url
stringlengths
21
288
text
stringlengths
1
1.35M
https://www.vikubladid.is/is/frettir/jonatan-og-johannes-liklega-afram-med-akureyri
Jónatan og Jóhannes líklega áfram með Akureyri Akureyri tapaði sínum síðasta leik á tímabilinu gegn Gróttu 18-28 í DHL-deild kvenna í handbolta en leikurinn fór fram í KA-heimilinu. Grótta er með mjög sterkt lið og endaði í öðru sæti deildarinnar, það kom því ekki á óvart að Akureyri ætti við ramman reip að draga enda liðið í neðsta sæti og töluvert á eftir toppliðunum hvað varðar getu. Jóhannes Bjarnason, sem þjálfað hefur liðið seinni part vetrar ásamt Jónatan Magnússyni, sagði eftir leikinn að í raun hafi ekki verið mikið að í leik liðsins. „Við erum þessum skrefum á eftir fjórum til fimm bestu liðum í deildinni. Í okkar bestu heimaleikjum höfum við náð að kroppa í þau, töpuðum fyrir Val með einu og fyrir HK með tveimur. Við ætlum okkur að vera búin að ná þessum skrefum næsta keppnistímabil.” Í fyrri hálfleik náði Grótta þægilegri forystu, sem varð mest 10 mörk, en í leikhléi var staðan 17-10. Í síðari hálfleik hélt Akureyri vel í horfinu en munurinn var alltaf þetta sjö til tíu mörk. Uppbygging fyrir næsta tímabil hafin „Úrslitin núna skipta ekki öllu máli, við erum fyrst og fremst að leggja inn í reynslubankann hjá þessum kornungu stelpum sem eru að spila leik eftir leik. Það voru þrjár 15 ára stelpur í hópnum í dag, sem hafa verið að spila í undanförnum leikjum og standa sig vel. Þær verða klárlega í hópnum næsta vetur og við erum ákveðnir í því að byggja þessar stelpur upp áfram,” sagði Jóhannes. Þið verðið sem sagt áfram með liðið næsta tímabil? „Ég á von á því að ég og Jónatan höldum áfram með liðið næsta tímabil, það er reyndar ekki búið að ganga frá því en við erum báðir áhugasamir um það og það passar okkur báðum ágætlega að vera saman með þetta. Við höfum ólíkt í púkkið að leggja og getum skipt með okkur verkum.” Liðið hefur augljóslega verið í mikilli framför seinni part vetrar eftir að þið tókuð við, ertu sammála því? „Það er svolítið annar taktur núna í liðinu en var áður, við höfum ekkert verið að spá alltof mikið í leikina sem slíka. Við höfum fyrst og fremst verið að vinna í málum sem skila okkur uppskerunni seinna. Við höfum unnið í grunnatriðum sem að skila okkar árangri seinna. Okkur hefur líka klæjað í lófana að byrja að styrkja stelpurnar líkamlega en þær eru á eftir leikmönnum hinna liðanna hvað varðar kraft. Við erum að fara núna í strangt lyftingaprógram og þegar verður búið að púsla öllum þessum þáttum saman er ég bara bjartsýnn á að við verðum sterk næsta ár. Einnig er ætlunin að styrkja liðið með nýjum leikmönnum, við erum nú þegar búin að fá einn leikmann. Örvhentan hornamann frá Póllandi sem flutti hingað í bæinn og hefur verið að æfa með okkur og lofar mjög góðu. Ætlunin er að styrkja liðið með einum til tveimur sterkum leikmönnum í viðbót og við ætlum okkur að krafsa í bestu liðin næsta tímabil. Ég spái því að við verðum spútniklið bæjarins næsta vetur,” sagði Jóhannes brosandi að lokum.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/ice-cup-i-krullu-hafid
Ice Cup í krullu hafið Krulludeild Skautafélags Akureyrar, í samstarfi við mörg norðlensk fyrirtæki, heldur í fjórða sinn alþjóðlega krullumótið Ice Cup um helgina. Mótið hófst í morgun og meðal þátttakenda er danska kvennalandsliðið í krullu sem tryggði sér silfurverðlaun á Heimsmeistaramótinu í krullu sem fram fór í mars sl. Alls taka 18 lið þátt í mótinu að þessu sinni og hafa aldrei verið fleiri. Fjögur erlend lið taka þátt, frá Danmörku, Lettlandi og Bandaríkjunum, tólf lið koma frá Akureyri og tvö frá Reykjavík. Mótið er að stærstum hluta styrkt af norðlenskum fyrirtækjum. Keppnin fer fram í Skautahöllinni á Akureyri og stendur fram á sunnudag.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/thriggja-ara-fangelsi-fyrir-likamsaras
Þriggja ára fangelsi fyrir líkamsárás Karlmaður á fimmtugsaldri var í gær dæmdur í Héraðsdómi Norðurlands eystra í þriggja ára fangelsi fyrir stórfellda líkamsárás á fyrrum unnustu sína og einnig á karlmann, en maðurinn var sýknaður af ákærum um manndrápstilraunir. Maðurinn hellti bensíni yfir fyrrum unnustu sína í húsi á Kópaskeri, en hætti við að kveikja í henni þar sem hann hafði ekki eldfæri. Síðar, á Húsavík, stakk hann konuna með hníf í brjóstið svo hún hlaut 2 cm stungusár aftan á brjóstkassa. Eftir að eldur kom upp í húsinu stakk hann karlmann sem var á staðnum í síðuna og kastaði einhverjum hlut, púða eða einhverju, í konuna þannig að hún hlaut 1.-3. stigs brunasár á öxlum, hálsi, enni, hnakka og herðum. Maðurinn var ekki dæmdur fyrir tilraunir til manndráps en sem fyrr sagði hlaut hann þriggja ára fangelsi, dæmdur til að greiða konunni 500 þúsund og tæpar 2 milljónir í málskostnað.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/himinha-tilbod-i-menningarhus
Himinhá tilboð í menningarhús Tilboð sem bárust í einstaka verkþætti menningarhússins á Akureyri voru nær undantekningarlaust vel yfir kostnaðaráætlun, og í suma verkþætti voru tilboðin meira en 200% yfir kostnaðaráætluninni. Ljóst er að tilboðum í trésmíðar og múrverk verður ekki tekið en viðræður munu fara fram við tilboðsgjafa í aðra verkþætti. Í trésmíðavinnu barst eitt tilboð, frá P.A. byggingaverktökum ehf., og hljóðaði það upp á 486,5 milljónir króna. Kostnaðaráætlun var upp á 234 milljónir og tilboðið því 208% miðað við áætlunina. Í múrverk bauð Gunnar Berg ehf. 137 milljónir og Pétur Jónsson 163 milljónir, en kostnaðaráætlun var upp á 61,5 milljónir og tilboðin því 223% og 264% miðað við kostnaðaráætlun. Lægsta tilboð í málun var 132% miðað við kostnaðaráætlun. Lægsta tilboð í dúkalagnir var 137% miðað við kostnaðaráætlun en í aðra verkþætti bárust tilboð sem voru nær kostnaðaráætlun. Ítarlega er fjallað um málið í Vikudegi og birtur listi yfir öll tilboð sem bárust.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/fyrsti-baturinn-sjosettur
Fyrsti báturinn sjósettur Fyrsti báturinn af alls 22 bátum sem Bátasmiðjan Seigla smíðaði fyrir þýskt ferðaþjónustufyrirtæki var sjósettur fyrir stundu. Bátarnir verða að öllum líkindum allir tilbúnir fyrir 15 maí nk. og ætlar þýska ferðaþjónustufyrirtækið að leigja þá út til sjóstangveiði á Vestfjörðum eins áður hefur verið sagt frá í Vikudegi. Báturinn sem sjósettur var áðan hefur hlotið nafnið Bobby og var að sjálfsögðu öllum hefðum fylgt við skírnina. Kampavínsflaska var brotin á honum við gleði viðstaddra iðnaðarmanna sem unnið hafa að verkinu.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/domarinn-thekkti-okumanninn
Dómarinn þekkti ökumanninn Karlmaður hefur verið dæmdur í 30 þúsund króna sekt fyrir að aka bifreið á 70 km hraða á Hrafnagilsstræti á Akureyri þar sem hámarkshraði er 30 km. Maðurinn neitaði að hafa ekið bifreiðinni en dómarinn kvaðst þekkja manninn á myndum sem lagðar voru fram í réttinum. Atvikið átti sér stað í nóvember sl. Lögreglumaður var við hraðamælingar á Hrafnagilsstræti og notaði myndavél. Hann mældi hraða bíls mannsins 70 km og var manninum í framhaldinu boðin sátt gegn því að hann greiddi 30 þúsund krónur og væri sviftur ökuleyfi í 2 mánuði. Því boði hafnaði hann.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/eignir-i-fjolbyli-laekka-i-verdi
Eignir í fjölbýli lækka í verði Samkvæmt upplýsingum frá Fasteignamati ríkisins var 69 kaupsamningum um fasteignir þinglýst á Akureyri í marsmánuði, einum fleiri en í febrúar. Af þessum 69 eignum voru 33 í fjölbýli, 34 í sérbýli og 2 aðrar eignir. Það sem vekur mesta athygli við skoðun á upplýsingum frá Fasteignamatinu er að íbúðaverð í fjölbýli á Akureyri lækkar umtalsvert á milli mánaða. Í febrúar seldust 34 eignir í fjölbýli á 17,9 milljónir að jafnaði en í mars seldust 33 íbúðir í fjölbýli á 15,5 milljónir að jafnaði. Íbúðaverð í fjölbýli hefur þó hækkað verulega frá síðasta ári eða um 1 milljón króna. Aðra sögu er að segja um eignir í sérbýli. Alls seldust 25 slíkar í febrúar á 23,1 milljón að meðaltali en í mars seldust 34 eignir og meðalverðið var 25,6 milljónir króna.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/allt-fritt-a-amtsbokasafninu
Allt frítt á Amtsbókasafninu Amtsbókasafnið á Akureyri fagnar 180 ára afmæli á morgun, miðvikudag, en það var stofnað 25. apríl árið 1827 af Grími Jónssyni, amtmanni á Möðruvöllum, með dyggum stuðningi frá ýmsum mætum mönnum hérlendis og í Danmörku. Í tilefni þessara tímamóta verður ýmislegt góðgæti að finna á safninu á afmælisdaginn, dagurinn verður sektarlaus og allt frítt, myndir, tónlist, margmiðlun og fleira. Á þessum 180 árum hefur margt breyst nema það að enn þann dag í dag er Amtsbókasafnið ein mikilvægasta og virtasta menningarstofnunin á Akureyri. Fleiri viðburðir eru fyrirhugaðir síðar á afmælisárinu.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/sjavarsafn-byggt-a-akureyri
Sjávarsafn byggt á Akureyri? Í dag var stofnað sérstakt félag á Akureyri til undirbúnings þess að í bænum rísi sjávarsafn og rannsóknamiðstöð um menningu og lífríki við Norðurhöf. Safnið yrði mjög umfangsmikið og eitt af meginsöfnum landsins. Fyrstu hugmyndir gera ráð fyrir að safnsvæðið verði allt að 5000 fermetrar að stærð og að kostnaður við að koma safninu á fót geti orðið um 2 milljarðar króna. "Heimur Norðurhafa" yrði fyrsta safnið á Íslandi sem hefði þann tilgang að mennta fólk um hafið og menningu sjávarbyggða. Markmiðið með formlegu undirbúningsfélagi er að hafa frumkvæði að frekari forvinnu sem síðan verði lögð fyrir opinbera aðila, sem og fjárfesta, þegar kemur að því að afla verkefninu fjármagns til að hrinda því í framkvæmd. Upphaf málsins má rekja til þess að fyrir nokkru mynduðu áhugasamir einstaklingar starfshóp um byggingu sjávarsafns og rannsóknamiðstöðvar á Akureyri sem sérstaklega væri miðuð að menningu og lífríki við Norðurhöf. Hugmyndin gengur út á veglegt sjávardýra-, sjávarlíffræði- og sjávarvistkerfissafn á heimsvísu. Einnig yrði í safninu fjallað um samfélög og menningu við ysta haf. Hugmyndin hefur verið kynnt fjölmörgum aðilum og undantekningalaust fengið góð viðbrögð og áhuga. Á seinni stigum vinnunnar hefur verkefnið fengið stuðning Vaxtarsamnings Eyjafjarðar, auk þess sem fulltrúar Akureyrarbæjar hafa fylgst með hugmyndavinnunni. Auk þess að mennta fólk um hafið og menningu sjávarbyggða, væri tilgangurinn ekki síst að fræða og breiða út skilaboð um sjálfbæra nýtingu og umhverfismál sjávar. Til þess yrði beitt allri nýjustu og fullkomnustu tækni sem þekkt er í safnaheiminum í dag því markmiðið er að safnið verði sönn upplifun fyrir þá sem það sækja heim.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/testosteron-radid-utanrikisstefnu
Testósterón ráðið utanríkisstefnu „Hið mikla magn testósteróns, sem hefur svifið yfir vötnum í utanríkisráðuneytinu til þessa, hefur án efa haft áhrif á þau áherslumál sem Ísland hefur sett á oddinn í utanríkismálum í gegnum tíðina. Stundum má segja að þar hafi ekki allaf verið á ferðinni málaflokkar sem ættu að vera forgangsatriði herlausrar þjóðar." Þetta sagði Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra á fundi í Háskólanum á Akureyri í dag. Fundurinn, sem haldinn var í húsakynnum HA á Sólborg nú í hádeginu, fjallaði um konur í stjórnmálum og utanríkismál. Í framhaldi af yfirlýsingu Valgerðar um hin „karllægu gildi" sem ráðið hafa í utanríkisstefnu þjóðarinnar reifaði hún þær áherslubreytingar sem hún hefur staðið fyrir s.s. áherslu á þróunarmál, mannréttindamál, friðargæslu og jafnréttismál. Þessum málum hafa ýmsir lýst sem „mjúkum málum" en Valgerður spurði: „Hvað er „mjúkt" við fátækt og hungur, mannréttindi, málefni flóttamanna, barnahermennsku eða uppbyggingu stríðshrjáðra svæða? Þetta eru ekki málefni sem varða konur frekar en karla, eða eru „mýkri" en önnur mál." Það kom jafnframt fram í ræðu Valgerðar að fyrr í dag skrifaði hún undir nýja jafnréttisáætlun fyrir utanríkisráðuneytið og er það nýjasta skrefið af mörgum sem hún hefur tekið við að auka hlut kvenna og jafnréttisumræðu í utanríkisráðuneytinu og utanríkisstefnu þjóðarinnar. Um þetta sagði utanríkisráðherra m.a.: „Nú er það svo að oft geta ýmsar áskoranir fylgt því að starfsmaður á fámennri starfsstöð erlendis fari í fæðingarorlof. Það er þó aðeins verkefni til að ráða fram úr og fagna ég því að það hefur færst í aukana í utanríkisráðuneytinu að starfsmenn af báðum kynjum nýti sér fæðingarorlof sitt. Það er mikilvægt jafnréttismál að karlar og konur taki jafna ábyrgð í uppeldi barna og mikilvægt fyrir framgöngu kvenna í utanríkisþjónustunni að kynin axli þar jafna ábyrgð." Valgerður kom víða við í ræðu sinni og gagnrýndi m.a. ýmsa samferðamenn sína í stjórnmálum hér á landi fyrir karlrembu og virðingarleysi fyrir konum í orðræðunni og fengu þar bæði Geir Haarde, Guðni Ágústsson og þó sérstaklega Steingrímur J. Sigfússon sínar sneiðar.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/sa-getur-ordid-islandsmeistari-i-kvold
SA getur orðið Íslandsmeistari í kvöld! SA sigraði SR í þriðja leik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn sl. laugardag með 10 mörkum gegn 6 í stórskemmtilegum leik liðanna í Skautahöllinni í Reykjavík. SA menn fóru hreinlega hamförum í fyrstu lotu og höfðu eftir hana 5-0 forystu. Í annarri lotu jafnaðist leikurinn mikið og settu liðin sitt hvort markið, staðan eftir hana því 6-1. Í þriðju og síðustu lotu hins vegar skoraði SA fjögur mörk en SR fimm. Lokatölur urðu því eins og áður sagði 10-6. Athyglivert er að 9 leikmenn SA skoruðu mörkin 10 og skiptust mörkin/stoðsendingarnar svona: Jón Ingi Hallgrímsson 1/3, Jón Gíslason 2/1, Rúnar Rúnarsson 1/2, Tomas Fiala 1/1, Sigurður Sigurðsson 1/0, Elvar Jónsteinsson 1/0, Guðmundur Guðmundsson 1/0, Sigurður Árnason 1/0, Björn Már Jakobsson 1/0, Elmar Magnússon 0/1, Steinar Grettisson 0/1. SA getur því tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri á SR í kvöld í Skautahöllinni. Ljóst er að liðið þarf að snúa við þeim „álögum" sem virðast vera í þessari úrslitakeppni en allir leikirnir þrír hafa unnist á útivelli, SA hefur unnið tvo og SR einn. Allir á völlinn!
