url
stringlengths
21
288
text
stringlengths
1
1.35M
https://www.akureyri.is/is/frettir/greifinn-er-fyrirtaeki-arsins-2002
Greifinn er fyrirtæki ársins 2002 Hefðbundið er að atvinnumálanefnd útnefni fyrirtæki ársins á Akureyri. Einnig eru veittar tvær aðrar viðurkenningar, annars vegar til fyrirtækis fyrir sérstakt framlag til atvinnulífs í bænum en hins vegar til einstaklings fyrir frumkvæði og áræði í starfi. Að þessu sinni voru 13 fyrirtæki tilnefnd sem fyrirtæki ársins og hefðu þau öll verið vel að nafnbótinni komin. Á fundi atvinnumálanefndar 2. febrúar síðastliðinn var ákveðið að sæma Eignarhaldsfélagið Greifann á Akureyri titlinum fyrir árið 2002. Viðurkenningin er veitt fyrir þróttmikið starf fyrirtækisins á liðnu ári. Í upphafi var það veitingastaður en er nú að auki umsvifamikið í rekstri hótela og veitingasölu um allt land. Einnig hafa eigendur félagsins verið þátttakendur í rekstri Ferðaskrifstofu Akureyrar. Það fyrirtæki sem hlýtur viðurkenningu fyrir sérstakt framtak í atvinnulífinu er JMJ. Saga fyrirtækisins er alllöng eða hartnær 60 ár. Sá einstaklingur sem hlýtur viðurkenningu fyrir frumkvæði og áræði í starfi er Baldur Örn Guðnason, framkvæmdastjóri Sjafnar hf. og Mjallar hf.
https://www.akureyri.is/is/frettir/breytingar-i-sigurhaedum
Breytingar í Sigurhæðum Sú breyting er að verða í Sigurhæðum - Húsi skáldsins, að forstöðumaður frá upphafi, Erlingur Sigurðarson, lætur af störfum. Ekki verður ráðið í stað Erlings fyrr en með haustinu. Menningarfulltrúi Akureyrarbæjar mun á meðan svara fyrirspurnum og óskum um aðstöðu og heimsóknir. Hús skáldsins sem er miðstöð bókmennta og hvers kyns orðlistar var opnað í Sigurhæðum 1. október 1997. Markmiðið er m.a. að greiða skáldum leið til skapandi starfs og halda á lofti menningararfi þjóðarinnar. Í húsinu er til reiðu vinnuaðstaða fyrir þá sem þurfa næði til skapandi skrifa og er hún leigð er gegn vægu gjaldi. En þar hefur einnig verið margskonar starfsemi sem ætluð er almenningi. Það hefur verið öllum opið nokkrar klst. á dag yfir sumartímann, en jafnframt tekið á móti hópum bæði þá og á öllum tímum skv. samkomulagi. Davíðshús tilheyrir einnig starfsseminni en þar er bæði safn um Davíð Stefánsson skáld og gestaíbúð fyrir fræðimenn og listamenn. Menningarmálanefnd hefur ákveðið að nota þau tímamót sem nú verða til að endurskoða fyrirkomulag þeirrar starfsemi og þjónustu sem fram fer í Húsi skáldsins en þó undir því merki sem Erlingur hefur með öðrum mótað undanfarin ár. Því verður ekki ráðið í stað Erlings fyrr en með haustinu.
https://www.akureyri.is/is/frettir/brettasmidja-um-helgina
Brettasmiðja um helgina Um helgina verður Brettasmiðja unglinga haldin öðru sinni í Hlíðarfjalli ofan Akureyrar. Búast er við að um 250 unglingar frá félagsmiðstöðum alls staðar af landinu renni sér saman á brettum eða skíðum. Krakkarnir koma í bæinn í dag og gista í Himnaríki sem er staðsett í kjallara Glerárskóla. Eins og sjá má af dagskránni hér að neðan þá verður nóg um að vera hjá krökkunum um helgina. Föstudagur 14. febrúar: Kl. 17.30 Mæting í félagsmiðstöðina Himnaríki í Glerárskóla. Tekið á móti þátttakendum og þeir koma sér fyrir. Kl. 18.00 Allir í fjallið, fráls tími (Brettakvöld Sprite) Kl. 20.00 Pylsa og gos uppi í fjalli (upp í Strýtu efra húsi) Kl. 21.00 Lagt af stað í Himnaríki í Glerárskóla, hægt að fara í sturtu í íþróttahúsi Glerárskóla. Kl. 24.00 Allir í háttinn. Erfiður dagur framundan. Laugardagur 15. febrúar: Kl. 8.30 Vakning og morgunmatur. Upplýsingafundur. Kl. 9.30 Farið í Hlíðarfjall. Upplýsingatjald verður á skaflinum ofan við Skíðahótelið. Kl. 10-12 Smiðjur - byrjendur, freeride, rail og jump, snjóflóðasmiðja. Við skráningu þarf þátttakandi að taka fram í hvaða smiðju hann/hún ætlar. Kl. 12-13 Hádegismatur. Kl. 13-15 Smiðjur halda áfram. Mót (keppni) við Strýtu. Kl. 16.30 Afhending verðlauna. Kl. 17.00 Haldið heim. Frjáls tími. Kl. 19.00 Kvöldmatur, pítsur frá Greifanum. Frjálst. Kl. 21.00 Diskótek í Kompaníi Hafnarstræti 73 til kl. 24.00. Kl. 01.00 Svefntími. Sunnudagur 16. febrúar: Kl. 8.30 Allir á fætur, gengið frá svefnpokum og öðrum farangri. Morgunmatur. Kl. 9.30 Frjálst í fjallinu, rúta verður fyrir unglingana frá Akureyri. Skráning í rútuferðina er á laugardeginum. Farið verður frá Himnaríki í Glerárskóla. Kl. 14.00 Rútuferð í félagsmiðstöðina Himnaríki í Glerárskóla. Heimferð.
https://www.akureyri.is/is/frettir/nam-i-idjuthjalfun
Nám í iðjuþjálfun Sérskipulagt BS-nám verður í boði við iðjuþjálfunarbraut heilbrigðisdeildar Háskólans á Akureyri skólaárið 2003-2004. Um er að ræða 30 eininga nám sem deilist á tvö skólaár, 15 einingar á ári og hægt er að stunda það með hlutastarfi. Kennt verður í staðbundnum lotum á höfuðborgarsvæðinu nokkrum sinnum á misseri og í WebCT kennsluumhverfi á veraldarvefnum. Kennsla hefst seinni hluta ágústmánaðar. Rétt til að sækja um inntöku í námið eiga þeir iðjuþjálfar sem lokið hafa fullgildu starfsréttindanámi (diplómanámi) í faginu. Gilt er talið nám frá iðjuþjálfunarskólum sem eru viðurkenndir af alheimssamtökum iðjuþjálfa (WFOT). Boðið verður upp á námið að því gefnu að nægilegur fjöldi fáist. Jafnframt er áskilinn réttur til þess að takmarka fjölda innritaðra ef þörf krefur, sér í lagi í seinni hluta námsins. Umsóknarfrestur er til og með 15. mars 2003. Sjá nánar á heimasíðu Háskólans á Akureyri.
https://www.akureyri.is/is/frettir/forvitnileg-gestasyning
Forvitnileg gestasýning Verðlaunaleikritið Gesturinn eftir Eric-Emmanuel Schmitt verður sýnt í Samkomuhúsinu á laugardags- og sunnudagskvöld í samvinnu við Borgarleikhúsið. Með aðalhlutverk í sýningunni fara Gunnar Eyjólfsson, Ingvar E. Sigurðsson, Björn Hlynur Haraldsson, Jóna Guðrún Jónsdóttir og Kristján Franklín Magnús. Á heimasíðu Leikfélags Akureyrar segir meðal annars um verkið: "Á þessarri vitfirrtu en alvarlegu nóttu reynir Freud að átta sig á hinum furðulega Gesti. Trúleysinginn Freud sveiflast á milli þess að halda að hann standi frammi fyrir Guði og grunsemda um að gesturinn sé geðsjúklingur sem sloppið hefur af geðveikrahæli þá um kvöldið. Þeir tveir velta fyrir sér ýmsum heimspekilegum spurningum sem snerta m.a. tilvist Guðs, ábyrgð og frelsi mannanna, grimmdina og hið illa. Höfundurinn Eric-Emmanuel Schmitt fæddist í St. Foy Les Lyon 28. mars 1960. Hann stundaði tónlistarnám við Konservatoríið í Lyon. Síðar lagði hann stund á heimspekinám, sem hann lauk með ritgerð um Diderot. Hann kenndi heimspeki við háskólann í Savoie allt til ársins 1994. Frá 1991 hefur Schmitt skrifað fjölda leikrita, þeirra þekktust Gesturinn (Le Visiteur), Abel Snorkó býr einn (Variations énigmatiques), Léttúð (Le Libertin) og Frédérick. Gesturinn hefur hlotið fjölda verðlauna, m.a. þrenn Moliére-verðlaun, sem eru eftirsóttustu leiklistarverðlaun í Frakklandi. Verkið var frumsýnt í París 1993 og hefur það farið sigurför um heiminn síðan."
https://www.akureyri.is/is/frettir/kynningarfundur-vegna-komu-flottamanna
Kynningarfundur vegna komu flóttamanna Í tilefni af komu flóttamanna frá fyrrum Júgóslavíu er boðað til fundar í Giljaskóla kl. 20 í kvöld. Bæjarbúar og gestir eru hvattir til að mæta, einkum þeir sem vilja taka að sér að styðja flóttafólkið fyrsta árið eða aðstoða á annan hátt við móttöku þess og aðlögun að nýju samfélagi. Dagskrá fundarins í kvöld er svohljóðandi: Úr hvernig umhverfi kemur fólkið Hlutverk bæjarfélagsins Hlutverk Rauðakrossdeildar Starf sjálfboðaliða Aðlögun að nýju menningarsamfélagi
https://www.akureyri.is/is/frettir/auglyst-eftir-listamonnum
Auglýst eftir listamönnum Gilfélagið á Akureyri auglýsir nú eftir listamönnum sem vilja taka þátt í Listasumri 2003. Þeir sem vilja vera með verða að hafa hraðar hendur því umsóknarfrestur er til 1. mars. Dagskráin í fyrra var með afbrigðum fjölbreytt og skemmtileg, og það verður eflaust snúið að gera betur sem hlýtur þó alltaf að vera markmiðið. Í auglýsingu frá Gilfélaginu segir orðrétt: UMSÓKN UM ÞÁTTTÖKU Á LISTASUMRI 2003 Umsóknarfrestur um þátttöku á Listasumri 2003 hefur verið framlengdur til 1. mars 2003. Umsóknareyðublöð er hægt að nálgast á heimasíðu Gilfélagsins www.listagil.is undir hnappnum LISTASUMAR. Nánari upplýsingar á skrifstofu Giflélagsins í síma 466-2609.
https://www.akureyri.is/is/frettir/okyrrd-a-graena-hattinum
Ókyrrð á Græna hattinum Hljómsveitin Ókyrrð flytur 12 ný lög eftir Bjarna Hafþór Helgason á Græna hattinum í miðbæ Akureyrar næsta fimmtudagskvöld. Lögin eru flest samin við ljóð eftir móðurbræður Bjarna Hafþórs, Ragnar Inga Aðalsteinsson og Hákon Aðalsteinsson. Ekki hefur tekist að skilgreina þessa tónlist eða fella hana að tilteknum stefnum en ljóðin eru með ýmsum bragarháttum eins og t.d. fornyrðislagi sem sjaldgæft er að samin sé tónlist við. Meðlimir Ókyrrðar eru: Arna Valsdóttir - Söngur Inga Dagný Eydal - Söngur Stefán Ingólfsson - Bassi Karl Petersen - Trommur Ingimar Davíðsson - Röddun/Ásláttur Eiríkur Bóasson - Gítar Baldvin Ringsted - Gítar Bjarni Hafþór Helgason - Píanó Ekki er áformað að hljómsveitin flytji þetta efni nema á þessu eina kvöldi. Frétt af www.local.is
https://www.akureyri.is/is/frettir/samkomulag-um-verkefni-a-svidi-byggdamala
Samkomulag um verkefni á sviði byggðamála Tómas Ingi Olrich, menntamálaráðherra, og Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra, undirrituðu í morgun samkomulag um átak í uppbyggingu menntunar og menningar á landsbyggðinni. Skilgreind hafa verið verkefni í samræmi við byggðaáætlun 2002-2005 þar sem lögð er áhersla á tengsl menntunar og menningar við þróun atvinnulífs í dreifðum byggðum. Upplýsingatækni verður markvisst nýtt til að efla símenntun og starfsmenntun á landsbyggðinni og stuðla að auknu námsframboði á öllum skólastigum. Einnig verður unnið að því að auka aðgengi að menningarefni frá ólíkum landssvæðum. Frá undirritun samkomulagsins í Háskólanum á Akureyri í morgun (ljósm. www.unak.is). Ráðuneytin munu sameiginlega leggja fram að lágmarki 100 milljónir króna á ári í þrjú ár, samtals 300 milljónir króna, í verkefni í ólíkum landshlutum. Ákveðið hefur verið að ráðast í eftirfarandi verkefni á árinu 2003. I. Efling símenntunarmiðstöðva og uppbygging háskólanámssetra Í byggðaáætlun er lögð áhersla á að starfsemi símenntunarstöðva verði efld með það að markmiði að styrkja landsbyggðina með bættu aðgengi að menntun á grunnskóla, framhaldsskóla og háskólastigi. Þetta á einnig við um starfsnám þar sem nemendur geta sinnt bóklegu námi í fjarnámi en verklegu námi í heimabyggð. Þá hefur mikilvægi símenntunar aukist á undanförnum árum og þarf hún að standa almenningi til boða óháð búsetu. Símenntunarstöðvar eru starfræktar í öllum landshlutum. Hlutverk þeirra er að efla símenntun með því að miðla námskeiðum og auka samstarf atvinnulífs og skóla til að tryggja samkeppnishæfni byggðarlaga. Símenntunarmiðstöðvar gegna mikilvægu hlutverki í að veita stoðþjónustu við nemendur og aðstöðu fyrir kennslu. Þannig hefur skapast grundvöllur fyrir frekari þjónustu vegna háskólanáms og verður unnið að uppbyggingu háskólanámssetra á Egilsstöðum og Húsavík sem byggja munu á grunni símenntunarmiðstöðva. Einnig verður stutt við þjónustu vegna háskólanáms á Vestfjörðum. Ráðstöfun árið 2003: a) Efling þjónustu vegna háskólanáms og símenntunar á Vestfjörðum 10 mkr. b) Háskólanámssetur á Egilsstöðum 16 mkr. c) Fræðasetur á Húsavík 5 mkr. d) Efling símenntunarmiðstöðva um land allt 10 mkr. II. Starfsmenntun á landsbyggðinni Í samræmi við byggðaáætlun verður unnið að uppbyggingu starfsnáms á landsbyggðinni með fjarnámi. Þar verður byggt á þeim grunni sem lagður hefur verið með kjarnaskólum í starfsmenntun. Í samvinnu við starfsgreinaráð hafa kjarnaskólar forgöngu um að þróa námsefni og kennsluaðferðir og aðstoða aðra skóla og fyrirtæki við umbætur í kennslu og starfsþjálfun á viðkomandi sviði. Framhaldsskólar á landsbyggðinni verða styrktir til að halda úti fámennum námshópum í starfsmenntun og hefja samstarf við kjarnaskóla og fyrirtæki í sínu byggðarlagi. Kjarnaskólar munu veita framhaldsskólum á landsbyggðinni þjónustu vegna þjálfunar kennara, kennslu, skiplagsvinnu og námsefnis. Einnig munu framhaldsskólar vinna að því að fyrirtæki taki að sér hluta kennslunnar í samvinnu við kjarnaskóla. Ráðstöfun árið 2003 Til kjarnaskóla og framhaldsskóla á landsbyggðinni 14 mkr. III. Dreifmenntun í dreifbýli Í verkefnáætlun sinni um rafræna menntun, Forskot til framtíðar, hefur menntamálaráðuneytið lagt áherslu á þróun dreifmenntunar. Dreifmenntun er hugtak sem lýsir blöndu af menntun sem er sótt með aðferðum fjarnáms/kennslu og staðbundins náms/kennslu. Dreifmenntun jafnar möguleika nemenda til náms og nýtir betur sérþekkingu kennara óháð búsetu. Þannig geta nemendur sem eru búsettir í dreifbýli sótt dreifnám sem er sniðið að þeirra þörfum án þess að flytjast búferlum. Kennarar geta stundað starf sitt í fjarvinnu óháð búsetu. Í byggðaáætlun segir að mikilvægt sé að halda áfram uppbyggingu framhaldsskóla í landinu og miða við að sem flest ungmenni geti sótt skóla daglega frá heimili sínu, a.m.k. til 18 ára aldurs. Einnig er lögð áhersla á að skapa nýjar leiðir fyrir háskólanám á landsbyggðinni sem tengist atvinnulífi og breyttu starfsumhverfi. Á grunnskólastigi hefur dreifmenntun mikið gildi fyrir byggðarlög þar sem búseta er dreifð og óhægt er um vik með skólaakstur vegna vegalengda og færðar. Við sameiningu sveitarfélaga hafa oft skapast vandkvæði þegar færa á skólahald á færri staði og flytja þarf börn daglega langar vegalengdir. Ráðstöfun árið 2003 a) Til þróunarverkefnis í grunnskólum í dreifðum byggðum á Vestfjörðum (Vesturbyggð og Tálknafjörður) 15 mkr. b) Til þróunar framhaldsskóla á Snæfellsnesi 13 mkr. c) Til háskóla vegna skipulags og þróunar námsframboðs í fjarkennslu 10 mkr. IV. Menning á landsbyggðinni Í byggðaáætlun kemur fram mikilvægi þess að stuðla að varðveislu byggðar sem á sér rótgróna sögu og hefur menningarsögulegt gildi. Unnið verður að þessu markmiði með að því auka aðgengi almennings að menningarefni sem tengist tilteknum landssvæðum. Veittir verða styrkir til verkefna á landsbyggðinni sem felast í því að safna saman upplýsingum, heimildum, fróðleik og myndefni sem er að finna í menningarstofnunum um land allt og búa efnið til birtingar á netinu. Ráðstöfun árið 2003 Til skráningarvinnu í menningarstofnunum og miðlunar menningarefnis 15 mkr.
https://www.akureyri.is/is/frettir/sveinn-og-hamlet-fa-menningarverdlaun-dv
Sveinn og Hamlet fá Menningarverðlaun DV Menningarverðlaun DV voru afhent í 25. sinn á dögunum en verðlaunahafinn í leiklist er Sveinn Einarsson sem hlaut viðurkenninguna fyrir uppsetningu sína á Hamlet hjá Leikfélagi Akureyrar. Á heimasíðu DV segir orðrétt: „Verðlaunahafinn í leiklist, Sveinn Einarsson, á að baki tugi uppsetninga en uppsetning hans á Hamlet hjá Leikfélagi Akureyrar er fyrsta glíma hans við Shakespeare og í blaðaviðtali sagðist hann einfaldlega ekki hafa verið tilbúinn í þá atlögu fyrr,“ sagði Halldóra Friðjónsdóttir, formaður dómnefndar í leiklist. „Reyndar hefur sagan um danska prinsinn, sem var slíkur amlóði að hann gat ekki hefnt föður síns, lengi verið Sveini hugleikin og fyrir nokkrum árum setti hann upp sýningu með leikhópi sínum Bandamönnum sem kallaðist einfaldlega Amlóða saga. Margir álíta Hamlet Shakespeares besta leikhúsverk allra tíma en gott leikrit er engin trygging fyrir góðri leiksýningu. Í Hamlet eru ótal spurningar sem leikstjórinn þarf að svara áður en túlkunarleiðin er fundin. Sveinn svaraði öllum þessum spurningum í sinni uppfærslu og samstarfsfólk hans, hvort sem það stóð á sviðinu eða bjó til umgjörðina, var trútt hans sýn á verkið. Fyrir vikið varð uppsetningin óvenju aðgengileg og mun seint gleymast þeim sem sáu. Með tilliti til aðstæðna í Samkomuhúsinu var uppfærslan kraftaverk út af fyrir sig og bar þess vott að um stjórnartaumana hélt maður sem hafði skarpa sýn á viðfangsefnið.“ Með Halldóru sátu í nefndinni Sveinn Haraldsson og Lísa Pálsdóttir.
https://www.akureyri.is/is/frettir/kvennakorinn-i-glerarkirkju
Kvennakórinn í Glerárkirkju Laugardaginn 1. mars heldur Kvennakór Akureyrar sína aðra tónleika í Glerárkirkju. Kórinn er upphaflega stofnaður af nokkrum áhugasömum KA-konum og hafði lengi æfingaaðstöðu í KA-heimilinu. Þegar fór að fækka í hópnum var ákveðið að auglýsa eftir söngglöðum konum og þá undir merkjum Kvennakórs Akureyrar til að laða fleiri að. Þetta tókst svo vel að um eða yfir 100 konur mættu á æfingu en í dag eru kórfélagar 73 og er þetta því líklega langfjölmennasti kórinn hér um slóðir. Kvennakór Akureyrar (KVAK) er nú á sínu öðru starfsári og stjórnandi hans frá upphafi hefur verið Björn Leifsson. Dagskrá tónleikanna á laugardaginn er mjög fjölbreytt en byggir meira á léttari tónlist. Þar mun Þórhildur Örvarsdóttir syngja einsöng með kórnum og undirleikari verður Arnór Vilbergsson. Tónleikarnir hefjast kl. 16.00.
https://www.akureyri.is/is/frettir/hagnadur-nam-80-milljonum-krona
Hagnaður nam 80 milljónum króna Rúmlega 80 milljóna króna hagnaður varð af rekstri Sparisjóðs Norðlendinga á árinu 2002 og er það mun betri afkoma en varð á árinu 2001. Arðsemi eigin fjár var 24,4% og hagnaður fyrir skatta nam tæplega 100 milljónum króna. Hagnaður af rekstri Sparisjóðs Norðlendinga á árinu nam 80,4 milljónum króna, samanborið við 122,3 milljóna króna tap árið 2001. Vaxtatekjur Sparisjóðs Norðlendinga á árinu 2002 námu 459,5 milljónum króna en vaxtagjöld ársins námu 274,2 milljónum. Hreinar vaxtatekjur voru því 185,3 milljónir króna. Aðrar rekstrartekjur námu 118,4 milljónum króna en voru neikvæðar um 125,6 milljónir á árinu 2001. Framlag í afskriftareikning útlána nam 29,7 milljónum króna, samanborðið við 53,9 milljónir árið áður. Eigið fé Sparisjóðs Norðlendinga í árslok 2002 nam 411 milljónum króna. Eiginfjárhlutfall sparisjóðsins, reiknað samkvæmt ákvæðum 54. greinar laga um viðskiptabanka og sparisjóði, var 13,9% í árslok 2002 en var 11,2% í árslok 2001. Samkvæmt lögunum má hlutfallið ekki vera lægra en 8,0%. Skuldir og eigið fé samtals námu 4.099 milljónum króna og er það hækkun um 3,6% á milli ára. Innlán í Sparisjóð Norðlendinga námu ríflega 2.739 milljónum króna á árinu 2002, sem er aukning um 23,8% frá árinu áður. Útlán námu 2.816 milljónum króna og minnkuðu um 2,6% á milli ára. Rekstargjöld námu 174milljónum króna, samanborið við 163milljónir króna árið 2001. Kostnaður sem hlutfall af hreinum rekstrartekjum var 57,4%. Jón Björnsson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Norðlendinga, segir þennan mikla viðsnúning í rekstrinum ánægjulegan. “Það hefur verið stöðug aukning á flestum sviðum starfseminnar og þessar afkomutölur sýna að við erum á réttri leið,” segir hann.
