url
stringlengths
21
288
text
stringlengths
1
1.35M
https://www.vikubladid.is/is/frettir/thriggja-bila-arekstur
Þriggja bíla árekstur Þriggja bíla árekstur varð á gatnamótum Borgarbrautar og Dalsbrautar á Akureyri um miðjan dag í dag. Bíl var ekið af Borgarbraut inn á Dalsbraut og á bíl þar sem kastaðist við áreksturinn á þriðja bílinn Engin slasaðist í árekstrinum en svo miklar voru skemmdirnar á bílunum að flytja varð þá alla af vettvangi með kranabíl. Að sögn lögreglu nú um kvöldmatarleytið urðu 4 árekstrar í dag en hvergi meiðsl á fólki. Færð í bænum hefur verið þung í dag eftir mikla snjókomu síðustu nótt.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/vangaveltur-um-islenska-bondann-sjalfstaedid-og-varnirnar
Vangaveltur um íslenska bóndann, sjálfstæðið og varnirnar Arngrímur Jóhannsson flugstjóri skrifar. Sú kemur tíð að sárin foldar gróa sveitirnar fyllast akrar hylja móa. Brauð veitir sonum móðurmoldin frjóa menningin vex í lundi nýrra skóga. (Hannes Hafstein) Þetta var framtíðarsýn skáldsins, en er það svo að menningin vaxi í lundum nýrra skóga? Getur verið að skammsýni okkar sem líkja mætti við sjálfseyðingarhvöt verði til þess að við séum að afsala okkur sjálfstæðinu og því hraðar því betra. Íslendingar standa víða að hjálpar- og uppbyggingarstarfi utan landsteinanna, styrkja vanþróuð lönd til efnahagslegs sjálfstæðis og hjálpa þeim að koma upp sjálfbærum landbúnaði, vatns- og orkuveitum, en getur hugsast að við gleymum að líta okkur nær? Gleymum því sem helst snýr að okkur sem þjóð? 1 Bóndinn Ég hef sjálfur flutt spírað korn til sáningar til Mið-Afríkulanda, svo sem Ghana, Sómalíu, Súdan, og hef upplifað að sjá fólkið ráðast á sekkina og eta úr þeim á staðnum þar sem hungrið svarf og framtíðaráformin urðu að víkja. En við kjósum að flytja inn sem mest af landbúnaðarvörum þrátt fyrir að okkar matvæli standi í engu að baki þeim erlendu. Vöruskiptahallinn eykst stöðugt, þ.e.a.s. við borgum fyrir ódýrari erlenda vöru en endurgreiðum hana að miklu leyti með sköttum. Ég veit þó að landbúnaðarvörur eru aðeins lítill hluti af hallanum en honum ætti að halda í lágmarki. Ættum við ekki frekar að hlúa að innlendri framleiðslu og styrkja íslenska bóndann? Það þarf ekki nema farsótt, fuglaflensu eða stríðsbrölt til að einangra okkur og þá er orðið of seint að biðja bóndann að auka framleiðsluna. 2 Varnarmálin Ráðamenn standa á því fastar en fótunum að íslenska þjóðin verði að hafa her sér til varnar. Þó hef ég ekki enn áttað mig á því hver þessi skæði óvinur er sem við þurfum vernd gegn. Og er þetta ekki skemmtilega öfugsnúið: Við leitum eftir verndinni til þeirra tveggja þjóða sem helst hafa hvæst á okkur (þangað leitar klárinn .......) Lítum örlítið nánar á varnarmátt væntanlegra verndara okkar, nefnilega Dana og Norðmanna, sem er - enginn. Það besta og nýjasta sem þeir eiga eru F 16 orustuflugvélar. Þetta eru í sjálfu sér ágætis flugvélar en gallinn er bara sá að F 16 hefur tæplega flugdrægi til Íslands. Þannig að nái þær hingað yfir hafið verða þær að lenda samstundis. Einhver verður því að hengja bjöllu á köttinn svo að verndararnir geti orðið á undan en flugið frá Danmörku tekur á þriðja tíma. Ef F 16 er flogið hraðar en þessu nemur verður stríðsradíus þeirra aðeins um 340 mílur sem þýðir að þær ná til Færeyja. Hinn kosturinn er auðvitað sá að hafa stríðsvélar að staðaldri á Keflavíkurflugvelli en þá spyr ég enn og aftur: Í hvern eiga þær að skjóta? Og gleymum því ekki að fyrir þessa þjónustu þurfum við að greiða og stríðsrekstur er aldrei ódýr. Við skulum ekki villast á þessu hernaðarbrölti og samvinnu um eftirlits- og hjálparstörf þar sem Landhelgisgæsla Íslands er í fararbroddi og lyftir iðulega Grettistaki. Ég held að fáir geri sér í raun grein fyrir öllum þeim hetjudáðum sem Gæslumennirnir okkar vinna, fæstar þeirra rata í fjölmiðlana. Öll samvinna við erlendar þjóðir um björgun og leit er sjálfsögð. Óvinurinn, ef hann er til, er líklegast að hann komi bara með Flugleiðum og taki völdin. Hann mun að minnsta kosti ekki láta fáeinar úreltar hervélar stöðva sig og enn skal það játað að ég kem ekki auga á hunangið sem ætti að draga hann hingað, né heldur hvað hann myndi vilja sprengja hér eða hversvegna (í því tilviki að þetta verði sprengjuvargur en ekki valdafíkill). Kemur mér þá í hug að Glistrup sagði eitt sinn í danska þinginu (og vitnaði í mömmu sína, minnir mig): „Við skulum skera niður allar fjárveitingar til stríðsreksturs en kaupa sjálfvirkan símsvara í utanríkisráðuneytið sem svarar á sjö tungumálum: Við gefumst upp." Þetta yrði okkur töluvert ódýrara en að leigja herþotur og tilheyrandi, enginn myndi meiðast en ef óvinurinn næði engu að síður hér fótfestu þá myndi eflaust gamla víkingablóðið sjóða í okkur og við reka þá í sjóinn. Í framhaldi af þessu er ekki nema eðlilegt að við spyrjum: Í hvaða sporum stöndum við ef símaspottinn til útlanda fær að ganga sér enn frekar til húðar með tilheyrandi sambandsslitum við umheiminn? Jú, jú, þessu fylgja leiðindi en hvað með nýfengið frelsi í viðskiptum utanlands? Sambandið rofið og viðskipta- og bankamenn horfa hjálparlausir á auða tölvuskjái, kannski svo dögum skiptir. Um leið stöðvast viðskipti sem byggjast meðal annars á því að bregðast hratt við sveiflum í kauphöllum. Mínútur, jafnvel sekúndur, geta skipt sköpum um milljarða hagnað eða milljarða tap. Gleymum herþotunum, spörum á því sviði, en setjum þess í stað aukið fjármagn t.d. í að efla þetta viðkvæma símasamband við útlönd. Sem hefur miklu meira með sjálfstæði þjóðarinnar að gera en hervarnir, og skiptir þá engu hvort þeim er komið fyrir á dönskum, norskum eða íslenskum flugvöllum. Síminn er órjúfanlegur hluti sjálfstæðis Íslands. 3. Flugvallamál Flugmálayfirvöld hafa að undanförnu lagt niður flugvelli víða um land í skjóli þess að það sé of dýrt að reka þá. Þó neitar því enginn að margir þessara litlu flugvalla geta komið sér ákaflega vel þegar neyðin knýr dyra. Nýjasta uppákoman er flugvöllurinn í Ólafsfirði. Þar standa nú yfir stórframkvæmdir við gangagerð en á sama tíma er flugvöllurinn tekinn af skrá. Í þessum skrifuðu orðum stendur stóreflis steypustöð á miðjum vellinum þannig að ómögulegt er að nota hann lengur. Ég veit ekki hversu oft slys verða við slíkar stórframkvæmdir, eins og Héðinsfjarðargöngin eru, en eitt er víst að Ólafsfjarðarflugvöllur er gjörsamlega ónothæfur sem stendur. Þröng göngin um Múlann, eða oft á tíðum ógreiðfær Lágheiðin, verða þá eini kosturinn til að koma sjúklingi á sjúkrahús. Þeir sveitastjórnarmenn sem ég hef talað við hafa undantekningarlítið verið viljugir að taka að sér viðhald flugvalla í héraði og það með stolti. Í raun þarf ekki annað en að valta þá eða slá og halda við merkingum og vindpokum. Vandamálið er að enginn hefur boðið þeim þennan valkost. Vellirnir eru bara slegnir af, orðalaust. Flugmálastjórinn fyrrverandi, Agnar Kofoed-Hansen heitinn, sagði einu sinni að hlutverk sitt og stofnunarinnar væri að hlú að flugrekstri og gera veg hans sem mestan. Nú, á öndverðri 21. öld, virðist einhver önnur hugsun ráða ríkjum hjá flugyfirvöldum, og það þrátt fyrir hversu stór þáttur flugið er í íslensku þjóðlífi. Ég skora því hér með á þau yfirvöld sem þessu ráða að endurskoða afstöðu sína til smávallanna. Ég hef nú tiplað á nokkrum atriðum sem mér eru hugleikin og eru ofarlega á baugi. Af miklu meira er að taka. Niðurstaða mín er sú að við verðum fyrr en síðar að fara í ítarlega naflaskoðun. Hver er staða okkar og hvert viljum við stefna þjóðmálum okkar í framtíðinni? Við verðum að vera hreinskilin, jafnvel óvægin við sjálf okkur, og ekki samþykkja neinar goðsagnir. Mér er til dæmis spurn, hvaða vitræn rök mæla með hvaladrápi? Ég hef ekki heyrt þau ennþá. Akureyri í janúar 2007. Höfundur er forseti Flugmálafélags Íslands
https://www.vikubladid.is/is/frettir/beint-i-millilandaflug-fra-akureyri
Beint í millilandaflug frá Akureyri Icelandair mun í sumar bjóða brottför og komu í millilandaflugi sínu á Akureyri. Farþegar fljúga til og frá Akureyri með 37 sæta Dash-8 flugvél Flugfélags Íslands og tengjast beint við millilandaflug félagsins í Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli. Þessi þjónusta hefst 15. júní og stendur til loka ágúst. Um er að ræða beint flug snemma morguns frá Akureyri til Keflavíkur og flug síðdegis frá Keflavíkurflugvelli norður. Verð á einstakri ferð milli þessara staða verður frá 4.000 krónum. Flogið verður á mánudögum, fimmtudögum og föstudögum. Farþegar munu innrita sig og farangur sinn á Akureyri og fara þar í gegnum tollskoðun og koma inn í Leifsstöð með sama hætti og millilandafarþegar. Sama fyrirkomulag verður síðdegis þegar farþegar koma erlendis frá. Þá fara þeir beint um borð í flugvélina norður og fá farangur sinn og fara í gegnum tollskoðun á Akureyri. Gunnar Már Sigurfinnsson framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair, kynnti þessa nýbreytni á blaðamannafundi á Akureyrarflugvelli. Við það tækifæri færði hann Sigrúnu Björk Jakobsdóttur bæjarstjórafarmiða fyrir tvö á flugleiðinni Akureyri-New York að gjöf. Sigrún Björk þakkaði fyrir sig en sagðist ætla að gefa miðana í gott málefni, sem yrði kynnt siðar. Hún sagðist fagna þessari nýbreytni sem ætti eftir að auka mjög þægindi í utanferðum. Sigrún Björk sagðist jafnframt vona að með þessu væri einnig hægt flytja erlenda ferðamenn beint til Akureyrar. Gunnar Már sagði að á hverjum morgni fari 10-12 flug frá Icelandair til útlanda og með því að taka þessa flugrútu að norðan opnist viðskiptavinum félagsins á landsbyggðinni nýir ferðamöguleikar. Í raun sé um útvíkkun á leiðakerfi félagsins að ræða. Icelandair Group fagnar á þessu ári 70 ára afmæli félagsins og sagði Gunnar Már að það væri sérstaklega ánægjulegt að geta kynnt þessa viðbót nú, þar sem félagið eigi rætur að rekja til stofnunar Flugfélags Akureyrar árið 1937.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/dagny-linda-kristjansdottir-er-ithrottamadur-akureyrar
Dagný Linda Kristjánsdóttir er Íþróttamaður Akureyrar Dagný Linda Kristjánsdóttir, afrekskona á skíðum og félagi í Skíðafélagi Akureyrar, var í gærkvöldi valin Íþróttamaður Akureyrar árið 2006 á afar vel heppnuðu hófi sem fram fór í Ketilhúsinu. Dagný Linda þykir einn allra fremsti skíðamaður Íslands í dag og árangur hennar á síðasta ári var afar glæsilegur. Hún varð þrefaldur Íslandsmeistari og náði frábærum árangri á Ólympíuleikunum í Tórínó, þar sem hún varð í 16. sæti í tvíkeppni og 23. sæti bæði í bruni og risasvigi.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/fjorar-stulkur-fra-akureyri-i-landslidshop
Fjórar stúlkur frá Akureyri í landsliðshóp Fjórar stúlkur frá Akureyri hafa verið valdar í æfingahóp fyrir landslið kvenna skipað 17 ára og yngri. Þetta þýðir að um 16% hópsins kemur frá Akureyri. Stúlkurnar sem valdar hafa verið eru: Arna Erlingsdóttir, Emma Havin Sardarsdóttir, Kara Rún Árnadóttir, og Unnur Ómarsdóttir. Þessar upplýsingar koma frá á ver Akureyrar-handboltafélags. Stúlkurnar munu æfa helgina 26.-28. janúar og taka þá tekur við forkeppni fyrir EM í byrjun mars.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/flokkakerfi-i-vanda
