kennsluromur / DOCS /transcription_guidelines_is.txt
rkjaran's picture
Initial commit with version 22.01
73dc787 verified
raw
history blame contribute delete
No virus
7.36 kB
Í grunninn snýst verkefnið um að hlusta á fyrirlestra og leiðrétta uppskrift talgreinisins í samræmi við það sem er sagt. Þessi innsláttur verður svo notaður sem þjálfunargögn fyrir nýja talgreina fyrir íslensku. Textinn sem er skrifaður upp þarf enn fremur að passa við rétta staði í upptökunni, svo það þarf að tryggja að þessar tímasetningar séu réttar.
Fólk talar allt öðruvísi en það skrifar, eins og kemur fljótt í ljós þegar farið er að skrifa talmál upp sem texta. Setningar eru ekki alltaf kláraðar, eða skipt um kúrs í miðju kafi, og hikorð og endurtekningar koma líka oft fyrir. Einnig er oft ekki mjög skýrt hvar einni málsgrein lýkur og næsta byrjar. Þetta er eðlilegt fyrir talmál, en í ritmáli höfum við vanist skýrari uppbyggingu. Innsláttarverkefnið sem við stöndum frammi fyrir hér er því ekki venjulegt ritmál, heldur er mikilvægt að skrifa fyrirlestrana nákvæmlega upp. Til þess að þjálfa sem besta talgreina þarf að vera eins nákvæm samsvörun milli tals og textauppskriftar og hægt er. Þetta þýðir að hikorð eins og „hérna“ og „sem sagt“ og endurtekin orð eins og „að, að“, eða „nú, nú“ o.s.frv. eiga að halda sér í textanum.
Þar sem mikið af upptökunum eru háskólafyrirlestrar um ýmis sérhæfð efni koma þar líka fyrir alls konar sértákn og vafaatriði sem þarf að taka ákvörðun um. Búið er að samræma mörg þeirra en fleiri svona atriði munu koma upp og þá er mikilvægt að halda utan um þau og finna lausn á því hvernig þau eigi að skrifa upp.
Hér er listi yfir nokkur almenn atriði sem eiga við um innsláttinn og ýmis sérhæfð atriði sem geta komið upp í mismunandi fyrirlestrum:
* Málsgreinar geta orðið langar í töluðu máli en það er eðlilegt að skipta þeim upp á skynsamlegum stöðum ef þær eru orðnar mjög langar. Oftast eru margar leiðir við að skipta þessu upp, svo það er mikilvægast að skiptingin sé bara eðlileg fyrir textann og flæðið í honum. Hér er allt í lagi að málsgrein byrji á „Og“, enda er það mjög algengt í talmáli, til að halda flæði.
* Erlend orð
* halda sér með erlendri stafsetningu án þess að þau séu afmörkuð sérstaklega (nema ekki sé skýrt hvað sagt er)
* Bandstrik notuð til að tengja saman ef erlent orð er fyrri hluti í samsetningu eða erlenda orðið er lagað að íslensku, t.d. Bernoulli-jafna, Gauss-eyðing, notebook-ir, extrapolate-a, Python-forrit.
* Tökuorð og slettur sem til er íslenskur ritháttur á má skrifa með þeim rithætti, t.d. splitta, djóka, ókei
* Hikorð afmörkuð með kommum, t.d. „Nú skulum við, hérna, það, það sakar ekki að skoða þetta betur.“
* Hik eins og „uuuu“ og „eehh“, hlátur, ræskingar o.þ.h. eru þó ekki höfð með, enda ekki íslensk orð
* Við fylgjum því sem sagt er, jafnvel þótt það sé mögulega „rangt“ mál
* Hálfkláruð orð (sérstaklega ef þau eru ekki alvöru orð í íslensku) má rita svona: [HIK: þre], þrennt
* Dæmi: „krafturinn í [HIK: sveifl], sameindasveiflunum er...“
* Ógreinilegt tal, ekki skilst hvað sagt er: [UNK].
* Dæmi: „Þegar [UNK] talað um föst einkenni hljóða þá er átt við…“
* Reyna að láta talgreinisúttakið ekki trufla sig, heldur hlusta þá bara aftur (jafnvel með lokuð augun!). Líka hægt að hægja á upptökunni og reyna þannig að greina hvað var sagt.
