kafla laga nr. 100/2007 eru ákvæði um leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu stefnda í tengslum við málsmeðferð við ákvörðun um bótarétt. Þegar atvik máls urðu voru 1. mgr. 37. gr. og 38. gr. laganna svohljóðandi, sbr. nú 45. og 46. gr. þeirra: [1. mgr. 37. gr.] Tryggingastofnun ríkisins skal kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum er stofnunin starfar eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skulu staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skal leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfa að fylgja umsókn og um framhald málsins. [38. gr.] Tryggingastofnun skal sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun um bótarétt er tekin, þar á meðal að öll nauðsynleg gögn og upplýsingar liggi fyrir. 27. Ákvæðum þessum var bætt í lög nr. 100/2007 með lögum nr. 8/2014 en í almennum athugasemdum með frumvarpinu sem varð að síðarnefndu lögunum kom fram að breytingarnar lytu að réttindum borgaranna og skyldum þeirra í samskiptum við stefnda og skýrar væri kveðið en áður á um eftirlitshlutverk stofnunarinnar. Þá var tekið fram í skýringum við 1. mgr. 37. gr. að 2. og 3. málsliður hennar væru nýmæli. Þar væri stefnda gert skylt að skoða stöðu og réttindi umsækjanda eða bótaþega í heild, meðal annars til að koma í veg fyrir að umsækjandi eða bótaþegi færi á mis við réttindi sem hann gæti átt tilkall til. Um ákvæði 38. gr. var vísað til að það væri í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Lagafyrirmæli um skráningu og slit sambúðar og lögheimili 28. Í almennum athugasemdum í frumvarpi sem varð að lögum nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur segir meðal annars: Meginmarkmið skráningar lögheimilis og aðseturs er að endurspegla raunverulega og rétta búsetu einstaklinga og þar með ákvarða réttarstöðu þeirra og skyldur gagnvart hinu opinbera. Margar opinberar stofnanir grundvalla ákvarðanir sínar að mestu á skráningu einstaklinga í þjóðskrá og því er nauðsynlegt að hún sé rétt. Ábyrgð á skráningu er fyrst og fremst hjá einstaklingnum sjálfum enda byggjast ýmis réttindi einstaklinga og skyldur einmitt á skráningu lögheimilis í þjóðskrá, svo sem réttur til greiðslna úr almannatryggingakerfinu [...] 29. Um skráningu sambúðar í þjóðskrá er svohljóðandi ákvæði í 3. mgr. 5. gr. laganna: Tveir einstaklingar sem eru í samvistum og uppfylla hjónavígsluskilyrði hjúskaparlaga geta skráð sambúð sína í þjóðskrá. Skulu þeir hafa sama lögheimili og skal upphaf sambúðar miðað við þann dag þegar beiðni er lögð fram um skráningu. 30. Í skýringum á 5. gr. sem fylgdu frumvarpi sem varð að lögum nr. 80/2018 segir meðal annars um slit skráðrar sambúðar: Í barnalögum kemur fram að eigi einstaklingar í skráðri sambúð barn saman sé þeim ekki heimilt að slíta sambúðinni nema gengið hafi verið frá forsjá, umgengni og lögheimili barnsins hjá sýslumanni. 31. Þegar atvik máls urðu var fjallað um forsjá barna við samvistarslit foreldra í 1. mgr. 31. gr. barnalaga nr. 76/2003 og var ákvæðið svohljóðandi: Foreldrar fara sameiginlega með forsjá barns síns eftir skilnað og slit sambúðar sem skráð hefur verið í þjóðskrá nema annað sé ákveðið. Foreldrar skulu ákveða hjá hvoru þeirra barn skuli eiga lögheimili og þar með að jafnaði fasta búsetu. Sýslumaður skal tilkynna Þjóðskrá Íslands hjá hvoru foreldra barnið eigi lögheimili. [...] Niðurstaða Um aðild og sakarefni 32. Stefndi hefur vísað til þeirra forsendna hins áfrýjaða dóms að Þjóðskrá Íslands hafi verið óheimilt vegna fyrirmæla barnalaga og laga nr. 80/2018 að breyta skráningu á sambúð áfrýjanda og barnsföður hennar. Áfrýjandi hafi unað þeirri niðurstöðu stofnunarinnar að synja um skráningu á flutningi lögheimilis. Stefndi tekur fram að ekki sé á forræði hans að leiðrétta ákvörðun Þjóðskrár Íslands, en það geti hugsanlega leitt til frávísunar málsins frá dómi án kröfu að stofnunin eigi ekki aðild að málinu. 33. Dómkrafa áfrýjanda beinist nú að því að fella úr gildi úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti synjun stefnda um greiðslu heimilisuppbótar en með hinum áfrýjaða dómi var dómkröfu hennar um að ákvörðun stefnda yrði einnig ógilt réttilega vísað frá héraðsdómi. Eins og rakið er í dómi Hæstaréttar 28. febrúar 2024 í máli nr. 24/2023 hefur skapast um það nokkur festa í dómaframkvæmd að sjálfstæðar stjórnsýslu- og úrskurðarnefndir á kærustigi eigi ekki aðild að dómsmálum sem rekin eru um gildi úrskurða þeirra. Hefur verið talið rétt að beina slíkum kröfum að því stjórnvaldi sem tók ákvörðun á lægra stjórnsýslustigi, sbr. dóm Hæstaréttar 17. febrúar 1997 í máli nr. 63/1997 sem birtur er á bls. 643 í dómasafni réttarins það ár og dóma réttarins 21. mars 2002 í máli nr. 378/2001 og 14. desember 2001 í máli nr. 431/2001. Þótt þessi dómaframkvæmd sé ekki án undantekninga verður ekki fundið að aðild stefnda sem lægra setts stjórnvalds að máli þessu. 34. Við úrlausn málsins verður jafnframt lagt til grundvallar að áfrýjanda hafi samkvæmt framkvæmd Þjóðskrár Íslands á lögum nr. 80/2018 verið gert ókleift að fá breytt skráningu á sambúðarstöðu sinni í þjóðskrá til samræmis við raunverulegar heimilisaðstæður. Þótt það hafi þannig ekki verið á forræði stefnda að leiðrétta skráningu á sambúðarstöðu áfrýjanda í þjóðskrá er unnt að leysa úr dómkröfu áfrýjanda í máli þessu án aðildar Þjóðskrár Íslands. Um skýringu lagafyrirmæla um heimilisuppbót 35. Í málatilbúnaði stefnda og úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála er lagt til grundvallar að við skýringu orðsins „einhleypur“ í 8. gr. laga nr. 99/2007 skuli líta til skilgreiningar þess í Íslenskri nútímamálsorðabók að um sé að ræða einstakling sem er hvorki í sambúð né hjónabandi. Með vísan til 14. gr. laganna beri að leggja skilgreiningu 7. töluliðar 2. gr. laga nr. 100/2007 til grundvallar um inntak hugtaksins óvígð sambúð og sé stefnda því ekki heimilt að horfa fram hjá sambúðarskráningu í þjóðskrá við ákvörðun um greiðslu heimilisuppbótar. Ekki sé því um matskennda ákvörðun að ræða. 36. Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar skal öllum sem þess þurfa tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Hæstiréttur hefur í allmörgum málum skýrt hvað er fólgið í þessu ákvæði og hvaða skyldur það leggur löggjafanum á herðar, sbr. meðal annars dóma réttarins 6. apríl 2022 í máli nr. 52/2021 og 25. október 2023 í máli nr. 9/2023, en í þeim báðum var skorið úr um rétt einstaklinga til félagslegrar aðstoðar samkvæmt lögum nr. 99/2007. 37. Í dómum Hæstaréttar hefur verið vísað til þess að á grundvelli 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar hafi með almennum lögum verið komið á fót velferðarkerfi til að styðja við þá sem standa höllum fæti fjárhagslega og félagslega. Þar er einkum til að taka lög nr. 100/2007 sem mæla fyrir um skýlausan rétt manna til ótímabundinna bótagreiðslna úr almannatryggingum fullnægi þeir ákveðnum skilyrðum. Lagafyrirmæli um félagslega aðstoð samkvæmt lögum nr. 99/2007, þar á meðal um heimilisuppbót sem hér er til umfjöllunar, fela á hinn bóginn í sér að heimilt er að veita lífeyrisþega slíka uppbót að ákveðnum skilyrðum uppfylltum samkvæmt 8. gr. laganna sem lúta að fjölskylduhögum og heimilisaðstæðum hvers og eins umsækjanda og er þörf hans fyrir aðstoð metin út frá því. Í máli þessu greinir aðila á um skýringu stefnda á hugtökum í framangreindum lögum og lagaskilyrðum fyrir greiðslu slíkrar heimilisuppbótar og þá hvort þörfin fyrir aðstoð skuli metin á grundvelli tilgreindra formskilyrða eða efnislegra aðstæðna. 38. Til að heimilt sé að greiða heimilisuppbót samkvæmt 8. gr. laganna þarf að vera um að ræða einhleypan lífeyrisþega sem býr einn eða er einn um heimilisrekstur. Samkvæmt ákvæðinu telst lífeyrisþegi ekki þurfa slíka uppbót njóti hann fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Með þessu er ekki gerð krafa um tiltekin fjölskyldutengsl en meta á í hverju og einu tilviki hvort umsækjandi njóti góðs af því að aðrir leggi eitthvað til reksturs heimilis eða húsnæðis. 39. Engin algild skilgreining er til á hugtakinu óvígð sambúð í íslenskum rétti og ekki er þar heldur að finna almennar reglur um stofnun og slit sambúðar. Því þarf ekki að uppfylla sérstök skilyrði til að tveir einstaklingar hefji sambúð, stofnunin er óformleg og hið sama gildir um slit hennar. Lagaákvæði sem veita sambúðarfólki tiltekin réttindi taka mið af ýmsum forsendum, til dæmis að sambúðarfólk eigi sama lögheimili, hafi átt saman barn eða sambúðin sé skráð í þjóðskrá. Til hliðsjónar má einnig nefna dóm Hæstaréttar 2. september 2011 í máli nr. 476/2011 þar sem niðurstaða um hvort stofnast hefði til óvígðrar sambúðar í skilningi 100. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. réðst af sönnun um hvort fjárhagur málsaðila væri nægilega samtvinnaður. 40. Ríkir almannahagsmunir felast í því að réttindi og skyldur einstaklinga samkvæmt almannatryggingalöggjöf geti verið tengd opinberri skráningu og ákveðin festa þarf að ríkja í þeim efnum. Skylda ýmissa opinberra aðila samkvæmt fyrirmælum laganna til að láta stefnda í té upplýsingar um umsækjendur um heimilisuppbót, þar á meðal Þjóðskrár Íslands sem veitir upplýsingar um lögheimili og hjúskaparstöðu, er því mikilvæg til þess að stofnunin geti framfylgt lögunum og þar með sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Í samræmi við það má að öðru jöfnu ganga út frá því að einstaklingur sem er skráður í óvígða sambúð í þjóðskrá sé ekki einhleypur og einn um heimilisrekstur. Þess er þá að gæta að honum er að jafnaði unnt að breyta skráningu sé hún röng, enda byggja lagafyrirmæli um skráningu í þjóðskrá á þeirri forsendu að ábyrgð á henni hvíli fyrst og fremst á einstaklingnum sjálfum. Sé honum á hinn bóginn meinað að lögum að breyta skráningu af ástæðum sem ekki tengjast möguleikum hans til framfærslu, svo sem vegna reglna um lögheimilisskráningu barna, hlýtur það þó að kalla á mat á raunverulegum aðstæðum hans. 41. Þótt í 14. gr. laga nr. 99/2007 sé vísað til þess að ákvæði laga nr. 100/2007 skuli gilda eftir því sem við á um bætur félagslegrar aðstoðar fær sú lögskýring ekki staðist að við túlkun orðsins „einhleypur“ í 8. gr. fyrrgreindu laganna ráði úrslitum hvort umsækjandi er formlega skráður í óvígða sambúð í þjóðskrá eða ekki, sbr. 7. tölulið 2. gr. laga nr. 100/2007. Er þá einnig að líta til þeirra fyrirmæla þágildandi 2. mgr. 49. gr. laga nr. 100/2007 að þótt sambúð sé ekki skráð í þjóðskrá megi leggja það að jöfnu að einstaklingar hafi átt sameiginlegt lögheimili eða sambúð eftir öðrum ótvíræðum gögnum lengur en eitt ár. 42. Efnislegt mat á aðstæðum umsækjanda, án tillits til skráðrar sambúðarstöðu, getur samkvæmt framangreindu leitt til þess að hann verði ekki talinn einhleypur. Þótt markmið reglu 2. mgr. 49. gr. sé að fyrirbyggja, að einstaklingar sem í reynd búa saman séu skráðir hvor með sitt lögheimili til að fá hærri bætur sem einstæðir foreldrar, getur mat af þessum toga ekki verið eingöngu í aðra áttina þannig að ekki verði litið til raunverulegra aðstæðna sem leiddar verða í ljós með ótvíræðum gögnum vegna þess að sambúðin er skráð í þjóðskrá. 43. Að framangreindu virtu og að teknu tilliti til markmiðs með greiðslu heimilisuppbótar eins og það verður skýrt í ljósi fyrirmæla 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar verður að túlka 8. gr. laga nr. 99/2007 með þeim hætti að þar sé að finna efnisleg lagaskilyrði um raunverulega félagslega og fjárhagslega stöðu lífeyrisþega og hvort hann er í reynd einn um heimilisrekstur. Málsmeðferð umsóknar áfrýjanda 44. Fyrir liggur að við meðferð umsóknar sinnar um heimilisuppbót lagði áfrýjandi fram gögn um að fimm ár væru liðin frá samvistarslitum við barnsföður hennar og að þau hefðu ekki búið á sama stað eftir það. Þar á meðal var vottorð sýslumanns 1. febrúar 2016 um að sættir hefðu ekki tekist um forsjá og umgengni barna þeirra. Fram kom staðfesting Þjóðskrár Íslands um að áfrýjanda hefði verið neitað um að skrá breytingu á lögheimili þar sem ganga þyrfti frá sambúðarslitum og forsjá barnanna hjá sýslumanni. 45. Stefndi hefur ekki á neinu stigi máls vefengt frásögn áfrýjanda um að samvistarslit hafi orðið árið 2015 og hún hafi verið ein um heimilisrekstur á því tímabili sem umsókn laut að. Stefndi og síðar úrskurðarnefnd velferðarmála létu á hinn bóginn hjá líða að taka tillit til gagna, kynna sér frekar aðstæður og hagi áfrýjanda eða skoða stöðu hennar heildstætt svo sem skylt var samkvæmt þágildandi 37. gr. laga nr. 100/2007 við mat á þörf hennar fyrir heimilisuppbót. Ber einnig að skoða þá skyldu í ljósi lögskýringargagna með þessu ákvæði þar sem tekið er fram að markmið þess sé einkum að fyrirbyggja að umsækjandi fari á mis við réttindi sem hann gæti átt tilkall til. Var meðferð á máli áfrýjanda af þessum ástæðum í andstöðu við þágildandi 37. og 38. gr. laga nr. 100/2007 svo og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. 46. Með vísan til framangreindrar túlkunar á 8. gr. laga 99/2007 var stefnda og úrskurðarnefnd velferðarmála óheimilt að hafna umsókn áfrýjanda um heimilisuppbót af þeirri ástæðu einni að hún væri enn skráð í sambúð hjá Þjóðskrá Íslands. Þar sem leyst var úr umsókn áfrýjanda á röngum lagagrundvelli var slíkur efnislegur annmarki á ákvörðunum í máli hennar að taka ber til greina kröfu hennar um ógildingu úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála. Gerist þá ekki þörf á að leysa frekar úr málsástæðum áfrýjanda um að fyrrgreind niðurstaða hafi falið í sér brot á jafnræði samkvæmt 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. 47. Um málskostnað á öllum dómstigum og gjafsókn fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir en ákvæði hins áfrýjaða dóms um ákvörðun gjafsóknarkostnaðar áfrýjanda í héraði og fyrir Landsrétti verða staðfest. Dómsorð: Ógiltur er úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála 16. september 2020 sem staðfesti ákvörðun stefnda, Tryggingastofnunar ríkisins, 24. mars 2020 um að synja áfrýjanda, A, um heimilisuppbót. Stefndi greiði samtals 3.400.000 krónur í málskostnað á öllum dómstigum sem renni í ríkissjóð. Ákvæði héraðsdóms og Landsréttar um gjafsóknarkostnað eru staðfest en allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 1.000.000 króna. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=e3d5b42e-bb20-4ea6-b83c-5f00d7de1b6a&verdictid=ac16df61-44cb-4cfa-86dc-c99cb9deb757
Mál nr. 24/2023
Fæðingarorlof EES-samningurinn EFTA-dómstóllinn Ráðgefandi álit Tryggingagjald
