text
stringlengths 0
342
|
---|
saltdrifin hetja, stigin upp af bárum. |
Þú elskar hann - þess ann ég honum glaður. |
Ástin er rík, og þú ert hennar dís. |
Hér vil ég sitja, hér er okkar staður, |
ó, Hulda, þar til sól úr ægi rís. |
Hallaðu lokkahöfði bjarta þínu, |
mín Hulda kær, að vinarbrjósti mínu. |
Hann svipast um. Nú sefur allt í landi. |
Svæft hefur móðir börnin stór og smá, |
fífil í haga, hrafn á klettabandi, |
hraustan á dúni, veikan fjölum á. |
Hann svipast um í svölum næturvindi |
um sund og völl að háum fjallatindi. |
Hallaðu lokkahöfði bjarta þínu |
að hjarta mér, sem nú er glatt og traust. |
Hallaðu þér nú hægt að brjósti mínu. |
Hann hefur ekki starfað notalaust. |
Seint og að vonum svo fær góður njóta |
sín og þess alls, er vann hann oss til bóta. |
Hann líður yfir ljósan jarðargróða. |
Litfögur blóm úr værum næturblund |
smálíta upp að gleðja skáldið góða. |
Gleymir hann öðru og skoðar þau um stund. |
Nú hittir vinur vin á grænu engi: |
"Velkominn, Eggert! Dvelstu með oss lengi!" |
EGGERT: |
Smávinir fagrir, foldarskart, |
fífill í haga, rauð og blá |
brekkusóley, við mættum margt |
muna hvort öðru að segja frá. |
Prýðið þér lengi landið það, |
sem lifandi guð hefur fundið stað |
ástarsælan, því ástin hans |
allstaðar fyllir þarfir manns. |
Vissi ég áður voruð þér, |
vallarstjörnur um breiða grund, |
fegurstu leiðarljósin mér. |
Lék ég að yður marga stund. |
Nú hef ég sjóinn séð um hríð |
og sílalætin smá og tíð. - |
Munurinn raunar enginn er, |
því allt um lífið vitni ber. |
Faðir og vinur alls, sem er, |
annastu þennan græna reit. |
Blessaðu, faðir, blómin hér, |
blessaðu þau í hverri sveit. |
Vesalings sóley, sérðu mig? |
Sofðu nú vært og byrgðu þig. |
Hægur er dúr á daggarnótt. |
Dreymi þig ljósið, sofðu rótt! |
Smávinir fagrir, foldarskart, |
finn ég yður öll í haganum enn. |
Veitt hefur Fróni mikið og margt |
miskunnar faðir. En blindir menn |
meta það aldrei eins og ber, |
unna því lítt, sem fagurt er, |
telja sér lítinn yndisarð |
að annast blómgaðan jurtagarð. |
* |
Hulda! Hví grípa hendur þínar ljósu |
um hendur mér, og hví svo viknar þú? |
Veit ég þú elur eyrar fagra rósu, |
alsett er rauðum blómum Huldubú. |
Eggert er þér um ekki neitt að kenna, |
annazt hefurðu fjallareitinn þenna. |
Sjáðu, enn lengra svífur fram um völlu |
svásúðleg mynd úr ungum blómareit, |
sterkur og frjáls og fríður enn að öllu |
Eggert að skoða gengur byggða sveit. |
Hann fer að sjá, hve lífi nú á láði |
lýðurinn uni, sá er mest hann þráði. |
Brosir við honum bærinn heillagóði |
í brekkukorni, hreinn og grænn og smár. |
Þar hefur búið frændi hans með fljóði |
í flokki ljúfra barna mörg um ár. |
Þar hefur sveitasælan guðs í friði |
og sóminn aukizt glöðu bæjarliði. |
Þar hefur gerzt að fullum áhrínsorðum |
allt, sem hinn vitri bóndavinur kvað |
um dalalíf í Búnaðarbálki forðum, |
um bóndalíf, sem fegurst verður það. |
Sólfagra mey! Nú svífur heim að ranni |
sæbúinn líkur ungum ferðamanni. |