https://www.akureyri.is/is/frettir/milljardur-a-ari-i-fjogur-ar
Milljarður á ári í fjögur ár Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, og Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, undirrituðu í dag víðtækt samkomulag heilbrigðismálaráðuneytisins og bæjaryfirvalda á Akureyri sem felur í sér að bæjarfélagið tekur nú að sér að sjá um alla heilsugæslu og öldrunarþjónustu í Akureyrarumdæmi til ársloka 2006. Heilbrigðismálaráðherra og bæjarstjórinn á Akureyri undirrituðu sömuleiðis samning um verulega fjölgun hjúkrunarrýma á Akureyri á næstu misserum með sérstökum rammasamning um viðbyggingu við Dvalarheimilið Hlíð á Akureyri. Hjúkrunarrýmum fjölgar um 60 fram til ársins 2006 og skal fyrsta áfanga ljúka í árslok 2004 og á byggingunni að vera lokið í ársbyrjun 2006. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra mun skipa nefnd þriggja manna til að sjá um undirbúning verksins og skal nefndin skipuð einum fulltrúa ráðuneytisins og tveim fulltrúum Akureyrarbæjar eftir tilnefningu bæjarstjórnar. Nefndin skal vinna með þeim aðila sem ráðinn verður til að gera frumathugun fyrir verkið. Þessi frumathugun skal vera tilbúin 30. apríl 2003. Akureyri hefur verið svokallað reynslusveitarfélag hin síðari ár og hefur sem slíkt séð um heilsugæslu og rekstur hjúkrunar- og dvalarheimila fyrir aldraða á grundvelli sérstaks samkomulags þar um. Með samningnum sem nú hefur verið undirritaður er gengið skrefi lengra, samningstími lengdur og samið um öll helstu atriði heilbrigðisþjónustunnar á svæðinu. Er þetta gert vegna þess að heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytið telur að góð reynsla sé af stjórn heimamanna á heilbrigðisþjónustunni. Ánægja hefur sömuleiðis verið ríkjandi með fyrirkomulagið meðal íbúa eins og komið hefur fram í viðhorfskönnunum. Meginmarkmið samningsins er að efla stjórn sveitarfélagsins á málaflokknum, laga stjórnsýsluna betur að staðbundnum aðstæðum, bæta þjónustu við íbúana og nýta betur fjárveitingar hins opinbera. Samningnum er einnig ætlað að stuðla að framkvæmd Heilbrigðisáætlunar til ársins 2010, sem Alþingi hefur samþykkt. Samningurinn felur í sér framhald á tilfærslu heilsugæslu ? og öldrunarþjónustu frá verkkaupa til verksala í Akureyrarumdæmi í samræmi við meginmarkmið samningsins. Heimamenn stjórna sömuleiðis áfram rekstri hjúkrunar- og dvalarheimilum í Hlíð, Kjarnalundi og Bakkahlíð og auk þess öllum rekstri heimaþjónustu og dagvistar aldraðra. Ennfremur taka heimamenn alfarið að sér rekstur heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri gegn rammafjárveitingu. Samningurinn tekur ekki til þeirrar þjónustu sem Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri veitir. Til þess að sinna verkefnum samningsins mun ríkið tryggja sveitarfélaginu að árlegar fjárveitingar til verkefnisins verði um 972 milljónir króna á ári miðað við verðlagsgrunn ársins 2003. Um 306 milljónir renna til reksturs heilsugæslunnar, um 487 milljónir til rekstur hjúkrunarrýma, 140 milljónir til reksturs þjónusturýma, 20 milljónir króna renna til dagvistunar og húsnæðisgjald verður um 20 milljónir króna á ári.
https://www.akureyri.is/is/frettir/glas-i-galleri-gersemi
Glás í Gallerí Gersemi Nemendur í fagurlistadeild Myndlistarskólans á Akureyri opna sýninguna "Glás" í Gallerí Gersemi, fyrir ofan Bláu Könnuna á Akureyri, í dag kl. 17.00. Sýningin er samvinnuverkefni sem byggt er á sjálfstæðum verkum nemendanna í umsjón Hlyns Hallssonar. Verkin eru fjölbreytt m.a. innsetningar, textaverk, videoverk, ljósmyndir, skúlptúrar, textílverk, grafík og málverk. Verkið Frygð eftir Dagrúnu Guðnýju Sævarsdóttur. Listnemarnir eru Anna Guðlaug Jóhannsdóttir, Auður Brynjólfsdóttir, Bergþór Mortens, Björg Eiríksdóttir, Dagrún Sævarsdóttir, Edda Þórey Kristfinnsdóttir, Edda Sóley Þorsteinsdóttir, Helga S. Valdemarsdóttir, Herdís Björk Þórðardóttir, Ingibjörg Matthíasdóttir, Jóna B. Jakobsdóttir, Jóna Hlíf Halldórsdóttir, Kjartan Sigrtryggsson og Unnur Óttarsdóttir. Sýningin verður opin föstudag, laugardag og sunnudag kl. 14 - 18.
https://www.akureyri.is/is/frettir/greid-leid-i-gegnum-vadlaheidi
Greið leið í gegnum Vaðlaheiði Í dag var stofnað á Svalbarðseyri við Eyjafjörð undirbúningsfélag um gerð jarðganga undir Vaðlaheiði. Félagið hlaut nafnið Greið leið ehf. Í annarri grein stofnsamnings félagsins segir: Tilgangur félagsins er: Að standa fyrir nauðsynlegum undirbúningi fyrir stofnun félags um gerð og rekstur jarðganga undir Vaðlaheiði. Þar með talið er kynningarstarf, áætlanagerð og samningar við ríki og fjárfesta. Fundarstjóri var Reinhard Reynisson bæjarstjóri á Húsavík. Hlutafé félagsins er tæpar 4,5 milljónir króna. Stærsti hluthafi er Akureyrarbær sem leggur fram tæplega 1,6 milljónir eða 100 krónur á hvern íbúa bæjarins og KEA sem greiðir 1 milljón króna. Í stjórn voru kjörnir Ásgeir Magnússon, Andri Teitsson og Pétur Þór Jónasson. Varamenn í stjórn eru Jóhann Guðni Reynisson og Bjarni Jónasson. Sveitarstjórnarmenn fjölmenntu á fundinn.
https://www.akureyri.is/is/frettir/godamot-thors
Goðamót Þórs Unglingaráð knattspyrnudeildar Þórs hleypir senn af stokkunum nýju móti fyrir yngstu kynslóðina, móti sjö manna liða í Boganum, hinu nýja og glæsilega fjölnota íþróttahúsi Akureyrarbæjar á félagssvæði Þórs í Glerárhverfi. Knattspyrnumót í knattspyrnuhöll hefur ekki verið haldið fyrr hér á landi svo vitað sé. Norðlenska matborðið verður helsta samstarfsfyrirtæki Þórs vegna mótsins, sem heitir þar af leiðandi Goðamót Þórs, og verður í dag undirritaður samstarfssamningur Norðlenska og Þórs til þriggja ára þar að lútandi. Gott samstarf: Sigurjón Magnússon framkvæmdastjóri Goðamótsins og Karl Steinar Óskarsson markaðsstjóri Norðlenska. "Við höfum stutt við bakið á íþrótta- og æskulýðsstarfsemi á Akureyri og lítum svo á að það sé bæði okkur og Akureyringum til framdráttar, þó svo ég viðurkenni fúslega að við lítum ekki bara á þetta sem styrk; samstarfið við Þór eru líka viðskipti í okkar augum" segir Karl Steinar Óskarsson, markaðsstjóri Norðlenska. "Þetta mót sem Þórsarar ætla að halda er mjög spennandi dæmi; mér leist strax vel á hugmyndina þegar hún barst inn á mitt borð og ég trúi því að þetta geti orðið að stóratburði í framtíðinni og orðið til þess að fjöldi aðkomufólks komi til bæjarins. Ég tel Akureyri hafa upp á mjög margt að bjóða sem aðrir landsmenn ættu að kynna sér vel og reyna að njóta." Um er að ræða tvö mót. Keppni hefst á föstudegi og stendur fram á sunnudag. Strákar í 5. flokki ríða á vaðið 7. til 9. mars og seinna mótið, fyrir 6. flokk stráka, verður 28. til 30. mars. Vonast er til að hægt verði að bæta stúlknaflokki við strax að ári. Reiknað er með þátttakendum víðs vegar að af landinu og við erum sannfærðir um að mót sem þetta getur fest sig í sessi og orðið árlegur viðburður. Hugmyndin er raunar sú að um meira en venjulegt knattspyrnumót verði að ræða; Ævintýrahelgi á Akureyri væri líklega nær sanni; foreldrar og aðrir aðstandendur þátttakenda verða hvattir til að koma með til bæjarins og njóta þess sem hann hefur að bjóða; skíðasvæðis í fremstu röð (ef snjóar!), framúrskarandi leikhúss og listasafns og frábærra veitingahúsa, svo eitthvað sé nefnt. Aðstæður allar eru þannig að ævintýrahelgin ætti að geta heppnast vel og skapað Þór, Akureyrarbæ og samstarfsfyrirtækjum Þórs við verkefnið góðan orðstír. Orðstír deyr aldregi, eins og þar stendur. Ferðaskrifstofa Akureyrar og fleiri fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa gengið til liðs við Þór vegna þessa verkefnis, í þeim tilgangi að auðvelda fólki að skipuleggja dvölina. Þannig verður á einum stað hægt að ganga frá öllu sem fólk þarf á að halda; flugi, gistingu, miðum í leikhús eða aðra menningarviðburði, á skíði, í sund, á skauta og borðapöntunum á veitingastaði svo dæmi séu tekin. Eitthvað af þessu eða allt, eftir þörfum hvers og eins. Í framtíðinni má búast við því að þátttakendur á hverju móti verði 400 til 500 og ef fjölskyldur fylgja þeim gæti viðburðurinn dregið a.m.k. 1.500 til 2.000 manns í bæinn um viðkomandi helgi. Þegar stúlknamótinu hefur verið bætt við, vonandi strax á næsta ári, gæti þessi þriggja móta röð því laðað 4.500 til 6.000 manns til Akureyrar. Vert er að geta þess að aðstæður eru til fyrirmyndar á Þórssvæðinu og næsta nágrenni; innangengt er úr fjölnota húsinu í félagsheimilið Hamar og í Glerárskóla, sem er í göngufæri, verður þátttakendum boðin gisting. Þar verður einnig boðið upp á fæði í nýju mötuneyti skólans. Íþróttahús og innisundlaug, sambyggð skólanum, munu nýtast þátttakendum að einhverju leyti.
https://www.akureyri.is/is/frettir/um-600-manns-a-ut-2003
Um 600 manns á UT 2003 Um 600 þátttakendur eru skráðir á ráðstefnu um upplýsingatækni í skólastarfi, UT 2003, sem hófst kl. 13 í dag í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Þetta er í fimmta sinn sem UT ráðstefna er haldin og segja aðstandendur ráðstefnunnar að þátttökufjöldi sé umfram væntingar. Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra flytur ræðu við setningu ráðstefnunnar. Í samtali við local.is sagði Hrönn Pétursdóttir, einn af skipuleggjendum ráðstefnunnar, að í fyrra hefðu um 1.300 manns sótt UT ráðstefnuna en það hefði verið metþátttaka. "Þar sem ráðstefnan er að þessu sinni haldin á landsbyggðinni í fyrsta sinn vorum við að vonast eftir um 500 þátttakendum en um 4 til 800 manns hafa sótt UT ráðstefnunar. Við erum því afar ánægð með þátttökuna í ár," sagði Hrönn. Það er menntamálaráðuneytið sem hefur staðið fyrir UT ráðstefnunum en tilgangur þeirra er að vera vettvangur fyrir skólastjórnendur, kennara og aðra áhugasama til að finna nýjar lausnir, leysa vandamál og miðla nýjungum í upplýsingatækni í skólastarfi. Fjölmenni var við setningu ráðstefnunnar í Verkmenntaskóla Akureyrar. Frétt af local.is - myndir akureyri.is.
https://www.akureyri.is/is/frettir/ua-hagnast-um-1-4-milljarda
ÚA hagnast um 1,4 milljarða Rekstur Útgerðarfélags Akureyringa (ÚA) skilaði umtalsvert betri afkomu á nýliðnu ári en árið á undan. Hagnaður varð af rekstrinum upp á 1,4 milljarða króna en árið 2001 varð 87 milljóna króna tap. Útgerðarfélag Akureyringa hf. (ÚA) stýrir landvinnslu Brims og sérhæfir sig í vinnslu bolfisks og útgerð frystiskipa. Félagið rekur flakaverksmiðjur á Akureyri og Grenivík og gerir út fimm skip. Dótturfélög ÚA eru sex. Velta ÚA-samstæðunnar á liðnu ári nam 6,8 milljörðum króna, sem er aukning um ríflega 11% frá árinu á undan. Veltufé frá rekstri á liðnu ári nam tæplega 1,3 milljörðum króna og lækkaði lítillega frá árinu áður. Vergur hagnaður (EBITDA) nam 1,4 milljörðum króna, sem er um 235 milljónum minna en árið áður. Afskriftir náum samtals 957 milljónum króna, þar af voru 266 milljónir vegna sérstakrar niðurfærslu eigna. Fjármagnsliðirnir voru jákvæðir um tæpan 1,1 milljarð króna en árið áður voru þeir neikvæðir um 940 milljónir. Þessa breytingu má að stærstum hluta rekja til þess að á árinu 2002 styrktist krónan verulega en árið áður hafði hún veikst mikið. Meðal fjármagnsliða eru tekjufærðar tæpar 400 milljónir vegna söluhagnaðar eignahluta, en í lok ársins seldi félagið hlutabréf sín í Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og SR-Mjöli til Burðaráss. Eftir að tekið hefur verið tillit til hlutdeildarfélaga, skatta og hlutdeildar minnihluta er félagið gert upp með tæpum 1,4 milljarði króna í hagnað en árið áður nam tap félagsins 87 milljónum króna. Heildareignir samstæðunnar þann 31. desember 2002 voru að bókfærðu verðmæti rúmlega 10,5 milljarðar króna og jukust frá árinu á undan um 21%. Skuldirnar námu um áramót ríflega sjö milljörðum króna. Eigið fé í árslok var því ríflega 3,5 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið um 33%. Stjórn félagsins gerir tillögu um að greiddur verði 29% arður til hluthafa af nafnverði hlutafjár á árinu 2002. Guðbrandur Sigurðsson framkvæmdastjóri segir niðurstöðu af rekstri ÚA á liðnu ári vel ásættanlega. “Ég er mjög ánægður með reksturinn á liðnu ári. Þetta er mesti hagnaður í sögu félagsins og undanfarin tvö ár hafa verið metár hvað varðar veltufé frá rekstri. Rekstrarumhverfi greinarinnar er þokkalegt en í ljósi þess hve sveiflur í gengi gjaldmiðla hafa verið miklar síðustu misserin gefur mun betri mynd að horfa á tölur frá síðustu tveimur árum saman þegar niðurstaða rekstrarins er metin,” segir Guðbrandur.
https://www.akureyri.is/is/frettir/pall-rosinkranz-i-akureyrarkirkju-til-studnings-bornum-ur-hopi-flottamanna
Páll Rósinkranz í Akureyrarkirkju - Til stuðnings börnum úr hópi flóttamanna Páll Rósinkranz kemur fram á tónleikum á Akureyri á sunnudags- og mánudagskvöld. Allur ágóði af síðari tónleikunum rennur til barna úr hópi þeirra flóttamanna sem senn eru væntanlegir til Akureyrar. Sunnudagurinn 2. mars er æskulýðsdagur þjóðkirkjunnar. Af því tilefni verður kvöldmessa kl. 20.30 þar sem Kór Menntaskólans á Akureyri, Páll Rósinkranz söngvari og Óskar Einarsson píanóleikari sjá um tónlistarflutning. Þá munu félagar úr Æskulýðsfélagi Akureyrarkirkju flytja leikþáttinn Kærleikspóstinn. Páll og Óskar halda síðan tónleika í Akureyrarkirkju mánudagskvöldið 3. mars og hefjast þeir klukkan 20.30. Þar flytja þeir lög af geislaplötum Páls auk vel þekktra gospel-laga. Gestasöngvari á tónleikunum er Hera Björk Þórhallsdóttir. Allur ágóði af tónleikum þessum rennur til barna úr hópi þeirra flóttamanna sem senn eru væntanlegir til Akureyrar. Miðaverð er 1000 kr. en 600 kr. fyrir börn yngri en 14 ára.
https://www.akureyri.is/is/frettir/ahofnin-heldur-uti-heimasidu
Áhöfnin heldur úti heimasíðu Sjómennska er í dag um margt frábrugðin þeirri mynd sem almenningur gerir sér af atvinnuveginum. Gríðarlegar tækniframfarir hafa átt sér stað í greininni og það hefur færst í vöxt að áhafnir haldi úti heimasíðum. Við bendum áhugasömum "landkröbbum" til dæmis á áhugaverða heimasíðu sem áhöfnin á Samherjaskipinu Vilhelmi Þorsteinssyni EA-11 frá Akureyri hefur verið með allt frá fyrsta viðitúr. Á síðunni eru fróðlegar upplýsingar og hægt að skoða á myndum hvernig lífið um borð í nútíma fiskveiðiskipi gegnur fyrir sig. Smellið hér til að skoða heimasíðu áhafnarinnar á Vilhelm Þorsteinssyni EA-11. Til fróðleiks má að lokum geta þess að tvö öflugustu sjávarútvegsfyrirtæki landsins eru staðsett á Akueyri og tæplega fimmtungur launatekna íbúa Akureyrar koma úr sjávarútvegi.
https://www.akureyri.is/is/frettir/oskudagurinn-a-akureyri-1
Öskudagurinn á Akureyri Krakkar á öllum aldri stormuðu á milli verslana og þjónustufyrirtækja á Akureyri í gær til að syngja fyrir starfsfólk og þiggja nammi að launum. Meðfylgjandi eru myndir af tveimur söngflokkum sem sungu fyrir starfsfólk Ráðhússins á Akureyri. Summary
https://www.akureyri.is/is/frettir/gegn-vaendi-og-verslun-med-konur
Gegn vændi og verslun með konur Á morgun er Alþjóðadagur kvenna og þá munu Zontaklúbbarnir á Akureyri selja barmnælu, gyllta rós, til styrktar baráttu Stígamóta gegn vændi og verslun með konur. Einnig verður starf Aflsins, systursamtaka Stígamóta á Norðurlandi, styrkt. Íslensku Zontaklúbbarnir eru sjö en um helgina selja þeir rósarnæluna við verslanir og samkomustaði, hver í sinni heimabyggð. ZONTA eru alþjóðleg þjónustusamtök kvenna í ýmsum starfsgreinum sem hafa það að markmiði að efla stöðu kvenna um allan heim. Zontakonur hafa látið að sér kveða á Akureyri í yfir 50 ár og er það von þeirra að bæjarbúar taki nú höndum saman og vinni með þeim gegn klámi, vændi og verslun með konur.
https://www.akureyri.is/is/frettir/30-milljonir-i-pottinum
30 milljónir í pottinum Stjórn verkefnisins "Átak til atvinnusköpunar" hefur ákveðið var að auglýsa eftir umsóknum. Eins og áður eru 30 milljónir í pottinum. Átakið verður nánar auglýst í blöðum á næstu dögum. Umsóknarfrestur rennur út 26. mars nk. Impra yfirfer og metur umsóknir. Þeim er síðan skilað til stjórnar átaksins sem tekur lokaákvörðun um styrkveitingar í lok apríl ef áætlanir standast. Þar sem fresturinn er stuttur er ekki hægt að taka við umsóknum eftir að tímatakmörk eru á enda runnin. Þá er og afar mikilvægt að umsóknirnar séu vel úr garði gerðar og þeim fylgi öll gögn sem um er beðið. Umsóknum sem ekki uppfylla skilyrði verður því að vísa frá. Umsóknareyðublöð liggja á Impru-vefnum www.impra.is undir "Átak til atvinnusköpunar". Þar er einnig að finna leiðbeiningar um gerð umsókna og fylgigögn. Frétt af www.afe.is
https://www.akureyri.is/is/frettir/tharf-12-thusund-farthega-a-arinu
Þarf 12 þúsund farþega á árinu FYRSTA beina áætlunarflug Grænlandsflugs frá Akureyri til Kaupmannahafnar verður 28. apríl næstkomandi, en flogið verður tvisvar í viku milli þessara áfangastaða, á mánudögum og fimmtudögum allt árið um kring. Forsvarsmenn félagsins kynntu áform þess á fundi á Akureyri í gær en þar kom fram að hægt yrði að bóka ferðir í gegnum Amadeus og farmiðar verði fáanlegir hjá öllum IATA-ferðaskrifstofum en ekki verði hægt að ganga frá bókunum strax þar sem íslensk flugmálayfirvöld hafa ekki afgreitt umsókn félagsins. Michael Binzer, sölu- og markaðsstjóri Grænlandsflugs, sagði að nokkrar vikur, 3-4 líklega væru í að afgreiðsla myndi liggja fyrir á umsókn félagsins. Hann sagði forsvarsmenn Flugleiða hafa reynt að tefja fyrir framgangi málsins, því vissulega sæju þeir fram á aukna samkeppni á þessari leið. "Þetta er leikur," sagði hann. Flogið verður frá Akureyri kl. 12 á hádegi og komið til Kaupmannahafnar kl. 16.45, sem Michael sagði góðan tíma upp á tengiflug vítt og breitt um Evrópu. Frá Kaupmannahöfn er farið kl. 9.45 að morgni og komið til Akureyrar kl. 10.45. Flogið verður með Boeing 757-200 vél félagsins með 168 sætum. Kynningarátak verður í gangi í maí og er fargjaldið þá 22.500 krónur með sköttum og bókunargjaldi, en Ferðaskrifstofa Akureyrar verður aðalsöluaðili Grænlandsflugs á Akureyri. Þá er þegar farið að skipuleggja ýmsar ferðir í tengslum við áætlunarflugið m.a. helgarferð, fjórar nætur á þriggja stjörnu hótel í miðbæ Kaupmannahafnar á 49.900. Eins er verið að undirbúa ferð á Hróarskeldu í sumar og tónleikaferð með Paul McCartney í byrjun maí. Michael Vinzer sagði Grænlandsflug ekki lággjaldaflugfélag, það kysi að bjóða farþegum sínum góða og örugga þjónustu. Verð á farseðlum á þessari flugleið verður að loknu kynningarátaki á bilinu 30-40 þúsund krónur. Michael sagði að væntingar forsvarsmanna Grænlandsflugs væru miklar, en stefnt er því að ná 12 þúsund farþegum í ár, þ.e. á 8 mánaða tímabili frá apríllokum til áramóta. Hann sagði félagið hafa lagt mikið undir og þeir gerðu sér grein fyrir að með því að bjóða upp á þetta beina áætlunarflug tækju þeir áhættu. Fyrirvarinn væri skammur og því hefði félagið ekki náð inn í ferðabæklinga fyrir komandi sumar. Kynningarstarf myndi miðast við haust- og vetrarferðir sem og kynningu fyrir sumarið 2004. Mikið traust væri því lagt á heimamenn á Norður- og Austurlandi að nýta sér þennan valkost á ferðalögum til útlanda í sumar. Hagur heimamanna fælist t.d. í skemmri tíma til ferðalaga þar sem farið væri frá heimabyggð. "Við bjóðum Norðlendingum upp á þennan valkost og höfum lagt í þetta verkefni mikið fé þannig að við vonum að vel muni ganga," sagði Michael og benti á að menn hefðu fundið fyrir velvilja og stuðningi heimamanna þannig að nokkur bjartsýni ríkti. Grænlandsflug var stofnað árið 1960 og eru starfsmenn þess tæplega 500 talsins. Félagið hefur yfir að ráða góðum flugvélakosti og flytur um 630 þúsund farþega árlega á ýmsum leiðum. Höfuðstöðvar þess eru í Nuuk, en flugvélar eru skráðar í Danmörku. Frétt af mbl.is - Morgunblaðsmynd: Kristján.