Flokkakerfi í vanda? Ingi Rúnar Eðvarðsson, prófessor við Háskólann á Akureyri skrifar Í upphafi nýs árs er eins og flokkakerfið sé úr liði. Margir kjósendur syngja því með U2 "I still haven't found what I am looking for". Þetta sjáum við með ýmsum hætti. Eldri borgarar íhuga að stofna eigin flokk. Framtíðarlandið eru einnig að kanna flokksstofnun og innflytjendamálin eru að valda flokkunum vanda. Þá er valdið að færast til viðskiptalífsins eins og glögglega má sjá varðandi upptöku evrunnar. Steinrunnar stofnanir? Spyrja má hvað veldur þessum vanda flokkanna? Nú þegar Framsóknarflokkurinn er nýlega búinn að halda upp á 90 ára afmæli sitt má velta vöngum yfir því hvort stjórnmálaflokkar séu orðnar steinrunnar stofnanir eins og þjóðkirkjan? Að þeir skynji ekki lengur strauma þjóðlífsins, séu hreinlega úr takti við tímann? Sífellt minnkandi þátttaka fólks í flokksstarfi er merki um slíkt. Þá er spurning hvort ríkisvæðing flokkanna sem var samþykkt á síðasta þingi auki ekki enn á þennan vanda? Skortur á trausti Ég held að það fari ekki á milli mála að flokkakerfið þarf að auka trúverðugleika sinn. Þannig treysta eldri borgar ekki ríkisstjórnarflokkunum til að bæta kjör sín eftir 12 ára sveltistefnu. Þeir treysta heldur ekki á stjórnarandstöðuna, að henni takist að ná völdum og breyta kjörum sínum. Því vilja þeir stofna eigin flokk. Hið sama má segja um Framtíðarlandið. Alkunna er að ríkisstjórnarflokkarnir eru stóriðjuflokkar og stjórnarandstaðan að Vinstri grænum undanskyldum hafa ekki talað nægilega skýrum rómi í náttúruverndinni. Það hlýtur að vera stjórnarandstöðunni áhyggjuefni að hún virðist ekki njóta trausts nægilega stórs hluta kjósenda. Valdið til viðskiptalífsins Á liðnum áratug eða svo hafa orðið miklar breytingar í viðskiptalífinu. Með EES samningnum urðu milliríkjaviðskipti frjálsari, hnattvæðing jókst, einkavæðing einnig og þannig má lengi telja. Þetta hefur haft í för með sér að stjórnendur stærri fyrirtækja hafa fengið sífellt meiri völd. Það birtist bæði í launakjörum þeirra og áhrifum. Nú er seðlabankastjóri bara með brot af launum bankastjóra stærstu bankanna. Áður fyrr þurftu fyrirtæki á pólitískri fyrirgreiðslu að halda til að efla sig. Nú er þessu öfugt farið. Nú þurfa stjórnmálamenn á stuðningi fyrirtækja að halda. "Please don't go". Þeir biðla til fyrirtækja til að fara ekki úr landi með starfsemi sína. Það þýðir að upptaka evrunnar eða erlendra mynta í viðskiptum verður orðin að raunveruleika á næstu misserum. Þetta hefur einnig önnur áhrif í för með sér. Ungt framsækið fólk sem áður leitaði í stjórnmálin eftir völdum og áhrifum fer nú til starfa hjá stórfyrirtækjum. Það getur haft veruleg áhrif fyrir samsetningu þingmanna á Alþingi í framtíðinni. Kannski sjáum við þess merki þegar í dag. Mér finnst ekki vera mjög margir þingmenn á þingi sem geti greint vanda samtímans og bent á viðunandi lausnir. Horft til framtíðar Það einkennir stjórnmálaflokka eins og aðrar stórar stofnanir að þeim hættir til að líta til baka og byggja á grónum hefðum. Fyrir vikið reinist þeim örðugt að horfa fram á veginn. Mikið af þeim brýnu viðfangsefnum stjórnmálanna í dag tengjast hnattvæðingunni, ef vandi aldraðra og öryrkja er undanskilinn. Öldrunar- og öryrkjamálin eru klassísk skattastefnumál. Aukinn straumur innflytjenda, fjárfestingar fjölþjóðlegra fyrirtækja eins og útrásarfyrirtækja, gengi gjaldmiðla, hlýnun jarðar og eiturlyfjavandinn er alþjóðlegur í eðli sínu. Mér virðist að íslenkir stjórnmálaflokkar líta í miklu mæli á þessi viðfangsefni sem innlend vandamál sem eigi að leysa á innlendum vettvangi. Í því liggur vandi flokkakerfins í dag. Stjórnendur stjórnmálaflokkanna eiga mikið verk fyrir höndum í upphafi kosningabaráttunnar. Þeir þurfa að greina vanda samtímans, benda á viðunandi lausnir og reyna þannig að auka traust sitt gagnvart almenningi
https://www.vikubladid.is/is/frettir/baerinn-hefur-ekki-synt-neinn-ahuga
Bærinn hefur ekki sýnt neinn áhuga ,,Ég er þannig stemdur í þessu máli að ég stend við aðalfundarsamþykkt félagsins á sínum tíma þess efnis að það yrði skoðað að flytja frjálsíþróttaaðstöðuna á svæði félagsins og félagið væri tilbúið í viðræður þess efnis," segir Árni Óðinsson varaformaður Íþróttafélagsins Þórs. Árni er hins vegar ekki hrifinn af aðgerðarleysi bæjarins í málinu en Sigfús Ólafur Helgason formaður Þórs tjáði Vikudegi að 45 mánuðir eru liðnir frá því Þór sendi Akureyrarbæ erindi um málið en því erindi hefur enn ekki verið svarað. ,,Bærinn hefur ekki sýnt þessu neinn áhuga og það er nú ekki til að auðvelda málin," segir Árni. Hann segist halda að sífellt fleiri og fleiri Þórsarar séu að komast á þá skoðun að frjálsíþróttavöllurinn eigi ekki að fara inn á svæði Þórs. ,,Ég held að ástæðan fyrir þessu sé sú að menn sjá áhugaleysi bæjarins í málinu og félagið eigi ekki að vera í samstarfi við aðila sem hafi engan áhuga á því. ,,Mín persónulega skoðun er hins vegar sú að við skoðum hvaða möguleikar eru í boði því ég tel þetta bestu leiðina til að byggja félagssvæði okkar upp. Spurningunni um hvort ég sé með eða á móti því að fá frjálsíþróttavöllinn inná svæðið get ég hinsvegar ekki svarað fyrr en öll spil hafa verið lögð á borðið," sagði Árni. Ítarlega er fjallað um þetta mál í Vikudegi sem kemur út síðdegis á morgun, fimmtudag.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/vefsida-vikudags-opnud
Vefsíða Vikudags opnuð Elsti áskrifandi Vikudags og elsti íbúi Akureyrar, hinn 102ja ára gamli Ólafur Árnason, opnaði í dag nýja vefsíðu Vikudags á vefslóðinni http://www.vikudagur.is/ . Ólafur hefur átt samleið með blaðinu lengi og því þótti við hæfi að þessi aldni höfðingi tæki þetta skref blaðsins inn í framtíðartæknina. Vikudagur hefur til þessa ekki verið með sérstaka fréttavefsíðu, en stefnir að því að margfalda þjónustuna við lesendur sína með tilkomu frétta-og upplýsingavefsins. Blaðið og vefurinn munu vinna saman og veita heildstæða fréttaþjónustu þar sem vefur mun fylla upp í skörð sem blaðið skilur eftir og blaðið mun bæta inn í og fullkomna þá mynd sem fram kemur á vefnum. Það er fyrirtækið Stefna sem hýsir vefinn fyrir Vikudag, en blaðamenn blaðsins munu sjá um að skrifa inn á hann og daglega verða settar inn fréttir og upplýsingar sem skipta lesendur máli. Meðal nýjunga sem teknar verða upp á vefsvæðinu http://www.vikudagur.is/ má nefna sérstaka bíla og umferðarumfjöllun sem Úlfar Hauksson framkvæmdastjóri og bílaáhugamaður mun fjalla um. Þá verða birtar mataruppskriftir úr Matarkróki Vikudags sem hafa verið sérstklega vinsælar. Næstu vikur og mánuði mun vefsíðan vera í stöðurgri þróun og eru lesendur hvattir til að senda okkur ábendingar um það sem betur mætti fara. Í október síðastliðnum var rætt við Ólaf Árnason í tilefni af 102 ára afmæli hans. Viðtalið við hann fer hér á eftir: Ólafur Árnason 102 ára: Hef séð um mig sjálfur alla tíð og geri enn Ólafur Árnason mjólkurfræðingur á Akureyri fagnaði 102 ára afmæli sínu sl. þriðjudag. Ólafur er Þingeyingur að ætt, frá Kvíslarhóli á Tjörnesi, en hann fæddist á Húsavík 24. október 1904. Ólafur átti 12 systkini, var sjálfur í miðjum hópi og hann á einn bróður, 10 árum yngri, á lífi. Ólafur býr í Lindasíðu á Akureyri , unir hag sínum vel og er sáttur við sitt hlutskipti. Hann er við ágæta heilsu, þótt sjón og heyrn séu farin að daprast, en hann les blöð og bækur, horfir á sjónvarp og hlustar á fréttir. Ólafur var að horfa á fréttirnar í Sjónvarpinu þegar Vikudagur heimsótti hann í gærkvöld en hann er einmitt elsti áskrifandi blaðsins. Ólafur sagðist hafa búið einn alla tíð, ógiftur og barnlaus, ávallt verið í leiguíbúðum, aldrei átt bíl og ekki ekið bíl frá því hann lærði á bíl á sínum tíma. Hann gekk mikið og telur að það hafi haft sitt að segja. "Ég hef haft jafna og góða heilsu og getað séð um mig sjálfur alla tíð og geri enn. Ég hef lifað reglubundnu lífi - breytingar eiga ekki vel við mig og ég reyni að forðast þær," sagði Ólafur, sem er ekkert farinn að hugsa um að fara á elliheimili. Hann segir gott að búa í Lindasíðunni, enda rólegt yfir hlutunum. "Ég tek lítinn þátt í félagsstarfinu hér en fylgist frekar með fréttum og hef mjög gaman af landsmálafréttum." Ólafur sagði þjóðfélagið á réttri leið á margan hátt en þó væri erfitt að stjórna Íslendingum, sem hætti til að fara feti of langt. Þá telur hann ökumenn sem aka allt of hratt vera hættulega umhverfinu. Ólafur sagðist hafa á sínum yngri árum starfað sem vinnumaður við landbúnað á Tjörnesi, í Aðaldal, í Kelduhverfi og í Mývatnssveit. "Ég fór úr Mývatnssveitinni í búfræðinám á Hólum í Hjaltadal en að því loknu kom ég til Akureyrar og fór að vinna í Mjólkursamlagi KEA árið 1935." Hann fór og lærði mjólkurfræði í Danmörku en kom svo aftur til KEA og vann í Mjólkursamlaginu á tveimur stöðum í Gilinu og svo í núverandi húsnæði Norðurmjólkur við Súluveg. Hann hætti í föstu starfi hjá KEA eftir 40 ár en vann þó við sumarafleysingar til ársins 1982. Þá stundaði hann rjúpna- og laxveiðar fram til árins 1985 en hefur haft hægt um sig frá þeim tíma.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/samherji-ad-kanna-kaup-a-frystitogara
Samherji að kanna kaup á frystitogara Samherji er að kanna kaup á norska frystitogaranum Andenesfisk II samkvæmt frétt á mbl.is í morgun. Um er að ræða fimm ára gamalt skip sem er 55 metrar að lengd og 12,2 metrar að breidd. Hann er með 4.000 hestafla aðalvél, og útbúinn til að draga tvö troll í einu. Skipið verður ekki selt með aflaheimildum og er núverandi eigandi, Andenes havfiskselskap, að kanna leiðir til að flytja heimildirnar yfir á annað skip félagsins eða fá að geyma þær. Enn eru kaupin á skipinu ekki frágengin og fyrr en botn er kominn í hvað verður um veiðiheimildirnar sem á því eru mun þessi sala ekki verða kláruð.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/glaesileg-sundlaug-i-notkun
Glæsileg sundlaug í notkun Ný og glæsileg sundlaug við Hrafnagilsskóla var formlega tekin í notkun sl. laugardag að viðstöddu fjölmenni. Við sama tækifæri var viðbygging við leikskólann Krummakot eining tekin formlega í notkun.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/harma-akvordun-gudmundar