A höfðaði mál á hendur Í og krafðist þess að felldur yrði úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála, þar sem staðfest var niðurstaða fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna í fæðingarorlofi til A. Taldi A að úrskurðurinn færi í bága við EES-samninginn. A hafði verið búsett og starfandi í Danmörku á 12 mánaða viðmiðunartímabili sem lauk sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns. Þar sem að A hafði ekki haft neinar tekjur hér á landi á tímabilinu voru henni ákvarðaðar lágmarksgreiðslur samkvæmt þágildandi lögum um fæðingar og foreldraorlof. Undir rekstri málsins í héraði var leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins með spurningum um hvort áskilið væri samkvæmt nánar tilgreindum reglum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu að EES-ríki reikni greiðslur í fæðingarorlofi eftir viðmiðunartekjum út frá heildarlaunum á vinnumarkaði á öllu svæðinu. Jafnframt hvort það bryti í bága við reglur sem þar gilda að einungis væri tekið tillit til heildarlauna á innlendum vinnumarkaði. Í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins sagði að skylda til að koma í veg fyrir að farandlaunþegar yrðu verr settir við það að nýta sér rétt til frjálsrar farar fæli í sér að bætur til þeirra skyldu vera hinar sömu og þær hefðu verið ef launþegi hefði ekki neytt þess réttar. Þar af leiðandi bæri að reikna viðmiðunartekjur launþega, vegna starfstímabils í öðru EES-ríki, út frá áætluðum tekjum launþega í sambærilegri stöðu og með sambærilega starfsreynslu og hæfi og launþegi í því ríki þar sem sótt væri um bæturnar. Hæstiréttur tók fram að þótt að ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins væru ekki bindandi að íslenskum rétti hefðu þau í réttarframkvæmd verið lögð til grundvallar við skýringu á efni EES-reglna. Að baki því væri sú grundvallarregla EES-samningsins að stuðla að samkvæmni í skýringum á EES-reglum og þar með samræmdri framkvæmd EES-samningsins. Þrátt fyrir þetta yrði að fallast á það með héraðsdómi að Fæðingarorlofssjóður hefði ekki getað virt að vettugi skýr og afdráttarlaus fyrirmæli laga nr. 95/2000 við ákvörðun um greiðslu úr sjóðnum til A. Því var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna Í.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. maí 2023. Hún krefst þess að felldur verði úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála 2. september 2020 þar sem staðfest var ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs 3. mars sama ár um áætlun greiðslna til áfrýjanda í fæðingarorlofi. Þá krefst hún málskostnaðar úr hendi stefnda á báðum dómstigum. 3. Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og áfrýjanda gert að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti. Ágreiningsefni 4. Í málinu deila aðilar um útreikning bóta til áfrýjanda úr Fæðingarorlofssjóði í kjölfar þess að hún ól barn árið 2020. Telur hún ófullnægjandi að greiðslur úr sjóðnum hafi hvorki tekið tillit til tekna sem hún aflaði í Danmörku né að litið hafi verið til stöðu hennar á íslenskum vinnumarkaði. Heldur hún því fram að ákvörðun um að hún fengi aðeins lágmarksgreiðslur í fæðingarorlofi hafi verið í andstöðu við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningurinn). Af þeim sökum beri að fella úr gildi fyrrgreindan úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála en með honum var staðfest ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs. Stefndi heldur því á hinn bóginn fram að lögum samkvæmt hafi áfrýjandi ekki átt rétt til frekari greiðslna. 5. Í héraði gerði áfrýjandi þá kröfu að bæði ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs og úrskurður nefndarinnar yrðu felld úr gildi. Héraðsdómur vísaði frá dómi kröfu áfrýjanda um að ákvörðun sjóðsins yrði felld úr gildi en sýknaði stefnda af kröfu um að fella úr gildi úrskurðinn sem staðfesti ákvörðunina. Áfrýjandi kærði ekki ákvæði dómsins um frávísun og tekur kröfugerð hennar hér fyrir dómi mið af því. 6. Leyfi til að áfrýja héraðsdómi í málinu beint til Hæstaréttar var veitt 5. maí 2023, með ákvörðun réttarins nr. 2023-52, á þeim grunni að dómur í því gæti haft fordæmisgildi, almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna og verulega samfélagslega þýðingu að öðru leyti. Var jafnframt talið að ekki væru þær aðstæður fyrir hendi sem kæmu í veg fyrir að málinu yrði áfrýjað beint til Hæstaréttar, sbr. 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, svo sem þeim var breytt með lögum nr. 134/2022. Málsatvik 7. Áfrýjandi flutti 1. september 2015 til Danmerkur þar sem hún stundaði sérfræðinám í læknisfræði auk þess að vera í fullu starfi sem læknir. Hún flutti aftur til Íslands 17. september 2019 og var þá barnshafandi. Í kjölfarið hóf hún fullt starf á Landspítalanum og var fyrsti starfsdagur hennar 30. september það ár. 8. Áfrýjandi tilkynnti Fæðingarorlofssjóði 15. janúar 2020 um tilhögun væntanlegs fæðingarorlofs. Hún sótti síðan 22. sama mánaðar um greiðslur úr sjóðnum. Með umsókninni fylgdu launaseðlar hennar frá Landspítalanum vegna nóvember og desember 2019. Jafnframt lét hún í té staðfestingu um búsetu sína í Danmörku frá árinu 2015 auk upplýsinga um laun sem hún fékk greidd þar. 9. Með bréfi 28. janúar 2020 staðfesti Fæðingarorlofssjóður móttöku á umsókn áfrýjanda og veitti henni upplýsingar um málsmeðferð og greiðslur úr sjóðnum. Umsóknin var samþykkt með ákvörðun 3. mars sama ár. Þar kom fram að mánaðarleg greiðsla næmi 80% af meðaltekjum samkvæmt skrám skattyfirvalda miðað við 12 mánaða samfellt tímabil sem lyki sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns. Þar sem áfrýjandi hefði ekki haft neinar tekjur hér á landi á því tímabili yrði mánaðarleg greiðsla til hennar 184.119 krónur á mánuði miðað við fullt fæðingarorlof. Um var að ræða lágmarksgreiðslur samkvæmt 7. mgr. 13. gr. þágildandi laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof. 10. Með bréfi 28. maí 2020 kærði áfrýjandi fyrrnefnda ákvörðun til úrskurðarnefndar velferðarmála. Með úrskurði nefndarinnar 2. september sama ár var ákvörðunin staðfest. 11. Áfrýjandi fæddi barnið 26. mars 2020 og var í fæðingarorlofi til 29. september sama ár. 12. Í málinu liggur fyrir að áfrýjandi fékk laun í Danmörku á tímabilinu frá september 2018 til ágúst 2020 eða þann tíma sem taldist viðmiðunartímabil tekna hennar samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, svo sem því ákvæði var breytt með lögum nr. 74/2008. Jafnframt er óumdeilt að þau störf hefðu veitt áfrýjanda rétt til fæðingarorlofs eftir dönskum lögum ef hún hefði búið þar áfram. Ráðgefandi álit 13. Undir rekstri málsins í héraði var að frumkvæði héraðsdóms með úrskurði 26. nóvember 2021 leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Lutu spurningar dómsins að því hvort áskilið væri samkvæmt nánar tilgreindum reglum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu að EES-ríki reikni greiðslur í fæðingarorlofi eftir viðmiðunartekjum út frá heildarlaunum á vinnumarkaði á öllu svæðinu. Jafnframt hvort það bryti í bága við reglur sem þar gilda að einungis væri tekið tillit til heildarlauna á innlendum vinnumarkaði. EFTA-dómstóllinn lét í té ráðgefandi álit sitt með dómi 29. júlí 2022 í máli nr. E-5/21. 14. Í niðurstöðu sinni tók EFTA-dómstóllinn fram að meginregluna um söfnun starfstímabila við mat á bótarétti, í samræmi við a-lið 29. gr. EES-samningsins, væri að finna í 6. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 frá 29. apríl 2004 um samræmingu almannatryggingakerfa. Reglugerð þessi var tekin upp í EES-samninginn 1. júlí 2011 með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 76/2011. Tók EFTA-dómstóllinn fram að 6. gr. reglugerðarinnar væri ætlað að tryggja að beiting réttar til frjálsrar farar leiddi ekki til þess að launþegar yrðu sviptir þeim hagsbótum almannatrygginga sem þeir hefðu notið ef þeir hefðu aðeins unnið í einu EES-ríki. Annað kynni að letja launþega á Evrópska efnahagssvæðinu til að nýta sér réttinn til frjálsrar farar og teldist hindrun á honum. Þetta lyti að bótarétti sem væri óumdeildur í tilviki áfrýjanda, en ekki útreikningi bóta. 15. Um útreikning bóta vísaði EFTA-dómstóllinn til 21. gr. reglugerðarinnar og tók fram að hann tæki mið af tekjum greiddum á innlendum vinnumarkaði, sbr. dóm Evrópudómstólsins 15. desember 2011 í máli C-257/10. Því bæri ekki að miða við tekjur sem aflað væri í öðrum EES-ríkjum. 16. Á hinn bóginn taldi EFTA-dómstóllinn það ekki samrýmast 21. gr. reglugerðarinnar, þegar tekna hefði verið aflað í öðru EES-ríki, að miða við að engra tekna hefði verið aflað í því EES-ríki þar sem sótt væri um bætur. Markmið reglugerðarinnar væri að samhæfa almannatryggingakerfi EES-ríkjanna til að tryggja að réttur fólks til frjálsrar farar væri virkur. Þar af leiðandi miðaði reglugerðin að því að koma í veg fyrir að launþegi sem hefði nýtt rétt sinn til frjálsrar farar og starfað í fleiri en einu EES-ríki, nyti lakari kjara en launþegi sem aðeins hefði starfað í einu EES-ríki nema hlutlæg rök væru fyrir því. Réttur fólks til frjálsrar farar væri skertur ef ríkisborgari EES-ríkis væri verr settur í heimaríki sínu fyrir það eitt að hafa nýtt sér þennan rétt, sbr. dóm Evrópudómstólsins 23. janúar 2020 í máli C-29/19. Túlka yrði 21. gr. reglugerðarinnar með hliðsjón af 29. gr. EES-samningsins en hún hefði verið sett vegna þess ákvæðis og til að styðja við frjálsa för launþega. 17. Í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins sagði að skylda til að koma í veg fyrir að farandlaunþegar yrðu verr settir við það að nýta sér rétt til frjálsrar farar fæli aðeins í sér að bætur til þeirra skyldu vera hinar sömu og þær hefðu verið ef launþegi hefði ekki neytt þess réttar, sbr. dóm Evrópudómstólsins 9. nóvember 2006 í máli C-205/05. Þar af leiðandi bæri samkvæmt 21. gr. reglugerðarinnar, með hliðsjón af markmiðum 29. gr. EES-samningsins, að reikna viðmiðunartekjur launþega vegna starfstímabils í öðru EES-ríki út frá áætluðum tekjum launþega í sambærilegri stöðu og með sambærilega starfsreynslu og hæfi og launþegi í því ríki þar sem sótt væri um bæturnar. Þótt EFTA-dómstóllinn teldi það verkefni íslenskra dómstóla að meta viðmiðunartekjur benti hann á að þær tekjur sem áfrýjandi hefði aflað hér á landi sex mánuðum fyrir barnsburð kynnu líklega að veita vísbendingu um sambærilegar tekjur við beitingu 21. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt þessu var svar EFTA-dómstólsins við þeim spurningum sem lagðar voru fyrir hann eftirfarandi: 6. gr. og 2. og 3. mgr. 21. gr. reglugerðar (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa áskilja ekki að þar til bær stofnun EES-ríkis skuli reikna bótafjárhæð, í máli líkt og því sem er til meðferðar hjá landsdómstólnum, á grundvelli tekna sem aflað var í öðru EES-ríki. Samkvæmt 2. og 3. mgr. 21. gr. reglugerðar (EB) nr. 883/2004, með hliðsjón af markmiði 29. gr. EES-samningsins, skal þó miða fjárhæð bóta, líkt og þeirra sem um ræðir í málinu sem er til meðferðar hjá landsdómstólnum, sem veittar eru farandlaunþega sem aðeins aflaði tekna í öðru EES-ríki á því tímabili sem miðað er við samkvæmt landslögum, við tekjur launþega með sambærilega starfsreynslu og hæfi og sem gegnir svipuðu starfi í því EES-ríki þar sem sótt er um bætur. Málsástæður Helstu málsástæður áfrýjanda 18. Áfrýjandi heldur því fram að niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála um að staðfesta ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um lágmarksgreiðslur til hennar í fæðingarorlofi fari í bága við EES-samninginn og þær reglur sem af honum leiða. Af þeim sökum beri að fella úrskurðinn úr gildi. 19. Áfrýjandi telur það andstætt grundvallarreglu EES-samningsins um frjálsa fólksflutninga og frjálsa för launþega á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 28. gr. samningsins, að taka hvorki tillit til þeirra launa sem hún aflaði í Danmörku á viðmiðunartímabili tekna hennar samkvæmt 2. mgr. 13. gr. þágildandi laga nr. 95/2000 né stöðu hennar á íslenskum vinnumarkaði eftir að hún flutti til landsins. Einnig fari slík tilhögun í bága við 29. gr. samningsins en samkvæmt ákvæðinu beri á sviði almannatrygginga, í samræmi við VI. viðauka samningsins, að leggja saman öll tímabil sem taka ber til greina samkvæmt lögum hinna ýmsu landa til að öðlast og viðhalda bótarétti, svo og reikna fjárhæð bóta. 20. Áfrýjandi vísar til þess að skýra beri lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Af því leiði að gefa verði lögum eftir fremsta megni þá merkingu sem rúmast innan marka þeirra og kemst næst því að svara til sameiginlegra reglna á Evrópska efnahagssvæðinu. Einnig sé þess að gæta að EES-samningurinn hafi lagagildi hér á landi, sbr. 2. gr. sömu laga. Auk þess hvíli sú þjóðréttarlega skuldbinding á Íslandi samkvæmt bókun 35 við samninginn að veita ákvæði sem EES-regla er innleidd með forgang gagnvart öðru lagaákvæði ef ósamræmi er þar á milli. Þá bendir áfrýjandi á að sérstaklega hafi verið áréttað í 34. gr. laga nr. 95/2000 að við framkvæmd þeirra skyldi taka tillit til milliríkjasamninga á sviði almannatrygginga og félagsmála sem Ísland eigi aðild að en EES-samningurinn sé af þeim toga. 21. Áfrýjandi bendir á að í ljósi ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í málinu þurfi ekki að líta til tekna áfrýjanda í Danmörku heldur skuli miðað við laun fyrir sambærilegt starf á innlendum vinnumarkaði. Að þessu gættu telur hún að skýra megi samspil EES-reglna og íslenskra laga þannig að miða beri við laun í sambærilegu starfi og launþegi gegni hér á landi feli það í sér hærri bætur fyrir farandlaunþega en leiðir af 13. gr. laga nr. 95/2000. Annað færi í bága við EES-samninginn sem hafi lagagildi hér á landi. 22. Verði ekki talið unnt að túlka 13. gr. laga nr. 95/2000 til samræmis við EES-samninginn telur áfrýjandi að sú niðurstaða sem samrýmist honum eigi að ganga framar lögunum. Í því sambandi leggur hún áherslu á rétt launþega til frjálsrar farar samkvæmt 28. gr. EES-samningsins en sá réttur verði í raun ekki tryggður ef launþegar fari á mis við réttindi með því að nýta sér hann. Til að tryggja þennan rétt sé í 29. gr. samningsins mælt fyrir um að réttur til bóta stofnist og bætur séu greiddar þrátt fyrir flutninga milli ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu. Þessar reglur sem hafi lagagildi hér á landi beri að virða sem sérreglur og almennar reglur 13. gr. laga nr. 95/2000 víki fyrir þeim. Helstu málsástæður stefnda 23. Stefndi bendir á að samkvæmt 2. mgr. 13. gr. þágildandi laga nr. 95/2000 hafi mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanna numið 80% af heildarlaunum á tólf mánaða samfelldu tímabili sem hafi lokið sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns. Tekið hafi verið fram að einungis skyldi miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði á umræddu tímabili. Samkvæmt þessum ákvæðum telur stefndi vafalaust að áfrýjandi hafi aðeins átt rétt á lágmarksgreiðslum úr sjóðnum, sbr. 7. mgr. 13. gr. laganna. Þessi niðurstaða leiði beint af lögunum hvað sem líði reglum EES-samningsins. 24. Stefndi vísar til þess að samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 95/2000 hafi Fæðingarorlofssjóður verið fjármagnaður með tryggingagjaldi, sbr. lög um tryggingagjald nr. 113/1990, auk vaxta af innstæðufé sjóðsins. Ekki hafi verið greitt tryggingagjald af þeim tekjum sem áfrýjandi hafi aflað í Danmörku á viðmiðunartíma samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 og því hafi þær að réttu lagi ekki haft áhrif á greiðslur til hennar úr sjóðnum. Jafnframt hafi ekki staðið nein heimild að lögum til að taka tillit til stöðu hennar á íslenskum vinnumarkaði eftir að hún flutti til landsins. 25. Stefndi tekur fram að áfrýjandi hafi í stefnu til héraðsdóms ekki byggt málatilbúnað sinn á því að miða ætti greiðslur í fæðingarorlofi við tekjur launþega hér á landi með sambærilega starfsreynslu, hæfi og í svipuðu starfi og hún. Þetta hefði þó verið henni í lófa lagið þar sem hún hafi í stefnu vísað til dómafordæma Evrópudómstólsins um svipuð álitaefni. Því hafi áfrýjanda verið kunnugt um niðurstöður þess dómstóls sem gefið hafi henni tilefni til að byggt yrði á þeirri málsástæðu í öndverðu. Þessari málsástæðu sé því mótmælt sem of seint fram kominni. Löggjöf og réttarframkvæmd Lög um fæðingar- og foreldraorlof 26. Í 13. gr. þágildandi laga nr. 95/2000 var fjallað um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Þegar áfrýjandi var í fæðingarorlofi hljóðuðu svo þau ákvæði greinarinnar í 1., 2., 4. og 7. mgr. sem reynir á við úrlausn málsins, eins og lögunum hafði verið breytt með lögum nr. 90/2004, 74/2008, 143/2012, 136/2011 og 140/2013: [1] Foreldri, sbr. 1. mgr. 1. gr., öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns [...] [2] Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns, sbr. 2. mgr. 7. gr., í fæðingarorlofi skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns [...] Einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a [...] Aldrei skal þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna. [...] [4] Þegar starfsmaður uppfyllir skilyrði 1. mgr. en hefur ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabili skv. 2. mgr. skal hann öðlast rétt til lágmarksgreiðslna skv. 7. mgr. í samræmi við starfshlutfall hans. [...] [7] Greiðsla í fæðingarorlofi til foreldris [...] í 50–100% starfi í hverjum mánuði skal aldrei vera lægri en sem nemur 135.525 kr. á mánuði. 27. Í 8. mgr. 13. gr. fyrrgreindra laga var heimild fyrir ráðherra til að hækka lágmarksgreiðslu eftir 7. mgr. með reglugerð. Samkvæmt 6. mgr. 3. gr. þágildandi reglugerðar nr. 1218/2008 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, svo sem henni var breytt með reglugerð nr. 1238/2019, nam þessi fjárhæð 184.119 krónum á mánuði í fæðingarorlofi áfrýjanda. 28. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að áðurnefndum lögum nr. 90/2004 og breyttu 13. gr. laga nr. 95/2000 sagði að lagt væri til að kveðið yrði skýrt á um að ekki skyldi taka tillit til tekna sem foreldri hefði unnið til „utan innlends vinnumarkaðar“. Ekki væri um að ræða efnisbreytingu heldur einungis verið að treysta framkvæmd laganna. Einnig kom fram í athugasemdunum, í samhengi við öflun réttar til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, að foreldri þyrfti að hafa starfað á innlendum vinnumarkaði þann tíma sem tæki að ávinna sér þann rétt. Í ljósi þess að Fæðingarorlofssjóður væri fjármagnaður með tryggingagjaldi væri eðlilegra að foreldri hefði unnið þann tíma á innlendum vinnumarkaði þannig að greitt hefði verið af tekjum þess tryggingagjald í tiltekinn lágmarkstíma. 