https://www.vikubladid.is/is/frettir/syknadur-af-kaeru-um-kynferdisofbeldi
Sýknaður af kæru um kynferðisofbeldi Karlmaður hefur í Héraðsdómi Norðurlands eystra verið sýknaður af ákæru um kynferðisafbrot gagnvart stúlku, en maðurinn var ákærður fyrir að hafa káfað á brjóstum hennar og kynfærum þegar hún var í því ástandi sökum ölvunar og svefndrunga að geta ekki spornað á móti. Konan kærði nauðgun daginn eftir atburðinn. Við yfirheyrslur í málinu kom fram mikið misræmi í framburði mannsins og konunnar, hann hélt því fram að það sem fram fór á milli þeirra hafi verið með samþykki hennar og fór svo að fjölskipaður dómur Héraðsdóms sýknaði manninn með öllu og greiðist sakarkostnaður úr ríkissjóði.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/hordur-leidir-islandshreyfinguna
Hörður leiðir Íslandshreyfinguna Hörður Ingólfsson markaðsráðgjafi er í fyrsta sæti á lista Íslandshreyfingarinnar - lifandi land, í Norðausturkjördæmi vegna kosninganna til Alþingis í næsta mánuði. Kristín Þyrí Þorsteinsdóttir félagsmálastjóri er í 2. sæti. Í þriðja sæti listans er Davíð Sigurðarson framkvæmdastjóri, Eyrún Björk Jóhannsdóttir nemi er í fjórða sæti og í fimmta sæti er Ásgeir Yngvason bifreiðarstjóri.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/sigrar-hja-thor-og-thorka
Sigrar hjá Þór og Þór/KA Þórsarar lögðu Leikni frá Fáskrúðsfirði 3-1 í B-deild karla í deildarbikarkeppninni í knattspyrnu um helgina. Leikurinn fór fram í hinni glæsilegu Fjarðabyggðarhöll á Reyðarfirði. Leiknir spilar í 3. deild á Íslandsmótinu næsta sumar og því áttu flestir von á því að Þórsarar sem eru í 1. deild myndu hafa töluverða yfirburði og sú varð raunin. Leiknir komst reyndar í 1-0 með marki úr vítaspyrnu en Þórsarar komust svo yfir 2-1 fyrir hálfleik með mörkum Andra Ásgrímssonar og Helga Jones. Í síðari hálfleik bætti Þórður Arnar Þórðarson við einu marki fyrir Þórsara þegar hann “klippti” boltann glæsilega í markið úr þröngu færi. Þórsarar fengu fleiri færi til að skora en tókst það ekki, þrátt fyrir yfirburði á vellinum. Sigur hjá stelpunum Stelpurnar í sameinuðu liði Þórs og KA gerðu góða ferð suður á sama tíma og mættu Fjölni í deildarbikarkeppni kvenna í roki og leiðinda veðri á Fylkisvellinum í Árbæ. Fjölnir er eins og Þór/KA í úrvalsdeild og var því von á hörkuleik. Þór/KA komst í 1-0 með marki frá hinni ungu og efnilegu Örnu Sif Ásgrímsdóttur en Fjölnir jafnaði um hæl 1-1. Norðanstúlkur komust aftur yfir með marki frá markamaskínunni Rakel Hönnudóttur, Fjölnir jafnaði hins vegar aftur í 2-2 fyrir hálfleik. Í síðari hálfleik skoraði Freydís Anna Jónsdóttir sigurmarkið fyrir Þór/KA þegar skammt var til leiksloka og þar við sat.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/dagny-linda-og-bjorgvin-med-yfirburdi
Dagný Linda og Björgvin með yfirburði Það voru „gullkálfarnir” tveir, þau Dagný Linda Kristjánsdóttir frá Akureyri og Björgvin Björgvinsson frá Dalvík, sem unnu þrefalt á Skíðamóti Íslands í Hlíðarfjalli um helgina. Dagný Linda og Björgvin urðu Íslandmeistarar í stórsvigi, svigi og alpatvíkeppni. „Ég er mjög ánægð með að hafa varið Íslandsmeistaratitlana mína tvo, það var það sem ég stefndi að og ég er glöð að það tókst þrátt fyrir að aðstæður í fjallinu hafi ekki verið upp á það besta þar sem það blés duglega á okkur á laugardaginn,” sagði Dagný Linda um árangur helgarinnar. Akureyringar náðu glæsilegum árangri í kvennakeppninni í stórsvigi, Dagný sigraði með miklum yfirburðum og kom í markið tæpum 4 sekúndum á undan Salome Tómasdóttur sem varð í öðru sæti. Þessi árangur Salome, 2:12,04, nægði henni hins vegar til sigurs í flokki 17-19 ára. Í þriðja sæti í fullorðinsflokki og í öðru sæti í flokki 17-19 ára varð svo hin unga og efnilega Tinna Dagbjartsdóttir frá Akureyri sem er fædd árið 1991. Í karlaflokknum hafði Björgvin Björgvinsson viðlíka yfirburði og Dagný Linda. Hann sigraði á tímanum 2:00,30 og var um fjórum sekúndum á undan næsta manni sem var Þorsteinn Ingason frá Akureyri. Tími Þorsteins skilaði honum sigri í flokki 17-19 ára. Í þriðja sæti í fullorðinsflokki og í öðru sæti í flokki 17-19 ára varð Húsvíkingurinn Stefán Jón Sigurgeirsson sem einnig keppir fyrir Akureyri. Fékk fína keppni frá Þorsteini Keppni í svigi fór fram við frekar erfiðar aðstæður, töluverður hiti var í fjallinu sem gerði brautina erfiða yfirferðar, hvassviðri var framan af degi og þurfti margsinnis að fresta keppni. Loks tókst þó að að klára keppnina og sigruðu þau Björgvin og Dagný Linda og tryggðu sér um leið sigur í alpatvíkeppni. Þess má reyndar geta að eftir fyrri ferð í sviginu var hinn ungi og efnilegi Þorsteinn Ingason með sama tíma og Björgvin en honum hlekktist á síðari ferð og lauk því ekki keppni. „Ég fékk fína keppni frá Þorsteini í sviginu og það er virkilega gott mál að það séu að koma ungir strákar upp í íþróttinni. Ég spái Þorsteini góðri framtíð ef hann nær að æfa rétt við góðar aðstæður,” sagði Björgvin aðspurður um samkeppnina. Björgvin kom í mark á tímanum 1:29,83 samanlagt og var tæpum tveimur sekúndum á undan næsta manni sem var Gísli Rafn Guðmundsson úr Ármanni. Í þriðja sæti varð Stefán Jón Sigurgeirsson rúmlega fjórum sekúndum á eftir Björgvini. Þessi tími Stefáns Jóns skilaði honum sigri í flokki 17-19 ára og unir hann eflaust glaður við sitt. Í öðru sæti í þeim flokki var Ágúst Freyr Dansson. Dagný Linda sigraði eins og áður sagði hjá konunum en þó ekki með sömu yfirburðum og í stórsviginu, hún kom í markið á tímanum 1:34,60 mín. sem var tæplega tveimur sekúndum betri tími en hjá Salome Tómasdóttur sem einnig varð í öðru sæti í þessari grein. Rétt eins og áður nægði tími Salome henni til sigurs í flokki 17-19 ára kvenna, í öðru sæti þar og í þriðja sæti í heildarkeppninni varð Þóra Stefánsdóttir frá Akureyri.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/launamalin-endurskodud
Launamálin endurskoðuð Halldór Jónsson, framkvæmdastjóri Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, segir ekkert eðlilegra en að greiða hjúkrunarfræðingum á FSA sömu laun og greidd eru hjúkrunarfræðingum á Landsspítala - háskólasjúkrahúsi fyrir samskonar vinnu. Þannig svarar hann þeim ásökunum að hjúkrunarfræðingar á FSA séu með umtalsvert lægri laun en starfssystur þeirra í Reykjavík. Halldór segir að í könnun sem FSA er að láta framkvæma séu komnar fram vísbendingar um að einstaklingar á sjúkrahúsunum tveimur raðist ekki í launaflokka á sama máta. Hann leggur þó áherslu á að unnið sé eftir stofnanasamningi og launaliðum þar fylgt. „Við erum alls ekki að halda eftir fé sem annars færi til þeirra sem hér starfa,“ segir Halldór. - „Komi í ljós að um sé að ræða óútskýrðan launamun milli starfsfólks FSA og LSH mun það óhjákvæmilega kalla á leiðréttingu og þar með nauyðsyn þess að FSA fái til þess aukna fjármuni," segir í yfirlýsingu FSA um málið.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/kea-faerir-fjolmennt-gjof
KEA færir Fjölmennt gjöf Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA, afhenti í dag Fjölmennt á Akureyri tölvubúnað að gjöf. Nýverið flutti Fjölmennt í nýtt húsnæði að Hvannavöllum 14 en þar með lauk langri bið eftir viðunandi húsnæði fyrir starfsemina. Forveri Fjölmenntar á Akureyri var Hvammshlíðarskóli eða Fullorðinsfræðsla fatlaðra. Fyrir tæpum fimm árum var Fjölmennt sett á laggirnar og starfar á landsvísu. Fjölmennt er sjálfseignarstofnun í eigu ríkisins með sjálfstæðan fjárhag en starfar eftir þjónustusamningi við Menntamálaráðuneytið. Starfsstöðvar eru þrjár; í Reykjavík, á Akureyri og á Selfossi. Starfsemin á Akureyri skiptist í þrjár deildir. Í fyrsta lagi símenntunardeild þar sem þroskaskertir sækja margs konar námskeið. Í öðru lagi endurhæfingardeild sem er fyrst og fremst fyrir þá sem eru að ná sér á strik eftir erfið veikindi eða slys. Í þriðja og síðasta lagi framhaldsdeild sem er fyrir mikið fatlaða nemendur á framhaldsskólaaldri. Milli 80 og 90 nemendur sækja námskeið að jafnaði hjá Fjölmennt á Akureyri á hverju starfsári. Jón Stefán Baldursson, deildarstjóri Fjölmenntar á Akureyri, segir að gjöfin, netþjónn, afritunarbúnaður o.fl., muni koma að góðum notum og verða til þess að bæta enn frekar aðstöðu Fjölmenntar.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/hyggst-logsaekja-baeinn
Hyggst lögsækja bæinn Veitingamaður á Akureyri hefur í hyggju að lögsækja Akureyrarbæ vegna framgöngu bæjarins í lóðamálum við Sómatún í Naustahverfi. Við Sómatún voru auglýstar samkvæmt deiliskipulagi lóðir fyrir einbýlishús á einni hæð. Einum þeirra sem fékk lóð við götuna tókst hinsvegar að finna einhverja smugu og nýtti sér hana til að fá samþykkt að hann gæti byggt á tveimur hæðum. Aðrir tilvonandi íbúar við götuna eru mjög óhressir og var gerningurinn kærður til umhverfis- og skipulagsnefndar sem sagði að bygging tveggja hæða húss á þessum stað væri ekki leyfileg. Þá komu æðstu yfirvöld bæjarins til skjalanna og auglýstu breytingu á deiliskipulaginu sem gerði það leyfilegt að hafa tveggja hæða byggingu þá sem styrinn stóð um. Nú hefur einmn húseigandinn við göruna lýst því yfir að hann ætli í mál við bæinn, hann vill að bærinn kaupi hús sitt við Sómatón og byggi fyrir sig hús á öðrum stað í bænum.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/um-20-thusund-seidi-i-eldiskviar
Um 20 þúsund seiði í eldiskvíar Um 20 þúsund þorskseiði voru á dögunum flutt í eldiskvíar Brims fiskeldis ehf. sem eru skammt norðan Akureyrar. Að sögn Sævars Þórs Ásgeirssonar hjá Brimi eru seiðin um 90 grömm að þyngd og reiknað er með að eftir tveggja ára eldi verði þau vaxin í að vera 2 - 2,5 kg fiskar. Seiðin eru fengin frá Nauteyri við Ísafjarðardjúp, þau voru veidd í hafinu sl. haust og voru þá 5 grömm að þyngd og síðan þá hafa þau verið vanin á að taka þurrfóður.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/top-hja-akureyri-i-handboltanum
Töp hjá Akureyri í handboltanum Bæði karla og kvennalið Akureyrar máttu þola frekar slæm töp um helgina þegar þau héldu suður yfir heiðar. Karlaliðið keppti við Stjörnuna í gær og er skemmst frá því að segja að þeir áttu aldrei möguleika og voru undir nær allan leikin, mest 8 mörkum. Leikurinn endaði hins vegar 35-31 þar sem ágætis lokakafli bjargaði Akureyri frá stóru tapi. Varnarleikur liðsins og markvarsla voru í algjörum lamasessi í þessum leik sem sérst best á því að liðið fékk 35 mörk á sig sem varla telst gott á þeim bænum. Stelpurnar öttu kappi við Valsstelpur sem eru, enn a.m.k., einfaldlega of sterkar fyrir þær. Niðurstaðan varð sú að Akureyri tapaði 33-23 sem er þó langt frá því að vera versta útreið liðsins í vetur. Nánar verður fjallað um leikina í Vikudegi á miðvikudaginn nk.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/bjorgvin-og-dagny-linda-sigrudu-a-skidamoti-islands
Björgvin og Dagný Linda sigruðu á Skíðamóti Íslands Þau Björgvin Björgvinsson frá Dalvík og Dagný Linda Kristjánsdóttir frá Akureyri eru fremsta skíðafólk Íslendinga í dag. Þetta sönnuðu þau með því að sigra í svigi og stórsvigi á Skíðamóti Íslands sem fram fór í Hlíðarfjalli um helgina. Bæði höfðu þau töluverða yfirburði í sínum greinum, en þó fékk Björgvin töluverða samkeppni frá Akureyringnum unga Þorsteini Ingasyni í sviginu. Hjá konunum varð hins vegar hin unga og efnilega Salome Tómasdóttir í öðru sæti í bæði svigi og stórsvigi á eftir Dagný Lindu. Ítarleg umfjöllun um mótið birtist í Vikudeg nk. miðvikudag.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/elsti-akureyringurinn-latinn
Elsti Akureyringurinn látinn Kristbjörg Kristjánsdóttir, elsti íbúi Akureyrar, lést á hjúkrunarheimilinu Seli í gærkvöld, á 103. aldursári. Hún fæddist á Sveinseyri við Tálknafjörð 18. janúar árið 1905 og ólst þar upp. Kristbjörg hefur á liðnum árum dvalið á hjúkrunarheimilinu Seli. Heilsu hennar hefur hrakað nokkuð með aldrinum og var hún nær blind. Þegar hún var á aldarafmæli sínu spurð um ástæður langlífisins taldi hún helst „að það væri bölvuð Mýrarseiglan sem héldi í sér lífinu." Foreldrar Kristbjargar voru hjónin Kristján Kristjánsson frá Mýri í Bárðardal, kennari, hreppstjóri og útvegsbóndi í Tálknafirði og síðar skógarvörður á Vöglum í Fnjóskadal, sonur Kristjáns Ingjaldssonar að Mýri í Bárðardal og Helgu Stefánsdóttur, föðursystur Stephans G. Stephanssonar skálds. Móðir Kristbjargar var Þórunn Jóhannesdóttir, Þorgrímssonar, sem var alkunnur útvegsbóndi á Sveinseyri við Tálknafjörð, og konu hans Ragnheiðar Kristínar Gísladóttur. Þau Þórunn og Kristján eignuðust ellefu börn og náðu níu þeirra fullorðinsaldri en tvö dóu í frumbernsku. Eiginmaður Kristbjargar var Jóhannes Eiríksson, hann er látinn. Hann var lengi ráðsmaður á Kristneshæli, en þar bjuggu þau hjónin um langt skeið áður en þau fluttust til Akureyrar. Áttu þau heimili við Þórunnarstræti alllengi, en síðustu árin áður en Jóhannes lést bjuggu þau í Víðilundi. Kristbjörg og Jóhannes eignuðust ekki börn, en ólu upp einn son.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/tekist-a-um-evropumal
Tekist á um Evrópumál Þeir Ragnar Arnalds og Þorvaldur Gylfason munu takast á um Evrópumálin á kappræðufundi sem haldinn verður í Háskólanum á Akureyri í hádeginu á þriðjudag. Fundurinn hefst kl 12:30 og er í stofu L101 á Sólborg. Búist er við fjörugum fundi, en Ragnar hefur verið mjög gagnrýninn á Evrópusamrunann og þátttöku Íslands í honum á meðan Þorvaldur hefur verið á algerlega öndverðum meiði. Það eru samtökin Heimsýn annars vegar og Evrópusamtökin hins vegar í samstarfi við Félagsvísinda og lagadeild Háskólans sem standa að þessum fundi og er hugmyndin að endurtaka kappræðurnar víðar á landinu ef vel tekst til. Það telst til tíðinda að haldinn sé fundur af þessu tagi um Evrópumálin, sérstaklega að fengnir séu til umræðunnar svo þekktir og hátt skrifaðir talsmenn hvors sjónarmiðs um sig. Málefnið er afar brýnt og viðbúið að það muni koma á dagskrá í kosningabaráttunni. Á fundinum á þriðjudag gefst almennum fundarmönnum tækifæri til að blanda sér í umræðuna með fyrirspurnum eða stuttum athugasemdum.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/sinueldur-i-laekjargili