Harma ákvörðun Guðmundar Í yfirlýsingu sem stjórn og trúnaðarmannaráð Sjómannafélags Eyjafjarðar hefur sent frá sér er hörmuð sú ákvörðun Guðmundar Kristjánssonar forstjóra að breyta skráningu togara með áratuga farsæla útgerðarsögu á Akureyri án útskýringa og sýnilegs tilgangs. Yfirlýsingin kemur í kjölfar snarpra orðaskipta milli Konráðs Alfreðssonar formanns Sjómannafélagsins og Guðmundar um samskipti Brims og sjómannasamtakanna hér á svæðinu. Hér á eftir fer yfirlýsing Sjómannafélagsins í heild sinni: "Hið sanna um samskipti Sjómannafélags Eyjafjarðar og Brims hf."- Yfirlýsing frá stjórn og trúnaðarráði Sjómannafélags Eyjafjarðar 13. janúar 2007 Í kjölfar ákvörðunar Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra Brims hf., um að breyta umdæmisstöfum togara fyrirtækisins úr EA í RE hefur hann varist spurningum fjölmiðla um ástæður þess með því að ráðast með ósmekklegum hætti að Sjómannafélagi Eyjafjarðar, stjórn þess, starfsmönnum og félagsmönnum öllum. Stjórn og trúnaðarráð Sjómannafélags Eyjafjarðar harmar þá ákvörðun forstjórans að breyta nú skráningu togara með áratuga farsæla útgerðarsögu að baki á Akureyri án útskýringa og sýnilegs tilgangs. Það er hins vegar fullkomlega ljóst að vald Guðmundar sem forstjóra og aðaleiganda Brims til þessa gjörnings er ótvírætt en eðlilega er spurt um ástæður hjá hinu gróna útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki Akureyringa. Stjórn og trúnaðarráð Sjómannafélags Eyjafjarðar telur sig knúna til að leiða hið sanna í ljós um samskipti félagsins og Brims hf. í ljósi þeirra miklu yfirlýsinga og ósanninda sem forstjórinn hefur látið frá sér fara í fjölmiðlum. Ásakanir um óbilgirni og skort á samningsvilja Forstjóri Brims hefur opinberlega sakað Sjómannafélag Eyjafjarðar um skort á samningsvilja, óbilgirni og annað í þeim dúr. Forstjórinn hefur fullyrt að félagið standi í vegi fyrir þróun í útgerð fyrirtækisins. Ekkert er fjarri sanni. Í fyrsta lagi ber að hafa í huga að allir sjómenn í landinu, í hvaða félagi svo sem þeir eru, róa samkvæmt gildandi kjarasamningi sjómanna og útgerðarmanna. Um sérkjarasamninga, einstaklingsbundna eða áhafnarbundna, er ekki að ræða en þó er gert ráð fyrir að hægt sé að gera samkomulag um frávik frá kjarasamningnum um hafnarfrí og vegna nýrra verkunaraðferða. Hér skulu nefnd þau tvö tilvik sem á slíkt hefur reynt við Brim á undanförnum árum. 1. Snemma árs 2006 var gert samkomulag um frávik frá hafnarfríi vegna togarans Harðbaks. Megin inntak þess samnings var breyting á inniverufyrirkomulagi og góð sátt náðist með samkomulagi um það mál sem undirritað var 6. mars 2006. 2. Þann 9. nóvember 2006 samþykktu áhafnir togaranna Sólbaks og Árbaks án mótatkvæða samning um paratrollsveiðar skipanna tveggja. Ákvæði um slíkar veiðar er ekki að finna í aðalkjarasamningi og því var nauðsynlegt að taka upp viðræður við útgerðina um þetta ákvæði. Þó í fyrstu kröfum hafi útgerðin lagt áherslu á að sjómenn tækju að sér löndun skipanna var fallið frá því og samningurinn undirritaður. Samningsgerðin tafði á engan hátt fyrir fyrirtækinu við þessar breytingar útgerðarhátta og ekki getur forstjóri Brims kvartað yfir niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar. Með öðrum orðum standa engin ágreiningsefni um kjarasamninga út af borðinu milli Sjómannafélags Eyjafjarðar og Brims hf. Fullyrðingar um óbilgirni og engan samningsvilja sjómanna hljóta því að hljóma meira en lítið ósanngjarna fyrir sjómenn, sér í lagi starfsmenn Brims hf. um borð í umræddum skipum sem samþykktu þessa samninga með nánast öllum greiddum atkvæðum. Ásakanir um tilhæfulausar kærur Hinn hluti fullyrðinga Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra Brims hf., snýr að ásökunum um kærur frá Sjómannafélaginu á hendur útgerðinni fyrir brot á kjarasamningum. Tvær kærur hafa verið sendar fyrirtækinu sem hér skal gerð grein fyrir. Kæra var send Brimi í janúar 2005 vegna brots á ákvæðum um lengd veiðiferðar. Brotið átti sér stað í nóvember 2004 þegar togarinn Sléttbakur var á sjó í 50 sólarhringa en heimild er um hámark 40 sólarhringa útiveru í kjarasamningi. Fyrirtækið hafði uppi ágreining um þessa kröfu og tapaði málinu fyrir Félagsdómi 16. júní 2005 og greiddi sekt, svo sem ber samkvæmt kjarasamningi. Kæra var send vegna fyrstu paratrollsveiðiferðar togaranna Sólbaks og Árbaks í október 2006. Brotið var gegn ákvæðum kjarasamnings um lengd inniveru. Áðurnefndur samningur milli útgerðar og sjómannafélagsins lá ekki fyrir samþykktur af áhöfnum fyrr en 9. nóvember þannig að um inniveru giltu, þegar veiðiferðin átti sér stað, aðeins ákvæði almenns kjarasamnings sjómanna og útgerðarmanna. Brim hefur enga athugasemd gert við þessa kröfu en ekki greitt enn samkvæmt sektarákvæðum kjarasamnings. Engin ágreiningsefni á borðinu Framangreint eru samskipti Brims við Sjómannafélag Eyjafjarðar sem forstjóri Brims kýs að saka um "óbilgirni", "skort á samningsvilja", "engan samstarfsvilja", "standa gegn framþróun" og þar fram eftir götum. Af framangreindu má sjá að ekkert stendur út af borði hvað varðar kjarasamninga og sjómenn standa félaginu ekki fyrir þrifum í breyttu útgerðarmynstri. Sé það svo að þetta mál snúist um að Brim vilji ekki hlíta eigin kjarasamningum er það agavandamál innan LÍÚ. Sjómenn og útgerðarmenn bera jafn mikla ábyrgð á kjarasamningi og sjómenn treysta því að LÍÚ líði ekki eigin félagsmönnum að komast upp með endurtekin brot á kjarasamningi sem báðir eiga aðild að. Til hvers væru ákvæði kjarasamninga ef viðtekin venja væri af hálfu annars aðilans að brjóta þau? Snúist þetta mál um að forstjóri Brims sé með skipulögðum hætti að hafa áhrif á stéttarfélagsaðild starfsmanna sinna er það ekki einungis siðferðilega ósmekklegt heldur og einnig brot á vinnulöggjöf í landinu. Áhafnarmeðlimir Brims eiga áfram skýlausan rétt til eigin ákvörðunar um stéttarfélagsaðild og greiðslu sinna félags-, sjúkra- og orlofssjóðsgjalda hvaða einkennisstafi svo sem togarar Brims bera. Sé forstjóri Brims að gefa í skyn með aðgerð sinni og ummælum að hann komist upp með brot á samningum með skip sín skráð í Reykjavík frekar en Akureyri hlýtur slíkt háttalag að dæma sig sjálft. Stjórn og trúnaðarráð Sjómannafélags Eyjafjarðar vísa hér með á bug með rökum að hægt sé að kenna félaginu um þá aðgerð Brims að flytja skip félagsins til höfuðborgarsvæðisins. Fyrir því hlýtur Guðmundur Kristjánsson, aðaleigandi Brims, að hafa aðrar ástæður sem hann kýs að halda utan dagsljóssins. Stjórn og trúnaðarráð Sjómannafélags Eyjafjarðar
https://www.vikubladid.is/is/frettir/aramotahugleiding
Áramótahugleiðing Margrét Kristín Helgadóttir skrifar Áramótin eru einn besti tími ársins. Þegar að gamla árið er að klárast og það nýja tekur við. Maður byrjar einhvernveginn á nýrri byrjun við hver áramót. Á þessu ári ætla ég að vera betri manneskja, eyða meiri tíma með fjölskyldunni, vinna heimavinnuna mína betur og síðast en ekki síst fara í heilsuátak til að komast í kjólinn fyrir næstu áramót sem ég komst ekki í, í ár. Það að vera umvafinn fólkinu sem maður elskar á slíkum tímamótum er ómetanlegt. Að rifja upp liðna árið og fá áminningar um að heilsuátakarheitið sem ég strengdi síðustu áramót hafi ekki farið sem skyldi. Maður rennur ósjálfrátt huganum að þeim sem að eru ekki jafn heppnir. Þeir sem að eiga engan að og hafa engan sérstakan samastað yfir hátíðirnar. Það eru fleiri en maður grunar. Margir einstaklingar hafa brennt allar brýr að baki sér með þeim fylgidjöflum sem elta þá sem eru langt leiddir í fíkniefnaneyslu. Bara núna á annan í jólum heyrði ég af ungmennum sem að höfðu brotist inn á jóladag, í verslun hér í bæ. Það fylgdi nú ekki sögunni hvort að þeir einstaklingar hafi verið í einhverskonar vímuefnanotkun en bara það að heyra af þessu var nóg til að leiða hugann að öllum þeim fjölda innbrota og líkamsárása sem maður hefur heyrt um og hafa verið tengd fíkniefnaneyslu. En að hugsa sér að fá fregnir af því að barnið manns hafi tekið þátt í innbroti og það á sjálfan jóladag. Það getur ekki verið góð lífsreynsla. Þessir einstaklingar hafa þó að öllum líkindum ekki setið inni nema eina nótt og reynslan hefur sýnt að margir hverjir fara jafnvel í annað innbrot kvöldið sem þeim er sleppt. Auðvitað kennir neyðin naktri konu að spinna, eins og einhversstaðar var sagt, og ég trúi ekki öðru en að einstaklingar sem að gera svona lagað séu að gera það í tómri örvæntingu og örvinglun. Ef að það að ræna verslun er fýsilegur kostur þá hlýtur hinn kosturinn að vera verri eða einfaldlega ekki til staðar. Við þurfum að hlúa betur að ungmennum okkar. Við þurfum einhvernvegin að koma í veg fyrir það að þjófnaðir séu kostur til að byrja með og það hljótum við að gera með því að útrýma vímuefnaneyslu ungmenna. Ómögulegt, hugsar einhver. En þó ekki ógerlegt. Við megum ekki gleyma né vanmeta þá undirstöðuþættir sem við höfum. Það er enn ólöglegt að drekka áfengi ef þú ert yngri en 20 ára, það er enn ólöglegt að vera með áfengi á almannafæri og við höfum útivistarreglurnar. Þetta eru dæmi um lög og reglur sem eru til staðar en virðast gleymast en mega það einmitt ekki. Mörgum finnast þarna ekki verið að taka á það alvarlegum málum en það má ekki gleymast að flest allir sem fara í meðferð vegna fíkniefnavanda byrjuðu á sínum tíma að drekka bjór. Það byrja fæstir á því að stinga nálinni í handlegginn.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/fikniefnaneysla-barna-og-unglinga
Fíkniefnaneysla barna og unglinga Þorvaldur Ingvarsson, lækningaforstjóri FSA, skrifar Ég vil ganga svo langt að líkja því við að þegar börn og/eða unglingar byrja neyslu fíkniefna þá sé það vegna þess að þau valda einfaldlega ekki því frelsi sem þeim er gefið. Neytendur fíkniefna verða sífellt yngri og fleira fylgir í kjölfarið sem miður fagurt er. Eðli málsins samkvæmt eykst brotatíðni barna og unglinga og brotin gegn samfélaginu verða grófari þegar fram líða stundir. Það þarf að taka þennan málaflokk mun fastari tökum en verið er að gera og þó að aukin löggæsla sé á dagskrá og síendurskoðað umhverfi barnanna sé í farvatninu, í skólum og öðrum stofnunum, þá þarf að mínu mati fleira að koma til. Það er mjög mikilvægt að bregðast við um leið og börn eða ungmenni brjóta af sér í fyrsta sinn, til að minnka líkurnar á því að þau haldi áfram að feta þá braut og sökkva dýpra í neyslu og afbrot með tímanum. Því miður er það svo að þegar fólk brýtur af sér t.d. með notkun fíkniefna þá er viðkomandi sleppt eftir rannsókn málsins í bið eftir dómi. Í mínum huga er hér ákveðið úrræðaleysi. Viðkomandi einstaklinga þá sérstaklega börn og ungmenni á að dæma strax og þá i langtímameðferð. Sú meðferð á að taka mið að högum viðkomandi einstaklings og ekki endilega fara fram á stofnun heldur vera einstaklings hæfð og byrja strax. Ekki á að bíða eftir því að viðkomandi brjóti af sér aftur og aftur þar til hægt er að sakfella hann. En þegar sakhæf börn og ungmenni eru sakfelld fyrir dómi, þá hefur það því miður verið eina úrræðið fyrir utan fangelsisvistun að skilorðsbinda dóma. Skv. lögunum er hægt að skilorðbinda dóma þannig að viðkomandi þurfi að sitja af sér dóminn í fangelsi, ef hann brýtur aftur af sér á skilorðstímanum. En það er einnig unnt að skilorðsbinda dóma þannig að viðkomanda beri skylda til að fara í meðferð og/eða að neyta ekki áfengis né fíkniefna á skilorðstímanum. Þetta er úrræði sem ég vil að verði komið í framkvæmd með öflugum hætti, en þetta hefur því miður ekki verið nýtt sem skildi enda ýmislegt sem þarf til þannig að þetta verði meira en orðin tóm. Til þess að slíkir skilorðsbundnir dómar hafi tilætluð áhrif til að hjálpa ungum gerendum, þarf fyrst og fremst að skapa möguleika til að byggja upp sérstakar bæði skammtíma og langtíma meðferðarstofnanir, til að koma þessum ungmennum á beinu brautina. Mörg ungmenni hafa verið í mikilli og harðri neyslu s.s. sprautufíklar , þessir gerendur hafa lítið gagn af skammtímameðferð, þau fara nánast alltaf í sama farið innan skamms. Til að raunverulega hjálpa þessum hópi þarf meira til og þá þurfa þau á langtímameðferð að halda, jafnvel allt upp í 1-2 ár. Í dag eru engar stofnanir sem sérhæfa sig í meðferð þessara ungmenna þannig að raunverulega sé tekið á vandanum. Fjármagn þarf til þess að koma upp skilvirku eftirlitskerfi með skilorðsbundnum gerendum þannig að skilorðsbundnir dómar séu ekki orðin tóm, Til að tryggja að slík úrræði yrðu nýtt sem skildi þarf að lögfesta það að ávallt skuli skilorðsbinda dóma með þessum hætti þegar börn eða ungmenni eru gerendur í málum sem varða tveggja ára fangelsi eða minna. Það fjármagn sem þarf til að koma upp umræddum stofnunum er mjög vel varið og kostar samfélagið mun minna en að hafa unga neytendur í hringiðu samfélagsins, þar sem þau halda áfram að valda sjálfum sér og öðrum skaða. Samkeppni á milli kynslóða um lífsgæði á ekki að eiga sé stað. Sú firring sem birtist með auknu ofbeldi og aukinni fíkniefnaneyslu verður að stöðva. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra og lausnin byggist á þeirri trú minni að það besta búi í okkur sjálfum. Þetta málefni er mér mjög hjartfólgið og mun ég leggja mikla áherslu á að koma ofangreindum hugmyndum í framkvæmd, enda fátt hræðilegra en að horfa upp á efnileg börn og ungmenni sökkva í fen neyslu og afbrota.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/gefjunarhusid-takn-fyrir-idnadarbaeinn
Gefjunarhúsið: tákn fyrir iðnaðarbæinn Grein eftir Þórarin Hjartarson Menn segja: - Við eigum ekki að keppa við önnur lönd um almenn framleiðslustörf, líkamleg störf, láglaunastörf. Menn segja: - Ísland er á leiðinni frá framleiðsluþjóðfélagi til þjónustuþjófélags svo það er eðlilegt að framleiðslan færist í austur, þangað sem lægri eru launin og skilyrðin betri. Menn segja: - Það er gott mál að flytja framleiðslu BYKO og Actavis til Austur-Evrópu, eðlilegt að flytja vinnuaflsfreka fatagerð til Austur-Asíu, í skattaparadísirnar og þrælabúðirnar. Menn segja: - Framtíðin liggur í menntafólki, hugviti og fjármálaþjónustu. Sumum finnst þessi hnattvæðing voða fín þróun. Mér finnst það nú ekki. Hvað er fínt eða eðlilegt við það að Pólverjar og Kínverjar eigi að framleiða en Íslendingar að ástunda hugvit og fjármálaþjónustu? Þetta er gamaldags nýlendustefna í hugsun. Svo verður íslenskt framleiðslulíf sífellt fábreyttara og brátt verður fátt annað framleitt hér en ál. Til hvers er ég að röfla þetta? Jú, í minningu iðnframleiðslunnar á Gleráreyrum. Á þessu ári var stöðvuð síðasta framleiðslan í þeim verksmiðjuiðnaði sem þar var stundaður á aðra öld, nánar tiltekið þegar þegar Skinnaiðnaður hætti framleiðslu í febrúar sl. Tóvélar Eyfirðinga hófu ullarvinnslu á Gleráreyrum árið 1897, fjórir starfsmenn unnu þar við eina kembivélasamstæðu, spunavél og tvinnigarvél sem snérust fyrir vatnskrafti úr Glerá. Það var upphaf verksmiðjuþorps sem lengi var atvinnuleg þungamiðja Akureyrar. Þróunin varð stig af stigi: ullardúkar, vefnaður og prjón, skinnaiðnaður, sútun, skógerð, bómullariðja, klæðagerð í sífellt stærri stíl fyrir innlendan markað og erlendan, mokkasútun, skinnfatagerð. Eftir að síðasta tollvernd iðnvarnings var afnumin 1980 þyngdist reksturinn mjög. En verksmiðjuframleiðsla hafði staðið þarna í 109 ár þegar starfsfólk Skinnaiðnaðar yfirgaf vinnustaðinn í síðasta sinn, á sömu lóð og Tóvélarnar fóru í gang 1897. Almennt held ég að Akureyringar hugsi með trega til þess iðnaðar sem þarna lifði og dó. Það er eðlilegt. Fötin og skórnir frá Akureyri voru landsmönnum lífsnauðsyn á tímum heimskreppu og heimsstyrjaldar. Iðnaður bæjarins takmarkaðist aldrei við Gleráreyrar en þar var framleiðslan þó mest. Þegar mest var, kringum 1980, störfuðu þar um 1000 manns. Flestar fjölskyldur bæjarins áttu einhverja tengingu inn í verksmiðjurnar. Sjálfur vann ég þar við sútun eitt ár þegar ég var nýfluttur í bæinn. Svo telja ýmsir eins og ég að við þyrftum ennþá alhliða atvinnulíf, að það sé mikil sóun verðmæta að leggja niður iðnað á Íslandi, sóun að henda þeirri verklegu þekkingu og færni sem hér hafði myndast (ég þekki það vel sem skipasmiður), sóun að hætta annarri framleiðslu en áli. Okkur finnst atvinnulífið fátæklegra á eftir. Nú hefur það sem eftir er af gömlu verksmiðjunum verið keypt til niðurrifs. Það er tímanna tákn að í stað verksmiðjuhúsanna skuli rísa hver verslunarhöllin af annarri og að við bráðum fáum að sjá eins og eina Smáralind á rústum gamla iðnaðarþorpsins. Það er óvíst að grónir Akureyringar verði mjög upprifnir yfir skiptunum. Í haust hefur Jón Arnórsson sögubjargvættur ítrekað vakið athygli á því í blöðum (m.a. Vikudegi 26. október) að varðveita verði brot þessarar atvinnusögu og stóra kafla úr bæjarsögu. Hugmynd hans er að bjarga einu húsi, elsta og sögufrægasta húsinu á Eyrunum: gamla Gefjunarhúsinu sem reist var af Verksmiðjufélagi Akureyrar árið 1907. Í því húsi var aðalstarfsemi ullarverksmiðjunnar fram yfir 1950 og síðar voru þar aðalskrifstofur SÍS-verksmiðjanna fram um 1990. Húsið er elsta stóra steinhús á Akureyri (úr múrsteini og steinsteypu) og arkítektúr þess var um margt sérstakur. Hugmyndin er því snjöll. Húsafriðunarnefnd ríkisins hefur látið frá sér álit þar sem segir m.a.: „Gefjunarhúsið hefur mikið varðveislugildi vegna fágætis, menningarsögu og byggingarlistar." Auðvelt ætti að vera að finna húsinu nýtt hlutverk í hinu nýja verslunarsamhengi. En mér skilst að sú hugmynd hafi ekki hlotið hljómgrunn hjá skipulagsyfirvöldum bæjarins, hvað þá hinum nýju eigendum. Mér er tjáð að sú barátta sýnist töpuð þar sem hvorki sé áhugi fyrir slíku hjá hinum nýju eigendum né bæjaryfirvöldum. Jón Arnþórsson kvað þá eiga sér plan B: að varðveitt verði eitt veggjarbrot gamla hússins sem minnisvarði um atvinnusöguna miklu. Smátt finnst mér það. Ef þetta hús verður rifið sýnist Akureyri vera sinnulaus um fortíð sína. Fyrir hönd fyrrverandi starfsfólks á Gleráreyrum set ég fram óbreytta lágmarkskröfu: Látið gömlu Gefjuni standa! Þórarinn Hjartarson
https://www.vikubladid.is/is/frettir/ysu-og-thorskbollur-og-heimalagadar-kjotbollur
Ýsu- og þorskbollur og heimalagaðar kjötbollur Jóhanna Júlíusdóttir hjúkrunarfræðingur leggur til uppskriftir í fyrsta matarkrók á nýju ári en hún tók áskorun Bergljótar Jónasdóttur frá því fyrir jól. Jóhanna segir að eftir jólahátíð hafi fólk gott af því að borða fisk, sem sé bæði hollur og góður. "Hér eru uppskriftir af fiskibollum sem mér finnst aldrei klikka. Hérna áður fyrr þegar ég var að búa til fiskibollur slumpaði ég svona þessu og hinu eins og móðir mín sagði mér að hún gerði. Oft voru bollurnar fínar og góðar en stundum brást það og ég áttaði mig aldrei hvað olli því. Eftir að ég fór að styðjast, alla vega að mestu við þessar uppskriftir bregðast þær sjaldan. Mér finnst gott að gera stóra uppskrift í einu þar sem svolítið umstang er við bollugerðina. En það er alveg frábært að eiga þær í frystikistunni og börnum finnast þær mjög góðar," segir Jóhanna. Ýsubollur 2. kg. ýsuhakk 2 ½ msk. salt 1 ltr. mjólk ( má vera rúmlega það) 150 gr. kartöflumjöl 60 gr. hveiti 1 egg, 1-2 hakkaðir laukar ( má sleppa), pipar. Þorskbollur 2. kg. þorskur 2 ½ msk. salt 1. ltr. mjólk 200 gr. kartöflumjöl 100 gr. hveiti 1 egg, hakkaður laukur, pipar. Mér hefur reynst best að hræra þetta vel og lengi í hrærivél. Steikt upp úr olíu á pönnu og soðið í ca. 15. mín. Gott er að hafa brúna sósu, gott salat og kartöflur með. Ég læt líka fylgja með uppskrift af heimalöguðum kjötbollum. Kjötbollur 500 gr. nautahakk 2-3 formbrauðsneiðar rúmlega ½ dl. mjólk 1 egg 1 laukur hakkaður eða brytjaður smátt pipar, salt og það krydd sem ykkur finnst passa. Brauðið er bleytt í mjólkinni, síðan er öllu hinu bætt út í og hrært vel. Gott að láta þetta bíða smástund fyrir steikingu. Að lokum eru mótaðar bollur og steikt í olíu. Soðið í nokkrar mínútur. Ég set þetta gjarnan í eldfast mót með smá vatni í og steiki bollurnar í ofninum. Bý síðan til sósu úr soðinu og bragðbæti. Með þessu passar vel að hafa karöflumús og gott hrásalat. En það er um að gera að láta hugmyndaflugið ráða og mörgum finnst gott að hafa súrsæta-sósu með svona bollum og þá er bara einfalt að kaupa hana tilbúna í krukku. Jóhanna skorar á Aðalheiði Guðjónsdóttur, leikskólakennara á Naustatjörn að koma með uppskriftir í næsta matarkrók og segir að hún kunni ýmislegt fyrir sér í eldhúsinu.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/kjuklingabringur-med-papaja-salsa-og-fiskrettur
Kjúklingabringur með papaja-salsa og fiskréttur Sonja Björk Elíasdóttir tók áskorun Hólmfríðar Guðnadóttur í síðustu viku og er mætt hér með girnilega rétti í matarkrókinn, annars vegar kjúklingarétt og hins vegar fiskrétt. "Mmmm matur. Eitt af mínum áhugamálum er matur og matargerð," segir Sonja Björk. "Ég er dugleg að prófa eitthvað nýtt og elda þá aðallega fisk og kjúkling en er einnig með ýmislegt gott sem maður ólst upp við eins og slátur. Ég tek slátur á hverju ári með mömmu enda er slátur uppáhaldsmatur yngri dóttur minnar. Ég ákvað að senda inn kjúklingarétt, hann er ótrúlega góður, einfaldur og hollur og hef eldað hann nokkrum sinnum." Kjúklingabringur með papaja-salsa (fyrir 4) 4 kjúklingabringur Cajun spice mix (kryddblanda) Salt og pipar Olía til steikingar Kryddið kjúklinginn og steikið við meðalhita þar til hann er steiktur í gegn. Papaja-salsa: 2 papaja 1 avakadó 4 stórir tómatar ½ sítróna 1 lime Salt og pipar Kórianderlauf Hreinsið og afhýðið papaja og avakadó og takið innan úr tómötunum. Skerið það síðan í teninga. Kreistið síðan safann úr sítrónunni og lime-inu yfir og kryddið. Blandið þessu vel saman. Saxið kórianderlaufin og stráið yfir. Setjið salsa blönduna á fat og bringurnar yfir. Það má borða þetta eitt og sér en einnig er gott að bera fram nan-brauð með réttinum. Verð að láta þennan fljóta með, mamma gaf mér uppskriftina fyrir mörgum árum og hann er alltaf góður. Fiskréttur 650 gr. þorskur eða ýsa Gróft salt Sítrónusafi ½ pk frosin sælkerablanda ¼ pk frosið brokkolí 1 grænmetiskraftur Sósan: ½ dolla sveppaostur ¼ dolla blaðlauksostur ¾ dl rjómi Kryddað eftir smekk t.d. aromat, picanta, salt, paprikuduft Tómatar Havarti ostur m/papriku Fiskurinn er soðin í saltvatni og með smá sítrónusafa og settur í eldfast mót. Grænmetið er soðið með grænmetisteningnum og sett yfir fiskinn. Osturinn er hitaður ásamt rjómanum og hellt yfir grænmetið. Tómatarnir eru skornir í þunnar sneiðar og raðað yfir og Havarti osturinn settur yfir. Þetta er bakað í 20 mín við 180°C. Borið fram með hrísgrjónum og snittubrauði. "Verði ykkur að góðu. Ég skora á Ingibjörgu Ringsted að töfra fram lostæti í næsti viku."