29. Í athugasemdum með frumvarpi sem varð að fyrrgreindum lögum nr. 74/2008, er einnig breyttu 13. gr. laga nr. 95/2000, kom fram að áfram væri gert ráð fyrir að miða skyldi við meðalheildarlaun foreldris fyrir það tímabil sem það hefði verið á „innlendum vinnumarkaði“ ef það hefði ekki verið á vinnumarkaði á öllu viðmiðunartímabilinu. Jafnframt sagði að áfram yrði tekið fram í lögunum að ekki skyldi taka tillit til tekna sem foreldrar hefðu unnið til „utan innlends vinnumarkaðar“. 30. Um milliríkjasamninga var fjallað í 34. gr. laga nr. 95/2000 en ákvæðið var svohljóðandi: Við framkvæmd laga þessara skal tekið tillit til milliríkjasamninga á sviði almannatrygginga og félagsmála sem Ísland er aðili að. 31. Í skýringum við þetta ákvæði í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 95/2000 kom fram að einkum væri vísað til EES-samningsins. Með ákvæðinu ætti að tryggja að framkvæmd laganna yrði í samræmi við gerðir á sviði almannatrygginga og félagsmála sem hefðu orðið eða yrðu hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. 32. Með lögum nr. 74/2008 var gerð sú breyting á 13. gr. laga nr. 95/2000 að taka bæri tillit til starfstíma foreldris í öðru aðildarríki að EES-samningnum við mat á því hvort það ætti rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, enda hefðu störf þess veitt því rétt samkvæmt lögum þess ríkis um fæðingarorlof. Í lögskýringargögnum kom fram að þessi breyting væri gerð til samræmis við EES-samninginn og þær gerðir sem felldar hefðu verið undir VI. viðauka við hann. Aftur á móti kom ekki fram í lögskýringargögnum hvernig þjóðréttarlegar skuldbindingar horfðu við með tilliti til útreikninga á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Jafnframt var með lögum nr. 136/2011 gerð breyting á 13. gr. laganna til að tryggja samræmi við EES-samninginn þannig að rýmkuð var heimild til að líta til starfa í öðru EES-ríki með tilliti til þess hvort réttur stofnaðist til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. 1. mgr. sömu greinar. Í lögskýringargögnum vegna þeirrar lagasetningar kom fram að helsta tilefni breytinganna væru athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA sem lutu að samlagningu starfstímabila foreldra sem flyttust milli EES-ríkja en ekki var þar heldur vikið að útreikningi greiðslna úr sjóðnum með tilliti til EES-reglna. 33. Lög nr. 95/2000 voru leyst af hólmi með gildandi lögum nr. 144/2020 um sama efni. Að því leyti sem hér hefur verið rakið eru þau óbreytt frá því sem var í tíð eldri laga. Lög um Evrópska efnahagssvæðið 34. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 2/1993 hefur meginmál EES-samningsins, auk nánar tilgreindra gerða, lagagildi hér á landi. Í 3. gr. samningsins skuldbinda aðildarríki hans sig til að gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að staðið verði við þær skuldbindingar sem af honum leiða og varast ráðstafanir sem teflt geta í tvísýnu að markmiðum samningsins verði náð. Í 7. gr. hans kemur síðan fram að gerðir sem vísað er til eða er að finna í viðaukum við hann eða ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar bindi samningsaðila séu þær eða verði teknar upp í landsrétt með nánar tilgreindum aðferðum. 35. Samkvæmt 119. gr. EES-samningsins eru bókanir við samninginn óaðskiljanlegur hluti hans. Af því leiðir að þær hafa sama gildi og meginmál samningsins að þjóðarétti. Í bókun 35 er fjallað um framkvæmd EES-reglna en hún er svohljóðandi með formálsorðum: Þar eð með samningi þessum er stefnt að einsleitu Evrópsku efnahagssvæði sem byggist á sameiginlegum reglum, án þess að samningsaðila sé gert að framselja löggjafarvald til stofnana Evrópska efnahagssvæðisins; og þar eð þessum markmiðum verður því að ná með þeirri málsmeðferð sem gildir í hverju landi um sig; Stök grein Vegna tilvika þar sem getur komið til árekstra á milli EES-reglna sem komnar eru til framkvæmdar og annarra settra laga, skuldbinda EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum. 36. Í því skyni að fullnægja þeim skuldbindingum sem felast í bókun 35 var svohljóðandi regla lögfest í 3. gr. laga nr. 2/1993: Skýra skal lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. 37. Í skýringum við þetta ákvæði í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 2/1993 kom fram að innlend lög sem ættu sér stoð í EES-samningnum yrðu jafnan túlkuð sem sérreglur laga gagnvart ósamræmanlegum yngri lögum að því leyti að yngri lög vikju þeim ekki ef þau stönguðust á nema löggjafinn tæki það sérstaklega fram. Þetta væri nauðsynlegt til þess að tryggja samræmi í reglum á Evrópska efnahagssvæðinu. Í bókun 35 væri og skýrt tekið fram að þessi skýringarregla skyldi ekki hafa í för með sér framsal á löggjafarvaldi og væri 3. gr. við það miðuð. Um samspil EES-reglna og landsréttar 38. Fyrrgreind regla í 3. gr. laga nr. 2/1993 um að skýra skuli lög og reglur til samræmis við EES-reglur byggist á þeirri rótgrónu lögskýringarreglu norræns réttar að lög skuli túlka til samræmis við þjóðréttarlegar skuldbindingar. Að baki þessu býr að almennt verður að gera ráð fyrir að löggjafinn hafi metið gildandi lög í samræmi við slíkar skuldbindingar þegar undir þær var gengist og gætt hafi verið að þeim við síðari lagasetningu. Í nokkrum mæli hefur reynt á skýringu laga með tilliti til EES-reglna eins og hér verður nánar rakið. 39. Í dómi Hæstaréttar 9. desember 2010 í máli nr. 79/2010 reyndi á hlutlæga skaðabótaábyrgð dreifingaraðila á vöru vegna skaðsemistjóns samkvæmt 10. gr. laga nr. 25/1991 um skaðsemisábyrgð. Í málinu lá fyrir að slík ábyrgð dreifingaraðila var í ósamræmi við EES-reglur eins og þær höfðu verið túlkaðar í dómi Evrópudómstólsins 10. janúar 2006 í máli C-402/03. Hæstiréttur tók fram að lögskýring eftir 3. gr. laga nr. 2/1993 tæki eðli máls samkvæmt til þess að orðum í íslenskum lögum yrði svo sem framast væri unnt gefin merking sem rúmaðist innan þeirra og næst kæmist því að svara til sameiginlegra reglna sem giltu á Evrópska efnahagssvæðinu. Hún gæti á hinn bóginn ekki leitt til þess að litið yrði fram hjá orðum íslenskra laga. Orð 10. gr. laga nr. 25/1991, eins og þau hljóðuðu á þessum tíma, um beina ábyrgð dreifingaraðila á skaðsemistjóni gagnvart tjónþola, hefðu ótvíræða merkingu og gæfu ekkert svigrúm til að hliðra þeirri ábyrgð með skýringu samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993. Þessi niðurstaða um að lögskýring gæti ekki leitt til þess að litið yrði fram hjá orðum íslenskra laga hefur síðan ítrekað verið staðfest, sbr. dóma réttarins 24. janúar 2013 í máli nr. 10/2013, 10. maí 2013 í máli nr. 306/2013, 2. október 2014 í máli nr. 92/2013 og 26. nóvember 2015 í máli nr. 243/2015. Einnig má vísa til dóma Hæstaréttar 24. maí 2006 í máli nr. 274/2006, 15. júlí 2014 í máli nr. 429/2014 og 5. maí 2015 í máli nr. 291/2015. Í síðastgreindum þremur málum var því hafnað að leita eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins um hvort sú refsiábyrgð sem reyndi á væri ósamrýmanleg reglum EES-samningsins. Um það sagði að hún færi eftir íslenskum lögum án þess að vísað væri sérstaklega til 3. gr. laga nr. 2/1993. 40. Ef ókleift er að skýra íslensk lög til samræmis við EES-samninginn þannig að ósamræmi skapist annars vegar á milli lagareglu sem ætlað er að innleiða EES-reglu hér á landi og hins vegar annarrar lagareglu þarf að leysa úr því hvor reglan ráði niðurstöðu um það atriði sem er til úrlausnar. Hér reynir á forgangsreglur sem leysa úr slíkum árekstri til að koma í veg fyrir tvær eða fleiri niðurstöður um sama tilvik. Þessar forgangsreglur geta bæði verið skráðar og óskráðar. Sem dæmi um þær síðarnefndu má nefna regluna um að æðri reglur gangi fyrir lægra settum reglum (lex superior) en samkvæmt henni ganga stjórnlög framar almennum lögum og almenn lög framar almennum stjórnvaldsfyrirmælum. Einnig gildir sú óskráða forgangsregla að sérregla gangi framar almennri reglu (lex specialis) en mjög matskennt getur verið hvenær regla telst almenn og hvenær sértæk. Þá er einnig óskráð forgangsregla að yngri lög gangi framar eldri lögum (lex posterior). Til viðbótar við þessar reglur gilda síðan skráðar forgangsreglur af ýmsu tagi. Má í dæmaskyni nefna 18. gr. laga nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningarréttar, 93. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga og 210. gr. laga nr. 80/2022 um loftferðir en allar þessar reglur varða þjóðréttarsamninga. 41. Í dómi Hæstaréttar 15. maí 2003 í máli nr. 477/2002 var, í ljósi 3. gr. laga nr. 2/1993 og lögskýringargagna um það ákvæði, komist að þeirri niðurstöðu að 2. mgr. 14. gr. EES-samningsins um bann við skattlagningu, sem væri til þess fallin að vernda óbeint framleiðsluvörur eins samningsaðila gagnvart framleiðsluvörum annarra aðila samningsins, bæri að skýra sem sérreglu um skattalega meðferð á innflutningi frá öðrum EES-ríkjum er gengi framar eldra ákvæði í lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Eftir að EES-samningnum var veitt lagagildi með lögum nr. 2/1993 hefði því verið óheimilt að gera greinarmun á bókum á íslensku og öðrum tungumálum við álagningu virðisaukaskatts. Að frátöldum þessum dómi eru þess ekki dæmi að Hæstiréttur hafi talið löggjöf sem innleiddi EES-reglu ganga framar öðrum lögum. Þvert á móti má hér nefna dóm réttarins 6. apríl 2006 í máli nr. 220/2005 en þar vísaði Hæstiréttur til forsendna héraðsdóms þess efnis að beitt yrði tilteknum ákvæðum laga nr. 6/2002 um tóbaksvarnir þótt komist yrði að þeirri niðurstöðu að þau færu í bága við 11. eða 36. gr. EES-samningsins. Hér má einnig benda á þá dóma réttarins sem áður er vikið að í 39. lið dómsins. 42. Ef frá er talinn fyrrgreindur dómur Hæstaréttar í máli nr. 477/2002 hefur 3. gr. laga nr. 2/1993 í dómaframkvæmd réttarins aðeins verið talin fela í sér reglu við lögskýringu um túlkun laga til samræmis við EES-samninginn. Þannig hefur ekki verið lagt til grundvallar að það ákvæði feli í sér almenna forgangsreglu í samræmi við bókun 35 við samninginn. 43. Ef einstaklingar eða lögaðilar fara á mis við að njóta réttinda sinna á grundvelli þjóðréttarlegra skuldbindinga samkvæmt EES-samningnum getur reynt á skaðabótaskyldu íslenska ríkisins að fullnægðum skilyrðum sem um hana gilda, sbr. dóm Hæstaréttar 16. desember 1999 í máli nr. 236/1999 og fleiri dóma þar sem reynt hefur á þá bótaábyrgð. Eftir atvikum getur þetta kallað á viðbrögð Eftirlitsstofnunar EFTA samkvæmt 31. gr. samnings milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Niðurstaða Aðild og málatilbúnaður 44. Dómkröfur áfrýjanda fyrir Hæstarétti lúta að því að felldur verði úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála 3. september 2020 og beinir hún þeirri kröfu að íslenska ríkinu. Í 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála segir að hún skuli úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt sé fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til hennar. Hún sé sjálfstæð og óháð í störfum sínum. Í 2. gr. laganna er kveðið á um skipan hennar. Þá segir í 1. mgr. 3. gr. að formaður nefndarinnar gegni jafnframt embætti forstöðumanns hennar, hafi yfirstjórn með höndum og beri ábyrgð á fjárhag og daglegum rekstri. Hann fari með fyrirsvar nefndarinnar út á við og ráði starfsfólk. Samkvæmt því fullnægir úrskurðarnefndin kröfum um að teljast aðildarhæf. Samkvæmt 4. mgr. 7. gr. fyrrnefndra laga eru úrskurðir nefndarinnar endanlegir á stjórnsýslustigi og verður ekki skotið til æðra stjórnvalds. Hún starfar þannig sem æðra stjórnvald. 45. Í dómi Hæstaréttar 30. mars 2000 í máli nr. 324/1999 sagði að ekki yrði talið að unnt væri með dómi að ógilda stjórnvaldsákvörðun nema því stjórnvaldi sem ákvörðun hefði tekið, væri stefnt til varnar í málinu. Vísað hefur verið til þessa dóms í síðari dómum réttarins. Þrátt fyrir það hefur skapast um það nokkur festa í dómaframkvæmd að sjálfstæðar stjórnsýslu- og úrskurðarnefndir á kærustigi eigi ekki aðild að dómsmálum sem rekin eru um úrskurði þeirra. Hefur verið talið rétt að beina kröfum um gildi þeirra að því stjórnvaldi sem tók ákvörðun á lægra stjórnsýslustigi, sbr. dóm Hæstaréttar 17. febrúar 1997 í máli nr. 63/1997 sem birtur er á bls. 643 í dómasafni réttarins það ár og dóma réttarins 21. mars 2002 í máli nr. 378/2001 og 14. desember 2001 í máli nr. 431/2001. Þessi dómaframkvæmd er hins vegar hvorki undantekningalaus né hafin yfir gagnrýni þar sem æðra stjórnvald hefur að jafnaði sjálfstæða rannsóknarskyldu og niðurstaða þess sem til úrlausnar er fyrir dómi kann að vera andstæð niðurstöðu þess lægra setta og byggð á öðrum gögnum og röksemdum. Aðild æðra setts stjórnvalds að dómsmáli í stað þess lægra setta getur því ekki aðeins haft formlega þýðingu heldur einnig efnislega. 46. Í dómi Hæstaréttar 1. nóvember 2023 í máli nr. 16/2023 var sú staða uppi að lægra settu stjórnvaldi var stefnt þótt ákvörðun þess hefði verið endurskoðuð af innviðaráðherra sem æðra stjórnvaldi. Í dóminum sagði að þegar mál væru á forræði sjálfstæðra ríkisstofnana hefði dómaframkvæmd verið nokkuð á reiki um hvort beina skyldi málsókn að viðkomandi stofnun einni, einungis að ríkinu eða að báðum aðilum. Hæstiréttur taldi að réttara hefði verið í ljósi atvika máls og kröfugerðar að reka málið samhliða gegn íslenska ríkinu, meðal annars vegna þess að innviðaráðherra kvað upp endanlegan úrskurð í málinu. Ekki voru þó talin nægjanleg efni til þess að vísa því frá héraðsdómi. 47. Í þessu máli er hvorki lægra né æðra setta stjórnvaldinu sem ákvörðun tóku á stjórnsýslustigi stefnt til að þola dóm um ógildingu úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála heldur íslenska ríkinu. Um slíka aðild má vísa til dóms Hæstaréttar 14. apríl 2011 í máli nr. 500/2010 en í því var Póst- og fjarskiptastofnun stefnt fyrir hönd Jöfnunarsjóðs alþjónustu. Í dóminum kom fram að máli skyldi að meginreglu beint að íslenska ríkinu þótt það varðaði atriði sem heyrðu undir sérstaka stofnun þess eða sjóð, enda væri ekki mælt á annan veg í lögum eða viðkomandi stofnun eða sjóður lyti sjálfstæðri stjórn. Ekki var talið að þær undantekningar ættu við og var málinu vísað frá héraðsdómi vegna brests á aðildarhæfi sjóðsins. 48. Við úrlausn um aðild í máli þessu má líta til þess að dómaframkvæmd um aðild stjórnvalda í málum sem lúta að gildi úrskurðar æðra setts stjórnvalds, sem endurskoðað hefur ákvörðun lægra stjórnvalds, hefur verið talsvert á reiki og almenn lagafyrirmæli skortir. Þá má líta til þess að í 3. gr. laga nr. 95/2000 sagði að ráðherra færi með yfirstjórn fæðingar- og foreldraorlofsmála samkvæmt lögunum svo og að í 1. og 2. mgr. 4. gr. var kveðið á um að Fæðingarorlofssjóður skyldi vera í vörslu Vinnumálastofnunar sem sæi um reikningshald og daglega afgreiðslu hans í umboði ráðherra. Ekki var mælt fyrir í lögunum að Fæðingarorlofssjóður hefði sérstakan fyrirsvarsmann eða lyti sérstakri stjórn. Sjóðurinn telst því ekki hafa aðildarhæfi. Vinnumálastofnun sem samkvæmt framansögðu hefur ákvörðunarvald yfir sjóðnum hefur aftur á móti forstöðumann og sérstaka stjórn samkvæmt 4. og 5. gr. laga nr. 55/2006 um vinnumarkaðsaðgerðir og nýtur því aðildarhæfis. Þótt réttilega hefði átt að beina kröfum í máli þessu jafnframt að Vinnumálastofnun er með vísan til alls framangreinds og sérstaklega fyrrgreinds dóms Hæstaréttar í máli nr. 16/2023 ekki næg ástæða til að vísa því frá dómi af sjálfsdáðum. 49. Eins og áður greinir reisir áfrýjandi kröfu sína um að felldur verði úr gildi umræddur úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála á því að niðurstaða hans fari í bága við EES-samninginn og þær reglur sem af honum leiða. Til stuðnings þessu vísaði áfrýjandi í héraðsdómsstefnu til 28. gr. samningsins um frjálsa fólksflutninga og frjálsa för launþega á Evrópska efnahagssvæðinu. Jafnframt vísaði hún þar til 29. gr. samningsins sem ætlað væri að tryggja að launþegar sem nýttu sér rétt til frjálsrar farar væru ekki sviptir bótum sem þeir hefðu ella notið. Enn fremur nefndi hún fyrrgreinda reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 sem hefur að geyma nánari fyrirmæli til að samhæfa almannatryggingakerfi EES-ríkja svo að tryggt sé að réttur fólks til frjálsrar farar sé virkur. Eftir að aflað hafði verið ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins hefur áfrýjandi jafnframt haldið því fram að miða ætti bætur til hennar í fæðingarorlofi við tekjur launþega hér á landi með sambærilega starfsreynslu, hæfi og í svipuðu starfi og áfrýjandi. 50. Að því leyti sem hér hefur verið rakið er málatilbúnaður áfrýjanda í samræmi við lögskýringu EFTA-dómstólsins á viðeigandi EES-reglum. Áfrýjandi breytti að þessu leyti áherslum í málatilbúnaði sínum jafnskjótt og tilefni var til en þær rúmast jafnframt innan þeirrar meginmálsástæðu hennar að með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála hafi verið farið á svig við EES-samninginn og þær reglur sem af honum leiða. Verður áfrýjandi því ekki talin hafa raskað grundvelli málsins þannig að það hafi gert stefnda erfitt fyrir að halda uppi vörnum í málinu. Er þá haft í huga að í lögum nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið er gert ráð fyrir að slíks álits sé aflað eftir að mál hefur verið höfðað. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á það með stefnda að málatilbúnaður áfrýjanda að þessu leyti fari í bága við 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991. Um greiðslur til áfrýjanda úr Fæðingarorlofssjóði 51. Við úrlausn um beiðni áfrýjanda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði var lagt til grundvallar í samræmi við 1. og 12. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 að áfrýjandi hefði öðlast rétt til greiðslna úr sjóðnum. Eins og áður segir lýtur ágreiningur málsins að útreikningi greiðslna. 52. Svo sem áður er rakið komst EFTA-dómstóllinn að þeirri niðurstöðu í ráðgefandi áliti sínu 29. júlí 2022 að samkvæmt 2. og 3. mgr. 21. gr. reglugerðar (EB) nr. 883/2004, með hliðsjón af markmiði 29. gr. EES-samningsins, skyldi miða fjárhæð bóta, eins og þeirra sem mál þetta lýtur að, sem veittar væru farandlaunþega er aðeins aflaði tekna í öðru EES-ríki, á því tímabili sem miðað væri við eftir landslögum, við tekjur launþega með sambærilega stöðu á vinnumarkaði og í því EES-ríki þar sem sótt væri um bætur. Þær EES-reglur sem hér er vísað til hafa verið leiddar í íslenskan rétt með annars vegar 2. gr. laga nr. 2/1993 sem lögfesti meginmál EES-samningsins og hins vegar reglugerð nr. 442/2012 um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar, en þar var í 1. gr. mælt fyrir um að reglugerð (EB) nr. 883/2004 öðlaðist gildi hér á landi. Reglugerð nr. 442/2012 var meðal annars sett á grundvelli heimildar í 35. gr. laga nr. 95/2000. 53. Þótt ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins séu ekki bindandi að íslenskum rétti hafa þau í réttarframkvæmd verið lögð til grundvallar við skýringu á efni EES-reglna. Að baki býr sú grundvallarregla EES-samningsins og laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið að stuðla beri að samkvæmni í skýringum á EES-reglum og þar með samræmdri framkvæmd EES-samningsins. Markmiðið með því er að mynda öflugt og einsleitt Evrópskt efnahagssvæði sem grundvallast á sameiginlegum reglum og sömu samkeppnisskilyrðum eins og fram kemur í aðfaraorðum EES-samningsins. Að þessu gættu verður lagt til grundvallar að sú skuldbinding leiði af samningnum að fjárhæð greiðslna til foreldris í fæðingar- og foreldraorlofi eigi að ákveða með hliðsjón af tekjum launþega með sambærilega stöðu á innlendum vinnumarkaði. 54. Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 skyldi mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og bar þá að miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lyki sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns. Í ákvæðinu var tekið fram að einungis ætti að miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefði verið á innlendum vinnumarkaði en aldrei skyldi miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna. Í 4. mgr. sömu greinar kom síðan fram að starfsmaður, sem öðlast hefði rétt til greiðslna úr sjóðnum en ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabilinu, skyldi öðlast rétt til lágmarksgreiðslna samkvæmt 7. mgr. greinarinnar í samræmi við starfshlutfall sitt. Eins og áður er rakið var sérstaklega áréttað í lögskýringargögnum að við greiðslu úr sjóðnum skyldi ekki tekið tillit til tekna sem foreldri aflaði erlendis heldur skyldi aðeins miðað við meðalheildarlaun þess á innlendum vinnumarkaði. Að baki þessu bjó að Fæðingarorlofssjóður var samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laganna fjármagnaður með tryggingagjaldi en slíkt gjald var ekki greitt af launum sem aflað var erlendis. 55. Svo sem hér hefur verið rakið er beinlínis gert ráð fyrir því í lögum nr. 95/2000 að launþegi sem flytur til landsins frá öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu fái ekki notið greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sem taki mið af launum hér á landi fyrir sambærilegt starf og hann gegndi á viðmiðunartímabili. Er hann þannig verr settur en launþegi sem starfað hefði hér á landi. Aftur á móti var gerð breyting á lögunum með lögum nr. 74/2008 og nr. 136/2011 til að tryggja að starfstímabil í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu teldist til ávinnslutímabils til að réttur skapaðist til greiðslu úr sjóðnum samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laganna. Með þessu var komið til móts við skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum að því er varðaði ávinnslu réttar til að fá greitt úr sjóðnum án þess þó að gerðar væru breytingar til samræmis við samninginn til að koma í veg fyrir að launþegi frá öðru EES-ríki yrði verr settur hvað fjárhæð greiðslna úr sjóðnum varðaði með flutningi til landsins. Að því leyti var sú skuldbinding ekki innleidd með því að haga lögum nr. 95/2000 til samræmis við hana. Verður heldur ekki talið að þessu verði hliðrað með skýringu til samræmis við EES-samninginn andstætt skýru og ótvíræðu orðalagi laga sem gefa ekkert svigrúm til þess, sbr. þá dóma sem raktir eru í 39. lið dómsins. 56. Í samræmi við það sem hér hefur verið rakið verður fallist á það með héraðsdómi að Vinnumálastofnun sem fer með Fæðingarorlofssjóð hafi ekki getað virt að vettugi skýr og afdráttarlaus fyrirmæli laga nr. 95/2000 við ákvörðun um greiðslu úr sjóðnum til áfrýjanda. Er þá jafnframt haft í huga að lögin hafa að geyma sérreglur um sjóðinn og þau eru yngri en lög nr. 2/1993 sem veittu EES-samningnum lagagildi. Jafnframt var reglugerð (EB) nr. 883/2004, sem tekin var upp í samninginn, aðeins innleidd með almennum stjórnvaldsfyrirmælum án þess að gerðar væru samhliða breytingar á lögum nr. 95/2000 til samræmis við umrædda skuldbindingu til greiðslu úr sjóðnum sem leiðir af samningnum. Samkvæmt öllu framansögðu verður staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að sýkna beri stefnda af kröfu áfrýjanda um að felldur verði úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála 2. september 2020. Jafnframt verður staðfest ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og málskostnaður fyrir Hæstarétti felldur niður. Dómsorð: Stefndi, íslenska ríkið, er sýknað af kröfu áfrýjanda, A, um að felldur verði úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála 2. september 2020 þar sem staðfest var ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs 3. mars sama ár um áætlun greiðslna til hennar úr sjóðnum í fæðingarorlofi. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað skal vera óraskað. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. https://www.heradsdomstolar.is/default.aspx?pageid=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&id=0bb1c562-240e-4f56-ad88-4c7e46029250
Mál nr. 33/2023
Húsaleigusamningur Vanefnd Áhættuskipti Force majeure Túlkun samnings Brostnar forsendur Stjórnunarábyrgð Ógilding samnings
Með leigusamningi til 20 ára leigði Í ehf. til F ehf. fasteign undir hótelrekstur. Vegna aðstæðna sem rekja mátti til heimsfaraldurs Covid-19 lokaði F ehf. hótelinu í apríl 2020. Í málinu krafðist F ehf. að endurgjaldsákvæði leigusamnings aðila yrði breytt á tímabilinu apríl 2020 til mars 2021. Í ehf. krafðist hins vegar greiðslu leigu fyrir tímabilið apríl 2020 til september sama ár. Hæstiréttur féllst ekki á að sjónarmið um áhættuskipti, stjórnunarábyrgð, brostnar forsendur eða regla 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga skyldu leiða til breytinga á samningi eða skyldum til greiðslu leigu. Leigusamningurinn hafði að geyma sérstakt ákvæði um force majeure aðstæður sem áhrif gæti haft í tilviki greiðslufalls F ehf. Atvik þóttu vera með þeim hætti að skilyrði samningsákvæðisins voru talin uppfyllt þannig að greiðslufall F ehf. frá 1. apríl 2020 til 31. mars 2021 þóttu ekki hafa falið í sér vanefnd. Á hinn bóginn var fallist á þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að það leysi F ehf. ekki undan þeirri skyldu að greiða kröfuna eftir að því ástandi lauk. F ehf. var dæmt til að greiða Í ehf. leiguskuldina með dráttarvöxtum frá þeim tíma er efndahindrun samkvæmt samningsákvæðinu lauk.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. 2. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. júní 2023. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og að ákvæði greinar 6.1 um leigufjárhæð í leigusamningi aðila 2. júlí 2013 verði tímabundið vikið til hliðar. Nánar tiltekið að fullu frá 1. apríl 2020 til og með 31. desember sama ár þannig að aðaláfrýjanda beri ekki skylda til að greiða leigu til gagnáfrýjanda á framangreindu tímabili en frá 1. janúar 2021 til 31. mars sama ár verði sér aðeins gert að greiða 20% leigufjárhæðar hvers mánaðar, að viðbættri verðtryggingu auk virðisaukaskatts, að fjárhæð 11.709.004 krónur vegna janúar, 11.732.935 krónur vegna febrúar og 11.725.755 krónur vegna mars 2021, eða samtals 35.167.694 krónur. Þá krefst hann þess að dráttarvextir verði fyrst dæmdir af leigufjárhæð einum mánuði eftir uppsögu dóms Hæstaréttar. Loks krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum. 3. Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 21. ágúst 2023. Hann krefst sýknu af kröfum aðaláfrýjanda og að honum verði gert að greiða sér 419.889.800 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 56.726.332 krónum frá 1. apríl 2020 til 1. maí sama ár, af 113.584.281 krónu frá þeim degi til 1. júní 2020, af 189.654.851 krónu frá þeim degi til 1. júlí 2020, af 266.139.627 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2020, af 342.958.955 krónum frá þeim degi til 1. september 2020 og af 419.889.800 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum 15. apríl 2020 að fjárhæð 11.345.266 krónur og 9. apríl 2021 að fjárhæð 297.858.441 króna. Þá krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum. Ágreiningsefni 4. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort aðstæður sem rekja má til COVID-19 heimsfaraldurs eigi að leiða til tímabundinna breytinga á greiðslu leigu samkvæmt leigusamningi 2. júlí 2013. Aðaláfrýjandi ber fyrir sig 3. mgr. greinar 11 í samningnum um ófyrirséð og ófyrirsjáanleg atvik auk ólögfestrar reglu kröfuréttar um óviðráðanleg ytri atvik (force majeure), áhættuskipti og stjórnunarábyrgð sem og reglur samningaréttar um brostnar forsendur og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 11. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994. Gagnáfrýjandi krefst fyrir sitt leyti greiðslu áfallinnar leigu 1. apríl 2020 til 30. september sama ár, að frádregnum innborgunum með nánar tilgreindum vöxtum. 5. Með héraðsdómi 16. mars 2021 var fallist á að víkja til hliðar leigusamningi aðila með þeim hætti að greiða skyldi helming leigu í hverjum mánuði frá 1. apríl 2020 til og með 31. mars 2021. Leyfi var veitt til beinnar áfrýjunar til Hæstaréttar sem ómerkti dóm héraðsdóms og vísaði málinu til nýrrar meðferðar í héraði, sbr. dóm Hæstaréttar 28. október 2021 í máli nr. 19/2021. Með héraðsdómi 16. mars 2022 var fallist á að víkja tímabundið til hliðar leigusamningi aðila á þann hátt að aðaláfrýjandi greiddi gagnáfrýjanda tvo þriðju hluta leigu á öllu fyrrgreindu tímabili. Dráttarvextir skyldu reiknast mánuði eftir dómsuppsögu. Með hinum áfrýjaða dómi Landsréttar var hins vegar ekki fallist á að víkja greiðslum samkvæmt samningnum til hliðar. Skyldu dráttarvextir greiðast frá 1. maí 2021. 6. Áfrýjunarleyfi var veitt 22. júní 2023, með ákvörðun réttarins nr. 2023-62, á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft verulegt almennt gildi um efndir og uppgjör í viðvarandi samningssambandi með hliðsjón af áhrifum ófyrirsjáanlegra og óviðráðanlegra ytri atvika og þýðingu ógildingarreglna samningaréttar við slíkt uppgjör. Málsatvik Leigusamningur aðila 7. Aðilar gerðu með sér leigusamning 2. júlí 2013 þar sem aðaláfrýjandi tók á leigu fasteign gagnáfrýjanda til tuttugu ára í því skyni að reka þar hótel. Leigan hófst við afhendingu 1. júní 2015 og skyldi henni ljúka án uppsagnar 31. maí 2035. Leigð var öll byggingin S2 á Höfðatorgi í Reykjavík, nú Þórunnartúni 1, og var áætluð stærð hins leigða húsnæðis um 17.500 fermetrar. Við gerð leigusamningsins var húsnæðið í byggingu og gerði gagnáfrýjandi fyrirvara í 5. mgr. greinar 4.1 um afhendingu „ef ófyrirséð og ófyrirsjáanleg atvik (force majeure)“ leiddu til „afhendingardráttar, svo sem vegna almennra verkfalla, náttúruhamfara, stríðsástands, hafnbanna, atburða á gjaldeyris- og fjármálamörkuðum eða annarra óviðráðanlegra orsaka“. Afhending fór fram á umsömdum degi. 8. Í grein 6.1 leigusamningsins er fjallað um hvernig húsaleiga ákvarðast. Þar segir að aðaláfrýjanda beri að greiða leigu frá 1. júlí 2015 og skuli hún hækka þrepaskipt þannig að fyrstu 23 mánuði samningstímans yrði leiga 38.725.000 krónur á mánuði og næstu tvö ár frá 1. júní 2017 til 31. maí 2019 næmi hún 40.527.000 krónum. Frá 1. júní sama ár og til loka leigutíma skyldi leigan vera 45.030.000 krónur á mánuði. Um væri að ræða grunnverð sem tæki breytingum samkvæmt vísitölu að viðbættum virðisaukaskatti. Til viðbótar skyldi aðaláfrýjandi greiða nánar tiltekinn rekstrar- og viðhaldskostnað. Kæmi til vanefnda á leigugreiðslum og/eða öðrum samningsbundnum greiðslum skyldi aðaláfrýjandi greiða dráttarvexti frá gjalddaga. Greiðslutilhögun skyldi vera með þeim hætti að greidd yrði mánaðarleg leiga fyrir fram miðað við þá hlutfallsskiptingu innan ársins að 7,5% af ársleigu greiddist mánuðina janúar til maí og október til desember en 10% af ársleigu mánuðina júní til september. 9. Aðaláfrýjanda bar samkvæmt leigusamningnum að leggja fram nánar tilteknar tryggingar. Hann setti með handveðsyfirlýsingu 12. maí 2015 að veði innstæðu á bankareikningi sínum hjá Íslandsbanka hf. Einnig gaf hann út ábyrgðaryfirlýsingu 6. júlí sama ár til gagnáfrýjanda fyrir samtals 225.794.908 krónum en sú fjárhæð nam fjögurra mánaða leigugreiðslu auk virðisaukaskatts. 10. Í leigusamningnum er tekið fram að starfsemi aðaláfrýjanda felist í rekstri hótels ásamt skyldri starfsemi. Er honum einungis heimilt að reka þá starfsemi í hinu leigða og skyldi hann afla samþykkis gagnáfrýjanda kysi hann að breyta nokkru frá lýstri starfsemi. Þá er aðaláfrýjanda heimilt að framleigja hið leigða að fengnu skriflegu samþykki gagnáfrýjanda, en slíkt samþykki skyldi veita svo fremi sem starfsemi framleigutaka samrýmdist því sem fram kemur í samningnum um rekstur hótels og skylda starfsemi. 11. Um vanefndir leigutaka og viðbrögð leigusala af því tilefni er fjallað í grein 11. Gætu þær leitt til þess að samningur yrði felldur úr gildi eða honum rift við nánar tilgreindar aðstæður. Í 3. mgr. greinarinnar kemur síðan fram að það teljist þó ekki til vanefnda ef „ófyrirséð og ófyrirsjáanleg atvik (force majeure) gera aðilum samningsins ókleift að efna skyldur sínar, svo sem vegna almennra verkfalla, náttúruhamfara, stríðsástands, hafnbanna, atburða á gjaldeyris- og fjármagnsmörkuðum eða annarra óviðráðanlegra orsaka.