Sinueldur í Lækjargili Slökkvilið Akureyrar var kallað út vegna sinubruna í Lækjargili um kl. 23.00 í gærkvöld. Slökkvistarf gekk vel en það tók um eina klukkustund. Ekki urðu slys fólki, hús voru ekki í hættu en reykur fór yfir húsnæði FSA og þurfti að slökkva á loftræsikerfi spítalans um tíma, samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu. Nú fer að renna upp sá árstími sem flestir sinubrunar verða og er full ástæða til að brýna fyrir fólki að fara varlega og vera ekki að fikta með opinn eld, þar sem hætta er á að kviknað geti í sinu.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/erill-hja-logreglu
Erill hjá lögreglu Mikill fjöldi fólks var saman kominn í miðbæ Akureyrar í gærkvöld, eftir að Söngkeppni framhaldsskólanna lauk í Íþróttahöllinni, og var nokkuð líflegt í bænum fram á nótt. Fyrir vikið var töluverður erill hjá lögreglu. Ein líkamsárás barst á borð lögreglunnar á Akureyri en engin kæra hefur verið lögð fram. Þrír voru teknir fyrir ölvunarakstur, aðrir þrír fyrir hraðakstur og tvö rúðubrot voru tilkynnt.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/tekinn-a-167-km-hrada
Tekinn á 167 km hraða Sautján ára unglingur á lánsbíl var stöðvaður á Ólafsfjarðarvegi í nótt á 167 km hraða og var hann sviftur nýlegu ökuleyfi sínu á staðnum. Annar var tekinn ölvaður í umferðinni en annasamt var hjá lögreglunni á Akureyri. Talsverður fjöldi aðkomuunglinga er á Akureyri vegna söngvakeppni framhaldsskólanna sem fram fer í íþróttahöllinni í kvöld. Margir unglinganna voru í miðbænum, mikið um drykkju og hafði lögreglan í nógu að snúast.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/ferdathjonustufolk-anaegt
Ferðaþjónustufólk ánægt Aðilar í ferðaþjónustu á Akureyri eru ánægðir eftir páskahelgina og bjartsýnir á sumarið sem framundan er. Viðmælendur Vikudags á Akureyri sögðust flestir telja að nýliðnir páskar hafi verið þeir bestu í ferðaþjónustunni í fimm ár og miða þá við fjölda ferðamanna sem sóttu bæinn heim. Að sjálfsögðu spilar þarna sterkt inn í uppbyggingin í Hlíðarfjalli en þar var hægt að bjóða upp á góðan „tilbúinn" skíðasnjó sem ekki hefði verið fyrir hendi annars. Í hönd fara annasamar vikur í ferðaþjónustu á Akureyri, um helgina er Skíðalandsmót Íslands haldið í Hlíðarfjalli og fleiri stórir atburðir eru framundan s.s. söngvakeppni framhaldsskólanna og Andrésar andar leikarnir. Nánar í blaðinu Vikudegi.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/engey-re-landar-a-akureyri
Engey RE landar á Akureyri Engey RE, stærsta fiskiskip landsins, kom til Akureyrar í morgun frá Færeyjum, með um 1700 tonn af frystum kolmunna. Afurðunum verður landað á Akureyri. Eins og fram hefur komið keypti Samherji skipið á dögunum fyrir hönd erlends dótturfélags og var það afhent í Fuglafirði í síðasta mánuði. Skipið verður í framtíðinni gert út erlendis og er liður í að styrkja erlenda starfsemi Samherja hf. Söluverð skipsins var 31,4 milljónir evra og bókfærður hagnaður af sölunni í kringum 700 milljónir króna. Af þessum sökum var fallið frá áður tilkynntum áætlunum um að selja Engey til dótturfélags HB Granda, Atlantic Pelagic, og gera hana út við strendur Afríku.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/innbrot-i-glerarsundlaug
Innbrot í Glerársundlaug Brotist var inn í Sundlaug Glerárskóla sl. nótt. Rúða í hurð var brotin til að komast inn í húsnæðið og voru glerbrot á sundlaugarbakkanum og í lauginni þegar starfsfólk og gestir komu á staðinn snemma í morgun. Ekki voru unnar skemmdir á staðnum öðru leyti og hvorki peningum né öðrum verðmætum stolið. Af verksummerkjum má ráða að þeir sem þarna voru á ferð hafi verið að skemmta sér og fundið hjá sér mikla þörf fyrir að komast í heita pottinn og laugina. Heitu pottarnir eru á útisvæði og höfðu viðkomandi klifrað yfir háa girðingu og við annan pottinn lágu tómar bjórdósir. Eftirlitsmyndavélar eru á sundlaugarsvæðinu og því ætti að vera hægt að sjá hverjir þarna voru á ferð.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/tobakssmyglarar-daemdir
Tóbakssmyglarar dæmdir Þrír menn hafa í Héraðsdómi Norðurlands eystra verið dæmdir í skilorðsbundið fangelsi fyrir tilraun til að smygla miklu magni af sígarettum inn í landið en góssið kom á land á Raufarhöfn. Einn mannanna tók við 10 kössum sem innihéldu 500 karton af sígarettum við skipshlið á Raufarhöfn en um var að ræða rússneskan togara. Maðurinn ók síðan í burtu og var stöðvaður síðar á Tjörnesi. Í hinu tilfellinu var um tvo menn að ræða með um 550 karton af sígarettum sem einnig náðust. Allir fengu mennirnir 45 daga fangelsisdóm skilorðsbundinn til tveggja ára og hverjum þeirra var gert að greiða 300 þúsund krónur í sekt til ríkissjóðs.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/kostelic-og-dagny-linda-sigrudu-i-svigi-a-iceland-air-cup
Kostelic og Dagný Linda sigruðu í svigi á Iceland Air Cup Í gær og í dag fer fram alþjóðlegt skíðamót í Hlíðarfjalli sem nefnist Iceland Air Cup. Króatinn Ivica Kostelic er meðal keppenda á mótinu en hann er víðfrægur í skíðaheiminum og hefur m.a. unnið til margra verðlauna á heimsbikarmótum, heimsmeistaramótum og ólympíuleikum svo eitthvað sé nefnt. Keppni í svigi lauk í gær og kom það fáum á óvart að áðurnefndur Kostelic sigraði með miklum yfirburðum á tímanum 1.33,41 og annar varð Magnus Anderson frá Svíþjóð, rúmlega sekúndu á eftir. Björgvin Björgvinsson frá Dalvík varð þriðji, Egil Ismar frá Noregi fjórði og fimmti var Akureyringurinn Þorsteinn Ingason. Hjá konunum sigraði Dagný Linda Kristjánsdóttir frá Akureyri með töluverðum yfirburðum á tímanum 1:41,46 og í öðru sæti varð Salóme Tómasdóttir sem einnig er frá Akureyri. Í þriðja sæti var svo enn einn Akureyringurinn, hin unga og efnilega Tinna Dagbjartsdóttir.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/vorid-ad-taka-voldin
Vorið að taka völdin Eftir alveg prýðilegt veður á Akureyri um páskana kólnaði örlítið í gær, en svo virðist sem vorið sé að taka völdin af vetri konungi. Veðurstofan spáir sunnanátt á morgun og hitinn getur farið í tveggja stafa tölu, milt verður í veðri á föstudag. Bjart veður í suðvestan golu og allt að 10 stiga hiti á laugardag og sunnan hægviðri á sunnudag. Margir munu nú fara að huga að vorverkunum, en eitt þeirra er að skipta nagladekkjunum út og setja sumardekkin undir bílana.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/staekkun-glerartorgs-bodin-ut-a-ny
Stækkun Glerártorgs boðin út á ný Smáratorg ehf. hefur á ný auglýst eftir tilboðum í stækkun verslunarmiðstöðvarinnar Glerártorgs á Akureyri. Eins og fram kom í Vikudegi nýlega, barst ekkert tilboð í verkið í útboði á dögunum. Þá var m.a. talið að hinn þröngi tímarammi sem var settur hafi vegið þungt. Reiknað hafði verið með að hefja framkvæmdir á næstunni og taka nýja húsið í notkun 1. nóvember nk. með 30 nýjum verslunum. Samkvæmt nýja útboðinu skal verkinu nú að fullu lokið 30. apríl 2008. Um er að ræða viðbyggingu og breytingar á eldra húsnæði. Viðbyggingin er á tveimur hæðum að hluta. Heildarflatarmál hennar er um 10.000 m², grunnflötur er um 8.200 m² og 2. hæð er um 1.800 m². Tilboðið nær til uppsteypu, frágangs á sameiginlegum rýmum og frágangs að utan. Ganga skal frá um 17.000 m² lóð sem fylgir þessum hluta. Verslunarrýmum skal skila tilbúnum til innréttinga. Ennfremur er verkið fólgið í breytingum á tveimur stórum verslunarrýmum í núverandi verslunarmiðstöð, alls um 3.700 m².
https://www.vikubladid.is/is/frettir/bilasyningin-i-genf
Bílasýningin í Genf Bílasýningin í Genf stóð var að venju haldin um miðjan marsmánuð og þar var margt að sjá. (Myndir hér) Við feðgar eyddum þar tveimur dögum auk þess sem við fengum okkur göngutúr um borgina, sem skartaði sínu fegursta í björtu og hlýju veðri. Genf er nefnilega sérlega þægileg heim að sækja eins og Sviss er reyndar yfir höfuð, enda túrisminn fundinn upp þar. Genf stendur við vesturendann á Genfarvatninu, borgin er hæfilega stór, tæplega 200 þús. íbúar, og samgöngur við borgina og innan hennar eru einstaklega þægilegar. Genf er eins alþjóðleg og nokkur borg getur verið enda er þar að finna fjölmargar alþjóðlegar stofnanir. Ekki er óalgengt meðal borgarbúa að þeir ráði við fjögur tungumál, frönsku, þýsku, ítölsku og ensku. Síðast en ekki síst er bogin afar falleg, bæði umhverfið og borgin sjálf. Genf er hins vegar ekki ódýrasti áfangastaður í heimi. Bílaframleiðendur verða sífellt áhugasamari um þessa sýningu þar sem hún er árlegur viðburður. Hin risastóra bílasýning í Frankfurt er hins vegar haldin annað hvert ár og því hentar Genfarsýningin framleiðendum jafnvel enn betur til að kynna árlegar nýjungar. Nýir orkugjafar Að þessu sinni var nokkuð áberandi vaxandi áhugi á nýjum orkugjöfum. Þó eru bílar sem nota annað eldsneyti en jarðolíu fremur fágætir og það eru umtalsverðar líkur á að svo verði á næstu árum. Umræða um mengun, takmarkaðar uppsprettur jarðolíu og gróðurhúsaáhrif hafa hins vegar orðið til þess að framleiðendur leggja nú verulega áherslu á aðferðir til að draga úr eldsneytisnotkun bensín og díselvéla og sá þess víða stað á þessari sýningu. Jafnframt fjölgar þeim bílum sem knúnir eru díselvélum. Umræða um framtíð samgangna og orkunotkunar verður að bíða betri tíma en hér meðfylgjandi eru myndir af nokkrum bílum sem sjá mátti á sýningunni í Genf og þeir voru ekki allir sérhannaðir til sparaksturs. Maserati Quattroporte Ég hef alllengi átt erfitt með að hemja aðdáun mína á Maserati Quattroporte. Þessi 4 dyra útgáfa af sportbíl hefur lengi verið til með þessu nafni en síðust árin hefur þessi bíll orðið fallegri og betri með hverri smábreytingu. Bíllinn er teiknaður af Pininfarina, klassiskur og án tilhneigingar í átt að skammæjum tískufyrirbrigðum. Þessi bíll gleður bara augað og mun gera það um ókomin ár. Í Genf voru 3 útgáfur af Quattroprte, missportlegar, en sú nýjasta er með 6 þrepa sjálfskiptingu frá ZF og með henni verður þessi bíll að hreinræktaðri lúxuskerru. Maserati er, eins og Ferrari, í eigu Fiat og það er heilmikið af Ferrri um borð í Maserati, þar á meðal vélin. Þessi nýja sjálfskipta útgáfa er með 4,2 lítra V8, 400 hö og snúningsvægið er mest 460 Nm. Quattroporte er 6,1sek að ná 100 km hraða úr kyrrrstöðu og hámarkshraðinn er 270 km á klst. Og talandi um fallega bíla þá var einnig nýr sportbíll, Maserati Coupé, til sýnis, svona eins og til að sýna og sanna hvar fallegustu bílarnir eru smíðaðir. Audi Skammt frá Maserati var Audi í öllu sínu veldi og þar gat að líta einn nýjan, Audi A5, tveggja dyra coupé. Þessi bíll er byggður á nýjum A4 undirvagni, en nýr A4 verður væntanlega kynntur til sögunnar seint á þessu ári. Audi A5 er bráðlaglegur bíll, 4 sæta með viðunandi rými fyrir 4 fullorðna, ef frá er talin lofthæð í aftursæti. A5 verður fáanlegur með 5 vélargerðum, 1,8 TFSI 170 hö, 3,2 FSI 265 hö, 2,7 TDI 190 hö, 3,0 TDI 240 hö og í sérútgáfu S5 er 4,2 V8 FSI 354 hö. Fjórhjóladrif er staðalbúnaður í tveimur síðasttöldu gerðunum en það fæst einnig með 2,7 TDI og 3,2 FSI vélunum. Mondeo Annar þýskur framleiðandi, Ford, kynnti nýja gerð af Mondeo, mjög álitlegan bíl, nokkru stærri og viðameiri en þá eldri. Nokkrar vélar verða í boði 1,6 - 2,5 l, 110-220 hö auk 2,0l díselvélar. Volvo Dótturfyrirtæki Ford, Volvo, sýndi nýja úgáfu af XC70 skutbílnum. Þessi nýja gerð kemur í kjölfarið á hinum nýja V70 og er, eins og hann, lítillega stærri og rýmri en forverinn. Drifbúnaðurinn frá Haldex hefur verið endurbættur og innréttingin er á margan hátt betri og enn notdrýgri en áður. Tvær vélarstærðir verða í boði , 3,2 lítra 6 strokka bensínvél, 238 hö og 2,4 lítra 5 strokka díselvél, 185 hö. Hjá Volvo var einnig til sýnis tilraunaútgáfa af "jepplingi" Volvo XC60, sem virðist mjög athyglisverður bíll. Jepplingar Talandi um "jepplinga" þá var mikið um bíla í þeim flokki. Þar á meðal var bíll sem sýndur var undir merkjum þriggja framleiðenda. Þar var um að ræða Mitsubishi Outlander sem einnig verður settur á markað sem Peugeot 4007 og Citroën C-Crosser. Bíllinn er þá í öllum aðalatriðum eins og Outlander, þ.e. hvað varðar undirvagn, drifbúnað og yfirbyggingu. Citroën og Peugeot setja síðan sinn eigin framenda á bílinn og fitla eitthvað við innréttinguna. Meginmunurinn verður þó sá að PSA fyrirtækið (sem framleiðir Peugeot og Citroën) setur 2.2.lítra 156 ha díselvél í sínar útgáfur í stað 2,0 lítra díselvélarinnar í Outlander (sú vél er reyndar af Volkswagenætt). Bíllinn fæst með 7 sætum og hann hefur rafeindastýrðan drifbúnað líkan þeim sem þekktur er úr Pajero, en þó án lággírunar. Búnaðurinn hefur þrjár stillingar, framdrif, sjálfvirkt fjórhjóladrif eða læst fjórhjóladrif. Lada Lada var með bíla á sýningunni í Genf bæði 1117 og 1119GTI, sem eru smábílar af svipaðri stærð og Ford Fiesta. Ennfremur var þarna frumgerð af Lada C, sem ég veit því miður ekkert meira um. Lada er í samstarfi við marga bílaframleiðendur í Rússlandi og einnig við General Motors svo búast má við nýjungum þaðan á næstunni. Volkswagen Volkswagen kynnti ýmsar nýjungar, þ.á.m. nýjan Golf skutbíl og sérstaklega sparneytinn díselknúinn Passat sem Volkskswagen nefnir Bluemotion og á ekki að eyða nema 6-7 lítrum á hundraði í blönduðum akstri. Dótturfyrirtæki Volkswagen, Skoda, kynnti nýjan Fabia ásamt upphækkuðum útgáfum sem nefnast Scout af Octcvia og Roomster bílunum. Volkswagen átti einnig mesta tryllitækið á sýningunni, Bugatti EB 16.4 Veyron. Sá bíll er í talsverðum sérflokki. Vélin er W16, 8.0 lítra, 1001 hö, 1250 Nm, hámarkshraðinn er 407 km/klst og hröðun 0-200 7,3 sek. Til gamans fylgja hér að auki myndir af nokkrum vel völdum ökutækjum: Rolls Royce Phantom, Bentley Brooklands, Russo-Baltique og Mercedes-Benz SLR Edition 722.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/numers-og-rettindalaus
Númers- og réttindalaus Um miðjan dag í gær veittu lögreglumenn athygli bifreið sem ekið var í átt til Akureyrar skammt norðan bæjarins og var ekkert skráningarnúmer framan á bifreiðinni. Er ökumaður bifreiðarinnar varð þess var að lögreglan hyggðist ná tali af honum ók hann rakleitt heim að næsta sveitabæ og þar bak við fjós til að forðast laganna verði. Í ljós kom að þarna voru á ferð tveir piltar sem höfðu lent í höndum lögreglunnar á Blönduósi nóttina áður og höfðu lögreglumenn þar klippt númerin af bifreiðinni þar sem hún hafði ekki verið færð til skoðunar á tilsettum tíma. Sjá mátti strax að ökumaður var ölvaður og var hann færður á lögreglustöðina á Akureyri til skýrslutöku og upplýsti hann þá einnig að hann væri sviptur ökuréttindum frá 2002. Við frekari skoðun á ferli mannsins, sem reyndist þó nokkur, kom í ljós að nú í aprílmánuði hafði hann þrisvar sinnum áður verið tekinn við akstur og hafði hann verið ölvaður í tveimur þeirra tilvika. Ljóst er að sumir láta sér ekki segjast.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/lif-og-fjor-i-hlidarfjalli