https://www.akureyri.is/is/frettir/korfuboltaveisla-um-naestu-helgi
Körfuboltaveisla um næstu helgi Úrslitakeppni 2. deildar Íslandsmóts karla í körfuknattleik verður haldin á Akureyri um næstu helgi. Þar verður lið Þórs í eldlínunni og freistar þess að komast upp í 1. deild. Leikið verður í tveimur riðlum og verður riðlakeppnin háð föstudag og laugardag. A-riðill verður leikinn í Íþróttahöllinni en Þór á sæti í þeim riðli. B-riðill verður leikinn í Glerárskóla. Á sunnudeginum verður leikið um sæti en undanúrslitaleikirnir, leikurinn um 3. sæti og úrslitaleikurinn verða í Íþróttahöllinni. Búnaðarbanki Íslands er aðalstyrktaraðili úrslitakeppninnar og býður Akureyringum frítt á leikina. Allir á völlinn! A-riðill B-riðill Þór ÍA Grundarfjörður Dalvík Árvakur ÍG ÍV Hörður Leikir Þórs í riðlakeppninni: Dagsetning Staður Tími Leikur Föstudagur 14. mars Íþróttahöllin 20.00 Þór - Grundarfjörður Laugardagur 15. mars Íþróttahöllin 14.30 Þór - Árvakur Íþróttahöllin 18.30 Þór - ÍV Úrslitaleikir: Dagsetning Staður Tími Leikur Sunnudagur 16. mars Glerárskóli 9:00 Leikið um 7. sæti Glerárskóli 11:00 Leikið um 5. sæti Íþróttahöllin 9:00 Undanúrslit Íþróttahöllin 11:00 Undanúrslit Íþróttahöllin 14:00 Leikið um 3. sæti Íþróttahöllin 16:00 Úrslitaleikur Tvö efstu félögin tryggja sér sæti í 1. deild karla að ári.
https://www.akureyri.is/is/frettir/akureyrarbaer-styrkir-haskolann-veglega
Akureyrarbær styrkir háskólann veglega Akureyrarbær styrkir Háskólann á Akureyri um 2,6 milljónir króna á tímabilinu 2003 - 2004. Þetta kemur fram í samkomulagi sem undirritað var föstudaginn 7. mars sl. Styrknum er ætlað að koma í stað fjölda smærri styrkja sem áður voru veittir af hálfu bæjarins. Sjóðurinn veitir styrki til smærri verkefna á ýmsum sviðum háskólans, samstarfsstofnana og nemendafélaga. Styrknum er ætlað að styðja: 1) Ráðstefnur eða meiriháttar samkomur 2) Útgáfu- og kynningarstarfsemi 3) Kynnis- og námsferðir sem skipulagðar eru af skólanum eða einstaka deildum 4) Menningarstarf eða annað sem stjórnin telur falla að þessum reglum Úthlutun er í höndum þriggja manna stjórnar sem skipuð er af háskólaráði til tveggja ára. Einn meðlimur stjórnarinnar skal koma frá einni af samstarfsstofnunum HA. Sjóðstjórn skilar skýrslu til bæjarráðs Akureyrarbæjar í janúar 2004 um þá styrki sem veittir hafa verið úr sjóðnum. Við mat á umsóknum mun sjóðstjórn taka tillit til eftirfarandi atriða: 1) Gildi fyrirhugaðs verkefnis 2) Að verkefni sé skýrt afmarkað, markmið skýr og vel rökstudd 3) Þekkingar og færni umsækjanda 4) að verkáætlun sé traust og trúverðug og kostnaðaráætlun sé í samræmi við markmið 5) Að verkefni feli í sér mikilsvert framlag á sínu sviði eða feli í sér nýmæli Taka skal fram að styrkir eru ekki veittir þar sem ljóst er að aðrir sjóðir eru betur fallnir til að styrkja viðkomandi verkefni. T.a.m. eru ekki veittir styrkir til rannsókna þar sem Rannsóknasjóður HA er betur fallinn til að styrkja slík verkefni.
https://www.akureyri.is/is/frettir/undir-fikjutre-althydulistir-og-frasagnarhefdir-indlands
Undir fíkjutré - Alþýðulistir og frásagnarhefðir Indlands Sýningin „Undir fíkjutré: Alþýðulistir og frásagnarhefðir Indlands" verður opnuð í Listasafninu á Akureyri næstkomandi laugardag kl. 15. Þetta er í fyrsta sinn sem indversk myndlist er kynnt með jafn víðfeðmum hætti hér á landi. Sýningin er sérstaklega samansett af Listasafninu á Akureyri og kemur víða að. Í grunninn er sýningin fengin frá Syracuse-háskóla og Mithila-málverk koma að mestu frá Berkeley-háskóla í Bandaríkjunum. Sýningin samanstendur af málverkum, höggmyndum, keramík, skuggabrúðum, vefnaði, ljósmyndum, hljóðfærum, póstkortum og bíómyndum svo eitthvað sé nefnt. Öll þessi verk byggjast að einhverju leyti á söguljóði hindúa, Ramayana sem samanstendur af 24.000 erindum. Það er talið ritað á tímabilinu 500 til 200 f.Kr, eignað skáldinu Valmiki. Frásagnarhefðir Indlands eru aldagamlar en flest verkanna eru frekar ný af nálinni; þau yngstu aðeins nokkurra mánaða, hin elstu um áttrætt. Indland er land sagnaskáldskapar og munnmæla enda setja Indverjar sögur sínar ekki aðeins í orð, heldur í margvísleg listform. Listformin minna áhorfendur á sögur af gyðjum og guðum sem sanntrúaðir hindúar dýrka enn í dag, en líka þær breytingar sem hafa átt sér stað í veröldinni á síðustu tveimur öldum. Þetta listform breytist og þróast stöðugt. Mithila-málverk Frá norðursýslunni Bihar koma svokölluð Mithila-málverk sem eitt sinn skrýddu veggi brúðarsals til að laða að lukkudísir og stuðla að hagkvæmni í heimilishaldi. Höggmyndir Frá austurhéraðinu Bengal koma strangamálverk og nokkrar afar fagrar messingafsteypur. Keramík Ýmsir norður-indverskir nytjalistmunir úr terracotta-leir eru einnig á sýningunni. Skuggabrúður Frá Suður-Indlandi koma handunnar skuggabrúður, persónur byggðar á söguljóðinu Ramayana. Vefnaður Frá eyðimörk Rajasthan-héraðs koma átta metra löng strangamálverk; þau segja sögur alþýðuhetja sem enn er trúað á. Ljósmyndir Undanfarna hálfa öld hefur Richard Lannoy fengist við að ljósmynda Indland. Hér gefur að líta tuttugu ljósmyndir úr syrpu sem Lannoy greypti í silfur í hinni 3000 ára gömlu borg Baneres, andlegri höfuðborg Indlands. Myndröðin nefnist „Baneres-borg séð að innan" og birtir sjónarhorn hans gagnvart hinni helgu menningu og einfaldleika hins daglegs lífs við árbakka Gangesfljóts. Póstkort Einstök póstkort úr safni indversks einkasafnara í Lundúnum, Mukund Nawathe, eru flest frá fyrstu áratugum 20. aldar, fyrir daga sjónvarps og útbreiðslu tímarita, þegar póstkortið var hin fullkomna aðferð til að sannreyna að sjón er sögu ríkari. Viðfangsefnið er oftast exótískt og framandi. Síðast en ekki síst breytist vestursalur Listasafnsins á Akureyri í litlu Bollywood og sýnir ýmsar spennandi bíómyndir úr indversku draumaverksmiðjunni, ásamt heimildamyndum um gerð listaverkanna. Sýningin stendur til 4. maí.
https://www.akureyri.is/is/frettir/samningur-um-komu-flottafolksins
Samningur um komu flóttafólksins Á miðvikudag var undirritaður í félagsmálaráðuneytinu í Reykjavík samningur milli ríksins og Akureyrarbæjar vegna komu tuttugu og fjögurra fljóttamanna frá fyrrum lýðveldum Júgóslavíu til Akureyrar. Samkvæmt samningnum mun ríkið greiða þann kostnað sem hlýst af komu flóttamannanna fyrsta árið sem er áætlaður rúmar 36 milljónir króna. Félagsmálaráðherra, Páll Pétursson, og Karl Guðmundsson, sviðsstjóri félagssviðs Akureyrarbæjar, undirrituðu samninginn. Hann er svohljóðandi: "Félagsmálaráðuneytið og Akureyrarkaupstaður gera með sér svofelldan samning vegna móttöku 24 flóttamanna (6 fjölskyldna) frá fyrrum Júgóslavíu til Akureyrarkaupstaðar. Flóttamennirnir koma til landsins 24. mars 2003. Rauði kross Íslands mun sjá um framkvæmd verkefnisins í umboði félagsmálaráðuneytisins, sbr. samning um framkvæmdaáætlun. Akureyrarkaupstaður tekur að sér að móttöku flóttamannanna og mun í eitt ár veita m.a. eftirfarandi þjónustu þeim að kostnaðarlausu: Húsnæði með hússjóði, rafmagni, hita og tryggingum. Síma ásamt föstum kostnaði sem af honum hlýst. Fjárhagsaðstoð samkvæmt reglum Akureyrarkaupstaðar. Aðstoð við að útvega atvinnu. Menntunarmál, þ.e. leikskólavistun, grunnskólakennslu, þjónustu sérkennslufulltrúa, fullorðinskennslu, vorskóla, sumarskóla, barnagæslu, ýmis námskeið og aðra skólaþjónustu eftir því sem við á. Félagsráðgjöf og sálfræðiaðstoð eftir þörfum. Aðra þjónustu á vegum sveitarfélagsins sem óskað er eftir. Heilbrigðisþjónustu, þ.e. almenna heilsugæslu, augnlækningar, tannlækningar og lyfjakostnað. Túlkaþjónustu. Akureyrarkaupstaður og Rauði kross Íslands skipa starfshóp sem stýrir framkvæmd verkefnisins. Markmið hans er að tryggja sem best samræmingu og samhæfingu vegna móttöku flóttamannanna. Yfirstjórn starfshópsins, samsetning hans og fjöldi fulltrúa í honum fer eftir samkomulagi þessara aðila og þörfum á hverjum tíma. Félagsmálaráðuneytið skuldbindur sig til að greiða Akureyrarkaupstað í samræmi við kostnaðaráætlun sem fylgir samningi þessum og skoðast sem hluti hans. Greiðslur munu fara fram mánaðarlega í samræmi við fylgiskjal samningsins með fyrirvara um breytingar sem gætu orðið við endurskoðun kostnaðaráætlunar. Ef fyrirséð verður að kostnaður vegna tiltekinnar þjónustu fari meira en 3% umfram kostnaðaráætlun skal Akureyrarkaupstaður hafa samráð við ráðuneytið áður en stofnað er til þeirra útgjalda. Auk samnings þessa skal Akureyrarkaupstaður hafa reglur Flóttamannaráðs Íslands eins og þær eru á hverjum tíma til viðmiðunar varðandi aðstoð við flóttamennina og nánara fyrirkomulag á málefnum þeirra. Samning þennan ásamt kostnaðaráætlun skal endurskoða í ljósi fenginnar reynslu eigi síðar en í nóvember 2003."
https://www.akureyri.is/is/frettir/evropusamruninn-og-stadbundid-lydraedi
Evrópusamruninn og staðbundið lýðræði Félagsvísinda- og lagadeild boðar til ráðstefnu þriðjudaginn 18. mars nk. Yfirskrift ráðstefnunnar er "Evrópusamruninn og staðbundið lýðræði" og hefst hún klukkan 15:00 með inngangsorðum Mikaels M. Karlssonar, deildarforseta. Dagskráin er sem hér segir: 15.00 Inngangsorð Mikael M. Karlsson, forseti félagsvísinda- og lagadeildar 15.05 Evrópusamvinna og lýðræði Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 15.45 Um svokallaða nálægðarreglu í Evrópurétti Sigurður Líndal, prófessor emeritus frá HÍ 16.25 Kaffihlé 16.40 Að beita fullveldi sínu Kristrún Heimisdóttir, Samtök iðnaðarins 17.10 Evrópusambandið, stjórnfesta og staðbundið lýðræði Ágúst Þór Árnason, HA 17.40 Pallborð 18.00 Ráðstefnuslit Hvernig er hægt að tryggja staðbundið lýðræði á sama tíma sem landmæri ríkja Evrópu virðast vera að hverfa? Hver tryggir lýðræðið ef fullveldi þjóðríkjanna minnkar? Kannanir og rannsóknir benda til þess að fjölmargir íbúar í löndum Evrópusambandsins hafi misst trúna á að flókið og óskýrt regluverk ESB geti stuðlað að góðri stjórnsýslu og framförum. Samkvæmt þessum rannsóknum finnst æ fleira fólki að sambandið sé hvoru tveggja í senn fjarlægt og uppáþrengjandi. Því finnst að valdið sé fjarlægt en að áhrifa þess gæti í flestum þáttum daglegs lífs. Er hægt að vega upp á móti lýðræðishalla Evrópusambandsins með staðbundnu lýðræði? Þessar spurningar hafa orðið hinni nýstofnuðu félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri tilefni til að fá hingað hóp valinkunnra einstaklinga til að leita svara við spurningunni: "Er hægt að auka áhrif fólks á þróun og ákvörðunartöku ESB?"
https://www.akureyri.is/is/frettir/mikilvaegur-samningur-um-vetrarithrottamidstod
Mikilvægur samningur um Vetraríþróttamiðstöð Tómas Ingi Olrich, menntamálaráðherra, og Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, undirrita á mánudag samning um uppbyggingu og rekstur Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands á Akureyri. Samningurinn gildir til ársins 2008 og er framkvæmdafé á því tímabili um 360 milljónir króna. Meðal helstu verkefna sem fyrirhugað er að ráðast í á samningstímanum eru: Áframhaldandi uppbygging á skíðalyftum Stækkun skíðalandsins, aukin flóðlýsing o.fl. Bætt aðstaða fatlaðra til iðkunar vetraríþrótta Betri aðstaða fyrir brettafólk Kaup á nýjum snjótroðara Undirbúningur snjóframleiðslu Bætt aðstaða fyrir snjósleðafólk Endurnýjun á þjónustumiðstöð Ný barnalyfta Efling vetraríþrótta í Kjarnaskógi Aukin og bættur tækjakostur í skautahöll Jafnframt því sem samningur um þessar umfangsmiklu framkvæmdir verður undirritaður munu aðilar hans undirrita viljayfirlýsingu um að stefnt skuli að því að stofna vetraríþróttabraut við Verkmenntaskólann á Akureyri haustið 2003 sem tilraun til þriggja ára. Vetraríþróttamiðstöð Íslands var stofnuð á Akureyri með staðfestingu samstarfs milli menntamálaráðuneytisins, Akureyrarbæjar, Íþrótta- og Olympíusamband Íslands og Íþróttabandalags Akureyrar hinn 18. mars 1995 sbr. reglugerð útgefinni af menntamálaráðherra þann sama dag. Þar segir meðal annars: "Vetraríþróttamiðstöð Íslands, VMÍ, er þjónustustofnun sem hefur að megin verkefni að efla vetraríþróttir, íþróttafræðslu og útivist og stuðla þannig að heilbrigðu lífi og heilsurækt meðal almennings, svo sem skólafólks, fatlaðra og keppnis- og afreksfólks í íþróttum með hefðbundnar vetraríþróttir, íþróttafræðslu og útivist að leiðarljósi"
https://www.akureyri.is/is/frettir/thogul-motmaeli-a-radhustorgi
Þögul mótmæli á Ráðhústorgi Í dag mun fólk víðs vegar um heim, þ.á m. á Íslandi, sameinast með logandi kertaljós í hönd og mótmæla í þögn yfirvofandi stríði í Írak. Hér á landi verður komið saman á Ráðhústorginu á Akureyri, Lækjartorgi í Reykjavík, Silfurtorgi á Ísafirði og á Brekkubæ í Snæfellsbæ klukkan 19.00. Viðburðurinn mun eiga sér stað á þúsundum staða í u.þ.b 130 löndum. Frumkvæði að þessu átaki sem nefnt er Global Vigil for Peace hafa samtökin MoveOn.org (Democracy in Action) í samvinnu við Win Without War, trúarleiðtogann og friðarverðlaunahafann Desmond Tutu og fjölmörg trúarsamtök. Ekki er um neina sérstaka dagskrá að ræða, aðeins samkomu í þögn við kertaljós til að sýna samstöðu gegn yfirvofandi stríði. Fólk er beðið að koma með kerti og pappa/plast mál og kveikjara. Ef veður verður slæmt er best að koma með friðarkertin sem þola íslenskt veður, segir í frétt frá undirbúningsnefnd átaksins. Frétt af www.mbl.is
https://www.akureyri.is/is/frettir/enn-ein-ros-i-hnappagat-listasafnsins
Enn ein rós í hnappagat listasafnsins Um helgina var sýningin "Undir fíkjutré: Alþýðulistir og frásagnarhefðir Indlands" opnuð í Listasafninu á Akureyri. Þetta er í fyrsta sinn sem indversk myndlist er kynnt með jafn víðfeðmum hætti hér á landi. Sýningin er sérstaklega samansett af Listasafninu á Akureyri með aðstoð próferssors Susan S. Wadley við Syracause-háskóla og koma listaverkin víða að. Í grunninn er sýningin fengin frá einkasöfnurum og opinberum stofnunum í Syracause í New York-fylki, en Mithila-málverk koma að mestu frá mannfræðideild Berkeley-háskóla í Kaliforníu. Þá koma ljósmyndir frá Sepia-galleríinu á Manhattan, gömul póstkort frá London og ýmsir aðrir munir frá Delhi og Bombay á Indlandi. Hér er á ferðinni enn ein rósin í hnappagat Listasafnsins á Akureyri og forstöðumanns þess, Hannesar Sigurðssonar. Þar hafa undanfarið verið settar upp merkar sýningar sem vakið hafa mikla athygli og nægir þar að nefna sýningar á borð við "Rembrandt og samtíðarmenn hans", "Milli goðsagnar og veruleika - nútímalist frá arabaheiminum" og nú síðast "Aftökur og útrýmingar", myrka sýningu um ofsóknir á tímum nasista í Þýskalandi og líflát sem enn viðgangast í hinum siðmenntaða heimi. Í opnunarræðu sinni sagði forstöðumaður safnsins meðal annars: "Þessari sýningu er ætlað að hreinsa andrúmsloftið eftir svartnættið sem ríkti í safninu síðast, og boða vorkomuna með fögnuði og leiftrandi litadýrð. ... Hér er boðið upp á gleðidans, mannskilning og sameinaða jörð. Ísland og Indland eru hinar fullkomnu andstæður í hugum okkar, þótt við séum hlið við hlið í stafrófi þjóðanna. En aðeins þekkingarleysið skilur okkur að. Hjörtun slá eins og við búum á sama furðulega, obbulitla rykkorninu í algeiminum. Njótum þess innilega að skynja, upplifa og vera til saman." Myndir frá opnun sýningarinnar: (c) Myndrún, Rúnar Þór Björnsson. Meira um sýninguna á www.listasafn.akureyri.is
https://www.akureyri.is/is/frettir/lokahatid-a-fimmtudag
Lokahátíð á fimmtudag Lokahátíð Stóru upplestarkeppninnar í 7. bekk grunnskól- anna á Akureyri verður haldin næsta fimmudag frá kl. 17-19 í Kvosinni í Menntaskólanum á Akureyri. Þar koma fram 14 fulltrúar grunnskólanna sex á Akureyri og lesa fyrir gesti sögur og ljóð. Tónlistarflutningur er í höndum nemenda Tónlistarskóla Akureyrar. Keppnin hefst árlega á Degi íslenskrar tungu sem er 16. nóvember. Þátttakendur leggja sérstaklega rækt við undirbúinn upplestur og listrænan flutning texta í skólanum. Það er ekki aðalatriði keppninnar að finna hinn hlutskarpasta, heldur að fá sem flesta til að leggja rækt við lestur sinn, taka þátt í keppninni og hafa gagn og gaman af. Í lok febrúar og byrjun mars er haldin hátíð í hverjum skóla þar sem valdir eru fulltrúar skólanna til að vera með í Lokahátíð keppninnar og allir þátttakendur fá viðurkenningarskjal frá undirbúingsnefnd keppninnar. Sparisjóður Norðlendinga gefur þrenn peningaverðlaun og allir þátttakendur fá afhenta bók að gjöf frá Eddu - miðlun og útgáfu. Að keppninni standa Heimili og skóli, Íslensk málnefnd, Íslenska lestrarfélagið, Kennaraháskóli Íslands, Kennarasamband Íslands, Samtök móðurmálskennara og Skólaskrifstofa Hafnarfjarjðar í samvinnu við skólaskrifstofur, skóla og kennara um allt land. Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á vef keppninnar.