“ Heimsfaraldur COVID-19 og viðbrögð stjórnvalda á dómkröfutímabili 12. Á þeim tíma sem máli skiptir fyrir úrlausn málsins er þess að geta að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lýsti yfir neyðarástandi um allan heim 30. janúar 2020 vegna kórónaveiru sem veldur sjúkdómnum COVID-19. Í lok febrúar það ár var fyrst greint innanlandssmit af völdum kórónuveiru og í kjölfarið var hættustig almannavarna virkjað. Ríkislögreglustjóri lýsti yfir neyðarstigi almannavarna 6. mars 2020 og 11. sama mánaðar var því lýst yfir af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni að kórónuveira væri orðin að heimsfaraldri. Útbreiðsla sjúkdómsins varð hröð í kjölfarið og var brugðist við honum með ýmsum hætti á heimsvísu. Innanlands brugðust stjórnvöld meðal annars við með því að takmarka komur ferðamanna til landsins, sem og að setja á samkomubann. Neyðarstigi almannavarna var lýst yfir hér á landi í þrígang á dómkröfutímabilinu, fyrst 6. mars 2020 til 25. maí sama ár, því næst 4. október 2020 til 12. febrúar 2021 og loks 24. mars 2021 til 12. maí sama ár. 13. Hérlendis voru öll lönd skilgreind sem áhættusvæði frá og með 19. mars 2020. Reglur nr. 259/2020 um sóttkví og einangrun vegna COVID-19 tóku gildi 26. mars 2020 og var öllum íslenskum ríkisborgurum og fólki sem búsett var á Íslandi en kom til landsins eftir dvöl í löndum sem voru skilgreind sem hááhættusvæði gert að fara í 14 daga sóttkví frá komu til landsins, sbr. 3. gr. reglnanna. Nýjar reglur um sóttkví og einangrun tóku gildi í apríl sama ár og í kjölfarið voru allir sem komu til Íslands frá hááhættusvæðum skyldaðir til að fara í sóttkví. Samhliða var tekið upp tímabundið eftirlit á innri landamærum. Voru þær reglur endurnýjaðar með nokkrum minni háttar breytingum 15. maí sama ár. Reglugerð nr. 580/2020 tók gildi 15. júní 2020 þar sem gefinn var kostur á að fara í sýnatöku fremur en 14 daga sóttkví. Á dómkröfutímabilinu voru svo ýmsar reglur í gildi um sóttkví, einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands sem allar miðuðu að því að takmarka útbreiðslu sjúkdómsins hér á landi. Áhrif heimsfaraldursins á hótelrekstur aðaláfrýjanda 14. Hótelstarfsemi aðaláfrýjanda gekk vel fram til þess tíma að áhrifa faraldursins tók að gæta hér á landi í byrjun árs 2020. Af gögnum málsins má ráða að hagnaður hans vegna rekstraráranna 2015 til 2018 hafi numið um 807 milljónum króna. Þess er þó að gæta að í ársreikningi fyrir árið 2019 tók aðaláfrýjandi upp svokallaðan IFRS 16-staðal við framsetningu ársreiknings og var hagnaður þess árs tæpar tuttugu milljónir, en um 142 milljónir væri fylgt fyrri framsetningu ársreikninga hans. 15. Með bréfi aðaláfrýjanda til gagnáfrýjanda 19. mars 2020 óskaði hann eftir niðurfellingu leigugreiðslna í apríl og maí það ár. Taldi hann sig ekki skuldbundinn til greiðslu leigu og vísaði um grundvöll þess til 3. mgr. greinar 11 í leigusamningnum þar sem alger óvissa ríkti í rekstri hótelsins sem og annarra hótela vegna heimsfaraldursins og þeirra aðgerða stjórnvalda sem gripið hefði verið til vegna hans. Hefði nær allt farþegaflug lagst af og mætti ætla að því lyki með öllu um komandi mánaðamót. Þar sem hótelrekstur þrifist nær alfarið á því að ferðamenn kæmu til landsins gæti aðaláfrýjandi ekki haldið áfram starfsemi sinni og tilkynnti hann um fyrirhugaða lokun hótelsins. Af henni varð 1. apríl 2020 og sagði aðaláfrýjandi þá upp starfsfólki. 16. Gagnáfrýjandi hafnaði fyrrgreindu erindi aðaláfrýjanda með bréfi 26. mars 2020. Þar var meðal annars vísað til þess að grein 11 leigusamningsins fjallaði um vanefndir og að 3. mgr. hennar næði ekki til þeirra aðstæðna að efndir féllu niður á grundvelli force majeure heldur einungis að það teldist ekki vanefnd ef samningurinn væri ekki efndur af þeim sökum. Sagði jafnframt að þótt erfiðir mánuðir yrðu í rekstri aðaláfrýjanda ætti það engu að breyta um greiðsluskyldu hans. Nýting hótelsins hefði jafnframt verið meiri en gert hefði verið ráð fyrir í áætlun sem lá fyrir við gerð leigusamnings árið 2015. 17. Hinn 15. apríl 2020, á eindaga reiknings vegna leigu í apríl 2020, greiddi aðaláfrýjandi 11.345.266 krónur eða sem nemur 20% af fjárhæð reiknings vegna þess mánaðar. Í kjölfarið áttu aðilar í viðræðum um hvort og þá hversu mikinn hluta leigunnar skyldi greiða. Með bréfi aðaláfrýjanda 18. maí 2020 hafnaði hann boði gagnáfrýjanda um greiðslu 30% leigu á því tímabili sem force majeure aðstæður ríktu sem rekja mætti til heimsfaraldurs COVID-19. Sagði þar að tillaga gagnáfrýjanda hefði ekki tekið til „eftirstöðva útistandandi leigugreiðslna“ eða falið í sér „vilyrði um niðurfellingu þeirra eða afslátt“. Vísaði aðaláfrýjandi þar jafnframt til 3. mgr. greinar 11 leigusamningsins um að hann teldist ekki vanefna samninginn meðan honum væri ókleift að efna hann. Kom fram við flutning málsins í Hæstarétti að aðaláfrýjanda hefði í fyrrgreindum viðræðum verið boðin frestun á greiðslu hluta leigunnar en hvorki niðurfelling í heild né að hluta. 18. Með bréfi 18. maí 2020 beindi gagnáfrýjandi kröfu að Íslandsbanka hf. um greiðslu á grundvelli áðurnefndra trygginga sem aðaláfrýjandi hafði sett fyrir greiðslu leigunnar, nánar tiltekið bankaábyrgðar Íslandsbanka hf. og innstæðu veðsetts bankareiknings. Aðaláfrýjandi mótmælti þeirri kröfu með bréfi 22. sama mánaðar, meðal annars með vísan til 3. mgr. greinar 11 í leigusamningi aðila. Lagði hann fram beiðni hjá sýslumanni 2. júní sama ár um að lögbann yrði lagt við því að Íslandsbanki hf. greiddi gagnáfrýjanda á grundvelli fyrrgreindrar bankaábyrgðar sem og að greitt yrði út af handveðsettum reikningi aðaláfrýjanda hjá Íslandsbanka hf. Sýslumaður féllst á kröfu aðaláfrýjanda og lagði á umbeðið lögbann 23. júní sama ár. Með fyrri héraðsdómi 16. mars 2021 var ekki fallist á staðfestingu lögbannsins og þeim hluta málsins ekki áfrýjað. Að gengnum þeim dómi héraðsdóms greiddi Íslandsbanki hf. gagnáfrýjanda samtals 297.858.441 krónu í apríl 2021. 19. Með bréfi 19. febrúar 2021 var aðaláfrýjandi krafinn um ógreidda leigu frá 1. apríl 2020 til 1. febrúar 2021. Höfuðstóll kröfunnar var 711.932.889 krónur að viðbættum virðisaukaskatti, vöxtum og innheimtukostnaði að tilgreindri fjárhæð, allt að frádreginni innborgun 11.344.266 krónur. Þar var tekið fram að húsaleiga hefði ekki verið greidd í ellefu mánuði sem teldist veruleg vanefnd. Í samræmi við 2. mgr. greinar 11 í leigusamningi og 1. tölulið 1. mgr. 61. gr. húsaleigulaga yrði honum rift án fyrirvara ef ekki yrði orðið við áskorun um greiðslu kröfunnar að liðnum 30 dögum. Gagnáfrýjandi skoraði jafnframt á aðaláfrýjanda með bréfi sama dag að lýsa því yfir að félagið væri greiðslufært og efnahagur þess væri með þeim hætti að því yrði fært að greiða fyrrgreinda kröfu. Að öðrum kosti yrði þess krafist að bú aðaláfrýjanda yrði tekið til gjaldþrotaskipta á grundvelli 5. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Áskorunum þessum var svarað með bréfi aðaláfrýjanda 12. mars 2021 þar sem meðal annars var vísað til þess dómsmáls sem rekið var milli aðila. Þau andmæli voru áréttuð í bréfi 22. sama mánaðar og þar einnig vísað til niðurstöðu héraðsdóms 16. mars sama ár. Skoraði aðaláfrýjandi þar á gagnáfrýjanda að ganga til sáttaviðræðna og greiddi jafnframt 35.167.694 krónur 12. mars 2021. Það svarar til 20% af heildarkröfu samkvæmt útgefnum reikningum gagnáfrýjanda fyrir janúar, febrúar og mars 2021. 20. Hinn 18. mars 2021 óskaði aðaláfrýjandi eftir heimild héraðsdóms til fjárhagslegrar endurskipulagningar samkvæmt lögum nr. 57/2020 um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar. Var honum veitt sú heimild með úrskurði héraðsdóms 31. mars sama ár og gilti hún til 18. júní sama ár. Í þinghaldi þann dag mótmælti gagnáfrýjandi því að aðaláfrýjanda yrði veitt áframhaldandi heimild til þessa en allt að einu var aðaláfrýjanda með úrskurði héraðsdóms 26. nóvember 2021 veitt sú heimild til 18. desember það ár. Þann dag féll heimildin sjálfkrafa niður án þess að aðaláfrýjandi hefði leitað þeirra leiða sem kveðið er á um í 20. og 21. gr. laganna. 21. Á tímabilinu 1. apríl til 30. september 2021 greiddi aðaláfrýjandi 50% af mánaðarlegum leigureikningi gagnáfrýjanda. Ágreiningslaust er að aðaláfrýjandi greiddi til viðbótar 21. júlí 2022 fjárhæð sem ætluð var sem fullnaðargreiðsla á leigu vegna fyrrgreinds tímabils samtals 249.969.495 krónur. Sú greiðsla var innt af hendi með fyrirvara um endurkröfu að fengnum málalyktum máls þessa fyrir Landsrétti. Þá hefur aðaláfrýjandi greitt mánaðarlega leigu í samræmi við efni leigusamningsins frá 1. október 2021. 22. Hinn 12. apríl 2021 gerðu móðurfélag aðaláfrýjanda, Íslandshótel hf., og Sjúkratryggingar Íslands samning um „sérstaka hótelþjónustu fyrir einstaklinga sem þurfa að vera í sóttkví vegna COVID-19 veirunnar skv. lögum nr. 19/1997 um sóttvarnir, sbr. rgl. 817/2012 og 161/2021 og lögum nr. 112/2008 um sjúkratryggingar“. Áttu Íslandshótel hf. að veita þjónustu samkvæmt samningnum á Fosshóteli Reykjavík, Þórunnartúni 1. Í samningnum kom fram að hann væri undirritaður af Íslandshótelum hf. fyrir hönd aðaláfrýjanda til samþykkis þess að 300 hótelherbergi væru notuð til hótelstarfsemi í samræmi við ákvæði samningsins. Leiga fyrir þessi afnot nam 2.867.400 krónum á dag með virðisaukaskatti óháð nýtingu auk greiðslna fyrir fæði. Ekki hafa verið veittar nánari upplýsingar um hversu lengi samningurinn varði en samið var frá mánuði til mánaðar. Fyrir Hæstarétti kom fram að samningurinn mun að minnsta kosti hafa gilt út ágúst 2021. 23. Aðaláfrýjandi hóf almennan hótelrekstur að nýju 1. október 2021. 24. Í kjölfar þess að heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar féll niður í árslok 2021 krafðist gagnáfrýjandi þess með beiðni 14. janúar 2022 að bú aðaláfrýjanda yrði tekið til gjaldþrotaskipta á grundvelli 22. gr. laga nr. 57/2020 á grundvelli ætlaðrar fjárkröfu sinnar vegna vangreiddrar leigu. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði héraðsdóms 5. apríl 2022 sem staðfestur var af Landsrétti 7. júní sama ár í máli nr. 214/2022 með vísan til þess að sjálfskuldarábyrgð Íslandshótela hf. sem veitt hafði verið 22. febrúar 2022, tryggði nægilega umrædda kröfu. 25. Kröfugerð gagnáfrýjanda í málinu snýr að þeim hluta leigunnar sem ekki hefur verið greiddur vegna tímabilsins 1. apríl 2020 til 30. september sama ár. Með hinum áfrýjaða dómi voru fyrrgreindar greiðslur aðaláfrýjanda 15. apríl 2020 og 9. apríl 2021 látnar ganga að fullu til lækkunar á höfuðstól ógreiddrar leigu, en skylda til að greiða dráttarvexti látin hefjast að nýju 1. maí 2021 þegar efndahindrun lauk. Hins vegar var þar fallist á að fyrrgreindri greiðslu 12. mars 2021 að fjárhæð 35.167.694 krónur hefði verið ráðstafað inn á skuld leigu vegna janúar, febrúar og mars 2021 og því ekki tekið tillit hennar í dómsorði. Við flutning málsins í Hæstarétti voru af hálfu aðaláfrýjanda ekki gerðar athugasemdir við ráðstöfun þeirrar greiðslu. 26. Málsástæður og lagarök aðila eru ítarlega reifuð í héraðsdómi og hinum áfrýjaða dómi. Niðurstaða Áhættuskipti í kröfuréttarsambandi aðila 27. Aðaláfrýjandi byggir á því að reglur kröfuréttar um áhættuskipti leiði til þess að greiðsla leigu vegna fyrrgreinds tímabils falli niður. Þess er þó að gæta að fyrir Hæstarétti hefur málatilbúnaður hans í því samhengi jafnframt lotið að stjórnunarábyrgð og ógildingarreglum samningaréttar sem fjallað verður um hér síðar. 28. Aðaláfrýjandi byggir á að hið leigða húsnæði hafi ekki nýst til umsaminna nota vegna aðgerða stjórnvalda. Því er þó ekki haldið fram að áhrif aðgerða innlendra og erlendra stjórnvalda vegna COVID-19 sjúkdómsins eigi að leiða til þess að leigusamningurinn falli úr gildi í heild sinni heldur að leigugreiðslur eigi að falla niður að öllu leyti frá 1. apríl til og með 31. desember 2020 en að hluta frá 1. janúar 2021 til 31. mars sama ár. 29. Samkvæmt meginreglu kröfuréttar um áhættuskipti að gagnkvæmum samningi ber hvor samningsaðila um sig að öllu jöfnu áhættu af ófyrirséðum og óviðráðanlegum ytri atvikum við efndir sínar á samningi. 30. Leigutaka ber aðeins að greiða fyrir hið leigða meðan hann hefur það til umráða. Sú meginregla gildir að leigusali ber áhættuna ef leiguhlutur skemmist, rýrnar eða ferst af tilviljun á leigutíma og sér hennar meðal annars stað í ákvæðum 15. gr., 3. mgr. 17. gr., 2. mgr. 19. gr., 2. mgr. 20. gr. og 3. og 4. tölulið 1. mgr. 60. gr. húsaleigulaga. Í þessu felst að verði leiguhúsnæði ónothæft til umsaminna nota vegna tilviljunarkenndra atvika fellur skylda leigutaka til að greiða leigusala umsamið endurgjald fyrir leigunotin niður frá og með því tímamarki er húsnæðið verður ónothæft, sbr. dóm Hæstaréttar 28. febrúar 2013 í máli nr. 587/2012. Þetta gildir bæði um tímabundna og ótímabundna leigusamninga. Þannig má líta á tjónsatburð sem vanefnd af hálfu leigusala er heimilar leigutaka viðeigandi vanefndaúrræði, svo sem afslátt eða riftun. Leigusali á ekki rétt á leigugjaldi fyrir þann tíma sem leigutaki hefur ekki haft not af hinu leigða af framangreindum sökum. 31. Þegar metin eru áhættuskipti í samningssambandi aðila máls þessa verður að líta til þess að um var að ræða langtímasamning tveggja fyrirtækja um leigu húsnæðis sem var leigutaka til reiðu allt það tímabil sem um ræðir. Húsnæðið skemmdist hvorki né spilltist á leigutímabilinu og hvorki voru í leigusamningi ákvæði um tryggingar, skipta áhættu samningsaðila að einhverju leyti né um skiptingu hagnaðar með tilliti til veltu eða afkomu reksturs á þeim langa tíma sem samningurinn tók til. 32. Fyrir liggur að aðgerðir stjórnvalda vegna heimsfaraldursins fólu ekki í sér bann við nýtingu hins leigða húsnæðis. Þvert á móti hélt aðaláfrýjandi umráðum þess allan þann tíma sem dómkrafa hans tekur til og ákvað einhliða að hætta að greiða leigu. Nýtti hann húsnæðið bæði fyrir og eftir að ástandinu lauk. Jafnframt liggur fyrir að einhver hótel í félagasamstæðu þeirri sem aðaláfrýjandi er hluti af voru opin hluta tímabilsins. Verður því ekki fallist á að áhættuskiptareglur kröfuréttar eigi að hafa áhrif á leigu umrætt tímabil. Aðstæðum í máli þessu verður því að engu leyti jafnað til þeirra sem fjallað var um í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 587/2012. Óviðráðanleg ytri atvik (force majeure) í leigusamningi aðila 33. Aðaláfrýjandi byggir jafnframt á því að fyrir hendi hafi verið óviðráðanleg ytri atvik (force majeure) vegna heimsfaraldursins og viðbragða stjórnvalda hér á landi við honum. Hann hafi því ekki vanefnt leigusamninginn. Af því leiði að efndaskylda hans hafi fallið niður á meðan á faraldrinum stóð, sbr. 3. mgr. greinar 11 í leigusamningnum, auk hinnar almennu ólögfestu reglu kröfuréttar sama efnis. 34. Efnislegt inntak reglunnar um force majeure er að ófyrirséð, óviðráðanleg ytri atvik sem eru sérstök í eðli sínu og valda því að ómögulegt, eða því sem næst, er að efna samningsskuldbindingu eigi að hafa áhrif á efndaskyldu eða það hvort eða hvaða vanefndaúrræðum má beita. Með óviðráðanlegum ytri atvikum er átt við atvik sem ekki varða skuldarann sjálfan og eiga það sameiginlegt að ekki mátti sjá þau fyrir eða forðast með venjulegum öryggisráðstöfunum. Þau þurfa jafnframt að hafa úrslitaáhrif fyrir möguleika skuldara á að efna skyldu sína. Þegar svo háttar til stöðvast skylda aðalskuldara til að efna samningsskuldbindingu eftir efni sínu (in natura) meðan hindrun stendur yfir. 35. Nánari réttaráhrif reglunnar fara eftir atvikum hverju sinni, svo sem eðli efndahindrana, tegund samningsskyldna og jafnframt því hvaða afleiðingar hindranir hafa á efndir. Einnig skiptir máli hversu fyrirsjáanleg atvik eru þegar metið er hvort aðilar í gagnkvæmu samningssambandi hefðu getað gert ráð fyrir þeim í samningi sínum. Þá hefur áhrif sú löggjöf er lýtur að viðkomandi kröfuréttarsambandi, sbr. dóma Hæstaréttar 28. júní 2023 í málum nr. 2/2023, 3/2023 og 4/2023. Þess er þó sérstaklega að gæta að skuldari getur almennt ekki borið fyrir sig fjárskort til að koma sér undan greiðsluskyldu í peningum á þessum grundvelli og verður því þegar af þeirri ástæðu ekki fallist á málsástæður aðaláfrýjanda þar að lútandi, sbr. dóm Hæstaréttar sem kveðinn er upp í dag í máli nr. 29/2023. 36. Af framansögðu leiðir að líta þarf sérstaklega til þess undir hvaða samningsskuldbindingu aðilar gengust með 3. mgr. greinar 11 í leigusamningi aðila og hvort það ákvæði skapar aðaláfrýjanda rýmri rétt að þessu leyti en samkvæmt almennum reglum. 37. Almennt er í samningum fjallað um meginskyldur hvors aðila um sig. Samningur telst allt að einu bindandi þótt ekki sé tekin sérstök afstaða til allra þeirra úrræða sem grípa má til í tilefni vanefnda eða ófyrirsjáanlegra atvika sem geta komið upp á meðan samningur er í gildi. Þar geta almennar reglur samninga- og kröfuréttar verið til fyllingar samningi hafi ekki verið samið á annan veg. Aftur á móti kunna samningsaðilar að hafa þörf fyrir önnur úrræði en leiðir af almennum frávíkjanlegum réttarreglum eða vilja skýra þær nánar til að mynda ef stuðla á að meiri fyrirsjáanleika í samningssambandi. Auk þess eru mörg þeirra sjónarmiða sem byggt er á í kröfu- og samningarétti matskennd en með samningi er unnt að víkja frá matskenndum reglum eða ákvarða inntak þeirra nánar. 38. Leigusamningur sá sem til umfjöllunar er í máli þessu er milli jafnsettra aðila sem hvor um sig starfar við atvinnurekstur. Hann er til langs tíma og nutu aðilar sérfræðiaðstoðar við gerð hans. Verður að líta svo á að með fyrrgreindum samningsákvæðum hafi aðilar sérstaklega samið sín í milli um þýðingu óviðráðanlegra ytri atvika (force majeure) á samningssamband þeirra, bæði um inntak og réttaráhrif. Því ræðst úrlausn um þýðingu og réttaráhrif ákvæðanna af skýringu samningsins. Þar verður fyrst og fremst litið til orðalags þeirra. 39. Í leigusamningnum var sérstaklega samið um þau tilvik þar sem force majeure reglan ætti við í samningssambandinu. Annars vegar samkvæmt 5. mgr. greinar 4.1 ef ófyrirséð og ófyrirsjáanleg atvik (force majeure) leiddu til afhendingardráttar fasteignarinnar sem þá var í byggingu. Á það ákvæði reyndi ekki. Hins vegar taldist það ekki til vanefnda samkvæmt 3. mgr. greinar 11 ef slík atvik gerðu samningsaðilum ókleift að efna skyldur sínar, svo sem vegna almennra verkfalla, náttúruhamfara, stríðsástands, hafnbanna, atburða á gjaldeyris- og fjármagnsmörkuðum eða annarra óviðráðanlegra orsaka. 