https://www.vikubladid.is/is/frettir/ponnugrilladur-saltfiskur-i-itolskum-anda
Pönnugrillaður saltfiskur í ítölskum anda Ingibjörg Ringsted tók áskorun Sonju Bjarkar Elíasdóttur og leggur hér til girnilega rétti í matarkrókinn. "Nú í desember eru jólahlaðborð og kjötveislur í algleymingi. Þess vegna fannst mér upplagt að koma með uppskrift að fiskrétti. Fiskurinn er alíslenskur en rétturinn er þó í ítölskum anda enda er ítölsk matargerð alveg frábær og í raun oft frekar einföld matseld. Ekki skemmir að í dag er mjög auðvelt að nálgast allt hráefni sem þarf að nota í framandi rétti. Ég á marga uppáhaldsrétti frá ýmsum löndum, sérstaklega „allt upp á einn disk" rétti. Saltfiskurinn varð fyrir valinu núna, ekki síst þar sem uppskriftin er fljótleg og góð, nokkuð sparileg og hentug í annríki desembermánaðar, " segir Ingibjörg. Pönnugrillaður saltfiskur með tómat-risotto (fyrir 4) Risotto: ½ - 1 dl ólífuolía (extra virgin er best) 1 smátt saxaður laukur 2 pressuð hvítlauksrif 400 g Arborio hrísgrjón (tegundin sem notuð er í risotto) 2 -3 msk tómatþykkni 1 dós niðursoðnir brytjaðir tómatar 1 bolli hvítvín (má nota 2-3 msk af hvítvínsediki í staðin) Örlítið chilli duft 1 bolli sjóðandi vatn Kraftsoð: 1 msk eða teningur af fiskikrafti og sama magn af kjúklingakrafti leyst upp í 3 bollum af sjóðandi vatni.. Olían hituð í potti, lauk og hvítlauk skellt í olíuna og hrært vel í þar til allt er orðið mjúkt. Þá er hrísgrjónum hellt út í og hrært vel í þannig að allt blandist vel og grjónin hafa tekið til sín olíuna. Þá er tómaþykkni, tómötum, hvítvíni, chilli dufti bætt í ásamt 1 bolla af sjóðandi vatni. Allt látið sjóða við hægan hita þar til vökvinn er horfinn. Þá er kraftsoðinu bætt smátt og smátt út í og soðið áfram þar til grjónin eru orðin „al dente" og hafa dregið til sín allan vökvann. Þessi grjón eiga að loða saman og heildar suðutíminn er u.þ.b. 20 mín. Á meðan grjónin eru að malla er upplagt að gera fiskinn kláran. Fiskurinn: 800 g saltfisk steikur, mæli með Ektafiski (tilbúnar til eldunar, mjög góðar) ½ - 1 dl. ólífuolíu, 1-2 hvítlauksrif og mulinn svartur pipar Hvítlauksrifin eru pressuð út í olíuna og fiskstykkin pensluð létt með olíunni. Best er að steikja fiskinn á rifflaðri grillpönnu og hafa hitann ekki of mikinn. Það má líka nota venjulega pönnu eða grilla fiskinn í ofninum. Fiskurinn er steiktur í 4-6 mínútur á hvorri hlið á grillpönnunni, allt eftir því hvað stykkin eru þykk. Smá pipar yfir. Má bregða stykkjunum inn í ofn í örfáar mínútur ef fiskurinn virkar hrár í miðjunni. Sett upp á diska, fyrst risotto sem undirlag og setja svo saltfiskstykkið á miðjuna. Skreytt t.d. með basilblöðum.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/spaenskur-kjuklingarettur-fyrir-8-manns
Spænskur kjúklingaréttur fyrir 8 manns Gunnar Halldór Gunnarsson tók boltann á lofti frá Rósu Kristjánsdóttur í síðasta matarkrók og snarar hér fram spænskum kjúklingarétti fyrir 8 manns Gunnar segir að þessi réttur sé alveg tilvalinn fyrir fjölmenna veislu og er þá uppskriftin stækkuð í samræmi við fjöldann. Hann segir að það besta við þennan rétt að allt sé gert kvöldið áður og því þurfi ekkert að gera sama daginn og veislan fer fram en að setja réttinn í ofninn og gera meðlætið klárt. "Þið getið rétt ímyndað ykkur hversu þægilegt þetta er og hér hér koma herlegheitin." 1 kjúklingur í bitum eða 8 bringur en skera þær í þrennt hvítlauksrif brytjað 1/4 bolli oregano 1/2 bolli rauðvínsedik 1/2 bolli olívuolía 1 bolli sveskjur,brytjaðar 1/2 bolli olívur 1/2 bolli kapers 6 mulin lárviðarlaug ¼ bolli söxuð steinselja. Öllu þessu er blandað saman og sett yfir kjúklingabitana og geymt í ískáp í einn sólarhring Lagt í fat og 1 bolli púðusykur settur yfir herlegheitin, ásamt einum bolla af hvítvíni og steinseljunni. Sett í ofninn í 1 klukkustund. Borið fram með hrísgrjónum og brauði. Gunnar Halldór skorar á Hólmfríði Guðnadóttur að leggja til uppskriftir í matarkrókinn að viku liðinni.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/kjuklingur-og-ofnsteikt-graenmeti
Kjúklingur og ofnsteikt grænmeti Rósa Kristjánsdóttir tók áskorun Þorleifs Stefánssonar og er hér með innlegg í matarkrókinn. Rósa leggur til tvær uppskriftir sem hún segir að séu vinsælar hjá fjölskyldunni. Þetta eru einfaldir en mjög góðir réttir. Kjúklingur 1 kjúklingur 125 gr. rjómaostur með hvítlauk og kryddi (við stofuhita) hvítlauksrif svartur pipar salt 300 ml vökvi annaðhvort kjúkingasoð eða 50/50 hvítvín og vatn Þvoið kjúklinginn og þerrið vel. Losið skinnið varlega á bringunni og setjið meirihlutann af rjómaostinum undir skinnið og nuddið restinni utan á kjúklinginn. Kryddið með salti og pipar og setjið hvílauksrifin inn í. Setjið í ofnfast fat og hellið vökvanum yfir. Steikið í ofni við 200 gráður í u.þ.b. 45 mín. per kíló. Ausið annað slagið yfir og gerið síðan sósu úr soðinu. Annað tilbrigði er: Í stað rjómaostsins blandið saman við 75 gr af mjúku smjöri eða smörlíki, 2 tsk. kóriander 2 tsk. cumin 1/4 tsk. chilipipar 1 pressaðan hvítlauksgeira. Sítrónusneiðar inn í. Ofnsteikt grænmeti Grænmeti eldað á þennan hátt fer vel með kjúklingnum en er líka mjög gott alls konar kjöti á köldum vetrardegi. Þetta er ekki nákvæm uppskrift heldur best að hver og einn þrói sitt afbrigði. Brytjið í um 3ja cm bita, blöndu af grænmeti að eigin vali s.s. kartöflur, sætar kartöflur, rófur, gulrætur, rauðlauk og púrrulauk. Blandið saman: ólivuolíu (1/2 - 1 dl) pressuð hvítlauksrif (1-3) kryddblanda með rósmarín, sage, oregano t.d. Italinan seasoning, (1-2 msk) Blandið saman við grænmetið, best að nota hendurnar. Má gjarnan bíða í 1-2 tíma svo olían dragi bragðið í sig. Hitið ofninn á mesta hita, hellið grænmetinu í ofnskúffuna, gjarnan álpappír undir. Kryddið með salti og pipar og steikið ofarlega í ofni í 35 til 40 mín. eða þar til grænmetið er til. Rósa skorar á Gunnar Halldór Gunnarson að koma með uppskriftir í næsta blað.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/lax-med-kaviarsosu-og-a-ponnu-med-pasta
Lax með kavíarsósu og á pönnu með pasta Þorleifur Stefánsson sjúkraþjálfari tók við keflinu af kollega sínum Gunnari Svanbergssyni og er hér mættur með innlegg í matarkrókinn. Þorleifur er með laxarétti enda segir hann bæði fljótlegt og gott að elda lax. "Það er hægt að krydda laxinn á ýmsa vegu og matreiða hann þannig að tilbreyting sé í matargerðinni. Mér finnst aðalatriðið vera að eldamennskan sé einföld og auðveld fyrir leikmann eins og mig. Ekki kemur að sök að lax er meinhollur og okkur ráðlagt að borða slíkan fisk 1.-2. í viku. Hér á eftir koma tveir vinsælustu laxaréttirnir á mínu heimili." Lax með kavíarsósu 1 laxflak 800-1000gr sítrónupipar ½ sítróna Byrjað er að beinhreinsa laxinn vel og síðan er hálf sítróna kreist yfir flakið. Látið standa í 5-10 mínútur. Þá er sítrónupipar stráð yfir flakið og laxinn er tilbúinn í ofninn. Hitið ofninn í 220°og bakið laxinn í 10-15 mínútur eftir þykkt flaksins. Kartöflur Eftir að kartöflurnar eru soðnar eru þær hakkaðar með hýðinu í venjulegri hakkavél og eru þannig bornar fram. Sósa Einni dós af sýrðum rjóma er hrært saman við eina dós af kavíar t.d. Kavíar frá Ora 100gr. Hálfur laukur er fínt saxaður niður og bætt út í og sósan er tilbúin. Borið fram með fersku salati. Lax á pönnu með pasta 1 laxflak 800-1000gr roðflett og beinhreinsað, skorið í u.þ.b. 5 sm. þykkar sneiðar kreistið sítrónusafa yfir laxinn og stráið síðan örlitlu salti og pipar. Látið standa meðan sósan er útbúin. Sósa: 1 dós kókosmjólk (hálfdós) 2 matskeiðar karrímauk(Thai Curry Paste) eða eftir smekk. safi úr hálfri sítrónu, sykur á hnífsoddi og salt Setjið allt sósuefnið á pönnu og látið malla í nokkrar mínútur. Setjið laxabitana út í og látið malla áfram í 5 mínútur Stráið ferskum söxuðum kórínaderlaufum út í og látið malla áfram í 2-3 mínútur eða þar til laxinn er eldaður. Borið fram með Tagliatelle pasta og fersku salati. Þorleifur skorar á Rósu Kristjánsdóttur húsmóður að leggja til uppskriftir í matarkrók næstu viku.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/austurlensk-fiskisupa-og-kjuklingabaunasalat
Austurlensk fiskisúpa og kjúklingabaunasalat Gunnar Svanbergsson sjúkraþjálfari á Eflingu tók áskorun Ögmundar Knútssonar frá því í síðustu viku og er mættur hér með girnilega rétti í matarkrók vikunnar. Austurlensk fiskisúpa 1 lítri fiskisoð 2 tsk tom yum kryddmauk 2 tsk tikka masala kryddmauk 4 dósir kókósmjólk 1 tsk grænmetiskraftur ½ búnt ferskt coriander 3 msk sæt chilisósa Salt og pipar 200 g rauðsprettuflök 200 g silungur 200 g rækjur ½ búnt vorlaukur Hitið fiskisoðið, bætið tom yum, tikka masala, grænmetiskrafti, kókósmjólk og sætri chilisósu út í. Saxið kóriander og bætið í en skiljið eftir um 1 msk. Skerið vorlaukinn, á ská, í sneiðar og leggið til hliðar þar til síðar. Hreinsið fiskinn og skerið hann í bita. Sjóðið soðið í um 1 klst, smakkið og kryddið með salti og pipar eftir smekk. Setjið fiskinn og vorlaukinn í súpuna rétt áður en hún er borin fram. Stráið kóriander yfir til skrauts Lúxus franksbrauð, gott með súpunni 1 kg hveiti 50 g smjör 50 g ger 2 tsk salt 2 tsk sykur 6 dl mjólk Hnoðið deigið og látið lyfta sér í 1 klst. Mótið úr deiginu smábrauð og raðið á ofnplötu. Látið hefast á ný í ½ til 1 klst. Bakið neðst í ofni við 220°C í u.þ.b. 15 mín. Kjúklingabaunasalat, uppáhald konu minnar. Stendur vel eitt og sér og líka gott með einföldum kjöt- eða fiskréttum. 1 dós (400g) kjúklingabaunir 8 stk þurrkaðar apríkósur 1-2 stk rauð chilialdin 1 stk rauðlaukur 100 g fetaostur í teningum ½ búnt kóríander 10 stk mintulauf ½ stk sítróna 4 msk ólífuolía 1 msk kúmenfræ Sjávarsalt og nýmalaður pipar Skerið apríkósurnar í smáa bita. Fínsaxið rauðlauk og kóríander og kreistið safann úr sítrónunni. Skerið chili aldinin í tvennt, fræhreinsið og saxið smátt. Ristið kúmenfræin á heitri pönnu og kælið. Blandið þessu öllur saman. Ekki er síðra að nota þurrkaðar baunir en þá þarf að setja þær í bleyti kvöldið fyrir eldamennsku og skipta síðan um vatn á þeim áður en þær eru soðnar í u.þ.b. 1 klst. Þá má einnig nota þurrkað koríander og myntu, það er ekkert síðra. Gunnar skorar á kollega sinn Þorleif Stefánsson sjúkraþjálfara að legga til uppskriftir í matarkrók í næstu viku.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/ysa-med-kryddjurtahjup-og-bakadar-plomur
Ýsa með kryddjurtahjúp og bakaðar plómur Þá er komið að því að karlmaður leggi til uppskriftir í matarkrókinn. Ögmundur Knútsson forstöðumaður Rannsókna- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri tók áskorun Huldu Rafnsdóttur í síðustu viku og er mættur hér með girnilega rétti. Ýsa með kryddjurtahjúp (fyrir 6) 1 msk extra virgin ólífuolía 3 flök af ýsu - skorin í hæfilega bita 2 lúkur af kirsuberjatómötum 3 msk mayones 2 hvítlaukslauf marin 100 g brauðrasp Safi úr hálfri sítrónu ásamt rifnum berki 2 lúkur af saxaðri steinselju Hitið ofninn í 220°C. Berið olíu á stóra ofnskúffu. Setjið flökin í bakkann með roðhliðina niður. Blandið saman í lítilli skál mayonesi og hvítlauk og berið á fiskbitana. Í annarri skál er blandað saman brauðraspi, sítrónusafa, sítrónuberki og steinselju. Saltið og piprið eftir smekk. Setjið blönduna ofan á fiskbitana. Setjið tómatana í bakkann milli fiskbitanna og setjið yfir smá af ólífuolíu. Bakið í 15 mínútur í ofni. Berið fram með ristuðum kartöflubátum og/eða góðu salati. Til tilbreytingar má setja ½ tsk af karrý í stað hvítlauks og bera fram með hrísgrjónum.Ristaðir kartöflubátar (fyrir 6) 600 g kartöflur skornar í báta Ólífuolía, salt og pipar Smyrjið eldfast mót með olíu og dreifið kartöflubátunum í mótið. Setjið slurk af ólífuolíu yfir kartöflurnar, saltið og piprið. Bakað í ofni við 180-200°C í ca 45 mínútur. Bakaðar Amaretti plómur með Mascarpone rjóma (fyrir 6) 40 g Amaretti kökur 6 stórar plómur 40 g smjör 30 g strásykur 3 msk Amaretto líkjör Mascarpone rjómi 200 ml rjómi 250 g Mascarpone ostur (stofuhiti á ostinum) 2 msk flórsykur 1 tsk vanilludropar Stillið ofninn á 200°C . Myljið amaretto kökurnar. Skerið plómur í helminga og takið úr steininn. Setjið plómurnar á ofnskúffu eða bakka með skurðarsárið upp. Setjið muldu amaretti kökurnar yfir plómurnar. Setjið smjörbita á hverja plómu og stráið sykrinum yfir. Að síðustu er Amaretto líkjörinn settur yfir hverja plómu. Bakið í 15 mínútur eða þar til vökvinn þykkist og fer að breytast í karamellu. Hellið þá 80 ml af heitu vatni í eldfasta mótið og bakið áfram í um 15 mínútur eða þar til toppurinn verður gylltur (farinn að harðna örlítið) og plómurnar mjúkar. Þeytið varlega saman saman rjómann, marscarpone ostinn (passið að hafa ostinn við stofuhita), flórsykurinn og vanilludropana. Berið plómurnar fram með marscarpone rjómanum og hellið safanum úr mótinu yfir hvern framborinn disk. Ögmundur skorar á Gunnar Svanbergsson sjúkraþjálfara að mæta í næsta matarkrók en Ögmundur segir að Gunnar sé öðlingskokkur og mikill matgæðingur.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/ljuffeng-itolsk-pizza-og-toblerone-eftirrettur
Ljúffeng ítölsk pizza og toblerone eftirréttur Hulda Rafnsdóttir deildarstjóri á FSA er mætt með uppskriftir í matarkrókinn. Að mati Huldu eru heimalagaðar pitsur með betri pitsum sem hún fær og hún hefur það fyrir venju að baka pitsu á föstudagskvöldum. "Hér kemur uppskrift að einni slíkri og gerir það þá gæfumuninn að hafa heimalagað pestó og rucola salat með." Ljúffeng ítölsk pizza úr spelti með klettasalati og heimalöguðu pestói Pitsudeig 40 ml vatn 40 ml olía 20 ml bjór 15 g þurrger 1 tsk salt 250-300 g spelt Blandið volgu vatni, olíu og bjór saman í skál, leysið gerið upp í vökvanum og bætið síðan speltinu út í ásamt salti. Hnoðið deigið, gott að byrja í hrærivélinni og klára síðan á borði. Fletjið deigið þunnt út og setjið á vel smurða plötu. Pitsusósa 2 hvítlauksgeirar pressaðir 2-3 stórir portobellosveppir 1 rauðlaukur sneiddur í hringi 1-2 stórir tómatar niðursneiddir 1 bréf parmaskinka (hráskinka) 100 g mozzarella ostur (fæst rifinn i pokum) 2 bollar gouda ostur rifinn Ferskur parmesan ostur rifinn Setið pizzusósu í skál og bætið hvítlauknum út í, setjið síðan yfir pitsuna. Sneiðið sveppina og steikið á pönnu, kælið örlítið og setjið yfir pitsuna. Síðan rauðlaukinn þá tómatana og leggið síðan parmaskinkuna í heilu lagi yfir. Setjið að lokum mozzarella og gouda ost að smekk og að hluta til parmesan ost, geymið restina og bakið pitsuna við 200°C í um 20 mínútur. Pestó 1 pakki ferskt basilikum 1 poki furuhnetur 1-2 hvítlauksgeirar 1-2 dl extra virgin olía Klettasalat (rucola) Setjið basilikum, furuhnetur og hvítlauk saman í mixara og mixið þar til orðið að fínlegri blöndu. Bætið síðan olíu út í, á að vera dálítið þykkt. Gott er að setja klettasalatið ásamt parmesanostinum ofan á pitsuna og bera fram ásamt pestóinu. Og viti menn þetta er alveg svakalega gott. Toblerone eftiréttur 4 græn epli 1dl valhnetur 1 dl kókosmjöl 2-3 msk púðursykur Nokkrar smjörklípur 150 g hvítt Toblerone 70 g Sirius rjómasúkkulaði Hitið ofninn 150°C. Sneiðið eplin og brytjið valhneturnar. Raðið eplunum í eldfast hringlaga form, valhneturnar eru settar yfir þá kókosmjölið og síðan púðursykurinn settur þar ofan á og að lokum smjörklípurnar settar yfir. Setjið inn í ofn og þegar eplin eru farin að meyrna er söxuðu Tobleroni og rjómasúkkulaðinu stráð yfir. Þetta er hitað þar til súkkulaðið er vel bráðið. Borið fram með vanilluís. "Verði ykkur að góðu. Að lokum vil ég skora á snilldarkokkinn Ögmund Knútsson forstöðumann Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri. Ég veit fyrir víst að fiskmeti er hans sérgrein, en þó er aldrei að vita hvað hann hefur upp á að bjóða."