Líf og fjör í Hlíðarfjalli „Þetta er búinn að vera ljómandi fínn dagur og skemmtilegir dagar framundan," sagði Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli, þegar við spjölluðum við hann fyrir nokkrum mínútum. Guðmundur sagði að um 1300 gestir hafi heimsótt Hlíðarfjall í dag. „Skírdagur hefur aldrei verið með fjölmennnustu dögunum í þessum páskalotum, það eru föstudagurinn og páskadagur. Aðstæður hér í Hlíðarfjalli eru mjög góðar, við erum önnum kafnir við að framleiða snjó og höldum því áfram til morguns. Það bendir ekkert til annars en að þetta verði mjög góðir páskar hjá okkur ef við fáum gott veður" sagði Guðmundur.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/mikil-umferd-til-akureyrar
Mikil umferð til Akureyrar Lögreglumenn á Akureyri stöðvuðu fjölda ökumanna í skipulögðu eftirliti til að kanna ástand og ökuréttindi ökumanna síðastliðna nótt en enginn reyndist undir áhrifum áfengis. Mikill umferð var til Akureyrar í gærkvöldi og nótt. Greinilegt var á þeim sem lögregla stöðvaði að fólk hugðist fara á skíði á Akureyri um páskana. Fjölskyldufólk var áberandi í þeim hópi. Fjórir voru teknir fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglunnar á Akureyri í gærkvöldi og nótt. Sá sem hraðast ók var á 119 km/klst þar sem að hámarkshraði er 90 km/klst.Lögreglan á Akureyri þurfti að hafa afskipti af tveimur mönnum í nótt vegna þess að þeim hafði verið vísað út af skemmtistöðum á Akureyri vegna óláta. Mennirnir voru ósáttir með að hafa verið vísað út og létu vel í sér heyra en róuðu sig stuttu síðar.Tilkynnt var um innbrot í dráttarvél sem að var lagt við verkstæðisaðstöðu á Gleráreyrum í nótt. Brotin var rúða í dráttarvélinni og geislaspilari tekinn.Tilkynnt var um stórt grjót á Ólafsfjarðarvegi við Sauðanes. Lögreglumenn fóru á staðinn og náðu að velta því af veginum.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/bjartmar-og-rannveig-sigurvegarar-vetarhlaupanna
Bjartmar og Rannveig sigurvegarar vetarhlaupanna Það voru þau Bjartmar Örnuson og Rannveig Oddsdóttir sem unnu síðustu vetrarhlaup UFA þennan veturinn. Það fór vel á því að þau skyldu sigra þessi hlaup vegna þess að þau sigruðu bæði samanlagða keppni í hlaupunum sem voru alls sex talsins. Bjartmar var með 20 stig, jafn mörg og Starri Heiðmarsson, en Bjartmar vann fleiri hlaup og fékk því titilinn. Rannveig var með 25 stig og var heilum 9 stigum á undan Sigríði Einarsdóttur sem varð í öðru sæti með 16 stig. Alls tóku um 50 manns þátt í hlaupunum þetta árið sem þóttu heppnast afar vel. Ljósgjafinn/Siemens gaf sigurvegurunum veglegar viðurkenningar fyrir árangurinn.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/fylkir-tok-ka-i-kennslustund
Fylkir tók KA í kennslustund KA-menn gerðu ekki góða ferð suður yfir heiðar í gærkvöldi í deildarbikarkeppni karla í knattspyrnu þegar þeir mættu Fylki, en síðarnefnda liðið sigraði leikinn 5-1. Leikurinn byrjaði reyndar ágætlega fyrir KA-menn þegar Janez Vrenko, sem nýkominn er aftur til liðs við KA-menn, skoraði fyrsta mark leiksins í fyrri hálfleik. Því miður seig heldur betur á ógæfuhliðina á hjá KA eftir markið. Fylkismenn jöfnuðu strax í næstu sókn og komust svo í 2-1 stuttu síðar. Ekki batnaði ástandið þegar Ingvi H. Ingvason lét reka sig útaf fyrir að sýna dómara vanvirðingu eftir að dómarinn hafði áminnt hann fyrir brot. Í síðari hálfleik var nánast einstefna að marki KA-manna enda erfitt að vera einum færri í svo langan tíma. Fylkismenn bættu við þremur mörkum og lokatölur leiksins urðu eins og áður sagði 5-1.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/thjofar-daemdir-i-heradsdomi
Þjófar dæmdir í Héraðsdómi Fjórir menn voru dæmdir í gær í Héraðsdómi Norðurlands eystra fyrir þjófnaði og sá fimmti hlaut eins mánaðar skilorðsbundið fangelsi fyrir að kasta bjórglasi í andlit annars á skemmtistað á Dalvík. Tveir voru dæmdir í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi til þriggja ára fyrir að stela vélsleðakerru með tveimur vélsleðum á við Frostagötu á Akureyri og flytja góssið að bænum Bakka í Skagafirði. Einn var dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi til þriggja ára fyrir að stela fartölvu, Ipod og DVD spilurum úr herbergjum í heimavist MA og VMA í október á síðasta ári. Þá var einn dæmdur í óskilorðsbundið 7 mánaða fangelsi fyrir þjófnað úr verslun á Akureyri þar sem hann stal peningum, tóbaki og sælgæti og fyrir innbrot í íbúð í Hafnarfirði þar sem hann stal ýmsum varningi. Maðurinn rauf skilorð með þessum afbrotum.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/ka-menn-sopudu-ad-ser-verdlaunum-a-lokahofi-blakmanna
KA-menn sópuðu að sér verðlaunum á lokahófi blakmanna Davíð Búi Halldórsson var stigahæsti leikmaður efstu deildar karla í blaki og fékk fyrir það verðlaun á lokahófi Blaksambands Íslands sem fram fór um helgina. KA-menn hrepptu reyndar fleiri verðlaun á hófinu og má þar nefna að áðurnefndur Davíð fékk einnig viðurkenningu fyrir að vera bestur í móttöku, ásamt því að vera annar í kjörinu á besta leikmanni mótsins. Hilmar Sigurjónsson var kosinn efnilegasti leikmaður deildarinnar, Filip Szewczyk var kostinn besti uppspilarinn. Þá var Marek Bernat kosinn þjálfari tímabilsins og Stefán Jóhannesson besti dómarinn. Það má því með sanni segja að KA-menn hafi sópað að sér verðlaunum á lokahófinu og geta þeir vel við unað með árangur vetrarins, en liðið varð í þriðja sæti Íslandsmótsins sem er árangur framar væntingum.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/alexandra-med-thorka-i-sumar-lidid-ny-komid-ur-portugalsferd
Alexandra með Þór/KA í sumar - liðið ný komið úr Portúgalsferð Fyrir skömmu fóru stelpurnar úr Þór/KA í ferðalag til Portúgal þar sem þær dvöldust í viku við æfingar ásamt því að spila tvo æfingaleiki. Að sögn Dragan K. Stojanovic, þjálfara liðsins, var ferðin afar vel heppnuð en æft var tvisvar á dag flesta daga ferðarinnar og einnig gengu leikirnir ágætlega. Áður hefur verið sagt frá því hér á vikudegi.is að leikurinn gegn KR tapaðist 2-5, en sl. föstudag léku þær annan leik gegn Fylki og tapaðist sá leikur 2-7. Dragan sagði að þrátt fyrir þessar tölur hafi margt verið jákvætt í leik liðsins og benti á að marga leikmenn hafi vantað í hópinn. Má þar nefna útlendingana þrjá sem fengnir hafa verið til liðsins auk Alexöndru Tómasdóttur og Önnu Elvu Þórisdóttur sem eru meiddar. Vert er að nefna að áðurnefnd Alexandra verður með liðinu í sumar en talið hafði verið að hún myndi taka sér frí frá knattspyrnuiðkun.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/kustarnir-islandsmeistarar-i-krullu
Kústarnir Íslandsmeistarar í krullu Kústarnir frá Akureyri eru Íslandsmeistarar í krullu árið 2007, en þeir lögðu Bragðarefi, sem einnig koma frá Akureyri, í úrslitaleik um titillinn 7-3. Þetta er í fyrsta skipti sem Kústarnir verða Íslandsmeistarar en liðsmenn Kústanna, þeir Eiríkur Bóasson, Gunnar H. Jóhannesson, Kristján Þorkelsson, Ólafur Hreinsson og Pálmi Þorsteinsson, eru allir starfsmenn Vegagerðarinnar á Akureyri og hófu allir að iðka íþróttina í ársbyrjun 2003. Fálkar nældu sér í bronsið en liðið kom inn í b-úrslitin vegna forfalla hjá liði úr Reykjavík sem átti réttinn. Fálkar nýttu sér þetta tækifæri, unnu b-úrslitin og sigruðu síðan Fífurnar í úrslitaleik um bronsið, 7-5. Undankeppni Íslandsmótsins fór fram á tveimur stöðum nú eins og í fyrra, annars vegar hjá Krulludeild Skautafélags Akureyrar þar sem tíu lið tóku þátt og hins vegar hjá Krulludeild Þróttar í Reykjavík þar sem fjögur lið kepptu. Þrjú lið frá Akureyri og eitt úr Reykjavík unnu sér rétt til að leika í a-úrslitum. Vegna forfalla sunnanmanna voru það síðan fjögur lið frá Akureyri sem léku í b-úrslitum. Þetta var í sjötta sinn sem leikið var um Íslandsmeistaratitilinn í krullu og hefur alls 31 leikmaður unnið titilinn. Sá sem oftast hefur unnið er Sigurgeir Haraldsson en hann hefur fjórum sinnum orðið Íslandsmeistari.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/akureyri-tapadi-fyrir-fram
Akureyri tapaði fyrir Fram Handboltalið Akureyrar tapaði í dag 27-29 fyrir Fram í Reykjavík í DHL-deild karla. Akureyri var alltaf á eftir í leiknum ef undan eru skildar fyrstu 10 mínútur leiksins. Akureyri lenti undir 9-6 um miðbik fyrri hálfleiks þegar Fram átti góðan kafla og skoraði 4 mörk í röð. Eftir það hafði Fram yfirhöndina og þó svo að Akureyri næði að jafna tvisvar höfðu Framarar 15-14 forystu í hálfleik. Jankovic var góður í fyrri hálfleik hjá Akureyri og skoraði þá 5 af alls 6 mörkum sínum í leiknum. Í síðari hálfleik byrjuðu Framarar mun betur og náðu fljótlega öruggri forystu sem varð mest sex mörk í stöðunni 25-19 þegar um 10 mínútur voru til leiksloka. Var það sérstaklega slæmur sóknarleikur Akureyrar sem var orsök þess að liðið lenti svo langt á eftir sprækum Frömurum. Eins og svo oft áður í vetur hins vegar vöknuðu Akureyringar til lífsins síðustu 10 mínúturnar með frábærum varnarleik og ákveðnum sóknarleik. En það var einmitt ákveðnin sem hafði vantað svo mikið í sóknarleikinn lengst af leik. Magnús Stefánsson minnkaði muninn í eitt mark 27-26 þegar um ein og hálf mínúta var eftir. Framarar tóku þá langa sókn og náðu að skora þegar hönd dómarans var komin upp til að gefa til kynna að bráðlega yrði dæmd leiktöf. Tíminn var því miður of naumur fyrir Akureyri til að ná að jafna leikinn og gullið tækifæri til að fara upp fyrir Stjörnuna í 4 sætum gekk því úr greipum liðisins í dag. Magnús Stefánsson átti góðan leik hjá Akureyri í síðari hálfleik og var á stundum sá eini sem tók af skarið í sókninni. Einnig átti Hörður Fannar Sigþórsson ágætis leik. Næsti leikur Akureyrar er á heimavelli miðvikudaginn 11. apríl nk. og eru það Fylkis menn sem koma í heimsókn í gríðarlega mikilvægan leik sem gæti skorið úr um það hvort Akureyri verður í fallbáráttu það sem eftir er vetrar eður ei.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/storir-paskar-framundan
Stórir páskar framundan Útlit er fyrir að mikið fjölmenni muni sækja Akureyri heim um páskana og tala menn um að páskarnir nú verði þeir fjölmennustu á Akureyri um árabil. Allt gistirými í bænum er upppantað og auk þess gistir fjöldi fólks í heimahúsum. Ferðamenn á Akureyri fara margir á skíði í Hlíðarfjall og mun veðurútlit vera þokkalegt fyrir páskahelgina.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/56-milljona-ferdakostnadur
56 milljóna ferðakostnaður Ríkisstjórnin hefur ákveðið að koma til móts við íþróttafélögin í landinu með því að veita 90 milljónum króna á ári til jöfnunar ferðakostnaðar félaganna. Þessu marki verður náð á þremur árum, í ár greiðir ríkið 30 milljónir, 60 milljónir á næsta ári og 90 milljónir frá árinu 2009. Þröstur Guðjónsson, formaður Íþróttabandalags Akureyrar, segir að þetta framlag ríkisins hafi verið orðið alveg nauðsynlegt og baráttan fyrir því að ná þessu fram hafi verið löng. „Við höfum tekið saman ferðakostnað aðildarfélaga okkar og telst til að hann hafi verið um 56 milljónir króna á síðasta ári. Það verður ekki mikið til skiptanna á þessu ári en það eykst síðan um helming á næsta ári og eykst enn eftir það. Við höfðum talið nauðsynlegt að sú upphæð sem ríkið legði í þetta væri á bilinu 80-100 milljónir króna á ári," sagði Þröstur.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/slogust-badir-fengu-dom
Slógust - báðir fengu dóm Tveir menn á Þórshöfn sem kærðu hvor annan eftir slagsmál þeirra á milli, hafa báðir verið dæmdir til fangelsisvistar í Héraðsdómi Norðurlands eystra, en mennirnir fengu báðir skilorðsbundinn dóm. Mennirnir munu hafa setið að drykkju næturlangt og komið var framundir hádegi þegar annar þeirra gerði hinum heimsókn sem eiginkonunni á heimilinu féll illa. Erfiðlega gekk að koma gestinum út og það var ekki fyrr en húsráðandi, sem hafði lagt sig smástund, vaknaði og gaf aðkomumanninum á kjaftinn að hann hafðist út úr íbúðinni. Þegar þangað var komið var gesturinn reiður og kastaði m.a. grjóti í glugga við útidyr og braut glerið. Mönnunum lenti saman aftur og m.a. sveiflaði húsráðandi steikarpönnu í hita leiksins. Dómurinn dæmdi aðkomumanninn í 2 mánaða fangelsi en húsráðandann í 1 árs fangelsi og voru báðir dómarnir skilorðsbundnir til tveggja ára.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/klipptu-fingur-af-manni
Klipptu fingur af manni Tveir menn hafa í Héraðsdómi Norðurlands eystra verið dæmdir í fangelsi fyrir ýmis gróf ofbeldisbrot sem þeir frömdu árið 2005 og á síðasta ári. Fjórir menn voru kærðir vegna málanna sem dæmd voru í einu lagi, einum var ekki gerð refsing og einn var sýknaður. Ofbeldismennirnir tveir sem dæmdir voru, réðust m.a. á konu sem ók þeim í leigubíl og slógu hana ítrekað í andlit, réðust á mann við Nætursöluna, slógu hann í höfuð ítrekað og eyðilögðu gleraugu hans, réðust inn í íbúð við Hafnarstræti og veittu húsráðanda áverka með hnefahöggum í andlit og þá réðust þeir inn á heimili manns, lömdu hann með hafnarboltakylfu í hnakkann og klipptu síðan litla fingur vinstri handar mannsins af við miðkjúku með greinaklippum! Annar mannanna sem var dæmdur hlaut 4 ára fangelsi en hinn 2 ár og samtals námu sektargreiðslur mannanna tveggja og málskostnaður um 4 milljónum króna.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/rene-smith-synir-i-deiglunni
René Smith sýnir í Deiglunni Í dag, fimmtudaginn 29. mars kl. 17:00, verður opnuð í Deiglunni sýning René Smith sem undanfarið hefur gist gestavinnustofu Gilfélagsins. Sýningin er aðeins opin til kl. 21:00 í kvöld, þar sem René hefur ákveðið að giftast unnusta sínum í Mývatnssveit nk. laugardag og þarf því morgundaginn í undirbúning. Á sýningunni eru verk sem René hefur unnið á meðan á dvölinni hefur staðið; pastelmyndir byggðar á gömlum fjölskylduljósmyndum og ljósmyndir af ástvinum en þær myndir eru teknar á Akureyri af fólki sem þykir vænt hvoru um annað, á stöðum sem þeim eru kærir eða eru þeim mikilvægir á einn eða annan hátt. Í verkum sínum skoðar René hugmyndina um hina fullkomnu stund, bæði fegurð sjálfrar stundarinnar og hvernig hún dofnar í tímans rás. Verk hennar fjalla um minningar, sambönd og þann einkastað sem heimilið er. René býr í Queens New York og vinnustofa hennar er í Brooklyn. Hún hefur meistaragráðu í listmálun frá Temple University í Fíladelfíu og Róm og BA gráðu frá Bennington í Vermont. Verk hennar hafa verið sýnd á samsýningum og einkasýningum um gjörvöll Bandaríkin. Frekari upplýsingar um René er að finna á heimasíðu hennar: www.renesmith.net