40. Eins og áður greinir er 3. mgr. greinar 11 í leigusamningi aðila gagnkvæm og tekur samkvæmt efni sínu meðal annars til skyldu aðaláfrýjanda til að greiða leigu. Greiði hann ekki leigu á réttum tíma þurfa þrjú skilyrði að vera fyrir hendi samkvæmt greininni til að það teljist ekki vanefnd. Í fyrsta lagi þurfa ófyrirséð eða ófyrirsjáanleg atvik að hafa orðið. Í öðru lagi þurfa þessi atvik að vera óviðráðanleg, sbr. niðurlag ákvæðisins. Í þriðja lagi verða þau að gera aðaláfrýjanda ókleift að efna samningsskyldu sína á gjalddaga. 41. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á að þær aðstæður sem sköpuðust hér á landi vegna heimsfaraldursins og ráðstafana stjórnvalda á dómkröfutímabilinu teljist hafa verið ófyrirsjáanleg og óviðráðanleg atvik í skilningi 3. mgr. greinar 11 í leigusamningi aðila. Að þeirri niðurstöðu fenginni þarf að leysa úr því hvort aðaláfrýjanda hafi vegna þessa verið ókleift að greiða leigu í skilningi greinarinnar. 42. Eins og fjallað er um í hinum áfrýjaða dómi brást aðaláfrýjandi við áhrifum heimsfaraldurs og hruni í eftirspurn eftir hótelrými með lokun hótelsins 1. apríl 2020 og uppsögn starfsfólks. Auk þess greip hann til annarra aðgerða í því skyni að lækka kostnað. Þá naut hann styrkja frá stjórnvöldum vegna þess ástands sem ríkti. Af hálfu gagnáfrýjanda hefur verið byggt á að aðaláfrýjandi hafi allan tímann haft fjárhagslega getu til að greiða húsaleigu. Um það vísar hann til þess að handbært fé aðaláfrýjanda hafi í lok árs 2019 numið um 760 milljónum króna auk þess sem hagnaður vegna rekstraráranna 2015 til 2018 hafi numið um 807 milljónum króna og hagnaður ársins 2019, ef fylgt væri fyrri framsetningu ársreikninga, verið um 142 milljónir króna. Aðaláfrýjandi hafi auk þess lánað tengdum félögum um 175 milljónir króna og greitt arð samtals að fjárhæð 240 milljónir króna vegna áranna 2017 og 2018. Því sé ekki uppfyllt það skilyrði fyrrgreinds ákvæðis leigusamningsins að aðaláfrýjanda hafi verið ókleift að efna skuldbindingar sínar. 43. Með hinum áfrýjaða dómi var litið til þess að fyrir lá í mars og apríl 2020 að rekstrartekjur aðaláfrýjanda yrðu svo til engar meðan hótelið var lokað en að húsnæðiskostnaður hans árið 2020 hafi numið tæpum 652 milljónum króna eða um 59% af öllum rekstrarkostnaði félagsins. Af gögnum málsins má einnig ráða að aðaláfrýjandi bjó yfir sjóðum í upphafi árs 2020 sem hefðu dugað til greiðslu leigu til rúmlega eins árs yrði enginn annar kostnaður greiddur. Á sama tíma ríkti algjör óvissa um hve lengi ástandið vegna heimsfaraldursins myndi vara og jafnframt hvenær ferðaþjónusta kæmist aftur í fyrra horf. Það helgaðist bæði af aðgerðum stjórnvalda hér á landi sem og erlendra stjórnvalda sem aðaláfrýjandi hafði ekki stjórn á. Því ríkti alger óvissa um rekstur aðaláfrýjanda sem hann fyrir sitt leyti reyndi að lágmarka með þeim aðgerðum sem hann greip til og lýst hefur verið. 44. Í grein 11 í leigusamningi aðila er fjallað með almennum hætti um hvað teljist vanefnd í hinu gagnkvæma samningssambandi og um viðbrögð aðila af því tilefni. Við skýringu á fyrrgreindu orðalagi 3. mgr. greinar 11 um að aðilum hafi verið ókleift að efna skuldbindingar sínar verður að líta til tilgangs greinarinnar og markmiða með henni. Greininni er samkvæmt efni sínu fyrst og fremst ætlað að vera úrræði fyrir aðaláfrýjanda enda er sem fyrr segir að finna sérstakt ákvæði vegna aðalskyldu gagnáfrýjanda um afhendingu fasteignarinnar í 5. mgr. greinar 4.1 í samningnum. Verður því að skýra fyrrgreint ákvæði leigusamningsins um að aðaláfrýjanda hafi verið „ókleift að efna samningsskuldbindingar“ þannig að það hafi raunverulega þýðingu í hinu gagnkvæma samningssambandi. Ekki verður lögð til grundvallar sú bókstaflega skýring á framangreindu orðalagi sem gagnáfrýjandi byggir á og að sönnu leiðir af beinni orðskýringu enda væri samningsákvæðið þá næsta þýðingarlaust. Verður þvert á móti að álykta að greininni hafi verið ætlað að hafa þau áhrif að þau ófyrirséðu og ófyrirsjáanlegu atvik sem þar er vísað til gætu í reynd haft áhrif á skyldu aðaláfrýjanda til að greiða leigu meðan það ástand ríkti sem lýst er í greininni. 45. Verður því dregin sú ályktun af orðalagi greinarinnar og með hliðsjón af innra samhengi við önnur samningsákvæði að henni sé ætlað að koma í veg fyrir að litið verði á greiðslufall aðaláfrýjanda vegna nánar tiltekinna óviðráðanlegra ytri atvika sem vanefnd. Þótt ekki verði leitt af greininni að henni sé ætlað að leiða til þess að skyldur samkvæmt samningnum falli niður vegna fyrrgreindra ástæðna felst á hinn bóginn í henni svo skýrðri veigamikil undantekning frá þeirri almennu reglu kröfuréttar að fjárskortur leysi ekki skuldara undan skyldu sinni til að greiða peninga. 46. Að framangreindu gættu verður fallist á þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að skilyrði 3. mgr. greinar 11 í leigusamningi um að aðaláfrýjanda hafi verið ókleift að greiða leigu hafi einnig verið uppfyllt þannig að greiðslufall aðaláfrýjanda frá 1. apríl 2020 til 31. mars 2021 hafi ekki falið í sér vanefnd. Á hinn bóginn er jafnframt fallist á þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að það leysi ekki aðaláfrýjanda undan þeirri skyldu að greiða kröfuna eftir að því ástandi lauk. Stjórnunarábyrgð 47. Að því er varðar málatilbúnað reistan á stjórnunarábyrgð byggir aðaláfrýjandi á því að samningsskyldur hans á fyrrgreindu tímabili takmarkist af reglu kröfuréttar þar að lútandi. 48. Í stjórnunarábyrgð felst efnislega að samningsaðili ber ábyrgð á efndum samnings nema því aðeins að einhver sú hindrun standi þeim í vegi sem hann getur ekki yfirunnið. Reglan ræðst af atvikum hverju sinni og eru þannig gerðar mismunandi kröfur eftir því hvort um er að ræða seljanda eða kaupanda, sbr. til dæmis til hliðsjónar 1. mgr. 23. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup í tilviki seljanda og 1. mgr. 57. gr. laganna þegar um ræðir kaupanda. Samkvæmt síðargreinda ákvæðinu getur seljandi krafist skaðabóta fyrir tjón af völdum greiðsludráttar kaupanda en þó ekki meðan hann sýnir fram á að greiðsludráttur stafi af stöðvun almennra samgangna eða greiðslumiðlunar eða annarri hindrun sem hann hefur ekki stjórn á og ekki er með sanngirni hægt að ætlast til að hann hafi getað haft í huga við samningsgerðina, komist hjá afleiðingunum af eða yfirunnið. 49. Skyldur aðaláfrýjanda eru um greiðslu leigu og ætlaðar skaðabætur vegna greiðsludráttar í formi dráttarvaxta. Verður því ekki fallist á málatilbúnað aðaláfrýjanda þess efnis að skylda til greiðslu leigu falli niður, hvorki í heild né hluta, á þessum grundvelli. Brostnar forsendur 50. Aðaláfrýjandi byggir jafnframt á því að ólögfest meginregla samningaréttar um brostnar forsendur eigi að leiða til þess að skylda hans til að greiða leigu verði felld niður í heild eða að hluta á því tímabili sem dómkröfur hans ná til. 51. Skilyrði reglunnar eru þau að um sé að ræða verulega forsendu fyrir gerð samnings sem brestur eftir samningsgerð. Báðum samningsaðilum verður að vera hún ljós auk þess sem líta verður til hagsmuna beggja samningsaðila þannig að hún leiði ekki til óréttlátrar réttarskerðingar fyrir annan þeirra. 52. Við mat á því hvort unnt er að beita reglunni hér verður að líta til þess að þær aðstæður sem urðu vegna heimsfaraldursins voru ófyrirséðar og höfðu víðtæk áhrif á íslenskt efnahagslíf. Ekki verður fallist á að einungis verði litið til þeirra áhrifa sem þær aðstæður höfðu á hagsmuni aðaláfrýjanda umfram gagnáfrýjanda. Að því marki sem unnt er að líta svo á að um brostna forsendu sé að ræða verður þvert á móti að telja að hún eigi jafnt við um samningsaðila. Samkvæmt því eru ekki efni til að fallast á með aðaláfrýjanda að ógilda samningsskuldbindingar í heild eða að hluta á þessum grundvelli. Ógildingarregla 36. gr. laga nr. 7/1936 53. Loks krefst aðaláfrýjandi þess að ákvæðum leigusamnings aðila um greiðslu leigu verði vikið til hliðar að fullu frá 1. apríl til og með 31. desember 2020 og að hluta frá 1. janúar 2021 til 31. mars sama ár. Byggir hann á því að ósanngjarnt sé að hann beri einn áhættuna af því að algjört tekjufall varð í rekstri hans vegna heimsfaraldurs. 54. Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 segir að samningi megi víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skal við mat samkvæmt 1. mgr. líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerð og atvika sem síðar koma til. 55. Við mat á ósanngirni í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936, sbr. 11. gr. húsaleigulaga, verður í máli þessu fyrst og fremst litið til samnings aðila og þeirrar skiptingar rekstraráhættu sem þar er að finna. Er þá þess að gæta að aðilar sem starfa við atvinnurekstur eiga að vera best í stakk búnir að meta sjálfir hagsmuni sína og þá áhættu sem þeir kjósa að taka með gerð samnings. Þeir verða jafnframt að vera viðbúnir því að grípa til ráðstafana til tjónstakmörkunar við rekstraráföll. Ekki verður fallist á þá málsástæðu aðaláfrýjanda að fyrrgreind óviðráðanleg ytri atvik (force majeure) skuli vera hluti ósanngirnismatsins þótt litið verði til áhrifa þess ástands sem skapaðist við almennt mat samkvæmt ákvæðinu. 56. Þegar metið er hvort sanngjarnt sé að hliðra samningsskyldum aðaláfrýjanda er til þess að líta að í tilviki langtímasamninga verður jafnan að meta aðstæður í heild sinni og þá með hliðsjón af samningstímanum öllum. Alla jafna þarf mikið að koma til eigi að hliðra samningsskyldu á hluta gildistíma gagnkvæms samnings sem ætlað er að gilda óbreyttur að öðru leyti um langan tíma. Hér gegnir öðru máli en þegar krafist er breytingar á endurgjaldi í gagnkvæmum langtímasamningum sem ætlað er að gilda svo breyttum framvegis, sbr. til hliðsjónar þær aðstæður sem uppi voru í dómi Hæstaréttar 8. nóvember 1990 og birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 1437. 57. Aðilar máls þessa búa að þekkingu og reynslu á sviði fyrirtækjarekstrar og nutu þeir jafnframt sérfræðiaðstoðar við gerð leigusamningsins. Tímabil það sem um ræðir í máli þessu nær aðeins yfir 12 mánuði af tuttugu ára leigutíma. Í leigusamningi aðila er ekki að finna ákvæði um endurskoðun leigu að öðru leyti en að þar er mælt fyrir um að hún sé bundin vísitölu auk þess sem greiddar eru hlutfallslega hærri leigugreiðslur í júní til september en aðra mánuði ársins. Fjárhæð leigunnar er því ekki tengd rekstri aðaláfrýjanda að öðru leyti en því að hún tók tvisvar breytingum til hækkunar á fyrstu fjórum árum leigutímans. Þannig tók aðaláfrýjandi á sig áhættu af því hvernig mál myndu skipast í framtíð þegar kom að rekstri hótelsins en aðilar sömdu um fast leiguverð óháð afkomu. Í samningnum var jafnframt samið um að óviðráðanlegar ytri aðstæður gætu haft áhrif við efndir með þeim hætti að greiðsludráttur teldist þá ekki vanefnd. Þá liggur fyrir að nýting hótelsins mun hafa verið meiri en upphaflegar áætlanir aðaláfrýjanda gerðu ráð fyrir sem og hagnaður af rekstri hans fyrstu ár leigutímans. 58. Eins og rakið hefur verið hélt aðaláfrýjandi umráðum hótelsins allan þann tíma sem dómkröfur hans taka til en aðgerðir innlendra stjórnvalda vegna heimsfaraldursins fólu ekki í sér kröfu um lokun hótela. Þær höfðu aftur á móti mikla þýðingu fyrir rekstur aðaláfrýjanda þótt mismunandi strangar reglur hefðu verið í gildi á dómkröfutímabilinu. Þá brást aðaláfrýjandi við hruni í eftirspurn eftir hótelrými með lokun hótelsins 1. apríl 2020 og uppsögn starfsfólks auk þess sem hann greip til ýmissa aðgerða til lækkunar kostnaðar og naut meðal annars styrkja frá stjórnvöldum. Jafnframt nýtti hann sér úrræði laga nr. 57/2020 og var í greiðsluskjóli sem lauk 18. desember 2021 án þess þó að hann hefði leitað þeirra leiða sem kveðið er á um í 20. og 21. gr. laganna. Þá var húsnæðið nýtt til rekstrar sóttvarnarhótels samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands frá apríl 2021. Í framangreindum ákvörðunum aðaláfrýjanda fólust viðskiptaákvarðanir sem voru liður í tjónstakmörkun hans meðan hann hélt fullum umráðum húsnæðisins. 59. Að þessu virtu og með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er ekki fallist á það með aðaláfrýjanda að eins og samningi aðila er háttað sem og með hliðsjón af atvikum öllum séu efni til að víkja endurgjaldsákvæði samningsins til hliðar með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936. Verður því ekki fallist á kröfu aðaláfrýjanda þess efnis. 60. Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur, þar með niðurstaða hans um upphaf dráttarvaxta sem miðar við þann tíma er efndahindrun samkvæmt 3. mgr. greinar 11 í leigusamningi aðila lauk. Er þar tekið mið af samningi móðurfélags aðaláfrýjanda fyrir hans hönd við Sjúkratryggingar Íslands um notkun húsnæðisins til reksturs sóttvarnarhótels. 61. Rétt þykir að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=d7fdf7c1-fa28-4870-9938-68d5dd809590&verdictid=4438d0a4-d2c2-4880-bec9-93c5b2ec199a
Mál nr. 29/2023
Húsaleigusamningur Vanefnd Áhættuskipti Force majeure Túlkun samnings Brostnar forsendur Stjórnunarábyrgð Ógilding samnings
Með leigusamningi til 20 ára leigði S ehf. til B hf. fasteignir undir hótelrekstur. Vegna aðstæðna sem rekja mátti til heimsfaraldurs Covid-19 lokaði B hf. hótelinu í mars 2020. Jafnframt greiddi B hf. 20% af umsaminni leigu á tímabilinu. Í málinu krafði S ehf. B hf. um vangoldnar leigu samkvæmt leigusamningnum, að frátöldum framangreindum innborgunum. Kröfu var jafnframt beint að I hf., sem með áritun á samninginn ábyrgðist greiðslu fjárhæðar sex mánaða leigu. Í dómi Hæstaréttar var lagt til grundvallar að áhættuskipti að gagnkvæmum samningi ættu ekki að hafa áhrif á leigu umrætt tímabil. Skylda til greiðslu peninga hefði ekki fallið niður vegna reglunnar um force majeure. Þá ætti regla um stjórnunarábyrgð sem skuldari bar fyrir sig ekki við í málinu og heldur ekki reglur um brostnar forsendur. Jafnframt hafnaði Hæstiréttur því að efni væru til þess á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga að skilyrði væru til þess að víkja til hliðar endurgjaldsákvæði samningsins. Þó var upphafstími dráttarvaxta leiguskuldar miðaður við höfðun máls í héraði en ekki við umsamda gjalddaga. Þá var I hf. dæmdur greiðsluskyldur eftir ábyrgð sinni samkvæmt samningnum og var upphafstími dráttarvaxta dómkröfunnar á hendur honum hinn sami og hjá B hf.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Aðaláfrýjendur skutu málinu upphaflega til Hæstaréttar 5. apríl 2023 en ekki varð af þingfestingu málsins og var áfrýjað að nýju 9. júní 2023. Þeir krefjast aðallega sýknu af kröfum gagnáfrýjanda en til vara að kröfur hans verði lækkaðar verulega. Þá krefjast aðaláfrýjendur málskostnaðar á öllum dómstigum. 3. Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 16. ágúst 2023. Hann krefst þess að aðaláfrýjanda Berjaya Hotels Iceland hf. verði með dómi gert að greiða sér 145.911.799 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 22.502.442 krónum frá 11. apríl 2020 til 11. maí sama ár, af 45.057.093 krónum frá þeim degi til 11. júní sama ár, af 67.720.911 krónum frá þeim degi til 11. júlí sama ár, af 90.508.134 krónum frá þeim degi til 11. ágúst sama ár, af 113.395.030 krónum frá þeim degi til 11. september sama ár, af 136.266.207 krónum frá þeim degi til 11. október sama ár, af 159.290.748 krónum frá þeim degi til 11. nóvember sama ár og af 182.360.829 krónum frá þeim degi til greiðsludags, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 4.490.878 krónur 7. apríl 2020, 18.193.466 krónur 18. ágúst 2020, 4.574.235 krónur 8. september 2020, 4.577.379 krónur 5. október 2020 og 4.613.072 krónur 5. nóvember 2020. Þá krefst gagnáfrýjandi þess að aðaláfrýjandi Icelandair Group hf. verði dæmdur til að greiða sameiginlega með aðaláfrýjanda Berjaya Hotels Iceland hf. 137.852.244 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 3. nóvember 2020 til greiðsludags. Loks krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum. Ágreiningsefni 4. Mál þetta varðar ágreining um leigugreiðslur fyrir fasteignir að Hafnarstræti 17–19 í Reykjavík sem aðaláfrýjandi Berjaya Hotels Iceland hf., er áður bar heitið Flugleiðahótel hf., tók á leigu af gagnáfrýjanda undir rekstur hótels með samningi 10. október 2014. Ágreiningurinn reis í kjölfar þess að áhrifa COVID-19 heimsfaraldursins tók að gæta á árinu 2020 og aðgerða stjórnvalda vegna hans. Dómkröfur gagnáfrýjanda taka til átta mánaða tímabils frá apríl 2020 til og með nóvember sama ár. Aðaláfrýjandi Berjaya Hotels Iceland hf. greiddi 20% umsaminnar leigu á umræddu tímabili. Þá lækkun leigunnar styður hann við reglu kröfuréttar um óviðráðanleg ytri atvik (force majeure), reglu um stjórnunarábyrgð, reglu samningaréttar um brostnar forsendur og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 11. gr. húsleigulaga nr. 36/1994. Með leigusamningnum gekkst aðaláfrýjandi Icelandair Group hf. undir ábyrgð á efndum leigutaka sem nemur sex mánaða leigu auk virðisaukaskatts og er deilt um hvers eðlis sú ábyrgð er. 5. Með héraðsdómi var fallist á kröfu gagnáfrýjanda um greiðsluskyldu aðaláfrýjenda. Í hinum áfrýjaða dómi Landsréttar var talið að vegna force majeure hefði leigutaki losnað undan efndaskyldu á umræddu tímabili. Reiknuðust ekki dráttarvextir af leigu fyrr en frá 1. september 2021 og þá á alla kröfufjárhæðina en ekki sérstaklega frá hverjum gjalddaga svo sem kröfugerð gagnáfrýjanda miðar við. Málinu er gagnáfrýjað í því skyni að fá þeirri niðurstöðu hnekkt sem og niðurstöðu Landsréttar um að fella niður málskostnað í héraði og þar fyrir dómi. 6. Áfrýjunarleyfi í málinu var veitt 4. apríl 2023, með ákvörðun réttarins nr. 2023-27, á þeim grunni að dómur í því gæti haft verulegt gildi um efndir og uppgjör í viðvarandi samningssambandi með hliðsjón af áhrifum ófyrirsjáanlegra og óviðráðanlegra ytri atvika og þýðingu ógildingarreglna samningaréttar við slíkt uppgjör. Málsatvik Leigusamningur aðila 7. Með tímabundnum leigusamningi 10. október 2014 tók aðaláfrýjandi Berjaya Hotels Iceland hf., sem rekur fjölda hótela hér á landi, á leigu af gagnáfrýjanda atvinnuhúsnæði að Hafnarstræti 17–19 í Reykjavík. Þar rekur aðaláfrýjandi Reykjavík Konsúlat hótel. Með samningnum skuldbatt gagnáfrýjandi sig til að útbúa hið leigða sem hótel- og þjónustuhúsnæði. 8. Svo taka mætti hið leigða húsnæði í notkun undir rekstur hótels þurfti að ráðast í margvíslegar framkvæmdir svo það yrði í samræmi við skilalýsingu er fylgdi leigusamningi. Afhendingardagur átti að vera 1. maí 2016 og í grein 3.8 samningsins var sérstakt ákvæði þar sem sagði að kæmi til þess að afhending drægist fram yfir afhendingardag af óviðráðanlegum ástæðum sem leigusala yrði ekki kennt um gæti leigutaki ekki krafist tafabóta úr hendi leigusala. Tekið var fram að með óviðráðanlegum ástæðum væri átt við verulegar tafir á afgreiðslu stjórnvalda á útgáfu byggingarleyfis eða annarra framkvæmdaleyfa, tafir vegna óska leigutaka um verulegar breytingar á húsnæðinu frá því sem fram kæmi í viðfestri skilalýsingu eða aðrar óviðráðanlegar ástæður (force majeure). 9. Í samningnum kom fram að hið leigða væri 70 herbergja hótel- og þjónustuhúsnæði, alls um 3.700 fermetrar að brúttóstærð. Leigutími hæfist 1. maí 2016 og stæði til 30. apríl 2036. Um leigufjárhæð voru ítarleg ákvæði í grein 4 í samningnum. Þar sagði meðal annars að leigutaki skyldi greiða leigusala 192.000.000 króna á ári með mánaðarlegum 16.000.000 króna afborgunum á gjalddaga 10. hvers mánaðar, að viðbættum virðisaukaskatti. Fjárhæð leigu tæki breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Yrði leigugreiðsla ekki innt af hendi á gjalddaga skyldu dráttarvextir falla á skuldina samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Að liðnum fimm árum frá afhendingu fasteignarinnar skyldi ársleiga hækka í 196.320.000 krónur og mánaðarleiga nema þá 16.360.000 krónum. 10. Í grein 4.10 samningsins sagði að aðaláfrýjandi Icelandair Group hf., móðurfélag leigutaka, ábyrgðist efndir á leigugreiðslum samkvæmt leigusamningi gagnvart gagnáfrýjanda eða þeim sem fyrir framsal hefðu öðlast réttindi samkvæmt honum að fjárhæð sem næmi sex mánaða leigu, auk virðisaukaskatts. Ábyrgðin yrði virk þegar frestur leigutaka til að bæta úr vanefndum væri liðinn samkvæmt grein 12.1 í samningi. Í niðurlagi samningsins sagði svo að um önnur atriði en þar kæmu fram skyldu ákvæði húsaleigulaga gilda. Heimsfaraldur COVID-19 og viðbrögð stjórnvalda á dómkröfutímabili 11. Á þeim tíma sem máli skiptir fyrir úrlausn málsins er þess að geta að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lýsti yfir neyðarástandi um allan heim 30. janúar 2020 vegna kórónaveiru sem veldur sjúkdómnum COVID-19. Í lok febrúar það ár var fyrst greint innanlandssmit af völdum kórónuveiru og í kjölfarið var hættustig almannavarna virkjað. Ríkislögreglustjóri lýsti yfir neyðarstigi almannavarna 6. mars 2020 og 11. sama mánaðar var því lýst yfir af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni að kórónuveira væri orðin að heimsfaraldri. Útbreiðsla sjúkdómsins varð hröð í kjölfarið og var brugðist við honum með ýmsum hætti á heimsvísu. Innanlands brugðust stjórnvöld meðal annars við með því að takmarka komur ferðamanna til landsins sem og að setja á samkomubann. Neyðarstigi almannavarna var lýst yfir hér á landi í tvígang á dómkröfutímabilinu, fyrst 6. mars 2020 til 25. maí sama ár og því næst 4. október 2020 til 12. febrúar 2021. 12. Hérlendis voru öll lönd skilgreind sem áhættusvæði frá og með 19. mars 2020. Reglur nr. 259/2020 um sóttkví og einangrun vegna COVID-19 tóku gildi 26. mars 2020 og var öllum íslenskum ríkisborgurum og fólki sem búsett var á Íslandi en kom til landsins eftir dvöl í löndum sem voru skilgreind sem hááhættusvæði gert að fara í 14 daga sóttkví frá komu til landsins, sbr. 3. gr. reglnanna. Nýjar reglur um sóttkví og einangrun tóku gildi í apríl sama ár og í kjölfarið voru allir sem komu til Íslands frá hááhættusvæðum skyldaðir til að fara í sóttkví. Samhliða var tekið upp tímabundið eftirlit á innri landamærum. Voru þær reglur endurnýjaðar með nokkrum minni háttar breytingum 15. maí sama ár. Reglugerð nr. 580/2020 tók gildi 15. júní 2020 þar sem gefinn var kostur á að fara í sýnatöku fremur en 14 daga sóttkví. Á dómkröfutímabilinu voru svo ýmsar reglur í gildi um sóttkví, einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands sem allar miðuðu að því að takmarka útbreiðslu sjúkdómsins hér á landi. Áhrif heimsfaraldursins á hótelrekstur aðaláfrýjanda Berjaya Hotels Iceland hf. 13. Þegar áhrifa heimsfaraldursins tók að gæta hér á landi á fyrri hluta árs 2020 kom upp ágreiningur með aðilum um hvort fyrir hendi væru óviðráðanlegar ytri aðstæður (force majeure) sem leiða ættu til niðurfellingar eða lækkunar á leigugreiðslum. Aðaláfrýjandi Berjaya Hotels Iceland hf. lokaði Reykjavík Konsúlat hóteli 21. mars 2020 þar sem hann taldi kostnað við að halda því opnu mun meiri en þær tekjur sem unnt væri að hafa af rekstrinum. Óumdeilt er að hótelið var lokað allt dómkröfutímabilið. Það mun hafa verið opnað aftur um mánaðamótin júlí – ágúst 2021. 14. Aðaláfrýjandi Berjaya Hotels Iceland hf. hefur upplýst, meðal annars með ársreikningum, að hann stundi afar umfangsmikinn atvinnurekstur, reki tvær aðskildar hótelkeðjur og að auki þrjú hótel samkvæmt sérleyfissamningi við erlenda hótelkeðju. Voru viðskiptaákvarðanir um notkun fasteigna undir hótelrekstur teknar á grunni reksturs samstæðunnar í heild sinni. Fram er komið að sumar fasteigna sem aðaláfrýjandi hafði til umráða voru í notkun á umræddu tímabili en aðrar ekki. 15. Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi hefur aðaláfrýjandi Berjaya Hotels Iceland hf. lagt fram ýmis gögn um verulega tekjurýrnun meðan á heimsfaraldrinum stóð. Hann hefur meðal annars vísað til þess að samkvæmt ársreikningum samstæðunnar hafi hagnaður af reglulegri starfsemi (EBITDA) árið 2019 verið um 2,7 milljarðar króna, en árið 2020 hafi tap af reglulegri starfsemi numið tæpum milljarði. Tap hafi verið á rekstri samstæðunnar í heild bæði árin og um fjórum milljörðum króna meira árið 2020 en 2019. Eftir rekstrarárið 2019 hafi eigið fé samstæðunnar verið jákvætt um tæplega 4,5 milljarða króna en eftir rekstrarárið 2020 hafi það verið neikvætt um 169 milljónir króna. Jafnframt er fram komið að aðaláfrýjandinn naut ýmissa tímabundinna úrræða stjórnvalda til að draga úr tjóni fyrirtækja í rekstri vegna heimsfaraldurs. Þá liggur fyrir að eftir að honum lauk færðist ferðaþjónusta hér á landi í fyrra horf. Samskipti málsaðila vegna vangoldinnar leigu 16. Þótt greiðslur aðaláfrýjanda Berjaya Hotels Iceland hf. á 20% leigu á umræddu tímabili hafi ekki verið inntar reglulega af hendi þá miða aðilar við að á kröfutímabilinu hafi hann greitt 20% af leigu hvers mánaðar. Þetta hafi verið gert samkvæmt einhliða ákvörðun hans og er ekki tölulegur ágreiningur með aðilum. 17. Í byrjun júní 2020 funduðu aðilar vegna vangreiddrar leigu. Í framhaldi fundarins sendi aðaláfrýjandi Berjaya Hotels Iceland hf. gagnáfrýjanda drög að samkomulagi um greiðslu leigu. Þar var gert ráð fyrir „greiðsluskjóli“ aðaláfrýjanda vegna leigugreiðslna á tímabilinu frá apríl 2020 til mars 2021 á þann hátt að greidd yrði 20% af fjárhæð leigu. Hvorki yrðu reiknaðir dráttarvextir né annar kostnaður af ógreiddri leigu og aðilar myndu í sameiningu vinna að lausn málsins eftir því sem aðstæður skýrðust. Gagnáfrýjandi hafnaði þessum tillögum sama dag og skoraði á aðaláfrýjanda að greiða ógreidda leigu sem fyrst. Á hinn bóginn tók hann fram að ábyrgð á húsaleigu yrði ekki „virkjuð“ á næstu tveimur mánuðum ef í það minnsta helmingur vangoldinnar leigu yrði greiddur fyrir lok þeirrar viku. Gagnáfrýjandi sendi svokallaða innheimtuaðvörun 3. júlí 2020 til aðaláfrýjanda Berjaya Hotels Iceland hf. Var honum veittur sjö daga frestur til að greiða gjaldfallna húsaleigu eða semja um greiðslu hennar. Afrit bréfsins var sent aðaláfrýjanda Icelandair Group hf. 18. Frekari tilraunir til að semja reyndust árangurslausar. Hinn 19. október 2020 sendi gagnáfrýjandi „Áskorun og viðvörun“ til beggja aðaláfrýjenda þar sem fram kom að húsaleiga að fjárhæð 127.454.790 krónur auk dráttarvaxta væri í vanskilum frá 11. apríl 2020. Vísað var til fyrrnefndrar greinar 12 í leigusamningi og veittur 15 daga frestur til að bæta úr vanefndum en tekið fram að ábyrgð aðaláfrýjanda Icelandair Group hf. yrði þá virk. Með bréfi aðaláfrýjanda Berjaya Hotels Iceland hf. 22. sama mánaðar var „gjaldfellingu“ leiguskuldar mótmælt og vísað til þess að gagnáfrýjandi hefði væntanlega samið við viðskiptabanka sinn um greiðsluskjól vegna COVID-19. Þá kom fram í bréfinu að á meðan ástandið varði myndi aðaláfrýjandi bera fyrir sig varnir á grundvelli force majeure. Tilkynnti hann jafnframt að áfram yrðu greidd 20% af fjárhæð hvers reiknings í samræmi við fyrra tilboð og samninga aðaláfrýjanda við aðra leigusala sína. 19. Mál þetta var höfðað 25. nóvember 2020. Eins og fyrr er rakið voru á þeim tíma í gildi ýmsar aðgerðir stjórnvalda vegna heimsfaraldursins. Með bókun í þinghaldi 31. maí 2021 lýsti gagnáfrýjandi því yfir að viðskiptabanki sinn hefði veitt sér frest á greiðslu langtímalána. Hefði greiðslufrestur eða frysting afborgana og vaxta af láni við bankann verið í gildi frá apríl 2020. 20. Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi hefur leiga verið að fullu greidd frá opnun hótelsins í byrjun ágúst 2021. Helstu málsástæður aðila Helstu málsástæður aðaláfrýjanda Berjaya Hotels Iceland hf. 21. Þessi aðaláfrýjandi vísar í fyrsta lagi til ólögfestrar reglu kröfuréttar um force majeure sem hafi það efnislega inntak að ófyrirséð ytri atvik, sem séu sérstök í eðli sínu og valdi því að ómögulegt eða því sem næst sé að efna samningsskuldbindingu, eigi að hafa þau áhrif að efndaskylda falli niður eða leysi skuldara undan vanefndaúrræðum sem kröfuhafi ætti ella. Gagnáfrýjandi sé aðalskuldari leigusamningsins og beri þá skyldu að útvega húsnæði sem unnt sé að nýta undir hótelrekstur og jafnframt áhættuna af því ef leiguhúsnæði verður ónothæft til umsaminna nota vegna tilviljunarkenndra atvika. 22. Í öðru lagi telur aðaláfrýjandi að regla kröfuréttar um stjórnunarábyrgð leysi hann undan skaðabótaábyrgð sökum þess að hann hafi ekki getað efnt samninginn eftir aðalefni hans vegna hindrunar sem sannarlega teljist óvænt, ófyrirséð og óviðráðanleg. Reglan sé almenn í kröfurétti og taki því einnig til ólögfestra tilvika. Líta verði til áhættuskiptareglna kröfuréttar en í reglunni um stjórnunarábyrgð felist að samningsaðili losni undan skaðabótaábyrgð meðan hindrun sem hann hefur ekki stjórn á kemur í veg fyrir að hann geti greitt réttilega samkvæmt samningi. Leiði hindrunin til þess að kröfuhafi geti hvorki krafist efnda eftir efni samnings né heldur skaðabóta og dráttarvaxta. 23. Í þriðja lagi heldur aðaláfrýjandi því fram að regla samningaréttar um brostnar forsendur leysi hann undan skuldbindingu sinni og taki hún mið af atvikum sem upp koma eftir samningsgerð. Þannig hafi forsenda fyrir rekstri hótelsins brostið algjörlega með lokun þess en báðum samningsaðilum hafi verið ljóst að hótelrekstur var ákvörðunarástæða fyrir gerð leigusamningsins. Þá leiði beiting reglunnar ekki til óréttlátrar réttindaskerðingar fyrir annan samningsaðilann en tilgangur hennar sé að létta skuldbindingum af samningsaðila þegar forsenda, sem var ákvörðunarástæða hans fyrir gerð samningsins og viðsemjanda hans var kunnugt um, breytist eða brestur. 24. Í fjórða lagi telur aðaláfrýjandi leiða af 36. gr. laga nr. 7/1936 að leigusamningi skuli breytt eða vikið til hliðar vegna atvika sem komu til eftir samningsgerð. Heimsfaraldurinn hafi leitt til ómælds og óvænts tjóns leigutaka. Ekki geti talist sanngjarnt að leigutaki hótels skuli bera einn kostnaðinn af atvikum er leitt hafi til þess að koma ferðamanna til landsins stöðvaðist nær alveg meðan leigusali fái hins vegar allar sínar kröfur greiddar. Helstu málsástæður aðaláfrýjanda Icelandair Group hf. 25. Þessi aðaláfrýjandi reisir aðal- og varakröfur sínar á sömu málsástæðum og lagarökum og aðaláfrýjandi Berjaya Hotels Iceland hf. Að auki vísar hann til þess að hann hafi samkvæmt leigusamningnum einungis tekist á hendur einfalda ábyrgð á leigugreiðslum. Það sé meginregla kröfuréttar að ábyrgðarmaður verði ekki talinn hafa gengist undir aðra tegund ábyrgðar nema það leiði af ábyrgðaryfirlýsingu. Með vísan til þess beri gagnáfrýjanda að leita fyrst fullnustu hjá aðaláfrýjanda Berjaya Hotels Iceland hf. Verði sú innheimta árangurslaus geti gagnáfrýjandi fyrst haft uppi kröfur á hendur honum. Helstu málsástæður gagnáfrýjanda 26. Gagnáfrýjandi reisir dómkröfur sínar á því að um sé að ræða ótvíræða samningsskuldbindingu um peningagreiðslu samkvæmt langtímasamningi um atvinnuhúsnæði. Samningurinn hafi ekki að geyma ákvæði um force majeure sem snúi að efndum leigugreiðslna. Áhætta vegna breyttra markaðsaðstæðna geti ekki legið hjá gagnáfrýjanda. Þá sé lagareglum um stjórnunarábyrgð ekki til að dreifa þegar komi að leigu á fasteign til rekstrar. Að virtum atvikum og efni samningsins geti ætluð óskráð regla þar að lútandi ekki leitt til brottfalls skilyrðislausar samningsskyldu til greiðslu peninga. 27. Gagnáfrýjandi vísar til meginreglu samningaréttar um að samningsaðili beri sjálfur ábyrgð á þeim forsendum og væntingum sem liggi til grundvallar loforði hans eða samningi, nema viðsemjandi hafi ábyrgst annað. Sjónarmið um brostnar forsendur eða 36. gr. laga nr. 7/1936 eigi ekki við í málinu. Um sé að ræða reglur sem feli í sér undantekningu frá meginreglunni um að samningar skuli standa og beri að túlka þær þröngt. Aðilar langtímasamnings megi almennt gera ráð fyrir því að ýmislegt óvænt geti gerst á samningstíma. Í tvíhliða samningssambandi, þar sem báðir aðilar verða fyrir tjóni vegna farsóttar eða samkomubanns, verði samningsákvæðum ekki hliðrað til hagsbóta fyrir annan aðilann en til tjóns fyrir hinn. 28. Gagnvart aðaláfrýjanda Icelandair Group hf. reisir gagnáfrýjandi kröfu sínar á grein 4.10 í samningi aðila. Með áritun sinni á samninginn hafi aðaláfrýjandi gengist í ábyrgð fyrir efndum leigutaka sem nemi sex mánaða leigu auk virðisaukaskatts og svari krafa á hendur honum til þess. Samkvæmt samningnum hafi ábyrgðin orðið virk 3. nóvember 2020 þegar 15 dagar voru liðnir frá áskorun um greiðslu. Því sé krafist dráttarvaxta frá þeim degi. Niðurstaða Um kröfugerð gagnáfrýjanda 29. Eins og að framan greinir miða aðilar við að leiga hafi einungis verið greidd að fimmtungi á tímabilinu frá apríl 2020 til og með nóvember sama ár, sem er kröfutímabil máls þessa. Gagnáfrýjandi hefur ekki fært síðari leigugreiðslur inn á eldri skuld vegna tímabilsins. Miðar hann fyrri lið kröfu sinnar, sem beinist að aðaláfrýjanda Berjaya Hotels Iceland hf., að ætlaðri skuld hans samkvæmt leigusamningi vegna vangreiddrar leigu í átta mánuði. Síðari liður dómkröfu hans, sem hann beinir að aðaláfrýjanda Icelandair Group hf., nemur fjárhæð ábyrgðar á leigugreiðslum í sex mánuði af þessu tímabili. Í þinghaldi í héraði gaf lögmaður gagnáfrýjanda þá skýringu að ekki bæri að skilja málatilbúnað hans svo að aðaláfrýjandi Berjaya Hotels Iceland hf. sé til viðbótar krafinn um fjárhæðir samkvæmt síðari lið kröfugerðar hans heldur skuli lesa kröfuliðina í samhengi. Síðari kröfuliðurinn lúti einungis að greiðsluábyrgð aðaláfrýjanda Icelandair Group hf. en aðaláfrýjendur báðir beri sameiginlega ábyrgð samkvæmt þeim lið að svo miklu leyti sem dæmdar kröfur á hendur þeim falli saman. 