Title
stringlengths
15
17
Keywords
stringlengths
3
238
Summary
stringlengths
73
7.23k
Text
stringlengths
4.08k
646k
Mál nr. 461/1999
Erfðaábúð Lífstíðarábúð Samningur Gjafsókn
H bjó á jörðinni K í hreppnum V frá 1920 og þar til íbúðarhús á jörðinni brann í nóvember 1998. Var hún bústýra fyrst hjá föður sínum og síðar hjá bróður sínum, en þeir höfðu erfðaábúð á jörðinni. Eftir að bróðir H lést, en hann var ókvæntur og barnlaus, fór hún fram á lífstíðarábúð á jörðinni við landbúnaðarráðuneytið. Skrifaði H undir leigusamning þar að lútandi í maí 1997, en samningurinn var gerður með fyrirvara um samþykki hreppsnefndar V og jarðanefndar sýslunnar. Hreppsnefnd V hafnaði samþykkt samningsins vegna ákvæða hans um búfjárhald á jörðinni. Var þá gerður viðauki við samninginn og honum breytt þannig að jörðin K var leigð H meðan hún hefði búsetu þar meginhluta ársins og skuldbatt hún sig til að heimila G, sem frá árinu 1994 hafði leigt nærliggjandi jarðir til reksturs golfvallar, afnot af hluta jarðarinnar. H undirritaði viðaukann í september 1997 og ráðherra í október sama ár. Í júní 1998 afturkallaði H undirskrift sína á leigusamninginn og krafðist þess að jörðin yrði byggð sér á erfðaleigu. Með leigusamningi undirrituðum í maí 1998 leigði landbúnaðarráðherra V hluta K, en undanskilin var landspilda sem leigja átti H. Í september 1999 var V síðan leigður sá hluti K sem undanskilinn var í fyrri samningi. H höfðaði mál og krafðist aðallega viðurkenningar á að hún hefði erfðaábúð á K með vísan til 37. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976. Talið var að H uppfyllti ekki skilyrði ákvæðisins og ætti því ekki rétt til erfðaábúðar á K. Þá var heldur ekki fallist á varakröfu H um viðurkenningu lífstíðarábúðar á grundvelli 1. tl. 37. gr., sbr. 5. gr. ábúðarlaga. Til þrautavara gerði H kröfu um viðurkenningu lífstíðarábúðar samkvæmt leigusamningi sem hún undirritaði í maí og september 1997. Talið var að samningurinn hefði aldrei tekið gildi gagnvart H og að ekki væri unnt að líta svo á að undirskrift ráðherra fæli í sér stjórnsýsluákvörðun í samræmi við 3. mgr. 6. gr. jarðalaga nr. 65/11976. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um að H ætti hvorki rétt til erfðaábúðar né lífstíðarábúðar á jörðinni K.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein. Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I. Eins og fram kemur í héraðsdómi er jörðin Kálfatjörn í Vatnsleysustrandarhreppi kirkjujörð á forræði jarðadeildar landbúnaðarráðuneytisins. Áfrýjandi flutti þangað 1920, en hún er fædd í desember 1917. Faðir hennar var með erfðaábúð á jörðinni til ársins 1971, er bróðir hennar, Gunnar Erlendsson, tók við erfðaábúðinni. Áfrýjandi var bústýra hjá föður sínum frá árinu 1955 og síðar hjá bróður sínum, en þau voru bæði ógift og barnlaus. Fjárbúskap var hætt á jörðinni 1982 og hænsnarækt 1995. Með leigusamningi 21. janúar 1994 leigði landbúnaðarráðuneytið Golfklúbbi Vatnsleysustrandar nágrannajarðir Kálfatjarnar, eyðijarðirnar Hátún og Fjósakot, til reksturs golfvallar. Gunnar Erlendsson hafði haft Fjósakot á leigu, og skrifaði hann undir samninginn vegna þeirrar jarðar. Gunnar andaðist 11. nóvember 1995, en áfrýjandi bjó áfram á jörðinni þar til íbúðarhúsið brann í nóvember 1998. Með bréfi 8. ágúst 1996 fór áfrýjandi fram á lífstíðarábúð á jörðinni Kálfatjörn. Golfklúbbur Vatnsleysustrandar hafði einnig áhuga á því að fá jörðina til þess að unnt væri að stækka golfvöllinn. Gögn málsins bera með sér, að margir fundir voru haldnir í landbúnaðarráðuneytinu með áfrýjanda og talsmanni hennar og fulltrúa golfklúbbsins. Skrifaði áfrýjandi undir leigusamning 7. maí 1997 um lífstíðarábúð. Í samningnum var tekið fram, að hann tæki ekki til jarðanna Móakots og Fjósakots, sem áður fylgdu jörðinni Kálfatjörn, og að leigutaka væri kunnugt um þau áform leigusala að leigja Golfklúbbi Vatnsleysustrandar jörðina Móakot til áframhaldandi uppbyggingar golfvallar á svæðinu. Þá var einnig tekið fram í samningnum, að hann væri gerður með fyrirvara um samþykki hreppsnefndar Vatnleysustrandarhrepps og jarðanefndar Gullbringusýslu, sbr. 1. mgr. 6. gr. jarðalaga nr. 65/1976. Á fundi hreppsnefndar Vatnleysustrandarhrepps 3. júní 1997 var því hafnað að samþykkja samninginn og talið, að hann samrýmdist ekki aðalskipulagi hreppsins, sem staðfest var 16. nóvember 1994. Samningurinn gerði ráð fyrir framleigurétti á beit fyrir 15 hross, og kvaðst hreppsnefndin ekki heimila hrossabeit á jörðinni með tilvísan í samþykkt um búfjárhald í Vatnsleysustrandarhreppi nr. 225/1992. Jafnframt tók hreppsnefndin fram, að hún myndi á engan hátt leggja stein í götu þess, að áfrýjandi gæti búið á Kálfatjörn svo lengi sem hún óskaði. Viðauki var gerður við framangreindan leigusamning og honum breytt á þá leið, að jörðin var leigð áfrýjanda meðan hún hefði búsetu á jörðinni meginhluta ársins. Þá skuldbatt hún sig til að heimila Golfklúbbi Vatnsleysustrandar afnot af svokölluðu norðurtúni Kálfatjarnar. Nánari afmörkun þess svæðis var háð samkomulagi leigutaka og golfklúbbsins. Næðist ekki samkomulag skæri leigusali úr. Að öðru leyti skyldu gilda ákvæði leigusamningsins, sem áfrýjandi undirritaði 7. maí 1997. Áfrýjandi undirritaði viðauka þennan í september 1997, og ráðherra undirritaði samninginn með viðauka 15. október sama ár. Hreppsnefndin samþykkti aldrei samninginn svo breyttan. Með bréfi 1. júní 1998 afturkallaði áfrýjandi undirskrift sína á leigusamninginn, sem hún kvaðst hafa undirritað í þeirri trú, að hann væri um erfðaábúð en ekki lífstíðarábúð. Krafðist hún þess, að jörðin yrði byggð sér á erfðaleigu. Með leigusamningi undirrituðum 12. og 25. maí 1998 leigði landbúnaðarráðherra Vatnsleysustrandarhreppi hluta af jörðinni Kálfatjörn. Undanskilin leigu var landspilda, sem var afmörkuð á meðfylgjandi uppdrætti, sem leigusali áformaði að leigja áfrýjanda. Fyrir Hæstarétt hefur verið lagður viðauki við þennan leigusamning, undirritaður í september 1999, þar sem hreppnum er leigður sá hluti Kálfatjarnar, sem undanskilinn var í fyrri leigusamningi. II. Aðalkrafa áfrýjanda er sú, að viðurkennt verði að hún hafi erfðaábúð á jörðinni Kálfatjörn. Styður hún þá kröfu við 37. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976, sem kveður á um það, hvernig réttur til ábúðar erfist. Samkvæmt skýrum orðum greinarinnar er ljóst, að áfrýjandi uppfyllir ekki skilyrði 1. - 7. tl. greinarinnar. Þá á ákvæði 8. tl. ekki við, þar sem bróðir áfrýjanda hafði haft jörðina til ábúðar í meira en 10 ár, er hann andaðist. Loks er ósannað, að hann hafi látið uppi tillögur eða sérstakar óskir um ráðstöfun jarðarinnar, sbr. 9. tl. Með vísan til forsendna héraðsdóms er fallist á þá niðurstöðu hans, að áfrýjandi eigi ekki rétt til erfðaábúðar á jörðinni. Varakröfu sína um viðurkenningu lífstíðarábúðar styður áfrýjandi við 1. tl. 37. gr., sbr. 5. gr., ábúðarlaga. Staðfest er það álit héraðsdóms, að 1. tl. 37. gr. um ábúðarrétt milli hjóna geti ekki átt við það tilvik, sem hér um ræðir. Þrautavarakrafa áfrýjanda er um viðurkenningu lífstíðarábúðar samkvæmt leigusamningnum, sem hún undirritaði 7. maí 1997 og í september sama ár. Eins og fram er komið var samningur þessi gerður með skýrum fyrirvara um samþykki hreppsnefndar Vatnsleysustrandarhrepps. Að framan er því lýst, að hreppsnefndin hafnaði samningnum á fundi sínum 3. júní 1997, og ekki verður séð af gögnum málsins, að viðaukinn við samninginn hafi verið borinn undir hreppsnefnd. Þá er og fram komið, að áfrýjandi afturkallaði undirskrift sína undir samninginn með bréfi 1. júní 1998. Samkvæmt framansögðu tók samningurinn aldrei gildi gagnvart áfrýjanda. Ekki er unnt að líta svo á, að undirskrift ráðherra feli í sér stjórnsýsluákvörðun í samræmi við 3. mgr. 6. gr. jarðalaga. Er fallist á það með héraðsdómi, að áfrýjandi eigi hvorki erfðaábúðar- né lífstíðarábúðarrétt á jörðinni. Kemur því ekki til frekari umfjöllunar ógildingarkrafa áfrýjanda á leigusamningi milli stefndu. Samkvæmt framansögðu verður héraðsdómur staðfestur. Rétt þykir, að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar er kveðið á um í dómsorði. D ó m s o r ð : Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Herdísar Erlendsdóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun talsmanns hennar, 200.000 krónur. Mál þetta, sem dómtekið var 26. maí sl., var þingfest 11. nóvember 1998. Stefnandi er Herdís Erlendsdóttir, kt. 181217-2439, Kálfatjörn, Vatnsleysustrandarhreppi. Stefndu eru íslenska ríkið annars vegar og Vatnsleysustrandarhreppur hins vegar. Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að viðurkennt verði með dómi, að stefnandi hafi erfðaábúð á allri jörðinni Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd ásamt jörðinni Goðhól, en til vara, að stefnandi hafi lífstíðarábúð á allri jörðinni, ásamt jörðinni Goðhól, en til þrautavara, að stefnandi hafi lífstíðarábúð á jörðunum skv. leigusamningi, er stefnandi undirritaði 7. maí 1997, og ráðherra 15. október 1997. Jafnframt er gerð krafa, um að leigusamningur milli stefndu um sömu jörð sé dæmdur ógildur frá upphafi. Þá er gerð krafa um málskostnað að mati dómsins óskipt úr hendi stefndu. Báðir stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda. Málavaxtalýsing stefnanda Málavextir eru þeir að foreldrar stefnanda fluttu að Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd 1920 er stefnandi var þriggja ára. Hefur hún búið þar síðan. Faðir stefnanda, Erlendur Magnússon, var með erfðaábúð á jörðinni til ársins 1971, en þá tók bróðir stefnanda, Gunnar Erlendsson við erfðaábúðinni og hélt henni þar til hann andaðist 11. nóvember 1995. Stefnandi varð bústýra hjá föður sínum árið 1955 er móðir hennar veiktist. Hefur stefnandi staðið fyrir búinu síðan, fyrst með föður sínum og síðar bróður sínum Gunnari. Þau systkinin voru bæði ógift og barnlaus og bjuggu saman á Kálfatjörn. Voru þau með kindur og hænsni. Þau hættu fjárbúskapnum 1982 og hænsnarækt 1995. Gunnar var með hross á hagagöngu í 3-4 sumur og hafði af því tekjur eftir að hann hætti að geta unnið. Stefnandi kveðst ekki hafa haft tekjur af jörðinni undanfarin ár. Íbúðarhúsið að Kálfatjörn brann 9. nóvember 1998 og flutti stefnandi þá af jörðinni. Önnur mannvirki á jörðinni eru hlaða, reist um 1886 og geymsla frá 1927, en þau eru sögð í mjög lélegu ástandi í úttektarskýrslu Vatnsleysustrandarhrepps 13. ágúst 1996. Þá er einnig á jörðinni bogaskemma klædd bárujárni um 20m x 8m á stærð, sem hefur verið notuð sem hlaða og bárujárnsklædd hlaða, 8m x 6m að stærð. Ræktað land er samkvæmt fasteignamati 7,5 hektarar. Fram kom við aðalmeðferð að Friðrik H. Ólafsson, systursonur stefnanda, á tvær litlar jarðir sem liggja að Goðhóli sem er næsta jörð við Kálfatjörn. Dóttir Friðriks stundar hrossarækt á Kálfatjörn og samkvæmt forðagæsluskýrslu 1997 var hún með 25 hesta á jörðinni það árið. Nýtur hún túnin til heyskapar og heldur við girðingum. Ingibjörg Erlendsdóttir, systir stefnanda, hafði samband við landbúnaðarráðuneytið stuttu eftir andlát Gunnars Erlendssonar. Kveður hún sér hafa verið tjáð að stefnandi gæti tekið við erfðaábúð af bróður sínum með einfaldri nafnaskiptingu. Þegar gengið var á ráðuneytið um efndir hafi komið í ljós að Golfklúbbur Vatnsleysustrandarhrepps var búinn að óska eftir því að fá jörðina á leigu. Upp úr því hafi stefnanda verið sagt að hún myndi aðeins geta fengið lífstíðarábúð á jörðinni. Í samræmi við það sótti stefnandi um lífstíðarábúð með bréfi til landbúnaðarráðuneytisins 8. ágúst 1996. Var útbúinn leigusamningur í ráðuneytinu og hann undirritaður 7. maí 1997 af hálfu stefnanda. Um var að ræða leigusamning til lífstíðar frá fardögum 1996 að telja. Var samningurinn gerður með fyrirvara um samþykki hreppsnefndar og jarðanefndar. Jarðanefnd Gullbringusýslu samþykkti samninginn 22. maí 1997 en hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps synjaði um staðfestingu á fundi hreppsnefndar 3. júní 1997. Var þá eftirfarandi m.a. bókað: ,,Hreppsnefnd samþykkir að hafna fyrirliggjandi samningi. Ákvörðun ráðuneytisins samræmist að mati hreppsnefndar ekki gildandi aðalskipulagi sem staðfest var 16/11 1994. Á grundvelli skipulagsins hefur hafist uppbygging golfvallar á jörðinni og var það gert í fullu samráði við þáverandi leigutaka, Gunnar Erlendsson og landbúnaðarráðuneytið. Vilyrði lá fyrir um Kálfatjarnarlandið að undanskildu nánasta umhverfi kirkjunnar og íbúðarhússins. Fyrirliggjandi samningur gerir ráð fyrir framleigurétti á beit fyrir allt að 15 hross og lýsir hreppsnefnd undrun sinni á að ákvæði sem þetta skuli sett í samning af hálfu ráðuneytisins. Það er álit hreppsnefndar að hrossabeit og starfræksla golfvallar fari ekki saman og mun hreppsnefnd ekki heimila hrossabeit á jörðinni með tilvísun í samþykkt um búfjárhald í Vatnsleysustrandarhreppi nr. 225 frá 22/6 1992. Hreppsnefnd ítrekar að höfnun á leigusamningnum er á engan hátt beint gegn nefndum leigutaka Herdísi Erlendsdóttur og mun á engan hátt leggja stein í götu þess að hún geti búið á Kálfatjörn svo lengi sem hún óskar. Hreppsnefnd óskar þess eindregið að hæstvirt ráðuneyti gangi til samninga við Golfklúbb Vatnsleysustrandar og ljúki þessu máli á þann hátt að ekki sé gengið á skjön við gildandi aðalskipulag og yfirlýstan vilja hreppsyfirvalda." Þegar þessi afstaða hreppsnefndar lá fyrir útbjó ráðuneytið viðauka við leigusamninginn. Segir í viðaukanum að jörðin sé leigð leigutaka meðan hann hafi búsetu á jörðinni meginhluta ársins. Þá skuldbindi leigutaki sig til þess að heimila Golfklúbbi Vatnsleysustrandarhrepps afnot af svokölluðu norðurtúni Kálfatjarnar. Þennan viðauka undirritaði stefnandi í byrjun október 1997 og ráðherra 15. sama mánaðar. Fram hefur komið í málinu að hreppsnefnd hefur ekki samþykkt leigusamninginn þannig breyttan. Stefnandi segir að þegar hana hafi farið að lengja eftir leigurétti sínum hafi hún ritað landbúnaðarráðherra bréf 1. júní 1998. Í bréfinu segist hún hafa verið blekkt til þess að samþykkja að hún fengi jörðina aðeins byggða sér til lífstíðar í stað erfðaábúðar. Gerði hún kröfu um að fá erfðaábúð að Kálfatjörn og afturkallaði undirskrift sína á leigusamninginn. Síðar hafi komið í ljós að landbúnaðarráðuneytið hefði leigt Golfklúbbi Vatnsleysustrandarhrepps hluta jarðarinnar 25. maí 1998. Málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi byggir á að faðir hennar og síðan bróðir hafi báðir haft erfðaábúð á Kálfatjörn og Gunnar bróðir hennar byggt jörðina skv. lögum um ættaróðul, ættarjarðar o.fl. nr. 102, 21. desember 1962. Þeim lögum hafi verið breytt með ábúðarlögum nr. 64, 31. maí 1976, en eftir sem áður hafi verið ætlast til þess, að þeir, sem erfðu erfðaábúð nytu hennar áfram, sbr. V. kafla þeirra laga. Telur stefnandi sig eiga beinan erfðaábúðarrétt að jörðinni, sbr. 2. tl. 37. gr. laganna. Ef ekki verði fallist á, að stefnandi eigi beinan rétt til erfðaábúðar, er því haldið fram, að skv. 9. tl. 37. gr. beri að byggja henni jörðina á erfðaábúð, en ljóst sé, að Gunnar heitinn bróðir hennar hafi ætlast til þess, að hún tæki við ábúð, enda hafi hún verið bústýra hans. Jafnframt er því haldið fram, að stefnandi hafi verið blekkt til þess að óska eftir lífstíðarábúð. Verði ekki fallist á að stefnandi eigi erfðaábúðarrétt, er því haldið fram, að hún eigi rétt til lífstíðarábúðar skv. 1. tl. 37. gr. ábúðarlaga eða vegna þess að hún hafi setið jörðina, sbr. 5. gr. ábúðarlaga, jafnframt því að búið hafi verið að byggja henni jörðina af landbúnaðarráðherra. Sá samningur eigi hvorki undir sveitarstjórn né jarðanefnd. En jafnvel þótt samningurinn hafi átt undir fyrrgreindar nefndir, heldur stefnandi því fram, að með undirskrift sinni 15. október 1997 hafi landbúnaðarráðherra fullgilt samninginn, sbr. 3. mgr. 6. gr. jarðarlaga nr. 65, 31. maí 1976. Stefnandi heldur því fram að öll afskipti stefnda Vatnsleysustrandarhrepps hafi verið lögleysa og hafi stjórnast af sjónarmiðum, sem séu ósamrýmanleg anda jarða- og ábúðarlaga. Fullyrðingar í synjunarbréfi hreppsins 6. júní 1997 um að jörðin hafi verið skipulögð sem golfvöllur séu rangar. Hafi engar skipulagsákvarðanir verið teknar um jörðina aðrar en að not hennar séu eins og fyrr. Með því að stefnandi telur, að hún eigi ábúðarrétt á Kálfatjörn, telur hún jafnframt að sá leigumáli, sem stefndu gerðu sín í milli sé markleysa og að engu hafandi. Málavaxtalýsing stefnda ríkisins Stenda íslenska ríkið kveður að skömmu eftir lát Gunnars Erlendssonar hafi komið fram óskir um að stefnandi fengi leigurétt á jörðinni eftir bróður sinn og staðið vilji til þess af hálfu jarðadeildar landbúnaðarráðuneytis að koma til móts við þær óskir. Þótt vitað væri um aðra aðila er sæktust eftir leiguafnotum af jörðinni, og þrátt fyrir að það væri í andstöðu við vinnureglur jarðadeildar, hafi jörðin ekki verið auglýst til leigu. Enginn bústofn hafi verið á jörðinni skráður á nafn stefnanda og því legið fyrir að stefnandi áformaði ekki að nýta jörðina til landbúnaðar. Með bréfi dagsettu 8. ágúst 1996 hafi stefnandi farið fram á lífstíðarábúð á jörðinni Kálfatjörn. Aðrar jarðir eða hjáleigur séu ekki nefndar í umsókninni. Aðrar umsóknir um jörðina hafi borist frá ábúanda og leiguliða að Þórustöðum í Vatnsleysustrandarhreppi og frá Golfklúbbi Vatnsleysustrandar. Þar sem ljóst þótti, að stefnandi áformaði ekki að nota jörðina sjálf til landbúnaðar, hafi af hálfu jarðadeildar verið talið eðlilegt að koma til móts við óskir golfklúbbsins og leigja klúbbnum land hjáleigunnar Fjósakots og hluta af landi Kálfatjarnar. Þannig yrði unnt að halda áfram uppbyggingu golfvallarins og fjölga þar brautum úr 6 í 9, sem sé eðlileg stærð golfvallar af minni gerðinni. Um þessi mál hafi margoft verið fundað í landbúnaðarráðuneytinu með stefnanda og talsmanni hennar og fulltrúa golfklúbbsins. Þessar viðræður hafi leitt til samkomulags, sem stefnandi undirritaði 7. maí 1997. Tekið sé fram að samningurinn nái ekki til jarðanna Móakots og Fjósakots, sem áður fylgdu jörðinni Kálfatjörn, og jafnframt að leigusali áformi að sameina jörðina Goðhól jörðinni Kálfatjörn. Samningurinn hafi verið gerður með fyrirvara um samþykkt hreppsnefndar og jarðanefndar. Jarðanefnd hafi fallist fyrir sitt leyti á samninginn með bréfi 22. maí 1997, en hreppsnefnd hafnað honum með bréfi 6. júní 1997. Í viðauka við samninginn, sem gerður hafi verið eftir að hreppsnefnd hafði hafnað honum sé tekið fram að jörðin sé leigð stefnanda meðan hún hafi búsetu á jörðinni meginhluta ársins og jafnframt að stefnandi skuldbindi sig til að heimila Golfklúbbi Vatnsleysustrandar afnot af norðurtúni Kálfatjarnar. Ráðherra hafi skrifað undir samninginn og viðaukann 15. október 1997 í þeirri trú, að aðilar væru sáttir við svo breytta skilmála og stefnandi hafi undirritað viðaukann einnig. Hreppsnefndin muni hins vegar ekki hafa samþykkt samninginn svo breyttan. Með bréfi 1. júní 1998 hafi stefnandi afturkallað undirskrift sína á fyrrnefndan leigusamning og gert kröfu um að jörðin Kálfatjörn yrði byggð henni á erfðaleigu. Í svarbréfi landbúnaðarráðuneytisins frá 4. september 1998 segi m.a., að ekkert bindandi samkomulag sé í gildi um ábúð stefnanda á jörðinni, en stefnanda sé kunnugt um, að hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps hafi hafnað samkomulaginu. Frá gildistöku laga nr. 64/1976 hafi ekki verið stofnað til erfðaábúðar og stefnandi eigi ekki kröfu til slíkrar ábúðar á grundvelli ákvæða 37. gr. laganna. Sé ekki lagagrundvöllur til að verða við kröfu stefnanda um, að jörðin verði byggð henni á erfðaleigu. 1. Stefnandi krefjist þess aðallega að viðurkennt verði með dómi að hún hafi erfðaábúð á allri jörðinni Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd ásamt jörðinni Goðhóli. Réttur til ábúðar á jörðum á grundvelli erfða byggist á ákvæðum 37. gr. laga nr. 64/1976. Ljóst sé að stefnandi uppfylli ekki ákvæði 1.-7. tl. greinarinnar og ákvæði 8. tl. eigi ekki við, enda hafi ábúð Gunnars bróður stefnanda varað lengur en 10 ár. Þá liggi ekkert fyrir í málinu um að fyrri ábúandi hafi lagt fram tillögur eða sérstakar óskir um ráðstöfun jarðarinnar. Verði ákvæðið heldur ekki túlkað á þann veg, að skylt sé að fara að tillögum eða óskum fráfarandi ábúanda, þótt hann kunni í lifandi lífi að geta skilyrt uppsögn á ábúð. Þeirri kenningu stefnanda, að hún eigi ábúðarrétt eftir 2. tl. 37. gr. laganna sé að sjálfsögðu mótmælt sem fjarstæðukenndri, en erfðaábúð föður hennar hafi lokið þegar bróðir hennar tók við ábúð jarðarinnar á fardögum 1971. Rétt sé að taka fram, að jörðin Goðhóll hafi aldrei verið leigð ábúanda á Kálfatjörn. Gunnar Erlendsson, sem síðast hafði ábúð á Kálfatjörn hafi aldrei haft Goðhól á leigu og stefnandi hafi ekki sóst eftir jörðinni fyrr en með málshöfðun þessari. Þessi athugasemd eigi einnig við um aðra kröfuliði stefnanda varðandi jörðina Goðhól. Sérstaklega og af gefnu tilefni sé því mótmælt, að stefnanda hafi verið tjáð, að hún gæti fengið erfðaábúð á jörðinni. 2. Í öðru lagi krefjist stefnandi viðurkenningar á lífstíðarábúð sinni á jörðinni Kálfatjörn ásamt jörðinni Goðhól. Þessari kröfu til stuðnings vísi stefnandi til 1. tl. 37. gr. ábúðarlaga, sbr. einnig 5. gr. laganna. Stefnandi rökstyðji ekki frekar hvernig 1. tl. 37. gr. ábúarlaga, sem fjallar um erfðarétt milli hjóna, geti átt við í tilviki hennar og tilvísun til 5. gr. ábúðarlaga verði heldur ekki skilin. Sé þessum málatilbúnaði og kröfugerð alfarið mótmælt. 3. Til þrautavara krefjist stefnandi viðurkenningar á lífstíðarábúð á jörðunum samkvæmt leigusamningi. Verði rökstuðningur stefnanda fyrir þessari kröfu helst skilinn á þann veg, að samningurinn sem stefnandi undirritaði 7. maí 1997 sé í raun gildur sbr. 3. mgr. 6. gr. jarðalaga nr. 65/1976. Sú málsástæða að byggja kröfu á samningi, sem stefnandi lýsir sig jafnframt óbundna af og hafi í raun verið blekkt til að undirrita, sé vægt sagt illskiljanleg. Krafa stefnanda sé því um viðurkenningu á rétti til lífstíðarábúðar á jörðinni án tengsla við þann leigusamning, sem hún sjálf skrifaði undir, en hafði síðan lýst sig óbundna af.Leigusamningurinn innihaldi fyrirvara um samþykki m.a. hreppsnefndar Vatnsleysustrandarhrepps. Þeim fyrirvara hafi ekki verið fullnægt og að auki hafi stefnandi sjálf afturkallað samþykki sitt. Í undirskrift ráðherra felist enginn úrskurður, hvorki að formi eða efni. Ráðherra hafi undirritað samninginn með viðauka í þeirri trú, að allir aðilar væru þá við samninginn sáttir. Stefnda tekur fram að greiðsluseðill vegna síðasta fardagaárs hafi verið sendur stefnanda vegna mistaka, enda hafði stefnandi ekki fengið leigusamning um jörðina. Muni jarðasjóður því endurgreiða stefnanda leigugjöldin. 4. Loks geri stefnandi kröfu um að leigusamningur milli landbúnaðarráðherra fyrir hönd jarðadeildar landbúnaðarráðuneytisins og Vatnsleysustrandarhrepps um "sömu jörð" sé dæmdur ógildur frá upphafi. Samningur þessi hafi verið undirritaður 12. og 25. maí 1998 og varði eyðijarðirnar Móakot, Hátún og Fjósakot og hluta Kálfatjarnar. Í 2. mgr. 1. gr. samningsins sé tekið fram að landspildu úr jörðinni Kálfatjörn, sem undirskilin er samningnum, áformi leigusali að leigja stefnanda þessa máls. Sýnir það með öðru vilja stefnda til að koma til móts við óskir stefnanda um að fá að búa að Kálfatjörn. Ávæningi í málsskjölum stefnanda í þá veru að fulltrúar ráðuneytis hafi komið illa fram við hana sé mótmælt sem tilhæfulausum og ósönnuðum. Stefnandi eigi enga beina aðild að umræddum leigusamningi, enda eigi hún ekki til neinna réttinda að telja yfir jörðinni Kálfatjörn. Ber því annað tveggja að vísa þessari kröfu frá dómi án kröfu eða sýkna af henni, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga 91/1991. Stefnandi höfði málið gegn stefnda Vatnsleysustrandahreppi á þeim grunni að ógiltur verði samningur hreppsins og ríkisins frá 25. maí 1998 um leigu eyðijarðanna Móakots, Hátúns og Fjósakots svo og hluta jarðarinnar Kálfatjarnar. Stefndi Vatnsleysustrandarhreppur heldur því fram að samningurinn verði ekki ógiltur í heild sinni þar sem stefnandi eigi aðeins lögvarða hagsmuni vegna hluta Kálfatjarnar. Málsástæður stefnda er að öðru leyti eftirfarandi: 1. Íslenska ríkið hafi verið eigandi hins leigða lands er samningurinn var gerður. Með málefni jarða í ríkiseign fari jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins skv. 36. gr. jarðalaga nr. 65/1976. Leigusamninginn hafi hreppurinn gert við landbúnaðarráðherra f.h. jarðadeildar landbúnaðarráðuneytis og hann sé því gerður af til þess bærum aðila og engir formlegir annmarkar á honum. 2. Skilja megi kröfugerð stefnanda svo að ógildingarkrafan byggi á því, að með leigusamningnum hafi verið ráðstafað landi sem stefnandi hafi átt einhvers konar afnotaréttindi yfir. Þetta sé ekki rétt. Stefnandi hafi í raun engin réttindi haft yfir landi Kálfatjarnar á þeim tíma er samningurinn var gerður. Hugsanlegt var að þau kæmu til síðar og hafi verið fyrir því séð í 2. mgr. 1. gr. leigusamningsins með eftirfarandi ákvæði:,,Leigusamningur þessi tekur til hluta af jörðinni Kálfatjörn. Landspilda sú sem er undanskilin leigu samkvæmt samningi þessum er afmörkuð á meðfylgjandi uppdrætti, en þann hluta jarðarinnar áfomar leigusali að leigja Herdísi Erlendsdóttur." Með þessu ákvæði hafi það verið tryggt að leigusamningurinn væri samþýðanlegur fyrirhuguðum leiguafnotum stefnanda. Fyrri leigusamningur um lífstíðarábúð hafi aldrei komist til framkvæmda vegna synjunar Vatnsleysustrandarhrepps á staðfestingu hans. 3. Falli dómur gegn meðstefnda þess efnis að stefnandi fái viðurkenningu fyrir afnotarétti sínum á Kálfatjörn, hvort sem er með lífstíðar- eða erfðaábúð, geti sá réttur með engu móti þokað löglega stofnuðum afnotarétti Vatnsleysustrandarhrepps. Dómur geti ekki haft afturvirk áhrif í málinu enda sé þess ekki krafist af hálfu stefnanda. Því verði fyrr stofnuðum réttindum ekki rutt brott. 4. Málatilbúnaður stefnanda uppfylli ekki kröfur einkamálaréttarfarsins. Stefnandi eigi ekki aðild að leigusamningnum milli stefndu og sá samningur snerti ekki með neinu móti réttindi hennar. Því blasi við aðildarskortur sem skv. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 leiði til sýknu. Stefnan í málinu uppfylli tæpast kröfur 1. mgr. 80. gr. einkamálalaga, einkum d-f. lið þeirrar málsgreinar. Þá komi einnig til álita að vísa málinu frá án kröfu á grundvelli 1. mgr. 26. gr. einkamálalaga. Niðurstaða. Eins og að framan er rakið flutti stefnandi af jörðinni eftir að íbúðarhúsið á Kálfatjörn brann 9. nóvember 1998. Dóttir systursonar hennar hefur nýtt jörðina undanfarin ár og er með 25 hesta þar. Þá hefur jafnframt komið fram í málinu að stefnda ríkið hefur boðið stefnanda lífstíðarábúð á jörðinni með þeim skilmálum sem að framan er getið. Jörðin Kálfatjörn í Vatnsleysustrandarhreppi er kirkjujörð á forræði jarðadeildar landbúnaðarráðuneytis, sbr. 9. tl. 9. gr. reglugerðar fyrir Stjórnarráð Íslands nr. 96/1969, sbr. einnig 36. gr. jarðarlaga nr. 65/1976 með síðari breytingum. Stefnda íslenska ríkið er því þinglýstur eigandi jarðarinnar og hefur allar þær heimildir er felast í beinum eignarrétti að landinu. Réttur til ábúðar á jörðum á grundvelli erfða byggist á ákvæðum 37. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976. Ekki verður talið að ákvæði 2. tl. 37. gr. laganna eigi við í málinu enda fjallar það ákvæði aðeins um erfðaábúðarrétt frá foreldri til barns eða kjörbarns. Verður talið að erfðaábúð föðurs stefnanda hafi lokið er bróðir hennar tók við þeim réttindum. Í öðru lagi byggir stefnandi kröfu sína um erfðaábúðarrétt á 9. tl. 37. gr. ábúðarlaga. Ekki verður heldur talið að túlka megi þetta ákvæði laganna á þann hátt að fráfarandi ábúandi hafi ráðstöfunarrétt yfir eigninni enda þótt vilji hans kunni að hafa staðið til þess að stefnandi tæki við síðar. Samkvæmt 1-9. tl. 37. gr. ábúðarlaga erfist ábúðarréttur eingöngu milli hjóna og til barna þeirra og kjörbarna í beinan legg. Erfðaábúðarréttur getur því aðeins gengið til systkina eða annarra erfingja ef erfingi ábúðarréttar deyr barnlaus innan 10 ára frá því að hann tók við ábýli sínu, sbr. 8. tl. 37. gr. laganna. Svo var ekki í tilviki stefnanda. Verður því talið að stefnandi eigi ekki rétt til erfðaábúðar á jörðinni. Að fenginni þessari niðurstöðu telst óþarfi að fjalla um þá málsástæðu stefnanda að hún hafi verið beitt blekkinum til þess að falla frá kröfu sinni um erfðaábúð og undirgangast leigusamning um lífstíðarábúð. Kröfu sína um viðurkenningu á lífstíðarábúð á jörðinni styður stefnandi við 1. tl. 37. gr. ábúðarlaga, sbr. 5. gr. laganna svo og þeirri málsástæðu að með undirskrift ráðherra undir leigusamninginn 15. október 1997 hafi landbúnaðarráðherra fullgilt samninginn, sbr. 3. mgr. 6. gr. jarðarlaga nr. 65/1976. Það er álit dómsins að ákvæði 1. tl. 37. gr. ábúðarlaga um ábúðarerfðarrétt milli hjóna geti ekki átt við um tilvik stefnanda, sem var bústýra föður síns og síðar bróður síns á Kálfatjörn. Þykir bera að skýra ákvæðið eftir orðanna hljóðan og telja að það taki aðeins til erfðaréttar milli hjóna. Þá verður ekki heldur fallist á þá málsástæðu stefnanda að hún hafi öðlast rétt til lífstíðarábúðar með undirskrift ráðherra undir leigusamninginn. Sú undirskrift, f.h. ríkisins, var með þeim fyrirvara að hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps samþykkti samninginn. Hreppsnefnd hafnaði aftur á móti samningnum og því öðlaðist hann ekki gildi gagnvart stefnanda. Þá verður ekki fallist á með stefnanda að undirskrift landbúnaðarráðherra hafi verið ígildi stjórnsýsluúrskurðar í samræmi við ákvæði 3. mgr. 6. gr. jarðarlaga nr. 65/1976. Þar sem niðurstaða málsins er sú að stefnandi eigi hvorki erfðaábúðar- né lífstíðarábúðarrétt á jörðinni kemur ekki til frekari umfjöllunar ógildingarkrafa stefnanda á leigusamningi milli stefndu ríkisins og Vatnsleysustrandarhrepps frá 25. maí 1998 um jarðirnar Móatún, Hátún, Fjósakot og hluta Kálfatjarnar. Dómkrafa stefnanda varðar leigurétt yfir Kálfatjörn og jörðinni Goðhóli. Óumdeilt er í málinu að erfðaábúðarréttur Gunnars Erlendssonar náði aðeins til jarðarinnar Kálfatjarnar. Hins vegar kemur fram í leigusamningi stefnanda og stefnda ríkisins frá 15.október 1997 um jörðina Kálfatjörn að jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins áformi að jörðin Goðhóll verði sameinuð Kálfatjörn. Af þessum ástæðum tekur kröfugerð stefnanda einnig til jarðarinnar Goðhóls. Hins vegar er ekki upplýst í málinu hvort af sameiningunni varð. Þetta atriði þykir þó ekki skipta máli miðað við niðurstöðu málsins. Niðurstaða málsins er því sú að stefndu verða sýknaðir af öllum kröfum stefnanda, en eftir öllum atvikum málsins þykir rétt að málskostnaður falli niður. Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómsari kveður upp dóm þennan. Dómsorð: Stefndu, íslenska ríkið og Vatnsleysustrandarhreppur, skulu vera sýkn af kröfum stefnanda, Herdísar Erlendsdóttur, í máli þessu. Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 148/2007
Skaðabætur Símahlerun Friðhelgi einkalífs Gjafsókn
H krafði Í miskabóta vegna ólögmætra þvingunarráðstafana við rannsókn máls þar sem hann var grunaður um íkveikju. Við rannsóknina var lögreglu annars vegar veitt heimild til að krefjast upplýsinga um notkun tiltekinna símanúmera H og hins vegar heimild til að hlera símtöl hans í tvær vikur. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að við þær aðstæður að rannsókn á brunaleifum var ekki lokið og talið var að eldhvetjandi efni hefðu verið notuð við íkveikjuna, hefði verið réttmætt að athuga símnotkun H í skamman tíma áður en eldur kom upp, enda hefði sú aðgerð ekki verið honum til íþyngingar svo að teljandi væri. Hins vegar þóttu ekki hafa verið fyrir hendi lögmæt skilyrði fyrir símhleruninni, en grunur lögreglu beindist aldrei að því að fleiri gætu verið samsekir þannig að réttlætt gæti hlerun, né gat sú aðstaða ein og sér að H játaði ekki brot þrátt fyrir grunsemdir lögreglu gefið tilefni til aðgerðarinnar. Var því niðurstaða héraðsdóms um greiðslu miskabóta til H staðfest.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. mars 2007 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt. I. Að morgni laugardags 4. desember 2004 varð eldur laus í húsinu Bárustíg 14 á Sauðárkróki. Nóttina áður hafði verið þar gleðskapur og áfengi haft um hönd. Voru þrír ungir karlar og ein kona enn í húsinu þegar eldurinn kom upp. Magnaðist hann skjótt og lést einn maður í eldsvoðanum. Tveimur var bjargað út úr húsinu en sá fjórði, stefndi þessa máls, virðist hafa komist út án aðstoðar að því ráðið verður. Lögregla rannsakaði málið frá upphafi með tilliti til þess að íkveikja kynni að hafa valdið brunanum. Í bráðabirgðaskýrslu tæknideildar lögreglu degi eftir brunann var talið að um íkveikju af mannavöldum hafi verið að ræða og líklegt að eldhvetjandi efni hafi verið notuð. Beindist grunur að stefnda, en tilsvör hans á vettvangi og á leið þaðan þóttu að mati lögreglu gefa tilefni til þess. Þá var talið að aðild annarra, sem staddir voru í húsinu að morgni 4. desember, kæmi ekki til álita. Við skýrslutökur hafði stefndi stöðu sakbornings og neitaði hann sök. Rannsókn leiddi ekkert í ljós til stuðnings grunsemdum, sem vöknuðu í upphafi, og var málinu lokið við svo búið. Áður hafði borist skýrsla Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði 14. desember 2004 um rannsókn á allmörgum brunasýnum frá Bárustíg 14. Var helsta niðurstaðan sú að engin efni fyndust í sýnunum, sem samsvöruðu efnasamsetningu þekktra eldhvetjandi vökva, að öðru leyti en því að leifar af etanóli hefðu verið í fötum mannsins sem lést í brunanum. II. Meðan rannsókn stóð enn yfir leitaði lögregla eftir því við Héraðsdóm Norðurlands vestra 9. desember 2004 að fá með úrskurði heimild annars vegar til að krefja Landsíma Íslands hf. um upplýsingar um notkun tveggja tiltekinna símanúmera stefnda á tímabilinu frá miðnætti aðfaranótt 3. desember til kl. 11 laugardaginn 4. desember 2004 og hins vegar til að hlusta á og hljóðrita símtöl við sömu símanúmer frá 9. desember 2004 til 22. sama mánaðar. Í rökstuðningi lögreglu fyrir beiðninni kom fram að stefndi bæri fyrir sig minnisleysi, en reynandi væri að fá upplýsingar um það hverja hann hringdi í úr farsíma sínum skömmu fyrir og eftir brunann. Slík könnun kynni hugsanlega að leiða í ljós vitni, sem byggju yfir mikilvægum upplýsingum um yfirlýsingar og hugarástand stefnda á þessu tímabili. Þá sagði að „með sömu rökum“ þætti rétt að fá heimild til að hlera farsíma hans næstu tvær vikur „ef ske kynni að hann myndi tjá sig eitthvað frekar um málið við viðmælendur sína.“ Umbeðin heimild var veitt með úrskurði dómara sama dag. Stefndi telur þessar aðgerðir lögreglu gegn sér hafa verið ólögmætar og krefst skaðabóta af þeim sökum. Hann telur skilyrði XXI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála vera uppfyllt til að dæma bætur, en reisir kröfu sína jafnframt á almennum reglum skaðabótaréttar. Áfrýjandi mótmælir því að bótaskylda hafi stofnast af þeim atvikum, sem hér um ræðir. III. Áfrýjandi bar fyrir sig í héraði að símhlerun væri ekki nefnd meðal þeirra þvingunaraðgerða við rannsókn opinbers máls, sem taldar eru upp í 1. málslið 176. gr. laga nr. 19/1991 og dæma má bætur fyrir að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum. Um tæmandi talningu væri að ræða og féllu því aðgerðir samkvæmt a. og b. lið 86. gr. laganna utan við gildissvið XXI. kafla þeirra. Áfrýjandi féll frá þessari málsástæðu fyrir Hæstarétti og kemur hún því ekki frekar til álita við úrlausn málsins. Þegar lögregla leitaði 9. desember 2004 eftir heimild til áðurgreindra rannsóknaraðgerða beindi hún enn grun um saknæma háttsemi að stefnda og hafði þá ekki verið lokið rannsókn á brunaleifum, en í upphafi var talið að eldhvetjandi efni hefðu verið notuð við íkveikju. Við þær aðstæður voru efni til að kanna nánar hvað stefndi aðhafðist í skamman tíma áður en eldurinn kom upp. Athugun á símanotkun hans var réttmæt í því skyni, enda var sú aðgerð honum ekki til íþyngingar svo að teljandi væri. Verður ekki fallist á að þessi aðgerð lögreglu hafi leitt til skaðabótaskyldu áfrýjanda. Svo sem áður var getið neitaði stefndi sök við skýrslugjöf hjá lögreglu. Fyrrverandi fulltrúi sýslumannsins á Sauðárkróki skýrði svo frá fyrir dómi að símhlerunin hefði verið neyðarúrræði eftir að aðrar rannsóknaraðgerðir hefðu verið reyndar án árangurs og að með henni „myndi kannski eitthvað detta inn.“ Grunur lögreglu virðist á engu stigi hafa beinst að því að fleiri en stefndi kynnu að vera viðriðnir málið og gátu því hugsanleg samskipti hans í síma við samseka ekki réttlætt hlerun á tímabilinu 9. til 22. desember 2004. Sú aðstaða að stefndi játaði ekki brot þrátt fyrir grunsemdir lögreglu gat ekki ein og sér gefið tilefni til aðgerðarinnar. Af þessum sökum brast lögmæt skilyrði fyrir henni, sbr. a. lið 176. gr. laga nr. 19/1991, og ber áfrýjandi á því skaðabótaskyldu gagnvart stefnda eftir ákvæðum XXI. kafla laganna. Samkvæmt öllu framangreindu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest, þar með talið um málskostnað og gjafsóknarkostnað. Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Gjafsóknarkostnaður stefnda verður ákveðinn eins og nánar segir í dómsorði. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnda, Hjartar Björnssonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 350.000 krónur. Mál þetta, sem dómtekið var 9. nóvember sl., er höfðað með stefnu, birtri 23. ágúst 2005. Stefnandi er Hjörtur Björnsson, Barmahlíð 7, Sauðárkróki. Stefndi er íslenska ríkið. Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði dæmt til að greiða honum miskabætur að fjárhæð 500.000 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 23. apríl 2005 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál. Stefndi gerir þær dómkröfur að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins. Helstu málsatvik eru þau að þann 4. desember 2004 kom upp eldur í húsinu við Bárustíg 14, Sauðárkróki, sem leiddi til dauða Elvars Fannars Þorvaldssonar, kt. 180683-3649, þá til heimilis að Hólavegi 24, Sauðárkróki. Stefnandi mun hafa verið á staðnum þegar eldurinn kom upp. Í kjölfar húsbrunans hóf lögreglan á Sauðárkróki rannsókn á eldsupptökum. Þann 8. desember 2004 var stefnandi yfirheyrður á lögreglustöðinni á Sauðárkróki og við þá yfirheyrslu var honum tilkynnt að hann hefði réttarstöðu grunaðs manns í málinu en stefnandi var einn grunaður um aðild að brunanum og dauða Elvars Fannars. Í kjölfarið lagði lögreglan á Sauðárkróki fram kröfu um dómsúrskurð við Héraðsdóm Norðurlands vestra um að Landssíma Íslands hf. yrði gert skylt að láta lögreglunni í té upplýsingar um símtöl úr og í símanúmer í eigu stefnanda fyrir tímabilið frá kl. 24:00 aðfaranótt föstudagsins 3. desember 2004 til kl. 11:00 laugardaginn 4. desember 2004. Jafnframt var þess krafist að lögreglunni á Sauðárkróki yrði leyft að hlusta á og hljóðrita símtöl við sömu símanúmer frá 9. desember til 22. desember 2004. Ofangreindar þvingunaraðgerðir voru heimilaðar með dómsúrskurði þann 9. desember 2004. Með bréfi Sýslumannsins á Sauðárkróki, dags. 28. febrúar 2005, var stefnanda tilkynnt að rannsókn málsins væri lokið og það sent ríkissaksóknara til afgreiðslu. Ekki var gefin út ákæra á hendur stefnanda þar sem efni þóttu ekki standa til þess að mati ríkissaksóknara. Með bréfi stefnanda, dags. 23. mars 2005, til sýslumannsins á Sauðárkróki krafðist stefnandi greiðslu miskabóta að fjárhæð kr. 500.000,- vegna hlerunarinnar auk lögmannsþóknunar. Stefnandi studdi kröfu sína við XXI. kafla laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 auk almennra reglna skaðabótaréttarins. Sýslumaðurinn á Sauðárkróki hafnaði kröfunni með bréfi, dags. 4. apríl 2005, á þeim forsendum að rökstuddur grunur hafi komið upp um að stefnandi væri hugsanlega viðriðinn meinta íkveikju og að yfirlýsingar og háttsemi stefnanda á vettvangi hafi vakið upp slíkan grun. Þar sem stefnandi telur að aðgerðir lögreglunnar hafi farið í bága við lög og valdið honum miska er honum nauðugur sá kostur að höfða mál til heimtu þeirra bóta sem hann með réttu á tilkall til á grundvelli XXI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK Kröfu sína um skaðabætur byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, einkum 176. gr. laganna, sbr. 175. gr., og almennum reglum skaðabótaréttar, einkum 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Jafnframt styður hann kröfu sína við 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmt til að greiða honum skaðabætur vegna miska að fjárhæð kr. 500.000,- auk dráttarvaxta. Í 1. mgr. 175. gr. laga um meðferð opinberra mála sé að finna heimild til greiðslu bóta til sakbornings ef rannsókn máls hefur verið hætt eða ákæra ekki gefin út vegna þess að sú háttsemi sem hann var borinn sökum hafi talist ósaknæm eða sönnun hafi ekki fengist um hana. Samkvæmt 176. gr. laga um meðferð opinberra mála beri að greiða sakborningi bætur ef lögmæt skilyrði hafi brostið til þvingunaraðgerða, sbr. a-liður, eða ekki hafi verið, eins og á stóð, nægilegt tilefni til slíkra aðgerða eða þær hafi verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt, sbr. b-liður. Ljóst sé í máli þessu að skilyrði beggja ákvæða séu uppfyllt. Stefnandi hafi saklaus verið beittur þvingunaraðgerðum samkvæmt 86. og 87. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála af sýslumanninum á Sauðárkróki. Þá telur stefnandi að lögregla hafi ekki gætt meðalhófs í aðgerðum sínum þar sem ekki hafi verið ástæða til að hlerunarheimild væri í gildi svo lengi sem raun bar vitni. Símahleranir lögreglunnar á Sauðárkróki hafi staðið yfir í tvær vikur án þess að nokkurra gagna væri aflað sem rökstutt gætu aðild stefnanda að þeim skelfilega atburði sem átti sér stað aðfararnótt 4. desember 2004. Ekkert hefði komið fram í málinu sem bendi til aðildar stefnanda að dauða Elvars Fannars og var stefnandi einn grunaður um að hafa valdið dauða hans, þrátt fyrir að aðrir hafi verið á staðnum í umrætt sinn. Sýslumaðurinn á Sauðárkróki hafi hafnað kröfu stefnanda um skaðabætur með bréfi, dags. 4. apríl 2005. Synjunina byggi hann á 2. málslið 1. mgr. 175. gr. laga um meðferð opinberra mála en sýslumaður telur að stefnandi hafi sjálfur stuðlað að framangreindum þvingunaraðgerðum. Stefnandi hafi á engan hátt verið valdur að eða stuðlað að því að hann sætti þeim aðgerðum sem lögreglan beitti hann og hann telur vera óforsvaranlegar. Beri stefndi alla sönnunarbyrði fyrir því. Þvert á móti hafi stefnandi aðstoðað lögreglu eftir mætti við að upplýsa málið. Þrátt fyrir símahleranir hjá stefnanda í tvær vikur hafi engra gagna verið aflað sem gefið hafi tilefni til þess að tengja stefnanda við dauða Elvars Fannars. Stefnandi hafi saklaus verið dreginn inn í lögreglurannsóknina vegna ólögmætra vinnubragða rannsóknaraðila og beri stefnda alla ábyrgð og áhættu á tjóni sem hljótist af beitingu lögregluvalds í tilvikum sem þessu. Þá hafi stefnandi einnig saklaus þurft að þola mikla mannorðsskerðingu, þjáningar og annan miska vegna hinna ólögmætu aðgerða lögreglunnar á Sauðárkróki. Fréttir af atburði aðfaranætur 4. desember 2004 hafi birst í flestum fjölmiðlum þar sem þess hafi óspart verið getið að lögregla hefði stefnanda grunaðan um að hafa valdið dauða Elvars Fannars. Öll umfjöllun um málið hafi valdið stefnanda hugarangri og vanlíðan. Allt hafi þetta stuðlað að andlegum þjáningum stefnanda og beri að líta heildstætt á framangreinda þætti við mat á miska stefnanda. Niðurstöður rannsóknar lögreglunnar á Sauðárkróki hafi ekki gefið tilefni til þess að gefa út ákæru á hendur stefnanda. Ekkert í málinu, hvorki gögn þess né háttsemi stefnanda, hafi bent til aðkomu hans að atburðinum og því sé ljóst að lögmæt skilyrði til aðgerðanna hafi ekki verið uppfyllt við rannsóknina og eigi stefnandi ekki að þola slíkt bótalaust. Miskabótakrafa stefnanda sé að fjárhæð 500.000 krónur. Krafan sé matskennd og í henni felist varakrafa um lægri bætur. Dráttarvexti af kröfu stefnanda beri að reikna frá 23. apríl 2005, þegar einn mánuður var liðinn frá því að stefnda var sent kröfubréf, sbr. 15. gr. laga um vexti og verðtryggingu. Kröfu sína um skaðabætur styður stefnandi við 176. gr., sbr. 175. gr., laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Jafnframt styður hann kröfu sína við 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 Um bótaábyrgð stefnda vísar stefnandi til almennra sjónarmiða um húsbóndaábyrgð. Kröfuna um dráttarvexti styður stefnandi við III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um málskostnað vísast til ákvæða í XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Af hálfu stefnda er vísað til þess að hinn 9. desember 2004 hafi sýslumaðurinn á Sauðárkróki gert kröfu um það fyrir Héraðsdómi Norðurlands vestra að heimilaðar yrðu rannsóknaraðgerðir eins og nánar er lýst í kröfu sýslumanns og úrskurði héraðsdómsins, en þær rannsóknaraðgerðir séu með heimild í 86. gr., sbr. 87. gr., laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991. Hafi bæði verið um að ræða kröfu um upplýsingar um símanotkun og hlustun á síma. Einkum hafi þetta verið mikilvægt með því að stefnandi hefði ekki tjáð sig og borið við minnisleysi í skýrslutökum. Í þessu efni verði að árétta að umræddar rannsóknaraðgerðir hafi ekki sérstaklega miðast við að upplýsa um meinta sök stefnanda, heldur að því að upplýsa málið, hvort heldur það horfði til sektar eða sýknu. Stefndi telur að full efni hafi verið til að beita umræddum rannsóknaraðgerðum. Aðrar rannsóknaraðgerðir sem beitt var hafi ekki dugað til að upplýsa málið, en vissulega hafi þeim verið beitt jafnhliða. Öll skilyrði fyrir beitingu umræddra rannsóknaraðgerða hafi verið uppfyllt að mati stefnda. Skilyrðum sé lýst í 87. gr. laga nr. 19, 1991 en í fyrsta lagi sé gert ráð fyrir að ástæða sé til að ætla að með þessu fáist upplýsingar, sem skipt geti miklu fyrir rannsókn máls, en í öðru lagi er skilyrði þessa að rannsókn beinist að broti sem varðað geti að lögum 8 ára fangelsi eða ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjast þess. Ljóst hafi verið að rannsóknin beindist að mögulegri íkveikju og verið vafalaust að sú háttsemi hefði getað fallið að refsiákvæðum með slíkum refsiramma, en nefna megi ýmis ákvæði almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, svo sem 164., 167., 211. gr. o.fl. sem tilgreind hafi verið í kröfu sýslumanns. Stefndi telur að umræddar rannsóknaraðgerðir sem hafi verið heimilaðar með úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra hafi ekki staðið of lengi og ekki gengið lengra en tilefni hafi verið til. Tímabilið sem upplýsingaöflunin nái yfir sé mjög stutt og sérstaklega sá tími sem liðið hafi frá upphafi upplýsingagjafar fram að brunanum, og jafnframt sá tími sem rannsóknaraðgerðirnar hafi náð til eftir brunann. Sé í því efni að líta til þess að íslensk lagaákvæði og fyrirmæli fjalli hvergi um hámarkslengd slíkra aðgerða. Aðeins sé tekið fram að í úrskurði skuli setja slíkum aðgerðum tímamörk og hafi svo verið gert. Við símahlerun hafi ekki komið fram klárar vísbendingar eða sannanir um sekt eða sakleysi, en hljóðritað símtal sem stefnandi hafi átt við móður sína veiti ekki beina sönnun um sekt eða sakleysi stefnanda. Ekki þyki stefnda þó útilokað að draga af símtalinu þá ályktun að móðir stefnanda hafi talið að stefnandi hafi vitað meira en hann vildi vera láta. Símahlerun hafi þannig ekki orðið til þess að stefnandi yrði ákærður og var málið á endanum fellt niður hjá ríkissaksóknara. Það að stefnandi hafi ekki verið ákærður og sakfelldur verði ekki eitt sér til að baka stefnda bótaskyldu vegna lögreglurannsóknar, en allar aðgerðir lögreglu í málinu hafi verið lögum samkvæmar og hvergi gengið lengra en lög bjóði og þörf hafi krafið. Þetta er meginatriði. Stefndi telur þau ákvæði sem stefnandi byggir mál sitt á ekki eiga við. Í ákvæðum 175. og 176. gr. laga nr. 19, 1991 sé fjallað um aðferðir sem hafi í för með sér frelsisskerðingu. Það hafi ekki verið í þessu máli. Stefnandi hafi ekki verið sviptur frelsi sínu, en símahlerun og upplýsingar um símanotkun falli þannig utan bótareglna laganna, enda ekki um að ræða frelsisskerðingu eða annað sem vísað sé til í viðkomandi ákvæðum. Ekki stoði stefnanda heldur að vísa til ákvæða 26. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993, enda hvorki um að ræða líkamstjón, miska né ólögmæta meingerð gegn friði, frelsi, æru eða persónu stefnanda. Starfsmenn stefnda hafi rannsakað málið að hætti laga og háttsemi þeirra í því efni geti ekki talist ólögmæt. Ekki séu heldur uppfyllt skilyrði almennra skaðabótareglna, s.s. sakarreglunnar. Stefna sýnist ekki grundvölluð á öðru en að hin bótaskylda háttsemi starfsmanna stefnda snúi aðeins að öflun umrædds dómsúrskurðar um símahlerun og símanotkun. Hafi stefnandi orðið fyrir miska vegna umtals í kjölfar málsins, sé það ekki á ábyrgð lögreglu eða annarra starfsmanna stefnda, sem hafi ekki stuðlað að því umtali. Stefnandi hafi hvergi verið nafngreindur í umfjöllun fjölmiðla af hálfu starfsmanna stefnda, eða annars staðar, en starfsmenn stefnda hafi gætt einkalífs stefnanda í hvívetna. Hitt sé annað mál að í litlu samfélagi veki slíkur atburður vitaskuld mikla athygli og megi gera ráð fyrir að fólk tali um hann, en vitað hafi verið í bænum hvaða fólk hefði verið á staðnum. Auk þess sýnist stefnandi sjálfur bera mesta ábyrgð á því sjálfur að um málið var fjallað í fjölmiðlum og hans nafn tengt við það, sbr. viðtal sem hann hafi látið taka við sig í DV. Fjárhæð miskabótakröfu er alfarið mótmælt en fjárhæð hennar sé fjarri öllu lagi. Ekki sé krafan rökstudd og síst með tilliti til hinnar háu fjárhæðar. Vaxtaútreikningi er mótmælt og er vísað til lokaákvæðis 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 að þessu leyti. Sérstaklega er tekið fram að stefnandi þykir ekki hafa fullnægt skilyrðum 9. gr. nefndra laga um skyldu tjónþola til að veita upplýsingar til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta. Kjarni málsins er sá að þær athafnir starfsmanna stefnda sem stefnandi vísi til valdi ekki bótaskyldu. Tjón stefnanda sé ósannað og óljóst og orsakatengsl þess við umræddar rannsóknaraðgerðir lögreglu óönnuð. Þá þyki stefnandi hafa valdið sjálfur þeirri fjölmiðlaathygli og umfjöllun sem að honum beindist. Þá þyki stefnandi með einkennilegum framburði sínum og hátterni við Bárustíg 14 í greint sinn hafa valdið sjálfur eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á. Þau lagaákvæði og reglur sem stefnandi vísi til um grundvöll kröfu sinnar eiga ekki við í þessu máli. Til stuðnings kröfu um málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91, 1991. NIÐURSTAÐA Fyrir liggur í máli þessu að rannsókn vegna gruns um að stefnandi hefði gerst brotlegur við 164. gr., 167. gr., 211. gr., 215. gr., 1. og. 4. mgr. 220. gr. eða 1. mgr. 221 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 leiddi ekki til ákæru og hefur verið hætt. Sýslumaðurinn á Sauðárkróki aflaði lögreglunni heimildar til þess að afla upplýsinga um það úr hvaða símum hringt var í síma stefnanda og í hvaða síma hann hringdi á tímabilinu frá kl. 24.00 aðfaranótt föstudagsins 3. desember 2004 til kl. 11.00 laugardaginn 4. desember sama árs svo og til að hlera síma stefnanda frá kl. 15.00 fimmtudaginn 9. desember til kl. 24.00 miðvikudaginn 22. desember. Voru aðgerðir þessar heimilaðar með úrskurði héraðsdóms Norðurlands vestra sem kveðinn var upp 9. desember 2004. Ekki er sýnt fram á það að stefnandi hafi valdið eða stuðlað að aðgerðum þessum. Standa ákvæði 175. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 42. gr. laga nr. 36/1999 því ekki til fyrirstöðu að fallist verði á kröfu stefnanda um bætur. Aðgerðir þær sem beitt var við rannsókn ætlaðra brota stefnanda, þ.e. öflun upplýsinga um samskipti hans um síma og hlerun símtala hans, fólu í sér skerðingu á friðhelgi einkalífs stefnanda sem varin er af ákvæði 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár sbr. 9. gr. laga nr. 97/1995. Í ljósi reglunnar um að hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skuli talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð, sbr. 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar sbr. 8. gr. laga nr. 97/1995 og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, verður fallist á það með stefnanda að aðgerðir lögreglu hafi falið í sér ólögmæta meingerð gagnvart stefnanda sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 þar sem fram kemur að heimilt sé að láta þann sem ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru og persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert er við. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að lögreglumenn hafi átt frumkvæði að umfjöllun fjölmiðla um brunann að húsinu nr. 14. við Bárustíg 4. desember 2004 og miðast bætur til hans einungis við þann miska, sem felst í skerðingu þeirri á einkalífi hans sem af aðgerðum lögreglu leiddi. Þykja miskabætur til stefnanda hæfilega ákveðnar 50.000 krónur. Stefnandi nýtur gjafsóknar samkvæmt leyfi dagsettu 6. september 2005 og verður stefndi ekki sérstaklega dæmdur til greiðslu málskostnaðar. Gjafsóknarkostnaður stefnanda er málflutningsþóknun lögmanns hans, sem ákveðst 498.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og greiðist hann úr ríkissjóði. Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn. Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Hirti Björnssyni, 50.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 23. apríl 2005 til greiðsludags. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 498.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Mál nr. 400/2010
Skaðabætur Einkahlutafélag Ábyrgð stjórnarmanna
G og S gegndu störfum framkvæmdastjóra og stjórnarformanns í B ehf. Á starfstíma sínum höfðu þeir frumkvæði að stofnun dótturfélags B ehf. í Slóvakíu. Fyrir tilstuðlan G og S voru greiðslur vegna stofnunar félagsins og ýmiss annars kostnaðar inntar af hendi fyrir reikning B ehf. Samkvæmt samþykktum dótturfélagsins átti B ehf. 68% hlut í félaginu en G og S 16%, hvor um sig. B ehf. höfðaði mál þetta gegn G og S, eftir að þeir höfðu lokið störfum hjá félaginu, til heimtu þeirra fjármuna sem samkvæmt framansögðu var ráðstafað til stofnunar dótturfélagsins, með vísan til 73. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, á þeim grundvelli að félagið væri í reynd að fullu í eigu G og S. G og S mótmæltu því að um heimildalausa ráðstöfun hefði verið að ræða og héldu því fram að fénu hefði verið ráðstafað til stofnframlags dótturfélagsins, að hluta í þágu B ehf., lögum samkvæmt, og að hluta sem viðskiptalán til handa G og S, sbr. 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að samkvæmt bókum B ehf., sem G og S báru ábyrgð að væru rétt færðar, var hlutafjáreign í dótturfélaginu skráð sem eign G og S, greidd með fjármunum B ehf. og án þess að endurgjald hefði komið fyrir úr hendi tvímenninganna. Hæstiréttur taldi að fallast yrði á með B ehf. að G og S hefðu gengið svo frá reikningsskilum B ehf. að telja bæri að dótturfélagið væri í þeirra eigu og yrði því að líta svo á að þeir hefði nýtt fjármuni B ehf. í eigin þágu við stofnun dótturfélagsins. Þessi ráðstöfun hefði ekki verið heimil tvímenningunum á grundvelli XII. kafla laga nr. 138/1994 og hefðu þeir því bakað B ehf. tjón sem þeir bæru skaðabótaskyldu á, sbr. 1. mgr. 108. gr. sömu laga. Málsástæðu G og S fyrir Hæstarétti þess efnis að B ehf. væri ekki heimilt að hafa uppi skaðabótakröfu á hendur þeim þar sem ákvörðun um það hefði ekki verið tekin á hluthafafundi B ehf., sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 138/1994, var of seint fram komin. sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. júní 2010. Hann krefst þess aðallega að stefndu verði óskipt gert að greiða sér 6.040.849 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 4.799.705 krónum frá 8. október 2007 til 22. nóvember 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 6.040.849 krónur frá þeim degi til greiðsludags. Til vara að stefndu verði óskipt gert að greiða sér 1.933.072 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 af 1.535.906 krónum frá 8. október 2007 til 22. nóvember 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 1.933.072 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og að áfrýjanda verði gert að greiða hvorum þeirra málskostnað fyrir Hæstarétti. I Samkvæmt gögnum málsins barst stefnda Gunnari Erni Kristjánssyni, þáverandi framkvæmdastjóri áfrýjanda, tölvupóstur frá lögmanninum Radovan Hrádek í Slóvakíu 8. október 2007 varðandi stofnun félagsins Ormsson Slovakia s.r.o. Þar kom fram að öll skjöl væru tilbúin fyrir stofnun félagsins en lögmanninum hefði ekki borist fé til að mæta kostnaði við stofnun þess að fjárhæð 11.399 evrur og greiðslu hlutafjár í félaginu að fjárhæð 1.500.000 slóvakískar krónur, sem jafngiltu þá 44.431 evru, eða samtals 55.830 evrur. Samkvæmt greiðsluseðli um gjaldeyriskaup frá Landsbanka Íslands hf. sama dag keypti áfrýjandi 55.830 evrur fyrir 4.799.705 íslenskar krónur og millifærði bankinn fjármunina inn á reikning lögmannsins í viðskiptabanka í Bratislava í Slóvakíu. Á greiðsluseðilinn var skráð skýringin: „Ormsson Slovakia s.r.o.“ Í beinu framhaldi var gengið frá stofnun Ormsson Slovakia s.r.o. Samkvæmt samþykktum félagsins 16. október 2007 átti áfrýjandi 68% í því og stefndu hvor um sig 16%, en hlutafé var 1.500.000 slóvakískar krónur. Til viðbótar þessu létu stefndu áfrýjanda greiða ýmsan kostnað vegna Ormsson Slovakia s.r.o., meðal annars vegna þjónustu lögmanns, og var reikningur nr. 114285 í bókum áfrýjanda þannig auðkenndur sem „verk í vinnslu í Slovakíu“, en lokastaða hans var 1.241.144,19 krónur. Krafa áfrýjanda á hendur stefndu nemur samtölu af lokastöðu þessa reiknings og þeirri fjárhæð sem samkvæmt framansögðu var greidd til lögmannsins Radovan Hrádek. Áfrýjandi byggir á því að þessum fjármunum úr sjóðum hans hafi verið varið til að stofna félag sem í reynd hafi verið í eigu stefndu þótt 68% hlutafjár hafi verið skráð sem eign áfrýjanda. Í þessu sambandi vísar áfrýjandi til þess að óheimilt sé að ráðstafa fjármunum úr sjóðum félags nema í þágu starfsemi þess eða í öðrum lögbundnum tilvikum, sbr. 73. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Hvergi sjáist merki þess í skjallegum gögnum áfrýjanda, hvorki ársreikningi né annars staðar, að hlutafjáreign í Ormsson Slovakia s.r.o. hafi verið eign hans. Stefndu mótmæla því að um heimildarlausa ráðstöfun fjármuna hafi verið að ræða. Hafi þessu fé verið ráðstafað í þágu áfrýjanda af þeim, sem til þess voru bærir, enda ljóst að það hafi farið til að greiða stofnfé áfrýjanda í Ormsson Slovakia s.r.o. og að hluta hafi verið um að ræða viðskiptalán til handa stefndu fyrir þeirra 32% stofnframlagi svo sem heimilt sé í lokamálslið 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994. II AB 173 ehf. keypti alla hluti í áfrýjanda 2. október 2008 af Opal SeafoodInvestments Ltd. en stefndu voru fyrirsvarsmenn síðarnefnda félagsins og undirrituðu kaupsamning fyrir þess hönd. Í 2. gr. samningsins kemur fram að forsendur kaupanda fyrir gerð hans væri einkum að finna í tveimur skjölum, sem væru fylgiskjöl með honum. Annars vegar var þar um að ræða ársreikning fyrir áfrýjanda og dótturfélög fyrir árið 2007 og hins vegar óformlegt uppgjör þeirra sömu fyrir janúar til og með júní 2008. Í 8. gr. kaupsamningsins staðfesti seljandi og lofaði með undirritun sinni á samninginn að allar þær upplýsingar sem hann hefði gefið varðandi félagið væru réttar og að kaupandi hefði verði upplýstur um öll þau atriði sem máli skiptu. Í skýringu nr. 7 í ársreikningi áfrýjanda fyrir árið 2007 kemur fram að eignarhlutir í hlutdeildarfélögum séu eignfærðir á nafnverði en ekki sem svarar til hlutdeildar félagsins í bókfærðu eigin fé þeirra. Í skýringu nr. 18 eru taldir upp eignarhlutir í öðrum félögum og er þar ekki að finna neinar upplýsingar um eignarhlut í Ormsson Slovakia s.r.o. Ársreikningurinn var staðfestur af stjórn áfrýjanda og framkvæmdastjóra og undirritaður af stefndu. Þá var hann áritaður af þáverandi endurskoðanda félagsins án athugasemda. Áfrýjandi hefur lagt fram nýtt skjal fyrir Hæstarétt sem nefnist „Lokafærslur 2007“, en þáverandi endurskoðandi hans sendi það til fjármálastjóra félagsins 22. september 2008. Þar kemur fram færsla að fjárhæð 4.799.705 krónur frá „hlutabréfaeign“ áfrýjanda yfir á „aðrar skammtímakröfur“ og er skýring við hana „Mlf á Gunnar og Sigurð“. Samkvæmt bókum áfrýjanda, sem stefndu báru ábyrgð á að væru rétt færðar, var hlutafjáreign í Ormsson Slovakia s.r.o. þannig skráð sem eign stefndu, greidd með fjármunum áfrýjanda og án þess að endurgjald hefði komið fyrir úr hendi stefndu. Stefndu hafa borið fyrir sig að um viðskiptalán hafi verið að ræða fyrir 32% eignarhluta þeirra í Ormsson Slovakia s.r.o. Engin gögn hafa þó fundist um það í bókum áfrýjanda og er sú fullyrðing stefndu því ósönnuð gegn andmælum hans. Í tölvupósti, sem þáverandi endurskoðandi áfrýjanda sendi 26. september 2008 í tilefni af áreiðanleikakönnun á áfrýjanda í tengslum við sölu á félaginu, svaraði hann fyrirspurn um framangreindar bókhaldsfærslur. Þar kemur fram að hlutabréfaeign að fjárhæð 4.799.705 krónur hafi verið færð til eigenda einhvern tíma á árinu 2007. Þá segir svo: „Þegar ég fór yfir þetta með Gunnari og Sigurði komu fram afdráttarlaus fyrirmæli um að þetta væri þeirra eign en ekki BO. Þetta er sem sagt fært svona að fyrirmælum allra eigenda. Meira veit ég ekki og annað skipti mig ekki máli en báðir [eru] borgunarmenn fyrir þessari skuld.“ Áfrýjandi hefur lagt fram nýtt skjal, tölvupóst frá sama degi frá endurskoðandanum til þess, er sá um framkvæmd áreiðanleikakönnunarinnar. Þar kemur fram að endurskoðandinn hafi ekki fundið hvaða hlutbréf þetta séu að fjárhæð 4.799.705 krónur en það ætti að vera aukaatriði þar sem stjórn félagsins hafi ákveðið að þetta væri ekki eign þess. Í bréfinu segir síðan: „Þetta er gert svona í lokafærslum hjá mér að beiðni eigenda sem töldu þetta ranglega bókað. Á móti er eignfærð krafa á eigendur sem þeir eiga að sjálfsögðu að standa skil á eða enn betra að draga þetta frá við uppgjör. Þetta er hluti af öðrum skammtímakröfum sem eru 29.895.286.“ Þar sem framangreindar skýringar þáverandi endurskoðanda áfrýjanda voru gefnar aðeins fjórum dögum eftir að gengið var frá lokafærslum áfrýjanda fyrir árið 2007 og þær samrýmast færslum í bókum félagsins, verða þær lagðar til grundvallar við úrlausn málsins. Af hálfu stefndu hefur komið fram í málinu að öll hlutabréf í Ormsson Slovakia s.r.o. hafi verið seld í september 2008 fyrir samtals eina krónu. Þeir hafa á hinn bóginn ekki lagt fram nein gögn því til stuðnings. Áfrýjandi hefur lagt fram ný gögn fyrir Hæstarétt sem sýna að Ormsson Slovakia s.r.o. eigi 33,4% í félaginu Home Studio a.s., sem sagt er í rekstri á heimilistækjamarkaði og er sá hlutur að nafnvirði 1.500.000 slóvakískar krónur. Ekki liggur fyrir hvenær Ormsson Slovakia s.r.o. eignaðist þennan hlut, en fyrir Hæstarétt hafa verið lögð fram gögn er sýna að stefndi Sigurður tók sæti í stjórn Home Studio a.s. 16. janúar 2008. Að því virtu sem að framan greinir verður fallist á með áfrýjanda að stefndu hafi sjálfir gengið svo frá reikningsskilum hans fyrir árið 2007 að telja beri að Ormsson Slovakia s.r.o. sé í þeirra eigu, en af þeim sökum verður að líta svo á að þeir hafi nýtt fjármuni áfrýjanda í eigin þágu við stofnun félagsins. Stefndu, sem þáverandi stjórnarformanni og framkvæmdastjóra áfrýjanda, var þessi ráðstöfun ekki heimil á grundvelli neins af ákvæðum XII. kafla laga nr. 138/1994 og hafa þeir því bakað áfrýjanda tjón sem þeir bera skaðabótaskyldu á samkvæmt 1. mgr. 108. gr. sömu laga. Fyrir Hæstarétti hafa stefndu haft uppi þá málsástæðu að áfrýjanda sé ekki heimilt að hafa uppi skaðabótakröfu á hendur þeim þar sem ákvörðun um það hafi ekki verið tekin á hluthafafundi í áfrýjanda, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 138/1994. Ekki verður séð að á þessu hafi verið byggt í héraði og er því um nýja málsástæðu að ræða sem er of seint fram komin, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kemur hún því ekki til álita við úrlausn málsins. Stefndu byggja loks á því að fram hafi farið fullnaðaruppgjör á milli stefndu og áfrýjanda í tengslum við sölu á áfrýjanda 2. október 2008, en í 5. gr. kaupsamningsins segi að stefndu greiði upp skuldir samkvæmt viðskiptareikningum sínum síðar sama dag. Geti áfrýjandi því ekki haft uppi þessa kröfu á hendur þeim. Upplýst var við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti að stefndu greiddu upp skuldir á viðskiptareikningum sínum eftir að kaupsamningurinn hafði verið gerður. Kröfur þær, sem mál þetta varðar, voru ekki færðar á viðskiptareikninga þeirra í bókum áfrýjanda og tók uppgjörið því þegar af þeirri ástæðu ekki til þeirra. Samkvæmt framangreindu verður aðalkrafa áfrýjanda því tekin til greina með vöxtum eins og í dómsorði greinir. Eftir þessum úrslitum málsins verða stefndu dæmdir óskipt til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Stefndu, Gunnar Örn Kristjánsson og Sigurður Sigfússon, greiði óskipt áfrýjanda, Bræðrunum Ormsson ehf., 6.040.849 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 4.799.705 krónum frá 8. október 2007 til 22. nóvember 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 6.040.849 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Stefndu greiði óskipt áfrýjanda samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. mars 2010. Mál þetta, sem dómtekið var 19. mars sl., var höfðað 6. apríl 2009 af Bræðrunum Ormson ehf., Síðumúla 9, Reykjavík, gegn Gunnari Erni Kristjánssyni, Krossalind 11, Kópavogi, og Sigurði Sigfússyni, Árlandi 3, Reykjavík. Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda 6.040.849 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 4.799.705 krónum frá 8. október 2007 til 22. nóvember 2008, en með dráttarvöxtum af 6.040.849 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara er þess krafist að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda 1.933.072 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. sömu laga af 1.535.906 krónum frá 8. október 2007 til 22. nóvember 2008, en með dráttarvöxtum af 1.933.072 krónum frá þeim degi til greiðsludag. Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu in solidum að mati dómsins. Af hálfu stefndu er krafist sýknu af kröfum stefnanda. Hvor stefndu krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna Með kaupsamningi 2. október 2008 seldi Opal Seafood Investments Ltd. alla hluti í stefnanda, en kaupandi var AB 173 ehf., Lágmúla 7 í Reykjavík. Framkvæmdastjóri var þá stefndi Gunnar en stjórnarformaður stefndi Sigurður. Sama dag viku stefndu úr stjórn stefnanda og hættu þar störfum. Krafa stefnanda í málinu er byggð á því að stefnandi hafi orði fyrir tjóni sem stefndu beri skaðabótaábyrgð á vegna þess að greitt hafi verið úr sjóðum stefnanda samkvæmt ákvörðun stefndu fyrir hlutafé í Ormson Slóvakíu. Kostnaður hafi einnig verið færður vegna þess félags sem leitt hafi til tjóns fyrir stefnanda. Skaðabótakrafan er samtals að fjárhæð 6.040.849 krónur. Af hálfu stefndu er skaðabótaskyldu mótmælt svo og því að nokkurt tjón hafi orðið sem stefndu beri skaðabótaábyrgð á. Í gögnum málsins kemur fram að greitt var af hálfu stefnanda fyrir hlutafé í Ormson Slóvakíu 4.799.705 íslenskar krónur 8. október 2007. Einnig hefur verið lagt fram skjal sem er færsla að fjárhæð 1.241.144 krónur vegna verks í vinnslu í Slóvakíu samkvæmt lokastöðu 27. október 2008. Af hálfu stefnanda er vísað til þess að stefndu hafi sjálfir keypt umrædd hlutabréf en látið stefnanda greiða fyrir þau og annan kostnað vegna þessa sem hafi verið ólögmætt og óheimilt af þeirra hálfu. Stefnandi vísar til þess að í gögnum komi ekki fram að stefnandi hafi verið kaupandi hlutfjárins og kaupin því verið stefnanda óviðkomandi. Þessu er mótmælt af hálfu stefndu en þeir vísa til þess að stefnandi hafi hvorki fært viðhlítandi rök fyrir því né lagt fram sönnunar­gögn um að stefndu beri óskipta bótaábyrgð á hinu meinta tjóni stefnanda. Málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi vísar til þess að á árinu 2007 hafi verið millifærðir fjármunir úr sjóðum stefnanda. Þetta komi fram í heimabanka og tölvubréfi 8. október það ár þegar millifærðar voru 4.799.705 krónur á slóvenska lögfræðistofu vegna stofnunar félags­ins Ormson Slóvakíu. Stefnanda sé hvorki ljóst í hvaða tilgangi millifærslan átti sér stað né á hvaða heimildum hún byggðist. Stefndu séu persónulega ábyrgir gagnvart stefnanda vegna millifærslunnar. Stefnandi mótmæli því að hann hafi sjálfur staðið að stofnun félagsins Ormson Slóvakíu. Endurskoðandi hefði farið yfir málið og hafi afdráttarlaust komið fram að félagið væri eign stefndu en ekki stefnanda. Þessu fé hafi því verið ráðstafað í þágu stefndu. Til viðbótar framangreindri fjárhæð virtist sem stefndu hefðu látið stefnanda greiða ýmsan kostnað vegna Ormson Slóvakíu. Viðskiptareikningur nr. 114285, auðkenndur sem „verk í vinnslu í Slóvakíu“, að fjárhæð 1.241.244 krónur, hafi verið skuldfærður til samræmis í bókum stefnanda. Stefnandi hafi enga aðkomu átt að þessu félagi og því fráleitt að hann beri þennan kostnað sem hljóti að vera á ábyrgð stefndu. Með kaupsamningi 2. október 2008 hafi stefndu selt alla hluti í stefnanda fyrir hönd Opal Seafoods Investments Ltd., AB 173 ehf. Í tengslum við þau kaup hafi stefndu gert upp kröfur samkvæmt viðskiptareikningi sínum við stefnanda. Stefnufjárhæð þessa máls hafi hins vegar ekki verið hluti af því uppgjöri, enda ekki skuldfærð á viðskiptareikning stefndu hjá stefnanda á þeim tíma, auk þess sem krafa stefnanda byggðist á almennum skaðabótareglum. Stefndu séu persónulega ábyrgir fyrir greiðslunni sem stefnandi krefji þá um í málinu. Framangreindri fjárhæð hafi verið ráðstafað úr sjóðum stefnanda án heimildar og í andstöðu við lög. Fjármunum verði almennt ekki ráðstafað úr sjóðum félags nema í þágu starfsemi viðkomandi félags, sem arð­greiðslum, við lækkun hlutafjár eða sem láni. Engu þessara skilyrða sé fullnægt. Því hafi verið um óheimila og ólögmæta meðferð fjármuna að ræða. Stefndu séu skaðabótaskyldir gagnvart stefnanda, stefndi Gunnar sem fram­kvæmda­stjóri og stefndi Sigurður sem stjórnarformaður, samkvæmt meginreglum skaða­bótaréttar, þar með talið reglum um húsbóndaábyrgð, og meginreglum félaga­réttar um skyldur stjórnenda félaga samkvæmt lögum nr. 138/1994 um einkahluta­félög. Stefndu hafi stöðu sinnar vegna borið að tryggja meðferð fjármuna félagsins lögum samkvæmt. Þeirri skyldu hafi augljóslega ekki verið fullnægt og hafi það valdið stefnanda tjóni. Stefndu beri óskipta ábyrgð í samræmi við almennar skaðabótareglur. Tjón stefnanda svari til höfuðstóls þeirra fjármuna sem ráðstafað hafi verið úr sjóðum stefnanda án heimildar og í andstöðu við lög sem nemi stefnufjárhæð málsins, 4.799.705 krónur + 1.241.244 krónur, samtals 6.040.949 krónur. Umræddum fjármunum virtist hafa verið ráðstafað í þágu fjárfestinga stefndu sjálfra. Þeir verði því aðeins lausir undan ábyrgð að þeir geti sýnt fram á að meðferð fjármunanna á þeim tíma er þeir voru í fyrirsvari fyrir stefnanda hafi byggst á fullnægjandi heimildum og verið lögum samkvæm. Þeir verði að sýna fram á hvort og með hvaða hætti félagið í Slóvakíu tengdist stefnanda. Stefndu geti ekki borið því við að engin skjalleg gögn liggi fyrir um þessa ráðstöfun úr sjóðum stefnanda, þar með talið hver hafi verið rétthafi þeirra. Hvers konar brotalamir í þessum efnum séu á ábyrgð stefndu sjálfra. Sama niðurstaða leiði af því að engar upplýsingar um Ormson Slóvakíu sé að finna í bókum stefnanda frá þeim tíma er stefndu báru sjálfir ábyrgð á bókhaldi félagsins. Varakrafa stefnanda miðist við að tjónið sem um ræði nái aðeins til þess hluta sem stefnandi hafi greitt fyrir stefndu verði litið svo á að stefnandi hafi átt 68% hlutafjár í Ormson Slóvakíu en stefndu samtals 32%. Stefndu verði að endurgreiða stefnanda þann hluta fjárhæðarinnar sem stefnandi hafi lagt út fyrir þá. Varakrafan sé því aðeins 32% af aðalkröfunni. Stefnandi krefjist vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 af 4.799.705 krónum frá 8. október 2007 til 22. nóvember 2008, en dráttarvaxta samkvæmt 3. mgr. 5. gr. sömu laga af 6.040.949 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Varðandi síðari höfuðstólsfjárhæðina sé krafist dráttarvaxta af henni frá 22. nóvember 2008, enda þótt stefnandi eigi rétt á vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna frá ýmsum tímum fyrr á árinu 2008. Stefnandi hafi fyrst krafið stefndu um greiðslu með tölvubréfi 22. október 2008 og sé dráttarvaxta krafist þegar mánuður var liðinn frá því að stefndu voru krafðir um greiðslu. Málsástæður og lagarök stefndu Af hálfu stefndu er vísað til þess að skaðabótakrafa stefnanda eigi sér enga stoð og byggi á röngum og eða ósönnuðum fullyrðingum um málsatvik. Fjárhæðirnar sem stefnandi krefjist bóta fyrir séu greiðslur frá stefnanda til slóvensks lögmanns, Radovan Hrádek, sem hafi séð um stofnun Ormson Slóvakíu og sé útlagður kostnaður vegna félagsins og starfsemi þess. Stefnandi hafi stofnað félagið 16. október 2007 og hafi átt 68% hlutafé en stefndu hvor um sig 16%. Greiðsla til Radovan Hrádek 8. október 2007, að fjárhæð 4.799.705 krónur, sé vegna stofnunar Ormson Slóvakíu eins og handskrifað sé á skjalið. Stofnun félagsins og ráðstöfun fjármuna stefnanda til þess hafi á allan hátt verið lögmæt og innan þeirra heimilda sem stefndu hafi á þeim tíma haft sem stjórnendur. Fullyrðingum um að fjármunir þessir hafi verið greiddir í þágu stefndu persónulega sé mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Félagið hafi verið rekið með tapi árið 2007 og hafi stefndu talið hlutina verðlausa í lok þess árs og hlutafjárframlagið þar með tapað. Stefndu hafi ákveðið að afskrifa umrædda eign og talið að afskrift hefði verið færð í bækur stefnanda með viðeigandi gjaldfærslu. Í ljós hafi komið að þess í stað hafi afskriftin verið færð á biðreikning þar sem endurskoðanda hafi vantað gögn til staðfestingar. Á árinu 2008 hafi rekstur Ormson Slóvakíu að mestu verið fjármagnaður af félagi í þeirra eigu, Obsidan Properties Slóvakía, m.a. með víkjandi lánum. Það félag hafi keypt alla hluti í Ormson Slóvakíu 8. september 2008, þar á meðal 68% hlut stefnanda. Allar ákvarðanir um stofnun Ormson Slóvakíu, fjárútlát stefnanda í tengslum við félagið og ráðstöfun hlutafjáreignar hafi verið lögmætar og innan þeirra formlegu heimilda sem stefndu hefðu haft sem stjórnendur stefnanda. Ákvarðanir um greiðslu kostnaðar hafi verið lögmætar og geti á engan hátt skapað stefndu bótaskyldu gagnvart stefnanda. Stefndu vísi til áreiðanleikakönnunar, sem kaupandi hafi látið framkvæma áður en kaupsamningur hafi verið gerður 2. október 2008, en í 9. tl. samningsins segi að áreiðanleikakönnun hafi farið fram á rekstri og efnahag stefnanda. Hún hafi bæði náð til lögfræðilegra og fjárhagslegra atriða og verið unnin á vegum kaupanda á hans kostnað. Seljandi hafi hvorki komið að þeirri könnun né séð hana. Stefndu hafi hvorki komið að áreiðanleikakönnuninni né fengið tækifæri til að tjá sig um hana hafi. Það sem stefnandi hafi eftir endurskoðanda hljóti að byggjast á misskilningi og frásögn hans í tölvupósti sé ekki í samræmi við fyrirmæli stefndu eða viðskiptin sem um ræði. Tölvupósturinn sé svar endurskoðandans við fyrirspurn þess sem gert hafi áreiðan­leika­könnunina fyrir væntanlega kaupendur hlutafjár í stefnanda. Stefndu hafi ekki komið að þessu og því ekki getað komið að leiðréttingum á því sem kynni að vera rangt. Upplýsingar sem þar komi fram hafi því enga þýðingu fyrir úrlausn málsins. Samið hafi verið um að stefndu gerðu upp skuldir sínar á viðskiptareikningum sínum hjá stefnanda síðar þann dag, þ.e. eftir undirritun kaupsamningsins. Báðir stefndu hafi gert það. Með greiðslum stefndu samkvæmt uppgjörinu hafi báðir talið sig skuldlausa við stefnanda. Stefnandi hafi haft upplýsingar vegna áreiðanleika­könnunarinnar um hina meintu skuld, sem ekki hafi verið tilgreind á viðskiptamanna­reikningum stefndu, en þrátt fyrir það hafi stefnandi engan fyrirvara gert við kaupin um frekari kröfur á hendur stefndu. Verði ekki fallist á þessar málsástæður stefndu sé byggt á því að stefnandi hafi glatað rétti til að hafa uppi kröfur á stefndu með því að ekki hafi verið gerður fyrirvari í kaupsamningnum þrátt fyrir fullyrðingar endurskoðandans. Sýknukrafan sé byggð á því að rangt og ósannað sé að uppfyllt séu skilyrði til þess að stefndu geti borið skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda vegna greiðslna úr sjóðum félagsins sem bótakrafan lúti að. Þá sé vaxtakröfu stefnanda mótmælt og sérstaklega byggt á því að krafa um almenna vexti eigi sér ekki lagastoð. Varakröfu stefnanda sé mótmælt með vísan til þess að engin sönnun hafi verið færð fyrir henni. Stefndu vísi til laga nr. 138/1994 varðandi heimildir til ráðstöfunar fjármuna stefnanda í þágu Ormsson Slóvakíu. Skilyrðum bótaskyldu samkvæmt almennu skaða­bóta­reglunni sé ekki fullnægt, enda hvorki um saknæma né ólögmæta háttsemi að ræða. Um sýknu af vaxtakröfu sé vísað til laga nr. 38/2001. Málskostnaðarkrafan sé byggð á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála og um virðisaukaskatt sé vísað til laga nr. 50/1988 en stefndu séu ekki virðisaukaskattskyldir. Niðurstaða Krafa stefnanda í málinu er byggð á því að greitt hafi verið á árinu 2007 úr sjóðum stefnanda samkvæmt ákvörðun stefndu fyrir hlutafé í Ormson Slóvakíu og kostnaður vegna þess félags, samtals að fjárhæð 6.040.849 krónur, án þess að stefnanda hafi borið nokkur skylda til þess. Stefndu hafi látið stefnanda greiða kaupverð hlutafjárins ásamt kostnaði en það hafi þeir gert í eigin þágu og hafi það verið bæði óheimilt og ólögmætt. Stefnandi hafi vegna þessa orði fyrir tjóni sem stefndu beri skaðabótaábyrgð á gagnvart stefnanda. Sýknukrafa stefndu er byggð á því að stefnandi hafi verið kaupandi hlutafjárins í Ormson Slóvakíu en ekki stefndu. Þeim hafi því verið heimilt að ráðstafa fjármunum stefnanda á þann hátt sem gert var og hér að framan hefur verið lýst. Í málinu hefur verið lagt fram greiðsluskjal þar sem fram kemur að 8. október 2007 hafi stefnandi greitt 4.799.705 íslenskar krónur til viðtakanda í Bratislava. Viðtakandinn er RadovanHrádek en fram hefur komið að hann hafi sem lögmaður gengið frá stofnun hlutafélagsins Ormson Slóvakíu. Á skjalinu kemur fram sú skýring til viðtak­anda greiðsl­unnar að hún sé vegna Ormson Slóvakíu s.r.o. Í úttekt úr viðskiptaskrá Héraðsdómstól í Bratislava, sem lögð hefur verið fram í málinu, kemur fram að Ormson Slóvakíu s.r.o. hafi verið skráð 17. nóvember 2007. Í samþykktum félagsins, sem skráðar voru í Slóvakíu, kemur fram að stofnfé sé 1.500.000 SSK. Fram kemur einnig að það hafi verið lagt fram í þessum hlutföllum af hluthöfum: Stefnanda 68%, stefnda Gunnari 16% og stefnda Sigurði 16%. Af hálfu stefnanda er vísað til þess að í árs­reikningi stefnanda fyrir árið 2007 komi ekki fram að Ormson Slóvakíu sé talið meðal hlutafélaga í eigu stefnanda. Sú skýring hefur komið fram á því að reikningurinn sem um ræðir hafi fyrst verið færður sem hlutafjáreign, eins og þáverandi endurskoðandi stefnanda lýsti fyrir dóminum. Síðar hefði færslan, að beiðni stefnda Gunnars, verið tekin út af þeim lið og sett yfir á reikning sem heiti Aðrar skammtímakröfur. Í raun hafi krafan verið sett á biðreikning sem ekki hafi verið með neinu nafni. Þetta hafi ekki verið fært á viðskiptareikning stefndu. Fram kom einnig hjá endur­skoðandanum í vitnisburði hans fyrir dóminum að ætlunin hafi verið að bíða eftir gögnum um að þessi eign væri töpuð en ekki hafi mátt gjaldfæra það þannig í skattskilum nema öruggt væri að hlutaféð væri tapað. Færslan hafi því endað uppi á biðreikningi og hafi átt eftir að afgreiða hana en það hafi síðan gleymst. Price­waterhouseCoopers hafi spurst fyrir um þessa færslu vegna áreiðan­leika­­könnunar, en vitnið kvaðst í fljótræði hafa gefið það svar að þetta væri krafa á stefndu. Þetta sé ekki rétt og ekki í samræmi við gögn málsins enda hafi færslan aldrei verið eyrnamerkt stefndu. Kostnaður vegna verks í vinnslu í Slóvakíu hafi einnig verið settur á biðreikning og staðið þar sem birgðastaða. Þetta hafi í raun verið óafgreitt mál fyrir árið 2007, en biði afgreiðslu til næsta árs þar sem ekki hafi verið búið að ákveða hvernig það skyldi fært. Vitnið kvaðst ekkert vita um sölu á hlutafénu í Ormson Slóvakíu. Af hálfu stefnanda er sérstaklega vísað til þess að þáverandi endurskoðandi stefnanda hafi staðfest að um­rædd hlutabréfaeign hafi verið færð til stefndu á árinu 2007. Stefndu hafi gefið fyrirmæli um að hlutabréfin væru þeirra eign en ekki stefnanda. Þetta kemur fram í áðurnefndu svarbréfi endurskoðandans í september 2008 við fyrirspurn Pricewater­houseCoopers um það hvenær hlutafjáreign í Ormson Slóvakíu hafi verið flutt á stefndu. Staðhæfingum, sem fram koma í þessum bréfa­skiptum, er mótmælt af hálfu stefndu, þær hafa verið leiðréttar með framburði þáver­andi endurskoðanda stefnanda fyrir dóminum, eins og hér að framan er lýst, og þær fá hvergi stuðning í öðrum gögnum málsins. Með vísan til þess verður að telja að ekki hafi komið fram fullnægjandi sönnun fyrir því að hlutabréfin í Ormson Slóvakíu hafi verið eign stefndu. Við úrlausn málsins verður jafnframt að líta til þess að á þeim tíma sem viðskiptin um hluta­féð í stefnanda fóru fram lágu fyrir í málinu upplýsingar um færslurnar sem hér er deilt um. Engar athugsemdir komu fram af þessu tilefni af hálfu kaupenda. Þegar þetta er virt verður að líta svo á að stefnandi hafi greitt hlutaféð vegna stofnunar hlutafélagsins Ormson Slóvakíu vegna þess að hann var einn af stofnendum félagsins enda hefur því ekki verið hnekkt af hálfu stefnanda með viðhlítandi gögnum. Þá verður einnig að telja að ekki sé fram komin nægileg sönnun fyrir því að stefndu hafi átt hlutabréf í Ormson Slóvakíu sem stefnandi hafi greitt fyrir með ólögmætum hætti þannig að til skaða­bótaskyldu hafi stofnast af hálfu stefndu gagnvart stefnanda. Gildir það jafnt um aðalkröfu stefnanda og um varakröfuna. Með vísan til þess ber að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda í málinu. Rétt þykir að málskostnaður falli niður. Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari. D Ó M S O R Ð: Stefndu, Gunnar Örn Kristjánsson og Sigurður Sigfússon, eru sýknaðir af kröfum stefnanda, Bræðranna Ormson ehf., í máli þessu. Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 821/2013
Slysatrygging Líkamstjón Gáleysi Gjafsókn Eigin sök
A varð fyrir alvarlegu líkamstjóni er hann féll ofan í grunn viðbyggingar sumarhúss. Höfðaði A mál á hendur V hf. og krafðist þess að viðurkenndur yrði réttur hans til óskertra bóta úr frítímaslysatryggingu V hf. Með fyrri dómi Hæstaréttar hafði bótaábyrgð að hluta verið felld á byggingastjóra framkvæmdanna og eiganda fasteignarinnar. V hf. viðurkenndi rétt A til bóta að ¾ hlutum úr frítímaslysatryggingunni en taldi að skerða ætti þær að ¼ hluta. Talið var að A hefði með stórkostlegu gáleysi aukið hættuna á að því slysið yrði og að V hf. hefði því verið heimilt að lækka bætur til hans á grundvelli 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga. Var V hf. því sýknað af kröfum A.
Dómur Hæstaréttar Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. desember 2013. Hann krefst þess að viðurkenndur verði réttur sinn til óskertra bóta úr frítímaslysatryggingu F-plús 3 fjölskyldutryggingar áfrýjanda hjá stefnda vegna þess tjóns sem áfrýjandi varð fyrir er hann féll niður í grunn viðbyggingar að […] aðfaranótt 22. nóvember 2009. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Málsástæðu áfrýjanda um að mælingar á áfengismagni í blóðsýni úr honum séu ómarktækar meðal annars vegna lyfja sem honum voru gefin í kjölfar slyssins var ekki hreyft í héraði. Er hún of seint fram komin, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi hefur stefndi viðurkennt rétt áfrýjanda til bóta að ¾ hlutum úr frítímaslysatryggingunni en telur að skerða eigi þær að ¼ hluta á þeim grundvelli að áfrýjandi hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi og stuðlað með því að slys varð. Vísar stefndi til skilmála sem gilda um tryggingu þessa. Í þeim er ákvæði sem svarar til 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga, þar sem segir að hafi vátryggður í öðrum vátryggingum en líftryggingum valdið því af stórkostlegu gáleysi að vátryggingaratburður varð, eða afleiðingar hans urðu meiri en ella hefðu orðið, megi lækka eða fella niður ábyrgð félagsins. Hið sama eigi við ef vátryggður hafi af stórkostlegu gáleysi valdið því að vátryggingaratburður varð með því að hlíta ekki varúðarreglum. Við úrlausn á þessum atriðum skuli litið til sakar vátryggðs, hvernig vátryggingaratburð bar að, hvort vátryggður var undir áhrifum áfengis eða fíkniefna sem hann hafði sjálfviljugur neytt og atvika að öðru leyti. Með dómi Hæstaréttar 28. febrúar 2013 í máli nr. 536/2012 var áfrýjanda gert að bera tjón sitt vegna slyssins að einum þriðja hluta sjálfur vegna eigin sakar. Með vísan til 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 er lagt til grundvallar sem segir í dóminum, að áfrýjandi hafi verið undir allnokkrum áfengisáhrifum er slysið varð og að orsakir þess væru að einhverjum hluta raktar til þeirra áhrifa. Í dóminum var litið til þess að áfrýjandi þekkti til aðstæðna í sumarhúsinu og hafði aðstoðað við byggingaframkvæmdir við það nokkrum klukkustundum áður en slysið varð. Einnig var talið sannað að áfrýjandi hafi fallið út um dyr á austurhlið hússins, en dyrunum hafði verið læst innan frá og hafði tveimur golfpokum með kylfum og einni golfkerru verið raðað upp fyrir framan hurðina. Ekki verður ráðið af gögnum málsins hvort áfrýjandi færði til golfpoka og golfkerru sem fyrir hurðinni voru, eða gekk milli þeirra, en sannað er að hann féll út um dyrnar niður í grunninn, eftir að dyrnar höfðu verið teknar úr lás og opnaðar. Í skýrslugjöf hans fyrir héraðsdómi kom fram að hann hefði vitað að búið var að taka úr pallinum fyrir framan dyrnar og að hættulegt væri að ganga þar út. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að slys áfrýjanda verði rakið til annars en þess að hann hafi sjálfur opnað dyrnar og fallið niður. Með þessari athugasemd verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður, en gjafsóknarkostnaður áfrýjanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, eins og segir í dómsorði. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður, en gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 800.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. september 2013. I Mál þetta, sem dómtekið var 19. september sl., er höfðað af A, […], á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf, Ármúla 3, Reykjavík, með stefnu birtri 10. janúar sl. Dómkröfur stefnanda eru þær að að viðurkenndur verði með dómi réttur stefnanda til óskertra bóta úr frítímaslysatryggingu F-plús 3 fjölskyldutryggingar stefnanda hjá stefnda vegna þess tjóns sem hann varð fyrir þá er hann féll ofan í grunn viðbyggingar að […] aðfaranótt 22. nóvember 2009. Þá er þess krafist að stefnda verði dæmt til að greiða stefnanda málskostnað. Af hálfu stefnda er þess krafist að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hans hendi. II Málavextir Stefnandi varð fyrir alvarlegu líkamstjóni aðfaranótt 22. nóvember 2009 við sumarhús föður síns að […] en þá stóðu yfir framkvæmdir við sumarhúsið. Fólust þær í því að verið var að reisa viðbyggingu austan við sumarhúsið sem var með steyptum kjallara, sem m.a. skyldi nýttur sem vélageymsla, en ofan á kjallarann skyldi reisa íveruhús úr timbri sem tengt yrði við húsið sem fyrir var með sérstakri tengibyggingu. Var jafnframt gert ráð fyrir að tengibyggingin myndi þjóna hlutverki stigahúss niður í vélageymsluna. Á þessum tíma var búið að steypa upp kjallaraveggi viðbyggingarinnar. Hins vegar var ekki búið að reisa kjallaraveggi tengibyggingarinnar og var því einungis steypt botnplata og undirstöður þar sem hún skyldi rísa. Á austurhlið sumarhússins, þar sem nefnd viðbygging skyldi tengd við sumarhúsið samkvæmt framansögðu, voru útidyr þaðan sem gengt var út á pall sem lá með fram austurhlið hússins. Sökum þess að framkvæmdir voru hafnar hafði pallurinn framan við dyrnar verið fjarlægður að hluta þannig að þær opnuðust beint út í grunn tengibyggingarinnar, sem lá um 3,3 metrum þar fyrir neðan. Til varnar því að gengið yrði um dyrnar hafði golfsettum verið komið fyrir framan við þær að innanverðu. Féll stefnandi í umrætt sinn ofan á grunnplötu byggingar þeirrar sem tengja skyldi sumarhúsið við nýbyggingu sem þar var verið að reisa. Upp úr grunnplötu tengibyggingarinnar stóðu óvarin steypustyrktarjárn sem stefnandi féll á úr rúmlega þriggja metra hæð og stungust járnteinarnir víða í gegnum líkama hans. Alls gengu átta járn í gegnum stefnanda og þurfti að skera sjö þeirra í sundur með slípirokki, áður en unnt var að flytja hann með þyrlu af slysstað og fjarlægja járnin úr líkama hans í skurðaðgerð við komu á sjúkrahús í Reykjavík. Er stefnandi lamaður fyrir neðan brjóst af völdum slyssins og hlaut hann að auki margvíslega aðra áverka. Fyrir liggur að að kvöldi 21. nóvember 2009 var stefnandi, sem þá var 37 ára, staddur í sumarhúsinu, en hann hafði verið að hjálpa til við framkvæmdirnar fyrr um daginn. Auk stefnanda sjálfs voru móðir hans og sonur einnig stödd í sumarhúsinu, en faðir stefnanda og bróðir höfðu brugðið sér af bæ fyrr um kvöldið. Um eða eftir miðnætti umrætt kvöld lagðist stefnandi til svefns í sumarhúsinu. Atburðarásin þaðan í frá er nokkuð óljós, enda man hann ekkert eftir því sem þá gerðist. Það er þó óumdeilt að einhvern tímann eftir miðnætti aðfaranótt 22. nóvember 2009 féll hann ofan á grunnplötu áðurnefndrar tengibyggingar og á steypustyrktarjárn sem þar stóðu upp úr undirstöðunum. Faðir stefnanda og bróðir sneru aftur heim þegar nokkuð var liðið á nóttina. Urðu þeir þess þá áskynja að hann hafði fallið ofan í grunninn og hringdu þegar eftir hjálp. Stefnandi hefur höfðar mál þetta til að fá viðurkenningu á óskertum rétti til bóta úr frítímaslysatryggingu sinni hjá stefnda, sem er hluti af svokallaðri F+ fjölskyldutryggingu. Stefndi hefur þegar viðurkennt rétt hans til bóta að hluta en hefur skert þær um fjórðung á þeim grundvelli að stefndi hafi með stórfelldu gáleysi stuðlað að slysinu. Samhliða máli þessu höfðaði stefnandi mál á hendur byggingarstjóra framkvæmdanna og skráðum húsasmíðameistara, verktaka og smiðs við framkvæmdirnar og eiganda fasteignarinnar, sem og stefnda sem vátryggjanda byggingarstjórans og eiganda fasteignarinnar. Í því dómsmáli krafðist stefnandi viðurkenningar á óskiptri bótaábyrgð framangreindra aðila vegna tjónsins á þeim grunni að slysið yrði rakið til óforsvaranlegra aðstæðna á og við framkvæmdasvæði viðbyggingarinnar Með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 536/2012, sem kveðinn var upp 28. febrúar 2013, var viðurkennt að húsasmíðameistarinn, fasteignaeigandinn og smiður við framkvæmdirnar bæru sameiginlega ábyrgð að 2/3 hlutum gagnvart stefnda á því tjóni er hann varð fyrir vegna afleiðinga slyssins. Þá var jafnframt viðurkenndur réttur stefnanda til greiðslu að 2/3 hlutum úr ábyrgðartryggingu fasteignaeigandans hjá stefnda en að stefndi bæri að 1/3 hluta tjón sitt sjálfur vegna eigin sakar. Vísaði Hæstiréttur til þess að fyrir lægi í málinu að stefnandi þekkti til aðstæðna í sumarhúsinu og að hann hefði neytt áfengis skömmu fyrir slysið. Meðferð máls þessa var samkvæmt sameiginlegri ósk aðila frestað þar til niðurstaða í framangreindu hæstaréttarmáli lægi fyrir. Að fenginni niðurstöðu óskaði stefnandi eftir því að dómur gengi í málinu. Byggir hann á því að þó að í dómi Hæstaréttar hafi verið fallist á að stefndi ætti að bera hluta tjóns síns sjálfur hefði í dómi Hæstaréttar ekki verið tekin afstaða til þess hvort um stórfellt gáleysi hafi verið að ræða. III Málsástæður stefnanda Af hálfu stefnanda er á því byggt að skilyrði 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004 laga um vátryggingasamninga, til skerðinga bóta séu ekki uppfyllt. Ákvörðun stefnda um lækkun bóta til handa stefnanda virðist einkum byggjast á því að stefnandi hafi neytt áfengis áður en slysið varð þótt einnig sé, án frekari rökstuðnings, vísað til þess hvernig slysið hafi borið að höndum. Stefnandi hafnar því hins vegar að áfengisneysla hans hafi gefið stefnda heimild til að takmarka ábyrgð sína enda hafi sú neysla engu skipt í því sambandi. Byggir stefnandi jafnframt á því að óheimilt sé að fella niður bætur til vátryggðs, hvort sem er í heild eða að hluta, nema að undangengnu heildstæðu mati á þeim atriðum sem nefnd séu í ákvæðinu. Af ákvæðinu, sem og greinargerð þeirri sem hafi fylgt með frumvarpi til laga nr. 30/2004, sé ljóst að það verði að fara fram heildstætt mat á þeim atriðum sem upp séu talin í greininni. Af framangreindu verður ráðið að líta verði til allra þeirra atriða sem fram koma í 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004, þegar verið er að meta hvort vátryggingarfélagi sé heimilt að takmarka ábyrgð sína. Þannig sé beinlínis óheimilt að líta til eins atriðis, s.s. áfengisneyslu vátryggðs, og láta niðurstöðu um takmörkun ábyrgðar ráðast af því, enda sé þá horft fram hjá öðrum þeim atriðum sem taka verði tillit til samkvæmt ákvæðinu og leitt geti til annarrar niðurstöðu. Þar sem ekki hafi farið fram áskilið heildarmat af hálfu stefnda á þeim atriðum sem líta beri til við ákvörðun um lækkun bóta sé ákvörðun hans um takmörkun á ábyrgð sinni gagnvart stefnanda þá þegar ólögmæt. Verði þegar af þeirri ástæðu að taka kröfur stefnanda til greina. Verði ekki fallist á framangreint byggir stefnandi á því að ekkert þeirra atriða, sem líta beri til við mat á því hvort hann hafi valdið slysinu með stórkostlegu gáleysi, sbr. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004, eigi við í tilviki stefnanda. Þvert á móti sé orsaka og ábyrgðar á slysinu að leita hjá öðrum en stefnanda og um gáleysi hans, hvað þá stórkostlegt gáleysi, geti ekki verið að ræða Stefnandi byggir á því að ekkert liggi fyrir um það að hann hafi sýnt af sér saknæma háttsemi þegar hann hafi fallið ofan í umræddan grunn. Það að stefnandi hafi fallið ofan í grunninnleiði engan veginn sjálfkrafa til þess að stefnandi teljist hafa sýnt af sér sök í aðdraganda slyssins. Ábyrgðar á slysinu sé að leita hjá öðrum aðilum en stefnanda sem hafi með saknæmum og ólögmætum hætti orðið valdir að slysinu og því tjóni sem af hlaust. Hafi þeir átt að gæta þess að ekki stafaði hætta af framkvæmdunum sem stóðu yfir á þeim tíma sem um ræðir, bæði með því að sjá til þess að útganga um dyrnar á austurhlið sumarhússins og umferð um pallinn þar með fram væri útilokuð, sem og með því að koma í veg fyrir þá hættu sem stafaði af óvörðum steypustyrktarjárnum ofan í grunni tengibyggingarinnar, sem án alls efa sé meginorsök tjóns stefnanda. Jafnvel þótt talið yrði að stefnandi hefði sýnt af sér einhverja sök í tengslum við slysið þá blikni sú sök í samanburði við þá saknæmu háttsemi sem þeir sem að framkvæmdunum hafi staðið hafi sýnt af sér. Samkvæmt því hafi stefnda verið óheimilt að takmarka ábyrgð sína gagnvart stefnanda. Stefnandi hafnar því með öllu að hann hafi sýnt af sér saknæma háttsemi í tengslum við slysið. Ekkert bendi til þess að hann hafi sýnt af sér gáleysi, hvað þá stórkostlegt gáleysi, er hann féll niður í grunninn. Fyrir liggi að stefnandi hafi átti það til að ganga í svefni þegar hann var yngri. Þá kunni einnig að vera að stefnandi hafi vaknað um nóttina til þess að fara á salernið en ruglast á hurðum í svefndrunganum. Um þetta verði einfaldlega ekkert fullyrt og því ekki hægt að slá því föstu að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi. Þá verði ekki litið fram hjá því að milli saknæmrar háttsemi byggingarstjórans, smiðsins og eiganda fasteignarinnar og þess tjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir, sé beint orsakasamband. Meginorsök þess líkamstjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir hafi komið til sökum þess að steypustyrktarjárn hafi stungist í gegnum líkama stefnanda er hann hafi fallið ofan í grunninn. Hvíldi þó sú lagaskylda á framangreindum að sjá til þess að ekki stafaði hætta af járnunum. Samkvæmt því geti stefndi heldur ekki haldið því fram að stefnandi hafi af stórkostlegu gáleysi valdið því að afleiðingar slyssins urðu meiri en ella, sbr. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/ 2004. Stefnandi hafnar því að sú staðreynd að hann hafi innbyrt áfengi áður en slysið varð hafi veitt stefnda heimild til að takmarka ábyrgð sína. Stefnandi áréttar að samkvæmt 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004 sé áfengisneysla aðeins eitt þeirra atriða sem líta beri til við matið á því hvort til greina komi að gera vátryggðum að bera hluta tjóns síns sjálfur. Áfengisneysla ein og sér leiði hins vegar ekki sjálfkrafa til þess að vátryggingarfélag losni undan ábyrgð í heild eða að hluta. Í þessu sambandi tekur stefnandi sérstaklega fram að neysla áfengis ein og sér feli ekki í sér stórkostlegt gáleysi. Ekkert liggi fyrir um það að áfengisneysla hans hafi valdið umræddu slysi eða átt nokkurt þátt í því að slysið varð. Þvert á móti standi allar líkur til þess að slysið hefði orðið hvort heldur sem stefnandi hefði neytt áfengis eða ekki, enda verði orsakir slyssins raktar til ófullnægjandi frágangs og fallvarna á framkvæmdasvæðinu en á því báru aðrir en stefnandi ábyrgð. Um lagarök vísar stefnandi til ákvæða laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004, einkum 27. og 90. gr. Þá vísar stefnandi til eldri laga um sama efni nr. 20/1954, sbr. einkum 20. gr. þeirra laga. Stefnandi vísar einnig til skaðabótalaga nr. 50/2003, sem og til meginreglna íslensks skaðabótaréttar, m.a. um sakarábyrgð. Stefnandi vísar jafnframt til ákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, einkum 51. og 52. gr. laganna og til laga um mannvirki nr. 160/2010, einkum 29. og 32. gr. laganna, sem og til byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sbr. einkum 31., 32., 33., 37., 38. og 56. gr. Þá vísar stefnandi til laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980, sbr. einkum 1., 2., 12., 13., 36., 37., 41., 42. og 90. gr. laganna. Enn fremur er vísað til reglna um öryggis- og heilbrigðismerki á vinnustöðum nr. 707/1995, sbr. einkum 1. og 3. gr. reglnanna, sbr. og 2. gr. I. viðauka þeirra, sem og til reglna um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð nr. 547/1996, sbr. einkum 4., 7. og 8. gr. reglnanna og 1., 8., 27. og 33. gr. IV. viðauka þeirra. Kröfu sína um málskostnað styður stefnandi við XXI., sbr. XX. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, en um varnarþing vísast til 1. mgr. 33. gr. sömu laga. Krafa um virðisaukaskatt er studd við ákvæði laga um virðisaukaskatt nr. 50/988. Málsástæður stefnda Stefndi byggir kröfu sína á því að hann hafi þegar viðurkennt þá bótaskyldu vegna slyssins sem stefnandi eigi rétt á, þ.e. að ¾ hlutum. Fyrir liggi að stefnandi hafði drukkið áfengi áður en slysið átti sér stað. Séu gögn málsins skýr um að hann hafi verið undir verulegum áfengisáhrifum á þessum tíma. Því sé ekki óvarlegt að álykta að ölvun hafi haft áhrif á alla hans háttsemi og þannig átt stóran þátt í því að slysið varð og beint orsakasamband sé á milli ölvunarinnar og þess að hann féll niður í grunninn. Um heimild til að skipta sök vísar stefnandi til 9. gr. sameiginlegra skilmála fjölskyldutryggingarinnar nr. GH20 og 13. gr. sameiginlegra skilmála nr. YY10 sem gildi um allar vátryggingar félagsins, en ákvæði þessi grundvallist á 1. mgr. 90. gr. laga um vátryggingasamninga nr. 30/2004. Stefndi vísar til þess að stefnandi hafi gjörþekkt allar aðstæður í sumarbústaðnum, bæði að það hafi verið framkvæmdir í gangi, á hvaða stigi þær hafi verið og hvernig umbúnaður hafi verið. Hann hafi sjálfur verið að vinna við þetta, hann vissi sjálfur að það hefði verið búið að taka úr pallinum og að ekki átti að ganga um þessa hurð og í hvaða tilgangi hurðin var lokuð og golfsettum komið þar fyrir framan við hana. Hafi stefnandi fallið út um dyrnar sé ljóst að það gerðist ekki nema hann tæki meðvitað golfkylfurnar sem þar voru fyrir í burtu og opnaði læsta hurð. Megi af þessu sjá að mjög ósennilegt sé að fall stefnanda í grunninn hafi gerst af sjálfu sér og án þess að stefnandi aðhefðist eitthvað sem gæti leitt til fallsins. Það sé því beint orsakasamband á milli háttsemi hans í aðdraganda fallsins og slyssins og að augljóst sé að slík háttsemi teljist stórkostlega gálaus. Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna skaðabóta- og vátryggingaréttar, vátryggingasamningalaga nr. 30/2004, vátryggingarskilmála VÍS nr. GH20 og YY10 og laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. IV Niðurstaða Í máli þessu er deilt um heimild stefnda til að lækka bætur til handa stefnanda til bóta úr svokallaðri F+ fjölskyldutryggingu, sem stefnandi hafði hjá stefnda, vegna slyss sem stefnandi varð fyrir 22. nóvember 2009. Í skilmálum vátryggingarinnar segir að um hana gildi ákvæði laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Í 1. mgr. 90. gr. nefndra laga er kveðið á um að hafi vátryggður í öðrum vátryggingum en líftryggingum valdið því af stórkostlegu gáleysi að vátryggingaratburður hafi orðið eða afleiðingar hans hafi orðið meiri en ella hefðu orðið megi lækka eða fella niður ábyrgð félagsins. Hið sama eigi við ef vátryggður hefur af stórkostlegu gáleysi valdið því að vátryggingaratburður hafi orðið með því að hlíta ekki varúðarreglum. Við úrlausn á þessum atriðum skuli litið til sakar vátryggðs, hvernig vátryggingaratburð bar að, hvort vátryggður var undir áhrifum áfengis eða fíkniefna sem hann hafði sjálfviljugur neytt og atvika að öðru leyti. Ekki er unnt að fallast á þá málsástæðu stefnanda að þar sem ekki hafi farið fram áskilið heildarmat af hálfu stefnda, á þeim atriðum sem líta beri til við ákvörðun um lækkun bóta, leiði það til þess að ákvörðun stefnda um takmörkun á ábyrgð sinni gagnvart stefnanda sé þá þegar ólögmæt. Standa ekki lög til þeirrar niðurstöðu og þá verður ekki annað séð en að stefndi hafi í raun framkvæmt heildarmat, sbr. rökstuðning sem fram kemur í bréfi hans til lögmanns stefnanda 12. janúar 2011, þess efnis að takmörkun á ábyrgð stefnda sé vegna áfengisneyslu stefnanda og hvernig slysið bar að. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 536/2012, sem kveðinn var upp 28. febrúar 2013, var fallist á rétt stefnanda til skaðabóta vegna slyssins úr hendi byggingarstjóra framkvæmdanna o.fl. á þeim grunni að aðstæður á og við framkvæmdasvæði byggingarinnar hefðu verið óforsvaranlegar. Bætur til stefnda voru skertar um þriðjung vegna eigin sakar. Um þátt stefnanda í slysinu segir þetta í dómi Hæstaréttar: Þess er áður getið að engir sjónarvottar voru að slysi áfrýjanda [stefnanda] og er hann því einn til frásagnar um hvað gerðist umrætt sinn. Kann áfrýjandi þá skýringu eina á atburðum að hann hafi gengið í svefni um nóttina en til þess hafi hann átt vanda á yngri árum þegar hann var mjög þreyttur og eigi hið sama við um fleiri úr fjölskyldu hans, til dæmis bæði son hans og bróður. Móðir áfrýjanda staðfesti fyrir dómi að hann hefði átt það til að ganga í svefni á yngri árum þegar hann var þreyttur og hið sama hefði bróðir hans gert. Um áfrýjanda sagði hún að „sem barn gerði hann það, hann átti til með að vakna og ætla að fara á klósettið og þá opnaði hann skápinn kannski og pissaði þar óvart ... en ég var nú kannski ekki mikið vör við það þegar hann var unglingur“. Frekari gagna nýtur ekki við í málinu um svefngöngur áfrýjanda og er því útilokað að leggja á það mat hvort orsakir slyssins verði að einhverju leyti raktar til slíks háttalags. Á hinn bóginn liggur fyrir eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi að áfrýjandi hafði neytt áfengis skömmu fyrir slysið. Er komið var með hann á sjúkrahús í Reykjavík um tveimur klukkustundum eftir slysið var honum tekið blóð og reyndist áfengismagn í því þá vera 28,8 mmól/l eða yfir 1,20‰. Áfrýjandi hefur skýrt svo frá að hann hafi neytt áfengis hóflega um kvöldið, en fallist er á með héraðsdómi að hvorki lýsing hans né annarra á þeirri neyslu fái samrýmst framangreindri niðurstöðu rannsóknar á blóðsýni úr honum. Þykir eins og í héraðsdómi greinir í öllu falli mega slá því föstu að áfrýjandi hafi verið undir allnokkrum áfengisáhrifum þegar slysið varð og að orsakir þess verði að einhverjum hluta raktar til þeirra áhrifa. Þá verður heldur ekki fram hjá því litið að áfrýjandi þekkti til aðstæðna í sumarhúsinu og hafði aðstoðað við framkvæmdir nokkrum klukkustundum áður en slysið varð og mátti því í ljósi vitneskju sinnar um aðstæður vita hver hætta var á ferðum ef dyrnar á austurhlið sumarhússins væru opnaðar. Hvað sem þessu líður verður að leggja til grundvallar að frumorsök slyssins sé að rekja til þess hvernig háttað var frágangi dyranna og steypustyrktarjárnanna og hve auðveldlega hefði mátt koma í veg fyrir það. Þegar allt þetta er virt þykja stefndu [B], [C] og [D] sameiginlega bera skaðabótaábyrgð að tveimur þriðju hlutum gagnvart áfrýjanda á tjóni því er hann varð fyrir en að áfrýjandi beri tjón sitt sjálfur að einum þriðja hluta vegna eigin sakar. Í samræmi við það er viðurkenndur réttur áfrýjanda til greiðslu úr ábyrgðartryggingu stefnda [B] hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. vegna tjónsins. Stefnandi telur að þótt Hæstiréttur hafi lagt til grundvallar að gáleysi hans hafi átt þátt í að slysið varð hafi það ekki verið stórfellt í skilningi ákvæðis 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Samkvæmt 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hefur dómur Hæstaréttar fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í honum greinir þar til það gagnstæða er sannað. Verður því lagt til grundvallar að stefnandi hafi fallið niður í grunninn á austurhlið sumarbústaðarins. Þá verður lagt til grundvallar að ölvun hans haft haft áhrif á að slysið var. Enn fremur er byggt á því að stefnandi mátti, vegna vitneskju sinnar um aðstæður, gera sér grein fyrir hættunni ef dyrnar yrðu opnaðar. Til viðbótar við þessi atriði, sem fram koma í dómi Hæstaréttar, ber að líta til þess að til þess að falla út um dyraopið þurfti stefnandi að fara að hurðinni, taka golfpokana sem fyrir henni voru frá og opna hurðina. Þegar framangreint er metið heildstætt verður að telja að stefnandi hafi með stórkostlegu gáleysi aukið hættuna á því að slysið varð og var stefnda því heimilt að lækka bætur til hans, sbr. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004. Verður stefndi því sýknaður af kröfu stefnanda í máli þessu. Rétt þykir að málskostnaður falli niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er málflutningsþóknun lögmanns hans, þykir hæfilega ákveðinn 1.000.000 kr. og greiðist úr ríkissjóði. Tillit hefur verið tekið til virðisaukaskatts. Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991 kemur aðeins í hlut dómstóla að ákveða þóknun handa lögmönnum gjafsóknarhafa og verður því ekki tekin afstaða til útlagðs kostnaðar hans. Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn. D Ó M S O R Ð Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýknað af kröfu stefnanda, A, í máli þessu. Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er málflutningsþóknun lögmanns hans, 1.000.000 kr., greiðist úr ríkissjóði.
Mál nr. 43/2023
Fíkniefnalagabrot Ávana- og fíkniefni Skipulögð brotastarfsemi Heimfærsla Samverknaður Hlutdeild Sönnunargögn Stjórnarskrá Mannréttindasáttmáli Evrópu
Þau brot sem voru til meðferðar fyrir Hæstaréttar voru í fyrsta lagi aðild G og H að innflutningi á 53 lítrum af amfetamínvökva sem falinn hafði verið í saltdreifara sem fluttur var til landsins í byrjun árs 2020 og framleiðslu amfetamíns úr vökvanum í sölu- og dreifingarskyni sem jafnframt var felld undir ákvæði almennra hegningarlaga um starfsemi skipulagðra brotasamtaka. Í öðru lagi aðild H að kannabisræktun og í þriðja lagi vörslur hans á kókaíni. G og H kröfðust báðir sýknu af fyrsta brotinu en H játaði síðari tvö brotin. H krafðist jafnframt ómerkingar hins áfrýjaða dóms. Í dómi Hæstaréttar kom fram að upphaf rannsóknar lögreglu á þeirri háttsemi sem G og H var gefin að sök hafi mátt rekja til rafrænna gagna sem bárust íslenskum löggæsluyfirvöldum í júlí 2020 frá Europol en um var að ræða rafræn samskipti milli notenda samskiptakerfisins Encrochat. Við úrlausn þess hvort heimilt hefði verið að leggja Encrochat-gögnin fram í málinu og líta til þeirra við sönnun vísaði Hæstiréttur til þess að ekki réði úrslitum hvort öflun þeirra hefði verið heimiluð af dómstólum hér á landi. Engu að síður þyrfti að taka til skoðunar hvort gagnanna hefði verið aflað með þeim hætti að þau teldust lögmæt sönnunargögn í sakamáli hér á landi. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að framlagning gagnanna yrði ekki talin fela í sér að brotið hefði verið gegn rétt G og H til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Varðandi áreiðanleika gagnanna vísaði Hæstiréttur til þess að enda þótt engin skrifleg fyrirmæli hefðu legið fyrir um hvernig gögnin yrðu rannsökuð og nýtt lægju fyrir upplýsingar um uppruna þeirra, tæknilegt eðli og greint frá mögulegum vafaatriðum. Þá hefðu engir annmarkar verið á aðferð við sönnunarmat í dómi Landsréttar hvað varðaði mat á áreiðanleika og nákvæmni þessara gagna og málsmeðferðin að þessu leyti verið réttlát. Hæstiréttur féllst ekki á að sakfelling G og H hefði eingöngu verið reist á Encrochat-gögnunum eða að þeim hefði verið gefið of mikið vægi við sönnunarmat. Komst Hæstiréttur því að þeirri niðurstöðu að framlagning gagnanna, notkun þeirra við mat á sönnun fyrir sekt G og H, aðferð við mat á sönnunargildi þeirra og það vægi sem þeim var gefið við heildarmat á því hvort sök teldist sönnuð hefði ekki brotið í bága við rétt þeirra til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi. Varðandi efnishlið málsins tók Hæstiréttur fram að niðurstaða Landsréttar um sakfellingu hefði byggst á rökstuddu heildarmati á sönnunargildi munnlegs framburðar og fjölmargra rafrænna, skjallegra og tæknilegra sönnunargagna og hvernig þessi sönnunargögn samrýmdust innbyrðis. Með vísan til þess, meginreglu sakamálaréttarfars um milliliðalausa sönnunarfærslu, svo og c-liðar 1. mgr. og 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008, yrði ekki hróflað við niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sakfellingu G og H fyrir brot gegn 173. a almennra hegningarlaga. Jafnframt var staðfest sú niðurstaða að með aðild þeirra að innflutningi saltdreifarans og framleiðslu amfetamíns hafi framkvæmd verknaðarins verið liður í starfsemi skipulagðra brotasamtaka og þeir því gerst sekir um brot gegn 175. gr. a almennra hegningarlaga. Var niðurstaða hins áfrýjaða dóms um ákvörðun refsingar og upptökukröfur staðfest.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. september 2023 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að ómerkingarkröfu ákærða Halldórs Margeirs Ólafssonar verði hafnað, að ákærðu verði sakfelldir samkvæmt ákæru að undanskildum hluta af ákærulið I.2 og refsing þeirra verði þyngd.3. Ákærði Guðlaugur Agnar Guðmundsson krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins. Til vara að sér verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa og til frádráttar henni komi með fullri dagatölu gæsluvarðhald sem hann hefur sætt.4. Ákærði Halldór Margeir Ólafsson krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af þeirri háttsemi sem honum er gefin að sök í ákærulið I.1, að refsing hans verði milduð til muna og frá dragist gæsluvarðhald sem hann hefur sætt. Til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað aftur til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Til þrautavara krefst hann þess að refsing hans verði milduð og frá dragist gæsluvarðhaldsvist hans. Þá krefst hann þess að synjað verði um upptöku á raftækjum sem tilgreind eru í ákæru.Málsatvik og ágreiningsefni 5. Þau ákæruefni sem eru til meðferðar fyrir Hæstarétti í þessu máli varða þá hluta ákæru héraðssaksóknara 11. ágúst 2022 sem snúa að aðild ákærðu að fíkniefnalagabrotum og starfsemi skipulagðra brotasamtaka. Í fyrsta lagi aðild ákærðu að innflutningi á 53 lítrum af amfetamínvökva sem falinn var í saltdreifara sem fluttur var til landsins frá Hollandi í byrjun árs 2020 og framleiðslu amfetamíns úr vökvanum í sölu- og dreifingarskyni. Í öðru lagi aðild ákærða Halldórs Margeirs að kannabisræktun sem kom í ljós við húsleit 20. maí 2022 og í þriðja lagi að vörslum hans á kókaíni sem fannst við húsleit hjá honum sama dag. Tvö fyrri fíkniefnalagabrotin voru í ákæru talin stórfelld og framkvæmd þeirra liður í starfsemi skipulagðra brotasamtaka og talin varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, og 175. gr. a almennra hegningarlaga. Þriðja brotið var talið varða meðal annars við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974.6. Upphaf rannsóknar lögreglu á þeirri háttsemi sem ákærðu er gefin að sök samkvæmt ákærulið I.1 má rekja til rafrænna gagna sem bárust íslenskum löggæsluyfirvöldum 15. júlí 2020 frá Europol sem er evrópsk löggæslustofnun sem Ísland hefur átt aðild að frá árinu 2001. Gögnin bárust um samskiptakerfi Europol sem nefnist Siena. Í upplýsingaskýrslum lögreglu sem liggja fyrir í málinu kemur fram að gagnanna hafi verið aflað í Frakklandi á grundvelli úrskurðar undirréttar í borginni Lille í lok janúar 2020 með þeim hætti að lögregla hafi fengið aðgang að netþjónum í Frakklandi sem þjónustuðu dulkóðuð, rafræn samskipti milli notenda samskiptakerfisins Encrochat. Einnig hafi verið komið þar fyrir búnaði sem gert hafi kleift að afkóða samskiptin og afrita þau. Heimildin hafi síðar verið framlengd. Samskiptakerfinu hafi verið ætlað að tryggja notendum leynd um samskipti sín og þeim staðið til boða að kaupa sérútbúna síma til hinna dulkóðuðu samskipta. Notendur hafi getað eytt gögnum sem fóru um kerfið. Löggæsluyfirvöld í Evrópu hafi lengi grunað að kerfið væri einkum notað til samskipta í tengslum við skipulagða brotastarfsemi. Sameiginlegt rannsóknarteymi frönsku og hollensku lögreglunnar (JIT) hafi verið myndað 10. apríl 2020 um þessar rannsóknaraðgerðir og starfað fyrir milligöngu Evrópustofnunar um löggæslusamvinnu, Eurojust, með stuðningi Europol. Rafrænum gögnum sem aflað hafi verið í þessum aðgerðum um samskipti milli notenda Encrochat hafi verið dreift til annarra evrópskra lögregluembætta í gegnum Europol og þau orðið grundvöllur lögreglurannsókna og sakfellinga víða í Evrópu. Óþekktur rekstraraðili Encrochat-kerfisins hafi lokað því 13. júní 2020 og jafnframt sent notendum orðsendingu um að ekki væri lengur unnt að tryggja öryggi gagna í kerfinu.7. Gögn sem bárust íslenskum löggæsluyfirvöldum voru í skrá sem geymdi meðal annars afrit rafrænna samskipta í samskiptakerfinu Encrochat milli notenda með nöfnunum Nuclearfork, Residentkiller, Sentientstream, Neptun og Beigepanda á tímabilinu mars til júní 2020. Samskiptin voru ýmist á íslensku, ensku eða hebresku. Þau vörðuðu meðal annars innflutning til Íslands á amfetamínvökva földum í „prófílum“ á saltdreifara sem fluttur hafði verið á tilgreindan sveitabæ, undirbúning, öflun búnaðar og leiðbeiningar um hvernig unnt væri að ná vökvanum úr saltdreifaranum og framleiða fíkniefni. Íslenskum löggæsluyfirvöldum bárust með sama hætti 7. október og 27. nóvember 2020 viðbótargögn úr sama kerfi, meðal annars um samskipti þessara sömu notenda. Umrædd gögn voru ljósmyndir, rituð samskipti, staðsetningar, upplýsingar um tengiliði, símtalaskrár og minnispunktar. Þau voru auðkennd sem EMMA95.8. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu og héraðssaksóknari sendu 15. mars 2021 réttarbeiðni til franskra yfirvalda á grundvelli samnings Evrópusambandsins um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum sem Ísland er aðili að. Þar var leitað formlegrar heimildar til að nota framangreind gögn í sakamálum sem sótt yrðu fyrir innlendum dómstólum á hendur öllum þeim sem kæmu við sögu í þeim. Í réttarbeiðninni var vísað til þess að gögnin hefðu verið notuð í þágu rannsóknar sem staðið hefði yfir í marga mánuði á hópi brotamanna sem hefðu flutt mikið magn fíkniefna til Evrópu og Íslands. Beiðni um heimild til að nota Encrochat-gögnin tæki meðal annars til notendanna Nuclearfork og Residentkiller.9. Í bréfi rannsóknardómara í Lille í Frakklandi 1. júní 2021 var vísað til fyrrnefndrar réttarbeiðni og lýst heimildum sem veittar voru til notkunar umræddra gagna. Þar var sérstaklega vísað til samskipta notendanna Nuclearfork og Residentkiller. Í bréfinu kemur fram að heimildin taki til notkunar gagna sem miðlað væri innan ramma réttarbeiðninnar til sérhverrar rannsóknar sem miðaði að dómsmeðferð, saksókn og rannsóknar- eða dómsúrskurði á vegum íslenskra yfirvalda. Upplýsingarnar væru aðgengilegar frá og með dagsetningu bréfsins í tengslum við málsmeðferð fyrir dómi.0. Í kjölfar móttöku gagnanna og á grundvelli upplýsinga sem þar komu fram hóf lögregla rannsókn sem leiddi til þess að grunur vaknaði um að saltdreifari hefði verið fluttur að bænum [...] í [...] og fíkniefni tekin úr honum þar. Saltdreifari sem svaraði til ljósmynda í gögnunum fannst þar í útihúsum 25. nóvember 2020 við leynilega húsleit sem heimiluð hafði verið af Héraðsdómi Reykjavíkur sama dag. Lögregla ákvað að bíða með frekari aðgerðir til að sjá hverjir kæmu til að sækja saltdreifarann og hvert hann yrði fluttur. Sýni voru þó tekin úr saltdreifaranum og málningarfötum í sömu útihúsum 20. september 2021 og 13. apríl 2022 við leynilegar húsleitir sem höfðu verið heimilaðar með dómsúrskurðum. Rannsókn á sýnunum staðfesti að í þeim voru leifar af amfetamíni.1. Viðamiklar rannsóknaraðgerðir og frekari greining gagnanna leiddu til þess að lögregla taldi víst að notandinn Residentkiller væri ákærði Halldór Margeir en notandinn Nuclearfork ákærði Guðlaugur Agnar. Lögregla lét til skarar skríða 20. maí 2022 með handtöku ákærðu, húsleitum og haldlagningu meðal annars saltdreifarans, fíkniefna og ýmissa muna sem taldir voru hafa sönnunargildi. Sama dag var við húsleit að [...] staðfest að þar hefði farið fram kannabisræktun sú sem ákæruliður I.2 lýtur að en lögregla hafði haft hana til rannsóknar frá því í febrúar sama ár.2. Með héraðsdómi 20. október 2022 voru ákærðu sakfelldir fyrir framangreind brot og ákærða Guðlaugi Agnari gert að sæta 10 ára fangelsi en ákærða Halldóri Margeiri 12 ára fangelsi.3. Ákærðu áfrýjuðu báðir, ásamt þremur öðrum dómfelldu, héraðsdómi til Landsréttar. Með dómi Landsréttar 23. júní 2023 var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærðu Guðlaugs Agnars og Halldórs Margeirs staðfest að öðru leyti en því að ekki var fallist á að í háttsemi Halldórs Margeirs og meðákærðu samkvæmt ákærulið I.2 hefði falist þátttaka í starfsemi skipulagðra brotasamtaka í skilningi 175. gr. a almennra hegningarlaga. Landsréttur taldi ekki óvarlegt að leggja til grundvallar að ákærðu hefðu framleitt að minnsta kosti 80,2 kg af amfetamíni úr amfetamínvökvanum en í ákæru var miðað við að þeir hefðu framleitt allt að 117,5 kg. Með dómi Landsréttar var ákærða Guðlaugi Agnari gert að sæta 8 ára fangelsi en ákærða Halldóri Margeiri 10 ára fangelsi. Aðrir ákærðu en Guðlaugur Agnar og Halldór Margeir undu dómi Landsréttar.4. Ákærðu krefjast báðir sýknu af sakargiftum samkvæmt ákærulið I.1 og ákærði Halldór Margeir krefst þess jafnframt að dómur Landsréttar verði ómerktur. Þeir byggja dómkröfur sínar einkum á því að ósannað sé að þeir hafi verið notendur Encrochat-samskiptakerfisins undir notendanöfnunum Residentkiller og Nuclearfork og að sakfelling þeirra verði ekki byggð á framlögðum gögnum úr þessu samskiptakerfi vegna óvissu um uppruna þeirra, varðveislu og áreiðanleika. Þá telja þeir að sönnunarmati hafi verið áfátt í dómi Landsréttar.5. Ákærði Halldór Margeir hefur játað háttsemi þá sem hann var sakaður um og sakfelldur fyrir samkvæmt ákæruliðum I.2 og III. Hann krefst ekki endurskoðunar á þeim hluta hins áfrýjaða dóms að öðru leyti en varðar ákvörðun refsingar.6. Ákæruvaldið telur hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærðu hafi komið fram undir fyrrgreindum notendanöfnum í samskiptakerfinu Encrochat og að sönnunargildi gagnanna hafi verið metið með réttum hætti í heildstæðu mati á sönnun fyrir sekt ákærðu í dómi Landsréttar. Ákæruvaldið unir niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að öðru leyti en hvað varðar niðurstöðu um það magn fíkniefna sem framleitt hafi verið úr amfetamínvökva samkvæmt ákærulið I.1.7. Áfrýjunarleyfi var veitt 6. september 2023, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2023-102, á þeim grundvelli að telja yrði að dómsúrlausn um öflun og meðferð gagna við rannsókn máls, sönnunarfærslu svo og heimfærslu til refsiákvæða kynni að hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Tekið var fram að niðurstaða Landsréttar um sakfellingu leyfisbeiðenda og önnur atriði að því leyti sem hún byggði á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar yrði ekki endurskoðuð fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. sömu greinar.NiðurstaðaUm formhlið málsins8. Enda þótt báðir ákærðu krefjist aðallega sýknu og aðeins ákærði Halldór Margeir hafi gert varakröfu um að dómur Landsréttar verði ómerktur er rétt að taka til skoðunar hvort varnir beggja ákærðu sem varða ágalla á rannsókn og saksókn og aðferð Landsréttar við mat á sönnunargildi gagna úr Encrochat-samskiptakerfinu svo og refsilögsögu eigi að leiða til ómerkingar hins áfrýjaða dóms án kröfu.) Lok rannsóknar og grundvöllur fyrir útgáfu ákæru9. Af hálfu ákærða Halldórs Margeirs er krafa um ómerkingu hins áfrýjaða dóms meðal annars studd þeim rökum að rannsókn málsins hafi hvergi nærri verið lokið við útgáfu ákæru og hafi hún staðið yfir fram að meðferð þess fyrir Landsrétti. Hann telur andstætt meginreglu sakamálaréttarfars um milliliðalausa málsmeðferð að rannsókn málsins eða einstaka þátta þess hafi staðið yfir samtímis dómsmeðferð í héraði og allt fram til aðalmeðferðar fyrir Landsrétti.20. Samkvæmt 145. gr. laga nr. 88/2008 athugar ákærandi þegar hann hefur fengið gögn máls í hendur og gengið úr skugga um að rannsókn sé lokið hvort sækja skuli sakborning til sakar eða ekki. Ef hann telur það sem fram er komið ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis lætur hann við svo búið standa en ella höfðar hann mál á hendur sakborningi samkvæmt 152. gr., sbr. þó 146. gr. laganna.21. Af rannsókn málsins og gangi hennar sem gerð er grein fyrir í dómi Landsréttar og héraðsdómi og ítarlegar upplýsingar liggja fyrir um í gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að gætt hafi verið fyrirmæla 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um að þeir sem rannsaki sakamál skuli vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar. Þessi gögn bera jafnframt með sér að fylgt hafi verið fyrirmælum 1. mgr. 54. gr. laganna um það sem rannsaka skal. Á rannsókninni voru því ekki þeir ágallar að ákæranda hafi ekki með réttu verið fært að ákveða hvort sækja skyldi ákærðu til sakar og byggja á henni málatilbúnað fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 53. gr. sömu laga.22. Fyrir liggur að lögreglu tókst ekki að afla gagna úr tilteknum síma í eigu ákærða Guðlaugs Agnars fyrr en meðferð málsins í héraði var hafin en upplýsingaskýrsla um rannsókn á þeim gögnum var lögð fram fyrir upphaf aðalmeðferðar þess. Þá liggur fyrir að rannsókn á mögulegri þátttöku erlendra manna í þeirri brotastarfsemi sem ákæran lýtur að var ekki lokið þegar hún var gefin út og gögn um þær rannsóknaraðgerðir ekki lögð fram fyrir dómi fyrr en í Landsrétti. Upplýsingaskýrsla lögreglu um samanburð á staðsetningu notandans Nuclearfork og hnitsetningu ljósmynda úr farsíma ákærða Guðlaugs Agnars var heldur ekki lögð fram fyrr en í Landsrétti. Munnlegar skýrslur voru teknar fyrir Landsrétti af þeim lögreglumönnum sem stóðu að umræddum rannsóknaraðgerðum. Vörnum ákærða var þannig ekki áfátt þrátt fyrir síðbúna framlagningu umræddra gagna. Ekki var því brotið gegn meginreglu sakamálaréttarfars um milliliðalausa málsmeðferð með því að byggt var á þessum gögnum við mat á sönnun um sekt ákærða.2) Helstu varnir ákærðu um Encrochat-gögnin og endurskoðunarheimildir Hæstaréttar23. Ákærðu telja að mikilvægustu sönnunargögnin sem lögð hafi verið til grundvallar sakfellingu þeirra í Landsrétti hafi verið rafræn sönnunargögn úr Encrochat-samskiptakerfinu en ranglega hafi verið talið að þeir hafi átt samskipti sín á milli í kerfinu sem notendurnir Residentkiller og Nuclearfork. Þeir telja að ekki hafi mátt leggja þessi sönnunargögn til grundvallar sakfellingu þeirra þar sem óvissa sé um hvernig þeirra var aflað, uppruna þeirra, varðveislu og áreiðanleika og að Landsréttur hafi auk þess ekki metið sönnunargildi þeirra með réttum hætti. Þannig hafi verið brotið gegn rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.24. Ákærðu vísa sérstaklega til þess að við engar reglur sé að styðjast hér á landi um rannsókn á slíkum gögnum, könnun á uppruna þeirra, meðferð og áreiðanleika, gagnstætt því sem meðal annars sé í Danmörku.25. Ákærði Guðlaugur Agnar byggir á því að dulkóðuð gögn geti aðeins að uppfylltum ströngum skilyrðum um meðferð og úrvinnslu verið sönnunargögn tæknilegs eðlis í sakamáli enda liggi fyrir upplýsingar um öflun og meðferð þeirra og lýsing á göllum og vafaatriðum þeim tengdum. Þá verði að liggja fyrir hugtakayfirlit, tækni- eða gagnavinnslulýsing og gæðaeftirlitsskýrsla.26. Ákærðu byggja báðir á því að engin gögn liggi fyrir um að hlutlæg greining eða mat hafi farið fram hjá lögreglu eða ákæruvaldi á gæðum gagnanna, atriðum sem beri að varast við notkun þeirra og hvernig þau geti haft áhrif á sönnunargildi þeirra. Þá séu skýrslur lögreglu um uppruna gagnanna og upphaf rannsóknar stuttar og efnisrýrar. Ekkert sé vitað um öflun þeirra og meðferð áður en þau komust í hendur íslenskra yfirvalda. Ekki hafi verið gerð glögg grein fyrir því hvernig aðgangsstýringu að gögnunum var háttað. Ekkert liggi heldur fyrir um öryggi þeirra, hérlendis eða erlendis, eða áreiðanleika þeirra að öðru leyti. Þau séu opin og auðvelt að breyta þeim og bæta við færslum. Þar af leiðandi sé ekki unnt að staðreyna falsleysi þeirra.27. Hæstarétti er þröngur stakkur skorinn við endurskoðun á sönnunarmati Landsréttar að því leyti sem það byggist á heildarmati á sönnunargildi fram kominna sönnunargagna, þar á meðal munnlegs framburðar ákærðu og vitna fyrir dómi, enda ekki heimilt að veita leyfi til áfrýjunar á dómi Landsréttar til Hæstaréttar til endurskoðunar á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008.28. Séu á hinn bóginn annmarkar á málsmeðferð, þar á meðal aðferð við sönnunarmat í áfrýjuðum dómi, sem teljast fallnir til að hafa áhrif á niðurstöðu þess geta þeir orðið til þess að leyfi til áfrýjunar skuli veita, sbr. d-lið 1. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Slíkir annmarkar geta eftir atvikum leitt til ómerkingar hins áfrýjaða dóms og heimvísunar máls, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 15. október 2020 í máli nr. 16/2020 og 18. febrúar 2021 í máli nr. 30/2020. Verður hér á eftir lagt mat á hvort slíkir annmarkar hafi verið til staðar.3) Reglur um framlagningu sönnunargagna, sönnunarmat og sönnunarbyrði29. Í dómi Hæstaréttar 3. mars 2006 í máli nr. 97/2006 var því hafnað að ríkislögreglustjóra yrði bönnuð notkun tiltekinna gagna í þágu lögreglurannsóknar með þeim rökum að Fjármálaeftirlitið hefði aflað þeirra á grundvelli dómsúrskurðar sem ekki hefði verið hnekkt og væri ekki til endurskoðunar í málinu. Til áréttingar þeirri niðurstöðu sagði: „Er þá jafnframt haft í huga að ekki er fyrir að fara í íslenskum lögum reglu sem útilokar að lögregla styðjist við gögn, sem hún hefur undir höndum, þó þeirra kunni að hafa verið aflað án þess að fylgt hafi verið ákvæðum laga um öflun sönnunargagna í opinberum málum.“30. Samkvæmt 1. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 aflar ákærandi sönnunargagna en ákærði getur einnig aflað þeirra telji hann ástæðu til. Í 2. mgr. greinarinnar er kveðið á um hvernig dómari getur haft frumkvæði að því að ákærandi afli frekari sönnunargagna um tiltekin atriði og í 3. mgr. kemur fram að telji dómari bersýnilegt að atriði sem aðili vill sanna skipti ekki máli eða að gagn sé tilgangslaust til sönnunar geti hann meinað aðila um sönnunarfærslu. Um skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn er sérstaklega fjallað í XX. kafla laganna. Segir þar í 1. mgr. 134. gr. að aðilar leggi fram þau skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn sem þeir vilja að tekið verði tillit til við úrlausn máls. Í þessum ákvæðum felst sú grundvallarregla að aðilar sakamáls geti aflað þeirra sönnunargagna sem þeir óska og synjun um framlagningu gagna verði að hafa lagastoð eða styðjast við önnur gild rök.31. Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 metur dómari hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verður vefengd með skynsamlegum rökum, er fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafa, vitnisburður, mats- og skoðunargerðir, skjöl og önnur sönnunargögn. Enn fremur metur dómari, ef þörf krefur, hvert sönnunargildi þær staðhæfingar hafa sem varða ekki beinlínis það atriði sem sanna skal en ályktanir má leiða af um það, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Sérstaklega er tekið fram í 137. gr. laganna að dómari meti sönnunargildi skjala og annarra sýnilegra sönnunargagna með hliðsjón af atvikum hverju sinni.32. Framangreind ákvæði mæla fyrir um það sem nefnt hefur verið frjálst sönnunarmat dómara og er þá átt við að sönnunarmatið sé ekki lögbundið. Markmiðið með hinu frjálsa sönnunarmati dómara er að komast að réttri niðurstöðu í samræmi við þá meginreglu í sakamálaréttarfari að leiða skuli hið sanna í ljós en hún er nefnd sannleiksreglan. Þá reglu verður þó að skýra í ljósi meginreglunnar um að sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik sem telja má honum í óhag hvíli á ákæruvaldinu, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008. Í samræmi við þetta er markmið rannsóknar sakamáls að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til saka, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 53. gr. laganna. Til viðbótar því að ákæruvaldið þarf samkvæmt framansögðu að axla sönnunarbyrðina gildir áðurgreind regla eftir 1. mgr. 109. gr. laganna um að sanna beri sekt ákærða svo að ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum. Af því leiðir að vafa um sönnun sektar verður að skýra ákærða í hag. Samhliða gildir sú regla að hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð, sbr. 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem hefur lagagildi hér á landi eftir lögum nr. 62/1994.4) Framlagning sönnunargagna og sönnunarmat í ljósi réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi33. Við úrlausn um hvort heimilt sé að leggja fram tiltekið sönnunargagn og líta til þess við mat á sönnun um sekt sakbornings hafi það verið lagt fram, svo og við ákvörðun um hversu mikið vægi eigi að gefa því við sönnunarmat, hefur meðal annars verið horft til hvort þess hafi verið aflað með ólögmætum eða óvenjulegum hætti.34. Við endurskoðun hins áfrýjaða dóms þarf að taka afstöðu til þess hvort Encrochat- gagnanna hafi verið aflað með ólögmætum eða óhefðbundnum hætti. Ef leitt þykir í ljós að þeirra hafi verið aflað með slíkum hætti þarf að taka afstöðu til þess hvort framlagning þeirra hafi verið heimil. Einnig þarf að meta hvort slík óvissa sé um uppruna, meðferð og áreiðanleika gagnanna að framlagning þeirra og það vægi sem þeim hefur verið gefið við mat á sönnun um sekt ákærðu leiði til þess að ákærði teljist ekki hafa notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi og slíkir annmarkar teljist hafa verið á aðferð við sönnunarmat að ómerkja beri hinn áfrýjaða dóm.35. Ákvæðum 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu er ætlað að tryggja réttláta málsmeðferð fyrir dómi. Nánar er fjallað um samspil þessara ákvæða í athugasemdum við 8. gr. frumvarps til stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995 sem varð að 70. gr. stjórnarskrárinnar.36. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur verið litið til úrlausna Mannréttindadómstóls Evrópu við skýringu mannréttindasáttmálans þegar reynir á hliðstæð ákvæði stjórnarskrárinnar, sbr. meðal annars ummæli í dómum Hæstaréttar 19. maí 2005 í máli nr. 520/2004 og síðast 21. júní 2023 í máli nr. 8/2023.37. Af framkvæmd mannréttindadómstólsins, svo sem dómi 12. júlí 1988 í máli nr. 10862/84, Schenk gegn Sviss, leiðir að dómstóllinn telur það almennt ekki hlutverk sitt heldur dómstóla í aðildarríkjum mannréttindasáttmálans að taka afstöðu til þess hvort tiltekið sönnunargagn verði lagt fram í dómsmáli og hvaða vægi það eigi að hafa við mat á því hvað teljist sannað. Frá þessu verði þó vikið ef innlendir dómstólar kunna að hafa brotið gegn réttindum sem vernduð eru af sáttmálanum eða niðurstöður þeirra geti talist handahófskenndar eða augljóslega ósanngjarnar. Þá þurfi jafnframt að meta hvort málsmeðferðin í heild hafi verið réttlát í skilningi 6. gr. sáttmálans að teknu tilliti til allra málsatvika, sbr. einnig dóm 27. október 2020 í málum nr. 29084/07 og 1191/08, Ayetullah Ay gegn Tyrklandi.38. Við ákvörðun um hvort málsmeðferð í heild sinni hafi verið réttlát í ljósi sönnunargagna sem lögð voru til grundvallar niðurstöðu hefur mannréttindadómstóllinn talið að skoða verði hvort réttur ákærða til að halda uppi vörnum hafi verið virtur. Sérstaklega verði að huga að því hvort ákærða hafi verið gefinn kostur á að vefengja áreiðanleika sönnunargagna og andmæla notkun þeirra. Að auki verði að taka afstöðu til gæða sönnunargagna, þar á meðal hvort aðferð eða aðstæður við öflun þeirra séu til þess fallnar að vekja réttmætan efa um áreiðanleika þeirra eða nákvæmni, sbr. dóm 25. apríl 2013 í máli nr. 51198/08, Erkapić gegn Króatíu, og fyrrnefndan dóm í máli Ayetullah Ay gegn Tyrklandi.39. Þá hefur mannréttindadómstóllinn talið geta skipt máli við mat á því hvort málsmeðferð í heild hafi verið réttlát hvort umdeilt sönnunargagn hafði afgerandi áhrif á niðurstöðu um sakfellingu. Því afdráttarlausari sem slík sönnunargögn eru og því minni efasemdir sem uppi eru um áreiðanleika þeirra þeim mun minni þörf er á að önnur sönnunargögn styðji þau. Um þetta má vísa til dóms 1. júní 2010 í máli nr. 22978/05, Gäfgen gegn Þýskalandi.40. Mannréttindadómstóllinn hefur einnig bent á að réttur til réttlátrar málsmeðferðar geti ekki talist virkur nema varnir og athugasemdir aðila séu teknar til raunverulegrar skoðunar af innlendum dómstólum og þeir megi ekki virða að vettugi afmarkaða, viðeigandi og þýðingarmikla mótbáru sem sakborningur hefur sett fram, sbr. til dæmis dóm 29. nóvember 2016 í máli nr. 24221/13, Carmel Saliba gegn Möltu. Þá hefur dómstóllinn lagt áherslu á að dómstólum beri að tilgreina nægilega þau rök sem þeir byggja niðurstöðu á. Krafa um rökstuðning ráðist af eðli dómsúrlausnar og atvikum máls. Í kröfunni felist að málsaðilar eigi rétt á að tekin sé skýr afstaða til röksemda sem ráði úrslitum um niðurstöðu máls en dómstólum beri hins vegar ekki skylda til að svara öllum röksemdum þeirra nákvæmlega, sbr. meðal annars dóm 9. desember 1994 í máli nr. 18390/91, Ruiz Torija gegn Spáni.41. Af framkvæmd mannréttindadómstólsins verður ráðið að við heildarmat á því hvort málsmeðferð teljist réttlát, þrátt fyrir að sakfelling hafi byggst á sönnunargagni sem aflað hefur verið með ólögmætum eða óvenjulegum hætti, skipti máli í hverju ólögmætið er fólgið. Þannig hefur dómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að hafi sönnunargagns verið aflað með pyndingum eða annars konar ómannlegri eða vanvirðandi meðferð sem falið hefur í sér brot gegn 3. gr. sáttmálans geti það komið í veg fyrir að málsmeðferðin teljist réttlát, sbr. til dæmis dóm 11. júlí 2006 í máli nr. 54810/00, Jalloh gegn Þýskalandi. Brot gegn 3. gr. sáttmálans við öflun sönnunargagns hefur þó ekki sjálfkrafa verið talið fela í sér brot gegn 6. gr. hans ef sakfelling hefur jafnframt verið reist á öðrum sönnunargögnum, sbr. fyrrnefndan dóm í máli Gäfgen gegn Þýskalandi.42. Þá hefur mannréttindadómstóllinn ekki talið það fela í sér sjálfstætt brot gegn 6. gr. sáttmálans að byggja sakfellingu á sönnunargagni sem aflað hefur verið í andstöðu við rétt manna til friðhelgi einkalífs samkvæmt 8. gr. hans svo sem með símhlustun eða sambærilegri rannsóknaraðgerð sem ekki er framkvæmd í samræmi við heimildir í lögum, jafnvel þótt sakfellingin hafi ekki verið studd öðrum sönnunargögnum, sbr. dóm 12. maí 2000 í máli nr. 35394/97, Khan gegn Bretlandi.5) Lögmæti öflunar Encrochat-gagnanna og heimild til framlagningar þeirra43. Eins fram kemur í lið 30 að framan felst sú grundvallarregla í 110. og 134. gr. laga nr. 88/2008 að aðilar sakamáls geti aflað þeirra sönnunargagna sem þeir óska og synjun um framlagningu þeirra verði að hafa lagastoð eða styðjast við önnur gild rök. Hvorki eru í lögunum né öðrum lögum sérákvæði um öflun, framlagningu eða sönnunargildi gagna sem aflað er af erlendum yfirvöldum.44. Áður en lengra er haldið er nauðsynlegt að taka lögmæti Encrochat-gagnanna til skoðunar og hvort framlagning þeirra í málinu teljist ein og sér hafa komið í veg fyrir að ákærðu hafi notið réttlátrar málsmeðferðar. Kemur þar einkum til skoðunar hvort gagnanna hafi verið aflað í andstöðu við 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs, enda ljóst að dulkóðuð samskipti manna á milli eru almennt heimil og í öflun gagnanna fólst tilfinnanleg skerðing á friðhelgi einkalífs þeirra sem hlut áttu að máli. Strangar kröfur eru gerðar til takmarkana á slíkum réttindum.45. Ákvæði 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar svarar til 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í 2. mgr. 8. gr. er að finna almennt takmörkunarákvæði um að stjórnvöld skuli eigi ganga á rétt til friðhelgi einkalífs nema samkvæmt því sem lög mæli fyrir um og nauðsyn beri til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, almannaheilla eða efnalegrar farsældar þjóðarinnar, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu manna eða siðgæði eða réttindum og frelsi annarra. Í 2. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar er sértækt ákvæði um takmarkanir á tilgreindum einkalífsréttindum. Þar segir meðal annars að ekki megi gera rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manna nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Í athugasemdum við 9. gr. frumvarps til stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, sem varð að 71. gr. stjórnarskrárinnar, er vísað til þess að takmörkunarheimildir þessar eigi einkum við um rannsóknaraðgerðir lögreglu sem séu ítarlega útfærðar í almennum lögum.46. Í athugasemdum við XI. kafla frumvarps sem varð að lögum nr. 88/2008, en kaflinn fjallar um símahlustun og sambærileg úrræði, er áréttað að setja verði rannsóknaraðgerðum lögreglu sem fela í sér takmarkanir á friðhelgi einkalífs þröngar skorður. Í 83. og 84. gr. laganna er meðal annars gerð krafa um að til slíkra aðgerða þurfi úrskurð dómara, rannsókn beinist að broti sem varðað geti að lögum sex ára fangelsi og ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjist þeirra.47. Við úrlausn þess hvort heimilt hafi verið að leggja Encrochat-gögnin fram í málinu og líta til þeirra við sönnun ræður ekki úrslitum hvort öflun slíkra gagna, með þeim hætti sem gert var í Frakklandi, hefði verið heimiluð af dómstólum hér á landi. Engu að síður þarf að taka til skoðunar hvort gagnanna hafi verið aflað með þeim hætti að þau teljist lögmæt sönnunargögn í sakamáli hér á landi.48. Enda þótt ákærðu telji ýmislegt óljóst um uppruna, meðferð og áreiðanleika þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu um rafræn samskipti manna um innflutning á saltdreifara, losun efna úr honum til framleiðslu fíkniefna og um þá framleiðslu hefur ekki verið dregið í efa að frumgögnin eiga uppruna sinn í dulkóðaða samskiptakerfinu Encrochat. Þótt ekki liggi fyrir nákvæmar upplýsingar um hvernig staðið var að öflun þeirra liggur þó nægjanlega ljóst fyrir að þeirra var aflað af lögreglu í Frakklandi á árinu 2020 í kjölfar samstarfs evrópskra löggæsluyfirvalda á grundvelli dómsúrskurða í Frakklandi. Komið var fyrir á netþjónum rekstraraðila samskiptakerfisins í Frakklandi búnaði sem afkóðaði rafræn samskipti notenda þess. Gögnin voru síðan afrituð og vistuð í gagnasafni en lögregluyfirvöldum í ýmsum Evrópulöndum síðan afhent gögn sem talin voru geta tengst glæpastarfsemi í viðkomandi landi. Gögnin bárust íslenskum löggæsluyfirvöldum í þrennu lagi í júlí til nóvember 2020 fyrir milligöngu Europol.49. Ekki liggur fyrir í málinu hvort umræddra heimilda franskra dómstóla var aflað í þágu rannsóknar tiltekins eða tiltekinna refsiverðra verknaða en hins vegar er nægilega upplýst að samskiptakerfið var að stórum hluta notað í samskiptum glæpahópa.50. Ekkert er fram komið í málinu sem bendir til að gagnanna hafi verið aflað í andstöðu við frönsk lög. Úrskurðir franskra dómstóla sem öflun gagnanna grundvallaðist á sæta heldur ekki endurskoðun íslenskra dómstóla sem leiðir meðal annars af gagnkvæmum þjóðréttarskuldbindingum ríkjanna samkvæmt samningi um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum frá 29. maí 2000. Fyrirmæli samningsins um beiðnir til að afla sönnunargagna í öðru ríki voru innleidd í ákvæði IV. kafla laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum með síðari breytingum.51. Við mat á lögmæti gagnanna verður jafnframt að líta til þess að Frakkland er aðili að mannréttindasáttmála Evrópu. Enda þótt þær takmarkanir á friðhelgi einkalífs sem felast í hlustun, öflun samtala og rafrænna merkja í þágu rannsóknar alvarlegra sakamála séu útfærðar með mismunandi hætti í lögum aðildarríkja sáttmálans verður að ganga út frá að við öflun umræddra sönnunargagna á grundvelli úrskurða dómara í Frakklandi hafi verið gætt að því að þær rúmuðust innan þeirra marka sem 2. mgr. 8. gr. sáttmálans setur rannsóknaraðgerðum lögreglu. Þar með má gera ráð fyrir að öflun gagnanna samræmist þeim grunnsjónarmiðum um réttaröryggi sakaðra manna sem gengið er út frá í íslenskum rétti.52. Þá skiptir máli við mat á því hvort framlagning gagnanna í málinu var heimil að þeirra var ekki aflað að frumkvæði íslenskra löggæsluyfirvalda og því augljóslega ekki ætlunin að komast fram hjá ákvæðum íslenskra laga með rannsóknaraðgerðinni. Jafnframt skiptir máli við það mat að gögnin voru notuð hér á landi við rannsókn og málsmeðferð fyrir dómi vegna stórfellds fíkniefnalagabrots sem samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga getur varðað allt að 12 ára fangelsi, sbr. skilyrði 2. mgr. 83. gr. laga nr. 88/2008 fyrir símhlustun og öðrum sambærilegum úrræðum.53. Líta má til þess að sambærileg gögn og hér eru til skoðunar hafa komið til umfjöllunar dómstóla annars staðar á Norðurlöndum. Í dómi Hæstaréttar Noregs 30. júní 2022, í máli nr. 2022-1314-A, var komist að þeirri niðurstöðu að gagna úr Encrochat-samskiptakerfinu hefði verið aflað með lögmætum hætti á grundvelli fyrrgreindra franskra úrskurða og ekki fallist á kröfu um útilokun þeirra í sakamáli sem rekið var fyrir norskum dómstólum. Í úrskurði Hæstaréttar Danmerkur 11. janúar 2023 í máli nr. 23/2022 var ekki fallist á kröfu um að gögnum sem aflað var á grundvelli sömu frönsku dómsúrskurða yrði hafnað sem sönnunargögnum í sakamáli sem rekið var fyrir dönskum dómstólum.54. Þegar allt framangreint er virt telst framlagning Encrochat-gagnanna í málinu ekki fela í sér að brotið hafi verið gegn rétti ákærðu til réttlátrar málsmeðferðar sem varinn er af 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans.6) Um áreiðanleika Encrochat-gagnanna og afstöðu til varna ákærðu þar að lútandi55. Fyrir liggur að í héraðsdómi og dómi Landsréttar var litið til Encrochat-gagnanna við mat á sönnun um sekt ákærðu. Eins og fyrr greinir hefur því verið haldið fram af hálfu ákærðu að vegna óvissu um meðferð gagnanna, áreiðanleika og nákvæmni hafi ekki verið unnt að byggja sakfellingu á þeim. Eins og áður er rakið hafa ákærðu meðal annars vísað til þess að hér á landi skorti á að settar hafi verið reglur um rannsókn á slíkum gögnum gagnstætt því sem sé raunin í Danmörku.56. Aðferð við öflun tiltekinna sönnunargagna og meðferð þeirra getur verið til þess fallin að vekja réttmætar efasemdir um áreiðanleika og nákvæmni þeirra. Þótt hér að framan hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að Encrochat-gagnanna hafi ekki verið aflað með ólögmætum hætti og framlagning þeirra í málinu heimil þarf engu að síður í ljósi eðlis þeirra og varna ákærðu að skoða hvernig mati á meðferð, áreiðanleika og nákvæmi þeirra var háttað í hinum áfrýjaða dómi. Jafnframt þarf að taka afstöðu til þess hvort brugðist hafi verið með fullnægjandi hætti við vörnum og athugasemdum ákærðu hvað þetta varðar við meðferð málsins og í hinum áfrýjaða dómi.57. Ríkissaksóknari Danmerkur gaf 28. júní 2023 út fyrirmæli um dulkóðuð samskipti. Í þeim er meðal annars að finna upplýsingar um Encrochat-samskiptakerfið og hvernig lögreglu í Frakklandi og Hollandi ásamt Europol tókst að ráða dulkóðunina í mars 2020, nálgast gögnin og byggja upp gagnagrunn um þau í Hollandi og Frakklandi. Þá er þar fjallað um og gefin fyrirmæli um meðferð slíkra gagna, rannsókn á þeim og notkun við lögreglurannsókn og í dómsmálum. Sérstök grein er gerð fyrir atriðum sem dregið geta úr sönnunargildi gagnanna. Í viðauka með fyrirmælunum fylgdi efnislýsing (d. varedeklaration) fyrir Encrochat-gögnin frá dönsku lögreglunni 30. ágúst 2021. Fyrirmæli ríkissaksóknarans höfðu ekki verið gefin út þegar Hæstiréttur Danmerkur úrskurðaði 11. janúar 2023 að upplýsingar af samskiptanetinu Encrochat sem aflað hefði verið af hálfu erlendra yfirvalda væri unnt að nota sem sönnunargögn í sakamáli. Engum sambærilegum fyrirmælum mun vera til að dreifa hér á landi.58. Encrochat-gögnin eru hluti af miklu safni sambærilegra gagna sem nýtt hafa verið við rannsókn og saksókn í fjölda Evrópulanda. Við mat á sönnunargildi þeirra verður að hafa í huga að þau hafa eingöngu farið um hendur innlendra og alþjóðlegra löggæslu- og réttarvörslustofnana. Gagnanna var ekki, svo sem fyrr segir, aflað að undirlagi íslenskra löggæsluyfirvalda heldur bárust þau í hendur þeirra fyrir milligöngu Europol og leiddu þannig til rannsóknar á ætluðu fíkniefnalagabroti samkvæmt ákærulið I.1 sem þá var löngu afstaðið. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum sem ekki þykir ástæða til að draga í efa hefur tiltölulega fámennur og afmarkaður hópur lögreglumanna haft aðgang að frumgögnunum eftir að þau voru send hingað til lands fyrir milligöngu Europol.59. Í málsgögnum er skýrsla lögreglu um bakgrunn Encrochat-gagnanna, virkni og þjónustu síma sem tengdust samskiptakerfinu, afritun gagnanna og notkun þeirra við lögreglurannsóknir í Evrópu. Þá liggur fyrir fjöldi upplýsingaskýrslna lögreglu um notkun gagnanna við rannsókn málsins. Þar kemur meðal annars fram að rannsókn lögreglu var ekki einungis byggð á gögnum sem bárust frá Europol í júlí 2020 heldur var kallað eftir frekari gögnum um samskipti þeirra notenda Encrochat sem rannsóknin beindist að. Bárust viðbótargögn úr Encrochat-samskiptakerfinu 7. október og 27. nóvember 2020 um samskipti sömu notenda. Þá er í einni slíkri skýrslu tekið fram að á tímabilinu sem samskipti notenda Encrochat áttu sér stað hafi þeir verið á mismunandi tímabeltum í heiminum. Því hafi tímasetningar samskiptanna innan dags riðlast að einhverju marki.60. Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi og héraðsdómi, sem þar er vísað til liggja fyrir ítarlegar upplýsingar í málinu um efni rafrænna samskipta notendanna Nuclearfork, Residentkiller og fleiri. Í þeim er meðal annars fjallað um hvernig ná skuli olíu, sem lögregla telur hafa verið amfetamínbasa, úr saltdreifaranum, hversu mikið af því efni hefði þar verið falið og hversu mikið af amfetamíni mætti framleiða úr því. Þá koma þar fram leiðbeiningar um hvernig skuli framleiða fíkniefni úr amfetamínbasanum svo og um efni og aðföng til framleiðslunnar. Einnig var fjallað um kostnað við innflutninginn, flutning á fjármunum milli landa, skiptingu á íslenskum krónum í evrur og dreifingu tilbúinna fíkniefna á Íslandi. Af gögnunum má greina hlutverk þeirra sem stóðu að baki notendanöfnunum og hvernig leiðbeiningar og upplýsingar voru sendar á milli þeirra. Meðal gagna voru ljósmyndir af saltdreifaranum, amfetamínbasanum og tilbúnum efnum. Af gögnunum verður ráðið hvenær samskiptin fóru fram.61. Að framangreindu verður ráðið að enda þótt skrifleg fyrirmæli hafi ekki legið fyrir um hvernig umrædd rafræn gögn yrðu rannsökuð og notuð við rannsóknina gætti lögregla að flestum sambærilegum atriðum og mælt er fyrir um í reglum danska ríkissaksóknarans. Þannig var upplýst um uppruna gagnanna, tæknilegt eðli þeirra, gengið úr skugga um hvort frekari samskiptagögnum væri til að dreifa og greint frá mögulegum vafaatriðum í gögnunum.62. Sem fyrr segir eru viðamiklar upplýsingar um efnislegt innihald Encrochat-gagnanna í þeim skjölum málsins sem hafa verið ákærðu aðgengileg frá því fyrir þingfestingu þess í héraði. Frumrit gagnanna er hins vegar á rafrænu formi. Óumdeilt er að gögnin á því formi voru ekki afhent ákærðu við þingfestingu málsins í héraði.63. Samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar hefur lögreglu ekki verið talið skylt á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 að afhenda sakborningum afrit rafrænna gagna, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 21. september 2009 í máli nr. 495/2009. Hins vegar hefur verið talið skylt að veita sakborningum aðgang að slíkum gögnum á lögreglustöð. Í dómi Hæstaréttar 6. september 2012 í máli nr. 584/2012 var talið leiða af dómi réttarins 1. nóvember 2010 í máli nr. 614/2010, þar sem fjallað var um synjun lögreglu á afhendingu gagna samkvæmt 3. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008, að sama gilti um aðgang verjanda sakaðs manns að upptökum eftir að mál hefði verið höfðað. Samkvæmt því verður að gera ráð fyrir að ákærðu hafi staðið til boða að fá aðgang að rafrænu afriti gagnanna á lögreglustöð við rannsókn málsins og meðferð þess í héraði, hefði verið leitað eftir því.64. Með ákvörðun Landsréttar 25. maí 2023 var ákæruvaldi gert skylt að afhenda verjendum þeirra ákærðu sem Encrochat-gögnin vörðuðu USB-lykil með afriti þeirra en slíkur lykill með afriti gagnanna hafði verið lagður fram í Landsrétti 10. sama mánaðar.65. Efnislegt innihald Encrochat-gagnanna er að finna í málsgögnum sem ákærðu hafa haft undir höndum frá upphafi málsmeðferðar í héraði, afrit hinna rafrænu frumgagna var þeim aðgengilegt fyrir þann tíma til skoðunar á lögreglustöð og þeir fengu rafrænt afrit gagnanna í hendur fyrir aðalmeðferð málsins í Landsrétti. Að því virtu og með hliðsjón af málatilbúnaði ákærðu á öllum dómstigum verður ráðið að þeir hafi haft fullnægjandi grundvöll til að halda uppi vörnum um efni, form, áreiðanleika og önnur atriði sem varða gögnin. Vörnum ákærðu var því ekki áfátt að þessu leyti.66. Í hinum áfrýjaða dómi og héraðsdómi sem vísað er til í niðurstöðu hins áfrýjaða dóms er fjallað um alla helstu þætti í vörnum ákærðu og brugðist við mikilvægustu athugasemdum þeirra. Þetta á meðal annars við um varnir ákærðu sem lutu að meðferð, áreiðanleika og nákvæmni Encrochat-gagnanna.67. Varnir ákærðu sem lúta að því að gögnin séu óáreiðanleg hafa að miklu leyti verið byggðar á því að þau hafi verið óvarin og einfalt hafi verið að breyta þeim. Fyrir Hæstarétti hafa ákærðu þannig bent á að í skjölum sem lögregla hafi unnið upp úr frumgögnunum hafi íslenskum texta verið breytt verulega. Þeir telja að þar sem mögulegt sé að breyta gögnunum sé fullkomin óvissa um áreiðanleika þeirra og nákvæmni. Af hálfu ákæruvaldsins hefur verið bent á að þessar breytingar feli aðeins í sér að textinn hafi verið færður yfir á íslenskt ritmál í framlögðum upplýsingaskjölum lögreglu og þannig gerður læsilegri. Íslenskir stafir hafi ekki verið notaðir í þeim samskiptum á íslensku sem komi fram í frumgögnunum. Engar efnislegar breytingar hafi hins vegar verið gerðar á efni skilaboðanna.68. Ákærðu hafa bent á atriði sem þeir telja benda til að átt hafi verið við gögnin eða að þau séu ónákvæm. Þau lúta að því að á tveimur stöðum komi íslenska orðið „og“ fyrir í enskum texta. Um er að ræða textabrotin „I will organize that my guy og to the farm...“ og „It came out 2310g“. Í fyrra tilvikinu virðist augljóslega hafa orðið stafavíxl hjá þeim sem ritaði textann þar sem átt hafi að standa „go“ í stað „og“, fremur en að átt hafi verið við textann síðar. Í síðara tilvikinu virðist augljóst að verið sé að ræða um „2310 g“ en ekki „231 og“. Benda þessi stuttu textabrot ekki til þess að átt hafi verið við gögnin.69. Af samanburði á efni samskipta notenda Encrochat-samskiptakerfisins í upplýsingaskýrslum lögreglu annars vegar og hins vegar í framlögðu afriti af frumriti rafrænna gagna sem íslenskum stjórnvöldum bárust frá Frakklandi verður ráðið að í skjölum sem lögregla útbjó við rannsóknina hafi samskiptunum verið raðað upp í tímaröð til að fá heildstæða mynd af þeim. Eins hafi íslenskur texti í þeim verið aðlagaður að íslensku ritmáli. Af þessum samanburði verður ekki ráðið að gerðar hafi verið efnislegar breytingar á samskiptunum frá hinum hráa frumtexta.70. Af hálfu ákærða Guðlaugs Agnars hafa verið gerðar athugasemdir við að í Landsrétti hafi sönnun um að hann hefði verið notandinn Nuclearfork meðal annars verið byggð á skýrslu lögreglu sem hafði að geyma upplýsingar um staðsetningar ákærða og Nuclearfork í Taílandi á grundvelli samanburðar á upplýsingum úr Encrochat-gögnunum og skoðunar á ljósmyndum úr síma ákærða. Ákærði telur ákæruvaldið ekki hafa skýrt hvernig þessi skýrsla samræmist þeim upplýsingum sem fram komi í gögnum málsins um að unnt hafi verið að leyna staðsetningu slíkra símtækja. Í annarri lögregluskýrslu um virkni Encrochat-kerfisins kemur fram að þjónustan hafi verið fáanleg fyrir símtæki þar sem GPS, myndavél og hljóðnemar hafi verið gerð óvirk til að tryggja næði og leynd. Síðar í skýrslunni kemur fram að tæki með Encrochat hafi mátt ræsa í tvenns konar stillingu og hafi önnur verið fyrir dulkóðað viðmót fyrir leynileg samskipti. Með vísan til þessa og þar sem fyrir liggur að haldlögð samskiptagögn frá notandanum Nuclearfork höfðu að geyma staðsetningar á símtækinu verður ekki talið að annmarkar hafi verið á ályktunum Landsréttur um þetta atriði.71. Þegar allt framangreint er metið verður ekki talið að uppruni Encrochat-gagnanna eða aðferð við öflun þeirra svo og meðferð þeirra af hálfu franskra, alþjóðlegra og innlendra löggæsluyfirvalda og aðstæður að öðru leyti gefi réttmætt tilefni til að draga áreiðanleika þeirra í efa. Er það í samræmi við mat Landsréttar á áreiðanleika gagnanna. Af dómi Landsréttar, þar sem meðal annars var vísað til héraðsdóms að þessu leyti, verður ekki annað ráðið en að brugðist hafi verið með fullnægjandi hætti við athugasemdum ákærðu varðandi uppruna, meðferð, áreiðanleika og nákvæmni gagnanna og mikilvægustu atriðum í vörnum þeirra þar að lútandi svarað með viðeigandi hætti. Engir annmarkar voru þannig á aðferð við sönnunarmat í hinum áfrýjaða dómi hvað varðar mat á áreiðanleika og nákvæmni þessara gagna og málsmeðferðin að þessu leyti réttlát í skilningi 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans.7) Um mat Landsréttar á vægi Encrochat-gagnanna við ákvörðun um sakfellingu ákærðu72. Þeirri spurningu er þá ósvarað hvort þeir ágallar hafi verið á sönnunarmati Landsréttar að Encrochat-gögnunum hafi verið gefið of mikið vægi við ákvörðun um sakfellingu ákærðu og með því hafi verið brotið gegn rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar með þeim afleiðingum að ómerkja beri hinn áfrýjaða dóm.73. Í hinu frjálsa sönnunarmati dómara felst að lagt er mat á sönnunargildi hvers sönnunargagns fyrir sig og þeirra allra í heild og komist að niðurstöðu um hvort fram sé komin sönnun um sekt ákærða sem hafin sé yfir skynsamlegan vafa.74. Eins og ráða má af hinum áfrýjaða dómi og héraðsdómi felst þungamiðja sönnunarmats í þessu máli í því hvort sönnun sé fram komin um að ákærðu hafi notað Encrochat-samskiptakerfið undir nöfnunum Nuclearfork og Residentkiller. Sönnunarmat Landsréttar um það atriði er aðeins að hluta til reist á framlögðum gögnum úr því kerfi en einnig á fjölmörgum öðrum sönnunargögnum sem tengja ákærðu við þessa notendur svo sem rafrænum gögnum sem aflað var úr farsímum og tölvum ákærðu og annarra.75. Að fenginni niðurstöðu um að fram væri komin sönnun um að ákærðu hefðu verið umræddir notendur var heildarmat Landsréttar á sönnun á þeirri háttsemi sem þeir voru sakfelldir fyrir samkvæmt ákærulið I.1 ekki aðeins reist á hinum umfangsmiklu gögnum úr Encrochat-samskiptakerfinu heldur jafnframt á ýmsum öðrum sönnunargögnum sem talin voru veita fyrrnefndu gögnunum mikinn stuðning. Þar er um að ræða ljósmyndir, gögn úr símtækjum ákærðu, rannsókn á staðsetningu símtækja, rannsókn á sýnishornum af efnum sem fundust í saltdreifaranum og öðrum munum sem fundust við húsleitir. Þá tekur heildarmatið jafnframt mið af munnlegum framburði. Samkvæmt því verður ekki fallist á þær varnir ákærðu að sakfelling þeirra hafi eingöngu verið reist á Encrochat-gögnunum eða að þeim hafi verið gefið of mikið vægi við sönnunarmat í hinum áfrýjaða dómi.76. Samkvæmt öllu framangreindu og þegar meðferð málsins er virt heildstætt braut framlagning Encrochat-gagnanna, notkun þeirra við mat á sönnun fyrir sekt ákærðu, aðferð Landsréttar við mat á sönnunargildi þeirra svo og það vægi sem þeim var gefið við heildarmat á því hvort sök ákærðu teldist sönnuð, ekki í bága við rétt þeirra til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi sem verndaður er af 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.8) Um heimild til notkunar Encrochat-gagnanna í íslenskri refsilögsögu77. Ákærði Guðlaugur Agnar byggir varnir sínar á því að heimild sú sem frönsk yfirvöld veittu til notkunar á Encrochat-gögnunum hafi aðeins tekið til ætlaðrar refsiverðrar háttsemi í íslenskri refsilögsögu. Refsilögsaga íslenska ríkisins í málinu nái ekki til hans, sbr. 4., 5. og 6. gr. almennra hegningarlaga, þar sem hann hafi búið í Taílandi þegar þau brot sem honum eru gefin að sök hafi verið framin. Hann hafi ekki getað komið að þeim brotum sem ákæruvaldið telji að hafi verið framin á Íslandi eftir að saltdreifarinn var kominn að [...]. Þá þurfi brot að vera saknæmt samkvæmt refsilöggjöf í Taílandi en ekkert liggi fyrir um það í málinu. Ákærði telur að ekkert hafi verið fjallað um þessar varnir fyrir Landsrétti.78. Í 7. gr. almennra hegningarlaga er kveðið á um að sé refsing að einhverju leyti bundin að lögum við afleiðingar verknaðar skuli litið svo á að verkið sé einnig unnið þar sem þessar afleiðingar gerast eða er ætlað að koma fram. Í máli þessu er ákærðu ásamt einum meðákærða gefið að sök í ákærulið I.1 að hafa staðið saman að innflutningi verulegs magns fíkniefna til Íslands í félagi við þrjá ónafngreinda menn. Brotinu er lýst með þeim hætti að um verkskipta aðild hafi verið að ræða. Háttsemi þeirra ber að virða sem eina heild en í skilningi 173. gr. a almennra hegningarlaga var brotið fullframið þegar efnin voru flutt inn í landhelgi Íslands. Háttsemi ákærða Guðlaugs Agnars verður ekki skilin frá þætti annarra ákærðu í málinu. Af þeim sökum var hún liður í verknaði sem ætlað var að hafa afleiðingar hér á landi og nær því íslensk refsilögsaga til háttsemi hans samkvæmt fyrrgreindu lagaákvæði, sbr. einnig 1. tölulið 4. gr. sömu laga. Um þetta má vísa til dóma Hæstaréttar 3. desember 2009 í máli nr. 509/2009 og 12. febrúar 2015 í máli nr. 145/2014.79. Engum vafa er undirorpið að heimild sú sem frönsk yfirvöld veittu íslenskum löggæsluyfirvöldum 1. júní 2021, samkvæmt því sem rakið var í lið 9 að framan, til að nota Encrochat-gögnin við rannsókn sakamála og meðferð þeirra fyrir dómi náði til þessa máls. Um þessar varnir ákærða var fjallað og tekin afstaða til þeirra í dómi héraðsdóms sem staðfestur var í Landsrétti um sakfellingu hans, meðal annars með vísan til forsendna.80. Samkvæmt öllu framangreindu eru engin efni til að ómerkja hinn áfrýjaða dóm.Um efnishlið málsins) Um sönnun á háttsemi sem ákærðu er gefin að sök samkvæmt ákærulið I.1 og huglæga afstöðu þeirra81. Eins og að framan greinir eru heimildum Hæstaréttar til efnislegrar endurskoðunar á áfrýjuðum dómi í sakamáli takmörk sett að því leyti sem niðurstöður hans eru byggðar á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar. Á þetta einkum við um endurskoðun á niðurstöðu áfrýjaðs dóms um sönnun fyrir sekt ákærða, hvort heldur sönnun um hlutræna þætti verknaðar eða huglæga afstöðu til hans.82. Samkvæmt því sem áður greinir eru ekki ágallar á aðferð Landsréttar við mat á sönnun um háttsemi ákærðu og huglæga afstöðu þeirra til brota. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu ákærðu af sakarefnum samkvæmt ákærulið I.1 byggðist á rökstuddu heildarmati á sönnunargildi munnlegs framburðar og fjölmargra rafrænna, skjallegra og tæknilegra sönnunargagna, þar með talið gagna úr Encrochat-samskiptakerfinu, og hvernig þessi sönnunargögn samrýmdust innbyrðis. Með vísan til alls framangreinds, meginreglu sakamálaréttarfars um milliliðalausa sönnunarfærslu, svo og c-liðar 1. mgr. og 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008, verður ekki hróflað við niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærðu samkvæmt þessum ákærulið.83. Í hinum áfrýjaða dómi er talið sannað að magn amfetamínvökva sem flutt hafi verið til landsins í saltdreifara hafi verið 53 lítrar eins og byggt var á í ákæru. Í ákæru kom fram að framleidd hefðu verið úr honum allt að 117,5 kg af amfetamíni í sölu- og dreifingarskyni. Dómkvaddur matsmaður komst að þeirri niðurstöðu að styrkleiki amfetamínvökvans hefði verið 57% og samkvæmt því hefði verið unnt að framleiða 189 til 324 kg af amfetamíni úr umræddum 53 lítrum miðað við 14% neyslustyrkleika. Þrátt fyrir þá niðurstöðu lagði Landsréttur til grundvallar að framleidd hefðu verið að minnsta kosti 80,2 kg af amfetamíni úr vökvanum. Þegar litið er til þess að umræddur amfetamínbasi var ekki haldlagður og útreikningar á magni sem framleiða mátti úr honum voru háðir ýmsum óvissuþáttum þykir mega fallast á með Landsrétti að ákærðu eigi að njóta vafans að þessu leyti.2) Um heimfærslu háttsemi samkvæmt ákærulið I.1 til refsiákvæða84. Ákærði Guðlaugur Agnar byggir á því að teljist sú háttsemi sem honum er gefin að sök sönnuð geti hún aðeins talist hlutdeildarbrot.85. Þess er að gæta að löng dómaframkvæmd liggur fyrir um að afmarkaður þáttur manns í skipulagningu og framkvæmd fíkniefnalagabrots sem fleiri en einn tekur þátt í og felst í því að útvega fíkniefni erlendis í því skyni að selja hér á landi, búa til flutnings, flytja til landsins, taka á móti þeim, afhenda til dreifingar, varðveita efnin, dreifa þeim og selja, telst verkskipt aðild að fíkniefnalagabrotinu í heild. Með vísan til þess sem Landsréttur taldi sannað um háttsemi ákærðu og huglæga afstöðu þeirra áttu ákærðu allir verkskipta aðild að fíkniefnalagabroti samkvæmt lið I.1 í ákæru. Verður því fallist á þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að um samverknað þeirra allra hafi verið að ræða. Þáttur ákærða Guðlaugs Agnars í brotinu telst því ekki hlutdeild, samkvæmt 22. gr. almennra hegningarlaga, í broti annarra ákærðu gegn 173. gr. a sömu laga.86. Samkvæmt framansögðu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að ákærðu hafi gerst sekir um stórfellt fíkniefnalagabrot sem þeim er gefið að sök í ákærulið I.1 og heimfærslu þess til 173. gr. a almennra hegningarlaga.87. Ákærðu mótmæla því báðir að háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákærulið I.1 teljist hafa verið þátttaka í starfsemi skipulagðra brotasamtaka og verði hún því ekki heimfærð til 175. gr. a almennra hegningarlaga. Ákæruvaldið krefst hins vegar staðfestingar á þeirri niðurstöðu Landsréttar að heimfæra háttsemi þeirra til þess ákvæðis.88. Eins og gerð er grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi kom 175. gr. a inn í almenn hegningarlög með 5. gr. laga nr. 149/2009. Í athugasemdum við frumvarp sem varð að þeim lögum kom fram að með því væri með heildstæðum hætti leitast við að endurskoða gildandi ákvæði laganna um skipulagða brotastarfsemi til að unnt væri að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri brotastarfsemi (Palermósamninginn) frá 15. nóvember 2000. Samningurinn var fullgiltur hér á landi 13. maí 2010 og tók gildi gagnvart Íslandi 12. júní sama ár. Í athugasemdunum segir jafnframt að með samningnum sé tekið skref fram á við í baráttunni gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri brotastarfsemi. Með alþjóðavæðingu, framförum í upplýsingatækni, stórauknum alþjóðaviðskiptum, auðveldari samgöngum og breyttri landamæravörslu hafi starfsumhverfi skipulagðra brotasamtaka gjörbreyst. Í athugasemdum við 5. gr. kemur fram að um skilgreiningu á hugtakinu skipulögð brotasamtök í 2. mgr. 5. gr. sé meðal annars byggt á skilgreiningu a-liðar 2. gr. samningsins. Þar segir að „skipulögð glæpasamtök“ merki samhæfð samtök þriggja eða fleiri manna sem fyrirfinnast á ákveðnu tímabili og starfa í þeim tilgangi að fremja einn eða fleiri alvarlega glæpi eða brot, sem gerð eru refsiverð samkvæmt samningnum í því skyni að hagnast fjárhagslega eða efnislega með öðrum hætti á beinan eða óbeinan hátt. Hugtakið „samhæfð samtök“, í a-lið 2. gr., merkir samkvæmt c-lið sömu greinar samtök sem eru ekki mynduð með tilviljunarkenndum hætti til að fremja brot þegar í stað. Hins vegar þarf hlutverkaskipting meðlima slíkra samtaka ekki að vera formlega ákveðin eða þátttaka í þeim varanleg eða uppbygging þeirra fastmótuð.89. Undirbúningur og framkvæmd fíkniefnalagabrots sem ákærðu er gefið að sök samkvæmt ákærulið I.1 og Landsréttur taldi sannað að þeir hefðu tekið þátt í fór fram á löngu tímabili í mörgum löndum með aðkomu manna af ýmsu þjóðerni og var þannig liður í alþjóðlegri brotastarfsemi. Brotið var vandlega skipulagt meðal annars með aðstoð flókinnar alþjóðlegrar upplýsingatækni. Þótt ekki verði fullyrt að uppbygging og hlutverkaskipting þeirra samtaka manna sem stóðu að brotinu hafi verið fastmótuð liggur fyrir að þátttakan var ekki með tilviljunarkenndum hætti heldur var um þaulskipulagða verkaskiptingu að ræða þar sem þeir sammæltust um framkvæmd brotsins. Hverjum og einum sem annaðist einstaka þætti þess var ljóst að fleiri ættu hlut að máli. Sú háttsemi ákærðu sem Landsréttur taldi sannaða hafði þannig öll einkenni þess að vera liður í starfsemi skipulagðra brotasamtaka eins og þeim er lýst í 175. gr. a almennra hegningarlaga og Palermósamningnum.90. Með vísan til framangreinds og forsendna hins áfrýjaða dóms að öðru leyti ber að staðfesta þá niðurstöðu hans að með þátttöku ákærðu í fíkniefnalagabroti því sem þeim er gefin að sök samkvæmt ákærulið I.1 hafi þeir sammælst um að fremja verknað sem varðar að minnsta kosti fjögurra ára fangelsi og að framkvæmd hans hafi verið liður í starfsemi skipulagðra brotasamtaka. Þeir hafa því gerst sekir um brot gegn 175. gr. a almennra hegningarlaga. Með vísan til þess tilgangs og þeirra sérstöku refsivörslusjónarmiða sem búa að baki ákvæðinu telst hvorugt þeirra brota sem ákærðu eru sakfelldir fyrir samkvæmt þessum ákærulið tæma sök gagnvart hinu.3) Ákæruliðir I.2 og III91. Í ákærulið I.2 er ákærða Halldóri Margeiri sem fyrr segir gefið að sök stórfellt fíkniefnalagabrot sem lýst er nánar í ákæru og í ákærulið III gefnar að sök vörslur fíkniefna sem þar er nánar lýst. Ákærði hefur játað brotin og unir niðurstöðu Landsréttar um sakfellingu og heimfærslu þeirra til refsiákvæða. Kemur sakfelling hans ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti.4) Um ákvörðun refsingar, upptöku og sakarkostnað92. Við ákvörðun refsingar beggja ákærðu verður litið til 77. gr. almennra hegningarlaga um brotasamsteypu. Með þeirri athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verða ákvæði hans um refsingu ákærðu staðfest. Gæsluvarðhaldsvist ákærðu skal koma til frádráttar refsingu hvors þeirra um sig að fullri dagatölu eins og nánar greinir í dómsorði, sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga.93. Ákærði Halldór Margeir krefst þess að synjað verði um upptöku á raftækjum hans sem gerð er krafa um í ákæru og byggir þá kröfu á sömu rökum og kröfu um sýknu af ákærulið I.1. Ákærði Guðlaugur Agnar krefst þess einnig að synjað verði um upptöku muna í hans eigu. Hann telur að Landsréttur hafi ranglega komist að þeirri niðurstöðu að í kröfu hans um sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins hafi ekki falist krafa um endurskoðun á niðurstöðu héraðsdóms um upptöku. Því hafi rétturinn ranglega talið að sú krafa hans í greinargerð væri of seint fram komin. Fyrir liggur að ákærði setti ekki fram eiginlega kröfugerð í tilkynningu sinni um áfrýjun á héraðsdómi og var hún þannig ekki í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í 2. mgr. 199. gr. laga nr. 88/2008. Hins vegar kom hann á framfæri við ríkissaksóknara eftir lok áfrýjunarfrests kröfu um sýknu af öllum kröfum ákæruvalds samkvæmt ákæru og kom slík krafa fram í áfrýjunarstefnu til Landsréttar. Fyrir Landsrétti hafði ákærði Guðlaugur Agnar einungis uppi efnislegar varnir gegn upptöku á Rolex-úri og taldi að upptökuheimild 1. mgr. 69. gr. b almennra hegningarlaga yrði að skýra þröngt þannig að ekki væri heimilt að gera upptæka sérhverja persónulega muni sem dómfelldi ætti. Landsréttur féllst á upptökukröfur ákæruvaldsins án frekari umfjöllunar um varnir ákærða. Ákærði hefur hins vegar ekki fært fram efnislegan rökstuðning gegn upptökukröfunum fyrir Hæstarétti.94. Af ákæruvaldsins hálfu eru ekki gerðar athugasemdir við niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um upptöku. Þar sem niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærðu hefur verið staðfest og upptökukröfur sem fallist var á í dóminum voru réttilega heimfærðar til lagaákvæða í ákæru verða ákvæði dómsins um upptöku staðfest.95. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað í héraði og fyrir Landsrétti verða staðfest. Ákærðu verður gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjenda sinna, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og segir í dómsorði. Við ákvörðun málsvarnarlauna er tekið tillit til þess að Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður var skipaður verjandi ákærða Halldórs Margeirs fyrir Hæstarétti frá 12. til 20. september 2023 en var þá leystur frá verjandastörfum. Arnar Þór Stefánsson lögmaður var þá skipaður verjandi ákærða Halldórs Margeirs. Litið er til þess við ákvörðun málsvarnarlauna fyrir Hæstarétti að hann annaðist ekki varnir ákærða í héraði eða fyrir Landsrétti. Þá er tekið tillit til þess við ákvörðun málsvarnarlauna skipaðs verjanda ákærða Guðlaugs Agnars að hann gegndi jafnframt verjendastörfum fyrir ákærða í héraði og fyrir LandsréttiDómsorð:Dómur Landsréttar skal vera óraskaður að öðru leyti en því að frá refsingu ákærða, Guðlaugs Agnars Guðmundssonar, dregst gæsluvarðhald sem hann sætti frá 20. maí til 5. júlí 2022 og frá 20. október 2022 til uppkvaðningar dóms þessa og að frá refsingu ákærða, Halldórs Margeirs Ólafssonar, dregst gæsluvarðhald sem hann sætti, frá 20. maí 2022 til uppkvaðningar dóms þessa.Ákærði Guðlaugur Agnar greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sigurðar G. Guðjónssonar lögmanns, 3.546.400 krónur.Ákærði Halldór Margeir greiði málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna fyrir Hæstarétti, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar lögmanns, 322.400 krónur og Arnars Þórs Stefánssonar lögmanns, 4.191.200 krónur.Ákærðu greiði óskipt annan áfrýjunarkostnað, 577.345 krónur.https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=b0150677-e591-4326-b9ec-598c6a244962&verdictid=c14549e5-cf63-4a44-aeae-e445e03b2bc8
Mál nr. 198/2017
Kærumál Nauðungarsala Úthlutun söluverðs
ÍB lýsti kröfu í söluverð fasteignar við nauðungarsölu hennar vegna veðskuldabréfs sem hvíldi á 1. veðrétti eignarinnar, en skuldarar samkvæmt skuldabréfinu höfðu fengið frestun á greiðslu skulda í samtals fimm ár á grundvelli laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga. Sýslumaður lækkaði kröfu ÍB á þeim grundvelli að samkvæmt b. lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð væru aðeins tryggðir með aðalkröfu vextir af skuld sem fallið hefðu í gjalddaga einu ári áður en beiðni um nauðungarsölu væri sett fram. ÍB bar ákvörðun sýslumanns undir héraðsdóm sem staðfesti hana, m.a. með vísan til þess að reglur um greiðsluskjól samkvæmt lögum nr. 101/2010 högguðu ekki við skýru ákvæði b. liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 75/1997. Hæstiréttur staðfesti hinn kærða úrskurð með vísan til forsendna hans.
DómurHæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnirGreta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson. Sóknaraðili skaut málinu tilHæstaréttar með kæru 22. mars 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 3. aprílsama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. mars 2017, þar semákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um úthlutun uppboðsandvirðisfasteignarinnar Lóuás 6, Hafnarfirði, var staðfest og hafnað var kröfusóknaraðila „um að ákvörðun sýslumanns um úthlutun uppboðsandvirðis vegnafasteignarinnar að Lóuási 6, Hafnarfirði, verði breytt þannig að sóknaraðili fáiað fullu úthlutað upp í veðkröfu sína á 1. veðrétti eins og kröfunni var lýst áuppboðsdegi 24. maí 2016, þannig að 48.280.645 krónum verði úthlutað í kröfunaá 1. veðrétti, 6.191.955 krónum verði úthlutað í kröfu varnaraðila Arion bankahf. á 2. veðrétti og engu úthlutað í kröfu varnaraðila Íslandsbanka á 3.veðrétti.“ Kæruheimild er í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa hans verði tekin til greina. Þákrefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst staðfestingarhins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.Með vísan til forsendna hins kærðaúrskurðar verður hann staðfestur.Sóknaraðila verður gert að greiðavarnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.Dómsorð:Hinn kærði úrskurður er staðfestur.Sóknaraðili, Íbúðalánasjóður, greiðivarnaraðila, Íslandsbanka hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað. Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9.mars 2017.Með tilkynningu samkvæmt 52. gr. laga nr. 90/1991 umnauðungarsölu, sem barst Héraðsdómi Reykjaness 5. september 2016, leitaðisóknaraðili úrlausnar dómsins á grundvelli XIII. kafla laganna um gildiákvörðunar sýslumanns um frumvarp að úthlutunargerð fasteignarinnar að Lóuási6, Hafnarfirði. Sóknaraðili er Íbúðalánasjóður en varnaraðili Íslandsbanki hf. Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun sýslumanns um úthlutunuppboðsandvirðis vegna fasteignarinnar að Lóuási 6, Hafnarfirði, verði breyttþannig að sóknaraðili fái að fullu úthlutað upp í veðkröfu sína á 1. veðréttieins og kröfunni var lýst á uppboðsdegi, 24. maí 2016, þannig að 48.280.645krónum verði úthlutað í kröfuna á 1. veðrétti, 6.191.955 krónum verði úthlutaðí kröfu varnaraðila Arion banka hf. á 2. veðrétti og engu úthlutað í kröfuvarnaraðila Íslandsbanka á 3. veðrétti. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar aðskaðlausu að mati dómsins.Varnaraðili gerir þær dómkröfur að öllum köfum sóknaraðilaverði hrundið og að ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um úthlutunuppboðssandvirðis vegna fasteignarinnar Lóuás 6, Hafnarfirði, verði staðfest.Þá er þess krafist að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnaðað mati dómsins.IÞann 3. desember 2010sóttu X og Y um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara. Í samræmi viðbráðabirgðaákvæði laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga hófsttímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. laganna sama dag, þ.e. viðmóttöku umsóknar. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 25. júlí 2011 var umsóknþeirra samþykkt og í kjölfarið birt innköllun í Lögbirtingablaðinu þann 29.júlí 2011. Þann 5. desember 2013 tók umboðsmaður skuldara ákvörðun um að fellaniður greiðsluaðlögunarumleitanir í málinu. Sú ákvörðun var kærð af hálfuskuldara á grundvelli 1. mgr. 15. gr. laga nr. 101/2010 til kærunefndargreiðsluaðlögunarmála. Í samræmi við bráðabirgðaákvæði laganna framlengdistfrestun greiðslna þar til ákvörðun nefndarinnar lá fyrir. Með úrskurði 10.desember 2015 staðfesti kærunefndin ákvörðun umboðsmanns og féll þá frestungreiðslna úr gildi. Var sú niðurstaða tilkynnt til sóknaraðila með tölvupósti13. janúar 2016.Sóknaraðili hófinnheimtu með greiðsluáskorun 15. janúar 2016. Í kjölfarið varnauðungarsölubeiðni, dags. 15. febrúar 2016, send til sýslumannsins áhöfuðborgarsvæðinu. Þann 24. maí 2016 fór fram framhald uppboðs á fasteigninni.Gerðarbeiðendur voru sóknaraðili, BYKO og varnaraðili Íslandsbanki hf.Hæstbjóðandi í eignina var varnaraðili og var kaupverð 55.500.000 krónur.Sóknaraðili lýsti einni kröfu á 1. veðrétti, samtals 48.280.645 krónum. Með frumvarpi aðúthlutunargerð á söluverði eignarinnar tók sýslumaður þá ákvörðun að úthlutaekki að fullu til sóknaraðila þótt lýst veðkrafa hans hefði verið innankaupverðs uppboðsins. Ástæðan var sú að sýslumaður taldi hluta af vöxtum afgjalddögum í vanskilum hafa misst forgang með aðalkröfunni, sbr. b lið 1. mgr.5. gr. laga um samningsveð nr. 75/1997. Sóknaraðili mótmælti því að fá ekki aðfullu úthlutað upp í veðkröfu sína með tölvupósti til sýslumanns 20. júlí 2016.Sýslumaður boðaðihlutaðeigendur til fundar 31. ágúst 2016 en fundarefnið voru mótmælisóknaraðila. Sóknaraðili mætti á fundinn og mótmælti að hann fengi ekki aðfullu greitt fyrir lýstar kröfur sínar. Sýslumaður hafnaði því að breyta frumvarpinuog tók ákvörðun um að það skyldi standa óbreytt. Á fundinum lýsti fulltrúisóknaraðila því yfir að ákvörðun sýslumanns yrði borin undir dómsóla. IISóknaraðili byggir kröfu sína á því að það séu engireftirstæðir vextir til staðar á kröfum hans, sbr. b lið 1. mgr. 5. gr.samningsveðlaga nr. 75/1997. Málsástæður sóknaraðila megi greina í tvo liði. Ífyrsta lagi að sóknaraðila hafi verið óheimilt og ómögulegt að lögum að sendanauðungarsölubeiðni til sýslumanns. Í öðru lagi er byggt á tilgangi reglunnarum eftirstæða vexti. Sóknaraðila byggir á því aðhonum hafi verið ómögulegt að senda nauðungarsölubeiðni til sýslumanns ogþannig koma í veg fyrir að vextir misstu forgang með aðalkröfunni. Til þess aðhægt sé að senda nauðungarsölubeiðni til sýslumanns verði að beinagreiðsluáskorun til gerðarþola, sbr. 9. gr. um nauðungarsölu nr. 90/1991.Samkvæmt a lið 11. gr. laga nr. 101/2010 sé lánadrottni óheimilt að krefjastgreiðslu á kröfum sínum. Sóknaraðili hafi því ekki getað sent og birtgreiðsluáskorun fyrir skuldara og þannig sent nauðungarsölubeiðni til að koma íveg fyrir forgangsmissi vaxta. Aukinheldur telur sóknaraðili að sýslumaðurhefði ekki tekið við slíkri nauðungarsölubeiðni, þótt hún hefði verið send.Í 12. gr. laga umnauðungarsölu nr. 90/1991 sé regla laganna um slit fyrningar kröfu lögð aðjöfnu við slit á forgangsmissi vaxta. Í 2. mgr. 10. gr. laga um fyrningukröfuréttinda nr. 150/2007 segi: „Ef ekkier unnt að rjúfa fyrningu á grundvelli íslenskra eða erlendra laga eða sökumannarrar óyfirstíganlegrar hindrunar, sem ekki byggist á atvikum er varðakröfuhafa sjálfan, hefst fyrning í fyrsta lagi einu ári eftir þann dag erhindruninni lauk.“ Hægt sé að jafna tilvitnuðu ákvæði fyrningalaga við slitá forgangsmissi vaxta, enda eiga sömu rök við þar en sóknaraðili hafi hafiðinnheimtu um leið og synjun umboðsmanns skuldara á umsókn A og B var staðfestaf kærunefnd greiðsluaðlögunarmála en með þeirri synjun hafi frestun greiðslnalokið, sbr. bráðabirgðaákvæði laga nr. 101/2010. Túlkun þessi sé í fullusamræmi við það sem áður segir um 12. gr. laga nr. 90/1991. Í þessu samhengimegi benda á að ákvæði 12. gr. laga nr. 90/1991 hafi áður verið skýrt rýmra enefni þess gefa til kynna, sbr. dóma Hæstaréttar frá 1996, bls. 1992 (mál nr.200/1996) og í dómi réttarins í máli nr. 465/2016.Þá megi benda á aðtil séu óskráðar undantekningar frá fyrirmælum 5. gr. laga um samningsveð nr.75/1997 og 12. gr. nauðungarsölulaga nr. 90/1991 um hvernig hægt sé að slítaforgangsmissi vaxta. Sem dæmi megi nefna að í þeim tilfellum, þegar ekki liggifyrir nauðungarsölubeiðni frá kröfuhafa vegna nauðungarsölu, njóti vextir, semeru yngri en ár frá nauðungarsöludegi, forgangs með aðalkröfunni við úthlutunsöluandvirðis. Telja verði að sú regla styðjist við 3. mgr. 49. gr. laga nr.90/1991 en sú grein tiltaki einungis að kröfulýsing slíti fyrningu kröfu semlýst er áður en fyrningafrestur er liðinn. Í lagaákvæðinu eðalögskýringargögnum sé ekki tiltekið að það sama eigi við um eftirstæða vexti enhér sé komið skýrt dæmi um rýmkaða lögskýringu eða lögjöfnun sem notuð sé viðframkvæmd laganna.Auk þess sé vert aðlíta til þess að þegar fjárnámi sé þinglýst, eftir að nauðungarsölubeiðni fráveðkröfuhafa hefur verið móttekin, njóti eftirstæðir vextir veðkröfuhafans, semkunna að vera til staðar, forgangs við úthlutun gagnvart fjárnáminu, sbr.Hæstaréttardóm frá 1994, bls. 1834 (mál nr. 382/1994). Í ljósi allsframanritaðs megi ljóst vera að sterk rök séu fyrir því að vextir af veðkröfumsóknaraðila ættu ekki að missa forgang sinn með aðalkröfunni í þessu máli þarsem sóknaraðila hafi verið ómögulegt lögum samkvæmt að sendanauðungarsölubeiðni fyrr en samningurinn hafi verið ógiltur. Innheimta hafihafist nánast um leið og samningurinn hafði verið ógiltur og sóknaraðili því ekkisýnt af sér nokkurt tómlæti, heldur þvert á móti. Hann hafi hafiðinnheimtuaðgerðir um leið og honum var kunnugt um að það væri heimilt lögumsamkvæmt.Áður en frumvarp að lögum um samningsveð varð að lögum hafilög nr. 23/1901 gilt um forgangsrétt veðhafa fyrir vöxtum. Ákvæði laganna sésvohljóðandi: „Sé skuldunaut veitturgjaldfrestur á vöxtum af skuld, sem fasteignaveð er fyrir, eftir að þeir erukomnir í gjalddaga, þá helst eigi forgangsréttur til veðsins fyrir vöxtumþessum gagnvart síðari veðhöfum lengur en eitt ár frá því þeir komu ígjalddaga.“ Eins og áður hafi komið fram hafi það ekki verið ætlunin aðbreyta þessari reglu þegar lög um samningsveð tóku gildi, sbr. athugasemdir við5. gr. frumvarpsins sem varð að lögum nr. 75/1997 um samningsveð. Aflögskýringargögnum að dæma hafi það verið markmið laganna að fremriveðkröfuhafar geti ekki rýrt veðrétt seinni kröfuhafa með því að láta vextina ákröfum sínum safnast saman. Ákvæðið sé því til verndar síðari veðkröfuhöfumgegn athafnaleysi fremri veðkröfuhafa að innheimta vextina meðfullnustuaðgerðum. Sóknaraðili hafi ekki sýnt athafnaleysi í máli þessu, heldurfrekar varnaraðilar. Ljóst sé af lestrilögskýringargagna með lögum nr. 23/1901 að þingmenn höfðu áhyggjur af því aðvextir, sem væru eldri en ársgamlir, nytu ekki forgangs ef langan tíma tæki aðinnheimta veðskuld. Telja verður þó að sá skilningur hafi orðið ofan á að efkröfuhafi innheimti kröfu, t.d. með atbeina dómstóla, myndu þeir vextir, er þáféllu til, ekki glata forgangsrétti sínum. Hafi þetta m.a. komið fram í ræðulandshöfðingja í þingumræðum. Ljóst sé því að það hafi ekki verið markmiðlaganna að veðkröfuhafi, sem reyni að innheimta veðkröfu sína, þurfi að þola aðvextir missi forgang á meðan. Þá komi ekki fram í lögskýringargögnum með 5. gr.frumvarpsins, sem hafi orðið að lögum nr. 75/1997, að ætlunin hafi verið aðhverfa frá þessu, heldur sé þvert á móti tekið fram að tilgangurinn hafi ekkiverið að breyta gildandi rétti hvað reglu laga nr. 23/1901 varðar að öðru leytien að víkka gildissvið reglunnar þannig að hún væri ekki einskorðuð viðfasteignaveð.Í þessu samhengi sévert að hafa í huga þann tilgang b liðar 5. gr. laga nr. 75/1997, sem lýst séhér að framan, þ.e. að koma í veg fyrir að kröfuhafar veiti óhóflega gjaldfrestiá kostnað síðari veðhafa. Í þessu máli sé það ekki svo að sóknaraðili hafiveitt slíka gjaldfresti, heldur hafi sóknaraðila, líkt og öðrum kröfuhöfum,verið gert ómögulegt að innheimta gjaldfallnar afborganir þar sem gerðarþolisótti um lögbundin úrræði. Megi því segja að upp hafi komið lagalegurforsendubrestur að því er varðar ákvæði b liðar 5. gr. laga nr. 75/1997. Íljósi þessa beri að fallast á kröfur sóknaraðila.Um lagarök vísar sóknaraðili til nauðungarsölulaga nr.90/1991 og samningsveðlaga nr. 75/1997, auk laga nr. 101/2010 umgreiðsluaðlögun einstaklinga. Um málskostnað vísast til XXI. kafla laga nr.91/1991 um meðferð einkamála.IIIVarnaraðili byggir kröfu sína um að öllum kröfum sóknaraðilaverði hrundið og að ákvörðun sýslumanns um úthlutun uppboðsandvirðis verðistaðfest á því að ákvörðun sýslumanns sé rétt og athugasemdir sóknaraðila séu ámisskilningi byggðar.Samkvæmt skýru ákvæði b liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr.75/1997 um samningsveð séu vextir af kröfu tryggðir með aðalkröfunni í eitt árfrá því að beiðni um nauðungarsölu veðsettrar eignar er sett fram. Vextirsóknaraðila, fallnir á kröfuna meira en ári frá því að nauðungarsölubeiðni varsend sýslumanni, séu því ekki tryggðir með aðalkröfunni og víki fyrir kröfumvarnaraðila.Það að sóknaraðila var óheimilt og ómögulegt að lögum aðsenda nauðungarsölubeiðni til sýslumanns fyrr en gert var, sé ekki atriði semréttlæti það að reglu 5. gr. laga nr. 75/1997 verði vikið til hliðar. Með lögumnr. 50/2009 um tímabundnagreiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði hafi löggjafinn sett þessa reglu ogtelji sóknaraðili að með því sé sóknaraðili að tapa réttindum ætti sóknaraðiliað beina kröfugerð sinni að ríkisvaldinu.Sóknaraðili byggi kröfugerð sína á því að í 12. gr. laga nr.90/1991 um nauðungarsölu sé regla laganna um fyrningu lögð að jöfnu við slit áforgangsmissi vaxta og byggist m.a. á 2. mgr. 10. gr. laga nr. 150/2007 umfyrningu kröfuréttinda, þ.e. að ef ekki sé unnt að rjúfa fyrningu á grundvelliíslenskra eða erlendra laga eða sökum annarra óyfirstíganlegrar hindrunar, semekki byggist á atvikum sem varði kröfuhafa sjálfan, hefjist fyrning í fyrstalagi einu ári eftir þann dag er hindruninni lauk. Samkvæmt 28. gr. laga nr. 150/2007 tóku lögin gildi 1.janúar 2008 og gildi einvörðungu um þær kröfur sem stofnast eftir gildistökulaganna. Krafa sóknaraðila byggist á skuldabréfi útgefnu til Frjálsafjárfestingabankans í mars 2005 og gildi lög nr. 150/2007 því ekki um kröfurnar.Sambærilegt ákvæði hafi ekki verið í lögum nr. 14/1905. Varnaraðili mótmælirþví að fallist verði á kröfu sóknaraðila á grundvelli laga sem ekki gilda umkröfur þær sem málið varðar.Þá byggi sóknaraðili á óskráðum undandtekningum fráfyrirmælum 5. gr. laga nr. 75/1997 og 12. gr. laga nr. 90/1991 og nefni semdæmi að í þeim tilfellum, þegar ekki liggi fyrir nauðungarsölubeiðni frákröfuhafa vegna nauðungarsölu, njóti vextir, sem séu yngri en eins árs fránauðungarsöludegi, forgangs með aðalkröfunni við úthlutun söluverðs.Varnaraðili hafnar því að hér sé um einhverja óskráðaundantekningu frá 5. gr. laga nr. 75/1997 að ræða. Samkvæmt skýru ákvæðilaganna njóti vextir yngri en ársgamlir forgangs með aðalkröfunni. Varnaraðili hafnar málsástæðum sóknaraðila um lagasetningu íupphafi tuttugustu aldar og að umræða um þá lagasetningu eigi að leiða til þessað regla 5. tl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 75/1997 eigi ekki við um úthlutunsöluverðs 115 árum síðar.Varnaraðili hafnar því einnig að með því að varnaraðili hafihvorki krafist ógildingar á greiðsluaðlögunarsamningi gerðarþola, né krafistnauðungarsölu á eign gerðarþola, eins og sóknaraðili gerði, hafi varnaraðilisýnt af sér tómlæti sem eigi að leiða til þess að skýru ákvæði 5. gr. laga75/1997 verði vikið til hliðar og eftirstæðum vöxtum sóknaraðila verði veitturforgangur umfram kröfu varnaraðila. IVTil grundvallar kröfu sóknaraðila er skuldabréf útgefið 8.janúar 2009 sem fór í vanskil. Skuldarar samkvæmt skuldabréfinu fengu frestun ágreiðslu skulda samkvæmt 11. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlöguneinstaklinga sem stóð samtals í fimm ár, frá 3. desember 2010 til 10. desember2015. Á meðan var sóknaraðila óheimilt samkvæmt a og c liðum 11. gr. laganna aðkrefjast greiðslu á kröfu sinni eða fá eign skuldara selda nauðungarsölu. Íkjölfar þess að sóknaraðili fékk tilkynningu 13. janúar 2016 um aðgreiðsluaðlögunarumleitanir hefðu verið felldar niður hóf hann innheimtukröfunnar. Í b lið 5. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð segir aðvextir af skuld, sem fallið hafa í gjalddaga á einu ári áður en beiðni umnauðungarsölu veðsettrar eignar var sett fram, séu tryggðir með aðalkröfunninema annað leiði af samningi þeim sem til veðréttarins stofnaði. Sóknaraðilitelur sig vegna framangreinds ákvæðis laga um samningsveð hafa tapað vöxtummeðan skuldarar voru í greiðsluskjóli og honum var gert ókleift vegna ákvæðlaga um greiðsluaðlögun einstaklinga að innheimtakröfu sína. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr.75/1991 um samningsveð segir um b lið 5. gr. laganna að tilgangur með því aðforgangsréttur veðhafa fyrir vöxtum gagnvart síðari veðhöfum haldist ekkilengur en í eitt ár sé að koma í veg fyrir að veðhafi geti veitt skuldaraóhæfilegan gjaldfrest á kostnað annarra veðhafa. Reglan auðveldi einnig mönnumað ganga úr skugga um hverjar skuldbindingar hvíli á tilteknum veðrétti eignar.Með fyrrnefndum ákvæðum 11. gr. laganr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga ákvað löggjafinn að óheimilt sé aðkrefjast greiðslu af kröfu meðan greiðslum er frestað og leitað ergreiðsluaðlögunar. Löggjafinn bjó svo um hnútana að greiðsluaðlögun tæki aðeinsskamman tíma, sbr. ákvæði 1. mgr. 7. gr. laganna þar sem segir að umboðsmaðurskuldara skuli taka ákvörðun um afgreiðslu á umsókn skuldara innan tveggja viknafrá því að hún liggur fyrir fullbúin og sbr. ákvæði 8. gr. laganna þar semsegir að tímabil greiðsluaðlögunarumleitana geti orðið allt að þrír mánuðir.Önnur varð hins vegar raunin í þessu máli eins og að framan er rakið. Þaðhaggar þó ekki ákvæði b liðar 5. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð sem kveðurskýrt á um að forgangsréttur veðhafa fyrir vöxtum gagnvart síðari veðhöfumhaldist ekki lengur en í eitt ár nema annað leiði af samningi þeim sem tilveðréttarins stofnaði en á því er ekki byggt í málinu. Ekki verður fallist á með sóknaraðila að skýra megi ákvæði12. gr. og 3. mgr. 49. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu rýmkandilögskýringu eða að lögjöfnun frá þessum ákvæðum sé tæk. Niðurstaða málsins er því sú að kröfum sóknaraðila í málinuer hafnað en ákvörðun sýslumanns um úthlutun söluverðs staðfest. Eftir þessari niðurstöðu verður sóknaraðili úrskurðaður tilþess að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000krónur.Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskuð þennan.ÚrskurðarorðHafnað er kröfusóknaraðila, Íbúðalánasjóðs, um að ákvörðun sýslumanns um úthlutunuppboðsandvirðis vegna fasteignarinnar að Lóuási 6, Hafnarfirði, verði breyttþannig að sóknaraðili fái að fullu úthlutað upp í veðkröfu sína á 1. veðréttieins og kröfunni var lýst á uppboðsdegi 24. maí 2016, þannig að 48.280.645 kr.verði úthlutað í kröfuna á 1. veðrétti, 6.191.955 krónum verði úthlutað í kröfuvarnaraðila Arion banka hf. á 2. veðrétti og engu úthlutað í kröfu varnaraðilaÍslandsbanka á 3. veðrétti.Ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um úthlutunuppboðssandvirðis fasteignarinnar Lóuás 6, Hafnarfirði, er staðfest. Sóknaraðili greiði varnaraðila, Íslandsbankahf., 300.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 846/2014
Opinberir starfsmenn Ráðningarsamningur Uppsögn Áminning Tómlæti Skaðabætur Sératkvæði
H krafðist bóta úr hendi S vegna ætlaðrar ólögmætrar uppsagnar. Í mars 2012 óskaði S eftir því við H, sem fruminnherja, að hann gerði grein fyrir tengslum sínum við S ehf., félag sem hann átti 30% hlut í og var í fyrirsvari fyrir. H varð við því og gerði meðal annars grein fyrir verðbréfaviðskiptum sem félagið hefði stundað á árunum 2007 og 2008, á sama tíma og hann var starfsmaður S, auk málaferla sem félagið stóð að og voru í burðarliðnum. Viðbrögð S við þessu voru þau að skipa H að segja sig úr stjórn félagsins, sem gekk eftir. Taldi Hæstiréttur, meðal annars með hliðsjón af þýðingu reglna um verkanir tómlætis í vinnurétti, að ekki yrði á það fallist með S að bankinn hefði einu og hálfu ári síðar, í október 2013, getað gripið til frekari úrræða vegna þeirra brota sem H upplýsti um í mars 2012. Talið var að H hefði brotið 14. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins með því að S ehf. hefði átt gjaldeyrisviðskipti og að hann hefði brotið 20. gr. sömu laga með því að upplýsa ekki nægilega um fyrirsvar sitt fyrir félagið. Brot þessi, sem felld yrðu undir 21. gr. laganna, veittu S á hinn bóginn ekki rétt til að segja H upp störfum á grundvelli 43. gr. þeirra án undangenginnar áminningar, sbr. 44. gr. laganna. Var því fallist á með H að uppsögnin hefði verið ólögmæt. Við mat á fjárhæð skaðabóta var talið að taka þyrfti tillit til þess að starfsöryggi H hjá S sætti takmörkunum, eins og starfsöryggi annarra hjá íslenska ríkinu eða stofnunum þess, sbr. 44. gr. framangreindra laga, og að H hefði brotið af sér í starfi, þótt brotin hefðu ekki verið svo alvarleg að réttlætt hefði fyrirvaralausa uppsögn. Bæri hann því sjálfur nokkra ábyrgð á tjóni sínu. Með hliðsjón af framangreindu var S dæmt til að greiða H skaðabætur sem metnar voru að álitum 3.000.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. desember 2014. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 19.682.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. janúar 2014 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Með ótímabundnum ráðningarsamningi 1. desember 2000 hóf áfrýjandi, sem er viðskiptafræðingur og löggiltur verðbréfamiðlari, störf hjá stefnda. Starfsvið hans var á alþjóðasviði bankans og var því lýst svo í ráðningarsamningnum að það væri verðbréfamiðlun og ,,önnur tilfallandi störf“. Um starfskjör, réttindi og skyldur hans skyldi samkvæmt samningnum fara eftir „kjarasamningi, ákvæðum laga og reglum fyrir starfsmenn Seðlabankans.“ Þá var tiltekið að skuldbinding ,,um ástundun, þagnarskyldu o.fl.“ fylgdi á sérstöku blaði sem ætti að undirrita. Loks sagði: ,,Brot í starfi varðar áminningu eða brottvikningu ef um ítrekuð brot eða veruleg er að ræða.“ Við ráðninguna gerði áfrýjandi Ólafi Ísleifssyni, sem var næsti yfirmaður hans og annaðist ráðninguna, grein fyrir því að hann væri einn eigenda einkahlutafélagsins Skólabrúar. Félagið mun hafa verið stofnað 1991 um veitingarekstur, en við ráðningu áfrýjanda mun starfsemi þess einungis hafa falist í framleigu og umsjón fasteignarinnar að Pósthússtræti 17 í Reykjavík. Mun áfrýjandi við ráðninguna hafa sinnt ólaunuðum störfum sem framkvæmdastjóri félagsins, en síðarnefnda starfið var lagt niður hjá því í lok árs 2009 og tók áfrýjandi þá við stjórnarformennsku í félaginu. Veitti Ólafur Ísleifsson honum munnlega heimild til þess að sinna þeim störfum í þágu félagsins sem hann gegndi við ráðninguna. Á árinu 2002 mun Skólabrú ehf. hafa keypt helming áðurnefndrar fasteignar, en selt hlutinn aftur í júlí 2007 með umtalsverðum hagnaði. Eftir það hóf félagið viðskipti með framvirka samninga og verðbréf. Haustið 2006 sameinuðust peningamálasvið og alþjóðasvið stefnda og mun áfrýjandi þá hafa fengið það verkefni að skrá gengi og vexti, fylgjast með mörkuðum og hafa símasamband við svokallaða viðskiptavaka. Í kjölfar falls íslensku bankanna í október 2008 mun hann hafa starfað við að svara fyrirspurnum sem bárust símleiðis um gengi og skyld atriði, en nokkrum mánuðum síðar verið færður í starf er laut að lánamálum ríkisins og sinnt þar daglegri fyrirgreiðslu í formi verðbréfalána til miðlara með ríkisskuldabréf. Áfrýjandi var 8. desember 2011 skráður fruminnherji samkvæmt 128. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. II Í desember 2011 höfðaði Skólabrú ehf. mál á hendur fjármálafyrirtækinu Virðingu hf. og krafðist skaðabóta að fjárhæð 7.311.232 krónur. Var krafan reist á því að Virðing hf. hefði ekki staðið rétt að samningum um stofnun á VS-reikningi í nafni Skólabrúar ehf. hjá Verðbréfaskráningu Íslands hf. Hafi Virðing hf. brotið gegn skilmálum sínum um markaðsviðskipti, lögum nr. 108/2007 og reglugerð nr. 995/2007 um fjárfestavernd og viðskiptahætti fjármálafyrirtækja í tengslum við kaup á hlutabréfum í þremur tilgreindum félögum. Þá var ágreiningi Skólabrúar ehf. og Landsbanka Íslands hf. um kröfu félagsins við slit bankans skotið til héraðsdóms í febrúar 2012, en þar krafðist félagið að viðurkennd yrði búskrafa þess samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að fjárhæð 35.453,36 evrur. Krafan átti rót að rekja til afleiðusamnings sem Skólabrú ehf. gerði við Landsbanka Íslands hf. 21. ágúst 2008 um kaup á 500 hlutum í félaginu Atlantic Petroleum P/F á fyrirfram ákveðnu verði og samkomulags sem Skólabrú ehf. hélt fram að komist hefði á um uppgjör samningsins. Skólabrú ehf. hafði sett bankanum að handveði innstæðu á tilgreindum bankareikningi til tryggingar öllum skuldum sínum við bankann, sem leysti í nóvember 2008 til sín veðið vegna vanskila félagsins. III Hinn 21. mars 2012 sendi aðallögfræðingur stefnda, sem jafnframt var regluvörður bankans, tölvubréf til áfrýjanda þar sem sagði að á lista yfir fruminnherja í stefnda væri einkahlutafélagið Skólabrú skráð sem fjárhagslega tengt áfrýjanda, sem væri þar stjórnarformaður. Vakin var athygli á reglum stefnda nr. 9.2.14 um heimild starfsmanna stefnda til setu í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja frá 18. júní 2001 og þess farið á leit að áfrýjandi gerði bankastjóra og regluverði „grein fyrir félaginu.“ Degi síðar sendi áfrýjandi regluverðinum tölvubréf þar sem fram kom að hann ætti 30% í félaginu. Vísaði hann til áðurnefndrar heimildar Ólafs Ísleifssonar um að hann mætti sitja í stjórn þess, enda hefði það ekki verið með eiginlegan rekstur og seta í stjórn þess og önnur störf ólaunuð. Þá kvaðst áfrýjandi ekki hafa þekkt þær reglur sem vísað væri til og óskaði eftir fundi með regluverði og bankastjóra til að gera frekari grein fyrir félaginu. Jafnframt falaðist hann eftir heimild til áframhaldandi stjórnarsetu, ella myndi hann segja sig úr stjórninni. Sama dag óskaði regluvörður eftir að áfrýjandi gerði frekari grein fyrir félaginu. Í tölvubréfi daginn eftir lýsti hann nánar starfsemi félagsins frá stofnun 1991 allt til þess að fasteign þess var seld í júlí 2007, en félagið hefði þá farið „út í fjárfestingar eftir söluna, meðal annars á verðbréfamarkaði.“ Áfrýjandi kvað eignarhlut sinn í félaginu hafa verið 30% frá árinu 2003. Nefndi hann að frá 15. apríl 2003 hefði annar eigandi félagsins, Sigtryggur Eyþórsson, tekið við af honum sem stjórnarformaður og sinnt því til ársloka 2009 er áfrýjandi hafi aftur tekið við. Hafi Sigtryggur séð um kaup og sölu verðbréfa og samskipti við miðlara, en þó verið „í sambandi við [áfrýjanda] utan vinnutíma vegna stöðu og fjármögnunar.“ Loks sagði: „Skólabrú ehf. hefur tapað miklu af eigum sínum frá sölunni 2007 ekki síst eftir ósköpin í hruninu. Skólabrú ehf. stendur í deilum við Slitastjórn Landsbankans og Verðbréfafyrirtækið Virðingu. Hefur verið höfðað mál við Slitastjórnina og er líklegt að bæði deilumálin fari fyrir dómstóla. Ég mun koma til þín ársreikningi Skólabrúar ehf. eftir helgina, sem skýrir frekar fjárhagsstöðu félagsins.“ Þá sendi áfrýjandi tölvubréf til bankastjóra stefnda 2. apríl 2012 þar sem hann ítrekaði annars vegar að hann hefði ekki haft vitneskju um framangreindar reglur stefnda fyrr en regluvörður hans hafi sent sér þær, en hins vegar ósk sína um heimild til áframhaldandi setu í stjórn félagsins. Kvaðst hann hafa gert regluverðinum grein fyrir félaginu og aðkomu sinni að því, en þar komi fram að „enginn raunverulegur rekstur hefur verið í félaginu frá 1992, aðeins sýslan með eignir og skuldir.“ Að fengnu minnisblaði regluvarðar sendi bankastjóri stefnda áfrýjanda bréf 16. apríl 2012. Í bréfinu rakti bankastjórinn meðal annars upplýsingar, sem veittar höfðu verið um Skólabrú ehf. og starfsemi þess. Síðan sagði: ,,Þó svo félagið hafi nú um mundir litla fjármuni umleikis til fjárfestinga, þá verður að teljast mjög óheppilegt að starfsmaður Seðlabankans sé stjórnarformaður í félagi með slíkt markmið ekki síst í ljósi þess að sá hinn sami er fruminnherji í bankanum auk þess sem 1. gr. áður nefndra reglna Seðlabankans leggur bann við setu starfsmanna í fyrirtækjum sem starfa fyrst og fremst á sviði verðbréfaviðskipta. Í ljósi þess sem nú hefur verið rakið er beiðni þinni um leyfi til setu í stjórn Skólabrúar ehf. hafnað og þess óskað að þú segir þig úr stjórninni við fyrsta tækifæri.“ Til samræmis við bréf seðlabankastjóra sendi Skólabrú ehf. 17. apríl 2012 tilkynningu til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra um breytta stjórn í félaginu, jafnframt því sem stefnda var tilkynnt um þetta. IV Hinn 20. desember 2012 gekk úrskurður héraðsdóms í framangreindu máli Skólabrúar ehf. gegn Landsbanka Íslands hf., sem staðfestur var í Hæstarétti 14. febrúar 2013, sbr. mál nr. 30/2013. Þar var fallist á skyldu Skólabrúar ehf. til að greiða 20.752.812 krónur með tilgreindum dráttarvöxtum, allt að frádreginni greiðslu að fjárhæð 24.692.920 krónur. Þá var kveðinn upp héraðsdómur í máli Skólabrúar ehf. gegn Virðingu hf. 10. júní 2013. Í dóminum voru rakin samskipti félaganna, meðal annars sagði að áfrýjandi hefði verið tengiliður Skólabrúar ehf. við Virðingu hf. og haft upplýsingar um viðskipti þau sem um ræddi frá upphafi. Eftir áðurnefndum Sigtryggi Eyþórssyni var haft að hann hefði ekkert aðhafst í málefnum Skólabrúar ehf. án fyrirmæla frá áfrýjanda. Var Virðing hf. sýknuð af kröfu Skólabrúar ehf. í málinu og dóminum ekki áfrýjað. Hinn 28. júní 2013 afhentu seðlabankastjóri og aðallögfræðingur bankans áfrýjanda bréf undir yfirskriftinni: „Ótímabundið leyfi frá störfum í Seðlabanka Íslands frá og með 28. júní 2013.“ Í upphafi bréfsins var vísað til síðastgreinds héraðsdóms og að þar hafi komið fram upplýsingar um aðkomu áfrýjanda ,,að verðbréfa-, gjaldeyris- og afleiðuviðskiptum Skólabrúar ehf. á árunum 2007 og 2008, sem framkvæmdastjóri Skólabrúar ehf., og jafnframt verandi starfsmaður Seðlabanka Íslands á sama tíma.“ Þá var vísað til 5. gr. reglna stefnda nr. 831/2002 um meðferð trúnaðarupplýsinga og verðbréfa- og gjaldeyrisviðskipti starfsmanna þar sem skýrt væri tekið fram að starfsmönnum stefnda væri óheimilt að eiga sjálfir viðskipti fyrir sig eða aðra eða hvetja til viðskipta með verðbréf og gjaldeyri byggju þeir yfir eða hefðu aðgang að trúnaðarupplýsingum sem líklegar væru til að hafa áhrif á markaðsverðið. Loks sagði: „Í tilefni af upplýsingum sem fram koma í dóminum er þess hér með óskað að þú takir þér ótímabundið leyfi frá störfum frá og með 28. júní 2013, á meðan athugað verður hvort þú hafir gerst brotlegur í starfi þínu við lög og starfsreglur Seðlabankans.“ Áfrýjandi sendi stefnda 29. júní 2013 greinargerð um störf sín fyrir Skólabrú ehf. þar sem í upphafi var minnt á að hann hafi upplýst Ólaf Ísleifsson um eignarhald sitt í félaginu og störf í þess þágu. Þá gat áfrýjandi þess einnig í bréfinu að í september 2007 hafi staðið til að félagið tæki þátt í kaupum á fasteign í Póllandi með öðrum íslenskum fjárfestum og því keypt evrur að andvirði 20.000.000 krónur sem lagðar hafi verið inn á gjaldeyrisreikning. Á hinn bóginn hafi áformin runnið út í sandinn og evrurnar seldar aftur, en þó aðeins „að takmörkuðum hluta.“ Kvaðst áfrýjandi aldrei hafa haft aðgang að trúnaðarupplýsingum, sem hann hefði getað nýtt sér við verðbréfa- eða gjaldeyrisviðskipti, og telja að yfirmönnum sínum hafi verið kunnugt um þessi viðskipti, sem hann hefði talið samrýmast reglum stefnda. Veitti áfrýjandi jafnframt stefnda heimild til að leita allra upplýsinga hjá sér, Skólabrú ehf. og mótaðilum í viðskiptum um verðbréfa-, gjaldeyris- og afleiðuviðskipti. Þá gerði áfrýjandi stefnda 20. júlí 2013 enn frekari grein fyrir störfum sínum hjá Skólabrú ehf. og samskiptum sínum við Virðingu hf. og Landsbanka Íslands hf. vegna málefna félagsins. Stefndi sendi áfrýjanda bréf 8. október 2013 með yfirskriftinni: „Niðurstaða rannsóknar og mögulegt næsta skref.“ Í lok bréfsins sagði að áfrýjandi hefði brotið gróflega gegn trúnaðarskyldum sínum í starfi þannig að til álita kæmi að honum yrði sagt upp störfum „með vísan til þeirrar heimildar sem leiðir af 43. gr. laga nr. 70/1996 [um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins], ráðningarsamningi ... 1. desember 2000 og almennum grundvallarreglum vinnuréttar og opinbers starfsmannaréttar um stjórnunarrétt yfirboðara.“ Um brot áfrýjanda var einkum vísað til þess að hann hefði aldrei fengið formlegt leyfi hjá yfirmönnum sínum til að koma að starfsemi Skólabrúar ehf., hvorki sem stjórnarmaður né framkvæmdastjóri. Í því fælist brot gegn 20. gr. laga nr. 70/1996 sem og reglum stefnda nr. 9.2.14 og þannig skaðað trúverðugleika stefnda. Þá hefði aðkoma áfrýjanda að málefnum Skólabrúar ehf. falið í sér alvarlegt brot gegn 14. gr. laga nr. 70/1996 um að starfsmanni beri að forðast nokkuð það sem varpað geti rýrð á starf eða starfsgrein sem hann vinni við. Var áfrýjanda gefinn kostur á að koma að andmælum áður en uppsögn yrði ráðin. Áfrýjandi veitti andmæli með bréfi lögmanns síns 16. október 2013 þar sem hann ítrekaði fyrri andsvör og gerði athugasemdir við hversu óljóst væri um markaðar forsendur fyrir málsmeðferð stefnda með tilliti til laga nr. 70/1996. Með bréfi 23. október 2013 sagði stefndi áfrýjanda upp störfum. Var í upphafi vísað til fyrra bréfs stefnda 8. sama mánaðar og þess að hann hefði ekki haft vitneskju um munnlega heimild Ólafs Ísleifssonar, frá honum sjálfum, til handa áfrýjanda sem hafi auk þess verið veitt á þeirri forsendu að Skólabrú ehf. hefði aðeins með höndum eignaumsjón og útleigu fasteignar. Þá hafi orðið grundvallarbreyting á rekstri félagsins á árinu 2007 er það seldi hlut í fasteign sinni og fór í umfangsmiklar fjárfestingar með gjaldeyri, verðbréf og aðra fjármálagerninga, svo sem framvirka samninga um kaup á hlutabréfum. Þá sagði: „Við þær aðstæður varð sjálfstætt og ærið tilefni af yðar hálfu, sbr. 20. gr. laga nr. 70/1996 ... og reglur nr. 9.2.14 ... og grunnrök þeirra ákvæða, til að leita eftir heimild bankans til að koma að þessari starfsemi. Slíkri beiðni hefði umsvifalaust verið synjað af hálfu bankans líkt og varð raunin þegar þér seint og síðar meir, 2. apríl 2012, óskuðuð eftir slíkri heimild að undangenginni ábendingu til yðar þar að lútandi í tölvupósti aðallögfræðings bankans til yðar 21. mars 2012. Aðallögfræðingur bankans komst að þessari aðkomu yðar við vinnslu á fruminnherjalista bankans til Fjármálaeftirlitsins vegna aukinna krafna þess á þeim tíma. Þá er nefnt í bréfi lögmanns yðar að sú stjórnsýsla að segja yður nú upp störfum standist ekki reglur starfsmannaréttar og stjórnsýsluréttar að því virðist af þeirri ástæðu að það var ekki gert samhliða framangreindri synjun bankans á því að heimila yður aðkomu að Skólabrú ehf. Hér verður að hafa tvennt í huga. Annars vegar tilurð þess að bankinn áttaði sig á aðkomu yðar að rekstri Skólabrúar ehf. en tildrög þess eru rakin hér að framan. Það voruð því ekki þér sem komuð þessum upplýsingum til bankans að fyrra bragði. Í öðru lagi er ljóst að sú staðreynd að ekki var gripið til uppsagnar strax getur ekki valdið því að bankinn hafi að lögum misst uppsagnarrétt við það. Við bætist í því sambandi að mun ítarlegri upplýsingar um alla aðkomu yðar að Skólabrú ehf., viðskipti félagsins, umfang þeirra og samskipti við Virðingu hf. og Landsbanka Íslands hf. komu fram í dómum sem féllu á þessu ári, annars vegar Hæstaréttar 14. febrúar 2013, og hins vegar héraðsdóms 10. júní 2013.“ Hefði stefndi vald til þess að reisa uppsögn sína á þeim lagagrundvelli sem vísað hafi verið til í bréfinu 8. október 2013. Jafnframt var vísað til þess að í andmælabréfi áfrýjanda 16. október sama ár hefði ekki verið vikið að 14. gr. laga nr. 70/1996 og því bæri að líta svo á að ávirðingum samkvæmt þeirri grein væri ómótmælt. Loks sagði: „Með vísan til framangreinds, sem og bréfs bankans 8. október sl., er það mat bankans að þér hafið brotið gróflega gegn trúnaðarskyldum yðar í starfi. Það er því niðurstaða bankans að segja yður upp störfum á grundvelli þeirrar heimildar sem leiðir af 43. gr. laga nr. 70/1996, ráðningarsamningi yðar, dags. 1. desember 2000, og almennum grundvallarreglum vinnuréttar og opinbers starfsmannaréttar um stjórnunarrétt yfirboðara.“ Voru áfrýjanda jafnframt greidd laun út uppsagnarfrest samkvæmt kjarasamningi, en ekki óskað eftir vinnuframlagi hans á uppsagnarfrestinum. Áfrýjandi höfðaði mál þetta 17. mars 2014 og er málsástæðum og lagarökum málsaðila lýst í hinum áfrýjaða dómi. V Svo sem fram er komið óskaði aðallögfræðingur stefnda eftir því við áfrýjanda, þegar unnið var að gerð nýs lista um fruminnherja í bankanum í mars 2012, að hann gerði grein fyrir tengslum sínum við Skólabrú ehf. Áfrýjandi lýsti þeim tengslum og starfsemi félagsins. Hann gat þess einnig að frá 2007, eftir að félagið seldi fasteign sem það átti hlut í með umtalsverðum hagnaði, hefðu verkefni þess breyst og þá hefði það farið út í fjárfestingar, meðal annars á verðbréfamarkaði. Hann gerði einnig grein fyrir því að mest af fjármunum félagsins hefði tapast og að félagið ræki eitt mál fyrir dómstólum vegna ágreinings um fjárfestingar og líklegt væri að til annars slíks yrði stofnað. Að framan er einnig gerð grein fyrir því að bankastjóri stefnda hafi með bréfi 16. apríl 2012 hafnað beiðni áfrýjanda um leyfi til að sitja í stjórn félagsins og gert kröfu til þess að hann segði sig úr stjórninni hið fyrsta. Í því bréfi kom fram að bankastjóranum væri kunnugt um framangreind atvik er vörðuðu félagið. Stefndi reisir rétt sinn til að segja áfrýjanda upp störfum á því að eftir að endanlegir dómar gengu í þeim tveimur dómsmálum, sem Skólabrú ehf. var aðili að, í febrúar og júní 2013 hefðu komið fram upplýsingar sem verulega þýðingu hefðu haft. Stefndi bendir í því sambandi á að fram hafi komið í fyrsta lagi að félagið hafi stundað gjaldeyrisviðskipti, í öðru lagi að félagið hafi gert framvirkan samning um kaup á hlutafé og í þriðja lagi að áfrýjandi hafi í raun verið í fyrirsvari fyrir félagið í viðskiptum þess, en ekki Sigtryggur Eyþórsson eins og áfrýjandi hefði upplýst bankann um. Auk þess taldi stefndi að hann hefði ekki fyrirgert rétti sínum til að bera fyrir sig ætluð brot áfrýjanda í starfi, sem honum var kunnugt um í mars og apríl 2012, þótt hann hafi hvorki áminnt hann þá né sagt upp ráðningarsamningi við hann. Stefndi telur að áfrýjandi hafi brotið 20. gr. laga nr. 70/1996 með því að upplýsa ekki um tengsl sín við Skólabrú ehf. og störf sín í þágu þess. Hann hafi einnig brotið gegn reglum nr. 9.2.14, sem áður er getið, með framangreindum störfum. Jafnframt hafi hann brotið 14. gr. síðastnefndra laga með háttsemi sinni. Sér hafi því verið heimilt samkvæmt 43. gr. laganna að segja áfrýjanda upp störfum. Þegar eftir því var óskað í mars 2012 að áfrýjandi gerði grein fyrir tengslum sínum við Skólabrú ehf. varð hann við því, auk þess sem hann gerði grein fyrir breytingum á starfsemi félagsins sem urðu á árinu 2007 og áföllum sem það hafði orðið fyrir, auk málaferla sem voru hafin og að hluta í burðarliðnum. Viðbrögð stefnda við þessu urðu þau að skipa áfrýjanda að segja sig úr stjórn félagsins, sem gekk eftir. Meðal annars með hliðsjón af þýðingu reglna um verkanir tómlætis í vinnurétti verður ekki á það fallist með stefnda að hann hafi einu og hálfu ári síðar, í október 2013, getað gripið til frekari úrræða vegna þeirra brota, sem áfrýjandi upplýsti um í mars 2012. Stefndi hefur borið fyrir sig að uppsögnin hafi jafnframt verið reist á þremur atriðum, sem falið hafi í sér brot áfrýjanda á starfsskyldum sínum og hann hafi fyrst fengið vitneskju um á miðju ári 2013. Í fyrsta lagi gjaldeyrisviðskipti áfrýjanda fyrir hönd Skólabrúar ehf. Í málinu er upplýst að þau fólust í kaupum á evrum að jafnvirði 20.000.000 krónur á árinu 2007 þegar til stóð að félagið tæki þátt í fasteignakaupum í Póllandi. Fyrir liggur að af þeim kaupum varð ekki og að félagið hagnaðist verulega á því að eiga þennan erlenda gjaldeyri. Þá liggur fyrir að félagið fékk erlendan gjaldeyri vegna sölu á hlutafé og var hann lagður inn á reikning þess. Í öðru lagi bendir stefndi á að komið hafi í ljós að Skólabrú ehf. hafi gert framvirkan samning um kaup á hlutafé og er upplýst að um var að ræða einn slíkan samning um kaup á hlutafé í erlendu félagi. Í þriðja lagi hafi komið í ljós að áfrýjandi hafi í raun verið í fyrirsvari fyrir Skólabrú ehf. í þeim viðskiptum sem félagið stundaði frá árinu 2007. Fallist er á með stefnda að framangreind gjaldeyrisviðskipti og fyrirsvar áfrýjanda fyrir Skólabrú ehf. hafi verið nýjar upplýsingar, sem honum hafi ekki mátt vera að fullu kunnar á árinu 2012, og að þessi atriði hafi falið í sér brot áfrýjanda á starfsskyldum hans. Er fallist á að hann hafi brotið 14. gr. laga nr. 70/1996 með því að eiga þau gjaldeyrisviðskipti sem áður greinir og brotið 20. gr. sömu laga með því að upplýsa ekki nægilega um fyrirsvar sitt fyrir félagið. Brot þessi, sem felld verða undir 21. gr. laganna, veittu stefnda ekki rétt til þess að segja áfrýjanda upp störfum á grundvelli 43. gr. þeirra án undangenginnar áminningar, sbr. 44. gr. þeirra. Verður því fallist á með áfrýjanda að uppsögnin hafi verið ólögmæt og hann eigi af þeim sökum rétt til skaðabóta úr hendi stefnda. Fjárhæð skaðabótakröfunnar reisir áfrýjandi annars vegar á niðurstöðu tryggingafræðings um núvirði þeirra launagreiðslna, miðað við mars 2014, sem áfrýjandi hefði haft hjá stefnda ef hann hefði haldið áfram störfum þar út starfsævina eins og hann hefði mátt búast við ef til uppsagnarinnar hefði ekki komið. Útreikningurinn er miðaður við 2% ársvexti, en til lækkunar koma þekktar upplýsingar um lífs- og örorkulíkur miðað við aldur áfrýjanda. Frá þeirri fjárhæð dregur áfrýjandi niðurstöðu dómkvadds manns um þau laun og atvinnuleysisbætur, sem líklegt er að áfrýjandi fengi það sem eftir er starfsævi hans. Bendir áfrýjandi á að útreikningur þessi sé reistur á sambærilegum forsendum og útreikningur á bótum fyrir varanlega örorku. Þótt fallast megi á að slíkur útreikningur geti haft þýðingu við mat á fjárhæð skaðabóta í máli þessu verður að taka tillit til þess að starfsöryggi áfrýjanda hjá stefnda sætir takmörkunum, eins og starfsöryggi annarra hjá íslenska ríkinu eða stofnunum þess. Er sérstaklega tekið fram í 44. gr. laga nr. 70/1996 að heimilt sé, án áminningar, að segja starfsmanni upp ef uppsögn á rætur að rekja til annarra ástæðna en greindar eru í 21. gr. laganna, svo sem þeirrar að verið sé að fækka starfsmönnum vegna hagræðingar í rekstri stofnunar. Jafnframt verður að taka tillit til þess við ákvörðun skaðabóta að áfrýjandi braut af sér í starfi, eins og getið hefur verið, þótt brotin hafi ekki verið svo alvarleg að réttlætt hafi fyrirvaralausa uppsögn. Ber hann því sjálfur nokkra ábyrgð á tjóni sínu. Með hliðsjón af þessum atriðum verða áfrýjanda dæmdar skaðabætur að álitum eins og í dómsorði greinir. Dráttarvextir verða dæmdir frá 4. janúar 2015, en þá var liðinn mánuður frá því að áfrýjandi lagði fram nýja kröfugerð reista á þeim gögnum, sem hann aflaði undir meðferð málsins og vísað hefur verið til, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001. Með hliðsjón af úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti og er við ákvörðun á fjárhæð hans tekið tillit til kostnaðar af matsgerð og annars útlagðs kostnaðar. Dómsorð: Stefndi, Seðlabanki Íslands, greiði áfrýjanda, Hallgrími Ólafssyni, 3.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. janúar 2015 til greiðsludags. Stefndi greiði áfrýjanda samtals 2.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Sératkvæði Ólafs Barkar Þorvaldssonar I Ég er samþykkur því sem fram kemur í köflum I-IV í atkvæði meirihlutans, en mál þetta snýst einkum um hvort stefndi hafi mátt segja áfrýjanda upp störfum án þess að honum hafi áður verið veitt áminning samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. II Stefndi er opinber stofnun og um hann gilda sérstakar reglur, meðal annars um þátttöku starfsmanna í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja. Samkvæmt 2. mgr. 25. gr., sbr. p. lið 28. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands, sbr. áður 2. mgr. 25. gr., sbr. m. lið 28. gr. laganna, ber stefnda að setja reglur um þátttöku starfsmanna í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja. Í samræmi við það var í ráðningarsamningi áfrýjanda tekið fram að um starfskjör hans, réttindi og skyldur skyldi fara eftir „kjarasamningi, ákvæðum laga og reglum fyrir starfsmenn Seðlabankans.“ Var jafnframt tiltekið að „skuldbinding um ástundun, þagnarskyldu o.fl.“ fylgdi á sérstöku blaði sem skyldi undirrita. Loks sagði: „Brot í starfi varðar áminningu eða brottvikningu ef um ítrekuð brot eða veruleg er að ræða.“ Við ráðningu áfrýjanda voru í gildi reglur stefnda frá 23. júní 1993 um meðferð trúnaðarupplýsinga og verðbréfa- og gjaldeyrisviðskipti starfsmanna, en síðar tóku við hliðstæðar reglur með sama heiti nr. 831/2002 frá 28. nóvember 2002, sem birtar voru í Stjórnartíðindum. Samkvæmt 3. gr. reglnanna taka þær til skráðra verðbréfa- og gjaldeyrisviðskipta. Sem dæmi um trúnaðarupplýsingar samkvæmt reglunum, sbr. 4. gr., eru nefnd vitneskja um vaxtabreytingar, breytingar á gengi gjaldmiðla, málefni einstakra fjármálastofnana, aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum og tölfræðilegar upplýsingar um einstaklinga eða lögaðila. Þá segir í 5. gr.: „Eins og að framan greinir er starfsmönnum Seðlabanka Íslands óheimilt að eiga sjálfir viðskipti fyrir sig eða aðra eða hvetja til viðskipta með verðbréf og gjaldeyri búi þeir yfir eða hafi aðgang að trúnaðarupplýsingum sem líklegar eru til þess að hafa áhrif á markaðsverð þeirra. Bann þetta þýðir að starfsmenn Seðlabankans mega ekki kaupa, selja eða hvetja til kaupa eða sölu verðbréfa eða gjaldeyris, hvort sem er fyrir eigin reikning eða þriðja manns (t.d. fjölskyldu eða vina), þegar hlutaðeigandi starfsmenn búa yfir trúnaðarupplýsingum.“ Samkvæmt 10. gr. reglnanna skal tilkynna bankastjórn stefnda, nú seðlabankastjóra,um brot á reglunum sem geti, eftir eðli og umfangi brots, beitt án fyrirvara ákvæðum í kjarasamningi starfsmanna um fyrirvaralausa brottvikningu úr starfi áður en brot sé kært til hlutaðeigandi yfirvalda. Loks er skírskotað til þess að tilraun og hlutdeild til brota á reglunum væru refsiverðar eftir því sem segir í almennum hegningarlögum. Til viðbótar framangreindu tóku gildi 18. júní 2001 sambærilegar innri reglur stefnda nr. 9.2.14 um heimild starfsmanna stefnda til setu í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja. Voru þær einnig settar samkvæmt 25. gr., sbr. m. lið þágildandi 28. gr. laga nr. 36/2001, staðfestar af bankaráði stefnda 14. júní 2001 og munu þær hafa verið birtar á vefsíðu stefnda og í svokallaðri regluhandbók frá október það ár. Í 1. gr. þeirra segir: „Bankastjórnin veitir starfsmönnum ekki í neinum tilvikum leyfi til þess að taka sæti í stjórn eða varastjórn fyrirtækja eða stofnana, sem starfa fyrst og fremst á sviði fjármálastarfsemi, verðbréfaviðskipta, verðbréfasjóða, eignarleigustarfsemi eða fyrirtækja sem hafa að markmiði starfsemi sem jafna má til slíkrar fjármálastarfsemi, nema slíkt sé boðið í lögum eða reglugerð settri skv. þeim.“ Þá segir í 2. gr. að „í öðrum tilvikum en greinir í 1. gr. skulu starfsmenn fyrirfram leita leyfis bankastjórnar til setu í stjórn eða varastjórn fyrirtækis.“ Einnig segir í 4. gr. að án leyfis bankastjórnar megi starfsmenn stefnda hvorki starfrækja atvinnurekstur né vera umboðsmenn annarra gagnvart stefnda. III Af því sem rakið er í atkvæði meirihlutans verður ráðið að grundvallarbreyting varð á rekstri Skólabrúar ehf. á árinu 2007 er félagið hóf umfangsmiklar fjárfestingar með gjaldeyri, verðbréf og aðra fjármálagerninga, svo sem með framvirkum samningum um kaup á hlutabréfum. Var aðkoma áfrýjanda að málefnum Skólabrúar ehf. frá þeim tíma í brýnni andstöðu við þau lög og reglur sem giltu um starfsemi stefnda. Af gögnum málsins verður ráðið að áfrýjandi hafi vitað um fyrrgreindar reglur stefnda og að hann hafi ekki viljað að þessi starfsemi sín yrði kunnug stefnda, eins og má álykta meðal annars af endurriti símtals áfrýjanda við fyrirsvarsmann Virðingar hf. 31. janúar 2008. Voru því svör áfrýjanda til stefnda 23. mars og 2. apríl 2012 um ókunnugleika sinn í þessum efnum sannanlega fyrirsláttur sem og tilvísun hans til heimildar frá fyrrum yfirmanni sínum. Samkvæmt gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að stefndi hafi fyrst komist á snoðir um starfsemi Skólabrúar ehf. eftir að regluvörður stefnda ritaði áfrýjanda, sem fruminnherja, bréf 21. mars 2012 með fyrirspurn um félagið og tengsl hans við það. Voru svör áfrýjanda 23. mars og 2. apríl 2012 við þessari fyrirspurn fjarri því fullnægjandi. Þannig skýrði hann ekki frá gjaldeyriskaupum félagsins sem skiluðu því um 9.900.000 krónum í hagnað. Þá skýrði hann ekki frá því að félagið hafði gert framvirkan samning við Landsbanka Íslands hf. vegna kaupa á hlutum í Atlantic Petroleum P/F á fyrirfram ákveðnu verði í dönskum krónum. Einnig gerði áfrýjandi meira en rétt var úr þætti Sigtryggs Eyþórssonar við rekstur Skólabrúar ehf. en mun minna úr sínum þætti í starfsemi félagsins sem hann var í raun í fyrirsvari fyrir. Auk framanritaðs tiltók áfrýjandi í bréfi sínu 2. apríl 2012 að „engin raunverulegur rekstur hefur verið í félaginu frá 1992, aðeins sýslan með eignir og skuldir.“ Var það í samræmi við þessa fullyrðingu að áfrýjandi vísaði til framangreindrar 2. gr. reglna stefnda nr. 9.2.14, með ósk um heimild til áframhaldandi setu í stjórn Skólabrúar ehf. Fallast má á að stefnda hefði á þessum tíma borið að hefja markvissa rannsókn á málefnum áfrýjanda í stað þess að bíða eftir niðurstöðu í dómsmálunum tveimur sem rakin eru í kafla II í atkvæði meirihlutans. Á hinn bóginn er ég ekki sammála meirihluta dómenda um að stefndi hafi með þessu sýnt af sér slíkt tómlæti að honum hafi ekki verið unnt án áminningar að beita þeim vanefndaúrræðum sem hann síðar beitti. Er þá einkum litið til þess að háttsemi áfrýjanda átti sér stað nokkrum árum áður, auk þess sem tafir á afgreiðslu stjórnsýslumáls valda að öllu jöfnu ekki ógildingu stjórnvaldsákvörðunar. Þá fól bréf bankastjóra stefnda 16. apríl 2012 eftir efni sínu einungis í sér neikvætt svar við beiðni áfrýjanda um setu í stjórn Skólabrúar ehf. Að þessu gættu verður fallist á forsendur héraðsdóms um að miða verði við að áfrýjandi hafi ekki með hliðsjón af atvikum öllum mátt gera ráð fyrir því að hann héldi starfi sínu hjá stefnda, eða telja framangreint svarbréf stefnda 16. apríl 2012 við erindi sínu vera endanlega niðurstöðu í lögboðinni athugun á brotum sínum. Við þá rannsókn er hófst 28. júní 2013 gaf áfrýjandi áfram rangar upplýsingar, meðal annars í bréfi degi síðar, um að hann hefði aldrei haft aðgang að trúnaðarupplýsingum hjá stefnda sem hann hefði getað nýtt í verðbréfa-, gjaldeyris-, og afleiðuviðskiptum Skólabrúar ehf. Er þetta ekki í samræmi við lýsingar yfirmanna hans, sem raktar eru í héraðsdómi. Einnig skýrði áfrýjandi rangt frá um gjaldeyriskaup Skólabrúar ehf. um framvirka samninga félagsins og um þátt sinn í rekstri þess, sem var verulegur. Þegar litið er til atvika máls og hinna sérstöku laga og reglna er gilda um starfsemi stefnda, sem áfrýjandi gekkst undir í ráðningarsamningi sínum og vísað var til við meðferð málefna hans, verður ekki dregið í efa það mat stefnda að honum hafi borið að segja áfrýjanda upp störfum eigi síðar en þegar fyrir lágu með óyggjandi hætti upplýsingar um umfang og eðli brota áfrýjanda. Verður því eins og hér háttar til ekki talið að ákvæði laga nr. 70/1996 leiði til þess að stefndi hefði ekki mátt ganga lengra en að áminna áfrýjanda að lokinni rannsókn á málefnum hans. Tel ég að staðfesta eigi hinn áfrýjaða dóm með þessum athugasemdum en með vísan til forsendna hans að öðru leyti. Eftir þessum úrslitum tel ég einnig rétt að áfrýjanda verði gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2014. Mál þetta, sem dómtekið var 4. desember 2014, var höfðað með stefnu útgefinni 4. mars 2014 af Hallgrími Ólafssyni, Digranesheiði 28, 200 Kópavogi, á hendur Seðlabanka Íslands Kalkofnsvegi 1, 150 Reykjavík. I. Stefnandi gerir þær dómkröfur: Stefndi krefst þess aðallega að verða sýknaður af kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar stórkostlega. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda að mati réttarins. Í upphaflegri kröfugerð var stefnufjárhæð stefnanda 47.605.000 kr., en við upphaf aðalmeðferðar lýsti lögmaður stefnanda yfir lækkun stefnufjárhæðar í þá fjárhæð sem kemur fram hér að framan. II. Málsatvik Málavextir eru þeir að stefnandi hóf störf hjá Seðlabanka Íslands 1. desember 2000 í Alþjóða- og markaðsdeild bankans. Forstöðumaður deildarinnar, Ólafur Ísleifs­son, annaðist ráðningu stefnanda og gerði stefnandi honum grein fyrir því að hann gegndi starfi framkvæmdastjóra Skólabrúar ehf., eignar­halds­félags, væri stjórnarformaður félagsins, sem aðeins ætti fasteign og um væri að ræða eignaumsjón og útleigu. Stjórnarsetan og framkvæmdastjórastarfið væru ólaunuð og unnin utan vinnutíma í Seðlabankanum. Ólafur Ísleifsson gaf stefnanda í kjölfar ráðningar munnlegt leyfi til þess að koma að starfsemi félagsins. Haustið 2006 sameinuðust peningamálasvið og alþjóðasvið stefnda. Á þeim tíma hafði stefnandi ásamt öðrum starfsmönnum sviðsins með höndum það verkefni að skrá gengi og vexti, fylgjast með mörkuðum og hafa símasamband við svokallaða viðskiptavaka. Á árinu 2007 seldi Skólabrú ehf. fasteign sína í Pósthússtræti og notaði félagið söluandvirðið til þess að fara út í fjárfestingar, meðal annars á verðbréfamarkaði, með gjaldeyri og framvirka samninga um kaup á hlutabréfum. Stefnandi var þá framkvæmdastjóri, stjórnarformaður og eigandi 30% hlutafjár í félaginu. Í október 2008 starfaði stefnandi við að svara fyrirspurnum sem bárust símleiðis og var nokkrum mánuðum síðar færður í starf er varðaði lánamál ríkisins. Þar sinnti stefnandi daglegri fyrirgreiðslu í formi verðbréfalána til aðalmiðlara með ríkisskuldabréf. Hinn 21. mars 2012 vakti Sigríður Logadóttir, aðallögfræðingur stefnda, athygli stefnanda á reglum stefnda nr. 9.2.14 um heimild starfsmanna Seðlabanka Íslands til setu í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja. Hafði þá aðallögfræðingurinn komist að aðkomu stefnanda að félaginu Skólabrú ehf. en það gerðist við vinnslu hennar á fruminnherjalista bankans í kjölfar tilkynninga stefnda og staðfestingar og útfyllingar stefnanda er að því laut í desember 2011. Í tilkynningu stefnanda kom fram að Skólabrú ehf. væri fjárhagslega tengd honum og að hann væri stjórnarformaður félagsins. Stefnandi var síðan beðinn um að gera bankastjóra og regluverði grein fyrir félaginu og starfsemi þess. Stefnandi sendi aðallögfræðingi bankans tölvupóst 22. mars 2012 og gerði grein fyrir samskiptum við Ólaf Ísleifsson vegna málsins við ráðningu sína árið 2000. Hann kvað sér ekki hafa verið kunnugt um 2. gr. reglu 9.2.14 fyrr en þá. Sama dag óskaði aðallögfræðingur bankans eftir því að stefnandi gerði frekari grein fyrir félaginu. Þar kom fram að Skólabrú ehf. hefði eftir sölu fasteignar félagsins að Pósthússtræti 17 farið út í fjárfestingar, m.a. á verðbréfamarkaði. Þá kom fram að félagið ætti í deilum við Slitastjórn Landsbankans og Verðbréfafyrirtækið Virðingu. Mál hafi verið höfðað gegn slitastjórninni og líklegt væri að bæði málin færu fyrir dómstóla. Í kjölfarið sótti stefnandi um leyfi til seðlabankastjóra til setu í stjórn félagsins þann 2. apríl 2012. Þeirri málaleitan hafnaði seðlabankastjóri með bréfi 16. apríl 2012 og lagði fyrir stefnanda að segja sig úr stjórn félagsins sem stefndi síðan gerði daginn eftir. Dómar gengu í tveimur dómsmálum Skólabrúar ehf., annars vegar gegn LBI hf. 14. febrúar 2013 og hins vegar gegn Virðingu ehf. 10. júní sama ár, sem báðir voru birtir opinberlega. Urðu dómar þessir tilefni þess að stefnandi var kallaður á fund seðlabankastjóra þann 28. júní 2013 og honum afhent bréf undirritað af seðlabankastjóra og regluverði bankans. Í bréfinu kemur fram að þann 10. júní 20013 hafi gengið dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í málinu E-198/2012: Skólabrú ehf. gegn Virðingu hf. og dómurinn birtur á vefsíðu héraðsdómsins þann 26. júní sl. Í dóminum komi fram upplýsingar um aðkomu stefnanda að verðbréfa-, gjaldeyris- og afleiðuviðskiptum Skólabrúar á árunum 2007 og 2008, sem framkvæmdastjóri Skólabrúar ehf. og jafnframt starfsmaður Seðlabanka Íslands á sama tíma. Vísað var síðan til 5. gr. reglna stefnda nr. 831/2002 um meðferð trúnaðarupplýsinga og verðbréfa- og gjaldeyrisviðskipti starfsmanna. Þess var óskað af hálfu stefnda að stefnandi tæki sér tímabundið leyfi frá störfum á launum frá 28. júní 2013 á meðan athugað væri hvort stefnandi hefði gerst brotlegur í starfi við lög og starfsreglur stefnda. Síðan fór í gang rannsókn af hálfu stefnda á málinu og var m.a. aflað gagna frá utanaðkomandi aðilum sem stefnandi hafði veitt heimild til að afla gagna frá. Stefndi ritaði stefnanda bréf þann 8. október 2013 sem afhent var á fundi þann 10. október 2013 þar sem rökstutt var að ekki fengist betur séð en að stefnandi hefði brotið gróflega gegn 14. og 20. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem og gegn reglum Seðlabankans nr. 9.2.14 frá 18. júní 2011 um heimild starfsmanna Seðlabanka Íslands til setu í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja, sem settar voru með stoð í 2. mgr. 25. gr., sbr. 28. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands. Í bréfinu var tekið fram að til álita kæmi af hálfu stefnda að segja stefnanda upp störfum með vísan til þeirrar heimildar sem leiðir af 43. gr. laga nr. 70/1996, ráðningarsamningi stefnanda við stefnda, dags. 1. desember 2000, og almennum grundvallarreglum vinnuréttar og opinbers starfsmannaréttar um stjórnunarrétt yfirboðara. Stefnanda var síðan gefið færi á að gæta andmælaréttar síns áður en ákvörðun yrði tekin um uppsögn stefnanda. Var þess óskað að stefnandi sendi stefnda sjónarmið sín innan 10 daga frá dagsetningu bréfsins. Hið ótímabundna leyfi stefnanda stóð allt til þess að honum var sagt upp störfum með bréfi bankastjóra 23. október 2013. Hinn 16. október 2013 færði lögmaður stefnanda fram andmæli fyrir hans hönd. Með bréfi stefnda 23. október 2013 var rökstudd afstaða tekin til andmælanna og þeim vísað á bug. Í sama bréfi var tilkynnt sú ákvörðun stefnda að segja stefnanda upp störfum. Í bréfi stefnda kemur fram að það sé mat stefnda að stefnandi hafi brotið gróflega gegn trúnaðarskyldum í starfi sínu hjá stefnda og það væri niðurstaða stefnda að segja stefnanda upp störfum á grundvelli 43. gr. laga nr. 70/1999. Tekið var fram að stefnandi ætti sex mánaða uppsagnarfrest og myndu laun verða gerð upp miðað við 1. nóvember 2013 auk áunnins en ótekins orlofs sem og annarra kjarasamningsbundinna greiðslna. Þá var tekið fram að ekki væri óskað eftir vinnuframlagi stefnanda á uppsagnarfresti. Lögmaður stefnanda ritaði stefnda bréf dags. 19. desember 2013 þar sem því var haldið fram að uppsögnin hefði verið ólögmæt að formi og efni. Var krafist skaða- og miskabóta úr hendi stefnda. Með bréfi stefnda til lögmanns stefnanda 9. janúar 2014 var öllum kröfum stefnanda hafnað. Í kjölfarið var mál þetta síðan höfðað af hálfu stefnanda. III. Málsástæður og lagarök stefnanda. Dómkrafa stefnanda felur í sér bætur sem nemi launum og öðrum réttindum þeim tengdum til 1. febrúar 2022. Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. starfsmannalaga mátti hann því treysta á að hann héldi starfi sínu fram að næstu mánaðamótum eftir að hann næði 70 ára aldri en stefnandi verður 70 ára 7. janúar 2022. Kröfugerðin er við það miðuð að stefnanda beri bætur sem nemi eingreiðsluverðmæti launa til 1. febrúar 2022, en sú fjárhæð er núvirt og afvöxtuð skv. útreikningi Bjarna Guðmunds­son­ar tryggingarstærðfræðings, en í þeim útreikningi sé að auki gert ráð fyrir bótum vegna tapaðra framlaga til lífeyrissjóða. Þá sé í útreikningnum gert ráð fyrir dánarlíkum. Niðurstaða Bjarna Guðmundssonar sé að eingreiðsluverðmæti launa til 1. febrúar 2022 sé 47.605.000 kr. Til frádráttar þessari fjárhæð kemur fjárhæð launa skv. mati dómkvadds matsmanna, Friðriks Más Baldurssonar prófessors, á fjárhæð launa eins og matsbeiðandi muni geta aflað sér frá atvinnurekendum og bætur frá opinberum aðilum sem ætlað er að bæta launamissi frá 1. maí 2014 til 7. janúar 2022, núvirt miðað við 1. febrúar 2014, 27.923.000 kr. Mismunur þessara niðurstaðna er stefnufjárhæðin 19.682.000 kr. Loks er krafist miskabóta vegna framgöngu stefnda í garð stefnanda sem hann telur fela í sér ólögmæta meingerð gegn æru sinni og persónu. Fjárhæð miskabótakröfu styðst við dómafordæmi. Krafist er vaxta frá þeim degi er liðinn var einn mánuður frá því að stefnandi krafði stefnda um bætur vegna uppsagnarinnar. Dómkrafa stefnanda sundurliðast nánar svona: Laun kr. 41.408.000- Framlög til lífeyrissjóða kr. 3.197.000- Miskabætur kr. 3.000.000- Samtals kr. 47.605.000- Stefnandi telur að brottrekstur hans sé ólögmætur og að með framgöngu sinni hafi stefndi brotið gegn stjórnsýslulögum og starfsmannalögum ásamt ýmsum ólögfestum reglum stjórn­sýslu­réttar. Stefnandi hafi sem starfsmaður stefnda án vafa notið stöðu almenns starfsmanns samkvæmt ákvæðum starfsmannalaga. Hann hafi því notið réttinda og borið skyldur í samræmi við I. hluta laga nr. 70/1996. Í lögunum sé kveðið á um það í 21. gr. að ef atvinnurekandi telur að starfs­maður hafi „sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi, hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða athafnir í því eða utan þess þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu skal forstöðumaður stofn­unar veita honum skriflega áminningu. Áður skal þó gefa starfsmanni kost á að tala máli sínu ef það er unnt.“ Í 44. gr. starfsmannalaga sé svo kveðið á eftirfarandi: „Skylt er að veita starfs­manni áminningu skv. 21. gr. og gefa honum færi á að bæta ráð sitt áður en honum er sagt upp störfum ef uppsögn á rætur að rekja til ástæðna sem þar eru greindar. Annars er ekki skylt að gefa starfsmanni kost á að tjá sig um ástæður uppsagnar áður en hún tekur gildi, þar á meðal ef uppsögn stafar af öðrum ástæðum, svo sem þeirri að verið sé að fækka starfs­mönnum vegna hagræðingar í rekstri stofnunar.“ Enginn vafi sé á því að af hálfu stefnda sé uppsögn stefnanda á því byggð að hann hafi brotið gegn skyldum sínum gagnvart atvinnu­rekanda sínum. Um þetta nægi að vísa til framsetningar stefnda í uppsagnarbréfi til stefnanda. Þegar svona standi á að mati atvinnurekanda beri að fella málsmeðferð í þann farveg sem áðurnefnd 44. gr. starfsmannalaga geri ráð fyrir. Þessa skyldu hafi stefndi hundsað. Málsmeðferðin sé því ólögmæt og standist ekki ákvæði starfsmannalaga. Fyrir liggi að auki að stefnandi hafði ekki áður hlotið áminningu þannig að þá grundvallarforsendu uppsagnar skorti. Þá byggir stefnandi á því að brottrekstur hans úr starfi frá stefnda sé ólögmætur með því að ekki hafi verið gætt reglna stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um að stefnandi skyldi njóta andmælaréttar. Stefnandi telur að af ferli málsins og efni þeirra bréfa sem hér skipta máli, þ.e. bréfs stefnda frá 8. október 2013, andmælabréfsins og svo bréfs stefnda frá 23. október 2013, uppsagnarbréfsins, sé augljóst að andmælabréfið sé eingöngu sett fram til að láta líta svo út sem verið sé að gæta andmælaréttar. Bersýnilegt sé að þá þegar hefur verið afráðið að segja stefnanda upp störfum. Kjarni andmælaréttar stjórnsýslulaga sé rétturinn til að koma á framfæri athugasemdum á því stigi máls að stjórnvald geti í ljósi athugasemdanna tekið ákvörðun sína. And­mælaréttur sé ekki ætlaður til þess að stjórnvald geti þóst bera undir þann sem ákvörðun beinist að, það sem þegar hefur verið afráðið. Hitt sé svo enn verra að stefnandi átti þess aldrei kost að gæta andmælaréttar vegna þess að stefndi hafi í raun aldrei skilgreint nákvæmlega í hverju hin meintu trúnaðarbrot stefnanda eigi að vera fólgin. Ef manni borið á brýn að hafa gerst brotlegur við reglur eða, eins og í þessu tilviki, brotið af sér í starfi, verði að gera þá kröfu að hann njóti raunverulegs andmælaréttar og að stjórnvaldið skilgreini skýrlega í hverju brotið sé fólgið. Þá nægi ekki að vísa til almennra sjónarmiða um hugsan­lega óheppilega hagsmunaárekstra eða dylgja um meint trúnaðarbrot. Stjórnvaldið verði að kveða upp úr um það skýrt og skilmerkilega í hverju brotið sé fólgið. Að öðrum kosti sé andmælarétturinn gagnslaus og einungis veittur í orði en ekki á borði. Stefnandi byggir heimild sína til þess að segja stefnanda upp störfum á þeirri lögfestu stjórnunarheimild forstöðumanns í 43. gr. stml. að geta sagt starfsmanni upp störfum skv. heimild í ráðningarsamningi. Þessi réttur forstöðumanns (opinbers atvinnurekanda), sem feli í sér meðferð opinbers valds, sæti hins vegar mikilvægum takmörkunum skv. 44. gr. stml. svo og reglum stjórnsýslulaga og almennum reglum stjórnsýsluréttar. Dómaframkvæmd sé afdráttarlaus um þennan skilning sem og álit umboðsmanns Alþingis. Af þessu leiði m.a. að ef grundvöllur uppsagnar er brot starfsmanns á starfsskyldum hans eða að háttsemi hans er ósamrýmanleg starfi hans verði honum ekki sagt upp störfum nema að undangenginni áminningu, skv. 21. gr. stml. Fyrir liggur að stefnandi hafi ekki hlotið áminningu vegna starfa sinna fyrir stefnda. Uppsögn eða öllu heldur riftun stefnda á ráðningu stefnanda hafi því þegar af þessari ástæðu verið ólögmæt einsog ítrekað hefur verið staðfest í dómum Hæstaréttar. Stefnandi byggir á því að skilyrði þess að slíta ráðningarsamningi stefnanda með þeim hætti sem stefndi kaus hafi ekki verið til staðar. Skilmálum þeim sem þurfa að vera til staðar til þess að ljúka starfssambandi á grundvelli starfsmannalaga var ekki fullnægt. Í álitum umboðsmanns hefur ítrekað verið bent á að 21. gr. stml. geymi svo almenna tilvísun til einstakra brota að frekar eigi að fella tilvik undir greinina en ekki. Stefndi hafi því ekki sýnt fram á að uppsögn á ráðningarsamningi stefnanda hafi byggst á lögmætum grundvelli. Á því er byggt af hálfu stefnanda að hann hafi í engu brotið gegn starfsskyldum sínum vegna starfa í þágu Skólabrúar ehf. Það er að mati stefnanda rangt að hann hafi látið undir höfuð leggjast að tilkynna yfirboðurum sínum um þessi aukastörf. Það liggi fyrir að stefnandi hafði feng­ið leyfi frá Ólafi Ísleifssyni til þess að gegna starfi framkvæmdarstjóra hjá félaginu. Síðar tilkomið mat stefnda að þau störf hafi verið ósamrýmanleg aðalstarfi hans og í andstöðu við 20. gr. stml. og reglur bankans geti ekki talist brott­rekstrarsök. Markmið 20. gr. stml. sé m.a. að koma í veg fyrir að upp komi hagsmuna­árekstrar í aðalstarfi vegna aukastarfs svo sem að koma í veg fyrir misnotkun á opinberu starfi, t.d. með því að upplýsingar séu hagnýttar á ólögmætan hátt og að aukastörf hafi að öðru leyti í för með sér brot á starfsskyldum starfsmanns. Engin þau tíðindi hafi orðið í rekstri Skóla­brú­ar ehf. frá því að stefnandi hóf störf hjá stefnda þar til gerð var athugasemd við aukastarf þetta í þágu Skólabrúar ehf. Sú athugasemd, sem hafi komið fram á útmánuðum 2012, hafi leitt til þess að stefndi hafnaði á þessum grundvelli ósk stefnanda um að sinna störfum í þágu félagsins 16. apríl 2012. Þá hafði stefnandi sinnt störfum í þágu Skólabrúar ehf. í aukastarfi um nær tólf ára skeið að fengnu leyfi Ólafs Ísleifssonar í öndverðu. Stefnandi verði ekki dreginn til ábyrgðar fyrir það ef misfarist hefur af hálfu stefnda að halda því leyfi til haga og upplýs­ing­um um starf stefnanda. Af ákvæðum 23. gr. þágildandi upplýsingalaga nr. 50/1996, leiddi að stefnda bar að sjá til þess að þessar upplýsingar væru skráðar, enda um að ræða ákvörðun um réttindi og skyldur stefnanda, sbr. 2. mgr. l. gr. stjórnsýslulaga. Gat stefnandi þannig ekki gert ráð fyrir öðru en að stefnda ætti að vera fullkunnugt um aukastörf hans og síst grundvallar það brott­rekstrarsök stefnanda hafi sú skráning farið úrskeiðis hjá stefnda. Ákvörðun stefnda um að taka framangreint mál upp að nýju í júnílok 2013, eða 14 mánuðum síðar, er því illskiljanleg þar sem engin skilyrði stóðu til þess. Ljóst sé að stefnandi gat ekki reiknað með öðru en að stefnda hefði verið kunnugt um starfsemi Skólabrúar ehf. í apríl 2012, sem m.a. fólst í verðbréfaviðskiptum og enn fremur um fyrirhuguð málaferli félagsins, eins og ráða megi af minnisblaði aðallögfræðings stefnda til seðlabankastjóra 10. apríl 2012 og ákvörðun stefnda um að banna stefnanda að sinna nefndu aukastarfi. Þau viðbrögð stefnda að rifta ráðningu stefnanda voru þannig ekki á nokkurn hátt í samræmi við rannsóknarskyldu hans og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Auk þess hafi hún brotið gegn afdráttarlausum fyrirmælum 1. mgr. 44. gr. starfsmannalaga sem áður greinir. Jafnframt er á því byggt að ákvörðun stefnda um að rifta ráðningu stefnanda hafi byggst á sama grundvelli og stefndi byggði á er hann bannaði stefnanda að sinna umræddu aukastarfi í apríl 2012. Engar málefnalegar ástæður hafa verið færðar fyrir því að stefndi hafi ákveðið að endurmeta algerlega á ný þýðingu nefndra aukastarfa fyrir störf stefnanda í þágu stefnda. Viðbrögð stefnda voru því ekki fyrirsjáanleg og stefnandi hafði ekki ástæðu til að búast við því að ráðningarsamningi hans yrði slitið 14 mánuðum síðar. Stefnandi var frá því að hann hóf störf hjá stefnda framkvæmdastjóri Skólabrúar ehf. til 28. desember 2009 er starf framkvæmdastjóra var lagt niður og hann tók við sem stjórnarformaður félagsins. Stefnandi sagði sig úr stjórn 16. apríl 2012 samkvæmt kröfu seðlabankastjóra. Í byrjun var Skólabrú ehf. skuldsett félag og eignir þess bundnar í lausafjármunum og starfandi veitingastað sem var í útleigu. Síðar eignaðist félagið hálfa fasteign. Um mitt ár 2007 hafi eignir Skólabrúar ehf. verið seldar fyrir reiðufé. Það reiðufé var notað til fjárfestinga á verðbréfamarkaði. Stjórnarformaður, Sigtryggur Eyþórsson, hafi séð um samskipti við verðbréfamiðlara enda vanur slíku og skilgreindur sem fagfjárfestir. Stefnandi sá um bókhald og hélt utan um stöðu eigna. Náin samvinna hafi verið milli aðila um fjárfestingar. Ekki verði séð að eðli félagsins hafi í neinu breyst á miðju ári 2007 og fráleitt að halda því fram að það hafi orðið að verðbréfafyrirtæki. Stefnandi hafi að auki sem starfsmaður Seðlabanka engan aðgang haft að markaðsupplýsingum umfram almenning, hvað þá að hann byggi yfir innherjaupplýsingum. Stefnandi byggir á því að rannsóknarregla stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórn­sýslu­laga, hafi verið brotin af stefnda við umfjöllun um málefni stefnanda. Stefnandi hafi margoft á fyrri stigum gert grein fyrir því að hann hafi, er hann var ráðinn til starfa hjá stefnanda í árslok 2000, látið vita af aðkomu sinni að Skólabrú ehf. Augljóst sé af uppsagnarbréfinu frá 23. október að af hálfu stefnda hafi enn engin rannsókn farið fram um þetta atriði. Vísun uppsagnarbréfsins til þess að stefndi fái fyrst með andmælabréfi stefnanda frá 16. október vitneskju frá Ólafi Ísleifssyni um samskipti þeirra við upphaf ráðningar sé fjarstæðukennd auk þess sem það sé ekki á ábyrgð stefnanda eins og áður var rakið. Annað tveggja hafi brugðist hjá stefnda; rétt varsla upplýsinga eða skyldan til að sinna rannsókn málsins en sú skylda hvíli á stefnda en ekki á stefnanda. Með synjunarbréfi bankastjóra frá 16. apríl 2012 vegna óskar stefnanda um formlegt leyfi til að koma að starfsemi Skólabrúar ehf. og kröfu bankans um afsögn stefnanda úr stjórn félagsins sem hann varð strax við, hafi því máli verið endanlega lokið. Stefndi geti ekki síðar tekið það mál upp að nýju og talið það geta haft áhrif á stöðu stefnanda. Til að svo mætti vera yrðu að hafa komið fram nýjar og afgerandi upplýsingar um brot eða óráðvendni af hálfu stefnanda. Engin slík atvik hafi verið tilgreind eða nefnd af hálfu stefnda. Með bréfi stefnda til stefnanda 23. október 2012 hafi honum verið sagt upp störfum á grundvelli þess sem nefnt sé gróf brot gegn trúnaðarskyldum í starfi. Af hálfu stefnda sé með uppsögn­inni ekki aðeins brotið gegn áðurnefndum reglum stjórnsýsluréttar um rannsóknarskyldu stjórnvalds og andmælarétt heldur sé einnig freklega brotið gegn málsmeðferðarreglum starfsmannalaga. Þrátt fyrir að málið varði uppsögn vegna meintra brota í starfi sé málið ekki lagt í þann farveg sem lögin geri ráð fyrir heldur byggt á einfaldri uppsagnarheimild með uppsagnarfresti. Með þessu brjóti stefndi gegn starfsmannalögum og leitist við að komast undan því að fella mál í viðeigandi farveg í þeim tilgangi að svipta starfsmann sinn rétti til að njóta þeirrar málsmeðferðar sem lögin geri ráð fyrir. Með þessu hafi stjórnendur bankans misfarið með opinbert vald sem þeim hafi verið treyst fyrir. Varðandi lagarök vísar stefndi til stjórnsýslulaga nr. 37/1993, til starfs­manna­laga nr. 70/1996 og til almennra reglna stjórnsýslu- og starfsmannaréttar. Um greið­slu­skyldu stefnda vísast til meginreglna skaðabótaréttar og vinnuréttar um réttar efndir ótíma­bundinna ráðning­ar­samn­inga. Um miskabætur vísast til 26. gr. laga nr. 50/1993. Kröfur um vexti og vaxtavexti styðjast við III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Málskostnaðarkrafa er byggð á 130. gr. laga um með¬ferð einkamála í héraði. Krafa um virðisaukaskatt á málflutnings­þókn­un styðst við lög nr. 50/1988. Stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og ber honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Málsástæður og lagarök stefnda Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að uppsögn stefnanda hafi í einu og öllu, að formi og efni, verið lögum samkvæmt og að stefndi hafi í engu brotið gegn „stjórnsýslulögum og starfsmannalögum og ýmsum ólögfestum reglum stjórnsýsluréttar“ líkt og stefnandi haldi fram. Stefndi hafnar því að fara hafi þurft með mál stefnanda eftir farvegi 44. gr., sbr. 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins á þann veg að áminna hafi þurft stefnanda áður en honum var sagt upp. Í fyrsta lagi hafi sú leið ekki verið tæk þar sem hin brotlega háttsemi stefnanda var fyrir löngu um garð gengin þegar stefnda varð um hana kunnugt og því hafi sú leið að áminna og gefa starfsmanninum „færi á að bæta ráð sitt“, eins og lagaákvæðið áskilur, engan veginn átt við í tilviki stefnanda. Í öðru lagi sé rétt að hafa í huga í þessu sambandi að stefndi sé opinber stofnun sérstaks eðlis og starfi m.a. á sviðum einkaréttar þar sem gæta verði sérstaklega að trúnaði. Vegna þessa eigi það einstaklega illa við að starfsmönnum sé gefinn kostur á „að bæta ráð sitt“ þegar undir eru þær trúnaðarskyldur sem á þeim hvíla. Í þriðja lagi hafi sjálfstæða heimild til uppsagnar í tilviki stefnanda, og í ljósi atvika og grófra brota stefnanda, leitt af 43. gr. laga nr. 70/1996, ráðningarsamningi, dags. 1. desember 2000, og almennum grundvallarreglum vinnuréttar og opinbers starfsmannaréttar um stjórnunarrétt yfirboðara. Þegar á þeim grundvelli hafi verið heimilt að segja stefnanda upp störfum líkt og gert hafi verið að gættum málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga. Þá sé því haldið fram af hálfu stefnanda að brotinn hafi verið andmælaréttur á honum í aðdraganda uppsagnarinnar, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þessu hafnar stefndi alfarið enda hafi stefnanda verið veittur skýr andmælaréttur með bréfi stefnda til stefnanda 8. október 2013 sem stefnandi hafi nýtt sér, sbr. bréf lögmanns hans 16. október 2013. Þá vísar stefndi á bug staðhæfingum stefnanda um að andmælabréfið hafi eingöngu verið sett fram til að „láta virðast“ sem gætt hafi verið andmælaréttar, að búið hafi verið að ákveða niðurstöðuna fyrir fram, eða að stefndi hafi „þóst“ vera að bera undir stefnanda það sem þegar hefði verið afráðið. Eins og bréf stefnda beri með sér sé þar rakið skýrlega hvað stefnanda sé borið á brýn og jafnframt tekið fram að „til álita“ komi að segja stefnanda upp störfum. Staðhæfingum um að stefndi hafi ekki skilgreint nákvæmlega í bréfinu 8. október 2013 í hverju hin meintu trúnaðarbrot fólust sé enn fremur hafnað enda séu þau atriði skilmerkilega tilgreind í bréfinu og vísað til viðeigandi réttarheimilda. Þá sé á því byggt af hálfu stefnanda í stefnu að hann hafi í engu brotið gegn starfsskyldum sínum vegna starfa í þágu Skólabrúar ehf. Þessu hafnar stefndi og telur að stefnandi hafi gerst brotlegur í starfi, eins og rakið hafi verið í uppsagnarbréfi hans. Þau brot hafi falist í því að hafa ekki, þegar grundvallarbreyting varð á starfsemi Skólabrúar ehf. á árinu 2007 við sölu fasteignar félagsins, sótt um leyfi til að koma að þeirri starfsemi félagsins sem það hafði þá með höndum. Á þeim tíma hafi félagið, eins og gögn málsins beri með sér, farið út í umfangsmiklar fjárfestingar með gjaldeyri, verðbréf og aðra fjármálagerninga, svo sem framvirka samninga um kaup á hlutabréfum, sem hafi verið algerlega ósamþýðanleg störfum stefnanda fyrir stefnda. Við þær aðstæður hafi hvílt á stefnanda sjálfstæð skylda, sbr. 20. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og reglur nr. 9.2.14 frá 18. júní 2001 um heimild starfsmanna Seðlabanka Íslands til setu í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja, og grunnrök þeirra ákvæða, til að leita eftir heimild stefnda til að koma að þessari starfsemi. Slíkri beiðni hefði umsvifalaust verið synjað af hálfu stefnda líkt og varð raunin þegar stefnandi seint og síðar meir, 2. apríl 2012, hafi óskað eftir slíkri heimild að undangenginni ábendingu til stefnanda þar að lútandi í tölvupósti aðallögfræðings stefnda til stefnanda 21. mars 2012. Hafa verði í huga í þessu sambandi að ef talið verði að Ólafur Ísleifsson hafi árið 2000 veitt stefnanda leyfi til aðkomu að starfsemi Skólabúar ehf. þá hafi það leyfi, af tölvupósti að dæma, aðeins verið veitt á þeim forsendum að Skólabrú ehf. hefði einvörðungu með höndum eignaumsjón og útleigu, ekki annað, og alls ekki umfangsmiklar fjárfestingar með gjaldeyri, verðbréf og aðra fjármálagerninga, svo sem framvirka samninga um kaup á hlutabréfum Í reglum nr. 9.2.14 segi í 1. lið að bankastjórn megi ekki í neinum tilvikum veita starfsmönnum leyfi til að taka sæti í stjórn eða varastjórn fyrirtækja eða stofnana, sem starfa fyrst og fremst á sviði fjármálastarfsemi, verðbréfaviðskipta, verðbréfasjóða, eignarleigustarfsemi eða fyrirtækja sem hafa að markmiði starfsemi sem jafna má til slíkrar fjármála­starfsemi, nema slíkt sé boðið í lögum eða reglugerð settri samkvæmt þeim. Þá segir í 2. lið að í öðrum tilvikum en greini í 1. lið skuli starfsmenn fyrir fram leita leyfis bankastjórnar til setu í stjórn eða varastjórn fyrirtækis. Loks segi í 4. lið að starfsmenn megi ekki án leyfis bankastjórnar starfrækja atvinnurekstur, en fyrir liggi af ársreikningum Skólabrúar ehf. að stefnandi átti og eigi enn 30% hlutafjár í Skólabrú ehf. Reglur þessar hafi, eins og áður segir, verið settar með stoð í 2. mgr. 25. gr., sbr. 28. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands. Þá leiði af 20. gr. laga nr. 70/1996 að ríkisstarfsmanni er óheimilt að hafa með höndum aukastörf sem ósamrýmanleg eru störfum ríkisstarfsmannsins. Átti það við um aðkomu stefnanda að rekstri Skólabrúar ehf. á árinu 2007 og síðar. Ljóst sé að stefnandi hafi með grófum hætti brotið gegn þessum reglum og grunnviðmiðum þeim er bjuggu þeim að baki en verndarhagsmunir þessara reglna séu mikilvægir og liður í því að skapa traust á stefnda sem seðlabanka og forða því að upp komi hætta á hagsmunaárekstrum, misnotkun trúnaðarupplýsinga o.s.frv. Stefndi byggir á því að aðkoma stefnanda að starfsemi Skólabrúar ehf. og þau viðskipti sem það félag hafði með höndum feli í sér alvarlegt brot gegn 14. gr. laga nr. 70/1996 þar sem m.a. er mælt fyrir um að ríkisstarfsmaður skuli forðast að hafast nokkuð það að í starfi sínu eða utan þess sem varpað geti rýrð á það starf eða starfsgrein sem hann vinnur við. Þannig hafi aðkoma stefnanda að þeirri starfsemi sem að framan greinir engan veginn farið saman við starf stefnanda hjá stefnda. Ljóst sé enn fremur af gögnum málsins, t.d. símtali við Friðjón Þórðarson starfsmann Virðingar ehf. 31. janúar 2008, að þetta hafi stefnandi verið fullkomlega meðvitaður um. Þá sé því haldið fram í stefnu að það hafi ekki verið í samræmi við lög að taka mál stefnanda til nánari skoðunar 14 mánuðum eftir að stefndi neitaði að heimila stefnanda aðkomu að Skólabrú ehf. Stefndi hafnar þessu og telur að sú staðreynd að ekki var gripið til uppsagnar strax í apríl 2012 geti ekki valdið því að stefndi hafi að lögum misst uppsagnarrétt við það á síðari stigum. Við bætist að stefnandi hafi aldrei upplýst stefnda um grundvallarbreytingar á umfangi og eðli umsvifa Skólabúar ehf., eins og áður er rakið, þrátt fyrir að tilefni væri til, heldur hafi stefndi komist að þessu með öðrum hætti. Þá sé ljóst að mun ítarlegri upplýsingar um alla aðkomu stefnanda að Skólabrú ehf., viðskipti félagsins, umfang þeirra og samskipti við Virðingu hf. og Landsbanka Íslands hf. hafi komið fram í dómum sem féllu á árinu 2013; annars vegar dómi Hæstaréttar Íslands þann 14. febrúar 2013, og hins vegar í dómi héraðsdóms þann 10. júní 2013, en þeir dómar hafi verið birtir opinberlega. Að gengnum þeim dómum hafi verið gripið til þess ráðs af hálfu stefnda, sem honum hafi verið fullkomlega heimilt, að rannsaka nánar aðkomu stefnanda að starfsemi Skólabrúar ehf. og starfsemina sjálfa sem hafi lokið með þeirri niðurstöðu að stefnanda var sagt upp störfum 23. október 2013. Loks sé því haldið fram af hálfu stefnanda að mál hans hafi ekki verið rannsakað nægjanlega með tilliti til 10. gr. stjórnsýslulaga. Þessu vísar stefndi alfarið á bug. Málið hafi verið ítarlega rannsakað eins og framlögð gögn með greinargerð stefnda, sem séu afsprengi rannsóknar stefnda, staðfesti. Stefndi byggir á því að uppsögn stefnanda hafi í einu og öllu verið lögmæt að formi og efni til. Þegar af þeirri ástæðu verði að sýkna stefnda af bótakröfum stefnanda. Þá er því sjálfstætt hafnað, hvað sem framangreindu líði, að stefnandi hafi orðið fyrir fjártjóni af völdum uppsagnarinnar. Enn fremur er því vísað á bug að framganga stefnda hafi falið í sér ólögmæta meingerð í garð stefnanda, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, svo að skilyrði til greiðslu miskabóta séu fyrir hendi. Beri því af þessum ástæðum einnig að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Stefndi krefst þess til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar stórkostlega. Ljóst sé að fjárhæð kröfu stefnanda vegna meints fjártjóns af völdum uppsagnarinnar sé fráleit og ekki í neinu samræmi við dómaframkvæmd. Verður meðal annars að horfa til þess að samkvæmt ráðningarsamningi aðila hafi gagnkvæmur uppsagnarfrestur verið þrír mánuðir en stefnandi hafi fengið laun í sex mánuði frá uppsögn. Þann tíma hafi hann enn fremur getað nýtt til að afla sér annarrar atvinnu enda hafi stefndi afþakkað vinnuframlag frá stefnanda á uppsagnarfresti. Með því hefði tjón hans ekkert orðið eða a.m.k. stórkostlega minna, en samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar hafi stefnanda borið að gera allt sem í hans valdi stóð til að takmarka tjón sitt. Ekkert bendir til annars en að stefnandi hafi getað og geti fengið vinnu við hæfi en hann sé menntaður viðskiptafræðingur frá HÍ, hann hafi útskrifast 1977, lokið prófi í verðbréfaviðskiptum og búi á höfuðborgarsvæðinu. Þá verður við ákvörðun bóta að taka tillit til atvinnuleysisbóta sem stefnandi eigi rétt á fái hann ekki vinnu. Þá vísar stefndi til þess að í dómaframkvæmd við aðstæður sem þessar hafi bætur verið metnar að álitum og þá stórkostlega miklu lægri og miðað við margfalt skemmri tíma en kröfugerð stefnanda geri ráð fyrir. Hafi þá í mesta lagi verið greiddar bætur sem nema nokkurra mánaða launum umfram uppsagnarfrest. Útreikningi Bjarna Guðmundssonar tryggingastærðfræðings, sem stefnandi hefur lagt fram, er mótmælt, og forsendum hans, bæði hvað varðar laun og framlög til lífeyrissjóða, sem og sönnunargildi hans í málinu, en útreiknings þessa var aflað einhliða af hálfu stefnanda án aðkomu stefnda. Þá er miskabótakröfu andmælt bæði á þeim grundvelli að engin lagaskilyrði séu til hennar sem og að fjárhæð hennar fái með engu móti staðist. Verði í versta falli að lækka hana stórkostlega. Þá er dráttarvaxtakröfu mótmælt, sem og upphafstíma hennar. Engin þau gögn liggi fyrir í málinu sem nægi til að taka afstöðu til talnalegra þátta kröfugerðar stefnanda. Að minnsta kosti hafi sá útreikningur sem stefnandi byggir kröfugerð sína á ekki legið fyrir fyrr en 14. mars 2014. Dráttarvextir geti að mati stefnda aldrei fallið á kröfu stefnanda, ef einhver telst, á fyrri tíma en frá dómsuppsögudegi. Loks er málskostnaðarkröfu stefnanda andmælt. Varðandi málskostnaðarkröfu vísar stefnandi til ákvæða XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. IV. Niðurstaða Stefnandi byggir á því að brottrekstur hans úr starfi hjá stefnda þann 23. október 2013 hafi verið ólögmætur og stefndi hafi við meðferð málsins brotið gegn stjórnsýslulögum, starfsmannalögum og ýmsum ólögfestum reglum stjórnsýsluréttar. Stefndi byggir á því að uppsögn stefnanda hafi í einu og öllu verið lögmæt að formi og efni til, stefnandi hafi brotið gróflega gegn trúnaðarskyldum sínum í starfi og þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefnda af bótakröfum stefnanda. Stefnandi gaf aðilaskýrslu við aðalmeðferð málsins. Jafnframt gáfu vitnaskýrslu starfsmenn stefnda og dómkvaddur matsmaður staðfesti matsgerð sína. Vikið verður að framburði vitna eftir því sem máli kann að skipta varðandi sönnunarfærslu í málinu. Óumdeilt er að um starfs- og ráðningarkjör stefnanda skyldi fara að lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í ráðningarsamningi stefnanda er tekið fram að um launa- og starfskjör svo og réttindi og skyldur fari eftir kjarasamningi og ákvæðum laga og reglna fyrir starfsmenn Seðlabanka Íslands. Samkvæmt 20. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins skal starfsmaður áður en hann hyggst, samhliða starfi sínu, taka við launuðu starfi í þjónustu annars aðila, ganga í stjórn atvinnufyrirtækis eða stofna til atvinnurekstrar skýra því stjórnvaldi, er veitti starfið, frá því. Innan tveggja vikna skal starfsmanni skýrt frá því ef áðurnefnd starfsemi telst ósamrýmanleg starfi hans og honum bannað að hafa hana með höndum. Þá segir í 14. gr. sömu laga að starfsmanni sé skylt að rækja starf sitt af alúð og samviskusemi í hvívetna og hann skuli forðast að hafast nokkuð það að í starfi sínu eða utan þess sem sé honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað geti rýrð á það starf eða starfsgrein er hann vinnur við. Í reglum Seðlabanka Íslands nr. 9.2.14 um heimild starfsmanna Seðlabanka Íslands til setu í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja, sem settar voru með hliðsjón af ákvæðum 25. gr., sbr. m-lið 28. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands, segir í lið 1 að bankastjórnin veiti starfsmönnum ekki í neinum tilvikum leyfi til þess að taka sæti í stjórn eða varastjórn fyrirtækja eða stofnana, sem starfi fyrst og fremst á sviði fjármálastarfsemi, verðbréfaviðskipta, verðbréfasjóða, eignarleigustarfsemi eða fyrirtækja sem hafi að markmiði starfsemi sem jafna megi til slíkrar fjármálastarfsemi, nema slíkt sé boðið í lögum eða reglugerð settri skv. þeim. Í 2. lið segir að í öðrum tilvikum en greinir í 1. lið skuli starfsmenn fyrir fram leita leyfis bankastjórnar til setu í stjórn eða varastjórn fyrirtækis. Loks segir í 4. lið að starfsmenn Seðlabanka Íslands megi ekki, án leyfis bankastjórnar, starfrækja atvinnurekstur né vera umboðsmenn annarra gagnvart bankanum. Í reglum Seðlabanka Íslands nr. 831/2002 um meðferð trúnaðarupplýsinga og verðbréfa- og gjaldeyrisviðskipti starfsmanna eru ítarleg ákvæði og er tilgangur reglnanna að tryggja að meðferð trúnaðarupplýsinga í Seðlabanka Íslands sé í samræmi við lög og reglur sem gildi á verðbréfamarkaði og ákvæði 1. og 2. mgr. 35. gr. laga um bankann nr. 36/2001. Í 4. gr. reglnanna er getið helstu trúnaðarupplýsinga sem geti legið fyrir í Seðlabankanum, þ.e. vitneskja um vaxtabreytingar, vitneskja um breytingar á gengi gjaldmiðla, vitneskja um málefni einstakra fjármálastofnana og vitneskja um aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum. Í 5. gr. reglnanna segir síðan að starfsmönnum bankans sé óheimilt að eiga sjálfir viðskipti fyrir sig eða aðra eða hvetja til viðskipta með verðbréf og gjaldeyri búi þeir yfir eða hafi aðgang að trúnaðarupplýsingum sem líklegar séu til þess að hafa áhrif á markaðsverð þeirra. Síðan segir að bann þetta þýði að starfsmenn Seðlabankans megi ekki kaupa, selja eða hvetja til kaupa eða sölu verðbréfa eða gjaldeyris, hvort sem er fyrir eigin reikning eða þriðja manns (t.d. fjölskyldu eða vina), þegar hlutaðeigandi starfsmenn búi yfir trúnaðarupplýsingum. Stefnandi byggir á því að hann hafi sem starfsmaður stefnda engan aðgang haft að markaðsupplýsingum umfram almenning, hvað þá að hann hafi búið yfir innherjaupplýsingum. Þá hafi hann, þegar hann hóf störf í Alþjóða- og markaðsdeild stefnda í október 2000, gert forstöðumanni deildarinnar grein fyrir því að hann gegndi starfi framkvæmdastjóra Skólabrúar ehf. og væri stjórnarformaður. Hann hafi gert Ólafi grein fyrir starfsemi Skólabrúar ehf. sem væri eignaumsjón og útleiga fasteignar í eigu félagsins. Ólafur Ísleifsson gaf vitnaskýrslu við aðalmeðferð og staðfesti að stefnandi hefði greint sér frá því að stefnandi ætti í félaginu og það hafi starfsmenn á alþjóðasviði vitað. Ólafur kvað stefnanda ekki hafa óskað formlega eftir leyfi til að sinna þessum störfum samhliða starfi sínu hjá stefnda, ef svo hefði verið, þá hefði hann borið það undir lögfræðinga stefnda. Ef sér hefði verið kunnugt um að félagið væri í viðskiptum með fjármálagernina, gjaldeyri og verðbréf hefði hann ekki leyft það og borið það undir lögfræðinga bankans. Starfsmenn stefnda, sem unnu með stefnanda og gáfu vitnaskýrslur við aðalmeðferð, báru allir að stefnandi hefði haft aðgang að trúnaðarupplýsingum sem engan veginn hafi getað samrýmst því að hann væri jafnframt framkvæmdastjóri félags eins og Skólabrúar ehf., sem hafi verið í umfangsmiklum fjárfestingum með gjaldeyri, verðbréf og aðra fjármálagerninga, svo sem framvirka samninga um kaup á hlutabréfum. Gerður Ísberg, aðstoðarframkvæmdastjóri á alþjóðamarkaðssviði Seðlabanka Íslands, lýsti í vitnaskýrslu sinni því að haustið 2006, þegar peningamálasvið og alþjóðasvið stefnda voru sameinuð, hafi stefnandi verið í því að skrá gengi og vexti og fylgjast með mörkuðum, hafa samband við viðskiptavaka og svo framvegis. Stefnandi hafi haft aðgang að öllum þeim upplýsingum sem þau hafi haft og verið í samskiptum við viðskiptavaka. Deildin hafi verið í litlu rými og stefnandi hafi tekið þátt í innandeildarumræðu um gengi og gjaldeyrismarkað. Í október 2008 hafi stefnandi verið settur í sérverkefni og síðan í lánamálin, en hann hafi áfram verið í þessu opna rými og getað fylgst með umræðum. Þarna hafi verið á ferðinni miklar og viðkvæmar trúnaðarupplýsingar. Vitnið kvaðst hafa vitað að stefnandi ætti hluta í fasteign sem hafi verið í útleigu, en ekki hafa vitað um söluna á henni fyrr en dómur gekk í máli Skólabrúar ehf. gegn Virðingu hf. Í tölvupósti vitnisins, dags. 9. júlí 2013, til Sigríðar Logadóttur, aðallögfræðings stefnda, sem vitnið staðfesti fyrir dómi, kemur fram að Sigtryggur, sem starfað hafi með stefnanda í Skólabrú ehf. hafi hringt nánast daglega í stefnanda. Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta og fjárstýringar stefnda, lýsti í vitnaskýrslu sinni með sama hætti og Gerður aðgangi stefnanda að trúnaðarupplýsingum. Vitnið kvaðst hafa verið yfirmaður stefnanda 2007 – 2008. Verkefni peningamála- og alþjóðasviðs hafi verið að sjá um erlend bankaviðskipti ríkissjóðs við bankakerfið og hafa umsjón með gjaldeyrismarkaði og peningamarkaði. Stefnandi hafi gegnt mismunandi verkefnum í þessari vinnu sem hafi verið að skrá vexti, halda utan um gjaldeyrismarkað og hafa samband við viðskiptavaka, en þeir annist kaup- og sölutilboð á gjaldeyri og hafi einkarétt á viðskiptum með íslenskar krónur. Þarna hafi verið um miklar trúnaðarupplýsingar að ræða sem ekki væru veittar öðrum en starfsmönnum stefnda. Mikið upplýsingaflæði hafi verið á sviðinu og hafi stefnandi haft aðgang að öllum þessum upplýsingum. Vitnið kvaðst hafa vitað að stefnandi ætti hlut í fasteign í gegnum félag, en ekki hafa vitað af sölu fasteignarinnar fyrr en dómur í Virðingarmáli hafi gengið í héraðsdómi sumarið 2013 og birtur var opinberlega á vefsíðu dómstólsins. Þar hafi komið fram virk þátttaka stefnanda í virkum viðskiptum á gjaldeyris- og skuldabréfamarkaði og hann hafi því sent dóminn til lögfræðings bankans þar sem slæmt væri fyrir orðspor stefnda að upplýst væri um starfsmann bankans í sambandi við markaðsaðila. Björgvin Sighvatsson, hagfræðingur og forstöðumaður lánamála ríkisins, gaf vitnaskýrslu við aðalmeðferð. Vitnið kvað stefnanda hafa verið undirmann sinn frá árinu 2009. Stefnandi hafi haft aðgang að ýmsum trúnaðarupplýsingum og mörg viðkvæm mál verið í umferð. Vitnið kvað sér hafa verið kunnugt um einhver tengsl stefnanda við Skólabrú ehf., en hann hafi ekki vitað annað en að um væri að ræða eignaumsjón og útleigu á fasteign. Það hafi því komið sér sem næsta yfirmanni stefnanda í opna skjöldu þegar hann fékk að vita að félagið stundaði starfsemi með fjármálagerninga. Þá hafi stefnandi ekki sagt sér frá því að félagið stæði í málaferlum við tvö fjármálafyrirtæki og það væri mikill trúnaðarbrestur, vitnið yrði að geta treyst starfsmönnum sínum 100% og fordæmi stefnanda hafi ekki getað gengið upp. Meðal annars hafi Skólabrú ehf., í viðskiptum við Landsbankann í ágúst 2008, gert framvirkan hlutafjársamning um kaup í fyrirtækinu Atlantic petrolium, samningurinn hafi verið í dönskum krónum og sett hafi verið að handveði innistæða á evrugjaldeyrisreikningi. Á sama tíma hafi stefnandi verið að vinna á gjaldeyrisborði stefnda sem sé ótrúlegt. Því hafi stefnandi brotið gróflega trúnað gagnvart sér sem næsta yfirmanni sínum. Sigríður Logadóttir, aðallögfræðingur stefnda, gaf vitnaskýrslu við aðalmeðferð og kvaðst fyrst hafa fengið vitneskju um tengsl stefnanda við Skólabrú ehf. er hún vann að gerð lista yfir fruminnherja í mars 2012. Vitnið hafi með tölvupósti 21. mars 2012 bent stefnanda á reglur 9.2.14 um heimild starfsmanna Seðlabanka Íslands til setu í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja. Í tölvupósti 23. mars 2012 hafi stefnandi gert grein fyrir aðkomu sinni að Skólabrú ehf. og starfsemi félagsins. Beiðni stefnanda um setu í stjórn Skólabrúar ehf. hafi síðan verði hafnað með bréfi bankastjóra 16. apríl sama ár og stefnandi sagt sig úr stjórninni daginn eftir. Þá hafi verið litið svo á að þessu máli hafi verið lokið án þess þó að stefnanda væri tilkynnt það. Í júní 2013 hafi í kjölfar héraðsdóms í máli Skólabrúar ehf. gegn Virðingu hf. komið í ljós að stefnandi hafi ekki, í tölvupósti frá 23. mars 2012, skýrt rétt frá starfsemi Skólabrúar ehf. og störfum sínum fyrir félagið samhliða starfi sínu hjá stefnda. Sér og samstarfsmönnum hafi verið brugðið og ekki dottið í hug að starfsmaður myndi haga sér með þessum hætti, trúnaðarbresturinn væri slíkur að ekki væri grundvöllur fyrir því að hann héldi áfram störfum hjá stefnda. Stefnandi hafi verið leystur frá störfum meðan rannsókn hafi farið fram. Rannsóknin hafi leitt í ljós að sagan hafi ekki verið sögð öll í mars 2012, viðskipti Skólabrúar ehf. hafi verið mun umfangsmeiri og trúnaðarbrestur væri svo alvarlegur að ekki væri hægt að fela stefnanda annað starf í bankanum. Ekki hefði verið hægt að beita áminningu vegna fimm ára gamals máls, það hefði ekki haft neina þýðingu. Ákveðnar reglur gildi um starfsmenn stefnda og vegna sérstöðu sinnar verði stefndi að gæta að orðspori sínu brjóti starfsmenn gegn þeim reglum. Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að grundvallarbreyting varð á starfsemi Skólabrúar ehf. er félagið seldi hlut sinn í fasteign félagsins árið 2007. Áður hafi starfsemin að mestu verið fólgin í eignaumsjón og útleigu húsnæðis og skv. framburði Ólafs Ísleifssonar, framkvæmdastjóra alþjóðasviðs, sem gaf vitnaskýrslu við aðalmeðferð, var það ástæðan fyrir því að hann gerði ekki athugasemd við tengsl stefnanda við félagið er stefnandi var ráðinn í desember árið 2000. Vitnið kvaðst hins vegar myndi hafa borið það undir lögfræðinga stefnda hefði sér verið kunnugt um að Skólabrú ehf. væri í viðskiptum með fjármálagerninga, gjaldeyri og verðbréf. Eftir sölu Skólabrúar ehf. á hlut sínum í fasteign fór félagið út í umfangsmiklar fjárfestingar með gjaldeyri, verðbréf og aðra fjármálagerninga, svo sem framvirka samninga um kaup á hlutabréfum. Viðskipti félagsins við Virðingu hf. og LBI hf., áður Landsbanka Íslands hf., svo og aðkoma stefnanda að þeim viðskiptum, eru rakin í dómum sem féllu ár árinu 2013, annars vegar dómi Hæstaréttar Íslands frá 14. febrúar 2013 nr. 30/2013, Skólabrú ehf. gegn LBI hf. og dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2013 í málinu nr. 198/2012, Skólabrú ehf. gegn Virðingu hf. Í kjölfar þessara dóma og þess að upplýst var um aðkomu stefnanda að þeim viðskiptum sem þar voru rakin var af hálfu stefnda óskað eftir því að stefnandi tæki sér tímabundið leyfi frá störfum á launum frá 28. júní 2013 á meðan athugað væri hvort hann hefði gerst brotlegur í starfi við lög og starfsreglur stefnda. Við yfirferð á því sem fram kemur í fyrrgreindum héraðsdómi og skýringum stefnanda í tölvupósti til aðallögfræðings stefnda þann 23 mars 2012 liggur fyrir að stefnandi hafi ekki gert fullnægjandi grein fyrir starfsemi Skólabrúar ehf. og aðkomu sinni að viðskiptum félagsins í fyrrgreindum tölvupósti. Í rannsókn, sem fram fór af hálfu stefnda á starfsemi Skólabrúar ehf. og aðkomu stefnanda að starfseminni eftir að þessir dómar lágu fyrir, komu fram upplýsingar, m.a. í símtölum sem aflað var frá Virðingu hf. með samþykki stefnanda og rituð voru upp og lögð fram í málinu. Um er að ræða símtal stefnanda við Friðjón Þórðarson hjá Virðingu hf. þann 31.janúar 2008 og sömu aðila þann 4. apríl 2008. Ekki verður annað ráðið af símtali stefnanda 31. janúar 2008 en að hann hafi viljað að þessi viðskipti færu leynt. Þá kemur fram í símtali Sigtryggs R. Eyþórssonar frá Skólabrú ehf. og Friðjóns Þórðarson hjá Virðingu hf. að Sigtryggur skýrir frá spá stefnanda um breytingu á vöxtum sem hafi staðist. Stefnandi byggir á því að meðeigandi sinn í Skólabrú ehf., Sigtryggur Eyþórsson, stjórnarformaður félagsins, hafi séð um kaup og sölu verðbréfa og annast samskipti við miðlara. Í gögnum málsins verður ekki annað séð en að stefnandi hafi talsvert komið að þessum málum. Í tölvupósti vitnisins, Gerðar Ísberg, dags. 9. júlí 2013, til Sigríðar Logadóttur, aðallögfræðings stefnda, sem vitnið staðfesti fyrir dómi, kemur fram að Sigtryggur hafi hringt nánast daglega í stefnanda. Í greinargerð stefnanda kemur fram að stefnandi hafi séð um bókhald Skólabrúar ehf. og haldið utan um stöðu og eignir og að náin samvinna hafi verið milli aðila um fjárfestingar. Telja verður sannað með hliðsjón af vitnaskýrslum starfsmanna stefnda við aðalmeðferð, sem raktar hafa verið, og annarra gagna, að stefnandi hafi haft aðgang að margvíslegum trúnaðargögnum og upplýsingum í starfi sínu hjá stefnanda og að sá aðgangur hafi engan veginn verið samrýmanlegur aðkomu hans að rekstri Skólabrúar ehf. Í skýrslum þessara vitna er ítarlega gerð grein fyrir störfum þeim sem stefnandi sinnti og hvaða trúnaðarupplýsingar voru honum aðgengilegar. Með hliðsjón af þessu verður að telja að þegar grundvallarbreyting varð á starfsemi Skólabrúar ehf. við sölu fasteignarfélagsins á árinu 2007, hafi stefnandi gerst brotlegur í starfi sínu hjá stefnda með því að hafa ekki sótt um leyfi til þess að koma að þeirri starfsemi félagsins sem það hafði þá með höndum. Telja verður að starfsemi þessi hafi verið algerlega ósamþýðanleg störfum stefnda. Fram kemur í vitnaskýrslum starfsmanna stefnda að það hafi komið þeim í opna skjöldu þegar uppvíst varð um víðtæka fjármálastarfsemi Skólabrúar ehf. með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í júní 2013. Samkvæmt vitnaskýrslu Ólafs Ísleifssonar verður litið svo á að hann hafi heimilað aðkomu stefnanda að Skólabrú ehf. á þeim forsendum að félagið hefði aðeins með höndum eignaumsjón og útleigu. Stefnanda bar því á árinu 2007, þegar grundvallarbreytingar urðu á starfsemi Skólabrúar ehf., sbr. 20. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og reglur nr. 9.2.14 frá 18. júní 2001 um heimild starfsmanna Seðlabanka Íslands til setu í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja, að leita eftir heimild stefnda til að koma að þessari starfsemi. Slíkri beiðni hefði umsvifalaust verið hafnað af hálfu stefnda þar sem í reglum nr. 9.2.14 er í 1. lið mælt fyrir um að bankastjórn megi ekki í neinum tilvikum veita starfsmönnum leyfi til að taka sæti í stjórn eða varastjórn fyrirtækja eða stofnana, sem starfa fyrst og fremst á sviði fjármálastarfsemi, verðbréfaviðskipta, verðbréfasjóða eða eignarleigustarfsemi eða fyrirtækja sem hafa að markmiði starfsemi sem jafna má til slíkrar fjármálastarfsemi, nema slíkt sé boðið í lögum eða reglugerð settri samkvæmt þeim. Það var síðan ekki fyrr en þann 2. apríl 2012 að stefnandi óskaði eftir slíkri heimild að undangenginni ábendingu til stefnanda þar að lútandi frá aðallögfræðingi stefnda til stefnanda 21. mars 2012. Aðkoma stefnanda að rekstri Skólabrúar ehf. var stefnanda óheimil, sbr. 20. gr. laga nr. 70/1996 þar sem mælt er fyrir um að ríkisstarfsmanni sé óheimilt að hafa með höndum aukastörf sem eru ósamrýmanleg störfum ríkisstarfsmannsins. Telja verður með hliðsjón af því sem rakið hefur verið að stefnandi hafi með aðkomu að viðskiptum Skólabrúar ehf. brotið gróflega gegn trúnaðarskyldum sínum í starfi sínu hjá stefnda og þetta feli í sér alvarlegt brot gegn 14. gr. laga nr. 70/1996, en þar er mælt fyrir um að ríkisstarfsmaður skuli forðast að hafast nokkuð það að í starfi sínu sem utan sem varpað geti rýrð á það starf og starfsgrein sem hann vinnur við. Stefndi sagði stefnanda upp starfi hjá stefnda á grundvelli 43. gr. laga nr. 70/1996, ráðningarsamningi stefnda, dags. 1. desember 2000 og almennum grundvallarreglum vinnuréttar og opinbers starfsmannaréttar um stjórnunarrétt yfirboðara. Stefnandi byggir á því að uppsögnin hafi verið ólögmæt, sér hafi ekki verið veitt áminning, sbr. 44. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en þar segir að skylt sé að veita starfsmanni áminningu skv. 21. gr. og gefa honum færi á að bæta ráð sitt áður en honum er sagt upp störfum ef uppsögn á rætur að rekja til ástæðna sem þar eru greindar. Stefndi hafnar því að fara hefði þurft með mál stefnanda eftir farvegi 44. gr., sbr. 21. gr. laga nr. 70/1996. Telja verður þrátt fyrir ákvæði 44. gr. fyrrgreindra laga að áminning hafi ekki átt við þar sem hinni brotlegu háttsemi stefnanda hafði lokið um fimm árum áður en stefnda varð kunnugt um hana. Þannig átti sú leið að áminna starfsmanninn ekki við í tilviki stefnanda. Í því sambandi verður ekki hjá því komist að líta til þess að stefndi er sérstök opinber stofnum sem starfar m.a. á sviðum einkaréttar og vegna eðlis starfseminnar er mjög brýnt að fyllsta trúnaðar sé gætt og trúverðugleiki stefnda sé varðveittur. Telja verður að sérstaða stefnda sé mikil vegna þeirra mikilvægu ákvarðana sem þar eru teknar, m.a. varðandi þróun gengismála og vaxtaákvarðanir. Fyrir liggur að stefnandi braut gróflega trúnaðarskyldur sínar gagnvart stefnda og yfirmönnum sínum. Fram kemur í vitnaskýrslu Björgvins Sighvatssonar, næsta yfirmanns stefnanda, að stefnandi hafi algjörlega brotið trúnað gagnvart Björgvini, hann hafi leynt aðkomu sinni að viðskiptum Skólabrúar ehf. og því að hann stæði í málaferlum við tvö fjármálafyrirtæki. Slíkt væri fordæmi sem væri óverjandi í starfi stefnanda. Þá kom fram í vitnaskýrslu aðallögfræðings stefnda, Sigríðar Logadóttur, að ekki hafi verið grundvöllur fyrir því að stefnandi héldi starfi sínu eftir svo alvarlegan trúnaðarbrest og ekki hefði komið til greina að setja stefnanda í annað starf hjá stefnda. Í því sambandi skiptir máli að fyrrgreindir dómar Héraðsdóms Reykavíkur og Hæstaréttar Íslands voru birtir opinberlega og það hefði augljóslega skaðað trúverðugleika stefnda að starfsmaður sem brotið hefði af þér með þessum hætti væri áfram í starfi hjá stefnda. Samkvæmt því sem rakið hefur verið og með hliðsjón af atvikum öllum og grófum trúnaðarbrotum stefnanda, 43. gr. laga nr. 70/1996 og ráðningarsamningi stefnanda frá 1. desember 2000, verður fallist á að stefnda hafi verið heimilt hafi að segja stefnanda upp án þess að honum væri veitt áminning. Stefnandi byggir einnig á því að uppsögn sín hafi verið ólögmæt þar sem ekki hafi verið gætt andmælaréttar, andmælabréf frá stefnda hafi eingöngu verið sett fram til að „láta virðast“ sem gætt hafi verið andmælaréttar. Þá hafi ekki verið tiltekið með skýrum hætti í hverju hin meintu trúnaðarbrot hafi falist. Ekki verður á þetta fallist. Í bréfi stefnda, dags. 8. október 2013, var stefnanda tilkynnt að til athugunar væri að segja honum upp störfum og honum gefinn kostur á að koma að andmælum. Í bréfi stefnda er með skýrum hætti gerð grein fyrir því í hverju hin ætluðu trúnaðarbrot felist og með bréfi, dags. 16. október 2013, til stefnda kom lögmaður stefnanda andmælum hans á framfæri. Stefnandi byggir á því að það hafi ekki verið í samræmi við lög að taka mál hans til skoðunar að nýju 14 mánuðum eftir að honum var synjað um heimild til setu í stjórn Skólabrúar ehf. þann 16. apríl 2013. Fram kemur í vitnaskýrslu Sigríðar Logadóttur, aðallögfræðings stefnda, að þá hafi verið litið svo á að málinu væri lokið þar sem stefnandi hafði sagt sig úr stjórn Skólabrúar ehf., félagið búið að tapa flestum eignum sínum og ekki hafi þá verið tilefni til að hefja frekari rannsókn. Stefnanda hafi aftur á móti ekki verið tilkynnt að málinu væri lokið. Allt önnur staða hafi hins vegar verið uppi þegar fyrrgreindur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur lá fyrir í júní 2013. Með hliðsjón af þessu verður ekki fallist á að óheimilt hafi verið að taka mál stefnanda að nýju til skoðunar á grundvelli hinna nýju upplýsinga um þau atriði er fram komu í fyrrgreindum héraðsdómi. Þá mátti stefnandi, með hliðsjón af atvikum öllum, ekki gera ráð fyrir því að hann héldi áfram starfi sínu hjá stefnda. Jafnframt er hafnað þeirri málsástæðu stefnanda að mál hans hafi ekki verið rannsakað nægilega með tilliti til 10. gr. stjórnsýslulaga. Ítarleg rannsókn fór fram á máli stefnanda eins og fram kemur í framlögðum gögnum áður en ákvörðun var tekin um uppsögn stefnda. Þá verður ekki talið að tilvísun stefnanda í 23. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, um að Ólafi Ísleifssyni hafi borið að skrá leyfi stefnanda til að hafa aðkomu að rekstri og stjórn Skólabrúar ehf., breyti einhverju í þessu sambandi.. Ekki var um formlegt samþykki að ræða skv. vitnisburði Ólafs Ísleifssonar, en vitnið kvað flestum á alþjóðasviði hafa verið kunnugt um aðkomu stefnanda að Skólabrú ehf. sem hafi þá falist í eignaumsjón og útleigu. Stefnandi gerir í máli þessu kröfu um miskabætur með vísan til 26. gr. laga nr. 50/1993. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að framganga stefnda við meðferð máls þessa hafi á einhvern hátt falið í sér ólögmæta meingerð gegn æru eða persónu stefnanda og er kröfu stefnanda því hafnað sem órökstuddri. Með vísan til alls þess sem rakið hefur verið ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Rétt þykir með hliðsjón af atvikum að málskostnaður falli niður. Dóminn kveður upp Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari. Dómsorð: Stefndi, Seðlabanki Íslands, er sýkn af kröfu stefnda, Hallgríms Ólafssonar. Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 773/2017
Líkamstjón Skaðabótamál Fyrirvari Uppgjör Samningur Varanleg örorka Örorkumat
A slasaðist þegar bifreið var ekið yfir fót hennar í janúar 2014. Í júní 2015 greiddi V hf. henni bætur á grundvelli álitsgerðar læknis og lögmanns sem þá lá fyrir, en þeir töldu að slysið hefði ekki haft í för með sér varanlega starfsorkuskerðingu fyrir A. Tók A við bótunum með fyrirvara um mat á varanlegri örorku og aflaði í kjölfarið álits örorkunefndar á afleiðingum slyssins, sem komst að þeirri niðurstöðu að varanleg örorka hennar væri 10%. Höfðaði A þá mál á hendur V hf. til heimtu frekari bóta. Deildu aðilar bæði um gildi fyrirvarans sem A hafði gert við bótauppgjörið og hvort leggja bæri niðurstöðu örorkunefndar til grundvallar. Héraðsdómur taldi að fyrirvari A hefði verið fullgildur og að leggja bæri álit örorkunefndar til grundvallar niðurstöðu um varanlega örorku hennar. Var krafa A því tekin til greina. Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu héraðsdóms að leggja bæri álit örorkunefndar til grundvallar í málinu. Hvað fyrirvarann varðaði vísaði Hæstiréttur til þess að í honum hefði falist nýtt tilboð af hálfu A þess efnis að hún samþykkti ekki uppgjörið að því er laut að varanlegri örorku. Yrði að leggja til grundvallar að V hf. hefði samþykkt það tilboð. Þá hefði uppgjörið farið fram að teknu tilliti til fyrirvarans sem hefði verið ótvíræður og skýr. Hefði uppgjöri vegna líkamstjóns A því ekki verið lokið að því er laut að varanlegri örorku. Var hinn áfrýjaði dómur samkvæmt því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og ViðarMár Matthíasson og Valtýr Sigurðsson fyrrverandi ríkissaksóknari.Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. desember 2017. Hann krefst sýknuaf kröfu stefndu og aðallega málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en tilvara að hann verði látinn niður falla.Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðarfyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.Stefnda slasaðist er bifreið var ekiðyfir hægri fót hennar 22. janúar 2014. Áfrýjandi, sem veitt hafði lögboðnaábyrgðartryggingu vegna bifreiðarinnar, viðurkenndi bótaábyrgð vegna þesslíkamstjóns sem stefnda varð fyrir í slysinu. Leitað var álits tveggjasérfræðinga, bæklunarskurðlæknis og lögmanns, um mat á tímabundnum ogvaranlegum afleiðingum slyssins fyrir stefndu og skiluðu þeir áliti 24. maí2015. Þeir töldu að slysið hefði haft tilgreindar tímabundnar afleiðingar fyrirstefndu og mátu varanlegan miska 15 stig. Í ljósi takmarkaðrar atvinnuþátttökustefndu síðustu árin fyrir slys var það niðurstaða þeirra að það hefði ekkihaft í för með sér varanlega starfsorkuskerðingu fyrir hana. Í kjölfar þessararniðurstöðu sendi áfrýjandi tölvubréf 11. júní 2015 til lögmanns stefndu þar semupplýst var um bótatilboð af hálfu félagsins, en það var reist á niðurstöðu íáliti framangreindra sérfræðinga. Bótatilboðinu svaraði lögmaður stefndu meðtölvubréfi samdægurs svo, að hann samþykkti tilboðið, en bætti við að hann hefðisett ,,fyrirvara á mati v/varanlegar örorku“. Á blaði sem bar yfirskriftina,,Fullnaðaruppgjör“ og dagsett var sama dag var undirritun fyrir hönd stefndu,en þar fyrir neðan var ritað: ,,Með fyrirvara um varanlega örorku“. Átjónskvittun 12. júní 2015, sem áfrýjandi gaf út og undirrituð var eingöngu afstarfsmanni hans, kom fram: ,,Lögmaður tjónþola undirritar uppgjör meðfyrirvara um varanlega örorku.“ Stefnda beiddist 14. apríl 2016 álitsörorkunefndar á afleiðingum slyssins og var niðurstaða nefndarinnar meðalannars sú að varanleg örorka hennar vegna þess væri 10%.Aðila greinir í fyrsta lagi á um gildiþess fyrirvara, sem stefnda gerði við bótauppgjörið í júní 2015 og í öðru lagi,ef talið verður að fyrirvarinn hafi þau réttaráhrif sem stefnda heldur fram, umþað hvort leggja beri til grundvallar niðurstöðu örorkunefndar um varanlegaörorku eða álit þeirra sérfræðinga sem áður greinir. Í svari stefndu við bótatilboðiáfrýjanda, sem rakið er að framan, kom fram að hún samþykkti tilboðið en gerðiþó fyrirvara um matið á varanlegri örorku. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr.7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga fólst í fyrirvara stefndunýtt tilboð þess efnis að hún samþykkti ekki uppgjörið að því er laut aðvaranlegri örorku. Verður lagt til grundvallar að áfrýjandi hafi samþykkt þettatilboð, enda bundinn af 48. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga, og fóruppgjörið 12. júní 2015 fram að teknu tilliti til fyrirvarans. Fyrirvarinn varótvíræður og nægilega skýr, einkum í ljósi þess að bótatilboðið miðaði við aðengin varanleg örorka hefði leitt af slysinu. Eins og atvikum var háttað varuppgjöri vegna líkamstjónsins ekki lokið að því er laut að varanlegri örorku. Vegnafyrirvarans var stefndu heimilt að afla nánari gagna um ætlaða varanlega örorkuhennar vegna slyssins og þegar þau lágu fyrir krefjast bóta fyrir þennan þátt ágrundvelli þeirra. Fallist er á með vísan til forsendnahéraðsdóms að leggja beri niðurstöðu örorkunefndar um 10% varanlega örorkustefndu vegna slyssins til grundvallar uppgjöri.Samkvæmt öllu framansögðu verður hinnáfrýjaði dómur staðfestur.Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrirHæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, semákveðst eins og í dómsorði greinir. Áfrýjandi greiði málskostnað fyrirHæstarétti eins og segir í dómsorði.Dómsorð:Hinnáfrýjaði dómur skal vera óraskaður.Áfrýjandigreiði 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð.Allurgjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar meðtalin þóknun lögmanns hennar, 800.000 krónur.Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9.nóvember 2017. Mál þetta höfðaði A, […], meðstefnu birtri 20. janúar 2017 á hendur Verði tryggingum hf., Borgartúni 25,Reykjavík. Málið var dómtekið 26.október sl. Stefnandi krefst þess að stefndiverði dæmdur til að greiða henni bætur að fjár­hæð 2.641.629 krónur með 4,5%vöxtum frá 22. janúar 2014 til 4. ágúst 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1.mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Stefnandi krefst málskostnaðareins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en henni var veitt gjafsókn 22. nóvember2016. Stefndi krefst sýknu af kröfumstefnanda og málskostnaðar. Stefnandi slasaðist er bifreiðók yfir hægri fót hennar á bílastæði við verslun á […] þann 22. janúar2014. Bifreiðin var tryggð lögboðinniábyrgðartryggingu hjá stefnda. Áverkum stefnanda er lýst ílæknisvottorðum sem lögð voru fram. Í vottorði ÓmarsÞorsteins Árnasonar bæklunarskurðlæknis, dags. 15. apríl 2014, segir: „... hún hlaut opið liðhlaup í stóru tá hægrifótar. Bíllinn rakst einnig á hægri mjöðmog hafði hún verki á mjaðmasvæði... Umer að ræða alvarlegan áverka. Áverkinn ámjúkparta fótarins er verulegur og mjög líklega mun alvarlegri en lið­hlaupið ístóru tánni. Það tekur oft langan tímafyrir mjúkpartana að gróa og oftar en ekki verður mikil örvefsmyndun í fætinumsem gerir það að verkum að sjúklingarnir ná ekki fullum bata ...“ Í vottorði RúnarsReynissonar, læknis á […], dags. 3. mars 2015, segir m.a.: „Nú, rúmum 13 mánuðum eftir slysið, er A ennmeð talsverðar eftirstöðvar eftir þetta slys.Hún er alltaf með dálítinn bláma á hægri ristinni og hann eykst íkulda. Hún er með skert blóðflæði íhægri ristinni og mjög kulvís á henni.Er einnig með breytta skynjun í tánni, dofin innanvert á henni og upp áristina, en hún er ofurviðkvæm fremst á tánni... Hún getur til dæmis ekki gengið eðlilega efhún er á sokkunum eða berfætt, þarf þá að ganga á jarkanum. Skárra ef hún er í góðum skóm. Þarf að nota númeri stærri skó en fyrirslysið, sem veldur því að skórinn á vinstri fæti er að jafnaði of rúmur. Á erfitt með ýmis heimilisverk ...“ Til að undirbúa bótauppgjörsammæltust aðilar um að fela Sveinbirni Brands­syni bæklunarskurðlækniog Eiríki Elís Þorlákssyni lektor að meta miska og örorku stefnanda. Þeirskiluðu áliti 24. maí 2015. Í álitinu var stefnandi talinhafa verið óvinnufær frá slysdegi til 1. júní 2014 og væri það tímabilþjáningabóta, þar af 3 vikur rúmliggjandi.Varanlegur miski var talinn 15 stig en varanleg örorka engin. Þann 11. júní 2015 sendi stefndilögmanni stefnanda bótatilboð með tölvu­pósti.Í svarpósti lögmanns stefnanda sama dag segir að í viðhengi sé „samþykktbótatilboð, ég set þó inn fyrirvara á mati v/varanlega Örorku“. Lögmaðurinn skrifaði undir uppgjörsblað sembar fyrirsögnina Fullnaðaruppgjör. Þarundir setti hann þennan texta: „Meðfyrirvara um varanlega örorku“ og setti stafina sína undir. Með þessu uppgjöri voru greiddarþjáningabætur og bætur fyrir varanlegan miska, auk lögmannskostnaðar. Ekkert var sagt um varanlega örorku áskjalinu, en eins og áður segir töldu álitsgjafar að hún væri engin. Á sérstakri tjónskvittun, dags.12. júní 2016, var greiðslan sundurliðuð og í lokin sagt: „Greiðsla þessi er fullnaðar- og lokagreiðslavegna þessa tjóns og allar kröfur vegna málsins eru að fullu greiddar.“ Síðan segir:„Lögmaður tjónþola undir-ritar uppgjör með fyrirvara um varanlegaörorku.“ Undir þessa kvittun ritaðistarfs­maður stefnda, en hvorki stefnandi né lögmaður hennar. Stefnandi óskaði eftir matiörorkunefndar þann 25. febrúar 2016. Íáliti nefndarinnar, dags. 29. júní 2016, er varanleg örorka stefnanda metin10%. Í kjölfarið krafðist stefnandifrekari greiðslu úr hendi stefnda, sem neitaði. Í álitsgerð SveinbjörnsBrandssonar og Eiríks Elíss Þorlákssonar segir um varanlega örorkustefnanda: „Við mat á varanlegri örorkuer þannig rétt að hafa í huga framtíðarmöguleika við tekjuöflun tjónþola. Fyrir liggur að tjónþoli hefur nýttstarfsgetu sína mjög takmarkað til um 8 ára.Hún starfar 16 klukkustundir á mánuði við liðveislu. Telja verður að hún geti enn sinnt þeirri eðasambærilegri vinnu með sömu tekjur þráttfyrir það slys sem hér um ræðir. Aðteknu tilliti til framangreindra þátta og tjónstakmörkunarskyldu verður vartséð að hún verði fyrir tekjuskerðingu vegna slyssins og er því varanleg örorkahennar engin (núll) metin.“ Í áliti örorkunefndarsegir: „Tjónþoli var 46 ára áslysdegi. Hún starfaði þá við liðveisluí hluta starfi og hélt því áfram rúmum fjórum mánuðum eftir slysið. Tjónþola var sagt upp störfum í júlí 2015 oghefur ekki unnið launuð störf eftir það.Tjónþoli hefur verið metin til meira en 75% örorku hjá Tryggingastofnunfrá 2003. Tjónþoli er með félagsliðapróffrá menntaskóla og var við slík störf frá árinu 2009 en hafði áður unnið viðræstingar. Örorkunefnd telur aðafleiðingar slyssins hafi enn dregið úr möguleikum tjónþola til að fá atvinnuog afla sér atvinnutekna og með vísan til alls ofangreinds er varanleg örorkahennar vegna slyssins 10%-tíu af hundraði.“ Málsástæðurog lagarök stefnanda Stefnandi telur að tjón sittvegna slyssins þann 22. janúar 2014 hafi ekki verið bætt að fullu. Bifreiðin […] hafi verið tryggð hjástefnda. Stefnandi byggir á því að húnhafi gert fyrirvara við mat á varanlegri örorku. Hún hafi ekki lýst því yfir að hún teldi aðgreiðsla stefnda væri fullnaðargreiðsla.Hún áskildi sér rétt til að láta meta varanlega örorku á nýjanleik. Stefnandi bendir á aðtjónskvittun, dags. 12. júní 2015, sé einhliða yfirlýsing stefnda. Stefnandi byggir á því að bæturfyrir varanlega örorku er hún hlaut í umræddu slysi hafi ekki veriðgreiddar. Hún byggir kröfu sína á matiörorkunefndar og vísar til 1. mgr. 10. gr. skaðabótalaga um heimild sína til aðleggja málið fyrir örorkunefnd. Kröfu um bætur fyrir varanlegaörorku reisir stefnandi á 2. mgr. 1. gr. og 5.-7. gr. skaðabótalaga. Útreikningur bótakröfu er útskýrðurnákvæmlega í stefnu. Þar sem fjárhæð stefnukröfuer ekki mótmælt þarf því ekki að reifa hann. Málsástæðurog lagarök stefnda Stefndi segir að þegar gengiðvar frá bótagreiðslu til stefnanda hafi lögmaður hennar einungis gert almennanfyrirvara við mat á varanlegri örorku.Engin gögn liggi fyrir um hvernig hafi átt að skýra þennanfyrirvara. Byggir stefndi á því aðfyrirvarinn sé haldlaus, hann sé ekki ótvíræður. Ekki sé ljóst að hverju hann lúti. Vísar stefndi þessu til stuðnings til dómaHæstaréttar í málum nr. 576/2013 og 391/2015. Stefndi kveðst byggja á því aðekki sé unnt að dæma stefnanda frekari bætur nema með endurupptöku bótauppgjörssamkvæmt 11. gr. skaðabótalaga. Þauskilyrði séu ekki uppfyllt. Engar breytingarhafi orðið á heilsu stefnanda. Stefndi byggir á því að álitörorkunefndar hnekki ekki fyrri álitsgerð.Segir hann að ekkert í lögum segi að leggja skuli meiri áherslu ániðurstöðu örorkunefndar en álitsgerðina, sönnunarmatið sé frjálst. Niðurstaða örorkunefndar sé síður rökstudd enálitsgerðin, sem sé bæði vandaðri og ítarlegri.Ekki verði séð af áliti örorkunefndar hvaða þættir hafi leitt til þessað varanleg örorka sé metin 10 stigum hærri en áður. Niðurstaðan sé ekki rökstudd. Niðurstaða Stefnandi krefst skaðabóta vegnatjóns síns af slysi, sem stefndi viðurkennir að hann eigi að bæta. Stefndi byggir á móti á því annars vegar aðtjónið sé fullbætt, hins vegar á því að stefnda hafi tekið við bótum og ekkigert nægan fyrirvara um að bæturnar væru ekki full greiðsla. Stefnandi krefst bóta vegnavaranlegrar örorku samkvæmt 2. mgr. 1. gr. skaða­bótalaga, þ.e. bóta fyrirvaranlega skerðingu á getu til að afla vinnutekna. Stefnandi gekk ekki heil til skógar þegarslysið varð. Hafði hún verið metin til75% örorku á árinu 2004 vegna vefjagigtar, en ekki er ljóst í gögnum málsinshvort það mat var enn í gildi á slysdegi.Hún aflaði nokkurra tekna fyrir slysið. Aðilar sammæltust um að felasérfræðingi í bæklunarskurðlækningum og háskóla­kennara í lögfræði að metaafleiðingar slyss stefnanda. Þeir tölduað varanleg örorka væri engin, en ágreiningur er ekki um aðra þætti í matiþeirra. Stefnandi leitaði þá tilörorkunefndar, sem taldi að varanleg örorka væri 10%. Hér að framan er orðrétt að finna kjarnann írökstuðningi bæði álitsgjafanna og örorkunefndar. Í fyrrnefnda álitinu er talið aðstefnandi geti sinnt sambærilegri vinnu og hún hafði sinnt fyrir slysið og aðvart yrði séð að hún yrði fyrir tekjuskerðingu.Hér er ekki litið til þess að varanlegir áverkar stefnanda eru nokkrirog ekki leyst úr því hvort þeir muni hamla henni við vinnu. Ekki er fjallað um hvort áverkarnir getiþrengt enn kosti hennar um tekjuöflun. Í áliti örorkunefndar er aftur ámóti talið að vegna afleiðinga slyssins hafi enn dregið úr möguleikum stefnandatil að fá atvinnu og afla sér vinnutekna.Þetta er ekki ítarlegt, en dregur fram það sjónarmið að möguleikarstefnanda til að afla tekna séu nokkuð skertir eftir slysið, enn minni en þeirvoru áður. Er það einnig augljóst aflýsingum á áverkum stefnanda í gögnum málsins. Þegar litið er til þessara álitaverður ekki fallist á það með stefnda að fyrr­nefnda álitsgerðin sé betur unnineða rökstudd heldur en álit örorkunefndar.Verður að leggja álit nefndarinnar til grundvallar. Eftir að fyrrnefnt álit lá fyrirgreiddi stefndi bætur samkvæmt því og tók stefnandi við þeim. Lögmaður hans gerði fyrirvara, en stefnditelur hann haldlausan. Því beri að lítasvo á að stefnandi hafi viðurkennt viðtöku fullra bóta og geti ekki krafið ummeira. Lögmaður stefnanda tók við bótumog gerði þessa athugasemd: „Með fyrir­varaum varanlega örorku.“ Þessi athugasemdkom til vitundar stefnda og verður því að skýra hvað í þessu felst, eða hvortog þá hvaða breyting verði á samkomulagi aðila um bótagreiðsluna. Aðilar gerðu samning. Stefndi samþykkti að greiða og stefnandi aðtaka við sem fullri greiðslu tilgreindri fjárhæð sem var reiknuð eftirniðurstöðu áðurnefndrar álitsgerðar.Þeir samþykktu að vera bundnir af niðurstöðu álitsgerðarinnar um varanlegarafleiðingar slyssins. Þetta var staðfestmeð undirritun þar til bærs starfs­manns stefnda og lögmanns stefnanda. Umboðsmaður stefnanda ritaði áðurgreind orð áblaðið. Eftir hljóðan þessara orða hefurlögmaðurinn ekki samþykkt þann þátt samkomulagsins sem laut að bótum fyrirvaranlega örorku. Í samkomulaginu varekki gert ráð fyrir neinum slíkum bótum í samræmi við niðurstöðuálitsgerðarinnar. Hann hefur ekkisamþykkt að engar bætur skyldu greiddar fyrir varanlega örorku. Þessi merking orðanna er augljós og hlautstefnda, sem hefur starfsleyfi samkvæmt lögum nr. 100/2016 umvátryggingastarfsemi, að vera hún ljós.Orðin eru ótvíræð og þarfnast ekki frekari útskýringa eðaafmörkunar. Samkomulag tókst því ekki umfullnaðaruppgjör. Stefndi vísar einkum til tveggjadóma Hæstaréttar frá síðustu misserum, þar sem fyrirvari sem lögmaður gerði umbótagreiðslur var talinn haldlítill, dóma í málum nr. 576/2013 og391/2015. Fyrirvararnir sem gerðir höfðuverið í þessum tilvikum voru ekki nákvæmlega eins orðaðir og fyrirvarinn semhér reynir á. Í fyrrnefnda málinu varfyrirvarinn svohljóðandi: ,,Gerður erfyrirvari við mat á miska og varanlegri örorku.“ Hæstiréttur taldi að tjónþoli hafi með þessu„... áskilið sér rétt til frekari bóta ef varanlegur miski eða varanleg örorkayrði meiri en talið var í áliti [matsmanna] vegna síðari breytinga. Eðli máls samkvæmt verður fyrirvarinn á hinnbóginn ekki skýrður svo að áfrýjandi hafi áskilið sér rétt til endurupptökubóta­ákvörðunar vegna þess að matið, sem hún var reist á, kynni að verarangt.“ Ekki er augljóst hvers vegnaHæstiréttur telur að skýra verði fyrirvarann svo að hann taki einungis tilþeirrar aðstöðu að heilsufar tjónþola breytist til hins verra eftir að matsgerðer unnin. Vegna 11. gr. skaðabótalaga erslíkur fyrirvari óþarfur, nema ætlunin sé að víkja frá skilyrðumákvæðisins. Fyrirvarinn sem hér er deiltum er ekki samhljóða áðurnefndum fyrirvörum og aðstæður ólíkar. Fyrirvarinn er stuttur, en eins og áður segirer merking hans augljós. Bætur vorugreiddar vegna slyss, en engar vegna varanlegrar örorku. Fyrirvarann er ekki hægt að skýra á annanhátt en að stefnandi hafi lýst því yfir að hún félli ekki frá rétti sem húnteldi sig eiga til bóta fyrir varanlega örorku með því að taka við bótum fyriraðra liði. Fyrirvarinn verður metinnfullgildur. Verður því að dæma stefndatil að greiða stefnanda bætur fyrir varanlega örorku er hún hlaut í umræddumslysi. Ekki er ágreiningur um fjárhæðirog verður stefndi því dæmdur til að greiða 2.641.629 krónur með vöxtum eins ogí dómsorði greinir. Stefnandi hefur gjafsókn. Málskostnaðarreikningur lögmanns hennar eróhóflegur og verður ekki lagður til grundvallar. Útlagður kostnaður nemur 350.910 krónum, enmálflutningsþóknun ákveðst með virðisaukaskatti 1.250.000 krónur. Þetta ber að greiða úr ríkissjóði. Stefnda verður gert að greiða 1.600.000krónur í máls­kostnað til ríkissjóðs. Jón Finnbjörnsson héraðsdómarikveður upp dóm þennan. Dómsorð Stefndi, Vörður tryggingar hf.,greiði stefnanda, A, 2.641.629 krónur með 4,5% vöxtum frá 22. janúar 2014 til4. ágúst 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001frá þeim degi til greiðsludags. Gjafsóknarkostnaður stefnanda,1.600.910 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Stefndi greiði 1.600.000 krónurí málskostnað til ríkissjóðs.
Mál nr. 440/2005
Jarðalög Forkaupsréttur Sveitarstjórn Stjórnsýsla
H krafðist viðurkenningar á rétti sínum til að neyta forkaupsréttar að jörðinni Á með vísan til 30. gr. þágildandi jarðalaga nr. 65/1976, en ákvörðun H þess efnis hafði verið felld út gildi með úrskurði landbúnaðarráðuneytisins. Í héraðsdómi, sem staðfestur var með vísan til forsendna hans, var byggt á því að H hefði neytt forkaupsréttar að jörðinni í þeim eina tilgangi að selja hana aftur til E, eiganda nærliggjandi jarðar, til að skapa honum skilyrði til frekari skógræktar. Fyrir lá að HP, kaupandi jarðarinnar, hafði gert H grein fyrir því að hann hygðist stunda skógrækt á jörðinni. Talið var að H hefði borið að kanna nánar áform HP og hvort þau gætu farið saman við hagsmuni H af nýtingu jarðarinnar. Það gerði H ekki og var ekki sýnt fram á að lögmætum hagsmunum hreppsins hafi verið stefnt í hættu ef kaup HP á jörðinni næðu fram að ganga eða að hreppurinn hefði brýna hagsmuni af því að E stundaði skógrækt á jörðinni frekar en aðrir. Af þessum ástæðum og með hliðsjón af því að beiting forkaupsréttar var íþyngjandi fyrir HP og inngrip í samningsfrelsi var kröfu H hafnað.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. október 2005. Hann krefst þess að viðurkenndur verði réttur sinn til að neyta forkaupsréttar að jörðinni Ásum í Húnavatnshreppi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndu krefjast þess að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjanda gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem stefndu Oddnýju Maríu Gunnarsdóttur og Víði Frey Guðmundssyni hefur verið veitt hér fyrir dómi. Réttargæslustefndi krefst málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms sameinaðist stefnandi málsins í héraði, Svínavatnshreppur, þremur öðrum sveitarfélögum frá 1. janúar 2006 að telja og hefur sameinaða sveitarfélagið hlotið heitið Húnavatnshreppur. Það sveitarfélag hefur tekið við aðild að málinu fyrir Hæstarétti. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur á þann hátt, sem í dómsorði greinir. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, en um hann og gjafsóknarkostnað stefndu Oddnýjar Maríu og Víðis Freys hér fyrir dómi fer samkvæmt því, sem nánar segir í dómsorði. Dómsorð: Stefndu, Haukur Pálsson, Oddný María Gunnarsdóttir og Víðir Freyr Guðmundsson, eru sýkn af kröfu áfrýjanda, Húnavatnshrepps, um að viðurkenndur verði réttur hans til að neyta forkaupsréttar að jörðinni Ásum í Húnavatnshreppi. Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð. Áfrýjandi greiði málskostnað fyrir Hæstarétti til stefnda Hauks, 100.000 krónur, og 200.000 krónur, sem renni í ríkissjóð. Þá greiði áfrýjandi réttargæslustefnda, Guðmundi Ingvarssyni, 50.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu Oddnýjar Maríu og Víðis Freys fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, 100.000 krónur vegna hvors. Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 20. júlí 2005. Mál þetta, sem tekið var til dóms 22. júní sl., er höfðað af Svínavatnshreppi, Austur-Húnavatnssýslu með stefnu birtri 21., 22. og 27. janúar sl. á hendur Hauki Pálssyni, Röðli, Torfalækjarhreppi, Austur-Húnavatnssýslu, Oddnýju Maríu Gunnarsdóttur, Brekkubyggð 12, Blönduósi, Víði Frey Guðmundssyni, Akurgerði, Ölfusi og til réttargæslu Guðmundi Ingvarssyni, Akurgerði, Ölfusi. Dómkröfur Stefnandi krefst þess að viðurkenndur verði réttur hans til að neyta forkaupsréttar að jörðinni Ásum í Svínavatnshreppi og að um leið verði hrundið úrskurði landbúnaðarráðuneytisins í máli nr. LAN 03030078 er felldi úr gildi ákvörðun stefnanda um að neyta forkaupsréttar að nefndri jörð. Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefndu. Ekki eru gerðar sjálfstæðar dómkröfur á hendur réttargæslustefnda. Stefndu krefjast sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans. Réttargæslustefndi krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda. Stefndu Oddný María og Víðir Freyr hafa gjafsóknarleyfi og krefjast málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. Mál þar sem gerðar voru sömu dómkröfur á hendur stefndu Hauki og Oddnýju Maríu hefur áður verið rekið fyrir dóminum og var það dæmt 16. febrúar 2004. Hæstiréttur Íslands vísaði málinu frá héraðsdómi með dómi þann 18. nóvember sl. Í þessu máli eru lögð fram sömu gögn og í fyrra málinu að viðbættum þeim gögnum sem lögð voru fyrir Hæstarétt. Stefnandi hefur í málatilbúnaði sínum vísað til héraðsdómsstefnu í fyrra málinu og byggir hann málatilbúnað sinn í raun á þeirri stefnu en áréttar eingöngu helstu atriði í stefnu máls þessa. Lögmenn aðila lýstu því yfir að framburð aðila og vitna sem gefinn var við flutning fyrra málsins skyldi leggja til grundvallar í þessu máli og því voru skýrslur af þeim ekki teknar við rekstur þessa máls nema að litlum hluta enda staðfestu aðilar og vitni skýrslur úr fyrra málinu. III Málavextir Jörðin Ásar í Svínavatnshreppi Austur-Húnavatnssýslu telst til svokallaðra Bakásajarða en það eru þær jarðir í hreppnum kallaðar sem eiga land vestanmegin að Blöndu í Langadal. Jörðin var gerð að ættaróðali á árinu 1953. Á árinu 1986 tók Erlingur Ingvarsson við óðalinu af bróður sínum. Erlingur átti einnig og á enn í dag jörðina Hamar sem er næsta jörð norðan við Ása og nytjaði um tíma báðar jarðirnar. Á árinu 1989 taldi Erlingur að hann gæti ekki lengur setið óðalið með sómasamlegum hætti og seldi hann þá bróður sínum Guðmundi Ingvarssyni jörðina enda lá þá fyrir að ekkert barna Erlings vildi taka við óðalinu. Á árinu 2000 seldi Guðmundur stefnda Hauki Pálssyni jörðina en sú sala náði ekki fram að ganga vegna ákvæða jarðalaga um óðul. Með kaupsamningi dagsettum 17. maí 2002 seldi Guðmundur syni sínum Víði Frey jörðina. Þann 12. desember 2002 leysti landbúnaðarráðherra jörðina úr óðalsböndum og sama dag gaf Guðmundur út afsal fyrir jörðinni til Víðis sonar síns. Í janúarmánuði 2003 seldi Víðir Freyr stefnda Hauki jörðina. Jörðin hafði þá verið í eyði í um árabil og byggingar allar í niðurníðslu en stefndi Haukur hafði í nokkur ár verið með jörðina á leigu til beitar fyrir hross. Á fundi þann 17. febrúar 2003 ákvað sveitarstjórn stefnanda að neyta forkaupsréttar að jörðinni. Á fundi sveitarstjórnarinnar var bókað að fyrir lægi bréf frá stefnda Hauki þar sem hann geri grein fyrir áformum sínum varðandi jörðina. Einnig að fyrirliggjandi væri bréf frá Erlingi Ingvarssyni, Hamri í Svínavatnshreppi sem óskaði eftir því að sveitarstjórn neytti forkaupsréttar að jörðinni með það í huga að endurselja honum jörðina til skógræktar. Stefndi Haukur undi ekki þessari ákvörðun stefnanda og með bréfi dagsettu 11. mars 2003 til landbúnaðarráðuneytisins krafðist hann þess að ákvörðuninni yrði hnekkt. Með úrskurði ráðuneytisins uppkveðnum þann 4. júní 2003 var ákvörðun stefnanda um að neyta forkaupsréttar að jörðinni Ásum felld úr gildi. Þann 28. júlí 2003 seldi stefndi Haukur stefndu Oddnýju Maríu jörðina og var samningur um kaupin sendur jarðanefnd stefnanda með bréfi dagsettu 30. júlí 2003. Sama dag var kaupsamningurinn sendur sveitarstjórn stefnanda og þess óskað að stefnandi upplýsti hvort hann hygðist neyta forkaupsréttar. Í bréfinu tók stefnda fram að hún ætlaði að stunda skógrækt á jörðinni. Nokkrum dögum síðar barst stefnda Hauki bréf frá lögmanni stefnanda dagsett 31. júlí þar sem upplýst er að stefnandi ætli að frá úrskurði ráðuneytisins hnekkt. Á fundi í sveitarstjórn þann 12. ágúst 2003 var erindi stefndu Oddnýjar Maríu tekið fyrir en afgreiðslu þess frestað án þess að afstaða væri tekin til forkaupsréttar. Stefnda Oddný María afhenti kaupsamninginn og afsalið til þinglýsingar hjá sýslumanninum á Blönduósi þann 23. september 2003 og voru skjölin færð í þinglýsingabók þann 24. september 2003 með athugasemd um að mál hafi verið höfðað þar sem þess er krafist að viðurkenndur verði réttur sveitarfélagsins til að neyta forkaupsréttar að jörðinni. Málsástæður og lagarök Stefnandi byggir á því að mál þetta snúist einkum um túlkun á 1. gr. jarðalaga nr. 65/1976. Í nefndri grein segi að tilgangur laganna sé að tryggja að nýting lands utan skipulagðar þéttbýlissvæða sé eðlileg og hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og að eignarráð á landi og búseta á jörðum sé í samræmi við hagsmuni sveitarfélaga og þeirra sem landbúnað stunda. Í þessari grein og 6. og 30. gr. laganna felist að sveitarstjórn sé falið að meta hvað sveitarfélaginu sé fyrir bestu. Í sveitarfélagi þar sem íbúar hafa viðurværi sitt af landbúnaði vegi landbúnaðarsjónarmið þyngra en nokkuð annað. Stefnandi heldur því fram að ákvæði 1., 6. og 30. gr. jarðalaga þrengi að samningsfrelsinu og hinni almennu jafnræðisreglu. Sveitarstjórn sé falið að stýra á grundvelli mats að eignarráð á landi og búseta á jörðum sé í samræmi við hagsmuni sveitarfélagsins og þeirra sem landbúnað stunda. Til þess að víkja lagaákvæðum sem mæla skýrt á um tilteknar takmarkanir á samningsfrelsi til hliðar þurfi að liggja fyrir að ákvæðin séu brot á stjórnarskrá. Mat sem þetta verði alltaf huglægt en í jarðalögum séu engin huglæg skilyrði sett fyrir því að sveitarstjórn megi neyta forkaupsréttar. Þvert á móti segi t.d. í 2. mgr. 6. gr. laganna svo: ,,Nú telja sveitarstjórn og jarðanefnd, að ráðstöfun fasteignar sé andstæð hagsmunum sveitarfélagsins, og er þá rétt að synja um áformaða ráðstöfun eignarinnar.” Stefnandi hafnar því að meta þurfi hvort hagsmunir sveitarfélagsins að baki beitingu forkaupsréttarins hafi þurft að vera brýnir líkt og fullyrt sé í úrskurði ráðuneytisins. Ef svo sé þá liggi ekki fyrir hver eigi að meta hvort hagsmunir sveitarfélagsins séu brýnir eða ekki. Er það hlutverk sveitarstjórnar að meta þetta meðal þeirra þátta sem hún á mat um eða verður hún að sanna að aðili sá sem kaupir jörð sé verri kostur fyrir sveitarfélagið þegar fram líða stundir en einhver annar. Þar fyrir utan séu hagsmunir sveitarfélags augljóslega brýnir af því að sem best sé búið á jörðum sem enn eru í byggð. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að í úrskurði ráðuneytisins sé ranglega byggt á því að sveitarfélagið hafi tekið sérstakt tillit til hugsanlegs tjóns af völdum hrossa í eigu stefnda Hauks. Því er mótmælt af stefnanda að það sé ólögmætt sjónarmið að telja eina búgrein eiga betur við á tilteknum tíma á tiltekinni jörð en þetta sé eitt þeirra atriða sem sveitarstjórn megi meta. Þá bendir stefnandi á að hvergi komi fram í gögnum málsins að hrossaeign stefnda Hauks hafi skipt máli þegar ákveðið var að neyta forkaupsréttarins. Erlingur Ingvarsson hafi lýst áhyggjum sínum af ,,hrossaflota” og ,,hrossastóði” í bréfum sínum en sveitarstjórn nefni þetta ekki. Þá bendir stefnandi á að fordómar gagnvart hrossarækt séu varla miklir hjá stefnanda enda séu óvíða fleiri hross á hverja bújörð en í Svínavatnshreppi. Af hálfu stefnanda er á því byggt að meðferð landbúnaðarráðuneytisins hafi ekki verið vönduð þar sem á því er byggt að ekki hafi verið lögð fram gögn um það að Erlingur Ingvarsson hafi gert tilraunir til að kaupa jörðina af seljanda. Telur stefnandi að ráðuneytinu hafi borið að kanna þetta atriði úr því að á því er byggt í úrskurðinum en það hafi ekki verið gert. Stefnandi telur að Guðmundur Ingvarsson hafi með málamyndagerningi selt syni sínum jörðina í þeim tilgangi einum að geta losað hana úr óðalsböndum líkt og gert var og þar með hafi Erlingi Ingvarssyni reynst ómögulegt að kaupa jörðina aftur. Er því haldið fram að Erlingur hafi reynt að kaupa Ása af bróður sínum en samningar hafi ekki tekist. Stefnandi fellst ekki á það sjónarmið sem fram kemur í úrskurði landbúnaðarráðuneytisins að ólögmætt sé að taka tillit til aldurs við mat á því hvor sé betur til þess fallinn að stunda skógrækt á Ásum, stefndi Haukur eða Erlingur Ingvarsson. Bendir stefnandi á í þessu sambandi að fjölmörg lagaákvæði mæli fyrir um að mönnum skuli mismunað eftir aldri. Stefnandi heldur því fram að þegar fjallað sé um ógildingu stjórnvaldsathafnar þar sem ekki finnast gallar á undirbúningi eða gerð hennar þá standi málið og falli með því hvort ólögmætum sjónarmiðum hafi verið beitt. Stjórnvald þurfi ekki að færa fram tæmandi rökstuðning og óþarft sé að taka það fram sem allir viti og nægjanlegt sé fyrir stjórnvaldið að færa fram fullgildar málefnalegar ástæður. Í þessu tilfelli hafi slíkt verið gert í greinargerð stefnanda til ráðuneytisins. Heldur stefnandi því fram að í greinargerð hans til ráðuneytisins hafi einungis óbeint verið vikið að sameiningu bújarða en það sé mikilvægt atriðið fyrir sveitarfélög í dreifbýli. Á síðasta Búnaðarþingi hafi sameining bújarða verið rædd og m.a. talið að beita mætti forkaupsrétti sveitarfélaga til að auðvelda sameiningu. Stefnandi telur augljóst að þetta málefnalega atriði hafi verið meðal þeirra sem leiddu til þess að forkaupsrétti var beitt í því tilfelli sem hér um ræðir. Jarðirnar Ásar og Hamar liggi saman og þær báðar ákjósanlegar til skógræktar og því eðlilegt að þær verði sameinaðar. Bóndinn á Hamri sé langt kominn með að planta trjám í það land jarðar sinnar sem hentar til skóræktar og eðlilegt að hann haldi áfram skógrækt undir hatti Norðurlandsskóga með því að planta í land Ása. Það land sé svo mikið að honum endist ekki ævin til að planta í það allt. Á jörðunum sameinuðum sé unnt að stunda hefðbundinn búskap þó trjárækt sé á því landi sem hentar undir hana en það land Hamars sem ekki er undir skógrækt dugi hins vegar ekki til að þar sé rekinn hefðbundinn búskapur. Sameining þessara jarða sé því hagkvæm. Stefnandi bendir á að allt land í Svínavatnshreppi annað en það sem liggur vestanmegin í Langadal að Blöndu, sé 120 metrum yfir sjávarmáli eða meira. Því sé vesturhlíð Langadalsins besta skógræktarland í sveitarfélaginu. Af hálfu stefndu er gerð athugasemd við málatilbúnað stefnanda og efast hann um að ákvæði e og f liða 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála sé uppfyllt með því að vísa til stefnu í fyrra málinu hvað varðar málsástæður og lagarök. Telja stefndu að þessi annmarki eigi að leiða til þess að málinu skuli vísa frá dómi án kröfu ella að ekki verði byggt á öðrum málsástæðum og lagarökum en fram koma í stefnu máls þessa. Stefndu byggja sýknukröfu sína á því að eftir að landbúnaðarráðuneytið felldi úr gildi ákvörðun stefnanda um að beita forkaupsrétti hafi stefnda Hauki verið heimilt að ráðstafa jörðinni. Hann hafi selt stefndu Oddnýju jörðina áður en mál þetta var höfðað en þau hafi bæði verið grandlaus um að slíkt stæði til. Stefnda Oddný María hafi þar með verið orðinn löglegur eigandi jarðarinnar og óbundin af ákvörðun um beitingu forkaupsréttar sem að auki var búið að fella úr gildi. Byggja stefndu og á því að þar sem stefnandi aðhafðist ekkert innan 30 daga eftir að honum var boðinn forkaupsréttur þegar stefndu Oddnýju Maríu var seld jörðin hafi stefnandi fyrirgert rétti sínum til að ganga inn í þann samning. Auk þessa hafi stefnanda ekki tekist að hnekkja úrskurði landbúnaðarráðuneytisins frá 4. júní 2003 og því standi hann óhaggaður. Af hálfu stefndu er ennfremur byggt á því að stefnandi hafi ekki beitt lögmætum sjónarmiðum og hann hafi ekki stefnt að lögmætu markmiði með þeirri ákvörðun sinni að ganga inn í kaup milli stefnda Víðis Freys og stefnda Hauks. Þá geti hagsmunir stefnanda ekki talist brýnir. Ekki verði annað ráðið en ákvörðun stefnanda hafi byggst á því einu að ganga erinda eins manns en hagsmunir sveitarfélagsins eða íbúa þess hafi ekki ráðið miklu. Að mati stefndu verður að líta til ákvæðist 1. gr. þágildandi jarðalaga nr. 65/1976 en þar segi ,,Tilgangur laga þessara er að tryggja, að nýting lands utan skipulagðra þéttbýlissvæða sé eðlileg og hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og að eignarráð á landi og búseta á jörðum sé í samræmi við hagsmuni sveitarfélaga og þeirra, sem landbúnað stunda.” Tilgangur löggjafans hafi verið að veita byggðarlögum utan þéttbýlis meira áhrifavald um skipulag byggðar. Í þessu máli verði ekki séð að verið sé að hafa áhrif á skipulag byggðar heldur einungis verið að velja einn aðila fram yfir annan til að hafa eignarráðin á sinni hendi. Þó Erlingur Ingvarsson kunni að hafa getið sér gott orð fyrir skógrækt þá samrýmist það ekki nefndri 1. gr. að velja hann fram yfir stefndu. Því verði ekki annað ráðið en fyrst og fremst hafi verið að gæta hagsmuna Erlings með ákvörðuninni. Af stefnu í fyrra málinu megi ráða að Erlingur B. Ingvarsson telur sig hafa verið hlunnfarinn í viðskiptum með jörðina en hann hafi ákveðið að ,,fara hina mildari leið” eins og það er orðað í stefnu til að fá jörðina til sín og fá sveitarfélagið til að neyta forkaupsréttar í stað þess að hann höfðaði mál til að ógildingar á þeirri ákvörðun að leysa jörðina úr óðalsböndum. Stefndi mótmælir því að stefnandi blandi sér í ágreining sem þennan og dragi taum eins aðila, slíkt standist ekki lögmætisreglu. Stefnandi eigi ekki að blanda sér í deilur borgaranna. Stefndi telur að hugleiðingar stefnanda í stefnu um að Erlingur hafi að fullu nýtt það land sem hann á til skógræktar renni frekari stoðum undir það sem áður er sagt að stefnandi sé í raun að gæta hagsmuna Erlings en sveitarfélagið hafi lítilla sem engra hagsmuna að gæta. Heldur stefndi því fram að Erlingur eigi enn land ónýtt til skógræktar og telur vandséð að afkoma hans sé undir kaupum á jörðinni komin. Þar fyrir utan hljóti afkoma skógarbónda til lengri tíma að byggjast á nýtingu skógarins fremur en styrkjum til gróðursetningar. Þá benda stefndu á að gróðursetning og áburðargjöf taki eingöngu nokkra daga um sumar. Stefndi kveðst ekki sjá að stefnandi hafi grundvallað ákvörðun sína um að neyta forkaupsréttar á kostum þess að sameina jarðir sem verði þá klæddar skógi eins og segi í fyrri stefnu málsins. Þessa sjónarmið sé ekki getið í bréfi stefnanda til landbúnaðarráðuneytisins frá 10. apríl 2003. Auk þess telur stefndi að hagsmunir stefnanda af slíku séu óljósir og á engan hátt brýnir. Stefndu benda í þessu sambandi á að stefndi Haukur hafi ætlað að nýta jörðina til skógræktar líkt og stefnda Oddný María. Stefndi telur að af bréfi stefnanda til landbúnaðarráðuneytisins frá 10. apríl 2003 verði ekki annað ráðið en að forkaupsrétti sé beitt á þeirri forsendu að Erlingur Ingvarsson sé hæfari til að stunda skógrækt en stefndi Haukur. Stefndu mótmæla þessu mati stefnanda sem ólögmætu og órökstuddu. Þá mótmælir stefndi því að stefnandi hafi hagsmuni af því að velja með þessum hætti einn aðila umfram annan. Þá heldur stefndi því fram að stefnandi hafi óljósa hagsmuni af því að vel sé búið á jörðinni auk þess sem ekkert hafi komið fram í málinu sem leiði til þess að unnt sé að fullyrða að Erlingur Ingvarsson muni búa betur á jörðinni en hann. Þessu sjónarmiði stefnanda mómæla stefndu einnig sem ólögmætu og órökstuddu. Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi á ólögmætan hátt gripið inn í samningsfrelsið. Þó svo forkaupsréttur sé í þessu tilfelli lögbundinn verði að beita honum af varúð og með málefnalegum hætti. Hagsmunir stefnanda þurfi að vera brýnir til að réttlæta slíkt inngrip en svo hátti ekki til í þessu tilfelli og því hafi verið óheimilt að skerða samningsfrelsið líkt og gert var. Stefndi heldur því einnig fram að þau ákvæði jarðalaga sem hér eiga við og beiting þeirra af hálfu stefnanda séu í andstöðu við eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944 og 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994 og 40. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993 Um sé að ræða óhæfilega heftingu á mannréttindum miðað við markmið stefnanda. Stefndu halda því fram að stefnandi hafi upplýst að hann hafi látið aldur stefnda Hauks hafa áhrif á ákvörðun sína. Sjónarmið þetta sé ólögmæt mismunun sem fari í bága við 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 65. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944. Í raun leiði þetta til þess að ákvörðun stefnanda er þegar af þessari ástæðu ógild. Í þessu samhengi beri að líta til þess að Erlingur Ingvarsson, hverra hagsmuna stefnandi gengur, hafi ekki nema að hluta unnið að skógrækt að Hamri sjálfur. Loks telja stefndu að stefnandi hafi með ákvörðun sinni brotið meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Ef það var markmið stefnanda að skógrækt yrði stunduð á eyðijörðinni Ásum, þá hefði átt að binda samþykki við sölu jarðarinnar við slíkt skilyrði með heimild í 6. mgr. 6. gr. jarðalaga nr. 65/1976. Hvað lagarök varðar vísa stefndu til ákvæða jarðalaga einkum 1. og 6. gr. og IV. kafla. Einnig til ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, aðallega 10. gr, 11. gr., 12. gr. og 15. gr. Þá vísa stefndu til 65. og 72. gr. stjórnarskrárinnar. Einnig til laga um Evrópska efnahagsvæðið nr. 2/1993 og laga um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994. Hvað málskostnað varðar vísar stefndi til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Niðurstaða Fallast verður á með stefndu að annmarkar séu á stefnu máls þessa. Stefnan uppfyllir ekki ákvæði e og f liðar 80. gr. laga um meðferð einkamála. Hér verður að horfa til þess að samskonar mál hefur áður verið rekið fyrir dóminum en því var, eins og áður er getið, vísað frá héraðsdómi. Meðal gagna máls þessa er ágrip Hæstaréttarmálsins og þar er að finna öll gögn sem lögð voru fram í fyrra málinu þar með talin héraðsdómsstefnan. Stefnandi vísar í stefnu máls þessa aðallega til eldri stefnu sinnar. Þessi aðferð stefnanda er í andstöðu við nefnd ákvæði 80. gr. laga um meðferð einkamála. Hins vegar er alveg ljóst hvert sakarefnið er og þó svo að gallar hafi verið á eldri stefnunni líka er það mat dómsins að stefndu hafi af þessu sökum ekki orðið fyrir réttarspjöllum og að unnt sé að leysa úr ágreiningi þeirra með dómi. Málinu verður því ekki vísað frá dómi án kröfu. Jarðalög nr. 65/1976 hafa nú verið felld úr gildi. Í nýjum jarðalögum hefur forkaupsréttarákvæði það sem byggt er á í þessu máli verið fellt út. Við úrlausn máls þessa verður engu að síður að byggja á þeim lögum sem í gildi voru þegar atvik máls áttu sér stað. Ætla verður að stefnandi hafi horft til heimildar í 30. gr. jarðalaga nr. 65/1976 þegar hann ákvað á fundi sínum þann 17. febrúar 2003 að ganga inn í kaupin á jörðinni Ásum í Svínavatnshreppi en fundargerð ber þetta ekki með sér. Jörðin Ásar er utan þéttbýlis og þannig getur 30. gr. nefndra jarðalaga um forkaupsrétt sveitarfélaga átt við hana. Í fyrstu grein jarðalaga segir svo: ,,Tilgangur laga þessara er að tryggja, að nýting lands utan skipulagðra þéttbýlissvæða sé eðlileg og hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og að eignarráð á landi og búseta á jörðum sé í samræmi við hagsmuni sveitarfélag og þeirra, sem landbúnað stunda.” Af greinargerð, sem fylgdi frumvarpi að lögunum, má ráða að ætlun löggjafans var að veita byggðarlögum utan þéttbýlis meira áhrifavald um skipulag byggðar, styrkja stöðu bænda og sveitarfélaga til jarðakaupa. Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 70/2002 er leyst úr ágreiningi varðandi forkaupsrétt sveitarfélags að jörð í dreifbýli. Í dóminum kemur m.a. fram að niðurstaða málsins ráðist af því hvort ákvörðun sveitarstjórnarinnar hafi stefnt að lögmætu markmiði. Þá verði einnig að hyggja að því hvort rökstuðningur sveitarfélagsins fyrir því að neyta forkaupsréttar síns hafi verið málefnalegur og því hvort hagsmunir sveitarfélagins af beitingu forkaupsréttarins hafi verið brýnir. Einnig að hafa verði í huga að ákvörðunin hafi verið íþyngjandi fyrir kaupanda jarðarinnar og til þess fallin að raska áformum hans. Þessi sömu sjónarmið eiga við hér. Er þeim málsástæðum stefnanda að hann eigi frjálst mat um það hvort hann beiti forkaupsrétti eða ekki, ef hann einungis gætir að formskilyrðum, því hafnað. Jörðin Ásar hefur verið í eyði um árabil og byggingar jarðarinnar ónothæfar og ekki líkindi til þess að þar verði stundaður hefðbundinn búskapur í náinni framtíð. Virðist sem nýting jarðarinnar komi helst til með að felast í beit og skógrækt. Af gögnum málsins og framburði oddvita stefnanda fyrir dóminum verður ekki annað ráðið en stefnandi hafi neytt forkaupsréttar að jörðinni í þeim eina tilgangi að selja hana aftur til Erlings Ingvarssonar á Hamri til að skapa honum skilyrði til frekari skógræktar. Erlingur Ingvarsson kom fyrir dóminn og bar að hann væri langt kominn með að planta trjám í heppilegt land að Hamri en hann hafi á undanförnum árum plantað yfir 620.000 plöntum að Hamri og á næsta ári muni hann klára að planta í heppilegt skógræktarland að Hamri. Þá bar hann einnig að hann væri í nánast fullu starfi á Blönduósi fyrir utan skógræktina en tæplega sé hægt að hafa lífsviðurværi af því að planta trjám. Með endursölu jarðarinnar ætlaði stefnandi að tryggja Erlingi land til áframhaldandi skógræktar og taldi að með því væru líkur til þess að atvinna skapaðist af skógræktinni í sveitarfélaginu í framtíðinni. Í bréfi dagsettu 5. febrúar 2003 gerði stefndi Haukur stefnanda grein fyrir því hvaða áform hann hefði varðandi nýtingu jarðarinnar og kvaðst hann ætla að stunda þar skógrækt. Í greinargerð stefnanda til landbúnaðarráðuneytisins kemur fram að stefnandi telur Erling Ingvarsson á Hamri líklegri en stefnda Hauk til þess að stunda skógrækt á jörðinni og þess jafnframt getið að ekki sjáist áhugi Hauks á skógrækt á þeim jörðum sem hann eigi nú þegar. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að stefnandi hafi kannað með hvaða hætti stefndi Haukur hygðist stunda skógræktina en ætla verður að það skipti einu hver það er sem stundar skógrækt á Ásum en atvinna af skógræktinni ætti að skapast burt séð frá því hver það er sem plantar trjánum. Í þessu sambandi verður að taka tillit til þess ólíklegt er að Ásar verði nýttir fyrir annað en skógrækt og beit í náinni framtíð og þess að á Hamri er ekki stundaður hefðbundinn búskapur og sameining eða samnýting þeirra jarða því ekki til þess fallin að skjóta stoðum undir annan búskap að Hamri en skógrækt. Af gögnum þeim sem lögð hafa verið fyrir dóminn og framburði Erlings Ingvarssonar sem vinnur nánast fulla vinnu með sinni skógrækt verður ekki annað ráðið en að skógrækt á Ásum verði ekki full atvinna fyrir einn mann hvað þá fleiri auk þess sem plöntun trjáa fer einungis fram hluta úr ári. Stefnanda bar því að kanna áform stefnda Hauks nánar og kanna hvort þau gætu ekki farið saman við hagsmuni stefnanda af nýtingu jarðarinnar. Þetta gerði stefnandi ekki og honum hefur ekki tekist að sýna fram á að lögmætum hagsmunum hans hafi verið stefnt í hættu við það að kaup stefnda Hauks á jörðinni næðu fram að ganga. Auk þess hefur stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi af því brýna hagsmuni að Erlingur Ingvarsson stundi skógrækt að Ásum frekar en aðrir. Einnig verður að hafa í huga að beiting forkaupsréttar var íþyngjandi fyrir stefnda Hauk og inngrip í samningsfrelsi. Þegar af þeim ástæðum sem að framan eru raktar ber að hafna kröfum stefnanda. Með hliðsjón af niðurstöðu málsins ber að dæma stefnanda til að greiða stefndu og réttargæslustefnda málskostnað eins og í dómsorði greinir. Stefndu Oddný María og Víðir Freyr hafa fengið gjafsókn með bréfum dómsmálaráðuneytisins og skal gjafsóknarkostnaður þeirra því greiðast úr ríkissjóði og málskostnaður dæmdur þeim skal greiddur til ríkissjóðs. Af hálfu stefnanda flutti málið Már Pétursson hæstaréttarlögmaður og af hálfu allra stefndu Bjarni Þór Óskarsson hæstaréttarlögmaður. Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp dóm þennan. Kröfu stefnanda, Svínavatnshrepps, þess efnis að staðfestur verði með dómi réttur hans til að neyta forkaupsréttar að jörðinni Ásum í Svínavatnshreppi og að hrundið verði úrskurði landbúnaðarráðuneytis í máli nr. LAN03030078 Haukur Pálsson gegn hreppsnefnd Svínavatnshrepps uppkveðinn 4. júní 2003, er hafnað. Stefnandi greiði stefnda Hauki Pálssyni 250.000 krónur, ríkissjóði 500.000 krónur og Guðmundi Ingvarssyni 50.000 krónur í málskostnað Gjafsóknarkostnaður stefndu, Oddnýjar Maríu Gunnarsdóttur og Víðis Freys Guðmundssonar þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Bjarna Þórs Óskarssonar hæstaréttarlögmanns, 500.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.
Mál nr. 779/2015
Ölvunarakstur Ökuréttarsvipting Réttlát málsmeðferð Frávísunarkröfu hafnað
Með dómi héraðsdóm var K sakfelldur fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis. Í málinu krafðist K aðallega að málinu yrði vísað frá héraðsdómi, til vara ómerkingar héraðsóms en að því frágengnu að refsing yrði milduð. Reisti hann frávísunar- og ómerkingarkröfu sína á því að það stæðist ekki 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis að lögreglumaður sá sem hefði haft afskipti af honum vegna ætlaðs ölvunaraksturs og rannsakaði málið hefði einnig annast saksókn fyrir dómi sem fulltrúi ákæruvaldsins. Í dómi Hæstaréttar kom meðal annars fram að þess sæi hvorki stað í málinu að umræddur maður hefði verið vanhæfur til rannsóknar þess sem lögreglumaður samkvæmt 7. mgr. 8. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 né að hann hefði ekki gætt hlutlægnisskyldu sinnar sem sækjandi eftir 3. mgr. 18. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamál. Var K því sakfelldur samkvæmt ákæru og gert að sæta 30 daga fangelsi. Þá var hann sviptur ökurétti ævilangt.
Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnirHelgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Ingibjörg Benediktsdóttir setturhæstaréttardómari.Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 13.nóvember 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfuákæruvaldsins er krafist staðfestingar héraðsdóms. Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað fráhéraðsdómi, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, en að því frágengnuað refsing verði milduð.Kröfu sína um að málinu verði vísað frá héraðsdómi eðaeftir atvikum að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísan heim íhérað til löglegrar meðferðar reisir ákærði á því að saksóknarfulltrúi sá semfór með málið fyrir héraðsdómi hafi verið vanhæfur til þess í skilningi laganr. 88/2008 um meðferð sakamála og að meðferð málsins hafi ekki verið í samræmivið fyrirmæli um réttláta málsmeðferð í 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr.6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 ummannréttindasáttmála Evrópu. Vísar ákærði til þess að það standist ekki þessifyrirmæli að lögreglumaður sá er hafði afskipti af ákærða vegna ætlaðsölvunaraksturs hans 25. júlí 2015 og rannsakað málið hafi einnig annast saksóknfyrir dómi sem fulltrúi ákæruvaldsins. Megi í þessu sambandi vísa tilhlutlægnisskyldu ákæruvaldsins, sbr. 3. mgr. 18. gr. laga nr. 88/2008, en þarsegi að ákærendur skuli vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og gætajafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar. Ákærði geti að vísu ekkibent á dæmi þess að brotið hafi verið gegn rétti hans við meðferð málsins, enljóst megi vera að mati ákærða að ekki sé hægt að útiloka með því fyrirkomulagisem viðhaft hafi verið við meðferð málsins að slíkt geti hafa gerst. Segi í 4.mgr. 26. gr. laga nr. 88/2008 að hafi ákæra verið gefin út skuli dómari, annaðhvort að eigin frumkvæði eða samkvæmt kröfu aðila, vísa máli frá dómi ef hanntelur að ákærandi hafi verið vanhæfur til að höfða málið eða lögreglustjórivanhæfur til að rannsaka það.Sækjandi máls þessa fyrir héraðsdómi starfaði á þeimtíma sem atvik þess gerðust sem lögreglumaður við embætti lögreglustjórans áNorðurlandi vestra, en hóf störf sem saksóknarfulltrúi við sama embætti 1.september 2015 eftir að hafa lokið meistaraprófi í lögfræði. Kom hann semlögreglumaður að frumrannsókn málsins ásamt fleiri lögreglumönnum. Það var áhinn bóginn lögreglustjórinn í fyrrnefndu umdæmi sem á grundvelli þeirrarrannsóknar undirbjó saksókn og gaf út ákæru í málinu, sbr. 145. gr. laga nr.88/2008. Fyrrnefndur lögreglumaður, sem þá hafði sem fyrr segir tekið viðstarfi saksóknarfulltrúa, sótti síðan málið fyrir dómi í umboðilögreglustjórans, sbr. síðari málslið 1. mgr. 18. gr. og 2. málslið 3. mgr. 25.gr. laga nr. 88/2008. Sér þess hvorki stað í málinu að umræddur maður hafiverið vanhæfur til rannsóknar þess sem lögreglumaður samkvæmt 7. mgr. 8. gr.lögreglulaga nr. 90/1996 né að hann hafi ekki gætt hlutlægnisskyldu sinnar semsækjandi eftir 3. mgr. 18. gr. laga nr. 88/2008. Þá er þess að gæta að ákærðijátaði brot sitt skýlaust fyrir dómi og var því farið með málið samkvæmt 1.mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 án þess að skýrslur væru teknar af honum ogvitnum. Samkvæmt þessu eru engin efni til þess að taka framangreindar kröfurákærða til greina. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hannstaðfestur.Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnaðmálsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verðaað meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.Dómsorð:Héraðsdómur skal vera óraskaður.Ákærði, Kristmann Jónsson, greiði allanáfrýjunarkostnað málsins, 396.643 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjandasíns, Gunnars Inga Jóhannssonar hæstaréttarlögmanns, 372.000 krónur. Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 13. október 2015.IMálþetta, sem þingfest var 22. septembersl. og dómtekið 6. október sl., er höfðað af lögreglustjóranum áNorðurlandi vestra 1. september 2015 á hendur Kristmanni Jónssyni, fæddum 3.apríl 1979, til heimilis að Skálanesgötu 9, Vopnafirði, ,,fyrir umferðarlagabrot,með því að hafa um sex leytið síðdegis laugardaginn 25. júlí 2015, ekiðbifreiðinni JD-872 undir áhrifum áfengis (alkóhólmagn í blóði 1,48‰) og svipturökurétti, frá veitingastaðnum N1 á Blönduósi og suður eftir Norðurlandsvegi unslögreglan stöðvaði för ákærða rétt til móts við bæinn Öxl.Telstþetta varða 1. sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlag nr. 50/1987.Þesser krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og auk greiðslu sakarkostnaðarauk sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. og sbr. 102. gr. nefndraumferðarlaga..”IIViðbirtingu fyrirkallsins óskaði ákærði eftir því að sér yrði skipaður verjandi ímálinu. Orðið varð við ósk ákærða og Gunnar Ingi Jóhannsson hrl. skipaðurverjandi hans og honum sent eintak gagna málsins. Ákærði sótti ekki þing þegarmálið var þingfest 22. september sl. en verjandi ákærða hafði samband viðdóminn og boðaði forföll fyrir ákærða sem þá var á sjó. Við þingfestingumálsins gerði sækjandi þá breytingu á ákæruskjali að háttsemi ákærða fæli ekkií sér að hann hefði í umrætt sinn ekið sviptur ökurétti.Ákærðisótti þing þegar málið var aftur tekið fyrir 6. október sl. og játaði skýlaustháttsemi þá sem honum er í ákæru gefin að sök. Kvaðst ákærði ekki hafa gert sérgrein fyrir því áfengismagni sem mældist í honum en hann hafi neytt áfengiskvöldið áður og því ekið of snemma af stað. Ákærði kvaðst vera óvirkuralkóhólisti og hann hafi ekki neitt áfengis frá árinu 2013 fyrir utan þettaeina sinn og ekki eftir þetta atvik. Játning ákærða er í samræmi við önnur gögnmálsins og telst sekt hans nægilega sönnuð en brot ákærða eru réttilega færðtil refsiákvæða í ákæru, eftir að henni hafði verið breytt með framangreindumhætti. Farið var með málið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 164. gr. laga ummeðferð sakamála nr. 88/2008.Samkvæmtvottorði Sakaskrár ríkisins á ákærði nokkurn sakarferil að baki. Í september2008 var ákærða gert að greiða sekt fyrir brot vegna ölvunaraksturs og varsviptur ökurétti í tvö ár. Á árunum 2009og 2010 var ákærða gert að greiða sekt vegna aksturs sviptur ökurétti. Íoktóber 2011 var ákærða gert að greiða sekt fyrir ölvunarakstur og var svipturökurétti í þrjú og hálft ár. í Nóvember 2013 var ákærða gert að sæta fangelsi í45 daga fyrir að aka sviptur ökurétti og að lokum í febrúar sl. var ákærða gertað sæta fangelsi í 60 daga einnig fyrir að aka sviptur ökurétti. Ákærðihefur með ölvunarakstursbroti því sem hann er nú sakfelldur fyrir gerst sekurum ítrekaðan ölvunarakstur öðru sinni. Refsing hans vegna þessa þykir samkvæmtdómvenju hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga auk þess sem svipta ber hannökurétti ævilangt frá birtingu dómsins að telja. Meðvísan til 218. gr. laga um meðferð sakamála ber að dæma ákærða til að greiðaallan sakarkostnað. Samkvæmt yfirliti sækjanda nam sakarkostnaður árannsóknarstigi málsins 43.998 krónum. Verjandi ákærða gerir ekki kröfu umþóknun.Máliðsótti Sigurður Hólmar Kristjánsson fulltrúi lögreglustjórans á Norðurlandivestra.HalldórHalldórsson dómstjóri kveður upp dóm þennan.Dómsorð:Ákærði,Kristmann Jónsson, sæti fangelsi í 30 daga. Ákærðier sviptur ökurétti ævilangt. Ákærðigreiði 43.998 krónur í sakarkostnað.