https://www.vikubladid.is/is/frettir/pasta-amatriciana-og-tiramisu-con-fragole
Pasta Amatriciana og Tiramisu con fragole Ása Eiríksdóttir deildarlæknir á svæfingadeild FSA leggur hér til tvær uppskriftir í matarkrókinn. Báðar eru úr smiðju Möru fóstru hennar á Ítalíu, sem Ása var hjá í fyrra þegar að hún tók sér launalaust leyfi og fór í 4 mánaða ferð um Ítalíu til að læra ítölsku og að elda ítalskan mat. Mara og Roberto maðurinn hennar reka fjallahótel í pínulitlum bæ í norður Toskana sem heitir La Baita og bærinn Corfino. „Ég var hjá þeim í nokkrar vikur og fékk að hjálpa til í eldhúsinu og skrifa niður uppskriftir í stílabók á meðan Mara hlýddi mér yfir óreglulegar ítalskar sagnir og ég drakk í mig allt sem ég gat um mat og matarmenninguna þeirra og hefðirnar frá þessu svæði. Mmmmm, yndislegur tími. Báðar eru uppskriftirnar frekar einfaldar og það ætti allt að fást í þær án vandræða í venjulegri búð. Pastarétturinn sagði Mara að væri einfaldur og fljótlegur og tilvalinn þegar lítill tími væri fyrir eldamennsku og þessa venjulegu fjögurra rétta máltíð sem var standard hjá henni bæði í hádegis- og kvöldmat, í viðlögum og miklu hallæri mætti þá sleppa aðalréttinum og bera bara fram þetta pasta því það er svo matarmikið." Pasta Amatriciana (Pasta með tómat-beikon sósu) 200g beikon, skorið í bita. 1 msk olía 1-2 dl hvítvín 1 stór laukur, smátt skorinn 2 gulrætur, smátt skornar (má sleppa) 1 steyttur chilipipar (þurrkaður) eða 1/4 tsk chili duft 1 hvítlauskrif, smátt skorið 2 dósir tómatar, hakkaðir 400 g pasta að eigin vali. Olía sett á vel heita pönnu og beikonið stökksteik í ca 4 mínútur. Hvítvíninu hellt yfir og soðið upp, beikonið veitt af pönnunni og geymt. Lauk, gulrót, chili og hvítlauk bætt á pönnuna og steikt við vægan hita í 4 mínútur til áður en tómötum og beikoni er bætt aftur útí og allt soðið við vægan hita í ca 15 mínútur. Bæta má við meira hvítvíni eða vatni ef þarf. Á meðan sósan mallar er pastað soðið, svo borið fram með sósunni, nýrifnum parmesan osti og eftir smekk salti og pipar. „Fyrsta daginn minn í Corfino, búin að ferðast sleitulast í tæpan sólahring, hjálpaði ég til við að búa til þennan eftirrétt handa stórum hóp af gestum sem kom á hótelið um leið og ég. Þegar búið var að gefa öllum að borða og við gátum slakað á gaukaði Mara að mér diski og ég settist niður úti í horninu á eldhúsinu á meðan hún og Roberta hjálparkokkur gengu frá og vöskuðu upp. Þegar ég leit upp stóðu þær og horfðu á mig og kímdu yfir þessum skrítna lækni sem var komin fleiri þúsund kílómetra að heiman út í óvissuna og sat þarna sæl og ánægð með jarðarberjatiramísú og sólskinsbros á andlitinu. Því við fyrsta bitann varð ég alveg sannfærð um að þó að ég þyrfti að fara til baka strax næsta dag og lærði aldrei neitt meira væri það alveg þess virði að ferðast alla þessa leið bara fyrir þessa einu uppskrift...." Tiramisu con fragole (Jarðarberjatiramisu) 1/2 kg jarðarber, smátt skorin 1/2 sítróna, einungis safinn 1/2-1 dl sykur Ananassafi 500 g mascarpone (tvær dósir, má vera íslenskur) 5 egg, rauður og hvítur aðskildar 5 msk sykur 1 pakki "Lady fingers" (fást í Hagkaup og Úrvali) Jarðarberin, sítrónusafinn og sykurinn eru sett í skál og látin standa á bekk í ca 2 klst. Vökvinn sem myndast er síaður frá og drýgður með ananassafa. Eggjarauður og sykur hrært létt saman, eggjahvítur stífþeyttar. Mascarpone ostur hrærður mjúkur og rauðunum hrært saman við og að lokum eggjahvítunum blandað varlega saman við. Í botninn á flötu íláti sem tekur ca 1.5-2 lítra er svo smurt ca 1/3 af mascarpone hrærunni, svo lagi af kökum sem hafa verið bleyttar vandlega í safanum, aftur mascarpone hræra, ca helmingur af jarðarberjum, næsta lag af bleyttum kökum, mascarpone hræra og að lokum hinn helmingurinn af berjunum. Best er að leyfa þessu að samlagast í nokkra klukkutíma áður en rétturinn er borinn á borð. Það er ef maður getur staðist mátið að byrja. Ása skorar á Huldu Rafnsdóttur, deildarstjóra á slysadeild FSA, að mæta með uppskriftir að viku liðinni.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/thai-kjullasupa-og-skotheld-isterta
Thai - kjúllasúpa og skotheld ísterta Halldóra Skúladóttir hjúkrunarfræðingur á svæfingadeild FSA tók áskorun Svanhildar Bragadóttur frá því í síðustu viku og mætir hér með uppskriftir í Matarkrókinn. Svanhildur lét þess jafnframt getið að Halldóra væri alltaf svo myndarleg í eldhúsinu og hér kemur framlag hennar. Thai - kjúllasúpa Fyrir 4 3 kjúklingabringur, skornar í strimla safi úr 1 og 1/2 lime 1 stór laukur 2 hvítlauksrif 1-2 chili-piparaldin 2,5 cm engifer 4-5 vorlaukar í bitum 2 tsk. kóríanderduft ólífuolía til steikingar 1,25 l vatn 2 gulrætur í þunnum sneiðum 2 kjúklingateningar 1 dós kókosmjólk 2 msk sojasósa (má sleppa) maldonsalt 1/2 bolli hrísgrjón soðin í vatni ferst kóríander saxað niður og sett yfir súpuna áður en hún er borin fram. Hrísgrónin soðin skv. leiðbeiningum á umbúðum. Kjúklingastrimlarnir lagðir í lime safann í 30 - 60 mín. ásamt smá salti. Setjið lauk, hvítlauk, fræhreinsaðan chili-pipar og engifer í blandara í augnablik, gott að hafa smábita innan um. Þetta er gyllt í olíunni í potti ásamt kóríanderduftinu, gulrótarsneiðunum og vorlauknum. Bætið við vatni, kókosmjólk og sojasósu ef hún er notuð. Saltið eftir smekk Hitið að suðu og setjið kjúllastrimlana út í og látið malla í 5 mín. Hrísgrjónin eru borin fram með súpunni þannig að hver og einn geti sett skammt af hrísgrjónum út á sinn disk. Gott að bera fram salat og brauð með. Ísterta Hér kemur svo uppskrift að einni skotheldri ístertu sem hægt er að hafa tilbúna í frysti, bæði góð fyrir barnaafmæli og/eða eftirréttur í matarboð. Botn: 4 eggjahvítur og 140 g flórsykur þeytt saman, 140 g af kókosmjöli er sett útí þetta sett í smelluform og bakað við 170 gráður í 20 mín. Ískrem: 50 g sykur og 1 egg þeytt saman, smá vanilludropar, 1/4 rjómi þeyttur og sett útí. Þetta sett í smelluform (jafnstórt og botninn) og fryst. Súkkulaðikrem: 4 eggjarauður og 60 g flórsykur þeytt saman, 100 g súkkulaði og 100 g smjör brætt og allt sett saman. Þegar þessu er raðað saman er kókosbotninn neðstur, súkkulaðikreminu er smurt þar yfir og frosinn ísinn er lagður efst og sett í frysti aftur. Halldóra skorar á Ásu Eiríksdóttur deildarlækni á svæfingadeild FSA að koma með uppskriftir næst, segir að hún sé afbragðskokkur og mikil áhugamanneskja um matargerð.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/opnun-a-listasafninu
Opnun á Listasafninu Jón Óskar og bandríski listamaðurinn Adam Bateman opnuðu sýningar sínar í Listasafninu á Akureyri í dag að viðstöddu fjölmenni. Jón Óskar og bandríski listamaðurinn Adam Bateman opnuðu sýningar sínar í Listasafninu á Akureyri í dag að viðstöddu fjölmenni. Sýning Jóns Óskar nefnist „Les yeux de l’ombre jaune“ (Augu Gula skuggans) og Adam er með innsetningu í vestursal safnsins en sú sýning ber heitið Tyrfingar. Hægt að sjá fleiri myndir með því að smella á hnappinn ljósmyndir.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/tyrkneskur-kjuklingur-og-marengsterta
Tyrkneskur kjúklingur og marengsterta Fjölmargir lesendur Vikudags hafa óskað eftir því að farið verði af stað með matar- og uppskriftarþátt í blaðinu. Blaðið er fyrir ykkur lesendur góðir og því full ástæða til að verða við þeirri ósk og hér kemur sá fyrsti. Það er Svanhildur Bragadóttir hjúkrunarfræðingur og nemi sem kemur með fyrstu uppskriftirnar í matarkrókinn. Hún er bæði með ungling og yngri börn og reynir að vera með létta rétti sem öllum í fjölskyldunni þykja góðir og þessi réttur er einmitt þannig. Það er eins með marengstertuna sem öllum finnst ómissandi og er ekkert aðfangadagskvöld eða afmæli án kökunnar. Tyrkneskur kjúklingur 3 - 4 kjúklingabringur salt 4 msk ólífuolía 1 laukur 1 græn paprika 1 rauð paprika 1 kúrbítur 200 g belgbaunir - má sleppa 250 gr meðalstórar kartöflur 400 g niðursoðnir tómatar (1 dós ) 1 tsk timian 1 ¼ dl grænmetissoð - má sleppa 1 dós sýrður rjómi 2 hvítlauksrif safi úr einni sítrónu smá steinselja Þvoið og þerrið kjúklingabringurnar og kryddið með salti. Steikið kjúklingin í olíunni og takið hann síðan af. Saxið laukinn og léttsteikið á pönnunni þar til hann er glær. Skerið paprikur í bita og bætið þeim út í. Skerið kúrbítinn í fjóra hluta langsum, takið kjarnarnn úr og skerið hverja lengju í þrjá bita. Skerið flysjaðar kartöflur í bita. Látið kúrbít baunir og kartöflur á pönnuna og látið krauma stutta stund. Látið tómatana ásamt safa í matarkvörn eða merjið þá og látið ásamt timjani og grænmetissoði út á pönnuna. Hrærið í. Hellið sósunni ásamt grænmeti í smurt, ofnfast fat og raðið kjúklingabitunum ofan á. Leggið lok eða álpappír yfir fatið og bakið við 180°C í 30 - 40 mínútur. Merjið hvítlaukinn. Blandið saman sýrðum rjóma, hvítlauk salti sítrónusafa og steinselju. Raðið kjúklingabitunum á mitt fatið og ýtið grænmetinu til hliðanna, hellið sósunni yfir grænmetið og berið fram strax. Uppskriftin er fyrir 4 - undirbúningur 30 mínútur - bökunartími 40 mín. Með þessu er gott að hafa pasta þá gjarnan spelt pasta, ferskt salat og/eða speltbrauð. Speltbrauð: 350 g speltmjöl, 75 g sesamfræ eða annað korn, 2 msk kúmen, 3 msk vínsteinslyftiduft, 1 tsk salt, 0,4 dl volgt vatn. Hrærið allt saman með sleif, setjið í form og bakið við 190 °C í 1.klst. Gott er að tvöfalda þessa uppskrift. Marengsterta 4 eggjahvítur 200 g sykur 70 g kornflex 1/2 tsk lyftiduft 1/2 l rjómi 100 g suðusúkkulaði 1 dós niðursoðnar ferskjur eða ferskir ávextir t.d. jarðaber og bláber Stífþeytið eggjahvíturnar. Bætið sykri út í og þeytið vel. Myljið kornflögur og hrærið varlega saman við eggjahvíturnar ásamt lyftidufti. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu. Teiknið tvo hringi á pappírinn, um 23-25 sm í þvermál, þ.e. stærð matardisks. Skiptið deiginu í tvennt og smyrjið á hringina. Bakið í 150° C heitum ofni í klukkutíma. Kælið botnana á rist. Þeytið rjómann. Saxið súkkulaðið og blandið varlega saman við rjómann ásamt ávöxtum eða berjum. Setjið rjómann á milli botnanna. Svanhildur skorar á vinkonu sína Halldóru Skúladóttur hjúkrunarfræðing fyrir næsta blað sem hún segir alltaf svo myndarlega í eldhúsinu.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/spenningur-fyrir-heimsmeistaramotinu