https://www.akureyri.is/is/frettir/vetrarithrottamidstod-islands
Vetraríþróttamiðstöð Íslands Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra og Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri á Akureyri undirrituðu í morgun samning um uppbyggingu Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands á Akureyri. Athöfnin fór fram í flugstöðinni á Akureyrarvelli en með því var lögð áhersla á gildi Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands fyrir alla þá sem eru á faraldsfæti og vilja njóta þess besta sem höfuðborg hins bjarta norðurs hefur upp á að bjóða. Bæjarstjóri lýsti mikilli ánægju með saminginn, þakkaði öllum þeim sem komu að undirbúningsvinnu og ítrekaði að samningurinn hefði mjög mikla þýðingu fyrir ferðamennsku á Norðurlandi öllu. Menntamálaráðherra og bæjarstjórinn á Akureyri undirrituðu samninginn í stólum úr Fjarkanum, nýju stólalyftunni í Hlíðarfjalli. Gildistími samningsins er til ársloka 2008 og er tilgangur hans að styðja við uppbyggingu mannvirkja á vegum Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands í því skyni að efla iðkun vetraríþrótta fyrir almenning og íþróttafólk. Menntamálaráðuneytið og Akureyrarbær standa sameiginlega straum af uppbyggingunni og nemur framlag ríkissjóðs 180 milljónum króna sem greiðist á næstu sex árum. Meðal verkefna sem ráðist verður í á næstu árum er uppsetning nýrrar lyftu í Strýtu og nýrrar togbrautar í Hjallabraut sem og nýrrar barnalyftu. Þá verður flóðlýsing aukin, aðbúnaður fyrir vetraríþróttir fatlaðra bættur, svo og aðstaða fyrir brettafólk og vélsleðamenn. Einnig verður aðstaða til vetraríþrótta í Kjarnaskógi bætt og tækjakostur í skautahöllinni aukinn.
https://www.akureyri.is/is/frettir/600000-kr-styrkur
600.000 kr. styrkur Jafnréttisnefnd Akureyrar hefur auglýst eftir umsóknum um styrki til verkefna sem hafa það markmið að jafna stöðu kynjanna. Heildarstyrkupphæð er kr. 600.000. Tilgangurinn með styrkveitingunni er að hvetja einstaklinga, félagasamtök, stofnanir og fyrirtæki á Akureyri til virks jafnréttisstarfs. Jafnframt er í boði aðstoð og ráðgjöf vegna þessara verkefna. Umsækjendur eru beðnir að skila inn umsóknum fyrir 24. mars nk. með greinargóðri áætlun um verkefnið sem inniheldur upplýsingar um þætti eins og eðli verkefnis, þátttakendafjölda, verkefnisstjóra/stýru og verk- tíma- og kostnaðaráætlun. Nánari upplýsingar veitir Elín Antonsdóttir í síma 462-1000/460-1023.
https://www.akureyri.is/is/frettir/tillogur-um-breytingar-a-adal-og-deiliskipulagi-kidagil-t
Tillögur um breytingar á aðal- og deiliskipulagi; Kiðagil, Tröllagil Akureyrarbær auglýsir hér með skv. 1. mgr. 21. gr. skipulags- og byggingarlaga neðangreindar tillögur að breytingum á aðalskipulagi Akureyrar 1998-2018, og skv. 25. gr. og 1. mgr. 26. gr. sömu laga neðangreindar tillögur að deiliskipulagi / breytingum á deiliskipulagi. 1A. Tröllagil 29, breyting á aðalskipulagi Lagt er til að lóðin Tröllagil 29 stækki til norðurs á kostnað opins, óbyggðs svæðis við gatnamót Borgar- og Hlíðarbrauta, en það falli niður. Á lóðinni verði gert ráð fyrir 9 hæða fjölbýlishúsi þar sem heimilt verður að reka leikskóla á tveimur neðstu hæðunum. Tillöguuppdráttur (pdf) ... 1B Tröllagil 29, breyting á deiliskipulagi. Um er að ræða tillögu að breytingu á deiliskipulagi 1. áfanga Giljahverfis frá 1989. Breytingin felst m.a. í því að lóðin stækkar til norðurs og að heimilt verður að reka leikskóla í húsinu, sbr. 1A. Ennfremur er lagt til að húsið verði 9 hæðir í stað 8, byggingarreitur stækki til norðurs og austurs, grunnflötur húss megi vera 440 m2 í stað 300 m2 og íbúðir megi vera 35 í stað 20. Ákvæði um bílgeymslu falli niður. Tillöguuppdráttur (pdf) ... Skýringaruppdráttur (pdf) 2 Kiðagil 1, breyting á deiliskipulagi Samkvæmt gildandi deiliskipulagi frá 1991 er lóðin ætluð fyrir þriggja hæða hús með verslun á neðstu hæð en íbúðum á þeim efri. Breytingartillagan gerir ráð fyrir því að einungis verði íbúðir á lóðinni, í fjórum tveggja hæða, fjögurra íbúða fjölbýlishúsum. Á aðalskipulagi hefur landnotkun lóðarinnar þegar verið breytt úr verslunar- og þjónustulóð í íbúðarlóð. Tillöguuppdráttur (pdf) ... Skýringaruppdráttur (pdf) Tillöguuppdrættir og önnur gögn munu liggja frammi í þjónustuanddyri Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 1. hæð, næstu 6 vikur frá birtingu þessarar auglýsingar, þ.e. til föstudagsins 2. maí 2003, svo að þeir sem þess óska geti kynnt sér tillögurnar og gert við þær athugasemdir. Tillögurnar eru einnig birtar á heimasíðu Akureyrarbæjar: http://www.akureyri.is/ undir: Auglýsingar og umsóknir/Skipulagstillögur. Frestur til að gera athugasemdir við tillögurnar rennur út kl. 1600 föstudaginn 2. maí 2003 og skal athugasemdum skilað til Umhverfisdeildar Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 3. hæð. Hver sá sem ekki gerir athugasemdir við auglýsta tillögu innan þessa frests telst vera henni samþykkur. Akureyri 21. mars 2003, Skipulags- og byggingarfulltrúi Akureyrarbæjar.
https://www.akureyri.is/is/frettir/kainn-i-freyvangi
Káinn í Freyvangi Freyvangsleikhúsið frumsýnir í kvöld leikverkið K.N. kímnaskáldið góða eftir Hannes Örn Blandon. Káinn (Kristján Níels Jónsson) var fæddur og uppalinn í Eyjafirði en flutti vestur um haf og bjó þar öll sín fullorðinsár. Nú hefur Hannes Örn Blandon skrifað bráðskemmtilegt leikverk um viðburðaríka ævi þessa manns, skreytt ljóðum hans sem sum eru sungin við glæný lög. Kvenfélag sveitarinnar sér um að skapa sérstaka kaffihúsastemningu í leikhúsinu þetta árið, með því að bjóða upp á meðlæti frá þessum tíma, ásamt gæðakaffi, að sjálfsögðu! Verkið verður frumsýnt í kvöld í Freyvangi í Eyjafjarðarsveit klukkan 20.30, hátíðarsýning verður föstudagskvöldið 21. mars á sama tíma og þriðja sýning verður sunnudaginn 23. mars kl. 16. Síðan verða sýningar um helgar fram á vorið. Miðapantanir og upplýsingar í síma 463 1195.
https://www.akureyri.is/is/frettir/akureyrarbaer-stydur-frumkvodla
Akureyrarbær styður frumkvöðla Í morgun var haldinn blaðamannafundur í Ráðhúsinu á Akureyri þar sem kynntar voru nýjar reglur um stuðning við frumkvöðla og fyrirtæki sem vilja hefja nýjan atvinnurekstur í bænum. Reglurnar marka ákveðin tímamót fyrir uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu. Frá blaðamannafundinum í morgun: Hilda Jana Gísladóttir fréttamaður, Bjarni Jónasson formaður atvinnumálanefndar, Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri og Jakob Björnsson formaður bæjarráðs. Bjarni Jónasson, formaður atvinnumálanefndar bæjarins, kynnti reglurnar og sat síðan fyrir svörum blaðamanna ásamt Kristjáni Þór Júlíussyni, bæjarstjóra, og Jakobi Björnssyni, formanni bæjarráðs. Smelltu hér til að lesa reglurnar.
https://www.akureyri.is/is/frettir/flottamennirnir-komnir-til-akureyrar
Flóttamennirnir komnir til Akureyrar Í dag komu 24 flóttamenn til Akureyrar frá fyrrverandi lýðveldum Júgóslavíu. Fólkið hefur búið í flóttamannabúðum við kröpp kjör síðustu árin en verður nú aðstoðað við að koma aftur undir sig fótunum og hefja nýtt líf í nýju landi. Flóttafólkið við komuna til Akureyrar. Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri tók á móti þessum nýju bæjarbúum þegar þeir lentu eftir hádegið á Akureyrarflugvelli. Flóttamennirnir eiga að baki erfitt ferðalag til framandi slóða en með þeim í för voru Hólmfríður Gísladóttir deildarstjóri flóttamannadeildar RKÍ í Reykjavík og Dragana Zastvnikovic túlkur. Ljósmynd: Kristján Kristjánsson Morgunblaðinu.
https://www.akureyri.is/is/frettir/sinfoniettutonleikar-i-ketilhusinu
Sinfóníettutónleikar í Ketilhúsinu Sunnudaginn 30. mars kl. 16.00 heldur Sinfóníuhljómsveit Norðurlands sinfóníettutónleika í Ketilhúsinu í Listagilinu á Akureyri. Sinfóníettan er 15 manna kammersveit, skipuð flestöllum hljóðfærum sinfóníuhljómsveitar. Efnisskráin er fjölbreytt. Frumfluttur verður víólukonsert eftir Óliver Kentish og einnig verða flutt verk eftir Francis Poulenc, César Franck og Antonin Dvorák. Einleikari með hljómsveitinni er Guðmundur Kristmundsson, víóluleikari og stjórnandi Guðmundur Óli Gunnarsson. Hápunktur þessara tónleika er frumflutningur víólukonsertsins eftir Óliver Kentish. Óliver starfaði sem tónlistarkennari á Akureyri frá 1977-1985 og hefur oft leikið með SN. Konsertinn, sem ber heitið „Draumar og dansar", samdi Óliver sumarið 2002 fyrir Guðmund Kristmundsson, víóluleikara, og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Tónskáldið segir sjálft um konsertinn: „Verkið skiptist í þrjá aðalkafla með tveimur millispilsköflum (interludio) auk forspils sem er aðeins fyrir víólu. Allt verkið er þó spilað án hlés. Tvö aðalstef eru notuð í grunni verksins og eru einhvers konar rauður þráður gegnum verkið; hið svokallaða Liljulag og gregorískur söngur, Dies Irae. Þrátt fyrir alvöruna í þessum stefjum eru þau frekar notuð í háðslegum tilgangi". Guðmundur Kristmundsson víóluleikari. Einleikarinn, Guðmundur Kristmundsson lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1986 og lokaprófi frá Konservatoríinu í Tilburg í Hollandi 1990. Hann er félagi í EÞOS kvartettinum, CAPUT og Camerarctica og fastráðinn hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Á tónleikunum verða flutt tvö verk eftir franska tónskáldið Francis Poulenc, „Tveir marsar og forspil" (Deux Marches et Un Intermède) og „Vals". Segja má að Poulenc hafi verið sjálfmenntaður í tónsmíðum. Tónsmíðarnar þóttu svo sérstæðar að enginn gat ímyndað sér að nokkur hefði kennt honum að semja eins og hann gerði. Aðalstyrkur tónsmíða hans var laglínan sem var svo frjó og hugmyndarík að skoðun manna var sú, að líkja mætti Poulenc við snilld tónskálda á borð við Schubert og Mozart. Poulenc varð fyrir miklum áhrifum af samtímamönnum eins og Stravinskíj og Satie, en hann stældi hvorugan, - eða yfirleitt nokkurn annan. César Franck fæddist í Belgíu og var af flæmskum ættum. Faðir hans hafði mikinn metnað fyrir hönd sonarins og vildi að hann stefndi að frama sem píanóleikari, en hugur Césars stóð frekar til tónsmíða. Tónverk hans eru flest kirkjulegs eðlis og allir þekkja sönglagið Panis Angelicus. En hann samdi einnig 3 óperur og fjögur hljómsveitarverk ásamt þó nokkru af kammerverkum. „Átta lítil lög" (Huit Pièces Brèves I og II) sem flutt verða á tónleikunum eru úr safni kammerverka eftir hann sem tekin voru saman og gefin út sérstaklega. Tónleikunum lýkur svo með Serenöðu í d-moll op. 44 eftir tékkneska tónskáldið Antonin Dvorák. Verkið var upphaflega samið fyrir 11 blásara, selló og kontrabassa en er hér flutt í útsetningu Frantisek Hertl fyrir blandaða hljóðfærasamsetningu, þ.e. fyrir strengjakvartett og blásarakvintett. Sinfóníuhljómsveit Norðurlands er skipuð hljóðfæraleikurum af Norðurlandi. Stjórnandi á tónleikunum 16. mars er aðalhljómsveitarstjóri hljómsveitarinnar, Guðmundur Óli Gunnarsson. Guðmundur Óli lauk prófi í hljómsveitarstjórn frá Tónlistarháskólann í Utrecht í Hollandi og stundaði síðan framhaldsnám hjá Jorma Panula í Helsinki. Hann hefur verið aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands frá stofnun hennar.
https://www.akureyri.is/is/frettir/frumsyning-i-vma-i-kvold
Frumsýning í VMA í kvöld Söngleikurinn Grease verður frumsýndur í Gryfjunni í Verkmenntaskólanum á Akureyri í kvöld klukkan 20. Alls koma á milli 40 og 50 nemendur að þessari sýningu og fá flestar deildir skólans eitthvað að gera fyrir hana. Leikstjóri er Þorsteinn Bachmann og tónlistarstjóri er Arnór Vilbergsson. Leikhópur Verkmenntaskólans í góðri sveiflu. Sýningar verða sem hér segir: Föstudagur 28. mars kl. 20 Laugardagur 29. mars kl. 16 Sunnudagur 30. mars kl. 20 Föstudagur 4. apríl kl. 20 Laugardagur 5. apríl kl. 20 Sunnudagur 6. apríl kl. 20
https://www.akureyri.is/is/frettir/lma-frumsynir-chicago
LMA frumsýnir Chicago Leikfélag Menntaskólans á Akureyri (LMA) frumsýnir söngleikinn Chicago í kvöld kl. 20. Leikstjóri er Laufey Brá Jónsdóttir og tónlistarstjóri Björn Þórarinsson. Söngleikurinn Chicago er kabarettsöngleikur um konur í kvennafangelsi, um sögu þeirra og drauma, en kvikmyndin sem gerð var eftir þessum söngleik hefur farið sigurför um heiminn og nú nýverið unnið til nokkurra Óskarsverðlauna. Að sýningu LMA starfar fjöldi fólks, leikarar og dansarar eru 20 talsins og 8 manna hljómsveit sér um flutning tónlistarinnar. Auk leikara og tónlistarfólks eru margir sem aðstoða með einum eða öðrum hætti við búninga, förðun, leiksvið, lýsingu og margt fleira svo hópurinn í heild er varla undir 40 manns. Sýningar LMA á Chigago verða í Samkomuhúsinu á Akureyri. Fyrirhugaðar sýningar eru sem hér segir: föstudaginn 28. mars klukkan 19.00 og 01.00 sunnudaginn 30. mars klukkan 14.00 og 20.00 mánudaginn 31. mars klukkan 20.00 þriðjudaginn 1. apríl klukkan 20.00 miðvikudginn 2. apríl klukkan 19.00 og 22.30 fimmtudaginn 3. apríl klukkan 19.00 og 23.30 Leikfélag MA tekur við miðapöntunum í síma 865 0202 og þar mun auk þess vera hægt að fá hóptilboð. Ljósmynd og frétt af www.ma.is
https://www.akureyri.is/is/frettir/esb-og-byggdamal
ESB og byggðamál Í dag var haldin í Háskólanum á Akureyri ráðstefna undir yfirskriftinni ESB og byggðamál. Fjöldi áhugasamra sótti ráðstefnuna og umræður voru málefnalegar. Það voru nemendafélög auðlindadeildar og rekstrar- og viðskiptadeildar sem stóðu að ráðstefnunni. Bjarni Hjarðar, deildarforseti rekstrar- og viðskiptadeildar, setti ráðstefnuna en frummælendur voru Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi borgarstjóri. Að auki sátu í pallborðinu alþingismennirnir Svanfríður Jónasdóttir, frá Samfylkingunni, og Steingrímur J. Sigfússon, Vinstri grænum. Fundarstjóri var Egill Helgason sem þekktastur er fyrir að vera stjórnandi þjóðmálaþáttarins "Silfur Egils" á sjónvarpsstöðinni Skjá einum. Góð mæting var á ráðstefnuna í Háskólanum á Akureyri. Talið frá vinstri: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Egill Helgason, Valgerður Sverrisdóttir, Halldór Halldórsson, Svanfríður Jónasdóttir og Steingrímur J. Sigfússon.
https://www.akureyri.is/is/frettir/nefndabrennsla
Nefndabrennsla "Nefndabrennsla" kallast keppni milli fastanefnda Akureyrarbæjar og Hafnarfjarðarbæjar í að minnka brennslu á eldsneyti, þ.e. notkun á einkabílum, þegar farið er á nefndarfundi. Bent er á aðra valkosti en stálkápuna, einkabílinn, til að komast á milli staða, s.s. að hjóla, ganga eða taka strætó. Keppnin milli bæjanna stendur frá 1. apríl til 31. maí 2003. Keppnin fer þannig fram að við upphafi hvers fundar er fært inn á sérstakt eyðublað hvernig hver og einn nefndarmaður kom til fundar (átt er við kjörna nefndarmenn). Gögnum frá öllum nefndarfundum er safnað saman og reiknað út í hvoru bæjarfélagi hlutfallslega færri bílferðir hafa verið farnar vegna funda fastanefnda. Þar með kemur í ljós hvor bærinn vinnur keppnina. Starfsmenn nefndanna sjá um að fylla út eyðublöðin. Verkefnastjórar Staðardagskrár 21 safna þeim saman og halda utan um niðurstöðurnar. En hver er tilgangurinn með þessari keppni? Jú, óhófleg losun gróðurhúsalofttegunda er ein mesta mengun sem Vesturlandabúar valda. Hún veldur loftslagsbreytingum sem munu hafa alvarlegar afleiðingar fyrir komandi kynslóðir ef ekki tekst að stemma stigu við henni á næstu árum. Á Íslandi er bruni jarðeldneytis á farartækjum meginuppspretta gróðurhúslofttegunda. Þannig geta ferðir nefndarmanna á fundi verið uppspretta mengunar. Auk þess er vert að hafa í huga að oftast eru aðgerðir sem hugsaðar eru fyrir umhverfið einnig góðar fyrir heilsuna og pyngjuna. Verkefnið Staðardagskrá 21 er forskrift að sjálfbærri þróun sveitarfélaga og er eitt af því sem þjóðir heims samþykktu í Ríó 1992. Sjálfbær þróun tryggir lífsgrundvöll og lífsgæði jafnt fyrir núverandi og komandi kynslóðir. Akureyrarbær og Hafnarfjarðarbær hafa verið í fylkingarbrjósti íslenskra sveitarfélaga í þeirri vinnu frá árinu 1998 þegar umhverfisráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga hófu formlega vinnu við Staðardagskrá 21.
https://www.akureyri.is/is/frettir/utskrift-ur-stjornunarnami
Útskrift úr stjórnunarnámi Laugardaginn 22. mars útskrifaðist hópur nemenda úr námi í stjórnun frá símenntun Háskólans á Akureyri. Hér er um tímamót að ræða því þetta er í fyrsta skipti sem nemendur ljúka lengra endurmenntunarnámi frá símenntun HA. Um er að ræða þriggja missera nám, alls 300 kennslustundir sem svarar til 15 eininga náms á háskólastigi. Námið var skipulagt miðað við að það væri stundað samhliða starfi. Námið er samstarfsverkefni Eyþings (sambands sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum) og símenntunar RHA. Námið skiptist í fjóra efnisflokka: Fjármál, rekstur og áætlanagerð (100 klst.), upplýsingatækni (40 klst.), stjórnsýslu (40 klst.) og stjórnun (120 klst.). Þó að námið hafi ákveðna skírskotun til sveitarstjórnarstigsins er það fyrst og fremst almennt stjórnunarnám. Í hópnum sem ústkrifaðist er jafnt fólk sem sinnir stjórnunarstöfum hjá einkafyrirtækjum, sveitarfélögum og ríki. Alls útskrifaðist 21 nemandi sem lokið hafði náminu í heild sinni með tilskildum prófun og verkefnum. Einn nemandi lauk námi í tveimur efnisflokkum. Þá hafa nokkrir nemendur setið námskeið án þess að ljúka prófum. Í upphafi voru 32 nemendur skráðir í námið.
https://www.akureyri.is/is/frettir/baejarlistamadur-valinn-med-nyjum-haetti
Bæjarlistamaður valinn með nýjum hætti Menningarmálanefnd hefur ákveðið að beita nýrri aðferð við val á bæjarlistamanni Akureyrar sem hlýtur starfslaun menningarsjóðs. Í stað þess að nefndin velji listamanninn eftir ábendingum verður auglýst eftir umsóknum. Raunar mun þessi aðferð hafa verið viðhöfð þegar starfslaunum var úthlutað í fyrsta sinn en ekki síðan þá. Tímabilið sem um ræðir að þessu sinni er 1. júní 2003 til 31. maí 2004 og verður starfslaunum úthlutað til tveggja listamanna til 9 mánaða annars vegar og 3 mánaða hins vegar. Ætlast er til þess að viðkomandi listamaður helgi sig list sinni eða einstökum verkefnum á vettvangi hennar á starfslaunatímanum. Umsækjendur þurfa að skila, ásamt umsókn, ítarlegum upplýsingum um listferil sinn og greinargóðum upplýsingum um hvernig starfslaunatíminn skuli notaður. Nánari upplýsingar um þetta mál veitir menningarfulltrúi í síma 4601461 (torgnyr@akureyri.is). Umsóknarfrestur er til 16. apríl n.k.
https://www.akureyri.is/is/frettir/hafnfirdingar-i-heimsokn
Hafnfirðingar í heimsókn Í dag hafa fjórir góðir gestir úr Hafnarfirði verið hér á Akureyri í kynnisferð og átt góða fundi með nokkrum stjórnendum hjá Akureyrarbæ. Þeir voru fræddir um allt milli himins og jarðar í kerfi bæjarins, m.a. breytingar á stjórnsýslu, Fasteignir Akureyrar, reglur um stuðning við frumkvöðla og fyrirtæki, upplýsingakerfi fjármála, árangursmælingar og símenntunaráætlanir. Eftir stíf fundarhöld var fjölnota íþróttahúsið Boginn skoðað. Gestirnir halda heim á leið um kvöldmatarleytið. Gestirnir með bæjarstjóranum á Akureyri. F.v.: Sveinn Bragason fjármálastjóri, Anna Sigurborg Ólafsdóttir sviðsstjóri atvinnu- og þróunarsviðs, Gunnar Rafn Sigurbjörnsson sviðsstjóri fjölskyldusviðs og starfsmannamála, Lúðvík Geirsson bæjarstjóri Hafnarfjarðar og Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri á Akureyri.