Mál nr. 65/2012
Eignarréttur Fasteign Þjóðlenda Afréttur Gjafsókn
Eigendur jarðarinnar Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi, G o.fl., höfðuðu mál gegn Í og kröfðust þess að ógilt yrðu ákvæði í úrskurði óbyggðanefndar um að land innan nánar tiltekinna marka væri þjóðlenda sem að hluta væri í afréttareign jarðarinnar. Deila aðila laut að því hvernig draga skyldi mörk eignarlands Reykjahlíðar til suðurs gagnvart þjóðlendu á Mývatnsöræfum og í Ódáðahrauni. G o.fl. héldu því fram að suðurmörk Reykjahlíðar væru í Bræðraklifi, vestur af Herðubreið, sem lýst var í landamerkjaskrá jarðarinnar 8. apríl 1891, en Í taldi að Bræðraklif væri 25 km norðar í Hafragjá. Hæstiréttur vísaði til þess að af elstu heimildum um jörðina Reykjahlíð yrði ekkert ráðið um hvort henni hefði tilheyrt land handan fjallgarða sem liggja fyrir austan Mývatn og í málinu væri ekkert komið fram um að það landsvæði gæti hafa verið háð beinum eignarrétti annarra. Á hinn bóginn gæfu heimildir um Möðrudal frá 15. og 16. öld til kynna að sú jörð hefði haft tiltekin not af landi vestan Jökulsár á Fjöllum, þ. á m. í Herðubreiðartungum, án þess að nokkuð væri þar tiltekið um ítak í landi annarra jarða. Þá rakti Hæstiréttur efnislega samhljóða ummæli í heimildum frá 16. til 19. öld um tilkall Reykjahlíðar til ómerkinga á öræfum handan þeirra fjallgarða sem næstir liggja Mývatni að austanverðu og allt til Jökulsár á Fjöllum. Taldi Hæstiréttur að ef landið hefði verið háð beinum eignarrétti Reykjahlíðar hefðu ítrekuð ummæli um þetta tilkall jarðarinnar verið með öllu óþörf, enda hefði það leitt af lögum. Loks vísaði rétturinn til einnar þessara heimilda, úrskurðar frá árinu 1506, þar sem tilvísun var að finna til 26. kap. landsleigubálks Jónsbókar, og benti á að beinn eignarréttur að landi á grundvelli átölulausra afnota þess hefði ekki getað stofnast samkvæmt ákvæðinu, heldur væri um að ræða sönnunarreglu fyrir afnotarétti af fasteign án þess að slíkum afnotum fylgdi beinn eignarréttur, en að auki hefði verið ástæðulaust að styðja eignarrétt við slíka heimild ef landið hefði verið hluti af jörðinni frá öndverðu vegna landnáms. Samkvæmt þessu taldi Hæstiréttur að landsvæðið hefði ekki verið háð beinum eignarrétti fyrir 1506 og að fyrrgreindur úrskurður hefði í engu breytt um það, enda skyldu almenningar og afréttir vera svo sem að fornu hefði verið samkvæmt 52. kap. landsleigubálks Jónsbókar. Þar sem Í hefðu engu að síður fellt sig við niðurstöðu óbyggðanefndar um að hluti hins umþrætta landssvæðis teldist eignarland Reykjahlíðar, yrði á þeim grundvelli leyst úr ágreiningi um mörk þess gagnvart þjóðlendu. Um staðsetningu Bræðraklifs segir svo í dómi Hæstaréttar að til örnefnisins væri víða vísað í heimildum frá 16. til 19. öld, en af nokkrum þeirra yrðu ályktanir dregnar um hvorn hinna tveggja staða væri að ræða. Meðal annars með vísan til þess lagði Hæstiréttur til grundvallar að Bræðraklif væri í Hafragjá. Var niðurstaða óbyggðanefndar og héraðsdóms því staðfest um að suðurmörk Reykjahlíðar skyldu dregin eftir línu til austurs frá suðurenda Bláfjallshala til Bræðraklifs í Hafragjá og þaðan beint í Jökulsá á Fjöllum.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Þorgeir Örlygsson. Snemma á 16. öld voru gefnir vitnisburðir um landareign og merki Reykjahlíðar. Í vitnisburði Jóns Magnússonar 26. september 1505 sagði meðal annars að hann hafi verið „heimilisfastur i reikiadal og vid mýuatn og j odrum hreppum j Þijngeýarþijngi meir enn lx vetra og hefer eg vitad fyrir full sannindi ad þeir dandimenn sem att hafa jordina reikiahlijd er liggur vid mývatnn hafa haft og halldid og sier eignad med jordunni og kirkiunni i reykiahlijd auræfi oll atolulaust fyrir austann fiallgarda þa sem næsta liggia vid mývatn fyrir austann vatnid ad jokulsἁἁ og omerkinga alla millumm Jlifsvatna og brædraklifs fyrir vtann herddibreid. hefi eg og heyrt mier marga skilvijsa ellre menn so seigia. ad þessi landareignn hafi fylgt jordunni reẏkiahlijd langt fyrir mijna daga.“ Kvað hann föður sinn jafnframt hafa sagt „þetta jtolulaust verid hafa vtann þær kaplagongur sem bref og mἅldagar thil seigia er aa melana hefur hafft verid.“ Í vitnisburði Þórólfs Hranasonar 6. maí 1506 kvaðst hann hafa verið „heimilisfastur i þijngeẏarþijngi meir enn .l. vetra og veit eg fyrir full sannendi ad þeir dandimenn sem att hafa jordina reikiahlijd er liggur uid uatn hafa haft og halldid og sier eignnad j allann þennann tijma auræfi þau oll er liggia fyrir austann mẏuatn ad Jokulsaa og alla omerkinga a milli Jlifsvatna og brædrakliffs er liggur sudur a auræffumm.“ Þessi landamerki og eign jarðarinnar hafi hann heyrt sér eldri og skilríka menn segja að hafi verið eignuð jörðinni langt fyrir sinn aldur „af þeim sem þa attu reikiahlijd atolulaust vtann þær beitar jtolur sem skilrijki ad ganga er a melana hefur haft verid.“ Finnbogi Jónsson lögmaður, Magnús Þorkelsson og Gamli Þorsteinsson gáfu jafnframt efnislega sams konar vitnisburð 8. maí 1506, en þeir kváðust hafa verið heimilisfastir í Þingeyjarþingi meira en 40 vetur. Finnbogi Jónsson lögmaður útnefndi Magnús Þorkelsson, Gamla Þorsteinsson, Höskuld Runólfsson, Björn Hákonarson, Eirík Ívarsson og Hall Ketilsson 15. maí 1506 til „at skoda og Ransaka. dom a at leggia vm þau Bref. prof. vitni og skilriki Єʀ Þorsteinn Finbogason þar leiddi og framlagdi vndir vornn dom og løgmannsins laga skijpan huort hann skylldi at laugum hallda mega med jordinni Reykiahlid oll auræfi þau er liggia fyrir austann myvatnn og hann reiknade greindre jordu hefdi at fornnu fylt.“ Fyrir liggur að lögmaðurinn Finnbogi var faðir Þorsteins Finnbogasonar. Í dómi þessara sex útnefndra manna 17. maí 1506 var meðal annars vísað til þess að fram hafi komið „fimm godra manna Bref med þeirra skilrijkustu manna jnnsiglumm sem i þui heradi hofdu i langann tijma heimilisfastir verid. so hliodanda. ad þeir vissu fyrir fvll sannindi ad þeir dandimenn. sem att hafa jordina Reikiahlijd sem liggur vid mýuatn hefdi haft og halldid og sier eignad meir enn xl vetra atolulaust i allann þennann tijma auræfi þau er liggia fyrir austann mýuatn ad Jökulsἁἁ og alla omerkinga i millumm Jleifsvatna og brædraklijfs er liggur sudur a auræfumm.“ Einnig hafi tveir skilríkir menn svarið „med fullum bokareidi þessi somu greind øræfi og landamerki hefdi verid hofd og halldinn eignn fyrr greindrar jardar reikiahlijdar. meir enn lx vetra atolulaust so onguann vissu þeir sier kalla annann nie akiæru veita j millumm Jokulsáá og fiallgardz þess er geingur næst fyrir austann mýuatnn og ei nemur bufiar haga med omerkingum fra Jlifsvottnum og thil brædraklijfs fyrir vtann herdibreid.“ Hafi þeir svarið að þeir hafi heyrt marga skilríka menn segja þessa landareign hafa fylgt jörðinni Reykjahlíð átölulaust langt fyrir þeirra daga „vtann þær kaplagaungur sem breff og maaldagar thil seigia er a melana hefur haft verid.“ Á þessum grunni kváðust sexmenningarnir dæma „med fullu doms adkuædi jordunni reikiahlijd thil fullrar Єignnar auræfi oll fyrir austann myvatn med þeirra ollumm Єndimaurkum sem þar hafa vitni vmm borit og eidar vmm geingid og hier i dominum standa og jordina fẏrr greinda obrigdugliga eiga og att hafa so hiedan af sem hijngad thil. vtan leidist med profum eda logligum vitnum ad nockura manna jtolur thil eignar verdi i sagda landareignn nema þær kaplagongur sem maldagar thil seigia.“ Með úrskurði 23. maí 1506 samþykkti og staðfesti Finnbogi lögmaður framangreindan dóm. Í úrskurðinum kvaðst hann hafa séð dóminn og lesið yfir og litist hann „loglegur og skiælegur j allann handa mata med ollum sijnum greinum og articulis eptir þeim hefdarvitnumm sem leitt var med skilrijkustu manna brefum og jnnsiglum og suordum bokareidum.“ Vísað var til þess að í dóminum hafi verið sagt til um að jörðinni Reykjahlíð hafi í meira en 40 vetur fylgt átölulaust öll öræfi, sem liggi fyrir austan Mývatn að Jökulsá, og allir ómerkingar milli Eilífsvatna og Bræðraklifs, sem liggi suður á öræfum. Í úrskurðinum sagði síðan: „Stendur svo skriffad i vorri landzlaga bok. Єf madur hefur skog eing eda haga eda adrar landznẏtiar xx vetur edur leingur atolulaust þa ἅ sa er haft hefur vtann annar leidi thil þess loglig vitni ad hann a ef hann skal oræntur vera. Seigir og so ad med skapti og taugu skulu menn jordu skipta jnnann gardz enn sionhending vtan gardz. Er oc eigi skillt ad ganga a merki a fioll upp vr bufiarhogum þar sem vattnsfoll deilast i millumm herada. Þui fyrir allar þessar greinir og fleiri adrar sem hier aa laganna vegna ad luta og ad so profudu mἅli sem þa kom frjir mig og med þeirra bestu manna radi og samþycki sem þa voru hia mier sagda eg greindur finnbogi Jonsson logmann jn nomine domini amen. med fullum laga vrskurdi adur nefndann dom logligan og fullmegtugan med ollum sijnum greinum og articulis og nefndann Þorstein finnbogason sinna vegna og firrnefndrar Setceliu torfadottur eiga og att hafa og logliga hallda meiga med jordunne reikiahlijd alla fyrskrifada jardar eignn og hier fyrir greinir ad ollum oræfum thil greindumm þeim er liggia j millum Jokulsar og bufiarhaga þeim er liggia austur fra þeim jordum er vid myuatn standa. og sionhending fyrir austann bufiarhaga fyrrnefnda sudur i oræfi so langt sem vatzfoll deilast og votn ad draga. eptir þui sem logbok utuijssar vtann þad synist med mἅldogum og logligum vitnum sem i dominum greinir ad nauckrer eigi hier vti þær jtolur eda itok sem logbok skipar j mot riettumm hefdarvitnum eiga ad koma epter logumm.“ Þremur dögum eftir að framangreindur úrskurður Finnboga lögmanns gekk, 26. maí 1506, var kveðinn upp dómur sex manna, sem hann hafði kvatt til að rannsaka, skoða og leggja dóm á sakir, sem Þorsteinn Finnbogason hafði borið á Magnús Pálsson. Sakir þessar lutu að því að Magnús hafi ekki sjaldnar en tíu skipti grafið í landi Reykjahlíðar og tekið þaðan án heimildar að minnsta kosti sjö tunnur af brennisteini í hvert sinn. Af þessu tilefni hafi Magnúsi verið stefnt fyrir dóm, en ekki sótt þing. Í dóminum var Magnúsi gert að vinna að því eið innan sjö nátta að hann hafi hvorki grafið í jörð Þorsteins né flutt þaðan brennistein, en yrði honum eiðfall bæri honum að greiða konungi þrjár merkur í sekt og flytja til Reykjahlíðar innan fjórtán nátta svo mikinn og góðan brennistein, sem hann hafi tekið brott. Fyrir þær sakir að Þorsteinn hafi „lỏgfesting a lagt fyrr neffnda jord reikiahlijd“ bæri Magnúsi jafnframt að gjalda Þorsteini „fullretti hans fyrir huoria þa thilferd er hann thil giordi ad taka sagdan Brennistein“ nema því aðeins að Magnús ynni að því eið að hann hafi talið sér þetta „heimillt vera eptir þui heimilldartaki sem lỏgbok skipar“ og leiddi tvö vitni til staðfestingar því að hann hafi „so heimilldina tekid sem login skipa“, en þá skyldi hann bæta „jardar spioll ad Єins.“ Kveðið var á um þá greiðslu, sem Magnúsi bæri að inna af hendi til Þorsteins, ef honum yrði eiðfall að þessu síðarnefnda leyti. Í gögnum málsins kemur ekki fram hver frekari afdrif þessa máls hafi orðið. Þrír menn gáfu vitnisburð 6. desember 1532 um að þeir hafi heyrt Jón nokkurn Guðmundsson lýsa landamerkjum Möðrudals á Fjalli á nánar tiltekinn veg, svo og að sú jörð ætti „atta hrossa gỏngu beit i Vegge ok Krokmel. ok taka ecke undan fololld. a Myvats auræfe fyrer nordan Jokulsἅ. ok halfar Herdebreidstungur.“ Hinn 2. maí 1562 gáfu þrír menn vitnisburð um að Kolbeinn Arngrímsson, bóndi á Grænavatni, hafi 28. apríl sama ár lýst fyrir þeim „ad hann hefdi soddan ojofnud feingid. lidid og vmbera ordit Þorsteine heitnum Fimbogasyni huors sal Gud nadi. hans monnum og sonum nu epter hann frafallinn. nær og botalaust. sem hier epter skrifat stendur et cetera.“ Var síðan lýst níu slíkum tilvikum, þar sem meðal annars hafi verið sótt að Kolbeini eða mönnum hans með vopnum og þeim veittir nánar tilteknir áverkar. Að þeirri lýsingu lokinni sagði meðal annars eftirfarandi: „Yferlysti hann fyrir oss at hann hefdi Grænavatn optsinis logfest medan Þorsteirn lifdi og þar med fremre nama. og hefdi hann og hans sẏner haft samt vijsvitandi. Opt sagdist hann laga bedist hafa a fremre namum og annari landareign Grænavatz af Ara Jonssyni logmanni og eigi feingid hafa. Sagdi hann Þorsteirn Fimbogason hefdi stefnt Magnusi Palssyni omaga fiar sins fyrir Brennisteininn j fremre namum. hier med sagdi hann at lẏst hefdi fyrer sier Jon liotur Magnusson og Halldor Sigmundsson þeir sem vm oræfin soru. at þeir hefdo alldre annat suarit. enn þad Hlijdar kẏrkiu hefdi verid eignader aller omerkingar fẏrer austan fiallgarda j mille Jlijfsvatna og Brædraklifs. þeir sem mædur helgudu sier eij. enn eij vissu þeir huort kirkian ætti edur eij.“ Mennirnir þrír, sem gáfu síðastgreindan vitnisburð, gerðu annan slíkan sama dag, þar sem þeir kváðust hafa hlýtt á Kolbein Arngrímsson og Magnús Jónsson staðfesta „allan þan kaupskap og skildaga“, sem nafngreindur stjúpsonur Kolbeins hafi gert við Magnús um jörðina Grænavatn, svo og önnur skipti þeirra. Í þessum vitnisburði var lýst merkjum Grænavatns og sagði meðal annars að þau lægju „austur i gard þann er skilur lond i milli Briamsnes og Grænavatz: og ur þeim gardi austur i sẏdri Burfellskord. þadan og austur i Hafragia. rædur þa giain og fram at Brædraklife og þadan sudaustur ȕnder Herdibreid og allan Heilagsdal. Rett vr Herdibreid og vestur i Sudurarbotna.“ Einnig hafi Kolbeinn sagt „Grænauatn eiga gielldfiarrekstur a Hlidar auræfi.“ Í vitnisburðinum var þess ekki getið að landi hvers þau merki kynnu að liggja, sem að framan greinir. Í dómi sex manna 6. maí 1562 var því lýst að Magnús Jónsson, sýslumaður í Þingeyjarþingi, hafi sama dag nefnt þá til að skoða, rannsaka og fella dóm á kaupbréf, sem hann hafi gert við Kolbein Arngrímsson um jörðina Grænavatn, svo og hvort Magnús mætti ekki hafa, halda, byggja, selja og alla notkun hafa af henni innan þeirra landamerkja, sem „Kolbeirn tilskillde. einkade og ἅnafnade Magnuse Jonssẏne i þeirra kaupbrefe. og med þessum ỏrnefnum og ummmerkium.“ Þessi merki voru síðan tilgreind meðal annars á eftirfarandi hátt: „þadann og austur i gard þann. sem skilur land mille Briamsness og Grenavatns. þadann riettsynis ür þeim garde og ustur i Burfellsskòrd hin sidre. þadann og austur i Hafragiȁ. rædur þȁ giȁin og framm ad Brædraklife. og þadann og austur under Herdebreid. og allann Heilagsdal. riett ur Herdebreid til vesturs. og so ȕt i Sudurἅrbotna.“ Þess var og getið að „Grenavatn ætte gielldfiἅrrekstur ἅ Hlijdar ỏræfe.“ Í dóminum sagði að enginn hafi komið fram á þingi, sem rengdi eða vildi rjúfa þessi kaup, eða „til greijndum landamerkiumm i mőte mælte.“ Var dæmt að Magnús hefði „loglegt lagahalld a þeijrre iordu og ollu þui henne hefur fremst eijgnad verid og skrijfad stendur i þeijrra kaupbriefe þar med alla firskrifada landareijgn“. Fjórir menn staðfestu með skjali 30. ágúst 1562 að þeir hafi þann dag séð handsöl og heyrt orð Magnúsar Jónssonar og Kolbeins Arngrímssonar um að efndir hafi verið skilmálar í kaupum þeirra um jörðina Grænavatn. Kolbeinn hafi þar á meðal handfest Magnúsi að hann myndi sverja hvenær sem Magnús vildi að hann vissi ekki betur en að Grænavatn „ætti alla þa landareign. vmmerki. og jtölur“, sem greint hafi verið frá í kaupbréfi þeirra. Einnig hafi Kolbeinn lýst að „Þorsteirn heitinn Fimbogason hefdi medur ongum logum sokt af sier fremri nama. Þui hann sagdist þἅ vngur og omagi nær verid hafa: og gamlir menn hefdi sier sagt. þad Kolbeirn Þorgrimsson sinn afi hefdi haft og halldit og sier eignat og jordunni Grænavatni alla fremri nama: og þar hefdi einginn vpp a talat fra heidnum haug. suo nockur hefdi þad heyrt fẏri enn Þorsteirn Fimbogason: og sagdur Kolbeirn Þorgrimsson hefdi flutt Brennistein vr fremri namum og sudur i Straum. og vt til Flateyar þa ᴇingelsker hefdi þar leigit. og sellt i þessum badum stodum og heidarligur mann Jon Bondi Þorsteinsson og Magnus Palsson hefdi bodit Fimboga logmanni at sueria suo felldan eid og eigi feingit. Hier eptir gaf Kolbeirn Magnusi Jonssyni sok og sokn. at helmingi vid sig: edur sina erfingia. ef hann eigi til entist af ollum þeim oretti sem Þorsteirn heitin Fimbogason hefdi sier giort. og hans syner Fusi og Nichulas epter hann frafallin huort þad væri i ordum edur verkum άά sinni personu. fremri namum edur eingium. edur huoriu nafni nefndist þad orietti vid kiæmi.“ Kolbeinn vann síðan 18. september 1562 þann eið fyrir Magnúsi, sem hann hafði heitið honum samkvæmt framansögðu, um landareign Grænavatns, ummerki og ítölur. Máldagi var gerður fyrir Reykjahlíðarkirkju 17. febrúar 1573 og sagði þar að hún ætti hálft heimaland jarðarinnar. Merkjum hennar var lýst meðal annars sem hér segir: „Lanndarmerki J austan verdan SeliaDal og suo langt vt J mo sem Jlijfs fiall kemur fram vndan gasa Dals fiollum oc suo þadann j Jlijfs fiall og harfragil sem er Austur vid Jokuls a Enn hid fremra J þa fiall garda Sem næstir eru fyri austan Myvatn og eckj snertir bufiar ägaungu oc suo Lanngt fram J oræfi sem vatnzfoll Deilast. Og alla Omerkinga Milli Jlijfs vatna og Brædra Klijfs“. Jón Þórðarson gaf vitnisburð 28. febrúar 1675, þar sem hann lýsti meðal annars merkjum Grænavatns á eftirfarandi hátt: „þadann Austur J þann gard, sem skilur Land millumm Grænavatnz og Briánzness, þadann riettsÿniss vr þeim garde Austur j Búrfellz Skörd, þadann Austur J Hafragiá, Rædur So hin Sama giá framm ad Brædrakliffe, og allt Austur vnder Herdebreÿd. á mótz vid KÿkiunnarLand J Reikiahlÿd Sem þar mæter Grænavatnz Lande ad vtanverdu vr Herdebreid og Austur J Jökulzá á Öræffumm. Jtem á Grænavatn allan Heilax dal og Fremre Náma (Grænavatnz Náma) alla. Sem Jnnefelast J greÿndu takmerke. Vr Herdebreid riett Siónhendÿng til ... Sudurárbotna“. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín, sem gerð var á árunum frá 1702 til 1714, sagði meðal annars um Reykjahlíð að hestaganga á öræfum væri sæmileg og brygðist sjaldan í meðalárum, en þess á milli féllu þeir í harðindum. Oft hafi sveitarmönnum í Mývatnssveit og einnig úr Kelduhverfi verið leyfð hestaganga á öræfunum á veturna og „hefur tekið 5 álnir undir hvörn, so sem gömul venja er til.“ Í vísitasíu prófasts til kirkjunnar í Reykjahlíð á árinu 1735 var meðal annars greint frá því að þar hafi verið framvísað bréfi um vísitasíu 23. maí 1706 með upplýsingum um eignir hennar. Þar hafi komið fram að kirkjan ætti hálft heimaland jarðarinnar og væru merki hennar meðal annars „j austann verdann Seliadal og so langt uti mó sem Ýlýfs fiall kiemur framm undann Gásadals fiollum og so þadann j Ýlýfsfiall og Hafragil, sem er austur vid Jökulsá Enn hid fremra j þa fiallgarda sem næstir eru firir austann Mývatn og echie snerter búfiar gaungu, og so langt frammi Öræfe sem vatnzföll deilast og alla omerkingia j millum Ýlýfsvatna og Brædraklifs“. Í úrskurði óbyggðanefndar er greint frá því að lögfesta fyrir Reykjahlíð hafi verið lesin upp á manntalsþingi 5. júní 1758. Lögfesta þessi hefur ekki verið lögð fram í málinu, en í úrskurðinum segir að landamerkjum jarðarinnar hafi þar verið lýst meðal annars sem hér segir: „Reykjahlídar Landamerki lögfesti eg i austanverdann Seljadal, og solángt úti mó, sem Ilýfs fiall kémur framm undan Gásadalsfjöllum, þadan I Ilýfs fiall og Hafragil sem er austr vid Jökulsá; en hid fremra Lögfesti eg Reykjahlídar Landeign í þá fiallgarda sem næstir eru fyrir austan Mývötn, en ecki snerta búfiárgaungu, og solángt frammí Öræfi sem vatnsföll deilast.“ Þess var og getið að „Reykjahlídar kyrkja epter hennar máldögum á alla Omerkínga sem hittast kunna milli Ilýfs vatna og Brædraklifs.“ Á manntalsþingi 15. júní 1767 var lesin upp lögfesta fyrir Grænavatn frá 21. júlí 1766, en í henni sagði meðal annars um merki jarðarinnar: „þadann og austur J Gard þann sem skilur Land mille Briamsness og Grænavatns, riettsÿnes, ur þeim Garde austur J Burfells Skörd hin Sydre, þadann og austur J Hafra-gia, sem Merkium rædur framm ad Brædraklife, þadann austur under Herdebreid, og allann Heilagsdal riettur Herdebreid til Vesturs, og so uti Sudurár-botna“. Þá var tekið fram að undanskilið væri „Eingia Take, sem svare þriggia Kua Fódre frá Jördunne Hrakströnd J Grænavatns Lande mót Gield-fiar rekstre á Hlydar Öræfe frá Grænavatne“. Í vísitasíu biskups í Reykjahlíð 8. ágúst 1828 var vísað til fyrrnefnds skjals frá 23. maí 1706 um merki jarðarinnar og var lýsing þeirra tekin upp í vísitasíubók með sama efni og áður greinir. Lögfesta fyrir Grænavatn frá 17. maí 1830 var lesin upp á manntalsþingi 25. sama mánaðar. Í henni var merkjum jarðarinnar meðal annars lýst þannig að þau færu um „sokallad Sidrajardfall á Flataskógarrönd þadann beint i Burfells-skördinn sidre, þadann austur i Hafragia, rædur þá giainn fram ad Brædraklifi, þadann austurunder Herdabreid, þadann til vesturs og i Sudurárbotna“. Einnig var tekið fram að jörðin ætti „géldfiárrekstur á Hlydar-Öræfi“. Í gögnum til undirbúnings jarðamati frá 1849 til 1850 sagði meðal annars um Reykjahlíð að þar væri mikið fjallaland til hestagöngu sumar og vetur og áreiðanleg vetrarbeit fyrir fénað í heimahögum og hross í selhögum og á fjöllum. Einnig væri dálítil grasatekja. Eins og áður segir var gerð landamerkjaskrá fyrir Reykjahlíð 8. apríl 1891 og var hún þinglesin 29. maí sama ár. Að því leyti, sem hér skiptir máli, voru ummæli um merki jarðarinnar svofelld: „Fyrir sunnan Vogaland ráða fjallgarðar þeir til suðurs, er næstir liggja Mývatnssveit og frá þeim bein stefna suður í Bræðraklyf vestur af Herðibreið. Frá Bræðraklyfi ræður bein stefna austur í Jökulsá, sunnan við Herðibreiðartungu.“ Landamerkjaskráin var árituð um samþykki af hálfu Áss, Svínadals, Þeistareykja, Ytri- og Syðri-Neslanda, Grímsstaða og Voga, en ekki fyrir hönd Grænavatns. Eigandi Reykjahlíðar gerði samning 14. ágúst 1899 um að selja „á leigu alla fossa í landareign eignarjarðar minnar Reykjahlíðar“. Þessum réttindum var síðan afsalað til Einars Benediktssonar 22. nóvember 1907. Í gögnum til undirbúnings fasteignamati 1916 til 1918 var meðal annars rætt um að land Reykjahlíðar væri „geysimikið að víðáttu“ og ætti jörðin „víðlenda afrétt á Mývatnsfjöllum, vestan Jökulsár“, þar sem margt sauðfé gengi að sumri og hross að vetri. Jörðinni fylgdi andavarp í eyjum og hólmum í Mývatni og „gæsavarp í Grafarlöndum, skammt frá Herðibreið.“ Samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar var landamerkjabréf gert fyrir Grænavatn 20. maí 1921 og þinglesið á sama ári. Í bréfi þessu, sem ekki hefur verið lagt fram í málinu, mun merkjum jarðarinnar meðal annars hafa verið lýst þannig: „Að austan ræður fjallgarðurinn merkjum suður og svo Bláfjall. Úr suðaustur horni Bláfjalls liggur merkjalínan í hásuður þar til Suðurárbotnar efri eru í vestri. Að sunnan eru merkin frá nefndum punkti beint vestur í austustu upptök Suðurár.“ IV Sem fyrr segir var í Landnámabók greint frá landnámi á Mývatni og Grænavatni, en í hvorugu tilviki var getið um svæðin, sem það tók til. Af áðurnefndum máldögum Hólabiskupa 1318 og 1394 er ljóst að kirkjan í Reykjahlíð átti þá orðið hálfa jörðina, en merkjum hennar var ekki lýst. Af þessum elstu heimildum um jörðina verður því ekkert ráðið um hvort henni hafi tilheyrt land handan þeirra fjallgarða, sem liggja fyrir austan Mývatn. Í málinu er heldur ekkert komið fram um að það landsvæði geti hafa verið háð beinum eignarrétti annarra. Áðurgreindar heimildir um Möðrudal frá 15. og 16. öld gefa á hinn bóginn til kynna að sú jörð hafi haft tiltekin not af landi vestan Jökulsár á Fjöllum, þar á meðal í Herðubreiðartungum, en ekki var þar rætt um ítak í landi annarra jarða. Í fyrrnefndum vitnisburðum um Reykjahlíð frá árunum 1505 og 1506 var meðal annars rætt um að eigendur jarðarinnar hafi átölulaust eignað henni og kirkjunni þar öll öræfi handan við þá fjallgarða, sem næstir liggja Mývatni að austanverðu, allt til Jökulsár á Fjöllum. Í vitnisburðunum var þess og getið að eigendur jarðarinnar hafi átölulaust eignað henni og kirkjunni alla ómerkinga milli Eilífsvatna og Bræðraklifs. Ummæli um þetta tilkall til ómerkinga voru síðan endurtekin í fyrrnefndum máldaga Reykjahlíðarkirkju 1573, vísitasíum 1706, 1735 og 1828 og lögfestu 1758. Eilífsvötn eru um 2 km sunnan við norðurmerki Reykjahlíðar í fjallinu Eilífi samkvæmt landamerkjaskrá jarðarinnar 8. apríl 1891, þar sem hún mætir landi Svínadals að austan og Áss að vestan, en frá fjallinu eru um 11 km að Dettifossi, sem er austast á norðurmerkjunum, og um 17 km til Bóndhóls vestast á þeim. Frá Eilífsvötnum eru um 43 km til suðsuðausturs að Bræðraklifi, eins og það var staðsett í úrskurði óbyggðanefndar, en um 67 km suður að þeim stað, þar sem áfrýjendur telja Bræðraklif vera. Svæðið frá Eilífsvötnum í norðri til Bræðraklifs í suðri nær þannig yfir stóran hluta landsins, sem deilt er um í málinu. Að því verður að gæta að samkvæmt 47. kap. landsleigubálks Jónsbókar mátti bóndi, sem fann ómarkað fé í landi sínu eftir að átta vikur voru liðnar af sumri, leggja á það sitt mark og eigna sér það. Hefði land þetta með réttu verið háð beinum eignarrétti Reykjahlíðar hefðu ítrekuð ummæli um þetta tilkall jarðarinnar, sem hefði leitt beinlínis af lögum, verið með öllu óþörf, bæði í vitnisburðunum 1505 og 1506 og í yngri heimildum allt fram á 19. öld. Til þess verður einnig að líta að í úrskurði Finnboga Jónssonar lögmanns 23. maí 1506, þar sem kveðið var á um eignarrétt Reykjahlíðar að öllum öræfum handan fjallgarðsins austan Mývatns að Jökulsá á Fjöllum og svo langt í suður sem vatnsföll deilast, var vísað til þess að fram hafi komið að jörðinni hafi í meira en 40 vetur átölulaust fylgt öræfin frá fjallgarðinum að vestan til Jökulsár að austan og allir ómerkingar frá Eilífsvötnum í norðri til Bræðraklifs í suðri, en skrifað væri í „vorri landzlaga bok. Єf madur hefur skog eing eda haga eda adrar landznẏtiar xx vetur edur leingur atolulaust þa ἅ sa er haft hefur vtann annar leidi thil þess loglig vitni ad hann a ef hann skal oræntur vera.“ Lagaheimildin, sem með þessu var vísað til, var í 26. kap. landsleigubálks Jónsbókar og hljóðaði svo: „Nú hefir maðr skóg, eng eða haga, reka eða aðrar landsnytjar .xx. vetr eða lengr átǫlulaust, þá á sá er haft hefir, nema hinn hafi lǫglig vitni til, at hann á, ef hann skal úræntr vera.“ Samkvæmt þessu ákvæði varð ekki til beinn eignarréttur að landi á grundvelli átölulausra afnota þess um tuttugu ára skeið, heldur geymdi ákvæðið einungis sérstaka reglu um sönnun fyrir rétti til tiltekinna nota af fasteign án þess að þeim fylgdi beinn eignarréttur að henni, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 7. október 2010 í máli nr. 379/2009. Auk þess sem úrskurðurinn 23. maí 1506 var þannig reistur á röngum grunni verður að gæta að því að ástæðulaust hefði verið að vísa þar til átölulausra nota eigenda Reykjahlíðar af öræfalandinu um áratugaskeið ef það hefði þá þegar verið hluti af jörðinni á grundvelli landnáms eða afsals úr hendi þess, sem leiddi beinan eignarrétt sinn að landinu fyrir nám. Af þessu verður ekki annað ályktað en að landsvæði þetta hafi ekki verið háð beinum eignarrétti fyrir 1506 og gat dómurinn 17. maí á því ári, sem var staðfestur með úrskurðinum 23. sama mánaðar, engu breytt um það, enda skyldu almenningar og afréttir vera svo sem að fornu hafði verið, sbr. 52. kap. landsleigubálks Jónsbókar. Samkvæmt málatilbúnaði stefnda fellir hann sig eins og áður segir við þá niðurstöðu óbyggðanefndar að nánar tiltekinn hluti landsins á svæðinu, sem að framan er getið, teljist til eignarlands jarðarinnar Reykjahlíðar. Af þessum sökum verður án tillits til þess, sem áður segir, að leysa úr ágreiningi aðilanna í málinu um mörk þessa eignarlands gagnvart þjóðlendu á þeim grundvelli. Sá ágreiningur lýtur einkum að því hvar sé að finna Bræðraklif, sem vísað er til í ýmsum heimildum um jörðina. Eins og ráðið verður af því, sem áður greinir, virðist fyrst hafa verið rætt um Bræðraklif í heimildum um Reykjahlíð í vitnisburði 26. september 1505, þar sem sagt var að það væri fyrir utan Herðubreið. Í vitnisburðum 6. og 8. maí 1506 var sagt að Bræðraklif lægi suður á öræfum og kom það sama fram í dómi og úrskurði 17. og 23. sama mánaðar. Bræðraklifs var getið í vitnisburði 2. maí 1562, en ekkert var frekar sagt um hvar það væri. Í öðrum vitnisburði frá síðastnefndum degi var lýst landamerkjum Grænavatns og hermt að þau lægju úr Syðri Búrfellsskörðum austur í Hafragjá, þaðan réði „giain og fram at Brædraklife“, en frá því færu merkin suðaustur undir Herðubreið. Sömu lýsingu var að finna í dómi 6. maí 1562 um kaupbréf um Grænavatn, en þó þannig að rætt var um að merkin færu úr Bræðraklifi austur undir Herðubreið. Í máldaga Reykjahlíðarkirkju frá 1573 var getið um Hafragjá í lýsingu á norðurmerkjum jarðarinnar og sagt að hún væri austur við Jökulsá, en Bræðraklif var einnig nefnt án þess að staðsetningu þess væri lýst frekar. Sama gegndi um vísitasíur 1706, 1735 og 1828, svo og lögfestu fyrir Reykjahlíð frá 1758. Í vitnisburði frá 1675 var merkjum Grænavatns lýst austur í Hafragjá og réði síðan „hin Sama giá framm ad Brædrakliffe, og allt Austur vnder Herdebreÿd. á mótz vid KÿkiunnarLand J Reikiahlÿd Sem þar mæter Grænavatnz Lande ad vtanverdu vr Herdebreid og Austur J Jökulzá á Öræffumm.“ Í lögfestum fyrir Grænavatn frá 1766 og 1830 var sagt að merki jarðarinnar lægju úr Syðri Búrfellsskörðum austur í Hafragjá, sem réði þeim fram að Bræðraklifi, en þaðan færu þau austur undir Herðubreið. Loks er þess að geta að í landamerkjaskrá fyrir Reykjahlíð frá 1891 sagði að merki jarðarinnar réðust af fjallgörðunum til suðurs, sem næstir liggi Mývatnssveit, frá þeim bein stefna suður í Bræðraklif, vestur af Herðubreið, og þaðan bein stefna austur í Jökulsá sunnan við Herðubreiðartungu. Í þessum heimildum er einna nákvæmast greint frá staðsetningu Bræðraklifs í tilvikum, þar sem rætt var um það í samhengi við Hafragjá, en sem fyrr segir komst óbyggðanefnd að þeirri niðurstöðu að Bræðraklifi yrði réttilega fundinn staður í þeirri gjá. Í úrskurði nefndarinnar er gjánni lýst sem miklu jarðfalli með háum veggjum, um 5 til 6 km langri og á annan kílómetra að breidd, en hún nær suður að norðurenda Herðubreiðarfjalla og var því rangt farið með stað hennar í framangreindum heimildum um Reykjahlíð frá 16., 18. og 19. öld, þegar rætt var um að hún væri austur við Jökulsá. Í fyrrnefndum vitnisburði 2. maí 1562 og dómi 6. sama mánaðar sagði að merki Grænavatns færu um Hafragjá og fram að Bræðraklifi, en í vitnisburði og lögfestum frá 17., 18. og 19. öld sagði að gjáin réði þessum merkjum fram að klifinu. Þannig er vafalaust samkvæmt síðastnefndu heimildunum að Bræðraklif sé í Hafragjá, en þetta gæti á hinn bóginn orkað tvímælis eftir orðalagi heimildanna tveggja frá 1562. Af lýsingu á stefnum milli Bræðraklifs og annarra kennileita í framangreindum heimildum verða að öðru leyti vart dregnar haldbærar ályktanir, enda er rætt meðal annars í vitnisburðinum og lögfestunum, sem staðsetja Bræðraklif svo að víst sé í Hafragjá, að merkin fari þaðan austur í Herðubreið, en hún er sem næst beint í suður frá gjánni. Er því ekki unnt að byggja frekar á því að aðrar heimildir miði við að Bræðraklif sé suður á öræfum, fyrir utan Herðubreið eða norðvestan eða vestan við það fjall. Þegar leyst er úr því hvar Bræðraklif sé réttilega að finna verður að öðru leyti að horfa til þess að fyrrgreindir vitnisburðir og dómsúrlausnir frá árunum 1505, 1506 og 1562 eiga augljósar rætur að rekja til deilna milli eigenda Reykjahlíðar og Grænavatns um heimildir yfir brennisteini í Fremrinámum, en þær eru skammt frá Ketilhyrnum, rúmlega 10 km austnorðaustan við suðurenda Bláfjallshala, sem er syðst í fjallgarðinum austan við Mývatn, og rúmlega 11 km vestnorðvestan við Bræðraklif, eins og óbyggðanefnd fann því stað syðst í Hafragjá. Með því að draga merkjalínu fyrir Reykjahlíð til austurs frá suðurenda Bláfjallshala til Hafragjár voru Fremrinámur í landi jarðarinnar. Samkvæmt fyrrgreindum vitnisburði 30. ágúst 1562 taldi eigandi Grænavatns námurnar með réttu vera í landi sinnar jarðar, sem samkvæmt öðrum vitnisburði 28. febrúar 1675 réðist af merkjum meðal annars eftir línu frá Búrfellsskörðum til Bræðraklifs. Væri Bræðraklif á þeim stað, sem áfrýjendur halda fram, gætu Fremrinámur hafa fallið utan merkja Grænavatns með því að draga þau að klifinu frá Búrfellsskörðum, en af gögnum málsins er ekki ljóst hvar merkjapunktur gæti hafa verið í þeim skörðum. Fram hjá því verður heldur ekki litið að í vitnisburði 26. september 1505 og dómi 17. maí 1506 var rætt um að eigendur Reykjahlíðar hafi átölulaust haft not af öræfalandi handan fjallgarðanna, sem næstir liggja Mývatni að austan, og allt austur að Jökulsá á Fjöllum. Með þessari afmörkun á landinu, sem þar var kallað til, var ekki lýst neinum vesturmerkjum lands þegar komið yrði suður fyrir Bláfjallshala, en þeir eru sem næst beint í vestur frá þeim stað í Hafragjá, sem óbyggðanefnd taldi vera Bræðraklif. Enn er til þess að líta að eins og ítarlega er rakið í hinum áfrýjaða dómi hefur verið álitið að landsvæðið í Ódáðahrauni, þar sem áfrýjendur telja Bræðraklif vera, hafi verið lítið þekkt af íbúum í Mývatnssveit fyrr en komið var fram á 19. öld. Hljóta þannig líkur að standa gegn því að merki Reykjahlíðar hafi átt að ráðast af örnefni á þessu svæði, en svo sem fram kemur í héraðsdómi hefur á hinn bóginn verið talið að forn ferðaleið hafi legið yfir Ódáðahraun um Hafragjá, þar sem klif hafi verið í gjárbarminum að vestanverðu, og hafi það verið nefnt Bræðraklif. Samkvæmt öllu framangreindu verður að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að Bræðraklif sé með réttu að finna í Hafragjá á þeim stað, sem óbyggðanefnd taldi í úrskurði sínum. Að því leyti, sem Reykjahlíð er eignað land sunnan við þennan stað með landamerkjaskrá jarðarinnar 8. apríl 1891, verður ekki fundin viðhlítandi stoð fyrir því í fyrrgreindum heimildum um land hennar frá árunum 1505 og 1506, en við þær verður að styðjast sem grunnheimildir þegar dómur er felldur á mál þetta. Með því að lýsingu á vesturmörkum lands jarðarinnar til suðurs í þessum heimildum þraut við suðurenda fjallgarðsins austan Mývatns í Bláfjallshölum og þar var jafnframt rætt um að tilkall eigenda jarðarinnar til ómerkinga næði suður til Bræðraklifs eru ekki efni til annars en að draga suðurmörk hennar eftir línu til austurs frá suðurenda Bláfjallshala til Bræðraklifs í Hafragjá og þaðan beint í Jökulsá á Fjöllum. Samkvæmt þessu verður hafnað kröfum áfrýjenda um að ógilt verði ákvæði í úrskurði óbyggðanefndar um mörk eignarlands Reykjahlíðar og þjóðlendu. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um kröfu áfrýjenda um endurskoðun ákvæðis í úrskurði óbyggðanefndar um málskostnað. Krafa áfrýjenda um að viðurkenndur verði einkaréttur þeirra til endurgjaldslausrar beitar, veiða, dýraveiða, hagnýtingar vatnsréttinda og nýtingar auðlinda í jörðu innan þjóðlendu á sér ekki viðhlítandi stoð í lögum. Héraðsdómur verður því jafnframt staðfestur að þessu leyti. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða óröskuð. Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjenda fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir. Dómsorð: Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjenda, Guðrúnar M. Valgeirsdóttur, Sigurðar J. Þorbergssonar, dánarbús Þuríðar Sigurðardóttur, Kristínar Ólafsdóttur, Arnars Ólafssonar, Bryndísar Jónsdóttur, Sigurðar Baldurssonar, Finns Baldurssonar, Péturs Gíslasonar, Sigfúsar Illugasonar, Jóns Illugasonar, Sólveigar Illugadóttur, Héðins Sverrissonar, Daða Lange Friðrikssonar, Kristínar Sverrisdóttur, Gísla Sverrissonar og Landeigenda Reykjahlíðar ehf., greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, 3.000.000 krónur. Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 27. október 2011. Mál þetta, sem dómtekið var 17. október sl., hafa Guðrún María Valgeirsdóttir, kt. 100464-2179, Sigurður Jónas Þorbergsson, kt. 170849-3969, Þuríður Sigurðardóttir, kt. 191213-2629, Ólafur H. Jónsson, kt. 071249-2719, Bryndís Jónsdóttir, kt. 140647-3659, Sigurður Baldursson, kt. 150256-2679, Finnur Baldursson, kt. 100652-3669, Pétur Gíslason, kt. 040168-3899, Finnur Sigfús Illugason, kt. 261148-7819, Jón Illugason, kt. 050638-4729, Sólveig Illugadóttir, kt. 210739-2389, Gísli Sverrisson, kt. 180561-7069, Héðinn Sverrisson, kt. 200949-3319, Sigrún Sverrisdóttir, kt. 090553-5349, Kristín Þ. Sverrisdóttir, kt. 061259-3849, og Landeigendur Reykjahlíðar ehf., kt. 550402-3860, höfðað hér fyrir dómi á hendur íslenska ríkinu, Arnarhvoli í Reykjavík, með stefnu birtri 15. desember 2008 til ógildingar á úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 1/2007. Dómkröfur stefnenda eru: Aðallega að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar frá 6. júní 2008 í máli nr. 1/2007, þess efnis að hluti jarðarinnar Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi sé þjóðlenda, þ.e. eftirtalin úrskurðarorð: Landsvæði það sem afmarkað er hér á eftir, þ.e. Grafarlönd austari og Herðubreiðarlindir, er þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998: Úr Bræðraklifi í Hafragjá (G) er farið í Veggjafell (H), við austurjaðar Herðubreiðarfjalla, og þaðan til suðausturs, í stefnu á Hlaupfell, þar til kemur að skurðpunkti (I) við línu sem liggur frá ármótum Kreppu og Jökulsár á Fjöllum í Herðubreið. Frá þessum skurðpunkti (I) er síðastnefndu línunni fylgt austur að ármótum Kreppu og Jökulsár á Fjöllum (J). Þaðan ræður Jökulsá á Fjöllum til norðurs þar til komið er beint austur af Bræðraklifi í Hafragjá (M) og þeirri línu fylgt í Bræðraklif (G). Sama landsvæði er í afréttareign eigenda Reykjahlíðar, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga. Landsvæði það sem afmarkað er hér á eftir, þ.e. sá hluti Ódáðahrauns sem liggur sunnan Bræðraklifs og norðan Dyngjujökuls, innan kröfusvæðis eigenda Reykjahlíðar, auk Ódáðahrauns vestan Öskju og á Trölladyngjusvæðinu, innan kröfusvæðis Skútustaðahrepps, er þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58/1998. Þjóðlenda í Ódáðahrauni afmarkast í heild sinni svo: Frá upptökum Krossár (A) er dregin lína beina stefnu í austsuðaustur í suðvesturhorn Dyngjufjalla ytri (B). Síðan er farið í Fjallöldu sem er við norðvesturhorn Dyngjufjalla ytri (C). Frá þeim punkti er farið norðvestur í upptök Suðurár (D). Þaðan er farið beint í austur þar til Bláfjallshalar eru í norðri (E) en úr þeim punkti er farið beint í norður í suðurenda Bláfjallshala (F). Þá er farið austnorðaustur í Bræðraklif í Hafragjá (G). Þaðan er farið í Veggjafell, við austurjaðar Herðubreiðarfjalla (H), og þaðan til suðausturs, í stefnu á Hlaupfell, þar til kemur að skurðpunkti (I) við línu sem liggur frá ármótum Kreppu og Jökulsár á Fjöllum í Herðubreið. Frá þessum skurðpunkti (I) er síðastnefndu línunni fylgt austur að ármótum Kreppu og Jökulsár á Fjöllum (J). Þaðan ræður Jökulsá á Fjöllum að meginupptökum sínum í Dyngjujökli (K). Síðan er jökuljaðrinum fylgt til vesturs þar til komið er suður undir Gæsahnjúk (L) og miðað við stöðu jökuls eins og hann var við gildistöku þjóðlendulaga 1. júlí 1998, sbr. 22. gr. þjóðll. Úr þeim punkti er farið norður aftur í fyrstnefndan punkt í upptökum Krossár (A). Þess í stað er þess krafist að viðurkennt verði að merki milli þjóðlendu að sunnan og eignarlands Reykjahlíðar að norðan séu frá skurðpunkti við þjóðlendulínu sunnan Bláfjalla (p.1) þaðan bein lína í Bræðraklif (Bræðrafell) fyrir vestan Herðubreið (p.2) og þaðan beint austur í Jökulsá (p.3) fyrir sunnan Herðubreiðartungu, sbr. framlagðan uppdrátt, og þar með að enga þjóðlendu sé að finna innan réttra landamerkja Reykjahlíðar. Þá er þess krafist að málskostnaðarákvörðun nefndarinnar gagnvart stefnendum um að greiða þeim 2.200.000 krónur í málskostnað verði felld úr gildi, og þess í stað dæmt að stefnda beri að greiða stefnendum kr. 4.327.500 auk vsk. kr. 1.060.235 eða samtals kr. 5.387.737 í málskostnað vegna lögmannsþjónustu auk kr. 2.599.120 vegna útlagðs kostnaðar landeigenda sjálfra vegna vinnu þeirra við gagnasöfnun, rannsóknir, fundi auk ferðakostnaðar, eða samtals kr. 7.986.857, vegna meðferðar málsins fyrir óbyggðanefnd. Varakrafa stefnenda er, verði niðurstaða óbyggðanefndar staðfest, að viðurkennt verði að stefnendur eigi einkarétt til beitar, veiða, dýraveiða, hagnýtingar vatnsréttinda og annarrar nýtingar á auðlindum í jörðu, án endurgjalds, á því svæði sem úrskurðað var þjóðlenda innan landamerkja Reykjahlíðar, þ.e. norðan sömu kröfulínu og í aðalkröfu stefnenda greinir, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga, þótt landið teljist þjóðlenda sunnan úrskurðarlínu óbyggðanefndar. Stefnendur krefjast málskostnaðar úr hendi stefnda líkt og málið væri eigi gjafsóknarmál, en með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis, dagsettu 9. febrúar 2009, var þeim veitt gjafsókn. Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnenda svo og málskostnaðar að skaðlausu, en til vara að aðilar beri sinn kostnað af málinu. Stefnendur eru þinglýstir eigendur Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi. I. 1. Tildrög þessa máls eru þau, að með bréfi, dagsettu 15. júní 2006, tilkynnti óbyggðanefnd fjármálaráðherra þá ákvörðun sína að taka til umfjöllunar landsvæði á austanverðu Norðurlandi, sbr. 8. gr., 11. gr. og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 58, 1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Afmarkaðist svæðið nánar, að austan af meginfarvegi Jökulsár á Fjöllum, frá Jökulsárósi í Öxarfirði og að ármótum við Kreppu. Þaðan er Kreppu fylgt þar til komið er að ármótum við Kverká og hinni síðarnefndu fylgt að upptökum í Brúarjökli. Þaðan er dregin lína til suðvesturs, til skurðar við línu þá í Vatnajökli sem afmarkar svæðið til suðurs, þar er hornmark. Framangreind afmörkun til vesturs endar í Fjórðungskvísl. Að sunnan fylgja mörkin miðjum farvegi Fjórðungskvíslar til austurs í punkt við Nýjadal/Jökuldal. Þaðan eftir dalnum, beina línu milli fimm punkta sem staðsettir eru í miðjum farvegi Fjórðungskvíslar. Þaðan úr austasta punkti í hæðarpunkt 1115 m. Þaðan í Deili, hæð 1125 m, og áfram, inn á Vatnajökul, í Bárðarbungu, hæð 2009 m, þaðan í Svínahnjúk eystri og loks í stefnu á miðja Breiðubungu, þar til kemur að hornmarki við austurmörk. Að norðan afmarkast svæðið af hafi. Kröfulýsingar fjármálaráðherra fyrir hönd stefnda, íslenska ríkisins, á umræddu landsvæði bárust 1. nóvember 2006. Óbyggðanefnd birti tilkynningu um meðferð sína á svæðinu og útdrátt úr kröfu stefnda ásamt uppdrætti í Lögbirtingablaðinu 10. nóvember 2006, en einnig í dagblöðum, sbr. ákvæði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58, 1998. Í tilkynningunni var m.a. skorað á þá, sem teldu til eignarréttinda á því landsvæði sem félli innan kröfusvæðisins, þ.m.t. stefnendur, að lýsa kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd í síðasta lagi 12. febrúar 2007. Var sá frestur framlengdur og bárust síðustu kröfulýsingar í júlí nefnt ár. Umræddu þjóðlendukröfusvæði stefnda var skipt niður í fimm mál, þ. á m. mál nr. 1/2007 Mývatnsöræfi og Ódáðahraun. Gefið var út yfirlit yfir allar lýstar kröfur og þær færðar inn á uppdrátt. Þá fór fram lögboðin kynning og var frestur til athugasemda veittur til 27. júlí 2007. Engar athugasemdir bárust og þá ekki við fyrirtökur málsins þann 26. apríl, 11. júní, 9. ágúst og 29. ágúst 2007. Að lokinni aðalmeðferð hjá óbyggðanefnd 3.-5. september 2007, þar sem m.a. var farið í vettvangsferð, var málið tekið til úrskurðar. Málsmeðferðin var endurupptekin 29. maí 2008, en þá voru lögð fram ný gögn, en málið að því loknu tekið til úrskurðar á ný. Hinn 6. júní 2008 kvað óbyggðanefnd upp úrskurð sinn. Var það m.a. niðurstaða nefndarinnar, að það landsvæði, sem lýst er í aðalkröfu í stefnu, sem nefnt hefur verið Grafarlönd austari og Herðubreiðarlindir og landsvæði innan kröfusvæðis Reykjahlíðar, þ.e. sá hluti Ódáðahrauns sem liggur sunnan Bræðraklifs í Hafragjá og norðan Dyngjujökuls, væri þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998, auk Ódáðahrauns vestan Öskju og á Trölladyngjusvæðinu, innan kröfusvæðis Skútustaðahrepps. Einnig var hafnað kröfum Grænavatns á nefndu landsvæði, norðan Bræðraklifs í Hafragjá. Þá taldi nefndin að sá hluti Vatnajökuls sem liggur innan kröfusvæðis eigenda Reykjahlíðar væri þjóðlenda í skilningi fyrrgreindra ákvæða. Aftur á móti var það niðurstaða óbyggðanefndar að fyrrnefnd Grafarlönd austari og Herðubreiðarlindir væru afréttareign Reykjahlíðar, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga, og að sá hluti Ódáðahrauns sem liggur sunnan nefnds Bræðraklifs og norðan Dyngjujökuls, innan kröfusvæðis eigenda Reykjahlíðar, væri háður sérstökum eignarréttarlegum takmörkunum samkvæmt lögum um náttúruvernd, nr. 44, 1999, sbr. náttúruminjaskrá og auglýsingu nr. 194, 1978. Samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 3/2007 var það niðurstaðan að landsvæði inn af austanverðum Bárðardal, svonefndur Framdalaafréttur, væri þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998, en að það væri afréttareign þinglýstra eigenda Einarsstaða og Jaðars í Reykjadal, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga. Á sama hátt var það niðurstaða óbyggðanefndar í nefndu máli að landsvæði norðan og austan landsvæðis, sem nefnt er Selland og afréttarland Skútustaða í Skútustaðahreppi, væri þjóðlenda og afréttur. Útdráttur úr úrskurði óbyggðanefndar var birtur í Lögbirtingablaðinu eins og mælt er fyrir um í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 58, 1998. Stefnendur undu ekki niðurstöðu óbyggðanefndar og leitast þeir við með málsókn sinni hér að fá henni hnekkt og krefjast því ógildingar úrskurðarins að því er hið umþrætta landsvæði varðar. Málið er höfðað innan þess frests, sem veittur er í 19. gr. laga nr. 58, 1998 til þess að bera úrskurðinn undir dómstóla, en fjármálaráðherra er í fyrirsvari fyrir stefnda, íslenska ríkið, skv. 11. gr. laganna. Við meðferð málsins fyrir dómi var tvívegis farið á vettvang. Þann 27. ágúst 2009 var m.a. farið um landsvæði vestan Jökulsár, um Grjót, við Miðfell og Fremstafell, en þaðan um landsvæði í nágrenni Veggjafells og að Hafragjá norðan við Gjáfjöll í Herðubreiðarfjallgarði. Þann 27. ágúst 2010 var m.a. farið um landsvæði vestan Jökulsár og um Grafarlönd austari, Herðubreiðarlindir og að Gljúfrasmið, en síðan suðvestur með Herðubreið, um Flötudyngju, og að Bræðrafelli sunnan Kollóttudyngju. 2. Í úrskurði óbyggðanefndar, í máli nr. 1/2007, er samkvæmt framangreindu, m.a. kveðið á um eignarréttarlega stöðu fyrrgreindra landsvæða í Ódáðahrauni og á Mývatnsöræfum. Verður hér á eftir gerð grein fyrir helstu atriðum úrskurðarins eins og nauðsynlegt er til úrlausnar málsins. Úrskurðurinn skiptist í sjö kafla og er 196 blaðsíður. Í fyrstu köflunum er lýst málsmeðferð fyrir óbyggðanefnd, kröfugerð og gagnaöflun aðila svo og þeim sjónarmiðum sem þeir byggja á. Í síðari köflum úrskurðarins er lýst landnámi, sveitarmörkum, afnotum og sögu einstakra jarða. Þá er gerð grein fyrir niðurstöðum, en að lokum eru úrskurðarorð. Með úrskurðinum fylgir sérstakur uppfærður viðauki þar sem lýst er almennum niðurstöðum óbyggðanefndar, en þær eru m.a. ítarlega raktar í dómi Hæstaréttar í máli nr. 48/2004, en einnig í síðari dómum réttarins á þessu réttarsviði. 3. Í úrskurði óbyggðanefndar og öðrum framlögðum skjölum, m.a. þeim sem Þjóðskjalasafn tók saman, segir frá því að í Landnámabók segi að Þorsteinn sonur Sigmundar Gnúpa-Bárðarsonar hafi búið fyrst að Mývatni, að Þorkell hinn hávi hafi komið ungur til Íslands og byggt að Grænavatni er gengur að Mývatni og að Geiri sem kom af Noregi hafi fyrstur byggt á Geirastöðum í Mývatnssveit. Í úrskurðinum er landi norðan, austan og sunnan Mývatns, á Mývatnsöræfum og í Ódáðahrauni lýst að nokkru, en þar segir m.a.: „Landsvæði það sem hér um ræðir er mjög víðfeðmt og hefur leguna norður suður. Nyrsti hluti þess er fjalllendur og liggur í yfir 400 m hæð. Nokkuð er um hóla, hæðir og fjöll og ber helst að nefna Gæsafjöll (882 m) sem eru mikil um sig og liggja norðvestast á svæðinu. Austan þeirra liggja Hágöng (795 m). Krafla (818 m) liggur suðvestan Háganga og Jörundur (811 m) er suðaustan Kröflu. Eilífsvötn (354 m) liggja nyrst á svæðinu. Austan til á norðurhlutanum er land hallalítið. Sunnan þjóðvegar nr. 1 liggur land í yfir 500 m hæð og er víðfeðmt og hallalítið með fjölda fjalla og stapa sem rísa upp úr Ódáðahrauni. Nyrst ber þar að nefna Skógamannafjöll (681-599 m) og vestan þeirra liggur Búrfell (953 m), rismikill stapi. Þar suðvestan af liggur Heilagsdalsfjall (904 m). Nokkru sunnan þessara fjalla liggja rismiklar dyngjur, fell og fjöll um stórbrotið svæði. Ber þar að nefna Herðubreiðarfjöll (1094), Kollóttudyngju (1180 m), Herðubreið (1682 m), Herðubreiðartögl (1070 m) og Upptyppinga (927-1084 m). Vestan Upptyppinga liggur eldfjallakerfi Dyngjufjalla (1510 m) með Öskju og Öskjuvatni sem er 11 km² að stærð. Landsvæðið er að mestu gróðursnautt en þar er mikið rof. Helstu gróðursvæðin eru í Grafarlöndum og Herðubreiðarlindum sem liggja á vesturbökkum Jökulsár á Fjöllum. Land mætir jökli í um 800 m hæð upp af Holuhrauni. Frá Gæsafjöllum suður í jökul við Holuhraun eru um 106 km, og úr Herðubreiðarlindum til vesturs í Víti, norðan Öskjuvatns, eru tæpir 29 km, mælt í beinni loftlínu.“ Í úrskurðinum segir nánar um gróðurfarið að talið sé að við upphaf landnáms hafi gróðurþekja á afréttum suður af Mývatni, svo sem á Íslandi í heild, verið mun meiri að víðáttu og grósku en nú er. 4. Um sögu einstakra jarða og landsvæða austan og sunnan Mývatns vísa aðilar í málatilbúnaði sínum m.a. til samantektarkafla í úrskurði óbyggðanefndar, en einnig til þeirra fjölmörgu gagna og heimilda sem lögð voru fram við meðferð málsins hjá óbyggðanefnd og síðar fyrir dómi. Eru þar á meðal vitnisburðir og dómar frá 16. öld, jarðamöt, lögfestur, máldagar, vísitasíubækur biskupa og skjalasöfn prófasta, Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712, afréttarskrá fyrir Skútustaðahrepp frá 1878, landamerkjabréf Reykjahlíðar frá 1891 og Grænavatns frá 1921. Einnig hafa aðilar lagt fram fjölmörg rit um nefnt landsvæði. Eru þar á meðal Ásverjasaga, rit Ferðafélags Íslands, gögn sem Þjóðskjalasafn Íslands hefur tekið saman, Göngur og réttir eftir Braga Sigurjónsson og bókaflokkur Ólafs Jónssonar um Ódáðahraun. Auk þess hafa verið lagðir fram kaflar úr fræðiritum og ferðabókum eftir náttúrufræðinga, þar á meðal Þorvald Thoroddsen, Pálma Hannesson og Orra Vésteinsson. Samkvæmt nefndum gögnum er jarðarinnar Reykjahlíðar getið í máldögum Auðunar rauða frá 1318. Segir þar að Reykjahlíðarkirkja eigi hálft heimaland með öllum gögnum og gæðum. Hið sama segir í máldögum Péturs Nikulássonar frá 1394. Samkvæmt heimildum komst Reykjahlíð í byrjun 16. aldar í eigu svonefndra Ásverja frá Kelduhverfi, en upp frá því var farið að safna vitnisburðum um réttindi jarðarinnar austan og sunnan Mývatns, þ. á m. á Mývatnsöræfum, og dæma um það dóma. Virðist tilefnið hafa verið deilur um námuréttindi, þ. á m. í svonefndum Fremri-Námum við fjallið Ketil, austan Heilagsdals, Heilagsdalsfjalls og Bláfjalls (1222 m). Í vitnisburði Jóns Magnússonar frá 26. september 1505 um landareign Reykjahlíðar, en hann er sagður hafa verið heimilisfastur í Þingeyjarsýslu, þ. á m. við Mývatn, í 60 ár, segir m.a.: „ad þeir dandimenn sem att hafa jordina reikiahlijd er liggur vid myvatnn hafa haft og halldid og sier eignad med jordunni og kirkiunni i reykiahlijd auræfi oll atolulaust fyrir austann fiallgarda þa sem næsta liggia vid myvatn fyrir austann vatnid ad jokulsä og omerkinga alla millum Jlifsvatna og brædraklifs fyrir vtann herddibreid. hefi eg og heyrt mier marga skilvijsa elldre menn so seigia. ad þessi landareignn hafi fylgt jordunni reykiahlijd langt fyrir mijna daga. so sagdi mier minn fader ad hann hefdi hier skilrikji thil lesid vmm fyrr sagda landareign. og þeir hefdi þessa landareign haft og halldit sem reikiahlijd hefdi att vmm hans daga. ... sagdi hann þetta jtolulaust verid hafa vtann þær kaplagongur sem bref og mäldagar thil seigia er aa melana hefur haftt verid.“ Í vitnisburði Þórólfs Hranasonar frá 6. maí 1506 um landareign Reykjahlíðar, en hann er sagður hafa verið heimilisfastur í Þingeyjarþingi í meira en 50 vetur, segir að hann hafi: „full sannindi, að þeir sem átt hafa jörðina Reykjahlíð hafa haft og halldid og sier eignnad j allann þennann tijma auræfi þau oll er liggia fyrir austann myuatn ad Jokulsaa og alla omerkinga a milli Jlifsvatna og brædrakliffs er liggur sudur a auræffumm.“ Þórólfur bætir því við að nefnda jarðeign hafi hann heyrt skilríka menn sér eldri segja að hafi verið eign Reykjahlíðar langt fyrir sinn aldur átölulaust fyrir utan beitarítölur á melana, sem skilríki séu fyrir. Er framangreindar vitnaskýrslur voru gefnar var eigandi Reykjahlíðar Þorsteinn Finnbogason sýslumaður, en faðir hans Finnbogi Jónsson, sem þá var lögmaður, gaf einnig vitnisburð um landareign jarðarinnar, ásamt Magnúsi Þorkelssyni og Gamla Þorsteinssyni, hinn 8. maí 1506. Voru skýrslur þeirra efnislega samhljóða vitnisburðum Þórólfs og Jóns. Liggur fyrir að í beinu framhaldi af vitnaleiðslum þessum útnefndi nefndur Finnbogi lögmaður sex manna dóm til að skoða, rannsaka og leggja á dóm um bréf, prófa vitni og skilríki, sem Þorsteinn Finnbogason hafði lagt fram, og um það: „huort hann skylldi at laugum hallda mega med jordinni Reykiahlid oll auræfi þau er liggia fyrir austann myvatnn og hann reiknade greindre jordu hefdi at fornnu fylt.“ Var í kjölfarið lagður fram vitnisburður fimm góðra manna, sem lengi höfðu verið heimilisfastir í héraðinu, um að þeir vissu fyrir full sannindi, að þeir, sem átt hefðu Reykjahlíð, hefðu haft og haldið og sér eignað meir en 40 vetur, átölulaust allan þann tíma, öræfi fyrir austan Mývatn að Jökulsá og alla ómerkinga í milli Eilífsvatna og Bræðraklifs suður á öræfum. Þetta hefðu skilríkir menn þeim eldri sagt. Þess er og getið að tveir „skilríkir menn sóru með fullum bókareiði, að þessi öræfi og landamerki hefðu verið haldin átölulaus eign Reykjahlíðar meir en 60 vetur: ,,so onguann vissu þeir sier kalla annann nie akiæru veita j millum Jokulsáá og fiallgardz þess er geingur næst fyrir austan myuatnn og ei nemur bufiar haga med omerkingum fra Jlifsvottnum og thil brædraklijfs fyrir vtann herdibreid. soru þeir og ad þeir hefdi heyrtt marga skilrijka menn so seigia sier ellre ad þessi landareign hefdi fylgt jordunni reikiahlijd langt fyrir þeirra daga jtolulaust. vtann þær kaplagaungur sem breff og maaldagar thil seigia er a melana hefur haft verid.“ Samkvæmt gögnum dæmdi fyrrnefndur sex manna dómur Finnboga lögmanns þann 17. maí 1506 Reykjahlíð til fullrar eignar öræfi öll fyrir austan Mývatn: „med þeirra ollumm Endimaurkum sem þar hafa vitni vmm borit og eidar vmm geingid og hier i dominum standa“. Þann 23. maí sama ár samþykkti og staðfesti Finnbogi lögmaður sexmannadóminn um Reykjahlíð, en sagði jafnframt Þorstein son sinn: „... eiga og att hafa og logliga hallda meiga med jordunni reikiahlijd alla fyrskrifada jardar eignn og hier fyrir greinir ad ollum oræfum thil greindumm þeim er liggia j millum Jokulsar og bufiarhaga þeim er liggia austur fra þeim jordum er vid myuatn standa. og sionhending fyrir austann alla bufiarhaga fyrrnefnda sudur i oræfi so langt sem vatzfoll deilast og votn ad draga. eptir þui sem logbok utuijssar vtann þad synist med mäldogum og loglegum vitnum sem i dominum greinir ad nauckrer eigi hier vti þær jtolur eda itok sem logbok skipar j mot riettumm hefdarvitnum eiga ad koma epter logumm.“ Samkvæmt skjölum var Reykjahlíðarjörðin þann 30. september 1548 virt á þrjátíu hundruð er hún var lögð með öðrum jörðum til kvonarmundar. Liggur og fyrir að árið 1555 fékk Ólafur Hjaltason biskup Nikulási Þorsteinssyni kirkjuhluta Reykjahlíðar til eignar, en hann var þá virtur á þrjátíu hundruð. Samkvæmt jarðamati 1565 var Grænavatnsjörðin virt á þrjátíu hundruð í fjórðungsgjöf í kaupmála. Eins og áður sagði var í byrjun 16. aldar nokkur ágreiningur millum Reykjahlíðar- og Grænavatnsjarðareiganda um landsvæði austan og sunnan Fjallgarða við Mývatn, og þá ekki síst um Fremri-Náma (Fremrinámur). Í málatilbúnaði aðila segir m.a. frá því að 26. maí 1506 hafi fyrrnefndur Finnbogi Jónsson lögmaður útnefnt sex manna dóm vegna kæru sonar hans Þorsteins sýslumanns á hendur Magnúsi Pálssyni á Grænavatni vegna ætlaðs óheimils graftar á landi og jörð í Reykjahlíð og brottnáms brennisteins. Var Magnús dæmdur skyldugur til að vinna eið að því að hann hefði hvorki grafið jörð Þorsteins eða flutt þaðan brennistein, en ella skyldi hann greiða sekt og afhenda aftur jafnmikinn brennistein og hann hafði burt flutt, nema þá að hann særi bókareið að því, að hann hygði tökuna sér heimila að lögum. Þá segir frá því í heimildum að þann 6. júní 1553 hafi Nikulás, sonur Þorsteins Finnbogasonar í Reykjahlíð, fengið bróður sínum Vigfúsi brennistein í Fremrinámum, heima í Hlíðarnámum og í Kröflu til ævilangrar eignar. Þá er þess getið í gögnum að nefndur Þorsteinn hafi gefið séra Birni Gíslasyni brennistein í Fremrinámum í sína lífsdaga þann 23. ágúst 1553. Samkvæmt gögnum var ágreiningur um nefnt landsvæði austan og sunnan Mývatns viðvarandi um langt skeið. Var af því tilefni efnt til vitnaleiðslna og málaferla á árunum 1562, 1565 og 1596, en einnig 1675, 1766 og 1830. Virðist málatilbúnaður jarðeigenda Grænavatns hafa byggst á því að þeir ættu eignarrétt á landsvæði austan fyrrnefndra fjallgarða við Mývatn og allt að Hafragjá og austur undir Herðubreið og þar með Heilagsdal og Fremri-Náma. Af þessu tilefni gaf Kolbeinn Arngrímsson á Grænavatni skýrslu fyrir dómi þann 2. maí 1562, en þar lýsti hann framgöngu Reykjahlíðarfeðga, Þorsteins Finnbogasonar og sona hans, Vigfúsar og Nikulásar, fyrr á öldinni, m.a. varðandi landsréttindi í Fremrinámum, en jafnframt andmælti hann í skýrslu sinni staðhæfingum þeirra feðga um að þeir væru eigendur ómerkinga fyrir austan Fjallgarða, milli Eilífsvatna og Bræðraklifs. Var eftirfarandi skráð um vitnisburð Kolbeins: „Yferlysti hann fyrir oss at hann hefdi Grænavatn optsinis logfest medan Þorsteirn lifdi og þar med fremre nama. og hefdi hann og hans syner haft samt vijsvitandi. Opt sagdist hann laga bedist hafa a fremre namum og annari landareign Grænavatz af Ara Jonssyni logmanni og eigi feingid hafa. Sagdi hann Þorsteirn Fimbogason hefdi stefnt Magnusi Palssyni omaga fiar sins fyrir Brennisteininn j fremre namum. hier med sagdi hann ad lyst hefdi fyrer sier Jon liotur Magnusson og Halldor Sigmundsson þeir sem vm oræfin soru. at þeir hefdo alldre annat suarit. enn þad Hlijdar kyrkiu hefdi verid eignader aller omerkingar fyrer austan fiallgarda j mille Jlijfsvatna og Brædraklifs. þeir sem mædur helgudu sier eij. enn eij vissu þeir huort kirkian ætti edur eij.“ Sama dag og Kolbeinn gaf vitnisburð sinn seldi hann Grænavatnsjörðina, og af því tilefni lýsti hann suður- og austurlandamerkjum jarðarinnar þannig: „þadan austur i gard þann er skilur lond i milli Briamsnes og Grænavatz: og ur þeir gardi austur í sýdri Burfellskord. þadan og austur í Hafragia. rædur þa giain og fram at Brædraklife og þadan sudaustur únder Herdibreid og allan Heilagsdal. Rett vr Herdibreid og vestur i Sudurarbotna. Rædur Sudurá í Liosbleiksbýttu. þar með alla Kieralæki ofan ad Storafossi. og allt land jtolulaust fyrir austan Kraka og vt i motz vid fýr greind landamerki. er fyrer vtan og aústan ofan ganga í Kraka. fra skildú eingiataki við Langhollt. og Balldursheimi hefur til heýrt. og þriggja kúa fodri fra Hrakstrond i Grænauatz eing. Sagði hann Grænauatn eiga gielldfiarrekstur a Hlidar auræfi.“ Samkvæmt gögnum tilkvaddi Magnús Jónsson, sýslumaður á Barðaströnd, þann 6. maí 1562 sjöttardóm, sem kvað á um gildi lýsts kaupbréfs Kolbeins Arngrímssonar á Grænavatni. Segir í þeim dómi að dómsmenn hafi talið merki jarðarinnar rétt, en þeim er m.a. þannig lýst: „... enn landamerke räda austur ur Grenalækiaröse. og i gröf þä. sem geingur austur effter hraunum þeim. sem liggia fyrer sunnann Gard. og þadann i gard þann sem geingur riettsynis ut i vogsbotninn hiä Grenavatnsnauste. þadann og austur I gard þann. sem skilur land mille Briamsness og Grenavatns. þadann riettsynis ür þeim garde og ustur i Burfellsskòrd hin sidre. þadann og austur i Hafragiä. rædur þä. giäinn og framm ad Brædraklife. og þadann og austur under Herdebreid. og allann Heilagsdal. riett ur Herdebreid til vesturs. og so üt I Sudurärbotna. rædur þä Sudurä. i Liosbleiksbittu. þar med alla Kieralæke ofann ad Störafosse. og allt land jtòlulaust. fyrir austann Kräkälæke. og ütj möts vid fyrgreind landamerke. Enn fyrer utann og austann. ofann i Kräkaa ... þar med Grenavatn ætte gielldfiärrekstur ä Hlijdar òræf.“ Samkvæmt gögnum var þann 30. ágúst 1562 gefinn vitnisburður um að fyrrnefndur Kolbeinn Arngrímsson hefði kvittað Magnúsi Jónssyni sýslumanni fyrir andvirði Grænavatns og handfest honum þann eið að sverja nær Magnús vildi, að hann: „vissi ei betur en að Grænavatn ætti alla þá landareign, ummerki og ítölur sem Kolbeinn hefði til greint, einkað og ánafnað Magnúsi og stóð í þeirra kaupbréfi. Einnig að Kolbeinn hefði lýst, að Þorsteinn Finnbogason hefði með engum lögum sótt af sér Fremrináma. Ungum og nær ómaga hefðu gamlir menn sagt honum, að Kolbeinn Þorgrímsson, afi hans, hefði haft, haldið og sér eignað og jörðinni Grænavatni alla Fremrináma og enginn talað upp á nema Þorsteinn Finnbogason. Kolbeinn Þorgrímsson hefði flutt brennistein úr Fremrinámum til Straums og Flateyjar. Nefndir tveir menn sem hefðu boðið Finnboga lögmanni að sverja þess eið en eigi fengið.“ Samkvæmt gögnum seldu Reykjahlíðarbræður, Nikulás og Vigfús Þorsteinssynir, Danakonungi árið 1563 allar námur og brennisteinsfjöll í löndum þeirra. Í Skinnastaðaártíðarskrá er máldagi Hlíðarkirkju (Reykjahlíðarkirkju) frá árinu 1573. Er þar lýst landamerkjum Reykjahlíðar og segir þar um m.a.: „Lanndar(!)merki J austan verdan SeliaDal og suo langt vt J mo sem Ilijfs fiall kemur fram vndan gasa Dals fiollum oc suo þadann j Llijfs fiall/ og harfra(!)gil sem er Austur vid Jokuls a/ Enn hid fremra J þa fiall garda Sem næstir eru fyri austan Myvatn og eckj snertir bufiar h [h: útstrikað]-ägaungu/ oc suo Lanngt fram J oræfi sem vatnzfoll Deilast Og alla Omerkinga Milli Jlijfs vatna og Brædra Klijfs/ Gelldfiar og Lamba Rekstur främm ä fioll J Einarstadakirkiu Jtok/ milli voga oc hlijdar Landamerki vr ytre Smara lag oc suijna vogur/ vogar eiga lútent wt vndir þreyngsl skilur þar landa merki hlijdar og voga.“ Í máldagabók Guðbrands biskups Þorlákssonar 1590 til 1616 er frásögn af því að biskup hafi tekið aftur áðurnefnda gjöf Ólafs biskups Hjaltasonar frá 1555 á kirkjuhluta Reykjahlíðar til Nikulásar Þorsteinssonar og er í framhaldi af því staðhæft að kirkjan eigi hálft heimaland jarðarinnar en einnig hálfan brennistein. Þá er haft eftir presti árið 1725 að kirkjan í Reykjahlíð eigi Austurfjöll fyrir austan Mývatn. Þessi landsréttindi Reykjahlíðarkirkju eru áréttuð í reikningum kirkna í Þingeyjarprófastsdæmi árið 1723, en einnig í prófastvísitasíum frá árunum 1727, 1735, 1748, 1750 og 1760. Í vísitasíu Reykjahlíðarkirkju árið 1828 eru nefnd landsréttindi enn ítrekuð, en auk þess eru þá taldar upp ýmsar aðrar eignir kirkjunnar og tilgreind landamerki gagnvart nágrannajörðum. Segir í vísitasíunni þar um m.a.: „Landa merke í Austannverdan Seljadal ogso Lángt úti mó, sem Ilífsfiall kemur fram undan Gásardals fiöllum ogso þadan i Ilifsfiall og Hafragil sem er austur vid Jokuls á enn hid fremra i þá fjallgarda sem næstir eru fyrer austann Mijvatn og ecke snertir búfiárgaungu, ogso lángt fram Öræfi sem Vatnsföll deilast, og alla ómerkínga á millum Ilifsfialla [leiðrétt úr, Islifsfialla] og brædraklifs, Géldfiár og Lambarekstur framm á Fjöll i Einarstada Itök. I milli Voga og Hlídar eru landamerki: ytri Smára Lá og Svínavogur. Vogar eiga Lútent út under Þreingsl, skylur þar landamerke Hlídar og Voga.“ Samkvæmt gögnum var þann 28. febrúar 1675, að beiðni Björns Gíslasonar frá Skarði á Skarðsströnd, skráður vitnisburður Jóns Þórðarsonar um landamerki Grænavatns. Í vætti Jóns er suður- og austurmerki jarðarinnar þannig lýst: „... þadann Austur J þann gard, sem skilur Land millumm Grænavatnz og Briánzness, þadann riettsÿniss vr þeim garde Austur j Búrfellz Skörd, þadann Austur J Hafragiá, Rædur So hin Sama giá framm ad Brædrakliffe, og allt Austur vnder Herdebreÿd. á mótz vid KÿrkiunnarLand J Reikiahlÿd Sem þar mæter Grænavatnz Lande ad vtanverdu, ur Herdebreid og Austur J Jökulzá á Öræffumm. Jtem á Grænavatn [a]llan Heilax dal og Fremre Náma (Grænavatnz Náma) alla. Sem Jnnefelas[t] [J] greÿndu takmarke. Vr Herdebreid riett Siónhendÿng til [ólæsilegt vegna skemmdar: vesturs?], og So J Sudurárbotna, Ráda þadann L[an]damerke Sudur J Liósbleÿkz B[y]ttu, Sem eg higg nu neffnest Skinnhúfutiörn þar med alla Kieralæke og offan ad Stórafosse á mótz vid Stórutúngu Land J Bárdardal ad vestann.“ Fyrir liggur að á 18. og 19. öldinni voru margsinnis lesnar upp lögfestur á manntalsþingum um landamerki nefndra jarða, Grænavatns og Reykjahlíðar. Þannig segir í lögfestu Einars Jónssonar frá 5. júní 1758 um leigujörð hans Reykjahlíð: „Reykjahlídar Landamerki lögfesti eg i austanverdann Seljadal, og solángt úti mó, sem Ilýfs fiall kémur framm undan Gásadalsfjöllum, þadan I Ilýfs fiall og Hafragil sem er austr vid Jökulsá; en hid fremra Lögfesti eg Reykjahlídar Landeign í þá fiallgarda sem næstir eru fyrir austan Mývötn, en ecki snerta búfiárgaungu, og solángt frammí Öræfi sem vatnsföll deilast.“ Í lögfestu Brynjólfs Sigurðssonar, sýslumanns í Árnessýslu, hinn 21. júlí 1776 segir um merki Grænavatns: „... ur þeim Garde austur J Burfells Skörd hin Sydre, þadann og austur J Hafra-gia, sem Merkium rædur framm ad Brædraklife, þadann austur under Herdebreid, og allann Heilagsdal riettur Herdebreid til Vesturs, og so uti Sudurár-botna, rædur þá Sudurá J LiosBleiks-bittu, þar med alla Kiera-læke ofann ad Stora-Fosse, og allt Land Jtölulaust fyrer austann Krákaá-læke ...“ Þá lögfesti Jón Þórðarson þann 17. maí 1830 ábúðarjörð sína Grænavatn með svofelldum austur- og suðurmerkjum: „Logfesti eg ad austanverdu vid vatnid uti gröf þá, sem liggur i Hrauninu fyrir sunnann Gard, og nú er grasivaxinn laut: Þadann réttsÿnis austur i sokallad Sidrajardfall á Flataskógarrönd þadann beint i Burfells-skördinn sidre, þadann austur i Hafragia, rædur þá giainn fram ad Brædraklifi, þadann austurunder Herdabreid, þadann til vesturs og i Sudurárbotna rædur þá Sudurá alt [alt: tvítekið] i móts vid sokallada Skinnhufu-tiörn, þadann beina stefnu til nordurs i sokalladann Alptakíl hvar Vatnsrennur og lækir allir af hvörjum Kráká er tilordinn, eru mestanpart samankomni:“ Í jarðamati frá 1804 segir að hálf Reykjahlíðarjörðin tilheyri Reykjahlíðarkirkju en hinn helmingurinn ábúendum. Jörðin er sögð fjörutíu hundruð. Árstekjur af fjallagrasatínslu eru sagðir tveir ríkisdalir og 48 shillingar, en tveir ríkisdalir fyrir hestagöngu. Tiltekið er að jörðinni fylgi kjarrskógur til eigin nota. Þá segir í jarðamati 1849-1850 um jörðina: „Reykjahlíð ½ Kyrkjueign og ½ Bondaeign, híngað til talin 40 hndr. ... Kostir jarðarinnar eru: mikið fjallaland til hestagaungu sumar og vetur, hagarymi, landkostir til málnytu fyrir fé og kyr i betra lagi, mörland i besta lagi hér i hreppi og góð og áreiðanleg vetrarbeit fyrir fjenað i heimahögum og hross i selhögum og á áðurnefndum fjöllum; ...hjer er og dálítil grasatekja ...“ Í óársettri lýsingu Skútustaðaþinga, sem talin er frá 1840, er svofelld lýsing á Reykjahlíðarjörðinni: Reykjahlíð, fjörutíu hundruð, norðaustan við vatnið, geysilandvíð jörð, en sára heyskaparlítil og einkum örðug. Í sömu lýsingu segir um Grænavatn: Jörðin Grænavatn, þrjátíu hundruð, landlítil heima um sig en hefur það æði mikið í fjarlægð. Samkvæmt samningi sem undirritaður var 14. ágúst 1899 leigði Jón Einarsson, eigandi Reykjahlíðar, alla fossa í landareigninni. Fossaréttindin voru afsöluð Einari Benediktssyni árið 1907 og enn síðar, árið 1909, hlutafélaginu „Gigant“. Landamerkjabréf fyrir Reykjahlíð var útbúið 8. apríl 1891. Var það þinglesið 29. maí sama ár, en í bréfinu segir: „Að sunnan móti Vogum ræður fyrst Svínavogur og Kálfstjörn, þá Smáralág er Reykjahlíð á hálfa. Þaðan bein lína austur í Námakollu hina syðri; þaðan beint í þrengsli við Skessuhala, þrýtur þar Vogaland að austan. Fyrir sunnan Vogaland ráða fjallgarðar þeir til suðurs, er næstir liggja Mývatnssveit og frá þeim bein stefna suður í Bræðraklyf vestur af Herðibreið. Frá Bræðraklyfi ræður bein stefna austur í Jökulsá, sunnan við Herðibreiðartungu. Að austan ræður Jökulsá alla leið norður að Dettifossi. Að norðan móti Svínadals- og Áslandi í Kelduhverfi, ræður bein stefna frá Dettifossi í Eilífshnjúk; þaðan bein stefna yfir Hrútafjöll og Gjástykki móti Þeystarreykjalandi, vestur í mó, þar til Bóndhóll er genginn í hásuður og Eilífshnjúkur ber rjett norður undan Gæsafjöllum. Frá merki þessu ræður bein stefna í Bóndhól, sem er beint vestur af Gæsadalsfjöllum og þaðan móti Grímsstaðalandi bein lína í Þverdalsbyrgi, þaðan yfir há Skjólbrekku í merkivörðu austast á Flatskalla, þaðan beina stefnu í Kvæk, sem er grashvammur við vatnið, er gengur inní hraunið vestarlega, milli Grímsstaða og Reykjahlíðar. Þá ræður Mývatn suður að Svínavog. Fyrir vestan vatn á Reykjahlíð, Hrauneyrarland innan þessara ummerkja: Að norðan og vestan móti Grímsstöðum og Ytri - Neslöndum, ræður fyrst Fretvogur, frá botni hans bein stefna yfir Merkitjörn í Miðkíl er hálfur fylgir Reykjahlíð, þaðan í Tóukíl og eptir honum miðjum suður að Tóukílsgarði; ræður garður sá merkjum móti Syðri-Neslöndum, austur í Mývatn. Ennfremur fylgja Reykjahlíð eyjar, hólmar og sker í Mývatni sem hjer segir (Reykjahlíð á ítök í annara manna lönd þau [þau, ofan línu] er hjer segir geldfjár og lambarekstur í Einarsstaðakirkjuland á framfjöllum. Ennfremur á Reykjahlíð alla ómerkinga er koma fyrir í afrjettarlandi jarðarinnar.)“ Þáverandi eigandi og ábúandi Reykjahlíðar ritaði undir bréfið, en það var einnig áritað um samþykki af hálfu eigenda og umboðsmanna Áss og Svínadals, Þeistareykjalands, Ytri- og Syðri-Neslanda, Grímsstaða og Voga. Á spássíunni við yfirstrikaða textann er ritað að ítakinu hafi ekki verið lýst samkvæmt áskorun 20. maí 1953 og sé því niður fallið. J. Skaptason sýslumaður ritar þar undir. Í fasteignamati 1916-1918 segir um Reykjahlíðarjörðina: „Búfjárhagar: Landið er geysimikið að víðáttu og mjög kjarngott. Sauðfjárbeit hrossa mjög góð sumar og vetur, ... Fjárgeymsla erfið vetur og sumar. ... Jörðin á víðlenda afrétt á Mývatnsfjöllum, vestan Jökulsár. Í hana tekið margt sauðfé á sumrum og hross til göngu á vetrum. Ganga hross þar marga vetur af án gjafar. ... ¼ hluti Dettifoss tilheyrir jörðinni, er sá hluti leigður fyrir 212 kr. árgjald. ... Andavarp í eyjum og hólmum í Mývatni og gæsavarp í Grafarlöndum, skammt frá Herðibreið. Eggjatekjan talin gefa 50 kr. árstekjur. ... Jörðin á upprekstur fyrir geldfé og lömb í Einarsstaðakirkjulandi í Framdölum, en Einarsstaðir 8 hrossa göngu í Mývatnsfjöllum. Í nefndu mati segir einnig: ,,Undirmatsnefndin virðist eigi hafa tekið nándar nærri nægilegt tillit til tekna þeirra sem jörðin [Reykjahlíð] hefir af Dettifossi og afrétti, enda mun hin síðarnefnda tekjugrein hafa hækkað síðan matið var gert. Samþykkt: Jörðin sjálf færist upp um 1500 Krónur.“ Í ritinu Byggðir Suður-Þingeyinga er frásögn Jóns Sigurðssonar frá Ysta-Felli um afbýli í landi Reykjahlíðar. Nefnir Jón m.a. býlið Fagranes á milli Reykjahlíðar og Grímsstaða, býlið Hlíðarhaga á milli Reykjahlíðar og Svínadals og loks býlið Austursel, en það er sagt hafa staðið nærri þjóðvegi þeim sem nú er, beint suður af Jörundi og hafi það verið í byggð frá 1729 til 1874/7. Í bókaflokki Ólafs Jónssonar um Ódáðahraun segir að í Búrfellshraunum, austan við Námaskarð, hafi eitt sinn verið beitarhús frá Reykjahlíð. Þá hafi býli verið við rætur Dalsfjalls, en þar við sé Dalsrétt, sem verið hafi skilarétt fyrir Austurfjöll til ársins 1880. Í úrskurði óbyggðanefndar segir að heimildir bendi ekki til annars en að samfelld búseta hafi verið í Reykjahlíð frá því að jarðarinnar er fyrst getið. Þá segir að í afsals- og veðmálabókum komi fram að eftir gerð landamerkjabréfsins 1881 hafi jörðin framselst með hefðbundnum hætti og verið veðsett. Árið 1974 voru Herðubreið og Herðubreiðarlindir friðlýstar, sbr. auglýsingu nr. 272/1974. Í yfirlýsingu vegna friðlýsingarinnar segir að eigendur Reykjahlíðar hafi ekki haft uppi athugasemdir vegna hennar. Einnig kemur fram í gögnum að vegna friðlýsingar Öskju sem náttúruvættis árið 1977 hafi tillögur þar um verið bornar undir eigendur Reykjahlíðar, sem „hugsanlegra rétthafa“, sbr. 30. gr. þágildandi náttúruverndarlaga. Skálar hafa verið byggðir í Herðubreiðarlindum, bæði fyrir ferðamenn og landverði, en auk þess hafa verið gerðir skálar í Dreka austan í Dyngjufjöllum, í Bræðrafelli sunnan í Kollóttudyngju, í Heilagsdal og í Dyngjufelli í Dyngjufjalladal. Flestir skálarnir eru í eigu Ferðafélags Akureyrar. Landamerkjabréf fyrir Grænavatnsjörðina var útbúið 20. maí 1921 og þinglesið sama ár. Austur- og suðurmörkum jarðarinnar er lýst þannig í bréfinu: „Að austan ræður fjallgarðurinn merkjum suður og svo Bláfjall. Úr suðaustur horni Bláfjalls liggur merkjalínan í hásuður þar til Suðurárbotnar efri eru í vestri. Að sunnan eru merkin frá nefndum punkti beint vestur í austustu upptök Suðurár. Ræður þá Suðurá merkjum vestur gegnt Skinnhúfutjörn. Að vestan eru merkin úr Suðurá bein lína um miðja Skinnhúfutjörn í upptök lækjar þess, er rennur eftir Svartagili norður um Sandana vestur af Austurlækjum og fellur í þá að vestan mjög nærri því, er Norðurlækur sameinast þeim að austan; ráða þá lækirnir merkjum í Kráká, en Kráká skilur land Grænavatns frá löndum Skútustaða, Krákárbakka og Baldursheims alla leið norður þar til suðaustur ræturnar á fjallinu Jörundi bera yfir miðjan bæinn á Grænavatni. Ræður þá sú lína merkjum norðaustur frá ánni í línu, dregna beint úr austasta gili norðan í Sellandafjalli í austur hyrnuna á há Lambafjöllum (liggur sú lína um strýtumyndaðan klett í Skútustaðaborgum). Ræður sú lína þá merkjum norður í vörðu á Garðsengisgarði þar sem hæsta nibba á Norður-Skógamannafjalli ber yfir norðanverðan Grænavatnsbæ. Úr þeirri vörðu ræður bein lína yfir norðaustur hornið á Garðsengi í vörðu í Víðigarði rétt norðan við engið. Ræður þá sá garður merkjum norðvestur í Strandakíl og þá Strandakíll norður og síðan austur alla leið gegnum Krákuvatn og Einslæk í Grænavatn, en síðan Grænavatn norður hjá fyrst nefndri vörðu í Tóftatanga. Lönd þessara jarða liggja að Grænavatnslandi: Að norðan: Skútustaða, Garðs og Voga. Að austan: Reykjahlíðar (öræfi). Að sunnan: Skútustaða (afréttur). Að vestan: Skútustaða, Krákárbakka, Baldursheims og Sveinstrandar (Garðsengi).“ Þáverandi eigendur og ábúendur Grænavatns rituðu undir bréfið. Þá var bréfið áritað um samþykki af hálfu landeigenda nágrannajarða, þ. á m. Reykjahlíðar. 5. Elsta fjallskilareglugerð fyrir Þingeyjarsýslur er frá árinu 1893. Var þar öllu landi sýslunnar skipt í þrjú fjallskilafélög, og var eitt þeirra svæðið á milli Jökulsár og Skjálfandafljóts. Í reglugerðinni er m.a. kveðið á um að fjallskilafélögum megi skipta í deildir eftir því sem hagar, fjöll og vatnsföll deila. Þá segir að land skiptist í afrétti og heimalönd og að það sé hreppsnefnda að ákveða takmörk þar á milli. Ný fjallskilareglugerð var sett árið 1904, en þar segir að allt land skiptist í öræfi, afrétt og heimalönd og að það skuli vera afréttir sem að fornu hafi verið. Núgildandi fjallskilareglugerð er frá árinu 1966. Í framlögðum gögnum er getið um ítök jarða til hrossagöngu á afréttum, þ. á m. á afrétti Reykjahlíðar á Mývatnsöræfum. Samkvæmt máldaga Auðunar rauða Þorbjörnssonar frá 1318 átti Grenjaðarstaðakirkja tíu hrossa göngu á Austurfjöllum, á svonefndum efri og neðri melum. Þessara réttinda er getið í eignaskrá kirkjunnar frá árinu 1644. Þá segir í lögfestu fyrir jörðina Möðrudal í Múlasýslu árið 1844, sem var þinglesin í maí sama ár: „Máldaga Herra Stepháns Biskups af 1493 og fleyri Biskupanna Visitatiu <a> sanna og samhlióda eru, ad Mödrudalsstad tilheyri .... Hesta gaungu á Mivantsfiöllum og hálfar Herdabreidstúngur.“ Þessi réttindi eru áréttuð í landamerkjabréfi Möðrudals árið 1884, en einnig í ódagsettu landamerkjabréfi sem þinglesið var 1923. Auk landeiganda Möðrudals rita undir landamerkjabréfið bændur nágrannajarða austan Jökulsár, en einnig landeigendur Reykjahlíðar. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712 segir að Einarsstaðir í Reykjadal eigi átta hrossa göngu á Mývatnsöræfum, m.a. á Borgarmela í Reykjahlíðarafrétt. Um Reykjahlíð segir nánar í Jarðabókinni: „Hestagánga á öræfunum sæmileg og bregst sjaldan í meðalárum, en þess á milli falla þeir ber harðindi koma uppá. ... Umboðsmaður hefur og leyft oftlega nokkrum sveitarmönnum hjer og líka úr Kelduhverfi hestagöngu á öræfunum á vetur í Reykjahlíðar landi, og hefur tekið 5 álnir undir hvorn, so sem gömul venja er til. Nú hefur umboðsmaður tilsagt bóndanum þennan toll ef nokkuð fengist.“ Í bókaflokki Ólafs Jónssonar um Ódáðahraun segir að það hafi tíðkast frá ómunatíð að láta hross ganga í mellönd á Mývatnsöræfum. Segir Ólafur frá því að öðru hverju hafi verið gengið austur og litið eftir hestunum, og þeir reknir saman og niður í sveit þegar ástæða þótti til, en um beitilandið segir nánar: „Hrossin gengu aðallega í melöldunum austan við Nýjahraun, þar sem féð hefur líka verið haft haust og vor, þarna er mikið af sandhólum stærri og smærri, þöktum melgrasi, oft stórvöxnu, og getur verið þar gott slægjuland. Þarna tekur tæplega fyrir jörð fyrr en land er allt upp urið, og þótt allt sé nagað, sem upp úr stendur, er kólfurinn grænn og kjarnmikill niðri í sandinum, og krafsa skepnur eftir honum, þegar ekki er freðið, einkum á vorin í gróandanum. Stundum gekk líka nokkuð af hrossum á Norðurfjöllum, í Norðmelsstykki og þar í kring, en þar er landslag og gróður líkt og sunnar á fjöllunum.“ Í sýslubókum Þingeyjarsýslu er umfjöllun um samgöngur í héraði. Segir m.a. frá því að samist hafi um það með sýslumanni og hreppstjóra á manntalsþingi á Skútustöðum 6. júní 1832 að á því sumri skyldi byggja, ef mögulegt væri, sæluhús eða kofa á Austurfjöllum og skyldi það reist á hentugasta stað á Múlasýslupóstvegi. Þetta var áréttað á manntalsþingi 1833, en í kjölfar fyrirspurnar sýslumanns á manntalsþingi á Skútustöðum 1836 samþykktu hreppsmenn að viðhalda vörðum og sæluhúsum á Austurfjöllum. Í nefndu riti Ólafs Jónssonar um Ódáðahraun er frásögn af því er nokkrir Mývetningar fóru árið 1830 í leiðangur til að leita að útilegumönnum. Var í leiðangrinum farið allt til Dyngjufjalla, en af þessari ferð dregur Ólafur eftirfarandi ályktanir: „Ferðin sýnir ..., að þrátt fyrir góðan vilja, er það furðu skammt inn í auðnina og út fyrir kunnar fjárleitir, sem leiðangursmennirnir komast, og Dyngjufjöll, hið grunaða land, eru ókönnuð eftir sem áður.“ Í riti sínu segir Ólafur enn fremur frá því að árið 1855, rétt fyrir haustleitir, hafi fjórir Mývetningar farið að leita óþekktra fjárstöðva suður í Ódáðahrauni. Tilefni ferðarinnar hafi verið að eftir 1850 hafi borið mjög á því að heimtur væru slæmar í Mývatnssveit. Hafi bændur talið að féð fyndi ókunn beitilönd suður í öræfum. „Fóru þeir suður að Dyngjufjöllum, suður að Dyngjufjalladal og með suðurhlið fjallanna að suðausturhorni þeirra. Hittu þeir þar hagadrög og flæður. Riðu næst suður að Svartá, síðan norður yfir Vaðöldu í Upptyppinga og fundu þar mellönd töluverð. Fóru um kvöldið í Herðubreiðarlindir, gengu síðan Lindirnar og Grafarlönd.“ Þessi frásögn Ólafs hefur samhljóm við ritsmíðar Þorvaldar Thoroddsen, en hann fór í rannsóknarleiðangra um Mývatnsöræfi og Ódáðahraun á árunum 1875 og 1882-1884. Í afréttarskrá Skútustaðahrepps frá árinu 1878 er afréttarsvæðum Mývetninga lýst að nokkru. Segir þar að afrétturinn sé m.a. á Framdölum, Austurdölum og Grafarlöndum vestari svo og í Miklamó og Dyngjufjallabruna. Þess er getið að síðastnefndi afrétturinn liggi undir Skútustaðakirkju, Skútustaði og Grænavatn. Í skránni segir að Mývetningar eigi auk þessara svæða afréttarlönd á Austurfjöllum, en því svæði þannig lýst: „Austan við alla þessa 3 afrjetti, sem nú hafa verið taldir, liggur Odáðahraun, og er gengið í það á hverju ári, svo sem við verður komist. - Öll hjer talin afrjettarlönd hafa frá ómunatíð verið gengin að einni lögrjett, sem liggur í Grænavatns heimalandi og nefnist Grænavatnsrjett. Hreppstjórar í Skútustaðahreppi hafa og jafnan haft á hendi alla fjallskilastjórn í nefndum afrjettum. Hreppsnefndin athugaði, að byggja þurfi Grænavatnsrjett að nýju og flytja hana úr stað, þar sem hún nálega er komin í eyði af sandfoki. - Munu ráðstafanir til þess gjörðar, svo fljótt sem kringumstæður leifa. Austurfjöll, sem öll eru eign Reykjahlíðarkyrkju. Þau ná til suðurs allt fram undir jökla. Að austan takmarkast þau af Jökulsá á fjöllum. Að norðanverðu eru takmörkin á milli þessa afrjettar og Kelduhverfis afrjettarlanda þessi: Ur Hafragili beint til vesturs í Eilifsfjall og þaðan í Hrútafjöll. Að vestanverðu takmarkast afrjetturinn af Kröfluhrauni allt suður á Þríhyrninga, og þaðan suður á Halaskógafjall gegnt Námufjalli. Þaðan ræður fjallgarðurinn til suðurs í Þrengslaborgir. Lögrjett fyrir þennan afrjett er Dalsrjett, og liggur hún í Reykjahlíðar heimalandi. Innan takmarka afrjettarins á jörðin Vogar afrjettarland það er Ludent nefnist; þar stendur og nýbýlið Hlíðarhagi ...“ Í ritinu Göngum og réttum eftir Braga Sigurjónsson, ritverki Ólafs Jónssonar um Ódáðahraun og í ritsafni Þingeyinga frá 1954 er m.a. fjallað um fjallskil á afréttum og um nytjar hans í landi Reykjahlíðar. Er í síðastnefnda ritinu frásögn Jóns Sigurðssonar frá Ysta-Felli um afréttinn, en þar segir: „Þótt sauðhagar séu langt suður um land Reykjahlíðar, allt til Herðubreiðarlinda, er meginafrétturinn þó norðan Búrfells og suður með Jökulsá frá þjóðvegi. Austur undir ánni eru eigi aðeins góðir sumarhagar, þar er einnig óvenjulega snjólétt og kjarnaland til vetrarbeitar og veðursæld mikil. Síðan 1922 hefur sauðfé frá mörgum bæjum verið rekið austur þangað og látið liggja úti fyrri hluta vetrar. Sjaldan hefur af þessu tjón orðið, svo miklu nemi, en oft hafa menn og fénaður lent í hrakningum á heimleið. Flest vor hefur fé verið rekið austur fyrir rúning og ær stundum fyrir burð, en teknar aftur heim um burðinn. Fram til skamms tíma var hestaganga mikil á Austurfjöllum. Vetrarferðir voru þá tíðar austur þangað, bæði til eftirleita, fjárgeymslu og hestagangna, og urðu þær ferðir oft harðsóttar.“ Í nefndu ritverki Ólafs Jónssonar um Ódáðahraun segir að lengstu leitir Mývetninga séu suður með Jökulsá að vestan í Grafarlönd og inn fyrir Herðubreiðarlindabotna. Séu það fimm daga göngur, en taki eftirleitarmenn oft mun lengri tíma. Afmörkun afréttarins er nánar lýst í ritinu Göngur og réttir, þannig: „Afréttarlönd þessi eru víðáttumikil. Takmarkast þau að vestan af leitarsvæðum Bárðdæla, að austan af Jökulsá á Fjöllum, en að norðan af leitarsvæðum Keldhverfinga og Aðaldæla- og Reykdælahreppa. Um Bláfjallsfjallgarð skiptist afrétt þessi í Austur- og Suðurafrétt, sem svo eru nefndar. ... nú skipta Mývetningar sér ekki af göngum á sum þau svæði, er þeir áður höfðu fjallskilastjórn á. ... .... Um miðja 19. öld virðist, eftir því sem nú er vitað, að Suðurafrétt hafi verið notuð meira til upprekstrar en Austurafrétt. Var almenn venja að reka fráfærnalömb í Miklamó og Framdali. Haglendi var um þessar mundir stórum meira á Suðurafrétt en nú er, því síðastliðin 100 ár hafa stór og góð landsvæði eyðilagst þar af uppblæstri, svo sem Mótunga, Skafamýrar og hluti af Miklamó.“ Með Stjórnarráðsbréfi frá 1919 var sýslumönnum landsins gert að skila skýrslu um svæði í sýslum þeirra sem teljist vera „almenningar“ og afréttarlönd, sem ekki sannanlega hafa tilheyrt eða tilheyri nokkru lögbýli. Steingrímur Jónsson, sýslumaður í Þingeyjarsýslum, segir í svarbréfi 6. apríl 1920 að eftir því sem hann hafi heyrt séu „almenningar“ á öræfum í sýslunni m.a. að finna í Ódáðahrauni og í Grafarlöndum og öræfum þar suður með Jökulsá til jökla. Í greinargerð, sem Jóhann Skaptason, sýslumaður í Þingeyjarsýslum, ritaði 1959 er eftirfarandi afréttarlýsing Skútustaðahrepps, sem sögð er höfð eftir oddvita: „1. Austurfjöll vestan Jökulsár á Fjöllum, norðan frá Dettifossi til öræfa upp. Mörk að vestan eru heimalönd bújarða við Mývatn og Bláfellsfjallgarður. 2. Suðurafrjett. Frá heimalöndum Mývetninga að norðan suður til öræfa í Ódáðahrauni. Nokkur spilda þess afrjettar nær vestur að Skjálfandafljóti.“ Í greinargerð sýslumanns segir að Austurfjöll hafi verið eign Reykjahlíðarkirkju, en muni nú talin eign eigenda Reykjahlíðar. Suðurafrétt hafi verið eign Skútustaðakirkju. Þá segir sýslumaður að öræfi liggi sunnan við bæði Austurfjöll og Suðurafrétt og milli þeirra (Bláfellsfjallgarður). Öræfin séu oftast leituð tvisvar á hausti, þar sem nokkuð haglendi væri eða kinda von, en þess er getið innan sviga að leitað sé í flugvél. II. Í úrskurði óbyggðanefndar er að nokkru vísað til þeirra heimilda og gagna, sem hér að framan hafa verið nefnd, að því er varðar afmörkun, sögu, ráðstafanir að eignarétti og nýtingu Reykjahlíðar, þ. á m. á hinu umdeilda landsvæði á Mývatnsöræfum og í Ódáðahrauni. Í úrskurðinum er lagt til grundvallar að Reykjahlíð hafi um aldir verið sjálfstæð jörð. Um merki jarðarinnar segir að samkvæmt landamerkjabréfi frá 1891 séu þau til austurs miðuð við Jökulsá á Fjöllum, frá Dettifossi í norðri, en að suðurmerkin séu m.a. miðuð við örnefnið Bræðraklif. Vesturmerki jarðarinnar liggi að jörðinni Grímsstöðum að norðanverðu en jörðunum Vogum og Grænavatni þegar sunnar dregur. Um landamerki Reykjahlíðar gagnvart síðastnefndu jörðunum er m.a. vísað til orðalags í landamerkjabréfi jarðarinnar frá 1891: „... fyrir sunnan Vogaland ráða fjallgarðar þeir til suðurs, er næstir liggja Mývatnssveit og frá þeim bein stefna suður í Bræðraklif vestur af Herðibreið“, en á það bent að bréfið hafi ekki verið áritað af eigendum Grænavatns. Vísað er til þess í úrskurðinum að austan og suðaustan við Mývatn, við vesturjaðar Ódáðahrauns, sé röð stapa og móbergshryggja, þ. á m. Heilagsdalsfjall (832 m) og Bláfjall (1222 m), og það áréttað að syðsti hluti fjallgarðanna nefnist Bláfjallshalar. Þá segir um merki að eldri heimildir um Reykjahlíð miði m.a. við: „fiallgrda þá sem næst liggja vid myvatn fyrir austan nvatnis ad jokulsä“, sbr. einkum vitnisburð Jóns Magnússonar frá 1505 og prófastsvísitasíu Reykjahlíðarkirkju frá 1735“. Á það er bent að landamerkjabréf Grænavatns frá 1921 sé áritað af hálfu landeiganda Reykjahlíðar, en að í því bréfi sé miðað við að „fjallgarðurinn“ ráði austurmerkjum „suður og svo Bláfjall“ og úr suðausturhorni Bláfjalls liggi merkjalínan með tilteknum hætti í hásuður. Segir í úrskurðinum að þessi lýsing á merkjum sé ekki fyllilega samhljóða landamerkjabréfi Reykjahlíðar og að deilur séu um merkin. Sá ágreiningur taki hins vegar í meginatriðum til vestanverðs Heilagsdalsfjalls og Heilagsdals auk vestanverðra Bláfjalla og Bláfjallshala. Rifjað er upp að af eldri merkjalýsingum frá 16. öld hafi fyrirsvarsmenn Reykjahlíðar og Grænavatns deilt um mun stærra landsvæði. Í úrskurði óbyggðanefndar segir að samkvæmt landamerkjabréfi Reykjahlíðar frá 1891 séu merki jarðarinnar til suðurs, inn til landsins og í átt að jökli dregin frá framangreindum fjallgörðum í vesturmerkjum og „bein stefna suður í Bræðraklyf vestur af Herðibreið“. Þá ráði bein stefna frá Bræðraklifi austur í Jökulsá, sunnan við Herðibreiðartungu. Í úrskurðinum er vikið að áðurröktum vitnisburðum frá byrjun 16. aldar, en einnig að sexmannadómi frá 17. maí 1506 og staðfestingu Finnboga Jónssonar lögmanns þar á ásamt eigin viðbótum. Bent er á að sambærilegar lýsingar og fram koma í landamerkjabréfinu á suðurmerkjum Reykjahlíðar og nefndum heimildarskjölum, sé einnig að finna í máldaga Hlíðarkirkju frá 1573, prófastvísitasíu frá 1735, lögfestu frá 1758 og vísitasíu Reykjahlíðarkirkju frá 1828. Í úrskurðinum eru af öllum þessu heimildum dregnar svofelldar ályktanir: „Framangreindar lýsingar á suðurmerkjum Reykjahlíðar eru ekki samhljóða og tvö atriði þarfnast sérstakrar athugunar. Hið fyrra snýr að því hvort miðað skuli við Bræðraklif eða önnur og syðri merki og hið síðara hvar Bræðraklif sé að finna, hafi staðsetning þessi þýðingu. Landamerkjabréf Reykjahlíðar 1891 miðar suðurmerki þannig við Bræðraklif og sama máli gegnir um vitnisburði frá 1505 og 1506, auk sex manna dómsins 1506. Í staðfestingu sýslumannsins frá dómnum 1506, máldaga frá 16. öld, lögfestu frá 18. öld og tveimur vísitasíum frá 18. öld og 19. öld, er mörkum hins vegar lýst „...so langt sem vatzfoll deilast og votn ad draga“. Óbyggðanefnd telur að elstu merkjalýsingar mæli gegn því að merki Reykjahlíðar hafi miðast við önnur og syðri merki en Bræðraklif, svo sem vatnaskil á jökli. Slíka viðmiðun er ekki heldur að finna í landamerkjabréfi jarðarinnar 1891. Niðurstöðu sex manna dómsins 1506 er áður lýst og í staðfestingu Finnboga Jónssonar lögmanns segir meðal annars að hann sé „...loglegur og skiælegur j allan handa mata...“ Lögmaðurinn bætir því þó við að jörðinni tilheyri land „sudur í oræfi so lant sem vatnzfoll deilast og votn ad draga.“ Óbyggðanefnd telur ekki efni til að skýra þennan dóm á annan veg en þann sem segir í niðurstöðu dómsmanna, sbr. einnig eldri heimildir sem og landamerkjabréf jarðarinnar 1891. Viðauki lögmannsins breytir þannig ekki efnislegu innihaldi dómsins. Þá verður með engu móti horft framhjá því að Finnbogi Jónsson lögmaður var faðir Þorsteins Finnbogasonar í Reykjahlíð, aðila málsins. Krafa eigenda Reykjahlíðar um að merki jarðarinnar og beinn eignarréttur þeirra nái suður fyrir Bræðraklif og jafnvel inn á Vatnajökul verður því ekki talin geta stuðst við heimildir um afmörkun Reykjahlíðar en um önnur atriði sem krafa þessi er studd við verður fjallað síðar.“ Í niðurstöðukafla úrskurðarins er næst tekið til skoðunar hvar örnefnið Bræðraklif sé að finna. Vísað er til þess að stefndi, íslenska ríkið, haldi því fram að um sé að ræða einstigi eða klif við vörðubrot í vesturvegg svokallaðrar Hafragjár. Bent er á að gjáin sé mikið jarðfall með háum veggjum, u.þ.b. 5-6 kílómetra löng og á annan kílómetra á breidd. Aftur á móti haldi stefnendur því fram að Bræðraklif sé hár klettadrangi sunnan við Bræðrafellið og skammt sunnan við Kollóttudyngju, og er sagt að um 42 kílómetrar séu þaðan norður í Eilífsvötn, mælt í beinni loftlínu. Bent er á að í báðum tilvikum sé komið langt inn í Ódáðahraun, illfært og gróðurvana landsvæði sem teygir sig austur frá fjallgörðum þeim í vesturmörkum Reykjahlíðar og langleiðina að Jökulsá á Fjöllum. Um greint álitaefni segir nánar í úrskurði óbyggðanefndar: „Í elstu heimildum um merki Reykjahlíðar, vitnisburðum, dómi og máldaga frá 16. öld ásamt tveimur vísitasíum og lögfestu frá 18. og 19. öld, er miðað við títtnefnda fjallgarða við Mývatn og tekið fram að Reykjahlíð eigi „öræfi öll“ fyrir austan þau, að Jökulsá. Afmörkun til norðurs einskorðast við Eilífsvötn og til suðurs við Bræðraklif. Hið síðarnefnda er staðsett nánar með því að það er sagt „fyrir utan Herðubreið“ í tveimur vitnisburðum frá 16. öld og „suður á öræfum“ í öðrum vitnisburði frá sama tíma. Hvort tveggja veitir takmarkaðar vísbendingar, enda hafa málsaðilar sýnt fram á að orðalagið „fyrir utan“ á þessu landsvæði kemur bæði fyrir í merkingunni norður og vestur. Umræddum fjallgörðum var áður lýst en klif það í Hafragjá sem íslenska ríkið hefur vísað til er til austurs frá suðurenda þeirra, þar sem eru Bláfjall og Bláfjallshalar. Frá suðurenda Bláfjallshala um þennan punkt og síðan beint austur í Jökulsá eru u.þ.b. 33 km í beinni loftlínu. Klettadrangi sá sunnan við Kollóttudyngju, sem eigendur Reykjahlíðar benda á sem Bræðraklif, liggur hins vegar svo miklu sunnar að hann samræmist illa tilvísun heimildanna til fjallgarðanna og öræfanna austan þeirra. Hér ber þess að geta að örnefnið Bræðraklif er einnig að finna í heimildum um merki jarðarinnar Grænavatns. Þannig segir í dómi um kaupbréf fyrir Grænavatni frá 1562 að austurmerki Grænavatns liggi úr Syðri-Búrfellsskörðum „þadann og austur i Hafragiä. rædur þä. giäinn og framm ad Brædraklife. og þadann og austur under Herdebreid. og allann Heilagsdal. riett ur Herdebreid til vesturs.“ Aðrar heimildir um merki Grænavatns lýsa þessum mörkum með sambærilegum hætti, þó að undanskildu landamerkjabréfi Grænavatns líkt og að framan er rakið. Umræddar merkjalýsingar munu eiga rætur að rekja til deilna við fyrirsvarsmenn Reykjahlíðar um svokallaðar Fremri-námur, þ.e. brennisteinsnámur á svæðinu norðvestur af Hafragjá. Samkvæmt þessum lýsingum er Bræðraklif í Hafragjá. Merking örnefnisins á kort Landmælinga Íslands er í samræmi við það, sbr. einnig rit Ólafs Jónssonar um Ódáðahraun frá árinu 1945. Landamerkjabréf Reykjahlíðar frá 1891 greinir sig frá hinum eldri heimildum með annars vegar orðalaginu við staðsetningu Bræðraklifs og hins vegar samhenginu við fjallgarðana og Jökulsá á Fjöllum. Bræðraklif er þannig sagt suður af fjallgörðunum og stefnan frá Bræðraklifi og austur í Jökulsá nú sérstaklega tekin „sunnan við Herðibreiðartungu“. Í hinum elstu heimildum voru stefnur í og úr Bræðraklifi hins vegar ótilgreindar, væntanlega vegna þess að frekari skýringar hefur ekki verið þörf. Þá segir í landamerkjabréfinu að Bræðraklif sé vestur af Herðubreið en áður var gerð grein fyrir óljósri merkingu orðalagsins „fyrir utan“ í eldri heimildum. Sú staðsetning Bræðraklifs, sunnan Kollóttudyngju, sem eigendur Reykjahlíðar miða við í varakröfu sinni er í ágætu samræmi við lýsingu landamerkjabréfsins.“ Í lokakafla úrskurðar óbyggðanefndar er fjallað um eignarréttarlega stöðu hins umþrætta landsvæðis á Mývatnsöræfum og í Ódáðahrauni. Segir í úrskurðinum að því sé ekki lýst í Landnámu hversu langt upp til fjalla og inn til lands landnám á þessu svæði náði, en síðan segir: „Sé tekið mið af staðháttum og fjarlægðum við túlkun landnámslýsinga verður þó að telja líklegt að svæðið norðaustan og austan Mývatns hafi verið numið, a.m.k. að hluta, en ólíklegt að land á þessu svæði hafi verið numið að Vatnajökli. Vafi um þetta atriði hlýtur að vaxa eftir því sem sunnar dregur. Óvissa um aðferðir við landnám er þó of mikil til þess að hægt sé að fullyrða um stærð landnáma á þeim grundvelli, sbr. umfjöllun um landnám í Almennum niðurstöðum óbyggðanefndar“. Um þýðingu landamerkjabréfa við mat á sönnun um eignarhald á landi er í niðurstöðukafla úrskurðarins vísað til fyrirliggjandi umfjöllunar Hæstaréttar og óbyggðanefndar um það efni, sbr. mál nr. 1-5/2005, en síðan segir: „Að því marki sem landamerkjabréf Reykjahlíðar hefur stuðning af eldri heimildum, þ.e. norðan þeirrar línu sem að framan var lýst og liggur úr suðurenda Bláfjallshala í Bræðraklif í Hafragjá og þaðan beint austur í Jökulsá á Fjöllum, telur óbyggðanefnd að íslenska ríkið hafi ekki sýnt fram á annað en að jörðin Reykjahlíð hafi verið byggð og nýtt eftir búskaparháttum og aðstæðum á hverjum tíma. Þar hafi eigendur jarðarinnar farið með umráð og hagnýtingu og gert ráðstafanir með löggerningum á sama hátt og gildir um eignarland almennt. Heimildir þær um afréttarnot sem íslenska ríkið hefur vísað til eru almenns eðlis og lýsingar þeirra óljósar. Engar afdráttarlausar ályktanir verða því dregnar af þeim. Staðhættir, gróðurfar eða nýtingar möguleikar verða ekki taldir hafa úrslitaáhrif í þessu sambandi. Þá verður fyrirkomulag smölunar á þessu svæði ekki talið hafa eignarréttarlega þýðingu. Rannsókn óbyggðanefndar leiðir einnig til þeirrar niðurstöðu að norðan framangreindrar merkjalínu sé eignarland, án þess þó að tekin sé afstaða til þess hver fari með þau eignarréttindi eða hver séu mörk milli eignarlanda, sbr. 7. gr. laga nr. 58/1998. Svo sem rakið er hér að framan telur óbyggðanefnd eldri heimildir mæla því í mót að merki jarðarinnar Reykjahlíðar nái suður fyrir línu þá í Ódáðahrauni sem áður var lýst. Þá málsástæðu gagnaðila að þeir hafi haft réttmæta ástæðu til að vænta þess að brigður yrðu ekki bornar á beinan eignarrétt þeirra að öllu því landi sem falli innan merkja Reykjahlíðar, eins og því sé lýst í landamerkjabréfi Reykjahlíðar frá árinu 1891, ber að skoða í því ljósi. Að þessu gættu geta gagnaðilar, sem leiða rétt sinn frá þeim eiganda sem gerði landamerkjabréfið, ekki byggt á því að eignarréttur hefði unnist að landi sem ekki átti undir Reykjahlíð áður en bréfið var gert. Þá var landamerkjabréfið ekki samþykkt af hendi þeirra sem kunna að hafa talið til réttinda yfir landi til suðurs. Breytir í þessum efnum engu að landamerkjabréfið var þinglesið 29. maí 1891, sbr. dóm Hæstaréttar 28. september 2006 í máli nr. 498/2005 (Stafafell). Landi utan þeirra merkja en innan eignarlandskröfusvæðis eigenda Reykjahlíðar í máli þessu má í megindráttum skipta í þrennt, þ.e. Ódáðahraun, Vatnajökul og svæðið milli austurjaðars Ódáðahrauns og Jökulsár á Fjöllum. Nyrst á hinu síðastnefnda svæði eru Grafarlönd austari og sunnan þeirra Herðubreiðarlindir. Þar er land nokkuð gróið og liggur í 4-500 m hæð. Samkvæmt gögnum þessa máls og skýrslutökum, hafa nytjar af því einskorðast við sumarbeit fyrir búfé og eftir atvikum önnur takmörkuð not. Framangreint bendir til þess að í Grafarlöndum austari og Herðubreiðarlindum sé afréttur í þeim skilningi að jörðin Reykjahlíð eigi þar óbein eignarréttindi fremur en beinan eignarrétt. Ekki liggur fyrir hvernig eigendur Reykjahlíðar eru komnir að rétti sínum til Grafarlanda austari og Herðubreiðarlinda. Í máli þessu er ekki sýnt fram á annað en að hann hafi orðið til á þann veg að landsvæðið hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og, ef til vill, annarrar takmarkaðrar notkunar. Um afréttarnotkun og fjallskil voru snemma settar opinberar reglur sem sveitarstjórnum var falið að annast framkvæmd á. Að undanskildum austurjaðri Ódáðahrauns, þar sem hraunið mætir Grafarlöndum og Herðubreiðarlindum og gróður teygir sig þangað inn, er hins vegar ekkert sem bendir þess að í hrauninu hafi að staðaldri verið höfð beitarnot, enda mæla staðhættir og fjarlægð frá byggð því í mót. Í gögnum málsins liggur fyrir að fyrirhugaðar friðlýsingar á Herðubreið og Öskju, í Ódáðahrauni, hafa verið bornar undir eigendur Reykjahlíðar sem „hugsanlega rétthafa“ á þessum svæðum, líkt og segir í bréfi Náttúruverndarráðs frá 24. nóvember 1974. Þá hefur verið leitað eftir samþykki eigenda Reykjahlíðar vegna uppsetningar Jarðskjálftastöðvar við Öskju, sbr. tölvupóst frá 6. júlí 2007. Nokkrir skálar eru á svæðinu en ekki verður séð að greiðslur hafi verið inntar ef hendi þeirra vegna til eigenda Reykjahlíðar. Þessi not á umræddu landsvæði verða talin svo takmörkuð og stopul að þau geti ekki stofnað til eignarréttar fyrir hefð á grundvelli laga um hefð, nr. 46/1905. Að öllu framangreindu virtu telur óbyggðanefnd að ekki hafi verið í ljós leitt að utan merkja jarðarinnar Reykjahlíðar, svo sem þeim er lýst í eldri heimildum og eru nánar skilgreind hér að framan, hafi stofnast til eignarlands með námi, hefð eða öðrum þeim stofnunarháttum eignarréttinda sem grein hefur verið gerð fyrir í Almennum niðurstöðum óbyggðanefndar (sjá viðauka). Rannsókn óbyggðanefndar leiðir einnig til þeirrar niðurstöðu að þar sé þjóðlenda. Heimildir benda hins vegar til þess að Grafarlönd austari og Herðubreiðarlindir séu í afréttareign Reykjahlíðar. Eftir er þá að leysa úr því hver séu mörk afréttar Reykjahlíðar í Grafarlöndum austari og Herðubreiðarlindum gagnvart þjóðlendu í Ódáðahrauni. Um mörk gagnvart eignarlandi Reykjahlíðar vísast til umfjöllunar og niðurstöðu um suðurmerki jarðarinnar. Samkvæmt því er áður greindi um skýringu á eldri heimildum um merki Reykjahlíðar, sbr. einnig heimildir um Grafarlönd austari, og staðhætti og nýtingu á hraunjaðrinum telur óbyggðanefnd rétt að miða við að umræddur afréttur Reykjahlíðar afmarkist til suðvesturs af línu sem dregin er frá Bræðraklifi (í Hafragjá) og í Veggjafell, við austurjaðar Herðubreiðarfjalla, og þaðan til suðausturs, í stefnu á Hlaupfell, þar til kemur að skurðpunkti við línu sem liggur frá ármótum Kreppu og Jökulsár á Fjöllum í Herðubreið. Frá þessum skurðpunkti er síðastnefndu línunni fylgt austur að ármótum Kreppu og Jökulsár á Fjöllum. Ljóst er að einstakir hlutar þess svæðis, eins og það er afmarkað hér að framan, eru misjafnlega fallnir til beitar. Beitarsvæði taka þó breytingum auk þess sem þau eru ekki endilega samfelld. Landsvæði þetta verður því talið falla undir skilgreininguna „landsvæði [...] sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé“, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1998. Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að sunnan við suðurmerki jarðarinnar Reykjahlíðar, innan kröfusvæðis eigenda Reykjahlíðar í máli þessu, sé þjóðlenda. Með vísan til þess sem að framan greinir, skiptist sú þjóðlenda í þrjú svæði sem afmörkuð verða hér á eftir ... “ (sbr. kröfugerð stefnenda í máli þessu). III. Málsástæður og lagarök stefnenda. Aðalkröfu sína byggja stefnendur á því að hið umþrætta landsvæði Reykjahlíðar á Mývatnsöræfum og í Ódáðahrauni sé háð eignarrétti þeirra, sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33, 1944, sbr. 10. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97, 1995 og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfest hafi verið með lögum nr. 62, 1994. Stefnendur byggja kröfu sína um eignarrétt á umþrættu landsvæði á landamerkjabréfi Reykjahlíðar frá 8. apríl 1891, þinglýstu 29. maí sama ár, þar segir um suðurmerkin: „Fyrir sunnan Vogaland ráða fjallgarðar þeir til suðurs, er næstir liggja Mývatnssveit og frá þeim bein stefna suður í Bræðraklyf vestur af Herðibreið. Frá Bræðraklyfi ræður bein stefna austur í Jökulsá, sunnan við Herðibreiðartungu.“ Stefnendur byggja á því að framlögð gögn styðji tilkall þeirra til landsvæðis innan greindra merkja, en af þeim sökum sé úrskurður óbyggðanefndar rangur og brjóti hann í bága við eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrár Íslands. Stefnendur benda á að samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar sé viðurkenndur beinn eignarréttur þeirra innan þinglýstra landamerkja Reykjahlíðar. Það sé í samræmi við þá meginreglu íslensks eignarréttar að jörð með þinglýstum landamerkjum sé eignarjörð. Stefnendur benda á og árétta að ágreiningur þessa máls lúti að því að óbyggðanefnd hafi ranglega staðsett örnefnið Bræðraklyf og því dregið suðurmörk jarðarinnar ranglega og í ósamræmi við eldri heimildir. Stefnendur byggja á því að kröfulína þeirra úr Bræðraklyfi fyrir vestan Herðubreið (nú merkt Bræðrafell á kortum), og þaðan í beinni línu austur í Jökulsá fyrir sunnan Herðubreiðartungu, sé í fullu samræmi við eldri heimildir um merki Reykjahlíðar. Í því sambandi benda þeir m.a. á máldaga Reykjahlíðarkirkju frá 1573 og áðurrakinn lögmannsdóm frá 1506. Landnámsheimildir í Skútustaðahreppi fari heldur ekki í bága við landamerkjabréf jarðarinnar frá 1891, en ljóst sé að við landnám hafi landið verið gróið til jökla. Stefnendur vísa til landamerkjalaga nr. 5, 1982 og síðari lagasetningar um sama efni, nr. 41, 1919, og tilgangs þeirrar lagasetningar. Þá benda þeir á dóm Hæstaréttar í máli nr. 48/2004 þar sem það hafi verið talið skipta máli hvort land hafi talist innan upphaflegs landnáms og hvort að með landið hafi verið farið sem eignarland samkvæmt elstu heimildum. Vísa þeir til þess að ekkert komi fram í gögnum málsins sem bendi til annars en að allt land innan merkja Reykjahlíðar hafi verið nýtt sem fullkomið eignarland eftir búskaparháttum og aðstæðum á hverjum tíma. Þá verði að telja það hafa mikla þýðingu að eigendur jarðarinnar hafi um langt skeið gengið út frá því að merkjum hafi verið rétt lýst og að eigendur grannjarða hafi virt og viðurkennt merkin, en jafnframt hafi þurft samþykki eiganda við nýtingu annarra. Þá hafi eigendur jarðarinnar í ljósi eignarheimilda sinna og viðurkenningar ríkisvaldsins í reynd lengi haft réttmætar ástæður til að vænta þess að land þeirra samkvæmt þinglýstu landamerkjabréfi sé beinum eignarrétti háð. Verði þessi eignarréttur ekki af þeim tekinn bótalaust. Stefnendur byggja á því að við mat á því hvort umrætt landsvæði sé eign eða háð eignarrétti í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar beri að líta til þeirra sjónarmiða sem lögð hafi verið til grundvallar af Mannréttindadómstól Evrópu. Benda stefnendur á að hugtakið eign í skilningi 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu hafi verið túlkað af dómstólum á þá leið að það hafi sjálfstæða merkingu. Með sjálfstæðri merkingu sé átt við mat á því hvort í tilteknu máli sé um að ræða eign sem njóti verndar nefndrar 1. gr. og þurfi að kanna hvort svo sé samkvæmt innanlandsrétti þess ríkis sem í hlut eigi. Skortur á slíkri vernd í landsrétti ráði hins vegar ekki alltaf úrslitum hvort um eign sé að ræða í skilningi nefndrar 1. gr. Benda stefnendur á að um eign í skilningi ákvæðisins geti verið að ræða þótt dómstólar aðildarríkis hafi ekki talið svo vera samkvæmt innanlandsrétti. Mannréttindadómstóllinn hafi þannig lagt mat á atvik í hverju tilviki fyrir sig og lagt áherslu á að úrslitum réði tiltekið heildarmat. Þannig hafi dómstóllinn bæði litið til staðreynda og lagalegra atriða, en við matið hafi í ákveðnum tilvikum það einnig ráðið úrslitum hvernig farið hafi verið með umrædda eign í framkvæmd, sérstaklega í lögskiptum, og hvaða traust menn báru til þeirrar framkvæmdar. Þá hafi framkoma handhafa ríkisvaldsins í garð eigenda einnig skipt máli. Og í þeim málum þar sem komið hafi verið fram við einstaklinga eða lögaðila sem réttmæta eigendur ákveðinna eigna hafi slík framkoma verið talin vekja ákveðnar væntingar hjá þeim aðilum um löglegt eignarhald sitt á þeim eignum. Benda stefnendur á að af þessu megi ráða að afskipti og afskiptaleysi ríkisvaldsins skipti máli við greint sönnunarmat. Þeir benda einnig á, að þegar tekið sé mið af dómum Hæstaréttar Íslands, en þó sérstaklega Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE), hafi ríkisvaldið með einum eða öðrum hætti viðurkennt eignarrétt landeigenda að jörðum, t.d. með því að þinglýsa eignaryfirfærsluskjölum athugasemdalaust um áratugaskeið, gera um þær samninga og skattleggja þær. Þá séu réttmætar og lögmætar væntingar landeigenda verndaðar af þessum ákvæðum, sérstaklega nefndri 1. gr., ef þær séu byggðar á sanngjörnu og réttlætanlegu trausti á réttargerningi, sem tengdur sé við eignarréttindi og hafi áreiðanlegan lagagrundvöll. Stefnendur byggja á því að Bræðraklyf, það örnefni sem nefnt hafi verið suðurhornpunktur í landamerkjabréfi Reykjahlíðar frá árinu 1891, og margoft sé nefnt í eldri merkjalýsingum jarðarinnar, sé þar sem nú sé á kortum nefnt Bræðrafell. Í fellinu séu háir bergstöplar sem nefndir séu bræður og sjáist langt að. Þetta sé skýr hornpunktur á suðvesturhorni jarðarinnar og í mun betra samhengi við eldri heimildir, en það Bræðraklif í Hafragjá, sem óbyggðanefnd miði við. Að því er varðar Grafarlönd og Herðubreiðarlindir benda stefnendur á að fasteignamat jarðarinnar frá 1916-1918 styðji við kröfur þeirra, en sé í andstöðu við úrskurð óbyggðanefndar. Í matinu hafi gæsavarp verið metið til fasteignamats og fáist það ekki staðist nema vegna þess að landsvæðið sé innan merkja Reykjahlíðar. Hið sama megi segja um skálabyggingar Ferðafélags Akureyrar í Herðubreiðarlindum sem og samning um friðlýsingu Herðubreiðarlinda frá árinu 1974, en þetta hafi allt verið gert með samþykki landeigenda Reykjahlíðar, sem ekki fáist staðist nema vegna þess að umrædd landsvæði séu innan landamerkja Reykjahlíðar. Stefnendur árétta að ágreiningur máls þess lúti að því að þeir telji að óbyggðanefnd hafi ranglega staðsett örnefnið Bræðraklyf og því dregið suðurmörk jarðarinnar ranglega. Því skipti höfuðmáli við úrlausn málsins hvar örnefnin Bræðraklyf og Herðubreiðartungur sé að finna. Stefnendur andmæla þeim röksemdum sem fram koma í úrskurði óbyggðanefndar um staðsetningu örnefnanna. Benda þeir á að í kaupbréfi og vitnisburði frá 2. maí 1562 sé aðeins lýsing eins manns, Kolbeins Arngrímssonar, á landamerkjum Grænavatns. Mótmæla þeir því að lýsing Kolbeins sé nefnd „landamerkjaskrá Grænavatns“, líkt og óbyggðanefnd gerir í úrskurði sínum. Benda stefnendur á að enginn fulltrúi þeirra jarða sem liggi að Grænavatnslandi hafi komið að málinu. Að auki telja stefnendur að skoða beri nánar orðalagið í lýsingu Kolbeins, sbr.: „Þaðan suðaustur undir Herðubreið“ eða „þaðan og austur undir Herðubreið“. Vísa stefnendur til þess að óbyggðanefnd hafi í úrskurði sínum kosið að sniðganga það sem þeir hafi bent á, að dómkvaddir hafi verið sex menn sem hafi breytt fyrrgreindu orðalagi Kolbeins úr „suðaustur undir Herðubreið“ í „austur undir Herðubreið“. Telja þeir að þetta hljóti að vega mjög þungt og geti ekki verið tilviljun eða mistök. Sé ekki annað hægt en að líta á þetta sem leiðréttingu á fyrrnefndu orðalagi Kolbeins Arngrímssonar. Þetta sé ekki hvað síst athyglisvert í ljósi þess að þetta sé í fullu samræmi við orðalagið í hinu þinglýsta landamerkjabréfi Reykjahlíðar frá 1891 þar sem segir: „Bein stefna suður í Bræðraklyf, vestur af Herðubreið.“ Stefnendur taka undir það atriði í úrskurði óbyggðanefndar að orðalagið: „fyrir utan Herðubreið“ geti auðveldlega merkt: „vestan við Herðubreið“. Segja stefnendur það ljóst að í nútímamáli þýði: „út“ sama og „norður“ í Þingeyjarsýslu. Það blasi hins vegar við að fyrr á öldum hafi merking orðanna: „út“, „fyrir utan“ og „ytri“ verið önnur í Þingeyjarsýslu, a.m.k. í Mývatnssveit. Dyngjufjöll ytri t.d. séu alþekkt fjall eða fjalllendi vestur af Dyngjufjöllum og örnefnið eflaust fornt. Dyngjufjöll ytri séu aðeins norðar en þó í hávestur frá Dyngjufjöllum og megi því segja að afstaða þeirra miðað við Dyngjufjöll sé nákvæmlega hin sama og afstaða Bræðrafells/Bræðraklifs, miðað við Herðubreið. Fyrr á öldum hafi orðin „út“ og „utanvið“ þýtt „vestur“ eða „vestanvið“ á öræfum í Þingeyjarsýslu. Stefnendur árétta að í hinu þinglýsta landamerkjabréfi Reykjahlíðar frá 1891 segir: „Fyrir sunnan Vogaland ráða fjallgarðar þeir til suðurs, er næstir liggja Mývatnssveit og frá þeim bein stefna suður í Bræðraklyf, vestur af Herðubreið.“ Byggja stefnendur á því að þarna sé svo skýrt tekið fram að Bræðraklyf sé „vestur af Herðibreið“ að ekki þurfi um það að deila. Þar af leiðandi sé ljóst að rutt einstigi í Hafragjá sé með öllu óviðkomandi landamerkjum Reykjahlíðar. Stefnendur andmæla þeirri ályktun í úrskurði nefndarinnar, að í elstu heimildum hafi stefnur í og úr Bræðraklifi verið ótilgreindar sökum þess að skýringa hafi ekki verið þörf. Benda þeir á orðanotkun í fyrrnefndum dómi um kaupbréf fyrir Grænavatni frá 1562, þar sem segi að austurmerki Grænavatns liggi úr: „... Burfellsskòrd hin sidre. þadann og austur i Hafragiä. rædur þä. giäinn og framm ad Brædraklife. og þadann og austur under Herdebreid ...“ Byggja stefnendur á því að samkvæmt þessu sé stefnan úr Bræðraklifi beint í austur samkvæmt fornum heimildum, en það komi heim og saman við orðalag landamerkjabréfsins frá 1891 um að Bræðraklif sé „vestur af“ Herðubreið. Í þessu samhengi benda stefnendur á að óbyggðanefnd hafi aldrei farið að Bræðraklifi (Bræðrafelli) og ekki heldur að svonefndu Bræðraklifi í Hafragjá. Niðurstaða óbyggðanefndar byggi því á túlkun á kortum og sé í algjörri andstöðu við landfræðilegar aðstæður, en einnig í andstöðu við lagaákvæði landamerkjalaga um að landamerkjapunktar skuli vera vel sýnilegir. Stefnendur árétta að í landamerkjabréfi Reykjahlíðar frá 1891 segir: „Frá Bræðraklyfi ræður bein stefna austur í Jökulsá, sunnan við Herðubreiðartungur.“ Byggja þeir á því að í handskrifuðu frumriti landamerkjabréfsins hafi verið ritað Herðubreiðartungur, þ.e. nafnið sé í fleirtölu, en ekki í eintölu eins og það sé ritað í vélrituðum afritum, enda sé það í samræmi við örnefnaskrá Reykjahlíðar Péturs Jónssonar frá um 1950, þar sem segir: „Herðubreiðartungur, gamalt nafn á Grafarlöndum og grónu landi þar í kring.“ Benda þeir á að örnefnið hafi ekki verið notað af Mývetningum mjög lengi, en í orðabók Menningarsjóðs segi um merkingu orðsins tunga: „Oddlaga landspilda milli tveggja vatnsfalla, gilja eða grunnra dalverpa.“ Vísa þeir til þess að á landsvæðinu milli Bræðrafells/Bræðraklifs og Jökulsár sé ekki að finna nein gil eða grunn dalverpi. Af þeim sökum hljóti nafnið tunga á þessu svæði að merkja oddlaga landspilda milli tveggja vatnsfalla. Liggi það raunar í augum uppi að þarna sé um að ræða tvær landspildur, annars vegar milli Grafarlandaár og Jökulsár og hins vegar milli Lindár og Jökulsár, þ.e. svæði sem nú til dags séu nefnd annars vegar Grafarlönd og hins vegar Herðubreiðarlindir. Stefnendur benda og á að þar til fyrir tiltölulega stuttu hafi Lindáin runnið í Jökulsá við svonefnt Lindahorn og hafi þá samfelldur gróður verið meðfram Lindánni allt frá Herðubreiðarlindum að Lindahorni. Á þeim tíma hafi ekki verið nema 1-2 km milli Grafarlanda og gróðurlendis við Lindá. Nú hafi þær breytingar orðið að Lindá falli í Jökulsá nokkrum kílómetrum sunnar en áður og sé því lengra á milli þessara tveggja gróðursvæða sem því nemur. Þessi breyting tengist breyttu rennsli Jökulsár. Hún hafi grafið sig vestur að Lindahrauni á nokkurra kílómetra kafla sunnan Lindahrauns þar sem Lindá rann áður um eyrar, og um leið hafi Jökulsá eytt þeim gróðri, sem þarna hafi verið meðfram Lindánni. Í þessu samhengi benda stefnendur á að í afréttarskrá Skútustaðahrepps frá árinu 1878 segir: „Austurfjöll, sem öll eru eign Reykjahlíðarkirkju. Þau ná til suðurs allt fram undir jökla“. Sé lýsing þessi til vitnis um það, sem öllum heimamönnum sé kunnugt um, að engin skil, hvorki afréttarmörk eða landamerki, liggi á milli Grafarlanda og Herðubreiðarlinda. Þá komi fram í örnefnaskránni mörg örnefni í Herðubreiðarlindum, en að auki mörg örnefni miklu sunnar á öræfunum. Loks benda þeir á að undir öllum kringumstæðum hafi Grafarlönd og Herðubreiðarlindir verið smöluð sameiginlega og sama sé að segja um eftirleitir á þessu svæði, svo sem lesa megi í frásögnum af ferðum Fjalla-Bensa á fyrri hluta síðustu aldar. Stefnendur vísa til þess að árið 1897 hafi Jón Einarsson selt á leigu alla fossa í landi eignarjarðar sinnar Reykjahlíðar. Hafi þarna að sjálfsögðu verið um að ræða fossa Jökulsár, enda engir aðrir fossar í landareigninni. Sé athyglisvert að í leigusamningnum segir: „alla fossa“ sem þeir segja að bendi ótvírætt til þess að átt sé við fleiri fossa en Dettifoss og Selfoss. Hljóti því þriðji fossinn að vera foss nokkru fyrir sunnan Herðubreiðarlindir, sem á þessum árum hafi verið nafnlaus, en hafi á síðari árum verið nefndur „Gljúfrasmiður“. Hann sé um 7 km fyrir sunnan Herðubreiðarlindir. Stefnendur byggja á því að öll framanrakin atriði beri því glögglega vitni að landamerki Reykjahlíðar liggi frá Bræðrafelli/Bræðraklifi austur í Jökulsá, ekki norðar en langt fyrir sunnan Herðubreiðarlindir og Grafarlönd, sem áður hafi verið nefnd Herðubreiðartungur. Benda stefnendur á að í úrskurði óbyggðanefndar sé ekki minnst á Herðubreiðartungur og því virðist nefndin skauta fram hjá allri umfjöllun um hvar tungurnar sé að finna. Stefnendur byggja á því að tilgangurinn með lögum um þjóðlendur hafi fyrst og fremst verið sá að gera ríkið þinglýstan eiganda þeirra landsvæða, sem enginn hafi skjöl fyrir að hann eigi, en svo hátti til um hluta afrétta og jökla á miðhálendi Íslands. Eigi óbyggðanefnd þannig að finna út hver þessi eigendalausu svæði séu. Land Reykjahlíðar sé ekki eigendalaust og benda stefnendur á að svo hátti til með það land sem þeir hafi þinglýstar eignarheimildir fyrir, að þar fari þeir einir með öll venjuleg eignarráð, bæði raunveruleg og réttarleg, sbr. 1. gr. þjóðlendulaga nr. 58, 1998. Vegna þessa telja stefnendur að leggja verði sönnunarbyrði á stefnda um tilvist þjóðlendu innan landamerkja þjóðlendusvæðisins. Nefndin telji hins vegar að stefnendum sé skylt að sýna fram á frekari eignarheimildir til stuðnings sinni túlkun á landamerkjabréfunum, en með þeim hætti sé verið að krefjast enn eldri og frekari sönnunargagna en lög gerðu ráð fyrir á þeim tíma sem landamerkjabréf jarðarinnar var gert. Með þessum hætti sé og verið að leggja slíka sönnunarbyrði á stefnendur að undir henni verði ekki risið. Séu slíkar kröfur andstæðar ákvæðum 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð fyrir dómi, enda til þess eins fallnar að svipta stefnendur eignarrétti bótalaust. Með beitingu slíkra formreglna um sönnun séu dómstólar í raun að endurskoða efnisreglur laga um eignarrétt að fasteignum í því skyni að komast að niðurstöðu, sem samræmist ekki gildandi efnisrétti. Stefnendur byggja á því og árétta að þeir hafi lagt fram þinglýst landamerkjabréf fyrir landi sínu sem sé í fullu samræmi við lýsingar í eldri gögnum, sem raunar lýsi sum merkjum allt til Vatnajökuls. Fjölmargar heimildir sýni að innan þessara merkja hafi eignarréttur stefnenda verið virtur af öllum aðilum. Stefnendur árétta að óbyggðanefnd hafi ranglega metið sönnunargögn málsins og lagt óhóflega sönnunarbyrði á þá, sem ekki fái staðist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Beri í því sambandi að hafa í huga að gagnaöflun nefndarinnar sé ekki fullkomin, sbr. álit Einars G. Péturssonar, prófessors, sem hafi upplýst að á Árnasafni séu þúsundir skjala, sem ekki hafi verið rannsökuð. Allan vafa í málinu verði því að meta stefnendum í vil. Beri því að ógilda úrskurð nefndarinnar. Stefnendur byggja eignarréttarkröfu sína í málinu á hefð og venjurétti. Benda þeir á að allir hafi litið svo á um ómunatíð að allt land Reykjahlíðar sé eignarland og hafi enginn haldið öðru fram fyrr en ríkið nú við meðferð þjóðlendumála á svæðinu. Vísa stefnendur til þess að úr því að hefðarlög heimili eignarhefð lands, sem sé í opinberri eigu, þeim mun fremur hljóti að vera unnt að hefða land sem ekki sé eignarrétti háð. Sjónarmið um hefð séu því til staðfestingar á námi og festi eignarréttinn í sessi. Að þessu leyti vísa þeir til dóma Hæstaréttar frá árinu 1997, bls. 792, og frá árinu 1989, bls. 28. Auk framannefndra málsástæðna byggja stefnendur á því að umrætt landsvæði hafi verið mun grónara við landnám, enda sé talið að landið hafi verið vel gróið upp í 600-700 metra hæð. Atriði eins og staðhættir, víðátta og gróðurfar ráði því ekki úrslitum þegar eignarréttur á landi sé metinn á þessu svæði. Er um þessi atriði vísað til úrskurða óbyggðanefndar í sambærilegum málum. Auk þessa benda stefnendur á að notkun lands þurfi ekki að gefa vísbendingu um hvort land sé eignarland eða ekki. Sem dæmi megi nefna að mjög stór hluti lands á láglendi sé ekki í heilsársnotkun af skiljanlegum ástæðum. Yfir vetrartímann sé landið gegnfrosið og engin skepna fari þar um. Þá benda stefnendur á að venjur varðandi fjallskil geti ekki ráðið úrslitum þegar tekin sé afstaða til þess hvort jörðin sé öll beinum eignarrétti háð, sbr. t.d. úrskurð óbyggðanefndar um landsvæði í uppsveitum Árnessýslu frá 21. mars 2002. Stefnendur benda loks á að athugasemdir við frumvarp það er hafi orðið að lögum nr. 58, 1998 beri skýrlega með sér að það hafi ekki verið ætlan löggjafans að svipta landeigendur eignarheimildum sem þeir hafi aflað og notið athugasemdalaust um aldalangt skeið. Stefnendur byggja varakröfu sína á sömu sjónarmiðum og í aðalkröfu. Benda þeir á að í lögum nr. 58, 1998 um þjóðlendur sé beinlínis gert ráð fyrir því að þeir sem nýtt hafi land innan þjóðlendu skuli halda þeim rétti í samræmi við ákvæði 5. gr. Enn fremur benda stefnendur á reglur um stofnun ítaka þar sem m.a. sé rætt um að háttsemi aðila eða þegjandi samþykki geti orðið til þess að ítaksréttur stofnist. Stefnendur hafi um áratugaskeið notið auðlinda á áðurgreindu landsvæði, þ. á m. námuréttinda, og leigt land undir bú í fullan hefðartíma. Með auðlindum í þessu efni sé átt við hvers konar frumefni, efnasambönd og orku, sem vinna megi úr jörðu, hvort heldur í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi og án tillits til hitastigs, sem þau kunna að finnast við. Einnig benda stefnendur á að í lögum nr. 57, 1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu sé gert ráð fyrir því í 3. gr. að þjóðlendur séu eign íslenska ríkisins nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn til þeirra. Telja stefnendur sig hafa sannað rétt sinn til allrar nýtingar á hinu umþrætta landi. Að því er málskostnað varðar krefjast stefnendur að ákvörðun óbyggðanefndar verði felld úr gildi og málskostnaður í þess stað dæmdur í samræmi við stefnukröfu þeirra. Byggja stefnendur að því leyti á málskostnaðaryfirliti lögmanns þeirra frá 10. janúar 2008, framlögðu 14. janúar 2008, hjá óbyggðanefnd. Alls hafi verið um að ræða 44 vinnustundir á tímabilinu frá 15. febrúar 2007 er vinna lögmannsins hófst við málið. Málsmeðferðin hafi staðið yfir fyrir óbyggðanefnd með hléum allt til uppkvaðningar úrskurðarins, þann 6. júní 2008. Verð á hverja vinnustund hafi verið 13.800 krónur í samræmi við gjaldskrá og hafi því samtals málskostnaður lögmannsins verið 607.200 krónur, auk virðisaukaskatts. Að þessu leyti andmæla stefnendur úrskurðarorðum óbyggðanefndar og forsendum, en vísa m.a. til álits umboðsmanns Alþingis frá 13. nóvember 2007 í máli nr. 5073/2007. Stefnendur byggja á því að ekki sé hægt að fallast á afgreiðslu óbyggðanefndar í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem í húfi eru í þessu máli, flókinna lögfræðilegra álitaefna og þess gríðarlega skjalamagns málsins, sem lögmaður þeirra hafi þurft að afla sér og kynna sér. Tímaskýrsla lögmannsins standi og óhögguð, en hún sé ekki efnislega gagnrýnd af óbyggðanefnd og henni hafi ekki verið mótmælt af hálfu stefnda. Tímagjaldið sé sanngjarnt, enda hafi því ekki verið andmælt. Ákvörðun óbyggðanefndar sé því órökstudd og ómálefnaleg og því beri að fella hana úr gildi og þess í stað að úrskurða málskostnað til stefnenda að skaðlausu í samræmi við 1. mgr. 17. gr. laga nr. 58, 1998, sbr. 129. og 130. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála. Um lagarök vísa stefnendur til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33, 1944 með síðari breytingum, sérstaklega 72. gr. um friðhelgi eignarréttar og jafnræðisreglu 65. gr., til réttarreglna um stofnun eignarréttar, hefðar, réttarvenju og um tómlæti. Að auki vísa þeir til þjóðlendulaga, landamerkjalaga, stjórnsýslulaga, réttlátrar málsmeðferðar og jafnræðis borgaranna. Loks vísa þeir til mannréttindasáttmála Evrópu og viðauka hans og til laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, m.a. að því er varðar varnarþing og málskostnað. Málsástæður og lagarök stefnda. Af hálfu stefnda, íslenska ríkisins, er á því byggt að landsvæði það sem mál þetta varðar sé svæði utan eignarlanda og teljist þannig vera þjóðlenda í samræmi við úrskurð óbyggðanefndar, sbr. ákvæði 1. og 2. gr. laga nr. 58, 1998. Telur stefndi fullljóst af heimildum, að landsvæðið hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarrétti, og að nýting þess hafi ekki verið með þeim hætti. Af hálfu stefnda er á því byggt að sönnunarbyrðin hvíli ótvírætt á stefnendum, að sýna fram á tilvist beins eignarréttar að landsvæðinu eða einstökum hlutum þess. Stefndi bendir á að óbyggðanefnd hafi í úrskurði sínum byggt á umfangsmikilli upplýsingaöflun og rannsóknum. Niðurstaða óbyggðanefndar sé þannig byggð á kerfisbundinni leit að gögnum, en einnig á gögnum og skýrslum frá aðilum máls. Hafi óbyggðanefnd talið ótvírætt að við gildistöku laga nr. 58, 1998 hafi landsvæði það sem um er deilt í málinu talist til afrétta samkvæmt þeirri eignarréttarlegu flokkun lands, sem almennt hafi verið miðað við fram til þess tíma. Stefndi kveðst í máli þessu gera niðurstöður nefndarinnar að sínum til stuðnings sýknukröfu, auk þeirra málsástæðna, sem hann teflir fram og hér á eftir verða raktar. Stefndi byggir á því að hið umdeilda svæði, þ.e. annars vegar Grafarlönd austari og Herðubreiðarlindir og hins vegar sá hluti Ódáðahrauns sem liggur sunnan Bræðraklifs og norðan Dyngjujökuls, liggi sunnan og utan landamerkja Reykjahlíðar. Vísar stefni þar um til óljósra lýsinga í áðurröktu landamerkjabréfi Reykjahlíðar frá 1891 að því er varðar suðurmörk jarðarinnar. Stefndi kveðst gera þá niðurstöðu óbyggðanefndar að sinni, að þrátt fyrir tilvist þinglýsts landamerkjabréfs fyrir jörð, verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega. Með því að gera landamerkjabréf hafi menn ekki getað einhliða aukið við land sitt eða annan rétt, sbr. m.a. niðurstöðu Hæstaréttar í málinu nr. 48/2004 (Úthlíð). Bendir stefndi á að við mat á gildi landamerkjalýsingar Reykjahlíðarjarðarinnar verði að horfa til þess, að enginn hefur ritað samþykki sitt vegna marka jarðarinnar til suðurs og austurs, þ.e. vegna hins umdeilda landsvæðis. Stefndi byggir einnig á því að við mat á gildi landamerkjabréfs beri að gæta að því, að landamerkjabréf fela fyrst og fremst í sér sönnun um mörk milli eigna, en í því felst á engan hátt að allt land innan merkja skuli vera óskorað eignarland. Og þrátt fyrir að bréfinu hafi verið þinglýst, þá takmarkast gildi þinglýsingarinnar af því, að ekki sé unnt að þinglýsa meiri rétti en viðkomandi á. Slíku eigendalausu landi geti eingöngu löggjafinn ráðstafað. Sæki lýsing landamerkjabréfs ekki stoð í eldri heimildir, dragi það úr sönnunargildi bréfsins, sbr. t.d. til hliðsjónar fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í málinu nr. 48/2004. Af hálfu stefnda er áréttað og á því byggt, að kröfur stefnenda til suðurs og austurs eigi sér ekki nokkra stoð í eldri heimildum. Þá bendir stefndi á að því sé ekki lýst í Landnámu hversu langt inn til lands landnám á þessu svæði náði. Telur stefndi ólíklegt að land á hinu umdeilda svæði hafi verið numið í öndverðu, einkum með hliðsjón af staðháttum, gróðurfari, víðáttu og því að svæðið sé hálent, en um sé að ræða öræfalandsvæði langt frá byggðum bólum. Stefndi byggir á því að teljist heimildarskortur, hvað ofanrakin atriði varðar, vera fyrir hendi leiði það til þess að ósannað sé að heiðarlönd eða öræfasvæði hafi verið numin í öndverðu. Sé þetta í samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar Íslands, t.d. í máli nr. 67/1996 (Eyvindarstaðaheiði) og áðurnefndu máli nr. 48/2004. Hvíli sönnunarbyrðin um slíka eignarréttarstofnun á þeim sem haldi slíku fram. Stefndi byggir á því að ekki verði annað af heimildum ráðið en að það landsvæði sem um sé deilt hafi eingöngu verið nýtt með takmörkuðum hætti eins og fram komi í úrskurði óbyggðanefndar. Landsvæðið sé aðliggjandi öðrum afréttarsvæðum utan eignarlanda jarða, til vesturs, suðurs og austurs, þ.m.t. svonefndum Krepputungum, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í málum nr. 109/2009 Bendir stefndi á að ekki verði annað séð, en að réttur til hins umdeilda landsvæðis hafi upphaflega orðið til á þann veg, að það hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening, og ef til vill annarrar takmarkaðrar notkunar. Verði á hinn bóginn talið að landsvæðið hafi verið numið í öndverðu, byggir stefndi á því að það hafi ekki verið numið til eignar heldur eingöngu til takmarkaðra nota svo sem afréttarnota. Bendir stefndi á að allt frá upphafi Íslandsbyggðar hafi menn ekki eingöngu helgað sér ákveðin landsvæði, sem háð hafi verið beinum eignarrétti, heldur einnig ítök, afrétti og öll önnur réttindi, sem einhverja þýðingu gátu haft fyrir afkomu þeirra. Og meðan landsvæði gáfu eitthvað af sér hafi hagsmunir legið til þess að halda við merkjum réttindanna, hvers eðlis sem þau voru. Um síðastnefnda atriðið bendir stefndi m.a. á dóma Hæstaréttar í málum nr. 67/2006 (Skjaldbreiður) og nr. 27/2007 (Grænafjall). Verði hins vegar talið að landsvæðið kunni að hafa að hluta eða öllu leyti verið innan landnáms eða undirorpið beinum eignarrétti, byggir stefndi á því til vara að allar líkur séu á að slíkt eignarhald hafi fallið niður er svæðið hafi verið tekið til takmarkaðra nota, þ.e. afréttarnota. Og þó svo að talið yrði að til beins eignarréttar hafi stofnast í öndverðu yfir landinu byggir stefndi á að ekkert liggi fyrir um að sá réttur hafi haldist í gegnum aldirnar. Stefndi bendir á að samkvæmt sögulegum heimildum hafi jörðin Reykjahlíð verið austasta byggða ból vestan Jökulsár á Fjöllum. Reykjahlíð hafi verið viðkomustaður þeirra sem lögðu á öræfin austan Mývatns, en um þjóðleið hafi verið að ræða. Engar óyggjandi heimildir séu til um nýtingu lands sunnan þjóðlendukröfulínu. Stefndi vísar til þess að elstu landamerkjalýsingar Reykjahlíðar virðist vera í máldaga Auðunar rauða Hólabiskups frá árinu 1318, í máldaga Péturs Nikulássonar og í máldagabók Guðbrands Þorlákssonar frá 1590-1616. Ekkert sé þar fjallað um þau landsvæði sem deilt sé um í máli þessu. Þá bendir stefndi á að samkvæmt heimildum hafi aðrir en Mývetningar nýtt landið á austuröræfum, þ.e. vestan Jökulsár. Hafi jarðeigendur Möðrudals haft hrossagöngu á Austurfjöllum vestan Jökulsár og í Herðubreiðartungum, en það komi fram í landamerkjagjörningi og máldaga frá 1408, í máldaga frá 1493 og vitnisburði frá 1532. Hafi Möðrudalsbændur fyrrum ferjað fé sitt vestur í Grafarlönd. Stefndi bendir á að samkvæmt landamerkjabréfi Reykjahlíðar frá 1891 séu merki jarðarinnar til suðurs, inn til landsins og í átt að Vatnajökli, dregin frá fjallgörðum þeim er næst liggja Mývatnssveit (þ.m.t. Heilagsdagsfjalli og Bláfjalli/Bláfjallshölum), og „... beina stefnu suður í Bræðraklyf vestur af Herðubreið. Frá Bræðraklyfi ræður bein stefna austur í Jökulsá, sunnan við Herðibreiðartungu“. Stefndi byggir á því að þessi lýsing suðurmerkja í landamerkjabréfinu beri ekki allskostar saman við aðrar ritaðar heimildir um merki jarðarinnar. Vísar stefndi að því leyti sérstaklega til áðurrakinna vitnisburða Jóns Magnússonar frá 1505 og Þórólfs Hranasonar frá 1506 svo og vitnisburða Finnboga Jónssonar, Magnúsar Þorkelssonar og Gamla Þorsteinssonar frá sama ári. Að auki bendir stefndi á niðurstöðu áðurrakins sex manna dóms, sem skipaður hafi verið af Finnboga „Maríulausa“ Jónssyni lögmanni hinn 17. maí 1506 auk þeirrar viðbótar sem hann hefði gjört þar á er hann staðfesti dóminn hinn 23. maí sama ár. Stefndi bendir á að öll forsaga þessara vitnisburða og að Þorsteinn Finnbogason leitaði eftir dómi um „eignarhald“ Reykjahlíðar varðandi „auræfi þau oll er liggja fyrir austan mýuatn ad Jokulsæ og alla omerkinga a milli Jlifsvatna og brædrakliffs er liggur sudur a auræffum“ hljóti að draga verulega úr trúverðugleika í eignarréttarlegu tilliti. Þá telur stefndi að einnig verði að horfa til þess, að allt fram til þess tíma er þetta gerðist hafi nýting brennisteins verið almenn, a.m.k. séu ekki heimildir um að allt frá upphafi brennisteinsnáms um 1300 og fram til ársins 1506 hafi teljandi hömlur verið lagðar á að menn græfu eftir brennisteini þar sem hann var að finna. Hafi brennisteinninn verið seldur kaupmönnum sem hingað sigldu og vildu kaupa. Bendir stefndi enn fremur á að á þeim tíma sem eftir vitnisburðinum var leitað hafi spurn eftir brennisteini aukist verulega vegna stríðsrekstrar í norðanverðri Evrópu. Við þessar aðstæður hafi Finnbogi Jónsson lögmaður gefið vitnisburð, skipað í dóm og staðfest hann, en með eigin viðbótarorðum. Þá telur stefndi að ekki verði framhjá því horft að sonur Finnboga lögmanns, Þorsteinn, hafi byggt jörðina Reykjahlíð er atburðir þessir gerðust. Vísar stefndi til þess að með þessum gjörningum hafi jarðeigendur Reykjahlíðar tryggt sér einkarétt til brennisteinsnáms í Þingeyjarsýslu. Umræddar ráðstafanir og athafnir hafi verið umdeildar. Hafi deilur m.a. verið við eigendur Grænavatns, en þeir þó ekki virst hafa haft burði til að verjast ágangi Reykhlíðunga. Stefndi bendir loks á að ekki verði séð af umræddum „dómi“ að um tiltekinn ágreining hafi verið að ræða milli tveggja aðila, heldur hafi „dómurinn“ fremur verið álitsgerð. Þá sé ,,dómurinn“ einnig að öðru leyti í verulegu ósamræmi við þágildandi reglur að ekki verður á honum byggt. Stefndi vísar til þess að nokkru eftir að ofangreindir atburðir gerðust hafi Vigfús, sonur Þorsteins Finnbogasonar, selt konungi námurnar, þ.e. árið 1563. Hvað staðsetningu umrædds kennileitis, Bræðraklifs, varðar þá er það álit stefnda að það sé í vesturvegg svonefndrar Hafragjár (punktur G í úrskurðarlínu). Vísar stefndi um þetta einkum til staðsetningar örnefnisins á kortum, sem og til þess, að eldri heimildir mæli því almennt í mót, að landsvæði sunnan við Hafragjá (Bræðraklif í Hafragjá) hafi verið talið innan merkja Reykjahlíðarjarðarinnar. Bendir stefndi í því sambandi einkum á áðurrakta landamerkjalýsingu, sem fram komi í kaupbréfi Kolbeins Arngrímssonar 2. maí 1562 um Grænavatn, þar sem segir m.a.: „ þadan austur i gard þann er skilur lond i milli Briamsnes og Grænavatz: og ur þeir gardi austur í sýdri Burfellskord. þadan og austur í Hafragia. rædur þa giain og fram at Brædraklife og þadan sudaustur únder Herdibreid og allan Heilagsdal. Rett vr Herdibreid og vestur i Sudurarbotna. “ Stefndi vísar einnig til áðurrakins dóms um kaupbréfið frá 6. maí 1562, en þar sé landamerkjum lýst með svipuðum hætti. Stefndi vísar til þess að aðrar heimildir um merki Grænavatns lýsi merkjunum með sambærilegum hætti, þó að undanskildu landamerkjabréfi jarðarinnar frá árinu 1921. Stefndi bendir á máli sínu til stuðnings að staðháttum í Hafragjá og við Bræðraklif, en einnig við Bræðrafell, sé lýst í ritverki Ólafs Jónssonar um Ódáðahraun, en þar segi m.a.: „Norðan við vörðurnar hefur verið rutt einstigi eða klif niður í jarðfallið. Klif þetta heitir Bræðraklif og er fyrsta glögga merkið um hinn forna veg, sem við hittum.“ Þá segi í sama riti: „Starsýnt verður þeim á drangana í Bræðrafelli, sem Þorvaldur (Thoroddsen náttúrufræðingur) gizkar á, að séu 50-100 feta háir. Segir hann, að vel geti þetta verið Bræðrafell það, sem getið sé um í fornum máldögum. Bræðraskarð verði þá fjallahliðið milli þess og Dyngjufjall. Ekki hef eg getað fundið þessi örnefni í gömlum máldögum, en í gömlum landamerkjaskrám hef eg fundið örnefnið Bræðraklif, en það er áreiðanlega ekki þarna.“ Um örnefnið Bræðraklif vísar stefndi einnig til yngri heimilda, þ. á m. umfjöllunar dr. Ingvars Teitssonar á dskj. nr. 10, og í grein hans Biskupaleið yfir Ódáðahraun, en einnig umfjöllunar Orra Vésteinssonar fornleifafræðings um, menningarminjar á miðhálendi Íslands ásamt uppdrætti. Þá áréttar stefndi það sem að framan var rakið um staðsetningu Bræðraklifs í úrskurði óbyggðanefndar auk sögulegrar umfjöllunar nefndarinnar um Reykjahlíð og Grænavatn. Byggir stefndi á því að af þessum heimildum öllum verði ráðið að Bræðraklif sé rutt hestfært einstigi eða klif til suðurs niður Hafragjá norðan Herðubreiðarfjalla. Um kennileitið Herðubreiðartungur sem getið sé um í landamerkjabréfi Reykjahlíðar 1981 bendir stefndi á að staðsetning þess hafi lengi verið óljós, og þær fáu heimildir sem það varði séu misvísandi. Kennileitið sé ekki lengur við lýði, og því sé í raun alls óvíst um hvaða svæði sé að tefla. Stefndi byggir á því að líkur séu til þess, að suðurmörk Reykjahlíðar séu rétt dregin í úrskurði óbyggðanefndar, einkum þegar litið sé til eldri heimilda er varði jarðirnar Reykjahlíð og Grænavatn, landnámslýsinga, heimilda um nýtingu lands, auk almennra þjóðlendusjónarmiða um staðhætti og gróðurfar. Þá telur stefndi að fyrrgreint orðalag landamerkjabréfs Reykjahlíðar; „... frá Bræðraklifi ræður bein stefna austur í Jökulsá, sunnan við Herðubreiðartungu“, bendi sterklega til þess, að suðurmerki jarðarinnar sé í samræmi við úrskurðarlínu óbyggðanefndar. Stefndi áréttar að landamerkjabréf Reykjahlíðar frá 1891 greini sig frá hinum eldri heimildum, annars vegar með orðalaginu um staðsetningu Bræðraklifs og hins vegar samhenginu við fjallgarðana og Jökulsá á Fjöllum. Bræðraklif sé þannig sagt suður af fjallgörðunum og stefnan frá Bræðraklifi og austur í Jökulsá sérstaklega tekin „sunnan við Herðubreiðartungu“. Bendir stefndi á að í hinum elstu heimildum hafi stefnur í og úr Bræðraklifi verið ótilgreindar, væntanlega vegna þess að frekari skýringar hafi ekki verið þörf. Telur stefndi að af öllu framangreindu virtu hljóti sönnunarbyrðin um aðra staðsetningu Herðubreiðartungu að hvíla alfarið á stefnendum, í samræmi við almenn sönnunarsjónarmið. Stefndi andmælir fullyrðingum stefnenda að átthagalýsingin „út“ eða „utan“ hafi þýtt vestur eða vestan við, heldur hafi orðin þvert á móti þýtt norður, en „fram“ hafi merkt suður. Er um þetta m.a. vísað til umfjöllunar dr. Stefáns Einarssonar á dskj. nr. 347-348 og Árna Böðvarssonar cand.mag á dskj. nr. 349. Hvað einstakar heimildir um nýtingu hins umdeilda landsvæðis varðar vísar stefndi m.a. til áðurrakinna gagna. Bendir hann sérstaklega á að í fyrrnefndum kaupgerningi og dómi um Grænavatn árið 1562 sé vikið að réttindum Grænavatns til geldfjárreksturs á Reykjahlíðaröræfum/Mývatnsöræfum („Hlidar auræfi“), en að auki sé réttindanna getið í lögfestu Brynjólfs Sigurðssonar, sýslumanns í Árnessýslu, frá 21. júlí 1766 og í lögfestu ábúandans á Grænavatni frá 1830. Að auki hafi Grenjaðarstaðakirkja átt 10 hrossa göngu á Austurfjöllum samkvæmt máldaga Auðunar rauða Hólabiskups árið 1318. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sé réttinda Reykjahlíðar á Mývatnsöræfum getið en einnig réttinda annarra jarða til hrossagöngu á öræfunum, þ.e. Einarsstaða í Reykjadal og Fagraness. Bent er á að í fasteignamatinu 1916-1918 segi frá því að Reykjahlíðarjörðin eigi víðlenda afrétti á Mývatnsfjöllum, vestan Jökulsár. Stefndi byggir á því að aðrar heimildir, en þær sem hér að framan er getið, og varða eignarréttartilkall Reykjahlíðar til umræddra öræfasvæða, verði ekki taldar afgerandi hvað nýtingu varðar, m.a. það sem segi í máldaga kirkjunnar í Reykjahlíð frá 1573. Bendir stefndi á að eignartilkall Reykjahlíðarkirkju til svæðis: „suo Lanngt fram J orædi sem vatnzfoll Deilast. Og alla Omerkinga Milli Jlijfs vatna og Brædra Klijfs“ geti ekki falið í sér annað og meira en tilkall kirkjunnar til óbeinna eignarréttinda (afréttareignar) á svæðinu. Í því sambandi bendir stefndi á að í máldaganum sé talað um eignarrétt kirkjunnar til „fiall garda Sem næstir eru fyri austan Myvatn og eckj snertir bufiar hägaungu“ sem telja megi að bendi til sérstakrar eignarréttarlegrar aðgreiningar á landsvæði því sem kirkjan gerði tilkall til. Í máldaganum sé þess getið, að kirkjan eigi „alla Omerkinga Milli Jlijfs vatna og Brædra Klijfs. Gelldfiar og Lamba Rekstur främm ä fioll “ Í þessu orðalagi geti að mati stefnda ekki falist annað og meira en tilkall kirkjunnar til afréttarins. Það að kirkjan, og e.t.v. síðari landeigendur Reykjahlíðar, hafi talið sér heimilt að innheimta toll vegna afnota annarra á afréttinum, bendi heldur ekki til annars en þess, að svæðið hafi verið nýtt til sameiginlegra beitarnota, þótt svæðið hafi, eftir atvikum, verið í afréttareign Reykjahlíðar (óbeinn eignarréttur). Stefndi byggir á því að sama sjónarmið eigi að gilda um afréttarskrá Skútustaðahrepps frá árinu 1878, en þar sé m.a. sagt að umrætt afréttarsvæði „tilheyri“ jörðinni Reykjahlíð. Telur stefndi að í umræddri tilheyrslu hafi ekki falist annað og meira en tilheyrsla afnotaréttinda. Stefndi byggir á því að af samanburði heimilda, m.a. þeirra sem að framan eru rakin og annarra heimilda, verði ekki annað séð, en að nær undantekningarlaust sé vísað til hins umdeilda landsvæðis í tengslum við upprekstur og afréttarnot. Megi þetta m.a. ráða af svari sýslumanns Þingeyinga hinn 6. apríl 1920, við fyrirspurn Stjórnarráðsins um almenninga og afréttarlönd í sýslunni sem ekki „sannanlega hafa tilheyrt eða tilheyri nú nokkru lögbýli“. Þar komi m.a. fram, að sýslumaður telji almenninga í sýslunni vera Ódáðahraun og Grafarlönd og öræfin þar suður með Jökulsá til jökla. Auk þessa er um framangreint af hálfu stefnda m.a. vísað til umfjöllunar í úrskurði óbyggðanefndar, sem og til framlagðra vitnisburða aðila fyrir nefndinni. Byggir stefndi á því að af fyrrgreindum heimildum verði ekki annað ráðið, en að hið umdeilda landsvæði, sunnan þjóðlendukröfulínu, hafi ekki lotið beinum eignarrétti, heldur verið svæði utan eignarlanda sem einungis hafi verið nýtt til takmarkaðra nota, þ. á m. til sumarbeitar fyrir búpening. Af heimildum verði því ekki ráðið, að merki Reykjahlíðarjarðarinnar hafi náð suður fyrir þjóðlendukröfulínu allt suður á Vatnajökul. Og þar sem ritaðar heimildir renni ekki stoðum undir túlkun stefnenda á landamerkjabréfi Reykjahlíðar verði óljósar lýsingar þess til suðurs, um hið umdeilda landsvæði, ekki lagðar til grundvallar. Af hálfu stefnda er á því byggt og það áréttað að staðhættir og fjarlægð frá byggð bendi til þess, að hið umdeilda landsvæði hafi ekki verið numið í öndverðu, eða teljist lúta beinum eignarrétti. Bent er á að landsvæðið sé víðfeðmt öræfalandsvæði, í töluverðri hæð. Nokkuð sé um hóla, hæðir og fjöll og beri þar helst að nefna Herðubreiðarfjöll (1094 m), Kollóttudyngju (1180 m), Herðubreið (1682 m), Herðubreiðartögl (1070 m) og Upptyppinga (927-1084 m). Vestan Upptyppinga liggur eldfjallakerfi Dyngjufjalla (1510 m) með Öskju og Öskjuvatni sem er 11 km2 að stærð. Að teknu tilliti til fyrrgreindra atriða, þ.e. staðhátta, víðáttu, gróðurfars á svæðinu og hæðar þess yfir sjó, byggir stefndi á því að augljóst sé að hið umþrætta landsvæði hafi ekki verið nýtt til annars en hugsanlegra takmarkaðra beitarafnota eða eftir atvikum annarra takmarkaðra nota, en að öðru leyti ekki nýtanlegt sökum staðhátta. Stefndi andmælir því að skilyrði eignarhefðar séu fyrir hendi. Vísar stefndi þar um m.a. til áðurrakinna sjónarmiða um nýtingu lands, staðhátta og eldri heimilda. Þá áréttar stefndi að nýting svæðisins hafi í aldanna rás ekki falist í öðru en sumarbeit fyrir búfénað, en hefðbundin afréttarnot eða önnur takmörkuð nýting geti ekki stofnað til beinna eignarréttinda yfir landi, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 47/2007 (Bláskógabyggð) og fyrrnefndan dóm nr. 48/2004. Stefndi hafnar þeim málatilbúnaði stefnenda að réttmætar væntingar geti verið grundvöllur fyrir eignarréttartilkalli á umræddu landsvæði. Bendir stefndi á að sú regla verði leidd af Landmannaafréttardómi Hæstaréttar hinum síðari, sbr. mál nr. 199/1978, að löggjafinn einn sé bær til þess að ráðstafa réttindum yfir landsvæði utan eignarlanda. Landslög þurfi til sölu eigna ríkissjóðs. Athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stjórnsýslunnar geti ekki leitt af sér slík umráð nema sérstök lagaheimild hafi verið fyrir hendi, þ.m.t. það að þjóðlenda hafi verið látin af hendi. Réttmætar væntingar geti því ekki stofnast á þeim grundvelli sem haldið sé fram af hálfu stefnenda. Þar að auki verði væntingarnar vitanlega einnig að vera réttmætar, þ.e. menn geta ekki haft væntingar til að öðlast meiri eða frekari réttindi en þeir geti mögulega átt rétt á. Stefndi byggir á því að ef því háttar þannig til, líkt og í þessu tilviki, að m.a. heimildir, staðhættir, gróðurfar og nýting lands bendi ekki til beins eignarréttar, geti réttmætar væntingar heldur ekki stofnað til slíkra réttinda. Bendir stefndi á að þinglýsing landamerkjaskrár eða heimildarskjals fyrir svæðið feli ekki í sér sönnun um tilvist beins eignarréttar, sbr. þá meginreglu eignarréttarins, að menn geta ekki með eignayfirfærslugerningi öðlast betri rétt en seljandi átti. Stefndi andmælir varakröfu stefnenda, og því sérstaklega að takmörkuð not geti leitt til þess að fullkominn eignaréttur teljist hafa unnist á grundvelli hefðar, hvort heldur að hluta til eða að öllu leyti. Vísar stefndi m.a. til þess að um auðlindir í jörðu gildi lög nr. 57, 1998 um rannsóknir á nýtingu á auðlindum í jörðu. Að mati stefnda gildir ákvæði 3. gr. laganna um nefnt landsvæði, enda um þjóðlendu að ræða, en ekki eignarland, samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar og að mati stefnda. Bendir stefndi á að ákvæðið feli í sér að í þjóðlendum séu auðlindir í eigu íslenska ríkisins, nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn til þeirra. Að áliti stefnda hafi stefnendum ekki tekist að sanna slíkan eignarrétt sinn að auðlindum á svæðinu, hvorki fyrir hefð né með öðrum hætti. Stefndi bendir á það, sem rakið hefur verið hér að framan, að nýting svæðisins hafi verið takmörkuð, enda bendi heimildir til þess að svæðið hafi eingöngu verið nýtt sem afréttarsvæði. Slík takmörkuð not geti að áliti stefnda hvorki talist grundvöllur fullra né takmarkaðra eignarráða á svæðinu. Með vísan til þess sem hér að framan var rakið, hvers um sig og saman, þá telur stefndi að stefnendur hafi ekki sýnt fram á eignarrétt sinn að hinu umdeilda landi. Bendir stefndi á að ljóst sé að einstakir hlutar svæðisins séu misjafnlega fallnir til beitar. Beitarsvæði taki þó breytingum, auk þess sem þau séu ekki endilega samfelld. Landsvæðið verði því talið falla undir skilgreiningu 1. gr. laga nr. 58, 1998: „ landsvæði sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfénað“. Engin gögn liggi fyrir um að landið hafi haft mismunandi eignarréttarlega stöðu og byggir stefndi á því að landsvæði það sem hér sé til umfjöllunar, svo sem það hafi verið afmarkað í kröfugerð stefnenda, sbr. og það sem segir í niðurstöðu óbyggðanefndar, teljist þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998. Stefndi hafnar þeirri kröfu stefnenda að endurskoða eigi málskostnaðarákvörðun óbyggðanefndar. Bendir stefndi á að samkvæmt 17. gr. laga nr. 58, 1998 skuli greiða úr ríkissjóði nauðsynlegan kostnað vegna gæslu hagsmuna málsaðila fyrir óbyggðanefnd. Þá sé samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins óbyggðanefnd falið að úrskurða um málskostnaðarkröfur aðila fyrir nefndinni. Meðal þess sem nefndinni ber að líta til við ákvörðun á nauðsynlegum kostnaði aðila, sé hvað telja megi sanngjarnt og eðlilegt endurgjald fyrir hagsmunagæslu í viðkomandi máli. Þá sé óbyggðanefnd samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins heimilt að gera málsaðila að bera málskostnað sinn og gagnaðila að nokkru eða öllu leyti sjálfur ef hún telur málatilbúnað hans gefa tilefni til þess. Telur stefndi að ekki verði annað séð en við mat á þóknun lögmanns stefnenda fyrir óbyggðanefnd hafi nefndin gætt fyrrgreindra sjónarmiða og verið í fullu samræmi við ákvæði 17. gr. laganna. Af hálfu stefnenda hafi heldur ekki verið færð nein rök fyrir þeirri fullyrðingu, að málskostnaðarákvörðun nefndarinnar hafi verið ósanngjörn eða óeðlilega lág. Hljóti sönnunarbyrðin um slíkt að hvíla alfarið á herðum stefnenda. Að öðru leyti mótmælir stefndi öllum sjónarmiðum og málsástæðum stefnenda, svo sem þeim er lýst í stefnu, og krefst þess að úrskurður óbyggðanefndar í málinu nr. 1/2007 frá 6. júní 2008, með þeim röksemdum sem þar komi fram, verði staðfestur og þá þannig að miðað verði við að þjóðlendulínan verði dregin með þeim hætti sem þar er rakið. Um lagarök er af hálfu stefnda vísað til almennra reglna eignarréttar og til þjóðlendulaga nr. 58, 1998. Þá vísar stefndi til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33, 1944. Stefndi byggir jafnframt á meginreglum eignarréttar um nám, töku og óslitin not. Stefndi byggir á meginreglum um eignarráð fasteignareiganda og almennum reglum samninga- og kröfuréttar. Hann byggir á hefðarlögum nr. 14, 1905 og vísar til laga nr. 6, 1986 um afréttarmálefni og fjallskil. Þá vísar stefndi til ýmissa eignarréttarreglna Grágásar og Jónsbókar og loks til laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, þar á meðal málskostnaðarákvæða 129. og 130. gr. IV. Við aðalmeðferð málsins gaf aðilaskýrslu Jón Illugason framkvæmdastjóri, en vitnaskýrslur gáfu Guðrún Ása Grímsdóttir, rannsóknarprófessor í íslenskum fræðum, Reykjavík, Jónas Kristjánsson, prófessor emeritus í íslenskum fræðum, Reykjavík, Ingólfur Jónasson, bóndi, Helluvaði, Mývatnssveit, og Arngrímur Geirsson, fyrrverandi kennari, Álftagerði III, Mývatnssveit. Ágreiningur máls þessa lýtur að landi við suður- og suðausturmerki lögbýlisins Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi. Stefnendur, eigendur Reykjahlíðar, byggja m.a. á því að í úrskurði óbyggðanefndar hafi örnefnið Bræðraklyf ranglega verið staðsett og þar með suðurmörk jarðarinnar. Krefjast stefnendur þess að úrskurðurinn verði felldur úr gildi og jafnframt að viðurkennt verði að merki milli þjóðlendu og eignarlands Reykjahlíðar til suðurs séu frá skurðpunkti við þjóðlendulínu sunnan Bláfjalla (p.1) og þaðan bein lína í Bræðraklif (Bræðrafell) fyrir vestan Herðubreið (p.2) og þaðan beint austur í Jökulsá (p.3) fyrir sunnan Herðubreiðartungu, sbr. framlagðan uppdrátt, og þar með að enga þjóðlendu sé að finna innan réttra landamerkja Reykjahlíðar. Stefnendur vísa í málatilbúnaði sínum m.a. til tilgangs Alþingis með setningu þjóðlendulaga nr. 58, 1998, en einnig þýðingar landamerkjalaga nr. 41, 1919 og byggja á því að þeir hafi lagt fram þinglýst landamerkjabréf frá 1891, sem þeir segja að sé í samræmi við eldri heimildir. Stefnendur staðhæfa að gagnaöflun óbyggðanefndar hafi verið ófullkomin, að nefndin hafi metið sönnunargögn ranglega og að auki lagt óhóflega sönnunarbyrði á þá. Vinnubrögð nefndarinnar fáist ekki staðist þegar litið sé til rannsóknarreglu, jafnræðisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og 65. gr. stjórnarskrárinnar. Beri því að ógilda úrskurð óbyggðanefndar. Stefndi vísar í málatilbúnaði sínum sérstaklega til úrskurðar óbyggðanefndar frá 6. júní 2008 og gerir niðurstöður nefndarinnar að sínum, en vísar að auki til annarra málsástæðna sem hann teflir fram og hér að framan eru raktar. Með lögum Alþingis nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, sem tóku gildi 1. júlí 1998, var sérstakri stjórnsýslunefnd, óbyggðanefnd, falið að kanna og skera úr um hvaða landsvæði innan íslenska ríkisins teljist til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna, sbr. 7. gr. laganna. Í 1. gr. laganna er þjóðlenda skilgreind sem landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingur eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi. Í lagagreininni er eignarland skilgreint þannig: „Landsvæði sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignaráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma.“ Þá er í lagagreininni afréttur skilgreindur sem: „... landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé.“ Fram að gildistöku þjóðlendulaga nr. 58, 1998 voru landsvæði á Íslandi sem enginn eigandi var að. Með lögunum er íslenska ríkið lýst eigandi þessara svæða, auk þeirra landsréttinda og hlunninda þar sem aðrir eiga ekki, og þau nefnd þjóðlendur. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til þjóðlendulaga segir m.a. að þjóðlendur séu landsvæði sem nefnd hafa verið nöfnum eins og hálendi, óbyggðir, afréttir og almenningur, allt að því tilskildu að utan eignarlanda sé. Er tilgangur laganna að leysa úr þeirri óvissu sem lengi hefur verið uppi um eignarhald á ýmsum hálendissvæðum landsins. Til þess er að líta að þótt land í þjóðlendum sé eign ríkisins samkvæmt framansögðu getur verið að einstaklingar, sveitarfélög eða aðrir lögaðilar eigi þar takmörkuð réttindi, en lögin raska ekki slíkum réttindum. Þannig skulu þeir sem hafa nýtt land innan þjóðlendna sem afrétt fyrir búfénað, eða haft þar önnur hefðbundin not sem afréttareign fylgja, halda þeim rétti í samræmi við ákvæði laga þar um. Þjóðlendulögin veita þannig ekki heimild til að svipta menn eign sinni, hvorki eignarlöndum né öðrum réttindum. Í þjóðlendulögum er ekki að finna sérstakar reglur um það hvernig óbyggðanefnd skuli leysa úr málum, þ.e. hvaða land skuli teljast eignarland og hvað þjóðlenda. Niðurstaða ræðst því af almennum sönnunarreglum og þeim réttarreglum sem færðar eru fram í hverju einstöku tilviki. Það eru því grundvallarreglur íslensks eignarréttar sem gilda. Eins og áður var rakið tilkynnti óbyggðanefnd með bréfi, dagsettu 15. júní 2006, þá ákvörðun sína að í samræmi við III. kafla þjóðlendulaga ætlaði hún að taka til umfjöllunar landsvæði á austanverðu Norðurlandi, þ. á m. það svæði sem hér um ræðir, á Mývatnsöræfum og í Ódáðahrauni. Að lokinni kröfugerð, gagnaöflun og málsmeðferð samkvæmt nefndum kafla laganna kvað óbyggðanefnd upp úrskurð sinn, hinn 6. júní 2008, sbr. mál nefndarinnar nr. 1/2007. Varð það m.a. niðurstaðan að það landsvæði, sem lýst er í aðalkröfu í stefnu, sem nefnt hefur verið Grafarlönd austari og Herðubreiðarlindir og landsvæði innan kröfusvæðis Reykjahlíðar, þ.e. sá hluti Ódáðahrauns sem liggur sunnan Bræðraklifs í Hafragjá og norðan Dyngjujökuls, væri þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998, auk Ódáðahrauns vestan Öskju og á Trölladyngjusvæðinu, innan kröfusvæðis Skútustaðahrepps. Einnig var hafnað kröfum landeiganda Grænavatns á nefndu landsvæði, norðan Bræðraklifs í Hafragjá. Þá taldi nefndin að sá hluti Vatnajökuls sem liggur innan kröfusvæðis eigenda Reykjahlíðar væri þjóðlenda í skilningi fyrrgreindra ákvæða. Aftur á móti var það niðurstaða óbyggðanefndar að fyrrnefnd Grafarlönd austari og Herðubreiðarlindir væru afréttareign Reykjahlíðar, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga, og að sá hluti Ódáðahrauns sem liggur sunnan nefnds Bræðraklifs og norðan Dyngjujökuls, innan kröfusvæðis eigenda Reykjahlíðar, væri háður sérstökum eignarréttarlegum takmörkunum samkvæmt lögum um náttúruvernd, nr. 44, 1999, sbr. náttúruminjaskrá og auglýsingu nr. 194,1978. Það er álit dómsins að lýst málsmeðferð óbyggðanefndar, sbr. það sem segir í kafla I hér að framan, hafi verið í samræmi við fyrirmæli laga nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta og verður ekki fallist á með stefnendum að form- eða efnisgallar séu á úrskurðinum, þar á meðal að því er varðar meðalhófsreglu stjórnsýslulaga, að varði ógildi hans. Þykir að þessu leyti mega vísa til hæstaréttarmálsins nr. 48/2004, en þar er það m.a. rökstutt að málsmeðferðin sé eigi andstæð 1. mgr. 70. gr. og 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62, 1994. Í þessu sambandi þykir og fært að líta til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu frá 23. september 2008 í máli nr. 46461/06: Örn Bergsson o.fl. gegn Íslandi. Með aðilum er ekki ágreiningur um að land Reykjahlíðar samkvæmt þinglýstu landamerkjabréfi jarðarinnar frá 8. apríl 1891 sé eignarland. Aðilar deila hins vegar um mörk eignarlandsins og þjóðlendu til suðurs og austurs samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar. Í landmerkjabréfinu er suðurmerkjum jarðarinnar þannig lýst: „... Fyrir sunnan Vogaland ráða fjallgarðar þeir til suðurs, er næstir liggja Mývatnssveit og frá þeim bein stefna suður í Bræðraklyf vestur af Herðibreið. Frá Bræðraklyfi ræður bein stefna austur í Jökulsá, sunnan við Herðibreiðartungu.“ Í kröfu stefnda felst að mörk þjóðlendu og eignarlands liggi innan marka þess landsvæðis sem stefnendur telja undirorpið eignarrétti sínum. Stefnendur byggja kröfur sínar eins og áður er rakið aðallega á hinu þinglýsta landamerkjabréfi Reykjahlíðar. Vísa þeir til framlagðra gagna og eldri heimilda, sem þeir staðhæfa að styðji kröfur þeirra. Benda stefnendur m.a. á heimildir um landnám, auk áðurrakinna vitnisburða og dóma frá upphafi 16. aldar, en auk þess vísa þeir til dóms um kaupbréf Grænavatns frá 1562, en þar segir um suðurlandamerki þeirrar jarðar: „... ustur i Burfellsskòrd hin sidre. þadann og austur i Hafragiä. rædur þä. giäinn og framm ad Brædraklife. og þadann og austur under Herdebreid. og allann Heilagsdal. riett ur Herdebreid til vesturs. og so üt I Sudurärbotna ...“ Þá vísa stefnendur m.a. til máldaga Hlíðarkirkju frá 1573 og afréttarskrár Skútustaðahrepps frá 1878. Stefndi andmælir eins og áður er rakið öllum rökum stefnenda og vísar hann m.a. til áðurrakins úrskurðar óbyggðanefndar. Samkvæmt Landnámu byggði fyrstur jörðina Reykjahlíð Arnór Þorgrímsson, sonarsonur Þorsteins landnámsmanns. Þá segir í máldaga Auðuns rauða Hólabiskups frá 1318 og í máldaga Péturs Nikulásarsonar frá 1384 að kirkjan eigi hálft heimaland. Í elstu heimildum er ekki frekar vikið að því landsvæði sem um er deilt í máli þessu, en stefnendur benda m.a. á að í vitnisburði og lögmannsdómi frá byrjun 16. aldar sé því lýst að suðurhornpunktur Reykjahlíðar sé við örnefnið Bræðraklif. Þeir benda og á að samkvæmt landamerkjabréfi jarðarinnar frá 1891, sem styðjist m.a. við eldri heimildir hvað varðar átthagalýsingar, styðji það að umrætt örnefni sé þar sem nú sé á kortum nefnt Bræðrafell. Um legu jarðarinnar er það að segja að hún er austasta byggða ból vestan Jökulsár og var líkt og nú viðkomustaður ferðalanga sem áttu erindi, m.a. millum Norður- og Austurlands. Liggur sá almannavegur um Námaskarð og yfir Mývatnsöræfi, þ.e. um Búrfellshraun, Nýjahraun og Austurfjöll og að Jökulsá. Austan Jökulsár eru býlin Grímsstaðir og Möðrudalur á Fjöllum, en bæði munu þau býli til forna hafa verið nokkru sunnar í landinu en húsakynni núverandi býla. Í úrskurði óbyggðanefndar er að nokkru vikið að staðháttum og náttúrufari austan byggðar við Mývatn, á Mývatnsöræfum og í Ódáðahrauni, líkt og hér að framan hefur verið rakið. Í öðrum framlögðum gögnum er staðháttum á landsvæðinu lýst nokkru nánar. Er þar helst að nefna ritverk Þorvaldar Thoroddsen náttúrufræðings, Ferðabók I-IV, skýrslur um rannsóknir á Íslandi 1882-1898, sem gefnar voru út á árunum 1913-1914. Að auki hafa aðilar vísað til ritverka annarra náttúrufræðinga og landkönnuða, en þar má helst nefna ritverk Ólafs Jónssonar um Ódáðahraun, sem gefin voru út um miðja síðustu öld, ritverk Pálma Hannessonar Frá Óbyggðum - ferðasögur og landlýsingar, sem gefið var út 1958 svo og skýrslu Hjörleifs Guttormssonar frá 2006. Í Ferðabók Þorvaldar Thoroddsen segir að Mývatnssveitin takmarkist að sunnan og austan af um 30 km löngum fjallgarði, sem gangi í suðri frá Sellandsfjalli, Bláfjalli (1222 m), Bláfjallshölum og Bláfjallsfjallgarði, Námafjalli og allt norður til Leirhnjúks. Segir Þorvaldur að margir gígar séu á þessari leið, þ. á m. Þrengslaborgir, Lúdent og Hverfell, og hafi eldgos verið virk, m.a. um það leyti sem land byggðist. Mikið hraunflóð hafi runnið úr gígunum niður undir Grænavatn og suðausturhorn Mývatns. Þá hafi í Mývatnseldum 1724-1729 eyðst þrjú býli, þ. á m. Reykjahlíð, Fagranes og Gröf. Hafi Reykjahlíð verið byggð upp á ný við hraunjaðarinn. Nefndir fræðimenn lýsa Mývatnsöræfum á þá leið að þau séu mjög víðáttumikil slétta, 300-500 m yfir sjó, sem hækki lítið eitt þegar austar dragi. Sléttan nái norður undir Kelduhverfi, í svonefndan Norðmel og Norðurfjöll, en einnig suður fyrir núverandi þjóðveg, upp með allri Jökulsá, um svonefnd Grjót og Borgarmel, með Fjallagjá og Veggjastykki, upp með Ferjuási og Vörðukambi, með Ystafelli og Miðfelli, mót Möðrudalslandi austan Jökulsár og síðan fram með Fremstafelli og Ferjufjalli, en þar í milli renni Grafarlandsá um dalverpi. Þá nái sléttan til suðvesturs, um Grafarlönd, og suður að Lindá, Herðubreiðarlindum og Herðubreið. Áframhald af sömu sléttu megi kalla hið vestasta af fjallabyggðunum fyrir austan Jökulsá. Í Ferðabókinni segir Þorvaldur Thoroddsen að á öræfasvæðinu séu hraungjár og gígar svo hundruðum skipti, en lítið um melöldur. Þá sé mikill hluti öræfanna þakinn stórum hraunum, en þó séu góð beitilönd á milli. Roksandur sé þar nokkur og melar af hnullungsgrjóti, einkum næst Jökulsá. Þorvaldur segir að hross gangi á öræfunum vetur og sumur og að mikið sé rekið þangað af sauðfé. Hefur þessi frásögn Þorvaldar samhljóm við yngri heimildir, m.a. um að meginafrétturinn á Mývatnsöræfum sé norðan Búrfells og á Norður- og Austurfjöllum og síðan suður með Jökulsá með Grímsstaðaþjóðvegi og í Grafarlöndum og öræfum þar suður. Frásögnin hefur jafnframt samhljóm við eldri heimildir um ítök jarða, þ. á m. Möðrudals. Um Ódáðahraun segja fræðimennirnir að það sé mesta hraunbreiða á Íslandi, sem liggi sunnan frá Vatnajökli og Vonarskarði og milli Jökulsár á Fjöllum og Skjálfandafljóts. Til norðurs séu mörk Ódáðahrauns óljósari, en að oft sé miðað við að þau séu dregin um fyrrnefnd Mývatnsfjöll, austan byggðar, þ.e. um suðurenda Bláfjalls og Sellandsfjalls, en síðan til norðurs að Grímsstaðaþjóðvegi á Mývatnsöræfum. Með þannig mörkum að meðtöldum Búrfellshrauni og Sveinagjárhraunum og að norðurenda Herðubreiðarfjalla sé flatarmál hraunsins um 4500 km2. Hraunið sé af mismunandi aldri og útliti, sem runnið hafi frá fjölda eldfjalla og gígaraða. Í fyrrnefndum ritverkum segir að hæð hásléttunnar sem hraunið hafi fallið yfir sé um 400 m nyrst og um 800 m syðst. Hásléttan sé þó ekki alveg hulin hrauni þar eð meðfram Jökulsánni séu víðáttumikil svæði með ísaldarruðningi, líkt og í Fljótsdalnum við vesturmörkin. Þá rísi einstök fjöll eða fjallaþyrpingar upp úr hraunhafinu og séu Herðubreið, Dyngjufjöll með Öskju þeirra mest svo og Trölladyngja og Kollóttadyngja. Í úrskurði óbyggðanefndar er vikið að gróðri á Mývatnsöræfum og í Ódáðahrauni. Í ritum nefndra fræðimanna segir að vatnsskortur standi gróðrinum helst fyrir þrifum, en að helst sé norðurhluti hraunsins talsvert gróinn með köflum svo og þar á mellöndum, en einnig séu gróðurblettir víða við lindir og uppsprettur, m.a. í nágrenni Herðubreiðar. Áréttað er að dálítill gróðurslæðingur sé því sem næst um allt hraunið, að undanskildum yngstu og úfnustu hraunbreiðunum og þá ekki hvað síst norður af Vatnajökli, norður um Trölladyngju og Dyngjufjöll. Í ritverki Þorvaldar Thoroddsen, sem ferðaðist víða um Ódáðahraun á árunum 1875 og 1882-1884 og gerði jarðfræðiuppdrátt og lýsti því nákvæmlega: „... mest eftir eigin sjón, sumpart eftir lýsingu nákunnugra göngumanna og fjallakónga“, gerði hann grein fyrir heimildum sínum um fyrri ferðir um Mývatnsöræfi og Ódáðahraun. Staðhæfir hann að þrátt fyrir einstaka ferðir um landsvæðið á 17. og 18. öldinni hafi öræfin inn af Mývatni verið byggðamönnum lítt kunn. Þekking hafi þó farið vaxandi er leið á 19. öldina og hafi það m.a. leitt til þess að fjárheimtur urðu talsvert betri með tímanum. Í leiðöngrum sínum um Ódáðahraun og Mývatnsöræfi gaf Þorvaldur kennileitum og örnefnum nafn, en leiðrétti jafnframt eldri uppdrætti um staðsetningu fjalla og fjallgarða, sem gerðir höfðu verið eftir fyrri öræfaferðir. Þar á meðal var landabréf Knoffs af Íslandi frá 1734 og Uppdráttur Íslands sem Björn Gunnlaugsson gerði 1844, en hann hafði á árunum 1838 og 1839 farið um öræfin millum Jökulsár og Skjálfandafljóts. Á meðal fylgdarmanna Björns var séra Sigurður Gunnarsson, en í greinum sem hann ritaði í tímatritið Norðanfara 1864 og 1877 segir hann frá ferðum sínum. Nefnir Sigurður m.a. Dyngjufjöll fremri og hin ytri, en jafnframt segir hann að suðvestur af Herðubreið eigi að vera skarð sem heiti Bræðraskarð, en ekki getur hann frekar um heimildir sínar. Þorvaldur Thoroddsen segir frá því í fræðiritum sínum, að fjöll hafi vantað á uppdrátt Björns Gunnlaugssonar, þ. á m. Hvammsfjöll, hið mikla eldfjall Kollóttu-Dyngju og Herðubreiðartögl, en einnig Lindá, Ferjufjall, Hrossaborg og „önnur smáfell fram með Jökulsá“. Þá staðhæfir hann að Herðubreiðarfjöll en einnig Dyngjufjöll hafi verið skakkt sett á Uppdrátt Íslands. Þorvaldur lýsir í framhaldi af þessum skrifum legu helstu fjalla austan Mývatnsfjalla, þ. á m. Heilagsdagsfjalls, Búrfellsfjalla og Búrfells, en þar sunnar segir hann vera hinar fornu Fremrinámur, við gíginn Ketil og Ketildyngju, en þar rétt sunnan við staðsetur hann móbergstindinn Kerlingardyngju og að enn sunnar liggi Hvammsfjöll og Fjarhólar. Þá segir hann að austurhlið Kerlingardyngju nái að Herðubreiðarfjöllum. Í skýringum, sem fylgja ritverkum Þorvaldar, segir að Búrfellsfjöll nefnist nú á korti Bláfellsfjallgarður. Í ritverkum nefndra fræðimanna segir m.a. frá því að Grafarlönd vestan Ferjufjalls, við Jökulsá, séu um 10-12 km suðvestur að Herðubreiðarlindum og Herðubreið (1682 m). Þá segir Þorvaldur Thoroddsen að suður af Herðubreið, en eigi áfast þar við, gangi allmikill fjallrani, „sem ég hef heyrt menn kalla Tögl eða Herðubreiðartögl (1070 m)“, en að þar suður frá falli Jökulsáin á tveggja til þriggja km kafla í mjög þröngum gljúfrum, sem á einum stað séu aðeins 11 m breið og að rétt ofan við mjóddina sé dálítill foss. Er að áliti dómsins líklegt að hér sé átt við foss, sem á síðari tímum hefur verið nefndur Gljúfrasmiður. Í þessu viðfangi er til þess að líta að mun neðar í Jökulsánni eru þekktir fossar, þ.e. Selfoss, Dettifoss, Hafragilsfoss og Réttarfoss, en að auki var þar fram til ársins 1920 Vígabjargarfoss, sem þá hvarf vegna rennslisbreytinga. Í ritum sínum segir Þorvaldur að þau hraun sem séu um Herðubreið séu ekki frá henni komin, þrátt fyrir að annálar tiltaki að hún hafi gosið 1341 og 1510. Staðhæfir Þorvaldur að fjallið hafi ekki gosið frá ísöld, en þar sem öræfin séu svo fjarri byggð og ókunn sé ekki óeðlilegt að fólk hafi ættfært ranglega þau gos sem þar urðu. Í bókarflokki sínum um Ódáðahraun tekur Ólafur Jónsson undir þessa skoðun Þorvaldar, en segir jafnframt að þekkt sé að eldgos séu kennd við eitthvert þekkt eða sérkennilegt fjall í nágrenninu. Nefnir hann í því sambandi að árið 1510 hafi verið sagt í Biskupsannálum Jóns Egilssonar að gosið hafi í Trölladyngju og Herðubreið, en hið rétta hafi verið að gosið hafi í Dyngjufjöllum og Herðubreiðarfjöllum. Þorvaldur Thoroddsen segir frá því að fyrir sunnan Herðubreiðartögl blasi við Kverkfjöll og Vatnajökull, en þar vestan við sé Kistufell og Dyngjufjöll ásamt Öskju. Hann lýsir skarði millum Dyngjufjalla og Kollóttudyngju, sem hann segir að sé syðsti hluti Herðubreiðarfjalla, en síðan segir hann: „Suður af Kollóttu-Dyngju, í suðurrönd hennar, er mjög einkennilegt móbergsfell. Standa utan í því þverhníptir móbergsdrangar, að minnsta kosti 15-30 m háir, hver upp af öðrum, og á hrygg fellsins eru stóreflis björg, undarlega löguð Það getur vel verið, að þetta fell sé Bræðrafell, sem getið er um í fornum máldögum. Bræðraskarðið verður þá fjallahliðið milli þess og Dyngjufjalla. Þó er þetta ekki víst“. Í þessu viðfangi er til þess að líta að fram í Bárðardal, nærri Svartárvatni, eru bergstöplar tveir sem nefndir eru Bræður. Þá er í Hólmatungum, syðst við Hólmárbjargið, lækur sem mun heita Bræðralækur. Þorvaldur segir í ritverki sínu frá rannsóknarleiðangri sem hann fór árið 1884 um Herðubreiðarfjallgarð. Segir hann að fjallgarðurinn sé norður og austur af Dyngjufjöllum og norðvestur af Herðubreið, en bendir á að flestir Mývetningar nefni fjallgarðinn Herðubreiðarfjöll, en sumir kalli hann Dyngjufjöll ytri. Þorvaldur staðhæfir að fjöll þessi hafi verið alveg ókunn og mjög skakkt sett í Uppdrætti Íslands, enda þótt mikið hraun hafi runnið frá þeim og í næsta nágrenni þeirra, m.a. frá Sveinagjá, sem gosið hafi 1875. Þorvaldur lýsir Herðubreiðarfjöllum og nágrenni þeirra, líkt og Ólafur Jónsson og fleiri fræðimenn og landkönnuðir hafa gert síðar í verkum sínum. Segir Þorvaldur að þangað frá Grafarlöndum vestan Jökulsár séu hallandi hraunbreiður. Þá sé vestur af Miðfelli og Fremstafelli, en norðan Ferjufells, ávöl bunga, hraunlaus, og nái hún langleiðina vestur að Gjáfjöllum (957 m), sem sé nyrsti hluti fjallaklasans. Við rætur Gjáfjalls að vestan sé fyrrnefnd Sveinagjá. Þá segir Þorvaldur að syðsti hluti fjallaklasans sé áðurnefnd Kollóttadyngja (1177 m), sem sé vestur eða dálítið norðvestur af Herðubreið. Í bókarflokki Ólafs Jónssonar er áréttað að suður af Kollóttudyngju sé á landakortum merkt fyrrnefnt Bræðrafell, en eigi getur hann um aldur eða uppruna örnefnisins. Í áðurröktum úrskurði óbyggðanefndar er Bræðrafelli lýst, en í vettvangsferðum var það staðfest að tveir drangar sem þar eru sjást langt að. Við norðurrætur Kollóttudyngju er móbergsfjallið Eggert (1232 m), sem Þorvaldur skírði í höfuðið á Eggert Ólafssyni. Vestur af því er sundurskorinn fjallgarður sem heitir Hrútshálsar og nær norður að Gjáfjöllum. Norður frá Gjáfjöllum, skammt austur af Sveinagjársigi, liggur Hafragjá. Í bókaflokki Ólafs Jónssonar segir að gjá þessi sé 1-2 km breið og 5-6 km löng, með 20-30 m háum gjáveggjum, einkum að vestan. Í ritverkum Þorvaldar Thoroddsen og Hjörleifs Guttormssonar, en einnig í örnefnaskrá Reykjahlíðar sem Pétur Jónsson tók saman um 1950, segir að á báðum börmum Hafragjár séu vörður og að nálægt miðjum vestari gjáveggnum sé rutt einstigi. Í örnefnaskrá Péturs, í riti Fornleifastofnunar Menningarminjar á miðhálendi Íslands, sem dr. Orri Vésteinsson ritstýrði, og í bókaflokki Ólafs Jónssonar er nefnt einstigi nefnt Bræðraklif. Þá er áréttað í nefndum ritum að þar á vestari barmi Hafragjár séu þrjú vörðubrot. Austur af gjánni og norður frá Gjáfjöllum er hver sigspildan við aðra. Ein er þó mest og má rekja hana norður með Hrossaborgum og suður með Gjáfjöllum, en Fjallagjá er hluti af þessu sigi. Í áðurnefndum gögnum segir að víða sé Ódáðahraun ógreitt yfirferðar, en sjaldan séu þó vandkvæði fyrir gangandi menn að komast ferða sinna um það, og víðast hvar megi með lagi fleyta hestum. Mestu torfærurnar séu sumar gjárnar. Samkvæmt frásögn Jóns Halldórssonar í Hítardal, sem gegndi m.a. stöðu skólameistara Skálholtsskóla í byrjun 18. aldar, var ferð yfir Ódáðahraun talin áfangi, þ.e. dagleið. Í landamerkjabréfi Reykjahlíðar frá 1891 er, eins og hér að framan hefur verið rakið, það sagt um suðurmerki jarðarinnar að þar ráði fjallgarðar þeir til suðurs, „... er næstir liggja Mývatnssveit og frá þeim bein stefna suður í Bræðraklyf vestur af Herðibreið. Frá Bræðraklyfi ræður bein stefna austur í Jökulsá, sunnan við Herðibreiðartungu“. Í málatilbúnaði sínum, líkt og við flutning, hafa aðilar vísað til eldri heimilda máli sínu til stuðnings. Hafa þeir m.a. sérstaklega nefnt sjöttardóm Magnúsar Jónssonar sýslumanns um landamerki nágrannajarðar Reykjahlíðar Grænavatns frá 1562, en þar segir um suðausturmerki þeirrar jarðar: „ustur i Burfellsskòrd hin sidre. þadann og austur i Hafragiä. rædur þä. giäinn og framm ad Brædraklife. og þadann og austur under Herdebreid“. Hafa stefnendur einkum lagt áherslu á síðari hluta merkjalýsingarinnar. Örnefnið Búrfellsskörð syðri eru nú óþekkt örnefni, en í skýringum með fræðiriti Þorvaldar Thoroddsen segir að helst geti þar verið um að ræða skörð í Bláfjallsfjallgarði og verður það lagt til grundvallar. Þá eru áhöld um staðsetningu örnefnisins Herðubreiðartungur austur við Jökulsá. Hafa stefnendur vísað um staðsetninguna til örnefnaskrár Reykjahlíðar frá 1950, sem Pétur Jónsson skráði, en þar segir að um sé að ræða gamalt örnefni á Grafarlöndum eystri og grónu landi þar í kring. Að áliti Pálma Hannessonar er Herðubreiðartunga hins vegar tvímælalaust tungan milli Jökulsár og Grafarlandsár. Er um þetta m.a. til þess að líta að í fornsögum er Herðubreiðartungna getið, en þá jafnan í tengslum við sagnir um ferðir manna þvert yfir Ódáðahraun. Í Hrafnkelssögu segir frá ferðum Sáms á Leikskálum, en þar segir svo: „Þaðan (frá Möðrudal) riðu þeir til Herðibreiðstungu og svo fyrir ofan Bláfjöll og þaðan í Króksdal og svo suður á Sand“. Þá segir í Ljósvetningasögu frá ferð Þorkels Geitissonar um árið 1000, að hann hafi skipt liði sínu við Jökulsá, en „þá váru goð vöd viða ...“ og hafi hluti liðs hans síðan farið „almannaveg“ vestur til þings, en meginhluti liðsins farið á hrossum sínum „... fyrir ofan Mývatn til Krókdals ok Bleikmýrardals ...“ Í þessu samhengi er til þess að líta að samkvæmt Vilchinsmáldaga átti Möðrudalskirkja á Fjöllum ítök vestan Jökulsár, hestgöngu og ómerkinga alla í Herðubreiðartungum. Síðari tíma heimildir hafa greint frá ferðum Skálholtsbiskupa þvert yfir Ódáðahraun vegna vísitasíuferða til Austurlands. Þá er ætlað að Bjarni Oddsson, sýslumaður á Burstafelli, hafi farið Ódáðahraunsleið síðastur manna 1636 og drukknaði þá maður í Jökulsá, en eftir það hafi hún týnst. Er talið að þessi leið hafi verið einn hinna fyrstu fjallvega, sem týndist. Samkvæmt áðurnefndum fræðiritum verður ekki með vissu sagt hvar leiðin lá yfir Ódáðahraun. Í ritverki sínu segir Þorvaldur Thoroddsen frá því að hann hafi fundið ruddan sneiðing upp klif við norðurenda Gjáfjalla í Herðubreiðarfjöllum, en þar hafi og verið versta torfæra leiðarinnar. Jafnframt greinir Þorvaldur frá því að hann hafi fundið nokkur vörðubrot út og vestur frá Ferjufjalli. Þá hefur Þorvaldur það eftir manni einum sem var uppalinn í Mývatnssveit, að „hinn gamli vegur hafi legið úr Kiðagili austur yfir Skjálfandafljót, á Kolmúladal, og þaðan austur yfir hraunið í Herðubreiðartungur og svo að Möðrudal.“ Þeir fræðimenn og landkönnuðir sem fylgdu í fótspor Þorvaldar Thoroddsen hafa, líkt og áður var rakið, nefnt klif það sem liggur niður vesturvegg Hafragjár Bræðraklif. Þá hafa þeir greint frá því að við eftirgrennslan hafi þeir fundið vörður og vörðubrot vestan Hafragjár, en einnig austan hennar og þar á meðal á grjótunum út og vestur frá Ferjufjalli. Um gildi landamerkjabréfa, og því hvert sé inntak eignarréttar á svæði sem í þeim er lýst, hefur Hæstiréttur Íslands lýst þeirri afstöðu, t.d. í máli réttarins nr. 48/2004, að almennt skipti máli hvort um sé að ræða jörð eða annað landsvæði. Segir í dómsniðurstöðunni m.a. að þekkt sé að landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir jarðir, heldur einnig afrétti, sem ekki tengist sérstaklega tiltekinni jörð. Enn fremur er í þessum dómi sagt að landamerkjabréf fyrir jörð feli almennt í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða þótt jafnframt verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega. Er sagt að það auki almennt gildi landamerkjabréfs sé það áritað um samþykki eigenda aðliggjandi jarða, en að þess verði að gæta að með því að gera landamerkjabréf geti menn ekki einhliða aukið við land sitt eða annan rétt umfram það. Verði til þess að líta hvort til séu eldri heimildir sem fallið geti að lýsingu í landamerkjabréfi, enda stangist sú lýsing heldur ekki á við staðhætti, gróðurfar og upplýsingar um nýtingu lands. Rétturinn hefur í síðari dómum margsinnis áréttað þessa afstöðu, t.d. í fyrrnefndum dómi í máli nr. 496/2005. Ber við niðurstöðu máls þessa að hafa allt framangreint í huga. Stefnendur byggja á því að Bræðraklyf, það örnefni sem nefnt hafi verið suðurhornpunktur í landamerkjabréfi Reykjahlíðar frá árinu 1891, og margoft sé nefnt í eldri merkjalýsingum jarðarinnar, sé þar sem nú sé á kortum nefnt Bræðrafell. Í fellinu séu háir bergstöplar sem nefndir séu bræður og sjáist langt að. Vísa stefnendur til þess að þetta sé skýr hornpunktur á suðvesturhorni jarðarinnar og í mun betra samhengi við eldri heimildir en það Bræðraklif í Hafragjá, sem óbyggðanefnd miði ranglega við. Hafragjár er ekki getið sem landamerkjapunkts í landamerkjabréfi Reykjahlíðar frá 1891, en fyrir liggur að það hefur verið þekkt kennileiti um aldir. Er þess m.a. getið í áðurnefndum sjöttardómi frá 1562, þar sem kveðið var á um landamerki Grænavatns, en þar er einnig getið um örnefnið Bræðraklif. Örnefnið Bræðraklif kemur fyrir í vitnisburðum og lögmannsdómi um eignarland Reykjahlíðar frá byrjun 16. aldar og í heimildum eftir það, þ. á m. í landamerkjabréfi jarðarinnar frá 1891. Landmerkjabréf Reykjahlíðar var ekki áritað af öllum eigendum nágrannajarða, þ. á m. ekki eigendum Grænavatns. Þær elstu heimildir sem málsaðilar vísa til benda að áliti dómsins til þess að merki Reykjahlíðar hafi legið frá hinu óþekkta syðra skarði í Búrfellsfjallgarði, sem nú nefnist Bláfellsfjallgarður, á mörkum austur- og suðurafréttar Mývetninga. Þá er líklegast að þaðan hafi merkjalínan legið til austurs um Ódáðahraun og í Hafragjá norðan Herðubreiðarfjalla, en að áliti dómsins er gjáin ótvírætt punktur sem miðað var við. Er í því viðfangi til þess að líta að í Mývatnssveit er eigi óalgengt, sbr. m.a. aðilaskýrslu fyrir dómi, að merkjalýsingar jarða taki mið af lægðum í landi eins og af hæðum. Að virtum hinum elstu heimildum sem fjalla um hið umþrætta landsvæði fær skilningur stefnenda um staðsetningu Bræðraklifs í Bræðrafelli sunnan Kollóttudyngju að áliti dómsins ekki nægjanlegan stuðning, m.a. þegar litið er til átthagalýsinga. Þá er til þess að líta að millum syðsta hluta Hafragjár og Bræðrafells sunnan Kollóttudyngju eru um 25 km í beinni loftlínu og er þá farið yfir há Herðubreiðarfjöllin. Skilningur stefnenda fær að áliti dómsins heldur ekki stuðning í ritum þeirra náttúrufræðinga og landkönnuða sem fyrstir könnuðu hin víðáttumiklu landsvæði, sem hér eru til umfjöllunar, til nokkurrar hlítar á 19. og 20. öld. Loks fær skilningur stefnenda ekki stuðning í síðari tíma gögnum, m.a. örnefnaskrá Reykjahlíðar. Þegar ofangreint er virt, en einnig í ljósi staðhátta, áðurrakinna lýsinga náttúrufræðinga á landsvæðinu, þ. á m. á Herðubreiðarfjöllum og einstökum hlutum þeirra, vettvangsferða að nefndum kennileitum og almenns málskilnings á Norðurlandi á orðunum „fram“ og „utan við“, verður að áliti dómsins að leggja til grundvallar að merki Reykjahlíðar á eignarlandi taki mið af Hafragjá norðan Gjáfjalla í Herðubreiðarfjöllum og þá þannig að merkjalínan miðist við einstigi það sem nefnt hefur verið Bræðraklif og er í vesturvegg í syðri hluta Hafragjár. Þá fari merkin þaðan í beinni stefnu austur í Jökulsá. Það er því niðurstaða dómsins að stefnendur hafi ekki hrakið eða leitt nægjanlegar líkur fyrir því að áðurraktar forsendur í úrskurði óbyggðanefndar sem stefndi vísar til um merki Reykjahlíðar séu rangar. Að þessu sögðu verður ekki fallist á með stefnendum að þeir hafi sýnt fram á að umrætt landsvæði sunnan þjóðlendulínu eins og hún er dregin í úrskurði óbyggðanefndar sé eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti. Þá verður ásamt andmælum og röksemdum stefnda, en einnig með hliðsjón af áðurnefndri ákvörðun Mannréttindadómstóls Evrópu frá 23. september 2008 í máli nr. 46461/06, ekki fallist á að stefnendur hafi mátt vænta þess að þeir ættu frekari réttindi á þessu landsvæði en lýst er í úrskurðinum. Loks hafa stefnendur að áliti dómsins ekki rökstutt frekar þau réttindi, sem varakrafa þeirra tekur til, eða þeir að öðru leyti fært fram gögn fyrir slíkum réttindum. Ber af þeirri ástæðu að hafna varakröfu stefnenda. Með vísan til alls þess sem hér að framan hefur verið rakið er hafnað kröfum stefnenda um að ógilda úrskurð óbyggðanefndar í máli þessu og skal hann standa óraskaður. Er því fallist á þá niðurstöðu óbyggðanefndar að lýst landsvæði samkvæmt úrskurðinum teljist til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58/1998, en jafnframt að landsvæði sem nefnd eru Grafarlönd austari og Herðubreiðarlindir séu afréttareign jarðarinnar Reykjahlíðar, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga. Verður stefndi samkvæmt öllu þessu sýknaður af kröfum stefnenda í málinu. Stefnendur krefjast þess að málskostnaðarákvörðun óbyggðanefndar gagnvart þeim vegna lögmannsþjónustu, sem þeir hafi þegið við meðferð málsins fyrir nefndinni, að fjárhæð 2.200.000 krónur, verði felld úr gildi og þess í stað dæmt að stefnda beri að greiða stefnendum 4.327.500 krónur auk virðisaukaskatts, 1.060.235 króna, eða samtals 5.387.737 krónur í málskostnað vegna lögmannsþjónustu auk 2.599.120 króna vegna útlagðs kostnaðar landeigenda sjálfra vegna vinnu þeirra við gagnasöfnun, rannsóknir, funda- og ferðakostnað, eða samtals 7.986.857 krónur, vegna meðferðar málsins fyrir óbyggðanefnd. Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 58, 1998, eins og þeim var breytt með 7. gr. laga nr. 65, 2000, skal greiða úr ríkissjóði nauðsynlegan kostnað vegna gæslu hagsmuna málsaðila fyrir óbyggðanefnd. Með 2. mgr. fyrrnefnds lagaákvæðis er lagt í hendur nefndarinnar að úrskurða um kröfur aðila um þann kostnað. Meðal þess, sem nefndin á að líta til við ákvörðun á nauðsynlegum kostnaði aðila, er hvað telja megi sanngjarnt og eðlilegt endurgjald fyrir hagsmunagæslu í viðkomandi máli og hvort aðilar, sem hafa svipaðra hagsmuna að gæta, hafi sameinast um aðstoð lögmanns. Óbyggðanefnd hefur sjálfstæðri rannsóknarskyldu að gegna í málum sem þessum og hefur að mati dómsins sinnt þeirri skyldu sinni. Segir í úrskurði nefndarinnar að í tilefni af áliti umboðsmanns Alþingis frá 13. nóvember 2007 í máli nr. 5073/2007 hafi nefndin fyrir uppkvaðningu úrskurðarins gefið lögmönnum aðila kost á að leggja fram sundurliðaða málskostnaðarreikninga þannig að unnt væri að ákvarða málskostnað til einstakra málsaðila fremur en sameiginlega. Liggur fyrir að slík sundurliðun lá fyrir í tilviki stefnenda. Fallast má á með stefnendum að rökstuðningur óbyggðanefndar fyrir ákvörðun málskostnaðar hefði mátt vera ítarlegri, en það breytir ekki mati dómsins á því að ekkert sé nægjanlega fram komið sem styðji þá fullyrðingu að endanleg ákvörðun hennar hafi verið órökstudd og ómálefnaleg eða í andstöðu við 17. gr. þjóðlendulaga í ljósi aðstæðna. Að þessu gættu eru ekki efni til að hnekkja ákvörðun óbyggðanefndar um þóknun handa lögmanninum og annan kostnað. Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málarekstrinum. Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Ólafs Björnssonar hæstaréttarlögmanns. Með hliðsjón af umfangi málsins og þeim hagsmunum sem í húfi voru, en einnig þegar virt eru gögn um vinnuframlag, þar á meðal vegna vettvangsferða og endurflutnings, er nefnd þóknun ákveðin 1.635.500 krónur og er þá virðisaukaskattur meðtalinn. Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 9, 1991 kemur aðeins í hlut dómstóla að ákveða þóknun handa lögmanni gjafsóknarhafa og á því ekki að réttu lagi að taka afstöðu til útlagðs kostnaðar hans í dómi. Mál þetta var upphaflega flutt 22. mars sl.. Ekki tókst að leggja dóm á málið á tilhlýðilegum tíma, m.a. vegna anna dómara. Var málið því endurflutt af lögmönnum aðila 17. október sl., en í framhaldi af því dómtekið að nýju. Dóm þennan kveður upp Ólafur Ólafsson, héraðsdómari. D Ó M S O R Ð : Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnenda í máli þessu. Málskostnaður fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Ólafs Björnssonar, hæstaréttarlögmanns, 1.635.500 krónur.
Mál nr. 317/2000
Lausafjárkaup Galli Ábyrgðarskírteini Gagnsök
Í janúar 1997 keypti E vél af gerðinni Star Powr af V hf. í fiskibát E. Fljótlega komu í ljós bilanir á vélinni og varð hún á skömmum tíma ónothæf. Var ný vél sömu gerðar sett í bátinn í júlí 1997 á kostnað V hf., en hún bilaði einnig. Krafði E V hf. um skaðabætur á þeim grundvelli að V hf. bæri fulla skaðabótaábyrgð á öllu tjóni E án þeirra takmarkana á umfangi hennar, sem gerðar voru í ábyrgðarskírteini frá framleiðanda vélarinnar. Enginn skriflegur kaupsamningur var gerður með aðilum. V hf. gaf einungis út reikning til E vegna kaupanna 16. janúar 1997, en kaupverðið greiddi hann þannig að 500.000 krónur voru inntar af hendi um líkt leyti, en fyrir eftirstöðvunum gaf hann út skuldabréf. Umrædds ábyrgðarskírteinis var ekki getið í þessum gögnum. Það var ekki undirritað af E, þótt í stöðluðu formi þess sé beinlínis gert ráð fyrir að svo skuli vera, og V hf. mótmælti ekki að hann hefði sent það viðsemjanda sínum í pósti mörgum vikum eftir að kaupin voru gerð. Talið var að gegn mótmælum E hefði V hf. ekki tekist að sanna að hann hefði kynnt E áður en kaupin voru gerð í janúar 1997 að hann hygðist takmarka ábyrgð sína. V hf. hefði heldur ekki sýnt fram á að til væri viðskiptavenja, sem máli skipti um þetta efni. Var því ekki fallist á að ábyrgðarskilmálarnir væru hluti af samningi aðilanna og þannig bindandi fyrir aðaláfrýjanda. Gæti V hf. ekki borið fyrir sig takmörkun ábyrgðar samkvæmt þessum skilmálum, sem ganga lengra í að leysa hann undan ábyrgð en leiðir af ákvæðum laga nr. 39/1922. Var skaðabótakrafa E því tekin til greina. Jafnframt var hafnað kröfu V í gagnsök hans í héraði þess efnis að samningur aðilanna 2. apríl 1998 um riftun vélakaupanna yrði felldur úr gildi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. ágúst 2000. Hann krefst þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 3.387.222 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 500.000 krónum frá 13. janúar 1997 til 24. febrúar 1998, af 1.020.000 krónum frá þeim degi til 2. mars sama árs, af 1.331.830 krónum frá þeim degi til 30. júní sama árs, en af 3.387.222 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 1.130.000 krónum vegna innborgunar gagnáfrýjanda 2. apríl 1998. Aðaláfrýjandi krefst þess einnig að vísað verði frá héraðsdómi dómkröfum í gagnsök þeirri, sem gagnáfrýjandi þingfesti í héraði 15. apríl 1999. Þá krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 10. október 2000. Hann krefst þess að framangreindum kröfum aðaláfrýjanda verði hafnað og aðallega viðurkenndur réttur gagnáfrýjanda til að rifta samkomulagi við aðaláfrýjanda 2. apríl 1998 um að kaup aðaláfrýjanda á bátavél af gerðinni Star Powr gengju til baka og gagnáfrýjandi endurgreiddi kaupverð vélarinnar og kostnað af niðursetningu hennar, auk annars tilgreinds kostnaðar, samtals að fjárhæð 1.500.000 krónur. Þá verði aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda 2.563.587 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 30. mars 1999 til greiðsludags, allt gegn afhendingu á fyrrgreindri Star Powr bátavél í því ástandi, sem hún nú er í á vélaverkstæðinu Ver ehf. að Hvaleyrarbraut 3 í Hafnarfirði. Þá krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst gagnáfrýjandi þess að héraðsdómur verði staðfestur og aðaláfrýjanda gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti. I. Ágreiningur málsaðila er til kominn vegna kaupa aðaláfrýjanda á vél af gerðinni Star Powr af gagnáfrýjanda í fiskibát hins fyrrnefnda í janúar 1997. Vélin var sett í bátinn hjá vélaverkstæðinu Ver ehf. í Hafnarfirði og honum siglt í fyrsta sinn með hinni nýju vél 1. mars 1997. Komu fljótlega í ljós bilanir á vélinni og varð hún á skömmum tíma ónothæf. Var ný vél sömu gerðar sett í bátinn í júlí 1997 á kostnað gagnáfrýjanda, en hún bilaði einnig. Eru atvik málsins ítarlega rakin í héraðsdómi. Er þar jafnframt gerð grein fyrir efni fjögurra matsgerða, sem aðilar hafa aflað í málinu. Eftir að fyrsta matsgerðin var fengin gerðu málsaðilar samkomulag 2. apríl 1998 um að kaupin gengju til baka og að gagnáfrýjandi greiddi aðaláfrýjanda 1.500.000 krónur. Áskildi hinn síðarnefndi sér jafnframt rétt til að krefjast frekari bóta í dómsmáli ef nauðsyn krefði. Telur gagnáfrýjandi þetta samkomulag ekki bindandi fyrir sig þar eð síðar hafi komið í ljós að niðurstaða matsmannanna stæðist ekki. Höfðaði hann gagnsök í héraði til að fá þessu samkomulagi hrundið. Kröfu aðaláfrýjanda um að gagnsökinni yrði vísað frá héraðsdómi var hafnað með úrskurði héraðsdómara 27. maí 1999. Hefur aðaláfrýjandi skotið þessum úrskurði til Hæstaréttar með dómi héraðsdóms í málinu og krefst þess að gagnsökinni verði vísað frá héraðsdómi, þar eð skilyrði til að höfða gagnsök hafi ekki verið uppfyllt. II. Í þremur áðurnefndra matsgerða er fjallað um ástæður þess að vélin í báti aðaláfrýjanda bilaði. Er gerð grein fyrir efni þeirra og niðurstöðum matsmanna í héraðsdómi. Engin ný sérfræðileg gögn hafa verið lögð fram við rekstur málsins fyrir Hæstarétti. Hefur gagnáfrýjandi ekki hnekkt þeirri niðurstöðu hinna sérfróðu meðdómsmanna í héraði að meginorsök bilananna verði ekki rakin til þess að miðstöð í bátnum var tengd við vélina, þótt þeir fallist á að það hafi haft einhver áhrif. Taldi héraðsdómur jafnframt að umræddar Star Powr vélar hafi gengið við of lágt hitastig og ekki verið búnar þeim kostum, sem ætlast mátti til. Var niðurstaða hans sú að gagnáfrýjandi bæri af þeim sökum skaðabótaábyrgð á tjóni aðaláfrýjanda. Fyrir Hæstarétti hefur aðaláfrýjandi vísað til þess að bótaskylda gagnáfrýjanda vegna þeirra atvika, sem hér um ræðir, verði leidd af ákvæði 1. mgr., sbr. 3. mgr. 43. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup. Hefur sú tilvísun til lagaákvæða ekki sætt athugasemdum af hálfu gagnáfrýjanda. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um skaðabótaskyldu gagnáfrýjanda vegna umræddra vélarkaupa. Þegar af þeirri ástæðu, sem að framan greinir, er brostinn grundvöllur fyrir höfðun gagnsakar til að fá hnekkt samkomulagi aðilanna 2. apríl 1998. Í því ljósi er heldur ekki ástæða til að fjalla frekar um kröfu aðaláfrýjanda um að gagnsökinni verði vísað frá héraðsdómi, sem að vísu var höfðuð löngu eftir að útrunninn var frestur til þess samkvæmt 3. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. III. Aðaláfrýjandi reisir kröfu sína á því að gagnáfrýjandi beri fulla skaðabótaábyrgð á öllu tjóni sínu án þeirra takmarkana á umfangi hennar, sem gerðar séu í ábyrgðarskírteini frá framleiðanda vélarinnar. Mótmælir hann því að umræddir skilmálar skoðist hluti af kaupsamningi hans við gagnáfrýjanda og telur að líta beri framhjá þeim. Þeir hafi hvorki verið kynntir honum áður en kaupin voru gerð né hafi gagnáfrýjandi þá látið uppi að hann hygðist takmarka ábyrgð sína eða framleiðandans með þeim hætti, sem greinir í skilmálunum, eða á annan veg. Þá hafi skírteinið ekki verið afhent sér við kaupin, heldur borist í pósti eftir 1. mars 1997. Gagnáfrýjandi heldur á hinn bóginn fram að hann hafi strax á fyrstu stigum kynnt aðaláfrýjanda efni ábyrgðarskilmálanna eins og lýst sé í héraðdómi. Honum hafi því verið fullkunnugt um skilmálana er kaupin voru ráðin. Hafi honum þá jafnframt verið kynnt að samkvæmt skilmálunum væri ábyrgðin takmörkuð við sex mánuði, en að gagnáfrýjandi ynni að því að fá framleiðandann til að fallast á tólf mánaða ábyrgðartíma, sem hafi síðan gengið eftir. Samkvæmt venju hafi ábyrgðarskírteinið hins vegar ekki verið sent aðaláfrýjanda fyrr en eftir að vélin hafði verið sett í bátinn og hún reynd. Áðurnefnt ábyrgðarskírteini er á ensku og felur í sér margs konar takmarkanir á ábyrgð, svo sem rakið er í héraðsdómi. Hefur gagnáfrýjandi fyllt út nokkra þar til gerða reiti neðst á skjalinu. Er þannig skráð dagsetningin 1. mars 1997 við orðin „delivery date“, og við orðin „warranty period“ hefur hann ritað „12 months or 1000 hours“. Í reit fyrir undirritun seljanda er ritað nafn fulltrúa gagnáfrýjanda, en reitur fyrir undirritun kaupanda er auður. Enginn skriflegur kaupsamningur var gerður með aðilum. Gagnáfrýjandi gaf einungis út reikning til aðaláfrýjanda vegna kaupanna 16. janúar 1997, en kaupverðið greiddi hann þannig að 500.000 krónur voru inntar af hendi um líkt leyti, en fyrir eftirstöðvunum gaf hann út skuldabréf. Umrædds ábyrgðarskírteinis var ekki getið í þessum gögnum. Það var ekki undirritað af aðaláfrýjanda, þótt í stöðluðu formi þess sé beinlínis gert ráð fyrir að svo skuli vera, og gagnáfrýjandi mótmælir ekki að hann hafi sent það viðsemjanda sínum í pósti mörgum vikum eftir að kaupin voru gerð. Gegn mótmælum aðaláfrýjanda hefur gagnáfrýjanda ekki tekist að sanna að hann hafi kynnt hinum fyrrnefnda áður en kaupin voru gerð í janúar 1997 að hann hygðist takmarka ábyrgð sína. Hann hefur heldur ekki sýnt fram á að til sé viðskiptavenja, sem máli skipti um þetta efni. Verður því ekki fallist á að ábyrgðarskilmálarnir séu hluti af samningi aðilanna og þannig bindandi fyrir aðaláfrýjanda. Getur gagnáfrýjandi ekki borið fyrir sig takmörkun ábyrgðar samkvæmt þessum skilmálum, sem ganga lengra í að leysa hann undan ábyrgð en leiðir af ákvæðum laga nr. 39/1922. Gagnáfrýjandi heldur fram að sú málsástæða aðaláfrýjanda að skilmálarnir bindi hann ekki sé of seint fram komin, enda hafi hennar hvorki verið getið í stefnu í héraði né greinargerð aðaláfrýjanda í gagnsök þar. Varðandi þetta er til þess að líta að aðaláfrýjandi krafðist fullra skaðabóta í stefnu, en takmörkun á ábyrgð var liður í málsvörn gagnáfrýjanda, sem teflt var fram í greinargerð hans í héraði. Af því tilefni fékk aðaláfrýjandi bókuð mótmæli við þessari málsástæðu í þinghaldi 11. maí 1999, en að öðru leyti mun hann hafa lýst afstöðu sinni og mótmælum við aðalmeðferð málsins. Voru engin efni til þess af hans hálfu að bregðast við með öðrum hætti eða láta uppi afstöðu til gildis umræddra skilmála í gagnsök í héraði, sem laut að því hvort brostnar væru forsendur fyrir gildi samkomulags aðila 2. apríl 1998. Er því ekki hald í þeim mótmælum gagnáfrýjanda, sem að framan er getið. IV. Fyrir Hæstarétti hefur aðaláfrýjandi lækkað nokkuð kröfu sína. Nánar skýrir hann það svo að a. liður kröfugerðar í héraði lækki í 980.000 krónur. E. liður lækki um 13.391 krónu vegna endurgreidds virðisaukaskatts og fallið sé frá kröfu samkvæmt g. lið vegna vanskila- og lántökukostnaðar. Loks falli út sérstakur kröfuliður merktur d. vegna dómkvaddra matsmanna að fjárhæð 265.016 krónur. Ástæðan fyrir síðastnefndu breytingunni sé sú að hann telji að gagnáfrýjandi hafi með samningnum 2. apríl 1998 greitt sér mats- og lögmannskostnað, sem áður hafi verið stofnað til, með samtals 370.000 krónum. Greiðsla gagnáfrýjanda samkvæmt samningnum, 1.500.000 krónur, sem komi til frádráttar, lækki því um sömu fjárhæð eða í 1.130.000 krónur. Um heimild til að breyta kröfugerð með þessum hætti vísar aðaláfrýjandi til 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991. Er aðaláfrýjanda heimilt að gera framangreindar breytingar á kröfugerð sinni og er mótmælum gagnáfrýjanda við því hafnað. Varðandi einstaka liði í kröfugerð aðaláfrýjanda verður fallist á a. og b. liði, sem teljast nægilega rökstuddir. Það á hins vegar ekki við um c. lið, sem hefur ekki verið skýrður nægjanlega til að unnt sé að taka hann til greina að neinu leyti. Hinu sama gegnir að miklu leyti einnig um e. lið, sem felur í sér kröfu um endurgreiðslu kostnaðar af ýmsum toga. Aðaláfrýjandi hefur þó stutt haldbærum rökum að af þessum kostnaði eigi hann að fá bætt útgjöld til Siglingastofnunar, 18.665 krónur, og kostnað við að flytja nýja vél til Bakkafjarðar, þar sem bátur hans lá vélarvana í byrjun árs 1998, 8.360 krónur. Krafa í f. lið vegna eigin vinnu aðaláfrýjanda, sem hann gerir að álitum, er ekki svo ljós að unnt sé að taka hana til greina, enda verður jafnframt að líta svo á að krafan felist í reynd að nokkru í i. lið kröfugerðar. Ekki verður fallist á að unnt sé að gera gagnáfrýjanda að endurgreiða útlagðan kostnað aðaláfrýjanda vegna sölu á báti hans samkvæmt h. lið kröfugerðar. Krafa samkvæmt i. lið um að fá bætt aflatjón er studd við matsgerð, sem ekki hefur verið hnekkt. Verður þessi liður kröfugerðar tekinn til greina að fullu. Samkvæmt öllu framanröktu verður krafa aðaláfrýjanda tekin til greina með 2.388.465 krónum. Með bréfi 13. mars 1998 krafði aðaláfrýjandi gagnáfrýjanda fyrst um skaðabætur vegna kaupa þeirra og var sú krafa reist á matsgerð dómkvaddra manna. Geta dráttarvextir ekki fallið á skaðabótakröfu aðaláfrýjanda fyrr en í fyrsta lagi að liðnum mánuði frá þeim degi, sbr. 15. gr. vaxtalaga. Gagnáfrýjandi greiddi 1.130.000 krónur í skaðabætur 2. apríl 1998 og dregst því sú fjárhæð að fullu frá höfuðstól kröfu aðaláfrýjanda. Verður honum dæmdur mismunurinn, 1.258.465 krónur. Í dómkröfu aðaláfrýjanda er ráðgert að meginhluti höfuðstóls hennar beri fyrst dráttarvexti frá þingfestingardegi málsins í héraði, en þar er um að ræða hærri fjárhæð en honum er nú dæmd. Verður við það miðað við ákvörðun dráttarvaxta, eins og í dómsorði greinir. Gagnáfrýjandi skal greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og nánar segir í dómsorði, en við ákvörðun hans er meðal annars tekið tillit til útlagðs kostnaðar aðaláfrýjanda af rekstri málsins. Dómsorð: Gagnáfrýjandi, Vélorka ehf., greiði aðaláfrýjanda, Ellert Ólafssyni, 1.258.465 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 30. júní 1998 til greiðsludags. Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 1.100.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Mál þetta, sem dómtekið var 24. mars sl., er höfðað með stefnu þingfestri 30. júní 1998 af Ellert Ólafssyni, Sléttahrauni 34, Hafnarfirði gegn Vélorku hf., Grandagarði 3, Reykjavík. Með gagnstefnu þingfestri 15. apríl 1999 höfðaði Vélorka hf. gagnsök í málinu á hendur Ellert Ólafssyni. Endanlegar dómkröfur stefnanda í aðalsök eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 3.959.381 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum af 500.000 krónum frá 13. janúar 1997 til 19. febrúar 1998, frá þeim degi af 765.016 krónum til 24. febrúar 1998, frá þeim degi af 1.285.016 krónum til 2. mars 1998, frá þeim degi af 1.596.846 krónum til þingfestingardags, en frá þeim degi af stefnufjárhæð til greiðsludags, allt að frádreginni 1.513.391 krónu vegna innborgunar stefnda, 1.500.000 krónur, og vegna virðisaukaskatts sem endurgreiðist stefnanda, 13.391 króna. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins. Vakin er sérstök athygli dómsins á því að stefnandi hefur í greinargerð í gagnsök á dskj. 76 krafist álags á málskostnað úr hendi stefnda, með vísan til 1. og 2. mgr. 131. gr. laga um meðferð einkamála. Af hálfu aðalstefnda er þess krafist að hann verði alfarið sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda hæfilegan málskostnað að mati dómsins. 1. Að viðurkenndur verði réttur gagnstefnanda til að rifta samkomulagi við gagnstefnda, dagsettu 2. apríl 1998, þess efnis að kaup gagnstefnda á bátavél af gerðinni Star Powr gengju til baka og gagnstefnandi endurgreiddi kaupverð vélarinnar og kostnað af niðursetningu hennar, auk annars tilgreinds kostnaðar, samtals að fjárhæð 1.500.000 krónur 2. Að gagnstefndi verði dæmdur til að greiða gagnstefnanda 2.563.578 kr. auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum, frá því gagnsökin telst höfðuð í skilningi 93. gr. laga nr. 91/1991 til greiðsludags, allt gegn afhendingu á fyrrgreindri Star Powr bátavél í því ástandi sem hún nú er í á vélaverkstæðinu Ver ehf., Hvaleyrarbraut 3, Hafnarfirði. 3. Að gagnstefndi verði dæmdur til að greiða gagnstefnanda hæfilegan málskostnað í gagnsökinni að mati réttarins. Gagnstefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum gagnstefnanda í gagnsök. Fallist dómurinn á að gagnstefnandi eigi gagnkröfur á hendur gagnstefnda er þess til vara krafist að kröfur gagnstefnanda á hendur gagnstefnda verði stórlega lækkaðar. Í aðalkröfu krefst gagnstefndi málskostnaðar í gagnsök úr hendi gagnstefnanda, ásamt virðisaukaskatti á málskostnað. Þá krefst hann álags á málskostnað, með vísan til 1. og 2. mgr. 131. gr. laga um meðferð einkamála. Í varakröfu krefst gagnstefndi þess að málskostnaður verði felldur niður í gagnsök. Aðalstefndi hefur um árabil selt vélar í smærri báta hér á landi, einkum fiskibáta undir 6 rúmlestum. Undir árslok 1996 vakti aðalstefndi athygli eigenda slíkra fiskibáta hér á landi á nýrri bátavél af gerðinni Star Powr, 236 hestafla, V-byggðri 8 strokka bátavél, með forþjöppu og tölvustýrðu brennsluolíukerfi. Framleiðandi vélarinnar var Marine Corporation of America í Indíana í Bandaríkjunum, skammstafað MCA. Kveður hann vél þessa hafa fengið góðar umsagnir í fagtímaritum þar vestra, einkum fyrir það hvað hún er fyrirferðarlítil vegna byggingarlags síns sem sjö lítra vél og þá ekki síður fyrir það, að olíuverk vélarinnar er tölvustýrt sem var nýlunda í bátavélum, en alþekkt þá orðið hér á landi og erlendis í landvélum og bifreiðum. Aðalstefndi tók að sér söluumboð á vél þessari hér á landi. Kveðst hann hafa hugsað sér að fara hér varlega í sakirnar, bæði vegna framangreindra nýjunga í þessari vél, svo og fyrir það, að fyrir nokkrum árum hafi verið hér á markaðinum vél frá þessum sama framleiðanda sem reynst hafði misjafnlega. Annar aðili hafi þá haft söluumboð hér á landi fyrir þær vélar. Í byrjun árs 1997 keypti aðalstefnandi eina slíka Star Powr vél af aðalstefnda í bát sinn Þyt HF 83 og var vélin gangsett í febrúar. Aðalstefndi heldur því fram að starfs­­menn hans hafi gert aðalstefnanda sérstaka grein fyrir því að engin reynsla væri fengin af vélinni hér á landi og hann tæki við þær aðstæður vissa áhættu með kaupum á vélinni. Jafnframt er því haldið fram að aðalstefnanda hafi verið kynntir ábyrgðarskilmálar vélarinnar þar sem ábyrgst hafi verið með venjubundnum og almennum hætti allar bilanir á vélinni á ábyrgðartímanum, sem rekja mætti til „efnis eða framleiðslugalla“ á vélinni en framleiðandinn hafi undanþegið sig allri bótaábyrgð af afleiddu tjóni, sem af vélabilun kynni að leiða, svo sem vegna „afnotamissis og tapaðs ágóða“, eins og greinir í ábyrgðarskírteininu. Þá hafi verið fengin sérstök heimild hjá framleiðanda til þess að ábyrgðartíminn yrði tólf mánuðir í stað sex mánaða frá afhendingu vélanna, sem hafi verið hinn almenni ábyrgðartími vegna véla sem stóð til að nota í atvinnurekstri. Vélin var afhent aðalstefnanda í byrjun árs 1997 og samdi stefnandi sjálfur við vélaverkstæðið Ver ehf., Hvaleyrarbraut 3, Hafnarfirði, um niðursetningu vélarinnar. Niðursetning og frágangur vélarinnar var ekki á vegum aðalstefnda. Niðursetningu vélarinnar lauk síðast í febrúar 1997. Gangsetning vélarinnar og síðan reynslusigling fór fram 1. mars 1997 að viðstöddum starfsmönnum aðalstefnda og fulltrúa vélaframleiðandans, Johannes Tang að nafni. Viku eftir gangsetningu byrjaði vélin að reykja og upp frá því bilaði hún margsinnis og reyndist að lokum ónothæf. Kveður aðalstefnandi bát sinn af þessum sökum hafa verið ósjófæran stóran hluta grásleppuvertíðar fiskveiðiársins 1996 – 1997. Aðalstefnandi tilkynnti aðalstefnda um bilun í vélinni í febrúar 1997 og var í stöðugu sambandi við starfsmenn aðalstefnda vegna þessara bilana. Miklar bréfaskriftir fóru fram á þessum tíma á milli málsaðila og liggja þau gögn frammi í málinu. Að samkomulagi varð að taka fyrri vélina úr bátnum og senda hana til framleiðandans til skoðunar og lagfæringar, að því marki sem þurfa þætti. Vélaframleiðandinn sendi samskonar vél til landsins sem sett var niður í bátinn í byrjun júlí 1997. Fljótlega sótti í sama horf með nýju vélina. Hún var þó notuð fram á haust, þar til bátnum var lagt á Bakkafirði. Vélin var síðan tekin úr bátnum í desember 1997 og flutt til Reykjavíkur að tilhlutan dómkvaddra matsmanna. Eldri vélin hafði þá sætt skoðun og lagfæringum af hálfu framleiðandans, sem einkum fól í sér að fjarlægja kæli á loftinntaki. Framleiðandinn sendi síðan vélina hingað til landsins. Þegar til átti að taka hafnaði aðalstefnandi því boði framaleiðandans og aðalstefnda um að hin lagfærða vél yrði sett í bátinn að nýju, honum að kostnaðarlausu. Þess í stað tók stefnandi þá ákvörðun að kaupa aðra vél í bátinn af Yanmar gerð og seldi hann síðan bátinn ásamt aflaheimildum í febrúar 1998. Hinn 8. desember 1997 voru, að beiðni aðalstefnanda, dómkvaddir matsmennirnir Ólafur K. Ármannsson og Ásgeir Guðnason til þess að meta hver væri ástæða bilunar í vélinni og hvort eðlilegt hafi verið að nota vélina í umræddan bát. Þá var jafnframt spurt um það hverjar afleiðingar ástand vélarinnar gæti haft fyrir notendur bátsins. Matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna er dagsett 12. febrúar 1998. Niðurstaða matsmanna var sú að ástæða bilunar væri ófullkominn bruni í strokkum vélarinnar sem stafaði af lágum hita í brunaholinu, sem aftur orsakaðist af of mikilli kælingu á lofti sem blásið sé inn á strokkinn. Töldu þeir eðlilegt að diselvélar séu notaðar í bátum þeirrar gerðar sem bátur aðalstefnanda sé. Vélina stæðist hins vegar ekki þær kröfur sem gerðar séu til véla í bátum af sömu gerða. Litu þeir svo á að báturinn væri ekki haffær með vélina í því ástandi sem hún var þegar matsmenn skoðuðu hana. Í framhaldi af þessu krafðist aðalstefnandi riftunar á kaupunum og að aðalstefndi greiddi honum tjón sitt. Með samkomulagi, dags. 2. apríl 1998, féllst aðalstefndi á að kaupin á vélinni gengju til baka á grundvelli meintra galla sem kaupandi taldi hafa komið fram á vélinni og hann telur að staðfestir hafi verið með matsgerð dómkvaddra matsmanna, dags. 12. febrúar 1998. Féllst aðalstefndi á að greiða aðalstefnanda 1.500.000 krónur sem sundurliðuðust þannig: Kaupverð vélarinnar 980.000 krónur, niðursetningar­kostnaður 250.000 krónur, matskostnaður 265.016 krónur og lögmannsþóknun 104.984 krónur. Samkvæmt samkomulaginu áskildi aðalstefnandi sér rétt til þess að höfða mál til frekari greiðslu bóta sem hann og gerði með málsókn þessari. Hvorki aðalstefndi né vélaframleiðandinn voru alls kostar sáttir við niðurstöður undir­matsmanna um ástæður bilananna í vélinni. Með beiðni, dags. 14. ágúst 1998, fór aðalstefndi þess á leit að fá dómkvadda yfirmatsmenn til að endurskoða undirmat það sem fram hafði farið að tilhlutan aðalstefnanda. Aðalstefnandi mótmælti því að yfirmatsmenn yrðu dómkvaddir og gekk úrskurður um ágreiningsefnið þann 25. september 1998, þar sem fallist var á kröfu stefnda um að yfirmatsmenn skyldu dómkvaddir. Á dómþingi þann 16. október 1998 voru dómkvaddir þrír yfirmatsmenn til þess að endurskoða undirmatsgerðina, þeir Magnús Þór Jónsson vélaverkfræðingur, Páll Valdimarsson vélaverkfræðingur og Þorsteinn Jónsson vélfræðingur. Yfirmatsgerð þeirra er dags. 29. desember 1998. Í niðurstöðu yfirmatsmanna er í öllum meginatriðum staðfest niðurstaða undirmatsmanna. Með gagnstefnu, þingfestri 15. apríl 1999, höfðaði aðalstefndi gagnsök í málinu eins og áður segir. Af hálfu aðalstefnanda og gagnstefnda var þess þá krafist að gagnsökinni yrði vísað frá dómi. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 27. maí 1999, var þeirri kröfu hafnað. Um miðjan janúar sl. hafi það borið við að forsvarsmaður aðalstefnda, Úlfar Ármannsson, hafi setið fund með þessum mönnum í Englandi. Bilanasaga vélarinnar og niðurstöður hinna dómkvöddu matsmanna hafi þar aftur borið á góma. Enginn þessara aðila hafi þekkt dæmi um sambærilegar bilanir á vélum af þessari gerð af þeim ástæðum sem tilgreindar séu í niðurstöðum hinn dómkvöddu matsmanna. Hins vegar hafi menn þekkt dæmi um áþekkar bilanir í vélum flutningabifreiða og skólabíla, sem notaðir hafi verið á köldum svæðum. Við athugun þessara tilvika á sínum tíma hafi komið í ljós að sammerkt þeim öllum var að öflugar miðstöðvar í bifreiðunum höfðu verið tengdar inn á vatnskælikerfi vélanna og bifreiðarnar langtímum saman verið látnar ganga í lausagangi til að halda hita í farþegarýmum þeirra. Þegar þetta hafi verið skoðað nánar hafi menn orðið sammála um að rekja mætti allar þessar bilanir til þess að tekinn hafði verið kælivökvi út af vélunum og hann keyrður í gegnum öflugt miðstöðvarkerfi bifreiðanna til upphitunar í farþegarými þeirra með þeim afleiðingum að vélarnar, sem langtímum saman höfðu verið látnar ganga í lausagangi, hafi ekki náð að halda uppi eðlilegum og æskilegum brunahita, og oft verið verulega fyrir neðan svokallaðan óskagildishita eða kjörhita fyrir vélarnar. Þetta hafi leitt til þess að eldsneytið hafi ekki brunnið að fullu og hafi hluti þess fallið út sem eðja með sömu eða áþekkum afleiðingum og lýst er í matsgerðum hinna dómkvöddu matsmanna. Lyktir þessara umræðna hafi orðið þær að bæði sérfræðingar á vegum framleiðanda vélanna svo og greindir umboðsmenn, sem flestir séu sérfróðir um vélar og meðferð þeirra, hafi talið fulla ástæðu til að kanna hvort hér gæti ekki verið á ferðinni sama orsökin fyrir bilununum á vélum í bát aðalstefnanda og raunin var í fyrrlýstum tilvikum. Stuttu eftir heimkomuna hafi forsvarsmaður aðalstefnda fengið það staðfest, að öflugt miðstöðvarkerfi í vistarverum báts gagnstefnda hefði verið tengt við kælikerfi vélarinnar. Hafi verið hlutast til um að þessi umbúnaður yrði skoðaður í bátnum á Bakkafirði, þar sem hann er nú gerður út. Til þess hafi verið fenginn Steinar Hilmarsson, vélsmíðameistari á Bakkafirði. Báturinn sé nú búinn nýrri Yanmar vél af áþekkri stærð og Star Powr vélin. Komið hafi í ljós að þetta sama miðstöðvarkerfi hafi verið tengt við nýju vélina. Þá hafi enn fremur komið í ljós að þetta var önnur Yanmar vélin sem sett hafði verið niður í bátinn á því u.þ.b. eina ári frá því að seinni Star Powr vélin var tekin úr bátnum. Bilanalýsingin í fyrri Yanmar vélinni hafi reynst áþekk og í Star Powr vélunum. Síðari Yanmar vélin hafi verið svo til nýkomin í bátinn og hafði því lítið verið notuð. Mældur hafi verið vatnshiti í lausagangi frá vél í miðstöðvarkerfi og síðan við vél frá miðstöðvarkerfi. Mælingar hafi verið endurteknar með stuttu millibili við mismunandi álag og loks á fullu álagi. Þá hafi verið gerðar mælingar á vatnshita vélarinnar eftir að lokað hafði verið fyrir miðstöðvarkerfið. Mælingar hafi sýnt að þessi tenging inn á miðstöðvarlögnina hafi valdið verulegri truflun á hitastigi vatnsins í kælikerfi vélarinnar. Þessi truflun hafi valdið því að í hægagangi eða undir litlu álagi nái vélin ekki nema 55°C hita í stað 75° - 80°, sem sé kjörhiti á vélinni í lausagangi við eðlilegar aðstæður. Það sé ekki fyrr en eftir 15 mínútna keyrslu á fullu álagi sem vélin nái 90° vatnshita. Hann falli síðan mjög fljótt niður undir 55° þegar slegið sé af vélinni og hún látin ganga í hægagangi. Sérfróðir menn sem hafi skoðað þessar mælingar séu á þeirri skoðun að í þessum truflunum á eðlilegum vatnshita vélarinnar af völdum miðstöðvarkerfisins í bátnum sé frekar að leita orsakanna fyrir of lágum hita í brunaholi vélarinnar en til þess að of kældu lofti hafi verið blásið inn í brunahol vélarinnar, sem hafi verið niðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna. Þetta mat styrkist enn frekar fyrir það að frá því um mánaðamótin febrúar/mars 1997 hafi fjórar nýjar vélar verið settar niður í bátinn, tvær af gerðinni Star Powr og tvær af gerðinni Yanmar. Vélar þessar vinni allar í sama umhverfi og séu tengdar sömu miðstöðvarlögninni. Þrjár þessara véla virðist hafa átt sömu eða áþekka bilanasögu að baki þegar þær voru teknar úr bátnum. Fjórða vélin hafi verið sett niður í desember sl. og sé því lítil reynsla komin af henni. Hinum dómkvöddu yfirmatsmönnum hafi verið sendar þessar upplýsingar og leitað viðbragða þeirra í formi þriggja spurninga um hugsanleg áhrif þessara truflana frá miðstöðvar­lögninni á vatnshita vélarinnar við beitingu vélarinnar á mismunandi álagsstigum. Yfirmatsmennirnir hafi veitt svör við þessum spurningum í bréfi, dags. 19. mars 1999, þar sem eftirgreind meginatriði komi fram: 1. Að hvorki skoðun á sjálfri vélinni, teikningar af vélinni sem matsmenn hafi haft undir höndum né upplýsingar aðila hafi beint athygli matsmanna að því að miðstöðvarkerfi bátsins hafi verið tengt vatnskælikerfi vélarinnar. Af þeim ástæðum hafi truflun af þessu tagi ekki sætt sérstakri skoðun af hálfu matsmanna. 2. Við matsstörfin hafi engar upplýsingar legið fyrir um að vélin hafi ekki náð kjörhita „óskagildishita“ í lausagangi eða undir litlu álagi. Af þessu hafi leitt að orsakanna fyrir of lágum hita í brunaholi hafi ekki verið leitað í of lágum vatnshita í kælikerfi vélarinnar sökum tenginga þess við miðstöðvarlögn í vistarverum bátsins. 3. Um áhrif slíkra truflana frá miðstöðvarkerfi segi orðrétt í bréfinu; „Ástæður bilunar að okkar mati er lágt hitastig í bruna, sem veldur því að bruni er ófullkominn, og óhreinindi setjast í útblásturskerfi. Kæling af völdum miðstöðvar getur gert slík mál enn verri, og verið áhrifavaldur.“ Þar sem engin sjálfstæð skoðun hafi farið fram af hálfu hinna dómkvöddu matsmanna á áhrifum tengingar miðstöðvarkerfisins við kælikerfi þeirra fjögurra nýrri véla sem settar hafi verið niður í bátinn á rúmlega hálfu öðru ári, þar af hafi þrjár þeirra hafa verið teknar úr bátnum vegna áþekkra bilana, þykir óhjákvæmilegt að fá dómkvadda sérfróða menn til að skoða þessi áhrif miðstöðvartengingarinnar við vatnskælikerfi vélanna og segja til um hvort þau áhrif séu líkleg til að vera orsök þeirra bilana í vélunum, sem lýst sé nánar í matsgjörðum hinn dómkvöddu matmanna. Af þeim ástæðum hafi gagnstefnandi ákveðið að beiðast dómkvaðningar tveggja matsmanna til að leggja mat á þessi álitaefni. Allar þessar nýju upplýsingar um hinar líklegu eða sennilegu orsakir fyrir bilununum í vélunum hafi ekki komið fram fyrr en stefndi hafi skilað greinargerð sinni í aðalsök þann 14. janúar 1999. Gagnstefnandi telji sér því heimilt að höfða gagnsakarmál með vísan til ákvæðis 3. mgr., sbr. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991. Af hálfu aðalstefnanda og gagnstefnda eru gerðar þrjár athugasemdir við framangreinda málavaxtalýsingu aðalstefnda og gagnstefnanda. 1. Aðalstefnandi kveður aðalstefnda hafa vitað mætavel um miðstöðina og áhrif hennar á hita kælivatns. Með ólíkindum sé að lesa í málsatvikalýsingu gagnstefnu að forsvarsmaður aðalstefnda hafi fengið það staðfest „stuttu eftir heimkomuna“, eða í lok janúar sl. að „öflugt miðstöðvarkerfi í vistarverum báts aðalstefnda hefði verið tengt við kælikerfi vélarinnar.“ Forsvarsmenn aðalstefnda hafi að sjálfsögðu ætíð vitað af miðstöðinni og komi það berlega í ljós í greinargerð hans þar sem segi að gangsetning vélarinnar og síðar reynslusigling hafi farið fram 1. mars 1997 að viðstöddum starfsmönnum stefnda svo og fulltrúa vélarframleiðanda, Jóhannesi Tang. Einnig megi lesa úr undirmatsgerð í málinu að fulltrúar aðalstefnda hafi verið viðstaddir reynslusiglingu Þyts mb. við skoðun undirmatsmanna á vélinni. Í bæði þessi skipti hafi miðstöðin verið tengd við vélina. Mikið þurfi til að sérfróðir menn eins og seljendur vélanna viti ekki að miðstöð sé tengd við vélina eftir tvær slíkar prufukeyrslur og annars konar skoðun á vélinni vegna máls þessa. 2. Fráleitt sé að „nú sé komið í ljós“ að ástæður bilana megi rekja til miðstöðvar. Aðalstefndi haldi því margsinnis fram í gagnstefnu að „nú sé komið í ljós...“ að ástæður bilananna séu aðrar en þær sem greini í undir- og yfirmatsgerð. Staðhæfingar þessar séu að sjálfsögðu ekkert annað en hreinn tilbúningur og nánast hjákátlegar. 3. Bilanalýsing í Yanmar vél sé ekki áþekk bilanalýsingum í Star Powr vélum. Það sé alfarið rangt sem segi í gagnstefnu að bilanalýsing vegna Yanmar vélar sem sé í mb. Þyt og hafi verið sett þar fyrst, sé áþekk þeim bilanalýsingum sem eigi við um Star Powr vélar þær sem í málinu sé deilt um. Vél sú sem nú sé í bátnum og tengd sé við þessa sömu miðstöð hafi ekki slegið feilpúst síðan hún var standsett. Kröfur aðalstefnanda eru byggðar á sjónarmiðum um vangildisbætur, þ.e. að stefnandi eigi rétt á því að tjón hans verði bætt þannig að staða hans verði eins og hann hefði aldrei keypt vélina. Kaup aðalstefnanda á nýrri bátsvél hafi verið gerð í þeirri trú að hann gæti notað vélina án teljandi vandræða. Svo hafi ekki reynst vera. Sé ekki ágreiningur milli aðila um að greiða beri aðalstefnanda skaðabætur vegna vélakaupanna. Ágreiningur aðila snúist hins vegar um fjárhæð þeirra. Aðalstefnandi telji að hann eigi rétt á því að fá greiddar bætur fyrir allt það tjón sem hann hafi hlotið af því að vélin var ekki búin þeim kostum sem eðlilegt sé að slík vél sé búin. Tjón aðalstefnanda skiptist í þrennt: Í fyrsta lagi sé um að ræða tjón vegna aflataps í grásleppu- og þorskveiðum. Í öðru lagi vegna vinnu aðalstefnanda við niðursetningu véla, vegna bilana o.fl. Í þriðja lagi vegna útlagðs kostnaðar, en hinn útlagði kostnaður komi til vegna vélarkaupanna, greiðslu reikninga fyrir niðursetningu véla o.fl., ásamt vanskila- og lántökukostnaði sem stefnandi hafi orðið fyrir þar sem atvinnurekstur hans hafi stöðvast vegna vélarbilana. Krafa aðalstefnanda, sem er að fjárhæð 3.959.381 krónur sundurliðast með eftirfarandi hætti: a. Kaup á Star Powr vél, 1.076.599 krónur. Vélin sem stefnandi keypti hafi kostað 980.000 krónur en með aukahlutum hafi hún kostað 1.076.559 krónur. Aðalstefnandi hafi greitt hana þannig að hinn 13. janúar 1997 hafi hann greitt 500.000 krónur, sbr. kvittun á dskj. nr. 31. Afganginn hafi hann greitt með VISA raðgreiðslusamningi, sbr. dskj. nr. 31. Reiknaður sé einungis höfuðstóll samningsins, 576.599 krónur. Samtals sé krafan því 1.076.599 krónur. Krafa þessi sé lægri en fram komi á yfirliti á dskj. nr. 51. Dráttarvextir vegna skuldabréfs séu reiknaðir frá þingfestingardegi. b. Vinna við niðursetningu Star Powr, 311.830 krónur. Reikningur frá Ver ehf. vegna niðursetningar á vélinni, sem aðalstefnandi hafi síðan skilað til stefnda samkvæmt samkomulagi, sé á dskj. nr. 23. Sé reikningurinn greiddur hinn 2. mars 1998 og miðist dráttarvextir við þann tíma. Sé fráleitt að aðalstefnandi þurfi að bera þann kostnað sjálfur. Teljist niðursetningin beint tjón aðalstefnanda sem aðalstefnda beri að bæta. c. Aukakostnaður vegna niðursetningar á Yanmar vél á Bakkafirði, 168.948 krónur. Þegar síðari vél, sem aðalstefnanda var látin í té, bilaði hafi bátur aðalstefnanda verið á Bakkafirði. Hann hafi keypt sér nýja vél af gerðinni Yanmar og hafi hann þurft að láta setja hana niður á Bakkafirði, enda erfitt að flytja bátinn til Reykjavíkur vélarlausan. Kostnaður við niðursetningu vélarinnar hafi verið sýnu hærri en við upphaflega niðursetningu, eins og sjá megi á dskj. nr. 24 og nr. 25, og komi aukakostnaðurinn til vegna staðsetningar vélarinnar. Fyrst hafi þurft að undirbúa niðursetningu í Reykjavík, svo hafi þurft að setja vélina niður á Bakkafirði. Aðalstefnandi hefði flutt bát sinn til Reykjavíkur, ef mögulegt hefði verið, til að minnka kostnað við niðursetningu. Slíkt hafi ekki verið mögulegt, sem sé bein afleiðing á vélarbilun. Teljist tjónið því vera á ábyrgð stefnda. Reikni aðalstefnandi kröfu sína þannig: Kostnaður við niðursetningu fyrri vélar var 311.830 krónur, sbr. dskj. 23. Kostnaður við niðursetningu Yanmar - vélarinnar hafi hins vegar verið 480.778 krónur, sbr. dskj. nr. 24 og nr. 25. Munurinn á kostnaðinum sé 168.948 krónur. Dráttarvextir miðist hér við þingfestingardag. d. Kostnaður vegna dómkvaddra matsmanna, 265.016 krónur. Aðalstefnandi hafi greitt reikning vegna dómkvaddra matsmanna hinn 19.02.1998, eins og dskj. nr. 22 beri með sér. Sé einnig fráleitt að aðalstefnandi þurfi að bera kostnað vegna þessa, enda hafi aðalstefnanda verið nauðsynlegt að láta framkvæma hið dómkvadda mat til að staðfesta ástæður galla í vélinni, en aðalstefndi hafi ekki viljað viðurkenna að um galla væri að ræða. Hafi hann kennt notkun stefnanda á vélinni um ástand hennar. Aðalstefndi hafi neitað að taka þátt í kostnaði vegna matsgerðarinnar, þrátt fyrir beiðni aðalstefnanda þar um. Dráttarvextir miðist við greiðsludag, 19. febrúar 1998. e. Ýmsir reikningar vegna vélakaupanna, 170.225 krónur. Ýmsa reikninga með og án vsk. hafi aðalstefnandi þurft að greiða vegna vélarkaupanna, viðgerða, kaupa á varahlutum, þar sem stefndi hafi ekki tekið þátt í varahlutakaupum, o.fl. Séu reikningar þessir sundurliðaðir á dskj. nr. 32 og nr. 33. Þá hafi einnig þurft að greiða Siglinga­mála­stofnun vegna skoðunar á vél, skráningarskírteinis o.fl., sbr. dskj. nr. 34. Samtals séu reikningar án virðisaukaskatts 83.514 krónur, reikningar með virðisaukaskatti 68.046 krónur og kostnaður vegna Siglinga­málastofnunar 18.665 krónur, samtals 170.225 krónur. Frá fjárhæð þessari dragist 13.391 krónur vegna virðisaukaskatts sem stefnandi fái endurgreiddan. Dráttarvextir miðist við þingfestingar­dag. f. Vinna aðalstefnanda vegna bilana og niðursetningar, 180.000 krónur. Aðalstefnandi hafi tekið mikinn þátt í niðursetningu vélanna og hann hafi einnig staðið mikið í viðgerðum á vélinni og hafi mikill tími farið í það hjá aðalstefnanda að reyna að gera við vélarnar. Þennan tíma hefði hann getað notað í öflun tekna á annan hátt. Eigi hann því rétt á greiðslu, sem hæfilega teljist metin 180.000 krónur. Ekki sé það tekið fram í stefnu en dráttarvextir miðast við þingfestingardag. Aðalstefnandi sé líka að vinna við vélina þá daga sem ekki er hægt að fara á sjóinn vegna brælu. Hann hefði þá getað verið að gera eitthvað annað, eða verið heima. Fyrsta vélin hafi verið meira og minna stopp frá 18. mars, er hún hafi farið norður, og þar til í júlí. Hann hefði náð 12 eða 13 róðrum á þessum tíma. Þetta sé prímus tími fyrir fiskimenn. Sjái hver maður hversu mikið stopp þetta er. Nýja vélin stoppi í október eftir að hafa bilað. Nokkrir róðrar hafi náðst fram í febrúar þegar ný vél komi. Dráttarvextir miðist við þingfestingardag. g. Vanskila - og lántökukostnaður, 197.153 krónur. Aðalstefnandi hafi orðið fyrir miklu fjárhagslegu tjóni vegna aflataps og vegna þess að hann hafði engar tekjur á því tímabili sem atvinnurekstur hans stöðvaðist. Af þessum sökum hafi hann þurft að taka bankalán og greiða af þeim lántöku-, vanskila- og innheimtukostnað, þar sem hann hafi ekki verið í stakk búinn að greiða á réttum tíma. Kröfur undir þessum lið byggi á því að stefnandi eigi rétt á að fá bætt úr hendi aðalstefnda lántökukostnað, vanskila- og innheimtukostnað, sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna vélarkaupanna. Aðalstefnandi hefði ekki þurft að taka lán þessi né greiða umræddan kostnað ef vélarnar hefðu verið í lagi. Beri því aðalstefndi ábyrgð á tjóni hans. Sundurliðist kröfur stefnanda undir þessum lið í kostnað vegna fimm lána, sbr. dskj. nr. 26-30. Í fyrsta lagi vegna skuldabréfs í Íslandsbanka hf. nr. 010915, samtals að fjárhæð 60.386 krónur. Í öðru lagi vegna víxils í Íslandsbanka nr. 152362, samtals að fjárhæð 86.251 krónur. Í þriðja lagi vegna skuldabréfs í Íslandsbanka hf. nr. 010744, samtals að fjárhæð 15.407 krónur. Í fjórða lagi vegna skuldabréfs í Íslandsbanka hf. nr. 068638, samtals að fjárhæð 14.290 krónur. Í fimmta lagi vegna samnings nr. 1099202300 um eignarleigu við Landsbanka Íslands, samtals að fjárhæð 20.819 krónur. Krafan sé því í heild 203.363 kr. Dráttarvextir miðist við þingfestingardag. h. Sölulaun vegna sölu Þyts HF, 520.000 kr. Aðalstefnandi hafi þurft að selja bát sinn Þyt HF vegna fjárhagserfiðleika. hafi hann greitt sölulaun fyrir vikið, að fjárhæð 520.000 krónur. Dráttarvextir miðist við greiðsludag. i. Aflatap vegna grásleppu- og þorskveiða 1.069.610 kr. Bótakrafa aðalstefnanda vegna aflataps í þorskveiðum og grásleppuveiðum á árinu 1997 er 1.069.610 krónur, sem er niðurstaða dómkvadds matsmanns. Í niðurstöðu matsmannsins sé tekið tillit til þess kostnaðar sem hljótist við að sækja og selja slíkan afla. Þá sé í matinu tekið tillit til þess hluta sem aðalstefnandi hafi fengið afhentan af afla samstarfsaðila síns á smábátnum Elsu Rún, en að jafnaði hafi þeir skipt með sér afla sem fékkst af Þyt HF og Elsu Rún. Sá afli sem aðalstefnandi fékk þannig afhentan af Elsu Rún komi í matinu til frádráttar tjóni hans. Matsgerð dómkvadds matsmanns, Ragnars Árnasonar, vegna aflatjóns hafi ekki verið hnekkt með yfirmati. Dráttarvextir miðist við þingfestingardag. Samtals sé krafan því 3.959.381 króna, allt að frádreginni 1.513.391 krónu vegna innborgunar stefnda, 1.500.000 krónur og vegna virðisaukaskatts sem endurgreiðist aðalstefnanda, 13.391 króna. Kröfu um skaðabætur reisir aðalstefnandi á almennum skaðabótareglum. Þá er vísað í almennar reglur samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga. Kröfur um málskostnað eru studdar við 130. gr. laga um meðferð einkamála í héraði, nr. 91/ 1991. Sýknukröfu sína byggir aðalstefndi á því að hann hafi þegar svarað til allrar þeirrar bótaábyrgðar gagnvart aðalstefnanda sem hann hafi tekist á hendur sem söluaðili vélarinnar og umboðsmaður vélaframleiðandans. Vísar aðalstefndi í þeim efnum til ábyrgðarskírteinis sem hann hafi gefið út til aðalstefnanda vegna vélarinnar, dagsetts 1. mars 1997, eftir að vélin hafði verið sett niður í bát stefnanda í Hafnarfirði og síðan prufukeyrð og tekin út af fulltrúa framleiðandans. Á því er byggt að ábyrgðarskírteinið hafi ekki haft að geyma neinar þær takmarkanir á ábyrgð aðalstefnda sem seljanda vélarinnar að í bága gæti farið við þá réttarvernd, sem aðalstefnanda sé áskilin sem kaupanda í lögum nr. 39/1922 um lausafjárkaup, sbr. 24. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993. Þá sé einnig vakin á því sérstök athygli að aðalstefnandi byggi ekki dómkröfur sínar á málsástæðum á borð við þær að ábyrgðarskilmálar ábyrgðarskírteinisins hafi í einhverjum tilteknum efnum verið óskuldbindandi fyrir aðalstefnanda með vísan til ákvæða III. kafla laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Samkvæmt ábyrgðarskírteininu, sem líta verði á sem hluta kaupsamningsins sem komst á með aðilum um vélarkaupin, hafi aðalstefndi tekist á hendur ábyrgð á bilunum á vélinni „... sem rekja má til efnis eða framleiðslugalla ... “, svo sem það sé orðað í ábyrgðarskírteininu. Í skírteininu sé inntaki ábyrgðarinnar nánar lýst á þann veg að innifalið í ábyrgðinni séu, svo vitnað sé orðrétt til ábyrgðarskírteinisins: „l. Varahlutir og viðgerðarvinna á vél sem rekja má til bilana sem falla undir ábyrgðarskilmála þessa. 2. Kostnaður við smurolíur, olíur, síur, belti, hosur, og aðrir hlutir sem ekki eru endurnýjanlegir vegna bilana.“ Samkvæmt ábyrgðarskírteininu undanskilji aðalstefndi sig ábyrgð á tjónum vegna bilana á vélinni á nokkrum tilgreindum sviðum. Hér sé einkum um að ræða svokölluð afleidd tjón sem nánar séu rakin í sex liðum í sjálfu ábyrgðarskírteininu. Hér þyki sérstök ástæða að vekja athygli á 6. lið sem stefndi undanskilji sig ábyrgð á: „Kostnaður eiganda í tengslum við afnotamissi (downtime) tjón á farmi, og allur kostnaður eða tjón sem hlýst í atvinnurekstri vegna galla sem ábyrgðarskírteinið tekur til.“ Sýknukrafan er á því byggð að aðalstefndi hafi svarað til allrar þeirrar ábyrgðar sem hann hafi tekist á hendur við sölu vélarinnar til aðalstefnanda. Fyrir liggi gögn í málinu sem sýni fram á að aðalstefndi hafi greitt allan viðgerðar- og varahluta­kostnað sem af bilununum á vélinni leiddi. Hann hafi gert gott betur þar sem hann hafi hlutast til um að framleiðandinn sendi aðra samskonar vél til landsins, sem sett hafi verið niður í bátinn, aðalstefnanda að kostnaðarlausu. Þegar sú vél tók að bila, með sama hætti og sú fyrri, hafi aðalstefndi greitt allan viðgerðar- og varahlutakostnað vegna bilananna á þeirri vél. Eftir að undirmatið hafi leitt í ljós grunsemdir um að hér væri um bilanir að ræða sem rekja mætti til framleiðslugalla á vélinni hafi aðalstefndi gengist inn á að taka vélina til baka á grundvelli sérstaks samkomulags þar um við stefnanda. Jafnframt hafi aðalstefndi fallist á að endurgreiða stefnanda kaupverð vélarinnar að fullu, 980.000 krónur, áætlaðan niðursetningarkostnað á vélinni, 150.000 krónur, kostnað vegna undirmatsins, 265.016 krónur, og 104.984 krónur upp í þóknun til lögmanns aðalstefnanda, eða samtals 1.500.000 krónur. Svo sem yfirlit á dskj. nr. 44 beri með sér hafi aðalstefndi þegar þurft að greiða vegna þessara viðskipta við aðalstefnanda og á grundvelli framanlýstrar ábyrgðar sinnar samtals 3.707.046 krónur eða sem nemi rúmlega fjórföldu verði vélarinnar. Á því sé byggt að stefnukrafan, að frátöldum þessum 1.500.000 krónum, sem aðalstefndi hafi þegar greitt aðalstefnanda samkvæmt framansögðu, sé í öllum tilvikum tengd útgjaldaliðum eða atvikum sem alfarið falli utan við ábyrgð aðalstefnda samkvæmt ábyrgðarskilmálum ábyrgðarskjalsins. Til stuðnings framanlýstum málsástæðum er vísað til hinna óskráðu reglna skaðabóta­réttarins um bótaskyldu innan samninga og meginreglna samningaréttarins um að samningar skuli standa. Varðandi heimild til að undanskilja sig ábyrgð í viðskiptum með lausafjármuni, með þeim takmörkunum sem 24. gr. samkeppnislaga kveði á um, er vísað til 1. greinar kaupalaga nr. 39/1922 og að því er ábyrgðartíma varðar til 52.-54. greina sömu laga. Málskostnaðarkrafa aðalstefnda styðjist við 129. gr. og 130 gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Varakrafan um stórfellda lækkun á stefnukröfunni sé sett fram ef svo ólíklega vildi til að dómurinn kæmist að þeirri niðurstöðu að aðalstefndi bæri ríkari bótaábyrgð gagnvart aðalstefnanda en hann hafi þegar svarað til samkvæmt framansögðu. Aðalstefnandi sundurliði stefnukröfu sína í 9 liðum, auðkenndum a-i. Þegar þessir liðir séu skoðaðir nánar verði fljótlega ljóst að aðalstefnandi hafi ekki gætt hófs í kröfugerð sinni í skilningi þeirrar meginreglu skaðbótaréttarins að einungis skuli bætt það tjón sem tjónþoli hafi sannanlega orðið fyrir og ekkert fram yfir það. Þá sé að sjálfsögðu gengið út frá því að ekki sé ágreiningur um sjálfa bótaskylduna en því sé ekki til að dreifa hér svo sem að framan sé rakið. Á grundvelli þessara sjónarmiða, séu hér á eftir settar fram eftirfarandi athugasemdir og mótmæli við einstaka bótaliði: a. Þessum lið er mótælt sem of háum. Vélin sjálf hafi kostað 980.000 kr. og hafi þegar verið endurgreidd. Mismunurinn, 186.647 krónur, sé ýmiss konar lántöku­kostnaður aðalstefnanda sem sé máli þessu óviðkomandi og komi viðskiptum þessum í raun ekkert við og sé mótælt sem slíkum. b. Þessum lið er mótælt sem allt of háum. Samfara niðursetningu á vélinni hafi aðalstefnandi látið fara fram í vélarrúmi margskonar aðrar lagfæringar og viðgerðir sem gagnist honum áfram, hvað sem líði þessum vélaskiptum. Hæfilegur niðursetningarkostnað vélarinnar að mati aðalstefnda sé 150.000 krónur og hafi sá kostnaður verið endurgreiddur aðalstefnanda. Þessum lið er mótmælt sem óviðkomandi máli þessu, enda verið að setja niður aðra vél en keypt hafi verið af stefnda. Athygli sé vakin á því, að hér sé niðursetningakostnaður allt annar og lægri en greini hér að framan, sbr. athugasemdir í b-lið. d. Þessi liður hafi þegar verið greiddur. Lið þessum er mótmælt sem óviðkomandi máli þessu. Hér er um viðhalds- og rekstrarliði sem fallið hefðu til hvað sem líði þeim ágreiningi sem hér sé til meðferðar. f. Lið þessum er mótmælt sem órökstuddum með öllu. g. Þessum lið er mótmælt sem máli þessu óviðkomandi. Ekki hafi verið sýnt fram á að þessi útgjöld séu bein afleiðing af bilununum í vélunum né að aðalstefnandi hafi þá gert allt sem hann mátti til að takmarka tjón sitt. h. Liður þessi sé dæmigerður um hina óbilgjörnu kröfugerð aðalstefnanda. Hann hafi selt bát sinn vorið 1998. Ástæða sölunnar hafi fyrst og fremst verið mjög hátt verð á slíkum bátum og aflaheimildum sem þeim hafi fylgt en ekki ágreiningur máls þessa. Margir eigendur slíkra báta hafi freistast til að selja báta sína á þessu háa verði. Samkvæmt sölulaunareikningnum virðist aðalstefnandi hafa selt bát sinn á 26.000.000 króna með aflaheimildum. Af því sé bátsverðið sjálft á bilinu 6-8 milljónir. Þessum lið sé mótmælt sem óviðkomandi sakarefni málsins. i. Lið þessum er mótmælt sem órökstuddum og þar að auki allt of háum. Hér sé gengið út frá því að aðalstefnandi hefði náð þessum afla ef báturinn hefði ekki bilað og hann þannig tafist frá veiðum. Þessum forsendum sé mótmælt sem ósönnuðum og einnig þeirri fráleitu viðmiðun sem aðalstefnandi viðhafi til mörkunar á ætluðu aflatjóni sínu. Aðalstefnandi gangi hér út frá að hann hefði aflað að jafnaði eins mikið og báturinn Elsa Rún HF-44. Þetta sé bæði fráleit og óvenjuleg viðmiðun. Lágmark væri að taka mið af 10-20 áþekkum bátum í sömu verstöð. Vísað sé til dskj. nr. 54 og nr. 55 sem sýni að fjöldi krókabáta á þorskaflahámarki hafi ekki náð aflamarki sínu. Aðalstefnandi skeri sig ekkert sérstaklega úr í þeim efnum. Þá sé þessum lið mótmælt sem allt of háum. Gagnstefnandi kveður ástæður þess að hann hafi gengið til gerðar umrædds samkomulags við gagnstefnda þann 2. apríl 1998 hafi verið sú að þá lá fyrir niðurstaða undirmatsmanna um ástæður bilananna í vélinni og jafnframt það álit matsmanna að vélin stæðist ekki þær kröfur sem gera yrði „til véla í bátum af sömu gerð“, svo vitnað sé orðrétt til matsgerðarinnar. Framleiðanda vélarinnar hafi verið gerð grein fyrir þessum niðurstöðum og jafnframt því áliti gagnstefnanda að hyggilegast væri að ganga til samkomulags við gagnstefnda um að kaupin á vélinni gengju til baka vegna þessara meintu galla á vélinni. Þá yrði til þess að líta að útilokað væri að markaðssetja vélina hér á landi meðan þessi ágreiningur við gagnstefnda væri óútkljáður enda hefði gagnstefndi haft uppi skefjalausan áróður hér á landi gegn vélinni og talið hana með öllu óbrúklega í fiskibáta af þessari stærð. Krafan um viðurkenningu á rétti gagnstefnanda til að rifta samkomulaginu byggi á því að nú sé komið í ljós að ástæður bilananna í vélunum í bátnum hafi verið aðrar en þær sem greini í niðurstöðum bæði undir- og yfirmatsmanna og samkomulagið hafi verið byggt á. Komið hafi í ljós að umræddar bilanir í vélunum verði hvorki raktar til galla í sjálfum vélunum né annarra ástæðna sem gagnstefnandi sem seljandi vélanna beri fébótaábyrgð á. Af þessu leiði að meginforsenda gagnstefnanda fyrir gerð samkomulagsins sé þar með brostin þar sem komið hafi í ljós að ástæðurnar fyrir bilununum í vél þeirri sem hann keypti af gagnstefnanda séu ekki þær sem greini í niðurstöðum hinna dómkvöddu matsmanna. Nú bendi allt til þess að bilanirnar á vélinni megi beinlínis rekja til þeirrar ákvörðunar gagnstefnda sjálfs að taka út af kælikerfi vélarinnar kælivökva til notkunar í miðstöðvarkerfi bátsins í vistarverum áhafnar með þeim afleiðingum að vélin hafi seint og illa náð upp kjörhita í brunaholi vélarinnar og með þeim afleiðingum sem lýst sé í matsgerðunum. Þá verði ekki annað séð en skortur á eðlilegu eftirliti af hálfu gagnstefnda, með því að vélin hafi gengið langtímum saman við hitastig sem hafi legið verulega undir kjörhita vélarinnar, eigi einnig sinn þátt í því hvernig farið hafi með vélarnar. Gagnstefnandi hafi einvörðungu selt gagnstefnda sjálfa vélina og hafi hvergi komið nærri niðursetningu hennar né þeirri ákvörðun að taka út af vélinni kælivökva hennar til upphitunar í vistarverum bátsins. Nú hafi komið í ljós að vélin sjálf hafi ekki verið gölluð heldur verði að rekja hinar tíðu bilanir í vélinni til þess að gagnstefndi hafi truflað kælikerfi hennar með framanlýstum aðgerðum sínum og með þeim afleiðingum sem í matsgerðunum sé lýst. Krafa gagnstefnanda um viðurkenningu á rétti til að rifta samkomulaginu sé því nánar til tekið byggð á eftirgreindum málsástæðum: Að forsendur fyrir gerð samkomulagsins séu með öllu brostnar eftir að ljóst sé orðið að bilanirnar á vélunum verði hvorki raktar til hönnunargalla á sjálfum vélunum né til þess að einstakir hlutar vélanna hafi verið gallaðir í skilningi kaupalaga. Gagnstefnanda sé þegar af þeirri ástæðu heimilt að rifta samkomulaginu á grundvelli ógildingarreglna samningaréttarins vegna forsendubrests. Þá sé riftunarkrafan enn fremur byggð á þeirri málsástæðu að gagnstefnanda sé rétt að rifta eða ógilda samkomulagið í heild sinni með vísan til heimilda í 36. gr. samningalaga nr. 7/1936, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986, um breytingu á þeim lögum, þar sem nú liggi fyrir að bilanirnar á vélunum verði ekki raktar til neinskonar galla á sjálfum vélunum sem gagnstefnandi, og/eða framleiðandi vélanna, beri ábyrgð á, heldur til ákvarðana og aðgerða gagnstefnda sjálfs að því er varði tengingu miðstöðvar­kerfisins við vatnskælikerfi vélanna og síðan slælegs eftirlits af hans hálfu við beitingu vélarinnar við hinar margbreytilegu aðstæður. Af öllu þessu sé ljóst að gagnstefnandi hefði aldrei gengið að gerð samkomulagsins ef þá hefði legið fyrir vitneskja sem nú liggi fyrir um líklegar eða sennilegar orsakir hinna tíðu bilana í vélunum. Verði fallist á kröfu gagnstefnanda um riftun samkomulagsins við gagnstefnda leiði beinlínis af þeirri niðurstöðu að gagnstefnda verði gert að endurgreiða gagn­stefnanda samkomulagsfjárhæðina og auk þess allan þann varahluta- og viðgerðar­kostnað sem af bilununum leiddi sem gagnstefnandi hafi ýmist látið gagnstefnda í té án endurgjalds eða hann hafi aflað og greitt í sama skyni, allt á grundvelli þeirrar ábyrgðar sem hann hafi talið sig bera á vélinni fyrstu tólf mánuðina samkvæmt þeim ábyrgðar­skilmálum sem fylgt hafi vélinni. Forsendurnar fyrir öllum þeim ákvörðunum séu að sama skapi brostnar eftir að leitt hafi verið í ljós hverjar hafi í raun verið orsakir bilananna á vélunum. Endurgreiðslu- og fjárkrafan á hendur gagnstefnda sundurliðast með svofelldum hætti með vísan til framlagðra skjala: 1. Endurgreiðsla skv. samkomulagi á dskj. 45 1.500.000 kr. 2. Söluverð fylgihl. með vél, sbr. dskj. 44 203.289 kr. 3. Kostnaður við prufukeyrslu, sbr. dskj. 44 14.693 kr. 4. Viðgerðakostn. á ventli ofl., sbr. dskj. 44 74.811 kr. 5. Viðgerð á olíupönnu 15/5-3/6 1997, sbr. dskj. 44 61.505 kr. 6. Viðgerð á olíupönnu 9/6-15/6 1997, sbr. dskj. 44 43.512 kr. 7. Viðgerð á olíupönnu 16/6 1997, sbr. dskj. 44 43.095 kr. 8. Flutningur og niðursetning á nýrri vél, sbr. dskj. 44 324.901 kr. 9. Viðgerðarkostn. í okt. 1998, sbr. dskj. 44 60.772 kr. 10. Kostn. vega matsfundar á Þórshöfn, sbr. dskj. 44 35.485 kr. 11. Kostn. v. rannsókna Lloyds, sbr. dskj. 44 125.590 kr. 12. Flutningskostn. á vél frá USA, sbr. dskj. 44 75.925 kr. Samtals 2.563.578 kr. Vísað sé til viðkomandi dómskjala varðandi hvern kröfulið fyrir sig. Krafist er dráttarvaxta af fjárhæðinni frá því að gagnsökin teljist höfðuð í skilningi 93. gr. laga nr. 91/1991 til greiðsludags, sbr. að öðru leyti III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum. Krafan um málskostnað er reist á 130. gr. laga nr. 91/1991. Gagnstefndi reisir sýknukröfu sína á því að samkvæmt samhljóða mati fimm dómkvaddra matsmanna séu gallar hrein sök gagnstefnanda. Aðilar máls þessa hafi hvor um sig kallað til matsmenn til að meta ástæður þess að bátsvélarnar gengu ekki sem skyldi. Gagnstefndi hafi fyrst kallað til tvo matsmenn og síðar hafi gagnstefnandi kallað til þrjá yfirmatsmenn. Allir þessir aðilar séu sérfróðir og hafi komist að þeirri niðurstöðu að bilanirnar stafi af of köldu brunalofti sem myndi útfellingu sem setjist á lokalegg og stirðni þar þegar vélin sé ekki í gangi. Þetta valdi því að ventlar standi á sér við næstu gangsetningu. Matsmennirnir hafi allir talið að ástæðan fyrir of köldu brunalofti hafi verið að skolloftskælir vélarinnar hafi verið sjókældur og engin stýring á hita lofts hafi verið frá honum. Fráleitt sé að halda því fram að slíkir gallar á vélinni séu gagnstefnda að kenna, enda hafi því ekki verið haldið fram af gagnstefnanda. Gagnstefnandi haldi því hins vegar fram að "komið hafi í ljós" að niðurstöður matsmanna hafi verið rangar. Skýringanna sé að leita annars staðar. Gagnstefnandi hafi í engu rökstutt þessar skoðanir sínar og hafi niðurstöðum undir- og yfirmatsmanna því ekki á nokkurn hátt verið hnekkt. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna gagnstefnda af kröfum gagnstefnanda í gagnsök. Gagnstefndi telji í öðru lagi að það sé fjarri raunveruleikanum að brostnar forsendur séu fyrir samkomulagi aðila. Þar sem engar brostnar forsendur séu fyrir samkomulaginu beri, þegar af þeim sökum, að sýkna gagnstefnda í gagnsök. Hvar gefi annars að líta hinar brostnu forsendur? Gagnstefnandi hafi ekki lagt eitt sönnunargagn því til stuðnings að einhverjar af forsendum hans fyrir samkomulaginu séu brostnar. Ef litið sé á forsendur samkomulagsins sé ljóst að þær séu gallar í hinum seldu vélum. Ekkert gefi að líta í gögnum gagnstefnanda um að því mati fimm sérfróðra manna hafi verið hnekkt. Því beri af þessum sökum að sýkna gagnstefnda af kröfum gagnstefnanda í gagnsök. Gagnstefndi veki á því athygli að þó sýnt verði fram á að miðstöð hafi verið aðalorsök þess að hin seigfljótandi eðja myndaðist í vélunum minnki það í engu ábyrgð gagnstefnanda á vélunum. Gagnstefnandi hafi látið taka vélina út af sérstökum eftirlitsmanni og hafi sjálfur verið viðstaddur gangsetningu vélarinnar og sjósetningu bátsins með vél og miðstöð. Miðstöðin hafi og verið sett niður eftir leiðbeiningum frá gagnstefnanda. Gagnstefnandi hefði, sem sérfróður aðili, átt að gera athugasemdir sínar við tengingu vélanna við slíka miðstöð. Ábyrgð gagnstefnanda sé því ótvíræð, án tillits til þess hvort niðurstaða undir- og yfirmatsmanna sé rétt eður ei. Því sé fráleitt að halda því fram að forsendur séu brostnar fyrir samkomulagi aðila frá 2. apríl 1998. Ómögulegt sé að afhenda gagnstefnda þá vél sem ljóst sé að afhenda þurfi ef riftun samkomulags aðila frá 2. apríl 1998 eigi fram að ganga. Vélin sé, eins og viðurkennt sé í greinargerð stefnda í aðalsök og tiltekið sé einnig í yfirmatsgerð, töluvert breytt frá því sem var er gagnstefndi keypti hana. Í greinargerð stefnda í aðalsök segi á bls. 4: "...Eldri vélin hafði þá sætt skoðun og lagfæringum af hálfu framleiðandans, sem einkum fólu í sér hækkun á hita í brunaholi vélarinnar m.a. með því að fjarlægja kæli á loftinntaki.... " Í yfirmatsgerð segi á bls. 2 um skoðun þriggja matsmanna á eldri vél sem komið hafði breytt frá USA: "... Við skoðun kom í ljós að skolloftskælir hafði verið tekinn af vélinni en við það fer skolloftið heitara inn á vélina. Nýtt olíuþrýstikerfi fyrir aflstýri (SIC) var sett á hana, smursía var flutt og startari var samkvæmt hefðbundinni útfærslu þannig að hann snéri frá vélinni. Ný túrbína var á vélinni og hafði hún minna umfang en sú gamla. Að lokum má nefna að ný útfærsla var á aftöppun lofts úr hráolíukerfi... " Gagnstefnandi hafi aldrei undir rekstri þessa máls beðið um slíkar breytingar á vélinni og ekki hafi hann verið með í ráðum er vélinni var breytt. Það sé meginregla um riftun að hvor aðila þurfi að geta verið eins settur eftir gjörning þann sem rift sé, og hann var áður en gjörningnum var rift. Ekki sé hægt að krefjast þess að gagnstefndi þurfi að þola riftun á samkomulagi aðila frá 2. apríl 1998 ef gagnstefnandi geti ekki skilað hinum selda hlut aftur í sama ástandi og hann var við kaupin. Gagnstefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn sem rökstyðji kröfur hans í gagnsök, nema yfirlit á dskj. nr. 51. Allar kvittanir vegna þessa meinta kostnaðar vanti. Gagnstefnandi endurkrefji gagnstefnda til að mynda um kostnað við prufukeyrslu vélarinnar í febrúar 1997 er gagnstefndi keypti vélina! Gagnstefndi sjái ekki að kostnaður þessi komi því við hvor aðila eigi sök á þeim bilunum sem urðu í vélunum. Gagnstefnandi hafi a.m.k. ekki í neinu rökstutt kröfur þessar. Varðandi varakröfu sína veki gagnstefndi athygli á því að ekki liggi fyrir gögn svo hægt sé að mótmæla til lækkunar þeim kröfuliðum sem gagnstefnandi byggi kröfur sínar á í gagnsök. Gagnstefndi vísi í 130. og 131. gr. eml. varðandi málskostnað og í lög 50/1988 varðandi virðisaukaskatt á málskostnað. Gagnstefnandi hafi höfðað gagnstefnu að þarflausu og hafi engin sönnunargögn né rök fyrir kröfum sínum. Beri honum því að greiða álag á málskostnað til handa gagnstefnda. Rétt þykir að fjalla um aðalsök og gagnsök í einu lagi. Óumdeilt er að bilun kom upp í báðum Star Powr vélunum sem settar voru í bát stefnanda Þyt HF 83. Um það er hins vegar deilt hvort rekja megi bilanirnar til galla í vélunum sjálfum eða til notkunar á vélunum og þá aðallega hvort tenging miðstöðvar við vélarnar hafi verið orsök bilananna. Í málinu liggja fyrir þrjár matsgerðir. Samkvæmt matsgerð Ásgeirs Guðnasonar og Ólafs K. Ármannssonar telja þeir ástæðu bilunar í Star Powr vélunum hafa verið ófullkominn bruna í strokkum vélarinnar sem stafað hafi af of lágum hita í brunaholinu, sem aftur orsakist, líklega, af of mikilli kælingu á lofti sem blásið sé inn á strokkinn, með þeim afleiðingum að þyngstu efni brennsluolíunnar brenni ekki heldur myndi seigfljótandi eðju sem fari um brunaholið, útblástursgöngin, forþjöppuna og upp í soggöng í strokklokinu og storkni þegar vélin er stöðvuð og festi hreyfanlega hluti eins og forþjöppu og ventla þar sem eðjan sest á ventlaleggina. Í matsgerð þeirra kemur einnig fram að þeir telji, samkvæmt þeim upplýsingum sem þeir hafi aflað, að bátnum Þyt HF 83 hafi ekki verið beitt á annan hátt en eðlilegt geti talist fyrir báta af sömu gerð . Í yfirmatsgerð dr. Magnúsar Þórs Jónssonar vélaverkfræðings, dr. Páls Valdimarssonar vélaverkfræðings og Þorsteins Jónssonar vélfræðings kemur fram að við athugun á sambærilegum bilunum í samskonar vélum hafi komið í ljós að ofkæling á lofti hafi valdið vandræðum hjá vélaframleiðendum miðað við það eldsneyti sem notað sé í dag. Þegar hitastigið í brunaholinu sé lægra en óskagildi, myndi afgasið úrfellingu, það er glanshúð sem setjist meðal annars á lokaleggina. Þegar vélin er stöðvuð valdi glanshúðin tregðu í ventlinum, síðan gerist það við gangsetningu að ventlarnir vinni ekki eðlilega, standi á sér. Vökvaundirlyftan fylgi eftir og við það nái stimplar vélarinnar að slá undir ventlana þegar undirlyftan heldur við og þannig beygja eða jafnvel brjóta undirlyftustangirnar. Jafnframt valdi þessi tregða erfiðleikum við gangsetningu vélarinnar. Telja yfirmatsmenn þetta vera raunina með umræddar Star Powr vélar og er niðurstaða þeirra að bilanirnar stafi af of köldu brunalofti. Staðfesta þeir þar með niðurstöðu undirmatsmanna. Í svarbréfi yfirmatsmanna til lögmanns aðalstefnda á dskj. nr. 65 segir að ýtarleg könnun hafi farið fram á sjó- og ferskvatnskælikerfi vélarinnar. Hafi hvergi komið fram við þá könnun að við kerfið hefði verið tengd miðstöð. Það sé ástæða þess að yfirmatsmenn hafi ekki kannað nein atriði sem varðað hafi miðstöð bátsins. Eins og áður greinir voru síðan dómkvaddir þeir Agnar Erlingsson verkfræðingur og Baldur Jónasson verkfræðingur til þess að skoða og meta eftirfarandi atriði: l. Að sannreyna með skoðun á umræddri Star Powr vél sem staðsett var þá á vélaverkstæði Vers ehf. með skoðun á vélbátnum Fagranesi NS-121, ex Þyt HF-83, sk. skr. nr. 6887, í höfn á Bakkafirði eða annars staðar, og með skoðun á teikningum af viðkomandi Star Powr vélum, að umrædd miðstöðvarlögn hafi verið tengd báðum Star Powr vélunum í bátnum. 2. Að leggja mat á hvort miðstöðvartengingin í bátnum við Star Powr vélarnar hafi haft áþekk eða sömu áhrif á hitastig kælivatns vélanna og tenging miðstöðvar­lagnarinnar við Yanmar vélina hafði á þá vél á hinum ýmsu álagsstigum. 3. Að leggja mat á hvort ætla megi að þessi tenging miðstöðvarkerfisins við kælikerfi Star Powr vélanna hafi valdið því að hiti í brunaholi vélanna hafi í lausagangi og við lítið álag legið undir kjörhita eða "óskagildishita" þeirra véla með þeim afleiðingum sem lýst sé í ofangreindum matsgerðum. Í niðurstöðu matsmanna varðandi lið 1 segir að þeir telji sannreynt að miðstöðvarlögn eins og hér um ræði hafi verið tengd Star Powr vélinni, sem skoðuð hafi verið í Hafnarfirði dagana 7. og 8. júlí 1999. Staðfest hafi verið af öllum viðstöddum við skoðun vélarinnar að sama/samskonar miðstöð hafi verið tengd á sama hátt við fyrri Star Powr vélina og er ekkert sem bendir til annars en að svo hafi verið. Skoðun á bátnum Fagranesi á Bakkafirði hafi einnig leitt í ljós að miðstöð var einnig tengd við Yanmar vélina á sama/samsvarandi hátt og gert hafði verið við Star Powr vélarnar. Varðandi lið 2 er talið fullvíst að miðstöðvartengingin við Star Powr vélarnar hafi haft tilsvarandi áhrif á kælivatn vélanna við hin ýmsu álagsstig eins og tenging við Yanmar. Lagnir séu þær sömu eða á allan hátt mjög svipaðar. Það sem sé mismunandi sé einhver stærðarmunur Star Powr og Yanmar vélanna. Miðað við upplýsingar gefnar í leiðbeiningabæklingi varðandi Star Powr vélarnar sé mismunandi hitastig sem vatnslás opni á. Samkvæmt upplýsingum í leiðbeiningum, skuli vatnslás Star Powr vélanna opna við um 82° C. Prufukeyrsla Yanmar vélarinnar á Bakkafirði 13. júlí 1999 hafi gefið til kynna að vatnslás opnaði við 70°-76° C. Þessi prufukeyrsla staðfesti annars í grófum dráttum niðurstöður mælinga á hitastigum kælivatns sem gerðar hafi verið 14. jan. 1999. Star Powr vélarnar virðast þurfa að ganga heitari en Yanmar vélarnar. Varðandi lið 3 í niðurstöðu matsmanna kemur fram að í lausagangi 800-900 sn./mín sé ekki unnt að ná nema 55°- 60°C hita á bæði Yanmar og Star Powr vélar ef opið sé að miðstöð. Með því að auka snúningshraða (um a.m.k. 50%) náist kjörhiti. Það sé greinilegt, að í lausagangi við lágan snúningshraða og opið inn á miðstöðvarlögn, náist ekki upp fullur hiti á vélunum og því alls ekki kjörhiti samkvæmt skilgreiningu leiðbeininga frá framleiðanda Star Powr vélanna. Vélin nái ekki að hitna í meira en 55° - 60° C, en samkvæmt vélaframleiðanda Star Powr vélanna sé kjörhiti um 80° C. Hiti í brunaholi vélarinnar virðist hér ekki vera meginatriði, eins og spurningin sé sett fram, enda sé kjörhiti í brunaholi ekki tilgreindur og hafi ekki verið mældur. Þá segi einnig á bls. 3 í matsbeiðni að matsmenn skuli "sannreyna áhrif miðstöðvartengingarinnar á vatnskælikerfi vélanna og segja síðan til um, hvort þau áhrif séu líkleg eða sennileg orsök bilana í vélunum." Matsmenn vilja túlka spurninguna þannig, að þeir eigi að leggja mat á hvort ætla megi að þessi tenging miðstöðvarkerfisins við kælikerfi Star Powr vélanna hafi valdið því að hiti vélanna hafi í lausagangi og við lítið álag legið undir kjörhita eða “óskagildishita” vélanna með þeim afleiðingum sem lýst sé í matsgerðum. Þá segir í matsgerð: “Yanmar vélin sem skoðuð var á Bakkafirði virðist þola miðstöðvartenginguna, en hún hefur verið keyrð 400 tíma. Ekki er lagt mat á hvort keyrsluvenjur hafi breyst, en eins og áður hefur komið fram er unnt að halda hærri hita á vél með hærri snúningshraða í lausagangi. Ekki sést á gögnum að framleiðandi hafi gert athugasemdir við að vélin hafi verið tengd miðstöðinni og hefur tekið út vélina án athugasemda þar að lútandi. Ekki kemur fram í gögnum að vélarframleiðandi og umboðsmaður hafi lagt á það áherslu við kaupanda strax við afhendingu vélar að hún skuli keyrð á sem næst kjörhita, en samkvæmt gögnum var niðursetning og tenging miðstöðvar gerð í samráði við vélaframleiðanda að öðru leyti en að farið var fram á meira loft að vél, en sú athugasemd hlýtur að teljast ótengd þeim vanda sem hér um ræðir. Við metum það svo að vélarnar hafa verið keyrðar í hægum lausagangi og of kaldar við þær aðstæður. Ekki bara brunaholið, heldur öll vélin, sem hefur margvísleg áhrif bæði á brennslu og blöndun brennsluolíu og óbrenndra efna við smurolíu og aðra vélarhluti. Þetta hafi leitt til lýstra afleiðinga á Star Powr vélina. Kæling á lofti til brennslu hefur ekki verið orsök til þessa, enda er loftið kælt eftir upphitun við þjöppun í túrbínu til að auka afköst vélarinnar. Hins vegar má hækka hitastig vélanna með stýrðri keyrslu, svo sem að auka snúningshraða í lausagangi og/eða að stýra vatnsflæði inn á miðstöð, og teljum við að nálgast megi kjörhita í lausagangi á þann hátt. Samkvæmt ofangreindu er miðstöðvartengingin meginorsök lýstra afleiðinga á Star Powr vélina við hægagangskeyrslu.” Það er álit sérfróðra meðdómsmanna að sýnt hafi verið fram á, samkvæmt fyrirliggjandi matsgerðum, að umræddar vélar hafi unnið við of lágt hitastig. Fyrir liggur og, eins og fram kemur í greinargerð aðalstefnda, að eftir að fyrri vélin hafði sætt skoðun framleiðanda vélarinnar voru gerðar á henni lagfæringar sem m.a. fólu í sér að fjarlægja kæli á loftinntaki til þess væntanlega að hækka hita í brunaholi vélarinnar. Fyrir dómi bar matsmaðurinn, Agnar Erlingsson, að við matið hafi ekki legið fyrir upplýsingar um notkun á miðstöð bátsins. Skoðað hafi verið hvernig miðstöðin var tengd og mat lagt á það hvort miðstöðvartengingin hefði áhrif á hitastig kælivatns. Telja verður að þetta dragi nokkuð úr gildi matsgerðarinnar að þessu leyti einkum með hliðsjón af því að seinni vélin var notuð í bátnum að sumri til og ósannað að miðstöð hafi verið í notkun við seinni vélina, en bilanir virðast þær sömu og upp komu varðandi fyrri vélina. Samkvæmt framansögðu þykir ekki sýnt fram á að meginorsök bilana verði rakin til miðstöðvar enda þótt notkun miðstöðvar sé einnig áhrifavaldur. Fyrir liggur og kemur fram í matsgerð Agnars Erlingssonar og Baldurs Jónssonar að miðstöðin var tengd við vélina strax við niðursetningu fyrstu Star Powr vélarinnar og var alltaf eins tengd að því best er vitað. Þá liggur fyrir að fulltrúi framleiðanda vélarinnar, Johannes Tang, var viðstaddur prufukeyrslu vélarinnar og tók út vélina. Gerði hann engar athugasemdir við tengingu miðstöðvar við vél. Ósannað er að vélaframleiðandi eða umboðsmaður hans, aðalstefndi, hafi lagt á það áherslu við aðalstefnanda, er vélin var keypt, að hana skyldi keyra á sem næst kjörhita. Þá liggur fyrir, samkvæmt framburði Kristjáns Hermannssonar, þáverandi þjónustufulltrúa aðalstefnda, að leitað var til framleiðanda vélanna um það hvernig standa ætti að tengingu miðstöðvar við vélina og upplýsingum frá framleiðanda þar að lútandi var komið áleiðis til Vers ehf. sem sá um niðursetningu vélarinnar og tengingu miðstöðvar. Engar athugasemdir voru gerðar þá af hálfu framleiðanda við það að miðstöð væri tengd við vél. Eins og fram er komið var um nýja vél að ræða sem var ekki þekkt á hinum íslenska markaði. Samkvæmt því sem fram er komið gat hvorki framleiðandi vélarinnar né seljandi gert sér grein fyrir því af hverju bilanir í henni stöfuðu og þá ekki aðalstefnandi sem telja verður að hafi brugðist við í samræmi við það sem búast mátti við af honum. Ekkert hefur komið fram í málinu um það að notkun vélarinnar hafi verið óeðlileg og hafa vitni borið fyrir dómi að umgengni aðalstefnanda um bát og vél hafi verið til fyrirmyndar. Þegar allt framanritað er virt verður að telja að sýnt hafi verið fram á að umræddar Star Powr vélar hafi ekki verið búnar þeim kostum sem ætlast mátti til, en eins og að framan er rakið voru engar athugasemdir gerðar af hálfu framleiðanda eða seljanda við það að vélin væri tengd miðstöð eða gengi of hægt í hægagangi. Með vísan til 2. mgr. 42. gr. laga nr. 39/1922 telst aðalstefndi því bera bótaábyrgð á tjóni aðalstefnanda vegna þessa. Skriflegur kaupsamningur var ekki gerður um vélina. Með vélinni fylgdi ábyrgðarskírteini frá framleiðanda sem undirritað er af umboðsaðila hans hér á landi, aðalstefnda í máli þessu. Forsvarsmaður aðalstefnda bar fyrir dómi að þegar fulltrúi framleiðanda hafði tekið út vélina hafi aðalstefnanda verið sent ábyrgðarskírteinið í pósti. Af hálfu aðalstefnanda hefur því ekki verið mótmælt að hann hafi fengið ábyrgðarskírteinið afhent. Liggur ekki fyrir að hann hafi gert athugasemdir varðandi ábyrgðarskírteinið eða að hann hafi haldið því fram gagnvart aðalstefnda að þeir hafi samið um ríkari ábyrgð en þar greinir. Þá fær þetta atriði enga umfjöllun af hálfu aðalstefnanda, hvorki í stefnu né greinargerð í gagnsök. Ber því að líta svo á að um bótaábyrgð aðalstefnda fari samkvæmt ábyrgðarskírteini því sem fylgdi vélinni við kaupin. Í stórum dráttum tekur ábyrgðin til bilana á vél sem rekja má til efnis eða framleiðslugalla á ábyrgðartímanum. Varahlutir og/eða samsettar einingar sem afhentar eru eða komið er fyrir samkvæmt ábyrgð þessari koma einnig undir ábyrgðarskilmálana á ábyrgðartíma. Þá tekur ábyrgð til varahluta og viðgerðarvinnu á vél sem rekja má til bilana sem falla undir ábyrgðarskilmálana. Jafnframt til kostnaðar við smurolíur, síur, belti, hosur og annarra hluta sem ekki eru endurnýtanlegir vegna bilana. Undanskilið ábyrgð eru allir hlutir sem krefjast venjulegs viðhalds, allir varahlutir sem ekki eru komnir frá framleiðanda vélarinnar eða allir aukahlutir sem tengdir eru við vélina, laun dráttarbáts eða annars flutningskostnaðar við viðgerðarstað, vinnulaun vegna úrtöku og niðursetningar á vél, kostnaður vegna bréfa, hótelkostnaðar ofl. svo og er undanþeginn kostnaður eiganda í tengslum við afnotamissi, tjón á farmi og allur kostnaður eða tjón sem hlýst í atvinnurekstri vegna galla sem ábyrgðarskírteinið tekur til. Þá er tekið fram að undanþegin sé öll ábyrgð eða bótaskylda fyrir allt óbeint, sérstakt eða afleitt tjón (meðtalið sé án takmarkana, allt tjón vegna afnotamissis eða tapaðs ágóða), hvort sem slíkt megi krefja með vísan til samninga, skaðabóta eða annars lagagrundvallar. Dómkröfur aðalstefnanda í aðalsök eru í 9 liðum, merktum frá a. til i. Þegar litið er til nefndra ábyrgðarskilmála þykir aðalstefnandi ekki hafa sýnt fram á að aðalsefndi beri bótaábyrgð á öðru samkvæmt a. lið en því sem nemur kaupverði vélarinnar sem var 980.000 krónur samkvæmt framlögðum reikningi. Undanskilin er og ábyrgð á kostnaði við niðursetningu á vél og ber því þegar af þeim sökum að hafna kröfuliðum b. c. og e. Þá er kostnaður greiddur Siglingamálastofnun afleitt tjón sem aðalstefnandi verður að bera sjálfur. Kostnaður vegna dómkvaddra matsmanna samkvæmt d. lið telst til málskostnaðar og kemur til skoðunar við ákvörðun hans. Fallast ber á með aðalstefnda að kröfuliður f. sé með öllu órökstuddur og ber að hafna honum. Kröfuliðir g., h. og i. taka allir til afleidds tjóns sem ekki er bótaskylt samkvæmt ábyrgðarskírteini því sem, samkvæmt framansögðu, telst gilda um bótaábyrgð aðalstefnda. Eins og fram er komið gerðu málsaðilar með sér samkomulag 2. apríl 1998 og liggur fyrir að aðalstefndi hefur þegar greitt aðalstefnanda bætur að fjárhæð 1.500.000 krónur. Gerir aðalstefndi þá kröfu í gagnstefnu að þessu samkomulagi verði rift. Með hliðsjón af því sem áður er rakið um bilanir í Star Powr vélunum og bótaábyrgð aðalstefnda þykir ekki sýnt fram á að forsendur hafi brostið fyrir nefndu samkomulagi. Ber því að sýkna aðalstefnda af kröfum aðalstefnanda í máli þessu. Samkvæmt framansögðu ber einnig að sýkna gagnstefnda af kröfum gagnstefnanda. Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinni kostnað af málinu, bæði í aðalsök og gagnsök. Dóminn kvað upp Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari ásamt meðdómendunum Hafliða Loftssyni vélaverkfræðingi og Sigurði Brynjólfssyni prófessor. Aðalstefndi, Vélorka hf., skal vera sýkn af kröfum aðalstefnanda, Ellerts Ólafssonar. Gagnstefndi, Ellert Ólafsson, skal vera sýkn af kröfum gagnstefnanda, Vélorku hf. Málskostnaður í aðalsök og gagnsök fellur niður.
Mál nr. 285/2009
Fasteignakaup Tilboð Fyrirvari Samningur
E og S gerðu kauptilboð í fasteign við Framnesveg í Reykjavík sem eigandi hennar Þ samþykkti. Í kauptilboðinu gerðu E og S fyrirvara um samþykki Glitnis banka um lán að fjárhæð 29.700.000 krónur. Jafnframt kom fram að kaupendur skyldu skila staðfestingu á fjörmögnun frá banka eða fjármálastofnun til fasteignasölunnar innan 14 virkra daga frá samþykki kauptilboðsins. E og S framvísuðu ekki slíkri staðfestingu innan frestins og töldu sig því ekki lengur bundin af kauptilboðinu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að fyrirvarinn yrði ekki skilinn öðruvísi en svo að E og S hefðu með honum áskilið sér tímafrest til að kanna hvort forsendur þeirra um fjármögnun gengju eftir og að þau vildu endanlega skuldbinda sig. Með því að þau hefðu ekki tilkynnt Þ innan frestsins um að fjármögnun hefði gengið eftir samkvæmt fyrirvara þeirra komst kaupsamningur ekki á. Voru E og S sýknuð af kröfu Þ.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. maí 2009. Hann krefst þess að stefndu verði óskipt dæmd til að greiða sér 6.250.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. október 2008 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndu krefjast aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Þá krefjast þau málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Fyrirvari stefndu í hinu samþykkta kauptilboði, sem lýst er í héraðsdómi, verður ekki skilinn öðruvísi en svo að þau hafi með honum áskilið sér tímafrest til að kanna hvort forsendur þeirra um fjármögnun gengju eftir og að þau vildu endanlega skuldbinda sig. Með því að stefndu tilkynntu áfrýjanda ekki innan frestsins um að fjármögnun hefði gengið eftir samkvæmt fyrirvara þeirra komst kaupsamningur ekki á. Með þessum athugasemdum verður héraðsdómur staðfestur. Eftir þessum úrslitum skal áfrýjandi greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Þórir Dan Viðarsson, greiði stefndu, Erlu Hrund Gísladóttur og Stuart Leigh Bronson, 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Mál þetta var höfðað 23. september 2008 og dómtekið 26. febrúar 2009. Stefnandi er Þórir Dan Viðarsson, Helgubraut 6, Kópavogi. Stefndu eru Erla Hrund Gísladóttir og Stuart Leigh Bronson, bæði til heimilis að Sólvallagötu 43, Reykjavík. Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndu verði in solidum dæmd til þess að greiða stefn­anda skaðabætur að fjárhæð 6.250.000 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags og að stefndu verið in solidum dæmd til það greiða stefnanda málskostnað. Stefndu krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá krefjast stefndu málskostnaðar ásamt virðis­auka­skatti úr hendi stefnanda. Málavextir: Atvik málsins eru að mestu leyti óumdeild. Stefnandi fól fasteignasölunni Nýju heimili að selja fasteign sína við Framnesveg nr.24a, Reykjavík. Um var að ræða raðhús sem var 103,5 fermetrar að stærð. Hinn 21. febrúar 2008 gerðu stefndu kauptilboð í húsið að fjárhæð 34.750.000 krónur. Tilboðið var samþykkt sama dag af stefnanda. Í kauptilboðinu kom fram að kaupendur gerðu fyrirvara um samþykki fjár­mögnunar hjá Glitni banka. Jafnframt kom fram að kaupendur skyldu skila stað­festingu á fjármögnun frá banka eða fjármálastofnun til fasteignasölunnar innan 14 virkra daga frá samþykki kauptilboðs. Að öðrum kosti gæti seljandi rift tilboðinu. Nánar tiltekið voru eftirfarandi fyrirvarar í tilboðinu: „Kaupandi gerir fyrirvara um samþykki fjármögnunar hjá Glitni Banka. Kaupandi skal skila staðfestingu á fjármögnun frá banka eða fjármálastofnun á fasteignasöluna Nýtt heimili, Kópavogi innan 14 virkra daga frá samþykki tilboðs þessa, að öðrum kosti getur seljandi með einhliða yfirlýsingu ákveðið að rifta tilboðinu. Standist tilboðsgjafi ekki greiðslumat er Nýju Heimili heimilt að leita eftir upplýsingum um forsendur greiðslumats hjá viðkomandi fjármálastofnun.“ Þá segir í kaflanum í tilboðinu um greiðslutilhögun útborgunar: Við undirritun kaupsamnings m/peningum 11. mars 2008 2.800.000 Með láni frá Glitni Banka 29.700.000 Við afsal m/peningum 1. júlí 2008 2.250.000 Stefndu leituðu til Glitnis banka hf. um fjármögnun á umræddum kaupum. Beiðni þeirra um lánafyrirgreiðslu hjá Glitni banka var synjað með bréfi frá 10. mars 2008 þar sem ekki væru uppfyllt skilyrði greiðslumats samkvæmt útlánareglum bankans. Fyrir liggja í málinu tvö óundirrituð skuldabréf, annað frá Íbúðalánasjóði að fjárhæð 18.000.000 krónur og hitt frá Glitni að fjárhæð 12.600.000 krónur, bæði með veði í Framnesvegi 24a. Bæði stefndu eru sögð lántakendur í fyrrnefnda bréfinu, en stefndi Stuart einn í því síðarnefnda. Bréfin eru ódagsett, en af dagsetningum sem nefndar eru í þeim má skilja að fyrirhugaðir útgáfudagar hafi verið 14. og 16. mars. Þá liggur fyrir í málinu skilyrt veðleyfi frá Kaupþingi sem varðar sömu eign, dagsett 25. mars 2008. Ekki varð af undirritun kaupsamnings á grundvelli tilboðsins, en stefndi Stuart ritaði bréf til fasteignasölunnar Nýs heimilis, sem móttekið er af Reyni Erlingssyni, lög­giltum fasteignasala, 19. mars 2008 þar sem kemur m.a. fram að Glitnir hafi hafnað lána­fyrirgreiðslu og því hafi skilyrði sem sett var í tilboð stefndu dagsett 20. febrúar 2008 ekki verið uppfyllt og tilboðið því fallið úr gildi. Áðurnefndur fasteignasali ritaði síðan tölvubréf til Stuarts 27. mars og tilkynnti að allir pappírar væru tilbúnir til undirritunar og að seljandinn samþykkti ekki niðurfellingu tilboðsins. Í tölvupóstinum var ráðgert að kaupsamningur yrði undirritaður á skrifstofu fasteignasölunnar kl. 15 þann dag og óskað eftir staðfestingu á því að ekki yrði mætt af hálfu tilboðsgjafa til þeirrar undirritunar. Stuart svaraði og staðfesti að ekki yrði mætt. Enn var skorað á stefndu að ganga til kaupsamnings án tafar með skeyti Reynis Erlingssonar f.h. stefn­anda, dags. 6. maí 2008 og aftur með bréfi lögmanns stefnanda dags. 16. maí 2008. Ekki varð af undirritun og í bréfi dags. 22. maí 2008 tilkynnir lögmaður stefnanda stefndu að umbjóðandi hans muni krefjast skaðabóta, verði ekki staðið við gerðan kaupsamning. Stefnandi tók þá ákvörðun að reyna að selja eignina að Framnesvegi 24a, Reykjavík, enda var hann sjálfur búinn að kaupa aðra eign. Erfiðleikar á fasteignamarkaði og samdráttur leiddu til þess að eignin seldist ekki á ásettu verði og það var ekki fyrr en 29. ágúst 2008 sem stefnandi gat selt eignina og þá fyrir lægri fjárhæð en tilboðið frá 20. febrúar hljóðaði upp á, eða 28.500.000 krónur. Málsásæður og lagarök stefnanda: Af hálfu stefnanda er á því byggt að komist hafi á kaupsamningur milli aðila máls þessa um fasteignina Framnesveg 24a í Reykjavík. Stefndu hafi hins vegar kosið að standa ekki við gerðan samning og í raun rift honum með aðgerðum sínum. Stefndu hafi gert bindandi kauptilboð í eignina sem stefnandi hafi samþykkt. Þannig standi í 3. tl. kauptilboðsins að bindandi kaupsamningur sé kominn á þegar tilboð hafi verið samþykkt. Beri stefndu, með vísan til almennra reglna kröfuréttar um gildi samninga og reglunnar um að samninga beri að halda, að greiða stefnda skaðabætur fyrir það tjón sem þau ollu honum. Stefndu hafi óskað fjármögnunar til kaupanna frá Íbúðalánasjóði og Glitni. Sú ósk þeirra hafi gengið eftir og öll veðleyfi og öll gögn hafi síðan legið fyrir til kaup­samningsgerðar. Þau hafi tilkynnt það til fasteignasölunnar og því hafi í raun ekkert staðið í veginum fyrir gerð kaupsamnings nema sú ákvörðun stefndu að hætta við. Stefndi Stuart Leigh Bronson hafi starfað sem sérfræðingur á fjármálasviði Glitnis. Hann hafi þannig mátt vita að þegar fyrir lá fjármögnun til kaupanna hafi ekki lengur verið hægt að bera fyrir sig þann fyrirvara sem í upphafi var settur. Þannig hafi stefndu sjálf litið fram hjá fyrirvaranum, fengið fjármögnun til kaupanna og átt að standa við gerðan samning sem hafi verið í fullu gildi, sbr. 8. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup. Þá er á því byggt að stefndu geti ekki borið fyrir sig þann 14 daga frest sem fram kemur í kauptilboðinu enda sé þar um að ræða rétt seljanda en ekki kaupanda. Seljandi hafi ekki lýst yfir riftun og því séu stefndu bundin af þeim kaupsamningi sem þau gerðu. Stefnandi byggir á því að athafnir stefndu hafi valdið stefnanda tjóni. Þannig hafi hann verið búinn að festa kaup á annarri fasteign skv. samningi sem hann sjálfur varð að standa við. Markaðsaðstæður á fasteignamarkaði hafi breyst skyndilega með þeim afleiðingum að hrun hafi nánast orðið. Hann hafi ekki getað selt eign sína að nýju nema fyrir hluta af því verði sem um samdist milli hans og stefndu. Með vísan til almennra reglna um skaðabætur innan samninga, almennu skaðabótareglunnar og ákvæða laga nr. 40/2002 um fasteignakaup, einkum 52. gr. og 61. gr., eigi stefndu að bæta stefnanda tjón hans. Tjón stefnanda megi rekja beint til athafna og athafnaleysis stefndu og þau hafi af ásetningi eða gáleysi valdið stefnanda tjóni. Um dráttarvexti er vísað til 1. mgr. 6.gr. laga nr. 38/2001. Um málskostnað til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málsásæður og lagarök stefndu: Stefndu mótmæla kröfu um að þau verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 6.250.000 krónur með dráttarvöxtum frá þingfestingardegi til greiðsludags auk málskostnaðar. Þá mótmæla stefndu því alfarið að komist hafi á gildur og gagnkvæmur kaupsamningur milli aðila og að komist hafi á skuldbindandi kaup­samningur samkvæmt almennum reglum kröfu- og samningaréttar, sbr. og 3. tl. kaup­tilboðsins. Stefndu byggja á því að samkvæmt almennum reglum kröfu- og samningaréttar og viðtekinni skoðun fræðimanna séu ákveðin frávik frá meginreglunni um skuld­bindingar­gildi loforða. Eitt þeirra frávika lúti að því þegar fyrirvari sé gerður við skuld­bindingargildi kauptilboða í fasteign. Skilyrði af þeim toga, sem sett er fram í hinu samþykkta kauptilboði, hafi verið nefnt frestskilyrði í fræðunum, þ.e. skilyrði sem gera skuldbindingu loforðsgjafa virka gangi skilyrðið eftir. Gangi skilyrðið hins vegar ekki eftir, falli kauptilboðið niður og komist þar með ekki á skuldbindandi samningur á milli aðila. Samþykki stefnanda á kauptilboðinu hafi því ekki leitt til þess að það yrði þá þegar skuldbindandi. Áður en til þess kæmi yrði fjármögnun stefndu, samkvæmt kauptilboðinu, að ganga eftir. Þegar fjármögnun í samræmi við kaup­tilboðið hafi ekki gengið eftir, samanber höfnun Glitnis banka hf. á lánafyrirgreiðslu 10. mars 2008, hafi kauptilboð stefndu fallið niður enda einsýnt að skilyrði það sem kauptilboð byggðist á, kæmi ekki fram. Hafi því aldrei komist á bindandi kaup­samningur milli aðila. Eins og hið samþykkta kauptilboð beri augljóslega með sér hafi það skilyrði verið sett fyrir skuldbindingargildi þess að fjármögnun fengist hjá Glitni banka hf. fyrir kaupunum. Þegar Glitnir hafi hafnað lánafyrirgreiðslu 10. mars 2008 hafi orðið ljóst að frestskilyrðið kæmi ekki fram og jafnframt að hið samþykkta kauptilboð myndi ekki hafa réttaráhrif. Tilvísanir stefnanda um síðar tilkomna hugsanlega fyrirgreiðslu stefndu frá Íbúðalánasjóði séu málinu alls óviðkomandi enda hvergi minnst á aðkomu sjóðsins í hinu samþykkta kauptilboði. Það hafi því verið ljóst þann 10. mars 2008 að hið samþykkta, skilyrta kauptilboð aðila kæmi ekki til framkvæmda og að ekkert yrði af undirritun kaupsamnings eins og fyrirhugað var samkvæmt tilboðinu, þ.e. þann 11. mars, en þá átti einnig að greiða fyrstu greiðslu. Skilyrði kauptilboðsins voru hvorki þá, né síðar, uppfyllt og kauptilboðið því þegar af þeirri ástæðu niður fallið. Stefndu byggja einnig sýknukröfu sína á 8. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup en þar segir: „Nú er skuldbindingargildi kaupsamnings um fasteign bundið fyrirvara um atvik sem ekki hefur gengið eftir og skal þá kaupsamningurinn falla niður að liðnum tveimur mánuðum frá því að hann komst á.“ Eins og ákvæðið beri með sér falli skilyrtur kaupsamningur sjálfkrafa niður ef atvik það sem fyrirvarinn er bundinn við, hefur ekki gengið eftir að liðnum tveimur mán­uðum frá því að hinn skilyrti kaupsamningur komst á. Staðreyndir máls þessa séu eftirfarandi: 1. Skilyrtur kaupsamningur kemst á þann 21. febrúar 2008. 2. Fyrirvari stefndu í hinum skilyrta kaupsamningi er sá að fjármögnun fáist fyrir kaupunum frá Glitni banka hf. að fjárhæð kr. 29.700.000.- 3. Glitnir banki hf. synjar stefndu um lánafyrirgreiðslu þann 10. mars 2008. 4. Skilyrðið kemur því ekki fram innan þeirra tveggja mánaða sem ofangreind 8. gr. laganna boðar og er þegar af þeirri ástæðu hinn skilyrti kaupsamningur niður fallinn. Þá byggja stefndu einnig á því að þau skiluðu ekki inn staðfestingu á fjármögnun til fasteignasölunnar innan 14 daga frá samþykki tilboðsins eins og áskilið var í kaup­tilboðinu. Þar sem umrædd fjármögnun hafi ekki fengist, gátu þau ekki skilað inn umræddri staðfestingu, hvorki innan þeirra 14 daga sem áskilið var né síðar. Hafi kauptilboðið því fallið niður þegar af þeirri ástæðu. Þá benda stefndu á að hinn löggilti fasteignasali hafi enga heimild haft til að útbúa skilyrt veðleyfi eða athuga með meinta lánafyrirgreiðslu hjá Íbúðalánasjóði enda ekkert samningssamband á milli hans og stefndu. Í kauptilboðinu segi að standist tilboðsgjafi ekki greiðslumat sé honum einungis heimilt að leita eftir upplýsingum um forsendur greiðslumatsins hjá viðkomandi fjármálastofnun, þ.e. Glitni banka hf. Stefndu mótmæli því að framlögð óundirrituð skuldabréf hafi nokkra þýðingu varð­andi hið skilyrta, samþykkta kauptilboð aðila og réttaráhrif þess. Dómkröfum stefnanda er alfarið hafnað af hálfu stefndu enda með engu móti hægt að fallast á að athafnir þeirra hafi valdið stefnanda tjóni þar sem hið skilyrta, samþykkta, kauptilboð varð aldrei skuldbindandi fyrir stefndu. Ekki sé við stefndu að sakast þótt stefnandi hafi fest kaup á annarri fasteign þegar hann átti fasteign óselda. Enn síður sé við stefndu að sakast að markaðsaðstæður á fasteignamarkaði hafi breyst. Því sé ekki unnt að fallast á kröfu stefnanda um greiðslu skaðabóta, hvorki innan né utan samninga. Er því alfarið mótmælt af hálfu stefndu að þau hafi sýnt af sér gáleysislega háttsemi gagnvart stefnanda sem leitt geti til bótaskyldu. Sé reyndar vandséð hver sé bótagrundvöllur, enda vísi stefnandi ýmist til hinnar almennu sakarreglu skaðabóta­réttarins og hins vegar til bótareglna laga nr. 40/2002 um fasteignakaup, sbr. 52. og 61. gr. laganna. Þá sé bótakrafan með öllu órökstudd. Þá er einnig bent á, að hafi stefnandi verið viss um rétt sinn og þar með um skuldbindingargildi hins skilyrta kaupsamnings, hefði honum verið í lófa lagið að höfða mál gegn stefndu og krefjast efnda samningsins í samræmi við orðanna hljóðan, sbr. 49. og 50. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup og komið þannig í veg fyrir hið meinta tjón. Varakrafa stefndu byggist á því að krafa stefnanda sé stórlega ofmetin og í engu samræmi við raunverulegt tjón hans, sbr. það sem að ofan er rakið varðandi aðalkröfu stefndu. Verði fallist er á kröfu stefnanda að einhverju leyti, benda stefndu á að vafasamt verði að teljast að stefnandi hafi val um það hvort hann krefji stefndu um efndir í samræmi við efni samningsins, sbr. 49. og 50. gr. laga nr. 40/2002, eða hvort hann selji eignina á lægra verði og krefji svo stefndu um bætur fyrir mismuninum. Þannig var stefnanda í lófa lagið eins og að ofan greinir að krefja stefndu um efndir í samræmi við efni samningsins og koma þar með í veg fyrir hið meinta tjón sem hann telur sig hafa orðið fyrir. Sé þess því krafist að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar, verði þær teknar til greinar að einhverju leyti. Stefndu vísa til ákvæða laga nr. 40/2002 sem og almennra meginreglna kröfu- og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga og undantekninga frá þeirri reglu. Þá er einnig vísað til reglna laga nr. 99/1004 um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa. Niðurstaða: Í málinu er deilt um hvort kauptilboð stefndu dagsett 21. febrúar 2008, samþykkt af stefnanda sama dag, um fasteignina Framnesveg 24a í Reykjavík, hafi orðið bindandi fyrir stefndu. Tilboðið er gert á eyðublað fasteignasölunnar Nýs heimilis, en á því eyðublaði eru prentaðir ýmsir almennir skilmálar eins og algengt er í fasteigna­við­skiptum. Fram kom við skýrslugjöf Reynis Erlingssonar, löggilts fasteignasala á fasteignasölunni Nýju heimili, við aðalmeðferð málsins, að kaflinn um fjármögnun sem kemur næst á eftir lýsingu eignar á framhlið kauptilboðsins, sé að mestu staðlaður texti, en hann staðfesti að fyrsta setningin í kaflanum: „Kaupandi gerir fyrirvara um samþykki fjármögnunar hjá Glitni Banka.“, sé sérstakur fyrirvari í þessu tilboði, sem settur hafi verið í tilboðið að beiðni tilboðsgjafa, stefndu í máli þessu. Fram kom hjá vitninu að hann hefði ekki vitað um höfnun á beiðni stefndu um fjármögnun frá Glitni, fyrr en 19. mars 2008 þegar honum barst bréf frá stefnda Stuart um það. Stefnda Erla skýrði þó svo frá fyrir dómi að stefndu hefðu, líklega sama dag og bréfið frá Glitni er dagsett, eða 10. mars, haft símasamband við fasteignasöluna og sagt frá því að fjármögnun hjá Glitni hefði ekki tekist og taldi hún líklegra að hún hefði hringt. Hún var ekki viss um hvort hún hefði talað við Reyni eða annan starfsmann fasteigna­sölunnar. Stefndi Stuart bar einnig um að þau hefðu tilkynnt fasteignasölunni um þetta strax og taldi fráleitt að fasteignasalan hefði ekki fengið vitneskju um höfnun fjár­mögnunar fyrr en 19. mars, meðal annars í ljósi þess að fasteignasalan virðist hafa verið í sambandi við Glitni banka vegna málsins næstu daga á eftir. Stefnandi byggir á því að fjármögnun sú sem fyrirvari var um í kauptilboði hafi tekist, með lánafyrirgreiðslu frá Glitni annars vegar og Íbúðalánasjóði hins vegar. Óumdeilt er að skuldabréf þessara aðila voru útbúin og liggja fyrir í málinu, annað að fjárhæð 12.600.000 krónur og lántaki sagður stefndi Stuart, en hitt að fjárhæð 18.000.000 krónur og bæði stefndu sögð lántakar. Fyrir liggur í málinu bréf Glitnis til stefndu, með yfirskriftinni: „Synjum á lána­fyrirgreiðslu“. Bréfið er dagsett 10. mars 2008 og undirritað ef tveimur starfsmönnum bankans. Í texta bréfsins segir meðal annars: „... tilkynnist þér hér með að ekki er unnt að verða við umsókn þinni um húsnæðislán Glitnis um kaup á fasteign að Fram­nesvegi 24a Reykjavík, þar sem ekki eru uppfyllt skilyrði greiðslumats samkvæmt útlánareglum bankans.“ Stefndu byggja á því að með þessu bréfi hafi komið í ljós að fyrirvari í kauptilboðinu yrði ekki uppfylltur og að þau hafi þar með ekki lengur verið bundin af tilboðinu. Fallast verður á það með stefndu að í ljósi þess skýra fyrirvara sem gerður var af þeirra hálfu um fjármögnun, auk þess sem í kafla kauptilboðsins um greiðslutilhögun er gert ráð fyrir 29.700.000 króna láni frá Glitni, að þau hafi ekki verið bundin af tilboðinu eftir að Glitnir synjaði um fjármögnun. Ekki verður talið að breyti þeirri niðurstöðu, vafi um það hvort fasteignasölunni og/eða tilboðshafanum (stefnanda), hafi strax verið gert viðvart um synjun á fjármögnun, ekki fyrr en 19. mars, eða einhvern dag á milli þessara dagsetninga. Stefnandi heldur því fram að þegar í ljós hafi komið að fjármögnun fengist, með samsettu láni frá Íbúðalánasjóði og Glitni, hefðu fyrirvarar í kauptilboði um fjár­mögnun verið upprættir og stefndu verið bundin af tilboðinu. Af hálfu stefndu er því haldið fram að eftir að Glitnir hafnaði fjármögnun og tilboðið frá 21. febrúar 2008 var ekki lengur í gildi, hafi þau haldið áfram að skoða möguleika á að kaupa fasteign, jafnvel Framnesveg 24a, en einnig hafi komið til greina að kaupa aðra eign. Óumdeilt er að stefndu sóttu um lán hjá Íbúðalánasjóði og ljóst er af gögnum málsins, eins og fram er komið hér að framan, að þau höfðu sótt um fyrirgreiðslu hjá Glitni. Ekki verður séð af gögnum málsins að stefndu hafi sótt sérstaklega um lán þar eftir 10. mars, eingöngu virðast hafa verið samskipti á milli Glitnis og fasteignasölunnar eftir þann tíma og þangað til áðurnefnt skuldabréf að fjárhæð 12.600.000 krónur var útbúið og sent fasteignasölunni. Ekki verður séð af því sem fram er komið í málinu að stefndu hafi fallið frá fyrirvara í tilboðinu eða endurnýjað tilboð sitt, eftir 10. mars 2008. Verða þau því ekki talin bundin af tilboðinu, þrátt fyrir að leiddar hafi verið líkur að því að fjármögnun, með öðrum hætti en fyrirvari hafði verið gerður um í tilboðinu, hafi staðið þeim til boða. Verður því að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í málinu. Miðað við þessi úrslit málsins, verður stefnandi dæmdur til að greiða stefndu málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur og er virðisaukaskattur þar innifalinn. Dóminn kveður upp Anna M. Karlsdóttir, settur héraðsdómari. Dómsorð: Stefndu, Erla Hrund Gísladóttir og Stuart Leigh Bronson, eru sýkn af kröfum stefnanda Þóris Dan Viðarssonar. Stefnandi greiði stefndu in solidum 350.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur.
Mál nr. 407/2004
Ábyrgð Banki
I var gert að greiða L hf. tiltekna fjárhæð óskipt með S ehf. samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingu þar sem I ábyrgðist skuldbindingar S ehf.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 23. júlí 2004. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 8. september sama ár og áfrýjaði hann öðru sinni 5. október 2004 samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Með hinum áfrýjaða dómi var Suðvestan tveimur ehf. gert að greiða stefnda 7.566.433 krónur ásamt nánar tilgreindum dráttarvöxtum. Jafnframt var áfrýjanda óskipt með Suðvestan tveimur ehf. gert að greiða 4.200.000 krónur ásamt nánar tilgreindum dráttarvöxtum. Suðvestan tveir ehf. unir héraðsdómi og er því eingöngu þáttur áfrýjanda til endurskoðunar hér fyrir dómi. Í yfirliti stefnda um tékkareikning nr. 1147 dagsettu 22. maí 2003 kemur fram að síðasta hreyfing á reikningnum hafi verið 1. október 2002 og hafi yfirdráttarskuld á honum þá numið 8.327.891 krónu. Þá var bréf það sem veitti handveð í viðskiptakröfum og innheimtum kröfum Suðvestan tveggja ehf. gefið úr 30. janúar 2001. Að öðru leyti er málavöxtum rétt lýst í hinum áfrýjaða dómi. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur. Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Það athugist að í stefnu til héraðsdóms hefur stefnda láðst að tilgreina fyrirsvarsmann stefnanda svo sem honum bar að gera samkvæmt b. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Ingólfur Gauti Ingvarsson, greiði stefnda, Landsbanka Íslands hf., 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Mál þetta, sem dómtekið var 29. mars sl. er höfðað með stefnu birtri 6. júní 2003. Stefnandi er Landsbanki Íslands hf., Austurstræti 11, Reykjavík vegna útibús bankans að Höfðabakka 9, Reykjavík. Stefndu eru Suðvestan tveir ehf, Stórhöfða 15, Reykjavik og Ingólfur Gauti Ingvarsson, Lækjarhvammi 15, Hafnarfirði. Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi, Suðvestan tveir ehf., verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 7.566.433,03 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 8.327.891,03 krónum frá 1. október 2002 til 3. júní 2003, af 7.566.433,03 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að stefndi, Ingólfur Ingvarsson, verði dæmdur til að greiða þar af in solidum með stefnda, Suðvestan tveimur ehf., 4.200.000 krónur auk dráttarvaxta frá 1. október 2002 til greiðsludags. Þá er krafist vaxtavaxta skv. 12. gr. s.l, er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti. Einnig er krafist málskostnaðar. Einnig er þess krafist að stefndi, Suðvestan tveir ehf., verði dæmdur til að þola staðfestingu og viðurkenningu skv. handveðsbréfi nr. 100281 útgefnu þann 30. janúar 2001 að fjárhæð 5.000.000 króna sem er falið Landsbanka Íslands hf., skv. 22. gr. 1. nr. 75/1997 um samningsveð. Af hálfu stefnda, Ingólfs Gauta Ingvarssonar, er þess krafist að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og honum dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda. Af hálfu stefnda, Suðvestan tveggja ehf. hefur ekki verið sótt þing. Stefnandi lýsir málsatvikum þannig að þann 16. mars 2000 stofnaði stefndi, Suðvestan tveir ehf., tékkareikning nr. 1147 við útibú stefnanda að Höfðabakka, Reykjavík og fékk jafnframt útgefið debetkort til úttekta of reikningnum. Þann 16. mars 2000 námu innistæðulausar færslur á reikningnum 8.327.891,03 krónum. Var reikningnum lokað. Með sjálfskuldarábyrgð, dags. 1. mars 2001 tók stefndi, Ingólfur Gauti Ingvarsson, ábyrgð á skuld þessari sem sjálfskuldarábyrgðaraðili gagnvart Landsbanka Íslands hf., fyrir allt að 4.200.000 króna auk vaxta og kostnaðar við innheimtu skuldarinnar. Þann 3. júní 2003 voru greiddar 761.458 krónur inná skuldina. Stefnufjárhæðin í þessu máli sé því 7.566.433,03 krónur. Tekið hefur verið tillit til þess í dómkröfum. Kröfu um handveðsbréfið sé þannig til komin að stefndi, Suðvestan tveir ehf., hafi gefið út þann 30. janúar 2002 handveðsbréf (lausafé eða viðskiptabréf (22.gr.)) nr. 100281 að fjárhæð 5.000.000 krónur til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu sinni á skuldum sínum við Landsbanka Íslands hf. Með handveðsbréfinu setti stefndi, Suðvestan tveir ehf., Landsbanka Íslands hf., að veði viðskiptakröfur í innheimtuþjónustu Landsbanka Íslands hf., Höfðabakkaútibúi og kjörbók nr. 0116-05-62636 sem innheimtar kröfur ráðstafast inn á. Skuld þessi hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og er því nauðsynlegt að höfða má1 til greiðslu hennar. Byggt er á meginreglum kröfu- og samningaréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt of málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og ber honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu. Varðandi varnarþing vísast til 32. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi Ingólfur kveðst hafa ráðist til starfa hjá stefnda, Suðvestan tveimur ehf., sem framkvæmdastjóri á árinu 2000 en það félag rak útgáfustarfsemi. Viðskiptahugmynd félagsins hafi byggst á útgáfu hótelbókarinnar, Gestsins, sem markaðssett var fyrir ferðaþjónustu og tekjur félagsins byggst að meginstefnu á því að selja auglýsingar í bókina en fyrsta útgáfa bókarinnar skyldi koma út vorið 2001. Stefnandi hafi verið viðskiptabanki félagsins og það fengið lánafyrirgreiðslu á árinu 2000 með yfirdrætti á tékkareikningi félagsins hjá Höfðabakkaútibúi stefnanda nr. 1147. Í ársbyrjun 2001 hafi yfirdráttarskuld félagsins á tilgreindum reikningi numið 3.074.427 krónum. Þann 30. janúar 2001 undirritaði stefndi handveðsbréf til stefnanda fyrir hönd reikningshafa þar sem settar voru veði viðskiptakröfur félagsins á hendur viðskiptamönnum sínum til tryggingar skuldum allt að 5.000.000 króna auk vaxta og kostnaðar. Þar sem ekki hafi verð komið að útgáfu bókarinnar hafi ekki verið unnt á þessu tímamarki að innheimta viðskiptakröfur félagsins og hafi stefndi því samþykkt þann l. mars 2001 að ábyrgjast yfirdráttarskuld á reikningi félagsins allt að 4.200.000 krónum til þess að unnt væri að ljúka gerð bókarinnar. Stefndi heldur því fram að samkomulag hafi verið um að ábyrgðin félli niður þegar reikningar og innheimtukröfur hefðu verið afhentar stefnanda. Stefndi samþykkti að nýju sjálfskuldarábyrgð á yfirdrætti á tékkareikningi nr. 1147 allt að 700.000 krónum með yfirlýsingu dags. 6. jú1í 2001. Í sjálfskuldaryfirlýsingu þessari komi skýrlega fram að upphæð hámarksheimildar sem ábyrgst er sé 700.000 króur og sé skuldbindingin skilgreind þannig: "Ábyrgðarmaðurinn gengst í ábyrgð á skuldbindingu viðskiptamanns sem sinni eigin skuld, en það nefnist sjálfskuldarábyrgð, allt í samræmi við tilgreinda skilmála á fram- og bakhlið þessa skjals og almenn viðskiptakjör einstaklinga við Landsbankann svo og almenna ábyrgðarskilmála. Ábyrgðin er bundin við hámarksfjárhæð nema það sé sérstaklega tekið fram hér að neðan." Á bakhlið yfirlýsingarinnar sé kveðið á um í 3. gr. að ábyrgðarmaður takmarki ábyrgð sína við ákveðna fjárhæð en beri að greiða auk þess vexti og kostnað sem fylgi bankalegri kröfugerð, standi aðalskuldari ekki við umsamda greiðsluskyldu, svo og kostnað of lögfræðilegri innheimtu þeirrar skuldar sem ábyrgðinni er ætlað að tryggja. Af þessu megi ljóst vera að ábyrgðin frá 6. jú1í 2001 hafi kveðið á um hámarksábyrgð stefnda á yfirdrætti á tékkareikningi nr. 1147 og því ljóst að fyrri ábyrgð hafi verið niður fallin enda í samræmi við fullyrðingar stefnda um málsatvik og samninga aðila. Stefndi hafi greitt upp ábyrgð sína samkvæmt þessari ábyrgð þann 3. júní 2003 og beri kvittun stefnanda áritunina "lokagreiðsla ábyrgðar nr. 1147". Á því er byggt að með því hafi hann efnt að fullu ábyrgðir þær sem hann gekk í fyrir yfirdrætti á tékkareikningi nr. 1147 enda hafi ábyrgðaryfirlýsingin frá 1. mars 2001 verið fallin niður við útgáfu hinnar síðari eða að minnsta kosti í síðasta lagi fallið niður við útgáfu hennar. Því er haldið fram að með vísan til stöðu aðila beri að meta allan vafa um efnisinnihald skjala og samninga um sjálfsskuldarábyrgðir stefnda í hag. Stefndi bendir jafnframt á máli sínu til stuðnings að ábyrgðar þeirrar sem stefnandi krefur í máli þessu sé ekki getið í skráningu Reiknistofu bankanna um fjárhagsstöðu einstaklinga en aðilar að reiknistofunni hafa skuldbundið sig til þess að skrá slíkar skuldbindingar þannig að einstaklingar geti fengið heildaryfirlit um skuldbindingar sínar í bankakerfinu. Stefndi styður kröfur sínar við almennar reglur samninga- og kröfuréttar um samninga og gildi sjálfskuldarábyrgða. Málskostnaðarkrafa stefnda styðst við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi er ekki virðisaukaskattskyldur aðili samkvæmt lögum nr. 50/1988 og ber því nauðsyn til að tekið verði tillit til skattsins við ákvörðun málskostnaðar. NIÐURSTAÐA Í máli þessu krefur stefnandi stefnda Ingólf Ingvarsson um greiðslu samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingu stefnda frá 1. mars 2001 þar sem stefndi ábyrgist skuldbindingar meðstefnda Suðvestan tveggja ehf. vegna reikningsláns á reikningi nr. 1147 og er upphæð hámarksheimildar 4.200.000 króna að því er fram kemur á yfirlýsingunni sem er sú fjárhæð sem þessi stefndi er krafinn um auk vaxta og kostnaðar. Ekki er tilgreind nein takmörkun ábyrgðar stefnda og ekki eru henni sett tímamörk í yfirlýsingu þessari. Leiðir þannig ekki af efni yfirlýsingarinnar sjálfrar að hún sé niður fallinn. Stefndi heldur því fram að um það hafi verið samið að ábyrgðin félli úr gildi þegar reikningar viðskiptaaðila meðstefnda og innheimtukröfur hefðu borist stefnanda og segir í greinargerð hans að útibússtjóri stefnanda geti staðfest þetta. Þessari staðhæfingu var mótmælt af Tómasi Hallgrímssyni, þá svæðisstjóra stefnanda og Kolbrúnu Stefánsdóttur, útibússtjóra hjá stefnanda og hefur stefnda ekki tekist sönnun um það að yfirlýsing hans hafi fallið úr gildi vegna samkomulags um það við stefnanda. Stefndi Ingólfur gaf út yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð 6. júlí 2001 að fjárhæð 700.000 krónur til tryggingar skuld meðstefnda vegna reikningslaáns á sama reikningi og fyrr er getið. Stefndi greiddi stefnanda 810.000 krónur 3. júní 2003 og segir í kvittun til hans dagsettri þann dag að þar sé um að ræða lokagreiðslu ábyrgðar nr. 1147. Stefndi heldur því fram að með útgáfu þeirrar yfirlýsingar hafi hin fyrri frá 1. mars sama árs fallið niður. Telja má augljóst að yfirlýsingin frá 6. júlí hafi verið gefin til frekari tryggingar skuldum meðstefnda Suðvestan tveggja ehf. og að með henni hafi stefndi leystst undan skyldum sínum samkvæmt yfirlýsingunni frá 1. mars. Er því þessari málsástæðu stefnnda hafnað. Samkvæmt framansögðu verða kröfur stefnanda á hendur stefnda Ingólfi Ingvarssyni teknar til greina með vöxtum eins og greinir í dómsorði. Af hálfu stefnda Suðvestan tveggja ehf. hefur ekki verið sótt þing og verður málið dæmt gagnvart honum eftir kröfum og málatilbúnaði stefnanda og verða kröfu stefnanda teknar til greina að öllu leyti. Eftir úrslitum málsins verða stefndu dæmdir in soildum til að greiða stefnanda 500.000 krónur í málskostnað. Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn. DÓMSORÐ Stefndi, Suðvestan tveir ehf. greiði stefnanda, Landsbanka Íslands hf. 7.566.433,03 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 8.327.891,03 krónum frá 1. október 2002 til 3. júní 2003, en af 7.566.433,03 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Stefndi, Ingólfur Ingvarsson, greiði stefnanda, Landsbanka Íslands, in solidum með stefnda, Suðvestan tveimur ehf., 4.200.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. október 2002 til greiðsludags. Staðfestur er veðréttur stefnanda í viðskiptakröfum í innheimtuþjónustu Landsbanka Íslands, Höfðabakkaútibúi og kjörbók nr. 0116-05-62636, sem innheimtar kröfur ráðstafast inn á, samkvæmt handveðsbréfi nr. 100281 útgefnu 30. janúar 2001 af stefnda Suðvestan tveimur ehf. að fjárhæð 5.000.000 króna. Stefndi Suðvestan tveir ehf. og stefndi Ingólfur Ingvarsson greiði stefnanda Landsbanka Íslands óskipt 500.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 56/2011
Eignarréttur Fasteign Þjóðlenda Gjafsókn Aðfinnslur
A o.fl., eigendur jarðarinnar V, höfðuðu mál gegn Í og kröfðust þess að ógilt yrði ákvæði í úrskurði óbyggðarnefndar um að land HVS í Norðurþingi væri þjóðlenda, þar sem landið tilheyrði jörðinni V. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ætla mætti að í öndverðu hafi verið stofnað til eignarréttar að landi á þessum slóðum með námi. Í elstu ritheimildum var rætt um jörðina H en fyrir lá að síðar hafði jörðunum F, V HS og N verið skipt úr þeirri jörð og sameignarlandi í eigu sömu jarða. Af gögnum málsins varð ráðið að landi HVS hefði verið skipt úr sameignarlandinu og lagt undir V. Ekki var talið að úrslitum réði um stöðu sameignarlandsins, og þar með landsins HVS, að sameignarlandið hefði verið nefnt „fjalllendi og afrettarland“ í landskiptagerð og „afréttarland“ í fyrirsögn landamerkjaskrár um það. Býli hafði verið reist á HVS á 19. öld og var þar búskapur í tæpan aldarfjórðung, en landamerkjabréf var gert fyrir „eyðijörðina“ HVS eftir þann tíma. Við mat á því hvort land innan þeirra marka væri háð beinum eignarrétti yrði að líta til þess hvort það ætti stoð í eldri heimildum og gæti samræmst staðháttum, gróðurfari og upplýsingum um nýtingu landsins. Þóttu eldri heimildir veita því viðhlítandi stoð að svæði innan merkja sameignarlandsins hefði svo öldum skiptir talist hluti af jörðinni H. Í hafði viðurkennt að tilteknar jarðir á þessum slóðum sem náðu lengra inn til landsins væru eignarland. Hæstiréttur taldi að engin rökræn ástæða stæði til þess að álykta að landnám á svo samfelldu og einsleitu svæði hefði í tilteknum tilvikum náð lengra inn til landsins en í öðrum án þess að sérstakar skýringar yrðu fundnar á því svo sem vegna staðhátta. Slíkar skýringar hefðu ekki komið fram. Af þessum sökum vara krafa A o.fl. tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson og Símon Sigvaldason héraðsdómari. Samkvæmt ákvæðum laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta tók óbyggðanefnd 1. mars 2004 til meðferðar landsvæði á norðausturlandi, sem réðist að vestan af Jökulsá á Fjöllum frá ósi hennar í Öxarfirði að Dyngjujökli, en þaðan var fylgt jaðri hans að Kverkfjöllum í Hveradal, þar sem dregin var lína til suðurs inn á Vatnajökul. Austurmörk svæðisins fylgdu Lagarfljóti frá ósum á Héraðssandi þangað sem Gilsá fellur í það, en þeirri á var svo fylgt og síðan mörkum Fljótsdalshrepps að Geldingafelli, þaðan sem lína var dregin inn á Vatnajökul. Að norðan náði svæðið að hafi. Óbyggðanefnd bárust kröfur stefnda 11. nóvember 2004, sem vörðuðu allt svæðið, og birti hún þær samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998 ásamt því að skora á þá, sem teldu þar til eignarréttinda, að lýsa kröfum sínum. Fjölmargar kröfur og athugasemdir bárust nefndinni. Í júlí 2005 ákvað hún að fjalla um svæðið í fimm aðskildum málum og var eitt þeirra nr. 5/2005, sem náði til Öxarfjarðarhrepps. Það mál tók meðal annars til landsvæðisins Hvannstaða, sem áfrýjendur telja sem eigendur jarðarinnar Víðirhóls háð beinum eignarrétti sínum, en stefndi telur það til þjóðlendna. Í úrskurði óbyggðanefndar 29. maí 2007 var komist að þeirri niðurstöðu að landsvæði þetta væri þjóðlenda með þeim mörkum, sem áður greinir í dómkröfu áfrýjenda, en viðurkennt var á hinn bóginn að landið væri afréttareign jarðarinnar Víðirhóls samkvæmt 2. mgr. 5. gr. og c. lið 7. gr. laga nr. 58/1998. Áfrýjendur höfðuðu mál þetta 17. janúar 2008 og er ekki deilt um að það hafi verið gert innan þess frests, sem um ræðir í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 58/1998. Í héraði gerðu þau sömu kröfu og þau gera fyrir Hæstarétti, en með hinum árýjaða dómi var stefndi sýknaður af henni. Í málinu er ekki ágreiningur um merki Hvannstaða, sem var getið hér að framan. Í norðri ná þau að landi jarðarinnar Hafrafellstungu vestan frá Hvannstaðafjallgarði í beinni línu austur að upptökum Svartáskvíslar, en merkin fylgja henni síðan þar til hún rennur í Sandá. Frá vestri til austurs eru þau um 5 km í beinni loftlínu, en land Hafrafellstungu gegnt þessum merkjum er háð beinum eignarrétti samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar. Frá hornmarkinu í norðaustri fylgja merki Hvannstaða sveitarfélagamörkum Norðurþings og Svalbarðshrepps suðaustur að öðru hornmarki, sem er í um 6 km fjarlægð, en andspænis er land Vatnsenda, sem er háð beinum eignarrétti samkvæmt dómi Hæstaréttar 7. október 2010 í máli nr. 748/2009. Að sunnan fara merki Hvannstaða úr síðastnefndu hornmarki vestur í Klettagil og síðan í Mynnisöxl og er sú leið rúmlega 6 km í beinni loftlínu, en frá síðastnefndum stað liggja þau til norðurs tæpa 7 km, fyrst að Mýrgili og loks að áðurnefndum merkjum móti Hafrafellstungu. Til suðurs og vesturs liggur að Hvannstöðum landsvæðið, sem fyrrnefnd landamerkjaskrá var gerð fyrir 3. júní 1890 og hefur í málinu verið nefnt sameignarland Fagradals, Víðirhóls, Hólssels og Nýhóls. Í úrskurði óbyggðanefndar var þetta sameignarland talið þjóðlenda, en ágreiningur um þá niðurstöðu er til úrlausnar í hæstaréttarmálinu nr. 40/2011, sem rekið er samhliða þessu máli. Samkvæmt gögnum málsins var bæjarstæði Hvannstaða á norðaustur hluta svæðisins, sem lýst var í landamerkjaskránni 24. maí 1890. Landið þar er í rúmlega 350 m hæð yfir sjávarmáli, en fer hækkandi þegar sunnar dregur í yfir 500 m, þar til við tekur fjalllendi með heitinu Mosar nærri suðurmerkjunum. Vestan í landinu er Hvannstaðafjallgarður, sem kemst hæst í 741 m. Í málinu er ekki deilt um að land Hvannstaða sé vel gróið að slepptu fjalllendi innan svæðisins. Ekkert liggur fyrir um að byggð hafi verið á því að öðru leyti en áður greinir og hefur heldur ekki komið fram að nokkru sinni hafi verið búið á sameignarlandi Fagradals, Víðirhóls, Hólssels og Nýhóls. III Eins og fyrr greinir liggja norðurmerki Hvannstaða að Hafrafellstungu. Í máldaga fyrir kirkjuna í Hafrafellstungu, sem talinn er frá því um 1400, er merkjum þeirrar jarðar meðal annars lýst þannig að þau liggi „vr fiordungs hol j þuerfell. þadan riettsynis framan vid mosfell austur j sanda. enn hid fremra rædur vrdar as. reyda j motz vid hol a fialli.“ Samkvæmt uppdráttum, sem liggja fyrir í málinu, er Fjórðungshóll á norðvesturmerkjum Hafrafellstungu, Þverfell nærri norðausturmerkjum, Mosfell handan austurmerkja jarðarinnar og Sandá syðst á þeim, við norðausturmerki Hvannstaða, en fjallið Reyður er í senn hornmark að suðvestan á landi Hafrafellstungu og til norðvesturs á sameignarlandi Fagradals, Víðirhóls, Hólssels og Nýhóls. Dómsorð: Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 26. október 2010. Mál þetta, sem dómtekið var 8. október sl., eftir endurtekinn flutning, hafa þau Gunnlaugur Ólafsson, kt. 160251-8169, Oktavía Halldóra Ólafsdóttir, kt. 041054-4099, Gunnlaug Ólafsdóttir, kt. 041140-4029, Margrét Pála Ólafsdóttir, kt. 131057-4239, Stefán Sigurður Ólafsson, kt. 290164-7619, og Guðlaug Ólafsdóttir, kt. 300846-3709, eigendur jarðarinnar Hvannstaða og Víðirhóls, höfðað hér fyrir dómi á hendur íslenska ríkinu, Arnarhvoli, Reykjavík, með stefnu, birtri 17. janúar 2008. Dómkröfur stefnenda eru: „Að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar frá 29. maí 2007 í máli nr. 5/2005, þess efnis að jörðin Hvannstaðir sé þjóðlenda, þ.e. eftirtalin úrskurðarorð: Landssvæði það sem afmarkað er hér á eftir, þ.e. Hvannstaðir, er þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998: Að sunnan ræður bein stefna úr Klettagili í Mynnisöxl og þaðan í Mýrdalgil. Að vestan ræður Hvannstaðafjallgarður út að mörkum Hafrafellstungu og þaðan í upptök Svartásskvíslar en hún ræður merkjum þar til hún fellur í Sandá. Þaðan er kröfulína gagnaðila og sveitarfélagamörkum fylgt í Þorsteinsnef og þaðan í Sandhaug á Álftadyngjufjallgarði. Að austan ræður Fjallgarðurinn frá Sandhaug að Klettagili með kröfulínu gagnaðila. Sama landsvæði er í afréttareign jarðarinnar Víðirhóls, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.“ Stefnendur krefjast málskostnaðar úr hendi stefnda, líkt og málið væri eigi gjafsóknarmál, sbr. bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 31. október 2008. Stefndi krefst sýknu af öllum dómkröfum stefnenda, þá krefst stefndi málskostnaður að skaðlausu, en til vara að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af málinu I 1. Tildrög máls þessa eru þau, að með bréfi, dagsettu 1. mars 2004, tilkynnti óbyggðanefnd fjármálaráðherra þá ákvörðun sína að taka til umfjöllunar landsvæði, sem tekur yfir sveitarfélög í Múlasýslum auk hluta Norður-Þingeyjarsýslu, sbr. 8. gr. og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 58, 1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Afmarkaðist svæðið nánar, að vestanverðu, af meginfarvegi Jökulsár á Fjöllum, allt frá Jökulsárósi í Öxarfirði og að aðalupptökum árinnar í Dyngjufjöllum. Að norðan afmarkaðist landsvæðið af hafi, en eigi er í máli þessu þörf á að rekja afmörkun svæðisins frekar. Kröfulýsingar fjármálaráðherra fyrir hönd stefnda, íslenska ríkisins, á umræddu landsvæði bárust 11. nóvember 2004. Óbyggðanefnd birti tilkynningu um meðferð sína á svæðinu, svo og útdrátt úr kröfum stefnda ásamt uppdrætti, í Lögbirtingablaðinu 28. desember 2004, en einnig í dagblöðum, sbr. ákvæði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58, 1998. Í tilkynningunni var skorað á þá sem teldu til eignaréttinda á því landsvæði sem til féll innan kröfusvæðis ríkisins þ.m.t. stefnendur, að lýsa kröfum sínum til landsins fyrir nefndinni, auk þess að gera grein fyrir landamerkjum, í síðasta lagi 31. mars 2005. Þann dag lögðu stefnendur fram sameiginlega kröfulýsingu sína til óbyggðanefndar, en sökum framlengingar á fresti bárust síðustu kröfulýsingar annarra landeigenda í maí 2005. Í júlí 2005 tilkynnti óbyggðanefnd aðilum þá ákvörðun sína að skipta þjóðlendukröfusvæði íslenska ríkisins í fimm mál, þ. á m. mál nr. 5/2005, er varðaði Öxarfjarðarhrepp, nú sveitarfélagið Norðurþing. Var það mál fyrst tekið fyrir á fundi óbyggðanefndar og forsvarsmanna málsaðila þann 17. ágúst 2005. Við fyrirtökur 20. desember 2005 og 9. mars 2006 voru lagðar fram greinargerðir og sýnileg gögn. Málið var tekið til úrskurðar fyrir óbyggðanefnd 3. og 4. júlí 2006 að lokinni vettvangsferð, skýrslutökum og munnlegum flutningi. Málsmeðferðin var endurupptekin 17. ágúst sama ár og voru þá lögð fram ný gögn, en málið að því loknu tekið til úrskurðar á ný. Hinn 29. maí 2007 kvað óbyggðanefnd upp úrskurð sinn. Var það m.a. niðurstaða nefndarinnar að landsvæði það sem hér er til umfjöllunar, jörðin Hvannstaðir á Hólsfjöllum, væri þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998, en að hún væri afréttareign jarðarinnar Víðirhóls, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga. Útdráttur úr úrskurði óbyggðanefndar var birtur í Lögbirtingablaðinu hinn 18. júlí 2007 svo sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 58, 1998. Stefnendur, sem eru eigendur Víðirhóls, undu ekki niðurstöðu óbyggðanefndar, og leitast þeir við með málsókn sinni hér að fá henni hnekkt, og krefjast ógildingar úrskurðarins að því er hið umrædda landsvæði varðar. Málið er höfðað innan þess frests sem veittur er í 19. gr. laga nr. 58, 1998 til þess að bera úrskurðinn undir dómstóla, en fjármálaráðherra er í fyrirsvari fyrir stefnda, íslenska ríkið, samkvæmt 11. gr. laganna. Við meðferð málsins fyrir dómi var farið á vettvang hinn 18. ágúst 2009. 2. Í úrskurði óbyggðanefndar er kveðið á um eignarréttarlega stöðu Hvannstaða. Verður hér á eftir gerð grein fyrir helstu atriðum og forsendum úrskurðarins eins og nauðsynlegt er til úrlausnar málsins. Úrskurðurinn skiptist í sjö kafla og er 100 blaðsíður. Í fyrstu köflunum er lýst málsmeðferð fyrir óbyggðanefnd, kröfugerð og gagnaöflun aðila svo og þeim sjónarmiðum sem þeir byggja á. Í síðari köflum úrskurðarins er lýst landnámi, sveitarmörkum og að nokkru afnotum og sögu landsvæðisins. Gerð er grein fyrir niðurstöðum óbyggðanefndar um einstakar jarðir og svæði, en að lokum eru úrskurðarorð. Með úrskurðinum fylgir sérstakur uppfærður viðauki þar sem lýst er almennum niðurstöðum óbyggðanefndar, en þær eru m.a. ítarlega raktar í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 48/2004. Einnig eru önnur skjöl meðfylgjandi, þ. á m. viðeigandi landakort með árituðum merkja- og kröfulínum. 3. Í úrskurði óbyggðanefndar og öðrum framlögðum gögnum segir frá því að heimildir um landnám og landnámsmörk í Öxarfirði sé helst að finna í Sturlubók og Hauksbók Landnámu. Segir þar að landnámsmaðurinn Einar Þorgeirsson klaufi og fylgdarmenn hans hafi helgað sér allan Öxarfjörð. Í Þórðarbók/Melabók segi einnig: „Svá helguðu þeir sér land fyrir austan Jökulsá; þá höfðu þeir numið allan Öxarfjörð.“ Það landsvæði sem hér er til umfjöllunar, Hvannstaðir, tilheyrir samkvæmt gögnum Hólsfjöllum, en telst einnig að hluta til vera vestasti hluti Búrfellsheiðar, sem er upp af Þistilfirði. Hólsfjallalandsvæðið tilheyrir nú sveitarfélaginu Norðurþingi, en tilheyrði áður Öxarfjarðarhreppi og Fjallahreppi, en fyrir árið 1893 var það syðsti hluti Skinnastaðahrepps. Nánar tiltekið er landsvæðið upp af Öxarfirði, en austan við Jökulsá á Fjöllum. Er það nyrsti hluti hásléttu, sem nær nokkurn veginn frá Dettifossi með litlum halla upp að Vatnajökli. Landið er að mestu í 350 til 450 m hæð yfir sjávarmáli og talin hæsta byggð yfir sjó á landinu með Möðrudal sem er um 30 km suðaustur af Grímsstöðum. Í gögnum segir að ámóta langt sé til sjávar frá Grímsstöðum niður í Öxarfjörð og Vopnafjörð, rétt um 60 km í beinni loftlínu, en rétt um 30 km vestur til Reykjahlíðar við Mývatn. Neðan Grímsstaða og austan Jökulsár er bæjarröð hins forna Fjallahrepps, með býlunum Grundarhól, Nýhól, Fagradal, en austast er Víðirhóll, sem á merki við sameignarland jarðanna. Í Byggðasögu Þingeyinga segir um mörk Fjallahrepps að þau séu mjög glögg og fylgi sýslumörkum nema að norðan. Merkjunum er þannig lýst: „Að vestan markar Jökulsá á Fjöllum sýslumörk milli Norður- og Suður-Þingeyjarsýslu og einnig hreppamörk. Að sunnan og austan fara saman sýslu- og hreppamörk þar sem Norður-Þingeyjarsýsla og Norður-Múlasýsla mætast . Hreppamörk að norðan eru ekki eins nákvæm. Þar liggja saman Öxarfjörður og Fjallahreppur sem áður var eitt sveitarfélag. Í stórum dráttum er línan þar á þessa leið. Bein lína er frá Jökulsá yfir Hábungu syðra Normelsfjalls í Fálkaklett á Vestari Vegg en þaðan til norðurs í há Reyði. Úr því bein lína til norðausturs í Svartás og upptök Svartáskvíslar og svo eftir henni uns hún fellur í Sandá. Eftir það ræður Sandá merkjum suður að Þorsteinsnefi. Þar sveigir línan til suðausturs yfir hæstu tinda Heljardalsfjalla og þaðan í Einbúa. Eftir það falla landamerki saman við sýslumörk eins og áður segir.“ Hólsfjallasvæðið er víðáttumikið, en um staðhætti og náttúrufar þess segir í framlögðum gögnum, þ. á m. í lýsingu Hjörleifs Guttormssonar náttúrufræðings frá árinu 2006, að sandmelar, móar og mýrar skiptist á í jöfnu landslaginu, að vestanverðu á grágrýtisberggrunni, en austar rísi miklir móbergsfjallgarðar sem liggi milli Austur- og Norðausturlands. Segir í lýsingunni að í gegnum fjallgarðana séu á nokkrum stöðum opnur eða skörð, til dæmis Ytramynni, Hólsmynni og Langidalur. Um hið umþrætta land, Hvannstaði, segir nánar í úrskurði óbyggðanefndar: „Landsvæði sem um ræðir liggur í um 400 m hæð yfir sjávarmáli og er nokkuð gróið. Vestan til liggur Hvannstaðafjallgarður og er hæsti tindur hans í 763 m yfir sjávarmáli. Nyrst í Hvannstaðafjallgarði er Svartás og sunnan undir honum er nokkuð bratt gil sem um rennur Svartáskvísl sem rennur til norðurs í Fossá. Svæðið sunnan Fossár og austan Hvannstaðafjallgarðs er í tæplega 400 m hæð yfir sjávarmáli, flatlent og er að mestu votlendi. Nokkrar ár renna úr austanverðum Hvannstaðafjallgarði í Hvannstaðakvísl en hún rennur úr Mýrgili sem er sunnan til á fjallgarðinum og rennur hún til norðausturs í Sandá. Syðst á landssvæðinu hækkar land skarpt norðvestan undir Heljardalsfjöllum. Einnig ber þess að geta að talið er vafalaust að við upphaf landnáms hafi gróðurþekja í Öxarfjarðarhreppi, svo sem á Íslandi í heild, verið mun meiri að víðáttu og grósku en nú er.“ Um byggð, afrétti og gróðurfar í hinum forna Fjallahreppi og á Hólsfjöllum segir í lýsingu nefnds náttúrufræðings: „Byggðin er á mjóu svæði vestan fjallgarða skammt austan Jökulsár á Fjöllum. Bæir á Hólsfjöllum eru í um 400 metra hæð en norðan við Sauðafell og Rauðhóla lækkar landið smám saman fram með Jökulsá niður á láglendi. Hvannsstaðir syðst í Búrfellsheiði eru í 360 metra hæð og Búrfellsvötn í um 320 metra hæð. Afréttarland í fyrrum Fjallahreppi (Hólsfjallamanna, Fjallamanna) markast af Grímsstaðanúpum og Biskupshálsi í suðri, línu austur yfir Einbúasand á mörkum við Víðidal, að Dimmukvísl, norðaustur í Botnafjallgarði, þaðan norðvestur Haugsöræfi í Bungu í Hölknárbotna vestan Heljardalsfjalla, vestur í Þorsteinsnef inn af Álandstungu, vestur yfir Hvanndalsfjallgarð um Hólasand og fjallið Reyður í Jökulsá. Mikið af afréttinum er gróðurlítið en best er ástandið við Hólsmynni og í Búrfellsheiði. Afréttarlöndin skiptast í fimm leitarsvæði sem öll nema Búrfellsheiði eru smöluð á einum degi.“ Í úrskurði óbyggðanefndar og öðrum gögnum er að nokkru rakin saga byggðar á Hólsfjöllum og segir að af elstu heimildum verði ráðið að býlin Hóll og Grímsstaðir séu fyrstu býlin, auk Möðrudals í Norður-Múlasýslu. Samkvæmt íslensku fornbréfasafni er elstu ritheimild um byggðina að finna í máldaga og landamerkjaskrá hálfkirkjunnar í Hafrafellstungu frá 15. öld. Segir þar að kirkjan eigi land að fjallinu Reyði á móts við Hól á Fjalli. Í kaupmálabréfi frá 1491 er fjallað um þrjár jarðir í Skinnastaðaþingum, og þ. á m. er kveðið á um kaup á hálfum „hol a fialle“. Í rekaskrá og máldaga Skinnastaðakirkju í Öxarfirði frá því um 1500 er vikið að því að hún eigi lönd á móts við Hól á Fjalli, en eigi þar að auki „v kapla gongu a vetur“. Á 16., 17. og 18. öldinni er jarðarinnar Hóls og byggðarinnar á Fjöllum ítrekað getið í reikningsgerðum og gerningum Skinnastaðakirkju, en einnig er þar minnst á nágrannajarðirnar Grímsstaði og Möðrudal. Segir m.a. í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712 að þrír bæir séu í byggð á Hólsfjallasvæðinu, þ.e. Grímsstaðir, Hóll og Hólssel. Þess er getið að síðastnefnda býlið hafi byggst upp um 1650, en sé hluti af Hóli. Í jarðabókinni er vikið að búskaparháttum og mannlífi og segir m.a. að silungsveiði í Blönduvatni hafi verið lítil, grastekja bjargleg fyrir heimili, hvannatekja lítil, að engjar séu smáfengnar í mýrarsundum og staratjörnum um heiðina, úthagar góðir og miklir, en mjög snjósamt sé um vor og haust. Af nefndum gögnum verður ráðið að á 19. öldinni hafi byggðin á Hólsfjallasvæðinu eflst, en þá hafi til viðbótar við fyrrnefnd býli verið stofnuð nýbýli, þ.á m. Víðirhóll, Fagridalur, Nýihóll, Grundarhóll og umþrætt býli Hvannstaðir. Í Lýsingu Þingeyjarsýslu er haft eftir sagnamanni sem lifði á Hólsfjöllum fram yfir 1900 að tilurð býlisins Víðirhóls megi rekja til áranna 1835-6, en sagt er að það hafi áður í Jarðatali Johnsens, sem útgefið var 1840, verið nefnt Fjallgarðssel. Segir að þetta bendi til þess að þar sem býlið hafi verið byggt hafi verið fornar seljarústir. Fram kemur í nefndri heimild að Víðirhóll eigi stórt land, er nái allt norður á landamerki hreppsins í Búrfellsheiði og austast á Haugsöræfi að landi Norður-Múlasýslu og auk þess langt suður fyrir bæinn. Þá segir: ,,... Í landinu eru 2 eyðibýli, Hvannstaðir og Þrælagerði sunnan við svo nefnt Viðarvatn ...“ Í lýsingu Skinnastaðasóknar árið 1839 segir aftur á móti að Fjallgarðssel/Víðirhóll sé nýlega byggt, en það hafi áður verið selstaða frá býlinu Hóli. Í Lýsingu Þingeyjarsýslu segir um Hvannstaðabýlið: ,,1854 er byggt býlið Hvannstaðir í landi Víðihóls norðarlega (í Búrfellsheiði), og fer það í eyði 1878.“ Fyrir liggur að árið 1848, þ.e. skömmu fyrir uppbyggingu Hvannstaða, var af hálfu eigenda jarðanna Hóls, Hólssels og Víðirhóls ritað undir merkjalýsingu, en þar er jafnframt skráð að jarðirnar eigi allmikið land óskipt, þ.e. „fjallendi og afréttarland“ austan og norðan heimalanda. Er þetta land afmarkað þannig í gerningnum: „Úr Fálka klett á há Reiði. Úr Reiði beint austur yfir Fjallgarð í Sandá móts við Hafrafellstúngu land. Þaðann beint Austur uppá há Alptadyngu Fjallgarð. Þaðann á há Búngu. Þaðann í so nefnda Sandhnjuka. Þaðann í ytri Hrútá þar sem hún fellur í Selá, og eptir sem Hrúta ræður í Dauðagil. Úr Dauðagili í Krummaskarð og þaðann í Hrafnakle[tta]. Þetta land sem hér er að framan greint: Á Eigandi Hóls eptir réttri tiltölu við Víðirhól og Hólssel. Við þessi skipti millum jarðanna Hólsels Hóls og Víðirhóls: Flýtur það af sjálfu sér að öll önnur skjöl sem eru fyrir þessum jörðum, og áhræra Landamerki ítök leiguparta eður undannfarnabyggíngu, upphefjast og ógildast. Eins og allir þessara jarða umráðendur skuldbynda sig til, að taka jafnann þátt í því ef áfríað land yrði land kyrkjunnar eptir því sem minst er á í Víðirhóls og Hólsels skjölum. Hafi þessi okkar skiptagjörníngur og samníngur Fullkomið Máldagagildi fyrir Alda og Óborna án þess að raskað verði. Til frekari staðfestu eru hlutaðeiganda og áreiðar manna undirskrifuð nöfn og hjáþrikkt Signet.“ Þau skjöl, þar á meðal um landamerki, sem vísað er til í merkjalýsingunni og varða nefnd býli, hafa samkvæmt framlögðum gögnum og málflutningi ekki komið í leitirnar. Þann 30. júní árið 1876 var gerður samningur milli eigenda jarðanna Fagradals, Nýhóls og Gamla-Hóls um búfjárbeit. Í samningum er m.a. vísað til „heiðarmerkja“ eldri skjala og „sameignarlands“, en beitarlandið er nánar afmarkað þannig: „Bugana framan við melagötu ofan við Hólsselsland, og svo nefnda Lauftorfu austan á Fjarðarsundsás, brúka þessir 3 nefndir bæir - sem skiptin eru gjörð á milli - í sameiningu til beitar. Og móana utan og vestan við Þorgrímslæki, út að fornum heiðarmerkjum, eiga þeir eins og heiðina fyrir ofan í sameiningu, eftir réttri tiltölu við dýrleika þeirra.“ Í kjölfar þess að landamerkjalög tóku gildi árið 1882 voru gerð landamerkjabréf fyrir fyrrnefndar jarðir á Hólsfjöllum. Landamerkjabréf fyrir Víðirhól var gert árið 1885, en býlið er austasta jörðin á Hólsfjöllum. Sunnan hennar eru Grímsstaðir, en suðaustan Grundarhóll og Nýhóll og við suðvesturmörkin er Fagridalur. Norðan og austan Víðirhóls er land sem nefnt hefur verið „Sameignarland“ Hólsfjallajarðanna. Í landamerkjabréfi jarðarinnar er suðaustur- og norðurmerkjum þannig lýst: „Að austan ræður bein stefna úr Hrafnaklettum í háa fjallgarðinn fyrir ofan Krubbana, þaðan bein stefn út fyrir ofan Bunguvatnsmýrar að Langamúla. Að utan ræður bein stefna þvert vestur fyrir utan Ytri-Fagradal............Jörðin á að tilltölu í óskiptu heiðarlandi Fjallajarða.“ Undir bréfið rita auk eiganda jarðarinnar sem samþykkjendur eigendur Grundarhóls, Nýjahóls, Fagradals og Grímsstaða. Landamerkjabréf fyrir Hvannstaði var útbúið 24. maí 1890, en jörðin var þá komin í eyði. Merkjum hennar er þannig lýst: „Að sunnan ræður bein stefna úr Klettagili í Mynnis öxl og þaðan í Mýrdalgil; að vestan ræður Hvannstaðafjallgarður út að Hafrafellstúngu merkja línu, þaðan í upptök Svartáskvíslar, og ræður landamerkjum þar til hún fellur í Sandá; þaðan bein stefna í Þorsteinsnef og þaðan í Sandhaug á Alptadyngjufjallgari; að austan ræður Fjallgarðurinn frá Sandhaug að Klettagili.“ Undir landamerkjabréfið rita eigendur Víðirhóls, en sem samþykkjendur rita eigendur Hafrafellstungu, Fagradals, Nýja-Hóls, Hólssels og Víðidals. Þá var hinn 3. júní 1890 gert sérstakt landamerkjabréf fyrir áðurgreint „Sameignarland“, sem nefnt var „afréttarland“ fyrrnefndra þriggja jarða, en einnig jarðarinnar Víðirhóls. Merkjum afréttarlandsins er lýst þannig í bréfinu: „Úr Fálkakletti í há Reiði, þaðan beint austur á fjallgarð á móts við Hafrafellstunguland og ræður þaðan Hvammsfjallagarður suður í Mýrgil, þaðan í ytri Minnisöxl, og þaðan í Klettagil. Þaðan suður austan við Bungu og suður á Austaribrekku við Dauðagil, þaðan eftir Dauðagili í Krummaskarð þaðan í Hrafnaklett. Þess ber að geta að Grundarhólseigandi á frían upprekstur fyrir geldfje sitt og eina trippagöngu í Nýhóls og Fagradals, ofanrituðu afréttarlandi og 2/5tu úr svo nefndum Flöt, ofan við Hrafnaklett. Samkvæmt landamerkjabrefi fyrir Víðihóli dato 29. Júlí 1848 eiga Víðihóls eigendur tveggja hesta vetrargöngu óátalda í Hólsselsmelum.“ Undir bréf þetta rita eigendur Hólssels, Víðirhóls, Grímsstaða, Hóls/Nýhóls, Fagradals, Grundarhóls, Hafrafellstungu og Hafursstaða. Landamerkjabréf Hvannstaða og „afréttarlands“ Hólsfjallajarða voru bæði þinglesin þann 12. júní 1891. Í fundargerð sem rituð var í tilefni opinbers hreppsnefndarfundar Fjallahrepps, sem haldinn var á Víðirhóli þann 1. maí 1894, er skráð að tekin hafi verið ákvörðun um heimalönd (búfjárhaga) og „afrétti“ sveitarinnar. Takmörk þessara landsvæða voru þessi: „Línan utan um heimaland Hólsfjallasveitar sje frá Kallhól við Jökulsá austur með Fremri Núp í Núpaskarði; þaðan í Biskupsöxl um Tungufjöll í Hrafnakletta í Austari-Fjallgarði, ofan við (Víðihóls-)Bæjarkrubb í Langamúla; þaðan í þvert vestur sunnan Krókavatna í Fálkaklett og vestur í Klettakrár við Jökulsá; síðan ræður Jökulsá í Kallhól.“ Í nefndri fundargerð er einnig skráð að gerð hafi verið samþykkt um að allir mættu að venju sleppa fé sínu í heimalöndum og að þau yrðu hreinsuð ásamt „afréttum“ af gangnamönnum. Loks er skráð að tveimur mönnum hafi verið falið að gera upp niðurfallinn gangnakofa á Hvannstöðum á kostnað sveitarinnar. Í fundargerð nefndrar hreppsnefndar frá 18. júní 1909 segir að kveðið hafi verið á um takmörk búfjárhaga og afréttarlanda hreppsins og þá þannig að þau sömu mörk skyldu ráða og verið hefðu, þ.e.: „Úr Kallhól í Núpaskarð þaðan norður Ytri-núp í Biskupsöxl þaðan bein lína í Tungufjöll, yfir Víðirhólsfjallgarð í Krubbabrun, þaðan norður í Langamúla, þaðan vestur í Krókavötn og Fálkaklett og sama lína vestur í Jökulsá. Samkvæmt gögnum um fjallskil frá árinu 1913 voru gangnaforingjar fimm í Fjallahreppi. Landsvæðin sem þeim var falin umsjón með voru Búrfellsheiði, Hólasandur, Útfjallgarður, Framfjallgarður og Núpar. 4. Í úrskurði óbyggðanefndar er til þess vísað að í Landnámabók sé því ekki lýst hversu langt inn til landsins landnám á Öxarfjarðarsvæðinu og þar með á hinu umþrætta svæði á Hvannstöðum náði, en það sagt að sé tekið mið af staðháttum og fjarlægð við túlkun landnámslýsinga hljóti vafi um landnám að vaxa eftir því sem sunnar dregur og land hækki. Á því er byggt í úrskurðinum að frumbýlið Hóll á Fjalli hafi haft stöðu sjálfstæðrar jarðar. Þess er hins vegar getið að engin gögn finnist um afmörkun jarðarinnar fyrir utan það að í eldri lögfestu sé lýst suðurmörkum nágrannajarðarinnar Hafrafellstungu, sbr.: „ og Reidur mots uidHooll áfille....“ Í niðurstöðukafla úrskurðarins er nánar vikið að sögu býlanna á Hólsfjöllum, en einnig er lýst afmörkun þeirra og ráðstafana á eignarrétti. Er m.a. áréttað að Hvannstaðir hafi verið í byggð á árunum 1854-1878, og það sagt að jörðin hafi byggst úr landi Víðirhóls, norðarlega í Búrfellsheiði. Þá segir að býlisins hafi verið getið á manntalsþingi að Skinnastað í júlí 1867, en þá hefði presturinn verið inntur um tilurð jarðarinnar og það sagt að hann hefði gefið um það skýrslu, en sú skýrsla hefði þó ekki fundist. Greint er frá því að í fasteignamati N-Þingeyjarsýslu 1916-1918 segi að eyðijörðin Hvannstaðir hafi verið talin með Víðirhóli. Um nánari afmörkun Hvannstaða segir í úrskurði óbyggðanefndar að að býlinu til suðurs og vesturs liggi „afréttarland á Hólsfjöllum“, til norðurs sé jörðin Hafrafellstunga, en til austurs sé ágreiningssvæði er varði m.a. Svalbarðsland í Búrfellsheiði og Vatnsendaland í Álandstungu í Þistilfirði. Staðhæft er að engra heimilda njóti við um þessi merki Hvannstaða, en sagt að eldri heimildir um Hafrafellstungu styðji lýsingu í landamerkjabréfi jarðarinnar, en séu þau í samræmi við landamerkjabréf Vatnsenda í Þistilfirði og „afréttarlands Hólsfjallajarða“. Á hinn bóginn gangi hin eldri merkjalýsing frá 1848 um „fjalllendi og afréttarland“ Hólsfjallajarða lengra austur og taki að nokkru yfir land Hvannstaða. Að öðru leyti bendi gögn til þess að landamerkjum Hvannstaða sé rétt lýst í landamerkjabréfi, en það sé að auki undirritað, þinglesið og fært í landamerkjabók. Í niðurstöðukafla í úrskurði óbyggðanefndar er vikið nánar að eignarréttarlegri stöðu Hvannstaða, en einnig að tengslum jarðarinnar við aðrar jarðeignir á Hólsfjallasvæðinu og þá m.a. í ljósi dóms Hæstaréttar nr. 497/2006 um eignarréttarlega þýðingu landamerkjabréfa. Segir um þetta í lokaorðum úrskurðarins: „Engar heimildir finnast um að merki Víðirhóls hafi frekar en hinar jarðirnar náð yfir land Hvannstaða. ... Landið er að mestum hluta auðnir og fjalllendi. Það liggur hátt og er fjarri byggð. Frá því býlið fór í eyði hefur notkun takmarkast við upprekstur sauðfjár. Ekkert liggur fyrir um í skjóli hvaða heimildar stofnað var til býlis á Hvannstöðum þegar komið var fram á miðbik 19. aldar. Þannig verður hvorki séð að landið hafi verið byggt af einhverjum sem taldi til eignaréttar að svæðinu né að gerður hafi verið nokkur reki að því að stofna til nýbýlis á grundvelli nýbýlatilskipunar frá árinu 1776. Af því leiðir að Hvannstaðir hafa ekki stöðu jarðar að lögum, sbr. umfjöllun um hugtakið jörð í almennum niðurstöðum óbyggðanefndar. Kemur þá til skoðunar hvort stofnast hafi til eignarréttar að landsvæðinu á grundvelli hefðar. Svo sem áður er rakið voru Hvannstaðir í byggð á árunum 1854-1878. Sú hagnýting landsins fyrir setningu laga um hefð nr. 46/1905 gat ekki að þágildandi lögum stofnað til eignarréttar yfir landinu. Vísast um þetta til almennra niðurstaðna óbyggðanefndar. Þá hafa ekki verið leidd í ljós nein þau umráð landsins eftir gildistöku hefðarlaga sem falið geta í sér óslitið hefðarhald þannig að eignarréttur hafi stofnast á grundvelli hefðar. Að öllu framangreindu virtu hefur ekki verið sýnt fram á að umrætt landsvæði sé eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti. Þá leiði rannsókn óbyggðanefndar einnig til þeirrar niðurstöðu að á umræddu landsvæði sé þjóðlenda. Svo sem að framan er rakið liggja engin marktæk gögn frammi því til stuðnings að sá hluti afréttarlands jarðanna sem seinna er afmarkaður sérstaklega sem Hvannstaðir hafi tilheyrt Víðirhóli en hinum jörðunum. Að réttu lagi hefðu Hvannstaðir því sömu eignarréttarlegu stöðu og afréttarlandið. Með hliðsjón af dómum Hæstaréttar frá 6. september 2005 í máli nr. 367/2005, 16. maí 2007 í máli nr. 571/2006 og forræði aðila á kröfugerð er það niðurstaða óbyggðanefndar að Hvannstaðir séu þjóðlenda í afréttareign eigenda Víðirhóls.“ „Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að Hvannstaðir, svo sem þeir eru afmarkaðir, teljist til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998 ... Sama landsvæði er í afréttareign jarðanna Víðirhóls, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c lið 7. gr. sömu laga“. II. Málsástæður og lagarök stefnenda. Stefnendur byggja á því í stefnu og við flutning, að það landsvæði sem afmarkað er í úrskurði óbyggðanefndar frá 29. maí 2007, og varðar jörðina Hvannstaði, sé háð eignarrétti/eða sé eign þeirra, sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33, 1944, sbr. 10. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97, 1995 og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) sem lögfestur hafi verið með lögum nr. 62, 1994. Úrskurður óbyggðanefndar um að greint landsvæði sé þjóðlenda brjóti því gegn nefndum ákvæðum. Stefnendur styðja dómkröfur sínar neðangreindum rökum: Stefnendur byggja einkaréttarkröfu sína innan þinglýstra landamerkjabréfa/lína Hvannstaðajarðarinnar fyrst og fremst á hefð og venju, og segja að óumdeilt sé að landið hafi verið numið í öndverðu. Landamerki jarðarinnar séu aldagömul og bendi til þess að fullkominn eignarréttur eigenda Víðirhóls hafi verið virtur á þessu landi frá ómunatíð. Hafi það m.a. lýst sér í því að stefnendur hafi getað bannað öðrum not eignarinnar. Eignarréttur stefnenda hafi verið virtur í öllum viðskiptum varðandi landsnytjar á jörðinni. Á því er byggt af hálfu stefnenda að ríkisvaldið hafi í aldanna rás margsinnis viðurkennt að umrætt land innan fyrrgreindra landamerkja hafi verið undirorpið fullkomnum eignarrétti stefnenda. Ríkisvaldið hafi nokkrum sinnum getað haft uppi véfengingarkröfu á hendur eigendum jarðarinnar og þar sem það hafi ekki verið gert sé sá réttur niður fallinn vegna fyrningar og tómlætis. Stefnendur vísa til þess að landamerki jarðarinnar hafi verið þinglesin og færð í landamerkjabók athugasemdalaust. Á þeim hafi síðan verið byggt um merki afrétta og aðliggjandi jarða og sveitarfélaga. Hafi land innan landamerkja jarðarinnar og verið nýtt sem fullkomið eignarland eftir búskaparháttum og aðstæðum á hverjum tíma. Verði og að telja að það hafi mikla þýðingu að eigendur hafi um langt skeið gengið út frá því að merkjum sé rétt lýst og jafnframt að eigendur grannjarða hafi virt og viðurkennt merkin. Stefnendur vísa sérstaklega til jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og stjórnarskrár um að sambærileg mál hljóti sömu niðurstöðu og að jafnræði ríki milli borgaranna. Það verði því ekki gerð ríkari sönnunarkrafa á hendur eigendum jarðarinnar Hvannstaða en til annarra landeigenda í landinu, þar sem skýrar landnámslýsingar liggi fyrir. Stefnendur vísa til þess að við setningu landamerkjalaganna nr. 5/1882 og síðan 41/1919 hafi það verið ætlan löggjafans að framkvæmdavaldið hefði frumkvæði að því að gengið yrði frá landamerkjum jarðeigna, þau skráð og leyst úr ágreiningi um þau ef hann væri fyrir hendi. Þá hafi einnig verið gert ráð fyrir ákveðinni eftirlitsskyldu embættismanna, enda hafi löggjafarvaldið haft vilja til að tryggja að landamerki væru sem skýrust og ekki þyrfti að deila um þau. Með vísan til þessa tilgangs landamerkjalaganna er á því byggt af hálfu stefnenda að landamerkjabréf Hvannstaða bendi til þess að um sé að ræða landsvæði sem sé háð beinum eignarrétti. Stefnendur benda á að þær landamerkjalýsingar sem hafi verið gerðar í kjölfar setningar landamerkjalaganna frá 1882 hafi víða verið byggðar á eldri heimildum, svo sem lögfestum, máldögum og eldri landamerkjabréfum. Svo hafi einnig verið um Hvannstaðalandið þó svo að heimildir um Hól á Fjalli séu fátæklegar. Stefnendur byggja á því að úr því að hefðarlög heimila eignarhefð lands, sem sé í opinberri eigu, þeim mun fremur hljóti að vera unnt að nema land sem ekki sé eignarrétti háð. Staðhæfa stefnendur að umþrætt landsvæði Hvannstaða hafi líkt og annarra Hólsfjallasvæða verið numið í öndverðu. Sjónarmiðin um hefð séu því til staðfestingar náminu og festi í sessi eignarréttinn. Að þessu leyti er af hálfu stefnenda vísað til dóma Hæstaréttar í málum frá árinu 1997, bls. 2792 og frá árinu 1939, bls. 28. Af hálfu stefnenda er til þess vísað að útilokað sé að fullyrða um rétta afmörkun og órofa yfirfærslu eignarréttinda allt frá landnámi til dagsins í dag. Þvert á móti verði að telja eðlilegt að stefndi beri hallann af þeim vafa sem fyrir hendi sé. Stefnendur benda einnig á að samkvæmt gögnum sé ljóst að umrætt landsvæði hafi verið mun grónara við landnám og hafi verið talið að landið hafi verið vel gróið upp í sex til sjö hundruð metra hæð. Ráði því atriði eins og staðhættir, víðátta og gróðurfar ekki úrslitum þegar eignarréttur á landi sé metinn á þessu svæði. Það sé og vafalaust að við upphaf landnáms hafi gróðurþekja á Hólsfjöllum svo sem á Íslandi í heild verið mun meiri að víðáttu og grósku en nú sé. Stefnendur segja að notkun lands geti gefið vísbendingu um hvort land sé eignarland eða ekki en ekki megi alhæfa út frá því. Sem dæmi megi nefna að mjög stór hluti lands á láglendi sé ekki í heilsársnotkun af skiljanlegum ástæðum. Yfir vetrartímann sé landið gegnfrosið og engin skepna fari þar um. Það sem mestu máli skipti þó sé að stefnendur hafi getað bannað öðrum not Hvannstaðalandsins. Stefnendur staðhæfa að venjur varðandi fjallskil geti ekki ráðið úrslitum þegar tekin sé afstaða til þess hvort jörðin sé öll beinum eignarrétti háð. Er þar um vísað til úrskurðar óbyggðanefndar í uppsveitum Árnessýslu þann 22. mars 2002. Stefnendur vísa til þess að ágreiningur um tilveru Hvannstaða sem eignarjarðar sé afleiðing af ófullnægjandi heimildum og skráningu. Þrátt fyrir þetta sé ekki ágreiningur við stefnda um merki jarðarinnar, en um það er nánar vísað til úrskurðar óbyggðanefndar, þar á meðal varðandi sögu, auk afmörkunar, ráðstafana á eignarétti og nýtingu jarðarinnar. Stefnendur byggja á því að að öllu framansögðu virtu sé augljóst að Hvannstaðir hafi verið nýbýli út úr Víðirhóli, en að heimildir skorti um það með hvaða hætti stofnað var til þess. Við stofnun Hvannstaða kunni hluti Víðirhóls gagnvart Nýhóli, Fagradal og Hólsseli í fyrrnefndu sameignarlandi að hafa minnkað. Ekki liggi þó fyrir neinar upplýsingar um það. Nær sé að ætla að Hvannstaðalandið sé einhvers konar viðauki við land Víðirhóls, enda sé því fjarri að landstærð þeirrar jarðar sem skipt hafi verið út úr gömlu Hólsjörðinni sé jöfn miðað við aðrar jarðir, en þar um er vísað til framlagðra uppdrátta af svæðinu. Stefnendur gera í málarekstri sínum ýmsar athugasemdir við úrskurð óbyggðanefndar. Falla þær í meginatriðum saman við framangreindar málsástæður og lagarök þeirra. Stefnendur árétta m.a. að þar sem að þeir hafi undir höndum þinglýstar eignarheimildir verði að leggja sönnunarbyrði á stefnda um tilvist þjóðlendu innan landamerkja þrætusvæðis. Þá andmæla stefnendur öllum málatilbúnaði stefnda, þ. á m. um skort á gögnum og um að umrætt landsvæði hafi ekki verið til annars nýtt en til sumarbeitar fyrir búfé. Þá árétta stefnendur röksemdir sínar um hefð og þýðingu þeirra reglna við úrlausn þjóðlendumála. Vísa þeir m.a. til þess að ekki fáist séð hvers vegna ekki eigi að gilda sömu sjónarmið hjá óbyggðanefnd um þau atriði og átt hafi við um land Hafrafellstungu. Hvannstaðalandið sé innan þinglýstra landamerkja, það sé háð einkanýtingarrétti stefnenda. Byggja stefnendur á því að vegna þessa fari stefndi út fyrir umboð sitt þegar hann leyfi sér að gera þá kröfu að umþrætt land skuli teljast til þjóðlendu. Sé þetta sjálfstæð sýknuástæða á þjóðlendukröfu stefnda. Stefnendur benda á að bændur í sveitarfélaginu eigi hefðbundinn upprekstrarrétt, en enginn nema eigandinn og þeir sem leyfi hafi fengið hjá honum geti nytjað landið til beitar, jarðefnavinnslu, landleigu eða annarrar nýtingar. Stefnendur andmæla þeim málatilbúnaði stefnda að heimildir skorti um landamerki Hóls á Fjalli. Halda stefnendur því fram að niðurstaða óbyggðanefndar beri um of keim af niðurstöðu í hefðbundnu landamerkjamáli þar sem tekist sé á um örnefni og staðsetningu þeirra. Það sé fráleitt hlutverk nefndarinnar en hún eigi að ákveða hvort landið sé háð beinum eignarrétti en ekki endilega hver sé eigandi þess. Hið umþrætta landsvæði geti ekki talist til miðhálendis Íslands. Enginn munur né skil séu á landinu er gefi til kynna að land Hóls á Fjalli (Hvannstaða og sameignarlandsins) og þrætuland Grímsstaða hafi aðra eignarréttarlega stöðu en land jarðanna sem að því liggja. Þannig sé land jarðanna fyrir norðan, þ.e. Hafrafellstungu og Sandfellshaga, og fyrir sunnan, þ.e. þess hluta Grímsstaða sem nefndin telji fullkomið eignarland og land Möðrudals, sem ríkisvaldið geri ekki einu sinni kröfu í, að öllu leyti sambærilegt og land Hóls á Fjalli. Ef nokkur munur geti talist vera þar á sé Hólslandið gróðursælla og þar með búsældarlegra. Vísað er til úrskurðar óbyggðanefndar að þessu leyti, í mál nr. 3 og 4/2004, einkum röksemda á bls. 172, til Hæstaréttardóms Íslands frá 18. október 2007 í máli nr. 47/2007, og loks til dóma réttarins sem uppkveðnir voru 7. október 2010, sbr. m.a. mál nr. 748/2009. Þá telja stefnendur að óbyggðanefnd hafi metið ranglega sönnunargögn málsins og lagt óhóflega sönnunarbyrði á þá, sem ekki fái staðist fyrrnefnda jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Vegna þessa beri að ógilda úrskurði nefndarinnar. Loks byggja stefnendur kröfur sínar á því að í úrskurði óbyggðanefndar skorti fullnægjandi rökstuðning fyrir niðurstöðu nefndarinnar og fari úrskurðurinn því gegn 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 16. gr. laga nr. 58/1998, en ekki liggi fyrir að gagnaöflun óbyggðanefndar um Hól á Fjalli sé tæmandi. Um lagarök er af hálfu stefnenda vísað til 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins, sbr. 1. gr. og 1. samningsviðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu um vernd eignaréttarins, sbr. lög nr. 62, 1994 um lögfestingu sáttmálans. Þá er vísað til laga nr. 58, 1998 um þjóðlendur, sem og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Vísað er til námulaga nr. 24/1973 og laga nr. 57/1998 um rannsóknir á nýtingu á auðlindum í jörðu. Byggt er á meginreglum eignarréttar um venjurétt og óslitin not, sem og almennum reglum samninga- og kröfuréttar og á hefðarlögum nr. 14/1905. Einnig er vísað til almennra reglna um ítaksrétt og stofnun ítaka. Vísað er til almennra reglna um venjurétt og loks til meginreglna um traustfang og traustnám og almennra reglna íslensks réttar um tómlæti. Málsástæður og lagarök stefnda. Af hálfu stefnda er á því byggt að umþrætt landsvæði sé svæði utan eignarlanda og teljist því vera þjóðlenda í samræmi við úrskurð óbyggðanefndar, sbr. ákvæði 1. og 2. gr. laga nr. 58, 1998. Telur stefndi fullljóst af heimildum að Hvannstaðir hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarrétti, og að nýting þess svæðis hafi ekki verið með þeim hætti. Að mati stefnda hvílir sönnunarbyrðin ótvírætt á stefnendum, að sýna fram á tilvist beins eignarréttar að landsvæðinu eða einstökum hlutum þess. Af hálfu stefnda er um röksemdir vísað til áðurrakins úrskurðar óbyggðanefndar. Úrskurðurinn sé byggður á umfangsmikilli upplýsingaöflun og rannsóknum og sé niðurstaðan reist á kerfisbundinni leit að gögnum og skjölum frá málsaðilum sjálfum, en einnig á skýrslum sem gefnar hafa verið fyrir nefndinni. Hafi óbyggðanefnd talið að við gildistöku laga nr. 58, 1998 hefði umþrætt landsvæði talist til afrétta samkvæmt þeirri eignarréttarlegu flokkun lands sem almennt hafi verið miðað við fram til þess tíma. Kveðst stefndi gera niðurstöðu nefndarinnar að sinni til stuðnings sýknukröfunni. Stefndi áréttar að landamerkjabréf fyrir eyðijörðina Hvannstaði hafi verið útbúið 24. maí 1890, en þinglýst 12. júní 1891. Bréfið hafi verið undirritað af eigendum Víðirhóls. Stefndi bendir á að engra heimilda njóti um merki Hvannstaða, en jarðarinnar hafi fyrst verið getið á manntalsþingi að Skinnastað árið 1867. Stefndi bendir á að samkvæmt nefndu landamerkjabréfi Hvannstaða sé miðað við sömu kennileiti og í landamerkjabréfi „afréttarlands jarðanna Víðirhóls, Hólssels, Fagradals og Nýhóls“ frá 3. júní sama ár. Í merkjalýsingunni frá árinu 1848 hafi á hinn bóginn óskiptu „fjalllendi og afréttarland“ jarðanna Hóls, Hólssels og Víðirhóls verið lýst mun lengra til austurs heldur en landamerkjabréfið og taki lýsingin m.a. til landsvæðis sem afmarkað sé í landamerkjabréfi Hvannstaða. Staðhæfir stefndi að í þessu felist að landamerkjabréf Hvannstaða frá 1890 taki yfir það landsvæði sem hafi verið afmarkað með merkjalýsingunni sem „fjalllendi og afréttarland“ Hólsfjallajarðanna og sé þannig ekki samræmi með nefndum heimildum. Á því er byggt af hálfu stefnda að þótt landamerkjabréf hafi verið gert fyrir umþrætt landsvæði beri við mat slíkra bréfa að meta gildi hvers bréfs sérstaklega. Með því að gera landamerkjabréf hafi menn ekki getað einhliða aukið við land sitt eða annan rétt, sbr. m.a. niðurstöðu Hæstaréttar í málinu nr. 48/2004. Við mat á gildi landamerkjabréfa beri að gæta að því að landamerkjabréf feli fyrst og fremst í sér sönnun um mörk milli eigna, en í því felist á engan hátt að allt land innan merkja skuli vera óskorað eignarland. Þrátt fyrir að þessum bréfum sé þinglýst, þá takmarkast gildi þinglýsingarinnar á því, að ekki sé unnt að þinglýsa meiri rétti en viðkomandi eigi. Slíku eigendalausu landi geti eingöngu löggjafinn ráðstafað. Sæki lýsing landamerkjabréfs ekki stoð í eldri heimildir, dragi það úr sönnunargildi bréfsins, sbr. t.d. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í málinu nr. 48/2004. Stefndi lýsir sig sammála þeirri niðurstöðu óbyggðanefndar að Hvannstaðir teljist ekki hafa stöðu jarðar að lögum, með því að stofnast hafi til beins eignarréttar að svæðinu. Byggir stefndi þetta í fyrsta lagi á því, að heimildir um Hvannstaði séu mjög takmarkaðar, þrátt fyrir að þar muni hafa verið byggð á árunum 1854-1878, en ýmsar heimildir bendi til þess, að býlið hafi verið byggt í landi Víðirhóls og hafi það m.a. verið talið með landi jarðarinnar í fasteignamati 1916-1918. Stefndi áréttar að engar heimildir sýni hins vegar fram á að merki Víðirhóls hafi náð yfir merki Hvannstaða. Þá liggi ekkert fyrir um það í skjóli hvaða heimilda stofnað hafi verið til nefnds býlis á Hvannstöðum. Verði þannig hvorki séð, að landið hafi verið byggt af einhverjum sem taldi til eignarréttar að svæðinu né að gerður hafi verið nokkur reki að því að stofna til nýbýlis á grundvelli nýbýlatilskipunar frá árinu 1776. Í öðru lagi bendir stefndi á að nýting svæðisins, utan þess tíma sem þar hafi verið búið, hafi eingöngu takmarkast við upprekstur búfjár, og e.t.v. önnur takmörkuð not. Stefndi byggir enn fremur á að það styðji ekki það sjónarmið að til beins eignaréttar hafi verið stofnað á umþrættu svæði, að fjallskil hafi verið á hendi sveitarfélags, að landsvæðið hafi ekki verið afgirt og þangað hafi búfénaður án hindrana getað leitað frá öðrum jörðum. Af hálfu stefnda er á því byggt að staðhættir, hæð yfir sjó og fjarlægð frá byggð bendi til þess að landið hafi ekki verið numið í öndverðu eða teljist lúta beinum eignarrétti. Þá er af hálfu stefnda tekið undir með óbyggðanefnd, að sú hagnýting landsins, þ. á m. er það var í byggð á árunum 1854-1878, þ.e. fyrir setningu laga um hefð, nr. 46/1905, hafi ekki getað að þágildandi lögum stofnað til eignarréttinda yfir svæðinu. Enn fremur segir stefndi að ekki hafi verið leidd í ljós nein þau umráð landsins eftir gildistöku nefndra laga sem falið hafi í sér óslitið hefðarhald þannig að eignarréttur kunni að hafa stofnast á grundvelli hefðar. Af hálfu stefnda er í ljósi ofangreindra atriða enn fremur á því byggt að því sé ekki lýst í Landnámu hversu langt upp til fjalla og inn til landsins landnám á hinu umþrætta svæði náði. Segir stefndi að ólíklegt verði að teljast að land á þessu svæði hafi verið numið í öndverðu, einkum með hliðsjón af staðháttum og fjarlægð frá byggð, eða teljist lúta beinum eignarrétti. Bendir stefndi á að samkvæmt dómafordæmum teljist heimildarskortur hvað þetta varðar leiða til þess að álitið sé ósannað að heiðarlönd og öræfasvæði hafi verið numin í öndverðu. Sé það í samræmi við þá reglu sem ráðin verði af dómafordæmum Hæstaréttar, að sé deilt um upphaflegt nám lands verði aðeins stuðst við glöggar landfræðilegar heimildir, en heimildarskortur leiði til þess, að álitið sé ósannað að heiðarlönd hafi verið numin, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málum nr. 67/1996 (Eyvindarstaðaheiði) og áðurnefndan dóm nr. 48/2004 (Úthlíð). Hvíli sönnunarbyrðin um slíka eignarréttarstofnun á þeim sem haldi slíku fram. Verði á hinn bóginn talið að landsvæðið hafi verið numið í öndverðu, byggir stefndi á því að það hafi ekki verið numið til eignar heldur eingöngu til takmarkaðra nota svo sem afréttarnota. Vísar stefndi til þess að allt frá upphafi Íslandsbyggðar hafi menn ekki eingöngu helgað sér ákveðin landsvæði, sem háð hafi verið beinum eignarrétti, heldur einnig ítök, afrétti og öll önnur réttindi, sem einhverja þýðingu gátu haft fyrir afkomu þeirra. Og meðan landsvæði gáfu eitthvað af sér hafi hagsmunir legið til þess að halda við merkjum réttindanna, hvers eðlis sem þau voru. Um þetta atriði bendir stefndi m.a. á dóma Hæstaréttar í málum nr. 67/2006 (Skjaldbreiður) og nr. 27/2007 (Grænafjall). Stefndi byggir á því til vara að verði talið að greint landsvæði kunni að hafa verið innan landnáms eða undirorpið beinum eignarrétti að hluta eða öllu leyti séu allar líkur á því að slíkt eignarhald hafi fallið niður er svæðið var tekið til takmarkaðra nota, þ.e. afréttarnota. Og þó svo að talið yrði að til beins eignarréttar hefði stofnast í öndverðu yfir landinu byggir stefndi á að ekkert liggi fyrir um að sá réttur hafi haldist í gegnum aldirnar. Að teknu tilliti til staðhátta, víðáttu, gróðurfars á svæðinu og hæðar yfir sjó, virðist því augljóst að svæðið hafi ekki verið nýtt til annars en beitarafnota. Stefndi andmælir því að skilyrði eignarhefðar séu fyrir hendi, en þar um er m.a. vísað til áðurgreindra sjónarmiða um nýtingu lands, staðhátta og eldri heimilda. Áréttar stefndi að nýting svæðisins hafi í aldanna rás ekki falist í öðru en sumarbeit fyrir búfénað, en hefðbundin afréttarnot geti ekki stofnað til beinna eignarréttinda yfir landi, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málum nr. 47/2007 (Bláskógabyggð) og fyrrnefndan dóm nr. 48/2004. Stefndi andmælir þeim málatilbúnaði stefnenda að réttmætar væntingar geti verið grundvöllur fyrir eignarréttartilkalli á umræddu landsvæði. Segir stefndi að sú regla hafi verið leidd af Landmannaafréttardómi Hæstaréttar hinum síðari, sbr. mál nr. 199/1978, að löggjafinn sé einn bær til þess að ráðstafa réttindum yfir landsvæði utan eignarlanda. Landslög þurfi til sölu eigna ríkissjóðs. Athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stjórnsýslunnar geti ekki leitt af sér slík umráð nema sérstök lagaheimild hafi verið fyrir hendi, þ.m.t. það að þjóðlenda hafi verið látin af hendi. Réttmætar væntingar geti því ekki stofnast á þeim grundvelli sem haldið sé fram af hálfu stefnenda. Þar að auki verði væntingarnar vitanlega einnig að vera réttmætar, þ.e. menn geta ekki haft væntingar til að öðlast meiri eða frekari réttindi en þeir geti mögulega átt rétt á. Ef því háttar þannig til, líkt og í þessu tilviki, að m.a. staðhættir, gróðurfar og nýting lands bendi ekki til beins eignarréttar, geti réttmætar væntingar ekki stofnað til slíkra réttinda. Með vísan til ofangreindra atriða, hvers um sig og saman, þá telur stefndi að ekki hafi verið sýnt fram á að niðurstaða óbyggðanefndar í málinu nr. 5/2005, hvað varðar hið umþrætta landsvæði, sé röng. Stefndi bendir á að ljóst sé að einstakir hlutar svæðisins séu misjafnlega fallnir til beitar. Beitarsvæði taki þó breytingum, auk þess sem þau séu ekki endilega samfelld. Landsvæðið verði því talið falla undir skilgreiningu 1. gr. laga nr. 58, 1998: „landsvæði sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfénað“. Stefndi segir að engin gögn liggi fyrir um að landið hafi haft mismunandi eignarréttarlega stöðu og byggir stefndi á því að umrætt landsvæði svo sem það hafi verið afmarkað í kröfugerð stefnenda, sbr. og það sem segir í niðurstöðu óbyggðanefndar, teljist þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998. Að öðru leyti mótmælir stefndi öllum sjónarmiðum og málsástæðum stefnenda, svo sem þeim er lýst í stefnu, en byggir um leið á þeim röksemdum sem lagðar voru til grundvallar í úrskurði óbyggðanefndar frá 29. maí 2007, og krefst þess að hann verði staðfestur. Verði því miðað við að þjóðlendulínan verði dregin með þeim hætti sem í úrskurðinum sé lýst. Um lagarök er af hálfu stefnda vísað til almennra reglna eignarréttar og til þjóðlendulaga nr. 58, 1998. Þá vísar hann til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33, 1944 og byggir jafnframt á meginreglum eignarréttar um nám, töku og óslitin not. Hann byggir á meginreglum um eignarráð fasteignareiganda og á almennum reglum samninga- og kröfuréttar. Hann byggir á hefðarlögum nr. 14, 1905 og vísar einnig til laga nr. 6, 1986 um afréttarmálefni og fjallskil. Þá vísar hann til eignarréttarreglna Grágásar og Jónsbókar og loks til laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, þar á meðal málskostnaðarákvæða 129. og 130. gr. III. Með lögum Alþingis nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, sem tóku gildi 1. júlí 1998, var sérstakri stjórnsýslunefnd, óbyggðanefnd, falið að kanna og skera úr um hvaða landsvæði innan íslenska ríkisins teljist til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna, sbr. 7. gr. laganna. Í 1. gr. laganna er þjóðlenda skilgreind sem landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingur eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi. Í lagagreininni er eignarland skilgreint sem: „Landsvæði sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignaráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma.“ Þá er afréttur skilgreindur sem: „... landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé.“ Fram að gildistöku laga nr. 58, 1998 voru ýmis landsvæði á Íslandi sem enginn eigandi var að. Með lögunum er íslenska ríkið lýst eigandi þessara svæða, auk þeirra landsréttinda og hlunninda þar sem aðrir eiga ekki, og þau nefnd þjóðlendur. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til nefndra laga, sem kölluð hafa verið þjóðlendulög, segir m.a. að þjóðlendur séu landsvæði sem nefnd hafa verið nöfnum eins og hálendi, óbyggðir, afréttir og almenningur, allt að því tilskildu að utan eignarlanda sé. Er tilgangur laganna að leysa úr þeirri óvissu sem lengi hefur verið uppi um eignarhald á ýmsum hálendissvæðum landsins. Eigi er áskilið að landsvæði þessi séu á miðhálendinu og ber eigi að skýra ákvæðið svo þröngt að það geti ekki tekið til landsvæða annars staðar. Til þess er að líta að þótt land í þjóðlendum sé eign ríkisins samkvæmt framansögðu getur verið að einstaklingar, sveitarfélög eða aðrir lögaðilar eigi þar takmörkuð réttindi, en lögin raska ekki slíkum réttindum. Þannig skulu þeir sem hafa nýtt land innan þjóðlendna sem afrétt fyrir búfénað, eða haft þar önnur hefðbundin not sem afréttareign fylgja, halda þeim rétti í samræmi við ákvæði laga þar um. Þjóðlendulögin veita þannig ekki heimild til að svipta menn eign sinni, hvorki eignarlöndum né öðrum réttindum. Í þjóðlendulögum er ekki að finna sérstakar reglur um það hvernig óbyggðanefnd skuli leysa úr málum, þ.e. hvaða land skuli teljast eignarland og hvað þjóðlenda. Niðurstaða ræðst því af almennum sönnunarreglum og þeim réttarreglum sem færðar eru fram í hverju einstöku tilviki. Það eru því grundvallarreglur íslensks eignarréttar sem gilda. Eins og áður var rakið tilkynnti óbyggðanefnd með bréfi dagsettu 1. mars 2004 þá ákvörðun sína að í samræmi við III. kafla laga nr. 58, 1998 ætlaði hún að taka til umfjöllunar landsvæði á Norðaustur- og Austurlandi, þ. á m. það svæði sem hér um ræðir, Öxarfjarðarhrepp, sem nú tilheyrir sveitarfélaginu Norðurþingi. Að lokinni málsmeðferð samkvæmt nefndum kafla laganna kvað óbyggðanefnd upp úrskurð sinn hinn 29. maí 2007, sbr. mál nefndarinnar nr. 5/2005. Það er álit dómsins að lýst málsmeðferð óbyggðanefndar, sbr. kafli I, liður 1-4 hér að framan, hafi verið í samræmi við fyrirmæli nefndra laga og verður ekki fallist á með stefnendum að form- eða efnisgallar séu á úrskurðinum, þar á meðal að því er varðar meðalhófs- og jafnræðisreglur stjórnsýslulaga, að varði ógildi hans. Þykir að þessu leyti mega vísa til hæstaréttarmálsins nr. 48/2004, en þar er það m.a. rökstutt að málsmeðferðin sé eigi andstæð 1. mgr. 70. gr. og 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62, 1994. Í þessu viðfangi þykir og fært að líta til ákvörðunar Mannréttindadómstóls Evrópu frá 23. september 2008 í máli nr. 46461/06: Örn Bergsson o.fl. gegn Íslandi, en málið varðaði dóm Hæstaréttar í máli nr. 496/2005 um landsvæðin Fjall og Breiðamörk í Öræfum. Ágreiningsatriði máls þessa varðar samkvæmt framansögðu eignarréttarlega stöðu Hvannstaða í hinum forna Fjallahreppi á Hólsfjöllum, sem tilheyrði áður Skinnastaðasókn, en er nú í sveitarfélaginu Norðurþingi. Krefjast stefnendur að úrskurður óbyggðanefndar um að umþrætt landsvæði sé þjóðlenda verði fellur úr gildi. Af hálfu stefnda er krafist sýknu og er um rökstuðning m.a. vísað til úrskurðarins. Um áður lýst mörk hins umþrætta landsvæðis Hvannstaða er ekki ágreiningur, en undir rekstri málsins fór dómurinn á vettvang. Mörk landsvæðisins eru nánar tiltekið við Þorsteinsnef, sem er syðst í Álftadyngjufjallgarði í svonefndum Langás, sem er í um 570 m hæð yfir sjávarmáli. Merkin ganga því næst til suðausturs að vestasta hluta Heljardalsfjalla, við Þvergil og Klettagil, í um 600 m hæð yfir sjávarmáli, og eru þá á móti fyrrnefndu afréttar, fjall- og sameignarlandi Hólsfjallajarðanna, Fagradals, Víðirhóls, Hólssels og Nýhóls. Þá liggja merkin vestur að Hólsmynni, sem er skarð á milli fjalla sunnan Þórfells, en þaðan liggja merkin norður í Mýrgil og áfram norður Hvannstaðafjallgarð, í um 700 m hæð yfir sjávarmáli, og eru þar á móti landi Hafrafellstungu. Mörkin að norðan og norðvestan liggja að Svartási, þar sem eru upptök Svartárkvíslar, en þar um eru einnig talin vera hin fornu hreppamörk Öxarfjarðar- og Fjallahrepps, er fara beint vestur að fjallinu Reyð og síðan í Jökulsá. Eins og áður var rakið eru þessi mörk ekki talin eins nákvæm og önnur mörk Fjallahrepps. Merki Hvannstaða fylgja Svartárkvísl í norðaustur að syðsta hluta Búrfellsheiðar og fara þannig með landi Hafrafellstungu uns kvíslin fellur í Sandá, en eftir það ræður Sandáin merkjum gagnvart Álandstungu í svonefndu Vatnsendalandi, sem tilheyrir Þistilfirði. Í úrskurði óbyggðanefndar er vísað til sérfræðigagna um gróðurfar, og m.a. staðhæft að við landnám hafi landið verið betur gróið og gróður náð lengra inn á heiðar en nú er. Staðháttum og gróðurfari á Hólsfjöllum er áður lýst, en því til viðbótar segir í ritsmíð Hjörleifs Guttormssonar náttúrufræðings frá árinu 2006: „Meginhluti Hólsfjallasvæðisins er sandjörð, sem er næringarsnauður jarðvegur sem er að mestu orðinn til úr gosösku. Hann er algengur í nágrenni jöklanna og á flóðasléttum jökulánna en einnig hafa rofferlar oft borið sandinn langt frá upptökum sínum. Á mólendum er áfoksjörð eða mójörð en hún er mynduð úr fokefnum, sem er bergmylsna eða eldfjallaaska.“ Í lýsingu náttúrufræðingsins segir að áður hafi Hólsfjallalandsvæðið verið talið allgróið og er um það m.a. vísað til svofelldrar sóknarlýsingar Skinnastaðasóknar frá árinu 1839: „Í Hólsseli er mest landslag víðirkvistur og melaland. Í þeim svokölluðu Hólsselsmelum er fræg hestaganga á vetrum ásamt notasæl útbeit fyrir sauðpening á vetrardag. Víðirhóll stendur vestan undir Hólsfjallgarði, í hvörjum að er allgott sauðfjárhaglendi. Frá Hóli liggur gamall þjóðvegur austur til Vopnafjarðar að Haugsstöðum, sem kallaður er Haugur og Haugsvegur og öræfin Haugsöræfi. Þessi öræfi er liggja lágt og eru torfærulaus en sendin og grjótug mjög, taka enda við svokölluð Heljardalsfjöll. Þar út af liggja flatar heiðar grasi vaxnar til stranda Langaness og Þistilfjarðar. Út af Hóli byrjast enn fjallgarður við svokallað Hólsmynni sem er skarð á milli fjalla. Hann liggur óslitinn austan við Axarfjörð milli Sléttu og Þistilfjarðar og út til sjávar. Þessi Hóls- og Möðrudalsöræfi eru undirorpin sandfoki svo horfist með tíðinni til eyðingar, hafa verið og eru enn allgott haglendi fyrir sauðpening sem er einasti næringarvegur þeirra, besti vegur til umferðar og torfærulaus.“ Fram kemur í gögnum að er líða tók á 20. öldina og í byrjun þeirrar 21. hafi frekari vandræði hlotist af sandfoki á Hólsfjöllum en áður þekktist. Um síðir hafi verið gripið til landgræðsluaðgerða til að stöðva jarðvegsrof sem hafi ógnað gróðri og byggð. Hafi fyrstu aðgerðir Landgræðslunnar til uppgræðslu hafist 1944 við Grímsstaði, en síðar hafi Hólasandur verið girtur með rúmlega 30 km langri girðingu, sem hafi umlukið um 3.300 hektara lands. Hafi landeyðing verið mjög hröð, en hún hafi náð hámarki skömmu fyrir 1950. Fjárbúskap hafi verið hætt á Hólsfjöllum í lok árs 1991, landið verið friðað fyrir beit, og nú sé Hólssandur, Sauðafell og býlin Nýhóll, Hólssel og Grímsstaðir öll innan nýrrar girðingar. Segir frá því í gögnum að afrétturinn sé nú gróðurlítill, en best sé ástandið sem fyrr við Hólsmynni og í Búrfellsheiði. Umrætt Hvannstaðaland liggur í um 400 m hæð yfir sjávarmáli og er nokkuð gróið, flatlent, en votlent. Það er eins og áður hefur verið lýst afmarkað að vestan og austan af allháum fjallgörðum en að norðan af Sandá. Stefnendur byggja m.a. á því að Hólsfjallalandsvæðið og þar með hið umþrætta landsvæði hafi verið numið í öndverðu. Dómurinn fellst á röksemdir stefnda um að frásögn Landnámu sé ekki fyllilega ljós um landnám Einars klaufa í Öxarfirði og um mörk þess. Óljósar tilvísanir heimilda um fjallið Reyður við norðvesturmörk Hólsfjallasvæðisins nægja þar ekki. Hið sama gildir um frásögn Landnámu um landnám í Þistilfirði, en þar er einungis miðað við kennileiti við sjávarsíðuna og það sagt að Ketill þistill hafi numið land milli Hundsness og Sauðaness. Verður þannig ekki ráðið af Landnámu hversu langt inn til landsins landnámið hafi náð. Í úrskurði óbyggðanefndar er sagt að þrátt fyrir þetta sé ekki hægt að útiloka að Hólsfjallasvæðið og þar með umþrætt landsvæði sé að einhverju leyti innan upphaflegs landnáms eða hafi á annan hátt verið undirorpið beinum eignarrétti. Að áliti dómsins verður að ofangreindu virtu ekki fram hjá því horft að næst umþrættu landi Hvannstaða liggja til vesturs og norðvesturs samkvæmt úrskurðum óbyggðanefndar í málun nr. 4/2005 og 5/2005 eignarlönd Hafrafellstungu í fyrrum Öxarfjarðarhreppi, en þar norðan við eignarland Svalbarðs í Þistilfirði, svonefnt Svalbarðskirkjuland í Búrfellsheiði,. Þá liggur til norðausturs land Vatnsenda, sem er eignarland Svalbarðshrepps, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 748/2009, en syðstu mörk þess lands eru í um 37 km fjarlægð frá sjó og höfuðbýlinu Álandi. Að áliti dómsins renna nýlegar fornleifarannsóknir Ugga Ævarssonar fornleifafræðings, sbr. rit Fornleifastofnunar Íslands frá 2009, stoðum undir að Hólsfjallasvæðið hafi a.m.k. að einhverju leyti verið numið og að þar hafi verið byggð á 10. öld. Hafa þessar rannsóknir stuðning frá eldri fornleifarannsóknum frá árinu 1962 og þá þannig að jarðirnar Hóll og Gömlu-Grímsstaðir séu þar fyrstu býlin. Til viðbótar er óljós vitneskja um tvö fornleg eyðibýli á svæðinu, annars vegar Bakkastaðir, sem eru suður við Grímstaðnúp og hins vegar Þrælagerði í landi Fjallgarðssels, og er sunnan Viðarvatns. Vísbendingar eru aftur á móti um að búseta á jaðarbyggðum til heiða hafi lagst af á 11., 12. og 13 öld, m.a. vegna ítrekaðs öskufalls frá eldfjöllum og þess að svæði þessi voru með viðkvæmt vistkerfi og því viðkvæm fyrir jarðvegseyðingu. Engar aðrar heimildir liggja fyrir um byggð á Hólsfjöllum sem bregða ljósi á mannlíf eða búskaparhætti á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Er það ekki fyrr en Jarðabók Árna og Páls kemur úr árið 1712 sem breyting verður þar á. Fæst þá fyrst mynd af Hólsfjallabyggðinni, og eftir það fer heimildum um hana fjölgandi, ekki síst með ferða- og minningarbókum, en helstar í þeim flokki eru ferðabækur Þorvaldar Thoroddsen náttúrufræðings. Af þessum heimildum má ráða að jörðin Hóll á Fjalli hafi ávalt verið bændaeign, en hafi líkt og Grímsstaðir, sem voru að hálfu í eigu Skálholtsstaðar, fyrr á öldum stundum verið í eyði. Samkvæmt gögnum var þriðja býlið, Hólssel, byggt upp um árið 1650, en það mun áður hafa verið sel frá Hóli. Samkvæmt gögnum voru tólf manns skráðir til heimilis á fyrrgreindum þremur býlum þegar manntalið var tekið á Íslandi árið 1703. Þá var bústofn býlanna og mjög lítill miðað við það sem tíðkaðist um svipað leyti á jörðum í Öxarfirði. Fyrir liggur að veruleg breyting verður á byggð á Hólsfjöllum í byrjun 19. aldar, en þá fjölgaði mjög fólki og búfénaði. Byggðust þá upp sjö nýbýli, sem að nokkru var í takt við það sem gerðist á þessu tímabili víðar hérlendis, ekki síst á Norður- og Austurlandi. Af gögnum, þar með talið frá Þjóðskjalasafni, verður þannig ráðið að árið 1839 hafi jörðin Fjallgarðssel byggst upp, en það mun upphaflega hafa verið gömul selstöð frá Hóli. Síðar kallaðist jörðin Víðirhóll, en þar var og byggð kirkja árið 1863. Þá byggðist upp umþrætt jörð Hvannstaðir árið 1854, en fór í eyði 1878. Nýi-Hóll var byggður úr landi Hóls árið 1869, en jörðin Hóll eyddist af uppblæstri og fór í eyði árið 1892. Land Hóls/Gamla-Hóls er sagt hafa verið lagt til Nýja-Hóls. Loks mun Fagridalur sem uppbyggður var 1876 hafa verið lagður undir Nýja-Hól árið 1944. Landamerkjabréf fyrir Hólsfjallajarðirnar og umþrætt landsvæði Hvannstaða voru gerð í kjölfar setningar landamerkjalaga nr. 5, 1882, en einnig var þá útbúið sérstakt landamerkjabréf fyrir fyrrnefnt „afréttarland“ jarðanna. Liggur „afréttarlandið“ að mestu sunnan Hvannstaða og aðskilur það land Víðirhóls frá Hvannstöðum. Er vegalengdin þar í milli um sex km. ,,Afréttarlandið“ er nokkuð fjalllent og lítt gróið, en helst má nefna Mynniöxl og Þórfell, en þar í milli er skarðið Hólsmynni. Þar sunnan við er Langimúli, sem er 614 m yfir sjávarmáli, en síðan taka við svonefndir Krubbar, þ.e. Klettakrubbi, Vatnskrubbi og Bæjarkrubbi, en þeir eru í um 560-600 m hæð yfir sjávarmáli. Ofan Víðirhóls er Víðirhólsfjallgarður, í um 585 m hæð yfir sjávarmáli. Stefnendur byggja kröfu sína um beinan eignarrétt að Hvannstöðum ekki síst á fyrrnefndu landamerkjabréfi býlisins, og staðhæfa m.a. að það hafi stoð í eldri heimildum. Um gildi landamerkjabréfa, og því hvert sé inntak eignarréttar á svæði sem í þeim er lýst, hefur Hæstiréttur Íslands lýst þeirri afstöðu, t.d. í máli réttarins nr. 48/2004, að almennt skipti máli hvort um sé að ræða jörð eða annað landsvæði. Segir í dómsniðurstöðunni m.a. að þekkt sé að landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir jarðir, heldur einnig afrétti, sem ekki tengist sérstaklega tiltekinni jörð. Enn fremur er í þessum dómi sagt að landamerkjabréf fyrir jörð feli almennt í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða þótt jafnframt verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega. Er sagt að það auki almennt gildi landamerkjabréfs sé það áritað um samþykki eigenda aðliggjandi jarða, en að þess verði að gæta að með því að gera landamerkjabréf geti menn ekki einhliða aukið við land sitt eða annan rétt umfram það. Verði til þess að líta hvort til séu eldri heimildir sem fallið geti að lýsingu í landamerkjabréfi, enda stangist sú lýsing heldur ekki á við staðhætti, gróðurfar og upplýsingar um nýtingu lands. Rétturinn hefur í síðari dómum áréttað þessa afstöðu, t.d. í fyrrnefndum dómi í máli nr. 496/2005. Ber við niðurstöðu máls þessa að hafa allt framangreint í huga. Að áliti dómsins ber að fallast á með stefnda að engar haldbærar heimildir séu til um byggð á Hólsfjöllum umfram það sem hér að framan hefur verið lýst. Þá liggur heldur ekkert fyrir um að land þar hafi á fyrstu öldum byggðar í landinu verið til annarra nota en sumarbeitar fyrir búfénað. Eins og áður var rakið greina heimildir frá því að á Hólsfjöllum hafi býlum, fólki og búfénaði fjölgað um tíma á 19. öldinni og að þá hafi fólk haft lífsviðurværi sitt af vetrarbeit og að líkindum stífri beitarhúsnotkun í heimlöndum og í afrétti. Ágreiningslaust er að Hvannstaðabýlið fór í eyði 1878 eftir tiltölulega stutta búsetu. Liggur ekkert fyrir um hvernig stofnað var til býlisins eða hverjir hafi í raun átt þar hlut að máli, en óumdeilt er að það var ekki gert eftir reglum tilskipunar frá 1776 um fríheit fyrir þá, sem vilja upp taka eyðijarðir eða óbyggð pláss á Íslandi. Í fjallskilareglugerðum fyrir Norður-Þingeyjarsýslu hefur allt frá árinu 1894 landi verið skipt í heimalönd og afrétti, en í daglegu tali ræða menn um afréttinn sem heiðarland. Í þessu viðfangi verður m.a. horft til áðurrakinna samþykkta og fundargerða hreppsnefndar Fjallahrepps nærri aldamótum 1900 um takmörk búfjárhaga og afréttarlands, um rétt allra hreppsbúa til upprekstrar og um viðhald gangnakofa á aflögðu heiðarbýli Hvannstaða á kostnað hreppsins. Að áliti dómsins benda framlögð gögn ekki til annars en að umþrætt landsvæði Hvannstaða við mörk Hólsfjalla og Búrfellsheiðar hafi verið hluti afréttar, en eins og fyrr var rakið eru engar heimildir frá fyrri tíð um not landsvæðisins til annars en sumarbeitar. Hafi það fyrst komið til á 18. og 19. öld að búfjárbeitin varð umfangsmeiri. Að áliti dómsins hafa stefnendur heldur ekki fært fram sönnun þess að skilyrði eignarhefðar á landinu hafi verið fullnægt með þeim venjubundnu afréttarnotum sem þeir hafa haft af því, ásamt fleiri bændum, sem nýtt hafa heiðarlandið til beitar. Að þessu virtu ásamt andmælum og röksemdum stefnda, en einnig með hliðsjón af áðurnefndri ákvörðun Mannréttindadómstóls Evrópu frá 23. september 2008 í máli nr. 46461/06, verður ekki fallist á að stefnendur hafi mátt vænta þess að þeir ættu nokkur frekari réttindi á þessu landsvæði en hefðbundin afréttarnot. Hafi beinn eignarréttur stofnast í öndverðu með námi verður samkvæmt dómum Hæstaréttar Íslands, m.a. nr. 685/2008 og 198/2009, ekki krafist að sýnt sé fram á hvernig sá réttur hafi haldist við, heldur aðeins að hann hafi gert það í raun. Verður að þessu virtu fallist á með stefnda að stefnendur hafi ekki sýnt fram á afmörkun eða yfirfærslu þeirra beinu eignarréttinda sem kunni að hafa verið stofnað til í öndverðu á umþrættu landsvæði Hvannstaða, en að áliti dómsins mæla fyrrnefndir staðhættir að auki gegn því að það hafi verið hluti af frumbýlinu Hóli á Fjalli og síðan jörðinni Víðirhóli. Þegar framangreind gögn eru virt í heild, ekki síst þegar litið er til legu þrætulandsins, fjarlægðar frá byggð og þeirra atriða sem vísað er til í fyrrnefndum hæstaréttarmálum, er það niðurstaða dómsins að stefnendur hafi ekki hrakið eða leitt nægjanlegar líkur fyrir því að áðurraktar forsendur í úrskurði óbyggðanefndar séu rangar. Að þessu sögðu og þar sem málatilbúnaður stefnenda styðst ekki við önnur gögn verður ekki fallist á að þeir hafi sýnt fram á að umrætt landsvæði, eins og þjóðlendulínan er dregin í úrskurðinum, sé eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti. Með vísan til alls þess sem hér að framan hefur verið rakið er hafnað kröfum stefnenda um að ógilda úrskurð óbyggðanefndar í máli þessu og skal hann standa óraskaður. Er því fallist á þá niðurstöðu óbyggðanefndar að umkrafið landsvæði teljist til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58/1998, en jafnframt að sama landsvæði sé afréttareign jarðarinnar Víðirhóls, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga. Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málarekstrinum. Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Sigurðar Jónssonar hæstaréttarlögmanns. Með hliðsjón af því að fleiri hliðstæð mál á Hólsfjöllum eru og hafa verið til meðferðar hjá dómstólnum og eru jafnframt á könnu lögmannsins, en einnig að málið var endurflutt, er nefnd þóknun eftir atvikum hæfilega ákveðin 878.500 krónur og er þá virðisaukaskattur meðtalinn. Dóm þennan kveður upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari. D Ó M S O R Ð : Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnenda í máli þessu. Málskostnaður fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Sigurðar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 878.500 krónur.