Spenningur fyrir heimsmeistaramótinu Það styttist í að HMí handboltahefjist og hafa ýmsir veitingastaðir á Akureyri gert ráðstafanir til að geta boðið viðskiptavinum sínum upp á að horfa á leikina á stórumskjám. Akureyri handboltafélag og Greifinn hafa t.d. gertsamkomulag um sérstaka HM stofu þar sem spáð verður í spilin. Mótið hefst 20. janúar og samkvæmt upplýsingum á vef KA handboltaféalgs getur fólk horft á leiki í Stássinu á Greifanum á stórum sjónvarpsskjá, hlýtt á handboltaspekinga spá í spilin fyrir leiki, í hálfleik og eftir leiki, og Greifinn býður upp á sérstakan HM-matseðil, einfaldan en sportlegan. Ísland leikur í B-riðli, sem fram fer í Magdeburg. Leikirnir í riðlakeppninni eru þessir: Laugardagur 20. janúar Ísland - Ástralía 15.00 Sunnudagur 21. janúar Ísland - Úkraína 17.00 Mánudagur 22. janúar Ísland - Frakkland 19.00 Leikstaðir og tímar í milliriðli fara eftir gengi Íslands í B-riðlinum. Framhaldið verður því auglýst nánar síðar, en HM-stofan verður að sjálfsögðu opin alla keppnina - að minnsta kosti þegar Ísland leikur og þegar leikið verður um efstu sætin.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/vitisvika-nylida
Vítisvika nýliða “Vítisvika” er vinnuheiti á námskeiðs og þjálfunarviku fyrir þá starfsmenn sem ekki hafa lokið atvinnuslökkviliðsmannanámskeiði. Hún hófst á mánudag með hlaupaæfingum nýliða upp og niður kirkjutröppurnar á Akureyri í fullum herklæðum með reykköfunartæki, þar sem mælt var hvað menn færu langt á einum loftkút. Síðan tók við fræðsla um reykköfun en farið verður í fræðslu um öll helstu atriði starfs slökkviliðsmanna með áherslu á krefjandi æfingar. Samtals eru 8 starfsmenn sem taka þátt í þessari þjálfun. Námskeiðsmenn munu fá þjálfun og fræðslu í reykköfun, bæði leitartækni og öryggisatriðum, vatnsöflun, hættulegum efnum, slökkviefnum, innbrotstækni, klippuvinnu, flugvélabruna og fleira. Æft verður á ýmsum stöðum í bænum, t.d. í gömlu verksmiðjunum á Akureyri en nú er unnið að niðurrrifi þeirra, einnig verða æfingar í Hrísey með slökkviliðsmönnum þar. Laugardaginn 13. janúar verða síðan útkallsæfingar allan daginn en þá verða keyrðar æfingar sem reyna á marga ólíka þætti. Þessi dagskrá er m.a. sett upp til að mæta þörf á menntun slökkviliðsmanna en nokkur óvissa er um menntun atvinnuslökkviliðsmanna á árinu, bæði hvenær námskeið verður, í hvaða formi og eins hversu margir geta sótt slíkt námskeið frá SA. Brunamálastofnun er ábyrg fyrir menntun atvinnnuslökkviliðsmanna á Íslandi en síðasta námskeið var unnið af SA, SHS og Brunavörnum Suðurnesja í verktöku fyrir Brunamálastofnun. Ekki hafa náðst samningar um áframhald á þeirri vinnu.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/snowell-i-trodslukeppni-fyrir-sunnan
Snowell í troðslukeppni fyrir sunnan Kevin E.L. Sowell, hinum ameríska leikmanni Þórs hefur verið boðið að taka þátt í troðslukeppni, sem er hluti af árlegum stjörnuleikjum KKÍ og verða haldnir nú á laugardaginn í DHL höllinni í Vesturbænum í Reykjavík. Kevin E.L. Sowell hefurþegið þetta boð. Það hefur ekki farið fram hjá neinum sem horft hefur á leik með Þór í vetur að Kevin er snjall í aðtroða boltanum enda nýtir hann öll tækifæri sem honum gefst til þess. Auk troðslukeppninnar verður þriggja stiga skotkeppni á sínum stað á stjörnuleikum. Sjá umfjöllun hér
https://www.vikubladid.is/is/frettir/kvennalid-akureyrar-tapadi-fyrir-fram
Kvennalið Akureyrar tapaði fyrir Fram Kvennalið Akureyrar í handknattleik tapaði fyrir Fram í KA heimilinu í gærkvöld. Loka tölur leiksins urðu þær að Akureyri skoraði 13 mörk gegn 19 mörkum Frammara. Lokatölurnar gefa þó ekki sanngjarna mynd af gangi leiksins og spilaði Akureyrarliðið á köflum mjög vel. Segja má að leikurinn hafi tapast í síðari hálfleik en Akureyri hafði yfir í hálfleik, 8 mörk gegn 7. Staðan var síðan orðin 9-15 eftir 45 mínútna leik og náðu Akureyrarstelpur aldrei að koma til baka. Seinni hálfleikurinn tapaðist sem sagt 5-12 og í ágætri úttekt á leiknum á heimasíðu Akureyrar handboltafélags segir m.a. "lokatölur segja lítið um gang leiksins þar sem Akureyri spilaði fantavel á köflum í dag." Umsögn í heild hér
https://www.vikubladid.is/is/frettir/samningur-um-malefni-fatladra
Samningur um málefni fatlaðra Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, og Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, undirrituðu í dag þriggja ára samning um málefni fatlaðra á Eyjafjarðarsvæðinu. Samningsfjárhæð er rúmir 2,2 milljarðar króna. Ennfremur var skrifað undir samkomulag til eflingar búsetu, dagþjónustu og dagvist geðfatlaðra á Akureyri. Sá samningur er til fjögurra ára og hljóðar upp á 95 milljónir króna. Í þjónustusamningnum um málefni fatlaðra er unnið samkvæmt drögum að nýrri stefnu ráðuneytisins í málefnum þeirra sem búa við fötlun. Með samningnum ákveða félagsmálaráðuneytið og Akureyrarbær að halda áfram því samstarfi sem hófst í febrúar 1996 en síðasti samningur gilti til 31. desember 2006.Meginmarkmið samningsins er að samþætta þjónustu við fötluð börn og fullorðna í heimabyggð og fella hana sem framast er unnt að starfsemi annarra þjónustuaðila, færa þjónustuna nær notendum og auðvelda þannig aðgang að henni. Það er gert með meiri skilvirkni, betri nýtingu fjármuna og með aukin þjónustugæði að leiðarljósi. Við framkvæmd þjónustunnar skal náð markmiðum sem ráðuneytið hefur sett í samstarfi við hagsmunasamtök þeirra sem búa við fötlun og aðstandenda þeirra og er að finna í drögum að stefnu þess í málaflokknum. Markmiðin ná til eftirfarandi átta málasviða og verður þeim fylgt eftir því sem við á: 1. Þjónusta við börn 0-17 ára og fjölskyldur þeirra.2. Þjónusta vegna búsetu.3. Þjónusta vegna atvinnu og hæfingar. 4. Stoðþjónusta við 18 ára og eldri. 5. Staða og áhrif notenda.6. Mótun viðhorfa og almannatengsl.7. Gæðastarf. 8. Þekkingarauður – mann- og skipulagsauður.Samkomulagið sem skrifað var undir til eflingar búsetu, dagþjónustu og dagvist geðfatlaðra á Akureyri felur í sér að Akureyrarbær leggur til fjórar leiguíbúðir fyrir geðfatlaða, starfsemi fyrir þá verður efld á ýmsum sviðum, m.a. í Lautinni sem er dagvist geðfatlaðra rekin af Rauða kross deildinni á Akureyri í samvinnu við Geðverndarfélagið og Akureyrarbæ. Einnig verður lagður fram byggingarstyrkur til byggingar nýs áfangaheimilis/íbúða fyrir geðfatlaða á Akureyri. Heildarframlag félagsmálaráðuneytisins til þessa samkomulags er sem áður segir 95 milljónir króna
https://www.vikubladid.is/is/frettir/midill-spair-samstarfslitum-i-baejarstjorn-i-vor
Miðill spáir samstarfslitum í bæjarstjórn í vor Skúli Lorenzon, miðill á Akureyri með meiru telur sig sjá að meirihlutinn í bæjarstjórn Akureyrar muni springa þegar kemur fram á vorið. Skúli sem er forspár maður og sagði m.a. fyrir um það fyrir rúmu ári síðan, að foringjar í Framsóknarflokknum myndu hætta á nýliðnu ári, lét þessi orð falla í umræðuþætti á RÚVAK fyrr í dag þar sem hann var að ræða um álfa og álfatrú. Í meirihlutasamstarfi á Akureyri eru nú Samfylking og Sjálfstæðisflokkur og voru það þáverandi oddvitar flokkanna sem höfðu forustu um samstarfið, þeir Kristján Þór Júlíusson og Hermann Jón Tómasson. Kristján mun hins vegar láta af bæjarstjórasæti sínu fyrir sjálfstæðismenn í bæjarstjórninni er hann fer í þingframboð og tekur Sigrún Jakobsdóttir við á bæjarstjórnarfundi í næstu viku. Hermann Jón á hins vegar að sitja í bæjarstjórastólnum síðasta ár kjörtímabilsins - fari svo að spádómur Skúla um samstarfsslit rætist ekki.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/haerri-en-baedi-sulur-og-kerling
Hærri en bæði Súlur og Kerling! Ef öllum þeim safngögnum, bókum og snældum, sem Amtsbókasafnið lánaði út á síðasta ári væri staflað hverju ofan á annað, þá yrði staflinn 2.726 metra hár, eða hærri en fjöllin Súlur og Kerling samanlagt. Þungi þessara gagna væri 53 tonn og ef þeir gestir sem fengu gögnin lánuð röðuðu sér í einfalda röð yrði hún 64,6 km löng og næði frá Akureyri að Laugum í Reykjadal. Alls varð um 12% aukning í útlánum hjá safninu í fyrra sem Hólmkell Hreinsson amtsbókavörður segir ánægjulega þróun. Hann bendir á að þessi aukning sé sérstaklega athyglisverð í ljósi þess að safngestum sem heimsótti safnið hafi örlítið fækkað, þannig að hver gestur er að fá fleiri bækur lánaðar. Í fyrra lætur nærri að hver Akureyringur hafi fengið lánaða eina bók á mánuði, en útlán safngagna var um 11.6 eintök á hvern Akureyring.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/hefur-litla-tru-a-lambakjotssolu
Hefur litla trú á lambakjötssölu Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis sagði í útvarpsviðtali í morgun að hún hefði litla trú á að framtíð væri í sölu á lambakjöti til Bandaríkjanna. Vitnaði hún m.a. máli sínu til stuðnings í framkvæmdastjóra Norðlenska. Fram hefur komið í frétt í Morgunblaðinu að tap hefur verið á sölu á lambakjöti til Whole Foods verslanakeðjunnar í Bandaríkjunum, aðeins eitt ár hafi verið hagnaður. Valgerður segist áður hafa bent á að varla væri framtíð í þessum viðskiptum og undristrikaði þá skoðun sína með að vitna til þess að forsvarsmenn Norlenska væru á svipaðri skoðun. Valgerður var raunar með ýmis útspil í þessu viðtali og sagði að hvalveiðar í atvinnuskyni hlytu að byggjast á viðskiptalegum forsendum og þeim væri því sjálfhætt ef ekki tækist að selja kjötið af þeim langreyðum sem veiddar yrðu.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/flatsjonvorp-eru-orkuthjofar-heimilanna
Flatsjónvörp eru orkuþjófar heimilanna Orkuveitan sænska hefur kannað orkunotkun um það bil fimmtíu ólíkra sjónvarpa, miðað við að kveikt sé á sjónvarpi að meðaltali fimm tíma á dag, eða 1.800 tíma á ári. Meðal þess sem í ljós kom var að flatsjónvörp eru margfalt orkufrekari en myndlampatæki, og miðað við orkuverðið í Svíþjóð er kostnaðurinn fjórfalt meiri. Frá þessu greinir Sydsvenskan. Niðurstaða Svíanna er sú, að 50-65 tommu flatsjónvarp þurfi á árinu orku fyrir rúmar þúsund sænskar krónur, eða tíuþúsund kall íslenskan, miðað við að kílóvattstundin kosti eina sænska krónu, eða tíu krónur íslenskar. „Framleiðendur virðast ekki hafa sérlega mikinn áhuga á að leggja í kostnað við að þróa orkusparandi tækni,“ segir Peter Bennich, verkefnisstjóri hjá sænsku Orkuveitunni. Hann bendir á að stór heimilistæki á borð við ísskápa og þvottavélar hafi verið gerð sparneytnari og kosti helmingi minna í rekstri en flatsjónvörp. Framleiðendur sjónvarpanna hafi ekki einu sinni getað komið sér saman um staðlaða mælingu á orkuþörf tækjanna. Athugun Orkuveitunnar leiddi í ljós mikinn mun á orkuþörf sjónvarpstækja, en almennt mældist orkuþörf flatsjónvarpa þrefalt meiri en orkuþörf myndlampatækja.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/jolavedrid