https://www.akureyri.is/is/frettir/anna-katrin-vann
Anna Katrín vann Anna Katrín Guðbrandsdóttir nemandi í Menntaskólanum á Akureyri varð í 1. sæti í glæsilegri Söngkeppni framhaldsskólanna um síðustu helgi. Anna Katrín flutti Vísur Vatnsenda-Rósu, þjóðlagastefið sem Jón Ásgeirsson tónskáld gerði ódauðlegt, en hér var það í splunkunýrri útsetningu tveggja nemenda MA, Styrmis Haukssonar og Ólafs Hauks Árnasonar. Strengjasveit lék með Önnu Katrínu á sviði, Björk Óskarsdóttir, María Hrund Stefánsdóttir, Ragnheiður Korka Jónsdóttir og Tomasz Kolosowski. Í öðru sæti hafnaði Sigþór Árnason, nemandi í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi, en hann hlaut jafnframt verðlaun fyrir bestu sviðsframkomu, verðlaun sem veitt voru að lokinni SMS-kosningu áhorfenda. Í þriðja sæti var Elísabet Eyþórsdóttir úr Borgarhótsskóla. Dómnefnd skipuðu Birgitta Haukdal, Ólafur Páll Gunnarsson, Pálmi Gunnarsson og Gestur Einar Jónasson. Söngkeppni framhaldsskólanna var í beinni útsendingu í Sjónvarpinu og á Rás 2 og var mikil og góð skemmtun. Að gleymdu rafmagnsleysi í 15 mínútur gekk hátíðin mjög vel, ljós og hljóð í sal voru með ágætum og söngurinn fjölbreyttur og hressilegur. Það var mat dómara að þetta væri einhver allrafjörugasta og best heppnaða Söngkeppni FF frá upphafi. Um 2000 manns eru taldir hafa verið í Höllinni og skemmtu sér hið besta. Eins og áður hefur komið fram var umsjá þessarar miklu hátíðar og útsending hennar í höndum ungs fólks. Yfirstjórnin voru nemendur í og í tengslum við MA og starfsfólk nær eingöngu úr skólunum tveimur, MA og VMA. Starf þeirra er mikið og árangurinn glæsilegur vitnisburður um smekkvísi, listfengi, skipulag og stjórn og þeir eiga skilið heiður fyrir það. Þá eiga hinir rúmlega 2000 gestir Hallarinnar, sumir komnir um langan veg, skilið heiður og þökk fyrir góða, glaðlega og ánægjulega framkomu í hvívetna. Þetta var frábært kvöld. Frétt og ljósmynd af www.ma.is
https://www.akureyri.is/is/frettir/matreidslumadur-arsins-2003
Matreiðslumaður ársins 2003 Keppnin um titilinn Matreiðslumaður ársins 2003 fer fram í Verkmenntaskólanum á Akureyri á laugardag. Að þessu sinni eru 14 matreiðslumeistarar skráðir til keppni. Þátttakendur koma til bæjarins á föstudag og skoða aðstæður í Verkmenntaskólanum. Keppnin hefst síðan kl. 9 á laugardagsmorgun og stendur til kl. 17. Almenningur er hvattur til að koma í Verkmenntaskólann og fylgjast með meisturunum að störfum. Keppnin um titilinn Matreiðslumaður ársins hefur verið haldin síðan 1994 en það er Klúbbur matreiðslumeistara sem stendur að henni. Verðlaunaafhending verður í veislu á laugardagskvöld þar sem nýkrýndur Norðurlandameistari í matreiðslu, Ragnar Ómarsson, töfrar fram kræsingar. Þeir sem eru skráðir til keppni að þessu sinni eru: Alfreð Ómar Alfreðsson frá Radisson Hótel Sögu, Bjarni Gunnar Kristinsson frá Radisson Hótel Sögu, Björn Bragi Bragason frá Perlunni, Brynjúlfur Halldórsson frá Radisson Hótel Sögu, Einar Geirsson frá Tveir Fiskum, Einar Gústafsson frá Apotek Bar & Grill, Hilmar Þór Pálsson frá Fiðlaranum, Hinrik Ingi Guðbjargarsson frá Cafe Karólinu, Kjartan Kjartansson frá Apotek Bar & Grill, Kristinn Freyr Guðmundsson frá Radisson Hótel Sögu, Ólafur Helgi Kristjánsson frá Hótel Holti, Steinn Óskar Sigurðsson frá Hótel Borg, Úlfar Finnbjörnsson og Jón Óskar Árnason frá Restaurant Blá.
https://www.akureyri.is/is/frettir/snjobrettamot-i-snjoleysi
Snjóbrettamót í snjóleysi Snjóbrettamótið Ak-Extreme verður haldið í Hlíðarfjalli og bænum sjálfum um helgina. Aðstandendur mótsins eru staðráðnir í að halda það hvað sem tautar og raular, og þrátt fyrir að nú sé glampandi sól, snjóleysi og um 10 gráðu hiti á Akureyri. Aðrennan fyrir "Eimskips Big Jumpinn" er tilbúin. Settir voru níu Eimskipsgámar á svæðið neðan við Sundlaug Akureyrar. Framan á þetta risamannvirki er búið að smíða rennu niður herlegheitin. Keppendur koma því til með að renna sér niður hana á pallinn sjálfan sem verður staðsettur í miðri bröttubrekku, í hjarta Akureyrar. Tónleikar byrja á svæðinu klukkan 20.00 á laugardagskvöld þar sem Forgetten Lores og Skytturnar sjá um að hita upp mannskapinn. Sjálf keppninn hefst síðan á slaginu kl. 21.00. Um klukkan 23.00 verður svo Big Jump meistari Eimskips krýndur. Big Jump stökkpallurinn er engin smásmíði. Sjáumst á Akureyri um helgina!
https://www.akureyri.is/is/frettir/menning-a-torfunefi
Menning á Torfunefi Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra og Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri á Akureyri undirrituðu í dag samning um byggingu menningarhúss á Akureyri. Athöfnin fór fram á uppfyllingunni við Torfunef þar sem ætlunin er að húsið rísi. Við þetta tækifæri flutti Anna Katrín Guðbrandsdóttir sigurlagið úr Söngkeppni framhaldsskólanna 2003. Á www.mbl.is segir orðrétt: "Grundvöllur þessa samkomulags er ákvörðun ríkisstjórnar frá árinu 1999 um að veita stofnstyrki til uppbyggingar fimm menningarhúsa utan höfuðborgarsvæðisins með það að markmiði að bæta þar aðstöðu til menningar- og listastarfsemi. Á fundi ríkisstjórnar hinn 11. febrúar 2003 var ákveðið að veita einum milljarði kr. til byggingar menningarhúsa á Akureyri og í Vestmannaeyjum. Frá því ákvörðunin var tekin hefur verið unnið að undirbúningi samkomulags um byggingu menningarhúsanna í samvinnu við forsvarsmenn sveitarfélaganna. Nýlega var gengið frá undirritun samkomulags um byggingu menningarhúss í Vestmannaeyjum en ólokið er samningum við Ísafjörð, Sauðárkrók og Egilsstaði. Tómas Ingi Olrich og Kristján Þór Júlíusson undirrita samkomulagið. Lengst til hægri er Sigrún Björk Jakobsdóttir, formaður menningamálanefndar Akureyrarbæjar. Ráðgert er að menningarhúsið á Akureyri rísi á uppfyllingu við Torfunesbryggju og verði vettvangur menningarstarfsemi á Norðurlandi. Undirbúningur að byggingu menningarhússins er í höndum verkefnisstjórnar sem skipuð verður fulltrúum ríkisins og Akureyrarbæjar en byggingarframkvæmdir verða hins vegar á vegum sveitarfélagsins, sem jafnframt mun bera fulla ábyrgð á rekstri og viðhaldi menningarhússins. Er gert ráð fyrir að undirbúningur framkvæmda hefjist nú þegar og standa vonir til að framkvæmdir við byggingu hússins geti hafist um mitt ár 2004. Anna Katrín Guðbrandsdóttir flytur sigurlagið úr Söngkeppni framhaldsskólanna á uppfyllingunni við Torfunef. Við þetta tækifæri var endurnýjaður samningur um samstarf ríkis og Akureyrarbæjar um menningarmál á Akureyri. Gildistími samningsins er til loka ársins. Samkvæmt samningnum er gert ráð fyrir að áfram verði rekið á Akureyri atvinnuleikhús, að Sinfóníuhljómsveit Norðurlands fái styrki til starfsemi sinnar og tryggðar verði fjárveitingar til Listasafns Akureyrar. Þetta er í þriðja sinn sem samningur um framlög ríkisins til menningarmála sem tengjast Akureyrarbæ er gerður. Fyrsti samningurinn var undirritaður á Akureyri 1996 og var hann síðan endurnýjaður árið 2000. Stefnt er að því að nýr menningarsamningur með breyttum áherslum taki gildi árið 2004." Menntamálaráðherra og bæjarstjórinn á Akureyri undirrita samkomulagið.
https://www.akureyri.is/is/frettir/um-3000-manns-i-grofargili
Um 3.000 manns í Grófargili Snjóbrettamótið Ak-Extreme var haldið um síðustu helgi og á laugardagskvöld var stokkið af Big Jump pallinum í Grófargili. Veður var hagstætt og talið er að um 3.000 manns hafi mætt í gilið til að fylgjast með snjóbrettaköppunum sýna listir sínar. Mikill skrekkur var kominn í menn þegar leið að helginni og margir höfðu á orði að aflýsa þyrfti mótinu vegna snjóleysis. En menn ákváðu að halda ótrauðir áfram og sáu ekki eftir því. Ak-Extreme á að verða árleg snjóbrettahelgi á Akureyri og hefur Akureyrarbær, ásamt Veðurguðunum og Hlíðarfjalli, gert samningur um samstarf við Framvarðasveit íslenskra snjóbrettamanna til næstu fimm ára. Meðfylgjandi myndir tók Rúnar Þór Björnsson ljósmyndari síðasta laugardagskvöld í Grófargilinu.
https://www.akureyri.is/is/frettir/nagrenni-glerarkirkju-adal-og-deiliskipulag-brekkuskoli-o
Nágrenni Glerárkirkju, aðal- og deiliskipulag. Brekkuskóli og nágr., deilisk.lag Akureyrarbær auglýsir hér með skv. 1. mgr. 21. gr. skipulags- og byggingarlaga neðangreinda tillögu að breytingu á aðalskipulagi Akureyrar 1998-2018, og skv. 25. gr. sömu laga neðangreindar tillögur að deiliskipulagi. 1A. Svæði norðan og austan Glerárkirkju, breyting á aðalskipulagi Helstu atriði tillögunnar eru að svæði milli Glerárkirkju og Bjargs breytist úr stofnanasvæði í íbúðarsvæði fyrir einar og tveggja hæða rað- og fjölbýlishús, við Arnarsíðu austan kirkjulóðarinnar komi íbúðarsvæði fyrir einnar hæðar raðhús í stað opins svæðis og lögun íbúðarsvæðis við Lindasíðu breytist. Glerárkirkja, AS-breytingartillaga (pdf) 1B Svæði norðan og austan Glerárkirkju, deiliskipulag. Um er að ræða tillögu að deiliskipulagi íbúðarsvæða og opinna svæða, sbr. 1A hér að ofan. Í tillögunni er gert ráð fyrir 9 íbúðum í einnar hæðar raðhúsum við Arnarsíðu, 34 íbúðum í 1 - 2 hæða fjölbýlis- og raðhúsum við nýja götu út úr Bugðusíðu sunnan Bjargs og 16 íbúðum í 1 - 2 hæða raðhúsum við enda Lindasíðu. Tillöguuppdráttur (pdf) ... Skýringaruppdráttur (pdf) ... 2 Brekkuskóli og nágrenni, deiliskipulag Tillagan tekur til svæðis, sem afmarkast af Skólastíg, Hrafnagilsstræti, Þórunnarstræti, Þingvallastræti, Kaupvangsstræti og Eyrarlandsvegi. Í henni er gert ráð fyrir viðbyggingu vestan við hús Gagnfræðaskóla en ekki öðrum byggingum umfram þær sem fyrir eru á svæðinu. Gerð er grein fyrir fjölda og fyrirkomulagi bílastæða, gönguleiðum, opnum svæðum og lóðarmörkum innan skipulagssvæðisins. Tillöguuppdráttur (pdf) ... Greinargerð um skipulagstillöguna (pdf) ... Tillöguuppdrættir og önnur gögn munu liggja frammi í þjónustuanddyri Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 1. hæð, næstu 6 vikur frá birtingu þessarar auglýsingar, þ.e. til miðvikudagsins 21. maí 2003, svo að þeir sem þess óska geti kynnt sér tillögurnar og gert við þær athugasemdir. Frestur til að gera athugasemdir við tillögurnar rennur út kl. 1600 miðvikudaginn 21. maí 2003 og skal athugasemdum skilað til Umhverfisdeildar Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 3. hæð. Hver sá sem ekki gerir athugasemdir við auglýsta tillögu innan þessa frests telst vera henni samþykkur. Akureyri 9. apríl 2003, Skipulags- og byggingarfulltrúi Akureyrarbæjar.
https://www.akureyri.is/is/frettir/fyrirlestur-um-ungt-folk-i-haska
Fyrirlestur um ungt fólk?í háska Miðvikudaginn 9. apríl flytur Sigrún Sveinbjörnsdóttir sálfræðingur fyrirlesturinn Samkynhneigð, sálfræði og samfélag: Um ungt fólk í háska. Þar ræðir Sigrún um þekkta áhættu- og verndarþætti á viðkvæmu æviskeiði unglingsáranna og þá þögn og afskiptaleysi sem ríkir gagnvart sam- og tvíkynhneigðu ungu fólki með því að gengið er út frá gagnkynhneigð leynt og ljóst. Stuðningur við æskuna er sem rauður þráður í allri umræðu um uppeldismál, en nær þó ennþá að minnstu leyti til ungra homma og lesbía. Í fyrirlestrinum lýsir Sigrún ástandi mála eins og það kemur henni fyrir sjónir, rekur merki um framfarir síðustu áratuga og bendir á leiðir til útbóta. Sigrún Sveinbjörnsdóttir nam við Gautaborgarháskóla í Svíþjóð og lauk þaðan embættisprófi í sálarfræði og síðar doktorsprófi í grein sinni frá La Trobe háskóla í Melbourne í Ástralíu. Hún er nú lektor við kennaradeild Háskólans á Akureyri. Fyrirlesturinn hefst kl. 17 í stofu 14 í húsakynnum Háskólans á Akureyri að Þingvallastræti 23. Tilefnið er 25 ára afmæli Samtakanna 78 en að fyrirlestrinum loknum gefst áheyrendum kostur á að bera fram fyrirspurnir og taka þátt í stuttum umræðum.
https://www.akureyri.is/is/frettir/urslitakeppnin-hefst-i-dag
Úrslitakeppnin hefst í dag Bæði Akureyrarliðin KA og Þór berjast í úrslitakeppninni í handbolta sem hefst kl. 19.15 í kvöld. Íslandsmeistarar KA mæta bikarmeisturum HK í KA-húsinu á Akureyri en Þórsarar halda suður á bóginn og keppa við ÍR í Austurbergi. Það má búast við hörkuviðureign meistaranna því bæði KA og HK ætla sér stóra hluti í keppninni. Það er þó skarð fyrir skildi hjá KA-mönnum því Baldvin Þorsteinsson er meiddur og leikur ekki með í kvöld. Þórsarar eiga líka erfiðan leik fyrir höndum því ÍR-liðið er mjög erfitt heim að sækja. Akureyringar eru hvattir til að mæta í KA-húsið í kvöld og hvetja sína menn til sigurs. Íslandsmeistarar KA.
https://www.akureyri.is/is/frettir/samkeppnishaefni-svaeda-og-fyrirtaekja
Samkeppnishæfni svæða og fyrirtækja Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið, Verkefnisstjórn um byggðaþróun við Eyjafjörð og Iðntæknistofnun standa fyrir ráðstefnu á Akureyri næsta föstudag undir yfirskriftinni "Samkeppnishæfni svæða og fyrirtækja". Ráðstefnan byggir á stefnumörkun og áherslum iðnaðar- og viðskiptaráðherra Valgerðar Sverrisdóttur á sviði byggðamála og samkeppnishæfni, sem m.a. kemur fram í nýlegri byggðaáætlun, en sérstök áhersla hefur verið lögð á þessa málaflokka á umliðnum misserum á vegum ráðuneytisins, m.a. í margvíslegum verkefnum og athugunum. Á vegum Verkefnisstjórnar um byggðaþróun við Eyjafjörð, hefur verið unnið sérstaklega að ýmsum verkefnum, er miða að því að efla byggðakjarna á Eyjafjarðarsvæðinu. Þetta hefur verið gert með margvíslegu starfi, s.s gagnaöflun, rannsóknum og starfi fjölmargra starfshópa á hinum ýmsu sviðum sem og öðrum verkefnum. Einn þáttur í starfi verkefnisstjórnarinnar er að miðla til landsins þekkingu og upplýsingum um erlenda ráðgjöf á sviði byggða- og samkeppnishæfni, er skilað hefur árangri erlendis og líklegt er að nýta megi hér á landi. Í þessu sambandi hefur m.a. verið horft til mikillar reynslu og þekkingar OECD á sviði byggðamála. Á ráðstefnunni er einnig ætlunin að skoða sérstaklega þróun klasa og byggðakjarna í Evrópu og þróun í byggðastefnu Finnlands. Síðast en ekki síst verður fjallað um þróun og stöðu í samkeppnishæfni Íslands, skv. mati World Econonic Forum, en sú stofnun er með einhverjar viðamestu rannsóknir á þessu sviði í heiminum, sem tekur til fjölmargra landa, atvinnugreina og fyrirtækja. Iðntæknistofnun Íslands er samstarfsaðili þeirra hér á landi. Á ráðstefnunni verða bæði innlendir og erlendir fyrirlesarar og fjallað verður um margvísleg atriði er varða samkeppnishæfni svæða, dreifbýlis, þéttbýlis sem og fyrirtækja. Fulltrúi OECD Allejandro Aurrecoechea, mun fjalla um starf stofnunarinnar á sviði byggðamála, en stofnunin hefur mikla reynslu og þekkingu á því sviði, sem í vaxandi mæli er hluti af umfjöllun stofnunarinnar um efnahags- og atvinnumál. Jafnframt mun hann einnig sérstaklega fjalla um LEED, verkefni stofnunarinnar á sviði byggðamála, en það verkefni snýr sérstaklega að uppbyggingu og samstarfi hinna ýmsu aðila á kjarnasvæðum. Fionna J. M. Paua frá World Economic Forum (WEF) mun gera grein fyrir vinnu, greiningu og nýrri skýrslu stofnunarinnar um samkeppnishæfni einstakra landa, sem kom nýlega út. Fjallað verður um samkeppnishæfni Íslands, stöðu, þróun, veikleika og styrkleika. Þetta er í fyrsta sinn sem fulltrúi WEF gerir grein fyrir niðurstöðum á þessu sviði hér á landi. Fulltrúi EIM í Hollandi, Elisabet Hauge, mun fjalla um þróun og myndun klasa (kjarnasvæða) víða í Evrópu, en nýlega kostaði ESB umfangsmiklar rannsóknir á þessu sviði, og átti Ísland sem EES land einnig aðild að þessari rannsókn. Einnig mun fulltrúi Norgregio, Kaisa Lahteenmaki-Smith, fjalla um byggðaáætlun í Finnlandi og þær breytingar sem orðið hafa á því sviði, ekki síst hvað varðar kjarnasvæði. Innlendir fyrirlesarar munu einnig halda erindi. Kristján Þ. Júlíusson bæjarstjóri á Akureyri, mun fjalla um áherslur og stefnu Akureyrarbæjar, Karl Friðriksson frá Iðntæknistofnun mun fjalla um samkeppnishæfni ferðaþjónustu á Eyjafjarðarsvæðinu, Guðbrandur Sigurðsson forstjóri ÚA mun fjalla um sjónarmið atvinnulífsins og Sigmundur Ernir Rúnarsson ritstjóri, mun fjalla um störf Verkefnisstjórnar um byggðaþróun fyrir Eyjafjarðarsvæðið. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir mun setja ráðstefnuna. Ráðstefnan verður föstudaginn 11. apríl, á hótel KEA á Akureyri og hefst kl. 13.00. Skráning á ráðstefnuna er hjá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, í síma 545-8500.
https://www.akureyri.is/is/frettir/hak-faer-gaeda-og-umbotastyrk
HAK fær gæða- og umbótastyrk Heilsugæslustöðin á Akureyri var einn af 13 umsækjendum er hlutu gæða- og umbótastyrk frá Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti. Um er að ræða styrk til að þróa námskeið fyrir nýorðna foreldra en slík námskeið eru einmitt að byrja á HAK. Námskeiðið er einn liður í Fjölskyldustefnu Akureyrarbæjar og miðar að því að auka hæfni nýorðinna foreldra til að takast á við ýmsa þekkta streitu- og álagsþætti við fæðingu barns sem geta reynst ungum foreldrum erfiðir. Með því að styðja við bakið á fólki á þessum viðkvæma tíma eru miklar líkur á að hægt verði að fyrirbyggja ýmis vandamál, styrkja samband parsins og auka lífsgæði nýfædda barnsins. Markmiðið er að gera þessi námskeið að föstu tilboði á HAK í framhaldi af námskeiðum fyrir verðandi foreldra í mæðravernd. Guðfinna Nývarðsdóttir deildarstýra í ungbarnavernd tekur við styrknum í Ráðherrabústaðnum í Reykjavík í dag.
https://www.akureyri.is/is/frettir/sendiherra-indlands-i-heimsokn
Sendiherra Indlands í heimsókn Gopalkrishna Gandhi sendiherra Indlands á Íslandi gerði sér ferð til Akureyrar sl. laugardag. Sendiherrann hefur aðsetur í Osló en með honum í för var eiginkona hans Tara Gandi og tilgangur heimsóknar þeirra var að skoða sýninguna "Undir fíkjutré" sem nú stendur yfir á Listasafninu. Sendiherrahjónin lýstu yfir mikilli ánægju með sýninguna og það framtak að opna glugga í átt til þeirra heimalands og lýstu jafnframt áhuga á að heimsækja Akureyri og Norðurland að nýju með hækkandi sól. Shree Datye, læknir við FSA, Gopalkrisnha Gandhi sendiherra og eiginkona hans Tara Gandhi.