https://www.vikubladid.is/is/frettir/ljosmyndasyning-a-flugvellinum
Ljósmyndasýning á flugvellinum Í ár eru 20 ár frá því Háskólinn á Akureyri var stofnaður. Í tilefni af þessu stórafmæli hafa nemendur á öðru ári í fjölmiðlafræði efnt til ljósmyndasýningar. Sýningin heitir "Tuttugu". Opnunin er í dag, fimmtudaginn 29. mars kl. 17:00 á flugvellinum á Akureyri. Myndirnar sýna 20 úrskriftarnemendur og hvað þeir eru að gera eftir útskrift frá skólanum og hvernig námið hefur nýst þeim. Sýningin mun svo flakka á milli innanlandsflugvalla landsins. Ljósmyndari sýningarinnar er Ragnhildur Aðalsteinsdóttir nemi á þriðja ári í fjölmiðlafræði.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/tap-hja-thorka-gegn-kr
Tap hjá Þór/KA gegn KR Kvennalið Þórs/KA hélt síðastliðinn laugardag til Portúgal í æfingaferð en einnig leikur liðið nokkra æfingaleiki á meðan á dvölinni stendur. Fyrsti æfingaleikurinn var í gær gegn hinu sterka liði KR úr vesturbænum sem margir spá Íslandmeistaratitli í sumar og fór leikurinn 5-2 fyrir KR. KR-ingar komust í byrjun leiks í 2-0 en hin bráðefnilega, 14 ára, Arna Sif Ásgrímsdóttir jafnaði fyrir Þór/KA með tveimur góðum mörkum. KR náði hins vegar aftur forystunni fyrir hlé 3-2 og þannig stóð í hálfleik. Í síðari hálfleik bættu þær svo við tveimur mörkum en úrslitin eru engu að síður ágæt fyrir Þór/KA þar sem enn vantar sterka leikmenn í hópinn sem koma fyrir tímabil.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/valgerdur-bjartsyn-a-alver
Valgerður bjartsýn á álver Á ráðstefnu á Húsavík í gær sem bar yfirskriftina Sjálfbært samfélag - nýting auðlinda - endurheimt landgæða, sagði Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra að jarðhitavirkjun, eins og sú sem rætt hefur verið um að myndi sjá álveri við Húsavík fyrir raforku, væri dæmi um atvinnustarfsemi sem hefði ekki áhrif á umhverfið. Hún sagði slíka jarhitavirkjun dæmi um sjálfbæra þróun í atvinnulífinu. Þá sagði Valgerður vel hugsanlegt að álver rísi við Húsavík. Valgerður sagði að stærsta verkefnið í íslenskum stjórnmálum næstu áratugina væri að skapa forsendur fyrir öfluga þróun íslensks efnahags- og atvinnulífs innan marka sjálfbærrar þróunar. Hugtakið sjálfbæra þróun sagði Valgerður vera að nýta auðlindir og umhverfi innan þeirra marka að ekki mætti ganga á möguleika komandi kynslóða til að njóta hvors tveggja, auðlindanna og umhverfisins.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/tonlistarveisla-a-akureyri
Tónlistarveisla á Akureyri Glæsileg tónlistarveisla verður haldin á Akureyri í lok maí og byrjun júní. Um er að ræða tónlistarhátíðina AIM Festival (Akureyri International Music Festival) sem verður nú haldin í annað sinn. Heimsfrægir tónlistarmenn taka þátt í hátíðinni. Fremstan meðal jafningja skal nefna Fernandez Fierro frá Argentínu sem mætir með 13 manna hljómsveit sína, en hún er talin besta tangóhljómsveit heims. Frá Kúbu kemur Hilario Duran sem er frægur jasspíanóleikari en hann kemur með tríó sitt. Þá koma rafhljómsveitir frá Englandi og Þýskalandi. Af innlendum tónlistarmönnum sem leika á hátíðinni má nefna Benna Hemm Hemm, Magnús Eiríksson og Blúscompaní, Kúbuband Tómasar R. Einarssonar og síðast en ekki síst Sinfóníuhljómsveit Norðurlands.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/skrifad-undir-samning-vid-ga
Skrifað undir samning við GA Skrifað var undir uppbyggingarsamning milli Akureyrarbæjar og Golfklúbbs Akureyrar nú í hádeginu. Samningurinn tekur til nauðsynlegra breytinga á golfvelli GA vegna lagningar Miðhúsabrautar, almennrar endurnýjunar á golfvellinum sjálfum, uppbyggingu nýs æfingasvæðis og 9 holu golfvallar. Framlag bæjarins á árunum 2008-2012 nemur 229 milljónum króna. Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri og Halldór Rafnsson formaður GA skrifuðu undir samninginn. Bæði lýstu þau yfir ánægju með samninginn. Sigrún Björk sagði að GA hefði skilað góðu starfi og að með þessum samningi væri verið að fjárfesta í lífsgæðum og ferðaþjónustu. Halldór sagði að sagan myndi dæma um hvort þetta væri stærsta skref í sögu klúbbsins en það væri alla vega mjög stórt. Hann sagði að búið hefði verið að loka á klúbbinn varðandi stóru mótin sem fram fara hér á landi. Nú þyrfti að fara að vinna, enda væri mikil vinna framundan, við að koma vellinum í fremstu röð ný. Samningurinn tekur einnig til þeirra mögulegu samlegðaráhrifa sem myndast við framkvæmdir beggja aðila og er þá einkum horft til framkvæmda við Miðhúsabraut, Naustahverfi og golfvöllinn sjálfan. Það er skilningur aðila að í framkvæmdir þessar sé ráðist til eflingar golfíþróttinni í bænum og að sem flestum gefist kostur á þátttöku án óhóflegrar gjaldtöku. Framkvæmdaáætlun samningsins miðar sérstaklega að því að aðalvöllur GA verði endurgerður fyrir sumarið 2010 en þá fer Íslandsmótið í höggleik fram á vellinum. Sameiginlegt markmið samningsaðila er að völlurinn verði þá kominn í raðir allra bestu golfvalla landsins sem og að vera vel tækjum búinn. Árin 2011 og 2012 verður svo ráðist í uppbyggingu á glæsilegu æfingasvæði sem mun bæta aðstöðu kylfinga til muna sem og að byggja upp 9 holu æfingavöll. Þessar aðgerðir munu gera GA kleift að taka við fleiri nýliðum bæði til kennslu og inn á völl sem hentar betur þeim sem styttra eru komnir í íþróttinni. Framlag GA á samingstímanum er 25 milljónir króna, 12 milljónir króna 2010 og 13 milljónir króna árið 2012.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/folsud-skilriki-i-umferd
Fölsuð skilríki í umferð Lögreglan á Akureyri fylgdist vandlega með skemmtistöðum í bænum um helgina og athugaði sérstaklega hvort of ungt fólk væri inni á skemmtistöðunum og hvernig dyravörslu væri sinnt. Útkoman var m.a. sú að hald var lagt á 7 skilríki sem voru ýmist fölsuð, eða í höndum annarra en eigenda þeirra. Mun ætlun lögreglunnar að fylgja þessu eftirliti vel eftir á næstunni. Lögreglan náði fíkniefnum í tveimur tilvikum, amfetamíni og kókaíni og á heimili manns sem var handtekinn fyrir innbrot á skemmtistað fannst útbúnaður til kannabisræktunar og var greinilegt að þar var framleiðsla að hefjast.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/aetlar-ad-koma-upp-klafferju
Ætlar að koma upp kláfferju Sveinn Jónsson, athafnamaður á Árskógsströnd, hefur ekki lagt á hilluna þá hugmynd sína að koma upp kláfferju í Hlíðarfjalli sem myndi ferja fólk frá skíðahótelinu og upp á brún Hlíðarfjalls. Sveinn segist hafa leitað til sterka fjárfestingafélaga sem starfa mikið erlendis um að koma að þessu verkefni. Heildarkostnaður er áætlaður um 800 milljónir króna. „Það hafa ekki komið nein jákvæð svör enn sem komið er en menn eru að velta þessu fyrir sér. Það er allt fyrir hendi, aðstæðurnar í fjallinu, snjóflóðahættumat, deiliskipulag og það vantar ekkert annað en fjármagnið til að hrinda þessu í framkvæmd," segir Sveinn. Fyrir liggur fjármagn upp á 100 til 200 milljónir króna. „Ég ætlaði ekki að slá út fyrir þessu einn og sér en freista þess að fá í þetta góða menn með mér. Ég er nú nokkuð vanur því að fást við að gera fjárhagsáætlanir og tel mig kunna það og þetta dæmi á alveg að ganga upp. Það liggja meira að segja fyrir plön um hvernig hægt yrði að nýta mannvirkin á sumrin eins og með gerð hjólabrauta, bobsleðabrauta og þess háttar. Það vantar ekkert nema fjármagnið en Eyfirðingar eru lélegir að fást við nýjungar," sagði Sveinn.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/glaesilegur-sigur-hja-akureyri
Glæsilegur sigur hjá Akureyri Akureyri var nú rétt í þessu að leggja Hauka 28-27 að Ásvöllum í Hafnafirði í DHL-deild karla í handknattleik, í leik sem var svo sannarlega mikilvægt að sigra. Með sigrinum komst Akureyri 6 stigum frá fallsæti og er liðið laust við falldraugin í bili. Fyrri hálfleikur var mjög kaflaskiptur, Akureyringar höfðu um tíma góða forystu og komust m.a. í 11-8. En þá skoruðu Haukar 7 mörk gegn tveimur frá Akureyri og náðu forystu 15-13. Í síðari hálfleik náðu Haukar mest 4 marka forystu og það var einungis fyrir frábæra markvörslu Hreiðars Levý Guðmundssonar í marki Akureyrar sem liðið hékk inni í leiknum. Þegar um 10 mín voru til leiksloka höfðu Haukar 3 marka forystu og útlitið svart hjá Akureyri. Þá hins vegar gerðust ótrúlegir hlutir, enginn annar en Rúnar Sigtryggsson hreinlega dreif sóknarleik liðsins í gang og auk þess hreinlega lokaðist vörnin. Þegar 5 mínútur voru til leiksloka hafði Akureyri jafnað 25-25 með marki Magnúsar Stefánssonar. Hann kom Akureyri svo yfir 26-25 þegar um þrjár mínútur voru eftir og Rúnar Sigtryggsson bætti um betur um hálfri mínútu síðar og kom Akureyri í 27-25. Eftir það var í raun ekki spurning um að Akureyri myndi sigra og lokatölur urðu 28-27. Rúnar Sigtrygsson sagði í viðtalið við RÚV eftir leikinn að hann væri gríðarlega ánægður með sigurinn og með honum hafi Akureyri fjarlægst falldrauginn í bili. Hins vegar megi liðið hvergi slaka á þar sem skammt sé stórra högga á milli í þessari deild.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/rassia
„Rassía" Lögreglan á Akureyri var með „rassíu" í gærkvöldi og einbeitti sér að því að kanna ástand ökumanna í bænum. Um 400 ökumenn voru stöðvaðir og reyndust fimm þeirra hafa neytt einhvers magn áfengis samkvæmt öndunarmæli. Tveir þeirra sluppu við að fara á lögreglustöðina þar sem öndunarmælirinn sýndi að þeir væru „undir mörkum", en hinir þrír þurftu í blóðrannsókn á lögreglustöðina.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/vilja-efla-utibu-orkustofnunar
Vilja efla útibú Orkustofnunar Orkustofnun rekur útibú að Borgum á Akureyri og hjá Akureyrarsetri stofnunarinnar eru fjórir starfsmenn. Ársfundur Orkustofnunar 2007 stendur nú yfir á Hótel KEA og fram kom í máli Þorkels Helgasonar orkumálastjóra að útibúið hafi eflst og vaxið á síðasta ári og að til umræðu sé að efla enn frekar starfsemina á Akureyri, t.d. með tilfærslu verkefna. Óhætt er að segja að Akureyri sé miðstöð Orkustofnunar á sviði orkuhagkvæmni hvers konar, þar sem Orkusjóður, Vettvangur um vistvænt eldsneyti og umsjón með niðurgreiðslum hafa öll bein tengsl við málefnið. Orkusetur er til húsa á skrifstofu Orkustofnunar á Akureyri. Setrið var stofnað árið 2005 í samvinnu við Iðnaðarráðuneytið, KEA og Samorku með styrk frá Evrópusambandinu, með það að markmiði að stuðla að skilvirkri orkunotkun og nýtingu nýrra orkugjafa.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/nytt-leikverk-frumsynt-hja-la
Nýtt leikverk frumsýnt hjá LA Lífið - notkunarreglur, nýtt leikverk eftir Akureyringinn Þorvald Þorsteinsson, verður frumsýnt í kvöld í Rýminu, nýju leiksviði Leikfélags Akureyrar. Einvala lið listrænna stjórnenda stýrir leikhópi LA og útskriftarárangi Leiklistardeildar Listaháskólans en sýningin er sett upp í samstarfi þessara aðila. Megas hefur samið tónlist við verkið sem m.a. inniheldur 10 ný sönglög við texta Þorvaldar. Magga Stína útsetur, stýrir tónlistinni í sýningunni og tekur þátt í flutningi verksins. Hinn reyndi og ástsæli leikstjóri, Kjartan Ragnarsson, leikstýrir sýningunni. Leikskáldið Þorvaldur hannar einnig leikmynd og búninga en þetta er í fyrsta skipti sem hann tekst á við það í leikhúsi, þó hann sé þekktur myndlistarmaður. Lífið - notkunarreglur er ævintýrið um okkur öll - fullt af hlýju, tónlist og leiftrandi húmor. Hvað var það nú aftur sem við áttum að gera við þetta blessaða líf? Erum við kannski að misskilja þetta allt saman? Eða er ástin ef til vill svarið sem allt snýst um? Litríkur hópur fólks stendur frammi fyrir áleitnum spurningum um framtíðina og eigin hlutverk í lifinu, spurningunum sem engin virðist geta svarað svo vel sé, enda fylgir sjaldnast bæklingur með börnunum sem fæðast í þennan heim. Hér er fjallað um sundurleitan samtíma og óvissa framtíð á svo mannlegum og hrífandi nótum að allir verða ríkari á eftir. Leikarar eru: Guðjón Davíð Karlsson, Ólafur Steinn Ingunnarson, Páll Sigþór Pálsson, Þráinn Karlsson, Vignir Rafn Valþórsson, Sigrún Huld Skúladóttir, Tinna Lind Gunnarsdóttir, Sara Marti Guðmundsdóttir, Magnús Guðmundsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Bjarni Snæbjörnsson, Anna Svava Knútsdóttir og Hallgrímur Ólafsson.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/risafylgi-vinstri-graenna
"Risafylgi" Vinstri grænna Vinstri grænir fljúga hátt í nýrri skoðanakönnun um fylgi stjórnmálaflokkanna í Norðausturkjördæmi sem Capacent Gallup framkvæmdi dagana 14.-20. mars. VG fengi 36% atkvæða miðað við þessa könnun og hvorki fleiri né færri en fjóra þingmenn kjörna og bætti við sig tveimur þingmönnum. Sjálfstæðisflokkurinn fengi 28,5% atkvæða og þrjá menn kjörna, bætti við sig einum. Framsóknarflokkurinn fengi 16,2% og 2 þingmenn, tapaði tveimur, Samfylkingin fengi 15% og einn þingmann, tapaði einum, og Frjálslyndir fengju 3,7% og kæmu ekki að manni.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/flod-i-kjallara-siduskola
Flóð í kjallara Síðuskóla Ekki hlaust tjón af þegar lítillega flæddi inn í kjallara Síðuskóla í morgun, en betur fór en leit út fyrir á tímabili. Að sögn Ólafs Thorarensen skólastjóra myndaðist gríðarlega stór pollur suðvestan við skólabygginguna vegna hlákunnar undanfarið. „Niðurfallið sem átti að taka við vatninu úr pollinum hafði stíflast. Þegar við náðum að losa stífluna þar þá kom vatnið bara upp um svelgina í kjallaranum í skólanum. Við stífluðum aftur niðurfallið í pollinum þannig að það hætti sem betur fer að flæða í kjallarann,” sagði Ólafur. Hann segir að ekki hafi mikið flætt inn í kjallarann og þegar starfsmenn bæjarins hafi fundið hvar fyrirstaðan í niðurföllunum var hafi vatnið farið aftur að síga úr kjallaranum. Einnig hafi hjálpað til að þar sé lyfta og undir henni vatnsdæla, því hafi verið hægt að sópa töluverðu af vatninu í dæluna og láta hana dæla því í burtu. „Það varð ekkert tjón eftir því sem ég best veit sagði Ólafur og bætti við að lokum: „Það var hins vegar mikið fjör í pollinum fyrir utan húsið þegar krakkarnir fengu frímínútur, þau sögðu mér í morgun þegar þau sáu pollinn að það yrði sko gaman í frímínútum og það varð heldur betur raunin."
