text
stringlengths
0
342
Vötnin öll, er áður féllu
undan hárri fjallaþröng,
skelfast, dimmri hulin hellu,
hrekjast fram um undirgöng.
Öll þau hverfa að einu lóni,
elda þar sem flóði sleit.
Djúpið mæta, mest á Fróni,
myndast á í breiðri sveit.
Kyrrt er hrauns á breiðum boga,
blundar land í þráðri ró.
Glaðir næturglampar loga,
geislum sá um hæð og mó.
Brestur þá og yzt með öllu
í undirhvelfing hraunið sökk.
Dunar langt um himinhöllu.
Hylur djúpið móða dökk.
Svo er treyst með ógn og afli
alþjóð minni helgað bjarg.
Breiður, þakinn bláum skafli,
bundinn treður foldarvarg.
Grasið þróast grænt í næði,
glóðir þar sem runnu fyrr.
Styður völlinn bjarta bæði
berg og djúp. Hann stendur kyrr.
Hver vann hér svo að með orku?
Aldrei neinn svo vígi hlóð.
Búinn er úr bálastorku
bergkastali frjálsri þjóð.
Drottins hönd þeim vörnum veldur.
Vittu, barn, sú hönd er sterk. -
Gat ei nema guð og eldur
gjört svo dýrðlegt furðuverk.
Hamragirðing há við austur
Hrafna- rís úr breiðri -gjá.
Varnameiri veggur traustur
vestrið slítur bergi frá.
Glöggt ég skil, hví Geitskór vildi
geyma svo hið dýra þing.
Enn þá stendur góð í gildi
gjáin, kennd við almenning.
Heiðarbúar! glöðum gesti
greiðið för um eyðifjöll!
Einn ég treð með hundi og hesti
hraun - og týnd er lestin öll.
Mjög þarf nú að mörgu að hyggja,
mikið er um dýrðir hér!
Enda skal ég úti liggja,
engin vættur grandar mér.
### DALVÍSA
Fífilbrekka, gróin grund,
grösug hlíð með berjalautum,
flóatetur, fífusund,
fífilbrekka, smáragrund!
Yður hjá ég alla stund
uni bezt í sæld og þrautum,
fífilbrekka, gróin grund,
grösug hlíð með berjalautum!
Gljúfrabúi, gamli foss,
gilið mitt í klettaþröngum,
góða skarð með grasa hnoss,
gljúfrabúi, hvítur foss!
Verið hefur vel með oss,
verða mun það ennþá löngum,
gljúfrabúi, gamli foss,
gilið mitt í klettaþröngum!
Bunulækur blár og tær,
bakkafögur á í hvammi,
sólarylur, blíður blær,
bunulækur fagurtær,
yndið vekja ykkur nær
allra bezt í dalnum frammi,
bunulækur blár og tær,
bakkafögur á í hvammi!
Hnjúkafjöllin himinblá,
hamragarðar, hvítir tindar,
heyjavöllinn horfið á,
hnjúkafjöllin hvít og blá!
Skýlið öllu, helg og há,
hlífið dal, er geisa vindar,
hnjúkafjöllin himinblá,
hamragarðar, hvítir tindar!
Sæludalur, sveitin bezt!
Sólin á þig geislum helli,
snemma risin, seint þó setzt.
Sæludalur, prýðin bezt!
Þín er grundin gæðaflest,
gleðin æsku, hvíldin elli.
Sæludalur, sveitin bezt,
sólin á þig geislum helli.