https://www.akureyri.is/is/frettir/malefnasamningur-meirihlutans-metinn
Málefnasamningur meirihlutans metinn Unnið verður áfram að því að setja málefnasamning og stefnu meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á Akureyri upp í svokallað samhæft árangursmat (balanced scorecard). Er þetta niðurstaða vinnuhóps sem samanstóð af fulltrúum frá Akureyrarbæ og Háskólanum á Akureyri. Í febrúar síðastliðnum fór af stað samstarfsverkefni um samhæft árangursmat milli rekstrar- og viðskiptadeildar Háskólans á Akureyri, stofnana og fyrirtækja á Akureyri og IM á Íslandi. Samstarfsverkefnið var hluti af námskeiðinu Stefnumótun II og er liður í að efla tengsl rekstrar- og viðskiptadeildar við atvinnulífið. Segja má að með þessu verkefni hafi verið brotið blað í samstarfi atvinnulífs við rekstrar- og viðskiptadeild og er þetta í fyrsta skipti sem aðilar úr atvinnulífinu taka þátt í námsmati í deildinni. Þátttakendur í verkefninu voru Búnaðarbankinn á Akureyri, Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, Háskólinn á Akureyri og Akureyrarbær. Myndaðir voru verkefnahópar sem samanstóðu af fulltrúum frá þessum aðilum og nemendum á 3. ári í viðskiptafræði, en þeir voru starfsmenn hópanna. Að verkefninu komu einnig þrír kennarar auk ráðgjafa. Þriðjudaginn 8. apríl var haldin málstofa þar sem nemendur kynntu tillögur og niðurstöður úr verkefnavinnunni. Þeir sem að verkefnunum komu voru sammála um að þau hefðu verið skemmtileg og krefjandi, en umfram allt lærdómsrík fyrir alla sem að þeim komu. Voru þátttakendur af hálfu atvinnulífsins mjög áhugasamir um að vinna áfram með þær niðurstöður sem fengust. Helgi Gestsson, lektor við rekstrar- og viðskiptadeild hafði yfirumsjón með verkefninu og stjórnaði málstofunni. Á myndinni er Hallfríður Brynjólfsdóttir að kynna niðurstöður úr verkefni sem unnið var með útibúum Búnaðarbanka Íslands á Akureyri.
https://www.akureyri.is/is/frettir/mannaflathorf-vegna-storidjuframkvaemda
Mannaflaþörf vegna stóriðjuframkvæmda Í hádeginu í dag hélt Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið fund á Hótel Kea þar sem fjallað var um mannaflaþörf og sérhæfni vegna stóriðjuframkvæmda árin 2003-2008. Kom þar meðal annars fram að eftirspurn eftir vinnuafli umfram framboð er áætluð um 18%. Fundurinn var haldinn í tilefni útgáfu skýrslu starfshóps um þessi mál en starfshópinn skipuðu Baldur Pétursson frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu, formaður, Andrés Svanbjörnsson frá orkusviði Fjárfestingarstofunnar, Ingólfur Sverrisson frá Samtökum iðnaðarins og Örn Friðriksson frá Samiðn, samtökum iðnfélaga. Helstu niðurstöður starfshópsins miðað við þær forsendur að bæði verði af framkvæmdum við álver Fjarðaráls í Reyðarfirði og stækkun álvers Norðuráls á Grundartanga, auk orkuframkvæmda sem tengjast þessum iðjukostum, eru meðal annars: Að reikna megi með að eftirspurn eftir vinnuafli verði talsverð umfram innlent framboð frá miðju ári 2004 til síðari hluta árs 2007, og að yfir sumartímann árin 2005 og 2006 verði eftirspurn eftir vinnuafli allt að 900 menn umfram framboð.
https://www.akureyri.is/is/frettir/timamotasamningur
Tímamótasamningur Föstudaginn 11. apríl sl. var undirritaður samningur um innkaup á mat- og drykkjarvörum milli Akureyrarbæjar, Valgarðs ehf. og Bónus Akureyri. Samningurinn tekur til allra innkaupa á þessu sviði að ferskmeti undanskyldu, þ.e. kjöti og fiski fyrir deildir, stofnanir og fyrirtæki bæjarins. Akureyrarbær er fyrsta bæjarfélagið sem gerir svo ítarlegan samning um matarinnkaup. Akureyrarbær og Ríkiskaup unnu þetta útboð í sameiningu og má segja að þetta sé tímamótasamningur því þetta er í fyrsta skipti sem Ríkiskaup gerir svokallaðan staðbundinn rammasamning. Í reynd þýðir þetta að samningurinn tekur mið af þörfum kaupenda til að versla hjá staðbundnum birgja m.a. til að tryggja afgreiðslu á staðnum og möguleika til að viðhalda þessari þjónustu þar, á móti gerir þetta þá kröfu til seljandans að bjóða samkeppnishæft verð. Þetta er frumverkefni á þessu sviði og mun reynslan af þessum samningi móta framtíð þessara samninga og binda forsvarsmenn Ríkiskaupa vonir við að þetta geti aukið þjónustu við rammasamningsaðila á landsbyggðinni. Á myndinni frá vinstri Árni Þór Freysteinsson innkaupastjóri Akureyrarbæjar, Dan Jens Brynjarsson fjármálastjóri Akureyrarbæjar, Júlíus S. Ólafsson forstjóri Ríkiskaupa, Jóhann Ingi Pálsson frá Valgarði og Bergvin Fannar Gunnarsson frá Bónus Akureyri.
https://www.akureyri.is/is/frettir/heimspeki-og-job-i-dymbilviku
Heimspeki og Job í dymbilviku Á föstudaginn langa kl. 16.00 mun Arnar Jónsson leikari lesa þætti úr Jobsbók Gamla testamentisins í Glerárkirkju. Að flutningi loknum verður boðið til kaffisamsætis og umræðna í safnaðarsal kirkjunnar. Viðfangsefnið er mannleg þjáning en efnið skírskotar til heimspeki, trúar og sálgæslu. Viðburðurinn er samtarfsverkefni Glerárkirkju, Félags áhugafólks um heimspeki og Samhyggðar - samtaka um sorg og sorgarviðbrögð. Allir hjartanlega velkomnir.
https://www.akureyri.is/is/frettir/starfsmannatolvur
Starfsmannatölvur Í dag var undirritaður samningur milli Akureyrarbæjar og EJS hf um leigu á tölvum fyrir starfsmenn Akureyrarbæjar. Í upphafi árs var starfsfólki á skrifstofum og í skólum Akureyrarbæjar gefinn kostur á að taka Dell-tölvur frá EJS á leigu til næstu þriggja ára. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að þessir starfsmenn eigi auðveldara með að efla tölvuleikni sína og njóti jafnframt þeirra kjara sem bærinn nýtur vegna magninnkaupa. Þannig eiga starfsmenn að fá tölvurnar á lægra verði en ella og á afborgunarkjörum sem þeir fá hvergi annars staðar. Akureyrarbær gerði svo sérstakan samning við hvern starfsmann um að leigan yrði dregin af launum hans mánaðarlega næstu þrjú árin. Óhætt er að segja að þetta hafi mælst vel fyrir því vel yfir 100 starfsmenn bæjarins nýttu sér þetta tilboð. Fremri röð frá vinstri: Dan Jens Brynjarsson fjármálastjóri Akureyrarbæjar, sem skrifaði undir samninginn fyrir hönd Akureyrarbæjar, og Reynir Stefánsson sölustjóri EJS á Akureyri. Aftari röð frá vinstri: Árni Þór Freysteinsson innkaupastjóri Akureyrarbæjar og Gunnar Frímannsson verkefnastjóri hjá Akureyrarbæ sem unnu að þessu máli fyrir Akureyrarbæ.
https://www.akureyri.is/is/frettir/glaesilegt-islandsmot-i-fitness
Glæsilegt Íslandsmót í fitness Um helgina lauk Íslandsmóti IFBB í fitness sem haldið var í Íþróttahöllinni á Akureyri. Íslandsmeistarar urðu Sigurbjörn Ingi Guðmundsson í íþróttafitness karla, Heiðrún Sigurðardóttir í íþróttafitness kvenna og Sif Garðarsdóttir í formfitness kvenna. Pétur Friðriksson sigraði í æfingum og hindranabraut með miklum yfirburðum og dugði sá árangur honum í fjórða sætið í heildarkeppninni. Heiðrún Sigurðardóttir náði jafnframt besta tíma kvenna í hindranabrautinni. Keppt var í fyrsta skipti á Íslandsmótinu í formfitness kvenna þar sem ekki er keppt í danslotu og af þátttöku keppenda og viðtökum áhorfenda að dæma er greinilegt að sú keppnisgrein er komin til að vera. Frétt af www.fitness.is
https://www.akureyri.is/is/frettir/sumardagurinn-fyrsti-i-minjasafninu
Sumardagurinn fyrsti í Minjasafninu Löngum hefur verið mikið um dýrðir á Íslandi á sumardaginn fyrsta. Fimmtudaginn 24. apríl ætla félagar úr Stoð, vinafélagi Minjasafnsins á Akureyri, að bregða á leik ásamt starfsmönnum safnsins og bjóða upp á ýmiss konar skemmtun og fróðleik frá fyrri tíð í formi söngs og sagna úr þjóðtrú Íslendinga. Hvað merkir t.d. að svara í sumartunglið? Sýndir verða munir úr eigu safnsins sem tengjast sumarkomu en sumargjafir voru mun algengari en jólagjafir áður fyrr. Börnin eru sérstaklega velkomin því sumardagurinn fyrsti hefur löngum verið þeirra dagur. Á boðstólum verða nýbakaðar lummur með kaffinu. Dagskráin hefst kl. fjögur síðdegis.
https://www.akureyri.is/is/frettir/ithrottir-gegn-einelti
Íþróttir gegn einelti Körfuknattleiksdeild Þórs og Regnbogabörn hafa tekið höndum saman og efna til fyrirlesturs þar sem Stefán Karl Stefánsson leikari ræðir um einelti og íþróttir gegn einelti. Fyrirlesturinn verður haldinn í dag kl. 17.30 í Háskólanum á Akureyri (Sólborg). Þjálfurum hjá íþróttafélögunum, íþróttakennurum og kennurum í skólunum er sérstaklega boðið á fyrirlesturinn. Að honum loknum verður efnt til umræðna um einelti.
https://www.akureyri.is/is/frettir/samherji-hlaut-utflutningsverdlaunin
Samherji hlaut Útflutningsverðlaunin Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, veitti Samherja hf. Útflutningsverðlaun forseta Íslands við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í gær. Það var Þorsteinn Már Baldvinsson sem veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd fyrirtækisins. Þetta er í fimmtánda sinn sem verðlaunin eru veitt og í úthlutunarnefndinni sitja fulltrúar frá embætti forseta Íslands, viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, Landsnefnd alþjóða verslunarráðsins, Alþýðusambandi Íslands og frá Útflutningsráði, en Útflutningsráð ber ábyrgð á undirbúningi og kostnaði við verðlaunaveitinguna. Að þessu sinni sátu í nefndinni: Stefán L. Stefánsson, Ágúst Einarsson, Einar Benediktsson, Þórunn Sveinbjörnsdóttir og Páll Sigurjónsson, sem einnig var formaður nefndarinnar. Áður hafa eftirtalin fyrirtæki hlotið útflutningsverðlaunin: Delta hf. (2002), GoPro Landsteinar hf. (2001), Bakkavör hf. (2000), Flugfélagið Atlanta ehf. (1999), SÍF hf. (1998), Hampiðjan hf. (1997), Eimskipafélag Íslands (1996), Guðmundur Jónasson hf. (1995), Sæplast hf. (1994), Íslenskar sjávarafurðir hf. (1993), Össur hf. (1992), Flugleiðir (1991), Marel hf. (1990) og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna (1989). Útflutningsverðlaun forseta Íslands eru veitt í viðurkenningarskyni fyrir markvert framlag til eflingar útflutningsverslun og gjaldeyrisöflun íslensku þjóðarinnar. Úthlutunarreglur kveða á um að verðlaunin skuli veitt fyrirtækjum eða einstaklingum, íslenskum eða erlendum, fyrir árangursríkt starf að útflutningi á íslenskum vörum eða þjónustu á erlendum markaði. Veiting verðlaunanna tekur mið af verðmætisaukningu útflutnings, hlutdeild útflutnings í heildarsölu, markaðssetningu á nýjum markaði, ásamt fleiru. Páll Sigurjónsson formaður úthlutunarnefndar, sagði meðal annars í ávarpi sínu í tilefni verðlaunaveitingarinnar: „Samherja hf. eru veitt verðlaunin fyrir að hafa náð sérlega góðum árangri í veiðum, vinnslu og markaðssetningu á íslensku sjávarfangi. Fyrirtækið fer fremst í fylkingu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja og hefur vakið mikla athygli fyrir framsækinn og arðbæran rekstur. Kraftur og áræðni einkenna fyrirtækið, starfsmenn þess og stjórnendur. Rekstrartekjur Samherja hf. á árinu 2002 námu rétt rúmum 13 milljörðum króna og rekstrarhagnaður félagsins var tæpur 1,9 milljarður króna, sem er mesti hagnaður í sögu félagsins. Velta skiptist nánast til helminga á milli útgerðar og vinnslu í landi og hlutfall útflutnings af veltu árið 2002 var um 95%. Starfsmenn félagsins í árslok voru 739 og starfsmenn dótturfélaga voru 60. Hluthafar í fyrirtækinu voru í árslok 2.323 og á stærsti einstaki aðilinn 17% hlut í félaginu. Samherji hf. er því „Stór“-fyrirtæki á íslenskan mælikvarða.“ Verðlaunahafinn fær í hendur sérhannaðan verðlaunagrip og skjal, auk þess sem hann fær leyfi til að nota merki verðlaunanna á kynningarefni sitt í fimm ár frá afhendingu. Verðlaunagripurinn í ár er gerður af Gerði Gunnarsdóttur, myndhöggvara en merki Útflutningsverðlaunanna er eins og áður hannað af Hilmari Sigurðssyni. Listaverkið sem unnið er í brons og blágrýti, heitir SÓKN og lýsir þessu framsækna fyrirtæki sem stendur fyrir; sjósókn, markaðssókn og sókn til framfara.
https://www.akureyri.is/is/frettir/sumardagurinn-fyrsti-a-akureyri
Sumardagurinn fyrsti á Akureyri Jónas Viðar Sveinsson myndlistarmaður og Jóhann Árelíuz rithöfundur hlutu starfslaun Menningarsjóðs Akureyrarbæjar sem veitt voru við hátíðlega athöfn í Ketilhúsinu á Akureyri í dag. Í Minjasafninu var einnig mikið um dýrðir í tilefni af sumarkomunni. Þau hlutu viðurkenningar: F. v. Jóhann Árelíuz, Ágúst Hafsteinsson, Anna Guðný Sigurgeirsdóttir, Jónas Viðar Sveinsson, Yean Fee Quay og Jón S. Arnþórsson. Sigrún Björk Jakobsdóttir formaður menningarmálanefndar skýrði frá því hverjir hlotið hefðu starfslaun listamanna og aðrar viðurkenningar frá Akureyrarbæ. Jónas Viðar fær starfslaun í níu mánuði og Jóhann Árelíuz í þrjá. Einnig var veitt viðurkenning fyrir byggingarlist, sem Ágúst Hafsteinsson hlaut, viðurkenning Húsverndunarsjóðs sem Anna Guðný Sigurgeirsdótir hlaut fyrir Aðalstræti 50, Yean Fee Quay fékk nýsköpunarstyrk Menningarsjóðs og Jón S. Arnþórsson hlaut viðurkenningu fyrir framlag til menningarmála í bænum. Í Minjasafninu á Akureyri brugðu félagar úr Stöð, vinafélagi safnsins, á leik og buðu upp á ýmis konar fróðleik og skemmtun. Börnin voru sérstaklega boðin velkomin, enda hefur sumardagurinn fyrsti löngum verið þeirra dagur. Að formlegri dagskrá lokinni gerðu gestir sér að góðu rjúkandi heitt súkkulaði og dýrindis lummur. Börnin voru sérstaklega boðin velkomin. Þessi þrjú teiknuðu sumarmyndir í tilefni dagsins. Ungur í anda: Leikhúsmaður í dúkkuleik. Ingimar byggði sér bú og lifði sig sannarlega inn í það.
https://www.akureyri.is/is/frettir/vorkoma-i-ketilhusinu-1
Vorkoma í Ketilhúsinu Menningarmálanefnd Akureyrar býður til samsætis í Ketilhúsinu í Listagili kl. 15 í dag, sumardaginn fyrsta. Á "Vorkomu" verður að venju tilkynnt um starfslaun listamanna næsta starfsár og hverjir hljóta viðurkenningar menningar- og húsfriðunarsjóðs. Sú nýbreytni var viðhöfð um starfslaun listamanna að auglýst var eftir umsóknum um tvenn starfslaun, til níu mánaða annars vegar og þriggja mánaða hins vegar. Mikill áhugi var meðal listamanna í bænum en 25 umsóknir bárust. Fyrir utan afhendingar og ávörp verður boðið upp á tónlist, ljóðlist og léttar veitingar. Gleðilegt sumar!
https://www.akureyri.is/is/frettir/fyrirgefdu-akureyri
Fyrirgefðu, Akureyri... Á Vorkomu menningarmálanefndar Akureyrarbæjar las skáldkonan Sigurbjörg Þrastardóttir nokkur ljóð fyrir gesti. Eitt ljóðanna nefnir hún Leiðrétt og yrkir þar til Akureyrar. Í bréfi til vefstjóra lýsir skáldkonan tilurð ljóðsins og heimilar góðfúslega birtingu þess á Akureyri.is. Gefum Sigurbjörgu orðið: Árið 2000 sendi ég frá mér ljóðabókina Hnattflug, sem eins og nafnið gefur til kynna felur í sér ferðalag í kringum jörðina. Öll ljóðin bera staðarnöfn, þar eru götur, vötn, fjöll, þorp, borgir og heilu heimsálfurnar. Eftir að bókin var komin út rann hins vegar upp fyrir mér að ekkert ljóð var um Akureyri. Hef ég þó margoft komið þangað og lent í ýmsu. Í bókinni voru Hofsós, Siglufjörður og jafnvel Vík í Mýrdal, en ekkert ljóð um höfuðstað Norðurlands. Því skrifaði ég snarlega ljóðið Leiðrétt, sem hér fylgir, en þar sem það rataði ekki heldur í næstu bók var ekki um annað að ræða en lesa það upp við fyrsta tækifæri nyrðra, nánar tiltekið á samkomu menningarmálanefndar á sumardaginn fyrsta 2003. Leiðrétt Fyrirgefðu, Akureyri, ég hljóp víst yfir þig í hringferðinni um sterkustu staðina brostna himna og laskaðar gangbrautir (ég tek út refsingu festið snöruna vel) samt á ég minningu úr kvið þínum fyrirgefðu, ég gleymdi mér í hitabylgju þótt trén þín slúti enn yfir lífbeinum ég man allt, Akureyri, en hef engum sagt ennþá ekki þú þá segja. -Sigurbjörg Þrastardóttir
https://www.akureyri.is/is/frettir/islandsmot-barna-og-unglinga-i-ishokki
Íslandsmót barna og unglinga í íshokkí Íslandsmót barna og unglinga í íshokkí hófst í dag í Skautahöllinni á Akureyri. Spilaðir verða á 5. tug leikja um helgina en mótinu lýkur síðdegis á sunnudag. Heimamenn ætla sér stóra hluti en árlega eru 6 Íslandsmeistaratitlar í boði. Skautafélag Akureyrar (SA) hefur þegar krækt sér í tvo titla, þ.e.a.s. í meistaraflokki og kvennaflokki en félagar í Skautafélagi Reykjavíkur (SR) lönduðu 3. flokks titlinum fyrr í vetur. Því eru eftir titlar í 4., 2. og 1. flokki og er næsta víst að baráttan verður hörð. Bjarnarmenn koma sterkir inn í 4. flokki og verða án efa erfiðir viðureignar en þar sem þeir eiga ekki lið í 1. og 2. flokki stendur baráttan þar á milli SA og SR. SR-ingar verða að teljast sigurstranglegir í 2. flokki en þeir höfðu ákveðna yfirburði í þeim flokki í vetur. Þó bætast við nokkrir leikmenn í bæði lið á þessu móti, s.s. hafnfirsku Steinsen-tvíburarnir sunnan megin og t.d. Addi, Jón Ingi, David og Jón Þór að norðan. Í fyrsta flokki er einnig nánast um sömu lið að ræða og í 3. og 2. flokki en þar bætast við, norðlensku gullkálfarnir Stefán gulrótartoppur og Jón Gísla, ásamt þeim Gressa markverju og Andra geithafri. Að sunnan bætast svo við Gummi Kalli og Gummi súkkulaði. Allar nánari upplýsingar um mótið er að finna á www.icehockey.is.
https://www.akureyri.is/is/frettir/beint-aaetlunarflug-hefst-a-manudag
Beint áætlunarflug hefst á mánudag Áætlunarflug flugfélagsins Air Greenland milli Akureyrar og Kaupmannahafnar hefst nk. mánudag, 28. apríl. Áætlaður lendingartími þotu Air Greenland á Akureyrarflugvelli er kl. 10.45 og verður sérstök móttökuathöfn á Akureyrarflugvelli þar sem stutt ávörp verða flutt og öllum viðstöddum boðið upp á kaffi og meðlæti meðan húsrúm í flugstöðinni leyfir. Bæjarstjórinn á Akureyri, Kristján Þór Júlíusson, og Peter Grönvold Samuelsen, stjórnarformaður Air Greenland, munu með táknrænum hætti opna þessa nýju flugleið milli Íslands og Danmerkur. Með þotu Air Greenland í þessu fyrsta flugi félagsins til Akureyrar verða m.a. fulltrúar grænlensku heimastjórnarinnar, stjórnendur Air Greenland og einnig verður Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, í hópi farþega. Frá Akureyri fer Boeing-þota Air Greenland til Kaupmannahafnar um hádegisbil á mánudag. Air Greenland mun fljúga tvisvar í viku milli Akureyrar og Kaupmannahafnar, á mánudögum og fimmtudögum. Flogið verður frá Kaupmannahöfn kl. 9.45 að staðartíma og lent kl. 10.45 á Akureyri. Frá Akureyri verður flogið kl. 12 og lent í Kaupmannahöfn kl. 16.45 að staðartíma. Búið er að setja upp nýja heimasíðu á Netinu á slóðinni www.airgreenland.is þar sem tiltækar eru allar nauðsynlegar upplýsingar um flug Air Greenland milli Akureyrar og Kaupmannahafnar. Þar eru m.a. upplýsingar um þjónustu um borð á flugleiðinni, innritun farþega, tollfrjálsan varning og margt fleira.