https://www.vikubladid.is/is/frettir/hannes-stjornarformadur-kea
Hannes stjórnarformaður KEA Hannes Karlsson var endurkjörinn formaður stjórnar KEA, á fyrsta fundi nýkjörinnar stjórnar í gær. Björn Friðþjófsson var endurkjörinn varaformaður og Jóhannes Ævar Jónsson endurkjörinn ritari. Erla Björg Guðmundsdóttir kemur ný inn í stjórn KEA, stað Soffíu Ragnarsdóttur, sem ekki gaf kost á sér til endurkjörs. Jóhannes Ævar og Hallur Gunnarsson höfðu lokið tveggja ára setu í stjórn, þeir gáfu báðir kost á sér áfram og voru endurkjörnir til næstu tveggja ára á aðalfundi félagsins um síðustu helgi. Bjarni Jónasson og Steinþór Ólafsson, sem átti sæti í varastjórn, gáfu einnig kost í stjórn en náðu ekki kjöri. Aðrir í aðalstjórn KEA eru Benedikt Sigurðarson og Úlfhildur Rögnvaldsdóttir. Varamenn í stjórn eru Njáll Trausti Friðbertsson, Guðný Sverrisdóttir og Birgir Guðmundsson.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/thakpappi-fauk-af-radhusi
Þakpappi fauk af raðhúsi Ekki er vitað um mikið tjón í hvassviðrinu á Akureyri í nótt, en þó þurfti að kalla út hjálparsveitir vegna þess að pappi var farinn að fjúka af raðhúsi við Heiðarlund. Björgunarsveitarmenn mættu á vettvang og fengu körfubíl á staðinn svo þeir ættu auðveldara með að athafna sig. Timbri var komið yfir pappann og hann negldur niður. Eitthvað hafði losnað af pappanum og hann m.a. fokið á bíl sem stóð við húsið og skemmt hann eithvað. Skömmu síðar var tilkynnt um að þakplötur hefðu losnað af húsi á Eyrinni og héldu björgunarsveitarmenn þangað og björguðu málum þar.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/erfid-fjarhagsstada-ka-og-thors
Erfið fjárhagsstaða KA og Þórs Langtímaskuldir Knattspyrnufélags Akureyrar, KA, eru um 26 milljónir króna og langtímaskuldir Þórs eru eitthvað hærri. Í gær var gert fjárnám hjá Þór vegna skulda við sýslumannsembættið. Sigfús Helgason, formaður og framkvæmdastjóri Þórs, sagðist gefa bæjaryfirvöldum vikufrest til að leysa fjárhagsvanda félagsins. Þetta kom fram á súpufundi Þórs nú í hádeginu. Fyrir svörum á fundinum sátu fulltrúar í íþróttaráði Akureyrar og deildarstjóri íþróttadeildar. Ólafur Jónsson formaður íþróttaráðs sagði að bæjaryfirvöld ætli sér að endurskoða rekstrarsamninga félaganna, málið hafi verið á borði ráðsins á fundi í morgun og að málið yrði tekið til afgreiðslu á næsta fundi, sem er eftir um hálfan mánuð. Gunnar Jónsson framkvæmdastjóri KA upplýsti að langtímaskuldir félagsins væru um 26 milljónir króna, af þeirri upphæð ætti handknattleiksdeild KA um 11 milljónir króna. Frá því að samningurinn var gerður við félögin árið 2001, hefur KA verið að greiða tæpar 2,5 milljónir króna í afborganir. Hins vegar hefur félagið greitt tæpar 25 milljónir í vexti og verðbætur af langtímaskuldum frá árinu 2001. Hann sagði að ef gengið hefði verið alla leið varðandi skuldir félagsins á þeim tíma, væri staða félagsins önnur en hún er í dag.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/skolamaltidir-laekka
Skólamáltíðir lækka Samtaka, svæðisráð foreldra nemenda í grunnskólunum á Akureyri, mótmælti við skólanefnd bæjarins að lækkun verðs á skólamáltíðum skyldi ekki hafa verið ákveðin á fundi nefndarinnar 5. mars. Skólanefndin bókaði að ekki hefðu legið fyrir nauðsynlegir útreikningar til að taka þá ákvörðun Fyrir fund skólanefndarinnar nú í vikunni var lögð tillaga um lækkun á verði skólamáltíða í leik- og grunnskólum Akureyrarbæjar til samræmis við virðisaukaskattslækkun á matvöru frá 1. mars sl. Þar kemur fram að verð á máltíðum í skólamötuneytum grunnskólanna verði kr. 229 fyrir annarkort, kr. 274 fyrir mánaðarkort og 309 kr. fyrir stakar máltíðir. Verð til starfsmanna verður kr. 200 pr. máltíð. Þá er lagt til að verð pr. mánuð í leikskólum verði kr. 1.232 fyrir morgunverð og sama verð fyrir sídegishressingu, kr. 2.466 fyrir hádegisverð og kr. 4.930 fyrir fullt fæði.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/hardur-arekstur-a-hlidarbraut
Harður árekstur á Hlíðarbraut Harður árekstur varð á Hlíðarbraut, við Shell, fyrir stundu er tveir bílar skullu þar saman. Áreksturinn var svo harður að annar bíllinn valt á hliðina og þykir mildi að ökumennirnir, sem voru einir í bílum sínum, skyldu sleppa ómeiddir. Bílarnir eru hins vegar mikið skemmdir og þurfti að fjarlægja þá af vettvangi. Annar bíllinn, lítil sendibifreið, var að koma út af stæðinu hjá Shell og ók í veg fyrir fólksbíl sem kom austur Hlíðarbraut. Fólksbíllinn lenti á miðri bílstjórahlið sendibílsins, sem valt á hliðina við höggið.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/hagnadur-af-rekstri-nordurorku
Hagnaður af rekstri Norðurorku Rekstrarreikningur Norðurorku hf. fyrir árið 2006 sýnir hagnað fyrir fjármagnsliði og skatta upp á 492 milljónir samanborið við 323 milljóna króna hagnað árið 2005. Tap fyrir skatta var 66 milljónir króna á árinu 2006 samanborið við 301 milljóna króna hagnað árið 2005. Helsta skýring á þessum mun er gengistap vegna langtímaskulda, samtals 521 milljónir króna en var 28 milljónir króna árið 2005. Meginhluti langtímaskulda Norðurorku hf. er í erlendri mynt Auk þessa var gerð sérstök gjaldfærsla að upphæð 50 milljónir vegna náttúruhamfara sem leiddu til umtalsverðs tjóns hjá dótturfélaginu Fallorku ehf. Rekstrartekjur ársins 2006 námu um 1.740 milljónum króna en voru um 1.684 milljónir árið 2005. Þessi tekjuauki felst í fjölgun viðskiptavina þar sem verð á söluvörum fyrirtækisins ýmist lækkaði eða stóð í stað á árinu. Þær verðlækkanir sem stjórn félagsins ákvað á heitu vatni og raforku á árinu minnkuðu tekjur miðað við verðskrá ársins 2005 um 50 milljónir króna. Heildareignir 31. desember 2006 voru 6.066 milljónir króna en voru 4.552 milljónir króna 31. desember 2005. Eigið fé 31. desember 2006 var 2.223 milljónir króna en var 1.624 milljónir í 31. desember 2005. Langtímaskuldir 31. desember 2006 voru 2.585 milljónir króna en voru 1.960 milljónir króna 31. desember 2005. Eiginfjárhlutfall var 36,6% í lok ársins 2006 en var 35,7% í lok 2005. Horfur á árinu 2007 eru góðar. Umsvif munu áfram verða veruleg og fjárfestingar miklar. Stærsta einstaka verkefnið er bygging Reykjaveitu sem mun fjölga viðskiptavinum fyrirtækisins umtalsvert. Jafnframt er sýnilegt að viðskiptavinum mun fjölga annars staðar á veitusvæðinu einkum á Akureyri. Ásgeir Magnússon hefur tekið við formennsku í stjórn Norðurorku en Bjarni Jónasson, fráfarandi formaður, er varaformaður. Aðrir í stjórn eru Kristín Sigfúsdóttir ritari, Anna Þóra Baldursdóttir og Hákon Hákonarson meðstjórnendur.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/thorgnyr-yfir-akureyrarstofu
Þórgnýr yfir Akureyrarstofu Þórgnýr Dýrfjörð menningarfulltrúi Akureyrarbæjar verður fyrsti framkvæmdastjóri Akureyrarstofu. Alls sóttu 33 um stöðuna. Ákveðið er með ráðningu Þórgnýs en stjórn Akureyrarstofu mun væntanlega koma saman í dag og staðfesta ráðningu hans.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/byggt-a-akureyrarvelli
Byggt á Akureyrarvelli Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti á fundi sínum í gær tillögur vinnuhóps um nýtingu svæðisins þar sem Akureyrarvöllur er nú með 8 atkvæðum gegn þremur. Tillögur vinnuhópsins sem fara hér á eftir miða að því fyrst og fremst að fjárfestum og byggingaraðilum verði gert kleift að koma með tillögur um notkun svæðisins og bjóða í byggingarréttinn. Tillögur vinnuhópsins og niðurstöður um framhald verkefnisins: Aðilar vinnuhópsins eru sammála um að vænlegasta leiðin til árangurs sé tillaga nr. 1 sem felst í breyttri nýtingu svæðisins þar sem fjárfestum og byggingaraðilum verði gert kleift að leggja fram tillögur og hugmyndir um framtíðarnotkun svæðisins. Boðið verði í byggingarréttinn út frá skilgreindum forsendum. Með því næðist, að mati hópsins, möguleiki á að fjölmargir gætu sent inn hugmyndir um nýtingu svæðisins sem hægt yrði að velja úr í sátt við íbúa og hagsmunaaðila vegna þeirra breytinga sem gera þyrfti á svæðinu í heild. Áður en auglýst yrði eftir fjárfestum og byggingaraðilum, verða skilgreindar forsendur í samvinnu við ráðgjafa þar sem fram kæmu upplýsingar um byggingarreiti, nýtingarhlutfall, bílastæði, gönguleiðir, sjóntengsl, gróður, hæðir og fjöldi bygginga o.fl. Uppfylla þyrfti einnig eftirfarandi þætti við vinnslu tillagnanna: - Sterk og heilsteypt bæjarmynd. - Virkar tengingar við nærumhverfi, þ.m.t. samgöngur og sjónlínur. - Skjólsæl, sólrík og aðlaðandi rými. - Áhugaverð og sveigjanleg umgjörð fyrir íbúða- og miðbæjarstarfsemi, mannlíf og menningu. - Gæði í hönnun og efnisvali. Bæjarstjórn samþykkir tillögur vinnuhópsins með 7 atkvæðum gegn 3. Bæjarfulltrúi Oddur Helgi Halldórsson óskar bókað að hann greiddi atkvæði gegn afgreiðslunni. Fram kom tillaga um að bæjarráð skipi þriggja manna vinnuhóp til að sjá um framhald verkefnisins og var hún samþykkt með 8 samhljóða atkvæðum. Bæjarfulltrúi Jóhannes Gunnar Bjarnason óskaði eftirfarandi bókað: „Skýrsla vinnuhóps um framtíðarskipulag Akureyrarvallar er í raun upptalning á þeim möguleikum sem meirihluti bæjarstjórnar Akureyrar sér til nýtingar Akureyrarvallar. Ekkert verðmat var gert á svæðinu en það var talið eitt megin viðfangsefni vinnuhópsins og aðrar ákvarðanir átti að taka með hliðsjón af því mati. Undirbúningur Landsmóts UMFÍ og framtíðarskipulagning íþróttasvæða KA, Þórs og UFA eru því miður dæmi um lélega stjórnsýslu og tilviljunarkennd vinnubrögð þar sem lítið samráð var haft við fagaðila."
https://www.vikubladid.is/is/frettir/godur-arangur-hja-ka-a-islandsmotinu-i-judo
Góður árangur hjá KA á Íslandsmótinu í Júdó Um helgina fór fram Íslandsmeistaramót barna- og unglinga í júdó í Reykjavík. KA sendi til leiks fríðan flokk karla og er óhætt að segja að árangurinn hafi verið glæsilegur þar sem hvorki fleiri né færri en 19 verðlaun unnust. Nánar er sagt frá mótinu í Vikudegi á fimmtudag. Daginn eftir mótið fóru svo nokkrir krakkar til landsliðsæfinga og stóðu sig vel, myndin sem fylgir fréttinni er af hópnum sem var á landsliðsæfingunni.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/samherji-kaupir-engey-re
Samherji kaupir Engey RE Samherji hf. hefur í dag keypt, fyrir hönd erlends dótturfélags, Engey RE 1, stærsta fiskiskip landsins og verður það afhent í Fuglafirði fimmtudaginn 22. mars nk. Skipið verður í framtíðinni gert út erlendis og er liður í að styrkja erlenda starfsemi Samherja hf. Söluverð skipsins er 31,4 milljónir evra og bókfærður hagnaður af sölunni í kringum 700 milljónir króna. Af þessum sökum er fallið frá áður tilkynntum áætlunum um að selja Engey til dótturfélags HB Granda, Atlantic Pelagic, og gera hana út við strendur Afríku, segir í tilkynningu frá Samherja.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/verdur-eyjafjardara-virkjud
Verður Eyjafjarðará virkjuð? Forráðamenn Eyjafjarðarsveitar höfðu af því spurnir nýlega að hafnar væru talsverðar framkvæmdir við bæinn Tjarnir sem er innst í Eyjafjarðarsveit. Settu einhverjir þessar framkvæmdir strax í samhengi við vilja Aðalsteins Bjarnasonar, eiganda Tjarna, um að hefja virkjanaframkvæmdir í Eyjafjarðará, en Aðalsteinn virkjaði einmitt í Djúpadalsá í Eyjafjarðarsveit fyrir nokkrum árum. Bjarni Kristjánson, sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit, sagði í samtali við Vikudag að engin leyfi fyrir neinum virkjunarframkvæmdum í Eyjafjarðarsveit hafi verið gefin út og sagði hann að vandlega yrði fylgst með því að framkvæmdir nærri bænum Tjörnum tengdust á engan hátt Eyjafjarðará. Í framhaldinu var Aðalsteinn kallaður á fund sveitarstjóra og í framhaldi af þeim fundi sendi Aðalsteinn eftirfarandi upplýsingar til sveitarstjórans sem Vikudagur hefur undir höndum: „Ég er að grafa skurð sem á að veita Gleránni norður fyrir bæinn. Ég ætla mér að rækta allt land umhverfis bæinn í vor og þess vegna vil ég vera búinn að gera þennan skurð. Hugsanlega verður hann nýttur í framtíðinni sem aðrennslisskurður fyrir virkjun en það er ekki meiningin að láta Eyjafjarðarána renna eftir skurðinum og það munu engin seyði komast inn í hann. Einnig er ætlunin að útbúa litla tjörn suður undir Gleráreyrum og aðra hér norðan við bæinn. Á Gleráreyrunum ætla ég mér að taka efni til vegagerðar og er ég búinn að moka upp nokkru efni þar. Ég ætla mér að stunda hér virkjanaframkvæmdir en þetta er ekki hluti af þeim og ég mun ekki fara í neinar leyfisskyldar virkjanir nema leyfi fáist fyrir þeim að sjálfsögðu. Ég mun fljótlega kynna fyrir ykkur litla rennslisvirkjun sem er á teikniborðinu og á að vera staðsett fram í Brúsahvammi," sagði Aðalsteinn í bréfi sínu.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/hlynur-synir-i-thelamerkurskola
Hlynur sýnir í Þelamerkurskóla Hlynur Hallsson hefur opnað sýningu á Gráa svæðinu í Þelamerkurskóla. Gráa svæðið er kennslugallerý í skólanum sem hefur verið starfrækt í vetur með frábærum árangri. Vegna þess hversu fá tækifæri nenendur hafa til að fara á listsýningar var brugðið á það ráð að færa myndlistina inn í skólann og njóta hennar í dagsins önn. Einnig er þar frábært tækifæri fyrir beina samþættingu í myndmenntakennslu, segir í fréttatilkynningu. Gráa svæðið er öllum opið á skólatíma kl. 8.00 - 15.00 og eru skólastjórnendur viljugir að taka á móti hópum þess utan (sími 460-1772 ). Þeir listamenn sem hafa sýnt á Gráa svæðinu eru Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, Arnfinna Björnsdóttir, Bjarni Sigurbjörnsson, Stefán Boulter og nú Hlynur Hallsson. Sýning Hlyns ber titilinn "Safn - Sammlung - Collection" og er einmitt um safn af nokkrum verkum að ræða eða sýnishorn af nokkrum verka Hlyns. Fjögur verk úr myndröðinni "Myndir - Bilder -Pctures" sem eru ljósmyndir með texta og fjögur verk úr myndröðinni "New Frontiers" með nýjum löndum sem gætu orðið til í nánustu framtíð. Auk þess hefur Hlynur gert eitt splúnkunýtt verk fyrir Gráa svæðið sem heitir "Skólinn - Die Schule - The School" og er spreyverk beint á vegg. Hægt er að skoða sýningarskrár með ljósmyndum og textum sem tengjast þessum verkum á sýningunni. Sýningin á Gráa svæðinu í Þelamerkuskóla stendur til 30. mars 2007.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/tryggvi-a-godum-batavegi
Tryggvi á góðum batavegi Tryggvi Tryggvason, vélsleðamaðurinn sem lenti í snjóflóði í Hlíðarfjalli 21. janúar sl., er nú kominn í endurhæfingu og er á góðum batavegi. Hann sagði í samtali við Vikudag að ekki væri ljóst hvort hann næði sér alveg að fullu né hvenær hann fari heim af sjúkrahúsi. Tryggvi grófst tvo metra undir snjó þegar hann lenti í flóðinu, en sagði óhætt að segja að snjóflóðaýlir sem hann hafði nýlega fengið hafi bjargað lífi sínu. Án hans hefðu félagar hans ekki fundið hann fyrr en of seint. Þegar Tryggvi fannst hafði hann lent í hjartastoppi og súrefnisskorti og var því tvísýnt um líf hans á tímabili, en nú hefur hann hafið endurhæfingu. „Ég þarf að endurbyggja upp vöðvana í líkamanum, þeir rýrnuðu mikið af því að ég var svo lengi í öndunarvél, eða í tæpar tvær vikur. Taugakerfið er líka eitthvað að stríða mér," sagði Tryggvi. Hann sagðist ekkert muna eftir slysinu en vildi hins vegar koma á framfæri innilegum þökkum til félaga sinna og allra þeirra sem komu að björgun hans.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/glaesileg-kosning-erlu-i-stjorn-kea