Jólaveðrið: Frá Þorláksmessu að öðrum í jólum, lítur út fyrir að lægðir fari á milli Íslands og Grænlands og það verði sunnan- og suðvestanátt ríkjandi með vætu á sunnan- og vestanverðu landinu en yfirleitt þurru norðaustantil. Milt verður í veðri fram á jóladag og úrkoman verður í formi rigningar, en þá fer að kólna og búast má við skúrum eða éljum. Á Þorláksmessu lítur út fyrir hvassviðri fyrripart dagsins en síðar hægari vindi. Búast má við strekkings vindi frá aðfangadegi að öðrum í jólum.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/vertidin-hafin-i-matartorgi
Vertíðin hafin í Matartorgi Á hverju hausti hefst nýtt tímabil í Matartorgi. Eins og venjulega gekk mjög vel að koma Matartorgi í gang í öllum skólunum sem eru að nota kerfið. Mikill fjöldi af nýjum foreldrum bættust við og bjóðum við þau velkomin í hóp ánægðra Matartorgs notenda. Sú breyting varð á í haust að nú er hægt að panta annaráskrift sem er ódýrara en að panta mánuð í einu. Einnig var notkun Stundvísi í skólum hætt og var því ekki hægt að lesa nemendaskrána í Matartorg með sama hætti og venjulega. Haft var samband við Mentor og eru nú upplýsingar um nemendur keyrðar úr gagnagrunninum sem þar er. Samskiptin við Mentor gekk vonum framar og var hægt að keyra listann frá þeim vandræðalaust inní Matartorg. Frekari þróun felur í sér beintengingu við Mentor þar sem breytingar í bekkjum skila sér samstundis inn í Matartorgið.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/muninn-skolablad-ma
Muninn Skólablað MA Þegar heimasíða skólablaðs MA fór niður, leituðu þeir til Stefnu með nýja heimasíðu. Sjá www.muninn.is Muninn fékk í hendurnar stóra og góða útgáfu af Moya sem leysir öll þeirra vandamál. Muninn mun sjá um uppfærslu og útlitsbreytingar á heimasíðunni og fengu til þess hluta aðgengi að bakgrunni Moya til að geta sjálfir sett inn CSS útlitssnið. Auk þess að vera með mjög margar kerfiseiningar eru þeir með spjallborð og stórt gagnasafn á netþjóni sem Stefna hýsir fyrir þá.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/lodur-ny-heimasida
Löður - Ný heimasíða Bílaþvottastöðvar Löðurs hafa fengið andlitsliftingu á netinu. Löður rekur 4 þvottastöðvar á höfuðborgarsvæðinu og er sífellt að færa út kvíarnar. Um er að ræða heimasíðu þar sem nálgast má upplýsingar um allar þvottastöðvarnar auk þess sem verið er að vinna í að viðskiptavinir geti sótt um smartkort í gegnum heimasíðuna. Útlitið á heimasíðunni var unnið af concept og hægt er að sjá afraksturinn hér.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/afram-blastur-en-minnkandi-urkoma
Áfram blástur en minnkandi úrkoma Enn um sinn er útlit fyrir hvassviðri og rigningu um miðbik Norðurlands. Veðurstofan spáir vaxandi suðaustanátt, 18-23 m/s síðdegis í dag, og rigningu öðru hverju. Á morgun verður suðvestan 13-18 og skýjað með köflum. Hiti verður á bilinu 8 til 15 stig í dag en síðan kólnar og gera má ráð fyrir að hitastig verði í kringum frostmark seinni partinn á morgun. Á föstudag er spáð suðvestan 8-13 m/s og léttskýjuðu veðri á Norður- og Austurlandi en síðan gengur í hvassa suðaustanátt síðdegis. Hiti verður 0 til 7 stig. Á laugardag er gert ráð fyrir suðvestanstormi eða roki og rigningu eða skúrum, en síðdegis lægir heldur. Þá verður 3 til 8 stiga hiti. Á aðfangadag býst Veðurstofan við sunnanátt og rigningu, einkum sunnan- og vestanlands. Þegar kemur fram á kvöldið tekur að kólna en framan af verður 5-10 stiga hiti. Suðvestanátt ræður svo að líkindum ríkjum á jóladag og annan í jólum með skúrum eða éljum og 0-5 stiga hita.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/handbolti-akureyri-i-thridja-saeti
Handbolti: Akureyri í þriðja sæti Akureyri sigraði Fram í efstu deildinni í handknattleik í KA-heimilinu í dag. Um leikinn segir ÁS á heimasíðu Akureyrar handboltafélags: ,,Akureyri innbyrti dýrmæt stig með sigri á Íslandsmeisturum Fram í KA-heimilinu í dag. Leikurinn var gríðarlega skemmtilegur á að horfa. Í fyrri hálfleik var jafnt á flestum tölum til að byrja með upp í stöðuna 5-5 en þá náði Fram mest fjögurra marka forystu en með magnaðri baráttu náðu okkar menn að jafna leikinn og var staðan jöfn 16-16 í hálfleik. Leikmenn Akureyrar komu af miklum krafti í seinni hálfleikinn og tóku forystuna sem varð mest þrjú mörk þar til kviknaði á Frömurum sem náðu að jafna og komast marki yfir um miðbik seinni hálfleiks. Þá var okkar mönnum hreinlega nóg boðið og skelltu í lás og áttu leikmenn Fram einfaldlega ekki möguleika í seinni hluta hálfleiksins. Með gríðarlegri baráttu í vörninni og frábærri markvörslu náðu okkar menn öruggri forystu sem greinilega átti ekki að láta af hendi og lauk leiknum með frábærum fimm marka sigri 33-28. Allt liðið á hrós skilið fyrir frábæra baráttu og leikgleði sem skein af liðinu í dag. Með þessum sigri sest Akureyri í 3. sæti deildarinnar og mun verða þar um hríð því að næstu leikir í deildinni eru ekki fyrr en 11. febrúar en þá verður 12. umferðin leikin." Myndirnar tók Þórir Ó. Tryggvason. Sjá www.akureyri-hand.is
https://www.vikubladid.is/is/frettir/althjodlegt-skidamot-hefst
Alþjóðlegt skíðamót hefst Í dag hófst TePe-Cup, alþjóðlegt skíðamót, í Hlíðarfjalli og stendur það til 18. desember. Keppt verður í svigi og stórsvigi í karla- og kvennaflokki en í dag var keppt í stórsvigi 10-14 ára. Sigurvegarar urðu Róbert Ingi Tómasson (SKA), Freydís Halla Einarsdóttir (Ármanni), Björn Ísak Benediktsson (SKA), Gunnlaug Helga Ásgeirsdóttir (Ólafsfirði), Kristinn Ingólfsson (SKA) og Alexía María Gestsdóttir (Ólafsfirði). Þetta er í fyrsta skipti sem alþjóðlegt skíðamót er haldið á Akureyri fyrir áramót og er stefnan að það verði árlegur viðburður, segir í frétt á heimasíðu Skíðafélags Akureyrar. Þar eru skíðaáhugamenn einnig hvattir til að fjölmenna í Fjallið og hvetja keppendur. Þessa mynd tók Þórir Ó. Tryggvason af Hlíðarfjallinu í dag. Sjá www.skidi.is
https://www.vikubladid.is/is/frettir/supufundur-um-ithrottir-og-fjolmidla
Súpufundur um íþróttir og fjölmiðla Þann 21. desember (fimmtudag) kl. 12.00-13.00 heldur Íþróttafélagið Þór sinn 6. súpufund í samstarfi við Greifann og Vifilfell. Gestir fundarins verða fulltrúar fjölmiðla með aðsetur og/eða fréttaritara á Akureyri, sem fjalla með einum eða öðrum hætti um íþróttir og íþróttastarf. Sérstakur heiðursgestur: Arinbjörn Þórarinsson, veitingamaður á Greifanum. Fundarefni: Umfjöllum fjölmiðla um íþróttir á Akureyri, er ástandið viðunandi? Er hægt að breyta og bæta? Fundarstjóri sem fyrr: Viðar Sigurjónsson, ÍSÍ. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Súpa dagsins: Tómatsúpa með jólaívafi brauð og kaffi/T2 kr. 500.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/aurskridur-i-eyjafjardarsveit
Aurskriður í Eyjafjarðarsveit Klukkan 6:30 í morgun var tilkynnt um að aurskriða hefði komið úr fjallinu ofan við bæinn Grænuhlíð í Eyjafjarðarsveit. Skriðan lenti ekki á húsum. 20 mínútum seinna barst tilkynning um að önnur aurskriða hefði fallið á sama stað og nú lent á íbúðarhúsinu og útihúsum. Engin meiðsli urðu á fólki. Í þetta skiptið fór skriðan yfir veginn á allt að 100 metra kafla, að því er talið er. Ábúendur, hjón og eitt barn, komust á dráttarvél yfir skriðuna og í öruggt skjól á bænum Hrísum. Íbúar á bæjum sunnan við Grænuhlíð hafa verið varaðir við en skriðusérfræðingur telur þó ekki miklar líkur á skriðuföllum þar. Ekki er vitað um afdrif nautgripa og fjár í húsum við Grænuhlíð en rafmagn fór a.m.k. af fjósinu. Ekki er vitað hversu mikið tjón hefur orðið á mannvirkjum. Kl. 07:45 var tilkynnt um að aurskriða hefði fallið á veginn norðan við Kolgrímustaði í Eyjafjarðarsveit. Skriðan lokar veginum en lenti ekki á öðrum mannvirkjum. Þá er vitað að aurskriða féll á veginn norðan við bæinn Stóradal og er vegurinn ófær. Lögregla hefur lokað þjóðveginum til suðurs við Saurbæ í Eyjafjarðarsveit. Í birtingu verða aðstæður kannaðar á vettvangi þessara skriðufalla með skriðusérfræðingi og þá tekin ákvörðun um frekari aðgerðir og opnun vega. Þá er vegurinn um Hörgárdal ófær við Skriðu vegna skriðufalla.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/garpar-synda-a-thorlaksmessu
Garpar synda á Þorláksmessu Það hefur færst í vöxt að garpar, þ.e. sundfólk 25 ára og eldra, hittast á Þorláksmessu til að synda 1500 m á tíma. Slíkt sund mun í ár fara fram á nokkrum stöðum á landinu. Á Norðurlandi verður synt í Sundlaug Akureyrar og Sundlaug Húsavíkur. Hefst sundið á báðum stöðum kl. 11. Sundið er hugsað fyrir allan almenning og þótt garpaflokkur sé fyrir 25 ára og eldri er Þorláksmessusundið hugsað fyrir 20 ára og eldri. Frjáls sundaðferð er leyfð en ekki er leyfilegt a nota hjálpartæki (froskalappir, spaða eða önnur tæki sem gætu aukið hraða sundmanna). Sundsamband Íslands vonar að sem flestir sjái sér fært að taka þátt í þessum viðburði sem fyrst og fremst er hugsaður sem sem skemmtun og jafnvel áskorun fyrir marga. Eina gjaldið felst í því að borga sig ofan í laugina og á Akureyri er stefnt á að fara á kaffihús að sundi loknu, segir í fréttatilkynningu.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/stifla-brast-i-djupadalsvirkjun
Stífla brast í Djúpadalsvirkjun Önnur af tveimur stíflum Djúpadalsvirkjunar brast á tólfta tímanum í morgun og hefur mikið vatn flætt yfir Eyjafjarðarbraut vestri, að því er fram kemur á mbl.is. Bifreið fór ofan í ána þegar Eyjafjarðarbrautin fór í sundur og er vegurinn ófær. Einn maður var í bílnum og var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Lögregla og björgunarsveitarmenn eru á staðnum. Þá hefur lögreglan á Akureyri kallað eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar norður svo hún sé til taks ef á þarf að halda. Í Eyjafirði loka nú skriður vegi á þremur stöðum; á Hörgárdalsvegi við bæinn Skriðu, á Hólavegi við Grænuhlíð og á Eyjafjarðarbraut vestri er skriða í námunda við Skáldstaði. Vegagerðin býst við að viðgerð á Eyjafjarðarbraut við Samkomugerði, þar sem vegurinn er í sundur, taki einhverja daga.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/nesskoli-ny-heimasida
Nesskóli - Ný heimasíða Grunnskólinn á Neskaupstað er komin í mjög góð mál með nýju heimasíðunni sinni. Nesskóli fékk sér stóra og góða Moyu til að geta haldið vel um öll þau mál sem tilheyra skólum í dag. Hver bekkur verður með sér deild þar sem þeir geta haldið utanum myndir og viðburði sem heyra beint undir hvern bekk. Markmið Nesskóla með þessari heimasíðu er að efla innanhússtarf, bæta upplýsingaflæði og þjónustu til foreldra og barna. Heimasíða Nesskóla er www.nesskoli.is