Mál nr. 536/2006
Eignarréttur Fasteign Þjóðlenda Gjafsókn
Með úrskurði 10. desember 2004, þar sem fjallað var um mörk þjóðlendna og eignarlanda í Mýrdalshreppi, komst óbyggðanefnd að þeirri niðurstöðu að landsvæðið Hvítmaga væri þjóðlenda. A o.fl., sem töldu til réttinda yfir landsvæðinu sem eigendur jarða að Ytri-Sólheimum, kröfðust þess að úrskurður nefndarinnar yrði að þessu leyti felldur úr gildi. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að samkvæmt landamerkjabréfi frá 1885, sem gert var af eigendum Ytri-Sólheima og Eystri-Skóga, hefði Hvítmaga verið innan merkja Ytri-Sólheimajarða. Það var þó ekki talið nægja eitt og sér til að sanna beinan eignarrétt A o.fl. að landsvæðinu, heldur yrðu önnur atriði að koma til sem stutt gætu sömu niðurstöðu. Af gögnum málsins varð hvorki ráðið að staðhættir né gróðurfar mæltu gegn því að landsvæðið hefði verið numið, að minnsta kosti að einhverju leyti, og beinn eignarréttur þannig stofnast að því. Elsta heimildin um vesturmörk Ytri-Sólheimajarða var lögfesta frá 1789 og deildu aðilar um hvort jökullinn, sem merki jarðanna voru sögð ná norður til, væri Mýrdalsjökull eða Sólheimajökull. Með vísan til fyrirliggjandi heimilda um jökla á svæðinu, orðalags lögfestunnar og yfirlýsingar eigenda Ytri-Sólheima frá 1789 var talið að rök hnigju að því að endamörk landamerkjanna hefðu verið í Mýrdalsjökli. Í úrskurði óbyggðanefndar var fallist á með A o.fl. að land austan Sólheimajökuls væri háð beinum eignarrétti allt til Mýrdalsjökuls og vesturmerkja Eystri-Sólheima. Varð ekki séð hvað mælti með því að staðnæmst hefði verið við landnám þegar komið var að Hvítmögu ef Sólheimajökull setti því ekki landfræðileg takmörk, en ekki lágu fyrir gögn til að taka af skarið um hvort svo hefði verið þegar land var numið. Óumdeilt var að mörk sveitarfélaga og landsfjórðunga hefðu að fornu og nýju fylgt þeim farvegi, sem Jökulsá rann eftir fram að 18. öld, allt frá hafi til Mýrdalsjökuls. Ekki var talið að haldbær skýring gæti verið á því að mörkin hefðu verið dregin á þennan hátt en ekki að jaðri Sólheimajökuls ef Hvítmaga teldist ekki til eignarlands Ytri-Sólheima og að gegn þessu gæti ekki ráðið úrslitum að landsvæðið hefði í ýmsum heimildum frá 18. og 19. öld verið nefnt afréttur Ytri-Sólheima. Að framangreindu virtu var fallist á kröfur A o.fl.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Hjördís Hákonardóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. október 2006. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem þeim hefur verið veitt. Eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms varð Sigrún Ragnheiður Ragnarsdóttir sameigandi stefnda Tómasar Ísleifssonar að jörðinni Ytri-Sólheimum III. Þá varð Þorsteinn Magnússon sameigandi stefndu Sigríðar Þorsteinsdóttur, Sigrúnar R. Þorsteinsdóttur, Hildigunnar Þorsteinsdóttur, Kristínar Þorsteinsdóttur og Ólafs Þorsteinssonar að jörðinni Ytri-Sólheimum IIIA. Hefur aðild að málinu verið breytt þessu til samræmis. Dómendur gengu á vettvang 30. apríl 2007. I. Óbyggðanefnd, sem starfar samkvæmt ákvæðum laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, gaf út tilkynningu 12. október 2000 um að hún hefði ákveðið að taka til meðferðar svæði, sem afmarkað var að vestan af Þjórsá og að austan af vesturmörkum jarðarinnar Núpsstaðar í Fljótshverfi. Að sunnan náði svæðið til hafs, en að norðan að línu, sem samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendis Íslands mun hafa notað við vinnu sína. Að fram komnum kröfum áfrýjanda um þjóðlendur á þessu svæði og kröfum þeirra, sem töldu þar til eignarréttinda, ákvað óbyggðanefnd í janúar 2003 að fjalla um það í níu málum. Eitt þessara mála, sem varð nr. 6/2003, tók til Mýrdalshrepps. Svæðið, sem þar kom til úrlausnar, náði að vestan frá fyrrum mörkum Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu og til austurs að mörkum Mýrdalshrepps og Skaftárhrepps, en til norðurs að nánar tilgreindum línum um Mýrdalsjökul og til suðurs að hafi. Fyrir óbyggðanefnd krafðist áfrýjandi þess að mörk þjóðlendu og eignarlanda á framangreindu svæði yrðu dregin á nánar tiltekinn hátt úr vestri frá punkti neðan við Skógafjall gegnum land jarða stefndu að Ytri-Sólheimum og áfram um Eystri-Sólheima, Fell, Holt, Álftagróf og Keldudal, en síðan að svokölluðum Stórhöfða, sem eigendur Péturseyjarjarða telja til réttinda yfir. Þaðan dró áfrýjandi kröfu sína um mörkin gegnum land Stóra-Dals, Neðri-Dals, Breiðuhlíðar, Fjóss, Kaldrananess, Stóru-Heiðar, Litlu-Heiðar, Kerlingardals I og II, Höfðabrekku, Reynisbrekku, Höfðabrekkuafréttar og Hjörleifshöfða, þar sem komið var að austurmörkum svæðisins. Eigendur jarðanna, sem hér var getið, svo og Mýrdalshreppur vegna Höfðabrekkuafréttar, andmæltu allir kröfu áfrýjanda um þjóðlendumörk, sem þeir töldu að fylgja ættu suðurjaðri Mýrdalsjökuls eins og hann yrði á hverjum tíma. Í úrskurði óbyggðanefndar 10. desember 2004 var komist að þeirri niðurstöðu að mörk þjóðlendu og eignarlanda á svæði þessu yrðu dregin eftir jaðri Mýrdalsjökuls, eins og hann var 1. júlí 1998 við gildistöku laga nr. 58/1998, en þó með þeirri undantekningu að tvö landsvæði, svokölluð Hvítmaga, sem stefndu töldu til réttinda yfir sem eigendur jarða að Ytri-Sólheimum, og fyrrnefndur Stórhöfði, væru þjóðlendur með nánar tilteknum merkjum. Útdráttur úr þessum úrskurði var birtur í Lögbirtingablaði 15. mars 2005. Stefndu, sem vildu ekki una niðurstöðu hans fyrir sitt leyti, höfðuðu mál þetta 14. september sama ár. Samhliða þessu máli er rekið fyrir Hæstarétti mál nr. 448/2006, sem eigendur Péturseyjarjarða höfðuðu á hendur áfrýjanda vegna niðurstöðu óbyggðanefndar um mörk þjóðlendu gagnvart Stórhöfða. II. Landsvæðið, sem nefnt er Hvítmaga, er afmarkað að vestan af Jökulsá á Sólheimasandi frá upptökum hennar í jaðri Mýrdalsjökuls suður eftir Jökulsárgili að Sólheimajökli við mynni gilsins, en þaðan ræður sá jökull og síðan Mýrdalsjökull mörkum landsins í austur og norður uns komið er aftur að upptökum Jökulsár. Vestan við Hvítmögu er Skógafjall, sem eigendur jarðanna Ytri-Skóga og Eystri-Skóga í Rangárþingi eystra kalla til eignarréttar yfir, en ágreiningur um mörk þjóðlendu á því svæði er til úrlausnar fyrir Hæstarétti í máli nr. 24/2007. Hvítmaga er á norðvestur horni landsins, sem stefndu telja að heyri óskipt til Ytri-Sólheimajarða í Mýrdalshreppi. Óumdeilt er að stefndu, ýmist eitt þeirra eða fleiri saman, séu þinglýstir eigendur þessara jarða, sem munu vera Ytri-Sólheimar I eða Sólheimakot, Ytri-Sólheimar II, Ytri-Sólheimar III, Ytri-Sólheimar IIIA, Ytri-Sólheimar IV, öðru nafni Framnes, Ytri-Sólheimar V, einnig nefnd Sólheimatunga, Ytri-Sólheimar VI og Sólheimahjáleiga. Land Ytri-Sólheimajarða nær að vestan að mörkum Mýrdalshrepps og Rangárþings eystra, þar sem áður voru mörk Vestur-Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu og jafnframt hreppa og landsfjórðunga. Merkjum þar við land Eystri-Skóga er lýst af stefndu frá tilteknum steini ofan við fjöru, sem einnig sé fjörumark, norður eftir farvegi og síðan gili, sem Jökulsá á Sólheimasandi mun hafa runnið um á öldum áður, þar til komið sé að mynni gilsins móts við suðvestur jaðar Sólheimajökuls. Þaðan fari merkin norður um Fjallgil vestan Litlafjalls og síðan með fjallinu til austurs um Votugjá að Jökulsá, þar sem hún rennur eftir nyrðra Jökulsárgili. Ánni sé svo fylgt þar til norðurs á mörkum Hvítmögu og Skógafjalls til upptaka hennar í Mýrdalsjökli. Að austan mun land Ytri-Sólheimajarða liggja að Péturseyjarjörðum og Eystri-Sólheimum frá hafi til Mýrdalsjökuls, en ágreiningsefni málsins varða ekki þessi merki. Samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar eru Mýrdalsjökull og Sólheimajökull þjóðlendur og ráðast mörk þeirra gagnvart landi Ytri-Sólheimajarða að norðan og vestan af stöðu jöklanna 1. júlí 1998. Þeirri niðurstöðu nefndarinnar er unað af öllum málsaðilum fyrir Hæstarétti. Ágreiningur er á hinn bóginn um hvort Hvítmaga með framangreindum merkjum heyri til eignarlands stefndu eða teljist þjóðlenda í afréttareign þeirra, svo sem óbyggðanefnd komst að niðurstöðu um. III. Samkvæmt Landnámabók nam Loðmundur hinn gamli land frá Hafursá vestur að Fúlalæk og var þess getið þar að sá lækur héti orðið Jökulsá á Sólheimasandi. Loðmundur hafi búið „í Loðmundarhvammi ok kallaði þar Sólheima“, en ekki var nánar greint frá mörkum landnáms hans. Í öðrum heimildum virðist fyrst vera rætt um jörðina í máldaga Þorláks biskups Þórhallssonar fyrir Maríukirkju á Sólheimum, sem talinn er frá árinu 1179, en samkvæmt honum átti kirkjan þar hálft land, sem ekki var lýst nánar. Það sama kom fram í máldaga Jóns biskups Indriðasonar fyrir kirkjuna frá 1340 og Gíslamáldaga frá því um 1570. Í máldaga Jóns biskups Halldórssonar fyrir Maríukirkju að Miðbæli undir Eyjafjöllum, sem talinn er frá árinu 1332, var þess getið að hún ætti „gelldfiar rekstur j huitmagafell“ og var það endurtekið í yngri máldögum fyrir þá kirkju frá því um 1371 og 1570. Af gögnum málsins verður ekki séð að heimildir séu um uppruna þessara réttinda kirkjunnar að Miðbæli í Hvítmögu eða afdrif þeirra eftir gerð síðastnefnds máldaga. Eigendur og ábúendur Ytri-Sólheima gerðu lögfestu 3. júní 1789, þar sem merkjum jarðarinnar var lýst meðal annars með eftirfarandi orðum: „Landamerkin eru ad vestannverdu Jökulsáar gamli Farvegur frá Sjó og nordurí Jökul“. Í vitnisburði frá 18. desember 1792 greindi Jón Guðmundsson frá því að hann hefði selt Sveini Alexanderssyni og Eyjólfi Alexanderssyni „allt þad eg atte i Jördunne Ϋtre Sólheimumm“, en „effter þui j á minnstu Brefe eru ei á Nafn nefnd þau Jtök sem Ϋtre Solheimumm fÿlgia, verd eg á þad ad minnast svo Kaupendur vite hvad þeir meiga med friálsu bruka og er þad fÿrst Gield Fiár og Lamba Afriettur kallad Hvÿtmaga“. Fyrir liggur að umráðamaður Eystri-Skóga gerði lögfestu 24. apríl 1796, þar sem merkjum jarðarinnar til austurs mun hafa verið lýst á þann hátt að þau réðust af Jökulsá. Sami maður gerði yfirlýsingu 26. mars 1799 um ógildingu þessarar lögfestu, enda hafi hann sökum ókunnugleika gengið með henni á land Sólheima. Neðan við þessa yfirlýsingu var á sama skjali bætt við lýsingu á vesturmörkum Ytri-Sólheima, sem var undirrituð 27. maí 1799 meðal annars af áðurnefndum Sveini Alexanderssyni og Eyjólfi Alexanderssyni. Þar var lýst steini, sem réði mörkum í fjöru, en „frá nefndum Fjöru Marksteini ad sunnann rædur Jökuls Ár gamle Farvegur, upp med Öldu mille Skógaheide og Hestaþíngs Háls nordur ad Jokle.“ Samkvæmt því, sem komið hefur fram í málinu, munu eigendur Ytri-Sólheima og Eystri-Sólheima hafa undirritað skjal 10. júní 1865, þar sem vesturmörkum fyrrnefndu jarðarinnar var lýst á sama hátt og í áðurnefndri lögfestu 3. júní 1789. Þá er þess að geta að eigendur Ytri-Skóga og Ytri-Sólheima gerðu markalýsingu 14. júní 1885, þar sem sagði að „mark milli afrjettanna, ytri Skóga hverra afrjettur kallaður er Skógafjall, og ytri Sólheima, sem kallaður er Hvítmaga, er Jökulsárgil, sem Jökulsá rennur nú framúr, og hefur runnið svo lengi sem elstu menn muna til.“ Loks skráðu eigendur Eystri-Skóga og Ytri-Sólheima landamerki jarðanna 9. nóvember 1885, þar sem tilgreint var að þau réðust við hafið af steini, sem hafður væri fyrir fjörumark, en „úr honum er bein lína í Jökulsárgil, svo ræður gilið upp undir svonefnt Skóga-fjall þá liggur merkjalínan austur úr votugjá, fyrir framan Skóga-fjall og austur í gilgljúfrið sem er á milli Hvítmögu og Skógafjalls, svo ræður áin sem er í síðastnefndu gljúfri marki norður í jökul.“ Í jarðamati frá 1804 var um Ytri-Sólheima greint frá því að „Jorden har Afret eller fraliggende Sommer Græsgang for 240 golde Faar“, en ekki var tiltekið nánar hvar þetta væri. Í gerðabók jarðamatsnefndar frá 1849 var á hinn bóginn tekið fram að „afrétt í svonefndri Hvítmögu á jörðin nægan fyrir sig“. Í báðum þessum heimildum var getið um engja- eða mýrarítak, sem Ytri-Sólheimar ættu í landi Hvols í Dyrhólahreppi. Deilur virðast hafa risið um það ítak, svo og um réttindi, sem eigendur Hvols töldu sig eiga til upprekstrar í Hvítmögu, en af gögnum málsins verður ekki ráðið hvernig þau réttindi kunna að hafa stofnast. Sátt var gerð um þennan ágreining 4. október 1865, þar sem ákveðið var að „Sólheimíngar afsala Hvola mönnum allri hálfri Hvítmögu ... en þar á móti afsala Hvola menn Sólheimíngum hálfri Sólheima mýri til slægna“. Þrátt fyrir þessa sátt reis á ný ágreiningur um upprekstur í Hvítmögu, sem lokið var 21. apríl 1900 með annarri sátt sama efnis. Eigendur Hvolsjarða og Ytri-Sólheimajarða gerðu loks samning 5. júlí 1922 „um þau ítök, sem fylgt hafa eignarjörðum vorum“, en þau væru annars vegar ítak þeirra fyrrnefndu, sem væri „upprekstur í Hvítmögu í Sólheimalandi“, og hins vegar þeirra síðarnefndu, „slægja í Sólheimamýri í Hvolslandi.“ Í samningnum var kveðið á um að þessi réttindi hvorra um sig féllu niður án frekara endurgjalds. IV. Í áðurgreindu landamerkjabréfi frá 9. nóvember 1885, sem gert var af eigendum Eystri-Skóga og Ytri-Sólheima, var merkjum jarðanna lýst þannig að þau væru í beinni línu frá tilteknum steini í fjöru að syðra Jökulsárgili, sem Jökulsá á Sólheimasandi rann áður eftir, að Skógafjalli til norðurs réði gilið svo merkjum, sem færu eftir það í austur fyrir framan fjallið um Votugjá í nyrðra Jökulsárgil, en þaðan lægju merkin um ána í gilinu allt norður í Mýrdalsjökul. Eftir þessari lýsingu er Hvítmaga innan merkja Ytri-Sólheimajarða. Þetta landamerkjabréf var gert í samræmi við ákvæði þágildandi landamerkjalaga nr. 5/1882, áritað af eigendum jarðanna, sem áttu land saman, þinglesið og fært í landamerkjabók. Það hefur því sönnunargildi um mörk eignarlands Ytri-Sólheimajarða. Til þess verður á hinn bóginn að líta að ekki var á valdi þeirra, sem stóðu að landamerkjabréfinu, að auka með því við land sitt eða annan rétt umfram það, sem áður var. Gegn andmælum áfrýjanda nægir landamerkjabréfið því ekki eitt og sér til að sanna beinan eignarrétt stefndu að Hvítmögu, heldur verða önnur atriði að koma til, sem stutt geta sömu niðurstöðu. Er þetta í samræmi við það, sem ítrekað hefur verið í dómum Hæstaréttar í málum varðandi mörk þjóðlendna og eignarlanda, sbr. meðal annars dóm í máli nr. 48/2004, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 3796. Í greinargerð um rannsókn sérfræðings, sem gerð var að tilhlutan óbyggðanefndar, er staðháttum og gróðurfari á svæðinu, sem málið varðar, lýst þannig að neðanverðar Sólheimaheiðar séu aflíðandi upp undir jökulrönd og séu þar víðáttumiklar valllendisbrekkur. Víða séu heiðarnar rofnar eftir uppblástur, en milli rofabarða sé land að nokkru mosagróið að nýju. Þegar ofar dragi taki við mosaþembugróður, gjarnan með grösum og störum, og sé það allgott beitarland, en þegar lengra sé haldið verði gróður einsleitari. Heiðarnar séu að jafnaði hálfgrónar upp undir 400 m hæð, en eftir það verði gróður gisnari og hverfi víða í 600 til 700 m hæð. Hvítmaga sé hálfgróið fjalllendi í 300 til 900 m hæð og gróðurfar þar svipað og áður var lýst. Af öðrum gögnum málsins verður ráðið að syðsti hluti Hvítmögu er í tæplega 10 km fjarlægð frá hafi í beinni loftlínu og er þetta landsvæði mest um 8 km að lengd til Mýrdalsjökuls og um 2 km að breidd. Frá bæjarstæði þeirrar af jörðum stefndu, sem næst er Hvítmögu, eru um 5½ km í beinni loftlínu þangað. Þótt engar heimildir séu í málinu um að byggð hafi nokkru sinni verið á þessu landi eða það haft til teljandi annarra nota en beitar fyrir búfénað mæla hvorki staðhættir né gróðurfar gegn því að það hafi verið numið, að minnsta kosti að einhverju leyti, og beinn eignarréttur þannig stofnast að því. Eins og aðstæður eru nú nær Sólheimajökull til suðurs úr Mýrdalsjökli og síðan í vestur fast að merkjum Ytri-Sólheimajarða við land Eystri-Skóga, eins og þeim er lýst í fyrrgreindum heimildum. Jökullinn skilur Hvítmögu nær alveg frá öðru landi, sem stefndu telja til réttinda yfir. Í greinargerð um jökla og jökulbreytingar í Mýrdal, sem gerð var fyrir óbyggðanefnd, kemur meðal annars fram að Sólheimajökull sé frábrugðinn flestum öðrum jöklum hér á landi, því gagnstætt honum hafi þeir verið miklu minni við landnám en nú er, en líklegast sé að sérstaða hans stafi af eldgosum í Kötlu, Kötluhlaupum og landslagsbreytingum á eldstöðinni. Getið er í greinargerðinni um rannsóknir Þorvalds Thoroddsen á sporðum Mýrdalsjökuls og Sólheimajökuls sumarið 1893, en hann hafi „haft upplýsingar um breytingar á sporði Sólheimajökuls sem ekki eru allar tilgreindar í ritum hans. Árið 1783 náði jökulsporðurinn ekki fram fyrir kjaft Jökulsárgils og rann Jökulsá þá ekki undir jökul heldur beint fram úr gilinu. Þorvaldur getur ekki heimildar fyrir þessu en greinilegt er af lýsingu Jóns Steingrímssonar frá 1788 ... að þá var Sólheimajökull miklu styttri en tæpri öld áður. Þá hefur verið gengt af sandinum upp í Hvítmögu ... eins og síðar varð í nokkur ár upp úr miðri 20. öld. Árið 1860 stóð jökulsporðurinn miklu framar, stíflaði gilið og huldi Jökulhaus. Þorvaldur segir jökuljaðarinn 1893 hafa hopað mikið frá því 1860.“ Einnig er greint frá því að Sólheimajökull hafi hopað alls um 1 km frá 1930 til 1969, gengið síðan fram um 500 m á næsta aldarfjórðungi, en hopað ört eftir það. Eftir gögnum málsins er elsta heimildin um vesturmörk Ytri-Sólheimajarða í áðurgreindri lögfestu 3. júní 1789. Merkin voru þar sögð vera „Jökulsáar gamli Farvegur frá Sjó og nordurí Jökul“. Í málinu er deilt um hvort jökullinn, sem hér um ræðir, hafi verið Mýrdalsjökull, svo sem stefndu halda fram, eða Sólheimajökull, sem áfrýjandi telur að átt hafi verið við. Samkvæmt þeim heimildum um jökla á svæðinu, sem að framan er getið, virðist Sólheimajökull hafa náð talsvert skemur niður á láglendi til vesturs og suðurs á þeim tíma, sem lögfesta þessi var gerð, en síðar varð. Ef þá hefur verið gengt af láglendi norður í Hvítmögu án þess að jökullinn hafi þar verið til fyrirstöðu getur þessi lýsing merkjanna ekki hafa endað í Sólheimajökli til norðurs. Það gætu þau reyndar heldur ekki gert eins og staðhættir eru nú, enda er sporður jökulsins í nokkurri fjarlægð austan við norðurenda Jökulsárgilsins syðra. Orðalag lögfestunnar um gamlan farveg Jökulsár getur í einu lagi tekið til syðra Jökulsárgils, sem áin mun hafa hætt að renna eftir kringum árið 1690, og nyrðra gilið, sem áin mun um ómunatíð hafa verið í, eins og nú er. Fyrrgreind yfirlýsing 27. maí 1799, sem eigendur Ytri-Sólheima virðast hafa staðið að og rituð var á sama skjal og yfirlýsing umráðamanns Eystri-Skóga um afturköllun lögfestu hans frá 24. apríl 1796, lýsir merkjunum með svipuðu orðalagi. Eins og skjal þetta var úr garði gert má ætla að sammæli hafi þá verið um þessi merki jarðanna. Þegar þetta allt er virt hníga rök að því að endamörk landamerkjanna, sem greint var frá í þessum skjölum, hafi verið í Mýrdalsjökli en ekki Sólheimajökli. Í úrskurði óbyggðanefndar var fallist á með stefndu að land austan Sólheimajökuls væri háð beinum eignarrétti þeirra allt til Mýrdalsjökuls og vesturmerkja Eystri-Sólheima. Að því er varðar gróðurfar og staðhætti að öðru leyti verður ekki séð hvað mæli með að litið verði svo á að staðnæmst hefði verið við landnám þegar komið var að Hvítmögu ef Sólheimajökull hefur þá ekki sett því landfræðileg takmörk. Ekki liggja fyrir nein gögn til að taka af skarið um hvort svo hafi verið þegar land var numið. Óumdeilt er í málinu að mörk sveitarfélaga og landsfjórðunga hafi að fornu og nýju fylgt þeim farvegi, sem Jökulsá rann eftir fram að 18. öld, allt frá hafi til Mýrdalsjökuls. Engin haldbær skýring getur verið á því að mörkin hafi verið dregin á þennan hátt en ekki að jaðri Sólheimajökuls ef Hvítmaga, sem um aldir var háð ítaksréttindum kirkju í næsta landsfjórðungi að minnsta kosti frá því á 14. öld, taldist ekki til eignarlands Ytri-Sólheima. Gegn þessu getur ekki ráðið úrslitum að Hvítmaga hafi í ýmsum áðurgreindum heimildum frá 18. og 19. öld verið nefnd afréttur Ytri-Sólheima. Að öllu þessu athuguðu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest. Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað stefndu fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, Andrínu Guðrúnar Erlingsdóttur, Benedikts Bragasonar, Einars Guðna Þorsteinssonar, Tómasar Ísleifssonar, Sigrúnar Ragnheiðar Ragnarsdóttur, Þrastar Óskarssonar, Einars Þorsteinssonar, Eyrúnar Sæmundsdóttur, Óskars Sigurðar Þorsteinssonar, Sigríðar Þorsteinsdóttur, Sigrúnar R. Þorsteinsdóttur, Hildigunnar Þorsteinsdóttur, Kristínar Þorsteinsdóttur, Þorsteins Magnússonar, Ólafs Þorsteinssonar, Elínar Einarsdóttur og Magnúsar Þórs Snorrasonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, 500.000 krónur. Dómur Héraðsdóms Suðurlands 14. júlí 2006. Mál þetta, sem dómtekið var 19. maí s.l., er höfðað með stefnu birtri 14. september s.l. Stefnendur eru Andrína Guðrún Erlingsdóttir kt. 220571-4599 og Benedikt Bragason kt. 030963-5399, Ytri- Sólheimum I, Mýrdalshreppi, eigendur Ytri-Sólheima I (Sólheimakots), Einar Guðni Þorsteinsson kt. 061258-5749, Ytri-Sólheimum II, Mýrdalshreppi, eigandi Ytri-Sólheima II, Tómas Ísleifsson kt. 030748-2769, Ytri-Sólheimum III, eigandi Ytri-Sólheima III, Þröstur Óskarsson kt. 300363-7849, Framnesi, Mýrdalshreppi, eigandi Ytri-Sólheima IV (Framnes), Einar Þorsteinsson kt. 310828-3279 og Eyrún Sæmundsdóttir kt. 060634-7699, Sólheimatungu, Mýrdalshreppi, eigendur Ytri-Sólheima V (Sólheimatungu), Óskar Sig. Þorsteinsson kt. 291266-3719, Ytri-Sólheimum VI, Mýrdalshreppi, eigandi Ytri-Sólheima VI, Sigríður Þorsteinsdóttir kt. 220441-2299, Álfkonuhvarfi 29, Kópavogi, Sigrún R. Þorsteinsdóttir kt. 260245-3179, Þýskalandi, Hildigunnur Þorsteinsdóttir kt. 020246-3249, Vesturási 32, Reykjavík, Kristín Þorsteinsdóttir kt. 120348-3379, Eyjabakka 6, 109 Reykjavík, og Ólafur Þorsteinsson, kt. 180450-4919, Eystri-Sólheimum, Mýrdalshreppi, eigendur Ytri-Sólheima IIIA, og Elín Einarsdóttir kt. 080367-4069 og Magnús Þór Snorrason kt. 180666-4279, Sólheimahjáleigu, eigendur Sólheimahjáleigu. Stefndi er íslenska ríkið og fyrir hönd þess er fjármálaráðherra stefnt. Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi: Að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar í málinu nr. 6/2003: Mýrdalshreppur, frá 10. desember 2004, að því er varðar þjóðlendu á landsvæði sem nefnt er Hvítmaga og er innan neðangreindra marka: Frá upptökum Fúlalækjar (Jökulsár á Sólheimasandi), við suðvestanverðan Mýrdalsjökul, fylgir línan ánni þangað sem hún rennur undir Sólheimajökul. Frá þeim punkti fylgir línan vesturjaðri Sólheimajökuls norður að Mýrdalsjökli og svo jaðri Mýrdalsjökuls að upptökum Fúlalækjar. Þá er krafist viðurkenningar á því að á Hvítmögu innan framangreindra merkja sé engin þjóðlenda. Við meðferð málsins var fallið frá þeirri kröfu stefnenda að felldur yrði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar í ofangreindu máli að því er varðar mörk lands Ytri–Sólheima og Eystri-Sólheima gagnvart þjóðlendu á jökli og jafnframt var fallið frá þeirri kröfu að mörk lands stefnenda frá upptökum Fúlalækjar til upptaka Klifanda gagnvart þjóðlendu á Mýrdalsjökli, Sólheimajökli og Klifurárjökli yrði við jökuljaðar eins og hann er á hverjum tíma. Stefnendur krefjast þess að þeim verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnda samkvæmt mati dómsins eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en stefnendur fengu gjafsókn í máli þessu með leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis dagsettu 17. febrúar s.l. Dómkröfur stefnda eru þær að staðfestur verði úrskurður óbyggðanefndar frá 10. desember 2004 í máli nr. 6/2003 hvað varðar eignarréttarlega stöðu svonefndrar Hvítmögu vestan Sólheimajökuls, sem þjóðlendu og stefndi þannig sýknaður af kröfum stefnenda. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu. Málavextir. Málavöxtum er þannig lýst í stefnu að land Sólheimajarða nái allt frá sjó í suðri til jökuls í norðri og afmarkist að vestan af sýslumörkum Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu sem séu í gömlum farvegi vestan við Jökulsá á Sólheimasandi, vestur fyrir Litla-fjall, sem sé neðan Skógafjalls, eftir Votugjá að Jökulsá þar sem hún renni undir Sólheimajökul og um Jökulsárgil til Mýrdalsjökuls og að austan af landamörkum Péturseyjarjarða, skammt vestan Péturseyjar, og af landamörkum Eystri-Sólheima. Mörk Ytri-Sólheima og Eystri-Sólheima séu um læk í Merkigili og frá upptökum lækjarins á Sólheimaheiði sé markið til hánorðurs í jökul, en úr því að lækurinn kemur niður á aurinn á jafnsléttu sé markið bein sjónhending úr fossinum í Merkigili suður í Eyjarhólm og sé varða hlaðin í Merkiaur í þeirri stefnu þar sem komi saman mark í milli Péturseyjar og Ytri-Sólheima og fossarnir í Merkigili beri saman. Landið sé allt samfellt og allt í óskiptri sameign en aðeins lítill hluti þess sé skiptur, þar sem Ytri-Sólheimabæirnir standi á Sólheimanesi. Sólheimajökull skríði langt suður í landið og loki af beitarland á og við Hvítmögu en það hafi þó ekki komið í veg fyrir að fé hafi gengið yfir jökulsporðinn enda auðveldur yfirferðar og ekki breiður. Sólheimaland hafi numið Loðmundur gamli en í Landnámu standi: „Loðmundr enn gamli nam land milli Hafrsár ok Fúlalækjar, sem fyrr er ritat; þat er þá hét Fúlalækr, er nú kölluð Jökulsá á Sólheimasandi, er skilr landsfjórðunga“. Sé þessi texti skilinn eins og hann er skrifaður sé ljóst að ritari Landnámu hafi talið að allt land sunnan Mýrdalsjökuls milli Hafursár og Jökulsár hafi verið numið af Loðmundi. Ekki sé til þinglýst landamerkjaskrá fyrir Ytri-Sólheima en aftur á móti sé til þinglesin landamerkjaskrá Ytri-Skóga frá 9. nóvember 1885 en í henni komi eftirfarandi fram: Allir eigendur og ábúendur Ytri-Sólheima muni hafa undirritað skrána til samþykkis. Með bréfi dagettu 12. október 2000 var fjármálaráðherra tilkynnt með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998 að óbyggðanefnd hefði á fundi ákveðið að taka til meðferðar sem svæði 3 landsvæðið vestan sveitarfélagsins Hornafjarðar. Þetta svæði afmarkaðist til austurs af austurmörkum jarðarinnar Núpsstaðar í Fljótshverfi og að sunnan afmarkaðist svæðið af hafinu, til norðurs í samræmi við tillögu starfshóps um stjórnsýslumörk á miðhálendinu frá 1996, en á Vatnajökli við línu þá sem samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendis Íslands hefur notað við vinnu sína. Til vesturs náði kröfusvæðið að kröfusvæði 1, Árnessýslu. Fjármálaráðherra var veittur frestur til að lýsa kröfum sínum um þjóðlendur á svæðinu og eftir að kröfulýsingum hafi verið skilað var landeigendum og öðrum rétthöfum veittur frestur til að skila inn kröfugerðum. Stefnendur í máli þessu sendu inn kröfur til óbyggðanefndar um höfnun þjóðlendukrafna ríkisins og kröfðust viðurkenningar á því að allt land Ytri-Sólheima innan þinglýstra merkja væri eignarland þeirra, þar á meðal Hvítmagan. Stefnendur tóku þátt í málarekstri fyrir óbyggðanefnd, en sérstakt mál var rekið um þjóðlendur í Mýrdalshreppi sem mál nr. 6/2003. Í úrskurði óbyggðanefndar frá 10. desember 2004 í ofangreindu máli segir að óbyggðanefnd telji að allt land Ytri-Sólheima að jökli sé eignarland en ekki þjóðlenda en nefndin taldi Hvítmöguna ekki innan eignarlandsins og vera þjóðlendu. Í úrskurði óbyggðanefndar segir m.a.: „Í lögfestu Ytri-Sólheima frá 1689 er vesturmerkjum lýst um Jökulsár gamla farveg frá sjó og norður í jökul. Sem að framan greinir telur óbyggðanefnd eðlilegt að líta svo á að hér sé átt við Sólheimajökul. Með vísan til þessa telur óbyggðanefnd að skilja verði lögfestuna svo að Hvítmaga falli samkvæmt henni utan við eiginleg landamerki jarðarinnar“. Þá segir einnig: „Þegar fjallað er um Hvítmögu í heimildum er það í tengslum við upprekstur og afréttarnot. Það bendir ekki til þess að litið hafi verið á Hvítmögu sem hluta af landi Ytri-Sólheima. Þá liggja engin gögn fyrir um að Hvítmaga hafi nokkurn tíma verið nýtt til annars en sumarbeitar fyrir búfé. Enn fremur liggur ekkert fyrir um hvenær eða hvernig til réttinda Ytri-Sólheima yfir þessu landsvæði var stofnað, en sem að framan greinir er Hvítmögu getið sem afréttar Maríukirkjunnar á Miðbæli í elstu heimildum. Stefnendur undu ekki þessari niðurstöðu óbyggðanefndar og krefjast því ógildingar úrskurðarins að því er hið umdeilda landsvæði varðar. Útdráttur úr úrskurði óbyggðanefndar í málinu nr. 6/2003 sem kveðinn var upp 10. desember 2004, var birtur í Lögbirtingablaðinu 15. mars 2005, svo sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 58/1998. Stefnendur segjast höfða mál þetta með stoð í 19. gr. sömu laga. Málsástæður og lagarök stefnenda. Stefnendur halda því fram að land þeirra, sem kallað er Hvítmaga, sé eignarland í skilningi 1. gr. þjóðlendulaga nr. 58/1998 þar sem eignarland er skilgreint þannig að það sé landsvæði þar sem eigandi landsins fari með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma. Þjóðlenda sé hins vegar landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi. Það hafi því ekki verið rétt af óbyggðanefnd að telja ofangreint landsvæði þjóðlendu. Stefnendur telja að Hvítmaga hafi verið hluti Landnáms Loðmundar gamla en það náði milli sjávar og jökuls allt frá Jökulsá í Jökulsárgili til Hafursár. Eignarréttur hafi þannig stofnast við landnám og er ekki hægt að ætla annað en það hafi verið fullkominn eignarréttur. Engin rök séu fyrir því að ætla að hluti lands, sem var á einni hendi um aldir, hafi verið skilinn frá og talinn einungis undirorpinn afnotarétti. Slíkt væri hugsanlegt ef um almenning eða samnotaafrétt margra jarða eða heillar sveitar væri að ræða, sem sé ekki í þessu tilviki. Stefnendur telja að þinglýstar heimildir beri með sér að Hvítmaga hafi verið hluti Sólheimalands skv. fyrrgreindum þinglýstum landamerkjaskrám og lögfestum og óbyggðanefnd hafi ranglega ályktað að Jökulsárfarvegur hinn gamli sé þar sem Sólheimajökull er nú. Jökulsárfarvegur gamli sé einmitt þar sem er Jökulsárgil en þar hafi Jökulsá runnið úr Mýrdalsjökli og þar séu mörk Skógafjalls og Hvítmögu. Ef menn hafi ætlað að mörk eignarlands Sólheima hafi verið við eða á Sólheimajökli, hefði þess örugglega verið getið í landamerkjalýsingum. Sýslumörk hafi ætíð verið sett um Jökulsárgil og þau hafi verið miðuð við landamerkjalýsingar. Þá hafi það verið um ómunatíð skilningur landeigenda beggja vegna Jökulsárgils að þar væru mörk Skógajarða og Ytri-Sólheima. Í úrskurði óbyggðanefndar sé lítið gert úr landamerkjaskrá Ytri-Skóga frá 1885 sem geti þó haft afgerandi þýðingu við túlkun á því hvar vesturmörk Ytri-Sólheimalands eru. Beri að gæta sérstaklega að lýsingunni: „...þá liggur merkjalínan austur úr Votugjá, fyrir sunnan Skógafjall og austur í gilgljúfrið sem er á milli Hvítmögu og Skógafjalls, svo ræður áin sem er í síðastnefndu gljúfri marki norður í jökul“. Þarna sé Jökulsárgil ofar sporði Sólheimajökuls talið vera á landamerkjum og eigendur Ytri-Sólheima undirrita landamerkjaskrána til staðfestingar. Engu breyti þótt skömmu síðar hafi eigendur Ytri-Skóga og Ytri-Sólheima lýst þessum merkjum sem merkjum á milli afrétta sinna. Það segi aðeins til um notkun en ekki eignarrétt og augljóst að engir aðrir en eigendur Ytri-Sólheima hafi verið eigendur afréttarins. Stefnendur telja lögfestuna fyrir Ytri-Sólheima frá 1789 hafa heilmikla þýðingu um eignarrétt Sólheima. Merkjum sé lýst þannig að merkin séu eftir Jökulsá „norður í jökul“ sem bendi til þess að átt sé við að þau séu allt til upptaka Jökulsár í Mýrdalsjökli. Þá sé hvergi minnst á Hvítmögu sérstaklega, sem bendi til þess að hún sé innan marka eignarlandsins. Þá telja stefnendur makaskipti Hvolajarða og Sólheimajarða á beitarlandi í Hvítmögu og slægjulandi í Sólheimamýri í Hvolalandi staðfesta ótvíræðan eignarrétt Sólheimajarða á Hvítmögu. Þessi makaskipti hafi þjónað gagnkvæmum hagsmunum Hvolajarða og Sólheima, Hvolajarðir hafi vantað upprekstur í heiðaland og Sólheimajarðir skort slægjur á mýrlendi. Tilvist ítaks á sínum tíma bendi fremur fremur til þess að svæði það sem ítakið er á sé eða hafi einhvern tíma verið eignarland. Komi þetta fram í úrskurðum óbyggðanefndar og svo í þeim dómum sem gengið hafi um þjóðlendur. Ekki sé um afréttarítak að ræða, þ.e. rétt jarðar til upprekstrar á afrétt, ella hefðu Hvolamenn ekki þurft að leita samninga eða hafa makaskipti á réttindum. Sólheimajarðir hafi fengið slægjur í eignarlandi Hvolajarða og ætla megi að makaskiptin næðu til sambærilegra réttinda. Ekki ráði úrslitum í máli þessu þótt víða í heimildum sé notað orðið afréttur um landið í Hvítmögu. Afréttur geti verið heimaafréttur og ekki eingöngu notaður til sumarbeitar sauðfjár. Þá ráði ekki úrslitum um eignarhald þótt land sé aðeins notað til sumarbeitar eins og fram sé komið í dómi Hæstaréttar í máli nr. 48/2004: „Að undanteknu landinu næst þessum hreppamörkum er svæðið norðan kröfulínu aðaláfrýjanda, þegar litið er til þess í heild, ekki svo hálent eða gróðursnautt að það geti talist hafa sett landnámi einhver augljós mörk. Í ljósi þessa verður ekki lagt á stefndu að sýna frekar fram á það en gert hefur verið að land norðan við kröfulínur aðaláfrýjanda hafi almennt verið numið þannig að það hafi verið nýtt með öðrum hætti en til takmarkaðra afnota yfir sumarmánuðina eins og aðaláfrýjandi heldur fram að hafi verið. Geta úrslit málsins ekki ráðist af skorti á sönnun um þetta atriði“. Málsástæður og lagarök stefnda. Stefndi vísar til heimilda um landnám og heldur því fram að afmörkun kröfulínu gagnvart Hvítmögu fylgi landnámsmörkum, en ekki þurfi nám til þess að geta nýtt land til beitar og því hverfandi líkur á að land utan byggðar hafi verið numið. Er á því byggt að afréttarlönd séu að meginstefnu til utan eignarlanda og sé hið umdeilda svæði hálendissvæði, sem sé landfræðilega aðskilið frá þeim jörðum sem það hafi nýtt. Séu engar heimildir til um að svæðið sé eða hafi verið hluti af eignarjörð. Þannig hafi Ólafskirkja að Ásólfsskála, Maríukirkjan á Miðbæli og Hvoll talið til réttinda þar á undan Ytri-Sólheimingum. Sé landið þannig dæmigert afréttarland í þjóðlendu og bendir stefndi á landamerkjabréf frá 14. júní 1885 þar sem lýst sé mörkum milli afréttannaytri Skóga hverra afréttur er kallaður Skógarfjall, og ytri Sólheima, sem kallaður er Hvítmaga. Á tíma Grágásar og Jónsbókar hafi enginn vafi leikið um á um hvað geldfjár- og lambaafréttur merkti. Það hafi verið sumarbeitilönd tilheyrandi ákveðnum jörðum eða kirkjum og hafi verið undirorpin óbeinum eignarrétti. Í tilefni af Hæstaréttardómi um þjóðlendur í Biskupsstungum skerpir stefndi á atriðum sem byggt hafi verið á í þjóðlendumálum og Hæstiréttur virðist taka undir að því er varði hálendið milli Laugardalsafréttar og Úthlíðar. Þar sé t.d. lögð áhersla á að land í mikilli hæð yfir sjó og illa gróið sé ólíklegt til að vera eignarland. Það liggi fyrir að Hvítmaga sé gróðurlítið hálendi með jökul á aðra hlið og landfræðilega ekki tengt landi stefnenda, þótt styst sé þangað en til annars undirlendis. Stefndi byggir á þeirri niðurstöðu óbyggðanefndar að af hálfu eigenda Ytri-Sólheima hafi ekki verið sýnt fram á að Hvítmaga væri eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti. Þá hafi ekki verið sýnt fram á að eignarhefð hafi verið unnin á landinu eins og notkun þess hafi verið háttað. Þá leiði rannsókn óbyggðanefndar enn fremur til þeirrar niðurstöðu að þar sé þjóðlenda. Stefndi vísar til þjóðlendulaga nr. 58/1998, laga um afréttarmálefni og fjallskil nr. 6/1986 og landamerkjalaga nr. 41/1919 og eldri laga frá 1882. Þá er vísað til ákvæða lögbókanna Grágásar og Jónsbókar sem fjalla um afréttarmál. Niðurstaða. Með lögum nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, sem tóku gildi 1. júlí 1998, var sérstakri stjórnsýslunefnd, óbyggðanefnd, falið að kanna og skera úr um hvaða landsvæði innan íslenska ríkisins teljist til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna, sbr. 7. gr. laganna. Með bréfi dagsettu 12. október 2000 tilkynnti nefndin fjármálaráðherra að tekin yrðu til meðferðar nánar tilgreind landsvæði í Vestur-Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu, þ.e.a.s. vestan sveitarfélagsins Hornafjarðar og austan Þjórsár, sbr. 8. gr. og 1. mgr. 10. gr. laganna, en þetta svæði var hið þriðja sem til meðferðar kom hjá nefndinni. Að fengnum kröfulýsingum fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins gerðu stefnendur í máli þessu, eigendur Ytri-Sólheimajarða, þá kröfu fyrir nefndinni að allt land Ytri-Sólheima, þar á meðal Hvítmagan væri eignarland þeirra. Mál, sem varðaði svæði í Mýrdalshreppi, var rekið sem mál nr. 6/2003 hjá nefndinni og var úrskurður kveðinn upp 10. desember 2004. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að sá hluti Mýrdalsjökuls, sem til meðferðar var í málinu, þ.e.a.s. Hvítmaga og Stórhöfði, teldist þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laganna. Er nánari grein gerð fyrir afmörkun þessa landsvæðis í úrskurðarorði. Þá var komist að þeirri niðurstöðu að hlutar framanlýsts landssvæðis, þ.e. Hvítmaga og Stórhöfði, væru í afréttareign og var Hvítmaga talin í afréttareign eigenda Ytri-Sólheima, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. laganna. Er landsvæðið að því er Hvítmögu varðar þannig afmarkað í úrskurðarorði: Útdráttur úr úrskurði óbyggðanefndar í málinu nr. 6/2003 var birtur í Lögbirtingablaðinu 15. mars 2005, og er mál þetta því höfðað innan lögmælts málshöfðunarfrests, sbr. 19. gr. þjóðlendulaga. Samkvæmt framansögðu hefur óbyggðanefnd komist að þeirri niðurstöðu að Hvítmaga sé þjóðlenda í afréttareign stefnenda, eigenda Ytri-Sólheimajarða. Stefnendur krefjast þess að á Hvítmögu innan framangreindra merkja sé engin þjóðlenda en fallist er á þá niðurstöðu óbyggðanefndar að mörk lands stefnenda frá upptökum Hafursár til upptaka Lambár gagnvart þjóðlendu á Mýrdalsjökli verði við jökuljaðar eins og hann er á hverjum tíma. Af hálfu stefnda er krafist staðfestingar á úrskurði óbyggðanefndar. Ekki virðist því ágreiningur um mörk hins umdeilda svæðis. Í 1. gr. þjóðlendulaga er eignarland þannig skilgreint að um sé að ræða landsvæði sem háð sé eignarrétti þannig að eigandi landsins fari með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segi til um á hverjum tíma. Þá er þjóðlenda þannig skilgreind að um sé að ræða landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi. Afréttur er skilgreindur sem landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé. Í Landnámu kemur fram að Loðmundur gamli hafi numið land milli Hafursár og Fúlalækjar, en Fúlilækur mun nú vera Jökulsá á Sólheimasandi. Stefnendur halda því fram að Hvítmagan hafi verið hluti þessa landnáms Loðmundar. Hafi fullkominn eignarréttur stofnast við landnám og engin rök fyrir hendi sem bendi til þess að hluti lands, sem verið hafi á einni hendi um aldir, hafi verið skilinn frá og einungis undirorpinn afnotarétti. Stefndi heldur því hins vegar fram að kröfulína íslenska ríkisins fylgi landnámsmörkum og byggir á því að ekki hafi þurft nám til þess að geta nýtt land til beitar og því hverfandi líkur á að land utan byggðar hafi verið numið. Er á því byggt að meginstefnu til að afréttarlönd séu utan eignarlanda. Fram er komið í málinu að eigendur Ytri-Sólheimajarða hafi um aldir nýtt Hvítmögu til beitar og þá hefur verið lýst hér að framan deilum og síðar samningum eigenda Hvola- og Ytri-Sólheimajarða um gagnkvæma nýtingu beitarlands á Hvítmögu og slægjulands í Sólheimamýri. Dómarinn fór á vettvang ásamt lögmönnum aðila og kynnti sér aðstæður. Frá bæjarstæði Ytri-Sólheimajarða að suðurodda Hvítmögu er bein loftlína um 5-6 km, en Sólheimajökull rýfur tengsl jarðanna við hið umdeilda landsvæði. Er skriðjökullinn u.þ.b. 1 km að breidd og skríður til suðurs og síðan til suðvesturs úr Mýrdalsjökli, u.þ.b. 7-8 km. Í almennum niðurstöðum óbyggðanefndar í málunum nr. 1-7/2000 og 1-5/2001 er komist að þeirri niðurstöðu að tilvist ítaks bendi fremur til þess að svæði það sem ítakið sé á sé eða hafi einhvern tíma verið eignarland. Nefndin telur hins vegar að hér sé um svonefnt afréttarítak að ræða, þ.e. rétt jarðar til upprekstrar á afrétt, sem tilheyri annarri jörð. Geti slík ítök verið hvort heldur sem er í afréttum sem undirorpnir séu beinum eignarrétti eða afréttum sem séu í afréttareign. Óbyggðanefnd taldi ekki unnt að útiloka að Hvítmaga sé innan upphaflegs landnáms á þessu svæði eða hafi á annan hátt orðið undirorpin beinum eignarrétti, en ekkert liggi fyrir um hvernig Ytri-Sólheimajarðir séu að þessu landsvæði komnar. Þá telur nefndin að fyrirliggjandi gögn bendi heldur til afréttareignar en beins eignarréttar, enda liggi engin gögn fyrir um að Hvítmaga hafi nokkurn tíma verið nýtt til annars en sumarbeitar fyrir búfé. Í dómi Hæstaréttar 21. október 2004 í máli nr. 48/2004, tók rétturinn almenna afstöðu til mats á gildi landamerkjabréfa og því hvert væri inntak eignarréttar á svæði, sem í þeim væri lýst. Var þar sagt að almennt skipti máli hvort um væri að ræða jörð eða annað landsvæði, en þekkt væri að landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir jarðir, heldur einnig til dæmis afrétti, sem ekki tengist sérstaklega tiltekinni jörð. Var þar sagt að landamerkjabréf fyrir jörð fæli almennt í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland væri að ræða þótt jafnframt yrði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega. Þá var talið að það yki almennt gildi landamerkjabréfs væri það áritað um samþykki eigenda aðliggjandi jarða. Hins vegar yrði ekki litið fram hjá þeirri staðreynd að fyrir gildistöku laga nr. 58/1998 var engum til að dreifa sem gat sem handhafi beins eignarréttar gert samninga um mörk þess lands sem nú kallast þjóðlenda. Jafnframt var sagt að þess yrði að gæta að með því að gera landamerkjabréf gátu menn ekki einhliða aukið við land sitt eða annan rétt umfram það. Verði til þess að líta hvort til séu eldri heimildir sem fallið geti að lýsingu í landamerkjabréfi, enda stangist sú lýsing heldur ekki á við staðhætti, gróðurfar og upplýsingar um nýtingu lands. Í greinargerð með þjóðlendulögunum er að því vikið að með afrétti sé almennt átt við tiltekið, afmarkað landsvæði, en skiptar skoðanir séu um hvort einungis geti verið um beitarrétt eða annan afnotarétt að ræða, þ.e. hvort slíkt landsvæði geti ýmist verið undirorpið beinum eða óbeinum eignarrétti. Samkvæmt athugasemdum við 1. gr. laganna er hugtakið afréttur skilgreint út frá beitarnotum fyrir búfé og ráðast mörk afréttar þannig af því landsvæði sem sannanlega hafi verið nýtt til sumarbeitar fyrir búpening. Samkvæmt framangreindum heimildum er ljóst að eigendur Ytri-Sólheimajarða eiga afrétt í Hvítmögu en ekki aðrar jarðir þar í grennd. Áður var lýst deilumálum Hvolsmanna og eigenda Ytri-Sólheimajarða en eftir að þeim lauk var það ekki fyrr en eftir setningu þjóðlendulaga og með kröfulýsingu fjármálaráðherra í framhaldi af því árið 2001 að efast var um eignarhald stefnenda á Hvítmögu. Fallast ber á það með óbyggðanefnd að líkur bendi til að Hvítmaga sé innan upphaflegs landnáms í Mýrdal og hafi þannig orðið undirorpin beinum eignarrétti. Að mati dómsins mælir sú staðreynd að þetta svæði hafi aldrei verið nýtt til annars en beitar ekki gegn því að það geti verið undirorpið beinum eignarrétti stefnenda. Þá verður ekki talið að gróðurfar eða staðhættir mæli því í gegn, en Hvítmagan er hálfgróið fjalllendi í 300-900 metra hæð yfir sjávarmáli, gróin mosagróðri neðst, mosaþembugróðri er ofar dregur, en í 600-700 metra hæð hverfur gróður með öllu. Fyrir óbyggðanefnd gerði stefndi þá kröfu að landsvæði frá mörkum Vestur-Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu neðan við Skógafjall í punkt í 467 metra hæð á Sjónarhóli yrði talin þjóðlenda, en á þessu svæði er Hvítmagan öll, Hrossatungur, Lambaskarð, Lakaland allt og Lakalandsgil, Ytri-Heiði, Sólheimaheiði og annað fjalllendi næst jökli. Að því er norðurmörk Ytri-Sólheima gagnvart Mýrdalsjökli varðaði taldi óbyggðanefnd að skýr lýsing landamerkja í jökul að vestan- og austanverðu í öllum fyrirliggjandi heimildum um merki jarðarinnar bendi til þess að litið hafi verið svo á að merki hennar næðu að jökli. Hafi jökullinn afmarkað það land sem máli skipti með svo augljósum hætti að ekki hafi verið talið þurfa umfjöllunar við. Byggir nefndin á því að landamerkjum Ytri-Sólheima, Eystri-Skóga, Eystri Sólheima og Péturseyjar sé rétt lýst í framangreindum landamerkjabréfum, þau hafi verið þinglesin, færð í landamerkjabók og á þeim byggt um merki jarðanna án athugasemda yfirvalda eða nágranna. Það var því álit nefndarinnar að þessi landamerkjabréf ásamt eldri heimildum um afmörkun Ytri-Sólheima yrðu lögð til grundvallar um merki jarðarinnar. Hins vegar skildi nefndin framangreindar heimildir svo að Hvítmaga væri sérstakt landsvæði, utan við eiginleg landamerki Ytri-Sólheima. Varð niðurstaða nefndarinnar því sú að ekki hafi verið sýnt fram á það af hálfu stefnda að land innan tilgreindra landamerkja Ytri-Sólheima, þ.e.a.s. að frátalinni Hvítmögu, sé þjóðlenda og hafi rannsókn nefndarinnar leitt í ljós að þar sé um eignarland að ræða, án þess að tekin sé afstaða til þess hver fari með þau eignarréttindi eða hver séu mörk milli eignarlanda, sbr. 7. gr. þjóðlendulaga. Óbyggðanefnd kemst að þeirri niðurstöðu að leggja verði þann skilning í lögfestuna frá 1789, þar sem lýst er vesturmerkjun Ytri-Sólheima gagnvart Eystri-Skógum og segir að landamerkin séu að vestanverðu frá sjó og norður í jökul „Jökulsár gamli Farvegur“, að átt sé við Sólheimajökul þegar talað er um hinn gamla farveg Jökulsár. Þá fjallar nefndin um yfirlýsinguna frá 1799 um mörk Eystri-Skóga gagnvart Ytri-Sólheimum, þar sem segir að Jökulsár gamli farvegur ráði upp með Öldu milli Skógaheiðar og og Hestaþingsháls norður að jökli. Telur nefndin hér átt við Sólheimajökul. Þá getur nefndin um landamerkjabréf Eystri-Skóga frá 1885, en þar er merkjum Eystri-Skóga og Skógafjalls gagnvart Ytri-Sólheimum og Hvítmögu lýst úr fjörumörkum beina línu í Jökulsárgil, svo um gilið upp undir svonefnt Skógafjall en þá liggur merkjalínan austur úr Votugjá, fyrir framan Skógafjall og austur í gilgljúfrið sem er á milli Hvítmögu og Skógafjalls, svo ræður áin, sem er í síðastnefndu gljúfri, marki norður undir jökul. Þegar virt er niðurstaða óbyggðanefndar um eignarréttarlega stöðu Ytri-Sólheima að Hvítmögu frátalinni er það álit dómsins að eignarréttarleg staða Hvítmögu ráðist af túlkun á hugtökunum „Jökulsár gamli Farvegur“ og „norður í jökul“ í ofangreindum heimildum. Í greinargerð Odds Sigurðssonar, jarðfræðings, sem unnin var fyrir óbyggðanefnd, er fjallað um jökla og jökulbreytingar í Mýrdal. Þar kemur fram að gamli farvegurinn vestan við Hestaþingsháls heiti enn þá Jökulsárgil og í honum renni Sýslulækur, enda séu þar sýslu- og landsfjórðungamörk. Heiti áfram Jökulsárgil upp á milli Skógafjalls og Hvítmögu og fylgi þar sýslumörkin. Oddur segir sér engar heimildir kunnar fyrir því að Jökulsá hafi runnið frá jökli annars staðar en í Jökulsárgili þótt hún hafi lengst af þurft að bregða sér undir sporð Sólheimajökuls til að komast leiðar sinnar. Að þessu virtu ber að hafna þeim skilningi óbyggðanefndar að átt sé við Sólheimajökul þegar talað er um hinn gamla farveg Jökulsár. Þá telur dómurinn það hafa komið í ljós við vettvangsgöngu og við skoðun landakorts og annarra gagna málsins að merkjalínan sem liggur úr Votugjá framan (sunnan) við Skógafjall og austur í gilgljúfrið á milli Hvítmögu og Skógafjalls sé augljóslega norðan við sporð Sólheimajökuls og telur dómurinn ekki fara á milli mála að þá ráði gilgljúfrið mörkum á milli Hvítmögu og Skógafjalls norður í Mýrdalsjökul. Þegar allt framanritað er virt verður að telja að stefnendur hafi fært nægar sönnur á það að Hvítmaga sé eignarland þeirra í skilningi 1. gr. þjóðlendulaga og verða ekki gerðar kröfur til þess að þeir færi frekari sönnur fyrir eignarrétti sínum hér fyrir dómi. Ber stefndi því sönnunarbyrðina fyrir hinu gagnstæða og þar sem stefnda hefur ekki tekist að sanna að Hvítmaga falli utan við eiginleg landamerki jarðarinnar Ytri-Sólheima verða kröfur stefnenda að þessu leyti því teknar til greina. Niðurstaða máls þessa verður því sú að úrskurður óbyggðanefndar að því er varðar þjóðlendu á landsvæði því sem nefnt er Hvítmaga í Mýrdalshreppi er felldur úr gildi og viðurkennd er sú krafa stefnenda að á svæði innan neðangreindra marka sé engin þjóðlenda: Frá upptökum Fúlalækjar (Jökulsár á Sólheimasandi), við suðvestanverðan Mýrdalsjökul, fylgir línan ánni þangað sem hún rennur undir Sólheimajökul. Frá þeim punkti fylgir línan vesturjaðri Sólheimajökuls norður að Mýrdalsjökli og svo jaðri Mýrdalsjökuls að upptökum Fúlalækjar. Málskostnaður fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Páls Arnórs Pálssonar, hrl., 850.000 krónur. Samkvæmt yfirliti lögmannsins nam útlagður kostnaður hans 44.907 krónum. Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri, kvað upp dóminn. Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest vegna mikilla embættisanna dómarans, en lögmenn aðila töldu endurflutning óþarfan. DÓMSORÐ:
Mál nr. 37/2000
Kærumál Kröfugerð Faðerni Frávísunarúrskurður staðfestur Gjafsókn
M stefndi dánarbúum tveggja manna, þeirra Þ og T, til viðurkenningar á að Þ skyldi teljast faðir hennar. Fallist var á þá niðurstöðu héraðsdóms að M hefði verið löglega feðruð sem dóttir T með faðernisviðurkenningu hans. Þar sem krafa hefði ekki verið gerð um ógildingu þeirrar yfirlýsingar yrði að vísa málinu frá dómi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. janúar 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. janúar 2000, þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar, sem hann nýtur í málinu samkvæmt 2. mgr. 45. gr. barnalaga nr. 20/1992. Varnaraðilinn dánarbú Þ krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða sér kærumálskostnað. Varnaraðilinn dánarbú T hefur ekki látið málið til sín taka. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um annað en málskostnað. Aðilarnir skulu hver bera sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti. Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila af kærumáli þessu greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað. Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, dánarbús M, af kærumáli þessu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 40.000 krónur. Mál þetta er höfðað af M, á hendur [...], fyrir hönd dánarbús Þ, og [...], fyrir hönd dánarbús T, með stefnu, sem árituð hefur verið um afhendingu, annars vegar 6. október 1998 og hins vegar í október sama ár. Stefnandi hefur höfðað málið til viðurkenningar á að Þ skuli teljast faðir hennar. Stefnandi krefst málskostnaðar auk 24,5% virðisaukaskatts á málflutningsþóknun samkvæmt málskostnaðarreikningi og að málskostnaður verði dæmdur eins og málið væri eigi gjaf­sóknarmál en stefnandi hefur gjafsókn í málinu samkvæmt gjafsóknarleyfi dagsettu 15. maí 1998. Dómkröfur stefnda, dánarbús Þ, eru aðallega þær að málinu verði vísað frá dómi og að stefnanda verði gert að greiða stefnda hæfilegan málskostnað að mati réttarins. Til vara er þess krafist að dánarbúið verði sýknað af öllum dómkröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða því hæfilegan málskostnað að mati réttarins. Til þrautavara krefst stefndi þess að málskostnaður verði látinn falla niður verði fallist á dómkröfur stefnanda í málinu. Af hálfu stefnda, dánarbús T, hefur ekki verið sótt þing en samkvæmt áritun á stefnu hefur birting hennar farið fram samkvæmt a-lið 3. mgr. 83. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Engar kröfur hafa verið gerðar í málinu af hálfu dánarbúsins. Úrskurður þessi er kveðinn upp til úrlausnar á frávísunarkröfu stefnda, dánarbús Þ, en munnlegur málflutningur fór fram um hana þann 5. janúar sl. Af hálfu stefnanda er þess krafist að frávísunarkröfunni verði hrundið og að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað í þessum þætti málsins eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. Stefnandi höfðaði málið í október 1998 eins og áður er komið fram en dánarbú hennar tók við aðild málsins samkvæmt bókun í þingbók þann 21. september 1999. Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna Málavextir eru þeir að þann [...] fæddi K stúlku, M, sem er stefnandi máls þessa. Stuttu eftir fæðinguna fór fram blóðrannsókn til að ákvarða faðerni stefnanda en henni sættu þeir Þ og T. Samkvæmt niðurstöðu rannsóknarinnar frá 3. janúar 1961 var hvorki unnt að útiloka Þ né T frá faðerninu. Við skírn stefnanda gaf móðir hennar þær upplýsingar að Þ væri faðir stefnanda og var hún þá skráð Þdóttir í þjóðskrá. Þau T og K giftust [...] 1963. Samkvæmt gögnum málsins sendi séra Þórir Stephensen bréf til Hagstofunnar, dagsett 6. nóvember 1973, þar sem fram kom að T hefði lýst sig föður stefnanda en í stefnu segir að þetta hafi verið í tengslum við fermingu stefnanda. Var skráningu á faðerni stefnanda breytt í samræmi við það í þjóðskrá og stefnandi þá skráð M T. Samkvæmt því sem fram hefur komið í málinu lést T [...] 1994 en Þ þann [...] 1998. Með bréfi lögmanns stefnanda þann 3. mars 1998 til Rannsóknastofu í réttarlæknisfræði var óskað eftir upplýsingum um gögn varðandi blóðrannsókn vegna athugunar á faðerni stefnanda. Gunnlaugur Geirsson prófessor sendi lögmanninum umbeðin gögn með bréfi dagsettu 11. mars 1998. Í bréfinu var bent á að úrskurð dómara þyrfti til þess að tryggja að notkun sýna í vörslu Rannsóknastofu Háskólans væri réttmæt til mannerfðafræðilegra rannsókna á DNA-erfðaefni í þeim. Með beiðni dagsettri 26. mars 1998 var óskað dómsúrskurðar og var úrskurður kveðinn upp hinn 22. maí sama ár, en með honum var heimilað að framkvæma mannerfðafræðilega rann­sókn á DNA-erfðaefni úr lífssýnum frá þeim Þ og T. Samkvæmt álitsgerð prófessors Gunnlaugs Geirssonar frá 8. september 1998 voru vefjasýni úr þeim fengin frá Rannsóknastofu Háskólans við Barónsstíg og voru þau notuð til rannsókna á DNA-erfðaefninu. Í sama tilgangi voru notuð blóðsýni úr stefnanda og móður hennar. Fimm erfðamörk voru rannsökuð hjá hverju þeirra og reyndust erfðamörk, sem stefnandi hafði fengið frá föður, vera fyrir hendi í sýnum frá Þ heitnum en ekki í sýnum frá T heitnum. Samkvæmt því samræmdust niðurstöður því að Þ væri faðir hennar en T útilokaðist frá faðerni. Líkur fyrir faðerninu voru taldar geysisterkar (meiri en 99%). Með bréfi lögmanns stefnda, db. Þ, frá 29. október 1998 til Rannsóknastofu Háskólans í meinafræði var óskað eftir því að fram færi ný DNA-rannsókn erlendis. Hafði rannsóknastofan milligöngu um slíka rannsókn sem fór fram í Rettsmedisinsk Institutt í Oslo. Samkvæmt niðurstöðum þeirrar rannsóknar, sem dagsettar eru 6. september 1999, samrýmdust þær því að Þ heitinn hafi verið faðir stefnanda en T heitinn útilokaðist frá því að geta verið faðir hennar. Líkur fyrir faðerni reiknuðust 3050:1. Stefnandi hefur höfðað málið í þeim tilgangi af afla faðernisviðurkenningar fyrir dómi. Af hálfu stefnda, db. Þ, er því haldið fram að grundvöllur málsins og um leið kröfugerðarinnar sé rangur. Deilt er einnig um það hvort faðernisskráningu stefnanda þurfi að hnekkja áður en faðernisviðurkenningar verði aflað á þann hátt sem stefnandi hefur hér leitast við að gera. Stefndi telur það jafnframt galla á málatilbúnaði stefnanda að engar kröfur væru gerðar á hendur dánarbúi T heitins. Málatilbúnaður stefnanda væri að þessu leyti ófull­nægjandi til að unnt væri að fella efnisdóm á málið. Málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi telur að þrátt fyrir tvenns konar opinbera skráningu á faðerni hennar sé ljóst að hvorug skráningin hafi lagagildi um það hvor þeirra Þ eða T verði að lögum talinn faðir hennar. Svo virtist sem allt til þessa dags hafi hvorki átt sér stað faðernisviðurkenning né sönnun um faðerni stefnanda lögum samkvæmt eða í opinberum gögnum. Vegna þessarar óvissu hafi stefnandi ákveðið að gera gangskör að því að fá faðernið upplýst með þeim úrræðum er lög heimili. Þann 26. mars 1998 hafi stefnandi leitað eftir úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur til að fá heimild til öflunar lífssýna úr þeim Þ og T og heimild til að láta fara fram mannerfðafræðilega rannsókn á DNA-erfðaefnum úr þeim og stefnanda til að leiða í ljós rétt faðerni. Af hálfu dánarbús Þ hafi beiðninni verið hafnað með því að eðlilegra væri að rannsaka ekki sýni úr Þ fyrr en að lokinni rannsókn á sýni úr T. Þann 22. maí 1998 hafi verið veitt heimild til framangreindra rannsókna með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Niðurstöður rannsóknanna, sem gerðar voru á Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í meinafræði, samrýmdust því að Þ væri faðir stefnanda en T hafi útilokast frá faðerni. Í niðurstöðunni hafi líkurnar fyrir faðerni verið taldar meiri en 99%. Á grundvelli þessarar niðurstöðu telur stefnandi vera fram komna lögfulla sönnun fyrir því að Þ sé faðir hennar. Kröfur sínar byggir stefnandi á VII. kafla barnalaga nr. 20/1992. Stefnandi telur að blóðrannsóknin, sem gerð var 1961, feli í sér viðurkenningu Þ á því að hann hafi haft samfarir við móður stefnanda á getnaðartíma hennar, sbr. 1. mgr. 50. gr. laga nr. 20/1992. Þá teljist faðerni sannað samkvæmt 2. mgr. 50. gr. sömu laga með framlagningu álitsgerðar Rannsóknadeildar Háskóla Íslands í meinafræði. Dánarbúi T hafi verið stefnt samkvæmt lagaskyldu, sbr. 3. mgr. 43. gr. laga nr. 20/1992. Stefnandi mótmælir frávísunarkrafu stefnda, db. Þ, og krefst þess að henni verði hafnað. Af hennar hálfu er bent á að kröfugerð hennar í málinu beinist að báðum stefndu um að annar þeirra teljist faðir hennar. Í kröfugerðinni felist því að núverandi skráning á faðerni skuli falla niður. Skráningin hafi hins vegar ekki þá þýðingu að feðrun stefnanda hafi þegar farið fram að lögum. Af hennar hálfu er því enn fremur mótmælt að hún hafi hlotið réttarstöðu skilgetins barns við stofnun hjúskapar móður hennar og T heitins. Mótmælt er að höfða hefði þurft sérstak ógildingar- eða véfengingarmál til að fá fellda niður faðernisskráninguna. Kröfu sína um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr., sbr. 129. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum e-lið 1. tl. Kröfu um virðisaukaskatt á málskostnað styður stefnandi þeim rökum að stefnanda beri að greiða virðisauka­skatt en hún sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili og því sé henni nauðsynlegt að krefjast hans úr hendi stefndu. Málsástæður og lagarök stefnda, db. Þ Rök stefnda fyrir frávísunarkröfunni eru þau að grundvöllur alls málatilbúnaðar stefnanda feli það í sér að stefnandi hafi aldrei verið feðruð með lögmætum hætti og gangi dómkrafa stefnanda út á það að afla viðurkenningar á því að Þ teljist faðir hennar. Þessi grundvöllur málsins og um leið sjálfrar kröfugerðarinnar sé rangur og þar af leiðandi sé ekki unnt að fella efnisdóm á kröfur stefnanda. Stefndi telur að fyrir liggi að stefnandi hafi verið feðruð með lögmæltum hætti og faðerni hennar skráð í opinberum skrám í samræmi við það. Á meðan þeirri faðernisskráningu stefnanda hafi ekki verið hnekkt í sérstöku véfengingarmáli samkvæmt 52. gr. barnalaga nr. 20/1992 sé ekki unnt að kveða upp efnisdóm um kröfu stefnanda í þessu máli. Ágreiningslaust sé að stefnandi hafi talist óskilgetið barn við fæðingu. Móðir stefnanda hafi talið sig hafa haft samfarir við tvo menn á getnaðartíma barnsins, þá Þ og T. Hvorugur hafi útilokast frá því að geta talist faðir stefnanda samkvæmt niðurstöðum blóðrannsóknar sem gerð hafi verið. Móðir stefnanda og T hafi gengið í hjónaband á árinu 1963. Við það telur stefndi þá breytingu hafa orðið á réttarstöðu stefnanda að hún hafi talist eftir það skilgetið barn á grundvelli 2. gr. laga nr. 87/1947. Varðandi frávísunarkröfu vísar stefndi til 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum d og e-liða. Niðurstaða Í málinu gerir stefnandi þá kröfu að viðurkennt verði með dómi að Þ heitinn skuli teljast faðir hennar. Stefnandi hefur þó ekki höfðað mál til ógildingar á faðernisviðurkenningu T heitins og engin krafa hefur komið fram í málin um ógildingu á henni þótt dánarbúi hans hafi verið stefnt. Um ógildingu á faðernisviðurkenningu gilda nú ákvæði 53. gr. barnalaga nr. 20/1992, sbr. 54. gr. og 1. mgr. 76. gr. sömu laga. Stefnandi hefur í upphaflegum málatilbúnaði sínum gert ráð fyrir því að skráning á faðerni hennar á árinu 1973 hafi ekki lagagildi. Segir enn fremur í stefnu að hvorki hafi átt sér stað faðernisviðurkenning né sönnun um faðerni stefnanda lögum samkvæmt eða í opinberum gögnum eins og fram kemur í stefnu. Þrátt fyrir þennan málatilbúnað stefnanda var því þó lýst yfir af hennar hálfu við munnlegan málflutning um fram komna frávísunarkröfu að í kröfugerð hennar um viðurkenningu á því að Þ heitinn skuli teljast faðir hennar fælist krafa um að skráning á faðerni hennar skyldi niður falla. Á þetta sjónarmið stefnanda telur dómurinn ófært að fallast en samkvæmt 1. mgr. d-liðar 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 skal greina dómkröfur í stefnu svo glöggt sem unnt er. Þá verður einnig að líta til þess að skýring stefnanda á kröfugerðinni kom fram í þinghaldi þann 5. janúar sl. þegar ekki var sótt þing af hálfu stefnda, dánarbús T. Þykir með vísan til þessa ekki verða hjá því komist að vísa málinu frá dómi. Rétt þykir að stefnandi greiði stefnda, dánarbúi Þ, 40.000 krónur í málskostnað en að málskostnaður stefnda falli að öðru leyti niður, þar með talinn kostnaður vegna rannsóknar sem farið var fram á af hans hálfu og gerð var í Rettsmedisinsk Institutt í Oslo. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, samtals 128.800 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Valgeirs Kristinssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 120.000 krónur og er hún ákveðinn án virðisaukaskatts, en útlagður kostnaður er 8.800 krónur, þ.e. 3.800 krónur vegna þingfestingar málsins og 5.000 krónur vegna aksturs. Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Úrskurðarorð: Máli þessu er vísað frá dómi. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, samtals 128.800 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Valgeirs Kristinssonar hrl., 120.000 krónur án virðisaukaskatts, en útlagður kostnaður er 8.800 krónur. Rannsóknarkostnaður, samtals 88.220 krónur, hefur verið greiddur úr ríkissjóði.
Mál nr. 333/2009
Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, nú á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. júní 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 13. júlí 2009 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Fallist er á að varnaraðili sé undir sterkum grun um að hafa ásamt tveimur meðkærðu framið almannahættubrot sem fallið geti undir 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og varðað allt að 16 ára fangelsi. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2009. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X kt. [...] verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til mánudagsins 13. júlí nk. kl. 16:00. Enn frekari upplýsingar bárust og voru þær á þann veg að þrír aðilar væru í átökum fyrir utan [...]og að kveikt hefði verið í húsinu. Lögreglan fór þegar á vettvang. Í frumskýrslu lögreglu sem kom á vettvang klukkan 08:35 kemur fram að þeir hafi komið að húsinu [...] í Reykjavík, sem sé einbýlishús, að greinilegt hafi verið að garðhlið að lóð þess hafi verið brotinn, eldur hafi verið í húsinu sem reyk lagði frá og að skömmu eftir að lögregla kom á vettvang hafi eldur breiðst út. Bifreiðin [...] hafi verið kyrrstæð fyrir framan húsið og var hún í gangi. Í framsæti farþegamegin hafi setið kona, A, tveir karlmenn hafi staðið við bifreiðina, kærði B og X. Á lóð hússins hafi verið C og D húsráðandi og hann verið á nærbuxum einum fata. Mennirnir rifust og höfðu lögreglumenn afskipti af þeim. Kærði og meðkærðu og A voru öll flutt á lögreglustöðina til yfirheyrslu. Lögregla hafi rætt við nokkur vitni á vettvangi en tekið í framhaldi formlegar skýrslur af þeim. Vitni töldu vafalaust að mennirnir sem lögregla handtók á staðnum og komu að húsinu skömmu áður á bifreiðinni [...] hefðu einn eða allir lagt eld að húsinu. Vitni hafi verið að því er mennirnir komu akandi að húsinu og að þeir hefðu gengið að húsinu með fyrirgangi og látum m.a. mölvað garðhliðið inn á lóðina. Húsið hefðu þeir barið að utan. Einn þeirra, dökkhærður piltur, hefði tekið brúsa sem lá við hlið vélgarðsláttuvélar sem var við húsið og skvett úr honum á útidyr þess. Síðan hafi verið lagður eldur að, en líklega hafi verið bensín í brúsanum eða rokgjarnt efni. Kærðu beri öllum saman um að farið hafi verið að [...] að frumkvæði kærða C sem hafi átt eitthvað vantalað við D sem þar býr og að C hafi ekið bifreiðinni. Þá beri þeim saman um að þeir hafi allir gengið að húsinu, en þeir hafi ekki komist í samband við húsráðanda. Um atburðarásina þegar tekinn var bensínbrúsi sem var á lóðinni skvett úr honum á útidyrnar og kveikt í beri þeim ekki saman Kærði B hafi borið að meðkærðu X og C hafi verið við dyrnar þegar eldurinn varð en hann viti ekki hvernig eldsupptökin urðu. Kærði X hafi borið að B hafi tekið bensínbrúsa og hellt bensíni á hurðina. C, sem hafi staðið við hliðina á B, hafi sagt við X að sækja kveikjara en hann hafi neitað því og farið aftur að bifreiðinni. Kvaðst hann ekki hafa séð hver kveikti í. Kærði, C, hafi borið að B hafi komið með bensínbrúsa sem var í garðinum og hellt á húsdyrnar. X hafi svo kveikt í. Kvaðst hann ekkert hafa gert til þess að stoppa þá. Kærði X hafi borið að þeir C og B hafi komið að bifreiðinni eftir að búið var að hella bensíni á hurðina. Þeir hafi því næst allir farið í bifreiðina og C ekið burt en stöðvað þegar íbúi hússins D kom út úr húsinu, en þá verið kominn eldur í neðri hluta hurðarinnar. C og B hafi þá farið að manninum og byrjað að rífast við hann. C hafi einnig borið að þeir hafi farið í upp í bifreiðina og ekið af stað eftir að búið var að kveikja í en þeir hafi svo hætt við að fara og farið aftur að húsinu. Af ofangreindu sé ljóst að mikið ósamræmi sé í framburði kærðu hjá lögreglu varðandi eldsupptökin, þ.e. hver hellti bensíni á hurð hússins og hver kveikti í. Bendi þeir hver á annan eða segist ekki vita hver kveikti í. Það liggi hins vegar fyrir að þeir komu saman að [...] með miklum látum og létu ófriðlega og börðu það að utan. Vitnum beri saman um að þeir hafi allir verið við húsið og að einn hafi sótt bensínbrúsa og í framhaldi hafi greinilega verið kveikt í þar sem þeir voru allir við húsið þó svo að vitað væri af húsráðanda inni en það liggi fyrir að kærðu hringdu í húsráðanda úr síma B áður en þeir komu. Kærðu fóru svo upp í bifreiðina eftir að hafa borið eld að húsinu og ætluðu fyrst að aka af vettvangi. Líti lögreglan svo á að um samverknað allra kærðu hafi verið að ræða. Að mati lögreglu sé fram komin sterkur grunur um að kærði hafi í félagi við meðkærðu hafi framið verknað sem varði ævilöngu fangelsi eða allt að 16 ára tímabundinni fangelsisrefsingu. Samkvæmt 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sé refsilágmark 2 ára fangelsi. Um sé að ræða mjög alvarlegt brot, unnið í félagi við meðkærðu, en brotið sé þess eðlis að mönnum megi vera ljóst að það hafi í för með sér almannahættu. Þá megi mönnum vera ljóst að bersýnilegur lífsháski sé búinn af verkinu og/eða gríðarleg eignarspjöll geti af því hlotist. Samkvæmt bráða­birgða­niðurstöðu dómkvadds matmanns, Guðmundar Gunnarssonar, á almannahættu vegna íkveikjunnar megi telja öruggt að hún hafi leitt til almannahættu fyrir íbúa hússins en eldurinn var kveiktur í anddyri hússins, einu flóttaleiðinni frá húsinu. Telji lögreglustjóri brotið vera í eðli sínu svo svívirðilegt að áframhaldandi gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga. Með vísan til þess sem að framan var rakið er fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir sterkum grun um að hafa framið afbrot sem að lögum getur varðað allt að 10 ára fangelsi. Ennfremur er fallist á það að brotið sem kærði er grunaður um að hafa framið sé þess eðlis að varðhald teljist nauðsynlegt með tilliti til almanna­hagsmuna. Samkvæmt þessu eru uppfyllt skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og veður því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og nánar greinir í úrskurðarorði Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. ÚRSKURÐARORÐ: Kærði, X kt. [...], skal sæta áfram gæslu­varðhaldi, allt til mánudagsins 13. júlí 2009 kl. 16:00.
Mál nr. 275/2017
Aðild Samningur Uppsögn Kröfuréttur Eignarréttur
Ágreiningur aðila laut annars vegar að því hvort uppsögn landeigenda jarðarinnar Voga í Skútustaðahreppi, sem A o.fl. leiddu rétt sinn frá, í júlí 1992 á samningi þeirra við Hitaveitu Reykjahlíðar frá júlí 1971 hafi verið heimil og hins vegar um eignarrétt að asbestpípu sem lá frá skiptistöð í landi Reykjahlíðar og að landi Voga. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samningurinn frá 1971 hefði verið ótímabundinn, án uppsagnarákvæðis og falið í sér gagnkvæmar skyldur til viðvarandi greiðslna af hálfu hvors aðila hans um sig. Með vísan til þeirrar meginreglu kröfuréttar að ótímabundnir samningar um viðvarandi greiðslur væru uppsegjanlegir með hæfilegum fyrirvara, nema annað væri ákveðið í lögum, samningi eða leiddi af eðli samningsins, var talið að V hefði ekki tekist að færa sönnur á að samningurinn væri enn í gildi. Þá var ekki fallist á með V að landeigendur hefðu afsalað sér með samningi eða öðrum hætti eignarrétti að hinni umþrættu asbestpípu. Voru A o.fl. því sýknað af kröfum V.
Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson,Greta Baldursdóttir, Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og ViðarMár Matthíasson. Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 4. maí 2017. Þaukrefjast sýknu af kröfugagnáfrýjanda um að viðurkennt verði að samningur Hitaveitu Reykjahlíðar ogeigenda jarðarinnar Voga í Skútustaðahreppi 1. júlí 1971 sé gildur. Að öðruleyti krefjast þau staðfestingar héraðsdóms um annað en málskostnað sem þaukrefjast bæði í héraði og fyrir Hæstarétti. Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 19. júlí 2017.Hann krefst þess að viðurkenndur verði eignarréttur sinn að asbestpípu sem liggur fráskiptistöð í landi Reykjahlíðar að landi Voga samkvæmt nánar tilgreindumhnitapunktum. Að öðru leyti krefst hannstaðfestingar héraðsdóms um annað en málskostnað sem hann krefst bæði íhéraði og fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi aðaláfrýjenda.IEigendur jarðarinnar Voga íSkútustaðahreppi, sem aðaláfrýjendur leiða rétt sinn frá, undirrituðu samning25. mars 1971 við íslenska ríkið, þar sem fram kom að jarðhitaréttindi í landiVoga á jarðhitasvæði, sem afmarkað var nánar á fylgiskjölum með samningnum,ásamt jarðhita sem þar væri að finna og aðstaða til mannvirkjagerðar til nýtingarhans væru frá þeim tíma ríkinu ,,til frjálsra umráða og ráðstöfunar“. Umsamið endurgjald af hálfu íslenska ríkisins fyrirþessi verðmæti voru annars vegar peningagreiðsla að fjárhæð 1.900.000 krónur,sem varið skyldi til þess að kaupa og leggja aðrennslisæð fyrir hitaveitu úr 80mm asbestpípum frá vegamótum þjóðvegar og Hlíðarvegar við Reykjahlíð að VogumIII ,,eins og gert er ráð fyrir á áætlun ... um hitaveitu í Reykjahlíðar- ogVogahverfi, ásamt viðeigandi búnaði við upphaf þessarar aðrennslisæðar til aðmæla rennsli í henni.“ Um pípuna skyldi flytja vatn frá varmaveitu íReykjahlíðarhverfi til Vogahverfis. Hins vegar skyldi íslenska ríkið látaeigendum Voga í té allt að 4,5 sekúndulítra af heitu vatni frá varmaveitu íBjarnarflagi. Samningurinn var ótímabundinn og án uppsagnarákvæðis.Nokkrum dögum fyrr, 18. mars 1971,hafði íslenska ríkið gert sambærilegan samning við eigendur jarðarinnarReykjahlíðar í Skútustaðahreppi um jarðhitaréttindi í eigu þeirra á afmörkuðusvæði í landi jarðarinnar. Sem endurgjald fyrir þau réttindi skyldi íslenskaríkið í fyrsta lagi leggja aðalæð hitaveitu úr 200 mm víðum asbestpípum tilflutnings á allt að 25 lítrum á sekúndu frá safnþró í Bjarnarflagi aðvesturmörkum jarðhitasvæðisins sem samningurinn tók til. Í öðru lagi skyldiríkið greiða 4.400.000 krónur til landeigendanna svo þeir gætu sjálfir annastlagningu aðalæðar þaðan og til byggðahverfisins við Reykjahlíð. Í þriðja lagiskyldu landeigendurnir fá 20 sekúndulítra af heitu vatni til ráðstöfunar fyrirvæntanlega hitaveitu fyrir Reykjahlíðarhverfi.Áður en þessir samningar voru gerðirmunu væntanlegir hitaveitunotendur í Reykjahlíð og Vogum hafa haldið fund þarsem lagt var til að Skútustaðahreppur ætti og ræki væntanlega hitaveitu. Áfundi sveitarstjórnar 28. febrúar 1971 var ákveðið ,,að verða við óskvæntanlegra hitaveitunotenda, um að gerast eignar- og rekstraraðilivæntanlegrar hitaveitu. Svo fremi að viðunandi samningar náist við landeigendurum hitaréttindi.“ Í fundargerð var jafnframt bókað að sveitarstjórn hefðiákveðið að hitaveitan skyldi vera sjálfstætt fyrirtæki með sérstakan fjárhag.Skútustaðahreppur ,,f.h. HitaveituReykjahlíðar“ gerði í kjölfarið tvo sambærilega samninga 1. júlí 1971 og varannar þeirra við eigendur jarðarinnar Reykjahlíðar en hinn, sá sem hér er tilúrlausnar, við eigendur jarðarinnar Voga. Samkvæmt þeim samningi skyldueigendur Voga, sem nefndir voru leigusali, leggja á eigin kostnað asbestpípuþá, sem mælt var fyrir um í samningnum við íslenska ríkið og það hafði greittfyrir. Leigusalinn skyldi jafnframt leggja til land undir pípuna og ljúkalagningu hennar fyrir 1. október 1971. Að því búnu skyldi hann ,,afhenda hanaleigutaka, sem ber allan kostnað af rekstri hennar, viðhaldi og endurnýjun.“ Þáskyldi leigusali leggja til allt að 4,5 sekúndulítra af heitu vatni tilleigutaka. Leigutaki skyldi á hinn bóginn greiða leigusala ákveðna fjárhæðárlega ,,fyrir heita vatnið“ sem skyldi að nokkru háð því magni sem notað yrði.Gerð er grein fyrir greiðslunum í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur framskyldu þær ,,hækka í sama hlutfalli og vísitala byggingarkostnaðar“ frágrunntölu sem miðaðist við 1. október 1971. Leigutaki skyldi greiða árgjaldiðfyrir 1. nóvember ár hvert. Þá kom fram í samningnum að leigusala væri heimiltað nota til eigin þarfa afgangsvatn til heyþurrkunar og ræktunarendurgjaldslaust enda væri það vatn ekki talið með þegar greiðsla til leigusalaværi ákveðin. Að öðru leyti mun hafa verið miðað við að eigendur Voga greiddufyrir það heita vatn sem þeir nýttu til hitunar eða annarra þarfa í íbúðarhúsumeða öðrum fasteignum á löndum sínum. Loks var í samningnum gerðardómsákvæði semvikið verður að síðar.Af gögnum málsins má ráða að HitaveitaReykjahlíðar, sem gagnáfrýjandi er nú kominn í staðinn fyrir, hafi lagt dreifikerfium Vogahverfið til einstakra notenda oghaldið því við. Þá er upplýst að hætt var að nota asbestpípuna fyrirheitt vatn á árinu 1984 og plastleiðsla lögð í staðinn á kostnað gagnáfrýjanda.Gamla pípan mun eftir það hafa verð notuð til að leiða kalt vatn.Af gögnum málsins má einnig ráða aðrekstur hitaveitunnar hafi verið erfiður einkum er leið á níunda áratug síðustualdar og skuldir veitunnar þá farið vaxandi. Landeigendur í Vogum sendusveitarstjórn Skútustaðahrepps greinargerð um málefni veitunnar 5. febrúar1990. Þar var bent á að landeigendurnir hafi átt ,,þessa hitaveitu skuldlausa1971“ þegar hún hafi verið leigð sveitarfélaginu og rekstur hennar hafi byrjað,,svo til á núlli.“ Fyrir tilstilli landeigenda hafi íslenska ríkið kostað ýmsarúrbætur á heitavatnslögninni, meðal annars hreinsun á henni. Á árinu 1984 hafi,án samráðs við landeigendur, byrjað umræða um að stækka veitusvæðið og leggja lögní Álftagerði, Grænavatn, Kálfaströnd og Grímstaði. Þótt þetta hafi ekki veriðfýsilegt fjárhagslega hafi sveitarstjórn mælt með að ráðist skyldi í að leggjaveituna til Álftagerðis og Grímstaða. Fjárhagsáætlanir hafi ekki staðist enþrátt fyrir það hafi ,,eigendum hitaveitunnar“ verið talin trú um aðhitaveitugjöld myndu ekki hækka vegna stækkunarinnar. Það hafi þó gerst aukþess sem heimtaugargjald í Reykjahlíð og Vogum hafi einnig hækkað. Jafnframthefðu skuldir veitunnar hækkað verulega. Í lok greinargerðarinnar sagði að þaðværi ,,krafa landeigenda í Vogum að þeir fái einn fulltrúa í hitaveitunefnd“ enekki væri ,,hægt að sætta sig við að þeir njóti engra réttinda þrátt fyrireignaraðild að hitaveitunni og það mikla fjármagn“ sem þeir hafi lagt fram ásínum tíma með samningum við íslenska ríkið. Var farið fram á viðræður við sveitarstjórnum málefnið.Með bréfi 23. janúar 1991 óskuðulandeigendur í Vogum eftir því að samningurinn frá 1971 yrði endurskoðaður ogvar á það fallist á fundi sveitarstjórnar 14. febrúar sama ár. Landeigendurnirrituðu enn bréf 17. október 1991 og fóru fram á viðræður um samninginn þar semforsendur hans væru brostnar. Þeir áttu í framhaldi af þessu fund 19. nóvember1991 með sveitarstjóra og lýstu því þar að forsendur samningsins væru brostnarþar sem hitaveitan hefði verið stækkuð án samráðs við þá og því færu þeir framá endurskoðun samningsins. Stækkun veitunnar hafi leitt til skuldasöfnunar semóhjákvæmilega hafi leitt til hækkunar afnotagjalda. Á fundinum lögðu þeir framtillögu að breytingu á samningnum, sem fól í sér að þeir afhentu veitunni 2,5sekúndulítra af vatni, en fengju sjálfir 2 sekúndulítra til eigin nota. Í bréfilandeigenda til sveitarstjórnar 31. desember 1991 kom fram að þeir teldu sigekki hafa fengið svar við tillögu sinni og frá 1. janúar 1992 myndu þeir láta hitaveitunnií té 2,5 sekúndulítra af heitu vatni en tækju 2 sekúndulítra til eigin þarfa ogfyrir það myndu þeir ekki greiða veitunni.Sveitarstjórn féllst ekki á tillögulandeigendanna og taldi nauðsynlegt að skera úr ágreiningi við þá um eignarhaldá mannvirkjum hitaveitunnar. Samkvæmt samningi við þá ætti að gera það fyrir gerðardómi.Á fundi með fulltrúum sveitarstjórnar 28. janúar 1992 lýstu landeigendur Vogaþví yfir að þeir myndu ekki draga yfirlýsingu sína frá 31. desember 1991 tilbaka. Með bréfi 23. júní 1992 lýstu landeigendur því yfir að forsendursamningsins frá 1971 væru brostnar og því yrði að segja honum upp til þess aðunnt væri að hefja viðræður um gerð nýs samnings en hafnað væri að leggja ágreininginnvið sveitarfélagið fyrir gerðardóm. Með tilkynningu 20. júlí 1992 lýstulandeigendurnir því síðan yfir að þeir segðu upp leigusamningnum frá 1971. Meðbréfi gagnáfrýjanda 24. febrúar 1994 mótmælti hann uppsögn samningsins. Gagnáfrýjandiskaut ágreiningi við landeigendurna til gerðardóms 14. desember 1995 og taldi dómurinnað ágreiningur þeirra snerist í raun um eignarrétt að pípulögn sem getið værium í samningnum frá 1. júlí 1971. Taldi gerðardómurinn þann ágreining vera utanþess hann væri bær til að taka til úrlausnar og vísaði málinu frá 4. nóvember1996.Ýmis gögn í málinu bera með sér aðreynt hafi verið að leysa ágreining aðila frá því að gerðardómur vísaði honumfrá samkvæmt framansögðu en það hafi ekki borið árangur.Upplýst er að hitaveitunotendur íVogum hafa ekki greitt fyrir afnot af heitu vatni frá 1. janúar 1992 og aðgagnáfrýjandi hefur ekki frá sama tíma innt af hendi greiðslur til þeirrasamkvæmt samningnum fyrir afnot af vatni.IIMál þetta var höfðað í héraði afgagnáfrýjanda sem gerir þær kröfur að viðurkennt verði að samningur aðila frá1. júlí 1971 sé í gildi, auk viðurkenningar á því að hann sé eigandi aðasbestpípu þeirri sem áður greinir. Aðaláfrýjendur kröfðust frávísunar málsinsí heild og studdu þá kröfu meðal annars við þau rök að með samningnum hefðuaðilar hans skuldbundið sig til þess að fela gerðardómi að skera úr um ágreiningsmáleins og þau sem kröfur gagnáfrýjanda tækju til. Héraðsdómur vísaði frá dómi kröfunnium viðurkenningu á því að samningurinn væri enn í gildi, en hafnaði frávísun aðþví er varðaði síðari kröfuna. Með dómi Hæstaréttar 12. maí 2016 í máli nr. 311/2016var ákvæði úrskurðarins um frávísun fellt úr gildi.Fyrir Hæstarétti er ekki gerð krafa umað ágreiningi um eignarrétt að asbestpípunni verði vísað frá héraðsdómi ogkemur því ekki til athugunar hvort sú krafa hefði átt undir úrlausn gerðardóms,sbr. 2. gr. laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma.Aðaláfrýjendurnir AnnaSkarphéðinsdóttir, Leifur Hallgrímsson og Ólöf Þórelfur Hallgrímsdóttirkrefjast sýknu vegna aðildarskorts. Þau hafi með kaupsamningi 25. september2007 selt aðaláfrýjandanum Vogabúi ehf. jörðina Voga I og hafi félagið þinglýstkaupsamningnum. Það fari því með eignarráð fasteignarinnar og sé eitt bært tilað gera ráðstafanir sem hana varða. Þegar málið var höfðað hafði kaupsamningiverið þinglýst, en afsal ekki gefið út. Vogabú ehf. átti því að sönnueignarrétt samkvæmt kaupsamningnum, en sá réttur var skilyrtur þar sem afsalhafði ekki verið gefið út. Ekki liggur fyrir hvort afsal til Vogabús ehf. hafiverið gefið út og upplýst var fyrir Hæstarétti að slíku skjali hafi ekki veriðþinglýst. Framangreindir seljendur eru því enn þinglýstir eigendur samkvæmtafsali. Verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna sýknukröfu þeirravegna aðildarskorts. IIIÁgreiningsefni málsins eru sem fyrrgreinir tvíþætt. Þau lúta annars vegar að því hvort samningur landeigenda íVogum og Hitaveitu Reykjahlíðar 1. júlí 1971 sé í gildi og þar með hvortuppsögn hans 20. júlí 1992 hafi verið heimil. Hins vegar er deilt um eignarréttað asbestpípu sem liggur frá skiptistöð í landi Reykjahlíðar og að landi Vogaen lega hennar er nánar tilgreind í héraðsdómi. Samningurinn frá 1971 var ótímabundinnog í honum var ekki að finna uppsagnarákvæði. Skyldur landeigenda samkvæmthonum voru að leggja til 4,5 sekúndulítra af heitu vatni sem leitt yrði umasbestpípu er þeir skyldu afhenda ásamt landi undir pípuna. Hitaveitan skyldi áhinn bóginn greiða fyrir þetta árlegt gjald sem réðist af því magni vatns semafhent yrði, auk þess sem það skyldi taka breytingum til samræmis viðtilgreinda vísitölu. Jafnframt skyldi hitaveitan afhenda landeigendumafgangsvatn sem þeir máttu nýta til ákveðinna þarfa. Samningurinn fól því í sérgagnkvæmar skyldur til viðvarandi greiðslna af hálfu hvors aðila hans um sig. Það er meginregla í kröfurétti aðótímabundnir samningar um viðvarandi greiðslur séu uppsegjanlegir, almennt meðhæfilegum fyrirvara, nema annað sé ákveðið í lögum, samningi eða leiði af eðlisamningsins, sbr. dóma Hæstaréttar 15. júní 2006 í máli nr. 43/2006 og 7. júní2007 í máli nr. 423/2006.Gagnáfrýjandi rökstyður kröfu sína umviðurkenningu á að samningurinn sé enn í gildi, hvað sem uppsögninni líður,einkum með því að hann hafi frá upphafi og til uppsagnar efnt samninginnréttilega enda hafi hinu gagnstæða ekki verið haldið fram. Landeigendur hafiunað við samninginn athugasemdalaust í um 20 ár áður en þeir sögðu honum upp.Engin heimild til uppsagnar hafi verið í samningum og hún hafi því veriðmarkleysa. Í ljósi framangreindrar meginreglukröfuréttar duga þær málsástæður sem gagnáfrýjandi hefur teflt fram tilstuðnings því að samningurinn sé enn í gildi ekki til þess að uppsögnlandeigenda 20. júlí 1992 eigi ekki að hafa réttaráhrif samkvæmt efni sínu.Verður jafnframt að líta til þess að uppsögnin átti sér um tveggja áraaðdraganda og henni var ekki andmælt svo séð verði fyrr en 24. febrúar 1994 ogþá ekki getið um að frestur hafi verið of skammur. Verða aðaláfrýjendur þvísýknaðir af þessari kröfu gagnáfrýjanda.Í samningnum 1. júlí 1971 voru landeigendurnefndir leigusali, en Hitaveita Reykjahlíðar leigutaki. Ákvæði samningsins umað landeigendur skyldu á eigin kostnað leggja asbestpípu tiltekna leið ogleggja til land undir pípuna, sem þeir skyldu svo hvort tveggja afhendaleigutaka sem annast skyldi rekstur pípunnar, viðhald og endurnýjun, fól ekki ísér afsal á því sem afhenda skyldi. Aðrar röksemdir sem gagnáfrýjandi hefursett fram til stuðnings því að hann sé eigandi pípunnar leiða ekki til þess aðlitið verði svo á að leigusalinn hafi afsalað sér eignarrétti að henni meðsamningi eða með öðrum hætti. Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti meðvísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, verður hann staðfestur um þessa kröfu. Samkvæmt öllu framansögðu verðaaðaláfrýjendur sýknaðir af kröfu gagnáfrýjanda um viðurkenningu á því aðsamningur landeigenda Voga og Hitaveitu Reykjahlíðar frá 1. júlí 1971 ségildur. Auk þess verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu aðaláfrýjenda afkröfu gagnáfrýjanda um viðurkenningu á eignarrétti hans að asbestpípunni. Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjendummálskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi einsog í dómsorði greinir.Dómsorð:Aðaláfrýjendur, Anna Skarphéðinsdóttir, Elín S. Kristjánsdóttir, Gísli Rafn Jónsson, GunnarRúnar Pétursson, Hermann Kristjánsson, Hjördís Sigríður Albertsdóttir, JakobStefánsson, Jóhann Friðrik Kristjánsson, Jónas Pétur Pétursson, Jón ÁrniSigfússon, Jón Ingi Hinriksson, Leifur Hallgrímsson, Ólöf ÞórelfurHallgrímsdóttir, Sólveig Erla Hinriksdóttir, Valla sf., Vogabú ehf., Vogar 4ehf., Þórdís Guðfinna Jónsdóttir og Þórhallur Kristjánsson, eru sýkn af kröfugagnáfrýjanda, Veitustofnunar Skútustaðahrepps, um viðurkenningu á því aðsamningur landeigenda Voga og Hitaveitu Reykjahlíðar 1. júlí 1971 sé í gildi.Hinn áfrýjaði dómur skal að öðru leyti vera óraskaður um annaðen málskostnað.Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjendum hverjum fyrir sig100.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra10. febrúar 2017.Mál þetta var dómtekið 20. september sl., enendurupptekið og dómtekið á ný 16. desember. Það var höfðað 10. febrúar 2015.Stefnandi er Veitustofnun Skútustaðahrepps, Hlíðavegi6, Skútustaðahreppi. Stefndu eru Vogabú ehf., Vogum I, Skútustaðahreppi, AnnaSkarphéðinsdóttir, sama stað, Leifur Hallgrímsson, Hraunborg, sömu sveit, ÓlöfÞórelfur Hallgrímsdóttir, Hraunbergi, sömu sveit, Jóhann FriðrikKristjánsson, Sogavegi 129, Reykjavík,Hermann Kristjánsson, Birkihrauni 12, Skútustaðahreppi, Elín S.Kristjánsdóttir, Stekkjarholti 14, Húsavík í Norðurþingi, ÞórhallurKristjánsson, Björk, Skútu­staðahreppi,Hjördís Sigríður Albertsdóttir, Hólmum, sömu sveit, Þórdís GuðfinnaJónsdóttir, Vogum II, sömu sveit, Gunnar Rúnar Pétursson, sama stað, JónasPétur Pétursson, Skútahrauni 16, sömu sveit, Jón Árni Sigfússon, Víkurnesi,sömu sveit, Gísli Rafn Jónsson, Arnarnesi, sömu sveit, Jakob Stefánsson,Skútahrauni 18, sömu sveit, Valla sf., Laugarbrekku 24, Húsavík, Sólveig ErlaHinriksdóttir, Stekkholti, Skútustaðahreppi, Jón Ingi Hinriksson, Bergholti,sömu sveit og Vogar 4 ehf., Dalsgerði 5f, Akureyri.Stefnandi gerir þær kröfur í málinu að viðurkenntverði með dómi að samn­ingur milli stefnanda og stefndu frá 1. júlí 1971 ségildur, sem og að viðurkenndur verði eignarréttur stefnanda að asbestpípu semliggur frá skiptistöð í landi Reykjahlíðar að landi Voga, úr hnitpunkti 1 (N 6538.489 V 16 54.681) að hnitpunkti 2 (N 65 38.403 V 16 54.619) úr þeimhnitpunkti að hnitpunkti 3 (N 65 38.356 V 16 54.589) úr þeim hnitpunkti aðhnitpunkti 4 (N 65 38.234 V 16 54.641) úr þeim hnitpunkti að hnitpunkti 5 (N 6538.171 V 16 54.654) úr þeim hnitpunkti að hnitpunkti 6 (N 65 38.137 V 1654.642) úr þeim hnitpunkti að hnitpunkti 7 (N 65 38.090 V 16 54.661) úr þeimhnitpunkti að hnitpunkti 8 (N 65 38.066 V 16 54.658) úr þeim hnitpunkti aðhnitpunkti 9 (N 65 37.865 V 16 54.836) úr þeim hnitpunkti að hnitpunkti 10 (N65 37.699 V 16 55.042) úr þeim hnitpunkti að hnitpunkti 11 (N 65 37.679 V 1655.077) úr þeim hnitpunkti að hnitpunkti 12 (N 65 37.565 V 16 55.154) úr þeimhnitpunkti að hnitpunkti 13 (N 65 37.531 V 16 55.203) úr þeim hnitpunkti aðhnitpunkti14 (N 65 37.514 V 16 55.217) úr þeim hnitpunkti að hnitpunkti15 (N 6537.502 V 16 55.242) úr þeim hnitpunkti að hnitpunkti 16 (N 65 37.447 V 1655.276) úr þeim hnitpunkti að hnitpunkti 17 (N 65 37.424 V 16 55.281) úr þeimhnitpunkti að hnitpunkti 18 (N 65 37.383 V 16 55.346) úr þeim hnitpunkti aðhnitpunkti 19 (N 65 37.340 V 16 55.348) úr þeim hnitpunkti að hnitpunkti 20 (N65 37.313 V 16 55.305) úr þeim hnitpunkti að hnitpunkti 21 (N 65 37.313 V 1655.305).Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði gertað greiða málskostnað að skað­lausu.Stefndu krefjastsýknu og málskostnaðar.Málinu var vísaðfrá dómi að hluta með úrskurði 7. apríl sl. Sá úrskurður var felldur úr gildimeð dómi Hæstaréttar 12. maí sl.IMeð samningi undirrituðum annars vegar í Vogum 25.mars 1971 og hins vegar í Reykjavík 4. maí 1971, afhentu eigendur Voga íSkútustaðahreppi ríkissjóði jarðhitaréttindi í landi Voga á afmörkuðujarðhitasvæði ásamt jarðhita sem þar væri að finna og aðstöðu tilmannvirkjagerðar til nýtingar hans. Íendurgjald skyldu þeir fá (g)kr. 1.900.000,- til að koma upp aðrennslisæðhitaveitu frá vegamótum þjóðvegar og Hlíðarvegar við Reykjahlíð að Vogum IIIásamt viðeigandi búnaði við upphaf hennar til að mæla rennsli í henni ogókeypis allt að 4,5 sekúndulítra af heitu vatni frá varmaveitu í Bjarnarflagi,sem skyldi afhendast með vatni er ríkissjóður hefði með samningi við eigendurReykjahlíðar í Skútustaðahreppi skuldbundið sig til að afhenda þeim.Þann 28. febrúar 1971 ákvað hreppsnefndSkútustaðahrepps að verða við ósk væntanlegra hita­veitunotenda um að gerasteignar- og rekstraraðili væntanlegrar hitaveitu, ef viðunandi samningar næðustvið landeigendur um hitaveituréttindi.Þann 1. júlí sama ár voru undirritaðir tveir samningar, annar millilandeigenda í Reykjahlíð og Hitaveitu Reykjahlíðar og hinn milli eigenda Vogaog Hitaveitu Reykjahlíðar.Síðastnefndi samningurinn er sá sem um er deilt íþessu máli og hljóðar svo:,,SamningurVið undirritaðir, oddvitinn í Skútustaðahreppi, f.h.Hitaveitu Reykjahlíðar, í samningi þessum nefndur leigutaki, og eigendurjarðarinnar Voga í Skútustaðahreppi, í samningi þessum nefndir leigusali, gerummeð okkur eftirfarandi samning: . Leigusali skal á eigin kostnað leggjaasbestpípu frá skiptistöð í Reykjahlíð (á mörkum þjóðvegar og Hlíðarvegar) aðVogum, í samræmi við uppdrætti Fjarhit­unar h.f., með öllum nauðsynlegumbúnaði, þar á meðal brunnum við báða enda. Leigusalinn skal bera allan kostnað afpípulögninni, bæði efni og vinnu. 2. Pípulögnum, sem um getur í 1. gr. skal aðfullu lokið fyrir 1. október 1971. 3. Þegar leigusali hefur lokið við að leggjaasbestpípuna og hún prófuð, skal hann afhenda hana leigutaka, sem ber allankostnað af rekstri hennar, viðhaldi og endurnýjun. 4. Leigusali leggur endurgjaldslaust til landundir pípuna, og ber hann ábyrgð á öllum landspjöllum, svo og öðru tjóni, semverða kann við lagningu leiðslunnar, og meðan hún er í hans umsjá. Eftir að leigutaki hefur tekið viðleiðslunni er honum heimil nauðsynleg umferð inn í land leigusala til viðhaldsleiðslunni og öðrum mannvirkjum hitaveitunnar.Þess skal gætt að valda sem minnstum spjöllum, og greiða skal fullarbætur fyrir spjöll þau, sem verða kunna á landi eða mannvirkjum skv.samkomulagi eða mati, ef samkomulag næst ekki. Um mat skv. samningi þessum skulu gildareglur um framkvæmd eignarnáms nr. 61/1917.5. Leigusali skal leggja leigutaka til alltað 4,5 lítra á sekúndu af heitu vatni fyrir hita­veituna. 6. Leigusali er ekki bótaskyldur, þótthitaveitan verði fyrir tjóni vegna ófullnægjandi varmaflutnings, breytinga áborholum og öðrum óviðráðanlegum orsökum.7. Leigutaki skal greiða leigusala ákveðnaársgreiðslu fyrir heita vatnið. Ársgreiðsluna skal miða við mestuvatnssölu hitaveitunnar frá þessari leiðslu á almanaksárinu. Meðan vatnssala hitaveitunnar er 2,5sekúndulítri eða minni, skal ársgreiðslan vera sem hér segir: Árin 1971-73 engingreiðsla. “ 1974-76 kr. 20.000,00pr. ár “ 1977-79 “ 30.000,00“ “ “ 1980-82 “ 40.000,00“ “ “ 1983-91 “ 50.000,00“ “ “ 1992 og síðar kr. 40.000,00 pr. ár. Þegar sala hitaveitunnar er orðin meirien 2,5 lítrar á sekúndu, samkvæmt bókum hennar, skal ársgreiðslan hækka um kr.12.000,00 fyrir hvern byrjaðan líter þannig, að þegar allt vatnið, 4,5 lítrar ásekúndu, er nýtt, greiðast kr. 64.000,00 á ári.8. Allar ársgreiðslur eru verðtryggðar,þannig að þær hækka í sama hlutfalli og vísi­tala byggingarkostnaðar. Miða skal við vísitölu byggingarkostnaðar,sem gefin verður út 1. okt. 1971 sem grunn, en síðan skal miða viðmeðalvísitölu hvers árs.9. Leigutaka er óheimilt að selja vatn tiliðnaðar á lægra verði en Jarðvarmaveitur ríkisins, nema með samþykki leigusalaog Jarðvarmaveitna ríkisins.0. Ársgjaldið skal greiða eigi síðar en 1.nóvember ár hvert.1. Leigusala er heimilt að nota til eigin þarfaafgangsvatn til heyþurrkunar og ræktunar endurgjaldslaust, enda sé það vatnekki talið með, þegar greiðsla til leigusala er ákveðin. 2. Verði ágreiningur í samskiptum leigusala ogleigutaka vegna túlkunar á samningi þessum, skal hann útkljáður á þann hátt, aðhvor aðili um sig getur skotið honum til úrskurðar 3ja manna gerðardóms, og erúrskurður hans endanlega bindandi fyrir báða aðila. Hvor aðili skal útnefnaeinn mann í gerðardóminn, en sýslumaður Þingeyinga út­nefna oddamann. Skulu allir gerðardómsmenn fullnægjaskilyrðum eml. nr. 85/1936. 3. Leigusali svarar til vanheimildar og réttartil framangreindrar vatnssölu.4. Samningi þessumskal þinglýsa á kostnað leigutaka. [...]“Stefnandi mun nú vera ,,leigutaki“ í skilningi þessasamnings og stefndu ,,leigusali.“ Verðurhér á eftir vísað til stefnanda og stefndu sem samningsaðila, þótt þau hafikomið í stað þeirra sem sömdu í öndverðu.Stefnandi tekur fram að 14. nóvember 1985 hafi veriðsett ný reglugerð, nr. 432/1985, fyrir Hitaveitu Reykjahlíðar. Þar hafi verið kveðið á um eignarrétt hennarað lagnakerfi sínu. Árið 1985 hafi veriðráðist í stækkun á Hitaveitu Reykjahlíðar.Samhliða henni hafi verið ráðist í stofnun vatnsveitu og farið að reisavarmaskiptistöð hitaveitunnar. Í kjölfarþessara framkvæmda hafi Hitaveita Reykjahlíðar selt umrædda asbestpípu tilVatnsveitu Reykjahlíðar og lagt plastpípu til flutnings á heitu vatni. Engin mótmæli hafi borist frá stefndu fyrr enerindi hafi borist sveitarstjórn, dagsett 5. febrúar 1990. Þar hafi stefndu óskað þess að formlegarviðræður yrðu teknar upp, með endurskoðun samningsins frá 1971 aðmarkmiði. Gögn liggja frammi sem sýna aðaðilar ræddu þetta erindi án niðurstöðu.Þann 20. júlí 1992 sögðu stefndu samningnum upp. Hafnaði stefnandi upp­sögninni. Var málinu vísað til gerðardóms 10. nóvember1993.Eftir sáttatilraunir kvað gerðardómur upp úrskurð umþað 4. nóvember 1996 að ágreiningsefnið væri ekki innan lögsögu hans. Vísaði hann til þess að ágreiningur aðilasnerist um eignarrétt að asbestpípunni og ætti heima hjá dómstólum.Stefndu höfðuðu mál fyrir Héraðsdómi Norðurlandseystra og kröfðust viðurkenningar á uppsögn samningsins frá 1. júlí 1971. Með úrskurði dómsins 9. maí 1997 var málinuvísað frá dómi með skírskotun til þess að það varðaði samskipti aðila og ættiþar með undir gerðardóm, sbr. 12. gr. samningsins frá 1. júlí 1971. Úrskurð­inum var ekki skotið til æðri réttar.Vatnsveita Reykjahlíðar, sem Hitaveita Reykjahlíðarseldi pípuna, var síðar sameinuð seljandanum og varð stefnandi til viðsameininguna.Eftir framangreinda frávísun málsins sem stefnduhöfðuðu til viðurkenningar á uppsögn sinni munu aðilar hafa rætt eitthvaðsaman, án þess að ná samkomulagi. Hefur stefnandi nýtt heita vatnið og pípuna,en ekki greitt árgjaldið. Stefndu hafa ekki greitt fyrir notkun sína á heituvatni. Stefnandi mun hafa reiknað út árgjaldið og mismun þess og fjárhæðareikninga sem hann hefur gert stefndu fyrir notkun heits vatns, en ekki lýstyfir skuldajöfnuði.IIStefnandi kveðst höfða mál þetta gegn landeigendum íVogum, sem hafi tekið við réttindum og skyldum þeirra landeigenda sem hafi gertsamninginn. Sé óhjákvæmilegt að þeir eigi allir aðild til varnar. Stefndu Anna,Leifur og Ólöf Þórelfur séu eigendur Voga I samkvæmt afsali, en Vogabú ehf.samkvæmt kaupsamningi. Sé óhjákvæmilegt að stefna þeim öllum til varnar ímálinu.Stefnandi hafi tekið við öllum réttinum og skyldumHitaveitu Reykjahlíðar árið 2007. Sveitarstjórn Skútustaðahrepps fari meðstjórn stefnanda samkvæmt reglugerð nr. 432/1985. Fyrirsvarsmaður stefnanda séJón Óskar Pétursson sveitar­stjóri.Stefnandi kveðst vísa til 2. mgr. 25. gr. laga nr.91/1991 um að hann geti leitað viðurkenningardóms um kröfur sínar, að þvítilskildu að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um efniréttinda hans eða réttarsambands. Málsaðilarhafi um langt skeið deilt um gildi samnings síns frá 1. júlí 1971. Stefnandi hafi því beina og verulegafjárhagslega hagsmuni af því að fá viðurkenningardóm um gildi samningsins semog um eignarhald á þeim veitumannvirkjum sem kveðið sé á um í honum. Til stuðnings kröfu sinni um að gildi samningsins verði viðurkennt kveðst stefnandivísa til meginreglu fjármuna-, kröfu- og samningaréttar um skuldbindingargildisamninga. Í þeirri reglu felist aðaðilum sé almennt heimilt að velja sér gagnaðila við samnings­gerð, frelsi umefni löggerninga og frjálsræði til að ákvarða hvort samningur skuli gerður eðahvort látið skuli hjá líða að gera samning eða annan löggerning. Reglan eigieinnig rót sína í meginreglunni um að samninga skuli efna. Af reglunni leiði að aðili samnings getialmennt ekki komið sér hjá því að efna samningsskyldur sínar. Beri að skýra allar undantekningar fráþessari reglu þröngt. Stefnandi kveðsteinnig byggja á því að hann hafi efnt samninginn að öllu leyti allt frá upphafiog hafi hinu gagnstæða aldrei verið haldið fram af hálfu stefndu. Þá kveðst stefnandi byggja á því að ekkertuppsagnarákvæði sé að finna í samningnum.Hann hafi verið ótímabundinn og óuppsegjanlegur af hálfu beggjaaðila. Uppsögnin með bréfi 20. júlí 1992sé því markleysa og samningurinn eðli málsins samkvæmt enn í gildi. Þá byggirstefnandi jafnframt á því að stefndu hafi ekki hreyft mótmælum við samninginnfyrr en árið 1990, tæplega 20 árum eftir að hann hafi verið gerður. Kveðst stefnandi telja að þetta tómlæti afhendi stefndu staðfesti enn frekar gildi samningsins. Um kröfu sína um að viðurkennt verði með dómieignarhald stefnanda á asbestpípunni kveðst hann vísa til orðalags samningsinsí 3. og 4. gr., um afhendingu og heimila landnotkun. Með þessu hafi stefnandifengið til eignar, þar með talinn réttinn til frjálsra umráða og ráð­stöfunar,bæði pípuna og land undir hana þegar afhending hafi farið fram. Samkvæmt skýru orðalagi ákvæðisins hafistefnandi þannig orðið eigandi pípunnar og lands undir hana, frá því að stefnduafhentu pípuna.Með hliðsjón af þessu og meginreglu kröfu- ogsamningaréttar um skuld­bindingargildi samninga megi vera ljóst að eignarrétturpípunnar sé hjá stefnanda. Þá styðji þaðkröfur og málsástæður hans að í samningnum hafi hvorki verið kveðið á um skilþess sem stefndu hafi afhent eða gjald fyrir afnot. Hlutaðeigandi eignir hafi verið afhentarkvaðalausar til frjálsra umráða og ráðstöfunar stefnanda. Þá hafi stefnandi greitt allan kostnað afrekstri asbestpípunnar, viðhaldi hennar og endurnýjun, sbr. 3. gr. Í áðurgreindri 4. gr. hafi þess verið getiðað pípan væri í umsjá stefndu á meðan lagning hennar færi fram og bæru þeirábyrgð á tjóni sem kynni að verða á henni á því tímabili. Af þessu megi ráða að stefndu hafi einvörðungutekið að sér að leggja pípuna og á meðan á byggingu hennar hafi staðið hafi húnaðeins verið í þeirra umsjá, en ekki þeirra eign.Þá styðji tilurð samningsins kröfu stefnanda. Hreppsnefnd hafi borist beiðni frá stefndu umað hreppurinn gerðist eignar- og rekstraraðili væntanlegrar hitaveitu. Þetta hafi verið snemma árs 1971. Þágildandi orkulög nr. 58/1967 hafi kveðið áum það í 31. gr. að jarðeigendur sem ættu land þar sem leiðslur hitaveitusveitarfélags yrðu lagðar, svo og lóðareigendur og lóðarleigjendur íhlutaðeigandi umdæmi, væru skyldir til að láta af hendi land, landsafnot ogmannvirki sem þyrfti til að veita mætti vatni um veitusvæðið. Þeim væri einnigskylt að þola grjóttak, malartekju og aðra jarðefnatöku, svo og eignarkvaðir,óhagræði og takmörkun á afnotarétti sem bygging og rekstur hitaveitunnar kynnuað hafa í för með sér. Fullar bæturskyldu koma fyrir eftir mati, ef samkomulag næðist ekki. Með samningi sínum hafi aðilar verið að lagasig að því fyrirkomulagi sem þetta ákvæði hafi gert ráð fyrir og samið um þáaðstöðu sem þar greini. Það leiði afeðli máls að í samræmi við beiðni landeigenda um að hreppurinn yrði eignar- ogrekstraraðili hitaveitu, myndi hreppurinn jafnframt verða eigandi að þeimmannvirkjum sem hitaveitu fylgdu, sem og eigandi að landi undir mannvirkin semskýr ákvæði samningsins 1971 hafi kveðið á um og síðan reglugerð um hitaveituReykjahlíðar nr. 432/1985. Hafi stefnduþannig látið af hendi asbest­pípuna og land undir hana, allt í samræmi viðþetta lagaákvæði. Þá vísar stefnandi tilreglugerðarinnar, einkum 57. gr. þar sem er kveðið á um eignarrétt stefnanda aðöllum lögnum veitukerfisins og aðveitu- og stofnæðum. Fari svo að dómurinn telji samning aðila ogþágildandi 31. gr. laga nr. 58/1967 ekki hafa kveðið á um eignarrétt stefnandaað pípunni og landi undir hana, þá hafi eignarrétturinn tvímælalaust færst tilstefnanda með setningu reglugerðarinnar. IIIStefndu Anna, Leifur og Ólöf Þórelfur kveðast byggja áþví að kröfum stefn­anda á hendur þeim sé beint að röngum aðila. Kveðast þau vísa til þess að Vogabú ehf. eigiVoga I samkvæmt þinglýstum kaupsamningi.Af meginreglum eignaréttar og þinglýsingarlögum leiði að Vogabú I farimeð hefðbundin eignarráð jarðarhlutans. Séu þau því ekki með réttu aðilar tilað þola þá viðurkenningu sem dómkrafa stefnanda byggir á. Af þessum sökum geti þau ekki svarað tilefnisréttar í málinu og því beri að sýkna þau af kröfum stefnanda með vísan til2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.Stefndu byggja kröfu um sýknu af kröfu um viðurkenninguá gildi samnings á þeirri meginreglu kröfuréttar að samningum megi segja uppmeð hæfilegum fyrirvara, svo framarlega sem slíkt fari ekki gegn lögmætum ogskýrum ákvæðum þeirra sjálfra. Kveðastþau mótmæla sérstaklega fullyrðingu stefnanda um að samningurinn hafi veriðóuppsegjanlegur. Nægur fyrirvari hafiverið á uppsögn samningsins. Þannig hafi stefnandi verið upplýstur af stefndu íbyrjun febrúar 1990 um óánægju með framkvæmd á samningnum og hafi síðan átt sérstað viðræður á milli aðila í janúar 1991 um átján mánuðum fyrir uppsögn. Hafiverið farið fram á endurskoðun og það hafi verið samþykkt. Í framhaldinu hafi stefndu beint erindumítrekað til stefnanda um nauðsyn endurskoðunar samningsins, enda hafi stefndutalið forsendur hans brostnar. Lokaviðvörunhafi verið gefin 23. júní 1992 eins og stefnanda hafi verið ljóst og samningnumhafi endanlega verið sagt upp þann 20. júlí 1992. Uppsögn samnings sé ákvöð sem sé bindandi umleið og hún komi til móttakanda og þurfi ekki að samþykkja uppsögninasérstaklega. Það sé óumdeilt að stefnduhafi sagt samn­ingnum upp 20. júlí 1992 og hafi sá ákvaðargerningur sem íuppsögninni hafi falist verið bindandi fyrir stefnanda frá móttöku. Síðbúin mótmæli stefnanda 24. febrúar 1994hafi engu breytt um gildi uppsagnarinnar.Þá byggja stefndu á því að stefnandi hafi með háttsemi sinni viðurkenntgildi uppsagnarinnar því hann hafi ekki innt af hendi höfuðskyldu sína tilgreiðslu leiguverðs fyrir heitt vatn í samræmi við samn­inginn.Stefndu kveðast einnig vísa til þess að samningurinnhafi verið leigu­samn­ingur. Stefndu hafi átt eignarrétt á bæði 4,5 lítrum ásekúndu af heitu vatni og aðrennslisæð til að flytja það frá Reykjahlíð tilVoga. Þá hafi þeim verið sérstaklegatryggður réttur til endurgjaldslauss flutnings á þessu heita vatni fráBjarnarflagi og allt til Voga samkvæmt samningi íslenska ríkisins viðlandeigendur í Reykjahlíð frá 18. mars 1971.Með hliðsjón af þessu og meginreglu íslensks réttar um nýtingu eigenda áeignarrétti sínum, sbr. einnig 10. gr. laga nr. 57, 1998, hafi stefndu veriðbæði heimilt að lögum og samkvæmt samningnum að ráðstafa jarðhitavatni sínu tileigin nota. Þá kveðast stefndu benda áað þó stefnandi hafi litið svo á að stefndu væru að nýta sér eigin jarðhitasamkvæmt samningi sínum við íslenska ríkið, ákvæði 10. gr. laga nr. 57, 1998 ogtilkynningu frá 31. desember 1991, þá hafi stefnanda borið skylda til að greiðafyrir a.m.k. 2,5 lítra á sekúndu af heitu vatni ef hann hafi talið samningaðila verið í gildi að einhverju leyti.Í nýlegum ársreikningum stefnanda sé sérstaklegatiltekið í skýringum að samningi aðila hafi verið sagt upp árið 1992 og ekkihafi tekist samningar um áframhaldandi leigu.Hafi stefnandi þannig staðhæft í opinberum skjölum sem m.a. sé beint tillánardrottna og viðsemjenda hans, að um uppsögn hafi verið að ræða og frá þeimtíma sé enginn samningur á milli aðila um leigu á heitu vatni.Stefndu segjast telja að þeim hafi verið rétt að segjasamningi aðila upp bæði vegna breyttra aðstæðna frá samningsgerð, ósanngjarnsleiguverðs og vegna brostinna forsendna.Þannig hafi orðið veruleg og óhagkvæm stækkun á svæði Hitaveitunnar semhafi leitt til hærri hitaveitugjalda og brotthvarfs afgangsvatns samkvæmt 11.gr. samningsins. Afleiðing þessa sé m.a.að gróðurhúsum í Vogum hafi fækkað úr fimm í tvö. Þessu til viðbótar hafi verið og sé verulegurmunur á markaðsverði á heitu vatni og leiguverði til stefndu samkvæmtsamningnum eins og m.a. hafi verið viðurkennt af veitunefnd stefnanda á fundiþann 7. nóvember 1992.Stefndu kveðast byggja á því að hófleg hitaveitugjöld,raunverð á leiguverði heita vatnsins og notkun á afgangsvatni til heyþurrkunarog ræktunar hafi verið ákvörðunarástæða fyrir samningi þeirra við stefnandaárið 1971. Megi af gögnum málsins sjá aðþað hafi þótt sanngirnismál að hækka verð, tryggja stefndu forgangs­vatn tiltiltekinna eigin þarfa og jafnvel auka nýtingarmagn í 5 lítra á sekúndu. Vísa stefndu hér einkum til miðlunartillögugerðardóms. Þessu til viðbótar segjaststefndu telja að framangreindar ástæður um brostnar forsendur og munur ásöluverðmæti heits vatns miðað við uppreiknað leiguverð samkvæmt samningiaðila, auk vanefnda stefnanda á ákvæðum samningsins til 25 ára, leiði til þessað umræddur samningur geti ekki verið skuldbindandi og ósanngjarnt sé afstefnanda að bera hann fyrir sig, sbr. 36. gr. samningalaga nr. 7, 1936.Stefndu segjast telja sig eiga asbestpípuna. Hún liggitil Voga frá brunni í Reykjahlíð en til Reykjahlíðar liggi pípa sem flytjiheitt vatn frá Bjarnarflagi samkvæmt samningum landeigenda Voga og Reykjahlíðarvið íslenska ríkið 1971. Hafi veriðsérstök kvöð í síðarnefnda samningnum um endurgjaldslausan flutning á allt að 5sekúndulítrum af heitu vatni frá Bjarnarflagi allt til Voga til afnota fyrirstefndu sem kveðast byggja á því að þau hafi séð um og kostað gerð umræddrarpípu, bæði með vinnu og fjármagni. Þessutil viðbótar hafi pípulögnin verið hluti af endurgjaldi sem íslenska ríkið hafigreitt fyrir jarðhitaréttindi stefndu samkvæmt samningi aðila frá 1971. Hafi ríkið átt að greiða ákveðnapeningaupphæð sem stefndu myndu umbreyta með eigin vinnu og viðbótarfjármagni íþau verðmæti sem felist í pípulögninni.Þannig sé ljóst að frumstofnun eignarréttar yfir henni sé hjá stefndu. Sú hlunnindaleiga sem hafi falist íleigusamningi aðila þessa máls hafi ekki falið í sér afsal á eignarrétti aðpípulögninni. Hafi gerðardómsmenn komistað sömu niðurstöðu í sinni miðlunartillögu, enda væri önnur niðurstaðaósanngjörn í garð stefndu. Samninguraðila sé afnotasamningur um tiltekin réttindi eins og megi sjá af orðfærisamningsins þar sem stefnandi sé nefndur leigutaki og stefndu leigusali. Samið hafi verið um að stefndi fengi á leiguannars vegar 4,5 sekúndulítra af heitu vatni gegn árlegri peningagreiðslu oghins vegar afnotarétt til asbestpípulagnar sem stefndu hafi byggt gegn greiðsluí formi rekstrar, viðhalds og endurnýjunar lagnarinnar. Benda stefndu á að ef um afsal hefði verið aðræða hefði verið óþarfi að mæla fyrir um það í samningnum hvernig skyldi fariðmeð kostnað af rekstri, viðhaldi eða endurnýjun. Hefði samningurinn falið í sér afsal hefðiverið mælt fyrir um greiðslu endurgjalds af hálfu stefnanda fyrir þaufjárhagslegu verðmæti. Séu engin slík ákvæði í samningnum. Sérstök ákvæði hans um að land sé endurgjaldslaustlagt undir pípulögnina og heimil sé nauðsynleg umferð til viðhalds henni séutil staðfestingar á því að um afnota­samning sé að ræða. Hafi verið óþarfi að mæla sérstaklega fyrirum skil leigutaka á hinu leigða við lok samnings enda leiði slíkt af almennumreglum. Þá mótmæla stefndu því að einhliða bókun stefnanda í fundargerð mælifyrir um eignarheimild, auk þess sem ekki verði ályktað af fundargerðinni aðþar hafi átt sér stað bindandi afsal.Það verði ekki heldur ályktað af ákvæði 31. gr. þágildandi orkulaga nr.58, 1967, enda samræmist það hvorki tilvitnuðu lagaákvæði né málsatvikum. Þá hafi setning reglugerðar nr. 432, 1985ekki leitt til þess að stefnandi eignaðist pípulögnina.Hitaveita Reykjahlíðar hafi ekki getað ráðstafað meirirétti til pípulagnarinnar en hún hafi átt og þá hafi hita- og vatnsveitunefndstefnanda lagt til að stefnandi keypti pípuna af stefndu. Ekki hafi orðið af því en það sýni að árið1984 hafi það verið álit þessarar nefndar að stefndu ættu pípuna.Stefndu vísa til stjórnarskrár lýðveldisins Íslandsnr. 33, 1944, almennra meginreglna eignaréttar, samningaréttar og kröfuréttar,laga nr. 7, 1936, laga nr. 57, 1998, laga nr. 39, 1978, laga nr. 53, 1989, laganr. 91, 1991 og loks laga nr. 50, 1988.IVVitnin Gísli Sigurðsson og Sigurður Rúnar Ragnarsson gáfu skýrslur fyrirdómi.Fallist er á það með stefnanda að nauðsynlegt hafiverið að stefna öllum þinglýstum eigendum. Teljast stefndu Anna, Leifur og ÓlöfÞórelfur vera þinglýstir eigendur meðan þau hafa ekki afsalað eignarréttisínum. Verður ekki fallist á kröfur þeirra að því leyti sem þær eru byggðar áaðildarskorti.Í samningi aðila eru þeir kallaðir leigutaki ogleigusali. Orðalag um afhendingu og landnotkun samrýmist því að um leigusamninghafi verið að ræða. Verður að skilja hann svo að með honum hafi asbestpípanverið seld á leigu og leigugjaldið hafi í raun verið innifalið í afgjaldi fyrirvatnsréttindi, sem samningurinn tekur einnig til. Gat stefnandi því ekkieignast pípuna með reglugerð eða á annan hátt án atbeina stefndu. Verðursamkvæmt þessu ekki fallist á kröfu stefnanda um viðurkenningu á að hann eigipípuna.Að pípunni slepptri hljóðar samningurinn umvatnsréttindi. Engin upp­sagnar­ákvæði er að finna í honum og ekki heldurákvæði um gildistíma.Hvorugum aðila ætti að hafa dulist við gerðsamningsins að vatnsréttindin væru látin af hendi vegna hitaveitu. Eðli málsinssamkvæmt er slíkur samningur varanlegur svo lengi sem hitaveitan starfar, séekki kveðið sérstaklega á um annað. Breytir engu þótt endurgjaldið hafi veriðákveðið sem árlegt afgjald. Að þessu gættu verður fallist á það með stefnandaað samningurinn sé ekki uppsegjanlegur.Stefnandi hætti að greiða afgjaldið eftir uppsögnstefndu. Stefndu hættu einnig að greiða stefnda fyrir notkun á heitu vatni.Stefnandi hefur samt sem áður haldið áfram að afhenda þeim heitt vatn. Þóttstefnandi hafi vanrækt greiðsluskyldu sína samkvæmt samningnum verður ekkiframhjá því horft að samningurinn hefur áfram verið framkvæmdur að því leyti aðstefnandi hefur tekið vatnið sem hann hljóðar um. Verður ekki fallist á eins ogþetta mál er vaxið að stefnandi hafi fallið frá samningnum með því að hættagreiðslum til stefndu.Þá verður ekki litið svo á að stefnandi hafi falliðfrá samningnum með því að geta þess í ársreikningi sínum að stefndu hefðu sagthonum upp og ekki hefði tekist að semja við þá.Stefndu telja að samningurinn hafi verið orðinn þeimóhagstæður vegna stækk­unar hitaveitunnar og þess að heitt vatn hafi orðið þeimdýrara en þeir hafi ráðgert. Stefndu er unnt að leita endurskoðunar áendurgjaldsákvæði samningsins, sé það orðið bersýnilega ósanngjarnt vegnabreyttra aðstæðna. Þá er ráðgert í samn­ingnum að allt vatn samkvæmt honumverði nýtt af stefnanda. Verður ekki fallist á að skilyrði séu til að víkjasamningnum til hliðar með vísun til 1. mgr. 36. gr. samningalaga.Samkvæmt þessu verður fallist á kröfu stefnanda umviðurkenningu á gildi samningsins.Eftir þessum málsúrslitum þykir rétt að hver aðiligreiði sinn kostnað af rekstri málsins.Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari kveður upp dóminn.Gætt var ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.DÓMSORÐ:Stefndu, Vogabú ehf., Anna Skarphéðinsdóttir, LeifurHallgrímsson, Ólöf Þór­elfur Hallgrímsdóttir, Jóhann Friðrik Kristjánsson,Hermann Kristjánsson, Elín S. Kristjánsdóttir, Þórhallur Kristjánsson, HjördísSigríður Albertsdóttir, Þórdís Guðfinna Jónsdóttir, Gunnar Rúnar Pétursson,Jónas Pétur Pétursson, Jón Árni Sigfússon, Gísli Rafn Jónsson, JakobStefánsson, Valla sf., Sólveig Erla Hinriksdóttir, Jón Ingi Hin­riksson ogVogar 4 ehf., eru sýkn af kröfu stefnanda, Veitustofnunar Skútu­staðahrepps umað viðurkenndur verði eignarréttur stefnanda að asbestpípu sem liggur fráskipti­stöð í landi Reykjahlíðar að landi Voga.Viðurkennt er að samningur Hitaveitu Reykjahlíðar ogeigenda Voga í Skútustaðahreppi frá 1. júlí 1971 sé gildur.Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 250/2010
Brenna
J var sakfelldur fyrir brennu með því að hafa hellt bensíni úr brúsa inn í og á bifreiðina A sem stóð á bifreiðarstæðinu við L, kveikt í bensíninu og valdið með því eldsvoða sem hafði í för með sér almannahættu. Eldurinn breiddist út með þeim afleiðingum að bifreiðin A, ásamt bifreiðinni B, brann og bifreiðin C stórskemmdist ásamt því að sprungur komu í rúður á 1. og 2. hæð hússins við L. Var brotið talið varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. J játaði sök. Í dómi Hæstaréttar segir að J hlaut að vera ljóst að íkveikjan myndi hafa í för með sér augljósa hættu á yfirgripsmikilli eyðingu á eignum annarra manna. Refsing J var ákveðin með hliðsjón af 78. gr. laga nr. 19/1940 og var hún ákveðin fangelsi í 2 ár. Með hliðsjón af alvarleika brotsins þótti ekki tilefni til að skilorðsbinda refsinguna.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. apríl 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða en refsing hans þyngd. Ákærði krefst þess að refsing verði milduð. Ákærða hlaut að vera ljóst að íkveikjan myndi hafa í för með sér augljósa hættu á yfirgripsmikilli eyðingu á eignum annarra. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Ákærða verður gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Ákærði, Jón Óskar Auðunsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 335.236 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. febrúar 2010. Mál þetta var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 18. desember 2009, á hendur, Jóni Óskari Auðunssyni, kt. 201084-2889, Kúludalsá 1, Akranesi, „fyrir brennu, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 31. október 2008 hellt bensíni úr bensínbrúsa inn í og á bifreiðina A á bifreiðastæði við norðurhlið hússins að L 22 í Reykjavík, kveikt í bensíninu og valdið með því eldsvoða sem hafði í för með sér almannahættu, en eldurinn breiddist út með þeim afleiðingum að bifreiðin brann ásamt bifreiðinni B, sem lagt var hægra megin við A, sótskemmdir urðu á bifreiðinni C sem lagt var austan megin við húsið og sprungur komu í rúður á 1. og 2. hæð hússins vegna hita. Með þessu olli ákærði eignatjóni á bifreiðunum og húsinu og hættu á frekara eignatjóni hefði eldurinn náð að breiðast út frekar og ekki verið slökktur fljótlega af slökkviliði. Þetta telst varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.” Við þingfestingu játaði ákærði brot sitt fyrir dóminum og var málið tekið til dóms eftir að málflytjendur höfðu tjáð sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Ekki kom fram ósk um að fram færi aðalmeðferð, sbr. 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008. Játning ákærða er í samræmi við önnur gögn málsins, þar með taldar skýrslur er hann gaf hjá lögreglu. Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir brotið. Að tilhlutan lögreglu var dómkvaddur matsmaður til að meta hvort almannahætta hefði stafað af broti ákærða. Í niðurstöðum hans segir meðal annars: „Þegar metin er hætta á að hagsmunir færust eða spilltust utan þeirrar eignar sem kviknaði í svo sem nálæg hús, eða önnur mannvirki og lausafjármunir og einnig hættu fyrir þá sem höfðust að í nágrenni við brunavettvang er fyrst og fremst að skoða húsið L 22. Bifreiðin stóð á planinu framan við húsið og voru fjarlægðir í íbúðarhúsið mjög stuttar, undir 0,5 m eftir ljósmyndum lögreglunnar að dæma. Þar sem húsið sjálft er úr steini er hitageislun á það sjálft ekki hættuleg, en allir gluggar og hurðir mynda veikleika. Opnanlegu fögin voru opin og var strax farið í að loka þeim. Fjarlægðin í horngluggann á kjallaraíbúðinni hefur verið undir 2 m frá framrúðu bifreiðarinnar sem er talsvert styttra en útreiknuð örugg fjarlægð sem er 3,4 m og því er mikil hætta á að eldurinn myndi brjóta rúðuna og berast inn í húsið væri ekkert að gert. Hornglugginn á íbúðinni á 1. hæð er um 1,2 fyrir ofan gluggann á kjallaranum og því einnig innan áðurnefndrar öruggrar fjarlægðar og því er hætta á að eldurinn bryti einnig þann glugga og bærist inn í húsið. Hornglugginn í íbúðinni á 2. hæð er kominn nálægt mörkum að brotna í brunanum af hitageisluninni. Horngluggarnir eru á svefnherbergjum íbúðanna. Forstofuhurðin sem er 5.0 m inn á húshliðinni frá horninu er utan þessara marka og ekki hætta á að eldurinn bærist þangað né í gluggann á stigahúsinu þar fyrir ofan. Suzuki bifreiðin sem stóð í um 1.0 m fjarlægð er langt innan þessara marka fyrir glerið í gluggunum sem og fyrir hjólbarðana og því er öruggt að eldurinn myndi breiðast yfir í hana á nokkrum mínútum eftir að eldurinn í [...] bifreiðinni hefur náð að magnast.“ Niðurstaða matsmannsins er þessi: „Með vísan til ofanritaðs má telja öruggt að íkveikjan leiddi til almannahættu að því er varðar umfangsmikla eyðingu á bifreiðunum A og B og einnig á húseigninni og lausafjármunum í L 22 hefði eldurinn brunnið áfram og borist inn í húsið í kjallara og á 1. hæð. Ekki eru líkur á að eldurinn hefði getað borist í L 24 eða að aðrar bifreiðar eða lausafjármunir myndu spillast eða fara forgörðum. Almannahætta er ekki til staðar fyrir íbúa L 22 né heldur fyrir L 24.“ Samkvæmt gögnum málsins, skýrslum lögreglu, ljósmyndum og uppdráttum, stóð bifreiðin, sem ákærði kveikti í eftir að hafa hellt yfir hana bensíni, fast við íbúðarhús og við hlið annarrar bifreiðar. Með vísun til þessa og þess, sem að framan var rakið úr skýrslu matsmannsins, er það niðurstaða dómsins að ákærða hafi mátt vera ljóst að íkveikjan mundi hafa í för með sér augljósa hættu á yfirgripsmikilli eyðingu á eignum annarra manna. Samkvæmt þessu varðar brot ákærða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga eins og í ákæru greinir. Áður en ákærði framdi brotið, sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir, hafði hann samtals níu sinnum verið sektaður fyrir umferðarlagabrot og þrisvar sinnum sviptur ökurétti. Eftir að hann framdi brotið hefur hann verið sektaður fyrir skemmdarverk og 20. maí síðastliðinn var hann dæmdur í 45 daga fangelsi fyrir ölvunarakstur og réttindaleysi við akstur og sviptur ökurétti í 3 ár og 6 mánuði. D ó m s o r ð : Ákærði, Jón Óskar Auðunsson, sæti fangelsi í 2 ár. Ákærði greiði 145.269 krónur í sakarkostnað og málsvarnarlaun verjanda síns, Sigmundar Hannessonar hrl., 224.100 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Mál nr. 22/2009
Umhverfisáhrif Stjórnsýsla
Í tillögu að matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum lagningar hringvegar um H hafði V lýst þremur framkvæmdakostum. Áfrýjendur lögðu fram tvo framkvæmdakosti til viðbótar, sem þeir færðu rök fyrir að metnir skyldu samhliða kostum V. Í tillögu að matsáætlun sem V sendi til S í október 2006 var fjallað um þá framkvæmdakosti sem áfrýjendur lögðu til og hafnað að þeir yrðu teknir til mats. Í ákvörðun S 5. desember 2006 var fallist á matáætlunina með athugasemdum. V kærði ákvörðunina til umhverfisráðherra, sem með úrskurði 11. maí 2007 féllst á kröfu V um að felldur yrði úr gildi sá hluti hennar sem meðal annars laut að því að V skyldi meta framkvæmdakosti sem áfrýjendur höfðu lagt til. Áfrýjendur höfðuðu mál og kröfðust ógildingar á úrskurði umhverfisráðherra. Talið var að ekki væru slíkir formannmarkar á úrskurði umhverfisráðherra að ógildi varðaði. Þá var fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að framkvæmdaaðili hefði forræði á því hvaða framkvæmdakostir uppfylltu markmið framkvæmdar, enda væri mat hans í þeim efnum reist á hlutlægum og málefnalegum grunni. Ekkert hefði komið fram í málinu er gæfi til kynna að leiðaval V hefði ekki verið reist á málefnalegum sjónarmiðum. V hefði rökstutt að önnur leiðin, sem áfrýjendur lögðu til, stytti leiðina minna en aðrir kostir, umferðaröryggi væri áfátt þar sem hún lægi nærri þéttbýli og á henni væru margar tengingar við hliðarvegi. Talið var að þessi sjónarmið væru málefnaleg og vörðuðu tilgang og markmið framkvæmdarinnar með þeim hætti að ekki yrði haggað því mati framkvæmdaaðila að hafna þessum kosti til mats. Þá hefðu áfrýjendur ekki hrakið þau rök að hin leiðin væri innan þess öryggissvæðis sem krafist væri vegna flugvallarins. Var talið að þetta væri málefnaleg forsenda til að hafna sérstöku mati á þessum kosti. Þá fælist í úrskurði umhverfisráðherra að tvær aðrar leiðir, sem deilt var um, kæmu til mats með óbeinum hætti og því væri ekki forsendur til að ógilda hann á þeim grunni að þessar leiðir yrðu ekki metnar. Voru V og Í sýknuð af kröfum áfrýjenda.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 16. janúar 2009. Þeir krefjast þess að ógiltur verði úrskurður umhverfisráðherra 11. maí 2007 um matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum lagningar hringvegar um Hornafjarðarfljót. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi stefndu. Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Stefndi Vegagerðin vinnur að undirbúningi lagningar nýs kafla á hringvegi um Hornafjarðarfljót. Vegna fyrirhugaðra framkvæmda fer fram lögbundið ferli við mat á umhverfisáhrifum í samræmi við lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, eins og þeim var breytt með lögum nr. 74/2005. Í tillögu að matsáætlun lýsti stefndi Vegagerðin þremur framkvæmdakostum. Einn þeirra, sem nefndur var leið 1, liggur norðan Hornafjarðarflugvallar, en hinir tveir sem nefndir voru leiðir 2 og 3, sunnan hans. Í kynningarferli matsáætlunarinnar gerðu áfrýjendur margar athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir og lögðu fram tvo framkvæmdakosti til viðbótar, sem þeir færðu rök fyrir að metnir skyldu samhliða kostum stefnda Vegagerðarinnar. Lutu þessir kostir báðir að leiðum norðan flugvallar. Þeir voru nefndir leið 4, sem liggur mjög nærri leið 1, en er að mestu leyti sunnan hennar og nær flugbrautarenda og leið 5 sem liggur allmiklu norðar og kemur úr vestri inn á núverandi hringveg áður en hann liggur framhjá þéttbýlinu í Nesjum. Í tillögu að matsáætlun, sem stefndi Vegagerðin sendi til Skipulagsstofnunar í október 2006, var fjallað um þá framkvæmdakosti sem áfrýjendur lögðu til og hafnað að þeir yrðu teknir til mats. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar 5. desember 2006 var fallist á matsáætlunina með athugasemdum og var stefnda Vegagerðinni þar gert að meta umhverfisáhrif af endurbyggingu núverandi vegar og kostum 4, 4a, 5 og 5b, en kostir 4a og 5b eru tilbrigði við þá kosti sem áfrýjendur höfðu áður lagt til og að framan er lýst. Stefndi Vegagerðin kærði ákvörðun Skipulagsstofnunar til umhverfisráðherra og krafðist þess að úr gildi yrði felldur sá hluti hennar sem laut að því að meta skyldi þá framkvæmdakosti, er áfrýjendur lögðu til, sem og endurbyggingu núverandi vegar. Með úrskurði 11. maí 2007 féllst umhverfisráðherra á kröfu stefnda Vegagerðarinnar. Áfrýjendur leita með málsókn þessari ógildingar á þeim úrskurði. Málavöxtum er nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi. II Með lögum nr. 74/2005 voru gerðar umfangsmiklar breytingar á því ferli umhverfismats sem gilt hafði samkvæmt eldri lögum. Þannig tekur Skipulagsstofnun eða umhverfisráðherra á málskotsstigi ekki lengur afstöðu til þess hvort fallist sé á eða lagst gegn framkvæmd, heldur á matsferlið þess í stað að miða að því að matsskýrsla framkvæmdaaðila lýsi sem best öllum veigamiklum umhverfisáhrifum framkvæmdar og athugasemdum umsagnaraðila og almennings um hana. Í áliti Skipulagsstofnunar um endanlega matsskýrslu skal tekin afstaða til þess hvort skýrslan sé í réttu horfi og lýsi umhverfisáhrifum framkvæmdar á fullnægjandi hátt, hvert sé gildi gagna sem búa að baki matinu og hvernig framkvæmdaaðili hafi brugðist við umsögnum og athugasemdum við frummatsskýrslu. Jafnframt var kveðið á um tengsl framkvæmdaleyfis við mat á umhverfisáhrifum og skyldur leyfisveitanda í því sambandi. Samhliða þessum breytingum var málskotsréttur til umhverfisráðherra þrengdur til muna og málskotsréttur til æðra stjórnvalds vegna matsskyldra framkvæmda að mestu bundinn við leyfi til framkvæmda á sveitarstjórnarstigi. Eru þessi meginatriði breytinganna rækilega skýrð í lögskýringargögnum. Í þessu samhengi verður að líta til 3. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000 með síðari breytingum, en samkvæmt henni getur framkvæmdaaðili kært til ráðherra ákvörðun Skipulagsstofnunar eftir 2. mgr. 8. gr. um synjun matsáætlunar eða breytingar á henni. Með þessu ákvæði er með skýrum hætti kveðið á um þrengri aðild að kærumálum hjá æðra stjórnvaldi en leiða myndi af almennum reglum. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að ekki séu slíkir formannmarkar á úrskurði umhverfisráðherra að ógildi varði. Í héraðsdómi er rakið hvernig tilgangi og markmiði framkvæmdarinnar var lýst í tillögu stefnda Vegagerðarinnar að matsáætlun. Fallist er á þá niðurstöðu héraðsdóms að framkvæmdaaðili hafi forræði á því hvaða framkvæmdakostir uppfylli markmið framkvæmdar, enda sé mat hans í þeim efnum reist á hlutlægum og málefnalegum grunni. Af tillögu að matsáætlun og öðrum gögnum málsins verður glögglega ráðið hvers vegna stefndi Vegagerðin valdi þær þrjár leiðir, sem hann lagði fram til athugunar við mat á umhverfisáhrifum. Þær ástæður eru allar málefnalegar og er tekið undir með héraðsdómi að ekkert hafi komið fram í málinu er gefi til kynna að það leiðaval hafi ekki verið reist á málefnalegum sjónarmiðum. Stefndi Vegagerðin hafnaði rökstuddri kröfu áfrýjenda um að jafnframt yrðu teknar til mats leiðir 4 og 5 ásamt tilbrigðum við þær. Í tillögu að matsáætlun og öðrum gögnum málsins er rökstutt af hálfu stefnda Vegagerðarinnar að leið 5 falli ekki að tilgangi og markmiðum framkvæmdarinnar meðal annars vegna þess að hún stytti leiðina minna en aðrir kostir og umferðaröryggi sé áfátt þar sem hún liggi nærri þéttbýlinu í Nesjum og á henni séu margar tengingar við hliðarvegi. Þessi sjónarmið eru málefnaleg og varða tilgang og markmið framkvæmdarinnar með þeim hætti að ekki verður haggað því mati framkvæmdaaðila að hafna þessum kosti til mats. Stefndi Vegagerðin færði á hinn bóginn í tillögu að matsáætlun þau rök ein fyrir því að hafna mati á leið 4 að hún væri innan þess öryggissvæðis sem Flugmálastjórn krefðist vegna flugvallarins. Áfrýjendur hafa ekki hrakið að sú sé raunin og er þetta málefnaleg forsenda til að hafna sérstöku mati á þessum kosti. Á hinn bóginn segir meðal annars í kæru stefnda Vegagerðarinnar til umhverfisráðuneytisins: „Vegagerðin hefur lagt fram valkost, leið 1, sem liggur norðan flugvallar og kemur ekki til með að raska grunnsævi og strandlengju með þeim hætti sem veglínur 2 og 3 kunna að gera. Veglínur 4 og 4a eru innan framkvæmdasvæðis og því óþarft að tilgreina þær sérstaklega vegna mats á umhverfisáhrifum en eins og fram kemur í hinni kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar munu athuganir og mat á áhrifum framkvæmda á umhverfið ná til þessa svæðis.“ Samkvæmt þessu sýnist stefndi Vegagerðin í kærunni færa þau rök ein gegn því að meta leiðir 4 og 4a að þær liggi svo nærri leið 1 að sérstakt umhverfismat vegna þeirra sé óþarft. Í athugasemdum stefnda Vegagerðarinnar 27. febrúar 2007 til umhverfisráðuneytisins vegna umsagna Umhverfisstofnunar og Skipulagsstofnunar um kæruna kemur einnig fram að unnt yrði að hnika til veglínum innan rannsóknarsvæðis og þá gæti „svo farið að endanleg veglína liggi nálægt leiðum 4 og 4a. Þar sem þær liggja innan rannsóknarsvæðis fyrir leið 1 er ekki þörf á að meta umhverfisáhrif þeirra sérstaklega.“ Verður í ljósi þessa að skilja úrskurð umhverfisráðuneytisins svo að í honum felist að sérstakt mat á kostum 4 og 4a sé óþarft, enda er úrskurðurinn á því reistur að stefndi Vegagerðin hafi forræði á því hvaða kosti hann telji uppfylla markmið framkvæmdarinnar. Í úrskurðinum felst því að leiðir 4 og 4a koma til mats með þessum óbeina hætti og eru því ekki forsendur til að ógilda hann á þeim grunni að þessar leiðir verði ekki metnar. Áfrýjendur hafa ekki fært fram haldbær rök fyrir því að tilskipanir Evrópusambandsins sem innleiddar voru með lögum nr. 106/2000, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, leiði til annarar niðurstöðu um forræði framkvæmdaaðila á því hvaða kostir koma til mats en að framan greinir. Þá skiptir ekki máli fyrir úrlausn um kröfu áfrýjenda í þessu máli hvað gerst hefur í ferli umhverfismats eða skipulagsmála varðandi veg yfir Hornafjarðarðarfljót eftir að úrskurður umhverfisráðherra var kveðinn upp 11. maí 2007. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að efnisannmarkar á úrskurði umhverfisráðherra varði ekki ógildi hans. Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur. Rétt er að hver aðila beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Mál þetta sem tekið var til dóms 21. október sl., er höfðað með birtingu stefnu 20. júní 2007. Stefnendur eru Ragnar Stefánsson, Árnanesi 1, Ásgeir Núpan Ágústsson, Árnanesi III, Ásmundur Gíslason og Helga Erlendsdóttir, Árnanesi V, Ragnar Jónsson, Akurnesi, Hjalti Egilsson og Eiríkur Egilsson, Seljavöllum, Bjarni Hákonarson og Finndís Harðardóttir, Dilksnesi, Kristján Jónsson, Dilksneslandi/lóð 2, Kjartan Jónsson og Lovísa Eymundardóttir, Hjarðarnesi, Meðalfell ehf., Meðalfelli, Þorleifur Hjaltason, Hólum, Guðbjörg Ósk Jónsdóttir, Anna Lilja Jónsdóttir og Þorbergur Hjalti Jónsson, Hólum. Stefndu eru íslenska ríkið og Vegagerðin. Stefnendur gera þær dómkröfur að ógiltur verði úrskurður umhverfisráðherra frá 11. maí 2007, mál ráðuneytisins nr. 06120018, vegna kæru Vegagerðarinnar, þar sem hluti ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 5. desember 2006, um matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum lagningar hringvegar um Hornafjarðarfljót í sveitarfélaginu Hornafirði er felldur úr gildi. Þá krefjast stefnendur þess að stefndu verði dæmd in solidum til að greiða þeim málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi. Stefnda, íslenska ríkið, krefst sýknu af öllum kröfum stefnenda. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnenda in solidum, en til vara að málskostnaður verði látinn niður falla. Stefnda, Vegagerðin, krefst sýknu af öllum kröfum stefnenda í málinu. Þá krefst stefnda þess að stefnendum verði gert að greiða stefndu málskostnað að mati dómsins. Málsatvik. Stefnda, Vegagerðin, vinnur að undirbúningi framkvæmda við lagningu hringvegar um Hornafjarðarfljót. Liður í undirbúningi framkvæmda er lögbundið ferli mats á umhverfisáhrifum framkvæmda í samræmi við lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum með síðari breytingum. Samkvæmt 8. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 skal framkvæmdaraðili gera tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar, þar sem lýst er framkvæmd, framkvæmdasvæði og öðrum möguleikum sem til greina koma. Enn fremur skal gefa upplýsingar um skipulag á framkvæmdasvæði og hvernig framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum. Tilgangi framkvæmda þeirra er mál þetta lýtur að er lýst svo í tillögu að matsáætlun að hann sé að bæta samgöngur á Suðausturlandi og styrkja byggðarlög á Suðaustur- og Austurlandi með bættu vegasambandi á hringvegi. Vegalengdir milli Austurlands og Suðurlands styttist um a.m.k. 11 km. með nýjum vegi. Markmið með gerð vegarins sé fyrst og fremst að auka umferðaröryggi, draga úr slysahættu og tryggja góðar samgöngur á svæðinu. Stefnda, Vegagerðin, kynnti drög að tillögu að matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum hinnar fyrirhuguðu vegalagningar, 6. júlí 2006. Þessi drög voru send leyfisveitendum, umsagnar- og samráðsaðilum. Þá voru þau einnig kynnt almenningi og auglýst í fjölmiðlum. Var veittur frestur til að skila inn athugasemdum varðandi drögin. Lögmaður stefnenda skilaði inn athugasemdum fyrir þeirra hönd með bréfi dagsettu 31. júlí 2006. Í bréfinu voru gerðar alvarlegar athugasemdir við hugmyndir um veglínur samkvæmt leiðum 1, 2 og 3. Athugasemdirnar lutu m.a. að náttúru og umhverfi, kostnaði og öðru. Stefnendur rökstuddu tvo kosti sem þeir töldu eðlilegt að metnir yrðu jafnframt tillögum stefndu, Vegagerðarinnar, og nefndu þá leið 4 og 5. Þá var þess krafist að forsendum matsáætlunar yrði jafnframt breytt í nokkrum öðrum veigamiklum atriðum. Með bréfi stefndu, Vegagerðarinnar, frá 14. október 2006, barst Skipulagsstofnun tillaga að matsáætlun vegna hringvegar um Hornafjarðarfljót og var því hafnað að framangreindir kostir sem stefnendur höfðu lagt til, yrðu metnir. Í matsáætlun voru lagðir fram til mats þeir þrír kostir á veglínum sem stefnda, Vegagerðin, telur koma til greina sem framkvæmdakosti með tilliti til meginmarkmiða framkvæmdarinnar. Skipulagsstofnun tók ákvörðun um matsáætlunina 5. desember 2006 og féllst á áætlunina með athugasemdum. Var stefndu, Vegagerðinni, gert að meta umhverfisáhrif af endurbyggingu núverandi vegar og áhrif lagningar vegar samkvæmt valkostum 4, 4a, 5 og 5 b sem stefnendur höfðu sett fram, til viðbótar þeim veglínum sem kynntar voru í tillögu. Stefnda, Vegagerðin, kærði ákvörðun Skipulagsstofnunar til umhverfisráðherra á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000. Þess var krafist að felldur yrði úr gildi sá hluti ákvörðunar Skipulagsstofnunar sem fól í sér þá breytingu á matsáætlun stefndu, Vegagerðarinnar, að meta ætti umhverfisáhrif framkvæmdakosta stefnenda. Ennfremur varðaði kæran það álitaefni hvort meta ætti umhverfisáhrif núverandi vegar. Með úrskurði umhverfisráðherra frá 11. maí 2007 var fallist á kröfu stefndu, Vegagerðarinnar. Í úrskurðinum kemur eftirfarandi fram: ,,Lög um mat á umhverfisáhrifum og reglugerð um mat á umhverfisáhrifum, nr. 1123/2005 gefur framkvæmdaraðila rúmt svigrúm til að ákveða hvaða framkvæmdakosti hann telur að til greina komi. Ráðuneytið hefur ítrekað í úrskurðum sínum, þar á meðal frá 16. febrúar 2003 um mat á umhverfisáhrifum lagningar hringvegar um Norðurárdal, Kjálkavegi-Heiðarsporði í Akrahreppi og úrskurði frá 13. maí 2002 um mat á umhverfisáhrifum jarðgangna og vegagerðar á norðanverðum Tröllaskaga milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar, að framkvæmdaraðili hafi forræði á hvaða framkvæmdakosti hann telji að uppfylli markmið framkvæmdarinnar og beri því að skoða í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum. Ráðuneytið telur í ljósi ofangreinds ekki vera forsendur fyrir því að takmarka forræði framkvæmdaraðila á því hvaða framkvæmdakosti hann telur uppfylla markmið framkvæmdarinnar og beri því að skoða í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum. Ráðuneytið fellst með vísun til ofangreinds á kröfu kæranda um að ákvörðun Skipulagsstofnunar verði breytt á þá leið að fallist verði á matsáætlun hans án þess að meta þurfi umhverfisáhrif lagningar vegar skv. valkostum 4, 4a, 5 og 5b.“ Jafnframt segir í niðurlagi úrskurðar umhverfisráðherra að ráðuneytið hafi í fyrri úrskurðum ítrekað að framkvæmdaraðili hafi forræði á því hvaða framkvæmdakosti hann telji að uppfylli markmið framkvæmdarinnar. Í úrskurði ráðuneytisins frá 28. júní 2005 um mat á umhverfisáhrifum Gjábakkavegar hafi verið settar fram ákveðnar skorður á forræði framkvæmdaraðila varðandi það hvaða framkvæmdakosti honum bæri að meta í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum. Framkvæmdaraðila hafi í því tilviki verið falið að láta fara fram mat á umhverfisáhrifum enduruppbyggingar eldra vegstæðis þar sem umhverfismatið uppfyllti ekki formskilyrði laga um að metnir hefðu verið helstu framkvæmdakostir þannig að hægt væri að taka upplýsta afstöðu til hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar. Var þessi undanþága frá meginreglunni um forræði framkvæmdaraðila vegna mjög sérstakra aðstæðna, eins og fram kemur í úrskurði ráðuneytisins. Í lokaorðum niðurstöðu ráðherra segir að í 2. mgr. 9. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum séu gerðar kröfur til framkvæmdaraðila um að meta umhverfisáhrif helstu framkvæmdakosta sem til greina koma og bera þá saman til þess að leiða í ljós helstu umhverfisáhrif þeirra þannig að hægt sé að taka upplýsta afstöðu til hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar, áður en ákvörðun er tekin um framkvæmd. Í máli þessu liggi fyrir að Vegagerðin hafi sett fram 3 mismunandi framkvæmdakosti, sem að mati framkvæmdaraðila uppfylli þau meginmarkmið sem sett séu fram um styttingu á hringvegi og auki umferðaröryggi. Fyrir liggi að þessir þrír kostir hafi mismunandi áhrif á umhverfið. Ráðuneytið telji að þeir kostir sem framkvæmdaraðili leggi fram uppfylli kröfur 2. mgr. 9. gr. um samanburð á mögulegum valkostum. Með vísun til framangreinds féllst ráðuneytið á þá kröfu kæranda að honum væri ekki skylt að meta í mati á umhverfisáhrifum enduruppbyggingu núverandi vegar, hringvegar um Hornafjarðarfljót. Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslur stefnendur, Ragnar Jónsson og Anna Lilja Jónsdóttir og vitnin Árni Kjartansson og Erna Bára Hreinsdóttir. Málsástæður og lagarök stefnenda. Stefnendur kveðast fyrst hafa fengið vitneskju um kærumál stefndu, Vegagerðarinnar, þegar úrskurður umhverfisráðherra hafi verið birtur 18. maí 2007. Stefnendum hafi ekki verið tilkynnt um að málið væri til meðferðar í ráðuneytinu, sbr. 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og hafi ekki verið gefinn kostur á að neyta andmælaréttar og tjá sig um málið. Því telji stefnendur að umhverfisráðherra hafi við meðferð málsins brotið gegn andmælareglu stjórnsýsluréttar, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Ekki liggi fyrir hvort ráðuneytið hafi farið sjálfstætt yfir athugasemdir stefnenda frá 31. júlí og 7. nóvember 2006, en úrskurður umhverfisráðherra bendi ekki til þess að svo hafi verið. Í úrskurðinum sé í raun í engu vikið að athugasemdum stefnenda, nema óbeint með vísun til umsagnar Skipulagsstofnunar. Þetta gefi tilefni til að ætla að ráðuneytið hafi ekki haft undir höndum ítarlegar athugasemdir stefnenda, ásamt fylgiskjölum við úrlausn málsins. Þar af leiðandi telji stefnendur verulegar líkur á því að málið hafi ekki verið nægjanlega upplýst áður en ákvörðun var tekin og því hafi jafnframt verið brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar við meðferð málsins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Stefnendur byggja samkvæmt framangreindu á því að ákvörðun Skipulagsstofnunar sem kærð var til ráðuneytisins hafi verið stjórnvaldsákvörðun og því hafi reglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gilt við meðferð hennar. Verði ekki á það fallist er byggt á því að ákvörðun Skipulagsstofnunar sé í eðli sínu lík stjórnvaldsákvörðun og að meðferð hennar og kæra til æðra stjórnvalds eigi að vera í samræmi við sams konar reglur og gilda um töku stjórnvaldsákvarðana og kæru þeirra samkvæmt stjórnsýslulögum. Varðandi það hugtaksatriði stjórnsýsluákvörðunar, að um sé að ræða ákvörðun er bindi enda á stjórnsýslumál og lúti að efni þess, sé nauðsynlegt að líta til þeirra breytinga sem gerðar hafi verið á lögum nr. 106/2000 með lögum nr. 74/2005. Eftir breytinguna gefi Skipulagsstofnun álit sitt á mati á umhverfisáhrifum en kveði ekki upp úrskurð. Hinu lögbundna ferli mats á umhverfisáhrifum ljúki því ekki með töku stjórnvaldsákvörðunar. Í umræddu ferli taki Skipulagsstofnun einstakar ákvarðanir sem kæranlegar séu samkvæmt lögunum, sbr. 14. gr. þeirra. Fyrir liggi að samkvæmt lögunum verði að taka ákvörðun um matsáætlun, synjun eða samþykki, með eða án skilyrða. Ákvörðunin lúti að efni matsáætlunarinnar, áætlunar um hvaða kostir verði metnir í fyrirhuguðu mati á umhverfisáhrifum. Með ákvörðuninni sé bundinn endi á tiltekinn þátt mats á umhverfisáhrifum. Með ákvörðuninni ráðist hvaða kostir verði metnir í matsferlinu og lúti hún því að efni málsins. Verði ekki talið að um stjórnvaldsákvörðun sé að ræða, sé ljóst, að ákvörðunin sé engu að síður eðlislík slíkri ákvörðun og beri því að fara að sams konar reglum við töku hennar. Við úrlausn vafatilvika sé einmitt litið til þess hvort ákvörðun sé eðlislík stjórnvaldsákvörðun, auk þess sem haft sé í huga að markmið stjórnsýslulaga sé að tryggja réttaröryggi manna í skiptum við stjórnvöld og því þurfi að huga að því hvort í málinu sé nauðsynlegt að veita aðila þá réttarstöðu sem stjórnsýslulögin veiti. Stefnendur byggja kröfur sínar einnig á því að úrskurður umhverfisráðherra sé haldinn efnisannmörkum. Hann brjóti í bága við ákvæði laga nr. 106/2000. Stefnendur benda á að í 2. mgr. 9. gr. laganna, þar sem fjallað sé um innihald frummatsskýrslu, segi að ávallt skuli gera grein fyrir helstu möguleikum sem til greina koma og umhverfisáhrifum þeirra og bera þá saman. Þá skuli, samkvæmt 13. gr. reglugerðar nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum, í tillögu að matsáætlun koma fram upplýsingar um mögulega framkvæmdakosti sem til greina komi. Ákvæði þessi hafi mikla þýðingu því að samanburður á helstu möguleikum sé forsendan fyrir því að raunveruleg umhverfisáhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar séu metin og að hægt sé að taka upplýsta afstöðu til leyfisveitingar vegna framkvæmdar í kjölfarið. Þá sé markmið laganna að upplýsa um hvaða umhverfisáhrif framkvæmd hafi í för með sér og draga, eins og kostur er, úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmda, stuðla að samvinnu þeirra sem hagsmuna hafi að gæta, eða láti sig málið varða og gefa almenningi kost á að koma að athugasemdum og upplýsingum áður en mat á umhverfisáhrifum liggi fyrir. Mat á því hvaða möguleikar komi til greina, verði að vera málefnalegt og byggjast á hlutlægum grunni. Mat framkvæmdaraðila á því hvaða möguleikar komi til greina og eigi að sæta umhverfismati, hljóti því að sæta málefnalegri endurskoðun þeirra stjórnvalda sem falið sé vald til að endurskoða matsáætlun samkvæmt 8. gr. laga nr. 106/2000. Í tillögu að matsáætlun komi fram að tilgangur framkvæmdar með nýjum vegi sé að bæta samgöngur á Suðausturlandi og styrkja byggðarlög á Suðaustur- og Austurlandi með bættu vegsambandi á hringvegi. Markmið með gerð vegarins sé fyrst og fremst að auka umferðaröryggi, draga úr slysahættu og tryggja góðar samgöngur á svæðinu. Stefnendur telja að sú meginregla sem niðurstaða umhverfisráðherra byggist á, þ.e. að framkvæmdaraðili hafi algert forræði á því hvaða framkvæmdakosti hann telji uppfylla markmið framkvæmdarinnar, gangi í berhögg við markmið laga um mat á umhverfisáhrifum. Ef gengið sé út frá því, eins og gert sé í úrskurði ráðherra, að framkvæmdaraðilar hafi nánast frjálsar hendur um það hvaða kostir séu metnir, án þess að þurfa svo mikið sem að rökstyðja með fullnægjandi hætti að hafnað sé öðrum frambærilegum kostum, sé ferli samkvæmt IV. kafla laganna aðeins sýndarmennska og í raun tilgangslaust. Með því ferli sem þar sé mælt fyrir um, sé stefnt að því að meta kost og löst á mögulegum leiðum og gefa hagsmunaaðilum og almenningi tækifæri til að hafa áhrif á hvaða leið sé valin. Tilgangurinn sé þannig að leita að bestu niðurstöðu og taka upplýsta ákvörðun. Með úrskurði ráðherra sé gert lítið úr umræddu ferli og í raun gefið í skyn að það sé algjörlega þýðingarlaust, þar sem framkvæmdaraðila sé að mestu í sjálfsvald sett hvaða valkostir á vegstæði verði metnir. Þessi niðurstaða sé enn alvarlegri í ljósi þess að af lestri matstillögu stefndu, Vegagerðarinnar, megi ráða að fyrirhugað umhverfismat sé sýndargerningur til að réttlæta fyrirfram gefna niðurstöðu, en ekki faglegt mat á raunhæfum kostum. Stefnendur telja að áður en lagt hafi verið af stað í þá vegferð, sem bæði skipulags- og byggingarlög og lög um mat á umhverfisáhrifum ráðgeri, hafi í raun verið búið að taka þá ákvörðun sem með réttu eigi að koma síðust í því ferli og felist í útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir ákveðinni og endanlegri niðurstöðu. Með nokkuð einföldum hætti megi segja að sú atburðarás blasi við þegar matsáætlun sé lesin, að stefnda, Vegagerðin, og sveitarfélagið Hornafjörður hafi samið um að fylgja ekki vegleið á gildandi aðalskipulagi, en sammælst um að fara leið 3 sem sé ódýrari útgáfa af skipulagsleiðinni. Settur hafi verið annar valkostur af sömu leið, (leið 2) þar sem sneitt sé hjá Skarðsfirði, sem er á náttúruminjaskrá. Boðið hafi verið upp á þriðja valkostinn (leið 1), auk 0 leiðar, til þess að uppfylla út á við formlegar kröfur um raunverulegan samanburð. Þegar betur sé að gáð sé sú útfærsla ótæk, enda farið yfir skeiðvöll og reiðleiðir hestamanna, gamlan túngarð mjög nærri heimagrafreit og byggja þyrfti nýja brú á Laxá, rétt neðan við núverandi brú. Þetta samráð um fyrirframtekna ákvörðun skíni því í gegnum tillögu að matsáætlun, þótt formlega sé látið sem svo að engin ákvörðun hafi verið tekin. Til stuðnings framangreindu sé einnig vakin athygli á því að engin tilraun sé gerð af hálfu stefndu, Vegagerðarinnar, til þess að bera saman fyrirfram ákveðna kosti stefnda og tillögur stefnenda með eðlilegum hætti. Í þessu sambandi sé að lokum bent á, að auk þess sem vegkostir stefnenda hafi í för með sér mun minni röskun á eignarréttindum, afkomu og búsetu stefnenda, telji stefnendur að þeir muni valda margfalt minni umhverfis- og náttúruspjöllum. Þeir vegkostir sem stefnendur leggi til, séu jafnframt miklu ódýrari og leiði í stærstu dráttum til sömu niðurstöðu í samgöngulegu tilliti. Synjun á því að meta jafnframt vegkosti stefnenda verði að byggja á afar veigamiklum rökum. Engin slík rök hafi verið færð fram af hálfu stefnda, Vegagerðarinnar, í endanlegri matsáætlun, en allt hafi hins vegar verið gert til þess að réttlæta fyrirfram gefna niðurstöðu. Stefnda, Vegagerðin, vísi í röksemdum sínum til ráðuneytisins, til þess, að í samgönguáætlun sé lögð áhersla á mikilvægi styttingar vegleiða í þjóðvegakerfinu og þar sé ítrekað að stefna beri að 11 km. styttingu hringvegar um Hornafjarðarfljót. Hvorki Skipulagsstofnun né Vegagerðin hafi heimild til að ákveða að valkostur komi til greina, sem samrýmist ekki stefnumótun í samgönguáætlun. Í gildandi samgönguáætlun 2003-2014 sé ekki að finna það markmið að stytta eigi hringveg um Hornafjarðarfljót um 11 km. Samgönguáætlun 2007-2018 hafi ekki verið samþykkt, en þar sé stytting hringvegar um Hornafjarðarfljót um 11 km. nefnd, sem dæmi um mögulegar styttingar á þjóðvegi 1. Vegna þessa skuli sérstaklega bent á að þær leiðir sem stefnendur leggi til, leiði einnig til sambærilegrar styttingar Hringvegar. Af úrskurði umhverfisráðherra megi ráða að af hálfu ráðuneytisins hafi engin efnisleg könnun farið fram á þeim valkostum sem stefnendur hafi lagt til og þeim fjölmörgu athugasemdum sem settar hafi verið fram af þeirra hálfu. Málið hafi fyrst og fremst verið afgreitt með vísan til áðurnefndrar meginreglu um forræði framkvæmdaraðila, sem stefnendur telji að brjóti í bága við ákvæði 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 og markmið þeirra laga. Stefnendur telja að með úrskurði sínum hafi ráðherra fallist á matsáætlun, sem haldin sé verulegum efnislegum annmörkum og sé beinlínis í andstöðu við lög nr. 106/2000. Mikilvægt sé að útiloka ekki þá kosti sem ódýrastir séu og valdi minnstum áhrifum á náttúru, afkomu og búsetu. Þá styðja stefnendur kröfur sínar þeim rökum að breytingar sem gerðar voru á lögum nr. 106/2000 með lögum nr. 74/2005 leiði til þess að fyrri úrskurðarframkvæmd hafi ekki fordæmisgildi. Eftir þessar lagabreytingar sé það ekki lengur hlutverk Skipulagsstofnunar að kveða upp úrskurð um hvort fallast skuli á fyrirhugaða framkvæmd, með eða án skilyrða, eða leggjast gegn henni vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa. Eftir að lögunum var breytt gefi Skipulagsstofnun álit um mat á umhverfisáhrifum, sbr. 11. gr. laga nr. 106/2000. Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar bindi ekki leyfisveitanda framkvæmdar. Þessi staðreynd auki mikilvægi þess að allir helstu möguleikar sem til greina koma, séu metnir umhverfismati, sbr. 2. mgr. 9. gr. laganna og verði að skýra inntak ákvæðisins með hliðsjón af því. Í öðru lagi benda stefnendur á að skoða beri það ferli, sem liggur vegagerð af þessum toga til grundvallar, sem eina heild. Þannig sé ekki hægt að skoða matsáætlun með einangruðum hætti, umhverfismatið sjálft með sama hætti, sem og útgáfu framkvæmdaleyfis, mögulegt eignarnám og svo framvegis. Ekki hafi verið sýnt fram á að almannahagsmunir eða almannaþörf, í skilningi 72. gr. stjórnarskrár, réttlæti þá röskun eignarréttinda og annarra hagsmuna stefnenda sem augljóslega muni hljótast af þeim þremur kostum sem lagðir séu til í matsáætlun stefnda og unnt væri að komast hjá eða takmarka miklum mun frekar með öðrum leiðum sem í stærstu dráttum uppfylli markmið framkvæmdarinnar. Í þriðja lagi telja stefnendur að með úrskurði umhverfisráðherra sé brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, enda feli hann í sér að vegkostir, sem hafi í för með sér mun minni umhverfis- og náttúruspjöll og minni skerðingu á hagsmunum stefnenda, séu útilokaðir á fyrstu stigum málsins, þótt með þeim megi ná sömu markmiðum og að er stefnt með framkvæmdinni. Stefnendur leggi áherslu á, að þegar stjórnvöld hafi val um fleiri en eina leið til að ná því markmiði sem að sé stefnt, beri að velja það úrræði sem vægast er og að gagni geti komið. Hér verði að horfa til þess að um sé að ræða framkvæmd á vegum ríkisins og hin óskráða meðalhófsregla stjórnsýsluréttar hafi mun víðtækara gildi en einungis við töku stjórnvaldsákvörðunar. Í fjórða lagi vekja stefnendur athygli á því að af tillögu að matsáætlun verði ekki ráðið að til standi við fyrirhugað umhverfismat að taka til neinnar marktækrar skoðunar hagsmuni stefnenda. Stefnendur benda á að öndvert mörgum dreifbýlisstöðum hafi átt sér stað vöxtur á atvinnurekstri í Nesjum. Taki það til hefðbundins búskapar svo sem sauðfjár- og kúabúskapar, sem verið hafi í stöðugum vexti á svæðinu. Svæðið sé með stærstu kartöfluræktarsvæðum á landinu og sé kartöflurækt stunduð í stórum stíl og með arðbærum hætti, ekki síst á þeim svæðum nær sjó, þar sem tilfærsla veglínu muni augljóslega valda mestri röskun. Þá sé ferðaþjónusta stunduð í Nesjum. Tilfærsla þjóðvegar í veglínur 2 eða 3 myndi ganga af þeim atvinnurekstri dauðum og geti því engan veginn talist í samræmi við það markmið veglagningar að styrkja byggðarlög á Suðausturlandi. Stefnendur minna á að umhverfismat feli í sér, eðli málsins samkvæmt, að metin séu áhrif sem framkvæmd geti haft á umhverfið. Hugtakið umhverfi sé skilgreint svo í k-lið 3 gr. laga nr. 106/2000: ,,Samheiti fyrir menn, dýr, plöntur og annað í lífríkinu, jarðveg, jarðmyndandir, vatn, loft, veðurfar og landslag, samfélag, heilbrigði, menningu og menningarminjar, atvinnu og efnisleg verðmæti.“ Við mat á umhverfisáhrifum þurfi því að huga að þeim atriðum sem áhrif hafi á þessa þætti. Af matsáætlun stefnda verði hins vegar ekki ráðið að til standi við fyrirhugað umhverfismat að taka til neinnar marktækrar skoðunar ofangreinda hagsmuni stefnenda og uppfylli áætlunin því ekki þær efnislegu kröfur sem gera verði til hennar. Að lokum skuli sérstaklega á það bent að í ákvörðun Skipulagsstofnunar komi fram að sveitarstjórn sveitarfélagsins Hornafjarðar þurfi að láta vinna og samþykkja breytingu á aðalskipulagi Hornafjarðar 1998-2018 vegna framkvæmda við fyrirhugaða veglagningu og vegna efnistöku á þeim svæðum sem ekki séu tilgreind sem efnistökusvæði í aðalskipulaginu. Slík breyting sé háð lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Í þeim hluta ákvörðunar Skipulagsstofnunar sem eftir standi, þegar ráðuneytið hafi fellt hluta hennar úr gildi, segi m.a: ,,Skipulagsstofnun telur eðlilegt að sveitarstjórn ljúki við breytingu á aðalskipulagi og umhverfismat þess áður en frummatsskýrsla framkvæmdaraðila verður auglýst og kynnt. Þar sem matsvinna vegna framkvæmdarinnar mun vera allangt komin mun Skipulagsstofnun þó ekki gera athugasemd við að auglýsing og kynning á breytingu aðalskipulagsins fari fram samtímis kynningu á frummatsskýrslu. Staðfest breyting á Aðalskipulagi Hornafjarðar 1998-2018 þarf að liggja fyrir við samþykkt sveitarstjórnar á framkvæmdaleyfi vegna fyrirhugaðra framkvæmda.“ Vegna þessa skuli sérstaklega tekið fram að stefnendur byggi á því að þeir valkostir sem þeir hafi lagt fram við meðferð málsins séu þess eðlis að þeir falli undir ,,helstu möguleika sem til greina koma“ í skilningi 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000. Í umhverfisskýrslu skuli samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. laga nr. 105/2006 koma fram skilgreining, lýsing og mat á líklegum verulegum umhverfisáhrifum af framkvæmd áætlunarinnar og landfræðilegs umfangs hennar. Eins og fram komi í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 105/2006 sé nokkur munur á umhverfismati áætlana samkvæmt frumvarpinu og mati á umhverfisáhrifum framkvæmda, sbr. lög nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Markmið umhverfismats á áætlunarstigi sé að huga að umhverfisáhrifum á fyrri stigum ákvörðunartöku. Þar sem stefnumörkun á áætlunarstigi sé yfirleitt almenns eðlis, samanborið við það sem eigi við um einstakar framkvæmdir sem háðar séu mati á umhverfisáhrifum, verði að ganga út frá því að umhverfismat áætlana sé tiltölulega gróft mat, oft án þess að sérstakar rannsóknir á umhverfi og umhverfisáhrifum fari fram. Stefnendur telji að nauðsynlegt sé að leggja nákvæmt mat á umhverfisáhrif þeirra kosta sem þeir leggi til í samanburði við þá kosti sem stefndi, Vegagerðin, tefli fram. Valkostir sem stefnendur bendi á, verði ekki útilokaðir nema að undangengnu nákvæmu mati. Málsástæður og lagarök stefndu, Vegagerðarinnar. Stefnda bendir á að matsáætlun hafi verið unnin með hliðsjón af hugmyndum sem liggja fyrir um skipulag sveitarfélagsins Hornafjarðar þar sem gert sé ráð fyrir legu hringvegar sunnan flugvallarins í Hornafirði. Haft hafi verið samráð við sveitarfélagið um framkvæmdakosti sem lagðir hafi verið til grundvallar við gerð matsáætlunar með það að markmiði að framlagðir kostir yrðu bæði norðan og sunnan við flugvöllinn. Sunnan flugvallar hafi verið tilgreindir tveir kostir, veglínur 2 og 3, en lína 3 sé sunnar og í bestu samræmi við gildandi aðalskipulag sveitarfélagsins. Veglína 1 sé tilgreind sem kostur norðan flugvallar. Allir þrír kostir sem leggja eigi til grundvallar í mati á umhverfisáhrifum uppfylli ofangreind meginmarkmið samgönguyfirvalda með framkvæmdum, en hafi mismunandi umhverfisáhrif. Fram hafi komið athugasemdir og tillögur að veglínum norðan flugvallar með bréfi lögmanns hóps landeigenda í Nesjum, og í tillögu að matsáætlun hafi verið rökstutt í kafla 1.7 hvers vegna framkomnar tillögur stefnenda að veglínum, sem og enduruppbygging núverandi vegar séu ekki taldar koma til greina með tilliti til meginmarkmiða framkvæmdarinnar. Samkvæmt gildandi samgönguáætlun fyrir árin 2003-2014 sé stytting vegalengda mikilvægur þáttur samgönguáætlunar. Í minnisblaði er fylgdi bréfi Vegagerðarinnar til samgönguráðuneytisins sé enn frekari grein gerð fyrir forsendum þeirrar niðurstöðu að ekki þyki fært að leggja nýjan hringveg við Nesjahverfi eins og stefnendur hafi lagt til. Þar komi fram að gera megi ráð fyrir að unnt verði að ná fram 65% fækkun slysa á vegarkaflanum með færslu hringvegar samkvæmt tillögum framkvæmdaraðila. Vegi þar þyngst færsla hringvegar fjær Nesjahverfi enda sé slysatíðni á þeim hluta vegarins metin þrefalt hærri en landsmeðaltal. Stefnda byggir sýknukröfu sína á því að stefnendur séu ekki réttir aðilar að málinu og þar sem þeir eigi ekki aðild að því, beri að sýkna stefndu af kröfum þeirra. Stefnda byggir á því að framkvæmdaraðili einn eigi kæruaðild vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar um matsáætlun. Löggjafinn hafi tekið af tvímæli um að aðrir en framkvæmdaraðili geti ekki átt kæruaðild, sbr. skýlaust ákvæði þar um í 3. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000. Aðrir en framkvæmdaraðili eigi þar af leiðandi ekki aðild að dómsmáli vegna úrskurðar í kærumáli á grundvelli ákvæðisins. Stefnda byggir á því að dómur Hæstaréttar í máli nr. 20/2005 hafi fordæmisgildi í málinu og leiði til þess að stefnendur teljist ekki eiga aðild að málinu. Þá hafi stefnendur ólíkra og andstæðra hagsmuna að gæta hvað snerti endanlegt val á veglínu. Röksemdir stefnenda fyrir því að þeir hafi hagsmuna að gæta og beina aðild að málinu lúti að því að eignarréttindi þeirra séu með einhverjum hætti í uppnámi, en ekki verði séð að það geti átt við. Ljóst sé að úrskurður ráðherra geti ekki haft þýðingu varðandi eignarréttindi þeirra allra með sama hætti, þar sem hagsmunir þeirra fari ekki saman. Stefnda byggir á því að röksemdir stefnenda fyrir aðild að málinu geti því ekki byggst á mögulegum eignaskerðingum sem þeir kunni að verða fyrir í kjölfar úrskurðar ráðherra. Stefnda byggir á því að hvorki mat á umhverfisáhrifum sem stefnda láti gera, ákvörðun Skipulagsstofnunar né úrskurður umhverfisráðherra skerði eignarréttindi stefnenda og varði ekki hagsmuni stefnenda með þeim hætti að þeir geti öðlast aðild að dómsmáli er varði gildi úrskurðar umhverfisráðherra. Með vísan til framangreinds og 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er krafist sýknu vegna aðildarskorts stefnenda. Varðandi meinta formágalla á úrskurði umhverfisráðherra kveður stefndi að málsmeðferð ráðherra hafi verið í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Úrskurðurinn hafi uppfyllt þær formkröfur sem gerðar séu í stjórnsýslulögum nr. 37/1993 til úrskurða í stjórnsýslumálum eftir því sem við eigi í málinu. Stefnda byggir á því að stefnendur hafi ekki átt aðild að kærumálinu og af þeim sökum hafi ekki verið nauðsynlegt að tilkynna þeim um meðferð málsins samkvæmt 14. gr. stjórnsýslulaga eða gæta andmælaréttar gagnvart þeim samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga. Stefnda bendir á að stefnendur hafi fengið tækifæri til að koma að sínum sjónarmiðum við umfjöllun um matsáætlun hjá Skipulagsstofnun. Haldnir hafi verið kynningarfundir og fyrirhuguð málsmeðferð auglýst, og almenningi, þar á meðal stefnendum, gefinn kostur á að láta málið til sín taka við vinnslu matsáætlunar. Stefnendur hafi skilað skriflegum athugasemdum við tillögu stefndu að matsáætlun þegar hún hafi legið fyrir. Stefnda hafi fjallað um þær athugasemdir og Skipulagsstofnun hafi byggt ákvörðun sína að hluta á tillögum stefnenda. Stefnda telji samkvæmt framangreindu að sjónarmið stefnenda hafi legið fyrir strax við vinnslu málsins hjá Skipulagsstofnun sem byggt hafi ákvörðun sína að hluta til á tillögum þeirra. Athugasemdir stefnenda hafi fylgt ákvörðun Skipulagsstofnunar sem fylgiskjal og verið lagðar fram með kæru stefndu til umhverfisráðherra. Stefnda byggir á því að sjónarmið stefnenda hafi legið fyrir skriflega í gögnum málsins við meðferð þess á kærustigi hjá umhverfisráðherra. Hvorki hafi verið nauðsynlegt né skylt að gefa stefnendum kost á að koma að frekari athugasemdum við meðferð málsins á kærustigi. Fyrirliggjandi gögn hafi nægt til þess að málið teldist nægilega upplýst þannig að unnt væri að fjalla um álitaefni þau sem stefnda hafi lagt fyrir umhverfisráðherra til úrskurðar. Umhverfisráðherra hafi leitað umsagnar Skipulagsstofnunar og Umhverfisstofnunar um málið. Í umsögnum þeirra hafi m.a. verið fjallað um röksemdir fyrir þeirri niðurstöðu Skipulagsstofnunar að skylda ætti stefndu til að meta umhverfisáhrif af veglínum stefnenda. Þannig hafi verið tryggt að athugasemdir og röksemdir stefnenda fengju ítarlega skoðun og umfjöllun áður en úrskurður hafi verið kveðinn upp. Sjónarmið stefnenda hafi átt sér málsvara við meðferð málsins. Með hliðsjón af framangreindu telji stefnda ljóst að jafnvel þótt komist yrði að þeirri niðurstöðu að gera hefði átt stefnendum aðvart um málið og gefa þeim kost á að skila athugasemdum, hefði það í engu breytt efnislegri niðurstöðu þar sem sjónarmið og framlögð gögn stefnenda hefðu öll legið fyrir við meðferð málsins hjá umhverfisráðuneytinu. Stefnda byggir á því að fylgt hafi verið ítrustu kröfum stjórnsýslulaga og gætt ákvæða laga um mat á umhverfisáhrifum við meðferð málsins. Engin efni séu til að ógilda úrskurð umhverfisráðherra á grundvelli meints formgalla. Varðandi meinta efniságalla á úrskurði umhverfisráðherra byggir stefnda á því að úrskurðurinn hafi verið í samræmi við ákvæði laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda með síðari breytingum, þar á meðal markmið laganna, og reglugerð um mat á umhverfisáhrifum nr. 113/2005. Í 1. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 séu skilgreind markmið laganna og byggir stefnda á því að úrskurður umhverfisráðherra um matsáætlun hringvegar um Hornafjarðarfljót sé í samræmi við þessi markmið. Þá byggir stefnda á því að úrskurður umhverfisráðherra feli í sér að umhverfisáhrif fyrirhugaðra framkvæmda verði metin, matsskýrsla unnin í samræmi við fyrirliggjandi matsáætlun stefndu og að Skipulagsstofnun muni fjalla um og gefa álit á umhverfisáhrifum framkvæmda og eftir atvikum kveða á um nauðsynlegar mótvægisaðgerðir á grundvelli framlagðrar matsskýrslu. Kveðið sé á um samráð við landeigendur sem muni eiga möguleika á að koma að sjónarmiðum sínum og fá aðgang að upplýsingum um málið samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Stefnda bendir á að með úrskurði umhverfisráðherra hafi verið staðfest að matsáætlun stefndu uppfylli kröfur 8. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 með síðari breytingum. Matsáætlunin hafi verið samþykkt með ákvörðun Skipulagsstofnunar í samræmi við málsmeðferð í ofangreindu ákvæði og með breytingum samkvæmt úrskurði umhverfisráðherra í samræmi við 3. mgr. 14. gr. sömu laga. Stefnda byggir á því að matsáætlun beri það með sér að tryggð verði aðkoma almennings og hagsmunaaðila við gerð mats á umhverfisáhrifum fyrirhugaðra framkvæmda við hringveg um Hornafjarðarfljót. Í matsáætlun stefndu komi skýrt fram að við vinnslu mats á umhverfisáhrifum verði almenningi kynnt fyrirsjáanleg umhverfisáhrif framkvæmda og gefinn kostur á að gera athugasemdir við matsskýrslu á kynningartíma. Samráð verði haft við landeigendur á vinnslustigi mats. Í tillögu að matsáætlun og teikningum sem henni fylgi, sé ítarleg umfjöllun um framkvæmdakosti og staðarval. Gerð sé grein fyrir þremur ólíkum framkvæmdakostum, leiðum 1, 2 og 3. Unnt sé að útfæra þessa framkvæmdakosti sem blöndu af mismunandi kostum. Matsáætlun stefndu uppfylli því kröfur laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og reglugerðar nr. 1123/2005, hvað snerti umfjöllun um framkvæmdakosti og staðarval með tilliti til mismunandi umhverfisáhrifa. Framkvæmdaraðila sé ekki skylt að meta umhverfisáhrif allra raunhæfra kosta, varðandi staðarval framkvæmdar, eins og stefnendur virðist álíta. Sú ályktun stefnenda sé í ósamræmi við túlkun laga- og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum í úrskurðarframkvæmd til þessa og eigi sér ekki stoð í markmiðum laga um mat á umhverfisáhrifum. Framkvæmdaraðili hafi forræði á að skilgreina tilgang og markmið framkvæmda á sínu verksviði hverju sinni í samræmi við þau fyrirmæli og áætlanir sem stefndu sé ætlað að fara eftir. Framkvæmdaraðili hafi enn fremur forræði á því að meta hvaða kostir komi til greina með tilliti til tilgangs og markmiða framkvæmda. Ekki sé heimilt að skylda framkvæmdaraðila til að kosta mat á umhverfisáhrifum framkvæmdakosta, sem ekki samrýmist tilgangi og markmiðum sem að er stefnt með framkvæmd. Stefnda hafi það hlutverk og beri ábyrgð á að framfylgja stefnu og markmiðum í samgöngumálum hverju sinni. Stefndu sé ókleift að sinna skyldu sinni verði hún svipt forræði á því að ákveða hvaða framkvæmdakostir komi til greina hverju sinni. Stefnda kveður að val á framkvæmdakostum eigi að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum og hlutlægum grunni. Val á framkvæmdakostum samkvæmt tillögu að matsáætlun sé byggt á málefnalegum forsendum og hlutlægum grunni. Það byggist á sjónarmiðum um styttingu hringvegar, auknu umferðaröryggi, bættum samgöngum og kostnaðarhagkvæmni og telji stefnda það tvímælalaust vera málefnaleg sjónarmið, byggð á hlutlægum grunni. Málefnaleg rök standi til þess að ekki geti talist ásættanlegt að nýr og endurbættur hringvegur verði lagður um eða við Nesjahverfi eins og stefnendur leggi til með því að krefjast mats á umhverfisáhrifum veglínu 5. Í matsáætlun sé ítarlega rökstutt að lega hringvegar á þessari leið sé óásættanleg með tilliti til umferðaröryggis og kostnaðarhagkvæmni. Engar líkur séu á að umhverfisáhrif leiðar 5, kosts stefnenda muni verða minni en umhverfisáhrif leiðar 1, þannig að tilefni geti verið til að fórna þeim ávinningi sem fást muni af leið 1 fyrir umferðaröryggi og hagkvæmni í samanburði við tillögur stefnenda um legu hringvegar um eða við Nesjahverfi. Stefnda byggir á því að eðlilegt og skylt hafi verið að hafa samráð við sveitarstjórn við val á framkvæmdakostum. Samkvæmt 29. gr. vegalaga nr. 45/1994 skuli leggja þjóðvegi samkvæmt skipulagi. Sveitarstjórn fari með ákvörðunarvald um skipulag samkvæmt skipulags- og byggingalögum nr. 73/1996. Sveitarstjórn veiti framkvæmdaleyfi samkvæmt 27. gr. laganna. Samráð við sveitarstjórn sé því eðlilegur og óhjákvæmilegur hluti undirbúnings og vinnslu mats á umhverfisáhrifum lagningar þjóðvega. Stefnda byggir á því að framkvæmdakostir stefndu séu í betra samræmi við gildandi aðalskipulag sveitarfélagsins heldur en tillögur sem stefnendur telji að eigi að vera metnir. Mismunandi sjónarmið séu innan sveitarfélagsins um legu hringvegar, sem stefnda þurfi að taka mið af. Með framlagningu kosts nr. 1, norðan flugvallar, hafi stefnda í raun gengið mjög langt til að koma til móts við sjónarmið stefnenda, þvert á skýra stefnu gildandi aðalskipulags þar sem ráðgert sé að hringvegur liggi sunnan flugvallar og nær Höfn í Hornafirði. Með þessu telji stefnda sig tvímælalaust hafa gætt meðalhófs gagnvart stefnendum. Það sé á valdi sveitarstjórnar að meta hvort fallist verði á framkvæmd að teknu tilliti til þeirra umhverfisáhrifa sem fyrirhuguð framkvæmd muni fyrirsjáanlega valda. Endanlegt val á veglínu eigi sér ekki stað við val á framkvæmdakostum í mati á umhverfisáhrifum, eins og stefnendur virðist álíta, heldur þegar heimild skipulagsyfirvalda liggi fyrir. Langur vegur sé til þess að ákvörðun verði tekin af hálfu sveitarstjórnar, þó svo að meginmarkmið og helstu kostir hafi verið skilgreindir af hálfu stefndu. Stefnda mótmælir ummælum í stefnu, þar sem reynt er að gera samskipti stefndu og sveitarstjórnar tortryggileg. Ekki sé athugavert að samráð milli stefndu og sveitarstjórnar fari fram á undirbúningsstigi þjóðvegaframkvæmda. Jafnframt mótmælir stefnda sem röngu og tilhæfulausu því sem fram komi í stefnu að fyrirhugað mat stefndu á umhverfisáhrifum Hringvegar um Hornafjarðarfljót sé ,,sýndargerningur til að réttlæta fyrir fram gefna niðurstöðu.“ Stefnda mótmælir einnig þeirri afstöðu stefnenda að tillögum þeirra hafi verið hafnað án marktækrar, hlutlægrar skoðunar á þeim. Stefnda leggur áherslu á að það sé hlutverk og skylda stefndu að skilgreina hvaða leiðir teljist færar með hliðsjón af markmiðum framkvæmda. Jafnframt sé óhjákvæmilegt að horfa til skipulagsáætlana sveitarfélags. Ekki sé fært að skylda stefndu til að meta umhverfisáhrif framkvæmdakosta sem stríði gegn þeim markmiðum sem stefndu sé ætlað að vinna að, s.s. um aukið umferðaröryggi og styttingu leiða. Málsástæður og lagarök stefnda, íslenska ríkisins. Sýknukrafa stefnda er í fyrsta lagi byggð á því að stefnendur séu ekki réttir aðilar að máli sem varði úrskurð umhverfisráðherra um matsáætlun meðstefnda. Beri þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefndu af kröfum stefnenda. Komið hafi fram af hálfu stefnenda að þeim hafi ekki verið kynnt kærumálið þegar það hafi verið til meðferðar í ráðuneytinu, sbr. 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og hafi ekki verið gefinn kostur á að neyta andmælaréttar og tjá sig um málið, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Þá sé því haldið fram að ekki liggi fyrir hvort ráðuneytið hafi farið sjálfstætt yfir athugasemdir þeirra eða þær legið fyrir og með því hafi ráðuneytið brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Stefnda kveður að framkvæmdaraðila beri að kynna almenningi tillögu að matsáætlun eins og áður sé rakið, og þannig sé öllum gefið tækifæri til að tjá sig um tillögurnar og geti almenningur með því haft áhrif á ákvörðunartöku Skipulagsstofnunar um matsáætlun. Andmælaréttur, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, miðist við þann sem er aðili máls. Stefnendur hafi ekki verið aðilar að kærumáli því sem hér sé til umfjöllunar, enda ekki gert ráð fyrir kæruaðild þeirra, samkvæmt 3. mgr. 14. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Samkvæmt því hafi ekki verið brotið gegn andmælareglu stjórnsýslulaga í málinu og ráðuneytinu hafi heldur ekki borið að tilkynna stefnendum um framkomna kæru, sbr. 14. gr. stjórnsýslulaga. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 5. desember 2006 sé gerð grein fyrir þeim umsögnum og tveimur athugasemdum frá stefnendum sem bárust stofnuninni 7. nóvember og hafi þær allar fylgt með sem fylgiskjal með ákvörðun Skipulagsstofnunar með kæru meðstefndu. Þá hafi bréf frá stefnendum frá 31. júlí 2006 verið fylgiskjöl með tillögu að matsáætlun. Gerð sé grein fyrir athugasemdum stefnenda og afstöðu Skipulagsstofnunar til þeirra í ákvörðun Skipulagsstofnunar. Því hafi allar þær athugsemdir sem bárust Skipulagsstofnun legið fyrir þegar ráðuneytið kvað upp úrskurð sinn og þar á meðal athugsemdir stefnenda. Ráðuneytið hafi leitað umsagnar Skipulagsstofnunar og Umhverfisstofnunar um kæru meðstefndu 22. janúar 2007 sem báðar hafi skilað umsögn. Fram komnar umsagnir hafi verið sendar meðstefndu sem kæranda til umsagnar og hafi umsögn hans borist 27. febrúar. Það sé háð mati ráðuneytisins til hvaða gagna og umsagna það telji sig þurfa að vísa, þegar það kveði upp sinn úrskurð, en í úrskurðinum sé m.a. vísað til umsagnar Skipulagsstofnunar til ráðuneytisins vegna kærumálsins. Rannsóknarskyldu ráðuneytisins hafi verið fullnægt með því umsagnarferli sem átt hafi sér stað í kærumálinu og með yfirferð þeirra gagna sem legið hafi fyrir í málinu, þar á meðal athugasemdir sem borist hafi á kynningartíma til Skipulagsstofnunar og athugasemdir meðstefndu, Vegagerðarinnar, til ráðuneytisins. Stefndi vísar því á bug að sú meginregla sem niðurstaða umhverfisráðherra byggist á, þ.e að framkvæmdaraðili hafi forræði á vali á þeim framkvæmdakostum sem hann telji uppfylla markmið framkvæmdarinnar, gangi í berhögg við 9. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum og markmið þeirra laga. Ráðuneytið hafi í úrskurði sínum frá 11. maí 2007 fjallað ítarlega um forræði framkvæmdaraðila við val á þeim framkvæmdakostum sem hann telji uppfylla markmið hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar. Í lögum um mat á umhverfisáhrifum sé gerð krafa um, sbr. 1. mgr. 8. gr. þeirra laga, að framkvæmdaraðili geri tillögu að matsáætlun eins snemma á undirbúningsstigi framkvæmdar og kostur er. Í tillögu framkvæmdaraðila beri honum að lýsa framkvæmdinni, framkvæmdarsvæði og öðrum möguleikum sem til greina komi og hvernig framkvæmd samrýmist skipulagsáætlunum. Í 2. mgr. 9. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, þar sem fjallað sé um innihald frummatsskýrslu vegna hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar segi: ,,Ávallt skal gera grein fyrir helstu möguleikum sem til greina koma og umhverfisáhrifum þeirra og bera þá saman “. Lög um mat á umhverfisáhrifum og reglugerð um mat á umhverfisáhrifum nr. 1123/2005 gefi framkvæmdaraðila rúmt svigrúm til að ákveða hvaða framkvæmdakostir hann telji að til greina komi. Ráðuneytið hafi, eins og fram komi í úrskurðinum, ítrekað lýst því áliti í úrskurðum sínum, þar á meðal frá 16. febrúar 2003 og úrskurði frá 13. maí 2002, að framkvæmdaraðili hafi forræði á hvaða framkvæmdakosti hann telji að uppfylli markmið framkvæmdarinnar og beri því að skoða í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum. Ráðuneytið hafi aðeins einu sinni vikið frá ofangreindri meginreglu um forræði framkvæmdaraðila, en það hafi verið í úrskurði ráðuneytisins um mat á umhverfisáhrifum Gjábakkavegar frá 28. júlí 2005. Í þeim úrskurði hafi framkvæmdaraðila verið falið að láta fara fram mat á umhverfisáhrifum enduruppbyggingar eldra vegstæðis þar sem umhverfismatið uppfyllti ekki formskilyrði laga um að metnir hefðu verið helstu framkvæmdakostir þannig að hægt væri að taka upplýsta afstöðu til hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar. Í því máli hafi verið fyrir hendi mjög sérstakar aðstæður. Í máli því sem hér sé til úrlausnar, hafi framkvæmdaraðili hins vegar lagt fram þrjá mismunandi framkvæmdakosti sem að hans mati uppfylltu þau meginmarkmið sem sett hafi verið fram um styttingu á hringvegi og til að auka umferðaröryggi. Fyrir hafi legið að mati ráðuneytisins að þeir þrír kostir hefðu mismunandi áhrif á umhverfið. Ráðuneytið hafi talið að þeir kostir sem framkvæmdaraðili hafi lagt fram, uppfylltu kröfur 1. mgr. 8. gr., sbr. og 2. mgr. 9. gr. um samanburð á mögulegum valkostum og því talið að ekki væri hægt að skylda framkvæmdaraðila til að meta aðrar veglínur og þar með takmarka forræði hans á framkvæmdinni. Túlkun ráðuneytisins á forræði framkvæmdaraðila á framkvæmdakostum sem skoðaðir voru við gerð matsáætlunar hafi því verið í fullu samræmi við 1. mgr. 8. gr., 2. mgr. 9. gr. og markmiðsákvæði 1. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Stefndi bendir á að í greinargerð með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000 og skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, með síðari breytingum, sem orðið hafi að lögum nr. 74/2005, sé ítarlega fjallað um ástæður þeirra breytinga, að Skipulagsstofnun sé ekki lengur ætlað að kveða upp úrskurð um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda heldur gefa álit sitt á matsskýrslu framkvæmdaraðila. Þar komi fram að ætlast sé til að matsferlið miði að því að matsskýrsla framkvæmdaraðila lýsi sem best og dragi fram öll veigamikil umhverfisáhrif framkvæmdarinnar og geri grein fyrir athugasemdum almennings og umsagnaraðila við framkvæmdina. Enn fremur að það verði síðan í höndum leyfisveitanda að taka ákvörðun um hvort leyfa skuli framkvæmdina þegar fyrir liggi matsskýrsla framkvæmdaraðila og álit Skipulagsstofnunar. Með þeirri breytingu sem gerð hafi verið á lögum um mat á umhverfisáhrifum með lögum nr. 74/2005, hafi málsmeðferð vegna matsáætlana ekki verið breytt. Framangreind breyting á lögunum gefi ekkert tilefni til þeirrar ályktunar stefnenda að forræði framkvæmdaraðila á því hvaða framkvæmdakosti hann telji rétt að meta hafi breyst. Fremur megi halda hinu gagnstæða fram, enda segi í framangreindri greinargerð um 8. gr. frumvarpsins um breytingu á 9. gr. laganna að: ,,Tekið sé fram með skýrum hætti að ábyrgð á gerð matsskýrslu sé í höndum framkvæmdaraðila“. Því telji stefndi túlkun stefnanda ekki á rökum reista. Stefndi fellst ekki á að með úrskurði ráðuneytisins hafi verið brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins. Málsmeðferð ráðuneytisins hafi verið í fullu samræmi við þær kröfur sem settar hafi verið í lögum um mat á umhverfisáhrifum og reglugerð um mat á umhverfisáhrifum. Þá kveður stefndi að ekki fáist staðist að ráða megi af tillögu að matsáætlun að ekki standi til taka til neinnar marktækrar skoðunar hagsmuni stefnenda. Hið gagnstæða komi skýrt fram í matsáætlun meðstefnda. Stefndi byggir á að stefnendur hafi haft átt þess kost að koma á framfæri athugasemdum við matsáætlun framkvæmdaraðila, samkvæmt 8. gr. laganna, og eiga þess kost einnig á síðari stigum málsins gagnvart frummatsskýrslu sbr. 9. gr. laganna og þar með matsskýrslu samkvæmt 10. gr. þeirra. Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 fari sveitarstjórnir með skipulagsvald í sveitarfélögum og þurfi hin umdeilda framkvæmd að vera í samræmi við aðal- og deiliskipulag þess sveitarfélags þar sem hún er staðsett, komi til þess að leyfi verði veitt fyrir framkvæmdinni. Stefnendur hafi því einnig tækifæri til að koma að athugasemdum sínum við framkvæmdina við gerð aðal- og deiliskipulags í sveitarfélaginu í samræmi við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 og njóti eftir atvikum kæruréttar í því sambandi í samræmi við þau lög. Niðurstaða. Sýknukrafa stefndu byggist í fyrsta lagi á því að stefnendur séu ekki réttir aðilar að málinu. Í dómi Hæstaréttar nr. 114/2008 frá 14. mars 2008, þar sem fjallað var um kæru stefnenda á frávísunarúrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, kemur fram að stefnendur eigi lögvarinna hagsmuna að gæta að fá úr því skorið hvort matsáætlun stefndu, Vegagerðarinnar, um vegarleiðir um jarðir og lönd þeirra uppfylli það skilyrði að litið hafi verið til framkvæmdakosta sem til greina koma þannig að upplýst val á besta kosti á vegarleið, á grundvelli málefnalegra sjónarmiða, geti farið fram þegar matsskýrslan liggur endanlega fyrir. Af þessum sökum hafi stefnendur jafnframt lögvarinna hagsmuna að gæta við að fá úr því skorið hvort úrskurður umhverfisráðherra frá 11. maí 2007 sé gildur að lögum. Þegar litið er til framangreindrar niðurstöðu Hæstaréttar verður ekki fallist á sýknukröfu stefndu sem byggist á því að stefnendur eigi ekki aðild að máli þessu. Stefnendur byggja á því að úrskurður umhverfisráðherra sé haldinn verulegum formannmörkum, þar sem ekki hafi verið farið að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga við meðferð kærumálsins hjá ráðuneytinu og því beri að ógilda hann. Þeir byggja á því að ráðherra hafi ekki gætt að 10., 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins. Í gögnum málsins liggur fyrir að stefnendur komu á framfæri athugasemdum sínum og sjónarmiðum við Skipulagsstofnun og í ákvörðun Skipulagsstofnunar er gerð grein fyrir afstöðu stefnenda. Athugasemdir þeirra fylgdu ákvörðun Skipulagsstofnunar sem fylgiskjal og voru lagðar fram með kæru stefndu, Vegagerðarinnar, til umhverfisráðherra. Í umsögn Skipulagsstofnunar frá 2. febrúar 2007 til Umhverfisráðuneytisins er einnig gerð grein fyrir athugasemdum stefnenda. Af framansögðu verður ekki annað ráðið en að sjónarmið og athugasemdir stefnenda hafi legið fyrir skriflega í gögnum málsins þegar ráðherra kvað upp úrskurð sinn. Er því ekki fallist á að ráðherra hafi við meðferð málsins brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Í 3. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum er kveðið á um að framkvæmdaraðili geti kært til ráðherra ákvörðun Skipulagsstofnunar samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laganna um synjun matsáætlunar eða breytingar á henni. Með þessu ákvæði hefur löggjafinn sett skýr ákvæði um kæruaðild og bundið aðildina við framkvæmdaraðila, þegar mál varðar synjun matsáætlunar eða breytingar á henni. Stefnendur áttu ekki aðild að kærumáli til ráðherra og var því ráðherra ekki skylt samkvæmt stjórnsýslulögum að tilkynna þeim um framkomna kæru samkvæmt 14. gr. stjórnsýslulaga eða gæta að andmælarétti þeirra, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Er því ekki fallist á með stefnendum að úrskurður ráðherra hafi verið haldinn þeim formannmörkum að leitt geti til ógildingar hans. Stefnendur byggja kröfur sínar einnig á því að úrskurður umhverfisráðherra sé haldinn efnisannmörkum og að hann brjóti í bága við lög nr. 106/2000. Í 1. gr. laga nr. 106/2000 segir að markmið laganna sé að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar. Þá skuli draga eins og kostur er, úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar, stuðla að samvinnu þeirra aðila sem hagsmuna hafa að gæta eða láta sig málið varða vegna framkvæmda sem falla undir ákvæði laganna, og að kynna fyrir almenningi umhverfisáhrif framkvæmda sem falla undir ákvæði laganna og mótvægisaðgerðir vegna þeirra og gefa almenningi kost á að koma að athugasemdum og upplýsingum áður en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar liggi fyrir. Í 2. mgr. 9. gr. laganna, þar sem fjallað er um innihald frummatsskýrslu segir að ávallt skuli gera grein fyrir helstu möguleikum sem til greina koma og umhverfisáhrifum þeirra og bera þá saman. Þá skuli, samkvæmt 13. gr. reglugerðar nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum, í tillögu að matsáætlun koma fram upplýsingar um mögulega framkvæmdakosti sem til greina koma. Í máli þessu reynir á það hvort stefnda, Vegagerðin, hafi forræði á því að meta hvaða framkvæmdakostir sem til greina koma séu mögulegir. Stefnda, Vegagerðin, starfar á grundvelli laga nr. 45/1994. Samkvæmt 5. gr. þeirra laga er stefnda, Vegagerðin, veghaldari þjóðvega og samkvæmt 29. gr. laganna skulu vegir lagðir í samræmi við skipulag. Í tillögu að matsáætlun lagði stefnda fram þrjár leiðir til skoðunar á mati á umhverfisáhrifum, leið 1, 2 og 3. Ítarleg grein var fyrir því gerð í tillögu að matsáætlun hvers vegna þeir kostir voru valdir. Þar var einnig gerð grein fyrir því hvers vegna aðrir kostir, sem komið höfðu fram tillögur um, voru ekki lagðir fram til skoðunar á mati á umhverfisáhrifum. Í hinum kærða úrskurði kemur fram að lög um mat á umhverfisáhrifum gefi framkvæmdaraðila rúmt svigrúm til að ákveða hvaða framkvæmdakosti hann telji að til greina komi. Ráðuneytið hafi ítrekað í úrskurðum sínum að framkvæmdaraðili hafi forræði á hvaða framkvæmdakosti hann telji að uppfylli markmið framkvæmdarinnar og beri því að skoða í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum. Ekki séu því forsendur fyrir því að takmarka forræði framkvæmdaraðila á því hvaða framkvæmdakosti hann telji uppfylla markmið framkvæmdarinnar og beri því að skoða í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum. Fallast ber á það mat ráðherra að framkvæmdaraðili hafi, að meginstefnu til, forræði á því hvaða framkvæmdakosti hann telji uppfylla markmið tiltekinnar framkvæmdar, enda sé mat hans á því byggt á málefnalegum og hlutlægum grunni. Markmiði framkvæmdar þeirrar er mál þetta lýtur að er svo lýst í tillögu að matsáætlun að bæta samgöngur á Suðausturlandi og styrkja byggðarlög á Suðaustur- og Austurlandi með bættu vegasambandi á hringvegi. Vegalengdir milli Austurlands og Suðurlands styttist um a.m.k. 11 km með nýjum vegi. Markmið með gerð vegarins er fyrst og fremst að auka umferðaröryggi, draga úr slysahættu og tryggja góðar samgöngur á svæðinu. Stefnda, Vegagerðin, skilgreinir tilgang og markmið framkvæmda hverju sinni og ber ábyrgð á að framfylgja stefnu og markmiðum í samgöngumálum. Af tillögu að matsáætlun verður glögglega ráðið hvers vegna stefnda hefur valið þær þrjár leiðir sem hún lagði fram til skoðunar á mati á umhverfisáhrifum og hafnaði öðrum kostum. Það er skylda stefndu að skilgreina hvaða leiðir teljist færar með hliðsjón af markmiðum framkvæmda en ekki er unnt að skylda stefndu til að meta umhverfisáhrif framkvæmdakosta sem stríða gegn þeim markmiðum sem stefndu ber að vinna að. Það er álit dómsins með hliðsjón af framangreindu, að ekkert hafi komið fram í málinu sem gefi til kynna að val stefndu hafi ekki verið byggt á málefnalegum sjónarmiðum. Breytingar sem gerðar voru á lögum nr. 106/2000 með lögum nr. 74/2005, breyttu ekki þeirri úrskurðarframkvæmd sem mótast hafði um það að framkvæmdaraðili hafi forræði á að meta hvaða kostir þjóni því markmiði sem að er stefnt, enda kemur glögglega fram í athugasemdum með 8. gr. frumvarpsins um breytingu á 9. gr. laganna að ábyrgð matsskýrslu sé í höndum framkvæmdaraðila og ekkert sem bendir til að skýra verði inntak ákvæðis 2. mgr. 9. gr. laganna þannig að framkvæmdaraðili hafi ekki forræði á því að meta hvaða kostir þjóni því markmiði sem að er stefnt. Eins og að framan greinir er það mat dómsins að stefnda, Vegagerðin, hafi forræði á að meta hvaða kostir þjóni því markmið sem að er stefnt með veglagningu þeirri sem mál þetta snýst um. Í tillögu að matsáætlun er skýr grein gerð fyrir því hvers vegna þeir kostir voru valdir til mats á umhverfisáhrifum, en ekki aðrir kostir sem stefnendur höfðu lagt til. Með mati á umhverfisáhrifum framkvæmda eru ekki teknar ákvarðanir um að leyfa ákveðnar framkvæmdir, heldur eru þar umhverfisáhrif hugsanlegra framkvæmdakosta skoðuð. Ekki hefur verið sýnt fram á af hálfu stefnenda að unnt hafi verið að ná sama markmiði og að var stefnt með vægari hætti. Þannig er ekki fallist á að ráðuneytið hafi með úrskurði sínum brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Í tillögu að matsáætlun voru teknar til skoðunar þær leiðir sem stefnendur lögðu til að valdar yrðu til mats á umhverfisáhrifum og því lýst á málefnalegan hátt hvers vegna þær leiðir þóttu ekki koma til greina. Því er ekki fallist á með stefnendum að tillögum stefnenda hafi verið hafnað án hlutlægrar skoðunar á þeim. Þegar allt framangreint er virt eru stefndu, Vegagerðin og íslenska ríkið, sýknuð af kröfum stefnenda. Í ljósi atvika málsins þykir rétt að málskostnaður falli niður milli aðila. Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm. D ó m s o r ð: Stefndu, Vegagerðin og íslenska ríkið, eru sýknuð af kröfum stefnenda. Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 322/2003
Raforka Skaðabótaábyrgð
T notaði tölvustýrðar prjónavélar við framleiðslu sína og hafði átt í erfiðleikum með að láta vélarnar halda fullum afköstum. Fannst ekki skýring á þessu fyrr en grunur vaknaði vorið 2000 um að vandkvæðin kynnu að stafa af truflunum á spennu í rafmagni sem O seldi T. Voru gerðar mælingar á spennunni og kvörtun beint til O sem hófst handa við úrbætur og var þeim lokið haustið 2000. Minnkuðu vandkvæðin við þetta en hurfu þó ekki fyrr en T setti upp sérstakan búnað til jöfnunar spennu. T krafðist viðurkenningar á bótaskyldu O vegna tjóns sem félagið hefði orðið fyrir vegna truflana í framleiðslu sinni frá 1993 til 2001. Talið var að samkvæmt reglugerðum og tæknilegum tengiskilmálum sem giltu um afhendingu á rafmagni væri O undanþegið bótaábyrgð vegna stöðvunar á afhendingu eða truflana í tengslum við það. Einnig að þeir sem notuðu spennuviðkvæm tæki ættu á eigin kostnað að setja upp búnað til að jafna spennu. Var talið að ekki hefðu verið leidd í ljós veruleg frávik frá reglum og skilmálum um afhendingu orku og því bæri O ekki skaðabótaábyrgð á tjóni T, enda hafði O gripið til ráðstafana til að hækka spennu á rafmagni til T þegar vísbendingar komu fram um að vandkvæði T stöfuðu af afhendingu raforkunnar. Var O sýknað af kröfu T.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Pétur Kr. Hafstein. Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 20. ágúst 2003. Hann krefst þess að viðurkennt verði að stefndi beri ábyrgð á því að afhending á raforku til hans allt frá árinu 1993 til og með 2001 hafi verið ófullnægjandi og beri stefndi því skaðabótaábyrgð á framleiðslutapi áfrýjanda, sem hlaust af því að ekki reyndist unnt að láta prjónavélar fyrirtækisins ná fullum afköstum. Þá gerir hann kröfu til málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Áfrýjandi sótti um heimtaug frá Rafveitu Akraness 15. febrúar 1985 og skuldbatt sig þá til að kaupa rafmagn af fyrirtækinu með þeim skilmálum sem fyrir þá rafveitu giltu. Skilmálar veitunnar ráða því lögskiptum aðila. Akranesveita tók síðar við skyldum Rafveitu Akraness en stefndi yfirtók rekstur Akranesveitu 1. janúar 2002. Áfrýjandi heldur því fram að vandkvæði hans vegna afhendingar á orku frá stefnda hafi fyrst komið upp eftir að hann fékk sér tölvustýrða prjónavél frá Japan 1993. Af gögnum málsins má ráða að það er fyrst sumarið 2000 eftir að enn nýjar prjónavélar voru teknar í notkun hjá áfrýjanda að rökstuddur grunur vaknaði um að orka til fyrirtækisins væri ekki viðhlítandi. Að gefnu tilefni frá áfrýjanda gerði Akranesveita á þessu úrbætur og lauk þeim strax sama haust. Þessar úrbætur virðast þó ekki hafa boðið upp á nægan stöðugleika orkunnar fyrir áfrýjanda. Setti hann í ársbyrjun 2002 upp búnað til að sía spennu inn á prjónavélar sínar og hefur síðan ekki borið á vandkvæðum í rekstri þeirra. Í héraðsdómi er þeim skilmálum lýst sem giltu fyrir afhendingu rafmagns frá Akranesveitu. Þegar af þeim ástæðum sem um getur í 4. og 5. undirkafla IV. kafla héraðsdóms ber að staðfesta hann. Samkvæmt þessari niðurstöðu verður áfrýjandi dæmdur til greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Stefndi, Trico ehf., greiði áfrýjanda, Orkuveitu Reykjavíkur, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Vesturlands 23. maí 2003. Mál þetta var höfðað 29. október 2002 og dómtekið 30. apríl 2003. Stefnandi er Trico ehf., Kalmansvöllum 3 á Akranesi, en stefndi er Orkuveita Reykjavíkur, Suðurlandsbraut 34 í Reykjavík. Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að stefndi beri ábyrgð á að afhending á raforku til stefnanda allt frá árinu 1993 til og með 2001 hafi verið ófullnægjandi og því beri stefndi skaðabótaábyrgð á framleiðslutapi, sem stefnandi varð fyrir sökum þess að ekki var hægt að keyra vélar í verksmiðju hans með fullum afköstum. Jafnframt krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda. Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða málskostnað. I. Stefnandi rekur verksmiðju á Akranesi og framleiðir sokka. Við framleiðsluna eru notaðar tölvustýrðar prjónavélar, sem allar eru af Nagata tegund og framleiddar í Japan. Hefur stefnandi sjálfur flutt vélar þessar til landsins frá Þýskalandi. Prjónavélarnar eru rafknúnar og fékk stefnandi raforku frá Rafveitu Akraness til ársloka 1995. Þá um áramótin tóku gildi skipulagsbreytingar á orkumálum á Akranesi, sbr. reglugerð fyrir Akranesveitu, nr. 665/1995. Var hluti af starfsemi Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar sameinuð starfsemi Rafveitu Akraness og nýtt orkufyrirtæki nefnt Akranesveita. Stefnandi fékk raforku frá Akranesveitu allt til 1. janúar 2002, en þá tók stefndi við réttindum og skyldum Akranesveitu. Þeir sem nú hafa rekstur stefnanda með höndum tóku við honum í ársbyrjun 1993. Þá um vorið kom ný prjónavél í verksmiðjuna og heldur stefnandi því fram að hún hafi ítrekað bilað og ekki verið unnt að keyra hana með fullum afköstum. Af þessu tilefni hafi verið haft samband við Rafveitu Akraness, en veitan hafi ekki talið neitt athugavert við afhendingu á orku frá sér. Að ráði starfsmanna rafveitunnar hafi hver prjónavél verið jarðtengd sérstaklega án þess þó að með því hafi verið ráðin nokkur bót á þessum vanda. Stefnandi fékk aftur nýja prjónavél í verksmiðjuna í ársbyrjun 1998 og heldur hann því fram að sérfræðingum frá framleiðanda hafi ekki tekist að fá vélina til að starfa eðlilega. Af þessum sökum mun stefnandi hafa haft samband við Akranesveitu og mældi veitan spennu í spennustöð án þess að sú athugun leiddi í ljós að eitthvað væri athugavert við afhendingu á orku. Sumarið 2000 komu síðan þrjár nýjar vélar í verksmiðju stefnanda og tókst heldur ekki starfrækja þær eðlilega. Heldur stefnandi því fram að þá hafi sérfræðingur frá framleiðanda fullyrt að ekkert annað kæmi til greina en að spenna til vélanna væri ófullnægjandi. Í kjölfarið fékk síðan stefnandi Friðrik Alexandersson, rafmagnstæknifræðing hjá Rafteikningu hf., til að gera athugun á spennu í verksmiðjunni. Samhliða gerði Akranesveita breytingar hjá sér sem miðuðu að því að draga úr spennufalli í veitunni til verksmiðju stefnanda. Í skýrslu Friðriks Alexanderssonar 28. desember 2000 segir að tólf prjónavélar séu í verksmiðju stefnanda. Þar af séu sjö vélar tölvustýrðar en erfiðlega hafi gengið að starfrækja þær. Fram kemur í skýrslunni að fyrstu mælingar á spennu hafi leitt í ljós að á mesta álagstíma að degi til hafi spenna iðulega farið niður fyrir 207 volt og jafnvel undir 200 volt. Í tæknilegum tengiskilmálum rafveitna segi hins vegar að afhendingarspenna eiga að vera 230 volt +/-10%, en megi vera 230 volt +6% eða -10% í eldri kerfum fram til ársins 2003. Mælingarnar fóru fram frá 5. október til 3. nóvember 2003 og um niðurstöður þeirra segir svo í skýrslunni: „Staðfesting fékkst á lágri spennu á álagstímum. Á fyrri hluta mælitímans fór spennan lægst í um 203 V og var iðulega í um 205 V á dagvinnutíma á virkum dögum, sem er lægra en tæknilegir tengiskilmálar segja til um. Rafveitan gerði ráðstafanir til að hækka spennuna og var þeim aðgerðum lokið aðfararnótt 23. október 2000. Við það hækkaði spennan að meðaltali um u.þ.b. 9% yfir dagvinnutímann og var yfirleitt hátt í 230 Volt. Aftur á móti var spennan í það hæsta að nóttu til. Augljóst er að sólahringssveifla spennunnar er í meira lagi, sem bendir til að spennufall í dreifikerfi rafveitunnar sé of mikið eða að spennustýring í kerfinu sé ekki nægjanleg. Merki frá álagsstýrikerfi rafveitunnar mældist í sterkara lagi. Samkvæmt stöðlum má spenna merkisins vera að hámarki 5% af netspennu. Í nokkrum tilfellum mælist merki þetta um 19,2 V eða um 8,6% af netspennu. Þegar merki af þessari gerð er orðið þetta sterkt í veitukerfinu er litið á það sem truflun, sem getur valdið truflunum í búnaði. .... Eftir að Rafveitan gerði sínar ráðstafanir sýna mælingar að merkið frá álagsstýrikerfinu er í efri mörkum og á stundum upp undir viðmiðunarmörk staðla.“ Í umræddri skýrslu Friðriks Alexanderssonar kemur einnig fram að vélar hafi verið keyrðar á fullum afköstum eftir að rafveitan greip til ráðstafanna til að hækka spennu. Í kjölfarið hafi verið nokkuð um bilanir á þeim tíma sem vænta megi sendinga á merki um veituna til tóntíðnistýringar frá svokölluðu álagsstýrikerfi, en með merki þessu er búnaði fjarstýrt, þar á meðal götuljósum. Þó hafi bilanatíðni verið mun minni en áður. Í skýrslunni er síðan að finna svohljóðandi samantekt: „Mælingar sýna að styrkur merkisins frá álagsstýrikerfi rafveitunnar hefur minnkað á sama tíma og rafveitan gerði ráðstafanir til að hækka spennuna. Spennu hækkunin ásamt hlutfalls breytingu á styrk merkisins frá álagsstýringu eru einu breytingarnar sem merkjanlegar hafa verið frá því að mælingar hófust á spennugæðum við inntak í húsið. Mælingar sýna að spennan var lægri en eðlilegt getur talist. Sé miðað við tæknilega tengiskilmála þá hefur spennan verið undir lágmarks kröfum skilmálanna. Eftir aðgerðir rafveitunnar virðast kröfur skilmálanna uppfylltar. Fyrir spennubreytingu mældist hlutfallslegur styrkur merkis frá álgasstýrikerfi rafveitunnar meiri en uppgefin viðmiðunargildi í stöðlum gera ráð fyrir. Eftir breytingarnar er styrkur þessa merkis á mörkum að ná lágmarks kröfum staðlanna. Umræddir staðlar eru almennt hafðir til viðmiðunar þegar framleiðendur stilla upp prófunum fyrir sinn búnað. Því er eðlilegt að þessir staðlar séu einnig teknir með við mat á gæðum afhendingarspennu í inntaksstað. Með þær staðreyndir í huga, sem fram koma í þessari skýrslu, má með ákveðnum rökum líta svo á að um sé að ræða tvo samverkandi þætti sem valdið hafa umræddum rekstrartruflunum í vélunum; - í fyrsta lagi að fæðispenna frá rafveitunni hafi verið of lág. - í öðru lagi að merki frá álagsstýringu hafi verið of sterk. .....“ Á tímabilinu 3. janúar til 13. febrúar 2001 mældi Friðrik Alexandersson spennu í verksmiðju stefnanda. Í skýrslu hans 23. febrúar sama ár kemur fram að spennan hafi verið mæld þar sem fram hafi komið truflanir í prjónavélum 2. janúar það ár. Í skýrslunni segir að 13. og 14. sama mánaðar hafi vinnsla gengið illa þegar vélar voru gangsettar. Þær hafi ítrekað stöðvast án þess að það yrði skýrt, en að lokum hafi verið gefist upp við að halda starfseminni áfram þessa daga. Mælingar umrædda daga hafi sýnt mikið af plúsum, sem hafi virst eiga upptök sín utan við mælistaðinn inni í verksmiðju stefnanda. Einnig kemur fram að 21. janúar 2001 hafi vélar verið gangsettar, en undir hádegi hafi farið að bera á truflunum, þær stöðvast ítrekað og að lokum vinnslu verið hætt. Mælingar þennan dag hafi sýnt mikil áhrif frá álagstýrikerfi rafveitunnar á þeim tíma sem vart var við bilanir í prjónavélum. Merkið hafi verið 15,97 volt eða 6,7%. Í niðurlagi skýrslunnar segir síðan svo: „Allar þessar truflanir á spennu geta verið valdar að truflunum á viðkvæmum tölvustýrðum búnaði. ..... Á öðrum tímum hafa ekki komið fram neinir óeðlilegir atburðir. Á tímabilinu mælist spennan nokkuð góð ... hæsta gildi mældist 250 V lægsta gildi 131 V og meðalgildið er um 237 V. Rétt er að taka fram að í sjálfur sér er ekkert við því að segja þó spanna falli í stuttan tíma eins og hér gerist. En það getur gerst ef bilun kemur upp einhvers staðar í rafkerfinu. Tíminn sem þetta spennufall stóð yfir var um 100 ms. ..... Sé litið á spennubreytingar yfir venjulegan vinnudag þá kemur í ljós að algegnt er að sjá mestu spennu um 242 V lægstu spennu um 222 V og meðalgildi um 232 V. Að nóttu til er algegnt að sjá spennu fara mest í um 245 V og meðalgildi sé um 240 V.“ Lögmaður stefnanda ritaði Akranesveitu bréf 3. janúar 2001, en þar eru raktar niðurstöður mælinga á spennu til verksmiðjunnar. Einnig er í bréfinu óskað eftir viðræðum við rafveituna um viðunandi lausn málsins, en stefnandi sætti sig ekki við annað en að honum verði bætt tjónið. Þessu erindi svaraði bæjarstjórinn á Akranesi með bréfi 16. sama mánaðar. Þar er bótaskyldu hafnað, en vísað um efnisatriði til greinargerðar Helga Andréssonar, eftirlitsmanns með raflögnum veitunnar. Í þeirri greinargerð kemur meðal annars fram að mælingar Friðriks Alexanderssonar hafi verið gerðar við greinitöflu stefnanda en ekki aðaltöflu hússins. Mælingarnar séu ekki dregnar í efa, en þær sanni aftur á móti ekki að sömu niðurstöður hefðu komið fram á afhendingarstað orku við aðaltöflu. Þá er bent á að ástæður spennuóróa geti verið tæki hjá stefnanda sjálfum eða öðrum notendum raforku í húsinu. Í tilefni af svarbréfi bæjarstjórans á Akranesi 16. janúar 2001 mældi Friðrik Alexandersson spennu á afhendingarstað raforku til stefnanda og fór sú mæling fram á tímabilinu 17. mars til 18. apríl 2001. Í skýrslu Friðriks 21. apríl sama ár kemur fram að á þessu tímabili hafi ekki komið upp vandamál við rekstur prjónavéla, sem rekja megi til truflana frá rafkerfi. Einnig segir að engin munur sé á þessum mælingum borið saman við fyrri mælingar. Af því verði dregin sú ályktun að engu skipti hvort mæling sé gerð við greinitöflu stefnanda eða þar sem orkan er afhent við aðaltöflu hússins. Því næst segir svo í skýrslunni: „Ef við skoðum þessi gildi úr frá staðalspennu kemur eftirfarandi í ljós: - lægsta gildi er um 4,5% og hæsta gildi um 9,5% frá staðalgildi (230V) sem er innan marka. Ef við hins vegar skoðum spennubreytingar þá má sjá eftirfarandi: - milli hæsta og lægsta gildis ... er um 27,3 V sem er um 11,5 af meðalgildi tímabilsins. - milli hæsta og lægsta gildis ... er um 31,81 V sem er um 13,8% af meðalgildi tímabilsins. Þetta segir að spennan er að sveiflast um 12-14% á sólahring, sem verður að teljast fremur mikið án þess að það eigi að hafa áhrif á rekstur þess búnaðar sem hér um ræðir meðan vélar Trico eru ekki keyrðar að næturlagi. Full ástæða er til að ítreka truflanir sem mælast frá álagsstýrikerfi rafveitunnar (rippel control). Á þessu tímabili hafa komið fram mælingar þar sem þetta merki er allt of hátt miðað við alþjóðastaðla. Þau tilfelli sem þessar mælingar hafa komið fram eru á kvöld og nætur tímum eða á þeim tímum sem vélbúnaður Trico hefur ekki verið í notkun. .....“ Í skýrslu Friðriks Alexanderssonar 17. júlí 2001 er gerð frekari grein fyrir mælingum á spennu, en þar segir meðal annars svo: „Í umrædda greinatöflu koma tveir kvíslstrengir. Annar er fyrir gufuketil og pressu að gildleika 10 mm² en hinn er fyrir aðra notkun í fyrirtækinu og er einnig um 10 mm² að gildleika. Mælistaður er í þeim hluta greinatöflunnar sem er fyrir aðra notkun, þ.e. fæddur með þeirri kvísl sem síðar var nefnd hér að framan. Álagið var mælt og niðurstaðan var sú að álag yfir dagvinnutíma er að jafnaði um 24A/fasa, sem gefur u.þ.b. 0,3% í spennufall (0,72V), mesta álag mældist um 33A/fasa, sem gefur u.þ.b. 0,4% spennufall (1,0V). Munur á mælingum í greinatöflu Trico annars vegar og í afhendingarstað Akranesveitu hins vegar er því 0,4% eða minni. Mæling Rafteikningar teljast því verða fullkomin sönnun spennugæða hjá Trico ehf. “ Einnig kemur fram í umræddri skýrslu Friðriks að niðurstaða skoðana og mælinga hafi verið sú að innan húss hjá stefnanda séu ekki tæki eða búnaður, sem valdi truflunum. Farið hafi fram rannsókn á hlutfalli ólínulegs álags og sé það hverfandi. Í ársbyrjun 2002 setti stefnandi upp tækjabúnað til að sía spennu frá rafveitu til prjónavéla í verksmiðjunni. Í kjölfarið mældi Friðrik Alexandersson spennu frá tækjabúnaði þessum. Í skýrslu hans 2. september 2002 kemur fram að frá því að þessi búnaður var tekinn í notkun hafi verið unnt að keyra vélar verksmiðjunnar á fullum afköstum án nokkurra bilana. Mælingar sýni að spenna frá búnaðinum sé mjög stöðug og óháð breytingum á spennu frá rafveitunni. Einnig komi búnaðurinn í veg fyrir truflanir frá álagsstýrikerfi rafveitunnar. Stefnandi heldur því fram að hann hafi orðið fyrir verulegu tjóni á árunum 1993 til 2001 sökum þess að orka frá Rafveitu Akraness og síðar Akranesveitu hafi verið ófullnægjandi. Stefnandi hefur lagt fram yfirlit yfir framleiðslu sína á þessum árum, en þar kemur fram að framleiðslan hafi verið 210.000 sokkapör á árinu 1992. Afkastageta verksmiðjunnar hafi síðan stöðugt minnkað og verið rúm 70.000 pör á árinu 2000. Þetta hafi valdið því að stefnandi gat ekki staðið við framleiðslusamninga og tapað viðskiptum þótt hann hafi fengið erlend fyrirtæki til að framleiða fyrir sig í þeirri viðleitni að standa við gerða samninga. II. Í málinu krefst stefnandi viðurkenningar á því að stefndi beri ábyrgð á tjóni, sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir vegna þess að hann gat ekki keyrt vélar í verksmiðju sinni með fullum afköstum á árunum 1993-2001 sökum þess að afhending á rafmagni til stefnanda hafi ekki verið viðhlítandi og þar með ekki í samræmi við reglur og skilmála þar að lútandi. Stefnandi vísar til þess að samkvæmt grein 2 í tæknilegum tengiskilmálum fyrir rafmagnsveitur hafi málgildi spennu rafveitna í enda heimtaugar á þessu tímabili átt að vera 230 volt +6% eða -10%, sbr. auglýsing nr. 681/2001, og áður auglýsing nr. 129/1997 og nr. 132/1991. Eins og þessir tengiskilmálar beri með sér hafi Akranesveita og áður Rafveita Akraness samþykkt þá sem sjálfstæða viðauka við gildandi reglugerð fyrir veituna á hverjum tíma og þar með gengist undir að afhenda rafmagn með tilgreindri spennu. Stefnandi heldur því fram að mælingar Friðriks Alexanderssonar hjá Rafteikningu hf. frá hausti 2000 allt þar til í apríl 2001 leiði í ljós að afhending á raforku til stefnanda hafi verið ófullnægjandi og ekki í samræmi við skilmála þar sem spenna hafi verið of lág. Jafnframt hafi mælingar þessar staðfest að merki frá álagstýrikerfi rafveitunnar, sem sent hafi verið út í nokkur skipti á hverjum sólarhring, hafi verið of sterkt þannig að það hafi getað valdið truflunum í búnaði sem gangi fyrir rafmagni. Þegar af þessum ástæðum verði stefndi að bera ábyrgð á því tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir. Stefnandi bendir á að hér á landi séu ekki í gildi staðlar, sem mæli fyrir um notkun rafveitna á álagsstýrikerfi. Allt að einu hafi stefnandi ekki mátt búast við öðru en að rafveitan tæki mið af alþjóðlegum stöðlum í þeim efnum. Þar sem það hafi ekki verið gert hafi í öllu falli borið að gera notendum aðvart um að merki til álagstýringar væri sent um veituna og að það gæti haft áhrif á rafbúnað. Það hafi hvorki verið gert né heldur hafi verið tilkynnt að orka fullnægði ekki gildandi reglum eða skilmálum. Stefnandi heldur því fram að ófullnægjandi afhending á orku hafi valdið því að stýribúnaður í prjónavélum stefnanda hafi truflast með þeim afleiðingum að vélrænir hlutar prjónavélanna brotnuðu. Um sé að ræða vélar framleiddar í Japan, sem fullnægi öllum kröfum til að vera notaðar í Evrópu. Vélarnar séu með svokallaðri CE-merkingu, sbr. reglugerð um rafsegulsviðssamhæfi, nr. 146/1994, og notaðar víða í Evrópu. Stefnandi tekur fram að allt frá árinu 1993 hafi verið leitað að orsökum þess að ekki hafi verið unnt að keyra tölvustýrðar prjónavélar verksmiðjunnar með fullum afköstum. Engar skýringar hafi fundist á þessu fyrr en árið 2000 þegar staðfest var með mælingum að orka rafveitunnar var ekki viðhlítandi. Allt frá árinu 1993 hafi verið gripið til ýmissa ráðstafanna til að reyna að bæta úr þessum vandkvæðum en án árangurs þar til settur hafi verið upp búnaður í ársbyrjun 2002 til að sía spennu. Stefnandi telur engu breyta hvort mæling á raforku hafi farið fram í greinatöflu stefnanda eða á formlegum afhendingarstað orkunnar og vísar í því efni til rökstudds álits Friðriks Alexanderssonar hjá Rafteikningu hf. Einnig hafi komið fram af hálfu Akranesveitu í bréfi 16. janúar 2001 að mælingar Friðriks væru ekki dregnar í efa, auk þess sem hann hafi verið í stöðugu sambandi við Helga Andrésson, starfsmann Akranesveitu, meðan á mælingum stóð og hafi þeir borið saman bækur sínar. Stefnandi heldur því fram að ekki stoði fyrir stefnda að bera fyrir sig a-lið 19. gr. reglugerðar um Akranesveitu, nr. 976/2000, sbr. samhljóða ákvæði í a-lið 22. gr. eldri reglugerðar nr. 665/1995. Þar sé tekið fram að stöðvun á rekstri eða truflanir vegna bilunar eða takmörkunar á raforkuvinnslu hafi ekki í för með sér bótaskyldu, en koma skuli á reglulegum rekstri aftur eins fljótt og auðið er. Einnig sé tekið fram að Akranesveita beri ekki ábyrgð á spennubreytingum undir slíkum kringumstæðum né afleiðingum af þeim. Eins og komi fram skýrt og greinilega í þessu ákvæði eigi það við þegar bilun verði, enda fyrirsögn greinarinnar „rekstartruflanir“. Ákvæðið eigi því ekki við um það viðvarandi ástand sem stefnandi telur að hafi verið fyrir hendi við afhendingu raforku. Með því að bera fyrir sig þetta ákvæði hafi stefndi í raun verið að lýsa því yfir að stöðug bilun hafi verið hjá veitunni án þess að gripið hafi verið til neinna aðgerða fyrr en stefnandi hafði ítrekað kvartað yfir ástandinu. Einnig heldur stefnandi því fram að stefndi geti ekki borið fyrir sig grein 6.3 í tæknilegum skilmálum fyrir rafmagnsveitur, en þar komi fram að notandi skuli sjálfur gera viðeigandi ráðstafanir þar sem hætta sé á truflunum á rekstri spennuviðkvæmra tækja. Af því tilefni tekur stefnandi fram að ekki sé um að ræða sérstaklega viðkvæmar vélar. Þessar vélar séu fluttar til Evrópu og fullnægi öllum kröfum, sem gerðar séu til slíkra tækja. Ef spenna á rafmangi til vélanna sé í samræmi við reglur gangi þær hnökralaust. Á því leiki hins vegar ekki vafi að hvorki þessar vélar né aðrar svipaðar þoli að spenna til þeirra sé viðvarandi mun lægri en skilmálar geri ráð fyrir. Telur stefnandi að grein 6.3 í tæknilegum skilmálum eigi við þegar hætta sé á einstökum truflunum vegna bilunar eða takmörkunar á raforkuvinnslu en ekki vegna viðvarandi ástands, eins og hér hafi verið um að ræða. Stefnandi fullyrðir að hann hafi ítrekað rætt við starfsmenn rafveitunnar um erfiðlega gengi að keyra vélar með fullum afköstum án þess að athygli hans hafi verið vakin á því að truflanir mætti rekja til þess að spenna hafi verið of lág eða vegna merkis frá álagsstýrikerfi. Stefnandi hafi því ekki haft neitt tilefni til að ætla að eitthvað væri í ólagi hjá veitunni. Á hinn bóginn hafi fyrirsvarsmönnum rafveitunnar verið ljóst að merki frá álagsstýrikerfi gæti valdið truflunum, auk þess sem þeir hafi greint stefnanda frá því að unnt væri að koma upp búnaði til að koma í veg fyrir þetta. Rafveitan hafi hins vegar ekki gripið til þess úrræðis vegna kostnaðar og tæknimála. Af þessum ástæðum stoði ekki fyrir stefnda að bera fyrir sig grein 6.9.3 í gildandi tæknilegum tengiskilmálum (áður grein 6.10.3 í eldri skilmálum), þar sem fram komi að notandi sjálfur skuli koma í veg fyrir með viðeigandi búnaði að neyslutæki verði fyrir truflunum af völdum tóntíðnistýringar frá rafveitu. Þá geti stefndi ekki með mjög einhliða og almennum ákvæðum nánast undanþegið sig ábyrgð þegar orka frá honum reynist ófullnægjandi. Stefnandi reisir kröfu sína einnig á almennu skaðabótareglunni. Engum málum sé blandið að hann hafi orðið fyrir verulegu tjóni vegna þess að afhending orku hafi ekki verið viðhlítandi. Stefnandi hafi mátt treyst því að farið væri að skilmálum að þessu leyti og því hafi hann getað gengið úr frá því að viðurkenndar vélar skiluðu fullum afköstum. Á þessu beri stefndi ábyrgð og sé því skaðabótaskyldur gagnvart stefnanda. Loks byggir stefnandi kröfu sína á almennum reglum um skaðlega eiginleika söluvöru. Stefnandi hafi ekki fengið orku með þeim kostum eða í því horfi sem hún hafi átt að vera. Rafmagnið hafi því ekki uppfyllt áskilda kosti og þá eiginleika sem hann hafi mátt gera ráð fyrir. Stefndi og forverar hans hafi aldrei vakið athygli notenda á því að rafmagnið og spenna þess hafi ekki fullnægt skilmálum og því hafi notendur mátt ganga út frá því að afhending á rafmagni væri ekki þessum annmarka háð. Um lagarök til stuðnings þessu vísar stefnandi til reglna um skaðlega eiginleika söluvöru og til meginreglna kauparéttar. III. Stefndi vísar til þess að stefnandi reisi málatilbúnað sinn á mælingum Friðriks Alexanderssonar hjá Rafteikningu hf., sem fóru fram á tímabilinu 5. október 2000 til 18. apríl 2001. Af niðurstöðum þessara mælinga dragi stefnandi þá ályktun að þær eigi við allt frá árinu 1993 til 2001. Ekki sé að finna neinn rökstuðning fyrir þessari ályktun og telur stefndi að mælingarnar leiði ekkert í ljós um afhendingu raforku á öðru tímabili en þær tóku til. Þá þykir stefnda með ólíkindum að leitað hafi verið að orsökum minnkandi framleiðslu og bilana í vélabúnaði í verksmiðju stefnanda allt frá árinu 1993 án þess að skýring hafi fundist. Stefndi vefengir að mælingar Friðriks Alexanderssonar geti talist óyggjandi sönnun um gæði raforkunnar þannig að þær verði lagðar að jöfnu við mælingar framkvæmdar af dómkvöddum matsmönnum. Bendir stefndi á að starfsmönnum rafveitunnar hafi ekki verið gefið færi á að fylgjast með mælingum, hvar og hvernig þær fóru fram og með hvaða búnaði. Í skýrslum Friðriks sé engin nánari grein gerð fyrir þessu, auk þess sem taka verði mælingunum með fyrirvara þar sem þær hafi verið gerðar að beiðni stefnanda og í hans þágu. Stefndi telur forsendur þess að fallist verði á kröfu stefnanda að hann sýni fram á hver hafi verið framleiðslugeta verksmiðjunnar hvert ár fyrir sig sem krafan taki til og hver framleiðslan hafi verið. Einnig verði stefnanda að sýna fram á að samdráttur í framleiðslu verði rakinn til raforkunnar en ekki einhverra annarra utanað komandi atvika. Þannig verði stefnandi að sanna að bótaskylt tjón hafi orðið þótt hann hafi að svo stöddu kosið að gera einvörðungu viðurkenningarkröfu og bíða með að leiða í ljós fjárhæð tjónsins. Þetta hafi stefnandi hins vegar ekki gert með þeim gögnum sem liggi til grundvallar málssókninni. Stefndi hafnar því að afhending á rafmagni til stefnanda hafi ekki verið í samræmi við reglur og skilmála og telur að sú fullyrðing stefnanda sé með öllu ósönnuð. Stefndi bendir jafnframt á að notandi sjálfur eigi að gera viðeigandi ráðstafanir til að hindra truflun á rekstri spennuviðkvæmra tækja, sbr. grein 6.3.1 í tæknilegum tengiskilmálum fyrir rafmagnsveitur. Þá beri notanda að grípa til viðeigandi ráðstafana til að koma í veg fyrir hugsanlegt tjón á neyslutækjum vegna spennubreytinga eða spennurofs, sbr. grein 6.3.2 í skilmálunum. Í þessu sambandi skipti einnig máli að ýmsar utanaðkomandi ástæður, sem ekki verði ráðið við, geti valdið breytingum á málspennu í veitukerfum rafveitna, svo sem veðurskilyrði. Auk þess geti aðrir notendur á sömu veitu valdið truflunum, bæði til hækkunar og lækkunar á spennu. Þetta eigi enn frekar við um lítil dreifikerfi eins og á Akranesi. Auk þess séu fleiri en einn notandi á þeirri heimtaug sem liggi að verksmiðju stefnanda. Telur stefndi að mælingar Friðriks Alexanderssonar útiloki ekki að truflun á spennu verði rakin til slíkra utanaðkomandi ástæðna. Stefndi bendir á að hvorki í reglugerðum né tæknilegum tengiskilmálum, sem rafveitan starfi eftir, sé að finna fyrirmæli um hver styrkur tóntíðnistýringar megi eða eigi að vera. Í því efni tekur stefndi fram að staðall Evrópsku rafstaðlasamtakanna (CENELEC) IEC 61000-2-2 hafi ekki verið tekinn upp sem hluti af afhendingarskilmálum rafveitna og sé því ekki skuldbindandi fyrir stefnda. Þar fyrir utan geri staðallinn ráð fyrir að álagstýrimerkið geti farið í allt að 9% af netspennu, sbr. grein 4.10.2 í 2. útgáfu staðalsins 2002-2003. Stefndi heldur því fram að merki til tóntíðnistýringar sé sent út með 7,8 volta styrk á tíðninni 1050 Hz og því sé hlutfall þess 3,39% miðað við 230 volta staðalspennu. Verði talið að merkið sé of sterkt þannig að það geti haft áhrif á vélbúnað stefnanda þá beri honum sjálfum að koma í veg fyrir truflanir með viðeigandi búnaði, sbr. grein 6.9.3 í tæknilegum skilmálum (áður grein 6.10.3 í eldri skilmálum). Þannig séu rafveitur undanþegnar ábyrgð á tjóni á búnaði, sem rekja megi til álagsstýrikerfi rafveitna. Þá bendir stefndi á að notandi sjálfur eigi að kynna sér ákvæði rafveitu áður en búnaður er ákveðinn ef rafveita notar tóntíðnistýringu með hærri tíni en 250 Hz, sbr. grein 6.9.1 í tæknilegum tengiskilmálum (áður grein 6.10.1 í eldri skilmálum). Verði á annað borð talið að frávik hafi verið frá meðalspennu telur stefndi að þau hafi verið smávægileg og ekki meiri en stefnandi hafi mátt búast við. Þau frávik geti því ekki bakað stefnda bótaskyldu vegna afleidds tjóns stefnanda, enda sé stefndi undanþeginn bótaábyrgð með fyrrgreindum ákvæðum í tæknilegum tengiskilmálum fyrir rafmagnsveitum, auk þess sem slík undanþága eigi sér stoð í a-lið 19. gr. reglugerðar fyrir Akranesveitu, nr. 976/2000, sbr. hliðstætt ákvæði í a-lið 22. gr. eldri reglugerðar nr. 665/1995 og 1. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 40/1948. Stefndi hafnar því að stefnandi geti krafist bóta á grundvelli almennu skaðabótareglunnar og færir fyrir því sömu rök og hér hefur verið gerð grein fyrir. Stefnandi verði að sýna fram á að tjón hafi orðið og að það megi rekja til háttsemi sem stefndi beri ábyrgð á. Jafnframt að tjónið sé sennileg afleiðing af háttseminni og orsakasamband þar á milli. Í því efni séu mælingar Friðriks Alexanderssonar ekki viðhlítandi, enda hafi þær einvörðungu beinst að gæðum rafmagns en ekki áhrifum þess á prjónavélar stefnanda. Þessu til viðbótar verði stefnandi að sanna sök, enda ekki fyrir hendi lagaheimild, sem leggi hlutlæga ábyrgð á stefnda. Þá vísar stefndi til þeirrar meginreglu skaðabótaréttar að tjónþola beri eftir fremsta megni að takmarka tjón sitt. Telur stefndi ótrúverðugt að stefnandi hafi árum saman án árangurs reynt að finna ástæður þess að vélar í verksmiðjunni skiluðu ekki fullum afköstum. Hann hafi því látið undir höfuð leggjast að grípa til viðeigandi ráðstafanna, en það hafi hann ekki gert fyrr en í ársbyrjun 2002 þegar tekin var í notkun búnaður til að sía spennu. Stefnandi sjálfur verði að bera hallann af þessu aðgerðarleysi, sem og því tómlæti sem hann hafi sýnt af sér. Þar fyrir utan hafi rafveitan lagt sitt af mörkum til að ráða bót á vanda stefnanda þegar eftir að hann vakti máls á því að afhending orku væri ekki fullnægjandi. Loks hafnar stefndi því að krafa stefnanda eigi sér stoð í ákvæðum laga um lausafjárkaup, nr. 50/2000, og eldri laga nr. 39/1922 um sama efni, enda taki lög um lausafjárkaup ekki til afhendingar á raforku. Þá nái lög um skaðsemisábyrgð, nr. 25/1991, ekki til atvinnustarfsemi, sbr. 2. gr. laganna. IV. 1. Með málshöfðun þessari leitar stefnandi eftir viðurkenningu á bótaskyldu stefnda vegna tjóns, sem hann telur sig hafa orðið fyrir á árunum 1993 til 2001 sökum þess að afending á raforku til verksmiðju stefnanda hafi ekki verið viðhlítandi. Heldur stefnandi því fram að um sé að ræða afleitt tjón þar sem ekki hafi verið unnt að keyra vélar verksmiðjunnar með fullum afköstum. Að gengnum slíkum dómi hyggst stefnandi gera fjárkröfur á hendur stefnda, eftir atvikum með málshöfðun að undangengnu mati dómkvaddra matsmanna. Stefnandi fékk raforku frá Rafveitu Akraness til ársloka 1995, en þá sameinaðist rafveitan Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar í Akranesveitu. Frá þeim tíma fékk stefnandi orku frá Akranesveitu til 1. janúar 2002 þegar stefndi tók yfir réttindi og skyldur Akranesveitu. Stefndi á varnarþing í Reykjavík en hefur fallist á að mál þetta sé rekið á hendur sér hér fyrir dómi. 2. Á fyrri hluta þess tímabils sem krafa stefnanda tekur til var í gildi reglugerð fyrir Rafveitu Akraness, nr. 40/1948, sem sett var á grundvelli vatnalaga, nr. 15/1923, og raforkulaga, nr. 12/1946. Í 2. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar sagði að raforka væri seld sem ein- eða þrífasa riðstraumur, með 220 volta málspennu og 50 riðum á sekúndu. Þegar sérstakar ástæður mæltu með var rafveitustjóra heimilt að láta í té orku með annarri spennu og annarri straumtegund. Með auglýsingu nr. 132/1991 um viðauka við reglugerð nr. 40/1948 fyrir Rafveitu Akraness um tæknilega tengiskilmála fyrir rafmagnsveitur var staðfest að tengiskilmálar, sem staðfestir voru af iðnaðarráðuneytinu 25. september 1990 með reglugerð nr. 391/1990, giltu fyrir Rafveitu Akraness með tilgreindum breytingum á grein 2 í skilmálunum. Í grein 2.1 var tekið fram að lágspennudreifikerfi rafveitunnar væri að jafnaði rekið með 50 riða þrífasa riðstraum þannig að víða í eldri bæjarhlutum og víðast hvar í bænum og í öllum nýrri hverfum væru 220 volt á milli fasa í þriggja leiðara dreifikerfum, en stefnt væri að því að hækka spennuna í 230 volt eigi síðar en á árinu 1995. Þá var tekið fram í grein 2.2 að veituspenna skyldi að jafnaði vera +/-10% við heimtaugarúttak, en að lokinni fyrirhugaðri spennuhækkun og fram til ársins 2003 yrðu þessi spennufrávik + 6% og -10%. Reglugerð nr. 40/1948 var leyst af hólmi með reglugerð fyrir Akranesveitu, nr. 665/1995. Í a-lið 21. gr. reglugerðarinnar sagði að Akranesveita seldi raforku á orkuveitusvæði sínu, þar sem veitukerfi næði til, með þeim skilmálum sem ákveðnir væru í reglugerðinni. Í b-lið 16. gr. sagði jafnframt að setja mætti í sérstakri reglugerð staðfestri af ráðherra sérákvæði um nánari ræknileg tengiskilyrði. Með auglýsingu nr. 129/1997 voru settir nýjir tæknilegir tengiskilmálar fyrir rafmagnsveitur og töldust þeir sjálfstæður viðauki við fyrrgreinda reglugerð fyrir Akranesveitu, nr. 665/1995. Í grein 2.1 í skilmálunum sagði að lágspennudreifikerfi rafveitna væru að jafnaði rekin með þrífasa riðstraumi samkvæmt samræmingarskjali (staðli) um málspennu í lágspennudreifikerfum, SAM HD 472 S1. Samkvæmt því skyldi málgildi spennu á afhendingarstað rafveitna í enda heimtaugar vera 230 volt á milli fasa í þriggja fasa þriggja leiðara kerfum. Einnig var tekið fram að spenna á afhendingarstað rafveitna skyldi vera á bilinu +6% -10% miðað við tilgreind málgildi, en eftir árið 2003 skyldu mörkin vera +/-10%. Með gildandi reglugerð fyrir Akranesveitu, nr. 976/2000, var eldri reglugerð nr. 665/1995 leyst að hólmi. Í henni eru hliðstæð ákvæði um tæknileg tengiskilyrði og skilmála í b-lið 16. gr. og a-lið 18. gr. Tæknilegir tengiskilmálar fyrir rafmagnsveitur voru einnig leystir af hólmi með nýjum skilmálum, sem birtir voru með auglýsingu nr. 681/2001. Ákvæði þeirra um spennu og straumtegund eru samhljóða ákvæðum eldri skilmála. Í grein 2.1 í tæknilegum tengiskilmálum er vísað til samræmingarskjals Evrópsku rafstaðlasamtakanna (CENELEC) SAM HD 472 S1. Í lið 3 í því skjali segir að málspenna skuli vera 230 volt milli fasa í þriggja leiðara þriggja fasa kerfum. Einnig er tekið fram að mælt sé með því við eðlilegar aðstæður að vikmörk spennu séu ekki meiri en +/-10%. Gert er ráð fyrir aðlögunartímabili til ársloka 2003 til að koma spennu í þetta horf, en fyrstu aðgerðir landa með 220/380 volta spennu áttu að vera að koma spennu í 230/400 volt +6% eða -10% fyrir árið 1995. Stefnandi reisir kröfu sína á mælingum Friðriks Alexanderssonar hjá Rafteikningu hf., sem fram fóru með hléum á tímabilinu 5. október 2000 til 18. apríl 2001. Stefndi hefur vefengt að mælingar þessar geti talist viðhlítandi sönnun um gæði raforku til verksmiðju stefnanda þannig að þær verði lagðar að jöfnu við mælingar dómkvaddra matsmanna. Í málinu hefur komið fram að Akranesveita, forveri stefnda, greip til aðgerða í tilefni af kvörtunum frá stefnanda og miðuðu þær að því að draga úr spennufalli til verksmiðjunnar. Þessum úrbótum rafveitunnar lauk 23. október 2000 og skiluðu þær hækkaðri spennu að meðaltali um 9% samkvæmt mælingum Friðriks. Þá kom fram í vitnisburði Magnúsar Oddssonar, fyrrverandi veitustjóra hjá Akranesveitu, að á árinu 1997 eða 1998 hefði sjálfvirkur búnaður til að stýra spennu í dreifikerfinu verið tekin úr sambandi vegna bilunar. Hefði spenna frá veitunni því verið háð stýringu raforku inn á kerfið frá Landsvirkjun. Magnús gat ekki fullyrt hve lengi þessi búnaður hefði verið aftengdur en taldi að hann hefði aftur verið tekin í notkun að liðnu ári. Með hliðsjón af þessu gat ekki þjónað neinum tilgangi fyrir stefnanda að afla matsgerðar dómkvaddra matsmanna, enda hefði slíkt mat ekki getað leitt í ljós gæði raforku til verksmiðju stefnanda eftir að gripið hafði verið til þeirra ráðstafanna sem hér hafa verið raktar. Þegar mælingar Friðriks Alexanderssonar eru virtar verður ekki hjá því litið að fram kom í bréfi bæjarstjóra Akraness 16. janúar 2001, sem fór með framkvæmdarstjórn veitunnar ásamt bæjarráði, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 976/2000, að niðurstöður mælinga væru ekki dregnar í efa. Hins vegar voru gerðar athugasemdir við að mælingar fóru ekki fram á afhendingarstað orkunnar, en frekari mælingar voru síðan gerðar í tilefni af þeirri ábendingu. Þá verður einnig að leggja í einhverjum mæli á rafveituna sjálfa að geta með eigin eftirliti veitt nánari upplýsingar um gæði raforku á hverjum tíma en takmarkaðra gagna nýtur við í málinu um það frá stefnda og ná mælingar rafveitunnar ekki til allra þátta sem hugsanlega geta valdið truflun í kerfinu. Þegar sönnunarfærslan er metin í þessu ljósi ásamt því að vélar stefnanda hafa gengið hnökralaust frá því hann kom upp búnaði í ársbyrjun 2002 til að sía spennu þykir nægjanlega í ljós leitt að sveifla í spennu frá rafveitu hefur átt þátt í að valda truflun á vélabúnaði og vöruframleiðslu í verksmiðju stefnanda á því tímabili sem dómkrafa hans tekur til. Á hinn bóginn verður ekki nánar fullyrt um gæði raforkunnar á þessu níu ára tímabili og þar með að hve miklu leyti orkan á einstökum tímabilum fullnægði ekki þeim mörkum sem reglur og tæknilegir skilmálar mæla fyrir um og áður hefur verið gerð grein fyrir. 3. Akranesveita og áður Rafveita Akraness notuðu svokallað álagsstýrikerfi, en með því er búnaði fjarstýrt með tóntíðnimerki, sem sent er um veituna. Fram hefur komið hjá stefnda að styrkur merkisins var 7,8 volt og tíðni þess 1050 Hz eða 3,39% miðað við 230 volta staðalspennu. Þekkt er að merki af þessu tagi getur magnast í dreifikerfinu þannig að það komi sterkara til notenda en nemur styrk þess við útsendingu. Hvorki í reglugerðum um veituna né í tæknilegum tengiskilmálum er að finna fyrirmæli um styrk merkis frá álagsstýrikerfi. Við mat á því hvað teljist eðlilegt í þeim efnum þykir rétt að hafa hliðsjón af alþjóðlegum stöðlum þótt þeir séu ekki beinlínis skuldbindandi fyrir stefnda og forvera hans. Samkvæmt staðli Evrópsku rafstaðalsamtakanna IEC 61000-2-2, grein 4.10.2, er gert ráð fyrir að styrkur merkisins sé 2-5% af netspennu eftir staðbundinni framkvæmd. Þegar staðall þessi var endurútgefinn 2002-2003 var bætt við ákvæði um að merkið gæti við ákveðnar aðstæður risið upp í 9% af netspennu. Staðlaráð Íslands hefur einnig gefið út staðal ÍST EN 50160:1999 um spennu raforku í almenningsveitum og er staðallinn alþjóðlegur. Í grein 2.13 í staðlinum kemur fram að þriggja sekúndu merki skuli í meira en 99% á sólahring vera minna eða sambærilegt við tiltekið graf eftir annars vegar útsendingartíðni merkisins og hins vegar hlutfallslegum styrk þess miðað við netspennu. Samkvæmt grafi þessu skal útsendingarstyrkur merkisins miðað við tíðni 1050 Hz vera um 5%. Samkvæmt fyrstu mælingum Friðriks Alexanderssonar reyndist merki frá álagsstýrikerfi Akranesveitu vera um 8,6% af netspennu. Í skýrslu Friðriks 28. desember 2000 kemur hins vegar fram að merkið hafi verið innan viðmiðunarmarka staðla eftir að rafveitan greip til ráðstafanna til að hækka spennu til verksmiðju stefnanda haustið 2000. Þá sýndu mælingar 21. janúar 2001 að styrkur merkis var 6,7% á þeim tíma sem bilanir urðu í prjónavélum stefnanda. Eftir að stefnandi setti upp búnað til að sía spennu í ársbyrjun 2002 hefur merki þetta ekki valdið vandkvæðum. Með hliðsjón af þessu er það álit dómsins að merki frá álagsstýrikerfi rafveitunnar hafi átt þátt í að trufla vélar í verksmiðju stefnanda. 4. Svo sem hér hefur verið rakið var í gildi hluta af því tímabili sem dómkrafa stefnanda tekur til reglugerð fyrir Rafveitu Akraness, nr. 40/1948. Í 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar sagði að ekki hefði í för með sér neina skaðabótaskyldu á hendur rafveitu þótt stöðvun yrði á rekstri eða truflun vegna bilana eða takmarkana á raforkuvinnslunni, en koma skyldi á reglulegum rekstri aftur eins fljótt og auðið er. Einnig var tekið fram í 2. mgr. sömu greinar að rafveitan bæri ekki ábyrgð á spennubreytingum við slíkar aðstæður eða afleiðingum af þeim. Hliðstætt ákvæði var í a-lið 22. gr. reglugerðar fyrir Akranesveitu, nr. 665/1995, og samhljóða ákvæði er í gildandi reglugerð nr. 976/2000. Með auglýsingu nr. 391/1990 voru settir tæknilegir tengiskilmálar fyrir rafmagnsveitur og giltu þeir fyrir Rafveitu Akraness, svo sem nánar var kveðið á um í auglýsingu nr. 132/1992. Í grein 6.3 í skilmálunum var mælt fyrir um rekstur spennuviðkvæmra tækja. Þar sagði í grein 6.3.1 að notandi sjálfur skyldi með viðeigandi ráðstöfunum tryggja truflunarlausan rekstur spennuviðkvæmra tækja. Í grein 6.3.2 sagði síðan að notandi sjálfur skyldi gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir tjón, sem gæti orðið vegna spennubreytinga eða spennurofs á einum eða fleiri fösum. Sambærileg ákvæði var að finna í sömu greinum í tæknilegum tengiskilmálum samkvæmt auglýsingu nr. 129/1997 og samhljóða ákvæði eru í gildandi skilmálum, sbr. auglýsing nr. 681/2001. Í grein 6.10 í tæknilegum tengiskilmálum samkvæmt auglýsingu nr. 391/1990 var nánar kveðið á um tóntíðnistýringu. Samkvæmt grein 6.10.1 bar að gera neysluveitu þannig að hún truflaði ekki rekstur tóntíðnistýringar rafveitunnar, en ella var notanda veitunnar skylt að búa hana tóntíðnisperrum og bera sjálfur af því allan kostnað. Ef tóntíðnistýring rafveitunnar var rekin með hærri tíðni en 250 Hz var notanda skylt að kynna sér ákvæði rafveitunnar áður en búnaður var ákveðinn. Í grein 6.10.3 sagði síðan að neyslutæki, til dæmis hljómflutningstæki, ljósdeyfar, sjónvarpstæki, tölvur o.fl., sem yrðu fyrir truflun að völdum tóntíðnistýringar rafveitunnar, skyldu varin gegn þeim með viðeigandi búnaði, sem notandi bæri sjálfur kostnað af. Efnislega sambærileg ákvæði voru í sömu greinum tæknilegra tengiskilmála samkvæmt auglýsingu nr. 129/1997 og samhljóða ákvæði eru í greinum 6.9.1 og 6.9.3. í gildandi skilmálum samkvæmt auglýsingu nr. 681/2001. Samkvæmt þeim ákvæðum í reglugerðum og tæknilegum tengiskilmálum sem hér hafa verið rakin er stefndi og forverar hans undanþegnir skaðabótaábyrgð vegna tjóns, sem rekja mátti til truflana við afhendingu raforku til notenda. Þess í stað er beinlínis mælt fyrir um að notendur eins og stefnandi, sem leggur stund á iðnframleiðslu með spennuviðkvæmum tækjum, verði sjálfir að grípa til viðeigandi ráðstafana til að koma í veg fyrir tjón af þessum sökum. Eiga ákvæði þessi sér viðhlítandi stoð í 27. gr. orkulaga, nr. 58/1967, sbr. lög 53/1985, þar sem segir að héraðsrafmagnsveitur, sem hafi einkarétt til sölu raforku á ákveðnu veitusvæði, skuli semja reglugerð, sem ráðherra staðfestir, þar sem meðal annars skuli kveðið á um skilmála fyrir orkusölunni. Að þessu virtu og þegar litið er til þess að ekki hafa verið í ljós leidd veruleg frávik frá reglum og skilmálum um afhendingu orku verður ekki fallist á það með stefnanda að stefndi beri bótaábyrgð á framleiðslutjóni stefnanda. Í þeim efnum verður einnig að líta til þess Akranesveita greip til ráðstafana til að hækka spennu til verksmiðju stefnanda þegar fram komu eindregnar vísbendingar um að vandkvæði við framleiðslu stefnanda mætti rekja til afhendingar á raforku til verksmiðjunnar. Kom meðal annars fram í aðilaskýrslu Viðars Magnússonar, fyrirsvarsmanns stefnanda, að fyrst um sumarið 2000, eftir að nýjar vélar voru teknar í notkun, hefði legið fyrir rökstuddur grunur um að orka til verksmiðjunnar væri ekki viðhlítandi en úrbótum Akranesveitu lauk þá um haustið. 5. Hér hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að bótaskylda verði ekki reist á þeim reglum og skilmálum sem gilda um afhendingu raforku til verksmiðju stefnanda. Verður talið að þær reglur gangi framar almennum ákvæðum laga um lausafjárkaup, nr. 39/1922, sem í gildi voru á þeim tíma, sem dómkrafa stefnanda tekur til. Sama verður talið eiga við um ákvæði laga um skaðsemisábyrgð, nr. 25/1991. Verður bótaskylda því ekki byggð á þeim lagagrundvelli. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda. Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af máli þessu. Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Jóni Otta Sigurðssyni, tæknifræðingi, og Ólafi Sigurðssyni, rafmagnstæknifræðingi. D Ó M S O R Ð: Stefndi, Orkuveita Reykjavíkur, er sýkn af kröfum stefnanda, Trico ehf. Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 380/2003
Fuglaveiði Friðun Upptaka Ákæra
Á grundvelli framburðar vitna þótti sannað að B og S hefðu brotið gegn gegn lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, svo og reglugerð nr. 252/1996 um friðun tiltekinna villtra fuglategunda, friðlýsingu æðarvarps, fuglamerkingar, hamskurð o.fl. með skotveiðum á sjó. Þótti refsing hvors um sig hæfilega ákveðin 75.000 krónur, en auk þess var veiðifang gert upptækt.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar að fengnu áfrýjunarleyfi 17. september 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur um annað en refsingu ákærðu, sem verði þyngd. Ákærðu krefjast aðallega frávísunar málsins frá héraðsdómi, en til vara ómerkingar héraðsdóms og heimvísunar. Að því frágengnu krefjast ákærðu sýknu af kröfu um refsingu og um upptöku veiðifangs. Ákærðu er gefið að sök í málinu að hafa brotið gegn lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og reglugerð nr. 252/1996 um friðun tiltekinna villtra fuglategunda, friðlýsingu æðarvarps, fuglamerkingar, hamskurð o.fl. með skotveiðum á sjó við norðanverðan Hvalfjörð 8. maí 2002. Ákæra, sem gefin var út 11. mars 2003, er haldin annmörkum, eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi. Þrátt fyrir það verður fallist á með vísan til forsendna héraðsdóms að ekki séu alveg næg efni til að vísa málinu frá dómi af þeim sökum. Verður samkvæmt því hvorki aðalkrafa né varakrafa ákærðu tekin til greina. Brot þeirra er sannað með vætti vitna, svo sem ítarlega er rakið í héraðsdómi. Verður niðurstaða dómsins um sakfellingu ákærðu staðfest með vísan til forsendna hans. Með háttsemi sinni hafa ákærðu unnið sér til refsingar, sem er hæfilega ákveðin 75.000 króna sekt fyrir hvorn um sig og komi 15 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa. Ákvæði héraðsdóms um upptöku veiðifangs og sakarkostnað verða staðfest. Ákærðu verða dæmdir til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar segir í dómsorði. Dómsorð: Ákærðu, Bjarni Ingvar Halldórsson og Svanur Þór Brandsson, greiði hvor um sig 75.000 krónur í sekt í ríkissjóð og komi 15 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu dómsins. Ákvæði héraðsdóms um upptöku veiðifangs og sakarkostnað skulu vera óröskuð. Ákærðu greiði óskipt allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra fyrir Hæstarétti, Ólafs Sigurgeirssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur. Dómur Héraðsdóms Vesturlands 27. maí 2003. Sýslumaðurinn í Borgarnesi gaf út ákæru í máli þessu 11. mars 2003. Dómari gaf út fyrirköll 14. sama mánaðar, og var málið höfðað með birtingu þeirra og ákæru fyrir báðum ákærðu 18. mars. Það var þingfest 26. mars og tekið til dóms að lokinni aðalmeðferð 16. maí 2003. Ákærðir eru Bjarni Ingvar Halldórsson, [ . . . ], og Svanur Þór Brandsson, [ . . . ], ,,fyrir brot á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með því að hafa miðvikudagskvöldið 8. maí 2002, verið við skotveiðar á sjó við norðanverðan Hvalfjörð, en ströndin frá Þyrli að Katanesi er friðlýst vegna æðarvarps. Telst þetta varða við 1. mgr. 10. gr., sbr. 1. mgr. 19. gr. laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum nr. 64, 1994 og 3. gr., sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 252, 1996. Þess er krafist, að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til að sæta upptöku á 74 svartfuglum sem lögreglan lagði hald á, skv. 3. tl. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940." Svo hljóðar ákæruskjalið. Sækjandi krefst þess að ákærðu verði dæmdir til greiðslu alls sakarkostnaðar. Af hálfu ákærðu er þess krafist aðallega að ákærðu verði báðir sýknaðir, en til vara að þeir verði dæmdir til vægustu refsingar sem lög heimila og þá í mesta lagi til 30.000 króna sektar hvor. Upptökukröfu á 74 svartfuglum er mótmælt. Verjandi krefst málsvarnarlauna. Upphaf máls Frumskýrsla lögreglu í þessu máli er tímasett 8. maí 2002 kl. 20:22. Þá, segir í skýrslunni, tilkynnti V lögreglunni í Borgarnesi að þrír menn væru að skjóta fugl á Hvalfirði. Tveir lögreglumenn fóru þá suður á Hvalfjarðarströnd. Segir í skýrslunni að mennirnir þrír á bátnum hafi verið skammt innan við Ferstiklu þegar lögreglumenn komu á vettvang. Þegar báturinn hafi verið staddur rétt ,,fyrir innan Þyrilsnesið" [Svo í skýrslunni, en augljóst virðist af framhaldinu og öðrum málsgögnum að standa ætti fyrir utan. Aths. dómara] hafi lögreglubifreiðinni verið ekið út á bryggju Olíustöðvarinnar. Lögreglan hafi gefið ljós- og hljóðmerki og einnig kallað til mannanna í bátnum að láta af veiðunum og koma að landi, en þeir hafi engu sitt því og haldið áfram að skjóta fugl við Þyrilsnesið. Mennirnir á bátnum hafi síðan haldið yfir fjörð. Lögreglan í Borgarnesi leitaði aðstoðar Reykjavíkur-lögreglu. Um kl. 22:19 tilkynnti hún lögreglunni í Borgarnesi að mennirnir væru komnir að landi í Hvammsvík sunnan fjarðar. Lögreglan í Borgarnesi fór til móts við bátsverja í Hvammsvík. Þeir voru ákærðu og S, f. 1980. Í frumskýrslunni segir orðrétt: ,,Aðspurðir sögðust þeir hafa verið að veiða svartfugl og ekki vitað að skotveiði væri bönnuð á Hvalfirði. Þeim var gerð grein fyrir að skotveiði væri bönnuð á þessum árstíma í Hvalfirði vegna friðlýsts æðarvarps í Hvalfirði. [ . . .] Bjarni Svanur og S framvísuðu 74 svartfuglum sem þeir kváðust hafa skotið á Hvalfirðinum, ýmist út á miðjum firðinum eða upp undir landi að norðanverðu í firðinum og við Þyrilsnesið." Ákærðu framvísuðu skotvopnum, en S kvaðst ekki hafa verið að veiða, hann hefði lagt til bátinn og stjórnað honum við veiðarnar. Ákærðu höfðu skotvopnaleyfi og gild veiðikort. Ásgeir Rafnsson héraðslögreglumaður ritaði frumskýrslu. Hann staðfesti hana fyrir dómi. Ákærðu neituðu sakargiftum. Við þingfestingu tóku þeir báðir fram að þeir hefðu ekki verið að veiðum á því svæði sem ákæra tiltekur. Ákærði Bjarni Ingvar Halldórsson sagði í skýrslu sinni við aðalmeðferð að þeir ákærðu hefðu lagt upp í veiðiferðina frá Hvammsvík. Þeir hefðu í fyrstu haldið sig við Hvammsvíkina, verið þar fyrsta klukkutímann. Þeir hefðu verið þar í leyfi landeiganda. Þeir hefðu skotið svartfugla þar í grenndinni. Síðan hefðu þeir orðið skotfæralausir og haldið í skoðunarferð og siglt um fjörðinn. Ákærði var spurður hvort þeir hefðu farið með ströndinni að norðanverðu. ,,Ekki með ströndinni neitt," svaraði ákærði. Þeir hefðu bara verið úti á miðjum firði. Hann kannaðist ekki við að þeir hefðu komið nærri ströndinni, hvorki við Saurbæ né við Hvalstöðina, en þeir hefði verið í námunda við Geirshólma, þó ,,ekki neitt nærri honum". Þeir hefðu ekki farið inn fyrir hann. Þeir hefðu ekki farið inn í Helguvík. Hann sagði að sig minnti að þeir hefðu tekið sveig í áttina að Þyrilsnesinu. Ákærði sagði að þeir hefðu ekki farið lengra út fjörðinn en á móts við Dranganes, sem væri við Hvammsvíkina. [Á landabréfi, sem ákæruvaldið lagði fram, er merkt örnefnið Draganesi, skammt utan við Hvammsvík. Aths. dómara.] Ákærði Bjarni Ingvar sagði að fuglana, sem þeir hefðu skotið, hefðu þeir veitt við Selsker, ,,alla vega þarna í Hvammsvíkinni og svo kannski þarna við Ytra-leiti og þar." Ákærði tók fram, sérstaklega spurður, að þeir ákærðu hefðu ekki verið að veiðum á norðursrönd Hvalfjarðar og heldur ekki í námunda við hana. Ákærði staðfesti fyrir dómi skýrslu sem hann gaf fyrir lögreglu 7. október 2002. Þar segir m.a. að þeir ákærðu ,,hefðu verið að veiða fuglinn úti á miðjum firði og hefðu örugglega ekki komið nær landi en 3-400 metra út frá Hvammsvík. Þeir hefðu tekið skoðunarferð meðfram landi en ekki skotið neitt í þeirri ferð að það sé ekki rétt að þeir hefðu skotið fugla á friðlýstu svæði." Hann var þá spurður hvort þeir hefðu reynt að afla sér þekkingar á hvort eitthvað af strandlengju Hvalfjarðar væri friðlýst. ,,Bjarni segir að þeir hefðu ekki verið búnir að kynna sér það, enda ekki hægt um vik, þessar upplýsingar liggi ekki frammi. Þeir hefðu verið með upplýsingar frá veiðistjóraembættinu, þar eru merktar inn friðlýsingar en þetta svæði var ekki merkt þar inn." Ákærða var kynntur framburður V um að þeir hefðu skotið mikið 50 metra frá landi við Saurbæ og Ferstiklu. Hann neitaði þessu, þeir hefðu aldrei farið svo nærri landi, hvað þá skotið þar fugl. Þeir hefðu verið ,,fyrir miðjum firði, hann viti ekki hvað fjörðurinn er breiður þarna, telur þó að þeir hafi ekki verið nær landi en 200-300 metra frá Saurbæ og Ferstiklu." Fyrir dóminum sagði ákærði að þeir hefðu ekki verið að skjóta þarna. Þegar minnt var á að vitni bæru að þau hefðu heyrt þá skjóta, áréttaði ákærði það sem fram kemur í lögregluskýrslunni, að ólag hefði verið á mótornum í bátnum, og hvað eftir annað hefðu orðið í honum sprengingar. Ákærði Svanur Þór Brandsson var spurður hve langt þeir ákærðu hefðu farið út fjörðinn. Hann svaraði að þeir hefðu siglt víða um, hann myndi ekki nákvæmlega hvar. Til þess var vísað að vitni hefðu borið að þeir hefðu stoppað og verið að tína eitthvað upp úr sjónum, og var ákærði spurður hvað það hefði verið. Hann sagði að þeir hefðu ekkert tínt upp úr sjónum, ekki sem hann myndi eftir. Hann var spurður um leið þeirra inn fjörðinn. Hann kvaðst ekki muna svo glöggt hvort þeir hefðu siglt með ströndinni eða um miðjan fjörð. Þá var hann spurður hve langt inn fjörð þeir hefðu farið. Hann sagði að þeir hefðu verið einhvers staðar fyrir utan Geirshólma, þeir hefðu ekki farið inn fyrir hann svo að hann myndi eftir. Ákærði Svanur Þór lýsti svo bátnum sem þeir ákærði voru á að þetta væri plastbátur úr hörðu plasti, búinn til úr rörum. Hann væri með utanborðs mótor. Ákærði staðfesti skýrslu sem hann gaf fyrir lögreglu 11. september 2002. Þar segir ákærði að þeir ákærðu hafi siglt ,,fyrir framan Hvammsvík vorum að skjóta svartfugl þar. [ . . .] Við sigldum inn og út fjörðinn." Síðan segir orðrétt: ,,Við vorum að [svo] næst landi að norðan verðu en ekki get ég áætlað hversu langt frá landi við vorum að skjóta. Við skutum næst landi við Hvítanes, en sama er, ég veit ekki hve langt frá landi, get ekki giskað á fjarlægð. Við reyndum að halda okkur um 250 metrum frá stórstraumsfjöruborði." Undir ákærða var í lögregluskýrslunni borinn framburður vitnis um að þeir hefðu verið að skjóta ,,svona 50 metra frá andarmerkjum Saurbæjar og Ferstiklu". Svar: ,,Mér finnst það frekar ólíklegt, en við vorum að sigla þarna mikið framan við, en aðal skotveiðin fór fram utan við Hvítanes. Það getur verið að það rugli vitnin að gangtruflanir voru í mótornum hjá okkur og við þurftum að stöðva nokkrum sinnum af þeim sökum." Hann var spurður hvort hann hefði vitað ,,að þarna væri friðlýst æðarvarp á þessum tíma?" Hann kvað nei við því. Vitni fyrir dómi báru 5 bændur á Hvalfjarðarströnd: V, M, B, E og SG. Vitnið V, f. 1929, sagði að það hefði verið um áttaleytið að kvöldi 8. maí, að hann hefði séð bát koma, að hann hefði haldið sunnan fyrir fjörð. Hann hefði þá verið staddur á hlaðinu heima hjá sér á Ferstiklu. Bærinn stæði svona 60-70 metra yfir sjó, og þaðan væri gott útsýni yfir fjörðinn. Frá bæ til sjávar væru 700 metrar. Hann hefði heyrt skothríð nokkuð langt frá landi. Báturinn hefði síðan stefnt út fjörð, hefði farið mjög nálægt merkjakletti sem héti Snekkja, milli Saurbæjar og Ferstiklu, varla steinsnar frá klettinum. Hann hefði síðan haldið áfram út með landi, skotið fugl af og til, sér hefði virst hann taka eitthvað af fugli upp en ekki hirða allt. Nánar spurður um þetta sagði V að hann hefði séð mennina í bátnum taka upp fugla, og eins hefði hann séð hvernig sjór ýfðist kringum fugl sem skotið var á, sem ekki hefði verið hirtur. Síðan hefði bátnum verið siglt inn með aftur í ótal krókum. Bátsverjar hefðu ekki nema stundum stoppað hjá fugli til að taka hann upp. Þeir hefðu síðan komið inn með nokkuð nærri landi á Ferstiklu, svona 300-400 metra frá landi. Þeir hefðu farið í ótal króka fyrir framan Saurbæ og Ferstiklu og skotið feikilega mikið. Þegar þeir hefðu farið hjá Ferstiklu kvaðst V hafa hringt í lögregluna í Borgarnesi og óskað eftir að veiðar bátverja væru stöðvaðar. Hann kvaðst síðan hafa fylgst áfram með athæfi mannanna. Hann hefði farið á eftir lögreglunni inn á Brekkumýrar hjá Önundarhóli. Báturinn hefði þar horfið honum sjónum undir Stapa, móbergsstapa utan við Miðsand. Bátnum hefði verið siglt með landi hjá Miðsandsflúðum og inn í krikann hjá Helguhóli, sem væri fyrir neðan bæ á Þyrli. Þeir hefðu skotið þar mikið. Þarna væru fuglabjörg. Þyrilsnesið að vestanverðu væri samfellt fuglabjarg að heita mætti, engin fjara undir bjarginu. Þegar lögregla hefði reynt að stöðva þá hefðu þeir tekið strikið suður fyrir Geirshólma og hefðu haldið þar skotveiðum áfram. Þegar hann hefði horfið af vettvangi hefði verið orðið rokkið. Þá hefði báturinn verið kominn úti fyrir Grænuvík, næstu vík innan við Hvammsvík. V sagði aðspurður að hvellirnir sem hann heyrði frá bátnum hefðu verið skothvellir, ekki hljóð frá vél bátsins. Vitnið sagði að æðarvarpið á Ferstiklu væri með ströndinni milli merkja, 3ja km langri, og dreift upp að þjóðvegi. Á allri Hvalfjarðarströndinni væri dreift varp, nema á Þyrli. Þar væri það þéttara í eyju og í Þyrilsnesi. Aðspurður um hvernig varpið væri merkt, sagði V að friðlýsingarmerki væri þar sem vegur lægi niður í varplandið. Önnur merki væru ekki nema hvað hreiðrin væru merkt með veifum. Hann sagði að ekki væru miklar fjárhagslegar tekjur af varpinu. Þetta væri hins vegar elskuleg búgrein sem byggðist á umhyggju og gæslu. Vitnið M [ . . . ]. Hann sagðist fyrst hafa orðið var við umræddan bát út af Haukstanga, sem væri beint niður af Svarthamarsrétt. Báturinn hefði verið norðan við miðlínu fjarðar. Hann hefði heyrt skothvelli til bátsins. Báturinn hefði farið inn fjörðinn. Síðast hefði hann séð hann inn undir Þyrilsnesi. Hann hefði farið upp á veg og fylgst með honum af brekkunni utan við Miðsand. Hann hefði farið alveg inn undir Þyrilsnesið, innan við Geirshólma. Vitnið B, kvaðst búa á [ . . . ] ásamt eiginkonu sinni, sem væri skráður bóndi þar. Á jörðinni væri umtalsvert æðarvarp. Þar fengjust 15-16 kg af hreinsuðum dún árlega. Vitnið sagðist mundu hafa séð bát ákærðu fyrst upp úr kl. 7 um kvöldið og þá fram undan Hvalstöðinni. Honum hefði svo verið siglt inn að Þyrilsnesinu og meðfram því. Þá hefði Borgarneslögreglan verið komin. Þegar hún hefði verið komin fram á bryggju með sírenu og ljós hefði bátnum verið siglt út með nesinu, milli þess og Geirshólma, og út á fjörðinn. Hann hefði verið svona 400-500 metra frá Mjóanesinu (þar sem Þyrilnesið er mjóst). Milli Geirshólma og nessins sagði vitnið að væri styst 700-800 metrar. B kvaðst hafa heyrt bátsverja skjóta. Í skýrslu sem vitnið gaf fyrir lögreglu 10. júlí 2002 er haft eftir vitninu að hann hafði orðið var við ,,umrædda veiðimenn um kl. 21:00 þann 08.05.2002 og hefðu þeir verið á dökkum hraðskreiðum bát er þeir voru við veiðar að vestanverðu við Þyrilsnes, B kvað mennina haf skotið mikið og kvað þá hafa þrætt meðfram ströndinni á ofangreindum bát og hefðu verið um 100 metra frá landi." Skýrslu þessa staðfesti vitnið fyrir dómi. Um mismun á tímaákvörðun sagði B að hann hefði fært tímann ,,upp úr sjö" í dagbók sína. Vitnið E [ . . . ]. Hann kvaðst hafa nytjar af æðarvarpi, sem hann hefði verið að byggja upp. Á [ . . . ] væru 200-300 hreiður. Hann kvaðst fyrst hafa orðið var við bátinn nokkuð djúpt út af merkjum Brekku og Miðsands, heldur nær norðurlandi en suðurströnd. Bátnum hefði verið siglt inn og að Geirshólma. Hann hefði séð lögregluna fara niður á bryggju við Hvalstöð og setja á sírenu og blikkljós og kalla með gjallarhorni. Þá hefði báturinn verið ,,á móts við hólmann". Honum hefði þá verið siglt út. Bátsverjar hefðu skotið miðsvæðis á móts við Hvítanes. Hann hefði heyrt skothvelli og í kíki séð rót á sjó þegar skotið var. Báturinn hefði stoppað, að því að vitnið taldi, til að taka upp fugl. Vitnið S [ . . . ]. Hann sagði að þar væri svolítið æðarvarp. Hann kvaðst fyrst hafa orðið var við bátinn seinni part dags, sennilega milli sex og sjö. Þá hefði hann verið skammt undan Hvammsvík. Hann hefði þá verið á inneftir leið. Hann hefði farið inn að Hólma, verið svona á miðjum firði. Mennirnir á bátnum hefðu verið að skjóta. Hann kvaðst ekki geta borið um hvort báturinn hefði farið inn fyrir Geirshólma. Hann sagði að bátsverjar hefðu skotið fyrir framan Bjarteyjarsand, að hann hélt nærri miðjum firði. Hann sagðist ekki hafa tekið eftir því hvort þeir hefðu tínt upp fugl, hann hefði verið í önnum. Vitnið Ásgeir Rafnsson er lögreglumaður. Hann ritaði frumskýrslu, svo sem fyrr greinir. Hann sagði að báturinn hefði verið undan landi Ferstiklu þegar lögreglan kom á vettvang, á að giska 200-300 metra frá landi. Honum hefði verið haldið inn fjörðinn, stundum stöðvaður, og lögreglan hefði heyrt skothríð. Hann hefði farið inn undir Þyrilsnes, mjög nærri landi milli nessins og Geirshólma. Þeir hefðu síðan siglt ,,út fjörðinn", við og við stoppað, tekið hring, og bátsverjar hefðu virst vera að taka upp fugl. Síðan haldið í Hvammsvík. S bar vitni dómi. Hann gaf og skýrslu fyrir lögreglu og hafði þar stöðu sakbornings. Í lögregluskýrslunni kemur fram að hann hafi haft umræddan bát til umráð og hafi stjórnað honum. Báturinn tilheyri Hvammsvík. Þetta sé stór plastbátur, af svipaðri gerð og Zodiak gúmmíbátur. Á honum hafi verið 40 ha Yamaha utanborðs mótor, og hafi hann ganghraða 15-20 sml/klst. Hann taldi sig í umræddri ferð hafa siglst á 5-10 sjómílna hraða. Lögregluskýrsluna staðfesti vitnið fyrir dóminum. Að öðru leyti telur dómari ekki ástæðu til að rekja framburð vitnisins, sem var ekki greinargóður. Forsendur og niðurstöður Leitt hefur verið í ljós með greinargóðu vætti vitnisins V og vætti fleiri vitna, einkum Ásgeirs Rafnssonar og B, að ákærðu voru að skotveiðum við norðurströnd Hvalfjarðar að kvöldi 8. maí 2002. Sannað er að þeir fóru sums staðar mjög nærri landi, svo að nam fáeinum hundruðum metra eða minna. Fram undan landi Ferstiklu voru þeir mjög skammt frá landi, sbr. vætti V og Ásgeir Rafnssonar. Þá er og í ljós leitt með vætti vitna, svo að óyggjandi er, að þeir fóru mjög nærri Þyrilsnesi og skutu fugl þar, en Geirshólmi er samkvæmt fram lögðu landabréfi í mælikvarða 1:5.000 700-800 metra frá nesinu. Ennfremur er leitt í ljós með framburði vitna að ákærðu skutu fugl á leið sinni frá Þyrilsnesi yfir í Hvammsvík. Fjarlægð frá Geirshólma að miðlínu fjarðar í stefnu á Hvammshöfða er tæpir 5 km, fjarlægð frá Þyrilsnesi að miðlínu í stefnu á Hvítanesi er um 1 km og vegarlengd frá Þyrilsnesi í stefnu hávestur á Hvammshöfða að miðlínu fjarðar er u.þ.b. 1.250 metrar. Vitnið E bar að bátsverjar hefðu skotið ,,miðsvæðis á móts við Hvítanes". Vitnið M bar að hann hefði séð bát ákærðu suður af Haukatanga, sem er neðan við Svarthamarsrétt, og þá norðan við miðlínu fjarðar. Hefðu bátsverjar þá verið að skjóta. Fjarlægð milli norður- og suðurstrandar fjarðarins er þarna um 1,5 km. Vitnið SG bar að bátsverjar hefðu verið að skjóta nær miðjum firði fram undan Bjarteyjarsandi. Samkvæmt framanrituðu skutu ákærðu víða fugl innan tveggja km frá norðurströnd Hvalfjarðar utan frá Ferstiklu inn til Þyrilsness. Ákærðu hafa ekki borið á móti því að þeir hafi farið á bátnum um þetta svæði, en þeir hafa neitað því að þeir hafi skotið þar. Þeir hafa sagt að það kunni að hafa villt um fyrir vitnum að sprengingar hafi verið í vél bátsins. Dómari telur þá skýringu ekki tæka. Vitni hafa lýst því að þau hafi séð ákærðu skjóta, sigla bátnum í krókum og taka upp fugl. Í ákæru er háttsemi ákærðu talin brot gegn 1. mgr. 10. gr. laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum (hér á eftir nefnd villidýralög). Fyrri málsliður 1. mgr. lagagreinarinnar hljóðar svo: ,,Veiðar skulu óheimilar á svæðum sem eru friðlýst vegna dýralífs." Með ákvæði þessi er átt við friðlýst svæði samkvæmt náttúruverndarlögum, svo sem glöggt má sjá af skýringum með 10. gr. frumvarps til villidýralaga. Hafa ákærðu ekki gerst brotlegir við þetta lagaákvæði, og ber að sýkna þá af ákæru um brot gegn því. Friðlýsing æðarvarpa fellur undir 18. gr. villidýralaga, en þar segir í 2. mgr.: ,,Umhverfisráðherra setur reglugerð um hvernig staðið skuli að skilgreiningu og friðlýsingu æðarvarps samkvæmt lögum þessum." Sú reglugerð hefur verið sett og er nr. 252/1996, sbr. ákæru. Háttsemi ákærðu felur í sér brot gegn 1. mgr. sömu lagagreinar, en þar segir í 1. málslið: ,,Frá 15. apríl til 14. júlí ár hvert eru öll skot bönnuð nær friðlýstu æðarvarpi en 2 km nema brýna nauðsyn beri til." Til þessarar málsgreinar 18. gr. villidýralaga er ekki vísað í ákæru, og verður að telja það annmarka á henni. Að mati dómara leiðir hann þó hvorki til frávísunar né sýknu. Í ákæru er vitnað til 3. gr. reglugerðar nr. 252/1996, sem eins og fyrr segir er sett með heimild í 2. mgr. 18. gr. villidýralaga. Í 3. gr. reglugerðarinnar segir í 1. málslið: ,,Friðlýsing æðarvarps gildir á tímabilinu frá 15. apríl til og með 14. júlí ár hvert. Friðlýsingin felur það í sér að öll skot eru bönnuð nær friðlýstu æðarvarpi en 2 km, nema brýna nauðsyn beri til. Ákvæði þetta er efnislega samhljóða 1. ml. 1. mgr. 18. gr. villidýralaga. Nægir tilvísun ákæranda til reglugerðarinnar til þess að að ákærðu verði sakfelldir. Með auglýsingu í Lögbirtingablaði, sem út kom föstudaginn 20. júní 1997 friðlýsti sýslumaðurinn í Borgarnesi æðarvörp á allmörgum jörðum í umdæmi sínu með vísan til 18. gr. villadýralaga. Þannig voru friðlýst vörp á 10 jörðum í Hvalfjarðarstrandarhreppi, þeirra á meðal Brekku, Bjarteyjarsandi, Hrafnabjörgum, Ferstiklu I og II, Saurbæ og Þyrli. Um afmörkun æðarvarpanna á þessum jörðum, öðrum en Þyrli, segir: ,,Friðlýsingin tekur til lands jarðanna frá þjóðvegi að sjávarmáli, auk þess sem friðlýsingin taki til Bjarteyjar og Hrafnabjargarhólma." Um æðarvarp á Þyrli segir: ,,Friðlýsingin tekur til Þyrilseyjar, Geirshólma og Þyrilsness að þjóðvegi." Þá segir í auglýsingunni að á skrifstofu sýslumanns í Borgarnesi liggi frammi skrá um friðlýst æðarvörp í umdæminu ásamt kortum hvar hin friðlýstu æðarvörp eru afmörkuð." Ekkert í máli þessu bendir til að ekki hafi verið staðið að friðlýsingu æðarvarpanna, sem hér greinir, svo sem lög kveða á um. Það er almenn regla að sá sem gerist brotlegur við lög getur ekki borið fyrir sig að hann hafi ekki þekkt lögin. Á sama hátt er ákærðu í þessu máli ekki vörn í því að þeir hafi ekki vitað af friðlýsingu æðarvarpanna á Hvalfjarðarströnd. Þeir voru enda að skotveiðum á öndverðum varptíma og hefðu því átt að fara með mikilli gát sem góðir og gegnir veiðimenn. Verjandi ákærðu hélt því fram í málflutningi sínum að staðartilgreining brots í ákæru, við norðanverðan Hvalfjörð, væri ekki nægjanleg samkvæmt c-lið 1. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Á þetta fellst dómari ekki, enda liggur að nokkru nákvæmari tilgreining í eftir farandi orðum: "en ströndin frá Þyrli að Katanesi er friðlýst vegna æðarvarps." Er þessi tilgreining nægjanleg eins og ferðum ákærðu við skotveiðarnar var háttað. Það verður niðurstaða dómara að ákærðu verða sakfelldir fyrir brot gegn 3. mgr. reglugerðar nr. 252/1996 um friðun tiltekinna villtra fuglategunda, friðlýsingu æðarvarps og fleira, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 64/1994 um vernd , friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, sbr. og 1. málslið 1. mgr. sömu lagagreinar. Ákvörðun refsingar. Hana ber að ákvarða samkvæmt 1. mgr. 19. gr. villidýralaga nr. 64/1994. Hún verður ákvörðuð með tilliti til þess að ákærðu höfðu tilskilin opinber leyfi til skotveiða, skotvopnaleyfi og veiðikort. Ekki er fram komið að þeir hafi skotið aðrar tegundir fugla en ófriðaðar. Dómari hefur ennfremur hliðsjón af því að ekkert er fram komið að þeir hafi með skotveiðum sínum nærri norðurströnd Hvalfjarðar valdið tjóni á æðarvörpum. Ákærði Bjarni Ingvar Halldórsson hefur ekki fyrr sætt refsingu samkvæmt sakavottorði. Ákærði Svanur Þór Kristvinsson hefur nokkrum sinnum sætt refsingu á árabilinu 1991 til 2001. Síðast sætti hann refsingu 14. nóvember 2001 fyrir ölvunarakstur, 40.000 króna sekt, og var sviptur ökurétti í 6 mánuði. Næstsíðasta refsingin var 16. apríl 1998, 24.000 króna sekt fyrir hraðakstur. Dómari lætur ekki fyrri refsingar þessa ákærða hafa áhrif á refsingu hans í þessu máli. Dómara þykir refsing ákærðu, hvors um sig, hæfilega ákveðin 25.000 króna sekt, en 6 daga fangelsi komi í stað sektar ef hún verður ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins. Um kröfu ákæruvalds um upptöku fugla. Af hálfu ákærðu er kröfu þessari mótmælt. Verjandi þeirra benti á það fyrir dóminum, að veiðar þeirra hefðu verið löglegar að því leyti að þeir hefðu veitt ófriðaða fugla. Það sem bannað væri skv. 1. mgr. 18. gr. villidýralaga væri að hleypa af skoti, en ekki að veiða fugl. Á þetta fellst dómari ekki. Veiðifangsins, 74 svartfugla, öfluðu ákærðu með háttsemi sem var brýnt brot á villidýralögum. Ber því að gera það upptækt samkvæmt 3. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga, svo sem krafist er, sbr. og 3. mgr. 19. gr. villidýralaga. Sakarkostnaður. Eftir úrslitum máls verða ákærðu dæmdir til að greiða in solidum allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra, Ólafs Sigurgeirssonar hrl., sem skulu vera 100.000 krónur auk virðisaukaskatts. Stefán Skarphéðinsson sýslumaður sótti málið. Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari kveður upp þennan dóm. D Ó M S O R Ð Ákærðu, Bjarni Ingvar Halldórsson og Svanur Þór Brandsson, eiga að vera sýknir af ákæru um brot gegn 1. mgr. 10. gr. laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á á villtum fuglum og villtum spendýrum. Ákærði Bjarni Ingvar Halldórsson greiði 25.000 króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms, en sæti ella 6 daga fangelsi. Ákærði Svanur Þór Brandsson greiði 25.000 króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms, en sæti ella 6 daga fangelsi. Gerðir eru upptækir í ríkissjóð 74 svartfuglar, veiðifang ákærðu, sem lögregla lagði hald á 8. maí 2002. Ákærðu greiði in solidum allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ólafs Sigurgeirssonar hrl., 100.000 krónur auk virðisaukaskatts.
Mál nr. 575/2015
Fjármálafyrirtæki Slit Riftun Gjöf Endurgreiðslukrafa Aðild
S gerði samning við L hf. um eignastýringu lífeyrissparnaðar síns þar sem kveðið var á um að lífeyrinn skyldi ávaxta í erlendum verðbréfum með tilteknum hætti. Hluta lífeyrisins átti að ávaxta með kaupum á skuldabréfum í félaginu IF fyrir andvirði 1.000.000 punda og lagði L hf. inn pöntun um millilagslán í tengslum við þau viðskipti. Uppgjör viðskiptanna drógust á langinn og þegar L hf. keypti pund vegna viðskiptanna hafði gengi krónunnar veikst talsvert og vantaði þá inn á lífeyrisreikning S fjárhæð sem svaraði til rúmlega 174.000 punda sem greiða þurfti fyrir millilagslánið. L hf. lagði andvirði þeirrar upphæðar inn á lífeyrisreikning S en ekkert varð hins vegar af viðskiptunum. Í málinu krafðist slitastjórn L hf. að greiðslunni yrði rift á grundvelli 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 og að S yrði gert að endurgreiða sér samsvandi fjárhæð. Talið var að S hefði ekki tekist, gegn andmælum L hf., að sýna fram á að viðskiptalegar forsendur hefðu búið að baki greiðslunni og var riftunarkrafa L hf. því tekin til greina. Þá var S jafnframt gert að endurgreiða umrædda fjárhæð á grundvelli 142. gr. laga nr. 21/1991.
Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma Karl Axelssonhæstaréttardómari og Hjördís Hákonardóttir og Ingveldur Einarsdóttir settirhæstaréttardómarar.Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. september 2015. Hann krefst sýknuaf kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingarhéraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Áhluthafafundi í stefnda 19. febrúar 2016 var félaginu breytt úr hlutafélagi íeinkahlutafélag.Að því gættu að kaup á bandaríkjadölum og evrum vegna fyrirhugaðraverðbréfakaupa í þágu einkalífeyrissparnaðar áfrýjanda fóru fram í áföngumdagana 26. og 28. ágúst 2008 er málsatvikum nægilega lýst í hinum áfrýjaðadómi.IÁfrýjandi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að aðild málsins séröng bæði til sóknar og varnar. Hvað aðild sína varði þá hagi svo til að greiðslasú sem deilt sé um hafi verið ráðstafað inn á reikning lífeyrissparnaðar hans, þá í vörslu LandsbankaÍslands hf., nú Kvika banki hf., og hafiáfrýjandi ekkert forræði haft á þeirri ráðstöfun og þeim reikningi, þar semlífeyrissjóðssparnaður hans hafi í raun verið sjálfstæður aðili með sérstakakennitölu. Þá geti áfrýjandi fyrst nýtt umrædd verðmæti þegarhann nái sextíu ára aldri. Af þessu leiði að með réttu beri að beina kröfum aðvörsluaðila lífeyrissparnaðarins en sýkna hann á grundvelli aðildarskorts. Hvað sem líður vörslu á lífeyrissparnaði áfrýjanda þá er til þess að lítaað hann er einn rétthafi þeirra verðmæta sem um er að ræða, svo sem samningurhans um viðbótarlífeyrissparnað og viðauki við þann samning 19. ágúst 2008,bera með sér. Í 2. gr. reglna LandsbankaÍslands hf. um lífeyrissparnað, sem áritaðar voru af aðilum sama dag, kemurfram að umrædd réttindi séu séreign áfrýjanda. Þó svo vörslu umræddra verðmæta hafiverið hagað með sérstökum hætti og þráttfyrir skilyrði um að þau séu eigandanum ekki til frjálsrar ráðstöfunar fyrr ennáð sé sextíu ára aldri er það vafalaust að áfrýjandi er einn eigandi umræddraverðmæta og að umþrætt greiðsla, sem fram fór 2. október 2008, var innt afhendi í hans þágu. Aðild áfrýjanda á sér þannig fullnægjandi stoð í 1. mgr. 16.gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá ber jafnframt að gæta að því að riftunráðstafana samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti beinist aðþeim aðila sem haft hefur hag af viðkomandi ráðstöfun. Í þessu tilviki er þaðengum vafa undirorpið að þar er áfrýjanda einum til að dreifa og verðursýknukrafa hans því ekki byggð á aðildarskorti hans. Áfrýjandi hafði fyrst uppi við aðalmeðferð málsins í héraði þá málsástæðu,að af málflutningsyfirlýsingu lögmanns stefnda fyrir héraðsdómi mætti ráða, aðkrafa um riftun og endurgreiðslu hafi á grundvelli ákvörðunarFjármálaeftirlitsins 9. október 2008 flust til Nýja Landsbankans hf. Ráðstöfun súsem krafist er riftunar á átti sér stað 2. október 2008 eins og áður greinir ogvar innt af hálfu stefnda í þágu áfrýjanda. Gegn andmælum stefnda hefuráfrýjandi ekki sýnt fram á að krafan hafi verið meðal þeirra réttinda, samkvæmtsamningum um vörslu og eignastýringu viðskiptavina Landsbanka Íslands hf., semNýi Landsbanki Íslands hf. yfirtók þann 9. október 2008, sbr. 5. töluliðurákvörðunar Fjármálaeftirlitsins sama dag. Með vísan til þessa er hafnað kröfuáfrýjanda um sýknu á grundvelli aðildarskorts stefnda.IIÍ hinum áfrýjaða dómi er ítarlega rakinn aðdragandi þeirrar ráðstöfunar2. október 2008 sem stefndi krefst að rift verði á grundvelli 131. gr. laga nr.21/1991. Fallist er á það með stefnda að uppfyllt séu skilyrði ákvæðisins um að greiðslan hafiverið afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag, hún hafi verið til hagsbótafyrir áfrýjanda og falið í sér skerðinguá eigum stefnda. Áfrýjandibyggir sýknukröfu sína í öðru lagi á því að greiðslan sem innt var af hendi 2.október 2008 hafi ekki falið í sér gjöf í skilningi áðurgreinds ákvæðis laganr. 21/1991, heldur hafi tilgangur hennar verið viðskiptalegs eðlis, það er aðbæta áfrýjanda tjón sem hann hefði orðið fyrir vegna mistaka starfsmannastefnda í tengslum við kaup á skuldabréfum í tilgreindu félagi. Stefndibyggir á hinn bóginn á því að greiðslan hafi farið fram í gjafatilgangi eðaörlætisskyni. Sú staðhæfing áfrýjanda að ákveðið hafi verið seinni hlutaágústmánaðar 2008 að fjárfesta fyrir 1.000.000 sterlingspund í svokölluðumillilagsláni, sem breska verslunarkeðjan Iceland Food gaf út, á sér stoð ífyrirliggjandi gögnum og framburðum þáverandi starfsmanna stefnda. Fyrir dómibáru starfsmennirnir að fyrir mistök hefðu sterlingspund ekki verið keyptsamhliða því að verðbréf í félaginu Iceland Food voru pöntuð. Greiðslan 2.október að fjárhæð 35.140.000 krónur hafi því átt að bæta áfrýjanda þannneikvæða gengismun sem orðið hafði frá því ákveðið var að stofna til kaupannatil greiðsludags skaðabótanna. Um hefðbundið verklag hafi verið að ræða undirþeim kringumstæðum þegar mistök af þessu tagi hafi komið upp. Um þetta er til þess að líta að slík framkvæmd og verklag virðist ekkihafa stuðst við neinar formlega settar eða skráðar reglur. Þá má ráða afframburði regluvarðar og forstöðumanns á eignastýringasviði stefnda fyrir dómiað umrædd kaup á gjaldeyri helguðust alfarið af því að af viðskiptum meðmillilagslánið yrði. Sá skilningur á sér jafnframt stoð í þeirri fjárfestingarstefnusem fram kemur í viðauka um eignastýringu frá 19. ágúst 2008 þar sem ekki er gert ráð fyrir því að fjárfest sésérstaklega í gjaldeyri. Af gögnum málsins verður ekki nákvæmlega ráðið hvenærpöntun vegna umræddra viðskipta kom fram og hefur ýmist verið vísað til 21. eða22. ágúst 2008 í því sambandi. Hins vegar er það óumdeilt að aðilum var ljóstað ferill vinnslu í tengslum við kaup á skuldabréfum í Iceland Food myndi takanokkurn tíma. Í skriflegri aðilaskýrslu sinni tiltók áfrýjandi að slíkt tæki aðjafnaði um 2-3 mánuði og í greinargerð áfrýjanda fyrir héraðsdómi kom fram aðfrágangur kaupa á slíkum skuldabréfum tæki að jafnaði 8 til 12 vikur. Að þessugættu fæst ekki séð hvaða ástæður gátu búið því að baki að greiða skaðabæturvegna neikvæðs gengismunar 2. október 2008. Ekkert hefur komið fram um að áþeim tíma hafi legið fyrir hvenær af kaupunum yrði og hvenær stefnda bæri, fyrirhönd áfrýjanda, að greiða tilgreinda fjárhæð í sterlingspundum. Hvað sem líður umdeildribótaskyldu stefnda af þeim sökum að hafa ekki keypt sterlingspund þá þegarviðskiptin voru afráðin í ágúst og mögulega ábyrgð á gengismun, þá lá ekkertstaðreynt tjón fyrir af þeim sökum 2. október 2008. Slíkt mögulegt tjón gatfyrst legið fyrir þegar af kaupunum varð og greiða bar kaupverðið enágreiningslaust er að ekkert varð af þeim. Eðli málsins samkvæmt var ekki ljóst2. október 2008 hvort gengismunur yrði áfram neikvæður á þeim degi þegar tilgreiðslu kæmi ellegar hið öndverða yrði ofaná og gengi krónunnar rétti úrkútnum gagnvart sterlingspundi. Að framangreindu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna hinsáfrýjaða dóms er fallist á það með stefnda að umrædd greiðsla 2. október 2008hafi verið umfram skyldu og hefur áfrýjanda ekki tekist, gegn andmælum stefnda,að sýna fram á að viðskiptalegar forsendur hafi búið að baki henni. Greiðslan fól þvíí sér örlætisgerning sem verður að kröfustefnda rift á grundvelli 1. mgr. 131. gr. laga nr.21/1991.Niðurstaða hins áfrýjaða dóms um fjárkröfu stefndaað fjárhæð 35.140.000 krónur auk dráttarvaxta verður staðfest með vísan tilforsendna og að því gættu að sú inneign áfrýjanda í krónum sem nýta átti tilkaupa á umræddu millilagsláni var allan tímann varðveitt á innlánsreikningi hjástefnda með þeirri ávöxtun sem um slíka reikninga gilti. Þá verður staðfest súniðurstaða hins áfrýjaða dóms að ekki séu skilyrði til þess að fjárkrafan áhendur áfrýjanda verði lækkuð með vísan til 145. gr. laga nr. 21/1991. Málskostnaðarákvörðun héraðsdóms skal veraóröskuð. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrirHæstarétti, sem verður ákveðinn eins og nánar segir í dómsorði.Dómsorð:Héraðsdómur skal vera óraskaður.Áfrýjandi, Sigurjón Þorvaldur Árnason, greiðistefnda, LBI ehf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. DómurHéraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2015. Málþetta var höfðað 27. apríl 2012 og dómtekið 20. maí 2015. Stefnandier LBI hf., Austurstræti 16 í Reykjavík, en stefndi er Sigurjón ÞorvaldurÁrnason, Granaskjóli 28 í Reykjavík. Stefnandikrefst þess að staðfest verði riftun dagsett 30. ágúst 2011 á ráðstöfun semfólst í greiðslu Landsbanka Íslands hf. í séreignalífeyrissparnaðarsjóð í þágustefnda 2. október 2008 samtals að fjárhæð 35.140.000 kr. Þákrefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 35.140.000 kr.með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. september2011 til greiðsludags.Loks krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda. Stefndikrefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til varakrefst stefndi þess að fjárkrafa stefnanda verði lækkuð verulega. Loks krefststefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda. IMálavextir Stefndivar ráðinn bankastjóri Landsbanka Íslands hf. hinn 21. apríl 2003. Íráðningarsamningi hans við bankann er fjallað um launakjör stefnda í nokkrumtöluliðum. Í einum töluliðnum segir að bankinn skuli greiða sem næmi 20% aflaunum stefnda í lífeyrisiðgjöld á móti 4% mótframlagi stefnda. Skyldilífeyrisiðgjaldið greitt í séreignarlífeyrissjóð samkvæmt heimildum laga ogsamkvæmt nánari ákvörðun stefnda. Um viðbótarlífeyrissparnaðinn skyldu gildaákvæði kjarasamnings bankamanna hverju sinni. Í fjórða lið er að finna ákvæðium kauprétt stefnda í Landsbanka Íslands hf. og loks er í fimmta lið fjallað umrétt stefnda til árlegra bónusgreiðslna. Hinn24. janúar 2005 var gerður viðauki við ráðningasamninginn. Föstum launum hansvar breytt með þessum viðauka, auk þess sem bankinn skyldi nú greiða sem næmi30% af launum stefnda í lífeyrisiðgjöld á móti 4% framlagi stefnda. Ennvar gerður viðauki við ráðningarsamninginn, þar sem föst laun stefnda voruhækkuð frá og með 1. ágúst 2005 auk þess sem mótframlag bankans á móti iðgjaldistefnda í lífeyrissjóð var hækkaði um 10 prósentustig. Þá var ákvæðum umbónusgreiðslur breytt og skyldu þær nú greiddar út 1. mars ár hvert vegnaliðins starfsárs en 30% af bónusgreiðslu skyldi greidd inn í séreignasjóð íeigu stefnda. Hinn1. desember 2006 var enn gerður viðauki við ráðningarsamning stefnda og snerisá viðauki að breytingum á föstum mánaðarlegum greiðslum og bifreiðahlunnindum. Fyrirliggur að Landsbankinn hf. rak lífeyrissparnaðarstarfsemi sína undirlífeyrissjóðsnúmerum 931 (lífeyrisbók) og 932 (fjárvörslureikningur). Hiðsíðara kom til eftir að bankinn hafði tekið yfir starfsemi dótturfélags síns,Landsbréfa hf. Hinn17. apríl 2008 samþykkti bankastjórn stefnanda tillögu rekstrarhópslífeyrissparnaðar að bjóða upp á samninga um lífeyrissparnað í sérgreindumverðbréfasöfnum. Í þessu fólst að viðskiptavinir bankans, sem gerðu eða höfðugert samning um vörslur viðbótalífeyrissparnaðar síns við hann, gætu, auklífeyrisbóka í vörslum bankans, óskað eftir því að fjárfest væri fyrir þá ísérgreindum verðbréfasöfnum, eftir fyrir fram ákveðinni fjárfestingarstefnu.Féll þessi lífeyrissjóðsstarfsemi undir lífeyrissjóðsnúmerið 932. Fyrir liggurað stefndi hafði undirritað samning um ávöxtun viðbótarlífeyrissparnaðar álífeyrisbók. Stefndiundirritaði þrjú skjöl 19. ágúst 2008. Í fyrsta lagi reglur um lífeyrissparnaðLandsbankans hf. sem m.a. hafa að geyma reglur um greiðslu iðgjalds, ávöxtunþess og útborgun. Kemur þar fram að rétthafi skuli gera samning umlífeyrissparnað við vörsluaðila og sé iðgjald rétthafa séreign hans. Þá segirað vörsluaðili ávaxti iðgjald rétthafa í samræmi við ákvæði samnings aðila umlífeyrissparnað eða viðauka við samninginn. Þá eru talin upp skilyrði þess aðrétthafi geti hafið úttekt á lífeyrissparnaði sem er í fyrsta lagi þegar hannyrði 60 ára. Í öðru lagi undirritaði stefndi tvo samninga umviðbótarlífeyrissparnað. Annar ber yfirskriftina „samningur umviðbótarlífeyrissparnað“ og snýst um ávöxtun viðbótarlífeyrissparnaðar áfjárvörslureikning nr. 111-26-502960, númer 932. Kemur þar fram sú yfirlýsingað stefndi óski eftir því að inneign hans samkvæmt samningnum yrði ávöxtuð ísamræmi við sérstakan viðauka við samninginn. Í þriðja lagi undirritaði stefndisvo tilvitnaðan viðauka sem ber yfirskriftina „viðauki við eignastýringu viðsamning um viðbótarlífeyrissparnað skv. lögum nr. 129/1997, um skiljutryggingulífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóðs“ og snerist um ávöxtun í erlendumverðbréfum eingöngu. Samkvæmt fjárfestingastefnu þess samnings skyldi fjárfestí erlendum skuldabréfum eða lánaskjölum að lágmarki, viðmið væri 90% og hámark100%. Íviðaukanum er að finna yfirlýsingu um stöðu rétthafa sem fagfjárfestis en semslíkur falli hann utan við ákvæði laga og reglna er snúi að fjárfestavernd íviðskiptum með fjármálagerninga. Í kafla um forsendur fjárfestingastefnu ervísað til þess að rétthafi hafi sjálfur sett sér fjárfestingastefnu og feli Landsbankanumhf. að ávaxta eignir hans með fjárfestingum innan ramma hennar. Þá sé honumljós sú áhætta sem kunni að felast í í fjárfestingum samkvæmt stefnunni og beriábyrgð á sjálfur að sé við hæfi rétthafa og í samræmi við markmið hans meðviðbótarlífeyrissparnaðinum. Landsbanki Íslands hf. beri ekki ábyrgð á árangrifjárfestinga samkvæmt samningnum. Þá er að finna sérstök fyrirmæli rétthafavegna fjárfestingastefnunnar en þar segir að miðað sé við að fjárfestingarverði í samráði við hann þó þannig að laust fé og innborganir ávaxtist áinnlánsreikningum. Aðþessu frágengnu voru stefnanda afhentar til vörslu og ávöxtunar 292.522.693krónur. Var fjárhæðin færð þann 22. ágúst 2008 inn á reikning nr.0111-26-57030, Fjárvörslureikning 3 hjá bankanum með kennitöluna 570299-9219,af reikningi hjá Verðbréfasviði Landsbankans. Þann20. ágúst 2008 sendi Stefán H. Stefánssyni, þá framkvæmdastjóri einkastýringarLandsbanka Íslands hf., Þórði Örlygssyni, regluverði stefnanda, tölvubréf. Þarupplýsti Stefán H. regluvörðinn um fyrirhuguð viðskipti sem sneru aðeinkalífeyrissparnaði stefnda. Í tölvubréfinu segir um þetta; „Í framhaldi afspjalli við Sigurjón, þá vildi ég fá staðfestingu hjá þér og upplýsa þigvarðandi viðskipti sem við erum að undirbúa fyrir Einkalífeyrissparnað fyrirSigurjón Þ. Árnason. Ætlunin er að fjárfesta nokkurn vegin í þeim hlutföllumsem fram koma í exel skjalinu í þremur skuldabréfaverkefnum: Gazprom, TAQA ogIceland. Heildarfjárhæðin verður nærri 280 mkr. Viðskiptin ganga þó hugsanlegaekki í gegn á einum degi.“ Þá kemur fram að umsjónarmaður safnsins sé FriðrikNikulásson. Af öðrum gögnum málsins má ráða að Taqa vísar til vatnsveitunnar íAbu Dhabi en Iceland til bresku matvörukeðjunnar Iceland Food. Í viðhengi, semfylgdi tölvubréfinu og vísað er til, stendur efst „Einkalífeyrissparnaður.“ Þarfyrir neðan er kennitala stefnda og upphæð í íslenskum krónum 282.076.532krónur. Þá kemur fram gengi punda 153,8, evra 121,97 og dollara 82,86. Að lokumer eftirfarandi stillt upp: Skuldabréf Mynt Upphæð ISK Iceland GBP 1.000.000 153.769.500 Gasprom USD 750.000 62.145.000 TAQA EUR 500.000 60.985.000 Samtals: 276.899.500 mismunur 5.177.032 Ísvari Þórðar snemma næsta dag kemur fram að hann geri ekki athugasemdir viðþessi viðskipti en óski eftir afriti af samningnum. Þá óskar hann upplýsinga umþað hver taki ákvörðun um einstakar fjárfestingar. Þá segir; „Ef hann er aðtaka einstakar ákvarðanir sjálfur þá verðum við að hafa einhvern feril um aðleitað sé álits svo ekki komi upp deilur seinna við FME eða IE um aðhagsmunaárekstrar séu til staðar.“ Afframlögðum reikningsyfirlitum má ráða að 26. ágúst 2008 voru af hálfu bankanskeyptir tæplega 850.000 Bandaríkjadalir og 504.000 evrur og lagðar inn ágjaldeyrisreikninga sem féllu undir Fjárvörslureikning 3. Samkvæmtuppgjörsnótum dagsettum 27. ágúst 2008 voru þann sama dag keypt skuldabréf íGazprom fyrir samtals 848.627,56 Bandaríkjadali og skuldabréf í TAQA Abu DhabiNational fyrir samtals 548.457,31 evrur. Ferillvinnslu í tengslum við kaup á skuldabréfum var í Iceland Food lengri ogflóknari en í tengslum við hin félögin en fyrsta fyrirspurn frá FriðrikiNikulássyni um það til starfsmanna Landsbankans í London er frá 22. ágúst 2008.Má sjá af tölvubréfasamskiptum á milli þessara aðila frá 26., 27. og 28. ágúst2008 að ástæða vinnslutímans var sú að viðskiptin gerðust með kaupum áhlutdeild í fjármálagerningum útgefnum af bresku verslunarkeðjunni, svokölluðummillilagslánum (e. mezzanine loans) og fylgdi því nokkur skjalavinna. Ítengslum við kaupin óskuðu starfsmenn ytra eftir tilteknum upplýsingum sem m.a.lutu að viðskiptavininum en áður hafði Friðrik upplýst að um einkalífeyrissjóðværi að ræða. Kemur m.a. fram í tölvubréfi starfsmanns ytra að upplýsingarverði að liggja fyrir um lífeyrissjóðinn sem lánin verði framseld til, IcelandFoods þurfi að samþykkja fyrirhugað framsal lánanna, auk þess sem fyrir þurfiað liggja upplýsingar um það um hvaða lífeyrissjóð sé að ræða og tengsl viðLandsbankann. Einnig þurfi að afla nauðsynlegra upplýsinga um kaupandann vegnareglna um aðgerðir gegn peningaþvætti og afhenda umsýslubankanum sem samþykkjaþurfi upplýsingarnar áður en framsalið færi fram. Samkvæmtgögnum málsins voru bresku pundin keypt 30. september 2008. Þennan sama dagráðstafaði bankinn 156.380.000 krónum á áðurnefndan reikning lífeyrissparnaðar,Fjárvörslureikning 3, nr. 0111-26-57030, til kaupa á 825.834,39 breskum pundum.Þar sem gengi krónu hafði veikst mjög í september 2008 vantaði liðlega 174.000bresk pund upp á þá fjárhæð sem greiða þurfti fyrir hlutdeild í millilagslániðtil þess að ná fyrirhugaðri fjárhæð, þ.e. 1.000.000 punda. Ítengslum við ráðstöfun þessa var útbúið skjal dagsett 30. september 2008 semhljóðar svo: „Viðskiptavinur óskaði eftir að keypt yrðu 1.000.000 GBP ogskuldabréf í Iceland Food debt þann 22. ágúst. Uppgjör viðskiptanna drógust álanginn í útibúi Landsbankans í London. Misskilningur var um það innanhús [sic]hvort kaupa ætti GBP um leið og ósk um viðskipti barst eða við uppgjörviðskipta á skuldabréfinu. En ljóst varð að það átti kaupa [sic] GBP um leið ogfjárfestingin var ákveðin. Mismunur á gengi GBP þann 21. ágúst (154,22) oguppgjörsgengis þann 30. september (189,36) er 35,14. Greiðsla: Greiða á1.000.000x35,14=35.140.000 kr. inn á 111-26-057030, kt. [...] og sendiðstaðfestingu um greiðslu á stefan@landsbanki.is.“ Undir skjalið ritar FriðrikNikulásson, starfsmaður á eignastýringasviði, svo og Stefán H. Stefánsson,næsti yfirmaður, auk Halldórs J. Kristjánssonar, þáverandi bankastjóraLandsbankans hf. en undir nafnritun hans stendur „séð“. Íkjölfarið eða 2. október 2008 voru samtals 35.140.000 krónur lagðar inn áfyrrnefndan reikning stefnda á Fjárvörslureikning 3 og næsta dag keypt 174.180sterlingspund, sem lögð voru inn á gjaldeyrisreikning í sterlingspundum nr.111-38-200428, en reikningar þessir voru einnig skráðir á Fjárvörslureikning 3. Þann6. október 2008 voru sett lög nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úrríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Lögin heimiluðuíslenskum stjórnvöldum að yfirtaka fjármálafyrirtæki, meðal annars banka ígreiðsluerfiðleikum. Á grundvelli þessara laga óskaði stjórn Landsbanka Íslandshf. eftir því að Fjármálaeftirlitið tæki yfir stjórn og starfsemi bankans ogvar það gert með ákvörðun þess 7. október 2008 og bankanum skipuð sérstökskilanefnd. Stefndi sagði upp störfum sínum sem bankastjóri stefnanda þann 8.október 2008 og voru þá kaup á ofangreindu millilagsláni í Iceland Foodófrágengin. Meðlögum nr. 129/2008 var fjármálafyrirtækjum veitt sérstök heimild til þess að fágreiðslustöðvun. Samkvæmt lögunum var ákveðið að frestdagur samkvæmt 2. gr.laga nr. 21/1991 vegna greiðslustöðvunar, sem fengin yrði á grundvelli laganna,skyldi vera gildistökudagur þeirra. Með úrskurðiHéraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2008 var Landsbanka Íslands hf. veittheimild til greiðslustöðvunar og stóð sú heimild til 26. febrúar 2009. Meðúrskurði 3. mars 2009 var heimildin framlengd til 26. nóvember 2009. Meðsetningu laga nr. 44/2009, sem tóku gildi 22. apríl 2009, varð breyting áinntaki greiðslustöðvunar bankans með því að slitameðferð hans hófst innanhennar með þeim hætti sem nánar greinir í lögunum. Í því felst meðal annars aðum málsmeðferðina gilda í meginatriðum reglur laga nr. 21/1991 umgjaldþrotaskipti og fleira. Frestdagur í slitameðferð Landsbanka Íslands hf. er15. nóvember 2008. Meðyfirlýsingu dagsettri 30. ágúst 2011, sem birt var sama dag, var stefndatilkynnt um riftun á þeirri ráðstöfun Landsbankans hf. 2. október 2008 semfólst í greiðslu 35.140.000 króna inn á séreignalífeyrissparnaðarreikningstefnda. Þá var hann krafinn um greiðslu þeirra fjármuna sem greiddir höfðuverið í þágu stefnda auk vaxta. Með bréfi lögmanns stefnda, dagsettu 21.september 2011, var riftun mótmælt og fjárkröfum hafnað. Aðilagreinir á um hvort skilyrði riftunar samkvæmt 131. gr. laga 21/1991 umgjaldþrotaskipti o.fl. séu uppfyllt, og þá einkum þau er lúta að því hvortgjafatilgangur hafi búið að baki ráðstöfuninni 2. október 2008. II.Málsástæðurog lagarök stefnanda Stefnandibyggir á því að greiðsla sú sem innt var af hendi 2. október 2008 inn áreikning stefnda hjá Fjárvörslureikningi 3, safn SA3109, hafi verið umframskyldu, án gagngjalds og hafi greiðslan leitt til auðgunar stefnda á kostnaðbankans. Byggir stefnandi því á því að um gjöf hafi verið að ræða í skilningi131. gr. laga nr. 21/1991. Stefnandibyggir á því að Landsbanka Íslands hf. hafi ekki verið skylt að greiða stefndahina umdeildu fjárhæð og hafi verið greitt í rangri trú um greiðsluskyldubankans. Enginn samningur liggi fyrir á milli stefnda og Landsbanka Íslands hf.um greiðslu vegna meints gengismismunar. Þurfi stefndi að bera hallann af þvíað þau gjaldeyrisviðskipti sem fyrirhuguð voru í tengslum við kaup verðbréfa íIceland Food Group hafi ekki átt sér stað þegar ósk var sett fram umverðbréfaviðskiptin. Byggir stefnandi þannig á að stefndi hafi ekki áttlögvarða fjárkröfu á hendur Landsbanka Íslands hf. vegna mismunar á gengi sterlingspunds(GBP) 21. ágúst 2008 (154,22) og uppgjörsgengi gjaldmiðilsins 30. september2008 (189,36). Stefnandisegir fjárkröfu sína styðjast við 142. gr. laga nr. 21/1991. Á grundvelli þessaákvæðis sé stefnda skylt að greiða stefnanda þá fjármuni sem krafist er en meðgreiðslu þeirrar fjárhæðar auk vaxta og málskostnaðar fengi stefnandi rýrnuneigna vegna hinnar riftanlegu ráðstöfunar að fullu til baka. Stefnandibyggir á því að stefnda beri að greiða tjónsbætur enda hafi honum verið kunnugtum riftanleika ráðstöfunarinnar, sbr. lokamálslið 1. mgr. 142. gr. laga nr.21/1991, eins og stöðu hans og atvikum var háttað í september og október 2008. Stefnandibyggir jafnframt á því að þó tjónsbætur yrðu ekki viðurkenndar hafi umkrafinfjárhæð komið stefnda að notum og samsvari tjóni Landsbanka Íslands hf. og þvíberi honum að endurgreiða hana að fullu. Á því er byggt að hin umdeildagreiðsla bankans hafi komið stefnda að notum. Vaxtakröfusína kveðst stefnandi byggja á því að stefnda beri að greiða dráttarvexti fráþví liðinn var mánuður frá því að stefnda var tilkynnt um riftun og hannkrafinn um greiðslu. Það hafi verið gert 30. ágúst 2011 og sé stefndi þvíkrafinn um dráttarvexti frá og með 30. september 2011. III.Málsástæðurog lagarök stefnda Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því aðhann eigi ekki aðild að máli þessu. Stefnandi hafi sjálfur greittstefnufjárhæðina inn á bankareikning sem var hluti af fjárvörslureikningistefnanda og hafi stefnandi ekki haft neitt forræði yfir þeim reikningi.Upphaflega hafi stefnandi einn haft heimild til að ráðstafa fé af þeimreikningi. Þann 9. október 2008 hafi lífeyrissparnaðarsamningur stefnda viðstefnanda verið fluttur með stjórnvaldsákvörðun Fjármálaeftirlitsins til NýjaLandsbanka Íslands hf. Þann 15. mars 2012 samdi stefndi við MP-banka hf. umvarðveislu og ávöxtun viðbótarlífeyrissparnaðarins. Telur stefndi að stefnandaberi því að beina kröfu sinni að MP-banka hf. sem hafi nú vörslurlífeyrissparnaðar stefnda og fari með öll réttindi og skyldur varðandiviðbótarlífeyrissparnað hans. Fé á lífeyrissparnaðarreikningi sé ekkiaðgengilegt stefnda með neinum hætti. Stefndi byggir sýknukröfu sína í annan stað á því aðgreiðsla stefnanda hafi hvorki verið gjöf né laun eða annað endurgjald og séþví ekki riftanleg á grundvelli 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr.21/1991. Stefnandi hafi ekki innt greiðsluna af hendi í þeim tilgangi að gefa,hún hafi ekki leitt til eignaaukningar hjá stefnda og greiðslan hafi ekki rýrteignir stefnanda. Greiðsla stefnanda hafi falið í sér skaðabætur sem stefnandahafi verið skylt að inna af hendi til séreignarsparnaðar stefnda vegna þeirrarhandvammar starfsmanna sinna að kaupa ekki sterlingspund eins og þeim hafiborið þegar þeir hafi tekið við lífeyrissparnaði stefnda. Skylda til kaupa ágjaldeyri hafi stofnast í síðasta lagi 27. ágúst 2008 en þá hafi stefnandiskuldbundið sig með ótvíræðum hætti. Stefndi hefði með sérstökum samningi faliðstefnanda að annast vörslur og ávöxtun viðbótarlífeyrissparnaðar síns og greitthonum þóknun fyrir og hafi skaðabótagreiðslan því verið fyllilega réttmæt. Stefndi leggur áherslu á að umrædd greiðsla hafi hafthverfandi áhrif á fjárhag stefnanda og vísar í þessu sambandi m.a. tilhálfsársuppgjörs stefnanda sem er á meðal gagna málsins. Stefndi mótmælir fjárhæð endurheimtukröfu í málinu oghafnar því að stefnandi geti endurheimt alla greiðsluna verði hún talinriftanleg. Verði greiðslu rift á grundvelli þess að um gjöf hafi verið að ræðaeigi stefnandi aðeins auðgunarkröfu á hendur stefnda. Á stefnanda hvílisönnunarbyrgði um að hvaða marki riftanleg greiðsla hafi komið stefnda aðnotum. Stefndi bendir á að hann eigi engan rétt til greiðslna úrséreignarsparnaði sínum fyrr en eftir liðlega einn og hálfan áratug. Forsenda skaðabótagreiðslna úr hendi stefnda sé aðstefnandi sanni að stefndi hafi verið grandsamur um riftanleika greiðslnastefnanda 2. og 3. október 2008. Hvergi í stefnu eða öðrum framlögðum skjölumer gerð minnsta tilraun til að sanna grandsemi stefnda. Þá sé ljóst að stefndihafi ekki bakað stefnanda tjón. Skaðabótakrafa stefnanda er algjörlegavanreifuð í stefnu og því með öll ódómtæk. Stefndi krefst þess, hvernig sem á endurheimtu kröfustefnanda verður litið, að krafan verði felld niður eða lækkuð verulega með heimildí 145. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. V.Niðurstaða Ágreininguraðila lýtur að því hvort ráðstöfun sú, sem framkvæmd var 2. október 2008 ogfólst í greiðslu á 35.140.000 krónum inn á lífeyrissparnaðarreikning stefnda,sé riftanleg samkvæmt 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Stefndireisir kröfu sína um sýknu í fyrsta lagi á því að hann sé rangur aðili aðmálinu en stefnanda beri að beina kröfu sinni að MP-banka hf., sem frá 15. mars2012 hafi verið nýr vörsluaðili alls lífeyrissparnaðar stefnda Á þessamálsástæðu stefnda fellst dómurinn ekki. Í málinu er dregið í efa að stefndihafi í reynd átt rétt á greiðslu þeirrar fjárhæðar sem lögð var inn á reikninghans hjá stefnanda, nú MP-banka hf. Með vísan til 1. mgr. 16. gr. laga nr.91/1991 um meðferð einkamála er kröfu um riftun og endurgreiðslu fjár réttilegabeint að stefnda en hann er sá sem á þau réttindi sem um ræðir og ber skyldurað sama skapi. Breytir hér engu þó að lífeyrisréttindi hans séu vistuð hjá vörslumannienn um sinn, þ.e. að stefndi fái ekki notið réttindanna fyrr en eftir tiltekinnárafjölda í samræmi við samning þar um. Þessari málsástæðu stefnda er þvíhafnað. Ímálflutningsræðu sinni lét lögmaður stefnda að því liggja að skilja mætti umfjölluní ræðu lögmanns stefnanda um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008,um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbankans hf.,á þann veg að í henni fælist yfirlýsing um að sú krafa sem höfð sé uppi í máliþessu sé í reynd á forræði Nýja Landsbankans hf. Mætti þannig draga í efa aðstefnandi gæti átt aðild að máli þessu. Þessari framsetningu hafnaði lögmaðurstefnanda með öllu. Stefnandihefur frá upphafi beint kröfum sínum að stefnda og telur þær tilheyra sér.Hafði Nýi Landsbanki Íslands enga aðkomu að þeirri ráðstöfun sem hér er deiltum. Þá stofnaðist endurgreiðslukrafa sú sem stefndi hefur uppi í málinu ekkifyrr en hann lýsti yfir ritun gagnvart áfrýjanda þann 30. ágúst 2011. Erstefnandi þannig að lögum réttur aðili til að beina kröfu sinni að stefnda.Þess utan er um málsástæðu að ræða sem er of seint fram komin en hana hefðimátt hafa uppi í greinargerð óháð því sem fram kom í málflutningi lögmannsstefnanda. Í1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 segir að krefjast megi riftunar ágjafagerningi ef gjöfin var afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag.Ákvæðið hefur verið skýrt þannig að undir það falli hver sú ráðstöfun sem rýrieignir þrotamanns og leiði til eignaaukningar hjá þeim sem nýtur góðs af hennienda búi gjafatilgangur að baki ráðstöfuninni og hún falli ekki undir 3. mgr.sömu greinar sem taki til venjulegra tækifærisgjafa og svipaðra ráðstafana afsmærra tagi. Þá hafa gagnkvæmir samningar verið taldir til örlætisgerninga efumtalsverður munur er á greiðslu þrotamanns og því gagngjaldi sem hann fékk ístaðinn. Íhinni umdeildu ráðstöfun fólst að fjármunir voru þann 2. október 2008 færðir afreikningi Landsbanka Íslands hf. inn á annan reikning til hagsbóta fyrirstefnda, þ.e. lífeyrissparnaðarreikning nr. 0111-26-57030, Fjárvörslureiknings3. Var það gert innan þeirra tímamarka er 1. mgr. 131. gr. áskilur, enfrestdagur við skiptin var 15. nóvember 2008. Í samræmi við heimild í reglum umlífeyrissparnaðinn flutti stefndi lífeyri sinn til MP-banka hf., eins og áðurer fram komið. Í skýrslu sinni fyrir dómi greindi hann frá því að hann hefðiskipt pundunum sem lágu eftir á gjaldeyrisreikningi í íslenskar krónur og síðankeypt íslensk ríkisskuldabréf. Dómurinnfellst á það með stefnanda að uppfyllt séu hlutbundin skilyrði 1. mgr. 131. gr.laga nr. 21/1991 um að ráðstöfunin hafi verið til hagsbóta fyrir stefnda en aðsama skapi falið í sér skerðingu á eignum stefnanda. Þegar metið er hvort hinumdeilda ráðstöfun feli í sér gjöf í merkingu 131. gr. laganna þarf jafnframtað skoða hvort hún hafi átt sér stað í gjafatilgangi eða í örlætisskyni tilaðgreiningar frá ráðstöfunum sem eru viðskiptalegs eðlis. Ímálinu er óumdeilt að stefndi óskaði eftir því í ágúst 2008 að bankinn keyptifyrir hönd lífeyrissparnaðarreiknings stefnda m.a. skuldabréf í Iceland Foodfyrir 1.000.000 punda. Viðskiptin með skuldabréf í félaginu gerðust með kaupumá hlutdeild í svokölluðu millilagsláni sem breska verslunarkeðjan gaf út. Óskstefnda var komið á framfæri af Stefáni H. Stefánssyni, þáverandiframkvæmdastjóra eignastýringasviðs Landsbanka Íslands, í tölvubréfi til ÞórðarÖrlygssonar, regluvarðar bankans. Frá því að stefndi bar fram ósk sína og þartil bankinn keypti pundin féll gengi íslensku krónunnar gagnvart breska pundinuverulega og lá þá fyrir að fjármunir þeir sem stefndi ætlaði í kaupin nægðuekki. Stefnandibyggir á því að sú ákvörðun bankans að greiða það sem upp á vantaði til þess aðkaupin gætu gengið í gegn samkvæmt upphaflegri beiðni hafi verið tekin án þessað bankanum bæri skylda til þess samkvæmt samningi. Hafi stefndi því átt aðbera hallann af gengismuninum en ekki bankinn. Stefndibyggir hins vegar á því að bankinn hafi viðurkennt mistök í tengslum viðumbeðin viðskipti og ástæða þess sé sú að pundin hafi ekki verið keypt á samatíma og annar gjaldeyrir á því gengi sem þá var skráð. Greiðslan hafi því veriðréttmætar skaðabætur vegna þeirra mistaka. Stefndigaf skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Hann kvað beiðni sína hafaverið afgreidda í bankanum í samræmi við óskir hans nema hvað varðaði kaup ápundum. Þannig hafi kaup á millilagsláninu verið sett af stað en kaup ápundunum ekki framkvæmd. Kvað hann það ávallt vera svo að gjaldeyririnn værikeyptur, „í öllum meginatriðum“ á sama tíma og verðbréfin væru pöntuð, þvíannars væru menn með „opna gjaldeyrisáhættu“. Stefndi kvað mistökin hafauppgötvast í samtali hans við Stefán H. í september í tengslum við sveiflur ágengi krónunnar. Stefndi kvaðst hafa vitað að afgreiðsla á millilagsláninu tækium 2-3 mánuði á meðan hefðbundin afgreiðsla kaupa á erlendum skuldabréfum tækialla jafna 2-3 daga. Stefndi taldi líklega skýringu mistakanna þá að starfsmennsem önnuðust kaupin hafi ekki gert sér grein fyrir því að það væri lykilatriðiað kaupa gjaldeyrinn á nákvæmlega sama tíma og óskað væri eftir kaupum ámillilagsláninu. Spurður um millilagslánið kvað stefndi aðeins þá sem velþekktu til í fjárfestingum gera sér grein fyrir því að hægt væri að kaupa þau ámarkaði. Markaðurinn væri hins vegar ekki skráður en stæði „tæknilega“ öllumtil boða. VitninFriðrik Nikulásson, þáverandi forstöðumaður á eignastýringarsviði Landsbankanshf., og fyrrnefndur Stefán H. báru fyrir dómi að það hefði verið fyrir mistökbankans að pund voru ekki keypt á sama tíma og millilagslánið var pantað enFriðrik hafi verið ábyrgðarmaður viðskiptanna. Hafi staðið til að kaupin færufram samhliða kaupum á öðrum gjaldeyri vegna hinna skuldabréfanna. Hafi þannigþurft að skipta krónum í pund til að forðast gengissveiflur á mörkuðum. Bar StefánH. að alla jafna hefði átt að miða við þau tímamörk er óskað væri heimildar fráregluverði um að kaupa skuldabréfin. Uppgjörsferill væri lengri í viðskiptummeð millilagslán og væri því litið svo á að viðskiptin væru komin á við pöntun.Þá báru bæði vitnin um að í tilfelli sem þessu væru mistökin ávallt leiðréttmeð sama hætti og væri það hefðbundið verklag í bankanum. Kvað Stefán H. að þaðverklag hefði viðgengist bæði fyrir og eftir að skilanefnd tók bankann yfir. ÞórðurÖrlygsson staðfesti fyrir dómi að kannað hefði verið hvort hugsanlegirhagsmunaárekstrar í sambandi við verðbréfaviðskiptin, vegna stöðu stefnda sembankastjóra, væru til staðar. Hafi stefndi rætt við hann og í framhaldinu hafiStefán H. sent honum tölvubréf. Um hafi verið að ræða beiðni um erlendverðbréfaviðskipti og líti hann svo á að slík viðskipti hefðu ávallt í för meðsér ákveðin gjaldeyrisviðskipti. Hafi hann því verið að gefa álit sitt áverðbréfaviðskiptunum sem slíkum en ekki kaupum á gjaldeyri. Aðspurður kvaðhann rétt vera að það fæli í sér að ef fallið væri frá kaupum á verðbréfum kæmiekki til gjaldeyrisviðskiptanna. Áðurhefur verið rakið efni þess skjals sem útbúið var í bankanum þann 30. september2008 en þar kemur m.a. fram að óskað hafi verið eftir því að keypt yrðu1.000.000 punda og skuldabréf í Iceland Food þann 22. ágúst 2008. Uppgjörviðskiptanna hafi dregist á langinn í London. Misskilningur hafi orðið um þaðinnanhúss hvort kaupa ætti pundin um leið og ósk um viðskipti barst eða viðuppgjör viðskipta á skuldabréfinu. Hafi átt að kaupa pundin um leið ogfjárfestingin var ákveðin. Mismunur á gengi pundsins 21. ágúst og 30. septemberhafi verið lagður inn á lífeyrissparnaðarreikning nr. 0111-26-57030,Fjárvörslureiknings 3. Ekkiliggur fyrir hvernig vinnslu millilagslánsins ytra leið þegar hér er komið söguog hvort allar upplýsingar hafi legið fyrir sem óskað var eftir. Miðað við aðvinnsla lánanna gæti tekið 2-3 mánuði var þó ljóst að viðskiptin myndu ekkiganga í gegn strax. Áþví er byggt af hálfu stefnda að nauðsynlegt hafi verið að kaupa pund á samatíma og ósk var sett fram um kaup á millilagsláninu eða pöntun gerð. Þettastaðfestu Friðrik og Stefán H. einnig í sínum skýrslum eins og rakið hefurverið. Af þeim gögnum sem liggja frammi í málinu verður þó ekki skýrt ráðiðhvenær sú pöntun er í reynd gerð. Er annars vegar um að ræða tölvupóstsamskiptiá milli starfsmanna Landsbanka Íslands hf. og hins vegar milli starfsmannabankans og starfsmanna bankans í London. Í ofangreindu skjali frá 30. september2008 er miðað við að pöntunin hafi verið sett fram með tölvubréfum starfsmannabankans hér á landi. Í skjalinu er reyndar ósamræmi í dagsetningum hvaðviðmiðunardagsetningar varðar. Stefndihefur vísað til þess að kaup á pundum hafi átt að afgreiða með sama hætti ogkaup á evrum og dollurum. Til þess er að líta að markaðspöntun á skuldabréfum íGazprom og TAQAU var sérstaklega færð á þar til gert eyðublað og er dagsetningviðskipta með skuldabréfin tilgreind 27. ágúst 2008. Kaup á gjaldeyri vegnaþeirra áttu sér stað bæði daginn fyrir og daginn eftir þau viðskipti og voruekki að fullu í samræmi við þær fjárhæðir sem tilgreindar voru í tölvubréfiStefáns H. til Þórðar regluvarðar. Þannig er ljóst að gjaldeyririnn var ekkiallur til reiðu er kaupin gerðust heldur að hluta til daginn eftir. Hvaðsem líður dagsetningu pöntunar millilagslánsins verður ekki séð af gögnummálsins að bankanum hafi, vegna þess hversu langan tíma vinnslan tók, borið aðlíta svo á að viðskiptin væru komin á við pöntun skuldabréfa í Iceland og að áþeim tímapunkti þyrfti að vera til staðar gjaldeyrir til að mæta kaupunum. Erþað mat dómsins að það hefði þurft að liggja fyrir með óyggjandi hætti. Þrátt fyrir skýran framburð vitna um aðtilgangur greiðslunnar frá 2. október 2008 hafi verið sá að gera bankanumkleift að standa við viðskipti sem stefndi hafði óskað eftir, og að súafgreiðsla hafi verið í samræmi við framkvæmd í sambærilegum málum, var ljóstað kaupin á millilagsláninu náðu ekki fram að ganga. Bresku pundin lágu þvíinni á gjaldeyrisreikningi Fjárvörslureiknings 3 þar til keypt voru fyrir þauríkisskuldabréf. Ljóst var að viðskiptin með hin erlendu skuldabréf og kaup ágjaldeyri voru samhangandi. Fær þetta stoð af fyrrgreindum framburðiregluvarðar. Þannig voru kaup á bréfum í samræmi við fjárfestingastefnuviðbótarlífeyrissparnaðarins forsenda fyrir kaupum á gjaldeyri. Þaðer mat dómsins, þegar litið er til þess sem rakið hefur verið, að ofangreindráðstöfun hafi verið umfram skyldu enda ekki tímabær fyrr en skuldabréfin íIceland Food höfðu verið afgreidd. Tilgangur greiðslunnar var aldrei sá aðgreiða stefnda skaðabætur ef ekkert yrði af viðskiptunum, eins og stefndi telursig eiga rétt til. Fól ráðstöfunin þannig, eins og á stóð, í sér örlætisgerningí skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991 og ber því að fallast á kröfu stefnandaum staðfestingu riftunar. Fjárkrafastefnanda er reist á 142. gr. laga nr. 21/1991. Í ofangreindu ákvæði felst súmeginregla að þegar riftun fer fram á grundvelli hlutlægra riftunarreglna svosem 131. gr. laganna, skuli sá sem hafði hag af hinni riftanlegu ráðstöfun,endurgreiða þrotabúinu þá auðgun, sem hann hafði af ráðstöfuninni. Eins ograkið hefur verið fólst auðgun stefnda í því að lagðar voru 35.140.000 krónurinn á sérgreindan reikning lífeyrissparnaðar hans. Svarar það til þeirrarskerðingar sem stefnandi hefur orðið fyrir á eignum sínum. Gildir hér einu aðlífeyrisgreiðslur til stefnda eigi ekki að hefjast fyrr en hann nær 60 áraaldri. Krafa stefnanda er því tekin til greina ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1.mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. september 2011,en þá var mánuður liðinn frá því að stefnandi tilkynnti stefnda um riftun meðbréfi dagsettu 30. ágúst 2011 og setti fram fjárkröfu sína. Ekkiþykja efni til þess að fella kröfu stefnanda niður eða lækka hana verulega meðvísan til 145. gr. laga nr. 21/1991. Þó ekki sé dregið í efa að málsóknirstefnanda á hendur stefnda hafi verið honum þungbærar hefur ekki verið sýntfram á það af hálfu stefnda að skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt í tilvikistefnda. Meðhliðsjón af niðurstöðu málsins ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað,sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem er ákveðinn980.000 kr. og er þá tekið tillit til þóknunar vegna flutnings umfrávísunarkröfu. SigríðurHjaltested héraðsdómari kveður upp þennan dóm. D Ó M S O R Ð: Staðfester riftun stefnanda LBI hf., frá 30. ágúst 2011 á ráðstöfun, sem fólst ígreiðslu Landsbanka Íslands hf. þann 2. október 2008 að fjárhæð 35.140.000krónur, í séreignalífeyrissparnaðarsjóð í þágu stefnda, Sigurjóns ÞorvaldarÁrnasonar, Stefndigreiði stefnanda 35.140.000 krónur, auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laganr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 30. september 2011 tilgreiðsludags. Stefndigreiði stefnanda 980.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 250/1999
Ráðningarsamningur Uppsögn Miskabætur
Á var starfsmaður sjóðsins F, sem var sameinaður öðrum fjárfestingarlánasjóðum í fjárfestingarbankann FBA. Eftir sameininguna kom í ljós að í gögnum um gjaldeyrisstöðu F voru mistök sem færðust inn í gögn FBA um sama efni og tapaði bankinn talsverðu fé af þeim sökum. Stjórnendur FBA töldu Á bera ábyrgð á mistökunum og gáfu honum kost á að láta af störfum hjá bankanum með þeim kjörum sem ráðningarsamningur hans tryggði honum. Féllst Á á það.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. júní 1999. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 48.228.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. september 1998 til greiðsludags, svo og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I. Samkvæmt gögnum málsins var áfrýjandi ráðinn með samningi 29. október 1997 til starfa á viðskiptastofu stefnda frá 1. janúar 1998 að telja. Skyldi ráðningin vera ótímabundin, en um gagnkvæman uppsagnarfrest átti að fara eftir ákvæðum kjarasamnings Sambands íslenskra bankamanna við samninganefnd banka og sparisjóða. Síðastgreindan dag hóf stefndi starfsemi sem lánastofnun, sbr. 19. gr. laga nr. 60/1997 um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., og tók eftir nánari ákvæðum laganna við eignum og skuldbindingum Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs, Útflutningslánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs, sem þá voru lagðir niður. Áfrýjandi hafði fram að því starfað hjá Fiskveiðasjóði Íslands allt frá árinu 1971, þegar hann hóf þar vinnu nokkru eftir að hafa lokið stúdentsprófi. Í skýrslu fyrir héraðsdómi lýsti áfrýjandi starfsferli sínum hjá Fiskveiðasjóði í meginatriðum þannig að í byrjun hafi hann unnið við afgreiðslu sem almennur skrifstofumaður, en tekið fljótlega við bókhaldi og síðan stýrt tölvuvæðingu sjóðsins. Hann hafi frá árinu 1982 verið forstöðumaður tölvudeildar, en í kringum 1991 að stórum hluta verið farinn að fást við fjármál og erlend mál sjóðsins. Frá árinu 1996 hafi hann verið forstöðumaður fjárreiðu- og alþjóðasviðs Fiskveiðasjóðs og þá meðal annars haft umsjón með gjaldeyrisstýringu. Þessu starfi mun áfrýjandi hafa gegnt til ársloka 1997. Í minnisblaði 24. febrúar 1998 til forstjóra stefnda frá manni, sem starfaði sem svonefndur innri endurskoðandi bankans, var greint frá því að seint í desember 1997 hafi þeir starfsmenn Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs, sem hafi séð um gjaldeyrisjöfnuð sjóðanna, verið beðnir um að áætla stöðu jafnaðarins miðað við komandi áramót. Þetta hafi umræddir starfsmenn gert, þar á meðal áfrýjandi í þágu Fiskveiðasjóðs. Þeim hafi verið gerð grein fyrir því til hvers upplýsingarnar yrðu notaðar, en 2. janúar 1998 hafi áætlaður gjaldeyrisjöfnuður stefnda verið settur upp á grundvelli þessara upplýsinga. Unnið hafi verið eftir þeim jöfnuði við gjaldeyrisstýringu stefnda þar til „réttari upplýsingar“ hafi legið fyrir. Þegar lokið hafi verið að færa upplýsingar frá Fiskveiðasjóði inn í svokallað skuldabréfakerfi stefnda 22. janúar 1998 hafi komið í ljós mikill munur á gjaldeyrisjöfnuði sjóðsins, annars vegar samkvæmt fyrrnefndum upplýsingum frá desember 1997 og hins vegar samkvæmt því, sem ráðið yrði af skuldabréfakerfinu. Áfrýjandi, sem hafi í janúar 1998 fengist við að stýra erlendum bankareikningum stefnda, hafi verið beðinn um að veita aðstoð við leit að hugsanlegum villum, sem gætu valdið þessu. Nokkrar villur hafi fundist í kjölfarið, en þær þó ekki nægt til að skýra umræddan mun. Áfrýjandi hafi síðan verið beðinn um að fara aftur yfir yfirlit um gjaldeyrisjöfnuð Fiskveiðasjóðs í árslok 1997. Við þá skoðun hafi áfrýjandi 16. febrúar 1998 fundið þá villu að í yfirlitinu hafi verið tekin upp fjárhæð í þýskum mörkum, sem svaraði til um 2.566.000.000 króna og hafi ekki átt þar heima. Að þessu fram komnu hafi fengist samræmi milli fyrirliggjandi gagna. Þess var getið í minnisblaðinu að fram til dagsins, sem það var ritað, hafi stefndi tapað frá upphafi árs 1998 um 50.000.000 krónum vegna „þessara röngu upplýsinga“. Um frekari skýringu á ástæðu tapsins, sem stefndi taldi sig hafa orðið fyrir og áður er nefnt, verður ráðið af gögnum málsins að hann hafi vegna fyrirmæla í reglum Seðlabanka Íslands 1. júlí 1997 um gjaldeyrisjöfnuð lánastofnana og þeirra er leyfi hafa til milligöngu um gjaldeyrisviðskipti gætt að því að jöfnuður væri á hverjum tíma milli eigna sinna og skuldbindinga í einstökum erlendum gjaldmiðlum. Í þessu skyni hafi verið haldið saman upplýsingum um gjaldeyrisjöfnuð stefnda, en hann kveður stofninn að þeim hafa verið fenginn með fyrrgreindri áætlun 2. janúar 1998 á grundvelli gagna um eignir og skuldbindingar Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs í erlendum gjaldmiðlum undir lok ársins 1997. Stefndi kveður áðurnefnda villu í upplýsingum varðandi Fiskveiðasjóð hafa valdið því að í gögnum um gjaldeyrisjöfnuð hafi hann í upphafi árs 1998 talið skuldir sínar í þýskum mörkum sem svarar 2.566.000.000 krónum hærri en rétt var, en af þeim sökum hafi hann að ástæðulausu orðið að binda eignir sömu fjárhæðar í þeim erlenda gjaldmiðli. Þegar villan hafi komið í ljós hafi hann þegar þurft að selja þýsk mörk, sem þessari fjárhæð svaraði, til að hlíta fyrrnefndum reglum um gjaldeyrisjöfnuð. Á tímabilinu frá upphafi árs til síðari hluta febrúar 1998 hafi gengi þýsks marks gagnvart íslenskri krónu lækkað. Vegna þess gengismunar hafi tjón stefnda af því að binda að ófyrirsynju ígildi 2.566.000.000 króna í þýskum mörkum á nefndu tímabili orðið um 48.000.000 krónur. Í greinargerð, sem áfrýjandi ritaði 22. febrúar 1998 til forstjóra stefnda, sagði að upplýsingar um gjaldeyrisstöðu og jöfnuð Fiskveiðasjóðs Íslands hafi á sínum tíma komið fram í tvenns konar grunngögnum sjóðsins. Hafi þetta annars vegar verið svokölluð „swap bók“, þar sem hafi verið yfirlit yfir mynt- og vaxtaskiptisamninga sjóðsins, helstu skilmála og stöðu þeirra, vexti til greiðslu á næsta gjalddaga og samantekt stöðu eftir myntum, en þessu hafi áfrýjandi haldið saman. Hins vegar hafi verið samantekt, sem hafi verið nefnd „RFÍ vog“, um stöðu innlána og skulda, svo og nettó stöðu myntskiptisamninga, en að auki hafi þar komið fram upplýsingar um vegin vaxtakjör sjóðsins. Þessa samantekt hafi áfrýjandi gert og annar nafngreindur starfsmaður farið yfir. Auk þessa hafi verið til hjá Fiskveiðasjóði þrenns konar vinnuskjöl. Í fyrsta lagi hafi verið gerð yfirlit yfir framvirk gjaldeyrisviðskipti og vilnanir, sem tiltekinn starfsmaður hafi annast. Í öðru lagi hafi annar nafngreindur starfsmaður sjóðsins haldið saman yfirlitum yfir lántökur hans, þar sem hverri þeirra hafi verið lýst, þar á meðal kjörum, endurgreiðslu og lánveitanda. Loks hafi í þriðja lagi verið gerð samantektarblöð, sem hafi borið heitið „Mat á gengisáhættu“, úr öllum áðurnefndum grunngögnum og vinnuskjölum. Hafi þar verið teknar saman allar erlendar skuldbindingar sjóðsins, sem hafi verið flokkaðar í skuldir, framvirka gjaldeyrissölu, myntskiptisamninga í skuldahlið og stofnfjársjóðsinnistæður, og erlendar eignir, sem hafi verið útlán, framvirk gjaldeyriskaup, áfallnir vextir og myntskiptisamningar í eignahlið. Í greinargerðinni kvað áfrýjandi starfsmenn stefnda við svonefnt millibankaborð hafa fljótlega eftir að þeir hófu störf leitað eftir upplýsingum um gjaldeyrisstöðu Fiskveiðasjóðs. Hafi þeir um miðjan nóvember 1997 fengið fyrrnefnda „swap bók“ ásamt samantekt um RFÍ vog og mat á gengisáhættu, en um leið verið tjáð að þargreindar upplýsingar myndu taka breytingum, einkum þegar nær drægi áramótum. Hafi síðan ýmis eintök af þessum skjölum verið afhent starfsmönnum stefnda fram til ársloka 1997. Tók áfrýjandi fram í greinargerðinni að eintak af „swap bók“ hafi verið afhent starfsmönnum stefnda 30. desember 1997 og verið meðal vinnuskjala í bókhaldi hans, auk þess að eintak hafi verið til á millibankaborði. Sagði síðan eftirfarandi: „Aftur á móti er ekki til á millibankaborði eintak af skjalinu ”Mat á gengisáhættu” sem notað var við uppsetningu á gjaldeyrisjöfnuði FBA og því óhægt um vik að rekja uppruna þeirra talna sem skráðar voru í jöfnuðinn á fullnægjandi hátt.“ Í sérstökum kafla greinargerðarinnar vék áfrýjandi meðal annars að áreiðanleika gagna, sem stefndi hafi fengið frá því að hann hóf skráningu upplýsinga frá Fiskveiðasjóði til undirbúnings starfsemi sinni. Var þar bent á að mönnum hafi átt að vera ljóst að áreiðanleiki slíkra gagna væri ekki staðfestur, því uppgjöri sjóðsins væri ekki lokið. Þar var og lýst að í janúar 1998 hafi orðið uppvíst að ósamræmi væri í upplýsingum varðandi gjaldeyrisjöfnuð stefnda vegna atriða, sem lutu að Fiskveiðasjóði, svo og hvernig áfrýjandi hafi tekið þátt í að leita á því skýringa, en í þeim tilgangi hafi hann meðal annars sett upp blöð um mat á gengisáhættu sjóðsins. Um það, sem kom fram með þessum hætti, sagði áfrýjandi í greinargerðinni: „Við skoðun skjalsins kom í ljós að inni sat í reit fyrir swap samninga í þýskum mörkum viðbótartala upp á 2576 milljónir króna umfram myntskiptisamninga sem tilgreindir voru í swap bók og því ljóst að blaðið gaf ranga mynd af heildarstöðunni. Ég lét vita af þessu og kom þá í ljós að gjaldeyrisjöfnuður FBA hafði alfarið verið settur upp eftir þeim upplýsingum sem fram komu í þessu yfirliti og engin tilraun gerð til að sannreyna upplýsingarnar.“ Í lok greinargerðarinnar sagði síðan eftirfarandi: „Það vil ég taka fram um gang mála hjá Fiskveiðasjóði seinni hluta desembermánaðar að mikið álag var á öllu starfsfólki sjóðsins, mér sem öðrum og var samtímis verið að pakka, flytja til innan húsnæðis Fiskveiðasjóðs vegna breytinga á húsnæðinu og sinna þörfum Fjárfestingarbankans eins og kostur var. Villa sú sem er tilefni þessarar greinargerðar kemur að líkindum inn í skjalið ”Mat á gengisáhættu” á tímabilinu 16. desember til áramóta. Viðbótargögn eru afhent ... eftir það sem gáfu tilefni til að stemma þetta af en það er ekki gert. Það skal svo tekið fram að skekkja þessi hafði á engan hátt áhrif á afkomu Fiskveiðasjóðs en opin gjaldeyrisstaða sjóðsins var þó mun meiri en stefnt var að en þó ekki meiri en áður tíðkaðist hjá sjóðnum.“ Fram er komið í málinu að eftir að áfrýjandi hafði afhent áðurnefnda greinargerð hafi hann verið kvaddur til fundar með forstjóra og framkvæmdastjóra markaðsviðskipta stefnda 24. febrúar 1998. Við lok þess fundar hafi áfrýjanda verið tjáð að stefndi óskaði eftir að gera við hann samning um starfslok, en ella yrði honum sagt upp störfum með samningsbundnum fresti. Næsta dag undirrituðu málsaðilar samning, þar sem mælt var fyrir um að áfrýjandi léti þá þegar af störfum, en héldi launum og öðrum nánar tilgreindum kjörum til loka október 1998. Að öðru leyti ætti hvorugur aðilanna kröfu á hinn vegna starfslokanna, sem sátt væri um á milli þeirra. Í bréfi 25. febrúar 1998 kom stefndi á framfæri í mörgum liðum athugasemdum vegna fyrirhugaðra ársuppgjöra 1997 fyrir Fiskveiðasjóð Íslands, Iðnlánasjóð og Iðnþróunarsjóð, en bréfi þessu var beint til ríkisendurskoðanda, sem hafði 12. júní 1997 verið skipaður formaður nefndar samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 60/1997 til að leggja mat á heildarfjárhæð stofnhlutafjár stefnda. Meðal athugasemda, sem þar voru gerðar, var eftirfarandi: „Vegna rangra upplýsinga starfsmanns FÍ um stöðu gjaldeyrisjafnaðar um s.l. áramót er áætlað að FBA hafi tapað um 48 m. kr. þar til mistökin komu í ljós. Farið er fram á að í uppgjöri FÍ verði tekið tillit til þess að sjóðurinn bæti bankanum þetta tjón.“ Í niðurlagi bréfsins var því komið á framfæri að vænst væri að ríkisendurskoðandi kæmi athugasemdunum í hendur fyrrgreindrar nefndar. Væri og talið afar mikilvægt að stjórnir sjóðanna fengju ábendingar um þau atriði, sem greint væri frá í bréfinu, til að þær gætu tekið ákvarðanir á grundvelli fullnægjandi upplýsinga um stöðu mála. Eftir því, sem liggur fyrir í málinu, varð stjórn Fiskveiðasjóðs ekki við þeirri ósk stefnda, sem áður greinir, þegar reikningar ársins 1997 voru gerðir fyrir sjóðinn. Mun stefndi ekki hafa fylgt þessari ósk frekar eftir. Í málinu leitar áfrýjandi bóta úr hendi stefnda. Hann telur stefnda hafa knúið sig til að láta af störfum á þeim forsendum að honum hafi orðið á alvarleg mistök í starfi með rangri upplýsingagjöf, en stefndi hafi í engu sýnt fram á að þessar ásakanir séu réttar. Með þessu hafi stefndi vegið að æru áfrýjanda og starfsheiðri, en jafnframt gert honum næstum ófært að fá sambærilegt starf, þar sem sérþekking hans nyti sín, enda hafi ásakanir stefnda í hans garð orðið alkunna á íslenskum fjármálamarkaði. Í hinum áfrýjaða dómi er gerð nánari grein fyrir málsástæðum aðilanna og skýringum á dómkröfu áfrýjanda. II. Samkvæmt gögnum málsins, þar á meðal greinargerð áfrýjanda frá 22. febrúar 1998, sem áður er vitnað til, verður að leggja til grundvallar að verulegrar villu hafi gætt þegar upplýsingar voru upphaflega færðar í gagnasafn, sem stefndi hélt til að gæta að gjaldeyrisjöfnuði í starfsemi sinni. Af sömu gögnum verður og að telja sýnt að villan hafi komið til af því að skuldbindingar í þýskum mörkum, sem stefndi tók við af Fiskveiðasjóði Íslands, hafi verið verið oftaldar um sem svaraði 2.566.000.000 krónum. Af þeim ummælum í greinargerð áfrýjanda, sem áður er vitnað orðrétt til, verður ekki annað ráðið en að hann hafi þar kannast við að villan hafi átt rætur að rekja til rangra upplýsinga í gögnum, sem hann lét starfsmönnum stefnda í té í desember 1997. Í þessu ljósi máttu forráðamenn stefnda líta svo á að áfrýjandi hefði gengist við að eiga hlut að því að gerð hafi verið alvarleg mistök, sem höfðu áhrif á starfsemi stefnda. Ekki eru efni til að draga í efa staðhæfingu stefnda um að þessi mistök hafi bakað honum verulegt tjón, þótt umfang þess verði ekki staðreynt frekar eins og gögn málsins liggja fyrir. Svo sem áður var nefnt voru ákvæði í ráðningarsamningi málsaðila um gagnkvæma heimild þeirra til uppsagnar. Stefnda var frjálst að neyta þessarar heimildar til að segja áfrýjanda upp störfum vegna mistaka, sem hann þó gerði í reynd áður en hann hóf störf hjá stefnda, enda var heimildin að engu leyti háð því að hann hefði brotið af sér í starfi. Ekki er deilt um það í málinu að samningur aðilanna um starfslok gerði áfrýjanda fjárhagslega ekki verr settan en ef stefndi hefði sagt honum upp störfum. Að þessu gættu verður ekki fallist á með áfrýjanda að stefndi hafi brotið á honum rétt með því að gefa honum kost á að gera samning um starfslok vegna mistaka hans, en sæta ella uppsögn úr starfi. Til þess verður hins vegar að líta að stefndi hefur ekki sérstaklega vefengt áðurgreinda frásögn í greinargerð áfrýjanda 22. febrúar 1998 um að hann hafi afhent starfsmönnum stefnda fyrstu gögnin um gjaldeyrisstöðu Fiskveiðasjóðs Íslands í nóvember 1997, þar á meðal skjal með heitinu „Mat á gengisáhættu“, og síðan ýmis nýrri eintök af sömu gögnum á tímabilinu til loka ársins. Stefndi hefur heldur ekki mótmælt því, sem áfrýjandi leiddi getum að í greinargerðinni, að títtnefnd villa hafi fyrst komið fram í eintaki af fyrrnefndu skjali, sem hafi verið afhent á tímabilinu frá 16. desember 1997 til áramóta. Verður því að leggja þetta til grundvallar við úrlausn málsins, enda hefur stefndi hermt í málflutningi að skjöl þessi séu ekki lengur til í vörslum hans. Þótt áfrýjanda hafi að minnsta kosti átt að vera kunnugt um hvað ráðgert væri að gera við upplýsingar úr fyrrnefndum gögnum, verður ekki horft framhjá því að starfsmenn stefnda höfðu undir lok ársins 1997 í höndum eintök af gögnunum frá mismunandi tímum, þar sem ýmist gætti umræddrar villu eða ekki. Samkvæmt málflutningi stefnda fyrir Hæstarétti var sá starfsmaður, sem stýrði vinnu við að setja upp gjaldeyrisjöfnuð við upphaf starfsemi hans, hagfræðingur að mennt og með reynslu af hliðstæðum störfum við aðra bankastofnun. Starfsmönnum stefnda átti því fyllilega að vera ljóst mikilvægi þess að upplýsingar um þessi efni væru réttar. Þeim mátti og vera ljóst að í starfsemi Fiskveiðasjóðs þurfti ekki að fylgja þeirri tilhögun, sem mælt var fyrir um í áðurnefndum reglum Seðlabanka Íslands 1. júlí 1997 um gjaldeyrisjöfnuð lánastofnana, enda tóku þær ekki til starfsemi sjóðsins samkvæmt beinum fyrirmælum í 3. málslið 6. gr. þeirra. Þrátt fyrir þetta verður ekki annað séð en að við gerð gjaldeyrisjafnaðar, sem tók mið af upphafsdegi starfsemi stefnda, hafi starfsmenn hans eingöngu byggt á einu skjali af fjölmörgum, sem áfrýjandi hafði látið þeim í té varðandi Fiskveiðasjóð, og þar hafi gætt umræddrar villu. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að starfsmenn hans hefðu ekki getað fundið villuna og leiðrétt með vandaðri vinnubrögðum. Þess verður og að gæta að samkvæmt fyrrnefndu minnisblaði innri endurskoðanda stefnda 24. febrúar 1998 var þegar orðið kunnugt 22. janúar sama árs að villa væri í upplýsingum um gjaldeyrisjöfnuð vegna atriða, sem vörðuðu Fiskveiðasjóð. Hefur ekki verið skýrt með viðhlítandi hætti hvers vegna þær tafir, sem raun ber vitni, urðu á að þessi villa fyndist. Samkvæmt þessu gat stefndi með réttu hvorki kennt áfrýjanda einum um þau mistök, sem voru gerð varðandi gjaldeyrisjöfnuð stefnda, né rakið fjártjón sitt í heild til þess eins að mistökin hafi verið gerð. Í bréfi stefnda til ríkisendurskoðanda 25. febrúar 1998 var sem áður segir staðhæft að vegna rangra upplýsinga starfsmanns Fiskveiðasjóðs Íslands um stöðu gjaldeyrisjafnaðar sjóðsins í lok árs 1997 hafi verið áætlað að stefndi hafi tapað um 48.000.000 krónum. Þess var krafist að stefnda yrði bætt þetta tjón með uppgjöri sjóðsins fyrir árið 1997. Í ljósi framangreinds gekk stefndi með þessum fullyrðingum sínum og kröfum verulega lengra í ávirðingum í garð áfrýjanda en honum var stætt á. Af orðsendingu ríkisendurskoðanda til löggilts endurskoðanda Fiskveiðasjóðs 27. febrúar 1998 sést að þeim fyrrnefnda hefur þá verið ljóst að ávirðingarnar í bréfi stefnda hafi beinst að áfrýjanda. Eins og áður greinir óskaði stefndi sérstaklega eftir því í niðurlagi bréfs síns 25. febrúar 1998 að ríkisendurskoðandi kynnti þargreindar athugasemdir fyrrnefndri matsnefnd og stjórnum Fiskveiðasjóðs, Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs. Að þessu gættu gat stefndi með engu móti vænst annars en þess að ásakanir hans í garð áfrýjanda yrðu almennt kunnar. Með því að vega á þennan óréttmæta hátt að starfsheiðri áfrýjanda hefur stefndi bakað sér bótaskyldu gagnvart honum. III. Í málinu krefst áfrýjandi þess að stefnda verði gert að greiða sér bætur vegna fjártjóns að fjárhæð 43.228.000 krónur og 5.000.000 krónur í miskabætur. Fjárhæð fyrrnefnda kröfuliðarins er studd við útreikning tryggingarfræðings á mismun þeirra launa, sem áfrýjandi nýtur í núverandi starfi, og þeirra launa, sem hann hefði fengið í áframhaldandi starfi hjá stefnda, til 68 ára aldurs. Í ráðningarsamningi málsaðila var sem fyrr segir mælt fyrir um gagnkvæma og skilyrðislausa heimild hvors þeirra til uppsagnar með nánar tilteknum fyrirvara. Af þessum ástæðum getur áfrýjandi ekki borið því við að hann hefði mátt treysta því að geta gegnt áfram störfum hjá stefnda um ókominn tíma. Ekkert liggur fyrir í málinu um hvort áfrýjandi hefði, að gættri starfsreynslu hans, aldri og menntun, getað gengið að sambærilegu starfi með hliðstæðum kjörum hjá öðrum vinnuveitanda ef starfslok hans hjá stefnda hefðu ekki borið að með þeim hætti, sem raun ber vitni. Þótt stefndi hafi samkvæmt áðursögðu gengið verulega lengra í ávirðingum gagnvart áfrýjanda en réttmætt var, verður ekki litið framhjá því að áfrýjandi átti hlut að því að alvarleg mistök voru gerð í starfsemi stefnda og lét af störfum af þeim sökum. Ekki eru efni til annars en að ætla að þetta hefði orðið uppvíst í viðleitni áfrýjanda til að afla sér annarrar atvinnu, þótt ekki hefði komið til þeirra ávirðinga, sem stefndi bar á hann með fyrrnefndu bréfi 25. febrúar 1998. Að öllu þessu gættu hefur áfrýjandi ekki sannað að óréttmætar gerðir stefnda gagnvart honum hafi leitt til fjártjóns. Með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eru skilyrði til að dæma áfrýjanda miskabætur. Við ákvörðun fjárhæðar þeirra verður að líta til þess að með forsendum þessa dóms út af fyrir sig hefur hlutur áfrýjanda verið réttur eftir því, sem efni málsins standa til. Að því gættu er hæfilegt að dæma stefnda til að greiða áfrýjanda 300.000 krónur í miskabætur með vöxtum, eins og í dómsorði greinir. Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Stefndi, Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf., greiði áfrýjanda, Ásbirni Þorleifssyni, 300.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. september 1998 til greiðsludags. Stefndi greiði áfrýjanda samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. mars 1999. Mál þetta, sem dómtekið var þann 1. mars sl. að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu þann 31. ágúst 1998 af Ásbirni Þorleifssyni, kt. 190750-3619, Lálandi 10, Reykjavík, gegn Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., kt. 501097-2179, Ármúla 13A, Reykjavík, en málið var þingfest 1. september 1998. Endanlegar kröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 43.228.000 krónur og miskabætur að fjárhæð 5.000.000 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þingfestingardegi til greiðsludags og að dráttarvextir leggist við höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn þann 1. september 1999. Einnig er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins auk virðisaukaskatts. Stefndi gerir þá kröfu að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Jafnframt krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda ásamt virðisaukaskatti. Yfirlit um málsatvik og ágreiningsefni Málsatvik eru þau að stefnandi hóf störf hjá stefnda í byrjun árs 1998 en ráðningarsamningur er dagsettur 29. október 1997. Þann 1. janúar 1998 tók stefndi við eignum, skuldum og skuldbindingum Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs, Útflutningslánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs samkvæmt lögum um stofnun Fjárfestingabanka atvinnulífsins hf. nr. 60/1997 en sjóðirnir voru lagðir niður samkvæmt 19. gr. laganna. Stefnandi hafði áður starfað hjá Fiskveiðasjóði en þar hóf hann störf á árinu 1971 að loknu stúdentsprófi. Í janúar 1998 kom fram skekkja í gjaldeyrisjöfnuði hjá stefnda. Skýringin á henni fannst ekki fyrr en eftir miðjan febrúar það ár en þá kom í ljós að skuld Fiskveiðasjóðs í þýskum mörkum hafði verið oftalin um 2,5 milljarða króna um áramót. Þar sem ekki var vitað í upphafi ársins að skuldin var í raun ekki fyrir hendi keypti stefndi þýsk mörk til að leiðrétta gjaldeyrisjöfnuðinn. Þegar villan uppgötvaðist hafði gengi þýska marksins fallið og varð stefndi því fyrir tjóni sem nam um 48 milljónum íslenskra króna. Starfsmenn stefnda töldu að skekkjan væri frá stefnanda komin. Af því tilefni óskaði forstjóri stefnda eftir greinargerð frá stefnanda þann 19. eða 20. febrúar 1998. Skilaði stefnandi henni mánudaginn 23. febrúar en hún er dagsett 22. febrúar. Þar gerir hann grein fyrir gögnum Fiskveiðasjóðs og því sem fram kemur í þeim varðandi gjaldeyrisstöðu og jöfnuð sjóðsins. Einnig hefur verið lagt fram í málinu afrit af bréfi stefnanda til endurskoðanda stefnda, dagsett sama dag, en þar gerir stefnandi grein fyrir gögnum, sem hann afhenti stefnda í nóvember og desember 1997 í þeim tilgangi að lýsa gjaldeyrisstöðu Fiskveiðisjóðs, en bréfið er svar við fyrirspurn endur­skoðandans um gögn, sem afhent voru stefnda varðandi gjaldeyrisjöfnuð sjóðsins um áramót. Stefnandi var boðaður á fund forstjóra stefnda þann 24. febrúar 1998 en fundinn sat einnig framkvæmdastjóri markaðsviðskipta. Á fundinum kom fram að stefnanda væri gefinn kostur á því að gera starfslokasamning en ella yrði honum sagt upp störfum. Daginn eftir gerðu málsaðilar samkomulag um starfslok stefnanda sem var í aðalatriðum þannig að stefnandi léti þegar af störfum en stefndi greiddi honum föst mánaðarlaun og bifreiðastyrk til októberloka það ár. Í samningnum er tekið fram að hvorugur aðila ætti kröfu á hinn vegna starfslokanna. Einnig er tekið fram að sátt væri um starfslokin með þeim hætti sem lýst er í samningnum. Ástæða starfslokanna var sú að fyrirsvarsmenn stefnda töldu ekki grundvöll fyrir áframhaldandi starfi stefnanda hjá stefnda. Í bréfi stefnda til ríkisendurskoðanda frá 25. febrúar 1998 eru settar fram athugasemdir í nokkrum liðum varðandi ársuppgjör Fiskveiðasjóðs 1997 og einnig eru þar athugasemdir varðandi Iðnlánasjóð og Iðnþróunarsjóð. Í athugasemdunum kemur m.a. fram að vegna rangra upplýsinga starfsmanns Fiskveiðasjóðs um stöðu gjaldeyrisjafnaðar um áramót sé áætlað að stefndi hafi tapað um 48 milljónum króna. Farið er fram á að í uppgjöri Fiskveiðasjóðs verði tekið tillit til þess að sjóðurinn bæti stefnda þetta tjón. Einnig er óskað eftir því að ríkisendurskoðun komi athugasemdunum í bréfinu til matsnefndar sem hafi með höndum samræmingu á lokauppgjörum fjárfestingarlánasjóðanna. Þá er einnig talið afar mikilvægt að stjórnir sjóðanna fái ábendingar um þau mál, sem fjallað er um í bréfinu, til þess að þær geti tekið ákvarðanir á grundvelli fullnægjandi upplýsinga er væru í samræmi við upplýsingar sem stefndi myndi styðjast við varðandi mat á eignum í uppgjöri árið 1998. Í athugasemdum endurskoðanda Fiskveiðasjóðs til ríkisendurskoðanda, dagsettum 2. mars 1998, segir m.a., í tilefni af staðhæfingum stefnda í framangreindu bréfi frá 25. febrúar 1998 til ríkisendurskoðanda um rangar upplýsingar starfsmanns Fiskveiðasjóðs, að starfsmaðurinn hafi þann 23. desember 1997 látið starfsmönnum stefnda í té "vinnublað sem hann hafi verið að vinna með og skoða um hugsanleg áhrif myntskiptasamninga á gjaldeyrisjöfnuð Fiskveiðasjóðs Íslands". Fundið er að því að starfsmenn stefnda skyldu ekki leita eftir staðfestingu á áreiðanleika þessara gagna þar sem um svo háar fjárhæðir og mikla hagsmuni hafi verið að ræða. Stefnandi var boðaður á fund ríkisendurskoðanda þann 4. mars 1998 en lagðar hafa verið fram í málinu athugasemdir hans af því tilefni, dagsettar 3. mars það ár. Í þeim segir m.a. að gögnin, sem stefndi hafi fengið frá stefnanda sem starfsmanni Fiskveiðasjóðs, hafi á ótvíræðan hátt sýnt rétta gjaldeyrisstöðu sjóðsins. Þar er því jafnframt lýst að stefnandi hafi ekki fengið að sjá gögn frá Fiskveiðasjóði, sem gjaldeyrisjöfnuður stefnda hafi verið settur upp eftir, þrátt fyrir að stefnandi hafi gengið eftir því. Í málinu hafa einnig verið lagðar fram athugasemdir stefnanda dagsettar 6. mars 1998. Með bréfi lögmanns stefnanda, dagsettu 16. mars 1998, er krafist skaðabóta úr hendi stefnda fyrir tjón sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna þess að hann hafi verið neyddur til uppsagnar á fölskum forsendum og að hann hafi þurft að sæta ósönnum ávirðingum, meiðyrðum og aðdróttunum af hálfu stefnda. Í bréfinu segir enn fremur að verði krafan ekki greidd eða samið um hana innan sjö daga frá dagsetningu bréfsins verði höfðað mál á hendur stefnda til greiðslu kröfunnar. Með bréfi forstjóra stefnda, sem er dagsett 20. mars sama ár, var bótakröfunni hafnað með rökum sem þar koma fram. Stefnanda tókst ekki að fá annað starf fyrr en 1. janúar 1999 en þá hóf hann störf hjá Íbúðalánasjóði. Hann heldur því fram að hann hafi átt í erfiðleikum með að fá starf, sambærilegt því starfi og hann hafði áður hjá stefnda, þar sem sérþekking hans njóti sín, vegna umtals fyrirsvarsmanna stefnda um starfslok hans hjá stefnda og eru bótakröfur hans í málinu byggðar á því. Í málinu er deilt um bótaskyldu stefnda. Í því sambandi er deilt um það hvort stefnandi veitti starfsmönnum stefnda rangar upplýsingar varðandi eign Fiskveiðasjóðs í þýskum mörkum í desember 1997. Einnig er deilt um það hvort fyrirsvarsmenn stefnda hafi veitt upplýsingar um hin meintu mistök stefnanda á saknæman hátt þannig að bótaskyldu varði. Málsástæður og lagarök stefnanda Af hálfu stefnanda er málavöxtum lýst þannig að stefnandi hafi hafið störf hjá stefnda í byrjun árs 1998 þegar stefndi yfirtók rekstur, réttindi og skuldbindingar Fiskveiðasjóðs Íslands og fleiri lánasjóða samkvæmt lögum nr. 60/1997 um stofnun Fjárfestingabanka atvinnulífsins hf. Stefnandi hafi áður starfað um árabil sem forstöðumaður fjárreiðu- og alþjóðasviðs hjá Fiskveiðasjóði. Þann 24. febrúar 1998 hafi stefnandi verið boðaður á fund Bjarna Ármannssonar, forstjóra hjá stefnda, og hafi honum verið tilkynnt að til stæði að segja honum upp störfum. Hafi stefnanda verið gefnir tveir kostir, annað hvort að gera starfslokasamning eða að honum yrði sagt upp. Ástæður þessa hafi verið þær að forráðamenn stefnda hafi haldið því fram að stefnandi hafi gefið rangar upplýsingar um gjaldeyrisjöfnuð Fiskveiðasjóðs og vegna þessa hefði bankinn tapað umtalsverðum fjármunum þannig að skipti tugum milljóna. Samkvæmt bréfi frá stefnda, dagsettu 25. febrúar 1998, sé áætlað að stefndi hafi tapað 48.000.000 króna vegna þessarar meintu röngu upplýsingagjafar stefnanda. Forráðamenn stefnda hafi að engu haft skýringar, sem stefnandi hafi umbeðinn gefið þeim skriflega þann 22. febrúar 1998, en stefnandi hafi frá upphafi haldið því fram að ásakanir um ranga upplýsingagjöf á hendur honum væru ekki á rökum reistar. Undir þá skoðun stefnanda hafi tekið bæði stjórn og endurskoðandi Fiskveiðasjóðs Íslands. Stefnanda hafi ekki verið gefinn annar frestur en til næsta dags til að ákveða hvort hann vildi ganga til starfslokasamnings eða vera sagt upp. Hann hafi verið miður sín vegna aðstöðu sinnar og þeirra alvarlegu ásakana, sem hafðar hafi verið uppi gagnvart honum. Hann hafi því samþykkt tilneyddur að ganga frá starfslokasamningi enda ljóst að ella yrði honum sagt upp störfum. Fljótlega eftir starfslok stefnanda hafi honum orðið ljóst að forráðamenn stefnda hafi ekki farið leynt með ásakanir sínar í hans garð. Honum hafi jafnframt orðið ljóst að þessar röngu ásakanir hefðu skaðað orðstír hans og myndu valda honum erfiðleikum við að finna annað sambærilegt starf. Þetta hafi komið á daginn en stefnandi hafi árangurslaust reynt að sækja um sambærileg störf á fjármálamarkaðnum eða við fjárumsýslu. Fjölmargir aðilar hafi frétt af ásökunum forsvarsmanna stefnda á hendur honum og væri nú, að því er virtist, almenn vitneskja í fjármálastofnunum og hjá fleiri aðilum um þessar röngu ásakanir í garð stefnanda. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að hann hafi starfað hjá Fiskveiðasjóði frá árinu 1971 við góðan orðstír. Hafi hann með dugnaði og elju unnið sig upp í stöðu forstöðumanns fjárreiðu- og alþjóðasviðs. Allan þann tíma hafi vel verið látið af störfum hans og hafi hann aldrei fengið tiltal eða áminningu hvað þá heldur að hann hafi verið vændur um að hafa gert mistök í starfi. Þegar stefndi hafi tekið yfir starfsemi Fiskveiðasjóðs hafi verið ljóst að stefnandi naut góðs álits sem starfskraftur á fjármálamarkaði. Frá því í október 1997 hafi stefnandi verið í sambandi við þá starfsmenn stefnda, sem þá hafi verið komnir til starfa, og hafi hann gert þeim ítarlega grein fyrir því hvernig gjaldeyrisstöðu og meðferð gjaldeyrismála hjá Fiskveiðasjóði væri háttað. Þá hafi stefnandi haft samráð við þessa starfsmenn stefnda, allt til þess tíma að stefndi tók við starfsemi, eignum, réttindum og skyldum Fiskveiðasjóðs. Hjá stefnda hafi því verið fyrir hendi allar upplýsingar um meðferð gjaldeyrismála áður en stefnandi var ráðinn til starfa hjá stefnda. Með því að knýja stefnanda til uppsagnar á þeim forsendum að honum hafi orðið á alvarleg mistök í starfi með rangri upplýsingagjöf hafi verið vegið að æru hans og starfsheiðri. Skaðinn, sem þessar ásakanir valdi, sé enn meiri eftir því sem þær berist víðar. Auk þess að skaða æru og starfsheiður stefnanda sé ljóst að tilefni starfslokanna hjá stefnda geri honum nánast ómögulegt að finna sambærilegt starf á hinum smáa íslenska fjármálamarkaði þar sem sérþekking hans njóti sín. Jafnframt sé ljóst að ásakanirnar muni gera honum örðugt um vik að afla sér vinnu sem almennur skrifstofumaður enda muni hann alltaf þurfa að gera grein fyrir ástæðum starfsloka hjá fyrri vinnuveitanda. Forráðamenn stefnda hafi í engu sýnt fram á að hinar alvarlegu ásakanir þeirra á hendur stefnanda um ranga upplýsingagjöf um gjaldeyrisjöfnuð Fiskveiðasjóðs eigi við rök að styðjast. Bæði stjórnendur og endurskoðandi Fiskveiðasjóðs haldi því fram að ásakanir þessar séu rangar. Hafi jafnvel verið leiddar að því líkur að ásakanirnar hafi eingöngu verið settar fram í því skyni að auka hagnað stefnda og er í því sambandi vísað til framlagðra gagna, m.a. frá endurskoðanda og stjórn sjóðsins. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að þessar röngu ásakanir forráðamanna stefnda, sem hafi verið tilefni þess að stefnandi hafi verið neyddur til að segja upp störfum hjá stefnda, hafi skaðað æru stefnanda og starfsheiður. Á þann hátt hafi forráðamenn stefnda brotið gegn 235. gr. almennra hegningarlaga, enda hafi þeir ekki fært fram neinar sönnur fyrir réttmæti aðdróttana sinna. Hinar röngu ásakanir hafi verið settar fram af forsvarsmönnum stefnda á gálausan hátt og hafi þær valdið stefnanda tjóni, einkum í ljósi þess að ásakanirnar hafi síður en svo farið leynt. Sé fjölmörgum aðilum, sem starfi í tengslum við hinn íslenska fjármálamarkað, kunnugt um þessar ásakanir á hendur stefnanda. Vegna þessa beri forsvarsmenn stefnda bótaábyrgð samkvæmt sakarreglunni á tjóni stefnanda og stefndi beri ábyrgð á þessari háttsemi þeirra samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð. Kröfur vegna fjártjóns og miska styður stefnandi eftirfarandi rökum. Kröfuna um bætur vegna fjártjóns byggir stefnandi á því að telja megi fullvíst að hinar röngu ásakanir hafi leitt til þess að stefnandi eigi ekki möguleika á því að fá jafn vel launaða vinnu þar sem sérþekking hans njóti sín en um það vitni framlögð gögn um árangurslausar atvinnuumsóknir. Vegna þessa sé farið fram á bætur fyrir tekjutap stefnanda samkvæmt útreikningum tryggingafræðings frá 25. febrúar 1999. Hinar röngu ásakanir forráðamanna stefnda og starfslokin í framhaldi af þeim hafi skaðað æru stefnanda og valdið honum umtalsverðum álitshnekki. Hafi þær jafnframt valdið honum andlegum þjáningum og óþægindum, einkum í samskiptum við fyrrum starfsbræður sína á fjármálamarkaðnum. Vegna þessa miska er krafist miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Vísað er einnig til meginreglna skaðabótaréttarins og ákvæða almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er varða refsingu fyrir ærumeiðingar, sbr. m.a. 235. gr. laganna. Krafa stefnanda um vexti er reist á vaxtalögum nr. 25/1987 og krafa um málskostnað á XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Er sérstaklega óskað eftir að tillit verði tekið til kostnaðar við öflun útreiknings á tjóni stefnanda vegna uppsagnarinnar. Málsástæður og lagarök stefnda Af hálfu stefnda er vísað til þess að allir starfsmenn Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs, sem tóku laun samkvæmt kjarasamningum Sambands íslenskra bankamanna eða kjarasamningum annarra stéttarfélaga og ekki var boðið starf hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, hafi átt rétt á starfi hjá stefnda og skyldu þeir njóta sömu réttinda og þeir höfðu áður samkvæmt kjarasamningum og/eða ráðningarsamningum. Stefnandi hafi gegnt starfi forstöðumanns fjárreiðu- og alþjóðasviðs hjá Fiskveiðasjóði Íslands og um kjör hans farið samkvæmt kjarasamningum Sambands íslenskra bankamanna (SÍB). Samkvæmt 2. gr. ráðningarsamningsins frá 29. október 1997 skyldi hann vera ótímabundinn. Um uppsagnarfrest af beggja hálfu skyldi fara eftir kjarasamningi SÍB en samkvæmt 11.2.3 grein hans hafi stefnandi átt rétt á 6 mánaða uppsagnarfresti. Þar sem af yfirtöku stefnda á áður starfandi lánastofnunum hinn 1. janúar 1998 hafi leitt að fella þurfti saman gjaldeyrisjöfnuð þriggja lánastofnana hafi starfsmenn Fiskveiðasjóðs, Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs, sem ábyrgð báru á gjaldeyrisjöfnuði þeirra, verið beðnir um upplýsingar um stöðu gjaldeyrisjöfnuðar viðkomandi sjóðs í lok desember 1997, miðað við 31. desember það ár. Í tilviki Fiskveiðasjóðs hafi stefnandi verið beðinn um þessar upplýsingar. Þessum aðilum hafi verið gerð grein fyrir því til hvers þessar upplýsingar yrðu notaðar og hafi þeim því verið kunnugt um að þær hefðu áhrif á rekstur stefnda allt frá fyrsta degi starfsemi hans sem lánastofnunar þann 1. janúar 1998. Stefnandi hafi veitt upplýsingar um gjaldeyrisjöfnuð Fiskveiðasjóðs og er í því sambandi vísað til útprentunar á dskj. nr. 28. Hafi gjaldeyrisjöfnuði stefnda verið stillt upp á grundvelli þessara upplýsinga og hafi verið unnið eftir því við gjaldeyrisstýringu stefnda. Í minnisblaði innri endurskoðanda og forstöðumanns reikningshalds og áætlanagerðar stefnda frá 21. febrúar 1998 á dskj. nr. 30 sé greint frá vandkvæðum við að fá aðgang að gögnum Fiskveiðasjóðs til að unnt yrði að kanna hvort eignir og skuldir Fiskveiðasjóðs í erlendum myntum samkvæmt uppgjöri 31. desember 1997 stemmdu við áður fengnar upplýsingar um gjaldeyrisjöfnuð Fiskveiðasjóðs á þessum tímapunkti. Í minnisblaði innri endurskoðanda stefnda frá 24. febrúar 1998 á dskj. nr. 31 sé gerð grein fyrir því hvenær og hvernig í ljós hafi komið að stór villa hafi verið í þeim upplýsingum sem stefnandi hafi veitt um gjaldeyrisjöfnuð Fiskveiðasjóðs. Hafi villan falist í því að inn í uppgefnum upplýsingum hefði skuld Fiskveiðasjóðs í þýskum mörkum verið oftalin um u.þ.b. 2,5 milljarða króna en þetta komi fram á dskj. nr. 38. Vegna misræmis, sem í ljós hafi komið að hafi verið til staðar á milli þess gjaldeyrisjöfnuðar sem unnið hafi verið út frá hjá stefnda og þeirrar stöðu, sem tölvukerfi stefnda hafi sýnt þegar upplýsingakerfi sjóðanna þriggja, sem hann yfirtók, hafi verið samkeyrð, hafi stefnandi í janúar og febrúar 1998 margoft verið beðinn um að yfirfara gögn um gjaldeyrisjöfnuð Fiskveiðasjóðs. Þótt hann kæmi auga á smærri villur, sem hafi þá verið leiðréttar, hafi hann ekki komið auga á fyrrgreinda villu. Eftir að hún hafi uppgötvast hafi stefnandi skýrt mistökin sjálfur þannig að hann hefði í desember 1997 verið að skoða áhrif hugsanlegra samninga á gjaldeyrisjöfnuð Fiskveiðasjóðs og hefði þá slegið inn í yfirlit um gjaldeyrisjöfnuð Fiskveiðasjóðs tölu sem hafi ekki átt að vera þar. Hafi hann afhent þeim, sem unnu að því að stilla upp gjaldeyrisjöfnuði stefnda, skjal með þessum röngu upplýsingum. Stefnandi hafi og viðurkennt þessi mistök á bls. 3 í greinargerð frá 22. febrúar 1998 á dskj. nr. 13 sem hann hafi tekið saman að beiðni forstjóra stefnda eftir að villan hafi uppgötvast. Gjaldeyrisjöfnuði stefnda hafi verið stýrt miðað við þær upplýsingar sem stefnandi hafi látið í té um gjaldeyrisstöðu Fiskveiðasjóðs allt þar til villan hafi uppgötvast. Strax og hún hafi uppgötvast hafi gjaldeyrisstaða stefnda verið leiðrétt. Mistökin hafi hins vegar valdið stefnda verulegu fjárhagslegu tjóni, sem hafi stafað af því að í stað þess að eignir og skuldir stefnda í erlendum myntum, þ.m.t. í þýskum mörkum, væru jafnar eins og gjaldeyrisstýringin hafi miðast við, hafi stefndi reynst eiga umfram eign að jafnvirði 2.567 milljóna íslenskra króna í þýskum mörkum og minni eign í íslenskum krónum sem því hafi numið. Frá 1. janúar 1998 og þar til villan hafi uppgötvast og gjaldeyrisstaðan leiðrétt hafi gengi þýska marksins hins vegar lækkað úr 40,29 krónum í 39,54 krónur. Tjón stefnda vegna umframeignar í þýskum mörkum hafi því orðið um 50 milljónir króna sem gjaldfærst hafi beint í rekstrarreikningi stefnda á árinu 1998. Eftir að fyrrgreind villa hafi uppgötvast upp úr miðjum febrúar 1998 hafi stjórnendur stefnda komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri grundvöllur fyrir áframhaldandi störfum stefnanda hjá stefnda en stefndi hafi átt rétt á að segja stefnanda upp störfum með 6 mánaða fyrirvara. Stefnandi hafi sjálfur kosið að gerður yrði starfslokasamningur fremur en að honum yrði sagt upp. Að ósk stefnanda hafi verið tekið inn í starfslokasamkomulagið sérstakt ákvæði um að hvorugur aðila ætti kröfu á hinn vegna starfslokanna. Stefnandi hafi fengið greiðslur frá stefnda í samræmi við ákvæði samkomulagsins. Ríkisendurskoðandi hafi verið skipaður formaður matsnefndar, sem skipuð hafi verið af viðskiptaráðherra til að leggja mat á heildarfjárhæð stofnhlutafjár í hinu stefnda hlutafélagi samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 60/1997. Með bréfi viðskiptaráðuneytisins 24. júní 1997 hafi matsnefndinni jafnframt verið falið að fylgjast með lokafrágangi stofnefnahagsreiknings stefnda. Ríkisendurskoðun hafi jafnframt annast lögum samkvæmt endurskoðun fjárfestingarlánasjóða í eigu ríkisins og endurskoðun stefnda, sbr. 6. gr. laga nr. 86/1997 um ríkisendurskoðun. Af þessum ástæðum hafi stefndi komið á framfæri við Ríkisendurskoðun, á meðan á vinnu við uppgjör fjárfestingarlánasjóðanna þriggja fyrir árið 1997 stóð, margháttuðum athugasemdum varðandi uppgjör þeirra. Þar á meðal hafi í bréfi stefnda til Ríkisendurskoðunar dags. 25. febrúar 1998 verið greint frá því að áætlað væri að stefndi hefði tapað um 48 miljónum króna vegna rangra upplýsinga starfsmanns Fiskveiðasjóðs um stöðu gjaldeyrisjafnaðar um áramótin 1997/1998. Hafi verið farið fram á að í uppgjöri Fiskveiðasjóðs yrði tekið tillit til þessa og Fiskveiðasjóður látinn bæta stefnda þetta tjón. Þegar stjórnendur stefnda hafi komist að raun um það, u.þ.b. einum og hálfum mánuði eftir að stefndi hafði tekið til starfa sem lánastofnun, að stefndi hefði orðið fyrir tæplega 50 milljón króna tjóni vegna framangreindra mistaka hafi þeir talið óhjá-kvæmilegt að gera iðnaðar- og viðskiptaráðherra grein fyrir því fjárhagslega áfalli er stefndi hefði orðið fyrir. Stefndi hafi að öðru leyti ekki greint neinum aðilum utan vébanda stefnda sjálfs frá þeim mistökum sem hafi átt sér stað í upplýsingagjöf um gjaldeyrisjöfnuð. Innan stefnda sjálfs hafi einungis stjórnendum verið greint frá málinu. Öðrum starfsmönnum stefnda hafi aðeins verið greint frá því að stefnandi hefði látið af störfum en stjórnendur stefnda hafi hvorki innan né utan vébanda stefnda fjallað um tildrög starfslokanna. Sýknukrafa stefnda er að öðru leyti studd eftirfarandi málsástæðum og lagarökum. Málsaðilar hafi gert með sér samkomulag um starfslok stefnanda hjá stefnda. Í samkomulaginu hafi að frumkvæði stefnanda verið sett ákvæði um að hvorugur ætti kröfu á hinn vegna starfslokanna. Stefnandi geri ekki kröfu til þess að starfsloka-samkomulagið verði dæmt ógilt, enda engar forsendur fyrir slíkri kröfu, þar sem stefnandi hafi sjálfur valið að starfslok hans ættu sér stað með þessum hætti fremur en að stefndi segði honum upp með samningsbundnum uppsagnarfresti. Það sé rangt að stefnandi hafi verið "neyddur til að segja upp störfum sínum hjá stefnda" eins og hann haldi fram. Stefndi hafi samkvæmt ráðningarsamningi aðila og kjarasamningi SÍB átt rétt á að segja stefnanda einhliða upp störfum. Hann hafi hins vegar boðið stefnanda að í stað starfsuppsagnar yrði gert samkomulag um starfslok. Á það hafi stefnandi fallist. Í starfslokasamkomulaginu hafi sérstaklega verið kveðið á um að hvorugur samkomulagsaðila ætti kröfu á hinn vegna starfslokanna. Sé af og frá að stefnandi, sem sjálfur hafi sérstaklega farið fram á að þetta ákvæði yrði tekið upp í starfslokasamkomulagið, geti haft uppi bótakröfur vegna þeirra ástæðna sem forráða-menn stefnda færðu fram fyrir starfslokaákvörðun sinni. Allan lagagrundvöll skorti því fyrir kröfum stefnanda á hendur stefnda vegna starfslokanna og tildraga þeirra. Af hálfu stefnda er því mótmælt að forráðamenn stefnda hafi ekki farið leynt með rangar ásakanir sínar í hans garð eða að þær hafi verið settar fram á gálausan hátt. Einnig er því mótmælt að stefnandi hafi orðið fyrir fjártjóni og miska, sem stefndi beri bótaábyrgð á samkvæmt sakarreglunni og almennum reglum skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð. Fullyrðingar stefnanda séu órökstuddar og heldur ekki studdar nokkrum gögnum. Forráðamenn stefnda hafi ekki borið út nokkrar ásakanir á hendur stefnanda, hvað þá rangar ásakanir. Fyrir liggi að gjaldeyrisjöfnuði hjá stefnda hafi verið stillt upp á grundvelli rangra upplýsinga frá stefnanda um gjaldeyrisjöfnuð Fiskveiðasjóðs. Af því hafi hlotist verulegt fjárhagslegt tjón fyrir stefnda sem hafi talið vegna þessa útilokað að hafa stefnanda áfram í starfi. Vegna þess fjárhagslega skakkafalls, sem stefndi hafi orðið fyrir, hafi stjórnendur stefnda talið nauðsynlegt að beina því til Ríkisendurskoðunar, bæði sem endurskoðanda fjárfestingarlánasjóðanna og stefnda og sem tengiliðs við matsnefnd samkvæmt lögum nr. 60/1997. Einnig að því yrði beint til stjórnar Fiskveiðasjóðs, til þess að tillit yrði tekið til tjóns stefnda í uppgjöri sjóðsins og hann látinn bæta stefnda tjónið, enda hafi verið leitað til stefnanda um upplýsingar sem starfsmanns sjóðsins. Með sama hætti hafi stjórnendur stefnda talið óhjákvæmilegt að greina forsvarsaðilum eigenda stefnda frá hinu óvænta og umtalsverða tjóni stefnda. Hefði það áreiðanlega verið brot á starfsskyldum stjórnenda stefnda ef þeir hefðu látið undir höfuð leggjast að greina þessum aðilum frá málinu. Bæði ríkisendurskoðandi og aðrir starfsmenn Ríkisendurskoðunar, matsnefnd samkvæmt lögum nr. 60/1997, stjórnendur Fiskveiðasjóðs og starfsmenn ráðuneyta hafi verið og væru bundnir þagnarskyldu, sbr. 18. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, 3. mgr. 4. gr., sbr. 3. mgr. 20. gr. laga nr. 60/1997 og 4. mgr. 7. gr. laga nr. 123/1993 um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. 43. gr. laga nr. 113/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði. Samskipti stefnda við Ríkisendurskoðun og umfjöllum matsnefndar og stjórnar Fiskveiðasjóðs um málið og samskipti stefnda við fulltrúa eigenda stefnda hafi aðeins falið í sér lýsingu á staðreyndum en ekki nokkrar rangar ásakanir á hendur stefnanda. Þau geti því ekki orðið grundvöllur bótaábyrgðar gagnvart stefnanda. Stefndi mótmælir því að forráðamenn hans hafi á öðrum vettvangi en að framan greinir fjallað um mistök stefnanda eða tildrög starfsloka hans eða að þeir hafi yfir höfuð greint utanaðkomandi aðilum frá fjárhagslegu tjóni sínu. Allt umtal um mistök í innra starfi geti verið skaðlegt en það gildi enn frekar þegar í hlut eigi ný lánastofnun eins og í tilviki stefnda. Það hafi því beinlínis verið andstætt hagsmunum stefnda að skýra frá tildrögum að starfslokum stefnanda og umræddu tjóni stefnda. Hins vegar hafi stefnandi sjálfur skýrt fyrrum samstarfsmönnum sínum hjá Fiskveiðasjóði frá tildrögum starfsloka sinna. Stefndi telur að ekkert liggi fyrir um að rekja megi orsakir þess að stefnandi hafi ekki ráðið sig til starfa að nýju til þess að fyrir liggi almenn vitneskja á fjármálamarkaðnum, hvað þá á vinnumarkaðnum almennt, um tildrög starfsloka hans hjá stefnda. Ekki hafi heldur verið sýnt fram á að sú vitneskja, sem einhvers staðar kunni að liggja fyrir um það, sé frá forráðamönnum stefnda komin. Auk þess hafnar stefndi því með öllu að um sé að ræða sök hjá forráðamönnum stefnda í sambandi við umfjöllun þeirra um málefni stefnanda. Samkvæmt framansögðu skorti skilyrði fyrir bótaskyldu stefnda með öllu og beri þar af leiðandi að sýkna hann af öllum kröfum stefnanda. Ef svo ólíklega færi að það yrði talið geta varðað stefnda bótaskyldu gagnvart stefnanda að forráðamenn stefnda skyldu þannig greina frá umræddu tjóni og tildrögum þess, bendir stefndi á að ekkert liggi fyrir um að stefnandi hafi orðið fyrir nokkru fjárhagslegu tjóni af þeim sökum. Samkvæmt starfslokasamningi aðila hafi stefnandi haldið fullum launum til 1. nóvember 1998. Þennan tíma hafi stefnandi m.a. nýtt til þess að halda áfram þátttöku í námskeiði fyrir verðandi verðbréfamiðlara en stefndi hafi greitt námskeiðsgjöld fyrir hann. Því er mótmælt að framlögð svarbréf við atvinnuumsóknum stefnanda sanni að fyrir hendi sé í atvinnulífinu einhver almenn vitneskja um tildrög starfsloka stefnanda hjá stefnda, sem stafi frá stefnda, og valdi stefnanda erfiðleikum við að fá starf við sitt hæfi. Þá er því vísað á bug að nokkuð liggi fyrir um framtíðartjón stefnanda. Nú sé mikil eftirspurn á vinnumarkaði hér á landi og næg atvinnutækifæri. Jafnvel þótt leitt þætti í ljós að það hefði spurst út í þröngum hópi fyrir mörgum mánuðum fyrir tilverknað forráðamanna stefnda hvers vegna stefnandi lét af störfum hjá stefnda, þá hafi slíkt hvorki víðtæk né langvarandi áhrif. Stefnandi hafi starfað hjá Fiskveiðasjóði Íslands þar til í árslok 1997 og liggi ekkert annað fyrir en að fyrrum vinnuveitendur hans geti gefið honum meðmæli. Loks sé á það að líta í þessu sambandi að málshöfðun stefnanda kunni sem slík að leiða til þess að vitneskja um tildrög starfsloka hans berist miklu víðar en áður. Stefndi hafnar því að stefnandi hafi orðið fyrir miska sem rekja megi til frásagna forráðamanna stefnda um tildrög starfsloka hans. Ekkert liggi fyrir um fjárhagslegt tjón eða miska stefnanda, sem rekja megi til háttsemi, sem stefndi beri ábyrgð á, og beri samkvæmt því að sýkna stefnda. Ef svo ólíklega færi að stefndi verði talinn bótaskyldur er bótakröfum stefnanda mótmælt sem allt of háum og eru mótmælin studd eftirfarandi rökum: Skaðabótakrafa stefnanda byggi á útreikningi, sem miðist við að stefnandi hefði haldið sömu launum og hann hafði árið 1997 hjá Fiskveiðasjóði. Þessi forsenda sé augljóslega röng þar sem stefndi hafi tekið fullgilda og lögmæta ákvörðun um að til starfsloka stefnanda kæmi hjá honum og því ljóst að stefnandi hefði ekki haldið þeim launum sem hann hafði hjá Fiskveiðasjóði. Í bótakröfum stefnanda sé ekki gert ráð fyrir neinum frádrætti frá útreiknuðum skaðabótum vegna skattfrelsis bóta og hagræðis af eingreiðslu eins og venja standi til. Með hliðsjón af dómaframkvæmd ætti frádráttur vegna þessara þátta að nema að lágmarki 45%. Miskabótakröfu stefnanda er mótmælt sem allt of hárri og úr samræmi við dómvenju. Verði skaðabætur dæmdar verði auk þess að líta til þess að miski væri væntanlega, a.m.k. að hluta til, innifalinn í dæmdri skaðabótafjárhæð. Stefndi vísar til laga nr. 60/1997 um stofnun Fjárfestingarbanka Íslands, 6. gr. laga nr. 86/1997 um Ríkisendurskoðun, lagaákvæða um þagnarskyldu ríkisstarfsmanna, stjórnenda lánastofnana og matsnefndar samkvæmt lögum nr. 60/1997 og almennra reglna skaðabótaréttarins. Kröfur um málskostnað styður stefndi við ákvæði 21. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr. laganna. Niðurstöður Stefnandi hefur upplýst varðandi störf sín hjá Fiskveiðasjóði að hann hafi fyrst unnið við almenn skrifstofustörf en fljótlega hafi hann tekið við bókhaldi sjóðsins. Síðar var honum einnig falið að sjá um erlendar fjárfestingar. Þegar til kom að tölvuvæða Fiskveiðasjóð var honum falið það verkefni en í tengslum við það lagði hann stund á nám í tölvunarfræðum við Háskóla Íslands árin 1979 og 1980 samhliða starfinu og árið 1982 var hann settur forstöðumaður tölvudeildar. Fljótlega eftir það var honum einnig falið að hafa með höndum erlend fjármál sjóðsins og að sjá um útreikninga í því sambandi. Á árinu 1991 starfaði hann að stórum hluta við fjármál og erlend mál og á árinu 1996 varð hann forstöðumaður fjárreiðu- og alþjóðasviðs. Í því fólst að hafa yfirsýn yfir gengisáhættu Fiskveiðasjóðs og stýringu á þeim málum sjóðsins. Forstjóri stefnda upplýsti við munnlegar skýrslutökur fyrir dóminum að umrædd villa í gjaldeyrisjöfnuði hjá stefnda í þýskum mörkum og ástæðan fyrir henni hafi verið rædd í hópi stjórnenda og enn fremur hafi stjórn stefnda verið greint frá henni. Einnig var ríkisendurskoðanda skýrt frá því að starfsmaður Fiskveiðasjóðs hefði veitt rangar upplýsingar um gjaldeyrisstöðu sjóðsins og afleiðingum af því eins og fram kemur í bréfi stefnda til ríkisendurskoðanda dagsettu 25. febrúar 1998. Í bréfinu eru settar fram ákveðnar kröfur í þessu sambandi og var jafnframt óskað eftir því að ríkisendurskoðandi kæmi þessum upplýsingum á framfæri við stjórn Fiskveiðasjóðs. Þá kom fram að iðnaðarráðherra og ráðuneytisstjóra í því ráðuneyti hafi verið greint frá þessu. Stjórnendur hjá stefnda hafi ekki skýrt öðrum en framangreindum aðilum frá þessum mistökum. Telja verður ósannað í málinu að fyrirsvarsmenn stefndu hafi komið upplýsingum um hina meintu villu á framfæri á annan hátt en hér hefur verið lýst. Forstjórinn upplýsti einnig fyrir dóminum að eftir að greinargerð stefnanda lá fyrir varðandi villuna og eftir samráð við innri endurskoðanda bankans og framkvæmdastjóra markaðsviðskipta hafi verið tekin ákvörðun um að stefnandi léti af störfum. Það hafi ekki eingöngu verið vegna villunnar, sem sú ákvörðun var tekin, heldur hafi það verið mat stjórnenda hjá stefnda að stefnandi gæti ekki starfað þar áfram og hafi verið litið svo á “að þeirra leiðir lægju ekki saman”. Aðrir, sem komu fyrir dóminn, lýstu ólíkum skoðunum á því hvort stefnandi hafi veitt starfsmönnum stefnda rangar upplýsingar um gjaldeyrisstöðu Fiskveiðasjóðs en þeir eru fyrrum fyrirsvarsmenn Fiskveiðasjóðs og endurskoðandi sjóðsins, fyrrverandi starfsmaður stefnda, sem fékk hinar meintu röngu upplýsingar frá stefnanda, og innri endurskoðandi og framkvæmdastjóri markaðsviðskipta hjá stefnda. Ekki vissu þeir þó í öllum tilfellum hverjar þær upplýsingar voru sem stefnandi hafði veitt. Af skriflegum gögnum málsins virðist ekki unnt að ráða með vissu hvort stefnandi veitti starfsmönnum stefnda rangar upplýsingar en gögnin útskýra villuna og hvers vegna starfsmenn stefnda töldu hana frá stefnanda komna. Ekki kemur fram í gögnum málsins hvort sérstök rannsókn, önnur en sú sem fór fram hjá stefnda sjálfum, hefur farið fram í tilefni af hinni meintu röngu upplýsingagjöf stefnanda. Hins vegar er ljóst að þeir stjórnendur stefnda, sem tóku ákvörðun um að stefnandi léti af störfum og komu upplýsingum á framfæri um framkomna villu með þeim hætti sem hér að framan er lýst, töldu á þeim tíma engan vafa leika á því að hinar röngu upplýsingar væru frá stefnanda komnar enda höfðu þeir enga ástæðu til að ætla annað þar sem þá hafði ekkert komið fram sem benti til að ályktanir þeirra í þessum efnum væru rangar eða að þær ættu ekki við rök að styðjast. Að þessu virtu og því sem fram hefur komið af hálfu stefnda um ástæður fyrir því að fyrirsvarsmenn stefnda skýrðu frá hinni meintu villu, á þann hátt sem þegar hefur verið lýst, verður ekki talið að umræddar yfirlýsingar þeirra hafi verið settar fram af gáleysi eins og haldið er fram af hálfu stefnanda. Með vísan til þessa verður ekki fallist á að upplýsingar, sem stjórnendur stefnda komu á framfæri um hina meintu villu, eins og hér hefur verið rakið, hafi verið veittar með saknæmum hætti þannig að varði stefnda bótaskyldu að lögum. Ber því þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu. Rétt þykir með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 að stefnandi greiði stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Dóm þennan kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari. Dómsorð: Stefndi, Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf., skal sýkn vera af kröfum stefnanda, Ásbjörns Þorleifssonar, í máli þessu. Stefnandi greiði stefnda 200.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur.
Mál nr. 494/2016
Ráðningarsamningur Uppsagnarfrestur Orlof Laun Uppgjör Endurgreiðsla ofgreidds fjár
Ágreiningur aðila laut að uppgjöri vegna starfsloka A hjá B ehf. Að virtum atvikum málsins var fallist á með A að hún ætti kröfu á hendur B ehf. fyrir ótekið orlof og vangoldin laun. Þá var hafnað gagnkröfu B ehf. um bætur vegna ólögmæts brotthvarfs A úr starfi og um endurgreiðslu ofgreidds launaauka. Var B ehf. gert að greiða A ógreiddar eftirstöðvar orlofsfjár að frádregnum hluta af kröfu B ehf. vegna ofgreidds launauka.
Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir MarkúsSigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Viðar Már Matthíasson. Áfrýjandi skaut málinu upphaflega tilHæstaréttar 25. apríl 2016. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 8. júní2016 og var áfrýjað öðru sinni 4. júlí sama ár.Hann krefst aðallega sýknuaf kröfu stefndu, en til vara að fjárhæð kröfunnar verði lækkuð. Þá krefstáfrýjandi þess að stefndu verði gert að greiða sér annars vegar 347.995 krónurmeð dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti ogverðtryggingu frá 1. ágúst 2013 til greiðsludags og hins vegar 881.280 krónurmeð vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. sömu laga frá 15. júlí 2013 til 20. janúar2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi tilgreiðsludags. Einnig krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.Stefnda krefst staðfestingar héraðsdómsog málskostnaðar fyrir Hæstarétti.Með vísan til forsendna hins áfrýjaðadóms verður hann staðfestur.Áfrýjanda verður gert að greiðastefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.Dómsorð:Héraðsdómur skal vera óraskaður.Áfrýjandi, Birtingur útgáfufélag ehf.,greiði stefndu, Auði Ingibjörgu Húnfjörð, 750.000 krónur í málskostnað fyrirHæstarétti.Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 2016. Mál þetta, sem var dómtekið 13.janúar sl., er í aðalsök höfðað 9. apríl 2015 af Auði Ingibjörgu Húnfjörð,Furugranda 26 í Kópavogi, á hendur Birtingi útgáfufélagi ehf., Lyngási 17 íGarðabæ. Aðalsök var þingfest 16. apríl 2015. Endanlega krafa aðalstefnanda íaðalsök er sú að gagnstefnandi greiði henni ógreitt orlof og laun að fjárhæð738.491 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 umvexti og verðtryggingu frá 1. ágúst 2013 til greiðsludags. Þess er jafnframtkrafist að dæmt verði að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaðafresti, í fyrsta sinn 1. janúar 2015 en síðan árlega þann dag. Þá er krafistmálskostnaðar ásamt virðisaukaskatti og vaxta af málskostnaði samkvæmt 3. kaflalaga nr. 38/2001 frá 15. degi eftir uppkvaðningu dóms til greiðsludags. Gagnstefnandi krefst aðallegasýknu af dómkröfu aðalstefnanda í aðalsök, en til vara verulegrar lækkunar. Þákrefst hann í báðum tilvikum málskostnaðar. Gagnstefnandihöfðaði gagnsakarmál á hendur aðalstefnanda með stefnu birtri 13. maí 2015 oggerir þær kröfur að aðalstefnanda verði gert að greiða sér 563.927 krónur, aðfrádreginni innborgun að fjárhæð 215.932 krónur þann 31. júlí 2013, ásamtdráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti ogverðtryggingu, af 347.995 krónum frá 1. ágúst 2013 til greiðsludags. Þess ereinnig krafist að aðalstefnandi verði dæmd til að greiða gagnstefnanda 881.280krónur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. málslið 4. gr., laga nr.38/2001 frá 15. júlí 2013 til 20. janúar 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1.mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt er krafistviðurkenningar á rétti gagnstefnanda til skuldajafnaðar á framangreindumfjárhæðum við fjárhæð sem kunni að verða dæmd aðalstefnanda í aðalsök, að þvímarki sem til þurfi, en til sjálfstæðs dóms fyrir því sem er umfram kröfuaðalstefnanda í aðalsök. Þá er krafist málskostnaðar. Aðalstefnandi krefst sýknu afkröfum gagnstefnanda í gagnsök, auk málskostnaðar. I Aðalstefnandi hóf störf hjágagnstefnanda 1. júní 2012 sem auglýsingastjóri tímaritsins Nýtt líf. Umsaminlaun hennar voru 250.000 krónur í grunnlaun, auk sölutengdra tekna sem voru 12%af allri sölu. Um áramótin 2012/2013 voru gerðar skipulagsbreytingar hjágagnstefnanda og í kjölfarið, 1. mars 2013, var gerður nýr samningur viðaðalstefnanda. Var hún eftir það viðskiptastjóri og sá um að selja auglýsingarí öll tímarit sem gagnstefnandi gaf út. Launafyrirkomulagi aðalstefnanda varbreytt þannig að föst laun hennar skyldu vera 220.000 krónur og ökutækja- ogsímastyrkur 40.000 krónur. Þá skyldu tölutengdar tekjur vera 5% af sölu fyrirfyrstu 2.000.000 króna, 7% af sölu upp að 5.000.000 króna og 10% af allri sölueftir það. Aðalstefnandi var ósátt viðþessar breytingar og taldi að þær myndu leiða til skerðingar á heildartekjumhennar. Hún sagði starfi sínu lausu 24. júní 2013 og gerði þá ráð fyrir því aðstarfa út þriggja mánaða uppsagnarfrest sinn, eða til 30. september 2013. Meðtölvuskeyti 28. júní 2013 óskaði hún hins vegar eftir því að fá að láta straxaf störfum. Í framhaldi af því átti aðalstefnandi fund 1. júlí 2013 meðMatthíasi Björnssyni, fjármálastjóra gagnstefnanda. Ágreiningur er með aðilumum hvort samkomulag hafi náðst á þeim fundi um starfslok aðalstefnanda þegar ístað. Aðalstefnandi heldur því fram að svo hafi verið og hún hafi þann sama dagkvatt samstarfsfólk sitt í góðu samkomulagi. Þann 1. júlí 2013 sendiaðalstefnandi tölvuskeyti til samstarfsmanna sinna og viðskiptavina ogtilkynnti að hún hefði sagt upp starfi sínu og myndi hætta samdægurs. Þennansama dag sendi gagnstefnandi aðalstefnanda og öðrum viðskiptastjórum sínumtölvuskeyti þar sem fram kom að við útreikning sölugrunns þann mánuð hefðikomið í ljós „skekkja, ekkert alvarlegt“. Þetta yrði skoðað og leiðrétt viðhvern starfsmann. Stefnandi átti í tölvupóstsamskiptumvið fjármálastjóra gagnstefnanda í júlí og ágúst sama ár. Samkvæmt tölvuskeytifjármálastjórans 12. júlí skyldi „lokauppgjör“ fara fram næstu mánaðamót áeftir. Þann 15. sama mánaðar tilkynnti aðalstefnandi að hún hefði hafið störf ánýjum vinnustað þann sama dag. Kom þar fram að hún hefði ákveðið að vera ekki ífríi út júlí eins og til hafi staðið. Því væri einungis um hálfan mánuð að ræðaá milli þeirra. Í framhaldi áttu aðilar samskipti um uppgjör þeirra á milli. VR sendi gagnstefnanda innheimtubréf,dags. 29. nóvember 2013, vegna ógreidds orlofs, orlofsuppbótar ogdesemberuppbótar. Því var svarað með bréfi gagnstefnanda, dags. 20. desember2013, þar sem kröfum aðalstefnanda var hafnað og vísað til þess aðgagnstefnandi ætti kröfu á aðalstefnanda vegna ofgreidds bónuss og ólögmætsbrotthlaups úr starfi. II Aðalstefnandi byggir á því aðuppgjör samkvæmt launaseðli hennar vegna launa og orlofs í lok júlí 2013 hafiekki verið í samræmi við útgefna launaseðla fyrirtækisins þar sem orlof viðstarfslok sé einungis reiknað af grunnlaunum en ekki heildarlaunum eins ogkveðið sé á um í 7. gr. laga nr. 30/1987 um orlof. Laun aðalstefnanda hafisamanstaðið af föstum launum og bónus. Heildarlaun hennar frá 1. júní 2012 til30. júní 2013 hafi verið 7.637.754 krónur. Orlof sé 10,17% af heildarlaunum ogeigi því að vera 776.760 krónur. Gagnstefnandi hafi greitt 182.732 krónur afþeirri kröfu samkvæmt launaseðli fyrir júlí 2013. Vangoldin orlofslaunakrafa séþví 594.028 krónur. Gagnstefnandi hafi dregið215.932 krónur af launum aðalstefnanda við útgreiðslu launa í júlí. Þærskýringar hafi verið gefnar að um ofgreiddan bónus hafi verið að ræða.Aðalstefnandi mótmæli því að svo hafi verið og telji að gagnstefnandi hafi ekkihaft heimild til að draga af þegar greidd laun sem nýtt séu til framfærslu afaðalstefnanda. Því sé gerð krafa um greiðslu þeirrar fjárhæðar sem vangoldinnalauna. Samkvæmt grein 1.9 íkjarasamningi VR og samtaka atvinnulífsins sem gildi frá febrúar 2008 eigi launað greiðast fyrsta dag eftir að þeim mánuði lýkur sem laun eru greidd fyrir.Samkvæmt 8. gr. orlofslaga beri vinnuveitanda að greiða áunnin orlofslaun viðlok ráðningartímans. Krafa aðalstefnanda sundurliðistsem hér segi: Vangoldið orlof (10,17% x7.637.754 kr. ) kr. 594.028. Vangoldin laun vegna frádráttará launaseðli kr.215.932. Samtals kr.809.960. Varðandi kröfu gagnstefnandavegna ofgreidds sölubónuss vísi aðalstefnandi til þess að gagnstefnandi hafieinhliða breytt launakerfi að því er varði föst laun og árangurstengingu ístarfi, auk þess sem gerðar hafi verið breytingar á sölukerfi. Breytingin hafifalist í því að allir sölumenn hafi átt að selja auglýsingar fyrir öll blöðfyrirtækisins, en áður hafi sölumenn selt auglýsingar í tiltekin blöð. Aðalstefnandihafi verið ósátt við breytinguna þar sem hún hafi álitið að hún myndi lækka ílaunum. Það hafi verið ástæða þess að hún hafi viljað hætta störfum. Við útgreiðslu launa vegna maíhafi laun verið greidd með venjubundum hætti en þann 1. júlí hafi aðalstefnandimóttekið tilkynningu um að komið hefði í ljós skekkja við útreikningasölugrunns, en það væri „ekkert alvarlegt“. Þetta kallaði á endurskoðunverklags aftur í tímann sem lyki fyrir vikulok. Þetta yrði leiðrétt við hvernog einn ef einhverju munaði, en það gæti numið einhverjum smáupphæðum fyrirhvern og einn. Engin leiðrétting eða tilkynning um leiðréttingu hafi komið vikusíðar. Það sem dregið hafi verið frá launum aðalstefnanda hafi ekki verið ísamræmi við tölvuskeytið, enda byggi endurkrafan á allt öðrum forsendum umleiðréttingu en tölvuskeytið frá 1. júlí gefi til kynna. Því sé mótmælt aðaðalstefnandi hafi viðurkennt að um ofgreiðslu launa væri að ræða. Samkvæmt meginreglum vinnuréttarverði ofgreidd laun ekki endurkrafin, enda séu þau ætluð til framfærslu. Kröfumgagnstefnanda sé því mótmælt bæði að því er varði útreikninga og endurkröfu.Tölvuskeytið frá 1. júlí veiti gagnstefnanda engan rétt þar sem viðvörunin semí honum hafi falist hafi ekki verið í samræmi við þá fjárhæð sem dregin hafiverið frá launum aðalstefnanda hvað þá fjárhæðina sem krafist sé endurgreiðsluá. Engin gögn hafi fylgt sölutölumvið útgreiðslu launa og engin slík gögn hafi verið lögð fram. Ómögulegt sé þvífyrir aðalstefnanda að átta sig á útreikningunum. Ágreiningur aðila snúist umtvö tímabil, annars vegar vegna sölu frá 20. apríl til 20. maí og hins vegarfrá 21. maí til 20. júní. Aðalstefnandi hafi haldið söludagbók yfir sölur sínará þeim tíma. Samkvæmt söludagbókinni hafi hún á tímabilinu frá 20. apríl til 20.maí selt eftirfarandi: Nýtt Líf 4. tbl. 1.258.385krónur, Nýtt Líf 5. tbl. 530.000 krónur,Gestgjafinn 5. tbl. 425.006 krónur, Sumarpakki 250.000 krónur, KSÍ 77.209krónur, Vikan 18. tbl. 77.208 krónur, Vikan 17. tbl. 28.594 krónur, Wowheadrest 4.200.000 krónur eða samtals 6.846.402 krónur. Salan í tímarit hafi verið 2.646.402 krónur. Bónus hafiverið 7% af sölu yfir 2 milljónum króna og hafi því verið 185.248 krónur.Greiddar hafi verið 207.989 krónur og ofgreiddar hafi því verið 22.741 króna. Samkomulaghafi verið um að greiða fyrir sölu vegna WOW með júní-launum. Gagnstefnandi telji ofgreiðslu hafa verið 126.615 krónur. Sú tala hafi ekkiverið skýrð með gögnum en svo virðist sem heildarsala samkvæmt gagnstefnu hafiverið 1.018.912 krónum lægri en samkvæmtsöludagbók aðalstefnanda. Heildarsala fyrir rúmlega 1,6 milljónir króna hefðigefið 81.000 króna bónus, en það sé í engu samræmi við sölutölur og sölubónusa undanfarna mánuði. Bónusar aðalstefnanda hafiverið 236.000 krónur í janúar, 181.000 krónur í febrúar, 276.000 krónur í marsog 348.000 krónur í apríl. Talan sem gagnstefnandi telji heildarsölu vegnaapríl sé engum gögnum studd og sé henni mótmælt. Stefnandi telji að þótt um ofgreiðslu hafi verið að ræða upp á 22.741 krónu sésú fjárhæð ekki endurkræf þar sem um lága fjárhæð sé að ræða og launin ætluðtil framfærslu. Samkvæmt söludagbók aðalstefnanda hafi sala á síðara tímabilinu, 21. maítil 20. júní, verið eftirfarandi: Nýtt Líf 6.tbl. 1.211.689krónur, Gestgjafinn 6. tbl. 109.573 krónur, Gestgjafinn 7. tbl. 328.719 krónur,Wow 578.643 krónur, Heilsan 528.049 krónur, ÍTA 209.522 krónur, S&H 194.417krónur, Vikan 21. tbl. 77.208 krónur, sumarpakki HJ x 2 499.800 krónur, NýttLíf 7. tbl. 742.496, Ferðablaðið 45.000 krónur, Vikan 24. tbl. 77.208 krónur ogVikan 25. tbl. 31.193 krónur eða samtals 4.633.517 krónur. Sala vegna WOW-headrest hafi verið 4.200.000 krónur.Heildarsalan hafi því numið 8.833.517 krónum, en greiða hafi átt 10% af söluumfram fimm milljónir króna. Bónus hafi því verið 883.352 krónur, en greiddarhafi verið 1.004.388 krónur. Ofgreiðsla nemi því 121.036 krónum. Ágreiningur aðila snúist umheildarsölutölur. Engin gögn fylgi útreikningi gagnstefnanda eða skýringar áþví hvernig hann fái umræddar sölutölur. Þó skýrist munur á síðara tímabilieinkum af því að sala vegna WOW sé tiltekin 1.386.000 krónur hjá gagnstefnandaen 4.200.000 krónur hjá aðalstefnanda. Vegna annarrar sölu muni 358.763 krónum. Ágreiningur vegna WOW sölusnúist um hvort miða eigi við heildarsölu eða hlutdeild í samningi við WOW. Ersölumönnum hafi verið boðið að selja auglýsingar á sætisbök WOW hafi aldreiverið talað um annað en sölubónus af heildarsölu, enda hafi verið greitt ísamræmi við það. Gagnstefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir því að samið hafi veriðum annað. Ekkert í gögnum málsins styðji það. Sölumenn hafi séð mikil tækifærií sölunni enda hafi verið öruggt að heildarsalan færi þá yfir 5 milljónir krónaog því væri kominn 10% bónus vegna heildarsölu. Samkomulagið hafi verið þannigað sá sölumaður er fyrst gæti selt auglýsingu fengi allan samninginn.Aðalstefnandi hafi verið fyrst og því fengið alla söluna. Ekkert hafi komiðfram um mistök við útgreiðslu fyrr en eftir að aðalstefnandi hafi verið hættstörfum. Í tölvuskeyti frá Matthíasi Björnssyni fjármálastjóra 9. ágúst hafisagt: „... það er frekar hæpið að reikna bónus út frá heildartekjum samningsins...“ Þá hafi bónusinn þegar verið greiddur. Ef einungis hefði verið miðað viðsöluprósentu í hlutdeild gagnstefnanda, sem hafi verið 33%, hefði söluþóknuneinungis verið 3,3% og hvatning til starfsmanna því lítil sem engin miðað viðþóknun gagnstefnanda sjálfs sem hafi verið 1,4 milljónir króna. Samkvæmt framansögðu hafiofgreiðsla vegna fyrra tímabilsins verið 22.741 króna og 121.036 krónur vegna síðaratímabilsins, eða samtals 143.777 krónur. Gagnstefnandi hafi dregið 215.932krónur af launum aðalstefnanda. Launagreiðslur hafi alfarið verið á ábyrgðgagnstefnanda sjálfs sem hafi séð um útreikninga og útgreiðslu launa. Launinhafi verið móttekin í góðri trú. Vinnuveitandi geti því ekki endurkrafið umofgreidd laun og skuldajöfnuði sé mótmælt. Varðandi kröfu gagnstefnandavegna starfsloka bendi aðalstefnandi á að samkomulag hafi náðst um starfslokhennar í samtali við Matthías Björnsson fjármálastjóra 1. júlí 2013. Íframhaldi af því hafi aðgangi hennar að netfanginu audur@birtingur.is veriðlokað. Í því felist ótvíræð sönnun þess að starfssambandinu hafi verið lokið,enda sé sölumaður hreinlega óvinnufær eftir það þar sem öll samskipti viðviðskiptavini fari fram í gegnum tölvupóst. Frá þeim tíma hafi öll samskiptiaðila farið fram í gegnum einkanetfang aðalstefnanda, sem væri óeðlilegt ef húnværi enn starfsmaður. Skýrt komi fram í tölvuskeyti Matthíasar Björnssonar 12.júlí 2013 að „lokauppgjör“ skyldi verða um næstu mánaðamót. Í þessu felistótvíræð viðurkenning á því sem fram hafi farið á milli þeirra 1. júlí 2013. Aðalstefnandi hafi senttölvuskeyti til allra starfsmanna og viðskiptavina sinna síðasta starfsdaghennar þar sem hafi staðið: „Ég hef sagt upp störfum hjá Birtingi og hættistrax í dag. Ég vil þakka kærlega fyrir skemmtilegt samstarf og mun án efaheyra frá ykkur í framtíðinni.“ Allir samstarfsmenn og yfirmenn aðalstefnandahafi fengið þetta skeyti. Forsvarsmönnum gagnstefnanda hafi borið að geraathugasemdir hafi þeir ekki verið sammála þessum skilningi aðalstefnanda.Staðhæfingar um að hún hafi hætt fyrirvaralaust eigi því ekki við rök aðstyðjast. Samkvæmt meginreglum vinnuréttarberi þeim aðila sem telji að vinnusamningur sé brotinn að gefa hinum aðilanumkost á að bæta úr vanefnd áður en hægt er að beita vanefndarúrræðum.Gagnstefnandi hafi fengið tilkynningu um að aðalstefnandi væri komin í aðravinnu 15. júlí 2013. Hann hafi ekki hreyft neinum andmælum við þeirritilkynningu, hvorki um að hann teldi hana brjóta gegn vinnusamningi aðila, némeð því að skora á hana að virða samning aðila. Gagnstefnandi geti því ekkigert kröfu vegna ólögmæts brotthlaups. Rök gagnstefnanda um að ekki hafi veriðástæða til þess þar sem hún hafi verið búin að ráða sig í aðra vinnu hafi engaþýðingu þar sem réttur til bóta sé háður því skilyrði að gefinn sé kostur á aðbæta úr vanefnd. Gagnstefnandi hafi ekki sýntfram á að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna starfsloka aðalstefnanda. Nýttsölukerfi hafi verið með þeim hætti að allir sölumenn hafi selt auglýsingar íöll blöð gagnstefnanda. Því geti sala ekki hafa misfarist eða tjón hafa orðið.Gagnstefnandi haldi því annars vegar fram að aðalstefnandi hafi hlaupið fráhálfkláruðu verki við að selja auglýsingar í tímarit sem hafi átt að koma útsíðar í mánuðinum en viðurkenni hins vegar að hún hafi átt að vera í fríi íjúlí. Þessi röksemdafærsla gangi ekki upp. Gagnstefnandi þurfi að sanna tjónsitt eða sýna fram á líkur á því að hann hafi orðið fyrir tjóni. Það aðstarfsmaður hætti störfum leiði ekki sjálfkrafa af sér að vinnuveitandi verðifyrir tjóni. Starfsmannavelta gagnstefnanda í söludeild auglýsinga hafi veriðum 66% á fyrstu sex mánuðum ársins. Vart verði séð að starfslok aðalstefnandageti hafa verið svo íþyngjandi þegar ekkert hafi verið gert til að óska eftirþví að hún mætti aftur til vinnu. Bótakröfu sé sérstaklegamótmælt, en gagnstefnandi haldi því fram að aðalstefnandi hafi ekki verið hættstörfum heldur verið í orlofi og því einungis átt tvo mánuði eftir afuppsagnarfresti sem taka beri mið af ef beitt er ákvæðum hjúalaga. Því sé mótmælt að kröfuraðalstefnanda séu fallnar niður vegna tómlætis. Kröfurnar hafi verið settarfram með bréfi VR. Hins vegar eigi tómlætissjónarmið við um kröfur gagnstefnandaí gagnsök, en eins og fram hafi komið í tölvuskeyti Matthíasar Björnssonar hafigagnstefnandi talið sig eiga kröfu vegna ofgreiðslu launa í ágúst 2013. Hannhafi hins vegar ekki sett þá kröfu fram fyrr en með útgáfu gagnstefnu þessamáls 19. maí 2015 eða um tveimur árum eftir að hann hafi talið sig vita umkröfuna. III Gagnstefnandi byggir kröfu sínaum sýknu af kröfu aðalstefnanda í aðalsök á því að hann hafi ekki samþykktbeiðni hennar um að hætta störfum þegar í stað. Hvergi í gögnum málsins sé aðfinna sönnun eða vísbendingu þess efnis. Aðalstefnanda hafi borið að virðaumsaminn þriggja mánaða uppsagnarfrest samkvæmt 2. gr. í ráðningarsamningisínum, sbr. einnig ákvæði laga nr. 19/1979 um rétt verkafólks tiluppsagnarfrests og ákvæði kjarasamnings VR og Samtaka atvinnulífsins. Það hafihún hins vegar ekki gert heldur hafi hún tilkynnt gagnstefnanda 15. júlí 2013að hún hefði þann dag hafið störf fyrir annan vinnuveitanda, nánar tiltekiðsamkeppnisaðila gagnstefnanda, útgefanda MAN magasín. Hún hafi tekið fram aðhún hefði ákveðið að vera ekki í orlofi út mánuðinn. Þá bendi gögn málsins tilþess að hún hafi hafið störf hjá MAN magasín, mun fyrr en hún hafi haldið framí tölvubréfi sínu til gagnstefnanda 15. júlí 2013, eða a.m.k. hinn 7. júlí2013. Aðalstefnandi berisönnunarbyrðina fyrir því að gagnstefnandi hafi samþykkt styttri uppsagnarfresten kveðið hafi verið á um í ráðningarsamningi milli aðila. Hún hafi gegntþýðingarmiklu starfi og mátt vera ljóst að enginn gæti komið í hennar stað meðsvo skömmum fyrirvara. Hagsmunir gagnstefnanda væru því verulegir þar til nýrstarfsmaður fyndist í hennar stað. Aðalstefnandi beri ein ábyrgð ástarfslokum sínum hjá gagnstefnanda og að hafa ekki sinnt starfi sínu áuppsagnarfresti eins og henni hafi verið skylt. Hún hafi þvert á móti og ánsamráðs við gagnstefnanda ekki mætt til starfa, heldur hafið störf fyrir annanvinnuveitanda. Í háttsemi aðalstefnanda hafi falist samningsbrot og gróft brotá trúnaðarskyldu gagnvart vinnuveitanda á samningstíma. Aðalstefnandi hafi þvíí raun rift ráðningarsamningi sínum fyrirvaralaust með háttsemi sinni. Ekkihafi heldur verið grundvöllur fyrir því að skora á aðalstefnanda að mæta tilvinnu eftir tilkynningu hennar. Þess í stað hafi þurft að fara fram uppgjör milliaðila á grundvelli þeirrar stöðu sem komin hafi verið upp, enda um fullkominntrúnaðarbrest að ræða. Krafa aðalstefnanda um„vangoldin laun“ að fjárhæð 215.932 krónur sé algerlega tilhæfulaus og virðistbyggð á misskilningi. Aðalstefnandi hafi ekki átt nein laun inni hjágagnstefnanda þegar hún hafi látið af störfum, enda hafi hún fengið útborguðlaun í lok júní og ekkert unnið hjá gagnstefnanda eftir það. Ástæða þess aðgagnstefnandi hafi dregið 215.932 krónur af aðalstefnanda í uppgjörinu í lokjúlí 2013 hafi verið sú að með þessu hafi hann skuldajafnað því orlofi sem hannhafi talið aðalstefnanda eiga inni hjá sér við kröfu sína á hendur henni umvangreitt orlof, auk orlofs- og desemberuppbótar. Um mánaðamótin júlí/ágústhafi legið fyrir að gagnstefnandi hafi átt kröfu á aðalstefnanda vegnaofgreidds sölubónuss. Leiðréttingar gagnvart öðrum starfsmönnum gagnstefnandahafi farið fram með því að ofgreiddur bónus hafi verið dreginn af launum, enþar sem aðalstefnandi hafi verið hætt störfum hafi hún engin laun átt inni hjágagnstefnanda. Orlofsinneign hennar hafi því verið skuldajafnað við hluta afkröfu gagnstefnanda. Sá skuldajöfnuður sé viðurkenndur í stefnu málsins, endakomi þar fram að gagnstefnandi hafi greitt 182.732 krónur af heildarorlofskröfunni, sem sé 776.760 krónur. Það sem eftir standi af 215.932 krónumhafi verið uppgjör á orlofs- og desemberuppbót. Aðalstefnandi eigi enga kröfu ágagnstefnanda um vangoldin laun. Heildarkrafa aðalstefnanda geti ekki numiðhærri fjárhæð en sem orlofskröfu hennar nemi, eða 594.028 krónum. Með því aðkrefjast sérstaklega 215.092 króna sem „vangoldinna launa“ sé í raun verið aðkrefja um þegar greitt orlof sem „vangoldin laun“ að fjárhæð 182.732 krónur,sem þó sé viðurkennd í stefnu sem innborgun, auk greiðslu á orlofs- ogdesemberuppbót. Samkvæmt 7. gr. orlofslagareiknist orlofslaun við hverja launagreiðslu þannig að af heildarlaunumreiknist orlofslaunahlutfall að lágmarki 10,17%. Þótt þetta sé reglaorlofslaganna séu orlofslaun mánaðarkaupsfólks í raun reiknuð í orlofsdögum,enda beri launaseðlar aðalstefnanda með sér að orlof hennar hafi veriðinnifalið í launum og að það skyldi taka út með töku orlofsdaga á óskertumlaunum. Aðalstefnandi setji kröfuna fram líkt og hún hafi aldrei tekið launaðorlof hjá gagnstefnanda en það sé rangt. Á 13 mánaða starfstíma sínum hafi húnunnið sér inn 26 orlofsdaga. Á þeim tíma hafi hún nýtt a.m.k. átta orlofsdaga,en hún hafi verið í leyfi fimmtudaginn 21. desember og föstudaginn 22. desember2012. Þá hafi hún verið í leyfi fimmtudaginn 13. júní til og með föstudeginum21. júní 2013, samtals sex daga. Hún hafi því að hámarki átt inni 18 orlofsdagaþegar hún hafi ákveðið að hætta störfum. Orlofsuppgjör gagnstefnanda hafi byggtá því. Þess utan hafi aðalstefnandi farið í leyfi til Flórída á starfstímanumog verið á launum á meðan, en ekki sé ljóst hversu marga daga það hafi verið. Samkvæmt útreikningumgagnstefnanda hafi orlofsinneign aðalstefnanda numið 182.732 krónum en aðviðbættri orlofs- og desemberuppbót 215.932 krónum. Gagnstefnandi hafiskuldajafnað þessari fjárhæð við kröfu sína á hendur aðalstefnanda með hennarvitund og samþykki, enda hafi hún aldrei mótmælt kröfu gagnstefnanda eðaskuldajöfnuðinum og hann sé viðurkenndur í stefnu sem innborgun inn áorlofskröfuna og uppgreiðsla á orlofs- og desemberuppbót. Það sé þannigóumdeilt að gagnstefnandi hafi greitt 182.732 krónur í orlof á móti orlofskröfuaðalstefnanda. Þá liggi fyrir að aðalstefnandi hafi nýtt a.m.k. átta dagalaunað orlof á starfstíma, auk þess sem hún hafi tekið leyfi til að fara tilútlanda. Það sé því ósannað að aðalstefnandi eigi rétt til frekara orlofs. Gagnstefnandi byggi sýknukröfusína einnig á tómlæti aðalstefnanda. Hún hafi sýnt af sér slíkt tómlæti viðinnheimtu meintrar launakröfu sinnar, að hún hafi fyrirgert rétti sínum tilkröfunnar, eigi hún hana á annað borð. Krafa um vangoldið orlof hafi fyrstkomið fram eftir starfslok aðalstefnanda. Hún hafi sagt upp störfum 24. júní2013 og til hafi staðið að hún lyki störfum 30. september 2013, miðað viðþriggja mánaða uppsagnarfrest. Þann 28. júní 2013 hafi hún hins vegar óskaðeftir því, þvert á það sem samið hafi verið um, að fá að láta af störfum straxog vinna ekki út uppsagnarfrestinn. Þann 15. júlí 2013 hafi hún tilkynnt að húnhefði hafið störf hjá MAN magasín, samkeppnisaðila gagnstefnanda og hún hefðiþar með ákveðið að hætta að vera í orlofi. Gögn málsins beri þó með sér að húnhafi starfað lengur fyrir nefndan samkeppnisaðila eða a.m.k. frá 7. júlí 2013.Með því hafi hún í raun rift ráðningarsamningi sínum einhliða ogfyrirvaralaust. Ekkert hafi heyrst fráaðalstefnanda frá því að bréfasamskiptum lögmanna hafi lokið 20. desember 2013og gagnstefnandi hafi talið málinu lokið. Hún hafi aldrei mótmælt fullyrðingumgagnstefnanda um ofgreiddan bónus. Tæpum tveimur árum eftir uppsögnina hafiaðalstefnandi svo höfðað mál þetta. Full ástæða hafi verið til þess fyrir hanaað hefjast handa við málsókn sína án tafar, til að tryggja lögmæti meintrakrafna sinna fyrir dómstólum. Með því að sýna af sér slíkt tómlæti hafiaðalstefnandi glatað rétti til mögulegrar kröfu sinnar. Vaxtakröfu aðalstefnanda sésérstaklega mótmælt. Fordæmi séu fyrir því að kröfuhafi glati rétti sínum tildráttarvaxta fyrir þingfestingu máls vegna tómlætis. Þess sé því krafist að vextirverði í fyrsta lagi dæmdir frá þingfestingu. Gagnkrafa gagnstefnanda sétvíþætt. Annars vegar lúti hún að endurgreiðslu vegna ofgreidds sölubónuss enhins vegar sé um að ræða skaðabætur vegna ólögmæts brotthlaups úr starfi. Aðalstefnandi hafi m.a. seltfyrirtækjum auglýsingar í tímaritum gagnstefnanda og fengið greidd föst launauk sölutengdra tekna eða sölubónuss. Eftir launakeyrslu og útborgun launa 30.júní 2013 hafi uppgötvast villa í bónusum til starfsmanna gagnstefnanda semhafi falist í því að hlutfall sölubónuss starfsmanna hafi verið reiknað afheildarfjárhæð auglýsingasölusamninga, en ekki af tekjum gagnstefnanda afsamningunum. Í tilviki aðalstefnanda hafi verið um að ræða samning milliflugfélagsins WOW air ehf., gagnstefnanda og Cintamani um auglýsingarsíðastnefnda aðilans í flugtímariti og á sætisbökum WOW air ehf., engagnstefnandi hafi annast útgáfu flugtímaritsins fyrir flugfélagið. Hlutfallgagnstefnanda í tekjum af samningnum hafi verið ákveðið 33% en aðrar tekjurhafi runnið til flugfélagsins. Sölubónus aðalstefnanda hafi átt að reiknast aftekjum gagnstefnanda af samningnum, en ekki af heildarfjárhæð samningsins einsog gert hafi verið. Einnig hafi komið í ljós að sölubónus hafi verið rangtreiknaður um mánaðamótin maí/júní, en sú tala hafi verið mun lægri. Tilkynning um villuna hafi veriðsend viðskiptastjórum, þ.m.t. aðalstefnanda, með tölvuskeyti 1. júlí 2013, eðasama dag og laun hafi verið greidd vegna júní. Ofgreiddur bónus aðalstefnandavið launaútborgun um mánaðamótin júní/júlí hafi numið 438.313 krónum, en ummánaðamótin maí/júní hafi hún fengið ofgreiddar 126.614 krónur. Samtals hafihún því fengið ofgreiddan bónus að fjárhæð 563.927 krónur. Ekki sé ágreiningurum að aðalstefnandi hafi fengið ofgreiddan bónus og að henni beri aðendurgreiða þá fjármuni, en aðalstefnandi hafi aldrei mótmælt því og hafiviðurkennt vitneskju sína um ofgreiðslu. Í stefnu sé m.a.s. viðurkenndur seminnborgun skuldajöfnuður sem hafi verið framkvæmdur af gagnstefnanda, þar semorlofsinneign hafi verið skuldajafnað á móti þessari kröfu. Gagnstefnandi eigi rétt áendurgreiðslu í samræmi við meginreglur kröfu- og vinnuréttar vegna þess semhafi verið ofgreitt. Ofgreiðslan hafi stafað af villu um staðreyndir. Villanhafi verið augljós og athygli starfsmanna hafi strax verið vakin á henni.Aðalstefnandi hafi fengið mun hærri laun en hún hafi mátt eiga von á meðhliðsjón af fyrri launagreiðslum. Gagnstefnandi hafi ekki vakið hjá hennitraust um að þessar ofgreiðslur gætu talist til réttra launa hennar, enda hafihann leiðrétt ofgreiðslurnar um leið og hann hafi orðið þeirra var. Í síðaratilvikinu hafi starfsmenn verið upplýstir um villuna sama dag og launin hafiverið greidd. Aðalstefnandi hafi ekki hreyft andmælum við leiðréttingu áofgreiðslunni og hafi viðurkennt að hafa móttekið tilkynninguna umofgreiðsluna. Endurgreiðsluskylda hennar á fjárhæðinni 563.927 krónum séóumdeilanleg. Aðalstefnanda beri því að greiða gagnstefnanda fjárhæðina aðfrádreginni þeirri fjárhæð sem gagnstefnandi hafi nýtt til að skuldajafna viðógreitt orlof og orlofs- og desemberuppbót við uppgjör um mánaðamótinjúlí/ágúst 2013, alls 215.932 krónur. Krafa gagnstefnanda vegna þessa liðar séþví 347.995 krónur auk vaxta. Aðalstefnandi hafi algjörlegaeinhliða og með ólögmætum hætti tekið ákvörðun um að hætta störfum fyrirgagnstefnanda. Sú regla gildi í vinnurétti að starfsmönnum sé óheimilt aðhlaupast á brott úr starfi sínu, rétt eins og atvinnurekanda sé óheimilt aðrifta ráðningarsamningi, án réttmætrar ástæðu. Um verulega vanefndatvinnurekanda þurfi að vera að ræða til þess að brotthlaup starfsmanns úrstarfi geti talist lögmætt. Aðalstefnandi hafi ekki haft réttmæta ástæðu til aðhlaupast á brott úr starfi sínu enda hafi gagnstefnandi staðið við allarskyldur sínar gagnvart henni. Ástæða þess að hún hafi hlaupist á brott úrstarfi sínu hafi verið sú að henni hafi boðist starf hjá samkeppnisaðilagagnstefnanda, en gagnstefnandi hafi ekki viljað sleppa henni við að vinnauppsagnarfrestinn. Ástæðan hafi því ekki aðeins verið ólögmæt heldur hafibeinlínis verið um að ræða gróft brot á trúnaðarskyldu starfsmanns gagnvartvinnuveitanda. Dómstólar líti svo á aðatvinnurekandi eigi skaðabótakröfu á hendur starfsmanni vegna ólögmætsbrotthlaups úr starfi. Þá sé litið til þess tjóns sem starfsmaður hafi valdiðatvinnurekanda sínum með slíku framferði. Uppsögn aðalstefnanda hafi komið sérmjög illa fyrir gagnstefnanda, enda hafi hún horfið frá hálfkláruðu verki viðað selja auglýsingar í næsta tölublað tímaritsins Nýtt líf. Fyrirvaralaust ogólögmætt brotthlaup aðalstefnanda hafi óumdeilanlega valdið gagnstefnandaverulegu tjóni. Í dómaframkvæmd hafi verið miðað við að starfsmanni beri aðgreiða atvinnurekanda meðalhófsbætur fyrir ólögmætt brotthlaup er samsvarilaunum fyrir helming uppsagnarfrests starfsmannsins, ef tjón er ekki sannað,sbr. 1. mgr. 25. gr. hjúalaga nr. 22/1928. Samkvæmt dómafordæmum hafi ákvæðiðalmennt gildi í vinnurétti með lögjöfnun. Gagnkvæmur uppsagnarfresturaðalstefnanda samkvæmt ráðningarsamningi hafi verið þrír mánuðir. Samkvæmtframangreindri skaðabótareglu beri henni að greiða gagnstefnanda fjárhæð semsvari til launa í einn og hálfan mánuð. Heildarlaun aðalstefnanda hafi veriðbreytileg þar sem þau hafi að hluta verið árangurstengd. Heildarlaun hennar þá 13mánuði sem hún hafi starfað hjá gagnstefnanda hafi verið 7.637.754 krónur, enkrafa hennar um orlof byggi á þeirri fjárhæð. Gagnstefnandi geri ekkiathugasemd við að hún sé höfð til viðmiðunar um laun aðalstefnanda, enda horfiþað til mikillar einföldunar. Samkvæmt því hafi meðaltalsmánaðarlaun verið587.520 krónur. Skaðabótakrafa gagnstefnanda á hendur aðalstefnanda nemi einumog hálfum þeim mánaðarlaunum, eða 881.280 krónum. Krafagagnstefnanda á hendur aðalstefnanda sé því að fjárhæð 563.927 krónur vegnaofgreidds sölubónuss að teknu tilliti til innborgunar og 881.280 krónur vegnaólögmæts brotthlaups úr starfi, eða samtals 1.445.207 krónur. Til frádráttarkomi 215.932 krónur vegna skuldajöfnuðar og krafan sé því 1.229.275 krónur.Þess sé krafist að viðurkenndur verði réttur gagnstefnanda til að skuldajafnaframangreindri fjárhæð við þá fjárhæð sem mögulega verði dæmd aðalstefnanda íaðalsök, en að sjálfstæður dómur gangi um það sem umfram sé, sbr. 2. mgr. 28.gr. laga nr. 91/1991. Enginn vafi leiki á því að kröfur samkvæmt gagnstefnu séusamkynja kröfu aðalstefnanda í aðalsök og eigi rætur að tekja til sama atviks,aðstöðu eða löggernings. IV Deila málsaðila lýtur aðuppgjöri vegna starfsloka aðalstefnanda hjá gagnstefnanda og snýst ágreiningur þeirraum orlofsgreiðslur, bónusgreiðslur og bótakröfu vegna brotthlaupsaðalstefnanda. Gagnstefnandi hefur ekki andmælt útreikningi aðalstefnanda áorlofskröfu sinni. Við aðalmeðferð málsins var það staðfest af hálfugagnstefnanda að hann gerði ekki athugasemd við að orlofslaun aðalstefnandahefðu átt að nema 776.760 krónum. Hann telur hins vegar að lækka verði þáfjárhæð vegna átta orlofsdaga sem aðalstefnandi hafi tekið. Við aðalmeðferðmálsins féllst aðalstefnandi á að lækka bæri kröfuna vegna sex orlofsdagahennar í júní 2013 en taldi rétt að miða við föst mánaðarlaun við lækkunina.Því mótmælti gagnstefnandi og taldi að miða bæri við heildarlaun. Ágreiningurer um tvo daga í desember 2012 þar sem gagnstefnandi heldur því fram aðaðalstefnandi hafi verið í fríi en hún kannast ekki við það. Fullyrðinggagnstefnanda byggist á því að samkvæmt vinnuyfirliti hafi aðalstefnandi veriðskráð í orlof þessa daga en aðalstefnandi telur þá skráningu ekki áreiðanlega.Þótt innskráningar starfsmanns í kerfið hafi ekki verið nákvæmar er ekkert sembendir til annars en að skráningar á orlofsdögum hafi verið réttar, enda eróumdeilt að leyfisdagar í júní eru þar rétt skráðir. Verður því að telja aðgagnstefnandi hafi fært nægilegar sönnur fyrir því að aðalstefnandi hafi veriðí leyfi þá tvo daga í desember 2012 sem um ræðir. Gagnstefnandi heldur þvíjafnframt fram að aðalstefnandi hafi tekið sér fleiri orlofsdaga þegar hún hafifarið í frí til Flórída. Aðalstefnandi kvaðst hafa fengið leyfi til þess aðvinna í ferð sinni til Flórída, en samið hafi verið um að hún ynni þar í sexklukkustundir á dag. Matthías Björnsson, fjármálastjóri gagnstefnanda, kvaðstfyrir dóminum kannast við að aðalstefnandi hafi eitthvað unnið í fríinu úti entaldi að þó hafi verið um leyfi að ræða. Hann kvaðst þó ekki hafa komið aðsamkomulagi um þetta. Engin gögn liggja fyrir um það um hve langan tíma var aðræða eða hvers efnis samkomulag aðila var. Hefur því ekki verið sýnt fram á aðaðalstefnandi hafi tekið orlof vegna ferðar sinnar til Flórída. Óumdeilt er aðaðalstefnandi hafði unnið sér inn 26 orlofsdaga vegna starfs síns hjágagnstefnanda. Samkvæmt framangreindu hefur hún þegar nýtt átta daga af orlofisínu og átti því ógreidda 18 daga við starfslok. Gagnstefnandi krefst þess aðaðalstefnandi greiði sér 563.927 krónur, að frádregnum 215.932 krónum sem hannhefur þegar dregið af launum hennar vegna ofgreidds sölubónuss. Aðalstefnandikrefst þess að þær 215.932 sem dregnar hafi verið af launum hennar verðiendurgreiddar sér. Gagnstefnandi tilkynnti aðalstefnanda og öðrumviðskiptastjórum sínum með tölvuskeyti 1. júlí 2013 að við útreikning launa„þennan mánuðinn“ hefði komið í ljós „skekkja, ekkert alvarlegt“. Þetta kallaðiá endurskoðun verklags aftur í tímann. Þeirri vinnu myndi ljúka fyrir vikulokog yrði þetta „leiðrétt við hvern og einn ef einhverju munar. Þetta gæti numiðeinhverjum smáupphæðum fyrir hvern og einn.“ Í tölvuskeyti MatthíasarBjörnssonar til aðalstefnanda 31. júlí 2013 kemur fram að hann hafi verið aðfara yfir bónusa vegna „Cintamani sölunnar“. Þá hafi komið í ljós að það hafiverið „verulega ofgreitt enda hafði það verið reiknað með í maí útborgun og svotvöfalt í júní útborgun“. Í tölvuskeyti Matthíasar frá 4. ágúst sama ár kom þaðsama fram: „Cintamani salan var tekin með í maí og var svo tvítekin í júní bæðiaf okkar þóknun og heildarsölunni. Auk þess voru tímarit eins og GE 1306 ogönnur tímarit tekin með sem ekki tilheyrðu uppgjörstímabilinu 21. maí-20.júní.“ Í tölvuskeyti hans frá 9. sama mánaðar kom svo fram að bónusinn vegnaCintamani sölunnar hefði verið reiknaður af heildartekjum samningsins. Þásagði: „Mér finnst frekar hæpið að reikna bónus út frá heildartekjumsamningsins enda eru þetta ekki okkar tekjur. Það ætti að reikna það út fráokkar hluta af samningnum.“ Í gagnstefnu er greint frá þvíað ofgreiðslur til aðalstefnanda hafi numið 438.313 krónum um mánaðamótinjúní/júlí, en um mánaðamótin maí/júní 126.614 krónum, eða samtals 563.927krónum. Engar skýringar er þar hins vegar að finna á því hvernig þessar fjárhæðireru fundnar að öðru leyti en því að ljóst er að ágreiningur stendur um sölu áauglýsingum fyrir Wow air til Cintamani. Gagnstefnandi ber því við að stærsturhluti ofgreiðslunnar sé til kominn vegna þess að bónus aðalstefnanda hafi veriðreiknaður af heildarsamningnum en ekki af hlut gagnstefnanda í samningnum.Framangreindur samningur er ekki meðal gagna málsins, en ljóst er aðaðalstefnandi var ekki aðili að honum. Þá hefur hún borið að henni hafi ekkiverið kynntur sá samningur, heldur hafi salan verið kynnt starfsmönnum þannigað öll fjárhæðin hafi verið undir, enda hafi verið keppikefli að ná sölunni ogháum bónus vegna hennar. Haraldur Logi Hrafnkelsson, fyrrum samstarfsmaðuraðalstefnanda hjá gagnstefnanda, bar á sama veg og sagði samkeppni hafa verið ámilli viðskiptastjóranna um að ná þessari sölu. Málið hafi verið kynnt fyrirþeim á fundi en aldrei hafi verið talað um annað viðmið fyrir sölubónusinn. Íráðningarsamningi aðalstefnanda frá 1. mars 2013 kemur fram að sölubónusstarfsmanns skuli vera 5% þóknun ef hann selur fyrir undir tvær milljónir ámánuði, 7% þóknun ef hann selur fyrir yfir tvær milljónir á mánuði og 10%þóknun ef hann selur fyrir meira en fimm milljónir á mánuði. Sá skilningurgagnstefnanda að miða ætti sölubónus við hlutdeild hans í samningi við Wow airkom ekki fram fyrr en nokkru eftir starfslok aðalstefnanda. Gagnstefnandiverður að bera ábyrgð á því hafi hann gert mistök við sölubónus vegnaauglýsinga fyrir Wow air. Um umtalsverða fjárhæð er að ræða fyrir aðalstefnandaog ekkert sem bendir til þess að hún hafi mátt vita um framangreinda ætlungagnstefnanda. Er því ekki hægt að fallast á að gagnstefnandi eigiendurkröfurétt á hana af þeim sökum. Eins og að framan greinir gerirgagnstefnandi ekki grein fyrir því í gagnstefnu hvernig hann hefur fundið þærfjárhæðir sem hann miðar við. Aðalstefnandi hefur hins vegar lagt fram eiginútreikninga á sölubónus sínum fyrir framangreind tímabil. Samkvæmt þeim fellsthún á að um ofgreiðslu hafi verið að ræða, vegna fyrra tímabilsins 22.741krónur og vegna síðara tímabilsins 121.036 krónur. Samkvæmt tilkynningugagnstefnanda frá 1. júlí 2013 var um að ræða smávægilega villu við greiðslulauna þann dag. Ekkert var minnst á villu í útborgun launa vegna mánaðarins áundan. Launagreiðslan var á ábyrgð gagnstefnanda og er ekki hægt að gera kröfutil þess að aðalstefnanda hafi mátt vera villan ljóst. Verður því ekki fallistá endurgreiðslukröfu vegna þess mánaðar. Tilkynning gagnstefnanda náði hinsvegar til launa sem greidd voru út þann sama dag. Þá átti aðalstefnandi íframhaldinu í tölvupóstsamskiptum við fjármálastjóra gagnstefnanda um þessavillu. Þótt fallast megi á með aðalstefnanda að ekki sé um „smáupphæð“ að ræðaverður að líta til þess að henni mátti vera ljóst strax frá útborgunardegi aðmistök hefðu verið gerð við útborgunina og að til stæði að leiðrétta villuna.Það var svo gert við launagreiðslu næsta mánaðar. Þykir aðalstefnandi því verðaað una endurkröfu gagnstefnanda að fjárhæð 121.036 krónur. Krafa gagnstefnanda vegnaólögmæts brotthlaups byggist á því að ekki hafi náðst samkomulag viðaðalstefnanda um starfslok heldur hafi hún einhliða ákveðið að hætta og hefjastörf á nýjum stað. Aðalstefnandi heldur því hins vegar fram að samkomulag hafináðst um starfslok hennar á fundi með fjármálastjóra gagnstefnanda 1. júlí2013. Í málinu liggur fyrir tölvuskeyti sem aðalstefnandi sendi þann dag tilsamstarfsmanna sinna og viðskiptavina þar sem hún tilkynnti uppsögn sína ogstarfslok sama dag. Matthías Björnsson, fjármálstjóri gagnstefnanda, staðfestiað pósturinn hefði borist sér. Fyrir liggur að engar athugasemdir voru gerðarvið aðalstefnanda af því tilefni. Þá kom fram í tölvuskeyti fjármálastjóranstil aðalstefnanda 12. júlí 2013 að lokauppgjör færi fram um næstu mánaðamót.Fjármálstjórinn greindi frá því fyrir dóminum að honum hefði ekki verið kunnugtum að aðalstefnandi hefði ráðið sig í nýtt starf fyrr en 15. júlí 2013. Þykirþetta benda ótvírætt til þess að gagnstefnandi hafi fallist á að aðalstefnandiynni ekki út uppsagnarfrest sinn. Verður kröfu gagnstefnanda um bætur vegnaólögmæts brotthlaups því hafnað. Við aðalmeðferð málsins byggðigagnstefnandi meðal annars á því að fjármálastjóra gagnstefnanda hefði skortumboð til þess að semja um starfslok aðalstefnanda. Framangreindri málsástæðuvar ekki andmælt sem of seint fram kominni, en því mótmælt að um umboðsskortværi að ræða. Fram hefur komið að framkvæmdastjóri gagnstefnanda fólfjármálastjóranum að ræða við aðalstefnanda um starfslok hennar í fjarverusinni. Framkvæmdastjórinn var í framhaldinu upplýstur um málið og kom til vinnunokkrum dögum síðar, en gerði engar athugasemdir. Þá átti fjármálastjórinn íáframhaldandi viðræðum við aðalstefnanda um starfslok hennar og launauppgjör.Verður því ekki fallist á að fjármálastjórann hafi skort umboð til að semja umstarfslokin. Gagnstefnandi teluraðalstefnanda hafa sýnt af sér tómlæti við innheimtu kröfu sinnar. Ljóst er aðaðalstefnandi setti fram kröfu um að orlofsinneign hennar yrði greidd þegar viðstarfslok. Þá átti hún í samskiptum við fjármálastjóra gagnstefnanda um uppgjörlauna sinna og leitaði til VR sem sendi gagnstefnanda innheimtubréf 29.nóvember 2013. Gagnstefnandi svaraði því bréfi 20. desember 2013. Eftirsáttaumleitanir höfðaði aðalstefnandi mál fyrir Héraðsdómi Reykjaness, engagnstefnandi krafðist frávísunar málsins vegna ákvæðis í ráðningarsamningi umað mál vegna hans skuli reka fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Var málið felltniður og nýtt mál höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 16. apríl 2015. Verðurekki fallist á að aðalstefnandi hafi með framangreindu sýnt af sér tómlæti semleiði til þess að hún hafi fyrirgert rétti sínum. Samkvæmt öllu framangreindu erþað niðurstaða dómsins að aðalstefnandi eigi kröfu á gagnstefnanda vegnaorlofs. Óumdeilt er að fjárhæð þess er 776.760 krónur vegna 26 orlofsdaga. Þarsem aðalstefnandi hefur þegar nýtt sér átta orlofsdaga nemur krafa hennar537.757 krónum. Aðalstefnandi hefur lækkað kröfu sína vegna innborgunar aðfjárhæð 182.732 krónur og nemur ógreitt orlof hennar því 355.025 krónum. Þáhefur hún krafist 215.932 króna vangoldinna launa vegna frádráttargagnstefnanda við launauppgjör. Í samræmi við þá niðurstöðu að gagnstefnandahafi verið heimilt að endurkrefja hana um 121.036 krónur verður fallist á kröfuaðalstefnanda að fjárhæð 94.896 krónur. Það er því niðurstaða dómsins aðgagnstefnanda beri að greiða aðalstefnanda 449.921 krónu. Gagnstefnandi hefur andmæltvaxtakröfu aðalstefnanda á grundvelli tómlætis af hennar hálfu. Þar sem þeimsjónarmiðum hefur verið hafnað verður fallist á vaxtakröfu aðalstefnanda. Réttaðalstefnanda til höfuðstólsfærslu dráttarvaxta á 12 mánaða fresti má leiðabeint af ákvæðum 12. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Það er þvíóþarft að kveða á um slíka höfuðstólsfærslu í dómsorði. Í ljósi málsúrslita þykir réttað gagnstefnandi greiði aðalstefnanda málskostnað að fjárhæð 900.000 krónur. Barbara Björnsdóttirhéraðsdómari kveður upp þennan dóm. D Ó M S O R Ð : Gagnstefnandi, Birtingurútgáfufélag ehf., greiði aðalstefnanda, Auði Ingibjörgu Húnfjörð, 449.921 krónumeð dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti ogverðtryggingu frá 1. ágúst 2013 til greiðsludags. Gagnstefnandi greiðiaðalstefnanda 900.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 794/2013
Líkamsárás
Xvar sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr.19/1940 með því að hafa veist að fyrrverandi unnustu sinni, sest klofvega yfirhana og slegið og sparkað í andlit hennar og líkama með þeim afleiðingum að húnhlaut mar, yfirborðsáverka og eymsli á höfði, andliti, hálsi og handlegg. Viðmat á refsingu X var litið til þess að hann hafði meðal annars tvívegis áðurhlotið dóma fyrir líkamsárás, sbr. ítrekunarákvæði 2. mgr. 218. gr. b almennrahegningarlaga. Þá hefði X rofið skilyrði 160 daga reynslulausnar vegna fyrridóms fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. sömu laga. Var X því gert að sætafangelsi í 9 mánuði.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason ogKarl Axelsson settur hæstaréttardómari. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 11. desember 2013 í samræmivið yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsingákærða verði þyngd. Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsingverði milduð. Fallist er á það með héraðsdómi að við þær aðstæðursem um ræðir í málinu hafi framburður brotaþola í skýrslu hennar hjá lögregluóvírætt sönnunargildi, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 31. janúar 2013 ímáli nr. 363/2012. Sakarferill ákærða er rakinn í hinum áfrýjaða dómiað öðru leyti en því að þess var ekki getið að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur5. júní 2009 var ákærði dæmdur til fangelsisvistar meðal annars fyrirlíkamsárás gegn brotaþola, sem varðaði við 1. mgr. 218. gr. almennrahegningarlaga nr. 19/1940. Að þessu gættu en að öðru leyti með með vísan tilforsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnaðmálsins, þar með talin þóknun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verður aðmeðtöldum virðisaukaskatti, svo sem greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal veraóraskaður. Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnaðmálsins, 272.577 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Vilhjálms HansVilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. október 2013. Mál þetta, sem dómtekið var, 16. október sl. er höfðað af lögreglustjóranum áhöfuðborgarsvæðinu með ákæru dagsettri 23. apríl 2013,á X, kt. [ ], óstaðsettum í hús, fyrir líkamsárás með því að hafa, aðfaranóttfimmtudagsins 6. september 2012, ráðist með ofbeldi á fyrrverandi unnustu sína,A, á heimili hennar að [ ] í [ ], ráðist á hana þar sem hún lá í rúmi ísvefnherbergi sínu og slegið hana í andlitið, þar sem hún lá á gólfisvefnherbergisins sest klofvega yfir hana, slegið hana í höfuð, andlit oghendur og slegið höfði hennar í gólfið, síðan í stofu íbúðarinnar sparkað ílíkama hennar, allt með þeim afleiðingum að A hlaut mar, yfirborðsáverka ogeymsl víðsvegar á höfði og andliti, áverka á vinstra eyra, eymsl á hálsi, mar ábrjóstkassa og vinstri síðu, mar á hægri upphandlegg og mar, bólgur og tognun ávinstri hendi. Er talið að brot þetta varði við 217. gr.almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr. 82/1998. Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Ákærði neitar sök. Af hálfu verjandaákærða er krafist sýknu og að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði. Samkvæmt skýrslu lögreglu frá morgni fimmtudagsins 6. september 2012 kl. 04.55 var lögregla send á þeim tíma að [ ],kjallaraíbúð vegna tilkynningar um að maður væri að ráðast á konu inni ííbúðinni. Er lögreglan kom á staðinn hittu þeir fyrir A, brotaþola í máliþessu, og B sem báðar voru í uppnámi. Brotaþoli gerðilögreglu grein fyrir því að fyrrum sambýlismaður hennar, X, ákærði í máliþessu, hefði lamið hana. Í frumskýrslu kemur fram að sjá hafi mátt áverka íandliti brotaþola, handabaki og í vinstra eyra hennarverið minniháttar blæðing. Hafi skyrtan hennar verið rifin að aftan eftirátökin og bólga verið á vinstra handabaki. Varlögreglu tjáð að ákærði hefði farið úr íbúðinni rétt áður en lögreglan hafikomið á vettvang. Fram kemur að hans hafi verið leitað í hverfinu en án árangurs. Hafi lögreglan ekið brotaþola upp á slysadeildþar sem hún hafi farið í læknisskoðun. Hafi B fylgtbrotaþola á slysadeildina. Samkvæmt læknisvottorði C sérfræðings á Landspítalaháskólasjúkrahúsi frá 20. nóvember 2012 kom brotaþoliá slysa- og bráðadeild vegna áverkana sem hún hlaut 6. september2012. Í vottorðinu kemur fram að brotaþoli hafi verið með kúlu og þreifieymsli á hægra gagnauga, þreifieymsli yfirbeinhlutum hægra megin á höfði og kúlu með litlum húðblæðingum og miklumeymslum hægra megin á hnakka. Brotaþoli hafi einnig verið með bjúgur undirhægra auga og talsverð þreifieymsli yfir beinaumgjörðneðan til og til hliðar við beinaumgjörð auga. Þá kemur fram að hún hafi veriðmeð þreifieymsli vinstra megin í andliti yfir kjálkaliðsvæði ogað hana verki þar við að opna munn. Blóð hafi verið í vinstra eyra og fleiður á ytra eyra. Mar yfir mastoid beini vinstra meginog bak við eyrað ásamt mari og litlum húðblæðingum áutanverðu ytra eyra vinstra megin. Jafnfram hafi hún haft þreifieymsli vinstramegin á hálsi og um 10 cm ílangan marblett á vinstrisíðu og marblett á hægri upphandlegg. Á vinstri hendi hafi hún haft mar, bjúgurog bláma yfir miðhandarbeini og sárt hafi verið aðbeygja í þeim fingri um lið. Brotaþoli mætti á lögreglustöð 1. október 2012 og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrirlíkamsárás. Ákærði hefur greint svo frá aðumrætt sinn hafi hann hitt brotaþola niður í miðbæ Reykjavíkur. Bæði hafi þauverið undir áhrifum áfengis. Brotaþoli hafi verið með sjálfsvígshugsanir.Ákærði hafi farið heim með brotaþola að [ ]. Þar hafi á þeim tíma verið B, enbrotaþoli og B hafi verið í neyslu saman. Þær hafibáðar sprautað sig með Rítalíni. Inni í svefnherbergi íbúðarinnar hafibrotaþoli verið í slæmu ástandi og ákærði óttastvelferð hennar vegna endurtekinna sjálfsvígshugsana. Þau hafi vegna þessarifist. Hafi hann af þeim ástæðum og til að ná tilhennar löðrungað brotaþola með flötum lófa. Ekki hafi hún fengið neina áverkavið það. Hann hafi ekki slegið hana hnefahögg, svo semhonum væri gefið að sök. Hafi ekki um líkamsárás verið að ræða af hálfu ákærða. Ákærði kvaðst oft áður hafa komið aðbrotaþola í viðlíka ástandi. Brotaþoli hafi ekki verið ábyrg gjörða sinna erhún hafi verið með þessar hugsanir. B hafi ekkert afþessu séð þar sem B hafi ekki verið inni í herbergi íbúðarinnar. B hafi staðiðvið útidyr íbúðarinnar og ekki getað séð inn íherbergið. Ákærði hafi farið á brott. Hafi hann gengið um í talsverðan tíma enþví næst farið heim til D. Á leið inn til D hafi ákærði verið mjög reiður vegnamálsins og slegið með hnefa í vegg. Við það hafi hannfengið rispur á hægri hendi. Ákærði kvaðst viðurkenna að hafa sent brotaþolasms skeyti. Brotaþoli og ákærði hafi skipst á viðlíkaskeytum, en brotaþoli hafi sent slæm skeyti til ákærða. Ákærði kvaðst á sínumtíma hafa búið með brotaþola í um 5 ár. Hafi þau hætt sambúð 2009. Þau hafihins vegar hist oft eftir það. Brotaþoli féll frá eftir að húnlagði fram kæru á hendur ákærða fyrir líkamsárás. Gaf hún skýrslu hjá lögregluvegna málsins 3. október 2012. Greindi hún frá því aðhún og ákærði hafi verið í sambandi frá árinu 2006.Þau hafi öðru hvoru hætt saman en jafnan tekið saman aftur. Sambandi þeirrahafi endanlega lokið í lok árs 2011. Ákærði hafi neytt fíkniefna í miklum mæli og fljótlega byrjað að beita brotaþola ofbeldi. Hafi hannoft lagt á hana hendur og lögregla oft verið kölluðtil. Eftir sambandsslitin í lok árs 2011 hafi ákærði ofsótt brotaþola meðsímhringingum dag og nótt. Yfirleitt hafi hún ekkisvarað símhringingum, en stundum gert það til að ræða við ákærða. Brotaþolihefði á leigu íbúð í kjallara við [ ] í [ ]. Um viku fyrir árásardaginn hafibrotaþoli verið farin að sofa. Hjá henni hafi þá verið B vinkona hennar. Ákærðihafi bankað á dyr íbúðarinnar og verið undir áhrifumvímuefna. Hafi hann viljað komast inn. Hafi brotaþoli ekki þorað öðru en aðhleypa honum inn til að ekki yrði of mikill hávaði. Hafi brotaþoli ætlað aðfara að sofa, en ákærði farið á eftir henni og viljaðfá tölvu brotaþola. Hafi brotaþoli synjað ákærða um það. Hafi ákærði þá tuskaðbrotaþola til, án þess að atlagan hafi orðið alvarlegþað sinnið. Hafi hann í kjölfarið brotist inn í tölvu B. Hafi hann skemmtharðan disk í tölvunni. Einnig hafi hann tekið síma B. Við svo búið hafi hannfarið úr íbúðinni. Fimmtudaginn 6. september 2012 hafiákærði hringt í síma brotaþola en hún ekki svarað. Í framhaldi hafi hann hringtí síma B og B svarað. Hafi hann boðist til að greiðafyrir viðgerðarkostnað af tölvunni. Hafi þau tvö mæltsér mót á Monte Carlo. Hafi brotaþoli farið þangað ásamt vini sínum til aðhitta B. Ákærði hafi komið og fengið mikið reiðikast.Brotaþoli og B hafi farið að [ ]. Hafi þær farið aðsofa sitt í hvoru herbergi. Ákærði hafi bankað skömmu síðar. Hafi brotaþolihleypt honum inn. Hafi brotaþoli ekki viljað ræða við ákærða ogfarið inn í svefnherbergi. Hafi ákærði komið á eftir henni ográðist á hana í rúminu. Hafi hann slegið hana í andlit oghún lent á gólfinu. Þá hafi hann sest klofvega yfir hana þar semhún hafi hniprað sig saman á gólfinu. Hafi ákærði lamið hana margsinnis meðhnefa og höggin komið í höfuð brotaþola. Þá hafi hannlamið höfði hennar í gólfið. Er brotaþoli hafi notað hendur til að verja andlitsitt hafi ákærði lamið í hendur brotaþola. Hafi brotaþoli kallað til B aðhringja í Neyðarlínuna. Myndi brotaþoli illa það semgerst hafi í framhaldi en ákærði sennilega dregið brotaþola fram í stofu oghaldið áfram að sparka í brotaþola þar. Er B hafi komið út úr herbergi sínuhafi ákærði hrint henni. Hafi hann forðað sér áður en lögregla kom á staðinn.Lögregla hafi farið með brotaþola á Neyðarmóttöku. Hafi hún hlotið talsverðaáverka af atlögunni. Hafi brotaþoli verið hrædd um lífsitt umrætt sinn. Umrætt kvöld hafi brotaþoli sennilega verið búin að drekkatvo bjóra. Brotaþoli mætti á ný á lögreglustöð 22. október2012. Við það tilefni sýndi brotaþoli lögreglu fjölmörg sms símaskilaboð er húnhafði fengið frá ákærða. Voru nokkur þeirra líflátshótanir. B kvaðst umrætt sinn hafa búið heima hjá brotaþola að [ ], enbrotaþola hafi hún kynnst í meðferð í mars 2012. Um hafi verið að ræða erfitttímabil í lífi B. Hafi hún verið á götunni í ágúst 2012 er brotaþoli hafihringt og boðið B að vera hjá sér á meðan hún biðieftir að komast í meðferð. Aðfaranótt fimmtudagsins 6. september2012 hafi hún og brotaþoli verið í gleðskap. Þær hafi komið heim að [ ] umnóttina og ákærði verið með í för. Hafi B verið undiráhrifum áfengis, auk þess sem hún hafi tekið innRítalín. Atvik þess nótt myndi hún engu að síður. Eftir að í [ ] kom hafiákærði og brotaþoli verið inni í svefnherbergi. Þáhafi greinilegir pústrar farið af stað, en B hafiheyrt barsmíðar yfir í sitt herbergi. Brotaþoli hafi kallað á hjálp og B orðið hrædd og hringt í Neyðarlínuna. Í kjölfarið hafihún farið fram og séð þar sem ákærði hafi verið aðberja brotaþola. Hafi B farið að útidyrahurð og opnaðhana og sagt við ákærða að lögreglan væri á leiðinni. Ákærði hafi setið ofan ábrotaþola og lamið hana og höggin komið í höfuð oglíkama. Um leið hafi hann haldið í hár brotaþola. Hann hafi hætt og sagt að B yrði næst. Ákærði hafi heyrt bifreið koma aðhúsinu og hlaupið út. Eftir að lögregla kom á staðinnhafi verið farið með brotaþola á slysadeild. B kvaðst ekki muna eftir að ákærðihafi sparkað í líkama brotaþola þessa nótt. Hafi B séð áverka á andlitibrotaþola eftir atlögu ákærða. E hjúkrunarfræðingur gerði grein fyrir því að brotaþola hafiverið vísað til hennar eftir komu á slysadeild aðfaranótt fimmtudagsins 6. september 2012. Hafi hún símleiðis haft samband við brotaþola7. september 2012. Í kjölfarið hafi hún átt þrjúsímtöl við brotaþola, auk þess sem þær hafi senthvorri annarri tölvupóst í eitt sinn. Í þeim tilvikum er fólki væri vísað ímeðferð sem þessa væri venja að hefja ekki eiginlegameðferð fyrr en viðkomandi væri verkjalaus. Þá væri jafnan byrjað á símtölumþar til þeir sem væru í meðferð væru reiðubúnir íeiginleg viðtöl. Ekki hafi verið komið að því í tilviki brotaþola. Brotaþolihafi í símtölum skýrt frá árásinni 6. september 2012.Hafi brotaþoli greint frá ótta og vanlíðan í kjölfaratburðarins. Hafi hún að sögn endurupplifað ofbeldið ogforðast að fara út fyrir hússins dyr. Hún hafi verið hrædd við árásarmanninn. C læknir staðfesti læknisvottorð vegna brotaþola vegna áverkafrá 6. september 2012 og gerði nánari grein fyrir því. Jóhann Birkir Guðmundsson lögreglumaður greindi frá útkallilögreglu að [ ]umrætt sinn. Hafi brotaþoli verið illaútlítandi. Ákærði hafi verið farinn af vettvangi.Farið hafi verið með brotaþola á slysadeild. Áverkar hafi verið á brotaþola og þeir skráðir í frumskýrslu lögreglu. Brotaþoli hafi veriðí töluvert miklu uppnámi. Niðurstaða: Ákærða er gefið að sök líkamsárás, með því að hafa aðfaranóttfimmtudagsins 6. september 2012 ráðist með ofbeldi á brotaþola á heimili hennarað [ ] í [ ] þar sem hún lá í rúmi í svefnherbergi sínu og slegið hana íandlitið þar sem hún lá á gólfi svefnherbergisins, sest klofvega yfir hana,slegið hana í höfuð, andlit og hendur og slegið höfði hennar í gólfið, síðan ístofu sparkað í líkama hennar. Við þessa atlögu hafi brotaþoli hlotið mar,yfirborðsáverka og eymsl víðsvegar á höfði og andliti, áverka á vinstra eyra,eymsl á hálsi, mar á brjóstkassa og vinstri síðu, mar á hægri upphandlegg ogmar, bólgur og tognun á vinstri hendi. Er háttsemin talin varða við 217. gr. laga nr. 19/1940. Ákærði neitar sök. Kveðst hanneinungis hafa löðrungað brotaþola þessa nótt með flötum lófa. Hafi hún ekkihlotið áverka af. Svo sem áður er rakið féll brotaþolifrá eftir að hún gaf skýrslur sínar hjá lögreglu vegna málsins. Við þæraðstæður lítur dómurinn svo á að við mat á sönnun sé heimilt að byggja áskýrslugjöf brotaþola hjá lögreglu, sbr. 3. mgr. 111. gr.laga nr. 88/2008. Skýrsla brotaþola hjá lögreglu var nákvæm um þau atvikmálsins sem ákæra lýtur að. Greindi hún frá þvíhvernig ákærði hafi ráðist að henni í rúminu og slegiðhana. Hafi hún fallið fram úr rúminu þar sem ákærðihafi sest klofvega yfir hana. Þar hafi hann slegið hana hnefahögg í andlit,líkama og hendur er hún hafi borið þær fyrir höfuðið.Eins hafi hann slegið höfði hennar við gólf. Hana minnti að ákærði hafi sparkaðí líkama hennar í stofu. Brotaþoli var flutt á slysadeild í beinu framhaldi af því að lögregla kom á vettvang. Þar greindist hún meðáverka sem getur í ákæru. Samræmast þessir áverkarfrásögn brotaþola af atvikum. Að því leyti er sérstökástæða til að nefna að brotaþoli var með mar á hnakka semsamræmist því að ákærði hafi barið höfði hennar í gólfið, svo sem hún hefurstaðhæft. Atburðarásin er einnig studd vætti B semhefur lýst því hvernig hún hafi heyrt er ákærði hafi veist að brotaþola í næstaherbergi. Hafi brotaþoli hrópað á hjálp og beðið B aðhringja í Neyðarlínuna. Af upptöku af hringingu í Neyðarlínuna umrætt sinn sem,grein er gerð fyrir í rannsóknargögnum málsins heyrist kvenmaður hrópa ,,ái“ . Rennir allt þetta stoðum undir framburð brotaþola ímálinu. Framburður ákærða er hins vegar ekki trúverðugur þegar hann lýsir þvíað hann hafi einungis löðrungað brotaþola með flötum lófa. Fær það á engan háttsamrýmst þeim áverkum sem brotaþoli bar eftir atlöguákærða þessa nótt, en framburðir liggja fyrir í málinu um að brotaþoli hafiekki verið með áverka áður en ákærði kom í íbúðina. Þegar til þessara atriða erlitið telur dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi veist aðbrotaþola með þeim hætti er í ákæru greinir og meðþeim afleiðingum sem þar er rakið. Miðað við mar á síðu brotaþola verður miðað við aðákærði hafi sparkað í brotaþola. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.afiH Ákærði er fæddur í febrúar 1968 og á að baki langan brotaferil. Fimm sinnum hefur ákærðigengist undir sáttir fyrir brot á lögum um ávana- ogfíkniefni og einu sinni hefur ákærða með viðurlagaákvörðun verið gert að greiðasekt vegna umferðarlagabrots. Ákærði hefur fjórtán sinnum verið dæmdur fyrirbrot er varða refsingu samkvæmt almennum hegningarlögum s.s fyrir skjalafals,húsbrot, þjófnað, fjársvik og peningafals auk þess aðhafa brotið margítrekað gegn umferðarlögum og oftsinnis verið sviptur ökuréttiævilangt. Ástæða þykir til að geta þess að ákærði var með dómi Hæstaréttar 21. október 2004 dæmdur í 11 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 1.mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940. Þá var hann með dómiHéraðsdóms Reykjavíkur 19. október 2010 dæmdur í 8mánaða fangelsi fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. laganr. 19/1940. Ákærða var veitt reynslulausn 28. desember2011 í 1 ár á eftirstöðvum refsingar 160 dögum. Hefur hann rofið skilyrðireynslulausnarinnar, sem nú verðu tekin upp og dæmdmeð. Atlaga ákærða að brotaþola umrætt sinn var harkaleg. Á hann sér engarmálsbætur. Með hliðsjón af þessu, sbr. 218. gr. b.laga nr. 19/1940, er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 9 mánuði. Með hliðsjón af háttseminni og sakaferli ákærða verður refsingin ekkibundin skilorði. Ákærði greiði sakarkostnaðsamkvæmt sakarkostnaðaryfirliti og málsvarnar­launskipaðs verjanda, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, svo sem í dómsorðigreinir. Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp þennan dóm. D ó m s o r ð : Ákærði, X, sæti fangelsi í 9mánuði. Ákærði greiði 351.800 krónur í sakarkostnað, þar með talinmálsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonarhæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.
Mál nr. 150/2016
Fullnaðarkvittun Lánssamningur Gengistrygging Vextir Fjármálafyrirtæki Viðbótarkrafa
H hf. og L hf. deildu um hvort L hf. hefði við endurútreikning á fimm lánssamningum, sem höfðu verið bundnir ólögmætri gengistryggingu, verið heimilt að reikna vexti á gjalddaga sem gjaldfallið hefðu fyrir endurútreikninginn eftir 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að við heildarmat á öllum aðstæðum yrði að líta til þess hvaða áhrif viðbótarkrafan hefði á efnahag H hf. og óhagræði hans af því að þurfa að standa skil á henni. Var talið að þegar litið væri til stærðar H hf. og umsvifa félagsins væru áhrif viðbótarkröfunnar á H hf. svo veruleg að L hf. yrði sjálft að bera þann vaxtamun sem um var deilt í málinu.
DómurHæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson ogIngveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. febrúar 2016. Hann krefst þessað stefnda verði gert að greiða sér 1.165.866.988 krónur með dráttarvöxtumsamkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. maí2014 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrirHæstarétti.Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðarfyrir Hæstarétti.IEins og nánar er rakið í hinumáfrýjaða dómi lýtur mál þetta að fimm lánssamningum sem áfrýjandi gerði viðLandsbanka Íslands hf. og einu láni sem Grjóthylur ehf. gerði við bankann, enáfrýjandi tók það síðar yfir. Nánar tiltekiðvar um að ræða samning 4. nóvember 2003 að jafnvirði 650.000.000 krónur, 10.febrúar 2004 að jafnvirði 100.000.000 krónur, 29. ágúst 2005 að jafnvirði500.000.000 krónur, 22. ágúst 2006 að jafnvirði 200.000.000 krónur, 2. apríl2007 að jafnvirði 400.000.000 krónur og 21. maí sama ár að jafnvirði150.000.000 krónur. Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 varsamningum þessum ráðstafað til stefnda.Stefndi taldi að lánssamningarnirhefðu að geyma ólögmæta bindingu við gengi erlendra gjaldmiðla. Þvíendurreiknaði hann lánin til samræmis við ákvæði laga nr. 151/2010 um breytinguá lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 18. gr. þeirra laga, ogtilkynnti áfrýjanda það með bréfum 22. september, 11. október og 11. nóvember2011. Samkvæmt þeim útreikningum hækkaði lánssamningur 10. nóvember 2003 úr740.995.581 krónu í 808.278.185 krónur eða um 9,08%, lánssamningur 12. febrúar2004 lækkaði úr 100.891.147 krónum í 89.278.027 krónur eða um 11,51%,lánssamningur 29. ágúst 2005 úr 987.647.190 krónum í 566.768.412 krónur eða um42,61%, lánssamningur 22. ágúst 2006 lækkaði úr 475.744.698 krónum í308.996.855 krónur eða um 35,05%, lánssamningur 2. apríl 2007 lækkaði úr901.156.546 krónum í 429.311.711 krónur eða um 52,36% og lánssamningur 25.apríl 2007 lækkaði úr 320.189.608 krónum í 118.041.934 krónur eða um 63,13%.Samkvæmt þessu lækkuðu eftirstöðvar samninganna um samtals 1.205.949.646krónur. Við þessa útreikninga var tekið tillit til viðbótarkröfu vegna vaxtafyrir liðna tíð samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001.Áfrýjandi heldur því fram að hann hafií kjölfar umræddra endurútreikninga leitað eftir frekari leiðréttingu frástefnda. Því til stuðnings hafi hann vísað til dóms Hæstaréttar 15. febrúar2012 í máli nr. 600/2011 þar sem hafnað var að kröfuhafa væri heimilt að reiknaafturvirkt hærri vexti en skuldari hafði staðið skil á. Meðal málsgagna ertölvupóstur 7. febrúar 2014 frá forstöðumanni fyrirtækjasviðs stefnda tiláfrýjanda þar sem áréttað var að bankinn væri ekki að hafna því að endurreiknalánin en teldi þörf á frekari upplýsingum áður en það yrði gert. Þá sagði ítölvupóstinum að til stæði af hálfu bankans, í ljósi dóms réttarins 12.desember 2013 í máli nr. 463/2013, að leiðrétta endurútreikninga þegar í hlut ættulítil félög en að svo stöddu yrði ekki leiðrétt gagnvart þeim sem teldust stór.Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómihefur áfrýjandi gert lánssamningana upp að fullu. Hefur hann aflað útreikningsá fjárhæð þeirrar viðbótarkröfu sem hann hefur staðið stefnda skil á vegnamismunar á umsömdum vöxtum og vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 þar tilstefndi endurútreiknaði lánin. Krafa áfrýjanda á hendur stefnda svarar tilþeirrar fjárhæðar og er ekki tölulegur ágreiningur með aðilum.IIÁfrýjandi hefur höfðað málið tilendurgreiðslu á því sem hann telur sig hafa ofgreitt við uppgjör fyrrnefndralánssamninga sem bundnir voru ólögmætri gengisviðmiðun. Stefndi hefur borið þvívið að óskráðar reglur um endurheimtu ofgreidds fjár komi í veg fyrir að krafaáfrýjanda verði tekin til greina. Um þá málsástæðu er þess að gæta að stefndiátti sjálfur frumkvæði að því að taka skuldarsambandið upp með endurútreikningilánanna en með því viðurkenndi hann í verki rétt áfrýjanda til leiðréttingareftir því sem lög stóðu til. Getur stefndi því ekki borið fyrir sig að reglurum endurheimtu ofgreidds fjár hindri að krafa áfrýjanda verði tekin til greina.Verður heldur ekki talið skipta máli í þessu sambandi þótt áfrýjandi hafi ekkigert sérstakan fyrirvara við endurútreikninga stefnda, enda lýsti hann því yfirmeð fyrrgreindum tölvupósti 7. febrúar 2014 að frekari leiðrétting gagnvartáfrýjanda gæti komið til greina að fengnum frekari upplýsingum. Vegna þessaraviðbragða stefnda getur engu skipt þótt áfrýjandi hafi ekki gert fyrirvara viðendurútreikningana þegar þeir bárust honum. Að þessu gættu ráðast úrslitmálsins af því hvort stefnda hafi verið heimilt við endurútreikning lánanna aðreikna með viðbótarkröfu vegna þess vaxtamunar sem krafa áfrýjanda umendurgreiðslu lýtur að.Svo sem Hæstiréttur hefur ítrekað slegið föstuer það meginregla kröfuréttar að kröfuhafi, sem fengið hefur minna greitt enhann á rétt til úr hendi skuldara, eigi tilkall til viðbótarkröfu. Frá þeirrimeginreglu hefur verið viðurkennt að gera verði undantekningar við sérstakaraðstæður. Í þeim efnum hefur einkum komið til greina að víkja frá meginreglunniþegar skuldari hefur með réttu getað miðað við að lögskiptunum sé endanlegalokið og hann síðan í samræmi við það hagað ráðstöfunum sínum í góðri trú. Viðmat á þessu verður einnig að líta til eðlis skuldarsambandsins, aðstöðu bæðikröfuhafa og skuldara og hvorum þeirra stóð nær að ganga úr skugga um að efndirværu fullnægjandi eða bera áhættuna af mistökum sem leiddu til vangreiðslu. Þáverður viðbótarkröfu frekar hafnað ef kröfuhafi hefur sýnt af sér tómlæti viðað hafa uppi kröfu um leiðréttingu. Að baki undantekningum frá meginreglunnibúa sjónarmið um öryggi í viðskiptum, en viðbótarkrafa getur haft í för með sérmikla röskun á fjárhagslegum hagsmunum skuldara. Á það sérstaklega við þegarviðvarandi skuldarsamband til lengri tíma er tekið upp hvað fortíðina varðar ogskuldara í framhaldinu gert að standa kröfuhafa skil á umtalsverðumviðbótargreiðslum, þvert á væntingar skuldara um hið gagnstæða miðað við þaðsem aðilar hafa fram að því lagt til grundvallar í lögskiptum sínum. Eftir þvísem óhagræði skuldara er meira af viðbótarkröfunni því sterkari eru rökin tilað víkja frá meginreglunni.Þegar virt er staða aðila ískuldarsambandi, með tilliti til þess hvort fallist verði á viðbótarkröfu,hefur í dómaframkvæmd verið talið skipta máli hvort skuldari er annars vegareinstaklingur, lítið fyrirtæki eða fámennt sveitarfélag eða hins vegar stórtfyrirtæki. Að því er varðar fyrirtæki var viðbótarkröfu hafnað í dómiHæstaréttar 30. maí 2013 í máli nr. 50/2013 og 30. janúar 2014 í máli nr.544/2013, en þar áttu í hlut smáfyrirtæki. Aftur á móti var viðbótarkrafa tekintil greina í dómum réttarins 12. desember 2013 í máli nr. 463/2013 og 13.október 2016 í máli nr. 34/2016 en þar var um að ræða mjög stór fyrirtæki áíslenskan mælikvarða. Í dómi 6. nóvember 2014 í máli nr. 110/2014 og í dómum15. október 2015 í málum nr. 34 og 35/2015 reyndi hins vegar á tvö fyrirtæki,sem ekki voru jafn stór en með þó nokkur umsvif. Þar var hafnað viðbótarkröfu áhendur öðru fyrirtækinu, en hún tekin til greina á hendur hinu. Samkvæmt þessuer ekki útilokað að vikið verði frá meginreglunni þótt í hlut eigi meðalstór ogjafnvel stærri fyrirtæki, en þá þarf eðli máls samkvæmt meira að koma til svoþað verði gert. Er þess þá að gæta að stærri fyrirtæki búa að jafnaði yfirmeiri þekkingu á sviði fjármála eða eiga í öllu falli auðveldara með að aflasér hennar en þau sem smærri eru. Af þeim sökum verða gerðar ríkari kröfur tilaðgæslu stærri fyrirtækja gagnvart afleiðingum þeirra skuldbindinga sem þaugangast undir. Af þessu leiðir að því aðeins verður vikið frá meginreglunni umrétt kröfuhafa til fullra efnda, þegar stærri fyrirtæki eiga í hlut, að beitingreglunnar leiði til svo verulegrar röskunar á hagsmunum skuldara og jafnvægi ískuldarsambandinu að ekki verði við unað.Hvort sem litið er til hlutfallsviðbótarkröfu stefnda af höfuðstól lánanna, að teknu tilliti til hækkunarverðlags frá því lánin voru tekin, heildarfjárhæðar vaxtagreiðslna eða aðeinsfjárhæðar viðbótarkröfunnar, er öldungis ljóst að hún er umtalsverð. Verðureinnig að fallast á með héraðsdómi að lítið hlutfall afborgana breyti því ekkiað skapast hafi næg festa við framkvæmd lánssamninganna. Jafnframt verður lagt tilgrundvallar að báðir aðilar gengu út frá því að gengistrygging höfuðstólslánanna væri gild og eru því engin efni til að telja að áfrýjandi hafi ekkiverið í góðri trú um að greiðslur hans á vöxtum hverju sinni fælu í sér fullarefndir. Mæla þessi atriði með því að krafa áfrýjanda verði tekin til greina, ánþess þó að þau ein og sér geti ráðið úrslitum. Að þessu gættu verður viðheildarmat á öllum aðstæðum að líta til þess hvaða áhrif viðbótarkrafan hefur áefnahag áfrýjanda og óhagræði hans af því að þurfa að standa skil á henni.Eins og áður greinir var áfrýjandatilkynnt um endurútreikninga stefnda á lánunum með bréfum 22. september, 11. októberog 11. nóvember 2011, en þeir tóku mið að því að stefndi ætti viðbótarkröfuvegna vangreiddra vaxta fyrir liðna tíð. Samkvæmt ársreikningi áfrýjanda 2011námu rekstartekjur hans 1.834.251.505 krónum eftir að tekið hafði verið tillittil niðurfærslu að fjárhæð 632.106.862 krónur vegna aflaverðmætis til eiginvinnslu. Rekstarhagnaður þess árs fyrir skatta og fjármagnsliði nam 376.555.741krónu og var eigið fé neikvætt um 137.235.811 krónur. Samkvæmt þessu nemurviðbótarkrafan tæplega tveimur þriðju hlutum tekna ársins eða rétt tæpumhelmingi eftir því hvort tekið er tillit til niðurfærslu vegna afla til eiginvinnslu. Þá nemur viðbótarkrafan rétt tæpum þreföldum rekstrarhagnaði ársins oghún ein skiptir sköpum um hvort eignir áfrýjanda hrökkva fyrir skuldum á þvíári. Að öllu þessu virtu eru áhrif viðbótarkröfunnar á áfrýjanda svo veruleg aðstefndi verður sjálfur að bera þann vaxtamun sem deilt er um í málinu og leiðiraf því að lánin voru bundin ólögmætri gengistryggingu. Var stefnda því óheimiltað taka tillit til viðbótarkröfunnar við endurútreikning lánanna og ber aðstanda áfrýjanda skil á fjárhæð er svarar til hennar. Fá ákvæði laga nr.151/2010, sem breyttu lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, ekki haggaðþeirri niðurstöðu, svo sem Hæstiréttur hefur ítrekað lagt til grundvallar ídómum sínum um viðbótarkröfur vegna vaxta af gengistryggðum lánum, sbr. dómréttarins 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011 og fleiri dóma sem gengu íkjölfarið. Verður krafa áfrýjanda á hendur stefnda því tekin til greina meðdráttarvöxtum frá þingfestingu málsins í héraði í samræmi við kröfu áfrýjanda,en hann á rétt á þeim vöxtum frá málshöfðun, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr.38/2001.Stefnda verður gert að greiðaáfrýjanda málskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi á báðum dómstigum eins ogí dómsorði greinir. Dómsorð:Stefndi, Landsbankinn hf., greiði áfrýjanda,Hraðfrystihúsi Hellissands hf., 1.165.866.988 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. maí 2014 tilgreiðsludags.Stefndi greiði áfrýjanda samtals1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8.janúar 2016.Málþetta var höfðað með stefnu birtri 16. apríl 2014 og dómtekið að lokinniaðalmeðferð 8. desember sl. Stefnandi er Hraðfrystihús Hellissands hf.,Bárðarási 10, Hellissandi. Stefndi er Landsbankinn hf., Austurstræti 11,Reykjavík.Stefnandikrefst þess að stefndi greiði sér 1.165.866.988 krónur með dráttarvöxtumsamkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 8. maí 2014 auk málskostnaðar. Stefndikrefst aðallega sýknu, en til vara lækkunar á kröfum stefnanda. Hann krefsteinnig málskostnaðar.Gættvar ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áður en dómur varkveðinn upp. Helstuágreiningsefni og yfirlit um málsatvik.Meginágreininguraðila snýr að því hvort við endurútreikning sex gengistryggðra lána, semstefnandi tók hjá Landsbanka Íslands hf. á árunum 2003 til 2007 og nánar ergerð grein fyrir síðar, hafi borið að taka tilliti til fullnaðarkvittana vegnaþeirra samningsvaxta sem stefnandi hafði þá greitt. Atvik málsins eru að meginstefnuágreiningslaus og er ekki um það deilt að umrædd lán hafi verið bundinólögmætri gengistryggingu. Ekki er lengur um að ræða tölulegan ágreining meðaðilum. Þá liggur fyrir að stefndi hefur tekið við réttindum og skyldumlánveitanda af Landsbanka Íslands hf. vegna umrædds láns, sbr. ákvörðunFjármálaeftirlitsins 9. október 2008, og er því réttilega stefnt til varnar.LandsbankiÍslands hf. var um árabil viðskiptabanki stefnanda sem fæst við útgerð ogfiskverkun. Hjá fyrirtækinu starfa um 80 manns, þar af tveir viðskrifstofuhald. Stefnandi tók á árunum 2003 til 2007 sex lán hjá bankanum semhér segir:Lánssamningur nr. 553 um fjölmyntarlán til 15 ára undirritaður 4. nóvember 2003. Höfuðstóll var að jafnvirði 650 milljóna króna og var lánið bundið við gengi bandaríkjadala (20%), svissneskra franka (40%) og japanskra jena (40%). Greiða skyldi lánið með 30 jöfnum afborgunum á sex mánaða fresti, í fyrsta sinn 15. júní 2004. Vextir skyldu vera svonefndir LIBOR vextir með 1,35% álagi. Greitt var af láninu til samræmis við þetta að frátalinni afborgun 15. desember 2008 sem var frestað.Lánssamningur nr. 460 til fimm ára, sem gert var ráð fyrir að yrði tvívegis framlengdur til fimm ára, þannig að afborganir voru frá upphafi miðaðar við 15 ár (nefnt „blöðrulán“). Höfuðstóll var að jafnvirði 100 milljóna króna bundinn við gengi evru. Lánið skyldi greiða með 20 afborgunum á þriggja mánaða fresti þannig að á fyrstu 19 gjalddögunum skyldu greiðast 1/60 hluti lánsupphæðar, en á lokagjalddaga 1. mars 2009 41/60 hlutar. Vextir skyldu vera svonefndir LIBOR vextir með 1,35% álagi og greiðast á þriggja mánaða fresti. Skilmálum lánsins var síðar breytt svo að greiðslur skyldu vera á sex mánaða fresti frá og með gjalddaga 15. desember 2004 að telja. Á gjalddaga hinn 15. desember 2008 samþykkti stefndi að afborgunarhluta yrði frestað þannig að síðari afborganir myndu hækka sem því næmi. Samningurinn var undirritaður 10. febrúar 2004. Lánssamningur um fjölmyntarlán nr. 3504 til fimm ára undirritaður 29. ágúst 2005. Höfuðstóll var að jafnvirði 500 milljónir króna, bundinn við gengi svissneskra franka (60%), japanskra jena (20%) og sænskra króna (20%). Lánið skyldi greiða með einni greiðslu í lok lánstímans 15. desember 2010. Vextir skyldu vera svonefndir LIBOR og STIBOR vextir með 1,25% álagi og skyldu greiðast á 6 mánaða fresti, fyrst 15. júní 2006. Á lokagjalddaga var endursamið um niðurgreiðslu lánsins og láninu myntbreytt. Hinn 15. júní 2011 mun 1/5 hluti eftirstöðva lánsins hafa verið greiddur.Lánssamningur nr. 5539 til fimm ára undirritaður 22. ágúst 2006. Höfuðstóll var að jafnvirði 200 milljóna króna, bundinn við gengi japanskra jena. Greiða skyldi lánið með einni greiðslu í lok lánstíma, 15. júní 2011. Vextir skyldu vera svonefndir LIBOR vextir með 1,65% álagi og greiðast á 6 mánaða fresti, fyrst 15. desember 2006. Lánssamningur nr. 7463 um fjölmyntarlán til þriggja ára, undirritaður 2. apríl 2007. Höfuðstóll var að jafnvirði 400.000.000 króna, bundinn við gengi svissneskra franka (50%) og japanskra jena (50%). Upphaflegur lántaki var Grjóthylur ehf., en skuldbindingin var yfirtekin af stefnanda 6. febrúar 2008. Greiða skyldi lánið með einni greiðslu í lok lánstíma 10. apríl 2010. Vextir skyldu vera svonefndri LIBOR vextir með 1,6% álagi og skyldu greiðast á þriggja mánaða fresti, fyrst 10. júlí 2007. Á lokagjalddaga var endursamið um lánsskilmála og um myntbreytingu lánsins þannig að afborganir yrðu á þriggja mánaða fresti og 1/80 hluti lánsins greiddur á hverjum gjalddaga. Lánssamningur nr. 8086 um fjölmyntarlán til fimm ára, undirritaður 21. maí 2007. Höfuðstóll var að jafnvirði 150.000.000 króna bundinn við gengi svissneskra franka (50%) og japanskra jena (50%). Greiða skyldi lánið með 10 afborgunum á sex mánaða fresti þannig að á fyrstu 9 gjalddögum lánsins skyldu greiðast 1/30 hluti þess og á lokagjalddaga, hinn 15. júní 2012, 21/30 hluti. Vextir skyldu vera svonefndir LIBOR vextir með 1,35% álagi og skyldu þeir greiðast á sömu gjalddögum og afborganir, fyrst 15. desember 2007. Meðbréfi 22. september 2001, fjórum bréfum 11. október þess árs og bréfi 11.nóvember þess árs tilkynnti stefndi stefnanda að hann hefði endurreiknaðlánasamningana í samræmi við ákvæði laga nr. 151/2010. Í öllum tilvikum lækkuðueftirstöðvar lánanna samanborið við það ef þau hefðu verið gengistryggð. Þákemur fram að stefnandi hafi greitt lánin upp, auk tveggja erlendra lána, meðtveimur nýjum lánum í erlendum myntum sem tekin hafi verið hjá stefnda 15.desember 2011. Í stefnu er vísað til þess aðstefnandi hafi átt í samskiptum við stefnanda um frekari leiðréttingu og vísaðmeðal annars til dóms Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011 ogsíðari dóma um fullnaðarkvittanir. Segir jafnframt að stefndi hafi ekki fallistá sjónarmið stefnanda og talið sig eiga viðbótarkröfu um vexti aftur í tímann.Er um þetta vísað til tölvubréfs starfsmanns stefnda til stefnanda 7. febrúar2014. Þá segir í stefnu að í ljósi afstöðu stefnda hafi stefnandi aflaðútreiknings sérfræðings á endurgreiðslukröfu sinni. Eru þeir útreikningar, semekki er ástæða til að rekja sérstaklega, dagsettir 7. apríl 2014.Viðaðalmeðferð málsins gaf aðilaskýrslu Ólafur Rögnvaldsson, framkvæmdastjóristefnanda. Í skýrslu hans kom meðal annars fram að lánasamningar fyrirtækisinsvið Landsbanka Íslands hf. hefðu alfarið verið gerið að frumkvæði bankans ogmeð þeim hætti sem bankinn hefði ákveðið nánar. Í kjölfar hruns áfjármálamörkuðum haustið 2008 hefði stefnandi átt við verulegafjárhagserfiðleika að stríða, ekki síst vegna gjaldmiðlaskiptasamninga semgerðir hefðu verið við Landsbanka Íslands hf. Samkomulag hefði verið gert viðbankann um þessa samninga og einnig hefði verið gert samkomulag við stefnandasem tekið hafði yfir lán Landsbanka Íslands hf. Í samkomulagi stefnanda viðstefnda hefði meðal annars falist algjört fjárfestingarbann og skuldbinding tilað hækka ekki laun stjórnenda fyrirtækisins. Ekki hefði heldur mátt greiða arð.Þessu skilmálum hefði ekki verið aflétt fyrr en 4. júní 2014.Helstu málsástæður og lagarök aðila Stefnandi byggir málatilbúnaðsinn á því að fullnægt sé öllum þeim skilyrðum, sem mótuð hafi verið ídómaframkvæmd, til þess að hann geti byggt rétt á fullnaðarkvittunum vegnagreiðslu vaxta framangreindra lána. Stefnandi hafi þannig verið í góðri trú umað með vaxtagreiðslum til stefnda væri hann að efna að fullu skyldur sínar aðþessu leyti. Hann vísar til þess að viðbótarkrafa stefnda vegna lánanna hafiverið veruleg og festa hafi verið í framkvæmd samninganna. Hafi því verið um aðræða verulega röskun á stöðu stefnanda sem meðal annars hafi komið fram í þvíað stefnandi gekk að afarkostum stefnda við skuldaaðlögun haustið 2008. Að þvíer varðar stöðu aðila vísar stefnandi til þess að hann hafi enga sérþekkingu ágengismálum og alls ekki þekkingu sem jafna megi við þekkingufjármálafyrirtækis. Lögð er á það áhersla að staða stefnanda sé gerólík því semfjallað hafi verið um dómum Hæstaréttar vegna stærri fyrirtækja. Stefnandi sélítið sjávarútvegsfyrirtæki, sem um fjármögnun og hvernig henni skyldi hagaðhverju sinni, hafi reitt sig á viðskiptabanka sinn og sérfræðinga hans sem hafisamið alla lánasamninga og önnur skjöl sem tengdust lántökum stefnanda. Af hálfu stefnda er á því byggtað stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann eigi rétt á endurgreiðslu ágrundvelli reglna um endurheimt ofgreidds fjár, enda lagaskilyrði fyrir slíkumendurheimturétti ekki til staðar. Endurútreikningur í september, október ognóvember 2011 hafi í reynd falið í sér að stefndi endurgreiddi stefnanda þaðsem talið var nema inneign stefnanda vegna ólögmætrar gengisbindingar, í formilækkunar lánsskuldbindinganna, en stefndi hafi dregið þá endurgreiðslu frákröfu sinni um viðbótarvexti af lánunum. Vísað er til þess að stefnandi hafiekki haft uppi mótmæli eða fyrirvara við þetta tækifæri eða þegar lánin voru aðfullu greidd upp. Með vísan til þessa og að teknu tilliti til þess aðlánsskuldbindingarnar áttu að sönnu að bera vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr.laga nr. 38/2001, verði ekki séð að grunnskilyrði endurheimturéttar, þ.á m. umofgreiðslu skuldbindingar, séu uppfyllt. Þannig sé meðal annars ljóst aðstefndi hafi engan veginn „auðgast“ á kostnað stefnanda við endurútreikningana.Þvert á móti verði að líta svo á að endurheimtukrafan, sem miðast við aðreiknaðir væru lágir erlendir vextir af íslenskri óverðtryggðri lánsfjárhæð,teljist frekar fela í sér auðgun stefnanda, á kostnað stefnda. Komi til álita að stefnandi getibyggt kröfu á reglum um fullnaðarkvittanir vísar stefndi til þess að ekki hafiverið sýnt fram á að skilyrðum þar að lútandi sé fullnægt, en stefnandi berisönnunarbyrðina að þessu leyti. Stefndi leggur áherslu á að stefnandi sé stórtútgerðarfyrirtæki sem hafi tekjur að verulegu leyti í erlendum myntum. Þá hafihöfuðstóll lána stefnanda lækkað verulega við endurútreikning stefnda. Á árinu2012 hafi tekjur af aðalstarfsemi félagsins þannig numið rúmlega 2,1 milljörðumkróna og eignir alls um 3,5 milljarðar króna. Hafi á engan hátt verið sýnt framá eða sannað að fjárhæðir viðbótarkrafna vegna vaxta samkvæmt 4. gr. laga nr.38/2001 hafi valdið stefnanda sérstakri röskun. Stefndibendir einnig á að um sé að ræða tiltölulega gömul lán. Skilmálar meginþorralána stefnanda, þ.e. lán nr. 460, nr. 3504, nr. 5539 og nr. 7763 hafi ekkifalið í sér mikla greiðslubyrði fyrir stefnanda meginþorra lánstímans og hafistefnandi á umsömdum lánstíma fyrst og fremst greitt vexti. Því hafi ekki veriðkomin sérstök festa á greiðslu lánanna. Ef litið sé til raunvirðis lánanna(miðað við vísitölu neysluverðs) á endurútreikningsdegi þá verði heldur ekkiséð að viðbótarkröfur stefnanda hafi getað talist vera íþyngjandi. Stefnditelur einnig að framreikna eigi höfuðstól lána þegar hlutfall viðbótarkröfu sémetið.Þáer á því byggt að stefnandi hafi verið í samningsstöðu til að hafa áhrif áeinstök atriði í skilmálum lánssamninganna og hafi hann jafnframt haft brýnttilefni til að leita sér nauðsynlegrar sérfræðiaðstoðar við samningsgerðina.Ekki verði heldur talið að stefnandi hafi getað verið í góðri trú um, er hanngreiddi afborganir og/eða vexti, að vextir væru endanlega greiddir þó að sáþáttur skuldarinnar, þ.e. lánsmyntin, sem ótvírætt var forsenda vaxtanna, ættieftir að sæta endurskoðun. Stefnanda hafi þannig, með tilliti til stærðar ogumfangs, og sérfræðiþekkingar á gjaldeyrisviðskiptum, vart getað dulistsamhengi milli mynttilgreiningar og vaxtaviðmiðunar, en slíkt hljóti, eins ogannað, að skipta máli við heildarmatið.Er hér og sérstaklega til þess vísað að stefnandi kaus viðendurfjármögnun skulda sinna hjá stefnanda, í desember 2011, að hafa lán sín íerlendum myntum. Að lokum er til þess vísað að stefndi hafi haft uppiviðbótarkröfur sínar um vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 án ástæðulausratafa. Niðurstaða Dómurinntelur fram komið að hlutfall viðbótarkröfu stefnda vegna afturvirks útreikningsvaxta samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 hafi í sjálfu sér veriðumtalsvert hvort sem litið er til höfuðstóls fyrrgreindra lána,heildarvaxtagreiðslna eða einungis þeirra fjárhæða sem hér var um að ræða. Þáverður ekki á það fallist með stefnda að lítið hlutfall afborgana af höfuðstólleiði til þess að líta beri svo á að ekki hafi myndast nægileg festa ílögskiptum aðila að þessu leyti. Sömuleiðis verður ekki talið að sú staðreyndað vaxtagreiðslur höfðu átt sér stað um nokkuð langt skeið, með þeimafleiðingum að viðbótarkröfur stefnda um vexti urðu tiltölulega hátt hlutfallaf höfuðstól, mæli gegn því að stefnandi geti byggt rétt á fullnaðarkvittunum.Í málinu er hins vegar til þess að líta að árið2011, þegar endurútreikningur fór fram, námu rekstrartekjur stefnanda 2,4milljörðum króna en eignir 3,3 milljörðum. Er af þessu, svo og öðrum gögnummálsins, ljóst að stefnandi getur ekki talist lítið fyrirtæki á íslenskanmælikvarða. Einnig verður að leggja til grundvallar að stefnandi, semframleiðir neysluvöru til sölu á erlendum mörkuðum, hafi í krafti fjárhagslegsstyrkleika síns verið í aðstöðu til að leggja mat á kosti og galla þess að takalán sem fylgdi gengi erlendra gjaldmiðla eða þá afla sér sjálfstæðrar ráðgjafarum það efni. Umfram annað verður þó að horfa til þess að endurútreikningurstefnda leiddi ekki til þess að stefnandi væri skyndilega krafinn um auknargreiðslur heldur var þvert á móti um það að ræða að umsaminn höfuðstóll lánaværi færður niður, í flestum tilvikum verulega, á grundvelli endurútreikningsstefnda. Er og ekki komið fram í málinu að greiðslubyrði stefnanda hafi aukistí framhaldi af endurútreikningi stefnda. Þá liggur fyrir að stefnandi greiddiáfram af lánum sínum án fyrirvara við endurútreikningi stefnda og greiddi láninloks upp með töku nýrra lána.Þeir samningar sem um ræðir í máli þessu nema allirverulegum fjárhæðum og hlutu því, eðli málsins samkvæmt, að einhverju leyti aðvera sniðnir að þörfum stefnanda. Verður þessum samningum ekki jafnað tilþeirra stöðluðu samninga um bílalán sem um var deilt í því máli sem lyktaði meðdómi Hæstaréttar 6. nóvember 2014 í máli nr. 110/2014. Getur það því ekki haftþýðingu um niðurstöðu málsins þótt fyrir liggi að stefndi hafi ákveðið aðfallast á fullnaðarkvittanir vegna slíkra samninga.Að virtum framangreindum atriðum þykir stefnandiekki hafa sýnt fram á að áskilnaður stefnda um vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr.laga nr. 38/2001 til samræmis við ákvæði laga nr. 151/2010 hafi valdið honumsvo verulegri og óvæntri röskun á fjárhagslegri stöðu að það standi stefnda nærað bera áhættuna af þeim vaxtamun sem áður er lýst, sbr. til hliðsjónar dómaHæstaréttar 15. október 2015 í málum nr. 34 og 35/2015. Eru því ekki uppfylltskilyrði til að víkja frá téðum fyrirmælum laga nr. 38/2001 viðvíkjandi endurútreikningigengistryggðra lána með vísan til fyrrgreindra ákvæða 72. gr. stjórnarskrárlýðveldisins Íslands, sbr. 10. gr. laga nr. 97/1995, og áðurlýstrar reglufjármunaréttar um fullnaðarkvittanir. Verður stefndi því sýknaður af kröfumstefnanda. Meðhliðsjón af vafaatriðum málsins þykir rétt að málskostnaður falli niður.Af hálfu stefnanda flutti málið Sigurður G.Guðjónsson hrl.Af hálfu stefnda flutti máli Andri Árnason hrl.Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.D Ó M SO R ÐStefndi,Landsbankinn hf., er sýkn af kröfu stefnanda, Hraðfrystihúss Hellissands hf. Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 615/2015
Hlutabréf Kaupsamningur Söluréttur Kaupréttur Tekjuskattur Dómur Málsforræði
Með samningum í júní 2004 og september 2005 keypti FB ehf., sem var einvörðungu í eigu Þ, hlutabréf í SF hf. af því félagi að nafnverði 50.000.000 krónur á árinu 2004 og 100.000.000 krónur á árinu 2005. Samkvæmt kaupsamningunum skuldbatt félagið sig til að eiga hlutabréfin eigi skemur en í tvö ár auk þess sem Þ, sem var á þessum tíma forstjóri SF hf., var óheimilt að veðsetja eða framselja eignarhlut sinn í FB ehf. á gildistíma samninganna. Samhliða kaupsamningnum frá september 2005 gerðu félögin með sér samning sem veitti FB ehf. einhliða sölurétt og SF hf. einhliða kauprétt á framangreindum hlutum í SF hf. og var búið svo um hnútana að ekki hefði orðið neinn hagnaður af sölu félagsins á þeim bréfum til SF hf. hvort sem sölu- eða kauprétturinn hefði verið nýttur, til dæmis í kjölfar þess að Þ hefði látið af störfum að eigin ósk eða verið sagt upp störfum vegna vanefnda á starfsskyldum sínum. Þ var sagt upp störfum af öðrum orsökum í júní 2006 og við það varð sölu- og kauprétturinn á grundvelli samningsins ekki virkur. Viku síðar seldi FB ehf. hlutabréfin á almennum markaði með verulegum hagnaði. Með úrskurðum ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar voru opinber gjöld Þ vegna gjaldársins 2007 endurákvörðuð eins og umræddar tekjur væru tekjur hans vegna starfstengdra hlunninda. Í dómi Hæstaréttar kom fram að 1. mgr. 1. töluliðar A. liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt tæki bæði til nýrra og áður óþekktra tegunda starfstengdra greiðslna féllu þær á annað borð undir hina almennu skilgreiningu ákvæðisins. Í samræmi við það væri ekkert því til fyrirstöðu að skattyfirvöld tækju á álitamálum, sem slíkri nýbreytni í starfstengdum greiðslum kynnu að fylgja, eftir því sem þau kæmu upp í skattaframkvæmd. Með vísan til efnis samninganna og 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 var fallist á með Í að líta skyldi framhjá því í skattalegu tilliti að hin starfstengdu hlunnindi hefðu með umræddum samningum verið látin falla einkahlutafélagi Þ í skaut, þar sem hann hefði notið hlunnindanna í raun. Þau verðmæti, sem í þeim hefðu verið fólgin, hefðu því verið skattskyld hjá honum sem tekjur samkvæmt l. mgr. 1. töluliðar A. liðar 7. gr. laganna. Þá var talið að samningarnir hefðu haft sömu fjárhagsleg áhrif fyrir Þ og ef hann hefði fengið skilyrtan rétt til að kaupa hlutabréf í SF hf. vegna starfs síns hjá félaginu, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2003. Við ákvörðun skattskyldra tekna Þ samkvæmt l. mgr. 1. töluliðar A. liðar 7. gr. laganna væri því rétt að líta til reglunnar í öðrum málslið 9. gr. auk meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og miða tekjurnar við mismun á kaupverði hlutabréfanna og söluverði þeirra, en við söluna hefði fyrst komið í ljós hvert hefði verið raunverulegt virði hinna starfstengdu hlunninda Þ. Samkvæmt framansögðu var Í sýknað af kröfu Þ.
Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir ViðarMár Matthíasson, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Ólafur BörkurÞorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir settur hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar16. september 2015. Hann krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur ogmálinu vísað heim í hérað. Til vara krefst hann þess að úrskurðiryfirskattanefndar 31. desember 2013 og ríkisskattstjóra 17. október 2012 verðifelldir úr gildi og tekjuskatts- og útsvarsstofn sinn gjaldárið 2007, eins oghann var ákveðinn af yfirskattanefnd, lækkaður um 596.091.170 krónur. Verðiekki fallist á það gerir hann kröfu um að úrskurðunum verði breytt þannig aðsami stofn verði lækkaður um 508.499.541 krónu, en að því frágengnu að þeirverði felldir úr gildi og tekjuskatts- og útsvarsstofn sinn gjaldárið 2007 lækkaðurum 596.091.170 krónur, en stofninn hækkaður annars vegar um 23.121.467 krónurvegna gjaldársins 2005 og hins vegar um 116.153.445 krónur vegna gjaldársins2006. Í öllum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrirHæstarétti. Stefndi krefst staðfestingarhéraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.IMálsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram keyptiFjárfestingarfélagið Brekka ehf., sem var einvörðungu í eigu áfrýjanda,hlutabréf í Straumi Fjárfestingarbanka hf. af því félagi að nafnverði50.000.000 krónur með samningi 18. júní 2004. Kaupverðið nam 6,55 krónum á hluteða samtals 327.500.000 krónum og fjármagnaði Íslandsbanki hf. kaupin að fullumeð láni til einkahlutafélagsins. Í kaupsamningnum sagði meðal annars aðkaupandi skuldbyndi sig til að eiga hlutabréfin eigi skemur en til 1. ágúst2006 og áfrýjanda, sem var á þessum tíma forstjóri Straums Fjárfestingarbankahf., væri óheimilt að veðsetja eða framselja eignarhlut sinn íeinkahlutafélaginu á gildistíma samningsins. Samhliða kaupsamningnum gerðu StraumurFjárfestingarbanki hf. og einkahlutafélagið með sér samning um sölurétt áhlutunum, sem félagið keypti, en eins og málið er lagt fyrir dómstóla er óþarftað gera grein fyrir efni þess samnings.Með samningi 7. september 2005 keypti Fjárfestingarfélagið Brekka ehf.hlutabréf í Straumi Fjárfestingarbanka hf. af því félagi að nafnverði100.000.000 krónur til viðbótar þeim hlutabréfum sem að framan greinir.Kaupverðið nam að þessu sinni 13,50 krónum á hlut eða alls 1.350.000.000 krónumog fjármagnaði Íslandsbanki hf. eins og áður kaupin að fullu með láni tileinkahlutafélagsins, sem annars vegar var veitt til endurfjármögnunar eldralánsins frá 2004 og hins vegar til kaupa á hinum nýju hlutum. Í kaupsamningnumsagði meðal annars að kaupandi skuldbyndi sig til að eiga hlutabréfin eigiskemur en til 1. september 2007 og áfrýjanda væri óheimilt að veðsetja eða framseljaeignarhlut sinn í einkahlutafélaginu á gildistíma samningsins.Sama dag og kaupsamningurinn var gerður, 7. september 2005, gerðuStraumur Fjárfestingarbanki hf. og Fjárfestingarfélagið Brekka ehf. með sérsamning um sölurétt á hlutunum sem félagið hafði keypt. Í síðarnefndasamningnum var tekið fram að með honum væri samningurinn um sölurétt frá 2004framlengdur, en við gerð nýja samningsins skyldu réttindi og skyldur samkvæmthonum falla niður. Með hinum nýja samningi var einkahlutafélaginu veittureinhliða söluréttur á 150.000.000 hlutum í Straumi Fjárfestingarbanka hf.,meðal annars með þeim skilmálum að sölugengi við nýtingu réttarins yrði 13,50krónur fyrir hverja krónu nafnverðs, félagið skuldbyndi sig til að eigahlutabréfin til 1. september 2007 hið skemmsta og gæti það nýtt réttinn fráþeim tíma til 1. október sama ár. Einnig var tekið fram að verð á hlut viðnýtingu söluréttarins breyttist þannig að sölugengi hækkaði um sem svaraði tilfjármagnskostnaðar af skuld samkvæmt lánssamningi félagsins við Íslandsbankahf. og lækkaði sem svaraði til útgreidds arðs af hlutabréfunum ef hann hefðigengið til að greiða niður skuldina. Í umræddum samningi um sölurétt sagði:„Samningur þessi er liður í kaupréttaráætlun Straums við forstjóra félagsins.Samningurinn er gerður á þeirri forsendu að Þórður Már Jóhannesson starfi hjáStraumi eigi skemur en til 1. september 2007 og Þórður Már sé eigandi félagsinsá þeim tíma. Láti hann af störfum hjá Straumi fyrir þann tíma veitir félagiðhér með Straumi einhliða kauprétt á þeim hlutabréfum sem söluréttarsamningurinntekur til“. Í samningnum var kveðið á um að í því tilviki skyldi kaupverðbréfanna miðast við áðurnefnt sölugengi eftir að það hefði tekið þeimbreytingum sem að framan greinir. Skyldi kaupverðinu ráðstafað til að greiðaupp skuld einkahlutafélagsins samkvæmt lánssamningi þess við Íslandsbanka hf.Þá var tekið fram í samningnum: „Sé Þórði Má sagt upp störfum hjá Straumi ánþess að uppsögnina sé að rekja til vanefndar hans á starfsskyldum sínum erfélaginu heimilt, en ekki skylt, að selja hlutabréfin strax við uppsögn, ef þaðkýs og hefur það til þess 2 vikur frá þeim tíma ... Við þær aðstæður semskilgreindar eru í þessari málsgrein verður kaupréttur Straums ekki virkur þóttÞórður Már láti af störfum hjá félaginu. Kjósi félagið að selja bréfin ekkiinnan fyrrgreindra 2 vikna og eiga bréfin áfram, fellur söluréttur samkvæmtsamningi þessum þrátt fyrir það niður að liðnum þeim fresti.“ Í samningnumsagði ennfremur: „Straumur ber ekki ábyrgð á þeim skattalegu afleiðingum semkunna að verða samfara veitingu söluréttar þessa eða því að félagið nýti sérsölurétt sinn samkvæmt samningi þessum.“Áfrýjandi lét af störfum hjá Straumi-Burðarási Fjárfestingarbanka hf.,áður Straumi Fjárfestingarbanka hf., 21. júní 2006 og er óumdeilt að það hafigerst án þess að hann hafi vanefnt starfsskyldur sínar. Hinn 28. sama mánaðarseldi Fjárfestingarfélagið Brekka ehf. hlutabréfin í Straumi-BurðarásiFjárfestingarbanka hf., sem félagið hafði eignast samkvæmt framansögðu á árunum2004 og 2005, á genginu 18,90 krónur á hlut eða fyrir samtals 2.835.000.000krónur. Í héraðsdómi er gerð grein fyrir úrskurðum ríkisskattstjóra 17. október2012 og yfirskattanefndar 31. desember 2013 sem áfrýjandi krefst til vara hérfyrir dómi að ógiltir verði eða að öðrum kosti breytt. Í máli þessu greiniraðila á um lögmæti úrskurðanna, en ekki er tölulegur ágreiningur þeirra ámilli.IIAðalkrafa áfrýjanda um ómerkingu hinsáfrýjaða dóms er reist á því að ekki hafi í forsendum dómsins verið fjallað umallar þær röksemdir, sem hann hafi teflt fram til stuðnings kröfum sínum íhéraði. Meðal annars hafi hann haldið því fram að veiting söluréttar kynni aðhafa falið í sér skattskyldar tekjur á sínum tíma og boðist til að telja þauhlunnindi fram til skatts á grundvelli útreikninga fjármálasérfræðings semlagðir hafi verið fram í málinu. Einnig að eignarréttur að hlutabréfunum hafistofnast hjá einkahlutafélagi sínu strax við kaup þeirra og að kaupréttur hafialdrei stofnast hjá vinnuveitenda sínum samkvæmt samningnum um sölurétt 7.september 2005. Þá hafi í héraðsdómi verið fjallað um að ætlaðar tekjur afsöluréttarsamningnum, sem féllu til árið 2005, hafi verið fyrndar og jafnframtað tekjur áfrýjanda hafi verið vanáætlaðar í úrskurðum ríkisskattstjóra ogyfirskattanefndar þrátt fyrir að stefndi hafi sætt sig við niðurstöðuúrskurðanna.Í héraðsdómi eru raktar helstumálsástæður og lagarök beggja aðila, sbr. e. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr.91/1991 um meðferð einkamála, og síðan komist að rökstuddri niðurstöðu um þauatriði, sem þá greindi á um, sbr. f. lið sömu málsgreinar. Þótt ekki hafi íniðurstöðukafla dómsins verið nefndar sérstaklega þær röksemdir áfrýjanda, semað framan greinir, verður litið svo á að með röksemdafærslu dómenda fyrir hennihafi verið tekin fullnægjandi afstaða til þeirra. Er því ekki tilefni til aðómerkja dóminn af þeim sökum.Sú meginregla gildir við meðferðeinkamáls að málsaðilar hafa forræði á sakarefni þess. Sökum þess að stefndikrefst aðeins sýknu af kröfum áfrýjanda og unir þar með fyrrgreindum úrskurðumskattyfirvalda fer það í bága við þá meginreglu að í héraðsdómi sé fjallað umatriði, er yfirskattanefnd sem æðra stjórnvald hafði breytt áfrýjanda í hag fráúrskurði ríkisskattstjóra, og því jafnframt slegið föstu í dóminum aðskattskyldar tekjur hans hafi verið vanáætlaðar af skattyfirvöldum. Þar semþessir annmarkar á samningu dómsins höfðu ekki áhrif á málsúrslit í héraðiverður krafa áfrýjanda um ómerkingu hans ekki tekin til greina af þessariástæðu.2Mál það, sem til úrlausnar er, snýstum skýringu á ákvæðum laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Í l. mgr. 1. töluliðar A.liðar 7. gr. laganna er kveðið á um að til skattskyldra tekna teljistendurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, án tillits tilviðmiðunar, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Á eftir fylgir í dæmaskyniupptalning á ýmsum tegundum starfstengdra greiðslna sem ekki er tæmandi. Tekurgreinin því til nýrra og áður óþekktra tegunda slíkra greiðslna falli þær áannað borð undir hina almennu skilgreiningu. Í samræmi við það er ekkert þvítil fyrirstöðu að skattyfirvöld taki á álitamálum, sem slíkri nýbreytni ístarfstengdum greiðslum kunna að fylgja, eftir því sem þau koma upp ískattaframkvæmd, sbr. dóm Hæstaréttar 13. október 2011 í máli nr. 241/2010 semrekið var á milli sömu aðila og mál þetta.Af efni framangreindra samninga milliStraums Fjárfestingarbanka hf. og Fjárfestingarfélagsins Brekku ehf. 7.september 2005 leikur enginn vafi á því að með þeim var einkahlutafélaginu, semáfrýjandi var einn eigandi að, veitt hlunnindi á þeirri forsendu að hann varforstjóri Straums Fjárfestingarbanka hf. og að auki með því skilyrði að hannstarfaði áfram hjá bankanum um nálega tveggja ára skeið. Samkvæmt 1. mgr. 57.gr. laga nr. 90/2003 og með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist ámeð stefnda að litið skuli framhjá því í skattalegu tilliti, að hinstarfstengdu hlunnindi voru með umræddum samningum látin falla einkahlutafélagiáfrýjanda í skaut, þar sem hann naut hlunnindanna í raun. Þau verðmæti, sem íþeim voru fólgin, voru því skattskyld hjá honum sem tekjur samkvæmt l. mgr. 1.töluliðar A. liðar 7. gr. laganna, sbr. og upphafsákvæði þeirrar greinar.Með samningnum um sölurétt var einkahlutafélagiáfrýjanda veittur einhliða söluréttur og Straumi Fjárfestingarbanka hf. einhliðakaupréttur á þeim hlutabréfum, sem einkahlutafélagið hafði fest kaup á, og varbúið svo um hnútana að ekki hefði orðið neinn hagnaður af sölu félagsins tilbankans hvort sem sölurétturinn eða kauprétturinn hefði verið nýttur, til dæmisí kjölfar þess að áfrýjandi hefði látið af störfum að eigin ósk eða verið sagtupp störfum vegna vanefnda á starfsskyldum sínum. Þegar áfrýjanda var sagt uppstörfum af öðrum orsökum 21. júní 2006 varð kaupréttur bankans því ekki virkur ágrundvelli samningsins og við það var félag áfrýjanda ekki lengur bundið af þvíað ráðstafa hlutabréfunum fyrir fyrirfram umsamið endurgjald, heldur gat seltþau á markaði sem það og gerði viku síðar með verulegum hagnaði. Þegarsamningarnir, sem gerðir voru 7. september 2005, eru virtir í heild er fallistá þá niðurstöðu héraðsdóms að þeir hafi haft sömu fjárhagsleg áhrif fyriráfrýjanda og ef hann hefði fengið skilyrtan rétt til að kaupa hlutabréf íStraumi Fjárfestingarbanka hf. vegna starfs síns hjá bankanum, sbr. 9. gr. laganr. 90/2003. Við ákvörðun skattskyldra tekna áfrýjanda samkvæmt l. mgr. 1.töluliðar A. liðar 7. gr. laganna er því rétt að líta til reglunnar í öðrummálslið 9. gr. auk meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og miða tekjurnarvið mismun á kaupverði hlutabréfanna og söluverði þeirra, en við söluna komfyrst í ljós hvert var raunverulegt virði hinna starfstengdu hlunnindaáfrýjanda.Samkvæmt öllu framansögðu ber að sýknastefnda af kröfum áfrýjanda og staðfesta hinn áfrýjaða dóm.Áfrýjanda verður gert að greiðastefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.Dómsorð:Hinn áfrýjaði dómur skal veraóraskaður.Áfrýjandi, Þórður Már Jóhannesson,greiði stefnda, íslenska ríkinu, 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júlí 2015.Mál þetta, semdómtekið var 22. maí 2015, var höfðað með stefnu þingfestri fyrir HéraðsdómiReykjavíkur þann 16. desember 2014, af Þórði Má Jóhannessyni, Heimalind 24, 201Kópavogi, á hendur íslenska ríkinu.I.Dómkröfurstefnanda eru þær:Aðallega,að úrskurðuryfirskattanefndar nr. 387/2013 frá 31. desember 2013 og úrskurðurríkisskattstjóra frá 17. október 2012 verði felldir úr gildi og tekjuskatts- ogútsvarsstofn stefnanda gjaldárið 2007, eins og hann var ákveðinn afyfirskattanefnd, verði lækkaður um 596.091.170 krónur.Til vara,að úrskurðiyfirskattanefndar nr. 387/2013 frá 31. desember 2013 og úrskurðiríkisskattstjóra frá 17. október 2012 verði breytt þannig, að tekjuskatts- ogútsvarsstofn stefnanda gjaldárið 2007, eins og hann var ákveðinn afyfirskattanefnd, verði lækkaður um 508.499.541 krónu.Til þrautavara,að úrskurðuryfirskattanefndar nr. 387/2013 frá 31. desember 2013 og úrskurðurríkisskattstjóra frá 17. október 2012 verði felldir úr gildi og tekjuskatts- ogútsvarsstofn stefnanda gjaldárið 2007, eins og hann var ákveðinn afyfirskattanefnd, verði lækkaður um 596.091.170 krónur og tekjuskatt- ogútsvarsstofn stefnanda gjaldárið 2005 verði hækkaður um 23.121.467 krónur ogtekjuskatt- og útsvarsstofn stefnanda gjaldárið 2006 verði hækkaður um116.153.445 krónur.Í öllum tilvikum er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað. Stefndi geriraðallega þá dómkröfu að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honumverði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati réttarins.Til vara er þesskrafist að stefnukröfurnar verði lækkaðar og málskostnaður verði látinn niðurfalla. II.ForsagaForsaga máls þessa ersú að stefnandi, sem var forstjóri Straums hf.,keypti hlutabréf í félaginu á genginu 3,15 á árinu 2003. Samhliða kaupunumgerðu stefnandi og Straumur hf. með sér söluréttarsamning, en samningurinnveitti stefnanda rétt til að selja félaginu hin keyptu hlutabréf á sama gengi,þ.e. genginu 3,15, að viðbættum fjármagnskostnaði að tveimur árum liðnum.Kaupin á hlutabréfunum fjármagnaði stefnandi með eingreiðsluláni fráÍslandsbanka hf. og setti bankanum hlutabréfin að handveði auk þess semstefnandi framseldi bankanum hinn umsamda sölurétt að hlutabréfunum tiltryggingar láninu. Á árinu 2004 varð að samkomulagi milli stefnanda og Straumshf. að fallið yrði frá kvöð í söluréttarsamningi aðila um tveggja áraeignarhaldstíma hinna keyptu hlutabréfa. Í framhaldinu seldi stefnandi Straumihf. hlutabréfin á genginu 6,55 og greiddi upp lánið hjá Íslandsbanka hf.Stefnandi tilgreindi hagnað sinn af sölu hlutabréfanna að fjárhæð 47.600.000kr. sem fjármagnstekjur í skattskilum sínum árið 2005. Í framhaldi af þessusnerist ágreiningur við skattyfirvöld um það hvort söluréttarsamningar semgerðir voru samhliða hlutabréfakaupum stefnanda í Straumi hf. væru sjálfstæðirgjörningar í skattalegu tilliti um kaup, lántöku, sölurétt og handveð eða hvortinnbyrðis tenging samninganna, m.a. vegna starfssambands stefnanda við Straumhf., fælu í sér að raunverulega væri um að ræða launatengd starfskjör í formikaupréttarútfærslu sem á tilteknu tímabili bæri að skattleggja sem laun.Í úrskurði sínum hinn29. október 2007 vegna gjaldársins 2005 byggði embætti ríkisskattstjóra á hinusíðarnefnda og í úrskurði sínum nr. 117/2009 féllst yfirskattanefnd á þá túlkuní stórum dráttum. Fallist var á það með ríkisskattstjóra að stefnanda hefðiborið að færa sér umrædda fjárhæð til tekna sem launatekjur í skattframtali vegnagjaldársins 2005 þar sem líta yrði svo á að samkomulag stefnanda og Straums hf.um niðurfellingu söluréttar á árinu 2004 hefði í skattalegu tilliti falið í sérnýtingu stefnanda á kauprétti að hlutabréfunum í Straumi hf., sem stefnandihefði í raun öðlast á árinu 2003 vegna starfa í þágu félagsins, sbr. 1. mgr. 1.tl. A-liðar 7. gr. og 9. gr. laga nr. 90/2003. Í úrskurðinum sagði að þóttstefnandi hefði að nafninu til verið kaupandi hlutabréfanna í Straumi hf. áárinu 2003 og skuldari láns frá Íslandsbanka hf., sem tekið var í tengslum viðkaupin, hefði fjárhagsleg ábyrgð og áhætta hans af viðskiptunum í raun veriðhverfandi. Í því sambandi var m.a. vísað til þess að framsal stefnanda ásölurétti að hlutabréfunum til Íslandsbanka hf. til tryggingar endurgreiðslulánsins, auk alls fjármagnskostnaðar af því, hefði í raun falið í sér óskoraðaábyrgð vinnuveitanda stefnanda, Straums hf., á endurgreiðslu lánsins, enfram kom í söluréttarsamningi stefnanda og Straums hf. að við nýtingusöluréttar samkvæmt samningnum skyldi verð á hlut breytast þannig að sölugengihækkaði um það sem svaraði til fjármagnskostnaðar samkvæmt lánssamningi semStraumur hf. hefði útvegað stefnanda hjá Íslandsbanka hf. Þá kom jafnframt framað arðgreiðslur af hlutabréfunum hefðu í reynd ekki runnið til stefnanda,heldur til greiðslu afborgana og vaxta af láni Íslandsbanka hf., sem Straumurhf. hefði í raun borið ábyrgð á vegna söluréttar sem félagið hefði veittstefnanda og framseldur var Íslandsbanka hf. í tengslum við fjármögnun viðskiptanna.Þá sagði jafnframt að umræddur söluréttur hefði falið í sér að áhætta af lækkunhlutabréfaverðs í Straumi hf. í viðskiptunum hefði alfarið hvílt á félaginusjálfu. Kröfum stefnanda í málinu var hafnað að öðru leyti en því að fallistvar á varakröfu hans um niðurfellingu tilfærðs arðs af hlutabréfunum ískattframtali árið 2005 auk þess sem 25% álag var fellt niður.Stefnandi höfðaði málog krafðist ógildingar á úrskurðum ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar. Hannkrafðist þess jafnframt að viðurkennt yrði að sér hefði verið rétt að teljafram tilteknar fjárhæðir sem fjármagnstekjur, eins og hann hafði gert áskattframtali fyrir gjaldárið 2005, auk þess að sér yrði endurgreidd sú fjárhæðsem hann hafði greitt í kjölfar endurálagningar ríkisskattstjóra. Í dómiHæstaréttar, dags. 13. október 2011 í máli nr. 241/2010, var rakið að þrjúatriði hefðu falist í samningi stefnanda og Straums hf., en áhrif þeirra gæturáðist af nánari atvikum á næstu þremur árum eftir gerð samninganna. Í fyrstalagi hefði stefnanda verið heimilt að þeim tíma liðnum að selja Straum afturhlutabréfin fyrir upphaflegt kaupverð ásamt fjármagnskostnaði af láni semstefnandi tók vegna kaupanna að frádregnum útgreiddum arði af hlutabréfunum. Íöðru lagi hefði Straumi hf. verið heimilt að kaupa aftur hlutabréfin hvenær semvar á tímabilinu fyrir upphaflegt kaupverð auk fjármagnskostnaðar stefnanda aðfrádregnum útgreiddum arði, ef ráðningarsambandi stefnanda og Straums yrðislitið. Í þriðja lagi hefði stefnandi gengist undir þá kvöð að selja ekkihlutabréfin á þessu tímabili. Í dóminum var tekið fram að þrátt fyrir aðsamningur stefnanda og Straums hf. hefði ekki snúist um kauprétt að hlutabréfumí dæmigerðri mynd, hefði hann um margt falið í sér spegilmyndkaupréttarsamnings og yrðu endanlegar niðurstöður í báðum tilvikum í raunnánast þær sömu. Atvik um allt sem skipti máli varðandi skattalegar afleiðingarsamningsins væru hliðstæð atvikum í dómi Hæstaréttar 31. mars 2011 í máli nr.626/2010 og hefði sá dómur fordæmisgildi. Það þótti ljóst að með samningistefnanda og Straums hf. hefði stefnanda verið veitt hlunnindi, sem stóðu honumtil boða vegna þess að hann var starfsmaður Straums hf., og að auki með þvískilyrði að hann yrði það áfram um tveggja ára skeið. Þau hlunnindi, semáfrýjandi hafi notið vegna samningsins, féllu því undir tekjur sem væruskattskyldar samkvæmt 1. mgr. 1. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Meðsamkomulagi Straums hf. og stefnanda um niðurfellingu söluréttar og kvaðar umlágmarkseignarhaldstíma hefði stefnandi losnað undan viðjum kaupréttarvinnuveitanda síns og notið þannig til viðbótar almennum launatekjum ávinningsaf störfum sínum í hans þágu sem svaraði til hækkunar á verði hlutabréfanna fráupphaflegu kaupverði þeirra, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2003. Hæstiréttur taldi aðmeginforsenda úrskurða ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar um að tilvistsöluréttarins hefði valdið því að kaup stefnanda á hlutabréfum í Straumi hf.hefðu ekki orðið endanleg fyrr en við gerð samkomulags stefnanda og Straums hf.fengi ekki staðist. Hvorki í nefndum úrskurðum né í málatilbúnaði ríkisinsfyrir dómi hefði verið byggt á því að önnur atriði, sem greint var frá ídóminum, gætu staðið til þeirra breytinga á gjöldum stefnanda, sem ákveðnarhöfðu verið í úrskurðinum. Af þessum sökum varð dómur því ekki felldur á máliðá öðrum grundvelli. Aðalkrafa stefnanda var því tekin til greina á þann hátt aðfelldir voru úr gildi úrskurðir ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar. Varríkinu gert að endurgreiða stefnanda það sem hann hafði greitt í kjölfarúrskurðanna. Aftur á móti þóttu ekki skilyrði til að verða við kröfu stefnandaum viðurkenningu á réttmæti þeirra gjaldstofna sem tilgreindir höfðu verið ískattframtölum hans fyrir gjaldárið 2005.III.MálsatvikEins og fram kemur íúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 17. október 2012, vegna gjaldársins 2007, márekja upphaf þessa máls til þess að á árunum 2004 og 2005 gerði stefnandi ínafni einkahlutafélags síns Fjárfestingafélagsins Brekku ehf. (hér eftir nefntBrekka ehf.), tvo samninga við launagreiðanda sinn, Straum hf., um starfstengdkaup á hlutabréfum í Straumi hf. Fyrri kaupsamningurinn er dagsettur 18. júní2004 um kaup á hlutabréfum að nafnverði 50.000.000 kr. fyrir 327.500.000 kr.Samhliða þeim kaupsamningi var gerður söluréttarsamningur við Straum hf. semkvað á um sölurétt Brekku ehf. og skilyrtan kauprétt Straums hf. áhlutabréfunum og einnig var gerður lánssamningur við Íslandsbanka hf. fyrirallri fjárhæðinni. Síðari samningurinn, sem dagsettur var 7. sept. 2005, er umkaup á hlutabréfum að nafnverði 100.000.000 kr. fyrir 1.350.000.000 kr.Samhliða þeim samningi var einnig gerður samningur um sölurétt Brekku ehf. ogskilyrtan kauprétt Straums hf., sem er dagsettur sama dag. Ísöluréttarsamningnum er kveðið á um sölurétt á hlutabréfum að nafnverði150.000.000 kr., en jafnframt var tekið fram að réttindi og skyldur samkvæmtsöluréttarsamningnum frá 18. júní 2004 féllu niður. Í báðum tilvikum var gerðurlánssamningur á milli Brekku ehf. og Íslandsbanka hf. Lánsfjárhæðin var2.025.000.000 kr. í síðari samningnum. og hluti lánsfjárhæðarinnar gekk tiluppgreiðslu á fyrra láninu ásamt vöxtum. Hluta var ráðstafað til kaupa áhlutabréfum að nafnverði 100.000.000 kr. Lánstíminn var til jafnlengdarsölurétti stefnanda og kauprétti Straums, sem giltu í tvö ár. Í söluréttinumfólst að Brekka ehf. gat gengið út úr samningunum sér að kostnaðarlausu efþróun á gengi hlutabréfanna yrði óhagstæð og var þannig tryggð fyrir lækkun ámarkaðsverði hlutabréfanna. Í kauprétti Straums hf. fólst m.a. trygging fyrirþví að stefnandi héldi áfram starfi sínu hjá Straumi hf. og ætti hlutabréfin ítiltekinn tíma. Bryti stefnandi gegn ákvæðum samninganna gat Straumur hf. neyttkaupréttar síns og keypt hlutabréfin á fyrir fram ákveðnu verði og við þaðhefðu starfstengd hlunnindi hans fallið niður. Réttindi og skyldur samkvæmtþessum samningum, sem gerðir voru við Brekku ehf., miðuðust við það aðstefnandi væri í starfi hjá Straumi hf. í að minnsta kosti tvö ár.Í úrskurðiríkisskattstjóra, dags. 17. október 2012, vegna gjaldársins 2007, kemur fram aðríkisskattstjóri líti svo á að með þessum samningum hafi Straumur hf. veittstefnanda, í gegnum einkahlutafélag hans Brekku ehf., starfstengd hlunnindi semstóðu honum til boða vegna þess að hann var starfsmaður Straums hf. Tekjurvegna hlunnindanna reiknist sem mismunur á markaðsverði hlutabréfanna, á þeimtíma þegar söluréttur stefnanda og kaupréttur bankans féllu úr gildi ogstefnandi gat ráðstafað bréfunum að eigin vild, og því verði sem Straumur hefðigetað neytt söluréttarins fyrir. Ríkisskattstjóri taldi að líta bæri fram hjáþví að samningarnir voru formlega gerðir milli tveggja lögaðila, Straums ehf.og Brekku ehf., þar sem þeir byggðu í meginatriðum á starfssambandi stefnandavið Straum hf. Tekjur stefnanda vegna hinna starfstengdu hlunninda, sem fólustí samningunum og áunnust á samningstímabilinu frá 18. júní 2004 til starfslokastefnanda 21. júní 2006, þegar samið var um niðurfellingu söluréttar ogkaupréttar og stefnandi seldi hlutabréf sín í Straumi hf., beri því aðskattleggja hjá stefnanda með sama hætti og laun.Yfirskattanefnd kvaðupp úrskurð sinn í málinu nr. 387/2013 þann 31. desember 2013 og tók fram íúrskurðinum að þar sem í skattareglum sé ekki að finna sérstakar reglur umskattalega meðferð söluréttar verði að taka undir það með ríkisskattstjóra aðum ákvörðun tekna manna af slíkum sölurétti, sem maður hefur öðlast vegnastarfa fyrir annan aðila, fari eftir almennum reglum laga nr. 90/2003, umtekjuskatt, sbr. 1. mgr. 1. tl. A-liðar 7. gr. laganna og 2. mgr. B-liðar 13.gr. reglugerðar nr. 245/1963, sé slíkum launahlunnindum á annað borð fyrir aðfara. Þá telur nefndin að dóma Hæstaréttar frá 31. mars 2011 í máli nr.626/2010 og frá 13. október 2011 í máli nr. 241/2010 beri að skilja þannig aðsöluréttur, sem vinnuveitandi veitir starfsmanni við hlutabréfakaup í tengslumvið starfssamband aðila, geti leitt til skattskyldu hjá launamanninumannaðhvort eða bæði við veitingu söluréttar vegna verðmætis þeirrar tryggingarsem starfsmanni er þá veitt gegn lækkun á gangverði hlutabréfanna og/eða viðnýtingu starfsmanns á fengnum sölurétti vegna hagnaðar sem svari til mismunar ásöluverði og markaðsverði hlutabréfanna á þeim tíma. Þá verði að skiljaforsendur dómanna þannig að með þeim sé tekið af skarið með það að afléttingkvaðar, sem starfsmaður hefur gengist undir í tengslum við hlutabréfakaup viðframangreindar aðstæður, um að vinna hjá viðkomandi vinnuveitanda um ákveðinntíma, geti með sjálfstæðum hætti talist skattskyldur ávinningur hjástarfsmanninum eftir ákvæði 1. mgr. 1. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, umtekjuskatt. Í dóminum frá 13. október 2011, þar sem stefnandi í máli þessu varmálsaðili, sagði að þar væri um að ræða ávinning af störfum starfsmanns í þáguvinnuveitanda til viðbótar almennum launatekjum. Þá taldi yfirskattanefnd aðríkisskattstjóra hafi verið rétt að telja til tekna stefnanda gjaldárið 2007þann ávinning sem hann naut með því að kaupréttur Straums hf. féll niður 21.júní 2006. Yfirskattanefnd tók undir það með ríkisskattstjóra að líta bæri svoá að um persónulegar tekjur stefnanda sjálfs hafi verið að ræða, enda væru þærsprottnar af starfssambandi hans. Í úrskurðiríkisskattstjóra voru stefnanda færðar til tekna vegna þessara starfstengduhlunninda 943.591.170 krónur, en upphæðin lækkuð í 596.091.170 kr. í úrskurðiyfirskattanefndar. Í úrskurði yfirskattanefndar var fallist á varakröfustefnanda, sem byggði á því að stefnandi hefði losnað úr viðjum kaupréttarvinnuveitanda síns samkvæmt samningi frá 18. júní 2004 með samningi hinn 7.sept. 2005 þegar réttindi og skyldur samkvæmt eldri samningi voru felld niðurog heimild ríkisskattstjóra til endurákvörðunar opinberra gjalda að því leytiþví fyrnd, sbr. 97. gr. laga nr. 90/2003. IV.Málsástæður og lagarökstefnandaStefnandi byggir kröfu sína umógildingu úrskurðar ríkisskattstjóra og úrskurðar yfirskattanefndar á þvívarðandi formhlið málsins að Brekka ehf.,félag stefnanda, hafi keypt hlutabréfin af Straumi hf. á markaðsverði og seltþau þriðja aðila, sömuleiðis á markaðsverði, eins og stefnandi hafi bent á íandmælabréfi sínu til ríkisskattstjóra, dags. 10. maí 2012. Þar hafi stefnandigert athugasemdir varðandi aðild málsins. Stefnandi hafi haldið því fram aðeignarhald félagsins á hlutabréfunum og sala þess á þeim hafi á allan háttverið lögleg, venjuleg og eðlileg. Þetta viðurkenni ríkisskattstjóri meðniðurstöðum athugunar sinnar á hlutabréfaviðskiptum Brekku ehf., sem hafi lokið12. desember 2011 án athugasemda. Stefnandi leggur áherslu á það aðviðfangsefni þessa máls sé að finna þau starfshlunnindi stefnanda, ef einhverséu, sem leitt hafi af samningum hans við vinnuveitanda sinn, Straum hf. Í þvísambandi skipti engu máli hvort hann seldi hin umdeildu bréf eða þau hafi veriðseld í eignarhaldsfélagi sem hann átti. Málið snúist ekki um söluhlutabréfanna, heldur þau hlunnindi sem kunna að hafa verið veitt stefnanda ítengslum við kaup þeirra með söluréttarsamningum. Stefnandi hafnar því þannigekki að um skattskyld hlunnindi geti hafa verið að ræða hjá honum persónulega ítengslum við hlutabréfaviðskiptin, en hafnar því að hægt sé að líta fram hjáeignarhaldsfélagi hans, Brekku ehf., í sambandi við kaup og sölu hinnamargnefndu bréfa. Á sínum tíma hafi stefnandi óskað eftir endurákvörðunríkisskattstjóra á opinberum gjöldum sínum og Brekku ehf. í samræmi viðniðurstöðu yfirskattanefndar í máli 387/2013. Vegna ákvörðunar hans ummálshöfðun hafi stefnandi beðið ríkisskattstjóra að fresta afgreiðslu þeirrarbeiðni þar til úrslit liggi fyrir í þessu dómsmáli.Stefnandivísar til þess að skattareglur gangi út á að ákveða að þegar vissarraunverulegar forsendur liggi fyrir hafi þær í för með sér ákveðin réttaráhrif.Þegar skattareglur séu óljósar eða hafi ekki að geyma jákvæðar reglur umtiltekin tilvik verði gjaldandi samt sem áður að telja fram og skattstjóri aðleggja á. Þegar stefnandi hafi talið fram gjaldárið 2007 hafi legið fyrir aðBrekka ehf., eignarhaldsfélag hans, hafði selt öll hlutabréf sín í Straumi hf.,vinnuveitanda stefnanda, á árinu 2006 og að ekki hefði komið til nýtingarfélags hans á sölurétti. Á þeim tíma sem sala hlutabréfanna í Straumi hf. fórfram, þ.e. 28. júní 2006, hafi ekki verið talið að losun úr „viðjum kaupréttarvinnuveitanda“ hefði í för með sér hlunnindi í hendi starfsmanns hans. Þærforsendur hafi því engin réttaráhrif haft fyrir stefnanda á árinu 2006 eða viðframtalsgerð 2007. Framkvæmdareglan, sem byggði á kauprétti vinnuveitanda, hafiekki orðið til fyrr en að gengnum dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr.626/2010 og 241/2010, sem kveðnir voru upp 31. mars 2011 og 13. október 2011.Henni verði ekki beitt með afturvirkum hætti í andstöðu við 2. mgr. 77. gr.stjórnarskrár nr. 33/1944 og meginreglu stjórnsýslulaga. Ríkisskattstjóri hafitekið upp fasta framkvæmd á þessum reglum frá árinu 2006 og fram á árið 2011,sbr. bindandi álit ríkisskattstjóra nr. 5/2010. Þá telur stefnandi að þaðfelist í lögmætisreglunni að skattar séu fyrirsjáanlegir, þannig að menn vitifyrir fram hvaða skatta þeir eigi að greiða, sbr. 40. gr. og 1. mgr. 77.greinar stjórnarskrárinnar. Í stjórnsýslurétti hafi verið talið að breytingar áframkvæmdareglum geti ekki leitt til ógildingar stjórnvaldsákvarðana sem teknarhafi verið fyrir breytingarnar og voru aðila í hag. Augljóst megi vera aðálagning stefnanda gjaldárið 2007 hafi verið honum hagstæð, án hinnaríþyngjandi reglu ríkisskattstjóra. Hinni nýju skattareglu ríkisskattstjóra, semembættið hafi tekið upp á árinu 2011, eftir Hæstaréttardómana tvo, verði þvíekki beitt um álagningu vegna tekna tekjuársins 2006 í skattframtali stefnandagjaldárið 2007.Þáber stefnandi það fyrir sig að ábendingar þær eða sjónarmið sem fram komu ídómi Hæstaréttar hafi ekki varðað málsástæður sem reynt hafi á fyrir dómi ogteljist þessi sjónarmið („obiter dictum“) því ekki til fordæmis í skilningiréttarheimildafræða. Hæstiréttur hafi í dómum sínum á árinu 2011 ekki bent áneitt skýrt lagákvæði sem hann gat byggt sín sjónarmið á, en hafi vísaði í 9.gr. tekjuskattslaga með lögjöfnun eða rýmkandi skýringu sem ekki sé tæk, sbr.síðari umfjöllun stefnanda varðandi efni máls.Íandsvörum stefnanda til ríkisskattstjóra, dags. 10. maí 2012, 4. kafla, bls. 7til 9, sé ítarlega skýrt og rökstutt að þau hlunnindi, sem segja megi aðstefnanda gætu hafa hlotnast sem starfsmanni Straums hf. með söluréttarsamningunumfrá árunum 2004 og 2005, gætu talist til skattskyldra tekna hans á þeimgrundvelli að um væri að ræða endurgjaldslausan sölurétt, sbr. dóma Hæstaréttarí málum nr. 626/2010 og 241/2010. Í viðtali við Fréttablaðið 19. október 2005,sbr. dskj. 14, hafi ríkisskattstjóri talið þessi hlunnindi geta veriðskattskyld við veitingu. Þessi hlunnindi hafi Summa ehf. reiknað út fyrirstefnanda samkvæmt viðurkenndum aðferðum fjármálafræða og hafi virði söluréttarsamkvæmt samningnum frá 18. júní 2004 numið 23.121.467 krónum en samkvæmtsamningnum frá 7. sept. 2005 116.153.445 krónum, eða samtals í báðumsamningunum 139.274.912 krónum. Stefnandi hafi oftar en einu sinni boðist tilað telja fram til skatts í samræmi við mat á virði söluréttar til þess að ljúkamálinu, þ.e. einu sinni á árinu 2007 og tvisvar á árinu 2012, sbr. greinargerðstefnanda til yfirskattanefndar, bls. 6, en við þeirri ósk hafiríkisskattstjóri ekki orðið og víki að þessu í úrskurði sínum, sbr. dskj. 3,bls. 19:Aftur á móti er rétt hjá umboðsmanninum að tekjursem til hafa fallið á árunum 2004 og 2005 væru væntanlega fyrndar í dag sbr. 1.mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003. Af þeirri ástæðu þykja ekki standa efni til aðfjalla sérstaklega um mat það sem gjaldandi hefur látið gera og lagt fram.Og nokkru síðar,eða á bls. 26, segir í sama úrskurði:Minnt er á að þar sem samningar gjaldanda um söluréttvoru gerði á árunum 2004 og á árinu (sic) 2005 hefði slík umfjöllun, með vísantil 1. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003, litla þýðingu:Og ennsíðar í úrskurðinum, eða bls. 27, segir:Hins vegar leiðir það af ákvæðum 1. mgr. 97. gr. laganr. 90/2003 að tekjur sem fælust í verðmæti söluréttar við afhendingu áframangreindum árum væru fyrndar og því þótti engin ástæða til að fjalla frekarum hugsanlega skattlagningu þeirra í boðunarbréfi ríkisskattstjóra.Sú niðurstaða ríkisskattstjóraað fjalla ekki um málsástæðu stefnanda vegna þess að hún gæti leitt tilniðurfellingar eða lækkunar skattakröfunnar á hann sé ekki tæk, enda gangi húngegn þeirri grunnreglu stjórnsýsluréttar að við stjórnsýsluákvarðanir verði aðhorfa jafnt til þeirra atriða sem eru borgurum í hag og í óhag, sbr. 12. gr. og10. gr. stórnsýslulaga nr. 37/1993. Í úrskurði sínum viðurkenniríkisskattstjóri að þau atriði sem horfi til lækkunar kröfu eða sýknu stefnandakomi ekki til skoðunar af þeirri ástæðu einni. Stefnandi bendir á að súmálsástæða að ríkissjóður fái sem hæsta fjárhæð í kassann sé ekki tæk ískattarétti. Það að fjalla ekki um málsástæðuna valdi því einnig aðúrskurðurinn hljóti að teljast vanreifaður.Af þessu tilefni hafi stefnandióskað sérstaklega eftir því við ríkisskattstjóra með bréfi, dags. 8. nóvember2012, að úrskurðurinn yrði endurupptekinn í því skyni m.a. að fjalla um þessarmálsástæður stefnanda, en þeirri beiðni hafi ekki verið svarað.Í úrskurði yfirskattanefndarnr. 387/2013, bls. 15, sbr. dskj. 4, sé því lýst að stefnandi hafiárangurslaust boðist til að tekjufæra iðgjald af fenginni söluréttartryggingu.Síðar í úrskurðinum lýsi nefndin afstöðu sinni til síðastnefndra málsástæðna stefnanda,en fjalli samt ekki um þær sérstaklega. Úrskurður yfirskattanefndar sé þvíeinnig vanreifaður að þessu leyti þar sem forsendur stefnanda um réttilegaskattlagningu í hendi stefnanda á árunum 2004 og 2005 og boð hans um að geraleiðréttingu þar á, hafa enga umfjöllun fengið hjá skattyfirvöldum eðaúrskurðaraðilum skattastjórnsýslunnar, þrátt fyrir að slík tekjufærsla hafiverið ein þeirra leiða sem Hæstiréttur hafi bent á í dómi sínum í málistefnanda nr. 241/2010, sbr. V. kafla stjórnsýslulaga og ríkisskattstjóri hefðiá sínum tíma verið sammála þeirri leið, sbr. viðtal við hann í Fréttablaðinu íoktóber 2005, sbr. dskj. 14.Stefnandi bendir á að markmiðiðmeð allri skattaframkvæmd og skatteftirliti sé að stuðla að einföldum,hlutlægum og gagnsæjum reglum, sbr. ummælin í dómi Hæstaréttar í máli nr.356/1999, sem kveðinn var upp 10. febrúar 2000. Stefnandi telur að sérstakarskyldur hvíli á ríkisskattstjóra í þessu máli vegna þess að embættið hafi látiðundir höfuð leggjast að setja reglur um sölurétt í skattmat og beri ábyrð árangri framkvæmd skattareglna á þessu sviði um árabil. Samkvæmt 12. gr.stjórnsýslulaga skuli stjórnvald því aðeins taka íþyngjandi ákvarðanir þegarlögmætu markmiði, sem stefnt er að, verði ekki náð með öðru og vægara móti, en þessskuli þá gætt að ekki sé farið strangara í sakirnar en nauðsyn beri til. Eftirdóma Hæstaréttar í málum nr. 241/2010 og 626/2010 á árinu 2011 hafi það legiðfyrir hvernig skattleggja skyldi hagræði starfsmanna af söluréttarsamningum. Áárinu 2011 hafi ríkisskattstjóra verið í lófa lagið að endurákvarða skattagjaldársins 2006 þegar sölurétturinn var veittur, og jafnvel gjaldársins 2005,vegna þeirra tilboða sem lágu fyrir frá upphafi frá stefnanda um að greiðaskatt af þessum hlunnindum. Hann hafi hins vegar kosið að bíða og velja þá leiðsem var óhagstæðust fyrir stefnanda og neita að hlusta á rök hans. Þessiákvörðun ríkisskattstjóra standist því ekki og sérstaklega ekki ef litið er tilþess að það hafi verið ríkisskattstjóri sem stofnaði til hinnar rönguframkvæmdar sjálfur. Stefnandi telur að hvorki ríkisskattstjóri néyfirskattanefnd hafi gætt meðalhófs í þessu máli. Fleiri dæmi megi nefna umvanreifun og skort þessara aðila á meðalhófi, sbr. umfjöllun hér á eftir umefnisþátt málsins. Þannig hafi yfirskattanefnd í úrskurði sínum fallistgagnrýnislaust á hugleiðingar Hæstaréttar á verðmæti kaupréttar Straums hf. ánþess að fara nánar ofan í það á hvaða forsendum matið byggðist og þrátt fyrirákvæði skattareglna um það að æðstu skattyfirvöld eigi að meta hlunnindi tiltekna, sbr. t.d. 118. gr. tekjuskattslaga, og 2. mgr. B-liðar 13. gr. rgl. nr.245/1963 um tekjuskatt og eignarskatt. Þá hafi stefnandi í málflutningi sínumfyrir ríkisskattstjóra og nefndinni bent á að í nýrri samningum hans umsölurétt sé að finna nýja málsgrein sem ekki hafi verið í samningum frá 2003,sem voru til umfjöllunar í máli Hæstaréttar nr. 241/2010. Ábendingar í þeimdómi hafi því ekki þýðingu í máli þessu þar sem forsendur séu ólíkar. Þettahafi hvorki yfirskattanefnd né ríkisskattstjóri viljað fjalla um í úrskurðumsínum og séu þeir þannig vanreifaðir að þessu leyti.Varðandiefnisþátt málsins vísar stefnandi til þess að í 5. kafla andmælabréfs hans tilríkisskattstjóra frá 10. maí 2012 sé réttarstaðan samkvæmt samningunum frá 2004og 2005 ítarlega rakin. Þar sé lýst þeirri niðurstöðu að meint skuldbindingkaupréttarákvæðis nýrri samninganna frá árunum 2004 og 2005 hafi aldrei myndastgagnvart stefnanda þannig að grundvöllinn vanti undir skattbreytingarríkisskattstjóra, sem beri því að fella niður í heild sinni. Í 2. mgr. 3. gr.söluréttarsamningsins frá 7. sept. 2005 segi að við þær aðstæður semskilgreindar séu í málsgreininni verði kaupréttur Straums hf. ekki virkur þóttstefnandi láti af störfum hjá félaginu. Skilyrðið, sem ekki hafi verið ísamningnum frá 2003, var að stefnanda væri sagt upp vegna vanefnda hans ástarfsskyldum sínum, þ.e. brots á starfsskyldum sínum. Stefnanda hafi ekkiverið sagt upp vegna vanefnda og því hafi enginn kaupréttur myndast til handaStraumi hf. Stefnandi hafi því aldrei verið háður „viðjum kaupréttarvinnuveitanda síns“ eins og segi í dómum Hæstaréttar. Hann hafi þannig ekkilosnað við neina skuldbindingu og því aldrei getað orðið skattskyldur á þeimforsendum.Stefnanditelur það einsdæmi að láta kauprétt vinnuveitanda, sem hafði fyrst og fremstverðmæti í hendi vinnuveitanda, og meðferð vinnuveitanda á þeim rétti sínumverða einan og sér ákvarðandi fyrir skattlagningu starfsmanns, sem hafi ekkertákvörðunarvald um notkun hans. Stefnandi mótmælir þessari aðferð og telur hanaekki styðjast við lög.Stefnandi er sammála yfirskattanefnd og ríkisskattstjóra um það aðlagagrundvöllur málsins byggist á 1. mgr. 1. tl. A-liðar 7. gr.tekjuskattslaga, sbr. B-lið 13. gr. reglugerðar nr. 245/1963. Þá er hann ennfremur sammála þeirri niðurstöðu nefndarinnar að engar sérstakar reglur séu ískattalöggjöf um skattalega meðferð söluréttar. Með vísan til þessa hafinefndin talið að skattlagning söluréttarhlunninda starfsmanna kæmi einungis tilgreina í tveimur tilfellum, miðað við núverandi lagaaðstöðu; við veitingu eðaþegar nýting hans leiði til þess að starfsmanni hlotnast verðmæti sem hannhefði ella ekki fengið.Stefnandi ereinnig sammála þeirri niðurstöðu sératkvæðis formanns yfirskattanefndar að takaverði tillit til meginreglu íslensks skattaréttar um að telja ekki tilskattskyldra tekna þann eignaauka sem stafar af því að fjármunir skattgreiðandahækki í verði, sbr. 1. tl. 20. gr. reglugerðar nr. 245/1963 um tekjuskatt ogeignarskatt. Samsvarandi ákvæði hafi verið að finna í A-lið 10. gr. laga nr.68/1971 um tekjuskatt og eignarskatt, en það ákvæði hafi verið fellt úr lögummeð 28. gr. laga 40/1978 um tekjuskatt og eignarskatt. Ástæðan fyrir því aðþessi liður var felldur niður hafi verið sú að hann var álitinn óþarfur. Íathugasemdum við 28. gr. nefndra laga segi: Hérer ekki um efnisbreytingu að ræða frá gildandi lögum, en skattlagning áverðmætishækkun eigna kemur ekki til fyrr en við eigendaskipti frekar en veriðhefur. Stefnandi vill bæta við tilvísun í þessi laga- og reglugerðarákvæðitilvísun í meginregluna í 2. mgr. 59. gr. tekjuskattslaga, sbr. bls. 8 ígreinargerð hans til yfirskattanefndar, sbr. einnig 5. kafla andmælabréfs hans,en sú grein feli í sér að tekjur skuli ekki telja til tekna fyrr en þær verðitil. Þá telur stefnandi einnig rétt að halda til haga 118. gr. tekjuskattslaga,sem mæli fyrir um að ríkisskattstjóri skuli að fenginni staðfestingu ráðherragefa út reglur um mat á hlunnindum, sbr. 7. gr., og öðrum tekjum og frádrættisem meta þurfi til verðs samkvæmt lögunum. Verðmætishækkun á meintum kaupréttiStraums hf., vinnuveitanda stefnanda, teljist þannig ekki til skattskyldratekna.Eins og framkomi í úrskurði ríkisskattstjóra sé þar vísað um heimild til skattlagningar til9. gr. tekjuskattslaga, en þar sé fjallað um skattlagningu vegna nýtingarstarfsmanns á kauprétti sem vinnuveitandi hafi veitt honum. Hins vegar fjalli9. gr. tekjuskattslaga hvorki um skattlagningu söluréttar starfsmanna né umskattlagningu kaupréttar vinnuveitanda. Embættið virðist þannig álíta að unntsé að beita nefndri 9. grein með lögjöfnun eða rýmkandi skýringu um kaupréttvinnuveitanda eða niðurfellingu hans. Hér sé um gerólík fyrirbrigði að ræða.Stefnandi mótmælir þessari lögskýringu ríkisskattstjóra og bendir á að reglurum skattaálögur beri að skýra þröngt vegna þess að meginreglan sé að menn eigifrjálsa ráðstöfun eigna sinna, sbr. 72. gr. stjskr. Sú grundvallarregla gildiað ekki verði lagðir á menn skattar nema skýr lagaheimild sé fyrir hendi, sbr.40. og 77. gr. stjskr. Samkvæmt þessu skorti breytingar ríkisskattstjóra ásköttum stefnanda, sem byggja á skattlagningu vegna afléttingar á meintumkauprétti Straums hf., lagastoð.Stefnandi erþannig sammála þeirri skoðun yfirskattanefndar að söluréttur sá, sem stefnandieða félag hans fékk án endurgjalds frá vinnuveitanda sínum til tryggingarverðlækkunar á hlutabréfum sem hann keypti af Straumi hf., hafi getað falið ísér hlunnindi fyrir hann. Ekkert markaðsverð hafi legið fyrir um verðmætiþessara hlunninda á árunum 2004 og 2005 þegar honum voru veitt þau.Ríkisskattstjóra eða eftir atvikum fjármálaráðherra hafi borið að meta þessihlunnindi samkvæmt 7. gr. tekjuskattslaga til tekna í árlegu skattmati,samkvæmt ótvíræðum ákvæðum 118. gr. sömu laga. Þetta hafi þessir aðilar ekkigert og gat stefnandi því ekki talið hlunnindin til tekna á viðkomandigjaldárum 2004 og 2005. Heimild til endurákvörðunar vegna þessara gjaldára sélöngu liðin og verði stefnanda því ekki gerður skattur vegna hlunninda tengdumveitingu söluréttar á nefndum árum, nema með samþykki hans. Í þrautavarakröfustefnanda er gert ráð fyrir því að hærri skattstofn verði ákveðinn fyrirgjaldárin 2005 og 2006 eða sem nemur verðmæti veittra sölurétta á árunum 2004og 2005.Stefnandi hafialdrei nýtt söluréttinn samkvæmt samningunum frá árunum 2004 og 2005 og verðihonum því ekki gerður skattur vegna nýtingar söluréttar. Enda þóttyfirskattanefnd, sem sé æðsti úrskurðaraðili um skattamál í stjórnsýslunni,hefði þannig einungis fundið lagagrunn fyrir skattlagningu margnefndrahlunninda í tengslum við veitingu þeirra eða nýtingu hafi hún leyst úr málistefnanda með því að nota „þriðju leiðina“, þ.e. þá ábendingu Hæstaréttar ímálum 626/2010 og 241/2010, að stefnandi hefði losnað „úr þeim viðjum kaupréttarvinnuveitanda síns“, sem hann hefði gengist undir með söluréttarsamningunum ogað þessi létting kvaðar geti með sjálfstæðum hætti talist skattskyldurávinningur hjá stefnanda. Nefndin hafi ekki rökstutt þetta frekar eða tjáð sigfrekar um verðmatið, en vísað beint í ábendingu Hæstaréttar og þar með hefðiríkisskattstjóra verið heimilt að telja til tekna stefnanda „þann ávinning semhann naut með því að kaupréttur Straums hf. féll niður 21. júní 2006“.Stefnandi er ósammála þessum forsendum yfirskattanefndar og telur þær skortalagagrunn, eins og nefndin virðist reyndar gera líka, þar sem hún vísi ekki til9. gr. tekjuskattslaga eins og ríkisskattstjóri gerði í úrskurði sínum. Ríkisskattstjóriog yfirskattanefnd byggi alfarið á ábendingum Hæstaréttar í málunum tveimur umþað hvernig niðurfelling kaupréttar vinnuveitanda gæti haft í för með sérskattskyld hlunnindi til starfsmanna. Stefnandi hefur bent á, að auk þess semþessi ábending réttarins sé ekki bindandi og geti ekki virkað aftur fyrir sig,sé ekki hægt að nota hana nema samningsákvæðin um kauprétt vinnuveitanda séusamhljóða, sbr. nánari greinargerð stefnanda til yfirskattanefndar, bls. 11,sbr. enn fremur bls. 4 og 10-11 í andmælabréfi stefnanda til ríkisskattstjóra.Stefnandi hafi í málflutningi sínum fyrir ríkisskattstjóra og nefndinni bent áað í nýrri samningunum sé að finna nýja málsgrein sem ekki hafi verið ísamningum frá 2003, sem hafi verið til umfjöllunar í máli Hæstaréttar nr.241/2010. Skilyrði þessarar viðbótarmálsgreinar hafi haft það í för með sér aðundir venjulegum kringumstæðum gat kaupréttur Straums hf. ekki stofnast.Ábendingar í þeim dómi hafi því enga þýðingu í máli þessu, eins og bent hafiverið á hér að framan. Stefnandi geturtekið undir forsendur sératkvæðis formanns yfirskattanefndar í úrskurði nr.372/2013, í máli Bjarka H. Diego, þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu aðekki sé nægilega örugg heimild fyrir hinni umdeildu skattlagningu. Ísératkvæðinu sé bent á að ríkisskattstjóri hafi gengið út frá því að kærandi íþví máli hefði eignast hlutabréfin strax við undirritun samninganna. Stefnandahafi verið sagt upp starfi sínu án þess að hafa brotið af sér hinn 21. júní2006 og Brekka ehf. hafi selt öll hlutabréfin hinn 28. júní 2006.Ríkisskattstjóri miði hækkun sína á tekjum stefnanda í grundvallaratriðum við1.157.500.000 krónur eða við hækkun bréfanna frá því þau voru upphaflega keyptþar til kaupréttur Straums hf. féll niður við uppsögn stefnanda 21. júní 2006.Hækkun sem verði á fjármunum stefnanda sem hafi enn ekki raungerst teljist ekkitil skattskyldra tekna hans samkvæmt meginreglu íslensks skattaréttar, sbr.einnig 1. tl. 20. gr. reglugerðar nr. 245/1963. Í greinargerð með kærustefnanda til yfirskattanefndar sé því lýst að kaupréttur Straums hf. hafialdrei raungerst. Þar segi orðrétt:Í 1. tl. A-liðs (sic) 7. gr. laga nr. 90/2003 ertalað um gæði sem skattaðila hlotnast. Ef honum hlotnast ekki viðkomandi gæðieða hagræði er ekki um að ræða skattlagningu samkvæmt þeirri grein, sbr. einnig2. mgr. 59. gr. sömu laga. Þetta á sér einnig stoð í norrænum rétti þar semóinnleystar eða óvissar tekjur (tekjur sem geta orðið, en hafa ekki orðið til)mynda ekki skattstofn, sbr. fordelsbegrebet í norskum rétti og princippet omrealiseret ökonomiske fordele í dönskum rétti. Sama gildir almennt í erlendumskattarétti, sbr. t.d. Kevin Holmes, the Concept of Income, sbr. fskj. nr. 10með bréfi þessu.Stefnandi tekurþví undir þá niðurstöðu formanns yfirskattanefndar að hækkun skattskyldra teknaá þeim grunni, sem ríkisskattstjóri framkvæmdi, styðjist ekki við lög. Því beriað fella hana úr gildi í heild sinni.Sé hins vegargert ráð fyrir því að lagagrunnur sé fyrir „þriðju leiðinni“ þannig að heimiltsé að reikna stefnanda til tekna að losnaundan viðjum kaupréttar Straums hf.,komi fyrst til athugunar túlkun á samningum stefnanda við vinnuveitanda sinn,Straum hf., á árunum 2004 og 2005 og hvaða hlunnindi gátu verið fólgin í þeimtengd kauprétti Straums hf. Þetta sé ítarlega rakið í 6. kafla andsvarastefnanda til ríkisskattstjóra. Dómar Hæstaréttar í málum 626/2010 og 241/2010hafi slegið því föstu að í samningum eins og þeim sem um ræðir í máli þessuhefði eignarrétturinn að hlutabréfunum færst yfir til starfsmannanna strax viðgerð kaupsamninganna og greiðslu kaupverðs. Þetta sé aðalatriðið í þessum dómumog um það hafi aðalágreiningur aðila snúist, sbr. grein yfirmannsskattaeftirlitssviðs ríkisskattstjóra í Tíund frá árinu 2008. Þar sem áhættanaf bréfunum hafi flust þannig frá Straumi hf. til stefnanda hafi hann orðið aðtryggja sig fyrir þeirri áhættu. Það hafi hann gert með því að látaeignarhaldsfélag sitt kaupa bréfin og með því að fá sölurétt frá Straumi hf. Ámóti hafi Straumur hf. fengið skilyrðisbundinn og takmarkaðan kauprétt ábréfunum frá stefnanda. Við útreikning á verðmæti söluréttarsamningsins, sbr.nánar útreikning Summu ehf., sé virði kaupréttar Straums hf. dregið frá virðisöluréttar stefnanda við útreikning á virði söluréttar. Þessi kvöð,skuldbinding eða „viðjar“, sé þannig stærð sem unnt sé að reikna út frá upphafiog vilji menn skattleggja hana sé hægt að setja reglur um það í skattmat einsog lög bjóði. Þessi aðferð sé í samræmi við viðurkenndar reikningsskilareglur.Í alþjólegum reikningsskilastöðlum, sbr. t.d. IFRS 2 Share-based Payment, sbr. dskj. 36, sé bent á fleiri en eina aðferðtil þess að reikna út valréttarsamninga starfsmanna, og sé Black-Scholes aðferðin algengust, en við hana sé stuðst íútreikningum Summu ehf., sbr. bls. 8 í andsvörum stefnanda tilríkisskattstjóra. Samkvæmt útreikningum Summu ehf. nemi kaupréttarkvöð Straumssamtals 87.891.622 krónum, sbr. andsvör stefnanda til ríkisskattstjóra. Verðiniðurstaðan sú að lög standi til þess að skattleggja kauprétt Straums hf. íhendi stefnanda telur hann að miða eigi við þessa fjárhæð. Samkvæmt því ætti aðlækka tekjuskatts- og útsvarsstofn stefnanda um 508.199.548 krónur, eða úr689.432.761 krónu í 181.233.213 krónur. Eins og fram kemur í andmælabréfistefnanda sé tilgangurinn með skattmati hlunninda að gera þann starfsmann semhlunnindanna nýtur eins settan og almennan gjaldanda sem ekki njóti þessarahlunninda. Ef mat þessara hlunninda hefði legið fyrir í árlegu skattmatiríkisskattstjóra á þeim árum sem stefnandi undirritaði söluréttarsamningana,hefði hann talið fram í samræmi við það og þannig orðið jafnsettur og hverannar gjaldandi og hann eða félag hans háð venjulegum skattareglum við sölubréfanna. Það andlag, sem meta eigi í málinu, séu hlunnindi starfsmanns, þ.e.stefnanda, sem fólust í söluréttarsamningunum, en aðferð ríkisskattstjóra í máliþessu miðist hins vegar við verðhækkun hinna undirliggjandi eigna, sem sé annaðog óskylt mál. Sú verðhækkun, sem raungerist í hendi eiganda hlutabréfanna viðsölu, teljist til fjármagnstekna sem söluhagnaður, annaðhvort í hendiviðkomandi starfsmanns eða hjá eignahaldsfélagi hans. Sú niðurstaða sé ísamræmi við það sem almennt gildi um hlutabréf þar sem tapsáhættan hvíli áeiganda bréfanna.Aðalkrafastefnanda miðast við það að bæði úrskurður ríkisskattstjóra frá 17. október2012 og úrskurður yfirskattanefndar frá 31. desember 2013 verði felldir úrgildi. Þannig verði tekjuskatts- og útsvarsstofn stefnanda gjaldanda árið 2007færður í það horf, sem hann var áður en ríkisskattstjóri hóf aðgerðir sínargegn honum, eða í 93.341.591 krónu, sem er lækkun um 596.091.170 krónur frástofninum, 689.432.761 krónu, eins og hann var ákveðinn af yfirskattanefnd.Ívarakröfu er miðað við það að úrskurðunum sé breytt og tekið sé tillit tilreiknaðrar kaupréttarkvaðar Straums hf. við kröfuútreikning stefnanda, en þessikvöð nam samkvæmt útreikningum fjármálasérfræðings 87.891.622 krónum þegar húnstofnaðist. Þetta þýði að aðalkrafa stefnanda lækki um þá fjárhæð og nemivarakrafan því lækkun um 508.199.548 krónur.Þrautavarakrafanbyggist á því að samþykkt verði, eins og í aðalkröfu, að fella hina umdeilduálagningu niður í heild sinni, en þess í stað greiði stefnandi tekjuskatt ogútsvar af verðmæti söluréttarins eins og það var á þeim tíma sem þeir voruveittir, þ.e. á árunum 2004 og 2005, samkvæmt útreikningi fjármálasérfræðings,sem þýðir að á móti samtals lækkun tekjuskatts- og útsvarsstofns gjaldaárið2007, sbr. aðalkröfu, komi hækkun sama stofns fyrir gjaldárið 2005 um23.121.467 krónur og fyrir gjaldárið 2006 um 116.153.445 krónur, eða samtalshækkun á tekjuskatts- og útsvarsstofni á gjaldárunum 2005 og 2006 um139.274.912 krónur. Þannig sé gerð krafa um nettó lækkun samkvæmtþrautavarakröfu, sem nemi samkvæmt því 456.816.258 krónum (596.091.170÷139.274.912). Með því að skattleggja verðmætiveitingar söluréttarins hjá stefnanda, fari skattlagning söluhagnaðarhlutabréfanna í Straumi hf. eftir reglum um skattlagningu fjármagnstekna, þ.e.í þessu tilfelli sem söluhagnaðar hlutabréfa í hendi Brekku ehf., sem séskattlagning sem ríkisskattstjóri hafi vottað að hafa engar athugasemdir við.Stefnandi vísar til eftirfarandi réttarheimilda:Laga nr. 33/1944, stjórnarskrár; 40. gr., 72. gr. og 1. og 2. mgr. 77. gr.Laga nr. 68/1971 um tekjuskatt og eignarskatt; A-liðar 10. gr.Laga nr. 40/1978 um tekjuskatt og eignarskatt; 28. gr.Laga nr. 86/2000 um breyting á lögum 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt; 2. gr.Laga nr. 90/2003 um tekjuskatt; 1. mgr. 1. tl. A-liðar 7. gr.; 9. gr., 10. gr., 2. mgr. 59. gr., og 118. gr.Laga nr. 37/1993, stjórnsýslulaga; 10. gr. og 12. gr.Reglugerðar nr. 245/1963 um tekjuskatt og eignarskatt; B-liður 13. gr. og 1. tl. 20. gr.Almennra reglna fjármunaréttar.Umvarnarþing vísar stefnandi til 3. mgr. 33. gr. laga 91/1991.Krafa um málskostnað byggir á ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991 ummeðferð einkamála, einkum 129 gr. laganna. V.Málsástæður og lagarök stefndaStefndivísar til þess að hlutabréfavalréttur felist í því að handhafihans öðlist rétt til að kaupa eða selja tiltekin hlutabréf á fyrir fram ákveðnuog föstu gengi á tilteknum tíma eða tímabili að eigin vali. Hann sé ekkiskuldbundinn því að kaupa eða selja. Þegar um kaupréttarsamning sé að ræða,ráðist hagsmunir eiganda valréttar af því að geta krafist þess, að útgefandiselji honum hin undirliggjandi verðmæti á lægra verði en markaðsverð þeirranemi. Hvað söluréttarsamninga varðar séu þessir hagsmunir öfugir. Þar ráðisthagsmunir eigandans af því að geta selt hin undirliggjandi verðmæti á hærraverði en markaðsverð þeirra hljóði upp á.Áhrif skattlagningartekna af valrétti ráðist af skiptingu teknanna í launatekjur og söluhagnað ogþeim sköttum sem lagðir séu á hvora tekjutegund um sig. Hjá einstaklingum sætilaun og skyldar tekjur annars vegar og fjármagnstekjur hins vegar ólíkriskattlagningu. Í skattalögum sé fjallað um laun og skyldar tekjur í A-lið 7.gr., en um fjármagnstekjur í C-lið sömu greinar.Afstaðaskattyfirvalda hafi ávallt verið skýr um að starfstengd hlunnindi skuliskattleggja skv. 1. mgr. 1. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.Í lagagreininni séu taldar upp sem dæmi ýmsar tegundir launa og hlunninda. Framkomi að ekki skipti máli hver taki við greiðslu, í hvaða gjaldmiðli sé goldið,í reiðufé, fríðu, hlunnindum eða vinnuskiptum svo dæmi sé tekið. Í B-lið 13.gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt sé m.a. kveðið á umað til launatekna teljist greiðsla í hlutafjáreign í hlutafélagi sem eigi aðtekjufærast á gangverði.Í 9. gr. laga nr.90/2003 um tekjuskatt sé að finna ákvæði um kaup á hlutabréfum samkvæmtkauprétti. Í ákvæðinu komi fram að tekjur skv. 1. tl. A-liðar 7. gr., vegnakaupa manns á hlutabréfum samkvæmt kauprétti, sem hann hefur öðlast vegnastarfa fyrir annan aðila, sbr. þó 10. gr. laganna, skuli ákveðnar eins ogkveðið sé á um í 9. gr. Til skattskyldra tekna teljist mismunur á kaupverðisamkvæmt kaupréttarsamningi og gangverði bréfanna þegar kaupréttur er nýttur.Með gangverði sé átt við skráð markaðsverð í kauphöll eða á skipulegumtilboðsmarkaði þegar kaupréttur er nýttur. Ef hlutabréf í félagi eru ekki skráðí kauphöll skuli miða við gangverð þeirra í viðskiptum, annars bókfært verðeigin fjár samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi eða árshlutareikningiviðkomandi félags. Fyrir lögfestingu ákvæðisins hafi verið litið svo á aðtekjurnar féllu undir almenna reglu 7. gr. tekjuskattslaga um starfstengdargreiðslur. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 626/2010 komi fram að með upphafsorðum9. gr. hafi löggjafinn tekið af tvímæli um að tekjur í skilningi 1. mgr. 1. tl.7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, geti m.a. myndast með kaupum áhlutabréfum samkvæmt kauprétti. Eðli máls samkvæmt verði að fara eins með hverskonar starfstengd kaup á hlutabréfum. Í dómi Hæstaréttar frá 13. október 2011 ímáli stefnanda nr. 241/2010 segi m.a. að stefnandi hafi notið, til viðbótaralmennum launatekjum, ávinnings af störfum sínum sem svaraði til hækkunar áverði hlutabréfanna frá upphaflegu kaupverði þeirra, sbr. 9. gr. laga nr.90/2003, um tekjuskatt.57. gr. laga nr.90/2003, um tekjuskatt, geymi almenna meginreglu skattaréttar, þ.e. svokallaða raunveruleikareglueða armslengdarreglu. Í reglunni felist að sérstök tengsl aðila eigi ekki aðhafa áhrif á viðskiptalegar forsendur milli þeirra og sé skattyfirvöldumheimilt að hlutast til um ákvörðun skattstofna ef viðskipti eru talin óvenjulegeða með öðrum hætti en almennt myndi gerast í viðskiptum ótengdra aðila.Skattlagning verði að byggjast á raunverulegum ráðstöfunum, en ekki á þeimbúningi sem ráðstöfunin hafi verið færð í sé hann í ósamræmi viðraunveruleikann. Dómstólar og yfirskattanefnd hafi sett fram ákveðin skilyrðifyrir því að nefndri 57. gr. tekjuskattslaga sé beitt, en þau séu meðal annarsað gerningar séu verulega frábrugðnir því sem almennt þekkist, að tengsl séu ámilli samningsaðila og að ráðstöfun sé gerð í þeim eina tilgangi að lækkaskattgreiðslur. Stefndi tekur undir orð ríkisskattstjóra í úrskurði hans dags,17. október 2012, þar sem segir að telja verði að þegar gerðir eru samningarmilli félags starfsmanns og launagreiðanda hans um að endurgjald eða hlunnindifyrir vinnuframlag starfsmannsins komi í hlut félagsins, séu þeir samningarverulega frábrugðnir því sem almennt gerist og ólíklegt að þeir hefðu veriðgerðir á milli ótengdra aðila. Í slíkum tilvikum beri að líta fram hjá félaginumeð vísan til 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og skattleggjatekjurnar hjá starfsmanninum skv. 1. mgr. 1. tl. A-liðar 7. gr. sömu laga.Varðandi sýknukröfubendir stefndi á að krafa stefnanda um ógildingu úrskurðar ríkisskattstjóra ogúrskurðar yfirskattanefndar byggi bæði á formkröfum og efniskröfum. Stefnandihafni því að hægt sé að líta fram hjá eignarhaldsfélagi hans, Brekku ehf., ísambandi við kaup og sölu hlutabréfanna. Þar sem eignarréttur að hlutabréfunumfærðist yfir til stefnanda við gerð kaupsamninganna og greiðslu kaupverðs, hafihann tryggt sig fyrir áhættu með því að láta eignarhaldsfélag sitt, Brekkuehf., kaupa bréfin og með því að fá sölurétt frá Straumi hf. Þá haldi hann þvífram að á þeim tíma sem sala hlutabréfanna í Straumi hf. fór fram, þann 28.júní 2006, hafi ekki verið talið að losun úr „viðjum kaupréttar vinnuveitanda“hefði í för með sér hlunnindi í hendi starfsmanns hans. Því sé um afturvirkniað ræða sem sé í andstöðu við 2. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar og meginreglustjórnsýslulaga. Ríkisskattstjóri hafi tekið upp fasta framkvæmd á þessumreglum á árunum 2006-2011, sbr. bindandi álit ríkisskattstjóra nr. 5/2010. Ílögmætisreglunni felist að skattar séu fyrirsjáanlegir. Ríkisskattstjóri getiekki beitt nýrri skattareglu sem tekin var upp á árinu 2011 eftirHæstaréttardómana tvo um álagningu vegna tekna 2006 í framtali stefnandagjaldárið 2007. Stefnandi telur að Hæstiréttur hafi í dómum sínum á árinu 2011ekki bent á neitt skýrt lagaákvæði sem hann hafi getað byggt sjónarmið sín á,en hafi vísað í 9. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt með lögjöfnun eðarýmkandi skýringu sem ekki sé tæk. Þá telji stefnandi að ríkisskattstjóri hafilátið undir höfuð leggjast að setja reglur um sölurétt í skattmat og beri þvíábyrgð á rangri framkvæmd skattareglna á þessu sviði um árabil.Ríkisskattstjóri og yfirskattanefnd hafi ekki gætt meðalhófs í máli þessu.Yfirskattanefnd hafi gagnrýnislaust fallist á hugleiðingar Hæstaréttar umverðmæti kaupréttar Straums hf. og úrskurðir yfirskattanefndar ogríkisskattstjóra séu vanreifaðir þar sem ekki sé fjallað um það að í nýrrisamningum stefnanda um sölurétt sé að finna nýja málsgrein sem ekki var ísamningum frá 2003. Ábendingar í dómi Hæstaréttar nr. 241/2010 hafi því engaþýðingu hér þar sem forsendur séu ólíkar. Stefnandi hafi aldrei nýttsöluréttinn og honum hafi ekki verið sagt upp vegna vanefnda. Þá komi fram ístefnu að stefnandi hafi oftar en einu sinni boðist til að telja fram tilskatts í samræmi við mat á virði söluréttar til þess að ljúka málinu, enríkisskattstjóri hafi ekki orðið við þeirri ósk.Stefndi vísar þessumsjónarmiðum stefnanda eindregið á bug. Að mati stefnda leiki enginn vafi á þvíað um sé að ræða starfstengd hlunnindi stefnanda sjálfs sem hann færði inn íeignarhaldsfélagið Brekku ehf., sem hann sé eini eigandinn að. Samningarnir umkaupin á hlutabréfunum, lánssamningarnir og samningarnir um sölurétt stefnandaog kauprétt Straums hf. hafi verið hluti af launakjörum stefnanda og hann þvíréttur aðili málsins.Í dómum Hæstaréttar ímálunum nr. 626/2010 og 241/2010 komist rétturinn að þeirri niðurstöðu aðáfrýjendum í málunum hafi verið veitt starfstengd hlunnindi. Að liðnum ákveðnumtíma hafi tekjurnar myndast og orðið um leið skattskyldar. Þá hafi Hæstirétturbent á að með lagasetningu hafi verið tekin af öll tvímæli um að tekjur, semverði af starfstengdum hlutabréfakaupum, séu skattskyldar skv. 1. mgr. 1. tl.A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og því geti ekki verið um neinaafturvirkni að ræða. Í söluréttarsamningi stefnanda hafi falist að Straumur hf.átti kauprétt að hlutabréfum stefnanda á verði sem fyrir lá, bryti stefnandigegn ákvæðum samningsins. Þegar hann léti af störfum losnaði hann úr viðjumkaupréttarins. Hann seldi þá hlutabréfin og innleysti hagnað af þeim.Hæstiréttur dæmi eftir gildandi lagareglum á hverjum tíma, sem skattyfirvöldséu bundin af, og verði ekki séð hvaða nýju sjónarmiðum hafi verið beitt ímálinu. Samkvæmt 1. mgr. 1. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskattséu tekjur starfsmanna af hlunnindum, sem þeir njóta vegna starfa sinna,skattskyldar. Stefnandi hafi fært hluta launatekna sinna inn í eignarhaldsfélagsitt og ekki gert grein fyrir þeim hlunnindatekjum í skattskilum sínum. Ekki séunnt að fallast á að í álagningunni felist afturvirkni eða breytt framkvæmd,enda verði að líta til þess hvað raunverulega liggi fyrir hverju sinni og hafiálagning gjaldárið 2007 verið á því byggð að stefnandi hafi losnað úr viðjumkaupréttar vinnuveitanda síns við starfslok sín. Stefnandi hafði krafistógildingar fyrri framkvæmdar fyrir dómi og á það hafi verið fallist. Þá varðiúrskurður ríkisskattstjóra síðari gjaldár en fjallað var um í hinu fyrra máli.Stefndi telur að ekkifái staðist þau sjónarmið stefnanda að málsástæða hans um skattlagningu áverðmæti söluréttar hefði getað leitt til lækkunar á tekjum hans og brotið hafiverið gegn meðalhófi. Hið rétta sé að sú skattlagning, sem stefnandi fór framá, hefði ekki getað komið í stað þeirrar skattlagningar sem um ræðir í úrskurðiríkisskattstjóra, heldur hefði væntanlega orðið um viðbót að ræða vegna fyrrigjaldára. Stefndi tekur undir orð ríkisskattstjóra í úrskurði hans, dags. 17.október 2012, að jafnvel þótt færa megi rök fyrir því að rétt væri að reiknaverðmæti söluréttartryggingar þeirrar, sem fólst í sölurétti stefnanda áhlutabréfunum, og skattleggja hana við afhendingu voru þær tryggingar afhentará árunum 2004 og 2005. Þær geti ekki komið í stað þeirra tekna sem fjallað séum í máli þessu og mynduðust á árinu 2006 og gætu því eingöngu komið tilviðbótar og til hækkunar gjalda. Það leiði hins vegar af ákvæðum 1. mgr. 97.gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að heimild til endurákvörðunar skatts af tekjum sem fælust íverðmæti söluréttar við afhendingu á framangreindum árum væri fallinniður og því engin ástæða til að fjalla frekar umþær. Með sömu rökum megi vissulega segja að kaupréttur, sem afhentur séstarfsmanni fyrirtækis endurgjaldslaust, feli í sér hlunnindi en hingað tilhafi ekki verið gefið út skattmat um slík hlunnindi, enda hafi tekjur afkauprétti ekki verið skattlagðar fyrr en við innlausn kaupréttarins. Tekjur afkauprétti hafi um árabil verið skattlagðar við nýtingu hans með sambærilegumhætti og í máli þessu. Hið sama gildi um aðra samninga milli starfsmanna ogfyrirtækja um hlutabréfakaup, sem leiði til hlunnindatekna starfsmanna.Úrskurðir ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar séu því bæði rökréttir ogbyggðir á málefnalegum forsendum.Stefndi vísarstaðhæfingum stefnanda um brot gegn meðalhófsreglu eindregið á bug.Meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, kveði á um það aðstjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði,sem að er stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Þess skuli þá gætt aðekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Meðalhófsreglastjórnsýslulaganna sé almenn regla, sem gildi um allar ákvarðanir semstjórnvöld taka um réttindi og/eða skyldur borgaranna. Ef stjórnvöld brjótagegn meðalhófsreglunni við ákvarðanatöku, geti það leitt til þess að ákvörðuninsé ógildanleg. Í máli þessu sé einungis um að ræða úrlausn ágreiningsefna ágrundvelli gildandi réttarreglna, en ekki matskenndra ákvarðana stjórnvalda, ogverði því ekki talið að ákvæði 12. gr. stjórnsýslulaga eigi við.Þóttsöluréttarsamningur milli Straums hf. og stefnanda, sem gerður var á árinu2003, innihéldi ekki sams konar ákvæði um kauprétt Straums hf. og síðarisamningarnir gerðu, hafi það engin áhrif á niðurstöðu málsins. Í máli þessugerði samningurinn ráð fyrir því að kaupréttur Straums hf. félli sjálfkrafaniður við þær aðstæður sem sköpuðust þegar stefnanda var sagt upp störfum ánsakar.Af hálfu stefnda ertekið undir þá túlkun ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar að líta beri framhjá eignarhaldsfélaginu Brekku ehf., með vísan til 1. mgr. 57. gr. laga nr.90/2003, um tekjuskatt og skattleggja hlunnindi hjá stefnanda sjálfum vegnasamninganna. Samkvæmt efni samninganna hafi tekjur myndast hjá stefnanda ískilningi 1. mgr. 1. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, meðtvennum hætti. Annars vegar þær tekjur, sem stefnandi hefði haft ef hann hefðineytt söluréttarins, og hins vegar gat stefnandi losnað undan kaupréttivinnuveitanda síns með því að starfa áfram hjá honum um tveggja ára skeið eftirgerð samningsins og hlotið þá að launum tekjur, sem svöruðu til hækkunar áverði hlutabréfanna frá upphaflegu kaupverði þeirra, sbr. 9. gr.tekjuskattslaga eins og átti við í máli þessu. Rétt þyki að líta heildstætt ásamninga stefnanda, þ.e. kaupsamning, lánssamning og söluréttarsamning, við matá því hvað teljist upphaflegt kaupverð hlutabréfanna. Gjaldandi hafi ekki nýttsölurétt sinn og sá réttur hafi því ekki myndað tekjur hjá honum. Þegarstefnanda var sagt upp störfum án sakar hafi fallið niður kaupréttur Straumshf. og losnaði stefnandi þá úr þeim viðjum kaupréttar vinnuveitanda síns oghafði af því persónulegar tekjur, sem sprottnar voru af starfssambandi hans.Með vísan til þesssem að framan greinir sé engum þeim form- eða efnisannmörkum fyrir að fara áúrskurði ríkisskattstjóra og úrskurði yfirskattanefndar, er leitt gæti að lögumtil þess að þeir verði felldir úr gildi eins og krafist er í aðal- ogþrautavarakröfum stefnanda. Ekki fái heldur staðist að þeim verði breytt í þáveru að í stað þeirra tekna sem stefnanda hlotnuðust vegna hækkunar á verði hlutabréfanna,verði stefnanda fært til tekna reiknað verðmæti kaupréttarkvaðar í hendiStraums hf. að fjárhæð 87.891.622 kr. eins og krafist sé í varakröfu stefnanda.Sú kröfugerð sé órökrétt og órökstudd og fái ekki staðist. Kröfur stefnanda fáiþannig ekki staðist hvernig sem á sé litið og því beri að sýkna stefnda aföllum kröfum hans í málinu. VI.NiðurstaðaStefnandi er fyrrverandiframkvæmdastjóri Straums hf. Á árunum 2004 og 2005 gerði hann, í nafnieinkahlutafélagsins síns Brekku ehf., tvo samninga um kaup á hlutabréfum ífélaginu, annars vegar að nafnverði 50.000.000 kr. fyrir 327.500.000 kr., oghins vegar að nafnverði 100.000.000 kr. fyrir 1.350.000.000 kr. Til greiðslukaupverðsins var í hvort skipti tekið lán hjá Íslandsbanka hf. og fékk bankinnhandveð í bréfunum til tryggingar endurgreiðslu þess. Samhliða kaupunum gerðuBrekka ehf. og Straumur hf. einnig í hvort skipti með sér „samning um söluréttá hlutum í Straumi Fjárfestingarbanka hf.“, sá fyrri er dagsettur 18. júní 2004og hinn síðari. 7. sept. 2005. Samningarnir kváðu bæði á um sölurétt Brekkuehf. á hlutabréfunum sem og skilyrtan kauprétt Straums hf. á þeim. Annars vegarhafði Straumur hf. rétt á að kaupa aftur hlutabréfin af Brekku ehf. ásamningstímanum, ef stefnandi léti af störfum hjá Straumi hf. eða honum yrðisagt upp vegna vanefnda á starfsskyldum sínum, á upphaflegu kaupverði þeirra aðviðbættum fjármagnskostnaði vegna kaupanna en að frádregnum arðstekjum afhlutabréfunum. Hins vegar naut stefnandi, í nafni Brekku ehf., ótakmarkaðssöluréttar á bréfunum og átti hann því rétt á því að Straumur hf. keypti þauaftur af honum skilyrðislaust, byði honum svo við að horfa, á upphaflegu gengibréfanna að viðbættum fjármagnskostnaði en frádregnum arðstekjum afhlutabréfunum.Enginn hagnaður gat því myndastvið slíka sölu en að sama skapi átti stefnandi aldrei að verða fyrirfjárhagstjóni vegna viðskiptanna. Þá gekkst Brekka ehf. undir þá kvöð að seljaekki bréfin á gildistíma samninganna. Þó svo að Brekka ehf. hafi veriðlögformlegur eigandi hlutabréfanna bar hún því ekki fjárhagslega áhættu af þeimog naut heldur ekki fjárhagslegs ávinnings af þeim nema stefnandi starfaði hjáStraumi hf. á gildistíma samninganna eða væri sagt upp án vanefnda ástarfsskyldum sínum. Hinn 21. júní 2006 var stefnandasagt upp störfum sem framkvæmdastjóra hjá Straumi hf. án vanefnda ástarfsskyldum. Við uppsögnina losnaði Brekka ehf. undan kauprétti Straums hf.af eignarhlut Brekku ehf. í Straumi hf. og sölubanni á bréfunum og gat því seltþau á markaði. Hinn 28. sama mánaðar seldi Brekka ehf. öll hlutabréf sín íStraumi hf., að nafnverði 150.000.000 kr., á genginu 18,9 fyrir alls2.835.000.000 kr. og innleysti þannig söluhagnað af hlutabréfunum sem nam1.157.500.000 kr. Auk söluhagnaðar af hlutabréfunum naut Brekka ehf. arðsteknaaf þeim á árunum 2004 til 2006 að fjárhæð 114.944.135 kr. en greiddifjármagnskostnað vegna þeirra að fjárhæð 213.908.830 kr. Nettó tekjur Brekkuehf. af umræddum samningum námu því 1.058.535.305 kr.Í máli þessu er deilt umskattlagningu þeirra tekna sem stefnandi hafði vegna umræddra samninga í nafniBrekku ehf. og snýst ágreiningurinn um það hvort tekjurnar teljist hagnaður afsölu hlutabréfa, og skuli því bera fjármagnstekjuskatt, eða launatekjur og eigiþví að skattleggjast sem launatekjur stefnanda.Með úrskurði ríkisskattstjóradags. 17. okt. 2012 voru opinber gjöld stefnanda endurákvörðuð eins og umræddartekjur væru launatekjur og stofn hans til tekjuskatts og útsvars vegnagjaldársins 2007 hækkaður um 943.591.170 kr. Með úrskurði nr. 387/2013 hinn 31.des. 2013 staðfesti yfirskattanefnd þá ákvörðun ríkisskattstjóra í meginatriðumen lækkaði stofn stefnanda til útsvars og tekjuskatts um 347.500.000 kr.Aðalkrafa stefnanda er því um ómerkingu þessara úrskurða, og samsvarandi lækkuná stofni sínum til tekjuskatts og útsvars, ogbyggist hún bæði á formlegum og efnislegum ástæðum.FormlegarástæðurRétturskattaðiliStefnandi gerirathugasemdir varðandi aðild málsins þar sem stefnandi keypti og seldi hlutabréfþau og gerði samninga þá sem gáfu af sér umræddar tekjur ekki í eigin nafniheldur í nafni eignarhaldsfélags síns, Brekku ehf. Af ofangreindu efnisamninganna er þó ljóst að með þeim voru stefnanda veitt hlunnindi sem stóðuhonum til boða vegna þess að hann var starfsmaður Straums hf. og með þeimskilyrðum að hann yrði það áfram í tilgreindan tíma. Þá var í 3. gr.samninganna sérstaklega tiltekið að þeir væru liður í kaupréttaráætlun Straumshf. við stefnanda og að þeir væru gerðir á þeirri forsendu að hann starfaði hjáStraumi eigi skemur en tvö ár. Er því fallist á það með stefnda að með umræddumsamningum hafi stefnandi notið hlunninda sem falla undir tekjur sem eruskattskyldar skv. 1. mgr. 1. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, umtekjuskatt. Með vísan til grunnreglu 1. mgr. 57. gr. sömu laga er stefnandi þvíréttur skattaðili í máli þessu.EðliteknannaÍ 9. gr. laga nr.90/2003, um tekjuskatt, er fjallað um skattlagningu kaupréttar starfsmanna. Þósvo að í samningunum sem hér um ræðir sé tiltekið að þeir séu liður íkaupréttaráætlun Straums hf. við stefnanda er ekki um hefðbundinn skilyrtankauprétt starfsmanns að ræða, sem kveður með beinum hætti á um rétt hans tilkaupa á hlutabréfum vinnuveitenda í lok gildistímans með því skilyrði að hanngegni áfram störfum, heldur útfærslu á slíkum kauprétti með hlutabréfakaupum,lántöku, sölurétti og skilyrtum kauprétti vinnuveitanda. Þessi útfærslakaupréttar er vel þekkt á afleiðumörkuðum, hún er jafnan kölluð tilbúinnkaupréttur (synthetic call) og er bein afleiðing af svokölluðu jafnvægi kaup-og söluréttar (put-call parity). Í heild sinni höfðu umræddir samningar sömufjárhagslegu áhrif fyrir stefnanda og ef hann hefði í staðinn fengiðhefðbundinn skilyrtan kauprétt að hlutabréfum vinnuveitandans. Samningarnir semhér um ræðir verða þó ekki felldir beint undir 9. gr. laganna. Engin sambærilegákvæði eru í lögunum um sölurétt starfsmanna eða skilyrtan kauprétt vinnuveitendasvo að hvers konar hlunnindi af slíkum samningum falla undir 1. tl. A-liðar 7.gr. laganna.Eftirgjöfá kaupréttiFallist er á það meðstefnda að tekjur stefnanda hafi fallið til þegar Brekka ehf. losnaði undankvöð um kauprétt vinnuveitanda stefnanda að eignarhlut Brekku ehf. í Straumihf. Fyrir þann tíma gat Brekka ehf. ekki notið þeirra arðstekna og þessóinnleysta gengishagnaðar sem orðinn var á eignarhlutnum því að hún hafði aðóbreyttu gengist undir þær kvaðir að eiga bréfin á gildistíma samningsins og aðþurfa hugsanlega að selja Straumi hf. eignarhlutinn á kostnaðarverði aðviðbættum fjármagnskostnaði og frádregnum arðstekjum. Eftir þann tíma gatBrekka ehf. hins vegar selt hlutabréfin á markaði og þar með innleyst þannhagnað, sem þau höfðu gefið af sér, í þágu stefnanda.Afturvirknio.fl.Ákvörðun ogskattlagning fríðinda og hlunninda samkvæmt slíku sjónarmiði jafngildir ekkilagasetningu, heldur snýst hún um að fella nýja viðskiptahætti undir gildandilög. Skattlagningin sem slík verður því ekki talin brjóta í bága við 40. gr.eða 77. gr. stjskr. um bann við afturvirkum skattalögum. Þá rýrir það ekkiheimild til skattlagningar þótt ekki hafi verið kveðið á um ákvörðunhlunnindateknanna í verklagsreglum ríkisskattstjóra enda fjölmörg dæmi um það íframkvæmd. Er ávallt tekið fram í gildandi verklagsreglum að þegar svo standi áberi að ganga út frá markaðsverði hlunnindanna svo sem gert hafi verið í þessumáli. Sjónarmiðum stefnanda reistum á skorti á nægjanlegum lagaskýrleika ogmeðalhófi er því hafnað.EfnislegarástæðurSölurétturlaunþega ekki nýtturMeð samningum sínumvið Straum hf. var stefnanda tryggður söluréttur á hlutabréfum sínum á samaverði og hann keypti bréfin á að viðbættum fjármagnskostnaði vegna kaupanna ogfrádregnum arðstekjum af bréfunum. Í því fólst að Straumur hf. tryggði aðstefnandi yrði ekki fyrir fjárhagstjóni af viðskiptunum. Ekki reyndi á söluréttþennan þar sem stefnandi seldi að lokum bréfin á markaði. Skiptir sölurétturinnþví ekki máli við skattlagninguna.Kauprétturvinnuveitanda ekki andlag skattlagningarréttar hjá launþegaSama gildir umkauprétt þann sem Straumur hf. fékk með samningunum við tilteknar aðstæður. Áhann reyndi ekki og hann er því ekki skattandlag hjá stefnanda.EftirgjöfkaupréttarEins og að framan errakið féllu tekjur stefnanda til þegar félag hans Brekka ehf. losnaði undankvöð um kauprétt vinnuveitanda hans.Með gerð seinnisamnings Brekku ehf. og Straums hf., hinn 7. sept. 2005, féllu niður réttindiog skyldur aðila samkvæmt fyrri samningnum, þar á meðal kauprétturvinnuveitenda stefnanda að 50.000.000 hluta í Straumi hf. og kvöð um eignarhaldBrekku ehf. á hlutunum. Með gerð seinni samningsins losnaði félag stefnandaBrekka ehf. því undan kauprétti vinnuveitanda hans og þannig naut stefnanditekna af störfum sínum í hans þágu sem svaraði til hækkunar á verðihlutabréfanna umfram kaupverð samkvæmt kauprétti vinnuveitandans. Óinnleysturgengishagnaður Brekku ehf. af eignarhlutnum nam þá 347.500.000 kr. Þann hagnaðinnleysti félagið með nýrri lántöku hjá Íslandsbanka hf. og hafði hann þvífrjálsan til ráðstöfunar, að viðbættum arðstekjum en frádregnumfjármagnskostnaði af eignarhlutnum á tímabilinu 18. júní 2004 til 7. sept.2005.Á sama hátt losnaðiBrekka ehf. undan kauprétti vinnuveitanda stefnanda að 150.000.000 hluta íStraumi hf. samkvæmt seinni samningnum þegar stefnanda var sagt upp störfum ánvanefnda á starfsskyldum hinn 21. júní 2006 og naut stefnandi þannigsamsvarandi tekna af störfum sínum í þágu vinnuveitenda síns frá 7. sept. 2005.Stefnandi innleysti þær tekjur viku síðar þegar Brekka ehf. seldi allaneignarhlutinn í Straumi hf. og nam söluhagnaður hlutabréfanna 810.000.000 kr. Af framansögðu leiðirað tekjur stefnanda vegna fyrri samningsins féllu til við undirritun seinnisamningsins, hinn 7. sept. 2005. Samkvæmt 1. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003 umtekjuskatt nær heimild til endurákvörðunar skatts til tekna og eigna síðustusex ár sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram. Frestur tilendurákvörðunar skatts vegna tekna ársins 2005 rann því út árið 2011 og verðurstefnanda því ekki gert að sæta endurákvörðun skatts vegna tekna af fyrrisamningnum eins og gert var með úrskurði ríkisskattstjóra sem kveðinn var upphinn 17. október 2012. Í úrskurði yfirskattanefndar var stofn stefnanda tiltekjuskatts og útsvars lækkaður um sem nam hærri fjárhæð en tekjum hans vegnafyrri samningsins og því er tekið tillit til þessa atriðis í úrskurðiyfirskattanefndar.Á sama hátt er ljóstað tekjur stefnanda vegna síðari samningsins féllu til þegar stefnanda var sagtupp störfum hjá Straumi hf. hinn 21. júní 2006 og var frestur tilendurákvörðunar skatts vegna þeirra því ekki liðinn þegar úrskurðurríkisskattstjóra var kveðinn upp. Tekjur stefnandavegna síðari samningsins námu mismun á verðmæti hlutabréfanna og kaupverðibréfanna samkvæmt kauprétti vinnuveitandans sem féll niður við uppsögnstefnanda. Samkvæmt 2. mgr. B-liðar 13. gr. reglugerðar nr. 245/1963 skulu laungreidd í hlunnindum talin til tekna eftir gangvirði á hverjum stað og tíma.Hlutabréf í Straumi hf. voru skráð í kauphöll á þessum tíma og nam markaðsverðþeirra hinn 21. júní 19,5 kr. á hlut. Því var gangverð eignarhlutarins2.925.000.000 kr. Við ákvörðun tekna stefnanda horfði ríkisskattstjóri íúrskurði sínum þó til þess að Brekka ehf. seldi hlutabréfin viku síðar á lægraverði, eða 18,9, og valdi lægra verðið við ákvörðun gangverðs með vísan tilmeðalhófsreglu stjórnsýslulaga og ákvarðaði því gangverð eignarhlutarins2.835.000.000 kr. Tekjur stefnanda vegna samningsins eru því vanáætlaðar íúrskurði ríkisskattstjóra sem þessu nemur.Samkvæmt samningnumskyldi kaupverð á kauprétti vinnuveitandans nema upphaflegu kaupverðieignarhlutarins, 2.025.000.000 kr., að viðbættum fjármagnskostnaði Brekku ehf.af eignarhlutnum samkvæmt lánssamningi við Íslandsbanka en að frádregnumarðstekjum Brekku ehf. af eignarhlutnum. Til að ákvarða tekjur stefnanda vegnasíðari samningsins þyrfti því að ákvarða bæði fjármagnskostnað og arðstekjurBrekku ehf. af eignarhlutnum á gildistíma samningsins, þ.e. frá 7. sept. 2005til 21. júní 2006. Í úrskurðiyfirskattanefndar kemur fram að fjármagnskostnaður Brekku ehf. vegna hlutabréfaí Straumi hf. hafi í heild numið 213.908.830 kr. en hann er hins vegar ekkisundurliðaður á gildistíma hvors samnings. Í úrskurðinum erfjármagnskostnaðurinn í heild dreginn frá söluhagnaði Brekku ehf. afhlutabréfunum og eru tekjur stefnanda vegna seinni samningsins því vanáætlaðarsem nemur fjármagnskostnaði fyrri samningsins.Í úrskurðinum kemureinnig fram að arðstekjur Brekku ehf. af eignarhlutnum hafi í heild numið114.994.135 kr. á gildistíma beggja samninga en þær eru ekki sundurliðaðar ágildistíma hvors samnings. Í úrskurðinum er arðstekjum Brekku ehf. ekki bættvið söluhagnað hlutabréfanna og eru tekjur stefnanda vegna seinni samningsinsþví einnig vanáætlaðar hvað þetta varðar, þ.e. sem nemur arðstekjum Brekku hf.á gildistíma seinni samningsins.Af öllu ofangreinduer því ljóst að í úrskurði yfirskattanefndar eru tekjur Brekku ehf. vegnaseinni samningsins réttilega ákvarðaðar sem skattskyld hlunnindi stefnanda skv.1. mgr. 1. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, en jafnframt að fjárhæð þeirraer nokkuð vanáætluð. Vegna þessa verður að taka aðalkröfu stefnda til greina ogsýkna hann af öllum kröfum stefnanda.Eftir þessum úrslitumog að teknu tilliti til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gertað greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákvarðaður 900.000 krónur. Vegna anna dómarahefur uppkvaðning dóms dregist umfram frest skv. 1. mgr. 115. gr. laga nr.91/1991 um meðferð einkamála. Aðilar og dómarar eru sammála um að ekki sé þörfá endurflutningi.Dóminn kváðu upphéraðsdómarinn Þórður Clausen Þórðarson, sem var dómsformaður, ogmeðdómendurnir, Ásmundur G. Vilhjálmsson aðjúnkt og Hersir Sigurgeirssondósent.Dómsorð: Stefndi,íslenska ríkið, er sýknaður af kröfum stefnanda, Þórðar Más Jóhannessonar, ímáli þessu. Stefnandigreiði stefnda 900.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 565/2008
Fasteignakaup Afhending Afsal Dagsektir
HS gerði skriflegt kauptilboð í jörðina S, þinglesna eign HH og E, 7. júní 2007, ásamt vélum og tækjum og öllum mannvirkjum á jörðinni, en án fullvirðisréttar og bústofns. HH samþykkti tilboðið með undirritun sinni á það en formlegur kaupsamningur var hins vegar ekki undirritaður. Í héraðsdómi deildu aðilar meðal annars um það hvort HH og E væru bundin af hinu samþykkta tilboði, en við meðferð málsins fyrir Hæstarétti lá fyrir yfirlýsing HH og E um að ekki væri ágreiningur með aðilum um að komist hefði á samningur um kaup HS á jörðinni. Fyrir Hæstarétti krafðist HS staðfestingar á hinum áfrýjaða dómi, þar sem HH og E var gert skylt, að viðurlögðum dagsektum, að gefa út afsal og afhenda honum umrædda fasteign gegn greiðslu kaupverðs samkvæmt umræddu kauptilboði. Taldi Hæstiréttur kröfu HS nægilega skýra þannig að fullnægt væri fyrirmælum d. liðar 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hins vegar veitti ákvæðið ekki heimild til að kveða jafnframt á um dagsektir miðað við tiltekinn tíma eftir uppsögu dóms, þar sem skyldan væri háð fyrirvara um gagngjald af hálfu stefnda sem hvorki lægi fyrir hvert væri né hefði verið innt af hendi þegar dómur var upp kveðinn. Voru HH og E því sýknuð af kröfu HS um dagsektir. Staðfesti Hæstiréttur hinn áfrýjaða dóm um að HH og E bæri að gefa út afsal til HS fyrir jörðinni S og afhenda honum eignina gegn greiðslu kaupverðs samkvæmt kauptilboðinu 7. júní 2007.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 17. október 2008. Þau krefjast sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Samkvæmt yfirlýsingu af hálfu áfrýjenda við meðferð málsins fyrir Hæstarétti er ekki ágreiningur með aðilum um að komist hafi á samningur milli málsaðila um kaup stefnda á jörðinni Sigríðarstöðum í Þingeyjarsveit. Samkvæmt síðari málslið 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er heimilt að verða við kröfu um að stefndum aðila verði gert skylt að leysa skyldu af hendi gegn tilteknu gagngjaldi úr hendi gagnaðila eða að skylda verði lögð á aðila til annars en peningagreiðslu að viðlögðum dagsektum. Í málinu krefst stefndi staðfestingar héraðsdóms þar sem áfrýjendum var gert skylt, að viðlögðum tilgreindum dagsektum sem á skyldu falla að liðnum tveimur vikum frá uppsögu dómsins, að gefa út afsal og afhenda honum umrædda fasteign „gegn greiðslu kaupverðs samkvæmt kauptilboði 7. júní 2007.“ Málsvörn áfrýjanda er ekki á því reist að framangreind tilgreining á endurgjaldi af hálfu stefnda sé svo óljós að ekki verði dómur lagður á kröfuna. Afhending hefur ekki farið fram og er því ekki ljóst hverjar verða fjárhæðir áhvílandi veðskulda við afhendinguna sem stefnda ber að yfirtaka, sbr. 13. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup. Telja verður kröfu stefnda nægilega skýra þannig að fullnægt sé fyrirmælum d. liðar 80. gr., sbr. síðari málslið 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Hins vegar veitir síðastgreint ákvæði ekki heimild til að kveða jafnframt á um dagsektir miðað við tiltekinn tíma eftir uppsögu dóms, þar sem skyldan er háð fyrirvara um gagngjald af hálfu stefnda sem hvorki liggur fyrir hvert er né hefur verið innt af hendi þegar dómur er upp kveðinn. Verða áfrýjendur því sýknaðir af kröfu stefnda um dagsektir. Samkvæmt þessu og með framangreindum athugasemdum verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um annað en dagsektir. Eftir þessum úrslitum og samkvæmt 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 ber að dæma áfrýjanda til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem í dómsorði segir. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en dagsektir. Áfrýjendur Hermann Róbert Herbertsson og Edda Petrína Olsen eru sýkn af kröfu stefnda, Hilmars Sigurpálssonar, um dagsektir. Áfrýjendur greiði óskipt stefnda 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Mál þetta, sem var dómtekið 23. f.m., er höfðað 12. október 2007 af Hilmari Sigurpálssyni, Leyningi, Eyjafjarðarsveitsveit, á hendur Hermanni R. Herbertssyni, Sigríðarstöðum, Þingeyjarsveit, og Eddu Petrínu Olsen, Skólagerði 61, Kópavogi. Í málinu gerir stefnandi þá dómkröfu að stefndu verði með dómi, að viðlögðum dagsektum að fjárhæð 50.000 krónur á dag frá uppkvaðningu dóms, þar til skyldunni er fullnægt, gert skylt að afhenda fasteignina Sigríðarstaði í Þingeyjarsveit, landnúmer 153-327, og að gefa út afsal til stefnanda, gegn greiðslu kaupverðs og yfirtöku veðskulda, allt í samræmi við samþykkt kauptilboð, dags. 7. júní 2007. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu óskipt. Stefndu krefjast sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnanda. I. Hinn 7. júní 2007 gerði stefnandi skriflegt kauptilboð í jörðina Sigríðarstaði í Þingeyjarsveit, þinglesna eign stefndu, ásamt vélum og tækjum og öllum mannvirkjum sem á jörðinni eru, en án fullvirðisréttar og bústofns. Hljóðaði tilboðið upp á 48.000.000 krónur. Skyldi haga greiðslu kaupverðs með þeim hætti að við undirskrift kaupsamnings átti að inna af hendi 5.000.000 króna, 10.000.000 króna við afhendingu jarðarinnar, 5.166.484 krónur við útgáfu afsals og 27.833.526 krónur með yfirtöku áhvílandi veðskulda. Lá fyrir áætlun um fjárhæð áhvílandi veðskulda þá er kauptilboðið var undirritað og út frá því gengið að fjárhæð eftirstöðva við útgáfu afsals tæki breytingum til samræmis við raunverulega stöðu veðskulda á kaupsamningsdegi og að teknu tilliti til greiðslustöðu fasteignagjalda. Stefndi Hermann samþykkti tilboðið með undirritun sinni á það þennan sama dag. Formlegur kaupsamningur hefur hins vegar ekki verið undirritaður. Hafa stefndu lýst því yfir að þau séu af ástæðum, sem síðar verða raktar, ekki bundin af hinu samþykkta kauptilboði. Á þetta hefur stefnandi ekki fallist og gerir í málinu kröfu um að viðurkennt verði að í gildi sé samningur um kaup hans á jörðinni Sigríðarstöðum og að stefndu verði gert að efna hann. II. Stefnandi kveður málsatvik vera þau að stefndi Hermann hafi komið til hans í mars 2007 og tjáð honum að hann hefði í hyggju að selja jörð sína Sigríðarstaði. Hafi stefndi leitað til Búgarðs, en það er ráðgjafaþjónusta og samstarfsverkefni þriggja búnaðarsambanda á Norðausturlandi, sem lagt hafi mat á verðmæti jarðarinnar og sauðfjárrekstur stefnda. Hafi matið hljóðað upp á 60.000.000 krónur. Hafi stefndi gert stefnanda nákvæma grein fyrir niðurstöðu matsmanns og sundurliðuðu verðmati og leitað eftir því að hann keypti jörðina af honum. Stefnandi hafi í kjölfarið látið framkvæma arðsemismat á þeim sauðfjárrekstri sem stundaður hafði verið á jörðinni og hafi að því fram komnu ekki séð fram á að hann gæti látið dæmið ganga upp nema að til kæmi veruleg lækkun á kaupverði. Í maí 2007 hafi stefndi aftur haft samband við stefnanda og óskað eftir því að hann keypti jörðina. Hafi stefnandi þá látið framkvæma nýtt arðsemismat fyrir sig og þá miðað við þá forsendu að sauðfjárrækt yrði hætt á jörðinni og þar hafin nautgriparækt. Hafi stefnandi talið að miðað við þær forsendur væri honum unnt að gefa meira fyrir jörðina. Hafi stefnandi gert stefnda munnlegt tilboð um kaup á jörðinni auk allra húsa og véla, en án greiðslumarks og bústofns, fyrir 38.000.000 krónur. Stefndi hafi ekki verið sáttur við það tilboð og hafnað því daginn eftir. Stefnandi hafi þá innt stefnda eftir því hvaða verð hann vildi fá fyrir jörðina, húsin og vélarnar. Hafi orðið úr þeir að þeir sættust á 48.000.000 krónur. Hafi stefndi óskaði eftir því að fá greiddan fyrirfram hluta af kaupverðinu og hafi stefnandi fallist á það þó svo að ekki hafi verið búið að ganga frá kaupsamningi. Til samræmis við þetta hafi stefnandi lagt 174.006 krónur inn á reikning stefnda 31. maí 2007 og hafi þeirri greiðslu verið ráðstafað inn á áhvílandi veðskuld. Í kjölfar þessa hafi stefnandi gert stefnda skriflegt tilboð í jörðina Sigríðarstaði ásamt öllum mannvirkjum og öllu því sem eigninni fylgir og fylgja ber, án fullvirðisréttar og bústofns, en með vélum samkvæmt tækjalista sem fylgdi tilboðinu. Hefðu stefnandi og stefndi undirritað tilboðið í votta viðurvist 7. júní 2007. Eftir undirritun kauptilboðs hafi stefndi afhent stefnanda frumeintök túnkorta, loftmyndir af jörðinni og allar húsateikningar svo að stefnandi gæti hafist handa við að láta teikna nauðsynlegar breytingar á húsum til að geta hafið nautgriparækt. Þá hafi stefndi einnig afhent stefnanda alla búreikninga og búfjármat fyrir jörðina. Stefnandi hafi í kjölfarið ítrekað óskað eftir því að gengið yrði frá kaupsamningi, en stefndi ekki verið fáanlegur til þess. Hinn 13. júlí 2007 hafi stefnanda svo verið afhent afrit af afsali stefndu Eddu Petrínu á hennar hlut í jörðinni til handa stefnda Hermanni. Þar hafi Edda Petrína jafnframt staðfest að stefndi Hermann hefði fullt og óskorað umboð og heimild til að ráðstafa jörðinni með kaupsamningi og afsali. Gegn afhendingu þessa skjals og að beiðni stefnda Hermanns hafi stefnandi lagt 1.000.000 króna inn á reikning stefnda og hafi sú greiðsla verið hugsuð sem hluti útborgunar. Stefnandi hafi þessu næst reynt frá afsalinu og kauptilboði sínu þinglýst á jörðina, en beiðni hans um þinglýsingu skjalanna hafi verið hafnað af sýslumanni þar sem ekki væri um frumrit afsals að ræða. Stefndi hafi hins vegar neitað að þinglýsa frumriti afsalsins frá meðstefndu til sín eða að afhenda stefnanda frumrit þess svo honum væri unnt að þinglýsa samþykktu kauptilboði sínu. Þessu næst er í stefnu gerð grein fyrir frekari samskiptum aðila og því að 27. júlí 2007 hafi stefnanda borist bréf frá stefnda Hermanni þar sem óskað hafi verið eftir því að kauptilboð stefnanda yrði dregið til baka. Því hafi stefnandi hafnað með bréfi 4. ágúst 2007 og jafnframt skorað á stefnda að efna skyldur sínar samkvæmt hinu samþykkta tilboði og afhenda eignina hið fyrsta gegn greiðslu kaupverðs. Að auki hafi verið skorað á stefnda að hlutast til um þinglýsingu á framangreindu afsali Eddu Petrínu svo stefnanda væri unnt að þinglýsa samþykkt kauptilboði sínu. Þessar áskoranir hefðu síðan verið áréttaðar með bréfi stefnanda 8. ágúst 2007. Með tölvupósti sem stefnanda barst frá lögmanni stefndu 23. ágúst 2007 var honum tilkynnt að kröfu hans um að samningur aðili yrði efndur væri hafnað. Samkvæmt framansögðu hafi stefndi Hermann í engu orðið við áskorunum stefnanda um að efna skyldur sínar samkvæmt samþykktu kauptilboði. Stefnanda sé því nauðugur sá kostur að leita réttar síns fyrir dómi. Stefnandi byggir viðurkenningarkröfu sína aðallega á meginreglum samningaréttar um skuldbindingagildi samninga og ákvæðum fasteignakaupalaga nr. 40/2002, einkum 7. gr. þeirra. Í fyrsta lagi byggir stefnandi á því að öll formleg og efnisleg skilyrði séu fyrir hendi til þess að kauptilboðið teljist skuldbindandi kaupsamningur um fasteign. Þannig sé kauptilboðið skriflegt, samþykkt með undirskrift stefnda Hermanns og feli í sér skuldbindingu um greiðslu kaupverðs og afhendingu fasteignarinnar. Stefndi Hermann hafi á þeim tíma sem hann samþykkti kauptilboðið verið þinglýstur eigandi 50% jarðarinnar Sigríðarstaða. Þinglýstur afsalshafi hins hlutans var stefnda Edda Petrína. Stefndi Hermann hafi haft umboð stefndu Eddu Petrínu til að ganga frá sölunni. Stefnanda hafi þó ekki verið afhent hið skriflega umboð strax, en stefndi hafi hlutast til um að útvega það. Með skjali sem ber yfirskriftina yfirlýsing og er dagsett 13. júlí 2007 hafi stefnda Edda Petrína afsalað eignarhlut sínum í jörðinni Sigríðarstöðum til stefnda Hermanns. Í sama skjali lýsi hún því yfir að hún sé því samþykk að Hermann selji og ráðstafi jörðinni sem sinni eign. Þar veiti hún honum jafnframt fullt og óskorað umboð og heimild til að ráðstafa jörðinni með kaupsamningi og afsali. Því sé formskilyrðum fasteignakaupalaga fullnægt og bindandi kaupsamningur kominn á um eignina. Í öðru lagi byggir stefnandi á því, verði ekki fallist á að fullgilt umboð stefndu Eddu Petrínu hafi legið fyrir, að það hafi ekki áhrif á gildi kauptilboðsins. Lög um fasteignakaup séu frávíkjanleg samkvæmt 5. gr. þeirra. Með því að stefnda Edda Petrína hafi veitt stefnda Hermanni umboð til að selja jörðina og afsalað henni til hans með yfirlýsingu sinni 13. júlí 2007 og þar sem stefndi Hermann hafi óskað eftir og móttekið greiðslur frá stefnanda fyrir eignina, megi ljóst vera að aðilar ákváðu í lögskiptum sínum að víkja frá þeirri reglu að umboð þyrfti að vera skuldbindandi. Það samkomulag aðila komi fram skriflega í þessari yfirlýsingu Eddu Petrínu og í yfirlýsingu stefnda Hermanns 20. sama mánaðar Þá hafi aðilar staðfest þá ætlun sína í verki, til að mynda með því að stefndi Hermann hafi móttekið hluta af kaupsamningsgreiðslum án þess að bera fyrir sig að hann hafi ekki haft umboð til sölunnar. Þá hafi stefndi Hermann veitt stefnanda leyfi til að heyja tún Sigríðarstaða. Stefnandi byggir á því að samkvæmt öllu framansögðu sé ljóst að aðilar hafi samið svo sín á milli og staðfest það í verki að þeir teldu það ekki valda ógildi tilboðsins að skriflegt umboð lá ekki fyrir, enda sé mönnum frjálst að haga fasteignaviðskiptum sínum svo samkvæmt 5. gr. fasteignakaupalaga. Í þriðja lagi byggir stefnandi á því, verði ekki fallist á framangreindar málsástæður, að kauptilboðið sé engu að síður bindandi þar sem stefndi Hermann hafi staðfest skuldbindingargildi þess á ný eftir að hann var orðinn eigandi allrar jarðarinnar Sigríðarstaða. Frá og með 13. júlí 2007 hafi ekki verið til staðar nein vanheimild, enda hafi stefndi Hermann frá þeim degi einn verið eigandi allrar jarðarinnar Sigríðarstaða, þó að formleg skráning þeirrar eignarheimildar hafi enn ekki farið fram. Þegar stefndi undirritaði yfirlýsingu 20. júlí 2007 hafi hann staðfest skuldbindingargildi tilboðsins. Samkvæmt yfirlýsingunni skuldbindi stefndi Hermann sig til að virða rétt stefnanda samkvæmt kauptilboðinu og með henni ítreki hann þá ætlun sína að ganga frá formlegum kaupsamningi og afsali. Í yfirlýsingunni vísi stefndi Hermann sérstaklega til samþykkta kauptilboðsins og yfirlýsingar Eddu Petrínu Ólsen 13. júlí 2007. Stefndi Hermann hafi því staðfest gildi kauptilboðsins eftir að hann varð eigandi allrar jarðarinnar Sigríðarstaða samkvæmt afsali og umboði stefndu Eddu Petrínu. Það að umræddu afsali hefur ekki verið þinglýst hafi engin áhrif á hinn efnislega eignarrétt milli aðilanna. Til stuðnings kröfu sinni um afhendingu og útgáfu afsals vísar stefnandi til þess sem að framan segir um að bindandi kaupsamningur hafi komist á 7. júní 2007 eða til vara 20. júlí 2007. Stefnandi byggir á því að þar sem ekki hafi verið samið um ákveðinn afhendingardag gildi sú meginregla fasteignakauparéttar að seljanda beri að afhenda eign gegn greiðslu kaupverðs. Sú regla komi nú fram í 1. mgr. 11. gr. fasteignakaupalaga. Þá sé mælt fyrir um það í 2. mgr. 11. gr. laganna að kaupandi eigi rétt á afsali þegar kaupverðið hefur að fullu verið greitt. Stefnandi hafi skorað á stefnda Hermann að afhenda hina seldu jörð gegn greiðslu kaupverðs, en því hafi ekki verið sinnt. Skylda stefnda Hermanns til afhendingar eignarinnar sé því orðin virk. III. Í greinargerð er því lýst að stefndu hafi slitið samvistum í maí 2007 eftir skamman hjúskap en áralanga sambúð. Á þessum tíma eða á vormánuðum 2007 og reyndar að einhverju leyti skömmu áður hafi stefndi Hermann verið að skoða möguleika á að breyta búskaparháttum sínum með ráðstöfun af einhverju tagi á jörðinni Sigríðarstöðum. Hafi þar komið til óvissa samfara fyrirsjáanlegum samvistarslitum, þreyta eftir sauðburð, sú tilhugsun að standa einn í búskap og ákveðnar þrengingar í fjármálum. Allt hafi þetta orðið til þess að stefndi Hermann hafi verið reiðubúinn til að sjá á eftir jörðinni, en þó þannig að hann yrði þar áfram með eitthvert skepnuhald um óskilgreindan tíma. Á árinu 2007 hefðu stefndi Hermann og stefnandi rætt sín á milli um hugsanleg kaup stefnanda á jörðinni samfara því að stefndi hætti þar búskap, en á milli þeirra hafi verið náin og góð tengsl. Af málatilbúnaði stefnanda sé ljóst að þær viðræður hafi að ýmsu leyti verið sérstakar. Þannig hafi stefnandi látið gera arðsemisútreikninga á verðmæti rekstrar á jörðinni og talið að kaupverð yrði að vera mun lægra en raunverulegt verðmæti jarðarinnar og því hafi ekki orðið af kaupum eftir fyrstu viðræður stefnanda og stefnda Hermanns. Verði þetta að teljast afar óvenjuleg afstaða kaupanda í viðskiptum ótengdra aðila. Áframhaldandi viðræður hefðu þó átt sér stað á milli aðila sem um síðir hefðu leitt til þess að stefnandi mætti á heimili stefnda með tilboð sem hann hafði útbúið þar sem söluverð jarðarinnar var ákveðið 48.000.000 króna. Stefndi hafi ekki komið að samningu tilboðsins og hann hafi ekki fengið ráðrúm til að ígrunda það eða bera það undir þriðja aðila. Þennan dag hafi þinglýstir eigendur jarðarinnar Sigríðarstaða verið tveir og sé svo reyndar enn. Ekki hafi legið fyrir umboð til sölu eignarinnar til stefnanda og stefnandi hafi ekki kallað eftir því. Í tilboðinu sé að litlu leyti fjallað um réttindi og skyldur aðila og kaupsamningsdagur og afhendingardagur ekki tilgreindir. Fyrir liggi að 31. maí 2007 hafði stefnandi milligöngu um að tengdafaðir hans eða fyrirtæki hans millifærði 174.006 krónur inn á reikning stefnda Hermanns og aftur 1.000.000 króna 20. júlí 2007. Líti stefndi svo á að þar hafi verið um lán að ræða, sem þó hafi verið tengt þeim viðræðum aðila um kaup stefnanda á jörðinni Sigríðarstöðum af stefndu, enda hafi verið full ástæða til að ætla að af kaupunum yrði. Á þessu hafi þó orðið breyting og í bréfi til stefnanda 26. júlí 2007 hafi stefndi Hermann óskað eftir því „að stefnandi myndi draga tilboð sitt til baka“, eins og það sé orðað í þessu handskrifaða bréfi stefnda. Um ástæður þessa sé eftirfarandi tiltekið af hálfu stefnda: 1. Ekki liggi lengur fyrir að hann geti haft fé á jörðinni í nýja fjárhúsinu. 2. Áætlanir um kálfaeldi á jörðinni séu ekki eftir sínu höfði. 3. Ekki hafi verið staðið við að borga. 4. Ekki hafi tekist að semja um það sem ekki kom fram í tilboðinu. 5. Þvinguð hafi verið fram yfirlýsing stefndu Eddu Petrínu til að skapa stefnanda vígstöðu í málinu. Bréfið beri þess merki að vera ritað af ólöglærðum manni. Inntak þess sé þó ljóst, það er að stefndi hafi talið þegar hér var komið sögu að allar forsendur fyrir ráðstöfun jarðarinnar hafi brostið og því sé það tilboð sem hann undirritaði óskuldbindandi og ógilt eða ógildanlegt. Krafa stefnda Hermanns um sýknu byggir á öllu sem reifað er í málavöxtum og meðal annars á neðangreindum atriðum sem hann telur að hvert um sig leiði til sýknu af kröfum stefnanda. Fyrir liggi og sé óumdeilt í málinu að 7. júní 2007 voru tveir einstaklingar þinglýstir eigendur jarðarinnar Sigríðarstaða. Tilboð það sem fjallað er um í málinu sé eingöngu undirritað af öðrum þeirra og ekki hafi legið fyrir umboð frá hinum, sbr. lagaskyldu í 7. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup. Þegar af þeirri ástæðu liggi fyrir að hið samþykkta tilboð frá 7. júní 2007 sé ekki gilt. Umboð það sem fyrir liggi, sem sé reyndar frekar einhvers konar yfirlýsing, taki ekki eftir efni sínu til þessa tilboðs og sé síðar tilkomið, enda liggi fyrir að á þeim tíma áttu aðilar í viðræðum um að ná samkomulagi um kaup og sölu jarðarinnar sem ekki hefði verið þörf að ræða frekar ef um gilt tilboð hefði verið að ræða. Bæði stefnu mótmæla því að yfirlýsingin eigi við mögulegt tilboð stefnanda í óbreyttri mynd. Þá liggi fyrir að stefndi Hermann telur að brostnar séu forsendur fyrir samþykki sínu á tilboðinu. Ljóst sé að samningaviðræður hans við stefnanda hafi verið óvenjulegar eins og fram komi í málatilbúnaði stefnanda. Ljóst sé að hann hafi verið að fala jörðina á undirverði þar sem tilteknum rekstri á jörðinni hafi verið ætlað að standa undir kostnaði við kaup hennar. Fyrir liggi að aðilar hafi verið vinir og út af fyrir sig hafi stefndi Hermann verið reiðubúinn til að ráðstafa jörðinni á verði undir markaðsverði hennar, en í því hafi falist að aðilar hefðu á sama tíma verið að ræða samkomulag sín á milli sem fæli í sér að hluti þess væri ígildi próventugernings án þess að það hugtak hafi verið notað. Ljóst megi vera að á þeim tíma sem hér um ræðir hafi stefndi Hermann verið tengdur jörð sinni sterkum böndum, sem og sínum bústofni, og ekki staðið á sama um í höndum hverra hún myndi lenda. Vegna þessa hafi eftirfarandi forsendur meðal annars verið ræddar í viðræðum aðila: Að búið yrði með sauðfé á eigninni og síðar eftir að kálfaeldi var rætt að stefndi Hermann gæti sjálfur verið með sauðfé á jörðinni áfram. Að stefndi Hermann myndi búa á eigninni eitthvað áfram þó órætt hafi verið hversu lengi. Að stefndi Hermann myndi sinna bústörfum fyrir stefnanda eftir gerð samnings eins og hann hefði heilsu og getu til og samkvæmt nánara samkomulagi aðila. Þá hafi verið rætt milli aðila að ef að kaupum yrði og stefnandi myndi selja jörðina fyrir hærra verð innan tiltekins tíma þá myndi stefndi Hermann eiga rétt á hluta verðmunarins. Komi forsendur þessar að nokkru fram í dómskjali í bréfi sem stefndi Hermann ritaði 26. júlí 2007, en af efni þess megi vera ljóst að hann telur sig hafa verið svikinn í viðskiptum málsaðila. Telur stefndi að þegar forsendusjónarmið verði metin í máli þessu verði að líta til þess að um óvenjulegan samning hafi verið að ræða þar sem hann hafi á grundvelli trausts verið að ráðstafa hagsmunum til vinafólks sem honum hafi þótt vænt um og því ekki átt von á öðru en að það væri gagnkvæmt. Annað hafi hins vegar komið í ljós. Það hafi honum orðið ljóst þegar að honum hafi verið beint kröfu um að hann flytti af jörðinni án tafar og að honum yrði meinað allt skepnuhald á jörðinni. Eðlilegt sé að sjónarmið um brostnar forsendur verði metin að teknu tilliti til þessa og þá sérstaklega í því ljósi að með máli þessu eigi að freista þess að þvinga fram sölu á undirverði, stefnanda til verulegs ávinnings. Stefndi Hermann byggir jafnframt á því að samþykki hans á tilboði stefnanda sé ógilt á grundvelli 31. gr. og 33. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Fyrir liggi að hann hafi undirritað tilboðið sem byggt er á í málinu í kjölfar sauðburðar og því verið þreyttur og svefnþurfi þegar að undirritun kom. Hann hafi verið einn á heimili þar sem hann hafi staðið í hjónaskilnaði og hann hafi treyst stefnanda vegna vinskapar við hann og fjölskyldu hans til langs tíma. Ljóst sé að hann hafi á þessum tíma glímt við þunglyndi og fjármálaerfiðleika, sem allt hafi átt að leysa með samkomulagi aðila. Ljóst sé að samningur sé allur annar en stefndi Hermann hafi talið og kveði á um afsal jarðarinnar Sigríðarstaða á helmingi raunvirðis. Ljóst sé að stefnandi sé að nýta sér sérstakar aðstæður stefnda Hermanns á þessu tíma og vinskap aðila til að koma fram mögulegum samningi þar sem verulegur munur sé á því sem falla skal stefnanda í hlut og þess endurgjalds sem hann hyggst standa skil á. Hafi stefnandi mætt með tilboð sem hann hafi samið sjálfur eða látið semja fyrir sig og fengið stefnda Hermann til að undirrita það án þess að hann hafi haft tíma til að ígrunda það einn eða leggja það fyrir ráðgjafa. Samningurinn sé því ógildur. Þá telur stefndi Hermann að verði litið svo á, þrátt fyrir ofanritað, að stofnast hafi með aðilum gildur samningur þann 7. júní 2007 eða síðar um kaup og sölu á jörðinni Sigríðarstöðum þá skuli víkja honum til hliðar í heild sinni með vísan til ákvæðis 36. gr. laga nr. 7/1936 þar sem hann sé ósanngjarn og það sé andstætt góðri venju að bera samninginn fyrir sig. Er vísað til alls ofanritaðs vegna þessa, en jafnframt áréttað að sennilega kveði samningurinn á um ráðstöfun á jörðinni fyrir helming af verðmæti hennar. Í lok greinargerðar sinnar mótmæla stefndu málatilbúnaði stefnanda að því marki sem hann fer í bága við hagsmuni stefndu og er því sérstaklega mótmælt að stofnast hafi gildur samningur með aðilum sem og skilningi stefnanda á gildi yfirlýsingar stefndu Eddu Petrínar. Hvað varðar mögulega afhendingu jarðarinnar, verði samningur aðila talinn gildur, telja stefndu eðlilegt að afhending fari fram á fyrstu fardögum eftir gerð kaupsamnings og kröfu um útgáfu afsals verði hafnað. Málskostnaðarkröfu stefnanda er mótmælt sérstaklega. IV. Svo sem rakið hefur verið er til stuðnings sýknukröfu stefndu á því byggt að söluverð jarðarinnar Sigríðarstaða samkvæmt hinum samþykkta kauptilboði hafi verið langt undir markaðsvirði hennar. Með beiðni til héraðsdóms 1. febrúar 2008 fór stefnandi þess á leit að dómkvaddur yrði hæfur og óvilhallur maður til að meta markaðsvirði jarðarinnar í júnímánuði 2007, þar á meðal allar fasteignir, vélar og tæki, en án framleiðsluheimilda og bústofns. Fór dómkvaðning fram sama dag og var Stefáni Ólafssyni hæstaréttarlögmanni og löggiltum fasteignasala falið að framkvæma hið umbeðna mat. Skilaði hann matsgerð 10. mars 2008. Er það niðurstaða hans að markaðsverð jarðarinnar Sigríðarstaða í Þingeyjarsveit hafi verið 70.000.000 krónur í júní 2007. Þá er verðmæti véla og tækja metið á 2.500.000 krónur. V. Frá 7. mars 2006 hefur jörðin Sigríðarstaðir í Þingeyjarsveit verið þinglýst eign stefndu, Hermanns R. Herbertssonar og Eddu Petrínu Olsen. Svo sem fram er komið samþykkti stefndi Hermann kauptilboð stefnanda í jörðina 7. júní 2007, þar með talin öll mannvirki, auk véla og tækja, en án fullvirðisréttar og bústofns. Kaupverð var 48.000.000 krónur. Þegar tilboðið var samþykkt lá í öllu falli ekki fyrir skriflegt umboð frá stefndu Eddu Petrínu til handa stefnda Hermanni til þessarar ráðstöfunar á jörðinni, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr 40/2002 um fasteignakaup, og hennar er reyndar ekki getið þar sem eiganda jarðarinnar. Mun þessi háttur hafa komið til vegna skilnaðar stefndu og samkomulags þeirra í milli um fjárskipti. Rúmum mánuði síðar, nánar tiltekið 13. júlí 2007, undirritaði Edda Petrína yfirlýsingu þar sem hún afsalar sér eignarhlut sínum í jörðinni og samþykkir að stefndi Hermann ráðstafi henni í heild sem sinni eign og ennfremur að hún muni ekki gera tilkall til söluandvirðis hennar. Þá segir einnig í yfirlýsingunni að með henni sé stefnda Hermanni veitt fullt og óskorað umboð og heimild „til að ráðstafa Sigríðarstöðum, landnúmer 153327, Þingeyjarsveit, með kaupsamningi og afsali“. Í niðurlagi yfirlýsingarinnar segir síðan að allt sem Hermann geri í skjóli hennar skuli jafngilt því og stefnda Edda Petrína hafi sjálf gert það. Af framlagðri yfirlýsingu stefnda Hermanns 20. júlí 2007 verður ekki annað ráðið en að hann hafi þá talið sig bundinn af hinu samþykkta kauptilboði í jörðina og að vilji hans hafi staðið til þess að efna það. Þannig segir í yfirlýsingunni að hann muni ekki undirrita skjöl eða gögn varðandi jörðina „nema með skriflegu samþykki samþykkts kaupanda Hilmars Sigurpálssonar fram til sameiginlegrar undirritunar formlegs kaupsamnings/afsals“. Þá verður framburður stefnda fyrir dómi ekki skilinn á annan veg en þann, að 1.000.000 króna greiðsla, sem hann móttók þennan sama dag, hafi verið hugsuð sem innborgun á kaupverð. Loks er til þess að líta að í bréfi sem stefndi ritaði stefnanda 26. júlí 2007 setur hann fram beiðni um það stefnandi dragi kauptilboð sitt frá 7. júní 2007 til baka, en á því var alls engin þörf hafi stefndi ekki talið sig bundinn af því. Með vísan til þessa eru ekki efni til annars en að líta svo á að eigi síðar en 13. júlí 2007 hafi verið kominn á samningur um kaup stefnanda á jörðinni til samræmis við kauptilboð hans frá 7. júní 2007. Þá þykir mega slá því föstu að samningurinn skyldi að fullu efndur innan ekki langs tíma, þar á meðal með afhendingu jarðarinnar til stefnanda, sbr. ennfremur 11. gr. laga um fasteignakaup. Í framangreindu bréfi stefnda Hermanns til stefnanda 26. júlí 2007 kemur fram það hafi verið aðalforsenda fyrir sölu hans á jörðinni til stefnanda að hann fengi að hafa kindur þar áfram. Aðrar forsendur eru ekki tilgreindar í bréfinu, en þó tekið fram að stefnda hafa fyrst orðið um það kunnugt 3. júní 2007, það er áður en hann undirritaði kauptilboð, að til stæði að breyta úr sauðfjárrækt yfir í kálfaeldi. Fyrir dómi var framburður stefnda lítt afdráttarlaus að því er tekur til mögulegra forsendna hans fyrir sölu jarðarinnar. Hvað sem þessu annars líður er ljóst að í hinu samþykkta kauptilboði er í engu mælt fyrir um að það sé af hálfu seljanda bundið þeim skilyrðum sem stefndu hafa vísað til í málatilbúnaði sínum, en stefnda hefði verið í lófa lagið að skjalfesta þau. Sönnunarbyrði fyrir því að allt að einu hafi verið um þetta samið, en því mótmælir stefnandi, hvílir á stefndu. Sú sönnun hefur ekki tekist. Er því ekki unnt að fallast á þá málsvörn stefndu að þau séu á grundvelli lagasjónarmiða um forsendubrest ekki lengur bundin af þeim samningi sem þarna tókst á milli aðila um sölu á jörðinni Sigríðarstöðum til stefnanda. Kaupverð jarðarinnar samkvæmt samþykktu kauptilboði var samkvæmt framlagðri matsgerð undir markaðsvirði hennar á þeim tíma þegar samningur komst á. Vísa stefndu nú sérstaklega til matsgerðarinnar að því er varðar kröfu þeirra um að samningur við stefnanda um kaup á jörðinni Sigríðarstöðum verði metinn ógildur samkvæmt 31. og 33. gr. samningalaga eða honum vikið til hliðar í heild á grundvelli 36. gr. sömu laga. Að mati dómsins hefur ekki verið skotið stoðum undir að atvik og aðstæður hafi verið með þeim hætti þá er tilboð stefnanda í jörðina var samþykkt að sýknukrafa stefndu geti náð fram að ganga á grundvelli fyrstnefndu lagagreinarinnar. Fyrir dómi lýsti stefndi Hermann aðdraganda þess að hann samþykkti kauptilboð stefnanda í jörðina. Einhverjar viðræður hefðu átt sér stað á árinu 2006, sem síðan hefðu verið teknar upp að nýju árið 2007 að frumkvæði hans. Tilboð sem stefnandi hafi þá sett fram hafi hljóðað upp á 38.000.000 krónur. Kvaðst stefndi hafa ráðfært sig við Ólaf Geir Vagnsson héraðsráðunaut vegna tilboðsins. Í samtali þeirra hafi komið fram hjá Ólafi Geir að stefndi gæti fengið mun hærra verð fyrir jörðina og nefndi stefndi í því sambandi verðhugmyndir á bilinu 50 til 65 milljónir króna, en óljóst er hvort það verðmat hafi tekið til bústofns og greiðslumarks eða hvort þessi verðmæti hafi verið undanskilin. Þá hafi Ólafur Geir hvatt stefnda til að auglýsa jörðina til sölu. Hafi stefndi í kjölfar þessa fundar hringt í stefnanda og þá meðal annars tjáð honum að hann hefði í hyggju að auglýsa jörðina. Stefnandi hafi verið ósáttur við það og haft á orði að hann gæti ekki jafnað tilboð sem stefndi myndi þá fá í jörðina. Hafi hann spurt stefnda hvaða fjárhæð hann þyrfti að bæta við til þess að samningar gætu tekist á milli þeirra um kaup hans á jörðinni. Hafi stefndi þá sagt að hann gæti fallist á að selja honum jörðina fyrir 48.000.000 krónur. Er framangreind lýsing að því er tekur til aðkomu Ólafs Geirs Vagnssonar að málinu í öllum meginatriðum í samræmi við vitnisburð hans fyrir dómi, en þó er þess að geta að hann kvaðst minnast þess að þær verðhugmyndir sem hann hafi nefnt hafi hljóðað upp á 50-60 milljónir króna. Gat hann ekki sagt til um hvort greiðslumark og bústofn hafi verið inniufalið í þeirri tölu. Þá kvaðst Ólafur Geir hafa lagt mjög að stefnda að auglýsa jörðina til sölu í Bændablaðinu og að hann gæti gengið þannig frá málum að stefnandi ætti þá kost á því að ganga inn í hæsta tilboð. Hafi hann boðist til að aðstoða stefnda við þetta. Fyrir liggur að tengdafaðir stefnanda, Vilhelm Valberg Steindórsson, kom í umtalsverðum mæli að samningaviðræðum um kaup stefnanda á jörðinni og hann samdi tilboðið sem undirritað var 7. júní 2007. Í samræmi við það sem fram kemur í stefnu báru þeir báðir á þann veg fyrir dómi að rekstrarlegar forsendur hafi legið til grundvallar endanlegu tilboði stefnanda í jörðina. Í fyrstu hafi verið út frá því gengið á grundvelli útreikninga og miðað við að nautgriparækt yrði hafin á jörðinni og sauðfjárrækt hætt að forsvaranlegt væri að festa kaup á henni fyrir 38.000.000 krónur. Þegar að gagntilboð barst frá stefnda hafi það orðið niðurstaða stefnanda og Vilhelms að taka því, enda þótt teflt væri á tæpast vað út frá rekstrarlegum forsendum. Þá kvaðst Vilhelm Valberg hafa kynnt stefnda þessar forsendur fyrir kaupum stefnanda á jörðinni. Er ekki ástæða til annars en að telja fram komið að þannig hafi í reynd verið staðið að málum. Þá skýrði hann svo frá að við upphaf samningaviðræðna hafi stefndi gengið út frá því að jörðin væri 60.000.000 króna virði og að sauðfjárkvóti og bústofn hafi verið innifalinn í þeirri fjárhæð. Hafi hann framvísað miða þar sem þessi tala hafi verið sundurliðuð þannig að greiðslumark væri metið á 9.000.000 króna, útihús á 12.000.000 króna, ræktun á 5.000.000 króna, land á 15.000.000 króna, íbúðarhús á 14.000.000 króna og bústofn og vélar saman á 5.000.000 króna. Miðað við að stefnandi myndi ekki festa kaup á greiðslumarki og bústofni og að bústofninni væri 3.000.000 króna virði hefðu 48.000.000 krónur staðið eftir. Það verð hafi stefnandi að lokum fallist á að greiða fyrir jörðina, fylgifé hennar og vélar og tæki, en án greiðslumarks og bústofns. Með vísan til framanritaðs er ekki á það fallist með stefndu að þau séu á grundvelli 33. gr. samningalaga ekki lengur bundin af þeim samningi sem tókst á milli málsaðila. Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 segir að samningi megi víkja til hliðar í heild eða að hluta eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Samkvæmt 2. mgr. 36. gr. skal við mat eftir 1. mgr. líta til samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerð og atvika, sem síðar komu til. Í ljósi fyrirliggjandi matsgerðar er sá samningur aðila sem hér um ræðir afar hagfelldur stefnanda. Það leiðir þó ekki eitt og sér til þess að honum skuli vikið til hliðar. Fram telst komið að stefndi Hermann studdist við mat af einhverju tagi þegar hann samþykkti tilboð stefnanda í jörðina. Samkvæmt því sem áður er rakið verður ekki betur séð en að stefnandi hafi með seinna tilboði sínu samþykkt að greiða það verð fyrir jörðina sem þetta mat kvað á um og að teknu tilliti til þess að greiðslumark og bústofn myndi ekki fylgja með í kaupunum. Sá samningur sem þarna komst á er í raun á milli tveggja einstaklinga. Þegar hann var gerður var stefndi Hermann á 62. aldursári. Er ekkert fram komið sem gefur ástæðu til að ætla að andleg heilsa hans á þessum tíma eða ástand að öðru leyti hafi verið með þeim hætti að þýðingu hafi við mat samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði. Hann hafði frumkvæði að því að samningaviðræður hófust á milli aðila og ljóst má vera af því sem fram er komið í málinu að vilji hans stóð eindregið til þess að stefnandi gæti eignast jörðina. Kann í því sambandi að hafa þýðingu að um áratuga skeið hefur verið mikill vinskapur á milli stefnda og föður stefnanda. Liggur og fyrir að þrátt fyrir áskoranir þar um sá stefndi ekki ástæðu til að auglýsa jörðina á almennum markaði, en með því eina móti var með óyggjandi hætti unnt að sannreyna hvaða verð gæti hafa fengist fyrir hana á þessum tíma. Að þessu virtu og með vísan til annars þess sem rakið hefur verið hér að framan þykja ekki vera rök til að beita hér heimild 36. gr. samningalaga til að víkja frá meginreglu íslensks réttar um skuldbindingargildi samninga. Samkvæmt framansögðu er sýknukröfu stefndu hafnað og fallist á dómkröfu stefnanda að öðru leyti en því að hæfilegt þykir að stefndu greiði 25.000 króna dagsektir að liðnum tveimur vikum frá uppsögu dóms þessa, fullnægi þau ekki skyldu sinni samkvæmt honum. Rétt þykir að málskostnaður falli niður. Þorgeir Ingi Njálsson dómstjóri kvað upp dóm þennan. Dómsorð : Stefndu, Hermann R. Herbertsson og Edda Petrína Olsen, skulu gefa út afsal til stefnanda, Hilmars Sigurpálssonar, fyrir jörðinni Sigríðarstöðum í Þingeyjarsveit, landnúmer 153-327, og afhenda honum eignina að viðlögðum dagsektum 25.000 krónur fyrir hvern dag að liðnum tveimur vikum frá uppsögu dóms þessa, allt gegn greiðslu kaupverðs samkvæmt kauptilboði 7. júní 2007. Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 182/2010
Kærumál Nauðungarsala Lögveð Skuldabréf
Kærður var úrskurður héraðsdóms, þar sem frumvarpi sýslumanns um úthlutun söluverðs fasteignar var breytt á þann hátt að H fékk úthlutað tiltekinni fjárhæð vegna skuldar á gatnagerðargjöldum. Talið var að þar sem H hefði látið eiganda fasteignarinnar gefa út til sín svokallaða skuldaryfirlýsingu vegna gatnagerðargjaldanna, þar sem meðal annars var samið um að reka mætti mál um kröfu samkvæmt henni eftir sérreglum XVII. kafla laga nr. 91/1991, væri óhjákvæmilegt að líta svo á að réttindi samkvæmt þessu skjali hafi verið slitin úr tengslum við lögskiptin að baki því og það gert að viðskiptabréfi. Með því að taka við þessu viðskiptabréfi hafi H fengið greiðslu skuldar lóðarhafans vegna gatnagerðargjalds og upp frá því ekki átt kröfu á hendur honum á öðrum grunni en bréfið sjálft hafi borið með sér. Lögveðréttur samkvæmt 4. gr. laga nr. 17/1996 hafi verið veittur sveitarfélögum fyrir kröfu um ógreitt gatnagerðargjald, en hafi ekki með samningi getað færst til handhafa kröfu samkvæmt viðskiptabréfi. Var því hafnað kröfu H um að frumvarpi sýslumanns um úthlutun söluverðs fasteignarinnar yrði breytt.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. mars 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 24. febrúar 2010, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að felld yrði úr gildi nánar tilgreind ákvörðun sýslumannsins á Selfossi 25. mars 2009 um úthlutun söluverðs fasteignarinnar Valsheiði 17 í Hveragerði við nauðungarsölu. Kæruheimild er 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1989 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að ákvörðun sýslumanns verði staðfest. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. I Samkvæmt gögnum málsins tók sýslumaðurinn á Selfossi fyrir 13. desember 2007 beiðni sóknaraðila um nauðungarsölu á fasteigninni Valsheiði 17 í Hveragerði, en með beiðninni var leitað fullnustu kröfu samkvæmt skuldabréfi, sem hvíldi á 1. veðrétti í eigninni. Við þessa fyrirtöku var ákveðið samkvæmt kröfu sóknaraðila að uppboð á eigninni myndi byrja 24. janúar 2008 og gekk það eftir, en þar kom aðeins fram eitt boð, frá sóknaraðila að fjárhæð 100.000 krónur, og var ákveðið að uppboði yrði fram haldið 19. febrúar sama ár. Við framhald uppboðsins þann dag lagði sóknaraðili fram kröfulýsingar vegna fyrrnefnds skuldabréfs og tveggja annarra veðbréfa, sem tryggð voru með 2. og 3. veðrétti í eigninni, en samanlagðar kröfur hans samkvæmt þessum gögnum námu 25.088.454 krónum. Þá voru lagðar fram kröfulýsingar frá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. vegna ógreiddra vátryggingariðgjalda, samtals 110.306 krónur, og frá varnaraðila vegna ógreiddra fasteignagjalda, samtals 466.991 króna, en þessum kröfum var báðum lýst sem lögveðkröfum. Einnig var lýst tveimur öðrum kröfum, að fjárhæð 3.548.379 og 1.499.223 krónur, en fyrir þeim höfðu verið gerð fjárnám, sem stóðu að baki kröfum sóknaraðila í veðröð. Loks gerði varnaraðili kröfu vegna ógreidds gatnagerðargjalds að höfuðstól 3.319.365 krónur, sem að viðbættum vöxtum og kostnaði nam 4.023.827 krónum, og var henni lýst sem lögveðkröfu. Með þessari kröfulýsingu fylgdi meðal annars skjal með yfirskriftinni „skuldaryfirlýsing vegna gatnagerðargjalda“, sem eigandi fasteignarinnar hafði undirritað 19. janúar 2006 og tók til skuldar hans við varnaraðila að fjárhæð 2.262.000 krónur. Við framhald uppboðsins varð varnaraðili hæstbjóðandi með boði að fjárhæð 16.000.000 krónur og mun hann hafa orðið kaupandi að eigninni á grundvelli þess. Sýslumaður gerði 2. júní 2008 frumvarp til úthlutunar á söluverði fasteignarinnar. Að greiddum sölulaunum í ríkissjóð voru samkvæmt frumvarpinu 15.840.000 krónur til ráðstöfunar upp í veðkröfur, en með þeirri fjárhæð áttu að greiðast áðurnefndar lögveðkröfur Sjóvá-Almennra trygginga hf. með 108.092 krónum og varnaraðila vegna fasteignagjalda að fjárhæð 466.991 króna. Eftirstöðvar söluverðsins, 15.264.917 krónur, áttu síðan að renna til sóknaraðila vegna krafna hans, sem stóðu á 1. og 2. veðrétti í eigninni. Frestur var settur til 18. júní 2008 til að mótmæla frumvarpinu. Þann dag barst sýslumanni bréf varnaraðila, þar sem krafist var að frumvarpinu yrði breytt á þann veg að fyrrgreind lögveðkrafa hans vegna gatnagerðargjalds kæmi framar kröfum sóknaraðila til greiðslu af söluverði eignarinnar. Með bréfi 12. ágúst 2008 krafðist sóknaraðili þess að frumvarp sýslumanns yrði látið standa óbreytt. Ekki varð af fundi samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga nr. 90/1991 til að fjalla um þennan ágreining fyrr en 25. mars 2009, en þar ákvað sýslumaður að frumvarpið skyldi standa óbreytt. Mál þetta, sem varðar síðastgreinda ákvörðun sýslumanns, var þingfest í héraði 14. maí 2009. Aðalkrafa sóknaraðila um að málinu verði vísað frá héraðsdómi er á því reist að varnaraðili hafi ekki staðið rétt að því að leita dómsúrlausnar um þessa ákvörðun. Þótt fallast megi á með sóknaraðila að hnökrar hafi verið á málatilbúnaði varnaraðila að þessu leyti eru þeir ekki alveg nægir til að aðalkrafa hans verði tekin til greina. II Fyrir liggur í málinu að varnaraðili veitti 9. nóvember 2005 byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Valsheiði 17 og lagði um leið á gatnagerðargjald vegna mannvirkisins að fjárhæð 2.514.317 krónur. Í tilkynningu um þetta til lóðarhafans var tekið fram að veita mætti „vaxtareiknaðan greiðslufrest á greiðslu hluta gatnagerðargjalds til allt að tveggja ára“. Samkvæmt gögnum málsins var að finna heimild til þessa í 2. mgr. 12. gr. gjaldskrár varnaraðila, sem mun meðal annars hafa verið gerð á grundvelli 1. mgr. 1. gr. þágildandi laga nr. 17/1996 um gatnagerðargjald og 11. gr. reglugerðar nr. 543/1996 um sama efni. Í þessu ákvæði gjaldskrárinnar sagði eftirfarandi: „Heimilt er að veita vaxtareiknaðan greiðslufrest á greiðslu hluta gatnagerðargjalds til allt að tveggja ára með mánaðarlegum afborgunum eða samkvæmt sérstakri samþykkt sem bæjarstjórn setur. Vextir skulu vera eins og innlendir millibankavextir, REIBOR, sem Seðlabanki Íslands gefur út.“ Eins og áður greinir ritaði lóðarhafinn að Valsheiði 17 undir „skuldaryfirlýsingu vegna gatnagerðargjalda“ 19. janúar 2006. Efst á þessu skjali var greint frá nafni lóðarhafans sem skuldara, svo og því að skjalið varðaði lóðina Valsheiði 17 og væri álagt gatnagerðargjald 2.514.317 krónur, en af því hafi hann greitt 252.317 krónur, þannig að „höfuðstóll skuldaryfirlýsingar“ næmi 2.262.000 krónum, sem greiða ætti með 20 mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta sinn 15. maí 2006. Meginmál skjalsins var síðan svohljóðandi: „Ofanritaður skuldari viðurkennir með undirskrift sinni undir skuldabréf þetta að skulda handhafa bréfs þessa, fjárhæð þá er að framan greinir og skuldbindur sig til að endurgreiða hana skv. skilmálum bréfs þessa, með þeim fjölda afborgana og á þeim ... gjalddögum eins og tilgreint er samkvæmt ofanskráðu. Vextir af skuld þessari eru breytilegir samkvæmt lánaflokki K-2 hjá Sparisjóði Suðurlands nú 14,30% greiðast þeir eftirá á sömu gjalddögum og afborganir. Vextir reiknast frá: 9.11.2005. Skuldara ber á hverjum gjalddaga að greiða kostnað af innheimtu hverrar greiðslu af bréfi þessu, skv. gjaldskrá innheimtubanka. Skuldari greiðir einnig annan kostnað af lántökunni s.s. stimpilgjöld. Verði ekki staðið í skilum með greiðslu afborgana og vaxta á réttum gjalddögum, skal frá gjalddaga greiða hæstu lögleyfðu dráttarvexti af vanskilaskuldinni. Jafnframt er handhafa heimilt ef vanskil eru veruleg, en með verulegum vanskilum er átt við 15 daga vanskil eða lengri, að fella alla skuldina í gjalddaga fyrirvaralaust og án sérstakrar uppsagnar. Skuldin hvílir sem lögveð á framanskráðri lóð og þeim byggingum sem á henni verða reistar, skv. 4. gr. laga um gatnagerðargjöld nr. 17/1996. Lögveðið er til tryggingar skaðlausri og skilvísri greiðslu höfuðstóls, vaxta, dráttarvaxta og öllum þeim kostnaði er leiða kann af vanskilum skuldara að engu undanskildu. Lögveðið gengur fyrir hvers konar samningsveði og aðfararveði og tekur einnig til vátryggingarfjárhæðar framangreindrar eignar. Þegar skuldin er í gjalddaga fallin má krefjast nauðungarsölu á framangreindri eign samkvæmt heimild í 5. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Falli öll skuldin í gjalddaga, vegna vanskila, áður en byggingaframkvæmdir eru hafnar getur bæjarráð ákveðið að rifta úthlutun lóðarinnar og úthlutað henni á ný. Ef ofangreind eign er seld fellur skuldabréfið allt í gjalddaga og skal það greiðast upp. Kaupandi getur fengið bréfið endurnýjað með sömu skilmálum þ.m.t. sömu gjalddögum og að ofan greinir með samþykki handhafa bréfsins. Sérstakri kvöð vegna lögveðsréttarins má þinglýsa á viðkomandi eign. Mál út af skuld þessari má reka fyrir héraðsdómi Suðurlands samkv. reglum XVII. kafla laga nr. 91/1991.“ Skjal þetta ber með sér að stimpilgjald að fjárhæð 33.930 krónur var greitt af því 19. janúar 2006. Á bakhlið þess færði varnaraðili svofellda áritun: „Skuldaviðurkenning þessi framselst hér með Sparisjóðinum Suðurlandi, Hveragerði, með fullri ábyrgð á greiðslu hennar sbr. samkomulag þar að lútandi dags. 26. júlí 2005.“ Varnaraðili gaf einnig út 19. janúar 2006 annað skjal með yfirskriftinni „kvöð vegna lögveða til tryggingar gjalda í sveitasjóð“, þar sem fram kom að á fasteigninni Valsheiði 17 hvíldi lögveð vegna gatnagerðargjalds, sem var lagt á 9. nóvember 2005, og var skjali þessu þinglýst samdægurs. Þá undirritaði lóðarhafinn 3. nóvember 2006 skjal með yfirskriftinni „breyting á greiðsluskilmálum skuldabréfs“, þar sem fram kom að eftir beiðni hans samþykkti Sparisjóðurinn Suðurlandi breytingar á greiðsluskilmálum skuldabréfs að upphaflegri fjárhæð 2.262.000 krónur, sem hann hafi gefið út til sparisjóðsins og tryggt væri með sjálfskuldarábyrgð varnaraðila. Eftirstöðvar „lánsins“ væru samtals 2.665.162 krónur að meðtöldum gjaldföllnum afborgunum, verðbótum, vöxtum, dráttarvöxtum og kostnaði og skyldu þær verða nýr höfuðstóll, sem greiddur yrði með tólf mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta sinn 15. desember 2006. Skjal þetta var áritað um samþykki af varnaraðila. Á eyðublaðinu, sem það var fært á, var gert ráð fyrir undirritun „síðari veðhafa“ um samþykki, en slíks var ekki aflað. Í málinu liggur fyrir að ekkert var greitt af þessari skuld eftir skilmálabreytinguna og leysti varnaraðili hana til sín frá Sparisjóðnum Suðurlandi 16. nóvember 2007 með greiðslu á 3.319.365 krónum. Þetta er sama fjárhæð og höfuðstóll kröfunnar, sem varnaraðili krefst greiðslu á af söluverði fasteignarinnar að Valsheiði 17. III Í málinu er óumdeilt að lög nr. 17/1996 taki til gatnagerðargjalds, sem það varðar, en þau lög féllu niður 1. júlí 2007 við gildistöku laga nr. 153/2006 um gatnagerðargjald. Í 4. gr. fyrrnefndu laganna var mælt svo fyrir að gatnagerðargjald samkvæmt þeim væri ásamt áföllnum vöxtum og kostnaði tryggt með lögveðrétti í viðkomandi fasteign og stæði það framar hvers konar samningsveði eða aðfararveði. Í c. lið 11. gr. áðurnefndrar reglugerðar nr. 543/1996, sem sett var með stoð í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 17/1996, kom fram að í gjaldskrá, sem sveitarstjórn skyldi setja, ætti meðal annars að kveða á um greiðsluskilmála gatnagerðargjalds. Sem fyrr segir gerði varnaraðili gjaldskrá samkvæmt þessu, sbr. einnig 1. mgr. 1. gr. laganna, þar sem fram kom að veita mætti greiðslufrest á gjaldinu til allt að tveggja ára gegn greiðslu tiltekinna vaxta. Á þessum grunni verður ekki vefengt að varnaraðila hafi að lögum verið heimilt að veita lóðarhafanum að Valsheiði 17 tveggja ára frest til að greiða með mánaðarlegum afborgunum þær 2.262.000 krónur, sem stóðu eftir ógreiddar 19. janúar 2006 af álögðu gatnagerðargjaldi, án þess að lögveðréttur fyrir kröfunni samkvæmt 4. gr. laga nr. 17/1996 færi af þeim sökum forgörðum. Varnaraðili lét á hinn bóginn ekki við það sitja að semja við lóðarhafann, munnlega eða skriflega, um slíkan greiðslufrest, heldur hlutaðist varnaraðili til um að lóðarhafinn gæfi út til sín svokallaða skuldaryfirlýsingu, sem áður var lýst. Í yfirlýsingunni viðurkenndi lóðarhafinn með undirskrift sinni „undir skuldabréf þetta“ að skulda handhafa þess 2.262.000 krónur, sem greiða ætti á nánar tiltekinn hátt með vöxtum, sem voru aðrir en kveðið var á um í áðurnefndri gjaldskrá varnaraðila. Af þessu skjali var greitt gjald eins og um skuldabréf væri að ræða samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 36/1978 um stimpilgjald. Í því voru handhafa sem kröfueiganda veittar sams konar vanefndaheimildir og þær, sem venjulegar eru í veðskuldabréfum, sem gefin eru út vegna peningaláns, þar á meðal til að gjaldfella eftirstöðvar skuldar vegna greiðslufalls og til að krefjast nauðungarsölu á fasteign til fullnustu skuldarinnar. Mælt var fyrir um að krafa samkvæmt skjalinu væri tryggð með veði í fasteigninni Valsheiði 17, en það væri þó lögveðréttur samkvæmt 4. gr. laga nr. 17/1996, sem tæki til höfuðstóls kröfunnar auk vaxta og sérhvers kostnaðar af vanskilum. Loks var í skjalinu samið um að reka mætti mál um kröfu samkvæmt því eftir sérreglum XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þótt ekki kæmi annað til er óhjákvæmilegt að líta svo á að síðastgreint atriði hafi slitið réttindi samkvæmt þessu skjali úr tengslum við lögskiptin að baki því og gert það að viðskiptabréfi. Með því að taka við þessu viðskiptabréfi fékk varnaraðili greiðslu skuldar lóðarhafans vegna gatnagerðargjalds og átti ekki upp frá því kröfu á hendur honum á öðrum grunni en bréfið sjálft bar með sér. Lögveðréttur samkvæmt 4. gr. laga nr. 17/1996 var veittur sveitarfélögum fyrir kröfu um ógreitt gatnagerðargjald, en gat ekki með samningi færst til handhafa fyrir kröfu samkvæmt viðskiptabréfi. Af þessum sökum verður að hafna kröfu varnaraðila um að frumvarpi sýslumannsins á Selfossi 2. júní 2008 um úthlutun á söluverði fasteignarinnar að Valsheiði 17 verði breytt. Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Hafnað er kröfu varnaraðila, Hveragerðisbæjar, um breytingu á frumvarpi sýslumannsins á Selfossi 2. júní 2008 til úthlutunar á söluverði fasteignarinnar að Valsheiði 17 í Hveragerði við nauðungarsölu. Varnaraðili greiði sóknaraðila, Frjálsa fjárfestingarbankanum hf., samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Mál nr. 509/2016
Kærumál Dómkvaðning matsmanns
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu K ehf. um dómkvaðningu matsmanna þar sem ekki var talið leitt í ljós að bersýnilegt væri að svör við þeim spurningum sem fram komu í matsbeiðni K ehf. skiptu ekki máli, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir MarkúsSigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar meðkæru 11. júlí 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 18. sama mánaðar. Kærður erúrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2016 þar sem tekin var til greinakrafa varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr.143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðbeiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna verði hafnað og að honum verðigert að greiða kærumálskostnað. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærðaúrskurðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.Varnaraðili kærði ekki úrskurð héraðsdóms fyrirsitt leyti og kemur því ekki til álita krafa hans um málskostnað í héraði.Varnaraðili ber áhættu af sönnunargildi þeirrarmatsgerðar sem hann vill afla og stendur straum af matskostnaði. Með þessariathugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verðurhann staðfestur.Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilakærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.Dómsorð:Hinn kærði úrskurður er staðfestur.Sóknaraðili, MerillLynch International, greiði varnaraðila, Kaupþingi ehf., 350.000 krónur íkærumálskostnað.Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28.júní 2016.IMál þetta, sem þingfest var 6. september 2012, var tekið tilúrskurðar 20. júní 2016 um matsbeiðni stefnanda, Kaupþings hf., sem lögð varfram í þinghaldi 10. sama mánaðar. Við þá fyrirtöku málsins mótmælti stefndi,Merrill Lynch International, matsbeiðni stefnanda. Dómkröfur stefnanda í málinu er þærað rift verði eftirtöldum greiðslum stefnanda til stefnda, Merrill LynchInternational: Hinn 15. september 2008, að fjárhæð 1.197.059,71 evrur vegnaviðskipta 10. september 2008 og hinn 24. september 2008 að fjárhæð 8.137.916,67bandaríkjadollarar vegna viðskipta hinn19. september 2008.Þess er einnig krafist að stefndi greiði stefnanda1.197.059,71 evru og 8.137.916,67 bandaríkjadollara með dráttarvöxtum af báðumfjárhæðunum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti ogverðtryggingu, frá 11. júní 2012 til greiðsludags.Loks krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt síðarframlögðum málskostnaðarreikningi eða mati réttarins.Í upphafi krafðist stefndi þess aðallega að málinu yrðivísað frá dómi. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 28.júní 2013. Að því frágengnu krefst stefndi aðallega sýknu af öllum kröfumstefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað. Til varakrefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og aðmálskostnaður verði felldur niður. II Í máli þessukrefst stefnandi riftunar á nánar tilgreindum greiðslum sem hann innti af hendi15. og 24. september 2008 sem endurgjald fyrir ákveðna hagsmunaeign eðahlutdeild í skuldabréfum sem stefnandi gaf út 2007, eins og nánar er lýst ístefnu stefnanda og greinargerð stefnda. Fyrir liggur að gjalddagiskuldabréfanna var ekki kominn þegar stefnandi innti greiðslurnar af hendi enhann kveðst hafa bókfært greiðslurnar til lækkunar á útistandandi skuldumsínum. Stefnandi byggir riftunarkröfu sína á 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991,um gjaldþrotaskipti o.fl., en honum var skipuð slitastjórn 25. maí 2009 ágrundvelli ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009, um breytingu á lögumnr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Slitastjórnin gaf út innköllun tilkröfuhafa 6. júlí 2009. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 22. nóvember2010 var stefnandi tekinn til formlegrar slitameðferðar. Stefnandi krefst ennfremur endurgreiðslu á framangreindum greiðslum á grundvelli 142., sbr. 143.gr., laga nr. 21/1991. Stefndi reisirsýknukröfu sína á aðildarskorti. Auk þess byggir hann á því að umræddargreiðslur hafi ekki falið í sér greiðslu skuldar samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laganr. 21/1991 í ljósi skilmála og erlendra réttarreglna sem gilt hafi umviðskiptin. Jafnframt byggir stefndi á því að málsókn þessi sé af hálfustefnanda ólögmæt tilraun til þess að sniðganga ákvæði tilskipunar nr. 98/26/EBum endanlegt uppgjör í greiðslukerfum vegna verðbréfaviðskipta. Þá telurstefndi m.a. að það leiði af n-lið 99. gr. laga nr. 161/2002, umfjármálafyrirtæki, eins og skýra beri þann lið með hliðsjón af 30. gr.tilskipunar nr. 2001/24/EB, að einungis megi rifta þeirri greiðslu, sem tengistviðskiptum stefnda, ef lög á Englandi heimila það. Stefndi byggir á því að lögþar í landi heimili ekki slíka riftun og því beri að sýkna hann af kröfumstefnanda. Í þinghaldi ímáli þessu hinn 5. desember 2014 er bókað að lögmaður stefnda óski eftir frestitil að leggja fram matsbeiðni til sönnunar á erlendri réttarreglu. Lögmaðurstefnanda lýsti því þá yfir að matsbeiðninni yrði mótmælt þegar hún kæmi fram.Í þinghaldi 21. janúar 2015 lagði stefndi fram matsbeiðni gegn mótmælum stefnanda.Lögmaður stefnda dró matsbeiðnina til baka við fyrirtöku málsins 12. febrúarsama ár en lagði fram nýja matsbeiðni 26. sama mánaðar. Af hálfu stefnanda varmatsbeiðni mótmælt og fór fram munnlegur málflutningur um þann ágreining daginneftir. Með úrskurði, uppkveðnum 18. mars 2015, heimilaði dómurinn umbeðnadómkvaðningu matsmanns að hluta en með dómi Hæstaréttar Íslands í máliréttarins nr. 250/2015 hinn 21. apríl 2015 var fallist á kröfu stefnda umdómkvaðningu að öllu leyti. Í kjölfar þeirrar niðurstöðu fór hinn 3. júní 2015fram dómkvaðning Louise Gullifer, prófessors við Oxford háskóla, sem matsmannsí málinu. Lögmaður stefnda lagði fram matsgerð Louise Gullifer prófessors íþinghaldi 16. nóvember 2015 en íslensk þýðing hennar var lögð fram 19. janúar2016. Í matsgerðinni er svarað eftirfarandi spurningum í matsbeiðni um enskanrétt:. Í samhengi viðútgáfu á allsherjarskuldabréfum, hvaða reglur gilda í enskum rétti um stofnunskuldasambands og niðurfellingu kröfu vegna samruna réttinda og skyldna?2. Hvaða reglur gildaí enskum rétti um það hvenær löggerningur er talinn vera skaðlegur kröfuhöfum?3. Ef löggerningur ertalinn vera skaðlegur kröfuhöfum, hvaða reglur gilda í enskum rétti sem heimilaað slíkir gerningar séu vefengdir?4. Þess er óskað að matsmaður geri sérstaka grein í svörumsínum, við spurningum nr. 1, 2 og 3, fyrir tilvist og efni framangreindraenskra réttarreglna við þær kringumstæður þegar fjármálafyrirtæki, sem erútgefandi allsherjarskuldabréfs, með sömu skilmálum og greinir í dómskjölum nr.6, nr. og nr. 9, hefur keypt hlutdeildarkröfur í eigin allsherjarskuldabréfifyrir lokauppgjörsdag þess. Íframangreindu þinghaldi óskaði stefnandi eftir frekari fresti til að kynna sérefni matsgerðarinnar og í næsta þinghaldi hinn 1. mars sl. óskaði hann eftirfresti til að leggja fram yfirmatsbeiðni svo sem hann gerði í þinghaldi 23. samamánaðar. Í yfirmatsbeiðni voru settar fram sömu spurningar og spurt hafði veriðí matsbeiðni stefnda en þeim til viðbótar voru settar fram eftirfarandi tværyfirmatsspurningar: 5. Í samhengi viðútgáfu á allsherjarskuldabréfum, hvaða reglur gilda í enskum rétti um hvorthlutdeildareigendur geti við einhverjar aðstæður höfðað dómsmál gegn útgefandaallsherjarskuldabréfs, og þá við hvaða aðstæður?6. Í samhengi viðútgáfu á allsherjarskuldabréfum, hvaða reglur gilda í enskum rétti um hvorthlutdeildareigendur geti við einhverjar aðstæður lýst kröfum við skuldaskilútgefanda allsherjarskuldabréfs, þ.m.t. sem skilyrtir kröfuhafar, og þá viðhvaða aðstæður? Við framlagningu yfirmatsbeiðnistefnanda óskaði lögmaður stefnda eftir fresti til aðfara yfir hana en mótmælti jafnframt sérstaklega að í henni væri að finna óskirþess efnis að dómkvaddir yfirmatsmenn yrðu látnir svara nýjum spurningum í yfirmatinusem hvorki hefði verið fjallað um né svarað í undirmatsgerð. Málinu varfrestað til 11. apríl sl. og í þinghaldi þann dag reifuðu lögmenn aðilaröksemdir sínar um ágreiningsefnið. Með úrskurði dómsins, uppkveðnum 22. samamánaðar, var fallist á kröfu stefnanda um dómkvaðningu tveggja yfirmatsmannatil að leggja á ný mat á matsspurningar 1 til 4 samkvæmt yfirmatsbeiðninni enkröfu stefnanda að því er varðaði matsspurningar 5 og 6 var hafnað með þeimrökum að með þeim væri ekki leitað endurmats á sömu atriðum og áður hefðu veriðmetin. Yrði því ekki leitað svara yfirmatsmanna við þeim á grundvelli 64. gr.laga nr. 91/1991. Með dómi Hæstaréttar Íslands, uppkveðnum 7. júní sl., í máliréttarins nr. 353/2016 var sú niðurstaða staðfest. Í þinghaldimálsins 10. júní sl. voru dómkvaddir tveir sérfróðir yfirmatsmenn að óskstefnanda. Í sama þinghaldi lagði stefnandi fram matsbeiðni, dagsetta sama dag,þar sem þess er krafist að dómkvaðning færi fram í samræmi við beiðnina, þ.e.til mats á tveimur matspurningum sem eru samkvæmt efni sínu sömu spurningar ogframangreindar matsspurningar 5 og 6 í fyrrgreindri yfirmatsbeiðni stefnanda.Stefndi krafðist þess að dómkvaðningu yrði hafnað og að stefnandi yrðiúrskurðaður til greiðslu málskostnaðar. Bókað var eftir stefnda að hannmótmælti matsbeiðninni sem bersýnilega tilgangslausri og jafnframt sem of seintfram kominni. Við munnleganmálflutning um ágreining aðila um hvort dómkvaðning matsmanna færi fram áframangreindum grundvelli, vísaði lögmaður stefnda til þess að hann hefði þegarí greinargerð sinni gert grein fyrir því að hann byggði kröfur sínar í málinu áenskum rétti og því væri matsbeiðni stefnanda, dagsett 10. júní 2016, sem lytiað efni ensks réttar, of seint fram komin. Þá vísaði stefndi til þess að í matsbeiðniværu settar fram ýmsar staðhæfingar sem hvergi kæmu fram í stefnu þar sem lýstværi grundvelli málsins. Yrði því ekki séð að matsspurningarnar lytu aðmálsástæðum stefnanda í stefnu og væru þær því bersýnilega tilgangslausar. Stefnandibyggir kröfu sína um að matsmenn verði dómkvaddir í samræmi við matsbeiðni áþví, að ýmsar niðurstöður í framlagðri matsgerð Louise Gullifer prófessors séurangar, auk þess sem hún sé að mörgu leyti reist á ófullnægjandi eða röngumforsendum. Stefnanda sé nauðsynlegt að afla matsgerðarinnar þar sem ekki sé ífyrirliggjandi matsgerð Louise Gullifer prófessors gerð grein fyrir öllumhliðum skuldarsambands milli útgefanda allsherjarskuldabréfs oghlutdeildareigenda og því gefi matsgerðin ekki nákvæma mynd af réttarsambandimálsaðila. Þar sé því réttarreglum um samruna réttinda og skyldna hvorki lýstmeð réttum hætti né í réttu samhengi. Tilgangur stefnanda með matsbeiðninni séþví að fá fram fullnægjandi lýsingu á þessu réttarsambandi, auk þess semstefnandi hyggist sanna að milli útgefanda og eiganda hlutdeildar íallsherjarskuldabréfi sé skuldarsamband en slíkt skuldarsamband hafi áhrif ábeitingu reglunnar um samruna réttinda og skyldna að enskum rétti.III Aðili að máli,sem rekið er fyrir dómstólum á grundvelli laga nr. 91/1991, um meðferðeinkamála, á að meginstefnu til rétt á því að afla og leggja fram þausönnunargögn sem hann telur þörf á til stuðnings málatilbúnaði sínum. Það erþví almennt hvorki á valdi gagnaðila né dómstóla að aftra því, nema með stoð ílögum. Af þeim sökum ber dómara jafnan að verða við beiðni málsaðila um aðdómkveðja matsmann eða matsmenn samkvæmt IX. kafla laga nr. 91/1991 nemamatsbeiðni fullnægi ekki skilyrðum 2. málsliðar 1. mgr. 61. gr. laga nr.91/1991, leitað sé mats um atriði sem dómari telur bersýnilegt að skipti ekkimáli, sbr. 3. mgr. 46. gr. laganna, eða að matsbeiðni lúti einvörðungu aðatriðum sem dómara ber að leggja sjálfur mat á en ekki sérfróður matsmaður,sbr. 2. mgr. 60. gr. og 1. málslið 1. mgr. 61. gr. laganna. Ljóst er aðrekstur máls þessa hefur tekið langan tíma og þá hefur verið lagður fram ímálinu mikill fjöldi gagna, auk þess sem leysa hefur þurft úr ýmsum ágreiningiaðila undir rekstri málsins. Þegar litið er til ferils málsins, einkum íkjölfar matsbeiðni stefnda og síðar framlagningar matsgerðar Louise Gulliferprófessors og gangi málsins í kjölfar niðurstöðu héraðsdóms og HæstaréttarÍslands um yfirmatsbeiðni stefnanda, verður ekki fallist á það með stefnda aðlíta verði svo á að það verði talið stefnanda til einhvers konar vanrækslu aðhafa ekki lagt matsbeiðni sína frá 10. júní sl. fram fyrr. Liggur enda fyrir aðmatsspurningar stefnanda í umræddri matsbeiðni hans eru sprottnar af efnistökumog niðurstöðum í framangreindri matsgerð Louise Gullifer. Að þessu virtu verðurþví ekki talið að matsbeiðnin sé of seint fram komin. Fram er komiðað stefnandi telur að í margnefndri matsgerð prófessors Louise Gullifer prófessorssé ekki gerð nægileg grein fyrir öllum hliðum skuldarsambands milli útgefandaog eiganda hlutdeildar í allsherjarskuldabréfi að enskum rétti og því gefimatsgerðin ekki nákvæma mynd af réttarsambandi aðila þessa máls. Óumdeiltvirðist að þeim matsspurningum, sem lagðar eru fyrir í umræddri matsbeiðnistefnanda frá 10. júní sl., hefur ekki nú þegar verið svarað í matsgerð. Þáliggur fyrir að stefndi byggir dómkröfur sínar í málinu á enskum rétti.Matsspurningar stefnanda lúta að skuldarsambandi að enskum rétti, annars vegarum heimildir hlutdeildareigenda til að höfða dómsmál gegn útgefanda allsherjarskuldabréfsog hins vegar heimild hlutdeildareiganda til að lýsa kröfum við skuldaskilútgefanda allsherjarskuldabréfs. Liggur fyrir að í framlagðri matsgerð LouiseGullifer prófessors var vikið að atriðum sem matsspurningar stefnanda íumþrættri matsbeiðni lúta að, án þess þó að fyrir liggi sjálfstætt mat á þeim ískilningi 1. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Að ölluframangreindu virtu er það mat dómsins að ekki sé leitt í ljós að það sébersýnilegt að svör við umræddum matsspurningum í matsbeiðni stefnanda skiptiekki máli, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og hafaengin haldbær rök komið fram sem styðja fullyrðingu stefnda að því leyti. Að ölluframangreindu virtu er fallist á matsbeiðni stefnanda eins og hún er fram sett. Ekki eru efnitil þess á þessu stigi málsins að taka afstöðu til kröfu stefnda um málskostnaðí þessum þætti málsins. ArnfríðurEinarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.Ú R S K U R Ð A R O R Ð: Fallist er áað dómkveðja tvo hæfa og óvilhalla matsmenn til þess að leggja mat ámatsspurningar í matsbeiðni stefnanda á dómskjali nr. 269sem lagt var fram í þinghaldi 10. júní 2016. Ekkier skorið úr um kröfu stefnda um málskostnað.
Mál nr. 184/2000
Sjómaður Ráðningarsamningur
V var ráðinn af VO sem vélavörður á skipið K, sem hafði verið kyrrsett í Belfast, og fékk til þess tímabundna undanþágu til sex mánaða, enda hafði hann ekki tilskilin réttindi til slíks starfs. Við lok ferðar hálfum mánuði síðar var V tilkynnt að hann ætti á næsta vinnudegi að mæta til fyrra starfs síns við vélsmiðju í eigu VO. Í kjölfarið höfðaði V mál til heimtu vinnulauna og launa í uppsagnarfresti vegna fyrirvaralausrar uppsagnar á skipsstörfum, en hann taldi sig hafa verið ráðinn í skipsrúm í að minnsta kosti sex mánuði. Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur á milli V og VO og taldi héraðsdómur VO því bera sönnunarbyrðina fyrir því að ráðningartími hafi verið annar en V héldi fram. Með hliðsjón af atvikum máls þótti verða að miða við að ráðning V á K hafi eingöngu verið ætlað að standa þar til skipið kæmi til heimahafnar og því þótti V ekki eiga rétt til launa í uppsagnarfresti. Hæstiréttur staðfesti héraðsdóm með vísan til forsendna hans.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. maí 2000. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 539.118 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. október 1998 til greiðsludags, svo og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Þá krefst hann þess að staðfestur verði sjóveðréttur í flutningaskipinu Kötlu, skipaskrárnúmer 2284, fyrir tildæmdri fjárhæð. Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjanda gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Dómur Héraðsdóms Reykjaness 7. febrúar 2000. Mál þetta, sem dómtekið var 28. f.m., er höfðað með stefnu birtri 26. apríl 1999. Stefnandi er Viðar Ólafsson, kt. 100458-3659, nú til heimilis að Vesturbergi 86, Reykjavík. Stefndi er Vélsmiðja Orms og Víglundar ehf., kt. 480998-2789, Kaplahrauni 14-16, Hafnarfirði. Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 539.118 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. október 1998 til greiðsludags. Þá er krafist staðfestingar á sjóveðrétti í flutningaskipinu Kötlu, skipaskrár-númer 2284, fyrir framangreindum fjárhæðum. Loks er gerð krafa um málskostnað úr hendi stefnda. Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda gegn greiðslu á 41.323 krónum, en til vara að kröfur stefnanda sæti lækkun að mati dómsins. Þá krefst hann þess að honum verði heimilað að skuldajafna við kröfu stefnanda gagnkröfu að fjárhæð allt að 124.243 krónur. Loks er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda. Í greinagerð sinni krafðist stefndi þess að málinu yrði vísað frá dómi. Með úrskurði 24. september 1999 var þeirri kröfu hans hafnað. I. Samkvæmt stefnu hefur stefnandi að meginstefnu til höfðað mál þetta til heimtu vinnulauna og launa í uppsagnarfresti. Er á því byggt að hann hafi verið ráðinn í starf vélavarðar á skip í eigu stefnda frá 12. september 1998 að telja. Honum hafi fyrirvaralaust verið sagt upp störfum 26. sama mánaðar. Krefur hann stefnda um laun fyrir þetta tímabil og laun í þrjá mánuði þaðan í frá, en samkvæmt sjómannalögum hafi honum borið þriggja mánaða uppsagnarfrestur. Að auki nær krafa stefnanda til orlofs, dagpeninga, sérstakrar þóknunar fyrir vinnu á samningsbundnum frídögum og orlofs- og desemberuppbótar. Styður hann kröfur sínar í málinu við ákvæði sjómannalaga og kjarasamning Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnu-félaganna annars vegar og Vélstjórafélags Íslands hins vegar um kaup og kjör yfirvélstjóra, vélstjóra og vélavarða á kaupskipum, sem undirritaður var 10. maí 1997. II. Stefnandi kveðst hafa hafið störf í vélsmiðju stefnda árið 1998. Hinn 11. september það ár hafi Eiríkur Ormur Víglundsson, einn eigenda stefnda, haft samband við hann og óskað eftir því að hann færi til Belfast á Norður Írlandi til þess að taka við starfi vélavarðar á flutningaskipinu Kötlu, sem þar hafði verið kyrrsett. Hafði kyrrsetningin komið til af því að ákvæðum um lágmarksmönnun hafði ekki verið fullnægt þar sem vélavörð vantaði á skipið. Stefnandi hafi orðið við þessari beiðni. Hafi stefndi þá leitað eftir undanþágu fyrir hann til að gegna starfi vélavarðar á skipinu, enda hafi stefnandi ekki tilskilin réttindi til slíks starfs. Sú undanþága hafi verið veitt til sex mánaða. Kveðst stefnandi hafi litið svo á í ljósi þessa að ráðning hans í starf vélavarðar væri að minnsta kosti til 6 mánaða. Að morgni laugardagsins 12. september hafi stefnandi haldið af stað flugleiðis til Glasgow í Skotlandi og þaðan til Belfast. Til Belfast hafi hann komið um klukkan 19 þennan sama dag. Mánudaginn 14. september hafi verið haldið úr höfn í Belfast, staldrað við á Englandi dagana 16. og 17. og komið til Hafnarfjarðar fimmtudaginn 24. september. Við heimkomu hafi skipstjóri beðið stefnanda um að mæta til vinnu í skipinu um kl. 11 næsta morgun. Þegar hann hafi mætt til vinnu sinnar á tilskildum tíma hafi fyrrnefndur Eiríkur Ormur verið staddur um borð í skipinu og án nokkurs formála spurt stefnanda að því hvort hann væri „kominn til að ná í helvítis draslið sitt”. Stefnandi hafi svarað því einu til að hann væri kominn til að vinna. Hafi hann síðan unnið um borð í skipinu allan þann dag og allt þar til annar eigandi stefnda, Guðmundur Víglundsson, hafi komið að máli við hann og sagt honum upp skipsstörfum. Í framhaldi af uppsögninni hafi Guðmundur hins vegar boðið stefnanda vinnu í vélsmiðju stefnda. Hafi stefnandi mætt þar til vinnu mánudaginn 28. september. Framkoma fyrirsvarsmanna stefnda í garð hans hafi verið köld. Þá hafi hann jafnframt talið á sér brotið. Af þeim sökum hafi hann látið verkstjóra í vélsmiðju stefnda vita af því um hádegisbil þennan sama dag, að hann hefði ekki í hyggju að halda störfum sínum þar áfram. Í kjölfar þessa hafi stefnandi leitað til Vélstjórafélags Íslands. Hafi starfsmaður félagsins reiknað út launakröfu stefnanda á hendur stefnda og krafist greiðslu á henni með bréfi 10. nóvember 1998. Þegar engin greiðsla barst hafi stefnandi leitað til lögmanns, sem ítrekaði kröfur stefnanda með bréfi til stefnda 12. janúar 1999. Með því að stefndi hafi í engu sinnt ítrekuðum kröfubréfum stefnanda sé málssókn þessi nauðsynleg. Stefnandi byggir dómkröfur sínar í málinu á því, að í samræmi við áskilnað 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 hafi verið í gildi á milli hans og stefnda skiprúmssamningur. Hafi hann gegnt starfi vélavarðar á skipi stefnda allt þar til honum hafi fyrirvaralaust verið sagt upp störfum 26. september 1998. Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 beri skipverja kaup samkvæmt ráðningar- og kjarasamningi allt þar til ráðningu hans lýkur og gildir þá einu þótt hann hafi áður verið afskráður. Samkvæmt 25. gr. sömu laga eigi skipverji rétt á kaupi þann tíma sem mælt er fyrir um í 9. gr. laganna sé honum vikið úr skiprúmi áður en ráðningartími hans er liðinn og án þess að heimild standi til þess samkvæmt 23. eða 24. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. tilvitnaðra laga skuli uppsagnarfrestur á skiprúmssamningi yfirmanns vera þrír mánuðir nema um annað hafi sérstaklega verið samið. Þessi uppsagnarfrestur eigi við stýrimenn, vélstjóra, loftskeytamenn og bryta, sbr. 5. gr. sjómannalaga. Stefnandi hafi gegnt starfi yfirmanns á skipinu og beri honum því þriggja mánaða uppsagnarfrestur. Stefndi hafi rift ráðningar-samningi sínum við stefnanda 26. september 1998, enda hafi vinnuframlags hans um borð í skipinu ekki verið óskað frá og með því tímamarki. Ráðning hans hafi verið bundin við skipið og hann því ekki verið flutningsskyldur til starfa í þágu stefnda í landi. Hefði samningur um slíkt þurft að vera bundinn í skiprúmssamningi samkvæmt 6. gr. sjómannalaga. Riftun stefnda á ráðningarsamningnum hafi leitt til þess að öll krafa stefnanda á hendur stefnda, þar með talin laun í uppsagnarfresti, gjaldféll hinn 1. október 1998, sbr. 2. mgr. 27. gr. og 1. mgr. 32. gr. laganna. Krafa stefnanda um laun fyrir tímabilið 12. til 26. september 1998 nemur í heild 99.616 krónum. Er af hálfu stefnanda litið svo á að stefndi hafi þegar staðið honum skil á 33.268 krónum og vangreidd laun nemi því 66.348 krónum. Heildarkrafa stefnanda um laun fyrir framangreint tímabil er sundurliðuð svo í stefnu: 1. Dagvinnulaun kr. 38.220 2. Yfirvinnukaup kr. 14.197 3. Orlofsuppbót kr. 2.534 4. Desemberuppbót kr. 7.517 5. Frídagar kr. 19.110 6. Dagpeningar kr. 10.000 7. Orlof kr. 8.038 Í stefnu skýrir stefnandi grundvöll framangreindra krafna sinna, en þær styður hann svo sem fram er komið við ákvæði sjómannalaga og kjarasamning Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna annars vegar og Vélstjórafélags Íslands hins vegar um kaup og kjör yfirvélstjóra, vélstjóra og vélavarða á kaupskipum. Er í stefnu vísað til greina í þessum kjarasamningi varðandi einstaka kröfuliði og þær teknar orðrétt upp í hana að því marki sem máli skiptir. Þá er við það miðað við útreikning liða nr. 3 og 4 hér að framan, að ráðningartími stefnanda á skipi stefnda hafi að teknu tilliti til þriggja mánaða uppsagnarfrests staðið í 105 daga eða 15 vikur. Þá er á því byggt að stefnandi hafi á tímabilinu 12. til 26. september 1998 skilað 80 dagvinnustundum og 17 yfirvinnutímum. Á þessu tímabili hafi hann átt rétt á fimm frídögum. Við ákvörðun launa til stefnanda í þriggja mánaða uppsagnarfresti á að mati hans að taka mið af launum staðgengils hans í starfi vélavarðar á umræddu skipi stefnanda. Fyrir liggi hins vegar að enginn hafi gegnt starfi vélavarðar á skipinu á meðan uppsagnarfrestur stefnanda leið. Við aðstæður sem þessar beri að taka mið af meðallaunum stefnanda á dag þá 15 daga sem hann starfaði í þágu stefnda. Þau meðallaun eigi síðan að margfalda með 90, það er þremur almanaksmánuðum, sbr. 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga. Til launa á þessu tímabili reiknar stefnandi dagvinnulaun, yfirvinnulaun og frídaga samkvæmt sundurliðun hans hér að framan, en bætir síðan við orlofi af þessum fjárhæðum, sem hann segir nema 7.274 krónum. Laun til útreiknings meðallauna á dag á umræddu 15 daga tímabili nemi þannig 78.801 krónu (38.220 + 14.197 + 19.110 + 7.274). Meðallaun á dag nemi því 5.253 krónum og heildarlaun í uppsagnarfresti 472.770 krónum (5.253 x 90). Samkvæmt framansögðu nemur heildarkrafa stefnanda á hendur stefnda 539.118 krónum (66.348 + 472.770), sem er stefnufjárhæð málsins. III. Í greinargerð stefnda er tekið fram, að hann hafi um nokkurn tíma gert út vöruflutningaskipið Kötlu. Í september 1998 hafi það verið kyrrsett í höfn í Belfast á Norður Írlandi, meðal annars vegna þess að fjöldi í áhöfn var ekki í samræmi við lágmarkskröfur, sem gerðar eru til mönnunar skips af þessu tagi. Til þess að losa um kyrrsetningu skipsins hafi stefndi farið þess á leit við stefnanda, sem þá vann eins og fram er komið í vélsmiðju stefnda, að hann færi til Belfast og hefði með höndum starf vélavarðar á skipinu. Stefnandi hafi fallist á að fara þessa einu ferð. Þar sem stefnandi sé ekki vélstjóramenntaður hafi verið sótt um undanþágu fyrir hann. Hún hafi fengist og Siglingamálastofnun gefið út til stefnanda aðstoðarvélstjóraskírteini. Áður en stefnandi hélt til Írlands hafi hann fengið greiðslu frá stefnanda, sem samsvaraði 20.085 krónum, en hún hafi að hlut til verið í erlendri mynt. Hafi honum verið tjáð að umboðsmaður skipsins myndi taka á móti honum í Belfast og koma honum til skips. Við komuna til Belfast hafi stefnandi hins vegar ekki gefið sig fram við umboðsmanninn. Þegar hann síðan seint og um síðir skilaði sér um borð hafi hann verið mjög ölvaður. Þá hafi ölvun hans leitt til þess að hann hafi verið sendur heim skömmu eftir komu skipsins til Hafnarfjarðar fimmtudaginn 24. september. Hvorugur fyrirsvarsmanna stefnda hafi þá átt orðaskipti við hann að öðru leyti en því, að hann hafi verið beðinn um að mæta til sinna fyrri starfa hjá stefnda þegar hann yrði í standi til þess. Hafi stefnandi mætt til vinnu sinnar í vélsmiðju stefnda mánudaginn 28. september. Verkstjóri stefnda hafi þá talið hann vera undir áhrifum áfengis. Um hádegisbil hafi stefnandi hins vegar horfið úr vinnu hjá stefnda og ekki mætt til hennar síðan. Stefndi byggir sýknukröfu sína aðallega á því að ákvæði sjómannalaga eigi ekki við um framangreind starfslok stefnanda hjá stefnda. Samkomulag hafi verið með aðilum þess efnis, að stefnandi færi eingöngu þessa einu ferð sem vélavörður á skipi stefnda og hyrfi eftir það til fyrri starfa sinna hjá honum. Vísar stefndi til þess, að í upphafi hafi aðeins fjórir menn verið í áhöfn skipsins. Hafi stefnandi verið ráðinn tímabundið til starfa á því sem fimmti áhafnarmeðlimur í kjölfar þess að skipið var kyrrsett í Belfast vegna vöntunar á vélaverði. Til stuðnings þeirri fullyrðingu sinni að um framangreint hafi verið samið á milli aðila, vísar stefndi til þess, að stefnandi hafi ekki haft uppi mótmæli eða með öðrum hætti hreyft athugasemdum þegar honum hafi verið sagt við komuna til landsins hinn 24. september 1998 að hann ætti að nýju að mæta til sinna fyrri starfa hjá stefnda. Í bréfi stéttarfélags stefnanda til stefnda 10. nóvember 1998 hafi heldur ekki verið á því byggt að ráðning stefnanda á skipið hafi átt að standa lengur. Þvert á móti hafi stefnandi virt samkomulag aðila og og mætt til sinna fyrri starfa hjá stefnda mánudaginn 28. september 1998. Það hafi síðan verið ákvörðun hans að hverfa úr því starfi án þess að virða gagnkvæman uppsagnarfrest. Þar sem málatilbúnaður stefnanda sé alfarið byggður á rétti hans til launa eftir ákvæðum sjómannalaga og kjarasamningi vélstjóra og viðsemjenda þeirra, en ekki á ákvæðum kjarasamnings verkamannasambandsins, sé ómögulegt að leggja efnisdóm á kröfur hans. Því beri að sýkna stefnda gegn greiðslu vangreiddra launa að fjárhæð 41.323 krónur, sem síðan verði skuldajafnað við kröfu stefnda á hendur stefnanda vegna fyrirvaralauss brotthlaups úr starfi. Líti dómurinn hins vegar svo á að ákvæði sjómannalaga eigi hér við, er sem fyrr á því byggt af hálfu stefnda, að samkomulag hafi tekist með aðilum um að stefnandi hyrfi úr skiprúmi í fyrra starf sitt hjá stefnda þegar skipið kæmi til heimahafnar, sbr. 1. mgr. 9. gr. sjómannalaga. Stefnandi hafi hins vegar kosið að virða ekki það samkomulag og hlaupist úr vinnu, svo sem áður er lýst. Samkvæmt almennum reglum vinnuréttar eigi stefndi rétt á bótum, sem nemi launum fyrir hálfan uppsagnarfrest. Að því er varðar ákvörðun um fjárhæð þeirra bóta er því harðlega mótmælt af hálfu stefnda, að stefnandi hafi gegnt stöðu yfirmanns á skipinu. Staða stefnanda sem aðstoðarvélstjóri hafi verið undirmannsstaða, sem byggst hafi á sérstakri undanþágu vegna séraðstæðna. Því hafi gagnkvæmur uppsagnarfrestur verið einn mánuður. Samkvæmt því og vegna fyrirvaralauss brotthlaups stefnanda úr starfi hjá stefnda beri stefnda réttur til bóta úr hendi stefnanda sem nemi hálfum launum, það er 41.415 krónur, sem sé um það bil sú fjárhæð sem Vélstjórafélag Íslands telji að vanti upp á rétt laun stefnanda.Verði allt að einu litið svo á að stefnanda hafi gegnt stöðu yfirmanns á skipinu telur stefndi að bótakrafa hans eigi að nema 124.243 krónum, en það sé helmingur launa miðað við þriggja mánaða uppsagnarfrest. Loks teflir stefndi fram þeirri málsástæðu, að stefnandi hafi sýnt tómlæti við gæslu þess réttar, sem hann sækir sér til handa með málssókn þessari, og þar með glatað honum. Eru í greinargerð stefnda rakin atvik, sem snúa að þessari málsástæðu hans. Af hálfu stefnda er sérstaklega mótmælt kröfum stefnanda um greiðslu orlofs- og desemberuppbótar og dagpeninga. Þá mótmælir stefndi tölulegum grundvelli málsins samkvæmt stefnu, en hreyfir ekki athugasemdum að því er tekur til útreiknings Vélstjórafélags Íslands á launum til stefnanda fyrir það tímabil sem starfaði um borð í skipi stefnda. IV. Niðurstaða. 1. Óumdeilt er að stefnandi var ráðinn í starf vélavarðar á skip stefnda frá og með 12. september 1998 að telja. Aðila greinir hins vegar á um lengd ráðningartíma. Þar sem ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda, andstætt 1. mgr. 6. gr. og 42. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, ber stefndi sönnunarbyrði fyrir því að ráðningartími hafi verið annar en stefnandi heldur fram. Af hálfu stefnanda hefur því verið haldið fram að hann hafi verið ráðinn í skiprúm í að minnsta kosti 6 mánuði. Því til stuðnings hefur hann ekki vísað til loforðs af hendi fyrirsvarsmanns stefnda. Tiltekur stefnandi í þessu sambandi að undanþága, sem honum var veitt til að starfa sem aðstoðarvélstjóri á skipinu, hafi verið til 6 mánaða. Hafi hann í því ljósi litið svo á að ráðningu hans á skipið væri að minnsta kosti ætlað að standa þann tíma. Stefnandi leitaði til Vélstjórafélags Íslands í kjölfar þess að störfum hans hjá stefnda lauk. Í bréfi sem félagið ritaði stefnda af því tilefni 10. nóvember 1998 segir meðal annars: „Að sögn Viðars var hann ráðinn vélavörður á Kötlu HF dagana 12. september til 26. september sl.” Af skýrslu stefnanda fyrir dómi verður ekki annað ráðið en að hann hafi farið á skrifstofu Vélstjórafélags Íslands og að bréfið hafi verið ritað í samræmi við upplýsingar sem hann þar gaf um ráðningu sína á skip stefnda. Í bréfinu er sett fram krafa sem tekur til framangreinds tímabils. Þar kemur hins vegar ekkert fram um það að stefnanda hafi verið vikið úr skiprúmi og að honum beri réttur til launa í uppsagnarfresti. Var það fyrst gert í bréfi lögmanns hans til stefnda 12. janúar 1999. Fyrir liggur að stefnandi mætti til vinnu í vélsmiðju stefnda að morgni mánudagsins 28. september 1998. Felst í því viss vísbending um að stefnandi hafi sjálfur litið svo á að ráðningu hans á skip stefnda hafi ekki verið ætlað að standa lengur en stefndi heldur fram. Þegar litið er til þess, sem rakið er hér að framan, og jafnframt höfð í huga tildrög þess að stefnandi var ráðinn til starfa á skip stefnda, en aðila greinir ekki á um þau, verður við það að miða að ráðningu stefnanda á skipið hafi eingöngu verið ætlað að standa þar til það kæmi til heimahafnar frá Belfast á Norður Írlandi þar sem það hafði verið kyrrsett. Með heimild í 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga var stefnanda þannig markaður ákveðinn ráðningartími. Af þessu leiðir að stefnandi á ekki rétt til launa í uppsagnarfresti, svo sem hann gerir kröfu til. 2. Launakrafa stefnanda fyrir tímabilið 12. til 26. september 1998 nemur að teknu tilliti til innborgunar 66.348 krónum. Greiðsla sú sem stefndi býður fram fyrir sama tímabil er nokkru lægri, eða 41.323 krónur. Er hún byggð á útreikningi Vélstjórafélags Íslands á vangreiddum launum til stefnanda, sem fylgdi framangreindu bréfi félagsins til stefnda 10. nóvember 1998. Fallist er á kröfu stefnanda um greiðslu fyrir dagvinnu og yfirvinnu, en hún nemur samtals 52.417 krónum. Þá ber stefnanda réttur til greiðslu fyrir 5 frídaga, sbr. greinar 8.1.1. og 8.3.1. í kjarasamningi þeim frá 10. maí 1997, sem áður er vísað til. Verður sú krafa hans að fullu tekin til greina, en hún nemur 19.110 krónum. Loks þykir stefnandi hafa sýnt nægilega fram á rétt sinn til dagpeninga að fjárhæð 8.368 krónur. Samkvæmt framansögðu starfaði stefnandi á skipi stefnda í 15 daga. Samkvæmt ákvæðum kjarasamnings á hann þar með ekki rétt til orlofs- og desemberuppbótar, svo sem hann gerir kröfu til. Verður þeim liðum í kröfugerð hans því hafnað. Krafa stefnanda um orlof nemur 8.038 krónum. Er hún 10,17% af samtölu dagvinnulauna, yfirvinnulauna, desemberuppbótar og kröfu vegna frídaga. Þar sem stefnandi telst ekki eiga rétt til desemberuppbótar kemur hún ekki til álita við útreikning orlofs. Að teknu tilliti til þessa og með vísan til greinar 12.1.5. í kjarasamningi aðila verður fallist á kröfu stefnanda um orlof með 7.274 krónum. Í kröfugerð stefnanda er við það miðað að hann hafi þegar móttekið 33.268 krónur frá stefnda vegna starfa hans á skipi stefnda. Réttmæt krafa hans fyrir þessi störf hans nemur samkvæmt framansögðu 87.169 krónum. Nema vangreidd laun því 53.901 krónu. 3. Stefndi gerir kröfu til þess að gagnkröfu, sem hann telur sig eiga á hendur stefnanda vegna fyrirvaralauss brotthlaups úr starfi, verði skuldajafnað við framangreinda fjárkröfu stefnanda. Til stuðnings gagnkröfu sinni vísaði stefndi í greinargerð til 60. gr. sjómannalaga. Við munnlegan flutning málsins var hins vegar á því byggt, að gagnkrafan styddist við almenna reglu vinnuréttar, sem leidd væri af 25. gr. hjúalaga nr. 22/1928. Á sviði vinnuréttar hefur sú regla verið talin í gildi, að launþegi skuli bæta tjón sem hann veldur vinnuveitanda með ólögmætu brotthlaupi. Tilvitnað ákvæði laga nr. 22/1928 gerir ráð fyrir meðalhófsbótum, sé fjárhæð tjóns ekki sönnuð, og er þar miðað við helming af kaupi fyrir tímann sem eftir var, þó ekki lengur en 8 vikur. Í gagnkröfu stefnda felst krafa um skaðabætur. Í málatilbúnaði hans er í engu vikið að því að fyrirvaralaust brotthlaup stefnanda úr starfi hafi valdið stefnda tjóni eða haft í för með sér óhagræði fyrir hann. Undir rekstri málsins kom ekkert það fram sem veitir líkur fyrir því að sú sé raunin. Þegar af þessari ástæðu eru ekki efni til þess að taka gagnkröfu stefnda til greina. Þá er að auki til þess að líta, að ekkert liggur fyrir um laun stefnanda í vélsmiðju stefnda eða uppsagnarfrest hans þar. 4. Samkvæmt því, sem hér að framan segir, verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 53.901 krónu, enda eru engin efni til að líta svo á að þessi krafa hans sé að hluta til fallin niður fyrir tómlæti. Um vexti fer svo sem í dómsorði greinir. Með vísan til 1. tölul. 1. mgr. 197. gr. siglingalaga nr. 34/1985 á stefnandi sjóveðrétti í flutningaskipinu Kötlu, skipaskrárnúmer 2284, til tryggingar tildæmdum fjárhæðum. Eftir framangreindum málsúrslitum og þar sem ekki var gerður skriflegur skiprúmssamningur við stefnanda, andstætt 1. mgr. 6. gr. og 42. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, þykir rétt að hvor aðili ber sinn kostnað af málinu, sbr. H.1988.814. Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan. Dómsorð : Stefndi, Vélsmiðja Orms og Víglundar ehf., greiði stefnanda, Viðari Ólafssyni, 53.901 krónu ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. október 1998 til greiðsludags. Stefnandi á sjóveðrétt í flutningaskipinu Kötlu, skipaskrárnúmer 2284, til tryggingar tildæmdum fjárhæðum. Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 736/2017
Kærumál Nauðungarsala Veðréttur Veðsetning
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem felld var úr gildi nauðungarsala á eignarhluta T í fasteign en T og eiginmaður hennar voru þinglýstir eigendur hennar að jöfnum hlutum. Talið var að undirritun T á veðskuldabréfið, sem L hf. reisti á beiðni sína um nauðungarsölu, bæri ekki glögglega með sér að hún hefði samþykkt veðsetningu síns eignarhluta og önnur gögn veittu ekki vísbendingu um að hún hefði ætlað sér það. Á hinn bóginn bæri undirritun hennar með sér að hún hefði samþykkt veðsetningu eignarhluta eiginmanns síns. Hefði L hf. því ekki fært sönnur á að stofnast hefði til gilds veðréttar í eignarhluta T í fasteigninni.
Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir GretaBaldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar meðkæru 24. nóvember 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 7. desember sama ár. Kærðurer úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2017, þar sem felld var úrgildi nauðungarsala á 50% eignarhluta varnaraðila í fasteign að Brúnavegi 1 íReykjavík, sem fram fór 8. febrúar 2017. Kæruheimild var í 1. mgr. 85. gr. laganr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að nauðungarsalan verðistaðfest. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.Varnaraðili krefst þess aðallega aðframangreind nauðungarsala verði ógilt að öllu leyti en til vara staðfestingarhins kærða úrskurðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði ogkærumálskostnaðar.Varnaraðili hefur ekki kært úrskurðinn fyrirsitt leyti og því koma hvorki aðalkrafa hans né málskostnaðarkrafa fyrirhéraðsdómi til greina. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðarverður hann staðfestur.Rétt erað hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins hér fyrir dómi.Dómsorð:Hinn kærði úrskurður er staðfestur.Kærumálskostnaður fellur niður. Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13.nóvember 2017.Mál þetta barst dóminum 7. mars 2017 með kröfu sóknaraðila umúrlausn héraðsdómara samkvæmt XIV. kafla laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.Málið var þingfest 7. apríl 2017 og tekið til úrskurðar 17. október sama ár. Sóknaraðili krefst þess aðallega að nauðungarsala sýslumannsinsí Reykjavík 8. febrúar 2017, þar sem fasteignin að Brúnavegi 1, Reykjavík varseld við nauð­ung­ar­sölu, þar á meðal 50% eignarhlutur sóknaraðila, verðiógilt. Til vara er þess krafist að nauð­ungarsalan verði ógilt að því er varðareignarhluta sóknaraðila. Að því frágengnu krefst sóknaraðili þess að gerðinni verðibreytt á þann veg að hún nái aðeins til 50% eignarhluta Gunnars Jósefssonar í fasteigninni. Þá krefstsóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að meðtöldum virðisaukaskatti ámálflutnings­þóknun.Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verðihafnað og að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um að fram halda nauðungarsöluað Brúnavegi 1, Reykjavík, standi óhögguð. Þá krefst varnaraðili málskostnaðarað mati dómsins.MálavextirMeð beiðni 24. september 2015 krafðist varnaraðilinauðungarsölu á fast­eigninni Brúnavegi 1, Reykjavík, fastanúmer 201-7383, tilfullnustu skuldar samkvæmt veðskuldabréfi nr. 0117 74 171242, útgefnu 22.janúar 2006 að fjárhæð 60.000.000 krónur. Útgefandi bréfsins var GunnarJósefsson, eiginmaður sóknaraðila. Til tryggingar skilvísri og skaðlausrigreiðslu höfuðstóls, vaxta, vísitöluálags, dráttar­vaxta og alls kostnaðar semaf vanskilum og innheimtuaðgerðum kynni að leiða, voru varnaraðila settar aðveði fasteignir að Mánagötu 4, Grettisgötu 55, Sporðagrunni 7, Nýlendugötu 15b, íbúð i A-hluta kjallara,Dalbraut 1, Dalbraut 3, Barðavogi 22, og Brúnavegi 1, allar í Reykjavík, en sóknaraðiliog eiginmaður hennar voru þinglýstir eigendur að síðastgreindri eign að jöfnumhlutum. Í 10. gr. veðskuldabréfsins sagði að ef hin veðtryggða skuld félli ígjalddaga væri veðhafa heimilt að láta selja hinar veðsettu eignirnauðungarsölu til fullnustu kröfunni, án undangengins dóms, sáttar eða aðfarar,samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991. Í 15. gr. veð­skulda­bréfsinssagði að með undirritun sinni á skuldabréfið staðfesti veðsali, sem ekki væriútgefandi, að hafa kynnt sér efni upplýsingabæklings Landsbanka Íslands hf. umpersónu­­ábyrgðir og veðtryggingar þriðja aðila. Undir bréfið ritaði GunnarJósefsson sem útgefandi og þinglýstur eigandi Mánagötu 4, Reykjavík. Í reit þarsem vélritað var ,,Undirritun þinglýsts eiganda fasteignanna fasteignannaGrettisgötu 55, Sporðagrunn 7, Nýlendugata 15 b, Dalbraut 1, Dalbraut 3,Mánagötu 4, og Barðavogur 22, Reykjavík“ var ólæsilegur stimpill og handritaðirólæsilegir stafir. Mun vera um að ræða stimpil Laugarásvídeós ehf., enfyrrgreindur Gunnar mun hafa átt alla hluti í því félagi.Í reit á skuldabréfinu sem varðaði sérstaklega fasteignina aðBrúnavegi 1, var vél­ritað með feitu letri: ,,Undirritun þinglýsts eiganda fasteignarinnar;Brúnavegur 1.“ Í þann reit var nafn Gunnars Jósefssonar handritað á línu þarsem undir var vélritaður svohljóðandi texti: ,,Samþykkur ofangreindriveðsetningu sem þinglýstur eigandi (ef annar en útgefandi)“ og undir var nafniðGunnar Jósefsson. Á línu þar fyrir neðan ritaði sóknaraðili nafn sitt, en undirlínunni var vélritaður svohljóðandi texti: ,,Samþykkur ofangreindri veðsetningusem maki þinglýsts eiganda“ og fyrir neðan var nafn sóknaraðila vélritað. Álínu þar fyrir neðan ritaði sóknaraðili einnig nafn sitt, en undir línunni varsvohljóðandi vélritaður texti: ,,Staðfesting þinglýsts eiganda um að hann séekki í hjúskap.“Breyting var gerð á greiðsluskilmálum skuldabréfsins 16. mars2011. Undir breyting­una ritaði Gunnar Jósefsson sem útgefandi/skuldari. Þá varaf hans hálfu ritað undir breytinguna fyrir hönd Laugarásvídeós ehf. á línu þarsem undir stóð svo­hljóðandi texti: ,,Samþykki þinglýsts eiganda (ef annar enútgefandi).“ Í næstu línu þar fyrir neðan ritaði sóknaraðili nafn sitt á línu,þar sem undir stóð svohljóðandi texti: ,,Samþykki maka þinglýsts eiganda.“Í yfirlýsingu um skilyrta afléttingu veðbanda 10. júlí 2013staðfesti varnaraðili að hann myndi meðal annars aflétta ofangreinduveðskuldabréfi af eignunum Nýlendu­götu 15a, (svo) Grettisgötu 55, Mánagötu 4og Barðavogi 22, með því skilyrði að 46.500.000 króna greiðsla samkvæmtkaupsamningi vegna sölu ofan­greindra eigna rynni til tilgreindrarfasteignasölu og að fasteignasalan innti af hendi þá greiðslu til varnaraðilaað frádregnum sölukostnaði, lögveðskröfum, og tilgreindri kröfu sem tryggð varmeð veði á 3. veðrétti í Barðavogi 22.Með veðbandslausn að hluta, 9. september 2013, viðauka viðofangreint skulda­bréf voru í samræmi við framangreinda yfirlýsingu leystar úrveðböndum gagnvart skuldabréfinu fasteignirnar að Barðavogi 22, Mánagötu 4,Grettisgötu 55 og Nýlendugötu 15a, (svo) allar í Reykjavík. Í veðbandslausninnier tilgreint að til tryggingar skuldinni séu eftirleiðis fasteignir aðBrúnavegi 1, Dalbraut 1 og Dalbraut 3, allar í Reykjavík. Undirveðbandslausnina ritaði fyrrgreindur Gunnar Jósefsson sem útgefandi/skuldarieins og þar er tilgreint. Í tilgreinda reiti á veðbandslausnina sem báruyfirskriftina samþykki annarra veðsala var ekkert ritað.Samkvæmt gögnum málsins fór lánið í vanskil í október 2013.Fjárhæð á síðasta gjalddaga var tilgreind 36.389.317 krónur. Með beiðni umnauðungarsölu 24. september 2015 til sýslumannsins í Reykjavík krafðistvarnaraðili nauðungarsölu á eigninni á grundvelli framangreinds skuldabréfs.Nauðungarsölubeiðnin var tekin fyrir hjá sýslumanninum í Reykjavík 11. febrúar2016, en þá var ekki mætt af hálfu uppboðsþola. Hófst nauðungarsalan 9.nóvember sama ár en var frestað til 18. janúar 2017. Var nauðungarsölu framhaldið 8. febrúar sama ár. Við framhald nauðungar­sölunnar var því mótmælt afhálfu sóknaraðila að eignarhlutur hennar að Brúnavegi 1 yrði seldur. Vísaði húntil þess að við sölu eigna þeirra er leystar hefðu verið úr veðböndum 9.september 2013 hefði stórum hluta söluandvirðis verið ráðstafað af hálfuvarnaraðila til greiðslu skulda Laugarásvídeós ehf., en ekki til greiðslu áfyrr­greindu skuldabréfi. Sýslumaður hafnaði mótmælum sóknaraðila og ákvað aðnauðungarsölunni yrði fram haldið. Varnaraðili var hæstbjóðandi með 50.000.000króna boð. Samþykkisfrestur var til 5. apríl 2017 og var boð varnaraðila samþykkt.Málsástæður oglagarök sóknaraðilaSóknaraðili kveður ofangreint skuldabréf ekki vera gildauppboðsheimild fyrir eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni að Brúnavegi 1,Reykjavík, sbr. ákvæði hjúskaparlaga nr. 31/1993, einkum 60. og 64. gr. þeirra.Þá kveður sóknaraðili að veð­samningurinn sé svo bersýnilega ósanngjarn að hannsé ógildanlegur. Því beri að ógilda nauðungarsöluna. Þá reisir sóknaraðilimálatilbúnað sinn á því að einhliða ráðstafanir varnaraðila, þ.e. bæðiráðstöfun veða og ólögmæt og refsiverð ráðstöfun fjármuna leiði til þess að,,ábyrgðarsamningur sóknaraðila og Gunnars“ sé niðurfallinn með sömu rökum ogmeð vísan til 10. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn.Varakröfu sína styður sóknaraðili sömu rökum og aðalkröfu ogkveður kröfu sína um að aðeins verði ógilt nauðungarsala að því er hennar eignarhlutavarðar rúmast innan aðalkröfu.Þá byggir sóknaraðili á því að varnaraðili hafi 9. september2013 samþykkt ein­hliða að krossveð skuldabréfsins að Barðavogi 22, Mánagötu 4,Grettisgötu 55 og Nýlendugötu 15b, stæðu ekki lengur til tryggingar fullnustuþess. Laugarásvídeó ehf. hafi verið eigandi eignasafnsins en Gunnar Jósefssonhafi á þeim tíma verið eigandi og fyrirsvarsmaður félagsins. Eignir hafi veriðseldar 23. júlí 2013 í einni sölu án þess að gerð væri grein fyrir söluverðieinstakra fasteigna. Afsal hafi verið gefið út fyrir eignum sama dag þráttfyrir að greiðslur hafi ekki borist að neinu leyti. Samkvæmt skilyrtu veðleyfi10. júlí 2013 hafi átt að greiða söluverðið að frádregnum sölu­kostnaði,lögveðskröfum og kröfu á 3. veðrétti fasteignarinnar að Barðavogi 22, inn áreikning varnaraðila. Við sölu eignanna hafi því ekki verið gert að skilyrði aðsöluandvirði yrði ráðstafað til uppgreiðslu á skuldabréfinu, enda hafivarnaraðili verið með veð í öðrum eignum fyrir skuldinni. Með sölu eignannahafi ætlun Gunnars verið að koma óverulegum vanskilum í skil og aðendurskipuleggja fjármál félagsins og hans sjálfs. Söluandvirði eignasafnsinshafi aftur á móti verið ráðstafað, einhliða af varnar­aðila, meðal annars tilgreiðslu annarra og ótengdra skulda Laugarásvídeós ehf. Sú tilhögun hafi þjónaðhagsmunum varnaraðila en ekki hagsmunum sóknaraðila. Með ráðstöfuninni hafivarnaraðili bakað Gunnari fjárhagslegt tjón og hafi verið aukið á fjártjónshættusóknaraðila, allt með þeim afleiðingum að nú sé gengið að heimili hennar.Ákvæði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 32/2009 leysi sóknaraðila undan skyldum sínum,enda hafi hún ekki samþykkt ráðstafanir varnaraðila og hún hafi ekki ritað nafnsitt á línu fyrir samþykki annarra veðsala á veðbandslausn. Einhliða ogrefsiverðar ráð­stafanir varnaraðila á söluandvirði eignasafns Laugarásvídeósehf. hafi síðan breytt stöðu sóknaraðila og Gunnars í verulegum atriðum og þaðjafnvel þótt hluta söluandvirðis hafi verið ráðstafað inn á skuldabréfið.Ógilda beri því veðsamninginn í heild á grundvelli ákvæða laga um nr. 7/1936, umsamningsgerð, umboð og ógilda lög­­gerninga, aðallega 33. og 36. gr. þeirra,enda bæði ósanngjarnt og óheiðarlegt af varnar­aðila að bera hann fyrir sigeins og atvikum sé háttað. Því beri að ógilda nauð­ungar­sölu á fasteigninni.Sóknaraðili hafi ekki veðsett eignarhluta sinn. Hún hafiaðeins ritað undir skjöl sem maki þinglýsts eiganda og því ekki samþykktveðsetningu eignarhluta síns. Þá hafi aldrei verið ætlun hennar að veðsetjasinn eignarhluta. Hafi ráðstöfun á andvirði skulda­bréfsins verið að einhverjuleyti í hennar þágu hafi það verið óverulegt, bæði miðað við heildarfjárhæðlánsins og eignarhluta hennar í fasteigninni. Handvömm hjá sýslu­manni hafiráðið því að fasteignin hafi öll verið boðin upp. Sóknaraðili hafi aðeinssamþykkt veðsetningu fyrir eignarhlut útgefanda bréfsins en ekki síns hluta.Þá telji sóknaraðili það andstætt góðri viðskiptavenju að berafyrir sig skulda­bréfið. Hafi forveri varnaraðila látið farast fyrir að vinnagreiðslumat á Gunnari, eigin­manni sóknaraðila. Með því hafi varnaraðili ekkihirt um skilyrði og skyldur sam­komu­lags um notkun ábyrgða á skuldumeinstaklinga frá 1. nóvember 2001. Til þess sé að líta að veruleguraðstöðumunur sé með aðilum, forveri varnaraðila hafi verið sér­fræðingur oggera verði kröfur til hans í samræmi við það. Sóknaraðili sé af erlendum upp­runaog hafi átt óhægt um vik að gæta hagsmuna sinna í viðskiptum við forvera varn­araðila.Þá hafi verið sérstaklega mikilvægt að greiðslumeta Gunnar, eiginmann sóknar­aðila,þar sem hann hafi ekki verið eigandi að fasteignum þeim sem skulda­bréfið varmeð veð í. Málsástæður oglagarök varnaraðilaVarnaraðili kveður að nauðungarsöluheimild sé í 10. tölulið fyrrgreindsskuldabréfs, sbr. 6. gr. laga nr. 90/1991. Hafi bréfinu verið þinglýstathugasemdalaust á alla eignina. Sóknaraðili hafi áritað bréfið þrívegis oghafi lánsfjárhæðin farið í að greiða upp eldri veðskuldir sem hvílt hafi áeigninni. Sóknaraðili skrifi líka undir að hún hafi kynnt sér upplýsingabæklingvarnaraðila. Þá séu sóknaraðili og Gunnar Jósefsson hjón og hafi sóknaraðili veriðstjórnarmaður í Laugarásvídeói ehf. en hluti láns­ins hafi farið í að greiðaniður skuldir þess félags og allar fyrri veðskuldir á Brúnavegi 1. Varnaraðili kveður aðalkröfu sóknaraðila ekki dómtæka og þvísíður vara- og þrauta­varkröfu hennar. Þá eigi lög nr. 32/2009 ekki við í máliþessu. Enn fremur sé því hafnað að lög nr. 7/1936 eigi við í málinu.NiðurstaðaBeiðni sóknaraðila um ógildingu nauðungarsölu á fasteigninniBrúnavegi 1, Reykjavík, í heild eða að helmingshluta, er réttilega beint tildómsins á grundvelli XIV. kafla laga nr. 90/1991 og að uppfylltum áskilnaði 1.mgr. 80. gr. laganna um tímafrest. Sóknaraðili hefur með beiðni sinni til dómsins krafist þess aðallegaað ógilt verði nauðungarsala sem fram fór á eigninni að Brúnavegi 1, Reykjavík,en til vara að nauðungarsalan verði ógilt er varðar helmingseignarhluta sinn.Hefur sóknaraðili fært fram margvíslegar málsástæður til stuðnings þeirri kröfusinni, meðal annars málsástæðu er fyrst kom fram við aðalmeðferð málsins 17.október 2017, um að lágmarksboð hafi ekki borist í fasteignina og því hafiuppboðshaldari ekki haft heimild til að samþykkja boð varnaraðila. Lögmaðurvarnaraðila mótmælti þeirri málsástæðu sem of seint fram kominni. Er fallist ámeð varnaraðila að málsástæðan sé of seint fram komin og verður því ekki áhenni byggt, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.Undir veðskuldabréf það sem varnaraðili reisti beiðni sína umnauðungarsölu á, var ritað af hálfu eiginmanns sóknaraðila, Gunnars Jósefssonar,í reit sem bar yfirskriftina undirritun þinglýsts eiganda. Samkvæmtveðskuldabréfinu voru settar að veði margar eignir, þar á meðal sú eign sem málþetta lýtur að. Sóknaraðili ritaði á línu þar sem undir var texti um að húnværi samþykk veðsetningu þeirrar eignar, sem maki þinglýsts eiganda. Einnigritaði hún á línu þar sem undir var vélritað: ,,Staðfesting þinglýsts eigandaum að hann sé ekki í hjúskap.“ Ágreiningslaust er að sóknaraðili er eiginkonaGunnars og því er síðastgreind undirritun sóknaraðila með öllu ónauðsynleg ogóskiljanleg. Á varnaraðila, sem hefur á að skipa sérfræðingum í skjalagerð,hvílir á hinn bóginn ábyrgð á því að svo sé vandað til frágangs skjala að ekkileiki vafi á hvort sóknaraðili hafi með undirritun sinni samþykkt veðsetningusíns eignarhluta í Brúnavegi 1, Reykjavík, eða einungis samþykkt veðsetningunasem maki þinglýsts eiganda. Verður varnaraðili að bera hallann af vafa um það.Eins og að framan var rakið var greiðsluskilmálumskuldabréfsins breytt 16. mars 2011. Ritaði sóknaraðili einungis undir þábreytingu sem maki þinglýsts eiganda. Enn fremur voru með veðbandslausn aðhluta 9. september 2013 leystar úr veðböndum tilgreindar eignir sem samkvæmtskuldabréfinu stóðu til tryggingar skuldinni, en eftir veðbandslausnina stóðueinungis þrjár eignir til tryggingar skuldinni, þar á meðal sú eign sem máliðlýtur að. Undir þessa veðbandslausn ritaði sóknaraðili ekki, þótt sú breytingsem gerð var eignasafni því sem stóðtil tryggingar skuldinni, vörðuðu augljósa hagsmuni hennar sem eiganda aðhelmingi einnar af þeim eignum. Samkvæmt framangreindu ber undirritun sóknaraðila áveðskuldabréfið ekki glögglega með sér að hún hafi samþykkt veðsetningu sínseignarhluta í fasteigninni og önnur gögn málsins veita ekki vísbendingu um aðþað hafi hún ætlað sér. Samþykki hennar fyrir veðsetningu síns eignarhluta varþó nauðsynlegt samkvæmt þeirri meginreglu þinglýsingalaga nr. 39/1978 að sáeinn geti ráðstafað eign með löggerningi sem til þess hefur þinglýsta heimildeða samþykki þess er slíkrar heimildar nýtur, sbr. 24. og 25. gr. laganna. Áhinn bóginn ber undirritun sóknaraðila með sér að hún hafi samþykkt veðsetningueignarhluta eiginmanns síns, Gunnars, í fasteigninni, sbr. 60. og 64. gr.hjúskaparlaga nr. 31/1993. Að þessu virtu hefur varnaraðili ekki fært sönnur áað til gilds veðréttar í eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni að Brúnavegi 1,Reykjavík, hafi stofnast og verður nauðungarsala sem fram fór á eigninni felldúr gildi að því er varðar helmingseignarhluta hennar.Í ljósi þessarar niðurstöðu er ekki þörf á að fjalla um aðrarmálsástæður sóknaraðila. Þá hefur engin grein verið gerð fyrir því af hálfusóknaraðila hvernig lög nr. 32/2009 getaátt við um sóknaraðila, samkvæmt skilgreiningu á ábyrgðarmönnum í 2. mgr. 2.gr. laganna.Eftir framangreindum úrslitum verður varnaraðili dæmdur til aðgreiða sóknaraðila 500.000 krónur í málskostnað.Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.Ú R S K U R Ð A R O R Ð:Nauðungarsala á fasteigninni Brúnavegi 1, Reykjavík,fastanúmer 201-7383, sem lokið var 8. febrúar 2017 hjá sýslumanninum íReykjavík, er felld úr gildi hvað varðar 50% eignarhlut sóknaraðila, ThonglekUtsa, í eigninni.Varnaraðili, Landsbankinn hf., greiði sóknaraðila 500.000krónur í málskostnað.
Mál nr. 178/2004
Skaðabætur Miski Læknir Sjúkrahús Læknaráð Gjafsókn
J gekkst undir brjóstaminnkunaraðgerð á Landspítalanum í ágúst árið 1991. Ekki var talið sannað að vanræksla eða önnur saknæm mistök hafi valdið því að drep komst í hægra brjóst J eftir aðgerðina og einnig var ósannað að saknæm mistök hafi orðið við eftirfarandi meðferð hennar. Skaðabótaábyrgð varð því ekki lögð á ríkið vegna þess tjóns, sem hlaust af því að drep komst í hægra brjóstið. Á hinn bóginn urðu mistök, að því er varðar útlitslegan árangur aðgerðarinnar, sem ollu því að J þurfti að gangast undir fleiri lýtaaðgerðir til lagfæringa á brjóstunum. J gerði enga kröfu um bætur fyrir tímabundna eða varanlega örorku, sem þessu tengdist. Henni voru hins vegar dæmdar miskabætur úr hendi ríkisins.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason. Aðaláfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 7. maí 2004. Hún krefst þess, að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 22.635.963 krónur ásamt nánar tilgreindum ársvöxtum frá 23. ágúst 1991 til 29. júní 1999 en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 30. júní 2004. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafan verði lækkuð og málskostnaður látinn niður falla. I. Eins og fram kemur í héraðsdómi gekkst aðaláfrýjandi undir brjóstaminnkunaraðgerð á Landspítalanum 23. ágúst 1991. Tilgangur aðgerðarinnar var að létta á þyngd brjóstanna. Voru tekin 572 grömm af hægra brjósti og 578 grömm af því vinstra. Í kjölfar aðgerðarinnar fékk aðaláfrýjandi drep í stóran hluta hægri geirvörtu og gekkst hún undir aðra aðgerð á Landspítalanum 27. september 1991 til þess að lagfæra brjóstið. Á árunum 1992 til 1994 fór aðaláfrýjandi í fjórar lýtaaðgerðir til lagfæringa á brjóstunum. Aðaláfrýjandi telur að mistök hafi verið gerð við aðgerðirnar, sem fram fóru á Landspítalanum í ágúst og september 1991, og eftirlit og meðferð hafi verið ábótavant og ófullnægjandi eftir fyrstu aðgerðina. Þá telur hún, að útlitslegur árangur þeirra aðgerða hafi verið óviðunandi. II. Aðaláfrýjandi reisir bótakröfu sína á því, að mistök hafi orðið við sjálfa aðgerðina 23. ágúst 1991. Ekki hafi verið beitt réttri eða viðurkenndri aðferð við brjóstaminnkunina. Í raun liggi ekkert fyrir um það hvaða aðferð aðgerðarlæknirinn beitti, aðeins hans eigin orð. Í aðgerðarlýsingu sé ekki nafngreint hvaða aðferð hafi verið notuð og upplýsingar um það sé ekki að finna í skriflegum gögnum málsins. Fyrir dómi bar aðgerðarlæknirinn, að hann hefði beitt svokallaðri „Strömbeck” aðferð, sem sé viðurkennd og mikið notuð. Í aðgerðarlýsingu var skráð, að skorinn hafi verið út „medialt baseraður flipi fyrir areoluna sem er debridiseraður í kringum.” Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, taldi aðferð þá, sem þar er lýst, vera útfærslu á aðgerð, sem kennd sé við Strömbeck, og sé hún viðurkennd og mikið notuð. Í áliti læknaráðs 18. desember 2001, sem rakið er í héraðsdómi, segir að til séu margar viðurkenndar aðferðir við brjóstaminnkun og sé Strömbeck aðgerð ein þeirra. Verður því talið, að viðurkenndri læknisaðferð hafi verið beitt við brjóstaminnkunaraðgerð aðaláfrýjanda. Þá reisir aðaláfrýjandi bótakröfu sína einnig á því, að mistök hafi orðið í sjálfri aðgerðinni. Mikil blæðing í hægra brjósti fyrstu klukkustundirnar eftir aðgerðina bendi til þess. Þá hafi þau mistök verið gerð, að of mikið hafi verið fjarlægt af vef úr brjóstunum, sem valdið hafi hættu á fylgikvillum, og hafi brjóstin orðið mun minni, en hún hafi óskað eftir. Í aðgerðarlýsingu kemur ekkert fram, sem bendir til annars en að aðgerðin hafi verið framkvæmd á hefðbundinn hátt. Hefur ekki verið sýnt fram á, að saknæm mistök hafi átt sér stað við aðgerðina sjálfa. III. Aðaláfrýjandi reisir kröfu sína í annan stað á því, að ónógt eftirlit hafi verið með henni eftir fyrstu aðgerðina og ófullnægjandi eftirmeðferð. Hún telur, að strax eftir aðgerðina hafi farið að blæða inn á hægra brjóstið, svokallaðir sogkerar, sem settir voru í brjóstin við aðgerðina, hafi ekki náð að hreinsa blóðið og það safnast fyrir í brjóstinu og myndað blóðgúlp. Þetta hafi valdið þrota í brjóstinu og blóðrásartruflun til geirvörtusvæðis, sem aftur hafi valdið drepi í geirvörtunni og brjóstvef þar undir. Telur hún, að ástand sitt og líðan strax á fyrstu klukkustundunum eftir aðgerðina hafi gefið tilefni til ítarlegrar skoðunar og aðgerða af hálfu sérfræðilæknis. Mikil blæðing í hægra brjósti hafi stíflað kerana, sem hafi leitt af sér blóðsöfnun í sárið með auknum þrýstingi í nærliggjandi vef. Hafi strax mátt vera ljóst, að eitthvað hafði farið úrskeiðis í aðgerðinni. Þrátt fyrir stöðugar kvartanir hennar hafi ekkert verið gert fyrr en á þriðja degi eftir aðgerð, er hún var sett á sýklalyf að fyrirmælum aðstoðarlæknis. Eftirlit sérfræðilækna hafi verið lítið sem ekkert frá aðgerðinni 23. ágúst þar til 27. ágúst, er aðgerðarlæknirinn kom á vakt. Við aðgerðina 23. ágúst var komið fyrir tveimur sogrörum í hvoru brjósti. Mun meira blæddi úr hægra brjósti. Fyrsta sólarhringinn eftir aðgerð komu 294 ml úr kerum úr því brjósti en 18 ml úr því vinstra. Í hjúkrunarskýrslum er tekið fram, að sog sé gott í kerum og þeir ekki stíflaðir. Lítið blóð kom í kerana frá kvöldi aðgerðardags þar til þeir voru teknir 26. ágúst. Í áliti læknaráðs er tekið fram, að stíflist keri þá haldi hann ekki áfram að flytja lítið magn daglega heldur stíflist alveg. Telur læknaráð gögn málsins ekki benda til þess, að keri hafi stíflast í hægra brjósti. Aðaláfrýjandi heldur því fram, að vakthafandi sérfræðingur hafi hleypt út blóði úr hægra brjósti á stofugangi 25. ágúst og það sama hafi aðgerðarlæknirinn gert 26. ágúst. Um þetta er ekki getið í sjúkraskýrslu, sem skráð var jafnóðum, og verður að telja ósannað, að blóði hafi verið hleypt úr brjóstinu fyrr en 28. ágúst. Í hjúkrunarskýrslu 26. ágúst var tekið fram, að hiti hefði hækkað í 38,4° og lýst þrota í hægra brjósti og hafi aðaláfrýjandi þá verið sett á sýklalyf. Næsta dag hafi hiti lækkað, en lýst var svolítilli spennu í brjóstinu og efri hluti geirvörtu sagður bláleitur. Þann dag kom aðgerðarlæknirinn og tók annan hvern saum úr. Þrýstingur var sagður ekki eins mikill en talsvert mar og geirvartan svipuð. Var aðaláfrýjanda þá gefið blóðaukandi lyf og hafin rafleiðnimeðferð á húð. Hinn 28. ágúst var síðan í aðgerð hleypt út 100 til 200 ml blóðkekki úr hægra brjósti. Eins og að framan greinir heldur aðaláfrýjandi því fram, að of seint hafi verið brugðist við að hleypa blóðinu úr brjóstinu, það hefði í raun átt að gera strax að kvöldi aðgerðardags. Samkvæmt beiðni aðaláfrýjanda gaf sérfræðingur, sem starfaði í Svíþjóð, vottorð 22. ágúst 1996, sem fyrir liggur í málinu. Hann telur, að kerarnir hafi stíflast, sem leitt hafi af sér blóðsöfnun með auknum þrýstingi í nærliggjandi vef. Ekki sé unnt að fullyrða, hvort blóðsöfnun í sárið hafi leitt til blóðrásartruflunar og dreps, eða hvort svo hefði orðið hvort sem var. Hann telur að átt hefði að laga þetta að kvöldi aðgerðardags meðan enn var tími til að takmarka eða koma í veg fyrir hugsanlegan skaða. Í álitsgerð landlæknis 9. júní 2000 segir, að mjög erfitt sé að segja til um hvenær rétt sé að fara inn á jafn viðkvæmt aðgerðarsvæði og hér um ræðir og kanna málin. Mjög ólíklegt sé, að ástæða hefði verið til þess að kvöldi aðgerðardags eða daginn eftir, miðað við lýsingar í sjúkraskrá. Heldur sé unnt að fallast á, að tilefni hefði verið til aðgerðar 26. ágúst og jafnvel frekar 27. ágúst, er fyrst var lýst bláma á geirvörtu. Hann bendir þó á, að aldrei sé lýst missmíð eða útlitsbreytingum á brjóstinu, sem séu hins vegar mjög algengar við blæðingar, ef þær eru verulegar. Hann tekur fram, að verstu fylgikvillar svona aðgerða séu sýkingar og drep í flipa. Drep stafi af blóðrásartruflunum, sem geti orðið í aðgerðinni sjálfri eða í kjölfar hennar, ef blóðrás truflast vegna sýkingar, þrýstings frá blæðingu og segamyndun í æð. Meðal áhættuþátta slíkra segamyndunar séu reykingar, en fyrir liggur að aðaláfrýjandi reykti bæði fyrir og eftir aðgerðina. Líkur séu á, að hér sé um samverkandi þætti að ræða. Eins og segir í sjúkraskýrslu var það fyrst 27. ágúst að tekið var eftir því að verulegt vandamál væri á ferð, þegar lýst var bláma í efri hluta geirvörtu. Í áliti læknaráðs er bent á, að fleira en eitt geti valdið slíku, svo sem aukinn þrýstingur vegna blæðingar, blóðgúls eða bjúgs. Alltaf sé nokkur hætta á truflunum á blóðflæði og vefjadrepi eftir brjóstaminnkunaraðgerðir og aukist sú áhætta við reykingar eftir aðgerð. Telur læknaráð, að aðgerðarlæknirinn hafi brugðist rétt við með því að fjarlægja sauma úr brjóstinu og gefa lyf til að auka blóðflæði um brjóstvefinn. Ekki hafi verið brugðist of seint við. Frekar ólíklegt sé, að blóðgúll sá, sem fannst við aðgerðina 28. ágúst, hafi verið hin raunverulega orsök að óförum aðaláfrýjanda, þótt hún hafi getað verið meðvirkandi. Héraðsdómur taldi, að í þessu efni verði að styðjast við mat aðgerðarlæknis. Mat hans á blóðflæði sé mikilvægast. Læknar, sem ekki voru viðstaddir hafi ekki raunhæfar forsendur til að draga aðrar ályktanir. Féllst hann ekki á, að eftirlit hafi verið ónógt eða eftirmeðferð ófullnægjandi. Fyrir liggur, að drep í geirvörtu er þekktur fylgikvilli brjóstaminnkunaraðgerða, þótt ekki sé hann algengur. Læknavísindin ráða ekki yfir úrræðum, sem girða fyrir að sjúklingar fái fylgikvilla vegna skurðaðgerða. Eins og að framan greinir eru skiptar skoðanir um það, hvenær rétt hefði verið að hleypa blóði úr brjósti aðaláfrýjanda eftir aðgerðina 23. ágúst. Læknaráð fullyrðir, að ekki sé unnt að sjá, að mistök hafi átt sér stað við eftirmeðferðina. Eins og mál þetta liggur fyrir eru ósönnuð saknæm mistök starfsmanna gagnáfrýjanda við eftirmeðferð aðaláfrýjanda. Bótakrafa aðaláfrýjanda er öðrum þræði reist á því, að læknir sá, sem annaðist skurðaðgerðina, hefði átt að vara hana við þeirri áhættu, sem fylgir svona aðgerð. Ekki hafi verið minnst á fylgikvilla, sem leitt gætu af aðgerðinni. Aðgerðarlæknirinn bar fyrir dómi, að hann hefði rætt við aðaláfrýjanda um hugsanleg vandamál vegna aðgerðarinnar, eins og hann geri við alla sjúklinga, er hún kom til hans á stofu tveimur árum fyrir aðgerðina. Hann hafi einnig hitt hana að morgni aðgerðardagsins, 23. ágúst 1991, og ítrekað hætturnar og taldi sig hafa minnst á hættu þá, sem stafaði af reykingum. Aðaláfrýjandi hefur viðurkennt að hafa kvöldið fyrir aðgerðina fengið upplýsingabækling lýtalækningadeildar um brjóstaminnkunaraðgerðir, þar sem tekið er fram hvaða vandamál gætu orðið eftir aðgerð, og voru tilteknar blæðingar, sýkingar og blóðrásartruflun, sem leitt gæti til dreps í geirvörtunni. Hún segist hafa flett bæklingnum, en ekki lesið hann. Er fallist á það með héraðsdómi, að ósannað sé að um hafi verið að ræða saknæman skort á upplýsingum af hálfu gagnáfrýjanda. IV. Aðaláfrýjandi reisir bótakröfu sína einnig á því, að útlitslegur árangur brjóstaminnkunaraðgerðarinnar hafi verið alls óviðunandi. Hún telur aðgerðarlækninn hafa fjarlægt of mikið af brjóstvef miðað við það, sem hún hafi viljað, og það sem eðlilegt mætti teljast, þannig að brjóstin hafi orðið mjög lítil. Þá hafi þau eftir aðgerðina verið ósamstæð og vinstri geirvartan sett allt of ofarlega á brjóstið. Þessi mistök hafi valdið því, að hún hafi orðið að gangast undir fleiri aðgerðir til þess að fá úr því bætt. Í ágúst 1992 fór hún í aðgerð á Borgarspítalanum, þar sem vinstri geirvarta var flutt neðar, og í október 1993 var gerð útlitsbætandi aðgerð á báðum brjóstum á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Í febrúar 1994 fór hún enn í aðgerð til að lagfæra hægra brjóstið og í maí sama ár fór hún í aðgerð, þar sem brjóstin voru stækkuð. Aðaláfrýjandi fór í brjóstaminnkunaraðgerð af læknisfræðilegum ástæðum, en hún hafði þjáðst af vöðvabólgu og höfuðverkjum, sem raktir voru til of stórra brjósta. Aðgerðarlæknirinn bar fyrir dómi, að hann hefði reynt að fara eftir óskum aðaláfrýjanda hvað varðar stærð brjóstanna, en tilgangurinn með aðgerðinni hefði verið að létta þau og því hefði orðið að taka það magn, sem munaði um. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er það álit sérfræðinga, að stærð brjósta og staðsetning geirvörtu ráðist við aðgerðina og sé á ábyrgð læknisins. Þótt ekki sé unnt að ábyrgjast nákvæma samhverfu á staðsetningu og stærð brjósta eftir aðgerð, verður að fallast á það álit héraðsdóms, að brjóst aðaláfrýjanda urðu minni en ástæður voru til. Sérfræðingar þeir, sem fyrir dóm komu, báru að ekki hefði verið samræmi milli geirvartanna, sú vinstri hefði verið talsvert hástæðari en hægri. Af gögnum málsins er ljóst, að þar hafi verið um augljós mistök að ræða. Afleiðing þessa var sú, að aðaláfrýjandi varð að gangast undir fleiri aðgerðir til þess að ráða bót á því, sem ella hefði ekki verið þörf á. Þá byggir aðaláfrýjandi einnig á því, að húð hafi verið tekin á röngum stað til ígræðslu í aðgerðinni 27. september 1991. Fram er komið, að húðin var tekin neðarlega á utanverðu hægra læri aðaláfrýjanda. Í áliti læknaráðs kemur fram, að það sé matsatriði hvaðan húð sé tekin til flutninga, en lærið utanvert hafi verið nokkuð hefðbundinn staður til húðtöku. Ofanvert læri sé heppilegra, mæli ekkert því í mót. Héraðsdómur taldi engin efni hafa verið til að velja tökusvæðið rétt ofan við hné á utanverðu læri, eins og gert var. Þetta staðarval geti naumast talist eðlilegt og hafi valdið óþarfa lýti, en það sé á valdi viðkomandi læknis að velja staðinn. Er fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms. Samkvæmt framansögðu er fallist á að mistök hafi átt sér stað við framkvæmd aðgerðanna 23. ágúst og 27. september 1991 að því er varðar útlit brjóstanna og húðtöku til ígræðslu. Er gagnáfrýjandi ábyrgur vegna þeirra mistaka. V. Aðaláfrýjandi hefur lagt fram þrjú örorkumöt í málinu. Vigfús Magnússon tryggingalæknir mat varanlega örorku hennar 10% í febrúar 1995. Júlíus Valsson og Sigurjón Sigurðsson tryggingalæknar mátu varanlega og tímabundna örorku 20% í mars 1997. Högni Óskarsson geðlæknir mat í desember 1997 varanlega örorku 35% en tímabundna örorku 75% út árið 1998. Kröfugerð aðaláfrýjanda byggir hins vegar á 100% tímabundinni örorku frá 23. ágúst 1991 til 31. október 2001, en 35% varanlegri frá þeim tíma. Læknaráð taldi varanlega örorku 20%. Í máli þessu krefst aðaláfrýjandi bóta vegna alls þess tjóns, sem hún telur sig hafa orðið fyrir af völdum brjóstaminnkunaraðgerðarinnar. Meðal þess er útlagður kostnaður og jafnframt framtíðarútgjöld vegna heilbrigðisþjónustu, vaxta- og lántökukostnaður og tjón vegna missis íbúðar. Er kröfugerðin í engu samræmi við neinar viðmiðanir í sambærilegum málum. Eins og að framan greinir er ósannað, að vanræksla eða önnur saknæm mistök hafi valdið því, að drep komst í hægra brjóst aðaláfrýjanda eftir aðgerð þá, sem gerð var á henni 23. ágúst 1991, og einnig er ósannað, að saknæm mistök hafi orðið við eftirfarandi meðferð hennar. Skaðabótaábyrgð verður því ekki lögð á gagnáfrýjanda vegna þess tjóns, sem hlaust af því að drep komst í hægra brjóstið. Á hinn bóginn urðu mistök, að því er varðar útlitslegan árangur aðgerðarinnar, sem ollu því, að aðaláfrýjandi þurfti að gangast undir aðgerðir til lagfæringar á þeim mistökum. Aðaláfrýjandi gerir enga kröfu um bætur fyrir tímabundna eða varanlega örorku, sem þessu tengist Hún á hins vegar rétt á miskabótum úr hendi gagnáfrýjanda, sbr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem í gildi var, er tjónið varð. Þykja þær hæfilega ákveðnar 1.500.000 krónur, miðað við verðlag þegar málið var höfðað 29. júní 1999, með dráttarvöxtum frá þeim tíma til greiðsludags. Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað eru staðfest. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, svo sem í dómsorði greinir. Dómsorð: Gagnáfrýjandi, íslenska ríkið, greiði aðaláfrýjanda, Jórunni Önnu Sigurðardóttur, 1.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 29. júní 1999 til 1. júlí 2001 en 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 600.000 krónur. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2004. Málið var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Róbert Árna Hreiðarssyni hdl. f.h. Jórunnar Önnu Sigurðardóttur, kt. 260257-7149, Ljósheimum 16b, Reykjavík, á hendur íslenska ríkinu, með stefnu sem birt var 29. júní 1999. Það var upphaflega dómtekið 15. júní 2000 og dæmt í héraði 11. júlí sama ár. Málinu var áfrýjað og með dómi Hæstaréttar 29. mars 2001 var dómur héraðsdóms ómerktur svo og málsmeðferð frá og með munnlegum málflutningi og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, gagnaöflunar og dómsálagningar að nýju. Málið var dómtekið að nýju 18. desember 2002 og dæmt í héraði 20. janúar 2003. Málinu var skotið til Hæstaréttar 11. apríl 2003 og með dómi 2. október 2003 var hinn áfrýjaði dómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og uppsögu dóms að nýju. Aftur var málið dómtekið að loknum munnlegum málflutningi þriðjudaginn 10. febrúar 2004. Endanlegar dómkröfur stefnanda eru: „Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 22.635.963 kr. ásamt ársvöxtum sem hér greinir: 5,8% af 17.982.600 kr. frá 23. ágúst 1991 til 1. september sama ár, 6,3% frá þeim degi til l. nóvember sama ár, 3,9% frá þeim degi til l. desember sama ár, 3,4% frá þeim degi til 1. janúar 1992, 2,6% frá þeim degi til 1. mars sama ár, 1,6% frá þeim degi til l. apríl 1992, 1,1% frá þeim degi til l. júní sama ár, 1% frá þeim degi til l. september sama ár, 0,9% frá þeim degi til 1. janúar 1993, 0,9% af 18.063.527 kr. frá þeim degi til l. febrúar sama ár, 1,1% af þeirri fjárhæð frá þeim degi til 1. mars sama ár, 1% frá þeim degi til 1. apríl sama ár, 0,9% frá þeim degi til 1. maí sama ár, 0,8% frá þeim degi til l. september sama ár, 0,9% frá þeim degi til l. desember sama ár, 0,5% frá þeim degi til 1. janúar 1994, 0,5%, af 18.180.774 kr. frá þeim degi til l. janúar 1995, 0,5% af 18.285.047 kr. frá þeim degi til 1. júní sama ár, 0,6% af þeirri fjárhæð frá þeim degi til l. janúar 1996, 0,6% af 18.448.207 kr. frá þeim degi til l. mars sama ár, 0,9% af þeirri fjárhæð frá þeim degi til 1. maí sama ár, 0,8% frá þeim degi til 1. júní sama ár, 0,7% frá þeim degi til l. nóvember sama ár, 0,8% frá þeim degi til l. janúar 1997, 0,8% af 18.711.253 kr. frá þeim degi til l. febrúar sama ár, 0.9% af þeirri fjárhæð frá þeim degi til l. júní sama ár, 1% frá þeim degi til 1. ágúst sama ár, 0,9% frá þeim degi til l. september sama ár, 0,8% frá þeim degi til 1. janúar 1998, 0,9% af 18.871.639 kr. frá þeim degi til l. mars sama ár, 0,8% af þeirri fjárhæð frá þeim degi til 1. maí sama ár, 0,7% frá þeim degi til l. nóvember sama ár, 0,6% frá þeim degi til 1. janúar 1999, 0,6% af 19.219.315 kr. frá þeim degi til l. apríl sama árs, 0,7% af þeirri fjárhæð frá þeim degi til 1. maí sama árs, 0,8% frá þeim degi til 29. júní 1999. Krafist er dráttarvaxta skv. 10. grein vaxtalaga 25/1987 af 19.266.505 kr. frá 29. júní 1999 til 1. júlí 2001 og skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þess er krafist, að áfallnir dráttarvextir leggist við höfuðstól skuldarinnar og dráttarvextir reiknist af þeirri fjárhæð á 12 mánaða fresti, sbr. 12. gr. laga nr. 25/1987 og 12. gr. laga nr. 38/2001, í fyrsta sinn 29. júní 2000. Þá er krafist málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál skv. framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun." Dómkröfur stefnda eru aðallega þær að stefndi verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda. Jafnframt er krafist málskostnaðar samkvæmt mati réttarins. Til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar, en málskostnaður þá látinn niður falla. I. Helstu málavextir eru að í maí 1989 sótti stefnandi um að fara í brjóstaminnkunaraðgerð á Landspítalanum. Eftir nokkurn aðdraganda var framkvæmd skurðaðgerð á stefnanda 23. ágúst 1991. Ólafur Einarsson lýtalæknir sá um aðgerðina. Munu 572 grömm hafa verið tekin af hægra brjósti og 578 grömm af því vinstra og geirvörtur færðar sem ætla mátti til samræmis við nýja brjóstastærð. Aðgerðin mun hafi gengið vel og áfallalaust fyrir sig. Í aðgerðinni voru svokallaðir blóðkerar tengdir brjóstum stefnanda. Áttu þeir að taka við því blóði sem rynni úr brjóstum stefnanda eftir aðgerðina. Stefnandi mun hafi verið með blóðkerana í þrjá sólarhringa og af hálfu stefnda er haldið fram að vandlega hafi verið fylgst með þeim. Blóðkerarnir hafi virkað eðlilega á þessu tímabili og hafi ástand stefnanda almennt verið talið eðlilegt. Í hjúkrunarskýrslum segir að ástand stefnanda á þriðja degi eftir aðgerð sé það gott að búast megi við því að hún verði send heim daginn eftir. Í lok þessa sama dags hafi hún fengið dálítinn hita og hroll og á fjórða degi, þ.e. daginn eftir, hafi fyrst farið að bera á bláma í efri hluta hægri geirvörtu og aukinni spennu kringum geirvörtu. Þá þegar hafi henni verið gefið sýklalyf og lyf til að örva blóðstreymi sem draga átti úr líkum á drepi. Við þetta hafi hitinn lækkað fljótlega. Í sama augnamiði hafi hluti af saumum verið fjarlægður. Daginn eftir, þ.e. þann 28. ágúst á fimmta degi eftir aðgerð, hafi ástand geirvörtu orðið verra, brjóstið spenntara og farið að bera á vaxandi blóðsöfnun til hliðar í hægra brjósti. Stefnandi hafi þá aftur verið tekin til aðgerðar og úr hægra brjósti stefnanda hafi verið fjarlægðir 100-200 ml af blóðstorku. Við þetta hafi blóðsrás til geirvörtu lagast þá tvo daga sem stefnandi dvaldi áfram á spítala í það sinn. Af hálfu stefnda segir að stefnandi hafi áfram verið til eftirlits á göngudeild Landspítalans. Því miður hafi svo farið að blóðrás versnaði og drep hafi tekið að myndast í kringum hægri geirvörtuna og neðan við hana. Reynt hafi verið með öllum ráðum að hemja þessa þróun en það hafi ekki tekist. Nauðsynlegt hefði verið fyrir stefnanda að fara í nýja aðgerð 27. september 1991, en þá hafi verið gerð svokölluð plastisk aðgerð á hægra brjóstinu þar sem reynt hefði verið að endurskapa geirvörtusvæðið og húðsvæðið þar fyrir neðan til bráðbirgða og hafi verið notuð til þess m.a. húð sem tekin var af utanverðu hægra læri stefnanda. Aðgerð þessi hafi heppnast og hafi stefnandi verið útskrifuð á fjórða degi frá aðgerð. Stefnandi hafi verið áfram til eftirlits á göngudeild og hafi hún að mestu verið gróin sára sinna upp úr miðjum október 1991. Þann 21. nóvember s.á. hafi stefnandi komið síðast til eftirlits og litið þá sæmilega út og sár verið talin að fullu gróin. Hún hafi verið talin vinnufær frá og með 1. nóvember 1991. Ljóst var á þessum tíma, að sögn stefnda, að stefnandi myndi þurfa að fara síðar í aðgerð til frekari lagfæringa. Hafi verið fyrirhugað að í þær yrði ráðist að vori eða um sumarið 1992. Til þess hafi þó ekki komið þar sem stefnandi hafi leitað til annarra lækna. Þann 9. júní 2000 gaf landlæknisembættið út eftirfarandi álitsgerð í máli stefnanda: Efni kvörtunar: Óviðunandi eftirlit og meðferð í kjölfar brjóstaminnkunaraðgerðar, 23.08.1991. Inngangur: Landlæknir hefur áður tjáð sig og gefið úrskurð í máli þessu, fyrst með bréfi þann 01.06.1993, þar sem talið var að "rétt hafi verið staðið að aðgerðinni". Var sú umsögn byggð á atvikalýsingu og umsögnum lýtalæknanna Árna Björnssonar yfirlæknis á lýtalækningadeild Landspítalans og Sigurðar E. Þorvaldssonar læknis á skurðlækningadeild Borgarspítalans. Aftur var málið metið af hálfu embættis landlæknis með bréfi þann 16.09.1996, þar sem niðurstaðan var sú að "ekki hafi verið staðið tilhlýðilega að eftirmeðferð eftir brjóstaminnkun". Var sá úrskurður einkum byggður á umsögn Ólafs Péturs Jakobssonar yfirlæknis við lýtalækningadeild sjúkrahússins í Örebro í Svíþjóð. Fram hefur komið beiðni frá Ólafi Einarssyni lýtalækni á Landspítala Hringbraut um að málið verði endurskoðað í ljósi þess að honum hafi ekki verið veittur kostur á andmælum við seinni úrskurðinum og ýmis önnur sjónarmíð séu uppi um atburðarrás en þau sem liggja til grundvallar úrskurði Ólafs Péturs. Ljóst er að verða verður við þessari ósk Ólafs Einarssonar. Þar sem meginatriði málsins snúast um hvort rétt eða ranglega hafi verið brugðist við vandamálum, sem fram komu á fyrstu dögum eftir brjóstaminnkunaraðgerðina verður fyrst og fremst hugað að þeim tíma sjúkrasögunnar. Einkum er stuðst við atvikalýsingu sjúklings í stefnu og því sem skráð er í sjúkraskrá, einkum nótur hjúkrunarfræðinga, vökva- og hitablöð. Saga: Brjóstaminnkunaraðgerð var framkvæmd á báðum brjóstum þann 23.08.1991 í svæfingu. Beitt var svonefndri "medial based flap" aðgerð. Tekin voru alls 572 grömm af hægra brjósti og 578 af hinu vinstra. Komið var fyrir tveimur sogdrenum (svonefndum bombudrenum) í sitt hvoru aðgerðarsvæði. Aðgerðina gerði Ólafur Einarsson og var Sigurður Björnsson læknakandidat honum til aðstoðar. Fram kemur að Jórunni var gerð grein fyrir aðgerðinni meðal annars með því að afhenda henni bækling. Ekki kemur fram hvort sérstaklega hafi verið lögð áhersla á flipadrep sem mögulegan fylgikvilla. Ekki kemur annað fram í aðgerðarlýsingu en að aðgerðin hafi gengið eðlilega fyrir sig. Blóðtap í aðgerð var metið um 300 ml. Jórunn fór á vöknun í lok aðgerðarinnar um kl. 13.35 aðgerðardag og þaðan á deild um kl. 17.00. Þann tíma sem hún var á vöknunardeild voru tæmdir alls 265 ml úr sogbrúsum, merktum I og II, sem báðir komu frá hægra brjósti. Við komu á deild er hægra brjósti lýst spenntara en hinu vinstra. Síðan virðist að alls hafi tæmst 294 ml úr sogdrenum I og II fram til næsta morguns (þ.e.a.s. 24.08.1991), ekkert úr dreni 3 og 18 ml úr dreni 4 en þau voru bæði í vinstra brjósti. Fram kemur í nótum hjúkrunarfræðínga aðgerðardag að lítið hafi komið í brúsana eftir komu á deild og sama athugasemdin "lítið komið í brúsa í nótt, 47 ml" er höfð uppi af hálfu hjúkrunarfræðinga á nætunvakt aðfaranótt 24.08.1991. Þess er einnig getið að lítilsháttar blæðing sé frá hægra brjósti. Jórunn er einnig sögð hafa sofið vel þessa nótt eftir að hafa fengið svefnlyf. Daginn eftir eru 7 ml sagðir hafa komið í sogdren frá hægra brjósti og 13 ml frá hinu vinstra. Þess er getið í hjúkrunarnótum að gott sog sé á en "lítið í brúsum". Ennfremur kemur fram að "slöngurnar valda henni óþægindum" en Jórunn sé hins vegar "dugleg að hreyfa sig, sígarettan dregur hana". Sú staðreynd að lítið sé í brúsum er bæði endurtekin af kvöldvakt og næturvakt. Fram kemur að "aðeins spenna á hægra brjósti - gott sog". Fram kemur hins vegar hjá Jórunni að hún hafi kvartað sáran við hjúkrunarfræðing undan verkjum og þrýstingi í hægra brjóstinu. Á lyfjablað er ekki skráð að gefin hafi verið verkjalyf sólarhringinn þann 24.08.1991, en í hjúkrunarnótum kemur fram að engin verkjalyf hafi verið gefin á morgunvakt, einu sinni á kvöldvakt og einu sinni á næturvakt. Sjálf telur Jórunn sig hafa fengið verkjalyf þrisvar þennan sólarhring. Þann 25.08.1991 er gjöf verkjalyfja skráð þrisvar á lyfjablað og kemur það heim og saman við framburð Jórunnar í stefnu. Hjúkrunarfræðingur mun hafa reynt að sjúga blóð úr brjóstinu með sprautu án árangurs samkvæmt því sem fram kemur í stefnu en þess er ekki getið í hjúkrunarnótum. Þann 25.08.1991 komu 11 ml úr hægra brjósti og 7 ml úr hinu vinstra. Fram kemur í hjúkrunarnótum að gott sog hafi verið á og dren ekki stífluð. Jórunn var sögð láta betur af sér en daginn áður. Daginn eftir, þann 26.08.1991 voru sogdren tekin. Þá er lýst þrota í hægra brjósti í hjúkrunarnótu en ekki missmíð. Þann dag hækkar hiti í 38,4°, en hafin hefði verið gjöf með sýklalyfi, díkloxacillin (Staklox)) 1 gr fjórum sinnum um munn um morguninn. Haldið er fram að læknir hafi ekki skoðað Jórunni fyrr en þá frá kvöldi aðgerðardags. Engin færsla í sjúkraskrá hrekur þetta. Fram kemur í stefnu að Jórunni hefði fundist eins og hægra brjóstið væri að springa. Árni Björnsson læknir, sem var á bakvakt, þann 26.08.1991, var kallaður inn samkvæmt stefnu og flutti hann Jórunni inn á aðra stofu, skar í hægra brjóst og hleypti út blóði. Um þetta er hvergi getið í sjúkraskrá. Í nótum næsta dags 27.08.1991 er sagt að Jórunn hafi sofið sæmilega, hiti hafði lækkað. Hins vegar er nú lýst "svolítílli spennu í brjósti" og efri hluti geirvörtu sagður vera bláleitur en áður hafði ekki verið minnst á það. Ekki er minnst á missmíð eða breytingu á útliti að öðru leyti. Þann dag kom Ólafur Einarsson og leit á Jórunni, tók annan hvern saum. Þrýstingurinn sagður ekki eins mikill í hægra brjóstinu en talsvert mar á ferð og vartan sögð svipuð. Hafin var þá meðferð með lyfi, sem áhrif hefur á samloðun blóðflagna og eykur vökvamagn í æðum (Rheomacrodex) og enn fremur hafin rafleiðnimeðferð á húð (transcutaneous neive stimulation TNS). Samkvæmt stefnu var Ólafur sagður hafa hleypt enn meira blóði úr hægra brjóstinu en þess er ekki getið í sjúkraskrá. Svefn var slitróttur þessa nótt enda kemur fram í hjúkrunarnótum að hún hafi að verið "að vonum leið eftir þetta". Daginn eftir þann 28.08.1991, var í aðgerð hleypt út blóðkekki um 100-200 ml af hálfstorknuðu blóði og var kökkurinn hliðlægt í brjóstinu út undir holhönd. Þess er getið í aðgerðarlýsingu að tveimur dögum áður hafi farið að bera á vaxandi merkjum um blóðkökk og kemur það heim og saman við lýsingu hjúkrunarfræðings frá 26.08.1998, þar sem fram kemur að þroti hafi verið í hægra brjósti. Sú ályktun er dregin í aðgerðarlýsingu að þetta hafi haft áhrif á blóðrás, bæði í geirvörtu og í skurði niður af henni. Atvikalýsing verður í sjálfu sér ekki rakin í smáatriðum eftir þetta en eins og fram kemur í öllum gögnum málsins var gangur mjög erfiður, drep komst í geirvörtusvæði og hefur þurft að gera margar lýtaaðgerðir á brjóstinu vegna þessa með tilheyrandi óþægindum, örvefsmyndun og lýtum. Fyrir liggur að Jórunn hefur ekki náð sér eftir þetta, þjáðst af verulegum öðrum vandamálum, einkum þunglyndi og vefjagigt sem án vafa má rekja til þessara vandamála. Umsögn: Brjóstaminnkun er mjög algeng aðgerð eins og flestum er kunnugt um. Fylgikvillatíðni er ekki ýkja há en tíðni þeirra fer eftir því hvers mikið er tekið af brjóstinu, aldri sjúklingsins og fitulagi (Br J Plast Surg 1998;51:444-449; Scand J Plast Reconstr Surg Hand Surg 1998;32:281­286; Plast Reconstr Surg 1997;100:875-883). Fylgikvillatíðni er á bilinu 1-10% og í flestum rannsóknum eru yfir 90% sjúklinga ánægðir með árangur (Ann Plast Surg 1998;41:370-377). Verstu fylgikvillar aðgerða af þessu tagi eru vafalítið sýkingar og drep í flipa. Drep stafar af blóðrásartruflunum, það getur orðið í aðgerðinni sjálfri, t.d. ef æðar eru skornar í sundur (en lega þeirra getur verið mjög mismunandi eftir einstaklingum) eða ef mjög hert er að saumum flipans þannig að of hár þrýstingur verði í skurðsárinu eða í vefnum þar undir. Í kjölfar aðgerðarinnar getur blóðrás truflast vegna sýkingar eins og áður sagði, þrýstings frá blæðingu (blóðkekki) og segamyndun í æð, bæði slagæð og bláæð. Meðal áhættuþátta slíkrar segamyndunar verður að nefna reykingar. Þau atriði, sem helst verður að hafa í huga við mál þetta eru eftirfarandi: 1. Allmikið ber á milli þess sem skráð er í sjúkraskrá og þess sem kemur fram hjá sjúklingi um hversu miklir verkir voru á aðgerðarsvæði, hvort og hvenær verkjalyfjum var beitt, og hvort blóði var hleypt út úr skurði eða ekki fram að seinni aðgerð þann 28.08.1991. 2. Meginhluti þess sem kom í kera í lok aðgerðar fram á kvöld aðgerðardags kom frá hægra brjósti en mjög lítið kom í þá eftir það. Drenin voru þó ítrekað sögð opin. 3. Líta vel út daginn eftir aðgerð, þann 24.08.1991, með góðan lit, en spennu í hægra brjósti var fyrst lýst þann dag á kvöldvaktinni en augljósum þrota lýst tveimur dögum síðar þann 26.08.1991. Hins vegar var aldrei lýst missmíð eða útlitsbreytingum, sem eru hins vegar mjög algengar við blæðingar, sem hér um ræðir, ef þær eru verulegar. 4. Daginn eftir eða þann 27.08.1991 var efri hluti vörtu hægra megin bláleitur og svolítilli spennu lýst í brjósti. Þann dag var hafin meðferð með Rheomacrodex, sem áður er lýst og TNS en sýnt hefur verið fram á í tilraunadýrum að slík meðferð auki blóðflæði í flipum af þessu tagi (Acta Physiol Scand 1988;134:89-94). 5. Við aðgerð daginn eftir reyndist hálfstorknað blóð vera hliðlægt í brjóstinu útundir holhönd en því ekki lýst hvort kerar hafi náð þangað og legu þeirra ekki lýst nánar í aðgerðarlýsingu. Hins vegar kveðst læknir hafa lagt þá þar, enda slíkt venja. Ljóst er að aðgerðin tókst mjög illa með hörmulegum afleiðingum fyrir Jórunni. Deilt er um hvort meginástæða drepsins hafi verið að blóðkökkur, sem safnaðist fyrir í hægra brjósti og honum hafi ekki verið hleypt út nógu snemma eða hvort meginástæðan hafi verið sú að segamyndun í æð til flipans hafi lokað blóðrennsli. Aldrei verður endanlega úr því skorið en líklegt er að báðir þættir hafi komið þar við sögu, enda geta þeir oft farið saman. Bláminn á geirvörtusvæði, sem lýst er bendir til stíflu í bláæð, stífla í slagæð veldur fölva. Stíflan getur hins vegar verið vegna utanaðkomandi þrýstings á æðina, í þessu tilviki þrýstings frá blæðingu. Hefst þar ferill, sem flestir þekkja vel við myndun legusára. Ljóst er að mun meira blæddi frá aðgerðarsvæðinu hægra megin en vinstra megin og ef til vill var sú blæðing heldur meiri en venjulegt er, þó vel innan þekktra marka. Mjög lítið kom í dren frá kvöldi aðgerðardags þar til þau voru tekin. Það þarf þó ekki að þýða að þau væru stífluð enda er því ítrekað lýst í hjúkrunarnótum að svo hafi ekki verið. Sjúklingur lýsir verulegum verkjum þennan tíma, sem verður að hafa í huga við mat á ástandinu, en lýsingar þeirra eru hins vegar ekki eins ákveðnar í sjúkraskrá. Fram kemur að fyrstu merki um þrota eða spennu í hægra brjósti er lýst daginn eftir aðgerð, en þó ekki óyggjandi fyrr en þann 26.08.1991. Eftir á að hyggja virðast þar koma fyrstu merkin um eitthvað geti verið að. Líklegt er því að tveir þættir hafi verið samverkandi. Annars vegar söfnun áðurnefnds hálfstorknaðs blóðs á aðgerðarsvæði, sem lak hliðlægt út í holhönd. Óvíst er því að dren hafi náð að sjúga það með öllu í burtu, jafnvel þó þau væru opin. Hins vegar er einnig ljóst að blóðflæðið til flipans hefur truflast, bæði af þessum völdum og að öllu líkindum einnig vegna segamyndunar og í því samhengi verður að benda á reykingar sjúklings, sem ljóslega gætu hafa aukið hættu þar á. Ólíklegt er að sýking hafi átt hér hlut að máli, hiti lágur og ljósum einkennum ekki lýst. Ákvörðun um sýklalyfjagjöf að morgni 26.08.1991 getur þó bent til að þroti sá sem lýst var hafi verið talsverður og valdið áhyggjum læknisins um sýkingu. Mjög erfitt er að segja um hvenær rétt er að fara inná jafn viðkvæmt aðgerðarsvæði og kanna málin. Setji menn sig í þær kringumstæður, sem til staðar voru, dagana eftir aðgerð. Matið er mjög erftt og gæta verður þess að vitneskja, sem fengin er eftirá er því miður haldlítil við ákvarðanir. Mjög ólíklegt er að ástæða hefði verið til þessa að kvöldi aðgerðardags né heldur daginn eftir aðgerð miðað við lýsingar í sjúkraskrá. Frekar er unnt að fallast á að tilefni hefði verið til aðgerðar þann 26.08.1991 og jafnvel frekar daginn eftir þegar bláma er lýst á geirvörtu. Minna verður þó á að aldrei er lýst missmíð á brjósti en á móti koma mjög ákveðnar lýsingar sjúklings á miklum verkjum dagana eftir aðgerð. Óvíst er hvort slík aðgerð hefði breytt neinu um gang mála en möguleikarnir hefðu vafalítið verið meiri og betri árangur en raun ber vitni. Ennfremur verður að koma fram að skráning í sjúkraskrá er ábótavant. Ekki er algjört samræmi milli skráningar á verkjalyfjum í hjúkrunarnótum og lyfjablöðum og skráning lækna á atburðum eftir aðgerð er mjög áfátt. Álit: Í ljósi ofanskráðs voru því líklega efni til að fara inn á aðgerðarsvæði einum til tveimur dögum áður en það var endanlega gert. Leggja verður þó áhersla á að mat af þessu tagi er erfitt. Fylgikvilli sá sem af aðgerðinni hlaust er velþekktur þó að hann sé fátíður og erfitt að fullyrða hvort aðgerð sem framkvæmd hefði verið fyrr hefði breytt gangi mála en líkur eru á að svo hefði verið. Ljóst er að heilsuvanda Jórunnar, sem hefur verið verulegur frá aðgerð má rekja að mestu eða öllu til aðgerðarinnar. Með úrskurði héraðsdóms 3. apríl 2001 var leitað umsagnar læknaráðs um eftirfarandi atriði sem Hæstiréttur hafði tilgreint í dómi sínum 29. mars 2001 að nauðsynlegt væri að fá áður en dómur gengi í héraði: 1. Telur læknaráð, að Jórunn Anna Sigurðardóttir hafi fengið viðhlítandi ráðgjöf fyrir aðgerðina ? 2. Telur læknaráð, að viðurkenndum aðferðum hafi verið beitt við aðgerðina ? 3. Telur læknaráð, að mistök hafi verið gerð í aðgerðinni ? 4. Er unnt að draga þær ályktanir af gögnum málsins, að keri hafi stíflast í hægra brjósti Jórunnar Önnu fljótlega eftir aðgerðina ? 5. Var of seint brugðist við til að tæma blóð úr brjóstinu þann 28. ágúst ? 6. Telur læknaráð, að mistök hafi orðið við eftirmeðferðina ? 7. Er læknaráð sammála örorkumati Júlíusar Valssonar og Sigurjóns Sigurðs­sonar um 20% örorku ? 8. Er læknaráð sammála örorkumati Högna Óskarssonar um 35% örorku ? 9. Ef fallist er á hvorugt örorkumatanna, hvað telur læknaráð örorku vegna aðgerðarinnar vera mikla ? 10. Telur læknaráð, að húð til ígræðslu hafi verið tekin á röngum stað í aðgerð 27. september 1991 ? Með bréfi 18. desember 2001 til Héraðsdóms Reykjavíkur svaraði læknaráð framangreindum spurningum á þennan veg: 1. Samanber gögn og framburð Ólafs Einarssonar, læknis, verður að teljast að Jórunn hafi fengið viðhlítandi ráðgjöf fyrir aðgerð, bæði munnlega ráðgjöf frá Ólafi er hann sá Jórunni á stofu strax í upphafi þeirra kynna, og síðan í skriflegu formi fyrir aðgerð er Jórunn lagðist inn á lýtalækningadeild Landspítala. Þar var Jórunni afhentur upplýsingabæklingur um aðgerðina (brjóstaminnkun) þar sem m.a. er minnst á helstu áhættur aðgerðarinnar og er það vel staðfest í skýrslum. Þar kemur fram að Jórunn man vel eftir að henni hafi verið ráðlagt að stöðva reykingar, sem bendir tvímælalaust til að hún hafi fengið umrædda ráðgjöf, þar sem ráðgjöf um reykingar er hluti af þeirri umræðu. 2. Margar viðurkenndar aðferðir eru til við brjóstaminnkun og má þar benda á hvaða textabók í lýtalækningum sem er, t.d. McCarthy - Textbook of Plastic Surgery. Sú aðferð sem notuð var við brjóstaminnkunaraðgerð Jórunnar er ein þeirra. Læknaráð telur að það sé mat hvers læknis hverja af þessum viðurkenndu aðferðum hann notar. Í tilfelli Jórunnar notaði Ólafur svokallaða Strömbeck aðgerð sem er honum vel kunn og hann hefur mikla reynslu af. 3. Hér er stuðst við aðgerðarlýsingu Ólafs á brjóstaminnkun Jórunnar. Eins og komið hefur fram er hér um að ræða aðgerðartækni sem Ólafi er vel kunn og hann hefur mikla reynslu af. Hann mun hafa gert ca. 200-300 slíkar aðgerðir. Ekki er annað að sjá en að aðgerðin hafi gengið snurðulaust fyrir sig og engin mistök hafi átt sér stað. 4. Samkvæmt hjúkrunarskýrslum er ástandi kera lýst daglega: 23.8.- Keri nr. 1 130 ml - nr. 2 135 ml 24.8.- 47 ml í kerum alls, gott sog 25.8.- gott sog, lítið í þeim, ekki stíflaðir 26.8.- kerar fjarlægðir Þetta verður að teljast eðlileg framvinda hvað varðar kera eftir aðgerð sem þessa. Reikna má með að upphaflega komi meira í kerana og minnki síðan, eins og varð í þessu tilviki. Þegar magnið hefur síðan minnkað í óveru eru kerarnir fjarlægðir. Ef keri stíflast heldur hann ekki áfram að flytja lítið magn daglega heldur stíflast alveg. 5. Eins og fram kemur í skýrslum frá Landspítala var gott eftirlit haft með framvindu Jórunnar daglega eftir aðgerð. Þann 27.8.91 var tekið eftir að verulegt vandamál var á ferð í skurðsárum í brjóstum Jórunnar þegar hjúkrunarfræðingur tók eftir bláma í efri hluta geirvörtu. Hér er rétt að benda á að fleiri en ein orsök getur valdið slíku vandamáli, og má þar nefna aukinn þrýsting vegna blæðingar, blóðbúls eða bjúgs. Eins og fram hefur komið í framburði Sigurðar Þorvaldssonar, lýtalæknis, er nokkur áhætta á truflunum á blóðflæði og vefjadrepi eftir allar brjóstaminnkunar-aðgerðir, þó slíkt sé fátítt. Áhætta þessi eykst við reykingar eftir aðgerð, þó erfitt sé að leggja tölulegt mat á þá aukningu. Þegar ljóst var að vandamál væri á ferðinni var brugðist skjótt við og fjarlægði Ólafur nokkra sauma úr hægra brjósti Jórunnar til að létta á þrýstingi, gaf henni Rheomacrodex í æð og hóf TNS meðferð til að auka blóðflæði um brjóstvef Jórunnar. Ekki er því unnt að fallast á að seint hafi verið brugðist við að meðhöndla vandamál Jórunnar. Þegar síðan kom í ljós að þessi viðbrögð dugðu ekki til var næsta dag ákveðið að fara með Jórunni í aðgerð og leita eftir blóðgúl sem hugsanlegum orsakavaldi fyrir blámanum og vefjadrepi. Við aðgerðina fannst lítill blóðgúll, 100-200 ml, út við holhönd og er frekar ólíklegt að þar hafi hinn raunverulegi orsakavaldur að óförum Jórunnar verið, þó hann geti verið meðvirkandi. Ef litið er á að vefjadrep átti sér stað í báðum brjóstum Jórunnar er líklegra að hér sé safn mismunandi orsaka, breytileiki í blóðflæði um slagæðar (arterial variation), bjúgur eftir byrjandi sýkingu (fékk hitatopp 26.8. og var sett á sýklalyf), reykingar eftir aðgerð, og lítill blóðgúll sem fannst við aðgerð 28.8.91. 6. Ekki er hægt að sjá að mistök hafi átt sér stað við framkvæmd og eftirmeðferð við brjóstminnkunaraðgerð Jórunnar, heldur að hér sé um vel þekktan, en sjaldgæfan, fylgikvilla að ræða og er miður að svo hafi orðið. Læknaráð svarar spurningum frá 7 til 9 hér að framan á þann veg að læknaráð er sammála örorkumati Júlíusar Valssonar og Sigurjóns Sigurðssonar um 20% örorku en ósammála örorkumati Högna Óskarssonar um 35% örorku. Svar læknaráðs við 10 spurningu er þetta: Ávallt er matsatriði hvaðan húð er tekin til húðflutninga. Lærið utanavert hefur verið nokkuð hefðbundinn staður til húðtöku. Ef ekkert mælir því í mót er ofanvert lærið heppilegra, svo auðveldara sé fyrir sjúkling að hylja tökustaðinn, ef hann verður áberandi eftir að húðin grær. II. Stefnandi byggir kröfu sína á því, að mistök hafi verið gerð við og í kjölfar aðgerðarinnar á Landspítalanum þann 23. ágúst 1991. Telur stefnandi stefnda, sem rekstraraðila Ríkisspítala og Landspítalans og vinnuveitanda lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna, sem að málinu komu, bera bótaábyrgð á þeim mistökum. Byggir stefnandi á því, að eftirtalin mistök hafi verið gerð: 1. Skort hafi á ráðgjöf og samráð við stefnanda fyrir aðgerð. 2. Ekki hafi verið beitt viðurkenndri eða viðeigandi læknisaðferð. 3. Mistök hafi verið gerð við sjálfa aðgerðina. 4. Ónógt eftirlit og ófullnægjandi meðferð hafi verið eftir aðgerð. 5. Útlitslegur árangur aðgerðar hafi verið óviðunandi og ekki í samræmi við óskir og væntingar stefnanda. 6. Skinn hafi verið tekið af röngum stað til skinnágræðslu við aðgerðina 27. september 1991 og það valdið ónauðsynlegu lýti. Er gerð grein fyrir þessu þannig: 1) Ónóg ráðgjöf og samráð við stefnanda fyrir aðgerð. : Stefnandi byggir á því, að henni hafi ekki verið gerð nægileg grein fyrir þeirri áhættu, sem fylgir brjóstaminnkunaraðgerð á Landspítalanum. Hafi henni ekki verið gerð nægileg grein fyrir þeim vandamálum, sem upp kynnu að koma, og þeim afleiðingum, sem af kynnu að hljótast. Ef stefnandi hefði talið minnstu hættu á, að afleiðingar aðgerðarinnar yrðu jafn hörmulegar og raun ber vitni, hefði hún ekki gengist undir hana. Á það bæði við örkuml þau, sem aðgerðin hefur valdið stefnanda svo og ófullnægjandi útlitslegan árangur, svo sem rakið verður síðar. Stefnandi byggir á því, að aðgerðarlækninum, Ólafi Einarssyni, lýtalækni, hafi verið skylt að gera sér grein fyrir öllum þekktum fylgikvillum brjóstaminnkunaraðgerðar. Jafnframt hafi Ólafi borið að hafa við sig samráð um val á aðferð til brjóstaminnkunar og gera sér grein fyrir kostum og göllum mismunandi aðferða m.a. með hliðsjón af hugsanlegum fylgikvillum. Jafnframt hafi Ólafi borið að gera sér grein fyrir þeirri áhættu, sem því fylgdi að gangast undir aðgerðina. Ekkert af þessu hafi Ólafur gert. Stefnandi segir að einu upplýsingarnar, sem henni hafi verið veittar um aðgerðina hafi verið í formi bæklings, sem henni hafi verið réttur daginn, sem hún var lögð inn til aðgerðarinnar. Telur stefnandi efni hans eitt og sér ekki nægilegt til undirbúnings aðgerðinni. 2 og 3) Ekki hafi verið beitt réttri eða viðurkenndri aðferð við brjóstaminnkunina og/eða mistök hafi verið gerð við framkvæmd aðgerðar. Þar sem röksemdir fyrir þessum málsástæðum eru nánast þær sömu verður fjallað um þær í einu lagi. Stefnandi byggir á því, að "vandamálin", sem upp komu í kjölfar brjóstaminnkunaraðgerðarinnar hafi verið meiri og afleiðingarnar víðtækari en svo, að hægt sé að tala um, að þar hafi verið um að ræða þekkta fylgikvilla, þegar eðlilega er staðið að aðgerð. Byggir stefnandi á því, að "vandamálin" megi rekja til þess, að ekki var beitt viðeigandi og/eða viðurkenndri aðferð við brjóstaminnkunina og/eða, að mistök hafi verið gerð við aðgerðina. Um vandamálin sem upp komu, vísar stefnandi til þeirra einkenna, sem komu fram í kjölfar aðgerðarinnar. Einkennin lýstu sér aðallega í mikilli blæðingu í hægra brjósti stefnanda fyrstu klukkustundirnar eftir aðgerð og miklum þrota og eymslum í hægra brjóstinu allt frá því stefnandi vaknaði eftir aðgerðina. Varðandi víðtæki afleiðinganna bendir stefnandi á hina miklu útbreiðslu vefjadrepsins í hægra brjóstinu og mikla örvefsmyndun í báðum brjóstum þó einkum því hægra. Séu þetta langtum víðtækari afleiðingar, en varað er við í þeim bæklingi, sem henni voru fengnir í hendur fyrir aðgerð. Nánar verður komið að þessum atriðum síðar undir lið 4 hér á eftir og er vísað til þeirrar umfjöllunar. Þá byggir stefnandi á því, að útlitslegur árangur aðgerðarinnar hafi engan veginn verið viðunandi burt séð frá ofangreindum "vandamálum". Bendi það til þess, að ekki hafi verið viðhafðar réttar aðferðir við aðgerðina. Nánar verður fjallað um útlitslegan árangur aðgerðarinnar undir lið 5 hér á eftir og er vísað til þess. 4) Ónógt eftirlit og ófullnægjandi eftirmeðferð. Stefnandi byggir á því, að strax í kjölfar brjóstaminnkunaraðgerðarinnar hafi farið að blæða inn á hægra brjóst hennar. Sogkerarnir í brjóstinu hafi ekki náð að hreinsa blóðið út og hafi blóð safnast fyrir í brjóstinu og myndað blóðgúlp (hematoma). Hafi það valdið þrota í brjóstinu og blóðrásartruflun til geirvörtusvæðis, sem aftur olli drepi í geirvörtunni og brjóstvef þar undir og einnig í húð samsvarandi skurði undir brjóstinu. Stefnandi telur, að eftirliti og meðferð í kjölfar aðgerðarinnar hafi verið verulega ábótavant. Miklar líkur séu á, að laga hafi mátt það sem fór úrskeiðis í aðgerðinni og koma í veg fyrir eða stöðva vefjadrepið í hægra brjóstinu, ef rétt hefði verið að málum staðið. Byggir stefnandi á því, að ástand sitt og líðan strax á fyrstu klukkustundunum eftir aðgerðina hafi gefið tilefni til ítarlegrar skoðunar og aðgerða af hálfu sérfræðilæknis. Hin mikla blóðsöfnun í blóðkerana í hægra brjósti hafi ein sér gefið tilefni til ítarlegrar skoðunar sérfræðings á ástandi stefnanda, enda umfram það magn, sem sett er fram í markmiðslýsingu í sjúkraskrá. Hafi strax mátt vera ljóst, að eitthvað hafði farið úrskeiðis í aðgerðinni. Þá byggir stefnandi á því, að ástand sitt og stöðugar umkvartanir næstu daga eftir aðgerðina hafi gefið áframhaldandi og aukið tilefni til aðgerða. Þrátt fyrir það hafi ekkert verið gert fyrr en á þriðja sólarhring eftir aðgerðina, er stefnandi var sett á sýklalyf að fyrirmælum Sigurðar Björnssonar, aðstoðarlæknis. Hafi það verið alls ófullnægjandi, enda ekkert sem benti til, að um sýkingu væri að ræða. Byggir stefnandi á því, að það hafi eingöngu verið á færi sérfræðilæknis að meta ástand stefnanda og ákvarða meðferð. Aðstoðarlæknirinn hafi hvorki haft til þess menntun né reynslu. Eftirlit sérfræðilækna hafi hins vegar verið lítið sem ekkert allt frá því stefnandi vaknaði eftir aðgerðina kl. 17.00 föstudaginn 23. ágúst 1991 og fram á þriðjudagsmorgunn 27. ágúst 1991, er Ólafur Einarsson, lýtalæknir, kom á vakt og fyrst kynnti sér ástandið. Þá byggir stefnandi á því, að Ólafur Einarsson, lýtalæknir, hafi ekki brugðist rétt við, þegar hann á fjórða degi eftir aðgerð "uppgötvaði", að ekki var allt með felldu. Hafi hann þá þegar átt að taka stefnanda í aðgerð og tæma blóðið út úr hægra brjóstinu. Loks byggir stefnandi á því að ekki hafi verið forsvaranlegt að útskrifa hana af Landspítalanum þann 30. ágúst 1991. Ástand hennar hafi gefið tilefni til, að hún yrði höfð lengur inni á legudeild og verulegar líkur á, að hægt hefði verið að takmarka vefjadrepið, ef það hefði verið gert. 5) Útlitslegur árangur óviðunandi og ekki í samræmi við óskir og væntingar stefnanda. Stefnandi byggir á því, að burtséð frá afleiðingum vefjadrepsins í hægra brjóstinu, hafi útlitslegur árangur brjóstaminnkunaraðgerðarinnar verið alls óviðunandi. Stefnandi byggir á því, að Ólafur Einarsson, aðgerðarlæknir, hafi fjarlægt of mikið af brjóstvef miðað við óskir stefnanda og það, sem eðlilegt mátti teljast í þessu tilviki. Eftir aðgerðina urðu brjóstin mjög lítil, svo minnsta gerð brjóstahaldara með bollastærð A var jafnvel of rúm. Stefnandi hafði beðið um, að brjóstin yrðu höfð meðalstór (medium) þannig að þau fylltu brjóstahaldara með bolla af stærðinni B. Telur stefnandi aðgerðarlækni bera fulla ábyrgð á árangri aðgerðar að þessu leyti. Stefnandi byggir einnig á því, að brjóstin hafi eftir aðgerðina verið mjög ósamstæð og vinstri geirvartan hafi verið sett allt of ofarlega á brjóstið. Þá hafi ör eftir aðgerðina orðið ónauðsynlega stór og áberandi. 6) Skinn tekið á röngum stað til ígræðslu í aðgerðinni 26. september 1991 og það valdið óþarfa lýti. Stefnandi telur stefnda bera bótaábyrgð á öllu því tjóni, sem stefnandi hefur orðið fyrir af völdum aðgerðarinnar jafnt fjárhagslegu sem ófjárhagslegu. Telur stefnandi tjón sitt vera fólgið í útlögðum kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu, vaxta og lántökukostnaðar og tjóns vegna missis íbúðar svo sem nánar er gerð grein fyrir í stefnu. Þá gerir stefnandi kröfu um greiðslu bóta fyrir örorkutjón, sem grundvallað sé á örorkumati læknanna Júlíusar Valssonar og Sigurjóns Sigurðssonar frá 12. mars 1997 og örorkumati Högna Óskarssonar geðlæknis frá 20. september 1997. Ákvörðun stigs varanlegrar örorku styður stefnandi við mat hins síðastnefnda. Örorkutjónið sé í prósentum talið þá þannig: Tímabundin örorka: 100% frá 23. ágúst 1991 - 31. október 2001. Varanleg örorka: 35% frá 1. nóvember 2001 til æviloka. Stefnandi byggir ofangreindar kröfur á því, að afleiðingar aðgerðarinnar 23. ágúst 1991 hafi leitt til varanlegra líkamlegra óþæginda og verulega skertrar hreyfigetu einkum í hægri handlegg. Einkenni þessi megi fyrst og fremst rekja til örvefshellu, sem myndast hafi í brjóstunum í kjölfar vefjadrepsins einkum í hægra brjóstinu. Einkennin megi þó að hluta rekja til vefjagiktar, sem tilkomin sé af hinu andlega álagi, sem afleiðingar aðgerðarinnar hafi valdið stefnanda. Að auki byggir stefnandi á því, að afleiðingar aðgerðarinnar hafi haft slæm áhrif á andlega heilsu sína, sem komi til með að vera varanleg. Fljótlega eftir aðgerð hafi farið að bera á miklu þunglyndi hjá stefnanda. Þunglyndið lýsi sér í kvíða, svefntruflunum, dapurleika, svartsýni og reiði. Byggir stefnandi á því, að þessar líkamlegu og andlegu afleiðingar aðgerðarinnar hafi gert sér ókleift að stunda vinnu og muni hafa veruleg áhrif á starfsgetu sína um ófyrirséða framtíð. Þá byggir stefnandi á því, að möguleika sínir til að fara út á vinnumarkaðinn á ný og fá sér vinnu, séu takmarkaðir af menntunarskorti, aldri og kynferði. Við mat á tekjutapi vegna afleiðinga aðgerðarinnar sem hér um ræðir kveðst stefnandi styðjast við útreikning Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings frá 18. apríl 2002 sem lagður hefur verið fram í málinu en þar segir m.a.: „Jórunn Anna Sigurðardóttir varð fyrir heilsutjóni eftir læknisaðgerð 23/8 1991. Þann dag kalla ég slysdag. Hún er fædd 26/2 1957 og hefur því verið 34 ára á slysdegi. Örorka er sem hér segir eins og í fyrri útreikningi: Til októberloka 2001 100% Síðan varanleg örorka 35% Þú óskar að miðað sé við meðaltekjur afgreiðslufólks með þeim hækkunum sem orðið hafa frá í nóvember 1998. Þá töldust meðaltekjur vera kr. 1.600.000 á ári. Síðan varð almenn hækkun um 3,65% í ársbyrjun 1999 og 3,9% þann 1/5 2000. Þá er meðalhækkun 2000-2001 talin 12-15% (ég reikna með 13,5%) og 10% hækkun frá 2001 til 2002. Með þessum hækkunum verða viðmiðunartekjur nú kr. 2.151.300. Á áðurnefndum forsendum um tekjur og miðað við, að tap vegna slyssins sé á hverjum tíma sami hundraðshluti tekna og örorka er metin, fæst eftirfarandi áætlun: Áætlaðar tekjur Tekjutap Árið 1991, frá slysdegi 361.700 361.700 - 1992 1.035.600 1.035.600 - 1993 1.075.700 1.075.700 - 1994 1.110.500 1.110.500 - 1995 1.161.700 1.161.700 - 1996 1.243.000 1.243.000 - 1997 1.455.900 1.455.900 - 1998 1.561.400 1.561.400 - 1999 1.626.600 1.626.600 - 2000 1.723.100 1.723.100 - 2001 1.955.700 1.743.900 Síðan árlega 2.151.300 753.000 Höfuðstólsverðmæti vinnutekjutaps reiknast mér á slysdegi: Vegna tímabundinnar örorku kr. 13.158.700 - varanlegrar örorku - 9.649.000 Samtals kr. 22.807.700 Verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda vegna slyssins áætla ég 6% af höfuðstólsverðmæti taps af varanlegri örorku, kr. 578.900.- -----------------------------------------­ Þú óskar, hr. lögm., að ég reikni slysdagsverðmæti launa Jórunnar og atvinnuleysisbóta árin 1992 og 1993, og eftir­farandi bóta frá Tryggingastofnun ríkisins: Sjúkradagpeninga árið 1991, örorkubóta 26/4 1995 og 29/3 2000, örorkulíf­eyris, tekjutryggingar og uppbóta á lífeyri frá júlí 1993 til október 2001. Upplýsingar um laun og atvinnuleysisbætur eru í skattfram­tölum. Tölur um bætur Tryggingastofnunar tek ég úr yfirlitum stofnunarinnar. Útreikningur er á meðfylgjandi blaði. Niðurstöður eru þessar: Greiðsla Slysdagsverðm. Laun 1992 og 1993 369.110 357.400 Atvinnuleysisbætur 1992 og 1993 202.618 197.400 Sjúkradagpeningar 1991 45.497 45.200 Örorkubætur 1995 og 2000 644.299 602.600 Örorkulífeyrir, tekjutrygging og uppbót 1993 - október 2001 5.390.822 5.061.200 Samtals 6.652.976 6.263.800 Greiðslurnar eru samtals kr. 6.652.976 og slysdagsverðmæti þeirra allra kr. 6.263.800. -------------------------------------------- Við útreikning höfuðstólsverðmætis eru fram að útreiknings­degi 18/4 2002 notaðir vextir og vaxtavextir (ég legg vexti við höfuðstól um hver áramót) af almennum sparisjóðsbókum í Landsbanka Íslands (7% frá slysdegi, 4% frá 11/10 91, 3,75% frá 1/11 91, 3,5% frá 21/11 91, 3% frá 1/12 91, 2,5% frá 1/2 92, 2% frá 11/2 92, 1,25% frá 21/3 92, 1% frá 1/5 1992, 1,25% frá 11/8 93, 0,5% frá 11/11 93, 0,65% frá 1/6 1995, 0,75% frá 1/10 96, 0,9% frá 21/1 97, 1% frá 1/5 97, 0,7% frá 1/4 98, 0,6% frá. 21/10 98, 0,7% frá 11/4 99, 1% frá 21/1 2000, 1,2% frá 11/7 00, 1,3% frá 21/8 00, 1,7% frá 21/11 00, 1,4% frá 1/4 01 og 1,5% frá 21/6 2001) - Samsettir vextir frá slysdegi til útreikningsdags eru 12,13%. - Eftir útreikn­ingsdag eru notaðir 4,5% vextir og vaxtavextir. Dánarlíkur fara eftir reynslu áranna 1976 til 1980 og líkur fyrir missi starfsorku í lifanda lífi eftir sænskri reynslu. Ekki er tekið tillit ti1 skatta." Stefnandi krefst þannig 6.894.900 kr. bóta vegna tímabundinnar örorku en 7.719.200 kr. bóta vegna varanlegrar örorku. Þá krefst stefnandi 1.368.500 kr. bóta vegna tapaðra lífeyrisréttinda. Þá gerir stefnandi kröfu um greiðslu miskabóta vegna þess ófjárhagslega tjóns, sem hún hafi orðið fyrir vegna fyrrgreindra mistaka við læknismeðferðina á Landspítalanum í tengslum við brjóstaminnkunaraðgerðina. Gerir stefnandi kröfur um bætur vegna tímabundinna og varanlegra líkamlegra og andlegra þjáninga og lýta, hneisu og röskunar á stöðu og högum. Til rökstuðnings við fjárhæð kröfunnar er vísað til atvika málsins eins og þeim hefur verið lýst og fram koma í gögnum málsins. Bótakrafa stefnanda er sundurliðuð þannig: Útlagður kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu: Komur á heilsugæslustöð kr. 5.100.- Viðtöl og skoðanir hjá sérfræðingum kr. 19.683.- Saltvatnsinnlagnir í brjóstum kr. 40.000.- Svæfing kr. 20.000.- Viðtöl hjá sálfræðingi kr. 139.700.- Sjúkraþjálfun kr. 7.296.- Árgjald á líkamsræktarstöð kr. 39.190.- Komur á sólbaðsstofu kr. 255.000.- Lyfjakostnaður kr. 7.847.- Áætluð framtíðarútgjöld kr. 1.000.000.- Samtals kr. 1.533.816.- Vaxta- og lántökukostnaður v/lána í Íslandsbanka hf.: Vaxta- og lántökukostnaður árið 1992 kr. 48.949.- Vaxta- og lántökukostnaður árið 1993 kr. 80.215.- Vaxta- og lántökukostnaður árið 1994 kr. 57.263.- Vaxta- og lántökukostnaður árið 1995 kr. 102.710.- Vaxta- og lántökukostnaður árið 1996 kr. 223.336.- Vaxta- og lántökukostnaður árið 1997 kr. 118.207.- Vaxta- og lántökukostnaður árið 1998 kr. 123.419.- Lántökukostnaður árið 1999 kr. 35.990.- Áætlaður framtíðar vaxta- og lántökukostn. kr. 1.555.928.- Samtals kr. 2.346.017.- Tjón v/missis íbúðar: Greiddar afborganir af Byggingasjóðslánum kr. 518.783.- Ógreidd vanskil af Byggingasjóðslánum kr. 1.854.711.- Áætluð húsaleiga frá ágúst 1990 til mars 1997 kr. [1.600.000.-] Samtals kr. 773.494.- Tímabundin örorka: Tapaðar atvinnutekjur frá 23.08.1991-31.10.2001 kr. 13.158.700.- Laun 1992 og 1993 kr. [357.400.-] Atvinnuleysisbætur 1992 og 1993 kr. [197.400.-] Sjúkradagpeningar 1991 kr. [45.200.-] Örorkubætur 1995 og 2000 kr. [602.600.-] Örorkulífeyrir, tekjut. og uppb. 1993- apríl 2000 kr. [5.061.200.-] Samtals kr. 6.894.900.- Varanleg örorka: Örorkutjón kr. 9.649.000.- 20% frádráttur vegna eingreiðsluhagr. og skattfrelsis kr. [1.929.800.-] Samtals kr. 7.719.200.- Verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda kr. 1.368.500.- Miskabætur kr. 2.000.000.- Alls samtals kr. 22.635.963.- III. Af hálfu stefnda er haldið fram að ósannað sé að starfsmönnum lýtalækningadeildar Landspítalans hafi orðið á bótaskyld mistök við aðgerð á stefnanda 23. ágúst 1991 og eftirlit og meðferð eftir aðgerðina hafi verið ábótavant. Stefnandi hafi fært rök sín, fyrir ætlaðri bótaábyrgð stefnda, fram í sex töluliðum og sé þeim svarað í sömu röð þannig: Stefnandi telur að skort hafi á ráðgjöf og samráð við stefnanda fyrir aðgerð. Fullyrðingu þessari er mótmælt sem rangri. Ólafur Einarsson, læknir, fullyrðir að hann hafi a.m.k. tvisvar sinnum persónulega útskýrt þá áhættuþætti sem fylgt gætu aðgerð þessari. Fyrst þegar aðgerðin var ákveðin í samráði við hann og síðan fyrir aðgerðina á spítalanum sjálfum. Þar að auki hafi stefnandi fengið bækling um aðgerðina þar sem m.a. er gerð ítarleg grein fyrir áhættuþáttum og þar á meðal því sem upp kom síðar hjá stefnanda. Stefnandi hafi því verið eins upplýstur og hugsast gat og fullyrðingar um annað beinlínis rangar. Að auki er í þessu sambandi á því byggt að almenn vitneskja er um það í þjóðfélaginu að öllum læknisfræðilegum aðgerðum fylgir einhver áhætta sem fyrir fram er ekki séð fyrir um. Stefnandi byggir á því, að ekki hafi verið beitt viðurkenndri eða viðeigandi læknisaðgerð. Þessari fullyrðingu fylgja engar röksemdir. Þessi fullyrðing er röng og enginn þeirra sérfræðinga sem tjáð sig hafa um mál þetta hefur staðfest þessa fullyrðingu stefnanda. Það sama á við þá fullyrðingu stefnanda að mistök hafi verið gerð við framkvæmd aðgerðar. Enginn hefur staðfest þá fullyrðingu heldur. Meðan þetta er einungis fullyrðing án nokkurra sannana, þá er fullyrðingin órökstudd og þar með þýðingarlaus fyrir málatilbúnað stefnanda. Stefnandi telur að ónógt eftirlit og ófullnægjandi meðferð hafi verið eftir aðgerð hennar í ágúst 1991. Þessari fullyrðingu er algjörlega vísað á bug. Eins og áður hefur verið bent á, þá er eftirliti með stefnanda skilmerkilega lýst í hjúkrunarskýrslu ... Þar kemur í raun ekkert óvenjulegt fram fyrstu þrjá sólarhringana eftir aðgerð 23. ágúst 1991. Eftirlit var með stefnanda allan sólarhringinn og á skýrslu hennar eru skráðar upplýsingar í samræmi við fyrirliggjandi gátlista. Stofugangur, skoðanir og viðtöl lækna er þar ekki skráður nema eitthvað óvenjulegt sé á seyði. Á fjórða degi eftir aðgerð kom í ljós að eitthvað hafði eða var að fara úrskeiðis. Í fyrstu var talið að sýking væri að byrja og var strax brugðist við því með viðeigandi lyfjagjöf. Auk þess var gefið lyf til að auka blóðrás í brjósti stefnanda. Hiti lækkaði strax við lyfjameðferðina og var því í fyrstu talið að upphafleg greining hefði verið rétt. Fljótlega kom þó í ljós að meira var að og við því var strax brugðist með nýrri aðgerð á fimmta degi sem þjónaði þeim tilgangi að koma í veg fyrir drep í hægra brjósti. Þegar upp var staðið tókst ekki að koma í veg fyrir drepið og að því leytinu til fór upphafleg aðgerð úrskeiðis. Drep í og við geirvörtu er þekktur fylgikvilli sem fylgir brjóstminnkunaraðgerðum. Af hverju sumir fá drep en aðrir ekki eftir slíkar aðgerðir hefur enn ekki verið útskýrt. Það er á hinn bóginn algjörlega ósannað að nokkuð hafi farið faglega úrskeiðis eftir aðgerðina hjá því starfsfólki Landspítalans sem annaðist stefnanda. Á sama hátt er ósannað að starfsfólk Landspítalans hafi brugðist skyldum sínum gagnvart stefnanda, meðan á dvöl hennar á spítalanum stóð, og ekki gert allt það sem því bar að gera á grundvelli þeirrar vitneskju sem lá fyrir á hverjum tíma. Sjálfsagt er það alltaf matsatriði hvað mikið á að taka af brjóstum þegar þau eru minnkuð. Í þessu máli skiptir sjálfsagt máli að minnkunin var af læknisfræðilegum orsökum, þ.e. ekki beinlínis fegrunaraðgerð. Í málinu kemur fram að stefnandi þjáðist fyrir aðgerð af vöðvabólgu og höfuðverkjum sem rakið var til of stórra brjósta. Væntanlega hefur það verið mat lækna að minnkunin þyrfti að vera veruleg, ef aðgerðin ætti að ná tilgangi sínum, þ.e. að losa stefnanda undan áður nefndum einkennum. Ólafur Einarsson, læknir, taldi sig hafa útskýrt nákvæmlega fyrir stefnanda hvað hann hyggðist fyrir og teiknaði hann fyrirhugaða stærð brjóstanna í samráði við stefnanda skömmu fyrir aðgerðina sjálfa. Eftirfarandi drep truflaði auðvitað þessa mynd því við það minnkaði hægra brjóstið enn frekar. Leiddi það síðar til þess að samræma þurfti stærð beggja brjósta. Við þetta var ekki ráðið vegna þess fylgikvilla sem kom upp í framhaldi af fyrstu aðgerð. Það er ekki rétt að skinn hafi verið tekið af röngum stað til skinnágræðslu við aðgerðina 27. september 1991 og það valdið ónauðsynlegu lýti. Sá staður sem notaður var til skinntöku er sá staður sem venjulega er notaður þegar svona háttar til og hann er talinn henta vel til slíkra flutninga. Skinntökustaðurinn greri fljótt og vel og ekki er að sjá á litmyndum af viðkomandi stað, sem liggja frammi í málinu, að lýti hafi fylgi skinntökunni. Af hálfu stefnda er töluleg kröfugerð stefnanda talin óhefðbundin og í engu samræmi við þær venjur og þau dómafordæmi sem skapast hafi um sambærileg bótakröfumál fyrir gildistöku skaðabótalaganna l. júlí 1993. Öllum tölulegum forsendum og bótakröfum stefnanda í heild sinni er algjörlega mótmælt sem þýðingarlausum og ósönnuðum. Af hálfu stefnda er talið að stefnandi geri í kröfugerð sinni lítinn sem engan greinarmun á meintum líkamlegum afleiðingum ætlaðra mistaka í aðgerðinni í ágúst 1991 og þeim andlegu erfiðleikum sem hrjáð hafi stefnanda. Flest sem úrskeiðis hafi farið í lífi stefnanda virðist aðgerðinni að kenna, hvort sem um sé að ræða þunglyndi, vöðvagigt eða hreyfingaerfiðleikar svo ekki sé minnst á fjármál, atvinnumál og jafnvel samskipti við annað fólk. Þetta geti auðvitað ekki staðist, jafnvel þó talið yrði að einhver mistök hefðu átt sér stað við aðgerðina eða eftirmeðferð á spítala. Ljóst sé t.d. að þunglyndi hrjáði stefnanda að einhverju marki fyrir aðgerðina og eins virðist hún hafa þjáðst af höfuðverkjum, sljóleika og vöðvabólgu svo dæmi séu tekin. Í þeim málsskjölum sem stefnandi byggir á virðist engin tilraun vera gerð til að tengja þessa hluti saman, þ.e. ekki er gerð tilraun til að leita að líklegum uppruna þeirra vandamála sem hrjá stefnanda. Í stað þess sé allri sök skellt gagnrýnislaust á aðgerðina í ágúst 1991 og öll vandamál stefnanda talin afleiðing hennar. Örorkumat sem liggur frammi í málinu er talið af stefnda endurspegla að sumu leyti þá óvissu sem málatilbúnaður stefnanda byggir á. Þrenns konar örorkumat liggi frammi í málinu. Vigfús Magnússon, tryggingalæknir, meti örorku stefnanda 10% í febrúar 1995. Í mars 1997 hafi Júlíus Valsson og Sigurjón Sigurðsson, tryggingalæknar, metið varanlega og tímabundna örorku stefnanda 20%. Í desember 1997 hafi Högni Óskarsson, geðlæknir, metið varanlega örorku stefnanda 35%, en tímabundna örorku 75% út árið 1998. Kröfugerð stefnanda sé hins vegar byggð á 100% varanlegri örorku út árið 2001, en 35% eftir það. Sú kröfugerð virðist vera byggð á hyggjuviti stefnanda sjálfs. Við lestur þessa örorkumats og samanburð komi í ljós að fullkomin óvissa sé um það hvað megi hugsanlega rekja til aðgerðarinnar 1991 og hvað sé í örorku stefnanda sem rekja megi til annarra atriða í lífi hennar. Með öðrum orðum, meint örorka stefnanda sem sannanleg afleiðing af aðgerðinni 23. ágúst 1991, sé ósönnuð. Kröfugerð stefnanda sé auk þess þannig fram sett að erfitt verði fyrir dómara, ef ekki útilokað, að leggja dóm á hana. Af hálfu stefnda sé reyndar ekki gerð sjálfstæð krafa um frávísun, en þó megi ætla að málatilbúnaðurinn allur sé þess eðlis að dómari verði að vísa málinu frá dómi ex officio. Af hálfu stefnda er mótmælt sérstaklega öllum kröfum stefnanda sem byggja á meintum fjárhagslegum afleiðingum aðgerðarinnar í ágúst 1991. Þá sé átt við kröfur sem snúa að lántökum stefnanda, tjóni vegna missis íbúðar, ýmsan útlagðan kostnað í fortíð og til framtíðar, og svo framvegis. Flest í þessari kröfugerð stefnanda sé án fordæma og í engu samræmi við íslensk dómafordæmi. Örorkuútreikningi stefnanda sé mótmælt sem ósönnuðum. Mótmæli þessi eiga að sjálfsögðu bæði við um meinta tímabundna og varanlega örorku. Útreikningarnir séu að hluta til einhliða útreikningar stefnanda sem að auki séu byggðir á órökstuddum og ósönnuðum grundvelli. Miskabótakrafa stefnanda sé og sama marki brennd. Í stefnu geri stefnandi í raun kröfu um það að sönnunarbyrði verði snúið við eða að minnsta kosti að slakað verði á hinni almennri reglu skaðabótaréttarins um að sá sem heldur fram fullyrðingu beri að sýna fram á að fullyrðingin sé rétt. Krafa þessi líti út fyrir að vera sett fram á þeim grundvelli að ófullnægjandi sjúkraskrár liggi fyrir og að Landspítali hafi vanrækt að afla upplýsinga um málið. Kröfu um öfuga sönnunarbyrði eða að slakað verði á sönnunarbyrði sé mótmælt. Jafnframt er því mótmælt að ónógar upplýsingar séu fyrir hendi í máli þessu og að Landspítali hafi neitað stefnanda um upplýsingar úr sjúkraskrám sem varða hana sjálfa. Þvert á móti hafi spítalinn reynt til hins ýtrasta að veita stefnanda allar þær upplýsingar og skýringar sem unnt sé að láta í té. Umtalsverðar skjalfestar upplýsingar liggja fyrir um mál þetta allt og þar á meðal þá aðferð sem viðkomandi læknir viðhafði við brjóstaminnkunina. Sama eigi við um eftirmeðferð á Landspítala varðandi aðgerðina og allt annað sem varðaði innlögn stefnanda á árinu 1991. Í þessu sambandi sé rétt að ítreka að stefndi býr ekki yfir neinni samantekt um tíðni fylgikvilla við brjóstaminnkunaraðgerðir á Landspítala, hvorki hvað varðar einstaka lækna né almennt á spítalanum. Að lokum þyki nauðsynlegt að mótmæla vottorði Ólafs Péturs Jakobssonar, lýtalæknis, sem lagt hafi verið fram í málin. Í umsögn Guðmundar Más Stefánssonar, lýtalæknis, og umsögn Ólafs Einarssonar, lýtalæknis, sem einnig hafi verið lagðar fram, komi fram rökstudd gagnrýni á vottorði Ólafs Péturs. IV. Jórunn Anna Sigurðardóttir gaf aðilaskýrslu fyrir dómi. Hún sagði m.a. að hún hefði reynt að fara að vinna eftir að Ólafur Einarsson læknir hefði skrifað hana vinnufæra eftir læknisaðgerðir hans. Hún kvaðst hafa byrjað að leysa af í versluninni „Body Shop" og „Kjallaranum" sem Oddur Pétursson á. Hún kvaðst hafa byrjað að leysa af í hádeginu og hafa reynt að vinna tvo tíma á dag og reynt að koma sér áfram en hún hafi dottið niður í þunglyndi og þetta hafi allt verið erfitt. Hún kveðst hafa reynt að bjarga sér en því miður hefði hún ekki ráðið við störfin. Hún sagði að á Landspítalanum hafi verið búið að gera þrjár aðgerðir á henni. Hægri handleggurinn hafi verið fastur niðri. Hún kvaðst ekki hafa getað lyft honum upp. Reynt hefði verið að hliðra til fyrir hana - að hafa hana bara í afgreiðslu. Kvaðst hún ekki hafa gert neitt nema afgreiða viðskiptavini. Hún hefði ekki getað þurrkað af né tekið upp vörur eða annað. Hún kvaðst einfaldlega ekki hafa ráðið við þetta vegna verkja sem hún hafi haft í handlegg og öxl. Hún sagði að aðdragandi þess að hún fór í brjóstaminnkunaraðgerð hafi verið sá að hún var með stór og þung brjóst og mikla vöðvabólgu í herðum og upp í háls. Hún hafi verið með tíða höfuðverki. Þetta hafi orðið til þess að hún hefði leitað til lýtalæknis, Ólafs Einarssonar. Kvaðst hún hafa pantað tíma í maí 1989 og farið fyrst í viðtal. Hann hafi skoðað hana og sagt sitt álit „að þetta sé of þungt og sigið." Hann hafi ákveðið að setja hana á biðlista. Þá hafi verið um að ræða ársbiðlista. Kvaðst hún hafa klætt sig úr að ofan og staðið upp við vegg í Domus Medica. Hafi hann tekið upp brjóst hennar og sagt: „Já, þau eiga að vera svona. Svo ræðum við þetta allt síðar þegar að aðgerðardegi er komið." Áður en hún var kölluð til aðgerðar kveðst hún hafa orðið ófrísk og átt dreng. Það hafi virkað þannig að ekki hafi verið hringt í hana fyrr en í maí 1991 en drenginn hefði hún átt 1. ágúst 1990. Þá hefði hún átt að mæta upp á Landspítala tveim dögum síðar en þá hefði komið brunatilfelli inn svo að aðgerðinni hefði verið frestað. Þann 20. ágúst hafi síðan verið hringt í hana og hún beðin um að mæta í aðgerð þann 23. Kvaðst hún hafa mætt inn á Landspítala þann 22., klukkan 9 um morgun, í blóðprufu og myndatöku. Hefði hún síðan fengið að leggjast inn klukkan 9 um kvöldið vegna þess að hún hafi þurft að koma barninu sínu fyrir. Þá hafi Sigurður Björnsson [læknir] tekið af henni skýrslu varðandi svæfingu, hvort hún hefði ofnæmi fyrir pensillíni eða einhverju þess háttar. Síðan hafi hjúkrunarfræðingur ritað lögheimili og framangreint niður á blað og skýrt henni frá bæklingi sem gott væri fyrir hana að lesa fyrir aðgerðina sem framkvæma ætti næsta morgun. Hún kvað Ólaf Einarsson ekki hafa tekið á móti sér á staðnum. Sigurður Björnsson hefði verið kynntur sem kandídat og henni tjáð að hann yrði aðstoðarlæknir við aðgerðina. Sigurður Björnsson hefði ekki gert henni grein fyrir fylgikvillum sem upp gætu komið eftir aðgerðina, eina leiðbeiningin sem hún hafi fengið hafi verið umræddur bæklingur. Kvaðst hún hafa „flett yfir" bæklinginn en ekki lesið hann. Bæklinginn hefði hún ekki fengið afhentan til eignar heldur til lestrar á staðnum. Hún kvað hafa verið útskýrt fyrir sér varðandi sogrörin, hún yrði með sogrörin í þrjá til fjóra daga. Aðallega hafi verið farið inn á það. Hún sagði að 23. ágúst 1991 hafi hún verið kölluð inn í litið herbergi, skoðunarherbergi, uppi á deild 13 A, lýtadeildinni. Þar hafi Ólafur komið. Mikið hafi verið að gera. Hann hefði sagt: „Sæl Jórunn mín, nú ætla ég að teikna þig upp." Kvaðst hún hafa verið ber að ofan og hafi hann teiknað sig upp. Kvaðst hún þá hafa sagt við hann: „Heyrðu Ólafur, hvernig er þetta, hvernig gengur þetta fyrir sig, hafið þið einhverja staðla á brjóstum?" Hafi hún tekið sem dæmi: small, medium, large. Hann hefði svarað því að ekki væri um sérstaka staðla að ræða. Kvaðst hún þá hafa sagt við hann: „Þú mátt ekki taka of mikið af mér þannig að ég verði flatbrjósta. Ég vil hafa svona stærð sem kallast gæti medium framan á mér." Sagði hún að hann hefði samþykkt þetta. Á hinn bóginn hefði ekkert verið rætt um hugsanlega fylgikvilla. Ekkert hefði heldur verið rætt um aðgerðina sjálfa, hvernig hún gengi fyrir sig. Ekkert hefði verið rætt um hvaða tækni ætti að beita. Aðspurð kvaðst hún hafa reykt hálfan pakka á dag á þessum tíma. Hún hefði sagt Sigurði Björnssyni frá því fyrir viðtalið við Ólaf. Það hefði hins vegar ekki komið til umræðu í viðtalinu við Ólaf. Hún sagði að Ólafur hefði ekki orðað það við sig að varasamt væri að reykja eftir aðgerðina. Hún sagði að reiknað hefði verið með fjórum til fimm dögum hjá henni á sjúkrahúsinu eftir aðgerð. Hún sagði að legudagarnir hefðu orðið frá 23. til 30. ágúst. Stefnandi sagði að hún muni eftir sér um fimmleytið eða sexleytið að hún vaknar eftir aðgerðina 23. ágúst 1991. Þá hefði hún haft þörf fyrir að fara að pissa. Hefði hún fengið aðstoð við að fara á klósettið. Síðan hefði hún farið upp í rúm aftur. Kvaðst hún hafa verið vönkuð og hafa legið fyrir. Aðspurð taldi hún að aðgerðin hefði hafist um tíuleytið um morguninn. Hún kvaðst hafa verið aum eftir að hún vaknaði og fundið fyrir þrýstingi í hægra brjóstinu um átta- eða níuleytið um kvöldið. Hefði hún kvartað út af því við hjúkrunarfræðing. Hjúkrunarfræðingurinn hefði tjáð sér að þetta væri eðlilegt. Þetta væri stórt og mikið skurðsvæði. Ekki hefði verið kallaður til læknir til að skoða hana. Læknir hefði ekki litið til hennar eftir að aðgerðinni var lokið þennan dag. Hún kvaðst ekki hafa haft neinar efasemdir fyrsta daginn um að allt hefði gengið vel. Þegar hún vaknaði daginn eftir aðgerðina 24. ágúst, kvað hún sér hafa liðið illa. Hefði hún fundið fyrir auknum þrýstingi, brjóstið mjög spennt og mikill hiti. Kvaðst hún hafa kallað nokkrum sinnum á hjúkrunarkonurnar. Hefði henni verið tjáð að rörin gætu pirrað hana, allt væri eðlilegt. Kvaðst hún hafa haft mikla verki. Hefði henni verið gefið verkjalyf sem hafi slegið á þetta í tvo eða þrjá tíma. Kvaðst hún hafa kvartað aftur. Hefði það gengið þannig fyrir sig að henni hefði verið gefið verkjalyf oft þennan dag. Læknir hefði ekki verið kallaður til. Hjúkrunarfólkið hefði tjáð henni að allt væri eðlilegt. Aðfaranóttina 25. ágúst hefði henni verið gefið verkjalyf. Þrýstingurinn hefði haldið áfram. Kvaðst hún þá hafa uppgötvað að þetta gat ekki verið eðlilegt. Hefði hún kvartað við hjúkrunarfræðingana. Þær hefðu séð að brjóstið var mikið spennt og eftir því sem hana minnir þá hefði það gerst að kvöldi þann 25. ágúst að hjúkrunarfræðingur kom með stóra sprautu, opnaði fyrir „drenið" og reyndi að sjúga út. Kvaðst hún hafa upplifað mjög sterkt að ekki væri allt með felldu. Ekki hefði verið kallaður til sérfræðingur þrátt fyrir stöðugar kvartanir hennar. Hefði henni verið gefið svefnlyf en svefnlyf hefði hún aldrei áður tekið né sterk verkjalyf. Hún hefði því haft mjög lítið lyfjaþol þannig að hún hefði sofnað. Kvaðst hún hafa verið viðkvæm og „brotnað saman." Þá hefði henni verið gefið róandi lyf sem hún hefði aldrei áður neytt. Næsta dag, eða sunnudaginn 25. ágúst, kvað hún ástand sitt hafa farið hratt niður á við. Ekki hefði verið hlustað nægilega á kvartanir hennar. Hefði hún kvartað mikið um verki í hægra brjósti undan þrýstingi. Reynt hefði verið að sjúga þar út með sprautu. Kvaðst hún hafa spurt hvort það gæti verið að um stíflu væri að ræða, þar eð hún hefði ekki haft vit á því, en hún hefði vitað að eitthvað var að brjóstinu. Lögð hefði verið mikil áhersla af hjúkrunarfræðingum á að rörin, sem sett eru inn í brjóstin, gætu pirrað hana. Samt hefði henni fundist skrýtið að hjúkrunarfræðingur hefði reynt að sjúga út blóð sem ekki kom. Þetta kvað hún hafa gerst á kvöldvaktinni 25. ágúst. Ástand sogbrúsanna hefði verið þannig á kvöldvaktinni að ekkert kom í þá. Enginn læknir hefði litið á hana þessa helgi. Aðfaranóttina 26. ágúst kvað stefnandi sér hafa liðið illa. Hefði henni verið gefið verkjalyf og svefnlyf og róandi lyf. Að morgni 26. ágúst hefðu sogdrenin verið fjarlægð og hún sett á sýklalyf. Rörin hefðu verið laus í hægra brjóstinu og dottið út þegar hreyft var við þeim. Hefði Árni Björnsson læknir verið kallaður til nokkrum klukkutímum síðar eða seinni part dagsins. Árni hefði séð hvað um var að vera og farið með hana inn í lítið herbergi á staðnum, skorið undir brjóstið og hleypt út blóði, 200 til 300 millilítrum. Kvaðst hún vilja lýsa undrun sinni yfir að ekki væri getið um þetta í sjúkraskrám. Blámi hefði verið í kringum geirvörtuna þegar Árni gerði þessa aðgerð. Ólafur Einarsson læknir hafi fyrst daginn eftir litið á hana eða þriðjudaginn 27. ágúst. Hún sagði að Ólafur Einarsson læknir hefði komið á stofugang og hefði hann séð greinilega hvað um var að vera. Hefði hún kvartað undan þrýstingi. Þrýstingurinn hefði hjaðnað um tíma eftir að Árni hleypti út blóðinu en komið fljótt aftur. Hefði hún haldið áfram að kvarta undan þessum þrýstingi. Kvað hún Ólaf hafa farið með hana í litla herbergið, sem áður var getið um, og hann hafði notað þegar hann „teiknaði hana upp" fyrir aðgerðina. Með honum hafi verið hjúkrunarfræðingur. Þá hafi aftur verið hleypt út 200 til 300 millilítrum. Þá hefði hann sagt: „Jórunn, nú er eitthvað að ske. Ég verð að taka ákvörðun. Það verður að opna brjóstið aftur. Þú verður að búa þig undir aðgerð aftur á morgun." Kvaðst hún hafa algjörlega brotnað niður við þetta. Viðmót læknisins hefði ekki verið hlýlegt. Ekki hefði verið hlúð að henni. Þarna hefði hún fengið staðfestingu á að grunur hennar um að eitthvað verulegt væri að væri á rökum reistur. Hún kvaðst muna eftir að seinni partinn þennan dag hefði henni verið gefið blóðlyf og veitt raförvun. Kvaðst hún muna eftir að Ólafur hefði þá komið boðum til hennar símleiðis að hún mætti ekki reykja. Kvaðst hún hafa reykt eina eða tvær sígarettur þessa daga á sjúkrahúsinu, allan tímann. Kvaðst hún ekki muna hvort hún reykti eina sígarettu eftir það eða enga. Hún hefði tekið mark á aðvöruninni. Þann 28. ágúst kvaðst hún aftur hafa farið í aðgerð. Hefði henni verið gefið róandi lyf og svefnlyf fyrir nóttina. Hefði hún verið tekin seint í aðgerðina vegna þess að brjóstið hefði verið þannig útlits. Ekki hefði verið skýrt fyrir henni í smáatriðum í hverju aðgerðin var fólgin. Líðan hennar hefði verið hörmuleg eftir aðgerðina. Hún hefði alveg brotnað niður. Hefði henni verið sagt að þetta hefði farið illa og nú yrði að bíða og sjá hverju fram yndi. Þetta væri viðkvæmt svæði. Hefði hún verið sett á mikið og sterkt pensillín og henni sagt að hún yrði að vera dugleg. Ekki hefði verið lýst fyrir henni hverjar afleiðingarnar gætu orðið. Stefnandi sagði að 29. ágúst hefði þrýstingurinn verið horfinn úr brjóstinu, hefði það verið léttir, henni hefði þó liðið illa. Úr sárum á hægra brjóstinu hefði runnið óþverri, gröftur eða eitthvað annað. Kvaðst hún muna eftir að Ólafur hefði þennan dag litið til sín. Hún sagði það rangt, sem skráð er í sjúkraskrá, að kreist hafi verið út úr brjóstinu vinstra megin ca. 100 til 200 millilítrar af fersku blóði 30. ágúst. Aldrei hefði verið kreist blóð úr vinstra brjóstinu. Ekki hefði verið reynt þennan dag að ná fersku blóði úr brjóstum hennar. Kvaðst hún enga skýringu hafa á því hvers vegna þetta standi í sjúkraskrá. Hún sagði að hægri geirvartan hefði verið mjög blá þegar hún var útskrifuð af sjúkrahúsinu. Hefði hún verið útskrifuð með fyrirmælum um að koma á göngudeild daglega til að fá skipt á umbúðum á sárunum. Kvað hún víst að drep hefði verið komið í brjóstið á þessum tíma, raunar þegar 29. ágúst. Hún hefði þó ekki tjáð læknum þetta, raunar hefði hún metið þetta eftir á. Þann 2. september 1991 sagði stefnandi að hún hefði fyrst komið á göngudeild til að skipta á sárunum. Hjúkrunarfræðingur hefði tekið á móti henni og tekið umbúðirnar af. Árni Björnsson læknir hefði komið þar að. Drepið hefði verið mikið svo að spurning hefði verið hvernig umbúðir hún ætti að hafa. Kvaðst hún muna eftir því að sett hafi verið á hana pensillíngrisja yfir allt brjóstið og síðan umbúðir. Umræða um drep í brjóstinu hefði þá strax komið fram. Hjúkrunarfræðingur hefði metið það svo. Næstu tuttugu og fjóra daga hefði hún komið á göngudeildina til að skipta um umbúðir, hefði verið byrjað að plokka upp dauðu vefina, skinnið, þetta hefði verið mjög stórt svæði. Skýringarnar sem hún hefði fengið hefðu verið þær að það þyrfti að leyfa drepinu að klára sig fyrir næsta skref sem væri að taka húð til að setja yfir sárið. Þann 26. september tjáði stefnandi að enn ein aðgerð hefði farið fram. Kvaðst hún hafa verið lögð inn á lýtadeildina. Ólafur hefði sagt henni að honum þætti leiðinlegt hvernig þetta hefði farið. Nú væri ekkert hægt að gera í stöðunni annað en að taka skinn af læri eða rasskinn og setja yfir og leyfa sárinu að jafna sig næsta hálfa árið. Stefnandi kveður hreyfigetu sína hafa verið skerta með framangreindum aðgerðum. Hún sé engan veginn fær um að vinna. Nú sé hún alfarið tekjulaus. Kvaðst hún að lokum hafa farið í samtals átta aðgerðir með þeim, sem að framan greinir, hjá nafngreindum læknum til að koma lagi á brjóst sín, en vinstra brjóstið hefði einnig þurft lagfæringar við eftir aðgerðir Ólafs. Aðspurð kvaðst stefnandi hafa farið í brjóstaaðgerðina til að fá bót meina sinna en ekki til að bæta útlit sitt. Hún kvað Ólaf Einarsson lækni ekki hafa gert henni grein fyrir hættum sem fylgi aðgerðum af þessum toga þegar hún hitti Ólaf fyrst á læknastofu. Það hefði ekkert verið rætt. Hann hefði heldur ekki gert henni grein fyrir útfærslu aðgerðarinnar áður en aðgerðin hófst. Ekki hefði verið rætt um magn þess sem ætlað væri að taka af brjóstunum. Hún staðhæfði að hún hefði reykt áður en hún fór í umrædda aðgerð að jafnaði 10 sígarettur á dag en ekki pakka á dag í sextán ár eins og greint sé frá í hjúkrunarskýrslu. Stefnandi staðfesti að rétt væri greint frá heilsufari hennar í örorkumati Högna Óskarssonar geðlæknis á dskj. nr. 50. Stefnandi sagði að fyrstu skriflegu upplýsingar sem hún hefði fengið um brjóstaaðgerðir hefðu verið þegar henni var afhentur bæklingur um brjóstaminnkun, sbr. dskj. nr. 13, 22. ágúst 1991, kvöldið fyrir aðgerðina. Hún kvað móður sína hafa farið í brjóstaminnkunaraðgerð á árum áður sem hefði gengið vel. Það hefði verið það sem hún þekkti til svona aðgerða. Hún hefði ekki haft neina raunverulega vitneskju áður um að svona gæti farið eins og hún hefði upplifað sem afleiðingu aðgerðar á brjóstum hennar. Ólafur Jón Einarsson lýtalæknir gaf skýrslu fyrir dómi. Hann sagði m.a. að hann hefði starfað sem lýtalæknir á Landspítalanum í fjórtán ár, og hefði sérfræðimenntun í almennum skurðlækningum og lýtalækningum. Hann sagði að Jórunn hefði fyrst komið til hans á stofu 30. maí 1989. Hann sagði að vinkona Jórunnar, Arnfríður Gísladóttir hjúkrunarfræðingur, hefði beðið hann um að líta á hana. Honum hefði fundist beiðni stefnanda um brjóstaminnkun eðlileg. Brjóstin hefðu verið þung og sigin, kvartanir um verki í herðum og hálsi, sem geta verið af þess völdum. Ákveðið hefði verið að leggja inn beiðni á lýtalækningadeild Landspítalans. Aðspurður kvaðst Ólafur hafa sagt stefnanda frá hugsanlegum vandamálum sem gætu komið upp við lýtalæknisaðgerð, svo sem hann geri alltaf þá er leitað sé til hans um slíkar aðgerðir. Tvær hættur fylgi öllum aðgerðum: blæðingar og sýkingar. Það sem sérstætt sé við aðgerð, eins og hér um ræðir og raunar allar flipaaðgerðir, séu blóðrásartruflanir og drep. Þetta hefði hann sagt sjúklingi frá. Hann kvaðst ekki geta fullyrt að rætt hafi verið í þetta sinn um hættu af reykingum. Ólafur kvaðst hafa hitt stefnanda fyrst eftir að hún lagðist inn á Landspítalann, annaðhvort daginn áður eða sama dag og aðgerðin fór fram. Hann sagði að stefnandi hefði verið tekin inn á sérstakt herbergi, svokallaða skiptistofu, að morgni aðgerðar-dags. Þar hefði hann ítrekað bent á hætturnar og þá örugglega minnst á hættu af reykingum. Þar hefðu síðan verið teiknaðar á sjúklinginn áætlaðar stærðir við aðgerðina og hversu mikið brjóstin myndu minnka. Sagði hann að að þessu væri staðið þannig að mælt væri út frá axlarbreidd sjúklings og miðlínu eftir sérstökum reglum eftir því hve mikið á að létta brjóstin. Geirvartan sé staðsett eftir því. Síðan sé teiknað eftir ákveðnu „skapalóni" úr plasti, sem hann noti til að marka á skurðinn, sem síðan er framkvæmdur. Sjúklingurinn hefði séð sig í spegli eftir að teikningin var komin á. Spegillinn hefði verið í þeirri hæð að sjúklingurinn hefði getað séð sig. Hann sagði að haft væri samráð við sjúkling, eftir því sem hægt væri, um aðgerðina - hve mikið yrði tekið af brjóstum og endanlega stærð brjósta eftir aðgerð. Hann sagði að ekki væri unnt að sýna það nákvæmlega. Hann hafi fyrir reglu að taka milli handa sinna það af brjóstunum sem hann ætli að muni fara og spenna brjóstin upp þannig að hábungan sé þar sem áætlað er að geirvartan lendi. Þá sjáist nokkurn veginn hvað fer. Ekki sé hægt að sýna það nákvæmlega. Hann kvaðst ekki ræða við sjúklinga um hvaða brjóstahaldarstærð viðkomandi muni nota eftir aðgerðina. Hann sagði að ákveðið væri fyrir aðgerð hvað ætlað væri að taka af brjóstum um það bil - þriðjungur, helmingur og því um líkt. Að vissu marki sé haft samráð við sjúkling um þetta. Um aðferðina, sem notuð hefði verið við aðgerðina, vísaði hann til fylgiskjala með bréfi sínu til landlæknis 29. maí 2000 [dskj. nr. 184] þar sem fram koma myndir og skýringar. Hann sagði að brjóstið væri minnkað, aðallega neðan til, lítillega ofan til, geirvartan sé skorin út á stilk þannig að skorið sé á blóðrás úr fjórum höfuðáttum. Það sé skorið undir geirvörtuna þannig að hún lifir á þeirri blóðtengingu sem hún hefur í átt að miðju sjúklingsins. Þar um fara bæði slagæðar og bláæðar sem næra geirvörtuna og þennan stilk. Hann sagði að þessi aðferð væri algeng en fleiri aðferðir væru til. Aðspurður kvaðst hann ekki minnast þess að neitt sérstakt hefði komið upp við aðgerð þá, sem hér um ræðir. Þetta hafi verið eðlileg aðgerð. Ólafur sagði að eftir aðgerðina aðgerðardaginn hafi hann líklega ekki séð stefnanda aftur fyrr en á svokallaðri „vöknun". Þá hafi þegar komið dálítið blóð, úr hægri keranum meira, þeir hefðu virkað vel og skilað blóði. Um minnkandi blæðingu hefði verið að ræða. Eftir þennan dag hefði hann farið heim. Síðan hefði hann verið á vakt fyrir almennu skurðlækningadeildina eða almennu handlæknisdeildina næstu tvo sólarhringa. Kvaðst hann vera sannfærður um að hafa séð Jórunni á laugardeginum [24. ágúst]. Þá hafi liturinn á báðum geirvörtum verið góður og brjóstin mjúk, drenið virkt. Hann kvaðst ekki geta fullyrt að hann hafi séð hana á sunnudeginum. Hann kvaðst vita að hann var í húsinu þann dag og því ekki ólíklegt að hann hefði litið til hennar en hann kvaðst ekki muna eftir því. Síðan kvaðst hann hafa séð hana á mánudagsmorgni [26. ágúst] á stofugangi. Síðan hafi hann séð hana á þriðjudeginum, fyrst að morgni, síðan kallaður til hennar að kvöldi þess dags. Þá hefði verið kominn blámi í efri brún geirvörtu. Ólafur sagði að alltaf væri læknir á vakt á sjúkrahúsinu, ekki sé alltaf genginn stofugangur á sunnudögum en alltaf á laugardögum. Stofuganga sé þó á sunnudögum ef þannig standi á að þörf sé fyrir það. Ekki væri því hægt að fullyrða að læknir hefði litið til stefnanda sunnudaginn 25. ágúst 1991. Lagt var fyrir Ólaf dskj. nr. 15, sem er myndrit af vinnuskýrslu Ólafs hjá Ríkisspítölum tímabilið 16. ágúst 1991 til 31. ágúst 1991. Hann sagði að skýrslan sýndi viðveru sína á sjúkrahúsinu þessa daga. Lagt var fyrir Ólaf dskj. nr. 3, sem er myndrit af sjúkraskrá Jórunnar á Landspítalanum 22. ágúst 1991 til 30. ágúst 1991. Ólafur var spurður hvenær sé ljóst af skráningu á þessu tímabili að alvarlegar blóðrásatruflanir eru farnar að hrjá Jórunni. Hann svaraði því til að það hefði verið á kvöldvaktinni þann 27. Hann hefði þá verið kallaður til vegna þess að þá var mar í brjóstinu og kominn blámi í efri hluta geirvörtunnar. Ólafur kvaðst halda að stefnandi hafi fengið „trombosumyndun venumegin" í flipanum. Þeir hafi getað verið að myndast að einhverju leyti dagana eftir aðgerð þó það hafi ekki verið að neinu marki fyrstu dagana vegna þess að geirvörtur höfðu góðan litarhátt þá og ekkert hefði fundist við þrýsting á geirvörtu um að blóðrásin væri ekki í lagi. Þannig hafi það verið með geirvörtur Jórunnar alveg fram á fjórða dag eftir aðgerð en þá hafi blámi sést efst í geirvörtunni. Blámi gefi til kynna að eitthvað hindri frárennsli í háræðakerfinu. Ef stífla hefði orðið í slagæðakerfinu hefði fölvi sýnt það. Ólafur sagði að „segamyndun" eins og hér um ræðir sé algengari hjá kvenfólki en karlmönnum og því talið vera vegna þeirra hormóna sem kvenfólki fylgja. Það sé velþekkt hjá fólki sem reykir. Reykingar stórauki hættu á „segamyndun". Síðan sé þetta þekkt í flipum almennt. Þegar gerð er flipaaðgerð sé lifandi vefur með ákveðnu æðaneti skorinn út. Þá eru ákveðnar æðar, sem bæði færa blóð að og frá, teknar frá vefjum, er eftir standi næst sárinu. Blóðrásin í þessum vefjum sé því viðkvæm. „Segar" geti komið upp þó ekki sé reykt. Ólafur kvaðst ekki sjá hvað hægt hefði verið að gera til að koma í veg fyrir þessa sýkingu hjá stefnanda. Lagt var fyrir Ólaf dskj. nr. 4, sem er myndrit af sjúkraskrá Jórunnar á Landspítalanum 26. september 1991 til 1. október 1991. Aðspurður kvaðst Ólafur ekki hafa samið texta, þar sem nafn hans er vélritað innan sviga undir málsgreinum í skránni. Viðkomandi aðstoðarlæknir hefði vafalaust gert það. Ólafur kvaðst hafa gert eitthvað á bilinu tvö- til þrjúhundruð brjósta-minnkunaraðgerðir og mest notað þá aðferð sem notuð var við aðgerðina á Jórunni. Sigurður Egill Þorvaldsson læknir kom fyrir dóm sem vitni. Lagt var fyrir vitnið dskj. nr. 5, sem er myndrit af sjúkraskrá stefnanda hjá Borgarspítalanum, skurðlækningadeild, 25. ágúst 1992 til 27. ágúst 1992. Kvaðst hann kannast við þessa skrá. Sigurður kvaðst fyrst hafa séð stefnanda, Jórunni, 9. janúar 1992. Hann kvað Jórunni þá hafa verið með ör eftir brjóstaminnkun og vinstri geirvartan hafi verið talsvert hástæðari en sú hægri. Það hafi verið mesta lýtið, skort hefði samræmi þar. Hann sagði að sjúkrasagan eins og hún kemur fram í sjúkraskránni sé byggð á útskriftarbréfi frá Landspítalanum. Hann sagði að sjúkrasaga sé að jafnaði skráð eftir frásögn sjúklings. Hann sagði að Hlíf Steingrímsdóttir aðstoðarlæknir hefði tekið og skráð sjúkrasöguna. Hann staðfesti það sem fram kemur í myndriti af bréfi, er undirritað er af honum, og lýsir læknisaðgerð á Jórunni á skurðlækningadeild Borgarspítalans 26. ágúst 1992, en bréf þetta er hluti af sjúkraskránni [dskj. nr. 5]. Sigurður sagði m.a. að eftir útskrift af Borgarspítala 27. ágúst 1992 hafi stefnandi komið til hans á stofu 31. ágúst 1992. Skipt hafi verið um umbúðir á sárum. Þann 3. september 1992 hefði hún komið til að láta taka burt sauma að hluta. Kvaðst hann ekki hafa skráð hjá sér frekar komur hennar til hans. Hann sagði að þekkt væru áhættuatriði varðandi skurðaðgerðir slíkar sem hér um ræðir. Ekki væri unnt að sjá fyrir um aukakvilla hjá hverjum og einum einstaklingi. Af stórum uppgjörum verði ráðið að aukakvillar hafi vissa tíðni og koma alltaf fyrir öðru hverju þegar litið sé til mjög stórs sjúklingahóps. Þekkt séu áhættuatriði í sambandi við aðgerðir sem þessar. Ekki sé unnt að segja fyrir hvernig ör muni líta út eftir aðgerð, það sé einstaklingsbundið. Áhætta sé þegar um flipaaðgerðir sé að ræða svo sem þessi var hvað varðar blóðrás, en um meiri áhættu hjá einum einstaklingi en öðrum sé alltaf að ræða. Áhættan sé meiri hjá reykingafólki. Almennt sé þó alltaf áhætta hvað varðar blóðrás. Alvarlegasta áhættan sé sú hvort geirvartan eftir svona aðgerð njóti nægilegrar blóðrásar. Ekki sé unnt að meta það fyrir fram. Þetta megi segja að sé undir tilviljun komið þó að talið sé að sumar konur, t.d. þær, sem hafa mjög stór og sigin brjóst, þær sem reykja og þær sem hafa sykursýki séu í meiri áhættu hópi en aðrar. Jóhannes Jens Kjartansson læknir kom fyrir dóm sem vitni. Lagt var fyrir hann dskj. nr. 6, sem er myndrit af sjúkraskrá stefnanda á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði á tímabilinu 26. október 1993 til 29. október 1993. Hann kvaðst þekkja hana og sagði m.a. að þetta hefði verið á þeim tíma þegar Rafn Ragnarsson læknir var í Domus Medica en sjálfur hafi hann þá verið yfirlæknir eða sérfræðingur við St. Jósefsspítala. Rafn hefði leitað til hans og spurt hann hvort þeir gætu ekki kíkt saman á Jórunni, sem hefði lent í skakkaföllum vegna brjóstaminnkunaraðgerðar. Það hefði verið auðsótt. Hann hefði litið á Jórunni. Þeir hefðu síðan ákveðið að gera aðgerð á henni til að lagfæra brjóst hennar. Jóhannes Jens sagði að ástand brjósta Jórunnar hefði verið þannig, þegar hann leit fyrst á hana, að lítið hafi verið eftir af hægri brjóstvörtunni, húð hefði verið flutt á hluta af sárunum neðan við brjóstvörtuna og brjóstið hefði verið frekar lítið vinstra megin. Á vinstra brjósti hefði einnig verið skaði eftir drep. Hann kvaðst aðspurður ekki minnast þess að Jórunn hefði kvartað undan verkjum í brjóstunum en mikill örvefur hefði verið til staðar. Hann kvaðst halda að einhvers konar vefjadrep félli til í tveim til þremur brjóstaaðgerðum af hverjum hundrað aðgerðum. Í þessu tilviki hefði það verið með verra móti. Hann kvaðst ekki minnast þess að Jórunn hefði kvartað um hreyfihömlun á hægri hendi vegna örvefja. Jóhannes Jens staðfesti að hafa ritað bréf það sem kemur fram í myndriti á dskj. nr. 26. Hann sagði að það væri vel þekkt að reykingar væru áhættuatriði eftir brjóstaminnkunaraðgerðir. Hann sagði að hann varaði fólk við, ef viðkomandi reykti, að reykja nokkrum vikum fyrir aðgerð, þegar það væri að fara í brjósta-minnkunaraðgerðir, og legði fyrir það að reykja alls ekki meðan sárin væru að gróa. Rafn Alexander Ragnarsson læknir kom fyrir dóm sem vitni. Hann staðfesti að hafa ritað bréf til lögmanns stefnanda, sem fram kemur í myndriti á dskj. nr. 29. Kvaðst hann hafa ritað bréfið vegna fyrirspurnar frá lögmanninum. Hann greindi og frá hlutdeild sinni í lagfæringum á brjóstum stefnanda og svaraði fyrirspurnum lögmanna aðila og sérfróðra dómara í því sambandi. Hann staðfesti að hafa sent Tryggingastofnun ríkisins bréf, sem fram kemur í myndriti á dskj. nr. 28, og staðfesti læknisvottorð sitt, sem fram kemur á dskj. nr. 65. Hann staðfesti að hafa ritað bréf til framkvæmdastjóra lækninga á skrifstofu Ríkisspítalanna, sem fram kemur í myndriti á dskj. nr. 64. Rafn kvaðst sjálfur hafa gert hundruð brjóstaaðgerða og komið hafi fyrir að sjúklingur hjá honum hefði fengið drep í sárin vegna blæðingar eftir á. Allir lýtalæknar lendi í þessu fyrr eða síðar. Gerður Jónsdóttir læknir kom fyrir dóm sem vitni. Lagt var fyrir vitnið dskj. nr. 67, sem er myndrit af útprentun úr dagbók Heilsugæslustöðvarinnar í Efra Breiðholti varðandi stefnanda á tímabilinu 4. apríl 1991 til 9. mars 1999. Staðfesti hún að skjalið væri útprentun úr dagbók heilsugæslustöðvarinnar [prentað út 26.03.99]. Gerður sagði m.a. að Jórunn hefði fyrst leitað til sín eftir brjóstaminnkunaraðgerðina 27. nóvember 1991 til að fá vottorð um staðfestingu á veikindum sínum því að hún hafði leitað til félagsmálastofnunar til að fá fjárhagslegan stuðning. Hún staðfesti að hafa greint þunglyndi hjá stefnanda 28. febrúar 1996 og veitt henni róandi lyf. Lagt var fyrir vitnið dskj. nr. 24, sem er myndrit af vottorði vegna umsóknar stefnanda til Tryggingastofnunar um örorkubætur, dags. 15. apríl 1993. Gerður staðfesti nafnritun sína á skjalið og að efni þess væri frá henni komið. Þá staðfesti hún að vottorð, sbr. dskj. nr. 27 og 36, væri frá henni komið. Spurt var hvaðan hún hefði haft þær upplýsingar að við brjóstminnkunaraðgerð á stefnanda hafi stíflast dren „sem varð til þess að stórt haematom myndaðist." Kvaðst hún ekki alveg vita það nú með vissu en líklegt væri að hún hefði fengið þessar upplýsingar frá Jórunni eða úr læknabréfi frá sjúkrahúsi. Hún staðfesti og að dskj. nr. 44 og 66 væri læknisvottorð varðandi stefnanda er væri frá henni komið sem heimilislækni stefnanda. Hún sagði að nokkrum árum eftir brjóstaaðgerðirnar hafi farið að bera á stoðkerfisveikleikum hjá stefnanda, þreytu og óþoli fyrir kulda. Stefnandi hafi kvartað undan þrotatilfinningu og bjúgsöfnun. Þessi einkenni hafi verið viðvarandi undanfarin ár. Aðspurð sagði Gerður að á árinu 1995 hafi komið fram hjá stefnanda mikil og vaxandi stoðkerfisvandamál. Stefnandi hafi verið send á árinu 1994 í sjúkraþjálfun út af stoðkerfisvandamálum. Læknirinn var spurður hvað af þeim líkamlegu einkennum, sem lýst er í fjórðu málsgrein læknisvottorðsins frá 24. júní 1997 [dskj. nr. 49], megi beinlíns rekja til brjóstaminnkunaraðgerðarinnar. Lýsti hún því í nokkru máli. Gerður var beðin um að skýra hvaðan hún hafi það sem fram kemur á dskj. nr. 24, þar sem segir: „Daginn eftir aðgerð fer hún að kvarta um þrýsting í hæ. brjósti. Þessi einkenni fóru versnandi og á þriðja degi var hún komin með stórt haematoma utanvert í hæ. brjóst og í kjölfarið vaxandi necrosu" en ekkert í læknabréfi Landspítalans hafi gefið tilefni til þessara orða. Gerður taldi að væri þetta ekki að finna í skriflegum heimildum væru þetta munnlegar upplýsinga frá stefnanda, Jórunni. Sigurjón Sigurðsson læknir kom fyrir dóminn sem vitni. Lagt var fyrir hann dskj. nr. 46, sem er matsgerð, mat á örorku stefnanda vegna brjóstaminnkunaraðgerðar, sem hún gekkst undir á Landspítalanum 23. ágúst 1991. Staðfesti hann að hafa unnið þessa matsgerð ásamt Júlíusi Valssyni lækni. Hann sagði m.a. að í mati á varanlegri örorku stefnanda [tuttugu af hundraði] hefðu verið teknar bæði andlegar og líkamlegar afleiðingar af brjóstaminnkunaraðgerðinni. Hann sagði að líta yrði svo á að tímabundin örorka stæði meðan læknismeðferð færi fram vegna veikinda, er um væri að tefla, en varanleg örorka tæki síðan við ef um hana væri að ræða. Tímabundin örorka væri í flestum tilvikum 100% vegna þess að á þeim tíma væri ekki um vinnu að ræða hjá sjúklingi. Hann játaði að niðurstaða örorkumatsins væri byggð á því að tímabundin og varanleg örorka væri hvort tveggja 20%. Hann sagði að sex eða sjö ár hefðu liðið frá því að umdeild aðgerð fór fram og þar til örorkumatið var gert. Niðurstaðan hefði orðið sú vegna þess hve erfitt væri að taka á þessu að hafa tímabundna örorku eins og varanlega örorku. Aðspurður taldi Sigurjón að þeir hefðu metið andleg óþægindi stefnanda einn þriðja hluta af örorku stefnanda á móti tveimur þriðju líkamlegra einkenna. Hann sagði að örvefsmyndunin í kringum brjóst stefnanda sem gerði það að verkum að handleggurinn varð ekki fullkomlega hreyfanlegur og að öllum hreyfingum hans fylgdi sársauki - að handleggurinn varð ekki eins nothæfur og ella, væru hinar líkamlegu afleiðingar. Hann kvaðst ekki þekkja til þess að andlegar afleiðingar annarra brjóstaminnkunaraðgerða hefðu orði með sama hætti og hér. Högni Óskarsson læknir kom fyrir dóm sem vitni. Lagt var fyrir Högna dskj. nr. 50, sem er matsgerð hans á geðrænni örorku stefnanda. Staðfesti hann að hafa unnið þessa matsgerð. Hann gerði m.a grein fyrir því hvernig hann hefði komist að niðurstöðum sínum og til hvaða gagna hann hefði leitað í því sambandi. Hann kvaðst ekki geta fullyrt að þunglyndiseinkenni hefðu verið til staðar hjá stefnanda þegar hún fór í brjóstaminnkunaraðgerðina 1991. Ekkert í hans gögnum hefði bent til þess að mánuðum eða árum rétt fyrir aðgerðina hefði hún verið haldin þunglyndi að öðru leyti en því að ári fyrir aðgerðina hafi hún orðið þunglynd eftir barnsburð. Lagt var fyrir Högna dskj. nr. 52, sem er myndrit af bréfi hans til lögmanns stefnanda, dags. 12. desember 1997, en þar segir undir fyrirsögninni niðurstaða: 1) Vinnugeta frá aðgerð í ágúst 1991 til þessa dags: Að mati undirritaðs hefur Jórunn verið að mestu óvinnufær á þessum tíma vegna þunglyndis og vegna samspils líkamlegra og andlegra einkenna. 2) Vinnugeta nú: Ástand er að mestu óbreytt, þó hefur jákvæð lyfjasvörun um tíma aukið vinnugetu tímabundið. 3) Vinnugeta til frambúðar: Varanleg örorka hefur verið metin 20%, og þá með sérstöku tilliti til líkamlegra einkenna. Undirritaður telur, að vinnugeta muni verða skertari en þetta, vegna vaxandi tilhneigingar til þunglyndis sem afleiðing af samspili varanlegra líkamlegra einkenna, verri félagslegra aðstæðna en áður og geðrænna þátta. Staðfesti Högni að bréf þetta væri frá honum komið. Hann sagði að 75% markið á örorku, sem þar standi, sé miðað við ályktun frá Tryggingastofnun ríkisins á þeim tíma, sem hann hefði álitið varanlegt til lengri tíma litið. Liv Synöve Þorsteinsson sjúkraliði kom fyrir dóminn sem vitni. Hún sagði m. a. að hún hefði unnið á lýtalækningadeild Landspítalans þegar stefnandi, Jórunn, fór í aðgerðina árið 1991. Hún kvaðst hafa spurt Jórunni á sínum tíma hvort hún hefði lesið bæklinginn um brjóstaminnkun [sbr. dskj. nr. 13]. Hefði hún neitað því. Liv kvaðst muna í aðalatriðum eftir dvöl Jórunnar á spítalanum. Hún kvaðst muna eftir að Jórunn hefði reykt því að þær hefðu reykt saman úti á svölum. Hún sagði að þær hefðu reykt eitthvað svipað - tvær, þrjár í einu þegar þær fóru út. Kristín Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur kom fyrir dóm sem vitni. Hún sagði m.a. að hún hefði unnið á lýtalækningadeild Landspítalans frá 1980 til 1997. Hún kvaðst lítillega muna eftir stefnanda, Jórunni. Lögð var fyrir Kristínu sjúkraskrá, sem kemur fram á dskj. nr. 3, hluti sem nefndur er: „UPPLÝSINGAR FYRIR HJÚKRUN." Kvaðst hún hafa skráð þær upplýsingar sem þarna eru. Þar er skráð: „Reykt pk. á dag sl. 16 ár." Hún kvaðst halda að hún hefði fengið þessar upplýsingar frá Jórunni. Þær hefðu rætt saman kvöldið fyrir aðgerð. Hún sagði að reykingar hefðu ekki verið ræddar sérstaklega af hjúkrunarfræðingum sem áhættuþáttur. Kvaðst hún ætla að hún hefði afhent stefnanda bæklinginn um brjóstaminnkun. Hún kvaðst ekki treysta sér til að svara því hvort hún hefði farið yfir efni bæklingsins með stefnanda. Hún sagði að öllum sjúklingum hefði verið sýndur þessi bæklingur. Kvaðst hún hafa veitt stefnanda ákveðna fræðslu um aðgerðina svo sem verið hefði skylda hennar. Hún taldi ólíklegt að tappað hefði verið blóði af stefnanda í svokölluðu skiptiherbergi af lækni án þess að það væri skráð í hjúkrunarskýrslu. Hún kvaðst ekki kannast við það að hjúkrunarfræðingur hefði tappað blóði úr sogdreni á stefnanda með sprautu án þess að það væri skráð. Hún kvað verkjalyfjagjöf til stefnanda frá 23. ágúst til 25. ágúst 1991, svo sem fram kemur í sjúkraskrá, vera með eðlilegu móti að hennar mati. Ingibjörg Nielsen hjúkrunarfræðingur kom fyrir dóm sem vitni. Hún sagði m.a. að venja væri að ræða efni bæklingsins um brjóstaminnkunaraðgerð við sjúklinga áður en þeir fari í aðgerð. Hún kvaðst ekki muna eftir neinu sérstöku varðandi dvöl stefnanda á spítalanum eftir aðgerðina fyrr en það hefði komið upp að ástand hennar var farið að versna, ekkert fyrst. Hún kvaðst hafa verið á vakt 24. og 25. [ágúst]. Lilja Pálsdóttir hjúkrunarfræðingur kom fyrir dóm sem vitni. Hún sagði m.a. að hún myndi eftir stefnanda á lýtalækningadeildinni á Landspítalanum á sínum tíma. Hún kvaðst muna eftir stefnanda því hún væri ættuð frá sama bæ og hún úti á landi. Hún hefði ekki verið málkunnug henni. Hún hefði hitt hana í fyrsta skipti á sjúkrahúsinu. Hún sagði að venjan hefði þá verið að hjúkrunarfræðingur á kvöldvakt fyrir aðgerð afhenti sjúklingi bæklinginn um brjóstaminnkunaraðgerð. Lilja sagði aðspurð að það hefði komið fyrir að læknir á deildinni spretti upp einum til tveimur saumum til að hleypa út minni háttar blæðingum hjá sjúklingi inni á deildinni í skoðunarherberginu ef þörf var á því en vanalega hefðu læknarnir ekki gert það einir, þeir hefðu yfirleitt haft hjúkrunarfræðing með sér. Hún kvað líklegt að það hefði verið skráð ef það hefði verið gert. Viðkomandi hjúkrunarfræðingur á vakt hefði hlotið að hafa orðið var við það vegna þess að hjúkrunarfræðingurinn hefði látið lækninn hafa bæði umbúðir og áhöld til þess. Hún taldi mjög ólíklegt að Árni Björnsson læknir hefði hleypt blóði af stefnanda inni á deildinni án þess að það væri fært til bókar. Hún sagði að vefjadrep kæmi fyrir af og til eftir brjósta-minnkunaraðgerð. Guðrún Fjalldal hjúkrunarfræðingur kom fyrir dóm sem vitni. Hún sagði m.a. að hún hefði starfað á lýtalækningadeild Landspítalans frá 1987 til 1992. Hún kvaðst ekki muna sérstaklega eftir dvöl stefnanda á deildinni í ágúst 1991. Hún kvaðst aðspurð hafa verið annar tveggja höfunda bæklingsins um brjóstaminnkun, sem oft hefur verið minnst á í þessu máli [dskj. nr. 13]. Hún sagði að bæklingurinn hefði fyrst verið gefinn út í mars 1991. Hún sagði að bæklingurinn um brjóstaminnkun hefði legið frammi á deildinni í ágúst 1991 og tilgangurinn hefði verið að sýna hann öllum sjúklingum sem fóru í aðgerðina. Hjúkrunarfræðingarnir hefðu afhent sjúklingum bæklinginn. Bæklingurinn hefði átt að vera til stuðnings hjúkrunarfræðingi sem fór með sjúklingi yfir aðgerðina kvöldið áður en aðgerð fór fram svo sem venja var. Jóhann Bjarni Loftson sálfræðingur kom fyrir dóm sem vitni. Lagt var fyrir hann dskj. nr. 48, sem er myndrit af bréfi frá honum, dags. 19. júní 1997, varðandi stefnanda til „þeirra sem málið varða." Hann staðfesti undirskrift sína undir bréfið; að efni þess væri rétt og frá honum komið. Hann sagði m.a. að Jórunn hefði fyrst leitað til hans 17. september 1985. Þá hefði hún nýlega verið búin að fara í áfengismeðferð og var byrjuð að lifa án þess að neyta áfengis. Hún hafi verið alin upp við mjög hömlulaust heimilishaldi þar sem áfengismisnotkun var mikil og heimilishald rak mikið á reiðanum þannig að hún hefði átt mjög erfitt með að setja félagsleg mörk í öllum samskiptum, ekki síst í sambúð. Hann lýsti þessu frekar og gerði grein fyrir að stefnandi hefði byggt upp sjálfstraust og sjálfsvirðingu undir handleiðslu hans. Hann kvaðst hafa lagt fyrir hana persónuleikapróf og niðurstaða þess hefði ekki sýnt nein einkenni sem teljast mættu sjúkleg, hvorki þunglyndi né annað. Eftir aðgerðina í ágúst 1991 hefði hún leitað til hans 6. september 1991, skv. því sem hann hefði bókað. Eins og hann sá hana kvað hann hana hafa byrjað í ákveðinni afneitun á því sem var að gerast hjá henni. Ekki sé hægt að segja að allt í einu hefði orðið skyndilegt hrun hjá henni eftir aðgerðina, heilmikil afneitun hafi verið í gangi hjá henni - þetta gat bara ekki verið að gerast að hennar áliti. Það hafi ekki verið fyrr en seinna sem hún hefði gert sér grein fyrir hvað hún var að fara í gegnum. Það hefði tekið hana töluverðan tíma að átta sig á alvöru málsins. Þá hafi sjálfstraust hennar byrjað að brotna niður vegna þess m.a. að brjóst hennar voru allt öðruvísi en hún hafði gert ráð fyrir að þau kæmu út eftir aðgerðina. Hún hefði samtímis þurft að berjast við endalausan sársauka og aðra erfiðleika. Sjálfstraust hennar hafi smám saman brotnað niður. Það hefði verið að gerast á um það bil fjórum til sex mánuði en ekki sé mögulegt að tímasetja þetta nákvæmlega. Jóhann sagði að komið hefðu fram þunglyndiseinkenni hjá stefnanda við þetta mótlæti. Hann sagði að stefnandi hefði verið lengi að vinna sig út úr þessari kreppu og varla sé hægt að segja því lokið. Hann sagði að hún hefði lengi leitað til hans og geri það enn, hægt og rólega sé verið að byggja upp sjálfstraust hennar. Hann sagði að Jórunn Anna væri mikil baráttukona en hún væri ekki búin að vinna sig út úr þessari kreppu þó að hún beri sig vel. Ólafur Pétur Jakobsson læknir, sem býr í Svíþjóð, gaf vitnisburð gegnum síma. Hann staðfesti að vottorð, dags. 22. ágúst 1996, sem liggur frammi í málinu sem dskj. nr. 43, sé frá honum komið. Hann sagði að nýrri gögn í málinu, sem hann hefði fengið send, hefði ekki breytt ályktun hans svo sem hann greinir frá í vottorðinu. Hann rökstuddi í stuttu máli niðurstöðu vottorðsins og hvernig hann hefði komist að henni og svaraði spurningum sem beint var til hans í því sambandi. Ólafur sagði að niðurstöður sínar væru ekki byggðar á framburði stefnanda, sbr. tl. 2 og 3 á bls. 6 í vottorðinu. Þessi lýsing á sjúkrasögu stefnanda komi frá stefnanda, eins og tekið sé fram, og hafi engin áhrif haft á niðurstöðu hans. Hann sagði að orð sín í niðurstöðu, að kerarnir hefðu stíflast á fyrstu klukkustundum eftir aðgerð, væru byggð á reynslu hans af svona aðgerðum. Hann kvaðst hafa farið eftir sjúkraskránni sem greindi frá verkjum hjá stefnanda eftir aðgerðina - að brjóstið hefði verið spennt. Komi fram í sjúkraskránni að tæmt hefði verið storknað blóð úr brjóstinu. Ef kerarnir hefðu verið í lagi hefði ekki safnast blóð fyrir í brjóstinu sem síðan hefði storknað. Hann kvaðst ekki geta fullyrt að blóðrásin í brjóstinu hefði truflast vegna blæðingar. Oddur Guðjón Pétursson kom fyrir dóm sem vitni. Lagt var fyrir Odd dskj. nr. 63, sem er myndrit af bréfi, dags. 7. desember 1998. Hann staðfesti að hafa undirritað bréfið og að efni þess væri rétt. Þá gáfu skýrslu Sigurður Sigurðsson, faðir stefnanda, og Stefanía Guðrún Þorbergsdóttir, móðir stefnanda. Gunnlaugur Geirsson prófessor, er situr í réttarmáladeild læknaráðs, gaf skýrslu fyrir rétti 6. nóvember 2002. Lagt var fyrir hann dskj. nr. 199, sem er álit læknaráðs frá 18. desember 2002, byggt á niðurstöðu réttarmáladeildar og varðar stefnanda. Hann staðfesti að réttarmáladeildin hafi fjallað um málið svo sem þar greinir. Hann kvaðst hafa fengið skjöl málsins frá 1 til 198 þann 8. maí 2001. Hann kvaðst hafa kynnt sér álitsgerð Ólafs Péturs Jakobssonar sérfræðings í lýtalækningum er varðar málið. Hann sagði aðspurður m.a. að hann væri ekki sammála Ólafi að keri hefði stíflast í hægra brjósti stefnanda fljótlega eftir aðgerðina. Hann kvaðst vísa til álits Ottós Guðjónssonar lýtalæknis, er sæti átti í réttarmáladeild, er deildin fjallaði um málið. Sjálfur kvaðst hann vera menntaður meinafræðingur og ekki hafa sömu þekkingu á lýtalækningum og Ottó. Frá almennu sjónarmiði séð verði þó ályktað að ekkert komi úr kera sem er stíflaður. Hann sagði að læknaráð hefði ákveðið að Sigurður Guðmundsson og Sigurður Thorlacius fjölluð um umsögn læknaráðs varðandi svör við spurningum nr. 7 og 8 [ 7. Er læknaráð sammála örorkumati Júlíusar Valssonar og Sigurjóns Sigurðssonar um 20% örorku? 8. Er læknaráð sammála örorkumati Högna Óskarssonar um 35% örorku?]. Aðspurður kvað hann læknaráð ekki hafa rætt um fjölda kvartana vegna Ólafs Einarssonar [lýtalæknis]. Ekki hafi borið á góma að fleiri hefðu fundið að störfum hans en annarra lýtalækna. Hann kvað það hafa verið rétta ákvörðun og aðferð að auka blóðstreymi hjá stefnanda með lyfjagjöf eftir aðgerðina eins og gert var, sökum þess að allt sem auki blóðflæði dragi úr líkum á storknun og auki súrefni til vefjanna - en of lítið súrefni valdi vefjadrepi. Hann taldi að aukið blóðstreymi þurfi ekki að leiða til aukins þrýstings. Hann sagði að læknaráð hefði byggt á hjúkrunarskýrslum þá skoðun að gott daglegt eftirlit hafi verið með framvindu stefnanda eftir aðgerðina. Gunnlaugur sagði að læknaráð hafi rætt og tekið afstöðu til þess sem fram kemur í bréfi Árna Björnssonar yfirlæknis til landlæknis 6. nóvember 1992 [dskj. nr. 22.] þar sem segir m.a.: „Það kom blæðing í skurðsárið hægra megin og myndaðist haematom, sem var tæmt hinn 28-08. Þessi blæðing leiddi af sér drep í geirvörtu og hluta af húðinni á brjóstinu..." Afstaða læknaráðs varðandi þetta komi fram í svari þess við spurningu nr. 5 í umsögn læknaráðs. Sigurður Guðmundsson landlæknir gaf skýrslu fyrir dómi. Hann sagði m.a. að hann sem forseti læknaráðsins stæði við það sem kæmi fram í áliti ráðsins enda þótt álit læknaráðsins væri í nokkru frábrugðið áliti landlæknisembættisins frá 9. júní 2000. Kvaðst hann ekki hafa talið ástæðu til að skila séráliti í læknaráði þó að niðurstaða læknaráðs viki að nokkru frá því hvenær honum hefði þótt rétt að gripið hefði verið inn í atburði í áliti sínu frá 9. júní 2000. Í læknaráði hefði hann komið fram sem forseti ráðsins, allt ráðið hefi staðið að baki álitinu, og legið hefðu fyrir álit sérfræðinga því til fulltingis. Þetta sýni að vísu hversu mat á atburðum eftir aðgerð af þessu tagi geti verið „klínískt" mjög erfitt. Hann hafi ekki séð ástæðu til að fara að skila séráliti forseta ráðsins eftir að meirihluti hefði komist að niðurstöðu. Sigurður, sem sjálfur er sérfræðingur í lyflækningum, sagði að Ottó Guðjónsson lýtalæknir hafi verið kallaður til sem ráðgjafi. Hann og aðrir læknaráðsmenn hafi rætt mjög mikið um málið bæði formlega og óformlega. Til að vinna að svari læknaráðs við spurningum til ráðsins númer 7 og 8 er vörðuðu örorkumat hafi mest verið leitað til álits Sigurðar Thorlacius tryggingayfirlæknis. Sigurður sagði að læknisaðgerðir, skurðaðgerð, lyfjameðferð eða annað, geti farið úrskeiðis og endað með hörmungum án þess að um mistök læknis eða annars heilbrigðisstarfsfólks sé að ræða. Enginn ágreiningur sé um að afleiðingar skurðaðgerðar er hér um ræðir hafi verið hörmulegar en á hitt beri að líta að læknisfræði sé ekki óskeikul, mikið rými og efni sé til þess að læknisaðgerð fari úrskeiðis án þess að mistök hafi átt sé stað. Læknaráð hafi fjallað um þá spurningu hvort mistök hafi orðið. Matið hafi verið byggt á þekktum aðstæðum og fræðilegum forsendum. Hvort mistök hafi orðið varðandi staðsetningu á geirvörtu sagði Sigurður að það væri ekki alveg víst. Hún hafi getað færst úr stað í kjölfar ýmissa atburða sem hugsanlega hafi gerst eftir aðgerð svo sem eins og örvefsmyndunar, blæðingar, sýkingar og ýmiss konar fylgikvilla. Aðspurður sagði Sigurður að Ólafur Einarsson skæri sig síður en svo úr hópi annarra lækna varðandi þann fjölda kvartana og kæra er bærust landlæknisembættinu. Miðað við þær upplýsingar sem embættið hefði væri ferill Ólafs góður sem læknis og skurðlæknis. Hannes Pétursson prófessor, er situr í réttarmáladeild læknaráðs, gaf skýrslu fyrir rétti 18. desember 2002. Hann sagðist ekki hafa fjallað um mál það er hér væri fyrir dómi. Sökum vanhæfis sérfræðinga í lýtalækningum hér á landi á þeim tíma til að fjalla um þetta sérstaka mál hafi Ottó Guðjónsson lýtalæknir, sem þá starfaði erlendis, verið fenginn til að taka sæti í réttarmáladeild við umfjöllun þess og átt mestan þátt í álitsgerðinni ásamt formanni réttarmáladeildar. Sjálfur kvaðst Hannes hafa verið fjarverandi þegar læknaráð fundaði um málið 14. og 18. desember 2001 og ekki tekið þátt í umsögninni. Hafi hann þó samþykkt að gera álit Ottós að áliti réttarmáladeildar. Kvað hann sérgrein sína vera geðlækningar en þetta hafi verið mjög sértækt mál sem nauðsynlegt hefði verið að fá sérfræðing í lýtalækningum til að fjalla um. Ottó Guðjónsson lýtalæknir gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann hefði komið að þessu máli með þeim hætti að landlæknir hafi haft samband við hann og beðið hann um umsögn um málið. Kvaðst hann hafa fengið stóran bunka af skjölum sendan til sín varðandi það. Ekki geti hann þó fullyrt að öll málskjölin á þeim tíma hafi verið í bunkanum. Hafi hann lesið yfir og kynnt sér þessi skjöl og varið til þess þremur kvöldum, samtals á tólf til fimmtán tímum. Hann kvaðst ekki muna nákvæmlega hvenær hann hefði fengið þessi gögn send en taldi að hann hafi fengið þau með nægilegum fyrirvara til að svara beiðninni á tilsettum tíma. Hann kvaðst aðspurður muna eftir að hafa fengið í hendur sjúkraskrá frá lýtalækningadeild Landspítalans [varðandi stefnanda] um tímabilið 22. ágúst 1991 til 30. ágúst 1991. Þá kvaðst hann muna eftir að hafa fengið í hendur sjúkraskrár frá göngudeild spítalans varðandi stefnanda tímabilið 26. september 1991 til 1. október 1991. Einnig kvaðst hann muna eftir að hafa séð sjúkraskrá varðandi stefnanda tímabilið 25. ágúst 1992 til 27. ágúst 1992. Hann kvaðst ekki muna hvort hann hefði séð vottorð frá Ólafi Pétri Jakobssyni lækni ásamt fylgiskjölum, sem fram kemur á dskj. nr. 43, en sagðist muna að hann hafi lesið álitsgerð frá Ólafi en ekki hvort hún hafi verið samhljóða dskj. nr. 43. Lagt var fyrir Ottó dskj. nr. 46, sem er matsgerð Júlíusar Valssonar læknis og Sigurjóns Sigurðssonar læknis varðandi stefnanda frá 12. mars 1997. Aðspurður kvaðst hann hafa lesið yfir stóran bunka af skjölum varðandi málið og kvaðst ætla að þetta hafi verið eitt af þeim. Þá var lagt fyrir Ottó dskj. nr. 50 og dskj. nr. 52, sem eru matsgerð Högna Óskarssonar geðlæknis varðandi stefnanda frá 20. september 1997 og 12. desember 1997. Kvaðst Ottó hafa séð bréf og álitsgerð frá Högna en ekki muna hvort það hefði verið samhljóða dskj. nr. 50 og dskj. nr. 52. Þá hafi hann séð og kynnt sér álitsgerð landlæknis varðandi málið frá 9. júní 2000 sem fram kemur á dskj. nr. 186. Aðspurður kvaðst Ottó muna að hann hafi ekki verið sammála því áliti sem hann kynnti sér frá Ólafi Pétri Jakobssyni lækni varðandi málið en nákvæmlega hvað þeim bar í milli kvaðst hann ekki muna lengur. Kvaðst hann hafa myndað sína eigin skoðun eftir að hafa farið yfir álit Ólafs og önnur gögn málsins. Hann álíti að ekki hafi verið um mistök í læknisaðgerðinni að ræða heldur hafi stefnandi eftir aðgerðir átt við vandamál að stríða og aukaverkanir sem borið hefðu að án þess að greint verði að ranglega hafi verið staðið að aðgerðinni. Lagt var fyrir Ottó dskj. nr. 199, þar sem fram kemur álit læknaráðs varðandi atriði er Hæstiréttur hafði tilgreint í dómi sínum um málið 29. mars 2001 að nauðsynlegt væri að fá frá læknaráði áður en dómur gengi í héraði. Kvað hann álitið meira og minna vera samhljóma greinargerð sem hann hefði skilað til landlæknis. Kvaðst hann hafa verið staddur erlendis þegar hann samdi hana og verið einn í ráðum um efnistök og niðurstöðu. Aðspurður staðfesti Ottó að vera þeirrar skoðunar að með því að stefnanda hafi verði afhentur upplýsingabæklingur um aðgerðina þar sem m.a. er minnst á helstu áhættur aðgerðarinnar og fengið munnlegar skýringar frá Ólafi Einarssyni lækni og öðrum áður en aðgerðin fór fram hafi ráðgjöf verið viðhlítandi. Hann taldi og að ráðgjöf varðandi áhættu af reykingum hafi verið fullnægjandi. Aðspurður um hvort brjóstvartan á vinstra brjósti stefnanda hafi verið sett á réttan stað eða ekki svaraði Ottó að hann hefði ekki skoðað það sérstaklega, en hafa verði í huga að matsatriði sé hvar varta er sett á brjóst, reikna þurfi með ákveðum breytingum eftir aðgerð því að þær færist svolítið til. Því miður hafi í tilfelli stefnanda verið vandræði á ferð, allt hafi því breyst. Ekki sé hægt að reikna með að vartan verði nákvæmlega þar sem hún er sett við skurðaðgerðina, það sígi í brjóstinu og vartan lyftist aðeins á nokkrum mánuðum eftir aðgerð. V. Niðurstaða: Rakið hefur verið að stefnandi gekkst undir brjóstaminnkunaraðgerð 23. ágúst 1991 á Landspítalanum og greint frá aðdraganda þess og eftirmálum, en stór og þung brjóst samfara vöðvabólgu í herðum og upp í háls höfðu þjakað stefnanda fyrir aðgerðina. Ekki er deilt um að í kjölfar aðgerðarinnar fékk stefnandi drep í stóran hluta hægri geirvörtu og gera þurfti margar lýtaaðgerðir í framhaldi af upphaflegri aðgerð, en deilt er um hvort valdið hafi saknæm og bótaskyld mistök sem stefndi beri ábyrgð á. Stefnandi tilgreinir málsástæður sínar í fimm liðum sem stefndi svarar hverjum fyrir sig svo sem greint hefur verið frá. Verður því fjallað um lagasjónarmið og röksemdir fyrir ályktun dómsins í sömu röð. Í fyrsta lagi telur stefnandi að skort hafi ráðgjöf og samráð við stefnanda fyrir aðgerð. Þessu var andmælt af hálfu Ólafs Jóns Einarssonar lýtalæknis Kvaðst hann hafa sagt stefnanda frá hugsanlegum vandamálum er gætu komið upp við lýtalæknisgerð svo sem hann geri alltaf er leitað sé til hans um slíkar aðgerðir. Hann hafi greint stefnanda frá því að alltaf væri hætta á blæðingum og sýkingum við skurðaðgerð en sérstæð hætta við brjóstaaðgerð væru þó blóðrásartruflanir og drep. Stefnandi viðurkennir að hafa fengið fyrir aðgerðina til yfirlestrar upplýsingabækling lýtalækningadeildar um brjóstaminnkunaraðgerðir, en þar segir m.a.: „Hugsanleg vandamál eftir aðgerð eru blæðingar, sýking og blóðrásartruflun í geirvörtu, sem leitt geta til dreps í hluta eða allri geirvörtunni. Ekki er hægt að fyrirbyggja þessi vandamál með öllu heldur verður að taka á þeim ef þau koma upp.” Öllum sem komnir eru til vits og ára má ljóst vera að ekki er með öllu áhættulaust að ganga undir skurðaðgerð. Óhjákvæmilega getur skurðaðgerð valdið í örfáum tilvikum skaða sem ekki verður við ráðið þó að læknisfræðilega sé rétt staðið að verki. Verður því að álykta að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að ákvörðun hennar að fara að lokum í brjóstaminnkunaraðgerð hafi byggst á saknæmum skorti á upplýsingum frá stefnda. Í öðru lagi telur stefnandi að ekki hafi verið beitt réttri eða viðurkenndri aðferð við aðgerðina og/eða mistök hafi orðið í aðgerðinni. Af hálfu stefnda er því mótmælt að ekki hafi verið beitt réttri og viðurkenndri aðferð enda hafi enginn þeirra sérfræðinga sem komið hafi að málinu staðfest slíkt. Sérfróðum meðdómendum virðist sem að aðferðinni sem beitt var í þessu tilfelli hafi verið útfærsla á aðgerð sem kennd er við Strömbeck. Er geirvartan þá látin lifa á blóðflæði sem berst um einn vefjastilk frá miðlægu hlið brjóstsins (medially based monopedicle flap). Aðferðina telja þeir viðurkennda og mikið notaða. Hér hafi verið um eðlilegt val við brjóstaminnkun hjá ungri konu að ræða þar sem ætla megi að máli skipti að halda tilfinningu í geirvörtu. Sérfróðum vitnum hafi líka borið saman um að þessi aðgerðartegund hafi ekki í för með sér aukna hættu á blóðrásartruflunum umfram aðrar aðferðir þar sem geirvartan er höfð á vefjastilk, en ekki fjarlægð að fullu og grædd á aftur. Þá hafi sérfræðingar talið eðlilegt, og ekki tengt sérstakri áhættu, að nota þessa aðferð við minnkun af því umfangi sem hér um ræðir, eða milli 500 og 600 grömm úr hvoru brjósti. Sérfróðir meðdómendur telja að ýmsar aðferðir séu viðurkenndar og notaðar við brjóstaminnkun og fylgikvilli eins og blóðrásartruflun að því marki að valdi vefjadrepi sé vel þekkt eftir allar viðurkenndar aðferðir til brjóstaminnkunar án þess að um greinanleg mistök í framkvæmd aðgerðar sé að ræða auk þess sem ekkert sem komi fram í aðgerðarlýsingu bendi til annars en að aðgerðin hafi verið framkvæmd á hefðbundinn hátt. Verður því ályktað að engin stoð sé fyrir því að ekki hafi verið beitt viðurkenndri eða viðeigandi læknisaðferð. Sérfróðir meðdómendur telja að ekki verði greint af gögnum málsins og framburði vitna að það magn af vef sem var fjarlægt hafi verið það mikið að ætla megi að það hafi aukið að marki fylgikvillahættu svo sem haldið er fram af stefnanda en andmælt er af hálfu stefnda. Þá telja þeir að þær alvarlegu afleiðingar sem urðu á hægra brjósti verði ekki raktar til þess að óeðlilega mikill brjóstvefur hafi verið fjarlægður. Er því hafnað að stefnandi hafi sannað að mistök hafi orðið að þessu leyti í aðgerðinni. Í þriðja lagi byggir stefnandi á því að eftirliti og meðferð eftir aðgerðina af hálfu starfsmanna stefnda hafi verið verulega ábótavant. Strax í kjölfar aðgerðarinnar hafi farið að blæða inn á hægra brjóst stefnanda og hafi sogkerar ekki náð að hreinsa blóðið út. Þessu er vísað á bug af hálfu stefnda. Lýsing í sjúkraskrá á ástandi kera, frá því skurðaðgerð lauk og þar til kerar voru fjarlægðir 26. ágúst, þykir ekki benda til þess að kerar hafi ekki staðist álag með eðlilegum hætti að mati sérfróðra meðdómenda. Þá kemur fram í áliti læknaráðs að gögn málsins bendi ekki til þess að keri hafi stíflast í hægra brjósti stefnanda fljótlega eftir aðgerðina. Í ljósi þessa m.a. verður ekki séð að nauðsyn hafi borið til þess að gera aðra aðgerð til þess að stöðva blæðingu, þar sem blæðing fór minnkandi og ekki annað séð en að kerar virkuðu sem skyldi. Stefnandi ber að tvisvar sinnum á fyrstu dægrum eftir aðgerð hafi verið hleypt blóði eða blóðsegum úr hægra brjósti. Hafi það verið gert á legudeildinni af tveimur mismunandi sérfræðingum. Þar sem engar upplýsingar í sjúkraskýrslu, sem skráðar eru jafnóðum í sjúkralegunni, geta um þessi inngrip og ekki verður með óyggjandi hætti dregin ályktun af framburði vitna um þetta, verður að teljast ósannað að þessi inngrip hafi átt sér stað með þeim hætti sem stefnandi lýsir. Samkvæmt skráningu í hjúkrunarskýrslu var fylgst reglulega með þeim þáttum sem bent gátu til blóðrásartruflunar samkvæmt almennt notuðum skilmerkjum, að mati sérfróðra meðdómenda. Ekkert kemur fram í þeirri skráningu sem styður að merki um að blóðrásartruflun og yfirvofandi vefjadrep hafi verið greinanleg fyrr en 27. ágúst að skráð er „efri hluti vörtu bláleitur.” Þann sama dag var annað hvert hefti fjarlægt úr sárum á hægra brjósti, gefið innrennslislyf (Macrodex) til að auka háræðablóðflæði og raförvun (TNS) beitt í sama skyni. Þann 28. ágúst var síðan gerð enduraðgerð þar sem 100 til 200 ml af blóðstorku var hleypt út úr hægra brjósti. Ákvarðanir um alla þessa meðferðarþætti voru teknar af sérfræðingi og er þetta, að áliti sérfróðra meðdómenda, eðlileg og viðurkennd meðferð. Ekki verður ályktað að of seint hafi verið gripið til aðgerðar til að hleypa út blóðstorku og þannig reyna að auka gegnumstreymi blóðs um brjóstvefinn svo sem gert var. Þetta er slíkt álitaefni, að sögn sérfróðra meðdómenda, að mælitækni af öllum gerðum hefði ekki tekið endanlega af skarið við þá ákvarðanatöku. Almennt verði að byggja á mati þess læknis sem til slíkra aðgerðar grípur. Læknar, sem ekki voru viðstaddir og ekki hafa annað við að styðjast en gögn þessa máls og framburð vitna og aðila, hafi ekki raunhæfar forsendur til að draga aðrar ályktanir. Mat læknis á blóðflæði sé mikilvægast. Við mat á merkjum um blæðingu inn í brjóst og myndun blóðgúlps séu að auki lögð til grundvallar einkenni sjúklings, og þá einkum verkir sem stafa af vefjaspennu. Blóðgúlpur, af því umfangi að valda blóðrásartruflun í brjóstinu, veldur verulegum einkennum sem ekki verður ætlað að farið hafi fram hjá læknum og reyndum hjúkrunarfræðingum á lýtalækningadeild þar sem fjöldi brjóstaminnkunaraðgerða er framkvæmdur. Greinargerð stefnanda og heimildum í sjúkraskrá ber ekki saman. Að minnsta kosti 5 hjúkrunarfræðingar skráðu færslur dagana 23. ágúst til 27. ágúst og hvergi er að finna ábendingu þar um að óeðlilega miklir verkir hafi þjáð stefnanda. Samkvæmt lyfjablaði var verkjalyfjagjöf minni en oftast er eftir brjóstaminnkunaraðgerðir fyrstu dægur eftir aðgerð, eða tveir verkjastílar að kvöldi aðgerðardags og engin verkjalyf fyrsta heila sólarhringinn eftir aðgerð. Sé reiknað með samtals tæplega 900 ml blóðtapi aðgerðarsólarhringinn (blæðing í aðgerð og skráð blæðing í sogkera) er blóðgildi 24. ágúst 1991 eðlilegt, að teknu tilliti til þynningaráhrifa af vökvagjöf í æð. Þetta blóðgildi styður heldur ekki að meiri háttar blóðsegasöfnun hafi þá átt sér stað í brjóstinu. Það magn blóðstorku sem hleypt var út úr hægra brjósti við aðgerðina 28. ágúst bendir heldur ekki til þess að um meiri háttar blóðgúlpsmyndun hafi verið að ræða á fyrsta sólarhring eftir aðgerð. Hvorki kemur fram í gögnum málsins né verður byggt á almennri reynslu af meðferð vefjadreps að hægt hefði verið að hafa áhrif á umfang drepsins í hægra brjósti með sértækum aðgerðum sem aðeins verði við komið á sjúkrahúsi. Þannig verður ekki fallist á að verulegar líkur séu á að takmarka hefði mátt drepið með því að seinka útskrift. Gegn mótmælum stefnda verður því samkvæmt framangreindu ekki fallist á að eftirlit hafi verið ónógt eða eftirmeðferð ófullnægjandi. Þótt litið sé fram hjá afleiðingum vefjadrepsins í hægra brjóstinu, telur stefnandi í fjórða lagi að útlitslegur árangur brjóstminnkunaraðgerðarinnar hafi verið óviðunandi og ekki í samræmi við óskir og væntingar stefnanda. Af hálfu stefnda er á hinn bóginn byggt á því að skurðaðgerðin hafi fram farið af læknisfræðilegum ástæðum, en stefnandi hafi þjáðst af vöðvabólgu og höfuðverkjum fyrir aðgerðina sem rakið hafi verið til of stórra brjósta. Þá hélt Ólafur Jón Einarsson lýtalæknir, er framkvæmdi aðgerðina, því fram fyrir rétti að hann hafi haft samráð við stefnanda eftir því sem hægt hefði verið um aðgerðina og þar með hve mikið yrði tekið af brjóstunum. Óumdeilt er að stærð og lögun brjóstsins og staðsetning geirvörtu eru þættir sem eru alfarið á valdi þess læknis sem brjóstaminnkunaraðgerð framkvæmir. Í umdeildu tilviki er ljóst að brjóst urðu lítil eftir aðgerðina - óháð drepinu í hægra brjósti - og talsvert minni en „medium” eða skálarstærð B eins og stefnandi segist hafa óskað eftir. Þykir sérfróðum meðdómendum ljóst að staðsetning vinstri geirvörtu hafi eftir aðgerðina verið óeðlilega hátt á brjóstinu miðað við almennt notuð viðmið og það hvar meginvefur brjóstsins var. Þó að örmyndun eftir aðgerð sé háð fjölmörgum þáttum sem ekki eru á valdi skurðlæknis, jafnvel þótt sár grói án fylgikvilla, þá verði að álykta að þessi staðsetning hafi leitt til annarrar aðgerðar sem ella hefði ekki verið þörf á. Verður fallist á að brjóstin hafi verið gerð minni en tæknilegar og heilsufarslegar ástæður gáfu tilefni til og staðsetning vinstri geirvörtu eftir aðgerðina 23. ágúst 1991 hafi verið óeðlilega há. Ályktað er að þessi vansmíð hafi valdið því að annarrar aðgerðar var þörf til að leiðrétta legu geirvörtu vinstra brjósts. Í fimmta lagi byggir stefnandi á því að húð hafi verið tekið á röngum stað til ígræðslu í aðgerðinni 25. september 1991 er valdi lýti. Af hálfu stefnda er hins vegar haldið fram að um venjulegan stað til húðtöku hafi verið að ræða er vel hafi hentað og ekki valdið lýti. Sérfróðir meðdómendur telja að engin efni hafi verið til að velja tökusvæðið rétt ofan við hné á utanverðum ganglim svo sem gert var. Venja sé að tökusvæðið sé á lítt áberandi stað við flutning á takmörkuðu magni af húð og er alfarið á valdi viðkomandi skurðlæknis að velja slíkan stað ef húðin er heilbrigð. Þetta staðarval geti naumast talist eðlilegt í ljósi þessa og hafi valdið óþarfalýti. Misræmis gætir í sjúkraskýrslum, vottorðum og öðrum málskjölum sem koma frá heilbrigðiskerfinu og lögð voru fram í máli þessu. Þetta misræmi veldur þó ekki því, að áliti dómsins, að álykta megi að drep í hægra brjósti stefnanda eftir aðgerðina hafi orsakast af mistökum við aðgerðina eða við eftirmeðferðina á stefnanda á sjúkrahúsinu. Ljóst er, og raunar ómótmælt, að afleiðingar skurðaðgerðarinnar 23. ágúst 1991 á heilsu og líðan stefnanda hafa verið miklar og langvarandi. Fjölmargar skurðaðgerðir og önnur meðferð hafa fylgt í kjölfarið. Samkvæmt framangreindu verður þó ekki talið að stefndi beri skaðabótaábyrgð á ætlaðri örorku stefnanda sem varð vegna dreps eftir aðgerðina eins og áður var greint frá. Á hinn bóginn verður talið að stefndi beri ábyrgð á að stefnandi þurfti að gangast undir aðgerð til að leiðrétta legu geirvörtu vinstra brjósts og að húð var tekið á röngum stað á stefnanda til ígræðslu í aðgerðinni 26. september 1991. Þykir stefnandi því eiga rétt á miskabótum að fjárhæð 500.000 krónur. Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir. Páll Þorsteinsson héraðsdómari og meðdómsmennirnir, Stefán Einar Matthíasson læknir og Þorvaldur Jónsson læknir, kveða upp dóminn. DÓMSORÐ: Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Jórunni Önnu Sigurðardóttur, 500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 29. júní 1995 til 29. júní 1999, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laganna frá þeim degi til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Málskostnaður fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með er talinn málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Róberts Árna Hreiðarssonar hdl., 1.000.000 krónur.