Glæsileg kosning Erlu í stjórn KEA Erla Björg Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri hjá Símey, hlaut glæsilega kosningu í stjórn KEA á aðalfundi félagsins í dag. Hún hlaut 119 atkvæði en 124 greiddu atkvæði. Erla kemur ný inn í stjórn KEA en kosið var um þrjú stjórnarsæti. Auk Erlu hlutu kosningu Jóhannes Ævar Jónsson bóndi og Hallur Gunnarsson, sem hefðu átt að ganga úr stjórn, en Bjarni Jónasson og Steinþór Ólafsson náðu ekki kjöri. Hannes Karlsson, Úlfhildur Rögnvaldsdóttir, Benedikt Sigurðarson og Björn Friðþjófsson voru kosin í stjórn á síðasta ári til tveggja ára. Soffía Ragnarsdóttir gaf ekki kost á sér til endurkjörs en hún hefur setið í stjórn sl. 4 ár. Benedikt Sigurðarson tilkynnti á fundinum að hann sæktist ekki eftir sæti formanns í hinni nýju stjórn og gaf í skyn að hann væri að hefja sitt síðasta ár sem stjórnarmaður. Varamenn í stjórn eru Njáll Trausti Friðbertsson, Guðný Sverrisdóttir og Birgir Guðmundsson.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/stalthilid-fraega-liggur-a-hafsbotni
Stálþilið „fræga” liggur á hafsbotni Stálþilið „fræga", sem væntanlegt var til Akureyrar og nota átti í lengingu Oddeyrarbryggju til austurs, liggur nú á hafsbotni vestur af Garðskaga. Það var í opnum gámum sem tók út af flutningaskipinu Kársnesi, er skipið fékk á sig brotsjó í vikunni. Því er talið ljóst að ekki verði ráðist í framkvæmdir við lengingu bryggjunnar fyrr en í haust, eftir að vertíðinni í tengslum við skemmtiferðaskipin lýkur. Gunnar Arason yfirhafnsögumaður sagði að þessi viðbót hafi átt að vera orðin viðleguhæf fyrir 1. júní nk. Einhvern tíma tæki hins vegar að afgreiða nýtt efni erlendis og því ljóst að ekkert verði úr framkvæmdum fyrir sumarið. Lengja á Oddeyrarbryggju um 60 metra og verður heildarlengd viðlegukantsins þá orðin um 200 metrar. Frétt Vikudags frá því í október í haust vakti mikla athygli, þegar Hörður Blöndal hafnarstjóri sagðist ekki taka við efninu í lengingu Oddeyrarbryggju, kæmi það landleiðina frá Reykjavík eins og til stóð á þeim tíma. Hann sagði það prinsippmál, þar sem verið væri að vinna að því stækka höfnina og efla. Hörður hafði sigur og efnið átti að koma sjóleiðina frá Reykjavík til Akureyrar, jafnvel í þessari viku. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF Líf, fann í gærmorgun tvo gáma af fimm sem fóru fyrir borð af Kársnesinu en skipið var þá að koma frá Danmörku. Varðskip Landhelgisgæslunnar var sent á staðinn og tók gámana í tog til lands.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/112-opnar-vardstofu-a-akureyri
112 opnar varðstofu á Akureyri Neyðarlínan, 112, opnaði varðstofu með þremur neyðarvörðum í lögreglustöðinni á Akureyri í morgun en 112 hefur hingað til haft varastöð í húsnæðinu. Nýja varðstofan verður í fullum rekstri samhliða varðstofunni í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð í Reykjavík. Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri á Akureyri var á meðal gesta við opnun varðstofunnar. Hún lýsti ánægju með þetta skref, enda væri um að ræða eðlilega þróun í öryggismálum landsmanna að vera með varðstofur á tveimur stöðum á landinu. Sigrún Björk sagði að menn mættu hafa þetta í huga, þegar rætt væri um hvar eigi að staðsetja björgunarþyrlur landsmanna. Að sögn Dagnýjar Halldórsdóttur, aðstoðarframkvæmdastjóra Neyðarlínunnar, er markmiðið að vera með um fimm neyðarverði á Akureyri og verða þeir hrein viðbót við núverandi fjölda starfsmanna. Nú eru fimm neyðarverðir á vakt í Reykjavík að degi til og á álagstímum en þeim fjölgar í sjö þegar varðstofan á Akureyri er fullmönnuð. Varðstofan á Akureyri er tengd öllum okkar fjarskipta- og upplýsingakerfum og starfar með sama hætti og varðstofan fyrir sunnan. Dagný sagði mikið öryggi í því að hafa vel mannaða stöð á Akureyri ef eitthvað skyldi fara úrskeiðis í Reykjavík. "Við lítum einnig á það sem mikinn kost að hafa fólk á vakt með góða þekkingu á staðháttum og samfélaginu á Akureyri og í nálægum byggðum," segir Dagný. Alls starfa 25 neyðarverðir nú hjá 112. Þeir manna varðstofuna á Akureyri og í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð allan sólarhringinn, árið um kring, og afgreiða um 190 þúsund neyðarsímtöl á ári hverju. Í langflestum tilvikum er óskað eftir aðstoð lögreglu, sjúkraflutninga og slökkviliða.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/sparisjodur-nordlendinga-styrkir-thorka
Sparisjóður Norðlendinga styrkir Þór/KA Sparisjóður Norðlendinga og meistaraflokkur kvennaliðs Þórs/KA í knattspyrnu skrifuðu fyrir stuttu undir styrktarsamning fyrir árið 2007. Sparisjóður Norðlendinga hefur undanfarin ár stutt við bakið á stúlkunum og verður árið í ár því engin undantekning frá því. Þór/KA spilar sinn fyrsta leik á þessu tímabili á morgun, laugardag, þegar liðið mætir FH í B-deild deildarbikarsins kl.13:00 í Boganum. Þetta er jafnframt fyrsti leikur liðsins undir stjórn Dragans Stojanovic og Siguróla Kristjánssonar.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/virkni-baud-laegst-i-loggustod-og-fangelsi
Virkni bauð lægst í löggustöð og fangelsi Fjögur tilboð bárust í framkvæmdir við núverandi lögreglustöð og fangelsi á Akureyri en tilboðin voru opnuð hjá Ríkiskaupum nú fyrir stundu. Lægsta tilboðið átti Virkni ehf., rúmar 175 milljónir króna, og var það eina tilboðið sem var undir kostnaðaráætlun, sem hljóðaði upp á rúmar 177,6 milljónir króna. Verkinu skal að fullu lokið fyrir 1. júní 2008. ÞJ verktakar buðu um 178,3 milljónir króna, Fjölnir ehf. bauð um 191,5 milljónir króna og PA byggingarverktakar ehf. buðu rétt tæpar 200 milljónir króna. Um er að ræða endurbætur og viðbyggingu við núverandi húsnæði. Byggð verður viðbygging til austurs út frá núverandi fangelsisbyggingu. Viðbyggingin verður með sama yfirbragði og núverandi hús. Að sunnan og austan verður hún ein hæð á hálfniðurgröfnum kjallara en að norðan verður hún tvær hæðir. Byggingin verður steinsteypt, einangruð að innan á hefðbundinn hátt með plasteinangrun og múrhúð á rappneti. Stærð viðbyggingar er 336 m² og endurgerð á núverandi byggingu er 567m².
https://www.vikubladid.is/is/frettir/fyrsta-sjonvarp-a-islandi-var-a-akureyri
Fyrsta sjónvarp á Íslandi var á Akureyri Fyrstu Íslendingarnir sem horfðu á sjónvarp voru búsettir á Akureyri. Það sem meira er þeir horfðu á sjónvarpsútsendinguna á Akureyri - löngu áður en sjónvarp og sjónvarpsútsendingar urðu almennar í heiminum. Tveir fjarskiptaáhugamenn á Akureyri voru á árunum frá 1934-1936 þátttakendur í upphafi sjónvarps í heiminum, einhverju mesta ævintýri 20. aldar. Þetta voru verkfræðingurinn F.L. Hogg sem tilheyrði Sjónarhæðarsöfnuðinum og Grímur Sigurðsson síðar útvarpsvirkjameistari. Þessi iðja þeirra vakti ekki mikla athygli annarra bæjarbúa eða landsmanna, enda voru Jónar og Gunnur Íslands og Akureyrar upptekin við að hafa í sig og á í eftirmála kreppunnar miklu. Á fimmtudaginn 15. mars kl 17:15 mun Birgir Guðmundsson lektor flytja fyrirlestur í Amtsbókasafninu um þetta ævintýri og leitast við að setja það í samhengi. Fyrirlesturinn er á vegum Amtsbókasafns og fjölmiðlafræðibrautarinnar við Háskólann á Akureyri.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/atlantsolia-opnar-bensinstod
Atlantsolía opnar bensínstöð Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri opnaði formlega í dag nýja bensínstöð Atlantsolíu á Akureyri. Stöðin er sú fyrsta sem fyrirtækið opnar fyrir utan Stórreykjavíkursvæðið og jafnframt sú tíunda í röðinni. Hún er staðsett skammt sunnan við stórverslun Byko. Aðeins eru rúmir þrír mánuðir frá því framkvæmdir við byggingu stöðvarinnar hófust en um er að ræða sjálfsafgreiðslustöð. Albert Þór Magnússon framkvæmdastjóri Atlantsolíu sagði að fyrirtækið muni bjóða upp á eldsneyti á einfaldan hátt og á hagkvæmu verði. Innkoma fyrirtækisins hefur þegar skapað aukna samkeppni á Akureyri en nýlega lauk einn af samkeppnisaðilum Atlantsolíu við að breyta þjónustustöð sinni í sjálfsafgreiðslustöð.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/mest-haekkun-a-nordurlandi-eystra
Mest hækkun á Norðurlandi eystra Hækkun á einföldu meðaltali fermetraverðs íbúðarhúsnæðis varð mest á Norðurlandi eystra milli áranna 2005 og 2006. Nam hækkunin 35,3% og er umtalsvert meiri en hjá þeim landshlutum sem næstir komu. Sem fyrr segir var hækkunin 35,3% á Norðurlandi eystra, á Vesturlandi var hún 28,6%, á Reykjanesi 23,2%, á Austurlandi 16,1%, á Suðurlandi 14,7%, á Vestfjörðum 14,5%, á höfuðborgarsvæðinu 12,1% og á Norðurlandi vestra 8,6%. Tölurnar sem fengnar eru frá Fasteignamati ríkisins byggja á einföldu meðaltali fermetraverða íbúðarhúsnæðis.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/ardsemi-kjalvegar-56-milljardar
Arðsemi Kjalvegar 5,6 milljarðar Samfélagslegur ábati af lagningu vegar yfir Kjöl er 5,6 milljarðar króna. Ef vegalagningin á sér stað á samdráttarskeiði verður ábatinn enn meiri eða tæpir 6 milljarðar króna. Þetta kemur fram í mati Rannsókna- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri á þjóðhagslegri arðsemi og samfélagslegum áhrifum á lagningu vegarins. Niðurstöðurnar sýna jafnframt að framkvæmdin er mjög arðbær og fellur vel að byggðaáætlun og samgönguáætlun stjórnvalda. Þær leiða einnig í ljós fækkun umferðarslysa, jákvæð áhrif á ferðaþjónustu og bætta samkeppnisstöðu fyrirtækja. Þetta kom fram á blaðamannafundi fyrir stundu, þar sem Jón Þorvaldur Heiðarsson frá RHA fór hefur helstu niðurstöður. Skýrslunar eru birtar á heimasíðu Norðurvegar ehf; http://www.nordurvegur.is/ og eru þar öllum aðgengilegar. Með lagningu heilsársvegar yfir Kjöl mun vegalengdin milli Akureyrar og Reykjavíkur styttast um tæpa 50 km, vegalengdin milli Akureyrar og Selfoss um rúma 140 km og Akureyrar og Gullfoss um 280 km.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/nog-ad-hafa-tvo-augnlaekna-i-baenum
Nóg að hafa tvo augnlækna í bænum Þórir V. Þórisson yfirlæknir Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri, telur að að ekki sé skortur á augnlæknum á Akureyri. Hér séu starfandi tveir augnlæknar, sem hafi þótt vera nóg til þessa. Engu að síður mun vera nokkuð um að Akureyringar sæki sér augnlækningaþjónustu til höfuðborgarinnar. Þórir sagðist kannast við það að eitthvað væri um að Akureyringar sæktu augnlæknaþjónustu suður en vissi ekki hvers vegna það væri. „Á Fjórðungssjúkrahúsinu er stöðuhlutfall augnlæknis og úti í bæ er hverjum sem er heimilt að opna augnlækningastofu," sagði Þórir. Ragnar Sigurðsson er annar tveggja augnlækna á Akureyri en þessir tveir starfa saman á lækningastofu í Kaupangi. „Það er alveg nóg að hafa tvo augnlækna í bænum og hefur alltaf verið," sagði Ragnar þegar við ræddum við hann. Hvort hann vissi ástæður þess að fólk væri að sækja þessa þjónustu út fyrir bæinn sagði hann: „Sumir kjósa að fara suður og hafa fyrir því ýmsar ástæður. Bið eftir tímum hjá okkur er mislöng, um þessar mundir er ekki nema nokkurra daga bið en á haustin þegar mest er að gera getur sú bið numið einni til tveimur vikum," sagði Ragnar.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/auknar-likur-a-althynnuverksmidju
Auknar líkur á álþynnuverksmiðju Auknar líkur eru nú taldar vera á því að af stofnun álþynnuverksmiðju verði á Akureyri, og gæti komið að vendipunkti í undirbúningi að stofnun verksmiðjunnar áður en langt um líður. Erfitt er þó að fá menn til að tjá sig nákvæmlega um hvað er að gerast, þeir segja verkefnið á viðkvæmu stigi, en sú undirbúningsvinna sem unnin hefur verið hefur tekið fimm ár. ,,Ég met þetta þannig núna að líkurnar á að af þessu verði séu mjög svipaðar og áður í þessu ferli, en mér finnst þó vera meiri áhugi á verkefninu en oft áður," segir Kristján Þór Júlíusson forseti bæjarstjórnar Akureyrar, en það var í bæjarstjórasetu hans sem þetta verkefni fór af stað, sem samvinnuverkefni Akureyrarbæjar og Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar sem hafa unnið að málinu síðan. Hinu megin borðsins er ítalskt fyrirtæki sem hefur alla tíð sýnt því mikinn áhuga á að koma verksmiðjunni upp á Akureyri. Lóð fyrir verksmiðjuna er þegar frátekin samkvæmt aðalskipulagi og er hún sunnan við höfuðstöðvar Norðurorku á Rangárvöllum í útjarðri bæjarins. Ef af verður munu sennilega koma til með að starfa á bilinu 75 til 100 manns í verksmiðjunni í upphafi. Verkjsmiðjan vinnur þynnur og þétta úr hreinu áli og eru þessar vörur notaðar í ýmsar gerðir rafmagnstækja.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/aeskuverk-nordlenskra-listamanna
Æskuverk norðlenskra listamanna Laugardaginn 10. mars klukkan 14:30 verður opnuð á vegum Gilfélagsins sýningin Bernskubrek í Deiglunni. Þar munu allt að 30 norðlenskir listamenn sýna bernskubrek sín. Það er, listaverk unnin á æskuárum þeirra. Á sýningunni verður hægt að sjá hvort krókurinn hafi snemma beygst í höndum listamannanna. Hvort ungdómsstefin hafi fylgt þeim fram eftir árum eða hvers konar uppgjör og byltingar hafi orðið frá árdögum sköpunar þeirra. Meðal þeirra sem sýna eru: Arna Valsdóttir Jónas Viðar Óli G. Þórarinn Blöndal Hlynur Hallsson Margrét Jónsdóttir Hanna Hlíf Bjarnadóttir Anna Gunnarsdóttir Karen Dúa Kristjánsdóttir Bryndís Kondrup Bryndís Arnardóttir Ragnheiður Þórisdóttir Jónborg Sigurðardóttir Aðalsteinn Vestmann Dögg Stefánsdóttir Dagrún Matthíasdóttir Hallgrímur Ingólfsson Anna María Guðmann ...og margir fleiri Þess má geta að ótal sýningar fara aðrar fram þennan dag. Hlynur og Karen Dúa opna bæði sýningar, Hlynur í Boxinu og Karen Dúa á Karólínu. Í Jónas Viðar gallerí verður opnuð sýning á málverkum Guðmundar Ármanns og í Listasafninu verður sýningin "augliti til auglits" opnuð. Í Ketilhúsinu verður opnuð handverkssýningin "Trans Forum". Það verður því sannkölluð myndlistarhátíð í Listagilinu laugardaginn 10. mars, segir í frétt frá Gilfélaginu.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/logreglumadur-grunadur-um-olvun
Lögreglumaður grunaður um ölvun Embætti ríkislögreglustjóra hefur nú til skoðunar meinta ölvun lögreglumanns á Akureyri, sem ásamt starfsbræðrum sínum var kallaður út til að sinna vettvangi banaslyssins í Hörgárdal aðfaranótt sunnudags, þegar ítalskur karlmaður búsettur hér á landi lést í bílveltu. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Tildrög málsins munu hafa verið þau að lögreglumaðurinn kom á vettvang og hitti þar fyrir starfsbræður sína. Þótti hann lykta af áfengi er hann mætti á staðinn og var því talin ástæða til að taka af honum öndunarsýni og senda hann í blóðprufu. Samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra verður málið skoðað nánar en það hefur verið sent ríkissaksóknara þar sem ákveðið verður hvort ákæra verði gefin út fyrir brot í starfi. Þegar mál af þessum toga eru skoðuð eru höfð til hliðsjónar ákvæði lögreglulaga og starfsmannalaga auk almennra hegningarlaga, segir í frétt Morgunblaðsins.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/hreinsun-vegna-svifryks-hafin