https://www.akureyri.is/is/frettir/ad-duga-eda-drepast-1
Að duga eða drepast Handknattleikslið KA tekur á móti Haukum í KA-heimilinu í dag í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Essó-deildarinnar og hefst leikurinn kl. 16.15. Haukar unnu auðveldan, 33-27 sigur í fyrsta leik liðanna sl. fimmtudag og nái KA ekki að knýja fram sigur í dag er liðið úr leik.
https://www.akureyri.is/is/frettir/breytingar-hja-afe
Breytingar hjá AFE Á fundi stjórnar Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar í síðustu viku var staðfestur vilji aðildarsveitarfélaganna um áframhaldandi rekstur AFE með breyttum áherslum. Framkvæmdastjóri félagsins hefur óskað eftir starfslokum og tekur forstöðumaður þróunar- og markaðssviðs AFE við starfi hans. Nýjar áherslur voru mótaðar í tengslum við viðamiklar breytingar á stoðkerfi atvinnulífsins á Akureyri, með tilkomu Nýsköpunarmiðstöðvar IMPRU á Akureyri, ásamt breyttri aðkomu stærsta eigandans, Akureyrarbæjar að félaginu. Félagið mun, ásamt framkvæmd atvinnuþróunarverkefna í samstarfi við Byggðastofnun, einbeita sér að eftirfarandi áhersluverkefnum samkvæmt nýrri stefnu: AFE leiði verkefni um samræmda atvinnustefnu sveitarfélaganna á Eyjafjarðarsvæðinu til næstu 5 ára, í samvinnu við sveitarstjórnarmenn, fulltrúa fyrirtækja og annarra þátttakenda í atvinnulífinu. Sett verði í forgang sérstök áhersluverkefni á hverjum tíma tengd framtíðarsýn í atvinnumálum. Félagið skal vera framkvæmdaaðili sveitastjórna á verkefnum á sviði atvinnumála samkvæmt skilgreindum verklagsreglum. Vinna að þróunar og markaðsverkefnum sem snúa að því að efla svæðið og kynna það sem vænlegt til fjárfestinga og samstarfs. Ferðamálasamtök á Norðurlandi hafa jafnframt kynnt hugmyndir um samvinnu, þróun og breyttar áherslur í sinni starfsemi. Áherslur stjórnar AFE hafa tekið mið af þessu og gera ráð fyrir að starfsemi innan AFE er beint lúta að ferðamálum verði hætt, enda hafi hagsmunaaðilar í greininni sýnt frumkvæði og áform sem leysa af hólmi þá starfsemi sem AFE hefur sinnt á þessu sviði. Samfara þessum breytingum hefur starfandi ferðamálafulltrúa AFE verið sagt upp störfum. Ennfremur hefur framkvæmdastjóri félagsins, Hólmar Svansson, óskað eftir starfslokum hjá félaginu og hefur verið gengið frá því að Magnús Þór Ásgeirsson, forstöðumaður þróunar- og markaðssviðs AFE muni taka við starfi hans frá og með næsta aðalfundi sem verður í lok maí næstkomandi. Jafnframt hefur verið ákveðið að auglýsa eftir verkefnastjóra hjá AFE á næstu dögum og er vonast til að slíkur aðili geti verið kominn til starfa fyrir lok sumars. Í framhaldi af þessum breytingum verður gengið til samstarfs við einstök sveitarfélög um mótun verklagsreglna um samskipti AFE og þeirra sem tryggja munu framkvæmd einstakra verkefna er unnin verða af hálfu AFE. Þar með er hrint í framkvæmd þeirri nýju stefnu sem mótuð hefur verið um verklag og verkaskiptingu AFE og sveitarfélaganna sem að því standa. Það er von stjórnar að með þessu nýja fyrirkomulagi geti AFE átt beinni og markvissari samvinnu við einstök sveitarfélög um framkvæmd einstakra verkefna, ásamt því að taka beinan þátt í mótun og framkvæmd samræmdrar atvinnustefnu fyrir Eyjafjörð.
https://www.akureyri.is/is/frettir/til-koben-fyrir-14900-kr
Til Köben fyrir 14.900 kr. FYRSTA áætlunarflug Grænlandsflugs milli Kaupmannahafnar og Akureyrar var í gær og var vel tekið á móti áhöfn og farþegum í Boeing-þotu félagsins við komuna til Akureyrar en sérstök móttökuathöfn var á Akureyrarflugvelli af þessu tilefni. Fulltrúar grænlensku heimastjórnarinnar, stjórnendur Grænlandsflugs, Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri og Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra voru á meðal farþega í þessu fyrsta flugi frá Kaupmannahöfn til Akureyrar. Bæjarstjórinn á Akureyri, Kristján Þór Júlíusson (t.h.), og Peter Grönvold Samuelsen opnuðu með táknrænum hætti hin nýju flugleið milli Íslands og Danmerkur. Flogið verður milli Kaupmannahafnar og Akureyrar tvisvar í viku, á mánudögum og fimmtudögum. Farið er frá Kaupmannahöfn kl. 9.45 að staðartíma og lent á Akureyri kl. 10.45. Frá Akureyri er farið kl. 12 á hádegi og lent í Kaupmannahöfn kl. 16.45 að staðartíma. Í tilefni af fyrsta fluginu var ákveðið að bjóða fargjaldið á leiðinni Akureyri Kaupmannahöfn á 14.900 krónur í maí og fram í miðjan júní. "Þetta lofar góðu," sagði Ragnheiður Jakobsdóttir hjá Ferðaskrifstofu Akureyrar um útlitið framundan. Hún sagði að flugið hefði talsvert verið kynnt og viðbrögð verið góð norðan heiða, margir séu vissulega búnir að gera áætlanir varðandi sumarið, en þegar hefðu borist fyrirspurnir frá t.d. starfsmannahópum um ferðir næsta haust. Nauðsynlegar upplýsingar um flugið er að finna á slóðinni www.airgreenland.is en ferðir eru einnig seldar hjá Ferðaskrifstofu Akureyrar og Terra Nova Sol. Krakkarnir úr móttökunefndinni fengu að skoða flugstjórnarklefann og "allir þessir takkar" vöktu tæra undrun. Frétt af www.mbl.is.
https://www.akureyri.is/is/frettir/tuttugu-ar-fra-upphafi-utgerdar-samherja
Tuttugu ár frá upphafi útgerðar Samherja Starfsfólk Samherja býður bæjarbúum öllum til móttöku í KA-heimilinu á Akureyri frá kl. 19 til 22 í dag. Tilefnið er að í gær voru 20 ár liðin frá því Samherji hf. hóf starfsemi á Akureyri og einnig er full ástæða til að fagna því að fyrirtækinu voru á dögunum veitt Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2003. Útgerðarfyrirtækið Samherji hf. var stofnað 26. apríl 1972 í Grindavík. Þann 28. apríl 1983 keyptu Kristján Vilhelmsson, Þorsteinn Már Baldvinsson og Þorsteinn Vilhelmsson meirihluta í fyrirtækinu og fluttu það til Akureyrar. Samherji hf. átti einn ísfisktogara, Guðstein GK sem þeir frændur sigldu með til nýrrar heimahafnar. Togarinn lagðist að bryggju á Akureyri 1. maí 1983 og hlaut nafnið Akureyrin EA. Í kjölfarið var skipinu breytt mikið og það útbúið til flakafrystingar. Að sögn Kristjáns Vilhelmssonar var blíðuveður þennan dag og tók töluverður fjöldi fólks á móti skipinu. Skipið leit býsna illa út, var bæði ryðgað og skítugt, þó búið væri að færa það nokkuð til betri vegar. Mörgum leist ekki vel á uppátækið hjá þeim frændum en fleiri höfðu fulla trú á þeim og sýndu þeim stuðning. Þeir voru fullir bjartsýni og fannst verkefnið í senn ögrandi og spennandi. Fyrirtækið hefur á þessum tuttugu árum vaxið og dafnað á ævintýranlegan hátt. Ólíklegt er að þessir ungu og athafnasömu menn hafi gert sér í hugarlund þá fjölþættu starfsemi sem stórfyrirtækið Samherji stendur fyrir í dag. Frétt af www.samherji.is.
https://www.akureyri.is/is/frettir/skjar-1-a-akureyri
Skjár 1 á Akureyri Sjónvarpsstöðin Skjár 1 sendir út frá höfuðborg hins bjarta norðurs næstu daga. Í gærkvöldi heimsóttu Vala Matt og félagar falleg heimili á Akureyri og í kvöld verður þátturinn Fólk með Sirrý sendur út beint frá Fiðlaranum. Á föstudagskvöld verður Djúpa laugin í beinni útsendingu frá Akureyri og sunnudaginn 4. maí brýtur Egill Helgason málin til mergjar í þætti sínum Silfur Egils. Þeir sem misstu af Völu Matt og Innliti útliti í gærkvöldi geta fylgst með endursýningu þáttarins kl. 18.30 í dag.
https://www.akureyri.is/is/frettir/kea-uthlutar-7-milljonum
KEA úthlutar 7 milljónum Menningar- og viðurkenningasjóður KEA svf. veitir tvisvar á ári styrki til ýmissa verkefna á félagssvæðinu. Á aðalfundi KEA á Akureyri 29. apríl 2003 var tilkynnt um úthlutun úr sjóðnum, samtals var úthlutað sjö milljónum króna til 34 aðila. Lista yfir þá aðila sem hlutu styrki er að finna á heimasíðu KEA, www.kea.is.
https://www.akureyri.is/is/frettir/130-stofnfelagar
130 stofnfélagar Stangaveiðifélag Akureyrar (SVFA) var stofnað síðastliðinn laugardag og mættu rétt innan við 100 manns á stofnfundinn sem haldinn var á Hótel Kea. Nú þegar hafa um 130 manns skráð sig sem stofnfélagar. Fyrsti formaður félagsins var kjörinn Ragnar Hólm Ragnarsson en aðrir í stjórn eru Björgvin Harri Bjarnason, Ingvar Karl Þorsteinsson, Jón Bragi Gunnarsson, Kristján Hjálmarsson og María Ingadóttir. Hluti þeirra sem undirbjuggu stofnun félagsins. Talið frá vinstri: Ragnar Hólm Ragnarsson, Jón Bragi Gunnarsson, Ingvar Karl Þorsteinsson og Sigmundur Ófeigsson. Heiðursgestir á fundinum voru Kolbeinn Grímsson frá fluguveiðifélaginu Ármönnum í Reykjavík og Bjarni Ómar Ragnarsson og Marinó Marinósson úr stjórn Stangaveiðifélags Reykjavíkur. Formaður SVFR, Bjarni Ómar, ávarpaði fundinn og fagnaði framtakinu. Kom meðal annars fram í máli hans að landslag í íslenskri veiðileyfasölu hefði breyst mjög á síðustu árum og full þörf væri á sterkum félögum veiðimanna sem keppt gætu við fyrirtækin á veiðileyfamarkaðinum. Í 2. gr. laga félagsins segir að tilgangur þess sé: Að vinna að samstöðu stangveiðimanna með því að stuðla að samstarfi við og á milli veiðifélaga á Eyjafjarðarsvæðinu og í nágrenni. Standa vörð um hagsmuni og rétt stangveiðimanna og leggja sitt af mörkum til þess halda veiðisvæðum í nágrenninu fyrir veiðimenn á svæðinu. Úvega félagsmönnum veiðileyfi með leigu á veiðisvæðum eða í samstarfi við önnur veiðifélög. Stuðla að góðri samvinnu við veiðiréttareigendur og standa fyrir umbótum á þeim veiðisvæðum er félagið hefur aðgang að. Að styrkja stöðu stangveiði sem almennings- og fjölskylduíþróttar fyrir alla. Stuðla að auknu félagsstarfi meðal veiðimanna, fræðslu og bættri umgengni við náttúruna . Vinna að öflugu nýliða- og unglingastarfi fyrir byrjendur. Standa fyrir uppákomum, svo sem fræðslukvöldum, hnýtingarkvöldum, kynningum, leiðsöguferðum, veiðisvæðakynningum og námskeiðum í kastkennslu og veiðileikni. Standa fyrir upplýsingamiðlun til veiðimanna með rafrænu fréttabréfi um málefni er snúa að stangveiði. Meðal fundarmanna voru Kolbeinn Grímsson, Gylfi Kristjánsson og Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri á Akureyri.
https://www.akureyri.is/is/frettir/stortonleikar-i-hollinni
Stórtónleikar í Höllinni! Á sunnudag verða haldnir í Íþróttahöllinni á Akureyri stórtónleikar þar sem koma fram meðal annarra Kristján Jóhannsson tenór og Kristinn Sigmundsson bassi. Tilefnið er að Sinfóníuhljómsveit Norðurlands er nú að ljúka sínu tíunda starfsári og á efnisskránni er Requiem (Sálumessa) eftir Giuseppe Verdi. Auk þeirra Kristjáns og Kristins syngja einsöng Björg Þórhallsdóttir sópran og Annamaria Chiuri mezzósópran. Í kórhlutverkinu eru þrír kórar: Kór Akureyrarkirkju, Kór Langholtskirkju í Reykjavík og Kammerkór Norðurlands. Stjórnandi á tónleikunum er Guðmundur Óli Gunnarsson, aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands. Tónleikarnir eru samvinnuverkefni Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og Kirkjulistaviku í Akureyrarkirkju. Sinfóníuhljómsveit Norðurlands sem hélt sína fyrstu tónleika 24. október 1993 var stofnuð upp úr Kammerhljómsveit Akureyrar sem starfað hafði frá 1987. Hljómsveitin hefur aukið starfsemi sína hægt en örugglega með auknum fjárframlögum. Fyrir utan tónleikahald á Akureyri og í nágrannabyggðum hefur SN staðið fyrir skólatónleikum á svæðinu frá Húsavík vestur í Skagafjörð. Þetta tíunda starfsár hefur verið viðburðaríkt. Það hófst með tónleikaferð til Grænlands þar sem haldnir voru fernir skólatónleikar, einir tónleikar fyrir eldri borgara og tvennir stórir kvöldtónleikar. Tónleikarnir voru haldnir í samvinnu við Grænlendinga, bæði kóra, einleikara og tónskáld. Þetta framtak vakti mikla ánægju á Grænlandi og komu um 1500 áheyrendur á þessa tónleika. Síðan hefur hver viðburðurinn rekið annan með tónleikum í hverjum mánuði og má þar nefna tónleika með ýmsum einleikurum eins og Sigrúnu Eðvaldsdóttur, Aladár Rácz, Jóhanni Friðgeiri Valdimarssyni og Pál Barna Szabó. Í desember voru aðventutónleikar að venju og á þeim léku með hljómsveitinni um 60 suzukinemendur víða að af landinu auk þess sem flutt var jólaævintýrið „Snjókarlinn“ . Síðustu fjögur árin hefur SN flutt ævintýri með sögumanni á aðventutónleikum og m.a. látið skrifa nýtt verk fyrir hljómsveitina í þessu skyni. Endurvaktir voru Vínartónleikar í janúar og í mars voru tónleikar með Sinfóníettu þar sem m.a. var frumfluttur nýr Víólukonsert eftir Óliver Kentish sem Guðmundur Kristmundsson víóluleikari lék með hljómsveitinni. Og nú er hápunktur þessa afmælisárs framundan með flutningi á Requiem eftir G. Verdi. Sálumessuna samdi Verdi á árunum 1869 til 1874 og var hún frumflutt í Markúsarkirkjunni í Mílanó 22. maí 1874 undir stjórn tónskáldsins. Tilurð sálumessunnar var dálítið óvenjuleg. Við andlát ítalska tónskáldsins Rossini vaknaði hugmynd um að fá helstu tónskáld Ítalíu til að semja sameiginlega sálumessu til minningar um hann. Verdi samdi þá þáttinn Libera me, en vegna fjárskorts og annarra erfiðleika varð aldrei af þessum minningartónleikum. Verdi sendi vini sínum Libera me þáttinn til skoðunar og lauk hann miklu lofsorði á tónsmíðina og hvatti Verdi til að fullgera sálumessu. Verdi skrifaði vini sínum til baka: „Þessi vinsamlegu orð þín vöktu svo sterka löngun hjá mér til að semja tónverk við allan textann að ég hef nú þegar lokið við Requiem þátt og Dies irae og Libera me þátturinn er jú fullkláraður. Hugsaðu þér hve samviska þín má naga þig að þessi lofsyrði þín skuli hafa orðið þessa óskapnaðar valdandi!“. Þetta stórbrotna verk var frumflutt hér á landi í Reykjavík 1968 undir stjórn dr. Róberts Abrahams Ottóssonar og nú er það flutt í fyrsta skipti á Norðurlandi með um 130 manna kór og 70 manna hljómsveit auk fjögurra einsöngvara. Það má segja að þetta sé margföld hátíð því það er okkur auðvitað sérstakt ánægjuefni að meðal einsöngvaranna eru tveir Akureyringar, þau Björg Þórhallsdóttir og Kristján Jóhannsson. Þá er það ekki síður hátíðarefni að Kristján Jóhannsson og Kristinn Sigmundsson syngja báðir á þessum tónleikum, en það er ekki oft sem tónlistarunnendum hér á landi gefst kostur á að hlýða á þessa glæsilegu söngvara á sömu tónleikunum. Kristján kemur líka færandi hendi, því það er fyrir milligöngu hans að ítalski mezzósópraninn Annamaria Chiuri verður með á þessum tónleikum. Tónleikarnir hefjast kl. 16 á sunnudag. Forsala er hafin í Pennanum Bókval á Akureyri og í Bókabúð Máls og menningar, Laugavegi 18, Reykjavík.