Mál nr. 817/2017
Vinnuslys Líkamstjón Skaðabætur Kjarasamningur
A slasaðist á baki þegar hann var við lyftingaræfingar í líkamsræktarstöð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem hann starfaði sem lögreglumaður. Hafði A verið á næturvakt umrætt sinn og fengið leyfi yfirmanns síns til að fara í líkamsræktarstöðina. Deildu aðilar um hvort Í bæri hlutlæga bótaábyrgð á tjóni A í skilningi lögreglulaga og kjarasamnings. Dæmt var að Í bæri skaðabótaábyrgð á þeim grundvelli og voru kröfur A teknar til greina. Til grundvallar niðurstöðu í málinu var lögð álitsgerð sérfræðings, en tekið var fram í dómi Hæstaréttar að Í hefði ekki freistað þess að fá álitinu hnekkt.
Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur BörkurÞorvaldsson og Benedikt Bogason og Eyvindur G. Gunnarsson prófessor.Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. desember 2017.Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms ogmálskostnaðar fyrir Hæstarétti.Svo sem greinir í hinumáfrýjaða dómi aflaði stefndi álitsgerðar 22. júní 2015 um líkamstjón sitt ísamræmi við samkomulag Landsambands lögreglumanna og ríkislögmanns. Í álitinuvar komist að þeirri niðurstöðu að tjónið yrði rakið til líkamsæfinga stefnda 23.nóvember 2011. Þar sem áfrýjandi hefur hvorki nýtt sér heimild til að beraálitið undir örorkunefnd, sbr. 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, né aflaðmatsgerðar eftir almennum reglum til að hnekkja því verður það lagt tilgrundvallar niðurstöðu í málinu, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 24. janúar2013 í máli nr. 542/2012. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti meðskírskotun til forsenda héraðsdóms verður hann staðfestur.Áfrýjanda verður gert aðgreiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð:Héraðsdómur skal vera óraskaður.Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiðistefnda, A, 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15.nóvember 2017Mál þetta, sem dómtekið var 20. október 2017, erhöfðað með stefnu áritaðri um birtingu 9. janúar 2017. Stefnandi er A, […], enstefndi er íslenska ríkið.Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 2.832.508krónur með 4,5% ársvöxtum af 411.395 krónum frá 23. nóvember 2011 til 23.febrúar 2012 og af 2.832.508 krónum fráþeim degi til 10. júlí 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganr. 38/2001 af 2.835.758 krónum frá 10.júlí 2016 til greiðsludags, allt að frádregnum 583.294 krónum sem greiddar voruþann 9. júlí 2016.Þá krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða stefnandamálskostnað, auk virðisaukaskatts. Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda en til vara lækkunar. Þá ereinnig krafist málskostnaðar að mati dómsins en til vara að hann verði látinnniður falla.IIHelstu málsatvik eru óumdeild. Stefnandi er lögreglumaður og starfarsem slíkur hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Stefnandi var á næturvakt á lögreglustöðinnivið Hverfisgötu í Reykjavík sem hófst kl. 23.00 þann 22. nóvember 2011 og laukkl. 07.50 daginn eftir. Á vaktinni, skömmu eftir miðnætti, óskaði stefnandieftir því við yfirmann sinn, Guðmund Inga Rúnarsson, að fá að fara ílíkamsræktaraðstöðuna á lögreglustöðinni og fékk leyfi yfirmannsins til þess. Ímálinu liggur frammi upplýsingaskýrsla Guðmundar Inga þar sem þetta erstaðfest.Stefnandi lýsti því fyrir dóminum að hann hefði hafið lyftingaræfingarog hafi verið að gera réttstöðulyftu þegar hann fann skyndilega fyrir miklumverk í baki. Hann varð að hætta æfingum þegar í stað og fann strax fyrir miklumdofa og verkjum í baki sem leiddu niður í vinstri fót og ökkla. Stefnandi fann áfram fyrir verkjum næstu daga en leitaði þó ekki straxtil læknis þar sem hann taldi að verkirnir myndu lagast. Það hafi þó ekki gerstog er komið fram í gögnum málsins að stefnandi fór í segulómskoðun áLandspítalanum þann 15. desember 2011. Í ljós kom brjósklos á milli V.mjóhryggjaliðar og spjaldhryggjar. Stefnandi aflaði vottorðs Nönnu Kristinsdóttur heimilislæknis, dagsett16. desember 2011, vegna fjarvista frá vinnu þar sem fram kemur að stefnandihafi verið óvinnufær með öllu frá slysdegi um óvissan tíma. Þá liggur frammi ímálinu vottorð Leifs N. Dungal heimilislæknis, dagsett 17. janúar 2012, um aðstefnandi hafi verið óvinnufær með öllu vegna vinnuslyss frá slysdegi.Stefnandi mun hafa hafið störf að nýju í janúar 2012 en hann kveðst þó áframhafa verið með verki. Tjón stefnanda var metið með örorkumatsgerð dr. Atla Þórs Ólasonar,sérfræðings í bæklunarskurðlækningum, dagsettu 22. júní 2015. Munmatsgerðarinnar hafa verið aflað í samræmi við samkomulag Landsambandslögreglumanna og ríkislögmanns um að afla örorkumats eins læknis í málum semþessu. Samkvæmt matsgerðinni var stefnandi 100% óvinnufær vegna slyssins fráslysdegi til 16. janúar 2012. Tímabil þjáningabóta án rúmlegu var talið þaðsama og óvinnufærni og varanlegur miski metinn 3%. Varanleg örorka vegnaslyssins var einnig talin 3%. Heilsufar stefnanda var talið stöðugt þann 23.febrúar 2012.Fyrir liggur að Vátryggingafélag Íslands hf. greiddi stefnandaslysabætur úr launþegatryggingu þann 9. júlí 2016 að fjárhæð 583.294 krónur.Með bréfi, dagsettu 10. júní 2016, krafðist stefnandi bóta úr hendi stefnda meðvísan til 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og kjarasamnings Landsambandslögreglumanna og stefnda, samtals að fjárhæð 3.020.349 samkvæmt eftirfarandisundurliðun:Þjáningabætur skv. 3. gr. skbl. kr. 100.100,- Varanlegur miski skv. 4. gr. skbl. (10.376.500 x 3 stig) kr. 311.295,-Varanleg örorka skv. 5.-8. gr. skbl. (6.139.990 x 12,701 x 3%) kr. 2.339.520,-Frádráttur vegna greiðslu úr slysatryggingu kr. 583.294,-Vextir skv. 16. gr. skaðabótalaga kr. 579.251,-Innheimtuþóknun kr. 220.546,-VSK kr. 52.531,-Samtals: kr. 3.020.349,-Til viðbótar krafðist stefnandi greiðslu útlagðs kostnaðar að fjárhæð3.250 krónur. Með bréfi til lögmanns stefnanda, dagsettu 31. ágúst 2016, hafnaðistefndi bótaskyldu með þeim rökum að stefnandi hefði ekki slasast við framkvæmdlögreglustarfa. Stefnandi höfðaði því mál þetta 9. janúar 2017, svo sem áður er getið.IIIStefnandi byggir kröfur sínar á því að stefndi beri skaðabótaábyrgð áafleiðingum slyss hans þann 23. nóvember 2011 á grundvelli 30. gr. lögreglulaganr. 90/1996 og kjarasamnings Landsambands lögreglumanna og fjármálaráðherrafyrir hönd stefnda.Stefnandi byggir í fyrsta lagi á því að í 30. gr. lögreglulaga sékveðið á um að ríkissjóður skuli bæta lögreglumönnum líkamstjón og munatjón semþeir verði fyrir vegna starfs síns. Ákvæðið feli í sér hlutlæga bótaábyrgðstefnda á líkams- og munatjóni lögreglumanna sem þeir verða fyrir á vinnutímaog við öll störf sín. Stefnandi vísar til þess að þessi skýring á ákvæðinu hafiverið staðfest í dómi Hæstaréttar Íslands í máli réttarins nr. 365/2000.Stefnandi telur hina hlutlægu ábyrgð ákvæðisins fela í sér að stefndisé skaðabótaskyldur vegna alls líkamstjóns sem lögreglumenn verða fyrir ívinnutíma. Samkvæmt ólögfestum meginreglum skaðabótaréttar feli hlutlæg ábyrgðí sér skilyrðislausa bótaábyrgð, án tillits til sakar. Með hliðsjón af orðalagi30. gr. lögreglulaga telur stefnandi að skýra verði ákvæðið þannig að meðorðalaginu „vegna starfs síns“ sé átt við öll tjónstilvik sem eigi sér stað ámeðan lögreglumaður er við störf, óháð tegund tjóns eða orsök.Þá bendir stefnandi á að samkvæmt c. lið 2. mgr. 28. gr. lögreglulagaskuli lögreglumaður vera svo líkamlega á sig kominn að hann geti sinntembættinu. Vegna eðlis starfs lögreglumanna, sbr. fyrrnefnda 28. gr., sélögreglumönnum nauðsynlegt að stunda líkamsrækt og því sjái lögregluembættinþeim fyrir íþróttaaðstöðu. Jafnframt fari líkamsræktin iðulega fram ávinnutíma. Einnig séu laun lögreglumanna m.a. ákveðin með tilliti tillíkamlegrar getu sem mæld sé með þrekprófum. Fyrir liggi að stefnandi hafi slasast á vinnutíma við lyftingaæfingarí sérútbúinni lyftingaaðstöðu á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í Reykjavík.Þegar af þeirri ástæðu að stefnandi hafi slasast í vinnutíma, telur stefnandistefnda bera hlutlæga ábyrgð á tjóni hans. Þar að auki, í ljósi skyldulögreglumanna til að halda sér í góðu líkamlegu formi, gefi augaleið aðlíkamstjón sem verði við æfingar á lögreglustöðinni við Hverfisgötu á vinnutímateljist líkamstjón vegna starfs lögreglumanna í skilningi 30. gr. lögreglulaganr. 90/1996. Því sé stefndi skaðabótaskyldur vegna tjóns stefnanda.Í öðru lagi byggir stefnandi á því, að í gildandi kjarasamningiLandsambands lögreglumanna og ríkissjóðs, dagsettum 30. apríl 2005, með síðari breytingum og framlengingum meðkjarasamningum og gerðardómum, sé kveðið á um að lögreglumenn eigi rétt tilbóta fyrir meiðsli og tjón sem þeir verði fyrir vegna starfs síns. Nánartiltekið segi í grein 7.5 í kjarasamningnum: „7.5.1 Lögreglumenneiga rétt á bótum fyrir meiðsli og tjón sem þeir verða fyrir vegna starfs síns.7.5.2 Lögreglumennskulu teljast að störfum, auk venjulegrar vinnuskyldu, þegar þeir eru á leið íeða úr vinnu, sitja lögregluskóla og lögreglunámskeið eða stundalögregluæfingar, íþróttir og kappleiki á vegum félaga lögreglumanna. Hið samagildir ef þeir ráðast í lögregluaðgerðir að eigin frumkvæði sem lögreglumenn.“Stefnandi telur að stefndi sé bundinn af umræddum kjarasamningi ogskylt að efna hann samkvæmt orðanna hljóðan á grundvelli meginreglna samninga-og vinnuréttar, m.a. reglunnar um efndir innatura. Framangreint kjarasamningsákvæði sé ítrekun á hlutlægri ábyrgð stefndasamkvæmt 30. gr. lögreglulaga á líkams- og munatjóni lögreglumanna vegna starfsþeirra. Hafi það m.a. verið tilgangur umrædds ákvæðis að skilgreina meðítarlegri hætti gildissvið hinnar hlutlægu ábyrgðar samkvæmt 30. gr.lögreglulaga. Í því sambandi hafi verið litið til dómaframkvæmdar og venju semskapast hafi um skýringu ákvæðisins við uppgjör slysabóta vegna slysalögreglumanna. Stefnandi telur engan vafa leika á að tjón hans falli undirskilgreiningu á bótaskyldu tjóni í grein 7.5.2 í kjarasamningum og vísarsérstaklega til þess, að stefnandi hafi slasast í vinnu og á vinnustað sínum.Hann hafi því verið að sinna vinnuskyldum sínum í skilningi ákvæðisins. Þáliggi fyrir að þegar stefnandi slasaðist, hafi hann verið að stunda íþróttir,nánar tiltekið réttstöðulyftu, en íþróttir á vegum lögreglunnar séu sérstaklegatilgreindar sem hluti af störfum lögreglumanna í grein 7.5.2. Því eigistefnandi rétt á bótum samkvæmt grein 7.5.1. í kjarasamningnum. Stefnandi vísar einnig til þess að til frekari fyllingar ákvæðumfyrrnefnds kjarasamnings lögreglumanna hafi verið gerðir stofnanasamningarmilli einstakra lögregluembætta og stéttarfélaga lögreglumanna. Meðal þeirrasamninga sé stofnanasamningur lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu ogLögreglufélags Reykjavíkur, dagsettur 14. febrúar 2011, um vinnutíma ásólarhringsvöktum. Í 9. gr. samningsins sé vísað til yfirlýsingarlögreglustjórans um líkamsrækt og þjálfun lögreglumanna í vinnutíma. Í umræddriyfirlýsingu í viðauka V við samninginn segi eftirfarandi:„LRH leggur áherslu á að lögreglumenn séu á hverjum tíma færir um aðsinna öllum þeim verkefnum sem upp koma í starfi. Embættið hvetur því tillíkamsþjálfunar en einnig til annarra æfinga eins og skotæfinga, handtöku- ogsjálfsvarnaræfinga svo dæmi séu nefnd. Lögreglumönnum skal því gefast kostur á að stunda slíkar æfingar ívinnutíma eftir því em verkefnastaða leyfir og samkvæmt heimild frá stjórnandahverju sinni.“Stefnandi telur ljóst af tilvitnuðu samkomulagi að beinlínis sé ætlasttil þess af hálfu stefnda og embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu aðlögreglumenn stundi líkamsrækt og að slík líkamsrækt fari fram á vinnutíma ogsé þar með hluti af störfum lögreglumanna. Þegar ákvæði greinar 7.5.1 íkjarasamningi lögreglumanna og viðauki V í stofnannasamningum séu skýrð saman,sé ljóst að lögreglumenn eigi rétt á bótumvegna líkamstjóns og slysa sem þeir verða fyrir við slíkar æfingar ávinnutíma.Þá byggir stefnandi á því að skýra verði ákvæði kjarasamningslögreglumanna með hliðsjón af bókunum, sem gerðar hafi verið samhliða gerðkjarasamninga, og samningum um framlengingu á kjarasamningum. Í bókun 2 meðsamkomulagi ríkissjóðs og Landsambands lögreglumanna um framlengingu ákjarasamningi frá 22. október 2008, sem enn fylgi núgildandi kjarasamningi, sékveðið á um að vegna eðlis lögreglustarfa sé lögreglumönnum nauðsynlegt að veraí góðu líkamlegu formi og hafa tækifæri til að viðhalda því. Þá segir að það sésameignlegt markmið aðila, þ.e. stefnda og Landsambands lögreglumanna, aðlögreglumenn stundi reglubundna líkamsþjálfun og uppfylli tilteknar samræmdarkröfur sem taki mið af því við hvaða aðstæður þeir starfa. Samkvæmt bókuninnihafi lögregluembættunum, í samráði við lögreglumenn, verið falið að útfæra meðhvaða hætti lögreglumönnum yrði auðveldað að sinna þessari þjálfun. Í fylgiskjali 2 með samkomulaginu sé að finna nánari útfærslu á bókun2 og þar sé kveðið á um að lögreglumenn eigi rétt á sérstakri launagreiðslu,svokölluðu þrekálagi, standist þeir þrekpróf. Í reglum Lögregluskóla ríkisinsfrá 2009 sé kveðið á um útfærslu á þrekprófi lögreglumanna en það sé í fimmhlutum sem reyni á styrk og þol lögreglumanna. Nánar tiltekið sé prófað íbekkpressu, hnébeygju, niðurtogi, uppsetum, hlaupi og sundi. Stefnandi byggir áþví að lyftingaæfingar lögreglumanna á vinnutíma séu hluti af líkamsþjálfunsamkvæmt kjarasamningi og undirbúningi lögreglumanna undir þrekpróf og teljistþar af leiðandi hluti af störfum þeirra. Fyrir liggi að þegar stefnandi slasaðist hafi hann verið ílyftingaaðstöðu á vinnustað sínum á vinnutíma að uppfylla fyrrnefndar kröfursem til hans séu gerðar um að viðhalda góðu líkamlegu ástandi. Þá hafistefnandi verið að undirbúa sig undir kjarasamningsbundið þrekpróf sem hafiverið komið á fót af lögregluembættunum og stefnda gagngert til að stuðla aðbættu líkamlegu ástandi lögreglumanna. Stefnandi telur því ótvírætt að hannteljist hafa verið við störf umrætt sinn í skilningi grein 7.5.1 íkjarasamningnum þegar hann slasaðist. Með vísan til framangreinds telurstefnandi að tjón hans sé bótaskylt úr hendi stefnda á grundvelli kjarasamningsins.Í þriðja lagi byggir stefnandi á því að gögn málsins og yfirlýsingaraf hálfu embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu beri með sér aðembættið hafi litið svo á að stefnandi hafi verið við vinnu sem lögreglumaður ískilningi 30. gr. lögreglulaga og kjarasamnings lögreglumanna þegar hannslasaðist. Í tilkynningu til Sjúkratrygginga Íslands, dagsettri 8. janúar 2013,sem undirrituð sé af fulltrúa starfsmannahalds lögreglustjórans áhöfuðborgarsvæðinu, komi fram að stefnandi hafi slasast „við vinnu“ og hafislysstaður verið tilgreindur á vinnustað hans að Hverfisgötu 115 í Reykjavík.Sama gildi um tilkynningu embættisins til Vinnueftirlits ríkisins en þar séslys stefnanda sagt hafa átt sér stað í vaktavinnu. Með hliðsjón af þessum yfirlýsingumvinnuveitanda stefnanda sé ótvírætt að stefnandi hafi verið við vinnu semlögreglumaður þegar slysið varð.Í fjórða lagi byggir stefnandi á því að stefndi hafi um árabilviðurkennt bótaskyldu á grundvelli 30. gr. lögreglulaga og greinar 7.5 í kjarasamningilögreglumanna vegna slysa sem lögreglumenn hafa orðið fyrir á íþróttaæfingum. Íþeim tilvikum hafi einu gilt hvort um slys við lyftingaæfingar, knattspyrnu eðaaðra íþróttaiðkun hafi verið að ræða. Með því hafi stofnast venja um skýringu áákvæðinu og túlkun aðila á gildissviði þeirra og geti stefndi ekki vikið fráslíkri venjuhelgaðri framkvæmd við uppgjör bótamála lögreglumanna, án skýrrarlagaheimildar eða breytingar á ákvæðum kjarasamninga. Stefndi sé því bundinn affyrri framkvæmd sinni og skýringu á hinum umdeildu ákvæðum en það leiði tilbótaskyldu stefnda á tjóni stefnanda. Í fimmta lagi hafnar stefnandi þeirri málsástæðu stefnda að bótaábyrgðsamkvæmt 30. gr. lögreglulaga og grein 7.5 í kjarasamningi lögreglumanna sébundin við „framkvæmd lögreglustarfa“. Slys stefnanda hafi átt sér stað þegarhann teljist hafa verið við störf sem lögreglumaður, svo sem þau séu skilgreindí lögum og kjarasamningi. Þá bendir stefnandi á að hugtakið „framkvæmdlögreglustarfa“ sé hvergi skilgreint í lögum eða kjarasamningi og því sé óljósttil hvers stefndi vísi með því. Óljós afstaða stefnanda um það hvað teljistlögreglustörf og hvað ekki, sé því haldlaus og feli í sér verulega þrengingu ágildissviði 30. gr. lögreglulaga, án stoðar í orðalagi ákvæðisins eðakjarasamningi. Þá sé engan stuðning fyrir slíkri þrengingu að finna ístofnannasamningum eða dómaframkvæmd.Stefnandi byggir ísjötta lagi á því að þar sem 30. gr. lögreglulaga feli í sér lögboðna hlutlægabótaábyrgð, eigi reglur vátryggingaréttar ekki við um slys stefnanda. Þettataki m.a. til slysahugtaksins og reglna um óhappatilvik. Þá eigi reglur umeigin sök ekki við í málinu, sbr. einnig reglu 23 gr. a. í skaðabótalögum nr.50/1993. Því telur stefnandi að allt tjón, sem sannanlega megi rekja til starfsstefnanda, falli undir ákvæðið, þ.m.t. líkamstjón eins og álagsmeiðsli ogbrjósklos sem talin séu afleiðinglíkamlegs álags í starfi. Loks telurstefnandi að orsakatengsl milli slyssins og þess líkamstjóns, sem krafist sébóta fyrir, séu sönnuð með matsgerð matsmanns og læknisvottorði Leifs Dungal,dagsettu 23. janúar 2012, þar sem framkomi að brjósklos stefnanda verði rakið til tognunar í baki í líkamsrækt. Að öllu framangreinduvirtu telur stefnandi ótvírætt og fullsannað að hann hafi verið við vinnu ískilningi 30. gr. lögreglulaga og greinar 7.5 í kjarasamningi Landsambandslögreglumanna og stefnda og því beri stefndi hlutlæga bótaskyldu á líkamstjónihans. Stefnukrafanbyggist á niðurstöðu örorkumatsgerðar dr. Atla Þórs Ólasonar, dagsettri 22. júní 2015. Stefnandi vísar til þess að hefð hafi verið fyrirþví, með fullu samþykki stefnda, að afla mats eins læknis á afleiðingum slysalögreglumanna og hafi uppgjör á slysabótum á grundvelli lögreglulaga iðulegabyggst á slíkum mötum. Þá byggir stefnandi kröfur sínar um skaðabætur ogfjárhæð bóta á ákvæðum 1.-7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.) ÞjáningabæturStefnandi styðurkröfu sína um þjáningabætur við 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmtmatsgerð hafi stefnandi veikur, án rúmlegu, frá 23. nóvember 2011 til 16.janúar 2012 eða í 55 daga. Þjáningabætur nemi því 100.100 krónum (55x1.820). 2) Varanlegur miskiKröfu um bæturvegna varanlegs miska styður stefnandi við 4. gr. skaðabótalaga. Samkvæmtfyrirliggjandi matsgerð sé varanlegur miski stefnanda af völdum slyssins metinn3 stig. Miskabótafjárhæð, með vísan til 2. mgr. 4. gr. skaðabótalaga og aldursstefnanda á slysdegi, nemi 10.376.500 krónum. Vegna þessa þáttar krefjiststefnandi því greiðslu á samtals 311.295 krónum (10.376.500 x 3 stig).3) Varanleg örorka.Kröfu um bæturvegna varanlegrar örorku reisir stefnandi á 5.-7. gr. skaðabótalaga. Samkvæmtfyrirliggjandi matsgerð sé varanleg örorka stefnanda vegna slyssins, samkvæmt5. gr. skaðabótalaga, metin 3%. Með vísan til aldurs stefnanda á þeim degiþegar heilsufar hans í kjölfar slyssins teljist stöðugt, sé margfeldisstuðullsamkvæmt 6. gr. skaðabótalaga 12,701. Um tekjuviðmið sé byggt á 1. mgr. 7.gr. skaðabótalaga og miðað við launatekjur stefnanda í þrjú ár fyrir slysið,uppreiknaðar miðað við launavísitölu að viðbættu 11,5% framlagi í lífeyrissjóð, sbr. 1. mgr. 7. gr. Tekjur stefnanda árin fyrir slyshafi verið 6.038.937 krónur 2009, 6.531.220 krónur 2010 og 5.849.815 krónur2010. Uppreiknaðarviðmiðunartekjur stefnanda, miðað við framagreindar forsendur, nemi 6.354.127krónum. Bætur fyrir varanlega örorku reiknist því 2.421.113 krónur(6.354.127x12,701x3%).4) Útlagður kostnaður.Kröfu vegna útlagðs kostnaðar reisir stefnandi á 1. gr. skaðabótalaganr. 50/1993. Útlagður kostnaður sé tilkominn vegna öflunar skattframtala frá Ríkisskattstjóra en þau hafi veriðstefnanda nauðsynleg til sönnunar tjóns síns og til rökstuðnings krafna sinna.Útlagður kostnaður stefnanda nemi samtals 3.250 krónum. Samtals nemistefnufjárhæð því 2.832.508 krónum (100.100+311.295+2.421.113 +3.250).Stefnandi byggirvaxtakröfu sína á 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga. Hann vísar til þess aðsamkvæmt ákvæðinu beri bætur vegna þjáninga og varanlegs miska 4,5% ársvextifrá slysdegi 23. október 2011 en bætur vegna varanlegrar örorku beri 4,5%ársvexti frá þeim degi þegar heilsufar stefnanda í kjölfar slyssins teljiststöðugt, eða frá 23. febrúar 2015.Um dráttarvextivísar stefnandi til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.Upphafstími dráttarvaxta miðist við þann dag þegar mánuður hafi verið liðinnfrá því að kröfubréf var sent stefnda, eða við þann 10. júlí 2016, sbr. 9. gr.vaxtalaga.Stefnandi kveðsthafa fengið greiddar bætur frá Vátryggingafélagi Íslands hf. að fjárhæð 583.294 krónur þann 9.júlí 2015 vegna slysatryggingar lögreglumanna. Sú fjárhæð komi til frádráttarkröfu stefnanda samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Stefnandi hafi hinsvegar ekki átt rétt á greiðslu örorkubóta frá Sjúkratryggingum Íslands þar semmetin örorka sé undir 10%, sbr. 6. mgr. 34. gr. þágildandi laga nr. 100/2007,um almannatryggingar, og sé því enginn frádráttur vegna slíkra bóta.Til viðbótarframangreindum lagaákvæðum og ákvæðum kjarasamninga og annarra samninga byggirstefnandi kröfur sínar á meginreglum samninga- og vinnuréttar og skaðabótaréttar.Um varnarþing vísar stefnandi til 33. gr. laga nr. 91/1991, um meðferðeinkamála, og um málskostnaðarkröfu til 129. og 130. gr. sömu laga. Umvirðisaukaskatt af málskostnaði er vísað til laga nr. 50/1988, umvirðisaukaskatt. IV Stefndi reisirsýknukröfur sína á því að slys stefnanda verði rakið til aðstæðna sem stefnandibar ábyrgð á og að um óhappatilvik hafi verið að ræða. Stefndi kveðurágreiningslaust að í máli þessu reyni á hlutlæga bótaskyldu íslenska ríkisinssamkvæmt 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Hann vísar til þess að í frumvarpitil laganna komi fram að vegna eðlis starfa lögreglumanna þyki eðlilegt að hafaí lögum sérstakt ákvæði sem skyldar ríkissjóð til að greiða þeim bætur vegnatjóns sem þeir verða fyrir vegna starfs síns. Þá sé vísað til þess hversutorvelt þeim kunni að reynast að sækja mál á hendur þeim sem tjóni hafi valdið.Reglan um hlutlæga ábyrgð sé undantekningarregla og verði ekki beitt nema sýntsé fram á gild rök fyrir því að hún eigi við. Ef vafi leiki á hvort lagaákvæðiteljist mæla fyrir um hlutlæga ábyrgð, verði svo ekki talið vera nema sáskýringarkostur sé ótvíræður. Þá sé það eitt af meginatriðum við beitingureglunnar um hlutlæga ábyrgð að sanna orsakatengsl milli þeirrar háttsemi semhin hlutlæga ábyrgðarregla tekur til og tjóns. Stefndi er sammálastefnanda um að ákvæði 7.5 hlutaðeigandi kjarasamnings feli í sér ítrekun ognánari útfærslu á hlutlægri ábyrgð stefnda. Það feli jafnframt í sér að skýraverði kjarasamningsákvæðið með hliðsjón af þeim undirstöðurökum sem búi að bakilagagreininni. Þær röksemdir lúti öðru fremur að því eðli lögreglustarfsins aðhalda uppi lögum og reglu og afstýra brotum, sbr. 2. mgr. 1. gr. lögreglulaga,en ljóst sé að við framkvæmd þeirra starfa geti komið til líkamlegra átaka. Stefndi vísar ennfremur til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 24. júní 2016 í máli nr. E-4045/2015þar sem litið hafi verið svo á að ákvæði 30. gr. lögreglulaga væriundantekningarregla og að ákvæðið sem slíkt yrði að túlka nokkuð þröngt eðaa.m.k. eftir orðanna hljóðan. Samkvæmt orðanna hljóðan ætti ákvæðið einkum viðþau tilvik þegar lögreglumaður væri við reglubundin störf og lyti boðvaldiyfirboðara sinna og einnig þegar lögreglumaður á bakvakt færi í útkall, eðaundir öðrum kringumstæðum, þannig að hann sinnti löggæslustörfum. Með tillititil þess hafi héraðsdómur talið að æfing sem hver og einn lögreglumaðurskipulegði upp á sitt eindæmi og fyrir sjálfan sig félli ekki undir ákvæði7.5.2 í hlutaðeigandi kjarasamningi þannig að bótaskylda yrði lögð á íslenskaríkið á hlutlægum grunni. Að mati stefnda séaðstaðan í máli þessu sambærileg við þá sem á reyndi í nefndri dómsúrlausnhéraðsdóms. Stefndi vísar til þess að í dómnum hafi því verið hafnað aðríkissjóður bæri hlutlæga skaðabótaábyrgð á tjóni sem lögreglukona á bakvakthafi orðið fyrir þegar hún slasaðist á hlaupabretti. Dómurinn hafi ekki fallistá að það, að halda sér í góðu formi, teldist til athafna sem lögreglumönnumværi skylt að sinna vegna starfa sinna, þótt þeir væru hvattir til að stundalíkamsþjálfun, m.a. með greiðslu sérstaks þrekálags. Lögreglumaðurinn hefðisjálfur ákveðið að fara á æfingu umrætt sinn og ekki hefði verið um skipulagðaæfingu að ræða. Stefndi telur aðsambærileg sjónarmið eigi við í máli stefnanda þessa máls þar sem stefnandihafi, að eigin sögn, sjálfur óskað eftir að fara á æfingu og fengið til þessleyfi yfirmanns. Enda þótt æfingin hafi átt sér stað á vinnutíma, sé hvorkihægt að líta svo á að stefnanda hafi verið skylt að fara á æfinguna né að umskipulagða æfingu hafi verið að ræða. Þá verði ekki litið svo á að æfing, semhver og einn lögreglumaður skipuleggi upp á eindæmi sitt og fyrir sjálfan sig,falli undir hlutaðeigandi kjarasamningsákvæði þannig að stefndi verðibótaskyldur á hlutlægum grunni. Ekkert liggi fyrir um að æfingin hafi fariðfram í umsjá eða undir eftirliti lögregluembættisins eða, eftir atvikum, félagslögreglumanna. Ekki fái nokkru breytt í því efni yfirlýsingar lögreglustjóransá höfuðborgarsvæðinu, sem vísað sé til í stefnu, um að slysið hafi orðið ívinnutíma. Stefndi kveðst ekkivíkja frá venjuhelgaðri framkvæmd við uppgjör bótamála lögreglumanna með höfnuná bótaskyldu í þessu máli. Ekki sé óþekkt að starfsmenn, sem tilheyra öðrumstarfsstéttum, stundi hreyfingu á vinnutíma, án þess að það verði beinlínistalið hluti af starfsskyldum þeirra. Með því að gefa lögreglumönnum kost á aðstunda líkamsæfingar í vinnutíma að því leyti sem verkefnastaða lögreglunnarleyfi, sé verið að greiða götu þeirra til að halda sér í formi og til að fágreitt þrekálag. Þá vísar stefnditil þess að stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að hann hafi orðið fyrirtjóni við lyftingaæfingar en engin vitni hafi verið að atvikinu. Íupplýsingaskýrslu Guðmundar Inga Rúnarssonar lögregluvarðstjóra komi ekkertfram um að stefnandi hafi slasast á þeirri líkamsræktaræfingu sem hann hafifengið heimild til að fara á, auk þess sem fram komi í stefnu að stefnandi hafiekki leitað læknis dagana eftir atvikið. Samkvæmt örorkumatsgerð dr. Atla ÞórsÓlasonar frá 22. júní 2015 hafi stefnandi verið kominn með brjósklos þegaratvikið átti sér stað og hefði leitað á heilsugæslu 8. september 2011 vegnabakóþæginda sem hann tengdi við umferðarslys. Þá hafi segulómmynd af mjóbakifrá 15. desember 2011 sýnt sama útlit og rannsókn frá 15. ágúst 2011 sem leitthefði í ljós brjósklos. Að mati stefnda valdi þessi atvik verulegri óvissu umorsakir tjónsins, auk þess sem þau gefi tilefni til að ætla að stefnandi hefðivegna bakvandamála sinna átt að gæta tilhlýðilegrar varúðar, svo sem með því aðstunda lyftingar undir eftirliti viðeigandi fagaðila. Það að stefnandi hafiekki gert það, geti enginn annar borið ábyrgð á en hann sjálfur. Verði ekki fallistá kröfu um sýknu krefst stefndi þess að kröfur stefnanda sæti verulegri lækkunmeð tilliti til eigin sakar stefnanda og óvissu um orsakatengsl. Í greinargerðsinni áskildi stefndi sér jafnframt rétt til að gera við meðferð málsinsathugasemdir við og afla gagna um forsendur, sem búa að baki útreikningistefnanda á einstökum tjónsliðum, svo sem útreikningi á varanlegri örorku,eftir atvikum með dómkvaðningu. Þá var í greinargerð skorað á stefnanda aðleggja fram allar upplýsingar um þær greiðslur, sem hann hefði móttekið eðahafi átt rétt á og dragast eigi frá bótum, sbr. einkum 2. mgr. 2. gr. og 4.mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Loks mótmælirstefndi kröfum stefnanda um dráttarvexti af kröfunni, auk þess sem stefnditelur að bætur úr sjúkratryggingu launþega eigi að dragast beint frá höfuðstóláður en vextir séu reiknaðir af fjárhæðinni. Til stuðnings kröfuum málskostnað vísar stefndi í öllum tilvikum til XXI. kafla laga nr. 91/1991,um meðferð einkamála.VVið aðalmeðferð málsins fyrir dómi gáfu skýrslur stefnandi málsins og Geir Jón Þórisson, fyrrverandi yfirlögregluþjónn. Verður efni skýrslnaþeirra rakið eins og þurfa þykir.Eins og áður er getið eru helstu málsatvik ágreiningslaus og hafa þauverið rakin í kafla II hér að framan. Þá er ágreiningslaust að í máli þessureynir á hlutlæga bótaskyldu íslenska ríkisins samkvæmt 30. gr. lögreglulaganr. 90/1996 og ákvæði greinar 7.5 í gildandikjarasamningi Landsambands lögreglumanna og fjármálaráðherra fyrir höndríkissjóðs þar sem kveðið er á um að lögreglumenn eigi rétt til bóta fyrirmeiðsli og tjón sem þeir verði fyrir vegna starfs síns. Þá lýstu lögmenn beggjaaðila því yfir í munnlegum málflutningi við aðalmeðferð að ekki væri tölulegurágreiningur í málinu. Stefnandi byggir bótakröfu sína á því aðsamkvæmt hinni hlutlægu ábyrgð 30. gr. lögreglulaga sé stefndi skaðabótaskyldurvegna alls líkamstjóns sem lögreglumenn verða fyrir í vinnutíma, án tillits tilsakar. Skýra verði ákvæðið þannig að öll tjónsatvik, sem eigi sér stað meðanlögreglumaður er því störf, eigi hér undir, óháð tegund tjóns eða orsök. Þáhafi stefnandi verið á vakt þegar slysið varð og teljist því hafa verið aðstörfum í skilningi greinar 7.5 í kjarasamningum. Þá vísar stefnandi til ákvæðac. liðar 2. mgr. 28. gr. lögreglulaga, sem mælir fyrir um að lögreglumenn skulivera svo líkamlega á sig komnir að þeir geti sinnt embættinu, og því sélögreglumönnum nauðsynlegt að stunda líkamsrækt. Af þeim sökum sjáilögregluembætti lögreglumönnum fyrir íþróttaaðstöðu og líkamsræktin fariiðulega fram á vinnutíma. Jafnframt séu laun þeirra m.a. ákveðin með tillititil líkamlegrar getu sem mæld sé með þrekprófum. Af hálfu stefnanda er öllummálsástæðum stefnda í greinargerð mótmælt. Stefndi reisir kröfur sínar á því að slys stefnanda verði rakið tilaðstæðna sem stefnandi hafi sjálfur borið ábyrgð á og að um óhappatilvik hafiverið að ræða. Stefndi vísar til þess að regla 30. gr. lögreglulaga um hlutlægaábyrgð sé undantekningarregla og verði ekki beitt nema sýnt sé fram á gild rökfyrir því að hún eigi við. Það hafi ekki verið gert í máli þessu, auk þess semekki liggi fyrir sönnun orsakatengsla milli háttsemi stefnanda umrætt sinn ogtjóns hans. Þá beri að skýra ákvæði greinar 7.5 í kjarasamningnum með hliðsjónaf þeim undirstöðurökum sem búi að baki lagaákvæðinu. Máli sínu til stuðningsvísar stefndi jafnframt til niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr.E-4045/2015 sem kveðinn var upp 24. júní 2016. Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 skalríkissjóður bæta lögreglumönnum líkams- og munatjón sem þeir verða fyrir vegnastarfs síns. Að baki þessari lagareglu búa sjónarmið um að lögreglumönnum sétryggð greiðsla svo þeir þurfi ekki að sækja bætur á hendur þeim sem hafa valdiðþeim tjóni. Hefur þá verið litið til þess að slík mál geti tekið langan tíma ogað engin trygging sé fyrir því að tjónvaldur reynist borgunarmaður. Eðlilegthefur þótt að hafa í lögum sérstakt ákvæði sem skyldar ríkissjóð til að greiðabætur í slíkum tilvikum. Ábyrgð ríkissjóðs samkvæmt ákvæðinu er hlutlæg, aðuppfylltum öðrum bótaskilyrðum.Við mat á því hvort 30. gr. lögreglulaga eigi við í tilviki stefnandaverður að leggja mat á það, hvort hann teljist hafa orðið fyrir líkamstjónisínu vegna starfs síns. Hér verður því í fyrsta lagi að taka afstöðu til þesshvort stefnandi hafi umrætt sinn verið við störf í skilningi 30. gr. lagannaþegar hann slasaðist. Litið hefur verið svo á að ákvæði 30. gr. lögreglulaga eigi samkvæmtorðanna hljóðan einkum við um þau tilvik þegar lögreglumaður er við reglubundinstörf og lýtur boðvaldi yfirboðara sinna, þegar það á við. Einnig hefur veriðtalið að hún eigi við þegar lögreglumaður er kallaður til starfa þegar hann erá bakvakt eða undir öðrum kringumstæðum þannig að hann sinni löggæslustörfum. Hér verður að líta til þess sem óumdeilt er í málinu og ljóst af gögnumað stefnandi var á reglubundinni næturvakt frá kl. 23.00 hinn 22. nóvember 2011til kl. 07.50 hinn 23. sama mánaðar. Framlögð gögnbera með sér að stefnandi telst hafa orðið fyrir slysi eða slasast á vinnutíma.Þannig er því lýst í lögregluskýrslu, sem gerð var vegna slyss stefnanda, aðstefnandi hafi tilkynnt um að hann hefði lent í slysi við æfingu á vinnutíma oger þar skráð að slysið hafi orðið 23. nóvember 2011 kl. 02.00. Þá kemur fram ítilkynningu um slysið til Sjúkratrygginga Íslands, sem undirrituð er fyrir höndlögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 8. janúar 2013, að stefnandi hafi veriðvið vinnu þegar slysið varð og að slysið hafi orðið á vinnustað álögreglustöðinni við Hverfisgötu, auk þess sem sérstaklega er þar tekið fram aðþað hafi verið í æfingasal í kjallara. Í tilkynningu lögreglustjórans áhöfuðborgarsvæðinu til Vátryggingafélags Íslands hf. um tjón stefnanda,dagsettri 8. janúar 2013, er spurningu um hvar slysið hafi orðið svarað með þvíað haka í reitinn: „Í vinnutíma/á beinni leið í/úr vinnu“. Samkvæmt ódagsettritilkynningu um vinnuslys til Vinnueftirlitsins er stefnandi tilgreindur semhinn slasaði og slysið sagt hafa orðið kl. 02.00 hinn 23. nóvember 2011.Jafnframt er því lýst að stefnandi hafi verið við æfingar í vinnutíma ílíkamsræktaraðstöðu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu í kjallaraHverfisgötu 113-115 þegar hann hafi skyndilega fundið fyrir verk og dofa í bakiog niður í vinstri fót. Að þessu gættu verður að líta svo á að stefnandi hafiorðið fyrir slysi í vinnutíma á skipulagðri lögregluvakt. Í málinu liggur frammi hluti kjarasamningsLandsambands lögreglumanna og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Þar er íkafla 7.5 fjallað um skaðabótaskyldu ríkissjóðs. Ekki verður annað ráðið afákvæðum greina 7.5.1 og 7.5.2 en að með þeim hafi réttarstaða lögreglumannaverið bætt enn frekar og gildissvið hinnar hlutlægu reglu 30. gr. lögreglulagavíkkað með frjálsum samningum lögreglumanna við vinnuveitanda sinn. Samkvæmtgrein 7.5.1 eiga lögreglumenn rétt á bótum fyrir meiðsli og tjón sem þeir verðafyrir vegna starfs síns. Í grein 7.5.2 segir síðan að lögreglumenn skuliteljast að störfum, auk venjulegrar vinnuskyldu, þegar þeir eru á leið í eða úrvinnu, sitja lögregluskóla og lögreglunámskeið eða stunda lögregluæfingar,íþróttir og kappleiki á vegum félaga lögreglumanna. Hið sama gildir ef þeirráðast í lögregluaðgerðir að eigin frumkvæði sem lögreglumenn. Í bókun 2 með kjarasamningi fjármálaráðherra fyrirhönd ríkissjóðs og Landssambands lögreglumanna, dagsettri 30. júní 2011, segirað vegna eðlis lögreglustarfa sé lögreglumönnum nauðsynlegt að vera í góðulíkamlegu formi og hafa tækifæri til að viðhalda því. Þetta sé áréttað bæði meðgreiðslu þrekálags samkvæmt fylgiskjali 2 með kjarasamningi aðila frá 22.október 2008 í starfsmannastefnu lögreglunnar, áherslum Landssambandslögreglumanna og sé rökrétt framhald af inntökuskilyrðum Lögregluskólans. Síðansegir í bókuninni að aðilar séu sammála um að vísa því til lögregluembætta aðútfæra, í samráði við Landssamband lögreglumanna, með hvaða hætti þeim verðiauðveldað að sinna líkamsþjálfun í starfstíma sínum eftir því sem við verðikomið. Í yfirlýsingu Geirs Jóns Þórissonar, fyrrverandiyfirlögregluþjóns hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og fyrrverandiformanns Félags yfirlögregluþjóna, dagsettri 16. október 2017, er lýstskilningi aðila að framangreindum kjarasamningi á kjarasamningnum ogsamkomulagi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og Lögreglufélags Reykjavíkurum vinnutíma lögreglumanna á sólarhringsvöktum. Þar kemur fram að við gerðframangreinds samkomulags hafi það verið skilningur aðila að líkamsrækt ávinnutíma, m.a. til undirbúnings fyrir þrekpróf og til að stuðla að almennrihreysti lögreglumanna vegna starfa þeirra, væri hluti af starfsskyldum þeirra.Sömuleiðis hafi þeir talið að við slíkar æfingar teldust lögreglumennirnir viðstörf í skilningi 30. gr. lögreglulaga og greinar 7.5 í kjarasamningnum. Líkamsræktaraðstöðuá lögreglustöðinni við Hverfisgötu hafi verið komið upp í þeim tilgangi aðlögreglumenn gætu stundað líkamsrækt á vinnutíma í þessu skyni. Fram er komið ímálinu að vitnið, Geir Jón, undirritaði framangreint samkomulag fyrir höndLögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Þegar litið er til alls framangreinds er það matdómsins að þær líkamsæfingar, sem stefnandi lagði stund á þegar hann slasaðistumrætt sinn, verði felldar undir ástundun lögregluæfinga í skilningi greinar7.5.2 í margnefndum kjarasamningi og telst stefnandi því, eftir orðalagiákvæðisins, hafa verið að störfum þegar slysið varð. Í ljósi alls ofangreindsþykir ekki ráða hér úrslitum þótt þessi tiltekna lögregluæfing hafi ekki veriðskipulögð eða sérstaklega til hennar mælst af yfirboðara eða öðrum aðilum.Liggur enda fyrir að til hennar fékkst leyfi stjórnanda næturvaktar stefnandaumrætt sinn, svo sem stefnandi lýsti í skýrslu sinni hér fyrir dóminum og hefurekki verið mótmælt af hálfu stefnda. Að þessu virtu verður því að líta svo á aðuppfyllt sé það skilyrði fyrir hlutlægri bótaskyldu samkvæmt 30. gr.lögreglulaga að stefnandi hafi orðið fyrir líkamstjóni vegna starfs síns. Í ljósi alls þess sem rakiðhefur verið og þegar litið er til orðalags og gildissviðs framangreindra ákvæðalaga og kjarasamnings þykir hér engu breyta þótt tjón stefnanda verði ekkirakið til þeirrar sérstöku hættu sem framkvæmd lögreglustarfa fylgir.Um orsakatengsl milli tjóns síns og umrædds slyss vísar stefnandi tilörorkumats dr. Atla Þórs Ólasonar, sérfræðings í bæklunarskurðlækningum,dagsetts 22. júní 2015, sem aflað var samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993. Ímatsgerðinni er rakið efni læknisfræðilegra gagna, m.a. úr sjúkraskrá stefnandavegna bakverkja sem stefnandi lýsti 8. september áður en umrætt slys varð, ogtengdi umferðslysi frá því fyrr á sama ári. Í niðurstöðukafla matsgerðarinnarer farið ítarlega yfir framangreind gögn. Þá er tekið fram að við mat ávaranlegu líkamstjóni af völdum vinnuslyss 23. nóvember 2011 sé fyrst litið tilþess að stefnandi hefði verið með mjóbaksóþægindi fjórum mánuðum fyrir slysiðog gerð hafi verið segulómskoðun af lendhrygg sem hafi leitt í ljós brjósklos íneðsta mjóhryggjarliðbili. Jafnframt er litið til þess að á árinu 2008 hafistefnandi hlotið væga mjóbakstognun í umferðarslysi og hafi þá verið metinn til3% varanlegs miska. Matsmaðurinn telur að við líkamsræktaræfinguna 23. nóvember2011 hafi stefnandi hlotið viðbótaráverka á mjóbak sem hafi leitt tilskyndilegs verkjar í mjóbaki með útleiðslu niður í vinstri ganglim. Núverandieinkenni megi að hluta til rekja til slyssins í nóvember 2011, einkumverkjaaukningu en síður til einkenna um brjósklosið. Matsmaðurinn kemst því aðþeirri niðurstöðu að slasaði hafi við slysið 23. nóvember 2011 orðið fyrirskaða þar sem hann hafi hlotið viðbótaróþægindi í mjóbak sem litið verði á semtognungaráverka með viðbótareinkennum sem metin verði til 3% varanlegs miska og3% varanlegrar örorku. Fjárhæð skaðabótakröfu stefnanda er jafnframt byggð áþessari niðurstöðu. Að þessu virtu og þegar jafnframt er litið til annarra gagna málsins sembera með sér að stefnandi leitaði til læknis vegna bakverkja sem hann rakti tilslyssins, er það mat dómsins að stefnanda hafi tekist að sanna orsakatengslmilli umrædds slyss og tjóns hans. Þá hefur stefnandi gefið haldbæra skýringu áþví af hverju fyrsta læknisheimsókn hans átti sér ekki stað fyrr en 16.desember 2011, svo sem gögn málsins bera með sér. Hann kvaðst í fyrstu hafavonast til að bakverkirnir myndu lagast en síðan pantað sér tíma hjáheimilislækni nokkrum dögum síðar sem ekki hefði fengist fyrr. Þykja þessiatvik því ekki ráða úrslitum um sönnun orsakatengsla, auk þess sem ekkert erfram komið í málinu sem leiðir líkur að því að umræddar líkamsæfingar stefnandahafi ekki orsakað það viðbótartjón sem stefnandi krefst bóta fyrir.Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að stefndi beriskaðabótaábyrgð á því tjóni stefnanda sem framlögð örorkumatsgerð ber með sér.Ekkert er fram komið í málinu sem rennir stoðum undir þá málsástæðu stefnda aðstefnandi hafi við framkvæmd lyftingaæfinga umrætt sinn af ásetningi eðastórfelldu gáleysi átt sök á tjóni sínu að hluta. Verður þeirri málsástæðustefnda því hafnað sem og kröfu hans um að bætur til stefnanda verði lækkaðar ágrundvelli eigin sakar stefnanda. Eins og áður er getið er fjárhæð skaðabótakröfu stefnanda byggð ániðurstöðum framlagðrar örorkumatsgerðar. Fyrir liggur að enginn ágreiningur ermilli aðila um tölulegan útreikning bótakröfunnar. Krafa stefnanda um vexti ogdráttarvexti er í samræmi við ákvæði 1. mgr. 16. gr.skaðabótalaga nr. 50/1993 og 6. og 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Verður krafastefnanda því tekin til greina eins og hún er sett fram í stefnu og nánargreinir í dómsorði. Eftir þessari niðurstöðu verður stefnda gert aðgreiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 1.475.000 krónur aðmeðtöldum virðisaukaskatti.Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dómþennan.D ó m s o r ð:Stefndi, íslenskaríkið, greiði stefnanda, A, 2.832.508 krónur með 4,5% ársvöxtum af 411.395 krónum frá 23. nóvember2011 til 23. febrúar 2012 og af2.832.508 krónum frá þeim degi til 10. júlí 2016 en með dráttarvöxtumsamkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 2.835.758 krónum frá 10. júlí 2016til greiðsludags, allt að frádregnum 583.294 krónum sem greiddar voru þann 9.júlí 2016.Stefndi greiðistefnanda 1.475.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.
Mál nr. 440/2017
Ráðningarsamningur Brottrekstur úr starfi Uppsögn Trúnaðarskylda Sönnunarbyrði
J krafði S ehf. um vangoldin laun í uppsagnarfresti og vegna yfirvinnu, orlof og desemberuppbót sem hann taldi sér bera þar sem S ehf. hefði verið óheimilt að segja fyrirvaralaust upp ráðningarsamningi þeirra á milli. Byggði S ehf. á því að J hefði brotið trúnaðarskyldur gagnvart sér sem heimilaði félaginu að rifta ráðningarsamningnum. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að ráðið yrði af framburði annars fyrirsvarsmanns S ehf. að J hefði gert kröfu um greiðslu yfirvinnu og að til hafi staðið að ganga frá einhverskonar samkomulagi þar að lútandi, en það hafi ekki verið gert. Lá fyrir að J fékk ekki greitt fyrir yfirvinnu á ráðningartímanum og gögn málsins báru ekki með sér að J hefði gert kröfu að nýju þar að lútandi fyrr en þremur og hálfum mánuði eftir að ráðningarsamningnum var rift. Yrði J að bera hallan af sönnunarskorti um að náðst hefði samkomulag milli aðila um greiðslu launa fyrir yfirvinnu og var S ehf. því sýknaður af kröfu J þess efnis. Á hinn bóginn var ekki fallist á með S ehf. að fyrir lægi sönnun um að J hefði brotið gegn trúnaðar- og starfsskyldum sínum hjá S ehf. með þeim hætti að réttlætt hefði fyrirvaralausa riftun á ráðningarsamningi hans. Var því tekin til greina krafa J um greiðslu launa í uppsagnarfresti ásamt desemberuppbót, orlofi og orlofsuppbót.
DómurHæstaréttar.Mál þetta dæmahæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Greta Baldursdóttir og Aðalsteinn E.Jónasson landsréttardómari.Áfrýjandi skautmálinu til Hæstaréttar 7. júlí 2017. Hann krefst aðallega sýknu af kröfumstefnda en til vara að kröfur stefnda verði lækkaðar og upphafstímidráttarvaxta miðaður við dómsuppsögu. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðarí héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndikrefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. IÁfrýjandier einkahlutafélag sem hóf síðari hluta árs 2015 rekstur fataverslunar íSmáralind undir heitinu Superdry. Mun verslunin hafa verið rekin á grundvellisérleyfissamnings við erlendan eiganda samnefnds vörumerkis, SuperGroup Nordic& Baltics A/S, Danmörku. Stefndivar ráðinn til starfa sem verslunarstjóri hjá áfrýjanda í lok júlí 2015 og hóf formlegastörf fyrri hluta ágúst sama ár. Stefnda var sagt upp störfum með tölvupósti31. janúar 2016 sem ágreiningslaust er að hann móttók þann dag. Í póstinum varvísað til 2. gr. ráðningarsamnings aðila 31. júlí 2015 þar sem fram kom meðalannars að uppsagnarfestur að loknum reynslutíma væri þrír mánuðir. Af hálfuáfrýjanda var óskað eftir að stefndi ynni út uppsagnarfrestinn til og með 30.apríl 2016 og samþykkti stefndi það. Með bréfi fyrirsvarsmanns áfrýjanda 29.febrúar 2016 var stefnda „sagt upp“ störfum ,,án fyrirvara vegna ítrekaðratrúnaðarbrota“ og féllu launagreiðslur til hans niður frá sama tíma.Fyrirvaralausri uppsögn var mótmælt af hálfu stefnda 17. mars 2016. Með bréfi14. júní 2016 krafðist stefndi greiðslu launa fyrir mars og apríl 2016, auknánar tilgreindra orlofsgreiðslna. Í síðastnefndu bréfi krafðist stefndi aukþess greiðslu launa fyrir yfirvinnu á ráðningartímanum.Ágreiningurmáls snýr annars vegar að því hvort stefndi eigi rétt á greiðslu fyriryfirvinnu og hins vegar hvort áfrýjanda hafi verið heimilt að riftaráðningarsamningnum fyrirvaralaust í lok febrúar 2016. Stefndi reisir dómkröfusína á því að hann hafi sinnt starfsskyldum sínum gagnvart áfrýjanda sem beriþar með að greiða honum laun í uppsagnarfresti samkvæmt ráðningarsamningi.Byggir hann jafnframt á því að við gerð ráðningarsamnings hafi verið samiðsérstaklega um að hann fengi greitt fyrir yfirvinnu umfram nánar tilgreindadagvinnutíma. Áfrýjandi reisir dómkröfu sína einkum á því að sannað sé aðstefndi hafi brotið trúnaðarskyldur gagnvart sér og að brotin hafi verið þesseðlis að heimilt hafi verið að rifta ráðningarsamningnum. Að því er varðarkröfu stefnda um greiðslu fyrir yfirvinnu byggir áfrýjandi á því að í fyrirliggjandiráðningarsamningi hafi verið samið sérstaklega um að ekki yrði greitt fyriryfirvinnu og að ekkert samkomulag hafi náðst um slíkar greiðslur við frágang samningsinseða síðar. IIMeðalgagna málsins er afrit af óundirrituðum ráðningarsamningi milli áfrýjanda ogstefnda. Þótt samningurinn sé óundirritaður er í málatilbúnaði stefnda gengiðút frá því að hann hafi í reynd verið undirritaður. Þetta má ráða afhéraðsdómsstefnu þar sem vísað er athugasemdalaust hvað þetta varðar tilráðningarsamningsins en auk þess liggja fyrir í málinu bréfa- ogtölvupóstsamskipti þar sem út frá þessu er gengið af hans hálfu. Í samræmi viðþetta kom fram í aðilaskýrslu stefnda í héraði að hann hefði undirritað ráðningarsamninginná fundi sem hann átti með fyrirsvarsmönnum áfrýjanda, Erni Valdimarssyni ogLárentsínusi Kristjánssyni. Samkvæmt því verður að leggja til grundvallar aðsamningurinn hafi verið undirritaður af hálfu stefnda. Stefndibyggir á því að jafnvel þótt hann hafi undirritað ráðningarsamninginn hafi hannekki samþykkt að öllu leyti þau kjör sem þar var samið um. Hann hafi ekki veriðsáttur við ákvæði 7. gr. samningsins sem gerði ráð fyrir að mánaðarlaun hans aðfjárhæð 450.000 krónur væru heildarlaun og að engar greiðslur yrðu inntar afhendi fyrir yfirvinnu. Í bréfi hans til áfrýjanda 14. júní 2016 kemur fram aðvið gerð samningsins hafi hann strax gert ,,athugasemdir við launakjör eins ogþeim var lýst í samningi“. Kemur þar fram að samkomulag hafi náðst milli hansog Lárentsínusar Kristjánssonar, sem þá hafi verið stjórnarmaður og eigandi aðhelmingshlut í áfrýjanda, um ,,að öll yfirvinna umfram dagvinnu (100% vinna)yrði greidd með yfirvinnukaupi skv. kjarasamningi.“ Hafi hann undirritaðráðningarsamninginn á þeim grundvelli. Lárentsínus Kristjánsson staðfesti ívitnaskýrslu í héraði að stefndi hefði gert kröfu um greiðslu fyrir yfirvinnu áfundi sem hann átti með honum og fyrirsvarsmanni áfrýjanda, Erni Valdimarssyni.Ganga hefði átt frá ,,einhvers konar samkomulagi í framhaldi um hvernig staðiðyrði að greiðslu yfirvinnu“ og að þeir hafi bundist ,,fastmælum“ um það. ÖrnValdimarsson bar á hinn bóginn fyrir dómi að ekkert slíkt samkomulag hafi veriðgert við stefnda og að aldrei hafi komið til umræðu að greitt yrði fyriryfirvinnu.Afframangreindri skýrslu Lárentsínusar Kristjánssonar verður aðeins ráðið aðstefndi hafi gert kröfu um greiðslu yfirvinnu og að til hafi staðið íframhaldinu að ganga frá einhvers konar samkomulagi þar að lútandi. Gögnmálsins bera hvorki með sér að það hafi verið gert né að stefndi hafi sett framkröfu um það á gildistíma ráðningarsamningsins. Þá liggur fyrir að stefndi fékká ráðningartímanum ekki greitt fyrir yfirvinnu og ekki hafa verið lögð fram gögnum að hann hafi eftir fyrrgreindan fund með fyrirsvarsmönnum áfrýjanda gertkröfu um slíka greiðslu. Krafa þess efnis var fyrst sett fram með fyrrgreindubréfi 14. júní 2016 en þá voru liðnir tæplega sex mánuðir frá því hann hófstörf hjá áfrýjanda og þrír og hálfur mánuður frá því ráðningarsamningnum varrift. Samkvæmt þessu verður stefndi að bera hallann af sönnunarskorti um að náðsthafi samkomulag milli hans og áfrýjanda um greiðslu launa fyrir yfirvinnu. Verðuráfrýjandi því sýknaður af kröfu stefnda um greiðslu launa fyrir yfirvinnu.Áfrýjandibyggir á því að honum hafi verið heimilt að rifta ráðningarsamningnum viðstefnda vegna brota hans á trúnaðarskyldum. Fram er komið í málinu að stefndisetti sig í samband við fyrirsvarsmann SuperGroup Nordic & Baltics A/S í janúar2016 og mun hafa haft uppi efasemdir um getu eiganda og fyrirsvarsmanns áfrýjandatil reksturs á versluninni. Á hinn bóginn liggur fyrir að sá síðarnefndi fékk íbeinu framhaldi vitneskju um samskiptin en gerði engu að síður ráð fyrir aðstefndi starfaði áfram hjá félaginu og sýndi með því í verki að hann taldi sjálfurþessa háttsemi stefnda ekki eina og sér geta réttlætt brottvikningu úr starfián fyrirvara. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hinsáfrýjaða dóms er fallist á þá niðurstöðu að ekki liggi fyrir sönnun um að stefndihafi brotið gegn trúnaðar- og starfsskyldum sínum hjá áfrýjanda með þeim hættiað réttlætt hafi fyrirvaralausa riftun á ráðningarsamningi hans. Samkvæmt þessuer tekin til greina krafa stefnda um greiðslu launa í uppsagnarfresti ásamtkröfum um greiðslu desemberuppbótar, orlofs og orlofsuppbótar en fjárhæðþessara kröfuliða er óumdeild og nemur samtals 1.125.983 krónum. Óumdeilt er að47.593 krónur voru greiddar inn á kröfuna 7. febrúar 2017 vegna desember- ogorlofsuppbóta.Eftirframangreindum málsúrslitum skal hvor málsaðili bera sinn kostnað af rekstrimálsins á báðum dómstigum.Dómsorð:Áfrýjandi, SDRehf., greiði stefnda, Jóni Helga Sigurðssyni, 1.125.983 krónur meðdráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti ogverðtryggingu af 477.900 krónum frá 1. apríl 2016 til 1. maí sama ár en af1.125.983 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun7. febrúar 2017 að fjárhæð 47.593 krónur.Málskostnaður íhéraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.DómurHéraðsdóms Reykjaness 10. apríl 2017 Málþetta var höfðað 13. október 2016 og dómtekið 15. mars 2017. Stefnandi er JónHelgi Sigurðsson, Hólmgarði 31, Reykjavík. Stefndi er SDR ehf., Mávanesi 18,Garðabæ. Dómkröfurstefnanda eru þær að stefndi greiði stefnanda vangoldin laun, orlof og desemberuppbótað fjárhæð 1.980.246 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 477.900 krónum frá 1. apríl 2016 til1. maí 2016 og frá þeim degi af 1.980.246 krónum til greiðsludags. Þess erkrafist að dráttarvextir skuli leggjast við höfuðstól á tólf mánaða fresti ífyrsta sinn þann 1. maí 2017 en síðan árlega þann dag. Þá er gerð krafa ummálskostnað. Stefndikrefst aðallega sýknu en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.Þá krefst stefndi málskostnaðar. I. Málsatvikeru þau að stefnandi réð sig í júlí 2015 til starfa sem verslunarstjóri íverslun stefnda í Smáralind í Kópavogi, sem var rekin undir heitinu Superdry ágrundvelli sérleyfissamnings (e. franchise agreement), og hóf stefnandi störf6. ágúst sama ár. Ráðningarfyrirtækið Capacent hafði milligöngu um ráðninguna. Fyrirliggur óundirritaður ráðningarsamningur, dags. 31. júlí 2015. Í 2. gr.samningsins sagði að reynslutími stefnanda væri þrír mánuðir og að honum loknumskyldi gagnkvæmur uppsagnarfrestur vera þrír mánuðir. Í 3. gr. kom fram aðyfirmaður stefnanda væri framkvæmdastjóri og eftir atvikum stjórn stefnda, enstefnandi tæki þó ekki við beinum fyrirmælum frá stjórn heldur þá eingöngu ígegnum framkvæmdastjóra. Vinnutími stefnanda skyldi að jafnaði vera a.m.k. frákl. 10 til kl. 19 alla virka daga auk vinnu á kvöldin og/eða um helgar þegarþess væri þörf að mati hans sjálfs, sbr. 4. gr. samningsins. Sérstakt ákvæði var um trúnaðar-og þagnarskyldu í 6. gr. samningsins. Þar sagði að stefnandi lofaði að rækjastarf sitt með ástundun og samviskusemi og heita því að viðlögðum drengskap aðgæta fyllstu þagmælsku um öll atriði sem hann fengi vitneskju um í starfi sínu,þ.m.t. um viðskiptakjör og viðskiptavini fyrirtækisins og samskipti viðviðsemjanda stefnda, Superdry. Þagnarskyldan gilti burtséð frá fyrirspyrjanda,nema hann þyrfti sannarlega á upplýsingum þessum að halda vegna starfa sinna íþágu vinnuveitanda. Í henni fælist m.a. að utan starfstíma væriundantekningarlaust óheimilt að veita nokkrar þær upplýsingar sem leynt skyldufara, s.s. upplýsingar um einstök mál og/eða sölu- og veltutölur, samninga semog annað og gilti það einnig þótt nafnleynd vinnuveitanda, viðskiptavinarog/eða starfsmanns væri viðhöfð. Þá sagði í ákvæðinu að innihaldráðningarsamningsins væri algjört trúnaðarmál milli málsaðila og stefnanda væriþað ljóst að það kostaði stöðumissi ef uppvíst yrði að þagnar- og trúnaðarheitsamkvæmt þessari grein væri rofið. Þagnarskylda héldist þótt stefnandi léti af störfum.Í 7. gr. samningsins sagði aðlaun stefnanda væru 450.000 krónur á mánuði miðað við vinnu sem tilgreindurværi í 4. gr. samningsins og greiðast mánaðarlega eftirá. Þá sagði í ákvæðinu:„Engar aukagreiðslur hverju nafni sem nefnast koma þannig til vegna yfirvinnusem starfsmaðurinn telur sig þurfa að vinna til að rækja starfann meðfullnægjandi hætti eða vinnuveitandi gerir kröfu um af því tilefni.Launagreiðslur eru fastar og taka ekki breytingum til samræmis viðverðlagshækkanir eða þróun launa á almennum vinnumarkaði heldur eru breytingarætíð háðar samþykki stjórnenda vinnuveitanda.“ Í 7. gr. sagði einnig að stefndihefði kynnt fyrir stefnanda áform um að greiða bónus ofan á föst laun er tækimið af annars vegar rýrnun í versluninni og hins vegar á afkomu fyrirtækisins.Aðilar myndu semja sérstaklega um þennan þátt launa og ganga frá samningi í þáveru eigi síðar en 30. september 2015. Launakjör skyldu endurskoðuðu eftir sexmánuði frá því að stefnandi hæfi störf. Samningur um kaup og kjör meðhöndlaðistætíð af framkvæmdastjóra og stjórnarmanni stefnda. Stefnandi kveðst hafa við gerðframangreinds ráðningarsamnings aðila, dags. 31. júlí 2015, strax gertathugasemdir við launakjör eins og þeim var lýst í ráðningarsamningi.Samkomulag hafi þá orðið á milli fyrirsvarsmanna stefndu, Arnar Valdimarssonarog Lárentsínusar Kristjánssonar, að öll yfirvinna umfram dagvinnu yrði greiddmeð yfirvinnukaupi. Þessu mótmælir stefndi og heldur því fram að ekki hafiverið samið um greiðslu yfirvinnu. Stefndi segir að í lok árs 2015og byrjun árs 2016 hafi stefnda borist fregnir af ýmsum trúnaðarbrotumstefnanda í starfi sem hafi miðað af því að rýra orðspor félagsins og eigendaþess. Stefnandi hafi sett út á stjórnhætti framkvæmdastjóra stefnda og kvartaðundan launakjörum og vinnu við Kim Knudsen, yfirmann útstillinga hjáSuperGroup. Kim hafi komið til landsins í lok nóvember 2015 og stefnandi áttnokkra fundi með honum. Kim hafi upplýst fyrirsvarsmenn stefnda um þetta og aðummæli stefnanda hafi ekki verið forsvaranleg og að slíkum ummælum ætti aðbeina að framkvæmdastjóra stefnda. Í kjölfarið hafi stefndi áminnt stefnandamunnlega og stefnandi lofað að bæta úr háttsemi sinni. Stefndi segir að hinn 19. janúar2016 hafi stefnandi óskað eftir einkafundi við Lars Thygesen, forstjóraSupergroup á Norðurlöndum og á Eystrasaltinu. Stefnandi hafi ekki upplýststefnda um fundinn og hafi hann því farið fram með leynd af hans hálfu. Á fundiþeirra tveggja hafi stefnandi gagnrýnt starfshætti Arnar Valdimarssonar,eiganda stefnda, auk þess að lýsa því yfir að Örn væri óhæfur til að rekaverslunina á grundvelli sérleyfisins. Daginn eftir hafi Lars tilkynntfyrirsvarsmönnum stefnda um fundinn og hvað þar hafi farið fram enda hafi honumverið ljóst að tilgangur stefnanda væri að sverta orðstír stefnda ogfyrirsvarsmanna stefnda. Eftir að Örn hafi fengið fregnir af framangreindutrúnaðarbroti hafi hann krafist útskýringa af hendi stefnanda. Jafnframt hafiÖrn upplýst stefnanda um að kvartanir sem þessar ættu að bera undir framkvæmdastjóraog beðið stefnanda um að hugleiða trúnaðarbrot sín. Stefnandi hafi lofað aðfrekari trúnaðarbrot myndu ekki eiga sér stað. Daginn eftir hafi stefnandi senttölvupóst til Lars Thygsen og óskað eftir upplýsingum vegna gallaðrar vöru.Lars hafi strax haft samband við Örn vegna tölvupóstsins, enda hafi það ekkifalist í starfssviði stefnanda að eiga í beinum samskiptum við Lars, ogstefnanda verið það fullkunnugt. Stefndi kveður að á þessum tímahafi verið ljóst að grundvöllur ráðningarsambandsins væri brostinn vegnatrúnaðarbrota stefnanda og þau væru þess eðlis að ekki yrði ráðið bót á endaþeim. Á þessum tíma hafi verið frágengið að stefnandi og Örn færu íinnkaupaferð 25. janúar 2016 og vegna reynsluleysis fyrirsvarsmanna stefnda áslíkum ferðum hafi verið nauðsynlegt að sú ferð yrði farin svo hægt yrði aðpanta vörur fyrir verslunina. Í þeirriinnkaupaferð hafi stefnandi sýnt af sér ósæmilega hegðun við annan starfsmannverslunarinnar í samtali á samskiptaforritinu Skype, er hann hafi gagnrýnt hanameð hæðni er hún hafi gefið upp skoðanir sínar á tilteknum vörum.Með tölvupósti ArnarValdimarssonar 31. janúar 2016 var stefnanda sagt upp störfum hjá stefnda og umuppsagnarfrest vísað til kjarasamnings VR og Samtaka atvinnulífsins og 2. gr.ráðningarsamnings frá 31. júlí 2015. Stefndi segir að þar sem verslunin hafinýlega tekið til starfa hafi stefndi farið fram á að stefnandi myndi vinna uppuppsagnarfrestinn, svo ekki yrði röskun á starfsemi verslunarinnar. Hafistefndi hugsað sér í millitíðinni að finna nýjan verslunarstjóra, eins fljóttog mögulegt væri enda ljóst að trúnaður væri að öllu leyti brostinn fyriráframhaldandi samstarfi aðila. Stefndi kveðst hafa frétt 9.febrúar 2016 af frekari trúnaðarbrotum stefnanda, en stefnandi hefði gagnrýnt einnfyrirsvarsmann stefnda í samtali við aðstoðarverslunarstjóra verslunarinnar oglýst yfir vantrausti á störfum hans. Örn Valdimarsson sendi stefnanda tölvupóstsama dag, 9. febrúar, þar sem fram kom að slík hegðun væri ekki liðin og væritrúnaðarbrot. Stefndi kveður að hinn 15.febrúar 2016 hafi stefnandi skyndilega farið úr vinnu klukkan 16:00 án þess aðtilkynna sérstaklega um ástæðu fjarvistanna, líkt og honum hafi borið skyldatil samkvæmt samningi aðila. Framkvæmdastjóra stefnda hafi borist atvikið tilfregna frá öðrum starfsmanni, sem hafi sagt að stefnandi hafi ætlað að farabeint á Læknavaktina vegna veikinda. Morguninn eftir hafi stefnandi tilkynntsig veikan í vinnu. Fyrir liggi læknisvottorð, dags. 19. febrúar 2016, fráheilsugæslunni í Efra-Breiðholti, og því sé ljóst að stefnandi hafi ekki leitaðstrax til læknis vegna veikinda líkt og hann hafi fullyrt. Síðar í mánuðinum hafi stefndifrétt að stefnandi hafi þann 19. febrúar borið upp kvartanir viðverslunarstjóra annarrar verslunar í Smáralind, s.s. um vangoldna yfirvinnu aukþess að gagnrýna frekar fyrirsvarsmenn stefnda. Með bréfi stefnda, dags. 29.febrúar 2016, var stefnanda sagt upp störfum án fyrirvara vegna þess að hannhefði ítrekað brotið trúnaðarskyldur sínar. Með bréfi VerslunarmannafélagsÍslands (VR) fyrir hönd stefnanda, dags. 17. mars 2016, var fyrirvaralausriuppsögn mótmælt. Með bréfi 14. júní 2016 voru mótmæli stefnanda áréttuð aukþess að stefnandi krafðist greiðslu bóta, en stefndi hefur hafnað kröfumstefnanda. Stefnandi hefur því höfðað mál þetta. Við aðalmeðferð málsins gafstefnandi skýrslu, framkvæmdastjóri stefnda, Örn Valdimarsson, Guðbjörg MaríaSigtryggsdóttir stjórnarformaður stefnda og vitnin Kim Martin Knudsen, MargrétÝr Sigurjónsdóttir og Lárentsínus Kristjánsson. II. Stefnandibyggir á því að við gerð ráðningarsamnings aðila, dags. 31. júlí 2015, hafihann strax gert athugasemdir við launakjör eins og þeim var lýst íráðningarsamningi. Samkomulag hafi þá orðið á milli forsvarsmanna stefndu,Arnar Valdimarssonar og Lárentsínusar Kristjánssonar, að öll yfirvinna umframdagvinnu yrði greidd með yfirvinnukaupi samkvæmt kjarasamningi VR og SA.Samkvæmt tímaskráningu hafi unnir yfirvinnutímar á starfstímanum verið 155,78.Tímakaup í yfirvinnu samkvæmt kjarasamningi nemi 1,0385% af mánaðarlaunum oghafi verið 4.963 krónur á tímann. Stefnandi hafnar því alfarið aðhafa brotið af sér í starfi og telur hann ásakanir stefnda rangar. Stefnandahafi meðal annars verið gefið að sök að hafa rætt við sænskan aðila sem hafikomið nokkrum sinnum hingað til lands á vegum stefnda til að aðstoða viðframsetningu búðarinnar. Stefnandi hafi verið samskipti við umræddan aðila endahingað kominn til að aðstoða stefnda. Að slík samskipti feli í sér trúnaðarbroteigi ekki við nokkur rök að styðjast og eigi það sama við um aðrar ávirðingar áhendur stefnanda. Þá hafi stefnandi aldrei fengið áminningu um brot í starfi enþað sé forsenda þess að unnt sé að reka starfsmenn fyrirvaralaust. Stefnandi gerir kröfu umvangoldin laun í uppsagnarfresti sem sé mars og apríl, vangoldna yfirvinnu, aukorlofs og desemberuppbótar 30.978 krónur en full uppbót sé 82.000 krónur ogmiðist við 45 unnar vikur, og orlofsuppbót 42.000 krónur sem sé full uppbótm.v. maí 2015 til lok apríl 2016. Samkvæmt 1.9. gr. í kjarasamningiVR og SA eigi laun að greiðast fyrsta dag eftir að mánuði þeim lýkur sem launeru greidd fyrir. Að auki skuli vinnuveitandi greiða áunnið orlof til launþegavið lok ráðningarsambands skv. 8.gr. orlofslaga nr. 30/1987, og áunnið hlutfalllaunþega af orlofs-og desemberuppbót skv. köflum 1.3.1 og 1.3.2 í kjarasamningiVR og SA. Krafan sundurliðist þannig:Vangoldin laun vegna mars 2016 477.900,00Vangoldin laun vegna apríl 2016 477.900,00Vangoldið orlof 10.17% (2x477.900,00x0.1017) 97.205,00Vangoldin desemberuppbót 2016 30.978,00Vangoldin orlofsuppbót 2015/16 42.000,00Yfirvinna (155,78 yfirvinnutímar * kr. 4.963,00) 773.135,00Höfuðstóll 1.980.246,00 Umlagarök vísar stefnandi til laga nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups, lög um orlof nr. 30/1987, meginreglurkröfuréttar, meginreglur vinnuréttar, kjarasamninga VR og vinnuveitenda ogbókanir sem teljast hluti kjarasamninga. Kröfur um dráttarvexti ogvaxtavexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001.Kröfu um málskostnað styðurstefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 129. gr. 4. tl. um vextiaf málskostnaði. Einnig er krafist virðisaukaskatts af málskostnaði þar semstefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.III.Stefndi byggir sýknukröfu sína áþví að hann hafi efnt að fullu skyldur sínar við stefnanda og eigi stefnandiþví engar frekari kröfur á hendur stefnda. Stefndi mótmælir því að hann skuldistefnanda laun vegna ógreiddrar yfirvinnu auk launa á uppsagnarfresti ásamtorlofi og desemberuppbót, enda hafi aðilar ekki samið um greiðslu yfirvinnu aukþess að stefnanda hafi verið sagt upp fyrirvaralaust vegna alvarlegra brota áráðningarsamningi og skyldum sínum gagnvart stefnda, sem réttlætt hafi stöðvunfrekari launagreiðslna til stefnanda á uppsagnarfresti. Stefndi segir að engin sönnunliggi fyrir um meintan rétt stefnanda til greiðslu yfirvinnukaups. Þá liggiengin staðfesting fyrir um fjölda tíma eða sundurliðun. Krafa stefnanda séverulega vanreifuð að þessu leyti. Jafnvel þó svo að fallist yrði á aðstefnandi hafi unnið yfirvinnutíma þá sé ljóst að heildarlaun hans hafi veriðlangt ofan þau laun sem kjarasamningur kveði á um sem lágmarkskjör ístarfi. Samkvæmt ráðningarsamningiskyldu laun stefnanda vera 450.000 krónur á mánuði, í samræmi við vinnutímaskv. 4. gr. samningsins. Í 7. gr. samningsins sé skýrt tekið fram að stefnandayrði ekki greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu. Laun samningsins hafi verið miðuðvið það að mæta hugsanlegri tilfallandi yfirvinnu. Samkvæmt kjarasamningi SA ogVR hafi byrjunarlaun sérþjálfaðra starfsmanna sem fela megi verkefnaumsjónverið 239.506 krónur fram að 1. janúar 2016 eða 210.494 krónum minna ensamningsbundin laun stefnanda hafi kveðið á um.Samningar, þar sem kveðið sé á umað yfirvinna skuli vera innifalin í föstum mánaðarlaunum, séu ekki óheimilir,nema kjarasamningar eða lög mæli svo fyrir. Í fyrirliggjandi kjarasamningi, semgildi um ráðningarsamband aðila, séu slíkir samningar ekki bannaðir. Þá mótmælir stefndi því aðstefnandi hafi gert athugasemdir eða kröfu um greiðslu á yfirvinnustundum áráðningartíma sínum. Í málinu hafi ekki verið lögð fram gögn sem styðji þessastaðhæfingu stefnanda. Einnig bendir stefndi á að íráðningarsamningi sé kveðið á um að framkvæmdastjóri sé næsti yfirmaður stefnandaog að um kaup og kjör skyldi samið við hann. Stefnandi haldi því fram í stefnuað hann hafi komist að munnlegu samkomulagi við þáverandi meðeiganda stefnda umgreiðslu yfirvinnukaups. Staðhæfingu þessari sé mótmælt sem ósannaðri og skjótiþað skökku við að því sé haldið fram að um yfirvinnu hafi verið samið þvert áþað sem komi fram í 7. gr. ráðningarsamningsins. Stefnanda hafi verið í lófalagið að tryggja sér sönnun um slíkt hafi sú verið raunin. Í ráðningarsamningi hafijafnframt verið kveðið á um að laun skyldu endurskoðuð eftir sex mánuði frá þvíað starfsmaður hóf störf. Ljóst sé að ekki hafi komið til slíkrar endurskoðunarvegna uppsagnar stefnda á ráðningarsambandinu. Ennfremur bendi fyrirætlaniraðila um bónuskerfi sem kveðið hafi verið á um í 7. gr. ráðningarsamningsinstil þess að engin áform hafi verið um greiðslu sérstaks yfirvinnukaup. Umrættbónuskerfi skyldi taka mið af annars vegar rýrnun í versluninni og hins vegarafkomu fyrirtækisins. Báðir aðilar hafi vitað og mátt vita að skilyrðibónuskerfis hafi ekki verið til staðar fyrstu mánuði í rekstri stefnda endaóraunhæft að ætla nýrri fataverslun að skila hagnaði fyrst um sinn. Téð ákvæðihafi verið til þess hugsað að stefnandi fengi að njóta ávinnings af góðumrekstrarskilyrðum stefnda þegar að því kæmi. Þá bendir stefndi á að íráðningarsamningi skyldi vinnutími stefnanda vera frá kl 10-19 virka daga. Íreynd hafi stefnandi ætíð hafið störf kl. 11, en það sé óumdeilt í málinu. Þáhafi stefnandi unnið á fimmtudögum frá kl. 11-17. Einnig byggir stefndi á því aðstefnandi hafi glatað kröfu sinni um greiðslu yfirvinnukaups sökum tómlætis enekki liggi fyrir að stefnandi hafi gert sérstaka kröfu um greiðslu slíks kaupsá ráðningartíma. Að ofangreindu virtu beri því aðsýkna stefnda af kröfu stefnanda um laun vegna ógreiddrar yfirvinnu. Enn fremur byggir stefndi á þvíað stefnandi hafi fyrirgert rétti sínum til frekari launa á uppsagnafresti.Nánar tiltekið hafi vanefndir stefnanda á starfsskyldum sínum réttlættfyrirvaralausa uppsögn sem hafi heimilað stöðvun frekari launa áuppsagnarfresti. Vanefnd þessi hafi fyrst og fremst falist í ítrekuðumalvarlegum trúnaðarbrotum stefnanda gagnvart stefnda og forsvarsmönnumfélagsins, m.a. í því skyni að rýra orðstír stjórnenda félagsins og þar meðskaða ímynd þess. Stefndi kveður að samkvæmtalmennum reglum vinnuréttar hafi launþegi m.a. þeirri trúnaðarskyldu að gegnagagnvart vinnuveitanda sínum að hann hagi störfum sínum á þann hátt aðhagsmunir vinnuveitanda verði ekki fyrir skaða. Enn ríkari skyldur hafi þeirstarfsmenn sem séu yfirmenn og beri faglega ábyrgð á rekstri fyrirtækis ogjafnvel mannaforráð, eins og í tilfelli stefnanda. Brot á heiðarleika- ogtrúnaðarskyldu sé alvarlegt brot á ráðningarsambandi og geti það varðað riftunán áminningar. Viðhafi starfsmaður svo alvarlegt trúnaðarbrot að það vegi gegnrekstrargrundvelli vinnuveitanda hans réttlæti slíkt fyrirvaralausa uppsögn, ensvo hafi háttað í tilviki stefnanda, sbr. og niðurlag gr. 12.1 í gildandikjarasamningi vegna starfans. Á grundvelli ráðningarsamningsaðila sé ennfremur ljóst að stefnandi hafi borið ríka trúnaðar- og þagnarskylduí starfi, sbr. 6. gr. samningsins auk óskráðra reglna um trúnaðarskyldurstarfsmanna gagnvart vinnuveitanda. Í niðurlagi 6. gr. ráðningarsamningsins séennfremur sérstaklega áréttað að starfsmanni sé það ljóst að það kostistöðumissi ef uppvíst verði að þagnar- og trúnaðarheit skv. 6. gr. verði rofið.Byggir stefnandi á að stefndihafi gerst sekur í upphafi um alvarleg trúnaðarbrot sem hafi leitt tiluppsagnar hans 31. janúar 2016. Trúnaðarbrot þessi hafi falist í því að skaðavinnuveitanda sinn og orðstír hans gagnvart yfirmönnum hjá sérleyfisgjafastefnda með því að kasta rýrð á hæfni þeirra og fagmennsku í rekstrinum.Stefnda hafi hins vegar verið sá nauðugur kostur búinn í ljósi þess aðverslunin hafði nýlega tekið til starfa, að fara fram á að stefnandi ynni uppuppsagnarfrest á meðan að leitað væri nýs verslunarstjóra svo ekki yrði röskuná starfsemi stefnda á jafn viðkvæmum tíma og fyrstu mánuðir í rekstri verslunareru almennt.Trúnaðarbrot þessi og alvarleikiþeirra verði að skoða í því ljósi að stefndi reki verslanir sínar á grundvellisérleyfissamnings (e. franchise agreement) við eiganda vörumerkisins Superdry áalþjóðavísu. Við þess háttar aðstöðu sé gott viðskiptasamband millisérleyfistaka og sérleyfisgjafa enn mikilvægara en ella enda sé allur rekstursérleyfishafa grundvallaður á þessum samningi. Verði viðskiptasamband þettafyrir skaða af völdum þriðja aðila sé því reksturinn allur undir ólíkt þvíþegar átt sé við einstaka birgja vörumerkja.Stefnandi, sem hafi starfað semverslunarstjóri hjá stefnda og hafi m.a. haft á starfssviði sínu að mótaverslunina í samræmi við viðskiptahugmyndir sérleyfisgjafans, hafi veriðfyllilega meðvitaður um umrætt fyrirkomulag og mikilvægi viðskiptasambandsinsfyrir stefnda. Byggir stefndi í því samhengi áþví, að þrátt fyrir að stefnanda hafi verið sagt upp þann 31. janúar, vegnabrota sem réttlætt hefðu fyrirvaralausa uppsögn, hafi trúnaðarskylda vinnusambandsinsáfram verið í fullu gildi. Í tilviki stefnanda hafi verið um alvarlegaframgöngu að ræða, sem hafi falist í áframhaldandi vanefnd á samningi aðila ogtrúnaðraskyldum. Þá hafi stefndi fengið ítarlegri lýsingar á trúnaðarbrotumstefnanda eftir uppsögnina í janúar 2016. Um miðjan og í lok febrúar 2016hafi framkvæmdastjóra stefnda borist til fregna frekari trúnaðarbrot stefnanda.Þar sem stefnandi hafi gerst sekur um ítrekuð trúnaðarbrot, og í raun viðhaldiðvanefndum sínum með því að vinna gegn hagsmunum stefnda eftir uppsögnina í lokjanúar 2016, hafi verið ákveðið að segja stefnanda upp fyrirvaralaust og stöðvagreiðslur launa eftir febrúarmánuð. Það hafi verið ljóst að stefnandi hafiunnið áfram af ásetningi gegn hagsmunum stefnda á þessu tímamarki. Trúnaðarbrotþessi, sem hafi m.a. falist í brotthvarfi úr vinnu án tilkynningar til stefndaog broti á þagnar- og trúnaðarskyldum stefnanda í samtölum við þriðja aðila ogsamstarfsfólk, hafi falið í sér veigamiklar vanefndir að ráðningarsambandi aðila.Stefndi telur að með hliðsjón affyrri atvikum og alvarlegum vanefndum stefnanda sem hafi leitt til uppsagnarhans í janúar hafi ekki verið þörf á sérstakri áminningu enda hafi stefnandimátt vita að frekari trúnaðarbrot heimiluðu fyrirvaralausa uppsögn. Sérstökáminning í aðdraganda hinnar fyrirvaralausu uppsagnar í febrúar hafi því veriðóþörf með hliðsjón af atvikum málsins og alvarleika brotanna. Stefndi heldur því fram að í raunhafi uppsögnin í janúar og áminningar til stefnanda fyrir það tímamark falið ísér ígildi áminningar enda verði áminning vart skýrari en með uppsögnstarfsmanns á grundvelli brota hans. Stefnanda hafi verið gefinn kostur á aðbæta ráð sitt gegn því að hann fengi að halda launum út uppsagnarfrest ogvinnu, sem stefnda hafi ekki verið nauðsynlegt að gera í ljósi atvika. Alvarleika síðari trúnaðarbrot ogvanefnda á starfsskyldum verði auk þess að túlka með hliðsjón af þeimtrúnaðarbrotum sem stefnandi hafi orðið uppvís að í janúar 2016, þ.e. tæpummánuði fyrir hina fyrirvaralausu uppsögn. Uppsögnin hafi falið í sér alvarlegaáminningu í garð stefnanda og hafi stefndi mátt fara fram á að stefnandi stæðivið ákvæði ráðningarsamnings jafnt á uppsagnarfresti sem endranær. Með áframhaldandi vanefndumstefnanda á uppsagnarfresti hafi stefnandi gefið stefnda fullt tilefni og rétttil að segja stefnanda upp störfum með þeim hætti sem gert var og þar meðstöðva frekari launagreiðslur til hans. Að teknu tilliti til eðlisvanefndar stefnanda og rekstrarfyrirkomulags stefnda hafi verið ómögulegt fyrirstefnda að gefa stefnanda færi á að bæta fyrir vanefnd sína enda hafi umóafturkræfanlegan skaða að ræða og gróft trúnaðarbrot. Með hliðsjón af ofangreindu hafihin fyrirvaralausa uppsögn án frekari greiðslna verið lögmæt. Beri því að sýknastefnda af kröfu um laun á uppsagnarfresti vegna mars og apríl 2016 aukvangoldins orlofs vegna ofangreindra tveggja mánaða. Stefndi hafnar því að rétturstefnanda til greiðslu bóta vegna ógreiddrar orlofs- og desemberuppbótar hafiverið fyrir hendi enda hafi heildarlaun stefnanda verið með þeim hætti að allarslíkar greiðslur rúmuðust innan þeirra kjara sem kveðið var á um íráðningarsamningi aðila. Skýrlega sé tekið fram í ráðningarsamningi aðlaunagreiðslur væru fastar og tækju ekki breytingum til samræmis viðverðlagshækkanir eða þróun launa á almennum vinnumarkaði heldur væru breytingarætíð háðar samþykkir stjórnenda vinnuveitanda. Að auki sé útreikningi vegnaofangreindra tveggja kröfuliða mótmælt. Verði fallist á að stefnandi eigirétt til greiðslu yfirvinnu í samræmi við kröfu stefnanda byggir stefndi á aðgreiða skuli eftir taxta VR en ekki reikna yfirvinnu út frá heildarlaunum. Í 7.gr. ráðningarsamningsins komi skýrt fram að ekki sé greitt sérstaklega fyriryfirvinnu. Þar að leiðandi standist það enga skoðun að reikna yfirvinnutaxta útfrá heildarlaunum stefnanda. Ljóst sé að umsamin laun hafi ekki verið eingöngudagvinnulaun, heldur hafi falist í þeim laun fyrir eftir- og yfirvinnu eftiratvikum, þótt ekki væri greint milli þessa tvenns í ráðningarsamningnum. Leiðiaf því að stefnandi eigi ekki rétt á að yfirvinna hans sé miðuð við hin umsömduheildarlaun heldur verði að miða dagvinnulaun samkvæmt gildandi kjarasamningi.Beri að miða yfirvinnukaup við taxta kjarasamnings fyrir dagvinnulaun sérþjálfaðrastarfsmanna verslana, sem geti unnið sjálfstætt, sýna frumkvæði og fela megiverkefnaumsjón. Þá byggir stefndi jafnframt á aðtímafjöldi yfirvinnutíma sé vanreifaður og ótækt sé að byggja á fullyrðingumstefnanda um fjölda þeirra, en stefndi hafi mótmælt þeim. Jafnframt sé ljóst aðstefnandi hafi aldrei unnið á ráðningartímanum í samræmi við skyldur sínarsamkvæmt ráðningarsamningi, þ.e. frá 10-17, heldur hafi hann ávallt mætt tilvinnu kl 11:00. Með hliðsjón af því verði að lækka kröfu stefnanda um greiðsluyfirvinnukaup sem því nemi, en samtals sé um að ræða 137 klukkustundir áráðningartímabilinu. Verði fallist á kröfu stefnandaum skaðabætur vegna mánaðarlauna í mars og apríl gerir stefndi kröfu um lækkunþeirrar fjárhæðar verði leitt í ljós að stefnandi hafi fengið greiðslur fráþriðja aðila á umræddu viðmiðunartímabili. Að auki er upphafstímadráttarvaxtakröfu stefnanda mótmælt. Um lagarök vísar stefndi tilmeginreglna samninga- og kröfuréttar, meginreglna vinnuréttar, kjarasamninga VRog vinnuveitanda. Þá byggir stefndi á skráðum sem óskráðum reglum umtrúnaðarskyldu starfsmann gagnvart vinnuveitanda auk reglna um tómlæti ívinnurétti. Um málskostnað vísast til 129. og130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. IV.Stefnandi reisir kröfur sínar áþví að hann eigi inni ógreidd yfirvinnulaun hjá stefnda og laun íuppsagnarfresti auk ógreiddrar orlofs- og desemberuppbótar. Stefnandi hefurmótmælt því að hafa aðhafst nokkuð sem réttlætt geti synjun á launum íuppsagnar­fresti. Svo sem áður segir liggur ímálinu fyrir óundirritaður ráðningarsamningur, dagsettur 31. júlí 2015. Þáliggur fyrir tölvupóstur Lárentsínusar Kristjánssonar, þáverandi eiganda aðhelmingshlut í stefnda og stjórnarmanns, til stefnanda og Arnar Valdimarssonarsama dag, þar sem stefnanda voru send drög að ráðningarsamningi, og tekið framað stefnandi skyldi gera athugasemdir við samninginn ef einhverjar væru en„annars klárum við þetta á eftir þegar við hittumst“. Í aðilaskýrslu ArnarValdimarssonar fyrir dómi kom fram að enginn ráðningarsamningur hafi veriðundirritaður er þeir hittust, né síðar. Í framburði vitnisins LárentsínusarKristjánssonar fyrir dómi kom fram að stefnandi hafi strax gert athugasemdirvið að ráðningarsamningurinn gerði ekki ráð fyrir að vinna, umfram 171,15 tímavinnuskyldu, yrði greidd sérstaklega. Kvaðst hann hafa hitt stefnanda og Arnarí búð stefnda þar sem þetta hafi verið rætt og hafi aðilar bundist fastmæli umað yfirvinna skyldi greidd. Hafi Örn átt að sjá um að ganga frá þessum málum í framhaldinu.Í ljósi þessa verður talið ósannað að samið hafi verið um að stefnandi skyldiekki fá greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu. Er þá meðal annars litið til þessað stefnda var í lófa lagið að tryggja sér sönnun um að yfirvinna skyldi verainnifalin í föstum mánaðarlaunum stefnanda með því að gera skrifleganráðningarsamning við stefnanda eða staðfesta ráðningu hans með skriflegum hættisvo sem honum bar skylda til samkvæmt grein 1.11.1 í kjarasamningi VR ogSamtaka atvinnulífsins.Stefnandi krefst launa fyrirsamtals 155,78 vinnustundir sem hann hafi skilað umfram 171,15 klukkustundavinnuskyldu á mánuði. Fram er komið að stefnandi hélt utan um eigintímaskráningu og staðfesti Arnar Valdimarssonar fyrir dómi að stefnandi hefðilátið honum skráninguna í té mánaðarlega. Í skýrslu sinni við aðalmeðferðmálsins rakti stefnandi tíma sem hann vann í yfirvinnu á starfstímanum, dagfyrir dag. Samkvæmt því vann stefnandi 19,85 yfirvinnutíma á tímabilinu frá 25.júlí 2015 til 24. ágúst sama ár, 34,68 yfirvinnutíma frá 25. sama mánaðar til24. september sama ár, 23,35 yfirvinnutíma frá 25. sama mánaðar til 24. októbersama ár, 23,35 yfirvinnutíma frá 25. sama mánaðar til 24. nóvember sama ár,24,10 yfirvinnutíma frá 25. sama mánaðar til 24. desember sama ár, 5,10yfirvinnutíma frá 25. sama mánaðar til 24. janúar 2016 og 25,35 yfirvinnutímafrá 25. sama mánaðar til 24. febrúar sama ár eða samtals 155,78 klukkustundir.Tímafjöldi að baki kröfu stefnanda byggi á samtímaskráningu. Stefndi hefur ekkilagt fram gögn né með öðrum hætti hrakið staðhæfingar stefnanda um fjöldayfirvinnutíma og verður stefndi að bera hallann af því. Samkvæmt ákvæði 1.7.1 íkjarasamningi VR og Samtaka atvinnulífsins skal vinna afgreiðslufólks umfram171,15 klukkustundir greiðast með tímakaupi sem nemur 1,0385% af mánaðarlaunumfyrir dagvinnu. Áður er komist að þeirri niðurstöðu að mánaðarlaun stefnandavoru greidd fyrir 171,15 klukkustunda mánaðarlega vinnuskyldu stefnanda. Krafastefnanda um yfirvinnugreiðslur tekur því réttilega mið af umsömdummánaðarlaunum. Samkvæmt því verður krafa stefnanda um greiðslu á 773.153 krónumvegna ógreiddrar yfirvinnu tekin til greina. Eins og atvikum máls þessa erháttað verður ekki talið að sá tími sem leið þar til stefnandi krafði stefndasannanlega um greiðslur vegna yfirvinnu í janúar 2016 leiði til þess að rétturhans til launanna sé að nokkru eða öllu niður fallinn. Svo sem áður segir var stefnandasagt upp störfum með tölvupósti 31. janúar 2016. Var stefnanda í upphafi gertað vinna þriggja mánaða uppsagnarfrest samkvæmt 2. gr. hins óundirritaðaráðningarsamnings. Með bréfi 29. febrúar sama ár var stefnanda vikið fyrirvaralaustúr starfi hjá stefnda og sviptur frekari launagreiðslum vegna ítrekaðratrúnaðarbrota í starfi. Í málatilbúnaði sínum byggir stefndi á því að honumhafi verið riftun ráðningarsamningsins heimil án sérstakrar áminningar meðhliðsjón af atvikum málsins og alvarleika brota stefnanda. Þá byggir stefndi áþví að uppsögn stefnanda í janúar og ávirðingar fyrir það tímamark hafi falið ísér ígildi áminningar. Í áðurgreindu bréfi stefnda 29.febrúar 2016 eru þau trúnaðarbrot sem stefndi taldi stefnanda sekan um tíunduð.Í bréfinu er í fyrsta lagi vísað til atvika sem sögð eru hafa átt sér stað 18.nóvember 2015 og 19. janúar 2016 þar sem stefnandi hafi sett út á það hvernigfyrirsvarsmaður stefnda, Örn Valdimarsson, ræki verslunina hér á landi, í fyrraskiptið við Kim Knudsen, yfirmann Superdry verslana á Norðurlöndum, og hiðsíðara við Lars Thygesen, forstjóra Superdry í Danmörku. Hafi síðara atvikiðverið rætt við stefnanda 20. janúar 2016 og að hálfu stefnda talið að fullurskilningur væri milli aðila um „að þvílíkt myndi ekki endurtaka sig“. Í öðrulagi er greint frá því að 29. sama mánaðar hafi stefnandi, eftir að hafaráðfært sig við kjaramálafulltrúa VR, farið fram á að meint yfirvinna skyldigreidd og tilkynnt um að þau mál myndi hann eftirleiðis aðeins ræða í gegnumtölvupóst og með fulltingi kjaramálafulltrúa VR. Eru fyrrgreind atvik, semstefndi taldi trúnaðarbrot, sögð hafa verið ástæða uppsagnar stefnanda 31.janúar 2016. Því næst er í bréfinu greint frá atvikum sem eru sögð hafa átt sérstað eftir uppsögnina. Þann 2. febrúar 2016 hafi stefnandi rætt við meðeigandaArnar Valdimarssonar um atvik í innkaupaferð þeirra erlendis 25. janúar sama árog 15. febrúar sama ár hafi stefnandi farið úr vinnu klukkan 16:00, að sögnvegna veikinda, án þess að tilkynna það sérstaklega til Arnar og 19. samamánaðar hafi stefnandi sagt við verslunarstjóra Vila í Smáralind að stefndineitaði að greiða honum yfirvinnu.Riftun ráðningarsamnings erviðurhluta mikið vanefndaúrræði og eru ríkar kröfur gerðar til vinnuveitanda umsönnun á þeim atvikum sem liggja að baki beitingu þess. Að meginreglu er þaðskilyrði fyrir riftun ráðningasamnings að starfsmanni hafi áður verið gerðáminning vegna þeirrar háttsemi sem er tilefni riftunarinnar. Áminning geturhvort tveggja verið munnleg eða skrifleg en þá kröfu verður að gera aðstarfsmanni sé gert grein fyrir því með skýrum hætti að verði hann aftur uppvísaf háttseminni kunni það að varða brottrekstri úr starfi. Þá verður starfsmaðurað hafa haft raunhæfan kost á að bæta ráð sitt áður en riftun er beitt ágrundvelli áminningar. Að mati dómsins verða þær sakirsem á stefnanda hafa verið bornar samkvæmt framansögðu ekki taldar þess eðlisað heimilað hafi stefnda að rifta ráðningarsamningi við hann án undanfarinnaráminningar. Kemur þá til skoðunar hvortstefndi hafi með uppsögn stefnanda 31. janúar 2016 eða fyrri aðgerðum sínumáminnt stefnanda í skilningi vinnuréttar. Í tölvupósti stefnda 31. janúar 2016þar sem stefnanda var sagt upp störfum er ekki getið um ástæður uppsagnarinnar.Þá hefur stefndi í máli þessu ekki fært fram nein gögn eða með öðrum hætti sýntfram á að við uppsögnina hafi stefnandi verið aðvaraður vegna tiltekinnarháttsemi og honum gert ljóst hvaða afleiðingar það kynni að hafa yrði hannuppvís að háttseminni aftur. Á það sama við um meintar fyrri áminningar. Gegneindreginn neitun stefnanda þykir því ósannað að stefnandi hafi verið áminnturí skilningi vinnuréttar fyrir riftunina. Verður samkvæmt þessu fallist á þaðmeð stefnanda að hann eigi rétt til greiðslu úr hendi stefnda er nemurvangoldnum launum í uppsagnarfresti en útreikningur kröfunnar sætir ekkitölulegum andmælum. Stefnandi var ekki með önnur laun í mars og apríl 2016 ogeru því engar slíkar greiðslur sem koma til frádráttar kröfu stefnanda. Við aðalmeðferð málsins varupplýst að eftir höfðun málsins hefði stefndi greitt stefnanda áunnadesemberuppbót 2016, vegna vinnu í janúar og febrúar sama ár, og áunnaorlofsuppbót vegna orlofsársins 2015 til 2016, fram til 1. febrúar 2016. Eróumdeilt að stefndi hafi fullnægt greiðsluskyldu að þessu leyti með innborgunað fjárhæð 47.593 krónur 7. febrúar 2017.Að því er varðar orlofs- og desemberuppbót er því aðeins deilt um réttindinvegna mars og apríl 2016. Í ljósi fyrrgreindrar niðurstöðu verður krafa stefnandaað þessu leyti tekin til greina, enda verða starfskjör stefnanda ekki rýrð aðþessu leyti á uppsagnarfresti. Að öllu þessu virtu verður krafastefnanda tekin að öllu leyti til greina, að virtri innborgun stefnda 17.febrúar 2017. Fallist er á dráttarvaxtakröfu stefnanda. Þá leiðirréttur til höfuðstólsfærslu dráttarvaxta á tólf mánaða fresti beint af ákvæðum12. gr. sömu laga og því óþarft að kveða á um slíka höfuðstólsfærsludráttarvaxta í dómsorði. Verða dráttarvextir dæmdir svo sem nánar greinir í dómsorði. Eftir þessum úrslitum og meðvísan í 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal stefndigreiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur. Dóm þennan kveður upp SandraBaldvinsdóttir héraðsdómari.Dó m s o r ð:Stefndi, SDR ehf., greiðistefnanda, Jóni Helga Sigurðssyni, 1.980.246 krónur ásamt dráttarvöxtumsamkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 477.900krónum frá 1. apríl 2016 til 1. maí sama ár en af 1.980.246 krónum frá þeimdegi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 47.593 krónurhinn 7. febrúar 2017.Stefndi greiði stefnanda 800.000krónur í málskostnað.
Mál nr. 436/2001
Umferðarréttur Samaðild Frávísun frá héraðsdómi
Ó og B deildu um hvort Ó ætti tiltekinn umferðarrétt að fasteign sinni. Ekki var gætt ákvæða 18. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð einkamála um samaðild þeirra lóðarhafa sem umferðarrétturinn átti að taka til og var því óhjákvæmilegt að vísa málinu frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. nóvember 2001. Hann krefst þess að viðurkennt verði „að hann eigi óheftan umferðarrétt á milli lóðanna nr. 119 og 121 við Vesturgötu á Akranesi.“ Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Eins og nánar er rakið í héraðsdómi stendur deila málsaðila um umferðarrétt áfrýjanda að fasteign sinni Vesturgötu 119 á Akranesi. Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð allmörg ný skjöl. Í kröfugerð sinn afmarkar áfrýjandi ekki skýrlega það svæði, sem hann krefst umferðarréttar um. Til þess verður þó að líta að eins og málið hefur verið rekið af hálfu beggja aðila stendur umferðarréttardeila þeirra um svæði, sem auðkennt er á uppdrætti Verkfræði- og teiknistofunnar sf. Akranesi frá 18. nóvember 1968. Eins og nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi fylgdu hlutar af þessum uppdrætti lóðarleigusamningi um Vesturgötu 119 frá 12. júní 1969 og lóðarleigusamningi um Vesturgötu 121 frá 27. maí 1969 við þinglýsingu þeirra skjala. Samkvæmt uppdrættinum er hluti þess svæðis, sem deilan tekur til, á lóð Vesturgötu 121, en hluti þess á lóð, sem samkvæmt uppdrættinum er talin til Vesturgötu 121A. Í málinu liggur ekki fyrir lóðarleigusamningur um Vesturgötu 121A frá þessum tíma, en ekkert er fram komið, sem bendir til annars en að leigulóð þeirrar eignar sé réttilega sýnd á áðurgreindum uppdrætti. Þá liggur ekki fyrir heimildarbréf stefnda fyrir fasteigninni Vesturgötu 121A, en eignarheimild hans að þeirri eign er þó ekki umdeild í málinu. Lóðarleigusamningur, sem Akraneskaupstaður gerði við stefnda 31. ágúst 1992 um lóðina númer 121A, nær ekki til alls þess svæðis, sem talið var til lóðarinnar á fyrrnefndum uppdrætti frá 18. nóvember 1968. Fellur allt það svæði utan lóðarleigusamningsins, sem umferðarkvöðin var talin ná til samkvæmt þeim uppdrætti. Samkvæmt framansögðu bera gögn málsins með sér að stefndi hafi ekki verið rétthafi þess hluta lóðarinnar þegar mál þetta var höfðað. Verður ekki af gögnum málsins ráðið hvort sá hluti var þá í eigu og á forræði Akraneskaupstaðar eða jafnvel að einhver annar hafi verið rétthafi hans. Áfrýjandi beindi ekki kröfu sinni að þeim, sem þá átti eða hafði á leigu þann hluta þeirrar lóðar, sem áður var talin fylgja Vesturgötu 121A, heldur stefnda einum. Þótt stefndi hafi þegar málið var höfðað verið eigandi fasteignarinnar númer 121 við Vesturgötu og þar með rétthafi leigulóðar, sem þeirri eign fylgdi, var samkvæmt því, sem að framan er rakið, ekki gætt ákvæða 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um samaðild þeirra lóðarhafa, sem umferðarrétturinn átti að taka til. Fær engu breytt þar um að stefndi hafi eftir áfrýjun héraðsdóms gert samning við Akraneskaupstað um leigu þess hluta lóðarinnar númer 121A við Vesturgötu, sem hin umdeilda umferðarkvöð tekur til. Samkvæmt framansögðu er óhjákvæmilegt að vísa málinu frá héraðsdómi. Í ljósi atvika málsins er rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af því í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá héraðsdómi. Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður. Mál þetta var höfðað 8. maí 2001 og dómtekið 13. september sama ár. Stefnandi er Óskar og Kjartan ehf., Sævangi 22 í Hafnarfirði, en stefndi er Bifreiðastöð Þórðar Þ. Þórðarsonar ehf., Kirkjubraut 16 á Akranesi. Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að hann eigi óheftan umferðarrétt á milli lóða nr. 119 og 121 við Vesturgötu á Akranesi. Einnig krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda dráttarvexti af 1.150.000 krónum frá 31. janúar 2001 til greiðsludags. Enn fremur er þess krafist að staðfest verði með dómi lögbannsgerð sýslumannsins á Akranesi frá 2. maí 2001, þar sem lagt er lögbann við þeirri athöfn stefnda að „hindra umferðarétt [stefnanda] á milli fasteignanna Vesturgötu 119 og 121, Akranesi, samkvæmt teikningum sem fylgja gildandi lóðarleigusamningum um fasteignirnar nr. 119 og 121.“ Þá krefst stefnandi hæfilegs málskostnaðar úr hendi stefnda. Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að hann verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað. I. Stefnandi er eigandi fasteignarinnar Vesturgötu 119 á Akranesi. Lóðarleigusamningur fyrir eignina var gerður 12. júní 1969 og afhentur sama dag til þinglýsingar. Flatarmál lóðarinnar er 3.430 fermetrar og er lögun hennar sýnd á uppdrætti sem fylgir lóðarleigusamningnum. Í ákvæðum lóðarleigusamningsins er ekki vikið að umferðarrétti leigutaka um aðliggjandi lóðir. Á uppdrætti með samningnum hefur hins vegar verið skyggt svæði frá lóð nr. 119 meðfram lóð nr. 121 með svohljóðandi áritun: „Dökkt: gagnkvæm umferðarkvöð“. Fasteignin Vesturgötu 121 er í eigu stefnda en lóðarleigusamningur fyrir eignina er frá 27. maí 1969 og var hann afhentur til þinglýsingar sama dag. Samkvæmt samningnum er flatarmál lóðarinnar er 3.190 fermetrar og er lögun hennar sýnd á viðfestum uppdrætti. Í samningnum sjálfum er ekki að finna ákvæði um umferðarkvöð, en uppdráttur með samningnum hefur að geyma sömu áritun og samningur fyrir lóð nr. 119 um gagnkvæma umferðarkvöð. Hinn 26. janúar 1999 var stefnanda veitt byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni Vesturgötu 119. Þær breytingar gera meðal annars ráð fyrir bílgengum dyrum á vesturhlið hússins í horni beint á móti dyrum inn í hús stefnda. Með bréfum, dags. 25. apríl 2001, kærði stefndi byggingarleyfið til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og óskaði samhliða eftir því við bæjarstjórn Akraness að leyfið yrði endurskoðað. Þessi erindi hafa hvorki hlotið afgreiðslu hjá úrskurðarnefnd né bæjarstjórn. Með kauptilboði samþykktu 31. janúar 2001 seldi stefnandi Agli Steinari Gíslasyni atvinnuhúsnæði á jarðhæð fasteignarinnar Vesturgötu 119. Kaupverðið var 1.150.000 til greiðslu við undirritun kaupsamnings. Í kauptilboðinu er tekið fram að seljandi tryggi kaupanda „fullan aðkeyrslurétt að innkeyrsludyrum að húsnæðinu“. Við aðalmeðferð málsins kom fram hjá Óskari Hrafni Ólafssyni, framkvæmdarstjóra stefnanda, að gerður hefði verið annar kaupsamningur um hluta eignarinnar, en sá samningur væri bundinn skilyrði um umferðarrétt milli lóða nr. 119 og 121. Með beiðni 5. apríl 2001 fór stefnandi þess á leit að sýslumaðurinn á Akranesi legði lögbann við því að stefndi takmarkaði umferðarrétt stefnanda á milli lóðanna nr. 119 og 121 við Vesturgötu. Í beiðninni er því haldið fram að stefndi hafi hindrað umferð stefnanda á milli lóðanna með því að setja stóran vörugám á það svæði sem umferðarrétturinn taki til. Þetta hafi valdið stefnanda óþægindum og beinu fjártjóni, sem einkum verði rakið til þess að sala á hluta eignarinnar með fyrrgreindu kauptilboði frá 31. janúar 2001 hafi gengið til baka. Í samræmi við beiðni stefnanda og gegn andmælum stefnda náði síðan lögbannið fram að ganga 2. maí 2001 og er krafist staðfestingar á þeirri lögbannsgerð með málsókn þessari. II. Stefnandi heldur því fram að milli húsa á lóðum nr. 119 og 121 við Vesturgötu á Akranesi sé gagnkvæmur umferðarréttur í samræmi við uppdrætti sem fylgi þinglýstum lóðarleigusamningum. Stefndi hafi um alllangt skeið haft stóran vörugám á því svæði sem umferðarréttur taki til og því hafi stefnandi ekki komist að húsum sínum. Í fyrstu hafi stefndi takmarkað umferðarréttinn með því að staðsetja gáminn á miðju svæðinu, sem hafi hindrað umferð bíla, en síðan með því að færa gáminn þétt að fasteign stefnanda. Með málshöfðun þessari sé krafist viðurkenningar á hinum gagnkvæma umferðarrétti og að staðfest verði lögbann sem lagt var við þeirri athöfn stefnda að hindra umferðarréttinn. Stefnandi vísar til þess að gerður hafi verið bindandi kaupsamningur um hluta húsnæðis hans með samþykktu kauptilboði frá 31. janúar 2001. Samkvæmt kauptilboðinu hafi stefnandi gengist undir að tryggja kaupanda fullan rétt til aksturs að innkeyrsludyrum að húsnæðinu. Þar sem umferðarrétturinn hafi verið hindraður af stefnda, og af þeim tálma hafi ekki verið látið þrátt fyrir áskoranir, hafi stefnandi ekki getað efnt þennan þátt samningsins. Af þessu sökum sé krafist hóflegra bóta úr hendi stefnda sem svari til dráttarvaxta af umsömdu kaupverði eignahlutans frá því kauptilboðið var samþykkt 31. janúar 2001 til greiðsludags. Stefndi andmælir því að umferðarkvöð hvíli á lóð hans í þágu fasteignarinnar Vesturgötu 119. Vísar stefndi til þess að uppdrættir með lóðarleigusamningum fyrir lóðir nr. 119 og 121 séu afrit af upphaflegum uppdrætti, sem gerður hafi verið af Verkfræði- og teiknistofunni sf. á Akranesi 18. nóvember 1968. Hvorki uppdrátturinn né þinglýst afrit af honum séu undirrituð af eigendum eignanna og engin önnur skrifleg gögn liggi fyrir, sem feli í sér samning um nýtingu lóðanna. Stefndi heldur því fram að þinglýsing uppdráttar með lóðarleigusamningi feli ekki í sér kvaðabindingu heldur hafi hún þann tilgang einan að afmarka og staðsetja lóð. Efni þeirrar kvaðar sem getið sé á uppdrætti með lóðarleigusamningi fyrir eign stefnda sé allt of óljóst til að annað og meira felist í þinglýsingunni og fráleitt að telja að í skjalinu felist réttur til handa stefnanda til að hafa einu aðkomu að eignarhluta í eign sinni þvert yfir lóð stefnda en eina aðkoma að eign hans sé um þann hluta lóðarinnar. Stefndi heldur því fram að umferðarkvöð um eign hans sé í öllu falli ekki þágu eiganda Vesturgötu 119. Það svæði sem skyggt sé á uppdrætti með lóðarleigusamningi fyrir eign stefnda nái inn á lóð hans en ekki inn á lóð stefnanda. Því sé ljóst að gagnkvæm umverðarkvöð sé ekki fyrir hendi í þágu eiganda Vesturgötu 119 þar sem ekki sé gert ráð fyrir umferð um lóðina í þágu eigenda annarra lóða. Í þessu sambandi vísar stefndi einnig til þess að í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu fyrir Vesturgötu 119 sé tekið fram að á lóðinni séu engar kvaðir. Stefndi vísar til þess að á árinu 1974 hafi viðbygging verið reist við Vesturgötu 119 en fyrir þann tíma hafi aðkoma að eigninni verið frá Vesturgötu og engin þörf á umferðarrétti um portið milli húsanna við Vesturgötu 121 og 121 A. Þegar uppdráttur, sem fylgi lóðarleigusamningum fyrir Vesturgötu 119 og 121, hafi verið gerður hafi staðið braggi á lóð nr. 121 A með dyr á báðum göflum. Því hafi þurft að aka um portið að eystri dyrum braggans. Á þessum tíma kunni því að hafa verið samkomulag um gagnkvæman umferðarrétt milli eigenda lóða nr. 121 og 121 A við Vesturgötu. Einnig telur stefndi mögulegt að umferðarréttur kunni að hafa verið í þágu eiganda húss sem stóð milli lóða nr. 119 og 121 A og nefnt var Aðalból, en það hús hafi verið rifið áður en nefnd viðbygging við Vesturgötu 119 var reist árið 1974. Þar sem stefnandi eigi ekki umferðarrétt yfir lóð stefnda telur hann að synja beri kröfu stefnanda um staðfestingu lögbanns. Af sömu ástæðu beri að sýkna stefnda af bótakröfu stefnanda. Verði lögbannið á hinn bóginn staðfest og umferðarréttur viðurkenndur beri allt að einu að sýkna af bótakröfu þar sem stefnandi hafi ekki orðið fyrir tjóni, sem rakið verði til bótaskyldrar háttsemi. Þá heldur stefndi því fram að synja beri um staðfestingu lögbanns þar sem ekki hafi verið fullnægt skilyrðum 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Stefndi hafi ekki haft í frammi byrjaða eða yfirvofandi athöfn, sem lögbann verði lagt við. Á lóðinni hafi hins vegar verið gámur en því verði ekki jafnað til athafna í þessum skilningi. Til að njóta umferðarréttar, sem stefnandi telur sig eiga, hefði honum á hinn bóginn verið kleift að hafa uppi kröfu um beina aðfarargerð á grundvelli 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Loks telur stefndi að synja hefði átt um lögbann þar sem réttarreglur um skaðabætur fyrir röskun hagsmuna hefðu tryggt þá nægjanlega, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. III. Stefnandi er eigandi fasteignarinnar Vesturgötu 119 á Akranesi. Með málshöfðun þessari hefur hann krafist þess að viðurkennt verði að eigninni fylgi umferðarréttur um aðliggjandi fasteign. Stefnandi samþykkti kauptilboð í hluta eignarinnar 31. janúar 2001 en sá kaupsamningur mun hafa gengið til baka. Þá hefur stefnandi upplýst að annar kaupsamningur um eignina sé bundinn skilyrði um umferðarrétt þann sem er sakarefni málsins. Að þessu virtu verður ekki talið að reglur um samaðild í 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hindri málsókn þessa. Með málsaðilum er ágreiningslaust að lóðir fasteignanna Vesturgötu 119 og 121 liggja saman innst í porti sem liggur frá vegi milli lóða nr. 121 A og 121 og að fasteign stefnanda. Aðilar deila hins vegar um hvort stefnandi eigi umferðarrétt um portið, yfir lóð stefnda og að fasteign sinni. Á uppdrætti sem fylgir þinglýstum lóðarleigusamningi fyrir fasteign stefnda að Vesturgötu 121 er umrætt port skyggt og með áritun um gagnkvæma umferðarkvöð. Sama áritun er á lóðarleigusamningi fyrir eign stefnanda. Af uppdráttum þessum verður ekki ráðið hvaða heimild liggi til grundvallar slíkri umferðarkvöð. Um hana eru engin ákvæði í skilmálum lóðarleigusamninga og ekki nýtur við annarra skriflegra gagna. Samkvæmt þessu liggur ekki fyrir hverjir njóta umferðarréttar um portið og hvernig sá réttur verði hagnýttur. Þegar nefnd umferðarkvöð er virt með tilliti til fasteignar stefnanda verður ekki hjá því litið að skyggða svæðið liggur ekki um lóð hans. Að réttu lagi væri því umferðarréttur stefnanda um aðliggjandi lóð einhliða en ekki gagnkvæmur. Einnig skiptir máli sú staðreynd að aðkoma að húsi á lóð stefnanda á þeim tíma sem lóðarleigusamningar voru gerðir, og áður en þar var reist viðbygging löngu síðar, var greið frá Vesturgötu. Á hinn bóginn er lega lóða nr. 121 og 121 A þannig að umferð að húsum á lóðunum verður ekki komið við með góðu móti nema farið sé yfir mörk lóðanna. Þetta bendir til þess að umferðarréttur sé í þágu eiganda annarra lóða en Vesturgötu 119, ef slík kvöð á eign stefnda er á annað borð fyrir hendi. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að eign hans fylgi umferðarréttur að lóð sinni yfir lóð stefnda og verður stefndi því sýknaður af kröfu um að slíkur réttur verði viðurkenndur. Þegar af þeirri niðurstöðu leiðir að synjað verður um staðfestingu lögbannsgerðar sýslumannsins á Akranesi frá 2. maí 2001, auk þess sem stefndi verður sýknaður af skaðabótakröfu stefnanda. Eftir þessum úrslitum verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað, sem er hæfilega ákveðinn 250.000 krónur. Dóm þennan kveður upp Benedikt Bogason, héraðsdómari. D Ó M S O R Ð: Stefndi, Bifreiðastöð Þórðar Þ. Þórðarsonar ehf., er sýknaður af öllum kröfum stefnanda, Óskars og Kjartans ehf. Stefnandi greiði stefnda 250.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 284/2009
Kærumál Kröfugerð Upplýsingaskylda
A og LÍ gerðu með sér samning um eignastýringu sjúkrasjóðs S. Í kjölfar bankahrunsins í byrjun október 2008 óskaði A eftir upplýsingum frá LÍ, til að geta lagt mat á hvort fjárfestingastefna hefði verið virt í rekstri sjóðsins og viðskiptahættir eðlilegir. Taldi A upplýsingar þær sem LÍ lét í té ófullnægjandi, en LÍ hafnaði frekari upplýsingagjöf. Höfðaði A mál á hendur LÍ og krafðist viðurkenningar á skyldu LÍ til að láta A í té sundurliðað yfirlit eigna peningamarkaðssjóða LÍ fyrir tiltekið tímabil. Með úrskurði héraðsdóms var kröfu A vísað frá dómi, þar sem krafa A þótti ekki uppfylla skilyrði d. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýrleika dómkröfunnar. Auk þess taldi héraðsdómur vafa leika á því hvernig uppfyllt yrði skylda LÍ, sem viðurkennd yrði í dómsorði á grundvelli dómkröfunnar, án þess að meira kæmi til fyllingar, sbr. 4. mgr. 114. gr. sömu laga. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að sóknaraðili hafi ekki haft aðgang að þeim gögnum sem beðið var upplýsinga um og því ekki að vænta þess að hann gæti lýst þeim með öðrum hætti en almennum orðum. Til þess yrði líka að líta að upplýsingaskylda LÍ samkvæmt samningi aðila væri mjög víðtæk og tæki til vinnslu upplýsinga úr fyrirliggjandi gögnum, en væri ekki einskorðuð við að veita aðgang að skjölum sem lægju fyrir. Atriði varðandi kost á fullnustu réttar samkvæmt dómi í málinu kæmu ekki til álita við mat á því hvort kröfugerð sóknaraðila væri nægilega skýr enda krafa hans um viðurkenningu á skyldu og yrði henni ekki fullnægt með aðför. Taldi rétturinn að ekki væri unnt að líta svo á að slíkrar ónákvæmni gætti í kröfugerð A að frávísun varðaði. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. maí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. maí 2009, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. I Sóknaraðili, sem er verkalýðsfélag, og varnaraðilinn Landsbanki Íslands hf., sem þá mun hafa verið móðurfélag varnaraðilans Landsvaka hf., gerðu með sér samning 4. júlí 2005 um eignastýringu sjúkrasjóðs sóknaraðila. Samningurinn var gerður á staðlað samningsform, aðlagað að ákvörðunum aðilanna. Tók varnaraðilinn Landsbanki Íslands hf. að sér með samningnum „að veita viðskiptavini ráðgjöf vegna viðskipta með fjármálagerninga, annast vörslu þeirra og eignastýring.“ Skyldi bankinn taka við fjármunum sóknaraðila til fjárfestingar í fjármálagerningum fyrir eigin reikning sóknaraðila. Í fjárvörslu bankans skyldi felast varsla, innheimta, kaup og sala fjarmálagerninga auk ráðgjafar um eignauppbyggingu. Eignastýring skyldi felast í tilfærslu milli mismunandi tegunda fjármálagerninga eftir því sem tækifæri byðust á mörkuðum hverju sinni. Sóknaraðili gaf bankanum heimild til eignastýringar samkvæmt fyrirfram ákveðinni fjárfestingarstefnu, sem nánari ákvæði voru um í 2. gr. samningsins. Samkvæmt 4. gr. hans hafði bankinn fullt og ótakmarkað umboð til þess að stýra eignum sóknaraðila í samræmi við fjárfestingarstefnuna. Samningnum fylgdu viðaukar um fjárfestingarstefnu, umboð og þóknanir. Í lok viðauka III voru ákvæði um upplýsingagjöf. Þar segir: „Bankinn skal láta sjóðnum í té eftirfarandi upplýsingar: Að minnsta kosti ársfjórðungslega skulu veittar upplýsingar um fjárfestingar og ávöxtun síðasta tímabils og liðinna tímabila í samanburði við sett markmið og ávöxtun sem almennt gerist á fjármagnsmarkaði. Einnig skal sett fram yfirlit um eignahreyfingar á tímabilinu og mat á eignum safnsins í lok síðasta tímabils. Samráðsfundir með viðskiptavini skulu haldnir eftir óskum og skal LÍ einnig veita stjórn sjóðsins upplýsingar um almenna þróun viðskipta með fjármálagerninga ásamt horfum í næstu framtíð. Bankinn skal láta stjórn sjóðsins, endurskoðendum og öðrum opinberum aðilum í té allar nauðsynlegar upplýsingar sem þessir aðilar óska eftir og í því formi sem óskað er og innan þeirra tímamarka sem eðlilegt má teljast.“ Eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði var í kjölfar bankahrunsins í byrjun október 2008 og setningu laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o. fl. lokað fyrir allar innlausnir úr peningamarkaðssjóðum varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. Skyldi öllum peningamarkaðssjóðum hans slitið og sjóðfélögum greiddar út eignir í formi innlána. Útgreiðsluhlutfall úr sjóðum varnaraðilans var á bilinu 60,0% til 74,1% og mun sóknaraðili hafa fengið greidd út 68,8% eignar sinnar. Í framhaldi af þessu óskaði sóknaraðili eftir sundurliðuðum upplýsingum um eignir peningamarkaðssjóða varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. frá 1. september 2008 til þess að geta lagt mat á hvort fjárfestingarstefna hefði verið virt í rekstri sjóðsins og viðskiptahættir verið eðlilegir. Taldi sóknaraðili yfirlit um eignastýringu frá 1. janúar 2008 til 30. september sama ár sem varnaraðilinn Landsbanki Íslands hf. lét í té ófullnægjandi. Þar sem frekari upplýsingagjöf mun hafa verið hafnað af hálfu varnaraðila höfðaði sóknaraðili mál þetta með stefnu 8. desember 2008 og krafðist viðurkenningar á skyldu varnaraðila til að láta sóknaraðila í té sundurliðað yfirlit eigna peningamarkaðssjóða varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. fyrir tímabilið frá 1. september 2008 til 28. október sama ár. Varnaraðilar kröfðust aðallega frávísunar málsins en til vara sýknu. Var fallist á aðalkröfu þeirra með hinum kærða úrskurði. Málsástæður aðila eru raktar í hinum úrskurði héraðsdóms. II Í máli þessu krefst sóknaraðili að viðurkennt verði með dómi að varnaraðilum sé skylt að láta í té sundurliðað yfirlit eigna peningamarkaðssjóða Landsbanka Íslands hf. yfir tímabilið 1. september 2008 til 28. október sama ár. Sóknaraðili hefur ekki haft aðgang að gögnum þessum og er þess því ekki að vænta að hann geti lýst þeim öðru vísi en með almennum orðum. Til þess verður og að líta að upplýsingaskylda varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. í fyrrgreindum viðauka III með samningi um eignastýringu er mjög víðtæk og tekur til vinnslu upplýsinga úr fyrirliggjandi gögnum en er ekki einskorðuð við að veita aðgang að skjölum sem fyrir liggja. Atriði varðandi kost á fullnustu réttar samkvæmt dómi í málinu koma heldur ekki til álita við mat á því, hvort kröfugerð sóknaraðila sé talin nægilega skýr, enda er krafa hans um viðurkenningu á skyldu, og verður henni því ekki fullnægt með aðför. Að þessu virtu verður ekki litið svo á að slíkrar ónákvæmnin gæti í kröfugerð sóknaraðila að frávísun varði. Hinn kærði úrskurður verður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Varnaraðilar verða dæmdir til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Varnaraðilar, Landsbanki Íslands hf. og Landsvaki hf., greiði óskipt sóknaraðila, AFLI Starfsgreinafélagi, 150.000 krónur í kærumálskostnað. Mál þetta sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfur stefndu 16. apríl 2009 var þingfest þann 11. desember 2008. Stefnandi er Afl, starfsgreinafélag, Egilsbraut 11, Neskaupstað. Stefndu eru Landsvaki hf., Hafnarstræti 5, Reykjavík og Landsbanki Íslands, Austurstræti 11, Reykjavík. Dómkröfur stefnanda eru að viðurkennd verði skylda stefndu til að láta stefnanda í té sundurliðað yfirlit eigna peningamarkaðssjóða Landsbanka Íslands hf. yfir tímabilið frá 1. september 2008 til 28. október 2008. Þá krefst stefnandi málskostnaðar. Stefndu krefjast aðallega að málinu verði vísað frá dómi og er einungis sá þáttur málsins til úrlausnar nú. Stefndu krefjast einnig málskostnaðar. Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfum stefndu verði hafnað og krefst málskostnaðar í þessum þætti málsins. I. Stefnandi, sem er verkalýðsfélag með ríflega 9000 félagsmenn og stefndi Landsbanki Íslands hf., sem þá var móðurfélag stefnda Landsvaka hf., gerðu hinn 4. júlí 2005 með sér samkomulag um eignastýringu sjúkrasjóðs stefnanda, sem stofnaður hafði verið í samræmi við samninga stefnanda og viðsemjenda hans og 7. gr. laga 19/1979. Samkomulagið ásamt viðaukum liggur frammi í málinu, en samkvæmt því skyldu stefndu veita stefnanda ráðgjöf vegna viðskipta með fjármálagerninga, annast vörslu fjármuna og eignastýringu og hafði forstöðumaður eignastýringar hjá stefnda Landsbanka fengið fullt og ótakmarkað umboð til þess að kaupa verðbréf í nafni stefnanda fyrir þá fjármuni sem stefnandi afhenti stefndu og sérstök fjárfestingarstefna gerð sem hluti af samkomulagi aðila. Í viðauka við samkomulagið var fjallað sérstaklega um upplýsingagjöf og kveðið á um að stefndu skyldu ársfjórðungslega láta stefnanda í té upplýsingar um fjárfestingar og ávöxtun. Þá var sérstaklega kveðið á um skyldu stefndu til að láta stjórn sjóðsins og öðrum í té allar nauðsynlegar upplýsingar sem óskað væri eftir og í því formi sem óskað væri eftir og innan þeirra tímamarka sem eðlilegt mætti teljast. Í samningnum er einnig fjallað um margvíslegar áhættur sem fylgi verðbréfaviðskiptum og að stefnandi geri sér grein fyrir þeim og að stefnandi beri einn ábyrgð á fjárfestingarákvörðunum. Í kjörfar setningar laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. var lokað fyrir allar innlausnir úr peningamarkaðssjóðum stefndu. Þann 9. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf. (nú NBI hf.), á grundvelli heimildar í 5. gr. laga nr. 125/2008. Fjármálaeftirlitið gaf síðan út tilmæli um að öllum peningamarkaðssjóðum yrði slitið og sjóðfélögum greiddar út eignir sínar í formi innlána. Útgreiðsluhlutfall sjóða stefndu var 60-74,1% og óskaði stefnandi eftir því í kjölfar útborgunar að upplýst yrði um samsetningu sjóðanna og vörslur þeirra. Fékk hann þá send yfirlit frá 1. janúar 2008 til 30. september 2008, sem liggja frammi í málinu. Stefnandi taldi það ekki fullnægjandi þar sem yfirlitin gæfu hvorki tæmandi né sundurgreinanlegar upplýsingar um eignasamsetningu sjóðanna við lokun þeirra og viðskipti síðustu vikurnar fyrir hrun. Af hálfu stefnda Landsvaka var því hafnað að veita frekari upplýsingar og m.a. vísað til þess að umbeðnar upplýsingar væru undanþegnar upplýsingaskyldu hans. II. Stefndu byggja kröfu sína um frávísun málsins á því að kröfugerð stefnanda fái ekki staðist ákvæði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í d-lið 1. mgr. 80. gr. laganna segi að í stefnu skuli greina svo glöggt sem verða megi dómkröfur stefnanda, svo sem viðurkenningu á tilteknum réttindum. Krafa stefnanda um að honum verði látið í té sundurliðað yfirlit eigna á tilteknu tímabili sé ekki nægilega afmörkuð til að geta talist uppfylla kröfur ákvæðisins. Þá sé í kröfugerð stefnanda um að ræða öflun sönnunargagna sem lúti öðrum lögmálum og verði ekki höfð uppi sem kröfugerð í dómsmáli. Við munnlegan flutning málsins kom fram af hálfu stefndu að ómögulegt væri fyrir stefndu að verða við dómkröfum stefnanda, enda óljóst hvað verið sé að biðja um og sé krafan þannig ekki í samræmi við meginregluna um ákveðna og ljósa kröfugerð sem væri hægt að taka óbreytta upp í dómsorð. Þá sé stefnandi með kröfu sinni að afla sönnunargagna til að nota í dómsmáli, en í lögum 91/1991 séu sérstakar reglur um hvernig það skuli gert, meðal annars sé hægt að höfða sérstakt matsmál og dómkvaddir matsmenn hafi úrræði til að afla gagna vegna mats, sbr. 77. gr. laganna. III. Af hálfu stefnanda kom fram við munnlegan flutning málsins að það sé ástæða þess að kröfugerð hans er ekki skýrari, að hann hafi ekki þær upplýsingar sem til þurfi. Stefndu einir viti í hvaða formi þær upplýsingar séu sem óskað sé eftir og nauðsynlegar séu stefnanda til að hann geti lagt mat á hvort farið hafi verið að lögum og samningum við umsjón og uppgjör sjóða stefndu. IV. Í máli þessu krefst stefnandi þess að viðurkennd verði skylda stefndu til að láta stefnanda í té sundurliðað yfirlit eigna peningamarkaðssjóða stefnda Landsbanka Íslands hf. yfir tímabilið frá 1. september 2008 til 28. október 2008. Telur stefnandi sig þurfa frekari upplýsingar en þær sem hann hefur fengið frá stefndu, væntanlega til þess að meta hvort hafðar verði uppi kröfur á hendur stefndu vegna rýrnunar fjármuna stefnanda í vörslum þeirra. Stefnandi hefur fengið, og lagt fram í málinu, nokkur yfirlit frá stefnda, yfirlit um heildarsafn stefnanda, ávöxtun á árinu 2008 fram til 30. september, bæði hlutfallslega og í krónum, skiptingu í eignaflokka og sundurliðun innan hvers eignaflokks, hreyfingayfirlit frá 1. janúar til 30. september 2008 og lista yfir móttökur og afhendingar á peningum á sama tímabili. Að því er fram kemur í málinu hafa ekki fengist frekari upplýsingar um eignir sjóðanna. Ekki verður hjá því komist að fallast á það með stefndu, að dómkrafa stefnanda er nokkuð almennt orðuð og ekki skýrt afmörkuð. Þannig liggur ekki fyrir hvaða skjöl það eru sem verið er að biðja um að viðurkennt verði að stefndu beri að láta stefnanda í té, eða hvort yfirleitt eru til staðar einhver þau skjöl í fórum stefndu, sem gætu uppfyllt þá kröfu sem sett er fram. Eru því ekki talin uppfyllt skilyrði d-liðs 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um skýrleika dómkröfunnar, auk þess sem vafi leikur á því hvernig uppfyllt yrði skylda stefndu sem viðurkennd yrði í dómsorði á grundvelli dómkröfunnar, án þess að eitthvað fleiri kæmi til því til fyllingar, en samkvæmt meginreglu 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 verður slíkt að teljast óheimilt. Verður það ekki talið breyta þessari niðurstöðu málsins, að fallast megi að nokkru leyti á þau sjónarmið stefnanda að hann hafi ekki haft nægar upplýsingar til að hafa kröfugerð sína skýrari. Einnig kemur hér til álita sú röksemd stefndu að stefnanda séu aðrar leiðir færar til að afla gagna þeirra sem hann telur sig vanta, en af hálfu stefndu var vísað til II. þáttar laga nr. 91/1991, m.a. 77. gr. þeirra um sérstaka dómkvaðningu matsmanna til að staðreyna kröfu eða sanna atvik að baki henni, án þess að mál hafi verið höfðað. Í ljósi framangreinds og allra atvika málsins verður því ekki hjá því komist að vísa því frá dómi. Eins og málinu öllu er háttað þykir eðlilegt að hver aðili um sig beri kostnað sinn af málinu. Anna M. Karlsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurðinn. Ú R S K U R Ð A R O R Ð : Máli þessu er vísað frá dómi. Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 202/2004
Ráðningarsamningur Laun Sjómaður Uppsögn Kjarasamningur Riftun
G hóf störf semvélstjóri á skipi Hf. E á árinu 1999. Gegndi hann því starfi uns skipið varselt til Frakklands. Var það afhent nýjum eigendum í Danmörku 25. september2002 og fór áfrýjandi þangað með skipinu. Með bréfi 30. september sama árs varG sagt upp starfi sínu hjá Hf. E. Í máli sem G höfðaði á hendur Hf. E vegnaþessa var deilt um hvort hann hafi verið ráðinn í skiprúm á umræddu skipifélagsins, en ekki ótilgreind skip þess svo og um fjárhæð launa áuppsagnarfresti. Talið var að sá, sem héldi því fram að ráðning sjómanns hafi veriðmiðuð við störf á ótgreindum skipum útgerðar, hefði sönnunarbyrði fyrir því.Hafi E hf. ekki tekist sú sönnun. Hafi ráðningu G því verið rift með söluskipsins og afhendingu þess til erlends kaupanda, enda hafi Hf. E ekki sýntfram á að G ætti kost á áframhaldandi starfi. Samkvæmt því eigi G rétt til bótasamkvæmt 25. gr. sjómannalaga, sem miðist við kaup fyrir fulla vinnu á öllumuppsagnarfrestinum, óháð því hvort vinnufyrirkomulag um borð hafi verið meðöðrum hætti.
Dómur Hæstaréttar. Mál þettadæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og IngibjörgBenediktsdóttir. Áfrýjandiskaut málinu til Hæstaréttar 18. maí 2004. Hann krefst þess að stefnda verðigert að greiða sér 657.008 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr.laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2003 til greiðsludags.Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndikrefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I. Áfrýjandihóf störf sem vélstjóri á Lagarfossi 2. júní 1999. Skipið var í eigu Hf.Eimskipafélags Íslands, en mun hafa verið skráð í Antigua. Gegndi hann þvístarfi uns skipið var selt til Frakklands. Var það afhent nýjum eigendum íDanmörku 25. september 2002 og fór áfrýjandi þangað með skipinu. Með bréfi 30.september 2002, sem barst áfrýjanda 2. október sama árs, var honum sagt uppstarfi sínu „hjá Hf. Eimskipafélagi Íslands með lög og samningsbundnumfyrirvara.“ Ágreiningslaust er að uppsagnarfrestur áfrýjanda var þrír mánuðir.Áfrýjandi fór eina ferð, frá 3. október 2002 til 31. sama mánaðar, semvélstjóri á Skógafossi skipi félagsins en sinnti ekki frekari störfum fyrir þaðeftir að hann fékk uppsagnarbréfið. KjarasamningurSamtaka atvinnulífsins og Vélstjórafélags Íslands um kaup og kjör yfirvélstjóra,vélstjóra og vélavarða á kaupskipum, sem öðlaðist gildi 1. nóvember 2000, giltium kjör áfrýjanda. Með þessum kjarasamningi voru gerðar umfangsmiklarbreytingar á launakerfi vélstjóra á kaupskipum. Samkvæmt 1. grein samningsinsskyldu mánaðarlaun vélstjóra almennt miðast við 40 stunda vinnuviku. Ákvæði umfjárhæð mánaðarlauna vélstjóra og vélavarða voru í grein 1.3. Í grein 1.4.1.var kveðið á um að dagkaup fyrir hvern virkan lögskráningardag fengist með þvíað deila með 21,67 í mánaðarlaunin. Í grein 1.5. var fjallað um persónubundinlaun, en samkvæmt því ákvæði skyldu útgerðarmaður eða yfirvélstjóri fjallaárlega um „markmiðstengda frammistöðu vélstjóra ...“ og í framhaldi af því umkaup og kjör viðkomandi vélstjóra þar sem meðal annars skyldi tekið tillit tilárangurs, hæfni, starfsaldurs og ábyrgðar hans. Í grein 1.7. var fjallað umsvonefnt fastlaunakerfi. Efnislega fólst í ákvæðinu að í stað þeirra fjölmörgulaunaþátta sem áður mynduðu laun vélstjóra kæmi heildarlaun. Þá var við þaðmiðað að í upphafi árs væri gert samkomulag milli útgerðar og vélstjóra um þannfjölda vinnudaga (sjódaga), sem áætlað væri að viðkomandi vélstjóri myndi vinnaá komandi ári. Árslaun hvers vélstjóra voru síðan reiknuð sem margfeldiheildarlauna á dag og áætlaðs fjölda sjódaga. Þannig reiknuðum árslaunum skyldisíðan dreift jafnt á alla mánuði ársins án tillits til þess hversu marga dagavélstjóri vann í hverjum mánuði. Meðal gagnamálsins er „persónubundinn samningur“ áfrýjanda og Hf. Eimskipafélags Íslands10. október 2000, sem virðist gerður í samræmi við grein 1.5. í framangreindumkjarasamningi. Þá er meðal gagna málsins ódagsett skjal, sem undirritað er afáfrýjanda, og ber yfirskriftina: „Drög að ákvæðum um laun.” Kemur þar fram aðdaglaun áfrýjanda á árinu 2002 séu 17.099 krónur og að miðað sé við 225 dagavinnuskil. Ekki er ágreiningur um að þetta skjal sé útfærsla gagnvart áfrýjandaá fyrrnefndu fastlaunaákvæði í grein 1.7. kjarasamningsins. Í samræmi við þettagreiddi Hf. Eimskipafélag Íslands áfrýjanda 320.613 krónur á hverjum mánuðiársins 2002. Áfrýjandi ritaði félaginu bréf 6. janúar 2003. Taldi hann það hafavangreitt sér laun í uppsagnarfresti og gerði kröfu um það sem hann taldi ávanta. Þeirri kröfu hafnaði félagið með bréfi 22. sama mánaðar. Höfðaði áfrýjandimál þetta 18. febrúar 2003. Áfrýjandi telur að Burðaráss hf. hafi tekið viðréttindum og skyldum Hf. Eimskipafélags Íslands og taki því við aðild málsinsaf síðarnefnda félaginu. Stefndi hefurekki uppi kröfur vegna aðildar sinnar að málinu. II. Áfrýjandireisir kröfu sína á því að hann hafi verið ráðinn til starfa sem vélstjóri áLagarfossi en ekki á ótilgreindum skipum Hf. Eimskipafélags Íslands. Með söluskipsins til Frakklands og afhendingu þess til nýrra eigenda 25. september 2002hafi félagið vikið sér úr skiprúmi og eigi hann vegna þess rétt á bótumsamkvæmt 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Bætur samkvæmt 25. gr. laganna felií sér greiðslu á fullu kaupi í uppsagnarfresti, sem sé þrír mánuðir skv. 9. gr.þeirra. Skuli þær bætur samkvæmt dómvenju miðaðar við að áfrýjandi hafi unniðallan uppsagnarfrestinn. Fimm vélstjórar hafi gegnt þremur vélstjórastöðum umborð í Lagarfossi og hafi því verið skiptimannakerfi við vélavörslu á skipinu.Laun vélstjóra séu miðuð við vinnudaga eða lögskráningardaga þannig að þeir fáieinungis greidd laun fyrir hvern unnin dag. Hafi nýir kjarasamningar árið 2000engu breytt þar um. Í svonefndu fastlaunakerfi þeirra samninga felist einungisjöfn dreifing á greiðslum á mánuði ársins. Gerir áfrýjandi kröfu um að stefndigreiði sér laun fyrir alla 90 daga uppsagnarfrestsins, 17.099 krónur á dag, aðfrádregnum þeim greiðslum sem Hf. Eimskipafélag Íslands hefur þegar greittvegna tímabilsins. Stefnditelur að áfrýjandi hafi verið ráðinn sem vélstjóri hjá Hf. EimskipafélagiÍslands en ekki í skiprúm á tilteknu skipi. Hafi sala Lagarfoss því ekkijafngilt brottvikningu áfrýjanda úr skiprúmi og ekki skapað bótaskyldu samkvæmt25. gr. sjómannalaga. Um laun í uppsagnarfresti gildi því 27. gr., sbr. 9. gr.sjómannalaga. Með framangreindum kjarasamningi hafi verið komið áfastlaunakerfi hjá vélstjórum á kaupskipum. Samkvæmt því hafi áfrýjandi áttrétt á föstum mánaðarlaunum, sem ákveðin hafi verið með fyrrgreindum samningi10. október 2000 og ódagsettum „drögum að ákvæðum um laun.“ Hafi félagið greitthonum þessi umsömdu laun á uppsagnarfrestinum að fullu. Þá bendir stefndi á aðlaunakjör og launafyrirkomulag skipverja á kaupskipum sé gjörólíkt því semgildi um fiskimenn. Hafi dómar í ágreiningsmálum milli útgerða og skipverja fiskiskipaþví ekki fordæmisgildi í máli þessu. III. Ísjómannalögum er á því byggt að sjómenn séu ráðnir í tiltekið skiprúm. Hefursá, sem heldur því fram að ráðning sjómanns hafi verið miðuð við störf áótilgreindum skipum útgerðar, sönnunarbyrði fyrir því, sbr. dóm Hæstaréttar 1.febrúar 2001 í máli nr. 294/2000. Ekki verður séð að gerður hafi veriðskriflegur ráðningarsamningur við áfrýjanda í upphafi ráðningar hans, sbr. 6.gr. sjómannalaga. Vegna útfærslu nýrra kjarasamninga var hins vegar gerður viðhann framangreindur samningur 10. október 2000. Í honum er áfrýjandi titlaður„vélstjóri á M/S Lagarfossi“, en efnisákvæði samningsins taka ekki af skarið umhvort áfrýjandi var ráðinn í tiltekið skiprúm. Til stuðnings því að áfrýjandihafi verið ráðinn á ótilgreind skip Hf. Eimskipafélags Íslands hefur stefndibent á framangreint orðalag uppsagnarbréfsins 30. september 2002, störfáfrýjanda um borð í Skógafossi í október 2002 og það að fyrrgreindurkjarasamningur gerir ráð fyrir þeim möguleika að vélstjórar séu ekki ráðnir ítiltekið skiprúm. Ekki verður talið með þessu hafi stefnda tekist sönnun þessað áfrýjandi hafi verið ráðinn á ótilgreind skip félagsins og verður því lagttil grundvallar að áfrýjandi hafi verið ráðinn í skiprúm á Lagarfossi. Með söluskipsins til Frakklands og afhendingu þess til erlends kaupanda í september2002 var ráðningu áfrýjanda rift, enda hefur ekki verið sýnt fram á að hannhafi átt kost á áframhaldandi starfi um borð. Hann á því rétt til bóta samkvæmt25. gr. sjómannalaga. Aðila greinir á um, eins og að framan er rakið, hverseðlis laun samkvæmt fyrrgreindum kjarasamningi eru. Af grein 1.7. íkjarasamningnum verður ekki betur séð en að vélstjórar á kaupskipum fái eftirsem áður einungis laun fyrir þá daga sem þeir vinna. Fyrir héraðsdómi voru þeirHelgi Laxdal, formaður Vélstjórafélags Íslands, og Haukur Már Stefánsson,forstöðumaður skipa- og tæknirekstrardeildar Hf. Eimskipafélags Íslands, beðnirað skýra hið nýja launakerfi. Voru þeir sammála um að í hinu nýja fyrirkomulagihafi fyrst og fremst falist einföldun og jöfnun á greiðslutilhögun launa.Verður því ekki fallist á það með stefnda að með kjarasamningnum hafi veriðkomið á kerfi fastra mánaðarlauna hjá vélstjórum á kaupskipum. Með dómiHæstaréttar í dómasafni 1990 á bls. 1246 var mörkuð sú stefna við skýringu á25. gr. sjómannalaga að bætur skulimiðast við kaup viðkomandisjómanns fyrir fulla vinnu á öllum uppsagnarfrestinum, óháð því hvort vinnufyrirkomulagum borð hafi verið með öðrum hætti. Hefur rétturinn fylgt því í síðari dómum,sbr. nú síðast dóm 28. október 2004 í máli nr. 210/2004. Verður ekki talið aðunnt sé að beita annarri skýringu á þessu ákvæði gagnvart farmönnum en gerthefur verið þegar fiskimenn eiga í hlut. Þar sem ekki verður heldur fallist ávarakröfu stefnda verður, í samræmi við það sem að framan er rakið, krafaáfrýjanda tekin til greina og stefndi dæmdur til að greiða honum 657.008 krónurmeð dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir. Stefndigreiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður íeinu lagi eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Stefndi,Burðarás hf., greiði áfrýjanda, Guðna Þór Gunnarssyni, 657.008 krónur meðdráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti ogverðtryggingu frá 1. janúar 2003 til greiðsludags. Stefndigreiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 400.000krónur. Dómur HéraðsdómsReykjavíkur 23. febrúar 2004 I Mál þetta, sem dómtekið var hinn 18. febrúar sl., aðloknum munnlegum málflutningi, var höfðað fyrir dómþinginu af Guðna ÞórGunnarssyni, Bergsmára 11, Kópavogi, á hendur Eimskipafélagi Íslands,Pósthússtræti 2, Reykjavík, með stefnu birtri hinn 18. febrúar 2003 ogþingfestri hinn 20. febrúar sama ár. Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur tilþess að greiða stefnanda 657.008 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr.6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. janúar 2003 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar, aðskaðlausu, úr hendi stefnda, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun. Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verðisýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara að stefnukrafan verði lækkuðverulega. Stefndi krefst ogmálskostnaðar, að skaðlausu, úr hendi stefnanda. II Málavextireru þeir, að stefnandi hóf störf, sem vélstjóri, á ms. Lagarfossi 2. júní 1999og gegndi þeim starfa til 2. október 2002.Lagarfoss var í eigu og útgerð stefnda, en skipið var selt tilFrakklands og afhent nýjum eigendum 25. september 2002. Stefnandi sigldi með skipinu til Danmerkur,þar sem afhending þess fór fram, en kom heim til Íslands skömmu fyrirmánaðamótin september/október 2002.Stefnandi kveður ráðningu sína hafa verið bundna við skipið, en þvíhefur stefndi mótmælt. Stefnandi fór eina ferð með ms. Skógarfossi, sem gerðurer út af stefnda, á uppsagnarfresti sínum hjá stefnda, tímabilið 3. október2002 til 31. október 2002. Launakjör stefnanda í uppsagnarfresti voru miðuð viðsvokallað „jafnlaunakerfi”, þ.e. greidd laun að meðaltali á mánuði eftir aðgert hafi verið ráð fyrir heildarfrítöku hans árið 2002. Stefnandi kveður ráðningarkjör sín hafa verið þau, aðhann sinnti skipsstörfum á ms. Lagarfossi í 225 daga á ári. Hann hafi því verið í fríi í 140 daga ogþegið laun fyrir frídagana.Heildarlaunum hans hafi hins vegar verið deilt janft niður á árið,þannig að mánaðarlaun hans yrðu ávallt þau sömu hvort sem hann hafi verið ífríi eða ekki. Eftir að ráðningunni varslitið hélt stefndi áfram að greiða honum laun sem byggi á framangreindu„jafnlaunakerfi”. Stefnandi telur sig hinsvegar eiga rétt á „fullum launum” í uppsagnarfresti, launagreiðslum miðað viðfull vinnuafköst í uppsagnarfrestinum, en ekki að teknu tilliti til mögulegrarfrítöku hans yfir árið. Með bréfi, dagsettu 6. janúar 2003, krafði stefnandistefnda um vangreidd laun í uppsagnarfresti, að fjárhæð 802.007 krónur. Eftir það, eða hinn 1. febrúar 2003, greiddistefndi stefnanda 162.441 krónu, vegna vangreiddra launa til mánaðamótaseptember/október 2002. Með bréfi stefnda, dagsettu 22. janúar 2003, hafnaðistefnandi kröfum stefnda. III Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að stefndi skuldihonum umstefnda fjárhæð vegna vangoldinna launa í uppsagnarfresti, tímabilið 1.október 2002 til 31. desember 2002.Stefnanda hafi verið greidd 919.091 króna í laun vegna fyrrgreindstímabils, en hann hafi átt rétt á 1.538.910 krónum í laun fyrir þennantíma. Mismunurinn, 619.819 krónur, séuþví vangreidd laun. Við þá fjárhæðbætist 6% vegna glataðra lífeyrisréttinda, eða 37.189 krónur. Stefnandi byggir á því, að við sölu á ms. Lagarfossi tilFrakklands hafi ráðningu hans á skipinu verið rift, sbr. 22. gr. sjómannalaganr. 35/1985. Stefnandi kveðst ekkisjálfur hafa lýst yfir riftun á skipsrúmssamningi sínum og hafa beðið átekta ínokkra daga eftir að afhending skipsins hafði farið fram. Stefndi hafi hins vegar staðfest riftunskipsrúmssamningsins með uppsagnarbréfi dagsettu 30. september 2002, sem boristhafi stefnanda 2. október 2002. Beri honumþví laun til 2. janúar 2003, eða þremur mánuðum eftir að honum hafi verið kunngerðuppsögnin. Stefnandi byggir á því, að við útreikning launa íuppsagnarfresti, sem sé þrír mánuðir, samkvæmt 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga,verði að líta til 25. gr. sömu laga, sbr. og 1. mgr. 22. gr. laganna. Ákvæði 25. gr. hafi verið túlkað svo að sjómaðureigi rétt til „fullra launa” í uppsagnarfrestinum, sbr. dóm Hæstaréttar ídómasafni réttarins frá 1990, bls. 1246, þrátt fyrir að hann hafi sannanlegasamið um tiltekið skiptimannakerfi við útgerðarmanninn. Sjómennskan bjóði ekki upp á stanslausavinnu allt árið með fimm vikna orlofi á hverju sumri eins og hjá launþegum semstarfi í landi. Ljóst sé þó, að miðaberi laun sjómanna í uppsagnarfresti við full vinnuafköst allanuppsagnartímann, burtséð frá því hvernig frítöku þeirra almennt sé háttað, einsog gert sé í nýlegum dómi Hæstaréttar í málinu nr.: 319/2002, en þar sé skýrttekið fram að meðallaun skuli miðast við lögskráningardaga (vinnudaga), en ekkiráðningardaga (almanaksárið). Beri þvíað miða við heildarlaun viðkomandi sjómanns á síðustu tólf mánuðum að hámarkien ella frá áramótum til ráðningarslita ef tímabilið sé að öðru leyti nógulangt. Launakerfi stefnda feli í sér aðárslaunum stefnanda sé deilt jafnt á hvern einasta mánuð ársins burtséð fráfrítöku hans. Stefnandi eigi rétt tilfullra launa í uppsagnarfrestinum og verði þá að taka tillit til þeirra launa,sem honum beri, miðað við full vinnuafköst.Árslaun stefnanda hafi numið 3.847.356 krónum miðað við 225skráningardaga (vinnudaga) eða að meðaltali 17.009 krónum á dag. Dagvinnulaunin séu margfölduð með 90(uppsagnarfrestur samkvæmt 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga) og nemi því 1.538.910krónum. Til frádráttar þeirri fjárhæðkomi þegar greidd laun í uppsagnarfrestinum, samtals 919.091 króna. Um lagarök vísar stefnandi til sjómannalaga nr. 35/1985,sérstaklega 1. gr., 6. gr., 9. gr., 22. gr., 25. gr. og 27. gr. laganna. Þá vísar stefnandi til hæstaréttardóma í málunum nr. :284/1999, 251/1989, 126/1989, 187/1992, 319/2002, 189/2001, 457/2001 og187/2001. Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á 1. mgr. 6. gr.laga nr. 38/2001. Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr.laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Kröfu um virðisaukaskatt byggir stefnandi á lögum umvirðisaukaskatt nr. 50/1988. IV Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því, að hann hafiþegar greitt stefnanda laun, sem hann eigi rétt á samkvæmt kjarasamningivélstjóra á kaupskipum og sjómannalögum nr. 35/1985. Stefndi telur stefnanda byggja kröfugerð sína á því semtíðkist meðal fiskimanna og útgerðar fiskiskipa. Stefndi telur það hins vegar ekki eiga við um úrlausn þessa máls,þar sem byggt sé á ólíkum reglum og kjarasamningum. Stefndi mótmælir því, sem röngu og ósönnuðu, aðstefnandi hafi verið ráðinn vélstjóri á ákveðið skip. Stefnandi hafi verið ráðinn til starfa á skip stefnda eins ogvenja sé til hjá íslenskum kaupskipaútgerðum.Ákvæði 7. kafla fyrrgreinds kjarasamnings byggi m.a. á þessu. Stefnandi hafi gert fastlaunasamning viðstefnanda, í samræmi við ákvæði 1. kafla kjarasamningsins. Stefndi telur stefnanda rugla saman reglumog ákvæðum, sem gildi um fiskiskip og kaupskip. Undirmenn á kaupskipum séu ráðnir á ákveðið skip, en yfirmenn tilútgerða. Annar háttur tíðkist áfiskiskipum, þar sem bæði undir- og yfirmenn séu ráðnir á ákveðið skip. Mótmælir stefndi því, að dómar um úrlausnir íágreiningsmálum fiskimanna við útgerðir fiskiskipa hafi fordæmisgildi í þessumáli, þar sem ólíku sé saman að jafna.Launakjör á kaupskipum líkist frekar launakjörum starfsmanna í landi enlaunakjörum fiskimanna. Vélstjórar ákaupskipum fái ekki vaktafrí jafn reglulega og gerist í landi. Þeir fái ekki frí um hverja helgi heldursafni fríunum saman, eins og fram komi í frídagaákvæðum 8. kafla. Vinnuár þeirra byggist því í raun á 5 dagavinnuviku, sbr. ákvæði gr. 1.7.3 í kjarasamningnum. Laun vélstjóra á fiskiskipum séu grundvölluð á greiðsluaflahlutar eða kauptryggingar þegar ekkert fiskist. Kjarasamningur vélstjóra á kaupskipum byggi hins vegar á ákveðnummánaðarlaunum og viðbótargreiðslum fyrir tiltekin störf eða vinnu umframákveðinn tíma. Á fiskiskipum sé hinsvegar engin tímatalning þegar skip sé á veiðum heldur skipti áhöfn og útgerðmeð sér söluverðmæti aflans. Ef ekkertaflist eða skip komist ekki á sjó greiði útgerðin kauptryggingu. Stefndi mótmælir því, að stefnandi hafi ekki fengiðgreidd laun fyrir 140 daga, sem hann hafi verið í fríi á árinu. Stefnandi hafi fengið greidd laun alla 12mánuði ársins. Laun vélstjóra ákaupskipum séu byggð á skilum 5 daga vinnuviku að meðaltali, eins og tíðkist ílandi. Eins og lýst sé ífréttatilkynningu Vélstjórafélagsins hafi með samningum árið 2000 verið samiðum nýtt launakerfi, sem byggi á heildarlaunum í stað þeirra fjölmörgulaunaþátta, sem áður hafi myndað heildarlaun vélstjóra. Stefndi telur stefnukröfuna byggða á þeim misskilningi,að vélstjóri á kaupskipi fái einungis greidd laun fyrir lögskráða daga á skipiog sé því ruglað saman við launakerfi fiskimanna, sem taki launalaus frí. Vélstjórar á kaupskipum séu í launuðumfríum. Vinnuár þeirra sé 5 dagavinnuvika að meðaltali. Hafi þeir þvískilað vinnuárinu þegar þeir hafi verið lögskráðir á skip í 260 daga á ári (5dagar x 52 vikur = 260 dagar), sem samsvari 365 dögum að frádregnum helgum (104dagar), tyllidögum (11 dagar) og orlofi (24-30 dagar), samkvæmt 8. og 12. kaflakjarasamningsins. Stefndi krefst þess til vara, að dómkröfur stefnandaverði lækkaðar, sem nemur 1/3 af kröfu hans, þar sem dómkrafa stefnanda miðivið, að hann sé samfellt um borð í uppsagnarfresti, en ekki tekið tillit til„frítúra”, sbr. 2. mgr. 27. gr. sjómannalaga.Þá hafi stefnandi, við útreikning kröfu sinnar, ekki tekið tillit tilgreiðslu stefnda hinn 1. febrúar 2003.Þá krefst stefndi þess að vextir verði ekki reiknaðir fyrr en fráþingfestingardegi. Um lagarök vísar stefndi til meginreglna vinnu- ogsamningaréttar, sjómannalaga nr. 38/1985, einkum 6. gr., 9. gr. og 28. gr.þeirra laga. Þá byggir stefndi ákjarasamningi um kaup og kjör yfirvélstjóra, vélstjóra og vélavarða á kaupskipummilli Samtaka atvinnulífsins og Vélstjórafélags Íslands frá 1. nóvember 2000. Vaxtakröfu byggir stefndi á 5. gr. laga nr. 38/2001. Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 129. gr. og 130.gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. V Óumdeilt er milli aðila, að stefnanda var sagt upp störfummeð bréfi dagsettu 30. september 2002 og bar þriggja mánaðauppsagnarfrestur. Bar stefnanda þvísamkvæmt 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, sbr. 2. mgr. 9. gr. sömulaga, að fá greidd full laun í þrjá mánuði frá uppsagnardegi. Ágreiningur málsins er hins vegar um þaðhver laun stefnanda hafi átt að vera í uppsagnarfrestinum. Eins ogáður hefur verið rakið hóf stefnandi störf hjá stefnda, sem vélstjóri í júní1999 og gengdi þeim starfa til 2. október 2002. Í málinu liggur ekki fyrir annar samningur milli aðila um störfstefnanda, en sá sem gerður var í tengslum við kjarasamning er gerður var millisamtaka atvinnulífsins og Vélstjórafélags Íslands um kaup og kjöryfirvélstjóra, vélstjóra og vélavarða á kaupskipum og gilti frá 1. nóvember 2000. Er yfirskrift þess samnings „persónubundinnsamningur”. Eru aðilar sammála um það,að með þeim kjarasamningi hafi verið komið á eins konar fastlaunasamningum. Hafi þar verið samið um nýtt launakerfi, sembyggði á heildarlaunum í stað þeirra fjölmörgu launaþátta sem áður mynduðuheildarlaun. Samningur þessi kveður áum, að í upphafi árs sé gert samkomulag um fjölda sjódaga/vinnudaga viðkomandivélstjóra á komandi ári. Fjöldi þeirrasinnum laun fyrir unninn dag mynda árslaun, sem dreifast á alla mánuðiársins. Fyrirliggur að samkvæmt þessum kjarasamningi bar stefnanda 225 daga vinnuskil á sjóog í landi á ári. Bar honum því að fágreiddar 320.613 krónur á mánuði árið 2002, sem hann og fékk, einnig íuppsagnarfresti. Verður því ekki séð aðmeð því að greiða stefnanda þau laun, sem hann átti rétt á, samkvæmtáðurgreindum útreikningi, hafi stefndi rýrt rétt hans. Samkvæmt því lítur dómurinn svo á, aðstefnandi hafi fengið greidd full laun í uppsagnarfresti. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnandaí málinu. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt að hvor aðilaberi sinn kostnað af málinu. Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dómþennan. D Ó M S O R Ð : Stefndi, Eimskipafélag Íslands hf., er sýkn af kröfumstefnanda, Guðna Þórs Gunnarssonar. Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 607/2016
Fjármálafyrirtæki Lánssamningur Gengistrygging Vextir Viðbótarkrafa Fullnaðarkvittun Málsástæða
J gerði kröfu um endurgreiðslu tiltekinnar fjárhæðar sem hann taldi sig hafa ofgreitt D hf. Deildu aðilar um hvort D hf. hefði við endurútreikning á lánssamningi aðila, sem bundinn hafði verið ólögmætri gengistryggingu, verið heimilt að endurreikna vexti á grundvelli 4. gr. laga nr. 38/2001 í stað upphaflega umsaminna vaxta. Í málinu byggði D hf. meðal annars á þeirri nýju málsástæðu að krafa J væri niður fallin fyrir vanlýsingu, en á hluthafafundi í D hf. hafði verið tekin ákvörðun um að slíta félaginu og því kosin skilanefnd samkvæmt ákvæðum laga nr. 2/1995. Þar sem umrædd málsástæða gat fyrst komið fram að liðnum kröfulýsingarfresti taldi Hæstiréttur að það fengi samrýmst 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 að á henni yrði byggt fyrir Hæstarétti, enda gæti önnur niðurstaða valdið D hf. réttarspjöllum. Hæstiréttur féllst hins vegar ekki á að krafa J hefði fallið niður sökum vanlýsingar þar sem fyrir hendi hefði verið sú aðstaða er um ræddi í 2. mgr. 116. gr. laga nr. 21/1991. Þá vísaði Hæstiréttur meðal annars til þess að í dómaframkvæmd hefði þeirri meginreglu kröfuréttar verið slegið fastri að kröfuhafi, sem fengið hefði minna greitt en hann ætti rétt á úr hendi skuldara, ætti tilkall til viðbótarkröfu. Frá þeirri meginreglu giltu þó undantekningar við sérstakar aðstæður sem réðust af heildarmati á atvikum öllum og lögskiptum aðila. Taldi Hæstiréttur að þótt fjárhæð viðbótarkröfunnar væri nokkur miðað við greidda vexti, væri hún óveruleg sem hluti af höfuðstól lánsins, auk þess sem virða yrði fjárhagslega röskun J vegna viðbótarkröfunnar í ljósi þess að hann hefði greitt skuldina. Væru því ekki efni til þess að víkja frá áðurnefndri meginreglu. Var D hf. því sýknaður af kröfu J.
DómurHæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson ogIngveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 31. ágúst 2016. Hann krefst sýknuaf kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrirHæstarétti.IMálavextir, sem nánar eru raktir í hinum áfrýjaða dómi, eru óumdeildir.Aðilar deila um það hvort stefndi geti byggt rétt á fullnaðarkvittunum fyrirgreiðslu vaxta vegna láns sem hann tók ásamt maka sínum hjá forvera áfrýjanda,Frjálsa fjárfestingarbankanum hf., 20. febrúar 2008. Lánið, sem bar LIBOR-vextiað viðbættu 3,98% álagi, var til 25 ára og eins mánaðar og voru gjalddagarmánaðarlega. Greiddar voru 38 afborganir af láninu, þar af 36 afborganir vaxta.Ekki er um það deilt að lánið var bundið ólögmætri gengistryggingu ogendurreiknaði áfrýjandi lánið 28. mars 2011. Eftir það greiddi stefndi tværafborganir af láninu en greiddi það síðan upp með eingreiðslu 25. maí 2011 aðfjárhæð 11.388.151 króna. Við útreikning lánsins 28. mars 2011 voru vextir endurreiknaðir ágrundvelli 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu í stað upphaflegaumsaminna vaxta. Stendur efnislegur ágreiningur aðila um það hvort þetta hafiverið áfrýjanda heimilt og er óumdeilt að stefnufjárhæðin í málinu svarar tilmismunar á þessum vöxtum.II.Í svokallaðri „framhaldsgreinargerð“, 28.maí 2017, byggir áfrýjandi á þeirri nýju málsástæðu að ætluð krafa stefnda séfallin niður fyrir vanlýsingu. Á hluthafafundi í áfrýjanda 15. nóvember 2016 hafiverið ákveðið að slíta félaginu á grundvelli ákvæða XIII. kafla laga nr. 2/1995um hlutafélög, sbr. 110 gr. þeirra. Á hluthafafundi 25. sama mánaðar hafi veriðkosin skilanefnd samkvæmt 2. mgr. 110. gr. og 111. gr. laganna. Skilanefndinhafi á grundvelli 112. gr. þeirra birt innköllun til kröfuhafa áfrýjanda 9. og16. desember 2016. Lauk kröfulýsingarfresti 9. febrúar 2017. Stefndi hafi ekkilýst kröfu þeirri sem undir sé í dómsmáli þessu innan kröfulýsingarfrests og séhún því fallin niður vegna vanlýsingar. Þrátt fyrir að greinargerð áfrýjandatil Hæstaréttar sé frá 6. október 2016 og gagnaöflunarfresti í málinu lokið 30.nóvember 2016 þá telur áfrýjandi sér heimilt, með vísan til 2. mgr. 163. gr.laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að byggja á þeirri málsástæðu fyrirHæstarétti enda verði hann að öðrum kosti fyrir réttarspjöllum.Málsástæða byggð á ætlaðri vanlýsingukröfu stefnda gat fyrst komið fram að liðnum kröfulýsingarfresti samkvæmt 1.mgr. 112. gr. laga nr. 2/1995, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991. Þegarsvo stendur á fær það samrýmst 2. mgr. 163. gr. sömu laga að á henni verðibyggt fyrir Hæstarétti enda er ljóst að niðurstaða í aðra veru gæti valdiðáfrýjanda réttarspjöllum. Verður málsástæðan því tekin til úrlausnar. IIIUm ætlaða niðurfellingu kröfu stefndafyrir vanlýsingu vísar áfrýjandi sem fyrr segir til vanlýsingaráhrifa samkvæmt112. gr. laga nr. 2/1995 í ljósi þess að ágreiningslaust er að stefndi lýstiekki fyrir skilanefnd kröfu þeirri sem deilt er um í málinu. Í niðurlagsákvæði1. mgr. 112. gr. er áréttað að réttaráhrif innköllunar skulu vera hin sömu ogvið gjaldþrotaskipti á búi hlutafélags. Í 1. mgr. 118. gr. laga nr. 21/1991 umgjaldþrotaskipti o.fl. kemur fram að ef kröfu á hendur þrotaþrotabúi séekki lýst fyrir skiptastjóra áður en fresti lýkur og ekki er unnt að fylgjahenni fram gagnvart því samkvæmt 116. gr., þá falli hún niður. Í 2. mgr. þeirrargreinar kemur síðan fram að halda megi máli til dóms ef það hefur verið höfðaðá hendur þrotamanninum og dómur ekki gengið í því áður en úrskurður gekk um aðbúið væri tekið til gjaldþrotaskipta, enda tilkynni stefnandi þess skiptastjóraum það. Sú aðstaða sem um ræðir í 2. mgr. 116. gr. var fyrir hendi í máli þessuog engin þörf á því að stefndi tilkynnti skilanefnd áfrýjanda sérstaklega ummálsóknina í ljósi þess að lögmaður áfrýjanda, sem rekið hefur mál þetta ábáðum dómstigum, sat í stjórn hans fyrir slitin og situr nú í skilanefnd, sbr.111. gr. laga nr. 2/1995. Verður því hafnað þeirri málsástæðu áfrýjanda aðætluð krafa stefnda sé fallin niður fyrir vanlýsingu.IV.Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur þeirrimeginreglu kröfuréttar verið slegið fastri að kröfuhafi, sem fengið hefur minnagreitt en hann á rétt til úr hendi skuldara, eigi tilkall til viðbótarkröfu.Frá þeirri meginreglu gilda þó undantekningar við sérstakar aðstæður, semráðast af heildarmati á öllum atvikum og lögskiptum aðila. Þau atriði sem lítaverður til við mat á því hvort svo standi á eru hvort skuldari hafi verið ígóðri trú, hvort sá aðstöðumunur hafi verið á samningsaðilum að það réttlæti aðhafna beri viðbótarkröfu og hvorum aðilanum standi nær að bera áhættu af þeimmistökum sem leiða til þess að vangreitt hefur verið. Í því sambandi skiptireinkum máli hvort festa hafi verið komin á framkvæmd samnings, hversu langurtími hafi liðið frá því að mistök komu fram þar til krafa er höfð uppi, hvortöðrum samningsaðila megi fremur kenna um að mistök hafi orðið, hvortsamningssambandið sé í eðli sínu einfalt eða flókið og hvert sé umfangviðbótarkröfu.Fallist er á það sem lagt er tilgrundvallar í hinum áfrýjaða dómiað nægileg festa hafi verið komin á umefndir afborgana af láninu til þess að stefndi gæti að réttu haft þær væntingarað vextir væru að fullu greiddir. Þá verður jafnframt lögð til grundvallar góðtrú stefnda af sama tilefni.Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómigreiddi stefndi 36 vaxtagreiðslur af láninu þar til það var endurútreiknað 28.mars 2011 miðað við hina breyttu vexti. Með aðilum er ágreiningslaust aðfjárhæð þeirrar viðbótarkröfu nemi stefnufjárhæð 1.443.216 krónum. Þóttfjárhæðin sé nokkur þegar litið er til þess að greiddir vextir af bréfinu voru 2.531.881króna fram í mars 2011 og viðbótarkrafan sé 57% sem hlutfall af greiddum vöxtumer hún á hinn bóginn óveruleg sem hluti af höfuðstól lánsins eða um 14,43% en11,22% sé miðað við verðlagsbreytingar. Þá verður að virða fjárhagslega röskunstefnda vegna viðbótarkröfunnar í því ljósi að hann hefur greitt skuldina. Aðþessu gættu og með hliðsjón af dómum Hæstaréttar 16. janúar 2014 í máli nr.661/2013 og 14. apríl 2016 í máli nr. 617/2015 eru ekki efni til þess í málinuað víkja frá þeirri meginreglu kröfuréttar að kröfuhafi, sem fengið hefur minnagreitt en honum ber, eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt er. Gatáfrýjandi því teflt fram þessari viðbótarkröfu gegn kröfu stefnda umendurgreiðslu.Samkvæmt framansögðu verður áfrýjandi sýknaður af kröfum stefnda, en rétter að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.Dómsorð:Áfrýjandi, Drómi hf., er sýkn af kröfu stefnda, Jóns Óskars Hinrikssonar.Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.DómurHéraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2016.Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 13. apríl sl.og dómtekið að lokinni aðalmeðferð 9. júní sl. Stefnandi er Jón ÓskarHinriksson, Hvassaleiti 24, Reykjavík. Stefndi er Drómi hf., Laugavegi 182,Reykjavík. Stefnandikrefst þess aðallega að stefndi greiði honum 1.443.216 krónur en til vara721.608 krónur. Stefnandi gerir aðallega kröfu um dráttarvexti frá 23. nóvember2013, en til vara frá 18. júní 2015, til greiðsludags. Hann krefst einnigmálskostnaðar. Stefndikrefst sýknu auk málskostnaðar. Atvikmálsins eru óumdeild og er ágreiningur aðila bundinn við það hvort fullnægt séskilyrðum til þess að stefnandi geti byggt rétt á fullnaðarkvittunum fyrirgreiðslu vaxta vegna láns sem hann tók ásamt maka sínum, Sigríði AldísiJónsdóttur, 20. febrúar 2008. Þá er einnig deilt um upphafsdag dráttarvaxta.Ekki er uppi tölulegur ágreiningur.Umrætt lán var í formi veðtryggðsskuldabréfs að jafnvirði 10 milljónir króna í svissneskum frönkum og japönskumjenum að jöfnu. Ekki er um það deilt að lánið hafi verið bundið ólögmætrigengistryggingu svo sem fram kom í texta veðskuldabréfsins. Lánið bar svonefndaLIBOR-vexti að viðbættu 3,98% álagi. Lánstími var 25 ár og einn mánuður,gjalddagar mánaðarlega. Vaxtagjaldagar voru 36 þannig að við fyrstu 36afborganirnar voru einungis greiddir vextir. Greitt var af láninu í 38 skiptiog fólu þannig einungis tvær síðustu greiðslurnar í sér afborgun af höfuðstól.Síðasta greiðslan fór fram vegna gjalddaga 2. maí 2011, en 25. sama mánaðar varlánið greitt upp með . Segir í stefnu að þetta hafi verið gert með fyrirvara umendurgreiðslu á ofgreiddri fjárhæð og að viðhöfðum mótmælum viðendurútreikningi stefnda sem stefnanda mun hafa verið kynntur hinn 28. mars2011. Aðilar eru sammála um að ef miðað er við að stefnda hafi verið óheimiltað krefjast frekari vaxta, en þegar höfðu verið greiddir áendurútreikningsdegi, hafi verið ofgreitt af láninu sem nemi stefnufjárhæð.Jafnframt sé þá hlutfall viðbótarkröfu 14,43% af upprunalegum höfuðstól en11,22% sé miðað við verðlagsbreytingar.Samkvæmt stefnu krafðiststefnandi þess að lánið yrði endurreiknað að nýju í kjölfar dóma Hæstaréttar ímálum nr. 600/2011 og 464/2012 og ofteknar fjárhæðir yrðu endurgreiddar. Meðbréfi stefnda 23. október 2013 var kröfunni hafnað. Með hliðsjón af úrlausnmálsins er ekki ástæða til þess að rekja frekar samskipti aðila. Stefnandibyggir málatilbúnað sinn á því að fullnægt sé öllum þeim skilyrðum sem mótuðhafi verið í dómaframkvæmd um rétt skuldara gengistryggðs láns til að byggjarétt á fullnaðarkvittunum vegna greiðslu vaxta. Þannig hafi stefnandi verið ígóðri trú, aðstöðumunur hafi verið á aðilum og festa hafi verið í greiðslum afláninu. Að því er umfang viðbótarkröfu varðar er lögð á það áhersla að þaðráðist af heildarmati hvorum aðila það standi nær að bera þann vaxtamun semskapast hafi af ólögmætri gengistryggingu. Er vísað til þess að hér sé um aðræða greiðslur einstaklings með tekjur í meðallagi. Sé ljóst af öllum atvikummálsins að viðbótarkrafa stefnda hafi haft í för með sér verulega röskun áfjárhagslegum hagsmunum stefnanda og/eða beggja skuldara lánsins. Að því ervarðar upphafsdag dráttarvaxta vísar stefnandi til þess að bréf stefnda 23.október 2013 beri skýrlega með sér að þá hafi verið komin fram krafa af hálfustefnanda um endurgreiðslu. Jafnframt hafi stefndi ekki getað verið í góðri trúum réttmæti þess að synja um endurgreiðslu á þessum tíma með hliðsjón af þeimdómafordæmum sem þá lágu fyrir. Stefndibyggir varnir sínar á því að ekki sé uppfyllt það skilyrði reglu kröfuréttar umrétt skuldara til að byggja á fullnaðarkvittunum að viðbótarkrafa kröfuhafahafi verið veruleg eða valdið verulegri röskun á högum skuldara. Vísar hann tilþess að hlutfall viðbótarkröfu af höfuðstól hafi verið lágt og undir því semmiðað hafi verið við í dómaframkvæmd. Hann telur einnig að við mat á röskun áhögum skipti máli að lánið hafi verið greitt upp að fullu. Þá hafi mjögóverulegur afborganahluti verið greiddur af láninu áður en lánið hafi að fulluverið gert upp. Lánið hafi því haft öll einkenni svonefnds kúluláns. Að því ervarðar upphafsdag dráttarvaxta telur stefndi að stefnandi hafi ekki vísað tilneinna gagna um að stefndi hafi verið krafinn um ofgreidda fjárhæð þannig aðskilyrðum 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu teljistfullnægt. Engarmunnlegar skýrslur voru við aðalmeðferð málsins.Niðurstaða Svosem áður greinir er ágreiningslaust að lán það sem stefnandi tók ásamt makasínum, Sigríði Ásdísi Jónsdóttur, 20. febrúar 2008 var bundið ólögmætrigengistryggingu. Jafnframt eru aðilar sammála um að endurútreikningur stefnda,sem mun hafa verið tilkynntur stefnanda 28. mars 2011, leiddi til þess aðupphæð vaxta fyrir endurútreikningstímabilið hækkaði sem nam 1.446.216 krónum.Svarar sú fjárhæð til 14,43% af höfuðstól eða 11,22%, ef tekið er tillit tilverðbreytinga fram að endurútreikningsdegi. Í málinu er fram komið að greitthafði verið skilvíslega af láninu með föstum afborgunum, alls 38 sinnum, yfirrúmlega þriggja ára tímabil, þar af 36 sinnum áður en endurútreikningur láfyrir. Er því ljóst að nægileg festa var í lögskiptum aðila til þess aðskuldarar gætu haft lögmætar væntingar um að þeir hefðu að fullu greitt þávexti sem hér um ræðir. Er af hálfu stefnda í sjálfu sér ekki dregið í efa aðskuldarar hafi verið í góðri trú um að greiðslur þeirra væru fullnaðargreiðslurvaxta. Þá telur dómurinn að það geti ekki haft þýðingu um mat á þessu atriði aðgreiðslur skuldara fólu að mestu í sér greiðslu samningsvaxta án afborgana afhöfuðstól lánsins. Atvikmálsins, þ. á m. fjárhæð lánsins, benda ekki til þess að umrædd lántaka hafifarið fram í þágu atvinnustarfsemi eða fjárfestinga umfram það sem eðlilegtgetur talist hjá einstaklingum. Er sakarefnið því ólíkt því sem skorið var úrmeð dómum Hæstaréttar 15. október 2015 í málum nr. 34 og 35/2015, svo og dómiréttarins 14. apríl 2016 í máli nr. 617/2015 sem einnig hefur verið vísað tilaf hálfu stefnda. Að þessu virtu telur dómurinn að sú viðbótarfjárhæð semstefnandi og maki hans voru í reynd sameiginlega krafin um með fyrrgreindumendurútreikningi hafi falið í sér umtalsverða röskun á fjárhagslegum hagsmunumþeirra. Getur það ekki ráðið úrslitum í þessu sambandi þótt sú fjárhæð sem hérum ræðir hafi falið í sér tiltölulega lágt hlutfall höfuðstóls og búið hafiverið að greiða lánið upp á endurútreikningsdegi. Þegar litið er til allraatvika málsins og höfð er hliðsjón af þeim viðmiðum sem ítrekað hafa verið lögðtil grundvallar í dómum Hæstaréttar er það samkvæmt þessu álit dómsins að þaðstandi stefnda nær en stefnanda að bera þann vaxtamun sem hlaust af ólögmætrigengistryggingu lánsins á áðurgreindum vaxtadögum lánsins.Meðal gagna málsins er yfirlýsingfyrrnefndrar Sigríðar Ásdísar Jónsdóttur, þar sem hún veitir stefnanda heimildtil að höfða mál til innheimtu á allri kröfunni. Af hálfu stefnda hefursóknaraðild stefnanda á grundvelli þessa skjals ekki verið mótmælt. Að þessuvirtu, svo og að teknu tilliti til sambands stefnanda og nefndrar Sigríðar,verður aðild stefnanda til fullrar sóknar í málinu látin óátalin.Samkvæmt öllu framangreinduverður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda stefnufjárhæðina. Miða verður viðað stefnda hafi verið vel ljóst umfang endurgreiðslukröfu stefnanda þegar hennivar hafnað með bréfinu 23. október 2013. Með vísan til 3. mgr. 5. gr. laga nr.38/2001 um vexti og verðtryggingu verður því fallist á dráttarvaxtakröfustefnanda líkt og nánar greinir í dómsorði.Eftir úrslitum málsins verðurstefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn350.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Af hálfu stefnanda flutti máliðJónas Fr. Jónsson hdl.Af hálfu stefnda flutti máliðJóhann Pétursson hrl.Skúli Magnússon héraðsdómarikveður upp dóm þennan.DÓ M S O R ÐStefndi, Drómi hf., greiði stefnanda, Jóni ÓskariHinrikssyni, 1.443.216 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. nóvember 2013 til greiðsludags. Stefndigreiði stefnanda 350.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 52/2019
Stjórnarskrá Rannsókn Kyrrsetning Haldlagning Skaðabætur Miskabætur Framsal lagasetningarvalds Stjórnvaldsfyrirmæli Refsiheimild
A höfðaði mál á hendur Í og krafðist skaðabóta vegna ýmissa aðgerða lögreglu og ákæruvalds sem höfðu átt sér stað á tímabilinu frá 29. janúar 2010 til 18. febrúar 2016 í tengslum við rannsókn á ætluðum brotum á lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál og reglum settum samkvæmt þeim. Þá krafðist A miskabóta vegna ummæla saksóknara á opinberum vettvangi, bæði við upphaf rannsóknar og eftir að henni lauk. Einnig krafðist hann skaðabóta vegna atvinnutjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna rannsóknar og meðferðar málsins. Sakamál hafði verið höfðað gegn A og þremur öðrum mönnum vegna hinna ætluðu brota í mars 2013 en fallið var frá hluta sakargifta undir rekstri málsins þar sem lögáskilið samþykki ráðherra hefði ekki legið fyrir við setningu reglna nr. 1130/2008 um gjaldeyrismál og því talið að reglurnar gætu ekki talist viðhlítandi refsiheimild. Með dómi héraðsdóms í desember 2014 voru fjórmenningarnir svo sýknaðir af þeim sakargiftum sem eftir stóðu. Þeim dómi var áfrýjað til Hæstaréttar en ákæruvaldið féll frá áfrýjuninni í febrúar 2016. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að unnt væri að dæma sökuðum manni miskabætur vegna yfirlýsinga ákæruvalds á þeim grunni að hann hefði við rannsókn og meðferð máls orðið fyrir ólögmætri meingerð sem beinst hefði gegn frelsi, friði, æru eða persónu hans sbr. 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá var vísað til þess að greinarmunur væri gerður á ummælum þar sem fullyrt væri að sakborningur væri sekur um ákveðinn verknað og ummælum þar sem lýst væri grunsemdum um að hann hefði framið verknaðinn. Ummæli af fyrrnefnda taginu hefðu verið talin fara í bága við meginreglu 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu en þau síðari ekki. Taldi rétturinn að umrædd ummæli saksóknara hefðu hvorki falið í sér fullyrðingu um sekt A né að þau væru að öðru leyti því marki brennd að skylda Í til greiðslu miskabóta hefði stofnast vegna þeirra. Varðandi kröfu A um bætur vegna rannsóknaraðgerða kom fram að þótt skilyrði hefðu verið til að grípa til þeirra aðgerða og tryggingarráðstafana bæri Í eigi að síður hlutlæga ábyrgð á þeim samkvæmt 1. og 2. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var talið að innlánsvextir sem lagst hefðu á hið haldlagða og kyrrsetta fé hefði ekki veitt honum fulla bót og nægilega hefði verið leitt í ljós að hann hefði orðið fyrir frekara fjártjóni vegna þeirra aðgerða. Voru bætur ákveðnar að álitum eftir ólögfestum reglum skaðabótaréttar og að virtum ákvæðum 42. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. að fjárhæð 600.000 krónur. Þá var Í sýknað af kröfu A um bætur vegna atvinnutjóns þegar af þeirri ástæðu að ekki yrði annað ráðið en að lögregla og ákæruvald hefði ekki fengið upplýsingar um skort á samþykki ráðherra fyrir reglum nr. 1130/2008 fyrr en að liðnu því tímabili sem A miðaði kröfu sína við. Var Í því dæmt til að greiða A skaðabætur að fjárhæð 600.000 krónur
Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæmahæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldssonog Benedikt Bogason og Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og IngibjörgBenediktsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómarar.Áfrýjandi skautmálinu til Hæstaréttar 18. nóvember 2019. Hann krefst þess að stefnda verðigert að greiða sér 58.042.540 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr.laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá29. janúar 2010 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar fyrirHæstarétti. Stefndi krefststaðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.IÍ málinu krefuráfrýjandi stefnda um skaðabætur vegna ýmissa aðgerða lögreglu og ákæruvalds semáttu sér stað á tímabilinu frá 29. janúar 2010 til 18. febrúar 2016 í tengslumvið rannsókn á ætluðum brotum á lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál og reglumsettum samkvæmt þeim. Þá krefst hann miskabóta vegna ummæla saksóknara áopinberum vettvangi, bæði við upphaf rannsóknar og eftir að henni lauk. Einnigkrefst hann skaðabóta vegna atvinnutjóns sem hann hafi orðið fyrir vegna rannsóknarog meðferðar málsins. Framangreindrannsókn hófst í lok árs 2009 og lauk með útgáfu ákæru 22. mars 2013 á hendur áfrýjanda og þremur öðrummönnum fyrir að hafa í sameiningu á tímabilinu 25.mars til 2. nóvember 2009 haft milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi ánlögmætrar heimildar eða leyfis frá Seðlabanka Íslands. Þá var þeim jafnframtgefið að sök að hafa á sama tímabili staðið að ólögmætum gjaldeyrisviðskiptumvegna fjármagnshreyfinga milli landa með úttektum af reikningum í íslenskumkrónum í fjármálafyrirtækjum hér á landi. Við meðferð málsins féll ákæruvaldiðfrá síðara ákæruatriðinu og með dómi héraðsdóms 18.desember 2014 voru áfrýjandi og meðákærðu sýknaðir af því ákæruatriði sem eftir stóð. Ákæruvaldið áfrýjaði dóminum 14. janúar 2015 tilHæstaréttar en féll frá áfrýjuninni 18. febrúar 2016. Héraðsdómur féllst á kröfu áfrýjanda um miskabæturvegna rannsóknaraðgerða lögreglu samkvæmt IX. til XIII. kafla laga nr.88/2008 um meðferð sakamála og vegnatilgreindra ummæla saksóknara í fjölmiðlum við rannsókn málsins. Vorumiskabætur vegna þessa ákveðnar að álitum samtals 1.400.000 krónur. Með hinumáfrýjaða dómi Landsréttar var stefnda gert að greiða áfrýjanda miskabætur aðálitum vegna rannsóknaraðgerða lögreglu og tafa við rannsókn málsins, samtals2.500.000 krónur. Áfrýjandi undi dómi um miskabætur vegna framangreindraþvingunarúrræða og tafa við rannsókn málsins. Hann leitaði hins vegar eftiráfrýjunarleyfi 28. október 2019 hvað aðra þætti málsins varðaði og var leyfiveitt 19. nóvember sama ár á þeim grunni að úrslit málsins kynnu að hafafordæmisgildi hvað varði mörk leyfilegrar opinberrar umfjöllunar lögreglu og ákæruvaldsí sakamálum. Þá reyni í málinu á við hvaða aðstæður megi dæma bætur að álitum,annars vegar fyrir atvinnutjón og hins vegar vegna kyrrsetningar eðahaldlagningar reiðufjár. Kröfur sínar fyrirHæstarétti sundurliðar áfrýjandi með svofelldum hætti: 1. Krafa um miskabætur2.000.000 krónur vegna yfirlýsinga saksóknara um sekt hans 29. janúar og 2.febrúar 2010 og 500.000 krónur vegna yfirlýsingar saksóknara 23. febrúar 2016.2. Bætur fyrir fjárhagslegt tjón vegna kyrrsettra og haldlagðra eigna, aðallega3.388.773 krónur, en til vara 1.643.828 krónur og til þrautavara 1.089.885krónur. 3. Bætur fyrir atvinnutjón 52.153.767 krónur. IIÍ kjölfar hrunsþriggja stærstu viðskiptabanka landsins í byrjun október 2008 var eitt brýnastaverkefni stjórnvalda að tryggja stöðugleika á gengi íslensku krónunnar. Af þeimsökum var talið nauðsynlegt að grípa til tímabundinna takmarkana ágjaldeyrisviðskiptum. Með lögum nr. 134/2008 um breytingu á lögum nr. 87/1992um gjaldeyrismál með síðari breytingum og reglum nr. 1082/2008 umgjaldeyrismál, sem settar voru á grundvelli þeirra laga, voru slík höft sett ágjaldeyrisviðskipti. Í 8. gr. laganr. 87/1992 er mælt fyrir um að öðrum en Seðlabanka Íslands sé óheimilt að hafamilligöngu um gjaldeyrisviðskipti og versla með erlendan gjaldeyri nema hafatil þess heimild í lögum eða samkvæmt ákvæðum í alþjóðlegum samningum semÍsland er aðili að eða fengið til þess leyfi frá Seðlabanka Íslands. Samkvæmtákvæði til bráðabirgða í fyrrnefndum breytingarlögum var Seðlabanka Íslandsheimilt fram til 30. nóvember 2010, þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laga nr. 87/1992og 9. gr. laga nr. 34/1991 um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, aðákveða að gefa út reglur, að fengnu samþykki viðskiptaráðherra, sem takmörkuðueða stöðvuðu tímabundið einhverja eða alla flokka fjármagnshreyfinga, sem gerðvar grein fyrir í ákvæðinu, og gjaldeyrisviðskipti sem þeim tengdust, ef slíkarhreyfingar fjármagns til og frá landinu myndu að mati bankans valda alvarlegumog verulegum óstöðugleika í gengis- og peningamálum. Til fjármagnshreyfingasamkvæmt þessu töldust meðal annars innlegg á og úttektir af reikningum ílánastofnunum og inn- og útflutningur innlends og erlends gjaldeyris.Seðlabanki Íslands nýtti þessa heimild með útgáfu framangreindra reglna nr.1082/2008, sem tóku gildi 28. nóvember 2008. Þær féllu úr gildi 16. desembersama ár við gildistöku reglna nr. 1130/2008 um sama efni. Samkvæmt 4. mgr. 1.gr. síðargreindu reglnanna voru óheimil gjaldeyrisviðskipti vegnafjármagnshreyfinga samkvæmt framangreindu bráðabirgðaákvæði á milli landa meðúttektum af reikningum í íslenskum krónum í fjármálafyrirtækjum hér á landi eðaSeðlabanka Íslands. Þá var í 13. gr. reglnanna mælt fyrir um viðurlög vegnabrota á þeim. Þessar reglur féllu úr gildi 30. október 2009 með gildistökunýrra reglna um sama efni nr. 880/2009. Í 2. og 3. gr. þeirra voru ákvæði semtakmörkuðu gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar í tengslum við þau. 2Hinn 19.nóvember 2009 kærði Fjármálaeftirlitið til efnahagsbrotadeildarríkislögreglustjóra ætluð brot á lögumnr. 87/1992 og reglum settum á grundvelli þeirra. Tilefni kærunnar vartilkynning Seðlabanka Íslands 11. sama mánaðar í samræmi við þágildandi ákvæði15. gr. a. laganna. Í tilkynningunni kom fram að grunur beindist að sænskafyrirtækinu B AB vegna meiriháttar brota á lögunum á tímabilinu 25. mars til 5.október 2009. Fælust ætluð brot í óheimilli milligöngu um gjaldeyrisviðskipti íatvinnuskyni af hálfu félagsins. Fjórir nafngreindir Íslendingar, þeirra ámeðal áfrýjandi, væru einnig grunaðir um brot á lögunum vegna tengsla sinna viðfélagið, en þeir hefðu á tímabilinu fengið verulega fjármuni greidda fráfélaginu inn á persónulega reikninga sína. Talið var að þessir aðilar hefðuhaft milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi án heimildar og þannigbrotið gegn 8. gr. laga nr. 87/1992. Þá laut kæran að ætluðum brotum gegn 4.mgr. 1. gr. reglna nr. 1130/2008, sbr. 3. gr. laganna og 1. mgr. bráðabirgðaákvæðisI í sömu lögum.Með úrskurði héraðsdóms 28. janúar 2010 var að kröfuefnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra heimiluð húsleit í húsnæði að [...] íKópavogi, sem talið var starfsaðstaða B AB og tengdra félaga, og á heimilumþeirra fjögurra manna er rannsókn beindist að, þar á meðal áfrýjanda. Sama dagvar einnig með úrskurði héraðsdóms heimiluð haldlagning og rannsókn gagna ívörslum Símans hf. er vörðuðu sömu aðila. Með úrskurði héraðsdóms 29. samamánaðar var enn fremur heimiluð leit í bifreiðum í eigu eða umráðumfjórmenninganna þar af í tveimur bifreiðum í umráðum áfrýjanda. Sama dagkyrrsetti sýslumaður að kröfu ríkislögreglustjóra eignarhlut áfrýjanda í þremurfasteignum og innstæðu á tveimur bankareikningum hans til tryggingar kröfu aðfjárhæð 42.610.000 krónur. Þá lagði efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra haldá innstæðu á einum bankareikningi áfrýjanda til viðbótar sem sýslumaður hafðiákveðið að undanþiggja kyrrsetningu með vísan til 15. gr. laga nr. 31/1990 umkyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 41. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Áfrýjandiog tveir aðrir grunaðir voru jafnframt handteknir þennan dag og yfirheyrðirsíðdegis eftir að leit hafði farið fram á grundvelli fyrrgreindra úrskurða. Ríkislögreglustjóri, í samstarfi viðFjármálaeftirlitið og gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands, boðaði tilblaðamannafundar 29. janúar 2010. Fyrir hönd þessara stofnana voru á fundinumsaksóknari efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, forstjóriFjármálaeftirlitsins og forstöðumaður gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands. Ímáli saksóknara kom meðal annars fram að þau brot sem væru til rannsóknarvörðuðu fyrst og fremst ólögmæta miðlun á gjaldeyri. Það væri háð leyfiSeðlabanka Íslands að hafa milligöngu um miðlun gjaldeyris og viðskiptin sem umræddi væru umfangsmikil og líkleg til að hafa haft neikvæð áhrif á tilraunirstjórnvalda og Seðlabanka Íslands til að vinna gegn veikingu krónunnar. Sagðisaksóknari sterkar grunsemdir um að brotin væru með þessum hætti, en rannsóknmálsins beindist að félaginu B AB sem skrásett væri í Svíþjóð og fjórum Íslendingum,sem saksóknari vildi ekki nafngreina. Væru þessir menn með skráð lögheimilierlendis og taldir raunverulegir eigendur félagsins með stjórn þess á hendiþótt tveir erlendir einstaklingar væru skráðir eigendur. Aðspurður í kjölfariðum hvort lögheimili sakborninga hefði áhrif á stöðu þeirra við rannsókninasvaraði saksóknari að hann teldi svo ekki vera. Rannsóknaraðilar teldu brotin hafaátt sér stað, en þó yrði að hafa þann fyrirvara að rannsókn stæði yfir ogekkert hefði enn verið sannað. Áfundinum kom einnig fram að fyrr sama dag hefði lögregla gert leit á heimilumfjórmenninganna og starfsstöð félagsins og að unnið hefði verið að því aðtryggja upptöku ávinnings af ætluðum brotum með kyrrsetningum hérlendis ogerlendis. Þrír væru í haldi og í yfirheyrslum en lögregla hefði mælt sér mótvið þann fjórða sama dag. Hinn 2. febrúar 2010 veitti saksóknari viðtal viðMorgunblaðið þar sem meðal annars kom fram það álit hans að sakborningar hefðuvirst gera sér far um að halda sig formlega innan ramma laganna enrannsóknaraðilar væru ekki á þeirri skoðun. Með samkomulagiríkislögreglustjóra og áfrýjanda var kyrrsetningargerð hjá áfrýjanda endurupptekin18. maí 2011 og aflétt kyrrsetningu af tveimur þeirra fasteigna sem áður höfðuverið kyrrsettar. Þess í stað voru kyrrsettir fjármunir sem lagðir höfðu veriðtil viðbótar inn á annan áður kyrrsettan bankareikning jafnframt sem kyrrsetturvar eignarhluti eiginkonu hans í tilgreindri fasteign en eignarhluti áfrýjandaí þeirri fasteign hafði áður verið kyrrsettur. Með dómi 25. janúar 2012 í málinr. 682/2011 felldi Hæstiréttur kyrrsetninguna úr gildi með þeim rökum aðdráttur á rannsókn málsins hefði verið í bága við 1. mgr. 70. gr.stjórnarskrárinnar, 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 2. og 3. mgr.53. gr. laga nr. 88/2008. 3Embætti sérstaks saksóknara tók við rannsókn málsins1. september 2011 við sameiningu efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra ogembættis sérstaks saksóknara. Hinn 14. júní 2012 voru áfrýjandi og aðrir grunaðir yfirheyrðir íannað sinn við rannsókn málsins og á ný 29. nóvember 2012. Rannsókn lauk hjá embætti sérstaks saksóknara 22. janúar 2013. Hinn 22. mars 2013 var ákæra gefin út á hendur áfrýjandaog áðurnefndum þremur mönnum og þann sama dag var aftur kyrrsettur hluturáfrýjanda í tilgreindri fasteign fyrir kröfu að fjárhæð allt að 164.000.000króna. Með ákærunni var áfrýjanda og meðákærðugefið að sök að hafa í sameiningu á tímabilinu 25. mars til 2. nóvember 2009haft milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi án lögmætrar heimildar eðaleyfis frá Seðlabanka Íslands. Með því voru þeir taldir hafa brotið gegn 1.mgr. 8. gr. laga nr. 87/1992, sbr. 186. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940,að því er tók til tímabilsins 25. mars til 13. júlí 2009, en frá þeim tíma og til2. nóvember sama ár var háttsemin sögð varða við 1. mgr. 8. gr., sbr. 3.tölulið 16. gr., laga nr. 87/1992, sbr. 3. gr. laga nr. 73/2009 umgjaldeyrismál. Jafnframt var þeim gefið að sök að hafa á sama tímabili staðiðað ólögmætum gjaldeyrisviðskiptum vegna fjármagnshreyfinga á milli landa meðúttektum af reikningum í íslenskum krónum í fjármálafyrirtækjum hér á landi.Var þessi háttsemi sögð varða við 4. mgr. 1. gr., sbr. 13. gr., reglna nr.1130/2008, sbr. 1. mgr., sbr. 5. mgr., bráðabirgðaákvæðis I og 16. gr.áðurnefndra laga um gjaldeyrismál vegna tímabilsins 25. mars 2009 til og með30. október sama ár, en vegna tímabilsins 31. október til 2. nóvember sama ár hafiþessi háttsemi varðað við 2. og 3. gr., sbr. 16. gr., reglna nr. 880/2009, sbr.sömu málsgrein bráðabirgðaákvæðis I í lögum nr. 87/1992. Samkvæmt úrskurði héraðsdóms 14. mars 2014 varsakamálinu vísað frá dómi með þeim rökum að ákæran væri of óskýr til að dómur yrðilagður á málið. Með dómi Hæstaréttar 4. apríl 2014 í máli nr. 206/2014 varfrávísunarúrskurðurinn felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka máliðtil efnismeðferðar með vísan til þess að ákæran uppfyllti skilyrði c. liðar 1.mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Við fyrirtöku málsins á ný í héraði 5. maí 2014 lagði ákæruvaldið fram bókun þar sem tekiðvar fram að lögáskilið samþykki ráðherra hefði ekki legið fyrir við setninguframangreindra reglna nr. 1130/2008. Vegna þessa annmarka gætu reglurnar ekkitalist viðhlítandi refsiheimild og væri því fallið frá heimfærslu háttsemiákærðu til þeirra. Þá var jafnframt bókuð sú yfirlýsing ákæruvalds að hið samaætti við um reglur nr. 880/2009. Einskorðuðust sakargiftir í málinu því viðbrot gegn 1. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1992 og þá verknaðarlýsingu sem lá þeirriheimfærslu til grundvallar, þannig að framangreindum fjórum einstaklingum vargefið að sök að hafa í sameiningu á tímabilinu 25. mars 2009 til 2. nóvember2009 haft milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi „án lögmætrar heimildareða leyfis frá Seðlabanka Íslands.“ Hinn 18. desember 2014 voru áfrýjandi og meðákærðusýknaðir af því ákæruatriði sem eftir stóð. Í niðurstöðu dómsins kom fram aðáfrýjandi og meðákærðu hefðu átt gjaldeyrisviðskipti með því að kaupa íslenskarkrónur af erlendum fjármálafyrirtækjum fyrir erlendan gjaldeyri sem mótaðilarþeirra hefðu lagt inn á gjaldeyrisreikning í nafni B AB í Svíþjóð. Krónurnar hefðusíðan verið lagðar inn á bankareikning félagsins hér á landi og þaðan inn ábankareikning sem mótaðilinn hefði stofnað hér. Í því hefðu hin eiginlegugjaldeyrisviðskipti falist og þau viðskipti ekki farið fram hér á landi. Þvíværi ekki fullnægt skilyrði refsiábyrgðar samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr.87/1992 að viðskiptin færu fram hér á landi. Ákæruvaldið áfrýjaði dóminum til Hæstaréttar, 14.janúar 2015 en féll frá áfrýjuninni 18. febrúar 2016 eins og áður segir. Hinn23. þess mánaðar veitti vararíkissaksóknari viðtal í Ríkisútvarpinu þar sem komfram að fallið hefði verið frá áfrýjun málsins því líklegt hefði þótt að sakirværu fyrndar. Hefði fjárskortur og mannekla rannsóknaraðila meðal annars orðiðtil þess að málið dróst á langinn. Einnig hefði mun vægari hluti sakargiftannastaðið eftir þegar sá hluti sem varðaði brot gegn gjaldeyrishöftum hefði falliðniður vegna mistaka Seðlabanka Íslands sem ekki hefði fengið lögboðið samþykki viðskiptaráðherrafyrir setningu reglna sinna um gjaldeyrishöft. IIISamkvæmt 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar,sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, skal hver sá sem borinn er sökumum refsiverða háttsemi talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð.Ákvæðið er efnislega samhljóða 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr.1. gr. laga nr. 62/1994, en vísað er til þessa ákvæðis í athugasemdumgreinargerðar með frumvarpi því er varð að stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995.Í 2. mgr. 18. gr. laga nr. 88/2008 er kveðið á um það hlutverk ákærendaað tryggja, í samvinnu við lögreglu, að þeir sem afbrot fremja verði beittirlögmæltum viðurlögum. Einnig segir að þeir taki ekki við fyrirmælum frá öðrumstjórnvöldum um meðferð ákæruvalds nema sérstaklega sé kveðið á um það í lögum.Þá er í 3. mgr. greinarinnar mælt fyrir um hlutlægnisskyldu ákærenda með þeimhætti að þeir skuli vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og gætajafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar. Þeim ber jafnframt aðhraða meðferð mála eftir því sem kostur er.Loks segir í 4. mgr. greinarinnar að ákærendur séu bundnir þagnarskyldusamkvæmt X. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Tekur þetta til upplýsinga umeinkahagi manna sem eðlilegt er að leynt fari, upplýsinga sem varða starfshættiákæruvalds og lögreglu og fyrirhugaðar aðgerðir í þágu rannsóknar, og annarraupplýsinga sem leynt skulu fara samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða eðlimáls. Þótt upplýsingalög nr. 140/2012 gildi ekki um rannsókn sakamáls eðasaksókn, sbr. 1. mgr. 4. gr. þeirra, og réttur almennings til upplýsinga náialmennt ekki til slíkra upplýsinga sem að framan greinir verður með hliðsjón af rétti almennings til að taka viðupplýsingum samkvæmt 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994,að líta svo áað eðlilegur hluti starfs yfirmanna lögreglu og ákæruvalds sé að gerafjölmiðlum nokkra grein fyrir stöðu máls meðan á rannsókn þess stendur og þeimákvörðunum sem teknar eru, sbr. til hliðsjónar dóm mannréttindadómstóls Evrópu24. janúar 2017 í máli Paulikas gegn Litháen og þá dóma sem þar er vísað til. Ferþað þó nokkuð eftir eðli mála hverju sinni og hversu mjög málefni telst eigaerindi við almenning, en gæta verður nauðsynlegsskýrleika og varfærni í yfirlýsingum svo ummæli teljist ekki andstæðframangreindri meginreglu 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt framansögðu er unnt að dæma sökuðummanni miskabætur vegna yfirlýsinga ákæruvalds á þeim grunni að hann hafi viðrannsókn og meðferð máls orðið fyrir ólögmætri meingerð, sem beinst hefur gegnfrelsi, friði, æru eða persónu hans, sbr. b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaganr. 50/1993. Verður í því tilliti að líta til efnis yfirlýsinga ákæruvalds með hliðsjón af aðstæðumhverju sinni, af hvaða tilefni þær eru settar fram og hvernig og í hvaðasamhengi það er gert. Þannig er greinarmunur á ummælum þar sem fullyrt er aðsakborningur sé sekur um ákveðinn verknað og ummælum þar sem lýst er grunsemdumum að hann hafi framið verknaðinn. Ummæli af fyrrnefnda taginu hafa verið talinfara í bága við meginreglu 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, en ummæliaf síðarnefndum toga ekki. Eðli máls samkvæmt hvílir sérstaklega rík skylda áhandhafa ákæruvalds að gæta orða sinna í þessum efnum, sbr. meðal annars dómMannréttindadómstóls Evrópu 6. febrúar2007 í máli Garycki gegn Póllandi. Ummæli saksóknara á blaðamannafundinum 29.janúar 2010, sem áfrýjandi vísar sérstaklegatil, fólust í svari við spurningu blaðamanns um hvort lögheimili sakborningahefði áhrif á stöðu þeirra við rannsóknina. Samkvæmt nýju og mikið leiðréttuendurriti, sem lagt hefur verið fyrir Hæstarétt, sagði saksóknari: „Ég sé þaðekki að það geri það, það er ekki hefur ekki áhrif á hugsanlega refsiábyrgð ogbrot þessi teljast vera að okkar áliti alla vega, teljist þau sönnuð og ég villnú hafa alltaf þennan fyrirvara og við erum að tala um mál sem er í rannsókn ogþað er ekki búið að sanna neitt og grunsemdir og annað slíkt. En þá eru þautalin vera fullframin á Íslandi. Með því að skila að sem sagt að viðskiptunumljúki með því að íslenskum krónum sé skilað til Íslands til íslenskra aðila.Þar af leiðandi séu brot framin á Íslandi og sé þá í rauninni ekki atriði,skipti þá ekki máli hvort það eru íslenskir menn með lögheimili hér eðaerlendis eða erlendir aðilar sem fremji brotin.“Þótt nafn félagsins B AB hafi komið fram á blaðamannafundi sem haldinnvar á sama degi og umfangsmiklar rannsóknaraðgerðir gegn áfrýjanda hófust viðhafðisaksóknari afdráttarlaust þá fyrirvara er lög bjóða um ætlaða sekt ónafngreindramanna sem tengdust því félagi og tók fram að sök hefði ekki verið sönnuð. Aðþessu gættu og í ljósi þess að rannsóknin varðaði þjóðfélagsmál sem átti brýnterindi við almenning verður ekki talið að næg efni séu til að dæma áfrýjandamiskabætur vegna þessara ummæla. Þá voru ummæli sem Morgunblaðið hafðieftir saksóknara 2. febrúar 2010 svofelld: „Þeir virðast hafa gert sér far um að halda sigformlega innan ramma laganna en við erum á þeirri skoðun að svo hafi ekki verið.“Skilja verður ummælin svo að hér sé saksóknari að veita almenningi innsýn írannsókn málsins eins og hún þá stóð og gengu ummælin ekki lengra en að fela þaðí sér að lýsa því viðhorfi að fyrir hendi væru grunsemdir lögreglu um brot, ánþess að staðhæft væri að refsivert brot hefði verið framið. Í því ljósi verðurekki talið að ummælin séu þess eðlis að leiði til bótaskyldu stefnda. Loks koma til skoðunar eftirfarandiummæli saksóknarans í viðtali við Ríkisútvarpið 23. febrúar 2016: „Auðvitað tókþessi rannsókn miklu lengri tíma en að var stefnt. Og í ljósi þess að þá teljumvið að miklar líkur séu á því að Hæstiréttur myndi telja þetta vera fyrnt,þessar sakir. Og að það sé þá réttara í ljósi allrar meðferðar málsins að látahér við sitja.“ Hér er þess að gæta að áfrýjun máls felur einatt í sérað dómi sé ekki unað. Jafnframt vísaði saksóknaritil þess að mun vægari hluti sakargifta hefði staðið eftir sökum þess að ákæravegna brota gegn gjaldeyrishöftum hefði fallið niður vegna mistaka SeðlabankaÍslands sem ekki hefði fengið lögboðið samþykki viðskiptaráðherra fyrirsetningu reglna sinna um gjaldeyrishöft. Í þessu samhengi verðurhvorki talið að fyrrgreind ummæli hafi falið í sér fullyrðingu um sektáfrýjanda né að þau séu að öðru leyti því marki brennd að skylda stefnda tilgreiðslu miskabóta hafi stofnast vegna þeirra. 2Svo sem áður greinir unir áfrýjandiniðurstöðu hins áfrýjaða dóms um dæmdar miskabætur samkvæmt 246. gr. laga nr.88/2008, vegna rannsóknaraðgerða sem áttu sér stað samkvæmt IX. til XIII. kaflalaganna. Eftir stendur því krafa hans um skaðabætur fyrir fjártjón, vegnakyrrsetningar og haldlagningar reiðufjár á bankainnstæðum. Áfrýjandi byggir á því að honum beri bæturvegna haldlagningar og kyrrsetningar reiðufjár á hlutlægum grunni samkvæmt 246.gr. laga nr. 88/2008. Telur hann rétt að líta með tilgreindum hætti til laganr. 38/2001 sem viðmiðs fyrir meðalhófsbætur vegna missis afnota reiðufjár, aðvirtri 1. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990 sem mælir fyrir um að bætur megi dæmaað álitum vegna kyrrsetningar er fellur niður ef ljóst þykir að fjárhagslegttjón hafi orðið, en ekki er unnt að sanna fjárhæð þess. Eins og áður greinir liggur fyrir aðrannsókn sú sem fór fram á starfsemi áfrýjanda og samstarfsfélaga hans ávettvangi B AB laut að afar umfangsmikilli milligöngu um gjaldeyrisviðskipti ánþess að aflað hefði verið heimildar Seðlabanka Íslands samkvæmt 1. mgr. 8. gr.laga nr. 87/1992. Töldu stjórnvöld að starfsemi áfrýjanda og annarra sem aðmálinu komu græfi verulega undan því markmiði laganna að tryggja aðskilaskyldur gjaldeyrir bærist til landsins. Þótt skilyrði hafi verið til aðgrípa til þeirra rannsóknaraðgerða og tryggingaráðstafana sem um ræðir, og komuí kjölfar úrskurða dómstóls, ber stefndi eigi að síður hlutlæga ábyrgð á þeimsamkvæmt 1. og 2. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008. Þó má lækka bætur eða fellaþær niður sýni stefndi fram á að áfrýjandi hafi valdið eða stuðlað að þeimaðgerðum sem hann reisir kröfu sína á, sbr. síðari málslið 2. mgr. 246. gr.laganna. Á það verður ekki fallist með stefnda að áfrýjandi hafi valdið eða stuðlaðað því að fjármunir hans voru kyrrsettir og haldlagðir þann tíma sem um ræðir.Eru því ekki efni til að fella niður eða lækka bætur til hans af þeim sökum.Eftir sem áður ber honum að sanna fjártjón sitt vegna þessara aðgerða. Hjá áfrýjanda voru kyrrsettir tveirbankareikningar með innstæðu samtals að fjárhæð tæpar fjórar milljónir króna aukþess sem haldlagður var reikningur hans með rúmlega sex milljón krónum. Viðendurupptöku kyrrsetningar 18. maí 2011 voru svo 10 milljón krónur til viðbótarlagðar inn á annan hinna kyrrsettu reikninga. Kyrrsetningargerðir þessar voru loksfelldar úr gildi með framangreindum dómi Hæstaréttar 25. janúar 2012 í máli nr.682/2011 og verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að haldlagningunni hafiverið aflétt á sama tíma. Fallist er á með áfrýjanda að þeir innlánsvextir semlögðust á hið haldlagða og kyrrsetta fé þann tíma sem um ræðir hafi ekki veitthonum fulla bót og nægilega sé í ljós leitt að hann hafi orðið fyrir frekara fjártjónivegna þessara aðgerða. Í lögum er ekki að finna ákvæði erkveða beinlínis á um hvernig reikna skuli fjárhæð bóta í tilviki sem þessu.Verða bætur því ákveðnar að álitum eftir ólögfestum reglum skaðabótaréttar og aðvirtum ákvæðum 42. gr. laga nr. 31/1990um heimild til að ákveða bætur á þeim grunni. Þótt ákvæði laga nr. 38/2001 eigisamkvæmt efni sínu ekki við um kröfu sem þessa má við ákvörðun bóta líta tilákvæða 4. gr. laganna um almenna vexti á útlánum, að teknu tilliti til þeirrainnlánsvaxta sem lögðust á innstæður þessar umrætt tímabil, en stefndi hefurekki vefengt tölulega útreikninga áfrýjanda þar að lútandi. Að þessu virtuverða bætur ákveðnar 600.000 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr.laga nr. 38/2001 frá 1. mars 2017 til greiðsludags, en nefndan dag var mánuðurfrá höfðun málsins. 3 Kröfu sína um bætur fyriratvinnutjón reisir áfrýjandi á því að saknæm háttsemi lögreglu og ákæruvaldsvið rannsókn og meðferð sakamálsins hafi leitt til þess að sér hafi ekki veriðunnt að fá atvinnu við hæfi. Hafirannsókn verið haldið áfram þrátt fyrir vitneskju þessara aðila um aðframangreindar reglur nr. 1130/2008 hefðu ekki getað orðið grundvöllurrefsiábyrgðar. Annars vegar hafi falist í reglunum ólögmætt framsallagasetningarvalds til handa Seðlabanka Íslands og hins vegar hafi skort ásamþykki viðskiptaráðherra fyrir útgáfu þeirra. Að þessu fengnu hafi einungisstaðið eftir ætlað brot hans gegn 8. gr. laga nr. 87/1992. Grunsemdir um það brothefðu ekki átt að kalla á viðamikla rannsókn, enda ætíð legið fyrir aðviðskiptin sem um ræðir hefðu átt sér stað erlendis og ekki verið háð samþykkiSeðlabanka Íslands. Miðar áfrýjandi kröfu sína við tímabilið frá ogmeð febrúar 2011 til og með apríl 2012 og takmarkar hana við aðgerðir lögregluog ákæruvalds, en ekki annarra stjórnvalda. Maður sem sakaður hefur verið um refsiverða háttsemi á ekki einvörðungurétt á bótum á grundvelli hinnar hlutlægu bótareglu í 246. gr. laga nr.88/2008, heldur getur hann einnig átt slíkan rétt eftir almennu sakarreglunni,sbr. til hliðsjónar meðal annars dóm Hæstaréttar 6. maí 2009 í máli nr. 445/2008.Skilyrði þess að slíkri ábyrgð verði komið fram eru þó að lögreglumenn eðahandhafar ákæruvalds hafi valdið sökuðum manni tjóni sem rakið verður tilsaknæmrar og ólögmætrar háttsemi sem stefndi ber ábyrgð á og fellur ekki undir gildissviðXXXIX. kafla laga nr. 88/2008 um bætur vegna sakamáls, sbr. dóm Hæstaréttar 6.mars 2019 í máli nr. 27/2018. Verður jafnframt að líta til þess að lögregla oghandhafar ákæruvalds njóta að lögum verulegs sjálfstæðis við ákvörðun umrannsókn og höfðun refsimáls, sbr. III. og VII. kafla laga nr. 88/2008. Sætirmat þeirra um það ekki endurskoðun dómstóla, sbr. dóma Hæstaréttar 8. maí 2008í máli nr. 207/2008 og 20. desember 2018 í máli nr. 30/2018. Í málinu hefur komið fram að snemmaárs 2011 var haldinn fundur í dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu með ríkissaksóknara,ríkislögreglustjóra og fulltrúa frá Seðlabanka Íslands, meðal annars tilundirbúnings sameiningar efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra og embættissérstaks saksóknara 1. september það ár. Á fundinum mun meðal annars hafa veriðrætt hvort reglur nr. 1130/2008 fælu í sér of víðtækt framsallagasetningarvalds. Á hinn bóginn hefur ekkert komið fram um að þar hafi veriðupplýst að ráðherra hefði ekki samþykkt reglur þessar. Þá er í gögnum málsins bréfsérstaks saksóknara 7. apríl 2014 til verjenda ákærðu í framangreindu sakamáli þarsem fram kemur að embættið hafi um haustið 2011 óskað eftir upplýsingum frágjaldeyriseftirliti seðlabankans um lögáskilin samþykki ráðherra fyrir reglusetningubankans um gjaldeyrismál. Hafi embættið fengið þau munnlegu svör frá bankanum aðformlegar staðfestingar fyrir reglunum hefðu ætíð legið fyrir. Embættið hafi ekkiséð ástæðu til að vefengja þau svör en vegnadómsmeðferðar í sakamálinu talið rétt að afla formlegra og skriflegraupplýsinga þar um. Í fyrstu hafi svör bankans gefið til kynna að samþykkiráðherra fyrir reglum um málefnið hafi legið fyrir, en samkvæmt síðasta svari bankans 27. janúar 2014 hafi ekki fundistformleg staðfesting ráðherra fyrir reglum nr. 1130/2008. Samkvæmtþessu og öðrum gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að lögregla ogákæruvald hafi ekki fengið upplýsingar um skort á samþykki ráðherra fyrir reglumnr. 1130/2008 fyrr en eftir að áfrýjandi hóf störf á ný hjá fyrirtæki áfjármálamarkaði. Fékk lögregla og ákæruvald því ekki vitneskju um þetta fyrr enað liðnu framangreindu tímabili sem áfrýjandi miðar kröfu sína við. Ber honumþegar af þeim sökum ekki bætur á þeim grunni. Ekki verður heldur fallist á meðáfrýjanda að lögregla eða handhafar ákæruvalds hafi sýnt af sér skaðabótaskyltgáleysi við að ganga ekki harðar fram eftir réttum upplýsingum frá SeðlabankaÍslands eða viðskiptaráðherra um hvort framangreindar reglur sem birtar höfðuverið skorti lögboðið samþykki ráðherra. Enn síður verður talið að saknæmháttsemi lögreglu og ákæruvalds hefði getað falist í áframhaldandi rannsókn ábrotum gegn reglunum enda um að ræða efnislegt atriði sem útkljáð yrði með dómi. Samkvæmt því sem rakið hefur verið fereinnig fjarri að fallist verði á með áfrýjanda að rannsókn sú er laut að brotumgegn 8. gr. laga nr. 87/1992 og leiddi til ákæru geti hafa falið í sér skaðabótaskyldaháttsemi gagnvart honum. Verður stefndi því sýknaður af kröfu áfrýjanda umbætur vegna atvinnutjóns.4 Ákvæði hins áfrýjaða dóms ummálskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest. Stefndi verður dæmdur til að greiðaáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.Dómsorð: Stefndi,íslenska ríkið, greiði áfrýjanda, A, 600.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. mars 2017 tilgreiðsludags. Ákvæði hins áfrýjaða dóms ummálskostnað og gjafsóknarkostnað skulu óröskuð. Stefndi greiði áfrýjanda 800.000krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Dómur Landsréttar 11. október 2019.Mál þetta dæma landsréttardómararnirKristbjörg Stephensen ogOddný Mjöll Arnardóttir og Arngrímur Ísberg, settur landsréttardómari.Málsmeðferð ogdómkröfur aðilaAðaláfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 25. október 2018. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 2. október 2018 í málinu nr. E-508/2017.Aðaláfrýjandi krefst sýknu af öllum kröfum stefnda. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti.Gagnáfrýjandi skaut málinu til Landsréttar fyrir sitt leyti 22. nóvember 2018. Hann krefst þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða honum 65.092.540 krónur auk nánar tilgreindra dráttarvaxta. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti líkt og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.Málsatvik og sönnunarfærslaHinn 11. nóvember 2009 tilkynnti Seðlabanki Íslands Fjármálaeftirlitinu, í samræmi við þágildandi ákvæði laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, að grunur væri um að sænskt félag með heitinu B AB og fjórir nafngreindir menn, þar á meðal gagnáfrýjandi, hefðu brotið á nánar tilgreindan hátt gegn þeim lögum og reglum nr. 1130/2008 um gjaldeyrismál, en þær hafi bankinn gefið út 15. desember 2008 og fengið birtar í B-deild Stjórnartíðinda. Á grundvelli þessarar tilkynningar sendi Fjármálaeftirlitið kæru 19. nóvember 2009 til þáverandi efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra sem tók málið til rannsóknar í janúar 2010. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 28. janúar 2010 var að kröfu efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra heimiluð húsleit í húsnæði að [...], Kópavogi, sem sagt var vera starfsaðstaða B AB og tengdra félaga og á heimilum og í fasteignum þeirra fjögurra manna er rannsókn beindist að, þar á meðal gagnáfrýjanda. Sama dag var jafnframt heimiluð haldlagning og rannsókn gagna í vörslum Símans hf. er vörðuðu sömu aðila. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 29. sama mánaðar var enn fremur heimiluð leit í bifreiðum í eigu eða umráðum fjórmenninganna, þar af voru tvær bifreiðar í umráðum gagnáfrýjanda. Sama dag kyrrsetti sýslumaðurinn í Reykjavík að kröfu ríkislögreglustjóra eignarhlut gagnáfrýjanda í þremur fasteignum og innstæðu á tveimur bankareikningum hans til tryggingar kröfu að fjárhæð 42.610.000 krónur. Þá haldlagði efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra innstæðu á einum bankareikningi til viðbótar. Gagnáfrýjandi var handtekinn 29. janúar 2010 og þann dag fór fram húsleit á heimili hans á grundvelli áðurnefnds úrskurðar. Þennan sama dag boðaði efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra til blaðamannafundar í samstarfi við Fjármálaeftirlitið og gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands þar sem greint var frá þeim rannsóknaraðgerðum sem að framan greinir. Á fundinum kom fram að rannsóknin væri nýhafin og beindist að hinu sænska félagi, sem var nafngreint, og fjórum einstaklingum hér á landi sem væru taldir tengjast félaginu, ætluðum brotum þeirra var lýst og hugsanlegri refsiábyrgð sem og áhrifum brotanna á gjaldeyrisstöðugleika í landinu. Fram kom að sterkar grunsemdir væru fyrir hendi af hálfu lögregluyfirvalda um brot á áðurnefndum lögum og reglum um gjaldeyrismál. Sagði þáverandi yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra meðal annars að lögregluyfirvöld teldu brot þessara fjögurra einstaklinga „sönnuð en ég vil hafa alltaf þennan fyrirvara að við erum að tala um mál í rannsókn og grunsemdir og annað slíkt“. Í viðtali við Morgunblaðið 2. febrúar 2010 var haft eftir yfirmanninum að þessir fjórir einstaklingar „virðast hafa gert sér far um að halda sig formlega innan ramma laganna en við erum á þeirri skoðun að svo hafi ekki verið“. Sama dag og framangreindar húsleitir og blaðamannafundur fóru fram var tekin skýrsla af gagnáfrýjanda.Með samkomulagi efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra og gagnáfrýjanda var framangreind kyrrsetningargerð endurupptekin 18. maí 2011 og aflétt kyrrsetningu af tveimur þeirra fasteigna sem áður höfðu verið kyrrsettar, en þess í stað kyrrsett öll innstæða á tilteknum bankareikningi gagnáfrýjanda og eignarhluti eiginkonu gagnáfrýjanda í þriðju fasteigninni. Í framhaldi af því að lög nr. 82/2011 um breytingu á lögum nr. 135/2008 um embætti sérstaks saksóknara öðluðust gildi 1. september 2011 tók það embætti við rannsókn málsins.Með dómi Hæstaréttar 25. janúar 2012 í máli nr. 682/2011 var fallist á kröfu gagnáfrýjanda um að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 29. janúar 2010 og 18. maí 2011, um að kyrrsetja áðurgreindar eignir gagnáfrýjanda, yrði felld úr gildi. Í dómi Hæstaréttar kom fram að tvö ár og rúmir tveir mánuður væru liðnir frá því að kæra Fjármálaeftirlitsins barst efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra. Gripið hefði verið til nokkuð umfangsmikilla rannsóknaraðgerða og tryggingarráðstafana í lok janúar 2010. Í framhaldi af því hefði verið tekin skýrsla af einu vitni en síðan hefði ekki verið aflað gagna í þágu rannsóknarinnar ef frá væru taldar skýrslur sem teknar voru af sjö mönnum snemma árs 2011. Hefði sérstakur saksóknari ekki gert það líklegt að ekki hefði mátt ljúka úrvinnslu rannsóknargagna á mun skemmri tíma en embættið hefði haft til þess. Taldi Hæstiréttur að þessi dráttur á rannsókn málsins væri með þeim hætti að færi í bága við 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sérstakur saksóknari gaf út ákæru á hendur fjórmenningunum 22. mars 2013. Sama dag var að kröfu embættisins kyrrsettur á ný eignarhlutur gagnáfrýjanda í nánar tiltekinni fasteign til tryggingar kröfu að fjárhæð allt að 164.000.000 króna.Undir rekstri framangreinds sakamáls fyrir héraðsdómi leitaði embætti sérstaks saksóknara að gefnu tilefni upplýsinga Seðlabanka Íslands um hvernig aflað hefði verið þess samþykkis ráðherra fyrir setningu reglna nr. 1130/2008 sem áskilið var í ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 87/1992, svo sem þeim hafði verið breytt með lögum nr. 134/2008. Samkvæmt svari bankans fannst engin formleg staðfesting ráðherra á reglum þessum. Í framhaldi af því féll ákæruvaldið frá sakargiftum sem vörðuðu brot gegn reglum Seðlabanka Íslands en hélt málinu að öðru leyti áfram í óbreyttu horfi. Með dómi héraðsdóms Reykjaness 18. desember 2014 var gagnáfrýjandi sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Ríkissaksóknari áfrýjaði dómnum 14. janúar 2015, en féll frá áfrýjuninni 18. febrúar 2016, einu ári og rúmum einum mánuði síðar. Málið var síðan fellt niður fyrir Hæstarétti 19. febrúar 2016. Í viðtali við Ríkisútvarpið 23. febrúar 2016 greindi vararíkissaksóknari frá því að ástæða þess að fallið var frá áfrýjun málsins væri sú að miklar líkur væru á því að sakir málsins yrðu taldar fyrndar.Við aðalmeðferð málsins í héraði gaf gagnáfrýjandi aðilaskýrslu og greindi frá því að málið hefði haft mikil og þungbær áhrif á sig. Þá komu eftirtalin vitni fyrir héraðsdóm: Hreiðar Eiríksson, fyrrverandi starfsmaður Seðlabanka Íslands, Valtýr Sigurðsson, fyrrverandi ríkissaksóknari, Finnur Þór Vilhjálmsson, saksóknari við embætti héraðssaksóknara, áður saksóknari við embætti sérstaks saksóknara og Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari og fyrrverandi yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra. Hreiðar og Valtýr báru að á fundi sem haldinn var í dóms- og mannréttindaráðuneyti snemma árs 2011 hafi áhyggjur Seðlabanka Íslands af reglum nr. 1130/2008 sem refsiheimild komið til tals. Í vætti Finns kom fram að þegar mál B AB og fjórmenninganna kom frá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra í september 2011 hafi enn átt eftir að vinna mikið í því. Helgi Magnús bar að vegna manneklu hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra hefði rannsókn málsins farið að „haltra“. Við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti gaf Elvar Rúnarsson, starfsmaður Íslandsbanka hf., vitnaskýrslu og bar að hann hefði hvatt gagnáfrýjanda til að sækja um starf „forstöðumanns stýringa eigna VÍB“ en þar sem hann hefði haft réttarstöðu grunaðs manns hafi hann ekki komið til greina í starfið.Niðurstaða Í máli þessu krefst gagnáfrýjandi meðal annars skaðabóta á grundvelli þágildandi 228. gr. laga nr. 88/2008, sbr. nú 246. gr. sömu laga, vegna rannsóknaraðgerða sem hann sætti af hendi lögreglu og sérstaks saksóknara á tímabilinu 29. janúar 2010 til 18. febrúar 2016, þegar aflétt var síðari kyrrsetningu eigna gagnáfrýjanda. Fólust þessar aðgerðir í handtöku, leit á heimili, skrifstofu, í íbúð, bílskúr og tveimur bifreiðum í umráðum gagnáfrýjanda, haldlagningu og rannsókn gagna frá Símanum hf., kyrrsetningu á eignum í tvígang og haldlagningu innstæðu á bankareikningi.Samkvæmt 1. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008 á maður, sem borinn hefur verið sökum í sakamáli, rétt til bóta úr hendi aðaláfrýjanda samkvæmt 2. mgr. ef mál hans hefur verið fellt niður eða hann verið sýknaður með endanlegum dómi án þess að það hafi verið gert vegna þess að hann var talinn ósakhæfur. Í 2. mgr. sömu greinar er tekið fram að dæma skuli bætur vegna aðgerða eftir IX. til XIV. kafla laganna ef skilyrði fyrstu málsgreinarinnar eru fyrir hendi. Þar er þó einnig tekið fram að fella megi niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum, sem krafa hans er reist á. Í málinu liggur fyrir að gagnáfrýjandi sætti framangreindum aðgerðum samkvæmt IX. til XIII. kafla laga nr. 88/2008 í þágu rannsóknar á sakamáli, þar sem hann var sýknaður með endanlegum dómi. Hann á því rétt til skaðabóta úr hendi aðaláfrýjanda nema því aðeins að telja megi hann sjálfan hafa valdið eða stuðlað að þeim.Aðaláfrýjandi hefur í málatilbúnaði sínum vísað til þess að rannsókn málsins hafi ekki verið tilhæfulaus. Málið hafi horft þannig við lögreglu að rökstuddur grunur hafi verið um að starfsemi B AB hafi verið andstæð lögum nr. 87/1992 og reglum Seðlabanka Íslands nr. 1130/2008. Starfsemi félagsins hafi verið umfangsmikil og til þess fallin að torvelda stjórnvöldum að ná markmiðum sínum í gjaldeyrismálum og tryggja að skilaskyldur gjaldeyrir skilaði sér til landsins. Gagnáfrýjandi hafi jafnframt ekki leitast við að upplýsa málið. Hann hafi í yfirheyrslu hjá lögreglu 29. janúar 2010 veitt litlar upplýsingar, neitað að tjá sig um sakarefnið og gefið ótrúverðugar skýringar á fjármagnsflutningum milli reikninga í sinni eigu og B AB. Í síðari tveimur yfirheyrslum hafi hann neitað að tjá sig. Hann hafi því sjálfur stuðlað að upphafsaðgerðum lögreglu gegn sér.Við meðferð máls ákæruvaldsins gegn gagnáfrýjanda fyrir Héraðsdómi Reykjaness komu tveir starfsmenn Seðlabanka Íslands fyrir dóm og báru að þeim hefði borist tilkynning frá Skandinaviska Enskilda Banken AB um að bankinn hefði tekið B AB í viðskipti og að þau snerust um aflandsviðskipti með íslenskar krónur. Var því engin leynd yfir þeim viðskiptum, sem gagnáfrýjandi taldi frá upphafi lögleg, líkt og síðar var staðfest, hvað varðaði þá ákæruliði sem þá hafði ekki verið fallið frá, með endanlegum sýknudómi Héraðsdóms Reykjaness 18. desember 2014. Verður því ekki fallist á það með aðaláfrýjanda að tildrög rannsóknarinnar hafi verið með þeim hætti að gagnáfrýjandi hafi með háttsemi sinni valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem gripið var til. Þá verður framburður gagnáfrýjanda hjá lögreglu ekki einn og sér talinn leiða til þess að hann teljist hafa valdið eða stuðlað að upphafsaðgerðum lögreglu í skilningi 2. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008. Er þá einnig horft til þess að gagnáfrýjandi var fyrst yfirheyrður síðla dags 29. janúar 2010 þegar upphafsaðgerðir lögreglu í rannsókn málsins í formi leitar, haldlagningar gagna og kyrrsetningar á fjármunum höfðu þegar farið fram. Aðaláfrýjanda verður því gert að greiða gagnáfrýjanda miskabætur vegna rannsóknaraðgerða lögreglu samkvæmt IX. til XIII. kafla laga nr. 88/2008. Gagnáfrýjandi krefst jafnframt skaðabóta fyrir fjárhagstjón sem hann hafi orðið fyrir vegna kyrrsettra og haldlagðra peningaeigna. Samkvæmt 5. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008 skal bæta fjártjón og miska samkvæmt lagagreininni ef því er að skipta. Gagnáfrýjandi hefur ekki lagt fram nein gögn sem varpa ljósi á umfang fjárhagslegs tjóns síns en kveður kröfu sína byggjast á mismun þeirra vaxta sem þær eignir báru meðan á kyrrsetningunni og haldlagningunni stóð og dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sem séu lögákveðnar meðalhófsbætur fyrir missi afnota af peningum. Til vara byggir hann á vaxtamun raunvaxta og vaxta samkvæmt 4. eða 8. gr. sömu laga. Ákvæði II. til IV. kafla laga nr. 38/2001 eiga ekki samkvæmt efni sínu við um kröfu vegna missis afnota af kyrrsettu eða haldlögðu fé og verður framangreind krafa gagnáfrýjanda um greiðslu bóta fyrir fjártjón því ekki á þeim byggð. Þá er óumdeilt í málinu að umræddir fjármunir báru vexti á meðan þeir voru kyrrsettir eða haldlagðir og gagnáfrýjandi hefur ekki gert sennilegt að hann hefði getað ávaxtað þá betur hefðu þeir staðið honum til frjálsrar ráðstöfunar. Kemur því heldur ekki til greina að honum verði dæmdar bætur að álitum á grundvelli 42. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 2. mgr. 88. gr. laga nr. 88/2008. Gagnáfrýjandi hefur jafnframt byggt á því að hann hafi ekki aðeins beðið tjón vegna aðgerða sem falla undir 246. gr. laga nr. 88/2008. Þannig krefst hann skaðabóta annars vegar vegna yfirlýsinga yfirmanns efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra á blaðamannafundi 29. janúar 2010 og í viðtali við Morgunblaðið 2. febrúar sama ár og hins vegar vegna ummæla vararíkissaksóknara er fram komu í viðtali sem birtist á vefsíðu Ríkisútvarpsins 23. febrúar 2016. Þá krefst hann skaðabóta vegna óhæfilegs dráttar málsins og vegna atvinnutjóns.Maður sem sakaður hefur verið um refsiverða háttsemi á ekki aðeins rétt á bótum úr hendi aðaláfrýjanda á grundvelli hinnar hlutlægu bótareglu 246. gr. laga nr. 88/2008, heldur einnig samkvæmt almennu sakarreglunni og reglunni um vinnuveitandaábyrgð. Skilyrði þess að bótaábyrgð verði dæmd er þó að lögreglumenn, handhafar ákæruvalds eða aðrir ríkisstarfsmenn hafi með ólögmætum og saknæmum hætti valdið honum tjóni. Sökuðum manni verða jafnframt aðeins dæmdar miskabætur á þessum grunni ef hann hefur orðið fyrir líkamstjóni af ásetningi eða stórfelldu gáleysi þess sem varð valdur að því, sbr. a-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, eða ólögmætri meingerð sem beinst hefur gegn frelsi, friði, æru eða persónu hans, sbr. b-lið sömu málsgreinar.Gagnáfrýjandi kveður nánar tiltekin ummæli yfirmanns efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra á blaðamannafundi 29. janúar 2010, í Morgunblaðinu 2. febrúar sama ár og í Ríkisútvarpinu 23. febrúar 2016 hafa verið ólögmæt og saknæm og andstæð rétti gagnáfrýjanda til að teljast saklaus uns sekt er sönnuð, sbr. 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar.Endurrit af fyrrnefndum blaðamannafundi liggur fyrir í gögnum málsins. Þar er eins og áður er komið fram haft eftir yfirmanninum: „…brot þessi teljast vera að okkar áliti allavega teljast þau sönnuð en ég vil hafa alltaf þennan fyrirvara að við erum að tala um mál í rannsókn og grunsemdir og annað slíkt.“ Í gögnum málsins er einnig að finna afrit af viðtali við þennan sama yfirmann sem birtist í Morgunblaðinu 2. febrúar 2010 þar sem eftirfarandi er haft eftir honum: „Þeir virðast hafa gert sér far um að halda sig formlega innan ramma laganna en við erum á þeirri skoðun að svo hafi ekki verið.“ Enn fremur liggur fyrir endurrit fréttar sem birtist á vefsíðu Ríkisútvarpsins 23. febrúar 2016 þar sem eftirfarandi er haft eftir vararíkissaksóknara um ástæður þess að málið var fellt niður fyrir Hæstarétti: „Auðvitað tók þessi rannsókn miklu lengri tíma en að var stefnt. Og í ljósi þess að þá teljum við að miklar líkur séu á því að Hæstiréttur myndi telja að þetta væri fyrnt þessar sakir.“Ákvæði 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu felur bæði í sér rétt til að veita og taka við upplýsingum. Af þeim sökum hefur lögreglu og opinberum starfsmönnum verið talið heimilt að upplýsa almenning um rannsókn sakamála enda sé gætt meginreglunnar í 2. mgr. 6. gr. sáttmálans um að hver sá sem borinn er sökum skuli talinn saklaus uns sekt hans er sönnuð að lögum. Greinarmun verður að gera á ummælum þar sem fullyrt er að sakborningur sé sekur um tiltekinn verknað og ummælum þar sem lýst er grunsemdum um að hann hafi framið verknaðinn. Ummæli sem falla undir fyrrnefnda flokkinn hafa verið talin fara í bága við meginreglu 2. mgr. 6. gr. en ekki ummæli sem falla í síðarnefnda flokkinn, sbr. meðal annars dóm Mannréttindadómstóls Evrópu 6. febrúar 2007 í máli Garycki gegn Póllandi.Meta verður efni tilvitnaðra yfirlýsinga, ekki aðeins með hliðsjón af orðalagi þeirra, heldur einnig hvar og hvernig þær eru settar fram, af hvaða tilefni og í hvaða samhengi. Þótt yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra komist svo að orði í hinni tilvitnuðu yfirlýsingu frá blaðamannafundinum 29. janúar 2010 að „brot þessi teljast að okkar áliti allavega teljast þau sönnuð …“ bætir hann við í beinu framhaldi að um sé að ræða grunsemdir og mál í rannsókn. Skilja verður ummælin svo að þar sé yfirmaðurinn að greina frá því mati lögregluyfirvalda að í málinu liggi fyrir nægar sannanir svo að leitt geti til sakfellingar fyrir dómi. Að því virtu verða þau ekki talin brjóta í bága við 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. til hliðsjónar dóm Mannréttindadómstóls Evrópu 26. mars 2002 í máli Butkevicius gegn Litháen. Hið sama á við um ummælin frá 2. febrúar 2010 þar sem yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra greinir beinlínis frá því að þeir aðilar sem til rannsóknar voru, þar á meðal gagnáfrýjandi, hafi gert sér far um að halda sig formlega innan ramma laganna. Þá fer því fjarri að skilja megi ummælin frá 23. febrúar 2016, þar sem vararíkissaksóknari greinir frá ástæðu þess að málið var fellt niður fyrir Hæstarétti, svo að þar sé kveðið á um sekt gagnáfrýjanda.Gagnáfrýjandi krefst eins og fyrr segir skaðabóta vegna óhæfilegs dráttar málsins. Við mat á því hvort meðferð máls hafi dregist svo mikið að bótaskyldu varði verður að líta til þess að markmið rannsóknar er að upplýsa mál svo að unnt sé að taka ákvörðun um saksókn á eins traustum grundvelli og kostur er. Fyrir liggur að mál þetta var umfangsmikið í rannsókn svo sem fram kom meðal annars í skýrslu Finns Þórs Vilhjálmssonar fyrir héraðsdómi og ekki verður heldur fallist á að rannsóknin hafi verið án tilefnis. Þrátt fyrir það er til þess að líta að svo virðist sem málið hafi lítið verið rannsakað þegar það barst í september 2011 frá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra til hins nýstofnaða embættis sérstaks saksóknara, tæpum tveimur árum eftir að Fjármálaeftirlitið kærði gagnáfrýjanda til efnahagsbrotadeildarinnar, svo sem ráðið verður af framburði Finns og Helga Magnúsar Gunnarssonar fyrir héraðsdómi. Líkt og greinir í efnisgrein átta hér að framan var einnig staðfest með dómi Hæstaréttar 25. janúar 2012 í máli nr. 682/2011 að sá dráttur á rannsókn málsins sem þá var orðinn hefði verið með þeim hætti að færi í bága við 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þá hefur aðaláfrýjandi ekki skýrt ástæður þess að rúmt ár leið frá því að ríkissaksóknari áfrýjaði héraðsdóminum til Hæstaréttar þar til fallið var frá áfrýjuninni og þá án þess að málið hefði verið þingfest fyrir Hæstarétti. Var þó sérstök ástæða til að hraða meðferð málsins í ljósi framangreinds dóms Hæstaréttar 25. janúar 2012. Verður því fallist á með gagnáfrýjanda að meðferð málsins hafi dregist svo úr hömlu að telja verður hana fara gegn 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 og að í ljósi málsatvika felist í því brot gegn friði gagnáfrýjanda og æru. Aðaláfrýjanda verður því gert að greiða gagnáfrýjanda miskabætur vegna framangreindra tafa á meðferð málsins.Miskabætur til áfrýjanda eru hæfilega ákveðnar 2.500.000 krónur. Við ákvörðun þeirra er litið til þess að ákærði var með stöðu grunaðs manns í rúm sex ár og að verulegir fjármunir og fasteignir gagnáfrýjanda voru kyrrsett og haldlögð í tæp tvö ár eða frá 29. janúar 2010 til 25. janúar 2012 er Hæstiréttur kvað upp dóm í máli 682/2011. Fasteign gagnáfrýjanda var jafnframt kyrrsett að nýju 22. mars 2013 og stóð sú kyrrsetning í tæp þrjú ár eða þar til ríkissaksóknari féll frá áfrýjun málsins til Hæstaréttar 18. febrúar 2016.Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að gagnáfrýjandi hafi ekki sýnt fram á atvinnutjón eða að orsakatengsl séu milli aðgerða lögreglu og slíks ætlaðs tjóns.Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað gagnáfrýjanda verða látin standa óröskuð. Málskostnaður fyrir Landsrétti fellur niður en um gjafsóknarkostnað hér fyrir dómi fer sem í dómsorði greinir.Dómsorð:Aðaláfrýjandi, íslenska ríkið, greiði gagnáfrýjanda, A, 2.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. febrúar 2017 til greiðsludags.Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað eru staðfest.Málskostnaður fyrir Landsrétti fellur niður.Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda greiðist úr ríkissjóði þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Reimars Péturssonar, 1.000.000 króna. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. október 2018.Mál þetta, sem vardómtekið 4. september sl., er höfðað með stefnu birtri 30. janúar 2017.Stefnandi er A, [...] í Garðabæ. Stefndi er íslenska ríkið. Stefnandi gerir þærdómkröfur að stefndi verður dæmdur til að greiða honum 65.092.540 krónur aukdráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti ogverðtryggingu, af 3.550.000 krónum frá 29. janúar 2010 til 31. desember 2010,en af 22.936.424 krónum frá þeim degi til 31. desember 2011, en af 47.511.932krónum frá þeim degi til 25. janúar 2012, en af 50.900.705 krónum frá þeim degitil 30. apríl 2012, en af 59.092.540 krónum frá þeim degi til 22. mars 2013, enaf 59.592.540 krónum frá þeim degi til 23. febrúar 2016 en af 65.092.540 krónumfrá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausuúr hendi stefnda. Stefndi krefstaðallega sýknu af dómkröfum stefnanda og greiðslu málskostnaðar úr hendi hansen til vara að málskostnaður verði látinn niður falla. I.Á árunum 2009 til 2013rannsökuðu lögregluyfirvöld ætluð brot stefnanda og þriggja annarra manna álögum um gjaldeyrismál og reglum settum á grundvelli þeirra, vegna starfaþeirra fyrir félagið B AB, sem var með skráð lögheimili í Svíþjóð. Rannsókninnilauk 22. janúar 2013 og ákæra var gefin út á hendur þeim 22. mars s.á. Í ákærunni var stefnda og meðákærðugefið að sök að hafa í sameiningu á tímabilinu 25. mars til 2. nóvember 2009haft milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi án lögmætrar heimildar eðaleyfis frá Seðlabanka Íslands. Með því voru þeir taldir hafa brotið gegn 1.mgr. 8. gr. laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, sbr. 186. gr. almennrahegningarlaga nr. 19/1940, að því er tók til tímabilsins 25. mars til 13. júlí2009 en frá þeim tíma til 2. nóvember s.á. var háttsemin sögð varða við 1. mgr.8. gr., sbr. 3. tölul. 16. gr., laga nr. 87/1992. Þá var þeim jafnframt gefiðað sök að hafa á sama tímabili staðið að ólögmætum gjaldeyrisviðskiptum vegnafjármagnshreyfinga á milli landa með úttektum af reikningum í íslenskum krónumí fjármálafyrirtækjum hér á landi. Var þessi háttsemi sögð varða við 4. mgr. 1.gr., sbr. 13. gr., reglna um gjaldeyrismál nr. 1130/2008, sbr. 1. mgr., sbr. 5.mgr., bráðabirgðaákvæðis I og 16. gr. áðurnefndra laga um gjaldeyrismál envegna tímabilsins 31. október til 2. nóvember hafi þessi háttsemi varðað við 2.og 3. gr., sbr. 16. gr., reglna nr. 880/2009 um gjaldeyrismál, sbr. sömumálsgreinar bráðabirgðaákvæðis I í lögum nr. 87/1992. Undir rekstri sakamálsins féll ákæruvaldiðfrá þeim hluta ákærunnar sem laut að gjaldeyrisviðskiptum vegnafjármagnshreyfinga á milli landa, þ.e. þeim hluta ákærunnar sem ákæruvaldiðtaldi varða við bann samkvæmt reglum Seðlabankans. Ástæðan var sú að í ljóshafði komið að reglur Seðlabankans nr. 1130/2009 höfðu ekki verið samþykktar afráðherra, svo sem áskilið var í lögum, sbr. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis I ílögum nr. 87/1992. Taldi ákæruvaldið því vafa leika á að viðhlítandirefsiheimild væri til staðar hvað þennan ákærulið varðaði. Þann 18. desember2014 voru stefnandi og meðákærðu sýknaðir af þeim ákærulið sem eftir stóð oglaut að broti gegn banni við milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi ánviðeigandi heimildar. Í niðurstöðu héraðsdóms segir að stefnandi og meðákærðuhafi átt gjaldeyrisviðskipti með því að kaupa íslenskar krónur af erlendumfjármálafyrirtækum fyrir erlendan gjaldeyri sem mótaðilar þeirra hafi lagt inná gjaldeyrisreikning í nafni B í Svíþjóð. Í því hafi hin eiginlegugjaldeyrisviðskipti þeirra falist og þau viðskipti hafi ekki farið fram hér álandi. Sýknudómi héraðsdómsvar áfrýjað til Hæstaréttar en 18. febrúar 2016 ákvað ákæruvaldið að falla frááfrýjuninni. Rannsókn máls þessa hófst hjálögreglunni með því að efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra barst kæra fráFjármálaeftirlitinu 19. nóvember 2009 vegna gruns um meiri háttar brot gegnákvæðum laga um gjaldeyrismál. Með kærunni fylgdi tilkynning Seðlabanka Íslandstil Fjármálaeftirlitsins frá 11. sama mánaðar vegna gruns um brot B AB á lögumum gjaldeyrismál nr. 87/1992 og reglum settum samkvæmt þeim. Ætluðum brotum Bog hlut stefnanda í þeim er lýst ítarlega í tilkynningu Seðlabankans. Þar kemurfram að grunur leiki á að fyrirtækið hafi haft milligöngu umgjaldeyrisviðskipti í andstöðu við 8. gr. laga um gjaldeyrismál. Í nefndulagaákvæði er kveðið er á um að öðrum en Seðlabanka Íslands sé óheimilt að hafamilligöngu um gjaldeyrisviðskipti og versla með erlendan gjaldeyri nema hafatil þess heimild í lögum eða samkvæmt ákvæðum í alþjóðlegum samningum sem Íslander aðili að eða hafa fengið til þess leyfi frá Seðlabankanum. Um skilgreininguá því hvað felist í milligöngu í gjaldeyrisviðskiptum var vísað til 1. gr.reglugerðar nr. 679/1994. Í tilkynningunni var einnig vísað til þess aðstarfsemin kynni að brjóta gegn 3. gr. og 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis I ílögunum. Í síðarnefnda ákvæðinu var mælt fyrir um að fram til 30. nóvember 2010væri Seðlabanka Íslands heimilt að ákveða að gefa út reglur, að fengnu samþykkiefnahags- og viðskiptaráðherra, sem takmörkuðu eða stöðvuðu tímabundið tilteknaflokka fjármagnshreyfinga og gjaldeyrisviðskipti sem tengdust þeim ef slíkarhreyfingar fjármagns til og frá landinu yllu að mati Seðlabankans alvarlegum ogverulegum óstöðugleika í gengis- og peningamálum. Meðal fjármagnshreyfinga sembankanum var heimilt að stöðva samkvæmt ákvæðinu voru innlegg á og úttektir afreikningum í lánastofnunum og inn- og útflutningur innlends og erlendsgjaldeyris, sbr. 2. og 4. tölul. 1. mgr. ákvæðisins. Reglur nr. 1130/2008 umgjaldeyrismál voru gefnar út og birtar 15. desember 2008, með stoð í þessubráðabirgðaákvæði og með þeim felldar úr gildi eldri reglur um sama efni, nr.1082/2008, sbr. 15. gr. þeirra. Samkvæmt 4. mgr. 1. gr. reglnanna voru óheimilgjaldeyrisviðskipti vegna fjármagnshreyfinga skv. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðisinsá milli landa með úttektum af reikningum í íslenskum krónum ífjármálafyrirtækjum hér á landi eða Seðlabankanum. Samhljóða ákvæði var aðfinna í eldri reglum nr. 1082/2008. Í tilkynningu Seðlabankans kemurjafnframt fram að gögn málsins bendi til að umsvif B AB hafi numið verulegaháum fjárhæðum. Á tímabilinu 25. mars 2008 til 5. október 2009 hafi inn- ogútborganir á innlendum reikningum félagsins numið ríflega 13 milljörðum króna,mismunur inn- og útborgana hafa verið um 73 milljónir á sama tímabili. Sá mismunur,auk greiðslna sem stefnandi og samstarfsmenn hans hafi fengið greiddar inn áreikninga sína nemi tæplega 216 milljónum króna en grunur leiki á að ágóðinn séað stærstum hluta geymdur á erlendum bankareikningum félagsins sem þörf sé á aðkanna nánar. Þá er því lýst að heildarinnstreymi erlends gjaldeyris sem skipthafi verið í íslenskar krónur á gjaldeyrismarkaði hér á landi á því tímabilisem var til rannsóknar hafi numið tæplega 193 milljörðum króna. Segir jafnframtað sé gert ráð fyrir að innborganir á reikninga B endurspegli þann erlendagjaldeyri sem sé skilaskyldur hér á landi megi ætla að umfang starfsemifélagsins nemi um 6,82% af heildarveltu alls markaðarins. Stefnandi, sem áður starfaði hjá [..],hóf störf í þágu B í mars 2009. Í stefnu segir að starfsemi félagsins hafifalist í því að hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti í Svíþjóð milli erlendraaðila. Svo sem að framan er rakið beindistrannsókn lögreglu að því hvort starfsemi félagsins bryti í bága við íslensklög. Segir í áður tilvitnaðri skýrslu Seðlabankans frá 11. nóvember 2009 aðþótt félagið sé skráð í Svíþjóð leiki vafi á því hvort raunverulegframkvæmdastjórn þess sé hér á landi og félagið teljist af þeim sökum innlendurlögaðili í skilnngi laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992, sbr. 2. tölul. 1. gr.laganna. Við rannsókn lögreglu á ætluðum brotum stefnanda neitaði hann ávalltsök og byggði m.a. á því að starfsemi B hefði ekki farið fram hér á landi ogbryti þar af leiðandi ekki í bága við íslensk lög og reglur settar samkvæmtþeim. Þá voru varnir stefnanda einnig á því byggðar að Seðlabankinn hefði ekkistaðið rétt að setningu reglna um bann við fjármagnshreyfingum til og frálandinu skv. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis í lögum nr. 87/1992 þar sem reglurbankans nr. 1130/2008 hefðu ekki verið samþykktar af ráðherra, svo sem lögboðiðvar. Hefðu reglurnar af þeim sökum ekki öðlast gildi þrátt fyrir birtinguþeirra. Að auki hefði B gert ráðstafanir til að tryggja að farið væri að reglumnr. 1130/2008, hvað sem liði gildi þeirra. Ekki er um það deilt að umræddarreglur skorti formlegt samþykki ráðherra en í greinargerð stefnda er á þvíbyggt að sérstakur saksóknari hafi ekki verið upplýstur um það fyrr en íársbyrjun 2014. Þá liggur fyrir að eftir setningu reglna Seðlabanka Íslands nr.880/2009 um gjaldeyrismál, frá 31. október 2009, lagðist starfsemi B AB af en í3. mgr. 2. gr. þeirra reglna var með nýjum hætti kveðið á um takmarkanir áfjármagnshreyfingum á milli landa í innlendum gjaldeyri, sbr. 3. mgr. 2. gr.þeirra. Á meðan á rannsókn málsins stóð sættistefnandi ýmiss konar þvingunarráðstöfunum af hálfu lögreglu í þágu rannsóknarmálsins. Stefnandi var handtekinn að morgni 29. janúar 2010 og sleppt að kvöldisama dags að yfirheyrslu lokinni. Stefnandi var síðan yfirheyrður tvívegis afturá meðan á rannsókn málsins stóð, 14. júní og 29. nóvember 2012. Sama dag og stefnandi var handtekinnvar gerð húsleit á starfsstöð B hérlendis, á heimili stefnanda að [..] íGarðabæ, fasteign hans að [...] í Reykjavík og leitað í tveimur bifreiðum í hansumráðum, í því skyni að haldleggja skjöl og önnur sönnunargögn sem tengdustrannsókn málsins. Jafnframt voru haldlögð gögn í vörslum Símans hf. átímabilinu 1. janúar 2009 til 28. janúar 2010 sem vörðuðu B AB, önnur félögtengd því félagi, sem og stefnanda sjálfan. Meðal þeirra muna sem haldlagðirvoru á starfsstöð B AB samkvæmt úrskurði um haldlagningu voru sími, tölva ogminnislykill í eigu stefnanda, harður diskur og ýmis önnur tæki og gögn. Viðleit á heimili stefnanda var lagt hald á ýmis skjöl, tölvur, síma, minnislykilog fleiri gögn og tæki í hans eigu. Hald var lagt á eitt minniskort við leit íbifreiðum í umráðum stefnanda. Sama dag, þ.e. 29. janúar, boðaðiembætti ríkislögreglustjóra til blaðamannafundar í samstarfi viðFjármálaeftirlitið og gjaldeyriseftirlit Seðlabankans þar sem greint var fráfyrrnefndum rannsóknaraðgerðum. Á fundinum var ætluðum brotum stefnanda ogfyrrum samstarfsmanna hans lýst, sem og hugsanlegri refsiábyrgð og áhrifumbrotanna á gjaldeyrisstöðugleika. Þá kom fram að rannsóknin væri nýhafin en aðsterkar grunsemdir væru fyrir hendi af hálfu lögregluyfirvalda um brot ááðurnefndum lögum og reglum um gjaldeyrismál. Sagði þáverandi yfirmaðurefnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra að þeir teldu brot stefnanda og samstarfsmannahans vera sönnuð en hafði þó þann fyrirvara á að málið væri í rannsókn og umværi að ræða „grunsemdir og annað slíkt“. Í viðtali við Morgunblaðið 2. febrúarer haft eftir honum varðandi málið: „Þeir virðast hafa gert sér far um að haldasig formlega innan ramma laganna en við erum á þeirri skoðun að svo hafi ekkiverið.“ Ennfremur voru sama dag að kröfuríkislögreglustjóra kyrrsettar eignir stefnanda til tryggingar kröfu að fjárhæð42.610.000 krónur vegna greiðslu sakarkostnaðar, sekta og annarra krafnaákæruvaldsins á grundvelli 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 o.fl.reglna. Kyrrsetningin tók til eignarhluta stefnanda í fasteignunum [...] íReykjavík, [...] í Garðabæ og [...] í Hrunamannahreppi. Að auki voru kyrrsettirfjármunir á tveimur bankareikningum stefnanda, annars vegar reikningur nr. [...]í Arion banka og hins vegar reikningur nr. [...] í Íslandsbanka. Sýslumaðurhafnaði hins vegar kröfu um kyrrsetningu fjármuna á reikningi nr. [...] íÍslandsbanka en fjármunir á þeim reikningi námu 6.120.593 krónum. Taldisýslumaður þá fjármuni nauðsynlega til framfærslu stefnanda og fjölskyldu hans.Lögregluyfirvöld lögðu aftur á móti hald á innstæðu þess reiknings með vísantil 1. mgr. 68. gr., sbr. 69. gr., laga nr. 88/2008. Hinn 4. mars 2010 gerði lögreglajafnframt kröfu fyrir dómi um að tilteknum símafyrirtækjum yrði skylt að veitalögreglu upplýsingar um svokölluð símagögn, þ.e. notkun símanúmera í eigu ogumráðum stefnanda, sem sýndu sundurliðuð símtöl í og úr viðkomandi númeri átímabilinu 25. mars 2009 til 4. mars 2010. Fallist var á kröfuna með úrskurðiHéraðsdóms Reykjavíkur 5. mars 2010. Áðurnefnd kyrrsetning frá 29. janúar2010 var endurupptekin 18. maí 2011, þegar felld var niður kyrrsetning í [...]og [...] en í þess stað kyrrsettur eignarhlutur eiginkonu stefnanda í [...] aukþess sem frekari fjármunir voru lagðir inn á áðurnefndan reikning stefnanda íArion banka. Kyrrsetning á reikningi í Íslandsbanka hélst óbreytt. Sumarið 2011 fór stefnandi þess á leitvið embætti ríkislögreglustjóra að kyrrsetningu eigna yrði aflétt, en þeirribeiðni var hafnað af hálfu embættisins. Að endingu krafðist stefnandi þessfyrir dómi að kyrrsetningu eigna hans yrði aflétt og var fallist á kröfu hansmeð dómi Hæstaréttar 25. janúar 2012 í máli réttarins nr. 682/2011 með vísantil þess að dráttur á rannsókn málsins færi í bága við 1. mgr. 70. gr.stjórnarskrárinnar og hliðstætt ákvæði í 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálaEvrópu og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008. Rannsókn málsins var í upphafi á hendiefnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra. Með lögum nr. 82/2011, sem tóku gildi1. september 2011, voru verkefni deildarinnar flutt yfir til embættis sérstakssaksóknara sem hélt rannsókn málsins áfram á óbreyttum grundvelli. Svo sem áður greinir var ákæra gefinút 22. mars 2013. Sama dag var að kröfu sérstaks saksóknara kyrrsettur á nýeignarhlutur stefnanda í fasteigninni [...], til tryggingar kröfu að fjárhæðallt að 164.000.000 króna, til greiðslu sakarkostnaðar, sekta og krafnaákæruvaldsins á grundvelli 2. mgr. 16. gr. a í lögum nr. 87/1992 umgjaldeyrismál, sbr. a-lið 3. gr. laga nr. 143/2008 og 69. gr. almennrahegningarlaga nr. 19/1940. Hélst sú kyrrsetning þar til 18. febrúar 2016 þegarmáli þessu að endingu lauk með því að ákæruvaldið féll frá áfrýjun á sýknudómihéraðsdóms. Í viðtali við RÚV 23. febrúar 2016greindi vararíkissaksóknari frá því að ástæða þess að ákveðið hefði verið aðfalla frá áfrýjun málsins væri sú að miklar líkur væru á að sakir máls yrðutaldar fyrndar.II.Stefnandi krefst bótafyrir tjón sem hann kveðst hafa orðið fyrir vegna aðgerða lögreglu ogákæruvalds í tengslum við rannsókn ætlaðra brota hans gegn lögum og reglum umgjaldeyrismál. Stefnandi byggir dómkröfur sínar á þvíað hann eigi hlutlægan rétt til skaðabóta vegna allra þeirra aðgerða sem hannhafi þurft að þola við rannsóknina, sbr. 1. mgr. 228. gr., nú 246. gr., laganr. 88/2008 um meðferð sakamála. Samhliða því og til vara byggir hann á því aðhann eigi rétt til bóta á sakargrundvelli vegna allra þessara sömu aðgerða.Rannsóknin hafi verið tilhæfulaus og hefði lögreglu og ákæruvaldi átt að hafaorðið það ljóst við frumathugun máls, sem og dómurum sem hafi kveðið uppúrskurði í þágu rannsóknarinnar. Frá upphafi hafi afstaða stefnanda tilsakargifta verið sú að þau störf sem hann hafi unnið í þágu B AB hafi samrýmstlögum. Fyrirkomulagi viðskipta félagsins hafi verið háttað þannig að það hafialdrei haft milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi í skilningi 8. gr.laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, heldur hafi þau farið fram erlendis. Þá hafistarfsemi B AB falið í sér „innflæði“ fremur en „útflæði“ á krónum og reglurnr. 1130/2008 því ekki falið í sér nein fyrirmæli sem hamlað hafi starfseminni.Saksóknari hafi viðurkennt í viðtali við Morgunblaðið strax 2. febrúar 2010 aðsakborningar hefðu „gert sér far um að halda sig formlega innan ramma laganna“þótt ekki hafi það orkað til að breyta fyrirfram þeim hugmyndum sem hann hafitjáð á blaðamannafundinum. Saksóknarinn hafi sökum þess hnýtt við: „en við erumá þeirri skoðun að svo hafi ekki verið“. Þegar árið 2010 hafi á opinberumvettvangi verið hafðar uppi efasemdir um að setning reglna nr. 1130/2008 hvíldiá lögmætum grunni. Þess sæist hvergi stað að ráðherra hefði samþykkt þær, einsog lög nr. 87/1992 þó áskildu. Afstaða stefnanda til sakargifta hafi í kjölfariðtekið mið af þessu. Þrátt fyrir þessa fyrirferð hafi rannsókn málsins lagst ílangvarandi dvala þegar upphafsaðgerðum lauk. Stefnandi hafi því að endingu séðsig knúinn til að krefjast þess fyrir dómi þann 23. nóvember 2011 aðkyrrsetning í eignum hans yrði felld úr gildi. Við það tilefni hafi hann gertítarlega grein fyrir þeirri afstöðu sinni að viðskipti hans á vegum B AB hefðuekki brotið í bága við lög og reglur og að enginn lögmætur grundvöllur hefðiverið fyrir setningu reglna nr. 1130/2008. Að endingu hafi Hæstiréttur felltkyrrsetninguna úr gildi 25. janúar 2012 með vísan til þess að dráttur árannsókn ætlaðra brota væri óhæfilegur. Í framhaldi þess hafi lögregla loksgert reka að því að rannsaka málið. Þegar rannsókninni hafi lokið og ákæraverið gefin út 22. mars 2013 hafi ákæruvaldið enn á ný óskað kyrrsetningar íeignum stefnanda. Þá hafi ákæruvaldið upplýst við meðferð málsins að falliðværi frá öllum sakargiftum á hendur stefnanda um brot á reglum nr. 1130/2008.Þá fyrst hafi saksóknari orðið þess áskynja að umræddar reglur hefðu ekki veriðsettar með lögformlegum hætti. Saksóknari hafi skýrt þetta með vísan til þessað starfsmenn Seðlabanka Íslands hefðu veitt embætti saksóknara rangarupplýsingar um setningu reglnanna. Stefnandi byggir á því að afskiptiákæruvaldsins af honum hafi varað samtals í rúmlega sex ár frá handtöku hans29. janúar 2010 og lyktað með sýknu hans af öllum sakargiftum. Í stað þess aðleyfa stefnanda að njóta sýknudómsins eftir fráfall áfrýjunar héraðsdóms hafi vararíkissaksóknarigreint frá því í viðtali við Ríkisútvarpið 23. febrúar 2016 að ákæruvaldiðhefði fallið frá áfrýjun þar sem saksóknarar hafi talið „miklar líkur“ á því að„þessar sakir“ yrðu álitnar fyrndar. Þannig hafi ákæruvaldið gefið til kynna, þráttfyrir sýknudóminn, að „sakir“ hefðu verið til staðar og þar með að stefnandihefði gerst brotlegur. Þá vekur stefnandi jafnframt athygli áumfangi kyrrsetninga eigna hans og þess langa tíma sem kyrrsetningin stóð. Meðfyrri kyrrsetningargerðinni hinn 29. janúar 2010 hafi verið kyrrsettir tveirbankareikningar og þrjár fasteignir í hans eigu. Við framkvæmd gerðarinnar hafisýslumaður synjað kröfu lögreglu um kyrrsetningu á einum bankareikningistefnanda með vísan til 15. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbanno.fl., sbr. 41. gr. laga nr. 90/1989. Að áliti fulltrúa sýslumanns hafi súinnstæða verið stefnanda „nauðsynleg til að standa straum af kostnaði umskamman tíma af framfærslu „stefnanda og þeirra sem hann var framfærsluskyldurvið“. Lögregla hafi brugðist freklega við þessari niðurstöðu og beitt valdisínu til að haldleggja innstæðuna á þessum reikningi með vísan til 1. mgr. 68.gr., sbr. 69. gr., laga nr. 88/2008. Stefnandi hafi þannig einnig verið svipturvörslum þessa bankareiknings hinn 29. janúar 2010. Kyrrsetningunni hafi veriðbreytt 18. maí 2011 og hún felld niður með dómi Hæstaréttar 25. janúar 2012.Eignarhlutur stefnanda í [...] hafi hins vegar aftur verið kyrrsettur 22. mars2013 og hafi sú kyrrsetning staðið þar til 18. febrúar 2016. Verðmæti þeirrapeningalegu eigna sem kyrrsettar eða haldlagðar hafi verið hafi veriðeftirfarandi: [...] Hinir kyrrsettu bankareikningar hafiborið vexti sem hafi verið greiddir út í árslok á reikningum nr. [...] og nr. [...]en í lok hvers mánaðar á reikningi nr. [...]. Vextirnir hafi numið eftirfarandifjárhæðum á þessum dögum: [...] Miðað við fasteignamat hafi hinarkyrrsettu eignir hækkað með tímanum en með hliðsjón af kröfugerð stefnanda séóþarft að rekja þetta nánar. Þá byggir stefnandi á því að þegar íupphafi hafi verið óhjákvæmilegt annað en að málinu lyki með sýknudómi.Staðsetning viðskipta B AB hafi legið fyrir strax í öndverðu og meðal annarsbirst í bókum félagsins. Af þeim sökum hafi aldrei verið fótur fyrir ásökunumgegn stefnanda um brot gegn 8. gr. laga nr. 87/1992. Þá hafi einnig legið fyrirþegar í upphafi að samþykki ráðherra fyrir setningu reglna nr. 1130/2008skorti. Af þeim sökum hafi aldrei verið fótur fyrir rannsókn gegn stefnandavegna ásakana um brot gegn reglunum nema slíkt samþykki hefði áður legið fyrir.Að auki megi nefna að B hafði gert ráðstafanir til að tryggja að farið værieftir fyrirmælum reglna nr. 1130/2008, hvað sem formlegu gildi þeirra hafiliðið. Stefnandi byggir á því að það tjón semhann hafi orðið fyrir vegna allra áðurnefndra aðgerða lögreglu og ákæruvaldsgegn honum sé bótaskylt á grundvelli hinnar hlutlægu bótareglu 228. gr. laganr. 88/2008. Aðgerðirnar hafi verið framkvæmdar með samstilltum hætti ogblaðamannafundurinn verið liður í þeim og markað upphaf þeirra. Því séóhjákvæmilegt að álíta að bótagrundvöllur 246. gr. taki einnig til hans. Verðiekki á það fallist byggir stefnandi á því að þær aðgerðir sem ekki falli undirbótareglu 246. gr. hafi verið framkvæmdar með saknæmum og ólögmætum hætti. Rannsókninhafi verið tilhæfulaus, engin þörf hafi verið á þessum aðgerðum og þær hafi íframkvæmd gengið langt úr hófi fram. Stefnandi tekur fram að við mat á saknæmigildi einu þótt sumar hinna umdeildu aðgerða hafi verið framkvæmdar ágrundvelli dómsúrskurðar, enda hafi aldrei verið skilyrði fyrir því að kveðaupp slíka úrskurði. Aðgerðirnar séu því bótaskyldar að þessu leyti. Varðandi ummæli saksóknara á opnumblaðamannafundi hinn 29. janúar 2010, ummæli í Morgunblaðinu 2. febrúar s. á.og í Ríkisútvarpinu hinn 23. febrúar 2016, um sekt stefnanda, er byggt á því aðþau hafi verið saknæm og ólögmæt og andstæð rétti stefnanda til að vera álitinnsaklaus uns sekt sé sönnuð, sbr. 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu,sbr. og lög nr. 62/1994 og 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Einnig megi umþetta vísa til 234.–236. gr. almennra hegningarlaga. Allt þetta hafi orsakaðtjón sem hafi verið sennileg afleiðing áðurnefndra aðgerða eða hinnar saknæmuog ólögmætu háttsemi. Stefnandi sundurliðarbótakröfu sína með svofelldum hætti: Varðandi þá undirliðisem fram komi undir 1. lið um miskabætur byggir stefnandi á því að þær aðgerðirsem þar séu tilgreindar hafi verið óþarfar. Rannsóknin hafi verið tilhæfulausog miski stefnanda því verið sérstaklega mikill. Þá hafi það reynst stefnandaeinkar særandi að saksóknari hafi á opnum blaðamannafundi hinn 29. janúar 2010viðhaft ummæli um hann og aðra sakborninga sem gefið hafi til kynna sekt hans.Sama megi segja um ummæli saksóknarans sem birst hafi í Morgunblaðinu 2.febrúar 2010. Í því sambandi verði að hafa í huga að með öllu hafi veriðfyrirsjáanlegt að nafn stefnanda yrði tengt ummælunum, eins og raunin hafiorðið. Rannsóknin hafi síðan dregist fram úröllu velsæmi og það hafi aukið mjög á miska stefnanda af aðgerðunum og falið ísér sjálfstæðan miska. Málinu hafi síðan ekki lokið fyrr en 18. febrúar 2016,en við það tilefni, eða hinn 23. febrúar 2016, hafi vararíkissaksóknari viðhaftummæli sem gefið hafi til kynna að stefnandi hefði gerst brotlegur, þrátt fyrirsýknudóm héraðsdóms. Allt þetta hafi valdið stefnanda verulegan miska sem hannsundurliði með þeim hætti sem að framan greini. Varðandi 2. lið, um bætur fyrirfjárhagstjón vegna kyrrsettra eigna, þá reiknist sú fjárhæð sem dráttarvextiraf hinum kyrrsettu og haldlögðu peningalegu eignum að frádregnum þeim vöxtumsem eignirnar hafi borið á meðan. Fjárhæðir eignanna hafi verið þessar í krónumá eftirtöldum dögum: Hefði kyrrsetningin ekki átt sér staðhefði stefnandi getað hagnýtt sér þessa fjármuni til arðsköpunar. Dráttarvextirsamkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu feli í sérmeðalhófsbætur fyrir að hafa ekki haft þau afnot fjármuna sem réttur standiella til. Því miði stefnandi bótakröfuna við að fá greiddar bætur sem nemidráttarvöxtum af þessum fjárhæðum. Fjárhæð dráttarvaxta af framangreindumfjárhæðum hefði hinn 25. janúar 2012 numið 3.388.773 krónum. Verði ekki á þettafallist varðandi 2. lið er til vara miðað við vaxtafót 4. gr. laga nr. 38/2001.Samkvæmt því viðmiði yrði fjárhæð kröfu samkvæmt 2. lið 1.643.828 krónur. Tilþrautavara sé svo varðandi 2. lið miðað við vaxtafót 8. gr. laga nr. 38/2001.Samkvæmt því viðmiði yrði fjárhæð kröfu samkvæmt 2. lið 1.089.885 krónur.Stefnandi gerir ekki kröfu fyrir tjón vegna kyrrsetningar fasteigna sinna. Þessí stað byggir hann á því að horfa megi til þess óhagræðis sem hún hafi haft íför með sér sem aukins rökstuðnings fyrir því að kröfu hans vegna hinnapeningalegu eigna sé stillt í hóf. Varðandi 3. lið byggir stefnandi á þvíað hann hafi orðið fyrir verulegu atvinnutjóni. Hann hafi áður en málið kom tilhaft lífsviðurværi sitt af störfum á fjármálamarkaði. Rannsókn málsins hafi þvíhamlað honum verulega við atvinnuleit og honum ekki auðnast að fá vinnu fyrr ení maí 2012. Síðasta fasta starf sem stefnandi hafi gegnt áður en hann hóf störfí þágu B AB hafi verið hjá [...]. Þar hafi hann fengið samkvæmtráðningarsamningi frá 9. janúar 2009 110.000 sterlingspund í föst árslaun eða9.167 pund á mánuði. Sé miðað við miðgengi punds gagnvart krónu 1. febrúar2010, sem hafi verið 202,79 krónur, hafi föst mánaðarlaun hans numið 1.858.908krónum. Rétt þyki að bæta við þá fjárhæð orlofi sem megi reikna sem 10,17%,sbr. 7. gr. laga nr. 30/1987 um orlof. Þannig sé að mati stefnanda rétt aðleggja til grundvallar að hann hafi á þeim tíma sem aðgerðir lögreglu hófustgetað unnið sér inn föst mánaðarlaun samtals að fjárhæð 2.047.959 krónur.Miðist kröfugerð hans hér við þetta. Í málinu geri stefnandi kröfu umatvinnutjón vegna þess tíma sem hafi liðið frá upphafi rannsóknarinnar og þartil hann hafi hafið störf á nýjan leik í maí 2012. Hann hafi þannig farið á misvið tekjur þær er að framan greini í 11 mánuði á árinu 2010, samtals að fjárhæð22.527.548 krónur, alla 12 mánuði ársins 2011, samtals að fjárhæð 24.575.507krónur og í fjóra mánuði á árinu 2012, samtals að fjárhæð 8.191.836 krónur.Tjón stefnanda nemi því alls sökum þessa 55.294.891 krónu. Til að allrarvarfærni sé gætt dragi hann þó frá þessari kröfu laun sem hann hafi fengiðtilfallandi frá [...] ehf. árið 2010 að fjárhæð 3.141.124 krónur. Gerð er krafa um vexti og dráttarvextií samræmi við ákvæði laga nr. 38/2001. Krafan miðist við 29. janúar 2010 að þvíer varði miskabætur fyrir yfirlýsingar á blaðamannafundi, handtöku, leit áheimili, öflun gagna frá Símanum hf., fyrri kyrrsetningu og haldlagningu eignaog öflun gagna um símasamskipti, samtals að fjárhæð 3.550.000 krónur. Krafa umvexti og dráttarvexti miðist við 22. mars 2013 að því er varði miskabætur fyrirseinni kyrrsetningu eigna stefnanda, samtals að fjárhæð 500.000 krónur. Þámiðist krafa að því er varði miskabætur fyrir ummæli vararíkissaksóknara umbrot stefnanda eftir lok málsins og óhæfilegar tafir á meðferð þess, samtals aðfjárhæð 5.500.000 krónur, við 23. febrúar 2016. Krafa um vexti af tjóni vegnakyrrsetningar miðist við lok hennar hinn 25. janúar 2012. Krafa um vexti afatvinnutjóni miðist við lok hvers árs og samanlagt atvinnutjón á árinu, að þvígættu að krafa um vexti af atvinnutjóni á árinu 2012 reiknist frá 30. apríl2012 en á því tímamarki hafi atvinnuleysi stefnanda lokið.Vextir reiknist þá afuppsafnaðri kröfu stefnanda eins og hér greini: Krafan miðist við að skilyrði séu tilað krefjast dráttarvaxta frá umræddum dögum, en verði ekki á það fallist erkrafist skaðabótavaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá umræddum dögum tilþess dags er skilyrði verði talin hafa myndast fyrir kröfu um dráttarvexti. Um lagarök vísar stefnandi tilalmennra reglna skaðabótaréttar og hlutlægrar bótareglu 228. gr. laga nr.88/2008. Þá er vísað til 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr.62/1994, og 70. gr. stjórnarskrárinnar. Kröfu um málskostnað styður stefnandivið XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. III.Til stuðningssýknukröfu sinni bendir stefndi á að íslenska ríkið njóti fullveldis ípeningamálum og hér á landi sé íslenska krónan lögeyrir, sbr. lög nr. 22/1968um gjaldmiðil Íslands. Í lögum nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands séu bankanumfaldar yfirgripsmiklar heimildir til að standa vörð um verðgildi íslenskukrónunnar. Sjálfstæði Seðlabankans við stjórn peningamála helgist af þvímeginmarkmiði peningastefnunnar að stuðla að stöðugu verðlagi. Fjármagnshöftinsem sett hafi verið haustið 2008 hafi staðið í nánum tengslum við þettahlutverk bankans sem og það hlutverk að stuðla að virku og öruggufjármálakerfi, sbr. 3. og 4. gr. laga nr. 36/2001. Ein hliðaráhrif fjármagnshaftanna hafimeðal annars birst í því að gjaldeyrismarkaður hafi skapast fyrir íslenskarkrónur erlendis (aflandsmarkaði) þannig að til hafi orðið tvöfalt gengi áíslensku krónunni, annars vegar á þeim markaði og hins vegar á opinberumgjaldeyrismarkaði hér á landi. Gengismunurinn hafi að jafnaði verið mikillfyrst eftir setningu haftanna rétt eftir bankahrunið, svo numið gat tugumprósenta. Með því að nýta sér þann mismun á gengi krónunnar sem hafi verið áaflandsmarkaði og hinum opinbera markaði hafi aðilar getað hagnast verulega. Íþessu sambandi vísist meðal annars til eftirfarandi röksemda í ákæru: „Þessarefnahagslegu aðstæður á Íslandi nýttu ákærðu sér til að framkvæma þá háttsemisem þeim er gefin að sök samkvæmt ákæru. Þeir höfðu allir þekkingu og reynslu afgjaldeyrisviðskiptum, þar með á alþjóðlegum vettvangi og á tímanum eftir aðgjaldeyrishöftin voru sett…“. Ástæðu þess að stefnandi og aðrirmeðákærðu hafi verið sýknaðir með dómi héraðsdóms 18. desember 2014 sé ekki aðrekja til þess að gögn málsins hafi ekki varpað ljósi á það í hverju starfsemi BAB hafi verið fólgin, heldur vegna þess að hluti viðskiptanna hafi ekki veriðtalinn hafa átt sér stað hér á landi í merkingu 1. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1992um gjaldeyrismál. Engin afstaða hafi verið tekin til þess í dómnum hvortþjónusta félagsins við mótaðila hafi falið í sér milligöngu. Þá hafi legiðfyrir að við meðferð málsins hafi ákæruvaldið fallið frá sakargiftum um aðháttsemi ákærðu varðaði við 4. mgr. 1. gr. reglna nr. 1130/2008 umgjaldeyrismál, sem hafi verið ætlað að taka gildi 16. desember 2008 ágrundvelli bráðabirgðaákvæðis laga nr. 134/2008. Að mati ákæruvaldsins hafireglurnar ekki getað talist viðhlítandi refsiheimild þar sem lögáskiliðsamþykki ráðherra fyrir setningu reglnanna hafi ekki legið fyrir. Samskipti sérstaks saksóknara ogSeðlabanka Íslands, sem fyrir liggi í málinu, beri með sér að embætti sérstakssaksóknara hafi ekki verið upplýst um að formlegt samþykki ráðherra hefði skortfyrr en í upphafi árs 2014 og eftir að ákæra í málinu hafi verið gefin út.Fyrir liggi að formlegt samþykki ráðherra hafi ekki legið fyrir við setningureglna nr. 1130/2008 en þeim hafi verið ætlað að leysa af hólmi reglur nr.1082/2008 frá 28. nóvember 2008. Jafnvel þótt þótt litið sé svo á að reglur nr.1130/2008 hafi aldrei öðlast gildi vegna skorts á formlegu samþykki ráðherra,hafi það vart getað haft aðrar afleiðingar en að endurskoðun á reglum nr.1082/2008, sem gert hafi verið ráð fyrir í 14. gr. þeirra, hefði ekki gengiðeftir og þær reglur þar af leiðandi áfram verið í gildi. Samanburður leiði íljós að 1. mgr. 4. gr. reglna nr. 1130/2008, sem brot stefnanda hafi veriðtalin varða við, hafi verið samhljóða 1. mgr. 4. gr. reglna nr. 1082/2008. Þvíverði að líta svo á að þessi regla hafi verið í gildi á brotatímabilinu, endahafi aðstæður í hagkerfinu á þeim tíma ekki gefið tilefni til að ætla aðlöggjafinn hefði breytt afstöðu sinni til nauðsynjar hafta. Ákvæði 1. mgr. 4. gr. reglna nr.1082/2008 og 1. mgr. 4. gr. reglna nr. 1130/2008 hafi hljóðað svo:„Gjaldeyrisviðskipti vegna fjármagnshreyfinga skv. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðislaga um gjaldeyrismál, með síðari breytingum, á milli landa með úttektum afreikningum í íslenskum krónum í fjármálafyrirtækjum hér á landi eða SeðlabankaÍslands eru óheimil.“ Á bls. 7–9 í ákæru, sem fyrir liggi í gögnum málsins, séþví lýst hvernig háttsemi ákærðu hafi fallið undir þetta bann og hvernigfjármagnshreyfingar sem ákærðu hafi staðið fyrir á íslenskum krónum til Íslandshafi verið órjúfanlegur hluti af þeim gjaldeyrisviðskiptum sem þeir hafistundað. Fram kemur að orðalagið taki meðal annars mið af því hvernig alþjóðleggreiðslumiðlun milli fjármálastofnana sé framkvæmd. Sakargiftir hafi einnigvarðað ætluð brot gegn 8. gr. laga um gjaldeyrismál. Stefndi hafnar því að til aðgerðalögreglu, sem stefnandi krefjist bóta fyrir, hafi verið gripið að tilefnislausueða þær gengið lengra en nauðsyn hafi borið til. Stefnandi staðhæfi að afstaðahans til sakargifta hafi frá fyrstu stundu verið sú að þau störf sem hann vanní þágu B AB hafi samrýmst lögum. Hins vegar hafi stefnandi ekki leitast við aðupplýsa málið í yfirheyrslum hjá lögreglu og í síðari tveimur yfirheyrslunumhafi hann alfarið neitað að tjá sig um sakarefnið. Þótt stefnandi hafi meðþessu nýtt sér lögvarinn rétt sinn til að fella ekki á sig sök hafi sú háttsemiverið til þess fallin að styrkja grunsemdir um aðkomu hans að ætluðum brotum,hvað sem álitaefnum um skýrleika refsiheimilda líði. Rannsókn málsins hafi veriðumfangsmikil og leitt í ljós flókið félaganet sem að mati stefnda hafi gefiðréttmæta ástæðu til að ætla að hefði verið komið upp í því skyni að sniðgangareglur um fjármagnshöft. Í því sambandi vísist m.a. til 3. kafla í skýrslurannsakenda sem fyrir liggi í málinu. Þar komi fram að stefnandi ogsamverkamenn hans hafi, með þeim ásetningi að hagnast, hagað starfsemi B AB ogtengdra félaga þannig að mótaðilum félagsins, sem í raun hafi verið innlendiraðilar, hafi verið gert kleift að kaupa íslenskar krónur á aflandsmarkaði áhagstæðara gengi en á íslenskum gjaldeyrismarkaði. Stefnandi hafi mátt vita aðmeð því væri farið á svig við reglur um fjármagnshöft og þá neyðarrástöfun semí þeim hafi falist. Fjórmenningarnir hafi hagnast vel á starfseminni þótt ekkisé með vissu vitað hvað hafi á endanum orðið um þann hagnað. Þær upplýsingar sem fram hafi komiðvið rannsókn málsins veiti áreiðanlega vitneskju um starfsemi B AB og þannávinning sem af henni hafi hlotist. Af þeim megi ráða, hvað sem refsinæmiháttseminnar líði, að stefnandi hafi í félagi við samverkamenn sína aflað sérog öðrum ólögmæts eða óréttmæts ávinnings á kostnað almennings ábrotatímabilinu. Sönnunarkröfur í einkamálum, sem ekki séu jafn strangar og írefsimálum, standi þeirri ályktun alls ekki í vegi að stefnandi hafi stuðlað aðaðgerðum gegn sér, enda hafi hann sjálfur ekki leitast við að upplýsa málið viðyfirheyrslur hjá lögreglu. Stefndi vísi enn fremur til bls. 2 íákæru þar sem fram komi að heildarágóði af starfseminni, sem koma hafi áttjafnt til skipta fjórmenninganna, hafi verið talinn nema að minnsta kosti 656milljónum króna. Fjárhæðin sé langt umfram þær bótafjárhæðir sem stefnandikrefjist í stefnu, sem aftur veki upp efasemdir um í hverju tjón stefnanda séraunverulega fólgið. Að mati stefnda hafi stefnanda ekki tekist að sýna fram áþað frumskilyrði bótaábyrgðar að tjóni sé til að dreifa. Stefndi mótmælir því að aðrar aðgerðirlögreglu en þær sem vísað sé til í 2. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008 geti leitttil hlutlægrar ábyrgðar skv. 1. mgr. sömu greinar. Ekki verði ráðið að þeirbótaliðir sem tengist málsmeðferðartíma rannsóknarinnar og yfirlýsingumákæruvaldsins eigi hér undir. Bætur vegna þessara liða komi því ekki tilskoðunar nema að uppfylltum skilyrðum almennu sakarreglunnar. Stefndi mótmælir bótakröfu stefnandavegna opinberra yfirlýsinga handhafa ákæruvalds og krefst sýknu af þessumbótalið. Megintilgangur blaðamannafundarins 29. janúar 2010 hafi verið að komaá framfæri þeim skilaboðum að stjórnvöld litu ætlaða brotastarfsemi alvarlegumaugum með tilliti til þeirra almannahagsmuna sem í húfi hafi verið. Hugsanlegahafi aðrir aðilar, t. a. m. viðskiptavinir B AB sem fylgst hafi með fundinum,áttað sig á því hverjir sakborningarnir væru. Stefndi bendir á að stefnandi ogsamverkamenn hans hafi um margra mánaða skeið átt í mjög umsvifamiklumviðskiptum við mótaðila í gjaldeyrisviðskiptum. Á bls. 6 í ákæru sé vísað tilþess að einstök viðskipti hafi alls verið 748 talsins og að mótaðilarnir hafiverið 84. Niðurstöður rannsóknarinnar hafi einnig bent til þess að reksturstarfseminnar hafi farið fram hér á landi og að mótaðilarnir eða raunverulegireigendur þeirra hafi verið innlendir. Þá telur stefndi umkrafða fjárhæð veraórökstudda og fari fram á að hún sæti verulegri lækkun verði fallist á það meðstefnanda að umræddar yfirlýsingar hafi valdið honum miska. Hvað málsástæðu stefnda um óhæfilegandrátt málsins varði þá hafnar stefndi því að þær tafir sem orðið hafi árannsókn málsins, og hafi verið liður í framfylgd laga um gjaldeyrismál, verðivirtar þeim sem að henni hafi unnið til sakar á þann hátt að leiði tilbótaskyldu. Þegar slíkur dráttur þyki hafa átt sér stað hafi dómstólar að öðrujöfnu tekið tillit til slíkra atriða við ákvörðun refsingar. Í því samhengiskuli áréttað að tafir á rannsókn málsins hafi leitt til þess að Hæstirétturhafi fellt úr gildi kyrrsetningu á eignum stefnanda, sbr. niðurstöðu í máli nr.682/2011. Ákvörðun handhafa ákæruvaldsins um að áfrýja ekki sýknudómi yfir stefnandamegi enn fremur rekja til tafa sem orðið hafi á rannsókn málsins. Tafir á meðferð sakamála veitisakborningi ekki sjálfstæðan rétt til bóta enda ýmislegt sem geti haft áhrifþar á annað en sök þeirra sem að rannsókn slíkra mála starfi. Einnig liggifyrir að hvorki stefnandi né samverkamenn hans hafi leitast við að upplýsamálið á meðan á rannsókn þess hafi staðið. Þá hafi rannsóknin ekki veriðfrábrugðin rannsóknum í ýmsum öðrum efnahagsbrotamálum að því leyti að hún hafiverið flókin og umfangsmikil. Þá telur stefndi umkrafða fjárhæð veraórökstudda og fari fram á að hún sæti verulegri lækkun verði fallist á það meðstefnanda að tafirnar hafi valdið honum miska. Stefndi telur með hliðsjón afþví sem áður hafi verið rakið um tilefni rannsóknar lögreglu, háttsemi stefndavið rannsóknina og ávinning af ætluðum brotum að ekki hafi stofnast tilbótaskyldu vegna þeirra aðgerða sem stefnandi hafi sætt og sem fjallað sé um í2. mgr. 246. gr. laga um meðferð sakamála. Þá sé fjárhæð umkrafinna bóta mótmæltsem allt of hárri. Hvað varði miskabótakröfu stefnandavegna handtöku hans að fjárhæð 200.000 krónur, þá bendir stefndi á að stefnandihafi verið færður í fangageymslu og til yfirheyrslu á lögreglustöð hinn 29.janúar 2010 í tengslum við húsleit sem gerð hafi verið á starfsstöðvum B AB.Stefnanda hafi verið sleppt að lokinni þeirri yfirheyrslu en síðan veriðyfirheyrður aftur í tvígang. Stefnandi, sem hafi verið undir rökstuddum grun umviðamikil brot á lögum og reglum um gjaldeyrismál, hafi neitað sök og ekkileitast við að upplýsa málið við yfirheyrslur. Hann hafi því að mati stefndastuðlað að aðgerðinni gegn sér og fyrirgert rétti til bóta, sbr. 228. gr. lagaum meðferð sakamála. Verði ekki fallist á að stefnandi hafi fyrirgert rétti tilbóta fari stefndi fram á að sú bótafjárhæð sem stefnandi krefjist vegnahandtökunnar verði lækkuð. Þá bendir stefndi á að leitað hafiverið á dvalarstað stefnanda sama dag og hann var handtekinn eða hinn 29.janúar 2010. Leitin hafi verið heimiluð samkvæmt dómsúrskurði. Við leitina hafimeðal annars verið lagt hald á skjöl, fartölvur og önnur tölvugögn. Í kröfulögreglu um húsleit hafi komið fram að stefnandi væri undir rökstuddum grun umbrot á lögum og reglum um gjaldeyrismál. Stefndi telur hér einnig að stefnandi hafistuðlað að aðgerðinni gegn sér þar sem hann hafi ekki leitast við að upplýsamálið við yfirheyrslur. Verði ekki fallist á að stefnandi hafi fyrirgert réttitil bóta fari stefndi fram á að sú bótafjárhæð sem stefnandi krefjist verðilækkuð. Hvað varði öflun gagna frá Símanumhf., sem heimiluð hafi verið með dómsúrskurði 28. janúar 2010, bendir stefndi áað atriði er tengst hafi dvöl sakborninga sjálfra hér á landi og hvar starfsemiþeirra hafi í reynd farið fram, hafi skipt miklu máli fyrir rannsókn sakamálsins.Því hafi öflun þessara gagna verið eðlilegur liður í viðleitni til að upplýsamálið og hvorki verið óréttmæt, tilefnislaus, né úr hófi fram. Þá hafistefnandi ekki leitast við að upplýsa málið við yfirheyrslur hjá lögreglu ogþannig stuðlað að aðgerðum gegn sér. Verði ekki fallist á að stefnandi hafifyrirgert rétti til bóta fer stefndi fram á að sú bótafjárhæð sem stefnandikrefst sæti verulegri lækkun. Hvað varði fyrri kyrrsetningabeiðnina,dagsetta 29. janúar 2010, bendir stefndi á að forsenda hennar hafi verið veriðsú að erfitt gæti verið að sækja á hendur stefnanda kröfu um upptöku ávinningsog/eða greiðslu sektar og sakarkostnaðar, væri engin trygging til staðar. Afdómi Hæstaréttar 25. janúar 2012, þar sem kyrrsetning eigna stefnanda hafiverið felld úr gildi á þeirri forsendu að rannsókn málsins hefði dregist úrhófi fram, verði að mati stefnda ekki önnur ályktun dregin en að fullnægt hafiverið skilyrðum um lögmæti kyrrsetningarinnar á þeim tíma er hún hafi veriðgerð. Þá telur stefndi enn að líta beri svo á að stefnandi hafi stuðlað aðaðgerðinni þar sem hann hafi ekki leitast við að upplýsa málið við yfirheyrslurhjá lögreglu. Stefndi bendir auk þess á að umrædd miskabótakrafa virðist aðeinhverju leyti fléttast saman við þá miskabótakröfu sem stefnandi geri vegnatafa á rannsókn málsins, sem að óbreyttu leiði til þess að hvoruga sé unnt aðtaka til greina. Verði ekki fallist á að stefnandi hafi stuðlað aðkyrrsetningaraðgerðinni gegn sér og fallist á að tafir á rannsókn málsins hafivaldið honum miska fari stefndi fram á að sú bótafjárhæð sem stefnandi krefjistsæti verulegri lækkun. Hvað varði haldlagningu tiltekinsbankareiknings í eigu stefnda, sem undanþeginn hafi verið kyrrsetningunni 29.janúar 2010, þá bendi stefndi á að stefnandi hafi farið fram á að haldlagningufjármunanna yrði aflétt með bréfi til ríkislögreglustjóra, dagsettu 8. júlí2010. Í svari ríkislögreglustjóra við erindinu 15. júlí 2010 hafi verið tekiðfram að ekki væri tilefni til að aflétta haldlagningunni að svo stöddu og óskaðeftir ítarlegri rökstuðningi. Af gögnum málsins virðist mega ráða aðhaldlagningin hafi breyst í kyrrsetningu í kjölfar samkomulags aðila sem legiðhafi til grundvallar endurupptöku kyrrsetningargerðarinnar hinn 18. maí 2011.Til stuðnings sýknu og lækkun bóta vísi stefndi því til sömu sjónarmiða ograkin séu að framan og varði kyrrsetningu á eignum stefnanda 29. janúar 2010. Með vísan til fyrri sjónarmiða umtilefni og ástæður þeirra aðgerða lögreglu í málinu sem varðað hafi öflunsímagagna, þá hafnar stefndi kröfu stefnanda um miskabætur vegna öflunar gagnaum símasamskipti hans. Verði ekki fallist á að stefnandi hafi fyrirgert rétttil bóta fari stefndi jafnframt fram á að sú bótafjárhæð sem stefnandi krefjistverði lækkuð. Hvað síðari kyrrsetningargerðinavarði, sem fram hafi farið 22. mars 2013, bendir stefndi á að hún hafi, eins ogfyrri kyrrsetningargerðin, lotið að því að tryggja greiðslu sakarkostnaðar ogupptöku ávinnings af ætluðum brotum. Stefndi byggir á því að stefnandi hafiekki lagt fram nein gögn um að hann hafi orðið fyrir miskatjóni af völdumþessarar kyrrsetningargerðar og því fái stefndi ekki séð í hverju ætlað tjónhans felist eða hvert orsakasamhengið sé á milli þess og kyrrsetningarinnar.Dómur Hæstaréttar frá 25. janúar 2012, þar sem fyrri kyrrsetningin hafi veriðfelld úr gildi, hafi engan enda bundið á rannsókn málsins heldur haft í för meðsér að lögregla hafi talið þörf á að beiðast kyrrsetningar á ný í eignumstefnanda. Stefndi byggir á því að öll lagaskilyrði hafi verið fyrir hendi viðþá kyrrsetningu, enda hafi rannsóknin leitt í ljós verulegan ávinning afætluðum brotum. Stefndi telur auk þess að stefnandi hafi stuðlað að aðgerðinnigegn sér, svo sem með því að leitast ekki við að upplýsa málið við yfirheyrslurhjá lögreglu. Verði talið að stefnandi hafi ekki fyrirgert rétti til miskabótavegna síðari kyrrsetningargerðarinnar fari stefndi fram á að sú krafa sætiverulegri lækkun. Þá mótmæli stefndi kröfu stefnanda umbætur vegna fjártjóns af völdum kyrrsetninganna. Ítrekuð sé sú afstaða stefndaað stefnandi hafi sjálfur stuðlað að upphafsaðgerðum rannsóknarinnar í janúar2010. Þá standi engin efni til þess, hvorki í ljósi dómafordæma né laga umvexti og verðtryggingu nr. 38/2001, að ákvarða stefnanda dráttarvexti eðaalmenna vexti á tímabili kyrrsetningarinnar. Stefnandi hafi ekki heldur færtsönnur á að ætlað vaxtatap hans sé umfram þá vexti sem hann hefði notið átímabilinu. Þá hafi stefnandi farið fram á miskabætur vegna þessarar sömukyrrsetningaraðgerðar og vegna tafa á rannsókn málsins sem vart geti fariðsaman. Stefndi bendir á að fyrir liggi aðkyrrsetningin á umræddum bankainnstæðum hafi fallið niður 25. janúar 2012 ágrundvelli fyrrgreinds Hæstaréttardóms. Enda þótt stefnandi hafi í kjölfardómsins enn verið með réttarstöðu sakbornings hafi hann átt þess kost aðkrefjast miska- og skaðabóta frá íslenska ríkinu, teldi hann ekki hafa veriðtilefni til gerðarinnar, sbr. 4. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetninguog lögbann o.fl. og 2. mgr. 88. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.Stefnandi, sem frá fyrstu stundu hafi notið lögmannsaðstoðar, hefði á þeimgrundvelli getað takmarkað ætlað tjón sitt sem hann reikni sér hér semdráttarvexti. Krafa stefnanda vegna fjártjóns afvöldum kyrrsetningarinnar sé að mati stefnda því marki brennd að vera í eðlisínu krafa um vexti en samkvæmt lögum um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007fyrnist slíkar kröfur á fjórum árum. Málið sé höfðað með stefnu 16. febrúar2017 og því eigi kröfur stefnanda um vexti sem fallið hafi fyrir 16. febrúar2013 að vera niður fallnir, þ.á m. sú krafa sem hér sé til umfjöllunar. Hvað bótakröfu stefnanda vegnaatvinnutjóns varðar byggi stefndi á því að aðgerðir lögreglu hafi engin áhrifhaft á starfslok stefnanda hjá [...]., sem hann samt sem áður reikni sér tiltjóns. Stefnandi hafi misst vinnuna hjá [...]í mars 2009, þ.e. áður eneftirlitsstjórnvöld og síðar lögregla hafi byrjað afskipti af málinu. Að matistefnda skorti hér verulega á samhengi á milli dómkröfu stefnanda og málsástæðnaí stefnu, og leiði það að mati stefnda til sýknu hans, ef ekki til frávísunarmálsins af sjálfsdáðum. Þá mótmæli stefndi því einnig sérstaklega að þau kjörsem stefnandi hafi notið í starfi sínu fyrir [...] í Bretlandi séu lögð tilgrundvallar útreikningi á hugsanlegum tekjum hans síðar. Í því sambandi bendistefndi á að það sé alls óljóst hvort og að hvaða leyti stefnandi hafi notiðtekna eða getað orðið sér úti um atvinnutækifæri meðan á rannsókn málsins hafistaðið. Stefndi mótmæli því sem röngu og ósönnuðu að nokkrar aðgerðir yfirvaldagagnvart stefnanda hafi einar og sér varnað því að hann hefði getað útvegað sérstarf eða að öðru leyti aflað tekna á framangreindu tímabili. Fyrir þeirristaðhæfingu beri stefndi sönnunarbyrði sem ekki verði séð af stefnu ogframlögðum gögnum að hann hafi axlað með neinu móti. Að endingu mótmæli stefndi upphafstímadráttarvaxta í öllum tilvikum. Engin efni standi til þess að ákvarða stefnandadráttarvexti frá fyrra tímabili en málshöfðunardegi að því leyti sem kröfurhans kunni að verða teknar til greina. Þá hafi þess sjónarmiðs einnig veriðgætt í dómaframkvæmd er varði bætur vegna aðgerða lögreglu að látið sé þar viðsitja og að aðrir vextir komi ekki til tals, sem að mati stefnda megi eflaustrekja til þess hversu erfitt geti verið að staðreyna slíkar kröfur fyrirfram,enda séu slíkar bætur oft á tíðum dæmdar að álitum. Með hliðsjón af því mótmælistefndi einnig upphafstíma seðlabankavaxta sem stefnandi krefjist til vara íöllum tilvikum. Að því leyti sem fallist yrði á meðstefnanda að hann eigi tilkall til vaxta frá fyrra tímabili en málshöfðunardegisé að mati stefnda þá ekki heimilt að viðurkenna þann rétt lengra aftur ítímann en fjögur ár frá höfðun málsins, sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007. IV.Í máli þessu krefurstefnandi stefnda um skaðabætur vegna ýmissa rannsóknaraðgerða sem hann sættiaf hálfu lögreglu og sérstaks saksóknara frá 29. janúar 2010 til 18. febrúar2016, þegar aflétt var síðustu kyrrsetningu í eign stefnanda. Þá krefst hannbóta vegna ummæla sem núverandi vararíkissaksóknari lét falla á opinberumvettvangi í upphafi rannsóknar málsins er hann starfaði hjá efnahagsbrotadeildríkislögreglustjóra, sem og eftir að málinu lauk. Ennfremur krefst hann bótavegna dráttar á rannsókn málsins. Stefnandi reisir bótakröfu sína annars vegará reglu 1. mgr. 246. gr., áður 228. gr., laga nr. 88/2008 um hlutlægabótaábyrgð stefnda og hins vegar á almennu sakarreglunni. Samkvæmt 1. mgr. 246. gr. laga nr.88/2008 á sá sem borinn hefur verið sökum í sakamáli rétt til bóta úr hendistefnda ef hann er sýknaður með endanlegum dómi. Í 2. mgr. er tekið fram aðbætur skv. 1. mgr. skuli dæma vegna aðgerða eftir IX.–XIV. kafla laganna efskilyrði 1. mgr. eru fyrir hendi en þó megi lækka eða fella niður bætur efsakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem bótakrafan er reistá. Fyrir liggur að stefnandi sætti ýmsum aðgerðum samkvæmt IX., X.,XI. og XII.kafla. laganna og var sýknaður með endanlegum dómi. Á hann því rétt tilskaðabóta vegna aðgerða sem gripið var til á grundvelli heimilda í nefndumköflum laga nr. 88/2008, nema því aðeins að telja megi að hann sjálfur hafivaldið eða stuðlað að þeim aðgerðum. Hvað varðar bótakröfu stefnanda vegnaaðgerða lögreglu sem ekki falla undir IX.–XIV. kafla laga nr. 88/2008, þá verðaþær kröfur ekki reistar á hinni hlutlægu bótareglu sem fram kemur í 1. mgr.246. gr. laganna, enda í 2. mgr. hennar með tæmandi hætti talið til hvaðaaðgerða bótaskylda á þeim grunni kemur til álita. Er málsástæðu stefnanda íþessa veru hafnað. Stefnandi reisir kröfur málsins m.a. áþví að rannsókn málsins hafi verið tilhæfulaus. Á þetta felst dómurinn ekki.Fyrir liggur að starfsemi stefnanda og samstarfsfélaga hans sem rannsóknlögreglu laut að var umfangsmikil og til þess fallin að torvelda stjórnvöldumað ná markmiðum sínum í gjaldeyrismálum og tryggja að skilaskyldur gjaldeyrirskilaði sér til landsins. Þá verður jafnframt að telja að málið hafi við upphafrannsóknar litið þannig út frá sjónarhóli lögreglu að rökstuddur grunur hafiverið uppi um að starfsemin væri andstæð ákvæðum laga um gjaldeyrismál ogreglum settum samkvæmt þeim og jafnframt refsiverð á grundvelli þeirra laga ogákvæða hegningarlaga. Ekki er um það deilt að til grundvallar öllum aðgerðumlögreglu lágu úrskurðir dóms að því leyti sem lög áskilja. Hvað sem líðurrefsinæmi verknaðar stefnanda vegna skorts á samþykki ráðherra á reglumSeðlabankans mátti stefnanda vera ljóst að hin umfangsmikla starfsemi B væri íandstöðu við markmið ákvæða gjaldeyrislaga nr. 87/1992, svo sem þeim var breyttmeð lögum nr. 134/2008, og til þess fallin að vekja grunsemdir um refsiverðanverknað og því kallað á viðbrögð af hálfu lögreglu og annarra stjórnvalda. Við fyrstu yfirheyrslu hjá lögregluþann 29. janúar 2010 veitti stefnandi litlar upplýsingar, neitaði að tjá sig umsakarefnið og gaf ótrúverðugar skýringar, m.a. á millifærslu hárra fjárhæðamilli reikninga hans og fyrirtækisins B AB á því tímabili sem rannsókn málsinstók til. Í síðari tveimur yfirheyrslunum neitaði hann alfarið að tjá sig. Með vísan til þess sem að framan errakið um tildrög rannsóknar lögreglu og viðbrögð stefnanda í yfirheyrslum erþað mat dómsins að stefnandi hafi að nokkru stuðlað að þeim þvingunaraðgerðumsem beindust að honum og hans hagsmunum í skilningi 2. mgr. 246. gr. laga nr.88/2008. Er af þessum sökum hafnað miskabótakröfu hans að því leyti sem húnvarðar upphafsaðgerðir lögreglu, þ.e. vegna handtöku og yfirheyrslu 29. janúar2010 auk húsleitar og leitar í bifreiðum hans sama dag og haldlagningar muna íkjölfar þeirra aðgerða. Sömuleiðis er með sömu rökum hafnað miskabótakröfu hansvegar gagnaöflunar lögreglu hjá Símanum og haldlagningar gagna frá þvífyrirtæki og gagnaöflunar frá öðrum fjarskiptafyrirtækjum. Hvað varðar kröfu um miskabætur vegnahaldlagningar og kyrrsetningar fjármuna stefnanda verður hins vegar að taka miðaf því að þótt aðgerðir lögreglu hafi í upphafi verið réttmætar þá stóðu þærlengur yfir en ástæða var til. Rannsókn málsins tók liðlega þrjú ár fráupphafsaðgerðum lögreglu og þar til ákæra var gefin út. Eftir að sakamálið varhöfðað féll ákæruvaldið frá stórum ákærulið en umfang rannsóknarinnar tók hinsvegar mið af upphaflegum ákæruliðum. Þá kom fram við aðalmeðferð málsins aðmálsmeðferðartímann megi að hluta rekja til manneklu hjá efnahagsbrotadeildríkislögreglustjóra og síðar flutnings verkefna hennar til sérstaks saksóknara.Verulegir fjármunir og eignir stefnanda voru kyrrsettar og haldlagðar í tvö ár,þ.e. frá 29. janúar 2010 fram að þeim tíma þegar Hæstiréttur felldi niðurkyrrsetninguna með dómi 25. janúar 2012. Þá var fasteign stefnanda að [...]kyrrsett á ný 22. mars 2013 og stóð sú kyrrsetning þar til málinu að endingulauk 18. febrúar 2016, þegar ljóst var að ákæruvaldið áfrýjaði ekki dómihéraðsdóms. Á stefnandi rétt til miskabóta á grundvelli 1. mgr. 246. gr. laganr. 88/2008 vegna kyrrsetningar og haldlagningar eigna á rannsóknartíma, endaverður að telja að meginorsök þess hve langan tíma rannsókn málsins tók sé aðrekja til atvika og aðstæðna sem stefndi beri ábyrgð á. Verðurþá næst vikið að miskabótakröfum stefnanda vegna annarra aðgerða, sem sýntþykir að mati dómsins að falli ekki undir IX.–XIV. kafla laga nr. 88/2008 ogverða af þeim sökum ekki reistar á bótagrundvelli 246. gr. laganna. Stefnandi gerir kröfu um greiðslumiskabóta vegna opinberra ummæla af hálfu rannsóknaryfirvalda er lutu að sektstefnanda. Krafan beinist annars vegar að ummælum saksóknara hjá embættiríkislögreglustjóra er féllu á blaðamannafundinum 29. janúar 2010 og jafnframtí viðtali við Morgunblaðið 2. febrúar s. á. Hins vegar beinist krafan aðummælum er féllu í viðtali við vararíkissaksóknara hjá Ríkisútvarpinu 23.febrúar 2016. Samtals nemur miskabótakrafa stefnanda vegna þessara kröfuliða2.500.000 krónum. Hvað varðar ummæli saksóknara hjá efnahagsbrotadeildríkislögreglustjóra um sekt hans á blaðamannafundi 29. janúar 2010, þá liggurfyrir í gögnum málsins endurrit af áðurnefndum blaðamannafundi. Þar ereftirfarandi haft orðrétt eftir saksóknara: „... Það hefur ekki áhrif áhugsanleg[a] refsiábyrgð og brot þessi teljast vera að okkar áliti allavegateljast þau sönnuð en ég vil hafa alltaf þennan fyrirvara að við erum að talaum mál í rannsókn og grunsemdir og annað slíkt.“ Þá liggur fyrir í gögnum málsinsviðtal við hann í Morgunblaðinu 2. febrúar 2010 þar sem eftirfarandi kemurfram: „... Þeir virðast hafa gert sér far um að halda sig formlega innan rammalaganna en við erum á þeirri skoðun að svo hafi ekki verið.“ Ljóst er af tilvitnuðum texta að aforðum saksóknara megi ætla að stefnandi hafi gerst sekur um refsivert athæfi ogþað á þeim tíma er rannsókn málsins var skammt á veg komin og ákæra hafði ekkiverið gefin út. Þá var yfirheyrslum yfir stefnanda ekki lokið á þessum tíma. Þóað ákveðnir fyrirvarar séu hafðir um ætlaða sekt stefnanda, sbr. síðari hlutafyrri ummælanna, þykja hvor tveggja ummælin, eins og þau voru sett fram, einkumí ljósi hlutlægnisskyldu þeirrar er á ákæruvaldinu hvílir, sbr. 3. mgr. 18. gr.laga nr. 88/2008, hafa verið óheppileg og ótímabær og gefið sekt stefnandafyrirfram til kynna. Að mati dómsins þykir hann því eiga rétt til miskabótasökum þeirra, enda hafi ummælin verið til þess fallin að vega að æru hans. Ummæli vararíkissaksóknara í viðtalivið Ríkisútvarpið þann 23. febrúar 2016 lét hann falla aðspurður um ástæðurþess að embætti ríkissaksóknara hefði ákveðið að hætta við áfrýjun dómshéraðsdóms í sakamálinu á hendur stefnanda. Þá var í viðtalinu einnig rætt umhve lengi rannsóknin hefði staðið yfir en í máli vararíkissaksóknara kom framað hún hefði tekið mun lengri tíma en til stóð sökum manneklu og fjárskorts.Ummæli þau er stefnandi krefst miskabóta fyrir hljóða svo: „Og í ljósi þess aðþá teljum við að miklar líkur séu á því að Hæstiréttur myndi telja að þettavera fyrnt þessar sakir.“ Að mati dómsins þykja þessi ummæliekki vera til þess fallin að vera sérstaklega meiðandi eða særandi fyrirstefnanda, einkum í því samhengi er þau voru látin falla. Eingöngu er verið aðskýra frá þeim ástæðum er lágu að baki þeirri ákvörðun embættis ríkissaksóknaraað falla frá áfrýjun og því mati sem lá til grundvallar henni. Af þeim sökumverður ekki fallist á kröfu stefnanda um miskabætur vegna þeirra. Hvað varðar kröfu stefnanda um bæturvegna óhæfilegs dráttar á rannsókn málsins er ekki fallist á að það veiti stefnandasjálfstæðan rétt til bóta.. Áður er rakið að kyrrsetning og haldlagning eignastefnanda stóð lengur yfir en efni stóðu til vegna þess hve langan tíma tók aðrannsaka mál stefnanda. Við ákvörðun um fjárhæð miskabóta er tekið tillit tilþessa. Að öðru leyti er hafnað bótakröfu stefnanda sem tengistrannsóknartímanum. Þá gerir stefnandi kröfu um bæturfyrir fjártjón vegna kyrrsetningar og haldlagningar peningalegra eigna inni ábankareikningum hans. Fjárkrafa hans er byggð á mismun greiddra vaxta afumræddu fé og dráttarvöxtum á sama tíma, eða til vara og þrautavara miðað viðvexti skv. 4. gr. laga nr. 38/2001 og 8. gr. sömu laga. Í 2. mgr. 246. gr. laganna er mæltfyrir um það að bótaskylda samkvæmt ákvæðinu taki bæði til fjártjóns og miskaef því er að skipta. Hér að framan hefur dómurinn komist að þeirri niðurstöðuað skilyrði bóta samkvæmt greininni séu fyrir hendi að því er varðarkyrrsetningu og haldlagningu fjármuna stefnanda. Sönnunarbyrðin um það aðstefnandi hafi orðið fyrir fjártjóni vegna kyrrsetningar og haldlagningarfjármuna á reikningum hans hvílir á stefnanda. Af hálfu stefnanda hafa ekkiverið lögð fram gögn sem sýna fram á slíkt tjón. Ekki er fallist á það meðstefnanda að lagaskilyrði standi til þess að ákvarða honum einhvers konarmeðalhófsbætur sem felist í mismun ávöxtunar fjármuna annars vegar ogdráttarvaxta eða vaxta miðað við tiltekinn annan vaxtafót hins vegar. Erþessari kröfu hans því hafnað. Að endingu gerir stefnandi kröfu umbætur fyrir atvinnutjón frá þeim tíma er rannsókn málsins hófst og þar til hannfékk atvinnu að nýju í maí 2012, nánar tiltekið frá og með febrúar 2011 til ogmeð apríl 2012, samtals í 27 mánuði. Stefnandi byggir á því að hann eigi áþessu tímabili rétt á þeim tekjum sem hann hafði í starfi sínu hjá [...]samkvæmt ráðningarsamningi sem lagður hefur verið fram í málinu. Þar kemur framað árstekjur stefnanda þar hafi numið 110.000 sterlingspundum sem að sögnstefnanda nemi, að viðbættu 10,17% orlofi, samtals 2.047.959 krónum ímánaðarlaun. Samkvæmt gögnum málsins féll [...]2009 og er óumdeilt að stefnandi hætti þar störfum í kjölfarið. Starfslokstefnanda hjá því fyrirtæki eru því alls ótengd rannsókn á ætluðum brotumstefnanda í starfi í þágu B AB, sem hann hóf fljótlega eftir starfslok hjáStraumi. Gögn málsins benda enn fremur til að stefnandi hafi haft tekjur afþessari starfsemi. Rannsókn á starfsemi B hófst 19. nóvember 2009. Þá kemurfram í stefnu að starfsemi B hafi lagst af eftir að reglur Seðlabankans nr.880/2009 tóku gildi í lok október 2009. Engin gögn hafa verið lögð fram ímálinu sem styðja staðhæfingar stefnanda um að rannsókn lögreglu hafi hindraðatvinnuþátttöku hans. Skortir því bæði á að stefnandi hafi sýnt fram áatvinnutjón á umræddu tímabili og jafnframt að orsakatengsl séu á milli aðgerðalögreglu og slíks tjóns. Verður kröfu stefnanda um bætur fyrir atvinnutjón þvíhafnað. Með vísan til alls framangreinds erfallist á kröfu stefnanda um miskabætur vegna kyrrsetningar og haldlagningarfjármuna og eigna hans og bætur vegna ummæla saksóknara við upphafrannsóknaraðgerða. Eru bætur vegna þessa metnar að álitum og hæfilega ákveðnar1.400.000 krónur með dráttarvöxtum svo sem stefnandi krefst, en upphafstímidráttarvaxta skal vera 28. febrúar 2017, þegar mánuður var liðin frá málshöfðunþessari, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Rétt er að málskostnaður milli aðilafalli niður. Stefnandi nýtur gjafsóknar vegna reksturs málsins samkvæmtgjafsóknarleyfi dagsettu 27. júní 2017. Allur gjafsóknarkostnaður stefnandagreiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, ReimarsPéturssonar, sem er hæfilega ákveðin 1.100.000 krónur. Málið flutti ReimarPétursson lögmaður fyrir stefnanda og Eiríkur Áki Eggertsson lögmaður fyrirstefnda. Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn. Dómsorð:Stefndi, íslenskaríkið, greiði stefnanda, A, 1.400.000 krónur með dráttarvöxtum, samkvæmt 1.mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 28. febrúar 2017 til greiðsludags.Málskostnaður milli aðila fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðistúr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, ReimarsPéturssonar, 1.100.000 krónur.
Mál nr. 203/2016
Kærumál Aðfarargerð Eignarnám
L hf. gerði kröfu um að sér yrðu fengin með beinni aðfarargerð umráð nánar greindra landsréttinda á grundvelli 13. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms með skírskotun til ákvörðunar iðnaðar- og viðskiptaráðherra þar sem L hf. hafði verið heimilað með vísan til raforkulaga nr. 65/2003 að framkvæma eignarnám vegna lagningar háspennulínu. Hæstiréttur vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför yrðu réttindi gerðarbeiðanda að vera svo ljós að sönnur yrðu færðar fyrir þeim með gögnum sem aflað yrði eftir 83. gr. sömu laga. S ehf., G, K og S hefðu fært fyrir því rök, sem ekki yrði augljóslega vísað á bug, að heimild L hf. til eignarnámsins fengi ekki staðist að lögum og hefði borið þann ágreining undir dómstóla. Þar sem heimild L hf. til eignarnáms væri ekki vafalaus og endanlegrar úrlausnar dómstóla um lögmæti hennar væri að vænta innan skamms var kröfu L hf. hafnað.
Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir EiríkurTómasson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar meðkæru 11. mars 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 15. sama mánaðar. Kærður erúrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. mars 2016 þar sem hafnað var kröfusóknaraðila um að nánar greind landsréttindi í óskiptu landi jarðanna Stóru-Vatnsleysuog Minni-Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd yrðu tekin úr vörslum varnaraðila meðbeinni aðfarargerð og fengin sér. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr.90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa verði tekin tilgreina. Þá krefst hann kærumálskostnaðarVarnaraðilar krefjast staðfestingar hinskærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðarer staðfest sú niðurstaða að aðfararbeiðni sóknaraðila fullnægi þeim skilyrðum,sem gerð eru til forms slíkrar beiðni í 1. mgr. 10. gr., sbr. 1. mgr. 78. gr.laga nr. 90/1989.Eins og greinir í úrskurðinum gerirsóknaraðili kröfu um að sér verði fengin umráð áðurgreindra landsréttinda meðbeinni aðfarargerð á grundvelli 13. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmdeignarnáms með skírskotun til ákvörðunar iðnaðar- og viðskiptaráðherra 24.febrúar 2014 þar sem sóknaraðila var heimilað með vísan til raforkulaga nr.65/2003 að framkvæma eignarnám vegna lagningar háspennulínu, svonefndrarSuðurnesjalínu, um óskipt land jarðanna Stóru-Vatnsleysu og Minni-Vatnsleysusem er í eigu varnaraðila. Er krafa sóknaraðila jafnframt byggð á úrskurðimatsnefndar eignarnámsbóta 30. júlí 2015 um hæfilegar bætur fyrireignarréttindin til handa varnaraðilum.Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989verða þau réttindi gerðarbeiðanda, sem hann tjáir sig eiga, að vera svo ljós aðsönnur verði færðar fyrir þeim með gögnum sem aflað verður eftir 83. gr.laganna. Þótt svo sé fyrir mælt í 60. gr. stjórnarskrárinnar, að enginn getikomið sér hjá að hlýða yfirvaldsboði í bráð með því að skjóta málinu til dóms,hafa varnaraðilar fært fyrir því rök, sem ekki verður augljóslega vísað á bug,að heimild sóknaraðila til eignarnáms þess, sem hér um ræðir, fái ekki staðistað lögum og borið þann ágreining undir dómstóla. Héraðsdómur í því máli varkveðinn upp 30. júní 2015 og hefur málinu verið áfrýjað til Hæstaréttar þar semfyrirhugað er að flytja það 20. apríl 2016. Sökum þess að heimild sóknaraðilatil eignarnáms er sem fyrr segir ekki vafalaus og endanlegrar úrlausnardómstóla um lögmæti hennar er að vænta innan skamms verður hinn kærði úrskurðurstaðfestur.Sóknaraðili greiði varnaraðilumkærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.Dómsorð:Hinn kærði úrskurður er staðfestur.Sóknaraðili, Landsnet hf., greiði varnaraðilum, STV ehf., GeirlauguÞorvaldsdóttur, Katrínu Þorvaldsdóttur og Skúla Þorvaldssyni, 150.000 krónur íkærumálskostnað.Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. mars 2016.Málþetta, sem barst dóminum 10. nóvember 2015, var tekið til úrskurðar 18. febrúar2016. Gerðarbeiðandi er Landsnet hf., Gylfaflöt 9, Reykjavík. Gerðarþolar eruSTV ehf., Stóru-Vatnsleysu, Vogum, Geirlaug Þorvaldsdóttir, Stigahlíð 80,Reykjavík, Katrín Þorvaldsdóttir, Háuhlíð 12, Reykjavík, og Skúli Þorvaldsson,Lúxemborg. Dómkröfur gerðarbeiðanda eru þærað eftirgreind landsréttindi verði tekin með beinni aðfarargerð úr vörslumgerðarþola og fengin gerðarbeiðanda: Samtals 17,235 hektarar lands gerðarþola íóskiptu landi Stóru-Vatnsleysu, landnr. 130886, og Minni-Vatnsleysu, landnr.130869, á Vatnsleysuströnd, sem gerðarbeiðanda var heimilað að taka eignarnámimeð eignarnámsákvörðun iðnaðar- og viðskiptaráðherra, dags. 24. febrúar 2014,undir 3.650 metra langt og 46 metra breitt háspennulínubelti, samtals 633 metralanga og 6 metra breiða vegslóða og 10 burðarmöstur, sem nánar er afmarkað áfylgiskjali 3. Gerðarþolar krefjast þess að aðfararbeiðni gerðarbeiðandaverði hafnað. Verði fallist á beiðni gerðarbeiðanda krefjast gerðarþolar þessað kveðið verði á um að málskot til Hæstaréttar fresti aðfarargerð á hendurþeim þar til endanlegur dómur réttarins gengur. Þá gera gerðarþolar kröfu ummálskostnað. I.Málsatvikeru þau að með beiðni 20. febrúar 2013 fór gerðarbeiðandi þess á leit viðatvinnuvega- og nýsköpunarráðherra að gerðarbeiðanda yrði heimilað að takaeignarnámi tiltekin réttindi í óskiptu landi jarðanna Stóru- ogMinni-Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd, í þágu hluta Suðurnesjalínu 2, ágrundvelli 23. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Um er að ræða háspennulínu semfyrirhugað er að reisa milli Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar. Meðákvörðun iðnaðar- og viðskiptaráðherra 24. febrúar 2014 var gerðarbeiðandaheimilað að „framkvæma eignarnám vegna lagningar 220 kV háspennulínu(Suðurnesjalínu 2) á landi undir 3.650 metra langt og tæplega 46 metra breittháspennulínubelti, samtals 633 metra langa og 6 metra breiða vegslóða og 10burðarmöstur, samanber yfirlitskort í fylgiskjali 1 við framlagðaeignarnámsbeiðni, dags. 20. febrúar 2013. Eignarnámið er heimilað tilótímabundinna afnota fyrir Landsnet hf.“ Í þessu skyni skyldi kvöð verðaþinglýst á jörðina. Með henni fylgdi að óheimilt væri að koma fyrir mannvirkjumá 46 metra breiðu belti undir og við línuna. Einnig var Landsneti heimilað aðleggja 633 metra langan vegslóða að línunni.Í kjölfar ákvörðunar ráðherra fórgerðarbeiðandi þess á leit við matsnefnd eignarnámsbóta að meta til fjárendurgjald það sem gerðarbeiðandi skyldi greiða gerðarþolum fyrir hin eignarnumdulandsréttindi, sbr. 4. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms. Í úrskurði30. júlí 2015 í máli nr. 5/2014 var það mat nefndarinnar að hæfilegar bæturvegna þess svæðis sem byggingarbann náði til væru ein milljón króna fyrir hvernhektara eða 16,79 ha, samtals 16.790.000 kr. Einnig leit nefndin til þess aðlagning línunnar væri til þess fallin að rýra verðmæti stærra svæðis eneignarnámið og byggingarbannið næði til, eða sem næmi 400 metrum. Þannig kæmutil viðbótar bætur fyrir 354 metra breitt svæði (400 metrar að frádregnum 46metrum vegna byggingarbannsins). Taldi nefndin hæfilegar bætur vera 19.381.500kr. II.Íaðfararbeiðni segir að gerðarbeiðandi geri kröfu um að eftirgreindireignarhlutar gerðarþola verði afhentir honum:Nafngerðarþola: Samtals ha:STVehf. 10,342SkúliÞorvaldsson 2,298GeirlaugÞorvaldsdóttir 2,298KatrínÞorvaldsdóttir 2,298Gerðarbeiðandibyggir á því að samkvæmt 13. gr. laga nr. 11/1973 um eignarnám geti eignarnemi,þegar mat liggur fyrir, tekið umráð eignarnumins verðmætis gegn greiðslumatsfjárhæðar og kostnaðar af mati. Með bréfi lögmanns gerðarbeiðanda 18. ágúst2015 til lögmanns gerðarþola hafi verið óskað eftir upplýsingum umreikningsnúmer vegna greiðslu eignarnámsbóta og kostnaðar. Í bréfi lögmannsgerðarþola Geirlaugar og STV ehf. 25. ágúst 2015 hafi komið fram að gerðarþolarmyndu ekki veita gerðarbeiðanda umráð hins eignarnumda lands nema þar til bæriraðilar heimiliðu aðför, sbr. 13. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.Aðrir gerðarþolar hafi ekki svarað boði um greiðslu. Afstaða gerðarþola sé súað afhenda ekki hið eignarnumda land fyrr en niðurstaða liggi fyrir í dómsmálisem gerðarþoli hefur höfðað á hendur gerðarbeiðanda um ógildingueignarnámsákvörðunar ráðherra. Með dómi 30. júní 2015 hafi héraðsdómur hafnaðkröfum gerðarþola um ógildingu eignarnámsins. Dóminum hafi verið áfrýjað tilHæstaréttar en það fresti á engan hátt réttaráhrifum eignarnámsins.Gerðarbeiðandi þurfi að fá hið eignarnumda land sem fyrst, enda hafi hannfengið útgefið framkvæmdaleyfi í öllum sveitarfélögum á línuleiðinni. Gerðarbeiðandi kveðst hafagreitt bætur inn á geymslureikning samkvæmt heimild í lögum nr. 9/1978, en í 1.gr. laganna segir að hver sá sem eigi að inna af hendi peningagreiðslu en fáiekki greitt kröfueiganda vegna aðstæðna eða atvika sem kröfueigandi beri ábyrgðá geti fullnægt greiðsluskyldu sinni með því að greiða skuldina ágeymslureikning í viðskiptabanka eða sparisjóði. Gerðarbeiðandi byggir á því aðenginn ágreiningur sé um það að lögformleg heimild gerðarbeiðanda liggi fyrir.Afstaða gerðarþola sé engu að síður sú að andlagið verði ekki afhentgerðarbeiðanda nema með beinni aðfarargerð. Gerðarbeiðanda sé því nauðugur einnsá kostur að krefjast úrskurðar um að umrædd réttindi verði tekin með beinniaðfarargerð úr vörslu gerðarþola og fengin gerðarbeiðanda. Ekki verði séð aðneinar varnir geti komið sem hindri rétt gerðarbeiðanda. III.Gerðarþolar byggja á því í greinargerð sinni að hvorki form- néefnisskilyrði fyrir aðfararbeiðninni séu uppfyllt. Um skort á formskilyrðumvísa gerðarþolar til 10. gr. laga nr. 90/1989um aðför, þar sem m.a. séu fyrirmælium að í aðfararbeiðni skuli koma fram, svoekki verði um villst, við hverja heimild hún styðst. Í aðfararbeiðni sé hvergiað finna tilvísun til þeirra lagaheimilda sem gerðarbeiðandi styður beiðni sínavið. Ekki sé að finna eina einustu tilvísun til laga um aðför. Gerðarþolar eigiþví mjög örðugt með að setja fram varnir sínar. Telja gerðarþolar hafið yfirvafa að aðfararbeiðni málsins fullnægi ekki skilyrðum 10. gr. laga um aðför,sbr. og f-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þegar afþessari ástæðu beri að hafna beiðni gerðarbeiðanda. Gerðarþoli byggir jafnframt á því að framsetning kröfugerðargerðarbeiðanda uppfylli ekki áskilnað 72. gr. aðfararlaga, sbr. 1. mgr. 78. gr.laganna. Af ákvæðunum leiði að krafa gerðarbeiðanda um beina aðför verði aðvera í þeim búningi að þess sé krafist að „sýslumaður“ taki umráð afgerðarþola, enda standi ekki heimild í tilvitnuðum ákvæðum til annars. Krafagerðarbeiðanda sé hins vegar á þá leið að krafist er dómsúrskurðar um aðtiltekin landsréttindi verði tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum gerðarþolaog fengin gerðarbeiðanda, án þess að tilgreint sé hverjum eigi að felaframkvæmd aðfararbeiðninnar. Slík krafa uppfylli sýnilega ekki fyrirmælid-liðar 80. gr. laga nr. 91/1991, þar sem mælt sé fyrir um skýrleika krafna. Með vísan til framangreinds telja gerðarþolar ljóst aðstórkostlegir formgallar séu á aðfararbeiðni gerðarbeiðanda og gerðarþolum sé ómögulegt að verjast málatilbúnaði gerðarbeiðanda ogundirbúa efnislegar varnir. Framsetningaðfararbeiðninnar fullnægi auk þess ekki réttarfarskröfumeinkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað, sbr. d- og f-lið 1. mgr.80. gr. laga um meðferð einkamála, sbr. og 1. mgr. 84. gr. aðfararlaga. Telja gerðarþolar að af þessum sökum verði ekki hjá þvíkomist að hafna beiðni gerðarbeiðanda í heild sinni á grundvelli 1. mgr. 10.gr., 13. gr. og 78. gr. aðfararlaga. Að öðrum kosti gefist gerðarþolum ekkisanngjarn kostur á að verjast beiðninni. Gerðarþolar telja að hvað sem formgöllum líði sé ekki unnt aðfallast á aðfararbeiðni gerðarbeiðanda á meðan verulegur vafi leiki á umlagagrundvöll þeirrar framkvæmdar er liggi beiðninni að baki. Gerðarþolar vísatil þess að þeir hafi skotið eftirfarandi ágreiningsefnum er varða framkvæmdinatil dómstóla: 1) Dómum HéraðsdómsReykjavíkur frá 30. júní 2015 í málum nr. E-2012/2014, E-2073/2014, E-2624/2014og E-2625/2014, um lögmæti ákvarðanaatvinnuvega- og nýsköpunar­ráðuneytisins frá 24. febrúar 2014 um eignarnám ájörðum gerðarþola, hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar með áfrýjunarstefnum 7.ágúst 2015, sbr. mál nr. 511/2015, 512/2015, 513/2015 og 541/2015. Gagnaöflunmálsins í Hæstarétti sé lokið og bíði málið munnlegs málflutnings. 2) DómiHéraðsdóms Reykjavíkur frá 21. október 2015 í máli nr. E-1051/2014 um lögmætiákvörðunar Orkustofnunar frá 5. desember 2013 hafi verið áfrýjað tilHæstaréttar með áfrýjunarstefnu 30. nóvember 2015, sbr. mál 706/2015.Ákvörðunin varði leyfisveitingu Orkustofnunar til handa gerðarbeiðanda til aðreisa og reka Suðurnesjalínu 2. Gerðarþoli hafi skilað Hæstarétti greinargerðsinni 13. janúar sl. 3) Ákvörðun Sveitarfélagsins Voga frá 25. febrúar 2015 umað veita gerðarbeiðanda framkvæmdaleyfi vegna lagningar Suðurnesjalínu 2 hafiverið borin undir Héraðsdóm Reykjaness með réttarstefnu, dags. 3. nóvember2015. Fallist hafi verið á að málið sæti flýtimeðferð á grundvelli 1. mgr. 123.gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.Auk framangreindra mála séu rekin mál ástjórnsýslustigi fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála um lögmætiútgefinna framkvæmdaleyfa í Hafnarfjarðarbæ, Sveitarfélaginu Vogum,Grindavíkurbæ og Reykjanesbæ, bæði af hálfu gerðarþola og annarra hagsmunaðila.Að mati gerðarþola er ótækt aðgerðarbeiðanda verði veitt umráð lands meðan dómstólar og úrskurðarnefndir hafatil umfjöllunar lögmæti eignarnáms, framkvæmdaleyfis og ákvörðunarOrkustofnunar. Gerðarþolarsegja að mál þessi varði öll kjarnaatriði eignarréttarákvæðis stjórnar­skrárinnarum almenningsþörf og meðalhóf. Samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnar­skrárinnar og1. gr. 1. samningsviðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr.62/1994, sé eignarrétturinn friðhelgur. Gerðarþolar telja framangreindarákvarðanir haldnar verulegum form- og efnisannmarka og óhjákvæmilegt sé aðfella þær úr gildi. Af þessum sökum sé afar brýnt að fá úrlausn dómstóla um þaðhvort umrædd framkvæmd, sem skerði eignarréttindi gerðarþola, hafi sætt lögmætuundirbúnings­ferli og hvíli á lögmætum grunni. Það hljóti að vera rétturgerðarþola að fá niðurstöðu um slíkt áður en gerðarbeiðandi fái umráð oghefjist handa við óafturkræfar framkvæmdir á eignarlandi þeirra. Sú staða gætikomið upp að dómstólar myndu komast að þeirri niðurstöðu að framangreindarákvarðanir séu reistar á ólögmætum grundvelli en að óafturkræft jarðrask væriþá þegar yfirstaðið á landi gerðarþola. Þábyggja gerðarþolar á því að skilvirkur aðgangur að dómstólum og réttur tilraunhæfrar endurskoðunar á úrskurðum stjórnvalda njóti einnigstjórnarskrárverndar og verndar mannréttindasáttmálans, sbr. 70. gr.stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmálans. Gerðarþolar eigi rétt áþví að fá úrlausn dómstóla um lögmæti framangreindra ákvarðana. Að öðrum kosti verði að engu gerð þauréttindi gerðarþola að geta leitað til dómstóla til þess að fá skorið úr umlögmæti íþyngjandi stjórnvaldsákvarðana sem að þeim beinast. Ekki sé heldurútilokað að í áðurnefndum dómsmálum muni dómendur vilja ganga á vettvang tilþess að skoða aðstæður. Mikilvægt sé að vettvangsgöngur fari fram áður enóafturkræf spjöll séu unnin á landinu. Auk þessa fáistekki séð að það myndi vera gerðarbeiðanda íþyngjandi að þurfa að bíðaniðurstöðu dómstóla og stjórnvalda um framangreind álitaefni. Í þessu sambandi benda gerðarþolar á aðundirbúningur að lagningu Suðurnesjalínu 2 hafi staðið yfir í langan tíma, eðaallt frá árinu 2007. Álit Skipulagsstofnunar vegna framkvæmdarinnar hafi legiðfyrir í september 2009, en gerðarbeiðandi hafi þó ekki hafið samningaviðræðurvið gerðarþola fyrr en á árinu 2011. Seint á árinu 2012 og snemma árs 2013 hafigerðarbeiðandi sótt um leyfi til Orkustofnunar og heimild til eignarnáms.Athafnir gerðarbeiðanda sjálfs bendi því ekki til að nauðsyn standi til þess aðhann fái umráð landsins nokkrum vikum eða mánuðum áður en dómstólar komast aðniðurstöðu um lögmæti áformanna. Samkvæmt framanrituðu telja gerðarþolar það íandstöðu við eignarréttar­ákvæði stjórnarskrárinnar og meðalhófsreglurstjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar að veita gerðarbeiðanda umráð landsins. Afþeim sökum sé óhjákvæmilegt annað en að synja aðfararbeiðninni með vísan tilþess að varhugavert sé að hún fari fram í skilningi 3. mgr. 83. gr.aðfararlaga.Um lagarök vísa gerðarþolar til 65. og 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1.gr. 1. samningsviðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.Þá vísast, eftir því sem við á, til ákvæða laga nr. 90/1989 um aðför og laganr. 91/1991 um meðferð einkamála.Krafa gerðarþola um málskostnað er byggð á 130. gr. laga nr.91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989. IV. Í máli þessu byggja gerðarþolará því að ekki séu fyrir hendi formskilyrði til að fallast á kröfugerðarbeiðanda. Í aðfararbeiðni gerðarbeiðanda kemur skýrt fram hvers erkrafist með aðfarargerð og fullnægir kröfugerð gerðarbeiðanda formskilyrðum 1.mgr. 10. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Í aðfararbeiðninni er um heimild tilaðfarargerðar vísað til sérreglu 13. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmdeignarnáms, sem kveður á um heimild til að beita beinni aðfarargerð, og íkröfugerð gerðarbeiðanda kemur skýrt fram að krafist er „beinnaraðfarargerðar“. Að þessu virtu og þar sem gerðarþolar virðast ekki hafa átt ívandræðum með að taka til varna í málinu leiðir sá annmarki á aðfararbeiðnigerðarbeiðanda að vísa ekki til ákvæða í lögum nr. 90/1989 ekki til þess aðkröfu gerðarbeiðanda verði hafnað. Samkvæmt1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 verður krafa gerðarbeiðanda að vera svo ljósað hægt sé að sanna réttindi hans með þeim gögnum sem verður aflað samkvæmt 83.gr. laganna, þ.e. með sýnilegum sönnunargögnum. Samkvæmt 3. mgr. 83. gr.laganna skal að jafnaði hafna aðfararbeiðni ef varhugavert verður talið aðgerðin nái fram að ganga. Þannig veldur vafi um réttmæti kröfu gerðarbeiðandaþví að synja ber um aðför. Gerðarbeiðandireisir kröfu sína á ákvörðun iðnaðar- og viðskiptaráðherra frá 24. febrúar2014, þar sem heimilað var að framkvæma eignarnám vegna lagningar háspennulínuá landi gerðarþola, og úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta í máli nr. 5/2014þar sem metnar voru bætur til gerðarþola. Ágreiningur er um téða ákvörðunráðherra. Einnig er ágreiningur um lögmæti ákvörðunar Orkustofnunar frá 5.desember 2013 til handa gerðarbeiðanda til að reisa og reka Suðurnesjalínu 2 ogeinnig um ákvörðun Sveitarfélagsins Voga frá 25. febrúar 2015 um að veitagerðarbeiðanda framkvæmdaleyfi vegna lagningar línunnar. Úr þessum ágreiningiverður ekki leyst í aðfararmáli þessu. Að mati dómsins er að svo stödduvarhugavert að fallast á kröfu gerðarbeiðanda, sem myndi hafa í för með sér óafturkræfumhverfisáhrif, meðan ekki hefur verið endanlega leyst úr ágreiningi umframangreindar ákvarðanir fyrir dómstólum. Af þessu, sem og e-lið 1. mgr. 114.gr. laga nr. 91/1991, leiðir að ekki er ástæða til að fjalla um þær málsástæðursem teflt var fram af hálfu gerðarþola við munnlegan flutning málsins tilviðbótar því sem fram kemur í greinargerð þeirra, um að krafa gerðarbeiðandagangi mun lengra en leiða má af ákvörðun ráðherra frá 24. febrúar 2014 og aðkrafa gerðarbeiðanda sé ekki í samræmi við meginreglur um sérstaka sameign. Samkvæmtframansögðu er kröfu gerðarbeiðanda um aðför hafnað. Meðvísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr.84. gr. laga nr. 90/1989, verður gerðarbeiðanda gert að greiða gerðarþolum málskostnað.Við ákvörðun málskostnaðar verður litið til þess að vinna lögmanns gerðarþola íþessu máli nýtist jafnframt í málum nr.A-351/2015, A-353/2015 og A-354/2015. Er málskostnaður hæfilega ákveðinn 65.000krónur til hvers gerðarþola um sig. Úrskurðþennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari. Ú r s k u r ð a r o r ð: Hafnað er kröfu gerðarbeiðanda,Landsnets hf., um að eftirgreind landsréttindi verði tekin með beinniaðfarargerð úr vörslum gerðarþola og fengin gerðarbeiðanda: Samtals 17,235hektarar lands gerðarþola í óskiptu landi Stóru-Vatnsleysu, landnr. 130886, ogMinni-Vatnsleysu, landnr. 130869, á Vatnsleysuströnd, sem gerðarbeiðanda varheimilað að taka eignarnámi með eignarnámsákvörðun iðnaðar- ogviðskiptaráðherra, dags. 24. febrúar 2014, undir 3.650 metra langt og 46 metrabreitt háspennulínubelti, samtals 633 metra langa og 6 metra breiða vegslóða og10 burðarmöstur, sem nánar er afmarkað á fylgiskjali 3. Gerðarbeiðandi greiðigerðarþolum, STV ehf., Geirlaugu Þorvaldsdóttur, Katrínu Þorvaldsdóttur ogSkúla Þorvaldssyni, hverjum um sig 65.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 348/2017
Kærumál Frávísun frá Hæstarétti að hluta Rannsókn
X kærði úrskurð héraðsdóms þar sem L var heimiluð leit á heimili og í bifreið hans og rannsókn á efnisinnihaldi snjallsíma í hans eigu. Þar sem leit í umræddri bifreið og á heimili X hafði farið fram að gengnum hinum kærða úrskurði var þeim hluta málsins vísað frá Hæstarétti með vísan til 4. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Krafa um rannsókn snjallsíma X var á hinn bóginn tekin til greina, sbr. lögjöfnun frá 1. mgr. 70. gr. fyrrgreindra laga.
Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson,Benedikt Bogason og Karl Axelsson.Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. júní2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður erúrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. júní 2017, þar sem sóknaraðila var heimiluðleit á heimili varnaraðila að [...] og í bifreiðinni [...]. Þá var sóknaraðilaheimiluð rannsókn á efnisinnihaldi nánar tilgreinds snjallsíma í eiguvarnaraðila. Kæruheimild er í g. og h. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 ummeðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldurúr gildi. Sóknaraðili krefst frávísunar málsins hvað varðar leit áheimili varnaraðila og í fyrrgreindri bifreið, en að öðru leyti staðfestingarhins kærða úrskurðar. Að gengnum hinum kærða úrskurði fór fram leit í umræddri bifreiðog á heimili varnaraðila. Samkvæmt því er ljóst að athöfn að þessu leyti hefurþegar farið fram. Verður þeim þætti málsins því vísað frá Hæstarétti, sbr. 4.mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008.Að því er varðar kröfu sóknaraðila um rannsókn á snjallsímanumeru aðstæður sambærilegar þeim er ákvæði 1. mgr. 70. gr. laga nr. 88/2008 takatil og samkvæmt lögjöfnun frá þeim verður krafa sóknaraðila um rannsókn áefnisinnihaldi símans tekin til greina, enda varðar hún brot semfangelsisrefsing liggur við. Dómsorð:Máli þessu er vísað frá Hæstaréttiað því er varðar kröfu sóknaraðila, lögreglustjórans á Suðurnesjum, um leit íbifreiðinni [...] og á heimili varnaraðila, X, að [...].Lögreglu er heimilt að rannsakaefnisinnihald [...] snjallsíma varnaraðila með raðnúmerinu [...].ÚrskurðurHéraðsdóms Reykjaness, föstudaginn 2. júní 2017Með beiðni, dags. 2. júní2017, hefur lögreglustjórinn á Suðurnesjum krafist þess að HéraðsdómurReykjaness veiti lögreglustjóranum á Suðurnesjum heimild til húsleitar áheimili X, kt. [...],[...], í því skyni aðhafa uppi á munum sem hald skal leggja á. Heimildin nái til leitar í læstumhirslum svo og í raftækjum, svo sem tölvum, símum og öðrum rafrænumgagnavörslumunum, sem þar er að finna. Þá er þess krafist að lögreglu verðiheimiluð leit í bifreiðinni [...]semhaldlögð hefur verið og X, kt. [...]erskráður eigandi að. Enn fremur er þess krafist að lögreglu verði heimiluðrannsókn á efnisinnihaldi [...]snjallsíma raðnúmerið [...].Varnaraðili krefst þessað kröfu lögreglustjóra verði hafnað. IÍ greinargerð lögreglustjóranssegir að síðastliðna nótt hafi lögregla ætlað að hafa afskipti af kærða X erhann hafi ekið bifreiðinni [...]austurReykjanesbraut. Hafi kærða verið gefið merki um að stöðva bifreiðina og hann þáverið á vinstri akrein. Bifreiðinni hafi svo verið ekið yfir á hægri akrein ogí sama mund hafi lögreglumenn séð að kærði hafi teygt sig yfir í framhurðfarþegamegin, skrúfar niður rúðu og hent út þremur pakkningum. Hafi kærði stöðvaðbifreiðina skömmu síðar við Grindavíkurveg þar sem hann hafi verið handtekinngrunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, og um að hafa fíkniefni ífórum sínum. Á vettvangi hafi lögregla fundið eina pakkningu af þeim þremur semkærði hafi sést henda úr bifreiðinni og hafi verið um að ræða zip-lock poka með3-4 minni slíkum pokum sem hafi innihaldið hvítt efni sem lögregla ætli að séuávana- og fíkniefni. Síðar sömu nótt hafi lögreglan farið aftur á vettvang og þáfundist önnur eins pakkning. Kærði hafi verið flutturá lögreglustöð þar sem hann hafi gefið þvagsýni sem hafi sýnt jákvæða svörun umnotkun á Metamfetamín og amfetamin (MET og AMP). Bifreiðin hafi jafnframt veriðhaldlögð og flutt á lögreglustöð. Telji lögregla að í henni sé að finna meiramagn af fíkniefnum en mikla kannabislykt hafi verið að finna í bifreiðinni.Jafnframt hafi lögregla haldlagt farsíma þann er kærði hafði meðferðis auk 90þúsund króna í reiðufé sem lögregla ætlar að séu ávinningur af ólögmætristarfsemi. Kærði hafi verið í annarleguástandi og sökum ástands hafi ekki verið unnt að taka af honumframburðarskýrslu. Vegna þess og áframhaldandi rannsóknar málsins hafi verið tekinákvörðun um að hann skyldi vistaður í fangageymslu. Kærði hafi verið inntureftir afstöðu til leitar í bifreiðinni svo og á heimili sínu að [...] og hafi hann ekkisamþykkt það. Þá hafi hann neitað að veita lögreglu heimild til að afrita ogrannsaka efnisinnihald á þeim farsíma sem hann hafði meðferðis.IIUm lagarök vísarlögreglustjóri til þess að til rannsóknar séu ætluð brot gegn lögum nr. 65/1974um ávana- og fíkniefni og telji lögregla fram kominn rökstuddan grun um aðkærði standi að sölu- og dreifingu ávana og fíkniefna. Krafan beinist í fyrstalagi að því að fengin sé heimild til leitar í bifreið kærða, [...]. Í öðru lagiá lögheimili kærða, [...]þarsem hann dveljist að jafnaði, aukinheldur sem heimiluð verði leit í læstumhirslum tilheyrandi íbúðinni svo og í raftækjum, svo sem tölvum og öðrumrafrænna gagnavörslumuna, sem þar kunnu að finnast. Í þriðja lagi beinistkrafan að því að fengin verði heimild til leitar í snjallsíma af gerðinni [...]með raðnúmerið [...]. Lögreglustjóri teluraugljósa rannsóknarhagsmuni í húfi til að framkvæma þær ráðstafanir sem krafistsé heimildar til svo unnt sé að afla sönnunargagna um ætluð brot kærða ogstöðva frekari dreifingu á ávana- og fíkniefnum. Þannig skipti miklu fyriráframhaldandi rannsókn málsins að fallist verði á kröfuna og að lögreglu gefistfæri á að haldleggja ávana- og fíkniefni sem þar kunna að finnast auk þess semlögregla telji málið þess eðlis að nauðsynlegt sé að sama skapi að leggja haldá og rannsaka raftæki, þ.á.m. tölvur og snjallsíma, sem þar er að finna. Þátelji lögreglustjóri að ríkir almanna- og einkahagsmunir krefjist þess að mál þettaupplýsist og örðugt sé að beita vægari úrræðum til að ná þeim markmiðum sem aðer stefnt.Með vísan tilframangreinds, framlagðra gagna, 74. gr. og 1. mgr. 75. gr. laga nr. 88/2008svo og 70. gr. laga nr. 88/2008 og 84. gr. sömu laga, sbr. dóma Hæstaréttar ímálum nr. [...] og [...], er þess krafist að fallist verði á hina umbeðnukröfu. IIISamkvæmt því sem aðframan hefur verið rakið, og að gögnum málsins virtum, þykir vera fyrir hendirökstuddur grunur um að sakborningur hafi gerst sekur um brot sem sætt geturákæru og varðað fangelsisrefsingu að lögum. Í gögnum málsins kemurfram að bifreiðin [...] er skráð eign annars en sakbornings. Sakborningur var ábifreiðinni í umrætt sinn þegar meint brot var framið og hefur hann neitaðlögreglu um að leita í þeirri bifreið. Fyrir hendi er rökstuddur grunur um aðbifreiðinni sé að finna muni sem hald skal leggja á. Er því fullnægt skilyrðum 2.og 3. mgr. 74. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og verður leit þvíheimiluð í samræmi við kröfu lögreglustjóra, sbr. 1. mgr. 75. gr. sömu laga. Af gögnum málsins þykireinnig sýnt fram á að rökstuddur grunur sé um að á heimili sakbornings sé aðfinna muni sem hald skal leggja á. Er því fullnægt skilyrðum 1. og 3. mgr. 74.gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og verður leit því heimiluð í samræmivið kröfu lögreglustjóra, sbr. 1. mgr. 75. gr. sömu laga. Þá verður jafnframtfallist á kröfu lögreglustjóra um heimild til að opna og rannsaka efni oginnihald tölva og farsíma sem lagt verður hald á við húsleitina, þ.m.t.tölvupósta og önnur samskipta- og geymsluforrit, og að rannsaka efnisinnihald [...]snjallsíma með raðnúmerið [...], skv. lögjöfnun frá 1. mgr. 70. gr. laga nr.88/2008.Úrskurð þennan kveður uppBogi Hjálmtýsson héraðsdómari. ÚRSKURÐARORÐLögreglustjóranum áSuðurnesjum er heimiluð húsleit á heimili X, kt. [...]. Heimildin nær tilleitar í læstum hirslum svo og í raftækjum, svo sem tölvum, símum og öðrumrafrænum gagnavörslumunum, sem þar er að finna. Þá er lögreglu heimiluð leit íbifreiðinni [...] og rannsókn á efnisinnihaldi [...].
Mál nr. 1/2000
Bifreið Líkamstjón Örorka Ökumannstrygging Gjafsókn
J, sem var við vinnu á dráttarvél, sem dró heybindivél, festi hægri hönd sína í heybindivélinni þegar hann gekk aftur með vélinni og hrasaði. Hann krafði vátryggingafélagið S um bætur úr slysatryggingu ökumanns samkvæmt þágildandi 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 fyrir tjón sitt. Talið var að sá þáttur í starfi J, að stíga niður af drátttarvélinni til að huga að búnaði heybindivélarinnar, hefði ekki lotið að stjórn dráttarvélarinnar sem vélknúins ökutækis í merkingu 92. gr. umferðarlaga. Þá væri einnig til þess að líta að meiðsl J hefðu orðið af völdum sérstaks vinnutækis, en ekki dráttarvélarinnar sem ökutækis. Var fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að vátrygging samkvæmt 92. gr. umferðarlaga hefði ekki tekið til tjóns J og að sýkna bæri S af kröfum J.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. janúar 2000. Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmur til að greiða sér 23.741.235 krónur með 2% ársvöxtum af 18.838.114 krónum frá 17. september 1997 til 29. apríl 1999, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 23.741.235 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann 21.622.875 króna með 2% ársvöxtum af 16.719.784 krónum frá 17. september 1997 til 29. apríl 1999, en dráttarvöxtum af 21.622.875 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til þrautavara krefst hann 15.162.709 króna með 2% ársvöxtum af 10.259.618 krónum frá 17. september 1997 til 29. apríl 1999, en dráttarvöxtum af 15.162.709 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Að því frágengnu krefst hann 13.086.739 króna með 2% ársvöxtum af 8.183.648 krónum frá 17. september 1997 til 29. apríl 1999, en dráttarvöxtum af 13.086.739 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst jafnframt málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Svo sem rakið er í héraðsdómi á ágreiningur málsaðila rætur að rekja til slyss, sem áfrýjandi varð fyrir 17. september 1997. Ók hann í umrætt sinn dráttarvél, sem dró heybindivél, en búnaður hennar var tengdur aflvél dráttarvélarinnar. Þegar áfrýjandi hafði stöðvað dráttarvélina og gengið aftur með heybindivélinni hrasaði hann og festi hægri hönd sína í henni með þeim afleiðingum að handlegginn tók af neðan við öxl. Krefur hann stefnda um bætur á grundvelli þeirrar vátryggingar, sem ökumaður naut samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 eins og það ákvæði hljóðaði fyrir breytingu með 2. gr. laga nr. 32/1998. Er málsástæðum aðila, svo og afleiðingum slyssins nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi. Vátrygging samkvæmt þágildandi 92. gr. umferðarlaga tók til ökumanns, er stjórnaði skráningarskyldu vélknúnu ökutæki. Áfrýjandi varð fyrir slysinu þegar hann hafði stigið niður af dráttarvélinni til að huga að búnaði heybindivélarinnar. Sá þáttur í starfi hans laut ekki að stjórn dráttarvélarinnar sem vélknúins ökutækis í merkingu 92. gr. umferðarlaga. Þá er einnig til þess að líta að meiðsl áfrýjanda urðu af völdum sérstaks vinnutækis, en ekki dráttarvélarinnar sem ökutækis. Getur þá ekki ráðið úrslitum að aflvél hennar var jafnframt nýtt til að knýja það tæki, sem tjóninu olli. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður fallist á þá niðurstöðu hans að vátrygging samkvæmt 92. gr. umferðarlaga hafi ekki tekið til tjóns áfrýjanda. Verður héraðsdómur samkvæmt því staðfestur, þar á meðal ákvæði hans um málskostnað og gjafsóknarlaun. Hvor aðili skal bera sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti er ákveðinn eins og nánar segir í dómsorði. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Jómundar Ólasonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar á meðal þóknun lögmanns hans, 400.000 krónur. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 1999. Mál þetta, sem er höfðað er með stefnu, þingfestri 29. apríl síðastliðinn, var dómtekið var 7. þessa mánaðar að loknum munnlegum málflutningi, en endurupptekið og dómtekið að nýju 20. sama mánaðar. Stefnandi er Jómundur Ólason, kt. 180859-3659, Skarðshömrum, Borgarbyggð. Stefndi er Sjóvá-Almennar tryggingar hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík. Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur: Aðalkrafa: að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 23.451.835 kr. með 2% ársvöxtum af 18.838.144 kr. frá 17. september 1997 til 29. apríl 1999, en með dráttarvöxtum af 23.451.835 kr. samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. l. varakrafa: að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 21.622.875 kr. með 2% ársvöxtum af 16.719.784 kr. frá 17. september 1997 til 29. apríl 1999, en með dráttarvöxtum af 21.311.475 kr. samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. 2. varakrafa: að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 15.162.709 kr. með 2% ársvöxtum af 10.259.618 kr. frá 17. september 1997 til 29. apríl 1999, en með dráttarvöxtum af 14.873.309 kr. samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. 3. varakrafa: að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 13.086.739 kr. með 2% ársvöxtum af 8.183.648 kr. frá 17. september 1997 til 29. apríl 1999, en með dráttarvöxtum af 12.797.339 kr. samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda samkvæmt málskostnaðarreikningi, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. Stefndi gerir þær dómkröfur aðallega að verða sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að mati dómsins, að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Þá krafðist stefndi upphaflega til vara lækkunar á stefnukröfum vegna eigin sakar stefnanda og niðurfellingar málskostnaðar, en féll frá þeirri kröfu eftir skýrslu stefnanda við aðalmeðferð málsins. I. Málsatvik Samkvæmt skýrslu lögreglunnar í Borgarnesi barst henni tilkynning kl. 19.20 að kvöldi 17. september 1997 um, að maður hefði misst handlegg í vinnuslysi við bæinn Hraunsnef í Norðurárdal. Í skýrslunni kemur fram, að hinn slasaði, stefnandi í máli þessu, hefði verið við heyskap á engjum niður við Norðurá, ásamt Elvari, bróður sínum. Hafi stefnandi verið á dráttarvélinni ZO-530, sem var með Deutz-Fahr heybindivél driftengda aftan í sér, og verið að binda heyrúllur. Á vettvangi hittu lögreglumenn fyrir áðurnefndan bróður stefnanda. Í skýrslunni er haft eftir honum, að um kl. 19.00 hafi hann verið á dráttarvél skammt frá stefnanda, er hann hafi skyndilega séð, hvar stefnandi lá á jörðinni og veifaði til hans. Hafi hann strax farið til stefnanda, sem hafi legið skammt frá dráttarvélinni ZO-530, og þá séð, að hann hafði misst hægri handlegginn. Hafi stefnandi skýrt honum frá því, að hann hefði farið úr dráttarvélinni og verið að lagfæra bandið á heybindivélinni, er hann hefði hrasað og lent með peysuna í bindivélinni. Hefði handlegginn dregist inn í vélina, þar til hann brotnaði af ofan við olnboga. Í umsögn Vinnueftirlits ríkisins um slysið segir, að stefnandi hafi greint sinn farið út úr dráttarvélinni og upp á beisli rúllubindivélarinnar, til að athuga hana eða til að laga bindigarn. Hafi hann hrasað og peysa hans lent í rúllubindivélinni og hægri handleggur hans dregist inn í vélina, þar til hann brotnaði af ofan við olnboga. Engar athugasemdir voru gerðar við vélina af hálfu vinnueftirlitsins og var allur hlífðarbúnaður hennar í lagi. Fyrir dómi skýrði stefnandi hins vegar svo frá, að hann hefði heyrt hávaða greint sinn, farið út úr dráttarvélinni og aftur fyrir rúllubindivélina. Taldi stefnandi, að hljóðin hefðu sennilega stafað frá steinum í völsum vélarinnar. Kvaðst stefnandi hafa hlaupið við fót meðfram vélinni, en hrasað og brugðið hendinni fyrir sig. Við það hefði peysan, sem hann var í, fest í nálunum eða garninu [í heybindivélinni]. Hefði stefnandi reynt að slíta hana út, en það ekki tekist, fyrr en hann hefði brotið hana af. Ekki reyndist unnt að græða handlegginn á. Stefnandi var til endurhæfingar­meðferðar fram til mánaðarmóta nóvember/desember 1997. Í mars 1998 fékk hann gervihandlegg, sem nýtist þó einungis að takmörkuðu leyti, en stefnandi er rétthentur. Stefnandi var skráður eigandi dráttarvélarinnar. Hún var tryggð hinum lögboðnu tryggingum samkvæmt XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987 hjá stefnda. Samkvæmt álitsgerð örorkunefndar frá 23. mars 1999 gat stefnandi ekki vænst frekari bata af afleiðingum slyssins eftir l. október 1998. Var hann talinn hafa hlotið 65% varanlegan miska og 75% varanlega örorku af völdum slyssins. Stefndi hefur ekki viðurkennt bótaskyldu. Með bréfi, dagsettu 6. maí 1998, var stefnanda veitt gjafsókn til reksturs málsins. II. Málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi byggir á því, að slysið hafi orðið við stjórn ökutækis í skilningi 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Samkvæmt 2. gr. umferðarlaga sé dráttarvél vélknúið ökutæki, sem aðallega sé hannað til að draga annað ökutæki og draga, ýta, flytja og knýja vinnutæki og sé á hjólum og/eða beltum. Náin tengsl séu þannig milli vinnutækis og dráttarvélar og milli notkunar dráttavélar og notkunar vinnutækis, sem er tengt henni. Skipti þá ekki síst máli, að heybindivélin, sem stefnandi slasaðist við, hafi verið knúin áfram af vélarafli dráttarvélarinnar. Þá er bent á, að stjórnenda ökutækis beri lögum samkvæmt að halda tækjum því tengdu í góðu ástandi, sbr. 3. mgr. 59. gr. umferðarlaga. Það sé því ljóst, að slysið hafi orðið, er stefnandi sinnti lögboðnum skyldum sínum sem stjórnandi dráttarvélarinnar og þar af leiðandi verið við stjórn hennar í skilningi 92. gr. umferðarlaga. Stefnandi sé af þessum sökum, sem vátryggjandi dráttarvélarinnar, bótaskyldur gagnvart stefnanda. 2. Fjárhæð bóta. Stefnandi byggir kröfugerð sína á skaðabótalögum nr. 50/1993, sbr. lög nr. 42/1996. Krafist er bóta fyrir þjáningar, miska, tímabundið tekjutap, varanlega örorku og annað fjártjón. Allar bótafjárhæðir taki mið af lánskjaravísitölu á þingfestingardegi (3661). Munur á aðalkröfu og 1. og 2. varakröfu skýrist af mismunandi kröfum um bætur fyrir varanlega örorku. 2.1. Þjáningar. Krafist er bóta fyrir þjáningar frá slysdegi til 1. október 1998.Stefnandi hafi frá slysdegi þjáðst af þrálátum verkjum, m.a. slæmum drauga­verkjum, sem hafi verið meðhöndlaðir með lyfjum, raförvun og deyfingum, án sjáanlegs bata. Þessir verkir hrjái stefnanda enn og leiði til þess, að hann teljist hafa verið veikur í skilningi 3. gr. skaðabótalaga allt fram til l. október 1998. Þann 15. mars 1998 hafi stefnandi fengið gervihandlegg og sé litið svo á, að hann hafi verið rúmliggjandi fram til þess tíma. Krafa um þjáningabætur meðan stefnandi var rúmliggjandi (185 dagar x kr. 1.450) nemi 268.250 kr. Krafa um þjáningabætur, meðan stefnandi var veikur, en ekki rúmliggjandi (195 dagar x kr. 780), nemi 152.100 kr. Samtals nemi krafa um þjáningabætur því 420.350 kr. 2.2. Varanlegur miski. Krafa um bætur fyrir varanlegan miska miðist við mat örorkunefndar, 65%. Krafa um bætur fyrir varanlegan miska nemi skv. þessu (65% x 4.462.000) 2.900.300 kr. 2.3. Tímabundið tekjutjón. Ekki hafi farið fram mat á tímabundinni óvinnufærni stefnanda, en krafa um bætur fyrir tímabundið tekjutjón miðist við, að stefnandi hafi verið óvinnufær að öllu leyti fram til þess tíma, þegar hann gat ekki vænst frekari bata af afleiðingum slyssins, þ.e. fram til 1. október 1998. Mótmæli stefndi þessu, byggir stefnandi á því, að sönnunar­byrðin um hið gagnstæða hvíli á stefnda. Bótakrafa stefnanda fyrir tímabundið tekjutjón byggir á meðaltalstekjum. Stefnandi hafi lagt stund á sjálfstæðan búrekstur, og sé ljóst, að hann hafi orðið fyrir tímabundnu tekjutjóni. Um það sé vísað til hruns á tekjum stefnanda af rekstrinum eftir slysið. Um þær tekjur vísist til sérstakra yfirlita meðfylgjandi skattframtölum áranna 1994 -1999. Á árinu 1998 verði megnið af tekjum stefnanda rakið til óreglulegra tekna í formi styrks til úreldingar á mjólkurframleiðslu. Sé litið fram hjá þeim styrk og öðrum óreglulegum tekjum (söluhagnaði) séu rekstrartekjur ársins 1998 3.029.896 kr., meðan rekstrargjöld séu 7.117.545 kr., eða nettótap upp á 4.087.649 kr. Árið, sem slysið átti sér stað, 1997, hafi nettótap stefnanda af búrekstrinum verið 1.505.599 kr. Árin fyrir slys, þ.e. 1996, 1995, 1994 og 1993, hafi stefnandi hins vegar haft hagnað af búrekstrinum. Nettótekjurnar þessi ár hafi í sömu röð verið 127.645 kr., 82.284 kr., 1.186.952 kr., 374.705 kr., eða að jafnaði 442.897 kr. Engin ástæða sé til að ætla annað, en rekstrarafkoma stefnanda af búrekstrinum hefði orðið sambærileg árin 1997 og 1998 og verið hafði fram að þeim tíma, hefði slysið ekki átt sér stað. Það leiði til þess, að stefnandi eigi rétt á bótum fyrir tímabundið tekjutjón á árinu 1997, að fjárhæð 1.948.496 kr., sem sé nettótap ársins 1997, að viðbættum meðalnettóhagnaði undangenginna ára (1.505.599 kr. + 442.897 kr.). Stefnandi hafi ekki getað vænst frekari bata vegna afleiðinga slyssins þann 1. október 1998 og eigi hann því rétt á bótum fyrir tímabundið tekjutjón 2/3 hluta ársins 1998. Fjárhæð bóta vegna þess tímabils sé 2.315.195 kr., eða 2/3 hlutar nettótaps ársins 1998, að viðbættum meðalnettóhagnaði áranna fyrir slys (2/3 af 3.029.896 kr. + 442.897 kr.). Heildarkrafa stefnanda um bætur fyrir tímabundið tekjutjón nemi þannig 4.263.691 kr. 2.4. Varanleg örorka. Kröfur stefnanda um bætur fyrir varanlega örorku miðist í aðalkröfu, 1. varakröfu og 3. varakröfu við mat örorkunefndar, þ.e. 75%. Í 2. varakröfu er byggt á mati örorkunefndar á varanlegum miska, þ.e. 65%. Stefnandi hafi verið 38 ára, er hann slasaðist. Bótaskerðing vegna aldurs, sbr. 1. mgr. 9. gr. skaðabótalaga, sé því í öllum tilvikum 13%. Aðalkrafa stefnanda um bætur fyrir varanlega örorku taki mið af reiknuðu endurgjaldi hans vegna búrekstursins árið fyrir slys, að viðbættri þeirri duldu verðmæta­aukningu, sem fólst í rétti hans til að krefjast styrks til úreldingar mjólkur­framleiðslu sinnar. Reiknað endurgjald stefnanda af búrekstrinum árið 1996, en aðalkrafa stefnanda er miðuð við það, hafi verið 674.856 kr. Þar að auki sé rétt að líta svo á, að úreldingarréttur stefnanda séu tekjur, sem hafi orðið til yfir árabilið frá því ákvæði um slíkan rétt voru fyrst tekin í lög (lög nr. 112/1992), er tekið hafi gildi í árslok 1992) og þangað til stefnandi seldi úreldingarréttinn vorið 1998 fyrir 17.403.662 kr. Eins og sjá megi í fylgigögnum með skattframtali 1999 teljist einungis helmingur þeirrar greiðslu til tekna, en hinn helmingur afrakstur af sölu eignar. Tekjur, sem jafnist yfir tímabilið ársbyrjun 1993 til loka apríl 1998, séu því 8.701.831 kr., sem geri 1.631.593 kr. á ári. Tekjur á árinu 1996 teljist samkvæmt þessu hafa verið 2.306.449 kr. Við þetta bætist svo 10.000 kr. tekjur frá Sparisjóði Mýrasýslu árið 1996. Heildartekjur árið 1996 séu því 2.316.449 kr. Að teknu tilliti til vísitöluuppfærslu samkvæmt 2. mgr. 1 gr. skaðabótalaga verði tekjuviðmið samkvæmt 7. gr. laganna, miðað við þessar forsendur, samtals 2.378.160 kr. (3661/3566 x 2.316.449 kr.). Þar sem hér sé miðað við tekjur af sjálfstæðum búrekstri, sé ekki gerð krafa um 6% framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Aðalkrafa um bætur fyrir varanlega örorku sé þannig samkvæmt reiknireglu 6. gr. skaðabótalaganna 17.836.200 kr. (2.378.160 kr. x 10 x 75%) og að teknu tilliti til aldursskerðingar samtals 15.517.494 kr. l. varakrafa. Fallist dómurinn ekki á tekjuviðmiðun í aðalkröfu sé byggt á því, að leggja eigi til grundvallar meðaltekjur iðnaðarmanna. Ástæða þess sé sú, að stefnandi hafi lagt stund á sjálfstæðan búrekstur, sem lúti flóknum reglum og sæti verulegum afskiptum hins opinbera, njóti styrkja og byggist á framleiðslustýringu, sem dylji að miklu leyti raunverulega tekjusköpun í atvinnurekstrinum. Þar fyrir utan sé bent á, að ýmislegt hagræði fylgi búsetu í sveit, sem ekki komi fram í tekjum á skattframtali. Það sé t.d. ljóst, að fólk, sem hafi með höndum búskap, framleiði til eigin þarfa ýmis matvæli, og sé sjálfu sér nægilegt um mun fleiri aðföng til heimilisins, heldur en venjulegur launamaður í þéttbýli. Framangreindar aðstæður víki frá því, sem almennt tíðkist, og heimili, að vikið sé frá viðmiðunartekjum árið fyrir slys, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Meðaltekjur iðnaðarmanna á slysdegi hafi verið 1.887.000 kr. Að teknu tilliti til vísitöluhækkunar og skyldu vinnuveitanda að inna af hendi 6% mótframlag í lífeyrissjóð, verði tekjuviðmið 2.053.507 kr. (3661/3566 x 1.887.000 kr. x 106%). 1. varakrafa um bætur fyrir varanlega örorku sé þannig samkvæmt reiknireglu 6. gr. skaðabótalaganna 15.401.303 kr. (2.053.507 kr. x 10 x 75%) og að teknu tilliti til aldursskerðingar samtals 13.399.134 kr. 2. varakrafa. Vilji dómurinn ekki fallast á forsendur í aðalkröfu og 1. varakröfu er byggt á því, að stefnandi falli undir reglu 8. gr. skaðabótalaga. Byggist það á þeirri sérstöðu, sem felist í búrekstri. Slíkur rekstur leiði ekki til mikilla beinna vinnutekna í formi reiðufjár, heldur feli í sér hagræði um öflun aðfanga, sem fólk í þéttbýli þurfi jafnan að afla gegn greiðslu í reiðufé. Fallist dómurinn því ekki á aðalkröfu og l. varakröfu, sé í versta falli ljóst, að aðstæður stefnanda leiði til þess, að hann verði felldur undir ákvæði 8. gr. skaðabótalaga. Krafa um bætur vegna þessa sé samkvæmt 4. mgr. 8. gr. laganna 7.975.825 kr. (2.900.300 kr. x 275%) og að teknu tilliti til aldursskerðingar samtals 6.938.968 kr. 3. varakrafa. Fallist dómurinn ekki á neina framangreindra krafna um bætur fyrir varanlega örorku er byggt á því, að stefnandi eigi rétt til bóta miðað við reiknað endurgjald af búrekstri hans árið 1996, þ.e. 674.856 kr., að viðbættum 10.000 kr. í tekjum frá Sparisjóði Mýrasýslu, samtals 684.856 kr. Tekjuviðmiðun með vísitölubótum og tillagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð verði samkvæmt þessu 745.287 kr. Krafa um bætur samkvæmt þessu verði því 5.589.653 kr. (745.287 kr. x 10 x 75%) og að teknu tilliti til aldursskerðingar samtals 4.862.998 kr. 2.5. Annað fjártjón. Ljóst sé, að slysið hafi valdið stefnanda margvíslegum útgjöldum, sem hafi ekki fengist bætt. Hér megi nefna lækniskostnað, lyfjakostnað, kostnað vegna gervilims, kostnað vegna endurhæfingar og sjúkraþjálfunar, kostnað vegna langra ferða til og frá meðferðaraðilum. Varlega áætlaður sé þessi kostnaður 350.000 kr., og er gerð krafa um greiðslu þeirrar fjárhæðar. Krafist er 2% vaxta af bótum fyrir þjáningar, miska og varanlega örorku frá slysdegi til þingfestingardags, sbr. 16. gr. skaðabótalaga. Þá er krafist dráttarvaxta af öllum kröfuliðum frá þingfestingardegi sbr. 4. mgr. 9. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. 4. gr. laga nr. 67/1989. III. Málsástæður og lagarök stefnda Aðalkröfu um sýknu byggir stefndi á því, að í 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, eins og hún var á slysdegi, komi fram, að vátrygging samkvæmt þeirri grein gildi fyrir hvern ökumann, sem tækinu stjórnar, og að hún skuli tryggja bætur vegna slyss, sem ökumaður kann að verða fyrir við starfa sinn. Í dómaframkvæmd hafi Hæstiréttur staðfest þann skilning, að trygging samkvæmt 92. gr. taki til slysa, sem stafa af notkun skráningarskylds ökutækis í skilningi 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga, sbr. H 1995.856, H 1995.1727 og H 1997.3287. Samkvæmt því verði, við ákvörðun um rétt til bóta úr tryggingu samkvæmt 92. gr., að leggja dóm á það, hvort slysatvik hafi stafað af notkun dráttarvélarinnar í skilningi 1. mgr. 88. gr. Stafi slysið ekki af notkun í þeim skilningi, sé ekki um bótaskyldu að ræða. 88. gr. umferðarlaga nái einvörðungu til notkunar skráningarskyldra ökutækja, þ.m.t. dráttarvéla, en ekki til vélknúinna vinnuvéla eða annarra tækja, sem við þau eru tengd og sérbúnaðar þeirra. Gildi það, hvort heldur aflvél kyrrstæðrar dráttarvélar er aflgjafi vinnutækisins, eða annars konar aflvél. Stefnandi hafi slasast af völdum heybindivélarinnar, án þess að það væri tengt nokkru því, sem varðaði stjórnun dráttarvélarinnar. Hafi slysið ekki hlotist af dráttar­vélinni sjálfri, búnaði hennar, drifskafti eða tengibúnaði milli dráttarvélarinnar og heybindivélarinnar, heldur af búnaði heybindivélarinnar. Hættueiginleikar dráttar­vélarinnar sem ökutækis og dráttartækis hafi þannig engan þátt átt í slysinu. Sé slys stefnanda í þeim tengslum einum við dráttarvélina, að hún var aflgjafi heybindi­vélarinnar. Dráttarvélin sjálf, sem hafi verið kyrrstæð, er slysið varð, eða búnaður hennar, hafi að öðru leyti ekki komið við sögu. Hafi slysið því ekki stafað af notkun dráttarvélarinnar í skilningi 88. gr. umferðarlaga, heldur hafi hún verið sem hver annar aflgjafi fyrir heybindivélina. Tengist athugun eða lagfæring bindigarns heybindivélar ekki þeim starfa ökumanns að stjórna ökutæki í skilningi 92.gr. umferðarlaganna. Slysið hafi hins vegar tengst sérstökum útbúnaði bindivélarinnar sem slíkrar. Heybindivélin sé sjálfstætt vinnutæki, en ekki hluti dráttarvélarinnar. Þetta megi sjá glöggt af 2. gr. umferðarlaga, en þar sé tekið fram, að dráttarvél sé ,,vélknúið ökutæki, sem aðallega sé hannað til að draga annað ökutæki og draga ýta, flytja og knýja vinnutæki og er á hjólum og/eða beltum.” Skýr greinarmunur sé því gerður á dráttar­vélinni sjálfri og því vinnutæki, sem hún sé hönnuð til að draga, ýta, flytja og knýja. Hvergi komi fram í gögnum málsins, að það hafi verið dráttarvélin, sem hafi valdið því, að stefnandi hrasaði og lenti í bindivélinni. Hafi slysið verið óhappatilvik, sem tengist á engan hátt dráttarvélinni og notkun hennar sem ökutækis. Þeirri málsástæðu stefnanda, að stefnandi hafi verið að sinna lögboðnum skyldum sínum samkvæmt 3. mg. 59. gr. umferðarlaga, er mótmælt. Greinin beri það með sér, að tilgangur hennar sé, að ökumaður sjái til þess, að ökutæki sé þannig búið, að það skapi ekki hættu í umferðinni. Samkvæmt greininni skuli sérstaklega gæta að því, að stýris­búnaður, hemlar, merkjatæki og ljósabúnaður séu í lögmæltu ástandi og virki örugglega, og sé tekið fram, að það sama eigi við um eftirvagna og tengitæki, svo og tengingu þeirra og tengibúnað. Athugun heybindivélar eða bindigarns í henni falli augljóslega ekki undir 3. mgr. 59. gr. Þjáningabætur. Eigi stefnandi rétt til bóta, sé ljóst, að þar á meðal séu þjáningabætur samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga. Kröfu stefnanda um þjáningabætur fyrir 185 daga rúmliggjandi er mótmælt. Sjúkrahúsvist og meðferð á Reykjalundi hafi lokið 30. nóvember 1997, það er 74 dögum eftir slys. Eftir þann tíma geti stefnandi ekki hafa talist rúmliggjandi, þrátt fyrir að hann hafi ekki fengið gervihandlegg, fyrr en 15. mars 1998. Eigi þá stefnandi rétt á þjáningabótum sem rúmliggjandi í 74 daga, þ.e. 1.450 kr. x 74 = 107.300, og þjáningabótum sem veikur, án þess að vera rúmliggjandi, í 306 daga, þ.e. 780 kr. x 306 = 238.680. Alls næmu þá þjáningabætur 345.980 kr. Bæri þá og að lækka þjáningabætur samkvæmt 3. málsliðar 1. mgr. 3. gr. skaðabóta­laga nr. 50/1993, þar sem þjáningabætur samkvæmt þessum útreikningi fari fram úr marki 3. málsliðar 1. mgr. 3. gr. Tímabundið atvinnutjón. Útreikningi stefnanda á tímabundnu atvinnutjóni er mótmælt. Með tímabundnu atvinnutjóni í 2. gr. skaðabótalaga, sé átt við tímabundinn missi á launatekjum eftir slys, ekki sé átt við bætur vegna minnkaðra tekna í eigin atvinnurekstri. Ekki verði séð af skattframtölum, að reiknað endurgjald stefnanda vegna eigin atvinnureksturs á árunum 1997 og 1998, hafi vikið í miklum mæli frá því, sem það hafi verið á árunum fyrir slysið. Stefnandi hafi því ekki sýnt fram á tímabundið atvinnutjón, og þar sem hann beri sönnunarbyrði fyrir umfangi tjóns síns, beri að sýkna af þessum kröfulið. Varanleg örorka. Samkvæmt því, sem fram komi í álitsgerð örorkunefndar, hafi stefnandi stundað búskap allt frá árinu 1980, eða um 18 ára skeið. Stefnandi hafi því stundað sjálfstæðan atvinnurekstur þennan tíma. Tekjur hans hafi því verið af tvennum toga, annars vegar reiknuð laun af atvinnu við búskapinn og hins vegar tekjur af atvinnurekstrinum sjálfum, þar á meðal tekjur atvinnurekstursins, sem mynduðust af vinnu annarra, sem við búskapinn kunna að hafa unnið. Þetta verði að hafa í huga, þegar kröfugerð stefnanda er athuguð. Ekki megi blanda saman einkatekjum stefnanda sjálfs og tekjum hins sjálfstæða atvinnureksturs. Jafnframt verði að hafa í huga, að verðmætamyndun, sem fólst í uppsöfnuðum rétti til úreldingar mjólkurframleiðslu, hafi orðið á öllum tímanum frá 1980, þótt ákvæði um úreldingarréttinn sjálfan tækju ekki gildi, fyrr en frá árinu 1992. Einnig gildi um þessa verðmætamyndun hið sama og aðrar tekjur af hinum sjálfstæða atvinnurekstri, hún kunni að hafa myndast vegna vinnuframlags annarra við búið, og verði þá ekki litið á hana sem einkatekjur stefnanda sjálfs í skilningi 7. gr. skaðabótalaga. Aðalkröfu stefnanda vegna varanlegrar örorku er mótmælt og vísað til þess, er að framan greinir. Þegar varanleg örorka er metin skuli leggja til grundvallar árslaun tjónþola. Með árslaunum sé átt við heildarvinnutekjur tjónþola á næstliðnu ári fyrir þann dag, sem tjón varð, sbr. 7. gr. skaðabótalaga. Hér eigi við sama röksemd og áður um tímabundið atvinnutjón, þ.e. ekki beri að leggja til grundvallar tekjur í atvinnurekstrinum sjálfum. Fyrstu varakröfu stefnanda er einnig mótmælt. Stefnandi sé ekki iðnmenntaður, hafi ekki starfað við slík störf, né verið líklegur til slíkra starfa í framtíðinni, áður en slysið varð, og styðjist ekki við nein rök að miða við meðaltekjur iðnaðarmanna við útreikning á bótum fyrir varanlega örorku. Væri nær að miða við meðaltekjur bænda, án tillits til úreldingarréttar. Stefnandi telur, að búsetu í sveit og búskap fylgi dulið hagræði, sem ekki komi fram á skattframtölum. Jafnvel þótt slíkt dulið hagræði væri viðurkennt, sé ekki þar með sagt, að það eigi einhliða að reiknast til hækkunar tekna, enda sé í rökstuðningi stefnanda ekki tekið tillit til þess, að á móti þessu dulda hagræði, gæti jafnframt komið óhagræði, sem stafi af búsetu í dreifbýli. Annarri varakröfu er mótmælt. Samkvæmt 8. gr. skaðabótalaga verði greininni beitt um börn og tjónþola, sem að verulegu leyti nýta vinnugetu sína þannig, að þeir hafi engar eða takmarkaðar vinnutekjur. 8. gr. skaðabótalaga eigi því ekki við um stefnanda. Samkvæmt framlögðum skattframtölum fyrir árin 1993 -1998 hafi stefnandi haft atvinnutekjur. Í þriðju varakröfu stefnanda sé réttilega miðað við reiknað endurgjald af búrekstri, auk tekna frá Sparisjóði Mýrasýslu. Stefnandi eigi þó ekki rétt á því, að til viðbótar tekjum eigi að reiknast mótframlag atvinnurekanda í lífeyrissjóð, þar sem um sjálfstæðan atvinnurekstur stefnanda sé að ræða og gögn málsins beri það ekki með sér, að þetta mótframlag hafi áður verið greitt. Annað fjártjón. Kröfu stefnanda um annað fjártjón er mótmælt. Um ýmsa þá liði, sem stefnandi tilgreini, sé augljóst, að auðveldlega hefði mátt leggja fram reikninga til sönnunar tjóni, en það hefur stefnandi ekki gert. Samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar megi vera, að stefnandi eigi rétt á nokkrum bótum fyrir annað fjártjón samkvæmt 1. gr. skaðabótalaga, en 350.000 kr. séu fjarri lagi. Að lokum krefst stefndi þess, að dráttarvextir verði ekki lagðir á, fyrr en frá dómsuppsögu­degi, sbr. 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987. IV. Forsendur og niðurstaða Stefnandi krefst bóta úr hendi stefnda úr slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Áður en lagagreininni var breytt með lögum nr. 32/1998, er tóku gildi 1. júlí 1998, var hún orðuð þannig, að slysatryggingin gilti fyrir hvern ökumann, sem tækinu stjórnaði og skyldi vátryggingin tryggja bætur vegna slyss, sem ökumaður kynni að verða fyrir við starfa sinn. Hefur Hæstiréttur skýrt umrætt lagaákvæði þannig, að tryggingin taki til tjóns, sem ökumaður verður fyrir við stjórnun ökutækis og jafnframt, að slysið verði rakið til notkunar ökutækisins í skilningi 1. mgr. 88. gr. laganna, sbr. dóma réttarins 23. mars 1995 í máli nr. 369/1992, 15. júní sama ár í máli nr. 11/1993, 13. nóvember 1997 í máli nr. 47/1997 og 21. október 1999 í máli nr. 116/1999. Aðilar eru sammála um að leggja skýrslu stefnanda fyrir dómi til grundvallar um atvik að slysinu. Samkvæmt henni var aðdragandi þess sá, að stefnandi heyrði einhvern hávaða greint sinn frá heybindivélinni, sem tengd var drifskafti dráttarvélarinnar. Hljóp stefnandi við fót meðfram vélinni, en hrasaði og brá fyrir sig hendinni. Við það festist peysa, sem hann klæddist, í nálum eða garni ofan á heybindivélinni með þeim afleiðingum, er að framan greinir. Samkvæmt 2. gr. umferðarlaga er dráttarvél vélknúið ökutæki, sem aðallega er hannað til að draga annað ökutæki og draga, ýta, flytja og knýja vinnutæki og er á hjólum og/eða beltum. Til þess að bótaábyrgð verði lögð á stefnda samkvæmt framansögðu þurfa tvö skilyrði að vera uppfyllt; annars vegar, að stefnandi hafi verið við stjórn dráttarvélarinnar og hins vegar, að slysið verði rakið til notkunar hennar í skilningi 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga. Ekki verður fallist á með stefnanda, að hann hafi umrætt sinn verið að sinna því lögboðna hlutverki sínu sem ökumanns samkvæmt 3. mgr. 59. gr. umferðarlaga að gæta að því, að ökutækið væri í góðu ástandi, enda laut athugun stefnanda ekki að stjórntækjum dráttarvélarinnar sem ökutækis eða öðrum útbúnaði hennar, heldur að sérstökum búnaði heybindivélarinnar. Verður því ekki talið, að slysið verði rakið til lögboðinna skyldna stefnanda sem ökumanns dráttarvélarinnar. Dráttarvélin var kyrrstæð og ekki í notkun að öðru leyti, en að hún var aflgjafi fyrir heybindivélina. Áttu hinir sérstöku hættueiginleikar dráttarvélarinnar sem vélknúins ökutækis þannig engan þátt í slysinu, heldur hlaust það af sérbúnaði heybindivélarinnar. Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu, en eftir atvikum er rétt, að málskostnaður falli niður. Allur gjafsóknarkostnaður málsins, þar með talin laun lögmanns stefnanda, Jóns Steinars Gunnlaugssonar hrl., sem eru hæfilega ákveðin 450.000 krónur, og útlagður kostnaður, 88.271 króna, eða samtals 538.271 króna, greiðist úr ríkissjóði. Dóminn kveður upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari. Dómsorð: Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Jómundar Ólasonar, í máli þessu. Málskostnaður fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, samtals 538.271 króna, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin laun lögmanns hans, Jóns Steinars Gunnlaugssonar hrl., 450.000 krónur.