Hreinsun vegna svifryks hafin Akureyrarbær hefur brugðist við þeirri miklu svifryksmengun sem er í bænum með því að ráða verktaka til að þvo Glerárgötuna með vatni og er sérútbúinn dráttarvél notuð til verksins. Verktakinn er þessa stundina að störfum, framan á dráttarvélinni er búnaður til að sprauta vatni á götuna með þrýstingi og aftan í dráttarvélinni er stór vatnstankur. Eins og fram kom í Vikudegi í dag var svifryksmengunin í bænum á síðasta ári mun oftar yfir hættumörkum en áður hefur komið fram. Upplýsingar hafa verið gefnar um að mengunin hafi farið yfir „leyfileg" hámörk í 48 daga fyrstu 11 mánuði ársins, en nú hefur Alfreð Schiöth hjá Heilbrigðiseftirlitinu upplýst Vikudag um að mælarnir hafi verið bilaðir frá því í maí og fram í ágúst. Samkvæmt því má setja fram í grófum dráttum að 48 dagarnir eigi við um 8 mánuði eða um 240 daga og hefur því „leyfilegum" hámörkum mengunarinnar verið náð um það bil fimmta hvern dag. Alfreð segir að þegar mengunin fer yfir 50 mikrógrömm í rúmmetra eins og „leyfilegu" mörkin eru hafi það strax áhrif á þá sem eru veikir fyrir s.s. astmasjúklinga og þá sem eru að skokka eða hjóla um götur bæjarins. Samkvæmt norskum reglum eiga astmasjúklingar, lungnasjúklingar og þeir sem eru með hjarta- og æðasjúkdóma á hættu að finna fyrir áhrifum ef mælieiningin er 50-100 míkrógrömm. Ef talan fer yfir 100, gefa norsk heilbrigðisyfirvöld út alvarlega aðvörun til þessa fólks um að halda sig heima fyrir, þá er alvarlegt hættuástand uppi. Fjöldi þeirra daga sem fóru yfir þessi mörk á Akureyri á síðasta ári var um 20 og í þremur tilfellum var talan yfir 200 míkrógrömm. Að sögn Alfreðs er nú verið að kanna það hjá Akureyrarbæ að festa kaup á einum eða tveimur mælum til að setja upp í bænum svo betur sé hægt að fylgjast með ástandinu og bregðast við því hverju sinni. Alfreð segir að reynt hafi verið að sópa göturnar þegar hafi verið hláka en það eitt og sér dugi skammt. „Það er árangursríkara að bleyta göturnar og t.d. gæti vel komið til greina að gera það með sjó eða söltu vatni. Í Reykjavík hafa þeir verið að prófa að nota magnesíum klór og það eru til fleiri efni sem er hægt að nota," segir Alfreð í samtali við Vikudag í dag.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/atak-faer-vinveitingaleyfi
Átak fær vínveitingaleyfi Heilsuræktarstöðin Átak á Akureyri fær leyfi til að selja léttvín og bjór samkvæmt afgreiðslu bæjarráðs frá í morgun. Áður hafði Samfélags- og mannréttindaráð bæjarins hafnað erindi líkamsræktarstöðvarinnar um vínveitingaleyfi, en bæjarlögmaður vísaði málinu til bæjarráðs. Fjórir bæjarfulltrúar, Hermann Jón Tómasson, Hjalti Jón Sveinsson, Baldvin Sigurðsson og Jóhannes G. Bjarnason, stóðu að leyfisveitingunni en einn bæjarráðsmaður, Elín M. Hallgrímsdóttir, var á móti. Hún lagði fram bókun þar sem sagði: „Heilsuræktarstöðvar eru ímyndir heilbrigðis og hollustu sem fólk á öllum aldri sækir þjálfun og leiðsögn varðandi heilbrigðan lífsstíl. Áfengi er vímuefni sem ekki fellur þar undir. Markmið forvarnarstefnu Akureyrarbæjar er m.s. að vinna að heilbrigðum lífsháttum og jákvæðri lífssýn og að styðja börn og ungmenni til þess að velja heilbrigt líf án vímugjafa. Ég lýsi mig því andvíga þessari leyfisveitingu." - Oddur Helgi Halldórsson sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi en óskaði bókað að hann styddi leyfisveitinguna.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/stydja-vid-uppbyggingu-meistaranams
Styðja við uppbyggingu meistaranáms Bakhjarlar meistaranáms í viðskiptafræðum við Háskólann á Akureyri komu saman í morgun og skrifuðu undir samninga um að styrkja fjárhagslega og faglega við bakið á nýju meistaranámi í viðskiptafræðum við viðskipta- og raunvísindadeild Háskólans á Akureyri sem hefst á næsta haustmisseri. Styrktaraðilar eru Saga Capital , Sparisjóður Norðlendinga og fleiri sparisjóðir en einnig styrkja námið Íslensk verðbréf og Glitnir . „Við hlökkum til samstarfsins og væntum mikils af því" sagði Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Saga Capital, fyrir hönd þeirra fjármálafyrirtækja sem koma að uppbyggingu meistaranámsins. Í samningum fjármálafyrirtækjanna og HA kveður á um að fyrirtækin styrki fjárhagslega við uppbyggingu mannauðs við deildina með því að kosta heimsóknir gistikennara og gestafyrirlesara. Jafnframt því mynda fulltrúar frá fyrirtækjunum fagráð sem verður til ráðgjafar um uppbyggingu námsins. Samvinna þessara aðila er til marks um síaukna þörf fyrir vel menntað vinnuafl í því alþjóðlega umhverfi sem íslenskar fjármálastofnanir, og íslensk fyrirtæki almennt, starfa við í dag. Sífellt er þörf fyrir að dýpka og bæta við þekkingu fyrirtækjanna og það verður ekki gert nema með því að bjóða uppá afburða góða menntun á þessu sviði á Íslandi. Viðskipta- og raunvísindadeild Háskólans á Akureyri, í samvinnu við ofangreind fyrirtæki, ætlar sér að koma á fót afburða góðu námi fyrir nemendur sem eru reiðubúnir að takast á við krefjandi nám þar sem áhersla er lögð á hagnýta þekkingu til jafns við fræðilegan undirbúning. Boðið verður uppá tvær námsleiðir; annarsvegar í alþjóðafjármálum og bankastarfsemi og hinsvegar í stjórnun í alþjóðlegu bankaumhverfi. Fyrri umsóknarfrestur er til 15. mars n.k. fyrir nám sem hefst næsta haust. Seinni umsóknarfrestur er til 15. apríl. Takmarkaður fjöldi fær skólavist og eiga þeir sem sækja um í fyrri umgangi meiri möguleika á skólavist.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/vard-undir-vorubretti
Varð undir vörubretti Skipverji á togaranum Baldvin Þorsteinssyni varð undir vörubretti nú fyrir skammri stundu þar sem hann var að vinna í lest skipsins við Krossanesbryggju og var hann fluttur á slysadeild Fjórðungssjúkrahússins. Verið var að hífa vörubretti með umbúðum niður í lest skipsins þegar brettið losnaði og féll það úr talsverðri hæð á manninn. Hann kvartaði um meiðsli í baki en virtist hafa eðlilega hreyfigetu og missti ekki meðvitund. Hann var með hjálm og fékk engin meiðsli á höfuð.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/margir-vilja-styra-akureyrarstofu
Margir vilja stýra Akureyrarstofu Alls bárust 33 umsóknir um stöðu framkvæmdastjóra Akureyrarstofu en umsóknarfrestur rann út um helgina. Í þessum hópi eru m.a. tveir starfsmenn bæjarins, þau Sigríður Stefánsdóttir markaðs- og kynningarstjóri og Þórgnýr Dýrfjörð menningarfulltrúi. Framkvæmdastjóra er ætlað að sjá um stjórnun og daglegan rekstur Akureyrarstofu. Hlutverk Akureyrarsstofu er að sinna menningarmálum, markaðs- og ferðamálum og atvinnumálum almennt fyrir hönd bæjarins. Eftirtaldir sóttu um stöðu framkvæmdastjóra. Aðalsteinn Ólafsson, nemi Agnes Arnardóttir, sjálfstæður atvinnurekandi Andri Ottesen, framkvæmdastjóri Arnljótur Bjarki Bergsson, nemi Axel Grettisson, ráðgjafi Ágúst G. Valsson, sölu- og markaðsstjóri Bergþóra Aradóttir, landfræðingur Björn Sigurður Lárusson, framkvæmdastjóri samfélagssamskipta Daníel Arason, tónlistarkennari Einar Þ.Pálsson, sjómaður og framkvæmdastjóri Friðrik Rafnsson, kynningarstjóri Glúmur Baldvinsson, upplýsingafulltrúi Gunnar Valur Sveinsson, hótel- og veitingarekstrarfræðingur Gunnar Þór Jóhannesson, doktorsnemi Haraldur E. Ingimarsson, viðskiptafræðingur Heiða Erlingsdóttir, kennari Hjálmar Kjartansson, ráðgjafi Illugi Torfason, nemi Ingi Björn Sigurðsson, nýsköpunar- og frumkvöðlafræðingur Ingólfur Ö Helgason, viðskiptafræðingur Kristján K Kristjánsson, ráðgjafi Magnús Kristjánsson, deildarstjóri Rúnar Leifsson, fornleifafræðingur Rúnar Sigtryggsson, nemi Sigríður Guðrún Friðriksdóttir, nemi Sigríður Margrét Sigurðardóttir, skólastjóri Sigríður Stefánsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri Sigurbjörg Árnadóttir, framkvæmdastjóri Soffía Gísladóttir, framkvæmdastjóri Sóley Magnúsdóttir, viðskiptafræðingur Teitur Atlason, sjálfstæður atvinnurekandi Tryggvi R. Jónsson, sérfræðingur Þórgnýr Dýrfjörð, menningarfulltrúi
https://www.vikubladid.is/is/frettir/skidamotin-flutt-i-hlidarfjall
Skíðamótin flutt í Hlíðarfjall Skíðamót Íslands og Unglingameistaramót Íslands fara að öllum líkindum fram í Hlíðarfjalli helgina 23.-25. mars nk., samkvæmt heimildum Vikudags. Skíðamót Íslands átti að fara fram í Bláfjöllum og Skálafelli um næstu mánaðamót en vegna erfiðra aðstæðna, verður ekkert af því að mótið fari þar fram. Ráðgert er að um 400-500 manns komi til Akureyrar í tengslum við þessi mót og þar af eru keppendur rúmlega 200. Tvö skíðasvæði þóttu koma til greina fyrir mótið, þegar ljóst var að ekki væri hægt að halda það í nágrenni Reykjavíkur, Oddsskarð og Hlíðarfjall. Ekki er hins vegar nægt gistirými í boði fyrir austan og því verður Hlíðarfjall fyrir valinu.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/stada-ithrotta-og-framtidarsyn
Staða íþrótta og framtíðarsýn Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, þau Elín Margrét Hallgrímsdóttir og Hjalti Jón Sveinsson, eru gestir á tíunda súpufundi Íþróttafélagsins Þórs, sem haldinn verður í Hamri á morgun, miðvikudaginn 7. mars kl. 12-13. Umræðuefnið er: íþróttir á Akureyri, staðan og framtíðarsýn. Þór hefur staðið fyrir súpufundum í Hamri í vetur, í samstarfi við Greifann og Vífilfell, þar sem fjölmörg málefni hafa verið til umfjöllunar. Forystumenn íþróttafélaga á Akureyri eru sérstaklega boðnir velkomnir á fundinn á morgun.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/besta-skidahelgin-i-vetur
Besta skíðahelgin í vetur Mikill fjöldi fólks var á skíðum í Hlíðarfjalli um helgina, sem var sú stærsta á þessum vetri, að sögn Guðmundar Karls Jónssonar forstöðumanns Skíðastaða. Um 1.100 manns voru í fjallinu á laugardag og 1.300-1.400 manns á sunnudag. Guðmundur Karl sagði að sunnudagurinn væri sá besti í vetur, bæði hvað varðar aðsókn og veður. Á laugardag var snjókoma og lélegt skyggni í fjallinu en engu að síður var mikill fjöldi fólks á skíðum, eða um 1.100 manns. Guðmundur Karl sagði að þar hefði aðkomufólk verið í miklum meirihluta gesta en daginn eftir, á sunnudeginum, hefðu heimamenn bæst í hópinn, enda veðrið þá með allra besta móti. „Þetta er búið er vera mjög gott og lofar góðu fyrir framhaldið. Það er aðeins mánuður í páska og við fengum mjög góða æfingu fyrir þá törn um helgina," sagði Guðmundur Karl. Hann á von á miklum fjölda fólks á skíði um páskana en sagði að fjöldinn réðist þó m.a. af því gistiplássi sem væri í boði í bænum. Á besta deginum um páskana í fyrra fóru um 1.800 manns í gegnum teljarann í Fjarkalyftunni.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/framkvaema-a-fyrir-taepa-5-milljarda
Framkvæma á fyrir tæpa 5 milljarða Þriggja ára áætlun fyrir Akureyrarbæ er nú til lokaafgreiðslu. Fyrri umræða um áætlunina hefur farið fram í bæjarstjórn og áætlunin hefur einnig verið rædd í bæjarráði en lokaafgreiðsla verður á fundi bæjarstjórnar á morgun, þriðjudag. Ráðgert er að framkvæma fyrir tæpa 5 milljarða króna á tímabilinu. Ef tiplað er á helstu framkvæmdum má nefna að stefnt er að opnun menningarhússins Hofs á vormánuðum árið 2009 og sama ár á að ljúka byggingu við íþróttahús fyrir fimleika við Giljaskóla. Þá er stefnt að því að taka fyrsta áfanga Naustaskóla í notkun árið 2009. Um 3,8 milljarðar króna eru á vegum bæjarsjóðs en um einn milljarður vegna fráveitu og Norðurorku. „Þetta eru gríðarlegar framkvæmdir en Akureyrarbær stendur mjög vel," sagði Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri. Hún segir að rekstur sveitarfélaga sé farinn að taka verulega í og nauðsynlegt sé orðið að auka tekjustofna sveitarfélaganna. Í þriggja ára áætluninni er deildarstjórum hjá Akureyrarbæ gert að spara 120 milljónir króna á ári. Sigrún Björk segir það um 2% af veltu bæjarins og menn þurfi einfaldlega að gaumgæfa hvar hægt er að koma við sparnaði fyrir sveitarfélagið
https://www.vikubladid.is/is/frettir/thrju-storverkefni-i-utbod
Þrjú stórverkefni í útboð Þrjár stórar byggingaframkvæmdir á Akureyri hafa verið boðnar út á síðustu dögum og er ljóst að líflegt verður í byggingariðnaði á Akureyri á næstu misserum. Um er að ræða nýja byggingu Glerártorgs á Gleráreyrum, vinnu við fangelsið á Akureyri og stækkun þess og byggingu menningarhússins Hofs. Leiða má að því líkur að þetta séu verk upp á um 2,5 milljarða króna. „Ég lít svo á að þetta sé góður tími fyrir byggingariðnaðinn að fá þessi verk. Þótt ekki sé neinn samdráttur merkjanlegur í byggingu íbúðarhúsa hef ég orðið var við það í samtölum mínum við menn að það er eins og það sé að myndast tappi hvað varðar sölu íbúðarhúsnæðis þannig að það kann að vera að menn fari að draga saman seglin á þeim vettvangi," segir Guðmundur Ómar Guðmundsson formaður Félags byggingarmanna í Eyjafirði í samtali við Vikudag. Verklok á Glertorgi eiga að vera 31. október á þessu ári og á að skila húsinu, sem verður um 8 þúsund fermetrar að grunnfleti og 10 þúsund fermetrar alls, tilbúnu að utan með bílastæðum en tilbúnu fyrir innréttingar í verslunarrýmum innandyra. Verklok fangelsisbyggingarinnar eru í júní á næsta ári og menningarhúsið Hof á að taka í notkun á vormánuðum árið 2009.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/rottaekar-breytingar-i-eyjafjardara
Róttækar breytingar í Eyjafjarðará Stjórn Veiðifélags Eyjafjarðarár hefur ákveðið að gera mjög róttækar breytingar á veiðifyrirkomulagi í ánni á komandi sumri. Ástæðan er minnkandi veiði á bleikju í ánni undanfarin ár og eiga breytingarnar að hjálpa bleikjustofni hennar að rétta úr kútnum. Róttækasta breytingin og sú sem mun vekja mesta athygli er að engin veiði verður heimiluð á 5. svæði árinnar árið 2007. Meðal fjölmargra veiðimanna er þetta langskemmtilegasta veiðisvæði árinnar og hefur það oft verið það gjöfulasta einnig. Menn munu eflaust velta fyrir sér hvers vegna var ekki leyfð veiði á 5. svæði með ströngum fyrirmælum um að sleppa öllum fiski. Á 4. svæði verður veitt til 1. september en þar hefur verið veitt til 20. september. Veiðifyrirkomulag verður óbreytt á svæðum 2 og 3 en á 1. svæði verður leyfð veiði út september og mega menn hirða sjóbirting en sleppa á allri bleikju. Í september má hirða 10 sjóbirtinga á dag á 1. svæðinu. Á 3. og 4. svæði er einungis heimiluð fluguveiði en maðk og spón má nota á svæðum 1 og 2. Kvóti á öllum svæðum árinnar verður 4 fiskar á dag eða tveir á hálfum degi, en heimilt er að veiða og sleppa umfram það. Nánar er fjallað um þetta mál í Vikudegi í gær.
https://www.vikubladid.is/is/frettir/fimmtan-vilja-i-slokkvilidid
Fimmtán vilja í slökkviliðið Fimmtán sóttu um stöður hjá Slökkviliði Akureyrar sem auglýstar voru á dögunum en umsóknarfrestur er nýrunninn út. Til stendur að ráða fjóra starfsmenn á árinu og er verið að ráða í stöður tveggja sem hættu á síðasta ári og tveggja sem hætta á þessu ári. „Við erum mjög ánægðir með það hversu margir sóttu um og teljum okkur nú geta valið úr stórum hópi góðra umsækjenda," sagði Ingimar Eydal aðstoðarslökkviliðsstjóri í samtali við Vikudag.