30. Heildarkrafa gagnáfrýjanda á hendur aðaláfrýjanda Berjaya Hotels Iceland hf. er fundin út með þeim hætti að frá leigu í umrædda átta mánuði, samtals 182.360.829 krónur, dregur hann innborganir sem voru um 20% af leigu, samtals 36.449.030 krónur. Nemur vangoldin leiga samkvæmt fyrri lið kröfugerðar hans sem beinist að aðaláfrýjanda Berjaya Hotels Iceland hf. 145.911.799 krónum sem gagnáfrýjandi tiltekur sem höfuðstól. Eigi að síður dregur hann aftur sömu innborganir frá þeim höfuðstól og áföllnum dráttarvöxtum. Augljóst er að gagnáfrýjanda urðu að þessu leyti á mistök við framsetningu kröfugerðar. Við þennan málatilbúnað sinn er hann bundinn og með honum hefur hann ráðstafað sakarefni málsins. 31. Verður nú hér í framhaldinu vikið að þeim einstöku málsástæðum sem aðaláfrýjendur telja að leiða eigi til þess að fallist verði á kröfur þeirra í málinu. Áhættuskipti í kröfuréttarsambandi aðila 32. Samkvæmt meginreglu kröfuréttar um áhættuskipti í gagnkvæmum samningi ber hvor samningsaðila um sig að öllu jöfnu áhættu af ófyrirséðum og óviðráðanlegum ytri atvikum við efndir sínar á samningi. 33. Leigutaka ber aðeins að greiða fyrir hið leigða meðan hann hefur það til umráða. Sú meginregla gildir um leigusamninga að leigusali ber áhættuna ef leiguhlutur skemmist, rýrnar eða ferst af tilviljun á leigutíma og sér hennar meðal annars stað í ákvæðum 15. gr., 3. mgr. 17. gr., 2. mgr. 19. gr., 2. mgr. 20. gr. og 3. og 4. tölulið 1. mgr. 60. gr. húsaleigulaga. Í þessu felst að verði leiguhúsnæði ónothæft til umsaminna nota vegna tilviljunarkenndra atvika fellur skylda leigutaka til að greiða leigusala umsamið endurgjald fyrir leigunotin niður frá og með því tímamarki er húsnæðið verður ónothæft, sbr. dóm Hæstaréttar 28. febrúar 2013 í máli nr. 587/2012. Þetta gildir bæði um tímabundna og ótímabundna leigusamninga. Þannig má líta á tjónsatburð sem vanefnd af hálfu leigusala er heimilar leigutaka viðeigandi vanefndaúrræði, svo sem afslátt eða riftun. Leigusali á ekki rétt á endurgjaldi fyrir þann tíma sem leigutaki hefur ekki haft not af hinu leigða af framangreindum sökum. 34. Þegar metin eru áhættuskipti í samningssambandi aðila máls þessa verður að líta til þess að um var að ræða langtímasamning tveggja fyrirtækja um leigu húsnæðis sem var leigutaka til reiðu allt það tímabil sem um ræðir. Húsnæðið skemmdist hvorki né spilltist á leigutímabilinu og hvorki voru í leigusamningi ákvæði um tryggingar, skipta áhættu samningsaðila að einhverju leyti né um skiptingu hagnaðar með tilliti til veltu eða afkomu reksturs á þeim langa tíma sem samningurinn tók til. 35. Fyrir liggur að aðgerðir stjórnvalda vegna heimsfaraldursins fólu ekki í sér bann við nýtingu hins leigða húsnæðis. Þvert á móti hélt aðaláfrýjandi Berjaya Hotels Iceland hf. umráðum þess allan þann tíma sem dómkrafa gagnáfrýjanda tekur til og ákvað einhliða að greiða einungis hluta leigunnar. Nýtti hann húsnæðið bæði fyrir og eftir að ástandinu lauk. Jafnframt liggur fyrir að einhver önnur hótel aðaláfrýjanda Berjaya Hotels Iceland hf. voru opin hluta tímabilsins samkvæmt ákvörðun hans. Verður því ekki fallist á að áhættuskiptareglur kröfuréttar eigi að hafa áhrif á leigu umrætt tímabil. Aðstæðum í máli þessu verður því að engu leyti jafnað til þeirra sem fjallað var um í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 587/2012. Óviðráðanleg ytri atvik (force majeure) 36. Efnislegt inntak reglunnar um force majeure er að ófyrirséð, óviðráðanleg ytri atvik sem eru sérstök í eðli sínu og valda því að ómögulegt, eða því sem næst, er að efna samningsskuldbindingu eiga að hafa áhrif á efndaskyldu eða það hvort eða hvaða vanefndaúrræðum má beita. Með óviðráðanlegum ytri atvikum er átt við atvik sem ekki varða skuldarann sjálfan og eiga það sameiginlegt að ekki mátti sjá þau fyrir eða forðast með venjulegum öryggisráðstöfunum. Þau þurfa jafnframt að hafa úrslitaáhrif fyrir möguleika skuldara á að efna skyldu sína. Þegar svo háttar til stöðvast skylda aðalskuldara til að efna samningsskuldbindingu eftir efni sínu (in natura) meðan hindrun stendur yfir. 37. Nánari réttaráhrif reglunnar fara eftir atvikum hverju sinni, svo sem eðli efndahindrana, tegund samningsskyldna og jafnframt því hvaða afleiðingar hindranir hafa á efndir. Einnig skiptir máli hversu fyrirsjáanleg atvik eru þegar metið er hvort aðilar í gagnkvæmu samningssambandi hefðu getað gert ráð fyrir þeim í samningi sínum. Þá hefur áhrif sú löggjöf er lýtur að viðkomandi kröfuréttarsambandi, sbr. dóma Hæstaréttar 28. júní 2023 í málum nr. 2/2023, 3/2023 og 4/2023. 38. Þess er þó sérstaklega að gæta að skuldari getur almennt ekki borið fyrir sig fjárskort til að koma sér undan greiðsluskyldu í peningum á þessum grundvelli. Dugar þá ekki að vísa til viðskiptasjónarmiða eða fjárhagsstöðu skuldara almennt. Annað gildir þó ef greiðslumiðlun liggur niðri, gjaldeyrishöft koma til eða aðrar hindranir í þá veru. Á hinn bóginn raknar skyldan til greiðslu peninga að öllu jöfnu við um leið og slíkt ástand varir ekki lengur. 39. Í leigusamningi aðila er að finna sérstakt ákvæði um force majeure en það lýtur einungis að skilum gagnáfrýjanda á hinu leigða húsnæði sem sætti á þeim tíma er samningur var gerður lagfæringum svo nota mætti það undir hótelrekstur. Sambærilegt ákvæði er hins vegar ekki í samningnum um skyldu til greiðslu leigu. Hér gegnir því öðru máli en í dómi réttarins sem kveðinn er upp í dag í máli nr. 33/2023. Í því máli var beinlínis samið um áhrif ófyrirsjáanlegra atvika (force majeure) á skyldu leigutaka til greiðslu peninga. 40. Að framangreindu virtu verður ekki fallist á að skylda aðaláfrýjanda Berjaya Hotels Iceland hf. til greiðslu peningaskuldar hafi á grundvelli reglunnar um force majeure fallið niður á þeim tíma sem um ræðir. Stjórnunarábyrgð 41. Í stjórnunarábyrgð felst efnislega að samningsaðili ber ábyrgð á efndum samnings nema því aðeins að einhver sú hindrun standi þeim í vegi sem hann getur ekki yfirunnið. Reglan ræðst af atvikum hverju sinni og eru þannig gerðar mismunandi kröfur eftir því hvort um er að ræða seljanda eða kaupanda, sbr. til dæmis til hliðsjónar 1. mgr. 23. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup í tilviki seljanda og 1. mgr. 57. gr. laganna þegar um ræðir kaupanda. Samkvæmt síðargreinda ákvæðinu getur seljandi krafist skaðabóta fyrir tjón af völdum greiðsludráttar kaupanda en þó ekki meðan hann sýnir fram á að greiðsludráttur stafi af stöðvun almennra samgangna eða greiðslumiðlunar eða annarri hindrun sem hann hefur ekki stjórn á og ekki er með sanngirni hægt að ætlast til að hann hafi getað haft í huga við samningsgerðina, komist hjá afleiðingunum af eða yfirunnið. 42. Skyldur aðaláfrýjanda Berjaya Hotels Iceland hf. eru um greiðslu leigu og ætlaðar skaðabætur vegna greiðsludráttar í formi dráttarvaxta. Verður því ekki fallist á málatilbúnað aðaláfrýjenda þess efnis að skylda til greiðslu leigu falli niður, hvorki í heild né hluta, á þessum grunni. Brostnar forsendur 43. Skilyrði reglunnar um brostnar forsendur eru þau að um sé að ræða verulega forsendu fyrir gerð samnings sem brestur eftir samningsgerð. Báðum aðilum verður að vera hún ljós auk þess sem líta verður til hagsmuna beggja samningsaðila þannig að hún leiði ekki til óréttlátrar réttarskerðingar fyrir annan þeirra. 44. Við mat á því hvort unnt er að beita reglunni hér verður að líta til þess að þær aðstæður sem urðu vegna heimsfaraldursins voru ófyrirséðar og höfðu víðtæk áhrif á íslenskt efnahagslíf. Ekki verður fallist á að einungis verði litið til þeirra áhrifa sem þær aðstæður höfðu á hagsmuni aðaláfrýjenda umfram gagnáfrýjanda. Að því marki sem unnt er að líta svo á að um brostna forsendu sé að ræða verður þvert á móti að telja að hún eigi jafnt við um samningsaðila. Samkvæmt því eru ekki efni til að fallast á með aðaláfrýjendum að ógilda samningsskuldbindingar í heild eða að hluta á þessum grundvelli. Ógildingarregla 36. gr. laga nr. 7/1936 45. Loks krefjast aðaláfrýjendur þess að ákvæðum leigusamnings aðila um greiðslu leigu verði vikið til hliðar vegna umrædds tímabils sökum þess að ósanngjarnt sé að leigutaki beri einn áhættuna af því að algjört tekjufall varð í rekstri Reykjavík Konsúlat hótels vegna heimsfaraldurs. 46. Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 segir að samningi megi víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skal við mat samkvæmt 1. mgr. líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerð og atvika sem síðar koma til. 47. Við mat á ósanngirni í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936, sbr. 11. gr. húsaleigulaga, verður í máli þessu fyrst og fremst litið til samnings aðila og þeirrar skiptingar rekstraráhættu sem þar er að finna. Er þá þess að gæta að aðilar sem starfa við atvinnurekstur eiga að vera best í stakk búnir að meta sjálfir hagsmuni sína og þá áhættu sem þeir kjósa að taka með gerð samnings. Þeir verða jafnframt að vera viðbúnir því að grípa til ráðstafana til tjónstakmörkunar við rekstraráföll. Ekki verður fallist á þá málsástæðu aðaláfrýjenda að fyrrgreind óviðráðanleg ytri atvik (force majeure) skuli vera hluti ósanngirnismatsins þótt litið verði til áhrifa þess ástands sem skapaðist við almennt mat samkvæmt ákvæðinu. 48. Þegar metið er hvort sanngjarnt sé að hliðra samningsskyldum aðaláfrýjanda Berjaya Hotels Iceland hf. er til þess að líta að þegar um langtímasamning er að ræða verður að meta aðstæður í heild sinni og þá með hliðsjón af samningstímanum öllum. Alla jafna þarf mikið að koma til eigi að hliðra samningsskyldu á hluta gildistíma gagnkvæms samnings sem ætlað er að gilda óbreyttur að öðru leyti um langan tíma. Hér gegnir öðru máli en þegar krafist er breytingar á endurgjaldi í gagnkvæmum langtímasamningi sem ætlað er að gilda svo breyttum framvegis, sbr. til hliðsjónar þær aðstæður sem uppi voru í dómi Hæstaréttar 8. nóvember 1990 og birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 1437. 49. Aðilar máls þessa búa að þekkingu og reynslu á sviði fyrirtækjarekstrar og nutu jafnframt sérfræðiaðstoðar við gerð leigusamningsins. Tímabil það sem um ræðir í máli þessu nær aðeins yfir átta mánuði af tuttugu ára leigutíma. Í samningnum er ekki að finna ákvæði um endurskoðun leigu að öðru leyti en að þar er mælt fyrir um að hún sé bundin vísitölu. Fjárhæð leigu er því ekki tengd rekstri aðaláfrýjanda að öðru leyti en að hún var lægri á fyrstu fimm árum leigutímans. Þannig tók aðaláfrýjandi Berjaya Hotels Iceland hf. á sig áhættu af því hvernig mál myndu skipast í framtíð þegar kom að rekstri hótelsins en aðilar sömdu um fast leiguverð óháð afkomu. 50. Eins og rakið hefur verið hélt aðaláfrýjandi Berjaya Hotels Iceland hf. umráðum hótelsins allan þann tíma sem dómkröfur hans taka til en aðgerðir innlendra stjórnvalda vegna heimsfaraldursins fólu ekki í sér kröfu um lokun hótela. Þær höfðu aftur á móti mikla þýðingu fyrir rekstur aðaláfrýjanda þótt mismunandi strangar reglur hefðu verið í gildi á því tímabili sem dómkröfur gagnáfrýjanda taka til. 51. Samkvæmt málflutningi aðaláfrýjenda hér fyrir dómi var brugðist við þessum aðstæðum með ýmsum hætti, þar með talið lokun hótelsins 21. mars 2020. Fallist verður á þá ályktun Landsréttar að leggja verði til grundvallar að aðaláfrýjandi Berjaya Hotels Iceland hf. hafi, gagnstætt gagnáfrýjanda, notið góðs af ýmsum mótvægisaðgerðum stjórnvalda vegna heimsfaraldursins. Þannig hefur því verið lýst fyrir Hæstarétti að hann hafi ákveðið að nýta sér þau úrræði sem honum stóðu til boða af hálfu stjórnvalda. Í framangreindu fólust ákvarðanir aðaláfrýjanda sem voru liður í takmörkun á tjóni á sama tíma og hann hélt fullum umráðum húsnæðisins. 52. Að þessu virtu og með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms hafa aðaláfrýjendur ekki sýnt fram á að skilyrði séu til þess að að víkja til hliðar endurgjaldsákvæði samningsins með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 þannig að leiga falli niður eða lækki vegna umrædds kröfutímabils. Þegar litið er litið til atvika allra er þó rétt, á þeim sama grundvelli, að miða upphaf dráttarvaxtakröfu gagnáfrýjanda á hendur aðaláfrýjanda Berjaya Hotels Iceland hf. við málshöfðun í héraði 25. nóvember 2020. Ábyrgð aðaláfrýjanda Icelandair Group hf. 53. Það er meginregla í kröfurétti að ábyrgð teljist einföld nema annað sé sérstaklega tekið fram. Í henni felst að ekki er unnt að ganga að ábyrgðarmanni fyrr en leitt hefur verið í ljós að ekki fáist greiðsla hjá aðalskuldara. Í sjálfskuldarábyrgð felst hins vegar að unnt er að ganga að ábyrgðarmanni um leið og aðalskuldari hefur vanefnt kröfu án tillits til þess hvort kröfuhafi hafi reynt að fá hana greidda hjá aðalskuldara. Í grein 4.10 í umræddum leigusamningi er skýrt kveðið á um að ábyrgð aðaláfrýjanda Icelandair Group hf. á skyldu til greiðslu leigu skuli verða virk 15 dögum eftir að skorað er á aðaláfrýjanda Berjaya Hotels Iceland hf. að bæta úr vanefnd að því gefnu að ekki hafi verið úr henni bætt. Samkvæmt þessu er um sjálfskuldarábyrgð aðaláfrýjandans að ræða á leigugreiðslum. Gagnáfrýjandi sendi áskorun í samræmi við þetta til aðaláfrýjenda 19. október 2020. Varð ábyrgðin því virk 3. nóvember það ár eins og kröfugerð gagnáfrýjanda miðar við. Verður aðaláfrýjandi því dæmdur til greiðslu sex mánaða leigu eins og ábyrgðin kveður á um en með dráttarvöxtum eins og áður greinir. Niðurstaða samkvæmt kröfugerð gagnáfrýjanda 54. Þar sem ekki hefur verið fallist á kröfu gagnáfrýjanda um dráttarvexti fyrr en frá 25. nóvember 2020 og allar innborganir aðaláfrýjanda Berjaya Hotels Iceland hf. bárust fyrir þann tíma verður í ljósi kröfugerðar gagnáfrýjanda að líta svo á að innborganirnar komi beint til frádráttar höfuðstól kröfunnar sem þannig lækkar í 109.462.769 krónur eins og réttilega var komist að niðurstöðu um í hinum áfrýjaða dómi. Með vísan til þess verður fallist á þá niðurstöðu í hinum áfrýjaða dómi að aðaláfrýjandi Icelandic Group hf. greiði gagnáfrýjanda kröfu að höfuðstól 137.852.244 krónur samkvæmt síðari lið dómkrafna hans en af þeim höfuðstól skuli aðaláfrýjendur greiða sameiginlega 109.462.769 krónur. 55. Samkvæmt öllu framanrituðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með þeim breytingum sem að framan greinir um upphafstíma dráttarvaxta. Rétt þykir að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Dómsorð: Aðaláfrýjandi, Icelandair Group hf., greiði gagnáfrýjanda, Suðurhúsum ehf., 137.852.244 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. nóvember 2020 til greiðsludags. Þar af greiði aðaláfrýjandi, Berjaya Hotels Iceland hf., gagnáfrýjanda, sameiginlega með aðaláfrýjanda Icelandair Group hf., 109.462.769 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. nóvember 2020 til greiðsludags. Málskostnaður á öllum dómstigum fellur niður. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=88a2e262-a818-47a8-afeb-c30f6fecefb4&verdictid=ee618b03-0310-4a1a-a82c-918d25e834d6
Mál nr. 43/2023
"Fíkniefnalagabrot Ávana- og fíkniefni Skipulögð brotastarfsemi Heimfærsla Samverknaður Hlutd(...TRUNCATED)
"Þau brot sem voru til meðferðar fyrir Hæstaréttar voru í fyrsta lagi aðild G og H að innflu(...TRUNCATED)
"Dómur Hæstaréttar\n1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Björg(...TRUNCATED)
Mál nr. 31/2023
"Kynferðisbrot Nauðgun Börn Barnaverndarlagabrot Refsiheimild Heimfærsla Refsiákvörðun Miska(...TRUNCATED)
"Í þeim hluta málsins sem var til endurskoðunar fyrir Hæstarétti var B í þremur ákæruliðu(...TRUNCATED)
"Dómur Hæstaréttar\n1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsd(...TRUNCATED)
Mál nr. 25/2023
"Fasteign Forkaupsréttur Kaupsamningur Hjón Tómlæti Ógildi löggernings Stjórnarskrá Sératkv(...TRUNCATED)
"Ágreiningur málsins laut að því hvort forkaupsréttur G og R ehf. á grundvelli skiptayfirlýs(...TRUNCATED)
"Dómur Hæstaréttar\n1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thor(...TRUNCATED)
Mál nr. 43/2022
Dánarbú Erfðaskrá Dánargjöf Lífsgjöf
"A höfðaði mál á hendur niðjum E, skammlífari maka hennar, til ógildingar á gerningi frá 3(...TRUNCATED)
"Dómur Hæstaréttar\n1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsd(...TRUNCATED)

No dataset card yet

Contribute a Dataset Card
Downloads last month
4