Mál nr. 119/2005
Skaðabætur Líkamstjón Varanleg örorka Almannatryggingar Gjafsókn
Við útreikning á skaðabótum til A var deilt um hvort heimilt væri að draga frá bótunum eingreiðsluverðmæti væntanlegra lífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins til 67 ára aldurs. Hafði A verið metinn til 75% örorku hjá tryggingastofnun í febrúar 2003 og skyldi endurmat fara fram í janúar 2006. Vísað var til þess að við eingreiðslu skaðabóta væru bætur fyrir varanlega örorku greiddar fyrir líkindatjón fram í tímann og að frá þeim skyldu að sama skapi dregnar áætlaðar framtíðargreiðslur frá almannatryggingum, eins og gert væri ráð fyrir í 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Yrði að miða við að mat tryggingastofnunar á örorku A myndi ekki breytast í þeim mæli í framtíðinni að ekki væri unnt að draga uppreiknaðar bótagreiðslur frá stofnuninni frá skaðabótum til hans þó að örorka hans samkvæmt almannatryggingalögum yrði endurmetin í janúar 2006. Enn fremur var deilt um hvort heimilt hafi verið að ganga út frá því við uppgjörið að A myndi framvegis eiga rétt til tekjutryggingar frá tryggingastofnun. Vísað var til þess að tekið hefði verið tillit til þess við uppgjörið að líkindatekjur A myndu lækka tekjutryggingu um 4%. Talið var að þar sem bætur til A hefðu með hans samþykki verið gerðar upp miðað við þá forsendu að hann nyti lágmarkslauna samkvæmt skaðabótalögum gæti hann í þessu máli ekki reiknað með hærri launum í framtíðinni. Var Ö því sýknaður af kröfum A.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. mars 2005. Hann krefst þess aðallega að stefndi greiði sér 6.858.333 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 3. júní 2000 til 13. febrúar 2004 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, að frádregnum 35.313 krónum, sem réttargæslustefndi hafi innt af hendi 14. september 2004. Áfrýjandi krefst þess til vara, að stefndi greiði sér 4.425.000 krónur með sömu vöxtum og sama frádrætti sem í aðalkröfu. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum. Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður. Vátryggingafélagi Íslands hf. hefur verið stefnt til réttargæslu. I. Krafa áfrýjanda á rætur að rekja til alvarlegs slyss er hann varð fyrir 3. júní 2000, þá sextán ára gamall, er hann féll af svölum húss stefnda, eins og nánar er lýst í héraðsdómi. Enginn ágreiningur er um bótaskyldu stefnda og réttargæslustefndi hefur viðurkennt greiðsluskyldu úr vátryggingu stefnda hjá félaginu. Samkomulag varð um að leita mats tveggja lækna á örorku og miska áfrýjanda og una aðilarnir við niðurstöðu þess örorkumats frá 29. október 2002. Áfrýjandi var metinn til 75% örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins 3. febrúar 2003 og skal endurmat fara fram í janúar 2006. Hinn 13. janúar 2004 greiddi réttargæslustefndi vegna tjóns áfrýjanda bætur að fjárhæð 14.946.333 krónur, en við útreikning þeirra dró hann eingreiðsluverðmæti lífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins til áfrýjanda til 67 ára aldurs hans, samtals 9.213.000 krónur, frá bótum fyrir varanlega örorku á grundvelli 1. málsliðs 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, eins og henni var breytt með 4. gr. laga nr. 37/1999. Lýtur ágreiningur aðila að þessum frádrætti. II. Áfrýjandi hefur í málflutningi sínum fyrir Hæstarétti fært fram þau rök, að mat Tryggingastofnunar ríkisins hafi einungis verið tímabundið til 31. janúar 2006 og sé því ekki mat á varanlegri örorku hans. Þess vegna sé útilokað að réttargæslustefndi getið dregið frá skaðabótum til hans 2/3 hluta uppreiknaðs höfuðstólsverðmætis áætlaðra greiðslna allt til 67 ára aldurs, enda hafi mat stofnunarinnar aðeins gildi til þess tíma er hann verði rétt tæplega 22 ára. Ekkert mat sé til eftir þann tíma og svo mikil óvissa um greiðslur frá stofnuninni að slíkur frádráttur eigi sér ekki lagastoð. Tjón hans sé því verulega vanbætt með því uppgjöri sem réttargæslustefndi hafi boðið, enda segi í 1. málslið 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga að frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns dragist greiðslur sem tjónþoli fær frá almannatryggingum. Óvissa sé um starfsgetu hans í framtíðinni, eins og fram komi í mötum þeim sem lögð hafi verið fram í málinu, og sé því óvíst hvort hann fái nokkuð greitt frá almannatryggingum eftir gildistíma hins tímabundna mats 31. janúar 2006. Ráða megi af þeim gögnum sem lögð hafi verið fram í málinu að ástæða þess að mat tryggingastofnunar hafi verið tímabundið sé að hún ráðgeri að áfrýjandi komist út á vinnumarkaðinn. Þegar einnig sé haft í huga að það mat og mat samkvæmt skaðabótalögum séu byggð á ólíkum forsendum telji áfrýjandi útilokað að fullyrða á grundvelli þeirra upplýsinga um stöðu hans og framtíðarhorfur, sem lágu fyrir á stöðugleikapunkti 3. júní 2001, að þá hafi verið ljóst að hann fengi varanlegt 75% örorkumat frá stofnuninni og greiðslur frá henni til 67 ára aldurs. Áfrýjandi leggur áherslu á að dómur Hæstaréttar í máli nr. 520/2002 frá 18. september 2003, þar sem deilt hafi verið um túlkun á 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, stangist með engu móti á við dómkröfu hans heldur renni stoðum undir hana. Vísar hann einkum til þess að þar hafi enginn vafi verið um að tjónþola hefði til frambúðar verið metin varanleg örorka samkvæmt almannatryggingalögum. Örorkumat áfrýjanda sé aftur á móti tímabundið og miklar líkur séu fyrir því að honum takist að komast út á vinnumarkaðinn, sem gæti leitt til þess að greiðslur frá almannatryggingum yrðu felldar niður. Sé því hvorki fyrrgreindur dómur né dómur í máli nr. 223/2003 frá 27. nóvember 2003 fordæmi sem beri að leggja til grundvallar í máli áfrýjanda. Varakröfu sína styður áfrýjandi þeim rökum að bætur til örorkulífeyrisþega skiptist í tvo hluta, örorkulífeyri og tekjutryggingu. Grunnörorkulífeyririnn byrji að skerðast hafi lífeyrisþegi 145.721 krónu í mánaðarlaun og falli alveg niður við 230.721 krónu. Tekjutrygging lífeyrisþega byrji að skerðast við 47.381 krónu mánaðarlaun og við hverjar 1.000 krónur lækki tekjutryggingin um 450 krónur og falli niður við 142.221 krónu. Slíkar launagreiðslur myndu þó ekki skerða grunnörorkulífeyri. Áfrýjandi mótmælir því að unnt sé að gera ráð fyrir að hann eigi rétt til greiðslu tekjutryggingar út starfsævina og sé útreikningi og frádrætti stefnda að þessu leyti hafnað. Í varakröfu krefjist hann því bóta sem nemi núvirði tekjutryggingarinnar til 67 ára aldurs, enda séu engar líkur til þess að hann muni fá hana greidda. Stefndi andmælir málsrökum áfrýjanda og bendir á að ekki sé eðlismunur á mati Tryggingastofnunar á varanlegri örorku hans í þessu máli og í fyrrnefndum málum nr. 520/2002 og nr. 223/2003. Enda þótt núgildandi örorkumat stofnunarinnar skuli koma til endurskoðunar í janúar 2006 sé heilsufar áfrýjanda þannig að ekki sé að vænta neinna breytinga á matinu á þeim tíma. Ekkert bendi því til þess að þær bætur sem hann njóti nú frá almannatryggingum muni skerðast í framtíðinni og hafi því uppgjör réttargæslustefnda verið í samræmi við skaðabótalög og nefnd fordæmi Hæstaréttar, enda málin alveg sambærileg. Enginn lagagrundvöllur sé til að fara öðruvísi að í máli áfrýjanda en í þeim málum sem fjallað var um í framangreindum dómum. III. Þegar litið er til fordæma réttarins í málum nr. 520/2002 og 223/2003 og þau borin saman við mál áfrýjanda er ljóst að munurinn er sá, að þar voru ekki bornar brigður á að tjónþola yrði til frambúðar metin örorka hjá Tryggingastofnun ríkisins og greiðslur frá henni því dregnar frá reiknuðum bótum samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Í máli þessu hefur slíkt varanlegt mat ekki farið fram og í því felst nokkur óvissa, sem ekki var fyrir hendi í þeim málum. Áfrýjandi fór fram á að tjón hans yrði bætt af réttargæslustefnda og var það gert með eingreiðslu í uppgjöri 13. janúar 2004, þar sem miðað var við stöðugleikapunkt áfrýjanda 3. júní 2001. Forsendur slíkrar eingreiðslu eru að skaðabætur fyrir varanlega örorku vegna slyss séu greiddar fyrir líkindatjón fram í tímann og að frá skaðabótum dragist að sama skapi áætlaðar framtíðargreiðslur frá almannatryggingum vegna slyssins, eins og gert er ráð fyrir í 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Enda þótt endurmeta skuli varanlega örorka áfrýjanda hjá Tryggingastofnun ríkisins í lok janúar 2006 verður vegna þessara forsendna fyrir tjónsuppgjöri að miða við að mat stofnunarinnar muni ekki breytast í þeim mæli í framtíðinni að ekki sé unnt að draga þessar uppreiknuðu bótagreiðslur frá metnum skaðabótum. Að þessu athuguðu og með vísan til forsendna héraðsdóms að öðru leyti verður að fallast á niðurstöðu hans um aðalkröfu áfrýjanda. Í varakröfu sinni mótmælir áfrýjandi því að unnt sé að gera ráð fyrir að hann eigi rétt til tekjutryggingar frá Tryggingastofnun ríkisins út starfsævina. Við tjónsuppgjörið var talið að líkindatekjur áfrýjanda hefðu ekki áhrif á örorkulífeyri frá stofnuninni, en þær myndu lækka tekjutryggingu um 4%. Reiknaðir 2/3 hlutar höfuðstólsverðmætis þessara greiðslna voru 95.000 krónum lægri en gengið var út frá í tjónsuppgjöri. Réttargæslustefndi greiddi áfrýjanda mismuninn ásamt vöxtum frá stöðugleikapunkti til greiðsludags og hefur áfrýjandi dregið þessa fjárhæð frá kröfu sinni. Verður að fallast á með stefnda að þar sem tjón áfrýjanda hafi verið gert upp með hans samþykki miðað við þær forsendur að hann nyti lágmarkslauna samkvæmt skaðabótalögum geti hann ekki í máli þessu reiknað með hærri launum í framtíðinni en því nemur. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur. Rétt er að hvor aðila beri sinn málskostnað fyrir Hæstarétti. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Atla Sigurðssonar, fyrir Hæstarétti, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 300.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2004. Mál þetta, sem dómtekið var 6. desember 2004 var höfðað 20. apríl 2004. Stefnandi er Atli Sigurðsson, [...], Dunhaga 18, Reykjavík en stefndi er Örn Thorstensen, [...]. Vátryggingarfélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík er stefnt til réttargæslu. Dómkröfur stefnanda eru aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 8.645.000 krónur með 4,5% vöxtum frá 3. júní 2000 til 13. febrúar 2004 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags að frádreginni greiðslu vaxta að fjárhæð 35.313 krónur sem greiddist inn á þá kröfu 14. september 2004. 1. varakrafa stefnanda er að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 5.992.000 krónur með 4,5% vöxtum frá 3. júní 2000 til 13. febrúar 2004 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags að frádreginni greiðslu vaxta að fjárhæð 35.313 krónur sem greiddist inn á þá kröfu 14. september 2004. 2. varakrafa stefnanda er að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 5.432.800 krónur með 4,5% vöxtum frá 3. júní 2000 til 13. febrúar 2004 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags að frádreginni greiðslu vaxta að fjárhæð 35.313 krónur sem greiddist inn á þá kröfu 14. september 2004. 3. varakrafa stefnanda er að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 2.668.900 krónur með 4,5% vöxtum frá 3. júní 2000 til 13. febrúar 2004 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags að frádreginni greiðslu vaxta að fjárhæð 35.313 krónur sem greiddist inn á þá kröfu 14. september 2004. Þá krefst stefnandi málskostnaðar eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til virðisaukaskatts. Stefndi gerir þær dómkröfur aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum dæmdur málskostnaður. Til vara gerir hann þær dómkröfur að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði í því tilviki látinn niður falla. Ekki eru gerðar kröfur á hendur réttargæslustefnda og hann gerir engar kröfur í málinu. II Málavextir eru þeir að stefndi slasaðist alvarlega þann 3. júní 2000 er hann féll fram af svölum, niður um tvo metra og lenti á gangstétt. Hann var gestkomandi að Furuhjalla 14, Kópavogi og hafði brugðið sér út á svalir og hallað sér að svalahandriði sem gaf sig undan þunga hans. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á sjúkrahús til aðhlynningar. Við slysið hlaut hann brot á höfuðkúpu með brotalínu í klettsbein vinstra megin og blæddi inn í vinstra miðeyra og hlust. Hann fékk skerta heyrn á vinstra eyra með suði og lömun á vinstri andlitstaug sem þó gekk til baka að mestu leyti. Alvarlegasti áverkinn sem stefnandi hlaut var framheilaskaði sem hafði í för með sér einbeitingarskort, athyglisbrest, eirðarleysi, skapsveiflur, félagsfælni og svefntruflanir. Ekki er deilt um skaðabótaskyldu stefnda og hefur réttargæslustefndi viðurkennt bótaskyldu úr húseigendatryggingu stefnda hjá félaginu. Réttargæslustefndi og stefnandi komu sér saman um að óska eftir mati læknanna Atla Þórs Ólasonar og Ragnars Jónssonar á afleiðingum slyssins á heilsu stefnanda og er matsgerð þeirra dagsett 29. október 2002. Eru niðurstöður matsmanna þær að við slysið hafi stefnandi orðið fyrir eftirfarandi skaða með hliðsjón af skaðabótalögum nr. 50/1993: 1. Tímabundið atvinnutjón 100% í tólf mánuði 2. Þjáningabætur; rúmliggjandi frá 3. júní 2000 til 7. júní 2000, batnandi án þess að vera rúmliggjandi frá 8. júní 2000 til 3. júní 2001 3. Stöðugleikapunktur 3. júní 2001 4. Varanlegur miski 40% 5. Varanleg örorka 70% 6. Hefðbundin varanleg læknisfræðileg öroka 40% Stefnandi var metinn til 75% örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins og í bréfi stofnunarinnar 3. febrúar 2003 kemur fram að af fyrirliggjandi gögnum megi ráða að stefnandi eigi erfitt með samskipti við aðra og að ljúka verkefnum. Færni hans teljist mikið skert til almennra starfa. Séu læknisfræðileg skilyrði örorkulífeyris uppfyllt frá 1. desember 2002 til 31. janúar 2006 og skuli endurmat fara fram í janúar 2006. Í framhaldinu var Jón Erling Þorláksson, tryggingafræðingur, fenginn til að reikna úr höfuðstólsverðmæti bótagreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins. Af hálfu stefnanda var þess óskað að reiknað yrði út höfuðstólsverðmæti örorkulífeyris og í útreikningum sínum 17. febrúar 2004 miðar tryggingafræðingurinn við að örorkulífeyrir hafi greiðst frá desember 2002 og hafi hann þá verið 19.900 krónur á mánuði. Höfuðstólsverðmæti slíks lífeyris til 67 ára aldurs reiknast honum að sé 4.689.000 og 2/3 hlutar þess séu 3.126.000 krónur. Þá reiknar tryggingafræðingurinn enn fremur út, samkvæmt kröfu stefnanda, höfuðstólsverðmæti örorkulífeyris frá desember 2002 til janúar 2006 og er höfuðstólsverðmæti örorkulífeyris miðað við þær forsendur 709.000 krónur og 2/3 hlutar 473.000 krónur. Við útreikning höfuðstólsverðmætis notar tryggingafræðingurinn 4,5% vexti og vaxtavexti og miðar mið að dánarlíkur fari eftir reynslu áranna 1991 til 1995. Af hálfu réttargæslustefnda var óskað eftir útreikningum Jóns Erlings miðað við eftirtaldar greiðslur sem stefnanda voru ákvarðaðar af Tryggingastofnun ríkisins 12. febrúar 2003: Örorkulífeyrir 20.630 Samtals 58.910 Útborgað 36.200 Í útreikningum Jóns Erlings 24. febrúar 2004 er niðurstaðan sú að til 67 ára aldurs sé höfuðstólsverðmæti 58.910 krónur, 13.820.000 krónur og 2/3 hlutar 9.213.000 krónur. Við útreikninginn notar Jón Erling 4,5% vexti og vaxtavexti og gerir ráð fyrir að dánarlíkur fari eftir reynslu áranna 1996-2000. Þann 13. janúar 2004 greiddi réttargæslustefndi stefnanda bætur vegna tjónsins en dró frá bótum vegna varanlegrar örorku 9.213.000 krónur vegna eingreiðsluverðmætis lífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins með vísan til 4. mgr. 5. gr. skaða­bótalaga. Stefnandi tók á móti greiðslum þessum með fyrirvara um útreikning Jóns Erlings, miskastig og framangreindan frádrátt. Réttargæslustefndi óskaði enn á ný eftir útreikningum Jóns Erlings Þorlákssonar þar sem óskað var eftir að kannað yrði hverju það myndi breyta varðandi bætur Tryggingastofnunar ríkisins ef gert væri ráð fyrir því að stefnandi hefði 508.050 krónur á ári fyrir vinnu miðað við að hann hafi 30% vinnugetu. Kemur fram í útreikningum Jóns Erlings frá 29. ágúst 2004 að tekjurnar hefðu engin áhrif á örorkulífeyri en tekjutrygging myndi lækka. Nýr útreikningur um höfuðstólsverðmæti bóta yrði því þannig: Höfuðstólsverðmæti örorkulífeyris væri óbreyttur frá útreikningi 24. febrúar 2003 en höfuðstólsverðmæti tekjutryggingar yrði 8.621.000 eða höfuð­stólsverðmæti bóta væri samtals 13.461.000 krónur og 2/3 væri 8.974.000 krónur. Enn á ný óskaði réttargæslustefndi eftir útreikningi Jóns Erlings á höfuðstólsverðmæti örorkulífeyris og tekjutryggingar í stöðugleikapunkti þann 3. júní 2001. Kemur fram í útreikningum tryggingafræðingsins 4. september 2004 að í framhaldi af útreikningi 29. ágúst 2004 sé höfuðstólsverðmæti örorkulífeyris og tekjutryggingar í stöðugleikapunkti 3. júní 2001 eftirfarandi: Mánaðargreiðsla Höfuðstólsverðmæti 2/3 hlutar Örorkulífeyrir 20.630 4.918.000 3.278.000 Tekjutrygging 36.750 8.760.000 5.830.000 Samtals 57.380 13.678.000 9.118.000 Í framhaldinu greiddi réttargæslustefndi stefnanda þann 14. september 2004 95.000 krónur auk vaxta og kostnaðar sem er mismunur á því sem hann hafði dregið frá bótum áður að fjárhæð 9.213.000 krónur og framangreindri niðurstöðu tryggingarfræðingsins að fjárhæð 9.118.000 krónur. Eins og rakið hefur verið er ekki deilt um skaðabótaskyldu stefnda. Þá er ekki deilt um umfang tjóns stefnanda heldur hvernig fara skuli með frádrátt greiðslna úr almannatryggingum samkvæmt 1. málslið 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga eftir breytingu sem gerð var á því ákvæði með 4. gr. laga nr. 37/1999. Stefnandi fékk leyfi til gjafsóknar 11. júní 2003. III Stefnandi kveður að hvorki í frumvarpi laga nr. 37/1999 sem breytti 1. ml. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 né öðrum lögskýringargögnum sé skýrt hvernig fara skuli með og reikna út frádrátt þann sem um sé deilt í máli þessu. Verði ekki séð að með vísan til þessa lagaákvæðis sé heimild til þess að reikna greiðslur eins og þær hafi verið þann 1. desember 2002 til 67 ára aldurs stefnanda og draga þær frá bótum til hans, þar sem örorkumat frá Tryggingastofnun ríkisins sem lagt sé til grundvallar nái aðeins til 31. janúar 2006. Telur stefnandi að frádráttur með þessum hætti stríði gegn þeirri grundvallarreglu skaðabótaréttar að stefnandi eigi rétt á því að fá fullar bætur fyrir tjón sitt og eigi frádráttur réttargæslustefnda á varanlegum örorkubótum stefnanda með þeim hætti sem gert hafi verið sér enga lagastoð og standist frádrátturinn sem slíkur ekki almennar lögskýringarreglur. Aðalkrafan um greiðslu 8.645.000 króna auk vaxta sé mismunurinn á frádrætti réttargæslustefnda að fjárhæð 9.118.000 króna og 473.000 krónum sem séu 2/3 hlutar höfuðstólsverðmætis þeirrar greiðslu sem Jón Erlingur Þorláksson telji vera höfuð­stólsverðmæti örorkulífeyris Tryggingastofnunar frá því í desember 2002 til janúar 2006. Liggi fyrir að stefnanda hafi einungis verið metin 75% örorka hjá Trygginga­stofnun ríkisins með örorkumati lífeyristrygginga frá 1. desember 2002 til 31. janúar 2006. Geti stefndi ekki reiknað með því að stefnandi verði metinn áfram 75% öryrki út ævina á grundvelli þessa mats ekki síst þar sem það sé mun hærri örorka en sú örorka sem réttargæslustefndi hafi notað til uppgjörs til stefnanda. Ástæða þess að stefnanda sé einungis metin örorka í þrjú ár sé sú að Tryggingastofnun ríkisins telji ekki ljóst að stefnandi muni verða metin svo há örorka í framtíðinni og jafnvel að stefnandi eigi möguleika á því að ná frekari bata. Mat Tryggingastofnunar ríkisins sé mun hærra en mat það er uppgjör réttar­gæslustefnda byggi á þar sem 75% örorka hjá Tryggingastofnun ríkisins samsvari 100% örorku í mati samkvæmt skaðabótalögum en ekki sé unnt að fá hærra mat hjá Tryggingastofnun en 75%. Mat samkvæmt ákvæðum laga um lífeyristryggingar byggi á reglugerð um örorkumat nr. 379/1999. Þar komi fram í fylgiskjali nr. 1. að matinu sé skipt upp í tvo hluta, fjalli fyrri hluti þess um líkamlega færni og síðari hluti lúti að andlegri færni. Beri matið þannig verulegan keim af því að vera að stórum hluta sambærilegt og mat á miska samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 en stefnanda hafi aðeins verið metinn 40% miski. Telur stefnandi rétt að geta þess að greinarmunur sé á mati hjá Tryggingastofnun ríkisins vegna lífeyristrygginga samkvæmt II. kafla laga um almannatryggingar nr. 117/1993 með síðari breytingum og mati samkvæmt III. kafla sömu laga þar sem fjallað sé um slysatryggingar. Telur stefnandi að allsendis óvíst sé hvort hann muni halda greiðslum frá Trygginga­stofnun ríkisins eftir 1. janúar 2006 og verði að túlka allan vafa hvað þetta snerti honum í hag. Stefnandi telur að frádráttur réttargæslustefnda feli í sér brot á jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og ólögmæta skerðingu á aflahæfi stefnanda sem njóti verndar eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar og tak­mörkun á stjórnarskrárvörðum rétti stefnanda til aðstoðar frá ríkinu samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar sbr. 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmála Evrópu sbr. einnig ákvæði laga nr. 62/1994 um Mannréttindasáttmála Evrópu. Skýra verði 72. gr. stjórnarskrárinnar og allar reglur sem skerði bótarétt tjónþola þröngt og þannig ekki heimilt að draga hugsanlegar bætur sem stefnandi kunni að eiga rétt á í framtíðinni frá bótum til hans. Stefnandi telur að þetta brjóti einnig freklega gegn rétti hans samkvæmt 65. gr. stjórnarskrárinnar þar sem þess séu ekki önnur dæmi um að hugsanlegur réttur manna til bóta úr almannatryggingum sé dreginn frá skaðabótakröfu þeirra. Eigi stefnandi ekki rétt á neinum greiðslum úr lífeyrissjóði en samkvæmt 4. ml. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga komi fram að einungis skuli draga frá skaðabótakröfu 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði. Stefnandi mótmælir þeirri reikniaðferð og frádrætti á grundvelli hennar sem fram komi í útreikningi Jóns Erlings og dagsettur er 24. febrúar 2004. Telur stefnandi ólíklegt að hann eigi rétt á tekjutryggingu í framtíðinni. Í dag sé hann að reyna fyrir sér í námi og hafi þannig ekki haft tök á því að starfa á hinum almenna vinnumarkaði. Stefnandi sé nýorðinn tvítugur og telji allar líkur á að hann muni hafa tekjur í framtíðinni. Tekjutrygging örorkulífeyrisþega byrji að skerðast við 47.381 krónu og við hverjar 1.000 krónur lækki tekjutryggingin um 450 krónur þannig að skerðingar­prósentan sé 45% og falli niður við 142.221 krónu á mánuði. Slíkar launagreiðslur myndu þó ekki skerða grunnörorkulífeyri. Hafi stefnandi alla möguleika til þess að geta unnið einhver létt störf að mati lækna og sérfræðinga og sé þannig verulega ólíklegt að hann haldi framangreindri tekjutryggingu og styðji mat það sem réttargæslustefndi byggi uppgjör til stefnanda á einnig þá niðurstöðu þar sem það geri ráð fyrir því að hann hafi 30% vinnufærni. Komi fram í matsgerð að stefnandi muni ekki geta verið á vinnumarkaði nema tekið sé tillit til fötlunar hans og eftirlit sé haft með honum en matsmenn geri þó ráð fyrir að slíkir starfsmöguleikar kynnu þó að koma upp. Þessu til stuðnings sé einnig bent á bréf 13. apríl 2004 frá Guðrúnu Karlsdóttur endurhæfingarlækni á Endurhæfingardeild Grensáss. Þar komi fram að stefnandi hafi verið í mati vegna einkenna í mars 2004, þar sem meðal annars hafi verið gert taugasálfræðilegt mat og fengið mat sjúkraþjálfara. Niðurstaðan hafi verið sú að enn væru til staðar merki um afleiðingar heilaskaða með skertri einbeitingu, athygli, eirðarleysi, hvatvísi og skapsveiflum. Fram komi að í samráði við geðlækni hafi verið ákveðið að reyna lyfjameðferð vegna framheilaeinkenna. Þá hafi stefnanda verið ráðlagt að fara í nám en ljóst sé að hann þurfi á töluverðum stuðningi að halda og því hafi verið ákveðið að sækja um starfsnám/starfsendurhæfingu í gegnum Tryggingar­stofnun ríkisins. Þá hafi stefnanda verið ráðlagt að athuga með vinnu við tiltölulega einföld eða afmörkuð störf og boðið upp á eftirfylgd/stuðning frá meðferðaraðilum á Grensás þar að lútandi. Með vísan til útreiknings Jóns Erlings frá 17. febrúar 2004 sé höfuðstólsverðmæti örorkulífeyris miðað við að örorkulífeyrir hafi verið greiddur frá desember 2002 og hafi verið að fjárhæð 19.990 krónur, 4.689.000 krónur og 2/3 hlutar 3.126.000 krónur. Fjárhæð 1. varakröfu sé því mismunur 3.126.000 og 9.118.000 króna sem réttargæslustefndi hafi dregið frá bótum til stefnanda eða 5.992.000 krónur. Varðandi 2. varakröfu sína kveður stefnandi að með örorkumati 29. október 2002 hafi stefnandi verið metinn 40% varanlegur miski. Hafi uppgjör réttargæslustefnda byggt á þeim grundvelli. Með mati Tryggingarstofnunar ríkisins hafi stefnandi verið metinn 75% öryrki sem svari til 100% örorku hjá stofnuninni. Eins og fyrr hafi verið vikið að og með vísan til reglugerðar 379/1999 sé byggt á því að mat Tryggingarstofnunar ríkisins sé nær því að vera mat á miska heldur en varanlegri örorku. Telur stefnandi að stefndi geti þannig ekki dregið frá bótum til hans hærri fjárhæð en sem nemi sambærilegri prósentutölu og réttargæslustefndi byggi uppgjör til hans á. Á þessum grunni krefjist stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu 5.432.800 króna sem séu 60% af þeirri fjárhæð sem stefndi hafi dregið af honum við lokauppgjör eða mismunur á 100% þ.e. mati Tryggingastofnunar og 40% miska samkvæmt mati sem stefndi hafi byggt uppgjör til stefnanda. Varðandi 3. varakröfu stefnanda þá kveður stefnandi að komið hafi fram að stefnandi hafi verið metinn 70% varanlegur öryrki og sé þannig gert ráð fyrir því að vinnufærni hans nemi 30%. Örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins miðist hinsvegar við 100% óvinnufærni og sé frádráttur réttargæslustefnda miðaður við fulla tekjutryggingu og örorkulífeyri. Stefnandi telur þannig að ekki sé samræmi á milli frádráttar og þess örorkumats sem réttargæslustefndi noti til uppgjörs örorkubóta. Sé því krafist greiðslu á 2.668.900 króna sem nemi 30% af þeirri fjárhæð sem réttar­gæslustefndi hafi dregið af stefnanda við lokauppgjör. Stefnandi vísar til sömu raka varðandi varakröfur sínar og hann gerir varðandi aðalkröfu sína. IV Stefndi kveðst byggja aðalkröfu sína um sýknu á því að með þeim greiðslum er réttargæslustefndi hafi þegar greitt stefnanda og þeim greiðslum sem stefnandi njóti vegna afleiðinga slyssins frá Tryggingastofnun ríkisins, sé hið umstefnda tjón fullbætt og því eigi stefnandi ekki rétt til frekari bóta úr hendi stefnda. Stefndi kveður ágreining málsins einkum lúta að túlkun á 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999, þ.e. að hve miklu leyti skuli draga greiðslur sem stefnandi fái frá almannatryggingum frá skaðabótakröfu hans á hendur stefnda. Með lögum nr. 37/1999 hafi verið gerðar veigamiklar breytingar á skaða­bótalögum nr. 50/1993. Hafi meginbreytingin falist í því að margföldunarstuðull laganna sé nú við það miðaður að tjónþoli fái að fullu bætt það tekjutap sem hann verði fyrir vegna varanlegrar örorku. Hafi margföldunarstuðull fyrri útgáfu skaðabótalaga verið ákveðinn með hliðsjón af því að tjónþoli héldi óskertum rétti til bóta frá þriðja manni, til dæmis almannatryggingum. Samhliða breytingu margföldunar­stuðuls hafi því með lögum nr. 37/1999 verið gerð sú breyting á 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga að frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns dragist greiðslur er tjónþoli fái frá almannatryggingum og 40% eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði. Miðist breytingin við að tjónþoli fái tjón sitt að fullu bætt, en ekki ofbætt, eins og reyndin yrði ef greiðslur þessar væru ekki dregnar frá. Í engu sé hróflað við þeirri reglu að bætur skerðist ekki vegna bótaúrræða sem tjónþoli hafi sjálfur kostað með greiðslu iðgjalda eða sambærilegum hætti. Með framangreindri breytingu skaðabótalaga sé því í raun horfið aftur til þeirra reglna um frádrátt greiðslna frá þriðja aðila frá skaðabótakröfu, er gilt hafi fyrir gildistöku skaðabótalaga. Eftir slysið hafi stefnandi verið metinn til 75% örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins. Veiti það honum rétt til tvenns konar greiðslna frá stofnuninni, örorkulífeyris og tekjutryggingar. Líti stefndi svo á að réttindi þessi hafi virkjast við slysið. Í greinargerð með 4. gr. l. 37/1999 segi að til frádráttar bótum samkvæmt skaða­bótalögum eigi að koma greiðslur af félagslegum toga sem komi í hlut tjónþola vegna örorkunnar. Sé því ljóst að draga beri eingreiðsluverðmæti þessara greiðslna frá skaðabótakröfu stefnanda. Samkvæmt yfirlýsingu Tryggingastofnunar ríkisins 12. febrúar 2003 muni stefnandi vera með 58.910 krónur á mánuði vegna 75% örorku. Sé þar um að ræða samtölu örorkulífeyris og tekjutryggingar. Hafi réttargæslustefndi fengið Jón Erling Þorláksson tryggingafræðing til að reikna út eingreiðsluverðmæti þessara greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins og sé niðurstaða hans sú að eingreiðsluverðmæti örorku­lífeyris sé 3.278.000 krónur og tekjutryggingar 5.840.000 krónur eða samtals 9.118.000. Þegar af þeirri ástæðu sé augljóst að stefnandi hafi fengið tjón sitt að fullu bætt með þeim greiðslum sem þegar hafi verið inntar af hendi. Haldi stefnandi því fram í aðalkröfu sinni að ekki sé hægt með vísan til 1. ml. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga að reikna greiðslur eins og þær hafi verið þann 1. desember 2002 til 67 ára aldurs hans og draga frá bótum til hans, þar sem örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins sem lagt sé til grundvallar gildi einungis til 31. janúar 2006. Þessari túlkun stefnanda á lagaákvæðinu mótmælir stefndi. Samkvæmt orðalagi ákvæðis 4. mgr. 5. gr. laganna, tilgreindum lögskýringagögnum svo og dómum Hæstaréttar í málum nr. 520/2002 og 223/2003 verði lögin ekki öðruvísi skýrð en að miða eigi framtíðarfrádrátt vegna greiðslna af félagslegum toga við þann tíma sem tjónþoli geti ekki vænst frekari bata. Verði það ekki gert nema mið sé tekið af því hvernig mál tjónþola standi á þeim tíma og ætla út frá því hvernig mál þróist í framtíðinni samkvæmt meðaltalslíkindareglu. Þá skuli áréttað að í greinargerðinni með 4. gr. frumvarps til laga um breytingu á skaðabótalögum nr. 50/1993, eins og þeim hafi verið breytt með lögum nr. 37/1999, komi fram að margföldunarstuðullinn í skaðabótalögum sé annars eðlis en hann hafi verið í upphafi samkvæmt skaða­bótalögum nr. 50/1993. Stuðullinn, eins og honum hafi verið breytt með lögum nr. 37/1999, meti heildartekjutap tjónþola, sem leiði til þess að draga verði frá hinni reiknuðu bótakröfu greiðslur af félagslegum toga frá 3ja manni, þ.á.m. greiðslur frá almannatryggingum. Að öðrum kosti myndu bætur til tjónþola vera hærri en raunverulegt fjártjón hans. Mat á líkamstjóni séu engin nákvæmnisvísindi og með engu móti sé hægt að segja til um með einhverri vissu eða nákvæmni hvernig heilsu tjónþola verði háttað í framtíðinni. Að mati stefnda myndi ríkja mikil óvissa í málum af þessum toga ef taka þyrfti mat á líkamstjóni upp á nokkurra ára fresti vegna tímabundinna örorkumata Tryggingastofnunar ríkisins. Þá bendir stefndi á að stefnandi virðist í aðalkröfugerð sinni ganga út frá því að hann verði með lægri örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins eftir 31. janúar 2006. Sé þar með ljóst að samhliða því þyrfti að endurskoða matsgerð læknanna Atla Þórs Ólasonar og Ragnars Jónssonar er snúi að örorku og miska samkvæmt skaðabótalögum. Í útreikningum Jóns Erlings Þorlákssonar sé réttilega miðað við metna 30% vinnugetu stefnanda til frambúðar og að meðalárslaun hans verði 508.050 krónur. Ekki sé deilt um viðmiðunartekjur í þessu máli og hafi tjónið verið gert upp á grundvelli lágmarkslauna 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Útreikningur bóta til stefnanda, eins og hann hafi verið ákveðinn með skaðabótalögum nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999 sé því ekki í andstöðu við 65., 72. og 76. gr. stjórnaskrárinnar. Hafi þessum málsástæðum jafnframt verið hafnað í áðurnefndum dómum Hæstaréttar. Hafi lögin verið sett með stjórnskipulegum hætti með það í huga að fjárhagsskaði tjónþola yrði fullbættur og samkvæmt þeim sé farið eins með alla tjónþola, sem eins hátti til um að þessu leyti. Þá sé varakröfum stefnanda mótmælt með sömu rökum og fram komi gegn aðalkröfu hans. Eigi þær það allar sammerkt, líkt og aðalkrafa hans, að eiga sér enga lagastoð. Varðandi varakröfur stefnanda skuli ennfremur bent á eftirfarandi: Í 1. varakröfu sinni gangi stefnandi út frá því að hann muni ekki halda tekjutryggingunni frá Tryggingastofnun ríkisins því hann hafi 30% vinnugetu samkvæmt áliti matsmanna, Ragnars og Atla Þórs. Hafi réttargæslustefndi látið trygginga­fræðing reikna út eingreiðsluverðmæti þessara greiðslna á stöðugleika­tímapunkti einmitt miðað við þær forsendur að hann héldi 30% lágmarkstekjum samkvæmt skaðabótalögum og hafi tjónið verið gert upp á þeim grundvelli. Þar sem tjón stefnanda hafi verið gert upp með hans samþykki á lágmarkslaunum samkvæmt skaðabótalögum geti hann ekki gefið sér að hann myndi hafa hærri laun í framtíðinni en sem því nemi. Þá megi þess að lokum geta að útreikningar Jóns Erlings geri ráð fyrir smávægilegri skerðingu á tekjutryggingu frá Tryggingastofnun ríkisins. Varðandi 2. varakröfu stefnanda sé mikilvægt að leggja ekki að jöfnu miska samkvæmt skaðabótalögum annars vegar og örorku Tryggingastofnunar ríkisins sem sé sambland af læknisfræðilegum og félagslegum þáttum og byggi á reglugerð 379/1999 hins vegar. Beri samkvæmt 4. mgr. 5. gr. að draga frá allar greiðslur sem stefnandi fái frá almannatryggingum. Því eigi það sér enga lagastoð að nota miskaprósentuna sem sé 40% við frádráttinn. Í 3. varakröfu sinni byggi stefnandi á því að einungis hafi átt að draga frá bótunum 70% eingreiðsluverðmætis greiðslna Tryggingarstofnunar ríkisins þar sem örorkumat stofnunarinnar miðist við 100% óvinnufærni. Í því sambandi skuli bent á að ekki megi leggja að jöfnu örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins sem sé sambland af læknisfræðilegum og félagslegum þáttum og varanlegri fjárhagslegri örorku samkvæmt skaðabótalögum. Það eigi sér því enga lagastoð að nota prósentustig varanlegrar örorku við frádráttinn. Verði ekki fallist á aðalkröfur stefnda sé þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega með vísan til þeirra röksemda sem að framan séu raktar varðandi aðalkröfu stefnda og að málskostnaður verði þá látinn niður falla. Þá sé kröfu um dráttarvexti mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi. V Eins og rakið hefur verið er hvorki deilt um bótaskyldu né fjárhæð bóta vegna örorku stefnanda heldur snýst ágreiningur aðila um það hvaða greiðslur skuli koma til frádráttar útreiknuðum bótum. Lýtur meginágreiningur aðila að skýringu á 1. málslið 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga eins og henni var breytt með 4. gr. laga nr. 37/1999 en þar segir meðal annars að frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns dragist greiðslur sem tjónþoli fái frá almannatryggingum. Í athugasemdum með frumvarpi að lögum nr. 37/1999 kemur fram að samkvæmt gildandi lögum dragist bætur frá almanna­tryggingum og lífeyrissjóði ekki frá bótum fyrir varanlega örorku. Í greinargerð með frumvarpi skaðabótalaga nr. 50/1993 komi fram að margföldunar­stuðull laganna hafi öðrum þræði verið ákveðinn með hliðsjón af því að tjónþoli héldi óskertum rétti til bóta frá þriðja manni t.d. almannatryggingum og vátryggingum. Þessi sjónarmið eigi ekki við í þessu frumvarpi. Margföldunarstuðull 5. gr. frumvarpsins sé annars eðlis en í gildandi lögum og við það miðaður að tjónþoli fái að fullu bætt það tekjutap sem hann verði fyrir vegna varanlegrar örorku. Vegna þess sé lagt til að til frádráttar bótum komi greiðslur af félagslegum toga sem komi í hlut tjónþola vegna örorkunnar. Í athugasemd með 4. gr. frumvarps að lögum nr. 37/1999 varðandi breytingu á 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga segir meðal annars að breytingar á frádrætti séu tvenns konar. Annars vegar sé gert ráð fyrir því í frumvarpinu að dregnar skuli frá bótum greiðslur frá almannatryggingum og hins vegar sé gerð tillaga um að frá bótum dragist 40% af verðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði. Áður en skaðabótalögin hafi tekið gildi árið 1993 hafi dómstólar haft verðmæti örorkulífeyris til hliðsjónar við ákvörðun bóta án þess þó að verðmætið væri dregið frá að fullu við ákvörðunina. Tekið skuli fram að almennt öðlist tjónþoli ekki rétt til örorkulífeyris frá lífeyrissjóði nema varanleg örorka hans sé að minnsta kosti 40%. Þá kemur fram í athugasemdunum að hér sé lagt til að 60% verðmætis örorkulífeyris komi til frádráttar bótum. Sé það í samræmi við það hlutfall sem algengast sé að vinnuveitandi greiði af iðgjaldi til lífeyrissjóðs. Örorkulífeyrir sé skattskyldur eins og aðrar tekjur. Tekjur sem stofn fyrir útreikning skaðabóta séu skertar um þriðjung vegna skattfrelsis og því þurfi að skerða örorkulífeyrinn sem komi til frádráttar með sama hætti. Frádrátturinn verði því 40% eða 2/3 af 60%. Þá sé nauðsynlegt við uppgjör bóta að reikna verðmæti örorkulífeyris til eingreiðslu og sé eðlilegt að sú fjárhæð sé fundin með sömu afvöxtunarprósentu og notuð sé til ákvörðunar á stuðlinum í 5. gr. Í 6. gr. skaðabótalaga eins og henni var breytt með 5. gr. laga nr. 37/1999 er mælt fyrir um hvernig meta skuli varanlega örorku til fjárhæðar á grundvelli örorkustigs tjónþola, árslauna hans og margfeldisstuðuls sem þar er ákveðinn en eins og að framan er rakið er stuðull þessi annars eðlis eftir breytinguna en áður gilti og við það miðaður að tjónþoli fái að fullu bætt fjárhagslegt tekjutap vegna varanlegrar örorku og af þeim sökum skuli dregnar frá bótum greiðslur af félagslegum toga. Af því sem nú hefur verið rakið verður ákvæði 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaganna ekki skýrt á annan veg en að bætur frá almannatryggingum sem stefnandi á rétt til komi til frádráttar bótagreiðslum. Framangreind lög voru sett með stjórnskipulegum hætti með það í huga að fjárhagsskaði tjónþola verði fullbættur og samkvæmt þeim er farið eins með alla tjónþola sem eins háttar til um að þessu leyti. Er útreikningur bóta eins og hann hefur verið ákveðinn með skaðabótalögum nr. 50/1993 sbr. lög nr. 37/1999 því ekki í andstöðu við 65. gr., 72. gr. eða 76. gr. stjórnarskrárinnar eða Mannréttindasáttmála Evrópu. Stefnandi telur enga heimild fyrir stefnda að draga frá bótagreiðslum uppreiknaðar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins frá desember 2002 til 67 ára aldurs stefnanda þar sem örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins sem greiðslur stofnunarinnar grund­vallist á gildi aðeins til 31. janúar 2006. Telur stefnandi að slíkur frádráttur stríði gegn þeirri grundvallarreglu skaðabótaréttar að tjónþoli eigi rétt á því að fá fullar bætur fyrir tjón sitt. Þá eigi frádrátturinn í þessari mynd sér enga lagastoð. Með greindum ákvæðum skaðabótalaga er leitast við að bæta áætlað framtíðartjón tjónþola og er útreikningurinn reistur á örorkustigi hans á þeim tíma sem upphaf örorkunnar miðast við og tekjum fyrir slysdag en staðlaður að öðru leyti. Samkvæmt orðalagi ákvæðis 4. mgr. 5. gr. laganna og framangreindum lögskýringargögnum verða lögin ekki skýrð á annan hátt en þann að miða beri framtíðarfrádrátt vegna greiðslna af félagslegum toga við þann tíma sem tjónþoli getur ekki vænst frekari bata eða við svokallaðan stöðugleikapunkt. Verður það ekki gert nema mið sé tekið af því hvernig mál tjónþola standa á þeim tíma og ætla út frá því hvernig mál komi til með að þróast í framtíðinni samkvæmt meðaltalslíkindareglu. Tjón stefnanda var reiknað út á grundvelli niðurstöðu matsmanna um áhrif slyssins á heilsu stefnanda og var samkomulag milli aðila um viðmiðunartekjur í því sambandi. Þá var í uppgjöri gert ráð fyrir að stöðugleikatímapunktur teldist vera 3. júní 2001, það er þegar ekki mátti vænta frekari bata í samræmi við niðurstöðu matsmanna. Eins og rakið er í matsgerðinni telja matsmenn að núverandi einkenni stefnanda, tengd framheilaskaða með skorti á sjálfsstjórn, skipulagshæfni, einbeitingu og námsgetu, muni há honum verulega í allri framtíð. Hann muni ekki geta náð eðlilegum þroska unglingsáranna og ekki geta verið á vinnumarkaðinum nema tekið sé tillit til fötlunar hans og eftirlit sé haft með honum. Matsmenn gera þó ráð fyrir að slíkir starfsmöguleikar kunni að koma upp. Í vottorði Guðrúnar Karlsdóttur endur­hæfingarlæknis 13. apríl 2004 kemur fram að ákveðið hafi verið í samráði við geðlækni að reyna lyfjameðferð á stefnanda vegna framheilaeinkenna og að stefnanda hafi verið ráðlagt að fara í nám þótt ljóst sé að hann þurfi á töluverðum stuðningi að halda. Þá kemur fram í vottorði Gunnars Kr. Guðmundssonar endurhæfingalæknis að mælt sé með því að stefnandi fái atvinnu með stuðningi meðan hann er að fóta sig á vinnumarkaði. Stefnandi hóf nám til meiraprófs við Nýja ökuskólann 17. september 2004 en ekki liggja fyrir í málinu upplýsingar um hvar hann er staddur í því námi. Af framangreindum gögnum verður ráðið að ef stefnandi kemur til með að fara út á vinnumarkaðinn, hvort sem hann lýkur því námi sem hann hefur hafið til meiraprófs í Nýja ökuskólanum eða ekki, er ljóst að hann þarf töluverðan stuðning til þess að það geti gengið upp enda hefur stefnanda verið metin 70% varanleg örorka. Er því eins og staðan er í dag ólíklegt að stefnandi komi til með að vinna sér inn tekjur sem nemi hærra hlutfalli en samsvarar 30% af vinnugetu þeirri sem talið er að hann hafi eftir slysið. Með vísan til þess að taka verður mið af því hvernig staða stefnanda var á stöðugleikatímapunkti, sem eftir því sem best verður séð er óbreytt í dag, verður að ætla samkvæmt meðaltalslíkindareglu að afar ólíklegt sé að bætur þær sem stefnandi fær í dag frá Tryggingastofnun ríkisins muni skerðast eftir 31. janúar 2006, en samkvæmt ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins voru læknisfræðileg skilyrði örorkulífeyris uppfyllt frá 1. desember 2002 til 31. janúar 2006 og endurmat skal fara fram í janúar 2006. Var stefnda því rétt með vísan til 1. ml. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaganna að draga frá bótagreiðslum greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins uppreiknaðar miðað við stöðugleikapunkt þann 3. júní 2001 til 67 ára aldurs stefnanda. Þegar af þessari ástæðu nær útreikningur stefnanda á frádrætti samkvæmt aðalkröfu hans alltof skammt. Þá virðist í útreikningum tryggingafræðings sem stefnandi leggur til grundvallar aðalkröfu og 1. varakröfu einungis vera gert ráð fyrir að stefnandi fái greiddan örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins en ekki tekjutryggingu auk þess sem viðmiðunarfjárhæð varðandi örorkulífeyri er lægri en stefnandi fær samkvæmt fyrirliggjandi gögnum í málinu. Eru forsendur þessara útreikninga því rangar. Hvað snertir 2. og 3. varakröfu stefnanda þá fær útreikningur stefnanda á frádrætti hvað þær snertir ekki stoð í 1. ml. 4. mgr. 5. gr. skaðabóta­laganna eða lögskýringargögnum með því ákvæði og er ekkert sem styður það að frádráttur vegna greiðsla sem tjónþoli fær frá almannatryggingum eigi að takmarkast við prósentustig varanlegs miska eða varanlegrar örorku sem metið hefur verið á grundvelli skaðabótalaga. Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið var rétt við útreikning höfuð­stólsverðmætis greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins, sem stefnda var heimilt að draga frá bótagreiðslum til stefnanda, að miða við þær fjárhæðir sem óumdeilt er að stefnandi fær frá Tryggingastofnun ríkisins, stöðugleikapunkt þann 3. júní 2001, lágmarkslaun miðað við 30% starfsgetu og að stefnandi komi til með að fá þessar greiðslur til 67 ára aldurs. Eins og gert er ráð fyrir í útreikningum Jóns Erlings Þorlákssonar, sem ekki hefur verið hnekkt, og stefndi byggir kröfur sínar á er upp­reiknað höfuðstólsverðmæti þessara greiðslna miðað við framangreindar forsendur 9.118.000 krónur sem er sú fjárhæð sem réttargæslustefndi dró frá bóta­greiðslum til stefnanda. Með þeim greiðslum sem réttargæslustefndi hefur þegar innt af hendi til stefnanda hefur hann því fengið að fullu bætt að tekjutap sem hann varð fyrir vegna þeirrar varanlegu örorku sem hann hlaut í slysinu 3. júní 2000 og verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Eftir atvikum þykir þó rétt að hvor aðili beri sinn hluta málskostnaðar. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er málflutningsþóknun lögmanns hans, sem þykir hæfilega ákveðin 660.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði. Af hálfu stefnanda flutti málið Lilja Jónasdóttir hrl. en af hálfu stefnda flutti málið Sigurður B. Halldórsson hdl. Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan. DÓMSORÐ: Stefndi, Örn Thorstensen, er sýknaður af kröfum stefnanda, Atla Sigurðssonar. Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda sem er málflutnings­þóknun lögmanns hans, 660.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur, greiðist úr ríkissjóði.
Mál nr. 341/1998
Vinnuslys Sjómaður
B slasaðist um borð í togara í eigu S er hann skar sig á vasahnífi í litlafingur. Skipstjórinn saumaði sárið í samráði við lækni og gaf B sýklalyf. Að mati læknis í landi var ekki ástæða til að fara með B til næstu hafnar, en þangað var 8 til 9 klukkustunda sigling. Sýking komst í sárið og rúmum tveimur árum eftir slysið var gerð aðgerð á B þar sem hluti fingursins var fjarlægður. B krafði S um bætur fyrir miska, varanlega örorku og töpuð lífeyrisréttindi á grundvelli þess að um hefði verið að ræða stórkostlegt gáleysi skipstjórans. Ekki var talið að snúa ætti sönnunarbyrði við í málinu og leggja hana á S. Þá var ekki talið að byggja ætti ábyrgð S á því að vasahnífurinn sem B skar sig á hefði verið bilað eða gallað tæki í skilningi skaðabótaréttar. Talið var ósannað að meðhöndlun skipstjórans hafi átt þátt í varanlegri örorku B. Var niðurstaða héraðsdóms um sýknu S af kröfum staðfest.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir og Haraldur Henrysson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. ágúst 1998 og krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 3.920.100 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 23. október 1990 til greiðsludags og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst þess aðallega, að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti, en til vara, að sök verði skipt, kröfur áfrýjanda lækkaðar og málskostnaður felldur niður. Vátryggingafélagi Íslands hf. hefur verið stefnt fyrir Hæstarétt til réttargæslu. I. Samkvæmt ljósriti úr dagbók togarans Skafta SK 3, sem lagt var fyrir Hæstarétt, var skráð eftirfarandi sunnudaginn 21. október 1990: „Kastað í Rósagarði 10.oo dregið suður af ... Bertel Benediktsson sker sig á vasahníf í litlafingur saumað sk læknisr.“ Ágreiningur málsaðila lýtur að orsökum og afleiðingum þessa slyss. Málavöxtum og málsástæðum aðila er lýst í héraðsdómi. Fallist verður á með héraðsdómi, með vísan til forsendna hans, að sönnunarbyrði verði ekki snúið við og lögð á stefnda í máli þessu. Einnig ber að fallast á, með vísan til röksemda héraðsdóms, að sök stefnda verði ekki á því reist að vasahnífurinn hafi verið bilað eða gallað tæki í skilningi skaðabótaréttar. Aðferð áfrýjanda við að opna hnífinn getur og ekki talist venjuleg. II. Áfrýjandi kom til skoðunar hjá Ara Helga Ólafssyni, sérfræðingi í bæklunar- og handaskurðlækningum, á bæklunardeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri 6. nóvember 1990. Þar gekkst áfrýjandi undir aðgerð á fingrinum 16. sama mánaðar. Í ljós kom að önnur beygisinin út í fingurinn hafði skorist í sundur. Að sögn læknisins hafði sjálf sinin dregist alveg upp í hendi og þurfti að sækja hana þangað og þræða aftur út í litla fingur til að tengja afskornu endana. Þarna hafði myndast allmikill örvefur, sem þurfti að hreinsa burt. Daginn eftir var sett sérstakt togstrekk til þess að minnka stirðleika og fá betri árangur af aðgerðinni. Áfrýjandi var með togstrekkið til 13. desember 1990, og kom nokkrum sinnum til eftirlits. Að mati læknisins varð árangur aðgerðarinnar ekki nægilega góður og allmikil kreppa kom í fingurinn. Í vottorði 26. júní 1991 taldi læknirinn rétt að bíða og sjá hvernig gengi, en með haustinu kæmi sterklega til greina að gera svokallaða tenolys-aðgerð, þar sem losaðir væru samvextir við sinar og jafnvel við liði. Í þessu vottorði tjáði læknirinn sig um þá skoðun, sem sett hafði verið fram, að áfrýjandi „hefði helst þurft að komast til læknis innan 6 í mesta lagi 12 klukkutíma ef ekki hefði átt að fara svo illa sem raun ber vitni.“ Læknirinn kvaðst ekki sammála þessari fullyrðingu. Það skipti miklu meira máli hvernig meðferð sjálft sárið fengi í byrjun. Fái sár rétta meðferð í byrjun sé yfirleitt hægt að reikna með að fá þokkalega góðan árangur þó að líði allt að mánuður fram að sinasaumi. „Í þessu tilviki eru samt sennileg röð af óheppilegum aðstæðum. Það hefði til dæmis ekki átt að sauma sárið úti á sjó þar sem ekki eru fullkomnar sótthreinsaðar aðstæður. Sennilega hefur það að einhverju leyti orsakað bólgu sem var í fingrinum og meiri örmyndun. Eingöngu hefði átt að þvo sárið og hreinsa vel og setja sótthreinsaðar umbúðir.“ Annað vottorð læknisins er dagsett 1. nóvember 1992. Þar kemur fram að í febrúar 1992 hafi áfrýjandi ekki haft áhuga á því að fara út í frekari aðgerðir á fingrinum, en í apríl sama árs hafi hann lýst áhuga sínum á aðgerðinni. Í september og október hafi þeir talað saman og aðgerðartími hafi verið ákveðinn 10. desember 1992. Í lok vottorðsins, sem skrifað var að beiðni þáverandi lögmanns áfrýjanda, segir læknirinn að rétt sé að láta líða a.m.k. þrjá til fjóra mánuði eftir fyrirhugaða aðgerð þar til reynt verði að meta lokaárangur. Þriðja vottorð Ara Helga Ólafssonar læknis er frá 10. janúar 1993 og skrifað til sama lögmanns. Þar segir meðal annars: „Sjúklingur lá nú inni á Bæklunardeild FSA 09.12. - 10.12.1992. Við skoðun á fingrinum kom í ljós að puttinn var festur í kreppu að minnsta kosti jafn mikilli og búið var að vera í mjög langan tíma ef eitthvað er var kreppan orðin meiri. Útlit fingursins við skoðun var þannig að ekki var talið líklegt að góður árangur yrði af neinum þeim aðgerðum sem reyna má í því skyni að rétta úr fingri og fá í hann hreyfingu aftur. Þannig að ákveðið var í samráði við sjúkling að gera stúfhögg á litlafingrinum ...“ Varanleg örorka áfrýjanda af þessu var metin 8%. III. Áfrýjandi reisir kröfur sínar á hendur stefnda á því, að hann hefði átt að komast undir læknishendur eins fljótt og verða mátti. Höfuðorsök örorku hans sé stórkostlegt og vítavert gáleysi skipstjórans við þær læknisaðgerðir sem hann hafi tekist á hendur til að gera að áverkanum. Hefði þetta gáleysi ekki komið til séu allar líkur fyrir því að fingri hans hefði verið bjargað. Svo sem í héraðsdómi greinir var Ari Helgi Ólafsson læknir spurður um þetta atriði fyrir dómi. Kjarni svara hans var, að tíminn sjálfur hafi ekki skipt sköpum heldur hitt, hvernig búið var um sárið í byrjun, og einnig, að margar samverkandi ástæður væru fyrir því að fingurinn krepptist og árangur af aðgerð varð ekki sem skyldi. Hann lagði áherslu á að sýkingin sem kom hafi þarna haft áhrif. Í því sambandi athugast, að skipstjórinn kvaðst hafa gefið áfrýjanda penísillín eins og læknirinn ráðlagði, og kvaðst áfrýjandi hafa fengið töflurnar. Skipstjórinn bar hins vegar fyrir héraðsdómi, að áfrýjandi hafi ekki tekið töflurnar og sagt að hann þyrfti það ekki, það græfi aldrei í sér. Þessu var ekki mótmælt af áfrýjanda. Skipstjórinn kvaðst hafa farið eftir ráðleggingum læknis á Höfn í Hornafirði þegar hann bjó um sárið og saumaði það saman. Það verður ekki dregið í efa nú. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður fallist á þá niðurstöðu hans, að ósannað sé að meðhöndlun skipstjóra hafi átt þátt í hinni varanlegu örorku áfrýjanda. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur. Rétt þykir að hvor aðila beri sinn málskostnað fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Hvor aðila beri sinn málskostnað fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 27. maí 1998. I. Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum flutningi 15. apríl sl., er höfðað af Bertel Benediktssyni, kt. 181166-4799, Hátúni 6, Reykjavík með stefnu útgefinni 28. október 1997 og þingfestri 11. nóvember 1997 á hendur Fiskiðjunni Skagfirðingi hf., kt. 461289-1269, Eyrarvegi 18, Sauðárkróki. Til réttargæslu stefndist Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík. Endanlegar dómkröfur stefnanda. Stefnandi krefst þess, að Fiskiðjunni Skagfirðingi verði gert að greiða sér 3.920.100 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 23. október 1990 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til þess að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur. Ekki eru hafðar uppi sjálfstæðar kröfur á hendur réttargæslustefnda. Dómkröfur stefnda. Stefndi, Fiskiðjan Skagfirðingur hf., krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda en til vara að sök verði skipt, stefnukröfur lækkaðar stórlega og málskostnaður felldur niður. Réttargæslustefndi gerir ekki kröfur í málinu. II. Málavextir. Þann 23. október 1990 var stefnandi við vinnu sína, sem háseti, um borð í togaranum Skafta SK-3 frá Sauðárkróki er skipið var á veiðum í Rósagarðinum miðja vegu milli Íslands og Færeyja. Skipverjar voru að skera úr og bæta troll skipsins. Við starf sitt ætlaði stefnandi m.a. að nota vasahníf af algengustu gerð sem er þannig gerður að blað hnífsins er fellt inn í skaftið þegar ekki er verið að nota hnífinn. Hnífinn hafði hann fengið afhentan um borð í skipinu. Að sögn stefnanda hafði hann fengið hnífinn nýjan daginn áður en honum gekk strax illa að opna hann. Í þetta sinn greip hann því til þess ráðs að setja blað hnífsins í skrúfstykki og reyndi að opna hann með því að toga í skaftið. Virðist sem hnífurinn hafi opnast að einhverju leyti en skroppið úr skrúfstykkinu áður en hann opnaðist alveg. Þegar hnífurinn losnaði úr festingunni small hann saman og skar stefnanda í litla fingur hægri handar. Stefnandi kveðst hafa sýnt bátsmanni sárið og hann hafi farið með stefnanda til skipstjóra, Sverris Kjartanssonar. Skipstjóri hafði strax samband við lækni á Höfn í Hornafirði. Að sögn stefnda bað læknirinn skipstjórann að spyrja stefnanda hvort hann hefði tilfinningu í fingrinum sem stefnandi hafði. Að þessum upplýsingum fengnum hafi læknirinn sagt skipstjóranum að sauma sárið saman, búa um það og gefa stefnanda pencillin. Að mati læknisins hafi ekki verið ástæða til að fara með stefnanda í land en til næstu hafnar var milli 8 og 9 klukkustunda sigling. Skipstjóri fór að ráðleggingum læknisins og saumaði sárið saman með fjórum sporum og gaf stefnanda penisillíntöflur og lét hann að auki hafa umbúðir til skiptanna. Stefnandi kveðst ekki hafa heyrt samtal skipstjórans og læknisins. Hann kveðst hafa unnið áfram eins og hann gat en það hafi ekki verið mikið. Að sögn stefnanda var farið að grafa mjög í sárinu á sjötta degi og hann hafi þá fengið lítinn hníf hjá skipstjóranum og skorið á saumana og tekið þá úr en við það hafi komið gröftur út um götin eftir saumana. Hann kveðst þá hafa stungið gat á sárið, sem var bólgið og þrútið, og hleypt greftrinum út. Síðan hafi hann hreinsað sárið og búið aftur um það og síðan hafi allt virst vera í lagi þann tíma sem var eftir af veiðiferðinni. Afla skipsins átti að selja erlendir og kom það við í Færeyjum u.þ.b. hálfum mánuði eftir slysið og þar fór stefnandi af og flaug heim til Íslands. Daginn eftir að stefnandi kom heim fór hann til læknis sem vísaði honum til Ara H. Ólasonar, sérfræðings í handar- og bæklunarskurðlækningum. Ari framkvæmdi aðgerð á hendi stefnanda þann 16. nóvember 1990 þar sem hann taldi afltaug hafa farið í sundur. Þar sem stefnanda versnaði í fingrinum gekkst hann undir aðra aðgerð þann 10. desember 1992. Í síðari aðgerðinni var hluti litlafingursins fjarlægður með svokölluðu stúfhöggi. Stefnandi fór í örorkumat þann 7. mars 1991 og var varanleg örorka hans þá metin 3%. Í ágúst 1993 fór hann aftur í örorkumat vegna aðgerðarinnar sem gerð var í desember 1992. Í því mati var varanleg örorka hans, af Júlíusi Valssyni, lækni metin 8%. Að sögn stefnanda hefur hann alltaf talið að útgerð skipsins bæri skaðabótaábyrgð á tjóni sínu en hann hafi falið lögmanni að ganga frá málinu fljótlega eftir að örorkumatið frá 1993 lá fyrir. Hins vegar hafi ekkert gerst í málinu og hann hafi því tekið málið úr höndum lögmannsins á árinu 1997. Núverandi lögmaður hans hafi skrifað réttargæslustefnda bréf 30. júní sl. og krafist svars um bótaskyldu félagsins. Þann 4. ágúst hafi réttargæslustefndi hafnað bótaskyldu og því hafi mál þetta verið höfðað. III. Málsástæður og lagarök stefnanda. Stefnandi byggir kröfu sína á því, að höfuðorsök örorku hans sé stórkostlegt og vítavert gáleysi skipstjóra togarans Skafta við þær ,,læknisaðgerðir” sem hann gerði á stefnanda. Á gáleysi skipstjórans beri útgerð skipsins vinnuveitendaábyrgð. Einnig er á því byggt að vítavert hafi verið af skipstjóranum að koma stefnanda ekki undir læknishendur eins skjótt og kostur var en hann hefði þurft að komast til læknis innan 6 klukkustunda frá slysinu en hann komst ekki til læknis fyrr en að 16 sólarhringum liðnum. Stefnandi byggir á því að hann hafi skýrt skipstjóranum frá því að hann gæti ekki kreppt fingurinn og að hann teldi eitthvað vera í sundur. Stefnandi byggir einnig á því að hann hafi ekki fengið þá ummönnun sem skylt var að veita honum, skv. 34. gr. sjómannalaga, eftir slysið. Hann hafi ekki mátt reyna á handlegginn en þrátt fyrir það hafi honum verið haldið til verka. Þá byggir stefnandi á því, að stefndi beri alfarið sönnunarbyrgðina í málinu miðað við þau gögn sem lögð hafa verið fram í málinu. Í þessu sambandi bendir hann á að ekkert hafi verið skráð í skipsbækur um slysið eins og skylt var skv. 5. mgr. 221. gr. siglingarlaga. Hér sé rétt að horfa til þess að ef vafi er um hvort örorka stefnanda orsakist af ,,læknisverkum” skipstjórans eða því að stefnandi komst ekki undir læknishendur eins skjótt og kostur var þá verði að skýra þann vafa stefnanda í hag. Stefnandi byggir kröfur sínar einnig á því, að vasahnífur sá sem honum var fenginn hafi verið vanbúinn eða gallaður, en verulega erfitt hafi verið að opna hnífinn. Stefnandi hafi orðið að liðka hnífinn til þess að hann kæmi að gagni og við það verk hafi hann skorið sig vegna vanbúnaðar hnífsins. Stefnandi sundurliðar stefnukröfu sína, sem byggð er á örorkutjónsútreikningum Jóns Erlings Þorlákssonar, tryggingafræðings, þannig: Stefnandi telur að ekki beri að lækka bætur til hans vegna skattfrelsis bótanna því með því sé viðkomandi tryggingafélag að seilast inn á verksvið skattyfirvalda. Bendir hann á í því sambandi að skv. skattalögum séu örorkubætur skattfrjálsar. Með lækkun bótanna njóti skaðvaldurinn skattahagræðisins en ekki tjónþolinn og slíkt sé andstætt stjórnarskrárvernduðum eignarétti hans. Kröfu sína um miskabætur byggir stefnandi á því, að slysið hafi gert honum ómögulegt að stunda sjómennsku, sem hann hafi valið sér sem lífsstarf. Slysið hafi breytt stöðu hans og högum, t.d. hafi hann flutt búferlum til Akureyrar þar sem hann stundi nú léttari vinnu. Einnig sé á hægri hendi hans lýti. Stefnandi vísar til almennra reglna skaðabótaréttarins um vinnuveitendaábyrgð. Einnig vísar hann til sakarreglunnar varðandi aðgerðir skipstjórans. Vísar hann einnig til þeirrar sönnunarreglu að þar sem orsakasamband hafi hugsanlega verið milli sakar og tjóns, skuli tjónþoli njóta vafans. Þá vísar hann til reglna skaðabótaréttarins um vanbúin tæki og loks til grundvallarreglna um vinnuvernd. Málsástæður og lagarök stefnda. Stefndi byggir á því, að skipstjóri Skafta SK-3 eða aðrir skipverjar hafi ekki valdið slysi stefnanda og örorku. Þá verði örorkan ekki rakin til bilunar eða galla í búnaði skipsins. Bótaábyrgð útgerðarmanns fari eftir sakarreglu 171. gr. siglingarlaga nr. 34/1985 og ólögfestum reglum um bilun og galla í búnaði skips ef því er til að dreifa. Stefndi mótmælir sérstaklega að skipstjórinn hafi sýnt af sér nokkurt gáleysi við meðferð á áverkum stefnanda. Skipstjórinn hafi saumað sárið saman og búið um það en ekki siglt í land allt samkvæmt ráðleggingum læknis. Jafnframt hafi stefnandi fengið eðlilega ummönnun eftir slysið. Örorka stefnanda hafi komið til vegna röð óheppilegra aðstæðna sem engum var um að kenna og í þessu sambandi bendir stefndi á ummæli Ara H. Ólafssonar, bæklunarlæknis í vottorði hans, en þar komi fram að engum sköpum hafi skipt um afleiðingar slyssins þó stefnandi hafi ekki komist undir læknishendur fyrr en hann gerði. Stefndi reisir kröfur sínar á því að slysið verði rakið til óhappatilviljunar eða aðgæsluleysis stefnanda sjálfs. Óþarft og gáleysislegt hafi verið af honum að reyna að opna hnífinn með þeim hætti sem hann gerði í stað þess að biðja un nýjan hníf en með því hefði hann varnað slysinu. Stefnandi sé vanur sjómaður og því hafi hann átt að kunna sér forráð í þessum efnum. Þá hafi hnífurinn hrokkið úr skrúfstykkinu fyrir óhappatilviljun eða þá að stefnandi herti ekki nægilega vel að honum en hafi svo verið sé við stefnanda sjálfan að sakast. Þá byggir stefndi á því að vasahnífur sá sem stefnandi fékk hafi ekki verið vanbúinn eða gallaður þannig að slys stefnanda og örorku megi rekja til þess. Stefnandi hafi viðurkennt að hnífurinn hafi ekki verið í notkun nema einn sólarhring. Hafi hnífurinn hins vegar verið stirður og ryðgaður eins og stefnandi haldi fram, hafi hann átt að óska eftir nýjum hníf sem hann hefði fengið. Ekki sé við neinn að sakast þó hnífur sem annað járn ryðgi úti á sjó. Hins vegar flokkist slíkt ekki undir bilun eða galla í tæki í skilningi laga. Stefndi mótmælir því, að sönnunarbyrgði verði snúið við eða slakað á kröfum um sönnun sem gera eigi til stefnanda. Með lögreglurannsókn sé upplýst að hnífur sá sem stefnandi skar sig á hafi farið fyrir borð og því hafi ekki verið unnt að skoða hann og þá séu læknisfræðilegar afleiðingar slyssins þess eðlis að þær hefðu ekki upplýst neitt betur við sjópróf. Stefndi styður varakröfu sína þannig, að meginorsök slyssins og afleiðinga þess verði rakin til óhappatilviljunar og stefnanda sjálfs auk óheppilegra læknisfræðilegra aðstæðna. Af þeim sökum verði stefnandi að bera meginhluta tjóns síns sjálfur í hlutfalli við sök. Auk þess verði að lækka stefnukröfur verulega þar sem þær séu allt of háar. Einnig mótmælir stefndi örorkumati Júlíusar Valssonar læknis sem allt of háu. Stefndi telur að lækka beri bætur vegna varanlegrar örorku stórlega vegna skattfrelsis bótanna og eingreiðsluhagræðis samkvæmt dómvenju. Um misskilning sé að ræða hjá stefnanda haldi hann að hann eigi stjórnarskrárverndaðan rétt vegna þessa en fyrir þessu sé löng dómvenja. Einnig beri að draga frá þessum bótum greiðslur úr atvinnuslysatryggingu sjómanna og bætur úr almannatryggingum og lífeyrissjóði. Stefndi mótmælir miskabótakröfu stefnanda sem allt of hárri og andstæðri dómvenju en eðlilegar miskabætur í máli þessu gætu verið 100.000 til 150.000 krónur. Loks er vaxtakröfu stefnanda mótmælt sérstaklega. Dráttarvextir eldri en 4 ára frá stefnubirtingu séu fyrndir og þá beri ekki að dæma fyrr en frá og með dómsuppsögu. IV. Niðurstaða. Af hálfu stefnanda var á því byggt við munnlegan flutning málsins, að hann hafi átt skýlausan rétt á að komast undir læknis hendur eins skjótt og kostur var og allar tafir á því séu stefnda að kenna og þar með beri hann fébótaábyrgð á tjóni stefnanda. Þegar réttur stefnanda til að komast til læknis er metinn verður að skoða aðstæður eins og þær voru þegar slysið átti sér stað. Í málinu hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að ástæða hafi verið til að sigla með stefnanda í land vegna meiðsla hans. Fram kom í framburði Ara H. Ólafssonar, sérfræðings í handaskurðlækningum að ekki hafi skipt máli þó stefnandi hafi ekki komist til læknis fyrr en hann gerði. Af þessum sökum verður ekki fallist á þetta sjónarmið stefnanda. Af hálfu stefnanda hefur því og verið haldið fram að stefndi beri sönnunarbyrgði í máli þessu þar sem sjópróf hafi ekki verið látin fara fram vegna málsins. Í 219. gr. siglingarlaga nr. 34/1985 eru ákvæði um hvenær sjópróf skuli haldin. Þar segir m.a. að sjópróf skuli halda ef skipverji andast eða verður fyrir meiri háttar líkamstjóni. Ætla má að stefnandi telji að sjópróf hefðu átta að fara fram þar sem hann varð fyrir meiri háttar líkamstjóni. Af gögnum málsins má sjá að stefnandi var úrskurðaður með 3% varanlega örorku 5 mánuðum eftir að hann kom í land. Það var ekki fyrr en í lok árs 1992 sem hluti fingurs stefnanda er fjarlægður með svokölluðu stúfhöggi og eru þá liðin rúm 2 ár frá slysinu. Telja verður að ekki hafi verið ástæða fyrir útgerð skipsins að óska eftir sjóprófum strax og komið var til hafnar eftir slysið þar sem ekkert benti til að afleiðingar slyssins yrðu að meiri háttar líkamstjóni stefnanda, en aðrar ástæður voru ekki til að óska eftir sjóprófi. Verður því ekki talin ástæða til að snúa sönnunarbyrgði við í málinu vegna þess að ekki fór fram sjópróf. Í þessu sambandi verður og að hafa í huga að fyrir dóminn mátti hæglega leiða vitni sem borið gátu um allt það sem fram hefði komið við sjópróf. Fyrir liggur að engin vitni voru að slysi stefnanda en hins vegar er ekki deilt um atvik. Stefnandi var að liðka vasahníf og hafði sett hann í skrúfstykki en þegar hann togaði í skaftið losnaði hnífurinn og stefnandi skar sig. Hann fór til skipstjóra sem hringdi í lækni og fékk upplýsingar um hvað gera bæri. Vitnið Ari Helgi Ólafsson, sérfræðingur í bæklunar- og handarskurð-lækningum bar að áverkinn hafi verið þess eðlis, eftir því sem fram kom síðar, að stefnandi hafi þurft á læknisaðstoð að halda eins fljótt og kostur var. Vitnið taldi að læknir hefði vísað honum til sérfræðings þar sem í ljós kom að hann hafi ekki getað beygt fingurinn. Að mati vitnisins var erfitt að segja til um hvort stefnandi hefði sloppið við örorkuna ef ekkert hefði verið gert að sárinu og stefnandi komist eins fljótt og kostur var til læknis. Aðspurt kvaðst vitnið, ef sér hefði verið sagt að stefnandi gæti ekki beygt fingurinn, ekki hafa ráðlagt að sárið yrði saumað saman. Að mati vitnisins átti ekki að sauma sárið saman en vitnið tekur jafnframt fram að það atriði sé umdeilt meðal lækna. Í þessu tilfelli hafi verið aðalatriði að hreinsa sár vel. Ef sárið hafi verið skítugt þá hafi ekki átt að sauma það. Vitnið kveðst ekki geta fullyrt um höfuðorsök bæklunarinnar en mjög slæmt hafi verið að sýking komst í sárið því með því jókst örvefsmyndun. Þegar vitnið sá stefnanda fyrst hafi fingurinn verið stirður og bólginn sem einnig hafi verið slæmt. Að mati vitnisins er mjög erfitt að segja til um hversu miklu máli, til hins verra, saumaskapurinn skipti. Nokkrir þættir hafi getað verið til hins verra t.d. að sárið hafi verið óhreint í byrjun, ekki hreinsað nægilega vel, var saumað, síðan kom sýking í það. Allt þetta hafi haft áhrif þannig að þegar aðgerðin var gerð voru aðstæður ekki eins góðar og þær hefðu getað verið. Við mat á sök skipstjórans, vitnisins Sverris Kjartanssonar, verður að hafa í huga að hann gat ekki séð að sin var í sundur í fingrinum enda verða ekki gerðar sömu kröfur til hans og læknis eða hjúkrunarfræðings. Að mati dómsins brást skipstjórinn við á réttan hátt við slysinu og gerði það sem honum bar. Hann hringdi til læknis og fékk ráðleggingu um að hreinsa sárið, sauma það saman og gefa stefnanda fúkkalyf. Þá verður og á því byggt að stefnanda hafi ekki verið haldið til vinnu enda bar hann sjálfur hér fyrir dómi að hann hafi ekki geta unnið. Jafnframt bar skipstjórinn að læknirinn hafi ekki talið ástæðu til að sigla með stefnanda í land og því hafi það ekki verið gert. Ákvörðun um að sigla ekki í land hafi einungis verið byggð á ráðleggingum læknisins og engu öðru. Með því að framfylgja leiðbeiningum læknisins verður að telja skipstjórann hafa hagað sér eins og góðum og gegnum skipstjóra bar við kringumstæður sem þessar. Með vísan til þess sem að framan er rakið verður stefnandi að bera sönnunarbyrgðina fyrir því að hann hafi ekki fengið að tala við lækninn eins og hann bar hér fyrir dómi. Skipstjórinn bar hins vegar að hefði stefnandi óskað eftir að fá að tala við lækninn hefði það verið auðsótt mál og læknirinn hefði að sjálfsögðu fengið að tala við stefnanda hefði hann óskað þess. Í lögregluskýrslu sem stefnandi gaf vegna slyssins er þess ekki getið að hann hafi ekki fengið að tala við lækninn. Stefnandi ber einnig hallan af því að ósannað er að hann hafi sagt skipstjóranum að hann gæti ekki beygt fingurinn og að eitthvað væri í sundur í fingrinum. Ekki verður séð að önnur rök en þau sem að framan er getið eigi við um 34. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og telst skipstjóri því ekki hafa gerst brotlegur gangvart ákvæðum þeirrar greinar með því að haga aðgerðum eins og hann gerði. Af hálfu stefnanda er einnig á því byggt, að hnífur sá er hann skar sig á hafi verið bilaður eða gallaður í skilningi skaðabótalaga. Óumdeilt er að stefnandi skar sig á venjulegum vasahníf sem hann hafði að eigin sögn fengið nýjan skömmu fyrir slysið. Ekki er unnt að fallast á með stefnanda að stirðleiki í vasahníf sé bilaður eða gallaður hnífur í skilningi skaðabótaréttar. Hér verður einnig að hafa í huga að aðferð stefnanda við að opna hnífinn getur ekki talist venjuleg notkun á hnífnum. Hnífurinn var ekki rannsakaður eftir slysið en stefnandi taldi að hann hafi farið fyrir borð. Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki annað séð en tjón stefnanda verið rakið til óhappatilviljunar sem engum er um að kenna en ekki til sakar starfsmanna stefnda sem hann beri ábyrgð á skv. 171. gr. siglingarlaga og verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Við munnlegan flutning málsins bar stefnandi fyrir sig að stefndi bæri ábyrgð á ráðleggingum læknisins á grundvelli ákvæða 171. gr. siglingarlaga. Þessari málsástæðu var mótmælt sem of seint fram kominni af hálfu stefnda og verður hún því ekki tekin til umfjöllunar hér. Rétt þykir eins og hér stendur á að fella málskostnað niður. Halldór Halldórsson, héraðsdómari kveður upp dóm þennan en dómsuppsaga hefur dregist lítillega vegna anna dómarans. Dómsorð: Stefndi, Fiskiðjan Skagfirðingur hf., er sýknaður af öllum kröfum stefnanda, Bertels Benediktssonar, í máli þessu. Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 362/2011
Virðisaukaskattur Sekt Vararefsing Einkahlutafélag
M og E voru sakfelldir fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt sem framin voru í rekstri S ehf. Ekki var talið að brot þeirra væru stórfelld í skilningi 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga og var þeim því ekki gert að sæta fangelsisrefsingu. Þar sem S ehf. hafði notið hagnaðar af brotum M og E var lögaðilanum gert að greiða sektarfjárhæðina óskipt með þeim, sbr. 8. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 31. maí 2011 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar héraðsdóms. Ákærði, Eysteinn Sigurðsson, krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara refsimildunar og að refsing hans verði bundin skilorði. Ákærði, Magnús Þormar Hilmarsson, krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara vægustu refsingar og að fullnustu hennar verði frestað. Skeifan fasteignamiðlun ehf., krefst aðallega sýknu en til vara refsimildunar. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærðu Eysteins og Magnúsar Þormars og heimfærslu brota þeirra til 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt með síðari breytingum. Samkvæmt framansögðu hafa ákærðu verið sakfelldir fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti að fjárhæð 3.924.748 krónur, en þar af nam oftalinn innskattur 2.793.000 krónur. Þegar brot ákærðu eru virt er þess að gæta að Skattstjórinn í Reykjavík hafði með bréfum til Skeifunnar fasteignamiðlunar ehf. 7. nóvember og 11. desember 2000 óskað eftir upplýsingum um hvernig greiðslum til sölumanna væri hagað. Þessu erindi svaraði bókari fyrirtækisins með bréfi 27. desember það ár, þar sem meðal annars kom fram að ákærðu Eysteinn og Magnús Þormar hefðu allar götur frá því fyrirtækið hóf rekstur hagað reikningsgerð á hendur því sem einstaklingar í sjálfstæðum rekstri. Reikningar þeirra væru því gefnir út með útskatti sem fyrirtækið nýtti sem innskatt í sínum rekstri við skil á virðisaukaskatti. Samkvæmt þessu lá ljóst fyrir gagnvart skattyfirvöldum hvernig staðið var að skattskilum að þessu leyti, auk þess sem fram hefur komið í málinu að ákærðu stóðu skil á þeim virðisaukaskatti sem þeir innheimtu hjá fyrirtækinu. Að öllu þessu virtu verða brot ákærðu ekki talin stórfelld í skilningi 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og verður ákærðu ekki gert að sæta fangelsisrefsingu. Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 skal fésekt nema að lágmarki tvöfaldri þeirri greiðslu sem ekki var staðið skil á. Þar sem virðisaukaskattur var ekki réttilega tilgreindur samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum verður ekki farið niður fyrir það lágmark á grundvelli heimildar í 2. málslið ákvæðisins, sbr. 3. gr. laga nr. 134/2005. Samkvæmt þessu verður ákærðu hvorum um sig gert að greiða 4.000.000 krónur í sekt innan fjögurra vikna frá uppsögu dómsins, en sæta ella fangelsi í þrjá mánuði. Þá verður fallist á það með héraðsdómi að Skeifan fasteignamiðlun ehf. hafi notið hagnaðar af brotum ákærðu og verður lögaðilanum því gert að greiða sektarfjárhæðina óskipt með ákærðu, sbr. 8. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988. Niðurstaða héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Ákærðu og Skeifunni fasteignamiðlun ehf. verður gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjanda sinna fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Ákærði, Eysteinn Sigurðsson, greiði 4.000.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í þrjá mánuði. Ákærði, Magnús Þormar Hilmarsson, greiði 4.000.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í þrjá mánuði. Skeifan fasteignamiðlun ehf. greiði óskipt með ákærðu 8.000.000 krónur í sekt til ríkissjóðs. Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað. Ákærði Eysteinn og Skeifan fasteignamiðlun ehf. greiði óskipt málsvarnarlaun skipaðs verjanda sinna fyrir Hæstarétti, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur. Ákærði Magnús Þormar greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur. Ákærðu og Skeifan fasteignamiðlun ehf. greiði óskipt annan sakarkostnað málsins fyrir Hæstarétti, 80.738 krónur. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. maí 2011. Mál þetta, sem dómtekið var 19. apríl sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkislögreglustjóra 28. september 2010 á hendur Eysteini Sigurðssyni, kennitala [...], [...], [...], Magnúsi Þormari Hilmarssyni, kennitala [...], [...], [...], og Skeifunni fasteignamiðlun ehf., kennitala [...], [...], [...], fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum, sem framin voru í rekstri einkahlutafélagsins Skeifan fasteignamiðlun, kennitala [...], sem ákærði Eysteinn var stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi fyrir og ákærði Magnús Þormar varamaður í stjórn, framkvæmdastjóri og prókúruhafi fyrir, með því að hafa: Staðið skil á efnislega röngum virðisaukaskattskýrslum vegna uppgjörstímabilanna janúar-febrúar 2003 til og með nóvember-desember 2006, en með þessu var eigi talin fram skattskyld velta vegna sömu tímabila samtals að fjárhæð kr. 4.662.823 og innskattur oftalinn um kr. 2.793.000 á sömu tímabilunum að undanskyldum tímabilunum júlí-ágúst 2003, nóvember-desember 2005 og maí-júní til og með nóvember-desember 2006, og hafa eigi staðið ríkissjóði, í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri einkahlutafélagsins á rekstrarárunum 2003, 2004, 2005 og 2006, samtals að fjárhæð kr. 3.935.392, sem sundurliðast sem hér greinir: Framangreind brot ákærðu Eysteins og Magnúsar Þormars samkvæmt ákæru eru talin varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig; a) 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005. Framangreind brot ákærða Skeifunnar fasteignamiðlunar ehf. samkvæmt ákæru eru talin varða við 8. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. tilvitnuð ákvæði í a) lið að ofan. Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar. Ákærðu neita sök. Verjendur þeirra gera þær kröfur að ákærðu verði sýknaðir af kröfum ákæruvalds um refsingu og að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins 10. mars 2009 var málefnum einka­hluta­félagsins Skeifunnar fasteignamiðlunar og ákærða Eysteins Sigurðssonar vísað til opinberrar rannsóknar hjá ríkislögreglustjóra. Fram kemur að tilefni rannsóknar skattrannsóknarstjóra á bókhaldi og skattskilum Skeifunnar fasteignamiðlunar ehf. megi rekja til tilkynningar frá skattstjóranum í Reykjavík og athugunar skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattskilum skattaðila. Hafi rannsóknin hafist 19. nóvember 2007 með því að fyrirsvarsmanni skattaðila, ákærða Magnúsi Þormari, hafi verið afhent tilkynning þess efnis að hafin væri rannsókn á bókhaldi og skattskilum félagsins fyrir rekstrarárin 2003 til og með 2006. Hafi ákærði Eysteinn verið skráður stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi skattaðila, en ákærði Magnús verið skráður varamaður í stjórn, framkvæmdastjóri og prókúruhafi skattaðila. Við skýrslutökur hjá skattrannsóknarstjóra hafi ákærði Eysteinn greint frá því að hann hafi verið annar af eigendum skattaðila og að hann hefði stjórnað skattaðila, þar á meðal daglegum rekstri á rannsóknartímabilinu. Við skýrslutökur hafi ákærði Magnús greint frá því að hann væri eigandi skattaðila að hluta til og verið titlaður sölustjóri. Hefði hann ekki skipt sér af daglegum rekstri skattaðilans. Hefði meðákærði Eysteinn stjórnað skattaðilanum, þar á meðal daglegum rekstri hans. Rannsókn skattrannsóknarstjóra hafi leitt í ljós að staðið hafi verið skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2004, 2005, 2006 og 2007 vegna rekstraráranna 2003, 2004, 2005 og 2006 og að staðið hafi verið skil á efnislega röngum virðisaukaskattskýrslum vegna allra uppgjörstímabila rekstraráranna 2003, 2004, 2005 og 2006. Þá hafi rannsóknin leitt í ljós að launagreiðslur hafi verið vantaldar rekstrarárin 2003, 2004, 2005 og 2006 en ekki hafi verið gerð grein fyrir reiknuðu endurgjaldi fyrirsvarsmanna skattaðila samkvæmt viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra. Þá hafi rekstrargjöld vegna verktakagreiðslna til forráðamanna skattaðila verið offramtaldar og innskattur vegna þeirra verið færður í bókhald skattaðila. Í kæru skattrannsóknarstjóra kemur m.a. fram að skattrannsóknarstjóri hafi metið starfssamband skattaðila við ákærðu sem launþegasamband. Í bókhaldi skattaðila hafi verið reikningar útgefnir í nafni ákærðu á hendur skattaðila vegna verktakagreiðslna. Með því hafi rekstrargjöld skattaðilans verið offramtalin. Háttsemin kunni að varða við 6. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sbr. og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá kunni háttsemin að varða lögaðilann refsingu samkvæmt 8. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt rannsókninni á vanframtalinni skattskyldri veltu hafi svonefnt umsýslugjald verið vanframtalið. Þá hafi innskattur verið offramtalinn þar sem skattrannsóknarstjóri hafi metið starfssamband ákærðu við skattaðila sem launþegasamband. Háttsemin kunni að varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 1. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940. Þá kunni hún að varða lögaðilann refsingu samkvæmt 8. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988. Með bréfi skattrannsóknarstjóra fylgdi skýrsla embættisins. Á meðal gagna hennar er skýrsla er tekin var af ákærða Eysteini hjá embættinu 22. janúar 2008. Við það tilefni greindi ákærði svo frá að hann hafi verið einn af eigendum einkahlutafélagsins Skeifunnar fasteignamiðlunar á þeim tíma er rannsókn skattrannsóknar­stjóra hafi tekið til, verið í stjórn félagsins og verið framkvæmdastjóri félagsins með prókúruumboð. Hafi ákærði stjórnað daglegum rekstri félagsins. Hafi ákærði unnið sem verktaki í fullu starfi fyrir skattaðilann rekstrarárin 2003 til 2006. A hafi annast bókhald fyrir skattaðilann og gerð gagna varðandi skattskil. Virðisaukaskattskýrslur hafi verið gerðar af A en ákærði hafi ritað undir þær áður en þær hafi verið sendar skattstjóra. A hafi varðveitt bókhaldsgögn og séð um færslu þess. Að því er varði umsýslugjald hafi sérstakur bankareikningur verið fyrir gjaldið. Ekki hafi sérstaklega verið haldið utan um greitt umsýslugjald til skattaðilans. Mistök hafi leitt til þess að ekki hafi verið skilað útskatti af umsýslugjaldinu. Ákærði var aftur yfirheyrður af skattrannsóknarstjóra 13. maí 2008. Fram kom að ákærði hafi verið verktaki hjá skattaðilanum. Í hans verkahring hafi verið að annast samningsgerð, ganga frá afsölum, skjalagerð og öðru þar að lútandi. Enginn verksamningur hafi verið gerður. Hafi ákærði unnið á fjárhagslega ábyrgð skattaðilans. Vinnan hafi að mestu leyti verið unnin á starfsstöð skattaðilans. Greiðslur hafi farið eftir stöðu skattaðilans á hverjum tíma. Ekki hafi verið um að ræða ákveðið tímabundið verkefni fyrir skattaðilann. Skattaðilinn hafi séð um greiðslur iðgjalda vegna slysatrygginga eða lífeyrisréttinda. Hafi ákærði sjálfur ákveðið vinnutíma sinn. Ekki hafi verið um uppsagnarfrest að ræða og hafi ákærði átt rétt á orlofs- og veikindadögum. Bifreiðar hafi verið í eigu skattaðilans sem ákærðu hafi haft til afnota vegna starfans og til einkanota. Á meðal gagna er skýrsla er tekin var af ákærða Magnúsi hjá embættinu 31. janúar 2008. Við það tilefni greindi ákærði svo frá að hann hafi verið einn af eigendum einkahlutafélagsins Skeifunnar fasteignamiðlunar á þeim tíma er rannsókn skattrannsóknar­stjóra hafi tekið til, verið varamaður í stjórn félagsins og verið framkvæmdastjóri félagsins með prókúruumboð. Hafi meðákærði stjórnað daglegum rekstri félagsins, en ákærði verið sölustjóri. Hafi ákærði unnið sem verktaki í fullu starfi fyrir skattaðilann rekstrarárin 2003 til 2006. A hafi annast bókhald fyrir skattaðilann og gerð gagna varðandi skattskil. Virðisaukaskattskýrslur hafi verið gerðar af A en meðákærði hafi ritað undir þær áður en þær hafi verið sendar skattstjóra fyrir utan skýrslu fyrir uppgjörstímabilið maí – júní 2006 en undir þá skýrslu hafi ákærði ritað. A hafi varðveitt bókhaldsgögn og séð um færslu þess. Að því er varði umsýslugjald hafi gleymst að tekjufæra umsýslugjaldið hjá skattaðilanum. Ekki hafi ákærði vitað hvort eða hvernig hafi verið haldið utan um það gjald þar sem ákærði hafi ekki haldið utan um daglegan rekstur skattaðilans. Svo virðist sem fyrir mistök hafi útskatti ekki verið skilað af gjaldinu. Ákærði var aftur yfirheyrður af skattrannsóknarstjóra 14. maí 2008. Fram kom að ákærði hafi verið verktaki hjá skattaðilanum. Hafi hann verið sölumaður hjá skattaðila og sinnt öllum störfum sem því hafi tilheyrt, s.s. að selja, skoða, meta og sýna fasteignir. Sennilega hafi enginn verksamningur verið gerður. Hafi ákærði unnið á fjárhagslega ábyrgð skattaðilans. Vinnan hafi að mestu leyti verið unnin á starfsstöð skattaðilans. Greiðslur hafi farið eftir því hvort fjármunir hafi verið til hjá skattaðilanum á hverjum tíma. Ekki hafi verið um að ræða ákveðið tímabundið verkefni fyrir skattaðilann. Skattaðilinn hafi séð um greiðslur iðgjalda vegna slysatrygginga eða lífeyrisréttinda. Hafi ákærði sjálfur ákveðið vinnutíma sinn. Ekki hafi verið um uppsagnarfrest að ræða og hafi ákærði átt rétt á orlofs- og veikindadögum. Bifreiðir hafi verið í eigu skattaðilans sem ákærðu hafi haft til afnota vegna starfans en takmarkað til einkanota. Embætti ríkislögreglustjóra tók saman yfirlit um innheimtan og skilaskyldan virðisaukaskatt af hálfu Skeifunnar fasteignamiðlunar vegna rekstraráranna 2003 til og með 2006. Samkvæmt niðurstöðum þess yfirlits hafi vangoldinn virðisaukaskattur eftir lögboðinn eindaga numið 3.935.392 krónum. Ekkert hafi verið greitt eftir eindaga. Ákærði Eysteinn gaf skýrslu hjá lögreglu 27. ágúst 2009 og fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Kvaðst hann hafa verið annar framkvæmdastjóra einkahlutafélagsins Skeifunnar fasteignamiðlunar og aðalmaður í stjórn Skeifunnar fasteignamiðlunar ehf. á árunum 2003 til og með 2006 jafnframt því sem hann hafi haft prókúruumboð fyrir félagið. Hafi ákærðu starfað saman í fyrirtækinu og tekið allar helstu ákvarðanir sameiginlega. Framkvæmdin hafi þó verið meira í hendi ákærða, en hann hafi einn séð um helstu greiðslur og gengið frá virðisaukaskattskýrslum. Hafi ákærða verið ljóst að ábyrgð fylgdi því að vera skráður í stjórn einkahlutafélags og að hafa verið skráður sem framkvæmdastjóri. A hafi séð um bókhald fyrir einkahlutafélagið allt frá stofnun þess. Einnig hafi A séð um bókhald fyrir ákærða persónulega. Fyrirkomulag á bókhaldi hafi verið það að fylgiskjöl hafi verið tekin saman og sett í möppu. Í framhaldinu hafi þau verið send þeim sem fært hafi bókhaldið. Þar hafi fylgiskjölin verið bókuð. Ákærði hafi ritað undir virðisaukaskattskýrslur eftir að hafa fengið upplýsingar um þær tölur er færa ætti inn á skýrslurnar hjá þeim aðila er séð hafi um færslu bókhalds fyrir fasteignasöluna. Umsýslugjald hafi verið innheimt fyrir árin 2003 til og með 2006. Hjá lögreglu bar ákærði að vegna mistaka hafi umsýslugjaldið ekki verið tekjufært eða gerð virðisaukaskattskil vegna þess. Fyrir dómi bar ákærði að gefnir hafi verið út reikningar vegna umrædds gjalds. Litið hafi verið á gjaldið sem tekjur á móti kostnaði er fasteignasalan hafi haft vegna sölu fasteigna. Hafi fjárhæð gjaldsins verið ákveðin með hliðsjón af því. Hafi endurskoðandi séð um gerð bókhalds fyrir fasteignasöluna, þ. á m. gerð virðisaukaskattskýrslna. Hafi ákærðu treyst þeim aðila. Kvaðst ákærði telja að endurskoðandinn hafi haft upplýsingar um umsýslugjaldið. Þrátt fyrir það hafi hann ekki leiðbeint ákærðu um að tekjufæra það. Ákærði kvaðst hafna þeirri skoðun að ákærðu hafi ekki getað starfað sem verktakar hjá einkahlutafélaginu. Allt frá stofnun félagsins 1993 hafi ákærði verið verktaki hjá félaginu. Aldrei hafi verið gerðar athugasemdir við það af hálfu skattyfirvalda fyrr en í þeirri rannsókn er hófst á árinu 2007. Hafi ákærðu verið í góðri trú um að það væri lögmætt enda sjálfir gerð virðisaukaskattskil í samræmi við reikninga öll þessi ár. Fyrir dómi lýsti ákærði því að niðurstaða yfirskattanefndar væri sú að um launþegasamband hafi verið að ræða á milli ákærða og einkahlutafélagsins. Hefði ákærði ekki tekið afstöðu til þess hvort hann myndi bera þá niðurstöðu undir dómstóla. Ákærði lýsti því að fyrirkomulagið hafi verið verktakasamband allt frá árinu 1985. Fyrirkomulagið hafi verið með þeim hætti að ráðleggingu endurskoðanda félagsins. Ákærði hefði um áramótin 2010 og 2011 gert breytingu á þessu fyrirkomulagi og væri launamaður í dag. Hefði það verið gert að ráðleggingu endurskoðanda félagsins, sem hefði talið það fyrirkomulag hagkvæmara. Ákærðu ættu félagið í sameiningu. Hafi þeir verið ráðnir til starfa samkvæmt samþykktum félagsins sem fram koma á dskj. nr. 17. Hafi ákærði ritað undir samþykktirnar. Ákærði Magnús gaf skýrslu hjá lögreglu 27. ágúst 2009 og fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Kvaðst hann hafa verið annar framkvæmdastjóra einkahlutafélagsins Skeifunnar fasteignamiðlunar og í varastjórn Skeifunnar fasteignamiðlunar ehf. á árunum 2003 til og með 2006 jafnframt því sem hann hafi haft prókúruumboð fyrir félagið. Meðákærði hafi í raun rekið fyrirtækið og séð um fjármál og oftar en ekki tekið þær ákvarðanir sem teknar hafi verið um fjármál og skattskil. Félagið hafi þeir átt til helminga og skipt á milli sín flestum verkum, þó svo meðákærði hafi verið hinn eiginlegi framkvæmdastjóri. Hafi ákærði starfað hjá félaginu sem sölustjóri á meðan meðákærði hafi séð um bókhald og skattskil. Er borið var undir ákærða framburður meðákærða hjá lögreglu um að ákærðu hafi starfað saman hjá fyrirtækinu og tekið allar helstu ákvarðanir saman kvaðst ákærði ekki gera athugasemdir við þann framburð meðákærða. Meðferð umsýslugjaldsins hafi verið í höndum meðákærða og hafi ákærði ekki velt þessum hlutum fyrir sér. Meðákærði hafi þó einhverju sinni nefnt að láðst hefði að færa þessi gjöld með réttum hætti. Þau ummæli hafi fallið eftir að rannsókn skattrannsóknarstjóra hafi verið byrjuð. Að því er varðaði verktöku kvaðst ákærði ekki skilja niðurstöðu skattyfirvalda. Hafi ákærði unnið sambærilegt starf í 26 ár og alltaf sem verktaki. Aldrei hafi verið gerðar athugasemdir við það af hálfu skattyfirvalda fyrr en við upphaf þeirrar skattrannsóknar er málið varðaði. Hafi ákærði verið í góðri trú um að þessir hlutir væru í lagi og lögum samkvæmt, enda hafi bókari félagsins verið þeirrar skoðunar. Meðákærði hafi haft með höndum skil á virðisaukaskatti. Fyrir dómi lýsti ákærði því að hann starfaði sem sölumaður hjá fasteignasölunni Skeifunni fasteignamiðlun ehf. Kvaðst ákærði hafa ritað undir samþykktir félagsins á dskj. nr. 17. Ekki hafi hann gert sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem hann hefði sem skráður framkvæmdastjóri einkahlutafélags. Hafi hann í reynd ekki starfað sem slíkur, heldur meðákærði. Staðfesti ákærði að hafa ritað undir eina virðisaukaskattskýrslu á því tímabili er um ræddi, en í því tilviki hafi meðákærði ekki verið til staðar. Hafi ákærði fengið þær upplýsingar er á hafi þurft að halda í gegnum síma frá þeim er fært hafi bókhald félagsins. Kvaðst ákærði hafa vitað að umsýslugjaldið hafi verið fært inn á sérstakan reikning. Hafi ákærði staðið í þeirri trú að greiddur væri virðisaukaskattur af gjaldinu. Niðurstaða: Mál þetta varðar annars vegar meðferð á svonefndu umsýslugjaldi sem innheimt var í starfsemi einkahlutafélagsins Skeifunnar fasteignamiðlunar og hins vegar það ágreiningsefni hvort samband ákærðu og einkahlutafélagsins hafi átt að vera launþegasamband eða mátt vera verktakasamband. Að því leyti miðar ákæruefni málsins við að ákærðu hafi ekki verið heimilt að haga störfum sínum í þágu einkahlutafélagsins með verktöku. Í fyrrtalda tilvikinu hefur þetta samkvæmt ákæru leitt til þess að skattskyld velta hafi verið vantalin sem nemur umsýslugjaldinu. Í síðara tilvikinu hefur innskattur verið oftalinn sem nemur þeim innskatti er einkahlutafélagið dró frá útskatti á grundvelli skattskyldrar veltu. Svo sem að framan er rakið hefur embætti ríkislögreglustjóra tekið saman yfirlit um innheimtan og skilaskyldan virðisaukaskatt af hálfu einkahlutafélagsins Skeifunnar fasteignamiðlunar fyrir rekstrartímabilin janúar 2003 til og með desember 2006. Samkvæmt því nemur vangoldin virðisaukaskattur fyrir öll tímabil ársins 2003 samtals 1.117.200 krónum, fyrir öll tímabil ársins 2004 samtals 1.369.322 krónum, fyrir öll tímabil ársins 2005 samtals 1.000.520 krónum og fyrir öll tímabil ársins 2006 samtals 448.350 krónum. Fyrir öll þessi ár nemur vangoldinn virðisaukaskattur samtals 3.935.392 krónum. Við aðalmeðferð málsins lögðu ákærðu fram reikninga sem þeir staðhæfa að séu til komnir vegna útlagðs kostnaðar í tengslum við innheimt umsýslugjald. Hefur ákæruvald fallist á með ákærðu að í sjö tilvikum sé um að ræða útlagðan kostnað í tengslum við umsýslugjaldið og beri þeir reikningar virðisaukaskatt. Aðrir reikningar beri ekki með sér að virðisaukaskattur hafi verið innheimtur og komi því ekki til álita við lækkun á vangoldnum virðisaukaskatti. Hefur ákæruvald við aðalmeðferð málsins leiðrétt ákæruna að þessu leyti. Með því hefur vangoldinn virðisaukaskattur samkvæmt ákæru fyrir tímabilið mars til apríl 2003 verið lækkaður í 175.371 krónu en heildarfjárhæð ársins 2003 verður þá 1.114.211 krónur. Engin breyting hefur verið gerð á árinu 2004. Að því er árið 2005 varðar hefur vangoldinn virðisaukaskattur fyrir tímabilið mars til apríl lækkað í 244.947 krónur og 117.463 krónur fyrir tímabilið júlí til ágúst sama ár. Tímabilið september til október lækkar í 271.077 krónur og tímabilið nóvember til desember í 18.073 krónur. Samtals nemur vangoldinn virðisaukaskattur fyrir árið 2005 því 997.010 krónum. Að því er árið 2006 varðar lækkar vangoldin virðisaukaskattur fyrir tímabilið janúar til febrúar í 183.537 krónur og í 161.443 krónur fyrir tímabilið mars til apríl. Samtals nemur vangoldinn virðisaukaskattur fyrir árið 444.205 krónum. Í heildina nemur vangoldinn virðisaukaskattur fyrir öll tímabil samkvæmt ákæru 3.924.748 krónum og lækkar því um 10.644 krónur. Ákærðu viðurkenna að telja hafi átt innheimt umsýslugjald með skattskyldri veltu einkahlutafélagsins. Varnir þeirra lúta annars vegar að því að þeir hafi í störfum sínum alfarið treyst á þann aðila sem fært hafi bókhald fyrir einkahlutafélagið, en þeim aðila hljóti að hafa verið ljóst að umsýslugjald hafi verið innheimt í starfsemi félagsins. Hins vegar lúta varnir ákærðu að því að umsýslugjaldið hafi komið á móti kostnaði sem félagið hafi haft af því að sinna ýmsum störfum í tengslum við fasteignasöluna. Í málflutningi var á því byggt að ýmis kostnaður kunni að hafa fallið til sem ekki hafi verið teknir reikningar fyrir eða að þeir hafi farið inn í bókhald og annan rekstur einkahlutafélagsins. Ákærðu hafa ekki teflt fram frekari reikningum er til álita koma sem kostnaður á móti innheimtu umsýslugjaldi. Þá verður fallist á með ákæruvaldi að einungis þeir sjö reikningar komi til álita sem ákæruvald hefur tekið tillit til varðandi lækkun á vangoldnum virðisaukaskatti þar sem aðrir reikningar er ákærðu hafa teflt fram bera ekki með sér að innheimtur hafi verið virðisaukaskattur. Varnir ákærðu um að rekstrarkostnaður á móti umsýslugjaldinu hafi jafnvel farið inn í rekstur einkahlutafélagsins koma ekki til álita þar sem virðisaukaskattur tengdur slíkum kostnaði hefði almennt leitt til lækkunar á vangoldnum virðisaukaskatti einkahlutafélagsins. Þá dugar ákærðu ekki að bera fyrir sig kostnað sem ekki eru fylgiskjöl fyrir. Með hliðsjón af þessu verður miðað við að vantalin skattskyld velta í rekstri einkahlutafélagsins Skeifunnar fasteignamiðlunar hafi numið þeim fjárhæðum er ákæra miðar við að teknu tilliti til leiðréttinga er ákæruvald gerði undir meðförum málsins. Einkahlutafélagið Skeifan fasteignamiðlun var í eigu ákærðu að jöfnum hlut, en þeir stofnuðu félagið í sameiningu 25. ágúst 1993. Var ákærði Eysteinn skráður framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í félaginu á þeim tíma er ákæra tekur til. Hefur hann borið að störf sín hafi verið í samræmi við þá skráningu. Þá var ákærði Magnús skráður framkvæmdastjóri og varamaður í stjórn félagsins á sama tíma. Báðir voru ákærðu skráðir með prókúru fyrir félagið. Ákærðu eru sammála um að ákærði Magnús hafi minna komið að daglegum rekstri félagsins, en hann var skráður sölustjóri. Í skýrslum hjá lögreglu bera ákærðu báðir að ákærðu hafi starfað saman í fyrirtækinu og tekið allar helstu ákvarðanir sameiginlega. Í ljósi skráningar ákærða Magnúsar sem framkvæmdastjóra, eignarhalds hans á félaginu, þess að hann var skráður prókúruhafi fyrir félagið og fyrirsvarsmaður þess og þess að hann var yfirmaður á vinnustaðnum, verður í niðurstöðu þessa máls miðað við að ákærði Magnús hafi borið skyldur í samræmi við skráningu sem fyrirsvarsmaður og framkvæmdastjóri fyrir Skeifuna fasteignamiðlun ehf. Í 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög er mælt fyrir um þær ríku skyldur ákærðu sem framkvæmdastjóra og stjórnarmanna einkahlutafélagsins í skjóli stöðu sinnar að afla sér glöggrar vitneskju um rekstur félagsins, þar á meðal um hvort félagið stæði í skilum með greiðslu virðisaukaskatts svo og að annast um að starfsemi félagsins væri jafnan í réttu og góðu horfi. Geta ákærðu af þeim ástæðum ekki reist kröfu sína um sýknu á því að þeir hafi treyst aðila er fært hafi bókhald fyrir félagið og að hann bæri ábyrgð á því að greiðslum yrði hagað þannig að félagið stæði í skilum við innheimtumann ríkissjóðs. Þegar til þessara atriða er litið verður miðað við að ákærðu hafi báðir borið ábyrgð á því að innheimt umsýslugjald var ekki talin fram sem skattskyld velta. Þá lúta varnir ákærðu að því að þeim hafi verið heimilt að haga störfum sínum í þágu einkahlutafélagsins með verktöku fyrir tímabil samkvæmt ákæru. Er deilt um hvort ákærðu hafi verið heimilt að virða starfssamband sitt og Skeifunnar fasteignamiðlunar ehf. sem samband verktaka og verksala, en ekki launþegasamband svo sem ákæruvald miðar við. Í efnisvörnum ákærðu hafa ekki verið gerðar athugasemdir við fjárhæðir í ákæru hvað þennan þátt málsins varðar. Varnir lúta að því að ákærðu hafi verið rétt að líta svo á að þeim væri heimilt að haga störfum sínum í formi verktöku í ljósi þess að skattyfirvöldum hafi verið kunnugt um árum saman að þannig hafi málum verið háttað og fallist á það með aðgerðarleysi sínu. Hafi ákærðu bundið við það réttmætar væntingar. Þá hafi eðli starfa verið með þeim hætti að heimilt hafi verið að miða starfssamband ákærðu og einkahlutafélagsins við samband verktaka og verksala. Ágreiningur um þetta efni hefur verið til meðferðar hjá skattyfirvöldum frá því rannsókn málsins hófst 19. nóvember 2007. Var það niðurstaða skattrannsóknarstjóra ríkisins að um vinnusamband hefði verið að ræða í tilvikum ákærðu. Í framhaldi endurákvarðaði ríkisskattstjóri opinber gjöld ákærðu með úrskurði sínum 1. apríl 2009 og byggði í því efni á niðurstöðu skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Ákærðu skutu úrskurði ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar með kæru 25. júní 2009. Lauk ágreiningi á því stigi að því er ákærðu varðar með tveim úrskurðum yfirskattanefndar 2. febrúar sl. í málum nefndarinnar nr. 19/2011 og 20/2011. Að því er varðar þá málsástæðu ákærðu að þeir hafi haft réttmætingar væntingar til þess að þeim væri heimil verktaka í ljósi þess að skattyfirvöld hefðu ekkert aðhafst þrátt fyrir að vera kunnugt um fyrirkomulagið frá því á árinu 2000 var niðurstaða yfirskattanefndar sú að hafna bæri þeirri málsástæðu. Var það gert á þeim grundvelli að engin óyggjandi gögn lægju fyrir um að skattyfirvöld hefðu fallist á þá framkvæmd með bindandi hætti að eigendur Skeifunnar fasteignamiðlunar ehf. væru verktakar við störf sín, enda hafi ekki komið fram af hálfu skattstjóra bein afstaða hans til umræddra skattskila ákærðu og félagsins. Við ákvörðun um hvort starfsmaður teldist launamaður eða verktaki yrði að meta hvað fælist í samningi í hverju tilfelli og réðist niðurstaðan af heildarmati. Við það mat kæmu til skoðunar mörg atriði sem þó hefðu mismikið vægi. Skeifan fasteignamiðlun ehf. væri einkahlutafélag og sjálfstæður skattaðili, sbr. 1. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003. Í 2. mgr. 1. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 væri kveðið á um að ef maður vinni við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skyldi hann telja sér til tekna eigi lægra endurgjald fyrir starf sitt og hefði hann innt það af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila. Ákærðu hafi hvor um sig verið eigendur helming hlutafjár í einkahlutafélaginu, verið fyrirsvarsmenn sem stjórnarmenn, skráðir framkvæmdastjórar og með prókúru. Að því leyti sem vinna ákærðu á vegum einkahlutafélagsins varðaði almenna starfsemi þess væri ljóst að ákærðu hafi borið að reikna sér endurgjald vegna vinnu sinnar, væri slíkri vinnu fyrir að fara. Byggja yrði á því að hin umdeildu störf ákærðu á vegum félagsins hafi m.a. verið fólgin í ákvarðanatöku, stjórnun og öðrum störfum sem jafnan féllu undir verksvið stjórnenda einkahlutafélags, sbr. IX. kafla laga nr. 138/1994. Ákærðu hafi verið í stjórn félagsins, framkvæmdastjórar og prókúruhafar. Ákærði Eysteinn hafi stjórnað daglegum rekstri á því tímabili er rannsóknin hafi tekið til. Ákærði Magnús hafi verið sölustjóri. Ekki yrði talið að störf ákærðu sem fyrirsvarsmanna gætu fallið undir verktöku. Ekki yrði séð að ákærðu hafi haft með höndum neina sölu á slíkri þjónustu til annarra aðila en Skeifunnar fasteignamiðlunar ehf. þau ár sem um ræði. Ekki yrði annað séð en að störf ákærðu hjá Skeifunni fasteignamiðlun ehf. hafi verið ótímabundin og að um viðvarandi verkefni hafi verið að ræða auk þess sem ljóst væri að verkefnin hafi varðað almenna starfsemi félagsins.Yrði byggt á því að ákærðu hafi ekki haft með höndum einstök afmörkuð verkefni í þágu félagsins. Þá yrði lagt til grundvallar að ákærðu hafi borið að vinna umrædd verk sjálfir og ljóst væri að ákærðu hafi á tímabilinu að öllu leyti lagt fram persónulega vinnu sína í þágu starfsins. Hafi ekki annað komið fram en að ákærðu hafi haft starfann að aðalstarfi. Þá lægi fyrir að ákærðu hafi haft starfsaðstöðu hjá Skeifunni fasteignamiðlun ehf. og þeir notið að öðru leyti ýmissa starfskjara launþega. Að því er varði endurgjald til ákærðu, sem þætti hafa sérstaka þýðingu varðandi mat á starfssambandi, lægi fyrir að um hafi verið að ræða fastar og reglulegar greiðslur á þeim árum sem málið varðaði. Yrði ekki séð að greiðslur til ákærðu hafi að neinu leyti tekið mið af árangri í störfum. Væri sérstök ástæða til að benda á að þóknun ákærðu hafi numið sömu fjárhæðum á umræddum árum. Þá hafi ekkert komið fram um sérstakan kostnað ákærðu af störfum sínum fyrir Skeifuna fasteignamiðlun ehf. Samkvæmt þessu væri ljóst að mörg þau atriði sem almennt væru höfð til viðmiðunar við mat á því hvort um verk- eða vinnusamning væri að ræða, þar á meðal þau atriði sem mest vægi hefðu, þættu benda til vinnusamnings. Þótti engu breyta þótt ákærðu hafi ekki notið allra starfskjara launþega. Samkvæmt því og með skírskotun til reglna um skyldu manna til að reikna sér endurgjald vegna vinnu á vegum lögaðila yrði að telja að virða bæri vinnu ákærðu í heild sinni sem störf launþega hjá Skeifunni fasteignamiðlun ehf. en ekki að neinu leyti sem sjálfstæða verktöku og sölu á þjónustu til félagsins. Var krafa ákærðu því ekki tekin til greina á þeim grundvelli að um verktöku ákærðu sem sjálfstætt starfandi manna hafi verið að ræða. Ákærðu hafa lýst yfir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort úrskurður yfirskattanefndar verði borinn undir dómstóla, sbr. 15. gr. laga nr. 30/1992 um yfirskattanefnd. Það atriði varnar því ekki að dæmt verði í sakamáli því sem hér er til meðferðar um hvort ákærðu hafi verið heimilt að miða vinnusamband sitt við Skeifuna fasteignamiðlun ehf. við samband verkkaupa og verksala, en hafi ákærðu verið það óheimilt hefur það leitt til þess að innskattur í starfsemi félagsins hefur verið oftalinn, sem leitt hefur til efnislega rangra virðisaukaskattsskýrslna og vangoldins virðisaukaskatts og þar með brota gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og eftir atvikum 1. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940. Svo sem áður var rakið hóf embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins rannsókn á bókhaldi og skattskilum Skeifunnar fasteignamiðlunar ehf. 19. nóvember 2007 vegna rekstraráranna 2003 til og með 2006. Á meðal rannsóknargagna málsins eru skýrslur skattrannsóknarstjóra vegna ofangreindrar rannsóknar. Þá eru á meðal gagna málsins úrskurður ríkisskattstjóra í málinu og úrskurðir yfirskattanefndar vegna kæru ákærðu á úrskurðum ríkisskattstjóra frá 1. apríl 2009 um endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda ákærðu fyrir ofangreind ár. Loks liggur fyrir í rannsóknargögnum málsins rannsókn lögreglu á virðisaukaskattskilum ákærðu vegna nefnds tímabils, en á meðal þeirra rannsóknargagna eru skýrslur er lögregla tók af ákærðu vegna málsins. Loks gáfu ákærðu skýrslu hér fyrir dóminum. Með þeim gögnum sem hér er vísað til liggur fyrir að ákærðu voru að jöfnu eigendur Skeifunnar fasteignamiðlunar ehf. á því tímabili sem mál þetta varðar. Þeir voru báðir stjórnarmenn í félaginu, annar aðalmaður en hinn varamaður. Báðir voru þeir skráðir framkvæmdastjórar félagsins og með prókúru. Ákærði Eysteinn starfaði sem daglegur framkvæmdastjóri félagsins, en meðákærði starfaði sem sölustjóri. Áður hefur verið slegið föstu að ákærði Magnús bar engu að síður skyldur sem skráður stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins. Þau störf þeirra er tengdust verksviði þeirra sem fyrirsvarsmanna félagsins geta ekki talist falla undir verktöku. Störf ákærðu bera með sér að hafa verið ótímabundin og einskorðast við Skeifuna fasteignamiðlun ehf. Verkefni ákærðu fyrir lögaðilann voru samfelld og varðað þá starfsemi sem félagið var skráð fyrir, en samkvæmt vottorði úr fyrirtækjaskrá var tilgangur félagsins rekstur fasteigna- og skipasölu, svo og rekstur fasteigna, lánastarfsemi og skyld starfsemi. Störf ákærðu voru ekki afmörkuð sérstaklega miðað við tiltekin verkefni. Þá leiða gögn málsins í ljós að störfin hafi verið aðalstarf beggja ákærðu og þeir báðir haft starfsaðstöðu hjá félaginu. Greiðslur til ákærðu voru reglulegar og runnu nánast sömu fjárhæðir til beggja ákærðu fyrir tímabilin. Enginn verksamningur var gerður milli ákærðu og einkahlutafélagsins. Höfðu ákærðu stjórnunarvald yfir starfsmönnum Skeifunnar fasteignamiðlunar ehf. Skeifan fasteignamiðlun ehf. greiddi iðgjald vegna slysatrygginga og lífeyrisréttinda ákærðu. Þá áttu ákærðu rétt á orlofs- og veikindadögum samkvæmt því er fram kom í skýrslum þeirra hjá skattrannsóknarstjóra. Báðir höfðu ákærðu afnot af bifreiðum er einkahlutafélagið lét þeim í té og voru afnotin bæði vegna vinnu í þágu einkahlutafélagsins og til einkanota. Samkvæmt 1. tl. A liðar 2. mgr. 7. gr. laga nr. 90/2003 skal sá sem vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi telja sér til tekna eigi lægra endurgjald fyrir starf sitt og hefði hann innt það af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila. Gildir sama um vinnu við atvinnurekstur eða starfsemi sem rekin er í sameign með öðrum og einnig um vinnu við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar. Skeifan fasteignamiðlun ehf. er einkahlutafélag og sjálfstæður skattaðili, sbr. 1. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003. Ákærðu áttu einkahlutafélagið að jöfnu, voru báðir fyrirvarsmenn félagsins, skráðir framkvæmdastjórar og með prókúru. Bar þeim að reikna sér endurgjald vegna vinnu sinnar á vegum félagsins er varðaði almenna starfsemi félagsins. Þegar til allra þeirra atriða er litið er hér hefur verið gerð grein fyrir er það niðurstaða dómsins að ákærðu hafi verið óheimilt að miða starfssamband sitt við Skeifuna fasteignamiðlun ehf. sem samband verkkaupa og verksala. Bar þeim að haga starfssambandinu sem launþegasambandi. Engin gögn hafa verið lögð fram sem sýna eða gera sennilegt að skattyfirvöld hafi veitt ákærðu samþykki fyrir því að haga starfssambandinu sem verktakasambandi eða að þeir hafi mátt hafa þær væntingar. Verður því ekki fallist á með ákærðu að þeir hafi mátt hafa réttmætar væntingar um að þeim væri heimil verktakan. Með því aðgerðarleysi sínu að hafa ekki í starfsemi Skeifunnar fasteignamiðlunar ehf. talið fram skattskylt umsýslugjald og að hafa oftalið innskatt í starfsemi félagsins með því að hafa með óheimilum hætti hagað starfssambandi sínu við félagið sem verktakasambandi í stað launþegasambands hafa ákærðu sem framkvæmdastjórar og stjórnarmenn vanrækt af stórkostlegu hirðuleysi þær skyldur sem hvíldu á þeim samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt til að hlutast til um að efnislega réttum virðisaukaskattskýrslum yrði skilað og að skatturinn yrði greiddur. Með háttsemi sinni hafa ákærðu því gerst sekir um þau brot sem tilgreind eru í ákæru, en þau verður að telja stórfelld. Eru brot ákærðu því rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Ákærði Eysteinn er fæddur á árinu [...] og ákærði Magnús árinu [...]. Hafa þeir hvorugur áður sætt refsingu svo kunnugt sé. Með hliðsjón af þeim brotum er ákærðu hafa verið sakfelldir fyrir og dómvenju á þessu sviði þykir refsing þeirra hvors um sig hæfilega ákveðin fangelsi í 4 mánuði, sem verður bundið skilorði með þeim hætti er í dómsorði greinir. Skeifan fasteignamiðlun ehf. hefur notið hagnaðar af broti ákærðu. Með vísan til 8. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 verður lögaðilanum því gerð sekt í máli þessu óskipt með ákærðu. Með vísan til 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, er kveður á um sektarlágmörk vegna brota á þeim lögum, dómvenju um sektarfjárhæð vegna skila á efnislega röngum virðisaukaskattskýrslum og dómvenju um skiptingu sektargreiðslna, greiði ákærðu hvor um sig, óskipt með lögaðilanum, 5.900.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa. Um vararefsingu fer sem í dómsorði greinir. Um málsvarnarlaun, að viðbættum virðisaukaskatti, fer svo sem í dómsorði greinir. Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Einar Tryggvason aðstoðarsaksóknari. Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn. D ó m s o r ð: Ákærðu, Eysteinn Sigurðsson og Magnús Þorri Hilmarsson, sæti hvor um sig fangelsi í 4 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar beggja ákærðu og hún falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærðu hvor um sig almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Ákærðu greiði hvor um sig, óskipt með Skeifunni fasteignamiðlun ehf., 5.900.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan 4 vikna frá birtingu dómsins. Greiðist sektin ekki sæti ákærðu hvor um sig fangelsi í 3 mánuði. Ákærði Eysteinn greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 635.250 krónur og ákærði Magnús Þorri málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jónasar Friðriks Jónssonar héraðsdómslögmanns, 519.750 krónur.
Mál nr. 277/2004
Líkamsárás Ákæra Kröfugerð Frávísun frá héraðsdómi Sératkvæði
Með dómi héraðsdóms var X sakfelldur fyrir líkamsárás. Dóminum var áfrýjað af hálfu ríkissaksóknara og X. Engin ný gögn voru lögð fyrir Hæstarétt. Málatilbúnaður ákæruvaldsins fyrir Hæstarétti fólst einkum í því að lýsa efasemdum um réttmæti þess að gefa út ákæru í málinu og síðan að sakfella X, jafnframt því sem haldið var til streitu kröfu um að hann yrði sakfelldur og honum refsað. Engin haldbær skýring kom fram á þessum ákæruháttum við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti. Að svo vöxnu var talið að ákæruvaldinu hafi borið að krefjast sýknu samkvæmt meginreglu 112. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Málatilbúnaður ákæruvalds fyrir Hæstarétti væri þannig í slíkri mótsögn við þá afstöðu, sem hafi legið að baki því að ákæra var gefin út og fylgt var eftir fyrir héraðsdómi, að allur grundvöllur málsins hafi gjörbreyst. Samkvæmt þessu yrði að líta svo á að í raun væri fallið frá öllum fyrri röksemdum fyrir kröfugerð ákæruvalds. Af þessum sökum væri óhjákvæmilegt að vísa málinu af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 16. júní 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krafðist þess í áfrýjunarstefnu að refsing ákærða yrði þyngd. Endanleg kröfugerð ákæruvalds fyrir Hæstarétti er sú að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu og refsingu ákærða og um sakarkostnað og að hann verði dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins. Ákærði krefst sýknu og að laun skipaðra verjenda hans í héraði og fyrir Hæstarétti verði greidd úr ríkissjóði. I. Með ákæru lögreglustjórans [...] 9. febrúar 2004 var ákærða gefin að sök líkamsárás á Y 15. desember 2003, svo sem nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi. Var brot ákærða talið varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði neitaði sök. Með dómi Héraðsdóms Austurlands 13. maí 2004 var ákærði sakfelldur fyrir þær sakargiftir, sem í ákæru greindi, og honum gert að sæta fangelsi í einn mánuð. Var refsingin skilorðsbundin í tvö ár. Þá var hann dæmdur til að greiða allan sakarkostnað. Í greinargerð ákæruvalds til Hæstaréttar segir í upphafi að héraðsdómara hafi ekki þótt varhugavert að leggja frásögn brotaþola til grundvallar um að ákærði hafi í umrætt sinn ráðist á hana með þeim hætti, sem hún lýsi. Sé krafist staðfestingar héraðsdóms með vísan til forsendna hans. Síðan segir: „Ekki verður framhjá því horft að mál þetta er á allan máta afar sérstætt. Atlaga ákærða beinist að 16 ára gamalli stúlku sem ákærði hefur að því er virðist verið í ástarsambandi við í 2 ½ ár .... Foreldrar kæranda stóðu með beinum hætti að kæru með þeim hætti sem greinir í kæruskýrslu. Bæði rannsókn málsins hjá lögreglu en þó einkum dómsrannsóknin ... varð miklu ítarlegri en kæruefnið gaf tilefni til enda í löngum rannsóknum farið langt út fyrir sakarefnið samkvæmt kæru og síðar ákæru og virðist öðrum þræði hafa haft þann tilgang að hafa áhrif á áðurgreint samband aðila málsins, en það stóð að einhverju leyti áfram eftir hinn kærða atburð. Hér vakna því spurningar, eins og hvort ákæra átti á grundvelli fyrirliggjandi lögreglurannsóknar og hvort sakfella átti að dómsrannsókninni lokinni, eins og hér var háttað málsatvikum og meiðslum brotaþola. Af þessum ástæðum er mál þetta flutt af hálfu ákæruvalds með nokkrum efasemdum um grundvöll sakfellingar á áfrýjunarstigi málsins. Til greina virðist því bæði geta komið frávísun máls frá héraðsdómi og sýkna af ákæru en dómkröfur ákæruvalds eru sem áður greinir að staðfestar verði niðurstöður héraðsdóms.“ Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti var lýst yfir af hálfu ákæruvalds að draga mætti úr þeim orðum að rannsóknin hafi öðrum þræði haft þann tilgang að hafa áhrif á áðurnefnt samband „aðila málsins“. Að öðru leyti væri staðið við umfjöllun í greinargerð. II. Í XIV. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála eru reglur um saksókn og undirbúning málsmeðferðar. Samkvæmt 112. gr. laganna skal ákærandi athuga, eftir að hafa fengið gögn máls í hendur og gengið úr skugga um að rannsókn sé lokið, hvort sækja skuli mann til sakar eða ekki. Ef hann telur það sem fram er komið ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis lætur hann við svo búið standa, en ella höfðar hann opinbert mál með útgáfu ákæru. Komi sú staða upp undir rekstri máls að ákæruvald telji ekki líklegt að framangreind skilyrði 112. gr. til saksóknar séu uppfyllt er því rétt að afturkalla ákæru þannig að mál verði fellt niður, sbr. b. lið 132. gr. laganna. Þá er ríkissaksóknara heimilt samkvæmt 2. málslið 148. gr. laga nr. 19/1991 að áfrýja dómi ákærða til hagsbóta. Hefur reynt á það í nokkrum málum á síðari árum að ríkissaksóknari hafi áfrýjað dómi og krafist þess að ákærði yrði sýknaður eða gert slíka kröfu undir rekstri máls fyrir Hæstarétti, sbr. nú síðast dóm réttarins 12. febrúar 2004 í máli nr. 467/2003. Eðli máls samkvæmt reynir fyrst og fremst á ákvæðið komi fram nýjar upplýsingar eftir uppkvaðningu héraðsdóms, sem leiða til breyttrar afstöðu ákæruvalds. Í máli því, sem hér er til úrlausnar, hafa engin ný gögn verið lögð fyrir Hæstarétt. Málatilbúnaður ákæruvalds hér fyrir dómi hefur hins vegar einkum falist í því að lýsa efasemdum um réttmæti þess að gefa út ákæru í málinu og síðan að sakfella ákærða, jafnframt því sem haldið er til streitu kröfu um að hann verði sakfelldur og honum refsað. Engin haldbær skýring kom fram af hálfu ákæruvalds á þessum ákæruháttum við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti. Eins og málið liggur fyrir er ljóst að afstaða ríkissaksóknara um forsendur þess að gefa út ákæru og um sönnun sakargifta á hendur ákærða er ekki sú sama og þess handhafa ákæruvalds, sem tók ákvörðun um ákæru og rak málið fyrir héraðsdómi. Á þeim grundvelli var ríkissaksóknara unnt að gera kröfu fyrir Hæstarétti ákærða til hagsbóta þótt ekki væri við ný gögn að styðjast í málinu, sbr. til hliðsjónar 2. málslið 2. mgr. 27. gr. laga nr. 19/1991. Sú meginregla felst í 112. gr. laganna að ekki skal ákæra mann nema ákærandi telji að fyrirliggjandi gögn nægi til að sanna sekt. Í málinu háttar hins vegar svo til að krafa ákæruvalds fyrir Hæstarétti um sakfellingu og refsingu er nær einvörðungu studd rökum, sem ganga í gagnstæða átt. Að svo vöxnu bar ákæruvaldi að krefjast sýknu samkvæmt reglu 112. gr. laga nr. 19/1991, en því er ekki aðeins skylt að hlutast til um að sekur maður sé saksóttur heldur einnig að saklaus maður verði ekki dæmdur, sbr. 31. gr. laganna. Málatilbúnaður ákæruvalds fyrir Hæstarétti er þannig í slíkri mótsögn við þá afstöðu, sem lá að baki því að gefa út ákæru og fylgt var eftir fyrir héraðsdómi, að allur grundvöllur málsins hefur gjörbreyst. Verður að líta svo á að í raun sé fallið frá öllum fyrri röksemdum fyrir kröfugerð ákæruvalds. Er af þessum sökum óhjákvæmilegt að vísa málinu af sjálfsdáðum frá héraðsdómi. Allur sakarkostnaður í héraði og áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá héraðsdómi. Allur sakarkostnaður í héraði og áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, X, í héraði, Evu Dísar Pálmadóttur héraðsdómslögmanns, 120.000 krónur og skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur. Meirihluti dómenda hefur komist að þeirri niðurstöðu, að ætlaðir annmarkar á málflutningi ákæruvalds fyrir Hæstarétti eigi að leiða til frávísunar málsins frá héraðsdómi. Á þetta er ekki unnt að fallast. Við meðferð málsins fyrir dómi gaf Z vitnaskýrslu, en þetta vitni hafði ekki verið yfirheyrt við lögreglurannsókn málsins. Vitnið kvaðst hafa fylgst með ákærða og Y út um glugga á húsi sínu þann tíma sem ákærði og Y höfðu viðdvöl á þeim stað á götunni, þar sem líkamsárásin er sögð hafa átt sér stað. Felst í framburði þessa vitnis eindreginn stuðningur við framburð ákærða í málinu. Samkvæmt 2. mgr. 69. gr. stjórnarskrár skal hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð. Í samræmi við þetta kveður 45. gr. laga nr. 19/1991 á um að sönnunarbyrði um sekt ákærða hvíli á ákæruvaldinu. Þarf ákæruvald að færa fram sönnun sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, svo sem það er orðað í 46. gr. laganna. Samkvæmt því sem að framan segir er ekki einungis ósannað, að ákærði hafi framið þann verknað, sem hann er ákærður fyrir, heldur má telja að sönnunarfærslan í málinu bendi sterklega til hins öndverða. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að sakfella ákærða er því fjarstæð. Af hálfu ákæruvaldsins hefur meðal annars þessi aðstaða orðið til þess við áfrýjun málsins, að málið hefur verið flutt „með nokkrum efasemdum um grundvöll sakfellingar á áfrýjunarstigi málsins“, eins og komist er að orði í greinargerð ákæruvalds. Þrátt fyrir þetta krefst ákæruvaldið staðfestingar á sakfellingu héraðsdóms. Fallast má á með meirihluta dómenda, að ákæruvaldinu hafi, með hliðsjón af afstöðu sinni til sakarefnisins, verið rétt að krefjast sýknu fyrir Hæstarétti, svo sem heimilt er samkvæmt 2. málslið 148. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Ljóst er, að þá hefði ákærði verið sýknaður en málinu ekki vísað frá héraðsdómi. Sú staðreynd að ákæruvald hefur við áfrýjun málsins krafist staðfestingar á sakfellingu héraðsdómsins, en ekki sýknu, getur ekki valdið því að málatilbúnaður fyrir héraðsdómi teljist ekki lengur uppfylla kröfur laga. Ætlaðir annmarkar á kröfugerð og málflutningi fyrir Hæstarétti geta ekki að lögum varðað frávísun máls frá héraðsdómi. Raunar eru ekki að mínu mati neinir formlegir annmarkar á því af hálfu ákæruvalds, að krefjast við áfrýjun staðfestingar á sakfellingu héraðsdóms en benda í málflutningi sínum fyrir Hæstarétti á málsatriði sem teljast til hagsbóta fyrir ákærða, svo sem raunin er í þessu máli. Þessi háttur á málflutningi ákæruvalds fyrir Hæstarétti getur því ekki, hvernig sem á málið er litið, varðað frávísun málsins frá héraðsdómi. Maður sem sætt hefur ákæru fyrir refsiverða háttsemi hefur ríka og lögmæta hagsmuni af því að verða sýknaður, standi efni máls og sönnunarfærsla til slíkrar niðurstöðu. Við frávísun frá héraðsdómi er sá möguleiki enn fyrir hendi að formi til, að ný ákæra verði gefin út. Reglur laga nr. 19/1991 standa ekki til þess háttar málsúrslita við áfrýjun nema undirbúningi undir málshöfðun í héraði hafi verið áfátt í meginatriðum, svo sem það er orðað í lokamálslið 1. mgr. 156. gr. þeirra. Dæmi um slíka úrlausn er að finna í dómi Hæstaréttar 12. febrúar 2004 í máli nr. 467/2003, þar sem rangur aðili var ákærður og báðir málsaðilar, ákæruvald og ákærði, kröfðust raunar frávísunar frá héraðsdómi. Í dómi Hæstaréttar 14. október 2004 í máli nr. 142/2004, urðu málsúrslit þau sömu en þar stóð svo á að verknaðarlýsing ákærunnar fékk ekki stoð í lögreglurannsókn. Í því máli sem hér er til meðferðar hlýtur umtalsverður vafi að hafa leikið á að sá málsgrundvöllur, sem lá fyrir eftir rannsókn lögreglu, hafi getað talist líklegur til að leiða til sakfellis ákærða. Lá fyrir ákæruvaldinu að meta þetta samkvæmt 112. gr. laga nr. 19/1991. Undirbúningi undir málshöfðun í héraði telst hins vegar ekki áfátt í meginatriðum í skilningi 1. mgr. 156. gr. laganna, þó að fyrirfram megi telja vafa leika á því að sönnunarfærsla ákæruvalds geti leitt til sakfellis. Það er ekki hlutverk dómstóla að endurskoða mat ákæruvaldsins samkvæmt 112. gr. Taki ákæruvald ákvörðun um málshöfðun í tilvikum þar sem sönnunarfærsla er veik leiðir það eftir atvikum til sýknu en ekki frávísunar, sbr. til hliðsjónar athugasemd um þetta í forsendum dóms Hæstaréttar 26. febrúar 2004 í máli nr. 414/2003, þar sem þetta var raunar tengt hugleiðingu um ómerkingu héraðsdóms í stað frávísunar frá héraði svo sem rétt hefði verið. Með vísan til þess sem að framan er rakið tel ég að ákærði eigi að vera sýkn af sakargiftum samkvæmt ákæru í máli þessu. Ég er sammála atkvæði meirihlutans um sakarkostnað í héraði og áfrýjunarkostnað málsins. Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans [...], dagsettri 9. febrúar 2004 á hendur X, kennitala [...], “fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 15. desember 2003 veist að Y, kt. [...], á móts við hús nr. [...] við [...], gripið aftan í hana svo hún féll fram fyrir sig í götuna og slegið hana nokkur hnefahögg í hnakkann og víðar, með þeim afleiðingum að hún hlaut mar neðan og aftan við hægra eyra, mar og bólgu yfir hálsvöðva, roða og þrota á hægri kinn, bólgu og sprungu á efrivör, eymsli á nefbeini, veruleg eymsli og roða á hálsi, verk í hnakka, mikil eymsli og blæðingu undir húð á tveimur stöðum vinstra megin á höfði, mar fyrir ofan ökkla á báðum fótum og bólgu vinstra megin í baki”. Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20, 1981. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins. Til vara er þess krafist að ákvörðun refsingar verði frestað en til þrautavara að refsing ákærða verði svo væg sem lög leyfa. Þá er þess krafist að sakarkostnaður verði tildæmdur úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda. I. Þriðjudaginn 16. desember 2003, kl. 18:00 kom Y á lögreglustöðina á [...] í fylgd móður og fósturföður, og lagði fram kæru á hendur X, ákærða í máli þessu, fyrir líkamsárás á [...] á milli kl. 00:00 og 00:30 aðfaranótt mánudagsins 15. desember 2003. Ákærði og kærandi, vitnið Y, höfðu verið að renna sér á sleða á [...] umrædda nótt. Þau voru fyrrverandi par og höfðu ýmist verið sundur eða saman um nokkurn tíma. Í lögregluskýrslu lýsir Y árásinni þannig að hún hafi ætlað að hlaupa heim eftir rifrildi við ákærða. Ákærði hafi elt hana og gripið aftan í hana og hún fallið í götuna og hafnað á maganum. Ákærði hafi síðan lamið hana í hnakkann en hún muni ekki alveg hvað gerðist. Þetta hafi ekki staðið lengi og höggin hafi ekki verið mjög þung en heldur ekki laus. Hún geri sér ekki grein fyrir hvar hann lamdi hana né hve oft en höggin geti hafa verið um það bil sex. Þegar hún hafi litið upp hafi hún séð ákærða hlaupa í burtu. Hún hafi síðan sest upp en verið hálf ringluð og haft það á tilfinningunni að hún þyrfti að kasta upp. Samkvæmt vottorði A heilsugæslulæknis kom Y til hans þann 16. desember 2003. Í vottorðinu er skráð lýsing vitnisins á hinni meintu árás og er hún í samræmi við lýsingu þá sem vitnið gaf hjá lögreglu. Í vottorðinu segir síðan orðrétt: Við skoðun er hún greinilega miður sín og liggur við gráti allan tímann. Er með marblett neðan og aftan við hæ. eyra sem kemur heim og saman við högg eftir hnefa eða flatan lófa og þá með miklum krafti. Þá er hún með mar og bólgu yfir sterno cleido mastoidevöðvanum á hálsi, þar er einnig greinilegt fingrafar, sennilega eftir þumalfingur. Þetta mar nær einnig upp á við og bak við eyrað hliðlægt. Ekki óhugsandi og ekki ólíklegt að um sé að ræða fleiri en einn áverka á sama svæði sem renna saman í einn. Þá er hún með roða og þrota á hæ. kinn þar sem um er að ræða í raun þrjá afmarkaða áverka, allir striklaga og mynda næstum hringlaga blett og ekkert mar þar á milli, þetta gæti komið heim og saman við klemmuáverka t.d. ef hert hefur verið að trefli. Þá er hún bólgin á efrivör sem er sprungin rétt hliðlægt um miðja vegu vi. megin, ekki blæðing nú þegar ég skoða hana, ekki að sjá áverka á neðri vör. Finnur fyrir eymslum við þreifingu á nefbeini en þar er ekki að sjá mar, ekki áberandi roði, ekki glóðarauga hins vegar rauð í báðum augum, sennilega vegna geðshræringar og gráts. Kvartar um verk aftan í hnakkanum en þar ekki hægt að sjá klár merki um áverka, er einnig með verk aftan í hnakkanum en þar ekki hægt að sjá klár merki um áverka, er einnig með verk í hálsliðum þar sem hálshryggur og mjóhryggur mætast. Veruleg eymsli og roði rétti í kringum og neðan við útbungunina sem kemur við sjöunda hálslið. Verkur vi. megin í höfði og þar er hematoma ekki mjög stórt ca. 2,5 x 1,5 cm og liggur í svokallaðri horisontal lóðréttri línu. Þar eru veruleg þreifieymsli. Hematomað er á sama svæði og hún kvartar um verk í höfðinu. Þá er hún með annað hematoma þ.e. blæðingu milli húðar og kúpu yfir parientalbeini sömu megin sem er ca. 1 fercm að flatarmáli veruleg þreifieymsli og er hér mjög líklega um áverka eftir högg að ræða. Marblettir framan á báðum fótum, rétt ofan við ökkla, gætu hafa komið við t.d. spark eða rekið sig í, ekki sár. Gætu einnig hafa komið við að brugðið hafi verið fyrir hana fæti, þarna undir eru greinileg hematom. Þá kvartar hún um í mjóbaki, heldur meira vi. megin við hrygginn, það er ekki að sjá mar, get ekki þreifað aukna fyrirferð en vottar fyrir bólgu þar sem eymslin eru mest og ekki ósennilegt að mar eigi enn eftir að koma fram. Lít svo á hana aftur þ. 17.12. og þá er hún greinilega komin með einkenni frá hálsi vi. megin, komin með fingurlagað mar í láréttu plani. Veruleg eymsli á þeim stað en erfitt að greina það frá bólgu í mjúkpörtum og bólgu í hálsi og koki. Stúlkunni er greinilega mjög brugðið og líður illa, hefur grátið mikið og greinilega post traumatisk stresseinkenni. Ákærði neitar því alfarið að hafa ráðist á Y í umrætt sinn. Hann lýsir atvikum umrætt kvöld þannig að hann og Y hafi farið út að renna sér á sleða eftir að hafa fengið sér í glas heima hjá honum. Margt fólk hafi verið að renna sér á sleðum. Þau hafi rennt sér tvær eða þrjár ferðir en þá farið til félaga hans þar sem þau hafi setið nokkra stund og drukkið áfengi og spjallað. Þegar félaginn hafi þurft að leggja sig hafi þau farið aftur út og haldið áfram að renna sér. Þegar þau hafi svo verið á leið upp [...] eftir að hafa rennt sér tvær ferðir hafi Y beðið hann að útvega meira áfengi. Hann hafi sagt henni að hann gæti það ekki því hann ætti ekkert áfengi og félagi hans væri farinn að sofa og hann væri líka búinn með sitt áfengi. Hann vissi ekki um neinn sem gæti útvegað áfengi. Hún hafi þá orðið æst og hann reynt að róa hana. Hann hafi haldið að hún væri orðin róleg og þau farið að spjalla frekar rólega. Síðan hafi hún æst sig aftur. Hann hafi þá gripið í höndina á henni og sagt henni að róa sig niður. Hann hafi útskýrt fyrir henni að þetta gengi ekki og myndi enda með að þau myndu rífast allt kvöldið. Hann hafi síðan kysst hana létt og hann farið í átt að Heiðmörk þar sem hann búi en hún niður [...]. Við skýrslutöku hjá lögreglu kvaðst ákærði aðspurður ekki muna út af hverju hann og Y hefðu farið að rífast í umrætt sinn og nefndi ekki að hún hefði viljað að hann útvegaði meira áfengi. Ákærði kveðst aldrei hafa lagt hendur á Y fyrir utan einu sinni á [...] en þá hafi hann bitið hana í kinnina til að verja sig. Ákærði kveðst halda að kæran sé tilkomin vegna þess að Y hafi orðið mjög reið vegna þess að hann gat ekki útvegað áfengi og ætlað að hefna sín á honum fyrir það. Ákærði kveður þau hafa hist aftur nokkrum dögum seinna og síðan daglega yfir jólin. Þau hafi gefið hvort öðru jólagjafir. Síðan hafi þau hist um hverja helgi og daglega um páskana. Y hringi í hann á föstudögum og spyrji hann hvernig helgin verði hjá honum. Vitnið, Y, kveðst hafa verið lítillega undir áhrifum áfengis í umrætt sinn. Hún hafi verið heima hjá ákærða þegar þau hafi ákveðið að fara út og renna sér á sleða. Þau hafi síðan farið að rífast og hún þá sagst ætla heim því hún vildi ekki rífast við ákærða. Ekki sé rétt, sem ákærði haldi fram, að þau hafi farið að rífast út af því að hún hafi viljað að hann útvegaði meira áfengi. Ákærði hafi ekki viljað að hún færi heim og ýtt við henni þannig að hún datt. Hún hafi staðið upp og hent vettlingunum hans upp götuna og hafi ákærði hlaupið eftir þeim. Hún hafi hins vegar hlaupið niður götuna í átt að heimili sínu en ákærði hafi komið á eftir henni. Hann hafi gripið í hana og hún dottið fram fyrir sig í götuna og lent á maganum. Ákærði hafi síðan ráðist á hana og lamið hana í bak, háls og höfuð með flötum lófa að hún haldi. Höggin hafi ekki verið mjög þung. Hún hafi eins og dottið út en þegar hún hafi rankað við sér hafi ákærði verið farinn ofar í götuna. Þegar hún hafi staðið upp hafi hana svimað og verið óglatt. Það hafi ekki verið vegna þess að hún var búin að drekka. Hún hafi svo gengið af stað áleiðis heim en þegar þangað kom hafi ákærði verið í garðinum fyrir ofan húsið. Hún hafi beðið hann að fara en hann neitað að gera það nema hún segðist elska hann. Hún hafi því sagst elska hann en þá hafi ákærði beðið hana um að koma nær sér en hún neitað því. Hún hafi ætlað að labba til ömmu sinnar en þegar hún hafi séð að ákærði fór í burtu hafi hún hlaupið inn heima hjá sér. Foreldrar hennar hafi ekki verið heima og hafi hún byrjað á að hringja í móður sína en ekki náð sambandi við hana. Hún hafi því næst reynt að ná sambandi við fósturföður sinn en án árangurs. Svo hafi hún hringt á skrifstofuna þar sem mamma hennar sé að vinna og þá hafi henni verið sagt að mamma hennar myndi hringja í hana sem hún hafi gert. Mamma hennar hafi svo fengið B til að koma og vera hjá henni þar til hún kæmi heim. Henni hafi liðið mjög illa eftir árásina og verið hrædd. Hún hafi fundið til í höfðinu, andlitinu, bak við eyrað og bakinu. Þá hafi hún verið með marbletti á fótunum. Henni hafi þótt skrýtið að þetta skyldi hafa gerst. Hún og ákærði séu engir óvinir í dag og hittist. Hún hringi í hann og hann í hana. Henni finnist ákærði geðveikt fínn gaur. Þau hafi gefið hvort öðru jólagjafir. Y hefur lýst því að ákærði hafi áður ráðist á hana. Í annað skiptið hafi ákærði bitið hana en í hitt skiptið hafi hann klórað hana á hálsinum. Fyrra tilvikinu lýsti hún þannig hjá lögreglu að hún hafi verið á skemmtun á [...] sl. sumar og viljað fara en ákærði hafi ekki viljað að hún færi. Þau hafi síðan farið að slást og á endanum hafi ákærði bitið hana. Síðara tilvikinu lýsti hún þannig að helgina áður hafi hún verið á leið heim til sín gangandi eftir skemmtun. Þegar hún hafi verið á móts við pósthúsið hafi ákærði komið á móti henni og ekki viljað að hún færi heim. Hann hafi síðan gripið um hálsinn á henni en hún dottið og þannig losnað frá honum. Hún hafi náð að hringja í C sem verið hafi á veitingastaðnum [...] og hafi hann komið út og kallað í ákærða sem þá hafi hætt. Vitnið Z kveðst hafa orðið vör við læti í Y eftir að hún og ákærði voru orðin ein eftir úti. Hún hafi fylgst með þeim út um glugga á húsi sínu á milli klukkan tólf og hálf eitt. Y hafi verið eins og hún væri að sturlast, öskraði á ákærða og ýtti við honum. Síðan hafi þau gengið í sitt hvora áttina. Y hafi síðan komið til baka og aftur ýtt við ákærða. Ákærði hafi þá tekið fram fyrir hendurnar á henni og öskrað á hana að róa sig. Síðan hafi þau gengið í sitt hvora áttina. Ákærði hafi ekki barið Y. Kveðst vitnið vera þess fullvisst að það hafi orðið vitni að samskiptum ákærða og Y umrædda nótt. Hún hafi hins vegar ekki tengt atvikið við kæruna fyrr en henni hafi verið sagt í tengslum við aðalmeðferð málsins að hin meinta árás hefði átt sér stað fyrir utan pósthúsið. Vitnið D móðir Y hefur greint frá því að Y hafi hringt í hana í vinnuna í kringum miðnætti í umrætt sinn og verið hágrátandi og sagt henni að ákærði hefði ráðist á hana og meitt hana. Hafi Y beðið hana að koma heim því hún væri svo hrædd. Þar sem að það hefði tekið hana um hálftíma að komast heim hafi hún hringt í mágkonu sína og beðið hana að fara til Y. Þegar hún hafi svo sjálf komið heim hafi ástand Y verið skelfilegt og hafi hún helst verið að hugsa um að hringja í lækni þar sem hún hafi haldið að Y væri að fá taugaáfall. Y hafi verið mjög hrædd og í mjög miklu uppnámi. Y hafi sagt henni að ákærði væri búinn að vera á vappi í kringum húsið. Hafi Y verið með marblett bak við eyrað og á báðum fótum. Þá hafi hún verið með sprungna vör. Auk þess hafi hún kvartaði um í baki og á fleiri stöðum. Y hafi verið í marga klukkutíma að jafna sig og ekki sofnað fyrr en undir morgun. Vitnið kveðst ekki hafa orðið vitni að því að ákærði beitti Y líkamlegu ofbeldi þó oft hafi gengið mikið á. Y hafi einu sinni áður greint henni frá því að ákærði hefði beitt hana ofbeldi og þá með því að taka hana kverkataki þannig að áverki hlaust af. Hún hafi hins vegar orðið vitni að því að ákærði beitti Y andlegu ofbeldi með afbrýðisemi og hegðun t.d. með því að rjúka út og skella á eftir sér. Eftir umrætt atvik hafi þeim þótt nóg komið og ákveðið að kæra. Vitnið B kveður fósturföður Y hafa hringt í sig umrædda nótt um klukkan eitt og beðið hana um að fara til Y því hún væri ein heima og í miklu uppnámi eftir slagsmál. Þegar hún hafi komið til Y hafi hún verið grátandi, skjálfandi og í miklu uppnámi rétt eins og hún væri að fá taugaáfall. Hún hafi ekki getað greint að Y væri undir áhrifum áfengis. Hún hafi reynt að hugga hana og ræða við hana. Y hafi skýrt henni samhengislaust frá því sem gerðist. Fram hafi komið hjá henni að hún hefði verið að drekka heima hjá ákærða. Þau hefðu síðan farið út og þegar hún hafi viljað fara heim hafi hann viljað að hún segði að henni þætti vænt um hann en hún ekki viljað það. Hún hafi endað í götunni og hann haldið henni þar til hún sagði að henni þætti vænt um hann. Hún hafi ekki greint áverka á Y aðra en far á hálsinum neðan við eyra. Þá hafi Y verið bólgin í framan og í kringum munninn en hún viti ekki nema það hafi verið eftir grát. Við skýrslutöku hjá lögreglu kvað vitnið sér finnast eins og Y hefði eitthvað minnst á að ákærði hefði barið hana í bakið eða eitthvað slíkt. Vitnið E, vinkona ákærða og vitnisins Y kveðst hafa orðið vitni að því að Y hafi slegið ákærða þannig að hann missti næstum gleraugun sín. Ákærði hafi þá tekið Y og bitið hana í kinnina. Kveður vitnið þau alltaf fara að rífast þegar þau séu að drekka og Y verði geðveikt æst. Vitnið C staðfestir að Y hefði hringt í hann eins og hún heldur fram að hún hafi gert helgina fyrir umrætt sinn. Hann kveður ákærða og Y hafa verið búin að rífast allt kvöldið en hann hafi ekki orðið vitni að því að ákærði réðist á hana. II. Kærandi, vitnið Y, kveður ákærða hafa ráðist á sig umrætt kvöld á [...] þar sem þau höfðu verið að renna sér á sleða. Engin vitni voru að árásinni. Þegar Y kom heim var enginn heima og kveðst hún strax hafa reynt að ná símasambandi við móður sína, vitnið D og einnig fósturföður. Kveður móðir Y hana hafa verið hágrátandi í símanum og hafa sagt að ákærði hefði ráðist á hana og meitt hana. Var vitnið B, fengin til að fara heim til Y og vera hjá henni. Y hefur skýrt nokkuð skilmerkilega frá árás ákærða og verið sjálfri sér samkvæm í frásögn sinni. Hún sagði móðir sinni grátandi frá árásinni í síma og síðan nánar eftir að móðir hennar kom heim. Þá greindi Y B, sem fengin var til að vera hjá henni, frá því að ákærði hefði ráðist á hana. Loks er frásögn Y af árásinni skráð í vottorð læknisins A. Er sú frásögn efnislega samrýmanleg framburði Y fyrir dómi. Ákærði neitar hins vegar að hafa ráðist á Y. Fyrir dómi lýsti ákærði samskiptum þeirra umrætt kvöld skilmerkilega og því hvernig Y hefði reiðst því að hann hafi ekki getað útvegað áfengi. Við skýrslutöku hjá lögreglu kvaðst ákærði hins vegar ekki muna út af hverju þau fóru að rífast í umrætt sinn og minntist ekki á ágreining út af áfengi. Þykir frásögn ákærða af atvikum ótrúverðug. Það að ákærði hafi ekki ráðist á Y í umrætt sinn fær stoð í framburði vitnisins Z sem þykir verða að meta með hliðsjón af því að hún kveðst hafa fylgst með atvikum út um stofuglugga á húsi sínu í nokkurri fjarlægð. En einnig í ljósi þess að hún tengdi atvik þau sem hún kveðst hafa orðið vitni að fyrst við mál þetta skömmu fyrir aðalmeðferð. Y kveðst hafa verið hrædd eftir árásina og kveður sér hafa liðið mjög illa. Vitnið B kveður Y hafa verið grátandi þegar hún kom til hennar um nóttina og í miklu uppnámi eins og hún væri að fá taugaáfall. Móðir Y kveður hana hafa verið mjög hrædda og í mjög miklu uppnámi. Ástand Y hafa verið skelfilegt og hafi hún verið að hugsa um að hringja á lækni því hún hafi haldið að Y væri að fá taugaáfall. Það hafi tekið Y marga klukkutíma að jafna sig og hún ekki sofnað fyrr en undir morgun. Þá kemur fram í vottorði A læknis að Y hafi greinilega verið mjög brugðið og henni liðið illa, hún hafi grátið mikið og að hún sé greinilega með post traumatisk stresseinkenni. Af framanröktu þykir ljóst að Y hefur borið öll merki þess að hafa lent í einhverju mjög alvarlegu. Y hefur staðfastlega borið að ákærði hafi ráðist á hana og er frásögn hennar trúverðug að mati dómsins. Fær frásögnin stoð í framburðum vitna sem hún greindi frá árásinni og vottorði læknis sem skráði frásögn af árásinni eftir henni. Þá þykir framburðir vitna um andlegt ástand hennar og vottorð læknis þar um renna styrkum stoðum undir frásögn hennar. Loks koma áverkar þeir sem hún var með og lýst er í læknisvottorði heim og saman við frásögn hennar af árás ákærða. Þegar þetta er virt annars vegar og hins vegar ótrúverðugur framburður ákærða þykir ekki vera varhugavert að leggja frásögn Y til grundvallar um að ákærði hafi í umrætt sinn ráðist á hana með þeim hætti sem hún hefur lýst og greinir í ákæruskjali að öðru leiti en því að leggja þykir verða til grundvallar með hliðsjón af framburði Y, að ákærði hafi slegið hana með flötum lófa. Þá þykir mega leggja til grundvallar að afleiðingar árásarinnar hafi orðið þær sem í ákæru greinir aðrar en mar fyrir ofan ökkla á báðum fótum sem ekki þykir verða rakið til árásarinnar eins og henni er lýst af Y. Þykir brot ákærða varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði var með dómi 28. janúar 2003 dæmdur til greiðslu sektar vegna brots gegn 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga, 5. gr. og 1. mgr. 35. gr. umferðarlaga. Ákærði hefur gerst sekur um fólskulega líkamsárás gegn barnungri stúlku sem hann hafði áður átt í ástarsambandi við. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 1 mánuð. Eftir atvikum þykir mega fresta fullnustu refsingarinnar og ákveða að hún skuli niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Eftir niðurstöðu málsins verður ákærði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Evu Dísar Pálmadóttur héraðsdómslögmanns, 120.000 krónur. Dóm þennan kveður upp Þorgerður Erlendsdóttir dómstjóri. Dómsuppsaga hefur dregist vegna anna dómara. Dómsorð: Ákærði greiði allan sakarkostnað þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Evu Dísar Pálmadóttur héraðsdómslögmanns, 120.000 krónur.
Mál nr. 591/2006
Skuldamál Loforð Dráttarvextir Framlagning skjals
KB hf. höfðaði mál á hendur KE ehf. til greiðslu 3.500.000 króna samkvæmt skuldbindingu um greiðslu til KB hf. sem ritað var undir af hálfu KE ehf. á samkomulag milli S ehf. og E ehf. um yfirtöku KE ehf. á hótelrekstri E ehf. í fasteign í eigu S ehf. Fyrir lá að KE ehf. tók við öllu lausafé sem var í hótelinu en stór hluti þess hafði verið veðsettur KB hf. Nefnd skuldbinding var gerð í tengslum við yfirtöku á hinu veðsetta lausafé og hafði þann tilgang að tryggja KE ehf. eignarrétt að lausafénu og að það yrði leyst úr veðböndum. Deildu aðilar um hvort skuldbindingin hefði orðið virk. Í dómi Hæstaréttar var talið að skuldbindingin hefði stofnað rétt KB hf. til handa án þess að neitt frekar hefði þurft að koma til, enda hljóðaði hún um greiðslu beint til bankans. Að auki hafði KB hf. fengið framseld til sín réttindi þrotabús E ehf. á hendur KE ehf. samkvæmt áðurnefndu samkomulagi með yfirlýsingu skiptastjóra þrotabúsins. Greiðslukrafa KB hf. var því tekin til greina en dráttarvextir voru dæmdir frá málshöfðun þar sem skort hafði á skýr svör af hálfu KB hf. við fyrirspurnum KE ehf. um afléttingu veðréttarins.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. nóvember 2006. Hann krefst þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 3.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. janúar 2003 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. janúar 2007. Hann krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur að öðru leyti en því að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér málskostnað í héraði. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti óskaði aðaláfrýjandi eftir að leggja fram nýtt skjal, stefnu í máli Skeifunnar ehf. á hendur Eikarfasteignum ehf. 3. október 2002. Skilyrði lokamálsliðar 1. mgr. 160 gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að Hæstiréttur megi heimila framlagningu skjalsins eru ekki uppfyllt og kemur það því ekki til álita við úrlausn málsins. Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Skeifan ehf. átti fasteign að Brautarholti 22-24 í Reykjavík og hafði með samningi 1. ágúst 2000 selt Eikarfasteigum ehf. hana á leigu til hótelreksturs. Hinn 23. ágúst 2002 höfðu Eikarfasteignir ehf. gefið út tryggingabréf til Búnaðarbanka Íslands hf., þar sem stofnað hafði verið til veðréttar í lausafé sem talið var upp á tveimur listum sem fylgdu bréfinu. Var þar um að ræða alls kyns muni og búnað í hótelinu. Leigutakinn, Eikarfasteignir ehf., var síðla árs 2002 kominn í vanskil með leigugjald og var gert skriflegt samkomulag 4. desember 2002 um að húsnæðinu skyldi skilað til leigusalans þann dag. Í skjalinu var tekið fram að Skeifan ehf. muni „stuðla að því að nýr leigutaki (Hótelveitingar ehf.) yfirtaki bókanir og samninga vegna hótelrekstursins sem Eikarfasteignir ehf. hafa þegar gert enda afhendi Eikarfasteignir ehf. gögn þar að lútandi.“ Þá var svofellt ákvæði í samkomulaginu: „Skeifunni ehf. er kunnugt um veðrétt Búnaðarbanka Íslands í öllu lausafé sem er í eigu Eikarfasteigna ehf. og staðsett er í húsnæðinu. Skeifan áskilur sér rétt til að koma að athugasemdum við bankann vegna veðsetningarinnar.“ Á samkomulagið var síðan handritaður svofelldur texti: „Hótelveitingar ehf. munu greiða Búnaðarbanka Íslands hf. kr. 3.500.000,- vegna ofangreinds innan mánaðar, enda sé það til staðar skv. veðbréfi.“ Undir þetta var ritað af hálfu Hótelveitinga ehf. sem var þá nafn gagnáfrýjanda. Fyrir liggur að gagnáfrýjandi tók við öllu lausafé sem var í hótelinu, þar með talið þeim hlutum sem veðsettir höfðu verið Búnaðarbanka Íslands hf. Aðaláfrýjandi hafði, þegar mál þetta var höfðað, tekið við réttindum og skyldum Búnaðarbanka Íslands hf. og krefur gagnáfrýjanda í málinu um greiðslu á 3.500.000 krónum samkvæmt skuldbindingunni sem handrituð var á samkomulagið 4. desember 2002. Snýst ágreiningur málsaðila um hvort sú skuldbinding hafi orðið virk án þess að fleira þyrfti til að koma. Er málsástæðum þeirra hér að lútandi lýst í hinum áfrýjaða dómi. Við samningsgerðina 4. desember 2002 hafði leigutaki hótelsins, Eikarfasteignir ehf., sem þá var að hverfa frá rekstri þess, augljósa hagsmuni af því að fá greiðslu fyrir þá lausafjármuni sem hann átti í húsnæðinu og að tryggja að greiðslan fyrir þá gengi til Búnaðarbanka Íslands hf. sem átti veðrétt í þeim. Er ljóst af samhenginu að með orðunum „vegna ofangreinds“ í hinum áritaða texta var vísað til þeirra lausafjármuna, sem Eikarfasteignir ehf. höfðu veðsett Búnaðarbanka Íslands hf. og nefndir voru í texta samkomulags Eikarfasteigna ehf. við Skeifuna ehf. ofar í skjalinu. Áritun gagnáfrýjanda á skjalið, sem fyrr var lýst, hlaut að hafa þann tilgang að tryggja þessa hagsmuni. Gagnáfrýjandi tók strax við þeim munum sem um var að ræða. Hann hafði einn mánuð til að inna greiðsluna af hendi og er af textanum ljóst að á sama tímabili gat hann sannreynt hvort munirnir sem um ræddi væru til staðar, enda var greiðsluskuldbinding hans háð því að svo væri. Samkvæmt gögnum málsins gerði hann ekki á þessu tímabili athugasemdir um að hluti vantaði. Skuldbinding hans til greiðslu samkvæmt ákvæðinu var því orðin endanleg 4. janúar 2003, mánuði eftir gerð þess. Telja verður að áritun gagnáfrýjanda á samkomulagið 4. desember 2002 hafi stofnað rétt Búnaðarbanka Íslands hf. til handa án þess að neitt frekar hafi þurft til að koma, enda hljóðar skuldbindingin um greiðslu beint til bankans. Að auki fékk aðaláfrýjandi framseld réttindi þrotabús Eikarfasteigna ehf. á hendur gagnáfrýjanda samkvæmt skjalinu með yfirlýsingu skiptastjóra þrotabúsins 8. júní 2005. Aðaláfrýjandi er því réttur aðili að málinu. Gagnáfrýjandi hefur meðal annars haldið því fram að endanleg skuldbinding hans hafi ekki stofnast við yfirlýsinguna, þar sem ekki hafi legið fyrir að Búnaðarbanki Íslands hf. myndi aflétta veðrétti sínum af hinum veðsettu lausafjármunum þó að hann greiddi bankanum. Gögn málsins bera með sér að haft var samband við bankann í tengslum við yfirlýsinguna og verður af þeim ráðið að fjárhæð skuldbindingar gagnáfrýjanda hafi verið ákveðin í samráði við hann. Af atvikum er ljóst, að greiðsluskuldbinding gagnáfrýjanda gat ekki haft annan tilgang en að tryggja honum eignarrétt að hinum veðsettu lausafjármunum og að þeir yrðu leystir úr veðböndunum sem á þeim hvíldu. Með atbeina sínum í tengslum við gerð samkomulagsins má vera ljóst að bankinn hafi fallist á þetta. Á hinn bóginn liggur fyrir að bankinn svaraði ekki bréfi gagnáfrýjanda 25. júní 2003, þar sem hann freistaði þess að ná samkomulagi um lyktir málsins, þó að hann byði ekki fram greiðslu nema á hluta þeirrar fjárhæðar sem yfirlýsingin frá 4. desember 2002 hljóðaði um. Meðal annars var í bréfi þessu nefnd krafa gagnáfrýjanda um að bankinn aflétti veðrétti sínum ef greitt yrði. Gagnáfrýjandi átti kröfu til að fá skýr svör um þetta áður en hann innti greiðslu sína af hendi. Verður af þessum sökum ekki fallist á kröfu aðaláfrýjanda um dráttarvexti fyrr en frá þeim tíma er mál þetta var höfðað. Samkvæmt því sem að framan greinir verður fallist á kröfu aðaláfrýjanda um greiðslu úr hendi gagnáfrýjanda á þeirri fjárhæð sem í yfirlýsingunni 4. desember 2002 greinir með dráttarvöxtum frá 11. mars 2006 en þann dag var stefna til héraðsdóms birt gagnáfrýjanda. Samkvæmt þessum úrslitum verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda upp í málskostnað hans í héraði og fyrir Hæstarétti sem í dómsorði greinir. Dómsorð: Gagnáfrýjandi, Keahótel ehf., greiði aðaláfrýjanda, Kaupþingi banka hf., 3.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. mars 2006 til greiðsludags. Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Mál þetta, sem dómtekið var þann 17. október 2006, er höfðað 11. mars s.l. af Kaupþingi banka hf., Borgartúni 19, Reykjavík á hendur Keahótelum ehf., Glerárgötu 20, Akureyri. Dómkröfur stefnanda eru að stefnda verði dæmt til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 3.500.000 með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38, 2001, um vexti og verðtryggingu frá 04.01.2003 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun. Dómkröfur stefnda eru aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá krefst stefnda málskostnaðar. Á árinu 2003 sameinuðust Búnaðarbanki Íslands hf. og Kaupþing banki hf. og ber hið sameinaða félag nú nafn þess síðarnefnda. Í janúar 2004 var á hluthafafundi Hótelveitinga ehf. nafni félagsins breytt í Keahótel ehf. I. Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna. Samkvæmt málavaxtalýsingu aðila og framlögðum gögnum eru helstu atvik þau að hinn 1. ágúst 2000 gerðu Skeifan ehf. og Eikar fasteigir ehf. með sér samning um að síðar nefnda félagið leigði af hinu fyrrnefnda fasteignina Brautarholti 22-24 í Reykjavík til hótelrekstrar. Fyrirsvarsmenn Eikar fasteigna ehf. gáfu út hinn 23. ágúst 2002 tryggingarbréf til Búnaðarbanka Íslands hf., með veði í sérgreindu lausafé til tryggingar skaðlausri greiðslu á öllum skuldum og skuldbindingum, með 1. veðrétti. Samkvæmt veðbréfinu var hámarksfjárhæð fjárskuldbindinga tiltekið kr. 5.000.000, bundið vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Liggur fyrir að veðbréfið var í vörslu útibús Búnaðarbankans á Hellu. Í veðbréfinu er vísað til fylgiskjals, þ.e. lista yfir hið veðsetta lausafé og eru á honum tilgreindir eftirtaldir munir: peningakassi, peningaskápur, faxtæki, símstöð, skiptiborð, 55 símtæki, tölvubúnaður þ.m.t. 3 tölvur, 4 skjáir, 3 prentarar og hugbúnaður, 2 leðursófar, 3 borð, 3 leðurstólar, 3 barstólar 5 hringborð og 14 stólar, ótilgreindar myndir í herbergjum, á göngum og í afgreiðslu, sængur, koddar og handklæði , rúmteppi, gluggatjöld, 56 sjónvörp, 55 útvörp, 1 video, 55 hárþurrkur, 10 rúm, gufubaðsklefi, 2 þvottavélar, 3 þurrkarar, 2 skrifborð, 4 skrifborðsstólar, skjalaskápur, eldhúsborð, ísskápur, áhöld til þrifa, ryksuga og ræstivagnar, en einnig innlendar og erlendar viðskiptakröfur (vouchers) og greiðslukortakröfur VISA og EURO. Samkvæmt áritun á veðbréfið var það innfært hjá sýslumanninum í Reykjavík þann 27. ágúst 2002 með svofelldri áritun: „vegna þessa lausafjár er telja má nægjanlega sérgreint“. Fyrir liggur að þann 4. desember 2002 rituðu fyrirsvarsmenn Eikar fasteigna ehf., þeir Bæring Sigurbjörnsson og Þórir Rafn Halldórsson og fyrirsvarsmaður Skeifunnar ehf., Ólafur Thoroddsen undir skjal sem ber heitið „Samkomulag,“. Í skjali þessu er m.a. kveðið á um að Eikar fasteignir ehf. afhendi Skeifunni ehf. fasteignina Brautarholti 22-24 til fullra umráða kl. 13:00 nefndan dag. Í skjalinu er ennfremur tekið fram að Skeifan ehf. muni stuðli að því nýr leigutaki (Hótelveitingar ehf.) yfirtaki bókanir og samninga vegna hótelreksturs Eikar fasteigna ehf., enda afhenti það félag gögn þar af lútandi. Tekið er fram í skjalinu að Skeifunni ehf. sé kunnugt um veðrétt Búnaðarbanka Íslands í öllu lausafé sem sé í eigu Eikar fasteigna ehf. og staðsett sé í húsnæðinu, en jafnfram að Skeifan ehf. áskilji sér rétt til að koma að athugasemdum við bankann vegna veðsetningarinnar. Sérstaklega er tekið fram að Skeifan ehf. hafi ekki athugasemdir við eignarétt annars fyrirsvarsmanns Eikar fasteigna ehf. á einu málverki og styttu í móttöku hótelsins. Í niðurlagi skjalsins er skráð að við undirritun falli niður án kostnaðar dómsmál milli samningsaðila vegna kyrrsetningargerðar sem sé til meðferðar hjá dómstólum. Á umrætt skjal er ennfremur handritaður svohljóðandi texti: „Hótelveitingar ehf. munu greiða Búnaðarbanka Íslands kr. 3.500.000 vegna ofangreinds innan mánaðar, enda sé það til staðar skv. veðbréfi.“. Rita tveir stjórnarmenn stefnda nafn sitt þar undir. Ágreiningslaust er að vegna ofangreinds samkomulags og áritunar nefndra aðila sendi þáverandi forstöðumaður lögfræðideildar Búnaðarbanka Íslands, Ársæll Hafsteinsson, bréf til stefnda í byrjun janúar 2003, en niðurlag þess er svohljóðandi: ,,Samkvæmt upplýsingum Eikar fasteigna ehf. skyldi umrædd greiðsla til bankans fara fram samhliða gerð kaupsamnings milli félagsins og Hótelveitinga ehf. um lausaféð. Með vísan til framangreinds fer Búnaðarbanki Íslands þess hér með á leit við Hótelveitingar ehf. að framangreind greiðsla verði innt af hendi til bankans.“ Afrit af bréfinu var sent Eikar fasteignum ehf. Fyrir liggur að vegna nefnds bréfs Búnaðarbanka Íslands hf. ritaði framkvæmdastjóri Skeifunnar ehf. bréf til stefnda sem dagsett er 20. janúar 2003. Í bréfi þessu er staðhæft að er Eikar fasteignir ehf. hafi gert leigusamning um fasteignina Brautarholti 22-24 hafi fylgt húsnæðinu símstöð, þvottavélar, þurrkari og uppþvottavél og væri því eign Skeifunnar ehf., en síðan segir: „Það er því álit Skeifunnar ehf. að bankinn geti ekki selt yður búnað og tæki sem hann á ekki, og ber að taka tillit til þess við uppgjör bankans og yðar.“ Af hálfu málsaðila er í stefnu og greinargerð vísað til ofangreindra heimildarskjala, en einnig rafbréfa sem stefnda sendi frá sér vegna nefndra lausafjármuna. Verður m.a. ráðið af rafbréfum dagsettum 3. og 5. febrúar 2003 að í tilefni af samtali lögmanns stefnda við áðurnefndan forstöðumann Búnaðarbanka Íslands hafi sá fyrrnefndi sent lögmanni Eikar fasteigna ehf., Brynjari Níelssyni hrl. rafpóst svo og Skeifunni ehf. með það fyrir augum að síðarnefnda félaginu gæfist kostur á að koma að athugasemdum sínum. Í nefndu rafbréfi lögmanns stefnda til lögmanns Eikar fasteigna ehf. er frá því skýrt að tekist hafi samkomulag um að stefndi keypti lausafé af Eikar fasteignum ehf., en að vandkvæði væru þar á, þar eð gufubaðsklefa hafi vantað, en að auki væru uppi deilur milli fyrri samningsaðila, þ.e. Eikar fasteigna ehf. og Skeifunnar ehf., um eignarrétt að símstöð, þurrkurum og þvottavél. Síðan segir orðrétt: ,,Umbjóðandi minn er tilbúinn til að ganga frá þeim kaupum sem hægt er að ganga frá á þessu stigi málsins. Kaupverð á heildarpakkanum er 3,5 m/vsk. Skv. reikningum er það sem vantar upp á kr. 1 millj. m/vsk. Umbjóðandi minn stingur upp á því að á meðan skorið er úr um eignarétt á nefndum munum þá göngum við frá því sem hægt er að ganga frá. Umbjóðandi minn fær þá reikning frá þínum umbjóðanda fyrir þessu lausafé og með ósk um að þetta sé greitt inn á einhvern reikning í eigu búnaðarbankans og bí afléttir þá veðinu“. Fyrir liggur að Eikar fasteignir ehf. sendi stefnda reikning, sem dagsettur er 17. febrúar 2003. Er þar skráð m.a.: „Sala lausafjár samkvæmt meðfylgjandi lista: Úttekið kr. 3.500.000, virðisaukaskattur kr. 857.500 og upphæð reiknings kr. 4.357.500. Með rafbréfi lögmanns stefnda til lögmanns Eikar fasteigna ehf., dagsettu 21. febrúar 2003 er efni ofangreinds rafbréfs frá 3. febrúar áréttað, en með ítarlegri hætti. Í bréfinu segir m.a.: ,,Á reikningi þarf að koma fram að keypt sé lausafé sem veðsett var Búnaðarbanka Íslands og sbr. fylgiskjal þinglýsts tryggingabréfs dags. 23. 08. 2002. Undanskilið sé þó gufubaðsklefi (metinn á kr. 350.000 vantar), símstöð og skiptiborð (kr. 550.000), þurrkari Imesa, 2 Whirlpool þurrkarar, 1 þvottavél Whirlpool, alls metið á 1. millj. kr. m/vsk. Kaupverð alls lausafjár er kr. 3.500.000 m/vsk. En að þessu frádregnu er kaupverð kr. 2.500.00 m/vsk. Hótelfasteignir munu kaupa það sem undanskilið er hér á nefndu verði þegar gufubaðið kemur í leitirnar og deilur hafa verið jafnaðar um eignarrétt þannig að Eikar fasteignir hafa sannað eignarrétt sinn með dómi eða samkomulagi við Skeifuna ehf. Fjárhæð reiknings kr. 2.008.032, virðisaukaskattur kr. 491.956, heildarfjárhæð kr. 2.500.000. Eikar fasteignir ehf. lýsa því yfir að nefnda fjárhæð eigi að greiða til Búnaðarbanka Íslands og mun bankinn við það aflétta veði sínu af hinu selda.“ Í rafbréfi lögmanns stefnda til fyrirsvarsmanns Eikar fasteigna ehf., sem dagsett er 19. maí 2003, er efni ofangreindra rafbréfa enn áréttað. Niðurlag bréfsins er svohljóðandi: Svo þurfum við að fá staðfestingu bankans um að þeir muni aflétta veðinu af nefndum munum þegar við greiðum til þeirra þessa fjárhæð. Við höfum alltaf vilja drífa í þessu, en það er bara ekki hægt að borga eitthvað út í loftið án þess að hafa tilskilin gögn og yfirlýsingar til þess að koma í veg fyrir að umbjóðandi minn verði fyrir tjóni“. Samkvæmt framlögðum gögnum sendi lögmaður stefnda útibússtjóra Búnaðarbanka Íslands á Hellu bréf sem dagsett er 25. júní 2003. Er í bréfinu m.a. vísað til áðurrakinna skilyrða stefnda fyrir kaupum á margnefndu lausafé og því beint til útibússtjórans að hann beiti sér til þess að lausn fáist á málið. Eikar faseignir ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 9. desember 2004. Óumdeilt er að þann 8. júní 2005 framseldi skiptastjóri þrotabúsins með yfirlýsingu rétt búsins samkvæmt áðurrakinni áritun á skjalið frá 4. desember 2002: „Kröfu að upphæð kr. 3.500.000 á hendur Hótelveitingum ehf., nú Keahótel, til Kaupþings banka hf.“ Stefnandi sendi hinn 24. júní 2005 innheimtubréf til stefnda og krafðist greiðslu í samræmi við áritun fyrirsvarsmanna hans og skuldbindingu á margnefnt samkomulag frá 4. desember 2002, með vísan til framsals skiptastjóra þrotabús Eikar fasteigna ehf. II. Málsástæður og lagarök stefnanda. Stefnandi reisir kröfur sínar á því að með áritun á samkomulagsskjal frá 4. desember 2002 hafi stefnda skuldbundið sig gagnvart Eikar fasteignum ehf. til að greiða kr. 3.500.000 vegna lausafjár, sem staðsett var í fasteigninni Brautarholti 22-24 í Reykjavík. Með yfirlýsingu dagsettri 8. júní 2005 hafi skiptastjóri þrotabús Eikar fasteigna ehf. framselt stefnanda kröfuna og sé stefnandi því sá aðili sem haft geti uppi kröfur á hendur stefnda. Af hálfu stefnanda er vísað til áður rakinna rafbréfa stefnda þar sem m.a. komi fram samskipti þeirra við þáverandi forstöðumann lögfræðisviðs Búnaðarbanka Íslands, vitnið Ársæl Hafsteinsson, en einnig samskipti þeirra við Brynjar Níelsson hrl., lögmann Eikar fasteigna ehf. um hið veðsetta lausafé. Byggir stefnandi á því að í greindum rafpóstum komi það fram að stefnda hafi ætlað að greiða stefnanda í samræmi við samkomulagið frá 4. desember 2002, þrátt fyrir að hann hafi haft efasemdir um eignarétt á einhverjum hluta lausafjárins og af þeim sökum ætlað að bíða með að greiða hluta kaupverðsins. Byggir stefnandi á því að ekkert í samskiptum aðila bendi hins vegar til þess að Eikar fasteignir ehf. hafi samþykkt beiðni stefnda um að fresta greiðslu á hluta nefndrar fjárhæðar, kr. 3.500.000, en samkomulagið hafi borið með sér að þá fjárhæð hafi stefndi átti að greiða mánuði frá undirritun þess. Byggir stefnandi á því að með nefndum rafpóstum hafi efni umrædds samkomulags verið staðfest. Hafi stefnandi með innheimtubréfi dagsettu 24. júní 2005 krafið stefnda um efndir, en skuldin þrátt fyrir það ekki fengist greidd. Byggir stefnandi á því að stefndi hafi stórlega vanefnt samkomulagið, en engin greiðsla hafi borist frá stefnanda, hvorki í heild né að hluta. Um lagarök vísar stefnandi til megin reglna kröfu- og samningaréttar um efndir samninga, skuldbindingagildi loforða og reglur um þriðja manns löggerninga, en reglur þessar fái m.a. stoð í lögum nr. 7, 1936. Kröfu um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti styður stefnandi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6 gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu, en upphafstíma dráttarvaxta miðar stefnandi við mánuð frá því umrætt samkomulag var gert, en þá hafi gjalddagi kröfunnar verið. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, en kröfu um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun reisir hann á lögum nr. 50, 1998. Málsástæður og lagarök stefnda. Stefndi reisir sýknukröfu sína á því, að með undirritun sinni á samkomulagið frá 4. desember 2002 hafi ekki komist á kaupsamningur um kaup á lausafé og hafi því engin krafa stofnast á hendur stefnda. Þvert á móti hafi verið um að ræða viljayfirlýsingu stefnda um að hann myndi kaupa ákveðið lausafé af Eikar fasteignum ehf., að uppfyllt skilyrðum og ef að um semdist yrði kaupverðið greitt. Er á því byggt að þennan skilning stefnda hafi þáverandi lögmaður stefnanda, vitnið Ársæll Hafsteinsson staðfest í framlögðu bréfi, dagsettu 6. janúar 2003. Stefnda byggir á því að ekki geti verið um skilyrðislausan kröfurétt eða skuldabréf að ræða heldur viljayfirlýsingu til viðskipta. Viðskiptin hafi aldrei farið fram og því hafi engin krafa stofnast á hendur stefnda. Stefnda byggir á því að fyrir hafi legið að forsenda fyrir kaupum og greiðslu stefnda hafi t.d. verið að ljóst væri hvað hann væri að kaupa, að lausaféð væri til staðar, að veðhafi félli frá veðkröfum sínum og að seljandi hefði eignarrétt að lausafénu o.s.frv. Þessum skilyrðum hafi ekki verið fullnægt. Þá hafi seljandinn, Eikar fasteignir ehf., neitað að skrifa undir kaupsamning, hækkað kaupverðið, en að auki ekki getað framvísað yfirlýsingu frá veðhafa um veðbandslausn eða leyst deilur sínar við fyrri leigusala, Skeifuna ehf., um eignarétt á lausafénu. Stefnda reisir kröfur sínar á því að stefnandi máls þessa hafi heldur ekki boðið fram kaupsamning um lausaféð. Þá hafi nefnd viljayfirlýsing stefnda löngu verið úr gildi fallin þegar stefnandi höfðaði mál þetta hinn 11. mars 2006, þremur árum og þremur mánuðum eftir að hún varð gerð. Allur réttur, hafi hann á annað borð einhver verið, hafi því verið löngu fyrndur og/eða fallinn niður fyrir tómlæti. Vísar stefnda til þess að hann verði ekki dæmdur til að greiða stefnanda stefnufjárhæðina, enda hafi kaupsamningur ekki verið gerður um ákveðið lausafé. Aldrei hafi heldur almennilega komið í ljós hvaða muni verið var að fjalla um. Stefnda vísar til þess að umrædd viljayfirlýsing hafi verið gefin til Eikar fastaeigna ehf. Heldur stefnda því fram að stefnandi geti ekki byggt neinn rétt á yfirlýsingunni enda þótt framsal liggi fyrir af hálfu skiptastjóra mörgum árum eftir að hún var gefin út til annars aðila. Sá aðili, þ.e. Eikar fasteignir ehf., hafi í raun ekkert gert með yfirlýsinguna og ekki gengið til samninga um kaup á lausafénu og sé því allur sá gerningur niður fallinn. Þá hafi stefnandi ekki sinnt því að gefa út yfirlýsingu um að hann myndi aflýsa veðinu ef af kaupsamningi yrði á milli Eikar fasteigna ehf. og stefnda. Á því er byggt af hálfu stefnda að áður rakin yfirlýsing skiptastjóra þrotabús Eikar fasteigna ehf. um framsal kröfu til stefnanda sé frekar óljós. Réttur þrotabúsins samkvæmt framsalinu hafi í raun aldrei verið til og því hafi ekkert verið framselt. Lausaféð hafi aldrei verið selt, í það minnsta hafi stefndi aldrei keypt það. Ekki verði séð hvernig stefnandi geti krafið stefnda um greiðslu kaupverðs án þess að framselja nokkurn rétt til lausafjárins, sem viðskiptin hafi átt að vera um í upphafi. Virðist stefnandi í málinu helst vera að krefja um skilyrðislausa greiðslu eins og um víxil væri að ræða, en sá málatilbúnaður sé í andstöðu við áður rakið bréf lögmanns hans frá 6. janúar 2003. Af hálfu stefnda er upphafstíma dráttarvaxta í stefnu mótmælt svo og upphæð stefnukröfunnar. Um sé að ræða kaup á lausafé og hafi virðisaukaskattur verið innifalinn í kaupverðinu. Réttur reikningur þar um hafi aldrei borist stefnda. Þá hafi stefnandi aldrei boðið fram það lausafé sem í upphafi hafi átt að selja, enda hafi það aldrei verið til staðar þar sem Skeifan ehf. hafi átt mikinn hluta þess. Af þessum sökum hefði kaupverð í upphafi aldrei verið svo hátt sem tiltekið var í viljayfirlýsingunni og stefnukrafa því átt að vera mun lægri. Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 7, 1936 um samningsgerð og ógildanlega gjörninga, einkum 1. kafla, sbr. 1-9. gr. Þá vísar stefndi til almennra reglna kröfuréttar um að gjalddagi reikningskröfu sé í fyrsta lagi kominn eftir að reikningur hefur verið gerður og sýndur greiðanda. Kröfur um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála. III. Við aðalmeðferð fyrir dómi gáfu vitnaskýrslur fyrrum framkvæmdastjórar Eikar fasteigna ehf., vitnin Þórir Rafn Halldórsson og Bæring Sigurbjörnsson, en einnig framkvæmdastjóri Skeifunnar, Ólafur Thoroddsen lögfræðingur, svo og Brynjar Þór Níelsson hrl., Ársæll Hafsteinsson hrl., Björn Sigurðsson bankaútibússtjóri, Sigurður Ólafsson bifreiðastjóri og Gísli Guðmundsson. Bæring Sigurbjörnsson skýrði m.a. svo frá, að í tengslum við gerð umrædds samkomulags frá 4. desember 2002 hafi forráðamenn Eikar fasteigna ehf. og Ólafur Thoroddsen, fyrirsvarsmaður Skeifunnar ehf., ákveðið að hittast þann dag kl. 13:00 ásamt fyrirsvarsmönnum stefnda, enda hafi það legið fyrir að stefndi ætlaði að taka við hótelrekstrinum og húsnæðinu að Brautarholti 22-24. Bar vitnið að einnig hafi það legið fyrir að stefnda ætlaði að kaupa innbú Eikar fasteigna samkvæmt sérstökum lista er fylgt hafi tryggingabréfi Búnaðarbanka Íslands, sbr. dskj. nr. 9. Á nefndum fundi hafi Ólafur Thoroddsen lagt fram umrætt samkomulag, en þeir, þ.e. forráðamenn Eikar fasteigna, haft símasamband við þáverandi forstöðumann lögfræðideildar Búnaðarbanka Íslands, vitnið Ársæl Hafsteinsson, vegna veðréttar bankans í lausafénu fyrir allt að 5 milljónir króna. Hafi niðurstaða viðræðnanna orðið sú að bankinn samþykkti að aflétta veði sínu gegn því að fá til sín greiðslu að fjárhæð kr. 3.500.000. Vitnið bar að skilningur sinn á þessum tíma hafi verið sá að virðisaukaskattur væri ekki innifalinn í nefndri fjárhæð, en litið svo á að ef það væri raunin „þá hafi virðisaukaskattur sennilega átt að koma ofan á“. Vitnið bar að eftir nefnt símtal hefði yfirlýsing varðandi lausaféð verið skráð á samkomulagsblaðið og fyrirsvarsmenn stefnda ritað nafn sitt þar undir. Kvaðst vitnið þar með hafa litið svo á að stefnda hefði keypt lausaféð og þar sem Eikar fasteignir ehf. hafi að fullu staðið við kaupin hafi hann ætlað að málinu væri lokið án frekari gerninga, en vitnið vísaði að öðru leyti um síðari samskipti við stefnda til lögmanns félagsins, Brynjars Þórs Níelssonar hrl. Vitnið bar að strax eftir undirritun fyrirsvarsmanna stefndu hefðu aðilar gengið um hótelið til að kanna hvort lausaféð væri til staðar og hafi svo verið fyrir utan gufubaðsklefa, sem stefnda hafi fengið fljótlega í sínar vörslur. Vitnið staðhæfði að umrætt lausafé hafi allt verið í eigu Eikar fasteigna ehf., þ.m.t. símstöð og þvottavélar, en sambærilegum eigum Skeifunnar ehf. hafi verið komið fyrir í geymslu í hótelhúsnæðinu og því verið til staðar við áðurnefnda vettvangsskoðun. Varðandi vanefndir stefnda á kaupgreiðslu vísaði vitnið til þess að fyrirsvarsmenn stefnda hafi nefnt að umræddur gufubaðsklefi hefði ekki fylgt með í kaupunum. Vitnið kannaðist hins vegar ekki við að stefndi hefði óskað eftir reikningi vegna kaupanna, skriflegri yfirlýsingu frá Búnaðarbanka Íslands um að bankinn myndi aflétta veði sínu gegn greiðslu eða að gerður yrði sérstakur samningur um kaupin. Þá kannaðist vitnið ekki við að nefnd atriði hefðu komið til umræðna í viðræðum þess við Björn Sigurðsson, útibússtjóra stefnanda á Hellu. Vitnið Þórir Rafn Halldórsson bar, að hótelið að Brautarholti 22-24 hafi verið í fullum rekstri er umrætt samkomulag milli Eikar fasteigna ehf. og Skeifunnar ehf. var undirritað hinn 4. desember 2002. Vitnið staðhæfði að fyrirsvarsmaður Skeifunnar ehf., Ólafur Thoroddsen hefði handritað þann texta sem skráður var neðst á samkomulagsblaðið vegna kaupa stefnda á margnefndu lausafé og var frásögn vitnisins að öðru leyti í aðalatriðum í samræmi við frásögn vitnisins Bærings Sigurbjörnssonar hér að framan, m.a. um aðkomu lögfræðings Búnaðarbanka Íslands og viðtöku stefnda á lausafénu eftir vettvangsskoðun að undanskildum gufubaðsklefa. Vitnið kvaðst því hafa litið svo á að tekist hefðu skuldbindandi kaup um lausaféð, enda það allt verið eign Eikar fasteigna ehf. og kannaðist ekki við að stefndi hefði við samningsgerðina haft efasemdir þar um. Á hinn bóginn kannaðist vitnið við að stefndi hefði krafist þess að Eikar fasteignir ehf. legði fram yfirlýsingu frá Búnaðarbanka Íslands þess efnis að bankinn aflétti veði sínu af hinu selda lausafé gegn greiðslu kaupverðsins, en lýsti viðbrögðum vegna kröfunnar þannig: „ Það er eins og mig minni það að það hafi verið haft samband við Björn banka(útibús)stjóra á Hellu og ég held að hann hafi gefið hana út, ég held að það hafi ekki staðið neitt á því.“ Vitnið Ólafur Thoroddsen skýrði frá því að aðdragandinn að gerð nefnds samkomulags hinn 4. desember 2002 hafi verið sá að Eikar fasteignir ehf. hafi verið í verulegum vanskilum með leigugreiðslur við Skeifuna ehf. og af þeim sökum hafi staðið til að félagið yrði borið út úr húsnæðinu með aðstoð sýslumannsins í Reykjavík. Vitnið kvaðst hafa gert sér grein fyrir því að ef gripið yrði til slíkra aðgerða hefði það mikla röskun í för með sér varðandi allan hótelrekstur og gæti auk þess rýrt verðgildi eignarinnar og haft neikvæð áhrif á rekstur Skeifunnar ehf. Með þetta í huga hefði hann beitt sér á síðustu stundu fyrir gerð samkomulags um leigulok Eikar fasteigna ehf., en jafnframt beitt sér fyrir því að stefnda gæti tækið við hótelrekstrinum. Vegna þessa alls, en ekki síst vegna orða fyrirsvarsmanna Eikar fasteigna ehf. um verðmæti bókunarkerfis og bókana á hótelinu hafi ákvæði þar um verið sett í samkomulagið ásamt með yfirfærslurétti til Skeifunnar ehf. þannig að það félag gæti miðlað því til hins nýja rekstraraðila, þ.e. stefnda. Vitnið bar að við þessar aðstæður hefði stefnda komið að hótelrekstrinum. Kvaðst vitnið hafa ritað eigin hendi neðst á umrætt samkomulagsskjal áður rakinn texta varðandi lausafé og fjárhæð, án samráðs við starfsmenn Búnaðarbanka Íslands, en ekki litið svo á að með nafnritun sinni hefðu fyrirsvarsmenn stefnda verið að gera eiginlegan kaupsamning. Kvaðst vitnið hafa litið svo á að tilgreind fjárhæð, kr. 3.500.000, væri heildarfjárhæð, að meðtöldum virðisaukaskatti, vegna kaupa stefnda á lausafénu, ef um semdist með aðilum. Vísaði vitnið til þess að á nefndri stundu hefði það litið svo á að Skeifan ehf., væri eigandi að hluta þess lausafjár sem Eikar fasteignir ehf. hafði tilgreint í fylgiskjali með tryggingabréfi til Búnaðarbanka Íslands. Vegna þess alls hafi hann gert ráð fyrir að allir aðilar málsins, þ.á.m. bankinn, þyrftu að koma saman og greiða úr ágreiningi um eignarréttinn áður en eiginlegur kaupsamningur yrði gerður um lausafjármunina við stefnda. Vitnið bar að vegna greindra aðstæðna og andrúmslofts hefði það og legið fyrir að forsenda stefnda fyrir kaupum hafi og verið að Búnaðarbankinn aflétti veði sínu í lausafénu gegn nefndri greiðslu. Varðandi eignarréttinn Skeifunnar ehf. að umræddu lausafé vísaði vitnið til þess að er Eikar fasteignir ehf. tóku við umræddu húsnæði hafi Skeifan ehf. samkvæmt leigusamningi átt að öllu verulegu þann lausafjárbúnað sem þar var til staðar, þ.m.t. allar innréttingar, lausar og fastar, rúm, gluggatjöld, teppi, símstöð og annað. Vitnið bar að munirnir hefðu verið til staðar við vettvangsskoðunina þann 4. desember 2002. Kvaðst vitnið hafa ætlað að koma formlegum athugasemdum sínum að um áðurgreinda veðsetningu lausafjárins við Búnaðarbanka Íslands og Eikar fasteignir ehf. þegar hin eiginlega samningsgerð um kaup stefnda færu fram. Vegna þessa kvaðst vitnið og hafa ritað fyrirsvarsmönnum stefnda bréf, dags. 20. janúar 2003, sbr. dskj. nr. 17, og gert þeim grein fyrir sjónarmiðum sínum um eignaréttinn. Vegna vanefnda Eikar fasteigna ehf., þ.á.m. um áðurnefnt bókunarkerfi hefðu frekari viðræður hins vegar ekki farið fram og Skeifunni ehf. að auki aldrei verið kynntur kaupsamningur um lausaféð. Vitnið Brynjar Þór Níelsson hrl. kvaðst í upphafi hafa komið að málefnum Eikar fasteigna ehf. er félagið hafi átt í deilum við Skeifuna ehf. vegna vanefnda á leigusamningi, en í tengslum við það málefni hafi hann orðið var við ágreining aðilanna um eignarétt að tilteknu lausafé í fasteigninni Brautarholti 22-24 í Reykjavík. Vitnið ætlaði að sá ágreiningur hefði verið leystur er Eikar fasteignir ehf. hætti hótelrekstri sínum í umræddu húsnæði með samkomulagi. Vitnið kvaðst ekki hafa komið að gerð nefnds gernings eða áritunar er leitt hafi til kaupa stefnda á lausafé Eikar fasteigna ehf., í desembermánuði 2002. Kvaðst vitnið fyrst hafa séð gerninginn er stefndi efndi ekki skyldur sínar um greiðslur til Búnaðarbanka Íslands. Í tengslum við innheimtuaðgerðir kvaðst vitnið komist að því að stefndi hafði athugasemdir um skil, þ.á.m. á gufubaðsklefa, en að auki heyrt ávæning af því að Skeifan ehf. teldi sig eiganda að hluta lausafjárins. Vitnið bar að stefnda hefði einnig haft uppi athugasemdir við reikningsgerð Eikar fasteigna ehf. vegna virðisaukaskatts. Vitnið kvað allar þessar athugasemdir hafa verið í ósamræmi við fullyrðingar fyrirsvarsmanna Eikar fasteigna ehf., en vegna aðkomu Búnaðarbanka Íslands, þ.á.m. um að bankinn ætti að aflétta veði sínu gegn greiðslu stefnda hafi hann ákveðið að hætta öllum afskiptum af málinu. Vitnið Ársæll Hafsteinsson kvaðst hafa komið að máli þessu sem þáverandi forstöðumaður lögfræðideildar Búnaðarbanka Íslands er Eikar fasteignir ehf. voru í samningaviðræðum við stefnda um umrætt lausafé, þar eð bankinn hafi átt veðrétt samkvæmt tryggingabréfi. Vísaði vitnið til þess að nefnt kaupverð lausafjárins hefði verið lægra en hámarksfjárhæð veðbréfsins. Kvaðst vitnið fyrir hönd bankans hafa fallist á að aflýsa veðinu gegn því að hann fengi greiðslu að fjárhæð kr. 3.500.000 beint til sín og þá með skjalfestri áritun þar um. Vitnið minntist þess ekki að hafa átt bein samskipti við fyrirsvarsmenn stefnda vegna greindra viðskipta, en bar að ekki hafi verið óalgegnt í tengslum við viðskipti sem þessi að bankinn gæfi út formlega yfirlýsingu um veðbandslausn gegn ákveðinni greiðslu. Vitnið staðhæfði að í þessu tilfelli hafi það hins vegar legið algjörlega ljóst fyrir að bankinn myndi standa við hið munnlega loforð og því ætlað að fullgild kaup hefðu tekist með aðilum um lausaféð og stefnda í framhaldi af því tekið það í sínar vörslur. Vitnið bar að er dráttur hefði orðið á efndum af hálfu stefnda hefði hann sent stefnda innheimtubréf, dags. 6. janúar 2003, sbr. dskj. nr. 14, enda litið svo á, þrátt fyrir orðalag bréfsins, að fullgildur kaupsamningur hefði komist á. Vitnið kvaðst síðar hafa haft af því spurnir að stefnda hefði haft uppi athugasemdir við kaupin vegna afhendingardráttar Eikar fasteigna ehf. á hluta hins selda, þ.á.m. á þvottatækjum og gufubaðsklefa. Vitnið kvaðst ekki hafa haft frekari afskipti af málinu enda hætt störfum hjá bankanum á fyrstu mánuðum ársins 2003. Vitnið Björn Sigurðsson, útibússtjóri í KB banka á Hellu staðfesti að margnefnt tryggingabréf hefði verið í hans vörslum og hann af þeim sökum átt samræður við fyrirsvarsmann Eikar fasteigna ehf. um fjármál félagsins. Vitnið kannaðist ekki við að hafa átt samskipti við fyrirsvarsmann Skeifunnar ehf. eða aðila á vegum stefnda vegna sölu Eikar fasteigna ehf. á því lausafé sem skráð var í fylgiskjali með veðbréfinu. Vitnið Sigurður Ólafsson kvaðst í störfum sínum sem sendibifreiðastjóri hafa flutt gufubaðsklefa þann 20. maí 2003, en reikning fyrir það verkefni hafi hann sent félagi á vegum fyrrverandi eiganda Eikar fasteigna ehf. Vitnið kvaðst hafa komið gufubaðsklefanum fyrir í geymslu. Vitnið Gísli Guðmundsson bar fyrir dómi að hann hefði á sínum tíma selt lausafé til Eikar fasteigna ehf., þ.á.m. þurrkara, þvottavélar, símstöð auk annarra muna. IV. Við það verður að miða að samskipti málsaðila eigi rætur að rekja til riftunargernings Skeifunnar ehf. og Eikar fasteigna ehf. frá 4. desember 2002 um fasteignina Brautarholt 22-24 í Reykjavík. Er í gerningi þessum, auk ákvæðis um skil á húsnæðinu, tiltekið að Skeifunni ehf. sé kunnugt um veðrétt Búnaðarbanka Íslands í öllu lausafé í eigu Eikar fasteigna ehf. í húsnæðinu, en að Skeifan áskilji sér rétt til að koma að athugasemdum við bankann vegna veðsetningarinnar. Í gerningnum er einnig kveðið á um að Eikar fasteignir afhendi gögn um bókanir og samninga er varði hótelrekstur í eigninni. Loks kemur fram í gerningnum að stefnda sé hinn nýi leigutaki að húsnæðinu. Fyrir liggur að fyrirsvarsmenn stefnda rituðu nafn sitt neðst á riftunargerninginn, undir svohljóðandi yfirlýsingu, sem var handrituð: „Hótelveitingar ehf. munu greiða Búnaðarbanka Íslands kr. 3.500.000 vegna ofangreinds innan mánaðar, enda sé það til staðar skv. veðbréfi.“ Ágreiningslaust er að eftir undirritunina fóru fyrirsvarsmenn stefnda í vettvangsskoðun í húsnæðinu og hófu í framhaldi af því hótelrekstur sinn. Bú Eikar fasteigna ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta þann 9. desember 2004. Að virtum framlögðum gögnum verður lagt til grundvallar að stefnandi hafi með yfirlýsingu skiptastjóra þrotabúsins hinn 8. janúar 2005 fengið framseldan ætlaðan rétt gagnvart stefnda samkvæmt yfirlýsingunni frá 4. desember 2002. Í stefnu og við munnlegum flutning reisir stefnandi kröfur sínar aðallega á því að með áritun fyrirsvarsmanna stefnda undir greinda yfirlýsingu hafi stefnda skuldbundið sig til að kaupa lausafé í umræddu húsnæði fyrir kr. 3.500.000. Þá hafi stefndi í áðurröktum rafbréfum fyrri hluta árs 2003 áréttað loforð sitt um kaupin enda hafi hann fengið lausafjármunina afhenta að öllu verulega strax eftir undirritunina og að fullu í maímánuði 2003. Liggi ekkert fyrir um að stefnda hafi fengið frest á greiðsluskyldu sinni vegna efasemda um eignarétt á lausafénu. Stefndi hafi og fengið sendan reikning frá Eikar fasteignum ehf. vegna kaupanna. Í málatilbúnaði sínum byggir stefndi aðallega á því að bindandi kaupsamningur hafi ekki komist á milli aðilanna. Hafi stefndi ekki litið svo á að með nefndri áritun hafi falist loforð um kaup, heldur hafi verið um að ræða viljayfirlýsingu þess efnis að hann myndi kaupa tiltekið lausafé ef um semdist og að uppfylltum lýstum skilyrðum og þá fyrir ákveðið kaupverð. Umræddum skilyrðum hafi Eikar fasteignir ehf. aldrei fullnægt og hafi því forsendur fyrir kaupsamningi brostið. Ágreiningslaust er að fyrirsvarsmaður Skeifunnar ehf., vitnið Ólafur Thoroddsen lögfræðingur handritaði umrædda yfirlýsingu á riftunargerning Skeifunnar ehf. og Eikar fasteigna ehf. Að áliti dómsins er texti yfirlýsingarinnar mjög knappur og ber aðilum ekki saman um hvað lagt hafi verið til grundvallar um efni hennar, m.a. að því er varðar tilgreinda fjárhæð. Í textanum er hins vegar ótvírætt kveðið á um greiðsluskyldu stefnda innan mánaðar, en ennfremur er þar vísað til ákvæða í áðurnefndum riftunargerningi þ. á. m. um veðrétt Búnaðarbanka Íslands í lausafénu samkvæmt veðbréfi. Fyrir dómi hefur vitnið Ólafur Thoroddsen, fyrirsvarsmaður Skeifunnar ehf. lýst tilurð riftunargerningsins. Kvað vitnið gerninginn hafa verið gerðan í nokkurri skyndingu og að tilefnið hafi verið yfirvofandi útburður Eikar fasteigna ehf. úr fasteigninni vegna verulegra vanskila á leigugreiðslum. Þá staðhæfði vitnið að verulegur ágreiningur hafi verið með aðilum gerningsins um eignarétt á þeim lausafjármunum sem Eikar fasteignir ehf. hafi talið sig eiganda að í húsnæðinu og sem skráð hafði verið á lista er fylgdi veðbréfi til Búnaðarbanka Íslands. Verður af framburði vitnisins ráðið að þessi ágreiningur hafi ráðið þeim fyrirvara sem lýst er í lokaorðum þeirrar yfirlýsingar sem aðilar máls deila hér um. Staðhæfði vitnið að vegna þessa alls hafi fyrirsvarsmenn stefnda með undirritun sinni ekki verið að lofa kaupum á umræddu lausafénu án skilyrða og frekari samningsgerðar. Samkvæmt framlögðum gögnum lýsti stefnda ítrekað í rafbréfum til Eikar fasteigna ehf., fyrri hluta árs, yfir vilja til að semja endanlega um kaup á umræddu lausafé. Í bréfum þessum setti stefnda og fram skilyrði fyrir kaupunum, þ.á.m að Eikar fasteignir ehf. sýndi fram á ótvíræðan eignarétt sinn og að lausafénu yrði öllu komið til skila, að fyrir lægi skrifleg yfirlýsing um veðbandslausn veðhafa gegn greiðslu kaupverðs og loks að heildarverð reiknings væri í samræmi við yfirlýsingu hans. Af gögnum verður ráðið að viðbrögð Eikar fasteigna ehf. hafi falist í því að senda stefnda reikning hinn 7. febrúar 2003, að fjárhæð kr. 3.500.000 að viðbættum virðisaukaskatti. Í þessu viðfangi er að mati dómsins til þess að líta að margnefnd áritun stefnda á riftunargerninginn er einhliða. Verður að því virtu að leggja þá byrði á stefnanda að sýna fram á að Eikar fasteignum ehf., sem stefnandi leiðir rétt sinn frá, hafi verið heimilt að bæta virðisaukaskatti við tilgreinda fjárhæð. Gegn andmælum stefnda, sem stoð hefur í framburði vitnisins Ólafs Thoroddsen, sem dómurinn metur trúverðugt þykir stefnanda ekki hafa tekist það, sbr. einnig til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 409/2002 Að virtum andmælum stefnda við flutning málsins þykir sú staðhæfing stefnanda, sem studd er vitnisburði fyrrum fyrirsvarsmanna Eikar fasteigna ehf., um að gufubaðsklefa hafi verið komið í vörslur stefnda í maímánuði 2003 ekki einhlít þegar litið er til óljóss vitnisburðar Sigurðar Ólafssonar sendibifreiðastjóra. Verður því nefnd staðhæfing stefnanda að virtum andmælum stefnda að teljast ósönnuð. Að ofangreindu virtu verður að áliti dómsins að leggja til grundvallar að sá fyrirvari sem lýst er í yfirlýsingu þeirri sem fyrirsvarsmenn stefnda rituðu undir þann 4. desember 2002 hafi m.a. átt rót sína að rekja til þess tilkalls sem Skeifan ehf. hafði til þess lausafjár sem staðsett var í nefndu húsnæði að Brautarholti 22 - 24. Verður að fallast á það með stefnda að hann hafi haft réttmæta ástæðu til að kanna þessi réttindi frekar, og þá eftir atvikum um vanheimild seljanda, Eikar fasteigna ehf., sbr. 41. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50, 2000, áður en gengið yrði frá samningi um kaupin. Liggur ekki annað fyrir en að stefnda hafi ítrekað leitað eftir skýringum og viðbrögðum af hálfu seljandans. Og þegar áður lýst samskipti aðila eftir undirritunina eru virt í heild ásamt öðrum gögnum er það niðurstaða dómsins að stefnandi hafi ekki sannað að í yfirlýsingu stefnda frá 4. desember 2002 hafi falist skuldbindandi samningur um kaup. Verður því fallist á röksemdir stefnda í máli þessu að um hafi verið að ræða áformsyfirlýsingu, sem ekki hafi verið skuldbindandi af hans hálfu án skilyrða eða síðari samningsgerðar. Samkvæmt þessu er niðurstaða dómsins sú að sýkna beri stefnda af kröfu stefnanda. Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu. Mál þetta dæmir Ólafur Ólafsson héraðsdómari. D Ó M S O R Ð : Stefnda, Keahótel ehf., er sýknað af kröfum stefnanda, Kaupþings banka hf. Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 11/2013
Gæsluvarðhald Miskabætur Fjártjón Gjafsókn
D krafði Í um bætur vegna gæsluvarðhalds sem hann taldi sig hafa sætt að ósekju, frá 25. desember 2010 til 25. mars 2011, í tengslum við rannsókn á skotárás við íbúðarhúsnæði í Reykjavík. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var með vísan til forsendna hans, kom fram að ekki yrði litið fram hjá því að D hefði veri ófús til að skýra rétt frá og lýsa sínum þætti í málinu í öndverðu. Þótti D því í upphafi hafa stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisti kröfu sína á og fullt tilefni hafi verið til þess að úrskurða hann í gæsluvarðhald daginn eftir að hann var handtekinn 25. desember 2010 allt til 4. janúar 2011 á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Átti D því ekki rétt á bótum fyrir gæsluvarðhald að ósekju fyrir þann tíma. Hins vegar þótti þáttur D frá 4. janúar að mestu hafa verið upplýstur og ekkert fram komið sem sýndi fram á að framganga D hefði gefið tilefni til áframhaldandi gæsluvarðhalds eftir þann tíma. Voru D dæmdar skaðabætur vegna miska og fjártjóns samtals að fjárhæð 2.130.600 krónur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Árni Kolbeinsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. janúar 2013. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara að tildæmdar bætur verði lækkaðar og málskostnaður látinn niður falla. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnda, Dags Bjarna Kristinssonar, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 500.000 krónur. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. október 2012. Þetta mál, sem var dómtekið 26. september sl., að lokinni aðalmeðferð, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Degi Bjarna Kristinssyni, Brekkubyggð 11, Blönduósi, á hendur íslenska ríkinu, með stefnu áritaðri um birtingu, 19. janúar 2012. Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 5.913.251 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 26. ágúst 2011 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda eins og málið væri ekki gjafsóknarmál auk virðisaukaskatts. Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að mati réttarins. Málavextir Málavextir eru þeir að á aðfangadag jóla barst lögreglu tilkynning um að menn væru að skjóta úr byssu við [...] í Reykjavík. Lögreglan kom fljótt á vettvang og sá fjóra menn hlaupa frá húsinu og hverfa á brott. Þá kom í ljós að heimilisfólkið, hjón með tvö börn, hafði forðað sér út úr húsinu bakdyramegin og leitað skjóls hjá nágrönnum sínum. Voru tvö skothylki á útidyrahurðinni og rúða í hurðinni brotin. Utan dyra fundust tóm skothylki og haglabyssa fannst skömmu síðar á bak við sorptunnu. Ljóst var að skotið hafði verið með haglabyssu á hurðina og hóf lögreglan þegar leit að mönnunum fjórum. Stuttu síðar fannst bifreið sem talið var að fjórmenningarnir hefðu notað og var stefnandi þar á gangi ásamt öðrum manni. Voru þeir báðir handteknir og færðir á lögreglustöð ásamt hinum mönnunum tveimur. Stefnandi var yfirheyrður hjá lögreglu daginn eftir, 25. desember 2010. Kvaðst stefnandi muna lítið frá deginum áður og neitaði hann að hafa verið í slagtogi við hina mennina þrjá sem höfðu jafnframt verið handteknir. Þá kannaðist hann hvorki við að hafa verið á vettvangi þegar skotárásin átti sér stað né að hafa setið í bifreiðinni sem flutti mennina að [...]. Í framhaldi af skýrslutökunni var stefnandi leiddur fyrir dómara sem, að kröfu lögreglu, úrskurðaði hann í gæsluvarðhald til 4. janúar 2011 með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Þá var stefnanda gert að sæta einangrun á meðan gæsluvarðhaldinu stóð samkvæmt b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008. Skýrsla var tekin af stefnanda öðru sinni 28. desember 2010 og breytti hann þá framburði sínum. Skýrði hann svo frá að hann hafi verið heima hjá vinkonu sinni, A, að morgni aðfangadags og hafi hún ekið honum á Vog þar sem hann hafi ætlað að leggjast inn. Af því hafi hins vegar ekki orðið og hafði stefnandi því samband við einn sakborninga, B, sem hafi boðið honum heim til sín og bróður síns, C, að Sundlaugarvegi. Annar sakborningur, D, sem hafi verið með þeim bræðrum, sótti stefnanda. Hafi hann sagst þurfa að koma við á einum stað á leiðinni en það hafi verið í [...] þar sem skotárásin átti sér stað síðar sama dag. Þar hafi D verið með læti og verið barinn með einhverju áhaldi sem hafi lent í andliti hans. Eftir að hafa hringt í þá B og C hafi D ekið að Sundlaugarvegi þar sem þeir bræður hafi bæst í hópinn. Þá hafi D keyrt aftur að [...] þar sem hann hafi byrjað að skjóta í hurðina en stefnandi kvaðst hafa hlaupið í burtu um leið og hann heyrði í skotunum. D hafi síðan hlaupið á eftir honum og voru þeir handteknir af lögreglu stuttu síðar. Hinn 3. janúar 2011 var tekin skýrsla af stefnanda á ný. Honum var tilkynnt að lögreglan hefði framkvæmt myndflettingu vitnis er bjó að [...]. Tveir menn væru grunaðir um að hafa farið þar inn að kvöldi 23. desember 2010 í tengslum við málið sem stefnandi var sakborningur í en við myndflettinguna hafi vitnið bent á stefnanda. Stefnandi tjáði lögreglunni að hann hafi á þeim tíma verið hjá vinkonu sinni, A, og að hann hefði því fjarvistarsönnun. Skýrsla var tekin af umræddri A, 28. desember 2010, þar sem hún kvaðst kannast við að stefnandi hafi verið staðsettur heima hjá sér, þar sem hann leigði herbergi, frá því snemma dags á Þorláksmessu, fram til hádegis daginn eftir. Hinn 4. janúar 2011 var gerð krafa um að stefnanda yrði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi til 1. febrúar 2011, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar Íslands sem sneri honum við með dómi 12. janúar 2011 í máli nr. 15/2011. Með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 féllst rétturinn á gæsluvarðhald yfir stefnanda frá 12. janúar 2011 til 1. febrúar 2011. Gæsluvarðhaldsvist stefnanda var framlengd í þrígang eftir þetta. Fyrst með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 1. febrúar 2011 þar sem stefnanda var gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi til 15. febrúar 2011. Þá með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 15. febrúar 2011 þar sem stefnanda var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til 15. mars 2011, en sá úrskurður var staðfestur af Hæstarétti Íslands með dómi 17. febrúar 2011 í máli nr. 98/2011. Loks féllst Héraðsdómur Reykjavíkur á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir stefnanda til 1. apríl 2011 með úrskurði 15. mars 2011. Var sá úrskurður einnig kærður til Hæstaréttar sem staðfesti hann. Var í öllum fyrrgreindu úrskurðunum þremur sem og í Hæstarétti fallist á að uppfyllt væru skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og að gæsluvarðhald yfir stefnanda væri nauðsynlegt þar sem sterkur grunur léki á um að stefnandi hefði framið brot gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940, sem varðað gæti 10 ára fangelsi og að gæsluvarðhald væri nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Dómur var kveðinn upp í máli S-175/2011, 25. mars 2011, og var stefnandi þá sýknaður af öllum ákærum. Aðrir sakborningar í málinu voru sakfelldir fyrir hættubrot og tilraun til húsbrots en sýknaðir af tilraun til sérstaklega hættulegrar líkamsárásar. Var stefnandi látinn laus úr gæsluvarðhaldsvistinni við dómsuppsögu. Stefnandi krafðist bóta úr hendi stefnda með bréfi, dagsettu 26. júlí 2011. Stefndi hafnaði bótakröfu stefnanda með bréfi, dagsettu 7. október 2011. Málsatvik og lagarök stefnanda Stefnandi vísar til þess að þær þvingunarráðstafanir, sem heimilaðar séu í lögum nr. 88/2008 feli í sér skerðingu á mikilvægum réttindum manna, þar á meðal persónufrelsi, friðhelgi einkalífs og heimilis og eignarétti, sem að öðru jöfnu njóti ríkrar réttarverndar að lögum. Gæsluvarðhald sé þvingunarráðstöfun sem skerði með afgerandi hætti persónufrelsi manna og hafi verið litið á sem þá þvingunarráðstöfun sem að jafnaði gangi lengst í þá átt að skerða réttindi manna. Af þessum sökum verði að gera ríkar kröfur til þess að skilyrði gæsluvarðhalds séu uppfyllt auk þess sem ákvæði um heimild til að úrskurða sakborning í gæsluvarðhald verði að vera skýrð þröngt. Stefnandi heldur því fram að skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 hafi ekki verið uppfyllt gagnvart stefnanda og stefndi sé því bótaskyldur gagnvart honum. Samkvæmt ofangreindu ákvæði megi úrskurða sakborning í gæsluvarðhald ef sterkur grunur leikur á að hann hafi framið afbrot sem að lögum geti varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt til almannahagsmuna. Í samræmi við það sem þegar hafi verið sagt um þvingunarráðstafanir verði að skýra skilyrðið um sterkan grun þröngt og því sé mótmælt að það hafi verið uppfyllt í þessu máli. Stefnandi hafi útskýrt aðkomu sína að málinu aðeins þremur dögum eftir handtöku og þar að auki hafi allir hinir sakborningarnir borið um það að stefnandi hefði verið þarna fyrir tilviljun og í raun og veru ekki átt neinn þátt í því að skipuleggja eða framkvæma skotárásina. Á þessum tímapunkti hefði átt að sleppa stefnanda enda skilyrði gæsluvarðhalds ekki lengur fyrir hendi, sbr. 2. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008. Ekkert í skýrslum stefnanda hjá lögreglu hafi gefið tilefni til að álíta hann sekan af þeim brotum sem hann hafi síðar verið ákærður fyrir eins og komi vel fram í niðurstöðu héraðsdóms, 4. janúar 2011, þegar gæsluvarðhaldskröfu hafi verið hafnað, og í sératkvæði eins dómara Hæstaréttar í úrskurði, 12. janúar 2011. Þá sé það einnig skilyrði í 2. mgr. 95 gr. sakamálalaga, að brot sem sakborningur sé grunaður um sé þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Verði með engu móti séð að þetta skilyrði hafi verið uppfyllt. Ljóst sé að stefnandi tók ekki beinan þátt í árásinni og að af honum stafaði engin hætta. Þá skuli bent á það að eftir að héraðsdómur hafnaði áframhaldandi gæsluvarðhaldi, 4. janúar 2011, hafi stefnandi verið frjáls ferða sinna allt til 12. janúar þegar hann hafi aftur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald af Hæstarétti. Þannig hafi stefnandi verið laus í nokkra daga án þess að almannahagsmunum væri raskað enda ljóst að þetta skilyrði hafi aldrei verið uppfyllt gagnvart stefnanda. Stefnandi telur afar hæpið og ekki samrýmast grundvallarhugsuninni um réttarríki að hann hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald, hvað þá í svo langan tíma sem raun bar vitni. Það hafi strax legið fyrir á fyrstu dögum rannsóknar lögreglu að stefnandi hafi ekki átt neinn þátt í atburðarás þeirri sem leiddi síðar til ákæru á hendur honum, sem leiddi svo aftur til sýknu. Stefnandi hafi mátt sæta því að sitja saklaus í gæsluvarðhaldi í þrjá mánuði sem hafi leitt til mikils mannorðsmiska fyrir hann og m.a. valdið því að hann missti atvinnu sína. Eini tilgangur gæsluvarðhaldsins virðist þannig hafa verið sá að tryggja aðgang lögreglu að kæranda til frekari skýrslutöku. Slík beiting gæsluvarðhaldsúrræðisins samrýmist ekki tilgangi þess samkvæmt lögum og sé í raun alvarlegt brot á persónuréttindum stefnanda. Þannig hafi stefnandi verið úrskurðaður aftur í gæsluvarðhald, 12. janúar, 1. febrúar, 15. febrúar og 15. mars án þess að neitt nýtt hafi komið fram í málinu sem styrkti grun lögreglunnar um að stefnandi hefði átt einhvern þátt í umræddri árás. Þar að auki voru gæsluvarðhaldskröfur yfir stefnda ávallt studdar sömu rökum, alveg sama á hvaða rannsóknarstigi málið var statt. Stefnandi þurfti áfram að sæta gæsluvarðhaldi eftir að búið var að gefa út ákæru og meira að segja eftir að búið var að flytja málið og dómtaka það en þá hafi ekkert verið fram komið sem studdi nauðsyn þess að hafa stefnanda í gæsluvarðhaldi enda hafi það ekki verið rökstutt með nokkrum hætti af hálfu ákæruvaldsins. Þar sem skilyrði gæsluvarðhalds hafi ekki verið uppfyllt gagnvart stefnanda eigi hann rétt á bótum úr hendi stefnanda sbr. 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, sem kveði á um að greiða skuli sakborningi bætur sem borinn hefur verið sökum í sakamáli og málið verið fellt niður eða sakborningur sýknaður af ákæru. Í 2. mgr. 228. gr. sé tekið fram að dæma skuli bætur vegna aðgerða IX-XIV. kafla laganna ef skilyrði 1. mgr. séu fyrir hendi. Sambærilega reglu sé að finna í 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Undantekningu frá þessari hlutlægu bótareglu sé að finna í síðari málslið 2. mgr. sömu greinar þar sem tekið sé fram að heimilt sé að fella niður eða lækka bætur ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem beitt var. Þessa undantekningarreglu verði að skýra þröngt og hún eigi ekki við hér þar sem stefnandi mótmæli því alfarið að hann hafi á nokkurn hátt stuðlað að áðurnefndum aðgerðum. Framburður hans hafi verið skýr og afdráttarlaus og hann hafi verið samvinnuþýður á allan hátt. Þannig sé ekkert komið fram sem geti réttlætt gæsluvarðhaldsvist stefnanda. Bótakrafa stefnanda byggir á þeim miska sem hann hafi orðið fyrir vegna gæsluvarðhaldsvistarinnar. Miski stefnanda felist í mannorðsmissi, þjáningum og óþægindum vegna framangreindrar rannsóknar, frelsissviptingar og málaferla. Eðli sínu samkvæmt sé frelsissvipting sem þessi alvarleg skerðing á mannréttindum auk þess sem hún sé mikil andleg þrekraun fyrir þann sem fyrir henni verði. Stefnandi sætti einnig einangrun hluta af gæsluvarðhaldstímanum, heimsóknarbanni, bréfaskoðun og fjölmiðlabanni. Hann hafi því haft áhyggjur af ættingjum og ástvinum sínum og átt við andlega vanlíðan og svefnleysi að stríða. Bótakrafa stefnanda byggir einnig á því fjárhagslega tjóni sem hann hafi orðið fyrir en stefnandi hafi tapað tekjum auk þess að missa vinnu sína og hafi hann ekki enn fengið vinnu eftir þessa atburði. Sundurliðun kröfugerðar stefnanda: Miskabótakrafa stefnanda er 5.000.000 kr. Um upphafsdag dráttarvaxta er vísað til 9. gr. laga nr. 38/2001, en ríkislögmanni var sent kröfubréf 26. júlí 2011 og því beri krafan dráttarvexti frá 26. ágúst 2011. Til vara sé krafist dráttarvaxta frá þingfestingardegi stefnu. Til stuðnings kröfunni er vísað til dómaframkvæmdar um bætur vegna ólögmæts gæsluvarðhalds og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og dómaframkvæmdar á grundvelli hennar. Fjárhæð skaðabótakröfu vegna tímabundins tekjutaps stefnanda byggir á meðaltalslaunum stefnanda frá október til desember 2010 og miðist við þann tíma er stefnandi sat í gæsluvarðhaldi og þangað til dómur féll, þ.e. 25. desember til 25. mars 2011. Meðalmánaðarlaun stefnanda á þessu tímabili hafi verið 304.417 kr. og sé því krafa vegna þessara mánaða alls 913.251 kr. Þannig sé heildarfjárhæð kröfu stefnanda á hendur íslenska ríkinu að fjárhæð 5.913.251 kr. Framangreindar kröfur eru byggðar á lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála, einkum 228. gr. og XIV. kafla laganna. Þá er byggt á 95. og 97. gr. sömu laga. Einnig er byggt á 5. mgr. 67. gr. og 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. l. nr. 62/1994. Þá er að lokum vísað til almennra reglna skaðabótaréttarins og 26. gr. laga nr. 50/1993. Um gjalddaga bótakröfu og dráttarvexti vísast til 6. gr. og 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Krafa um málskostnað er byggð á 130. gr. l. nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt af málskostnaði er grundvölluð á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir þeim skatti. Málið sé höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með vísan til 32. gr. l. nr. 91/1991. Málsástæður og lagarök stefnda Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og telur að ekki séu forsendur til að dæma stefnanda bætur eins og gerð er krafa um. Bótaréttur á grundvelli 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé háður því að mál hafi verið fellt niður eða sýknað hafi verið af ákæruatriðum þeim sem við eigi og tengist þeim úrræðum í þágu sakamáls sem fyrir sé mælt um. Skuli dæma bætur vegna aðgerða á grundvelli IX.-XIV. kafla laganna ef skilyrði 1. mgr. séu fyrir hendi. Þá segi í greininni að fella megi niður bætur eða lækka hafi sakborningur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á. Framkoma stefnanda og athafnir hafi verið þess eðlis að ekki séu skilyrði til greiðslu bóta samkvæmt fyrrgreindu ákvæði. Óumdeilt sé að stefnandi hafi verið við [...], í félagi við annan mann, skömmu áður en skotárásin hafi átt sér stað. Þar hafi þeim verið stuggað á brott af húsráðanda eftir einhver átök. Stefnandi hafi farið þaðan á bifreið ásamt félaga sínum sem sótti haglabyssu og skotfæri og tvo menn til viðbótar. Stefnanda hafi ekki getað dulist að skotvopn væri meðferðis og hann hafi raunar fengið að vita að nota ætti vopnið til þess að hræða með því. Stefnandi hafi fylgt félögum sínum að viðkomandi húsi og hann hafi því verið á vettvangi þegar sjálf árásin hafi verið gerð. Eftir árásina hafi hann forðað sér af vettvangi en verið handtekinn af lögreglu þegar hann, ásamt einum félaga sínum, hafi ætlað að ná í bifreiðina sem skilin hafði verið eftir í grennd við árásarstaðinn. Stefnandi hafi því ekki gefið sig fram við lögreglu og hafi í upphafi verið mjög ósamvinnuþýður við lögregluna. Við fyrstu yfirheyrslur hafi stefnandi greint ranglega frá flestu sem lögreglan hafi spurt hann um. Framburður hans hafi heldur ekki verið í neinu samræmi við framburð annarra sakborninga í málinu. Þetta, ásamt öðru, hafi leitt til þess að meðan á rannsókninni stóð hafi verið uppi sterkur grunur um að stefnandi hafi ætlað með félögum sínum að brjóta sér leið inn í íbúðarhús, vopnaður haglabyssu, og fremja þar líkamsárás. Með þessu framferði sínu telji stefndi að stefnandi hafi valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir bótakröfur sínar á, í skilningi 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Stefnandi hafi sjálfur komið sér í þær aðstæður sem hann hafi verið í á aðfangadag 2010. Hann hafi vitað að vopnuð árás hafi verið yfirvofandi. Hann hafi tekið þátt í henni af fúsum og frjálsum vilja og fylgt henni eftir. Hann hafi ekki gefið sig fram við lögreglu á vettvangi og hann hafi skýrt ranglega frá við fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglunni. Stefnandi beri því sjálfur ábyrgð á þeirri atburðarás sem hafi leitt til handtöku hans og eftirfarandi gæsluvarðhaldsvistar. Forsendur bótakrafna séu því ekki fyrir hendi í þessu máli og því beri héraðsdómi að sýkna stefnda af öllum dómkröfum stefnanda. Niðurstaða Í þessu máli hefur stefnandi gert kröfu á hendur ríkinu til greiðslu miskabóta og bóta fyrir fjártjón vegna meints ólögmæts gæsluvarðhalds sem stefnandi var látinn sæta frá 25. desember 2010 til 25. mars 2011 að undanskildu tímabilinu 4. janúar 2011 til 12. janúar 2011. Stefnandi byggir á því að réttur hans til bóta leiði af lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála og vísar í 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, svo og XIV. kafla laganna. Þá byggir stefnandi jafnframt á 5. mgr. 67. gr. og 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, auk almennra reglna skaðabótaréttarins og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Hafa ákvæði 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar og 5. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu verið skýrð svo af Hæstarétti Íslands, að með þeim sé sakborningi ekki veittur ríkari réttur til skaðabóta en mælt er fyrir um í ákvæðum laga nr. 88/2008 en 228. gr. laga nr. 88/2008 kveður á um þau skilyrði sem þarf að uppfylla svo greiddar verði bætur vegna sakamáls. Samkvæmt 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála á maður sem borinn hefur verið sökum í sakamáli rétt til bóta samkvæmt 2. mgr. ef mál hans hefur verið fellt niður eða hann verið sýknaður með endanlegum dómi. Eins og greinir í 2. mgr. 228. gr. skulu bætur dæmdar sakborningi vegna aðgerða skv. IX.-XIV. kafla laganna ef skilyrði 1. mgr. eru fyrir hendi. Þó er gerð undantekning þar á ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á en í þeim tilvikum má fella bætur niður eða lækka þær. Eins og þegar er fram komið var stefnandi í þessu máli úrskurðaður í gæsluvarðhald í tíu daga, 25. desember 2010, með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, þar sem rökstuddur grunur lék á að hann hefði gerst sekur um brot gegn 2. mgr. 218. gr. eða 211. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kröfu lögreglu um að stefnandi skyldi sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi var hafnað með úrskurði héraðsdóms 4. janúar 2011. Þeim úrskurði var snúið við í Hæstarétti 12. janúar 2011 í máli nr. 15/2011 þar sem rétturinn féllst á að sterkur grunur væri kominn fram um að stefnandi hefði framið brot gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940, sem varðað gæti 10 ára fangelsi, með því að hafa í félagi við aðra, vopnaður haglabyssu, ætlað að brjóta sér leið inn í íbúðarhús í því skyni að fremja þar líkamsárás. Þá var fallist á að ætlað brot stefnanda hafi verið þess eðlis að uppfyllt væru skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um að gæsluvarðhald væri nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Var stefnandi því dæmdur til að sæta gæsluvarðhaldi til 1. febrúar 2011. Stefnandi var úrskurðaður í gæsluvarðhald í þrígang til viðbótar. Fyrst með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 1. febrúar 2011 þar sem vísað var til fyrrgreinds dóms Hæstaréttar nr. 15/2011 og stefnanda gert að sitja áfram í gæsluvarðhaldi til 15. febrúar 2011. Þar næst með úrskurði héraðsdóms 15. febrúar 2011 og var stefnandi þá, með vísan til sömu sjónarmiða og í fyrri málum, úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 15. mars. Var sá úrskurður kærður til Hæstaréttar sem staðfesti hann með vísan til forsendna, 17. febrúar 2011 í máli nr. 98/2011. Loks var stefnandi úrskurðaður, 15. mars 2011, til að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt þar til dómur gengi í máli hans, en þó ekki lengur en til 1. apríl 2011. Í þeim úrskurði var, með vísan til dóma Hæstaréttar í málum nr. 15/2011 og nr. 98/2011, talið að skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 væru uppfyllt. Var úrskurðurinn staðfestur af Hæstarétti með vísan til forsendna hans. Stefnandi þessa máls var, 10. febrúar 2010, ákærður ásamt þeim D, B og C, fyrir hættubrot, tilraun til sérstaklega hættulegrar líkamsárásar og tilraun til húsbrots, með því að hafa lagt á ráðin um og farið saman að heimili E að [...] í Reykjavík, vopnaðir haglabyssu og ætlað að brjóta sér leið inn í húsið til að ráðast með ofbeldi á E og hafa í því skyni skotið tveimur skotum úr byssunni á útidyrahurð íbúðarinnar. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, 25. mars 2011 í máli S-[...]/2011, var stefnandi sýknaður af öllum ákæruliðum. Voru aðrir sakborningar í málinu sakfelldir fyrir tilraun til húsbrots og hættubrot. Í niðurstöðu dómsins er því lýst að stefnandi hafi neitað því að hafa átt hlut að aðförinni á heimili E og kvaðst hann fyrst hafa komið að málinu á aðfangadagsmorgun árið 2010 þegar D sótti hann til að aka honum til þeirra bræðra, B og C. Talið var að framburður stefnanda hefði stuðning af framburði meðákærðu fyrir dómi og ákærða B hjá lögreglu og sumpart af vætti A. Þá kemur fram að öllum ákærðu hefði borið saman um það fyrir dóminum að stefnandi hefði ekki lagt á ráðin um aðför að E, að hann hafi ekki annað aðhafst en að ganga með meðákærðu að [...] og að hann hefði staðið þar aðgerðarlaus. Að síðustu segir að stefnanda og öðrum meðákærðu hafi borið saman um það að stefnandi hafi forðað sér á brott þegar fyrra skotinu var hleypt af. Þykir ljóst að samkvæmt 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 á stefnandi rétt á bótum vegna gæsluvarðhaldsvistar sem hann þurfti að sæta í allt að þrjá mánuði nema slá megi því föstu að stefnandi hafi stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á. Stefndi byggir á því að ekki séu skilyrði til greiðslu bóta samkvæmt ákvæðinu. Stefnandi hafi verið virkur þátttakandi í aðför hinna sakborninganna að húsráðanda að [...] og hann hafi flúið af vettvangi að lokinni skotárásinni. Stefnandi hafi einnig verið ósamvinnuþýður við lögreglu og greint rangt frá í upphafi. Vegna þessa hafi stefnandi sjálfur stuðlað að því með háttsemi sinni að hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald. Svo sem fyrr er rakið gaf stefnandi fyrst skýrslu hjá lögreglu á jóladag, 25. desember 2010. Kannaðist hann þá hvorki við að hafa farið að [...] deginum á undan né að hafa átt í samskiptum við aðra sakborninga þann dag. Þegar meta skal hvort skilyrði séu fyrir bótaskyldu stefnda í málinu verður ekki litið fram hjá því að stefnandi var ófús til að skýra rétt frá og lýsa sínum þætti í málinu í öndverðu. Á þeim tíma var rannsókn málsins á frumstigi og stefnandi grunaður um árás sem talin var stórfelld og lífshættuleg sem hefði getað haft í för með sér alvarlegt líkamstjón eða dauða. Að því virtu þykir stefnandi í upphafi hafa stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á. Mat dómsins er að fullt tilefni hafi verið til þess að úrskurða hann í gæsluvarðhald daginn eftir handtöku og að þá hafi lögmæt skilyrði verið til þess að stefnandi sætti gæsluvarðhaldi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Ekki verður því fallist á það með stefnanda að hann eigi rétt á bótum fyrir gæsluvarðahald að ósekju frá 25. desember 2010 til 4. janúar 2011. Kemur þá næst til athugunar hvort nauðsyn hafi borið til að halda stefnanda í gæsluvarðhaldi eftir 4. janúar 2011 þangað til honum var sleppt, 25. mars 2011, tæpum þremur mánuðum síðar. Stefnandi var yfirheyrður af lögreglu, 28. desember 2011, þar sem hann kvaðst vilja breyta framburði sínum. Þá fyrst viðurkenndi stefnandi að hafa farið að [...] ásamt öðrum sakborningum. Stefnandi kvaðst hafa tekið eftir því á leiðinni þangað að það væri byssa í bílnum og spurt D hvað hún væri að gera þarna. Hafi D þá svarað að hann ætlaði að hræða með henni. Kvaðst stefnandi ekki hafa vitað hvort byssan hefði verið hlaðin í bílnum eða hvort einhver hlóð hana á leiðinni. Stefnandi viðurkenndi að hafa gengið að húsinu ásamt D og þeim bræðrum, C og B, en sagðist hafa hlaupið í burtu um leið og hann heyrði í skotunum. Þá var stefnandi yfirheyrður að nýju, 3. janúar 2011, og kvaðst hann þá staðfesta fyrri framburð sinn. Aðspurður sagðist hann ekki hafa komið að [...] á Þorláksmessukvöldi, 23. desember 2010, heldur hafi hann þá verið í Hraunbæ hjá vinkonu sinni, A. A hafði áður tjáð lögreglu að stefnandi hafi verið í íbúð hennar allan Þorláksmessudag. Eins og að framan greinir hélt stefnandi því fram í skýrslutökum hjá lögreglu 28. desember 2010 og 3. janúar 2011 að hann hafi dregist inn í atburðarásina með því einu að hafa fylgt félögum sínum, hann hafi ekki vitað að byssa væri með í för er ferðinni var heitið að [...] og hann hafi snúið sér undan um leið og skotið var á hurðina. Fær framburður stefnanda stuðning af framburði C en hann skýrði svo frá í yfirheyrslu hjá lögreglu að stefnandi hafi ekki komið að atvikinu með öðrum hætti en að hafa verið á staðnum með hinum sakborningum málsins. Með vísan til framangreinds verður litið svo á að framburður stefnanda hafi ekki tekið breytingum eftir að hann gaf skýrslu hjá lögreglu 28. desember 2010 og 3. janúar 2011. Þá hefur stefndi jafnframt ekki borið því við að stefnandi hafi breytt eða bætt við framburð sinn eftir þann tíma. Í ljósi þessa þykir þáttur stefnanda í málinu að mestu hafa verið upplýstur ekki síðar en 4. janúar 2011 enda liggja engin gögn fyrir í málinu sem benda til annars og ekkert fram komið sem sýnir fram á að tilefni hafi verið til áframhaldandi gæsluvarðhalds stefnanda eftir þann tíma. Samkvæmt öllu framansögðu verður fallist á það með stefnanda að hann hafi sætt gæsluvarðhaldi lengur en efni voru til og á hann rétt á bótum úr hendi stefnda af þeim sökum sem þykja hæfilega metnar 1.400.000 kr. Stefnandi hefur krafið stefnda um bætur fyrir fjártjón. Óumdeilt er að stefnandi var í fastri vinnu áður en honum var gert að sæta gæsluvarðhaldsvist. Hefur stefnandi lagt fram launaseðla frá október 2010 til febrúar 2011 til stuðnings fjárkröfu sinni. Að virtri framangreindri niðurstöðu dómsins og þess að fjárkrafa stefnanda er studd fullnægjandi gögnum og rökum, sem hefur ekki verið hnekkt af hálfu stefnda, verður fallist á kröfu hans um bætur vegna fjártjóns. Með hliðsjón af því að ekki hefur verið fallist á að stefnandi eigi rétt á bótum vegna gæsluvarðhalds sem hann sætti frá 25. desember 2010 til 4. janúar 2011 og því að stefnandi sat ekki í gæsluvarðhaldi í nokkra daga eftir þann tíma þykir rétt að fjárhæð bóta vegna tekjutaps sé ákvörðuð 730.600 kr. Dæmdar bætur beri dráttarvexti frá 26. ágúst 2011, það er mánuði frá dagsetningu kröfubréfs stefnanda, til greiðsludags, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001. Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður. Stefnandi nýtur gjafsóknar í þessu máli samkvæmt gjafsóknarleyfi frá 2. september 2011. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er þóknun lögmanns hans, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, og ákveðst 627.500 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði. Lilja Rún Sigurðardóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan dóm. D Ó M S O R Ð : Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Degi Bjarna Kristinssyni, 2.130.600 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 26. ágúst 2011 til greiðsludags. Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 627.500 krónur, sem er málflutningsþóknun lögmanns hans, greiðist úr ríkissjóði.
Mál nr. 490/2005
Ómerking Frávísun frá héraðsdómi
X var ákærður fyrir ærumeiðingar með því að hafa birt nánar tiltekin ummæli um tvo lögreglumenn á vefsíðu sinni og einnig í Kastljósi Ríkisútvarpsins og Útvarpi Sögu. Lutu ummælin að því að lögreglumennirnir hefðu lekið upplýsingum til fíkniefnasala og að annar þeirra hefði eyðilagt rannsókn máls þar sem sonur X var brotaþoli. Í ljósi atvika þótti nauðsynlegt að málið yrði rannsakað vandlega af óháðum aðila. Vegna forsögu þess og fyrri afskipta lögreglustjórans var það talið þess eðlis að rétt hefði verið að vísa því til ríkissaksóknara, sbr. til hliðsjónar 35. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og 6. gr. laga nr. 29/1998. Varð því að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason. Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 10. nóvember 2005. Ákæruvaldið krefst sakfellingar samkvæmt ákæru og refsiákvörðunar. Ákærði krefst aðallega að héraðsdómur verði staðfestur, en til vara að dæmd verði vægasta refsing sem lög leyfa. Í héraðsdómi er því lýst að tveir rannsóknarlögreglumenn hafi með vísan til b. liðs 2. tl. 242. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 71/1995, krafist þess að fram færi opinber rannsókn vegna ummæla ákærða, sem birst hafi á heimasíðu á veraldarvefnum, Kastljósi Ríkisútvarpsins og Útvarpi Sögu, þar sem þeir hafi verið bornir alvarlegum ásökunum, sem varðað hafi starf þeirra. Kærum lögreglumannanna var beint til lögreglustjórans í Reykjavík en þar starfa þeir. Rannsókn málsins var fengin rannsóknarlögreglumanni við það sama embætti. Hefur hann aflað endurrita af heimasíðunni og fjölmiðlaþáttunum þar sem kærð ummæli birtust. Þá hefur hann tekið skýrslur af ákærða, sem kannaðist við að hafa viðhaft ummælin. Að því búnu var málið sent ríkissaksóknara til afgreiðslu. Hvorki var tekin skýrsla af lögreglumönnunum né af nafngreindum heimildarmanni að ummælum ákærða. Ákæra var gefin út á þessum grunni 11. apríl 2005. Ummælin sem ákært er út af varða annars vegar ásakanir, sem ákærði segist hafa eftir öðrum, um að lögreglumennirnir leki upplýsingum til fíkniefnasala og hins vegar að annar þeirra hafi eyðilagt rannsókn máls. Af gögnum málsins má ráða að það á rót sína að rekja til þess að í janúar 1999 hafi syni ákærða verið stungið ofan í farangurgeymslu bifreiðar og í kjölfar þess hafi verið gengið í skrokk á honum. Sagði annar lögreglumannanna fyrir dómi að þetta hefði verið svona dæmigert „handrukkunarmál“. Hafi hann séð um rannsóknina ásamt öðrum en þarna hafi komið við sögu menn með nokkurn brotaferil. Málið hafi verið fellt niður á síðari stigum. Að gefnu tilefni frá Hæstarétti aflaði ríkissaksóknari frekari gagna um málið. Kom fram að það var fellt niður af lögreglustjóranum í Reykjavík að því er tvo sakborninga varðaði, en ríkissaksóknari ákærði einn sakborning fyrir brot á 225. gr. almennra hegningarlaga. Í héraðsdómi var ákæran ekki talin uppfylla skilyrði þess lagaákvæðis og sýknað af því broti. Hins vegar var talið að árás ákærða væri nægilega lýst í ákæru svo að sakfella mætti fyrir 217. gr. almennra hegningarlaga og var ákærði dæmdur í skilorðsbundið fangelsi í 45 daga. Að því er hinn lögreglumanninn varðar kom fram að hann hafði haft afskipti af syni ákærða vegna annarra mála. Ákærði bar fyrir héraðsdómi, svo sem þar er nánar lýst, að hann hafi rætt við lögreglumennina báða vegna þessara atburða og einnig við tvo af yfirmönnum lögreglunnar í Reykjavík. Hann heldur því fram að með ummælunum hafi fyrir honum vakað að vekja athygli á fíkniefnavandanum í þjóðfélaginu og hvernig hann og fjölskylda hans hafi persónulega orðið fyrir barðinu á mönnum sem tengdust fíkniefnasölu. Að framan er því lýst að lögreglumennirnir kærðu ummælin, sem ákært er út af, til yfirmanns síns lögreglustjórans í Reykjavík, sem fól rannsókn þess starfsfélaga þeirra við embættið. Hvorki var aflað skýrslu frá nafngreindum heimildarmanni ákærða né kærendum. Þar sem lögreglumennirnir kærðu vegna ummæla, sem þeir tóku alvarlega og fyrir lágu ásakanir um misferli í opinberu starfi var nauðsynlegt að málið yrði vandlega rannsakað af óháðum aðila. Ekkert liggur fyrir um að lögreglumaðurinn, sem kom að rannsókn málsins, hafi litið vilhallt á málið. Hins vegar gat svo litið út frá sjónarhóli utanaðkomandi í ljósi forsögu þess og fyrri afskipta lögreglustjórans í Reykjavík. Var sú aðstaða fyrir hendi að lögreglustjóranum í Reykjavík hefði verið rétt að vísa málinu til ríkissaksóknara sem þá hefði farið með málið, sbr. til hliðsjónar 35. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og 6. gr. laga nr. 29/1998. Þar sem þetta var ekki gert verður að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi. Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest. Allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi. Málskostnaðarákvæði héraðsdóms skal vera óraskað. Allur áfrýjunarkostnaður sakarinnar greiðist úr ríkisjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. október 2005. Mál þetta sem dómtekið var 4. október sl. er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 11. apríl 2005 á hendur X, [...], Reykjavík, fyrir ærumeiðingar gagnvart lögreglumönnunum A, [...] og B, [...], með því að hafa í október 2004: 1. Birt á heimasíðum á vefslóðunum www.dopsalar.tk og „www.dop­salar.blog­spot.co“, eftirfarandi ummæli undir fyrirsögninni „DOPSALAR“: „Lögreglumenn sem margir sögðust fá uppl. hjá. Og bar ég það upp á þá báða [A] [B]“. 2. Haft eftirfarandi ummæli um lögreglumennina í sjónvarpsþættinum Kastljós í Ríkissjónvarpinu 19. október: „Ég hef fengið upplýsingar frá mörgum um að þeir leki upplýsingum, það er ekki um að þeir séu að selja dóp eða neitt svoleiðis heldur upplýsingaleki sem er verið að ræða um í sambandi við þá“. 3. Haft eftirfarandi ummæli um lögreglumanninn B í viðtali á Útvarpi Sögu 20. október „(...) málið var eyðilagt segi ég alveg fullum hálsi af þeim sem fór með rannsókn málsins“ og síðar í sama viðtali um lögreglumennina báða: „(...) ég sagði við hann að ég skyldi láta handtaka hann og leita hjá honum og hann sagðist engar áhyggjur hafa því að hann nafngreindi þessa tvo menn og sagði það að þeir létu sig vita áður en að það yrði leitað hérna, eða áður en hann yrði „Burstaður“ svo ég noti hans eigin orð“. Þetta er talið varða við 234. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 82/1998. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Af hálfu A er krafist skaðabóta að fjárhæð 813.295 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi til 23. desember 2004, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga til greiðsludags. Af hálfu B er krafist skaðabóta að fjárhæð 747.310 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá 14. október 2004 til 29. janúar 2005, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga til greiðsludags. Verjandi ákærða gerir þær kröfur að ákærði verði alfarið sýknaður af kröfum ákæruvaldsins en til vara krefst hann þess að ákærða verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa. Þá krefst hann sýknu af bótakröfu en til vara að bótakröfu verði vísað frá dómi. Loks krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins. Málavextir. Hinn 14. október 2004 krafðist A rannsóknarlögreglu­maður þess með vísan til 2. tl. b í 242. gr. og 235. gr. almennra hegningarlaga að fram færi opinber rannsókn vegna ummæla sem birtust á vefsíðu á veraldarvefnum þar sem hann var borinn alvarlegum sökum. Þá lagði B rannsóknar­lög­reglu­maður einnig fram kæru á hendur ákærða vegna ærumeiðandi ummæla í garð hans sem birtust á heimasíðu ákærða og komu fram í viðtali við ákærða í þættinum Kastljósi sem sýndur var 19. október 2004. Viðbótarkæra var lögð fram af hálfu A 20. og 21. október 2004 vegna ummæla í Kastljósi og í viðtali við ákærða á Útvarpi Sögu. Einnig lagði B fram viðbótarkæru vegna ærumeiðandi ummæla ákærða í því sama viðtali. Vefsíðu þá sem um ræðir hafði ákærði sett upp með yfirskriftinni „DOP­SALAR“. Hafði hún að geyma lista með nöfnum ýmissa aðila sem ákærði hélt fram að seldu fíkniefni eða væru viðriðnir sölu fíkniefna á einhvern hátt. Þá kom fram á listanum að margir segðu lögreglumennina A og B veita þessum aðilum upplýsingar. Ákærði var yfirheyrður af lögreglu hinn 19. október 2004 vegna hinna meintu brota. Kannaðist hann við að hafa birt þá síðu sem um ræðir á veraldarvefnum og kvað tilganginn hafa verið þann að vekja athygli á fíkniefnavandanum. Kvaðst hann setja fólk á listann fengi hann upplýsingar frá að lágmarki þremur aðilum sem bendluðu viðkomandi við fíkniefni. Hann væri hins vegar ekki málkunnugur þeim aðilum sem veittu þessar upplýsingar. Aðspurður kvaðst hann hafa fengið upplýsingar um að lögreglu­mennirnir nafngreindu hefðu látið sakborninga vita af aðgerðum lögreglu fyrirfram. Kvaðst hann hafa látið yfirmenn í lögreglunni vita um grunsemdir sínar um upplýsingaleka frá lögreglumönnunum. Við yfirheyrslu hjá lögreglu 20. október 2004 var ákærði spurður frekar um framburð sinn við yfirheyrslu deginum áður. Kvaðst hann hafa fengið upplýsingar um lögreglumennina hjá C en þær hafi hann fengið staðfestar hjá heimildarmönnum og nöfn þeirra gæfi hann ekki upp. Þá var ákærði yfirheyrður 29. desember 2004 vegna ærumeiðandi ummæla í Kastljósi og í útvarpsþætti á Útvarpi Sögu. Framburður ákærða og vitna fyrir dómi. Ákærði, X, kannast við að ummæli í ákæru séu rétt eftir honum höfð. Aðspurður kvað hann ástæðu þess að hann hafi sett upp vefsíðu þá sem um ræðir á heimili sínu að vekja athygli á fíkniefnavandanum hér á landi. Hann hafi tekið þátt í umræðum á spjallrásum en einnig hafi hann komið fram í fjölmiðla­viðtölum eftir að hann birti síðuna. Ástæða þess að hann hafi nafngreint lögreglu­mennina tvo sem um ræðir hafi verið sú að þegar syni hans var rænt á árinu 1999 hafi C, sem hafi staðið að því, nafngreint lögreglumennina. Hafi C sagt að hann hefði ekki neinar áhyggjur af því að verða handtekinn þar sem lögreglumennirnir myndu vara hann við. Ónefndir heimildarmenn hafi einnig nefnt nöfn þessara lögreglumanna og hafi það staðfest það sem C sagði við hann. Annar lögreglumaðurinn, B, hafi haft með rannsókn ránsmálsins á árinu 1999 að gera og hafi sú rannsókn verið þannig að ákærða hafi verið ljóst að þær upplýsingar sem hann hafði fengið um lögreglumanninn og upplýsingaleka hafi verið sannar. Nánar spurður kvaðst ákærði byggja það á því að B hafi sagt við hann að ekki yrði kært fyrir mannrán. Hafi ákærði kvartað við Ómar Smára um þær rannsóknaraðferðir en hann hafi einnig greint honum frá því þegar C nafn­greindi lögreglumennina á sínum tíma. Einnig hafi hann síðar rætt við Geir Jón Þórisson og upplýst hann um málið. Aðspurður kvaðst ákærði hafa borið þessar upplýsingar upp á lögreglumennina og hafi þeir báðir þrætt fyrir þetta. Önnur samskipti kvaðst ákærði ekki hafa haft við þá. Spurður um eftirfarandi ummæli sín í útvarpsþætti á Útvarpi sögu, „ málið var eyðilagt segi ég alveg fullum hálsi af þeim sem fór með rannsókn málsins“, kvað hann B hafa reynt að færa sök á afbroti yfir á son sinn af þeim sem í raun framdi afbrotið. Þá hafi sá aðili ekki verið kærður fyrir brottnámið á syni ákærða. Hafi þetta í raun verið upphafið á því að ákærði hafi farið að safna saman upplýsingum þeim sem hann setti síðar inn á netið. Aðspurður kvaðst ákærði hafa lokað heimasíðunni eftir að Persónuvernd fór að hafa afskipti af málinu en það væri rangt að það hafi verið gert að tilstuðlan Persónuverndar. Varðandi skaðabótakröfur sem gerðar eru af hálfu lögreglumannanna á hendur honum kvaðst ákærði hafna þeim í ljósi þess að um gamlar upplýsingar væri að ræða sem hann hafi upplýst yfirmenn lögreglunnar um á árinu 1999. Vitnið, A, rannsóknarlögreglumaður hjá fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík, skýrði svo frá að hann hafi fengið upplýsingar um það frá öðrum lögreglumanni að nafn hans væri komið á netið í tengslum við fíkniefni. Kvað hann engan fót fyrir því sem þar er haldið fram. Hafi þetta komið sér mjög illa fyrir hann enda byggðist starf hans mikið á trúnaði sem hann hafi unnið sér inn undanfarin ár hjá ýmsum aðilum. Sé það því mjög slæmt ef aðilar sem jafnan hafa gefið honum upplýsingar hætti að gera það sökum vantrausts í garð hans. Kvaðst hann hafa orðið var við að svo væri og hafi aðilar m.a. vísað beint í umfjöllun fjölmiðla um málið. Spurður um afskipti af ákærða í hans starfi kvaðst vitnið hafa haft afskipti af D syni ákærða. Kvað hann rangt að ákærði hafi rætt við vitnið um upplýsingaleka af hans hálfu áður en síðan birtist á netinu. Þá hafi yfirmenn hans aldrei rætt við hann um þetta mál að fyrra bragði. Honum væri þó kunnugt um að ákærði hafi eitthvað kvartað undan honum á árinu 1999 og hafi það tengst inntaki starfs hans sem lögreglumanns sem ákærði vildi meina að væri að „stússast“ fyrir fíkniefnasala. Hafi hann talað við einhvern yfirmann, sennilega Geir Jón, sem hafi síðan rætt við vitnið. Á þeim tíma hafi vitnið starfað í almennri deild en ekki fíkniefnadeild. Aðspurður kvaðst hann ekki geta bent á neitt sem skapað gæti óvild ákærða í hans garð. Vitnið, B, rannsóknarlögreglumaður í ofbeldisbrota­deild, skýrði svo frá að hann hafi fengið fregnir af því að nafn hans væri inni á heimasíðu þeirri sem um ræðir. Þá hafi hann heyrt af þessu í gegnum tvítuga stjúpdóttur sína sem sagði þetta mál á milli tannanna á fólki. Hann hafi ákveðið að kæra eftir að ákærði fór í fjölmiðla. Kvað hann þetta hafa haft mikil áhrif í starfi hans og loði þetta orðspor jafnvel við hann ennþá á meðal þeirra sem hann hafi afskipti af í starfi sínu, m.a. hjá þeim sem hann yfirheyri. Þá hafi fólk honum tengt verið mjög miður sín vegna þessa máls. Kvað vitnið þetta koma illa við hann þar sem hann starfi af fullum heiðarleika og erfitt sé að rétta hlut sinn eftir svona nokkuð. Fletti hann nafni sínu upp á leitarvefnum „Google“ geti hann fundið umfjöllun um sig sem „skítuga löggu“. Um tilefni þessara ummæla sem ákærði hefur vitnað um kvað vitnið son ákærða hafa lent í „handrukkurum“ og honum hafi verið hent í skott á bifreið og hann laminn eitthvað. Þar hafi komið við sögu menn með langan sakarferil sem lítið vildu tjá sig um málið. Málið hafi verið fellt niður á síðari stigum en það hafi ekki verið hann sem hafi tekið ákvörðun um það. Þá hafi einnig komið fram ábendingar frá ákærða sem hafi verið fylgt en þær ekki staðist. Einnig hafi vitnið komið að rannsókn á máli þar sem sonur ákærða var viðriðinn landasölu en honum væri ókunnugt um hvernig því máli lyktaði. Hafi hann ekki haft önnur afskipti af syni ákærða. Aðspurður kvað vitnið ákærða ekki hafa viðrað þær ásakanir sem um ræðir við hann áður en vefsíðan var sett upp. Hann hafi þó hringt í hann einhverju sinni og verið þá ósáttur við rannsókn máls. Einnig hafi hann fengið spurnir af því að ákærði hafi rætt eitthvað við Ómar Smára. Hans yfirmenn hafi þó aldrei rætt við vitnið að fyrra bragði um þessar ásakanir. Vitnið, Ómar Smári Ármannsson aðstoðaryfirlögregluþjónn, kvað aðspurður sig ekki reka minni til þess að ákærði hafi rætt við hann um ætlaðan upplýsingaleka lögreglumannanna tveggja áður en ásakanir í þeirra garð birtust á netinu. Hann hafi þó rætt við vitnið um rannsókn tiltekins máls þar sem sótt var að syni hans. Sérstaklega hafi ákærði haft áhyggjur af velferð sonar síns. Hafi hann kannað það sérstaklega hvort ekki væri verið að rannsaka það mál og reyndist svo vera. Aðspurður kvað vitnið ákærða ekki hafa rætt við hann um vísvitandi klúður á rannsókninni. Vitnið, Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn, kvað aðspurður einu samskipti sem hann hafi átt við ákærða hafa verið fyrir um fimm árum þegar ákærði ræddi við hann um son sinn og að lögreglumaðurinn A ætti í „óeðlilegu“ sambandi við hann til þess að fá upplýsingar hjá honum. Eitthvað hafi sú umræða tengst fíkniefnum. Hafi sannleiksgildi þessara fullyrðinga verið kannað en ekkert fram komið sem studdi þær. Ekkert hafi ákærði þó rætt við vitnið um umrædda heimasíðu. Niðurstaða. Í máli þessu er óumdeilt að ákærði hafði uppi þau ummæli sem hér um ræðir. Hann hefur lýst því hjá lögreglu og fyrir dómi að hann hafi sett heimasíðuna www.dopsalar.tk upp á heimili sínu og verður því með vísan til forráðasvæðisreglu 4. gr. almennra hegningarlaga ekki á það fallist með ákærða að íslenska ríkið eigi ekki refsilögsögu í málinu þótt netþjónn sá sem notaður var hafi verið í útlöndum. Þá er til þess að líta að afleiðingar brotsins komu fram hér á landi. Verjandi ákærða byggir á því til stuðnings kröfu ákærða um sýknu í málinu að meint brot hans geti aldrei talist móðgun samkvæmt 234. gr., eins og byggt sé á í ákæru, enda hafi kærendur málsins ekki kært málið á þeim grundvelli heldur litið sjálfir svo á að um ærumeiðandi aðdróttanir væri að ræða samkvæmt 235. gr. sömu laga. Upphaf máls þessa má rekja til þeirrar kröfu A rannsóknarlögreglumanns í bréfi, dagsettu 14. október 2004, að fram færi opinber rannsókn með skírskotun til 2. tl. b í 242. gr. almennra hegningarlaga vegna ummæla sem birtust á vefsíðu á veraldarvefnum þar sem hann sem lögreglumaður væri borinn þeim sökum að gefa upplýsingar „til aðila úti í bæ“. Taldi A að um skýrt brot væri að ræða samkvæmt 235. gr. almennra hegningarlaga. Þá lagði B rannsóknarlögreglumaður einnig fram kæru á hendur ákærða vegna „ærumeiðandi ummæla og óhróðurs“ í garð hans sem birtust á fyrrgreindri heimasíðu ákærða og komu jafnframt fram í viðtali við ákærða í þættinum Kastljósi sem sýndur var 19. október 2004. Viðbótarkærur voru síðan lagðar fram af hálfu B 20. og 21. október 2004 vegna „aðdróttana og rógburðar í minn garð“ í tilefni af ummælum ákærða í greindum Kastljóssþætti og í viðtali við hann á Útvarpi Sögu. Einnig lagði B fram viðbótarkæru vegna „ærumeiðandi ummæla og óhróðurs“ ákærða í því sama viðtali. Ákærði hefur haldið því fram að fyrir honum hafi vakað að vekja athygli á fíkniefnavandanum í þjóðfélaginu en hann lýsti því hér fyrir dómi hvernig hann og hans fjölskylda hafði persónulega orðið fyrir barðinu á aðilum sem tengdust fíkni­efnasölu. Brot ákærða er í ákæru heimfært undir móðgun samkvæmt 234. gr. almennra hegningarlaga en greinin hljóðar svo: „Hver, sem meiðir æru annars manns með móðgunum í orðum eða athöfnum, og hver sem ber slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári“. Ákvæði 235. gr. laganna um aðdróttun hljóðar hins vegar svo: „Ef maður dróttar að öðrum manni einhverju því, sem verða myndi virðingu hans til hnekkis, eða ber slíka aðdróttun út, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 1 ári“. Dómaframkvæmd ber það með sér að ekki sé tilgangur greindra ákvæða að leggja slíkar hömlur á tjáningarfrelsi manna samkvæmt 73. gr. stjórnarskrár og 10. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu að þeim sé gert ókleift að taka þátt í opinberri umræðu með því að lýsa skoðunum sínum eða mati á samfélagslegum mál­efnum. Tjáningarfrelsið hefur hins vegar ekki verið talið njóta verndar með vísan til þessara ákvæða þegar ljóst er af ummælunum að þau hafa þann tilgang einan að særa menn eða lítilsvirða á ófyrirleitinn hátt og verða þannig ekki réttlætt með vísan til hagsmuna almennings af því að fá að njóta slíkrar umræðu opinberlega. Samkvæmt verknaðarlýsingu 234. gr. almennra hegningarlaga er það skilyrði að æra manns sé meidd með móðgun í orði eða athöfnum. Þau ummæli sem hér um ræðir fela í sér fullyrðingar eða staðhæfingar um lögreglumennina tvo og vísar ákærði í þessu sambandi til upplýsinga sem hann kvaðst hafa fengið frá heimildarmönnum sínum, einn er tilgreindur með nafni en aðrir eru ónafngreindir. Í ummælum hans felst hinsvegar ekki gildisdómur um staðreyndir og er raunar vandséð að að baki þeim búi þær virðingarverðu hvatir að vekja athygli á fíkniefnavanda þjóðfélagsins. Það er mat dómsins að ummæli þau sem ákært er út af, og skoða verður í samhengi við umfjöllunarefnið, feli öll í sér ærumeiðandi aðdróttanir um refsivert athæfi, þ.e. brot lögreglumannanna í opinberu starfi. Með þessum aðdróttunum var vegið mjög freklega að starfsheiðri þeirra, fyrst með birtingu á heimasíðu ákærða og síðar með viðtölum í fjölmiðlum. Eru aðdróttanir sem þessar til þess fallnar að skaða þá, bæði persónulega og í starfi sínu sem lögreglumenn, en einnig koma þau niður á trúverðugleika lögreglunnar í heild. Dómurinn getur hins vegar ekki fallist á það með sækjanda að ummæli þessi geti talist móðgun í skilningi 234. gr. almennra hegningarlaga og þannig fallið undir verknaðarlýsingu greinarinnar. Þar eð refsikrafa ákæruvaldsins er eingöngu byggð á því að ákærði hafi brotið gegn þeirri lagagrein en ekki 235. gr. sömu laga þykir ekki verða komist hjá því að sýkna ákærða af refsikröfu í máli þessu. Með vísan til þessarar niðurstöðu er skaðabótakröfum vísað frá dómi. Sakarkostnaður málsins, 123.610 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 120.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði. Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Ragnheiði Harðardóttur vararíkis­saksóknara. Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn. D ó m s o r ð: Ákærði, X, er sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Sakarkostnaður málsins, 123.610 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 120.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.
Mál nr. 183/2016
Kærumál Kæruheimild Frávísun frá Hæstarétti
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X um að héraðsdómara yrði ekki gert að víkja sæti í sakamáli. Þar sem heimild brast til kæru úrskurðarins var málinu vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma Helgi I. Jónssonhæstaréttardómari og Hjördís Hákonardóttir og Ingveldur Einarsdóttir settirhæstaréttardómarar. Varnaraðili skaut málinu tilHæstaréttar með kæru 4. mars 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7.sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. mars 2016, þar semhafnað var kröfu hans um að sérfróður meðdómandi, Hrefna Sigríður Briem, víkisæti eða taki ekki sæti í málinu. Um kæruheimild vísar varnaraðili til a. liðar1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þessaðallega að framangreind krafa sín verði tekin til greina, en til vara að„ákvörðun héraðsdómara, sem færð var til bókar við fyrirtöku málsins hinn 13.nóvember 2015, um að Hrefna Sigríður Briem taki sæti í málinu sem sérfróðurmeðdómandi verði felld úr gildi.“ Sóknaraðili krefst þess aðallegaað kröfum varnaraðila verði vísað frá dómi, en til vara að hinn kærði úrskurðurverði staðfestur.Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr.88/2008 er dómari, þar á meðal meðdómsmaður, vanhæfur til að fara með mál efuppfyllt er eitthvert þeirra skilyrða sem talin eru upp í stafliðum a. til g. ígreininni. Þá er kveðið á um það í 2. mgr. greinarinnar að dómari skuli ennfremur víkja sæti í máli eftir útgáfu ákæru ef hann hefur fallist á kröfu um aðákærði sæti gæsluvarðhaldi samkvæmt 2. mgr. 95. gr. sömu laga. Er hér umtæmandi talningu að ræða á ástæðum þess að dómari sé vanhæfur til meðferðarmáls. Af hálfu varnaraðila er ekki vísað til þessarar lagagreinar vegna kröfuhans um að hinn sérfróði meðdómsmaður víki sæti í málinu eða taki ekki sæti íþví. Eftir a. lið 1. mgr. 192. gr.laga nr. 88/2008 sætir úrskurður héraðsdómara um hvort hann víki sæti í málikæru til Hæstaréttar, en þá kæruheimild ber að skýra til samræmis við 6. gr.laganna. Þar sem röksemdir varnaraðila fyrir kröfunni falla ekki undir þálagagrein verður kæra hans hvorki reist á a. lið 1. mgr. 192. gr. né öðrumstafliðum málsgreinarinnar. Brestur þannig heimild fyrir kæru varnaraðila ogverður málinu því vísað frá Hæstarétti.Dómsorð:Máli þessu er vísað fráHæstarétti. Úrskurður HéraðsdómsReykjavíkur 2. mars 2016. Mál þettaer höfðað með ákæru sérstaks saksóknara 12. desember 2012 á hendur ákærðu X ogY fyrir umboðssvik, sbr. 249. gr. almennra hegningarlaga, á hendur ákærða Zaðallega fyrir hlutdeild í umboðssvikum hinna tveggja fyrrgreindu en til varafyrir hylmingu, sbr. 254. gr. almennra hegningarlaga, og til þrautavara fyrirpeningaþvætti, sbr. 264. gr. sömu laga, og á hendur ákærða Þ fyrir hlutdeild íumboðssvikum ákærðu X og Y. Málið varþingfest 7. janúar 2013 og dómur kveðinn upp 5. júní 2014. Dóminum var áfrýjaðog samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið flutt um formhlið þess 13. apríl2015. Dómur var kveðinn upp 22. sama mánaðar þar sem hinn áfrýjaði dómur varómerktur ásamt meðferð málsins frá upphafi aðalmeðferðar og málinu vísað heim íhérað til úrlausnar á ný af þeirri ástæðu að sérfróður meðdómandi hefði veriðvanhæfur til meðferðar málsins. Í þinghaldi 5. júní 2015 krafðist sækjandi þessað dómsformaður viki sæti í málinu. Með úrskurði dómsins 23. september 2015 varkröfunni hafnað, en með dómi Hæstaréttar 13. október 2015 í málinu nr. 655/2015var dómsformanni gert að víkja sæti með vísan til g-liðar 1. mgr. 6. gr. laganr. 88/2008. Núverandidómsformaður fékk málinu úthlutað 21. október sl. en hafði fram að þeim tímaengin afskipti af því. Við fyrirtöku málsins 13. nóvember sl. var fært tilbókar að dómstjóri hefði ákveðið, að gengnum dómi Hæstaréttar í málinu nr.655/2015, að úthluta málinu til dómarans sem dómsformanns og jafnframt ákveðiðað Símon Sigvaldason héraðsdómari tæki sæti í dóminum í stað Arngríms Ísberghéraðsdómara. Þá var upplýst um það að Hrefna Sigríður Briem viðskiptafræðingurmyndi taka sæti í dóminum sem sérfróður meðdómandi. Ákærði Xhefur krafist þess að Hrefna Sigríður Briem, sérfróður meðdómandi, víki sæti ímáli þessu en til vara að hún taki ekki sæti í dóminum. Málið var tekið tilúrskurðar um kröfuna 12. febrúar sl. er málflytjendum hafði verið gefinn kosturá að tjá sig um hana. I Ákærði Xbyggir kröfur sínar á því að af ferilskrá sérfróða meðdómandans verði ráðið aðmenntun hennar og reynsla sé einkum á sviði stjórnunar. Sú sérkunnátta komivarla að gagni við úrlausn máls þessa. Af ferilskránni verði á hinn bóginngagnályktað að meðdómandann skorti sérkunnáttu á sviði fjármála og/eðaáhættustýringar sem óumdeilanlega sé nauðsynleg til þess að leysa úr ágreiningium staðreyndir málsins, sbr. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008. Í málinu sé ákærtfyrir umboðssvik og til úrlausnar sé hvort lán hafi verið veitt gegnfullnægjandi tryggingum. Flókin atvik séu að baki og flókin sjónarmið um mat ástöðu A banka fyrir og eftir viðskiptin. Þá sé mikilvægt að meta verðmætifélagsins B á tilteknum tíma, en um það liggi fyrir talsvert magn gagna.Mikilvægt sé að í dóminum sitji sérfróður meðdómandi sem geti lagt mat áframangreind atriði. Ekki verði séð af ferilskrá Hrefnu Sigríðar Briem að húnbúi yfir þeirri reynslu og menntun sem sé æskileg. Þótt hún virðist aðeinhverju marki hafa komið að lánastarfsemi sé það ekki nægjanlegt til þess aðtalist geti vera um sérþekkingu að ræða. Hún sé sérfræðingur á sviði stjórnunaren ekki fjármála og henni beri því að víkja sæti. Varakrafan byggi að ölluleyti á sömu sjónarmiðum og aðalkrafan, en sé sett fram í öryggisskyni. Aðrirákærðu taka undir sjónarmið ákærða X. II Sækjandikrefst þess að kröfu ákærða X verði hafnað. Hann telji ekki lagaskilyrði tilþess að verða við kröfunni. Það sé í hendi dómara að tilnefna sérfróðanmeðdómanda, sbr. 3. gr. laga nr. 88/2008, en samkvæmt 5. gr. laganna skuli hanngefa málflytjendum kost á að gera athugasemdir. Þeir geti gert athugsemdir semlúti að hæfi meðdómsmanna, en í 6. gr. laganna séu tæmandi talin þau tilvik semvaldi vanhæfi. Skortur á sérkunnáttu sé ekki þar á meðal. Hins vegar bendirsækjandi á að ljóst sé að þekking sérfróða meðdómandans sé a.m.k. jafnmikil ogákærðu. III ÁkærðiX heldur því fram að sérfróðan meðdómanda, sem ákveðið hefur verið að taki sætií dóminum við aðalmeðferð málsins, skorti sérþekkingu með hliðsjón af sakarefnimálsins og krefst þess að hún víki sæti. Dómarisem telur þörf á sérfróðum meðdómanda velur sjálfur mann til starfans. Íþinghaldi 13. nóvember sl. var málflytjendum tilkynnt að Hrefna Sigríður Briemviðskiptafræðingur myndi taka sæti í dóminum sem sérfróður meðdómandi. Íframhaldi af þinghaldinu var þeim sent starfsferilsyfirlit Hrefnu til þess aðþeim gæfist kostur á að gera athugasemdir teldu þeir tilefni til, sbr. 1. mgr.5. gr. laga nr. 88/2008. Í þinghaldi 5. janúar sl. var fært til bókar að ákærðiX gerði athugasemd við sérfróðan meðdómanda. Dómari tók athugasemdina til skoðunaren við fyrirtöku í málinu 13. janúar sl. upplýsti dómari að hún teldi ekki þörfá viðbrögðum vegna þeirra. Við fyrirtöku málsins 4. febrúar sl. krafðist ákærðiX þess að meðdómandanum yrði gert að víkja sæti og var málflytjendum gefinnkostur á að tjá sig um kröfuna 12. febrúar sl. Þóttþað sé í höndum dómara hvort hann kallar til sérfróða meðdómsmenn og hverjirþað verða er ljóst að hann hefur ekki fullkomlega óbundnar hendur við val ámeðdómanda heldur verður hann að velja meðdómanda sem hefur sérþekkingu á þeimágreiningsatriðum sem uppi eru í málinu. Ákærði X telur skýrt að í máli þessusé þörf á þekkingu á sviði fjármála og/eða áhættustýringar. Það sakarefni semhér er til úrlausnar er umboðssvik og hlutdeild í umboðssvikum vegnalánveitingar A banka en ákæruvaldið telur lánveitinguna hafa verið ánfullnægjandi trygginga og fjármunum bankans hafa verið stefnt í verulega hættu. Íferilskrá Hrefnu Sigríðar Briem kemur fram að hún hefur lokið B.Sc.- ogM.Sc.-gráðum í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Hún stýrir nú B.Sc.-námi viðviðskiptadeild Háskólans í Reykjavík og ber ábyrgð á gæðum þess náms. Stórhluti af námi í viðskiptafræði lýtur að fjármálum. Hrefna hefur því menntun áþví sviði sem sakarefni málsins lýtur að og hefur umsjón með námi á því sviði.Þá hefur hún sérþekkingu á bankastarfsemi, einkum vegna starfa sinna fyrir BYRsparisjóð, áður Sparisjóð vélstjóra, um árabil þar sem starf hennar laut meðalannars að ákvarðanatökum í lánastarfsemi. Frá árinu 2011 hefur Hrefna Sigríðurverið formaður vottunarnefndar á vegum Samtaka fjármálafyrirtækja en sú nefndber ábyrgð á námi fyrir bankastarfsmenn, sem leiðir til vottunar fyrirfjármálaráðgjafa. Með tilliti til framangreinds auk annarra starfa og menntunarverður að telja að Hrefna Sigríður Briem hafi fullnægjandi sérfræðiþekkingu tilþess að vera sérfróður meðdómandi í máli þessu. Verður kröfum ákærða X um aðmeðdómandinn víki sæti eða taki ekki sæti í málinu því hafnað. BarbaraBjörnsdóttir héraðsdómari kveður uppúrskurð þennan. Ú R S K U R Ð A R O R Ð : Hafnað erkröfum ákærða, X, um að sérfróður meðdómandi, Hrefna Sigríður Briem, víki sætieða taki ekki sæti í máli þessu.
Mál nr. 368/1999
Eignardómsmál Frávísun frá héraðsdómi
Eigendur jarðarinnar H höfðuðu eignardómsmál og kröfðust þess að eignarréttur sinn að heiðarbýlinu V yrði viðurkenndur, en þeir töldu að V hefði fylgt með í kaupunum þegar forfaðir þeirra keypti H. Málinu var vísað frá héraðsdómi þar sem eignardómsstefnan var ekki talin fela í sér næga greinargerð um heimild að lögum til útgáfu hennar og eigendur H hefðu að svo komnu ekki sýnt nægilega fram á, hver nauðsyn hafi borið til að höfða málið sem eignardómsmál
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. september 1999. Hann krefst þess aðallega, að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara, að öllum kröfum stefndu verði synjað. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndu krefjast staðfestingar á héraðsdómi og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I. Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt bréf jarðanefndar Norður-Múlasýslu til lögmanns stefnenda í héraði frá 7. september 1999. Þar kemur fram, að stefndi Sigvaldi Ragnarsson hefur keypt Hákonarstaði I í Jökuldal af Björgvin Sigvaldasyni, sem lést 29. júlí 1999. Samkvæmt upplýsingum lögmanns stefndu fóru þau kaup fram 14. maí 1999, skömmu fyrir uppsögu héraðsdóms. Er dánarbú Björgvins Sigvaldasonar því ekki aðili að málinu fyrir Hæstarétti. Í bréfi jarðanefndar kemur einnig fram, að Björgvin hafi selt stefndu báðum sinn hlut í Veturhúsum. Jarðanefnd bendir á, að í þinglýsingabókum séu Veturhús talin eign Jökuldalshrepps, þar til jörðin hafi verið sameinuð Hákonarstöðum. Leggur nefndin til, að gengið verði í að lagfæra þessi mál og „jarðirnar Hákonarstaðir, Víðihólar og Veturhús verði sameinaðar.“ II. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá héraðsdómi. Stefndu, Sigvaldi Ragnarsson og Gréta Dröfn Þórðardóttir, greiði áfrýjanda, íslenska ríkinu, 300.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Austurlands 9. júlí 1999. Mál þetta, sem dómtekið var 11. júní sl., er höfðað fyrir héraðsdómi Austurlands af Bernhard Bogasyni hdl. f.h. Björgvins Sigvaldasonar, kt. 150327-3779, Lagarfelli 9, Fellabæ, Sigvalda Ragnarssonar, kt. 290668-3529, Hákonarstöðum 3, Jökuldalshreppi, og Grétu Drafnar Þórðardóttur, kt. 190558-2319, Hákonarstöðum 4, Jökuldalshreppi, með eignardómsstefnu útgefinni 13. janúar 1998. Stefnendur gera þær dómkröfur, að með dómi verði viðurkenndur eignarréttur stefnenda að Víðihólum, Jökuldalshreppi, Norður-Múlasýslu, ásamt öllum réttindum er fylgja jörðinni. Þá er krafist málskostnaðar eftir mati dómsins. Fjármálaráðherra og landbúnaðarráðherra tóku til varna vegna íslenska ríkisins og og eru dómkröfur varnaraðila: Aðallega að málinu verði vísað frá dómi, en til vara að kröfum stefnenda verði synjað. Í báðum tilvikum er þess krafist að stefnendum verði gert að greiða stefnda hæfilegan málskostnað samkvæmt mati dómsins. Í greinargerð varnaraðila var tekið fram, að hann teldi engin tormerki á því að mál þetta væri flutt í einu lagi um aðalkröfu hans um frávísun frá dómi og um efnishlið málsins. Málavextir: Stefnendur lýsa málavöxtum svo að á landnámsöld hafi Hákon Hákonarson numið land í Jökuldal þar á meðal jörðina (heiðarbýlið) Víðihóla, sem var hjáleiga Hákonarstaða. Jörðin hefur mestmegnis verið byggð út eða nýtt af ábúendum og/eða eigendum Hákonarstaða í Jökuldal. Á árinu 1956 var heimaland Hákonarstaða skipt upp í þrjá hluta en úthögum, þ.á.m. Víðihólum, var ekki skipt upp og hafa eigendur Hákonarstaða I, II og III nýtt landið sameiginlega til beitar, veiða o.fl. Pétur Kristjánsson eignaðist jörðina Víðihóla á síðustu öld eftir móður sína Jakobínu Pétursdóttur. Pétur átti einnig heiðarbýlin Rangalón og Veturhús. Árið 1909 eignaðist Pétur Kristjánsson einnig Hákonarstaði og bjó hann þar en nýtti heiðarbýlin til búskapar síns auk þess sem töluverð veiði hefur alla tíð verið stunduð á heiðarbýlunum. Eignarheimildum Péturs fyrir heiðarbýlunum var aldrei þinglýst. Á árinu 1909 er Pétur veðsetti heiðarbýlin Landsbanka Íslands var veðskjölunum þinglýst með athugasemd um að veðsali hefði ekki þinglýsta eignarheimild fyrir hinu veðsetta. Veðskjalinu var þinglýst í fasteignabók á blað Hákonarstaða. Sérstök landamerkjalýsing er til fyrir Víðihóla frá árinu 1921, undirrituð af Pétri Kristjánssyni auk eigenda aðliggjandi landa. Pétur Kristjánsson lést á árinu 1921. Áður hafði hann selt heiðarbýlið Veturhús. Á árinu 1942 voru Veturhús seld til Kjartans Ólafssonar með afsali útgefnu af sýslumanni Norður-Múlasýslu, skv. heimild Dómsmálaráðuneytis, f.h. dánarbús Önnu Einarsdóttur, síðasta ábúanda að Veturhúsum. Afsalinu var þinglýst og var það í fyrsta sinn sem eignarheimild fyrir jörðinni var þinglýst og var þá útbúið sérstakt blað í fasteignabók fyrir jörðina. Hinn 11. júní 1940 seldi Guðný Torfadóttir, ekkja Péturs Kristjánssonar, jörðina Rangalón til Jóns Þórarinssonar og gaf út afsal því til staðfestu. Því afsali var þinglýst og var þá fyrst útbúin blaðsíða í fasteignabók fyrir Rangalón. Guðný Torfadóttir seldi Sigvalda Torfasyni Hákonarstaði þann 13. október 1941. Stefnendur eru öll afkomendur Sigvalda. Sölunni til Sigvalda fylgdi jörðin Víðihólar auk allra annarra réttinda er fylgdu Hákonarstöðum, án þess, að þess væri að neinu getið í afsali. Víðihólar hafa samkvæmt framangreindu að meginstefnu til allt til til dagsins í dag fylgt Hákonarstöðum og verið nýttir með Hákonarstöðum. Stefnendur, sem allir eru ábúendur Hákonarstaða, og þeir sem stefnendur rekja rétt sinn til hafa því nýtt jörðina Víðihóla, greitt fasteignagjöld af Víðihólum, svarað til fjallskila og farið með full og óskoruð eignarráð yfir Víðihólum í áratugi. Þar sem ekki er sérstakt þinglýsingarblað í fasteignabók fyrir Víðihóla og vegna þess að eignarheimildir þeirra er stefnendur rekja rétt sinn til yfir jörðinni Víðihólum voru ekki skriflegar telja stefnendur nauðsynlegt að höfða mál þetta til að fá skriflega eignarheimild yfir jörðinni. Málsástæður stefnenda: Stefnendur, sem eru eigendur Hákonarstaða, kveðast rekja eignarrétt sinn yfir jörðinni Víðihólum frá Pétri Kristjánssyni, sem hafi eignast jörðina (heiðarbýlið) á síðustu öld en aldrei haft skriflega þinglýsta eignarheimild fyrir jörðinni. Ekkja Péturs Kristjánssonar hafi selt Sigvalda Torfasyni, forföður stefnenda, Hákonarstaði og allt það sem þeirri jörð fylgdi, þ.á.m. Víðihóla, enda Víðihólar frá byrjun þessarar aldar og fyrr á tímum verið nýttir með Hákonarstöðum og taldir fylgja Hákonarstöðum. Með vísan til 122. gr. laga nr. 91/1991 séu því skilyrði til að kveðinn verði upp eignardómur í málinu að kröfu stefnanda. Stefnandi byggir einnig á að eignarréttur þeirra að Víðihólum hafi stofnast fyrir hefð þar sem stefnendur og þeir er stefnendur rekja rétt sinn til hafi haft alger og óskoruð yfirráð yfir jörðinni í fullan hefðartíma. Málsástæður varnaraðila: Til stuðnings aðalkröfu byggir varnaraðili á því að mjög skorti á að nægjanlega skýr grein sé gerð í eignardómsstefnu eða framlögðum málsgögnum fyrir þeim eignarrétti sem stefnendur krefjast dóms um. Ekki komi nægjanlega skýrt fram hver eru mörk jarðarinnar Víðihóla eða hver afnotaréttindi stefnendur telja að aðrir en þeir kunni að eiga eða hafa nýtt. Engin heimildarbréf eða nægjanleg sönnunargögn fyrir eigninni geti hafa réttlætt útgáfu eignardómsstefnu samkvæmt 122. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verði ekki ráðið af þeim gögnum sem stefnendur hafa lagt fram að sennilegt sé að einn þeirra eða fleiri eigi tilkall til heiðarbýlisins Víðihóla. Fjármálaráðherra fari með málefni sem varða eignir ríkisins almennt, sbr. 5. gr. auglýsingar um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands nr. 96/1969. Vísast einnig til dómaframkvæmdar er varðar ágreining um jarðir og lönd þar sem vafi hefur verið um einstaklingsbundinn eignarrétt og ríkissjóður hefur átt aðild. Til fyrirsvars fyrir varnaraðila sé einnig landbúnaðarráðherra vegna málefna um afréttir og jarðir, sbr. jarða- og ábúðarlög, en óljóst sé hvort Víðihólar hafi talist lögbýli fyrr eða síðar. Varnaraðili sem handhafi almannavalds hafi lögvarinna hagsmuna að gæta í máli þessu þar sem ekkert í málatilbúnaði stefnenda bendi til að jörðin Víðihólar sé eða hafi verið undirorpin einstaklingsbundnum eða beinum eignarrétti stefnenda. Verði við svo búið að leggja til grundvallar að jörðin sé eign ríkisins að allsherjarrétti með því að ríkið hafi umráða og ráðstöfunarrétt yfir þeim jörðum sem enginn annar hafi sannað eignarrétt sinn að. Allt að einu hafi Alþingi heimild til að kveða á um rástöfun eða eignarhald slíkra eigna með lögum og komi í hlut varnaraðila að gæta þeirra almannahagsmuna er lúti að jörðum sem ekki sýnast háðar lögmætum grunneignarrétti annarra en ríkisins sem almannaeignar. Umráðaréttur og vald til að ráðstafa almenningum sé að forræði ríkisvaldsins. Stefnendur hafa lagt fram allnokkur skjöl sem varða jörðina Hákonarstaði og byggja kröfur sínar á eignarrétti að þeirri jörð. Hins vegar fullyrða stefnendur að jörðin Víðihólar hafi fylgt jörðinni Hákonarstöðum. Þessu er mótmælt af hálfu varnaraðila sem röngu og ósönnuðu. Engu breyti í þessu efni, hvort stefnendur eða fyrri eigendur Hákonarstaða hafi nýtt Víðihóla til beitar eða veiða eins og fullyrt er í stefnu. Þau afnot geri ekki líklegan beinan grunneignarrétt að jörðinni. Þótt í heimildum komi fram vísbendingar um að eigendur Hákonarstaða hafi nýtt landssvæðið Víðihóla, sé ekkert í gögnum málsins sem geri sennilegt að Víðihólar hafi verið hluti af Hákonarstöðum. Í frá 1941 um jörðina Hákonarstaði sé ekki minnst á Víðihóla. Verði að gera ráð fyrir að svo hefði verið gert ef hún hefði verið seld með, enda hafi þá verið til lýsing landamerkja fyrir Víðihóla undirrituð í desember 1921 af tveimur öðrum landeigendum. Landskiptagerð frá 1956 milli eigenda Hákonarstaða bendi einnig til þess að þeir hafi einungis talið um beitarafrétt væri að ræða sem þeim væri ekki heimilt að skipta enda landið ekki undirorpið eignarrétti þeirra. Í stefnu er greint frá því að í raun sé um úthaga að ræða. Landið Víðihóla sé ekki að finna í gömlum fasteignamatsskrám, en skráð í fasteignamat 1938 sem auð og enginn ábúandi þar tilgreindur. Í ritinu "Ný jarðabók fyrir Ísland" frá 1861 séu aðeins nefndar tvær hjáleigur Hákonarstaða (Sænautasel og Veturhús), en Víðihóla ekki getið. Í jarðaskrám landbúnaðarráðuneytis frá 1959 sé jörðin tilgreind án búskapar, en sögð auð í jarðaskrá 1964 - 1965. Jörðin sé ekki tilgreind í jarðaskrám frá 1967 - 1968. Hafi jörðin einhvern tíma talist til lögbýla hafi hún um langan aldur talist í óbyggðra landa, sbr. 2. mgr. 1. gr. eldri ábúðarlaga nr. 36/1961. Ekki sé komið fram hvort eða á grundvelli hvaða heimilda landið hafi verið byggt eða að eignarheimildir hafi færst yfir til stefnenda. Af hálfu varnaraðila er því mótmælt, að viðurkenningarkrafa stefnenda verði tekin til greina á grundvelli hefðar. Stefnendur hafa ekki sannað óskoruð yfirráð yfir jörðinni Víðihólum í fullan hefðartíma. Það eitt sé komið fram í málinu að eigendur Hákonarstaða hafi nýtt jörðina til beitar og veiða, en slík afnot geti ekki helgað grunneignarrétt fyrir hefð. Ekki sé til úrslausnar í málinu hvort eða hvað miklu leyti afnotaréttur kynni að hafa stofnast fyrir hefð. Ekki sé fram komið að stefnendur hafi nýtt jörðina á þann hátt sem leiða myndi af fullkomnum eignarrétti eða eignarhaldi, t.d. með því að koma fyrir húsakosti stunda þar ræktun og hirða arð af jörðinni. Engir eignayfirfærslugerningar um jörðina styðja heldur eignarhald í hefðartíma samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 46/1905 um hefð. Um frekari lagarök vísar varnaraðili til almennra reglna eignarréttar og dómaframkvæmdar um tilkall og hagsmuni ríkisins varðandi almenninga og eignir sem ekki eru háðar grunneignarrétti annarra. Til stuðnings kröfu varnaraðila um málskostnað vísast til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Forsendur og niðurstaða: Verður nú tekin afstaða til frávísunarkröfu varnaraðila. Stefndi hefur rökstutt kröfu sína um frávísun málsins frá dómi, með því, að mjög skorti á að nægjanlega skýr grein sé gerð í eignardómsstefnu eða framlögðum málsgögnum fyrir þeim eignarrétti, sem stefnendur krefjast dóms um. Ekki komi nægjanlega skýrt fram hver séu mörk jarðarinnar Víðihóla, eða hver afnotaréttindi stefnendur telji að aðrir en þeir kunni að eiga eða hafa nýtt. Engin heimildarbréf eða nægjanleg sönnunargögn fyrir eigninni hafi getað réttlætt útgáfu eignardómsstefnu samkvæmt 122. gr. laga nr. 91/1991. Verði ekki ráðið af þeim gögnum, sem stefnendur hafa lagt fram, að sennilegt sé að einn þeirra eða fleiri eigi tilkall til heiðarbýlisins Víðihóla. Í 122. gr. l. nr. 91/1991 kemur fram, að nægilegt er til þess að leita eignardóms, að stefnandi geri sennilegt, að hann hafi öðlast þann rétt sem hann krefst staðfestingar á. Það er hins vegar ekki skilyrði, að hann hafi við upphaf málshöfðunar fært fullar og óyggjandi sönnur á rétt sinn, enda mundi vöntun á slíkri sönnun eiga að leiða til synjunar á kröfum hans en ekki frávísun. Samkvæmt ákvæðum 122. gr. l. nr. 91/1991 er grunnskilyrði þess, að eignardómsmál verði höfðað, að stefnanda skorti skilríki fyrir rétti sínum. Skortur á skilríkjum fyrir þessum rétti getur þannig ekki leitt til þess að synjað sé um útgáfu eignardómsstefnu, eða frávísunar málsins frá dómi. Í þeim gögnum sem fram eru lögð í málinu, sem og í stefnu, eru réttindi þau sem krafist er staðfestingar á afmörkuð með nafni jarðarinnar auk þess sem fram er lögð landamerkjalýsing, sem dagsett er 24. október 1921 og árituð um að allir aðilar sem undir hana hafa ritað hafi gert það ágreiningslaust. Skjalið er þinglesið á manntalsþingi 27. júlí 1922. Er jarðarinnar einnig marggetið í fasteignabókum og jarðaskrám, bæði hrepps og landbúnaðarráðuneytis, án þess, að nokkur vafi virðist leika á, um hvaða eign sé að ræða. Verður því ekki talið að neitt skorti á að eign þeirri, sem krafist er eignardóms fyrir, sé nógu skilmerkilega lýst. Þá verður það ekki talið varða frávísun málsins, að ekki séu tilgreind í stefnu hugsanleg afnotaréttindi annarra en stefndu að landinu, einkum ef ekki er kunnugt um slík afnotaréttindi. Að öllu þessu athuguðu verður aðalkröfu varnaraðila um að málinu verði vísað frá dómi hafnað. Í skjölum og öðrum gögnum er hin umdeilda jörð ýmist nefnd Víðirhólar, Víðihólar eða Víðihóll. Nú mun algengast að rita Víðihólar og mun því haldið í dóminum, nema um sé að ræða beinar tilvitnanir. Í ritinu Austurland, safn austfirskra fræða, undir ritstjórn Halldórs Stefánssonar og Þorsteins M. Jónssonar, Akureyri 1947, segir á bls. 167: „Landnám heiðarinnar stóð tímabilið 1841 til 1862. Fyrsta býlið á heiðinni var numið 1841, það var býlið Háreksstaðir. Tveim árum síðar byggðist Sænautasel við suðurenda Sænautavatnsins og enn næsta vor Rangárlón við norðurenda vatnsins og Gestreiðarstaðir í dalnum samnefnda. Þremur árum þar á eftir (1847) byggðust Veturhús og Víðihólar í Suðurheiðinni.” Í sama riti bls. 168 segir: „... Víðihólar og Sænautasel voru byggð úr Hákonarstaðalandi,...” Í Jarðamatsbók frá 1849 er lýst Hákonarstöðum með „afbýlunum Sæneitaseli og Veturhúsum.” Víðihóla er þar ekki getið. Jörðin með afbýlunum er þá virt á 1200 rbd. Pétur Pétursson er þá eigandi jarðarinnar. Í Nýrri Jarðabók fyrir Ísland, að því er virðist frá 1861, er getið meðal jarða í Jökuldals og Hlíðar hreppi, Hákonarstaða og undir þeim hjáleigurnar Sænautasel og Veturhús og er jörðin og hjáleigurnar metin saman til 16 hundraða að fornu tali en 39,5 að nýju tali. Víðihóla er þar ekki getið. Eiganda er ekki getið. Í skjölum, sem lögð hafa verið fram í máli þessu, er Víðihóla fyrst getið 1874 í afsali, þar sem Sigfinnur Pétursson selur Sveini Magnússyni Hákonarstaði, en í afsalinu segir: „Landamerki milli Grundar, Víðirhóla og Hákonarstaða sjást á bréfi því, er hér hefur áður verið samið og eg nú afhendi Sveini.” Virðist mega af þessu sjá, að Víðihólar séu þá orðnir sérgreind jörð, hvort sem hún hefur verið í eigu Sigfinns eða ekki og jafnframt, að hún fylgir ekki í kaupum þeirra. Í landamerkjaskýrslu frá 1885 fyrir Hákonarstaði segir m.a: „Ennfremur eiga Hákonarstaðir, Grund og Víðirhólar, að tiltölu eftir dýrleika hverrar jarðar, hval og allan reka... ”, en undir skrifa: Sveinn Magnússon- eigandi Hákonarstaða - Kristján Jón Sigurðsson - eigandi Víðirhóla - og Bjarni Rústíkusson (eigandi Grundar). Í Hreppaskilabók fyrir Jökuldalshrepp 1899-1909 eru Víðihólar taldir með eyðibýlum í eign Péturs Kristjánssonar, árin 1906, 1907 og 1908. Hinn 21. júní 1908 selur Sigurður Guðjónsson Pétri Kristjánssyni Hákonarstaði og er afsali þinglýst án athugasemda 5. júlí 1909. Eru þá jarðirnar báðar komnar í eigu Péturs Kristjánssonar, en hvað Víðihóla varðar nýtur engra gagna um það annarra en þess, sem skráð er í hreppaskilabókina. Í Gjörðabók fasteignamatsefndar í Norður-Múlasýslu á fundi, sem dagsettur virðist vera 15. júní 1916, segir svo: „Hákonarstaðir. Eigandi og ábúandi Pétur bóndi Kristjánsson. Dýrleiki eftir jarðamat 1861, ásamt með hjáleigunum Sæmundarseli og Veturhúsum og eyðibýlinu Víðirhólum, 3,9 hndr.” Síðan er skotið inn í textan neðanmáls: „Meðan eyðibýlið Víðirhólar voru í byggingu, var landskuld greidd með Kr. 40,00; og árið 1912 var býlið virt til lántöku Kr. 500,00. - Fyrir 13 árum síðan lagðist býlið í eyði, og öll hús voru niðurrifin. Verður býli þetta því metið með aðaljörðinni,-Hákonarstöðum.” Ekki virðist vera til að dreifa neinum þinglýstum gerningum varðandi Víðihóla, öðrum en veðsetningum Péturs Kristjánssonar, en þeim er þinglýst á blaðsíðu Hákonarstaða í fasteignaregistri. Pétur Kristjánsson lést árið 1921. Ekki hafa verið lögð fram nein gögn um skipti á dánarbúi hans, en með afsali hinn 13. október 1941 selur ekkja Péturs, Guðný Torfadóttir, bróður sínum, Sigvalda Torfasyni, Hákonarstaði. Í því afsali er Víðihóla að engu getið. Afsalinu er þinglýst með þeirri einu athugasemd, að umboð Guðnýjar skorti, en afsalið hefur verið undirritað fyrir hennar hönd af syni þeirra Péturs, Hákoni Péturssyni. Síðustu skráningar um eignarhald á Víðihólum, sem fram eru lagðar, er að finna í Hreppstjórabók Jökuldalshrepps 1931-1953, en þar er skráð fyrir árin 1942-1943, að eigandi Víðihóla sé, Guðný Torfadóttir, en ábúandi Hákonarstaða er meðal annarra Sigvaldi Torfason. Guðný er síðan í þessari bók skráð eigandi Víðihóla á hverju ári og síðast 1950-1951. Guðný lést árið 1948. Árið 1951-1952 er í sömu heimild Hákon Pétursson nefndur eigandi, en 1952-1953 er Sigvaldi Torfason nefndur eigandi. Engar skýringar fylgja nafnabreytingum þessum í Hreppstjórabókinni. Ekki liggja fyrir neinar upplýsingar um skipti eftir Guðnýju Torfadóttur. Í Skrá um tilkynningar til skiptaréttarins um mannslát í Reykjavíkurbæ árið 1948, er skráð, að Kristján Pétursson, hafi tilkynnt lát Guðnýjar Torfadóttur, 59 ára að aldri, til heimilis á Elliheimilinu Grund í Reykjavík og í búi hennar séu engar eignir. Samkvæmt framburðum aðila og vitna hefur það land, sem talið er til Víðihóla, verið nýtt af ábúendum Hákonarstaða, að minnsta kosti frá tímum Péturs Kristjánssonar, eins og fram kemur í ofangreindri gjörðabók fasteignamatsnefndar. Nytjarnar eru að sögn þessara aðila einkum beit, en landið, einkum svokallaðir Hákonarstaðaflóar, er talið mjög gott beitiland og er nýtt bæði til vetrarbeitar sem og til vor og sumarbeitar. Í fyrstu var einnig um að ræða slægjuafnot, en þeim var hætt snemma á öldinni, eftir því sem engjasláttur lagðist af almennt. Fjallagrös voru nýtt til heimilisnota. Veiði hefur verið stunduð í stöðuvatni því er Gripdeild nefnist og í Víðidalsá. Þá hafa ábúendur Hákonarstaða að eigin sögn sleppt silungi í ræktunarskyni bæði í Gripdeild og Stúfatjörn á milli 1970 og 1980. Þá hefur komið fram hjá þeim aðilum, sem fyrir dóm komu sem og vitnum, að fjallskil Víðihóla og Hákonarstaða hafi Hákonarstaðaábúendur annast og annist einir. Í vottorði frá Jökuldalshreppi kemur fram, að stefnandi Björgvin Sigvaldason hafi staðið skil á fasteignagjöldum til Jökuldalshrepps af jörðinni Víðirhólum í Jökuldalsheiði sem skráð hafi verið hans eign á fasteignamatsskrá. Þá liggur fyrir í málinu Matsvottorð Fasteignamats ríkisins um jörðina Víðihóla, sem þar er auðkennd með númeri, sem gefur til kynna, að um sé að ræða skráða eign. Jörðin Víðihólar er þekkt sem afmörkuð eign sem sjá má af landamerkjabréfi frá 1921. Þetta hefur verið staðfest af Fasteignamati ríkisins sem hefur jörðina í mati hjá sér undir sérstöku númeri. Í öðrum opinberum skrám virðist lítil regla vera á um hvort Víðihólar eru skráð sem sérstök jörð. Þannig er Víðihóla að engu getið í Fasteignabók fjármálaráðuneytisins 1932, en í sams konar bók 1942-1944 er hennar getið, talin í einkaeign og auð. Enn er Víðihóla getið 1957, eignarhalds ekki getið, en jörðin talin auð. Í svokölluðum jarðaskrám, sem varnaraðili segir stafa frá landbúnaðarráðuneytinu, er Víðihóla ýmist getið eða ekki og er engin skýring til á því, hvers vegna breyting verður á. Enginn vafi leikur á því, að jörð þessi hefur í upphafi verið hluti af Hákonarstöðum og orðið sjálfstæð afmörkuð bújörð um 1847. Í fyrstu í leiguábúð í eigu eiganda Hákonarstaða, en síðar í einkaeigu. Verður ekki séð, að eignarhaldi á Víðihólum hafi nokkru sinni verið þinglýst. Þannig mun Pétur Kristjánsson, sem hafði þinglýsta eignarheimild fyrir Hákonarstöðum, aldrei hafa haft þinglýsta eignarheimild fyrir Víðihólum. Nægilega er sannað að nýting Víðihóla eftir að Pétur eignaðist báðar jarðirnar, hefur verið sem Víðihólar væru hluti Hákonarstaða. Eftir andlát Péturs var Guðný Torfadóttir talin eigandi beggja jarðanna og mun hafa leigt þær til Sigvalda Torfasonar, þar til hann keypti Hákonarstaði 1941. Frá því að Sigvaldi Torfason eignaðist Hákonarstaði árið 1941 hefur hann og þeir, sem eignast hafa jörðina eftir hann, nytjað Víðihóla og greitt af henni skatta og skyldur. Þeir hafa litið á jörðina sem sína eign. Þá hafa þeir, sem í nágrenni búa, þar á meðal stjórnendur Jökuldalshrepps, talið að Víðihólar væru eign stefnenda. Stefnandi, Björgvin Sigvaldason, hlaut eignarhluta sinn að arfi eftir föður sinn, Sigvalda Torfason. Stefnandi, Sigvaldi Ragnarsson, keypti eignarhluta sinn af föður sínum, Ragnari Sigvaldasyni, sem hlaut hann í arf eftir föður sinn, Sigvalda Torfason. Stefnandi Gréta Dröfn Þórðardóttir, keypti eignarhluta sinn af föður sínum, Þórði Sigvaldasyni, sem hlaut hann í arf eftir föður sinn, Sigvalda Torfason. Verður því með vísan til 1. gr., 1. mgr. 2. gr. og 3. gr. laga nr. 46/1905 að telja að stefnendur hafi, með því að hafa jörðina Víðihóla í Jökuldalshreppi í óslitnu eignarhaldi í að minnsta kosti 56 ár, unnið fullan eignarrétt hennar fyrir hefð. Er með vísan til þessa viðurkenndur eignarréttur stefnenda að jörðinni Víðihólum, Jökuldalshreppi, Norður-Múlasýslu ásamt öllum réttindum, sem jörðinni fylgja. Stefnendur kröfðust málskostnaðar við aðalmeðferð málsins, en þau áskildu sér rétt til að gera slíka kröfu er greinargerð varnaraðila var lögð fram. Er þessi krafa því tímanlega fram komin og er rétt að varnaraðili greiði hluta af málskostnaði stefnenda með kr. 200.000. Er virðisaukaskattur innifalinn. Mál þetta dæmir Logi Guðbrandsson, dómstjóri, dómsformaður, ásamt Auði Þorbergsdóttur, héraðsdómara, og Jóni Finnbjörnssyni, héraðsdómara. Dómsorð: Framkominni frávísunarkröfu er hafnað. Viðurkenndur er eignarréttur stefnenda, Björgvins Sigvaldasonar, Sigvalda Ragnarssonar og Grétu Drafnar Þórðardóttur, að jörðinni Víðihólum, Jökuldalshreppi, Norður-Múlasýslu, ásamt öllum réttindum, er jörðinni fylgja. Varnaraðili, íslenska ríkið, greiði stefnendum kr. 200.000 í málskostnað.
Mál nr. 173/2003
Veiðiréttur Afréttur
Eignarhald veiðiréttar í Syðra-Kvíslarvatni á Núpsheiði í Miðfirði var ákvarðað á grundvelli fyrirliggjandi gagna um eigendaskipti að veiðiréttinum, en auk þess löggerninga um aðliggjandi jarðir og afrétt. Var H talinn eigandi veiðiréttarins að undanskildum þeim veiðirétti sem fylgdi jörðinni E, áður hafði fylgt jörðinni Þ samkvæmt landamerkjabréfi fyrir Þ 31. maí 1887.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 13. maí 2003. Krefjast þau sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 22. júlí 2003 og krefst þess aðallega að viðurkennt verði með dómi að allur veiðiréttur í Syðra Kvíslarvatni á Núpsheiði í Miðfirði tilheyri sér sem eiganda Núpsheiðar og Þverár. Til vara krefst gagnáfrýjandi þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Deila málsaðila snýst um veiðirétt í öðru af tveimur vötnum við norðurmörk Efranúpsheiðar, Ytra Kvíslarvatni og Syðra Kvíslarvatni, iðulega nefnd Kvíslarvötn. Samkvæmt framlögðum uppdrætti munu vera tvö önnur vötn á Arnarvatnsheiði einnig kölluð Kvíslarvötn, hið syðra og nyrðra. Samkvæmt uppdrættinum munu þau vötn liggja töluvert sunnar en Kvíslarvötn þau sem fyrst eru nefnd og utan merkja jarðarinnar Þverár og Efranúpsheiðar. Í hinum áfrýjaða dómi eru ítarlega rakin lögskipti vegna jarðanna Efra Núps og Þverár sem og Efranúpsheiðar. Þar kemur meðal annars fram að til 20. janúar 1985, er hluti jarðarinnar Þverár var seldur Fremri og Ytri Torfustaðahreppum, var hið svokallaða Ytra Kvíslarvatn að öllu leyti innan landamerkja Þverár en einungis hluti Syðra Kvíslarvatns. Hinn hluti vatnsins var innan marka Efranúpsheiðar samkvæmt landamerkjabréfi 16. febrúar 1891, en heiðin var nýtt var sem sérstakur afréttur frá jörðinni Efra Núpi, uns hann var seldur Torfastaðahreppi með kaupsamningi 15. ágúst 1896. Með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest sú niðurstaða að aðaláfrýjendur hafi ekki sýnt fram á að veiðiréttur Efra Núps í Syðra Kvíslarvatni hafi verið sérstaklega undanskilinn við sölu Efranúpsheiðar 15. ágúst 1896, en veiðiréttur fylgir almennt afréttum. Samkvæmt framanrituðu verður ekki fallist á þá málsástæðu aðaláfrýjenda fyrir Hæstarétti að áður gert samkomulag þáverandi eigenda jarðanna Efra Núps og Þverár 31. maí 1887, sem rakið er í héraðsdómi og lýtur að samnýtingu þeirra að báðum vötnunum, leiði óhjákvæmilega til þess að túlka beri þinglýst afsal fyrir Efranúpsheiði 27. maí 1898 á annan veg en samkvæmt orðanna hljóðan. Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi var veiðiréttur jarðarinnar Þverár í Syðra Kvíslarvatni undanskilinn sölu jarðarinnar 18. júní 1908 og lagður undir Efra Núp. Var enda getið sérstaklega um það í kaupsamningi fyrir jörðinni Efra Núpi 7. júní 1919 að henni fylgdi veiðiréttur í syðra Kvíslarvatni fyrir landi Þverár. Verður ekki séð að veiðiréttur þessi hafi síðar verið færður undan jörðinni Efra Núpi. Sú veiði sem stunduð hefur verið frá Efra Núpi í Syðra Kvíslarvatni og lýst hefur verið með gögnum og framburði fjölda vitna, var því í samræmi réttindi jarðarinnar og fór á engan hátt í bága við veiðirétt þann er fylgdi Efranúpsheiðinni í þessu sama vatni, enda verður ekki séð að til hafi verið að dreifa samkomulagi um skiptingu veiðinnar í vatninu milli þeirra sem rétt höfðu til hennar. Með þessari athugasemd verður fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að veiðiréttur í Syðra Kvíslarvatni hafi ekki getað lagst að öllu leyti undir Efra Núp fyrir hefð. Þá er fallist á það með héraðsdómi að þótt jarðirnar Efri Núpur og Þverá hafi á árinu 1985 á ný komist í eigu eins og sama manns leiði það eitt og sér ekki til þess að veiðiréttur Efra Núps í Syðra Kvíslarvatni, sem undanskilinn var sölu Þverár 1908, hafi verið lagður aftur til síðastnefndrar jarðar, enda um tvær sjálfstæðar landareignir að ræða. Þá bera framlögð gögn ekki með sér að svo hafi verið gert. Eins og hér háttar til verður því að telja að heimilt hafi verið að undanskilja veiðirétt Efra Núps í Syðra Kvíslarvatni við sölu á hluta af landi Efra Núps og Þverár sunnan afréttargirðingar til Fremri og Ytri Torfastaðahreppa 20. júní 1985. Að þessu virtu og því sem rakið hefur verið verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms. Rétt er að hver aðilanna greiði sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. I. Mál þetta var höfðað 26. mars 2002 og tekið til dóms að loknum munnlegum flutningi 5. desember sl. Málið var endurupptekið og frekari gögn lögð fram 12. þessa mánaðar og þann sama dag endurflutt og dómtekið að nýju. Stefnandi er Húnaþing vestra, Klapparstíg 4, Hvammstanga. Stefndu eru Sigurrós K. Indriðadóttir og Örnólfur Björgvinsson bæði til heimilis að Bjargartanga 3, Mosfellsbæ. Dómkröfur stefnanda. Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að allur veiðiréttur í Syðra-Kvíslarvatni tilheyri honum sem eiganda að Efranúpsheiði og jörðinni Þverá. Þá er þess krafist að stefndu verði dæmd til að greiða honum málskostnað að mati dómsins. Dómkröfur stefndu. Stefndu krefjast sýknu af kröfum stefnanda að því marki sem kröfur hans beinast að eignarréttindum þeirra. Þá kerfjast þau málskostnaðar úr hendi stefnda og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til skyldu þeirra til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun. II. Málavextir. Kvíslarvötn eru nefnd tvö vötn á Núpsheiði í Miðfirði, Húnaþingi vestra en Núpsheiði liggur að og er hluti af Arnavatnsheiði. Vötnin hafa verið aðgreind þannig að þau eru nefnd Ytra-Kvíslarvatn og Syðra-Kvíslarvatn en í daglegu tali mun oftast hafa verið talað um þau bæði í einu sem Kvíslarvötn. Upphaflegar dómkröfur stefndu tóku til beggja vatnanna en eftir að stefndu lýstu því yfir að þau gerðu ekki tilkall til veiðiréttar í ytra vatninu takmarkast mál þetta við veiðirétt í Syðra-Kvíslarvatni. Undir lok 19. aldar voru vötnin innan landamerkja jarðanna Þverár og Efri-Núps en Núpsheiði var hluti af eignarlandi Efra-Núps þó svo að í raun væri heiðin sérstök eign. Allt Ytra-Kvíslarvatn var innan landamerkja Þverár. Syðra-Kvíslarvatn var að stærstum hluta innan landamerkja Núpsheiðar en einhver hluti vatnsins lá á þessum tíma innan landamerkja Þverár og verður ekki annað séð en ágreiningslaust sé með aðilum þessa máls hvar merki milli jarðanna voru á þessum tíma. Í landamerkjalýsingu frá 31. maí 1887 fyrir jörðina Þverá segir svo um veiðirétt í Kvíslarvötnum: ,,Eptir framangreindum merkjum verður nokkur partur af syðra Kvíslavatni og allt norðara vatnið liggjandi í Þverárlandi. En þess ber að geta að núverandi eigendur Efranúps og Þverár gjöra það að samningi sín í milli, að silungsveiði og önnur afnot þesssara svokölluðu Kvíslarvatna skuli vera til helmingaskipta brúkuð af ábúendum Efranúps og Þverár, sem hver önnur sameign, en ekki mega þeir ljá eða leigja öðrum veiðina.” Almennur bændafundur í Fremri-Torfustaðahreppi var haldinn að Efra-Núpi þann 21. apríl 1896. Í fundargerð sem rituð var á fundinum kemur fram að fundurinn hafi m.a. verið haldinn til að ræða kaup á afréttarlöndum Aðalbóls- og Núpsheiða. Fyrir fundinum lá tilboð frá eiganda Aðalbólsheiðar um að hann gæfi kost á heiðinni fyrir 1.000 krónur. Jafnframt bar oddviti hreppsins upp fyrirspurn til eiganda Núpsheiðar hvort nefnt heiðarland fengist keypt og með hvaða kostum. Heiðareigandinn Hjörtur Líndal lýsti vilja sínum til að selja upprekstrarfélagi Fremri- og Yrti Torfustaðahreppa, Núpsheiði fyrir 1.200 krónur með þeim ummerkjum sem tiltekin eru í áðurgjörðum leigusamningi við hreppsnefndir Ytri- og Fremri Torfustaðahreppa. Í fundargerðinni kemur einnig fram að Hjörtur Líndal hafi lýst því að samkvæmt landamerkjaskrá hefði Neðri-Núpur fríjan upprekstur á heiðina og setti Hjörtur það sem skilyrði fyrir sölunni sá réttur stæði áfram. Þá setti hann ennfremur það skilyrði að Efri-Núpur hefði frítt fuglafang á heiðinni svo lengi sem hann væri ábúandi þar. Þann 29. maí 1896 samþykktu hreppsnefndir Torfustaðahreppa að kaupa Núpsheiði fyir 1.200 krónur. Hinn 27. maí 1898 afsalaði Hjörtur Líndal Efrinúpsheiði til Fremri-og Ytri-Torfustaðahreppa með öllum réttindum og skyldum að undanskyldum þeim atriðum sem í kaupsamningi frá 15. ágúst 1896 greinir. Þessi kaupsamningur hefur ekki fundist. Hjörtur Líndal eignaðist jörðina Þverá í maímánuði 1905 og átti hann þá bæði býlin Efri-Núp og Þverá. Með kaupsamningi dagsettum 18. júní 1908 selur Hjörtur Líndal Hirti L. Jónssyni Þverá. Í kaupsamningnum er veiðiréttur Þverár í Kvíslarvatni undanskilinn og tekið fram að veiðiréttur fyrir Þveárlandi í Kvíslarvatni skuli að öllu leyti tilheyra Efra-Núpi. Afsal byggt á þessum kaupsamningi var gefið út 12. júní 1909. Eftir þetta gengur Þverá nokkrum sinnum kaupum og sölum án þess að veiðiréttar í Kvíslavötnum sé getið sérstaklega þar til Ketilríður Benendiktsdóttir selur hluta landsins á árinu 1985 eins og rakið verður síðar. Þann 7. júní 1919 seldi Hjörtur Líndal syni sínum, Benedikt H. Líndal, Efri-Núp ásamt hjáleigunni Núpsseli. Í kaupsamningi er tekið fram að jörðinni fylgi öll silungsveiði í Syðra-Kvíslarvatni fyrir landi Þverár. Ketilríður Benenditsdóttir, dóttir Benedikts H. Líndal og eiginmaður hennar Jóhann G. Helgason tóku við búskap að Efri-Núpi á árinu 1965 og þann 16. ágúst 1967 afsalði Benedikt H. Líndal jörðinni til tengdasonar síns. Í afsali kemur fram að jörðinni fylgi öll réttindi og skyldur sem henni fylgi og fylgja ber samkvæmt landamerkjaskrá frá 1892 og kaupbréfi frá 7. júní 1919. Með skiptayfirlýsingu dagsettri 20. janúar 1985 eignaðist Ketilríður Benedikstdóttir Efri-Núp. Þann 20. júní 1985 gerðu Ketilríður Benediksdóttir og Fremri- og Ytri Torfustaðahreppar kaupsamning þess efnis að hrepparnir keyptu af Ketilríði allt land jarðanna Þverár og Efra-Núps ,,sunnan núverandi afréttargirðingar” eins og landinu er lýst í kaupsamningi. Eiginmaður Ketilríðar Jóhann G. Helgason eignaðist Þverá á árinu 1970 en ekki er um það deilt að Ketilríður hafi á árinu 1985 haft heimild til að ráðstafa eigninni líkt og hún gerði. Bæði Kvíslarvötn eru sunnan nefndrar afréttargirðingar og eru vötnin bæði frá þessum tíma alfarið á landi í eigu hreppanna en áður er því lýst að hrepparnir höfðu keypt Núpsheiði. Í kaupsamningnum var tekið fram að við sölu landsins væri undanskilinn sá réttur sem fylgdi þessum jörðum um veiði í Kvíslarvötnum en kaupendur áskildu sér rétt til að athuga og fá úr því skorið hvaða veiðirétt þeir ættu í áðurnefndum vötnum. Þann 11. maí 1988 afsalaði Ketilríður Benedikstsdóttir Fremri- Torfustaðahreppi jörðinni Þverá. Hvað landamerki jarðarinnar varðaði var vísað til landamerkjaskrár frá 31. maí 1887 að undanskildu landi ,,sunnan afréttargirðingar”. Varðandi veiðirétt í Kvíslarvötnum var vísað til nefndrar landamerkjaskrár frá 31. maí 1887 samanber og 2. gr. kaupsamnings og afsals dagsett 20. júní 1985. Þann 16. júní 1988 kaupa stefndu Efri-Núp af Ketilríði Benediktsdóttur. Allmargir hreppar í Vestur-Húnavatnssýslu sameinuðust á árinu 1988 í eitt sveitarfélag sem nú heitir Húnaning vestra og voru Torfustaðahreppar ytri og fremri þar á meðal og þannig hefur Húnaþing vestra tekið við réttindum og skyldum hreppanna og þar með aðild að máli þessu. III. Málsástæður og lagarök stefnanda. Af hálfu stefnanda er á því byggt að hann eigi allan veiðirétt í Kvíslarvötnum annars vegar vegna þess að hann hafi eignast réttinn með kaupum á Efranúpsheiði, afsal út gefið 27. maí 1898. Hins vegar hafi hann eignast veiðirétt Þverár í vötnunum með kaupum á jörðinni 11. maí 1988. Stefnandi bendir á að í afsali fyrir Efranúpsheiði komi fram að heiðinni sé afsalað með öllum réttindum og skyldum eins og seljandi hafði eignast hana og átt að undanskyldum þeim atriðum sem greinir í kaupsamningi frá 15. ágúst 1896. Þessi kaupsamningur hefur ekki fundist. Á almennum bændafundi að Efra-Núpi 21. apríl 1896 setti Hjörtur Líndal þau skilyrði fyrir sölunni að eigandi Neðri-Núps ætti frían upprekstur á heiðina og Efri-Núpur frítt fuglafang þar meðan Hjörtur væri ábúandi að Efra-Núpi. Byggir stefnandi á því að önnur skilyrði fyrir sölunni hafi ekki verið í kaupsamnigi þeim sem ekki hefur fundist og bendir í því sambandi á að kaupverð hafi haldist óbreytt frá bændafundinum þar sem kaup Núpsheiðar voru rædd og þar til afsal var gefið út. Heldur stefnandi því fram að ekkert í gögnum málsins styðji það að undanskilja hafi átt fiskveiðina í Kvíslarvötnum við söluna á Efranúpsheiði. Óumdeilt sé að eftir söluna á heiðinni hafi Efri-Núpur ekki lengur átt land að Kvíslarvötnum. Stefnandi heldur því fram að það hafi verið meginregla á þeim tíma er kaup þessi áttu sér stað að fiskveiði fylgdi vötnum á eignarlandi og þeir sem haldi öðru fram beri sönnunarbyrgði fyrir því. Í þessu sambandi vísar stefnandi til 56. kap. landleigubálks Jónsbókar, en þar segir m.a. að hver maður eigi vatn og veiðistöð á sinni jörðu og á sem að fornu hefur verið nema með lögum sé frá komið, sbr. nú 1. mgr. 2. gr. lax- og silungsveiðilaga nr. 76/1970. Þessi regla leiði til þess að ef ekki séu skýr gögn um annað eigi hver vatn og veiði fyrir sínu landi en allt Syðra-Kvíslarvatn sé innan landamerkja Núpsheiðar. Stefnandi bendir á að þegar Núpsheiði var afsalað til hans 27. maí 1898 hafi lög ekki girt fyrir það að landeigendur gætu ráðstafað veiðirétti sínum með samningum. Með lögum 15/1923 hafi fyrst verið lagt bann við því að skilja fiskveiðirétt frá landareign. Í þessu máli verði því að horfa til þeirra réttarreglna sem í gildi voru við afsal í maí 1898. Síðari lögskipti eftir gildistöku vatnalaga hafi ekki neina þýðingu fyrir þetta úrlausnarefni og ekki áhrif á niðursöðu máls þessa. Til frekari stuðning þess að veiðiréttur hafi ekki verið undanskilinn við söluna á Núpsheiði bendir stefnandi á að ekkert er minnst á veiðirétt þennan í fasteignamati fyrir Efra-Núp á árunum 1918, 1932 eða síðar en í fasteignamötum þessum er þess þó sérstaklega getið að Efri-Núpur eigi veiðirétt fyrir landi Þverár. Telur stefnandi þetta gefa til kynna huglæga afstöðu Hjartar Líndal, hreppstjóra þáverandi eiganda Efra-Núps, til þess hvaða veiðiréttindi tilheyrðu jörðinni. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að afstaða Hjartar til veiðiréttar Efri-Núps komi glögglega fram í afsalsbréfi hans til sonar hans Benedikts H. Líndal dagsett 7. júní 1919. Í afsalinu reki Hjörtur skilmerkilega öll þau hlunnindi sem fylgi jörðinni. Þar komi m.a. fram að jörðinni fylgi hálfur viðarreki á jörðinni Skriðunessenni í Birtu, Strandasýlsu á milli Stigakletts og Rauðuskriðu. Einnig beitarítak og torfristu í Neðra-Núpsjörð í Fremri-Torfustaðahreppi svo og öll silungsveiði í Syðra-Kvíslarvatni í landi jarðarinnar Þverár í Núpsdal. Í afsalinu geti Hjörtur í engu veiðiréttar jarðarinnar í Kvíslarvötnum en tilgreinir einungis að Efra-Núpi fylgi nú veiðiréttur fyrir landi jarðarinnar Þverár. Hjörtur hafi verið eigandi Þverár og Efra-Núps á árunum 1905 til 1909 og lagt veiðirétt Þverár til Efra-Núps þegar hann seldi Þverá á árinu 1909. Heldur stefnandi því fram að eigendur Efra-Núps hafi veitt í Kvíslarvötnum í skjóli veiðiréttarins sem áður var í eigu Þverár. Af hálfu stefnanda er á því byggt að ef veiðiréttur hefði verið undanskilinn við sölu Núpsheiðar hefði þessi veiðiréttur verið talinn til hlunninda í afsali þessu. Stefnandi byggir á því að hann hafi eignast veiðirétt Þverár í Kvíslarvötnum með afsali 11. maí 1988 en þá hafi hann keypt jörðina af Ketilríði Benediktsdóttur sem á þeim tíma átti bæði Þverá og Efri-Núp. Byggir stefnandi á því að sala veiðiréttarins hafi verið í samræmi við grundvallarsjónarmið 2. og 3. gr. þágildandi laga um lax- og silungsveiði nr. 76/1970. Hvað lagarök varðar vísar stefnandi til almennra reglna saminga- og kauparéttar. Þá vísar hann til 56. kapítula landsleigubálks Jónsbókar svo og til lax– og silungs-veiðilaga nr. 76/1970. Viðurkenningarkrafan er byggð á 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 19/1991. Krafa um málskostnað er reist á XXI kafla nefndra laga um meðferð einkamála. Málsástæður og lagarök stefndu. Stefndu telja að með sölu Ketilríðar Benediktsdóttur á jörðinni Þverá til Fremri-Torfustaðahrepps hafi stefnandi eignast allan veiðirétt í Ytra-Kvíslarvatni og um veiðirétt í því vatni sé því ekki ágreiningur. Af hálfu stefndu er á því byggt að fyrirliggjandi eignarheimildir og þinglýst gögn leiði til þess að þau eigi veiðirétt í Syðra-Kvíslarvatni. Stefndu hafna því að Hjörtur Líndal hafi selt Ytri- og Fremri Torfustaðahreppum veiðirétt í Syðra-Kvíslarvatni þegar hrepparnir keyptu af honum Núpsheiði á árinu 1896. Halda þeir því fram að þegar höfð er hliðsjón af síðari gögnum um ráðstöfun jarðarinnar og skýrslur aðila sem þekkja vel til máls þessa sé ljóst að veiðirétturinn hafi verið skilinn frá við söluna. Benda stefndu í þessu sambandi á að fjórir mánuðir liðu frá bændafundinum að Efra-Núpi og þar til kaupsamningur var gerður og á slíkum tíma geti margt gerst. Stefndu vísa til þess að augljós ástæða hafi verið fyrir því að skilja veiðiréttinn frá þar sem 12 kílómetrar eru frá Efra-Núpi að Syðra-Kvíslarvatni og ávinningur augljós fyrir ábúendur þar að fara ekki lengri leið eftir soðningu og vetrarforða. Þá sé og einsýnt að hrepparnir voru fyrst og fremst að leita eftir kaupum á beitilandi enda hafi heiðarland jarðarinnar verið ,,bæði mikið og gott” eins og fram kemur í jarðalýsing frá 1849. Hrepparnir hafi þannig ekki verið að falast eftir veiðirétti í Syðra-Kvíslarvatni sem alla tíð hafði verið nytjað frá Efra-Núpi. Með kaupum á Þverá árið 1905 hafi Hjörtur Líndal eignast veiðirétt jarðarinnar í syðra vatninu og þar með hafi hann átt allan veiðirétt í því vatni svo og veiðirétt í ytra vatninu sem var í Þverárlandi. Af hálfu stefndu er því haldið fram að eðlilegt hafi verið að við sölu jarðarinnar til Hjartar J. Jónssonar á árinu 1908 að taka það fram að veiðiréttur í Syðra-Kvíslarvatni væri undanskilinn og tilheyrði frá og með þeim degi Efra-Núpi. Á árinu 1919 seldi Hjörtur Líndal síðan syni sínum Benedikt Líndal Efri-Núp. Í kaupsamning vegna þessarar sölu eru talin upp þau réttindi sem fylgdu jörðinni og m.a. segir svo: ,,Einnig öll silungsveiði í Syðra-Kvíslarvatni í landi jarðarinnar Þverár í Núpsdal.” Telja stefndu þetta eðlilegt þar sem réttindi þessi voru tekin frá Þverá á árinu 1908 og því rétt að geta þeirra í kaupsamningi. Aftur á móti hafi verið óþarfi að nefna veiðirétt Efra-Núps í vatninu enda hafi hann fylgt jörðinni alla tíð. Stefndu benda ennfremur á að Ketilríður dóttir Benedikts og eiginmaður hennar Jóhann G. Helgason hafi, eftir að þau tóku við búi að Efra-Núpi á árinu 1965 stundað veiði í syðra vatninu líkt og fyrri ábúendur höfðu gert og talið fram til skatts tekjur af slíkri veiði. Þá benda stefndu á að þegar Ketilríður seldi Fremri- og Ytri Torfustaðahreppum land Þverár og Efri-Núps sunnan afréttargirðingar á árinu 1985 hafi veiðiréttur jarðanna í Kvíslarvötnum verið undanskilinn. Ketilríður hafi eftir þetta nýtt veiði í vötnunum og auglýst til sölu í dagblaði og selt þar veiðileyfi án athugasemda af hálfu stefnanda á árunum 1985 til 1987. Af hálfu stefndu er á því byggt að þau hafi eignast veiðirétt í Syðra-Kvíslarvatni með kaupum sínum á Efra-Núpi af Ketilríði Benediktsdóttur þann 6. júní 1986. Þremur vikum áður hafði Ketilríður selt Fremri-Torfustaðahreppi jörðina Þverá. Í samningi vegna sölu Efra-Núps er tekið fram að jörðinni fylgi veiðiréttur í Miðfjarðará og Kvíslarvötnum. Hvað veiðirétt í Kvíslarvötnum varðar var vísað til landamerkjaskrár frá árinu 1887. Hreppsnefnd Fremri-Torfustaðahrepps hafi fjallað um samninginn 28. júní 1988 og samþykkt söluna. Jarðanefnd Vestur-Húnavatnssýslu hafi í framhaldi af því einnig samþykkt söluna. Af háflu stefndu er á því byggt að með þessu séu þinglýstar eignarheimildir sem kveði á um að þau séu eigendur veiðiréttinda í syðra vatninu. Almennar sönnunarreglur leiði til þess að sá sem gerir tilkall til þinglýstra eignarheimilda annarra beri sönnunarbyrgði fyrir þeirri staðhæfingu sinni. Stefnandi verði því að sanna að veiðirétturinn tilheyri ekki Efra-Núpi og að hann sé eigandi umþrættra veiðiréttinda. Stefnandi verði því að bera hallann af því að kaupsamningur Hjartar Línda og Fremri- og Ytri Torfustaðahreppa hefur ekki fundist í skjalasafni hans en þar kemur fram hvað var undanskilið við sölu Hjartar á Núpsheiði. Af hálfu stefndu er á því byggt að nýting eigenda og ábúenda að Efra-Núpi á veiðirétti í Syðra-Kvíslarvatni styðji kröfu þeirra um eignarrétt að veiðirétti í vatninu. Þessi hagnýting styðji málsástæður og sjónarmið þeirra þess efnis að veiðiréttur í syðra vatninu hafi ekki fylgt við sölu Núpsheiðar. Stefndu hafna sérstaklega þeirri málsástæðu stefnanda að sérstök sönnunarregla sem hann leiðir af 56. kapítula landsleigubálks Jónsbókar eigi við í þessu máli enda fari sá skilningur stefnanda gegn þinglýstum eignarheimildum stefndu og almennum sönnunarreglum íslensks réttar. Í þessu sambandi benda stefndu á að Núpsheiði var háð fullkomnum eignarrétti eiganda Efri-Núps þar til heiðin var seld 1896. Þannig átti Hjörtur Líndal veiðirétt í Syðra-Kvíslarvatni og honum var á þessum tíma heimilt að undanskilja veiðiréttinn frá landareigninni. Þess vegna fari eignarhald á heiðinni og veiðiréttur í vatninu ekki saman eftir söluna. Af hálfu stefndu er því haldið fram að þegar Núpsheiði var seld hafi verið óheimilt að spilla eða banna þeim veiði sem hana hefði haft frá fornu fari. Með því að halda eftir veiðirétti í vatninu hafi Hjörtur fylgt þessari reglu og vísa stefndu í þessu sambandi til 56. kapítula landsleigubálks Jónsbókar. Ennfremur er á því byggt af hálfu stefndu að einu lögskipti sem í raun skipta hér máli sé sala Núpsheiðar árið 1898. Stefnandi verði að bera hallann af því að geta ekki lagt fram kaupsamning vegna heiðarinnar en ljóst sé að eigendur Efri-Núps hafi alla tíð litið svo á að veiðiréttur í vatninu fylgdi jörðinni. Stefndu telja að ekki sé byggjandi á tilgreiningu veiðiréttinda í fasteignamati. Þannig sé ekkert tilgreint varðandi veiðirétt í Kvíslarvötnum í fasteignamati ársins 1940 fyrir Efri-Núp og því megi sjá að réttindin hafi ekki alltaf verið talin í fasteignamati. Árið 1940 hafi Benedikt H. Líndal verið eigandi jarðarinnar og þrátt fyrir að hann teldi til eignarréttar yfir veiðiréttindum í Syðra-Kvíslarvatni voru þau ekki tilgreind í fasteignamti. Benedikt hafi líkt og faðir hans gegnið út frá því að jörðin ætti þessi réttindi. Í þessu sambandi megi t.d. benda á yfirlýsingu Filippusar Jóhannssonar er réði sig til Benedikts vorið 1954 og var þar í 10 ár. Hann segi Benedikt hafa sagt sér að þegar faðir hans seldi Núpsheiði hafi veiðiréttur í syðra vatninu ekki verið seldur með. Sama megi segja um yfirlýsingar dætra Benedikts þeirra Guðrúnar, Brynhildar, Pálinu, Sigríðar, Hjördísar, Ketilríðar og Öldu. Þá hafi Benedikt talið fram til skatts tekjur vegna silungsveiði í vatninu. Stefndu byggja kröfu sína einnig á því að hefð sé fullnuð í skilningi hefðalaga nr. 46/1905. Veiðiréttur í Syðra-Kvíslarvatni hafi verið nýttur af eigendum og ábúendum Efra-Núps mann fram af manni og þeir hafi litið á réttinn sem sína eign og farið þannig með hann frá ómunatíð og því sé skilyrði hefðalaga um óslitið eignarhald uppfyllt. Eignarréttur þeirra hafi hingað til ekki verið dreginn í efa. Huglæg afstaða hefðanda og almennt álit nágranna þeirra leiði til þessarar niðurstöðu. Í máli þessu liggi fyrir yfirlýsingar og vitnisburður margra aðila, sem þekkja vel til jarðarinnar og veiðiréttinda hennar, um það hvernig veiði í Syðra-Kvíslarvatni hefur verið háttað í gegnum tíðina. Allar yfirlýsingarnar séu samhljóða varðandi nýtingu veiðiréttinda í vatninu, þ.e. að veiðirétturinn hafi verið undanskilinn við sölu Núpsheiðar og nýttur frá Efra-Núpi. Í þessu sambandi megi einnig benda á lýsingu veiðiferðar Björns Sigurðssonar á Efra-Núpi í ritinu Göngur og réttir. Þá benda stefndu á að eigendur og ábúendur Efra-Núps, þau með talin, hafa talið fram til skatts tekjur af silungsveiði og selt veiðileyfi í vatninu. Stefndu benda á að þau hafi andmælt því að Syðra-Kvíslarvatn yrði hluti af veiðifélagi á Arnarvatnsheiði og veiðimálastjóri hafi fallist á sjónarmið þeirra fyrir utan athugasemd varðandi tveggja króka hald í Arnarvatni og hann hafi talið að taka skyldi tillit til þess við gerð arðskrár fyrir félagið. Þá hafi landbúnaðarráðuneytið hafnað staðfestingu samþykkta veiðifélagsins þar sem þær myndu óbreyttar brjóta gegn réttindum stefndu. Þannig liggi fyrir ljós afstaða þessara stjórnvalda gagnvart veiðirétti stefndu. Af háflu stefndu er því haldið fram að þó svo að veiðiréttur í Syðra-Kvíslarvatni hefði fylgt með við sölu Núpsheiðar á sínum tíma þá skipti það í raun ekki máli því veiðiréttindin hafi færst til Efri-Núps fyrir hefð og þannig útrýmt rétti stefnanda. Af hálfu stefndu er ennfremur á því byggt að engar athugasemdir hafi verið gerðar af hálfu stefnanda við hagnýtingu eða ráðstöfun veiðiréttinda jarðarinnar í gegnum tíðina. Með tómlæti sínu og athafnaleysi hafa stefnandi því glatað réttindum sínum eða veitt eigendum og ábúendum Efra-Núps allan veiðirétt í Syðra-Kvíslarvatni hafi þau réttindi á annað borð færst til stefnanda við kaup hans á Núpsheiði árið 1896. Stefndu byggja jafnframt á því að af hálfu jarða- eða hreppsnefndar Fremri-Torfustaðahrepps hafi ekki verið gerðar neinar athugasemdir við kaup þeirra á jörðinni árið 1988. Með þessu hafi þessi stjórnvöld talið réttindi stefndu hafin yfir allan vafa. Hreppsnefnd Fremri-Torfustaðahrepps hafi fjallað um kaupsamning stefndu á fundi 28. júní 1988 og samþykkt að nýta sér ekki forkaupsrétt sinn. Hefði hreppsnefndin talið sig vera eiganda að öllum veiðirétti í Syðra-Kvíslarvatni þá hefði hún átt að synja um ráðstöfun veiðiréttinda jarðarinnar. Með því að afsala sér forkaupsrétti hafi hreppsnefndin einnig samþykkt ráðstöfun veiðiréttindanna sem fólst í kaupsamningnum. Hvað lagarök varðar vísa stefndu til meginreglna um stofnun eignarréttar og eignarráð fasteignareiganda, almennra reglnasaminga- og kröfuréttar, 56. kapítula landsleigubálks Jónsbókar, laga nr. 46/1905 um hefð, einkum 2., 3. og 6. gr., svo og jarðalaga nr. 65/1976, með síðari breytingum. Málskostnaðarkröfu byggja stefndu á XXI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð einkamála og kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun reisa þeir á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. IV. Niðurstaða. Í máli þessu er eingöngu deilt um veiðirétt í Syðra-Kvíslarvatni en stefndu gera ekki tilkall til veiðiréttar í ytra vatninu. Aðilar eru sammála um að landamerkjalýsing fyrir Þverá frá 31. maí 1887 sé rétt og þar með verði nokkur partur af syðra-Kvíslarvatni og allt norðara vatnið liggjandi í því landi sem á þeim tíma tilheyrði Þverá. Fram hefur komið að kaupsamningur frá 15. ágúst 1896 þar sem Hjörtur Líndal selur upprekstrarfélagi Fremri- og Yrti Torfustaðahreppa Núpsheiði hefur ekki fundist. Er hér því til úrlausnar hvort stefnendur eigi veiðirétt í Syðra-Kvíslarvatni á grundvelli þess að þeir hafi keypt veiðiréttinn um leið og þeir keyptu Núpsheiði og þar með mestan hluta þess lands sem liggur að vatninu eða hvort stefndu eigi þar veiðirétt vegna þess að Hjörtur Líndal hafi skilið veiðiréttinn undan er hann seldi Núpsheiði. Einnig kemur til skoðunar veiðiréttur í vatninu sem tilheyrði jörðinni Þverá en sá réttur var lagður til Efra-Núps þegar Hjörtur Líndal seldi Þverá á árinu 1908. Niðurstaða máls þessa veltur að mestu á því hvor aðila verður látinn bera hallann af því að ekki er unnt að upplýsa hvað stendur í hinum glataða kaupsamningi um Núpsheiði. Stefnandi heldur því fram að meginreglur laga leiði til þess að hann hafi keypt veiðiréttinn með heiðinni á sínum tíma. Þá bendir hann á fundargerð almenns bændafundar þar sem ákveðið var að kaupa heiðina, á afsal fyrir heiðinni þar sem tekið er fram að Neðri-Núpur eigi frían upprekstur og Efri-Núpur frítt fuglafang meðan seljandi er ábúandi þar. Jafnframt bendir hann á skráningu í fasteignaskrá. Stefndu byggja aftur á móti á því að eðlilegt hafi verið að skilja veiðiréttinn undan vegna þess hversu stutt er frá Efra-Núpi að vatninu. Á því að hrepparnir hafi fyrst og fremst verið að kaupa beitiland, oþví að Syðra-Kvíslarvatn hafi alla tíð verið nytjað og með það farið sem eign Efra-Núps og því að stefnandi hafi sýnt af sér tómlæti við að halda meintum rétti sínum til haga. Í fundargerð sem rituð var á nefndum bændafundi sem haldinn var á Efra-Núpi 21. apríl 1896 kemur fram að Hjörtur Líndal er tilbúinn að selja Núpsheiði fyrir 1.200 krónur með þeim ummerkjum sem tiltekin eru í áðurgjörðum leigusamningi við hreppsnefndir Ytri- og Fremri Torfustaðahreppa. Jafnframt er skráð að Hjörtur hafi tekið fram að eigandi Neðra-Núps ætti fríjan upprekstur á heiðina samkvæmt landamerkjaskrá sem yrði að standa óhaggað þrátt fyrir að kaup þessi fari fram og loks áskilur hann sér frítt fuglafang á heiðinni svo lengi sem hann er ábúandi á Efra-Núpi og að öðrum yrði ekki heimilt fuglafang þar í jafnlangan tíma. Í fundargerðinni er því ekkert bókað um að Hjörtur vilji skilja veiðirétt í Syðra-Kvíslarvatni undan við söluna. Það er forn og ný réttarregla, að landeigandi eigi fiskveiði í vötnum á landi sínu, sbr. landbrigðaþátt Grágásar um veiði, 208 kap. Konungsbókar og 438 kap. Staðarhólsbókar, og 56. kap. landsleigubálks Jónsbókar, en nú 2. gr. lax- og silungsveiðilaga nr. 76/1970. Af þessum sökum var rík ástæða fyrir Hjört Líndal að kveða afdráttarlaust að orði ef ætlun hans var að halda veiðirétti eftir við söluna. Hafi Hjörtur lýst því að hann ætlaði að halda veiðiréttinum eftir er harla ólíklegt að veiðiréttur í vatninu hafi ekki komið til umræðu á fundinum og eitthvað um hann bókað í fundargerðinni. Einkum er þetta ólíklegt þegar horft er til þess að sérstaklega er bókað um upprekstrarrétt Neðri-Núps svo og áskilnað Hjartar um frítt fuglafang. Ekkert er minnst á veiðirétt í leigusamningi þeim sem vitnað er til í fundargerðinni og ekki heldur í afsali fyrir heiðinni. Með hliðsjón af þessu telst stefndi bera sönnunarbyrgði fyrir því að veiðiréttur hafi verið undanskilinn eins og hann heldur fram. Sýnileg gögn svo sem sölusamningar varðandi Efri-Núp, lýsingar á hlunnindum jarðarinnar og skráning í fasteignamat benda ekki til þess að veiðiréttur Núpsheiðar í Syðra-Kvíslarvatni hafi verið lagður til Efri-Núps. Stefnda hefur ekki tekist að sanna að það hafi verið gert og verður því ekki fallist á með honum að hann sé eigandi veiðiréttarins af þessum sökum. Skriflegar yfirlýsingar og framburður vitna þess efnis að alltaf hafi verið farið með veiðiréttinn í syðra vatninu sem eign Efri-Núps breyta þessu ekki. Stefndi hefur jafnframt haldið því fram að hann hafi unnið hefð á títtnefndum veiðirétti. Fyrir dóminn komu allmörg vitni sem staðfestu yfirlýsingar sínar þess efnis að eigendur Efri-Núps hafi um áratugaskeið farið með veiði í vatninu sem sína eign. Af hálfu stefnanda var því auk þess lýst yfir að hann gerði ekki athugasemdir við framlagðar skriflegar yfirlýsingar þeirra sem ekki komu fyrir dóminn sem vitni til að staðfesta yfirlýsingar sínar. Þá liggur og fyrir að meðan Ketilríður Benediktsdóttir átti jörðina auglýsti hún í dagblaði að hún seldi veiðileyfi í Kvíslarvötnum og þá hafa stefndu einnig selt öðrum aðgang að vatninu. Bendir þetta til þess að eigendur og ábúendur á Efra-Núpi hafi í raun talið sig eiga réttindi þessi og jafnframt benda yfirlýsingar og framburður vitna til þess að svo hafi almennt verið talið í nærliggjandi sveitum. Allt frá gildistöku laga nr. 15/1923 hefur verið lagt bann við því í lögum að veiðiréttur sé skilinn frá jörð, nema að fullnægðum nánar tilgreindum skilyrðum, sbr. 121. gr. þeirra laga og nú síðast ákvæði í 4. tl. 2. gr. lax- og silungsveiðilaga nr. 76/1970. Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 36/1972 komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að ákvæði þessi verði að skýra þannig að þau m.a. banni stofnun veiðiítaks fyrir hefð. Sala Núpsheiðar átti sér stað á árinu 1896 en Hjörtur Líndal seldi jörðina á árinu 1919 og þá fyrst gat hefðartími byrjað að líða enda út frá því gengið að ósannað sé að hann hafi skilið veiðiréttinn frá við söluna. Samkvæmt 8. gr. laga nr. 46/1905 um hefð getur hefð á ósýnilegum ítökum eingöngu unnist með 40 ára óslitinni notkun og öðrum skilyrðum eignarhefðar uppfylltum. Er því útilokað að fullur hefðartími hafi verið liðinn þegar lög nr. 15/1923 tóku gildi og verður því ekki fallist á með stefnda að hann hafi eignast veiðiréttindin fyrir hefð. Áður er þess getið að eftir gildistöku laga 15/1923 hafi verið bann við því í lögum að veiðiréttur sé skilinn frá jörð. Óumdeilt er að veiðiréttur sá sem tilheyrði jörðinni Þverá í Kvíslarvatni var frá henni skilinn og lagður til Efra-Núps með afsali 18. júní 1908. Þessi veiðiréttur hefur ekki verið lagður aftur til Þverár. Ákvæði í afsali Ketilríðar Benediktsdóttur til stefnda frá 11. maí 1988 verður ekki túlkað svo að þar sé verið að færa veiðiréttinn aftur til Þverár. Þvert á móti er þar vísað til 2. gr. kaupsemnings sem sömu aðilar gerðu í júní 1985 vegna sölu á landi sunnan afréttargirðingar. Við þau kaup eignaðist stefnandi allt land sem liggur að Ytra-Kvíslarvatni og þann hluta syðra vatnsins sem var innan landamerkja Þverár. Í nefndir 2. gr. er tekið fram að allur veiðiréttur jarðanna Þverár og Efri-Núps sé undanskilinn við söluna og er Ketilríður væntanlega að árétta að hún sé ekki að selja veiðirétt í syðra vatninu og hnykkja á því að hún telji veiðiréttinn tilheyra Efra-Núpi. Skilja verður ákvæði um bann við því að veiðiréttur sé skilinn frá landi taki einnig fyrir að veiðiréttur sé lagður til jarðar sem áður hafði hann. Ákvæði í 3. gr. lax- og silungsveiðilaga frá 1932 og 3. gr. núgildandi laga mæla fyrir um með hvaða hætti unnt er að innleysa veiðiréttindi sem áður höfðu verið skilin frá jörð. Þannig er beinlínis gert ráð fyrir því að veiðiréttur hafi verið skilinn frá jörð enda mun slíkt nokkuð hafa verið tíðkað. Af þessum sökum var óheimilt eftir gildistöku lax- og silungsveiðilaga frá 1932 að færa veiðiréttinn til baka nema með innlausn. Innlausn hefur ekki farið fram og eiga stefndu því samkvæmt þessu veiðirétt í Syðra-Kvíslavatni sem áður tilheyrði jörðinni Þverá. Niðurstaða máls þessa verður því sú að krafa stefnanda um að hann eigi allan veiðirétt í Syðra-Kvíslarvatni verður því ekki tekin til greina en innan kröfugerðar hans rúmast að hann eigi veiðirétt í vatninu annan en þann sem áður tilheyrði jörðinni Þverá og fram kemur í landamerkjabréfi fyrir Þverá frá 31. maí 1887. Með hliðsjón af úrslitum málsins og málavöxtum öllum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu. Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp dóm þennan Stefnandi, Húnaþing vestra er eigandi veiðiréttar í Syðra-Kvíslarvatni á Núpsheiði í Miðfirði að undanskildum veiðirétti þeim sem nú fylgir Efra-Núpi í Miðfirði en áður fylgdi jörðinni Þverá samkvæmt landamerkjabréfi fyrir Þverá frá 31. maí 1887. Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 388/2016
Ríkisstarfsmenn Slysatrygging
Í málinu krafðist B bóta úr hendi Í vegna áverka sem hún varð fyrir er hún lenti í árekstri á bensínstöð á heimleið frá vinnustað sínum. Talið var að viðkoma B á umræddri bensínstöð hefði verið nauðsynlegur og eðlilegur þáttur í akstri bifreiðarinnar frá vinnustað að heimili hennar þannig að reglur nr. 30/1990, um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna samkvæmt kjarasamningum vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi, ættu við um slys hennar. Var því fallist á kröfu B.
Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir ÞorgeirÖrlygsson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar23. maí 2016. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði ogfyrir Hæstarétti. Stefnda krefst staðfestingar hinsáfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Atvikum málsins, sem eru óumdeild, erlýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram var stefnda á heimleið frávinnustað sínum 3. október 2012. Ók hún bifreið sinni þá leið sem hún var vön aðaka og inn á bensínstöð í nágrenni heimilis síns til þess að kaupa eldsneyti ábifreiðina sem hún kvað hafa verið að verða eldsneytislausa. Í þeimerindagjörðum lenti hún í árekstri og slasaðist. Samkvæmt 1. málsgrein 4. greinarreglna nr. 30/1990, um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna samkvæmtkjarasamningum vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi, taka þær til slysasem sá sem tryggður er, sbr. 3. grein, verður fyrir í starfi sínu eða áeðlilegri leið frá heimili til vinnustaðar síns og frá vinnustað til heimilis. Snýstágreiningur aðila um hvort slíkt rof hafi orðið á leið stefndu umrætt sinn, erhún kom við á bensínstöðinni, að hún teljist ekki hafa verið á eðlilegri leiðfrá vinnustað til heimilis síns þannig að reglur þessar eigi ekki við um slysstefndu.Stefnda heldur því fram sem fyrr segirað hún hafi ákveðið að kaupa eldsneyti á heimleiðinni þar sem bifreið hennarhafi verið eldsneytislítil og verður þeirri fullyrðingu hennar ekki hafnað.Eins og hér háttar til var það nauðsynlegur og eðlilegur þáttur í akstribifreiðarinnar frá vinnustað að heimili stefndu að kaupa eldsneyti ábifreiðina. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest.Áfrýjandi greiði stefndu málskostnaðfyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.Dómsorð:Héraðsdómur skal vera óraskaður.Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiðistefndu, Brynju Jónu Gísladóttur, 600.000 krónur í málskostnað fyrirHæstarétti.Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2016.Mál þetta erhöfðað með stefnu birtri 28. maí 2015 og dómtekið 22. febrúar 2016 að lokinniaðalmeðferð. Stefnandi er Brynja Jóna Gísladóttir, Flétturima 9, Reykjavík.Stefndi er fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins, Arnarhváli,Reykjavík. Endanleg krafa stefnanda er aðstefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 3.580.614 krónur, aðallega meðdráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti ogverðtryggingu frá 30. júní 2014 til greiðsludags, en til vara með vöxtumsamkvæmt 4. gr. laganna frá 30. júní 2014 til 21. júní 2015, en frá þeim degimeð dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna til greiðsludags, allt aðfrádreginni innborgun að fjárhæð 1.357.164 krónur 30. júní 2014. Hann krefsteinnig málskostnaðar. Stefndi krefst aðallega sýknu afkröfum stefnanda, en til vara lækkunar, auk málskostnaðar.Helstu ágreiningsefni og yfirlit málsatvika Atvik málsins eru óumdeild. Erágreiningur aðila takmarkaður við það hvort stefnandi eigi rétt á bótumsamkvæmt 1. mgr. 3. gr. reglna nr. 30/1990 um skilmála slysatryggingarríkisstarfsmanna skv. kjarasamningum vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir ístarfi með vísan til þess að hún hafi verið á eðlilegri leið milli vinnustaðarsíns og heimilis skv. 1. mgr. 4. gr. reglnanna þegar hún varð fyrir slysi 3.október 2012. Ekki er deilt um afleiðingar umrædds slyss, en stefnandi varmetin til 18% varanlegs miska og 15% varanlegrar örorku vegna þess með matsgerð14. maí 2014. Eftir að stefnandi lækkaði kröfugerð sína við aðalmeðferð málsinser ekki lengur tölulegur ágreiningur með aðilum. Nánari atvik málsins eru þau aðstefnandi, sem starfaði í fullu starfi hjá Landspítala Háskólasjúkrahúsi, varökumaður bifreiðarinnar EB-511 á leið heim úr vinnu 3. október 2012. Stefnandiók sem leið lá frá starfstöð sinni á Landspítalanum austur Miklubraut og beygðiupp á Höfðabakkabrú og þar til norðurs yfir Gullinbrú. Við gatnamót Gullinbrúarog Fjallkonuvegar beygði stefnandi til hægri og því næst inn á þjónustustöðOlís. Samkvæmt stefnu var ástæða þess sú að bifreiðin var að verða bensínlaus.Þegar stefnandi var nýbúin að keyra inn á stæði við þjónustumiðstöðina varbifreiðinni YD-574 skyndilega bakkað á bifreið stefnanda svo árekstur varð umkl. 16. Við áreksturinn kastaðist stefnandi til og varð fyrir áverkum á hálsiog baki. Er ekki deilt um afleiðingar slyssins, svo sem áður greinir. Eftir að fyrrgreint örorkumat láfyrir 14. maí 2014 gerði lögmaður stefnanda kröfu 16. maí 2014 um að stefndigreiddi stefnanda slysabætur samkvæmt reglum nr. 30/1990 um skilmálaslysatryggingar ríkisstarfsmanna skv. kjarasamningum vegna slysa sem starfsmennverða fyrir í starfi. Stefndi greiddi stefnanda slysabætur 30. júní 2014 ísamræmi við niðurstöðu fyrrgreindrar matsgerðar en samkvæmt reglum nr. 31/1990um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna skv. kjarasamningum vegna slysasem starfsmenn verða fyrir utan starfs. Eftir ítrekanir lögmanns stefnanda fékkhann þau svör frá stefnda í símtali í byrjun febrúar 2015 að litið væri svo áað með því að taka bensín hefði stefnandi gert rof á beinni leið til og frávinnu svo slysið ætti undir reglur nr. 31/1990 en ekki reglur nr. 30/1990. Varkröfu stefnanda því hafnað. Ekki var um að ræða munnlegarskýrslur við aðalmeðferð málsins.Helstu málsástæður og lagarök aðila. Stefnandi byggir á því að húnhafi verið ríkisstarfsmaður á slysdegi og tryggð samkvæmt 1. mgr. 3. gr. reglnanr. 30/1990 um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna skv. kjarasamningumvegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi. Stefnandi telur því að húnhafi verið á eðlilegri leið milli vinnustaðar síns og heimilis skv. 1. mgr. 4.gr. reglnanna. Stefnandi byggir á því að hún hafi orðið fyrir varanlegri örorkuí skilningi 10. gr. reglnanna og eigi rétt til bóta samkvæmt 10. og 11. gr.reglnanna. Stefnandi leggur á það áherslu að það rúmist innan eðlilegrar ferðarmilli vinnustaðar og heimilis að taka bensín, ef svo ber undir, og það teljistekki slíkt rof á eðlilegri leið að hinn tryggði teljist þá falla utangildissviðs reglna nr. 30/1990 og falli eingöngu undir gildissvið reglna nr.31/1990. Játa verði tryggðum ákveðið svigrúm í skilningi ákvæðisins til aðvelja sér leið og komast heim til sín. Stefnandigerir kröfu um dráttarvexti frá uppgjörsdegi en þá hafi stefndi þegar gert sérgrein fyrir greiðsludegi og tilvist kröfunnar og ákveðið gjalddaga hennarsamkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti ogverðtryggingu. Sé ekki fallist á aðalkröfu er gerð krafa um dráttarvexti frá21. janúar 2015, þegar lögmaður stefnanda ítrekaði kröfuna í þriðja skipti ogtilkynnti um fyrirhugaða málshöfðun. Stefndi mótmælir sjónarmiðumstefnanda. Hann vísar til þess að fyrrgreindar slysatryggingar snúist um aðstarfsmaður hafi verið í starfi á starfsstað, í nauðsynlegum erindum og ferðumsem farnar séu í þágu vinnuveitanda, eða nauðsynlegum ferðum milli heimilis ogvinnustaðar. Það sé ekki tilgangur þessara trygginga að veita starfsmanni verndþegar hann sinni einkaerindum, svo sem að taka eldsneyti, fara í banka,verslun, o.s.frv. Eðlileg leið samkvæmt 1. mgr. 4. gr. fyrrgreindra reglna vísiþví til óslitinnar farar í þeim tilgangi að komast í þágu og vegna vinnu milliheimilis og vinnustaðar. Ekki sé krafist farar um stystu loftlínu eðagötukorti, enda nýti starfsmenn sér ýmsa kosti við samgöngur og taka þurfitillit til færðar og annarra aðstæðna. Stefnandi hafi gert rof á för sinni tilað sinna einkaerindum þegar hún tók krók á leið sinni. Hafi hún því ekki áttrétt á bótum eins og hún hafi verið í starfi. Hafi hún því fengið réttilegauppgerðar bætur og eigi ekki því ekki frekari kröfu í málinu. Stefndi mótmælirkröfu stefnanda um almenna vexti og upphafstíma dráttarvaxta.NiðurstaðaÓumdeilter að venjuleg leið stefnanda, frá vinnu til heimilis hennar að Flétturima 9,lá um Gullinbrú, fram hjá gatnamótum við Fjallkonuveg, í áttina að gatnamótumGullinbrúar og Hallsvegs. Þá liggur fyrir að í stað þess að halda beint áframnorður Gullinbrú á leið sinni 3. október 2012 ákvað stefnandi að beygja inn áþjónustustöð Olís sem liggur á horni götunnar og Fjallkonubrautar. Afgögnum málsins verður ráðið að frá umræddri þjónustustöð, sem ekið er að fráFjallkonubraut, er hægt að aka beint aftur inn á Gullinbrú. Þótt stefnandi hafisamkvæmt þessu þurft að beygja inn á Fjallkonubraut og aka eftir henni spölkorntil þess að geta beygt til vinstri inn á þjónustustöðina, gat hún að því búnuhaldið áfram venjulegri leið sem fyrr greinir. Verður háttsemi stefnanda íumræddu tilviki þannig fyllilega jafnað til þess þegar ökutæki er ekið inn áþjónustu- eða bensínstöð sem liggur samsíða götu eða vegi, svo sem algengt erbæði í þéttbýli og dreifbýli.Alkunnaer að bílstjórum getur verið nauðsynlegt að koma við á þjónustustöðvumolíufélaga, svonefndum bensínstöðvum, svo sem til að taka eldsneyti eða sinnabifreiðum sínum, en einnig getur verið um að ræða ýmsar náttúrulega þarfirökumannsins sjálfs. Verður að líta á stöðvanir við slíkar stöðvar semórjúfanlegan þátt í notkun bifreiða. Þótt ökumaður rjúfi för sín í stuttan tímaog víki nokkra tugi metra frá því sem annars myndi vera venjulegur ferill hansá leið milli vinnustaðar og heimilis verður af þessum ástæðum að telja hanneftir sem áður á eðlilegri leið milli umræddra staða. Er af þessum ástæðumþýðingarlaust þótt einungis liggi fyrir einhliða frásögn stefnanda um það íhvaða erindagjörðum nákvæmlega hún stöðvaði för sína í umrætt sinn. Er þar af leiðandieinnig fullnægt skilyrði 1. mgr. 4. gr. reglna nr. 30/1990 um skilmálaslysatryggingar ríkisstarfsmanna skv. kjarasamningum vegna slysa sem starfsmennverða fyrir í starfi, til þess að stefnandi teljist hafa verið tryggðursamkvæmt 1. mgr. 3. gr. reglnanna. Viðendanlega kröfugerð sína hefur stefnandi tekið mið af athugasemdum stefnda umrétta viðmiðunarfjárhæð slysatryggingabóta, en aðilar deila ekki um mat áafleiðingum fyrrgreinds slyss. Er því ekki lengur ágreiningur um höfustól kröfustefnanda eða innborgun og því engin efni til þess að lækka kröfu stefnanda,svo sem stefndi gerir enn kröfu um.Afmálatilbúnaði stefnanda verður ráðið að hann miði við fjárhæðslysatryggingabóta eins og þær voru í júní 2014. Varakrafa stefnanda um vextisamkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 er órökstudd, en ekki er krafist vaxtasamkvæmt 8. gr. laganna. Í ljósi atvika málsins verða dráttarvextir dæmdir frámálshöfðun eða 28. maí 2015 með vísan til lokaorða 9. gr. laga nr. 38/2001 semhér þykir eiga við.Viðákvörðun málskostnaðar verður að taka nokkurt tillit til þess að stefndi hefurlækkað kröfu sína umtalsvert til samræmis við málatilbúnað stefnda. Eftirúrslitum málsins og þessu athuguðu verður stefndi dæmdur til að greiðastefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur og hefur þáverið tekið tillit til málskostnaðar.Afhálfu stefnanda flutti málið Ingólfur Kristinn Magnússon hdl.Afhálfu stefnda flutti málið Eiríkur Áki Eggertsson hdl.SkúliMagnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.D Ó M S O R ÐStefndi,íslenska ríkið, greiði stefnanda, Brynju Jónu Gísladóttur, 3.580.614 krónur meðdráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti ogverðtryggingu frá 28. maí 2015 til greiðsludags, allt að frádregnum 1.357.164krónum 30. júní 2014.Stefndigreiði stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 851/2017
Líkamstjón Orsakatengsl Lögregla Handtaka Ómerking héraðsdóms
Í málinu krafðist A þess að viðurkennd yrði skaðabótaskylda Í á því líkamstjóni sem hann kvaðst hafa orðið fyrir af völdum lögreglu við handtöku árið 2010. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að A hefði verið í geðrofsástandi umrætt sinn og gæti ekki byggt bótakröfu á 3. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála þar sem hann hefði komið sér í það ástand að hann gerði sér ekki grein fyrir gjörðum sínum. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þessi niðurstaða héraðsdóms, sem skipaður hefði verið sérfróðum meðdómsmönnum, hefði leitt til þess að þar hefði í engu verið fjallað um hvort orsakatengsl hefðu verið á milli líkamstjóns A og athafna lögreglu í umrætt sinn og þar með hvort skilyrði 3. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008 og almennu skaðabótareglunnar um orsakatengsl væru uppfyllt. Af þessum sökum var talið óhjákvæmilegt að ómerkja dóminn og vísa málinu heim í hérað til málflutnings og dómsálagningar á ný.
Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir ogKarl Axelsson og Kristbjörg Stephensen landsréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. desember 2017.Hann krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda á því varanlegalíkamstjóni sem hann kveðst hafa orðið fyrir 11. maí 2010 af völdum lögregluvið handtöku. Þá krefsthann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.Málavöxtum er lýst íhéraðsdómi. Svo sem þar kemur fram var áfrýjandi, sem þá var í alvarleguandlegu ástandi, handtekinn 11. maí 2010. Við handtökuna var hann staddur ísturtuklefa í baðherbergi á heimili nafngreinds manns í Kópavogi. Áfrýjandi virðistekki hafa áttað sig á nærveru eða heyrt í lögreglumönnum er þeir reyndu aðtelja hann á að koma úr sturtunni og brugðist ókvæða við og brotist um erlögregla hugðist leiða hann þaðan. Hafi lögregla þá brugðið á það ráð að takaáfrýjanda tökum, færa hann í handjárn, leggja hann á gólfið og bensla fæturhans. Nær jafnskjótt hafi áfrýjandi fengið krampa, kastað upp og fengiðhjartastopp. Lögregla og sjúkralið, sem þá var komið á vettvang, hafi hafiðlífgunartilraunir og náð að endurlífga áfrýjanda. Af gögnum málsins verðurráðið að hjartastopp áfrýjanda hafi varað í 20-25 mínútur. Varð áfrýjandi fyrirvaranlegu og stórfelldu heilsutjóni af völdum þess.Stefndi gerir ekkiathugasemd við þá málsástæðu áfrýjanda að handtaka lögreglu hafi farið fram ágrundvelli XIII. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.Með málsókn þessari freistaráfrýjandi þess að fá skaðabótaskyldu stefnda viðurkennda vegna þess líkamstjónssem hann hlaut vegna framangreindra atvika. Áfrýjandi reisir þessa kröfu sínaannars vegar á 3. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008, sem á umræddum tíma handtökuvar 3. mgr. 228. gr. sömu laga og hins vegar almennu skaðabótareglunni. Hefurhann í því skyni að færa sönnur á líkamstjón sitt og orsakatengsl milli aðgerðalögreglu og þess aflað þriggja matsgerða. Eru þær ekki samhljóða um hvortorsakatengsl séu til staðar.Héraðsdómur taldi fram komnasönnun um að áfrýjandi hefði verið í geðrofsástandi er lögregla hafði framangreindafskipti af honum. Ekkert benti til þess að aðgerðir lögreglu hefðu veriðóheimilar eða óþarflega harkalegar og væri ekki sýnt fram á bótaskyldu ágrundvelli almennu skaðabótareglunnar. Þá er í forsendum hins áfrýjaða dómslagt til grundvallar „að aðili sem kemur sér í ástand sem gerir það að verkumað hann gerir sér ekki grein fyrir gjörðum sínum, er jafnan í slíku ástandi eðalendir í því af einhverjum orsökum“, geti ekki byggt bótakröfu á 3. mgr. 228.gr. laga nr. 88/2008.Frumskilyrði þess aðbótaskylda verði felld á stefnda er að tjón liggi fyrir í skilningiskaðabótaréttar og að orsakatengsl teljist sönnuð milli þess tjóns áfrýjanda oghinnar ætluðu skaðabótaskyldu háttsemi starfsmanna stefnda. Með því aðniðurstaða héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, varð eins ogáður greinir, var þar í engu fjallað um hvort orsakatengsl voru á millilíkamstjóns áfrýjanda og athafna lögreglu í umrætt sinn og þar með hvortskilyrði 3. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008 og almennu skaðabótareglunnar umorsakatengsl væru uppfyllt. Verður af þeim sökum ekki hjá því komist að ómerkjahinn áfrýjaða dóm og leggja fyrir héraðsdóm að taka málið til meðferðar ogdómsálagningar að nýju.Rétt er að aðilarnir berihvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.Dómsorð:Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim íhérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8.desember 2017.Mál þetta sem höfðað var 23. október2015 var dómtekið eftir aðalmeðferð þess 10. nóvember sl. Stefnandi er A, [...],Reykjavík og stefndi er íslenska ríkið.I.Stefnandi gerirþá dómkröfu að viðurkennd verði bótaskylda íslenska ríkisins vegna varanlegslíkamstjóns, sem stefnandi varð fyrir, þegar lögreglan handtók hann þann 11.maí 2010. Þá gerir stefnandi tilviðbótar kröfu um að íslenska ríkið verði dæmt til að greiða stefnanda miskabætur,samkvæmt 26. grein skaðabótalaga, að fjárhæð 3.000.000 króna auk vaxta samkvæmt1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 11. maí 2010 til29. nóvember 2015, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga fráþeim degi til greiðsludags. Þá krefst hannmálskostnaðar að skaðlausu, líkt og eigi væri um að ræða gjafsóknarmál. Stefndikrefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda en tilvara að kröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður þá látinn niður falla.II.Þriðjudaginn 11. maí kl. 11:43 varlögregla að boði fjarskiptamiðstöðvar send að [...] í Kópavogi vegna, að sögn,átaka sem þar áttu að eiga sér stað. Þá kom fljótlega önnur tilkynning um aðmaður vopnaður golfkylfu væri fyrir utan húsið. Einnig var tilkynnt um mann semværi að rústa íbúð á fjórðu hæð.Er lögreglumenn komu á staðinn varþeim sagt að nakinn maður vopnaður golfkylfu hefði hlaupið í átt að kirkjuskammt frá.Þegar þangað var komið var lögreglutilkynnt af aðilum á vettvangi að maðurinn hefði hlaupið inn í kjallaraíbúð að [...].Knúði lögregla þar dyra og hittihúsráðanda. Tjáði hann lögreglu að stefnandi hefði komið hlaupandi, hálfnakinnog barið á stofugluggann hjá sér og síðan á útidyrnar. Við það hafi makast einhverskonar sósa á rúðurnar, en húsráðanda virtist maðurinn blóðugur.Kvaðst hann hafa boðið stefnanda aðfara í sturtu og þvo sér. Meðan stefnandi var í sturtunni hafi hann heyrt hannöskra og láta einkennilega.Lögreglumenn kveða að þegar þeir hafikomið inn og farið að sturtunni hafi þeir séð að stefnandi öskraði og lét mjögsérkennilega í kaldri sturtunni. Hann hafi barið í veggi og kúgast.Lögreglumennirnir hafi reynt að ræða við stefnanda en hann hafi ekki veitt þeimneina athygli.Þá var skrúfað fyrir sturtuna og á nýreynt að ræða við stefnanda en hann hafi þá orðið mjög æstur svo að færa þurftihann í handjárn og jafnframt var hann lagður á gólfið. Einnig töldulögreglumennirnir nauðsynlegt að fjötra (bensla) fætur hans því hann sparkaðiítrekað til lögreglumannanna. Var tekin ákvörðun um að fá sjúkrabifreið ávettvang til að kanna með ástand stefnanda.Skömmu síðar byrjaði stefnandi að fákrampa og kasta upp. Færði lögreglumaður hann í hliðarstöðu og losaði handjárnog um fætur. Skömmu síðar hætti stefnandi að anda og hóf lögregla þá straxendurlífgunartilraunir.Sjúkrabifreið kom mjög fljótt ávettvang og tóku þá sjúkraflutningamenn við endurlífgunartilraunum. Eftir um 20-25 mínútur greindist púlsá stefnanda og var hann þá fluttur í forgangi á Landspítalann við Hringbraut.Þeir munir sem stefnandi hafði kastaðfram af svölum við [...] voru ónýtir eftir fallið. Þar á meðal var flatskjár,útvarpstæki, glerplata af stofuborði, sturtuhengi og fleira. Lentu munirnir ápalli á neðstu hæð blokkarinnar og á grasi þar við. Samkvæmt vitni sem kom fyrir lögregluhafði verið reynt að fá stefnanda til að hætta að henda niður hlutum enstefnandi hafi þá komið niður og ógnað nágranna með golfkylfu. Samkvæmt upplýsingum frá móðurstefnanda hafði hann kvöldinu áður verið ásamt systur sinni í mat hjá henni.Hvorug þeirra hafi tekið eftir einhverju óvenjulegu í fari hans, en þettastaðfesti móðirin fyrir dómi. Þá er upplýst að eftir mat hafi stefnandi fariðtil B, vinar síns. Samkvæmt skýrslu B hjá lögreglu, sem tekin var sama dag oghandtakan átti sér stað, kvað B stefnanda hafi komið kvöldið áður og verið framá nótt. Hann hafi í stuttu máli verði gjósandi eins og vitnið orðað það; veriðör og hreinskilinn. B hafi sofnað og þegar hann hafi vaknað um morguninn hafistefnandi verið farinn. Upp úr hádegi hringdi téður B í C vin sinn, til aðforvitnast um stefnanda. Þennan sama dag var einnig tekinskýrsla af D, íbúa í íbúð [...], [...]. Kvaðst D allt í einu hafa heyrt dynk ogþá séð að ruslapoki, sem hafði verið hent niður, hafði splundrast. Sá hann aðopinn gluggi var á 4. hæð hússins, en spáði ekki frekar í það. Eftir þetta hafiverið hent niður gardínustöngum, plasmasjónvarpi, hátölurum og fleiru. Fór Dupp á fjórðu hæð og bankaði á dyr íbúðarinnar, sem hann taldi að hlutirnir hafikomið úr. Þar svaraði enginn. Hafi hann svo gengið niður á planið og hittstefnanda þar, sem hann kvað hafa verið beran að ofan í annarlegu ástandi. Munstefnandi hafa náð í golfkylfu inn í bíl og sagt að mikið væri að. Allt væri aðfara til fjandans, en bað D að hringja ekki í lögreglu. Kvað hann stefnandahafa farið út á grasflöt og byrjað að rífa í sundur bréf með Ageli og kreistaþau yfir sig. Hringdi D þá í lögregluna. Þegar stefnandi heyrði í sírenum munhann hafa hlaupið í burtu og benti D lögreglunni þangað sem stefnandi hljóp. E, íbúi á 1. hæð að [...], kveðsthafa séð hálfa búslóð á pallinum hjá sér. Kvaðst hún hafa séð stefnanda ogfannst henni hann „út úr dópaður“. Kvað hún stefnanda hafa haldið á plastbréfummeð hvítum vökva í og hafi sagt, að hann yrði að sprauta úr þessu hér. Kvað húnstefnanda hafa farið í skottið á bílnum sínum, hellt í sig einhverjum vökva ognáð í golfkylfu. Bað stefnandi hana um að fá lánaðan gsm-síma en afþakkað þegarhún bauð honum heimasíma. Eftir það kvað hún hann hafa tekið á rás að leikskólahinum megin við götuna. Í dagbókarfærslu lögreglunnar erskráð að þegar lögreglan kom á staðinn hafi tilkynnandi beint þeim að [...] við[...] og skýrt frá því að nakinn maður, vopnaður golfkylfu hefði hlaupið í þáátt. Hafi allt verið á öðrum endanum í íbúð stefnanda, talsvert af peningum,ætluð kannabisefni og plöntur lágu á gólfinu. Síðar hafi lögreglan kallað eftiraðstoð en þá var búið að staðsetja stefnanda í íbúð að [...]. Þegar þangað varkomið tók húsráðandi, F, á móti þeim. Í skýrslutöku af F, dagsettri 3.desember 2013, kvaðst hann hafa verið heima hjá sér þennan dag, 11. maí 2010,þegar hann sér mann hlaupa fram hjá glugganum. Kvað hann stefnanda hafa veriðnakinn og farið að maka geli á rúðuna. Kvaðst F hafa kallað á stefnanda ogspurt hvort ekki væri allt í lagi og hvort hann þyrfti aðstoð. F sagðist hafaboðið stefnanda að fara í sturtu. Kvaðst F hafa sagt stefnanda að drífa sig ísturtu og hafi þá tekið eftir því að stefnandi var búinn að læsa útihurðinni.Þegar stefnandi var í sturtunni hafi tveir lögreglumenn bankað á gluggann.Opnaði F fyrir þeim og spurðu lögreglumennirnir tveir hvort hann hefði séð„strípaling á vappi“. F svaraði því játandi og kvað stefnanda vera í sturtu hjásér. Kvaðst hann ekki þekkja stefnanda en tók það fram að hann teldi sér ekkistafa hætta af honum. Hafi stefnandi greinilega verið í miklu andlegu uppnámiog kallað eitthvað úr sturtunni, en F kvaðst ekki hafa heyrt orðaskil. Sagðist Fsíðan hafa séð inn um dyragættina, eftir að lögreglumennirnir voru búnir aðopna lásinn til að komast inn á baðherbergið, þar sem stefnandi hafi verið ísturtu. Lögreglan hafi farið inn og tekið á manninum. F kvaðst ekki hafa séðátök í sturtuherberginu en heyrt lætin. F sagðist hafa séð stefnanda íhandjárnum, liggjandi á gólfinu og lögreglumann með hnéð í bakið á honum aðhandjárna hann. Kvaðst F hafa séð stefnanda þegar hann féll í gólfið og þaðhafi verið eins og hann lyppaðist niður „eins og kerfið í honum hafi slökkt ásér“. Hafi stefnandi ekki hreyft sig og hafi F því beðið lögreglumennina um aðhnoða stefnanda. Kvað hann lögregluna á sama tíma hafa áttað sig á að maðurinnbarðist ekki lengur á móti. Hafi F þá farið að útidyrunum, séð sjúkrabíl ogveifað honum að koma. Sjúkraflutningamenn hafi þá komið inn með sín tæki ogtól. Kvað hann lögregluna þá hafa ætlað að draga stefnanda fram á gang, tekiðhann upp en stefnandi hafi verið háll viðkomu og þegar þeir hafi verið með hanní um lærahæð hafi þeir misst takið og við það hafi stefnandi skollið í gólfið. Fsagði manninn þegar hafa verið meðvitundarlausan þegar þetta gerðist en hnakkihans hafi skollið á flísarnar á gólfinu. Í dagbókarfærslu lögreglunnar kemurfram að lögreglumennirnir hafi ávarpað stefnanda er hann var í sturtu.Stefnandi hafi að því er virtist ekkert heyrt, þ.e. engin viðbrögð komu fráhonum. Ákváðu lögreglumennirnir þá að ná stefnanda úr sturtunni en um leið ogþeir gripu í hendur hans hafi hann veitt mótspyrnu. Hafi þeir þá fært stefnandaí lögreglutök, handjárnað hann og lagt hann á gólfið. Hafi lögreglumennirnirþar að auki orðið að binda fætur hans þar sem hann sparkaði í allar áttir. Framkemur, að á þessum tíma hafi þeir beðið um að fá senda sjúkrabifreið. Ídagbókarfærslunni er öndunarstopp skráð kl. 12:20 og þess getið aðsjúkrabifreið hafi komið nánast samstundis.F staðfesti skýrslu sína fyrirlögreglu í sérstöku vitnamáli fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, 30. september 2015,en þar lýsti F því að stefnandi hefði verið örvinglaður og viti sínu fjær erhann kom á heimili hans. Hann tók þó fram að engin hætta hefði stafað afstefnanda og hann hafi ákveðið að reyna að róa hann niður.Við komu á LSH var stefnandimeðvitundarlaus, með barkarrennu og kominn með gáttatif. Var hann svæfðurfljótlega eftir komu og fluttur á gjörgæsludeild til kælingar. Í innlagnarnótuá gjörgæsludeild er lýst rispum á öxlum og kvið. Farið var með stefnanda ítölvusneiðmynd af höfði, sem sýndi ekki blæðingu eða önnur áverkamerki.Tölvusneiðmynd af hálshrygg sýndi ekki merki um brot. Á tölvusneiðmynd afbrjóstkassa sáust dreifðar þéttingar, mest í hægra lunga sem vöktu grun umbyrjandi lungnabólgu en hvorki sáust merki um rifbrot né loftbrjóst. Átölvusneiðmynd var að sjá mikla þenslu í maga en ekkert annað athugavert. Við komuá spítalann var þvag einnig sent í lyfjaleit, m.a. fyrir amfetamíni, kókaíni,kannabis, E-töflum o.fl. og reyndist það allt vera neikvætt. Var stefnandi meðmikla truflun á sýrubasa jafnvægi og metabolískt súr, sem leiðréttist smámsaman með lyfjagjöf og öndunarmeðferð. Var stefnandi einnig með mikla hækkun ávöðvaensímum, CK og var myoglobín einnig mjög hækkað, sem benti til útbreiddsvöðvaskaða. Var stefnanda haldið sofandi í öndunarvél og kældur til að draga úrheilaskaða eftir hjartastoppið. Stefnandi var tekinn úr öndunarvélhinn 16. maí 2011, sem gekk vel. Hinn 17. maí 2011, skoðaði G taugalæknirstefnanda og benti taugaskoðun til útbreidds heilaskaða af völdumsúrefnisskorts. Hinn 18. maí 2011 vaknaði stefnandi og virtist vita eitthvað afumhverfi sínu. Þennan dag var hann útskrifaður af gjörgæsludeild á hjartadeild.Þegar ástand hans var á endanum talið stöðugt var stefnandi fluttur til frekariendurhæfingar á Grensásdeild Landspítalans, 16. júní 2011. Í læknisvottorði H,sérfræðings í lyflækningum og hjartasjúkdómum, dagsettu 6. maí 2012, gaflæknirinn álit sitt á mögulegum orsökum þess að stefnandi hefði farið íhjartastopp 11. maí 2010. Annaðist téður læknir stefnanda eftir komu ásjúkrahús. Taldi H orsök hjartastoppsins mjög sennilega tengda handtökunni.Mögulegar orsakir taldi hann helst vera tvær: Í fyrsta lagi væri vel þekkt aðeinstaklingar í annarlegu ástandi, sem eru beittir valdi og sem berjast á móti,geti farið í hjartastopp. Fari öll starfsemi einstaklingsins á fullt, sem valdimiklu álagi á hjartað og orsaki hjartsláttatruflanir. Taldi læknirinn mjög hágildi vöðvaensíma hjá stefnanda styðja að hann hefði reynt mjög á sig í átökumvið lögregluna. Í öðru lagi gæti högg á brjóst valdið hjartastoppi. Varstefnandi í sturtu og þar af leiðandi blautur og sleipur. Lögreglumennirnirhafi hæglega getað misst hann í gólfið, eins og lýst væri af vitni. Þáverandi lögmaðurstefnanda fór þess á leit við héraðsdóm að dómkvaddir yrðu matsmenn til að metaafleiðingar og orsök tjónsatburðarins. Dómkvödd voru þau I hjartalæknir og Jhrl.Um orsakatengsl á millivaldbeitingar lögreglunnar gegn stefnanda í umrætt sinn og þess líkamstjóns semhann varð fyrir kemur fram í matsgerðinni að stefnandi hafði fyrirtjónsatburðinn neytt töluverðs magns af orkugeli. Þá komi fram í sjúkraskráLandspítala að aðstandendum hafi þótt stefnandi vera mjög ör í tvær vikur fyrirtjónsatburð. Þá kemur fram að flestar auka- og eiturverkanir orkugels/orkudrykkjatengist háu koffíninnihaldi þeirra og auk þess eru oft í þeim önnur efni semeinnig innihalda koffín. Á síðustu árum hafi tilfellum koffíneitrana vegnaneyslu orkudrykkja fjölgað og lýst hafi verið dauðsföllum hjá einstaklingum,sem ekki hafi haft merki um hjartasjúkdóm sem talin eru tengjasteitrunaráhrifum þeirra. Koffíneitrun geti leitt til geðrofs oghjartsláttartruflana, sem geti verið lífshættulegar og í sjaldgæfum tilfellumleitt til dauða. Töldu matsmenn ofneysluorkugels/orkudrykkja fyrir tjónsatburð vera líklega skýringu ágeðrofseinkennum, sem stefnandi sýndi í aðdraganda tjónsatburðarins, daginn sematburðurinn gerðist og gæti hún einnig hafa verið meðvirkandi í hjartastoppinusem hann lenti í. Því til stuðnings vísa matsmenn til þess að við komu áspítalann hafi stefnandi verið með miklar truflanir á sýru-basa jafnvægi, ensýrustig í blóði mældist mjög lágt. Væri útilokað að stefnandi hefði lifað meðsvo lágt sýrustig, nema að hafa fengið einhvern tíma til aðlögunar, sem þýddiað líklegast væri um að ræða tveggja til þriggja daga ástand áður en hann fórhjartastopp og að þetta lága sýrustig tengdist inntöku orkugels/orkudrykkjadagana áður. Þá hafi stefnandi við komu á spítalann verið með verulega hækkun ávöðvaensímum, CK og myoglobíni, sem benti til útbreidds vöðvaskaða. Ekki vorumerki um skaða á hjartavöðva. Umrædd hækkun hafi getað leitt til nýrnabilunarog verið meðvirkandi í hjartastoppi. Það sé þekkt að einstaklingar sem eru íannarlegu ástandi og beittir valdi fari í hjartastopp og er þá oft einhverhækkun á vöðvaensímum. Það sé hins vegar afar ósennilegt að sú mikla hækkun semvar á vöðvaensímum hjá stefnanda tengist eingöngu handtökunni. Þó að hún eigieinhvern þátt í hækkun vöðvaensíma er líklegra að þessi mikla hækkun tengist aðmestu leyti miklum æfingum í aðdraganda tjónsatburðar. Þá voru matsmenn ekkisammála þeirri niðurstöðu H læknis að hugsanleg skýring hjartastoppsins væri súað lögreglumenn hafi misst stefnanda í gólfið. Ástæða þess sé fyrst og fremstsú að í skýrslu F vitnis komi greinilega fram að þegar lögreglumennirnir misstustefnanda í gólfið hafi hann verið meðvitundarlaus, auk þess sem því sé lýst aðhann hafi skollið á hnakkann en ekki á brjóstið. Með vísan til þessa töldumatsmenn ekki vera orsakatengsl milli valdbeitingar lögreglu gegn stefnanda ogþess líkamstjón sem hann varð fyrir.Töldu matsmenn líklegustuorsök líkamstjónsins vera það sturlunar- eða geðrofsástand sem hann virtistvera í ásamt lífshættulegri brenglun á sýrustigi blóðs og gríðarlegri hækkun ávöðvaensímum. Allt þetta mætti að mati matsmanna tengja við ofneyslu stefnandaá orkugeli/orkudrykkjum í aðdraganda tjónsatburðar. Var stefnandi metinn tilalgjörs varanlegs miska, þ.e. 100 stiga og 100% varanlegrar örorku. Tímabundiðatvinnutjón var 100% frá tjónsatburði fram að áætluðum stöðuleikatímapunkti.Þjáningatímabil og tímabil tímabundins atvinnutjóns taldist það sama, þar aftaldist stefnandi hafa verið rúmliggjandi frá 11. maí 2010 til 29. september2010. Samkvæmt beiðni stefnandavoru þann 22. janúar 2016 dómkvaddir sem matsmenn í málinu þeir K geð- ogembættislæknir og L lyf- og hjartalæknir. Matsgerð lá fyrir 11. júní það ár.Matsmenn töldu að miðað við lýsingar á atburðinum mætti jafnvel líta á aðgerðirlögreglu sem björgunaraðgerð fremur en að þær hafi valdið hjartstoppi, endahefði stefnandi allt eins getað fengið hjartastopp þótt lögreglan hefði ekkihaft afskipti af honum. Niðurstaða matsmanna var því sú að þeir tölduvaldbeitingu lögreglu ekki geta verið einn af orsakavöldum þess að stefnandifór í hjartastopp. Þá töldu matsmenn ekki að efnið Agel sem talið var aðstefnandi hefði neitt í óhóflegu magni fyrir atvikið gæti orsakað hjartastoppen þó með fyrirvara um að það væri hugsanlegt ef þess væri neytt í mjög miklumagni. Þá töldu matsmenn líkur á hjartastoppi auknar vegna aðgerða lögreglusökum ástands stefnanda fyrir handtökuna. Að lokum töldu matsmenn líkur fyrirþví að stefnandi hefði farið í hjartastopp þótt ekki hefði komið til aðgerðalögreglu. Stefnandi var ósáttur viðmatið og óskaði yfirmats. Yfirmatsmenn voru dómkvaddir 28. október 2016, þau, Mlyf- og hjartalæknir, N taugalæknir og O geðlæknir. Yfirmatsgerð var gefin út1. mars 2017. Matsmenn töldu aukna hættu á hjartastoppi við þær aðstæður þegarnauðsynlegt væri að beita valdi og töldu því líklegt að valdbeiting hefði áttþátt í að valda hjartastoppinu en aðrir þættir gætu verið meðvirkandi. Um fæðubótaefniðAgel töldu matsmenn ekki forsendur til að ætla að það gæti valdið hjartastoppi.Þá töldu matsmenn útilokað að svara því játandi eða neitandi hvort stefnandihefði farið í hjartstopp ef ekki hefði komið til valdbeitingar lögreglu. Á samaveg svöruðu matsmenn spurningunni ef stefnandi hefði fengið að klára sturtunaóáreittur. Niðurstaða matsmanna var sú að það yrði að teljast líklegt aðvaldbeiting hefði átt þátt í hjartastoppinu. Fyrir dómi kom fram að matsmenntöldu meira en helmingslíkur á þessu. Við upphaf aðalmeðferðarvar lögð fram geðrannsókn P geðlæknis frá 25. september 2017 en hana framkvæmdilæknirinn vegna annars dómsmáls nr. E-[...]/2016 sem stefnandi höfðaði gegnVerði tryggingum hf. vegna atviksins. Læknirinn var dómkvaddur til verksins 29.júní 2017. Um hvort og að hvaða leyti viðbrögð stefnanda hafi verið ósjálfráðvið handtökuna segir læknirinn það sitt álit að stefnandi hafi verið haldinngeðrofi og síðan miklu óráði í kjölfar alvarlegra veikinda við handtökuna. Þvíhafi öll viðbrögð hans verið algjörlega ósjálfráð. Þá taldi læknirinn aðstefnandi hefði ekki gert sér neina grein fyrir gerðum sínum og afleiðingumþeirra. Undir- og yfirmatsmenngáfu allir skýrslu fyrir dómi. Þá gáfu skýrslu Q, fyrrum lögreglumaður og lögreglumennirnir R, S og T.P geðlæknir kom fyrir dóm og H hjartalæknir gaf símaskýrslu. Að endingu vartekin skýrsla af móður stefnanda.III.Stefnandi byggir á því,að hann hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni vegna ólögmætrar og harkalegrarhandtöku (valdbeitingar) lögreglunnar. Byggir stefnandi á að orsökhjartastoppsins hafi verið óheimilar og óþarflega harkalegar aðgerðirlögreglunnar. Því sé íslenska ríkið bótaskylt vegna líkamstjónsins. Byggirstefnandi kröfu sína á almennu skaðabótareglunni, auk 3. mgr. 228. gr. laga nr.88/2008, um meðferð sakamála en sú bótaregla sé hlutlæg. Hafi stefnandi ekkistuðlað sjálfur að þessum harkalegu aðgerðum lögreglunnar, nema þá með litlumótvægi og ósjálfráðum viðbrögðum, sem hafi verið eðlileg miðað við aðstæður.Verði ekki fallist á að ábyrgð stefnda sé hlutlæg byggir stefnandi á því, meðvísan til sömu lagagreinar og hinnar almennu skaðabótareglu, að lögreglan beriábyrgð vegna sakar þeirra starfsmanna sinna er að handtökunni stóðu. Fyrir það fyrsta byggirstefnandi á að handtaka lögreglunnar í umrætt sinn hafi verið ólögmæt, þar semekki verði séð að heimild hafi verið til hennar með vísan til 1. mgr. 90. gr.laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Ósannað sé að rökstuddur grunur hafiverið um að stefnandi hafi framið brot í umrætt sinn sem sætt getur ákæru, endahafi hann aldrei verið ákærður í framhaldinu. Þá verði ekki heldur séð aðhandtakan hafi verið nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot,enda hafi stefnandi verið í boði húsráðanda á heimili hans í sturtu, eða til aðtryggja návist hans eða öryggi eða öryggi annarra. Þá byggir stefnandi á aðlögreglunni hafi þar að auki verið óheimilt að opna sér leið inn á baðherbergiðog rífa stefnanda úr sturtunni án dómsúrskurðar eða sérstaks samþykkisstefnanda. Þá telur stefnandi þar að auki augljóst að ekki hafi verið umsamfellda eftirför í húsið að ræða sem réttlætt geti það að baðherbergið hafiverið opnað án dómsúrskurðar eða samþykkis stefnanda. Enn fremur byggirstefnandi á að lögreglan hafi ekki í umrætt sinn gætt meðalhófs við handtökuna.Ljóst sé að lögreglu hafi verið unnt að beita mun vægari úrræðum viðhandtökuna. Meðalhófsreglan sé bæði skráð og óskráð meginregla í íslenskumlögreglurétti og talin þýðingarmikil við framkvæmd lögreglustarfa. Reglan fáiog stoð í stjórnsýslulögum, lögum nr. 88/2008, mannréttindasáttmála Evrópu og68. og 71. gr. stjórnarskrárinnar. Stefnandi vísar og til 2. mgr. 13. gr.lögreglulaga nr. 90/1996 og greinargerðar með lögunum.Þótt handhöfumlögregluvalds sé heimilt að beita valdi við framkvæmd skyldustarfa sinna megiþeir þó aldrei ganga lengra en þörf sé á hverju sinni, sbr. 14. gr. lögrl. Stefnandi bendir á aðþegar lögreglumenn komu að húsnæði F hafi téður F sagt lögreglu að engin hættastafaði af stefnanda. Þá hafi legið fyrirá þessum tímapunkti að stefnandi hafiverið óvopnaður. Þar af leiðandi hafi engin þörf verið á þeim harkalegu úrræðumsem lögreglan beitti í umrætt sinn og sem urðu þess valdandi að stefnandi fór íhjartastopp. Þá hafi lögreglunni veriðí lófa lagið að leyfa stefnanda að klára sturtuna og reyna að róa hann niðuráður en hann væri handtekinn. Hefði þess háttar meðalhófs verið gætt sé ljóst,að mati stefnanda, að hann hefði ekki farið í hjartastopp Stefnandi byggir á því,með hliðsjón af þeim hátternisreglum og verklagsreglum lögreglu, þeirrikunnáttu sem lögreglumenn eigi að búa yfir, og þar af leiðandi á grundvellireglna skaðabótaréttar um sérfræðiábyrgð, að stefndi beri sönnunarbyrði um aðlíkamstjón stefnanda sé ekki á ábyrgð lögreglunnar. Alla vega eigi þessarreglur að létta sönnunarbyrði stefnanda. Í því sambandi verði stefndi að sýnafram á hvað réttlæti þá handtöku sem stefnandi varð fyrir og hver hafi veriðraunveruleg ástæða handtökunnar. Varðandi orsakatengslmilli handtöku lögreglunnar og hjartastoppsins byggir stefnandi á því að orsökþess að hann hafi farið í hjartastopp sé að öllum líkindum tengd handtökunni,líkt og H, sérfræðingur í lyflækningum og hjartasjúkdómum, telji samkvæmtvottorði sínu. Þar telji læknirinn mögulegar og líklegar orsakir vera aftvennum toga. Í fyrsta lagi, að sú valdbeiting sem lögreglan hafi beittstefnanda í því ástandi sem hann var hafi verið þess valdandi að stefnandi hafifarið í hjartastopp. Í öðru lagi, að höggið þegar lögreglumenn hafi misststefnanda á gólfið, hafi leitt til hjartastoppsins. Sé hjartastoppið sennilegafleiðing þessara tveggja hugsanlegra orsaka. Telur stefnandi í þessusamhengi að ekki sé tækt að byggja á niðurstöðu undirmats en þar gefi matsmennsér ákveðnar fyrir fram gefnar forsendur, sem við nánari athugun standist ekkiendilega nánari skoðun. Hann vísar hins vegar yfirmats sem hann telur að byggjaberi á um orsakatengsl í málinu.Fjallað sé í undirmatialmennt um auka- og eiturverkanir orkugels/orkudrykkja, án þess að nokkurntímann hafi farið fram rannsókn eða skoðun á sjálfu gelinu sem stefnandi tókinn daginn sem hann var handtekinn. Af lestri matsgerðarinnar megi ráða að þaðvirðist skipta meginmáli í niðurstöðu matsmanna að stefnandi hafi innbyrt mikiðmagn af koffíndrykkjum. Umrætt Agel hafi aldrei verið rannsakað af matsmönnum.Byggir stefnandi á að þannig sé ómögulegt og óvísindalegt að gefa sér þærforsendur að gelið hafi valdið eða átt þátt í því að valda hjartastoppinu. Þaðsé til dæmis engan veginn sannað að stefnandi hafi orðið fyrir koffíneitrun. Þá telur stefnandi þaðfurðulegt að vottorði H sé alfarið hafnað, m.a. með vísan til þess að stefnandihafi fallið með hnakkann á gólfið, er lögreglumennirnir misstu hann, en ekki ábrjóstið. Byggir stefnandi á að þrátt fyrir að hann hafi fallið með hnakkann ífyrstu viðkomu við gólfið hafi hann einnig orðið fyrir átökum við handtökunasem eins líklegt sé að hafi orsakað hjartastoppið. Allavega sé ótækt að útilokaþað einungis með vísan til þess að stefnandi hafi fallið með hnakkann á gólfið.Telur stefnandi í þvíljósi að undirmatsgerð svari ekki með fullnægjandi hætti hvort handtakan semslík hafi verið aðalorsakavaldur eða meðorsök þess að stefnandi fór íhjartastopp. Byggir stefnandi á að til þess að orsakatengsl teljist vera fyrirhendi í skaðabótarétti sé nægilegt að orsakasamband sé til staðar þótt ekki séum að ræða meginorsök. Að þessu hafi ekki verið gætt við vinnslumatsgerðarinnar. Byggir stefnandi á að hinharkalega og óþarfa handtaka (valdbeiting) sem viðhöfð hafi verið aflögreglunni í umrætt sinn hafi verið meðvirkandi þáttur í að stefnandi fór íhjartastopp með fyrrnefndum afleiðingum. Hið meinta geðrofsástand hans þennandag geti ekki talist nægjanlegur orsakavaldur eitt og sér. Með hliðsjón afframangreindum málsástæðum gerir stefnandi einnig kröfu um greiðslu miskabótaskv. a- og b-liðum 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga og telur stefnandi hæfilegarmiskabætur vera 3.000.000 króna. Byggir stefnandi á því að lögreglu hafibrostið lögmæt skilyrði til handtökunnar, sbr. 1. mgr. 90. gr. laga nr.88/2008. Hún hafi þar að auki ruðst inn á heimili, þar sem stefnandi varstaddur, án húsleitarheimildar, sem fari einnig í bága við lög nr. 88/2008 ogstjórnarskrárvarinn rétt stefnanda.Ekki hafi legið fyrirrökstuddur grunur í skilningi 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 um ætlaðarefsiverða háttsemi stefnanda. Telur stefnandi því að lögmæt skilyrði hafibrostið til þessara aðgerða, ekki hafi verið tilefni til þeirra af hálfulögreglu og þær verið framkvæmdar á óþarfalega hættulegan, særandi og móðgandihátt. Hafi hin harkalega og óþarfa handtaka að endingu leitt til mikils tjónsfyrir stefnanda eins og komið er að hér að ofan. Eigi stefnandi því rétt tilbóta, með vísan til XXXVII. kafla laga nr. 88/2008 og 26. gr. skaðabótalaga. Stefnandi styður dómkröfur sínar viðsakarregluna, meginreglur um vinnuveitanda­ábyrgð og sakamálalög nr. 88/2008.Þá styðji stefnandi dómkröfur sínar við meginreglur skaðabótaréttar, svo semregluna um vinnuveitendaábyrgð. Byggir stefnandi jafnframt kröfu sína ámeðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins og stjórnskipunarréttarins og á lögreglulögum,en viðurkenningarkröfu sína byggi hann á 2. mgr. 25. gr. laga um meðferðeinkamála nr. 91/1991. Einnig byggi stefnandi á þeim lagaákvæðum ogréttarreglum sem þegar hafi verið nefndar, sem og reglum skaðabótaréttar umsérfræðiábyrgð og sennilega afleiðingu og á skilyrðiskenningunni. Hvaðmálskostnað varði sé vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.IV.Stefndi bendir á vegna kröfustefnanda um viðurkenningu skaðabótaskyldu sem byggi á 2. mgr. 25. gr. laga nr.91/1991 um meðferð einkamála að í fjölda dóma Hæstaréttar hafi tilvitnað ákvæðiverið skýrt með þeim hætti að sá sem höfði mál til viðurkenningar áskaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrirtjóni og gera grein fyrir í hverju tjón hans felist svo og tengslum þess viðhið ætlaða skaðaverk. Í máli þessu liggi fyrir að stefnandifékk dómkvadda tvo matsmenn sem skiluðu matsgerð 10. september 2014. Óskað varm.a. eftir mati á því hvort orsakatengsl væru til staðar á milli valdbeitingarlögreglu gagnvart stefnanda og þess líkamstjóns sem hann varð fyrir. Á bls. 18í undirmatsgerð sé gerður reki að því að svara ofangreindri spurningu. Séniðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna á þann veg að ekki séu orsakatengsl millivaldbeitingar lögreglu gagnvart stefnanda og þess líkamstjóns sem hann varðfyrir. Stefnandi geri reyndar grein fyrir þessari niðurstöðu í stefnu en teljiekki tækt að byggja á niðurstöðu matsgerðarinnar. Matið hafi engu að síðurverið unnið af tveimur óvilhöllum aðilum. Í matsgerð sé reifað ástand stefnandadagana fyrir tjónsatburð. Komi þar m.a. fram að stefnandi hafði ekki sofið í umfimm sólarhringa og farið í líkamsrækt u.þ.b. þrisvar sinnum á dag. Einnig hafi hann verið hálf manískurog talað um fátt annað en orkugelið sem hann ætlaði að hefja innflutning á. Taki matsmenn undir álit U,yfirlæknis á gjörgæsludeild þar sem fram komi að það væri útilokað að stefnandihefði lifað með eins lágt sýrustig og mældist í honum nema að líkaminn hefðifengið einhvern tíma til aðlögunar.Að mati U sé líklegast að þarna hafiverið um að ræða tveggja eða þriggja daga ástand áður en stefnandi hafi farið íhjartastopp og að þetta lága sýrustig tengist inntöku orkugels/orkudrykkjadagana áður.Eins og áður segir hafi niðurstaðahinna dómkvöddu matsmanna verið sú að ekki væru orsakatengsl millivaldbeitingar lögreglu og líkamstjóns. Byggi það m.a. á vitnisburði húsráðandaum að stefnandi hafi þegar verið meðvitundarlaus áður en hann skall í gólfið ogauk þess hafi hann skollið á hnakkann en ekki brjóstið eins og H læknir taldiað gæti verið hugsanleg skýring. Niðurstaða dómkvaddra undirmatsmannageri það að verkum að dómkrafa stefnanda um viðurkenningu á bótaskyldu fullnægiekki þeim kröfum sem 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 geri til slíkra krafna umviðurkenningu.Stefndi bendi á að samkvæmt gögnummálsins séu ekki tengsl milli tjóns og atvika máls og beri því í samræmi viðfjölmörg dómafordæmi að vísa þessari kröfu frá dómi sjálfkrafa (ex officio)nema dómurinn komist að annarri niðurstöðu en hinir dómkvöddu matsmenn sbr. 66.gr. laga nr. 91/1991.Varðandi kröfu stefnanda ummiskabætur að fjárhæð 3.000.000 kr. vill stefndi að fram komi að á þeim tímaþegar atburðir gerðust lá stefnandi undir grun um eignaspjöll og fíkniefnalagabrot.Hafði stefnandi einnig lagt nágrannasína í stórhættu með því að henda þungum hlutum fram af svölum og það hafi ekkiverið honum að þakka að enginn varð fyrir þeim hlutum. Var þetta leiksvæðibarna og útiverusvæði. Stefnandi hafi hlaupið um nakinn að því er virtistblóðugur og vopnaður golfkylfu. Hann hafi fundist í húsi þar sem hann átti ekkierindi og var ástand hans með þeim hætti að tryggja þurfti návist hans ogöryggi.Með þessu framferði hafi stefndivaldið eða a.m.k. stuðlað að þeim aðgerðum sem hann nú reisir kröfur sínar á,sbr. 2. og 3. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt undirmati hafi stefnandisjálfur komið sér í það ástand sem leiddi til þeirrar niðurstöðu sem orðin er. Handtakan hafi ekki verið ólögmæt ogekki um að ræða óþarflega harkalegar aðgerðir samkvæmt þeim skýrslum sem liggifyrir. Í 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 komi fram skilyrði fyrir handtöku enþar segi m.a. að lögreglu sé rétt að handtaka mann ef rökstuddur grunur leikurá að hann hafi framið brot sem sætt getur ákæru, enda sé handtaka nauðsynlegtil að koma í veg fyrir áframhaldandi brot o.s.frv.Í þessu máli hafi legið fyrirrökstuddur grunur um ýmis brot og þótt ekki hafi verið ákært breyti það þvíekki að ákvörðun um að handtaka stefnanda hafi verið rétt og uppfyllt skilyrðilaganna. Ástæða þess að ákæra hafi ekki verið gefin út sé sú aðheilsufarsástand stefnanda eftir þessa atburði hafi ekki gefið tilefni til aðákæra og ná fram sakfellingu.Varðandi röksemdir stefnanda um aðlögreglu hafi verið óheimilt að fara inn og sækja hann í sturtu bendir stefndiá að húsráðandi hafi ekki gert neina athugasemd við lögreglu eftir atburðinn néheldur hafi hann varnað lögreglu inngöngu. Eins og húsráðandi lýsti atburðumeftir á hafi hann sagt stefnanda hafa öskrað og látið einkennilega í sturtunni.Það sé ekki rétt sem fram komi í stefnu að húsráðandi hafi verið því alfariðmótfallinn að lögregla færi inn á heimili hans.Auk þess eigi hér við ákvæði 2. mgr.75. gr. laga nr. 88/2008. Full ástæða hafi verið fyrir lögreglu,miðað við upplýsingar vitna og aðstæður í [...], að hafa áhyggjur af og eltastefnanda. Hafi upplýsingar gefið tilefni til að ætla að hann gæti veriðsjálfum sér og öðrum hættulegur og við þær aðstæður hafi hann verið eltur oghandtekinn.Varðandi meðalhóf þá hafi þess veriðgætt við handtökuna og miðað við þá aðstöðu sem var til staðar. Þá liggi það fyrir samkvæmt gögnummálsins að stefnandi hafi misst meðvitund vegna eigin neyslu og skorts á svefniog það síðan leitt til hjartastopps eins og segi á bls. 19 í undirmati. Þannig sé ekkert í gögnum málsins sembendi til að lögregla hafi gengið lengra en ástæða var til eða brotið gegnmeðalhófsreglu.Tilvísun stefnanda til 26. gr.skaðabótalaga nr. 50/1993 er hafnað enda eigi skilyrði þeirrar greinar ekki viðhér. Hvorki sé um að ræða ásetning né stórfellt gáleysi af hálfu lögreglu íþeirri atburðarás sem þarna varð.Eins og fram sé komið hafi legiðfyrir rökstuddur grunur um ætlaða refsiverða háttsemi stefnanda og lögreglataldi lögmæt skilyrði til staðar til að handtaka hann. Aðgerðin hafi ekki veriðharkalegri en ástæða var til en stefnandi hafi barist kröftuglega á móti einsog fram komi í gögnum málsins.Samkvæmt 2. mgr. 228. gr. laga nr.88/2008 megi lækka eða fella niður bætur ef sakborningur hefur valdið eðastuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á. Það ákvæði eigi við íþessu máli.Þar sem stefnandi málsins hafi komiðsér sjálfur í það ástand sem leiddi til þeirra afleiðinga sem urðu beri hannsjálfur ábyrgð á því sem gerðist.Stefnandi beri sönnunarbyrði fyriröllu sem bótakröfu hans viðkemur m.a. um sök, ólögmæti, orsakasamband ogsennilega afleiðingu. Stefndi byggi á því að ekki séu til staðar skilyrði tilað dæma bætur í máli þessu.Tilvísun stefnanda tilstjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 ogrökstuðningi er vísað á bug.Ef fallist verður á með stefnanda aðstefndi sé bótaskyldur er gerð krafa um verulega lækkun frá dómkröfumstefnanda. Sé ljóst að stefnufjárhæðin sé fjarri því sem dómaframkvæmd hefurtalið eðlilegt í bótamálum af þessum toga. Engin rök liggi til þess að breytaþeirri framkvæmd í þessu máli.Bótafjárhæðin sjálf sé ekki byggð áneinum rökum. Enginn grundvöllur sé fyrir fjárhæðinni né heldur reynt að sýnafram á í hverju tjónið er fólgið. Sé kröfufjárhæðin þannig órökstudd með öllu.Að öðru leyti er vísað tilmálsástæðna og lagaraka varðandi aðalkröfu stefnda. Stefnandi vísar ummálskostnað til 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.V.Stefndi reifar ígreinargerð sjónarmið sem hann telur að leiða eigi til frávísunar málsinssjálfkrafa (ex officio) sökum þess að stefnandi hafi ekki sannað orsakatengsl ámilli aðgerða lögreglu og þess ástands sem stefnandi búi við í dag. Því hafiekki tekist sönnun um að stefnandi hafi, vegna ætlaðs skaðaverks, orðið fyrirfjárhagslegu tjóni og því ekki fullnægt skilyrði 2. mgr. 25. gr. laga nr.91/1991, um meðferð einkamála, til að höfða viðurkenningarmál. Rétt er að íundirmati var ekki talið að valdbeiting lögreglu hefði átt þátt í hjartastoppihjá stefnanda. Í yfirmati kom hins vegar fram að matsmenn töldu líklegt aðvaldbeiting hefði átt þátt í hjartastoppinu. Fyrir dómi kom fram hjá öllumyfirmatsmönnum að með þessu væri átti við meiri líkur en 50%. Í ljósi þessa ogþeirrar staðreyndar að stefnandi er metinn til 100% varanlegrar örorku og 100stiga miska vegna þessa atviks verður að telja að stefnandi eigi rétt á því aðum kröfu hans verði fjallað efnislega og skilyrðum 2. mgr. 25. gr. sé þvífullnægt.Ekki er gerður ágreiningurum aðdraganda þess að lögregla kom umrætt sinn að [...] í Kópavogi. Tilkynninghafði borist um átök og að maður vopnaður golfkylfu væri fyrir utan húsið. Einnig var tilkynnt ummann sem væri að rústa íbúð á fjórðu hæð. Er lögreglumenn komu á staðinn varþeim sagt að nakinn maður vopnaður golfkylfu hefði hlaupið í átt að kirkjuskammt frá og haft í hótunum við nærstadda. Þegar að [...] var komið varlögreglu tilkynnt af aðilum á vettvangi að maðurinn hefði hlaupið inn íkjallaraíbúð að [...]. Framburður lögreglumanna sem ástaðinn komu er einróma um að húsráðandi í íbúðinni sem stefnandi hafði fariðinn í hafi á engan hátt sett sig á móti því að lögregla kæmi inn og verður ekkiheldur annað ráðið af framburði hans sjálfs fyrir dómi 30. september 2015. Einsog atvikum hefur verið lýst verður að líta svo á að ekkert bendi til þess aðlögregla hefði þurft að afla sér húsleitarheimildar í umrætt sinn og hefurþetta atriði enga þýðingu við úrlausn málsins. Framburður lögreglumanna fyrir dómium ástandið á stefnanda þegar lögregla kom að honum er ekki með öllu samhljóðaenda gerðust atburðir fyrir næstum sjö og hálfu ári síðan. Um hitt erulögreglumenn sammála, að þegar reynt var að tjónka við stefnanda og handtakahann lét stefnandi öllum illum látum. Eitt vitnanna sagði að hann hefði veriðviti sínu fjær, annað að hann hefði fengið æðiskast, þriðja vitnið lýsti þvísvo að hann hefði verið kolvitlaus, streist á móti og verið í sturlunarástandi,fjórði lögreglumaðurinn sagði stefnanda hafa öskrað óstjórnlega og hafi hannverið í öðrum heimi. Allir voru lögreglumennirnir sammála um að nauðsynlegthefði verið að handtaka stefnanda við þær aðstæður sem höfðu skapast en þeirhefðu ekki náð neinu sambandi við stefnanda sökum ástands hans. Þá kom fram aðaðstæður hefðu verið nokkuð hættulegar og nauðsynlegt að forða stefnanda fráþví að skaða sjálfan sig miðað við aðstæður á baðherberginu og ástandstefnanda. Lögregla taldi fullljóst að handtaka færi fram ef sömu aðstæðursköpuðust að nýju. Ekkert er heldur komið fram í málinuum að handtakan hafi verið óþarflega harðneskjuleg en lögreglumaður semfylgdist með álengdar taldi hana hafa verið fumlausa og gengið hratt fyrir sig.Framburður húsráðanda um að lögreglumaður hafi sett hné í bak stefnanda færekki stuðning í öðrum gögnum málsins og jafnvel þótt um slíkt hefði verið aðræða þá verður því ekki slegið föstu að það hefði verið eitthvert úrslitaatriðium það sem á eftir kom, auk þess sem að til sanns vegar mætti þá og færa aðnauðsynlegt hefði verið að beita slíkum tökum á stefnanda miðað við ástandhans. Hið sama gildir um þann framburðhúsráðanda að stefnandi hafi skollið með hnakkann í gólfið þegarlögreglumennirnir hafi misst hann. Þeir fjórir lögreglumenn sem komu fyrirdóminn staðhæfðu að þetta hefði ekki gerst og til þess er að líta þegarframburður húsráðanda er metinn að aðstæður voru mjög þröngar inni á baðinu ogjafnframt nokkur þröng á þingi þegar handtakan átti sér stað en samkvæmtlögregluskýrslu verður ekki betur séð en að sex lögreglumenn hafi veriðviðstaddir handtöku stefnanda. Sama gildir hér og um að lögreglumaður hafi setthné í bak stefnanda að ekki liggur fyrir nein sönnun um það í málinu að svonafall hafi getað valdið hjartastoppinu. H hjartalæknir taldi hins vegar í vottorðiað högg á brjóst gæti valdið hjartastoppi. Ekki er heldur óvarlegt að ætla aðef litið yrði, þrátt fyrir framangreint, svo á að lögregla hefði misststefnanda á gólfið í baðherberginu hefði það verið vegna mikillar bleytu ágólfinu, vegna þess að stefnandi var sjálfur rennblautur og sleipur og vegnaerfiðra aðstæðna og yrði þá talið til óhappatilviks. Með vísan til alls framangreindstelur dómurinn með öllu ósannað að lögreglumenn hafi gerst sekir um saknæmaháttsemi við handtöku stefnanda eða að handtakan hafi verið ólögmæt af öðrumorsökum. Verður ekki annað séð en að aðstæður umrætt sinn við handtökuna hafiverið með þeim hætti sem greinir í 1. mgr. 90. gr. laga um meðferð sakamála nr.88/2008 eða í 2. mgr. 93. gr. laganna og má til sanns vegar færa að reynt hafiverið að gæta þess eftir föngum að stefnandi ynni tjón á sjálfum sér eða öðrum,sbr. síðari málslið þess ákvæðis. Eins og ástandi stefnanda hefur verið lýstverður ekki séð að hægt hefði verið að beita vægari úrræðum umrætt sinn ogverður því talið að meðalhófs hafi verið gætt.Ekki verður fallist á að framangreindlagafyrirmæli eigi ekki stoð í stjórnarskrá sbr. 1. mgr. 67. gr. hennar eðabrjóti gegn mannréttindasáttmála Evrópu.Ekkert bendir til þess að aðgerðirlögreglu hafi verið óheimilar og óþarflega harkalegar eins og stefnandi byggirá. Því eru engin efni til að fallast á bótaskyldu stefnda á grundvelli almennusakarreglunnar og reglna um ábyrgð vinnuveitanda á starfsmönnum sínum.Stefnandi byggir kröfu sína jafnframtá 3. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Stefnandi byggir ekkiá því í stefnu málsins að 1. mgr. ákvæðisins eigi við en nefndi það viðaðalmeðferð að málið gegn stefnanda hefði verið fellt niður. Lögmaður stefndabenti á að sú ákvörðun hefði einvörðungu byggst á heilsubresti stefnanda og erekki ástæða til að draga þá fullyrðingu í efa miðað við málsatvik. Þettaskiptir þó ekki meginmáli því fjalla verður um þátt stefnanda í atburðarásinnihvort sem byggt yrði á 1. eða 3. mgr. 228. gr. sbr. 2. mgr. og síðari málslið3. mgr. Dómurinn telur fram komna sönnun ímálinu um að stefnandi hafi verið í geðrofsástandi umrætt sinn. Byggir þetta áframburði lögreglumanna og vitna fyrir lögreglu, framburði matsmanna fyrir dómiásamt geðrannsókn P geðlæknis og framburðar hans fyrir dómi. Því verður slegið föstu að stefnandihafi valdið því með hegðan sinni að lögregla taldi brýna nauðsyn bera til þessað handtaka hann umrætt sinn. Lögmaður stefnanda tefldi því fram viðaðalmeðferð málsins að ef gengið yrði út frá því að stefnandi hefði verið ígeðrofi við handtökuna þá hafi hann ekki gert sér grein fyrir hátterni sínu ogþví ekki verið meðvitaður um að hegðan hans væri til þess fallin að leiða tilhandtöku lögreglu. Því verði bótaskyldu ekki hafnað á grundvelli seinnimálsliðar 3. mgr. 228. gr. Dómurinn hafnar þessu sjónarmiði ogverður lagt til grundvallar að aðili sem kemur sér í ástand sem gerir það aðverkum að hann gerir sér ekki grein fyrir gjörðum sínum, er jafnan í slíkuástandi eða lendir í því af einhverjum orsökum, geti ekki byggt á þessu ákvæðief viðkomandi sannlega kallar yfir sig lögregluaðgerð s.s. handtöku eins og íþessu máli. Telja verður að slíkt hefði þurft að koma skýrt fram í ákvæðinusjálfu ef ráðagerð löggjafans var hin gagnstæða.Ályktun í framangreinda veru má og aðmati dómsins byggja á þeim grunnrökum sem búa að baki reglunni um óðs mannsvíg, í 8. kapítula Mannhelgisbálks Jónsbókar, þótt aðstaðan sem þar er lýst sévissulega önnur. Með vísan til framangreinds verðurþví talið að stefnandi hafi sjálfur valdið aðgerðum lögreglu og með þvífyrirgert rétti sínum til bóta samkvæmt 228. gr. laga nr. 88/2008, um meðferðsakamála. Niðurstaða dómsins er því sú aðstefndi beri hvorki bótaábyrgð í málinu á grundvelli almennu sakarreglunnar néá grundvelli þeirrar hlutlægu reglu sem 228. gr. geymir.Af framangreindu virtu er ekki ástæðatil umfjöllunar um hvort það hafi verið handtaka lögreglunnar sem olli því aðhluta eða öllu að stefnandi lenti í hjartastoppi eða hvort það hafi verið fyrstog fremst ástand stefnanda sjálfs. Hið sama gildir um þá málsástæðu hvort þaðað stefndi lenti í hjartastoppi geti talist sennileg afleiðing af lögmætumaðgerðum lögreglu. Með vísan til framangreinds verðurþví stefndi sýknaður af kröfum stefnanda. Rétt þykir að málskostnaður falliniður. Stefnandi hefur lagt framgjafsóknarleyfi í málinu sem útgefið var 5. júlí 2012 og því greiðist málkostnaður hans úr ríkissjóði. Að hafðri hliðsjón afmálskostnaðarkröfu lögmanns stefnanda sem byggir á tímaskráningu og umfangimálsins er þóknun lögmanns ákveðin 1.800.000 krónur að meðtöldumvirðisaukaskatti. Fyrir hönd stefnandaflutti málið Steingrímur Þormóðsson hæstaréttarlögmaður og fyrir hönd stefnda,Ólafur Helgi Árnason hæstaréttarlögmaður. Dómþennan kveða upp Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari, dómsformaður, ogmeðdómsmennirnir Davíð O. Arnar hjartalæknir og Nanna Briem geðlæknir.D Ó M S O R ÐStefndi, íslenska ríkið, er sýknaðuraf kröfum stefnanda A. Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnandagreiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns hans, 1.800.000 krónur.