* Ef einhver (nemandi) talar úti í sal er það haft með ef talið heyrist vel, en ekki ef það er lágt og óskýrt
* Kommur skulu notaðar þegar mælandi leiðréttir sig, í setningum eins og þessari:
* „Áður fyrr var oft notað, notaður bókstafurinn þ fyrir hljóðið [θ]“
* Athuga vel kommusetningu: sjá t.d. kommurnar sem hafa verið settar hér inn til að gera textann læsilegri:
* „Annað er það að, sem kann að virka ruglandi fyrir marga, að það, fyrir upphafshljóðin í „buna“, „dagur“, „gjöf“, „gera“ og „gala“ eru ekki notuð, notaðir bókstafirnir, eða tákn sem samsvara bókstöfunum b, d og g, heldur eru notuð sömu tákn og, þarna, fyrir fráblásnu hljóðin þarna í dæmunum að ofan, bara án, án þess að það sé nokkurt staðmerki sem táknar fráblástur.“
* Sjá muninn á að lesa þetta án allra komma:
* Annað er það að sem kann að virka ruglandi fyrir marga að það fyrir upphafshljóðin í „buna“ „dagur“ „gjöf“ „gera“ og „gala“ eru ekki notuð notaðir bókstafirnir eða tákn sem samsvara bókstöfunum b d og g heldur eru notuð sömu tákn og þarna fyrir fráblásnu hljóðin þarna í dæmunum að ofan bara án án þess að það sé nokkurt staðmerki sem táknar fráblástur.
* Tölur eru skrifaðar út í orðum, til dæmis „fjórir komma fimm“
* Athugið sérstaklega rithátt á lengri tölum; þar er hvert orð skrifað fyrir sig með bilum á milli, án komma:
* fimm þúsund fjögur hundruð áttatíu og átta (ekki fimmþúsund, fjögurhundruð eða slíkt)
* Plús og mínus (o.s.frv.) skrifað í orðum líka, frekar en táknum
* Stakir bókstafir: skrifaðir án afmörkunar og í lágstöfum nema ástæða sé til að nota hástaf
* Íslenskar gæsalappir („svona“) notaðar þar sem það á við
* Þegar vitnað er í orð einhvers annars
* Í málfræðifyrirlestrum, þegar tekin eru dæmi um orð, t.d. „saga“ og „baga“
Einstök orð og orðalag:
* Þetta (ekki þettað, þótt það sé stundum borið þannig fram)
* Ókei (ekki OK eða ok)
* getið þið (ekki geti þið)
* sjáið þið, athugið þið (ekki sjáiði, athugiði)
* myndi (ekki mundi)
* þið skuluð (ekki þið skulið)
* svolítið, dálítið (ekki soldið, dáldið, svoldið, dáltið … )
* sem sagt (ekki semsagt)
* samasem (frekar en sama sem)
* ýmiss konar
* náttúrulega
* Python, Visual Studio o.s.frv. með stórum staf
* Á að skrifa tvö orð eða eitt? Hér er þumalputtaregla:
* Ef þú ert í vafa með nafnorð eða lýsingarorð á það yfirleitt að vera eitt orð:
* vinnings miði → vinningsmiði
* spaða ásinn → spaðaásinn
* líkinda dreifing → líkindadreifing
* megin atriði → meginatriði
* jafn mikilvægur → jafnmikilvægur
* Ef þú ert í vafa með forsetningar og atviksorð eiga það oftast að vera tvö orð
* einhvernveginn → einhvern veginn
* hinsvegar → hins vegar
* semsagt → sem sagt
* svosem → svo sem
Sérhæfð tákn og fleira sem getur komið fyrir í fyrirlestrunum
* Stærðfræði og tölvunarfræði:
* f af x komma y en ekki [f(x,y)]
* lambda, plús, mínus, þeta
* algóriþmi
* nótasjón
* f merkt
* Málfræði:
* Þegar talað er um bókstafi eru þeir skrifaðir bara í heilum bókstöfum, s.s. p t k. Ef þeir eru bornir fram sem orð, t.d. „vaffið“, „eðinu“, skal skrifa það svona: v-ið, ð-inu.
* nema: y skal skrifað ypsilon ef það er borið fram sem ypsilon/ufsilon (annars bara y)
* Hljóðkerfistákn eru rituð innan hornklofa eins og tíðkast í málfræði, s.s. [ŋ], [i:].
* Hljóðin má merkja með tómum hornklofa ef ekki er ljóst um hvaða tákn er að ræða.