Mál nr. 59/2017
Kærumál Gæsluvarðhald
X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 4. mgr., sbr. 5. mgr. 105., gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.
Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir HelgiI. Jónsson og Karl Axelsson og Davíð Þór Björgvinsson settur hæstaréttardómari.Varnaraðiliskaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. janúar 2017, sem barst réttinum ásamtkærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27.janúar 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi tilföstudagsins 10. febrúar 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192.gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að„Hæstiréttur hafni gæsluvarðhaldi“, en til vara að gæsluvarðhaldinu verðimarkaður skemmri tími. Sóknaraðilihefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.Í1. mgr. 67. gr. stjórnarskráinnar segir að engan megisvipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum.Í f. lið 1. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, ergert ráð fyrir að heimilt sé að svipta mann frelsi sem vísa á úr landi. Í 4. mgr. 105. gr. laga nr. 80/2016 umútlendinga segir að beri nauðsyn til, í því skyni að tryggja framkvæmdákvörðunar, sé heimilt að handtaka útlending og úrskurða í gæsluvarðhaldsamkvæmt lögum um meðferð sakamála eftir því sem við á. Þá segir í 5. mgr. 105.gr. sömu laga að gæsla skuli ekki ákveðin lengur en í tvær vikur og aðgæslutíma megi því aðeins framlengja að útlendingurinn fari ekki sjálfviljugurúr landi og líkur séu á að hann muni annars koma sér undan framkvæmdákvörðunar, sbr. 104. gr. laganna. Megi þá framlengja frestinn í allt að tværvikur en þó ekki oftar en tvisvar.Uppfyllt eru skilyrði 4. mgr., sbr. 5. mgr., 105. gr.laga nr. 80/2016 til þess að sóknaraðili sæti gæsluvarðhaldi eins og krafister. Verður niðurstaða héraðsdóms því staðfest. Dómsorð:Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Þóknun verjanda sóknaraðila, Garðars SteinsÓlafssonar héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti,124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.ÚrskurðurHéraðsdóms Reykjavíkur 27. janúar 2017 Lögreglustjórinná höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að Xkt. [...] verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til föstudagsins 10. febrúar2017 kl. 16:00. Ígreinargerð lögreglu kemur fram að bakgrunnur málsins sé sá að þann 12. febrúar sl.hafi Útlendingastofnun tekið ákvörðun um að réttur kærða til dvalar á landinuhafi verið felldur niður og hafi sú ákvörðun verið staðfest með úrskurðikærunefndar útlendingamála þann 28. júlí sl. Þann 14. desember sl. hafiákvörðun Ríkislögreglustjóra verið birt fyrir kærða í samræmi við 33. gr. a.útlendingalaga um að honum yrði gert skylt að mæta á lögreglustöðina áHverfisgötu 113 í Rvk. klukkan 14:00 á hverjum virkum degi næstu 30 daga frábirtingu ákvörðunarinnar. Fyrir liggi að kærði hafiaðeins tilkynnt sig einu sinni hjá lögreglu, þ.e. þann 15. desember. Eftir þaðhafi kærði aldrei komið aftur á lögreglustöðina til að sinnatilkynningarskyldunni. Þann 30. desember sl. hafikærði svo verið handtekinn, grunaður um stórfellda líkamsárás, með því að hafaslegið annan mann í andlitið með hækju og ítrekað slegið hann hnefahöggum íandlitið. Kærði hafi síðan verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli 33.gr. a. laga um útlendinga nr. 96/2002 með úrskurði héraðsdóms þann 31. desembertil 13. janúar sl. Sá úrskurður hafi síðan verið staðfestur með dómiHæstaréttar í máli nr. 2/2017. Kærði hafi svo sætt áframhaldandi gæsluvarðhaldisamkvæmt dómi Hæstaréttar frá 19. janúar sl. í máli nr. 32/2017. Kærða hafi nú verið birtbréf frá Útlendingastofnun um hugsanlega brottvísun og sé því mál hans enn tilmeðferðar hjá stofnuninni og því nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæsluvarðhalditil að tryggja framkvæmd ákvörðunar hennar. Með vísan til þess að kærðihafi í engu sinnt lögboðinni tilkynningarskyldu sem á honum hafi hvílt auk þesssem hann liggi undir rökstuddum grun um að hafa framið alvarlega líkamsárásverði að telja að skilyrði 4., sbr. 5. mgr. 105. gr. laga um útlendinga nr.80/2016 og sbr. áður 33. gr. a. laga um útlendinga nr. 96/2002 séu uppfyllt tilað kærði sæti gæsluvarðhaldi til að tryggja framkvæmd ákvörðunarÚtlendingastofnunar. Með vísan tilframangreinds, framlagðra gagna og 105. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 ogsbr. áður 33. gr. a. laga um útlendinga nr. 96/2002 og viðeigandi ákvæða lagaum meðferð sakamála nr. 88/2008 sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.Niðurstaða: Einsog rannsóknargögn málsins greina, og vikið er að í greinargerð sóknaraðila,hefur kærunefnd útlendingamála staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar þess efnisað réttur varnaraðila til dvalar á Íslandi skuli felldur niður og hefur kærðaauk þess nú verið birt bréf Útlendingastofnunar frá 19. janúar sl. umhugsanlega brottvísun. Hinn14. desember sl. var birt fyrir varnaraðila ákvörðun Ríkislögreglustjóra um aðhonum væri skylt að tilkynna sig daglega á lögreglustöð næstu 30 daga. Súákvörðun var reist á heimild í 1. mgr. 33. gr. a í þágildandi útlendingalögumnr. 96/2002. Fyrir liggur að varnaraðili sinnti þessari skyldu einungis einu sinni, þann 15. desember sl. Samkvæmt105. gr. í núgildandi útlendingalögum nr. 80/2016 er tóku gildi 1. janúar sl. erheimilt að handtaka útlending og úrskurða í gæsluvarðhald samkvæmt lögum ummeðferð sakamála, eftir því sem við á, sé það nauðsynlegt til að tryggjaframkvæmd ákvörðunar um að útlendingur yfirgefi landið. Varnaraðilivar handtekinn 30. desember sl. grunaður um alvarlega líkamsárás.Samkvæmt rannsóknargögnum varð vitni að líkamsárásinni sem greindi lögreglu fráþví að varnaraðili hefði lamið brotaþola ítrekað í andlitið með hækju. Dómariinnti aðstoðarsaksóknara eftir því, við munnlegan málflutning um kröfu þá semhér er til meðferðar, hvort krafa um gæsluvarðhald væri byggð að einhverjuleyti á þessari líkamsárás sem varnaraðili er grunaður um. Því neitaðiaðstoðarsaksóknari og kvað kröfuna einvörðungu reista á ákvæðum íútlendingalögum nr. 80/2016. Varnaraðilihefur nú setið í gæsluvarðhaldi frá 31. desember sl. Í fyrstu samkvæmt úrskurðiHéraðsdóms Reykjavíkur sem staðfestur var í Hæstarétti í málinu nr. 2/2017.Héraðsdómur byggði þar úrskurð sinn á 4. mgr. 33. gr. a., þágildandiútlendingalaga. Hæstiréttur staðfesti úrskurðinn með vísan til c liðar 1. mgr.og 3. mgr. 115. gr. útlendingalaga nr. 80/2016 sbr. 3. og 4. mgr. 33. gr. eldrilaga. Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði því að framlengja gæsluvarðhald yfirvarnaraðila með úrskurði 13. janúar sl., þar sem talið var að slík niðurstaðayrði ekki byggð á c. lið 1. mgr. 115. gr. laga nr. 80/2016. Hæstiréttur sneriþeirri niðurstöðu við í málinu nr. 32/2017 og taldi að uppfyllt væru skilyrði4. mgr. sbr. 5. mgr. 115. gr. útlendingalaga. Ekkier gerður ágreiningur um að varnaraðili sinnti ekki lögboðinnitilkynningarskyldu sinni samkvæmt 33. gr. þágildandi laga eins ogríkislögreglustjóri hafði boðið honum að gera. Áhinn bóginn fær dómurinn í fljótu bragði vart séð af gögnum málsins, hvaðabrýnu hagsmunir krefjist þess nú að jafn viðurhlutamiklu úrræði sé beitt íþessu máli; úrræði sem skerðir með jafn afdráttarlausum hætti einmikilsverðustu mannréttindi sem einstaklingar njóta. Þannigeru ekki sjáanlegir rannsóknarhagsmunir í málinu sem kalla á að úrræðinu sébeitt. Sóknaraðili hefur jafnframt lýst því að það afbrot sem varnaraðili ergrunaður um hafi hér engin áhrif, enda telur dómurinn að gæsluvarðhalds bæri þáað krefjast á öðrum grundvelli en þeim sem hér um ræðir. Útlendingastofnunhefur nýverið birt fyrir varnaraðila tilkynningu um hugsanlega brottvísun ogendurkomubann. Engar upplýsingar liggja hins vegar fyrir í málinu nú sem fyrr,um það hvenær ákvörðun stofnunarinnar mun liggja fyrir og vitaskuld verður þvíheldur ekki slegið föstu hér hver niðurstaðan síðan verður. Því geturniðurstaðan hæglega orðið sú, miðað við málshraða sem til umræðu hefur verið ísamfélaginu, þegar um málefni útlendinga ræðir, að eftir tveggja viknaáframhaldandi gæsluvarðhald, verði staða varnaraðila sem og eftirlits- ogúrskurðaraðila hin sama, en gæsluvarðhaldsúrræðið yrði þá ekki lengur tiltæktsbr. 5. mgr. 105. gr. laga nr. 80/2016. Íþessu sambandi er áréttað að gæsluvarðhald undir þessum kringumstæðum er hér,líkt og endranær, og eðli máls samkvæmt, neyðarúrræði og einnig að um er aðræða heimildarákvæði sbr. orðalag þess. Því verða að liggja til grundvallarmjög veigamikil rök til að beita úrræðinu og fyrirsjáanlegt verður að vera, aðbeiting þess geti raunverulega leitt til þess að tilgangi stjórnvalda verðináð. Þáhefur að mati dómsins ekki verið rökstutt nægjanlega að meðalhófs hafi hérverið gætt, og vægari úrræðum beitt, sbr. til að mynda þeirra sem getið er í 1.mgr. 105. gr. laganna, fyrir utan úrræðis samkvæmt a. lið sem varnaraðili kausað nýta sér ekki þrátt fyrir að ekki sé hægt að segja að þar hafi verið lagðará hann miklar kvaðir. Aðstoðarsaksóknariútskýrði samkvæmt beiðni, við málflutning, að það sem fælist í því að tryggjaframkvæmd ákvörðunar Útlendingastofnunar í málefnum varnaraðila, væri einkum aðforða því að varnaraðili gæti farið huldu höfði þegar að ákvörðun lægi fyrir. Íþví sambandi má benda á að varnaraðili hefur dvalið hér á landi um nokkurtskeið og engum mótmælum var hreyft við því sem haldið var fram í málflutningi afverjanda að engum vandkvæðum hefði verið bundið að finna varnaraðila þegar hannlosnaði úr varðhaldi eftir uppkvaðningu síðasta úrskurðar HéraðsdómsReykjavíkur, fram til þess að Hæstiréttur sneri þeirri niðurstöðu við. Þráttfyrir framangreind sjónarmið þá telur dómurinn að ekki verði horft fram hjáþví, að frá því að Hæstiréttur Íslands kvað upp dóm í málinu nr. 32/2017, 19.janúar sl. hafa engar breytingar orðið í málinu, eða á högum varnaraðila, nemasú að Útlendingastofnun hefur nú birt varnaraðila framgreinda tilkynningu umhugsanlega brottvísun og endurkomubann. Því má til sanns vegar færa að frekarirök standi því til þess í dag en áður að varnaraðila verði gert að sætaáframhaldandi gæsluvarðhaldi. Þvíverður fallist á kröfu sóknaraðila eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Meðvísan til 38. gr. laga nr. 88/2008 á skipaður verjandi varnaraðila tilkall tilþóknunar sem greiðist úr ríkissjóði og þykir hæfilega ákveðin 140.000 krónur. LárentsínusKristjánsson héraðsdómari kveður uppúrskurð þennan.Ú R S K U R Ð AR O R ÐX kt. [...] skal sæta gæsluvarðhaldi tilföstudagsins 10. febrúar 2017 kl. 16:00.Þóknun verjanda varnaraðila, GarðarsSteins Ólafssonar héraðsdómslögmanns, 140.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Mál nr. 210/2008
Verksamningur Skuldamál Galli Málsástæða Afdráttarlaus málflutningur Matsgerð
H höfðaði mál til heimtu eftirstöðva vangoldinna reikninga vegna vinnu sinnar við Hellisheiðarvirkjun sem undirverktaki hjá V og til staðfestingar á kyrrsetningargerð í eigum V. Málsaðilar sömdu um verkið munnlega. V hélt því fram að H hefði tekið að sér að setja klæðningu á áhaldahús fyrir 2.755 krónur á hvern fermetra. H taldi á hinn bóginn að umrætt gjald hefði borið að greiða fyrir klæðningu á slétta fleti en aðra hluta verksins hefði átt að vinna eftir tímagjaldi, svo sem frágang við horn, glugga og hurðir. Óumdeilt var að við samningsgerð hefðu legið fyrir útlitsteikningar af áhaldahúsinu en ekki deiliteikningar af samsetningum við horn, glugga og hurðir. Með vísan til þess var talið að V bæri sönnunarbyrði um að verksamningur aðila hefði verið með öðru efni en H hélt fram. Þá mótmælti V ekki reikningum og vinnuskýrslum H fyrr en 13 af 14 reikningum höfðu verið gefnir út, sem honum hefði borið að gera samkvæmt 47. gr. laga nr. 50/2000. Þá hélt V því fram að vinna H hefði verið haldin ýmsum göllum sem nauðsynlegt hefði verið að lagfæra. Ekki var talið að V hefði tekist að sanna að verk H hefði verið haldið þeim gæðafrávikum sem talist hefðu getað til galla og V byggði á. Samkvæmt þessu var V dæmt til greiðslu vangoldinna reikninga. Þá var kyrrsetningargerð í eignum V staðfest til tryggingar dæmdum fjárhæðum.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson. Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 5. mars 2008, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 16. apríl 2008. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áfrýjaði hann héraðsdómi öðru sinni 17. apríl 2008. Áfrýjandi krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Stefndi tók að sér fyrir áfrýjanda að setja klæðningu á áhaldahús Orkuveitu Reykjavíkur sem reist var við Hellisheiðarvirkjun. Ágreiningur aðila lýtur að uppgjöri fyrir verkið. Í greinargerð áfrýjanda í héraði var sú málsástæða ekki höfð uppi að vinnustundir sem honum voru gerðir reikningar fyrir séu í ósamræmi við skráðar stundir í vinnuskýrslum. Í greinargerðinni var hins vegar skorað á stefnda að leggja vinnu­skýrslur fram um þau aukaverk sem stefndi teldi sig hafa unnið. Stefndi heldur því fram að tímaskýrslur hafi reglulega verið afhentar fyrirsvarsmanni áfrýjanda eða föður hans meðan á framkvæmdum stóð. Stefndi gaf út 14 reikninga fyrir verkið á tímabilinu 11. febrúar til 9. maí 2006 og hefur áfrýjandi ekki mótmælt því að þeir hafi borist honum. Í þeim reikningum, sem byggðir eru á tímagjaldi, er ávallt gerð grein fyrir fjölda tíma og á hvaða tímabili þeir hafa verið unnir. Í fimm reikninganna er áréttað sérstaklega að tímarnir séu samkvæmt skýrslum. Ekki liggur fyrir að áfrýjandi hafi andmælt reikningunum fyrr en 3. maí 2006, þegar 13 af 14 reikningum höfðu verið gefnir út, en þá ritaði lögmaður áfrýjanda stefnda bréf í tilefni af því að stefndi hafði falið lögmanni að innheimta þá reikninga sem voru í vanskilum. Andmæli áfrýjanda lutu þó ekki að því að ósamræmi væri á milli vinnuskýrslna og útgefinna reikninga heldur að því hvaða þætti verksins áfrýjanda bæri að greiða eftir tímagjaldi. Í fyrrnefndu bréfi lögmanns áfrýjanda segir meðal annars svo: „umbj. m. hafa borist tímaskýrslur, sem hann hefur ekki samþykkt fyrirfram, né eftirfarandi.“ Þessi ummæli staðfesta staðhæfingu stefnda um að áfrýjanda hafi verið afhentar tímaskýrslur. Þótt ekki verði fullyrt að áfrýjanda hafi borist þær allar verður að telja með hliðsjón af atvikum að komið hafi verið fram tilefni fyrir áfrýjanda að bera fram málsástæðu sem að þessu laut í greinargerð, vildi hann byggja varnir sínar á henni. Að þessu gættu var héraðsdómara rétt með vísan til 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að hafna málsástæðu áfrýjanda um þetta sem of seint fram kominni og kemur hún því heldur ekki til álita fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. sömu laga. Málsaðilar sömdu munnlega um verkið. Deila þeirra lýtur einkum að því hvernig samist hafi um greiðslu fyrir það. Áfrýjandi heldur því fram að stefndi hafi tekið að sér að setja klæðningu á áhaldahús fyrir 2.755 krónur á hvern fermetra. Stefndi telur á hinn bóginn að þetta gjald hafi borið að greiða fyrir klæðningu á slétta fleti en aðra hluta verksins hafi átt að vinna eftir tímagjaldi, svo sem við frágang klæðningar við horn, glugga og hurðagöt þar sem klippa þurfti til efni, enda hafi ekki verið unnt að meta fyrirfram umfang þessara verkþátta. Óumdeilt er að við samningsgerð lágu fyrir útlitsteikningar af áhaldahúsinu en ekki deiliteikningar af samsetningum við horn, glugga og hurðir. Með hliðsjón af þessu verður talið að áfrýjandi beri sönnunarbyrði um að verksamningur aðila hafi verið með öðru efni en stefndi heldur fram. Þá mótmælti áfrýjandi ekki reikningum og vinnuskýrslum stefnda fyrr en með áðurnefndu bréfi 3. maí 2006, þegar 13 af 14 reikningum höfðu verið gefnir út, svo sem honum hefði borið að gera eftir þeirri meginreglu kröfuréttar sem 47. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup er byggð á. Samkvæmt þessu hefur áfrýjandi ekki fært fram sönnun fyrir staðhæfingum sínum um efni samningsins. Áfrýjandi krefst lækkunar á kröfu stefnda vegna galla á frágangi á klæðningu áhaldahússins og kostnaðar sem áfrýjandi hafi haft af því að ljúka við klæðningu þess. Þannig hafi frágangur klæðingar við horn, vatnsbretti og hurðagöt verið gallaður. Áfrýjandi vísar um þetta til matsgerðar 15. júní 2007 sem gerð var eftir ljósmyndum, en að sögn var þá búið að lagfæra það sem talið var gallað. Í fyrrnefndri matsgerð kemur fram að ekki hafi verið til deiliteikningar af samsetningu við horn, glugga og hurðir. Í framburði Leifs Stefánssonar byggingarstjóra, sem annaðist eftirlit fyrir hönd aðalverktakans, kom fram að einhverjar deiliteikningar hefðu verið gerðar af arkitekt en þær ekki reynst fullnægjandi. Hefði þetta því verið hannað á staðnum af starfsmönnum aðalverktakans. Ekki voru haldnir verkfundir á verktíma og ekki verður séð að áfrýjandi hafi haft reglubundið eftirlit með verkinu. Þá verður ekki séð að áfrýjandi hafi komið fram með athugasemdir við verkið á meðan verktíma stóð og eða við úttekt þess. Af framansögðu athuguðu verður áfrýjandi ekki talinn hafa fært fram sönnun þess að verk stefnda hafi verið haldið þeim gæðafrávikum sem talist geti galli og stefndi beri ábyrgð á. Óumdeilt er að stefndi lauk ekki við að klæða 10% af áhaldahúsinu, en stefndi fullyrðir að það hafi ekki verið hægt bæði vegna efnisskorts og þess að verkpallar hafi verið fastir við grind hússins. Hafi hann af þessum sökum dregið 10% af umsömdu verði fyrir klæðningu á sléttum plötum við útgáfu reikninga. Áfrýjandi kveðst hafa látið ljúka við klæðningu áhaldahússins og krefur stefnda af því tilefni bóta að fjárhæð 944.200 krónur samkvæmt matsgerð. Matsgerðin er byggð á forsendum áfrýjanda um efni verksamnings aðila sem hér að framan var hafnað. Þannig er þar metinn kostnaður við frágang sem stefndi segir að ekki hafi verið lokið þegar hann hvarf frá verkinu og hann hafi því ekki gert áfrýjanda reikning fyrir. Þá felst heldur ekki í matsgerðinni sönnun um þau útgjöld sem áfrýjandi varð fyrir við að ljúka klæðningu hússins. Þar sem áfrýjandi hefur ekki fært fram gögn til að sýna fram á raunkostnað sinn hefur honum ekki tekist sönnun um að kostnaður hans hafi verið meiri en nam 10% af umsamdri þóknun til stefnda við að klæða slétta fleti áhaldahússins. Aðilar eru sammála um að til frádráttar kröfu stefnda komi 1.322.000 krónur og gera ekki ágreining um aðferð héraðsdóms við frádrátt þeirrar fjárhæðar. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Samkvæmt úrslitum málsins verður áfrýjandi með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Verkfræðistofan Rýni ehf., greiði stefnda, Hasa ehf., 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Mál þetta höfðaði Hasi ehf., Faxabraut 37c, Keflavík, með réttarstefnu útgefinni 28. júní 2006 á hendur Verkfræðistofunni Rýni ehf. Skúlagötu 44, Reykjavík. Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 19. nóvember sl. Stefnandi krefst greiðslu á 7.852.516 krónum með dráttarvöxtum skv. 6. og 9. gr. laga nr. 38/2001, af 321.280 krónum frá 26. febrúar 2006 til 15. mars sama ár, af 667.257 krónum frá þeim degi til 25. mars sama ár, af 1.148.325 krónum frá þeim degi til 12. apríl sama ár, af 2.090.931 krónu frá þeim degi til 16. apríl sama ár, af 2.418.615 krónum frá þeim degi til 26. apríl sama ár, af 3.481.845 krónum frá þeim degi til 7. maí sama ár, af 3.978.600 krónum frá þeim degi til 13. maí sama ár, af 4.150.108 krónum frá þeim degi til 24. maí sama ár, en af stefnufjárhæðinni allri frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 3.702.408 krónum, sem stefndi hafi greitt inn á skuld sína við stefnanda og tekið hafi verið tillit til við dráttarvaxtakröfu. Þá krefst stefnandi staðfestingar kyrrsetningar sýslumannsins í Reykjavík í eignum stefnda sem fram fór 22. júní 2006. Loks krefst stefnandi málskostnaðar. Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda. Til vara krefst hann þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar að mati dómsins. Stefnandi kveðst höfða mál þetta til heimtu eftirstöðva vangoldinna reikninga vegna vinnu sinnar við Hellisheiðarvirkjun sem undirverktaki hjá stefnda, svo og til staðfestingar á kyrrsetningargerð er fór fram 22. júní 2006. Í skýrslum þeirra Hjalta Ástþórs Sigurðssonar, fyrirsvarsmanns stefnanda, Odds Björns Sveinssonar, samstarfsmanns hans, og Ingibergs Ragnarssonar, forsvars­manns stefnda, kom fram að þeir hittust á Englandi og ræddu verkefnið og sömdu svo um að stefnandi tæki að sér að klæða áhaldahús Hellisheiðarvirkjunar. Stefndi kemur að verkinu sem undirverktaki hjá ÞG verktökum, sem voru aðalverktakar hjá Orku­veitunni við byggingu virkjunarinnar. Hjalti og Oddur héldu því fram að það hafi verið ákveðið verð á hvern fermetra af sléttum flötum, 2.755 krónur, en annað yrði unnið fyrir ákveðið tímagjald. Sagði hann að ekki hefði verið hægt að bjóða ákveðið verð í verkið þar sem ekki hafi verið búið að teikna allar útfærslur. Ingibergur Ragnarsson hélt því fram að þetta verð á hvern fermetra hefði gilt um allt verkið. Hann hefði lagt bann við því að unnin yrðu aukaverk nema samkvæmt sinni beiðni. Aðeins hafi verið samþykkt eitt aukaverk. Stefnanda hafi verið falin smíði vinnupalla við húsið þegar starfsmenn hans mættu til starfa. Forsvarsmaður stefnanda hélt því fram að samið hefði verið um að greitt yrði fyrir tíu tíma vinnu, en unnið hafi verið frá klukkan átta að morgni til klukkan sex síð­degis. Eftirlit með verkinu hafi að mestu verið í höndum Leifs Stefánssonar, byggingarstjóra hjá ÞG verktökum, en það fyrirtæki var aðalverktaki við framkvæmdina. Ingibergur Ragnarsson, eða faðir hans, sem var á staðnum hafi reglulega fengið vinnuskýrslur. Aukaverk hafi flest verið unnin að beiðni Leifs Stefánssonar, sum þó að beiðni Ingibergs Ragnarssonar. Ingibergur Ragnarsson bar á hinn bóginn að hann hefði ekki fengið nema sumar vinnuskýrslurnar. Í bréfi lög­manns stefnda 3. maí 2006, sem var svarbréf við innheimtubréfi lögmanns stefnanda, eru gerðar nokkrar athugasemdir, sem sýna þó að einhver hluti vinnuskýrslna hefur verið kominn í hendur stefnda. Er tekið fram að stefndi hafi ekki samþykkt vinnu­skýrslur sem honum hafi borist. Stefnandi hefur lagt fram afrit 14 reikninga á hendur stefnda. Á sex af afritunum er skráð að þeir séu greiddir. Ógreiddu reikningarnir eru átta talsins og samtals að fjárhæð 3.482.851 krónur. Þeir reikningar sem greiddir hafa verið eru samtals að fjárhæð 4.369.665 krónur. Frá tveimur þeim fyrstu var þó dregin fjárhæð vegna matar annars vegar og hins vegar vegna kaupa stefnanda eða forsvarsmanns hans á hlut stefnda í fyrirtækinu Blue Steel Construction ltd. Fyrir dómi hélt Ingibergur Ragnarsson því fram að stefnandi ætti að greiða sér 350.000 krónur vegna fæðis sem starfsmenn stefnanda nutu á vinnustaðnum. Hjalti Sigurðsson staðfesti þetta. Þá hélt Ingibergur því fram að draga hefði átt frá reikningum vegna verksins skuld stefnanda við sig vegna kaupa á hlut í áðurnefndu fyrirtæki í Bretlandi. Hjalti Sigurðsson kvaðst hafa samþykkt þessa tilhögun þegar Ingibergur dró frá reikningunum, en ekki hefði verið samið um þessa tilhögun fyrirfram. Fram kemur í stefnu að stefnandi hætti störfum við verkið 9. maí 2006. Hafi verkinu þá verið lokið nema klæðningu á þeim stöðum sem vinnupallar hindruðu framkvæmd verksins. Kveðst stefnandi hafa dregið 10% frá reikningum sínum vegna þessa, í samráði við Leif Stefánsson, eftirlitsmann aðalverktakans. Hjalti Sigurðsson sagði fyrir dómi að þeir hefðu hætt vegna þess að þeir fengu ekki greitt. Byggingar­stjórinn hafi verið sáttur við að þær hættu. Ingibergur Ragnarsson bar hins vegar að verkkaupi hefði ekki verið reiðubúinn til að taka við verkinu. Kvaðst hann hafa fengið aðra menn til að ljúka við það. Hafi það kostað sig um 1.500.000 krónur. Leifur Stefánsson bar að aðalverktakinn hefði lokið verkinu og að Ingibergur hefði einnig lagt til einn mann. Eitthvað hefði síðan verið lagfært eftir að úttekt var gerð. Hann kvaðst ekki muna eftir því að stefnandi hefði verið beðinn um að laga eitthvað. Þann 30. janúar 2007 var að kröfu stefnda dómkvaddur matsmaður til að meta ýmis atriði varðandi verk stefnanda. Matsgerð Auðuns Elíssonar byggingarfræðings er dagsett 15. júní 2007. Fram kemur í matsgerðinni að hún sé takmörkuð við þær upplýsingar sem fram komi í málsgögnum, en þegar matsmaður skoðaði húsið hafði verið lokið við klæðningu og gert við meinta galla. Í fyrsta lið matsgerðar kemur fram, sem raunar er óumdeilt, að stefnandi hafi ekki lokið við að klæða alla útveggi. Þá segir: „Erfitt er að greina á fyrirliggjandi teikningum hvernig hver hluti klæðningarinnar hafi átt að vera útfærður, einnig hvernig útfærslur á samsetningum við horn og glugga og hurðaáfellur/klæðningar hafi átt að vera þar sem engar deiliteikningar eru til staðar. Þegar myndir eru skoðaðar þá má greina að samsetningar og tengingar klæðningar séu ekki með þeim hætti að teljast megi fullnægjandi frágangur. Einnig að samsetning við úthorn sé ekki með fullnægjandi hætti.“ Í öðrum lið er tekið fram að kostnaðartölur í matsgerð séu miðaðar við að framkvæmd sé unnin af öðrum aðila en matsþola og að ekki sé litið til tilboðs hans. Í þriðja lið er farið nákvæmlega yfir þau atriði sem sjást á ljósmyndum og matsmaður telur ófullnægjandi. Í samantekt um þennan lið segir: „Matsmaður telur að endurgera þurfi úthorn þar sem langveggir og skammveggir mætast í samræmi við þá klæðningu sem komin er við úthorn (sjá lið 1). Endurgera þarf samsetningar og tengingar við vatnsbretti beggja vegna við hurðarop (mynd 5). Endurnýja vatnsbretti þar sem kvarnað er upp úr áli við samsetningar (mynd 6). Endurgera úthorn við hurðir, setja úthornalista og lagfæra klæðningu í samræmi við önnur úthorn (mynd 7). Endurgera úthorn á vatnsbrettum klæðningar (myndir 1, 2 og 9). Endurgera klæðningu (áfellu) innan og við hurðir (myndir 10 og 11).“ Í lok matsgerðar dregur matsmaður saman áætlun sína um kostnað. Telur hann að kostnaður við klæðningu óklæddra flata nemi samtals 944.200 krónum. Lagfæringar á úthornum, vatnsbrettum o.fl. telur hann að muni kosta 806.300 krónur. Þá telur hann að tæknileg umsjón og eftirlit muni kosta 300.000 krónur. Samtals nemi kostnaður því 2.050.000 krónum. Þar af sé virðisaukaskattur 403.500 krónur. Með bréfi er barst sýslumanninum í Reykjavík 22. júní 2007 krafðist stefnandi þess að kyrrsettar yrðu eignir stefnda svo dygði til að tryggja kröfu samtals að fjárhæð 4.552.424 krónur, auk áfallandi vaxta og kostnaðar. Í beiðni þessari er krafan rök­studd með því að ekki sé vitað til þess að stefndi eigi aðrar eignir en kröfur á hendur aðalverktakanum, ÞG verktökum, sem koma ættu til greiðslu 22. eða 23. júní. Við fyrirtöku málsins 22. júní mótmælti stefndi kröfunni, svo og því að skilyrði 5. gr. laga nr. 31/1990 væru uppfyllt. Svo fór að kyrrsettar voru „ ... greiðslur til [stefnda] vegna útistandandi reikninga á hendur verkkaupa ÞG verktökum ehf. ... vegna framangreindrar kröfu allt að framangreindri fjárhæð. “ Í stefnu er skorað á stefnda að leggja fram sundurliðað yfirlit yfir þá verkþætti sem hann hafi krafið verkkaupa um og fengið greitt fyrir. Þessari áskorun var ekki sinnt. Málsástæður og lagarök stefnanda. Stefnandi segir að með munnlegu samkomulagi aðila hafi komist á samningur um verkið og verkframkvæmd. Ekki hafi verið hægt að bjóða fast verð í alla þætti verksins þar sem fullnægjandi teikningar og upplýsingar hafi ekki legið fyrir. Hafi verið boðið fast verð í hreina fleti en að önnur vinna skyldi greidd með ákveðnu tíma­gjaldi. Ekki hafi verið gerðar athugasemdir við tímaskýrslur sem stefnda hafi verið afhentar daglega. Þá segir stefnandi að stefndi hafi þegar fengið greitt frá verkkaupa fyrir vinnu stefnanda. Skorar hann í stefnu á stefnda að leggja fram sundurliðað yfirlit um þá verkþætti sem hann hafi krafið verkkaupa um og þegar fengið greidda. Í stefnu er því mótmælt að inn í uppgjör verði dregin óskyld málefni vegna fyrri samskipta starfsmanna stefnanda og fulltrúa stefnda. Stefnandi telur skilyrði 5. gr. laga 31/1990 um kyrrsetningu séu að öllu leyti uppfyllt. Þannig eigi stefnandi óvarða kröfu á hendur stefnda um greiðslu peninga sem ekki verði þegar fullnægt með aðför. Telur stefnandi að verulegar líkur séu á að draga muni úr möguleikum á því að krafa hans fáist greidd miðað við bága eignastöðu stefnda, svo og því að dragi að verklokum stefnda hjá verkkaupa. Því hafi verið brýn nauðsyn á að krefjast kyrrsetningar á svo miklu af eignum stefnda að duga myndi til fullnustu á kröfum stefnanda að fenginni niðurstöðu dómsstóla. Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna samninga- og kauparéttar og reglna um efndir samninga. Þá vísar hann til 47. og 49. gr. laga nr. 50/2000 og 36. gr. laga 31/1990. Málsástæður og lagarök stefnda. Stefndi kveðst hafa staðið við allar skuldbindingar sínar gagnvart stefnanda samkvæmt samkomulagi þeirra. Stefnandi hafi fengið verkið greitt að fullu, en samið hafi verið um fast verð. Þá hafi verið samið um að greitt yrði fyrir smíði vinnupalla í tímavinnu og hafi hann þegar greitt stefnanda að fullu fyrir þá vinnu. Stefndi segir að samið hafi verið svo um að til frádráttar greiðslum fyrir verkið kæmi skuld stefnanda vegna kaupa hans á fyrirtæki stefnda í Bretlandi, Blue Steel Construction, 9.000 pund. Er krafist lækkunar á kröfu stefnanda sem nemur þessari fjárhæð. Í greinargerð er reiknað með gengi 28. júní 2006 og frádrátturinn talinn nema 1.247.940 krónum. Við aðalmeðferð samþykkti stefndi að reikna frádráttinn sem 972.000 krónur. Stefndi bendir á að hluti af reikningum stefnanda sé fyrir aukaverk. Raunar hafi þau átt að vera innifalin í aðalverki samkvæmt framlagðri verklýsingu. Auk þess hafi þau verk sem innheimt sé fyrir sem aukaverk að stórum hluta verið ónýt og hafi þurft að vinna þau aftur. Þá hafi bann verið lagt við því að stefnandi ynni aukaverk. Liggi ekki fyrir verkbeiðnir eða samþykktar tímaskýrslur. Í greinargerð segir að stefndi hafi greitt reikninga að fjárhæð 3.702.408 krónur, en þeir reikningar sem að stefndi hafi móttekið séu að fjárhæð u.þ.b. 5.300.000 krónur. Aðra reikninga hafi hann ekki fengið eða ekki samþykkt. Kveðst hann mót­mæla þeim. Meint skuld stefnda við stefnanda sé að fullu greidd og gott betur. Varakröfu um að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar byggir stefndi á eftir­greindum sjónarmiðum. Stefnandi hafi ekki lokið verki eins og honum bar. Margir fletir hafi verið óklæddir og engar hornklæðningar hafi verið settar. Þá hafi þurft að endurklæða öll dyraop að kröfu aðalverktaka. Vatnsbretti hafi verið ófullnægjandi og rangt sett á. Þá hafi frágangur við efri brún klæðningar einnig verið rangur. Stefndi hafi staðið straum af öllum kostnaði vegna galla á verki stefnanda. Vísar hann hér til skýrslu er yfirverkfræðingur hans og eftirlitsmaður aðalverktaka hafi unnið. Þá vísar stefndi á ný til þess er áður segir um aukaverk. Stefndi kveðst krefjast þess að kyrrsetningargerð sú sem framkvæmd var verði felld úr gildi, en hefur ekki uppi sérstök andmæli vegna hennar. Stefndi kveðst mótmæla dráttarvaxtakröfu sérstaklega og krefst þess að dráttar­vextir verði ekki dæmdir nema frá dómsuppsögu verði fallist á kröfur stefnanda. Um lagarök vísar stefndi til grunnreglna samninga- og kröfuréttar um efndir samninga og meginreglna laga um lausafjárkaup nr. 50/2000. Um gagnkröfu sína vísar hann til 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991. Forsendur og niðurstaða. Við munnlegan málflutning kom fram hjá lögmanni stefnda fullyrðing um að vinnuskýrslur þær sem stefnandi lagði fram eftir áskorun hans, sýndu ekki allar þær vinnustundir sem framlagðir reikningar krefðu um greiðslu fyrir. Afhenti lög­maðurinn þá dóminum skriflegar athugasemdir um einstök atriði, en öflun skriflegra sönnunargagna hafði verið lýst lokið við fyrirtöku í dóminum 5. september sl. Í greinargerð stefnda er ekki fjallað sérstaklega um vinnuskýrslur nema hvað skorað er á stefnanda að leggja þær fram. Við þetta er það að athuga að áður en málið var höfðað hafði stefndi undir höndum a.m.k. einhvern hluta af vinnuskýrslunum. Er vitnað til þeirra í bréfi lög­manns hans 3. maí 2006. Hafi stefndi ekki fengið skýrslurnar á verktímanum hefði verið rétt að krefja um þær, sérstaklega þegar reikningar bárust. Þá lagði stefnandi vinnuskýrslurnar fram við fyrirtöku málsins í desember 2006. Var stefnda í lófa lagið að taka saman vinnustundir samkvæmt þeim skýrslum sem hann hafði undir höndum og gera skýrar athugasemdir þegar í greinargerð um vinnustundir sem vantaði skýringar á eða hann taldi ofreiknaðar. Þar sem ekki er fjallað um misræmi milli vinnuskýrslna og reikninga í greinargerð stefnda mun dómurinn ekki fjalla um þetta atriði. Verður að miða við að reikningar séu í samræmi við vinnuskýrslur. Samningur aðila er munnlegur og eru þeir ekki sammála um efni hans að öllu leyti. Stefnandi telur að samið hafi verið um tiltekið verð fyrir slétta fleti, en að aðrir hlutar verksins yrðu greiddir með tímagjaldi. Stefndi telur að samið hafi verið svo um að umsamið gjald væri fyrir allt verkið. Stefndi gerði ekki athugasemd við reikningagerð stefnanda fyrr en með bréfi sínu 3. maí 2006, en þá hafði honum borist innheimtubréf lögmanns. Stefnandi virðist hafa krafið um greiðslu fyrir það sem hann kallar „aukaverk“ í reikningnum 10. mars 2006. Hefði verið rétt af stefnda að gera þá þegar athugasemd ef hann taldi reikninginn of háan. Þegar litið er til þess gjalds, sem ákveðið er fyrir hvern fermetra og borið saman við það sem meðdómendur telja sig vita að sé algengt í viðskiptum manna á milli, er sennilegt að samið hafi verið um fermetraverð fyrir slétta fleti eins og stefnandi heldur fram, en að fyrir aðra hluta skyldi krafið samkvæmt tímagjaldi. Telur dómurinn því að reikningar stefnanda hafi verið í samræmi við unnið verk og samning aðila. Stefndi hefur haldið því fram að vinna stefnanda hafi verið haldin ýmsum ágöllum sem nauðsynlegt hafi verið að lagfæra. Kveðst hann hafa kostað til sjálfur um 1.500.000 krónum. Þessa fullyrðingu sína hefur hann ekki stutt gögnum. Þá kom fram í skýrslu Leifs Stefánssonar fyrir dómi að ÞG verktakar, sem voru verkkaupar stefnda, hafi annast frágang eftir stefnanda, en að stefndi hefði lagt til einn starfsmann. Stefndi hefur einnig aflað matsgerðar eins og að framan er lýst. Er þar metið ástand klæðningarinnar eftir ljósmyndum og reiknaður kostnaður við endurbætur. Þessi aðferð er ónothæf í þessu tilviki. Stefnandi hefði þurft að leggja fram sönnun þess að hann hefði haft kostnað af endurbótum á verki stefnanda til að unnt hefði verið að meta það til lækkunar eða niðurfellingar á kröfu stefnanda. Með því að sýna fram á kostnað af nauðsynlegum úrbótum hefur hann ekki sýnt fram á að hann hafi borið þann kostnað. Er í þessu sambandi ekki hjá því komist að líta til þess að stefndi sinnti ekki áskorun stefnanda um að leggja fram upplýsingar um greiðslur er hann hefur fengið frá verkkaupa. Samkvæmt framansögðu verður að fallast á kröfur stefnanda sem byggjast á framlögðum reikningum. Hinir ógreiddu reikningar eru þessir: Nr. 5. 10.03.06. 481.068 Nr. 8. 28.03.06. 599.592 Nr. 9. 28.03.06. 343.014 Nr. 10. 01.04.06. 327.684 Nr. 11. 11.04.06. 679.770 Nr. 12. 22.04.06. 383.460 Nr. 13. 28.04.06. 496.755 Nr. 14. 09.05.06. 171.508 Þar sem forsvarsmaður stefnanda hefur samþykkt að draga fæðiskostnað að fjárhæð 350.000 krónur frá reikningum sínum, svo og kaupverð hlutar í félagi, 9.000 bresk pund, verður einnig að draga þessar fjárhæðir frá kröfu hans. Eru aðilar sammála um að reikna umrætt kaupverð sem 972.000 krónur. Því dragast samtals 1.322.000 krónur frá kröfu stefnanda vegna þessara tveggja liða. Greiðslur til stefnanda hafa þegar verið lækkaðar um 667.257 krónur vegna þessa, þannig að eftir standa 654.743 krónur. Ekki er unnt að dæma kröfu stefnanda eins og hún hljóðar þar sem krafist er vaxta fyrir tímabil áður en til vanskila kom. Stefndi verður dæmdur til að greiða fjárhæð hinna ógreiddu reikninga. Þeir eru samtals að fjárhæð 3.482.851 krónur. Að frádregnum áðurgreindum 654.743 krónum nemur krafan 2.828.108 krónum. Dráttarvextir verða dæmdir frá 15. degi eftir útgáfudag hvers reiknings, en miðað verður við að lækkun vegna fæðiskostnaðar og hlutafjárkaupa komi fram hlutfallslega jafnt á hvern af hinum ógreiddu reikningum. Fjárhæðin ber því vexti sem hér segir: Af 390.632 krónum frá 15. mars 2006 til 12. apríl sama ár, af 1.156.036 krónum frá þeim degi til 16. apríl sama ár, af 1.422.119 krónum frá þeim degi til 26. apríl sama ár, af 1.974.099 krónum frá þeim degi til 7. maí sama ár, af 2.285.472 krónum frá þeim degi til 13. maí sama ár, af 2.688.842 krónum frá þeim degi til 24. maí sama ár, en af 2.828.108 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Stefndi hefur ekki komið fram með neinar röksemdir gegn þeirri fullyrðingu stefnanda að kyrrsetning hafi verið nauðsynleg til að tryggja kröfu hans. Verður við svo búið að staðfesta kyrrsetningargerðina. Í samræmi við þessa niðurstöðu verður stefnda gert að greiða 400.000 krónur í málskostnað. Dóm þennan kveða upp Jón Finnbjörnsson héraðsdómari og meðdómendurnir Guðmundur Baldvin Ólason byggingartæknifræðingur og Tryggvi Jakobsson byggingarfræðingur. Stefndi, Verkfræðistofan Rýnir ehf., greiði stefnanda, Hasa ehf., 2.828.108 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 af 390.632 krónum frá 15. mars 2006 til 12. apríl sama ár, af 1.156.036 krónum frá þeim degi til 16. apríl sama ár, af 1.422.119 krónum frá þeim degi til 26. apríl sama ár, af 1.974.099 krónum frá þeim degi til 7. maí sama ár, af 2.285.472 krónum frá þeim degi til 13. maí sama ár, af 2.688.842 krónum frá þeim degi til 24. maí sama ár, en af 2.828.108 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað. Framangreind kyrrsetningargerð er staðfest til tryggingar dæmdum fjárhæðum.
Mál nr. 493/2006
Ráðningarsamningur Uppsögn Málsástæða
Á var sagt upp störfum hjá H hf. með þriggja mánaða fyrirvara 27. nóvember 2003. Skömmu síðar, 4. desember sama ár, veitti byggingastjóri hjá félaginu honum áminningu vegna nánar tilgreindra atvika. Á hélt því fram að í tengslum við þá áminningu hefði hann verið leystur undan vinnuskyldu sinni hjá H hf. og krafðist fullra launa út uppsagnarfrestinn. Ekki var talið að Á hefði fært í málinu sönnur á að hann hefði verið leystur undan vinnuskyldu hjá H hf. á uppsagnarfresti og þar sem hann mætti ekki til vinnu sinnar var H hf. talið óskylt að greiða honum laun á þessu tímabili. Fyrir Hæstarétti byggði Á kröfu sína jafnframt á því að með bréfi lögmanns H hf. til lögmanns hans 25. febrúar 2004 hefði verið viðurkennt af hálfu félagsins að því bæri að greiða Á laun á uppsagnarfresti. Talið var að ekki væru uppfyllt skilyrði 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að Á gæti byggt kröfu sína á þessari málsástæðu fyrir Hæstarétti. Kom hún því ekki til efnislegrar meðferðar fyrir réttinum. Samkvæmt þessu var H hf. sýknað af kröfu Á.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. september 2006. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 834.307 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. febrúar 2004 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um að áfrýjandi hafi ekki fært í málinu sönnur á að hann hafi verið leystur undan vinnuskyldu sinni hjá stefnda á uppsagnarfresti, eftir að honum hafði verið sagt upp störfum með þriggja mánaða fyrirvara 27. nóvember 2003. Þess vegna hafi stefnda verið óskylt að greiða honum laun á þessu tímabili, er hann mætti ekki til vinnunnar. Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi byggt kröfu sína á því, að stefndi hafi viðurkennt skyldu sína til að greiða honum laun á uppsagnarfresti með bréfi sem lögmaður stefnda sendi fyrrverandi lögmanni áfrýjanda 25. febrúar 2004. Segir meðal annars í bréfi þessu, að stefndi hafi aldrei haft annað í hyggju en að greiða laun út uppsagnarfrestinn. Þau laun sem greidd hafi verið fyrir desember og janúar hafi verið í samræmi við skyldur félagsins eftir því sem stefndi best viti. Laun fyrir febrúar verði greidd á sama grundvelli. Þegar mál þetta var höfðað hafði áfrýjandi réttmæta ástæðu til að ætla, að ágreiningur málsaðila snerist einungis um fjárhæð þeirra launa sem hann taldi sig eiga rétt á meðan þriggja mánaða uppsagnarfrestur stóð yfir mánuðina desember 2003 og janúar og febrúar 2004. Stefndi hafði gert upp við hann laun samkvæmt tímataxta en áfrýjandi taldi sig eiga rétt á launum samkvæmt viðmiðun við uppmælingu sem voru allmiklu hærri. Hafði hann þá ekki fengið sérstakt tilefni til að byggja kröfu sína einnig á því að stefndi hefði viðurkennt rétt sinn til launa á uppsagnarfresti með fyrrgreindu bréfi. Stefndi skilaði greinargerð í héraði 7. júní 2005. Í henni kom fram, að hann taldi áfrýjanda ekki hafa átt rétt á neinum launum á uppsagnarfresti, þar sem hann hefði hætt sjálfur að mæta til vinnu eftir uppsögnina án þess að stefndi hefði gefið honum tilefni til þeirrar breytni. Þegar þessar varnir komu fram fékk áfrýjandi tilefni til að leggja fram bréfið, sem fyrr var nefnt, og láta færa til bókar að hann byggði kröfu sína á þeirri viðurkenningu sem hann telur að í því felist. Bar honum samkvæmt 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að bera þessa málsástæðu fram í beinu framhaldi af þessu. Þetta var meðal annars nauðsynlegt svo stefnda gæfist færi á að svara henni til dæmis með sönnunarfærslu um samskipti milli aðila í tengslum við bréfaskipti þeirra eða röksemdum sem varða efni umboðs sem lögmenn hafa til að skuldbinda umbjóðendur sína með yfirlýsingum áður en mál er höfðað. Áfrýjandi lagði bréfið ekki fram fyrr en við upphaf aðalmeðferðar 6. júní 2006 og ekki verður séð að í gögnum um meðferð málsins í héraði sé að finna athugasemd af hans hálfu um að byggt sé á viðurkenningunni í bréfinu. Ekkert er að þessu vikið í hinum áfrýjaða dómi. Ekki eru heldur uppfyllt skilyrði 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 til að áfrýjandi geti nú við meðferð málsins fyrir Hæstarétti byggt kröfu sína á þessari málsástæðu. Kemur hún samkvæmt þessu ekki til efnislegrar meðferðar fyrir Hæstarétti. Með vísan til þess sem að framan greinir verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um sýknu stefnda af kröfu áfrýjanda, en rétt þykir að málskostnaður fyrir báðum dómstigum falli niður. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður um sýknu stefnda, Húsvirkis hf., af kröfu áfrýjanda, Árna Eðvaldssonar. Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður. Mál þetta sem dómtekið var 6. júní sl,. er höfðað með stefnu birtri 11. apríl 2005. Stefnandi er Árni Eðvaldsson, Spóaási 7, Hafnarfirði. Stefndi er Húsvirki hf., Lágmúla 5, Reykjavík. Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 834.307 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. febrúar 2004 til greiðsludags. Þá er gerð krafa um málskostnað. Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, auk þess krefst hann málskostnaðar. Til vara krefst stefndi að honum verði gert að greiða stefnanda 607.749 krónur með dráttarvöxtum frá 19. apríl 2005. Stefnandi, sem er húsasmíðameistari að mennt, réðst til starfa hjá stefnda í apríl 2002. Með bréfi dags. 27. nóvember 2003 var stefnanda sagt upp störfum hjá stefnda. Í greinargerð stefnda kemur fram að verkefnastaða fyrirtækisins hafi verið óviss og því hafi fyrirtækið neyðst til að segja upp þremur af fimm smiðum í byggingarhópi stefnanda. Hafi verið ákveðið að segja upp þeim smiðum sem hafi haft skemmstan starfsaldur hjá fyrirtækinu. Í uppsagnarbréfinu hafi komið fram að uppsögnin tæki gildi 1. mars 2004 í samræmi við kjarasamning Samiðnar. Hafi þess verið krafist að þeir starfsmenn sem sagt var upp ynnu út uppsagnarfrestinn. Óumdeilt er að hinn 4. desember 2005 hafi stefnandi kallað á yfirmann sinn, Gunnar Dagbjartsson byggingarstjóra, þar sem þeir voru við störf við Hrafnistu á Brúnavegi. Kom þar til orðaskipta sem undu upp á sig og virðist báðum aðilum hafa orðið heitt í hamsi. Af hálfu stefnda er umræddu atviki lýst þannig að úr hafi orðið mikið rifrildi þar sem stefnandi hafi vanvirt algjörlega boðvald yfirmanns síns. Hafi Gunnari þótt framkoma stefnanda vera ólíðandi og strax eftir atvikið hafi hann því ákveðið eftir ráðleggingu frá lögfræðingi Samtaka atvinnulífsins að veita stefnanda áminningu vegna atburðarins. Síðar þann dag hafi Gunnar farið með skriflega áminningu til stefnanda. Hafi stefnandi brugðist hinn versti við, neitað að skrifa undir áminninguna og ausið svívirðingum yfir Gunnar og strunsað svo burt af vinnustaðnum, þrátt fyrir að vinnudeginum væri ólokið. Hafi þetta verið í síðasta skiptið sem stefnandi sást á vinnustaðnum. Sé því alrangt sem greini í stefnu að stefnanda hafi verið sagt upp störfum þann 4. desember 2003. Stefndi taldi að þar sem stefnandi hafi hætt sjálfur störfum hjá stefnda án nokkurs fyrirvara hafi hann engan rétt átt á launum út uppsagnarfrestinn. Hins vegar hafi Gunnari og stefnda fundist mál þetta vera afar leiðinlegt. Vegna þessa og þeirrar staðreyndar að jólin voru á næsta leiti og stefnandi hafði fyrir fjölskyldu að sjá ákvað stefndi að greiða stefnanda laun þrátt fyrir að honum væri það ekki skylt. Voru stefnanda greidd laun sem samsvöruðu þriggja mánaða launum á tímakaupi. Taldi stefndi að með þessari greiðslu væri málið úr sögunni. Um ári eftir að stefndi hafi talið málinu að fullu lokið hafi stefnandi hins vegar krafið hann um enn frekari greiðslur sem stefndi geti ekki fallist á að verða við. Stefnandi heldur því fram í stefnu að hann eigi rétt til fullra launa í uppsagnarfresti á þeim samningsbundnu kjörum sem hann naut fram að uppsögn hans. MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK STEFNANDA Stefnandi vísar til þess í stefnu að hann sé húsasmíðameistari að mennt og hafi ráðist til starfa hjá stefnda í apríl 2002 og starfað hjá stefnda samfellt til 4. desember 2003 er honum var sagt upp störfum og þess var ekki óskað að hann ynni uppsagnarfrestinn hjá félaginu. Ekki hafi verið gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnda. Uppsagnarbréfið sé dagsett 27. nóvember 2003 og miðað við 1. desember 2003 og skyldi uppsögnin taka gildi 1. mars 2004. Stefnandi hafi verið atvinnulaus til 15. febrúar 2004. Stefnandi hafi unnið á uppmælingarkjörum allan starfstíma sinn hjá stefnda svo sem framlagðir launaseðlar og launamiðar bera með sér, en hann hafi fengið eftir uppsögnina einungis greitt sem svari tímakaupi og þar með lítinn hluta þeirra launa sem hann hafi notið og hafi samið um sem starfsmaður fyrir uppsögn. Með þessu hafi stefndi kúvent og þverbrotið á rétti stefnanda til launa á uppsagnarfresti. Stefnandi hafi á uppsagnartímanum ekki fengið greidd rétt laun miðað við uppmælingu samkvæmt launakjörum stefnanda og teljist greiðsla stefnanda miðað við tímakaup einungis innborgun á laun stefnanda. Auk þess vanti til viðbótar uppmælingu, viðbót vegna orlofs, greiðslu í lífeyrissjóð og séreignalífeyrissjóð og helgidagaálag. Stefnandi telji sig eiga rétt til fullra launa í uppsagnarfresti þannig að hann njóti allra samningsbundinna kjara á uppsagnartíma í stað þess að fá greitt sem svari tímakaupi en krafa stefnanda sé um full laun og að hann verði eins settur og hann hefði verið við störf á óbreyttum kjörum út uppsagnartímann. Stefnandi telji uppmælingarkjörin órjúfanlegan hluta af starfskjörum sínum og þeim verði ekki breytt án undangenginnar uppsagnar. Stefnandi hafi aldrei unnið á þeim kjörum sem stefndi miði við í uppsagnarfresti. Allir trésmiðir sem hafi starfað hjá stefnda hafi unnið í svokallaðri uppmælingu, þetta hafi verið regla hjá fyrirtæki stefnda. Mælingu hafi annast mælingastofa Trésmiðafélags Reykjavíkur og einnig Meistarafélag trésmiða. Trésmiðafélag Reykjavíkur hafi reiknað út þau laun sem stefnandi eigi eftir að fá greidd og sé útreikningur byggður á launaðseðlum stefnanda sem ná yfir tímabilið 8. september 2003 til 14. desember 2003. Stefnukrafan sé reist á útreikningi Trésmiðafélags Reykjavíkur. Stefnandi hafi hafið störf hjá stefnda í apríl 2002 eins og áður segi og hafi verið ráðinn upp á uppmælingarkjör og hafi ekki unnið á öðrum kjörum en uppmælingarkjörum hjá stefnda samkvæmt gildandi kjarasamningum milli Samtaka atvinnulífsins annars vegar og Samiðnar - sambands iðnfélaga f.h. aðildarfélaga í málmiðnaði, byggingariðnaði og skrúðgarðyrkju hins vegar og gildi frá 26. apríl 2004. Í 15. kafla samningsins séu nánari reglur um ákvæðisvinnu í byggingariðnaði, grein 15.1.1. sé svofelld: „Þar sem unnin er ákvæðisvinna samkvæmt ákvæðisvinnuverðskrám skulu allar reglur þar að lútandi fylgja öllum þeim ákvæðum sem gilda í Reykjavík eins og þau er hverju sinni, nema samningar aðila kveði á um annað.” Í grein 15.1.2. séu reiknitölur ákvæðisvinnu með kostnaðarliðum frá og með 26. apríl 2004 og sé fyrir trésmiði 392,26 krónur. Gefin sé út verðskrá yfir ákvæðisvinnu húsasmiða og mælingarstofur smiða og meistara annist mælingu á verkum sem félagsmenn vinni hjá einstökum fyrirtækjum sem mæli til eininga vinnuafköst, og launaseðlar og þar með laun hvers starfsmanns séu reiknuð út og greidd af hverjum vinnuveitanda. Mælingar séu unnar af mælingastofu trésmiða og séu endurskoðaðar af Meistarafélagi trésmiða. Stefndi sé svokallað ákvæðisvinnufyrirtæki að því er varði trésmiði sem hjá félaginu starfi þannig að meginreglan um kjör starfsmanna félagsins sé að greiða með þessum uppmælingarkjörum. Uppsögn stefnanda virðist hafa verið persónuleg og ekki hafa verið nauðsynlega eða vegna þarfa eða aðstæðna stefnda. Heildarlaun sem stefnandi hefði haft ef ekki hefði komið til uppsagnar nemi 1.130.133 krónum og sé þá miðað við laun stefnanda 3 síðustu mánuði sem hann starfaði hjá stefnda. Stefndi greiddi stefnanda 396.215 krónur eftir 4. desember 2003 og mismunur nemi 733.898 krónum auk lífeyrisgreiðslu til lífeyrissjóðs 6% 67.807 krónum og 2% séreignasjóð 22.602 krónum alls 824.307 krónum sem sé stefnukrafan. Stefnandi byggi kröfur sínar á þeim meginreglum vinnuréttar að samningsbundnum kjörum launþega verði ekki breytt á uppsagnarfresti eins og stefndi hafi gert gagnvart stefnanda. Mál þetta sé höfðað á grundvelli meginreglna vinnuréttar um kjarasamninga, kröfuréttarreglna og grunnreglna samningsréttar. Vísað sé til framlagðra kjarasamninga. Vísað sé til laga nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla, laga nr. 16/1943 um orlof og laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Vísað sé til reglna um lífeyrissjóði og að aðild að lífeyrissjóðum sé lögbundin, samanber lög um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrissjóða nr. 55/1980. Sömu lög séu með ákvæði um orlof og sjúkrasjóði. Kröfur um málskostnað styðji stefnandi við l. mgr. 130. gr., sbr. 129. gr., einkum l. tl. e, laga nr. 91/1991. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og geri kröfu um greiðslu virðisaukaskatts á málflutningsþóknun af skaðleysisjónarmiðum. MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK STEFNDA Stefndi byggir á því í greinargerð sinni að stefnandi eigi engan rétt á launum í uppsagnarfresti þar sem hann hafi ekki uppfyllt þá skyldu sína að vinna út uppsagnarfrestinn. Honum hafi verið sagt upp störfum 27. nóvember 2003 og segi í uppsagnarbréfinu að uppsögnin taki gildi 1. mars 2004. Hafi uppsögnin því uppfyllt að fullu ákvæði kjarasamnings um þriggja mánaða uppsagnarfrest. Hins vegar hafi sú skylda hvílt á stefnanda að vinna út uppsagnarfrestinn. Hann hafi hins vegar ekki uppfyllt þá skyldu heldur kosið að hætta án nokkurs fyrirvara þann 4. desember 2003. Enginn vafi leiki á því að stefndi hafi verið í fullum rétti til að veita stefnanda áminningu þar sem stefnandi hafi hellt sér yfir yfirmann sinn með svívirðingum og gagnrýnt marga samstarfsmenn sína og fyrirtækið sjálft fyrir óvönduð og hroðvirknisleg vinnubrögð. Veiting áminningar jafngildi hins vegar ekki uppsögn og hafi það því verið ákvörðun stefnanda sjálfs að hætta í vinnunni samstundis í kjölfar áminningarinnar. Með því hafi hann brotið gegn vinnusamningi sínum við stefnda og geti því ekki krafist þriggja mánaða launa í uppsagnarfresti. Einnig vísi stefndi til meginreglu vinnuréttar um að ef starfsmaður er rekinn sökum brota í starfi missi hann rétt til launa í uppsagnarfresti. Þessi meginregla á þó ekki með beinum hætti við í þessu máli þar sem stefnandi hafi ekki verið rekinn heldur hafi ákveðið sjálfur að hætta samstundis í vinnunni. Til vara sé byggt á því að stefnandi eigi einungis rétt á launum á grundvelli tímakaups en ekki á grundvelli uppmælinga. Hafi stefnandi enda ekki bent á neina réttarheimild því til stuðnings að stefnandi eigi rétt á launum fyrir yfirvinnu, og ákvæðisvinnu, á uppsagnarfresti sem hann ekki vinni. Leiði slík aukin réttindi ekki heldur af kjarasamningi á milli Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar, sem stefnandi falli undir. Þar sem stefndi hafi þegar greitt stefnanda þriggja mánaða laun á grundvelli tímakaups eigi stefnandi engar frekari kröfur á hendur stefnda. Ef svo ólíklega vildi til að ekki yrði fallist á aðalkröfu stefnda krefjist hann þess að sér verði einungis gert að greiða stefnanda 607.749 krónur. Meðaltalslaun þeirra smiða sem hafi verið í sama byggingarhópi og stefnandi á umræddu tímabili hafi verið 980.267 krónur. Telji stefndi af og frá að stefnandi geti átt rétt á hærri launum en meðaltalslaun fyrrverandi samstarfsmanna stefnanda hafi verið á umræddu tímabili. Stefndi hafi þegar borgað stefnanda 372.518 krónur og það sem eftir standi séu því 607.749 krónur. Í gögnum málsins sé ítarlega búið að reikna út hvaða laun starfsmennirnir hafi haft á tímabilinu 5. desember 2003 til 15. febrúar 2004. Einnig hafi launaseðlar starfsmannanna verið lagðir fram en þeir gefi ekki rétta mynd af launum á umræddu tímabili þar sem þeir fái laun vegna mælinga ávallt borgaða eftir á. Með launaseðli dags. 14. desember 2003 sé því t.d. verið að borga fyrir mælingar sem unnar hafi verið í nóvember 2003 o.s.frv. Um kröfu sína vísi stefndi til meginreglu vinnuréttar, meginreglu samningaréttar og samnings milli Samtaka atvinnulífsins annars vegar og Samiðnar - sambands iðnfélaga f.h. aðildarfélaga í málmiðnaði, byggingariðnaði og skrúðgarðyrkju hins vegar, dags. 15. apríl 2000. Um málskostnaðarkröfu sína vísi stefnandi til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. NIÐURSTAÐA Í máli þessu er óumdeilt að með bréfi dags. 27. nóvember 2003 var stefnanda sagt upp störfum hjá stefnda með þriggja mánaða fyrirvara. Í uppsagnarbréfinu kemur fram að ástæða uppsagnarinnar sé sú að verkefnastaða fyrirtækisins sé óviss og óvíst sé með ný verkefni. Þar segir enn fremur að uppsögnin taki gildi 1. mars 2004 og ef verkefnastaða fyrirtækisins breytist geti orðið um endurráðningu að ræða innan þess tíma. Fyrir liggur að stuttu síðar, hinn 4. desember 2003, urðu hörð orðaskipti milli stefnanda og yfirmanns hans, Gunnars Dagbjartssonar. Í skýrslutöku fyrir dómi viðurkenndi stefnandi að hafa látið hörð orð falla og að honum og Gunnari hafi báðum orðið heitt í hamsi. Í framhaldi af því ákvað Gunnar að veita stefnanda áminningu sem hann ritaði og afhenti stefnanda í bréfi sama dag. Í bréfinu segir að komi aftur til svipaðrar uppákomu verði stefnandi látinn hætta án frekari fyrirvara. Daginn eftir, 5. desember 2003, skrifaði stefnandi framkvæmdastjóra stefnda bréf þar sem hann segist hafa neitað að taka við hinni meintu áminningu en Gunnar hafi þá vikið honum frá störfum. Hafi hann mótmælt og sagt að ekkert gæfi tilefni til þess og að hann færi hvergi. Hafi hann klárað daginn en tekið þá ákvörðun að mæta ekki til vinnu daginn eftir enda séð fyrir að sér yrði með einhverjum ráðum bolað burt. Segist hann þó hafa talið farsælast að hann kláraði uppsögn sína hjá Húsvirkja. Samkvæmt reglum vinnuréttar breytir uppsögn starfsmanns ekki ein og sér efni ráðningarsamnings. Á uppsagnarfresti ber því að fara eftir ákvæðum samningsins, starfsmanni beri að vinna störf sín og atvinnurekanda að greiða laun. Umræddar skyldur eru gagnkvæmar, þ.e. ef annar aðilinn uppfyllir ekki sína skyldu samkvæmt ráðningarsamningi fellur jafnframt niður skylda gagnaðilans til efnda af sinni hálfu. Fyrir liggur í málinu að stefnandi mætti ekki til vinnu hjá stefnda á uppsagnarfresti eins og honum bar samkvæmt ráðningarsamningi en sönnunarbyrðin um að hann hafi verið leystur undan vinnuskyldu hvílir á stefnanda. Í bréfi stefnanda frá 5. desember 2003 tók hann fram að hann hafi sjálfur ákveðið að mæta ekki til vinnu daginn áður. Vitnið Gunnar Dagbjartsson hafnaði því alfarið fyrir dómi að hafa gefið stefnanda til kynna að ekki væri óskað eftir vinnuframlagi hans út uppsagnarfrest. Hafi stefnandi aldrei verið leystur undan vinnuskyldu þrátt fyrir að hafa fengið áminningu þar sem honum var gert ljóst að hann yrði látinn fara fyrirvaralaust kæmi aftur til svipaðra uppákomu. Stefnandi fékk útgefið starfslokavottorð þar sem kemur fram að hann hafi hætt störfum hjá stefnanda vegna ágreinings við byggingastjóra á vinnusvæði. Hefur stefnandi ritað nafn sitt á skjalið vegna móttöku þess. Vitnið Halldór Jónasson, starfsmaður Trésmiðafélags Reykjavíkur, bar fyrir dómi að hafa rætt bæði við stefnanda og Gunnar, yfirmann stefnanda, á skrifstofu sinni hinn 4. desember eftir að ágreiningur hefði orðið með þeim á vinnustað. Sagði vitnið að sér hefði skilist að Gunnari hafi þótt mælirinn vera fullur þegar hann hefði reynt að afhenda stefnanda áminningarbréfið og ályktaði vitnið að Gunnar hefði vikið stefnanda á staðnum fyrirvaralaust. Við mat á framburði vitnis þessa er til þess að líta að hann var ekki vitni að orðaskiptum stefnanda og Gunnars og þegar litið er til þess að Gunnar hefur þverneitað að hafa rekið stefnanda fyrirvaralaust í kjölfar orðaskipta þeirra, er hann hugðist afhenda stefnanda áminningarbréfið, þykir framburður vitnisins ekki veita sönnun um hið gagnstæða. Þá telur dómari að eins og atvikum er háttað hér hefði stefnanda borið að ganga eftir því við stefnda með ótvíræðari hætti en hann gerði með bréfi sínu hvort honum bæri að sinna vinnuskyldu sinni eða ekki. Stefnandi hefur því ekki sýnt fram á að honum hafi verið vikið fyrirvaralaust úr starfi sínu hjá stefnda og verður því fallist á það með stefnda að stefnandi hafi ekki uppfyllt þá skyldu sína að vinna út uppsagnarfrestinn. Samkvæmt þessu verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 250.000 krónur í málskostnað. Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn. Stefndi, Húsvirki hf., skal sýkn af kröfu stefnanda, Árna Eðvaldssonar. Stefnandi greiði stefnda 250.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 274/2012
Skuldamál Skuldajöfnuður
A hf. krafði þrotabú EV ehf. og K um greiðslu skuldar vegna yfirdráttar á reikningi EV ehf. hjá bankanum, en K hafði gengist í sjálfskuldarábyrgð vegna yfirdráttarheimildar á reikningnum. Deildu aðilar um það hvort krafa A hf. á hendur EV ehf. og K hefði verið efnd með skuldajöfnuði af innstæðu á bankareikningi sem EV ehf. hafði sett bankanum að handveði eða hvort A hf. hafi borið að leita efnda á þann veg. Í dómi Hæstaréttar sagði m.a. að samkvæmt orðalagi handveðssamningsins hefði EV ehf. ekki haft ráðstöfunarrétt yfir hinu veðsetta og hefði félagið því ekki getað ákveðið einhliða hvernig því yrði ráðstafað. Þá hefði þar verið tekið fram að A hf. væri heimilt að nota veðandlagið til fullnustu á kröfum sínum á hendur EV ehf. Hefði því ekki hvílt skylda á A hf. að verða við kröfu EV ehf. um skuldajöfnuð. Staðfesti Hæstiréttur því niðurstöðu héraðsdóms um greiðsluskyldu EV ehf. og K.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson. Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 24. apríl 2012. Þeir krefjast sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 4. júlí 2012. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjendum verði gert að greiða sér 24.526.512 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. ágúst 2009 til greiðsludags að frádreginni innborgun 10. janúar 2011 að fjárhæð 23.500.000 krónur. Til vara krefst hann þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar úr hendi aðaláfrýjandans Karls Steingrímssonar í héraði og fyrir Hæstarétti. I Málavextir eru raktir í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir stofnaði Eignarhaldsfélagið Vindasúlur ehf., sem þá hét Eignarhaldsfélagið Kirkjuhvoll ehf., 12. maí 1998 tékkareikning númer [...]-[...]-[...]43 hjá forvera gagnáfrýjanda, Búnaðarbanka Íslands hf. Tékkareikningi þessum fylgdi yfirdráttarheimild sem mun hafa verið að hámarki 30.000.000 krónur. Aðaláfrýjandinn, Karl Steingrímsson, tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð vegna yfirdráttarheimildarinnar 31. ágúst 2007 að hámarki 30.000.000 krónur og var gildistími sjálfskuldarábyrgðarinnar fjögur ár og skyldi hún vara uns skuldbindingin, sem henni væri ætlað að tryggja, væri að fullu greidd. Með yfirlýsingu 3. október 2008 setti Eignarhaldsfélagið Kirkjuhvoll ehf. forvera gagnáfrýjanda, sem þá hét Kaupþing banki hf., að handveði bankareikning númer [...]-[...]-[...]22 og alla innstæðu hans eins og hún væri hverju sinni. Framangreind yfirdráttarheimild féll niður 21. ágúst 2009 og þann dag nam skuld á fyrrgreindum tékkareikningi 24.526.512 krónum. Í lok desember 2009 nam innstæða á hinum handveðsetta bankareikningi 107.344.356 krónum. Hinn 10. janúar 2011 greiddi Borgarmiðjan ehf. 23.500.000 krónur inn á framangreinda yfirdráttarskuld á tékkareikningi númer [..]-[...]-[...]43. Eftir að bú Eignarhaldsfélagsins Vindasúlna ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta er ágreiningslaust með aðilum að skuld á tékkareikningi félagsins var gjaldfallin. Meginágreiningur aðila snýst um það hvort krafa gagnáfrýjanda á hendur aðaláfrýjendum hafi verið efnd með skuldajöfnuði af innstæðu á hinum handveðsetta bankareikningi eða hvort gagnáfrýjanda hafi borið að leita efnda á þann veg. II Í umræddri yfirlýsingu um handveðsetningu 3. október 2008 kom fram að um væri að ræða allsherjarveð, þar sem gagnáfrýjanda var veðsettur reikningur númer [...]-[...]-[...]22 og öll innstæða hans eins og hún væri hverju sinni. Sagði þar að handveðið væri til tryggingar skilvísum og skaðlausum greiðslum til veðhafa á öllum skuldum og fjárskuldbindingum sem veðsali tækist á hendur gagnvart veðhafa, sem þegar hafi stofnast eða sem síðar myndu stofnast, hvort sem þær væru samkvæmt víxlum, skuldabréfum, yfirdráttum á tékkareikningum, debet og kreditkortaviðskipum, lánasamningum, reikningslánum, afurðarlánum, erlendum lánum og hvers kyns ábyrgðum í hvaða formi sem væri og í hvaða gjaldmiðli sem væri og hvort sem um væri að ræða höfuðstól, verðbætur, gengishækkanir, vexti, dráttarvexti og hvers kyns kostnað. Yrðu vanskil á einhverri þeirri kröfu sem veðandlagið ætti að tryggja eða hefði veðsali vanefnt einhverjar skyldur sínar samkvæmt einhverri þeirri skuld sem veðandlagið ætti að tryggja eða hefði veðsali brotið með einhverjum hætti gegn ákvæðum handveðsyfirlýsingarinnar, væri veðsala heimilt að nota andvirði veðandlagsins í heild eða hluta til fullnustu á þeim kröfum sem það ætti að tryggja án undangenginnar tilkynningar eða aðvörunar. Þá sagði að hið handveðsetta væri í vörslum og á ábyrgð veðhafa og honum til tryggingar og ráðstöfunar frá undirritun hafnveðsyfirlýsingarinnar og yrði það svo lengi sem hún gilti. Væri veðsala óheimilt meðan skuld sú sem veðandlagið ætti að tryggja væri ekki að fullu greidd að ráðstafa veðandlaginu nema hann hefði áður fengið til þess skriflegt leyfi veðsala. Aðaláfrýjendur byggja á því að með tölvupósti lögmanns þeirra til gagnáfrýjanda 17. september 2009 hafi verið lýst yfir skuldajöfnuði við innstæðu á reikningi nr. [...]-[...]-[...]22 vegna vanskila Eignarhaldfélagsins Vindasúlna ehf. við gagnáfrýjanda. Í hinum áfrýjaða dómi var komist að þeirri niðurstöðu að yfirlýsing þessi væri að engu leyti skýr um skuldajöfnuð gagnvart yfirdrætti á tékkareikningnum. Hvað sem líður skýrleika þessarar yfirlýsingar um skuldajöfnuð er ljóst samkvæmt orðalagi handveðssamningsins að veðsali hafði ekki ráðstöfunarrétt yfir hinu veðsetta og gat ekki einhliða ákveðið hvernig því yrði ráðstafað. Þá var sérstaklega tekið fram í samningnum að veðhafanum væri heimilt að nota veðandlagið til fullnustu á kröfum sínum á hendur veðsala. Af því leiðir að engin skylda hvíldi á gagnáfrýjanda að verða við kröfu aðaláfrýjenda um skuldajöfnuð. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest á þann hátt sem í dómsorði greinir. Eftir þessum málsúrslitum verður aðaláfrýjandanum Karli Steingrímssyni gert að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Aðaláfrýjendur, þrotabú Eignarhaldsfélagsins Vindasúlna ehf. og Karl Steingrímsson, greiði gagnáfrýjanda, Arion banka hf., sameiginlega 24.526.512 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. ágúst 2009 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 10. janúar 2011 að fjárhæð 23.500.000 krónur. Aðaláfrýjandi, Karl Steingrímsson, greiði gagnáfrýjanda 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. janúar 2012. Mál þetta, sem dómtekið var 9. janúar sl., er höfðað með stefnu þingfestri 29. nóvember 2009 af Nýja Kaupþing banka hf., Borgartúni 19, Reykjavík, gegn Eignarhaldsfélaginu Vindasúlum ehf., Kirkjutorgi 4, Reykjavík og Karli Steingrímssyni, Laugarásvegi 35, Reykjavík. Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndu verði sameiginlega dæmd til að greiða stefnanda 24.526.512 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af fjárhæðinni frá 21. ágúst 2009 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, Karls Steingrímssonar. Stefndu krefjast sýknu, greiðslu málskostnaðar og álags á málskostnað. Til vara er gerð krafa um að innborgun að fjárhæð 23.500.000 krónur 10. janúar 2011 komi til frádráttar kröfufjárhæð og að fjárhæðin beri dráttarvexti frá uppsögu héraðsdóms. Mál þetta var upphaflega dæmt í héraðsdómi 9. september 2010. Var málinu áfrýjað til Hæstaréttar Íslands, sem með dómi uppkveðnum 14. apríl 2011 í máli nr. 560/2010 ómerkti hinn áfrýjaða dóm og vísaði málinu heim í hérað á ný til löglegrar meðferðar. Sá dómari sem nú dæmir mál þetta fékk það til meðferðar 2. október 2011. Með umsókn um stofnun tékkareiknings, sem undirrituð er 12. maí 1998, óskaði stjórnarfundur Eignarhaldsfélagsins Kirkjuhvols ehf. eftir því við Búnaðarbanka Íslands að stofna tékkareikning í nafni félagsins. Sama dag samþykkti bankinn stofnun tékkareikningsins og fékk hann númerið [...]-[...]-[...]43. Aðilar málsins eru sammála um að reikningi þessum hafi fylgt yfirdráttarheimild að hámarki 30.000.000 króna. Þá greinir hins vegar á um hvenær yfirdráttarheimildin hafi liðið undir lok. Í því efni miðar stefnandi við 21. ágúst 2009. Stefndu byggja á því að heimildin hafi enn ekki runnið út. Með yfirlýsingu 31. ágúst 2007 tókst stefndi, Karl Steingrímsson, á hendur sjálfskuldarábyrgð vegna yfirdráttarheimildar á reikningi nr. [...]-[...]-[...]43. Með skuldbindingunni tókst hann á hendur persónulega að tryggja Kaupþingi banka hf. efndir á skuldbindingum reikningseigandans. Var ábyrgðaraðila skylt að greiða skuldina við vanskil þó svo bankinn hefði enga tilraun gert til að fá hana greidda hjá reikningseiganda. Hámark sjálfskuldarábyrgðar skyldi vera 30.000.000 króna. Skyldi gildistími sjálfskuldarábyrgðarinnar vera fjögur ár frá útgáfudegi yfirlýsingarinnar. Skyldi hún vara uns skuldbindingin sem henni væri ætlað að tryggja væri að fullu greidd. Með yfirlýsingu 3. október 2008, sem ber yfirskriftina handveðsetning allsherjarveð, setti Eignarhaldsfélagið Kirkjuhvoll ehf. sem veðsali, Kaupþingi banka hf. sem veðhafa, að handveði reikning nr. [...]-[...]-[...]22 og alla innstæðu hans eins og hún væri hverju sinni. Í yfirlýsingunni kemur meðal annars fram að handveðið sé til tryggingar skilvísum og skaðlausum greiðslum til veðhafa á öllum skuldum og fjárskuldbindingum, meðal annars samkvæmt yfirdráttum á tékkareikningum. Fram kemur að verði vanskil á einhverri kröfu sem veðandlagið eigi að tryggja eða hafi veðsali vanefnt einhverjar skyldur sínar sé veðhafa heimilt að nota andvirði veðandlagsins í heild eða hluta til fullnustu á þeim kröfum sem veðandlagið eigi að tryggja án undangenginnar tilkynningar eða aðvörunar. Þeim hluta inneignar veðsala sem ekki sé þörf til greiðslu á kröfum veðhafa samkvæmt þessu skuli hann skila til veðsala innan 7 sólarhringa frá því að ljóst sé að hvaða marki nota þurfi veðandlagið til fullnustu á kröfum veðhafa. Veðsala sé óheimilt meðan skuld sú sem veðandlagið eigi að tryggja sé ekki að fullu greidd að ráðstafa veðandlaginu með hvaða hætti sem er, nema hann hafi áður fengið til þess skriflegt leyfi veðhafa. Handveðssetning samkvæmt yfirlýsingunni gildir frá og með undirritun hennar og þar til sú skuldbinding, svo og allur kostnaður sem handveðið eigi að tryggja, séu að fullu greidd. Nafni Eignarhaldsfélagsins Kirkjuhvols ehf. mun hafa verið breytt í Eignarhaldsfélagið Vindasúlur ehf., en samþykktir fyrir félagið með breyttu nafni eru dagsettar 8. júní 2009. Í lok desember 2009, er stefndu skiluðu greinargerð í málinu, nam innstæða á reikningi nr. [...]-[...]-[...]22 alls 107.344.356 krónum. Skuld á reikningi nr. [...]-[...]-[...]43 21. ágúst 2008 nam alls 24.526.512 krónum. Ritaði stefnandi stefndu innheimtubréf 3. september 2009 vegna þeirrar kröfu. Samkvæmt tölvupósti sem þáverandi lögmaður Eignarhaldsfélagsins Vindasúlna ehf. sendi starfsmanni Nýja Kaupþing banka hf., sem síðar varð starfsmaður Arion banka hf., 17. september 2009, lýsti lögmaðurinn því yfir fyrir hönd eignarhaldsfélagsins að bankinn hefði í höndum handveðsbók í eigu Eignarhaldsfélagsins Vindasúlna ehf. til tryggingar skuldbindingum félagsins við bankann. Beri bankanum, að kröfu Eignarhaldsfélagsins, að ganga á það fé komi til greiðslufalls. Er vísað til þess að síðasti gjalddagi af tilgreindum lánum hafi að mestu verið greiddur af innstæðu bókarinnar. Í því ljósi væri þess krafist að gjaldfallnar greiðslur yrðu þegar inntar af innstæðu bókarinnar. Einkahlutafélagið Borgarsmiðjan greiddi Arion banka hf. 10. janúar 2011 23.500.000 krónur en greiðsla þessi kemur fram á kvittun á dskj. nr. 20. Í þeirri kvittun kemur fram að um sé að ræða kröfu samkvæmt yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð vegna yfirdráttarheimildar á tékkareikningi nr. [...]-[...]-[...]43. Í kvittuninni kemur fram að eftirstöðvar nemi samtals 7.220.312 krónum. Eignarhaldsfélagið Vindasúlur ehf. var úrskurðað gjaldþrota með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2011. Hefur þrotabúið tekið við aðild málsins. Samkvæmt kröfulýsingu í þrotabú stefnda, Eignarhaldsfélagsins Vindasúlna ehf. frá 17. mars 2011 er fram kemur á dskj. nr. 25, er lýst kröfu sem er að höfuðstól 24.526.512 krónur, auk vaxta og kostnaðar. Í kröfulýsingu kemur fram að greitt hafi verið inn á kröfuna 23.500.000 krónur. Samtals nemi krafan 7.272.821 krónu. Er kröfunni lýst sem veðkröfu að því marki sem veðtryggingar samkvæmt handveðsetningu í reikningi nr. [...]-[...]-[...]22 standi að baki henni, en almennri kröfu fyrir því sem út af kunni að standa. Þá liggja frammi á dskj. nr. 27 til 30 kröfulýsingar Arion banka hf. í þrotabú stefnda, Eignarhaldsfélagsins Vindasúlna ehf., samtals að fjárhæð 1.081.922.557 krónur. Er þeim kröfum einnig lýst sem veðkröfum að því marki sem veðtryggingar samkvæmt handveðsetningu í reikningi nr. [...]-[...]-[...]22 standi að baki henni, en almennum kröfum fyrir því sem út af kunni að standa. Kröfuskrá í þrotabú Eignarhaldsfélagsins Vindasúlna ehf. liggur frammi á dskj. nr. 32. Samkvæmt henni nemur heildarfjárhæð lýstra krafna í stefnda samtals 2.898.709.234 krónum. Í skránni er getið innborgunar að fjárhæð 23.500.000 krónur gagnvart kröfu Arion banka hf. Stefnandi byggir kröfu sína á almennum reglum kröfuréttar og meginreglum samningaréttar um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna gerða samninga. Þrátt fyrir innheimtutilraunir hafi skuld stefndu samkvæmt reikningi nr. [...]-[...]-[...]43 ekki fengist greidd. Stefnandi synjar fyrir að honum hafi borið skylda til að skuldajafna fjárhæð á reikningi nr. [...]-[...]-[...]22 við skuld á reikningi nr. [...]-[...]-[...]43. Stefndu byggja kröfu um sýknu í fyrsta lagi á því að hinni umstefndu skuld hafi borið að skuldajafna við innstæðu á reikningi nr. [...]-[...]-[...]22. Samkvæmt handveðssamningi frá 3. október 2009 hafi innstæða á þeim reikningi 14. desember 2009 samtals numið 107.344.256 krónum. Hafi Eignarhaldsfélagið Vindasúlur ehf. því átt inni hjá stefnanda á þeim degi og að kröfu stefndu borið að skuldajafna við þá innstæðu inneign á reikningi nr. [...]-[...]-[...]22. Óeðlilegt sé að stefnandi hafi getað haldið hinni veðsettu fjárhæð á lægri vöxtum án þess að ganga að innstæðunni til lúkningar kröfunni og á sama tíma safnað vanskilavöxtum á hendur stefndu. Sé það í andstöðu við 36. gr. og 36. gr. a-d laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Í annan stað byggja stefndu á því að yfirdráttarheimildin hafi áfram verið í fullu gildi. Engin gögn séu til um að henni hafi verið sagt upp með löglegum hætti. Í tölvupósti á dskj. nr. 12 hafi verið fallist á að heimildin hafi að ósekju og einhliða verið felld úr gildi. Af þeirri ástæðu hafi sjálfskuldarábyrgðin ekki gjaldfallið þar sem sjálfskuldarábyrgð stefnda, Karls Steingrímssonar, hafi verið ætlað að gilda í fjögur ár frá 31. ágúst 2007 eða til ársins 2011. Sé ábyrgð stefnda, Karls Steingrímssonar, reist á þeirri forsendu að ekki reyni á hana fyrr en í lok þess tíma. Eigi stefnandi því ekki rétt á því að fá skuldina greidda. Eigi hann einungis rétt á því að fá greidda vexti af yfirdráttarheimildinni en samkvæmt henni sé því aðeins um vanefnd að ræða að dregið verði á hana umfram umsamið hámark sem sé 30.000.000 króna. Um slíkt sé ekki að ræða og eigi stefnandi því ekki rétt til greiðslu á þeirri fjárhæð sem samsvari yfirdrættinum. Beri því að sýkna stefndu, a.m.k að svo stöddu. Byggt sé á ákvæðum III. kafla laga nr. 7/1936, einkum 36. gr. og 36. gr. a-d liðum. Í málflutningi byggðu stefndu jafnframt á því gagnvart varakröfu sinni að draga bæri frá kröfufjárhæð stefnanda innborgun á skuldina sem gerð hafi verið 10. janúar 2011 og numið hafi 23.500.000 krónum. Stefnandi haldi ekki uppi þeirri málsástæðu að sú greiðsla hafi verið innt af hendi án fyrirvara. Sé dráttarvaxtakröfu stefnanda alfarið hafnað sem og upphafstíma dráttarvaxta. Stefndu hafa fallið frá málsástæðu um aðildarskort af hálfu stefnanda. Niðurstaða: Sýknukrafa stefndu byggir í fyrsta lagi á því að stefnanda hafi borið að skuldajafna fjárhæð á reikningi nr. [...]-[...]-[...]22 við skuld á reikningi nr. [...]-[...]-[...]43, en næg fjárhæð hafi verið á þeim reikningi til lúkningar skuldinni. Stefnandi hefur mótmælt þessum málatilbúnaði stefndu. Öðrum aðila í skuldasambandi er almennt heimilt að lýsa yfir skuldajöfnuði svo fremi um sé að ræða gildar kröfur, þær séu á milli sömu aðila, kröfurnar séu hæfar til að mætast og greiðslur sambærilegar. Skuldajöfnuður er í senn greiðsla skuldar og einkafullnustuaðgerð til heimtu eigin kröfu. Að baki skuldajöfnuði búa einkum sjónarmið um hagkvæmni og öryggi. Til að skuldajöfnuður verði virkur þarf yfirlýsingu þess aðila sem skuldajafna vill. Með skuldajöfnuði er aðalkröfuhafinn þvingaður til að nota aðalkröfuna með öðrum hætti en þeim sem honum kann að þykja hentugt. Sérstakar aðstæður geta takmarkað rétt skuldara til skuldajafnaðar. Þannig er unnt í samningi að takmarka heimild til skuldajafnaðar, svo dæmi séu tekin. Slík samningsákvæði þurfa að vera skýr og ótvíræð í ljósi þess að grunnreglan er sú að aðalskuldara er skuldajöfnuðurinn heimill. Að mati dómsins er þeim skilyrðum skuldajafnaðar fullnægt í máli þessu að báðar kröfur eru gildar, þær eru á milli sömu aðila og hæfar til að mætast. Þá eru greiðslur sambærilegar. Stefndu byggja á því að almenn skilyrði skuldajafnaðar séu fyrir hendi í máli þessu og hafi stefndu lýst yfir skuldajöfnuði í þeim tölvupóstsamskiptum er átt hafi sér stað milli stefnanda og lögmanns stefnda, Eignarhaldsfélagsins Vindasúlna ehf., á dskj. nr. 11. Af samskiptum þessum á dskj. nr. 11 má ráða að eignarhaldsfélagið hefur haft ýmsar fjárskuldbindingar gagnvart stefnanda aðrar en yfirdráttarheimild á reikningi nr. [...]-[...]-[...]43. Kemur fram að skuldir hafi hvílt á Pósthússtræti 17 og Austurstræti 16 en lán á þessum eignum hafi verið gjaldfelld. Skuldir vegna Pósthússtrætis 17 hafi fallið í gjalddaga 1. júlí 2009. Í tölvupósti frá lögmanni stefndu til starfsmanns stefnanda 17. september 2009 segir: ,,Þá hefur bankinn í sínum fórum handveðsbók í eigu E. Vindasúlna ehf. til tryggingar skuldbindingum félagsins við bankann. Ber bankanum, að kröfu umbj.míns, að ganga á það fé komi til greiðslufalls, sbr. það að síðasti gjalddagi af téðum lánum var greiddur að mestu af innstæðu bókarinnar.“ Að mati dómsins er yfirlýsing sú sem til er vitnað hér að ofan að engu leyti skýr um skuldajöfnuð gagnvart yfirdrætti á tékkareikningi nr. [...]-[...]-[...]43. Verður yfirlýsingin fremur skilin á þann veg að krafist sé skuldajafnaðar gagnvart afborgunum af lánum sem í gjalddaga hafi verið fallin. Í ljósi þess hve óskýr yfirlýsing þessi er verða stefndu látin bera sönnunarbyrði fyrir staðhæfingu um að skuldajöfnuði gagnvart skuld á nefndum tékkareikningi hafi verið lýst yfir. Slík sönnun hefur ekki tekist af hálfu stefndu. Verður því ekki fallist á sýknu stefndu á þeim grundvelli að stefnanda hafi borið að skuldajafna fjárhæð á reikningi nr. [...]-[...]-[...]22 við skuld á reikningi nr. [...]-[...]-[...]43. Í annan stað byggja stefndu kröfu um sýknu á því að yfirdráttarheimild á reikningi nr. [...]-[...]-[...]43 hafi ekki liðið undir lok. Stefnandi heldur hinu gagnstæða fram og miðar við að yfirdráttarheimildin hafi liðið undir lok 21. ágúst 2009. Engin gögn liggja frammi í málinu um gildistíma framangreindrar yfirdráttarheimildar. Þó svo heimild til yfirdráttar á tékkareikningi sé byggð á samkomulagi á milli innlánsstofnunar og þess sem yfirdráttarheimild hefur fellur slík heimild niður með yfirlýsingu innlánsstofnunar um lok slíkrar heimildar. Verður að telja það standa stefndu nær að framvísa samningi um að gildistími yfirdráttarheimildarinnar sé annar en stefnandi staðhæfir. Það hafa stefndu ekki gert eða leitt í ljós efni heimildarinnar með öðrum hætti. Verða stefndu því látinn bera halla af skort á sönnun um það atriði. Nægjanlega er upplýst í málinu að stefndu höfðu reynslu af viðskiptum við stefnanda en fjárfestingar og rekstur fasteigna hafa verið þáttur í starfsemi stefndu. Verður því ekki litið svo á að slíkur aðstöðumunur hafi verið í sambandi stefnanda og stefndu að ákvæði 36. gr. laga nr. 7/1936 eigi við í málinu. Verður sýknukröfu stefndu á framangreindum forsendum því einnig hafnað. Með hliðsjón af öllu framansögðu verða kröfur stefnanda teknar til greina og stefndu sameiginlega dæmd til að greiða umkrafða fjárhæð. Fyrir dóminum liggur kvittun um að stærstur hluti kröfu samkvæmt yfirdrættinum hafi verið greidd 10. janúar 2011 eða 23.500.000 krónur. Hið sama kemur fram á kröfuskrá í Þrotabú Eignarhaldsfélagsins Vindasúlna ehf. Stefndu krefjast þess að tekið verði tillit til þessarar innborgunar á höfuðstól skuldarinnar og hefur stefnandi ekki mótmælt því sérstaklega. Verður tekið tillit til þessarar innborgunar og lækkar krafan sem þessu nemur. Um dráttarvexti fer sem í dómsorði greinir. Þess ber að geta að sá sem lýsir yfir skuldajöfnuði ræður því almennt til greiðslu hverrar skuldar gagnkrafa hans skuli renna sé um fleiri skuldir en eina að ræða. Sú regla er ekki án undantekninga. Hefur þetta þótt hafa sérstaka þýðingu þegar sumar kröfur eru tryggðar með tryggingarréttindum en aðrar kröfur eru ótryggðar og óvíst hvort þær fáist greiddar vegna þess hvernig komið er gjaldfærni skuldara. Stefndi, Karl Steingrímsson, hafði tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á títtnefndum tékkareikningi. Var krafa stefnanda á hendur eignarhaldsfélaginu því einnig tryggð með sjálfskuldarábyrgð þriðja aðila. Eignarhaldsfélagið Vindasúlur ehf. var, eins og áður sagði, úrskurðað gjaldþrota 25. janúar 2011. Nema kröfur í þrotabúið alls 2.898.709.234 krónum og hefur stefnandi lýst kröfum samtals að fjárhæð 1.089.195.378 krónur. Eins og fyrr er rakið er kröfunum lýst sem veðkröfum að því marki sem veðtryggingar samkvæmt handveðsetningu í reikningi nr. [...]-[...]-[...]22 standi að baki þeim, en almennum kröfum fyrir því sem út af kunni að standa. Með hliðsjón af fjárhæð innstæðu á hinum veðsetta reikningi samanborið við lýstar kröfur er alls óvíst hvort krafa stefnanda á hendur stefnda, Þrotabúi Eignarhaldsfélagsins Vindasúlum ehf., sem um er deilt í máli þessu, fáist greidd úr þrotabúinu. Við þær aðstæður verður að telja ósanngjarnt af tilliti til stefnanda að stefndi, Eignarhaldsfélagið Vindasúlur ehf., geti lýst yfir skuldajöfnuði gagnvart kröfu sem einnig var tryggð með sérstakri ábyrgðaryfirlýsingu, sem leiðir til þess að staða stefnanda verður þeim mun lakari gagnvart kröfum á hendur stefnda, Eignarhaldsfélaginu Vindasúlum ehf. Skuldajafnaðarheimild eignarhaldsfélagsins sætti því takmörkunum vegna þessa atriðis og var félaginu ekki heimil eins og hér stendur á. Með hliðsjón af niðurstöðu málsins greiði stefndi, Karl Steingrímsson, stefnanda málskostnað eins og í dómsorði er mælt fyrir um. Af hálfu stefnanda flutti málið Sigurður Guðmundsson héraðsdómslögmaður en af hálfu stefnda Jón Þór Ólason héraðsdómslögmaður. Dóm þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari. D ó m s o r ð: Stefndu, Þrotabú Eignarhaldsfélagsins Vindasúlna ehf. og Karl Steingrímsson, greiði stefnanda, Arion banka hf., sameiginlega 1.026.512 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af 24.526.512 krónum frá 21. ágúst 2009 til 10. janúar 2011, en af 1.026.512 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Stefndi, Karl Steingrímsson, greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 34/2021
Ákæra Skattalög Virðisaukaskattur Peningaþvætti Lögskýring Frávísun frá héraðsdómi
X var ákærður fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum og peningaþvætti. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti lýsti ákæruvaldið því yfir að þess væri nú krafist að I. ákærulið um brot gegn skattalögum yrði vísað frá héraðsdómi. Samkvæmt því var þeim ákærulið vísað frá héraðsdómi. Um II. ákærulið fyrir peningaþvætti vísaði Hæstiréttur til þess að sú háttsemi sem X væri gefin að sök fæli í sér sjálfstætt brot samkvæmt 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga sem ekki hefði getað komið til fyrr en eftir fullframningu skattalagabrotanna og þá með tilgreindri háttsemi sem bar að lýsa í ákæru, sbr. c-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Í ákærunni væri í engu lýst í hverju þær athafnir X til viðbótar brotum samkvæmt I. lið fólust og ætlaðri háttsemi X auk þess lýst með valkvæðum hætti. Þá væri ætlað brot X samkvæmt II. lið ákæru ekki afmarkað í tíma með neinum hætti, hvorki um upphafstíma þess né hvenær því lauk og ekki væri þar að finna neina sundurliðun þess fjár sem X átti að hafa ráðstafað, geymt og/eða nýtt með þessum hætti, annars vegar persónulega en hins vegar í þágu atvinnurekstrarins. Vísaði Hæstiréttur til þess að játning X breytti engu um þær kröfur sem gera yrði til skýrleika ákæru, enda gæti hann ekki með góðu móti ráðið af henni einni hvaða háttsemi honum var gefin að sök umfram þau skattalagabrot sem tilgreind voru í I. lið ákæru. Komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að ágallar á I. lið ákæru væru svo verulegir að óhjákvæmilegt væri að vísa þeim lið einnig frá héraðsdómi, sbr. c–lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Af því leiddi að málinu í heild sinni var vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. júlí 2021. Ákæruvaldið krefst frávísunar á I. lið ákæru en að ákærði verði að öðru leyti sakfelldur samkvæmt ákæru og refsing hans þyngd.3. Ákærði krefst þess að máli þessu verði vísað frá héraðsdómi.Ágreiningsefni og málsatvik4. Með ákæru héraðssaksóknara 27. febrúar 2020 voru ákærða gefin að sök ,,meiri háttar brot gegn skattalögum framin í sjálfstæðri atvinnustarfsemi hans og fyrir peningaþvætti“ með því að hafa:I. Eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti á lögmæltum tíma sem innheimtur var í starfseminni uppgjörstímabilin mars – apríl, maí – júní, september – október og nóvember – desember rekstrarárið 2017 og janúar – febrúar til og með maí – júní rekstrarárið 2018, sem bar að standa ríkissjóði skil á, í samræmi við IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð kr. 8.745.728, sem sundurliðast sem hér greinir: [...]II. Fyrir peningaþvætti með því að hafa ráðstafað, geymt og/eða nýtt ávinning af brotum skv. I. lið ákæru, samtals kr. 8.745.728, í þágu atvinnurekstrarins eða eftir atvikum í eigin þágu.Háttsemi ákærða samkvæmt I. ákærulið var talin varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Þá var háttsemi hans samkvæmt II. ákærulið talin varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. 5. Við þingfestingu málsins í héraði 3. apríl 2020 játaði ákærði sakargiftir og var farið með málið samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Með héraðsdómi 29. apríl 2020 var ákærði sakfelldur fyrir háttsemi samkvæmt I. ákærulið en talið var að 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga tæmdi sök gagnvart 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. sömu laga. Refsing hans var ákveðin fangelsi í 15 mánuði en fullnustu 12 mánaða refsingarinnar frestað skilorðsbundið í þrjú ár. Þá var honum gert að greiða 17.500.000 krónur í sekt til ríkissjóðs að viðlagðri vararefsingu.6. Ákæruvaldið áfrýjaði dómi héraðsdóms til Landsréttar og krafðist þess að ákærði yrði sakfelldur í samræmi við ákæru og refsing hans þyngd. 7. Ágreiningur málsins fyrir Landsrétti laut einkum að því hvort brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga tæmdi sök gagnvart broti gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. sömu laga. Með hinum áfrýjaða dómi 4. júní 2021 var talið að í þeim tilvikum þegar brot gagnvart 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga félli saman við frumbrot og ekkert lægi fyrir um viðbótarathafnir af hálfu ákærða yrði að telja að frumbrotið tæmdi sök gagnvart broti gegn 264. gr. laganna. Þar sem sú væri raunin í málinu var talið að brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga tæmdi sök gagnvart broti gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. laganna. Landsréttur staðfesti því dóm héraðsdóms.8. Áfrýjunarleyfi var veitt 27. júlí 2021 á þeim grunni að úrlausn í málinu, meðal annars um beitingu 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga, myndi hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. 9. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti krafðist ákæruvaldið frávísunar á I. lið ákæru. Málatilbúnaður aðila0. Um II. lið ákæru vísar ákæruvaldið til þess að með lögum nr. 149/2009 hefðu verið gerðar grundvallarbreytingar á löggjöf á sviði peningaþvættis og efnahagsbrota. Byggir ákæruvaldið á því að orðalag 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga sé skýrt. Við mat á því hvort sakfellt verði fyrir peningaþvætti beri ekki einungis að líta til þess hvort í háttseminni hafi falist áform um að fela uppruna og eiganda fjár sem sé ávinningur brotastarfsemi, eins og gert hafi verið í hinum áfrýjaða dómi, heldur beri að skoða skýrt orðalag ákvæðisins sjálfs. 1. Þá taldi ákæruvaldið niðurstöðu hins áfrýjaða dóms vera ranga um að frumbrot samkvæmt 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga tæmdi sök gagnvart broti gegn 264. gr. laganna. Of mikið væri gert úr orðalaginu „eftir því sem við á“ í tilvísun 2. mgr. 264. gr. til þess að brotasamsteypa samkvæmt 77. gr. laganna gildi um frumbrot og peningaþvætti. Þá væri áréttað að ákærði hefði játað alla þá háttsemi sem í ákæru greindi. Ágreiningur málsins í héraði hefði aðeins snúið að því hvort sú háttsemi sem ákærði játaði að „hafa ráðstafað, geymt og/eða nýtt ávinning af brotum skv. I lið ákæru [...] í þágu atvinnurekstrarins eða eftir atvikum í eigin þágu“ félli undir 264. gr. almennra hegningarlaga, en fyrir lægi að ákærði hefði játað að hafa nýtt ávinning af brotum sínum samkvæmt I. lið ákæru.2. Jafnframt var á því byggt af hálfu ákæruvaldsins að fleira þyrfti að koma til eftir fullframningu frumbrots til að unnt væri að ákæra og refsa fyrir peningaþvættisbrot, til dæmis að maður geymdi eða nýtti ávinning. Um þyrfti að vera að ræða einhverja þá háttsemi sem félli að verknaðarlýsingu 264. gr. almennra hegningarlaga. Á hinn bóginn yrði sú krafa ekki gerð til ákæruvaldsins að leitt yrði í ljós, að undangenginni játningu ákærða, hvernig hann hefði nýtt ávinning af skattalagabrotum í þágu atvinnurekstrar eða eftir atvikum í eigin þágu. Ekki væri skilyrði samkvæmt 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga að ávinningur væri nýttur á einhvern sérstakan hátt umfram annan. Með játningu ákærða teldist sannað að hann hefði nýtt ávinning af brotum sínum í skilningi 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. 3. Ákærði krafðist þess að málinu yrði í heild sinni vísað frá héraðsdómi. Um I. lið ákæru tók hann undir sjónarmið ákæruvaldsins. Um II. lið vísaði hann til dóms Hæstaréttar 2. mars 2022 í máli nr. 46/2021 þar sem ákæru vegna peningaþvættis var vísað frá héraðsdómi. Hann kvað ákæru í því máli hafa verið samhljóða ákæru í þessu máli og væri hún því háð sömu ágöllum og fjallað var um í fyrrnefndum dómi. Bæri því að vísa þessum ákærulið frá héraðsdómi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Lagaumhverfi 4. Í 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga er kveðið á um að hver sem tekur við, nýtir eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti á lögunum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum, eða meðal annars umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu eða ráðstöfun ávinnings skuli sæta fangelsi allt að 6 árum. Þá segir í 2. mgr., sem fjallar um svokallað sjálfsþvætti, að sá sem framið hefur frumbrot og fremur jafnframt brot samkvæmt 1. mgr. skuli sæta sömu refsingu og þar greinir og ákvæði 77. gr. laganna gildi þá eftir því sem við eigi. 5. Gildissvið 264. gr. almennra hegningarlaga var fært til núverandi horfs með lögum nr. 149/2009 og tekur það til ávinnings af öllum refsiverðum brotum. Um tilurð og skýringu ákvæðisins í þeirri mynd, sbr. 7. gr. laga nr. 149/2009, hefur ítarlega verið fjallað í dómum Hæstaréttar, meðal annars dómi 25. mars 2021 í máli nr. 29/2020 og fyrrgreindum dómi réttarins í máli nr. 46/2021. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 149/2009 sagði að við breytingar á ákvæðinu væri horft til 6. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri brotastarfsemi 15. nóvember 2000, svonefnds Palermo-samnings, og athugasemda í skýrslu FATF (Financial Action Task Force) 13. október 2006 um aðgerðir gegn peningaþvætti á Íslandi. Með breytingunni væri gildissvið peningaþvættisbrotsins samkvæmt 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga rýmkað þannig að það tæki ekki einungis til frumbrota á þeim lögum, heldur einnig til refsiverðra frumbrota á öðrum lögum sem fullnægðu að öðru leyti hlutrænum og huglægum efnisskilyrðum ákvæðisins. Jafnframt væri markmið lagabreytingarinnar að gera ákvæðið skýrara með því að orða í lokamálslið 1. mgr. greinarinnar sérstaklega þær verknaðaraðferðir sem slíkt brot tæki til, með hliðsjón af 1. og 2. mgr. 6. gr. Palermo-samningsins. Við túlkun einstakra verknaðarþátta yrði sem fyrr að horfa til þess að peningaþvætti væri í megindráttum hver sú starfsemi sem lyti að því að fela uppruna og eiganda fjár sem væri ávinningur af brotastarfsemi. Meginmarkmiðið væri að gera háttsemina refsiverða og höggva að rótum afbrota með því að uppræta aðalhvata þeirra, þann ávinning sem af þeim kynni að leiða.6. Með fyrrgreindum lögum nr. 149/2009 var lögfest ákvæði um sjálfsþvætti í 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga sem felur í sér að sá sem framið hefur frumbrot og fremur jafnframt peningaþvættisbrot samkvæmt 1. mgr. sömu greinar skuli sæta sömu refsingu og þar greini. Fram kom í athugasemdum í greinargerð með frumvarpinu að með málsgreininni væri horft til athugasemda í skýrslu FATF-nefndarinnar um að óljóst væri hvort gildandi lagareglur tækju til sjálfsþvættis. Enn fremur sagði að þar sem frumbrot og síðar tilkomið sjálfsþvætti á ávinningi sem af því stafaði yrðu þannig tvö sjálfstæð brot væri áréttað að 77. gr. almennra hegningarlaga um brotasamsteypu gilti eftir því sem við ætti. NiðurstaðaUm I. ákærulið7. Eins og að framan greinir er ákærða samkvæmt I. ákærulið gefið að sök meiri háttar brot gegn skattalögum framin í sjálfstæðri atvinnustarfsemi, sbr. 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988. 8. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti vísaði ákæruvaldið til þess að ákærða hefði þegar verið gert að sæta álagi á vantalinn virðisaukaskatt á grundvelli 27. gr. laga nr. 50/1988. Því myndi efnismeðferð og sakfelling samkvæmt I. ákærulið brjóta í bága við 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu um rétt til að vera ekki saksóttur eða refsað tvívegis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, í ljósi þess að ekki væri uppfyllt skilyrði um nægjanlega samþættingu í tíma. Með vísan til þessa lýsti ákæruvaldið því yfir að þess væri nú krafist að ákæruliðnum yrði vísað frá héraðsdómi. 9. Samkvæmt þessu verður I. ákærulið vísað frá héraðsdómi, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 27. september 2018, í máli nr. 521/2017.Um II. ákærulið20. Í II. lið ákæru var ákærða gefið að sök peningaþvætti en hann sýknaður af því broti með hinum áfrýjaða dómi þar sem talið var að skattalagabrot samkvæmt I. lið ákæru tæmdu sök gagnvart broti gegn 264. gr. almennra hegningarlaga. 21. Við mat á því hvort skattalagabrot samkvæmt I. ákærulið tæmi sök gagnvart broti gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. laganna ber að líta til þess að þar er tiltekið að sá sem framið hefur frumbrot og fremur jafnframt brot samkvæmt 1. mgr. skuli sæta sömu refsingu og þar greini. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 149/2009 sagði að þar sem frumbrot og síðar tilkomið sjálfsþvætti á ávinningi sem af því stafaði yrðu þannig tvö sjálfstæð brot væri áréttað að 77. gr. almennra hegningarlaga um brotasamsteypu gilti eftir því sem við ætti. Framangreind tilvísun í athugasemdunum til tveggja sjálfstæðra brota, frumbrots og síðar tilkomins sjálfsþvættis, sem og tilvísun ákvæðisins til brotasamsteypu mælir að öllu jöfnu gegn því að litið verði svo á að annað brotanna tæmi sök gagnvart hinu.22. Af hálfu ákæruvaldsins var vísað til þess við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti að hið ætlaða sjálfsþvættisbrot sem ákært væri fyrir fæli í sér sjálfstætt og eftirfarandi brot gagnvart því broti sem ákært væri fyrir í I. ákærulið og fullframning skattalagabrota væri skilyrði þess að unnt væri að koma fram refsingu fyrir peningaþvætti. Það væri jafnframt útilokað við þessar aðstæður að lýsa broti ákærða með nákvæmari hætti eða greina í einstökum atriðum hvernig ávinningi af skattalagabrotum hefði verið varið. 23. Sú háttsemi sem ákærða er gefin að sök í II. ákærulið, að hafa ráðstafað, geymt og/eða nýtt ávinning af brotum samkvæmt I. lið ákæru, samtals að tilgreindri fjárhæð, í þágu atvinnurekstrarins eða eftir atvikum í eigin þágu, felur í sér sjálfstætt brot samkvæmt 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga sem ekki gat komið til fyrr en eftir fullframningu skattalagabrotanna og þá með tilgreindri háttsemi sem bar að lýsa í ákæru, sbr. c-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hafa fyrirmæli þess ákvæðis verið skýrð svo að lýsing á háttsemi sem ákærða er gefin að sök í ákæru verði að vera svo greinargóð og skýr að hann geti ráðið af henni hvaða háttsemi hann er sakaður um og hvaða ákvæði refsilaga hann er talinn hafa gerst brotlegur við. Mega ekki vera slík tvímæli um hverjar sakargiftir eru að ákærða verði með réttu talið torvelt að taka afstöðu til þeirra og halda uppi vörnum. Að þessu leyti verður ákæra að vera svo skýr að dómara sé kleift af henni einni að gera sér grein fyrir hvað ákærði er sakaður um og hvernig sú háttsemi verður talin refsiverð. Ákæra verður því að leggja viðhlítandi grundvöll að saksókn svo að dómur verði lagður á málið í samræmi við ákæru enda verður ákærði ekki sakfelldur fyrir aðra hegðun en þar greinir, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008. Það veltur síðan á atvikum máls og eðli brots hvaða nánari kröfur verða gerðar samkvæmt framansögðu til skýrleika ákæru. Getur þá reynst nauðsynlegt að nýta heimild d-liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 til að setja fram í ákæru röksemdir sem málsókn er byggð á með svo skýrum hætti að ekki fari á milli mála hverjar sakargiftirnar eru.24. Ákvæði 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga sem leggur refsingu við því þegar maður þvættar ávinning af eigin broti hefur ekki að geyma sjálfstæða verknaðarlýsingu heldur vísar bæði um lýsingu á verknaði og refsimörk til hins almenna peningaþvættisákvæðis í 1. mgr. greinarinnar. Í 1. mgr. er talin upp ýmis sú háttsemi sem felld er undir peningaþvætti þar á meðal að taka við, nýta, eða afla sér eða öðrum ávinnings af broti á lögunum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum. Samkvæmt því getur það varðað refsingu sem sjálfsþvætti að nýta eða afla sér ávinnings af eigin broti.25. Ætlaðri refsiverðri háttsemi ákærða á grundvelli II. liðar ákæru er lýst á þann hátt að hann hafi ,,ráðstafað, geymt og/eða nýtt ávinning“ af brotum samkvæmt I. lið ákæru í þágu atvinnurekstrarins sem engin grein er gerð fyrir í ákæru hver hafi verið, eða eftir atvikum í eigin þágu. Í ákærunni er í engu lýst í hverju þær athafnir ákærða til viðbótar brotum samkvæmt I. lið fólust og ætlaðri háttsemi ákærða auk þess lýst með valkvæðum hætti. Þá er ætlað brot ákærða samkvæmt II. lið ákæru ekki afmarkað í tíma með neinum hætti, hvorki um upphafstíma þess né hvenær því lauk og ekki er þar að finna neina sundurliðun þess fjár sem ákærði á að hafa ráðstafað, geymt og/eða nýtt með þessum hætti, annars vegar persónulega en hins vegar í þágu atvinnurekstrarins. Þá hefur ákæran ekki að geyma sértækar upplýsingar um fjárhagslegar ráðstafanir ákærða, svo sem um nýtingu bankareikninga eða sambærileg gögn, sem stutt gætu sönnun um brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt framangreindu skortir með öllu á að lýst sé fyrrgreindum verknaðarþáttum peningaþvættisbrotsins.26. Meta þarf eftir atvikum hversu nákvæm slík lýsing í ákæru þurfi að vera til þess að skilyrðum c-liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 sé talið fullnægt. Á slíkt mat reynir hins vegar ekki í þessu máli þar sem engin tilraun var gerð til að lýsa ráðstöfun, geymslu, og/eða nýtingu ætlaðs ávinnings af skattalagabrotum samkvæmt I. lið ákæru. Hafi sá ómöguleiki á nánari tilgreiningu brotsins verið fyrir hendi, sem ákæruvaldið ber við í málinu, hlaut samkvæmt framansögðu að koma til álita hvort yfirhöfuð væri við slíkar aðstæður tækt að ákæra á grundvelli 264. gr. almennra hegningarlaga, sbr. fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 46/2021.27. Ákærði játaði þá háttsemi sem honum var gefin að sök í ákæru við þingfestingu málsins í héraði. Játning ákærða breytir engu um þær kröfur sem gera verður til skýrleika ákæru, enda gat hann ekki með góðu móti ráðið af henni einni hvaða háttsemi honum var gefin að sök umfram þau skattalagabrot sem tilgreind eru í I. lið ákæru. 28. Samkvæmt framangreindu eru ágallar á II. lið ákæru svo verulegir að óhjákvæmilegt er að vísa þeim lið einnig frá héraðsdómi, sbr. c–lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Af því leiðir að málinu er í heild sinni vísað frá héraðsdómi.29. Allur kostnaður vegna reksturs málsins á öllum dómstigum greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærða, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.Dómsorð:Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.Allur sakarkostnaður á öllum dómstigum greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, X, í héraði og fyrir Landsrétti, Sævars Þórs Jónssonar lögmanns, 768.180 krónur, og skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Vilhjálms Þ. Á. Vilhjálmssonar lögmanns, 744.000 krónur.https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=c2536947-632a-4451-a47c-98887dc28fbb&verdictid=ffa7bb32-4e89-4c10-90eb-80eab8fefb43
Mál nr. 284/2012
Virðisaukaskattur Staðgreiðsla opinberra gjalda
R var sakfelldur fyrir brot gegn lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda sem framin voru í rekstri A ehf., en hann var skráður stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins hluta þess tímabils sem um ræddi. Þóttu brotin jafnframt varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. R var dæmdur í 2 mánaða fangelsi en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í tvö ár. R var einnig dæmdur til að greiða ríkissjóði 3.500.000 krónur í sekt, en sæta ella fangelsi í 80 daga.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Símon Sigvaldason héraðsdómari. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. apríl 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða verði staðfest en refsing hans þyngd. Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð. Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi var mál þetta höfðað með ákæru 22. febrúar 2010 á hendur ákærða og þremur öðrum mönnum fyrir brot á 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir að hafa ekki afhent á lögmæltum tíma virðisaukaskattskýrslur, hafa ekki staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti, fyrir að hafa staðið skil á efnislega röngum skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda og hafa ekki staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna nánar tilgreinds einkahlutafélags sem einnig var ákært fyrir brot á lögum nr. 50/1988 og lögum nr. 45/1987. Fallið var frá ákæru á hendur einkahlutafélaginu. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða. Til stuðnings kröfu sinni um þyngingu refsingar ákærða vísar ákæruvaldið til þess að fésektarrefsing hafi ekki verið ákvörðuð réttilega í héraðsdómi þar sem ekki hafi verið skilyrði til þess að færa hana niður úr lágmarki því sem tiltekið er í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987. Í 1. hluta ákæru er ákærða og tveim öðrum mönnum gefið að sök að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattskýrslum á lögmæltum tíma vegna uppgjörstímabilsins janúar til febrúar 2007 án þess að þar greini hver hafi verið vantalin skattskyld velta og vangoldinn virðisaukaskattur fyrir það tímabil. Kemur því ekki til álita að gera ákærða refsingu vegna þess tímabils. Þá er ákærða ekki gefið að sök að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattskýrslum árið 2006 en vangoldinn virðisaukaskattur vegna september til nóvember 2006, samtals að fjárhæð 3.887.682 krónur, var greiddur áður en ákæra var gefin út. Eru því skilyrði til að færa fésektarrefsingu niður úr lágmarki því sem tiltekið er í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988. Í 2. hluta ákæru er ákærða og tveim öðrum mönnum gefið að sök að hafa staðið skil á efnislega röngum skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda vegna tímabilanna júlí og ágúst 2006 og ekki staðið skil á skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma vegna tímabilanna september 2006 til og með febrúar 2007. Vangoldin staðgreiðsla hvað snertir ákærða var að fjárhæð 5.187.096 krónur. Þótt fyrir liggi að hin vangoldna staðgreiðsla hafi verið greidd að fullu er ekki fullnægt skilyrðum 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 til að færa fésektarrefsingu niður úr tilgreindu lágmarki heldur verður hún ákveðin sem nemur tvöfaldri vangoldinni fjárhæð afdreginnar staðgreiðslu. Að því virtu sem að framan er rakið verður ákærða gert að greiða 3.500.000 krónur í sekt sem greiðist í ríkissjóð og komi 80 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan þess tíma sem í dómsorði greinir. Niðurstaða héraðsdóms um fangelsisrefsingu ákærða, skilorðsbindingu hennar og sakarkostnað verður staðfest. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður um fangelsisrefsingu ákærða, Rúnars Þórs Jónssonar, og um skilorðsbindingu hennar. Ákærði greiði 3.500.000 krónur í sekt í ríkissjóð og komi 80 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa. Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað. Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 384.908 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Kristínar Edwald hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. mars 2012. I Málið, sem dómtekið var 6. mars síðastliðinn, er höfðað með ákæru ríkislögreglustjóra útgefinni 22. febrúar 2010 á hendur „X, kennitala [...], [...], [...], Y, kennitala [...], [...], [...], Rúnari Þór Jónssyni, kennitala [...], [...], [...], Z, kennitala [...], [...],[...], og A ehf., kennitala [...], [...], [...], fyrirsvarsmaður X, kennitala [...], fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum framin í rekstri ákærða einkahlutafélagsins A (áður B), sem ákærði X var starfandi framkvæmdastjóri fyrir, einnig stjórnarformaður frá 30.03.2007 og prókúruhafi frá 02.08.2006 og áður varastjórnarmaður til 30.03.2007, ákærði Y var stjórnarformaður, prókúruhafi og skráður framkvæmdastjóri fyrir til 30.03.2007, ákærði Rúnar Þór var skráður framkvæmdastjóri og stjórnarmaður fyrir til 30.03.2007, prókúruhafi frá 14.06.2006 og varastjórnarmaður frá 30.03.2007 til 18.04.2007, og ákærði Z var skráður framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi frá 30.03.2007, með því að hafa: 1. Eigi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum fyrir hönd félagsins á lögmæltum tíma vegna uppgjörstímabilanna janúar-febrúar 2007 til og með september-október 2007, og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri einkahlutafélagsins vegna tímabilanna september-október 2006 til og með september-október 2007, í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, samtals að fjárhæð kr. 18.617.412, sem sundurliðast sem hér greinir: 2. Staðið skil á efnislega röngum skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda vegna tímabilanna júlí og ágúst 2006, og eigi staðið skil á skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma vegna tímabilanna september 2006 til og með október 2007 og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, í samræmi við fyrirmæli í III. kafla laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987, sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins vegna tímabilanna júlí 2006 til og með október 2007, samtals að fjárhæð kr. 4.899.680 hvað varðar Y, samtals að fjárhæð kr. 5.187.096 hvað varðar Rúnar Þór, samtals að fjárhæð kr. 14.488.547 hvað varðar X og A ehf., og samtals að fjárhæð kr. 8.513.942 hvað varðar Z, sem sundurliðast sem hér greinir: Framangreind brot ákærðu teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig: a) 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005 að því er varðar 1. tölulið ákæru. b) 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. gr. laga nr. 134/2005 að því er varðar 2. tölulið ákæru. Framangreind brot ákærða A ehf. samkvæmt ákæru teljast varða við: c) 8. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt að því er varðar 1. tölulið ákæru, sbr. tilvitnuð ákvæði í a) lið að framan. d) 9. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda að því er varðar 2. tölulið ákæru, sbr. tilvitnuð ákvæði í b) lið hér að framan. Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“ Fallið var frá ákæru á hendur A ehf. Mál þetta var upphaflega dæmt í héraðsdómi 27. janúar 2011 og voru allir ákærðu sakfelldir. Ákærði Rúnar Þór áfrýjaði dómnum til Hæstaréttar, en aðrir ákærðu undu honum. Með dómi Hæstaréttar 8. desember síðastliðinn var héraðsdómurinn ómerktur að því er ákærða varðaði þar eð hann og ákærði X hefðu ekki mátt hafa sama verjanda. Ákærði neitar sök og krefst sýknu, en til vara vægustu refsingar. Þess er krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði. II Fyrirtækið B ehf. var stofnað 9. september 2003 af ákærða Y og öðrum manni. Tilgangur þess var verktakastarfsemi, ráðgjöf, heildsala og smásala á byggingamarkaði. Sumarið 2005 keypti ákærði X hlut félaga ákærða Y í félaginu og í mars 2007 keypti ákærði Z hlut ákærða Y. Nafni félagsins var breytt í A ehf. [...] 2009. Málavextir varðandi málið, sem hér er til úrlausnar, eru þeir að skattrannsóknastjóri hóf í desember 2007 rannsókn á bókhaldi og skattskilum B ehf. vegna rekstrarársins 2006 til og með október 2007. Að lokinni rannsókn var málið sent efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra 2. desember 2008. Áður hafði það verið sent ríkisskattstjóra til endurákvörðunar opinberra gjalda. Rannsókn lögreglu, sem leiddi til útgáfu ákærunnar, er byggð á rannsókn skattrannsóknastjóra. Þá hefur verið aflað vottorða fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra um trúnaðar- og stjórnunarstörf ákærðu fyrir félögin á þeim tímabilum sem í ákæru greinir. A ehf. var úrskurðað gjaldþrota [...] 2010. III Við aðalmeðferð neitaði ákærði sök. Hann kvaðst hafa haft þau tengsl við framangreint einkahlutafélag að hann hefði tekið að sér fyrir [...] að koma inn í félagið sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður. [...] hefði orðið gjaldþrota og gæti þess vegna ekki gegnt þessum störfum. Hann kvaðst hafa tekið þetta að sér með þeim skilyrðum að hann hætti fljótlega þessum störfum. Hann kvaðst fyrst hafa orðið stjórnarmaður og litlu síðar framkvæmdastjóri. Nokkrum dögum síðar kvaðst hann hafa spurt [...] hvort hann hefði ekki örugglega verið afskráður úr trúnaðarstöðum hjá félaginu og hefði hann sagt að svo væri. Eftir það kvaðst ákærði engin afskipti hafa haft af því. Hann kvaðst ekki hafa kannað þessi mál hjá fyrirtækjaskrá heldur treyst orðum [...]. Ákærði kvaðst ekki hafa kynnt sér þær skyldur sem hvíldu á stjórnarmönnum eða framkvæmdastjórum einkahlutafélaga, enda hafi hann bara átt að gegna þessum störfum í mjög skamman tíma. Hann kvaðst engin afskipti hafa haft af rekstri félagsins, engar ákvarðanir tekið varðandi það og enga fundi setið. Þá hefði hann engin laun fengið. Það eina sem hann hefði gert var að rita undir tvær tilkynningar til ríkisskattstjóra um að hann hefði orðið stjórnarnmaður og framkvæmdastjóri. Ákærði kvaðst ekki hafa ritað undir tilkynningu um að hann hefði orðið varastjórnarmaður í félaginu eins og í ákæru greinir, en að öðru leyti gerði hann ekki athugasemdir við þau tímabil sem hann átti að hafa gegnt trúnaðarstörfum fyrir félagið og í ákæru greinir. Ákærði kvaðst enga forsendur hafa til þess að gera athugasemdir við þær tölur sem í ákæru greinir. Nú verður rakinn framburður meðákærðu og vitna sem gáfu skýrslu við meðferð fyrra málsins. Málflytjendur höfðu kynnt sér framburð þeirra og töldu ekki þörf á að þeir kæmu aftur fyrir dóm. Ákærði gaf hins vegar nýja skýrslu við aðalmeðferð sem reifuð var hér að framan. Ákærði X neitaði að hafa verið starfandi framkvæmdastjóri fyrirtækisins eins og hann er ákærður fyrir en kannaðist við að hafa verið stjórnarformaður, prókúruhafi og varastjórnarmaður eins og rakið er í ákæru. Hann kvaðst hafa átt helming í fyrirtækinu og verið titlaður markaðsstjóri. Hann kvaðst hafa séð um verksamninga, leit að verkefnum og stjórn á verkstað. Hann hafi ekki séð um bókhald eða fjármál. Hann hafi þó haft prókúru og þess vegna greitt ýmsa reikninga. Þá kvaðst hann hafa komið að stjórn fyrirtækisins en hann hafi ekki verið framkvæmdastjóri eða stýrt því umfram það sem leiddi af framangreindum störfum. Hann kvaðst ekkert geta tjáð sig um skil á skattskýrslum og greiðslu opinberra gjalda á þeim tíma sem um ræðir og ákæran nær til. Hann kvaðst hafa vitað að launagreiðslur voru í skilum og talið að aðrar greiðslur væru einnig í skilum. Meðákærðu, Y og Z, hafi verið framkvæmdastjórar eins og rakið er í ákæru en meðákærði Rúnar Þór, [...], hafi aldrei komið að rekstrinum þótt hann hafi verið skráður framkvæmdastjóri, en sú skráning hafi verið til málamynda. Ákærði Y neitaði sök. Hann kannaðist við að hafa verið stjórnarformaður og prókúruhafi eins og rakið er í ákærunni en neitaði að hafa verið skráður framkvæmdastjóri. Ákærða var sýnd tilkynning til ríkisskattstjóra þar sem tilkynnt er að hann hafi verið tilkynntur sem framkvæmdastjóri félagsins. Hann kannaðist við að hafa ritað nafn sitt á skjalið en neitaði að hafa verið framkvæmdastjóri þess þrátt fyrir tilkynninguna. Hann kvaðst á sínum tíma hafa ráðið C, [...], sem framkvæmdastjóra og fylgst með rekstrinum í gegnum hann. Ákærði kvað aðalstarf sitt hjá félaginu hafa verið að stjórna verkunum. Eftir að C hafi verið sagt upp hafi meðákærði X tekið við framkvæmdastjórn en meðákærði Rúnar Þór hafi ekki komið að rekstrinum eða störfum hjá félaginu. Sjálfur kvaðst ákærði hafa verið stjórnarformaður auk þess að starfa við verkin. Ákærða var bent á að hann hafi verið skráður framkvæmdastjóri og kvað hann sér hafa verið ljóst hvað það þýddi í grófum dráttum. Hann ítrekaði að meðákærði X hafi verið framkvæmdastjóri en gat ekki svarað því af hverju hann var ekki skráður sem slíkur. Meðákærði X hafi tekið allar aðalákvarðanir en sjálfur hafi hann komið að þeim, þó aðallega þeim sem snertu verkin sem þeir voru að vinna. Sími félagsins hafi til dæmis verið stilltur á gemsa meðákærða. Ákærði kvað sig hafa grunað að eitthvað væri í ólagi með fjármálin hjá fyrirtækinu, þar á meðal með skattskil, eftir að C hætti og viljað fá fyrirtæki til að annast þau mál en það hafi meðákærði ekki viljað. Ákærði Z kvaðst hafa verið skráður framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi eins og rakið er í ákæru. Hann kvaðst á sínum tíma hafa keypt sig inn í félagið eftir að hafa haft samráð við meðákærða X. Ákærði kvaðst hafa byrjað að vinna við tölvukerfi félagsins og hafi hann unnið við það áður en hann eignaðist hlut í því. Eftir að hann keypti hlutinn hafi hann og meðákærði átt félagið og rekið. Ákærði var framkvæmdastjóri og meðákærði stjórnarformaður. Í raun hafi þó meðákærði ráðið því sem hann vildi ráða og kvaðst ákærði ekki hafa gert sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem fylgdi því að vera framkvæmdastjóri. Hann kvað bókhald ekki hafa verið fært og skattaskýrslum ekki skilað eftir að hann kom að félaginu. Ástæðan hafi verið sú að meðákærði X vildi ekki láta sama fyrirtæki annast þetta og hafði gert það áður. Hafi það verið vegna tengsla þess fyrirtækis við meðákærða Y. C, sem áður var getið um, bar að hafa verið framkvæmdastjóri B ehf. frá miðju ári 2005 til miðs árs 2006. Hann kvað þáverandi eigendur hafa ráðið sig. Sér hafi svo verið tilkynnt að verið væri að ráða nýjan framkvæmdastjóra og í framhaldinu hafi sér verið meinað um aðgang að gögnum félagsins. Við störfum sínum hafi tekið ákærði X og hafi hann svo tekið við framkvæmdastjórn félagsins. C kvað vörsluskatta hafa verið greidda eins og bar að gera meðan hann var framkvæmdastjóri. Þegar C var framkvæmdastjóri hafi ákærði Y annast um ýmis verkleg störf hjá félaginu en ákærði X annast ýmis störf og hann hafi svo tekið við fjármálunum þegar C lét af störfum. D viðskiptafræðingur var fenginn til að aðstoða B ehf. við fjármál þess á sínum tíma. Var það ákærði Y sem fékk fyrirtæki vitnisins til þessa. Þetta var árið 2006 og í ársbyrjun 2007 voru lagðar fram tillögur til úrbóta í fjármálum félagsins. Ákærði vildi að farið yrði að tillögunum en meðákærði X vildi það ekki. D kvaðst vita til þess að pappírsvinnan hjá félaginu hafi verið í höndum ákærða X á þessum tíma en ákærði Y hafi meira sinnt verkum á vinnustað. IV Ákærði neitar sök en hefur viðurkennt að hafa verið skráður stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins á þeim tímabilum sem í ákæru greinir. Hann hefur hins vegar neitað að hafa undirritað tilkynningar um að hann hafi verið varastjórnarmaður. Þá hefur ákærði gefið þær skýringar á þessum störfum fyrir félagið að hann hafi tekið þau að sér af greiðasemi við [...]. Þrátt fyrir að engin ástæða sé til að efast um að tilgangurinn með þessum störfum hafi verið með þeim hætti sem lýst var, er ekki hægt að líta fram hjá því að lögum samkvæmt hvíla tilteknar skyldur á stjórnarmanni og framkvæmdastjóra einkahlutafélags, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Ákærða mátti því vera ljóst að með því að láta skrá sig í þessar stöður tók hann á sig tilteknar skyldur, þar á meðal að annast daglegan rekstur félagsins. Í því felst meðal annars að sjá til þess að skilað sé réttum skattskýrslum á réttum tíma og afdregnum virðisaukaskatti og afdreginni staðgreiðslu. Það er því ekki hægt að fallast á það með ákærða að sýkna beri hann vegna þess að staða hans hjá félaginu hafi eingöngu verið til málamynda. Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákærunni, nema hvað hann verður sýknaður af því að hafa verið varastjórnarmaður og þar með að hafa sem slíkur brotið gegn þeim lagaákvæðum sem í ákæru greinir. Ákærði hefur ekki kannast við að hafa undirritað tilkynningar þar um og þegar þær eru skoðaðar og bornar saman við undirritanir á tilkynningum sem hann kannast við að hafa undirritað, sést greinilega að það er ekki hann sem undirritar þær. Brot ákærða eru rétt færð til refsiákvæða í ákærunni. Við ákvörðun refsingar ákærða ber að taka tilliti til þess að skattaskuldir félaganna hafa verið greiddar. Þá hefur ákærði hreint sakavottorð. Samkvæmt þessu er refsing ákærða ákveðin 2 mánaða fangelsi og skal hún bundin skilorði eins og greinir í dómsorði. Þá verður ákærða gert að greiða 1.600.00 krónur í sekt með vararefsingu eins og greinir í dómsorði. Loks verður ákærði dæmdur til að greiða málsvarnarlaun verjanda síns með virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn. D Ó M S O R Ð Ákærði, Rúnar Þór Jónsson, sæti fangelsi í 2 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði greiði 1.600.000 krónur í sekt og komi 36 daga fangelsi í stað sektar verði hún ekki greidd innan 4 vikna. Ákærði greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Kristínar Edwald hrl., 210.212 krónur.
Mál nr. 760/2014
Samningur Jörð Umferðarréttur
S og G, eigendur spildu úr landi Haga í Rangárþingi ytra, deildu um umferðarrétt um Hólaveg, sem liggur um spilduna frá Hagavegi að Burstabrekku, sem er í eigu K og stendur á Ketilstaðahnjúki og var á sínum tíma skipt úr landi Haga. Eignarrétt sinn að spildunni úr landi Haga höfðu S og G eignast 1997 með makaskiptasamningi við GH í Haga og báru þau því við að samkvæmt orðalagi þess samnings tilheyrði spildunni landið sem vegurinn liggur eftir. Hæstiréttur taldi að með makaskiptasamningnum árið 1997 hefðu S og G öðlast eignarhald á allri spildunni úr landi Haga sem þeim var seld og þar með talið því landi innan hennar sem síðar fór undir Hólaveg. Þá taldi rétturinn að í þeim orðum afsals GH árið 1999 til þeirra sem K leiddi rétt sinn frá, að meðfylgjandi væri vegur frá Hagabraut og heim að bústað, gæti í samræmi við efnislegan rétt GH ekki falist annað og meira en yfirlýsing um umferðarrétt þeim til handa eftir vegslóðanum. Þar sem GH hefði brostið að lögum heimild til að afsala afsalshöfum eignarrétti að vegstæði Hólavegar, hafi slíkt á annað borð verið tilætlan hans, ætti sami heimildarbrestur við um þá sem leiddu rétt sinn til lóðarinnar frá afsalshöfunum við síðari sölur hennar, þ. á m. K. Var að virtri kröfugerð S og G tekin til greina varakrafa þeirra um umferðarrétt um veginn.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 15. september 2014. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu 29. október 2014 og var áfrýjað öðru sinni 26. nóvember sama ár. Áfrýjandi krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 2014. Mál þetta, sem dómtekið var 23. maí 2014, var höfðað 18. júní 2013 af Sólveigu Ólafsdóttur, Forsölum 1, Kópavogi og Grétari Jóhannesi Sigvaldasyni, Þingaseli 5, Reykjavík gegn Konráði G. Gottliebssyni, Þórðarsveig 2, Reykjavík, til viðurkenningar á dómkröfum, og gegn Gottlieb Konráðssyni, Burstabrekku, Rangárþingi ytra, til réttargæslu. Stefnendur krefjast þess aðallega að viðurkennt verði með dómi eignarhald þeirra á landi því sem svonefndur Hólavegur liggur eftir, á landspildu stefnenda, en spilda þessi, sem er úr jörðinni Haga í Rangárþingi ytra, hefur landnúmerið 198458, nánar tiltekið frá línu sem dregin er milli punkta 1 og 20 á hnitsettri loftmynd (dskj. 3) um eftirtalin hnit, en að gættum umferðarrétti stefnda Konráðs og réttargæslustefnda Gottliebs eftir Hólavegi: Frá punkti 1 (hnit austur (A) 428524,2 / norður (N) 385762,8) að punkti 2 (hnit A-428525,0 / N-385774,7), en þaðan að punkti 3 (hnit A-428542,9 / N-385786,9), en þaðan að punkti 4 (hnit A-428568,4 / N-385810,6), en þaðan að punkti 5 (hnit A-428577,4 / N-385821,9), en þaðan að punkti 6 (hnit A-428595,8 / N-385854,0), en þaðan að punkti 7 (hnit A-428623,6 / N-385910,1), en þaðan að punkti 8 (hnit A-428631,7 / N-385928,6), en þaðan að punkti 9 (hnit A-428651,5 / N-385982,3), en þaðan að punkti 10 (hnit A-428668,5 / N-386015,0), en þaðan að punkti 11 (hnit A-428694,8 / N-386000,7), en þaðan að punkti 12 (hnit A-428679,2 / N-385970,6), en þaðan að punkti 13 (hnit A-428659,4 / N-385917,1), en þaðan að punkti 14 (hnit A-428650,9 / N-385897,6), en þaðan að punkti 15 (hnit A-428622,4 / N-385839,9), en þaðan að punkti 16 (hnit A-428602,0 / N-385804,7), en þaðan að punkti 17 (hnit A-428590,9 / N-385790,7), en þaðan að punkti 18 (hnit A-428561,4 / N-385763,2), en þaðan að punkti 19 (hnit A-428536,8 / N-385746,6), en þaðan að punkti 20 (hnit A-428522,8 / N-385741,5), en þaðan að punkti 1. Þá krefjast stefnendur þess að viðurkenndur verði umferðar- og nýtingarréttur þeirra á Hólavegi, allt frá þjóðvegi, Hagabraut, að línu sem dregin er milli punkta 10 og 11 á dómskjali nr. 3. Til vara krefjast stefnendur þess að viðurkennt verði með dómi að landspilda þeirra með landnúmerinu 198458, þar sem hún liggur með Hólavegi, nái allt að spildu sem afmarkast á loftmynd á dskj. nr. 4 með eftirgreindum hnitum: Frá punkti a (hnit austur (A) 428524,0 / norður (N) 385759,5), að punkti b (hnit A-428529,5 / N-385761,1), en þaðan að punkti c (hnit A-428551,2 / N-385775,9), en þaðan að punkti d (hnit A-428578,9 / N-385801,2), en þaðan að punkti e (hnit A-428588,2 / N-385813,0), en þaðan að punkti f (hnit A-428622,9 / N-385876,3), en þaðan að punkti g (hnit A-428636,2 / N-385904,0), en þaðan að punkti h (hnit A-428649,2 / N-385936,2), en þaðan að punkti i (hnit A-428663,9 / N-385977,0), en þaðan að punkti j (hnit A-428680,4 / N-386008,6), en þaðan að punkti k (hnit A-428683,0 / N-386007,1), en þaðan að punkti l (hnit A-428666,7 / N-385975,9), en þaðan að punkti m (hnit A-428652,0 / N-385935,1), en þaðan að punkti n (hnit A-428638,9 / N-385902,8), en þaðan að punkti o (hnit A-428625,6 / N-385875,0), en þaðan að punkti p (hnit A-428590,7 / N-385811,3), en þaðan að punkti q (hnit A-428581,2 / N-385799,2), en þaðan að punkti r (hnit A-428553,1 / N-385773,5), en þaðan að punkti s (hnit A-428530,9 / N-385758,4), en þaðan að punkti t (hnit A-428523,8 / N-385756,2). Þá krefjast stefnendur þess að viðurkenndur verði umferðar- og nýtingarréttur þeirra á Hólavegi, allt frá þjóðvegi, Hagabraut, að línu sem dregin er milli punkta j og k á dómskjali nr. 4. Stefnendur krefjast þess að stefndi Konráð verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað að mati dómsins samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti. Ekki eru gerðar kröfur á hendur réttargæslustefnda Gottlieb, en stefnendur skora á hann að gæta hagsmuna sinna í málinu, telji hann vera þörf á því. Stefndi krefst þess að vera sýknaður af öllum kröfum stefnenda. Þá krefst stefndi þess að stefnendur verði dæmdir til að greiða honum málskostnað að skaðlausu. Af hálfu réttargæslustefnda eru engar kröfur gerðar, en réttargæslustefndi styður kröfur og málflutning stefnda. Málavextir Stefnendur lýsa málavöxtum svo að þeir eigi í óskiptri sameign landspildu með landnúmerinu 198458, úr landi Haga í Rangárþingi ytra, en Hólavegur liggi um land þeirra. Stefndi Konráð G. Gottliebsson sé skráður lóðarhafi sumarhúsalóðar með landnúmer 165224, er nefnist Burstabrekka, en Hólavegur liggi frá þjóðvegi, Hagabraut, og upp að þeirri lóð. Réttargæslustefndi Gottlieb Konráðsson, sem sé leigutaki eða afnotahafi og byggingarleyfishafi á þeirri lóð, njóti sem slíkur umferðarréttar um Hólaveg. Samkvæmt gögnum málsins og lýsingu í stefnu eru málsatvik þau að 2. nóvember 1997 gerðu stefnendur makaskiptasamning við Guðmund Halldórsson, fyrrum eiganda jarðarinnar Haga í Holta- og Landsveit, nú Rangárþingi ytra, um landspildur. Samkvæmt samningnum keyptu stefnendur landspildu af Guðmundi, með landnúmerið 198458, en létu af hendi aðra spildu, svo og beitarrétt á enn annarri landspildu. Skipulagsuppdráttur sem unninn var á tímabilinu frá nóvember 1991 til febrúar 1992 var hluti samningsins. Mörkum landspildunnar sem stefnendur keyptu var lýst í makaskiptasamningi. Um vesturmörkin segir þar svo: Í vestur meðfram núverandi sumarhúsagirðingum og að landamerkjum Ketilsstaða. Undanskilið sölunni var skiki í suðvesturhorni spildunnar, um 3 ha að flatarmáli, en að öðru leyti var spildan seld ásamt öllu sem eigninni fylgir og fylgja ber að engu undanskildu í því ásigkomulagi sem kaupandi hefur þegar kynnt sér með skoðun og sættir sig við í einu og öllu. Makaskiptasamningurinn var samþykktur athugasemdalaust í jarðanefnd hinn 7. nóvember 1997 og af sveitarstjórn Holta- og Landsveitar hinn 8. desember 1997. Makaskiptasamningnum var þinglýst athugasemdalaust hinn 19. desember 1997. Innan marka landspildunnar var frístundalóð, sem Guðmundur Halldórsson hafði á sínum tíma leigt bróður sínum, Daníel Halldórssyni. Lóðin var afgirt og talin vera um 0,25 ha að flatarmáli. Daníel seldi Ólínu Kjartansdóttur sumarhús sitt á lóðinni á árinu 1995. Þann 25. ágúst 1995 leigði Guðmundur Ólínu og Guðjóni B. Sigurðssyni lóðina. Samkvæmt leigusamningnum var lóðin sögð u.þ.b. einn hektari að flatarmáli. Í samningnum var kveðið á um viðhaldsskyldu leigutaka á vegi að bústaðnum. Þremur árum áður hafði Guðmundur gert leigusamning við Arnar Magnússon um þrjár lóðir nær þjóðvegi, með aðkomu upp eftir Hólavegi og inn á lóðirnar, með viðhaldsskyldu leigutaka. Með afsali 31. júlí 1999, sem virðist gefið út á grundvelli óþinglýsts kaupsamnings, dags. 15. mars 1999, seldi Guðmundur Halldórsson og afsalaði leigulóðinni til leigutaka, Ólínu Kjartansdóttur og Guðjóns B. Sigurðssonar. Á prentað eintak afsalsins er handskrifuð stærð lóðarinnar, 10.000 fermetrar, og handskrifað er á skjalið að meðfylgjandi lóðinni sé vegur frá Hagabraut og heim að bústað. Undirritanir breytinga þessara á prentaða skjalinu eru ekki sérstaklega vottaðar. Landnúmer lóðarinnar er sagt 165224. Afsalið var afhent til þinglýsingar 27. júní 2005 og þinglýst næsta dag. Engin lýsing eða hnitsetning er á mörkum lóðarinnar og umlykjandi spildu stefnenda og staðfest mörk er hvergi að finna á uppdráttum eða loftmyndum. Þann 10. september 2007 afsalaði Guðjón B. Sigurðsson, þá orðinn ekill, rétti sínum að sumarhúsi og sumarhúsalóð (landnúmer 165224) til Guðnýjar Óskar Gottliebsdóttur. Samkvæmt afsalinu er stærð lóðarinnar 10.000 fermetrar og tilgreint að meðfylgjandi sé vegur frá Hagabraut heim að bústað. Afsal þetta var afhent til þinglýsingar 11. september 2007 og innfært daginn eftir. Í stefnu segir að það hafi verið fyrst í október 2007 sem stefnendur hafi fengið vitneskju um gerning Guðmundar Halldórssonar frá 1999 (afsal leigulóðar) og þar með um ráðstöfun hans á hluta af spildu stefnenda, þ.e. þeim hluta spildunnar sem leigulóðin hafi verið á og þess hluta sem verið hafi hinn upphaflegi Hólavegur. Á sama tíma, í október 2007, hafi stefnendum fyrst orðið kunnugt um afsal Guðjóns B. Sigurðssonar til Guðnýjar Óskar Gottliebsdóttur. Þegar stefnendur hafi tekið við eignarhaldi spildunnar í nóvember 1997 hafi Hólavegur ekki verið annað en moldarslóði, í raun aðeins fólksbílahjólför, tæplega þriggja metra breið. Bróðir Guðmundar, Daníel, hafi haft viðhaldsskyldu á slóðanum. Sú viðhaldsskylda hafi færst yfir á Ólínu Kjartansdóttur og Guðjón B. Sigurðsson, þegar þau hafi tekið yfir lóðarleigusamninginn á árinu 1995. Hvorki Daníel né Ólína og Guðjón hefðu sinnt viðhaldinu á slóðanum eða gert á honum endurbætur þegar stefnendur hafi keypt landspilduna af Guðmundi Halldórssyni. Stefnendur hafi fljótlega hafist handa við að endurbæta slóðann vegna aðgengis að jarðræktarframkvæmdum sínum (túnrækt) með fram og út frá honum. Þeir hafi fengið verktaka til þess að aka möl í hjólförin á árinu 1998. Verktakinn hafi útbúið tvö stæði fyrir heysátur, annað hægra megin við slóðann, ofan við sumarhúsalóð á hægri hönd, en hitt ofarlega við slóðann, einnig hægra megin við hann. Jarðræktarframkvæmdir stefnenda hafi hafist árið 1998 með því að jarðvegi hafi verið ýtt til, sléttað úr allstórum landspildum (u.þ.b. 16-18 ha að flatarmáli) vestan og austan við Hólaveg og sáð grasfræi. Stefnendur hafi samtímis látið grafa um 300-400 metra langan skurð austan við Ketilsstaðahnjúk, frá norðurmörkum spildunnar og í suðurátt, inn í mitt túnið. Stefnendur hafi fyrst hirt hey af túnum sínum haustið 1998 og síðan árlega eftir það. Á árinu 2004 hafi stefnendur látið aka möl í slóðann (veginn) frá þjóðvegi og nokkuð upp fyrir neðra sátustæðið (sem er við punkt t á loftmynd á dskj. 4). Allar þessar lagfæringar og endurbætur á veginum hafi auðveldað stefnendum mjög nýtingu á landi sínu, bæði til jarðræktarframkvæmda, til áburðargjafar á túnin, til heysláttar og hirðingar og til þess að gefa hestum sínum hey yfir vetrartímann. Allt hey hafi verið geymt á sátustæðunum og rúllur teknar þaðan og hestum gefið. Þá hafi stefnendur rekið, eftir því sem þurft hafi, hross upp veginn og í beitarhólf inni á landspildu sinni, bæði vestan og austan vegarins. Þannig hafi Ketilsstaðahnjúkur, allt að og umhverfis afgirtu leigulóðina, og svæðið kringum hnjúkinn, sem ekki hafi verið brotið undir túnrækt, verið notað sem beitarhólf fyrir hesta stefnenda allt frá árinu 1998. Stefnendur hafi þannig haft, allan ársins hring, mikil not af vegi sínum í þessum störfum og framkvæmdum, allt frá því þeir eignuðust spilduna og þar til á árinu 2008, þegar þeim hafi skyndilega verið meinuð för um veginn af réttargæslustefnda Gottlieb, veginn sem þeir telji sig eiga, veginn sem þeir hafi betrumbætt, haldið við og notað frá árinu 1997. Hafi réttargæslustefndi Gottlieb girt fyrir veginn, úti við þjóðveg, með sverri keðju og lás og komið þannig í veg fyrir að stefnendur gætu farið um veginn með hross sín og heyvinnslutæki. Réttargæslustefndi Gottlieb hafi borið efni í veginn, hækkað hann töluvert og ýtt efninu út til hliða og þannig tekið sífellt stærra ræktar- og beitarland frá stefnendum undir vegstæðið. Loks hafi réttargæslustefndi Gottlieb tekið sig til og girt veginn af, með girðingu allt upp að lóðinni á Ketilsstaðahnjúki. Hafi hann þannig helgað sér umtalsvert af landi stefnenda og jafnframt hafnað tilmælum stefnenda um að rífa upp girðingar sínar með fram veginum. Réttargæslustefndi Gottlieb hafi hlotið refsidóm í sakamálinu nr. S-239/2009 fyrir Héraðsdómi Suðurlands vegna áverka á fæti sem hann veitti stefnanda Grétari Jóhannesi þann 13. ágúst 2008, þegar hann hafi meinað stefnanda Grétari Jóhannesi og Þorgrími Ólafssyni, eiginmanni stefnanda Sólveigar, för eftir veginum. Stefnendur telja sölu Guðmundar Halldórssonar á sumarhúsalóðinni til Ólínu Kjartansdóttur og Guðjóns B. Sigurðssonar á árinu 1999 hafa verið í andstöðu við makaskiptasamning hans við stefnendur tveimur árum fyrr. Þá séu mörk þessarar lóðar gagnvart umlykjandi landspildu stefnenda fullkominni óvissu háð og algjörlega óskilgreind. Með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands 22. maí 2008 var kröfu stefnenda um aflýsingu afsalsins hafnað og með úrskurði sama dómstóls 6. nóvember 2008, sem staðfestur var í Hæstarétti 8. desember s.á., var hafnað kröfu stefnenda um að þau yrðu með beinni aðfarargerð sett inn í óhindruð umráð eða óhindraðan umferðarrétt um Hólaveg frá Hagabraut, m.a. vegna þess að mörk lands þeirra væru að ýmsu leyti óljós. Stefnendur höfðuðu dómsmál 9. mars 2010 gegn börnum Guðmundar Halldórssonar og fleiri einstaklingum, til viðurkenningar á legu vesturmarka landspildu sinnar. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-1934/2010, sem kveðinn var upp 25. október 2012, var viðurkennt að vesturmörk landspildunnar lægju eins og þeim hafi verið lýst í makaskiptasamningnum, með sumarhúsagirðingum og að landamerkjum Ketilsstaða. Dóminum var ekki áfrýjað. Ágreiningur máls þessa snýst um eignarrétt að svonefndum Hólavegi, frá Hagabraut (þjóðvegi) að lóð stefnda, sem nú nefnist Burstabrekka og réttargæslustefndi nýtir, og um nýtingar- og umferðarrétt stefnenda um veginn. Við aðalmeðferð málsins gekk dómari málsins á vettvang ásamt lögmönnum aðila, stefnanda Grétari Jóhannesi Sigvaldasyni og réttargæslustefnda Gottlieb Konráðssyni. Málsástæður og lagarök stefnenda 1. Aðalkrafa Stefnendur haldi því fram að með makaskiptasamningi sínum við Guðmund Halldórsson þann 2. nóvember 1997 hafi þeir eignast spilduna með landnúmerinu 198458 með þeim ytri mörkum sem lýst er í samningnum, sbr. og niðurstöðu í héraðsdómsmálinu nr. E-1934/2010. Hið eina sem Guðmundur hafi undanskilið í viðskiptunum hafi verið þriggja hektara svæði í suðvesturhorni spildunnar. Að öðru leyti hafi eignin verið seld „ásamt öllu sem eigninni fylgir og fylgja ber að engu undanskildu í því ásigkomulagi sem kaupandi hefur þegar kynnt sér með skoðun og sættir sig við í einu og öllu“ eins og tilgreint hafi verið í samningnum. Stefnendur telji að í niðurstöðu héraðsdóms í málinu nr. E-1934/2010 felist viðurkenning á því að þann 2. nóvember 1997 hafi þeir eignast allt land innan þeirra marka, sem landamerkjalýsingin í samningnum sjálfum tilgreindi, svo og sem komi fram á skipulagsuppdrætti þeim, sem hafi verið hluti samningsins. Ekkert hafi verið undanskilið í samningnum utan 3 ha spildan í suðvesturhorni landspildunnar. Stefnendur telji því að fyrir liggi dómsniðurstaða um eignarrétt þeirra á öllu landi austan vesturmarka spildunnar og vestan austurmarka hennar. Þessari dómsniðurstöðu héraðsdóms hafi ekki verið áfrýjað til Hæstaréttar Íslands og verði því að telja að um bindandi niðurstöðu sé að ræða. Stefnendur benda á að samkvæmt skipulagsuppdrætti, sem verið hafi hluti samnings þeirra við Guðmund, hafi ætlunin verið að Hólavegur yrði umferðarleið fyrir sumarhúsaeigendur sunnan og norðan við veginn, auk þess sem vegurinn hafi átt að vera aðkomuleið lóðarhafa sumarhúsalóðarinnar á Ketilsstaðahnjúki (lnr. 165224). Stefnendur bendi í þessu sambandi á yfirlýsingu Daníels Halldórssonar, þar sem fram komi að hann hafi notið umferðarréttar um vegarslóðann að bústað sínum, gegn viðhaldsskyldu. Einnig bendi stefnendur á að samkvæmt leigusamningi Guðmundar Halldórssonar við Ólínu Kjartansdóttur og Guðjón B. Sigurðsson frá árinu 1995 hafi þau sem leigutakar átt að halda veginum við. Óþarft hefði verið að taka þetta fram hefði vegurinn fylgt sumarhúsalóðinni. Stefnendur haldi því fram að umferðarréttur sumarhúsaeigenda hafi verið og sé eingöngu afnotaréttur og breyti engu um eignarhald stefnenda á veginum og landinu undir honum. Vegurinn og vegstæðið, þ.e. landið undir veginum, sé hluti þeirrar spildu sem liggi innan skilgreindra marka samkvæmt makaskiptasamningnum. Stefnendur haldi því fram að vegna þess að Hólavegur hafi á þessum tíma (1997-1998) ekki verið eiginlegur vegur, heldur fremur vegslóði eða hjólför upp að sumarhúsi Daníels Halldórssonar, hafi í sjálfu sér ekki verið sérstök þörf á að tilgreina slóðann eða hjólförin sérstaklega í makaskiptasamningnum. Hjólförin hafi alveg fallið að landinu og ekki verið á neinn hátt aðgreinanleg sem sérstakur hluti landsins. Augljóst hafi verið að hjólförin tilheyrðu spildunni sem stefnendur keyptu. Stefnendur haldi því fram að hafi Guðmundur Halldórsson ætlað að undanskilja Hólaveg (hjólförin) í sölunni til þeirra í nóvember 1997 hefði hann þurft að taka það sérstaklega fram í lýsingu á vesturmörkum spildunnar. Það hafi ekki verið gert enda hafi ætlunin aldrei verið sú að Hólavegur tengdist á þann hátt lóðinni með lnr. 165224, sem hluti þeirrar lóðar. Þess í stað hafi stefnendur frá upphafi kostað lagningu vegarins og síðar nýtt og endurbætt veginn sem eigendur að honum, án athugasemda frá Guðmundi, Daníel bróður hans eða síðari leigutökum að sumarhúsalóðinni. Allt beri þetta með sér og staðfesti að allir hlutaðeigendur, þar á meðal Guðmundur Halldórsson, hafi litið á og viðurkennt stefnendur sem eigendur Hólavegar, að minnsta kosti innan marka landspildunnar. Stefnendur haldi því fram að handrituð yfirlýsing á afsali Guðmundar Halldórssonar til Ólínu Kjartansdóttur og Guðjóns B. Sigurðssonar, dags. 15. mars 1999, um að meðfylgjandi lóðinni nr. 165224 sé vegur frá Hagabraut (Holtavegi) og heim að bústað, hafi hvorki skapað afsalshöfum né síðari lóðarhöfum eignarrétt að veginum, enda hafi vegurinn og landið undir honum þá þegar verið þinglýst eign stefnenda samkvæmt makaskiptasamningnum. Stefnendur bendi hér á að það hafi verið þeir sem hafi breytt hjólförunum, langleiðina upp að lóð nr. 165224, í veg, með því að láta aka möl í hjólförin og þannig raunverulega að búa til veginn á sinn kostnað. Með yfirlýsingunni hafi þannig verið reynt að ráðstafa vegi sem stefnendur hefðu látið gera á sínu landi. Um vanheimild hafi því verið að ræða af hálfu Guðmundar að þessu leyti, ef textinn stafar á annað borð frá honum, sem ekki hafi getað skapað hlutaðeigandi betri rétt til vegarins og landsins undir honum er gengi framar þinglýstum eignarrétti stefnenda til hans. Líta beri því á yfirlýsinguna í afsali Guðmundar til Ólínu og Guðjóns sem yfirlýsingu um umferðarrétt um Hólaveg, en sá umferðarréttur hafi aldrei verið vefengdur af stefnendum. Þá haldi stefnendur því fram að hin handritaða yfirlýsing á afsalið sé óvottuð og því sé ekki unnt að leggja hana til grundvallar við mat á stofnun réttinda til vegarins. Að auki sé fullkomlega óvíst að um undirskrift Guðmundar sjálfs sé að ræða. Textinn hafi því ekkert lagalegt gildi. Stefnendur haldi því fram að eldri, þinglýstur réttur þeirra gangi framar yngri, meintum rétti að því er varðar landspildu stefnenda og hvað henni tilheyri. Um eignarrétt stefnenda sé að ræða sem sé varinn af eignarréttarákvæði 72. gr. íslensku stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944. Þannig falli Hólavegurinn að öllu leyti innan landspildu stefnenda, allt frá línunni milli punkta 1 og 20, að mörkum spildunnar og lóðar með lnr. 165224. Niðurstaða í héraðsdómsmálinu nr. E-1934/2010 staðfesti þetta og hún hafi ekki sætt vefengingu eða endurskoðun. Í kröfu stefnenda í aðalsök nái tilgreind efri mörk landræmunnar svo nærri lóðinni nr. 165224 sem stefnendum þykir gerlegt nú. Þeir bendi á að afmörkun lóðarinnar hafi aldrei farið fram og mörk hennar og landspildunnar nr. 198458 séu því óljós og óákveðin. Þótt ekki liggi þannig fyrir hversu langt í suður lóðin nái sé þó ljóst að hin afmarkaða landræma í kröfugerð stefnenda nái ekki alla leið að mögulegum syðstu mörkum lóðarinnar. Stefnendur áskilji sér rétt til þess að fá síðar í dómsmáli viðurkenndan eignarrétt sinn á þeim hluta Hólavegar sem kröfugerð þeirra nái ekki til nú, svo og til lóðarinnar nr. 165224. Stefnendur haldi því fram, auk þess að krefjast viðurkenningar á eignarrétti sínum að hinni afmörkuðu spildu í kröfugerð aðalkröfunnar, að þeir eigi óskoraðan umferðar- og nýtingarrétt að öllum Hólavegi, allt frá Hagabraut, á grundvelli eignarréttar síns og á grundvelli þeirrar ætlunar Guðmundar Halldórssonar að aðgengi að spildunni yrði um Hólaveginn. Bendi stefnendur í þessu sambandi á framburð Ólafs Þorsteinssonar, bónda í Guttormshaga, fyrir héraðsdómi í málinu nr. E-1934/2010, en þar hafi komið fram að þegar Guðmundur hafi áformað að selja landspildu þá sem stefnendur síðar hafi keypt hafi hann upplýst Ólaf, sem hafði hugleitt að kaupa spilduna, um að aðgengi að spildunni yrði um tunguna við lóð Hólmfríðar Geirdal, en á þeirri tungu liggi Hólavegur frá Hagabraut og inn á spilduna. Að mati stefnenda taki þessi framburður Ólafs, svo og athugasemdalaus og óslitin afnot og uppbygging þeirra sjálfra á veginum, af öll tvímæli um rétt þeirra til umferðar og nýtingar á Hólavegi, allt frá Hagabraut. Að auki sé stefnendum ómögulegt að komast með öðrum hætti með tæki að túnum sínum til ræktunar og heyskapar. 2. Varakrafa Varakrafa stefnenda byggist á þeim rökum að fallist rétturinn ekki á að Hólavegurinn og landið undir honum, eins og það er afmarkað í kröfugerð í aðalkröfunni, tilheyri stefnendum, geti vegurinn, sem Guðmundur Halldórsson hafi talið sig geta ráðstafað á árinu 1999 með afsalinu til Ólínu Kjartansdóttur og Guðjóns B. Sigurðssonar, ekki hafa verið breiðari en sem numið hafi breidd venjulegrar fólksbifreiðar á þeim tíma, eða um 2,5 metrum. Guðmundur hafi ekki getað gengið á þinglýstan, stjórnarskrárvarinn eignarrétt stefnenda með því að veita öðrum viðsemjendum sínum skerf af því sem hann áður hafi verið búinn að selja stefnendum. Í handrituðum texta á afsalinu til Ólínu og Guðjóns komi einungis fram að vegur frá Hagabraut og heim að bústað sé meðfylgjandi lóðinni. Þessi lýsing geti ekki átt við annað en veginn, eins og hann þá hafi verið, þ.e.a.s. breidd malartroðnings (hjólfara) sem rétt hafi rúmað venjulega fólksbifreið. Í varakröfu stefnenda sé miðað við algenga breidd fólksbifreiða, sem er um 2,5 metrar. Landræman sé afmörkuð á dskj. 4 miðað við þessa breidd bifreiða, með viðbót sitt hvorum megin, alls 3 metra, eða 1,5 metra út frá miðlínu vegar, enda verði að telja það vera ljóst að viðsemjendur Guðmundar hafi ekki getað eignast breiðara svæði. Stefnendur haldi því fram að réttargæslustefndi Gottlieb hafi í vegaframkvæmdum sínum farið langt út fyrir mörk vegslóðans og hann hafi þannig á ólögmætan og saknæman hátt tekið undir sig og/eða lóðarhafann allverulega sneið af landi stefnenda, ásamt því að girða síðan langt utan við veginn, upp með honum, og helgað sér þannig enn meira af landi stefnenda. Afmörkun efri marka landræmunnar á dskj. 4 skýrist á sama hátt og afmörkun efri marka landræmunnar í aðalsök. Krafa stefnenda um umferðar- og nýtingarrétt að Hólavegi í varakröfu máls þessa styðjist við sömu málsástæður og aðalkrafa málsins. Lagarök Stefnendur styðji dómkröfur sínar m.a. við almennar reglur íslensks réttar um stofnun eignarréttinda og vernd þeirra réttinda, þar á meðal samkvæmt eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrár íslenska lýðveldisins nr. 33/1944. Einnig styðjist dómkröfur stefnenda við ákvæði þinglýsingarlaga nr. 39/1978, þar á meðal ákvæði III. kafla laganna um forgangsáhrif þinglýsingar og ákvæði IV. kafla laganna um þinglýsingu réttinda yfir fasteignum. Um varnarþing vísist til 32. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, en stefndi Konráð eigi lögheimili í Reykjavík. Krafa stefnenda um málskostnað úr hendi stefnda styðjist við ákvæði 21. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, sérstaklega 129. og 130. gr. laganna. Stefnendur skori á réttargæslustefnda að meðalgöngustefna sér inn í málið telji hann sig hafa beinna hagsmuna að gæta í málinu, til sóknar eða varnar. Málsástæður og lagarök stefnda og réttargæslustefnda Stefndi byggi á því að allt það land sem afmarkað sé í aðal- og varakröfu stefnenda sé eign stefnda á grundvelli þinglýstra gagna. Jafnframt eigi stefnendur ekki lögvarinn umferðar- og nýtingarrétt um hinn umþrætta Hólaveg. Stefndi mótmæli öllum málsástæðum stefnenda. Stefndi byggi í fyrsta lagi á því að hann sé þinglýstur eigandi að eigninni Burstabrekku, landnr. 165224. Allt frá því lóðin hafi fyrst verið stofnuð sem eignarlóð úr landi jarðarinnar Haga hafi henni fylgt svonefndur Hólavegur. Þannig segi í upphaflegu afsali um lóðina frá 1999 að meðfylgjandi lóðinni sé vegur frá Hagabraut og heim að bústað. Landnr. 165224 skv. skrám FMR. Byggt sé á því að orðalagið sé afdráttarlaust um yfirfærslu afsalsgjafa á beinum eignarrétti að því landi sem vegurinn liggi um. Um sé að ræða fullgilt vottað afsal sem þinglýst hafi verið án athugasemda. Sérstaklega sé mótmælt því að vottun afsalsins hafi ekki tekið til þeirrar yfirlýsingar afsalsgjafa að meðfylgjandi væri umræddur vegur. Þá sé dylgjum um að umrædd yfirlýsing stafi ekki frá afsalsgjafa mótmælt sem röngum og ómaklegum. Fyrir liggi að afsalsgjafi hafi sérstaklega ritað undir þessa setningu í afsalinu. Enda þótt komist yrði að þeirri niðurstöðu að vafi væri um vottun þessarar yfirlýsingar þá leiði það vitanlega ekki til þess að horfa beri fram hjá yfirlýsingunni. Í öðru lagi ætti að vera hafið yfir vafa að afsalshafar að eigninni Burstabrekku hafi á hverjum tíma verið í góðri trú um að landi þeirra fylgdi eignarréttur að landi Hólavegar. Þegar stefndi hafi eignast lóðina hafi þegar verið þinglýst án athugasemda þremur afsölum þar sem sérstaklega hafi verið tekið fram að eigninni tilheyrði umræddur vegur. Eigendur lóðarinnar á hverjum tíma hafi því mátt treysta því að eignarhald vegarins væri með þessum hætti. Traustfangsreglur leiði því til þess að hafna verði kröfum stefnenda. Dómur héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-1934/2010 breyti engu þar um enda hafi í forsendum dómsins ekki verið vikið að eignarhaldi á þeim vegi sem mál þetta snúist um. Þá skipti einnig höfuðmáli að stefndi, Konráð, hafi ekki verið aðili að umræddu máli og því sé dómurinn ekki bindandi fyrir hann. Bæði efni dómsins og vitneskja stefnda hafi því ekki gefið honum ástæðu til að ætla að áhöld væru um eignarrétt hins umþrætta vegar. Vakin sé athygli á því að stefnendur hafi ekki gert tilraun til þess að þinglýsa dóminum inn á fasteign stefnda. Málshöfðun stefnenda staðfesti einnig að þeir líti sjálfir svo á að dómurinn taki ekki til eignarhalds á vegstæði Hólavegar. Bent sé á að hinn þinglýsti makaskiptasamningur sé afar óljós og vandséð hvernig hægt hafi verið að komast að þeirri niðurstöðu að land stefnenda næði að mörkum þeirra sumarhúsalóða sem tilgreind séu í dómsorði í máli nr. E-1934/2010. Stefndi telji því dóminn beinlínis efnislega rangan. Í makaskiptasamningnum frá 2. nóvember 1997 segi að land stefnenda sé 90 hektarar en sé skilningur stefnenda á dómsniðurstöðunni réttur þá hafi það land verið aukið í allt að 130 hektara. Niðurstaðan sé ekki aðeins í ósamræmi við upp gefna hektaratölu heldur sé hún einnig í ósamræmi við þá lengdarmetra sem gefnir séu upp í makaskiptasamningnum. Í makaskiptasamningi segi að með fram vesturhlið skuli landið ná, mælt frá miðju þess sumarhúss sem nyrst standi og efst í Hagalandi, í beinni loftlínu 1.615 lengdarmetra. Milli þessara hnita austur- og vesturhliðar skuli bein lína dregin og afmarki hún landið frá vestri til austurs. Þá sé vísað til þess að orðalag í makaskiptasamningi um norðurmörk þýði einungis að mörk séu í áttina að áður seldu Hagalandi. Stefndi vísi í þessu sambandi til þeirrar greinargerðar sem Elín Erlingsdóttir landfræðingur hafi unnið í marsmánuði 2008 þar sem hún hafi túlkað ákvæði makaskiptasamningsins. Stefndi geri sjónarmið Elínar að sínum. Í þriðja lagi sé því alfarið hafnað að vanheimild hafi komið í veg fyrir að Guðmundur Halldórsson hafi árið 1999 getað afsalað upphaflegum eigendum Burstabrekku hinum svonefnda Hólavegi. Guðmundi hafi að sjálfsögðu verið ljóst hvaða landi hann hafi ráðstafað með makaskiptasamningnum 1997. Jafnframt sé ljóst að á þeim uppdrætti sem legið hafi fyrir við gerð makaskiptasamningsins hafi sumarhúsið í Burstabrekku verið teiknað inn og jafnframt hinn umþrætti vegur. Vegurinn sé þar teiknaður inn jafn breiður og heimreiðarnar að Ketilstöðum og Haga. Þegar makaskiptasamningurinn hafi verið undirritaður hafi lóð stefnda þegar verið orðin sjálfstæð eign. Ljóst sé að stefnendur hafi með engu móti getað vænst þess við undirskrift makaskiptasamnings 1997 að þau væru að eignast það vegstæði sem teiknað hafi verið inn á uppdráttinn og liggi að þeirri sumarhúsalóð sem þau sannarlega hafi ekki verið að kaupa. Í fjórða lagi sé vísað til þeirra tveggja dómsúrlausna sem fjalli beinlínis um þann veg sem hér sé til umfjöllunar. Stefnendur hafi átt aðild að báðum málunum. Fyrra málið sé úrskurður Héraðsdóms Suðurlands í máli nr. T-5/2007. Í forsendum úrskurðarins segi svo um hinn umþrætta veg: Á uppdrætti er fylgdi makaskiptasamningi þann 2. nóvember 1997 er vegur greinilega teiknaður frá Hagavegi að sumarbústaðalandinu. Hafa kaupendur samkvæmt makaskiptasamningnum því verið upplýstir um þann veg. Þess vegar er þó í engu getið í texta makaskiptasamningsins. Stefndi byggi á því að þessi dómur hafi bindandi sönnunaráhrif um að stefnendur hafi verið upplýstir um umræddan veg við gerð makaskiptaafsalsins. Niðurstaða Hæstaréttar frá 8. desember 2010 í máli nr. 640/2008 skipti enn meira máli en þar hafi verið talið að fyrirliggjandi gögn málsins nægðu ekki til að sýna fram á að hinn umþrætti vegur lægi innan lands stefnenda. Hafi því bæði verið hafnað aðalkröfu um að stefnendur yrðu sett inn í umráð vegarins og varakröfu um að þau yrðu sett inn í umferðarrétt. Það liggi því fyrir að Hæstiréttur Íslands hafi talið í dómi sínum árið 2010 að makaskiptasamningur væri ekki nægjanlega skýr til að hægt væri að viðurkenna umferðarrétt stefnenda um veginn. Stefnendur tefli nú fram sama makaskiptasamningi og telji hann nú geta orðið grundvöll kröfu þeirra um að vera taldir eigendur vegarins. Stefndi byggi á því að dómur Hæstaréttar hafi bindandi réttaráhrif fyrir stefnendur um skýrleika og gildi makaskiptasamningsins. Í því sambandi sé minnt á forsendur héraðsdómsins sem staðfestur hafi verið í Hæstarétti, en þar segi: Þegar litið er til hinnar óskýru lýsingar í makaskiptasamningnum á vestur- og norðurmörkum spildu sóknaraðila telur dómurinn að ekki verði með ótvíræðum hætti af honum ráðið að hinn umdeildi vegur liggi innan marka þeirra. Hvað sem öðru líði sé a.m.k. ljóst að hinn óskýri makaskiptasamningur hefði aldrei getað vakið hjá stefnendum réttmæta og góða trú um að Hólavegur fylgdi landi þeirra. Þinglýst gögn um Burstabrekku hafi hins vegar vakið réttmæta og góða trú hjá stefnda og fyrri eigendum lóðarinnar um að Hólavegur væri hluti eignarinnar með landnr. 165224. Stefndi mótmæli harðlega þeirri ósönnu fullyrðingu að stefnendur hafi lagt í framkvæmdir við að byggja upp Hólaveg. Hið rétta sé að réttargæslustefndi, Gottlieb Konráðsson, hafi unnið við viðhald vegarins að beiðni fyrrum eigenda Burstabrekku, þeirra Guðjóns Ben og Ólínu Kjartansdóttur. Þá sé því mótmælt að umræddur vegur hafi einungis verið hjólför þegar makaskiptasamningur 1997 hafi verið gerður. Í því sambandi vísist til þess uppdráttar sem legið hafi frammi við gerð makaskiptasamnings. Þar sé vegurinn heim að Burstabrekku sýndur jafn breiður og heimreiðarnar heim að Ketilstöðum og Haga. Byggi stefndi á því að málatilbúnaður stefnenda um tilurð og viðhald vegarins sé um margt þversagnarkenndur. Það virðist þó vera óumdeilt að réttargæslustefndi sem íbúi í Burstabrekku hafi lagt í mikla vinnu við framkvæmdir við veginn. Jafnframt sé því mótmælt að stefnendum sé í dag ómögulegt að komast með tæki að landi sínu. Síðast í lok nóvember 2013 hafi stefnendur flutt mikið magn heyrúlla eftir veginum án athugasemda. Engar hindranir hafi verið settar upp. Loks sé afstöðu stefnenda til afmörkunar lóðar stefnda mótmælt en sú afstaða hafi með óbeinum hætti birst í staðsetningu punkta 10 og 11 í dómkröfu stefnenda. Framangreindar málsástæður eigi einnig við um mótmæli við varakröfu stefnenda. Vísað sé á bug því að það geti staðist að sá vegur sem eigandi Haga hafi afsalað til upphaflegra lóðareigenda hafi einungis verið þriggja metra breiður. Svo mjór vegur þekkist vart og því sé útilokað að taka varakröfuna til greina. Um lagarök fyrir sýknukröfu sé byggt á meginreglum eignarréttar og jafnframt á ákvæðum þinglýsingarlaga nr. 39/1978 og lögum um skráningu og mat eigna nr. 6/2001. Krafan um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Niðurstaða Í máli þessu er deilt um eignarrétt að svonefndum Hólavegi, sem liggur frá Hagabraut, sem er þjóðvegur, að lóð stefnda, sem réttargæslustefndi nýtir og nefnist Burstabrekka. Þá er deilt um umferðarrétt stefnenda um Hólaveg, en umferðarréttur stefnda og réttargæslustefnda um sama veg er óumdeildur. Fyrir liggja dómsúrlausnir sem snerta ágreiningsefni máls þessa og hafa þær fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í þeim greinir, þar til það gagnstæða er sannað, sbr. 4. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Með makaskiptasamningi 2. nóvember 1997 eignuðust stefnendur landspildu, en það var fyrst nákvæmlega afmarkað með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október 2012 í máli E-1934/2010, hvar ytri mörk eignarlands stefnenda samkvæmt samningnum liggja. Áður hafði í dómi Hæstaréttar 8. desember 2010 í máli nr. 640/2008 verið staðfest, með vísun til forsendna, sú niðurstaða Héraðsdóms Suðurlands frá 8. nóvember 2008, í málinu nr. A-15/2008, að makaskiptasamningurinn teldist ekki nægilega skýr til að fallast mætti á kröfu stefnenda í máli um innsetningu í umráð eða óhindraðan umferðarrétt um fyrrnefndan Hólaveg, sem hér er deilt um. Í úrskurði sama héraðsdóms 22. maí 2008 í málinu nr. T-5/2007 var einnig talið að mörk landsins sem stefnendur hefðu eignast með fyrrnefndum makaskiptasamningi væru að ýmsu leyti óljós. Á uppdrætti sem fylgt hafi samningnum hafi vegur greinilega verið teiknaður frá Hagabraut að sumarbústaðarlandi (nú Burstabrekka) og hafi stefnendur því verið upplýstir um þann veg (Hólaveg). Þá hafi þess verið getið á upphaflegum lóðarsamningi (1995) að leigutaki skyldi sjá um viðhald á vegi að bústað og sá vegur sé síðan tilgreindur á afsali frá 31. júlí 1999. Í málinu var hafnað kröfum stefnenda um aflýsingu afsalsins þar sem ekki hefðu verið þeir vankantar á eignayfirfærslunni að varðaði frávísun skjalsins eða að því bæri að þinglýsa með athugasemd. Óumdeilt er að sú landareign, sem var í lóðarleigu þegar makaskiptasamningurinn var gerður, væri undanskilin því landi sem stefnendur eignuðust við makaskiptin 1997 og fyrir liggur að þá lá vegarslóði að þeirri lóð, frá þjóðvegi, sem lóðarhafi hafði viðhaldskyldu á samkvæmt þinglýstum lóðarleigusamningi. Vegurinn var teiknaður inn á uppdrátt, sem fylgdi makaskiptasamningnum og unninn var í nóvember 1991 til febrúar 1992 og stefnendum var kunnugt um veginn, svo sem getið er um í fyrrgreindum úrskurði Héraðsdóms Suðurlands í málinu nr. T-5/2007. Í afsali um lóðina 31. júlí 1999 er yfirlýsing um meðfylgjandi veg frá Hagabraut og heim að bústað, sem stefndi og réttargæslustefndi telja vera eignarheimild um veginn, en um þýðingu yfirlýsingarinnar er deilt í máli þessu. Með ákvæði í lóðarleigusamningi árið 1995, við sömu aðila og síðar keyptu lóðina, var viðhaldskylda á vegi að bústað lögð á leigutaka, en landeigandi átti þá sjálfur einnig það land sem vegurinn liggur um. Það land seldi hann stefnendum í makaskiptum árið 1997. Þegar litið er til staðhátta og atvika allra verður að telja að með yfirlýsingu um veg í afsali um lóðina á árinu 1999 hafi aðilar viljað tryggja að eigendur hefðu aðgengi að lóðinni, með sama hætti og þau höfðu áður en eigendaskiptin urðu að landinu sem vegurinn liggur um, í samræmi við skipulag svæðisins, en lóðin hefur ekki aðra vegtengingu við þjóðveg en umræddan Hólaveg. Í því felst því ekki yfirfærsla á eignarrétti landsins sem undir veginum er. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október 2012 var staðfest að landið, sem stefnendur höfðu eignast með makaskiptasamningi 1997, liggur umhverfis lóð stefnda og liggur hluti vegarins sem nefndur hefur verið Hólavegur um land það sem telst eign stefnenda samkvæmt dóminum. Í málinu var byggt á sömu skjölum og atvikum og fyrir liggja í þessu máli varðandi Hólaveg. Bar kröfugerð stefnenda þess merki að viðurkennt væri af þeirra hálfu að sú kvöð fylgdi vegarstæðinu að lóðarhafi ætti óhindraðan umferðarrétt um veginn. Í kröfu um viðurkenningu á eignarhaldi á landinu, sem fallist var á, sagði m.a. „en að gættum umferðarrétti stefndu og réttargæslustefndu Lilju, Sigrúnar og Gottliebs eftir Hólavegi“. Meðal þeirra sem stefnt var í því máli var fyrri afsalshafi lóðarinnar, Sigrún Bára Eggertsdóttir, sem stefndi leiðir rétt sinn frá og telst dómurinn bindandi um úrslit sakarefnis fyrir stefnda um þær kröfur sem þar voru dæmdar að efni til, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála, og fyrir réttargæslustefnda svo sem við á. Fyrri hluti aðalkröfu stefnenda í máli þessu er um viðurkenningu á eignarhaldi þeirra á spildu sem tilgreind er með hnitum, sbr. dskj. nr. 3. Spildan liggur að fullu innan þeirrar landspildu, sem merkt er 198458 úr jörðinni Haga Rangárþingi ytra, sem eignarhald stefnenda var viðurkennt á, að gættum umferðarrétti stefnda og réttargæslustefnda, samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október 2012. Þessi krafa er því þegar dæmd að efni til og verður henni, með vísun til 2. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála, því vísað frá dómi. Varakrafa stefnenda á við, samkvæmt því sem greinir í stefnu, fallist rétturinn ekki á að landið sem afmarkað er í aðalkröfu tilheyri þeim. Svo sem að framan greinir er frávísun aðalkröfu á því byggð að landið tilheyrir nú þegar stefnendum samkvæmt fyrirliggjandi dómi. Kemur varakrafan því ekki til skoðunar að þessu leyti. Þá standa eftir síðari kröfuliðir stefnenda í aðal- og varakröfu um umferðar- og nýtingarrétt stefnenda á Hólavegi. Um þessar kröfur, sem stefnendur hafa lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr, hefur ekki áður verið dæmt og verður þeim ekki vísað frá dómi. Í niðurstöðu dóms Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október 2012 var ekki vikið að umferðarrétti stefnenda frá þjóðvegi, Hagabraut, að því landi sem ákveðið var með dóminum að væri eignarland þeirra. Í dóminum var hafnað kröfulið stefnenda um viðurkenningu á eignarhaldi þeirra á landi að þjóðveginum, Hagabraut, en fallist var á varakröfu B-liðar í kröfugerð þeirra í málinu, um landamerki í vestur, sem liggja yfir Hólaveg frá norðri til suðurs um punkta merkta 1 og 20 á dómskjali nr. 3 í þessu máli. Samkvæmt framansögðu nær eignarland stefnenda aðeins að þeim mörkum í vestur, en ekki að þjóðveginum. Á teikningu sem fylgdi bréfi Skipulags ríkisins til oddvita Holtahrepps 11. júní 1992, sem fyrir liggur í málinu, er Hólavegur merktur samkvæmt deiliskipulagi með sama hætti og á þeim uppdrætti sem fylgdi makaskiptasamningnum sem þinglýst var 19. desember 1997 og vikið er að í úrskurði Héraðsdóms Suðurlands í málinu nr. T-5/2007. Í því felst að vegtenging lands stefnenda við þjóðveg hafði verið ákveðin í skipulagi að yrði um Hólaveg áður en stefnendur eignuðust landið. Á báðum þessum teikningum er einnig gert ráð fyrir aðkomu að sumarhúsum austan Hagabrautar og norðan Hólavegar, frá Hagabraut um Hólaveg að vesturmörkum lands stefnenda, en þaðan er gert ráð fyrir vegi í norður eftir mörkum lóðanna og lands stefnenda. Á uppdrættinum sem fylgdi makaskiptasamningnum var einnig gert ráð fyrir aðkomu að sumarhúsalóðum sunnan Hólavegar, um Hólaveg frá Hagabraut, en með fyrrnefndu bréfi Skipulags ríkisins frá 11. júní 1992 var fallist á breytta aðkomu að þeim lóðum frá þjóðveginum. Samkvæmt deiliskipulaginu var áfram gert ráð fyrir aðgengi að fyrrnefndum lóðum norðan Hólavegar og að landi stefnenda, um þann hluta Hólavegar sem næst liggur Hagabraut. Þegar makaskiptasamningur stefnenda var samþykktur af jarðanefnd Rangárvallasýslu 7. nóvember 1997 og af sveitarstjóra Holta- og Landsveitar 8. desember 1997 var því eina vegtengingin, frá Hagabraut að því landi sem stefnendur eiga, um Hólaveg, samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Fyrir liggur að stefnendur nýttu umferðarrétt um þann eina veg sem að landi þeirra liggur frá þjóðvegi allt frá árinu 1997 þar til réttargæslustefndi tók að hindra umferð þeirra um veginn árið 2008. Stefndi, sem eignaðist þá eign sem nú kallast Burstabrekka með afsali 6. nóvember 2012, leiðir rétt sinn til nýtingar vegarins frá þjóðvegi að lóð sinni, af lóðarleigusamningi frá 1995 og afsali um eignina frá 31. júlí 1999, en í þeim heimildum felst samkvæmt framansögðu ekki beinn eignarréttur að veginum. Orðið „meðfylgjandi“ í afsalinu verður ekki túlkað svo að um einkaafnot vegarins sé að ræða, sem gangi þvert gegn réttindum landeigenda eða annarra lóðarhafa samkvæmt gildandi skipulagi. Engin rök standa til annars en að stefndi og réttargæslustefndi verði að una sameiginlegum umferðarrétti stefnenda og annarra lóðarhafa nærliggjandi lóða, um þann hluta Hólavegar sem næstur er Hagabraut, í samræmi við skipulag svæðisins. Samkvæmt framansögðu og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar frá 8. apríl sl. í máli nr. 203/2014, verður fallist á kröfu stefnenda, gagnvart stefnda og réttargæslustefnda, um viðurkenningu á rétti þeirra til að nýta Hólaveg og fara um hann allt frá þjóðvegi að landi sínu, en landeiganda og öðrum sem kunna að eiga umferðarrétt um veginn er ekki stefnt í málinu. Þessi vegtenging er, í samræmi við gildandi skipulag, nauðsynleg til þess að stefnendur hafi eðlilegt aðgengi að landi sínu frá þjóðvegi. Þá verður einnig svo sem krafist er kveðið á um umferðar- og nýtingarrétt stefnenda á veginum þar sem hann liggur á landi þeirra, eins og nánar greinir í dómsorði. Óumdeilt er að þeim vegi hafa stefndi og réttargæslustefndi haldið veglega við, og þykir eftir atvikum rétt að kveða sérstaklega á um það í dómi þessum að þeir skuli deila umferðarrétti sínum um veginn með landeigendum, stefnendum í máli þessu. Eftir atvikum og með vísun til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu. Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð Kröfu stefnenda um að viðurkennt verði með dómi, að gættum umferðarrétti stefnda Konráðs og réttargæslustefnda Gottliebs eftir Hólavegi, eignarhald þeirra á landi því sem svonefndur Hólavegur liggur eftir, á landspildu stefnenda, sem er úr jörðinni Haga í Rangárþingi ytra og hefur landnúmerið 198458, er vísað frá dómi. Viðurkenndur er umferðar- og nýtingarréttur stefnenda á Hólavegi, allt frá þjóðvegi, Hagabraut, að línu sem dregin er milli punkta 10 (hnit A-428668,5 / N-386015,0) og 11 (hnit A-428694,8 / N-386000,7), á dómskjali nr. 3. Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 33/2017
Höfundarréttur Lögbann
S krafðist staðfestingar á lögbanni sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagði við því að H ehf./V Inc. veitti viðskiptamönnum sínum í té aðgang að nánar tilgreindum vefsíðum sökum þess að þar væri unnt að nýta án endurgjalds efni, sem háð væri höfundarétti þeim sem S, sem samtök rétthafa eftir ákvæðum höfundalaga nr. 73/1972, kæmu fram fyrir. Þá krafðist S þess að viðurkennt yrði að H ehf./V Inc. væri óheimilt að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að umræddum vefsíðum. Hæstiréttur féllst á með héraðsdómi að S hefði sýnt nægilega fram á að rétthafar ættu höfundarétt að efni sem miðlað væri í heimildarleysi á framangreindum vefsíðum fyrir milligöngu fjarskiptafyrirtækja líkt og H ehf./V Inc. Jafnframt var fallist á að H ehf./V Inc.bæri að hindra slíka háttsemi og því staðfest sú niðurstaða héraðsdóms um að taka til greina viðurkenningarkröfu S. Þá var með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms staðfest niðurstaða hans um að uppfyllt hefðu verið öll skilyrði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 til að leggja lögbann við háttsemi H ehf./V Inc.
Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson,Greta Baldursdóttir, Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og ViðarMár Matthíasson.Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. janúar2017. Hann krefst þess að „synjað verði staðfestingar lögbanns“, svo og að hann„verði sýknaður af viðurkenningarkröfu“ gagnáfrýjanda. Þákrefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 8.mars 2017. Hann krefst staðfestingarhins áfrýjaða dóms um annað en málskostnað, sem hann krefst í héraði og fyrir Hæstarétti.Líta verður svo á að með framangreindri kröfugerð leitiaðaláfrýjandi sýknu af kröfum gagnáfrýjanda ásamt því að krefjastmálskostnaðar.Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi greinir aðila á umhvort aðaláfrýjanda, sem rekur starfsemi á sviði fjarskipta og veitirviðskiptamönnum sínum svonefnda netþjónustu, sé óheimilt að láta þeim í téaðgang að níu tilgreindum vefsíðum sökum þess að þar sé unnt að nýta ánendurgjalds efni, sem háð sé höfundarétti þeirra sem gagnáfrýjandi, sem samtökrétthafa eftir ákvæðum höfundalaga nr. 73/1972, komi fram fyrir. Fallist verðurá með héraðsdómi að gagnáfrýjandi hafi sýnt nægilega fram á að rétthafar, semhann komi fram fyrir, eigi höfundarétt að efni sem miðlað sé í heimildarleysi ávefsíðum þessum, svo og að gagnvart rétthöfunum feli sú miðlun í sér ólögmætaháttsemi sem háð sé aðgangi að vefsíðunum fyrir milligöngu fjarskiptafyrirtækjasvo sem aðaláfrýjanda. Verður jafnframt fallist á með héraðsdómi aðaðaláfrýjanda beri að hindra slíka háttsemi og stoði honum ekki í því sambandiað bera fyrir sig frelsi sitt til atvinnu í skjóli 75. gr. stjórnarskrárinnar.Samkvæmt því verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að taka tilgreina kröfu gagnáfrýjanda um að viðurkennt verði að aðaláfrýjanda sé óheimiltað veita viðskiptamönnum sínum aðgang að umræddum vefsíðum. Um þá kröfu er þessjafnframt að gæta að ekki getur skipt frekar máli hvort aðaláfrýjanda getireynst nauðsynlegt að grípa til sérstakra ráðstafana til að laga sig að dómi umhana eða hverjar þær yrðu að vera, enda hefur gagnáfrýjandi kosið að gera ekkikröfu um skyldu aðaláfrýjanda til tiltekinna athafna eða bann við tilgreindriháttsemi hans sem fullnægja mætti eftir 11. kafla laga nr. 90/1989 um aðför meðaðfarargerð til að leysa af hólmi bráðabirgðavernd á grundvelli lögbanns semsýslumaður lagði 23. október 2015 við fyrrgreindri háttsemi aðaláfrýjanda.Í málinu krefst gagnáfrýjandi jafnframt staðfestingar álögbanni sem að framan getur og lagt var á með stoð í 2. mgr. 59. gr. a.höfundalaga og 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Meðvísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um aðuppfyllt hafi verið öll skilyrði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 til að leggjalögbann við háttsemi aðaláfrýjanda, sem eftir gögnum málsins var á þeim tímabyrjuð en ekki aðeins yfirvofandi, svo og að réttarreglur um refsingu eðaskaðabætur fyrir röskun hagsmuna gagnáfrýjanda geti ekki tryggt þá nægilega ískilningi 1. töluliðar 3. mgr. sömu lagagreinar. Ekki hefur aðaláfrýjandi sýntfram á að hagsmunir sínir af því að fá að halda áfram þeirri háttsemi, semlögbannið var lagt við, geti talist meiri en hagsmunir þeirra, semgagnáfrýjandi kemur fram fyrir, af því að fyrirbyggja þá háttsemi, sbr. 2.tölulið 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990, en við mat á því getur ekki ráðið úrslitumhvort stöðvun háttsemi aðaláfrýjanda komi nægilega að haldi til að verndaréttindi gagnáfrýjanda. Samkvæmt þessu verður niðurstaða héraðsdóms um kröfugagnáfrýjanda um staðfestingu lögbanns jafnframt staðfest.Samkvæmt 1. mgr.130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála standa engin efni til annars enað dæma aðaláfrýjanda til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrirHæstarétti sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.Dómsorð:Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.Aðaláfrýjandi, Hringiðan ehf. / Vortex Inc.,greiði gagnáfrýjanda, STEF, Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar,samtals 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. október 2016.Mál þetta, sem dómtekið var 19.september 2016, var höfðað með réttarstefnu, útgefinni 29. október 2015 ogbirtri 3. nóvember sama ár, af hálfu Sambands tónskálda og eigendaflutningsréttar, Laufásvegi 40 íReykjavík á hendur Hringiðunni ehf./Vortex Inc., Skúlagötu 19 íReykjavík til staðfestingar á lögbanni og viðurkenningardóms.Endanlegar dómkröfurstefnanda eru að þess er krafist að lögbann sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagðiþann 23. október 2015 við því að stefndi veiti viðskiptamönnum sínum aðgang aðvefsíðunum www.deildu.net,www.deildu.com, www.iceland.pm, www.icetracker.org, www.afghanpirate.com,www.deildu.eu, www.thepiratebay.se, www. thepiratebay.sx, ogwww.thepiratebay.org, hvort sem www. er fyrir framan nafn vefsíðnanna eða ekki, verði staðfest með dómi. Jafnframt er þesskrafist að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé óheimilt að veitaviðskiptamönnum sínum aðgang að vefsíðunum www.deildu.net,www.deildu.com, www.iceland.pm, www.icetracker.org, www.afghanpirate.com,www.deildu.eu, www.thepiratebay.se, www. thepiratebay.sx, ogwww.thepiratebay.org. Loks krefststefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar, þ.m.t. allsútlagðs og áfallins kostnaðar við lögbannsgerð, að mati dómsins.Endanlegar dómkröfur stefndaeru að þess er krafist að synjað verði um staðfestingu lögbanns og að stefndiverði sýknaður af viðurkenningarkröfu stefnanda. Þá krefst stefndimálskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins. Aðalmeðferð fór fram í einu lagi í þessu máli og ímáli stefnanda gegn Símafélaginu ehf., mál Héraðsdóms Reykjavíkur nr.E-3784/2015.Yfirlit málsatvika ogágreiningsefnaStefnandi er samtök sem gætir hagsmuna tónskálda ogrétthafa flutningsréttar að tónlist og stefndi er fjarskiptafélag. Stefnandikveður vefsíðurnar sem kröfugerð hans beinist að vera reknar í þeim tilgangi aðgera notendum þeirra kleift að gera öðrum notendum aðgengileg eintök afhugverkum. Nú vísi þessar vefsíður allri netumferð á lénin deildu.net og thepiratebay.se.Notendum síðnanna sé gert kleift að hlaða niður á tölvur sínar hugverkum, semaðrir notendur gera aðgengileg og gera þannig eintök af nefndum verkum.Yfirgnæfandi hluti þeirra hugverka sem gerð séu aðgengileg til eintakagerðar ávefsíðunum séu þar aðgengileg án heimildar eigenda þeirra. Stefnandi kveður vefsíðuna deildu.net reka svokallaðjafningjanet sem sé rekið í þeim tilgangi að gera notendum kleift að deila eðaskiptast á efnisskrám með svokallaðri BitTorrent tækni. Í september 2015 hafivefsíðan verið sú 22. vinsælasta á Íslandi undir heimasíðunni icetracker.org. Á vefsíðunni sé starfræktur leiðarþjónn (e. tracker).Notendur síðunnar geti leitað eftir ákveðnum skrám, sótt sér skráarskiptiforritog með því forriti geti þeir sótt efnisskrár og/eða deilt þeim. Gríðarlegurfjöldi notenda deili með sér skrám á þennan hátt og hafi sumar skrár veriðsóttar yfir mörg þúsund sinnum. Sjá megi hvaða hljóð- og myndefni hafimest verið deilt innbyrðis meðal notenda vefsvæðisins í október 2014 og hvaðatorrent hafi verið vinsælust í lok september 2015. Umbjóðendur stefnanda eigihöfundaréttindi að nánast öllu hljóð- og myndefni sem þar um ræði. Ekki sékunnugt um hverjir séu ábyrgðaraðilar deildu.net. Stefnandi kveður vefsíðunahafa notað IP-töluna 104.28.6.73 þann 28. september 2015 og sé sú vefsíðavistuð í Bandaríkjunum. Því sé ekki unnt að fara fram á lögbann við rekstrivefsíðunnar samkvæmt íslenskum lögum. Í reglum vefsíðunnar deildu.net sénotendum gert að deila efni á síðunni, ella sé aðgangi þeirra lokað, þ.e. efniðurhal er ekki í samræmi við upphal. Notendur vefsíðunnar séu þannig hvattirtil að brjóta gegn ákvæðum höfundalaga nr. 73/1972. Stefnandi kveður sambærilegar reglur að finna ápiratebay.se., þar sem sé að mestu leyti rekin sams konar starfsemi og ávefsíðunni deildu.net. Vefsíðan sé ein fjölsóttasta vefsíða sinnar tegundar íheiminum og hafi verið ein af mest sóttu vefsíðum á Íslandi árið 2013.Stefnandi kveður vefsíðuna thepiratebay.se notast við nýrri tækni en deildu.nettil að gera notendum kleift að deila efni á milli sín, þar sé ekki notast viðleiðarþjón, heldur segulhlekki (e. magnetic links), en vefsíðan sé að öðruleyti sambærileg deildu.net. Ekki sé kunnugt um hverjir séu ábyrgðaraðilarthepiratebay.se. IP-tala vefsíðunnar hafi verið 199.27.134.242 þann 28.september 2015 og sé sú vefsíða vistuð í Hollandi. Ekki sé unnt að fara fram álögbann við rekstri vefsíðunnar samkvæmt íslenskum lögum. Rétthafasamtök umallan heim hafi árangurslaust reynt að láta loka vefsíðunni thepiratebay.se umlanga hríð. Eina leiðin sem rétthafasamtökum hafi verið fær til að stemma stiguvið þeirri háttsemi sem eigi sér stað fyrir milligöngu vefsíðunnar sé sú aðkrefjast þess að fjarskiptafyrirtæki í hverju landi um sig hindri gagnaflutningað og frá vefsíðunni.Stefnandi lagði fram kæru til lögreglu þann 13.febrúar 2012 vegna vefsíðnanna deildu.net og deildu.com. Í kærunni var vísaðtil nokkurra þeirra verka sem deilt var fyrir milligöngu rekstraraðilavefsíðnanna, auk þess sem líkur voru að því leiddar að vefsíðurnar væru reknaraf nánar tilgreindum aðila. Rannsókn lögreglu var hætt 5. nóvember 2015 meðvísun til þess að þær upplýsingar sem fram hefðu komið um raunverulegastjórnendur vefsíðunnar deildu.net bentu eindregið til þess að þeir væru erlendirog því yrði mál á hendur þeim ekki rannsakað frekar hér á landi. Var súákvörðun lögreglu staðfest af embætti ríkissaksóknara 30. desember s.á.Í september 2013 krafðist stefnandi, ásamt þremuröðrum rétthafasamtökum, lögbanns gegn fimm fjarskiptafyrirtækjum, þ.e. Símanumhf., Fjarskiptum hf. (Vodafone), 365 miðlum ehf., IP fjarskiptum ehf. (Tal) ogHringdu ehf., og krafðist þess að fjarskiptafyrirtækin lokuðu á tiltekinvefsvæði. Sýslumaður hafnaði öllum lögbannsbeiðnunum og vísaði stefnandi þeimágreiningi til héraðsdóms, sem upphaflega vísaði öllum málunum frá dómi.Hæstiréttur lagði þá fyrir héraðsdóm að taka kröfur stefnanda í málum gegnFjarskiptum hf. og Hringdu ehf. til meðferðar. Þann 14. október 2014 kvaðfjölskipaður héraðsdómur upp úrskurði um efnishlið þessara mála, í málumHéraðsdóms Reykjavíkur nr. K-8/2013 og K-9/2013, þar sem fallist var á kröfurstefnanda. Talið var að tilgangur, virkni og reksturvefsíðnanna væri sambærilegur við vefsíðuna torrent.is, en Hæstiréttur hafði ídómi sínum í máli nr. 214/2009 staðfest lögbann við starfrækslu hennar.Aðilar undu úrskurðunum og lagði sýslumaður á lögbann í samræmi við niðurstöðurþeirra þann 6. nóvember 2014. Jafnframt var þá lagt samsvarandi lögbann áSímann hf. að beiðni stefnanda. Þann 13. nóvember 2014 skoraði stefnandi á stefnda aðloka fyrir aðgengi að ákveðnum torrent vefsíðum, þeim sem staðfestingarmálþetta snýst um, en stefndi varð ekki við því og ekki náðist samkomulag um máliðí síðari samskiptum aðila. Í september 2015 gerðu fjarskiptafyrirtækin Síminn,Fjarskipti, Nova, 365 og Hringdu samkomulag við rétthafasamtökin STEF(stefnanda), SÍK, SFH og FRÍSK um að loka aðgengi að vefsvæðunum deildu ogpiratebay óháð því á hvaða lénum síðurnar eru skráðar.Samkomulagið næreinnig til þess að loka lénum sem eingöngu eru sett upp til þess að vísa ávefsvæðin. Samkomulag var gert við hvert og eitt fjarskiptafyrirtæki og ergrundvöllur þess fyrrnefndir úrskurðir Héraðsdóms Reykjavíkur frá 14. október2014 og eftirfarandi lögbannsgerðir sýslumanns. Stefndi hefur ekki fallist átilmæli stefnanda um að gera sambærilegt samkomulag.Stefnandi krafðist lögbanns á háttsemi stefnda og þann23. október 2015 var það lögbann lagt á sem krafist er staðfestingar á í máliþessu. Með lögbanninu var stefnda meinað að veita viðskiptavinum sínum aðgangað þeim vefsíðum sem nefndar eru í dómkröfum, en því er einkum beint gegnvefsvæðunum, deildu.net og thepiratebay.se. Stefnandi kveður eintakagerð fyrirmilligöngu umræddra vefsíðna ólögmæta og hafa valdið eigendum verkannagríðarlegu fjárhagslegu tjóni. Með netþjónustu sinni veiti stefndiviðskiptavinum sínum aðgang að ólögmætum vefsvæðum.Stefndi kveður lögbannsbeiðnina hafa verið víðtækarien viðurkennt hafi verið með úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur 14. október 2014,þar sem krafist sé lögbanns vegna aðgangs að fleiri vefsíðum en þar hafi veriðfallist á. Í lögbannsbeiðni stefnanda hafi jafnframt upphaflega verið víðtækaraorðalag, sem stefnandi hafi fallið frá við lögbannsgerðina.Framkvæmdastjóri stefnda, Guðmundur KristjánUnnsteinsson, kom fyrir dóm og gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Málsástæður og lagarök stefnanda. Starfræksla og notkun vefsíðnanna brýtur gegnákvæðum höfundalaga Samkvæmt 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972 eigi höfundurað bókmenntaverki eða listaverki eignarrétt að því með þeim takmörkunum sem ílögunum greini. Í 3. gr. laganna sé mælt fyrir um einkarétt höfundar verks tilað gera eintök af því og til að birta í upphaflegri mynd eða breyttri, íþýðingu og öðrum aðlögunum. Til verka sem njóta verndar höfundalaga teljistsamið mál í ræðu og riti, leiksviðsverk, tónsmíðar, myndlist, byggingarlist,kvikmyndir, ljósmyndalist, nytjalist og aðrar samsvarandi listgreinar, á hvernhátt og í hverju formi sem verkið birtist, skv. ákvæði 1. gr. sömu laga. Þá sélistflytjendum í 45. gr. laganna veittur einkaréttur til eintakagerðar aflistflutningi sínum og hvers konar dreifingar hans til almennings. Samkvæmt 46.gr. laganna sé eftirgerð og hvers kyns dreifing til almennings á myndritum oghljóðritum óheimil án samþykkis framleiðanda.Rekstraraðilar og stjórnendur vefsíðnannawww.deildu.net og www.thepiratebay.se geri notendum þeirra kleift að fá aðgangað og deila hljóð- og myndskrám sem verndaðar séu af ákvæðum höfundalaga.Langstærstur hluti þeirra verka sem notendur beggja vefsvæða geri aðgengileg,deili og geri eintök af séu varin höfundarétti og séu rekstraraðilarvefsvæðanna grandvísir um þessa staðreynd.Í 1. mgr. 8. gr. höfundalaga segi að höfundur verksteljist sá, uns annað reynist, sem nafngreindur sé á eintökum þess meðvenjulegum hætti eða lýstur er höfundur, þegar verk sé birt. Gildi þetta einnigum höfunda, sem nota gervinöfn eða merki, þegar almennt sé vitað, hver þarfelist að baki. Framangreindum ákvæðum skuli einnig beita um framleiðandakvikmyndaverks. Þá skuli einnig í þeim tilvikum, þegar verulegur og samfelldurflutningur verka eða umfangsmikil fjölföldun eða útleiga hafi átt sér stað,talið að flutt hafi verið, leigð út eða fjölfölduð verk sem vernduð séu aðhöfundalögum nema annað verði í ljós leitt. Þau verk sem deilt sé á áðurnefndumvefsvæðum teljist því til verka sem vernduð séu af höfundalögum, nema færðarverði sönnur fyrir hinu gagnstæða.Í ljósi forsendna dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr.214/2009, í svonefndu Istorrent máli, sé óhætt að líta svo á að stjórnendurbeggja vefsvæðanna vinni að því með markvissum hætti, með starfræksluvefsvæðanna og tæknilegri uppbyggingu, að fram geti farið greið og umfangsmikilskráarskipti með efni, sem háð sé höfundarétti, og stuðli þannig beinlínis aðbrotum notenda vefsvæðanna. Þannig sé ljóst að sömu aðilar brjóti gegnlögvörðum rétti umbjóðenda stefnanda. Þá sé einnig ljóst, með vísan tilfyrrnefnds dóms, að sömu aðilar valdi stefnanda tjóni með áframhaldandi rekstrivefsvæðanna og beri skaðabótaábyrgð gagnvart umbjóðendum stefnanda. Í úrskurðumHéraðsdóms Reykjavíkur sé því slegið föstu að vefsvæðin www.deildu.net ogwww.thepiratebay.se séu sambærileg að uppbyggingu og www.torrent.is. Ljóst séað notkun einstaklinga hér á landi á nefndum vefsvæðum fari eingöngu fram íþeim tilgangi að birta og afrita höfundaverk án heimildar rétthafa.2. Aðkoma stefnda að brotum notenda Starfræksla beggja vefsvæðanna sé ólögmæt, semstaðfest hafi verið í úrskurðum héraðsdóms, en ókleift sé fyrir stefnanda aðkrefjast lögbanns við rekstri sjálfra vefsíðnanna, enda virðist þær báðarreknar utan íslenskrar lögsögu. Stefnanda hafi ekki reynst unnt að komast aðþví hverjir séu raunverulegir rekstraraðilar vefsíðnanna. Þeim aðilum sem birtilögvarið efni á vefsíðunum væri ekki kleift að birta efnið fyrirviðskiptamönnum stefnda með góðu móti án atbeina stefnda sjálfs, sem veitiviðskiptamönnum sínum aðgang og alla tæknilega aðstöðu til þess að sækja ogsenda gögn til og frá vefsíðunum. Stefndi sé því óhjákvæmilegur milliliðurmilli vefsvæðanna og þeirra notenda sem brjóti gegn höfundarétti umbjóðendastefnanda.Með því að veita viðskiptamönnum sínum aðgang aðvefsvæðunum www.deildu.net og www.thepiratebay.se tryggi stefndi úrræði ogaðstöðu, sem þeim aðilum sem standi að höfundaréttarbrotum á nefndum vefsvæðumséu nauðsynleg til þeirra, og birta höfundaverk opinberlega í heimildarleysi.Af samskiptum stefnanda og stefnda sé ljóst að stefndi sé grandvís um þástarfsemi sem stunduð sé á vefsíðunum. Stærstu seljendur netþjónustu á landinuhafi gengið frá samkomulagi um að hætta að veita aðgang að hinum ólögmætuvefsvæðum og verði stefnda gert að hætta að veita viðskiptavinum sínum aðgangað þeim sé ljóst að úrræði þeirra sem vilja og reyna að brjóta gegn höfundaréttimeð notkun vefsvæðanna séu skert verulega. Í fjölmörgum ríkjum, s.s. í Belgíu, Danmörku,Finnlandi, Þýskalandi, Grikklandi, Ítalíu, Hollandi og Bretlandi, hafidómstólar gert fjarskiptafélögum skylt að loka fyrir aðgengi aðwww.thepiratebay.se í ljósi þess að sú starfsemi sem þar sé rekin brjótigróflega gegn höfundaréttindum. 3. Ákvæði 2. mgr. 59. gr. a höfundalagaAuk ákvæðalaga nr. 31/1991, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., byggi stefnandi jafnframt áákvæðum höfundalaga, nr. 73/1972, einkum á svohljóðandi ákvæði 2. mgr. 59. gr.a í lögunum:Að því tilskildu að fullnægt sé öðrumþeim skilyrðum lögbanns, sem greind eru í lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl.,geta einstakir rétthafar eða samtök þeirra fengið lagt lögbann við því aðþjónustuveitandi miðli gögnum sem þjónustuþegi lætur í té um fjarskiptanet,óháð því hvort þjónustuveitandi beri ábyrgð vegna miðlunar eða sjálfvirkrar,millistigs- eða skammtímageymslu gagna. Enn fremur verður lögbann lagt við þvíað þjónustuveitandi hýsi gögn sem látin eru í té af þjónustuþega, óháð þvíhvort þjónustuveitandi beri ábyrgð á gögnunum.Í ákvæðinu felist almenn heimild til handa rétthöfumeða samtökum rétthafa til þess að krefjast lögbanns við miðlun gagna af hálfuþjónustuveitenda í skilningi laga nr. 30/2002, um rafræn viðskipti og aðrarafræna þjónustu, þegar viðskiptamenn þeirra nýti þjónustu þeirra til að brjótagegn ákvæðum höfundalaga, að því gefnu að skilyrði samkvæmt lögum umkyrrsetningu, lögbann o.fl. séu uppfyllt. Ekki sé þörf á að sýna fram á að þjónustuveitendurberi ábyrgð á háttsemi viðskiptamanna og þeirri miðlun sem fram fari fyrirmilligöngu þjónustuveitenda, til að heimildin verði nýtt.Stefnditeljist vera þjónustuveitandi í skilningi laga nr. 30/2002. Með vísan til 2.ml. 1. mgr. 8. gr. höfundalaga megi ganga út frá því að þau verk sem deilt sé ávefsvæðunum www.deildu.net og www.thepiratebay.se séu verk sem vernduð séu afhöfundalögum, uns færðar verði sönnur fyrir því að svo sé ekki. Stefnanda séþví tækt að nýta sér þessa heimild höfundalaga til þess að krefjast lögbannsvið miðlun gagna að og frá vefsvæðunum. Stefnandi vísi til orðalags ígreinargerð með frumvarpi að lögum nr. 93/2010, þar sem fyrrnefnt ákvæðihöfundalaga var lögfest. Þar segi m.a.:Tilgangur ákvæðisins erfyrst og fremst að eyða mögulegum vafa um hvort lögbanni verður beint gegnfjarskiptafyrirtækjum vegna miðlunar, skyndivistunar og hýsingar gagna í þeimtilvikum þegar um er að ræða meint brot þjónustuþega á ákvæðum höfundalaga. Ííslenskum rétti hefur verið miðað við að lögbann verði einungis lagt viðtilteknum athöfnum sem eru taldar ólögmætar í sjálfu sér. Vegna orðalags ákvæða12., 13. og 14. gr. laga nr. 30/2002 er mögulegt að vafi yrði talinn leika áþví hvort miðlun, skyndivistun eða hýsing þjónustuveitanda væri ólögmæt athöfní sjálfu sér. Það gerir réttarvörslu rétthafa mun auðveldari ef skýrt er aðhann geti lagt lögbann við athöfnum milliliða. Ekki verður séð að neinirlögverndaðir hagsmunir eigi að standa gegn því að sett verði ákvæði af því tagisem hér er lýst, enda er heimild til lögbanns byggð á þeirrigrundvallarforsendu að fyrir hendi sé réttarbrot af hálfu þjónustuþega sem sásem fer fram á lögbann þyrfti eftir sem áður að sýna fram á.[...]Hins vegar þykir rétt að kveða skýrtá um rétt höfunda og annarra rétthafa til að beina kröfu um lögbann aðþjónustuveitanda, t.d. fjarskiptafyrirtæki, svo að ekki fari á milli mála aðslíkur réttur sé fyrir hendi samkvæmt íslenskum lögum.Af þessu orðalagi megi sjá að beinlínis sé gert ráðfyrir því í höfundalögum að lögbann megi leggja við gagnamiðlunfjarskiptafyrirtækja þegar viðskiptamenn þeirra nýti þjónustu þeirra til þessað brjóta gegn ákvæðum höfundalaga. Af nefndu ákvæði höfundalaga megi jafnframtráða að gert sé ráð fyrir því að fjarskiptafyrirtæki stýri því að einhverjuleyti með hvaða hætti viðskiptavinir þeirra nýti selda fjarskiptaþjónustu.Ástæða sé því til að ætla að fjarskiptafélögum beri hreinlega að látasig málið varða ef viðskiptavinir þeirra nýta og/eða hyggjast nýta keyptaþjónustu til ólögmætra verka, séu fjarskiptafélögin grandvís um það. Íúrskurðum sínum frá 14. október 2014 hafi Héraðsdómur Reykjavíkur staðfestgildi reglunnar og réttmæti beitingar hennar við sambærilegar aðstæður.4. Önnur skilyrðilögbanns uppfylltBrot á lögvörðum réttindum stefnandaÍ óheftum aðgangi viðskiptamanna stefnda aðvefsvæðunum www.deildu.net og www.thepiratebay.se felist skýlaust brot álögvörðum réttindum stefnanda, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1991, enlöglíkur séu fyrir því að notendur vefsvæðanna birti eintök af og afritihugverk sem njóti verndar höfundalaga, sbr. 1. mgr. 8. gr. höfundalaga, fyrirtilstuðlan rekstraraðila þeirra. Í úrskurðum héraðsdóms frá 14. október 2014 séþví slegið föstu að skilyrði þetta sé uppfyllt varðandi umrædd vefsvæði.Athöfn stefnda er þegar hafinBrot gegn höfundarétti umbjóðenda stefnanda hafi áttsér stað á báðum vefsvæðunum um nokkra hríð og ekki sé fyrirséð að nokkurt látverði á þeim brotum að óbreyttu. Gerðarþoli veiti enn í dag viðskiptamönnumsínum aðgang að vefsíðunum. Því sé um athöfn að ræða, sem þegar er hafin, sbr.áskilnað 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1991. Engu máli skipti þó að hún hafistaðið yfir í töluvert langan tíma, sbr. fyrrnefnda úrskurði héraðsdóms frá 14.október 2014.Réttindi stefnanda hefðu farið forgörðum og valdiðmiklu tjóni væri beðið dómsÓtvírætt sé að umbjóðendur stefnanda hafi þegar orðiðfyrir gríðarlegu tjóni fyrir tilstilli notenda margnefndra vefsíðna. Samkvæmtupplýsingum, sem finna megi á vefsíðunum sjálfum, sé gríðarlega miklu efnideilt á síðunum. Í september 2013 hafi notendur á www.deildu.net deilt yfir34.000 skrám. Í lok október 2014 hafi sá fjöldi verið kominn yfir 100.000. Íseptember 2013 hafi notendur vefsíðunnar www.piratebay.se verið sagðir yfir 30milljónir, sem deili með sér rúmlega 5 milljónum skráa. Í lok október 2014 hafiþeir verið sagðir yfir 39 milljónir og deili með sér 6 milljónum skráa. Sjámegi hversu margir hafi verið skráðir inn á deildu.net á mismunandi tímum, enþann 22. september 2015 hafi t.d. 1135 notendur verið skráðir inn á ákveðnumtíma þann dag og 1047 á svipuðum tíma daginn eftir. Það sé því ljóst aðnotkunin sé umfangsmikil og stöðug. www.deildu.net sé ein vinsælasta vefsíða áÍslandi og www.piratebay.se ein af hundrað vinsælustu netsíðum heims. Umfangþeirrar brotastarfsemi sem þar sé rekin sé gífurlegt. Ekki sé að sjá aðnotendur muni breyta hegðun sinni að óbreyttu. Ómögulegt sé að gera sér greinfyrir því hversu mikið tjón muni hljótast af því í framtíðinni verði aðgangurað nefndum vefsvæðum áfram óheftur. Óhætt sé þó að slá því föstu að tjónstefnanda verði afar mikið verði aðgangur að vefsíðunum framvegis óheftur, sbr.1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1991. Í niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli nr.214/2009 hafi verið litið svo á að rétthafar verka sem deilt hafi verið ávefsíðunni www.torrent.is hefðu orðið fyrir tjóni vegna háttsemi notendasíðunnar og stjórnenda hennar. Sams konar aðstæður séu uppi í máli þessu.Tjón umbjóðenda stefnanda mun ekki fást bætt eftirreglum skaðabótaréttarinsTjón umbjóðenda stefnenda muni ekki fást bætt eftirreglum skaðabótaréttarins. Óljóst sé hverjir séu rekstraraðilar umræddravefsíðna og einnig sé óljóst hversu mikið tjón muni hljótast af áframhaldandióheftum aðgangi að vefsvæðunum, sbr. 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1991.Engar upplýsingar liggi fyrir um hæfi rekstraraðila vefsíðnanna til að greiðastefnendum skaðabætur vegna þess tjóns sem hlotist hafi af rekstri þeirra.Héraðsdómur hafi samþykkt þessi sjónarmið í úrskurðum sínum frá 14. október 2014.Hagsmunir umjóðenda stefnanda eru mun meiri enhagsmunir stefndaHagsmunir umbjóðenda stefnenda af því að hefta aðgangað vefsvæðunum séu miklum mun meiri en hagsmunir stefnda af því að haldaaðgangi viðskiptavina sinna óheftum, sbr. 2. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr.31/1991. Aðgangur viðskiptavina stefnda að vefsíðunum tryggi þeim einungisnauðsynlega aðstöðu til þess að brjóta gegn lögvörðum rétti stefnenda ogumbjóðenda þeirra, en ekki til að stunda aðra háttsemi, enda sé starfsemivefsíðnanna takmörkuð við að auðvelda notendum ólögmætar athafnir. Því verðieinfaldlega að virða að vettugi þá hagsmuni sem stefndi kunni að hafa af því aðhalda þeirri aðstöðu opinni, enda sé hún aðeins nýtt í ólögmætum tilgangi.Héraðsdómur hafi tekið undir og samþykkt þessi sjónarmið í úrskurðum sínum frá14. október 2014.5. Ákvæði laga nr.30/2002, um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustuLög nr.30/2002, um ábyrgðartakmarkanir þjónustuveitenda, girði ekki á nokkurn háttfyrir að unnt sé að krefjast lögbanns við miðlun þjónustuveitenda. Þvert á mótisé beinlínis kveðið á um það í athugasemdum með frumvarpi til laganna, sbr. V.kafla athugasemdanna, að ákvæði laganna hafi ekki áhrif á lögbannsúrræði aðila.Þar segir: Ákvæði þessa kafla kveða á um hvenærþjónustuveitandi, sem er milligönguaðili við miðlun gagna, ber ekki ábyrgð ágögnum sem hann miðlar, vistar með skyndivistun eða hýsir. Frumvarpið kveðurekki á um hvenær þjónustuveitandi getur orðið ábyrgur fyrir slíkum gögnum efskilyrði takmörkunar ábyrgðar eru ekki fyrir hendi. Þá hafa ákvæði frumvarpsinsekki áhrif á lögbannsúrræði aðila.Þetta sé ísamræmi við ákvæði 3. mgr. 12. gr. tilskipunar 2000/31/EBE, sem lögfest hafiverið með lögum nr. 30/2002, en þar segi: Ákvæði þessarar greinar hafa ekkiáhrif á það úrræði dómstóls eða stjórnvalds, í samræmi við réttarkerfiaðildarríkja, að krefjast þess að þjónustuveitandi stöðvi eða komi í veg fyrirbrot.Sams konar ákvæði sé að finna í 13. og 14. gr.tilskipunarinnar.Í 45. mgr.inngangs tilskipunarinnar hafi þetta inntak verið áréttað, en þar segi:Takmörkuð ábyrgð þjónustuveitenda semeru milliliðir, sem kveðið er á um í þessari tilskipun, hefur engin áhrif áhugsanleg fyrirmæli af ýmsum toga. Slík fyrirmæli geta einkum falist íúrskurðum dómstóla eða stjórnvalda, þar sem krafa er gerð um að brotum sé hætteða komið sé í veg fyrir þau, meðal annars að ólöglegum upplýsingum sé eytt eðaað aðgengi að þeim sé hindrað.Þessi skilningur hafi verið staðfestur í nýlegumforúrskurði Evrópudómstólsins, í máli nr. C-70/10, þar sem dómstóllinn hafitalið að á þjónustuveitendum hvíldi ekki skylda til þess að koma á laggirnarsíunarkerfi til að hafa eftirlit með öllum gagnasendingum um kerfi þeirra, umótiltekinn tíma og á kostnað þjónustuveitenda. Af úrskurðinum megi hins vegarráða að lögbannskrafa rétthafa á hendur þjónustuveitendum, í þeim tilgangi aðstöðva eða hindra veitingu þjónustu sem nýtt sé til að brjóta gegn lögvörðumrétti aðila, sé í samræmi við ákvæði og tilgang tilskipunar 2000/31/EBE ogreglur hennar um ábyrgðartakmarkanir þjónustuveitenda. Margnefndir úrskurðirHéraðsdóms Reykjavíkur frá 14. október 2014 séu í samræmi við þessa niðurstöðu.6. Mótmæli stefnda vegna lögbanns við fyrirtöku hjásýslumanniStefndi hafi lagt fram mótmæli við fyrirtöku hjásýslumanni þann 23. október 2015 og hafi að auki látið bóka sérstök mótmæli ígerðarbók sýslumanns. Þar sé aðallega byggt á því að skilyrði lögbanns samkvæmtlögum nr. 31/1990 séu ekki uppfyllt, auk þess sem stefnandi geti náð fram réttisínum með refsi- og skaðabótakröfum og að atvinnuréttindi stefnda séu varin af75. gr. stjórnarskrárinnar. Stefnandi hafni mótmælum stefnda og vísi m.a. til fordæmaHéraðsdóms Reykjavíkur í málum K-8/2013 og K-9/2013. Í bókun í gerðabóksýslumanns haldi stefndi því m.a. fram að vegna þess að lögbann séneyðarráðstöfun og að stefnandi hafi beðið í ár með að fara fram á lögbann hafiverið sýnt fram á að neyð sé ekki fyrir hendi í málatilbúnaði stefnanda.Stefnandi bendi á að í Hæstaréttardómi í máli nr. 214/2009 hafi verið lagtlögbann við rekstri vefsíðu sem hafi verið starfandi í u.þ.b. tvö ár án þess aðdómurinn gerði athugasemdir við þann tíma sem vefsíðan hafði verið starfrækt. Íúrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur í málum K-8/2013 og K-9/2013 hefðu deildu.netog piratebay.se jafnframt verið starfandi í töluverðan tíma áður en lögbannhafi verið lagt á. Stefnandi telji sömu atriði eiga við í máli þessu. Mótmælt sé þeim skilningi stefnda á 2. mgr. 59. gr. aí höfundalögum að sú athöfn stefnda að veita viðskiptamönnum sínum aðgang aðofangreindum vefsvæðum samræmist engan veginn eðlilegri skilgreiningu á orðinuathöfn og að greinin sé ósamrýmanleg þeim kröfum sem gera verði til lögbanns.Stefndi vísi til 75. gr. stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi máli sínu tilstuðnings. Stefnandi mótmæli þessari málsástæðu. Atvinnufrelsi megi setjaskorður með lögum samkvæmt ákvæðinu, enda krefjist almannahagsmunir þess.Alþingi hafi sett skorður með lögum og hafi samhliða tekið afstöðu tilalmannahagsmuna með þeim en Hæstiréttur hafi í framkvæmd talið að löggjafinnætti sjálfur fullnaðarmat um það hvort skilyrði um almannahagsmuni væriuppfyllt.7. Aðgerðir sem stefnda er rétt að grípa tilÍ samræmi við niðurstöðu héraðsdóms í umræddumúrskurðum sé rétt að stefndi hafi frjálsar hendur með það hvaða aðferðum hannbeiti til þess að hlíta lögbanninu. Að mati héraðsdóms hafi hann nokkrar leiðirtil þess. Ein sé DNS-lokun og sé þá allri umferð inn á lénin www.deildu.net,www.deildu.com, www.iceland.pm, www.icetracker.org, www.afghanpirate.com,www.deildu.eu, www.thepiratebay.se, www. thepiratebay.sx, ogwww.thepiratebay.org beint með einföldum hætti inn á annað vefsvæði sem svariöllum köllum sem send séu á viðkomandi lén. Æskilegt sé þá að sú síða birtiskilaboð um að aðgangur að umræddum lénum sé takmarkaður. Síminn hf. ogFjarskipti hf. hafi þegar komið upp slíkum síðum. Þessi sjónarmið hafi komiðtil umfjöllunar í úrskurðum héraðsdóms í málum K-8/2013 og K-9/2013 og dómurinntalið að engin gögn sýndu að mjög íþyngjandi væri fyrir fjarskiptafyrirtækin aðloka aðgangi að umræddum vefsvæðum.8. Um stefnanda, umboð, réttindi og lagarökStefnandi lýsi starfsemi sinni, umboði og réttindum tilað krefjast lögbanns svo að STEF (Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar)séu samtök tónskálda, textahöfunda og eigenda flutningsréttar sem annistinnheimtu vegna opinbers tónflutnings. STEF sé einnig aðili að NCB (NordiskCopyright Bureau), sem séu samtök tónskálda, textahöfunda og eigendaflutningsréttar á Norðurlöndum og innheimti gjöld vegna eintakagerðar ogdreifingar á tónverkum. NCB og STEF hafi gert gagnkvæma samninga við erlendsystursamtök sín þar sem samtökin gæti hagsmuna vegna nær allra tónverka semverndar njóti samkvæmt höfundalögum. Gæti STEF þannig hagsmuna bæði íslenskraog erlendra rétthafa og hafi hlotið löggildingu mennta- ogmenningarmálaráðuneytisins til þess að gæta hagsmuna höfunda skv. 23. og 23.gr. a í höfundalögum, sbr. 59. gr. a sömu laga. STEF byggi umboð sitt til aðkrefjast lögbanns m.a. á nefndu lagaákvæði og liggi upplýsingar um aðildarfélögSTEF fyrir. Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 214/2009,Istorrent-máli, hafi aðild STEF til að reka lögbannsmál f.h. umbjóðendasamtakanna verið staðfest og byggi stefnandi umboð sitt til að krefjastlögbanns f.h. umbjóðenda sinna fyrst og fremst á ákvæði 2. mgr. 59. gr. a íhöfundalögum. Að öðru leyti byggir stefnandi aðild sína og umboð sitt á ákvæðumII. kafla laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sem ogá almennum reglum laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á ákvæðumhöfundalaga, nr. 73/1972, einkum 1.gr., 3.gr., 1. mgr. 8. gr., 23. gr., 23. gr.a, 45. gr., 46. gr. og 59. gr. laganna. Stefnandi styður kröfu sína umstaðfestingu lögbanns við ákvæði 24. og 25. gr. laga nr. 31/1990, umkyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. ákvæði 36. gr. laganna. Jafnframt sé vísaðtil 8. gr. tilskipunar EB nr. 2001/29 sem innleidd var með ákvæðum íslenskuhöfundalaganna. Um málskostnað er vísað til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.Um varnarþing er vísað til 41. og 42. gr. laga nr. 31/1990. Málsástæður og lagarök stefndaSkilyrði lögbannsÍ 2. mgr. 59. gr. a í höfundalögum nr. 73/1972 segi aðrétthafi eða samtök þeirra geti fengið lagt lögbann við því að þjónustuveitandimiðli gögnum sem þjónustuþegi láti í té um fjarskiptanet, óháð því hvortþjónustuveitandi beri ábyrgð vegna miðlunar eða sjálfvirkrar, millistigs- eðasamtímageymslu gagna. Enn fremur verði lögbann lagt við því að þjónustuveitandihýsi gögn sem látin séu í té af þjónustuþega, óháð því hvort þjónustuveitandiberi ábyrgð á gögnunum. Heimildin sé sett að því tilskildu að hún fullnægiöðrum skilyrðum lögbanns og sé þar vísað til laga um kyrrsetningu, lögbanno.fl. Stefnandi byggi lögbannskröfu sína á þessu ákvæði höfundalaga og geristefndi því eftirgreindar athugasemdir.Stefnandi hafi ekki með nokkru móti sýnt fram á aðstefndi hafi miðlað gögnum sem ímyndaður þjónustuþegi hafi látið í té umfjarskiptanet, eða hafi hýst gögn sem látin séu í té af þjónustuþega. Þar semlögbann sé neyðarráðstöfun verði að gera ríkar kröfur til þess að stefnandisanni eða geri sennilegt að athöfn muni brjóta gegn lögvörðum rétti stefnanda. Stefnandihafi hvorki sannað né gert sennilegt að stefndi brjóti gegn lögmætum réttihans, hvorki með framlögðum gögnum né rökstuðningi í lögbannsbeiðni eða stefnu.Að auki verði ekki séð að um neyð sé að ræða hjá stefnanda sem hafi knúið hanntil að leita lögbanns þar sem hann hafi ekki getað beðið dóms, enda liggi fyrirað hann hafi beðið í meira en ár með að gera lögbannskröfuna.Skilyrði 2. mgr. 59. gr. a í höfundalögum um miðlungagna eigi ekki við um starfsemi og aðkomu stefnda að þessu máli. Stefndi miðliekki gögnum þjónustuþega eða þeirra vefsíðna sem lögbann beinist gegn, enda séslíkt ekki með nokkru móti á forræði stefnda. Hugtakið „að miðla“ sé hvergiskilgreint í höfundalögum, en það feli samkvæmt orðabók í sér að veita, úthlutaeða láta af hendi. Þá sé sögnin „að veita“ skilgreind sem það að afhenda, látaeinhvern fá eitthvað eða láta í té. Engin framangreindra skilgreininga geti náðtil þeirrar þjónustu sem stefndi veiti með því að veita viðskiptavinum sínumaðgang að internetinu gegn gjaldi. Stefndi hýsi hvorki né hlutist til umhýsingu þeirra gagna sem aðgengileg séu á vefsíðum sem lögbannsbeiðni stefnandahafi snúið að og geti því eðli málsins samkvæmt heldur ekki afhent þau. Stefndigeti ekki afhent eða látið í té gögn sem ekki séu í vörslu stefnda.Verði ekki fallist á að skilyrði 59. gr. a íhöfundalögum um miðlun gagna eigi ekki við um starfsemi stefnda, sé byggt á þvíað stefndi uppfylli skilyrði 12. gr. laga nr. 30/2002, um rafræn viðskiptio.fl. Í lagagreininni sé kveðið á um takmörkun ábyrgðar vegna miðlunar.Samkvæmt henni beri þjónustuveitandi, sem miðli gögnum sem þjónustuþegi láti íté um fjarskiptanet eða veiti aðgang að fjarskiptaneti, ekki ábyrgð vegnamiðlunar að því tilskildu að þjónustuveitandinn eigi ekki frumkvæði að miðluninni,velji ekki viðtakanda þeirra gagna sem miðlað sé, og velji hvorki né breytiþeim gögnum sem miðlað sé. Stefndi sé hvorki ábyrgðarmaður þeirra vefsíðna semlögbannsbeiðni stefnanda beinist að né tengist þeim með nokkrum öðrum hætti.Því hafi stefndi augljóslega ekki frumkvæði að miðlun efnis gegnum vefsíðurnar.Það gefi augaleið að stefndi stýri því ekki hvaða vefsíður viðskiptavinir hansheimsæki eða eftir atvikum hverju þeir hlaði þaðan niður og því sé ljóst aðstefndi velji ekki viðtakanda þeirra gagna sem miðlað sé. Stefndi hvorki veljiné breyti þeim gögnum sem miðlað sé, enda alls ótengdur umræddum vefsíðum. Þaðsé stefnda því ómögulegt að hafa nokkur slík áhrif á gögn sem miðlað sé. Verðiþví að líta svo á að stefndi geti ekki borið ábyrgð sem þjónustuveitandi áþeirri miðlun sem fram fari á vefsíðunum.Áðurgreind lagagrein höfundalaga samræmist enganveginn eðlilegri skilgreiningu á orðinu athöfn. Í málatilbúnaði stefnanda sé áþví byggt að aðkoma stefnda sé sú að hann sé óhjákvæmilegur milliliður millivefsvæðanna og þeirra notenda, sem brjóti gegn höfundarétti umbjóðendastefnanda. Þó að notendur geti þannig nálgast umræddar vefsíður sé ekki umathöfn eða verknað stefnda að ræða og því síður athöfn eða verknaðeinstaklings, fyrirsvarsmanns félags eða stofnunar, svo sem áskilið sé í 1.mgr. 24. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Því megi vera ljóst að 59. gr.a í höfundalögum sé að þessu leyti ósamrýmanleg þeim kröfum sem gera verði tillögbanns. Beiðninni sé ranglega beint að stefnda, enda verði að beinalögbannsbeiðni að fyrirsvarsmanni þess félags sem lögbannsbeiðni beinist gegn,sbr. 1. mgr. 24. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl.Í 2. tl. 3.mgr. 24. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. segi einfaldlega að lögbannverði ekki lagt á ef sýnt þyki að stórfelldur munur sé á hagsmunum gerðarþolaaf því að athöfn fari fram og hagsmunum gerðarbeiðanda af því að fyrirbyggjahana, enda setji gerðarþoli eftir atvikum tryggingu fyrir því tjóni semathöfnin kunni að baka gerðarbeiðanda. Staða stefnda sé skólabókardæmi umnotkun þessa ákvæðis. Um sé að ræða lítið fjarskiptafyrirtæki sem hafi munmeiri hag af því að starfsemi þess haldist óskert en stefnandi, sem hafi mjögóljósan ávinning eða hag af því að lögbann verði lagt á stefnda. Þá verðistefnandi jafnframt að sanna tjón sitt telji hann að setja verði tryggingu, enhún verði ekki sett nema eftir atvikum vegna þess tjóns sem kunni að verða afathöfn stefnda. Þetta leiði af almennum reglum skaðabótaréttar og sé krafa umlögbann þar ekki undanskilin. Um þetta segi nánar í athugasemdum með frumvarpitil laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl.:Loks er í 2. tölul. sama ákvæðis gertráð fyrir að synjað verði um lögbann ef hagsmunir gerðarþola af athöfn erustórfelldir í samanburði við hagsmuni gerðarbeiðanda af stöðvun hennar, endasetji gerðarþoli þá að öðru jöfnu tryggingu fyrir því tjóni sem gerðarbeiðandiyrði að þola. Í báðum þeim tilvikum, sem hér um ræðir, má segja að ætlast sétil að hagsmunir gerðarbeiðandans af framgangi lögbanns verði metnirsérstaklega, en munurinn milli hinna tveggja töluliða 3. mgr. 24. gr. felst íþví í hverju samhengi eða hverjum samanburði þetta mat yrði lagt á hagsmunina. Þótt reglur þessa efnis hafiekki verið í lögum hefur verið gengið út frá því í framkvæmd að niðurstaðahagsmunamats af þessum toga geti leitt til synjunar um lögbann, en slíksjónarmið styðjast við viðteknar fræðikenningar á þessum vettvangi.Sýslumaður hefði þurft að gera sjálfstætt hagsmunamat,óháð öðrum lögbannsbeiðnum stefnanda. Mikilvægt sé að í slíku hagsmunamati komifram hverjir séu hagsmunir stefnda og hverjir séu hagsmunir stefnanda í þessutiltekna máli. Hagsmunir stærri fjarskiptafyrirtækja, sem jafnframt selji meðbeinum hætti aðgang að höfundavörðu efni, séu allt aðrir og minni en hagsmunirminni fjarskiptafyrirtækja eins og stefnda.Stefnandi verði að sýna fram á að lögbrot hafi átt sérstað svo að lögbanni verði beitt gegn stefnda. Í athugasemdum með frumvarpi semurðu að lögum nr. 93/2010 segi:Ekki verður séð aðneinir lögverndaðir hagsmunir eigi að standa gegn því að sett verði ákvæði afþví tagi sem hér er lýst, enda er heimild til lögbanns byggð á þeirrigrundvallarforsendu að fyrir hendi sé réttarbrot af hálfu þjónustuþega sem sásem fer fram á lögbann þyrfti eftir sem áður að sýna fram á.Þar sem ekkert lögbrot liggi fyrir í málinu segi sigsjálft að ekki verði lagt lögbann á stefnda og því beri að hafna staðfestinguþess.Önnur sjónarmið og rök stefndaStefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann geti ekki náðfram meintum rétti sínum með refsi- eða skaðabótakröfum þrátt fyrir að það séskilyrði lögbanns að gerðarbeiðandi „sanni eða geri sennilegt að hagsmunir hansmuni fara forgörðum verði hann knúinn til að bíða dómsúrlausnar um verndþeirra“. Í þeim úrskurðum, K-8/2013 og K-9/2013, sem stefnandi byggi mál sittá, segi að ekki sé hægt að finna ábyrgðarmenn viðkomandi vefsvæða þar sem þauséu skráð erlendis. Um sé að ræða eins árs gamla úrskurði og aðstæður hafibreyst. Síðurnar deildu.net og iceland.pm séu báðar hýstar hjá bandarískuhýsingarþjónustunni Cloudflare. Hægt sé að tilkynna um brot á höfundalögum tilCloudflare. Ekki komi fram í lögbannsbeiðni hvort stefnandi hafi tilkynnt ummeint höfundalagabrot eða ekki. Það eina sem komi fram í lögbannsbeiðninni séað stefnandi hafi lagt fram kæru vegna tveggja af vefsíðunum til lögreglu. Geraverði þær lágmarkskröfur til stefnanda að hann tryggi sína hagsmuni eins oghægt sé áður en hann beini lögbannsbeiðni að stefnda.Sænskur dómstóll hafi lokað PirateBay.se ogthepiratebay.se þann 19. maí 2015 og geti krafa gerðarbeiðanda því ekki beinstað þessum vefsvæðum. Sýni þetta, svo ekki verði um villst, að stefnandi hafiýmiss konar úrræði önnur en að krefjast lögbanns hjá stefnda. Sænskur dómstóllhafi komist að þeirri niðurstöðu í lok ársins 2015 að rétthafar verði að sýnafram á að þeir hafi leitað annarra leiða áður en krafist sé lögbanns ágrundvelli sambærilegs ákvæðis í sænskum lögum. Eðlilegt sé að álykta svo aðsambærileg túlkun gildi í íslenskum rétti.Atvinnuréttindi stefnda séu varin af 75. gr.stjórnarskrárinnar og ljóst sé að þau vegi þyngra en hagsmunir stefnanda. Ekkiverði séð að þau skilyrði 75. gr. að skerða megi atvinnufrelsi efalmannahagsmunir krefjist þess eigi við. Þvert á móti sé stefndi lítiðfjarskiptafyrirtæki og það sé ljóst að lögbannið geti haft verulega neikvæðáhrif á samkeppnisstöðu stefnda sem og þjónustustig og netöryggi. Það séalþekkt að þeir notendur eða þjónustuþegar sem ætli að ná sér í efni geri þaðeinfaldlega með öðrum hætti og fari þá iðulega í gegnum erlenda DNS-þjóna semgeti leitt til þess að hraði tengingar hjá stefnda geti minnkað, auk þess semnetöryggi sé ógnað. Þetta geti haft verulega neikvæðar afleiðingar fyrirstefnda, sérstaklega þar sem stór hluti hans viðskiptavina séu hugbúnaðarfyrirtækisem treysti á það öryggi sem stefndi hafi getað veitt hingað til.Stefndi haldi því fram með mótmælum þessum aðlögbannsbeiðni stefnanda uppfylli ekki skilyrði sem gerð séu meðlögbannslögunum. Ef gerðarþoli heldur þvífram að skilyrði til lögbanns séu ekki uppfyllt eða að gerðarbeiðandi eigi ekkiþann rétt, sem hann segir að brotið sé á, verður gerðarbeiðandi að sýna fram áhið gagnstæða. Þar sem stefnandi hafi ekki sýnt fram á hið gagnstæða verðiað hafna því að staðfesta lögbannið.Stefndi geri athugasemdir við viðurkenningarkröfustefnanda. Ekki verði séð að þörf sé á sérstakri viðurkenningarkröfu vegnamálsins. Auk þess hafi viðurkenningarkrafan gengið mun lengra en krafastefnanda um staðfestingu lögbanns með orðalaginu að stefnda „sé skylt að grípatil allra nauðsynlegra ráðstafana til þess að hindra að viðskiptamenn hans getiheimsótt vefsíðurnar“. Stefndi líti svo á að þessi krafa eigi ekki heima ímálinu, en geri þó ekki sérstaka kröfu um frávísun vegna þess. Við aðalmeðferðmálsins gerði stefndi, með samþykki stefnanda, nýja kröfu um sýknu afviðurkenningarkröfunni og féll stefnandi jafnframt í sama þinghaldi frá þeimhluta kröfu sinnar sem hafði að geyma hið umdeilda orðalag.Um lagarök vísi stefndi til höfundalaga, nr. 73/1972,laga nr. 30/2002, um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, laga umkyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1991, og til laga um meðferð einkamála, nr.91/1991, m.a. vegna málskostnaðar.NiðurstaðaStefnandi krefst í máli þessu, á grundvelli 36. gr.laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990, staðfestingar á lögbanni semlagt hefur verið á stefnda. Samkvæmt ákvæðinu skal, hafi ekki áður verið dæmtum kröfu stefnanda eða mál höfðað til þess að fá skorið úr um rétt hans, geraslíka kröfu í sama máli. Stefnandi krefst þess því jafnframt í málinu aðviðurkennt verði að stefnda sé óheimilt að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að vefsíðunum deildu.net,deildu.com, iceland.pm, icetracker.org, afghanpirate.com, deildu.eu,thepiratebay.se, thepiratebay.sx, og thepiratebay.org.Í höfundarétti felst einkaréttur höfundar til að geraeintök af verki sínu og birta það, sbr. 3. gr. höfundalaga, nr. 73/1972.Viðurkenningarkrafa stefnanda byggir á því að starfsemi umræddra vefsvæða vegigegn þessum grundvallarrétti og er krafa stefnanda um viðurkenningu á því aðstefnda sé óheimilt að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að þeim. Stefndi hefur ekki andmælt réttmæti staðhæfingastefnanda um að yfirgnæfandi hluti þess hljóð- og myndefnis, sem hafi að geyma tónlist sem umbjóðendur stefnandaeigi höfundarétt að og finna megi á vefsvæðunum, og gert sé aðgengilegttil eintakagerðar, sé þar án heimildar eigenda þess. Telst óumdeilt að svo séog fær það stuðning í framlögðum gögnum. Þá er óumdeild heimild stefnanda tilaðildar að málinu, sbr. dóma Hæstaréttar í málum réttarins nr. 239/2014, nr.240/2014 og nr. 214/2009. Stefnandi verður talinn hafa af því lögvarðahagsmuni, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, að fá úr því skorið hvortstefnda sé það heimilt að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að vefsvæðunum eðaekki. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 214/2009 komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að á vefsíðunnitorrent.is hafi verið í boði mikið af efni, sem háð var höfundarétti og aðnotendur hafi með þeim búnaði, sem vefsvæðið bauð upp á, miðlað því sín á millií umtalsverðum mæli án þess að heimild rétthafa hafi verið fyrir hendi. Ídóminum sagði að því mætti leggja til grundvallar við úrlausn málsins aðtilgangur með starfrækslu vefsvæðisins hafi fyrst og fremst verið sá að greiðafyrir því að notendur gætu með skjótum hætti miðlað sín á milli efni, sem háðer höfundarétti, án tillits til þess hvort fyrir hendi væri tilskilin heimildtil slíkrar miðlunar frá rétthafa. Með þessumdómi Hæstaréttar var því slegið föstu aðrekstur vefsíðunnar torrent.is væri ólögmætur. Jafnframt var fallist á aðábyrgðartakmarkanir V. kafla laga nr. 30/2002, um rafræn viðskipti og aðrarafræna þjónustu, ættu ekki við, þegar með þjónustunni sé gagngert stuðlað aðþví að brotið sé gegn lögvörðum rétti höfunda og listflytjenda samkvæmthöfundalögum. Tilgangur, virkni og rekstur vefsíðnannadeildu.net og thepiratebay.se er að mati dómsins sambærilegur við tilgang,virkni og rekstur vefsíðunnar torrent.is, sem fjallað var um í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar. Var lögbann á rekstur þeirrar vefsíðustaðfest á þeim forsendum að þar færi fram ólögmæt starfsemi, sem bryti gegnlögvörðum réttindum höfundarréttarhafa. Hinar sjö vefsíðurnar sem taldar eruupp í kröfu stefnanda vísa beint á áðurnefndar vefsíður og falla því sjálfkrafaí sama flokk.Stefnandi þykir hafa sýnt nægilega fram á aðumbjóðendur hans eigi höfundaréttindi að hljóð- og myndefni sem deilt er á vefsíðunum sem viðurkenningarkrafa hans tekurtil og leggja má tilgrundvallar að tilgangur með starfrækslu þeirra sé fyrst og fremst sá að greiðafyrir því að notendur geti miðlað sín á milli efni, sem háð er höfundarétti, ántillits til þess hvort fyrir hendi væri tilskilin heimild til slíkrar miðlunarfrá rétthafa. Notkunvefsíðnanna felur því í sér ólögmæta háttsemi og fer hún ekki fram nema notandihafi aðgang að vefsíðunum, fyrir milligöngu fjarskiptafyrirtækja svo semstefnda. Fjarskiptafyrirtæki geta þurft að sæta því að verða að geraráðstafanir til að hindra, svo sem þeim er unnt, aðgang viðskiptamanna sinna aðólögmætum vefsvæðum.Stefndibyggir á því að slík takmörkun brjóti gegn atvinnufrelsisákvæði 75. gr. stjórnarskrár. Við mat á því ertil þess að líta að slík réttindi þurfa ætíð að sæta takmörkunum afsambærilegum réttindum annarra og almannahagsmunum.Þótt takmörkunin kunni að skerða atvinnufrelsi stefnda þá felst ekki í þvístórkostleg skerðing samanborið við þá hagsmuni umbjóðenda stefnanda að stöðva höfundaréttarbrotin. Þóað sú takmörkun sem hér er krafist viðurkenningar átaki til fleiri vefsíðna en fjallað var um íúrskurðum héraðsdóms 14. október 2014, er til þess að líta, svo sem fram erkomið í málinu, að vefsíðurnar sem mál þetta snýst um vísa allar beint ásíðurnar deildu.net eða thepiratebay.se. Með samkomulagi stefnanda viðstærstu fjarskiptafyrirtæki á markaði hafa þau fallist á að loka einnig aðgangiað vefsvæðum sem opnuð eru til að sniðganga það bann sem fallist hefur verið áeða ákveðið í úrskurðum héraðsdóms. Starfsemi stefndahefur ekki verið stöðvuð heldur einungis lagt fyrir hann að hamla aðgengi aðtilteknum vefsvæðum, sem hafa þann megintilgang að greiðafyrir miðlun höfundavarins efnis án tillits til tilskilinnar heimildar tilslíkrar miðlunar frá rétthafa. Því verður að hafna að slík takmörkun brjóti gegn 75. gr. stjórnarskrárÍslands, en atvinnufrelsið sem þar um ræðir er heimilt að takmarka með lögum. Íframburði fyrirsvarsmanns stefnda fyrir dóminum kom m.a. fram að slíkar hömlurgeti skaðað þá ímynd sem hann kýs að standa fyrir, um eftirlitslausa netnotkunviðskiptamanna sinna. Þótt tjáningarfrelsi stefnda eða viðskiptamanna hans, sem felur m.a. í sér rétttil að miðla og nálgast upplýsingar á netinu, sæti óverulegri takmörkun þáfelur sú skerðing að mati dómsins ekki í sér stórfelldari hagsmuni en þá semfelast í hagsmunum umbjóðenda stefnanda. Til þess er og að líta að unnt er aðnálgast hið höfundavarða efni eftir löglegum leiðum. Að framangreindu virtuverður fallist á kröfu stefnanda um að viðurkennt verði með dómi þessum að stefnda séóheimilt að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að framangreindum vefsíðum. Fyrrnefndur dómur Hæstaréttar í máli nr. 214/2009 varkveðinn upp 11. febrúar 2010.Síðar sama ár, þann 2. júlí 2010, tóku gildi lög nr. 93/2010, til breytinga áhöfundalögum. Í ákvæði 2. mgr. 59. gr. a, sem þá var bætt í höfundalög með 13.gr. laga nr. 93/2010, er m.a. kveðið á um, að því tilskildu að fullnægt séöðrum þeim skilyrðum lögbanns sem greind eru í lögum um kyrrsetningu, lögbanno.fl., að einstakir rétthafar eða samtök þeirra geti fengið lagt lögbann viðþví að þjónustuveitandi miðli gögnum sem þjónustuþegi lætur í té umfjarskiptanet, óháð því hvort þjónustuveitandi beri ábyrgð vegna miðlunar eðasjálfvirkrar, millistigs- eða skammtímageymslu gagna. Styðst lögbann það semkrafist er staðfestingar á í máli þessu við þessa heimild í 2. mgr. 59. gr. a íhöfundalögum.Í athugasemdum með frumvarpi því, sem varð að lögumnr. 93/2010, kemur m.a. fram að í ákvæðinu sem varð að 2. mgr. 59. gr. a íhöfundalögum sé fólgið nýmæli þar sem gert sé ráð fyrir sérstakri heimild tilað leggja lögbann við athöfnum milliliða, fyrst og fremst fjarskiptafyrirtækja.Taki ákvæðið mið af lögum nr. 30/2002, um rafræn viðskipti og aðra rafrænaþjónustu. Tilgangur ákvæðisins sé fyrst og fremst að eyða mögulegum vafa umhvort lögbanni verði beint gegn fjarskiptafyrirtækjum vegna miðlunar,skyndivistunar og hýsingar gagna í þeim tilvikum þegar um sé að ræða meint brotþjónustuþega á ákvæðum höfundalaga. Í þessu ljósiverður að hafna málsástæðum stefnda og orðskýringum hans í því sambandi, um að skilyrði 2. mgr. 59. gr. a í höfundalögum um miðlungagna geti ekki átt við um stefnda. Með ákvæðinu var innleitt það efni í tilskipunEvrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB frá 22. maí 2001 að ríkjum bæri að sjá tilþess að rétthafar séu í aðstöðu til að krefjast lögbanns gegn milliliðum efþriðji aðili notar þjónustu þeirra til að brjóta gegn höfundarétti eða skyldumrétti. Með hliðsjón af fyrrnefndum dómi Hæstaréttar og forsögu og orðfæriákvæðisins í höfundalögum verður ekki fallist á að sú takmörkun á ábyrgðstefnda á grundvelli 12. gr. laga nr. 30/2002, sem stefndi ber fyrir sig, getiátt við. Í 2. mgr. 59. gr. a í höfundalögum felstsérstök lagaheimild til að lögbann verði lagt á fjarskiptafyrirtæki eins ogstefnda. Þau önnur skilyrði lögbanns sem vísað er til íákvæðinu um að tilskilið sé að einnig sé fullnægt, er einkum að finna í 1. mgr.24. gr. laga nr. 31/1990. Samkvæmt því ákvæði má leggja lögbann við byrjaðrieða yfirvofandi athöfn einstaklings eða fyrirsvarsmanns félags eða stofnunar efgerðarbeiðandi sannar eða gerir sennilegt að athöfnin brjóti eða muni brjótagegn lögvörðum rétti hans, að gerðarþoli hafi þegar hafist handa um athöfninaeða muni gera það og að réttindi hans muni fara forgörðum eða verða fyrirteljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um þau. Þá er í 1. og 2.tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 tekið fram að lögbann verði ekki lagt við athöfnef talið verður að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskunhagsmuna gerðarbeiðanda tryggi þá nægilega. Heldur ekki ef sýnt þykir aðstórfelldur munur sé á hagsmunum gerðarþola af því að athöfn fari fram oghagsmunum gerðarbeiðanda af að fyrirbyggja hana, enda setji gerðarþoli eftiratvikum tryggingu fyrir því tjóni sem athöfnin kann að baka gerðarbeiðanda.Með hliðsjón af því semfyrr er rakið verður fallist á það með stefnanda að ef þjónustuþegar stefnda,fyrir milligöngu umræddra vefsvæða, hlaða niður á nettengda tölvu sína skrá sem hefur að geymahöfundaréttarvarið efni og gera skrána um leið aðgengilega öðrum til niðurhals,þá gerist þeir sekir um brot á einkarétti höfundar til að gera eintök af verkisínu og birta það, sbr. 3. gr. höfundalaga, og eftir atvikum brot ásambærilegum rétti listflytjenda, sbr.45. og 46. gr. laganna. Er því uppfyllt það skilyrði 1. mgr. 24. gr.laga nr. 31/1990 að lögbannið beinist að athöfn sem brjóta kann gegn lögvörðumrétti umbjóðenda stefnanda. Skiptir í því sambandi ekkimáli þótt stefndisjálfur hafi ekki sýnt af sér ólögmæta háttsemi og að ekkisé upplýst um það hvort viðskiptamenn stefnda noti eða vilji nota umræddarvefsíður.Ekki liggur annað fyrir en að notkun og dreifinghins höfundavarða efnis standi enn yfir og nýtt efni bætist sífellt inn ávefsíðurnar. Byggir stefndi m.a. á því að hagsmunir hans af því að fallistverði á kröfu hans felist í því að lokanir samkvæmt lögbanninu geti skaðaðfjarskiptaöryggi og valdið auknum kostnaði í erlendu niðurhali vegna þeirraaðferða sem notendur beiti til að komast fram hjá þeim aðgangshindrunum. Þessisjónarmið stefnda samræmast því, sem stefnandi heldur fram og dómurinn fellstá, að réttarbrotin séu jafnframt yfirvofandi í skilningi 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Stefndivísar til sænskra tilvika og telur að stefnandi hafi átt annarra kosta völ enað beina kröfu um lögbann að stefnda. Ekki liggur fyrir hverjir eru ábyrgðarmenn vegnareksturs vefsíðnanna thepiratebay.se og deildu.net enþær vefsíður munu vera skráðar erlendis. Hefur ekki tekist að upplýsa það, þrátt fyrir ítarlegalögreglurannsókn, svo sem ríkissaksóknari hefur staðfest, að þar kunni að veraað finna aðila sem íslensk lögsaga nái til. Hefur stefnanda verið ókleift aðkrefjast þess af rekstraraðilum vefsíðnanna að þeir láti af rekstri þeirra eðabeina til þeirra bótakröfum, enda eru þeir óþekktir. Stefndi bendir á að beinaberi tilkynningum um brot gegn höfundarétti til fyrirtækisins Cloudflare semhýsi síðurnar deildu.net og iceland.pm. Dómurinn telur Cloudflare ekki verahýsingarþjónustu, heldur víðtækt net sem er fyrst og fremst byggt til að verjasíður og hýsingaraðila fyrir netárásum og feli þannig í raun hýsingaraðilann ábak við eigið net. Við meðferð málsins hefur stefnandi lagt fram gögn umtilraunir sínar til þess að fá Cloudflare til aðstoðar í viðleitni sinni til aðstemma stigu við ólögmætri starfsemi á vefsíðunum. Samkvæmt þeim gögnum er þarekki aðstoð að fá sem komi að gagni. Verður að þessuvirtu ekki talið að réttarreglurum refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna stefnanda tryggi þá nægilega ískilningi 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990.Við þær aðstæður var lögbann hjá stefnda viðeigandi úrræði til að sporna gegnnotkun á vefsíðunum.Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi takmarkaðahagsmuni af lögbanninu í samanburði við hagsmuni stefnda og því standi ákvæði2. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 því í vegi að leggja hafi mátt það á.Stefndi heldur því fram að sú aðferð sem nú sé beitt við lokun, að loka fyrirDNS-aðgang, hafi neikvæð áhrif á þjónustustig og netöryggi. Í lögbannsgerðinnisem krafist er staðfestingar á í máli þessu er ekki mælt fyrir um það með hvaðaaðferð aðgangi að vefsvæðunum skuli loka og á stefndi því um það nokkurt val,en ætlast verður til þess að beitt sé þeim aðferðum sem komi að notum á hverjumtíma. Í málatilbúnaði stefnanda kemur fram að hann telji rétt að stefndi hafifrjálsar hendur um það hvaða aðferðum hann beiti til að hlíta lögbanninu. Aðrar þekktar aðferðir til að lokafyrir aðgengi að síðunum sem vísa á höfundarvarið efni en umrædd DNS-lokun erut.d. „IP-tölu lokun“ og „Rýnt í innihaldið“ (e. deep packet inspection).Tekið er undir sjónarmið stefnda umað DNS-lokun geti fylgt meiri kostnaður vegna aukinnar útlandaumferðar og minnigæði þjónustunnar vegna aukins svartíma. DNS-lokun er aðferð sem geti hvattnotendur til að breyta stillingum sínum þannig að öryggi notenda á internetinuminnki. Til lengri framtíðar er DNS-lokun, að mati sérfróðra meðdómenda,ósamrýmanleg þróun netsins til öruggari DNS-þjónustu og fer gegnheildaruppbyggingu netsins. DNS-lokun sé í besta falli lausn til skamms tíma semgeti leitt til þess að uppbygging internetsins sé ekki eins og best verður ákosið (e.optimal) hvað varðar hagkvæma og skjóta efnisdreifingu. IP-tölu lokunsé tæknilega einföld aðgerð og á færi smærri fjarskiptafélaga ef IP-tölurbreytast ekki mjög oft. Margar vefsíður geti þó legið að baki sömu IP-tölu ogkynni því að verða lokað á einhverjar löglegar vefsíður sé aðferðinni beitt, enmeð IP-tölu lokun megi loka með afgerandi hætti á viðkomandi síður. Hún sé þvítæknilega möguleg en hafi ýmsa annmarka, sérstaklega þann að um bein inngrip ífjarskiptaumferð væri að ræða. Hjáleiðir eins og staðgengilssíður (e.proxy)muni vera fyrir hendi enþeim megi líka loka með IP-tölu lokun. Þriðja aðferðin sem að framan er nefnd,að rýna í innihaldið, felur í sér eftirlit með netnotkun notenda, ásamt því aðvera mjög kostnaðarsöm, og kæmi því vart til álita séu önnur úrræði tiltæk. Engin gögnhafa verið lögð fram sem sýna fram á að það hafi verið mjög íþyngjandi fyrirstefnda að loka aðgangi að umræddum vefsvæðum með DNS-lokun. Það er aðgerð sem gerð er einu sinniog að mati sérfróðra meðdómenda ættu sérfræðingar á þessu sviði að vera nokkuðfljótir að framkvæma innleiðinguna. Því er hafnað að mikil vinna fylgi því að innleiðaDNS-lokun og vega þær röksemdir stefnda að lögbannið leggist vegna smæðarfyrirtækisins þyngra á hann en á stærri fjarskiptafyrirtæki ekki þungt í þessusambandi. Það er matdómsins að meðalhófs sé gætt með því að stefndi eigi val um aðferð og að þæraðrar aðferðir sem nú kæmi til greina að beita til að framfylgja lögbanninu enDNS-lokun væru meira íþyngjandi fyrir stefnda og viðskiptamenn hans.Aðgerðir sem þessar munusennilega aldrei loka alveg fyrir síður sem opna á niðurhal höfundavarins efnisen hafa vissulega truflandi áhrif. Þótt viðskiptamennstefnda kunni að geta farið fram hjá lokun á vefsvæðunum, t.d. með notkunstaðgengilsþjónustu, hefur ekki verið sýnt fram á að lögbannið, sem lagt var átil að sporna gegn ólögmætri háttsemi, sé tilgangslaust með öllu. Þykir nægilega sýnt fram á að stefnandi ogumbjóðendur hans hafi af því lögvarða hagsmuni að stemmt sé stigu við notkunumræddra vefsíðna með takmörkun á aðgangi viðskiptamanna stefnda að þeim, endaþótt ekki verði með staðfestingu lögbanns komið í veg fyrir starfrækslu þeirra.Að virtum hagsmunum aðila stendur 2. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 þvíekki í vegi að lögbannið verði staðfest. Lagaskilyrði þykja samkvæmtframangreindu hafa verið fyrir hendi til að lögbann yrði lagt við því, aðstefndi veitti viðskiptamönnum sínum aðgang að hinum umdeildu vefsíðum, sbr. 2.mgr. 59. gr. a í höfundalögum.Að öllu framangreinduvirtu verður fallist á kröfu stefnanda um staðfestingu þess lögbanns semsýslumaðurinn í Reykjavík lagði þann 23.október 2015 við því að stefndi veitti viðskiptamönnum sínum aðgang aðvefsíðunum deildu.net,deildu.com, iceland.pm, icetracker.org, afghanpirate.com, deildu.eu,thepiratebay.se, thepiratebay.sx, og thepiratebay.org, hvort sem www. er fyrirframan nafn vefsíðnanna eða ekki.Aðilar krefjast hvor um sig málskostnaðar úr hendihins. Þó að með dómi þessum sé fallist á endanlegar kröfur stefnanda er tilþess að líta við ákvörðun um málskostnað að við meðferð málsins hefur stefnandidregið úr upphaflegum dómkröfum sínum. Meirihluti dómenda telur að réttmætarröksemdir stefnda, m.a. um tæknilega vankanta á því að framfylgja lögbanninu,séu til marks um það að veruleg vafaatriði hafi verið í málinu. Að þessu virtu,og eftir atvikum, þykir rétt að málskostnaður falli niður, sbr. 3. mgr. 130.gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.Dóm þennan kveður upp Kristrún Kristinsdóttirhéraðsdómari, sem dómsformaður, ásamt sérfróðu meðdómsmönnunum Birni Jónssyni,rafmagnsverkfræðingi og tölvunarfræðingi, og Erni Orrasynifjarskiptaverkfræðingi.D Ó M S O R ÐStaðfest er lögbann sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði þann 23. október 2015 við því aðstefndi, Hringiðan ehf./Vortex inc, veiti viðskiptamönnum sínum aðgang aðvefsíðunum www.deildu.net, www.deildu.com, www.iceland.pm,www.icetracker.org, www.afghanpirate.com, www.deildu.eu, www.thepiratebay.se,www. thepiratebay.sx, og www.thepiratebay.org, hvort sem www. er fyrir framannafn vefsíðnanna eða ekki. Viðurkennt er að stefnda séóheimilt að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að vefsíðunum www.deildu.net, www.deildu.com, www.iceland.pm,www.icetracker.org, www.afghanpirate.com, www.deildu.eu, www.thepiratebay.se,www.thepiratebay.sx, og www.thepiratebay.org. Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 20/2005
Umhverfismat Starfsleyfi Stjórnsýsla Aðild Áfrýjunarheimild Frávísun frá héraðsdómi að hluta Frávísun frá Hæstarétti að hluta Gjafsókn
Umhverfismat. Starfsleyfi. Stjórnsýsla. Aðild. Áfrýjunarheimild. Frávísun máls að hluta frá héraðsdómi. Frávísun máls að hluta frá Hæstarétti. Gjafsókn.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason. Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 14. janúar 2005. Í aðalsök krefjast þeir sýknu af kröfu gagnáfrýjanda um ómerkingu úrskurðar umhverfisráðherra frá 15. apríl 2003, en þar staðfesti ráðherra ákvörðun Skipulagsstofnunar 20. desember 2002 varðandi matsskyldu álvers í Reyðarfirði með allt að 322.000 tonna ársframleiðslu. Í gagnsök krefjast þeir aðallega frávísunar frá Hæstarétti á þeim kröfum gagnáfrýjanda sem sættu frávísun í héraði og staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um ákvörðun umhverfisráðherra frá 14. júlí 2003 um frávísun á kæru gagnáfrýjanda varðandi útgáfu starfsleyfis Umhverfisstofnunar 14. mars 2003 fyrir álveri í Reyðarfirði með 322.000 tonna ársframleiðslu. Aðaláfrýjendur Alcoa á Íslandi ehf. og Fjarðaál sf. krefjast þess til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Aðaláfrýjendur krefjast allir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. febrúar 2005. Í aðalsök krefst hann staðfestingar héraðsdóms en í gagnsök að hrundið verði frávísun héraðsdóms á kröfum hans að því er varðar fjármálaráðuneytið, íslenska ríkið og Reyðarál ehf. Jafnframt verði hrundið frávísun héraðsdóms á kröfu gagnáfrýjanda um ómerkingu ákvörðunar Umhverfisstofnunar 14. mars 2003 um útgáfu starfsleyfis fyrir álver á iðnaðarsvæðinu við Hraun í Reyðarfirði og hún verði þess í stað ómerkt. Loks krefst hann þess að ómerkt verði ákvörðun umhverfisráðherra frá 14. júlí 2003, um að vísa frá kæru gagnáfrýjanda 28. mars 2003 á fyrrnefndri ákvörðun Umhverfisstofnunar 14. sama mánaðar um útgáfu starfsleyfis fyrir álver í Reyðarfirði. Til vara krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Þá krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt hér fyrir dómi. Gagnstefndi Reyðarál ehf. krefst aðallega að kröfum á hendur sér verði vísað frá Hæstarétti en til vara að héraðsdómur verði staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi gagnáfrýjanda. I. Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið sérstaklega flutt um kröfu stefndu í gagnsök um frávísun frá réttinum á þeim kröfum gagnáfrýjanda sem sætt höfðu frávísun í héraðsdómi. Halda gagnstefndu því fram að þar sem frávísun dómkrafna gagnáfrýjanda var ekki kærð til Hæstaréttar komi þær ekki til álita. Gagnáfrýjandi hefur mótmælt þessu með þeim rökum að þetta fái ekki staðist þar sem ákvörðun um frávísun þessara þátta málsins hafi verið tekin með dómi en ekki úrskurði. Í héraðsdómi eru raktar ástæður þess að vísað var frá kröfum gagnáfrýjanda á hendur fjármálaráðherra, íslenska ríkinu og Reyðaráli ehf. og einnig fyrir frávísun kröfu gagnáfrýjanda um ómerkingu ákvörðunar Umhverfisstofnunar 14. mars 2003 um útgáfu starfsleyfis fyrir álveri á iðnaðarsvæðinu Hrauni í Reyðarfirði með 322.000 tonna ársframleiðslu. Þar eru einnig tíunduð rök fyrir því að vísa frá kröfu gagnáfrýjanda um ómerkingu úrskurðar umhverfisráðherra 14. mars 2002 þar sem staðfestur var úrskurður Skipulagsstofnunar 31. ágúst 2001 um mat á umhverfisáhrifum 1. og 2. áfanga álvers í Reyðarfirði með 420.000 tonna ársframleiðslu, en gagnáfrýjandi unir þessu síðastgreinda ákvæði héraðsdóms. Héraðsdómari vísaði framangreindum kröfum gagnáfrýjanda sjálfkrafa frá dómi og leysti jafnframt í sama dómi úr efni annarra krafna hans samkvæmt 4. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt bókun í þinghaldi 6. október 2004 virtist hann þó fyrir aðalflutning málsins hafa talið að hnökrar væru á málatilbúnaði gagnáfrýjanda sem kynnu að valda sjálfkrafa frávísun. Hefði honum verið rétt að taka þessi atriði málsins sérstaklega til meðferðar. Til þess að fá endurskoðun á fyrrnefndum frávísunarákvæðum héraðsdóms varð gagnáfrýjandi hins vegar að kæra þau til Hæstaréttar eftir reglum XXIV. kafla laga nr. 91/1991, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar í dómasafni 1994, bls. 1293 og 2869, og 21. október 2004 í máli nr. 48/2004. Með því að þessa var ekki gætt geta þessi ákvæði héraðsdómsins ekki komið til álita fyrir Hæstarétti og verður að vísa frá réttinum kröfum áfrýjanda, sem að þeim snúa. Hefur þá engin afstaða verið tekin til réttmætis þessara ákvæða héraðsdómsins. Samkvæmt 60. gr. stjórnarskrárinnar skera dómendur úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda. Þó getur enginn, sem um þau leitar úrskurðar, komið sér hjá að hlýða yfirvaldsboði í bráð með því að skjóta málinu til dóms. Að fenginni framangreindri niðurstöðu um frávísunarákvæði héraðsdóms stendur eftir að Hæstiréttur fjalli um það hvort umhverfisráðherra hafi 15. apríl 2003 farið að réttum lögum þegar hann úrskurðaði um kæru gagnáfrýjanda á ákvörðun Skipulagsstofnunar 20. desember 2002 um matsskyldu álvers í Reyðarfirði með allt að 322.000 tonna ársframleiðslu. Jafnframt hvort sami ráðherra hafi 14. júlí 2003 fylgt réttum lagaákvæðum þegar hann vísaði frá kæru gagnáfrýjanda á ákvörðun Umhverfisstofnunar 14. mars 2003 um útgáfu starfsleyfis fyrir sama álver. Samkvæmt málflutningi gagnáfrýjanda ber að skilja kröfugerð hans svo að hann leiti ógildingar þessara úrskurða umhverfisráðherra. Samkvæmt upplýsingum aðaláfrýjenda er starfsleyfi fyrir umræddu álveri á hendi Alcoa á Íslandi ehf., en sótt hefur verið um að það færist yfir til Fjarðaáls sf. Verður að skilja aðila svo að ekki sé fyrir Hæstarétti ágreiningur um aðild málsins. II. Fyrra ágreiningsefni aðilanna varðar það hvort nauðsyn hafi borið til þess áður en veitt yrði starfsleyfi fyrir álveri í Reyðarfirði, sem framleiddi allt að 322.000 tonn á ári, að fram færi mat á umhverfisáhrifum, þótt fyrir lægi mat á umhverfisáhrifum 1. og 2. áfanga álvers með 422.000 tonna ársframleiðslu á sama stað. Heldur gagnáfrýjandi því fram að skylt hafi verið að líta á fyrirhugað álver sem nýja framkvæmd, óskylda þeirri fyrri, og því fortakslaust matsskylda samkvæmt 5. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Þetta staðfesti upplýsingar um verulega aukinn mengandi útblástur. Án sjálfstæðs mats á fyrirhugaðri framkvæmd verði ekki fullyrt hver séu áhrif einstakra mengunarþátta, sérstaklega þar sem um aðra tækni og mengunarvarnir sé að ræða. Aðaláfrýjendur halda því hins vegar fram að úrskurðurinn 15. apríl 2003 varði breytingar á framkvæmd, sem komið hafi verið að því að heimila þegar þáverandi framkvæmdaraðili féll frá henni. Mati á umhverfisáhrifum hennar hafi verið lokið. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, sbr. 13. lið 2. viðauka við lögin, skuli breytingar og viðbætur við framkvæmdir háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skuli framkvæmdaraðili tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd og stofnunin taka ákvörðun um það hvort framkvæmdin skuli háð mati samkvæmt lögunum. Þetta hafi stofnunin gert meðal annars með því að leita umsagnar helstu sérfræðistofnana landsins á þessu sviði. Á grundvelli þessarar sérþekkingar hafi stofnunin tekið ákvörðun sína 20. desember 2002 um að ekki þyrfti til að koma nýtt umhverfismat. Þetta hafi umhverfisráðherra síðar staðfest með úrskurði 15. apríl 2003. Þessu lögbundna mati Skipulagsstofnunar og ráðherra hafi gagnáfrýjandi ekki hnekkt. Málsatvikum eru gerð ítarleg skil í héraðsdómi og eru þau að mestu óumdeild. Þar er greint frá fyrirætlunum um stórvirkjanir í jökulsám norðan Vatnajökuls og hugmyndir norska fyrirtækisins Hydro Aluminium AS, dótturfélags Norsk Hydro, um byggingu álvers í Reyðarfirði, sem Reyðarál hf. ræki. Jafnframt er frá því skýrt að norska fyrirtækið hafi fallið frá fyrirætlunum sínum og að samningar hafi verið gerðir við bandaríska fyrirtækið Alcoa um álverksmiðju. Í héraðsdómi greinir frá því að Skipulagsstofnun hafi 1. nóvember 2002 borist drög að tilkynningu um breytt álver á vegum Alcoa í Reyðarfirði með 322.000 tonna ársframleiðslu. Reyðarál ehf., nú Alcoa á Íslandi ehf., hafi síðan 22. sama mánaðar lagt fram fyrirspurn til stofnunarinnar um hvort breyting á fyrirætlunum félagsins um byggingu álvers í Reyðarfirði væri matsskyld. Fylgdi erindinu skýrsla þar sem borin voru saman umhverfisáhrif þess 420.000 tonna álvers, sem áður var ætlað að reisa í tveimur áföngum, og 322.000 tonna fyrirhugaðs álvers, sem byggja átti í einum áfanga. Í skýrslunni sagði að loftdreifingarútreikningum vegna síðarnefnda álversins væri ekki lokið, en unnið væri að þeim. Lýst var sex ólíkum kostum sem til greina kæmu við hreinsun útblásturs. Þá var sagt að þegar útreikningar lægju fyrir í desember 2002 og mögulegur hreinsibúnaður kannaður með tilliti til tæknilegra eiginleika og hagkvæmni, yrði lokaákvörðun tekin. Því var lýst yfir að markmið Alcoa væri að uppfylla að minnsta kosti þær kröfur, sem þegar hefðu verið settar með skilgreiningu þynningarsvæðis umhverfis áður fyrirhugað álver. Samkvæmt ákvæði 3.20 í reglugerð nr. 786/1999 um mengunarvarnaeftirlit er þynningarsvæði „sá hluti viðtaka þar sem þynning mengunar á sér stað og ákvæði starfsleyfis kveða á um að mengun megi vera yfir umhverfismörkum eða gæðamarkmiðum.“ Tillaga að þynningarsvæði fyrir fyrirhugaða fyrri framkvæmd hafði verið unnin í samráði við Hollustuvernd ríkisins og náði frá vesturmörkum friðlands við Hólmanes í austri að Hagalæk í vestri, 1-2 km frá byggðinni á Búðareyri við Reyðarfjörð. Samkvæmt útreikningum í samanburðarskýrslunni var árleg losun óhreinsaðs brennisteinstvíoxíðs (SO2) í andrúmsloftið ætluð 4.765 tonn og losun loftkennds flúoríðs (HF) 78,8 tonn. Ekki var að finna upplýsingar um losun hreinsaðs brennisteinstvíoxíðs líkt og í fyrri matsskýrslu fyrir 420.000 tonna álverið þar sem gert hafði verið ráð fyrir hreinsun útblásturs meðal annars með vothreinsivirki. Samkvæmt skýrslunni var árlegur útblástur óhreinsaðs brennisteinstvíoxíðs frá áður fyrirhuguðu álveri og rafskautaverksmiðju 6.785 tonn miðað við 420.000 tonna ársframleiðslu. Þessum útblæstri átti að ná niður með vothreinsivirki þannig að hann yrði eftir hreinsun 828 tonn. Útblástur loftkennds flúoríðs áður fyrirhugaðs álvers og rafskautaverksmiðju var ætlaður 55 tonn. Skipulagsstofnun mun hafa leitað umsagna alls 15 opinberra stofnana vegna framangreinds erindis Reyðaráls ehf., þar á meðal Veðurstofu Íslands, Heilbrigðiseftirlits Austurlands, Náttúruverndar ríkisins og Hollustuverndar ríkisins. Í bréfi framkvæmdaraðila 17. desember 2002, sem ritað mun í tilefni af umsögn Hollustuverndar ríkisins, kom fram að niðurstöður loftdreifingarútreikninga hefðu ekki legið fyrir fyrr en þá og verið kynntar Skipulagsstofnun, Hollustuvernd ríkisins og Veðurstofu Íslands sama dag. Í bréfinu sagði meðal annars að samkvæmt niðurstöðum þessara útreikninga falli 0,2 µg/m3 jafnstyrkslína loftkennds flúoríðs yfir gróðrartímabilið vel innan áður skilgreinds þynningarsvæðis. Um brennisteinstvíoxíð sagði að miðað væri við rafskaut með lágu brennisteinsinnihaldi (1,5%) og 78 m háa skorsteina við þurrhreinsivirki, en þetta sé einn þeirra kosta sem kynntir hafi verið í samanburðarskýrslu til þess að uppfylla umhverfismörk um styrkleika brennisteinstvíoxíðs utan áður skilgreinds þynningarsvæðis. Þá sagði að með þessu móti yrði heildarútblástur brennisteinstvíoxíðs nokkru minni en óhreinsaður útblástur samkvæmt samanburðarskýrslu eða 3.575 tonn á ári. Fram kom í bréfinu að skýrsla um loftdreifingarútreikninga myndi liggja fyrir í endanlegri mynd á athugasemdatíma starfsleyfisferils sem þá var hafinn. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar 20. desember 2002 komst hún að þeirri niðurstöðu að fyrirhuguð breyting á áformum um byggingu álvers í Reyðarfirði væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi ekki háð umhverfismati samkvæmt 6. gr. laga nr. 106/2000. Í ákvörðuninni sagði að samkvæmt framlögðum gögnum framkvæmdaraðila fælust breytingar á áformum um byggingu álvers í Reyðarfirði meðal annars í því að ársframleiðsla þess ætti að verða 100.000 tonnum minni en fyrri áætlanir hefðu gert ráð fyrir. Rafskautaverksmiðja, sem fyrirhuguð hafi verið, yrði ekki byggð og drægi það úr útblæstri PAH efna. Kerbrotum yrði ekki fargað hérlendis heldur flutt út til endurvinnslu. Kerbrot yrðu geymd í allt að hálft ár og myndi sérstök aðgerðaáætlun gilda um söfnun og geymslu þeirra. Ekki væri gert ráð fyrir vothreinsun heldur notuð þurrhreinsun á útblæstri álversins. Þetta myndi draga verulega úr styrk mengandi efna í frárennsli frá álverinu. Með lægra innihaldi brennisteinstvíoxíðs í rafskautum og 78 m háum skorsteinum á þurrhreinsivirki hafi verið sýnt fram á að styrkur brennisteinstvíoxíðs yrði líklega undir umhverfismörkum alls staðar umhverfis álverið. Gagnáfrýjandi kærði þessa ákvörðun Skipulagsstofnunar til umhverfisráðherra 20. janúar 2003, sem úrskurðaði um kæru hans 15. apríl sama ár. Efni úrskurðarins er rakið í héraðsdómi. Niðurstaða hans var sú að einkum yrði að meta umhverfisáhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar með tilliti til mengunar enda væri með framkvæmdinni fyrst og fremst verið að breyta mengunarvarnarbúnaði. Umfang framkvæmdarinnar hafi ekki aukist og dregið hafi úr umhverfisáhrifum varðandi tiltekna þætti. Þá hafi hvorki þynningarsvæðið verið stækkað né myndi styrkur loftkenndra mengunarefna fara yfir umhverfismörk samkvæmt gildandi reglugerðum. Taldi ráðuneytið að fyrirhuguð breyting á áformum um byggingu álvers í Reyðarfirði væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og staðfesti því ákvörðun Skipulagsstofnunar. III. Í 1. gr. laga nr. 106/2000 kemur fram markmið laganna, en það er í fyrsta lagi að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum. Í öðru lagi að stuðla að samvinnu þeirra, sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða vegna framkvæmdar, sem áhrif hefur á umhverfið, og í þriðja lagi að kynna almenningi umhverfisáhrif framkvæmdar, sem kann að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, og mótvægisaðgerðir vegna þeirra og að almenningur komi að athugasemdum og upplýsingum, áður en úrskurður um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar er kveðinn upp. Í 5. gr. laganna er kveðið á um framkvæmdir, sem ávallt eru matsskyldar samkvæmt lögunum, en það eru þær framkvæmdir sem um ræðir í 1. viðauka við lögin. Óumdeilt er að álver eru ávallt matsskyld samkvæmt þessu ákvæði. Í 6. gr. laganna er fjallað um framkvæmdir, sem kunna að vera háðar mati á umhverfisáhrifum, og í 1. mgr. sagt að það séu þær, sem tilgreindar eru í 2. viðauka við lögin, þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Samkvæmt l. lið 3. gr. laganna eru umhverfisáhrif umtalsverð sé ekki hægt að fyrirbyggja eða bæta úr þeim með mótvægisaðgerðum. Samkvæmt 4. gr. sömu laga er það Skipulagsstofnun sem úrskurðar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar og starfsemi er henni fylgir og tekur ákvörðun um hvort framkvæmd samkvæmt 6. gr. skuli háð umhverfismati. Skipulagsstofnun tók ákvörðun sína um fyrirhugað álver Alcoa á Íslandi ehf. í Reyðarfirði á grundvelli 6. gr., með vísun til 13. liðar 2. viðauka, en þar er sagt að matsskyldar séu allar breytingar og viðbætur við framkvæmdir samkvæmt 1. og 2. viðauka, sem þegar hafi verið leyfðar, framkvæmdar eða séu í framkvæmd og kunni að hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Að framan er því lýst að starfsleyfi hafði ekki verið gefið út fyrir álveri því sem reisa átti á vegum Reyðaráls hf., áður en fallið var frá þeim framkvæmdum. Mat á umhverfisáhrifum hafði þó farið fram og Hollustuvernd ríkisins, sem breytt var í Umhverfisstofnun með lögum nr. 164/2002, auglýst tillögu að starfsleyfi til athugasemda samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Athugasemdir höfðu því ekki verið afgreiddar og ákvörðun um útgáfu starfsleyfis ekki tekin samkvæmt 4. mgr. sömu greinar. Í starfsleyfi á samkvæmt 3. mgr. 5. gr. a. þessara laga, sbr. 4. gr. laga nr. 98/2002, að tilgreina rekstraraðila og staðsetningu starfsemi, tegund hennar og stærð, skilyrði, gildistíma og endurskoðun starfsleyfis, auk ákvæða um viðmiðunarmörk, orkunýtingu, meðferð úrgangs, mengunarvarnir, tilkynningarskyldu vegna óhappa eða slysa, innra eftirlit, vöktun, eftirlitsmælingar og rannsóknir, svo og rekstur og viðhald mengunarvarnabúnaðar, eftir því sem við á hverju sinni. Krefjast skal bestu fáanlegrar tækni við mengunarvarnir í þeim atvinnugreinum þar sem slíkt hefur verið skilgreint og skulu ákvæði um mengunarvarnir taka mið af því. Reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, en hún var sett með heimild í lögum nr. 7/1998, hefur að geyma sambærileg ákvæði um efni starfsleyfis. Ljóst er að vinnuferli því, sem leitt gat til útgáfu starfsleyfis fyrir álveri Reyðaráls hf., var ekki lokið þegar fallið var frá framkvæmdunum. Verður ekki fram hjá því komist að álíta að afgreiðsla athugasemda við drög að starfsleyfi og útgáfa leyfisins sjálfs séu mikilvægur hluti leyfisferilsins. Þegar Skipulagsstofnun ákvað að ekki þyrfti að koma til nýs umhverfismats í skilningi laga nr. 106/2000 hafði starfsleyfi ekki verið gefið út fyrir áður fyrirhuguðu álveri. Voru því ekki skilyrði til að fara með erindi Reyðaráls ehf. eftir ákvæði 6. gr. laganna með stoð í 13. lið 2. viðauka við þau og breytir engu þótt undirbúningur að útgáfu starfsleyfisins hafi þá verið langt kominn. Þá var því lýst hér að framan að nota átti að einhverju leyti aðra tækni við framleiðslu í álveri Alcoa á Íslandi ehf. og taka átti með allt öðrum hætti á mengandi útblæstri frá verksmiðjunni, sem að auki var verulega ólík að útliti. Var því ekki unnt að líta á þetta sem sömu framkvæmd og umhverfismat hafði áður verið fengið um. Samkvæmt 5. lið 1. viðauka við lög nr. 106/2000 eru álver ávallt háð mati á umhverfisáhrifum, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna. Leiðir það til þess að nýtt umhverfismat þarf að fara fram. Þessi niðurstaða breytir því þó ekki að við það mat má nýta margt af því sem áður hafði verið unnið við umhverfismat fyrir ætlaða verksmiðju Reyðaráls hf. Fallist er því á niðurstöðu héraðsdóms um þennan þátt málsins og ógiltur úrskurður umhverfisráðherra frá 15. apríl 2003 varðandi matsskyldu álvers í landi Hrauns í Reyðarfirði með 322.000 tonna ársframleiðslu. IV. Með bréfi Reyðaráls ehf. 4. desember 2002 var óskað eftir því við Hollustuvernd ríkisins að gefið yrði út starfsleyfi til reksturs álvers í Reyðarfirði með 322.000 tonna ársframleiðslu. Í greinargerð sem fylgdi umsókninni var vísað til áðurgreindrar samanburðarskýrslu vegna umhverfismats. Eins og áður greinir kom þar fram að ekki lægju fyrir endanlegir loftdreifingarútreikningar en að framkvæmdaraðili hefði þá stefnu að ekkert frárennsli iðnaðarvatns yrði til sjávar. Tillaga Hollustuverndar ríkisins að starfsleyfi ásamt greinargerð, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998, var gefin út 17. desember 2002 og auglýst í Lögbirtingablaði 18. sama mánaðar, eða tveimur dögum áður en Skipulagsstofnun tók ákvörðun um að nýtt umhverfismat þyrfti ekki til að koma. Í lið 1.8. í tillögunni kom fram að þynningarsvæði álversins vegna loftmengunar væri sýnt á uppdrætti í viðauka 1 við tillöguna, en utan þess svæðis skyldi uppfylla umhverfismörk til verndunar heilsu fólks og vistkerfa, sbr. reglugerð nr. 251/2002, sem varðar meðal annars brennisteinstvíoxíð, svo og umhverfismörk fyrir flúoríð. Þá sagði að umhverfismörk fyrir flúoríð væru sett 0,2 µg/m3 af loftkenndu flúoríði, sem meðaltal fyrir tímabilið 1. apríl til 30. september ár hvert, í samræmi við niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum. Í lið 2.1.8 kom fram að skorsteinar yrðu að vera nægilega háir og útblásturshraði og hitastig útblásturs lofts nægileg til að tryggja að ákvæði um loftgæði og þynningarsvæði væru uppfyllt. Í gögnum málsins kemur fram að eftir að endanlegir loftdreifingarútreikningar lágu fyrir treysti framkvæmdaraðili sér ekki til að ná auglýstum umhverfismörkum fyrir flúoríð og í starfsleyfi Umhverfisstofnunar voru þau hækkuð verulega með samþykki Skipulagsstofnunar, en án þess að það væri sérstaklega auglýst eða vakin á því athygli þeirra sem athugasemdir höfðu gert við fyrirhugaðar framkvæmdir. Gagnáfrýjandi krafðist fyrir héraðsdómi ógildingar starfsleyfis Umhverfisstofnunar 14. mars 2003 en þar var þeirri kröfu hans vísað frá, svo sem að framan greinir, og sætti það ákvæði héraðsdóms ekki kæru til Hæstaréttar. Gagnáfrýjandi hafði kært framangreinda ákvörðun Umhverfisstofnunar um starfsleyfið til umhverfisráðherra, sem vísaði þeirri kæru frá 14. júlí 2003. Í héraði gerði gagnáfrýjandi jafnframt kröfu um ógildingu frávísunarákvörðunar umhverfisráðherra, en héraðsdómur sýknaði aðaláfrýjandann íslenska ríkið af þeirri kröfu. Taldi dómurinn að gagnáfrýjandi gæti ekki átt aðild að því að kæra ákvörðunina til ráðherra samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Fyrir Hæstarétti krefst gagnáfrýjandi endurskoðunar á þessu ákvæði héraðsdóms. Samkvæmt 2. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1998 má kæra ákvarðanir Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfis samkvæmt 6. gr. laganna til fullnaðarúrskurðar ráðherra innan tveggja vikna. Í greininni er ekkert sagt til um hverjir megi kæra ákvarðanir um starfsleyfi. Verður að skýra ákvæðið með hliðsjón af reglum stjórnsýslulaga. Samkvæmt stjórnsýslurétti er almennt viðurkennt að aðilar máls séu þeir einir sem hafa verulegra og einstaklegra hagsmuna að gæta af stjórnvaldsákvörðun. Gagnáfrýjandi gerði athugasemdir við tillögu Umhverfisstofnunar um starfsleyfi fyrir álver Alcoa á Íslandi ehf. 17. febrúar 2003 og fullyrti að frekari kynning á framkvæmdinni, sem boðuð hefði verið með greinargerð að tillögunni, hefði aldrei farið fram. Þessu er ekki mótmælt. Loftdreifingarútreikningar, sem að framan er vitnað til, munu hafa borist Umhverfisstofnun í febrúar 2003 en aldrei verið lagðir fram formlega og kynntir umsagnaraðilum eða þeim sem athugasemdir höfðu gert. Gagnáfrýjanda var kynnt ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfisins 14. mars 2003 og ýmsum af þeim athugasemdum sem hann hafði gert var þá svarað. Jafnframt var honum bent á að kæra mætti ákvörðun stofnunarinnar til umhverfisráðherra í samræmi við 33. gr. reglugerðar nr. 785/1999. Sú reglugerð hefur ekki að geyma frekari ákvæði um kæruaðild en lögin. Hins vegar er almenn heimild í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 til að gera skriflegar athugasemdir við tillögur Umhverfisstofnunar um starfsleyfi. Engin takmörkun er þar gerð á því hverjir megi gera slíkar athugasemdir. Gagnáfrýjandi á að vísu heimilisfesti í Fjarðabyggð en heimili hans er langt frá fyrirhuguðu álveri og getur hann ekki reist aðild sína að stjórnsýsluákvörðun um álverið á grenndarrétti. Hann hefur ekki sýnt fram á að hann eigi annarra einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta um byggingu álversins. Verður hann ekki talinn hafa haft aðilastöðu að ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfisins þótt honum hafi samkvæmt framangreindum lagaákvæðum verið heimilt að koma að athugasemdum sínum. Niðurstaða héraðsdóms um ákvörðun umhverfisráðherra 14. júlí 2003 um kæru gagnáfrýjanda á ákvörðun um starfsleyfi álversins er því staðfest. V. Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað er staðfest. Rétt er að hver aðili beri sinn áfrýjunarkostnað af máli þessu. Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, svo sem nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Vísað er frá Hæstarétti kröfum gagnáfrýjanda, Hjörleifs Guttormssonar, varðandi gagnstefndu fjármálaráðherra og Reyðarál ehf., svo og kröfu hans um ógildingu ákvörðunar Umhverfisstofnunar 14. mars 2003 um útgáfu starfsleyfis álvers í landi Hrauns í Reyðarfirði með 322.000 tonna ársframleiðslu. Ógiltur er úrskurður umhverfisráðherra 15. apríl 2003 varðandi ákvörðun Skipulagsstofnunar 20. desember 2002 um að ekki þurfi umhverfismat fyrir álveri aðaláfrýjandans Alcoa á Íslandi ehf. í Reyðarfirði með allt að 322.000 tonna ársframleiðslu. Hafnað er kröfu gagnáfrýjanda um ógildingu ákvörðunar umhverfisráðherra 14. júlí 2003 um frávísun á kæru gagnáfrýjanda varðandi ákvörðun Umhverfisstofnunar um starfsleyfi til handa aðaláfrýjandanum Alcoa á Íslandi ehf. fyrir sama álveri. Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 1.000.000 krónur. Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 4. febrúar 2004, dómtekið 3. desember sl., endurupptekið miðvikudaginn 12. janúar sl. og dómtekið að nýju sama dag. Stefnandi er Hjörleifur Guttormsson, Mýrargötu 37, Neskaupstað. Stefndu eru Reyðarál ehf. (áður Alcoa á Íslandi ehf., kt. 690103-2570), Suðurlandsbraut 12, Reykjavík, Alcoa á Íslandi, ehf. (áður Reyðarál ehf., kt. 600100-2380), Suðurlandsbraut 12, Reykjavík, Fjarðaál sf., Egilsbraut 21, Neskaupstað, Geir H. Haarde fjármálaráðherra, Arnarhvoli, Reykjavík og Siv Friðleifsdóttir, umhverfisráðherra, Vonarstræti 4, Reykjavík. Þeim tveimur síðastnefndu er einnig stefnt fyrir hönd íslenska ríkisins. Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þeir krefjast einnig málskostnaðar. Málsatvik Atvik málsins eru í meginatriðum ágreiningslaus. Í stefnu er lýst hugmyndum um stórvirkjanir í jökulsám norðan Vatnajökuls og stóriðju á Austurlandi og gerð grein fyrir viðræðum milli ríkisstjórnar Íslands, Landsvirkjunar og Hydro Aluminium AS í Noregi, dótturfyrirtækis Norsk Hydro, um byggingu álvers á Íslandi og síðan um staðsetningu þess í Reyðarfirði ásamt orkuöflun með vatnsaflsvirkjunum á Austurlandi. Í ágúst 1997 hafi komið fram hugmyndir um byggingu álvers í Reyðarfirði. Fyrrnefndir aðilar hafi undirritað svokallaða Noral-yfirlýsingu á Hallormsstað 29. júní 1999. Fallið hafi verið frá Fljótsdalsvirkjun í mars 2000, meðal annars vegna mikillar andstöðu almennings við uppistöðulón á Eyjabökkum. Í kjölfarið hafi verið undirrituð ný yfirlýsing um Noral-verkefnið 24. maí 2000 af fyrrnefndum aðilum, Hæfi hf. og Reyðaráli hf. (nú Alcoa á Íslandi ehf.) þar sem umfang og tímaáætlun verkefnisins var endurskoðuð. Kemur fram að sú breyting hafi orðið á áformum aðila að nú skyldi stefnt að tvöfalt stærri upphafsáfanga álvers en áður og undirbúningur hafinn af fullum krafti að því að virkja bæði Jökulsá í Fljótsdal og Jökulsá á Dal með Kárahnjúkavirkjun. Eins og nánar greinir síðar lagði Reyðarál hf. (nú Alcoa á Íslandi ehf.) fram matsskýrslu hjá Skipulagsstofnun 25. maí 2001 og féllst Skipulagsstofnun á framkvæmdina að undangengnu umhverfismati 31. ágúst sama árs. Hinn 23. mars 2002 var gefin út sameiginleg yfirlýsing aðstandenda Noral-verkefnisins um byggingu álvers á Austurlandi. Kom þar fram að Norsk Hydro hefði tilkynnt samstarfsaðilum sínum, ríkisstjórn Íslands og Landsvirkjun, að fyrirtækið væri ekki í aðstöðu til að taka endanlega ákvörðun um framhald verkefnisins fyrir 1. september 2002 eins og samið hafði verið um. Það væri því skilningur aðila að Landsvirkjun og ríkisstjórn Íslands hefðu rétt til að leita nýrra samstarfsaðila að verkefninu. Hinn 19. apríl 2002 var tilkynnt að fulltrúar Alcoa Inc. (hér eftir nefnt „Alcoa“), sem er með lögheimili í Pensilvaníu, Bandaríkjunum, hefðu komið til landsins til að kynna sér byggingu álvers í Reyðarfirði. Hinn 23. maí 2002 tilkynnti iðnaðarráðuneytið að náðst hefði samkomulag við Alcoa um viðræður um byggingu álvers sem keypti orku frá Kárahnjúkavirkjun. Hinn 19. júlí 2002 undirrituðu fulltrúar ríkisstjórnar Íslands, Landsvirkjunar og Alcoa viljayfirlýsingu um framhald viðræðna um mat og hugsanlega framkvæmd á stóriðjuverkefni vegna byggingar álvers í Reyðarfirði. Fram kemur að verkefnið taki til virkjunar sem byggð verði á vegum Landsvirkjunar við Kárahnjúka og álvers á Reyðarfirði á vegum Alcoa með um það bil 295 þúsund tonna árlegri framleiðslugetu og fleira. Enn fremur segir að Landsvirkjun stefni að því að leggja raforkusamning fyrir stjórn fyrirtækisins til samþykkis eigi síðar en í lok desember 2002 og að Alcoa stefni að því að leggja álverkefnið fyrir stjórn til samþykkis eigi síðar en í janúar 2003. Markmið aðila samkvæmt yfirlýsingunni var að ná fullnaðarsamningum fyrir marslok 2003. Með lögum nr. 12/2003, sem tóku gildi 12. mars, var iðnaðarráðherra veitt heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði. Mat á umhverfisáhrifum 1. og 2. áfanga 420 þúsund tonna álvers og rafskautaverk­smiðju í Reyðarfirði Hinn 25. maí 2001 lagði Reyðarál hf. (nú Alcoa á Íslandi ehf.) inn matsskýrslu hjá Skipulagsstofnun til umhverfismats á 420 þúsund tonna álveri og 233 þúsund tonna rafskautaverksmiðju í Reyðarfirði. Stefnandi lagði fram athugasemdir sínar 25. júní 2001 og gerði margvíslegar athugasemdir við form og efni matsskýrslunnar. Skipulagsstofnun féllst á framkvæmdina með úrskurði 31. ágúst 2001. Í stefnu segir að margar kærur hafi borist umhverfisráðherra í kjölfarið og hafi stefnandi sent athugasemdir sínar með kæru Náttúruverndarsamtaka Austurlands. Af hálfu stefndu hefur þessari fullyrðingu verið mótmælt og á það bent að einungis tvær kærur hafi borist vegna málsins, önnur frá Náttúrverndarsamtökum Austurlands og hin frá Náttúrverndarsamtökum Íslands. Í janúar 2002 var auglýst tillaga að starfsleyfi fyrir umrætt álver Reyðaráls hf. Með úrskurði 14. mars 2002 staðfesti umhverfisráðherra framangreindan úrskurð Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Umsókn um starfsleyfi mun hafa verið dregin til baka eftir að Norsk Hydro hætti þátttöku í Noral-verkefninu sem áður greinir. Eins og málið liggur fyrir er ekki ástæða til að rekja efnislega úrskurð ráðherra. Ákvarðanir um matsskyldu 322.000 tonna álvers í Reyðarfirði Eins og áður segir kom Alcoa að svokölluðu Noral-verkefni vorið 2002. Samkvæmt gögnum málsins bárust Skipulagsstofnun 1. nóvember 2002 drög að tilkynningu breytts álvers á vegum Alcoa í Reyðarfirði með 322.000 tonna ársframleiðslu og er að finna afstöðu Skipulagsstofnunar til draganna í minnisblaði starfsmanns stofnunarinnar 12. sama mánaðar og fundargerð 19. sama mánaðar. Hinn 22. sama mánaðar lagði Reyðarál ehf. fram bréflega fyrirspurn til Skipulagsstofnunar um hvort breyting á fyrirætlun félagsins um byggingu á álveri í Reyðarfirði væri matsskyld. Samkvæmt bréfi félagsins, sem þá er auðkennt sem einkahlutafélag, eins og áður greinir, eignaðist Alcoa-samstæðan félagið í nóvember 2002. Eins og síðar greinir hefur nafni félagsins nú verið breytt í Alcoa á Íslandi ehf. sem er meðal stefndu málsins, en kennitala félagsins er enn sem fyrr 600100-2380. Með bréfi félagsins fylgdi samanburðarskýrsla þar sem borin eru saman umhverfisáhrif þess 420.000 tonna álvers sem áður var áætlað að byggja í tveimur áföngum og 322.000 tonna álvers sem nú voru áform um að byggja í einum áfanga. Í framangreindri samanburðarskýrslu kemur m.a. fram að loftdreifingar­reikningum vegna fyrirhugaðs álvers sé ólokið (kafli 4.3.1). Þá er lýst helstu loftbornu efnum frá álverinu og birtar áætlaðar tölur um útblástur þessara efna (kafli 4.3.2). Þá segir að sérfræðingar vinni nú að loftdreifingarreikningum sem notaðir verði við ákvarðanatöku um hvaða hreinsibúnað sé hagstæðast að nota vegna útblásturs brennisteinsdíoxíðs. Í skýrslunni er lýst sex ólíkum kostum sem til greina komi við hreinsun útblásturs og eru þar á meðal „rafskaut með lágu brennisteinsinnihaldi og hærri reykháfar til þess að bæta loftdreifingu“ og „vothreinsun með sjó ásamt sérstakri hreinsun PAH [skammstöfun á enska heitinu „polyaromatic hydrocarbons“, þýtt sem „fjölhringja kolefnissambönd“] úr frárennsli til að lágmarka streymi PAH-efna til sjávar“. Þá segir að þegar lofdreifingarreikningar liggi fyrir í desember 2002 og þegar mögulegur hreinsibúnaður hafi verið kannaður með tilliti til tæknilegra eiginleika og hagkvæmni muni Alcoa taka lokaákvörðun um hreinsibúnað með það að markmiði að lágmarka umhverfisáhrif álversins, en markmið Alcoa sé að uppfylla a.m.k. þær kröfur sem þegar hafi verið settar með skilgreiningu þynningar­svæðis umhverfis álver Reyðaráls. Samkvæmt útreikningum í skýrslunni er árleg losun „óhreinsaðs“ brennisteinsoxíðs í andrúmsloftið áætluð 4765 tonn og losun loftkennds flúoríðs (HF) 78,8 tonn. Ekki er að finna tölur um losun „hreinsaðs“ brennisteinsdíoxíðs líkt og í matskýrslu fyrir 420.000 tonna álverið þar sem gert hafði verið ráð fyrir hreinsun útblásturs með vothreinsivirki. Samkvæmt skýrslunni (kafli 4.1.2) var árlegur útblástur „óhreinsaðs“ brennisteinsdíoxíðs fyrra álvers og rafskautaverksmiðju á brennisteinsdíoxíði þannig 6785 tonn miðað við 420.000 tonna ársframleiðslu. Þessum útblástri skyldi hins vegar ná niður með vothreinsivirki þannig að „hreinsaður“ útblástur yrði 828 tonn. Úblástur loftborins flúoríðs fyrra álvers og rafskauta­verksmiðju var áætlaður 55 tonn. Skipulagsstofnun leitaði umsagna alls 15 opinberra aðila vegna framangreinds erindis Reyðaráls ehf. (nú Alcoa á Íslandi ehf.), þar á meðal umsagna Veðurstofu Íslands, Heilbrigðiseftirlits Austurlands, Náttúruverndar ríkisins og Hollustuverndar ríkisins. Mun framkvæmdaraðilanum hafa verið gefinn kostur á að gera athugasemdir jafnharðan og umsagnir bárust, sbr. meðal annars bréf hans til Skipulagsstofnunar 6., 10. og 17. desember 2002 sem lögð hafa verið fram í málinu. Þá mun Skipulagsstofnun hafa haldið fund með fulltrúum framkvæmdaraðilans 17. desember 2002, þar sem þeir skýrðu sjónarmið sín. Í áðurgreindu bréfi 17. desember 2002, sem ritað er í tilefni af umsögn Hollustuverndar ríkisins, kemur fram að niðurstöður loftdreifingarútreikninga hafi ekki legið fyrir fyrr en þá og hafi þeir verið kynntir fyrir fulltrúum Skipulagsstofnunar, Hollustuverndar ríkisins og Veðurstofu Íslands sama dag. Í bréfinu segir meðal annars að samkvæmt niðurstöðum loftdreifingarreikninga falli 0,2 μg/m3 jafnstyrkslína loftkennds flúors yfir gróðratímabilið vel innan áður skilgreinds þynningarsvæðis. Um brennisteinsdíoxíð segir að miðað sé við rafskaut með lágu brennisteinsinnihaldi (1,5%) og 78 m háa skorsteina við þurrhreinsivirki, en þetta sé einn þeirra kosta sem kynntir hafi verið í samanburðarskýrslu til þess að uppfylla umhverfismörk um styrk brennisteinsdíoxíðs utan áður skilgreinds þynningarsvæðis. Þá segir að með þessu móti verði heildarútblástur brennisteinsdíoxíðs nokkru minni en „óhreinsaður“ útblástur samkvæmt samanburðarskýrslu eða 3.575 tonn. Fram kemur í bréfinu að skýrsla um loftdreifingarreikninga muni liggja fyrir í endanlegri mynd á athugasemdatímabili starfsleyfisferlis sem þá var hafin eins og síðar greinir. Í ákvörðun 20. desember 2002 komst Skipulagsstofnun að þeirri niður­stöðu að breytingar á áformum um byggingu fyrirhugaðs álvers í Reyðarfirði væru ekki líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldu ekki háðar umhverfismati samkvæmt 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar segir meðal annars: Samkvæmt framlögðum gögnum framkvæmdaraðila felast breytingar á áformum byggingar álvers í Reyðarfirði, Fjarðarbyggð meðal annars í því að ársframleiðsla álvers Alcoa- Reyðaráls verður 322 þúsund tonn samanborið við allt að 420 þúsund tonna framleiðslu álvers Reyðaráls eða um 100 þúsund tonnum minni en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. Rafskautaverksmiðja verður ekki í Reyðarfirði sem dregur verulega úr útblæstri PAH efna. Kerbrotum verður ekki fargað á landi heldur verða þau flutt utan til endurvinnslu. Kerbrot verða geymd í allt að hálft ár og mun sérstök aðgerðaáætlun gilda um söfnun og geymslu þeirra. Ekki er gert ráð fyrir vothreinsun heldur verður notuð þurrhreinsun á útblástur úr álverinu. Það mun draga verulega úr styrk mengandi efna í frárennsli frá álverinu að ekki sé gert ráð fyrir förgun kerbrota og vothreinsun. Með lægra innihaldi brennisteinsdíoxíðs í rafskautum (1,5%) og 78 metra háum skorsteinum á þurr­hreinsivirki hefur verið sýnt fram á að styrkur brennisteinsdíoxíðs verði líklega undir umhverfismörkum alls staðar umhverfis álverið. Stefnandi kærði þessa ákvörðun Skipulagsstofnunar til stefnda umhverfis­ráðherra 20. janúar 2003 sem úrskurðaði um kæru hans 15. apríl 2003 án athugasemda við rétt hans til kæru. Eins og málið liggur fyrir er óhjá­kvæmi­legt að rekja forsendur úrskurðarins að mestu orðrétt: Kærandi telur að ekki sé um að ræða breytingu á framkvæmd í skilningi a. liðar 13. tölul. 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum skulu fram­kvæmdir sem tilgreindar eru í 2. viðauka við lögin háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Í 2. viðauka eru síðan tilgreindar þær framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og metið er í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort háðar skuli mati á umhverfisáhrifum sam­kvæmt lögunum, sbr. 3. viðauka laganna. Sú framkvæmd sem hér er til umfjöllunar er tilgreind í a. lið 13.tölul. 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum en þar segir: „Breytingar og viðbætur við framkvæmdir, sbr. 1. og 2. viðauka. a. Allar breytingar eða viðbætur við framkvæmdir skv. 1. eða 2. viðauka sem þegar hafa verið leyfðar, framkvæmdar eða eru í framkvæmd og kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif...“ Í 1. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum eru markmið laganna tilgreind í þremur liðum. Í a. lið 1. gr. segir að markmið laganna sé „að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar“. Þegar metið er hvort um breytta framkvæmd er að ræða í skilningi a. liðar 13. tölul. 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum, ber að mati ráðuneytisins, með hliðsjón af markmiði laganna, fyrst og fremst að líta til þeirra umhverfisáhrifa sem af breytingunni leiða. Í úrskurði ráðuneytisins frá 20. desember 2001 vegna mats á umhverfis­áhrifum Kárahnjúkavirkjunar eru sett fram ákveðin viðmið um það hversu miklar breytingar megi vera á framkvæmd með hliðsjón af því mati á umhverfisáhrifum sem hefur farið fram en þar segir: „Þegar um er að ræða jafn umfangsmikla framkvæmd og þá, sem fjallað er um í úrskurði þessum kunna áform framkvæmdaraðila um einstaka verkþætti að taka breytingum á framkvæmdatíma. Þær mega þó ekki verða til þess að umfang og eðli framkvæmdarinnar breytist í ljósi þess mats á umhverfisáhrifum sem fram hefur farið og úrskurður þessi tekur til“. Eins og fram hefur komið liggur fyrir mat á umhverfisáhrifum 420 þúsund tonna álvers Reyðaráls hf. í Reyðarfirði en með ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 20. desember 2002 eru umhverfisáhrif allt að 420 þúsund tonna álvers borin saman við umhverfisáhrif breyttra áforma, þ.e. 322 þúsund tonna álver. Umhverfisáhrif stærri framkvæmdar lágu því fyrir en markmið með ákvörðun Skipulagsstofnunar var að leiða í ljós hvort breytingar á áformum um byggingu álvers í Reyðarfirði hefði í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Ef niðurstaða samanburðar umhverfisáhrifa ofangreindra framkvæmda er sú að hvorki umfang né eðli framkvæmdarinnar breytist miðað við það mat á umhverfisáhrifum sem hefur farið fram, telur ráðuneytið að ekki sé um nýja framkvæmd að ræða heldur breytingu á eldri framkvæmd. Gert er ráð fyrir að staðsetning fyrirhugaðrar framkvæmdar verði sú sama og áður. Eðli framkvæmdarinnar er hið sama og um er að ræða útblástur sömu mengunarefna. Mengunarvarnarbúnaður er annar þar sem ekki er gert ráð fyrir vothreinsun en í stað hennar er loftdreifing bætt með hærri skorsteinum á þurrhreinsivirki eða tveimur 78 metra háum skorsteinum og rafskautum með lægra innihaldi brennisteins. Einnig er gert ráð fyrir að ársframleiðsla áls verði 100 þúsund tonnum minni. Það er því niðurstaða ráðuneytisins samkvæmt framangreindu að fyrirhuguð framkvæmd sé breyting á áður fyrirhugaðri framkvæmd í skilningi a. liðar 13. tölul. 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Kærandi telur að Skipulagsstofnun hafi verið óheimilt að taka málið til efnislegrar meðferðar vegna þess skilyrðis sem fram kemur í a. liðar 13. tölul. 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum um að leyfi hafi verið veitt fyrir framkvæmd. Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað sér frá Umhverfisstofnun höfðu tillögur að starfsleyfi fyrir álver allt að 420 þúsund tonn í Reyðarfirði verið auglýstar og starfsleyfi tilbúið til útgáfu þegar beiðni kom frá framkvæmdaraðila um frestun á útgáfu starfsleyfisins. Þar sem áform framkvæmdaraðila breyttust hafði það ekki lengur þýðingu fyrir framkvæmdaraðila að fá útgefið starfsleyfi fyrir framkvæmdinni og var leyfið því ekki gefið út af þeim sökum. Það voru hins vegar ekki annmarkar á því af hálfu Hollustuverndar ríkisins að gefa út starfsleyfi fyrir 420 þúsund tonna álver. Í 12. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 segir að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Þess skuli gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Stjórnsýslulög gilda um stjórnsýslu þegar stjórnvaldsákvörðun er tekin. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. stjórnsýslu­laga halda ákvæði annarra laga gildi sínu sem hafa að geyma strangari málsmeð­ferðarreglur en stjórnsýslulög. Að mati ráðu­neytisins gildir meðalhófsregla stjórnsýslulaga þegar teknar eru stjórnvalds­ákvarðanir eins og hér um ræðir. Eins og lýst var hér að framan fólst í hinni kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar að leiða í ljós hvort breytingar á áformum um byggingu álvers í Reyðarfirði kynnu að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Hefði niðurstaða Skipulagsstofnunar orðið sú að breytingin kynni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hefði framkvæmdin verið matsskyld, sbr. 5. gr. laganna og farið í sjálfsætt mat á umhverfisáhrifum. Að mati ráðuneytisins fólst í ákvörðun Skipulagsstofnunar það markmið sem að var stefnt, þ.e. að meta umhverfisáhrif breytinga á fyrirhugaðri framkvæmd, til að kanna hvort þau væru umtalsverð, en mat á umhverfisáhrifum fyrri áforma lá fyrir. Að mati ráðuneytisins hefði mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar ekki leitt í ljós nýjar upplýsingar um umhverfisáhrif hennar. Það er álit ráðuneytisins að það sé íþyngjandi ákvörðun að krefjast þess að nýtt mat á umhverfisáhrifum færi fram þegar hægt var að leiða í ljós með öðru og vægara móti, hver umhverfisáhrif framkvæmdarinnar væru. Það hefur að mati ráðuneytisins ekki sjálfstæða þýðingu í máli þessu að leyfi hafi ekki verið gefið út fyrir framkvæmdinni, þar sem það var tilbúið til útgáfu, en ekki gefið út vegna breyttra forsendna framkvæmdaraðila. Ráðuneytið telur með hliðsjón af 12. gr. stjórnsýslulaga að Skipulagsstofnun hafi borið að taka málið til efnislegrar meðferðar á grundvelli 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, eins og stofnunin gerði. [...] Kærandi telur að án sjálfstæðs mats á fyrirhugaðri framkvæmd verði ekki fullyrt um hver séu áhrif einstakra mengunarþátta, sérstaklega þar sem um aðra tækni og mengunarvarnir sé að ræða. Í hinni kærðu ákvörðun eru umhverfisáhrif allt að 420 þúsund tonna álvers borin saman við umhverfisáhrif breyttra áforma, þ.e. 322 þúsund tonna álver. Ekki er ágreiningur í máli þessu um að ársframleiðsla fyrirhugaðs álvers verði 100 þúsund tonnum minni en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. Þá er ekki gert ráð fyrir rafskautaverksmiðju í Reyðarfirði eins og áður stóð til sem dregur verulega úr losun PAH efna. Kerbrotum verður ekki fargað á landi heldur verða þau flutt utan til endurvinnslu. Ekki er gert ráð fyrir vothreinsun heldur verður notuð þurrhreinsun á útblástur frá álverinu. Í stað vothreinsunar er loftdreifing bætt með hærri skorsteinum á þurrhreinsivirki og rafskautum með lægra innihaldi brennisteins. Gengið hefur verið út frá þeim forsendum að fyrirhugaðrar breytingar á álveri í Reyðarfirði leiði ekki til stækkunar þynningarsvæðis álversins sem ákveðið var við mat á umhverfisáhrifum fyrri framkvæmdaáforma. Til að ná þeim markmiðum munu verða notuð rafskaut með lægra innihaldi brennisteins og hærri skorsteinum á þurrhreinsivirki. Draga mun verulega úr styrk mengandi efna í frárennsli frá álverinu við það að ekki sé gert ráð fyrir vothreinsun og förgun kerbrota. Samkvæmt grein 3.20 reglugerðar um mengunarvarnareftirlit, nr. 786/1999 er þynningarsvæði framkvæmdarinnar afmarkað út frá loftdreifingarspá en það er skilgreint sem sá hluti viðtaka þar sem þynning mengunar á sér stað og ákvæði starfleyfis kveða á um að mengun megi vera yfir umhverfismörkum eða gæðamarkmiðum. Umhverfismörk eru skilgreind í grein 15.3 sömu reglugerðar sem mörk sem óheimilt er að fara yfir í tilteknu umhverfi á tilteknum tíma og sett eru til að takmarka mengun umhverfis á grundvelli vísindalegrar þekkingar í því skyni að koma í veg fyrir eða draga úr skaðlegum áhrifum mengunar á heilsu manna og/eða umhverfið. Umhverfismörk geta verið sett til að vernda umhverfið í heild eða tiltekna þætti þess, svo sem heilsuverndarmörk og gróðurverndarmörk. Við meðferð Umhverfisstofnunar vegna útgáfu starfsleyfis barst stofnunni erindi framkvæmdaraðila frá 7. mars 2003 þar sem gerð var athugasemd við grein 1.8 í auglýstri starfsleyfistillögu að framkvæmdinni. Athugasemdirnar byggðust á nýjum útreikningum á loftdreifingu flúoríðs. Var þess óskað að umhverfismörk fyrir flúoríð yrðu hækkuð úr 0,2 mg/m3 í 0,3 mg/m3 innan skilgreinds þynningar­svæðis. Umhverfisstofnun óskaði eftir umsögn Skipulagsstofnunar um framgreint ákvæði í starfsleyfistillögunum í ljósi athugasemda framkvæmdaraðila. Í umsögn Skipulags­stofnunar frá 11. mars 2003 til Umhverfisstofnunar bendir stofnunin á að í hinni kærðu ákvörðun og í úrskurði stofnunarinnar frá 31. ágúst 2001 hafi komið fram að ásættanlegt væri að meðalstyrkur loftborins flúoríðs utan þynningarsvæðis sé alls staðar undir 0,3 mg/m3. Telur Skipulagsstofnun að endanleg skýrsla um loftdreifingarútreikninga m.a. fyrir flúoríð breyti ekki afstöðu stofnunarinnar til viðmiðunarmarka meðalstyrks loftborins flúoríðs yfir vaxtatíma gróðurs vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar. Samkvæmt þessu er það mat Skipulagsstofnunar að það að miða mörk meðalstyrks vetnisflúoríðs í andrúmslofti við 0,33mg/m3 sé ásættanlegt út frá umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Í starfsleyfi framkvæmdarinnar frá 14. mars 2003 eru umhverfismörk utan þynningarsvæðis fyrir flúoríð sett 0,3 mg/m3 af vetnisflúoríði sem meðaltal fyrir tímabilið 1. apríl til 30. september ár hvert. Gert er síðan ráð fyrir í starfsleyfinu að umhverfismörk fyrir vetnisflúoríðs utan þynningarsvæðis fari niður í 0,2 mg/m3 að gefnum ákveðnum forsendum. Þau mengunarefni sem losuð verða í loft vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar eru einkum svifryk, gróðurhúsalofttegundir, fjölhringa arómatísk kolefnissamband (PAH efni), flúor og brennisteinsdíoxíð. Við ákvörðun um matsskyldu ber að fara eftir þeim viðmiðunum sem tilgreind eru í 3. viðauka laga um mat á umhverfis­áhrifum. Samkvæmt i. og v. lið 1. tölul. 3. viðauka laganna ber m.a. við það mat að taka mið af stærð og umfangi framkvæmdar og mengunar. Ráðuneytið telur að ekki sé ástæða til að ætla að áhrif svifryks verði veruleg vegna fyrirhugaðra breytinga á áformum álversins þá verður heildarlosun gróðurhúsalofttegunda minni samkvæmt gögnum framkvæmdaraðila. Eins og áður sagði verða áhrif PAH efna minni en áður var gert ráð fyrir. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að sýnt hafi verið fram á að brennisteinsdíoxíð verði líklega alls staðar undir umhverfismörkum utan þynningarsvæðis. Umhverfisstofnun gerir ráð fyrir því í starfsleyfi stofnunarinnar fyrir framkvæmdinni frá 14. mars 2003 að styrkur brennisteinsdíoxíð í lofti sé alls staðar undir umhverfismörkum. Að mati Umhverfis­stofnunar mun þetta nást með breyttri tillögun sem framkvæmdaraðili leggur til þ.e. lægra innihaldi brennisteins í rafskautum og hærri skorsteinum á þurrhreinsivirki. Umhverfisstofnun gerir ekki athugasemdir við legu og stærð þynningarsvæðis sem fallist var á í úrskurði Skipulagsstofnunar og síðar ráðherra vegna fyrri framkvæmadáforma. Þá segir að ný tilhögun álvers leiði ekki af sér stækkun þynningarsvæðis eða breytingu á styrk loftborinna mengunarefna umfram það sem gildandi lög og reglugerðir segja til um. Það er niðurstaða stofnunarinnar að ný tilhögun hafi ekki úrslitaáhrif á mengun frá álverinu. Í starfsleyfi Umhverfisstofnunar er gert ráð fyrir að meðalstyrkur loftborins flúorðíðs utan þynningarsvæðis verði alls staðar undir umhverfismörkum eins gerð hefur verið grein fyrir. Fyrirhuguð framkvæmd er 100 þúsund tonnum minni en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. Heildarlosun verður því minni vegna minni álframleiðslu auk þess sem fallið hefur verið frá áformum um rafskautaverksmiðju. Ráðuneytið telur með hliðsjón af framangreindu að breytingar sem verða á styrk mengunarefna leiði ekki til þess að breyting á áformum byggingar álversins kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum. [...] Kærandi telur að háir skorsteinar feli í sér svo mikla útlitsbreytingu á framkvæmdinni að hún ein og sér gefi tilefni til sjálfstæðs mats á umhverfisáhrifum. Í fyrri framkvæmd var gert ráð fyrir einum 50 metra skorsteini við hlið stórrar byggingar, þ.e. rafskautaverksmiðju. Fyrirhuguð framkvæmd gerir hins vegar ráð fyrir tveimur skorsteinum 78 metra háum en engri rafskautaverksmiðju. Umhverfisáhrif eru áhrif framkvæmdar og starfsemi sem henni fylgir á umhverfið. Hugtakið „umhverfi“ er skilgreint svo í j-lið 3. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum „Samheiti fyrir menn, dýr, plöntur og annað í lífríkinu, jarðveg, jarðmyndanir, vatn, loft, veðurfar og landslag, samfélag, heilbrigði og menningu og menningarminjar, atvinnu og efnisleg verðmæti. Ráðuneytið telur að sú breyting sem verður á sjónrænum áhrifum framkvæmdarinnar leiði ekki til þess að breyting á áformum byggingar álversins kunni að hafa í för með umtalsverð umhverfisáhrif í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum. Þegar metin eru umhverfisáhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar verður einkum að meta umhverfisáhrif hennar með tilliti til mengunar enda er með framkvæmdinni einkum verið að breyta mengunarvarnabúnaði. Eins og rakið er hér að framan hefur umfang framkvæmdar­innar ekki aukist og dregið er úr umhverfisáhrifum varðandi tiltekna þætti. Þá hefur þynningarsvæði ekki verið stækkað né mun styrkur loftborinna mengunarefna fara yfir umhverfis­mörk samkvæmt gildandi reglugerðum. Með vísan til þess sem rakið hefur verið í þessum kafla, sbr. i og v. liður 1. tölul. 3. viðauka laga um mat á umhverfisárhrifum, telur ráðuneytið að fyrirhuguð breyting á áformum byggingar álvers í Reyðarfirði sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfis­áhrif. Útgáfa starfsleyfis fyrir 322.000 tonna álver í Reyðarfirði Eins og áður greinir var tillaga að starfsleyfi fyrir 420 þúsund tonna álver í Reyðarfirði auglýst í janúar 2002 án þess að leyfið hafi þó nokkurn tíma verið gefið út. Með bréfi Reyðaráls ehf. (nú stefnda Alcoa á Íslandi ehf.) 4. desember 2002 var óskað öðru sinni eftir því að Hollustuvernd ríkisins (sem breytt var í Umhverfis­stofnun með lögum nr. 164/2002 sem tóku gildi 1. janúar 2003) gæfi út starfsleyfi til handa Reyðaráli ehf. til reksturs álvers í Reyðarfirði, nú með 322 þúsund árstonna framleiðslu. Í greinargerð sem fylgdi umsókninni er vísað til þeirrar samanburðarskýrslu vegna umhverfismats sem áður er lýst. Kemur þar meðal annars fram að gerð mengunarvarnarbúnaðar muni taka mið af endanlegum loftdreifingarútreikningum, en þeir lágu þá ekki fyrir eins og áður greinir. Hins vegar kemur fram að Alcoa, þá orðið eigandi Reyðaráls ehf. (nú Alcoa á Íslandi ehf.), hafi þá stefnu að ekkert frárennsli iðnaðarvatns verði til sjávar. Tillaga Hollustuverndar ríkisins að starfsleyfi ásamt greinargerð var gefin út 17. desember 2003 og var tillagan auglýst í Lögbirtingablaðinu hinn 18. desember 2002, það er tveimur dögum áður en Skipulagsstofnun tók ákvörðun um að breyting á framkvæmdunum þyrfti ekki að sæta mati á umhverfisáhrifum. Í lið 1.8. í tillögunni kemur fram að þynningarsvæði álversins vegna loftmengunar sé tilgreint á uppdrætti í viðauka 1 við tillöguna, en utan þess svæðis skuli uppfylla umhverfismörk til verndunar heilsu fólks og vistkerfa, sbr. reglugerð nr. 251/2002, og umhverfismörk fyrir flúoríð. Þá segir að umhverfismörk fyrir flúoríð séu sett 0,2μg/m3 af vetnisflúoríði (þ.e. loftkenndu flúoríði) sem meðaltal fyrir tímabilið 1. apríl til 30. september ár hvert í samræmi við niðurstöður mats á umhverfisáhrifum. Í lið 2.1.8 kemur fram að skorsteinar þurfi að vera nægilega háir og útblásturshraði og hitastig útblásturslofts nægileg til að tryggja að ákvæði um loftgæði og þynningarsvæði séu uppfyllt. Er þetta skýrt svo að miðað við núverandi útfærslu þurfi skorsteinar að vera um 80 m háir, hraði útblásturs um 17 m/s og hitastig útblásturs 80°. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að gert sér ráð fyrir því að endanleg skýrsla um dreifingu loftmengunar frá verksmiðjunni miðað við háa skorsteina og lágt brennisteinsinnihald í rafskautum liggi fyrir um miðjan janúar 2003. Stofnunin muni þá boða til almenns fundar þar sem þessar starfsleyfistillögur verði kynntar samhliða því að niðurstöður dreifireikninga verði kynntar á aðgengilegri hátt. Í greinargerðinni er einnig vísað til glæra með meginniðurstöðum loftdreifingarútreikninga sem ekki hafa verið lagðar fram í málinu. Í athugasemd við áðurgreindan lið 2.1.8 kemur fram að hér sé í fyrsta sinn hérlendis gert ráð fyrir háum skorsteinum með góðum útblásturshraða til að tryggja dreifingu loftmengunar. Endanleg útfærsla geti orðið önnur, þ.e. annað samspil skorsteinahæðar, útblásturshraða, hitastigs og brennisteins­losunar, en „nokkuð ljóst“ sé að hægt sé að tryggja að umhverfismörk séu virt alls staðar með aðferð sem þessari. Miðað við þessar forsendur sé styrkur flúoríðs að meðaltali undir 0,2μg/m3 alls staðar utan þynningarsvæðisins. Í athugasemdum við grein 2.2.1 kemur fram að ekki sé gert ráð fyrir vothreinsun. Frestur til að skila inn athugasemdum við hina auglýstu tillögu var til 18. febrúar 2003. Stefnandi gerði athugasemdir við tillöguna 17. febrúar 2003. Stefnandi fullyrðir að sú frekari kynning, sem boðuð var í greinargerð með starfsleyfistillögunni, hafi aldrei farið fram og hefur þeirri fullyrðingu ekki verið mótmælt af stefndu. Framangreindir loftdreifingarútreikningar, skýrslan „Assessment of Air Quality Impacts of Emissions from the Alcoa Aluminium Plant in Reydarfjordur, Iceland“, munu hafa borist Umhverfisstofnun í febrúar 2003. Stefnandi heldur því fram að þessi skýrsla hafi aldrei verið lögð formlega fram, kynnt umsagnaraðilum eða þeim sem höfðu gert athugasemdir við auglýsta tillögu að starfsleyfi. Með bréfi 7. mars 2003 óskaði lögmaður Reyðaráls ehf. (nú Alcoa á Íslandi ehf.) eftir því að viðmiði fyrir meðaltalsstyrk vetnisflúoríðs í andrúmslofti (loftkennt flúoríð), á tímabilinu 1. apríl til 30. september, yrði breytt úr 0,2μg/m3 í 0,3μg/m3 í starfsleyfinu. Í bréfinu er vísað til þess að endanlegir loftdreifingarútreikningar sýni niðurstöðu sem sé nokkuð önnur en fólst í þeim útreikningum sem lágu fyrir þegar tillaga að starfsleyfi var auglýst að því er varðar vetnisflúoríð (loftkennt flúoríð). Nú virðist sem styrkur vetnisflúoríðs fari nokkuð fram úr auglýstu viðmiði þótt hann verði innan þeirra marka, sem ráð hafi verið fyrir gert í fyrri starfsleyfistillögu (þ.e. starfsleyfistillögu vegna 420.000 tonna álvers). Þá eru í bréfinu rakin ýmis lagaleg sjónarmið til stuðnings því að umsækjanda starfsleyfisins sé heimilt að krefjast um­ræddrar breytingar, meðal annars þau að óheimilt sé að gera strangari kröfur til álvers umsækjanda en annarra íslenskra álvera að þessu leyti. Stefnandi hefur mótmælt þeirri fullyrðingu, sem fram kemur í bréfinu, að í fyrri starfsleyfistillögu sem auglýst var í janúar 2002 hafi verið gert ráð fyrir að meðaltalsstyrkur vetnisflúoríðs í andrúmslofti yrði 0,3μg/m3 og vísað til úrskurður Skipulagstofnunar 31. ágúst 2001 um mat á umhverfisáhrifum, en þar segir meðal annars undir lið 5.2.2.1: Í reglugerð um loftgæði er ekki að finna umhverfismörk fyrir flúoríðmengun í lofti. Í matsskýrslu kemur fram að Hollustuvernd ríkisins hefur tekið mið af norskum viðmiðunarmörkum fyrir mengun beitargróðurs, þ.e. 0,3μg/m3 fyrir loftborið flúoríð á vaxtartíma gróðurs. Fram kemur að í samráði við Hollustuvernd ríkisins hafi verið tekin ákvörðun um að taka mið af langtímaáhrifum flúors við skilgreiningu þynningarsvæðis þar sem þau skipta máli þegar vernda skal gróður fyrir flúorskemmdum, en ekki skammtímaáhrif á einum sólarhring. Hollustuvernd ríkisins hefur bent á að samkvæmt framlögðum gögnum séu loftgæðamörk fyrir beitardýr sett við 0,2μg/m3. Í úrskurði Skipulagsstofnunar um allt að 480.000 tonna álver í Reyðarfirði, dags. 10. desember 1999, var lagt til að tekið væri mið af 0,2μg/m3 gróðurverndarmörkum þar sem mosagróður, sem er viðkvæmur fyrir flúormengun, sé ríkjandi á svæðum umhverfis álverið. Í matsskýrslu eru sýndar niðurstöður loftdreifingarútreikninga miðað við 0,2μg/m3 og 0,3μg/m3. Af hálfu stefndu er því mótmælt að miðað hafi verið við að meðaltalsstyrkur vetnisflúoríðs í andrúmslofti yrði 0,2μg/m3 þegar mat á umhverfisáhrifum fyrir 420.000 álvers fór fram og aðallega vísað til röksemda sem fram koma í minnisblaði Hönnunar hf. 8. mars 2003. Framangreind ósk um breytingu á starfsleyfinu var kynnt Skipulagsstofnun, sbr. bréf Umhverfisstofnunar 9. mars 2003, en ekki var um opinbera kynningu á umsókninni, um breytingu eða tilkynningar til þeirra sem höfðu gert athugsemdir við starfsleyfistillöguna, að ræða. Umsögn Skipulagsstofnunar barst Umhverfisstofnun 11. mars 2003. Í niðurlagi umsagnarinnar segir orðrétt: Í minnisblöðum Hönnunar frá 7. og 8. mars s.l. kemur fram að í niðurstöðu og úrskurðarorðum úrskurðar um mat á umhverfisáhrifum álvers í Reyðarfirði frá 31. ágúst 2001 sé ekki kveðið á um að 0,2μg/m3 verði náð innan þynningarsvæðis álversins. Skipulagsstofnun ítrekar í þessu sambandi að í niðurstöðu úrskurðar stofnunarinnar frá 31. ágúst 2001 var talið ásættanlegt að meðalstyrkur loftborins flúoríðs yfir vaxtatíma gróðurs yrði alls staðar undir 0,3μg/m3 utan við skilgreint þynningarsvæði, en bent á að rétt væri að miða við 0,2μg/m3. Samkvæmt gögnum málsins mun Reyðaráli ehf. (nú Alcoa á Íslandi ehf.) hafa verið gefinn kostur á að tjá sig um umsögn Skipulagsstofnun og kemur afstaða félagsins fram í bréfi til Umhverfisstofnunar 11. mars 2003. Í bréfinu kemur fram að leitast verði við, í nánu samstarfi við Umhverfisstofnun, að verða við tilmælum Skipulags­stofnunar um að umrædd mörk sé 0,2μg/m3. Hins vegar treysti félagið sér ekki til að fullyrða hvort og hvenær þessum mörkum verði náð. Er ítrekuð fyrri ósk félagsins um breytingu á starfsleyfinu. Í bréfi Umhverfisstofnunar 14. mars 2003 kemur fram afstaða stofnunarinnar til framangreindrar óskar um breytingu á starfsleyfi Reyðaráls ehf. (nú stefnda Alcoa á Íslandi ehf.). Í bréfinu kemur meðal annars fram að leitað hafi verið munnlegs álits Guðrúnar Jónsdóttur forstöðumanns Náttúrustofu Austurlands vegna þess gróðurs sem sé að finna utan fyrirhugaðs þynningarsvæðis auk þess sem verkfræðistofa hafi verið fengin til að vinna sérstakt kort af gróðurþekjunni með tilliti til dreifingar út­blásturs. Fram kemur það mat stofnunarinnar að það sé lögmætt og málefnalegt markmið að vernda mosa og fléttugróður fyrir mengun vegna uppsöfnunar flúoríðs meðal annars með tilliti til hreindýra sem sæki í Reyðarfjörð í beit á vetrum. Telur stofnunin að aðstæður í Reyðarfirði séu með öðrum hætti en við önnur álver á landinu. Þá er fjallað um það í bréfinu hvort nauðsynlegt sé að setja markið við 0,2μg/m3 frekar en 0,3μg/m3 til að ná framangreindu markmiði og vitnað til fyrrgreindrar umsagnar Skipulagsstofnunar. Þá segir orðrétt í bréfi Umhverfis­stofnunar: Í ljósi þessa og í samræmi við þá lagaskyldu sem á stofnuninni hvílir að taka fullt tillit til niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum, sbr. 23. gr. reglugerðar nr. 785/1999, sbr. einnig 16. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum felst Umhverfisstofnun á að því lögmæta markmiði stofnunarinnar að vernda mosa- og fléttugróður verði náð með því að breyta meðalstyrk loftborins flúoríðs í 0,3μg/m3 í starfsleyfi fyrir starfsemina með vísan til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Stofnunin telur jafnframt, með vísan til niðurstöðu Skipulagsstofnunar í umsögn sinni, að fram­kvæmdar­aðili skuli leitast við að draga enn frekar úr meðalstyrk loftborins flúoríðs með vísan til fyrrnefnds lögmæts markmiðs. Mun stofnunin því breyta frá starfsleyfistillögu fyrir verksmiðjuna í þeim tilgangi að því markmiði Umhverfisstofnunar, að verja mosa og fléttugróður fyrir mengun af völdum uppsöfnunar flúoríðs í honum, verði náð að teknu tilliti til hagsmuna umbjóðanda þíns. Skal meðalstyrkur loftborins flúoríðs yfir vaxtatíma gróðurs því alls staðar vera undir 0,3μg/m3 utan við skilgreint þynningarsvæði. Ef hins vegar í ljós kemur að vöktunargögn vegna loftgæða, sem safnast er samkvæmt grein 5.2 og 3.1 í starfsleyfinu, staðfesta niðurstöður dreifingarspár sem lögð er til grundvallar við ákvörðun um útgáfu starfsleyfis, skulu umhverfismörk utan þynningarsvæðis lækka sjálfkrafa í 0,25μg/m3. Jafnframt skal umbjóðandi þinn í samráði við Umhverfis­stofnun, stefna að því að ná ofangreindum umhverfismörkum niður í 0,2μg/m3. Að öðru leyti vísast til hjálagðs starfsleyfis. Sama dag, það er 14. mars 2003, var gefið út starfsleyfi til Reyðaráls ehf. (nú stefnda Alcoa á Íslandi ehf.) fyrir starfsemi á iðnaðarsvæðinu við Hraun í Reyðarfirði. Leyfið er gefið út til Reyðaráls ehf., kt. 600100-2380. Samkvæmt lið 1.8 í starfsleyfinu eru umhverfismörk fyrir flúoríð sett 0,3μg/m3 af vetnisflúoríði sem meðaltal fyrir tímabilið 1. apríl til 30. september ár hvert. Þá er að finna nánari ákvæði um hvernig skuli ná framangreindu markmiði um að ná mörkunum niður í 0,2μg/m3 sem ekki er ástæða til að rekja nánar. Stefnanda var tilkynnt um ákvörðun Umhverfisstofnunar með bréfi 14. mars 2003 og er þar svarað ýmsum athugasemdum stefnanda. í lok bréfsins segir að ákvörðun stofnunar­innar megi kæra til umhverfisráðherra í samræmi við ákvæði 33. gr. reglu­gerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Í framhaldi af tilkynningu Umhverfisstofnunar kveðst stefnandi hafa sent Umhverfis­stofnun tölvupóst 24. mars 2003 og óskað eftir aðgangi að gögnum varðandi undirbúning að útgáfu leyfisins með vísan til upplýsingalaga. Með bréfi dags. 25. mars 2003 hafi Umhverfisstofnun veitt stefnanda aðgang að tilteknum gögnum málsins. Við þessa gagnaöflun hafi stefnandi fyrst fengið vitneskju um bréf lögmanns Reyðaráls ehf. (nú Alcoa á Íslandi ehf.) 7. mars 2003 og eftirfarandi bréfaskipti. Jafnframt hafi stefnanda þá orðið ljóst að veitt starfsleyfi var byggt á allt öðrum forsendum en upphafleg og auglýst tillaga Umhverfisstofnunar að starfsleyfi gerði ráð fyrir. Að fengnum þessum upplýsingum hafi stefnandi sent stefnda umhverfis­ráðherra bréf 26. mars 2003 og borið fram tilteknar fyrirspurnir í tengslum við kæru á úrskurði Skipulagsstofnunar 20. desember 2002 um matsskyldu álversins. Stefndi umhverfisráðherra hafi ekki svarað bréfinu. Úrskurður umhverfisráðherra 14. júlí 2003 Stefnandi kærði útgáfu Umhverfisstofnunar á framangreindu starfsleyfi með bréfi til stefnda umhverfisráðherra 28. mars 2003. Þar var krafist ómerkingar ákvörðunar stofnunarinnar, til vara heimvísunar og til þrautavara að útgáfa starfsleyfisins yrði felld úr gildi og synjað um útgáfuna. Í niðurlagi kærunnar skoraði stefnandi enn fremur á umhverfisráðuneytið að senda sér þegar í stað lista yfir öll gögn sem ráðuneytið kynni að hafa móttekið eða sent frá sér vegna kærumálsins. Hefur stefnandi vísað til efnis þessarar kæru sem hluta af málsástæðum sínum, en nánari grein er gerð fyrir málsástæðum stefnanda í II. kafla dómsins. Með bréfi umhverfisráðuneytisins 9. maí 2003 var stefnandi upplýstur um að kærur hefðu borist seint og að umsagnir hefðu ekki borist frá öllum umsagnaraðilum. Af þeim sökum gæti úrskurður ráðuneytisins ekki legið fyrir innan fjögurra vikna frests samkvæmt 3. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Var boðað í bréfinu að ráðuneytið úrskurðaði í málinu fyrir 23. maí 2003. Engar athugasemdir eða fyrirvarar voru gerðir á þessu stigi málsins við aðild stefnanda. Í svarbréfi stefnanda 20. maí 2003 var fyrri áskorun í kæru um afhendingu lista, skjalaskrár, yfir öll gögn málsins ítrekuð og jafnframt réttur til andmæla. Þessu bréfi stefnanda mun ekki hafa verið svarað af ráðuneytinu. Með bréfi umhverfisráðuneytisins 2. júní 2003 lýsti ráðuneytið þeirri afstöðu sinni að stefnandi ætti ekki aðild að kærumálinu. Var frávísun málsins boðuð og stefnanda gefinn kostur á að tjá sig um þá fyrirætlan. Þessum áformum mótmælti stefnandi og rökstuddi með bréfi 10. júní 2003. Stefndi umhverfisráðherra tók ákvörðun um að vísa kæru stefnanda frá með bréfi 14. júlí 2003. Var meðal annars vísað til kæruheimildar í 2. mgr. 32. gr., sbr. 6. gr. laga nr. 7/1998 og bent á að þar væri ekki tekið fram hverjum væri heimilt að kæra útgáfu starfsleyfis og talið að um það færi eftir ákvæðum 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Komst ráðherra að þeirri niðurstöðu að stefnandi hefði ekki átt einstaklegra og verulegra fjárhagslegra eða persónulegra hagsmuna að gæta. Taldi ráðherra að aðild stefnanda væri ekki viðurkennd að stjórnsýslurétti hér á landi án sérstakrar lagaheimildar sem ekki væri að finna í lögum nr. 7/1998. Við upphaf aðalmeðferðar málsins var lagður fram, með samþykki málsaðila, listi umhverfis­ráðuneytisins yfir öll skjöl vegna vegna útgáfu framangreinds starfsleyfis. Ekki var um skýrslutökur að ræða við aðalmeðferð málsins. II. Málsástæður og lagarök stefnanda Málsástæður og lagarök stefnanda eru sem hér segir: Krafa um ómerkingu úrskurðar umhverfisráherra 14. mars 2002 og 15. apríl 2003 Stefnandi telur að í úrskurði Skipulagsstofnunar 14. mars 2002, sem staðfestur var með hinum umstefnda úrskurði, hafi verið óheimilt að meta sameiginlega umhverfisáhrif 420 þúsund tonna álvers og rafskautaverksmiðju, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Einnig hafi bygging rafskautaverksmiðju þar verið rökstudd sem nauðsynleg vegna efnahagslegrar hagkvæmni sem eigi ekki að vera hluti af mati á umhverfis­áhrifum, sbr. úrskurð umhverfisráðherra um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúka­virkjunar. Stefnandi telur að af matsskýrslu vegna 420 þúsund tonna álversins og rafskautaverksmiðju verði ekki ráðið með marktækum hætti hversu mikið af mengandi efnum hefði komið frá álverinu annars vegar og rafskautaverksmiðjunni hins vegar. Af þeim sökum hafi að mati Hollustuverndar ríkisins verið erfitt, ef ekki ómögulegt fyrir umsagnaraðila og almenning, að gera sér grein fyrir áhrifum þessarar starfsemi og þar með að bera saman fyrrnefnd áform og ný og gjörbreytt áform um að byggja álver með 322 þúsund tonna ársframleiðslu án rafskautaverksmiðju. Síðarnefnda álverið sé óskyld framkvæmd sem byggi á allt annarri tækni við framleiðslu og mengunarvarnir. Um sjálfstæða framkvæmd sé að ræða sem krefjist sjálfstæðs mats á umhverfisáhrifum. Starfsleyfi fyrir 420 þúsund tonna álver hafi aldrei verið gefið út. Með hliðsjón af því og með tilvísun til 1. mgr. 2. viðauka, sbr. tölulið 13. a. í 2. viðauka, laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum hafi ákvörðun Skipulagsstofnunar um að 322 þúsund tonna álver stefndu þyrfti ekki að sæta sjálfstæðu mati og staðfestingarúrskurður stefnda umhverfisráðherra frá 15. apríl 2003 ólögmæt. Stefnandi áréttar að ný og gjörbreytt framkvæmdaáform hafi hvorki sætt umhverfismati né hafi verið tekið lögbundið tillit til þess mats sem lá fyrir á 420.000 tonna álveri sem sé skilyrði fyrir útgáfu starfsleyfis. Jafnframt hafi tillaga Umhverfisstofnunar að starfsleyfi verið auglýst andstætt lögum áður en umhverfismat lá fyrir. Er sérstaklega byggt á því að verulega aukinn mengandi útblástur umfram auglýsta starfsleyfistillögu, bygging risaskorsteina 78 metra að hæð og að fallið skyldi frá vothreinsibúnaði sé í ósamræmi við fyrirliggjandi umhverfismat og hafi þetta kallað á sjálfstætt umhverfismat, eins og fyrr er rökstutt. Í starfsleyfi sé jafnframt heimiluð margföld aukning á heildarlosun brennisteinsdíoxíðs frá því sem áður var gert ráð fyrir í umhverfismati fyrir 420 þúsund tonna álver, sem byggði á tækni frá Norsk-Hydro sem sé önnur tækni en nú sé fyrirhugað að nota. Umhverfismat á nefndu 420 þúsund tonna álveri verði einfaldlega ekki heimfært uppá 322 þúsund tonna álverið sem starfsleyfið heimili, þar sem í 322 þúsund tonna álverinu sé, sem fyrr segir, gert ráð fyrir allt annarri og lakari tækni og mengunarvörnum. Þá hafi yfirvöld brugðist þeirri skyldu að koma á samþættum mengunarvörnum á grundvelli bestu fáanlegrar tækni, það er vothreinsun samhliða áformaðri þurrhreinsun eins og áður var gengið út frá, sbr. 1. tl., 1. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 785/1999. Jafnframt hafi aðeins legið fyrir takmarkaðar upplýsingar um veðurfarsskilyrði í Reyðarfirði og dreifingu mengunarefna frá 322 þúsund tonna álveri stefndu, en mengun frá því álveri, meðal annars að því er brennisteinsdíoxíð varðar, sé langtum meiri en frá 420 þúsund tonna álverinu. Niðurstöður rannsókna Veðurstofu Íslands fram til maí 2003 sýni að dreifing slíkrar mengunar verði til muna óhagstæðari en gert var ráð fyrir í mati á umhverfis­áhrifum fyrir 420 þúsund tonna álverið og í auglýstu starfsleyfi fyrir það, sérstaklega að því er þéttbýlið á Reyðarfirði, Búðareyri, snerti. Þá hafi ekki verið gerðir módelútreikningar á loftdreifingu miðað við þær óhagstæðu veðurfarsaðstæður sem ríktu á svæðinu sumarið 2003 og mælingar liggja fyrir um. Með hliðsjón af framan­rituðu blasi það við að um nýja og matsskylda framkvæmd sé að ræða. Er byggt á því að mat á umhverfisáhrifum og starfsleyfið sé andstætt fyrirmælum laga nr. 106/2000 og 1. gr. og 3. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir um bestu fáanlega tækni. Þá fullnægi starfsleyfið ekki ákvæðum 5. gr., 14. gr, 15. gr., 16. gr., 22. gr., 23. gr. og 1. tl. III. viðauka reglugerðar nr. 785/1999, sbr. einnig reglugerðir nr. 787, 790 og 803/1999 og 251/2002. Gallar á umsókn um starfsleyfi og útgefnu starfsleyfi Stefnandi byggir á því að umsókn Reyðaráls ehf., frá 4. desember 2002, hafi ekki fullnægt skilyrðum 10. gr. reglugerðar nr. 785/1999 og með tilliti til reglna um bestu fáanlegu tækni og fleiri þætti, sem hefði átt að leiða til frávísunar hennar skv. 11. gr. sömu reglugerðar. Fullnægjandi gögn hafi ekki fylgt umsókninni og hafi því borið að vísa henni frá. Jafnframt að Umhverfisstofnun hafi brugðist rannsóknarskyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ekki gefið stefnanda kost á að tjá sig um öll gögn málsins. Krafa um ómerkingu ákvörðunar Umhverfisstofnunar byggi jafnframt á þeirri staðreynd að ekki liggi fyrir hver verði rekstraraðili álversins og hvort starfsleyfið sé gefið út til handa Reyðaráli ehf. eða Alcoa á Íslandi ehf. Þá séu félögin stofnuð af erlendu félagi og stjórn þeirra skipuð erlendum einstaklingum sem engin deili séu sögð á í hlutafélagaskrá. Starfsemi þessara félaga og tilgangur samkvæmt hlutafélaga­skrá sé auk þess einvörðungu bundinn við rekstur eignarhaldsfélaga sem reisi og reki álbræðslu í Fjarðabyggð og starfsemi sem af slíku eignarhaldi leiðir. Félögin muni sjálf hvorki reisa né reka álver í Reyðarfirði. Starfsleyfi Umhverfisstofnunar frá 14. mars 2003 sé veitt Reyðaráli ehf., en bundið við kennitölu Alcoa á Íslandi, ehf., kt. 600100-2380, sem rekstraraðila. Starfsleyfið heimili ekki framsal þess til þriðja aðila. Með tilkynningu til firmaskrár dags. 12. mars 2003 tveimur dögum fyrir útgáfu starfsleyfisins hafi hin stefndu einkahlutafélög stofnað sameignarfélagið Fjarðaál. Tilgangur sameignarfélagsins sé rekstur álverksmiðju í Reyðarfirði og undirbúningur þeirrar starfsemi, hverju nafni sem nefnist. Stefnda Fjarðaál sf., hafi ekki starfsleyfi. Megi ljóst vera að starfsleyfið sé haldið slíkum ágöllum að ekki verði hjá því komist að ómerkja það. Auglýsing tillögu að starfsleyfi: Stefnandi telur að samkvæmt 10. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 785/1999, eins og henni var breytt með reglugerð nr. 849/2000, hafi verið óheimilt að auglýsa tillögu að starfsleyfi fyrir álverið fyrr en ákvörðun lá fyrir um það hvort framkvæmdin var matsskyld. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu hafi verið kærð til umhverfis­­ráðherra. Tillaga að starfsleyfi hafi verið auglýst 18. desember 2002 en niður­staða umhverfismats á fyrra stjórnsýslustigi hafi ekki legið fyrir fyrr en 20. desember 2002 og úrskurður umhverfisráðherra á kærustigi hafi verið kveðinn upp 15. apríl 2003. Byggir stefnandi á því að óheimilt hafi verið að auglýsa tillöguna fyrr en eftir 15. apríl 2003, sbr. 22. gr. reglugerðar nr. 785/1999. Stefnandi reisir kröfu sína einnig á því að óheimilt hafi verið samkvæmt 10. gr. sömu reglugerðar að auglýsa tillöguna áður en lokaskýrsla um dreifingu loft­mengunar­efna lá fyrir. Samkvæmt tillögu að starfsleyfi hafi verið gert ráð fyrir að hún lægi fyrir um miðjan janúar 2003. Hún hafi hins vegar aldrei verið lögð fram og aðilum ekki gefinn kostur á að tjá sig um hana. Stefnandi hafi ekki fengið vitneskju um þessa skýrslu og fleiri skjöl málsins fyrr en hálfum mánuði eftir að starfsleyfi hafði verið gefið út. Hafi stefnandi móttekið þessi gögn eftir að hann hafði krafist þeirra á grundvelli upplýsingalaga. Hafi borið að vísa umsókn um starfsleyfi frá samkvæmt 11. gr. sömu reglugerðar. Þar að auki megi ljóst vera, að gjörbreyttar forsendur umsækjanda starfsleyfis, sbr. bréf hans dags. 7. mars 2003, hafi kallað á nýja auglýsingu starfsleyfistillögu og nýtt umhverfismat. Þegar af þessum ástæðum beri að ómerkja úrskurð Umhverfisstofnunar. Auk þess beri öll meðferð málsins með sér að hún hafi verið til málamynda. Nýjar og gjörólíkar forsendur starfsleyfis Stefnandi telur að starfsleyfishafi hafi gjörbreytt framkvæmdaáformum sínum með tilliti til mengandi útblásturs og lofthreinsunar frá umræddu álveri sjö dögum fyrir útgáfu starfsleyfisins. Í umhverfismati og auglýstri tillögu að starfsleyfi hafi verið miðað við 0,2 ụg/m3 meðaltalsstyrk vetnisflúoríðs í andrúmslofti tímabilið 1. apríl til 30. september ár hvert, það er á vaxtartíma gróðurs. Leyfisumsækjandi hafi kollvarpað þessum grundvallarforsendum með bréfi dags. 7. mars 2003, eftir að athugasemdafresti var lokið, þar sem hann krafðist viðmiðunar við 0,3 ụg/m3 eða 50% aukningar. Þar með hafi brostið meginforsendur umsóknarinnar og mats á umhverfis­áhrifum og því hafi borið að auglýsa nýjar tillögur og kalla eftir umsögnum lögbundinna umsagnaraðila, sérfræðinga og eftir athugasemdum almennings. Þessar gjörbreyttu forsendur hafi hvorki verið auglýstar né hafi stefnanda eða öðrum sem gerðu athugasemdir í kjölfar auglýsingar Umhverfisstofnunar verið gefinn kostur á að tjá sig um þær. Þær hafi auk þess ekki sætt umhverfismati og Skipulagsstofnun hafi mælt gegn þeim í umsögn sinni. Stefnandi vísar til bréfs lögmanns Reyðaráls ehf. 7. mars 2003 sem áður hefur verið rakið í lýsingu málsatvika í I. kafla dómsins. Hann vekur athygli á því að í auglýstri starfsleyfistillögu Hollustuverndar (nú Umhverfisstofnun) segi orðrétt í grein 1.8: „Umhverfismörk fyrir flúoríð er sett 0,2 ụg/m3 af vetnisflúoríði sem meðaltal fyrir tímabilið 1. apríl til 30 (sic) september ár hvert í samræmi við niðurstöður mats á umhverfisáhrifum.“ Í útgefnu starfsleyfi segi hinsvegar: „Umhverfismörk fyrir flúoríð er sett 0,3 ụg/m3 af vetnisflúoríði sem meðaltal fyrir tímabilið 1. apríl til 30. september ár hvert.“ Hér hafi tilvísun í mat á umhverfisáhrifum verið felld niður enda sé leyfið ekki í samræmi við niðurstöður matsins. Það brjóti í bága við 23. gr. reglugerðar nr. 785/1999 þar sem tekið er fram að í starfsleyfistillögum og starfsleyfi skuli taka fullt tillit til mats á umhverfisáhrifum. Á það sé einnig að líta, að krafa leyfis­umsækjanda um breytingar hafi komið fram eftir að auglýstum athugasemda­fresti lauk og hafi því verið of seint fram komin. Fleiri framkvæmdaáformum hafi verið breytt, svo sem um byggingu risaskor­steina og horfið hafi verið frá vothreinsun samþættri við þurrhreinsun, sem sé besta fáanlegra tækni til að lágmarka mengun. Umhverfisstofnun hafi ákveðið að taka nýjar, eðlisólíkar og gjörbreyttar kröfur leyfisumsækjanda til greina út frá vanhugsuðum tilvísunum til stjórnsýslulaga sem séu andstæðar tilgangi þeirra. Um leið hafi stofnunin brotið alvarlega á upplýsinga- og andmælarétti og fleiri réttindum stefnanda samkvæmt sömu lögum og góðum stjórnsýsluháttum. Þessi málsmeðferð ein sér varði ómerkingu. Samkvæmt framangreindu hafi Skipulagsstofnun borið að meta umhverfisáhrif þessa 322 þúsund tonna álvers sem sjálfstæða framkvæmd og Umhverfisstofnun borið að setja fram nýja tillögu að starfsleyfi eftir að niðurstaða var fengin í mati á umhverfisáhrifum, leita umsagna og auglýsa hana og gefa almenningi kost á andmælum lögum samkvæmt. Stefnandi áréttar að það álit sitt að hinar þýðingarmiklu breyttu forsendur og breytingar á framkvæmdaáformum varðandi lofthreinsun brjóti gegn reglum um bestu fáanlega tækni til að lágmarka mengun og myndun úrgangs, sbr. meðal annars 3. gr. laga nr. 7/1998, sbr. tilskipun 96/61EB, 13. gr. og 16. gr. reglugerðar nr. 785/1999, 5. gr., 21. gr. og 22. gr reglugerðar nr. 787/1999 um loftgæði og sambærileg ákvæði í reglugerðum nr. 790/1999, 803/1999 og 251/2002 og lög nr. 2/1993, inngang fskj. I um sjálfbæra þróun og varúðarregluna. Málsmeðferðarfrestir Stefnandi telur að Umhverfisstofnun hafi brotið gegn lögbundnum og auglýstum átta vikna fresti til athugasemda samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 og 2. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 785/1999 með því að taka til efnismeðferðar of seint framkomnar kröfur og athugasemdir umsækjanda starfsleyfis um þýðingarmiklar og gjörbreyttar forsendur losunar mengandi úrgangsefna í andrúmsloftið. Bæði Umhverfisstofnun og starfsleyfisumsækjanda hafi auk þess verið fullkomlega ljóst af bréfi stofnunarinnar 17. desember 2002 að frestur til að gera athugasemdir við auglýsta tillögu hafi runnið út út 18. febrúar 2003. Umsækjanda starfsleyfisins hafi verið skylt og í lófa lagið að koma fram með kröfur sínar áður en Umhverfis­stofnun auglýsti starfsleyfistillöguna. Jafnframt hafi Umhverfisstofnun og umhverfis­ráð­herra virt að vettugi lögbundna fresti til að afgreiða athugasemdir og kæru stefnanda. Umhverfisstofnun hafi borið að taka ákvörðun fyrir 13. mars 2003. Kærufresti til umhverfisráðherra hafi lokið 28. mars 2003 og úrskurðarfrestur skuli samkvæmt 3. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1998 og 4. mgr. 33. gr. reglugerðar nr. 785/1999 aldrei vera lengri en átta vikur eða í þessu tilviki til 23. maí 2003. Ákvörðun umhverfisráðherra um frávísun hafi verið tekin 14. júlí 2003 eða rúmum 15 vikum eftir að kærufresti lauk. Rökstuðningi umhverfis­ráðuneytisins fyrir frestun á uppkvaðningu úrskurðarins er mótmælt sem röngum. Hann standist ekki, meðal annars í ljósi síðar tilkominnar afstöðu ráðuneytisins um að vísa kæru stefnanda frá. Slíka ákvörðun hafi umhverfis­ráðherra getað tekið strax í kjölfar kæru stefnanda. Málsmeðferð og frávísun umhverfisráðherra staðfesti rökþrot ráðherrans gagnvart málsástæðum stefnanda í stjórnsýslukæru hans. Þegar af þessum ástæðum beri að fallast á kröfur stefnanda. Jafnræði, andmæla- og upplýsingaréttur stefnanda Stefnandi telur telur að málsmeðferð Umhverfisstofnunar og umhverfisráðherra og ráðuneytis hans brjóti einnig í bága við grunnreglur stjórnsýsluréttar. Stefnandi hafi ekki notið jafnræðis við meðferð kærumálsins og andmæla- og upplýsingaréttur hans hafi verið brotinn í veigamiklum atriðum. Honum hafi ekki verið gefinn kostur á að fá í hendur og tjá sig um öll þau gögn sem lágu til grundvallar auglýstri tillögu að starfsleyfi og útgefnu starfsleyfi, til að mynda fylgiskjöl með starfsleyfisumsókn, umsagnir sem óskað var eftir og bréf og gögn frá umsækjanda starfsleyfisins um verulega aukna losun mengandi efna dags. 7. mars 2003 og tengd málsskjöl. Þeim hafi beinlínis verið haldið leyndum fyrir stefnanda. Það eigi eitt sér að leiða til ómerkingar starfsleyfisins. Umsækjanda starfsleyfisins hafi hins vegar verið gefinn kostur á að tjá sig um öll gögn málsins sem bárust Umhverfisstofnun, þar með taldar athugasemdir og greinargerðir stefnanda. Hafi jafnræðis með aðilum ekki verið gætt og stefnanda mismunað. Umhverfisráðherra hafi virt að vettugi með sama hætti kröfur stefnanda um aðgang að gögnum sem hann setti fram í stjórnsýslukæru sinni og ítrekaði með bréfi dags. 20. maí 2003 og bréflegri fyrirspurn hinn 26. mars 2003. Þessi málsmeðferð stangist bæði á við ákvæði og tilgang 6. gr. og 32. gr. laga nr. 7/1998, 24. gr. og 26. gr. reglugerðar nr. 785/1999, stjórnsýslulög nr. 37/1993, upplýsingalög nr. 50/1996 og lög nr. 21/1993 um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál og ákvæði EB-tilskipana sem stefnandi vísar til. Stefnandi vekur sérstaka athygli á því hversu rík áhersla er lögð á andmæla- og upplýsingarétt í 6. gr. tilskipunar nr. 85/337 EBE og tilskipun 97/11 EB og í nýjum EB-tilskipunum. Stefnandi styður kröfur sínar einnig þeim rökum að Umhverfis­stofnun og umhverfisráðherra hafi í engu tekið afstöðu til aðal- og varakrafna hans og rökstuðnings. Heimild stefnanda til kæru útgáfu starfsleyfis til umhverfisráðherra Byggt er á því að niðurstaða umhverfisráðherra um að vísa kæru stefnanda frá vegna aðildarskorts brjóti með alvarlegum hætti gegn málsskotsrétti stefnanda samkvæmt 2. mgr. 32. gr., sbr. 6. gr. laga nr. 7/1998, 33. gr. reglugerðar nr. 785/1999, tilskipunum EB og tilgangi þessara réttarheimilda og löggjafarvilja. Ennfremur gegn stjórnsýslulögum, góðum stjórnsýsluháttum og réttarþróun hér á landi og á Evrópska efnahagssvæðinu sem endurspeglist í nýjum EB-tilskipunum. Af þessum ástæðum verði ekki komist hjá því að ómerkja ákvörðun umhverfisráðherra um frávísun á kæru stefnanda. Með frávísuninni sé með ólögmætum hætti komið í veg fyrir að stefnandi hafi getað nýtt sér rétt sinn til að kæra ákvörðun Umhverfisstofnunar. Stefnandi hafi verið ótvíræður aðili málsins á lægra stjórnsýslustigi án nokkurra athugasemda þar að lútandi. Honum hafi ennfremur verið leiðbeint af Umhverfisstofnun samkvæmt stjórn­sýslu­lögum um að hann ætti kærurétt til umhverfisráðherra. Að stjórnsýslulögum eigi aðili máls á lægra stjórnsýslustigi óskilyrtan rétt til aðildar á æðra stigi stjórnsýslu. Að öðrum kosti sé réttur almennings til athugasemda samkvæmt 2. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1998 og 33. gr. reglugerðar nr. 785/1999 markleysa, sbr. einnig 24. gr. reglugerðar nr. 785/1999. Framangreindur réttur verði ekki véfengdur, meðal annars í ljósi þess að umhverfis­ráðherra virti aðild stefnanda í upphafi kærumeðferðar, sbr. bréf ráðuneytisins dags. 9. maí 2003. Umhverfisráðherra hafi einnig viðurkennt fulla aðild stefnanda að kærumálum varðandi mat á umhverfisáhrifum. Brjóti frávísunin ennfremur í bága við almenna framkvæmd í kærumálum. Þá sé ljóst að stefnandi eigi persónulegra hagsmuna að gæta sem íbúi Fjarðabyggðar og vegna afskipta af fjölmörgum þáttum er varði umhverfisvernd á Austurlandi í áratugi, eins og umhverfisráðherra hafi verið fullkunnugt um. Vísar stefnandi til þess að kjarni íslenskra laga, tilskipana EB og alþjóðasamninga um umhverfismál, mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og starfsleyfi vegna framkvæmda sem valda umhverfismengun, sé að tryggja almenningi aðild, lýðræðislegan rétt hans, aðgang að upplýsingum, réttláta, gegnsæja, skjóta og skilvirka, ókeypis eða ódýra málsmeðferð jafnt fyrir stjórnvöldum sem dómstólum, sbr. meðal annars 5. og 6. gr. tilskipunar 85/337/EBE, inngang, 1. gr. til 4. gr. og 6. gr. tilskipunar 90/313/EBE, 6. tl. 8. tl. og 11. tl. tilskipunar 97/11/EB og inngangs og 3. gr. til 9. gr. Árósarsamningsins, sem undirritaður hafi verið fyrir Íslands hönd 25. júní 1998 og hafi verið innleiddur í EB-rétt með nýlegum tilskipunum. Ofangreind markmið séu auk þess kjarni Ríó-yfirlýsingarinnar sem ríkisstjórnin eigi aðild að. Með niðurstöðu umhverfisráðherra um aðild stefnanda hafi verið brotið alvarlega gegn þessum lýðræðislegu og lögbundnu grundvallarmannréttindum. Frávísun umhverfis­ráðherra verði að meta sem örþrifaráð og rökþrot gagnvart ítarlega rökstuddum málsástæðum stefnanda og verulegum ágöllum á málsmeðferð Umhverfis­stofnunar. Frávísun á kæru stefnanda hafi einnig þær afleiðingar að athugasemdir hans um breytt framkvæmdaáform, aukinn mengandi útblástur og fleiri röksemdir, sem tíundaðar eru í stefnu þessari, athugasemdum hans og kæru, hafi ekki fengið stjórnsýslulega efnismeðferð eins og lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, stjórnsýslulög og tilskipanir EB og EFTA- réttur gera ráð fyrir. Stefnandi segir allar kröfur sínar og málsástæður studdar þeim rökum að ákvörðun Umhverfisstofnunar og úrskurðir umhverfisráðherra um mat á umhverfis­áhrifum og ákvörðun umhverfisráðherra um frávísun á kæru stefnanda vegna útgáfu starfsleyfis gangi gegn meginreglum íslensks réttar, tilskipunum EB og alþjóða­samningum um sjálfbæra þróun og varúðarreglunni. Í stefnu eru taldar upp fjölmargar réttarheimildir Evrópubandalagsins og þjóða­réttar á sviði umhverfisréttar, án þess að þær séu sérstaklega settar í samhengi við málsástæður stefnanda eða rökstutt með hvaða hætti þær styðja málatilbúnað stefnanda. Hefur stefnanda og láðst að tilgreina íslenskt heiti sumra þessara heimilda og látið sitja við tilgreiningu þeirra á ensku sem er andstætt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 91/1991. Er ekki ástæða til endurtaka þessa upptalningu stefnanda hér. III. Málsástæður og lagarök stefndu Málsástæður og lagarök allra stefndu eru þær sömu, en stefndu Alcoa á Íslandi ehf., Reyðarál ehf. og Fjarðaál sf. vísa til greinargerðar meðstefndu um málsástæður og lagarök sín. Varðandi allar dómkröfur stefnanda telja stefndu að jafnvel þótt einhverjir annmarkar hafi verið á þeirri málsmeðferð sem leiddi til hinna umstefndu stjórnvalds­ákvarðana þá nægi þeir annmarkar ekki til ógildingar eða ómerkingar. Er um þetta vísað til þeirrar almennu reglu stjórnsýsluréttar að stjórnvaldsákvarðanir verði ekki felldar úr gildi nema að þær séu haldnar verulegum annmörkum, annað hvort að formi eða efni til. Þá verði og að hafa í huga þá hagsmuni sem raunverulegir aðilar hafi af umræddum stjórnvaldsákvörðunum til samanburðar við hagsmuni stefnanda sem séu fyrst og fremst huglægir, en hann hafi hvorki einstaklegra og/eða fjárhagslega hags­muna að gæta í málunum. Hugsanlegir annmarkar á hinum umstefndu stjórnvalds­ákvörðunum þurfi því að vera mjög miklir til þess að þeir leiði til ómerkingar, sérstaklega ef tekið er tillit til þeirra mörgu sem eigi beinna og óbeinna hagsmuna að gæta. Að öðru leyti gera stefndu grein fyrir málsástæðum og lagarökum sínum með hliðsjón af einstökum kröfum stefnanda, eins og nú greinir nánar. Úrskurður umhverfisráðherra 14. mars 2002 Stefndu krefjast í fyrsta lagi sýknu af kröfu stefnda um að ómerktur verði úrskurður umhverfisráherra frá 14. mars 2002, þar sem staðfestur er úrskurður Skipulagsstofnunar frá 31. ágúst 2001 um mat á umhverfisáhrifum 1. og 2. áfanga 420 þúsund tonna álvers í Reyðarfirði, með vísan til aðildarskorts stefnanda, sbr. 16. gr. einkamálalaga nr. 91/1991. Stefnandi hafi ekki kært úrskurð Skipulagsstofnunar frá 31. ágúst til ráðherra. Þegar af þeirri ástæðu hafi stefnandi ekki stöðu aðila í því stjórnsýslumáli sem lauk með hinum umstefnda úrskurði. Stefnandi hafi ekki að öðru leyti sýnt fram á slíka lögvarða hagsmuni af stjórnsýslumáli þessu að þeir skapi honum lögvarinn rétt til aðildar. Í annan stað krefjast stefndu sýknu á þeim grundvelli að úrskurðurinn uppfylli öll form- og efnisskilyrði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Stefndu mótmæla því að brotið hafi verið í bága við 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 með því að meta sameiginlega 420 þús. tonna álver og rafskauta­verksmiðju, sbr. úrskurð Skipulagsstofnunar frá 31. ágúst 2001 og úrskurð stefnda frá 14. mars 2002. Einnig mótmæla þeir því að í úrskurðunum sé bygging rafskauta­verksmiðju sé rökstudd sem nauðsynleg vegna efnahagslegrar hagkvæmni. Stefndu benda á að samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum skuli þær framkvæmdir sem tilgreindar eru í 1. viðauka við lög nr. 106/2000, ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum, en álver sé matsskyld framkvæmd samkvæmt 5. tölul. 1. viðauka. Í 2. mgr. 5. gr segi síðan: „Í þeim tilvikum þegar fleiri en ein matsskyld framkvæmd er fyrirhuguð á sama svæði getur ráðherra, að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar og að höfðu samráði við viðkomandi framkvæmdaraðila, ákveðið að umhverfisáhrif þeirra skuli metin sameiginlega.“ Í athugasemdum við 5. gr. frumvarps til laga um mat á umhverfisáhrifum segi: „Í 2. mgr. er lagt til að ráðherra geti að höfðu samráði við viðkomandi framkvæmdaraðila ákveðið í þeim tilvikum þegar fleiri en ein matsskyld framkvæmd er fyrirhuguð á sama svæði að þær verði metnar sameiginlega. Þess háttar ákvæði er ekki að finna í gildandi lögum. Varðandi stærri framkvæmdir getur verið um að ræða nokkrar matsskyldar framkvæmdir sem eru háðar hver annarri en á vegum ólíkra aðila, svo sem verksmiðja, höfn, vegur og veitur. Æskilegt getur verið að kynna og fjalla um þessar framkvæmdir samtímis.“ Stefndu telja að við mat á því hvort afla þurfi leyfis ráðherra skv. 2. mgr. 5. gr. þurfi að ákveða hvort um eina eða fleiri framkvæmdir er að ræða. Eitt af því sem ráði miklu um þá niðurstöðu sé það hvort um einn og sama framkvæmdaraðila sé að ræða, en einnig tilhögun framkvæmdarinnar að öðru leyti. Að mati stefnda sé ekki rétt að skýra 2. mgr. 5. gr. þannig að ef skipta megi fyrirhugaðri framkvæmd upp í fleiri en eina matsskylda framkvæmd, þá beri að meta hvern hluta sérstaklega. Ákvæðið sé einkum hugsað þegar um sé að ræða framkvæmdir á vegum ólíkra aðila sem að jafnaði mundu ekki vinna mat á umhverfisáhrifum framkvæmda sameiginlega. Það sé einmitt talinn kostur að meta framkvæmdir saman þegar þær eru á sama framkvæmdasvæði og geti þannig valdið samverkandi áhrifum á umhverfið. Af matskýrslu Reyðaráls hf. megi ráða að fyrirhugað var að einn og sami framkvæmdaraðili byggði rafskautaverksmiðju og álver á sömu lóð og að rekstur þeirra yrði sameiginlegur. Þar komi einnig fram að framleiðsla rafskauta sé hluti af álframleiðslu­ferlinu og að álver af sambærilegri stærð framleiði yfirleitt rafskaut á staðnum. Fram komi í matsskýrslu að ýmis hagræðing, bæði tæknileg og fjárhagsleg, fengist með því byggja og reka álver og rafskautaverksmiðju sem eina heild. Hafi það verið niðurstaðan að hér væri um svo nátengda starfsemi að ræða að fallast yrði á að um eina framkvæmd væri að ræða þó að verksmiðjurnar yrðu tvær og því rétt að um hana væri fjallað í einu lagi í sömu matsskýrslu. Þó að í úrskurði Skipulagsstofnunar hafi verið vísað til umfjöllunar í matsskýrslu, þar sem m.a. komi fram að fjárhagsleg hagræðing væri af því að byggja og reka álver og rafskautaverksmiðju sem eina heild, sé ljóst að þetta tiltekna atriði hafi ekki ráðið þeirri niðurstöðu að um eina framkvæmd væri að ræða. Stefnandi vísar til þess að í matsskýrslu sé gerð grein fyrir magni mengunarefna í frárennsli og útblæstri frá álveri annars vegar og rafskautaverksmiðju hins vegar, en samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 skuli í matsskýrslu tilgreina þau áhrif, uppsöfnuð og samvirk, bein og óbein, sem fyrirhuguð framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir kann að hafa á umhverfi og samspil einstakra þátta í umhverfinu. Þynningarsvæði verksmiðjanna sé afmarkað út frá heildarmagni mengunarefna og þannig metin uppsöfnuð og samvirk áhrif þeirra. Hafi það verið niðurstaðan að í matskýrslu Reyðaráls ehf. væri með fullnægjandi hætti gerð grein fyrir umhverfis­áhrifum álvers og rafskautaverksmiðju sbr. 9. gr. laga nr. 106/2000 og þar sem um eina og sömu framkvæmd væri að ræða skyldu þessir þættir metnir saman. Stefndi vísar að öðru leyti til úrskurðar stefnda umhverfisráðherra frá 14. mars 2002 og til þeirra sjónarmiða sem réðu niðurstöðu ráðherra. Úrskurður umhverfisráðherra 15. apríl 2003 Stefndu krefjast sýknu af þeirri dómkröfu stefnanda að ómerktur verði úrskurður umhverfisráðherra frá 15. apríl 2003, um að ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 20. desember 2002 um matsskyldu álvers í Reyðarfirði fyrir allt að 322 þúsund tonna ársframleiðslu skuli óbreytt standa, eins og áður segir. Telja stefndu að úrskurðurinn uppfylli allar form- og efniskröfur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og laga nr. 106/2000 um mat á umhverfis­áhrifum og séu því engin lagaskilyrði fyrir hendi til að ógilda úrskurðinn. Af hálfu stefndu er því ekki haldið fram að stefnanda skorti lögvarða hagsmuni til að hafa uppi umrædda kröfu sína. Að því er varðar þá málsástæðu stefnanda að um nýja og matsskylda framkvæmd hafi verið að ræða þegar ákveðið var hætta við byggingu 420.000 álvers og rafskauta­verksmiðju og reisa 322.000 álver þess í stað vísa stefndu til þeirra sjónarmiða sem fram koma í úrskurði umhverfisráðherra 15. apríl 2003, en þar sé fjallað um þessar málsástæður stefnanda. Er ítarleg grein gerð fyrir forsendum úrskurðarins í lýsingu málsatvika í I. kafla dómsins hér að framan og vísast til þeirrar umfjöllunar um málsástæður og lagarök stefndu að þessu leyti. Stefndu vísa til þess að með bréfi 26. febrúar 2003 hafi stefnanda verið gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri vegna umsagna Skipulags­stofnunar, Umhverfisstofnunar, Fjarðabyggðar og Reyðaráls ehf. um framkomna kæru hans. Á þennan hátt hafi stefnanda verið veittur andmælaréttur um þessar umsagnir á grundvelli stjórnsýslulaga. Athugasemdir stefnanda hafi borist með bréfi 5. mars 2003. Í bréfi stefnanda frá 26. mars 2003, sem barst því eftir að hann hafði komið athugasemdum sínum á framfæri, sé bent á að stefnandi hafi aflað sér gagna sem gengið höfðu milli aðila í aðdraganda úrskurðar Skipulagsstofnunar frá 20. desember 2002 auk gagna frá Umhverfisstofnun varðandi undirbúning að útgáfu starfsleyfis sem gefið hafði verið út þann 14. mars 2003. Bendi stefnandi sérstaklega á bréfaskipti lögmanns Reyðaráls og Umhverfisstofnunar á tímabilinu 7. til 14. mars 2003 og fleiri gögn sem stefnandi tiltaki í bréfi þessu. Umhverfisráðherra hafi tekið til skoðunar öll þau gögn sem lágu til grundvallar eða voru til frekari skýringar á málinu áður en hann kvað upp úrskurð sinn þann 15. apríl 2003. Meðal þessara gagna hafi verið framan­greind gögn sem stefnandi tiltaki sérstaklega í bréfi sínu þann 26. mars 2003. Þá komi og fram hjá stefnanda í framangreindu bréfi að upplýsinga- og andmælaréttur hans hafi ekki verið virtur sem kæranda að framangreindum úrskurði Skipulagsstofnunar. Að mati stefndu er hér um órökstuddar fullyrðingar að ræða. Þá komi einnig fram í nefndu bréfi að andmæla- og upplýsingaréttur hans hafi ekki verið virtur varðandi undirbúning Umhverfisstofnunar að útgáfu starfsleyfis fyrir álverið í Reyðarfirði. Ákvörðun um útgáfu starfsleyfis hafi ekki verið til skoðunar í framangreindu kæru­máli og er vísað til umfjöllunar um þriðju dómkröfu stefnanda um meintan andmælarétt hans vegna útgáfu starfsleyfis. Stefndu telja ranga þá fullyrðingu stefnanda, að stefndi hafi virt að vettugi kröfur stefnanda um aðgang að gögnum, sbr. bréf hans frá 26. mars 2003, enda hafi engar slíkar kröfur settar fram í tilgreindu bréfi. Stefndu vekja athygli á að samantekt stefnanda um samanburð á 420 þúsund tonna álveri og 322 þúsund tonna álveri dagsett 5. febrúar 2004, sem stefnandi hefur vísað til í málinu, hafi ekki legið fyrir þegar stefndi úrskurðaði og ákvarðaði vegna þeirra framkvæmda sem hér séu til umfjöllunar. Ákvörðun Umhverfisstofnunar 14. mars 2003 Stefndu byggja kröfu sína um sýknu í þessum þætti málsins annars vegar á því að afgreiðsla Umhverfisstofnunar á útgáfu starfsleyfis 14. mars 2003 hafi verið framkvæmd á grundvelli laga nr. 7/1998 og reglugerðar nr. 785/1999 og hvorki séu formlegar né efnislegar ógildingarástæður fyrir hendi. Hins vegar hafi stefnandi ekki verið aðili að því stjórnsýslumáli sem varðaði útgáfu starfsleyfisins. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefnda af þessari dómkröfu stefnanda á grundvelli 16. gr. einkamálalaga nr. 91/1991 vegna aðildarskorts stefnanda. Verður nú nánari grein gerð fyrir þessum sjónarmiðum stefndu. Stefndu lýsa því að þegar Umhverfisstofnun barst umsókn þann 4. september 2002 um starfsleyfi fyrir álver Reyðaráls ehf. í Reyðarfirði, allt að 322 þúsund tonnum, hafi þegar verið hafist handa við að móta tillögu að starfsleyfi í samræmi við reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Við þá vinnu hafi m.a. verið notuð loftdreifingarspá fyrir loftborið flúor (HF) frá framkvæmdaraðila sem fylgdi umsókninni. Hafi hún m.a. byggt á veðurgögnum sem Skipulagsstofnun studdist við í fyrra mati á umhverfisáhrifum 422.000 tonna álvers. Umhverfisráðherra hafi metið þessi gögn, og aðferðafræðina sem hún studdist við fullnægjandi í fyrri úrskurði sínum. Við spár á dreifingu mengunar­efna frá 322.000 tonna álveri hafi verið útbúið nákvæmt veðurlíkan af aðstæðum í öllum Reyðarfirði og nágrenni og niðurstöður þess notaðar til að spá fyrir um loftdreifingu frá álverinu. Skipulagsstofnun hafi engar athugasemdir gert við gæði veður­gagnanna í úrskurði sínum þann 20. desember 2002 en bent á, líkt og áður, að vegna óvissu væri nauðsynlegt að fylgjast vel með styrk mengunarefna í andrúmslofti innan og utan þynningarsvæðisins. Að mati Umhverfisstofnunar hafi það ekki verið í andstöðu við 10. gr. reglugerðar nr. 785/1999 að notast við þessa spá við starfsleyfisgerðina. Umhverfisstofnun hafi auglýst opinberlega tillögu að starfsleyfi 17. desember 2002, þremur dögum áður en úrskurður Skipulagsstofnunar lá endanlega fyrir. Að mati stefndu sé þessi annmarki smávægilegur og geti einn og sér tæplega leitt til ógildingar ákvörðunar stofnunarinnar. Umhverfisstofnun hafi við tillögugerð sína 17. desember 2002 bæði tekið tillit til úrskurðar Skipulagsstofnunar 31. ágúst 2001 og til úrskurðar umhverfisráðherra 14. mars 2002. Úrskurður Skipulagsstofnunar hafi legið formlega fyrir 20. desember 2002. Úrskurðurinn hafi engin áhrif haft á fyrri tillögur Umhverfisstofnunarinnar um starfsleyfi enda hafi úrskurðurinn kveðið á um að fyrri úrskurður Skipulagsstofnunar frá 31. ágúst 2001 skyldi gilda áfram að teknu tilliti til breytinga á framkvæmdaáformum. Forsendur fyrir starfsleyfi hafi því verið óbreyttar. Stefndu telja að tillaga að starfsleyfi sé eingöngu tillaga en ekki endanleg ákvörðun um útgáfu starfsleyfis. Búast megi við að tillaga geti breyst, ef fram koma rökstuddar athugasemdir sem Umhverfisstofnun telur sér skylt að taka tillit til á grundvelli málefnalegra- og lögmætra sjónarmiða. Breytingar á fyrirhuguðu starfs­leyfi geti því átt sér eðlilegar skýringar. Á Umhverfisstofnun hvíli sú skylda að afgreiða umsókn um starfsleyfi þegar fullnægjandi gögn liggi fyrir. Athugasemdir framkvæmdaraðila eða almennings við tillögu Umhverfisstofnunar að starfsleyfi leiði ekki til þess að stofnunin móti nýja tillögu að starfsleyfi eða vísi umsókn um starfsleyfi frá á grundvelli 11. gr. reglugerðar nr. 785/1999. Málsmeðferðarreglur geri ekki ráð fyrir slíkri málsmeðferð. Umhverfisstofnun beri að gera tillögu að starfsleyfi, auglýsa hana, taka við athugasemdum frá almenningi og framkvæmdaraðila og taka síðan endanlega ákvörðun um útgáfu starfsleyfis. Í athugasemdum kunni að koma fram gögn og sjónarmið sem stofnuninni beri að taka tillit til við ákvarðanatöku um útgáfu starfsleyfis. Umhverfisstofnun hafi því ekki verið heimilt að auglýsa nýja starfsleyfistillögu vegna framkominna athugasemda framkvæmdaraðila. Stofnuninni hafi borið að taka athugasemdir hans til skoðunar í tengslum við ákvörðun um útgáfu starfsleyfis fyrir álver framkvæmdaraðila á þann hátt sem gert var. Framkvæmdaraðili hafi ekki lagt fram nýja loftdreifingarspá með erindi til Umhverfis­stofnunar 7. mars 2003 eins og stefnandi haldi fram í málatilbúnaði sínum. Hið rétta sé að framkvæmdaraðili hafi fyrst og fremst leiðrétt spá vegna villu í tölvuforriti sem hann hafði þá uppgötvað. Þessi villa í forriti hafi ekki verið séð fyrir. Eftir að ábendingin kom fram hafi Umhverfisstofnun borið að taka þessa ábendingu til athugunar og leggja mat á leiðrétta spá á grundvelli nýrra og réttari upplýsinga. Þá hafi stofnuninni borið að taka afstöðu til kröfu framkvæmdaraðila sem byggði á meðalhófs- og jafnræðisreglum stjórnsýsluréttarins, m.a. með tilvísun framkvæmdar­aðila til sambærilegra viðmiðunarreglna annarra álvera hér á landi. Í athugasemdum framkvæmdaraðila við tillögu að starfsleyfi, sem stofnuninni bárust 7. mars 2003, hafi því m.a. verið haldið fram að Skipulagsstofnun hefði í fyrri ákvörðunum sínum fallist á að mörk HF innan þynningarsvæðis álversins yrðu 0,3 μg/m3. Með vísan til meðalhófs- og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga hafi þess verið krafist, að Umhverfisstofnun hækkaði mörk fyrir HF utan þynningarsvæðisins í 0,3 μg/m3 í samræmi við það. Framkvæmdaraðili hafi talið að viðmiðið 0,2 μg/m3 fyrir HF innan þynningarsvæðisins væri í ósamræmi við niðurstöðu mats á umhverfis­áhrifum framkvæmdarinnar og því væri réttara og eðlilegra að miða við 0,3 μg/m3. Hafi Umhverfisstofnun í ljósi þessa talið nauðsynlegt að leita álits Skipulagsstofnunar áður en endanleg ákvörðun yrði tekin um útgáfu starfsleyfis og jafnframt að gefa Skipulagsstofnun færi á að taka til athugunar hvort leiðrétt loftdreifingarspá leiddi til þess að nýtt mat á umhverfisáhrifum yrði að fara fram. Í svari Skipulagsstofnunar kom ekki fram krafa um að nýtt mat á umhverfisáhrifum færi fram og hafi niðurstaða Skipulagsstofnunar verið sú að 0,3 μg/m3 væri ásættanleg viðmiðun, en benti á að rétt væri að miða við 0,2 μg/m3. Umhverfisstofnun hafi tekið fullt tillit til niðurstöðu Skipulagsstofnunar í hinu endanlega starfsleyfi og hafi ákvæði starfsleyfisins varðandi HF verið byggt upp með þeim hætti að miða við 0,3 μg/m3 innan þynningarsvæðis og setja frekari kröfur um að starfsleyfishafinn leitaðist við að ná mörkum HF innan þynningarsvæðis niður í 0,2 μg/m3. Þannig skyldu mörkin lækka í 0,25 μg/m3 á fyrsta degi 27. mánaðar eftir að rekstur álversins hæfist, að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Skyldi framkvæmdar­aðili, í samráði við Umhverfisstofnun, jafnframt leitast við að minnka losun á HF enn frekar. Tækist honum það ættu mörkin að lækka í 0,2 μg/m3. Þá beri að geta þess að í starfsleyfi Norðuráls hf., dags 24. febrúar 2003, sé miðað við 0,3 μg/m3 innan þynningar­svæðis og miðað sé við sömu mörk í starfsleyfi álvers Alcan á Íslandi í Straumsvík. Varðandi umrædd umhverfismörk vetnisflúoríðs í andrúmslofti vísa stefndu Alcoa á Íslandi ehf., Reyðarál ehf. og Fjarðaál sf. sérstaklega til þess að viðmiðið 0,3 μg/m3 gildi fyrir önnur álver á Íslandi auk þess sem þessi mörk hafi verið sett í upphaflegu umhverfismati fyrir 420.000 álver. Er vísað til bréfs 11. mars 2003 til Umhverfisstofnunar og bréfs 29. apríl 2003 til umhverfisráðherra um nánari umfjöllun um þetta atriði. Stefndi leggur áherslu á að Umhverfisstofnun hafi verið skylt að byggja á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 20. desember 2002 við afgreiðslu á umsókn um starfsleyfi fyrir álver Reyðaráls ehf. og hafi því ekki verið heimilt að fresta ákvörðun um útgáfu starfsleyfis vegna kæru á ákvörðun Skipulagsstofnunar til umhverfis­ráðherra. Stefndu benda á að þegar Reyðarál ehf. sendi inn umsókn um starfsleyfi 4. september 2002 hafi kennitala félagsins verið tilgreind 600100-2380. Auglýst tillaga að starfsleyfi hafi verið miðuð við þessa kennitölu sem og endanleg ákvörðun um útgáfu starfsleyfis 14. mars 2003. Stefndu vekja athygli á því að nafni Reyðaráls ehf. hafi verið breytt í „Alcoa á Íslandi ehf.“ og nafni Alcoa á Íslandi ehf. hafi verið breytt í „Reyðarál ehf.“, sbr. tilkynningar til hlutafélagaskrár 12. mars 2003. Kennitala þess félags sem beri nafnið Reyðarál ehf. í dag sé því kennitala þess félags sem áður hét Alcoa á Íslandi og öfugt. Ekki sé því um það að ræða að annar lögaðili hafi fengið starfsleyfið en sótti um það. Þá hafa stefndu upplýst að með bréfi 17. mars 2004 hafi verið sótt um að starfsleyfið, sem gefið var út 14. mars 2003 til Alcoa á Íslandi ehf. (áður Reyðarál ehf.), kt. 600100-2380, verði fært yfir á nafn stefnda Fjarðaráls sf. Er vísað til 2. mgr. 27. gr. reglugerðar nr. 785/1999 til stuðnings kröfunni og tekið fram að engar breytingar verði á starfsleyfinu. Erindið sé nú til afgreiðslu hjá Umhverfis­stofnun og muni niðurstaðan væntanlega verða sú að yfirfæra starfsleyfið yfir á nýtt nafn og kennitölu með vísan til 2. mgr. 27. gr. reglugerðar nr. 785/1999. Hvorki stefndu né Umhverfisstofnun líti svo á að stefnandi hafi verið formlegur aðili að stjórnsýslumáli því sem fjallaði um ákvörðun um útgáfu starfsleyfis Reyðaráls ehf. Stefnandi hafi sent inn athugasemdir við tillöguna og Umhverfisstofnun kynnt honum ákvörðun stofnunarinnar um útgáfu starfsleyfis og vakið var athygli á kærurétti til umhverfisráðherra. Þessi málsmeðferð sé í samræmi við ákvæði 24. og 25. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Almenningi sé veittur réttur til að koma að athugasemdum við tillögu að starfsleyfi samkvæmt ofangreindri reglugerð. Það hafi verið gert við meðferð starfsleyfisumsóknar framkvæmdaraðila hjá Umhverfisstofnun. Hins vegar sé ekki gert ráð fyrir í reglugerðinni, né í öðrum réttarheimildum, svo sem í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sem fjalla um útgáfu starfsleyfa Umhverfis­stofnunar, að almenningi sé veittur frekari réttur til andmæla, til dæmis vegna athugasemda sem stofnuninni berast við starfsleyfistillögun. Vera kunni að athugasemdir sem fram komi leiði til þess að stofnunin telji að leita þurfi frekar álits annarra. Það mat liggi hjá stofnuninni einni. Almenningur, sem geri athugasemdir við starfsleyfistillögu, hafi í slíkum tilfellum ekki sjálfstæðan andmælarétt. Í þessu máli hafi það verið mat Umhverfisstofnunar að ekki væri þörf á því við úrlausn málsins að leita eftir frekara áliti almennings eða annarra sem gerðu athugasemdir við auglýsta starfsleyfistillögu til að komast að efnislega réttri niðurstöðu. Hafa verði í huga að samkvæmt meginreglum stjórnsýsluréttarins skuli ekki leita álits nema það sé nauðsynlegt við úrslausn mála. Við það mat verði meðal annars að taka tillit til hagsmuna, framkvæmdaraðila í þessu tilviki Reyðaráls ehf., af því að fá starfsleyfi eins skjótt útgefið og unnt sé. Mat Umhverfisstofnunar hafi verið að ekki væri nauðsynlegt að leita frekara álits en gert var og að nægileg gögn hafi legið fyrir þegar endanleg ákvörðun um starfsleyfi var tekin. Samkvæmt framangreindu telja stefndu að Umhverfisstofnun hafi uppfyllt skilyrði reglugerðar nr. 785/1999 um rétt almennings og þar með virt rétt stefnanda til að senda inn athugasemdir við fyrirhugað starfsleyfi Reyðaráls ehf. Jafnframt er það afstaða stefndu að í þessum þætti málsins verði að gera skýran greinarmun á rétti almennings til að koma á framfæri athugasemdum vegna fyrirhugaðs starfsleyfis og þeim réttindum og skyldum sem fylgja aðilastöðu í stjórnsýslumáli. Af þessum ástæðum beri að sýkna af kröfu stefnanda um að ómerkt verði ákvörðun Umhverfis­stofnunar hinn 14. mars 2003 um útgáfu starfsleyfis fyrir álver Reyðaráls ehf. Ákvörðun umhverfisráðherra 14. júlí 2003 Stefndu krefjast sýknu af dómkröfu stefnanda um að ómerkt verði ákvörðun umhverfisráðherra 14. júlí 2003 um að vísa frá kæru stefnanda 28. mars 2003 á ákvörðun Umhverfisstofnunar 14. mars 2003 um útgáfu starfsleyfis fyrir Reyðarál ehf. Sýknukrafan byggir í fyrsta lagi á aðildarskorti stefnanda, sbr. 16. gr. einkamálalaga nr. 91/1991, en stefndu telja að stefnandi hafi hvorki sýnt fram á að hann hafi haft stöðu aðila í málinu, né að öðru leyti átt lögmæta hagsmuni vegna ákvörðunar stefnda. Í annan stað er krafist sýknu á þeim grundvelli að úrskurðurinn uppfylli öll form- og efnisskilyrði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Stefndu benda á að samkvæmt 2. mgr. 32. gr. laga um hollustuhætti og mengunar­varnir nr. 7/1998 megi kæra ákvarðanir Umhverfisstofnunar og heilbrigðis­nefnda um útgáfu starfsleyfis samkvæmt 6. gr. laganna, til fullnaðarúrskurðar ráðherra innan tveggja vikna frá ákvörðun Umhverfisstofnunar eða heilbrigðisnefnda. Í lögunum sé ekki tekið sérstaklega fram hverjum sé heimilt að kæra útgáfu starfsleyfis, en um það gildi almennar reglur stjórnsýsluréttarins. Í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segi að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt, nema annað leiði af lögum eða venju. Með „aðila máls“ í skilningi framangreinds ákvæðis sé átt við þann sem hefur lögmætra hagsmuna að gæta, þ.e. einstaklegra og verulegra hagsmuna, hvort sem þeir séu fjárhagslegir eða persónulegir. Þetta byggist á viðurkenndum sjónar­miðum í stjórnsýslurétti. Hugtakið hafi verið skýrt rúmt í umhverfisrétti þannig að ekki sé einungis átt við þá sem eiga beina aðild að máli, heldur geti einnig fallið undir þeir sem hafi óbeinna hagsmuna að gæta svo sem nágrannar starfsleyfisskyldrar starfsemi. Kæruaðild almennings án tillits til hagsmuna af úrlausn málsins („actio popularis“) sé ekki viðurkennd í stjórnsýslurétti hér á landi nema fyrir hendi sé sérstök lagaheimild Slíka lagaheimild sé ekki að finna í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Að mati stefndu veiti réttur almennings til að gera athugasemdir við auglýst drög að starfsleyfi, sbr. 24. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnu­rekstur sem getur haft í för með sér mengun, þeim sem geri athugasemd ekki stöðu aðila stjórnsýslumáls. Stefndu telja því að ekki sé hægt að líta svo á að stefnandi hafi verið aðili máls við meðferð þess hjá Umhverfisstofnun, enda komi fram í umsögn stofnunarinnar, 9. maí 2003, að þar sé ekki litið á stefnanda sem aðila máls. Að mati stefndu skipti ekki máli þó að í bréfi Umhverfisstofnunar til stefnanda hafi hann verið upplýstur um kæruheimildir, enda sé ákvörðun um aðild að kærumáli í höndum þess stjórnvalds sem um kæruna fjallar. Stefndu mótmæla því sem fullyrt er í stefnu að aðild stefnanda hafi í upphafi málsins verið virt. Bréf það sem sent hafi verið stefnanda 9. maí 2003, þar sem honum var tilkynnt um framlengingu úrskurðarfrests, hafi ekki falið í sér neina viður­kenningu á aðild hans að málinu. Hins vegar hafi á því stigi ekki verið tekin ákvörðun um hvort viðurkenna skyldi aðild hans og hafi því þótt rétt að tilkynna honum um framlengingu frests eins og áskilið er í 3. mgr. 32. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Stefndu bendir á að samkvæmt 4. mgr. 12. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum sé sérstaklega tekið fram að öllum sé heimilt að kæra til ráðherra ákvarðanir Skipulags­stofnunar um matsskyldu og úrskurð stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum fram­kvæmda. Kæruaðild í þeim lögum byggist því á hinu svokallaða „actio popularis“ og hafi þessi framkvæmd á þessu sviði ekki þýðingu um kæru á útgáfu starfsleyfis. Stefndu mótmæla þeirri fullyrðingu í stefnu að frávísun kæru stefnanda hafi brotið í bága við almenna framkvæmd í kærumálum. Í þeim kærumálum vegna útgáfu starfsleyfa sem verið hafi til meðferðar í umhverfisráðuneytinu hafi kæruaðild ávallt byggst á beinum eða óbeinum hagsmunum viðkomandi kæranda. Í samræmi við almenn viðhorf í umhverfisrétti hafi kæruaðildin verið túlkuð nokkuð rúmt, en þó þannig að ávallt hafi verið um beina eða óbeina hagsmuni væri að ræða. Stefndu mótmæla því sérstaklega að niðurstaða úrskurðarnefndar sem starfaði á grundvelli þágildandi laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit nr. 81/1988, frá 18. desember 1995, bindi með einhverjum hætti hendur stefnda umhverfisráðherra við mat á aðild stefnanda, en þar hafi aðild stefnanda verið viðurkennd vegna útgáfu starfsleyfis ÍSAL. Í því tilviki hafi verið um annan úrskurðaraðila að ræða og eldri löggjöf og sem hafi ekki áhrif á túlkun ráðuneytisins á ákvæðum 2. mgr. 32. gr. núgildandi laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Stefnandi haldi því fram að hann eigi persónulegra hagsmuna að gæta sem íbúi Fjarðarbyggðar og vegna afskipta af fjölmörgum þáttum er varða umhverfisvernd á Austurlandi í áratugi. Stefndu vísa til þess að kæruaðild hafi verið viðurkennd í nokkrum nánar tilteknum málum þegar um mikla nálægð við leyfðar framkvæmdar var að ræða. Stefnandi sé búsettur í Neskaupsstað sem sé á þriðja tug kílómetra í beinni loftlínu frá fyrirhuguðu álveri við Reyðarfjörð og langt fyrir utan þynningar­svæði þess samkvæmt matsskýrslu. Strax í upphafi hafi því verið ljóst að mikill vafi lék á að stefnandi gæti byggt aðild sína á slíkum óbeinum hagsmunum. Í bréfi sínu 6. júní 2003 byggi stefnandi ekki á því að hann eigi hagsmuna að gæta sem nágranni og hafi ráðuneytið því talið ljóst að ekki væri um slíka óbeina hagsmuni að ræða. Aðild einstaklinga eða umhverfisverndarsamtaka sem unnið hafi að umhverfismálum og sýnt þeim sérstakan áhuga, hafi hingað til ekki verið viðurkennd af íslenskum dómstólum. Að mati stefndu verði slík aðild að byggja á sérstakri lagaheimild. Stefndu benda á að ákvæði Árósasamningsins um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum, hafi verið undirritaður af Íslands hálfu en ekki fullgiltur. Þar sé meðal annars kveðið á um kæruaðild tiltekinna umhverfisverndarsamtaka að málum vegna leyfisveitinga á sviði umhverfisréttar. Árósasamningurinn kveði hins vegar ekki á um kæruaðild einstaklinga að slíkum málum og gæti stefnandi því ekki byggt kæruaðild sína á ákvæðum þess samnings. Auk þess hafi samningurinn ekki verið fullgiltur af Íslands hálfu og hafi ákvæði hans ekki verið lögfest hér á landi. Hafi þau því enga þýðingu við skýringu núgildandi laga. Stefndu árétta, að ákvæði tilskipana nr. 2003/4/EB um almennan aðgang að upplýsingum um umhverfismál og 2003/35/EB um þátttöku almennings í ákvarðanatöku um umhverfismál hafi ekki verið innleidd í íslenskan rétt og hafi því ekkert gildi í máli þessu. Hvað varðar vísun stefnanda til tilskipana nr. 85/337, 97/11/EB og 90/313/EBE þá byggi lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og lög nr. 21/1993 um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum í umhverfismálum, á ákvæðum þeirra tilskipana. Í þeim lögum eða tilskipunum séu ekki ákvæði um kæruaðild einstaklinga eða félagasamtaka varðandi ákvarðanir stjórnvalda um útgáfu starfsleyfa á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Að því er varðar kröfur stefnanda um að fá sendar allar kærur og kærugögn og að honum gefist kostur á að tjá sig um öll gögn áður en endanleg afstaða yrði tekin til kæru hans benda stefndu á að í upphafi málsins hafi ekki legið önnur gögn fyrir í málinu en þær þrjár kærur sem borist höfðu auk nokkurra gagna um forsögu málsins sem fylgdu kæru stefnanda. Umhverfisráðuneytið hafi ekki séð ástæðu til að senda stefnanda kærur annarra kærenda enda fjölluðu þær um sömu málsástæður og fram komu í kæru stefnanda og því hafi ekki verið nauðsynlegt á grundvelli reglna um andmælarétt að gefa stefnanda kost á að gera athugasemdir við aðrar kærur. Í kæru sinni hafi stefnandi hvorki vísað til upplýsingalaga né til laga nr. 21/1993 um upplýsingamiðlun og fl. til stuðnings kröfum sinni. Ekki hafi verið litið svo á að krafa stefnanda byggðist á tilgreindum lögum. Hefði til þess komið að aðild stefnanda hefði verið viðurkennd og málið tekið til efnismeðferðar hefðu honum að sjálfsögðu verið send öll gögn málsins eins og ávallt sé gert í kærumálum sem eru til meðferðar í umhverfis­ráðuneytinu. Að því er varðar kröfur stefnanda undir meðferð kærumálsins um að fá senda lista yfir gögn málsins vísa stefndu til þess að á þeim lista hefðu, í upphafi málsins, aðeins verið þær þrjár kærur sem bárust. Að mati stefndu þjónaði það því engum tilgangi að senda stefnanda lista yfir gögn málsins í upphafi þess áður en gagnaöflun var hafin. Hefðu á þeim lista einungis verið þær þrjár kærur sem bárust. Hafi verið litið svo á að stefnandi hefði fyrst og fremst hagsmuni af að fá lista yfir gögn málsins þegar gagnaöflun væri lokið eða a.m.k. langt komin. Áður en til þess hafi komið hafi hins vegar verið tekin ákvörðun um það af hálfu stefnda umhverfisráðherra að vísa kæru stefnanda frá og einnig hinum tveimur kærunum sem borist höfðu. Þær umsagnir sem hafi borist hafi einungis fjallað um efnisþætti málsins og því hafi ekki verið talin ástæða til að gefa stefnanda kost á að gera athugasemdir við þær. Annarra gagna hafi ekki verið aflað þegar málinu var vísað frá. Hafi sérstaklega verið farið yfir það af hálfu stefnda hvort eitthvað í umsögnunum varðaði aðild stefnanda að málinu sem ástæða væri til að gefa honum kost á að gera athugasemdir við en það hafi verið mat stefnda umhverfisráðherra að svo væri ekki. Stefndu fallast ekki á að andmæla­réttur hafi verið brotinn á stefnanda. Leggja stefndu áherslu á að ekki hafi verið tekin efnisleg afstaða til kæru stefnanda og því ekki komið til þess að honum væri veittur andmælaréttur varðandi þann þátt málsins. Hvað varðar upplýsingarétt stefnanda hafi verið litið svo á að hálfu stefnda umhverfis­ráðherra að kröfur stefnanda byggðust fyrst og fremst á reglum um andmælarétt á meðan málið var til meðferðar hjá ráðuneyti stefnda. Sé sá skilningur studdur skýru orðalagi í kæru stefnanda 28. mars 2003 og bréfi hans 20. maí 2003, þar sem hann krefjist þess að fá að tjá sig um öll gögn sem ráðuneytinu berast og minnir á rétt sinn til andmæla. Eins og áður segi hafi stefnandi í kröfum sínum ekki vísað til upplýsinga­laga nr. 21/1993. Á þeim grundvelli hefði umhverfisráðuneytið hugsanlega átt að afhenda stefnanda kærur annarra kærenda í málinu og umsagnir sem borist höfðu. Slík krafa hafi ekki borist eftir að málinu hafi verið vísað frá og hafi því stefndi umhverfisráðherra verið í góðri trú um að kröfur kæranda hefðu byggst á reglum um andmælarétt. Stefndu benda á að þótt framangreind gögn hefðu verið send stefnanda þá hefði það engu breytt varðandi þá niðurstöðu stefnda að vísa málinu frá. Að því er varðar þá fullyrðingu stefnanda að virtir hafi verið að vettugi lögbundnir frestir til að afgreiða kæru stefnda 28. mars 2003 og að ráðherra hefði verið í lófa lagið að kveða upp úr um frávísunar kærunnar þegar í stað benda stefndu á samkvæmt 3. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1998 skuli ráðherra kveða upp úrskurð svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en fjórum vikum eftir að honum berst mál í hendur. Sé mál viðamikið og fyrirsjáanlegt að afgreiðsla taki lengri tíma skuli tilkynna hlutaðeigandi það og tiltaka afgreiðslufrest sem aldrei skuli þó vera lengri en átta vikur. Kæra stefnanda hafi borist 28. mars 2003, en einnig hafi borist tvær aðrar kærur vegna sömu ákvörðunar, þ.e. frá Náttúruverndarsamtökum Íslands annars vegar og fjórum einstak­lingum hins vegar. Auk stefnanda séu tveir af framangreindum kærendum búsettir á Austurlandi. Í umhverfisrétti sé oft vafamál hverja beri að telja hafa óbeinna hagsmuna að gæta þannig að aðild þeirra að stjórnsýslumáli sé viðurkennd. Hafi í nokkrum tilvikum verið viðurkennt aðild þeirra, sem búa í nágrenni við mengandi atvinnurekstur, sbr. úrskurði ráðuneytisins frá 16. september 2003 varðandi starfsleyfi svínabúsins að Brautarholti og frá 27. maí 2002 varðandi starfsleyfi alifuglabúsins Nesbús. Við mat á því hvort slíkir hagsmunir séu til staðar hjá kærendum þurfi oft að líta til þeirrar starfsemi sem viðkomandi starfsleyfi gildir um og t.d. umfangs þeirrar mengunar sem frá henni stafar. Í ljósi þess að þrír af kærendum voru búsettir á Austurlandi hafi ráðuneytið ákveðið að vísa ekki framangreindum kærum frá strax í upphafi heldur skoða þann þátt nánar. Vegna þess hve frestir til að úrskurða sam­kvæmt 32. gr. laga nr. 7/1998 séu stuttir hafi verið ákveðið að senda kærurnar 9. apríl 2003 til umsagnar Umhverfisstofnunar, Heilbrigðiseftirlits Austurlands, Fjarðar­byggðar, Skipulagsstofnunar og Reyðaráls. Einnig hafi verið til þess litið að hugsan­lega kæmu fram upplýsingar í þeim umsögnum sem gagnast gætu við ákvörðun á því hvort kærendur hefðu einstaklegra eða óbeinna hagsmuna að gæta í málinu. Hinn 9. maí 2003 hafi kærendum verið tilkynnt um að ekki yrði unnt að úrskurða innan fjögurra vikna frestsins, enda hafi þá umsagnir ekki verið komnar frá öllum umsagnar­aðilum. Hinn 14. maí 2003 hafi síðasta umsögnin í kærumálinu borist. Ekkert komi fram í umsögnum sem upplýst geti hvort kærendur ættu beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta í málinu. Í umsögn Umhverfisstofnunar komi fram að stofnunin hafi ekki litið svo á að stefnandi væri aðili máls við útgáfu starfsleyfis Reyðaráls ehf. Hinn 2. júní 2003 hafi stefnanda og öðrum kærendum verið sent bréf, þar sem fram komi að gögn málsins bæru ekki með sér að þeir nytu stöðu aðila í máli vegna útgáfu starfsleyfisins eða hefðu annarra lögmætra hagsmuna að gæta sem kæruaðild þeirra gæti byggst á. Hafi kærendum í bréfinu verið gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum varðandi aðild þeirra að málinu. Hinn 10. júní 2003 hafi borist athugasemdir stefnanda með bréfi dags. 6. júní 2003, en aðrir kærendur hafi óskað eftir frekari fresti til að skila sínum athugasemdum sem bárust 26. júní 2003. Af þeim sökum hafi tafist nokkuð að hin endanlega ákvörðun í málinu lægi fyrir, en eins og fram hefur komið hafi hún verið tilkynnt stefnanda með bréfi dags. 14. júlí 2003. Samkvæmt framangreindu hafi ástæður þess að ákvörðun ráðherra lá ekki fyrir innan hins lögbundna úrskurðarfrests verið þær að umhverfisráðuneytið taldi rétt, meðal annars með vísan til rannsóknarreglu stjórnsýslulaganna, að nokkur gagnaöflun færi fram áður en tekin væri afstaða til aðildar stefnanda og annarra kærenda. Eftir að gagnaöflun hafi verið lokið, meðal annars með því að kærendum var gefinn kostur á andmælum, hafi ákvörðun verið tekin eins fljótt og unnt er. Málsmeðferðarreglur stjórnsýslu­laga hafi þannig leitt til þess að ekki hafi verið unnt að virða lögbundna fresti, en ákvörðun hafi legið fyrir eins fljótt og unnt var. IV. Niðurstaða um varnaraðild málsins Kröfur stefnanda í máli þessu beinast að þremur stjórnvaldsákvörðunum stefnda umhverfisráð­herra og einni ákvörðun Umhverfisstofnunar, eins og áður greinir. Tvær af framangreindum þremur ákvörðunum stefnda umhverfisráðherra fela í sér staðfestingu ráðherra, sem stjórnvalds á kærustigi, á tilteknum ákvörðunum Skipulagsstofnunar, en þriðja ákvörðunin frávísun stjórnsýslukæru stefnanda vegna ákvörðunar Umhverfis­stofnunar án þess að efnisleg afstaða hafi verið tekin til hinnar kærðu ákvörðunar í umrætt sinn. Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 leiða varnir byggðar á aðildarskorti til sýknu, ef fallist er á þær. Samkvæmt þessu er það á forræði hvers stefnda fyrir sig hvort höfð er uppi sú vörn að kröfu sé ranglega beint að honum. Samkvæmt umræddri reglu laga nr. 91/1991 verður kröfum stefnanda gegn einstökum varnaraðilum málsins því almennt ekki vísað frá dómi með vísan til þess að þeir hafi ekki hagsmuni af úrslitum málsins, ef aðildarskorti hefur ekki verið haldið fram í málinu af þeirra hálfu. Á þetta í öllu falli ótvírætt við um stefndu Alcoa á Íslandi ehf., Reyðarál ehf. og Fjarðaál sf. sem allir standa utan hins opinbera stjórnkerfis. Hins vegar er óhjákvæmilegt að taka sjálfkrafa til skoðunar hvort varnaraðild hafi verið reifuð nægilega í stefnu með tilliti til dómkrafna og málsástæðna stefnanda svo að dómur verði lagður á málið að þessu leyti, sbr. einkum e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Að því er varðar aðild fjármálaráðherra er ljóst að stefnandi heldur því ekki fram að þessi ráðherra hafi komið að töku þeirra stjórnvaldsákvarðana sem krafist er að verði ómerktar. Í stefnu er í engu vikið að aðkomu þessa stjórnvalds að umræddum ákvörðunum eða aðild þess að málinu skýrð. Er aðild þessa stefnda að málinu því svo vanreifuð að ekki verður hjá því komist að vísa kröfum stefnanda að þessu leyti sjálfkrafa frá dómi. Að því er varðar aðild íslenska ríkisins virðist stefnandi byggja á því að aðkoma ríkisstjórnarinnar að byggingu álvers við Reyðarfjörð, meðal annars með gerð áður­greindra NORAL yfirlýsinga, réttlæti varnaraðild ríkisins að málinu. Venjulegt er að stefna íslenska ríkinu til að þola dóm þegar gerð er krafa um greiðslu fjár úr ríkissjóði, sbr. til hliðsjónar ráðagerð í athugasemdum 5. mgr. 17. gr. þess frumvarps sem varð að lögum nr. 91/1991. Eins og áður segir snýst mál þetta hins vegar um kröfu stefnanda um ómerkingu tiltekinna stjórnvaldsákvarðana og hefur stefnandi meðal annars stefnt umhverfisráðherra, sem tók þrjár af umræddum fjórum stjórnvalds­ákvörðunum, til að þola dóm þessa efnis. Umhverfisráðherra er sjálfstætt stjórnvald og réttilega stefnt til að þola dóm um ómerkingu eigin stjórnvaldsákvarðana. Enda þótt umhverfisráðherra sé einnig einn af fyrirsvarsmönnum íslenska ríkisins þegar um er að ræða ákvörðunarvald um þau málefni sem undir hann heyra – en hið sama má raunar segja um alla handhafa opinbers valds – hefur stefnandi með engum hætti útskýrt hvaða sjálfstæðu réttaráhrif kunni að vera bundin við það að íslenska ríkið þoli dóm um kröfur stefnanda auk umhverfisráðherra. Er málatilbúnaður stefnanda svo óljós um þetta atriði að ekki verður hjá því komist að vísa kröfum stefnanda að þessu leyti sjálfkrafa frá dómi. Að því er varðar aðild stefnda Reyðaráls ehf. (kt. 690103-2570, áður Alcoa á Íslandi ehf.) liggja fyrir gögn í málinu um að 12. mars 2003 hafi nafni Alcoa á Íslandi ehf. verið breytt í Reyðarál ehf. og nafni Reyðaráls ehf. verið breytt í Alcoa á Íslandi ehf. Kennitala stefnda Alcoa á Íslandi ehf. er því 600100-2380 og er óhætt að ganga út frá því að félagið hafi einnig haft þá kennitölu þegar það hét Reyðarál ehf. og sótti um starfsleyfið sem síðan var gefið út 14. mars 2003. Af umræddum gögnum verður þannig ráðið að það var stefnda Alcoa á Íslandi ehf. (kt. 600100-2380), sem fram til 12. mars 2003 bar nafnið Reyðarál ehf., sem sótti um og fékk útgefið til sín starfsleyfið 14. mars 2003. Stefnda Reyðarál ehf. (áður Alcoa á Íslandi ehf.) hefur hins vegar hvorki sótt um né fengið útgefið til sín umrætt starfsleyfi. Að mati dómara kölluðu þessar upplýsingar málsins, sem ekki hefur verið mótmælt af stefnanda, á útskýringar af hans hálfu. Þrátt fyrir þessar upplýsingar hefur stefnandi enga frekari grein gert fyrir því á hvaða grundvelli aðild stefnda Reyðaráls ehf. (áður Alcoa á Íslandi ehf.) að málinu byggist. Verður að telja aðild stefnda Reyðaráls ehf. (áður Alcoa á Íslandi ehf.) að málinu svo vanreifaða að ekki verði hjá því komist að vísa kröfum stefnanda gegn þessum stefnda sjálfkrafa frá dómi. Að því er varðar stefnda Fjarðaál sf. liggur fyrir í gögnum málsins að sótt hefur verið um að áðurgreint starfsleyfi verði fært yfir á nafn félagsins. Með hliðsjón af þessum atvikum gefur varnaraðild þessa aðila ekki tilefni til frekari umfjöllunar. Þá þykir aðild Alcoa á Íslandi ehf. (áður Reyðarál ehf.) ekki gefa tilefni til sérstakrar umfjöllunar að þessu leyti. Eins og málið liggur fyrir þykir ekki heldur ástæða til að fjalla hér sérstaklega um aðild umhverfisráðherra, en í IX. kafla dómsins er tekin afstaða til þess hvort aðild ráðherrans að málinu sé nægileg til að dómur verði lagður á kröfu stefnanda um ógildingu ákvörðunar Umhverfisstofnunar 14. mars 2003 um útgáfu starfsleyfis. Samkvæmt framangreindu verður öllum efniskröfum stefnanda gegn fjármála­ráðherra, íslenska ríkinu og Reyðaráli ehf. (áður Alcoa á Íslandi ehf.) sjálfkrafa vísað frá dómi og standa þá eftir kröfur hans gegn umhverfisráðherra, Alcoa á Íslandi ehf. (áður Reyðarál ehf.) og Fjarðaáli sf. V. Almennar athugasemdir dómara um aðild stefnanda málsins Ekki verður dómur lagður á mál þetta nema sýnt sé að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af kröfum sínum. Er almennt viðurkennt að til þess að aðili teljist hafa lögvarða hagsmuni í þessum skilningi þurfi hann að hafa beina og einstaklingslega hagsmuni af úrlausnaratriði máls. Þegar um er að ræða kröfu um ógildingu stjórnvalds­ákvörðunar ber íslensk dómaframkvæmd þó skýrlega með sér að skilyrðið um „beina hagmuni“ verður ekki skýrt svo fortakslaust að ákvörðun þurfi að vera beint til aðila. Geta raunveruleg áhrif stjórnvaldsákvörðunar á hagsmuni manns, sem beint er til annars aðila, þannig verið grundvöllur þess að hann teljist eiga lögvarða hagsmuni fyrir dómstólum. Um lögvarða hagsmuni vegna kröfu um ógildingu ákvarðana stjórnvalda verður hins vegar eftir sem áður að gera þá kröfu að hagsmunir viðkomandi séu einstaklingslegir. Verður úrlausnaratriði þannig hafa verulega þýðingu fyrir málsaðila umfram það sem almennt gerist. Geta því atriði eins og ríkisfang, heimilisfesti eða dvalarstaður ekki nægt til að aðili teljist hafa lögvarða hagsmuni fyrir dómstólum þegar stjórnvaldsákvörðun hefur óveruleg áhrif á allan þorra manna á ákveðnu svæði eða landinu öllu. Myndi önnur niðurstaða fela í sér reglu um að „hver eigi sök sem vill“, þegar um er að ræða ákvarðanir stjórnvalda, sem fær ekki samræmst almennt viðurkenndum meginreglum íslensks réttarfars. Þegar um er að ræða stjórnvaldsákvörðun nýtur sá, sem af einhverjum ástæðum hefur átt aðild að máli fyrir stjórnvaldi, ótvíræðs réttar til að bera undir dómstóla hvort stjórnvöld hafi látið hann njóta laga við meðferð og úrlausn málsins. Með þessum hætti leiðir rýmkuð aðild að málum innan stjórnsýslunnar, á grundvelli sérstakra lagaheimilda, til þess að fleiri aðilar en ella geta borið stjórnvaldsákvörðun undir dómstóla, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar 12. júní 2002 í máli nr. 231/2002. Dómari telur hins vegar ástæðu til að árétta að reglum um aðild að dómsmálum hefur ekki verið breytt í tilefni af réttarþróun á sviði innlends og alþjóðlegs umhverfisréttar, sem m.a. stendur til þess að rýmkað sé um aðild almennings að ákvarðanatöku á sviði umhverfismála. Verður og að telja að lögskýringu í þá átt að slaka beri á kröfum til lögvarinna hagsmuna fyrir dómstólum með vísan til réttarþróunar á sviði umhverfismála hafi verið hafnað af Hæstarétti með framangreindum dómi 12. júní 2002. Hefur sú niðurstaða fordæmisgildi í máli þessu. Eins og áður greinir getur aðild að stjórnsýslumáli grundvallast á sérstökum ákvæðum laga, sem fela í sér rýmkun á aðild að tilteknum málaflokki innan stjórnsýslunnar eða veita almenningi takmörkuð réttindi við meðferð máls, til dæmis rétt til að gera athugasemdir við auglýstar tillögur eða áætlanir, eins og meðal annars greinir í 4. mgr. 10. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og 4. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Sá sem aðild hefur átt að máli á grundvelli sérstakra lagaheimilda sem þessara nýtur ótvíræðs réttar til að bera undir dómstóla hvort stjórnvöld hafi látið hann njóta laga við meðferð og úrlausn málsins, til dæmis hvort honum hefur verið gefinn kostur á að gera athugasemdir með fullnægjandi hætti með tilliti til kynningar og upplýsingagjafar vegna fyrirhugaðrar ákvörðunar. Er jafnframt ljóst að brot á réttindum slíks aðila við meðferð máls geta verið þess eðlis að ógilding stjórnvaldsákvörðunar komi til greina. Með þessu er hins vegar ekki tekin afstaða til hvort einstaklingur eða lögaðili, sem gert hefur athugasemdir undir meðferð stjórnsýslumáls á grundvelli sérstakrar lagaheimildar, geti borið fyrir sig hvers konar annmarka á viðkomandi stjórnvaldsákvörðun, til dæmis annmarka sem lúta að endanlegu efni ákvörðunar. Athugast í því sambandi að einstaklingur eða lögaðili, sem gerir athugasemdir við fyrirhugaða stjórnvalds­ákvörðun á grundvelli sérstakrar lagaheimildar, telst almennt ekki við­takandi eða beinn þolandi ákvörðunar samkvæmt almennum reglum. Samkvæmt framangreindu kæmi til greina að telja aðila, sem gert hefur athugasemdir við stjórnvaldsákvörðun með þeim hætti sem áður greinir, aðeins geta byggt kröfu um ógildingu ákvörðunar á því að brotið hafi verið á þeim takmörkuðu réttindum sem hann naut undir meðferð málsins. Slíkur aðili gæti þannig ekki byggt kröfu um ógildingu á því að stjórnvaldsákvörðun væri haldin efnislegum annmörkum, til dæmis að hún væri ólögmæt eða byggð á ómálefnalegum sjónarmiðum. Dómari telur hins vegar að túlka verði forsendur dóms Hæstaréttar 22. janúar 2004 í máli nr. 280/2003 á þá leið að þar sé mögulegri lögskýringu í þessa veru hafnað, að minnsta kosti að því er varðar réttarstöðu þeirra sem gera athugasemdir við auglýsta skýrslu um mat á umhverfisáhrifum. Að því er varðar mat á umhverfisáhrifum verður þannig að telja að fyrir dómstólum geti aðilar, sem gert hafa athugasemdir við matsskýrslu, borið fyrir sig hvers konar annmarka á úrskurði Skipulagsstofnunar um þetta efni með sambærilegum hætti og þeir sem höfðu fulla aðildarstöðu við meðferð stjórnsýslu­málsins, meðal annars annmörkum sem lúta að ólögmæti ákvörðunar og ómálefna­legum sjónarmiðum að baki henni. VI. Niðurstaða um úrskurð umhverfisráðherra 14. mars 2002 Eins og áður greinir gerði stefnandi athugasemdir með bréfi 25. júní 2001 við skýrslu Reyðaráls ehf. (nú stefnda Alcoa á Íslandi ehf.) um mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðrar byggingar 420.000 tonna álvers og 233.000 tonna rafskauta­verksmiðju þegar skýrslan var til meðferðar hjá Skipulagsstofnun. Liggur þannig fyrir að stefnandi var með þessum hætti aðili að því stjórnsýslumáli sem lyktaði með úrskurði Skipulagsstofnunar 31. ágúst 2001, þar sem fallist var á umrædda framkvæmd með ákveðnum skilyrðum. Í máli þessu krefst stefnandi þó ekki ómerkingar á úrskurði Skipulagsstofnunar heldur ómerkingar á úrskurði umhverfis­ráðherra 14. mars 2002 sem kveðinn var upp í tilefni af kæru Náttúruverndarsamtaka Austurlands og Náttúrverndarsamtaka Íslands á áðurnefndum úrskurði Skipulags­stofnunar. Ágreiningslaust er að stefnandi var ekki meðal þeirra sem kærðu úrskurðinn til ráðherra. Að mati dómara getur það ekki haft þýðingu fyrir aðild stefnanda að umræddu stjórnsýslu­máli að athugasemdir hans fylgdu með stjórnsýslukæru Náttúrverndar­samtaka Austurlands til ráðherra. Samkvæmt þessu verður að ganga út frá að stefnandi hafi ekki verið aðili að því stjórnsýslumáli sem lyktaði með úrskurði umhverfisráðherra 14. mars 2002. Verður aðild hans í þessum þætti máls þessa því ekki reist á beinni aðild hans að framangreindu kærumáli. Við upphaf aðalmeðferðar málsins lagði stefnandi fram framsal Náttúruverndar­samtaka Austurlands dagsett 15. nóvember 2004, þar sem samtökin framselja honum öll réttindi og skyldur vegna framangreindrar kæru samtakanna til umhverfisráðherra. Er í framsalinu sérstaklega meðtalinn réttur samtakanna til höfðunar máls gegn stefndu máls þessa. Jafnvel þótt fallist væri á það með stefnanda að réttindi þau, sem hér um ræðir, séu framseljanleg, liggur fyrir að umrætt framsal fór ekki fram fyrr en eftir höfðun málsins. Gegn mótmælum stefndu getur stefnandi ekki grundvallað aðild sína nú á þeirri málsástæðu að nefnd samtök hafi framselt honum réttindi sín vegna umrædds stjórnsýslumáls, en framangreindu framsali hefur verið mótmælt sem þýðingar­lausu af stefndu. Kemur því til skoðunar hvort stefnandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta af úrskurði umhverfisráðherra 14. mars 2002 samkvæmt almennum reglum. Um lögvarða hagsmuni sína almennt hefur stefnandi vísað til þess að sem íbúi Fjarðar­­byggðar hafi hann persónulegra hagsmuna að gæta af umræddum úrskurði og þeirri framkvæmd sem hann fjalli um. Þannig sé land það þar sem umrætt álver eigi að rísa hluti landsvæðis, sem sé útivistarsvæði stefnanda, auk þess sem hann hafi fjallað um svæðið í ræðu og riti og sinnt þar leiðsögn ferðamanna. Dómari telur stefnanda ekki hafa sýnt fram á með framlagningu gagna eða öðrum hætti að umræddur úrskurður hafi haft beina eða verulega þýðingu fyrir atvinnu­hagsmuni hans. Telur dómari að tengsl stefnanda við umræddan úrskurð umhverfis­ráðherra 14. mars 2002 leiði eingöngu af heimilisfesti og búsetu hans í því sveitar­félagi þar sem hinar matsskyldu framkvæmdir eru ráðgerðar. Hefur stefnandi ekki sýnt fram á að hann eigi ríkari hagsmuna að gæta vegna úrskurðar umhverfisráðherra 14. mars 2002 en almennt gerist um íbúa þess landssvæðis sem hér um ræðir. Samkvæmt öllu framangreindu hefur stefnandi ekki sýnt fram á að hann eigi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um kröfu um ómerkingu úrskurðar umhverfisráðherra 14. mars 2002. Verður þessari kröfu stefnanda því sjálfkrafa vísað frá dómi. VII. Athugasemdir dómara við málsástæður stefnanda vegna kröfu um ómerkingu úrskurðar umhverfisráðherra 15. apríl 2003 Eins og áður greinir um málsástæður og lagarök stefnanda byggir hann kröfu sína um ómerkingu úrskurðar umhverfisráðherra 15. apríl 2002, þar sem staðfest var ákvörðun Skipulagsstofnunar 20. desember 2002, um að nýtt álver með allt að 322.000 tonna framleiðslugetu þyrfti ekki að sæta umhverfismati, á því að sú breyting á áður metnum framkvæmdum hafi átt að sæta umhverfismati. Stefnandi hefur einkum vísað til þess að umrædd breyting hafi verið þess eðlis að skylt hafi verið að líta svo á að um nýja sjálfstæða framkvæmd væri að ræða sem hafi fortakslaust átt að sæta umhverfismati, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000. Telur stefnandi að úrskurður umhverfisráðherra 15. apríl 2003 hafi af þessum ástæðum verið andstæður lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Stefnandi kærði umrædda ákvörðun Skipulagsstofnunar til umhverfisráðherra 20. janúar 2003. Í samræmi við þau sjónarmið sem áður greinir í V. kafla dómsins hefur stefnandi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um hvort farið hefur verið að lögum við meðferð og úrlausn stjórnsýslukæru hans. Með vísan til þessara sjónarmiða verður fallist á að stefnandi geti krafist ómerkingar umrædds úrskurðar á þeim grundvelli sem áður greinir. Við munnlegan flutning málsins var því hreyft af stefnanda að málsmeðferð Skipulagsstofnunar, sem leiddi til ákvörðunar stofnunarinnar, hefði verið ábótavant í ýmsum atriðum. Þannig var bent á að í tilkynningu Reyðaráls ehf. (nú stefnda Alcoa á Íslandi ehf.) 22. nóvember 2002 um fyrirhugaðar breytingar á áður metnum framkvæmdum séu tilgreindir sex tæknilegir valkostir við hreinsun útblásturs, meðal annars á útblæstri brennisteinsdíoxíðs og loftkennds flúoríðs (HF), án þess að nokkur afstaða sé tekin til þess hvern af umræddum kostum framkvæmdaraðilinn hyggist nota. Hafi verið boðað í umsókninni að mögulegur hreinsibúnaður yrði kannaður með tilliti til tæknilegra eiginleika og hagkvæmni þegar niðurstöður loftdreifingarmælinga lægju fyrir í desember 2002. Hafi Skipulagsstofnun þannig tekið tilkynningu Reyðar­áls ehf. til efnislegrar umfjöllunar þótt alls ekki hafi legið fyrir hvernig framkvæmdaraðilinn hygðist standa að mengunarvörnum. Hafi í þessu sambandi verið látið sitja við almenna yfirlýsingu framkvæmdaraðilans um að uppfylla að minnsta kosti þær kröfur, sem þegar höfðu verið settar, með skilgreiningu þynningarsvæðis umhverfis það álver, sem áður hafði verið fyrirhugað, án þess að nákvæmlega hafi verið gerð grein fyrir því hvernig og með hvaða aðferðum þetta átti að gera eða mismunandi aðferðir, sem til greina komu, bornar saman. Í stefnu málsins kemur ekki fram að byggt sé á því að framangreindir annmarkar á málsmeðferð Skipulagsstofnunar hafi átt að leiða til þess að umhverfisráðherra ómerkti ákvörðun stofnunarinnar og legði fyrir hana að taka málið til meðferðar á nýjan leik. Í stjórnsýslu­kæru stefnanda á umræddri ákvörðun Skipulagsstofnunar til umhverfisráðherra 20. janúar 2003, sem er meðal framlagðra gagna málsins, er vakin athygli á því að umsókn stefnda Reyðaráls ehf. sé óljós að því er varðar mengunar­varnir. Engu að síður er þess ekki krafist í stjórnsýslukærunni að ráðherra ómerki meðferð Skipulagsstofnunar og leggi fyrir stofnunina að vísa henni frá eða taka hana að nýju til meðferðar, heldur er þess eingöngu krafist að umhverfisráðherra ákveði að hið nýja álver sæti sjálfstæðu mati á umhverfis­áhrifum. Samkvæmt framangreindu verður ekki talið að málsástæða um annmarka á málsmeðferð Skipulagsstofnunar komi fram í stefnu eða öðrum gögnum málsins. Gegn mótmælum stefndu kemst þessi málsástæða því ekki að í málinu. Kemur þar af leiðandi ekki til skoðunar hvaða þýðingu skortur á aðild Skipulagsstofnunar að málinu hafi að þessu leyti. Af málatilbúnaði stefnanda verður ekki ráðið að hann byggi á því að stefndi umhverfisráðherra hafi brotið reglur við þá málsmeðferð sem leiddi til úrskurðar hans 15. apríl 2003. Samkvæmt framangreindu eru hvorki málsmeðferð Skipulagsstofnunar né stefnda umhverfisráðherra til umfjöllunar í þessum þætti málsins. VIII. Niðurstaða um kröfu stefnanda um ómerkingu úrskurðar umhverfisráðherra 15. apríl 2003 Samkvæmt lögum nr. 106/2000 eru framkvæmdir, sem sæta skulu mati á umhverfisáhrifum, annað hvort fortakslaust matsskyldar, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna, eða aðeins matsskyldar samkvæmt nánari ákvörðun Skipulagsstofnunar, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, en auk þess getur ráðherra að ákveðnum skilyrðum uppfylltum mælt fyrir í reglugerð að enn aðrar framkvæmdir skulir háðar mati, sbr. 7. gr. laganna. Ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 er reist á þeim rökum að tilteknar framkvæmdir séu þess eðlis að þær hafi óhjákvæmilega umtalsverð umhverfisáhrif í skilningi laganna og sé því ekki rúm fyrir mat stjórnvalds að þessu leyti, sbr. einnig aðfaraorð tilskipunar nr. 85/337/EBE um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið. Ágreiningslaust er að bygging álvers falli undir 1. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000, sbr. 5. tölulið 1. viðauka laganna. Er óhætt að ganga út frá því að meginástæða þess að málmbræðslur, þar á meðal álver, þurfi fortakslaust að sæta umhverfismati samkvæmt lögunum, sé fyrst og fremst losun ýmissa skaðlegra efna í umhverfið, sbr. meðal annars brennisteinsdíoxíð og loftkennt flúoríð (HF) þegar um er að ræða álver. Samkvæmt þessu er búnaður álvers til að lágmarka og hreinsa útblástur mengandi efna meðal þeirra atriða sem úrslitaþýðingu hefur fyrir áhrif álvers á umhverfið. Það leiðir því af hlutarins eðli að í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum álvers verður ekki undir neinum kringumstæðum litið fram hjá búnaði álversins til að lágmarka og hreinsa útblástur mengandi efna, sbr. einnig nánari reglur um gerð matsskýrslu í e. lið 18. gr. reglugerðar nr. 671/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Andstætt ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 byggist ákvæði 1. mgr. 6. gr. laganna á því að þær framkvæmdir, sem þar er vísað til, kunni aðeins að hafa umtalsverð umhverfisáhrif áhrif og sé því nauðsynlegt að meta hverja og eina framkvæmd með tilliti til þess hvort ástæða sé til umhverfismats. Við skýringu 1. mgr. 6. gr. laganna ber að hafa í huga þann megintilgang laga nr. 106/2000 að með umhverfismati sé leitt í ljós, eftir því sem kostur er, hver raunveruleg áhrif framkvæmdar muni verða á umhverfið, áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmdum, sbr. athugasemdir við 1. gr. þess frumvarps sem varð að lögum nr. 106/2000 svo og einnig aðfaraorð áðurgreindrar tilskipunar nr. 85/337/EBE. Dómari leggur áherslu á að ekki þarf að liggja fyrir að framkvæmd „muni“ hafa umtalsverð umhverfisáhrif svo að skylt sé að framkvæmd sæti mati á umhverfisáhrifum samkvæmt ákvæði 1. mgr. 6. gr. laganna. Samkvæmt ótvíræðu orðalagi ákvæðisins er nægilegt að framkvæmd „geti“ haft slík áhrif. Er því ljóst að umhverfismat „skal“ fara fram, ef vafi leikur á því hvort framkvæmd muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Er þessi lögskýring einnig í samræmi við þá varúðarreglu umhverfisréttar sem liggur til grundvallar lögum nr. 106/2000 og þeim tilskipunum Evrópska efnahagssvæðisins sem lögunum er ætlað að leiða í íslenskan rétt. Í 1. mgr. 6. gr. laganna er vísað til framkvæmda sem taldar eru upp í 2. viðauka laganna og eru þessar framkvæmdir aðeins háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða stað­setningar, eins og áður greinir. Meðal þeirra framkvæmda sem taldar eru upp í 2. viðauka laganna eru allar breytingar og viðbætur við framkvæmdir samkvæmt 1. og 2. viðauka sem þegar hafa verið leyfðar, framkvæmdar eða eru í framkvæmd og kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Í 3. viðauka laganna eru sett fram nánari viðmið um hvernig skuli staðið að mati á framkvæmdum samkvæmt 2. viðauka og þar með ákvörðun um hvort þær skuli sæta umhverfismati. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laganna er sú skylda lögð á framkvæmdaraðila að tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaðar framkvæmdir sem tilgreindar eru í 2. viðauka og ákveður stofnunin hvort framkvæmdin skuli háð mati samkvæmt lögunum samkvæmt málsmeðferð sem nánar er mælt fyrir um í málsgreininni. Í málinu er óumdeilt að fyrirhuguð bygging upphaflegs álvers og rafskauta­verksmiðju stefnda Reyðaráls hf. (nú stefnda Alcoa á Íslandi ehf.), sem Skipulags­stofnun féllst á 31. ágúst 2001, féll undir 5. tölulið 1. viðauka laga nr. 106/2000 og var því fortakslaust háð mati á umhverfisáhrifum, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna. Er gildi þeirrar ákvörðunar Skipulagsstofnunar, sem staðfest var með úrskurði umhverfis­ráðherra 14. mars 2002, ekki frekar til umfjöllunar í málinu, eins áður greinir í VI. kafla dómsins. Reyðarál ehf. (nú stefnda Alcoa á Íslandi ehf.) tilkynnti Skipulagsstofnun um breytingu á umræddri framkvæmd með bréfi 22. nóvember 2002, en samstæðan „Alcoa“ var þá orðin eigandi félagsins að því er fram kemur í bréfinu. Að mati dómara getur breyting á eignarhaldi Reyðaráls ehf. (nú stefnda Alcoa á Íslandi ehf.) ekki haft þýðingu um það atriði hvort skylt var að láta umrædda fram­kvæmd sæta umhverfismati. Þá gat það ekki haft þýðingu að þessu leyti að starfsleyfi hafði ekki verið gefið út vegna upphaflegu framkvæmdarinnar. Af umræddu bréfi Reyðaráls ehf. (nú stefnda Alcoa á Íslandi ehf.) og meðfylgjandi samanburðarskýrslu félagsins, svo og gögnum málsins í heild, verður ráðið að hinn nýi eigandi félagsins hafi gengið inn í svokallað Noral-verkefni þegar Norsk Hydro taldi sig ekki geta staðið við gerðar tímaáætlanir verkefnisins. Liggur fyrir að ráðgert var að hin nýja verksmiðja framleiddi ál, líkt og sú verksmiðja sem áður hafði sætt umhverfismati, hún yrði á sama byggingarreit, styddist við sömu innviði - svo sem vegakerfi, hafnarmannvirki og raforkukerfi - og þjónaði sama efna­hags­lega og samfélagslega hlutverki. Þær meginbreytingar, sem koma fram í áðurnefndu bréfi Reyðaráls ehf. (nú stefnda Alcoa á Íslandi ehf.) eru í fyrsta lagi þær að í stað álvers með árlega framleiðslugetu allt að 420.000 tonnum og rafskauta­verksmiðju er fyrirhugað að reisa eingöngu álver í einum áfanga með árlega framleiðslu­getu allt að 322.000 tonnum, en rafskaut verði flutt til landsins. Sú staðreynd að hætt var við að reisa rafskautaverksmiðju gat að mati dómara valdið erfiðleikum við samanburð eldri framkvæmdar og hins nýja fyrirhugaða álvers og þannig leitt til sérstakra krafna Skipulagsstofnunar til gagna- og upplýsingaöflunar framkvæmdaraðilans svo og nánari útskýringa hans. Hins vegar telur dómari að þetta atriði hafi ekki falið í sér að skylt hafi verið að líta á hið nýja álver sem sjálfstæða framkvæmd, óskylda þeirri fyrri, og því fortakslaust matskylda samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna. Þá telur dómari ekki að þessi breyting hafi, út af fyrir sig, verið til þess fallin að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Sama niðurstaða á við um þá breytingu að minnka árlega framleiðslugetu áls úr 420.000 tonnum í 322.000 tonn. Í öðru lagi er sú meginbreyting boðuð í tilkynningu Reyðaráls ehf. (nú stefnda Alcoa á Íslandi ehf.) 22. nóvember 2002 og meðfylgjandi samanburðarskýrslu að framleiðslutækni verði önnur en áður hafði verið fyrirhuguð, enda þótt eftir sem áður eigi að nota rafgreiningu súráls við framleiðsluna. Einnig er gert ráð fyrir að við hreinsun útblásturs verði hugsanlega beitt annarri tækni en áður hafði verið ráðgert. Það er álit dómara að í þeim gögnum sem Reyðarál ehf. (nú stefnda Alcoa á Íslandi ehf.) lagði fram 22. nóvember 2002, til stuðnings umsókn sinni um að breytingar á umræddri framkvæmd þyrftu ekki að sæta umhverfismati, komi í raun engin efnisleg afstaða framkvæmdaraðila fram til þess atriðis hvaða aðferð eigi að beita við hreinsun útblásturs. Hins vegar eru ýmsir kostir nefndir til sögunnar án þess að þeir séu bornir saman með tilliti til mögulegra umhverfisáhrifa. Bera gögn málsins raunar með sér að á þessum tíma hafi framkvæmdaraðilinn talið slíkan samanburð ómögulegan vegna skorts á veðurfarslegum upplýsingum. Framkvæmdaraðilinn setti svo fram ítarlegri tillögur um hreinsun útblásturs tæpum mánuði síðar eða 17. desember 2002. Af þessum tillögum, sem settar voru fram aðeins þremur dögum áður en Skipulagsstofnun tók ákvörðun sína um matsskyldu, er ljóst að þær aðferðir, sem þá hafði verið ákveðið að beita við hreinsun útblástur, voru í meginatriðum ólíkar því sem áður hafði verið gert ráð fyrir, meðal annars með þeim afleiðingum að útblástur í andrúmsloft á flúoríði jókst verulega og útblástur á brennisteinsdíoxíði margfaldaðist. Jafnvel þótt miðað sé við heildarlosun mengandi efna (en ekki losun á hvert framleitt tonn) verður þannig ráðið af gögnum málsins að losun hins breytta álvers á brenni­steins­díoxíði í andrúmsloftið hafi að lokum verið áætluð 3864 árstonn í stað 828 árstonna áður (aðeins 190 tonna ef ekki er tekið tillit til útblásturs brennisteinsdíoxíðs frá áður ráðgerðri rafskautaverksmiðju) og losun flúoríðs áætluð 78,8 árstonn í stað 54,6 árstonna áður. Dómari telur rétt að rifja upp að meginástæða þess að málmbræðslur, líkt og álver, þurfa fortakslaust að sæta umhverfismati samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 er sú losun skaðlegra efna í umhverfið sem þeim fylgir. Af tilkynningu Reyðaráls ehf. (nú stefnda Alcoa á Íslandi ehf.) 22. nóvember 2002 og upplýsingum sem félagið lagði síðar fram verður ekki annað ráðið en að öðrum og ólíkum aðferðum eigi að beita við hreinsun útblástur álversins samanborið við það álver sem áður hafði sætt mati á umhverfisáhrifum. Var hér um að ræða þátt í starfsemi álversins sem hafði úrslitaþýðingu um áhrif þess á umhverfið, eins og áður segir. Með hliðsjón af því að álver eru fortakslaust matsskyld samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000, einkum vegna útblásturs skaðlegra efna sem þeim fylgir, hlaut veruleg breyting á aðferðum og búnaði álversins til hreinsunar útblásturs að „geta“ haft umtalsverð áhrif á umhverfið í skilningi 1. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000. Verður þetta einnig ráðið af því að sú niðurstaða Skipulagsstofnunar, að láta umrædda breytingu á hinu fyrirhugaða álveri ekki sæta umhverfismati, fól í sér að fyrirhugaðar aðferðir álversins við hreinsun útblásturs voru ekki látnar sæta umhverfismati, en slík niðurstaða er í berlegu ósamræmi við tilgang laga nr. 106/2000 og áðurnefnd grunnrök 1. mgr. 5. gr. laganna sem hafa þýðingu við skýringu 1. mgr. 6. gr., eins og nú hefur verið gerð grein fyrir. Samkvæmt framangreindu er það álit dómara að ekki hafi verið fullnægt skilyrðum 1. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 til þess að ákveða að sú breyting á framkvæmd Reyðaráls ehf. (nú stefnda Alcoa á Íslandi ehf.), sem tilkynnt var 22. nóvember 2002, þyrfti ekki að sæta sérstöku mati á umhverfisáhrifum. Er úrskurður umhverfisráðherra 15. apríl 2003, sem felur í sér staðfestingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar 20. desember 2002 um þetta atriði, því andstæður lögum. Verður og að telja umræddan efnisannmarka á stjórnvaldsákvörðun ráðherra verulegan. Ekki hafa verið lögð fram gögn um að sérstakir hagsmunir, svo sem framvinda umræddrar framkvæmdar, sé því til fyrirstöðu að fallist sé á kröfu stefnanda um ómerkingu úrskurðar ráðherra. Af þessum ástæðum verður því fallist á kröfu stefnanda um ómerkingu úrskurðarins. IX. Niðurstaða um ákvörðun Umhverfisstofnunar 14. mars 2003 Eins og áður greinir gaf Umhverfisstofnun út starfsleyfi til Reyðaráls ehf. (nú stefnda Alcoa á Íslandi ehf.) 14. mars 2003. Stefnandi kærði ákvörðun Umhverfisstofnunar til umhverfisráðherra 28. mars 2003. Vísaði umhverfisráðherra kæru stefnanda frá með ákvörðun 14. júlí 2003. Stefnandi byggir kröfu sína um ómerkingu ákvörðunar Umhverfisstofnunar bæði á því að um hafi verið að ræða efnislega annmarka, svo sem að starfsleyfið brjóti gegn gildandi reglum um mengunarvarnir, og að brotið hafi verið gegn málsmeðferðarreglum í veigamiklum atriðum. Hafi Umhverfisstofnun þannig brugðist rannsóknarskyldu sinni og auk þess verið óheimilt að auglýsa tillögu að starfsleyfi áður en niðurstaða Skipulagsstofnunar lá fyrir um skyldu til að láta umhverfismat fara fram. Ekki heldur hafi verið uppfyllt skilyrði til að auglýsa tillöguna fyrr en Reyðarál ehf. (nú stefnda Alcoa á Íslandi ehf.) hafði lagt fram gögn um veðurrannsóknir, en á grundvelli þessara gagna setti félagið fram endanlegar hugmyndir sínar og útreikninga um hreinsun útblásturs, eins og áður er rakið. Þá vísar stefnandi einnig til þess, eins og áður segir, að Reyðarál ehf. (nú stefnda Alcoa á Íslandi ehf.) hafi breytt forsendum umsóknar sinnar eftir að tillaga um starfsleyfi var auglýst, og raunar eftir að frestur til að gera athugasemdir við tillöguna hafði runnið út, með því að óska eftir því að mörk mengunar loftkennds flúoríðs yrðu hækkuð helming, það er úr 0,2 μg/m3 í 0,3 μg/m3. Hafi Umhverfisstofnun verið skylt að auglýsa að nýju tillögu að starfsleyfi, eins og hún lá endanlega fyrir eftir breytingar, og gefa stefnanda og öðrum kost á því að gera athugasemdir lögum samkvæmt. Einnig byggir stefnandi á því að Umhverfisstofnun hafi virt að vettugi málsmeðferðarfresti og rétt stefnanda til upplýsinga. Í málinu liggur ekki fyrir að stefndi umhverfisráðherra hafi staðfest umrædda ákvörðun Umhverfisstofnunar með einum eða öðrum hætti. Þvert á móti er komið fram að stefndi umhverfisráðherra vísaði kæru stefnanda 28. mars 2002 frá án efnislegar umfjöllunar og tók þannig enga afstöðu til efnislegrar ákvörðunar eða málsmeðferðar Umhverfisstofnunar. Eins og áður greinir hefur stefnandi einnig uppi kröfu um ómerkingu þessarar ákvörðunar stefnda umhverfisráðherra og er nánar fjallað um kröfuna í X. kafla dómsins. Jafnvel þótt fallist væri á þessa kröfu stefnanda gæti það þó ekki leitt til þess að stefndi umhverfisráðherra teldist hafa staðfest ákvörðun Umhverfisstofnunar með þeim afleiðingum að nægilegt hafi verið að stefna umhverfisráðherra einum til að þola dóm um ómerkingu ákvörðunar stofnunarinnar 14. mars 2003. Samkvæmt framangreindu beinist krafa stefnanda í þessum þætti málsins að ákvörðun Umhverfisstofnunar sem ekki hefur verið staðfesti af stefnda umhverfis­ráðherra. Umhverfisstofnun hefur þrátt fyrir þetta ekki verið stefnt til að þola dóm í málinu. Af þessum sökum er óhjákvæmilegt að vísa framangreindri kröfu stefnanda sjálfkrafa frá dómi. X. Niðurstaða um ákvörðun umhverfisráðherra 14. júlí 2003 Eins og áður greinir kærði stefnandi ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfis 14. mars 2003 til umhverfisráðherra með bréfi dagsettu og mótteknu 28. sama mánaðar. Með bréfi ráðuneytisins 9. maí 2003 var stefnanda tilkynnt að úrskurður ráðuneytisins um stjórnsýslukæru hans gæti ekki legið fyrir innan fjögurra vikna, en áætlað væri að afgreiða málið fyrir 23. maí 2003. Með bréfi 2. júní 2003, eða rúmum níu vikum eftir móttöku kæru stefnanda, var frávísun kærunnar boðuð vegna skorts stefnanda á heimild til kærunnar og stefnanda gefinn kostur á andmælum. Með bréfi ráðuneytisins 14. júlí 2003 var stefnanda tilkynnt um ákvörðun ráðherra um að vísa kæru hans frá. Voru þá liðnar rúmar 15 vikur frá því ráðuneytið móttók stjórnsýslukæru stefnanda. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, eins og þeim var breytt með lögum nr. 164/2002, skal Umhverfisstofnun gefa út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun og talinn er upp í fylgi­skjali með lögunum, en undir viðaukann fellur meðal annars rekstur álvera. Samkvæmt 3. mgr. greinarinnar skal Umhverfisstofnun vinna tillögur að starfsleyfi og auglýsa opinberlega hvers efnis þær eru og hvar megi nálgast þær. Heimilt er að gera skriflegar athugasemdir við tillögur Umhverfisstofnunar innan átta vikna frá auglýsingu. Samkvæmt 4. mgr. greinarinnar skal Umhverfisstofnun, innan fjögurra vikna frá því að frestur til að gera athugasemdir við tillögur að starfsleyfi rann út, taka ákvörðun um útgáfu starfsleyfis. Skal umsækjanda um starfsleyfi og þeim, sem athugasemdir hafa gert, tilkynnt um afgreiðsluna. Í 2. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1998 segir að kæra megi ákvarðanir Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfa samkvæmt 6. gr. til fullnaðarúrskurðar ráðherra innan tveggja vikna frá því stofnunin tekur þær. Samkvæmt 3. mgr. greinarinnar skal ráðherra kveða upp úrskurð svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en fjórum vikum eftir að honum berst mál í hendur. Sé mál viðamikið og fyrirsjáanlegt að afgreiðsla taki lengri tíma skal tilkynna hlutaðeigandi það og tiltaka afgreiðslufrest sem aldrei skal þó vera lengri en átta vikur. Af orðalagi framangreindra ákvæða verður engin ályktun dregin um kæruheimild þeirra sem gert hafa athugasemdir við auglýsta tillögu að starfsleyfi samkvæmt 6. gr. laga nr. 7/1998. Kemur því fyrst til skoðunar hvort leiðbeiningar um lögskýringu með hliðsjón af þessu álitaefni sé að finna í tiltækum lögskýringagögnum. Í því frumvarpi sem varð að lögum nr. 7/1998 var upphaflega gert ráð fyrir að heimilt væri að vísa ágreiningi um ákvörðun yfirvalda, annarra en umhverfisráðherra, til sérstakrar úrskurðarnefndar, sbr. 31. gr. frumvarpsins. Í athugasemdum við frum­varpið var ekki sérstaklega vikið að því hverjir gætu skotið málum til úrskurðar­nefndarinnar, en vísað til þess að greinin væri að mestu samhljóða 26. gr. þágildandi laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðishætti. Í tíð þeirra laga hafði tíðkast sú framkvæmd á grundvelli þágildandi stjórnvaldsfyrirmæla, sbr. einkum 2. mgr. 72. gr. og 65. gr. mengunarvarnareglugerðar nr. 48/1994, eins og þessum ákvæðum var breytt með reglugerð nr. 26/1997, að þeim sem gert hafði athugasemdir við auglýstar tillögur Hollustuverndar ríkisins um starfsleyfi var heimilt að kæra álit stjórnar stofnunarinnar til sérstakrar úrskurðarnefndar samkvæmt nefndri 26. gr. laganna. Við umfjöllun um það frumvarp sem varð að lögum nr. 7/1998 gerði meirihluti umhverfisnefndar Alþingis tillögu að þeirri breytingu á ákvæðum frumvarpsins um málsmeðferð og úrskurði, að í stað kæru til sérstakrar úrskurðarnefndar væri heimilt að kæra ákvarðanir um útgáfu starfsleyfa samkvæmt 6. gr. frumvarpsins til fullnaðarúrskurðar ráðherra innan tveggja vikna frá því ákvörðunin var tekin. Þessi breytingatillaga meirihluta nefndarinnar varð að lögum. Í áliti meirihluta umhverfisnefndar, sem fylgdi framangreindri breytingatillögu, segir að gert sé ráð fyrir að unnt verði að kæra ákvarðanir um útgáfu starfsleyfa, sbr. 6. gr. frumvarpsins, til ráðherra. Segir að nefndinni þyki þetta fyrirkomulag vera meira í samræmi við þróun þá sem orðið hafi í stjórnsýslunni undanfarin ár og þá meginreglu að mál sem snerti mikilvæga hagsmuni fái vandaða meðferð innan stjórnsýslunnar og að þar sé möguleiki á endurskoðun með stjórnsýslukæru. Einnig hafi verið bent á nauðsyn þess, á grundvelli jafnræðisreglu stjórnsýslulaganna, að allar stjórnsýslukærur, er varði sömu efnisreglur, séu kæranlegar til sama úrskurðaraðila. Í ræðum flutningsmanns frumvarpsins, Guðmundar Bjarnasonar þáverandi umhverfis­ráðherra, og fyrirsvarsmanns meirihlutaálits umhverfisnefndar, Ólafs Arnar Haralds­sonar, þáverandi formanns umhverfisnefndar, koma fram athugasemdir um mikilvægi þess að tryggja almenningi rétt til að gera athugasemdir við tillögur að starfsleyfi. Hins vegar kemur ekki fram í þessum gögnum afstaða þessara manna til þess hvort almenningur, sem gert hefur athugasemdir við auglýsta tillögu um starfsleyfi, skuli hafa rétt til stjórnsýslukæru til ráðherra og þá með hvaða hætti. Samkvæmt framangreindu skera lögskýringagögn ekki úr um hvernig skýra skuli 2. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1998 með tilliti til kæruheimildar þeirra aðila sem gert hafa athuga­semdir við auglýsta tillögu Umhverfisstofnunar um starfsleyfi samkvæmt 6. gr. laganna. Kemur næst til skoðunar hvort venja hafi myndast um heimild til stjórnsýslu­kæru til ráðherra að þessu leyti líkt og stefnandi málsins heldur fram. Í málinu hefur verið lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar, sem starfaði samkvæmt áðurnefndri 26. gr. laga nr. 81/1988, þar sem fjallað var um stjórnsýslu­kæru stefnanda máls þessa vegna tiltekins úrskurðar stjórnar Hollustuverndar ríkisins. Þá hafa verið lagðir fram úrskurðir umhverfisráðherra í tveimur málum þar sem fjallað hefur verið efnislega um stjórnsýslukærur einstaklinga vegna útgáfu starfs­leyfis. Telur stefnandi umrædd gögn sýna að sú framkvæmd hafi lengi tíðkast að þeim, sem gert hafa athugasemdir við auglýsingu Umhverfisstofnunar um tillögu að starfsleyfi, hafi verið játuð heimild til stjórnsýslukæru til sérstakrar úrskurðarnefndar í tíð laga nr. 81/1988 og til umhverfisráðherra eftir gildistöku laga nr. 7/1998. Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður sá sem ber fyrir sig venju að leiða tilvist og efni hennar í ljós. Eins og áður greinir var fyrirkomulagi laga um málsmeðferð og úrskurði vegna útgáfu starfsleyfa breytt með lögum nr. 7/1998. Í framhaldi af setningu laganna var þeim stjórnvaldsfyrirmælum einnig breytt sem þáverandi framkvæmd studdist við, sbr. nú reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Hafa núgildandi stjórnvaldsfyrirmæli ekki að geyma ítarlegri ákvæði um kæruheimild en lög nr. 7/1998 andstætt ákvæðum reglugerðar nr. 26/1997 sem áður er getið um. Að mati dómara getur því sú framkvæmd sem tíðkaðist í tíð laga nr. 7/1988 þegar af þessum ástæðum ekki haft þýðingu við skýringu 2. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1998. Þeir framlögðu úrskurðir umhverfisráðherra, þar sem fjallað hefur verið um kærur vegna útgáfu starfsleyfa eftir gildistöku laga nr. 7/1998, eru óljósir með tilliti til þess atriðis hvort kærendur höfðu lögvarða hagsmuni samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttar vegna nábýlis við þá starfsemi sem til stóð að leyfa. Verður engin ályktun dregin af þessum úrskurðum um að heimild til stjórnsýslukæru samkvæmt 2. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1998 sé af umhverfisráðuneytinu talin rýmri en leiðir af almennum reglum. Samkvæmt þessu verður ekki talið að stefnandi hafi sýnt fram á stjórnsýsluvenju þess efnis að allir, sem gert hafi athugasemd við auglýsingu um starfsleyfi, njóti heimildar til stjórnsýslukæru samkvæmt 2. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1998. Þegar af þessari ástæðu getur venja í þessa átt ekki haft þýðingu um skýringu á umræddu lagaákvæði. Við skýringu 2. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1998 getur Árósasamningurinn 30. október 2001, sem ekki hefur verið fullgiltur hér á landi, eða tilskipun nr. 2003/35/EB, sem ekki hefur verið tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. samnefnd lög nr. 2/1993, ekki haft þýðingu. Er það á valdi löggjafans að ákveða hvort og með hvaða hætti þessar réttarheimildir verða leiddar í íslenskan rétt. Þá telur dómari að þær réttarreglur EES-réttar, sem fjalla um mat á umhverfisáhrifum, hafi ekki þýðingu við skýringu þeirra reglna sem hér um ræðir. Sjónarmið stefnanda um að almennt beri að auka þátttöku almennings í ákvarðanatöku, sem lýtur að umhverfismálum, eru enn fremur ekki þess eðlis að þau geti haft áhrif á lagalega meðferð þeirra réttarheimilda sem hér eru til umfjöllunar. Samkvæmt framangreindu verður ekki hjá því komist að skýra 2. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1998 í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um skilyrði fyrir stjórnsýslukæru. Samkvæmt þessu er aðeins aðila máls heimilt að kæra ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfis til umhverfisráðherra, sbr. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Er almennt viðurkennt að aðilar stjórnsýslumáls séu þeir einir sem hafi verulegra einstaklingslegra hagsmuna að gæta af stjórnvaldsákvörðun. Samkvæmt þessu gera lög nr. 7/1998 ráð fyrir því að hver sem er geti gert athugasemdir við auglýsingu um tillögu að starfsleyfi, sbr. 3. mgr. 6. gr. laganna, án þess þó að þessum aðilum sé veitt fullkomin aðilastaða eða heimild til stjórnsýslu­kæru samkvæmt 2. mgr. 32. gr. laganna. Í VI. kafla hér að framan eru rakin tengsl stefnanda við þá starfsemi, sem var andlag þess starfsleyfis, sem stefnandi kærði til umhverfisráðherra. Í samræmi við þau sjónarmið sem þar koma fram telur dómari stefnanda ekki hafa sýnt fram á að umrætt starfsleyfi hafi haft beina eða verulega þýðingu fyrir atvinnuhagsmuni hans eða aðra lögverndaða hagsmuni. Eru tengsl stefnanda við umrædda útgáfu starfsleyfis því eingöngu leidd af heimilisfesti og búsetu hans í því sveitarfélagi, þar sem starfsemin er ráðgerð. Hefur stefnandi ekki sýnt fram á að hann eigi ríkari hagsmuna að gæta vegna starfsleyfisins en almennt gerist um íbúa þess landssvæðis sem hér um ræðir. Samkvæmt þessu verður að telja að stefnandi hafi ekki haft stöðu aðila við meðferð og útgáfu Umhverfisstofnunar á starfsleyfi til Reyðaráls ehf. (nú stefnda Alcoa á Íslandi ehf.) 14. mars 2003. Samkvæmt 2. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1998 var stefnanda því ekki heimilt að kæra ákvörðun Umhverfisstofnunar til ráðherra. Dómari telur rétt að taka fram að með þessari niðurstöðu er ekki tekin afstaða til réttar stefnanda samkvæmt 60. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 til að bera undir dómstóla málsmeðferð og ákvarðanir Umhverfisstofnunar sem beindust sérstaklega að honum, en um slíkar kröfur er ekki að ræða í málinu, enda er Umhverfisstofnun ekki aðili að málinu líkt og áður greinir í IX. kafla dómsins. Í málinu liggur fyrir að stefnanda var ranglega leiðbeint um heimild til kæru af Umhverfisstofnun í bréfi 14. mars 2003 og um það efni vísað til 33. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Þessi afstaða stofnunarinnar getur, ein og sér, ekki haggað réttri skýringu á 2. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1998. Í málinu liggur einnig fyrir að umhverfisráðuneytið braut gegn ákvæðum 3. mgr. 32. gr. laganna við meðferð stjórnsýslukæru stefnanda, meðal annars með því að draga úr hófi að taka skýra afstöðu til kærunnar. Þessir annmarkar á málsmeðferð, hversu andstæðir góðum stjórnsýsluháttum sem þeir kunna að vera, geta þó ekki heldur leitt til þess að stefnandi teljist hafa heimild til kæru andstætt ákvæðum 3. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1998. Aðrir ætlaðir annmarkar á málsmeðferð stefnda umhverfisráðherra, svo sem brot á upplýsingarétti eða andmælarétti stefnanda undir meðferð málsins, eru sömuleiðis ekki þess eðlis að þeir geti valdið ómerkingu þeirrar stjórnvaldsákvörðunar sem hér um ræðir, jafnvel þótt fallist væri á málsástæður stefnanda þar að lútandi. Samkvæmt framangreindu verður sýknað af kröfu stefnanda um ómerkingu á umræddri ákvörðun umhverfisráðherra 14. júlí 2003. XI. Samantekt o.fl Samkvæmt framangreindu er kröfum stefnanda gegn stefndu fjármálaráðherra, íslenska ríkinu og Reyðaráli ehf. (áður Alcoa á Íslandi ehf.) sjálfkrafa vísað frá dómi vegna vanreifunar, eins og nánar greinir í IV. kafla dómsins. Kröfu stefnanda um ómerkingu úrskurðar umhverfisráðherra 14. mars 2002, þar sem staðfestur var úrskurður Skipulagsstofnunar 31. ágúst um mat á umhverfisáhrifum 420 þúsund tonna álvers og rafskautaverksmiðju í Reyðarfirði, er sjálfkrafa vísað frá dómi þar sem stefnanda skortir lögvarða hagsmuni til að hafa uppi kröfuna, eins og nánar greinir í V. og VI. kafla dómsins. Kröfu stefnanda um ómerkingu ákvörðunar Umhverfisstofnunar 14. mars 2003 um útgáfu starfsleyfis fyrir álver Reyðaráls ehf. (nú stefnda Alcoa á Íslandi ehf.) í Reyðarfirði er sjálfkrafa vísað frá dómi þar sem Umhverfisstofnun hefur ekki verið stefnt til varnar í málinu og ekki liggur fyrir að stefndi umhverfisráðherra hafi með nokkrum hætti staðfest efnislega ákvörðunina, eins og nánar greinir í IX. kafla dómsins. Stefndu umhverfisráðherra, Alcoa á Íslandi ehf. (áður Reyðarál ehf.) og Fjarðaál sf. eru dæmdir til að þola ómerkingu á úrskurði umhverfisráðherra 15. apríl 2003, þar sem staðfest var ákvörðun Skipulagsstofnunar 20. desember 2002 um að álver fyrir allt að 322 þúsund tonna ársframleiðslu þyrfti ekki að sæta umhverfismati, eins og nánar greinir í VIII. kafla dómsins. Stefndu umhverfisráðherra, Alcoa á Íslandi ehf. (áður Reyðarál ehf.) og Fjarðaál sf. eru sýknaðir af kröfu stefnanda um ómerkingu á ákvörðun umhverfisráðherra 14. júlí 2003, þar sem kæru stefnanda á ákvörðun Umhverfisstofnunar 14. mars 2003 var vísað frá, eins og nánar greinir í X. kafla dómsins. Eftir atvikum og úrslitum málsins þykir rétt að málskostnaður falli niður. Stefnandi hefur gjafsókn við meðferð málsins í héraði. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Atla Gíslasonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 1.400.000 krónur með hliðsjón af umfangi málsins og ítarlegri tímaskýrslu hans. Er þá ekki tekið tillit til virðisaukaskatts. Af hálfu stefnanda flutti málið Atli Gíslason hrl. Af hálfu stefndu fjármálaráðherra, umhverfisráðherra og íslenska ríkisins flutti málið Skarphéðinn Þórisson hrl. Af hálfu annarra stefndu flutti málið Hörður Felix Harðarson hrl. Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð Kröfum stefnanda, Hjörleifs Guttormssonar, er vísað frá dómi að því er varðar stefnda fjármálaráðherra, stefnda íslenska ríkið og stefnda Reyðarál ehf. (áðurAlcoa á Íslandi ehf.). Vísað er frá dómi kröfu stefnanda um ómerkingu úrskurðar umhverfis­ráðherra 14. mars 2002 sem og kröfu hans um ómerkingu ákvörðunar Umhverfisstofnunar 14. mars 2003. Úrskurður umhverfisráðherra 15. apríl 2003, þar sem staðfest var ákvörðun Skipulags­stofnunar 20. desember 2002 um að álver fyrir allt að 322 þúsund tonna ársframleiðslu þyrfti ekki að sæta umhverfismati, er ómerktur. Stefndi umhverfisráðherra, stefnda Alcoa á Íslandi ehf. (áður Reyðarál ehf.) og stefnda Fjarðaál sf. eru sýkn af kröfu stefnanda um ómerkingu ákvörðunar umhverfis­­ráðherra 14. júlí 2003. Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hans, Atla Gíslasonar hrl., að fjárhæð 1.400.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Mál nr. 492/2010
Líkamsárás Fyrning
X var ákærður fyrir líkamsárás, sbr. 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa skallað og slegið A í andlitið með þeim afleiðingum að tvær tennur losnuðu. Í héraði var X sakfelldur samkvæmt ákæru og Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu héraðsdóms um að ákærðu hefði gerst sekur um þá háttsemi sem lýst var í ákæru. Hæstiréttur vísaði meðal annars til þess að rannsókn málsins hefði hafist sama dag og brotið var framið, 10. febrúar 2008, og verið haldið fram óslitið til 24. júní 2008. Ákæra var hins vegar ekki gefin út fyrr en 4. maí 2010 og hún birt 20. sama mánaðar. Upphaf fyrningarfrests miðaðist við upphaf rannsóknar og tilraunir lögreglu til sáttaumleitunar á tímabilinu breyttu þar engu um. Var brot ákærða fyrnt er málið var höfðað og yrði honum því ekki refsað fyrir háttsemi sína. Þá var skaðabótakröfu A vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. ágúst 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu ákærða, en að refsing hans verði þyngd. Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfu ákæruvaldsins og skaðabótakröfu A. Til vara krefst hann þess að refsing falli niður en að því frágengnu að hún verði milduð. Til vara krefst hann einnig lækkunar á skaðabótakröfunni. Af hálfu A hefur ekki verið krafist endurskoðunar á úrlausn héraðsdóms um skaðabætur. Í héraðsdómi kemur fram að vitnið B hafi borið að ákærði hafi skallað A, en vitnið bar einnig að ákærði hefði í framhaldi af því slegið A hnefahögg. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um að ákærði sé sekur um þá háttsemi sem lýst er í ákæru. Háttsemi ákærða er heimfærð undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en brot samkvæmt því ákvæði varðar sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum eða 1 ári ef háttsemin er sérstaklega vítaverð. Samkvæmt 1. mgr. 81. gr. laganna fyrnist sök manns á 2 árum, þegar ekki liggur þyngri refsing við broti en 1 árs fangelsi eða refsing sú, sem til er unnið, fer ekki fram úr sektum. Brot ákærða var framið 10. febrúar 2008. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu komu tveir lögreglumenn á vettvang eftir tilkynningu um líkamsárásina. Þar skýrði A frá því að ákærði hefði verið árásarmaðurinn og sýndi hann lögreglu áverka sína. Lögregla hafði upp á ákærða skömmu síðar. Um samskipti ákærða og lögreglu bókar sá lögreglumaður sem skýrsluna gerði: „Ég gaf mig á tal við hann og ræddi við hann í lögreglubifreiðinni. Ég kynnti X ástæðu afskipta okkar og spurði hann út í málið. X sagðist ekki kannast við manninn og að hann hefði ekki kýlt í andlit hans eins og hann héldi fram. Eftir að hafa fengið persónuupplýsingar frá X var honum sleppt ....“ Í skýrslunni er X nefndur árásaraðili. Þar segir einnig að A muni leggja fram kæru til lögreglu. A fékk fyrstu læknismeðferð þennan sama dag samkvæmt vottorði Rolfs Hanssonar tannlæknis 12. febrúar 2008. A kærði til lögreglu 7. apríl 2008 og var ákærði yfirheyrður 24. júní 2008 auk þess sem þann dag voru teknar skýrslur af vitnum gegnum síma. Lögregla hafði svo símsamband við ákærða 2. september 2008 og innti hann eftir því hvort hann væri fús til að „leysa málið í sáttamiðlun“, sbr. nú b. lið 3. mgr. 146. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærði kvaðst fús til þess og hafði lögregla í kjölfarið símsamband við A sem lýsti einnig vilja sínum til slíkrar afgreiðslu málsins, en þó ekki fyrr en hann hefði fengið mat tannlæknis um hugsanlegar varanlegar tannskemmdir. Samkvæmt skýrslu lögreglu 15. október 2008 var ítrekað gengið eftir því að A skilaði þessum gögnum, svo unnt væri að halda sáttafund, en án árangurs. Var þá litið svo á að hann væri ekki samþykkur því að málið færi í þennan farveg. Samkvæmt skýrslu lögreglu 8. janúar 2010 var þó 8. desember 2009 enn á ný reynt að koma á sáttafundi en ákærði hafnaði alfarið framkominni skaðabótakröfu A. Ákæra var svo gefin út 4. maí 2010 og hún birt 20. sama mánaðar. Fyrningarfrestur brots ákærða telst frá þeim degi, er refsiverðum verknaði hans lauk, sbr. 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt 4. mgr. 82. gr. laganna rofnar fyrningarfrestur þegar rannsókn sakamáls hefst fyrir rannsóknara gegn manni sem sakborningi. Í málum, sem lögreglan má samkvæmt lögum ljúka með sátt, rofnar fyrningarfrestur þegar lögreglan sakar mann um brot og kynnir honum sáttaboð. Samkvæmt 2. málslið 5. mgr. greinarinnar rýfur rannsókn samkvæmt 4. mgr. ekki fyrningarfrest ef rannsóknari hættir henni eða hún stöðvast um óákveðinn tíma með þeim fyrirvara að sakborningur hafi ekki komið sér undan rannsókninni. Eins og að framan er rakið hófst rannsókn sama dag og brot var framið, eða 10. febrúar 2008 er lögregla bar sakargiftir undir ákærða. Ekki varð hlé á rannsókninni fram til 24. júní 2008. Eftir þann dag og þar til ákæra var birt telst rannsókn málsins hafa stöðvast í skilningi 5. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga. Hvorki eru lagaskilyrði fyrir því að líta svo á að framangreindar tilraunir við að koma á sátt milli ákærða og brotaþola breyti þessari niðurstöðu né verður ráðið að ákærði hafi reynt að koma sér undan rannsókn. Samkvæmt framansögðu miðast því upphaf fyrningarfrests við 10. febrúar 2008 og var brot ákærða fyrnt er málið var höfðað rúmlega tveimur árum síðar. Verður ákærða því ekki refsað fyrir háttsemi sína, sbr. 6. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga. Þá verður skaðabótakröfu A vísað frá héraðsdómi samkvæmt 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008. Með vísan til 2. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 verður sakarkostnaður eins og hann var ákveðinn í héraði og áfrýjunarkostnaður málsins felldur á ríkissjóð, sbr. og 1. mgr. 220. gr. laganna, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði. Dómsorð: Ákærði, X, er sýkn af refsikröfu ákæruvalds. Skaðabótakröfu A er vísað frá héraðsdómi. Ákvörðun héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óröskuð þó þannig að kostnaðurinn skal greiðast úr ríkissjóði. Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2010. Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð 15. júní sl., er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 4. maí 2010, á hendur X, kt. [...], [...], [...], fyrir líkamsárás með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 10. febrúar 2008, utandyra við veitingastaðinn Sólon, Ingólfsstræti í Reykjavík, skallað og slegið A í andlitið með þeim afleiðingum að tvær tennur losnuðu. Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr. 82/1998. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Af hálfu A, kt. [...], er þess krafist að ákærða verði gert að greiða honum skaða- og miskabætur að fjárhæð 1.192.975 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá árásardegi, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga frá 19. apríl 2009 til greiðsludags. Verjandi ákærða krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, til vara að refsing verði látin niður falla, en til þrautavara að honum verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa. Þá er þess aðallega krafist að bótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara að bótakrafa verði lækkuð verulega. Loks er krafist málsvarnarlauna úr ríkissjóði. Málsatvik Mánudaginn 7. apríl 2008 mætti A til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og lagði fram kæru á hendur ákærða vegna líkamsárásar sem hefði átt sér stað laust fyrir klukkan 6 að morgni 10. febrúar utan við veitingastaðinn Prikið í Bankastræti. Sagðist A hafa verið að skemmta sér á veitingastaðnum og verið utandyra að reykja. Þar hefði hann hitt ákærða og sagt við hann að „Breiðholt væri alvöru, en Árbærinn væri hálfvegis“, en hann hefði vitað að ákærði byggi í Árbæjarhverfi. Rétt eftir að hann hefði sagt þetta hefði ákærði orðið brjálaður. Sagðist hann hafa gengið á brott frá ákærða, en ákærði fylgt honum eftir og náð honum í Ingólfsstræti. Hefði hann sagt við ákærða að hann væri á leiðinni heim og „vildi ekkert kjaftæði“. Ákærði hefði þá þrifið í bringu hans, dregið hann að sér, skallað hann og slegið hann eitt högg í andlitið. Hefði skallahöggið verið svo þungt að hann hefði hálfvankast á eftir. B, sem þarna var staddur, hefði fjarlægt ákærða eftir þetta, en síðan hefði lögreglumenn borið að og rætt við þá ákærða. A hefði verið ekið á slysadeild, en þar hefði honum verið bent á að leita til tannlæknis, sem hann hefði gert í framhaldinu. Í vottorði Rolfs Hanssonar tannlæknis, dagsettu 12. febrúar 2008, kemur fram að A hafi leitað til hans 10. febrúar vegna áverka á tönnum sem hann hefði hlotið fyrr um daginn. Hefði A verið aumur í framtönnum vinstra megin í efri gómi og framtönnum neðri góms. Röntgenmyndir hefðu sýnt víkkað rótarslíður tanna #21 og #22 og hefði klínísk skoðun gefið til kynna að tennurnar væru lausar. Tönn #22 hefði gengið niður og inn svo að bit var ekki eðlilegt. Hefði tönnum verið komið fyrir á réttan stað og þær spengdar, en tíminn myndi leiða í ljós hverjar varanlegar afleiðingar yrðu. Ekki væri ósennilegt að nauðsynlegt yrði að rótfylla báðar tennurnar. Í skýrslu sem Ingólfur Már Ingólfsson lögreglumaður, sem kom á vettvang í umrætt sinn, hefur ritað kemur fram að tilkynning hafi borist kl. 5:51 um að maður hefði verið laminn fyrir utan veitingastaðinn Sólon í Bankastræti. Á vettvangi hefði A gefið sig fram við lögreglumenn og hefði hann verið með sár í munni eða munnvikum. Hefði hann nefnt ákærða sem hann sagði hafa slegið sig í andlitið án nokkurs tilefnis. Hefði A sagt að ákærði væri tónlistarmaður, „rappari“, og hefðu þeir verið að ræða eitthvað sem því tengdist inni á veitingastaðnum Prikinu þegar árásin átti sér stað. Lögreglumenn hefðu komið auga á ákærða þar sem hann var á gangi ásamt fleira fólki neðarlega í Bankastræti. Ræddu lögreglumenn við ákærða sem sagðist ekki kannast við A og hefði hann ekki kýlt hann í andlit. Hefði ákærði verið látinn laus eftir þetta, en A ekið á slysadeild. Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 24. júní 2008. Sagðist hann hafa verið að skemmta sér á veitingastaðnum Prikinu nóttina sem um ræðir. Hann hefði farið út af veitingastaðnum og beðið eftir unnustu sinn, sem einnig var á leið út. Þarna fyrir utan hefði hann hitt pilta sem hann hefði ekki þekkt neitt og hefðu þeir farið að rífast við hann, en ekki myndi hann tildrög þess. Á meðan á rifrildinu stóð hefði annar piltanna skyndilega kýlt hann í andlitið og hefði hann þá kýlt piltinn til baka. Ákærði sagðist ekki minnast þess að hafa skallað piltinn. Þetta hefði atvikast mjög hratt. Vel gæti verið að hann hefði skallað hann, en það hefði þá gerst í hita leiksins. Samkvæmt skýrslu lögreglu, dagsettri 15. október 2008, samþykktu ákærði og A að málinu yrði vísað til sáttameðferðar, en A gerði fyrirvara um að áður yrði fengið mat tannlæknis á endanlegum afleiðingum tannáverka. Gögn um þetta bárust hins vegar ekki frá A og var þá litið svo á að hann væri ekki reiðubúinn að taka þátt í sáttafundi. Samkvæmt skýrslu lögreglu 8. janúar 2010 var á ný reynt að vísa málinu til sáttameðferðar. Er ákærða var kynnt að krafist yrði 600.000 króna í skaðabætur hafnaði hann hins vegar að ljúka málinu með þeim hætti. Ákærði neitaði sök fyrir dómi. Við aðalmeðferð málsins sagðist hann hafa verið á veitingastaðnum Prikinu í umrætt sinn. Hefði hann verið á heimleið og beðið eftir samferðarfólki sínu utan dyra þegar til hans hefðu komið tveir menn sem hann þekkti ekki, en vissi nú að voru A og B. Hefðu þeir veist að honum með orðum og hann svarað fyrir sig. Þá hefði A slegið hann hnefahögg í auga svo að hann hlaut glóðarauga. Eftir þetta hefðu orðið áflog á milli þeirra A og hefðu þeir „glímt eitthvað“, en B hefði svo gripið í A og fært hann frá. Ákærði lýsti áflogunum nánar þannig að hann hefði verið kýldur og hefði hann slegið hnefahögg til baka. Eftir það hefði þeim lent saman, en hann teldi ekki að fleiri högg hefðu gengið á milli. Spurður hvort hann hefði skallað A sagði ákærði að ef svo væri hefði það gerst á meðan á glímutökum þeirra stóð, en ekki eins og lýst væri í ákæru. Vitnið A sagðist hafa verið að skemmta sér á veitingastaðnum Prikinu. Hann hefði verið utan dyra á reykingasvæði og þá sagt í gríni við ákærða eitthvað á þá leið að „Árbærinn væri hálfvegis, en Breiðholt væri málið“. Ákærði hefði tekið þessu illa og starað á sig. A sagðist hafa gengið í burtu og verið að tala í farsíma, þegar hann hefði veitt því athygli að ákærði stóð hinum megin við götuna og starði á hann. Sagðist hann hafa kallað til ákærða: „Hvað viltu maður – ég er ekki með neitt vesen við þig“, eða eitthvað í þeim dúr. Hann hefði svo snúið sér við, en ekki vitað fyrr en ákærði kom að honum, greip í brjóst hans og skallaði hann og kýldi í andlitið með þeim afleiðingum að hann féll í götuna. Hefði ákærði verið færður á brott eftir þetta. A sagðist hafa hlotið nokkra áverka á tönnum við atlöguna. Vinstri framtönn í efri gómi hefði gengið inn í næstu tönn við hliðina og framtönn í neðri gómi losnað og skekkst. Þá hefði hann fengið skurð á augabrún. A neitaði alfarið að hafa slegið ákærða áður en hann veittist að honum. Hann hefði borið hendur upp fyrir höfuð þegar þetta gerðist til að sýna að hann vildi ekki slást. A sagðist kannast við ákærða, sem væri tónlistarmaður og tók fram að hann væri sjálfur úr Breiðholtshverfi og vissi að ákærði væri úr Árbænum. Vitnið C sagðist hafa verið á veitingastaðnum Prikinu með A, B og fleirum. Hann hefði komið að A þar sem hann var staddur úti í reykingaporti og hefðu þeir ákærði verið að rífast. Skömmu síðar hefðu þeir yfirgefið veitingastaðinn og hefði ákærði þá komið að, rifið í öxlina á A, sem hefði snúið sér við og hefði ákærði þá skallað hann í andlitið og kýlt hann einu sinni eða tvisvar. Hefði A fallið upp að vegg við þetta. Ákærði hefði verið rifinn frá A og hefði lögreglan komið á vettvang skömmu síðar. C sagðist ekki hafa heyrt orðaskipti milli ákærða og A í reykingaportinu. Vitnið B sagði ákærða og A hafa verið að rífast inni á veitingastaðnum Prikinu og hefði það snúist eitthvað um Árbæ og Breiðholt. A hefði ætlað að ganga í burtu, en ákærði þá kallað til hans. Hefði A snúið sér við, en ákærði þá gripið í hann og skallað hann niður svo að hann féll upp að vegg veitingastaðarins. Hann hefði dregið ákærða í burtu áður en hann næði að kýla A aftur. B sagði A hafa haldið höndum sínum á lofti þegar ákærði gekk að honum og hefði hann spurt ákærða hvað hann ætlaði að gera, en þá verið skallaður. Hann hefði aldrei séð A slá frá sér á meðan á þessu stóð. Vitnið D sagðist hafa verið á veitingastaðnum Prikinu og hefði hann komið að ákærða þar sem hann stóð við innganginn og var að þræta við tvo menn. Hefðu mennirnir gengið að ákærða og veist að honum, en verið stíað í sundur af viðstöddum. Þetta hefði gerst mjög hratt og lögreglan fljótlega komið á vettvang. D sagðist ekki hafa séð nákvæmlega hvað gerðist þegar mennirnir stóðu saman eins og hann hefði lýst. Hann hefði séð þá hvorn ofan í öðrum og síðan séð að ákærði var blóðugur. Þar sem ákærði stóð neðar í götunni en mennirnir hefði hann talið að þeir hefðu átt frumkvæði að átökunum. Niðurstaða Ákærði neitar sök. Hann viðurkennir að hafa slegið A einu hnefahöggi í andlit, en hefur borið að A hafi slegið hann fyrst. Þá hefur ákærði borið að hann muni ekki eftir því að hafa skallað A, en ef eitthvað slíkt hafi gerst hafi það verið á meðan þeir tókust á í glímutökum, en ekki með þeim hætti sem lýst er í ákæru. A hefur lýst því að ákærði hafi skallað hann og slegið í andlit hans í umrætt sinn. Vitnið C sagðist hafa séð ákærða skalla A í andlitið og slá hann einu eða tveimur hnefahöggum. Þá bar B að hann hefði séð ákærða skalla A og sagðist vitnið hafa fjarlægt ákærða áður en hann næði að veita A frekari högg. Vitnunum þremur bar saman um að A hafi ekki slegið ákærða, eins og ákærði hefur borið um. Sem fyrr greinir játar ákærði að hafa slegið A hnefahöggi í andlit. Með því og að öðru leyti með vísan til framburðar framangreindra vitna telst sannað að hann hafi veist að A með þeim hætti sem lýst er í ákæru og valdið honum þeim áverkum sem þar greinir og staðfestir eru með vottorði tannlæknis. Framburður ákærða um að A hafi slegið hann í aðdraganda atlögunnar fær ekki stoð í framburði vitna eða gögnum málsins að öðru leyti og er honum hafnað. Breytir vætti C engu þar um, en fram kom hjá vitninu að hann hefði ekki séð nákvæmlega hvað gerðist á milli mannanna, sem hefðu staðið þétt saman. Telst háttsemi ákærða rétt færð til refsiákvæða í ákæru. Ákærði krefst aðallega sýknu vegna þess að sök á hendur honum sé fyrnd. Brot samkvæmt 217. gr. almennra hegningarlaga varða fangelsi allt að einu ári og fyrnast því á tveimur árum, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga. Verður talið að fyrningarfrestur hafi, samkvæmt 4. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga, rofnað þegar ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 24. júní 2008 vegna gruns um að hafa framið brotið. Ákæra var gefin út á hendur ákærða 4. maí 2010 og málið þingfest 26. sama mánaðar. Var sök ákærða þá ófyrnd samkvæmt framansögðu og verður ekki fallist á sýknukröfu ákærða af þessari ástæðu. Þá krefst ákærði sýknu þar sem háttsemi hans hafi réttlæst af neyðarvörn, sbr. 12. gr. almennra hegningarlaga. Ekkert er komið fram í málinu sem bendir til þess atlaga ákærða hafi verið nauðsynleg til þess að verjast eða afstýra ólögmætri árás, svo sem í 12. gr. almennra hegningarlaga greinir og er hafnað vörn ákærða á þeim grunni. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru. Ákærði er fæddur í [...]. Sakaferill hans hefur ekki áhrif á refsingu. Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að árás hans á A var harkaleg, þar sem hann veitti A skalla- og hnefahögg í andlit svo að hann hlaut allnokkra áverka af. Þótt fram sé komið að áður hafi komið til einhverra orðaskipta á milli ákærða og A var aðdragandi atlögunnar engan veginn með þeim hætti að til málsbóta horfi fyrir ákærða samkvæmt 3. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga. Á hinn bóginn verður litið til þess að langt er liðið frá því er brotið var framið og hafa ekki fengist viðeigandi skýringar á þeim drætti sem orðið hefur á lögreglurannsókn málsins. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga, en rétt þykir að ákveða að fresta skuli framkvæmd refsingarinnar og að hún falli niður að liðnum 2 árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. A hefur krafist skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 1.192.975 krónur með vöxtum, sem sundurliðast þannig: Brotaþoli á rétt á miskabótum úr hendi ákærða, sbr. a-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999, sem þykja hæfilega ákveðnar 250.000 krónur. Jafnframt verða brotaþola dæmdar bætur vegna kostnaðar við að halda fram bótakröfu sinni, en í samræmi við viðmiðunarreglur dómstólaráðs er fjárhæð þeirra ákveðin 125.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Meðal gagna málsins er staðfesting á greiðslu brotaþola til AB tannlæknastofu 13. nóvember 2009, vegna röntgenmyndatöku o.fl., að fjárhæð 9.650 krónur. Kröfu um skaðabætur vegna áætlaðs tannlæknakostnaðar fylgja ekki önnur gögn og verða brotaþola ekki dæmdar frekari bætur en sem útlögðum kostnaði nemur. Skaðabætur beri vexti sem í dómsorði greinir. Ákærði verður dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Árna Helgasonar hdl., 351.400 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Ragna Bjarnadóttir aðstoðarsaksóknari. Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Dómsorð: Ákærði, X, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði greiði A skaðabætur að fjárhæð 385.150 krónur, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 10. febrúar 2008 til 26. júní 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Árna Helgasonar hdl., 351.400 krónur.
Mál nr. 106/2013
Orlof Tómlæti
B starfaði hjá Ý sf. sem nemi í húsgagnasmíði og síðar húsasmíði og eftir að námi hans lauk. Í málinu krafði hann Ý sf. um vangoldin orlofslaun. Ý sf. neitaði greiðsluskyldu og byggði m.a. á því að orlofslaun hafi verið hluti af heildarlaunum B auk þess sem hann hafi sýnt af sér tómlæti með því að hreyfa engum andmælum við þeirri framkvæmd. Í dómi Hæstaréttar kom fram að tilhögun Ý sf. við greiðslu orlofs hafi farið í bága við fyrirmæli 7. gr. laga nr. 30/1987 um orlof. Þess væri þó að gæta að B hafi ekki getað látið átölulaust um árabil hvernig staðið var að uppgjörinu í trausti þess að geta haft uppi kröfu í kjölfar starfsloka. Þegar af þeirri ástæðu að B hafði ekki gert reka að því að halda fram ætlaðri kröfu staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sýknu Ý sf.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. febrúar 2013. Hann krefst þess aðallega að stefndi greiði sér 1.306.194 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 136.118 krónum frá 30. apríl 2007 til 30. apríl 2008, af 411.955 krónum frá þeim degi til 30. apríl 2009, af 658.005 krónum frá þeim degi til 30. apríl 2010, af 947.445 krónum frá þeim degi til 30. apríl 2011, en af 1.306.194 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst áfrýjandi þess að stefndi greiði sér 1.000.288 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt sömu lagagrein, af 106.049 krónum frá 30. apríl 2008 til 30. apríl 2009, af 352.099 krónum frá þeim degi til 30. apríl 2010, af 641.539 krónum frá þeim degi til 30. apríl 2011, en af 1.000.288 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Þau eru ágreiningslaus að öðru leyti en því að aðilar deila um hvort áfrýjandi hafi á starfstíma sínum hjá stefnda gert athugasemdir við að honum væri ekki greitt orlof. Það hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á og verður því lagt til grundvallar dómi í málinu að fyrst hafi verið hreyft andmælum við því að orlof hafi ekki verið greitt eftir að hann lét af störfum hjá stefnda með bréfi stéttarfélags 10. júní 2011. Samkvæmt niðurlagi 2. mgr. 7. gr. laga nr. 30/1987 um orlof skal skrá sérstaklega á launaseðil við hverja launagreiðslu bæði samtölu áunninna orlofslauna frá upphafi orlofsárs og orlofslaun vegna þess greiðslutímabils. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi var þessa ekki gætt í orlofsuppgjöri við áfrýjanda. Í samræmi við það, sem virðist hafa verið almenn tilhögun hjá stefnda, var hins vegar með fáeinum undantekningum fastur frádráttarliður að fjárhæð 10.000 krónur á mánaðarlegum launaseðlum áfrýjanda frá ágúst 2007 allt þar til hann hætti störfum hjá stefnda í apríl 2011. Var sá liður sagður vera vegna orlofs en sú fjárhæð var lögð inn á sérstakan bankareikning. Bendir þetta eindregið til að gert hafi verið ráð fyrir að orlof væri innifalið í launum til áfrýjanda, en þau voru umtalsvert hærri en lágmarkslaun eins og nánar er rakið í héraðsdómi. Þótt þessi tilhögun hafi ekki verið í samræmi við fyrirmæli 7. gr. laga nr. 30/2007 um útreikning og greiðslu orlofs er þess að gæta að áfrýjandi gat ekki látið átölulaust um árabil hvernig staðið var að uppgjörinu í trausti þess að geta haft uppi kröfu í kjölfar starfsloka. Þegar af þeirri ástæðu að hann gerði samkvæmt framansögðu ekki reka að því að halda fram ætlaðri kröfu sinni verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest. Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 21. nóvember 2012. Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð 26. september, er höfðað 14. desember 2011 af Braga Sigurði Ólafssyni, kt. [...], Hlíðarvegi 57, Ólafsfirði, gegn Ými sf., kt. [...], Furuvöllum 9, Akureyri. Fyrir hönd stefnda er stefnt fyrirsvarsmanni Þengli Valdimarssyni, kt. [...], Byggðavegi 95, Akureyri. Dómkröfur Aðalkrafa stefnanda er að stefndi verði dæmdur til greiðslu 1.306.681 krónu ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 12.806 krónum frá 30. september 2006 til 30. nóvember 2006, af 29.047 krónum frá þeim degi til 31. desember 2006, af 53.304 krónum frá þeim degi til 31. janúar 2007, af 67.735 krónum frá þeim degi til 28. febrúar 2007, af 84.454 krónum frá þeim degi til 31. marz 2007, af 120.741 krónu frá þeim degi til 30. apríl 2007, af 136.301 krónu frá þeim degi til 31. maí 2007, af 159.153 krónum frá þeim degi til 30.06.2007, af 190.761 krónu frá þeim degi til 14. júlí 2007, af 209.189 krónum frá þeim degi til 31. ágúst 2007, af 229.875 krónum frá þeim degi til 30. september 2007, af 264.351 krónu frá þeim degi til 31. október 2007, af 285.189 krónum frá þeim degi til 30. nóvember 2007, af 306.088 krónum frá þeim degi til 31. desember 2007, af 346.931 krónu frá þeim degi til 31. janúar 2008, af 364.749 krónum frá þeim degi til 28. febrúar 2008, af 381.664 krónum frá þeim degi til 31. marz 2008, af 398.981 krónu frá þeim degi til 30. apríl 2008, af 412.137 krónum frá þeim degi til 31. maí 2008, af 441.503 krónum frá þeim degi til 30. júní 2008, af 478.856 krónum frá þeim degi til 12. júlí 2008, af 497.645 krónum frá þeim degi til 31. ágúst 2008, af 523.017 krónum frá þeim degi til 30. september 2008, af 534.428 krónum frá þeim degi til 31. október 2008, af 551.041 krónu frá þeim degi til 30. nóvember 2008, af 563.224 krónum frá þeim degi til 31. desember 2008, af 597.714 krónum frá þeim degi til 31. janúar 2009, af 614.360 krónum frá þeim degi til 28. febrúar 2009, af 628.321 krónu frá þeim degi til 31. marz 2009, af 641.443 krónum frá þeim degi til 30. apríl 2009, af 658.492 krónum frá þeim degi til 31. maí 2009, af 682.085 krónum frá þeim degi til 30. júní 2009, af 705.183 krónum frá þeim degi til 09. júlí 2009, af 715.898 krónum frá þeim degi til 31. ágúst 2009, af 743.072 krónum frá þeim degi til 30. september 2009, af 768.378 krónum frá þeim degi til 31. október 2009, af 796.911 krónum frá þeim degi til 30. nóvember 2009, af 825.062 krónum frá þeim degi til 23. desember 2009, af 859.258 krónum frá þeim degi til 31. janúar 2010, af 881.954 krónum frá þeim degi til 28. febrúar 2010, af 901.659 krónum frá þeim degi til 31. marz 2010, af 925.587 krónum frá þeim degi til 30. apríl 2010, af 947.932 krónum frá þeim degi til 31. maí 2010, af 969.716 krónum frá þeim degi til 30. júní 2010, af 1.006.483 krónum frá þeim degi til 31. júlí 2010, af 1.020.156 krónum frá þeim degi til 31. ágúst 2010, af 1.050.145 krónum frá þeim degi til 30. september 2010, af 1.080.134 krónum frá þeim degi til 31. október 2010, af 1.105.388 krónum frá þeim degi til 30. nóvember 2010, af 1.145.381 krónu frá þeim degi til 23. desember 2010, af 1.186.769 krónum frá þeim degi til 31. janúar 2011, af 1.211.431 krónu frá þeim degi til 28. febrúar 2011, af 1.237.474 krónum frá þeim degi til 31. marz 2011, af 1.269.042 krónum frá þeim degi til 30. apríl 2011 en af stefnufjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu 1.000.593 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 40.843 krónum frá 31. desember 2007 til 31. janúar 2008, af 58.661 krónu frá þeim degi til 28. febrúar 2008, af 75.576 krónum frá þeim degi til 31. marz 2008, af 92.893 krónum frá þeim degi til 30. apríl 2008, af 106.049 krónum frá þeim degi til 31. maí 2008, af 135.415 krónum frá þeim degi til 30. júní 2008, af 172.768 krónum frá þeim degi til 12. júlí 2008, af 191.557 krónum frá þeim degi til 31. ágúst 2008, af 216.929 krónum frá þeim degi til 30. september 2008, af 228.340 krónum frá þeim degi til 31. október 2008, af 244.953 krónum frá þeim degi til 30. nóvember 2008, af 257.136 krónum frá þeim degi til 31. desember 2008, af 291.626 krónum frá þeim degi til 31. janúar 2009, af 308.272 krónum frá þeim degi til 28. febrúar 2009, af 322.233 krónum frá þeim degi til 31. marz 2009, af 335.355 krónum frá þeim degi til 30. apríl 2009, af 352.404 krónum frá þeim degi til 31. maí 2009, af 375.997 krónum frá þeim degi til 30. júní 2009, af 399.095 krónum frá þeim degi til 09. júlí 2009, af 409.810 krónum frá þeim degi til 31. ágúst 2009, af 436.984 krónum frá þeim degi til 30. september 2009, af 462.290 krónum frá þeim degi til 31. október 2009, af 490.823 krónum frá þeim degi til 30. nóvember 2009, af 518.974 krónum frá þeim degi til 23. desember 2009, af 553.170 krónum frá þeim degi til 31. janúar 2010, af 575.866 krónum frá þeim degi til 28. febrúar 2010, af 595.571 krónu frá þeim degi til 31. marz 2010, af 619.499 krónum frá þeim degi til 30. apríl 2010, af 641.844 krónum frá þeim degi til 31. maí 2010, af 663.628 krónum frá þeim degi til 30. júní 2010, af 700.395 krónum frá þeim degi til 31. júlí 2010, af 714.068 krónum frá þeim degi til 31. ágúst 2010, af 744.057 krónum frá þeim degi til 30. september 2010, af 774.046 krónum frá þeim degi til 31. október 2010, af 799.300 krónum frá þeim degi til 30. nóvember 2010, af 839.293 krónum frá þeim degi til 23.12.2010, af 880.681 krónu frá þeim degi til 31. janúar 2011, af 905.343 krónum frá þeim degi til 28. febrúar 2011, af 931.386 krónum frá þeim degi til 31. marz 2011, af 962.954 krónum frá þeim degi til 30.04.2011 en af 1.000.593 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun. Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi. Málavextir Stefndi er trésmíðafyrirtæki. Stefnandi var ráðinn þangað sem nemi í húsgagnasmíði í september 2006 og lauk prófi í henni á árinu 2009. Hélt hann eftir það áfram störfum hjá stefnda en þá sem nemi í húsasmíði þar til hann lauk því námi árið 2010. Eftir það starfaði hann hjá stefnda fram í apríl 2011. Afrit launaseðla stefnanda liggur fyrir í málinu. Frá september 2006 og út árið 2008 eru seðlarnir á þar til gerðum eyðublöðum og handskrifað á. Er á þeim seðlum sérstakur reitur merktur orlofi á launahluta seðilsins og er sá reitur ætíð auður. Frá og með ágúst 2007 eru tíu þúsund krónur að jafnaði dregnar frá launum og nefndar orlof. Frá janúar 2009 eru launaseðlarnir vélfærðir og undir launalið þeirra er þá ætíð liðurinn „dagvinna“, en einnig eftir atvikum „eftirvinna“, „orlofsuppbót“ og „desemberuppbót“, en aldrei „orlof“. Á þeim tíma er launaseðlarnir voru handfærðir voru af og til tilgreind önnur laun og hlunnindi, svo sem „áramótapremía“ 100.000 krónur, „þökkum drengilega frammistöðu“ 100.000 krónur og „bensín í fríið“ 37.000 krónur og 40.000 krónur. Stéttarfélagið Eining-Iðja skrifaði stefnda bréf dagsett 10. júní 2011. Segir þar að stefnandi hafi leitað til félagsins vegna vangoldinna orlofslauna og að við skoðun á launaseðlum hans frá september 2006 til og með apríl 2011 hafi komið í ljós að orlof hafi ekki verið reiknað ofan á laun hans. Er í bréfinu krafizt greiðslu vangoldins orlofs, 1.234.074 króna. Málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi kveðst hafa starfað hjá stefnda, ungur og óreyndur í atvinnulífinu, en starfið hafi verið með þeim fyrstu sem hann hafi sinnt. Fljótlega hafi hann tekið eftir því við mánaðarlegt launauppgjör að svo virtist sem sér væri ekki greitt lögbundið orlof. Hafi hann fljótlega spurzt fyrir um þetta hjá meistara sínum og yfirmönnum en enga úrlausn fengið. Hafi hann þannig að minnsta kosti tvívegis á starfstíma sínum spurzt fyrir, án árangurs, og því mátt sætta sig við að fá ekki orlof ofan á laun sín. Hafi stefnandi metið hagsmunum sínum bezt borgið með því að láta þetta yfir sig ganga, þar sem hann hafi talið starf sitt í hættu ef hann efndi til ágreinings, en óljúft hafi það verið honum. Eftir starfslok sín vorið 2011 hafi stefnandi hins vegar tekið til við að kanna réttarstöðu sína „til hins ítrasta“ að þessu leyti. Stefnandi kveðst byggja á því að hann eigi skýran og ljósan rétt til greiðslu orlofslauna úr hendi stefnda og kveðst þar vísa til 1. gr. laga nr. 30/1987 um orlof og ákvæði kjarasamnings. Eins og framlagðir launaseðlar beri með sér hafi stefnandi aldrei fengið greitt orlof samkvæmt lögunum heldur hafi framkvæmdin verið með þeim hætti að stundum hafi tíu þúsund krónur verið dregnar af heildarlaunum stefnanda og lagðar á bankareikning á hans nafni sem orlof, og stundum hafi hvergi verið getið um orlof á launaseðlum hans. Stefnandi segir að um framkvæmd og útreikning orlofslauna fari samkvæmt 2. mgr. 7. gr. orlofslaga, en þar segi að orlofslaun skuli reiknast við hverja launagreiðslu þannig að af heildarlaunum reiknist orlofslaunahlutfall starfsmanns, sem í tilviki stefnanda hafi verið 10,17% og skuli miða við lágmarksorlof samkvæmt 3. gr. laganna. Fari því víðs fjarri að þessu hafi verið fylgt í tilviki stefnanda. Stefnandi segir að í lögum nr. 92/2008 um framhaldsskóla, þar áður lögum nr. 80/1996, komi fram að ákvæði í samningum um vinnustaðanám skuli um laun og önnur starfskjör vera í samræmi við kjarasamninga að því varði nema í starfsnámi. Hafi því verið óheimilt að semja við stefnanda um annan hátt á kaupi og kjörum en mælt sé fyrir um í kjarasamningi. Þá kveðst stefnandi byggja á því að hvernig sem litið verði á, verði ekki séð að orlofsgreiðslur hafi verið innifaldar í launum hans, en aldrei hafi verið um slíkt samið eða rætt. Stefnandi segir kröfu sína byggða á því að við hverja launagreiðslu hafi orðið til skuld sem nemi 10,17% af launum hans, svo sem orlofslaun og kjarasamningar kveði á um, en alls sé um 55 gjalddaga að ræða og heildarkrafan sé 1.306.498 krónur auk vaxta og kostnaðar. Þá kveðst stefnandi byggja á því að samkvæmt 8. gr. orlofslaga gjaldfalli öll áunnin ógreidd orlofslaun, en óumdeilt verði að telja að ráðningarsambandi aðila hafi lokið vorið 2011. Sé krafa stefnanda því ekki fyrnd „að neinu marki“. Stefnandi segir byggja varakröfu sína á sömu sjónarmiðum og aðalkröfu. Varakrafan taki til þess ef vegna fyrningar verði ekki fallizt á að stefnandi eigi rétt á öllum ógreiddum orlofslaunum, en við þær aðstæður eigi hann rétt til þeirra sem ófyrndar séu. Sé í varakröfu gerð krafa um öll áunnin ógreidd orlofslaun sem fallið hafi til eftir 30. nóvember 2007, auk vaxta. Stefnandi kveðst byggja kröfur sína á orlofslögum og meginreglum samninga- og kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga. Þá vísi hann til laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla og að sínu leyti til eldri laga um þá. Kröfur um dráttarvexti, vaxtavexti með talda, séu studdar við lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá kveðst stefnandi vísa til kjarasamninga milli Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar fyrir hönd aðildarfélaga í málmiðnaði, byggingariðnaði og skrúðgarðyrkju. Krafa um málskostnað sé studd 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt á lögum nr. 50/1988. Vegna varnarþings sé vísað til 32. gr. laga nr. 91/1991. Málsástæður og lagarök stefnda Stefndi segir að þegar stefnandi hafi hafið störf hafi verið samið við hann um laun sem hafi verið langt um fram laun samkvæmt kjarasamningi. Samið hafi verið um að orlofslaun væru innifalin í laununum, með sama hætti og væri hjá öllum öðrum starfsmönnum stefnda. Stefnandi hafi, á meðan ráðningarsamband hafi verið milli aðila, aldrei gert athugasemd um að laun hans væru rangt reiknuð eða að hann saknaði þar orlofslauna. Þegar stefndi hafi verið búinn að starfa hjá stefnda í um eitt ár hafi sú breyting verið gerð á útborgun launa að tíu þúsund krónur hafi verið dregnar af útborguðum launum og lagðar á sérstakan reikning, sem stefnandi hafi vísað á. Hafi þetta verið hugsað sem fé sem starfsmenn gætu gripið til í fríi sínu og hafi þetta verið gert hjá öllum starfsmönnum, en upphæð farið eftir hvort smiður var eða lærlingur. Þetta hafi verið gert í fullu samráði við stefnanda. Stefndi segir að stefnandi leggi engin gögn fram til stuðnings kröfum sínum og séu þær á engan hátt sundurliðaðar. Þá sé ekki samræmi milli innheimtubréfs og dómkrafna og hafi það ekki verið útskýrt í stefnu. Stefndi kveðst þó ekki krefjast frávísunar vegna þessara atriða. Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að samið hafi verið við stefnanda um að tímalaun hans væru með orlofslaunum, það sé að segja að orlofslaunin væru innifalin í heildarlaunum. Stefnda sé ljóst að óheimilt sé að semja um lakari kjör en kveðið sé á um í kjarasamningi og að stefnandi eigi rétt á orlofi og orlofslaunum samkvæmt lögum nr. 30/1987 og kjarasamningi. Þegar litið sé til kjarasamnings, sem í gildi hafi verið í upphafi starfstíma stefnanda, sé ljóst að laun hans hafi verið langt ofar lágmarkslaunum. Hafi stefnandi þá verið með 1.115 krónur á klukkustund í dagvinnu en 2.020 í yfirvinnu en kjarasamningur hafi kveðið á um 536 krónur í dagvinnu en 964 krónur í yfirvinnu. Allan starfstíma stefnanda hafi stefndi greitt honum langt umfram lágmarkslaun. Stefndi segir helzt að skilja málatilbúnað stefnanda svo, að byggt sé á því að stefndi hafi ekki greitt honum laun í samræmi við kjarasamninga. Sé ekki ljóst hvort stefnandi byggi á því að kjarasamningar hafi verið brotnir með því að form launaseðla hafi ekki verið rétt að því er varði sundurliðun launa, en sé svo þá verði að líta til þess að form launaseðilsins ráði ekki úrslitum heldur það hvort heildarkjör stefnanda hafi verið að minnsta kosti jafngóð og kveðið hafi verið á um í þeim kjarasamningum sem gilt hafi. Sé ekki nokkur vafi á því að allan starfstíma stefnanda hjá stefnda hafi kjör hans verið í heild langt umfram þau kjör sem honum hafi borið samkvæmt kjarasamningum. Stefndi segir að stefnandi vísi ekki til þess að brotið hafi verið geng lögum nr. 55/1980 með því að borga ekki orlofslaun ofan á umsamin laun, en vísi til laga nr. 30/1987. Orlofslögin hafi að meginmarkmiði að tryggja launamönnum rétt til orlofs og orlofslauna og stefnandi hafi fengið orlof í starfsnámi sínu. Stefndi hafi lokað fyrirtækinu í að minnsta kosti þrjár vikur á sumri. Stefnandi byggi á því að hann hafi ekki fengið orlofslaun og vísi þar til 7. gr. orlofslaga. Það ákvæði útiloki ekki að samið sé um að greiðslu orlofslauna skuli háttað með öðrum hætti en lögin mæli fyrir um. Þá verði ekki litið fram hjá því að samkvæmt 4. mgr. greinarinnar er heimilað að haga greiðslum eins og stefndi hafi gert. Allir starfsmenn stefnda hafi fengið greidd orlofslaun með sama hætti og stefnandi og því hafi sá háttur, sem verið hafi á greiðslu orlofslaunanna, verið í samræmi við 4. mgr. 7. gr. orlofslaga. Á vinnumarkaði ríki samningafrelsi sem almennt sé ekki takmarkað af öðru en kjarasamningum og í þessu tilfelli 1. gr. laga nr. 55/1980. Eigi þessar takmarkanir ekki við hér. Stefndi segir að talið hafi verið heimilt að semja um laun með þeim hætti sem hér hafi verið gert, ef umsamin kjör séu launamanninum jafnhagstæð eða betri en kjarasamningur kveði á um. Í 1. gr. laga nr. 55/1980 segi að samningar milli launamanna og atvinnurekenda séu ógildir ef samið sé um lakari kjör launamanns en kjarasamningur tryggi. Ekki sé hins vegar bannað að semja um betri kjör honum til handa. Orlofslögin verði ekki skýrð þannig að sé samið um heildarlaun umfram lágmarkslaun beri skilyrðislaust að bæta orlofslaunum við. Það sem máli skipti sé hvort heildarkjör launamannsins séu að minnsta kosti ekki lakari en honum beri samkvæmt kjarasamningi. Af samanburði launaseðla og kauptaxta sé augljóst að kjör stefnanda hafi verið langt umfram lágmarkslaun og því ekkert sem banni að semja um að orlofslaun séu innifalin í launum fyrir hverja klukkustund. Stefndi segir að samkvæmt launaseðlum fái stefnandi fyrst laun frá stefnda í september 2006. Í stefnu segi að hann hafi fljótlega tekið eftir því að við launauppgjör við hver mánaðamót hafi svo virzt sem honum væri ekki greitt orlof. Í stefnu segi að stefnandi hafi fljótlega spurzt fyrir um hverju þetta hafi sætt en það ekki leitt til breytinga. Stefndi kveðst mótmæla því að stefnandi hafi gert athugasemdir við að hann hafi ekki fengið greidd orlofslaun auk umsaminna launa. Verði að leggja það til grundvallar við úrlausn málsins að stefnandi hafi fljótlega veitt því athygli að hann hafi ekki fengið greidd orlofslaun ofan á umsamin laun. Það verði einnig að leggja til grundvallar að í hið minnsta sé ósannað að stefnandi hafi gert athugasemdir. Laun hafi verið greidd með sama hætti að þessu leyti allan tímann, rúm fjögur ár, sem stefnandi hafi verið í vinnu hjá stefnda og hafi stefnandi því sýnt verulegt tómlæti sem hljóti að leiða til sýknu. Í ljósi þessarar vitneskju sem stefnandi hafi haft verði einnig að líta til 13. gr. orlofslaga þar sem lagt sé bann við flutningi orlofslauna milli orlofsára. Skýrsla og framburður fyrir dómi Valdimar Jóhannsson kvaðst hafa starfað í húsgagnaiðnaði frá árinu 1945 en hafa rekið stefnda frá árinu 1966. Hann hefði séð um útreikning og útborgun launa stefnanda og hafi sami háttur verið hafður á hjá honum og öllum öðrum starfsmönnum. Orlofsgreiðslur hefðu verið innifaldar „í kaupinu“. Kvaðst Valdimar ekki muna til þess að stefnandi hefði nokkuru sinni gert athugasemd um að hann fengi ekki greitt orlof. Þegar stefnandi hefði verið við störf í um ár hefði verið tekinn upp sá siður að dregin hafi verið af launum starfsmanna og lögð á sérstakan reikning hvers og eins upphæð, sem nefnd hefði verið orlof, og verið hugsuð fyrir þá þegar fyrirtækinu væri lokað í þrjár vikur að sumarlagi. Hefðu þannig verið dregnar tíu þúsund krónur af launum stefnanda mánaðarlega og lagðar á reikning sem hann hefði tilgreint. Hjá lærðum mönnum hefðu verið dregnar tólf þúsund krónur. Ekki hefði þó verið dregið af launum þeirra starfsmanna sem hefðu óskað eftir að svo yrði ekki gert. Valdimar sagði að samningar við starfsmenn væru munnlegir og stefnandi hefði eins og aðrir gengið inn í það fyrirkomulag sem viðhaft væri í fyrirtækinu. Sjálfsagt hefði honum ekki verið kynnt það sérstaklega í upphafi en svona hefði þetta alltaf verið og aldrei nokkur maður kvartað yfir því. Valdimar sagði að þær þrjár vikur sem fyrirtækið væri lokað að sumri fengju starfsmenn ekki greitt, enda væri litið svo á að þeir hefðu þegar fengið orlofsféð með mánaðarkaupi sínu. Hefði aldrei gerzt að starfsmaður kæmi úr sumarleyfi og teldi sig vanhaldinn um orlofslaun. Vitnið Stefán Kárason smiður kvaðst hafa starfað hjá stefnda óslitið frá árinu 1999. Orlof sitt hefði vitnið fengið innifalið í mánaðarkaupi sínu, en kvaðst ekki vita hvernig þeim málum hefði verið háttað hjá öðrum starfsmönnum, en þeir hefðu ekki rætt slík mál sín á milli. Fyrir ári eða svo hefði verið tekinn upp sá háttur að dregið hefði verið af laununum mánaðarlega og lagt á sérstakan orlofsreikning í eigu vitnisins. Mánaðarleg útborgun hefði lækkað til samræmis. Hefði vitninu verið kynnt þessi breyting fyrir fram en ekki verið leitað sérstaks samþykkis þess fyrir henni. Vitnið sagði að í upphafi starfs síns hefði Valdimar Jóhannsson kynnt sér að orlofsgreiðslunum yrði háttað með þessum hætti og hefði vitnið verið alveg sátt við það. Vitnið sagði að það fengi ekki greidd laun á meðan hann það væri í sumarleyfi. Kvaðst það ekki telja sig vanhaldið um orlof eða annað frá stefnda. Vitnið Kristján Snorrason smiður kvaðst hafa starfað hjá stefnda árin 2003 til 2007. Orlofsgreiðslum til vitnisins hefði verið háttað svo að þær hefðu verið greiddar með mánaðarkaupi en síðar hefði verið tekinn upp sá háttur að föst upphæð var dregin af laununum mánaðarlega og lögð á orlofsreikning. Kvaðst vitnið telja að sami háttur hafi verið hafður á hjá öðrum starfsmönnum, en það hefði ekki kannað það sérstaklega. Vitnið sagði að orlofsins hefði ekki verið sérstaklega getið á launaseðli en það hefði vitað hver taxtinn væri samkvæmt samningi og séð að orlofinu hefði verið bætt ofan á. „Tíminn sem var greiddur, hann var með orlofinu inní.“ Vitnið sagði að forsvarsmenn stefnda hefðu kynnt sér hvaða hátt þeir hefðu á greiðslunum og vitnið hefði ekkert aðhafzt vegna þess, og þannig samþykkt það. Kvaðst vitnið ekki geta séð að það hefði verið hlunnfarið, enda hefði því verið ljóst að orlofsgreiðslurnar fengi það ofan á taxtagreiðslur mánaðarlega. Niðurstaða Stefndi byggir á því og það þykir fá stoð í gögnum málsins að launakjör stefnanda hafi ætíð verið langt umfram lágmarkslaun. Hefur því ekki verið hnekkt og verður við það miðað. Hefur ekkert komið fram í málinu um að þau laun, sem stefnandi fékk greidd, hafi verið lægri en hann hefði fengið ef launagreiðslum hefði verið háttað þannig að orlof hefði verið sérstaklega reiknað af taxtalaunum, sundurliðað þannig á launaseðli, og lagt mánaðarlega á orlofsreikning. Stefnandi var á tuttugasta og fjórða ári þegar hann hóf störf hjá stefnda. Er þess að vænta að menn á þeim aldri kunni fótum sínum forráð á vinnustað eins og þeim sem hér á í hlut, þótt reynslulitlir kunni að hafa verið í atvinnulífinu við upphaf starfs. Samkvæmt 4. mgr. 7. gr. orlofslaga nr. 30/1987 er heimilt að greiða mánaðarkaupsmönnum orlofslaun á sama tíma og reglubundnar launagreiðslur fara fram, enda sé meiri hluti þeirra því samþykkur. Stefndi hefur byggt á því, að fyrirtækið hafi þann hátt á gagnvart öllum sínum starfsmönnum. Að mati dómsins veita framburðir vitnanna Stefáns og Kristjáns því verulegan stuðning, að sá háttur hafi verið almennur hjá stefnda að starfsmönnum væru greidd orlofslaun um leið og reglulegar launagreiðslur. Þykir ekki draga úr trúverðugleika Stefáns að hann starfar enn hjá stefnda, en framburður hans var mjög á sömu lund og Kristjáns sem hættur er störfum hjá stefnda og starfar nú annars staðar. Stefnandi hefur ekkert lagt fram sem hnekkir því að þessi háttur hafi verið almennur, annað en að hann kveðst í stefnu ekkert kannast við að hans launagreiðslum hafi verið háttað svo og segir aldrei um það hafa verið talað við sig. Sjálfur gaf hann ekki skýrslu fyrir dómi. Af launaseðlum sem liggja frammi og áður hefur verið lýst, leynir sér ekki að orlofs er ekki sérstaklega getið sem launaliðar. Á slíku koma fyrst og fremst tvær skýringar til greina, að orlof sé alls ekki greitt eða að það sé innifalið í hinni reglulegu launagreiðslu. Stefnandi kveðst í stefnu sinni hafa tekið eftir að svo virtist sem sér væri ekki greitt orlof. Hann kveðst hafa gert athugasemdir án árangurs. Stefndi kannast ekkert við slíkar athugasemdir, þær eru ósannaðar og gegn mótmælum stefnda verður ekki byggt á þeim. Það að stefnandi hafi fljótt tekið eftir því að orlofs var ekki getið á launaseðlum, en starfi hjá stefnda í á fimmta ár án þess að gera athugasemdir svo hönd festi á, bendir til þess að hann hafi verið sáttur við þann hátt sem hafður var á launagreiðslum, en ekkert þykir koma hafa komið fram um að stefnandi hafi haft réttmætar ástæður til að óttast um starf sitt þótt hann gerði slíkar athugasemdir. Óumdeilt er að fyrirtækinu hafi verið lokað í um þrjár vikur að sumarlagi. Af launaseðlum verður ráðið að þá daga hafi ekki verið reiknuð laun. Ekkert hefur þó komið fram í málinu um að neinn starfsmaður hafi í framhaldi af slíkri launalausri sumarlokun talið sig eiga inni ógreitt orlof hjá stefnda. Af öllu framanröktu verður dregin sú ályktun að sá háttur hafi verið hafður á hjá stefnda að orlofslaun væru greidd með mánaðarkaupi hverju sinni. Í 4. mgr. 7. gr. orlofslaga er áskilið að meiri hluti starfsmanna samþykki að slíkur háttur sé hafður á. Ekki er gerð krafa um að allir starfsmenn veiti samþykki sitt. Svo virðist sem ekki hafi verið leitað slíks samþykkis með formlegum hætti hjá starfsmönnunum, en á hinn bóginn virðist ljóst að þessi háttur hafi verið hafður á árum saman án þess að vitað sé til þess að nokkur starfsmaður hafi hreyft andmælum. Vitnin Stefán og Kristján sögðu báðir að þeim hefði verið kynnt þessi tilhögun í upphafi og þeir ekki gert athugasemdir við hana. Verður að telja eins og á stendur að þessi framgangsmáti, þótt í óformlegra lagi sé, uppfylli skilyrði 4. mgr. 7. gr. orlofslaga, en með honum fengu starfsmennirnir um hver mánaðamótt greitt það fé sem þeir ella hefðu fyrst fengið í hendur að vori. Að mati dómsins var ekki gengið gegn hagsmunum starfsmannanna með því að þessi háttur væri hafður á. Þegar á allt framanritað er horft verður ekki talið að stefnanda hafi tekizt sönnun þess að hann eigi inni hjá stefnda þær fjárhæðir sem hann krefst, hvort sem er í aðalkröfu eða varakröfu. Verður því að sýkna stefnda af kröfum hans. Stefnandi gerir munnlega en ekki skriflega samninga við starfsmenn sína og eins og rakið hefur verið er sumt í óformlegra lagi. Þykir stefndi með því taka nokkura áhættu á að upp komi misklíð og deilt verði um réttindi. Verður ákveðið að hvor aðili beri málskostnað sinn. Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Af hálfu stefnanda fór með málið Ásgeir Örn Jóhannsson héraðsdómslögmaður en af hálfu stefnda Árni Pálsson hæstaréttarlögmaður. Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð Stefndi, Ýmir sf., er sýkn af kröfum stefnanda, Braga Sigurðar Óskarssonar, í máli þessu. Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 146/2013
Fasteignasala Lögmaður Skaðabætur
Ó ehf. krafði Þ um greiðslu skaðabóta vegna tjóns sem félagið taldi sig hafa orðið fyrir vegna mistaka Þ við umsýslu í tengslum við kaup Ó ehf. á landsspildu í eigu D ehf. Þegar litið var til hlutverks Þ í tengslum við umrædd fasteignakaup og atvika að öðru leyti, svo og dóms Hæstaréttar frá 20. október 2011 í máli nr. 721/2010, var talið að ekki væru næg efni til að líta svo á að meint tjón Ó ehf. yrði rakið til vanrækslu Þ á skyldum hans sem fasteignasala. Var Þ því sýknaður af kröfu Ó ehf.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. mars 2013. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 27.882.778 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. nóvember 2007 til 25. júní 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi hefur ekki áfrýjað héraðsdómi fyrir sitt leyti og kemur krafa hans um málskostnað í héraði því ekki til álita fyrir Hæstarétti. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Snyrtistofa Ólafar Ingólfs ehf., greiði stefnda, Guðmundi Þórðarsyni, 100.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjaness 10. desember 2012. Mál þetta, sem var dómtekið 12. f.m., var höfðað í febrúar 2012 af Snyrtistofu Ólafar Ingólfs ehf., Álftamýri 37 í Reykjavík, á hendur Guðmundi Þórðarsyni, Stórahjalla 12 í Kópavogi, en í áritun stefnda á stefnu, sbr. a. liður 3. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamál, er birtingardags ekki getið. Stefnendur krefjast þess að stefnda verði gert að greiða þeim 27.882.778 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. nóvember 2007 til 25. júní 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar. Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans. Stefnandi beindi málsókn sinni einnig að Verði tryggingum hf. og gerði í stefnu þá kröfu að stefndu yrði gert að greiða honum framangreinda fjárhæð í skaðbætur. Í þinghaldi 19. september sl. var fallið frá kröfum á hendur tryggingafélaginu. I Stefndi er héraðsdómslögmaður og löggiltur fasteignasali. Í málinu liggur það fyrir að 28. júní 2008 var undirritaður samningur á milli stefnanda og DT manna ehf. um kaup stefnanda á 40 hektara spildu úr landi jarðarinnar Jaðars í Borgarbyggð. Samninginn undirrituðu Ólöf Ingólfsdóttir fyrir hönd kaupanda og Björgvin Þ. Þorsteinsson fyrir hönd seljanda. Á samninginn er ritað að hann sé saminn af stefnda. Kaupverð var 45.000.000 króna. Í 1. gr. samningsins var eigninni lýst og tekið fram að kaupanda væri kunnugt um að ekki væri hægt að þinglýsa kaupsamningi „fyrr en fastanúmer [lægju] fyrir á lóðunum“. Kaupverðið átti stefnandi að greiða með málverkum, 14 bifreiðum, og inneign á viðskiptanetinu, sbr. 2. gr. kaupsamningsins. Heldur stefnandi því fram að hann hafi að stærstum hluta staðið skil á greiðslu kaupverðs fyrir milligöngu stefnda strax við undirritun kaupsamnings, en sumar þeirra bifreiða sem seljandi spildunnar átti að fá í sinn hlut hafi ekki verið komnar til landsins þá og hafi því ekki verið afhentar. Þá hafi stefnandi haldið eftir greiðslu í formi inneignar á viðskiptanetinu að fjárhæð 6.000.000 króna. Eftirtaldir lausafjármunir, samtals að verðmæti 23.000.000 króna, hafi verið afhentir seljanda og afsalað til hans: 10. tl. Nissan Maxima, árgerð 2003, nr. NF-181(kr. 1.000.000) 12. tl. Nissan Maxima, árgerð 2000 (1.500.000) 13. tl. Chevrolet Equinog, árgerð 2005, nr. MX-270 (1.500.000) 14. tl. Chevrolet Equinog, árgerð 2005(kr. 3.000.000) 15. tl. MMC Galant, árgerð 2002, nr. JD-775 (kr. 1.000.000) Samkvæmt kaupsamningi hvíldi 8.000.000 króna veðkrafa á spildunni sem seljanda bar að aflétta. Gengi það ekki eftir bæri honum að taka á sig innflutningsgjöld vegna bifreiða og tollafgreiða fimm þeirra upp að áhvílandi fjárhæð. Þegar kaupsamningi var þinglýst 4. september 2007, en hann var móttekinn til þinglýsingar 29. ágúst sama ár, var rituð á hann svohljóðandi athugasemd: „Á landinu hvíla veðskuldir að fjárhæð kr. 66.050.000 en ekki 8.000.000 eins og segir í skjali.“ Af þessu tilefni ritaði lögmaður stefnanda bréf til seljanda spildunnar 29. nóvember 2007 þar sem gerð var krafa um að þessum veðböndum yrði aflétt og áskilnaður gerður um heimtu bóta vegna vanefnda. Þá var stefnda sömuleiðis ritað bréf þar sem stefnandi áskildi sér rétt til að krefjast bóta úr hendi hans ef kaupsamningurinn yrði ekki efndur. Var því haldið fram að stefndi hefði ekki gætt hagsmuna stefnanda við kaupsamningsgerðina nægilega með því að stefnandi hefði staðið við meginefni kaupsamningsins af sinni hálfu og afhent verðmæti upp á tugi milljóna án þess að tryggt hefði verið að hann fengi spilduna afhenta veðbandalausa svo sem kaupsamningur kvæði á um. Er í stefnu lýst tilraunum stefnanda til að ná fram réttum efndum á kaupsamningi og viðleitni hans til að takmarka tjón sitt þegar ljóst var orðið að ekki kæmi til þess að spildan yrði leyst úr veðböndum. Þannig lýsti hann bótakröfu að fjárhæð 90.000.000 króna í bú DT manna ehf., sem tekið var til gjaldþrotaskipta 18. mars 2008, en engar eignir fundust í búinu og var skiptum lokið 24. maí 2011 án þess að nokkuð fengist upp í lýstar kröfur. Þá lýsti hann kröfu í söluverð umræddrar spildu, sem seld var nauðungarsölu um mitt ár 2009, en bar þá heldur ekkert úr býtum. Hinn 24. maí 2011 ritaði lögmaður stefnanda stefnda bréf þar sem bóta var krafist úr hendi stefnda vegna mistaka hans við þá umsýslu sem hann hafi haft með höndum í tengslum við framangreindan kaupsamning. Er bótakrafan, 27.882.778 krónur, þar sundurliðuð þannig að annars vegar tekur hún til greiðslna samtals að fjárhæð 23.000.000 krónur sem stefnandi hafi þegar staðið viðsemjanda sínum skil á til samræmis við ákvæði kaupsamnings. Hins vegar var bóta krafist vegna útgjalda sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna þeirra viðskipta sem hér um ræðir. Þannig hafi hann í fyrsta lagi þurfti að greiða 1.625.237 krónur til Frjálsa Fjárfestingarbankans hf. vegna ábyrgðar á láni sem hvíldi á bifreiðinni NF-181, Nissan Maxima, árgerð 2003, sbr. 10. tölulið 2. gr. kaupsamningsins, og seljandi, DT menn ehf., hafi átt að yfirtaka. Í öðru lagi hafi stefnandi þurft að greiða til sama aðila 3.240.643 krónur vegna ábyrgðar á láni sem seljandinn átti einni að yfirtaka og hvíldi á bifreiðinni MX-270, Chevrolet Equinog, árgerð 2005, sbr. 13. tölulið 2. gr. kaupsamningsins. Í þriðja lagi hafi stefnandi greitt 16.898 krónur vegna þinglýsingar- og stimpilgjalda. Í málinu hefur stefnandi uppi þessa sömu kröfu. Stefndi hafnar henni. II Stefnandi byggir dómkröfu sína á því að stefndi hafi með háttsemi sinni brotið gegn skyldum sínum sem löggiltur fasteignasali. Hann hafi valdið stefnanda verulega fjárhagstjóni og sé því bótaskyldur gagnvart honum á grundvelli 27. gr. laga nr. 99/2004 um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa. Stefnandi byggir á því að stefnda hafi borið að gæta réttar síns við kaupsamningsgerð, undirritun kaupsamnings, afhendingu greiðslna og yfirtöku lána er hvíldu á bifreiðum er afhentar voru og tryggja að engar greiðslur yrðu afhentar seljendum fyrr en öruggt væri að þinglýsing kaupsamnings hefði farið fram án athugasemda. Stefndi hafi ekki gætt að þessari grundvallarskyldu sinni sem löggiltur fasteignasali, en það hafi leitt til tjóns fyrir stefnanda. Ef stefndi hefði sýnt þá aðgæslu, réttsýni og vandvirkni í störfum sínum, svo sem krefjast megi af honum, hefði tjónið ekki orðið. Tjónið sé því sennileg afleiðing af háttsemi stefnda, enda verði að telja það undantekningarlausa reglu í fasteignaviðskiptum að þess sé gætt að greiðslur gangi ekki frá kaupanda til seljanda fyrr en kaupsamningi hefur verið þinglýst. Stefnda hafi borið að gæta greiðslnanna á skrifstofu sinni og hann hafi alls ekki mátt láta stefnanda afhenda seljanda undirritaðar eigendaskiptatilkynningar fyrr en kaupsamningi hafði verið þinglýst. Þar sem tjón hafi hlotist af gáleysi stefnda beri hann skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda. Stefnandi bendir á að samkvæmt 15. gr. laga nr. 99/2004 skuli fasteignasali gæta hagsmuna bæði kaupanda og seljanda. Hann skuli í hvívetna leysa af hendi störf sín svo sem góðar viðskiptavenjur bjóða. Hann skuli liðsinna báðum aðilum, seljanda og kaupanda, og gæta réttmætra hagsmuna þeirra. Þá beri honum einnig að gæta þess að aðila séu eigi settir ólögmætir, ósanngjarnir eða óeðlilegir kostir í samningum. Stefndi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt ákvæði 15. gr. laga nr. 99/2004 gagnvart stefnanda. Með því að láta afhendingu kaupverðsins af hálfu stefnanda fara fram á skrifstofu sinni við undirritun kaupsamnings hafi hann skapað aðstæður er leitt hefðu til þess að hið mikilvæga jafnvægi á milli afhendingar seljanda og greiðslu kaupanda raskaðist og verulega hætta skapaðist á að kaupandi yrði fyrir tjóni. Stefnandi byggir á því að á stefnda hafi hvílt sérstök varúðarskylda við framkvæmd þessara viðskipta. Stefndi hafi átt í umtalsverðu viðskiptasambandi við DT menn ehf. og aðstandendur félagsins og tekið að sér að annast frágang viðskiptanna fyrir þá. Samkvæmt 3. mgr. 14. gr. laga nr. 99/2004 skuli fasteignasali tilkynna aðilum tafarlaust með sannanlegum hætti hafi hann nokkurra annarra hagsmuna að gæta en þeirra er varða greiðslu þóknunar og útlagðs kostnaðar. Stefndi hafi ekki rækt þessa skyldu sína og því hafi stefnandi engan grun haft um að tengsl væri milli stefnda annars vegar og DT manna ehf., fyrirsvarsmanna þess félags og einkahlutafélaga á þeirra vegum hins vegar. Sérstök varúðarskylda hafi jafnframt hvílt á stefnda vegna þess að honum hafi verið það ljóst að bið yrði á því að mögulegt væri að þinglýsa kaupsamningi, sbr. niðurlagsákvæði 1. gr. kaupsamningsins. Miðað við orðalag þess virðist sem stefndi hafi ákveðið að varpa áhættunni yfir á stefnanda í stað þess að gæta hagsmuna hans í hvívetna eins og fasteignasala beri að gera. Hættan hafi átt að vera stefnda augljós, en hann kosið að horfa framhjá henni og varpa áhættunni á stefnanda. Samkvæmt framansögðu og umfram hina sérstöku varúðarskyldu sem hvílt hafi á stefnda sem löggiltum fasteignasala hafi verið enn frekari ástæða fyrir hann að sýna af sér varfærni við frágang kaupanna. Hann hafi brugðist þeirri skyldu sinni og sú framganga hans leitt til verulegs fjártjóns fyrir stefnanda. Krafa um vexti er gerð með vísan til III. og IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Að því er varðar kröfu um málskostnað er þess sérstaklega getið í stefnu að stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og sé honum því nauðsynlegt að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnda. III Í greinargerð stefnda er því haldið fram að þeir tveir einstaklingar sem komu fram fyrir hönd einkahlutfélaganna sem aðild áttu að umræddum kaupsamningi, það er Hannes Ragnarsson fyrir hönd stefnanda og Björgvin Þorsteinsson fyrir hönd seljanda spildunnar, hafi báðir verið vel sjóaðir í því sem kallast „brask“ og stefndi hafi því ekki verið að hafa vit fyrir einhverjum óvönum aðilum í viðskiptum. Stefndi hafi fyrst stillt upp samkomulagi á milli aðila og í framhaldi af því kaupsamningi, en jafnframt hafi verið útbúin afsöl og sölutilkynningar fyrir stefnanda vegna bifreiðanna sem seljandi átti að fá í sinn hlut þannig að þær væru tilbúnar þegar átti að nota þær. Þær hafi síðan átt að afhenda jafnóðum og afhending á bifreiðunum færi fram, en flestir hafi þær verið niðurkomnar í Eistlandi í Rússlandi þá er kaupsamningurinn var gerður og því hafi átt eftir að leysa þær út þar og flytja hingað til lands, auk þess sem ekki hafi verið búið að standa skil á kaupverði þeirra í útlöndum. Stefndi hafi í raun ekkert haft í höndunum um það hver væri skráður eigandi bifreiðanna og afsölin og sölutilkynningar því hripaðar upp eftir Hannesi Ragnarssyni. Aðilar hefðu fengið í hendur hvor sitt eintaka af kaupsamningi og kaupandi hafi átt að þinglýsa afsali jafnskjótt og það væri hægt. Með þessu hafi hlutverki stefnda verið lokið og hann hafi ekki átt frekari aðkomu að málinu. Hvað Hannes Ragnarsson gerði eftir þetta hafi stefndi í fyrstu enga vitneskju haft um. Síðar hafi hann fregnað að Hannes hefði afhent einhverja bíla og dót fljótlega eftir samningsgerðina. Stefndi hafi ekki með nokkru móti getað fylgst með því sem þessir menn aðhöfðust úti í bæ án hans vitundar, enda ekki hafi ekki staðið til að hann yrði hafður með í ráðum. Kveðst stefndi fyrst hafa heyrt um vandmál sem upp væru komin þegar þeir hefðu komið á skrifstofu hans til að kvarta hvor yfir öðrum, Hannes yfir veðsetningum og Björgvin yfir því að þeir bílar sem honum voru afhentir væru í lélegu ástandi og að á þeim hvíldu veð umfram það sem kaupsamningur gerði ráð fyrir. Hafi stefnda virst sem það hafi fljótlega komið í ljós að hvorugur aðila hafi getað staðið við samninginn. Í þeim kafla greinargerðar sem hefur að geyma rökstuðning fyrir kröfugerð stefnda eru í fyrstu rakin sjónarmið sem að mati hans eiga að leiða til þess að vísa beri málinu frá dómi án kröfu. Könnun stefnda hafi leitt í ljós að samkvæmt skattframtölum og ársreikningum hafi stefnandi allt frá stofnun félagsins engar eignir átt sem það hefði getað selt eða notað í þeim viðskiptum sem til umfjöllunar eru í málinu og að það hafi engan rekstur haft með höndum allt frá stofnun þess árið 2005 og út árið 2010. Þá hafi fyrirsvarsmaður stefnanda og eiginkona hans persónulega staðið skil á þeim útgjöldum sem bótakrafa félagsins tekur meðal annars til samkvæmt því sem áður er getið. Með þetta allt í huga verði ekki séð að fyrir liggi að stefnandi geti átt aðild að þessu máli eða að félagið geti yfir höfuð haft uppi bótakröfu í því. Þar með beri dómara að vísa málinu frá dómi án kröfu, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann hafi ekki átt neina þá aðkomu að málinu sem leitt geti til bótaábyrgðar hans. Fyrirsvarsmenn þeirra einkahlutafélaga sem hér áttu hlut að máli, það er Hannes Ragnarsson stjórnarmaður í stefnanda og Björgvin Þorsteinsson sem verið hafi í fyrirsvari fyrir DT menn ehf., hafi komið á hans fund með uppkast að samningi og beðið hann um að „stilla þessu upp“ með formlegum hætti. Áður en til þess kom hefðu þeir átt fund með Þorsteini Halldórssyni, sem ranglega sé sagður hafa verið starfsmaður stefnda. Samkvæmt þessu hafi stefndi ekki komið á því viðskiptum sem deilt sé um í málinu, enda hafi hann ekki haft umrædda spildu til sölumeðferðar og hann hafi ekki gengið frá söluumboði svo sem skylt sé að gera ef eignir eru teknar til sölumeðferðar. Hann hafi einungis stillt upp samkomulagi og kaupsamningi milli aðilanna án þess að hafa nokkur önnur afskipti af viðskiptunum. Skýrlega hafi verið tekið fram í kaupsamningnum að hann yrði ekki raunhæfur fyrr en búið væri að aflétta veði af spildunni og fá fastanúmer á hana. Þetta hafi komið fram í samkomulaginu sem fyrst var undirritað og síðan ítrekað í kaupsamningi og í umræðum um hann. Aðilar hefðu fengið í hendur eintak af kaupsamningnum og ætlað að sjá um sig sjálfir þaðan í frá. Þar með hafi afskiptum stefnda af málinu lokið. Það hafi verið vonlaust fyrir hann að fylgjast með því hvað aðilarnir gerðu eftir að þeir yfirgáfu skrifstofu hans. Vísar stefndi að því er framangreint varðar til skriflegrar yfirlýsingar Björgvins Þorsteinssonar, sem lögð hefur verið fram í málinu, en þar sé réttilega skýrt frá því hvernig þetta allt gekk fyrir sig. Stefndi vísar því á bug að hann hafi verið í verulegum viðskiptatengslum við DT menn ehf. þegar umrædd viðskipti fóru fram. Hann hafi ekkert þekkt Björgvin Þorsteinsson, en Hannes Ragnarsson hafi hann aftur á móti þekkt og hin takmarkaða aðkoma stefnda að málinu hafi í raun verið vinargreiði við hann sem ekkert endurgjald hafi komið fyrir. Stefndi sé skoðunarmaður í 130-140 einkahlutafélögum og að sú staða hans haldist oftast óbreytt þótt eigendaskipti verði, en sú hafi einmitt verið raunin að því er varðar einkahlutafélög sem Björgvin hafi eignast. Þá sýni það varla viðskiptatengsl þótt stefndi hafi lýst kröfum fyrir skjólstæðinga sína í þrotabú DT manna ehf. Stefndi áréttar að hlutverk hans í tengslum við kaup stefnanda á umræddri spildu hafi verið mjög afmarkað og meint tjón stefnanda verði í því ljósi ekki rakið til vanrækslu af hans hálfu á lögbundnum skyldum hans. Honum hafi ekki verið ætlað að hafa frekari afskipti af málinu eftir að fyrirsvarsmenn aðila fór út af skrifstofu hans með samninginn í höndunum. Stefndi beri því enga ábyrgð á efndum samningsins og ekkert orsakasambanda sé milli vinnu hans við það að setja samninginn upp og þess tjóns sem stefnanda telur sig hafa orðið fyrir. Það sé frekar klént að reyna að „klína“ einhverri ábyrgð á hann vegna þess klúðurs sem Hannes Ragnarsson hafa sjálfur komið sér og einkahlutafélagi eiginkonu sinnar í. Í niðurlagi greinargerð stefnda er því haldið fram að þær bætur sem verið er að fara fram á úr hendi hans séu gjörsamlega út í hött hvað fjárhæðir varðar „enda ekki séð hvernig stefnandi sé eða hafi verið eigandi að neinu af því sem hann var að afhenda samkvæmt fyrirliggjandi gögnum.“ IV Í greinargerð lýsir stefndi aðkomu sinni að gerð samnings um kaup stefnanda á 40 hektara spildu úr landi Jaðars í Borgarbyggð. Heldur hann því fram að það verkefni sem hann tók að sér að vinna fyrir samningsaðila hafi takmarkast við að ganga frá formlegum kaupsamningi á grundvelli samkomulags sem þeir hefðu þá þegar gert. Hann hafi ekki haft frekari afskipti af málinu þaðan í frá, enda ekki til þess ætlast. Telur hann sig af þessum sökum ekki bera ábyrgð á mögulegu tjóni stefnanda. Þess utan hafi stefnandi ekki fært fyrir því sönnur hvert tjón hans sé. Stefndi hafði spilduna sem um ræðir í málinu ekki til sölumeðferðar og ekki eru efni til að líta svo á að hann teljist hafa haft milligöngu um þau viðskipti með hana sem bótakrafa stefnanda er sprottin af. Þykir jafnframt verða að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að stefndi hafi í aðdraganda kaupsamnings haft það hlutverk eitt samkvæmt ósk fyrirsvarsmanna samningsaðila að færa á blað þá skilmála kaupa sem þeir höfðu komið sér saman um þegar til hans var leitað. Er þess og að geta, þótt það hafi að jafnaði ekki þýðingu við mat á bótaábyrgð sérfræðinga, að stefndi mun ekki hafa þegið greiðslu fyrir það verk sem kaupsamningsaðilar fólu honum. Sjálfur hefur hann skýrt svo frá að það hafi verið vinargreiði við þann einstakling sem verið hafi í fyrirsvari fyrir stefnanda, Hannes Ragnarsson. Er í öllu falli ósannað að hagsmunatengsl á milli stefnda og viðsemjanda stefnanda eða forsvarsmanna þess félags hafi verið fyrir hendi. Við undirritun kaupsamningsins 28. júní 2007 var ljóst að fastanúmer spildunnar lá ekki fyrir og að ekki væri unnt að þinglýsa honum fyrr en úr því hefði verið bætt, sbr. þágildandi d. liður 2. mgr. 6. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978, en í 1. gr. samningsins var sérstaklega tekið fram að stefnanda væri kunnugt um þessa stöðu. Verður ekki séð að stefnda hafi þaðan í frá verið ætlað að eiga aðkomu að framvindu þessara viðskipta og leggja verður til grundvallar að hann hafi í reynd ekki gert það. Kaupsamningurinn var síðan móttekin til þinglýsingar 29. ágúst 2007, þ.e. þegar tveir mánuðir voru liðnir frá undirritun hans, og hann innfærður í þinglýsingabók 4. september sama ár. Svo sem fram er komið var rituð á hann athugasemd þinglýsingarstjóra þess efnis að á spildunni hvíldu veðskuldir að fjárhæð 66.050.000 krónur, en ekki 8.000.000 krónur svo sem tekið var fram í samningnum. Upplýst er að þau veðbréf sem hér um ræðir voru móttekin til þinglýsingar 9. júlí og 8. ágúst 2007. Andstætt því sem haldið hefur verið fram af hálfu stefnanda þykir ekki unnt að ganga út frá því við úrlausn málsins að greiðsla á hluta kaupsverðs spildunnar hafi farið fram á skrifstofu stefnda á kaupsamningsdegi með því að seljandi hennar hafi þá þegar fengið afhenta frá stefnanda einhverja þá lausafjármuni sem samkvæmt samningnum áttu að vera gagngjald fyrir hana. Skortir reyndar alveg upplýsingar í málinu um framvindu viðskiptanna að þessu leyti. Með tilvitnuðu ákvæði kaupsamnings sem laut að þinglýsingu hans lá fyrir með skýrum hætti að vikið væri frá viðtekinni og almennt þekktri tilhögun í viðskiptum með fasteignir. Samkvæmt gögnum málins var Hannes Ragnarsson, sem mun hafa komið fram fyrir hönd stefnanda við kaupsamningsgerðina, á sama tíma stjórnarmaður í að minnsta kosti tveimur einkahlutafélögum sem samkvæmt samþykktum þeirra stunduðu útleigu á atvinnuhúsnæði og tilgangur annars þeirra var kaup og sala fasteigna og hvers konar umsýslu með þær. Samkvæmt 27. gr. laga nr. 99/2004 um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa ber fasteignasali ábyrgð á tjóni sem hann eða starfsmenn hans valda í störfum sínum, af ásetningi eða gáleysi. Um sakarmat og sönnun gilda reglur skaðabótaréttar. Með vísan til þess sem rakið er hér að framan um hlutverk stefnda í tengslum við umrædd fasteignakaup og atvik að öðru leyti, svo og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar frá 20. október 2011 í máli nr. 721/2010, er það mat dómsins að ekki séu næg efni til að líta svo á að meint tjón stefnanda verði rakið til vanrækslu stefnda á skyldum hans sem fasteignasala. Að þessari niðurstöðu fenginni þarf ekki að fjalla um hvert meint tjón stefnanda kann að vera. Samkvæmt framansögðu er stefndi sýknaður af kröfum stefnanda, en rétt þykir að málskostnaður falli niður. Þorgeir Ingi Njálsson dómstjóri kvað upp dóm þennan. D ó m s o r ð Stefndi, Guðmundur Þórðarson, er sýknaður af kröfum stefnanda, Snyrtistofu Ólafar Ingólfs ehf. Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 246/2013
Samningur Gagnsök Sératkvæði
Í ehf. höfðaði mál á hendur S ehf. og krafðist greiðslu eftirstöðva kaupverðs vegna fellihýsis og markisu, en málsaðila greindi á um hvort komist hefði á samningur milli S ehf. og Í ehf. um kaupin. S ehf. hélt því meðal annars fram að Í ehf. hefði beint kröfu sinni að röngum aðila, þar sem S ehf. hefði einungis ætlað sér að leigja fellihýsið af kaupanda þess, SP hf. Talið var að ekkert í gögnum málsins renndi stöðum undir að SP hf. hefði keypt fellihýsið af Í ehf. Þvert á móti yrði ráðið af aðdraganda viðskiptanna, greiðslu S ehf. til handa Í ehf., eftir að fyrirsvarsmaður S ehf. kom á starfsstöð Í ehf., skoðaði þar fellihýsið og fékk það afhent, og yfirlýsingar fyrirsvarsmanns S ehf., um að kaupandi greiddi virðisaukaskatt af kaupverði, að komist hefði á skuldbindandi samningur milli S ehf. og Í ehf. um kaup S ehf. á fellihýsinu. Var skráning fellihýsisins í ökutækjaskrá og reikningur, sem gefinn var út á hendur SP hf. fyrir greiðslu kaupverðs þess, engu talið breyta um það kröfuréttarsamband sem stofnast hefði milli Í ehf. og S ehf. Var S ehf. því gert að greiða Í ehf. eftirstöðvar kaupverðs vegna fellihýsisins og markisu.
Dómur Hæstaréttar Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. Aðaláfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 5. febrúar 2013. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 20. mars 2013 og áfrýjaði hann öðru sinni 11. apríl sama ár. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 24. júní 2013. Hann krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms en hefur fallið frá kröfu sinni á hendur stefnda, Cecil Viðari Jensen. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Stefndi, Cecil Viðar Jensen, krefst málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Gagnáfrýjandi flytur inn og selur bifreiðar og önnur ökutæki. Óumdeilt er að fyrirsvarsmaður aðaláfrýjanda kom á starfsstöð gagnáfrýjanda, skoðaði þar fellihýsið BJ D73 og undirritaði kaupleigusamning við fjármögnunarfyrirtækið SP fjármögnun hf. 15. júlí 2011. Í kaupleigusamningnum er SP fjármögnun hf. sagt vera leigusali og aðaláfrýjandi leigutaki. Þar segir að leigusali og leigutaki hafi gert með sér samkomulag um afnotarétt eiganda að fellihýsinu og kaup leigutaka að því í lok leigutíma. Samningsverð er tilgreint 1.314.661 króna. Aðaláfrýjandi greiddi gagnáfrýjanda 100.000 krónur og 294.398 krónur þegar hann fékk fellihýsið afhent. Í kjölfarið notaði hann fellihýsið sumarið 2011. Fyrir dómi bar fyrirsvarsmaður gagnáfrýjanda að fyrirsvarsmaður aðaláfrýjanda hafi komið á starfsstöð hans að ,,kaupa vöru“ og að gerður hafi verið munnlegur samningur um kaupin. Jafnframt kvað hann þann kaupleigusamning sem liggur frammi í málinu vera hefðbundinn á þann hátt að SP fjármögnun hf. sé skráð sem eigandi hins selda, en lántaki sleppi við að greiða þinglýsingagjöld og stimpilgjöld og lántaki sé umráðamaður hins selda. Hann kvað fyrirsvarsmann aðaláfrýjanda hafa sagst vera með fyrirtæki og viljað ,,nota virðisaukaskattinn“ þar sem hann ætlaði að ,,taka þetta inn í þennan rekstur sinn“. Spurður um ástæðu þess að í sölutilkynningu sé seljandi sagður vera Olíuverslunin eða Ellingsen, kvað hann gagnáfrýjanda hafa keypt lager af fellihýsum af Ellingsen og á þeim tíma er gagnáfrýjandi seldi ofangreint fellihýsi hafi ekki verið búið ,,að nafnbreyta [fellihýsinu] yfir“ á gagnáfrýjanda. Fyrirsvarsmaður aðaláfrýjanda hafi skilað fellihýsinu vegna meints galla og sé það nú á þjónustuverkstæði Ellingsen. Gagnáfrýjandi gaf út reikning 15. júlí 2011 vegna sölu á fellihýsinu og markisu á hendur SP fjármögnun hf. og er kaupverð hins selda tilgreint 1.649.900 krónur með virðisaukaskatti. Sama dag var SP fjármögnun hf. skráð sem eigandi fellihýsisins í ökutækjaskrá og aðaláfrýjandi sem umráðamaður þess. Á reikninginn er handskrifað að kaupandi greiði virðisaukaskatt 335.239 krónur 5. október 2011. Þar undir er nafn fyrirsvarsmanns aðaláfrýjanda ritað eigin hendi. Á reikningnum kemur jafnframt fram að umráðamaður hins keypta sé aðaláfrýjandi. Í gögnum málsins er að finna yfirlýsingu Landsbankans hf., 12. október 2012, sem SP fjármögnun hf. mun hafa sameinast, um að fyrrgreindur kaupleigusamningur hafi ekki verið undirritaður á fullnægjandi hátt, en hann hafi verið gerður á starfsstöð gagnáfrýjanda. Hann hafi ekki orðið ,,virkur“ og muni bankinn ,,ekki gera neinar kröfur vegna þessa samnings“. Sé aðeins ,,beðið eftir niðurstöðu dómsmálsins varðandi það hver á að vera skráður eigandi BJD-73”. II Ágreiningur málsins snýst um hvort komist hafi á samningur milli aðaláfrýjanda og gagnáfrýjanda um kaup á ofangreindu fellihýsi og markisu, en aðaláfrýjandi heldur því fram að hann hafi einungis ætlað sér að leigja fellihýsið af SP fjármögnun hf., sem hafi verið kaupandi þess. Við mat á því hvort til kröfuréttarsambands milli SP fjármögnunar hf. og gagnáfrýjanda hafi stofnast, sem leitt geti til þess að gagnáfrýjandi hafi í máli þessu beint kröfu sinni um greiðslu kaupverðs að röngum aðila, ber að líta til þess að fyrirsvarsmaður aðaláfrýjanda kom á starfsstöð gagnáfrýjanda, skoðaði þar fellihýsi og fékk það afhent eftir að hafa greitt gagnáfrýjanda 394.398 krónur. Óumdeilt er að engar greiðslur komu frá SP fjármögnun hf. vegna þessara viðskipta og aðaláfrýjandi skilaði fellihýsinu til gagnáfrýjanda vegna meints galla, en ekki til SP fjármögnunar hf. Þannig er ekkert í gögnum málsins sem rennir stoðum undir að SP fjármögnun hf. hafi keypt fellihýsið af gagnáfrýjanda. Þvert á móti verður ráðið af aðdraganda viðskiptanna, fyrrgreindri greiðslu aðaláfrýjanda og yfirlýsingu fyrirsvarsmanns hans um að kaupandi greiði virðisaukaskatt af kaupverði, að komist hafi á skuldbindandi samningur milli aðaláfrýjanda og gagnáfrýjanda um kaup þess fyrrnefnda á fellihýsinu. Breytir skráning í ökutækjaskrá og reikningur útgefinn á SP fjármögnun hf. fyrir greiðslu kaupverðs, engu um það kröfuréttarsamband sem stofnast hafði milli aðaláfrýjanda og gagnáfrýjanda. Liggur enda fyrir yfirlýsing Landsbankans hf. þess efnis að fyrrgreindur kaupleigusamningur hafi ekki orðið ,,virkur“ og muni SP fjármögnun hf. ,,ekki gera neinar kröfur vegna þessa samnings“. Málsástæður til stuðnings því að aðaláfrýjandi hafi rift kaupunum eða þau fallið niður eru ekki studdar gögnum og eru því haldlausar. Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Yfirlýsing gagnáfrýjanda um að fallið væri frá kröfum á hendur stefnda, Cecil Viðari Jensen, kom fyrst fram eftir að skilað hafði verið greinargerð af hans hálfu fyrir Hæstarétti. Verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Aðaláfrýjandi, Sól og heilsa ehf., greiði gagnáfrýjanda, Íslensk-bandaríska ehf. 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Gagnáfrýjandi greiði stefnda, Cecil Viðari Jensen 100.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Sératkvæði Ólafs Barkar Þorvaldssonar hæstaréttardómara Eins og greinir í atkvæði meirihluta dómenda er gagnáfrýjandi innflytjandi og söluaðili bifreiða og annarra ökutækja hér á landi. Hinn 15. júlí 2011 kom fyrirsvarsmaður aðaláfrýjanda, Cecil Viðar Jensen, á starfstöð gagnáfrýjanda og undirritaði þar drög að kaupleigusamningi við fjármögnunarleigufyrirtækið SP fjármögnun hf. vegna fellihýsis með fastanúmerið BJ D73. Í drögunum var aðaláfrýjandi skráður leigutaki og SP fjármögnun hf. leigusali. Samningsverð var þar tilgreint 1.314.661 króna. Við undirritun samnings skyldi greiða 394.398 krónur í fyrstu leigugreiðslu en eftir það skyldi mánaðarlegt legugjald vera 14.692 krónur, verðtryggt miðað við vísitölu neysluverðs með fyrsta gjalddaga 1. september 2011 en hinn síðasta 1. ágúst 2018. Hinn 15. júlí 2011 gaf gagnáfrýjandi út reikning á hendur SP fjármögnun hf. fyrir sölu á framangreindu fellihýsi og markisu, samtals að fjárhæð 1.314.661 króna sem á lagðist virðisaukaskattur að fjárhæð 335.239 krónur. Á reikningnum kom fram að aðaláfrýjandi væri „umráðamaður“ hins selda. Þá var ritað: „Kaupandi greiðir VSK 335.239 þann 5. október 2011“ og fylgdi þessari áritun undirskrift Cecils Viðars. Með tilkynningu 15. júlí 2011 undirritaðri af hálfu gagnáfrýjanda, SP fjármögnunar hf. og Cecils Viðars til Umferðarstofu var SP fjármögnun hf. skráð eigandi fellihýsisins. Ekki verður ráðið að óumdeilt sé að aðaláfrýjandi og Cecil Viðar hafi greitt inn á kaupverðið eins og greinir í héraðsdómi. Greiðslur þær sem inntar voru af hendi, samtals 394.398 krónur, og gagnáfrýjandi tók við voru í samræmi við fjárhæð fyrstu leigugreiðslu samkvæmt drögum að kaupleigusamningnum. Þá hefur það ekki sérstaka þýðingu við úrlausn málsins að fyrirsvarsmenn aðaláfrýjanda gáfu ekki skýrslu í héraði eins og miðað er við í hinum áfrýjaða dómi. Ágreiningur máls þessa snýst um hvort til gilds kaupsamnings hafi stofnast milli aðaláfrýjanda og gagnáfrýjanda um kaup á umræddu fellihýsi og markisu. Krefur gagnáfrýjandi aðaláfrýjanda um greiðslu kaupverðs á grundvelli þess kaupsamnings sem stofnast hafi. Samkvæmt því sem fram er komið í málinu stóð til af hálfu gagnáfrýjanda að SP fjármögnun hf. yrði eigandi fellihýsisins og markisunnar og myndi greiða kaupverðið, en SP fjármögnun hf. leigja svo tækin aðaláfrýjanda. Af því varð ekki þar sem af hálfu gagnáfrýjanda og SP fjármögnunar hf. er miðað við að ekki hafi verið ritað undir fjármögnunarleigusamninginn af hálfu aðaláfrýjanda með fullnægjandi hætti. Neitaði SP fjármögnun hf. að greiða gagnáfrýjanda kaupverðið þar sem ekki hafði stofnast til gilds kaupleigusamnings þess félags við aðaláfrýjanda. Sú staðreynd leiðir þó ekki til þess að gagnáfrýjandi, sem sá um skjalagerð og annaðist um framangreinda tilkynningu til Umferðarstofu, hafi sýnt fram á að kaupsamningur hafi komist á milli hans og aðaláfrýjanda þannig að þeim síðarnefnda beri að efna slíkan samning eftir því efni sem gagnáfrýjandi miðar við. Eins og málatilbúnaði gagnáfrýjanda er háttað tel ég því að sýkna beri aðaláfrýjanda af kröfu gagnáfrýjanda en fella eigi að síður niður málskostnað þeirra í millum á báðum dómstigum, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um málskostnað til handa Cecil Viðari er ég sammála niðurstöðu meirihluta dómenda. Dómur Héraðsdóms Reykjaness 7. nóvember 2012. Mál þetta, sem var þingfest 14. desember 2011 og dómtekið 15. október 2012, var höfðað af Íslensk-bandaríska ehf., kt. 620498-3439, Þverholti 6, Mosfellsbæ, með birtingu stefnu 1. desember 2011 gegn Sól og heilsu ehf., kt. 450687-1629, Pósthólfi 228, Kópavogi, og Cecil V. Jensen, kt. 050842-3129, Lækjarhvammi 12, Hafnarfirði. Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði dæmdir, in solidum, til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 1.255.502, ásamt dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af kr. 920.263 frá 15.7.2011 til 05.10.2011, af kr. 1.255.502 frá 05.10.2011 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins, allt gegn útgáfu afsals á BJD73 til stefnda. Stefndu gera aðallega þá kröfu að þau verði sýknuð af kröfum stefnanda. Til vara er gerð krafa um að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Í báðum tilvikum krefjast stefndu málskostnaðar að skaðlausu að mati réttarins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun. Málavextir: Stefnandi kveðst flytja inn bíla, hjól og önnur ökutæki og annast umsýslu og sölu á slíkum vörum. Samkvæmt stefnanda gerðu stefnandi og stefndu, þann 15. júlí 2011, með sér samning um að stefndi Sól og heilsa ehf. keypti fellihýsið BJD73, sem er af gerðinni Coleman Fleetwood, ásamt markisu, af stefnanda. Kaupverð hafi verið 1.649.900 krónur. Um hafi samist að stefndi greiddi 100.000 krónur við samningsgerð og 294.398 krónur við afhendingu. Stefndi hafi átt að greiða virðisaukaskattshluta kaupverðsins til stefnanda, 335.239 krónur, þann 5. október 2011 en eftirstöðvarnar ætlaði stefndi að fjármagna með lántöku hjá SP-Fjármögnunarleigu, að fjárhæð 920.263 krónur. Hafi stefndi fengið lánsloforð frá SP-Fjármögnun hf., fyrir milligöngu stefnanda. Samið hafi verið um á milli stefndu og SP-Fjármögnunar að stefndu fjármögnuðu kaupin með kaupleigusamningi þannig að Sól og heilsa ehf. væri greiðandi en að sjálfskuldarábyrgð yrði hjá stefnda Cecil. Stefndi hafi fyllt út gögn frá SP-Fjármögnun hjá stefnanda en á ófullnægjandi hátt, þ.e.a.s. stefndi Cecil undirritaði samninginn sem ábyrgðarmaður en sem greiðandi og leigutaki hafi hann aðeins skrifað „Fyrir hönd sól og heilsu“. SP-Fjármögnun hf. hafi ekki talið þetta fullnægjandi og neitað að greiða umsamda fjárhæð út til stefnanda. Áður en mistökin komu í ljós hafi stefndu fengið fellihýsið afhent. Daginn eftir að stefndu fóru með fellihýsið kom í ljós að stefndi Sól og heilsa ehf. fengi ekki umrætt lán frá SP-Fjármögnun nema lagfæra undirritun sína. Stefndi Cecil hafi margsinnis ætlað að koma til stefnanda og lagfæra undirskriftina á samningnum en þegar á leið hafi hann borið göllum á hjólhýsinu við og neitað að undirrita tilætluð gögn. Stefndu hafi fengið fellihýsið afhent við samningsgerðina og séu með það í sínum vörslum og hafi notað það frá afhendingardegi. Fellihýsið hafi verið skráð hjá Umferðarstofu á nafn SP-Fjármögnunar hf. en stefndi Sól og heilsa ehf. sé skráður umráðamaður. Málsástæður stefnanda: Stefnandi byggir á því að skuldbindandi munnlegur samningur hafi stofnast milli hans og stefndu, er varði kaup á fellihýsinu. Stefndi hafi greitt útborgun til stefnanda og undirritað samning milli stefnda og SP-Fjármögnunar hf. fyrir milligöngu stefnanda og fengið fellihýsið afhent í kjölfarið og notað það. Auk þess hafi hann fallist á að greiða stefnanda virðisaukaskattsgreiðslu vegna kaupanna síðar, eða 5. október 2011. Vegna ófullnægjandi undirskriftar stefndu hafi SP- Fjármögnun hf. neitað að greiða lánið til stefnanda. Þrátt fyrir ítrekanir hafi stefndu ekki fengist til að ganga frá undirritun sinni hjá stefnanda né SP-Fjármögnun hf. Við aðalmeðferð málsins komu fyrir dóm fyrirsvarsmaður stefnanda auk tveggja starfsmanna stefnanda. Báru þeir allir að gerður hafi verið samningur um kaup stefndu á fellihýsinu af stefnanda og að stefndu hafi verið ljóst að ekki væri um leigusamning að ræða. Stefnandi hafi aldrei leigt út fellihýsi heldur einungis boðið þau til sölu. Stefnandi hafi keypt af Ellingsen fimmtíu fellihýsi og endurselt síðan. Ellingsen hafi í tengslum við þau viðskipti tekið að sér tveggja ára þjónustusamning vegna bilana og eða galla á fellihýsunum. Kvað stefnandi stefnda Cecil hafa kvartað yfir göllum eftir að ítrekað hafi verið reynt að fá hann til að ganga lögformlega frá undirskriftum og að lokum hafi stefndi Cecil komið með fellihýsið til stefnanda og stefnandi fylgt honum til Ellingsen í þeim tilgangi að kanna hvort um gallað eintak væri að ræða. Stefndi Cecil hafi þá sagt að stefnandi gæti hirt fellihýsið og hafi yfirgefið vettvang. Fellihýsið væri enn staðsett hjá Ellingsen en það væri þar á ábyrgð stefndu. Ekkert hafi komið fram um meinta galla á fellihýsinu og aldrei hafi neinum kröfum um riftun á kaupunum verið beint til stefnanda. Þá hafi stefndu ekki borið fyrir sig að um kaupleigu hafi verið að ræða fyrr en í greinargerð sinni fyrir dóminum. Stefnandi kveðst mótmæla öllum málsástæðum sem fram komi í greinargerð stefndu. Þá kveður stefnandi að samningssamband á milli stefndu og SP-fjármögnunar hafi aldrei komist á. Stefndi Cecil hafi komið til stefnanda, óskað eftir kaupum á nýju fellihýsi, greitt inn á kaupverðið og óskað eftir því að skrá stefnda Sól og heilsu ehf. sem kaupanda þar sem hann ætlaði að nýta sér virðisaukaskattinn sem innskatt í rekstri félags síns. Því hafi hann óskað eftir því að greiða þá fjárhæð sem nam virðisaukaskattinum síðar eða á þeim tíma er stefnandi átti að skila til ríkisins skattinum. Það hafi stefnandi samþykkt, enda hafi stefndi Cecil kvittað undir það á reikninginn með eigin undirritun. Segir stefnandi að hafi verið um leigu að ræða þá greiddist ekki virðisaukaskattur af kaupverðinu. Kvað hann tilganginn með fyrirkomulagi stefndu og SP-Fjármögnunar hf. vera sniðganga á stimpil- og lántökugjöldum, en það væri stefnanda óviðkomandi. Þetta væri þekkt fyrirkomulag, enda væri niðurstaða kaupleigusamningsins sú að leigjandi eignaðist tækið í lok leigutímans. Hins vegar gerði SP-fjármögnun hf. þá kröfu að vera skráður eigandi tækisins á lánstímanum en kaupandi sé skráður umráðamaður hjá Umferðarstofu. Það fyrirkomulag sé stefnanda óviðkomandi. Stefnandi byggir kröfur sínar á reglum samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga. Jafnframt vísar hann til ákvæða laga um lausafjárkaup nr. 50/2000. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing vísast til 32. gr. laga nr. 91/1991. Málavextir, málsástæður og lagarök stefndu. Stefndu kveða atvik vera með þeim hætti að sumarið 2011 hafi SP-Fjármögnun hf. keypt eða ætlað að kaupa fellihýsið BDJ73 af stefnanda. Umsamið kaupverð hafi verið kr. 1.649.900. Stefnandi hafi gefið út reikning til SP-Fjármögnunar hf. vegna kaupanna. Stefndi Sól og heilsa ehf. hafi haft hug á að taka fellihýsið á leigu af SP-Fjármögnun og eignast það í lok leigutímans. Í því skyni hafi verið útbúin drög að kaupleigusamningi milli SP-Fjármögnunar hf. og stefnda Sólar og heilsu ehf. Skýrlega hafi komið fram í drögunum að SP-Fjármögnun hf. væri leigusali fellihýsisins og stefndi Sól og heilsa ehf. leigutaki. Samkvæmt umræddum drögum að samningi skyldi stefndi Sól og heilsa ehf. greiða fyrirfram ákveðna leigufjárhæð við undirritun samnings og nam sú fjárhæð 394.398 krónum. Gert hafi verið ráð fyrir því að stefndi Sól og heilsa ehf. myndi greiða virðisaukaskattshlutann af söluverði fellihýsisins. Þá hafi verið gert ráð fyrir að stefndi Sól og heilsa ehf. myndi greiða SP-Fjármögnun hf. jafnar mánaðarlegar leigugreiðslur sem svaraði til þess sem eftir stæði af verði fellihýsisins samkvæmt samkomulagi SP-Fjármögnunar hf. og stefnanda um kaup á því. Enn fremur hafi verið gert ráð fyrir í samningsdrögum að stefndi Sól og heilsa ehf. myndi kaupa fellihýsið af SP-Fjármögnun hf., með fyrirfram ákveðinni lokagreiðslu. Þá hafi enn fremur verið fyrirhugað að stefndi Cecil myndi gangast í sjálfskuldarábyrgð samkvæmt samningnum. Samkvæmt samkomulagi Sólar og heilsu ehf. og SP-Fjármögnunar hf. hafi hið fyrrnefnda félag greitt 394.398 krónur til stefnanda. Í kjölfarið hafi stefndi Sól og heilsa ehf. fengið fellihýsið afhent til umráða og afnota. Eftir afhendinguna hafi fljótlega orðið ljóst að fellihýsið hafi verið haldið ýmsum göllum. Verulegum vandkvæðum hafi verið bundið að loka dyrum fellihýsisins, útdraganlegt svefnrými fellihýsisins hafi verið meingallað og hafi nærri illa farið þegar rýmið hafi dottið niður og kona sem þar var hafi fallið út úr fellihýsinu. Fellihýsinu hafi því verið skilað til stefnanda eftir að hafa verið notað tvisvar sinnum og stefnandi síðan haft það í umráðum sínum. Stefnandi hafi gert þá kröfu að skrifað yrði undir drögin að samningi stefndu Sólar og heilsu ehf. og SP-Fjármögnunar hf. Stefndi hafi hins vegar neitað því þar sem hann hafi ekki haft hug á því að leigja fellihýsið lengur. Hafi stefnda Sól og heilsa ehf. litið svo á að lögskiptum þess og SP-Fjármögnunar hf. væri þar með lokið. Stefndu byggja sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að þau séu ekki réttir aðilar málsins, og það leiði til aðildarskorts. Aldrei hafi staðið til að stefndi Sól og heilsa ehf. keypti fellihýsið af stefnanda heldur hafi það verið SP-Fjármögnun hf. sem hafi keypt það eða ætlað að kaupa það. Í samræmi við það hafi stefnandi gefið út reikning á SP-fjármögnun hf. fyrir andvirði fellihýsisins. Ef talið verði að stefnandi eigi yfirhöfuð einhverja kröfu vegna þessara lögskipta sé ljóst að sú krafa sé á hendur SP-Fjármögnun hf. en hvorugum stefndu, enda sé ekkert kaupsamningssamband milli þeirra og stefnanda. Þá sé því enn fremur mótmælt sem röngu að stefnandi hafi lánað stefnda Sól og heilsu ehf. hluta kaupverðsins, enda liggi ekkert fyrir um slíkt lán. Rétt sé að taka fram að stefnda Sól og heilsa ehf. hafi vissulega fengið fellihýsið afhent. Það hafi hins vegar staðið stefnanda nær að gæta hagsmuna sinna í þessum efnum og afhenda ekki fellihýsið fyrr en greiðsla frá kaupanda, SP-Fjármögnun hf., hafi borist. Verði og að hafa í huga að stefnandi sé þaulkunnugur viðskiptum af þessu tagi og verði sjálfur að bera ábyrgð á þeim mistökum, sem kunna að hafa átt sér stað við afhendingu hýsisins eða skjalagerð tengdum sölu þess til SP-Fjármögnunar hf. Stefndu geti í öllu falli ekki borið ábyrgð á athöfnum stefnanda að þessu leyti, enda hafi engin skylda hvílt á þeim til að gæta hagsmuna hans. Hafi það aldrei verið ætlun stefndu að hafa umráð fellihýsisins án þess að greiða fyrir afnotin. Megi í öllu falli ljóst vera að stefnandi geti ekki beint kröfum sínum að stefnda Cecil Viðari, enda hafi það verið Sól og heilsa ehf. sem hafi ætlað að taka fellihýsið á leigu af SP-Fjármögnun hf. en ekki stefndi Cecil Viðar. Hins vegar hafi staðið til að stefndi Cecil Viðar tæki á sig sjálfskuldarábyrgð á efndum stefnda Sólar og heilsu ehf. samkvæmt hugsanlegum kaupleigusamningi. Til þeirrar skuldbindingar hafi hins vegar aldrei stofnast. Á stefndi Cecil Viðar því án alls efa enga aðild að máli þessu og verði því að sýkna hann af kröfum stefnanda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Í öðru lagi byggja stefndu sýknukröfu sína á því að ekki hafi stofnast til fullgildandi samnings. Það hafi verið SP-Fjármögnun hf. sem hafi tekið að sér að kaupa fellihýsið af stefnanda en hvorugt stefndu. Enginn kaupsamningur hafi verið gerður milli stefnda Sólar og heilsu ehf. og stefnanda, enda hafi stefndi Sól og heilsa ehf. aldrei ætlað sér að kaupa fellihýsið af stefnanda. Þá benda stefndu á að ekki hafi heldur stofnast til kaupleigusamnings um fellihýsið svo sem þó hafi staðið til. Eins og áður sé rakið hafi komið til greina að stefndi Sól og heilsa ehf. tæki fellihýsið á leigu af SP-Fjármögnun hf. samkvæmt drögum að kaupleigusamningi þar um. Hafi þá jafnframt verið fyrirhugað að stefndi Cecil Viðar myndi ábyrgjast efndir stefnda Sólar og heilsu ehf. samkvæmt hugsanlegum samningi. Hins vegar hafi samningsdrögin aldrei verið réttilega undirrituð af hálfu stefnda Sólar og heilsu ehf. og því hafi aldrei stofnast til samnings félagsins og SP-Fjármögnunar hf. Stefndu byggja sýknukröfu sína jafnframt á því að hvað sem líði fyrri lögskiptum aðila hafi fellihýsinu nú verið skilað aftur til stefnanda, enda hafi það verið haldið verulegum göllum. Sé stefnandi því eins settur og hann hafi verið í upphafi. Verði því í öllu falli að líta svo á að kaupunum hafi verið rift og þau gengið til baka, sbr. hér 39., sbr. 64., gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000. Fari svo ólíklega að ekki verði fallist á að sýkna beri stefndu af öllum kröfum stefnanda, gera stefndu þá kröfu að stefnukröfur verði stórlega lækkaðar. Vísa þau í þeim efnum til þeirra málsástæðna sem fram hafa komið. Stefndu vísa máli sínu til stuðnings til almennra meginreglna íslensks samninga- og kröfuréttar. Þá vísa stefndu til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 16. gr. laganna. Stefndu vísa einnig til laga um þinglýsingu nr. 39/1978 og til laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, einkum 39. og 64. gr. laganna. Um málskostnað vísast til XXI. kafla laga nr. 91/1991 en um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun vísast til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Niðurstöður. Ekki er ágreiningur um það að stefndu hafi fengið umrætt fellihýsi afhent hjá stefnanda. Ágreiningur aðila snýst um það hvort til skuldbindandi kaupsamnings hafi stofnast milli stefnanda og stefndu varðandi kaup á fellihýsinu. Stefnandi krefst þess að fá kaupverð fellihýsisins greitt úr hendi stefndu á grundvelli munnlegs samnings þeirra um kaup stefndu á fellihýsinu. Stefndu byggja sýknukröfu sína á því að engu samningssambandi sé til að dreifa milli þeirra og stefnanda og að kröfum stefnanda sé ranglega beint að stefndu. Til hafi staðið að stefndu leigðu fellihýsið af SP-Fjármögnun hf. með svokölluðum kaupleigusamningi, en til þess samnings hafi þó aldrei löglega stofnast eins og gögn í málinu bera með sér. Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslu Októ Þorgrímsson, fyrirsvarsmaður stefnanda, Garðar Már Garðarsson og Sigurður Valgeir Óskarsson, starfsmenn stefnanda. Hvorki stefndi Cecil né fyrirsvarsmaður Sólar og heilsu ehf., komu fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins. Í málinu liggur fyrir reikningur frá stefnanda stílaður á SP Fjármögnun hf., vegna Coleman Sedona BJD73 að fjárhæð 1.266.932 krónur og markisu að fjárhæð 47.729 krónur, samtals 1.314.661 króna auk virðisaukaskatts, 335.239 krónur, allt samtals 1.649.900 krónur. Inn á reikninginn er handritað: „Kaupandi greiði vsk 335.239 þann 5. október 2011.“ Stefndi Cecil V. Jensen undirritar eigin hendi undir þessa áletrun. Er reikningurinn dagsettur 15. júlí 2011. Umráðamaður er tilgreindur á reikninginn stefndi Sól og heilsa ehf. Þá liggur fyrir afrit kaupleigusamnings, staðlaður frá SP-Fjármögnun, þar sem fellihýsið er tilgreint, leigutími sagður vera 84 mánuðir, leiga greidd við undirskrift, 394.398 krónur, og leigugjald mánaðarlega, 14.692 krónur. Fyrsti gjalddagi er 1. september 2011 og er kaupverð í lok samningstímans 27.608 krónur. Þá segir að sérstakt stofngjald, 11.504 krónur, greiðist með fyrstu leigugreiðslu. Í reit sem ætlaður er fyrir undirskrift lántakanda er ritað „Fyrir hönd Sól og heilsu“ og í reit sem ætlaður er fyrir undirritun sjálfskuldarábyrgðaraðila er ritað „Cecil V. Jensen“. Þá liggur fyrir staðfesting frá Umferðarstofu þar sem eigandi er skráður SP Fjármögnun hf. og umráðamaður Sól og heilsa ehf. Innheimtuviðvörun, dagsett 11. október 2011, liggur fyrir og innheimtubréf, dagsett 21. október 2011. Stefndu krefjast sýknu í fyrsta lagi á grundvelli aðildarskorts. Því mótmælir stefnandi. Fallast má á það með stefndu að ekki hafi stofnast til gilds samnings milli þeirra og SP-fjármögnunar hf. þar sem undirritun samningsins var ábótavant. Þá er ekkert í málinu sem styður að stefndi Cecil hafi einnig ætlað að vera kaupandi að fellihýsinu, heldur sýna gögn málsins að eingöngu stefndi Sól og heilsa ehf. hafi átt að vera kaupandi að því. Aðkoma stefnda Cecils persónulega er að samningi milli hans og SP-Fjármögnunar ehf. en ekki að samningi um kaupin á fellihýsinu. Verður stefndi Cecil því sýknaður af kröfum stefnanda. Breytir það þó engu um lögskipti milli stefnanda og stefnda Sólar og heilsu ehf. Lögskipti þeirra fólu í sér að stofnað var til munnlegs samnings um að stefndi Sól og heilsa ehf. keypti fellihýsið af stefnanda á þar til greindu kaupverði. Stefnandi hafði einungis milligöngu um að koma á samningssambandi milli SP-Fjármögnunar hf. og stefndu um fjármögnun kaupverðsins. Verður ekki séð að ágalli á þeirri samningsgerð leiði til þess að enginn gildur samningur hafi stofnast milli stefnanda og stefnda Sólar og heilsu ehf. um kaup á fellihýsinu, enda stefnanda algerlega óviðkomandi hvernig stefndu hugðust fjármagna kaupin og ábyrgðin í þeim efnum algjörlega á herðum stefndu. Ljóst er að Cecil V. Jensen kom til stefnanda, samdi um kaup og skilmála á fellihýsinu og fékk síðan fellihýsið afhent í kjölfarið til notkunar. Óumdeilt er af hálfu beggja aðila að umsamið kaupverð var 1.649.900 krónur. Þá er einnig óumdeilt að stefndu greiddu innborgun á kaupverðið að fjárhæð 100.000 krónur og við afhendingu fellihýsisins 294.398 krónur. Stefndu hafa hvorki greitt til stefnanda né SP-Fjármögnunar mismun á kaupverðinu en ekki er ágreiningur um þá fjárhæð. Ekki verður tekið undir þá málsástæðu stefnda að samningssamband hans hafi átt að vera við SP-Fjármögnun hf. enda er ljóst af gögnum málsins og óumdeilt að stefndu komu á starfsstöð stefnanda, greiddu inn á kaupverðið og undirrituðu skjöl sem áttu að veita stefndu lánsfé fyrir eftirstöðvum kaupverðsins, en sú fjárhæð átti að ganga til stefnanda sem fullnaðargreiðsla fyrir utan greiðsluna sem átti að greiða 5. október 2011. Stefndu héldu fram í greinargerð sinni að samningssambandið hafi átt að vera á milli þeirra og SP-Fjármögnunar hf. og að SP-Fjármögnun hf. hafi ætlað að kaupa fellihýsið af stefnanda og endurleigja það síðan til stefnanda Sólar og heilsu ehf. Ekkert í gögnum málsins bendir til að svo hafi verið og gegn mótmælum stefnanda eru þær fullyrðingar ósannaðar. Stefndu komu ekki fyrir dóminn og hefur málsatvikum sem stefnandi hefur haldið fram ekki verið hnekkt. Bera stefndu hallann af því. Verður stefndi Sól og heilsa ehf. því ekki sýknaður vegna aðildarskorts. Stefndu bera fyrir sig að fellihýsið hafi verið gallað og að stefnandi hafi tekið við því. Stefnandi staðfesti fyrir dóminum að stefndu hafi komið með hjólhýsið á starfsstöð stefnanda en stefnandi hafi fylgt stefndu með það til Ellingsen sem sá um viðgerðarþjónustu fyrir stefnanda. Þar hafi stefndi Cecil gengið í burtu og sagt þá geta átt fellihýsið. Stefndu hafa ekki lagt fram nein gögn um galla eða sýnt fram á að svo hafi verið. Þvert á móti liggja fyrir gögn frá þjónustuveri Ellingsen sem staðfesta að þær skemmdir, sem á fellihýsinu voru, stöfuðu af rangri notkun. Verður, gegn mótmælum stefnanda, þessari málsástæðu stefndu hafnað. Stefndu byggja á því að kaupin hafi gengið til baka þar sem fellihýsinu hafi verið skilað. Verður að taka undir með stefnanda að þó svo að stefndu hafi skilið fellihýsið eftir hjá þjónustuaðila stefnanda, þá hafi stefndu ekki sýnt fram á að kaupunum hafi verið rift eða kaupin gengið til baka. Verður því ekki tekið undir þá málsástæðu stefndu. Af öllu framangreindu verður að telja að til fullgilds samnings hafi stofnast milli stefnanda og stefnda Sólar og heilsu ehf. um kaup á fellihýsinu. Verða dómkröfur stefnanda því teknar til greina eins og nánar greinir í dómsorði. Stefndu fengu hjólhýsið afhent þann 15. júlí 2011 og reikningur gerður sama dag en samkomulag var um að stefndu greiddu því sem næmi virðisaukaskattinum, 335.239 krónur, þann 5. október 2011. Verður stefndi, Sól og heilsa ehf. því dæmdur til að greiða dráttarvexti frá þeim tíma þrátt fyrir að reikningurinn hafi verið ritaður á SP-Fjármögnun hf. að beiðni stefndu. Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu verður hið stefnda félag Sól og heilsa ehf. dæmt til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Málskostnaður skal að öðru leyti falla niður. Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður dóm þennan upp. Dómsorð. Stefndi Cecil V. Jensen er sýkn í máli þessu. Stefndi Sól og heilsa ehf., kt. 450687-1629, skal greiða stefnanda, Íslensk- bandaríska ehf., kt. 620498-3439, 1.255.502 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 920.263 krónum frá 15. júlí 2011 til 5. október 2011 en af 1.255.502 krónum frá þeim degi til greiðsludags gegn útgáfu afsals á BJD73 til stefnda Sólar og heilsu ehf. Stefndi Sól og heilsa ehf. greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað. Málskostnaður milli stefnanda og stefnda Cecil V. Jensen fellur niður.
Mál nr. 213/1999
Bifreið Manndráp af gáleysi
D var ákærður fyrir manndráp af gáleysi og umferðarlagabrot, með því að hafa ekið bifreið sinni á röngum vegarhelmingi, með þeim afleiðingum að hann lenti í árekstri við bifreið sem kom úr gagnstæðri átt og ökumaður hennar lést samstundis. Talið var að rannsókn slyssins hefði ekki verið sem skyldi. Viðhlítandi skoðun á sprungnum hjólbarða og felgu á bifreið D hefði getað gefið vísbendingar um hvort hjólbarðinn hefði sprungið og orsakað slysið, eins og D hélt fram. Þótti á það skorta að fram væru komin gögn til að unnt væri að telja nægilega sannað, að slysið yrði rakið til gáleysis D. Var D því sýknaður af ákæru fyrir brot gegn 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 14. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 28. apríl 1999 að ósk ákærða. Krefst hann þess að héraðsdómur verði staðfestur. Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara vægustu refsingar, sem lög leyfa, og skilorðsbindingar hennar. Atvik málsins eru greind í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram varð árekstur sá milli bifreiðanna OF-574 og AZ-694 hinn 9. maí 1998, sem mál þetta er sprottið af, á Vesturlandsvegi skammt vestan afleggjara að Eyrarkoti í Kjós, en bifreiðirnar voru þá báðar rétt að koma úr aflíðandi beygjum inn á nokkuð beinan kafla. Virðast akstursaðstæður hafa verið góðar. Þegar höfð er hliðsjón af vettvangsuppdrætti og ljósmyndum verður á það fallist með héraðsdómi, að áreksturinn hafi orðið á þeim vegarhelmingi, sem bifreiðinni AZ-694 var ekið eftir. Engin vitni voru að slysinu. Ákærði kveðst ekkert muna eftir atvikum að árekstrinum og kemur fram í gögnum málsins að hann fékk meðal annars mikið höfuðhögg. Segir í vottorði bæklunarlæknis að mjög sennilegt sé að bæði afleiðingar slyssins og meðferð í öndunarvél við komu á slysadeild valdi því að hann muni ekkert eftir atvikum eða atburðum fyrir og eftir slysið. Ekki verður séð að reynt hafi verið að gera athugun á því, út frá staðsetningu bifreiðanna eftir slysið, hemlaförum bifreiðarinnar AZ-694 og öðrum gögnum málsins, hver hafi verið líklegur hraði þeirra, er þær rákust saman. Fram hefur komið að nokkru áður en slysið varð hafði síðastnefndri bifreið verið ekið fram úr tveimur bifreiðum. Gögn málsins benda til þess að henni hafi verið ekið nokkuð hratt. Sérstök rannsókn á bifreiðunum fór ekki fram fyrr en þremur dögum eftir slysið. Í skýrslu bifreiðaskoðunarmanns segir um allan búnað beggja bifreiðanna utan hjólabúnað að ekki hafi verið hægt að skoða hann vegna skemmda. Um hjólabúnaðinn segir um báða bílana að ástand hans sé gott. Við yfirheyrslu fyrir dómi sagði skoðunarmaðurinn hins vegar að við skoðunina hafi komið í ljós að sprungið hafi verið á hægra afturhjólbarða bifreiðarinnar OF-574, sem ákærði ók. Aðstæður við skoðun hafi verið slæmar í dimmu húsnæði. Kvað hann það hefði breytt miklu ef hann hefði getað skoðað bifreiðirnar á vettvangi. Hann sagði að verið gæti að loft hefði farið úr hjólbarðanum við það að bifreiðin rann til að aftan við áreksturinn. Hann gat ekki svarað því hvort hjólbarðinn var skemmdur þegar hann skoðaði hann. Hann gat ekki heldur upplýst hvort skemmdir hefðu verið á felgunni, en taldi að hann hefði skráð það í skoðunarskýrslu ef svo hefði verið. Bifreiðirnar hefðu ekki verið teknar í sundur við skoðunina og gæti hann ekki fullyrt hvort slík skoðun hefði leitt eitthvað frekar í ljós. Hann kvaðst ekki hafa séð neitt á hjólbarðanum sem benti til að hvellsprungið hefði á honum en treysti sér ekki til að svara því út frá skoðun sinni, hvort svo hefði verið. Hann hafi einungis athugað mynsturdýpt hjólbarðans, séð að hann var vindlaus og ekki framkvæmt frekari skoðun. Í lögregluskýrslum um rannsókn á vettvangi er ekki getið um sérstaka athugun á ástandi hjólbarða. Ein ljósmynd, sem tekin var þar, virðist benda til að hjólbarði á hægra afturhjóli bifreiðarinnar OF-574 hafi þá verið orðinn loftlaus. Af hálfu ákærða er því haldið fram að ekki hafi verið sýnt fram á í málinu að slysið verði rakið til gáleysis hans. Margt bendi til þess að slysið hafi orsakast af skyndilegu, óvæntu, utanaðkomandi atviki, sem ákærði hafi ekki getað ráðið við. Rannsókn þetta varðandi sé verulega ábótavant. Er einkum á það bent að í ljós hafi komið að sprungið hafi verið á hægra afturhjólbarða, en verið geti að hann hafi hvellsprungið í akstri áður en slysið varð og við það hafi ákærði misst stjórn á bifreiðinni. Þegar litið er til alls þess, sem að framan er rakið, verður að telja að rannsókn á umræddu slysi hafi ekki verið sem skyldi. Viðhlítandi skoðun á hinum sprungna hjólbarða og tilheyrandi felgu hefði getað gefið vísbendingar um hvort hjólbarðinn hafi sprungið með ofangreindum hætti. Hefði slíkt hugsanlega getað haft áhrif á akstur bifreiðarinnar, en ekkert liggur fyrir í málinu um það. Að þessu athuguðu þykir á skorta að fram séu komin gögn til að unnt sé að telja nægilega sannað að umrætt slys verði rakið til gáleysis ákærða þannig að hann verði sakfelldur fyrir brot á þeim lagaákvæðum, sem tilgreind eru í ákæru málsins. Samkvæmt þessu verður hann sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Um málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Ákærði, Daníel Orri Einarsson, skal vera sýkn af kröfum ákæruvaldsins. Sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Atla Gíslasonar hæstaréttarlögmanns, samtals 240.000 krónur. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 1999. Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 1. desember sl. á hendur ákærða, Daníel Orra Einarssyni, kt. 010871-3959, Laufásvegi 2a, Reykjavík, „fyrir hegningar- og umferðarlagabrot með því að hafa, laugardaginn 9. maí 1998, á leið austur Vesturlandsveg í Kjós, nokkru vestan við veginn að Eyrarkoti, ekið bifreiðinni OF-574, á vegarhelmingi fyrir umferð úr gagnstæðri átt án nægjanlegrar aðgæslu með þeim afleiðingum, að hann lenti í árekstri við bifreiðina AZ-694, sem ekið var vestur þann veg, og ökumaður hennar, Kristín Hjaltested Ragnarsdóttir, fædd 28. mars 1973, hlaut svo mikla áverka að hún lést samstundis. Telst þetta varða við 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 14. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingr ökuréttar samkvæmt 101. gr. umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993.“ Málavextir. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu eru málavextir þeir að laugardaginn 9. maí 1998, kl. 17.55, var lögreglunni í Reykjavík tilkynnt um alvarlegt umferðarslys á Vesturlandsvegi, skammt frá Laxá í Kjós. Fram kom í tilkynningunni að um væri að ræða árekstur tveggja bifreiða og væri eldur laus í þeim báðum. Jafnframt var þess getið að sjúkrabifreið, tækjabifreið og slökkvibifreið væru á leið á vettvang. Var fyrsta lögreglubifreið komin á vettvang kl. 18.14 og mínútu síðar kom neyðarbíll slökkviliðs á staðinn. Er fyrstu lögreglumenn komu á vettvang hafði eldur verið slökktur í bifreiðunum. Báðir ökumenn voru fastir í bifreiðunum. Fengu lögreglumennirnir að vita að ökumaður bifreiðarinnar AZ-694 væri látinn og staðfesti læknir í neyðarbíl slökkviliðs það. Á vettvang kom ein tækjabifreið. Þurfti að nota klippur tækjabifreiðarinnar til að ná ökumönnunum út. Ökumaður OF-574, ákærði í máli þessu, var með lítilli meðvitund og náðist hann út úr bifreiðinni kl. 18.55. Hann var fluttur á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur í sjúkrabifreið. Nánari tildrög áreksturs: Bifreiðinni OF-574 hafði verið ekið austur Vesturlandsveg, en bifreiðinni AZ-694 vestur. Árekstur varð þegar bifreiðarnar mættust, um 200 metrum vestan afleggjarans að bænum Eyrarkoti í Kjós. Áreksturinn var mjög harður og kastaðist bifreiðin AZ-694 um sjö metra út fyrir veg til norðurs. Þar sem áreksturinn varð er beinn kafli á veginum. Þegar ekið er inn á þennan beina kafla beggja megin frá koma ökumenn úr aflíðandi beygju til hægri þegar ekið er til austurs, en til vinstri þegar ekið er til vesturs. Engin hemlaför voru sjáanleg eftir bifreiðina OF-574, sem var ekið til austurs, en hemlaför eftir bifreiðina AZ-694, sem var ekið til vesturs, mældust 36 metrar eftir hægri hjólbarða, en 33 metrar eftir vinstri. Hemlaförin voru dauf fyrst, en síðan skýr og lágu til hægri. Þegar slysið varð var dagsbirta og skýjað. Yfirborð vegar er með bundnu slitlagi og var það þurrt og slétt. Á vettvangi hittu lögreglumenn fyrir tilkynnanda, Svein Jónatansson. Hann kvaðst fyrstur vegfarenda hafa komið á slysavettvang, en fljótlega hafi fleiri vegfarendur komið að. Þegar hann kom á vettvang hafi eldur logað undir vélarhlífum beggja bifreiðanna. Kvaðst Sveinn þegar hafa hringt í Neyðarlínuna og tilkynnt um slysið, en síðan snúið sér að því að kanna líðan fólksins í bifreiðunum. Í ljós hafi komið að ökumenn bifreiðanna voru einir á ferð. Hann kvaðst ekki hafa haft slökkvitæki í bifreið sinni, en fljótlega hafi borið að bifreiðar sem í voru slökkvitæki. Fljótlega hafi tekist að slökkva eldana. Kvaðst Sveinn, ásamt öðrum vegfarendum, hafa reynt að hlúa að hinum slösuðu uns lögregla og sjúkralið komu á vettvang. Á vettvangi hittu lögreglumenn einnig fyrir Einar Jónsson, föður ákærða. Sagði hann að ákærði hefði verið á leið til austurs úr borginni og kvaðst hann hafa verið í bifreið nokkru á eftir. Hann kvaðst þó ekki hafa komið á vettvang fyrr en eftir að lögregla og sjúkralið var komið á vettvang. Þá voru á vettvangi hjónin Hans Markús Hafsteinsson og Jónína S. Sigurðardóttir. Þau kváðust hafa komið á vettvang skömmu eftir að slysið varð. Sögðu þau að bifreiðin AZ-694 hefði ekið fram úr bifreiðinni sem þau voru í á Vesturlandsvegi við Brynjudalsá og verið á leið til vesturs í átt til Reykjavíkur. Kváðust þau hafa veitt aðstoð á vettvangi uns lögregla og sjúkralið komu á vettvang. Jafnframt sögðu þau að ekkert lífsmark hefði verið með ökumanni bifreiðarinnar AZ-694 eftir slysið. Að lokinni ljósmyndatöku á vettvangi voru bifreiðarnar fjarlægðar með kranabifreið frá Króki hf. og fluttar í geymslu á athafnasvæði fyrirtækisins að Skeljabrekku 4 í Kópavogi. Að loknum störfum á vettvangi héldu lögreglumennirnir á slysadeild. Þar hafði Kristín formlega verið úrskurðuð látin af héraðslækninum í Reykjavík. Meiðsl ákærða voru ekki fullkönnuð, en þau voru mikil að sögn lækna. Tekið var blóðsýni úr ákærða á slysadeild. Sýnið reyndist ekki innihalda vínanda. Bifreiðarnar voru skoðaðar í húsnæði Króks hf. af skoðunarmanni Frumherja hf. Skýrslurnar eru samhljóða um að bifreiðarnar hafi verið mikið skemmdar og óökufærar. Í báðum skýrslunum kemur fram að ástand hjólabúnaðar hafi verið mjög gott. Önnur atriði reyndist ekki unnt að skoða vegna skemmda, en þau eru: Skynbúnaður, hreyfill, yfirbygging, stýrisbúnaður, burðarvirki, aflrás og hemlunarbúnaður. Lík Kristínar Hjaltested Ragnarsdóttur var krufið 13. maí 1998. Í niðurlagi skýrslu dr. Gunnlaugs Geirssonar prófessors, dags. 22. s.m., um krufninguna segir svo: „Ályktun: Samkvæmt því, sem segir í skýrslu lögreglu svo og því er kom fram við krufninguna má álykta að konan hafi dáið samstundis af áverka þeim, sem hún varð fyrir er bifreið hennar lenti í árekstri við aðra bifreið. Höggið sem kom á líkama hennar við áreksturinn hefur komið framan á brjóstvegginn og efri hluta kviðarholsins og má ætla að stýrið hafi valdið. Við áverkann hefur rifjagrindin svignað inn á við og brjóstbeinið þrýstst inn á við og marið hjartað með því að nísta það gegn hryggsúlunni. Við það myndaðist rof í bæði forhólf hjartans. Blóðið náði að flæða inn í brjóstholin þar eð gollurshúsið rifnaði við höggið. Líffæri í kviðarholi skemmdust einnig, lifur og milti en meginorsök dauðans var áverkinn á hjartað og blæðing úr rofi því er þar myndaðist. Hún fékk ákomu á höfuð, sem marði heilann lítillega en ekkert athugavert var að sjá ella á heilanum.“ Samkvæmt niðurstöðum Rannsóknastofu í lyfjafræði var etanól ekki í mælanlegu magni, hvorki í blóði né þvagi hinnar látnu. Við lögreglurannsókn málsins reyndist ákærði ekkert muna eftir deginum sem slysið átti sér stað og gat ekki veitt neinar upplýsingar. Hann hefði fengið að vita að greint sinn hafi hann verið á leið í sumarbústað foreldra sinna og með honum í bifreiðinni hafi verið hundur fjölskyldunnar. Við þingfestingu málsins kvaðst ákærði telja ótrúlegt að slysið hefði orðið með þeim hætti sem lýst er í ákæru. Hann kvaðst hafa hlotið höfuðskaða og ekki muna eftir atburðinum. Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði ekki geta gefið skýringu á hvað gerst hefði þann 9. maí sl. á Vesturlandsvegi í Kjós nokkru vestan við veginn að bænum Eyrarkoti. Bar ákærði að hann myndi ekki fremur en áður eftir atvikum ofangreindan dag. Er ákærði var inntur eftir viðhorfi hans til þess ákæruatriðis að hann hefði ekið bifreiðinni á röngum vegarhelmingi eins og nánar er lýst í ákæru, kvaðst hann ekki geta ímyndað sér að hann hafi verið á röngum vegarhelmingi sökum gáleysis. Ákærði kvaðst hafa ekið bifreið eftir slysið. Hann kvaðst hvorki hafa lent í um­ferð­arslysum fyrir né eftir mál þetta. Kvað hann afleiðingar slyssins m.a. vera skert úthald og skerta hreyfigetu. Hann þreyttist mjög auðveldlega. Þá hafi minnistap og minnisleysi háð honum mjög. Hann kvaðst enn vera óvinnufær. Guðlaugur Einarsson lögreglumaður kom fyrir dóminn. Vitnið kvaðst hafa komið á vettvang og hafa ritað frum­skýrslu málsins. Þá hafi hann aðstoðað starfsfélaga sinn við mælingar á vettvangi til undirbúnings að gerð vettvangs­uppdráttar. Vitnið kvað aðkomu á vettvangi hafa verið mjög ljóta. Ökumenn hafi verið fastir í bifreið­unum, en búið hafi verið að slökkva eld sem kviknað hafði í báðum bifreið­unum. Lögreglumönnunum hafi verið sagt að ökumaður annarrar bifreiðar­inn­ar væri látinn. Vitnið var beðið að gera grein fyrir hvernig bifreiðarinar voru staðsettar og hvernig áreksturinn hafi komið vitninu fyrir sjónir. Hann kvað engin vitni hafa verið að slysinu. Bifreið stúlkunnar hafi verið utan vegar, norðanmegin, en bifreið ákærða á veginum, á nyrðri vegarhelmingi. Hemlaför hafi verið eftir bifreið stúlkunnar, en hann kvaðst ekki muna hvort sjáanleg hafi verið hemlaför eftir bifreið ákærða. Eftir ummerkjum á vettvangi hafi allt bent til að bifreið hinnar látnu hafi verið á réttum vegarhelmingi. Hemlaförin eftir bifreið hennar hafi fyrst og fremst bent til þess, en auk þess hafi bifreiðin verið þeim megin utan vegar, þ.e. norðanmegin. Vitnið mundi ekki hvernig ákomur voru á bifreiðunum. Til þess að ná fólkinu út úr bifreiðunum hafi þurft að beita klippum. Vitnið var beðið að gera grein fyrir hvaða rannsókn fór fram á vettvangi og á bifreiðunum. Vitnið kvað hefðbundna vettvangsrannsókn hafa farið fram, svo sem athugun á förum eftir bifreiðar, hemlaförum og drag- eða skrensförum. Hjólbarðar hafi verið athugaðir og brak úr bif­reið­unum til að fá fram hvar áreksturinn hefði orðið. Vitnið mundi ekki hvort ein­hver af hjólbörðum bifreiðarinnar OF-574 var loftlaus. Vitnið gat ekki upplýst hvort sprung­ið hafi verið á hægra afturhjóli bifreiðarinnar. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið var við sauðfé, hross eða annan búfénað á vettvangi. Vitnið kvaðst ekki muna hvernig miðlínumerkingu var háttað á slysstað eða beggja vegna hans. Vitnið staðfesti að frumskýrsla málsins, sem hann kvaðst hafa ritað, væri rétt. Þá kvaðst hann telja að vett­vangs­uppdráttur málsins væri réttur. Ákomur á báðum bifreiðunum hafi verið framan á þær og á framanverðri vinstri hlið eins og krossarnir sýni. Heimir Andri Jónsson lögreglumaður kom fyrir dóminn. Vitnið kvaðst hafa komið á vettvang ásamt Guðlaugi Einarssyni lögreglumanni. Kvaðst vitnið hafa gert vettvangsuppdráttinn. Vitnið var beðið að lýsa að­kom­­unni á vettvangi. Hann kvað bifreið stúlkunnar hafa verið nokkru fyrir utan veg og hafi hún verið látin í bifreiðinni. Hin bifreiðin hafi verið á akbrautinni, mjög illa farin, og ökumaðurinn mjög illa slasaður, fastur inni í bifreiðinni. Vitnið var beðið að gera grein fyrir hvort einhver ummerki hafi verið á vettvangi, sem bent hefðu til hvernig slysið hafi orðið. Vitnið bar að það hafi verið sjáanleg hemlaför eftir bifreið stúlk­unnar á hennar vegarhelmingi, en ekki hafi verið sjáanleg nein hemlaför eftir bifreið ákærða. Vitnið mundi ekki eftir ástandi hjólbarða bifreiðarinnar sem ákærði ók. Kvað vitnið hlutverk sitt á vettvangi einkum hafa verið fólgið í gerð vettvangs­uppdráttar, en einnig hafi hann aðstoðað slökkviliðsmenn við að ná ákærða út úr bif­reiðinni. Vitnið kvað sig ekki reka minni til að hafa orðið var við hross eða sauðfé í námunda við vettvang. Vitnið kvaðst ekki hafa vitneskju um hvort lögregla hafi framkvæmt rannsókn á bifreiðunum á vettvangi. Vitnið kvaðst hafa mælt hemlaförin eftir bifreið stúlkunnar, en hve löng þau voru mundi hann ekki. Vitnið kynnti sér vettvangsuppdráttinn sem hann kvaðst hafa gert eftir bestu vitund og samvisku og staðfesti nafnritun sína á hann. Vitnið tók fram að á uppdrætt­inum sæist að brotin lína táknaði dauf hemlaför. Vitnið kvað kross­ana merkja ákomustað á bifreiðunum. Vitnið kvaðst ekki geta svarað því hvort um hálfbrotna eða fullbrotna línu sé að ræða á uppdrættinum. Svanur Elísson rann­sóknarlögreglumaður kom fyrir dóminn. Vitnið kvað hlutverk sitt á vettvangi hafa verið að taka ljósmyndir. Vitnið var beðið að lýsa í stuttu máli að­komu á vettvangi. Vitnið bar að þegar hann kom á vettvang hafi lögreglu-, sjúkra­flutninga- og slökkviliðsmenn verið þar að störfum við að ná ákærða út úr bifreiðinni. Kvaðst vitnið ekki hafa hafið störf á vettvangi fyrr en flestir voru farnir. Vitnið var beðið að upplýsa hvort eitthvað hafi verið á vettvangi sem bent hafi til hvernig áreksturinn hefði orðið. Vitnið kvað allt benda til að báðar bifreiðarnar hafi verið á sama vegarhelmingi. Önnur að aka í vestur, en hin í austur. Kvaðst vitnið telja mjög líklegt að áreksturinn hefði orðið á vegarhelm­ingi bifreiðar stúlkunnar. Vitnið kvaðst ekki hafa séð nein hemlaför eftir bifreið ákærða. Vitnið treysti sér ekki til að ráða af ljósmyndunum hvort miðlína vegarins hafi verið með hálfbrotinni eða fullbrotinni línu. Á efri mynd á bls. 4 í ljós­mynda­möppu sjáist þó að um óbrotna línu sé að ræða. Vitnið kvað sér virðast að greina mætti af ljósmyndum á bls. 2, 3 og 4, brotna línu hægra megin og óbrotna línu vinstra megin miðað við aksturs­stefnu ákærða, en þegar nær dragi árekstursstað væri eingöngu um að ræða brotna línu. Faðir ákærða, Einar Jónsson, kom fyrir dóminn. Vitnið kvaðst hafa komið á vettvang eftir að slysið varð. Hann hafi verið á leið frá Reykjavík í sumarbústað í Skorradal. Hann kvað ákærða hafa lagt af stað á undan sér. Vitnið kvað ákærða hafa verið vel fyrir kallaðan í alla staði þegar hann lagði af stað heiman frá sér. Vitnið var beðið að upplýsa hvort hann hefði orðið var við eitthvað á vettvangi sem skýrt gæti orsök slyssins. Vitnið kvað sér koma í hug sá möguleiki að á veginum hafi verið hross eða sauðkind. Hins vegar hafi hann tekið eftir að sprungið var á hægra afturhjóli bifreiðar ákærða. Þá hafi honum dottið í hug að eldur kunni að hafa komið upp í bifreið ákærða áður en áreksturinn varð. Sveinn Jónatansson héraðsdómslögmaður kom fyrir dóminn. Vitnið kvaðst hafa verið fyrstur allra á vettvang. Hafi hann verið á leið til Reykjavíkur. Vitnið var beðið að lýsa aðkomunni. Bar vitnið að við sér hafi blas­að bifreið á mótlægri akrein sem sneri hægri hlið í vitnið. Rokið hafi úr vélarhúsi bifreiðarinnar. Vitnið kvaðst einnig hafa séð aðra bifreið utan vegar, hægra megin, og hafi hún snúið framendanum í átt til vitnisins. Rokið hafi úr vélarhúsi þeirrar bifreiðar. Kvaðst vitnið hafa gert sér grein fyrir að þarna hafði orðið mjög harður árekstur. Vitnið kvaðst ekki hafa veitt því athygli hvort sprungið var á hægra afturhjóli bifreiðarinnar sem var uppi á veginum, að­eins að bifreiðin var mjög mikið skemmd. Vitnið kvað bifreiðina sem var utan vegar ekki hafa farið fram úr bifreið vitnisins á Vesturlandsvegi. Aðspurður hvort hann hafi gert sér einhverja grein fyrir orsökum slyssins á vettvangi kvaðst hann ekki hafa orðið vitni að sjálfu slysinu. Hann kvaðst hafa séð að vinstri horn bifreið­anna, séð frá ökumönnum, höfðu lent saman. Aðspurður um pilt á vélhjóli bar vitnið að hann hafi orðið hans var og beðið hann að nálgast slökkvitæki. Piltur þessi hafi komið á vettvang á eftir vitninu. Vitnið kvaðst ekki muna eftir að hafa séð sauðfé eða hross á vettvangi. Jón Þóroddsson héraðsdómslögmaður kom fyrir dóminn. Hann kvaðst hafa komið að slysstaðnum úr norðurátt og verið á leið til Reykja­víkur. Vitnið kvað bifreiðinni AZ-694 hafa verið ekið fram úr bifreið sinni skömmu eftir að komið var yfir brúna á Laxá í Kjós. Vitnið kvaðst hafa veitt ofangreindri bifreið athygli nokkru áður og af tilburðum ökumanns séð að hann vildi komast fram úr bifreið vitnisins. Vegna umferðar á móti hafi þær aðstæður ekki skapast fyrr en komið var yfir brúna á Laxá í Kjós. Vitnið taldi að hann hafi ekið að jafnaði á 80-90 km hraða á klst. Eftir að bifreiðin AZ-694 hafði farið fram úr bifreið vitnisins hafi hún fjarlægst smám saman. Vitnið kvaðst ekki hafa veitt því eftirtekt á vettvangi að sprungið var á hægra afturhjóli bifreiðar­innar OF-574. Vitnið kvaðst hafa séð hemlaför eftir bifreiðina AZ-694 á vettvangi, hægra megin miðað við akstursstefnu til Reykjavíkur. Vitnið kvaðst ekki hafa skoðað hvort hemlaför voru eftir hina bifreiðina. Aðspurður kvaðst vitnið ekki hafa átt í erfiðleikum með að stöðva bifreið sína eftir að hann sá vettvang slyssins. Vitnið kvað eina bifreið hafi verið komna á vettvang á undan honum úr sömu átt. Kristinn Þorbergur Sigurjónsson bifreiðastjóri kom fyrir dóminn. Vitnið kvaðst hafa ekið stórum vöruflutningabíl með tengivagni og verið á leið frá Reykjavík. Hann var beðinn að upplýsa hvernig aðkoman var þegar hann kom á vett­vang. Vitnið kvað hana hafa verið ömurlega. Eldur hafi logað í vélar­húsum beggja bifreiðanna. Bifreiðin OF-574 hafi verið þversum á veginum og hin bif­reiðin utan vegar. Vitnið kvaðst ekki hafa tekið eftir neinum ummerkjum sem bent hafi til hvernig slysið varð. Þegar hann fór að skoða vettvang betur hafi hann séð hemlaför sem voru á þeirri akrein vegarins sem ætluð var bifreið­um á leið til Reykjavíkur. Vitnið kvaðst ekki hafa séð hemlaför eftir hina bifreiðina. Vitnið kvaðst hafa hleypt fjölda bifreiða fram úr sér á móts bráðabirgðavegarkafla við Hval­fjarðargöngin og verið þó nokkuð lengi að ná upp hraða eftir það. Vitnið kvaðst ekki vera viss um hvort bifreiðin OF-574 fór fram úr bifreiðinni sem hann ók. Vitnið kvaðst ekki hafa veitt athygli sprungnum hjólbarða á bifreiðinni OF-574 á vettvangi. Vitnið kvaðst ásamt annarri bifreið hafa verið fyrstur á slysstað vestan frá. Hans Markús Hafsteinsson sóknarprestur og fyrrum lögreglumaður kom fyrir dóminn. Hann var beðinn að skýra í stuttu máli frá aðkomunni á slysstað. Vitnið taldi slysið hafa verið nýafstaðið er hann kom á vettvang, en hann hafi verið að koma að norðan. Vitnið kvaðst fyrst hafa séð bifreið ákærða á veginum. Þegar nær kom kvaðst hann hafa séð bifreið utan vegar og að eldur var laus í báðum bifreiðunum. Vitnið kvaðst ásamt félögum sínum strax hafa farið út úr bifreiðinni til að veita hjálp eftir föngum. Piltur á vélhjóli hafi komið að og hafi hann verið sendur til að reyna að fá slökkvitæki úr aðvífandi bifreiðum. Vitnið kvaðst hafa veitt athygli hemlaförum eftir bifreiðina AZ-694 og hafi þau verið hægra megin á veginum miðað við akstursstefnu til Reykjavíkur. Vitnið kvaðst hins vegar ekki hafa veitt því eftirtekt hvort hemlaför voru eftir bifreiðina OF-574. Vitnið bar að skömmu áður hefði bifreiðinni AZ-694 verið ekið fram úr bifreið þeirri sem vitnið var farþegi í. Vitnið kvaðst þó ekki muna hvar í Hvalfirði þau voru stödd þegar framúraksturinn átti sér stað. Kvað vitnið sér hafa fundist bifreiðinni AZ-694 ekið nokkuð greitt og haft af því nokkrar áhyggjur. Vitnið kvaðst þó ekki geta sagt til um hvort um of hraðan akstur var að ræða. Borin var undir vitnið bókun í upplýsingaskýrslu lögreglu frá 13. maí sl., þar sem haft var eftir vitninu að þegar bifreiðin AZ-694 ók fram úr bifreið hans í Brynjudal hafi hraði bifreiðarinnar ekki verið óeðlilega hraður við framúraksturinn. Vitnið kvaðst geta staðfest þessa bókun. Hann var spurður hvort hann hafi veitt því athygli á vettvangi að hjólbarði var sprunginn á bifreiðinni OF-574 og kvað hann svo ekki vera. Vitnið kvað yfirlögregluþjóninn á Selfossi hafa ekið bifreiðinni sem vitnið var farþegi í greint sinn og hafi þau verið að koma frá Húsavík. Taldi vitnið meðalhraða bifreiðarinnar hafa verið 80-90 km á klst., þó nær 80. Áhyggjur farþeganna við framúraksturinn hafi stafað af aðstæðunum þar sem hann átti sér stað. Guðmundur Ingvar Kristófersson bifvélavirki og bifreiðaskoðunarmaður kom fyrir dóminn. Vitnið kvaðst hafa skoðað bifreiðarnar OF-574 og AZ-694 eftir slysið. Staðfesti vitnið að við skoðunina hafi komið í ljós að sprungið var á hægra aftur­hjól­barða bifreiðarinnar OF-574, en hann hafi ekki getað greint hvenær og hvers vegna hjólbarðinn varð vindlaus. Aðstæður við skoðun hafi verið slæmar og í dimmu húsnæði. Vitnið kvað það hefði breytt miklu hefði hann getað skoðað bifreiðarnar á vettvangi. Kvað vitnið mögulegt að loft hafi farið úr hjólbarðanum við það að bifreiðin rann til að aftan við áreksturinn. Vitnið gat ekki svarað því hvort hjólbarðinn var skemmdur þegar hann skoðaði hann. Vitnið kvað bifreiðina AZ-694 hafa verið nýja. Vitnið kvað það hafa verið ógjörlegt að skoða stýrisbúnað beggja bifreiðanna sökum þess hve illa hann var farinn. Bifreiðin OF-574 hafi verið skoðuð 30. apríl sl. án athugasemda að öðru leyti en því að stöðuljós hafi ekki reynst vera í lagi. Aðspurður kvað vitnið að við skoðun bifreiðanna á vettvangi hefði mátt átta sig betur á hvað ætti að skoða nákvæmlega. Hann kvaðst ekki treysta sér til að bera um hraða bifreiðanna þegar slysið varð. Af myndum að dæma virtust ákomustaðir hafa verið vinstra megin á bifreiðunum. Vitnið kvað bifreiðarnar ekki hafa verið teknar í sundur við skoðunina. Hann kvaðst ekki geta fullyrt hvort slík skoðun hefði leitt eitthvað í ljós um orsakir slyssins. Vitnið gat ekki upplýst hvort skemmdir hafi verið á felgu á hægra afturhjóli, en taldi að hann hefði skráð það í skoðunarskýrslu, ef svo hefði verið. Vitnið kvaðst hafa skoðað umræddan hjólbarða, en ekki séð neitt athugavert við mynsturdýptina. Vitnið kvað, miðað við eigin reynslu, loft fara mjög hægt úr radialdekkjum. Tók vitnið fram að bifreiðin OF-574 hafi verið með radialdekk. Vitnið kvaðst ekki geta sagt til um hvers vegna hjólbarðinn varð vindlaus, enda hafi það ekki verið tekið til nánari skoðunar. Vitnið kvaðst ekki hafa séð neitt á hjólbarðanum sem benti til að hvellsprungið hefði á honum. Vitnið treysti sér ekki til að svara því, út frá þeirri skoðun sem gerð var, hvort hvellsprungið hefði á hjólbarðanum. Vitnið upplýsti að hann hefði skoðað mynsturdýpt á hjólbarðanum, séð að hann var vindlaus og ekki framkvæmt frekari skoðun. Loks staðfesti vitnið að skýrslur þær sem hann vann í þágu rannsóknar málsins væru réttar. Niðurstaða. Eins og að framan greinir man ákærði ekki eftir slysinu og raunar engu þann dag sem það varð. Þá verður að telja fullvíst að enginn sjónarvottur hafi verið að slysinu. Faðir ákærða bar fyrir dóminum að hann hafi verið vel fyrirkallaður þegar hann lagði af stað frá heimili þeirra. Þá er ljóst að vínanda var ekki til að dreifa í blóði ákærða. Hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til að ákærði hafi verið illa fyrirkallaður umræddan dag. Af gögnum málsins er einnig ljóst að akstursskilyrði voru eins og best verður á kosið. Verður aðdragandi slyssins ekki upplýstur nánar en lýst hefur verið að framan. Eins og áður er að vikið voru vel merkjanleg hemlaför eftir bifreiðina AZ-694 á hægri vegarhelmingi miðað við akstursstefnu bifreiðarinnar, en engin sjáanleg hemlaför voru eftir bifreið þá sem ákærði ók. Af því sem fram er komið í málinu er það álit dómsins að áreksturinn hafi orðið á þeim vegarhelmingi sem bifreiðinni AZ-694 var ekið. Er ekkert sem veitir vísbendingu um að þeirri bifreið hafi verið ekið á röngum vegarhelmingi. Ekki er unnt að álykta annað, út frá því sem fram er komið við rannsókn og meðferð málsins, en bifreiðin OF-574, hafi af ástæðum sem ekki hefur tekist að upplýsa hverjar voru, farið yfir á vegarhelming fyrir umferð úr gagnstæðri átt með þeim afleiðingum sem í ákæru greinir. Bifreiðin AZ-694 var ný, skráningardagur 24. apríl 1998 og bifreiðin OF-594 var skoðuð 30. apríl s.á. og hlaut þá fullnaðarskoðun. Bendir ekkert til að skyndileg bilun hafi orðið í bifreið ákærða sem valdið hafi því að hann missti stjórn á henni. Að gögnum málsins virtum er það álit dómsins, þrátt fyrir að ekki hafi tekist að upplýsa nánar um aðdraganda slyssins, að meta verði það ákærða til stórfellds gáleysis að aka bifreiðinni á vegarhelmingi fyrir umferð úr gagnstæðri átt í þann mund sem hann var að mæta bifreið sem kom úr þeirri sömu átt. Verður samkvæmt þessu að leggja alla sök á ákærða um hvernig fór. Telst hann því sannur að sök og er háttsemi hans rétt færð til refsiákvæða í ákæru. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann ekki sætt refsingu svo kunnugt sé. Við ákvörðun refsingar þykir mega hafa hliðsjón af þeim afleiðingum sem slysið hafði fyrir ákærða. Því til staðfestu eru tvö læknisvottorð meðal gagna málsins. Bera þau með sér að ákærði hafi hlotið mjög alvarlegan skaða af völdum slyssins. Refsing ákærða þykir að öllu framanrituðu virtu hæfilega ákveðin fangelsi í 45 daga, skilorðsbundið til tveggja ára. Eins og krafist er í ákæru og samkvæmt lagaákvæðum þeim er þar greinir ber að svipta ákærða ökurétti. Þykir hæfilegt að sviptingin vari í tólf mánuði frá birtingu dómsins að telja. Loks ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð sem þykja hæfilega ákveðin 110.000 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Atla Gíslasonar hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 140.000 krónur. Uppkvaðning dómsins hefur dregist sökum starfsanna dómarans og páskaleyfa. Júlíus B. Georgsson héraðsdómari kvað upp dóminn. Dómsorð: Ákærði, Daníel Orri Einarsson, sæti fangelsi í 45 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Ákærði er sviptur ökurétti í 12 mánuði frá birtingu dómsins að telja. Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 110.000 krónur, og 140.000 krónur í málsvarnarlaun til skipaðs verjanda síns, Atla Gíslasonar hæstaréttarlögmanns.
Mál nr. 723/2010
Landamerki
Aðilar deildu um staðsetningu landamerkja milli jarðanna L og A. Ágreiningur aðila laut að staðsetningu eins merkjapunkts sem samkvæmt landamerkjabréfum jarðanna átti að miðast við kennileitið Klofa. Staðhættir þóttu benda til þess að hóll sá er M miðaði kröfugerð sína við væri umræddur Klofi. Þótti sú niðurstaða einnig vera í samræmi við rit um örnefni og gönguleiðir á svæðinu sem byggði á frásögnum nafngreindra manna sem gjörþekktu staðhætti en höfundur ritsins hafði borið vitni fyrir héraðsdómi. J og H höfðu aftur á móti ekki vísað til nokkurra slíkra heimilda. Ekki þótti mæla gegn þessu að mörk jarðanna áttu samkvæmt landamerkjabréfi að liggja spölkorn frá rótum fjallsins Keilis en lína sem dregin var um þann stað sem M taldi vera Klofa lá um 1 km frá rótum Keilis. Var því fallist á kröfu M.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 27. desember 2010. Þeir krefjast þess að viðurkennt verði að landamerki jarðarinnar Landakots og Auðnahverfis í Sveitarfélaginu Vogum séu frá Auðnaklofningum að landi Krýsuvíkur í beinni línu frá hnitapunktinum A339373,82 N392020,04 í sunnanverðum Auðnaklofningum að Klofa í hnitapunktinum A342581,09 N387622,10 og eftir þeirri stefnu spölkorn fyrir sunnan Keili allt að landi Krýsuvíkur í Grindavíkurbæ. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Dómendur í málinu fóru á vettvang 31. október 2011. Í málinu deila aðilarnir um hluta landamerkja milli Landakots, sem er í eigu stefndu, og Auðnahverfis, sem tilheyrir áfrýjendum, en landsvæði þessi liggja samsíða frá norðvestri til suðausturs frá sjó að sveitarfélagamörkum, Landakot að austan og Auðnahverfi að vestan. Í landamerkjabréfi fyrir Landakot 12. júní 1886 var merkjunum lýst að þessu leyti sem hér segir: „... um sunnanverða Auðnaklofninga yfir Stórhæð; þaðan í Klofa og eptir þeirri stefnu spölkorn fyrir sunnan Keilir, allt að landi Krísivíkur í Grindavíkurhreppi.“ Samhljóða lýsingu var að finna á þessum merkjum í landamerkjabréfi fyrir Auðnahverfi, sem gert var sama dag. Ágreiningur aðilanna um merkjapunkt lýtur að því einu hvar sé að finna Klofa, sem um ræðir í þessum landamerkjabréfum. Í framangreindri dómkröfu áfrýjenda er hnitasetning á þeim stað, sem þeir halda fram, en stefnda telur Klofa með réttu vera á hnitum A342667,96 N386350,41, sem er tæplega 1300 m sunnar. Eftir hljóðan fyrrnefndra landamerkjabréfa getur ekki orkað tvímælis að á þeim tíma, sem þau voru gerð, var Klofi þekkt kennileiti og þurfti að fara yfir Stórhæð til að komast þangað. Þótt aðilarnir séu ekki á einu máli um hvernig afmarka eigi Stórhæð verður að gæta að því að sá staður, sem áfrýjendur halda fram að sé Klofi, er norðan í hæð, en til að koma að staðnum, sem stefnda vísar til, er farið yfir sömu hæð. Frá Auðnaklofningum, sem standa norðan við Reykjanesbraut, sést til klofins hraunhóls, sem stefnda kveður vera Klofa, en svo er ekki um þann stað, sem áfrýjendur halda fram. Sá munur er einnig hér á að hóllinn, sem stefnda vísar til, er áberandi kennileiti í landslaginu, en sú hraunmyndun, sem áfrýjendur telja vera Klofa, sker sig lítt úr. Í málinu liggur fyrir rit með heitinu Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, sem gefið var út árið 2007, en þar er Klofi sýndur á þeim stað, sem stefnda heldur fram. Samkvæmt því, sem getið er í ritinu og höfundur þess bar nánar um í skýrslu fyrir héraðsdómi, er þessi staðsetning reist á frásögn nafngreindra manna, sem hafi gjörþekkt staðhætti. Áfrýjendur hafa á hinn bóginn ekki vísað til nokkurra slíkra heimilda fyrir sitt leyti. Lína, sem dregin er frá Auðnaklofningum um þann stað, sem stefnda telur vera Klofa, liggur áfram þaðan til suðausturs, en frá rótum Keilis beint til vesturs er um 1 km að þeirri línu. Sú vegalengd getur ekki talist ósamrýmanleg því að línan liggi spölkorn frá Keili ef horft er til fjalla úr byggð. Að þessu öllu virtu verður fallist á að stefnda hafi sannað að Klofi sé á þeim stað, sem hún heldur fram í málinu. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms verður því staðfest um annað en málskostnað, en áfrýjendum verður gert að greiða stefndu málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað. Áfrýjendur, Jakob Árnason og HS Orka hf., greiði í sameiningu stefndu, Margréti Guðnadóttur, samtals 2.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjaness 30. september 2010. I Mál þetta, sem dómtekið var 10. september 2010, var höfðað með birtingu stefnu þann 9. desember 2009. Aðalstefnandi og gagnstefndi er Margrét Guðnadóttir, kt. 070729-3779, Rofabæ 29, Reykjavík, en aðalstefndu og gagnstefnendur eru Jakob Árnason, kt. 040726-4039, Miðtúni 2, Reykjanesbæ, og HS Orka hf., kt. 680475-0169, Brekkustíg 36, Reykjanesbæ. Aðalsök: Dómkröfur aðalstefnanda í aðalsök eru: „Að dæmt verði að landamerki milli jarðarinnar Landakots og Auðnahverfis á Vatnsleysuströnd liggi með eftirfarandi hætti frá sunnanverðum Auðnaklofningum að landi Krýsuvíkur í Grindavíkurhreppi; frá sunnanverðum Auðnaklofningum, með GPS hnitið A 339373,82 og N 392020,04, yfir Stórhæð, þaðan í Klofa, með GPS-hnitið A 342667,96 og N 386350,41, og eftir þeirri stefnu spölkorn fyrir sunnan Keili, allt að landamerkjum við Krýsuvík í Grindavíkurhreppi. Að auki krefst stefnandi málskostnaðar in solidum að skaðlausu úr hendi stefndu. Dómkröfur aðalstefndu í aðalsök eru: „Að aðalstefndu verði sýknuð af öllum kröfum aðalstefnanda og að viðurkennt verði með dómi að landamerki milli jarðarinnar Landakots og Auðnahverfis á Vatnsleysuströnd, frá Auðnaklofningum að landi Krýsuvíkur, verði sem hér segir: Frá sunnanverðum Auðnaklofningum úr punkti merktum 151 á uppdrætti Tækniþjónustu SÁ ehf. dags. 23.12.2009 (hnit skv. hnitakerfi ISN93: A 339373.82 N 392020.04) í beinni línu um Klofa, merktan 152B (hnit A 342581.09 N 387622.10) og eftir þeirri stefnu spölkorn fyrir sunnan Keili allt að landi Krýsuvíkur í Grindavíkurbæ. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi aðalstefnanda.“ Gagnsök. Dómkröfur gagnstefnenda eru: „Að viðurkennt verði með dómi að landamerki milli jarðarinnar Landakots og Auðnahverfis á Vatnsleysuströnd, frá Auðnaklofningum að landi Krýsuvíkur, verði sem hér segir: Frá sunnanverðum Auðnaklofningum úr punkti merktum 151 á uppdrætti Tækniþjónustu SÁ ehf dags. 23.12.2009 (hnit skv. hnitakerfi ISN93: A 339373.82 N 392020.04) í beinni línu um Klofa, merktan 152B (hnit A 342581.09 N 387622.10) og eftir þeirri stefnu spölkorn fyrir sunnan Keili allt að landi Krýsuvíkur í Grindavíkurbæ. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi gagnstefndu.“ Dómkröfur gagnstefnda eru: „Gagnstefnda krefst sýknu af kröfum gagnstefnenda. Þá krefst gagnstefnda málskostnaðar vegna meðferðar gagnsakarinnar óskipt úr hendi gagnstefnenda og að við ákvörðun hans verði tekið tillit til skyldu gagnstefndu til greiðslu virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.“ Málsatvik. Mál þetta lýtur eingöngu að ágreiningi um það hvor umdeildra kletta sem aðilar bentu á í vettvangsgöngu, sem farin var þann 9. september sl., og nefndur er Klofi í landamerkjabók frá 1886, sé hið rétta kennileiti. Á því umfjöllun í kaflanum „málsatvik“ bæði við í aðalsök og gagnsök. Mál þetta snýst um ágreining milli eigenda jarðanna Landakots og Auðnahverfis, ofan Reykjanesbrautar, í Vatnsleysustrandarhreppi um staðsetningu kennileitisins Klofa. Ekki er ágreiningur um önnur merki milli jarðanna og er staðsetning sunnanverðra Auðnaklofninga og Stórhæðar þannig ágreiningslaus. Kveður aðalstefnandi ágreining um legu þessa merkis, Klofa, fyrst hafa komi upp undir lok síðustu aldar. Fram að þeim tíma hafi staðsetning merkisins virst hafa verið ágreiningslaus. Aðalstefnandi sé eigandi jarðarinnar Landakots á Vatnsleysuströnd, fastanúmer 130865, og þar sé hún jafnframt fædd og uppalin en jörðin hafi verið í eigu eða ábúð fjölskyldu stefnanda allt frá árinu 1927. Að Landakoti liggi Auðnahverfi til vesturs, hafið til norðurs og Þórustaðir til austurs. Að sunnan liggi Landakotsjörðin um Keili í Reykjanesfjallgarði að landi Krýsuvíkur í Grindavíkurhreppi. Þá kveður aðalstefnandi jarðarinnar Landakots vera getið í heimildum allt frá því um miðja 16. öld en jörðin hafi á þeim tíma verið í eigu Viðeyjarklausturs. Landamerkjabréf Landakots hafi verið undirritað 12. júní 1886 og þinglesið þremur dögum síðar en það hljóði þannig: „Landakoti á Vatnsleysuströnd tilheyrir land allt með gögnum og gæðum milli Þórustaða að norðanverðu og Auðnahverfis-jarðanna Auðna, Höfða og Bergskots - að sunnanverðu. – Landamerkin eru þessi: 1.Milli Þórustaða að norðanverðu og Landakots að sunnanverðu eru þessi landamerki: Sundsker, sem tilheyrir báðum jörðunum að helmingi hvorri; þaðan um hinar svonefndu Markaflúðir, sem liggja á sandinum beina stefnu í brunninn Djúpugröf; þaðan eptir eptir marksteinum og gömlu garðlagi, sem aðskilur tún jarðanna, allt upp að túngarði; þaðan beina stefnu eptir vörðum upp eptir heiðinni sunnanvert í rætur Keilis alla leið að landi Krísuvíkur í Grindavíkurhreppi. 2.Að sunnanverðu milli Landakots og Auðnahverfis (nefnil. Auðna, Höfða og Bergskots) eru landamerkin: Fyrir neðan flæðarmál: Markaós, sem er austasti ósinn, er gengur inn úr aðalós þeim, sem liggur í milli Landakotstanga og Sílalónsskers. Fyrir ofan flæðarmál eru mörkin við suðurenda stakkstæðis, sem Landakoti tilheyrir, og um krók eða hlykk þann, er sjávargarðar Landakots og Auðna mynda; þar sem þeir mætast; þaðan eptir járnþráðargirðingu í syðsta horn á sjávarkálgarði Landakots; þaðan um Brunnhóla sunnanverða eptir grjótgarði, sem þar er hlaðinn; þaðan eptir gömlu torfgarðlagi og járnþráðargirðingu um sunnanverðan Landakotshól; þaðan út að túngarði eptir gömlu grjótgarðlagi og járnþráðargirðingu; þaðan um Skálholt sunnanvert og um sunnanverða Auðnaklofninga yfir Stórhæð; þaðan í Klofa og eptir þeirri stefnu spölkorn fyrir sunnan Keilir, allt að landi Krísivíkur í Grindavíkurhreppi.“ Hafi landamerkjabréf þetta verið samþykkt af eiganda Landakots, eiganda að nokkrum hluta Auðnahverfis og eiganda að hálfum Þórustöðum. Þá sé merkjum á milli Landakots og Auðnahverfis lýst með sambærilegum hætti í landamerkjabréfi Auðnahverfis sem jafnframt var undirritað 12. júní 1886 og þinglesið þremur dögum síðar. Þá kveður aðalstefnandi að ljóst hafi verið um nokkurra ára skeið að ágreiningur væri á milli aðalstefnanda og aðalstefnda Jakobs Árnasonar um staðsetningu Klofa. Þann 3. október 2002 hafi sýslumannsfulltrúi, Ásgeir Eiríksson, ásamt aðalstefnanda, aðalstefnda Jakobi Árnasyni og fulltrúum aðalstefndu HS Orku hf. gengið á merki milli jarðanna án þess að einhugur næðist um staðsetningu Klofa. Við það tækifæri hafi aðalstefnandi og dóttir hennar bent á Klofa, sem þær höfðu áður staðsett samkvæmt leiðsögn bókarinnar „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi“ eftir Sesselju G. Guðmundsdóttur. Aðalstefndi Jakob Árnason hafi ekki komist heilsu sinnar vegna svo langt í göngunni, en sonur hans, sem hafi tekið þátt í allri göngunni fyrir hans hönd, hafi ekki fundið þann hól, sem þeir feðgar telji vera Klofa. Með bréfi, dagsettu 9. september 2009, hafi lögmaður aðalstefnanda farið þess á leit við sýslumanninn í Keflavík að hann boðaði til sáttarfundar í samræmi við 3. mgr. 6. gr. laga nr. 41/1919 um landamerki o.fl. Með bréfi, dagsettu 16. september 2009, hafi fulltrúi sýslumannsins í Keflavík óskað eftir að lagður yrði fram uppdráttur af landamerkjum Landakots. Með bréfi, dagsettu 16. október 2009, hafi sýslumaður boðað aðila á sáttafund sem fram fór þann 28. október 2009. Viðstödd fundinn hafi aðalstefnandi ásamt dóttur sinni verið ásamt lögmanni sem og aðalstefndi Jakob ásamt syni sínum og fulltrúum aðalstefndu HS Orku hf. Aðilar hafi lagt fram gögn og gert grein fyrir sjónarmiðum sínum. Fundinum hafi lokið án þess að sættir tækjust. Aðalstefndu lýsa af sinni hálfu málsástæðum eins að breyttu breytanda og er ekki ágreiningur um aðkomu aðila að málsatvikum. Málsástæður og lagarök aðalstefnanda í aðalsök. Í fyrsta lagi telur aðalstefnandi það hafið yfir allan vafa að Klofi sé sá hóll sem staðsettur sé á framangreindum hnitum. Stefnandi kveður að ljóst sé að þegar gengið var frá landamerkjaskrám beggja, jarðarinnar Landakots annars vegar og Auðnahverfis hins vegar, árið 1886 hafi enginn ágreiningur verið uppi um legu landamerkisins Klofa. Báðar landamerkjaskrár séu undirritaðar af þáverandi eigendum beggja jarða. Á þeim tíma hafi ekki vafist fyrir neinum hvar Klofi var. Þá sé ekki heldur kunnugt um neinn ágreining um þetta atriði langt fram eftir 20. öldinni. Aðalstefnandi byggir kröfur sínar í fyrsta lagi á rannsóknum Sesselju G. Guðmundsdóttur sem unnið hafi ítarlega örnefnaskráningu ásamt staðsetningu örnefna í stærstum hluta Vatnsleysustrandarhrepps. Við staðsetningu Klofa sem og verkið að öðru leyti hafi hún notið aðstoðar Lárusar Kristmundssonar frá Efri-Brunnastöðum sem fæddur hafi verið í Stakkavík í Selvogi árið 1931. Lárus hafi verið afar staðkunnugur í hreppnum, enda hafi hann verið refaskytta þar frá 17 ára aldri og allt fram til ársins 1999. Lárus hafi numið örnefnin af lærimeistara sínum á grenjum, Ólafi Péturssyni (1884-1964) frá Stóra-Knarranesi. Ábendingar frá staðkunnugum aðilum sem uppi hafi verið á fyrri hluta 20. aldar geti því ekki talist annað en afar áreiðanlegar að þessu leyti. Aðalstefnandi kveður Sesselju hafa gefið út bók sem reist sé á framangreindum rannsóknum og beri heitið „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins)“. Bókin hafi fyrst komið út árið 1995 og hafi svo verið gefin út á ný árið 2007 í aukinni og endurbættri útgáfu. Á korti á bls. 81 í hinni síðarnefndu bók megi sjá öll örnefnin úr landamerkjalýsingu milli Landakots og Auðnahverfis ofan Reykjanesbrautar. Þar sjáist glöggt að Klofi sé staðsettur í samræmi við dómkröfu stefnanda, þ.e. rétt neðan og vestan við Keili. Hið sama megi sjá á korti á bls. 13. Á bls. 95 segi svo orðrétt: „Hóllinn Klofi stendur þarna efst í heiðinni vestan Keilis. Hann stendur hátt í landslaginu, er klofinn niður í rót og myndast því í hann eins konar hlið.“ Lýsing þessi eigi augljóslega við þann hól sem tilgreindur sé í dómkröfu stefnanda sem glöggt sé ráðið af ljósmyndum af honum. Í öðru lagi byggir aðalstefnandi á þeirri staðreynd að umræddur hóll sé sá eini á þessu svæði sem sé þess háttar kennileiti að unnt sé að miða merki við. Það liggi í hlutarins eðli að landamerki séu miðuð við áberandi kennileiti í náttúrunni. Sé slíkra kennileita ekki kostur með þéttu millibili sé því almennt tekin sjónhending í það næsta fremur en að lýsa í lítt áberandi kennileiti. Hóllinn Klofi eins og hann sé staðsettur í dómkröfu stefnanda standi hátt og sjáist í góðu skyggni allt frá Reykjanesbraut. Hann geti því ekki talist annað en áberandi kennileiti í náttúrunni. Hið sama gildi ekki um þann hól sem aðalstefndu hafi haldið fram að sé landamerkið Klofi en sá hóll falli algjörlega inn í hraunbreiðuna. Hefði ætlunin verið sú að lýsa landamerkjum í þá stefnu hefði því verið nærtækara að lýsa merkjum um sunnanverða Auðnaklofninga yfir Stórhæð og þaðan í suðvesturhorn Keilis. Það hafi hins vegar ekki verið gert, heldur lýst um hólinn Klofa svo sem áður greinir. Þá sé sá hóll sem samkvæmt dómkröfu stefnanda sé hóllinn Klofi klofinn og svari því vel til heitisins. Af hálfu aðalstefndu sé því haldið fram að hóllinn Klofi sé staðsettur norðaustan við þann hól sem aðalstefnandi telji Klofa. Séu merki á milli Landakots og Auðnahverfis dregin um þann hól skapist verulegt ósamræmi við landamerkjabréf jarðanna. Þannig segi í áðurnefndum landamerkjalýsingum bæði Landakots og Auðnahverfis að merkin liggi um sunnanverða Auðnaklofninga yfir Stórhæð, þaðan í Klofa og eftir þeirri stefnu spölkorn fyrir sunnan Keili, allt að landi Krýsuvíkur í Grindavíkurhreppi. Séu merkin dregin um þann hól sem aðalstefndu telja Klofa skeri þau suðvesturhorn Keilis í stað þess að liggja spölkorn sunnan við fjallið svo sem þau eigi að gera samkvæmt landamerkjabréfunum og geri, séu merkin dregin í samræmi við dómkröfu aðalstefnanda. Það fái augljóslega ekki staðist. Þá byggir aðalstefnandi kröfu sinni til frekari stuðnings á hefð. Land jarðarinnar Landakots hafi ávallt verið nytjað innan þeirra marka sem tilgreind séu í dómkröfu aðalstefnanda án þess að gerðar hafi verið athugasemdir af hálfu aðalstefndu eða fyrri eigenda umrædds lands jarða í Auðnahverfi. Það liggi því ljóst fyrir að land jarðarinnar hafi verið nytjað innan nefndra marka í samræmi við búskaparhætti og aðstæður á hverjum tíma í fullan hefðartíma áður en núverandi ágreiningur kom upp. Um lagarök vísar aðalstefnandi einkum til laga nr. 41/1919 um landamerki o.fl., laga nr. 46/1905 um hefð sem og meginreglna íslensks eignarréttar um landamerki. Um málskostnaðarkröfu vísast til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Málsástæður og lagarök aðalstefndu í aðalsök og gagnsök. Dómkröfur gagnstefnenda í gagnsök eru þær sömu og koma fram í greinargerð aðalstefndu og verður því fjallað um þær í einu lagi. Þá verður fjallað um málsástæður aðalstefndu og gagnstefnendur í einu lagi. Dómkröfur aðalstefndu í aðalsök eru að aðalstefndu verði sýknuð af öllum kröfum aðalstefnanda og að viðurkennt verði með dómi að landamerki milli jarðarinnar Landakots og Auðnahverfis á Vatnsleysuströnd, frá Auðnaklofningum að landi Krýsuvíkur, verði sem hér segir: Frá sunnanverðum Auðnaklofningum úr punkti merktum 151 á uppdrætti Tækniþjónustu SÁ ehf. dags. 23.12.2009 (hnit skv. hnitakerfi ISN93: A 339373.82 N 392020.04) í beinni línu um Klofa, merktan 152B (hnit A 342581.09 N 387622.10) og eftir þeirri stefnu spölkorn fyrir sunnan Keili allt að landi Krýsuvíkur í Grindavíkurbæ. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi aðalstefnanda. Aðalstefndu telja að þar sem engar skýrar og skriflegar heimildir séu um hvar Klofi sé verði að leita að skýringum í landamerkjalýsingunum sjálfum og taka einnig mið af sögulegum og staðfræðilegum staðreyndum við lausn málsins. Fyrst og fremst verði að finn lausnina í landamerkjabréfunum sjálfum og setja sig í spor þeirra er sömdu landamerkjalýsingarnar. Taka verði mið af sögulegum og staðfræðilegum staðreyndum og svo ekki síst hvað hafi búið að baki ákvörðun um merkin. Samkvæmt lýsingum landamerkjabréfanna liggi línan spölkorn fyrir sunnan Keili og sú lýsing smellpassi við kröfulínu gagnstefnenda en lína aðalstefnanda sé langt fyrir sunnan eða 1.200 metrum. Fráleitt sé að sú fjarlægð teljist spölkorn, en skv. íslenskri orðabók merki spölur stutta leið og spölkorn „stuttur vegur, vegarspotti“. Í þessu sambandi sé rétt að benda á að í landamerkjabréfi Auðnahverfis segir um landamerki milli Auðna og Breiðagerðis „... þaðan eftir vörðum upp heiðina, milli Auðna-Klofninga og Breiðagerðis-Skjólgarðs, spölkorn fyrir norðan nyrðri Keilisbróður (Litla-Hrút) alla leið að landi Krísuvíkur í Grindavíkurhreppi“. Þarna sé spölkorn sannarlega vel innan við 200 metra skv. viðurkenndum landamerkjum og væri ótrúlegt ef satt væri að orðið spölkorn hefði mismunandi merkingu innan sama landamerkjabréfs. Gagnstefnda hafi haldið því mjög á lofti að Klofi sá er hún vilji miða við sé sá eini sem komi til greina þar sem sá Klofi sé klofinn hóll og áberandi frá ströndinni séð. Gagnstefnendur bendi hins vegar á að þeirra Klofa megi sjá frá Auðnuklofningum og axlarháir barmar klofinnar og upphækkaðrar hraunhellu standi upp úr hraunbreiðunni. Helstu rök aðalstefnanda fyrir kröfum sínum séu þau að Sesselja Guðmundsdóttir, höfundur bókarinnar „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi“, hafi rannsakað svo vel hvar Klofi gæti verið og hennar niðurstaða sé afdráttarlaust sú að Klofi sá er aðalstefnandi bendir á, sé hinn eini rétti. Sjónarmið stefndu eða fyrri eigenda í Auðnahverfi virðist ekki hafa komist að í þeim rannsóknum. Í fyrri útgáfu bókar Sesselju, frá 1995, sé uppdráttur á bls. 66 þar sem Klofi sé teiknaður um 1,6 km VSV af miðjum Keili og jafnframt segir í umfjöllun um hann á bls. 76: „Hóllinn Klofi hefur líklega fundist þarna efst í heiðinni vestan Keilis.“ og „Þetta er eini hóllinn á heiðinni sem gæti borið Klofanafnið með réttu“. Í síðari útgáfunni frá 2007 segir: „Hóllinn Klofi stendur þarna efst í heiðinn vestan Keilis“ „Á kortum fyrri útgáfu bókarinnar var Klofi settur á rangan stað.“ Á bls. 81 í síðari útgáfunni sé kort sem sýni Klofa aðeins norðar eða um 1,5 km vestur af miðju Keilis en hins vegar sé Klofi aðalstefnanda sýndur rúmum 2 km norðan við vestur frá miðju Keilis. Allt bendi til að rannsóknir Sesselju séu ekki óyggjandi og einnig að framsetning krafna aðalstefnanda á síðari árum hafi vegið nokkuð í þeim. Jafnframt sé eina heimildin um örnefni frá refaskyttu sem sé ekki frá jörðunum. Ekki sé að sjá að í landamerkjabréfum sé minnst á hól í sambandi við Klofa en Sesselja gangi út frá því sem vísu að Klofinn sé hóll. Þá sé ekki loku fyrir það skotið að sá klofi er aðalstefnandi vilji miða við hafi haft annað heiti en Klofi á þeim tíma er landamerkjabréfin hafi verið skráð. Þá kveða gagnstefnendur að þegar merki hafi verið ákveðin milli Landakots og Auðnahverfis hafi áður óskiptu landi vafalítið verið skipt út í hlutfalli við dýrleika jarðanna, þ.e. eftir jarðarhundruðum. Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 hafi Landakot verið hálflenda svokölluð, því hún hafi ekki haft fyrirsvar, nema til helmings á móts við lögbýlisjarðir. Í jarðatali frá 1861 sé Auðnahverfið talið vera 21,9 hundruð en Landakot 5,5 hundruð. Hlutföll jarðanna í heiðarlandi eftir þessu að dæma séu 20,1% hjá Landakoti en 79,9% hjá Auðnahverfi en kröfur eiganda Landakots geri ráð fyrir að um helmingur heildarlandsvæðisins ofan Reykjanesbrautar komi í hennar hlut. Hið umdeilda svæði sé ofan Reykjanesbrautar en Auðnaklofningar séu við hana. Samkvæmt þessu sé mjög ólíklegt að merkin milli jarðanna í öndverðu hafi verið ákveðin í heiðarlandinu um Klofa gagnstefndu því það hafi verið andstætt meginreglu þeirri er fram kemur í landskiptalögum og byggist á ómunahefð að við skipti á óskiptu landi tveggja eða fleiri jarða skuli fara eftir jarðarhundruðum. Skv. núgildandi landskiptalögum skuli fara eftir jarðatali frá 1861, finnist jarðirnar þar. Ef farið væri eftir þessari reglu við hlutföllun heiðarlandsins myndi landamerkjalínan vera næstum alveg þar sem kröfulína aðalstefndu liggur. Vísa gagnstefnendur til útreikninga Ísleifs Jakobssonar svo og til uppdráttar sem liggi fyrir í málinu. Á þeim uppdrætti sé punkturinn „1861“ á Krýsuvíkurlínunni sem sé rétt við punkt 153B. Megi af þessu draga þá ályktun að bændur hafi á 19. öld haft í huga jarðamatið er merki voru ákveðin og að Klofi sé þar sem aðalstefndu haldi fram. Hlutföll samkvæmt fasteignamati frá 1922 séu 91 á móti 35 eða 72,2% hjá Auðnahverfi. Séu þau hlutföll notuð við ákvörðun landamerkjanna yrði endapunkturinn aðeins sunnar, merktur „1922“ á dskj. 24, en þó ekki í námunda við punkt aðalstefnanda, merktan 158 á sama uppdrætti. Aðalstefndu halda því fram að í landamerkjalínu þeirra sé að finna vörður og steinahleðslur sem gefi til kynna að um landamerki sé að ræða. Engar slíkar vörður sé að finna í línu aðalstefnanda en hins vegar sé að finna vörður á viðurkenndum suðurmerkjum Auðnahverfis gagnvart Breiðagerði. Þetta gefi vísbendingar um að lína aðalstefndu sé rétt. Gagnstefnendur og aðalstefndu vísa til 1.-6. gr. laga um landamerki nr. 41/1919, laga nr. 46/1905 um hefð, landskiptalaga nr. 46/1941 og meginreglna íslensks eignarréttar um landamerki. Málsástæður og lagarök gagnstefndu í gagnsök. Gagnstefnda mótmælir kröfugerð gagnstefnenda og telur hana ekki fá stoð í landamerkjabréfum eða öðrum heimildum sem varða landamerki á svæðinu. Gagnstefnda mótmælir að ekki séu til skýrar og skriflegar heimildir um það hvar staðinn Klofa sé að finna. Því til áréttingar vísar gagnstefnda um staðsetningu Klofa til rits Sesselju G. Guðmundsdóttur, „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), 2. útgáfu.“ Þá mótmælir gagnstefnda því að hafa með einhverjum hætti haft áhrif á niðurstöður Sesselju um staðsetningu Klofa. Hið rétta sé að Sesselja hafði áður en 1. útgáfa nefndrar bókar kom út árið 1995 árum saman safnað örnefnum í óbyggðu landi Vatnsleysustrandarhrepps og fengið þau staðfest af staðkunnugum. Hún hafi haldið þessu starfi sínu áfram og bætt ýmsu við í 2. útgáfu bókarinnar sem út kom árið 2007. Heimildarmaður Sesselju um staðsetningu Klofa hafi verið Lárus Kristmundsson sem gekk með henni að þessum sérkennilega hól svo sem sjá megi á mynd í skjölum málsins. Hann hafi þekkt hólinn Klofa vel frá því hann til margra ára fór um svæðið með Ólafi Péturssyni, bónda í Stóra-Knarranesi, í því skyni að útrýma tófu. Ólafur hafi verið þaulkunnugur Strandaheiðinni sem og fjalllendinu umhverfis Keili og Keilisbræður, enda smali og grenjaskytta til margra ára í þessum hluta hreppsins. Upplýsingar um staðsetningu örnefna á þessu svæði sem frá þessum mönnum stafi geti því ekki talist annað en áreiðanleg heimild. Sesselja G. Guðmundsdóttir sé ekki einungis höfundur áðurnefndrar bókar heldur njóti hún mikils trausts í sveitarfélaginu fyrir rannsóknir sínar á óbyggðum svæðum þess og sé iðulega kölluð til þegar greina þurfi frá staðsetningu örnefna eða staðháttum að öðru leyti. Það sé því ljóst að heimildargildi rannsókna hennar sé almennt viðurkennt. Öllum tilraunum gagnstefnenda til að varpa rýrð á heiður hennar sem fræðimanns sé því harðlega mótmælt sem tilhæfulausum. Gagnstefnda mótmælir þeirri málsástæðu gagnstefnenda að kröfulína þeirra sé í samræmi við lýsingu landamerkjabréfa jarðanna þar sem segir að merkin liggi „yfir Stórhæð; þaðan í Klofa og eptir þeirri stefnu spölkorn fyrir sunnan Keilir“, með sömu rökum og fram komi í stefnu í aðalsök. Svo sem fram komi bæði í gagnstefnu og greinargerð í aðalsök merki orðið spölur m.a. stutta leið eða vegarspotta samkvæmt íslenskri orðabók og orðið spölkorn stuttur vegur eða vegarspotti samkvæmt sömu heimild. Það liggi því fyrir og sé með tilvitnunum í framangreindar skýringar í íslenskri orðabók viðurkennt af hálfu gagnstefnenda að um vegalengd sé að ræða. Þar af leiðandi fái kröfulína gagnstefnenda sem sker suðvesturhorn Keilis augljóslega ekki staðist, enda liggi hún fráleitt spölkorn fyrir sunnan fjallið. Þá sé öllum staðhæfingum gagnstefnenda um að vegalengdin spölkorn hafi einhverja fyrirfram ákveðna skírskotun hafnað, enda ljóst að um teygjanlega einingu sé að ræða. Þá mótmælir gagnstefnda þeirri fullyrðingu að ekki sé reginmunur á þeim hól sem gagnstefnda telur að sé Klofi og þeirri hraunhellu sem gagnstefnendur miða við í því sambandi, enda standi sá hóll sem gagnstefnda telji að sé Klofi hátt í landslaginu og sjáist allt frá Reykjanesbraut. Til marks um þann augljósa mun sem á þessum kennileitum sé megi benda á að þegar gengið hafi verið á merki þann 3. október 2002, hafi gagnstefnendur ekki fundið umrædda hraunhellu. Hún geti því vart verið áberandi í landslaginu eða til þess fallinn að vera landamerki. Þá mótmælir gagnstefnda þeirri málsástæðu að landamerki á milli tveggja sjálfstæðra jarða hafi verið dregin á grundvelli dýrleika þeirra þegar þau voru skráð seint á 19. öld. Þess misskilnings virðist gæta hjá gagnstefnendum að við gerð landamerkjabréfa Landakots og Auðnahverfis hafi óskiptu landi verið skipt. Það hafi hins vegar að sjálfsögðu ekki verið svo, enda hafi önnur jörðin aldrei verið hluti af hinni eða þær átt óskipt land af öðrum ástæðum. Um sé að ræða tvær sjálfstæðar jarðir með sjálfstæð landamerki og hafi skrásetning þeirra og þinglýsing árið 1886 ekki falið í sér annað en staðfestingu á því sem áður var talið gilda. Tilvísun gagnstefnenda til landskiptalaga nr. 46/1941 sé óskiljanleg, enda eigi þau einungis við þegar verið sé að skipta óskiptu landi einstakra jarða. Þau komu því eðli málsins samkvæmt ekki til skoðunar við skrásetningu landamerkja á grundvelli laga nr. 5/1882 um landamerki eða síðari laga um sama efni, enda hafi þau ekki tekið gildi á þeim tíma auk þess sem gildissvið þeirra sé allt annað. Þá mótmælir gagnstefnda þeirri staðhæfingu gagnstefnenda sem rangri að dýrleiki einstakra jarða samkvæmt fornu mati endurspegli stærð þeirra. Hið forna mat sé almennt talið miðað við fóðurgildi jarða, þ.e. hversu mörg kúgildi jörð geti borið í meðalári. Við þetta hafi verið miðað í jarðatali Johnsens sem hafi komið út árið 1848. Í Nýrri jarðabók fyrir Ísland sem út kom árið 1861 hafi hinni fornu verðeiningu hundraði verið haldið, en að baki henni hafi kúgildi ekki lengur staðið heldur slegin mynt, og skyldi hver jörð metin til peningaverðs „að því sem slíkar jarðir verða sanngjarnlega seldar eptir gæðum sínum“. Dýrleiki jarðar sé því fyrst og fremst heimild um landgæði fyrr á tímum en ekki stærð jarðar eða víðáttu. Þetta fáist glöggt séð með samanburði á dýrleikamati annarra jarða í Vatnsleysustrandarhreppi og stærð þeirra samkvæmt útreikningum Tækniþjónustu SÁ ehf. Í því sambandi nægi að nefna að heildarstærð Kálfatjarnarkirkjutorfu, samkvæmt útreikningum Tækniþjónustu SÁ ehf., sé 1.136 ha en heildarstærð Stóru- og Minni-Vatnsleysu aftur á móti 3.821,9 ha. Engu að síður sé mat þessara jarða í hundruðum samkvæmt fasteignamati 1922 nánast hið sama eða 154 hundruð í fyrrnefnda tilvikinu og 157 hundruð í hinu síðarnefnda. Hið sama sé að segja um dýrleika þessara jarða samkvæmt eldri jarðamötum. Þegar landgæði Landakots séu borin saman við landgæði Auðnahverfis sé augljóst af hverju munur á dýrleikamati jarðanna stafi. Í Landakoti sé sandfjara fyrir neðan allan norðurhluta túnsins. Sandfok hafi því verið verulegt í landi Landakots fyrr á árum, allt þar til gripið var til aðgerða til að hefta það á fyrri hluta 20. aldar. Þannig hafi sandfok alla tíð valdið spjöllum á túnum jarðarinnar og lélegri sprettu á uppgræddum sandbökkum. Í Auðnahverfi sé hins vegar ekki sandur í fjörunni heldur stórgrýti og klappir og þangi vaxin sker þegar utar dragi. Þar sé því ekki sandfok með tilheyrandi spjöllum. Þá sé óumdeilt að ræktanlegt land Landakots sé því sem næst helmingi minna en ræktanlegt land Auðnahverfis. Þannig hafi Landakotsjörðin ekki verið eins grasgæf og Auðnahverfi og þar með mun minni að gæðum. Loks mótmælir gagnstefnda þeirri málsástæðu gagnstefnenda að vörður og steinahleðslur gefi einhverja vísbendingu um legu landamerkja á þessu svæði, enda fáist ekki séð að hún eigi nokkra stoð í landamerkjabréfum jarðanna eða öðrum gögnum málsins. Mikið sé um vörður og steinahleðslur á þessu landsvæði sem reistar hafi verið af gangandi fólki og grenjaskyttum á árum áður. Slíkar vörður og hleðslur séu hins vegar ekki á nokkurn hátt til marks um legu merkja á svæðinu. Niðurstöður. Í máli þessu er ekki ágreiningur um annað en hvar Klofi í Strandarheiði, samkvæmt Landamerkjabók fyrir jörðina Landakot í Vatnsleysustrandarhreppi frá 1886, er staðsettur. Eins og rakið hefur verið að framan, segir í lýsingu á landamerkjum milli Landakots og Auðnahverfis að norðan að merkin séu „ um sunnanverða Auðnaklofninga yfir Stórhæð, þaðan í Klofa og eptir þeirri stefnu spölkorn fyrir sunnan Keilir, allt að landi Krísuvíkur í Grindavíkurhreppi.“ Í landamerkjalýsingu frá sama tíma segir um landamerki jarðanna Landakots, Auðna, Höfða og Bergskots, sem mynda Auðnahverfi, að mörkin séu „ þaðan um Skálholt sunnanvert og um sunnanverða Auðna-Klofninga yfir Stórhæð, þaðan í Klofa og eftir þeirri stefnu spölkorn fyrir sunnan Keili, allt að landi Krísuvíkur í Grindavíkurhreppi.“ Í hvorugri landamerkjalýsingunni er minnst á vörður sem kennileiti. Dómurinn gekk á vettvang frá Auðnaklofningum upp að þeim Klofa sem aðalstefnandi telur vera hinn rétta Klofa og þaðan á þann Klofa sem gagnstefnendur telja vera hinn rétta Klofa. Fyrir dóminn kom Sesselja G. Guðmundsdóttir og kvaðst hafa stundað örnefnarannsóknir frá árinu 1985 og eingöngu á Reykjanesi. Gekk hún einnig á vettvang með dóminum. Kvaðst hún fyrst hafa heyrt um nafnið Klofa á árunum 1985 til 1990 og rekist á nafnið í örnefnaskrá og landamerkjabókum. Lárus Kristmundsson, bóndi og refaskytta á Efri-Brunnastöðum á Strönd, hefði gengið með henni á Klofa en hann hefði þekkt mjög vel til á heiðinni. Hann hefði gengið með henni beint á þann Klofa sem aðalstefnandi telji vera hinn rétta Klofa. Kvað hún Lárus hafa byrjað á grenjum um 17 ára aldur með Ólafi Péturssyni, bónda á Stóra-Knarrarnesi á Strönd, og hefði Ólafur verið hans lærimeistari. Kvaðst Sesselja ekki hafa leitað til aðalstefnanda við rannsóknir sínar og ekki fyrr en á árunum 2003-2005 hefði hún fyrst heyrt um deilu aðila máls þessa og þá á fundi með hitaveitu Suðurnesja. Aðspurð um skrif hennar um Klofa í fyrri bók hennar og það misræmi sem kæmi fram um Klofa í bókum hennar, kvaðst hún hafa verið varkár í fullyrðingum um örnefni og í fyrstu hefði hún eingöngu haft landamerkjalýsingar, örnefnaskrár og fullyrðingar Lárusar um það hvar Klofa væri að finna, en hann hefði ætíð verið mjög varkár í fullyrðingum sínum. Þá hefði Lárus gengið beint á þann Klofa með henni og ekki verið í vafa um hvaða hól væri að ræða. Eftir útgáfu fyrri bókarinnar hefði hún gengið á hólinn auk þess sem hún hefði farið með ljósmyndir af heiðinni til Gunnars Erlendssonar, bónda á Kálfatjörn, og sýnt honum. Hann hefði þar séð ljósmyndir af þeim Klofa sem aðalstefnandi telji vera hinn rétta Klofa og hann upplýst óspurður að myndirnar væru af Klofa. Í fyrstu hefði hún eingöngu haft loftmyndir af svæðinu en þegar seinni bókin var skrifuð þá hefði hún haft GPS-staðsetningarhnit á hólinn og því hefði hún getað fullyrt að um Klofa væri að ræða og staðsett hann rétt á korti. Kvaðst hún hafa gengið heiðina með aðalstefnda, um 2005/6 og þau fyrst gengið á „Klofa aðalstefnanda“ og síðan á „Klofa aðalstefndu.“ Hefði aðalstefndu talið að það væri hinn eini sanni Klofi. Sesselja kvað Klofa vera mjög gagnsætt heiti og standa hátt í heiðinni en hún teldi víst að „báðir Klofarnir“ sæjust frá Auðnaklofningum. Kvaðst hún ekki vera í vafa um að sá Klofi sem aðalstefnandi teldi vera hinn rétta Klofa, væri sá Klofi sem vísað væri til í landamerkjabréfum. Aðalstefndi kveður rétt að Klofi aðalstefnanda sé meira áberandi í náttúrunni, en báðir „Klofarnir“ séu hins vegar áberandi í náttúrunni. Engin bein vitni hafi staðfest að Klofi aðalstefnanda sé hinn rétti Klofi en vitnið Sesselja byggi m.a. á frásögnum annarra sem nú séu látin. Þá sé Klofi aðalstefnanda um 1,2 kílómetrum fyrir sunnan Keili og geti sú vegalengd ekki talist spölkorn þar sem spölkorn, sem nefnt sé í landamerkjalýsingu á milli Auðnahverfis og Breiðagerðis, sé um 200 metrar. Þá sé mikið ójafnvægi á milli jarðanna með tilliti til dýrleika jarðanna, sé miðað við Klofa aðalstefnanda. Þá hafi Landakot verið „hálflenda“ og geti því ekki verið stærri að flatarmáli en óskipt jörð. Aðalstefnandi byggir á því að útilokað sé að sá Klofi sem gagnstefnendur telji vera hinn rétta Klofa, sé sá Klofi sem átt sé við í landamerkjalýsingunni frá 1886, þar sem skurðlínan muni þá fara utanvert í fjallið Keili en ekki sunnanvert við það eins og línan myndi gera, væri Klofi aðalstefnanda hinn rétti Klofi. Gagnstefnendur halda því meðal annars fram, málsástæðum sínum til stuðnings, að landgæði jarðanna Landakots og Auðnatorfunnar hafi ráðið um landamerki á milli jarðanna. Mótmælti gagnstefndi því að dýrleiki jarða endurspeglaði flatarmál jarðarinnar. Tekur dómurinn undir það með aðalstefnanda að dýrleiki jarðanna að fornu skeri ekki úr um landamerki þeirra. Ekki er ágreiningur um gildi þeirra landamerkjabréfa sem lögð hafa verið fyrir dóminn. Þegar öll þau gögn eru virt sem liggja fyrir í málinu verður ekki, svo óyggjandi sé, dregin sú ályktun að Klofi, sem aðalstefnandi kveður vera hinn rétta Klofa, sé sá Klofi sem vísað er til í landamerkjabréfum frá 1886. Á hinn bóginn eru í ljósi staðhátta, svo og rannsókna og vitnisburðar Sesselju G. Guðmundsdóttur, sem staðsetti Klofa samkvæmt ábendingum kunnugra manna, miklar líkur fyrir því að Klofi aðalstefnanda sé hinn rétti Klofi. Þá verður líka að horfa til þess að þegar horft er frá Auðnaklofningum til suðurs í átt að Keili, má sjá með berum augum það kennileiti sem aðalstefnandi telur vera hinn rétta Klofa, en sá Klofi sem gagnstefnendur telji vera hinn rétta Klofa fellur að nokkru inn í landslagið auk þess sem áþekkir hólar, mismunandi klofnir, eru á því sama svæði. Svo er ekki með þann Klofa sem aðalstefnandi telur vera þann rétta. Þá eru heldur engin gögn sem styðja kröfu gagnstefnenda. Sé lína dregin frá Auðnaklofningum í gegnum „Klofa“ gagnstefnenda, lendir línan utan í fjallinu Keili, en sé línan dregin í gegnum „Klofa“ aðalstefnanda, lendir línan, frá Auðnaklofningum séð, sunnan megin við Keili. Aðilar deila um hugtakið „spölkorn“ og telja gagnstefnendur þann spotta ekki geta verið um 1,2 kílómetra, sem sé frá hlíðum Keilis að Klofa aðalstefnanda. Telur dómurinn að annars vegar sé um að ræða línu sem sker háls sem gengur sunnan út frá Keili og hins vegar línu sem sé spölkorn sunnan við Keili, séð frá Auðnaklofningum. Aðalstefndu halda því fram að í landamerkjalínu þeirra sé að finna vörður og steinahleðslur sem gefi til kynna að um landamerki sé að ræða en engar slíkar vörður sé að finna í línu aðalstefnanda. Þá sé að finna vörður á viðurkenndum suðurmerkjum Auðnahverfis gagnvart Breiðagerði. Þetta gefi vísbendingar um að lína aðalstefndu sé rétt. Í hvorugri landamerkjalýsingunni, sem snúa að umþrættum landamerkjum, eru vörður nefndar og verður því ekki stuðst við vörður þær er sáust á heiðinni við vettvangsgönguna en óljóst er frá hvaða tíma þær vörður eru og af hvaða ástæðum þær hafa verið hlaðnar. Hafa þær því ekkert gildi við mat á því hvar umþrætt landamerkjalína liggur. Þegar þetta allt er virt verður að telja að svo miklar líkur séu fyrir því að krafa aðalstefnanda eigi við rök að styðjast, að leggja verði sönnunarbyrðina á gagnstefnendur um að sá Klofi sé ekki sá rétti. Sú sönnun hefur ekki tekist. Verður krafa aðalstefnanda því tekin til greina eins og segir í dómsorði og aðalstefnandi sýknaður af kröfum gagnstefnenda. Með hliðsjón af úrslitum málsins ber aðalstefndu, Jakobi Árnasyni og HS Orku hf., að greiða aðalstefnanda máls þessa, Margréti Guðnadóttur, 1.800.000 krónur í málskostnað. Hefur þá verið tekið tillit til útlagðs kostnaðar og virðisaukaskatts. Dóminn kveður upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari. Dómsorð: Landamerki milli jarðanna Landakots og Auðnahverfis á Vatnsleysuströnd liggja þannig: Frá sunnanverðum Auðnaklofningum, með GPS-hnitin A 339373.82 og N 392020,04, yfir Stórhæð, þaðan í Klofa með GPS-hnitið A 342667,96 og N 386350,41, og eftir þeirri stefnu spölkorn fyrir sunnan Keili, allt að landamerkjum við Krýsuvík í Grindavíkurhreppi. Gagnstefnda er sýkn af kröfum gagnstefnenda. Aðalstefndu, Jakob Árnason og HS Orka hf., greiði aðalstefnanda máls þessa, Margréti Guðnadóttur, 1.800.000 króna
Mál nr. 391/2005
Kaupsamningur Sönnunarbyrði Áskorun Kröfugerð
J keypti hluti E í einkahlutafélaginu B og var kaupverðið 3.800.000 krónur. J og E deildu um hvort kaupverðið hefði í raun verið greitt með reiðufé við undirritun samningsins, eins og orðalag hans bar með sér. J bar fyrir dómi að hann hefði tekið fjárhæðina út úr banka. Var talið að honum hefði verið í lófa lagið að leggja fram gögn til stuðnings þessari fullyrðingu og að fullt tilefni hafi verið til þess í ljósi andmæla E og atvika málsins. Það lét J hjá líða þrátt fyrir áskorun E þar um. Þrátt fyrir orðalag samningsins þótti þessi aðstaða valda því að J bæri hallann af skorti á sönnun um að kaupverðið hefði verið greitt. Var krafa E því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 31. ágúst 2005. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til dómsálagningar á ný, en til vara að hann verði sýknaður af kröfu stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I. Eins og fram kemur í héraðsdómi kvað samningur málsaðila 24. mars 2004 svo á að stefndi seldi áfrýjanda hluti að nafnvirði 100.000 krónur í Breiðabólsstað ehf. fyrir 3.800.000 krónur, en það félag átti fasteignina Breiðabólsstaðarland 2 í Reykholtsdal í Borgarfirði. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort kaupverð hafi í raun verið greitt með reiðufé við undirritun samningsins, eins og segir í samningnum að gert hafi verið. Niðurstaða héraðsdóms er á því reist að þar sem áfrýjandi hafi kosið að láta hjá líða að gefa aðilaskýrslu við aðalmeðferð málsins, þrátt fyrir áskorun stefnda þar um, verði að leggja til grundvallar framburð stefnda og föður hans um málsatvik. Samkvæmt því hafi áfrýjandi komið að kvöldi 24. mars 2004 akandi að heimili stefnda í Reykjanesbæ með nefndan kaupsamning, sem hann hafi sjálfur samið, og hafi samningurinn verið undirritaður í bifreið áfrýjanda fyrir utan heimili stefnda. Eini votturinn að undirritun samningsins hafi verið faðir stefnda, en ekki þeir sem tilgreindir eru á kaupsamningnum. Greiðsla hafi ekki farið fram, en áfrýjandi hafi lofað að inna hana af hendi strax daginn eftir. Þá þótti héraðsdómara ótrúverðugt, með hliðsjón af eðli viðskiptanna, að stefndi hafi afhent áfrýjanda 3.800.000 krónur í reiðufé. Var talið að stefndi hefði gert það nægilega sennilegt að áfrýjandi hafi ekki greitt umsamið kaupverð þannig að áfrýjandi bæri sönnunarbyrði um staðhæfingu sína um það efni. Þar sem áfrýjanda hefði ekki tekist sú sönnun bæri að taka kröfu stefnda til greina. Að gengnum héraðsdómi ritaði lögmaður áfrýjanda héraðsdómara bréf 1. júlí 2005 þar sem því er mótmælt að stefndi hafi skorað á áfrýjanda að gefa aðilaskýrslu í málinu, þrátt fyrir að slík áskorun komi fram í bókun héraðsdómara 14. janúar 2005. Jafnframt fullyrti hann að það hafi þvert á móti verið áfrýjandi sem skorað hafi á stefnda að gefa slíka skýrslu. Fór lögmaðurinn fram á að bókunin yrði leiðrétt í samræmi við þetta. Héraðsdómari ritaði lögmanni stefnda bréf og óskaði eftir afstöðu hans til þessa erindis. Lögmaður stefnda svaraði með bréfi 15. júlí 2005. Sagði þar að samkvæmt endurriti úr þingbók hefði láðst að færa til bókar áskorun áfrýjanda um að stefndi gæfi skýrslu fyrir dómi en endurritið bæri hins vegar réttilega með sér áskorun stefnda. Að svo búnu ritaði héraðsdómari lögmanni áfrýjanda bréf þar sem hafnað var kröfu um leiðréttingu bókunar. Samkvæmt ósk áfrýjanda gáfu skýrslur fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 21. september 2005, auk hans sjálfs, Guðrún Helga Jakobsdóttir systir hans og Steinar Smári Guðbergsson sambýlismaður hennar. Þau báru að undirritun umrædds kaupsamnings hafi farið fram á fasteignasölunni Eignakaupum að Ármúla 38 í Reykjavík, þar sem þau hefðu verið starfsmenn, en áfrýjandi eigandi. Þau staðfestu nafnritanir sínar á samninginn sem vottar og kváðust hafa séð áfrýjanda afhenda stefnda peningabunka. Aðspurð um hvenær dagsins þetta hafi verið sögðu þau og áfrýjandi að það hefði verið „seinnipartinn“. Nánar aðspurður sagði Steinar að hann myndi ekki nákvæmlega tímasetninguna, en það hafi verið „einhvern tímann undir lok vinnu“, sem lyki um fjögurleytið. Áfrýjandi kvað atvik hafa gerst „eftir lokun banka“, en vitnið Guðrún var ekki frekar spurð um þetta atriði. Þó sagði hún, líkt og áfrýjandi, að vinnu lyki um klukkan sex á daginn. Áfrýjandi kvaðst aðspurður hafa tekið umrædda peninga af bankareikningi sínum og telja sig geta lagt fram gögn því til sönnunar. Í kjölfarið skoraði stefndi á hann að gera það. Samkvæmt ósk stefnda voru teknar frekari skýrslur fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 16. nóvember 2005 af Reyni Ólafssyni, verkstjóra og Ingvari Stefánssyni flokkstjóra hjá Íslenskum aðalverktökum hf. Báðir töldu þeir að stefndi hafi verið við vinnu í Njarðvík allt til klukkan fimm 24. mars 2005 og tóku fram að fylgst væri vel með vinnu starfsmanna. Er framburður þeirra í samræmi við framlagðar tímaskýrslur frá fyrirtækinu um vinnu stefnda þennan dag. Að lokum gaf eiginkona stefnda, Rúna Lís Emilsdóttir, skýrslu. Hún kvaðst vita til þess að stefndi hafi að kvöldlagi hitt áfrýjanda og föður stefnda í bifreið í því skyni að rita undir samning við áfrýjanda. Ekki kvaðst vitnið vita til þess að þau hafi fengið greidda peninga frá áfrýjanda. II. Krafa áfrýjanda um ómerkingu og heimvísun héraðsdóms er reist á því að meðferð málsins í héraði hafi verið verulega áfátt, sbr. það sem að framan greinir. Krafa þessi kom ekki fram í áfrýjunarstefnu og kemur hún ekki til álita fyrir Hæstarétti nema að því leyti, sem rétturinn gætir þess af sjálfsdáðum, hvort vísa skuli máli heim í hérað. Í kaupsamningnum 24. mars 2004 segir meðal annars: „Kaupverð: Kaupverð hlutafjárins er kr. 3.800.000 krónur– skrifa: þrjármilljónirogáttahundruðþúsundkrónur 00/100, sem greiðist með eftirfarandi hætti. 1. gr. I. Útborgun: Við undirritun kaupsamnings og framsal hlutabréfa: kr. 3.800.000- Samtals greitt að fullu: kr. 3.800.000-“. Þá segir í 7. gr. samningsins: „Afhending eignar: Þar sem Jakob hefur við samning þennan greitt að fullu með reiðufé fyrir hið keypta í kaupsamningi þessum, tekur kaupandi við umráðum allra eigna í samræmi við hlutafé sitt.“ Svo sem fyrr greinir heldur stefndi því fram að þrátt fyrir þessi orð í samningnum hafi greiðsla ekki verið innt af hendi. Meðal gagna málsins er fundargerð hjá Breiðabólsstað ehf., sem dagsett er sama dag og kaupsamningurinn, þar sem fram kemur að áfrýjandi verði áfram stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins, en að stefndi víki sem varamaður í stjórn. Í hans stað komi Jakob Björgvin Jakobsson, en að stefndi hafi framselt til áfrýjanda 100.000 krónur af nafnvirði hlutafjár síns. Undir fundargerðina rita Jakob Björgvin Jakobsson og málsaðilar. Sá sérstaki háttur er einnig hafður á að undir fundargerðina rita sem „vitundarvottar að dagsetningu, undirskrift og fjárræði aðila“ þau hin sömu og votta kaupsamninginn. Er hluthafafundurinn, þar sem sömu aðilar eru nefndir til sögu, sagður hafa verið haldinn að Fáfnisnesi 7, Reykjavík. Við skýrslutökur fyrir dómi voru engir framangreindra spurðir um hluthafafundinn. Aðilum ber ekki saman um hvar undirritun kaupsamningsins fór fram eða hvort kaupverð hafi verið greitt og reisti héraðsdómari niðurstöðu sína á þeim ástæðum sem að framan greinir. Þegar hafður er í huga misvísandi framburður þeirra, sem komið hafa fyrir dóm eftir að héraðsdómur gekk, verður hins vegar ekki talið að málið hafi skýrst fyllilega. Áfrýjandi hefur borið að hann hafi tekið umræddar 3.800.000 krónur í reiðufé út úr banka. Var honum í lófa lagið að leggja fram gögn til stuðnings þessari fullyrðingu, en telja verður að hann hafi haft fullt tilefni til þess vegna andmæla stefnda og í ljósi framangreindra atvika málsins. Það hefur hann eigi að síður látið hjá líða þótt stefndi hafi beint til hans áskorun þar um. Þrátt fyrir fyrrgreind orð samningsins þykir þessi aðstaða eiga að valda því að áfrýjandi verði látinn bera hallann af skorti á sönnun um að kaupverðið samkvæmt samningnum hafi verið greitt. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest. Rétt þykir þó að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað. Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2005. Mál þetta var höfðað 1. júní 2004 og var dómtekið 3. júní sl. Stefnandi er Einar Már Jóhannesson, Reykjanesvegi 6, Njarðvík. Stefndi er Jakob Jakobsson, Baugholti 13, Reykjanesbæ. Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða 3.800.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. mars 2004 til greiðsludags. Þá er gerð krafa til greiðslu málskostnaðar ásamt virðisaukaskatti samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi. Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu og honum tildæmdur málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati réttarins, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun. Hinn 21. mars 2003 gerði faðir stefnanda, Jóhannes Helgi Einarsson, tilboð fyrir hönd óstofnaðs hlutafélags í fasteignina Breiðabólstaðarland 2 í Reykholtsdal í Borgarfjarðarsveit í Borgarfjarðarsýslu. Hinn 20. júní 2003 stofnuðu aðilar máls þessa einkahlutafélagið Breiðabólstað ehf., kt. 640603-2830, í því skyni að kaupa ofangreinda fasteign. Var hlutafé félagsins 500.000 krónur. Stefndi skrifaði sig fyrir hlutafé að fjárhæð 260.000 krónur og átti því 52% hlutafjár en stefnandi fyrir 240.000 krónur eða sem svaraði 48% hlutafjár. Var stefndi kjörinn stjórnarmaður og framkvæmdastjóri á stofnfundi félagsins og stefnandi varamaður í stjórn. Faðir stefnanda framseldi, hinn 26. júní 2003, Breiðabólstað ehf. kauptilboð sitt í landspildu úr landi Breiðabólstaðar, en það hafði verið samþykkt af eiganda hennar, Sigríði J. Valdimarsdóttur. Hinn 4. júlí 2003 var gengið frá kaupsamningi milli Sigríðar og Breiðabólstaðar ehf. Kaupverð var 11.500.000 krónur. Eigninni var afsalað til félagsins 17. sama mánaðar. Félagið hefur nú selt umrædda fasteign. Áður en Breiðabólstaður ehf. seldi fasteign sína höfðu orðið þær breytingar á hlutaskrá félagsins að stefndi var orðinn eigandi að 360.000 króna hlutafé í stað 260.000 króna áður. Hinn 24. mars 2004 seldi stefnandi stefnda hluti að nafnvirði 100.000 krónur í Breiðabólstað ehf. fyrir 3.800.000. Samkvæmt kaupsamningnum skyldi útborgun fara fram við undirritun kaupsamningsins. Greinir málsaðila á um þetta atriði. Stefnandi heldur því fram að kaupverðið hafi átt að greiða inn á bankareikning daginn eftir undirritun kaupsamningsins en það hafi ekki gengið eftir. Stefndi heldur því hins vegar fram að kaupverðið hafi verið greitt við undirritun samningsins, eins og greini í kaupsamningnum. Deilur munu hafa orðið með aðilum málsins í kjölfarið, m.a. vegna fyrrgreindrar fasteignar einkahlutafélags þeirra og ójafns eignarhlutar þeirra. Hinn 6. maí 2004 sendi lögmaður stefnanda stefnda bréf, þar sem tilkynnt var um riftun kaupsamnings, dagsetts 24. mars 2004, sem stefndi heldur fram að báðir aðilar hafi þá þegar efnt að fullu. Stefndi hafnaði öllum kröfum stefnanda með rafpósti, dagsettum 12. maí 2004. Mál þetta var síðan þingfest 8. júní 2004. Stefnandi byggir kröfur sínar á því að með kaupsamningi stefnanda og stefnda þann 24. mars 2004 hafi stefndi, Jakob, keypt hlutabréf að nafnverði 100.000 krónur af stefnanda í einkahlutafélaginu Breiðabólstaður ehf. fyrir 3.800.000 krónur, sem stefndi hafi skuldbundið sig að til greiða strax daginn eftir inn á bankareikning stefnanda nr. 1109-26-060093. Stefndi hafi vanrækt skuldbindingu sína um greiðslu kaupverðs og með bréfi þann 6. maí 2004 hafi stefnandi krafist riftunar á kaupsamningnum. Með tölvubréfi frá stefnda til lögmanns stefnanda 12. maí 2004 hafi stefndi hafnað kröfunni um riftun og sé því málssókn þessi óhjákvæmileg til að innheimta skuldina. Með kröfugerð sinni krefji stefnandi stefnda um efndir á fjárskuldbindingum sínum in natura samkvæmt kaupsamningnum. Stefnandi hafi efnt skuldbindingar sínar en vanefnd stefnda um greiðslu kaupverðs 3.800.000 krónur standi enn og sé krafist dráttarvaxta frá því vanskil hófust til greiðsludags. Stefnandi byggir stefnukröfur á reglum laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 samanber VII. kafla laganna um rétt seljanda til efnda og vanefndaúrræði seljanda við vanefndir kaupanda. Einnig vísast til kröfuréttarreglna um gagnkvæmar skuld­bindingar og til ákvæða samningalaga um skyldu kaupanda til greiðslu kaupverðs. Kröfur um dráttarvexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum, sbr. l.mgr. 6.gr. laga nr. 38/2001. Kröfur um málskostnað styður stefnandi við l. mgr. 130. gr. sbr. 129. gr. einkum l. tl. e, laga nr. 91/1991. Stefndi byggir kröfur sínar á því, að eins og komi fram í 1. gr. kaupsamnings aðila skyldi kaupverð hluta í Breiðabólstað ehf. greitt við undirritun samningsins og hafi það verið gert. Í 7. gr. samningsins komi einnig skýrlega fram að stefndi hafi að fullu greitt fyrir hina keyptu hluti með reiðufé en ákvæðið sé svohljóðandi: ,,Þar sem Jakob hefur við samning þennan greitt að fullu með reiðufé fyrir hið keypta í kaupsamningi þessum, tekur kaupandi við umráðum allra eigna í samrœmi við hlutafé sitt." Samkvæmt þessu sé ljóst að stefndi hafi að fullu efnt greiðsluskyldu sína samkvæmt umræddum kaupsamningi. Hafi stefnandi og ritað undir kaupsamninginn þessu til staðfestu, sbr. 2. mgr. 10. gr., og sé enginn fyrirvari gerður við samninginn eða efni hans af hálfu stefnanda. Þá bendi stefndi á að í 8. gr. nefnds kaupsamnings komi fram að stefndi hafi aukið hlutafé sitt í samræmi við samninginn og eigi því hluti að nafnvirði 360.000 krónur í félaginu. Sé heldur enginn fyrirvari gerður um það efni af hálfu stefnanda. Þá sé þess getið í 8. gr. samningsins að inn í stjórn félagsins komi nýr varamaður og skuli stjórn tilkynna um hið aukna hlutafé stefnda og nýjan varamann. Í framhaldi af ofangreindum viðskiptum og í samræmi við samning aðila hafi verið haldinn hluthafafundur í Breiðabólstað ehf. síðar, hinn 24. mars 2004. Eins og fram komi í fundargerð af fundinum sem stefnandi hafi m.a. ritað undir, hafi verið þar mættir stefnandi, stefndi og Jakob Björgvin Jakobsson, kt. 060982-5549, sonur stefnda. Sé þar sérstaklega tilgreint að stefnandi hafi framselt 100.000 krónur af nafnverði hlutafjár til stefnda sem nú eigi 360.000 krónur að nafnvirði í félaginu en stefnandi 140.000 krónur frá og með þeim degi að telja. Á fundinum hafi stefnandi jafnframt sagt af sér sem varamaður í stjórn félagsins, sbr. 8. gr. kaupsamningsins, og hafi nefndur Jakob Björgvin verið kjörinn í hans stað. Hafi hlutafélagaskrá verið tilkynnt um þessar breytingar. Loks sé þess að geta að í bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, dagsettu 24. ágúst 2004, komi fram að stefnandi sé eigandi 28% hlutafjár í Breiðabólstað ehf. og þar með viðurkenning á því að stefndi sé eigandi 72% hlutafjár. Samkvæmt framansögðu sé ágreiningslaust að stefndi er nú eigandi 72% hlutafjár í Breiðabólstað ehf. eftir að hafa fengið framselda hluti að nafnvirði 100.000 krónur, eða sem svarar 20% hlutafjár frá stefnanda 24. mars 2004. Af hálfu stefnanda sé nú hins vegar byggt á því að stefndi hafi aldrei greitt það kaupverð sem hafi verið grundvöllur þess að stefnandi framseldi hluti sína til stefnda. Beri stefnandi sönnunarbyrði fyrir þessari staðhæfingu en hún sé bæði í augljósri andstöðu við skýr ákvæði kaupsamnings um að kaupverðið sé að fullu greitt sem stefnandi hefur staðfest með undirritun sinni, svo og eftirfarandi athafnir málsaðila, þ.m.t. hluthafafund í félaginu. Þar að auki haldi stefnandi því nú fram að kaupverðið hafi átt að greiða síðar og með öðrum hætti en kaupsamningur kveði á um án þess að séð verði að nokkur gögn styðji þá fullyrðingu heldur. Verði hér enn fremur að hafa í huga þá meginreglu kröfuréttar að kaupverð skuli greiða út í hönd sé ekki um annað samið. Með vísan til framanritaðs, og gegn andmælum stefnda, sé annað ósannað en að kaupverðið hafi að fullu verið greitt með reiðufé við undirritun kaupsamnings, eins og samningurinn kveði sjálfur á um og stefnandi hafi staðfest með undirritun sinni á hann. Verði því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda. Stefndi vísar til V. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 varðandi varnar­þing, einkum 32. gr., svo og almennra reglna einkamálaréttarfars. Um skuldbindingagildi, efndir og lok samninga vísast til meginreglna samninga- og kröfuréttar. Kröfu sína um málskostnað styður stefndi við XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Af hálfu stefnda var í upphafi málsins gerð krafa um frávísun málsins þar sem það væri rekið á röngu varnarþingi. Með yfirlýsingu stefnda, dags. 13. janúar 2005, féll hann frá frávísunarkröfu sinni og féllst þar með á að málið yrði rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Hinn 24. mars 2004 gerðu aðilar máls þessa með sér kaupsamning þar sem stefnandi seldi stefnda hlutafé sitt, að nafnvirði 100.000 krónur, í einkahlutafélaginu Breiðabólstað ehf. Kaupverðið var 3.800.000 krónur. Greinir aðila málsins á um það hvort kaupverðið hafi verið greitt eður ei. Með bréfi, dags. 6. maí 2004, krafðist stefnandi riftunar kaupsamningsins og greiðslu lögfræðikostnaðar. Stefndi hafnaði kröfu stefnanda um riftun með tölvubréfi hinn 12. maí 2004. Verður að líta svo á að stefnandi hafi fallið frá þessari riftunarkröfu sinni enda hefur hann höfðað mál þetta til efnda á umræddum kaupsamningi og byggir kröfur sínar á honum. Í 1. gr. kaupsamningsins segir varðandi útborgun að hún skuli vera við undirritun kaupsamnings og framsal hlutabréfa. Í 8. gr. kaupsamningsins segir: “Þar sem Jakob hefur við samning þennan greitt að fullu með reiðufé fyrir hið keypta í kaupsamningi þessum, tekur kaupandi við umráðum allra eigna í samræmi við hlutafé sitt.” Hinn 24. mars 2004, eða sama dag og kaupsamningur var gerður, var haldinn fundur í félaginu Breiðabólstað ehf. Samkvæmt framlagðri fundargerð voru stefnandi og stefndi báðir á fundinum. Til umræðu á þessum fundi voru breytingar á varamanni og breyttri eign á hlutafé félagsins. Segir m.a. í fundargerðinni að stefnandi segi af sér sem varamaður í félaginu. Jafnframt að stefnandi hefði framselt 100.000 krónur af nafnverði hlutafjár síns til Jakobs Inga Jakobssonar. Stefnandi bar fyrir dómi að tilboð hefði komið frá stefnda um að kaupa hlut hans í Breiðabólstað ehf. Hafi kaupin farið fram þannig að stefndi hefði komið að kvöldi til heim til hans og hefði hann farið út í bíl stefnda ásamt föður sínum og þar hefði verið gengið frá kaupunum. Kvaðst hann ekki hafa lesið samninginn sérlega vel yfir. Faðir stefnanda, Jóhannes Einarsson, bar að hann hefði verið viðstaddur er stefnandi undirritaði samninginn. Kvað hann stefnda hafa komið með kaupsamn­inginn sem var undirritaður af stefnda og vottaður. Kvað hann enga greiðslu hafa farið á milli stefnanda og stefnda en samkomulag hafi verið milli aðila að stefndi greiddi kaupverðið inn á bankareikning stefnanda daginn eftir. Af hálfu stefnanda var skorað á stefnda að gefa aðilaskýrslu fyrir dómi. Stefndi varð ekki við þeirri áskorun og gaf ekki aðilaskýrslu við aðalmeðferð málsins. Stefnandi heldur því fram, þrátt fyrir ákvæði í kaupsamningi, að stefndi hafi aldrei greitt umsamið kaupverð fyrir þann hlut er stefnandi seldi honum í hlutafélaginu Breiðabólstað ehf. Þar sem stefndi kaus að gefa ekki aðilaskýrslu við aðalmeðferð málsins, þrátt fyrir áskorun þar um, verður hann að bera hallann af því. Verður framburður stefnanda og föður hans, Jóhannesar Einarssonar, því lagður til grundvallar varðandi málsatvik. Samkvæmt því sem fram hefur komið kom stefndi með kaupsamninginn til stefnanda og verður að ganga út frá því að hann hafi sjálfur samið skjalið, enda ber skjalið ekki með sér hver samdi það. Kaupsamningurinn var undirritaður að kvöldi til í bifreið stefnda og voru aðstæður því ekki sem bestar fyrir stefnanda að kynna sér efni kaupsamningsins. Vottar voru ekki viðstaddir er stefnandi undirritaði kaupsamninginn en tveir aðilar höfðu þegar ritað nöfn sín á kaupsamninginn sem vottar. Stefndi heldur því fram að hann hafi greitt kaupverðið, 3.800.000 krónur, í reiðufé. Verður að telja ótrúverðugt, með hliðsjón af því hvernig slík viðskipti fara fram nú til dags, að stefndi hafi komið umrætt kvöld með 3.800.000 krónur í reiðufé og afhent stefnanda. Fyrir liggur, sbr. framlögð fundargerð, að stefnandi hefur þegar framselt stefnda hlut sinn í Breiðabólstað ehf., að nafnverði 100.000 krónur. Þegar virt eru atvik þessa máls, eins og þau liggja fyrir dóminum, og litið er til þess að stefndi gaf ekki aðilaskýrslu fyrir dómi, þrátt fyrir áskorun þar um, þykir verða að líta svo á, þrátt fyrir ákvæði 7. gr. kaupsamningsins, að stefnandi hafi gert nægilega sennilegt að stefndi hafi ekki greitt honum umsamið kaupverð fyrir hlut stefnanda í Breiðabólstað ehf., þannig að stefndi beri sönnunarbyrði um annað um annað. Þar sem slík sönnun hefur ekki tekist af hálfu stefnda ber að taka til greina kröfur stefnanda í málinu. Samkvæmt þessari niðurstöðu ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 455.964 krónur, í samræmi við framlagðan málskostnaðarreikning stefnanda. Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan. Stefndi, Jakob Jakobsson, greiði stefnanda, Einari Má Jóhannessyni, 3.800.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. mars 2004 til greiðsludags og 455.964 krónur í málskostnað.
Mál nr. 539/2002
Kynferðisbrot Húsbrot Miskabætur
X var ákærður fyrir kynferðisbrot og húsbrot með því að hafa ruðst heimildarlaust inn í íbúð Z, lagst ofan á hana þar sem hún svaf í rúmi sínu og haft samræði við hana á meðan þannig var ástatt um Z að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum svefndrunga. Í héraðsdómi var talið sannað með vitnisburði Z, sem fékk stuðning í skýrslu vitna fyrir dómi og öðrum gögnum málsins, að atburðirnir hefðu verið með fyrrnefndum hætti. Var X því sakfelldur fyrir að brjóta gegn friðhelgi heimilis Z og kynfrelsi hennar, sbr. 231. gr. og 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þóttu brot hans gróf. Var dómur héraðsdóms um 15 mánaða fangelsi staðfestur um annað en skaðabætur sem þóttu hæfilega ákveðnar 500.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 27. nóvember 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða og greiðslu skaðabóta en þyngingar á refsingu. Ákærði krefst aðallega sýknu og frávísunar á bótakröfu en til vara, að refsing verði milduð og skilorðsbundin og fjárhæð skaðabótakröfu lækkuð. Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en skaðabætur, sem þykja hæfilega ákveðnar 500.000 krónur. Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og segir í dómsorði. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en skaðabætur, sem vera skulu 500.000 krónur. Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað sakarinnar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur. Málið er höfðað með ákæru, útgefinni 8. apríl 2002, á hendur: ,,[X] fyrir kynferðisbrot og húsbrot með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 12. janúar 2002 ruðst heimildarlaust inn í íbúð [Z], lagst ofan á hana þar sem hún svaf í rúmi sínu og komið getnaðarlimi sínum fyrir í fæðingarvegi hennar og hafið samræðishreyfingar, á meðan þannig var ástatt um [Z] að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum svefndrunga. Telst þetta varða við 231. gr. og 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 140, sbr. 4. gr. laga nr. 40/1992. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Af hálfu [Z] er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta að fjárhæð kr. 700.000, auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 12. janúar til greiðsludags og til að greiða lögmannsþóknun að mati dómsins eða síðar framlögðum reikningi, að viðbættum virðisaukaskatti. Jafnframt er gerð krafa um að dráttarvextir leggist við höfuðstól miskabóta á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta, í samræmi við 12. gr. laga nr. 38/2001.” Verjandi ákærða krefst sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins og til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Verði dæmd refsivist er þess krafist að hún verði skilorðsbundin. Þess er krafist að skaðabótakröfu Z verði vísað frá dómi. Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins. Hinn 15. janúar sl. kom Z til lögreglu og lagði fram kæru á hendur ákærða vegna háttsemi þeirrar sem lýst er í ákærunni. Í kæruskýrslu sem tekin var af Z sama dag lýsti hún ferðum sínum að kvöldi föstudagsins 11. janúar sl. og er hún hélt heim á leið af veitingastað um kl. 01.30 aðfaranótt 12. janúar. Hún kvaðst hafa lagst til svefns, en vaknað um nóttina við það að ákærði lá ofan á henni og hvíslaði í eyra hennar. Hún kvaðst hafa sofið djúpum svefni og verið dálitla stund að átta sig, en sér hafi brugðið og hún hafi fundið fyrir hræðslu. Hún kvaðst hafa ýtt manninum ofan af sér og spurt hann hvað væri að gerast, en maðurinn hafi haldið áfram að ávarpa hana fullu nafni og segjast elska hana og fleira. Hún kvaðst hafa verið staðin upp úr rúminu og komin fram í eldhús er hún áttaði sig á því hver maðurinn var, sem brotist hafði inn til hennar og beitt hana kynferðislegu ofbeldi. Hún lýsti því að sér hafi brugðið og hún hafi orðið undrandi þegar hún sá að ákærði var þarna á ferð. Hún kvaðst hafa verið klædd nærbuxum er hún sofnaði, en ákærði hefði klætt hana úr þeim. Hún lýsti kynnum sínum af ákærða, en þau hafi verið í sambúð fyrir um 15 árum. Þá lýsti hún því hvernig hún kom ákærða út úr íbúðinni en hún kvaðst hafa fundið nærbuxur hans á svefnherbergisgólfinu, en þær afhenti hún lögreglunni. Ákærði lýsti því hjá lögreglunni er hann kom á heimili Z þessa nótt. Hann hafi bankað á útidyrnar, en enginn hafi svarað. Hann hafi þá farið að glugga sem veit út í garðinn til að athuga hvort hann sæi Z. Hann kvaðst þá hafa veitt því athygli að stofugluggi var ekki festur og kvaðst ákærði hafa talið sig velkominn til Z þótt hann færi inn um gluggann, sem hann hafi gert. Hann kvað Z hafa verið hálfvaknaða er hann kom að henni í svefnherberginu og hafi hún verið glöð að sjá hann og spurt hvort hann ætlaði ekki að koma upp í rúm til hennar. Hann kvaðst hafa flýtt sér að afklæðast og farið upp í rúm til hennar. Ákærði kvað þau Z hafa verið í keleríi og ástaratlotum ,,sem fór ekki alla leið”, þar sem ákærði hafi verið frekar drukkinn og Z hafi ekki haft mikinn áhuga, en bara viljað faðma hann eins og ákærði lýsti. Nú verður rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi. Ákærði neitar sök. Hann lýsti erjun við barnsmóður sína 11. janúar sl. og ferð sinni í miðbæinn um nóttina. Hann hafi munað eftir Z er hann fór fram hjá gömlum vinnustað hennar um nóttina en hann kvað þau Z hafi verið í sambúð á árunum 1984 til 1987. Hann kvað bróður sinn hafa verið kvæntan systur Z og vegna þeirra tengsla kvaðst ákærði stöku sinnum hafa hitt Z eftir að sambúð þeirra lauk. Hann kvaðst síðast hafa hitt Z í ágústmánuði síðastliðnum. Eftir að muna eftir Z við að ganga fram hjá fyrrum vinnustað hennar um nóttina kvaðst hann hafa ákveðið að hitta hana og tekið leigubifreið heim til hennar upp úr klukkan 3 um nóttina. Hann kvaðst hafa verið frekar drukkinn. Hann kvaðst hafa séð ljós loga í íbúðinni. Ekki hafi verið svarað er hann bankaði og hringdi dyrabjöllu, sem hann kvaðst telja að ekki hafi heyrst í. Hann kvaðst hafa verið á leiðinni í burtu er hann sá opinn glugga. Fyrir dómgreindarleysi og sökum ölvunar kvaðst hann hafa farið inn um gluggann, en það kvaðst hann hafa talið sjálfsagt, þar sem þau Z þekktust. Við að fara inn um gluggann kvaðst hann hafa brotið stórt leirker sem stóð á gólfinu og hafi honum brugðið mikið við hávaðann sem af því hlaust. Hann kvaðst hafa fundið Z inni í sínu herbergi og hafi hún horft á hann og heilsað honum er hann kom þar inn. Hann kvað hana ekki hafa verið hissa að sjá sig og kvaðst hann hafa klætt sig úr fötum eftir að hún heilsaði honum og sagði honum að koma eða eitthvað í þá áttina, eins og ákærði bar. Án mikilla orðaskipta hafi hann þessu næst farið upp í rúm til hennar, þar sem hann kvað þau hafa verið í ,,einhverju keleríi”. Hann kvaðst ekki hafa verið í ásigkomulagi til að hafa við hana samfarir. Hafi hann sett lim sinn inn í Z hafi það ekki verið það sem ákærði kalli samfarir eða samfarahreyfingar og skýrði hann það af ástandi sínu. Hann kvað hugsanlegt að hann hafi sett lim sinn inn í Z, en það væri óljóst. Hann kvað Z hafa verið vakandi allan tímann sem þau voru upp í rúminu og lýsingin í ákærunni um að hún hafi ekki getað spornað við verknaðinum sökum svefndrunga geti ekki passað og það sem fram fór hafi farið fram með hennar samþykki. Ákærði kvað Z hafa verið rólega. Eftir um 5 mínútur í rúminu hafi Z staðið á fætur, klætt sig og haldið fram í eldhús. Hann kvaðst einnig hafa klætt sig og haldið fram í eldhús, en hann kvaðst ekki hafa fundið nærbuxur sínar. Í eldhúsinu hafi Z spurt hann að því hvernig hann hefði komist inn í íbúðina til hennar. Hann lýsti samræðum þeirra í eldhúsinu. Ákærði kvaðst hafa farið í góðu eftir að Z hefði hringt í leigubíl fyrir hann. Hann kvaðst hafa ætlað að hringja í Z daginn eftir, sem ekki hafi orðið úr. Þá lýsti hann því er bróðir hans hringdi í hann og tilkynnti honum að Z ætlaði að kæra hann. Hann kvaðst ekki hafa rætt við Z eftir þetta. Z kvaðst hafa búið með ákærða á árunum 1984-1987. Hún kvaðst hafa vitað af ákærða síðan sökum þess að systir hennar var gift bróður hans og fyrir hafi komið að hún hafi hitt ákærða í fjölskylduboðum. Hún kvaðst engin önnur samskipti hafa haft við ákærða, utan ef til vill að hafa hitt hann einu sinni á ári fyrir tilviljun. Þá lýstu hún stuttu sambandi þeirra fyrir 9 til 10 árum. Hún kvaðst telja að hún hafi hitt ákærða fyrir tilviljun einu til einu og hálfu ári á undan atburði þeim sem í ákæru greinir. Hún kvað engan vinskap hafa verið milli þeirra ákærða, en hann hafi hins vegar átt það til að hringja í hana ölvaður. Z kvaðst að kvöldi 11. janúar síðastliðinn hafi farið út að skemmta sér ásamt hópi af fólki. Hún kvaðst hafa verið mjög þreytt eftir mikla vinnu og verið illa upplögð. Eftir að hafa drukkið þrjá til fjóra bjóra á skemmtistaðnum kvaðst hún hafa tekið leigubíl heim til sín um kl. 01.30. Eftir heimkomu kvaðst hún hafa ,,steinrotast” uns hún vaknaði með ákærða ofan á sér, þar sem hann hafi verið að hafa við hana samfarir og viðhaft hreyfingar eins og þær sem lýst er í ákærunni. Hún kvaðst ekki hafa orðið hans vör áður og ekki hafa heyrt neitt, hvorki bank, þrusk né læti í íbúðinni. Hún hafi vaknað við það að ákærði hvíslaði nafn hennar í eyra henni auk þess sem hann hafi sagst elska hana. Hún kvaðst ekki hafa áttað sig strax á hvað var að gerast, en dimmt hafi verið inni. Henni hafi brugðið mjög, en tekist að hrinda ákærða ofan af sér. Hún kvaðst hafa stokkið fram úr rúminu, klætt sig í peysu og haldið fram í eldhús, en þá kvaðst hún hafa áttað sig á því hver var þarna á ferðinni. Ákærði hafi komið á eftir henni, en hann hafi verið rólegur, og sest nakinn á stól. Ekki hafi verið hægt að ná neinu sambandi við hann. Hann hafi talað endalaust og sagt henni hvað hann elskaði hana mikið. Hún kvaðst hafa farið inn í svefnherbergið aftur til að sækja föt hans og kvaðst hún þá hafa séð ummerki í stofunni og áttað sig á því að ákærði hefði komið inn um stofugluggann. Hún kvaðst hafa verið hrædd við ákærða en fært honum fötin, hringt á leigubíl og skipað honum út. Hann hafi verið mjög lengi og kvaðst hún þá hafa hringt á annan leigubíl. Hann hafi síðan farið. Hún kvað hann hafa hringt daginn eftir eða á mánudeginum, og kvaðst hún hafa svarað en lagt á. Eftir að hann fór kvaðst hún ítrekað hafa reynt að ná símsambandi við vinkonu sína uns hún sendi henni símaskilaboð og bað hana um að hafa við sig samband. Z kvaðst hafa ákveðið að leggja fram kæru á hendur ákærða eftir að hún hafi farið á neyðarmóttöku og náð að átta sig á því sem hafði gerst, en hún lýsti því að sér hafi fundist þessi atburðarás mjög óraunveruleg í fyrstu. Hún kvaðst hvorki hafa gefið ákærða né öðrum neitt það til kynna að hún vildi hafa við ákærða eitthvert kynferðislegt samband. Hún lýsti þeim slæmu áhrifum sem atburðurinn hefði haft á hana. A, systir Z, lýsti því er hún ræddi í síma við Z um hádegið á sunnudeginum eftir atburðinn. Hún kvað Z í fyrstu hafa verið mjög skrýtna, en hún hafi síðan greint sér frá því sem gerðist og að hún hafi vaknað með ákærða ofan á sér og að hafa við sig samræði. Hún hafi náð að komast undan honum og fram í eldhús, en ákærði hafi komið nakinn á eftir henni. Z hafi síðan komið ákærða út eftir að hafa hringt á leigubíl fyrir hann. A kvað ákærða hafa hringt í sig eftir að hún hafi rætt við systur sína um þessa atburði. Fram hafi komið hjá ákærða að hann hafi viljað fá hana til að ræða við Z fyrir sig og hann vildi bæta fyrir þetta. B, vinkona Z, kvaðst hafa séð skilaboð á síma sínum og þá hringt í Z 12. janúar, en þær hafi verið saman að skemmta sér kvöldið áður. Z hafi þá greint henni frá því að hún hafi vaknað með ákærða ofan á sér og inni í sér. Z hafi sagt henni frá því að hún hafi verið lengi að vakna og átta sig á því hvað var að gerast. Hún hafi síðan náð að átta sig og tekist að ýta honum ofan af sér. Þessu næst hafi hún klætt sig í peysu og haldið fram í eldhús, en ákærði hafi komið nakinn á eftir henni. B hafði síðan eftir Z að henni hafi tekist að koma ákærða í burtu eftir að hafa hringt á leigubíl fyrir hann. Hún kvaðst hafa spurt Z hvernig ákærði hefði komist inn til hennar og hún þá sagt að hann hefði komið inn um glugga. Hún kvað Z hafa verið mjög ólíka sjálfri sér er hún greindi henni frá þessu, en hún kvaðst hafa þekkt Z frá 10 til 12 ára aldri. Þóra kvaðst hafa fylgt Z á neyðarmóttöku. C, vinkona Z, lýsti því er hún hringdi í Z laugardaginn 12. janúar til að fá fréttir af skemmtuninni sem hún vissi að Z sótti kvöldið áður. C kvaðst hafa heyrt á Z að eitthvað var að. Í símtali einum til tveimur tímum síðar hafi Z greint sér frá því að hún hafi vaknað um nóttina með ákærða ofan á sér hafandi við hana samræði. Z hafi lýst því er hún klæddist peysu og hélt fram í eldhús og ákærði hafi komið nakinn á eftir henni. Hún hafi lýst atburðum inni í eldhúsi uns hún hafi hringt á leigubíl í tvígang og komið ákærða út. Z hafi verið í losti, en hún hafi greint vitninu frá því að ákærði hafi brotist inn til hennar. D, bróðir ákærða, lýsti vitneskju sinni um málið. Hann lýsti því er Z hringdi í hann á sunnudeginum eða mánudeginum eftir atburðinn sem í ákærunni greinir. Z hafi greint honum frá því að hún hafi vaknað með ákærða ofan á sér um nóttina. Hún hafi velt ákærða ofan af sér og hafi hún þá farið fram í eldhús, en ákærði fylgt henni nakinn. Þá hafi hún farið inn í svefnherbergi sitt, sótt föt ákærða, hringt á leigubíl og sagt ákærða að koma sér heim. Ekki er ástæða til að rekja vitnisburð D frekar. Guðbjörg Ragna Ragnarsdóttir sálfræðingur staðfesti vottorð sem hún ritaði vegna fimmtán viðtala við Z vegna þessa máls. Niðurstaða Sannað er með skýlausri játningu ákærða og með öðrum gögnum málsins að hann fór heimildarlaust inn í íbúð Z eins og lýst er í ákærunni og varðar sú háttsemi hans við 231. gr. almennra hegningarlaga. Z kom á neyðarmóttöku 12. janúar kl. 16.00. Frásögn hennar þar af atburðum er efnislega á sama veg og hún greindi frá bæði hjá lögreglu og fyrir dómi. Í skýrslu neyðarmóttöku segir að frásögn Z hafi verið skýr en hún hafi ekki verið fyllilega áttuð á því hvernig hún ætti að taka á málinu. Þá segir m.a. að óraunveruleikakenndar hafi orðið vart hjá henni. Ákærði reyndi bæði að hringja dyrabjöllu og banka áður en hann fór inn um gluggann. Sannað er með framburði ákærða og vitnisburði Z og með ljósmyndum af vettvangi að ákærði braut við þetta leirker á gólfinu, sem af hefur hlotist hávaði, enda bar ákærði að sér hafi brugðið. Ákærði bar að Z hafi verið vakandi er hann kom í svefnherbergi hennar og að hún hafi boðið honum umsvifalaust upp í rúmið til sín og allt sem þar gerðist hafi verið með hennar samþykki. Þessi framburður ákærða og framburður hans í heild um það sem gerðist eftir að hann kom í húsið inn um gluggann um hánótt þykir svo ótrúverðugur að hann sé að engu hafandi, enda í ósamræmi við allt annað sem fram er komið í málinu. Ákærði bar hjá lögreglu að hann hafi vænst þess að hann væri velkominn til Z þótt hann færi inn um gluggann. Ekkert er fram komið í málinu sem bendir til þess að Z hafi nokkurn tíma gefið til kynna að hún bæri einhverjar þær tilfinningar í garð ákærða, að hann hafi þess vegna mátt vænta þess að hann væri velkominn inn til hennar, inn um glugga um hánótt meðan hún svaf. Þvert á móti hefur Z borið að hún hafi aldrei gefið í skyn að hún hefði einhverjar slíkar tilfinningar í garð ákærða. Z hefur borið að hún hafi vaknað með ákærða ofan á sér hafandi við sig samræði. Hún viti ekki hversu lengi þetta hafi staðið yfir, en hún hafi verið þreytt og sofið fast og því verið lengi að átta sig. Samkvæmt öllu því sem nú hefur verið rakið telur dómurinn sannað með vitnisburði Z, sem fær stuðning af vitnisburði þeirra vitna sem komu fyrir dóminn og öðrum gögnum málsins, að atburðir hafi verið með þeim hætti sem í ákæru greinir og að Z hafi sökum svefndrunga ekki getað spornað við verknaðinum. Þessi háttsemi ákærða varðar við 196. gr. almennra hegningarlaga, svo sem í ákæru greinir. Ákærði hefur ekki áður hlotið refsingu. Hann er sakfelldur fyrir að brjóta gegn friðhelgi heimilis Z og að brjóta gegn kynfrelsi hennar. Brot hans eru gróf. Refsing hans er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga og þykir þannig hæfilega ákvörðuð fangelsi í 15 mánuði. Z á rétt miskabótum úr hendi ákærða sbr. 26. gr. skaðabótalaga. Þykja bæturnar hæfilega ákvarðaðar 700.000 krónur auk dráttarvaxta frá 19. mars 2002 en þá var mánuður liðinn frá því ákærða var birt krafan. Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 200.000 krónur í málsvarnarlaun til Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns og 100.000 krónur í réttargæsluþóknun til Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns Z. Kolbrún Sævarsdóttir fulltrúi flutti málið fyrir ákæruvaldið. Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Guðjón St. Marteinsson sem dómsformaður, Sigríður Ingvarsdóttir og Sigríður Ólafsdóttir. Ákærði, X, sæti fangelsi í 15 mánuði. Ákærði greiði Z 700.000 krónur í miskabætur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 19. mars 2002 að telja og til greiðsludags. Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 200.000 krónur í málsvarnarlaun til Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns og 100.000 krónur í réttargæsluþóknun til Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns Z.
Mál nr. 81/2015
Ríkisstarfsmenn Ráðningarsamningur Uppsögn
M krafðist bóta úr hendi L vegna ætlaðrar ólögmætrar uppsagnar. Talið var að uppsögnin hefði átt þann aðdraganda að M hafði lýst ítrekað yfir eindreginni ósk um starfslok vegna fyrirætlana L um breytingar á starfsviði sínu. Samkvæmt 19. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins hefðu forstöðumenn ríkisstofnana og aðrir yfirmenn þeirra sem væru til þess bærir heimild til að breyta störfum og verksviði ríkisstarfsmanna og væri það háð mati hinna fyrrnefndu hvort tilefni væri til slíkra breytinga, enda væru þær reistar á málefnalegum forsendum og ekki meira íþyngjandi fyrir starfsmenn en nauðsyn bæri til. M hefði verið í sjálfsvald sett að bregðast við fyrirætlunum L á þann hátt sem hann gerði með ósk um starfslok, sbr. 2. málslið fyrrgreinds lagaákvæðis. Var L sýknað af kröfu M.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. janúar 2015. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 10.755.980 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. maí 2013 til 5. október sama ár en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að dómkrafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður falli niður. Eins og nánar er lýst í héraðsdómi beindi stefndi bréfi til áfrýjanda 2. maí 2013, þar sem sá fyrrnefndi sagði þeim síðarnefnda upp störfum. Með vísan til forsendna héraðsdóms er sannað að uppsögnin átti þann aðdraganda að áfrýjandi lýsti ítrekað yfir eindreginni ósk um starfslok vegna fyrirætlana stefnda um breytingar á starfsviði sínu. Eins og greinir í dómi Hæstaréttar 6. júní 2013 í máli nr. 131/2013 hefur í dómaframkvæmd réttarins verið gengið út frá því að 19. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins veiti forstöðumönnum ríkisstofnana og öðrum yfirmönnum þeirra sem til þess séu bærir ótvíræða heimild til að breyta störfum og verksviði ríkisstarfsmanna og sé það háð mati hinna fyrrnefndu hvort tilefni sé til slíkra breytinga, enda séu þær reistar á málefnalegum forsendum og ekki meira íþyngjandi fyrir starfsmenn en nauðsyn beri til. Áfrýjanda var í sjálfsvald sett að bregðast við fyrirætlunum stefnda á þann hátt sem hann gerði með ósk um starfslok, sbr. 2. málslið fyrrgreinds lagaákvæðis. Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með vísan til forsenda héraðsdóms verður hann staðfestur. Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. desember 2014. Mál þetta höfðaði Magnús Björnsson, Jakaseli 1a, Reykjavík, með stefnu birtri 28. nóvember 2013 á hendur Landspítala – háskólasjúkrahúsi, Eiríksgötu 5, 101 Reykjavík. Málið var dómtekið 5. desember sl. Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða 10.755.980 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 2. maí 2013 til 5. október 2013, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðslu­dags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins. Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar að mati dómsins. Til vara krefst hann þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar og máls­kostnaður felldur niður. Stefnandi er menntaður rafeindavirki og rafmagnsiðnfræðingur. Hann starfaði í um 35 ár hjá stefnda sem sérhæfður tæknimaður, síðast verkstjóri í heilbrigðis- og upplýsingatæknideild. Í stefnu hefst málavaxtalýsing á því að stefnanda hafi verið sagt upp, tilefnis- og fyrirvaralaust þann 2. maí 2013. Í greinargerð stefnda kemur fram að stefnandi átti fund með Hjörleifi Halldórssyni rekstrarstjóra þann 23. apríl 2013, en Hjörleifur var næsti yfirmaður stefnanda. Segir í greinargerðinni að tilgangur fundarins hafi verið að ræða fyrirhugaðar breytingar á starfi stefnanda. Þær hafi falist í því aðallega að auka stjórnunarþátt starfsins og því hafi stefndi talið nauðsynlegt að krefjast þess að starfs­maðurinn hefði háskólamenntun í verkfræði eða eðlisfræði. Við upphaf aðalmeðferðar var lagt fram í dóminum bréf sem stefnandi ritaði Birni Zoëga, þáverandi forstjóra stefnda, dags. 17. maí 2013. Í bréfinu kemur fram lýsing stefnanda á atvikum og er því rétt að rekja þá frásögn stuttlega. Í inngangi segir orðrétt: „Tilefni þessa bréfs er að útskýra atburðarás í kjölfar þess að mér var sagt upp störfum á Landspítala. Ég tel nauðsynlegt að gera grein fyrir henni þar sem mér hefur borist til eyrna sá orðrómur að ég hafi sjálfur viljað hætta störfum ...“ Því næst er fundinum með Hjörleifi lýst. Segir stefnandi þar að Hjörleifur hafi sagt honum upp störfum og viljað að hann hætti strax. Síðan hafi Hjörleifur reifað mismunandi form starfsloka. Hafi hann að lokum gengið út töluvert reiður. Stefnandi segir síðan frá því að hann hafi leitað til skrifstofu SFR daginn eftir. Þá hefði hann heyrt frá tveimur samstarfsmönnum sínum að þeir hefðu heyrt að upp­sögn hans væri í ferli. Þennan sama dag hafi Jón Hilmar Friðriksson, framkvæmda­stjóri kvenna- og barnasviðs, boðað sig á fund, sem síðan var haldinn 29. apríl. Stefnandi skrifar síðan að hann hafi farið á sumardaginn fyrsta, 24. apríl, og tæmt skrifstofuna sína. Um fundinn 29. apríl segir stefnandi í bréfinu að Jón Hilmar hafi sagt að ekki hefði verið ætlunin að segja honum upp fyrr en um haustið þegar nýr línuhraðall yrði kominn. Þann 30. apríl hefði Dómhildur Árnadóttir, mannauðsráðgjafi á kvenna- og barnasviði, haft samband við hann og boðið honum að koma og taka við uppsagnar­bréfi. Hafi hann beðið um að það yrði 2. maí. Á þeim fundi hafi Jón Hilmar enn spurt hvort honum hefði ekki snúist hugur. Hann hefði neitað því þar sem hann gæti ekki hugsað sér að starfa áfram undir stjórn manna sem hefðu sagt honum upp eftir að hann hefði sinnt starfi sínu af heilindum í 35 ár. Frásagnir stefnanda og Hjörleifs af fundinum í skýrslum þeirra fyrir dómi eru ólíkar, nema hvað þeir eru sammála um að fundurinn hafi verið mjög stuttur. Stefnandi sagði að Hjörleifur hefði byrjað fundinn með því að segja honum upp störfum, að hann ætti að hætta strax, en sinna línuhraðlinum fram á haustið. Sagði hann að sér hefði ekki verið boðin nein tilfærsla í starfi á þessum fundi. Hjörleifur kvaðst hvorki hafa sagt stefnanda upp né sagt að það stæði til. Stefnandi hefði reiðst og hann hafi því ekki náð að ljúka þeirri umfjöllun sem hann hafi ætlað sér um breytingar á starfi stefnanda. Hjörleifur hafði í kjölfarið samband við Jón Hilmar Friðriksson, framkvæmda­stjóra kvenna- og barnasviðs Landspítalans. Átti hann tvo fundi með stefnanda eins kemur fram í áðurnefndu bréfi. Með þeim voru á fundunum Dómhildur Árnadóttir, mannauðs­ráðgjafi hjá stefnda, og fulltrúi frá stéttarfélagi stefnanda. Stefnandi lýsir fundum þessum svo að ekki hafi verið lagt fram neitt um breytingar á starfi hans. Aðeins hafi verið sagt að það ætti að fá einhvern sem hefði meiri menntun. Annars hefði ekkert verið útskýrt. Sér hefði ekki verið boðið annað starf á fundinum. Þá hefði sér ekki verið boðið að andmæla breytingunum. Sér hefði þó verið sagt að Hjörleifur hefði ekki átt að segja honum upp. Hann hefði haft það á tilfinningunni að það ætti að bola honum úr starfi. Jón Hilmar Friðriksson kvaðst hafa beðið stefnanda að íhuga að það yrðu breytingar á starfi hans. Stefnandi hafi hins vegar ekki viljað vinna lengur hjá stefnda. Hann hafi loks afhent honum uppsagnarbréfið á fundinum 2. maí. Hann sagði að það hefði verið misskilningur hjá stefnanda að honum yrði sagt upp strax um haustið. Ekki hafi staðið til að segja honum upp. Stefnandi hafi hins vegar neitað öllu á fundinum og sagt að komið hefði verið illa fram við sig. Hann hafi viljað að gengið yrði frá starfslokum hans. Dómhildur Árnadóttir, mannauðsráðgjafi á kvenna- og barnasviði, sat þessa tvo fundi með Jóni Hilmari og stefnanda. Hún kvaðst lítið muna í smáatriðum hvað hefði farið fram á fundunum, en þau hefðu viljað koma því að að tilgangurinn hefði ekki verið að segja stefnanda upp störfum. Stefnandi hefði ekki verið samvinnuþýður á fundunum þótt Jón Hilmar hefði sagt að hann vildi hafa hann í starfi og rætt ýmsa möguleika á því. Fulltrúi SFR sem sat fundi þessa með stefnanda var ekki leiddur fyrir dóminn. Áðurgreint uppsagnarbréf hefur fyrirsögnina „Uppsögn ráðningarsamnings vegna breytinga á starfi – breyttar hæfiskröfur“. Í texta bréfsins segir að vegna skipulagsbreytinga í deildinni hafi verið ákveðið að breyta starfi stefnanda. Breytingin fæli í sér breyttar hæfniskröfur og auknar kröfur um menntun, meiri menntun en stefnandi hefði. Væri honum því sagt upp störfum. Stefnandi sagði í skýrslu sinni að hann hefði lent í því sem hann kallaði núning við Jón Hilmar og Björn Jónsson, deildarstjóra heilbrigðis- og upplýsingatæknideildar. Kvaðst hann halda að það hefði haft áhrif í þessu. Hann sagði að deildinni hefði verið kollvarpað á árinu 2009 og að hann hefði verið ósammála því. Hefði honum verið sagt upp 15. desember það ár, en uppsögnin hefði verið dregin til baka þremur dögum síðar. Þá hefði hann ekki verið sammála Jóni Hilmari um kaup á sprautudælum fyrir vökudeildina á árinu 2012. Hefði komið fljótt í ljós að dælur sem Jón Hilmar hefði viljað voru ekki öruggar. Stefnandi kvaðst nánast ekkert hafa unnið eftir að hann hætti störfum hjá stefnda. Hann hefði ráðið sig til fyrirtækis er heiti Inter, en sú vinna hefði verið unnin að talsverðu leyti á Landspítalanum og það hefði hann ekki getað hugsað sér. Hann hefði fengið biðlaun í tólf mánuði eftir að hann hætti, en þann 1. júní 2014 hefði hann byrjað á lífeyri frá lífeyrissjóði sínum. Hann sagði að þessi uppsögn hefði haft mun meiri áhrif á sig en hann hefði getað ímyndað sér. Hann kvaðst stundum hafa verið það sem hann kallaði eins og í andlegri klessu. Ásvaldur Kristjánsson, trúnaðarmaður rafeindavirkja á Landspítalanum, sagði í skýrslu sinni að hann hefði vitað að núningur hefði verið milli stefnanda og yfirmanna hans. Hann hefði jafnvel farið í taugarnar á yfirmönnum sínum. Jón Hilmar hefði ekki brugðist vel við athugasemdum sem þeir hefðu gert við val hans á nýjum dælum, eins og stefnandi lýsti. Ásvaldur kvaðst hafa leitað eftir útskýringum á uppsögn stefnanda, en lítil svör fengið. Hann sagði að engar raunverulegar breytingar hefðu orðið strax. Hjörleifur Halldórsson rekstrarstjóri sagði í skýrslu sinni að það hefði átt að breyta skipulaginu. Stjórnandinn hefði átt að stjórna meira, en ekki vera í viðgerðum. Þessar breytingar væru að verða nú um þessar mundir. Breytingar hefðu farið fyrr af stað en ætlað var vegna viðbragða stefnanda. Umsjónarhópar hafi verið búnir til. Meiri áhersla væri lögð á bókun um allt viðhald, eftirlit og öll atvik, meiri áhersla væri lögð á eftirlit í fyrirbyggjandi starfi. Hjörleifur sagði að erfitt hefði verið að sinna starfi stefnanda. Utanaðkomandi menn sinntu viðhaldi á línuhraðlinum og nú væri verið að mennta menn til þess. Gísli Georgsson verkfræðingur sem hefði tekið við af stefnanda væri við stjórnun en ekki í viðhaldi sjálfur. Jón Hilmar Friðriksson sagði að hugmynd sín með skipulagsbreytingunum hefði verið að endurskilgreina störf fólks eftir styrkleika hvers og eins. Það hefði átt að ræða þetta við stefnanda, en þeir hefðu ekki komist svo langt á fundunum með honum. Hann sagði að það tæki 3-5 ár að koma svo breytingum á. Hann sagði að þetta tengdist ekki af sinni hálfu neinum deilum við stefnanda eða ávirðingum hans. Stefnandi ritaði stefnda bréf, dags. 5. september 2013, þar sem hann krafðist skaða- og miskabóta. Bréfinu var svarað með bréfi lögfræðideildar stefnda, dags. 25. september 2013. Þar er atvikum lýst í meginatriðum á sama veg og fram kom í vitna­skýrslum, en þó virðist þar gert ráð fyrir því að stefnandi hefði allt að einu látið af störfum í lok árs 2013. Málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi segir að uppsögnin hafi verið sér mikið áfall. Hann hefði helgað stefnda starfskrafta sína alla sína starfsævi. Þá sé uppsögnin sérstaklega íþyngjandi þar sem ekki sé kostur á sambærilegu starfi hér á landi, en tækjabúnað þann sem hann hafi sérhæft sig í að sinna sé eingöngu að finna hjá stefnda. Stefnandi byggir á því að svonefndar skipulagsbreytingar séu fyrirsláttur af hálfu stefnda. Uppsögnin hafi ekki verið liður í hagræðingu, en nýr maður hafi verið ráðinn í stöðuna. Þá byggir stefnandi á því að hann hafi ekki brotið af sér í starfi og stefndi sjálfur segi að hann hafi sinnt viðgerðum af mikilli kunnáttu og færni. Uppsögn sín hafi verið rökstudd með vísan til 19. gr. laga nr. 70/1996 og því borið við að vegna breytinga og aukinna krafna til stjórnarhluta starfs stefnanda yrði að krefjast háskóla­menntunar í starfið. Ný lýsing á starfinu sé hins vegar efnislega óbreytt um annað en að lýst sé kröfu um háskólamenntun á sviði verkfræði eða eðlisfræði. Stefnandi kveðst byggja dómkröfuna nánar á því að uppsögn hans hafi verið ólögmæt, verulega íþyngjandi og meiðandi og hafi valdið honum umtalsverðu tjóni. Hann hefði mátt vænta þess að halda starfi hjá stefnda ef hann gerðist ekki brotlegur í starfi eða starfið yrði lagt niður vegna hagræðingar. Uppsögnin hafi ekki verið rök­studd og sér hafi ekki verið gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum að. Brotið hafi verið gegn réttmætis-, rannsóknar- og meðalhófsreglum stjórnsýsluréttar sem og andmælarétti stefnanda. Stefnandi byggir á því að uppsögninni hafi verið beint að persónu sinni sérstaklega. Meintar skipulagsbreytingar hafi verið til málamynda. Jafnvel þótt skipulagi hefði verið breytt hefði það ekki heimilað uppsögn stefnanda. Stefnandi mótmælir því að 19. gr. starfsmannalaganna heimili uppsögnina. Samkvæmt ákvæðinu sé starfsmanni skylt að hlíta breytingum á starfi, en það veiti ekki heimild til uppsagnar. Sér hafi hins vegar verið sagt upp með vísan til meintra skipulagsbreytinga. Þá segir stefnandi að nýjar menntunarkröfur séu fyrirsláttur og geti ekki verið málefnaleg ástæða fyrir starfsmissi sínum. Það að stefnandi hafi ekki háskólapróf geti ekki svipt hann rétti til að gegna starfi sem hann hafi gegnt með miklum sóma og prýði um langt skeið, einnig stjórnunarþætti þess. Því hafi ekki verið haldið fram að hann væri ekki starfinu vaxinn. Þá hafi ekki orðið sú breyting á starfinu að það krefjist náms í eðlisfræði eða verkfræði. Sú menntun geti ekki gefið meiri hæfni til stjórnunar en sú þekking sem hann hafi aflað sé með áratuga reynslu og sérhæfingu. Segir hann að það sé sérlega meiðandi fyrir sig að halda því fram að þessi þekking sé einskis nýt. Þá segir stefnandi að þegar kröfum um menntun til ákveðinna starfa sé breytt, missi þeir sem gegnt hafi störfunum og fullnægt eldri skilyrðum ekki rétt til að halda áfram að gegna starfinu. Nánar um bótakröfu. Stefnandi kveðst vera 62 ára að aldri og hafi unnið alla sína starfsævi hjá stefnda. Hann eigi ekki kost á sambærilegu starfi hérlendis eða annars konar starfi þar sem þekking hans, hæfni og reynsla myndi nýtast. Það sé sérlega íþyngjandi fyrir sig að neyðast nú til að söðla um og finna nýjan starfsvettvang. Stefnandi telur að laun í tólf mánuði frá starfslokum sem honum hafi verið skömmtuð bæti ekki tjón hans. Krefst hann launa í tólf mánuði til viðbótar, 8.755.980 króna. Þá segir stefnandi að uppsögnin hafi verið sérlega þungbær og meiðandi, enda algjörlega fyrirvara- og tilefnislaus. Hún sé alvarleg meingerð gegn æru sinni og persónu. Gert sé lítið úr menntun hans, hæfni og þekkingu og dregið strik yfir áratuga reynslu og sérhæfingu. Starfsævin sé raunverulega þurrkuð út, en hann hafi alla tíð borið hag stefnda sérstaklega fyrir brjósti og lagt sig fram um að vinna honum gagn. Þá séu þær ástæður sem gefnar hafi verið fyrir uppsögninni hreinn uppspuni. Krefst hann miskabóta að fjárhæð 2.000.000 króna. Stefnandi krefst vaxta frá dagsetningu uppsagnarbréfs, 2. maí 2013. Hann krefst dráttarvaxta frá þeim degi er mánuður var liðinn frá því er hann sendi kröfubréf, þ.e. frá 5. október 2013. Stefnandi vísar til laga nr. 70/1996, einkum IX. kafla. Þá vísar hann til almennu sakarreglunnar og skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 26. gr., meginreglna stjórnsýsluréttar, m.a. réttmætis-, rannsóknar- og meðalhófsreglna svo og reglna um andmælarétt. Málsástæður og lagarök stefnda Stefndi byggir á því að uppsögn stefnanda hafi verið lögleg. Vegna breytinga á skipulagi og þar með starfi stefnanda hafi þurft að breyta skilyrðum sem starfsmaður þurfti að uppfylla, en skilyrði þessi hafi stefnandi ekki uppfyllt. Mat á þessu hafi verið málefnalegt, en stefnanda hafi borið að hlíta breytingum sem kynnu að verða gerðar á starfi hans, sbr. 19. gr. laga nr. 70/1996. Stefnandi hafi hins vegar neitað að ræða breytingar á starfi sínu og fullyrt að honum hefði verið sagt upp störfum, sem hafi ekki verið rétt. Þá hafi hann yfirgefið vinnustað sinn og lýst því yfir að hann myndi ekki vinna í uppsagnarfresti. Því hafi stefndi sjálfur orðið að segja stefnanda upp störfum. Stefnanda hafi verið greidd laun í eitt ár, að hluta til umfram skyldu. Stefndi mótmælir því að engar raunverulegar breytingar hafi orðið á starfi stefnanda. Starfinu tilheyri ekki lengur þau almennu verkefni sem verkstjóri tækni­þjónustu sinnti samkvæmt eldri starfslýsingu, eins og uppsetning og undirbúningur tækja. Sú tæknivinna sé nú í höndum tæknimanna en umsjónarmaður viðhalds lækningatækja stýri starfseminni. Þetta séu breytingar á starfi stefnanda. Hann hafi í raun sinnt að miklu leyti starfi tæknimanns. Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi ekki fengið tækifæri til að koma sjónar­miðum sínum á framfæri. Tveir fundir hafi verið haldnir með stefnanda þann 24. og 29. apríl til að fjalla um fyrirhugaðar breytingar. Stefnandi hafi yfirgefið fyrri fundinn og tæmt skrifstofu sína daginn eftir. Á síðari fundinum hafi hann hafnað öllum við­ræðum og krafist starfsloka. Það hafi verið ákvörðun stefnanda að ræða ekki fyrirhugaðar breytingar. Stefndi mótmælir því að uppsögnin hafi beinst gegn persónu stefnanda. Honum hafi borið að una breytingum á störfum sínum og verksviði, sem yfirmenn töldu nauðsynlegar. Stefndi byggir á því að forsendur breytinganna hafi verið að öllu leyti málefnalegar og ekki haft neitt með persónu stefnanda að gera. Stefndi mótmælir fjárkröfu stefnanda. Hann krefjist tvöfaldra biðlauna í tólf mánuði. Hann eigi ekki lögvarinn rétt til tvöfaldra launa á þessu tímabili. Fyrir slíkri kröfugerð séu engin fordæmi. Þá sé krafist fullra launa, að meðtöldu vaktaálagi, sem sé ekki í samræmi við dómaframkvæmd. Stefndi kveðst hafa greitt stefnanda laun í uppsagnarfresti sem hafi samsvarað 12 mánuðum, umfram skyldu að hluta. Uppsagnarfrestur stefnanda hafi verið fimm mánuðir. Tjón sé ósannað, en ætlað tjón sé til komið vegna eigin sakar stefnanda og vegna afstöðu hans og þeirrar ákvörðunar hans að hætta störfum. Starfslok og ætlað tjón sé ekki afleiðing af uppsagnarbréfi stefnda og skilyrði um orsakasamband því ekki uppfyllt. Jafnvel þótt talið yrði að uppsögn stefnanda hafi verið ólögmæt hafi hann ekki sýnt fram á tjón sem bæta ætti. Ekki finnist lagaheimild eða dómafordæmi til að viðurkenna frekari rétt stefnanda. Þá vísaði stefndi í málflutningi til þess að fram hafi komið í aðilaskýrslu stefnanda að hann tæki nú lífeyri. Stefndi mótmælir miskabótakröfu. Uppsögnin hafi hvorki verið fyrirvara- né tilefnislaus. Stefnandi hafi sjálfur komið málum í þennan farveg með því að neita öllum samræðum við fulltrúa stefnda um breytingar á starfi sínu. Strax eftir fyrsta fundinn hafi stefnandi tæmt skrifstofu sína og ákveðið að hætta störfum. Síðan hafi hann hafnað því að fundið yrði annað starf hjá stefnda og krafist starfsloka. Þrátt fyrir að fyrirhugaðar breytingar hafi ekki verið tilkynntar með formlegum hætti þegar þarna var komið verði að miða við að stefnandi hafi sagt sjálfur upp störfum eftir 46. gr. laga nr. 70/1996 og tekið ákvörðun á grundvelli 2. málsliðar 19. gr. sömu laga. Því hafi verið lögmætt að ljúka ráðningunni formlega á grundvelli 43. gr. og 2. málslið 1. mgr. 44. gr. nefndra laga. Bótakrafa stefnanda sé óraunhæf í öllum tilvikum þar sem hann hafi sjálfur bundið enda á ráðningu sína. Stefndi segir að við þessar aðstæður hafi ekki verið skylt að gefa kost á and­mælum, en þó hafi það verið gert. Mótmælir hann því að brotin hafi verið rannsóknarregla, réttmætisregla eða meðalhófsregla. Ekki séu forsendur til að dæma miskabætur. Ekki sé ólögmætri meingerð gagnvart stefnanda til að dreifa. Ekki hafi á nokkurn hátt verið dregið úr gildi menntunar hans, hæfni hans eða þekkingu. Um varakröfu um lækkun bótakröfu vísar stefndi til sömu sjónarmiða um að stefnanda hafi þegar verið greiddar ríflegar bætur. Miskabótakröfu er mótmælt sem allt of hárri. Loks er vaxta- og dráttarvaxta­kröfum mótmælt. Niðurstaða Stefnandi átti þrjá fundi með yfirmönnum sínum í lok apríl og byrjun maí 2013. Yfirmenn hans kveðast hafa viljað kynna honum fyrirhugaðar breytingar á skipulagi deildarinnar sem stefnandi starfaði við og þá einnig á hans starfi. Fram kom í skýrslu Jóns Hilmars Friðrikssonar að skipulagsbreytingar þær sem hann vildi hrinda í framkvæmd hafi ekki verið fullmótaðar og ekki virðist hafa verið búið að lýsa þeim skriflega. Eins og á stóð hefði verið heppilegra að lýsa breytingunum í stórum dráttum í formi minnisblaðs, áður en viðræður hófust við einstaka starfsmenn sem breytingarnar snertu. Hvað sem því líður er ósannað að breytingarnar hafi verið fyrir­sláttur og til þess gerðar að bola stefnanda úr starfi. Hefur verið sýnt fram á að uppi voru hugmyndir um raunverulegar breytingar á skipulagi deildarinnar. Er ósannað að áætlanir þessar hafi verið gerðar í því skyni að koma höggi á stefnanda eða hreinlega að losna við hann. Þau dæmi sem hann tekur um ósætti eða núning benda ekki til þess að umtalsverður ágreiningur hafi verið uppi á vinnustaðnum og er ekki sennilegt að ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið för við framkvæmd þessara breytinga. Í stefnu er byggt á því að stefnanda hafi verið sagt upp störfum skriflega þann 2. maí 2013. Í aðilaskýrslu hans fyrir dóminum og í bréfi hans til forstjóra stefnda kom fram að hann hefði litið svo á að sér hefði verið sagt upp þegar þann 23. apríl, á fundinum með Hjörleifi Halldórssyni. Hjörleifur kvað svo ekki hafa verið. Þessa fundar er ekki getið í stefnu. Eins og málið er lagt upp verður að miða við að stefnanda hafi verið sagt upp 2. maí. Er og ósannað að Hjörleifur hafi sagt stefnanda upp störfum, en til þess hafði hann ekki heimild og gerði það þá heldur ekki skriflega. Í kjölfar fundarins með Hjörleifi virðist sem stefnandi hafi ákveðið að hætta þegar störfum. Hann átti fund með Jóni Hilmari þann 29. apríl og er þá ófáanlegur til að halda áfram. Afstaða hans var óbreytt á fundi þeirra 2. maí. Stefnanda og Jóni ber ekki saman um hvaða kostir um áframhaldandi starf voru kynntir stefnanda. Gegn framburði stefnanda stendur framburður Jóns Hilmars og Dómhildar Árnadóttur mannauðsráðgjafa. Að framburði þeirra virtum er ósannað að stefnanda hafi í raun verið gert að hætta störfum eða að honum hafi verið tjáð að honum yrði sagt upp fljótlega. Verður hér að líta til ákvæða 19. gr. starfsmannalaganna, en stefnanda bar að hlíta breytingum á starfsskyldum sínum og verkefnum. Ekki er byggt á því af hálfu stefnda að 19. gr. heimili uppsögn stefnanda. Eins og áður segir er ósannað breytingar þessar hafi verið fyrirsláttur. Þótt stefnandi hefði í raun hætt störfum og ekki verið reiðubúinn til að starfa áfram í þjónustu stefnda, var honum sagt upp störfum með uppsagnarbréfinu þann 2. maí. Uppsögn þessi var ekki fyrirvaralaus er hér var komið sögu og hafði stefnandi sjálfur gefið tilefni til hennar. Telja verður eins og áður segir ósannað að stefnanda hafi verið sagt upp störfum á fundi hans með Hjörleifi Halldórssyni 23. apríl, en einnig er ósannað að honum hafi verið sagt eða gefið í skyn að honum yrði sagt upp fljótlega. Þá var honum ekki sagt upp á fundinum 29. apríl eða sagt að það yrði gert. Verður að leggja til grundvallar í samræmi við framburð Jóns Hilmars og Dómhildar að þau hafi viljað að stefnandi yrði áfram í starfi hjá stefnda. Loks verður að telja sannað að stefnandi hafi sjálfur lýst því að hann væri ekki reiðubúinn að starfa áfram hjá stefnda og hafi óskað eftir því að hætta. Að þessu virtu var uppsögn hans lögmæt og ekki brotið gegn neinum reglum stjórnsýsluréttar, réttmætis- rannsóknar- eða meðalhófsreglum. Þá bera atvik skýrt með sér að ekki var brotið gegn andmælarétti stefnanda. Verður að hafna kröfu stefnanda um bætur fyrir fjártjón. Á sama hátt verður að hafna kröfu hans um miskabætur þar sem uppsögnin var lögmæt. Verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Rétt er að málskostnaður falli niður. Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. D ó m s o r ð Stefndi, Landspítali - háskólasjúkrahús, er sýknaður af kröfum stefnanda, Magnúsar Björnssonar. Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 549/2008
Ökuréttarsvipting
X var ákærður fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Var brot X talið varða við 45. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987. Samkvæmt álitsgerð rannsóknastofu HÍ fannst tetrahýdrókannabínólsýra í þvagi X en hið virka efni í kannabis, tetrahýdrókannabínól, fannst ekki í blóði hans. Þessi niðurstaða benti til þess að X hefði ekki verið undir áhrifum fíkniefna við akstur í umrætt sinn. Þá bar hann því við hjá lögreglu og fyrir dómi að hann hefði ekki neytt fíkniefna í nokkrar vikur áður en hann var stöðvaður af lögreglu. Í héraðsdómi var X sakfelldur og dæmdur til greiðslu sektar en tilefni þótti til að beita undanþáguheimild í 1. mgr. 102. gr. umferðarlaga og svipta hann ekki ökurétti. Í dómi Hæstaréttar sagði að í 1. mgr. 102. gr. umferðarlaga væri undantekningarákvæði þar sem fram kæmi að sleppa mætti sviptingu ökuréttar vegna brota á ákvæðum 1. mgr. 45. gr., sbr. 2. mgr. þeirrar greinar, og 45. gr. a ef sérstakar málsbætur væru og ökumaður hefði ekki áður gerst sekur um sams konar brot eða annað verulegt brot gegn skyldum sínum sem ökumaður. Var ágreiningsefnið fyrir Hæstarétti hvernig túlka ætti framangreint undanþáguákvæði og hvort það gæti átt við í tilviki X. Taldi Hæstiréttur að túlka yrði orðalagið „sérstakar málsbætur“ í greindu ákvæði þannig að undir þær gætu fallið þau atvik þegar ökumanni er refsað á grundvelli 45. gr. a en efni sem finnst eingöngu í þvagi hefur sannanlega ekki haft áhrif á hæfni til aksturs, langt var síðan fíkniefna var neytt og ekkert var athugavert við akstur ákærða. Þá var uppfyllt í málinu það skilyrði 1. mgr. 102. gr. umferðarlaga að X hafði ekki áður gerst sekur um sams konar brot eða annað verulegt brot gegn skyldum sínum sem ökumaður. Staðfesti Hæstiréttur hinn áfrýjaða dóm.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 29. september 2008 að fengnu áfrýjunarleyfi og krefst þess að ákvörðun héraðsdóms um sakfellingu og refsingu verði staðfest, en að ákærði verði dæmdur til að sæta sviptingu ökuréttar og greiðslu sakarkostnaðar. Ákærði krefst sýknu af kröfu ákæruvaldsins um sviptingu ökuréttar og að sakarkostnaður fyrir Hæstarétti verði felldur á ríkissjóð. I Með lögum nr. 66/2006 um breytingu á umferðarlögum nr. 50/1987 var meðal annarra breytinga bætt við lögin nýrri grein, 45. gr. a, þar sem tekin voru af öll tvímæli um að algert bann væri við því að stjórna eða reyna að stjórna ökutæki ef ólögleg ávana- og fíkniefni mældust í blóði eða þvagi viðkomandi. Til samræmis var gerð breyting á 102. gr. umferðarlaga sem lýtur að sviptingu ökuréttar. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna kemur fram að sömu reglur eigi að meginstefnu við um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og gildi um akstur undir áhrifum áfengis. Í 1. mgr. 102. gr. umferðarlaga er svohljóðandi undantekningarákvæði: „Ef sérstakar málsbætur eru og ökumaður hefur ekki áður gerst sekur um sams konar brot eða annað verulegt brot gegn skyldum sínum sem ökumaður má sleppa sviptingu ökuréttar vegna brota á ákvæðum 1. mgr. 45. gr., sbr. 2. mgr. þeirrar greinar, eða 45. gr. a.“ Í athugasemdum með frumvarpi því er síðar varð að lögunum kemur fram að líta beri til alvarleika brots og magns vínanda eða ávana- og fíkniefna í blóði og þvagi við ákvörðun sviptingartíma. „Er með þessum hætti gefið ákveðið svigrúm til viðurlagaákvörðunar með tilliti til þessa þátta svo sanngjarnt sé og eðlilegt með hliðsjón af atvikum máls í hvert sinn.“ Í máli þessu er ágreiningsefnið hvernig túlka eigi framangreint undanþáguákvæði og hvort það geti átt við í tilviki ákærða. Af hálfu ákæruvalds er á því byggt að um undanþáguheimild sé að ræða sem beri að skýra þröngt. Markmið breytingarlaganna hafi verið að lögbinda sönnunarreglu í því skyni að auka umferðaröryggi. Er vísað til dómaframkvæmdar og þess að almenn og sérstök varnaðaráhrif styðji að ákærði verði sviptur ökurétti. Af hálfu ákærða er á því byggt að með því að efnið hafi aðeins mælst í þvagi og margar vikur hafi verið liðnar frá neyslu þess, þá hafi hann verið allsgáður og því í raun ekki verið ófær um að aka bifreið og hann hafi ekki vitað að efnið mældist enn í líkama hans. Líta beri til 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár í þessu samhengi. Ekkert hafi verið athugavert við aksturinn. Falli það undir sérstakar málsbætur að ökumaður hafi í raun verið hæfur til aksturs og vegna þess langa tíma sem liðinn var frá neyslu efnisins hafi hann verið grunlaus um að rannsókn á þvagi myndi leiða til þess að ólöglegt efni væri í líkama hans. Þá hafi hann ekki áður gerst sekur um sams konar brot eða annað verulegt brot gegn skyldum sínum sem ökumaður. II Í 1. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 45. gr. a umferðarlaga er lagt bann við því að stjórna eða reyna að stjórna vélknúnu ökutæki undir áhrifum annars vegar áfengis og hins vegar ávana- og fíkniefna. Í 2. og 3. mgr. 45. gr. er það skilgreint með vísan til magns áfengis í blóði eða í lofti sem hann andar frá sér hvenær ökumaður er ekki talinn geta stjórnað ökutæki örugglega og hvenær hann telst óhæfur til að stjórna ökutæki. Samkvæmt 2. mgr. 45. gr. a telst ökumaður hins vegar vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna og óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega ef ávana- og fíkniefni sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði mælast í blóði eða þvagi. Af athugasemdum með áðurgreindu frumvarpi er ljóst að það var ákvörðun löggjafans að skilgreint mæligildi í blóði eða þvagi ökumanns væri 0 (núll) og sakfelling skyldi því óháð því hvort ökumaður væri í raun undir áhrifum vímuefna við akstur. Það efni sem mældist í þvagi ákærða var tetrahýdrókannabínólsýra. Í dómi Hæstaréttar 19. júní 2008 í máli nr. 254/2008 er því slegið föstu að efni þetta sé óvirkt umbrotsefni tetrahýdrókannabínóls en meðferð og vörslur allra „isomer þess og afleiður“ séu samkvæmt 2. mgr. 2. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni óheimil á íslensku yfirráðasvæði. Að slíkt efni finnist í blóði eða þvagi ökumanns sé, samkvæmt ákvörðun löggjafans, nægilegt til sakfellingar óháð því hvort efnið hafi í raun áhrif á hæfni hans til aksturs, og feli ákvæði 45. gr. a umferðarlaga því ekki í sér sakarlíkindareglu í andstöðu við 2. mgr. 70. gr. stjórnarskráinnar. Samhljóða er niðurstaða í dómi Hæstaréttar í máli nr. 260/2008 uppkveðnum sama dag, sbr. einnig hæstaréttardóm í máli nr. 490/2007 sem kveðinn var upp 31. janúar 2008. Í tilvitnuðum hæstaréttarmálum var ekki fjallað um framangreinda undantekningarheimild í 1. mgr. 102. gr. umferðarlaga, sem eingöngu lýtur að ákvörðun um sviptingu ökuréttar. Dómar í málum er varða akstur undir áhrifum áfengis eru ekki skýrt fordæmi vegna þess mikilvæga munar sem er á viðmiði refsinæmis verknaðar. Löggjafinn hefur metið það svo að rétt sé í þágu umferðaröryggis að leggja algert bann við akstri ef efni sem ólögleg eru á íslensku yfirráðasvæði finnast í blóði eða þvagi manns. Er bann þetta óháð því hvort efnið sjálft veldur áhrifum á ökuhæfni eða er undir því magni að slík áhrif séu líkleg til að vera til staðar. Eins og að framan er rakið er svigrúm gefið til að ákvarða viðurlög með hliðsjón af atvikum og alvarleika brots þannig að sanngjarnt sé og eðlilegt. Í ljósi þessa verður að túlka orðalagið „sérstakar málsbætur“ í greindu undanþáguákvæði þannig að undir þær geti fallið þau atvik þegar ökumanni er refsað á grundvelli 45. gr. a en efni sem finnst eingöngu í þvagi hefur sannanlega ekki haft áhrif á hæfni til aksturs, langt er síðan fíkniefna var neytt og ekkert var athugavert við akstur ákærða. Þá er uppfyllt í máli þessu það skilyrði 1. mgr. 102. gr. umferðarlaga að ákærði hafi ekki áður gerst sekur um sams konar brot eða annað verulegt brot gegn skyldum sínum sem ökumaður. Með þessum rökum verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur. Áfrýjunarkostnað skal greiða úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Allur áfrýjunarkostnaður málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur greiðist úr ríkissjóði. Þetta mál, sem var dómtekið 9. júlí, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum, útgefinni 31. mars sl., á hendur Ólafi Aroni Ingvasyni, kt. 060184-3219, Borgarvegi 10, Reykjanesbæ, „fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa að kvöldi miðvikudagsins 6. febrúar 2008 ekið bifreiðinni RI751 undir áhrifum ávana- og fíkniefna (í þvagi tetrahýdrókannabínólsýra) um götur í Reykjanesbæ, uns lögreglan stöðvaði akstur ákærða á Njarðarbraut. Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 5. gr. laga nr. 66, 2006, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.“ Í ákæru er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44, 1993 og 18. gr. laga nr. 66, 2006. I. Málið er dæmt samkvæmt 125. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Ákærði, Ólafur Aron Ingvason, hefur skýlaust viðurkennt að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Hann kvaðst þó ekki hafa fundið fyrir neinum áhrifum af kannabisefninu sem fannst í þvagi hans, enda hefðu liðið sex til sjö vikur frá því hann neytti kannabis síðast og þar til hann var stöðvaður af lögreglu. Í frumskýrslu lögreglunnar segir að að kvöldi 6. febrúar sl. hafi lögreglan, þá stödd á Hafnargötu í Reykjanesbæ, veitt athygli bifreiðinni RI-751. Hafi verið ákveðið að athuga með ástand og ökuréttindi ökumanns. Hafi verið ekið á eftir bifreiðinni og hafi akstur hennar verið stöðvaður við Stapann. Þess er ekki getið að neitt hafi verið athugavert við aksturslag ökumanns. Ökumaður hafi ekki getað framvísað ökuskírteini en samkvæmt upplýsingum frá Fjarskiptamiðstöð hafi ökuréttindi hans reynst í lagi. Aðspurður hafi ökumaður sagst hafa reykt kannabis síðast fyrir áramót. Hafi hann þá verið beðinn að koma á lögreglustöðina til þess að gefa þvagsýni fyrir Quick Tox fíkniefnapróf. Það hafi verið tekið kl. 22.55 og hafi niðurstaða prófsins sýnt jákvæða svörun á THC. Hafi ákærði þá verið handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Tæpri klst. síðar, kl. 23.45, var dregið blóð úr ákærða til þess að rannsaka mætti hvort fíkniefni fyndust í blóði hans. Í vistunarskýrslu segir um ástand ökumanns að sjáöldur hafi verið eðlileg, jafnvægi stöðugt, framburður greinar­góður og málfar skýrt. Framburðarskýrsla var tekin af ökumanni kl. 23.05 þetta kvöld og bar hann þá að mjög langt væri síðan hann hefði síðast neytt fíkniefna. Hefði það verið um það bil viku fyrir áramót. Fyrir dómi bar ákærði á sama veg. Hann kvaðst muna eftir því hvenær hann hefði neytt kannabisefnisins þar sem hann hefði verið á fylleríi tiltekinn dag fyrir áramót og hafi hann í það sinn einnig neytt fíkniefnisins. Hann kvaðst ekki hafa fundið fyrir áhrifum fíkniefna við aksturinn og vegna þeirrar stöðu sem hann væri í í dag myndi hann aldrei vísvitandi fara að keyra hefði hann grun um að með því væri hann að brjóta lög. Hann væri búinn að fara í gegnum sinn skammt í þeim efnum og væri staðfastur í því að brjóta ekki gegn fleiri lögum. Hafi hann því alls ekki gert sér grein fyrir því að með því að setjast upp í bíl þennan dag væri hann að fara að fremja lögbrot. Frá því hann neytti fíkniefna síðast á síðasta ári hefði hann ekki neytt neinna efna og ætlaði sér ekki að gera það aftur. Í matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, dags. 22. febrúar sl., segir: „Í þvaginu fannst tetrahýdrókanna­bínól­sýra. Tetrahýdrókannabínól var ekki í mælanlegu magni í blóðinu.“ Í 45. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987 segir að mælist ávana- og fíkniefni, sem eru bönnuð á íslensku yfirráðasvæði, í blóði eða þvagi ökumanns teljist hann vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna og óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega. Vegna þessa orðalags lagaákvæðisins og þess að tetrahýdrókannabínólsýra fannst í þvagi ákærða verður að sakfella hann fyrir að hafa verið undir áhrifum ávana- og fíkniefna og óhæfur til að stjórna ökutæki. II. Þar sem kannabis fannst í þvagi ákærða hefur hann með akstri sínum umrætt kvöld unnið sér til refsingar samkvæmt 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Ákærði er fæddur 1984. Í apríl 2004, þegar ákærði var tvítugur, var hann sakfelldur fyrir minni háttar líkamsárás og dæmdur í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár. Í nóvember 2006 var hann dæmdur til greiðslu sektar fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og ríflega tveimur mánuðum síðar, í febrúar 2007, var hann aftur dæmdur til greiðslu sektar fyrir brot gegn sömu lögum. Í janúar á þessu ári var hann sakfelldur fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og var þá dæmdur í 12 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár. Telst ákærði með því broti sem hann er nú sakfelldur fyrir hafa rofið skilorð þess dóms. Með vísan til heimildar í 60. gr. almennra hegningarlaga verður sá skilorðs­dómur látinn halda sér og dæmd refsing fyrir það brot sem ákærði er nú sakfelldur fyrir sér í lagi. Refsing ákærða samkvæmt 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 fyrir brot gegn 45. gr. a þykir hæfilega ákveðin 70.000 króna sekt til ríkissjóðs. Verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms komi fangelsi í sex daga í stað sektarinnar. Samkvæmt 1. mgr. 102. gr. umferðarlaga skal svipta ökurétti stjórnanda vélknúins ökutækis, sem hefur meðal annars brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 45. gr. eða 45. gr. a. Ef sérstakar málsbætur eru og ökumaður hefur ekki áður gerst sekur um sams konar brot eða annað verulegt brot gegn skyldum sínum sem ökumaður má sleppa sviptingu ökuréttar, meðal annars vegna brots gegn þessum ákvæðum. Eins og að framan er getið hefur ákærði ekki áður brotið gegn umferðarlögum. Samkvæmt framburði hans hjá lögreglu, sem hann endurtók fyrir dóminum, hafði hann ekki neytt fíkniefna í að minnsta kosti sex vikur áður en hann var stöðvaður af lögreglu. Ennfremur tók hann fram að hann hefði ekki fundið fyrir neinum áhrifum af fíkniefnum og gekk út frá því að þau væru ekki lengur til staðar í líkama hans. Af því sem fram kemur í vistunarskýrslu, sem gerð var þegar ákærði var handtekinn umrætt kvöld, og matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefna­fræði fæst ekki séð að ákærði hafi verið undir virkum áhrifum fíkniefna við akstur í umrætt sinn, enda er alkunna að einungis það efni sem finnst í blóði manns hefur áhrif á aksturshæfni hans. Þegar litið er til þessa og framburðar ákærða fæst ekki séð að vilji ákærða til að brjóta gegn 45. gr. a umferðarlaga í umrætt sinn hafi verið einbeittur. Eins og þetta mál er vaxið, þ.e. ákærði var ekki undir virkum áhrifum efnisins og afar langt var um liðið frá því hann neytti þess þannig að brot hans gegn umferðarlögum var framið af einföldu gáleysi og þar sem þetta er fyrsta brot ákærða gegn umferðarlögum, þykir vera tilefni til að nýta þá heimild ofangreinds ákvæðis að svipta ákærða ekki ökurétti vegna þess brots sem hann er nú sakfelldur fyrir. Með vísan til 165. gr. laga nr. 19/1991 ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, samtals 102.000 krónur, þar af 48.200 krónur vegna rannsóknar á fíkniefnum í blóði og þvagi ákærða og 53.800 krónur í þóknun til skipaðs verjanda hans, Halldórs Helga Backman hæstaréttarlögmanns, og hefur við ákvörðun þóknun­ar­innar verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan dóm. Dómsorð: Ákærði, Ólafur Aron Ingvason, greiði 70.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá dómsbirtingu en sæti ella sex daga fangelsi. Ákærði greiði 102.000 krónur í sakarkostnað, þar af 53.800 krónur í þóknun til skipaðs verjanda síns, Halldórs Helga Backman hæstaréttarlögmanns.
Mál nr. 477/2002
Virðisaukaskattur EES-samningurinn EFTA-dómstóllinn Ráðgefandi álit
H var gert að greiða 24,5% virðisaukaskatt af tollverði bóka á ensku sem hann flutti inn frá Bretlandi og Þýskalandi, en 14% virðisaukaskattur var lagður á innlendar bækur, sbr. 6. tl. 14. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Taldi hann að þessi greinarmunur færi í bága við 14. gr. EES-samningsins og krafðist þess að úrskurður ríkistollanefndar þar um yrði felldur úr gildi og honum endurgreiddur ofgreiddur virðisaukaskattur sem næmi þessum mismuni. Með vísan til 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið var talið að ákvæði 2. mgr. 14. gr. EES-samningsins um bann við skattlagningu, sem væri til þess fallin að vernda óbeint framleiðsluvörur eins samningsaðila gagnvart framleiðsluvörum annarra aðila samningsins, bæri að skýra sem sérreglu um skattalega meðferð á innflutningi frá öðrum EES-ríkjum, er gengi framar eldra ákvæði laga nr. 50/1988 um lægri virðisaukaskatt af sölu bóka á íslenskri tungu. Hefði því verið óheimilt eftir að EES-samningnum var veitt lagagildi með lögum nr. 2/1993 að gera greinarmun á bókum á íslensku og öðrum tungum við álagningu virðisaukaskatts. Var úrskurður ríkistollanefndar því ógiltur og íslenska ríkinu gert að endurgreiða H umræddan mismun.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Pétur Kr. Hafstein. Héraðsdómi var áfrýjað 18. október 2002 að fengnu leyfi Hæstaréttar. Áfrýjandi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara er þess krafist, að kröfur stefnda verði lækkaðar og málskostnaður látinn falla niður. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I. Eins og greinir í héraðsdómi eru málavextir óumdeildir. Stefndi keypti bækur á ensku frá Bretlandi og Þýskalandi á árinu 1999 og var við innflutninginn gert að greiða 24,5% virðisaukaskatt af tollverði þeirra samkvæmt tveimur tollskýrslum 26. júlí 1999 og einni 11. ágúst sama ár, samtals 3.735 krónur. Með bréfi til fjármálaráðherra 21. maí 1999 hafði stefndi meðal annars krafist þess, að hætt yrði að innheimta 24,5% virðisaukaskatt af bókum, sem fluttar væru inn frá öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu, og þess í stað yrði lagður á þær 14% virðisaukaskattur, eins og lagður væri á innlendar bækur. Fjármálaráðuneytið taldi skattlagningu þessa ekki brjóta í bága við EES-samninginn og hafnaði erindi stefnda 16. júlí 1999. Stefndi kærði framangreinda álagningu til tollstjórans í Reykjavík og síðar ríkistollanefndar, sem staðfesti synjun tollstjóra á kröfu stefnda með úrskurði 22. desember 1999. Stefndi krefst þess í málinu, að þessi úrskurður ríkistollanefndar verði felldur úr gildi og áfrýjanda gert að endurgreiða sér ofgreiddan virðisaukaskatt, sem nemur mismuni 14% og 24,5% álagningar virðisaukaskatts á hinar innfluttu bækur, samtals að fjárhæð 1.601 krónu. 2. Ákvæði í landslögum EES-ríkis, sem kveður á um að bækur á tungumáli þess beri lægri virðisaukaskatt en bækur á erlendum málum, samrýmist ekki 14. gr. EES-samningsins. 3. Slíkt ákvæði í landslögum verður ekki réttlætt með tilvísun til þeirra almannahagsmuna að bæta stöðu þjóðtungunnar. 4. Þegar ákvæði landslaga samrýmist ekki 14. gr. EES-samningsins og sú grein hefur verið innleidd í landslög, er upp komin sú staða sem skuldbinding EFTA-ríkjanna samkvæmt bókun 35 við EES samninginn gildir um, en hún er reist á þeirri forsendu, að EES-regla, sem innleidd hefur verið í landslög, skuli hafa forgang.“ II. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefnda, Herði Einarssyni, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2002. I Mál þetta var höfðað 20. janúar 2000 og dómtekið 10. júní 2002. Stefnandi er Hörður Einarsson, kt. 230338-5749, Síðumúla 14, Reykjavík, en stefndi er íslenska ríkið. Dómkröfur stefnanda eru þær í fyrsta lagi að ógiltur verði úrskurður ríkistollanefndar nr. 14/1999 frá 22. desember 1999 um virðisaukaskatt af bókum, sem fluttar eru til landsins frá öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu. Í öðru lagi krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til endurgreiðslu á ofgreiddum virðisaukaskatti að fjárhæð 1.601 króna auk dráttarvaxta frá 20. janúar 2000 samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Þá krefst hann málskostnaðar. Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað. Til vara krefst stefndi þess að fjárkröfur stefnanda verði lækkaðar og að málskostnaður verði í því tilviki látinn niður falla. Málavextir eru óumdeildir en stefnandi kaupir öðru hverju bækur til einkanota frá útlöndum og fær þær sendar til landsins með pósti. Við afgreiðslu bókanna frá pósthúsi hefur honum verið gert að greiða 24,5% virðisaukaskatt af tollverði þeirra í samræmi við 1. mgr. 14. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Í eftirgreindum þremur tilvikum greiddi stefnandi virðisaukaskatt vegna innflutnings bóka: l. Virðisaukaskatt 1.843 krónur við innflutning bókar frá Bretlandi samkvæmt póstað­flutnings­skýrslu 26. júlí 1999. 2. Virðisaukaskatt 497 krónur við innflutning bókar frá Bretlandi samkvæmt póstað­flutningsskýrslu 26. júlí 1999. 3. Virðisaukaskatt 1.395 krónur við innflutning bókar frá Þýskalandi samkvæmt póst­aðflutningsskýrslu 11. ágúst 1999. Samtals greiddi stefnandi því 3.735 krónur í virðisaukaskatt við innflutning þessara þriggja bóka frá Bretlandi og Þýskalandi, sem bæði eru aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu eins og Ísland. Samkvæmt 6. tölulið 2. mgr. 14. gr. laga um virðisaukaskatt er einungis innheimtur 14% virðisaukaskattur vegna sölu bóka á íslenskri tungu. Telur stefnandi að þessi munur á virðisaukaskatti sé óheimill og með bréfi til fjármálaráðherra 21. maí 1999 gerði stefnandi athugasemd við þá innheimtu virðisaukaskatts, sem hér um ræðir, og lýsti því áliti sínu, að í henni felist ólögmæt mismunun samkvæmt 14. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sem gerður var í Óportó hinn 2. maí 1992, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993. Með bréfi fjármálaráðuneytisins til stefnanda 16. júlí 1999 var áliti stefnanda andmælt og lýst þeim skilningi ráðuneytisins, að þar sem skattlagningin réðist ekki af þjóðerni þess sem skattlagður væri, heldur af eðli vörunnar, færi mismunandi virðisaukaskattur af ritum á íslensku annars vegar og erlendum tungumálum hins vegar ekki fara í bága við ákvæði EES-samningsins. Framangreinda gjaldaálagningu kærði stefnandi fyrst til tollstjórans í Reykjavík og síðan til ríkistollanefndar, en kröfu hans var hafnað á báðum stjórnsýslustigum og var úrskurður ríkistollanefndar kveðinn upp 22. desember 1999. Þann 27. nóvember 2000 var kveðinn upp úrskurður í máli þessu um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á neðangreindum álitaefnum: 1. Er það samrýmanlegt EES-rétti, sérstaklega 14. grein og 10. grein EES-samningsins, eða eftir atvikum 4. gr., að samkvæmt íslenskum lögum um virðisaukaskatt sé lagður hærri virðisaukaskattur á bækur á erlendum tungumálum (24,5%) heldur en á bækur á íslensku (14%), og svo háttar til, að bækur á íslensku eru almennt gefnar út á Íslandi, en bækur á öðrum tungumálum eru almennt gefnar út utan Íslands, þar á meðal í öðrum EES-ríkjum? 2. Sérstaklega er um það spurt, (a) hvort skýra beri 14. grein EES-samningsins svo, að bækur á íslensku og bækur á öðrum tungumálum teljist vera sams konar framleiðsluvörur í merkingu ákvæðisins, eða (b) hvort mismunandi skattlagning bóka eftir tungumáli með framangreindum hætti sé til þess fallin að veita innlendri bókaútgáfu óbeina vernd. 3. Réttlætir það framangreindan mismun á gjaldstigi virðisaukaskatts, ef með hinu lægra gjaldstigi á bækur á íslensku vakir fyrir stjórnvöldum að treysta íslenska tungu? 4. Er vald íslenska ríkisins til álagningar virðisaukaskatts því til fyrirstöðu, að reglum EES-réttar, sérstaklega 14. grein og 10. grein EES-samningsins, verði beitt í málinu? 5. Ef svarið við spurningunum hér að framan felur það í sér að reglur um virðisaukaskatt af bókum séu ósamrýmanlegar EES-samningnum, er spurt hvort samningurinn eða aðrar reglur sem af honum leiði hafi að geyma ákvæði sem mæli fyrir um það hvaða reglum skuli beitt þegar ósamræmi er milli reglna landsréttar og reglna sem leiða af EES-samningnum.” Þann 4. janúar 2001 var beiðni í samræmi við úrskurðinn send EFTA-dómstólnum og 22. febrúar 2002 var dómur kveðinn upp í EFTA-dómstólnum varðandi þetta álitaefni. Þykir ekki verða hjá því komist að rekja nokkuð nákvæmlega rökstuðning EFTA-dómstólsins. Sem svar við fyrstu og annarri spurningu segir EFTA-dómstóllinn að fyrsta spurningin varði bæði 10. og 14. gr. EES-samningsins. Það leiði af dómaframkvæmd dómstóls Evrópubandalaganna að ákvæði samningsins um Evrópubandalagið sem samsvari fyrrgreindum ákvæðum EES-samningsins, útiloki hvert annað sbr. mál C-28/96 Fazenda Pública gegn Fricarnes. Sama verði að gilda um 10. og 14. gr. EES-samningsins. Gjald sem sé liður í almennri ríkisbundinni gjaldtökutilhögun, lagt á með kerfisbundnum hætti og samkvæmt málefnalegum viðmiðum á vöruflokka án tillits til uppruna þeirra falli undir 14. gr. EES-samningsins sbr. mál C-90/94 Haahr Petroleum gegn Åbenrå Havn ofl. Af því leiði að hin umdeildu ákvæði virðisaukaskattslaga verði að meta á forsendum 14. gr. EES-samningsins en þar segi í 1. mgr. að einstökum samningsaðilum sé óheimilt að leggja hvers kyns beinan eða óbeinan skatt innanlands á framleiðsluvörur annarra samningsaðila umfram það sem beint eða óbeint sé lagt á sams konar innlendar framleiðsluvörur. Þá segi í 2. mgr. að samningsaðila sé einnig óheimilt að leggja á framleiðsluvörur annarra samningsaðila innlendan skatt sem sé til þess fallinn að vernda óbeint aðrar framleiðsluvörur. Þá sé hinn almenni tilgangur 14. gr. EES-samningsins að tryggja frjálsa vöruflutninga við eðlilegar samkeppnisaðstæður milli ríkja á hinu Evrópska efnahagssvæði með því að koma í veg fyrir alla vernd sem kynni að stafa af skattlagningu innanlands sem feli í sér mismunun gagnvart framleiðsluvörum annarra aðildarríkja og að tryggja að innlend skattlagning hafi engin áhrif hvað snerti samkeppni milli innlendrar og innfluttrar framleiðslu sbr. mál C-166/98 Socridis gegn Receveur Principal des Douanes. Í áliti sínu taldi EFTA-dómstóllinn rétt að huga fyrst að því hvort hið umdeilda ákvæði virðisaukaskattslaga færi í bága við 2. mgr. 14. gr. EES-samningsins. Í því sambandi taldi dómstóllinn að með hliðsjón af því sem dómstóll Evrópubandalaganna hafi tekið fram í dómi sínum í máli 184/85, Framkvæmdastjórnin gegn Ítalíu, er hann fjallaði um hliðstætt ákvæði í samningnum um Evrópubandalagið, þá sé hlutverk þess að ná til óbeinnar skattverndar af öllu tagi þegar um sé að ræða framleiðsluvörur sem ekki séu sams konar í skilningi 1. mgr 14. gr. en séu samt í samkeppni sín á milli, þótt svo sé aðeins að hluta, óbeint eða hugsanlega. Þegar ákveða skuli hvort framleiðsluvörur séu í samkeppni þannig að í bága fari við bann það sem kveðið sé á um í 2. mgr. 14.gr. taki dómstóllinn fram að ekki sé umdeilt að margir þeirra sem séu læsir á íslensku séu einnig læsir á önnur tungumál. Enn fremur séu til mikilvægir flokkar bóka þar sem lesefni sé lítill þáttur í samanburði við annað innihald svo sem myndir og þess háttar. Geti slíkar bækur á erlendri tungu jafnvel haft notagildi og verið til gagns fólki sem ekki sé læst á þá tungu. Er það því niðurstaða dómstólsins að bækur á íslensku og bækur á erlendum tungum séu að minnsta kosti að hluta til í samkeppni. Með hliðsjón af þessu verði að taka til athugunar hvort skattareglur á borð við þær sem um sé deilt veiti innlendri framleiðsluvöru óbeina vernd í skilningi 2. mgr. 14. gr. EES-samningsins. Í hinni umdeildu reglu landslaga sem mæli fyrir um lægra þrep virðisaukaskatts á íslenskar bækur sé ekki gerður greinarmunur á bókum framleiddum á Íslandi og bókum framleiddum erlendis. Hún gildi jafnt um allar bækur sem ritaðar eða þýddar séu á íslenska tungu, án tillits til þess hvar þær hafi verið búnar til eða útgefnar. Þá verði að geta þess að almenn stefna efnahagslegrar hnattvæðingar og tækniþróun geri það sífellt erfiðara að ákvarða hvort vara sé að öllu leyti innlend. Útgefendur framleiði iðulega bækur fyrir mismunandi markaði á mismunandi tungumálum. Það eitt að þýða texta bókar á aðra tungu kunni að fela í sér fremur lítilvægt framlag til hinnar endanlegu afurðar. Hinn erlendi hluti kunni að verðmæti til að vera jafnmikill eða jafnvel meiri en hinn innlendi hluti. Að þessu marki myndu öll verndarárhrif af mismunandi virðisaukaskatti einnig koma til góða erlendum útgefendum, framleiðendum og öðrum rétthöfum hins upphaflega efnis. Megi af fyrirliggjandi gögnum ráða að flestar bækur á íslensku, sem hinn lægri virðisaukaskattur sé lagður á, séu framleiddar á Íslandi og bækur á erlendum málum sem hinn hærri og almenni virðisaukaskattur sé lagður á séu aðallega innfluttar. Miðað við málatilbúnað íslenska ríkisins sé svo að sjá að helsti tilgangur hinnar umdeildu virðisaukaskattsreglu sé að stuðla að lægra verði á bókum á íslensku til stuðnings innlendri bókaframleiðslu, með því að gera bækur á íslensku auðkeyptari og samkeppnisfærari og bæta þannig möguleika markaðarins til að halda uppi bókmenningu á íslensku máli. Þetta þyki benda til þess að reglunni sé ætlað að hafa verndaráhrif, og staðfesti að hún samræmist ekki 2. mgr. 14. gr. EES-samningsins sbr. mál C-105/91 Framkvæmdastjórnin gegn Grikklandi. Er það mat EFTA-dómstólsins að mismunur á virðisaukaskatti sem nemi 10,5% af hundraði sé líklegur til að hafa áhrif á samkeppnisstöðu bóka á íslensku gagnvart bókum á öðrum tungum. Líta verði til hinna ýmsu geira sem bókamarkaðurinn skiptist í. Óbein vernd innan eins markaðsgeira nægi til að bannið í 2. mgr. 14. gr. EES-samningsins eigi við. Er það því niðurstaða EFTA-dómstólsins að mismunandi virðisaukaskattur á bækur gefi til kynna að fyrir hendi séu verndaráhrif í skilningi 2. mgr. 14. gr. EES-samningsins, þegar sá virðisaukaskattur sem lagður sé á bækur á þjóðtungunni sé lægri en sá sem lagður sé á bækur á erlendum tungumálum. Regla í landslögum EES-ríkis sem mæli svo fyrir að virðisaukaskattur á bækur á tungu þess ríkis sé lægri en á bækur á erlendum tungum sé andstæð 2. mgr. 14. gr. EES-samningsins. Með hliðsjón af þessari niðurstöðu sé óþarft að taka til athugunar hvort sú skattalega meðferð sem hagstæð sé bókum á íslensku brjóti í bága við 1 mgr. 14. gr. EES-samningsins. Þá sé ekki þörf á að athuga hvort regla í landslögum af því tagi sem um sé deilt í málinu fari gegn hinu almenna banni við mismunun á grundvelli ríkisfangs sem kveðið sé á um í 4. gr. EES-samningsins þar sem það ákvæði eigi einungis sjálfstætt við aðstöðu þar sem EES-réttur gildi en engin ákvæði EES-samningsins banni mismunun sérstaklega sbr. mál E-1/00 Íslandsbanki-FBA sem upp var kveðinn 14. júlí 2000. Um þriðju spurningu héraðsdóms kemur fram í svari EFTA-dómstólsins að íslenska ríkið og ríkisstjórn Noregs hafi haldið því fram að í EES-rétti sé fyrir hendi grundvöllur fyrir efnislegri réttlætingu á mismunandi virðisaukaskattsálagningu Íslendinga á bækur. Tilgangurinn sé að efla og vernda íslenska tungu, sem sé óaðskiljanlegur hluti íslenskrar menningararfleifðar og veigamikill þáttur í sjálfsmynd Íslendinga, og sé því haldið fram að þetta markmið heimili frávik frá 14. gr. samningsins. Kemur fram í áliti EFTA-dómstólsins að hann sé sammála því að stuðningur við þjóðtunguna geti verið afar mikilvægt menningarlegt markmið. Hins vegar verði dómstóllinn að kanna hvort það markmið geti samkvæmt EES-rétti réttlætt innlenda skattreglu sem að öðrum kosti myndi falla undir bannreglu 14. gr. EES-samningsins. Telur EFTA-dómstóllinn að þeirri röksemd að vísa til 13. gr. samningsins í þessu sambandi verði að hafna. Í EES-rétti gildi strangari reglur um frjálsa vöruflutninga en um innlenda skattlagningu. Það leiði af orðalagi 13. gr. samningsins og tilgangi að hún geti aðeins réttlætt frávik frá 11. og 12. gr. hans sem fjalli um magntakmarkanir á inn- og útflutningi og ráðstafanir sem hafi samsvarandi áhrif. Þá hafi verið vísað til þess að 3. mgr. 6. gr. samningsins um Evrópusambandið kunni að vera grundvöllur að slíku fráviki þar sem tungumál hafi afgerandi þýðingu við að halda upp þjóðernisvitund í hverju ríki. Ekkert hliðstætt ákvæði sé í EES-samningnum. Þar sem samningurinn um Evrópusambandið hafi verið gerður á undan EES-samningnum verði að ætla að sá munur sé með vilja gerður. Geti dómstóllinn því ekki byggt úrlausn þessa máls á reglu hliðstæðri 3. mgr. 6. gr. samningsins um Evrópusambandið. Í þessu sambandi hafi einnig verið vitnað til sameiginlegrar yfirlýsingar um samstarf í menningarmálum, sem fylgi lokagerð EES-samningsins. Í henni segi að samningsaðilar geri sér ljóst að tilkoma fjórfrelsisins muni hafa veruleg áhrif á menningarsviðinu. Samningsaðilar lýsi því yfir þeim ásetningi sínum að efla og auka samvinnu sína á sviði menningarmála til að stuðla að auknum skilningi milli ólíkra menningarsvæða í Evrópu og varðveita og efla þá menningarlegu arfleifð þjóða og svæða sem auðgi evrópska menningu með fjölbreytileik sínum. Telur EFTA-dómstóllinn ekki að þessi orð geti verið sérstakur grundvöllur fyrir ríkisbundnum frávikum frá hinum mikilvægu ákvæðum 14. gr. EES-samningsins. Þá kemur fram að nefnt hafi verið að fyrirætlanir þær sem fram komi í hinni sameiginlegu yfirlýsingu séu hliðstæðar þeim markmiðum sem kveðið sé á um í 4. mgr. 151. gr. samningsins um Evrópubandalagið, og dómstóllinn geti því í þessu máli byggt á reglu hliðstæðri því ákvæði samningsins sem fellt hafi verið inn í hann með Amsterdamsamningnum. Telur EFTA-dómstóllinn það ekki samræmast réttilegri meðferð dómsvalds að leitast við að færa út gildissvið EES-samningsins á þeim grundvelli. Að þessu virtu verði að svara þriðju spurningunni þannig að ákvæði í landslögum EES-ríkis sem mæli svo fyrir að bækur á tungumáli þess beri lægri virðisaukaskatt en bækur á erlendum tungumálum, verði ekki réttlætt með vísan til þeirra almannahagsmuna að styrkja stöðu þjóðtungunnar. Um fjórðu spurninguna segir EFTA-dómstóllinn að almennt taki EES-samningurinn ekki til skattkerfa aðildarríkjanna. EES-réttur skerði ekki frelsi aðildarríkis til að koma á skattkerfi sem geri greinarmun á framleiðsluvörum á grundvelli málefnalegra viðmiða sbr. mál E-6/98 Noregur gegn Eftirlitsstofnun EFTA. Á hinn bóginn sé slíkur greinarmunur aðeins samrýmanlegur EES-rétti ef þau markmið sem að með honum sé stefnt, séu sjálf samrýmanleg kröfum EES-samningsins og ef viðkomandi reglur séu þannig að þær stýri hjá allri beinni og óbeinni mismunun gagnvart framleiðsluvörum sem fluttar séu inn frá öðrum EES-ríkum og hvers kyns vernd í þágu innlendrar samkeppnisvöru sbr. mál C-213/96 Outokumpu. Er það því svar dómstólsins að vald EES-ríkis til álagningar virðisaukaskatts komi ekki í veg fyrir að EES-reglum verði beitt. Um fimmtu spurninguna tekur EFTA-dómstóllinn fram að í málum samkvæmt 34. gr. samnings EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls sé það ekki hlutverk EFTA-dómstólsins að dæma um skýringu ákvæða í landslögum sbr. mál E-1/94 Restamark. Minnir dómstóllinn fyrst á álit sitt í máli E-9/97, Erla María Sveinbjörnsdóttir, en þau sjónarmið sem legið hafi til grundvallar áliti dómstólsins í því máli eigi einnig við þegar athuguð séu álitaefni þessa máls. Tekur EFTA-dómstóllinn fram að meginmál EES-samningsins þar á meðal 14. gr. hans hafi verið tekin upp i íslensk lög með lögum nr. 2/1993. Samkvæmt 3. gr. íslensku EES-laganna skuli skýra lög og reglur að svo miklu leyti sem við eigi til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggi. Er ríkisstjórnin hafi lagt frumvarp til laganna fyrir Alþingi hafi því verið lýst yfir að ákvæði þetta hefði að geyma sérstaka lögskýringarreglu sem myndi takmarkast af ákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar. Sé bókun 35 með EES-samningnum til leiðsagnar um hvernig beri að leysa úr ósamræmi og með samþykki hennar hafi EES-ríkin skuldbundið sig til að setja, ef nauðsyn krefur, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi ef til árekstra komi milli EES-reglna sem settar hafi verið í landslög og annarra reglna landslaga og er það skilningur EFTA-dómstólsins að 3. gr. EES- laganna hafi verið sett til að uppfylla þá skuldbindingu. Komi skýrt fram í inngangi að bókun 35 með EES-samningnum að í samningnum sé ekki gerð krafa til þess að aðildarríki framselji löggjafarvald til stofnana EES og að ná verði fram einsleitni innan EES með þeirri málsmeðferð sem gildi í hverju landi um sig. Af innganginum og af orðalagi bókunar 35 leiði að skuldbindingin sem gengist hafi verið undir með bókuninni lúti aðeins að EES-reglum sem hafi verið lögfestar í landsrétti, en eins og þegar hafi verið getið hafi meginmál EES-samningsins verið tekið upp í landslög og því komið til framkvæmda í skilningi bókunar 35. Geti skuldbinding sú sem gengist sé undir með bókun 35 ekki náð til allra ákvæða meginmáls samningsins. Hún varði aðeins þau ákvæði sem þannig séu úr garði gerð að þau geti stofnað til réttinda sem einstaklingar og atvinnufyrirtæki geti reist dómkröfur innanlands. Sé um slíkt að ræða þegar viðkomandi ákvæði sé óskilyrt og nægilega nákvæmt sbr. Restemark. Ákvæði 14. gr. EES-samningsins sé sama efnis og 90. gr. samningsins um Evrópubandalagið. Hafi síðarnefnda greinin verið talin óskilyrt og nægilega nákvæm sbr. mál 57/65 Lütticke gegn Hauptzollamt Saarlouis. Með hliðsjón af markmiðinu um einsleitni og til að tryggja sömu meðferð einstaklinga á öllu Evrópska efnahagssvæðinu verði að telja að 14. gr. EES-samningsins uppfylli þá kröfu að vera óskilyrt og nægilega nákvæm. Er það því niðurstaða EFTA-dómstólsins varðandi þessa spurningu að þegar ákvæði landslaga samrýmast ekki 14. gr. EES-samningsins og sú grein hefur verið innleidd í landslög, sé komin upp staða sem skuldbinding EFTA-ríkjanna í bókun 35 gildi um, en hún sé reist á þeirri forsendu að EES-regla sem innleidd hafi verið í landsrétt skuli hafa forgang. Í niðurlagi dóms EFTA-dómstólsins segir að svara beri spurningum Héraðsdóms Reykjavíkur með eftirfarandi ráðgefandi áliti: 1. Vald EES-ríkis til að leggja á virðisaukaskatt útilokar ekki beitingu EES-reglna. 2. Ákvæði í landslögum EES-ríkis, sem kveður á um að bækur á tungumáli þess beri lægri virðisaukaskatt en bækur á erlendum málum, samrýmist ekki 14. gr. EES-samningsins. 3. Slíkt ákvæði í landslögum verður ekki réttlætt með tilvísun til þeirra almannahagsmuna að bæta stöðu þjóðtungunnar. 4. Þegar ákvæði landslaga samrýmist ekki 14. gr. EES-samningsins og sú grein hefur verið innleidd í landslög, er upp komin sú staða sem skuldbinding EFTA-ríkjanna samkvæmt bókun 35 við EES-samninginn gildir um, en hún er reist á þeirri forsendu, að EES-regla, sem innleidd hefur verið í landslög, skuli hafa forgang. Í kjölfar þessa álits EFTA-dómstólsins var lögum um virðisaukaskatt breytt sbr. lög nr. 64/2002 og taka þau gildi 1. júlí n.k. og var meðal annars hinu umdeilda ákvæði í 6. tl. 14. gr. laganna breytt. Hið umdeilda núgildandi ákvæði segir að 14% virðisaukaskatt skuli leggja á sölu bóka á íslenskri tungu, jafnt frumsaminna sem þýddra en verður eftir breytinguna að 14% virðisaukaskatt skuli leggja á sölu bóka, jafnt frumsaminna sem þýddra. Verður því lagður 14% virðisaukaskattur á allar bækur eftir 1. júlí n.k. Stefnandi kveður að þrátt fyrir ákvæði l. mgr. 14. gr. laga um virðisaukaskatt sé óheimilt við innflutning bóka til einkanota frá öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins að innheimta af þeim hærri virðisaukaskatt en af bókum á íslenskri tungu. Byggi krafa þessi á því að innheimta íslenska ríkisins á virðisaukaskatti á bókum, sem fluttar séu til landsins frá öðrum EES-ríkjum, sé andstæð ákvæðum 14. gr. EES-samningsins. Meginmál EES-samningsins og ýmis önnur ákvæði hans hafi lagagildi hér á landi, sbr. 2. gr. EES-laganna. Sé 14. gr. EES, efnislega samhljóða 90. gr. stofnsáttmála Evrópubandalagsins. Þær bækur frá öðrum EES-ríkjum en Íslandi, sem um ræði í máli þessu, falli undir efnissvið EES-samningsins, sbr. 2. og 3. mgr. 8. gr. EES. Prentaðar bækur falli undir 49. kafla tollskrár, sbr. a lið 3. mgr. 8. gr. EES. Því sé aðallega haldið fram, að umrædd skattlagning sé andstæð l. mgr. 14. gr. EES, til vara, að hún brjóti gegn 2. mgr. 14. gr. EES, og til þrautavara, að hún brjóti gegn 10. gr. EES. Í sambandi við 1. mgr. 14. gr. EES séu það fyrst og fremst tvö atriði, sem komi til skoðunar, þegar ákvarða þurfi, hvort þær vörur, sem hér um ræði, bækur frá öðrum EES-ríkjum en Íslandi, njóti verndar samkvæmt ákvæðinu. Í fyrsta lagi, hvort varan teljist „sams konar“, á norsku „tilsvarende“, á ensku „similar“, og varan, sem hið lægra þrep virðisaukaskatts sé látið gilda um, þ.e. bækur á íslensku. Í öðru lagi, hvort um sé að ræða beina eða óbeina mismunun gagnvart erlendu vörunni. Um fyrra atriðið tekur stefnandi fram að sem vara, hljóti prentuð bók að teljast prentuð bók án tillits til þess á hvaða tungumáli hún sé eins og til dæmis myndabók teljist sams konar framleiðsluvara og bók, sem sé aðallega á rituðu máli og bók á ensku teljist sams konar vara og bók á ítölsku. Tungumál geti ekki verið aðgreiningaratriði að því er varði vöruna, prentaða bók. Hvort sem bækurnar séu á íslensku eða á öðru EES-tungumáli sé notað í þær sama hráefnið, í nokkurn veginn sömu hlutföllum, og við framleiðslu þeirra sé beitt sömu framleiðsluaðferðum. Til þess að vörur séu taldar sams konar þurfi þær ekki að vera nákvæmlega eins, heldur þurfi þær að hafa svipuð einkenni og uppfylla svipaðar þarfir notenda, þ.e. notkun þeirra þurfi að vera svipuð og sambærileg, enda sé hugtakið „sams konar“ skýrt rúmt og sveigjanlega, sbr. dóma EB-dómstólsins frá 4. mars 1986 í málum 106/84 Commission v Denmark, og 243/84 John Walker & Sons Ltd. v Ministeriet for Skatter og Afgifter. Verði því að telja, að þær bækur, sem um ræði í máli þessu og skattlagðar séu með mismunandi hætti, teljist sams konar vörur í merkingu 1. mgr. 14. gr. EES-samningsins. Þó að talið væri heimilt að skattleggja sams konar vörur með mismunandi hætti af einhverjum málefnalegum ástæðum, yrði engu að síður að gæta þess sérstaklega, að þær vörur, sem hærri skatt bera, séu ekki vörur frá öðru EES-ríki, eins og reyndin sé í þessu máli. Um síðara atriðið, mismunun, tekur stefnandi fram að almennt séu bækur á íslensku gefnar út á Íslandi, en yfirleitt ekki í öðrum EES-ríkjum. Þetta sé hin dæmigerða staða. Hún sé að vísu ekki algild, en annað heyri til algjörra undantekninga. Þó að ekki felist í berum orðum í ákvæðum um virðisaukaskatt vísun til mismunandi uppruna varanna, leiði í reynd af reglunum óbein eða dulbúin mismunun eftir þjóðerni, eða ríkisfangi í skilningi EES-samningsins. Verði þessi óbeina mismunun að teljast brjóta í bága við 1. mgr. 14. gr. EES, sbr. dóm EB-dómstólsins frá 9. maí 1985 í máli 112/84 Humblot v Directeur des services fiscaux. Kveður stefnandi að ef stefndi kjósi að beita skattlagningarvaldi sínu til þess að skattleggja bækur, sem gefnar séu út í öðrum EES-ríkjum, með öðrum hætti en bækur, sem gefnar séu út á Íslandi verði stefndi að gæta þess, að skatturinn á innfluttu bækurnar verði hinn sami eða lægri en skatturinn á íslensku bækurnar, sbr. mál 127/75 Bobie Getränkevertrieb GmbH v Hauptzollamt Aachen-Nord. Sé stefnda óheimilt að beita skattkerfi sínu sem réttlætingu fyrir viðskiptatálmunum milli EES-ríkja, sbr. dóm EB-dómstólsins frá 12. mars 1987 í máli 176/84 Commission v Greece. Mælikvarði, sem beitt sé til aðgreiningar á vörum í skattalegum tilgangi, í þessu tilviki tungumál, og leiðir til þess í meirihluta tilvika að innflutta varan beri þyngri skattbyrði, hljóti að teljast ólögmætur samkvæmt EES-réttinum. Verði niðurstaðan sú að vörur þær, sem um ræðir í máli þessu, séu ekki fyllilega „sams konar“ og ekki sé um að ræða mismunun eftir þjóðerni og málið verði því ekki úrskurðað á grundvelli 1. mgr. 14 gr. EES, byggir stefnandi til vara á því að 2. mgr. 14. gr. EES eigi við. Þær vörur, sem hinnar óhagstæðari skattmeðferðar njóti þ.e. bækur útgefnar í öðrum EES-ríkjum, séu í samkeppni á bókamarkaðinum á Íslandi við þær vörur, er njóti hagstæðari skattmeðferðar þ.e. íslenskar bækur. Sé 2. mgr. 14. gr. EES ætlað að ná til hvers konar óbeinnar samkeppnisverndar með skattlagningu, þegar um sé að ræða vörur, sem ekki séu sams konar í skilningi 1. mgr. 14. gr. EES, en séu engu að síður í samkeppni, jafnvel einungis að hluta, óbeint eða hugsanlega, sbr. dóm EB-­dómstólsins frá 15. júlí 1982 í máli 216/81 COGIS v Amministrazione delle Finanze dello Stato. Þó að hin tilvitnuðu ákvæði virðisaukaskattslaga væru ekki talin fela í sér mismunun, leiði þau að minnsta kosti til verndar fyrir innlendu vöruna og feli þannig í sér samkeppnishömlur gagnvart hinum innfluttu vörum. Virðisaukaskattslögin séu með öðrum orðum ekki hlutlaus gagnvart innflutningi bóka frá öðrum EES-ríkjum, en hlutleysisreglan sé kjarnaatriði í 14. gr. EES. Sé af þessum sökum brotið gegn 2. mgr. 14. gr. EES sbr. tilvitnað mál nr. 216/81. Til þrautavara byggir stefnandi á því, að hin mismunandi skattlagning, sem hér er fjallað um, brjóti gegn 10. gr. EES. Stefnandi telur engin lögmæt sjónarmið réttlæta hina mismunandi skattlagningu. Skýra skuli íslensk lög og reglur, að svo miklu leyti sem við eigi, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur, sem á honum byggi, sbr. 3. gr. EES-laganna. Með þessu ákvæði hafi verið leidd í íslensk lög sú skuldbinding, sem Ísland hafi tekið á sig með bókun 35 við EES-samninginn, en þar segi, að vegna tilvika, þar sem geti komið til árekstra á milli EES-reglna, sem komnar séu til framkvæmdar og annarra settra laga, skuldbindi EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefji, lagaákvæði þess efnis, að EES-reglur gildi í þeim tilvikum. Sé af þessu ljóst, að EES-reglum sé ætlað að hafa forgang, þar sem EES-reglur og önnur landslög kunni að rekast á, sbr. dóm EFTA-dómstólsins í máli E-1/94, Ravintoloitsijain Liiton Kustannus Oy Restamark og dóm Hæstaréttar uppkveðinn 16. desember 1999 í máli nr. 236/1999. Við dóm í máli þessu beri að túlka 14. gr. EES í samræmi við Commission v Denmark, John Walker, Humblot, COGIS, Bobie, Commission v Greece og aðra dóma EB-dómstólsins í sömu átt, sbr. 6. gr. EES og 1. mgr. 3. gr. samnings EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls frá 2. maí 1992 með síðari breytingum. Stefndi kveður að með vísan til 3. mgr. 36. gr. tollaga nr. 55/1987 annist tollstjórar álagningu og innheimtu tolla og annarra skatta og gjalda sem greiða beri við tollafgreiðslu samkvæmt tollalögum eða öðrum lögum. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt sé skylt að greiða af viðskiptum innan lands á öllum stigum, svo og af innflutningi vöru og þjónustu, eins og nánar sé kveðið á um í lögunum. Virðisaukaskattur af innflutningi skuli innheimtur með aðflutningsgjöldum, sbr. 37. gr. laga nr. 50/1988, og hafi stefnanda verið skylt samkvæmt þessu að greiða 24,5% virðisaukaskatt af umræddum bókum, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988, en ákvæði 6. töluliðs 2. mgr. 14. gr. laganna, sem stefnandi byggi í raun á, eigi ekki við um þær bækur sem hann flutti inn. Greind lög séu sett með stjórnskipulegum hætti og séu gild að efni, en um það virðist ekki vera ágreiningur. Beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu. Stefndi tekur fram að ákvæði 1. mgr. 14. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið í enskri útgáfu sé svohljóðandi: Telur stefndi að enska útgáfan og hin íslenska séu jafngildar. Tilvitnað ákvæði EES-samningsins eigi að heita efnislega samhljóða ákvæði 90. gr. Rómarsáttmálans. Hin íslenska þýðing sé þó nokkuð ónákvæm miðað við útgáfur ákvæðisins á öðrum málum. Íslenska útgáfan mæli um að leggja á „hvers kyns beinan eða óbeinan skatt, en réttara hefði væntanlega verið að leggja á „með beinum eða óbeinum hætti skatt á“. Þetta sjáist einnig við skoðun á hinni hliðstæðu 90. gr. Rómarsáttmálans, sem hafi að geyma efnislega samhljóða ákvæði. Tungumál aðildarríkja EES séu jafngild. Stefndi telur þó að þessi ónákvæmni í framsetningu íslensku útgáfunnar hafi ekki þýðingu. Stefndi telur ekki að álagning 24,5% virðisaukaskatts á þær bækur sem um sé fjallað í máli þessu brjóti í bága við l. mgr. 14. gr. EES-samningsins. Við mat á því hvort þetta ákvæði eigi við þurfi að líta til einkenna þess varnings sem borinn sé saman, svo sem framleiðsluaðferða og þess háttar, og ekki síður til þess hvort varan hafi sama notagildi fyrir þá sem vöruna noti. Ekki sé ágreiningur um að framleiðsluaðferðir við bókagerð séu almennt þær sömu og í því samhengi megi benda á þá staðreynd að bækur á íslensku séu að hluta til framleiddar erlendis. Tungumál það sem bækur séu ritaðar á sé aftur á móti afgerandi hlutlægt aðgreiningaratriði. Bækur á íslensku hafi eingöngu notagildi fyrir þá sem lesi íslensku og í reynd einskis virði sem slíkar fyrir aðra en þá sem þekkingu hafi á íslenskri tungu. Með sama hætti séu bækur og ritað mál á erlendum tungumálum ekki mikils virði ef tungumálaþekking standi hagnýtingu þeirra í vegi. Sé áhugi manna á bókum á íslensku almennt óháður áhuga manna á bókum á erlendu máli. Því verði því ekki haldið fram að bók á íslensku sé sams konar vara og bók á hollensku, svo dæmi sé tekið. Bók sem ekki verði nýtt vegna þess tungumáls sem hún sé rituð á komi ekki í stað bókar sem rituð sé á móðurmáli lesandans. Eðli málsins samkvæmt sé því ekki um að ræða sams konar varning, heldur vörur sem auðveldlega verði aðgreindar og séu í engri samkeppni. Þá beri einnig að líta til þess að bókum á íslensku sé skipað í annan tollflokk lögum samkvæmt en þeim sem séu á erlendu tungumáli. Af því sjáist að í tollalegu og lagalegu tilliti geti ekki verið um sams konar vöru að ræða. Reglur íslenskra laga séu einnig fullkomlega hlutlausar að því leyti að enginn greinarmunur sé gerður varðandi bækur á íslensku eftir því hvort þær séu framleiddar á Íslandi eða í öðrum löndum. Framleiðslulandið hafi því enga þýðingu heldur einungis hlutlægir eiginleikar vörunnar og sé þetta grundvallaratriði í málinu varðandi það hvort 1. mgr. 14. gr. EES-samningsins geti átt við. Allar bækur á íslenskri tungu, óháð uppruna þeirra og innihaldi, beri lægri virðisaukaskatt en bækur á erlendu tungumáli. Af bókum framleiddum á íslenskri tungu, hér á landi sem erlendis, þurfi að standa skil á 14% virðisaukaskatti til ríkissjóðs. Af því leiði að innlendir og erlendir framleiðendur standi jafnt að vígi í samkeppni um að ná til lesenda sem kjósi bækur á íslensku. Innlendir og erlendir framleiðendur bóka á erlendu máli standi einnig jafnt að vígi. Stefndi telur þá dóma sem stefnandi vísi til í stefnu ekki til þess fallna að vera fordæmi til stuðnings kröfum hans. Í máli nr. 243/84 hafi verið til úrlausnar hvort ávaxtalíkjör væri sams konar og whisky í skilningi 95. gr. (nú 90. gr.) Rómarsáttmálans. Í málinu hafi EB-dómstóllinn fjallað um hlutlæga eiginleika varanna og með hvaða hætti þær væru framleiddar, en brotið síðan til mergjar viðhorf neytenda til þeirra. Á þessum grundvelli hafi niðurstaðan verið sú að þessir áfengu drykkir væru ekki sams konar í skilningi 1. mgr. 95. gr. Rómarsáttmálans. Í málinu nr. 184/85 hafi dómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að bananar væru ekki „sams konar vara“ og aðrir ávextir, en neysluskattur hafði verið á þá lagður sem numið hafi næstum hálfu innflutningsverði meðan aðrir ávextir væru ekki andlag þeirrar skattlagningar. Niðurstaðan hafi ekki hvað síst byggt á að bananar fullnægðu ekki sömu þörfum neytenda og aðrir ávextir. Sé því óhætt að fullyrða að bækur, ritaðar á íslensku, og bækur á erlendum tungumálum geti ekki talist sams konar í skilningi 14. gr. EES-samningsins. Höfði sá ólíki varningur til aðskilins hóps lesenda. Stefndi mótmælir því sem fram komi í stefnu, að til að vörur teljist vera sams konar, þurfi þær ekki að vera nákvæmlega sams konar, heldur þurfi þær að hafa sambærileg einkenni og fullnægja sömu þörfum notenda og geti tungumál því ekki verið aðgreiningaratriði. Telur stefndi tungumálið hafa meginþýðingu þegar metið sé notagildi bókar fyrir lesendur. Sé kjarni málsins sá að bækur á íslensku séu ekki sams konar og bækur á erlendum málum og felist slíkur grundvallarmunur í tungumálinu að bækur á sitt hvorri tungu geti aldrei talist vera sams konar í skilningi 1. mgr. 14. gr. EES-samningsins. Reglan um 14% virðisaukaskatt eigi við óháð því hvort bækur séu framleiddar á Íslandi eða í öðrum ríkjum hins Evrópska efnahagssvæðis. Þannig sé við skattheimtuna enginn greinarmunur gerður á því hvort bækurnar séu framleiddar eða gefnar út á Íslandi eða í útlöndum og reglan þar með algerlega hlutlaus gagnvart uppruna. Því geti 1. mgr. 14. gr. EES-samningsins ekki átt við til stuðnings kröfum stefnanda. Stefnandi byggi til vara á því að skattheimtan brjóti í bága við ákvæði 2. mgr. 14. gr. EES-samningsins, og lýsi ákvæðinu þannig að því sé ætlað að ná til hvers konar óbeinnar samkeppnisverndar með skattlagningu þegar um sé að ræða vörur sem ekki teljist sams konar í skilning l. mgr. 14. gr., en séu engu að síður í samkeppni. Segi stefnandi að jafnvel þótt ákvæði virðisaukaskattslaga hvað bækur varði yrði ekki talin fela í sér mismunun, leiði þau að minnsta kosti til verndar fyrir innlendu vöruna og feli þannig í sér samkeppnishömlur gagnvart hinum innfluttu vörum. Stefndi kveðst mótmæla þessum skilningi og því að dómur EB-dómstólsins í málinu nr. 216/981 sé lýsandi eða veiti sérstaka vísbendingu um túlkun 2. mgr. 90. gr. Rómarsáttmálans. Sé rétt að benda á dóma sem hafi meiri skírskotun til málatilbúnaðar stefnanda, t.d. máls nr. 356/85. Ákvæði 2. mgr. 14. gr. EES-samningsins geri ráð fyrir því að vörur séu í samkeppni. Því sé ekki svo farið með bækur á íslensku og bækur á erlendum tungumálum. Í fyrsta lagi sé regla virðisaukaskattslaga á engan hátt bundin við framleiðsluland og því hlutlaus gagnvart framleiðslulandi og uppruna. Í öðru lagi sé engin samkeppni milli bóka á íslensku og bóka á erlendum tungum. Tilvitnuð regla 2. mgr. 14. gr. EES-samningsins eigi því ekki við í þessu máli þar sem ekki sé um óbeina samkeppnisvernd að ræða. Sé því ekki um að ræða vernd fyrir innlenda vöru gagnvart innfluttri vöru. Jafnvel þótt talið yrði að um einhverja samkeppni væri að ræða telur stefndi að hin mismunandi skatthlutföll 14. gr. laga nr. 50/1988 feli ekki í sér ólögmæta samkeppnisvernd í skilningi 14. gr. EES-samningsins. Staðreyndin sé sú að bækur á íslensku séu almennt dýrari en bækur á erlendum tungum jafnvel þótt virðisaukaskatturinn sé lægri. Í máli nr. 365/85 hafi reynt á svipað tilvik. Þar hafi verið um að ræða virðisauka­skatt í Belgíu. Hin belgísku lög um virðisaukaskatt hafi annars vegar lagt 25% skatt á vín og hins vegar 90% skatt á bjór. Belgíski bjórinn hafi þannig verið í lægri skatti en hið innflutta vín sem bjórinn var í meintri samkeppni við. Í málinu hafi legið fyrir að þrátt fyrir mismunandi skatthlutföll hafi bjórinn verið mun ódýrari en vín. Hafi dómstóllinn talið að hinn óverulegi munur á virðisaukaskatti hefði engin verndaráhrif í för með sér fyrir bjórinn, þar sem jöfnun hlutfalla myndi ekki hafa í för með sér stórvægilegar breytingar á verðhlutföllum. Það sama megi segja um bækur hér á landi. Bækur á erlendum tungum yrðu eftir sem áður mun ódýrari en bækur á íslensku og hafi virðisaukaskattsálagningin því engin raunveruleg áhrif á samkeppnisstöðu. Með vísan til framangreinds kveðst stefndi mótmæla því að regla 14. gr. laga nr. 50/1988 brjóti í bága við ákvæði 14. gr. EES-samningsins, hvort sem litið sé til 1. eða 2. mgr. hennar. Skattheimtan ráðist af því tungumáli sem sem bók sé gefin út á en ekki af þjóðerni þess sem framleiði eða selji bókina. Þar sem skattlagningin ráðist ekki af þjóðerni þess sem skattlagður er heldur af eðli vörunnar telur stefndi mismunandi virðisaukaskatt af ritun á íslensku annars vegar og erlendum tungumálum hins vegar ekki fara í bága við 14. gr. EES-samningsins. Stefnandi mótmælir því að 10. gr. EES-samningsins geti átt við í málinu. Tilvitnað ákvæði eigi sér hliðstæðu í 23. og 25. gr. Rómarsáttmálans. (áður 9.-12. gr.). Beri að skoða ákvæði 10. og 14. gr. EES-samningsins í ljósi ákvæða 23. og 25. gr. Rómarsáttmálans annars vegar og 90. gr. Rómarsáttmálans hins vegar og þeirri réttframkvæmd sem þeim ákvæðum tengist. Evrópudómstóllinn hafi sagt að líta beri á bannreglu 90. gr. Rómarsáttmálans sem eins konar viðauka við bannreglu 23. og 25. gr. Rómarsáttmálans. Þannig miði fyrrnefnda reglan að því að koma í veg fyrir að aðildarríki geti sniðgengið bannið með tollum eða gjaldtöku með sambærilegum áhrifum með því að haga innlendri skattheimtu á þann máta að það feli í sér mismunun. Það sé margdæmt af Evrópudómstólnum að hliðstæð ákvæði Rómarsáttmálans og 14. og 10. gr. EES-samningsins séu gagnkvæmt útilokandi og skarist gildissvið þeirra að engu leyti. Taki gildissvið 14. gr. við þar sem ákvæði 10. gr. endi. Af nýlegum dómum um þetta megi benda á mál nr. 28/96 Fasenda Publica v. Fricarnes SA, mál nr. 266/91 CELBI, mál nr. 90/94 Haahr Petrolium og mál nr. 21/96 Paul Cheassus-March. Evrópudómstóllinn hafi oft sett fram með afdráttarlausum hætti hvað ráði úrslitum við mat á því hvort skattur eða gjald falli undir gildissvið þeirra ákvæða sem séu hliðstæða við 10. og 14. gr. EES-samningsins. Megi í því sambandi nefna sem dæmi mál nr. 105/96 Interzucceri og mál nr. 94/1974 IGAV. Þannig segi dómstóllinn að gjöld sem falli undir almennt kerfi innlendrar skattlagningar sem leggi skatt kerfisbundið á bæði innlendar og erlendar vörur á grundvelli sama viðmiðs beri ekki að skoða sem gjald sem hafi sambærileg áhrif og tollar. Regla 14. gr. laga nr. 50/1988 geri ekki greinarmun á því hvort bækur á íslensku séu framleiddar á Íslandi eða í öðrum löndum hins Evrópska efnahagssvæðis. Hafi ákvæði 10. gr. EES-samningsins ekki áhrif á vörugjöld eða aðra skattlagningu sem leggist jafnt á innlenda sem erlenda framleiðslu og hafi því engin verndaráhrif. Falli því virðisaukaskattur ekki undir gjöld sem hafi sambærileg áhrif og tollur. Geti því regla þessi ekki fallið undir bann 10. gr. EES-samningsins. Stefndi byggir enn fremur á því að þótt komist yrði að þeirri niðurstöðu að hin mismunandi skatthlutföll á bækur samkvæmt 14. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt fælu í sér einhverja mismunun, sé ekki þar með sagt að reglur hinna íslensku laga fari í bága við EES-samninginn eða séu á einhvern hátt ólögmætar. Þvert á móti hafi verið viðurkennt að reglur geti brotið í bága við bönn Evrópuréttarins, svo framarlega sem hlutlægar réttlætingarástæðu liggi til grund­vallar og að frávikin frá bannreglunni séu innan marka meðalhófs. Í því tilviki sem hér um ræði liggi slíkar réttlætingar ástæður fyrir. Íslenskan sé sérstakt tungumál og sé málsvæði hennar í reynd eingöngu bundið við Ísland og þær tæplega 280 þúsund manneskjur sem þar búi. Íslenskan búi við stöðugt áreiti frá öðrum málsvæðum og tungumálum. Sjáist það ekki hvað síst á því sjónvarpsefni sem sem sýnt sé hér á landi. Það sé að stórum hluta til á erlendu máli þótt þýðingartexti sé birtur á skjánum. Víða erlendis sé allt erlent sjónvarpsefni talsett á tungumáli heimalandsins. Í ljósi smæðar íslensku þjóðarinnar hafi ekki reynst unnt að ráðast í slíkar aðgerðir til málverndar. Það hafi verið verið yfirlýst stefna íslenskra stjórnvalda að varðveita sem best þann hornstein íslenskrar menningar sem íslensk tunga sé. Þessi stefna endurspeglist vel í þeim lagabreytingum sem gerðar hafi verið á 14. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með lögum nr. 111/1992, um breytingar í skattamálum. Telur stefndi að reglur þær sem deilt sé um í máli þessu séu fyrst og fremst ætlaðar til að treysta grundvöll tungunnar, þ.e. að bækur verði gefnar út á íslensku, óháð því hvar í heiminum það sé gert. Það væri reyndar beinlínis æskilegt ef í auknum mæli væri farið að gefa út bækur á íslensku í útlöndum. Íslenskan sé sérstakt tungumál og að mörgu leyti einstakt sem slíkt. Þetta forna tungumál sé menningarleg eign þjóðarinnar. Íslendingar geti enn í dag lesið 800 ára gamlar bókmenntir á því máli sem þær voru ritaðar, ekki síst fyrir tilstuðlan málverndar stjórnvalda. Telur stefndi það vera óbætanlegan menningarskaða ef úr lögum yrði felldur sá grundvöllur og úrræði sem fyrir hendi séu til varðveislu slíka menningargersema sem tungumálið sé. Tungumálið sé það sem leggi grunninn að þjóðmenningu og það sem geri Íslendinga að þjóð. Ekki megi heldur líta fram hjá því hversu fámenn íslenska þjóðin sé og hversu óburðug bókaútgáfa á íslensku hljóti að vera í samanburði við bókaútgáfur á erlendu máli og erlenda miðla aðra, sem gefi út efni á erlendum tungumálum og keppi á miklu stærri málsvæðum. Þær aðgerðir sem hér sé um að tefla verði að telja hóflegar í því skyni að ná fram þeim lögmætu markmiðum að vernda tunguna. Til frekari stuðnings því að um lögmætt markmið sé að ræða vísar stefndi til þeirra breytinga á Rómarsáttmálanum sem gerðar voru með Samningnum um Evrópusambandið. Í 1. tölul. 6. gr. þess samnings (áður F-grein), sé sérstaklega kveðið á um að Evrópusambandið skuli virða þjóðareinkenni aðildarríkjanna. Óhætt sé að fullyrða að almennt séu ekki nokkur einkenni þjóðar meira afgerandi en tungumál hennar til að afmarka hana frá öðrum þjóðum. Eigi það ekki hvað síst við þegar menningararfur þjóðarinnar sé bundinn tungunni svo sterkum böndum sem íslenska tungan. Það sé því vernd íslenskrar tungu og menningar sem búi að baki þeirri ráðstöfun að hafa bækur á íslensku í 14% skatti en ekki í 24,5% skatti. Þá bendir stefndi á að Evrópudómstóllinn hafi viðurkennt að málvernd séu lögmætir hagsmunir sem geti farið á svig við fjórfrelsið, svo framarlega sem meðalhófs sé gætt. Sem dæmi um sjónarmið af því tagi vísist til máls nr. 379/87 Groener v. Minister for Education. Hafi þar reynt á lögmæti krafna um próftöku í írsku vegna stöðuveitingar við írskan verkmenntaskóla. Sýni sá dómur að ef lögmæt markmið liggi til grundvallar aðgerðum sem feli í sér mismunun, þá brjóti slíkar aðgerðir ekki í bága við bönn Evrópuréttarins, svo framarlega sem aðgerðirnar séu í samræmi við meðalhófsregluna. Eigi réttlætingarástæður þessar við um skýringu EES-samningsins, sbr. 6. gr. hans. Enn fremur sé bent á að hliðstæðar réttarlætingarástæður komi til á öðrum sviðum samningsins, sbr. grunnrök 13. gr. hans, þar sem sérstök vernd nái til “þjóðar­verðmæta, er hafi listrænt, sögulegt eða fornfræðilegt gildi.” Þá telur stefndi að sú skylda hvíli á stjórnvöldum á hverjum tíma að hlú að sérkennum þjóðarinnar, varðveita einkenni hennar og menningu. Komi víða fram í íslenskri löggjöf að sérstaka rækt skuli leggja við vernd íslenskrar tungu. Með vísan til alls framangreinds telur stefndi að reglur 14. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, hvað varðar bækur á íslenskri tungu, brjóti ekki í bága við bannreglu 14. gr. EES-samningsins. Séu reglurnar hlutlausar gagnvart innlendri og erlendri framleiðslu og bækur á íslensku og bækur á útlensku séu ekki í neinni samkeppni. Þá telur stefndi sýnt að ákvæði 10. gr. EES-samningsins eigi ekki við um þá skattheimtu sem um sé deilt í máli þessu. Sé á engan hátt komið í veg fyrir með ákvæðum þessum, að þeir frjálsu vöruflutningar sem kveðið sé á um í 1. gr. EES-samningsins nái fram að ganga. Þá sé 14. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt stjórnskipulega gild að setningarhætti og efni, en samkvæmt stjórnarskrá skuli skattamálum skipað með lögum, sbr. 40. og 77. gr. hennar. Þó svo að lög sem sett séu með réttum hætti samrýmist ekki ákvæðum EES-samningsins þá leiði það ekki til sjálfstæðs réttar til ógildingar á ákvörðunum íslenskra stjórnvalda eða endurgreiðslu gagnvart þriðja manni á virðisaukaskatti sem ákveðinn sé með lögum. Hvorki séu sérstök ákvæði um endurgreiðslu aðildarríkjanna í EES-rétti í tilefni af hugsanlegum brotum þeirra á EES-reglum né í EB-rétti. Þá séu engin fordæmi fyrir endurgreiðslu ríkja þegar álagðir skattar og gjöld hafi ekki samrýmst ákvæðum Rómarsáttmálans. Ákvæði EES­samningsins skapi stefnanda því ekki sjálfstæðan rétt til ógildingar á úrskurði ríkistollanefndar eða til endurgreiðslu á virðisaukaskatti. Sé vegna þessa sérstaklega vísað til 46. gr. EES-samningsins, en samningurinn hafi almennt ekki verið talinn ná til efnahags- og peningamála, enda fari um þau mál einungis á grundvelli óbindandi viðræðna. Liggi einnig fyrir að ekki sé um að ræða viðskipta­hindranir sem andstæðar séu meginmarkmiðum EES-samningsins. Virðisaukaskattslög séu sérlög um álagningu virðisaukaskatts sem gangi framar almennum lögum um gildi EES-samningsins, sem ekki fjalli um álagningu skatta að landsrétti, en skýra verði þau ákvæði hans sem stefnandi byggi á fyrst og fremst á grundvelli eðlis hans sem þjóðréttarsamnings. Sé þar fjallað um skyldur samningsaðila, en ekki sjálfstæðan rétt borgara aðildarríkja vegna frumréttinda sem stoð eigi í samningnum þeim til handa eða til endurgreiðslu á virðisaukaskatti. Eigi krafa stefnanda um ógildingu eða endurgreiðslu sér í raun ekki stoð að íslenskum rétti. Almennt sé ekki unnt að líta svo á að lög séu andstæð öðrum lögum, en með vísan til framangreinds sé á engan hátt unnt að fallast á að 24,5% virðisaukaskattur á vörum, þar á meðal bókum á erlendri tungu, sem ákveðinn sé lögum samkvæmt víki eða að álagningarhlutfalli því verði breytt og fært niður í 14%. Geti það ekki verið á valdi dómstóla að færa álagningarhlutfallið niður og því beri að sýkna. Af þessum ástæðum sé einnig á það bent að hugsanlega beri að vísa málinu frá dómi ex officio, þar sem farið væri inn á valdsvið löggjafans, andstætt 24. gr. laga nr. 91/1991. Gætu málsástæður stefnanda rétt eins átt að leiða til þess að bækur á íslensku skuli bera 24,5% virðisaukaskatt, sem leiddi þó ekki til þess að fallast mætti á kröfur stefnanda. Regla 3. gr. laga nr. 2/1993, sem lögleidd hafi verið til að fullnægja bókun 35, sé fyrst og fremst lögskýringarregla, en ekki ákvæði um að lög skuli víkja fyrir ákvæðum EES­-samningsins. Beri því að hafna að EES-reglur hafi forgangsáhrif að landsrétti, svo sem stefnandi haldi fram. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt skal greiða virðisaukaskatt af viðskiptum innan lands á öllum stigum, svo og af innflutningi vöru og þjónustu, eins og nánar er ákveðið í lögunum. Þá liggur fyrir að miðað við gildandi lög um virðisaukaskatt er 24,% virðisaukaskattur af bókum á erlendu tungumáli meðan einungis er 14% af bókum á íslensku. Ekki er deilt um það í málinu að greind lög um virðisaukaskatt voru sett með stjórnskipulegum hætti og eru því gild að efni til. Það er hins vegar ágreiningsefni máls þessa hvort framangreindur mismununandi virðisaukaskattur brjóti í bága við ákvæði EES-samninginn, en meginmál hans hefur lagagildi hér á landi sbr. 2. gr. laga nr. 2/1993. Ákvæði 1. mgr 14. gr. virðisaukaskattlaga nr. 50/1988 mæla svo fyrir að virðisaukaskattur skuli almennt vera 24,5%. Í 2. mgr. segir að virðisaukaskattur á tiltekna vöru og þjónustu skuli verða 14%. Af sölu bóka sem ritaðar eru eða þýddar á íslensku skal greiða hið lægra hlutfall. Frá því að lög um virðisaukaskatt voru fyrst sett hafa allmargar breytingar verið gerðar hvað snertir álagningu hans á sölu bóka á íslensku. Með samþykkt laga nr. 119/1989 um breytingu á virðisaukaskattlögunum voru allar bækur á íslensku undaþegnar virðisaukaskatti að fullu. Núgildandi stig virðisaukaskatts á bækur var ákveðið með lögum 111/1992. Með lögum nr. 64/2002 var umdeildu ákvæði virðisaukaskattslaganna breytt á þann hátt að frá gildistöku laganna 1. júlí 2002 bera allar bækur 14% virðisaukaskatt án tillits til þess á hvaða tungumáli þær eru. Eins og fram er komið var óskað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í málinu með vísan til 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið og 1. mgr. 34. gr. samnings milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Eins og fram kemur í áliti EFTA-dómstólsins þá er hinn almenni tilgangur 14. gr. EES-samningsins að tryggja frjálsa vöruflutninga við eðlilegar samkeppnisaðstæður milli ríkja á hinu Evrópska efnahagssvæði, með því að koma í veg fyrir alla vernd sem kann að stafa af skattlagningu innanlands sem feli í sér mismunun gagnvart framleiðsluvörum annarra aðildarríkja og tryggja að innlend skattlagning hafi ekki áhrif á samkeppni milli innlendrar og innfluttrar framleiðslu. Stefnandi byggir á því fyrst og fremst að það ákvæði virðisaukaskattslaga sem lýtur að því að innheimta skuli lægri virðisaukaskatt af bókum á íslensku sé andstæð 1. mgr. 14. gr. EES-samningsins, en hún hljóðar svo: “Einstökum samningsaðilum er óheimilt að leggja hvers kyns beinan eða óbeinan skatt innan lands á framleiðsluvörur annarra samningsaðila umfram það sem beint eða óbeint er lagt á sams konar innlendar framleiðsluvörur.” Í beiðni héraðsdóms til EFTA-dómstólsins var óskað álits á því hvort framangreind regla íslensku virðisaukaskattslaganna brjóti í bága við 14. gr. EES-samningsins. EFTA-dómstóllinn tók þá ákvörðun að svara því fyrst hvort hún bryti í bága við 2. mgr. 14. gr. samningsins og þar sem niðurstaða dómstólsins var sú að hún gerði það þótti ekki nauðsynlegt að taka til athugunar hvort sú skattalega meðferð sem hagstæð sé bókum á íslensku brjóti í bága við 1. mgr. ákvæðisins. Liggur því ekki fyrir álit EFTA-dómstólsins um þetta álitaefni. Við mat á því hvort umdeilt ákvæði virðisaukaskattslaganna sé andstætt ákvæði 1. mgr. 14. gr. EES-samningsins verður að líta til einkenna þess varnings sem borinn er saman. Til að geta metið hvort vara sé sams konar þarf bæði að líta til framleiðsluaðferða, til hvers hún er notuð og af hverjum. Óumdeilt er að framleiðsluaðferðir við bókagerð eru almennt séð þær sömu. Bækur eru að meginstefnu til lesefni enda þótt fjöldi bóka hafi til dæmis myndir að meginefni. Nær undantekningalaust er eitthvert lesefni í hverri bók. Um notagildi bókar almennt hlýtur því að skipta verulegu máli fyrir neytandann að hann skilji það tungumál sem bókin er rituð á að öðrum kosti kann bókin að koma að litlum sem engum notum. Verður því að telja að tungumál hafi meginþýðingu þegar meta skal notagildi bókar fyrir lesendur. Verður því að fallast á það með stefnda að slíkur grundvallarmunur felist í tungumáli að bækur á sitt hvorri tungunni geta ekki talist sams konar í skilningi 1. mgr. 14. gr. EES-samningsins. Þá er rétt að taka það fram að umdeild regla virðisaukaskattslaganna á við óháð því hvar bækur á íslensku eru framleiddar. Er því enginn greinarmunur á því gerður hvort bók á íslensku er framleidd og gefin út á Íslandi eða annars staðar og því er reglan hlutlaus varðandi uppruna vörunnar. Þykir því umdeilt ákvæði virðisaukaskattslaga sem gerir ráð fyrir lægri virðisaukaskatti á íslenskar bækur ekki vera í andstöðu við 1. mgr. 14. gr. EES-samningsins. Til vara byggir stefnandi á því að umdeilt ákvæði virðisaukaskattslaganna brjóti í bága við 2. mgr. 14. gr. EES-samningsins en þar segir: “Samningsaðila er einnig óheimilt að leggja á framleiðsluvörur annarra samningsaðila innlendan skatt sem er til þess fallinn að vernda óbeint aðrar framleiðsluvörur.” Af ákvæði þessu verður ráðið að því sé ætlað að ná til hvers konar óbeinnar samkeppnisverndar með skattlagningu þegar um er að ræða vörur sem ekki eru samskonar í skilningi 1. mgr. en eru samt sem áður í samkeppni, sbr. dómur Evrópubandalaganna í máli nr. 184/1985, Framkvæmdastjórnin gegn Ítalíu. Þegar meta skal hvort framleiðsluvörur, í þessu tilviki bækur, séu í samkeppni þannig að í bága fari við bann 2. mgr. samkvæmt framanskráðu þá er ljóst að margir þeirra sem lesa íslensku lesa ennfremur bækur á erlendum tungumálum og geta því bækur á mismunandi tungumálum komið hver í stað annarrar. Þá geta bækur sem innihalda mikið af myndum en hlutfallslega lítið prentmál komið þeim að notum sem ekki lesa viðkomandi tungumál og má sem dæmi nefna listaverkabækur. Er það því ljóst að bækur á íslensku og bækur á erlendum tungum eru að minnsta kosti að hluta til í samkeppni. Þessi niðurstaða er í samræmi við hið ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins í málinu. Að þessari niðurstöðu fenginni þarf að taka til athugunar hvort umdeilt ákvæði virðisaukaskattslaganna veiti innlendri framleiðslu óbeina vernd í skilningi 2. mgr. 14. gr. EES-samningsins en samkvæmt orðanna hljóðan er nægilegt er að verndin sé óbein til að bannið eigi við. Af gögnum málsins verður ráðið að stór hluti þeirra íslensku bóka sem hinn lægri virðisaukaskattur er lagður á, er framleiddur á Íslandi og þær bækur á erlendum málum og hinn almenni virðisaukaskattur, 24,5% er lagður á eru aðallega innfluttar. Stefndi hefur borið því við að í raun séu íslenskar bækur almennt dýrari en bækur á erlendum tungumálum jafnvel þótt virðisaukaskatturinn sé lægri og hefur hann lagt fram yfirlit frá bókaforlaginu Máli og Menningu þar sem rakið er að almennt séu íslenskar bækur 20-50 prósentum dýrari en sambærilegar erlendar útgáfur, stundum sé munurinn meiri og svo komi það fyrir að stærri og veigameiri verk á íslensku séu á svipuðu verði og jafnvel ívið lægra verði. Þá verði að hafa í huga að margir titlar sem gefnir séu út í kiljuútgáfum ytra séu gefnir út innbundnir á íslensku. Í þeim tilvikum sé ekki óalgengt að íslenska útgáfan sé 100-200% dýrari á Íslandi en ytra. Þá er í umræddu yfirlit borið saman verð á 15 bókatitlum á íslensku og ensku þar sem hinar íslensku útgáfur eru dýrari. Ekki verður af yfirliti þessu eða öðrum þeim gögnum sem liggja fyrir í máli þessu hægt að fullyrða að framangreind staðhæfing stefnda eigi við rök að styðjast. Er það mat dómsins að sú tilhögun að leggja 10,5% lægri virðisaukaskatt á íslenskar bækur en erlendar sé til þess fallin að hafa í för með sér verndaráhrif í skilningi 2. mgr. 14. Er þessi niðurstaða sú sama og í áliti EFTA-dómstólsins í málinu þar sem segir að lægri skattur sem lagður sé á bækur á þjóðtungu en á bækur á erlendum tungumálum gefi til kynna að fyrir hendi séu verndaráhrif í skilningi 2. mgr. 14. gr. EES-samningsins. Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið telst umdeild regla virðisaukaskattslaganna vera andstæð 2 mgr. 14. gr. EES-samningsins. Þegar af þessari ástæðu þykir ekki ástæða til að fjalla um það í málinu hvort framangreind regla virðisaukaskattslaganna brjóti gegn 10. gr. EES-samningsins sem stefndi byggði á til þrautavara. Stefndi heldur því fram að þótt mismunandi skattlagning af því tagi sem hér um ræði feli í sér mismunun samkvæmt 14. gr. EES-samningsins þá hafi verið viðurkennt að reglur geti brotið í bága við bönn Evrópuréttarins. Í þessu máli liggi fyrir slíkar réttlætingarástæður sem sé vernd íslenskrar tungu. Telur stefndi reglu þá sem um sé deilt í máli þessu fyrst og fremst vera ætlaða til að treysta grundvöll tungunnar, en þetta forna tungumál sé menningarleg eign þjóðarinnar. Væri óbætanlegur menningarlegur skaði ef úr lögum yrði felldur sá grundvöllur og úrræði sem fyrir hendi séu til varðveislu slíkrar menningargersemar sem tungumálið sé. Tungumálið sé það sem leggi grunninn að þjóðmenningu og það sem geri Íslendinga að þjóð. Stefndi byggir í þessu sambandi á 13. gr. EES-samningsins. Þar segir að ákvæði 11. og 12. gr. samningsins, þar sem fjallað er um bann við magntakmörkun á innflutning og útflutning milli samningsaðila, komi ekki í veg fyrir að leggja megi á innflutning, útflutning eða umflutning vara bönn eða höft sem réttlætist af almennu siðferði, allsherjarreglu, almannaöryggi, vernd lífs og heilsu manna eða dýra eða gróðurvernd, vernd þjóðarverðmæta, er hafi listrænt, sögulegt eða fornfræðilegt gildi, eða vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar og viðskipta. Slík bönn eða höft megi þó ekki leiða til gerræðislegrar mismununar eða til þess að duldar hömlur séu lagðar á viðskipti milli samningsaðila. Með vísan til framangreinds orðalags greinarinnar getur 13. gr. samningsins aðeins réttlætt frávik frá 11. og 12. gr. hans og verður því að hafna því að hún geti átt við það tilvik sem hér um ræðir. Sú tilvísun stefnda að 6. gr. samningsins um Evrópusambandið kunni að vera grundvöllur að slíku fráviki þar sem tungumál hafi afgerandi þýðingu við að halda uppi þjóðernisvitund í hverju ríki. Ekkert sambærilegt ákvæði er í EES-samningnum og verður því ekki í úrlausn þessa máls byggt á reglu hliðstæðri fyrrgreindri 6. gr. samningsins um Evrópusambandið. Verða lagaákvæði sem eru í andstöðu við 14. gr. EES-samningsins því ekki réttlætt með því að almannahagsmunir krefjist þess til að styrkja stöðu þjóðtungunnar. Meginmál EES-samningsins var tekið upp í íslensk lög með lögum nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, þar á meðal 14. gr. samningsins. Samkvæmt 3. gr. þeirra laga skal skýra lög og reglur að svo miklu leyti sem við á til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Í bókun 35 með EES-samningnum um framkvæmd EES-reglna segir: „Þar eð með samningi þessum er stefnt að einsleitu Evrópsku efnahagssvæði sem byggist á sameiginlegum reglum, án þess að samningsaðila sé gert að framselja löggjafarvald til stofnana Evrópska efnahagssvæðisins; og þar eð þessum markmiðum verður því að ná með þeirri málsmeðferð sem gildir í hverju landi um sig; Stök grein Vegna tilvika þar sem getur komið til árekstra á milli EES-reglna sem komnar eru til framkvæmdar og annarra settra laga, skuldbinda EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum.“ Með þessu samningsákvæði skuldbundu EFTA-ríkin sig til þess að laga lög sín og reglur að ákvæðum samningsins þar sem þess gerist þörf. Bókun 35 með EES-samningnum er til leiðsagnar um hvernig beri að leysa úr ósamræmi milli reglna EES-réttar og reglna landsréttar. Verður að líta svo á að framangreind 3. gr. laga nr. 2/1993 hafi verið sett til að fullnægja fyrrgreindri skuldbindingu EFTA-ríkjanna. Ekki verður talið að fyrrgreind skuldbinding nái til allra ákvæða meginmáls samningsins heldur eingöngu þeirra ákvæða sem eru þannig úr garði gerð að þau geti stofnað til réttinda sem einstaklingar og fyrirtæki geti reist dómkröfur á og með vísan til dóms EFTA-dómstólsins í máli nr. E-1/94 Restemark og dóm Hæstaréttar Íslands 16. desember 1999 í máli nr. 236/1999 er um slíkt að ræða þegar viðkomandi ákvæði er óskilyrt og nægilega nákvæmt. Þessi skilningur er staðfestur í hinu ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins sem liggur fyrir í málinu. Ákvæði 14. gr. samningsins eru sama efnis og 90. gr. samningsins um Evrópubandalagið. Í máli nr. 57/65, Lütticke gegn Hauptsolland SAArlois var síðarnefnda greinin talin óskilyrt og nægilega nákvæm. Er það því niðurstaða máls þessa að þegar ákvæði landslaga samrýmast ekki 14. gr. EES-samningsins og sú grein hefur verið innleidd í landslög gildir skuldbinding EFTA-ríkjanna í bókun 35, en hún er reist á þeirri forsendu að EES-regla sem innleidd hefur verið í landsrétt skuli hafa forgang. Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið er niðurstaðan sú að umdeilt ákvæði virðisaukaskattslaganna sé andstætt 2. mgr. 14. gr. EES-samningsins sem hefur forgang. Úrskurður ríkistollanefndar 22. desember 1999 er reistur á þeirri forsendu að mismunandi gjaldtaka við innflutning bóka til Íslands eftir tungumáli brjóti ekki í bága við 14. gr. EES-samningsins og með úrskurðinum var staðfestur úrskurður tollstjórans í Reykjavík um að álagning og innheimta 24,5% virðisaukaskatts á hinar innfluttu bækur stefnanda, sem um er fjallað í þessu máli, teldist rétt. Í ljósi þeirrar niðurstöðu sem að framan er rakin um að umrætt ákvæði virðisaukaskattslaga sé í andstöðu við 14. gr. EES-samningsins, sem gengur framar hinu fyrrnefnda, verður ekki hjá því komist að taka kröfu stefnanda um að ógiltur verði úrskurður ríkistollanefndar nr. 14/1999 frá 22. desember 1999 til greina. Stefnandi hefur krafist endurgreiðslu á ofteknum virðisaukaskatti vegna þeirra bóka sem fjallað er um í málinu og er ekki ágreiningur um útreikning þeirrar kröfu en stefndi gerir varakröfu til lækkunar án þess að rökstyðja þá kröfu sína frekar. Ljóst er af gögnum málsins að fjárhæð kröfu stefnanda byggir á mismuni þess sem hann greiddi í virðisaukaskatt miðað við 24,5% og hvað hann hefði átt að greiða ef virðisaukaskatturinn hefði verið 14%. Í ljósi þess að því hefur verið slegið föstu að mismunun sú sem felst í mismunandi virðisaukaskatti á bækur á íslensku annars vegar og erlendum tungumálum hins vegar verður að líta svo á að álagning virðisaukaskattsins hafi verið ólögmæt þótt ekki sé tekin afstaða til þess hvaða hlutfall virðisaukaskatts verði lagður á bækur enda er slíkt ekki á valdi dómstóla að ákveða. Það er mismununin sem slík sem er ólögmæt en ekki hlutfallið. Stefnandi var látinn greiða hærri virðisaukaskatt en þeir sem keyptu íslenskar bækur og það var ólögmætt. Hefur hann því greitt of mikið og með vísan til 1. gr. laga nr. 29/1995 þar sem segir að stjórnvöld sem innheimta skatta eða gjöld skuli endurgreiða það fé sem ofgreitt reynist. Verður því að fallast á það með stefnanda að hann fái mismuninn endurgreiddan. Hvorki verður séð að 46. gr. EES-samningsins standi því í vegi að stefnandi eigi rétt á að fá dóm um framangreindar kröfur sínar svo sem stefndi heldur fram né að vísa eigi málinu frá á grundvelli 24. gr. laga nr. 91/1991. Verður stefndi því dæmdur til að endurgreiða stefnanda umkrafða fjárhæð með dráttarvöxtum eins og krafist er enda hefur sú krafa ekki sætt andmælum. Eftir þessari niðurstöðu verður stefndi dæmdur til greiðslu málskostnaðar sem þykir hæfilegur 300.000 krónur. Hörður Einarsson hrl. stefnandi málsins flutti mál þetta sjálfur en af hálfu stefnda flutti málið Einar K. Hallvarðsson hrl. Greta Baldursdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn. Úrskurður ríkistollanefndar nr. 14/1999 frá 22. desember 1999 er ógiltur. Stefndi íslenska ríkið greiði stefnanda Herði Einarssyni 1.601 krónu auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 20. janúar 2000 til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Stefndi greiði stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.