https://www.akureyri.is/is/frettir/allt-um-kosningarnar-a-laugardag
Allt um kosningarnar á laugardag Kosið verður til alþingis Íslendinga á laugardag og eru sex listar í framboði í norðausturkjördæmi. Kjörstaður Akureyringa er eins og svo oft áður Oddeyrarskóli og verða kjördeildir opnar frá 9-22. Hægra megin á forsíðu Akureyri.is er að finna skiptingu í kjördeildir eftir götuheitum. Á slóðinni www.kosning2003.is/web er að finna allar upplýsingar um alþingiskosningarnar 2003. Framboðslistar í norðausturkjördæmi eru sem hér segir: B-listi Framsóknarflokks: 1. Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Lómatjörn, Grýtubakkahreppi. 2. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Selási 12, Egilsstöðum. 3. Dagný Jónsdóttir, formaður SUF, Strandgötu 86, Eskifirði. 4. Birkir Jón Jónsson, aðstoðarmaður ráðherra, Hvanneyrarbraut 58, Siglufirði. 5. Þórarinn E. Sveinsson, forstöðumaður, Álfhólsvegi 66, Kópavogi. 6. Katrín Ásgrímsdóttir, garðyrkjubóndi, Kaldá, Austur-Héraði. 7. Svanhvít Aradóttir, forstöðuþroskaþjálfi, Stekkjargötu 3, Neskaupstað. 8. Ólafur Níels Eiríksson, vélvirki, Hlíðargötu 8, Fáskrúðsfirði. 9. Sigfús Karlsson, framkvæmdastjóri, Dalsgerði 2b, Akureyri. 10. Ingólfur Friðriksson, skrifstofumaður, Árskógum 13, Egilsstöðum. 11. Friðrika Baldvinsdóttir, húsmóðir, Laugarbrekku 24, Húsavík. 12. Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, Lerkilundi 25, Akureyri. 13. Þröstur Aðalbjarnarson, búfræðikandidat, Ekru, Öxarfjarðarhreppi. 14. Borghildur Sverrisdóttir, launafulltrúi, Lónabraut 31, Vopnafirði. 15. Haukur Snorrason, leiðbeinandi, Sunnubraut 2, Dalvík. 16. Halldóra K. Hauksdóttir, menntaskólanemi, Þórsmörk, Svalbarðsstrandarhreppi. 17. Ari Teitsson, bóndi, Hrísum, Reykjadal, Þingeyjarsveit. 18. Valgerður Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri, Vættagili 30, Akureyri. 19. Jónas Hallgrímsson, framkvæmdastjóri, Fjarðargötu 8, Seyðisfirði. 20. Tryggvi Gíslason, skólameistari, Suðurbyggð 14, Akureyri. D-listi Sjálfstæðisflokks: 1. Halldór Blöndal, alþingismaður, Strandgötu 25, Akureyri. 2. Tómas Ingi Olrich, alþingismaður, Álfabyggð 20, Akureyri. 3. Arnbjörg Sveinsdóttir, alþingismaður, Austurvegi 30, Seyðisfirði. 4. Sigríður Ingvarsdóttir, alþingismaður, Hávegi 3, Siglufirði. 5. Hilmar Gunnlaugsson, lögmaður, Hamrahlíð 4, Egilsstöðum. 6. Þorvaldur Ingvarsson, lækningaforstjóri, Álfabyggð 14, Akureyri. 7. Anna Þóra Baldursdóttir, lektor, Eikarlundi 10, Akureyri. 8. Ásta Ásgeirsdóttir, aðstoðarskólastjóri, Eyrarstíg 2, Reyðarfirði. 9. Berglind Svavarsdóttir, lögmaður, Árholti 8, Húsavík. 10. Bergur Guðmundsson, framkvæmdastjóri, Munkaþverárstræti 8, Akureyri. 11. Dóróthea Jóhannsdóttir, bæjarfulltrúi, Brimnesbraut 23, Dalvík. 12. Rúnar Þórarinsson, sölustjóri, Sandfellshaga 1, Öxarfjarðarhreppi. 13. Arnar Árnason, tæknifræðingur og bóndi, Hranastöðum, Eyjafjarðarsveit. 14. Snæfríður Njálsdóttir, forstöðumaður, Árbót, Aðaldælahreppi. 15. Þorsteinn Snædal, bóndi, Arnórsstöðum, Norður-Héraði. 16. Tryggvi Gunnlaugsson, sjómaður, Hlíð 2, Djúpavogi. 17. Arnljótur Bjarki Bergsson, sjávarútvegsfræðingur, Háalundi 6, Akureyri. 18. Anna María Elíasdóttir, launafulltrúi, Túngötu 19, Ólafsfirði. 19. Steingrímur Birgisson, framkvæmdastjóri, Hrafnagilsstræti 30, Akureyri. 20. Fjóla Hrafnkelsdóttir, framkvæmdastjóri, Háafelli 4c, Fellabæ. F-listi Frjálslynda flokksins: 1. Brynjar Sindri Sigurðarson, framkvæmdastjóri, Túngötu 43, Siglufirði. 2. Guðmundur W. Stefánsson, skógarbóndi, Fremri-Nýpum, Vopnafjarðarhreppi. 3. Stella Björk Steinþórsdóttir, verkakona, Hlíðargötu 9, Neskaupstað. 4. Freyr Guðlaugsson, íþróttaþjálfari, Lundargarði, Akureyri. 5. Þorsteinn Valur Baldvinsson, skógarbóndi, Eiðum, Hermannshúsi, Austur-Héraði. 6. Örvar Bessason, sjómaður, Hjallalundi 1c, Akureyri. 7. Haraldur Sigurðsson, vélfræðingur, Núpskötlu 2, Öxarfjarðarhreppi. 8. Ásgeir Yngvason, bifreiðasmiður, Brekkugötu 12, Akureyri. 9. Svavar Cesar Kristmundsson, bifreiðarstjóri, Garðarsbraut 13, Húsavík. 10. Birgir Albertsson, sjómaður, Skólabraut 1, Stöðvarfirði. 11. Esther Arnardóttir, útgerðarmaður, Heiðargerði 17, Húsavík. 12. Jóhannes Björnsson, útgerðarmaður, Miðási 6, Raufarhöfn. 13. Úlfhildur Sigurðardóttir, útgerðarmaður, Heiðargerði 2d, Húsavík. 14. Hermann Björn Haraldsson, sjómaður, Neðra-Haganesi, Skagafirði. 15. Oddur Örvar Magnússon, bifvélavirkjameistari, Baughóli 31c, Húsavík. 16. Haraldur R. Aðalbjörnsson, sjómaður, Austurvegi 12b, Seyðisfirði. 17. Guðmundur Jón Hafsteinsson, sjómaður, Lambeyrarbraut 4, Eskifirði. 18. Héðinn Jónasson, útgerðarmaður, Stekkjarholti 13, Húsavík. 19. Kristján Ragnar Ásgeirsson, fjármálastjóri, Hverfisgötu 49, Hafnarfirði. 20. Haraldur Bessason, fyrrv. háskólarektor, Vanabyggð 3, Akureyri. N-listi Nýs afls: 1. Valdimar H. Jóhannesson, framkvæmdastjóri, Brekkutanga 1, Mosfellsbæ. 2. Halldór Brynjar Halldórsson, menntaskólanemi, Heiðarlundi 5f, Akureyri. 3. Jóhanna Friðfinnsdóttir, myndlistarmaður, Brekkugötu 37, Akureyri. 4. Anton Jón Angantýsson, birgðastjóri, Brúarási 16, Reykjavík. 5. Gísli Baldvinsson, náms- og starfsráðgjafi, Kleifargerði 3, Akureyri. 6. Sigurður Svanur Gestsson, byggingafræðingur, Brekkubyggð 38, Garðabæ. 7. Guðrún Trampe, fangavörður, Móasíðu 2d, Akureyri. 8. Halla Soffía Jónasdóttir, söngkona, Brúarási 16, Reykjavík. 9. Valbjörg Fjólmundsdóttir, handverkskona, Hafnarstræti 29, Akureyri. 10. Kristín Þóroddsdóttir, öryrki, Gilsbakkavegi 3, Akureyri. 11. Gréta Ósk Sigurðardóttir, myndlistarmaður, Vaði, Skriðdal, Austur-Héraði. 12. Guðmundur Cesar Magnússon, sjómaður, Maríubakka 32, Reykjavík. 13. Axel Þór Kolbeinsson, verkamaður, Hafnarbraut 54, Neskaupstað. 14. Brynjólfur Sigurbjörnsson, vélsmiður, Stórholti 24, Reykjavík. 15. Pálmi Arthursson, flugvélstjóri, Meðalholti 19, Reykjavík. 16. Guðbrandur Kristvinsson, verkamaður, Hólabraut 18, Akureyri. 17. Kristján J. Gunnarsson, verslunarstjóri, Austurvegi 6, Þórshöfn. 18. Ragnheiður Egilsdóttir, læknaritari, Ásvegi 17, Breiðdalsvík. 19. Þórarinn Ragnar Jónsson, bóndi, Skarðaborg, Húsavík. 20. Bárður G. Halldórsson, menntaskólakennari, Reykjavíkurvegi 68, Hafnarfirði. S-listi Samfylkingarinnar: 1. Kristján L. Möller, alþingismaður, Laugarvegi 25, Siglufirði. 2. Einar Már Sigurðarson, alþingismaður, Sæbakka 1, Neskaupstað. 3. Lára Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri, Brekkugötu 43, Akureyri. 4. Örlygur Hnefill Jónsson, héraðsdómslögmaður, Laugum, Þingeyjarsveit. 5. Þorgerður J. Þorgilsdóttir, sjúkraliði, Skútagili 4, Akureyri. 6. Jónína Rós Guðmundsdóttir, framhaldsskólakennari, Laugavöllum 13, Egilsstöðum. 7. Henrý Már Ásgrímsson, verkstjóri, Lækjarvegi 7, Þórshöfn. 8. Cecil Haraldsson, sóknarprestur, Öldugötu 2, Seyðisfirði. 9. Jón Ásberg Salómonsson, húsasmiður, Háagerði 13, Húsavík. 10. Rannveig Edda Hjaltadóttir, kennari, Hjarðarslóð 1f, Dalvík. 11. Aðalheiður Birgisdóttir, húsmóðir, Leynimel 5, Stöðvarfirði. 12. Tryggvi Gunnarsson, sölumaður, Grundargerði 6h, Akureyri. 13. Gunnar R. Kristinsson, form. Sjómannafélags Ólafsfjarðar, Bylgjubyggð 13, Ólafsfirði. 14. Kristbjörg Sigurðardóttir, kaupmaður, Boðagerði 3, Kópaskeri. 15. Eydís Ásbjörnsdóttir, hársnyrtimeistari, Bleiksárhlíð 21, Eskifirði. 16. Óðinn Svan Geirsson, verslunarstjóri, Króksstöðum, Eyjafjarðarsveit. 17. Svanfríður I. Jónasdóttir, alþingismaður, Sognstúni 4, Dalvík. 18. Aðalbjörn Björnsson, skólastjóri, Lónabraut 41, Vopnafirði. 19. Gunnlaugur Stefánsson, sóknarprestur, Heydölum, Breiðdalsvík. 20. Jóhanna Aðalsteinsdóttir, fyrrv. bæjarfulltrúi, Dalsgerði 7e, Akureyri. U-listi Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs: 1. Steingrímur J. Sigfússon, alþingismaður, Gunnarsstöðum, Svalbarðshreppi. 2. Þuríður Backman, alþingismaður, Hjarðarhlíð 7, Egilsstöðum. 3. Hlynur Hallsson, myndlistarmaður, Ásabyggð 2, Akureyri. 4. Bjarkey Gunnarsdóttir, leiðbeinandi, Hlíðarvegi 71, Ólafsfirði. 5. Trausti Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri, Ásgarðsvegi 15, Húsavík. 6. Jóhanna Gísladóttir, framkvæmdastjóri, Botnahlíð 8, Seyðisfirði. 7. Ríkey Sigurbjörnsdóttir, kennari, Hvanneyrarbraut 57, Siglufirði. 8. Karólína Einarsdóttir, nemi, Laugavöllum 17, Egilsstöðum. 9. Inga Margrét Árnadóttir, bóndi, Þórisstöðum, Svalbarðsstrandarhreppi. 10. Hörður Flóki Ólafsson, leiðbeinandi, Hafnarstræti 71, Akureyri. 11. Gunnar Pálsson, bóndi, Refsstað, Vopnafjarðarhreppi. 12. Anna Margrét Birgisdóttir, bókasafnsfræðingur, Ásvegi 28, Breiðdalsvík. 13. Þórhildur Örvarsdóttir, verslunarmaður, Litla-Garði, Akureyri. 14. Skarphéðinn G. Þórisson, líffræðingur, Fjóluhvammi, Fellahreppi. 15. Gunnar Ólafsson, kennari, Gilsbakka 8, Neskaupstað. 16. Björn Valur Gíslason, stýrimaður, Aðalgötu 3, Ólafsfirði. 17. Bjarni E. Guðleifsson, náttúrufræðingur, Möðruvöllum 3, Arnarneshreppi. 18. Margrét Ríkarðsdóttir, þroskaþjálfi, Hafnarstræti 41, Akureyri. 19. Kristján Ásgeirsson, fyrrv. bæjarfulltrúi, Álfhóli 1, Húsavík. 20. Málmfríður Sigurðardóttir, fyrrv. alþingismaður, Holtateigi 11, Akureyri.
https://www.akureyri.is/is/frettir/ondvegissetur-i-audlindaliftaekni
Öndvegissetur í auðlindalíftækni Í gær undirrituðu Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Tómas Ingi Olrich, menntamálaráðherra og Árni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra, samkomulag um að unnið verði að því að til verði öndvegissetur í auðlindalíftækni í tengslum við Háskólann á Akureyri. Með öndvegissetri er átt við starfsemi þar sem framúrskarandi vísindaleg þekking og kröftugt rannsóknarumhverfi lætur verulega að sér kveða í eflingu vísindalegra framfara og nýsköpunar atvinnulífsins. Auðlindalíftækni er hugtak sem hér er notað til að undirstrika þá skoðun að hagnýting íslenskra auðlinda muni í vaxandi mæli í framtíðinni byggjast á nýrri vísindalegri þekkingu á sviði líftækni og erfðavísinda. Þannig mun vinnsla, markaðssetning og sala verðmætra lífefna, erfðaupplýsinga, notkun líftæknilegra aðferða og notkun örvera sem lifa á háhitasvæðum verða uppspretta nýrrar atvinnusköpunar og efnahagslegra framfara. Ofangreind ráðuneyti vilja meta ávinning af því að stofnað verði setur á sviði auðlindalíftækni í tengslum við Háskólann á Akureyri. Á grundvelli jákvæðrar niðurstöðu þess mats munu þau sameiginlega vinna að uppbyggingu setursins. Haustið 2002 var Sjávarútvegsdeild Háskólans á Akureyri breytt í Auðlindadeild. Innan þessarar deildar eru fjórar námsbrautir, í sjávarútvegsfræði, fiskeldi, umhverfisfræði og líftækni. Stofnun öndvegisseturs í auðlindalíftækni við Háskólann mun stórefla rannsóknarstarfsemi og kennslu bæði í líftækni og við deildina. Ef vel tekst til munu á næstu árum verða til 4-8 ný stöðugildi innan auðlindalíftækni. Um er að ræða sérfræðinga sem munu starfa í nánum tengslum við Háskólann á Akureyri, fyrirtæki, aðra háskóla og rannsóknastofnanir atvinnuveganna. Uppbygging þekkingar á auðlindalíftækni mun auðvelda Íslendingum þátttöku í alþjóðlegu samstarfi háskóla og rannsóknastofnanna á þessu sviði og færa nýja þekkingu inn í fyrirtæki landsins. Setrið verður staðsett í nýju rannsóknarhúsi Háskólans á Akureyri, sem gert er ráð fyrir verði tilbúið haustið 2004, og verður setrinu þar búin fyrsta flokks aðstaða. Fram að þeim tíma mun það verða hýst í húsnæði Auðlindadeildar skólans.
https://www.akureyri.is/is/frettir/4-tillogur-ad-breytingum-a-adalskipulagi-gleraros-krossan
4 tillögur að breytingum á aðalskipulagi: Glerárós - Krossanesshagi - Móasíða - Mýravegur Akureyrarbær auglýsir hér með skv. 1. mgr. 21. gr. skipulags- og byggingarlaga neðangreindar tillögur að breytingum á aðalskipulagi Akureyrar 1998-2018: 1 Landfylling við Glerárós Lagt er til að landfylling milli Gleráróss og Flotkvíar verði aukin um ca. 9.000 m2 frá gildandi skipulagi. Fyllingin verði nýtt sem útilagersvæði fyrir höfnina. Skoða tillöguuppdrátt (pdf-skjal) 2 Iðnaðarhverfi í Krossanesshaga Til samræmis við fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi B-áfanga iðnaðaðarhverfisins er gerð tillaga um fækkun iðnaðarsvæða og breytingar á afmörkun þeirra gagnvart opnum svæðum, og breytta lega safngötu. Gert er ráð fyrir fullnýtingu grjótnáms í Ystaási skv. áætlun um vinnsluna sem gerð verði skv. ákvæðum laga um náttúruvernd nr. 44/1999. Skoða tillöguuppdrátt (pdf-skjal) 3 Móasíða, breytt landnotkun Lagt er til að landnotkunarskilgreining lóðarinnar nr. 1 við Móasíðu breytist úr verslunar- og þjónustusvæði í íbúðarsvæði. Tekið er fram að auk íbúða megi vera á lóðinni starfsemi sem þjónar íbúum hverfisins, sbr. skilgreiningu íbúðarsvæða í skipulagsreglugerð. Skoða tillöguuppdrátt (pdf-skjal) 4 Stækkun íbúðarsvæðis við Mýraveg Lagt er til að íbúðarsvæði vestan Mýravegar norðan Akurgerðis stækki til norðurs um ca. 2.100 m2 á kostnað opins svæðis. Stækkunin verði nýtt til byggingar 5 hæða fjölbýlishúss fyrir eldri borgara. Skoða tillöguuppdrátt (pdf-skjal) Tillögurnar munu liggja frammi í þjónustuanddyri Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 1. hæð, næstu 6 vikur frá birtingu þessarar auglýsingar, þ.e. til föstudagsins 20 júní 2003 svo að þeir sem þess óska geti kynnt sér þær og gert við þær athugasemdir. Tillögurnar eru einnig birtar á heimasíðu Akureyrarbæjar: http://www.akureyri.is/ undir: Auglýsingar og umsóknir/Skipulagstillögur. Frestur til að gera athugasemdir við tillögurnar rennur út kl. 1600 föstudaginn 20. júní 2003 og skal athugasemdum skilað til Umhverfisdeildar Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 3. hæð. Hver sá sem ekki gerir athugasemdir við auglýsta tillögu innan þessa frests telst vera henni samþykkur. Akureyri 9. maí 2003 Skipulags- og byggingarfulltrúi Akureyrarbæjar.
https://www.akureyri.is/is/frettir/3-tillogur-ad-deiliskipulagi-fiskihofn-krossanesshagi-thjonustustod
3 tillögur að deiliskipulagi: Fiskihöfn - Krossanesshagi - Þjónustustöð Akureyrarbær auglýsir hér með skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga neðangreindar tillögur að deiliskipulagi: 1 Deiliskipulag fiskihafnar og nágrennis Tillagan fjallar um svæðið austan Hjalteyrargötu frá lóð Ú.A. að Glerá. Gerð er grein fyrir hafnarmannvirkjum, landfyllingu við Glerá, lóðarmörkum, nýtingu lóða og svæða, núverandi og fyrirhuguðum byggingum og umferðartengingum. Skoða uppdrátt (pdf)... Lesa greinargerð (pdf)... 2 B-áfangi iðnaðarhverfis í Krossanesshaga Skipulagssvæðið er um 25 ha að stærð. Það liggur upp af Krossanesi og nær frá áfanga A, sem nú er í byggingu, norður að safngötunni Óðinsnesi. Fjallað er um fyrirhugaða fullnýtingu grjótnáms í Ystaási og mótun lands í kjölfar hennar. Ákvæði er um gerð áætlunar um námuvinnsluna skv. ákvæðum laga um náttúruvernd nr. 44/1999. Gerð er grein fyrir opnum svæðum, fyrirhuguðum götum, lóðum og byggingarreitum. Ákvæði er sett um verndun fornminja á svæðinu. Skoða tillöguuppdrátt (jpg)... Skýringaruppdrátt (jpg)... Greinargerð (pdf)... Skýringarmynd örnefni (jpg)... Sniðmyndir (jpg)... Skýringarmynd breytt landslag(jpg)... 3 Þjónustustöð við gatnamót Borgar- og Hlíðarbrauta Tillaga að deiliskipulagi um 3.900 m2 lóðar fyrir bensínsölu og tengda verslun. Gert er ráð fyrir einu húsi á lóðinni, að hámarki um 470 m2 að stærð, og afmarkaður er reitur fyrir þakskyggni yfir bensíndælum. Innakstur verði á lóðina frá Hlíðarbraut, og inn- og útakstur frá Borgarbraut. Kvöð er sett um gróður á lóðarmörkum. Skoða tillöguuppdrátt... Tillögurnar ásamt fylgigögnum munu liggja frammi í þjónustuanddyri Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 1. hæð, næstu 6 vikur frá birtingu þessarar auglýsingar, þ.e. til föstudagsins 20 júní 2003 svo að þeir sem þess óska geti kynnt sér þær og gert við þær athugasemdir. Tillögurnar eru einnig birtar á heimasíðu Akureyrarbæjar: http://www.akureyri.is/ undir: Auglýsingar og umsóknir/Skipulagstillögur. Frestur til að gera athugasemdir við tillögurnar rennur út kl. 1600 föstudaginn 20. júní 2003 og skal athugasemdum skilað til Umhverfisdeildar Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 3. hæð. Hver sá sem ekki gerir athugasemdir við auglýsta tillögu innan þessa frests telst vera henni samþykkur. 9. maí 2003 Skipulags- og byggingarfulltrúi Akureyrarbæjar.
https://www.akureyri.is/is/frettir/inn-og-ut-um-gluggann
Inn og út um gluggann Í dag var ýtt úr vör í Listasafninu á Akureyri farandsýningunni "Inn og út um gluggann: Ísland, Grænland og Færeyjar skoða hvert annað". Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, og Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, opnuðu sýninguna. Á undanförnum árum hefur samstarf milli þjóðanna við norðurskautssvæðið færst mjög í vöxt. Þetta á ekki síst við um nágranna- og vinaþjóðirnar Ísland, Grænland og Færeyjar sem nú heyra undir hið svokallaða Vestnorden. Hins vegar hafa listsýningar þessara þriggja landa eingöngu veitt innsýn í uppruna og hefðir þjóðanna. Þannig hafa Íslendingar fengið að sjá hvernig Færeyingar og Grænlendingar túlka sitt eigið umhverfi, og öfugt. Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, og Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri. Þegar Listasafnið á Akureyri tók að sér það verkefni að koma á fót samstarfi milli landanna sem leiða myndi til farandsýningar, þótti tímabært að feta aðrar slóðir. Við þekkjum orðið ágætlega til þeirrar myndlistar sem þarna er einkum stunduð, en hvaða augum skyldu þjóðirnar líta hver á aðra? Hvað myndi rithöfundur frá Grænlandi, sem aldrei hefur komið til Íslands, hafa að segja um okkur eða Færeyinga? Hvernig skyldi ljósmyndari frá Færeyjum, sem aldrei hefur komið til Grænlands, sjá grænlenskt eða íslenskt samfélag og náttúru? Glöggt er gests augað, segir máltækið. Þrátt fyrir nálægðina og sameiginlegan bakgrunn á mörgum sviðum eru alls konar ranghugmyndir og klisjur enn við lýði um það hvernig við Íslendingar, eða þá Grænlendingar og Færeyingar, erum í raun og veru. Hannes Sigurðsson, forstöðumaður Listasafnsins á Akureyri. Hugmyndin að baki verkefninu var að vinna gegn þeim stöðnuðu hugmyndum sem við kunnum að hafa um hvert annað og skoða hlutina í nýju ljósi með því að koma listamönnunum í beint samband við hin “ókunnu" vinalönd. Í stað þess að þeir kynntu sína eigin þjóðmenningu voru þeir beðnir um að tjá hughrif sín af nágrannaþjóðunum á beinskeyttan hátt. Teymi ljósmyndara og rithöfunda í hverju landi var sett á fót og í kjölfarið heimsóttu grænlenskir listamenn Ísland og Færeyjar, Færeyingar fóru til Íslands og Grænlands, og að lokum sóttu íslenskir listamenn Færeyjar og Grænland heim. Markmiðið var ekki að dásama land og þjóð eins og gert er í ferðabókum, heldur að sýna trúverðuga mynd af okkur sjálfum eins við komum þessum nágrönnum okkar fyrir sjónir - með bæði kostum og göllum. Verkefnið “Inn og út um gluggann" er í raun samfélagsrannsókn sem tengir saman mismunandi listgreinar, stofnanir og einstaklinga. Ljósmyndin er einn öflugasti miðill nútímans. Með tilkomu hegðunarrannsókna og þörfinni fyrir að brjótast út úr takmörkun sérhæfingarinnar hafa hefðbundin landamæri milli listgreina og aðferða óðum verið að hverfa. Í ljósi þess var lagt til að hver ljósmyndari hefði sér til fulltingis rithöfund. Saman skyldi hvert teymi leggja til texta og myndir sem aðskilin framlög til sýningarinnar; rithöfundurinn átti ekki að túlka myndirnar frekar en ljósmyndaranum var ætlað að myndskreyta textann. Við fáum því að kynnast sömu stöðum á sama tíma frá sjónarhorni ólíkra listgreina og einstaklinga. Valgerður Bjarnadóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, og frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands. Listasafnið á Akureyri, Listasafn Færeyja og Þjóðmenningarhús Grænlendinga, Katuaq, unnu saman við val á þátttakendum. Reynt var að forðast fyrirfram gefin efnistök eða hugmyndir með því að leita til fólks sem hafði helst aldrei áður komið til hinna landanna. Ennfremur skyldu bæði ljósmyndarar og skáld vera í yngri kantinum til að verkefnið yrði samstilltara og speglaði betur viðhorf æskunnar. Að lokum var reynt að velja listamenn sem sýnt hafa þjóðfélagslegan áhuga í verkum sínum. Fyrir valinu urðu skáldið Guðrún Eva Mínervudóttir og ljósmyndarinn Sigga Dóra Halldórsdóttir, Grænlendingarnir Knud Josefsen ljósmyndari og Jokum Nielsen rithöfundur, og frá Færeyjum þeir Oddfríður Marni Rasmussen skáld og Ingi Joensen ljósmyndari. Til að skapa samræmda sýningu tók Listasafnið á Akureyri að sér að stækka og ganga frá myndunum með aðstoð Ragnars Th. Sigurðssonar ljósmyndara. Hluti myndasafnsins átti að sýna hvað listamönnunum fannst jákvætt eða heillandi við þjóðina sem þeir heimsóttu. Hinn hlutinn átti að endurspegla hvað þeim fannst síður aðlaðandi eða jafnvel neikvætt. Á sama hátt voru skáldin beðin um að leggja fram texta sem varpaði ljósi á hvað þeim fannst gott eða miður við nágrannaþjóðir sínar. Að öðru leyti höfðu listamennirnir að sjálfsögðu fullt frelsi til að nálgast viðfangsefnið eins þeim best líkaði. Í tengslum við verkefnið var gerð sérstök skoðanakönnun af Ragnari F. Ólafssyni hjá Námsmatsstofnun. Í könnun Ragnars tóku þátt nemendur í einum af framhaldsskólum hvers lands, en þeir eru Menntaskólinn við Hamrahlíð, Føroya Studentaskúli og Midtgrönlands Gymnasiale Skole. Markmiðið var að kanna skilning og þekkingu ungs fólks á sögu, landafræði og menningu nágrannalandanna. Nemendur voru beðnir um að skrifa stutta greinargerð, ásamt því að teikna landakort af löndunum þremur. Að því loknu voru þeir beðnir að flokka saman það sem löndin eiga sameiginlegt og hvað ekki. Niðurstaða skoðanakönnunarinnar er að finna í meðfylgjandi bók ásamt völdum teikningum sem sýna meðal annars lögun og staðsetningu Íslands, Grænlands og Færeyja í huga ungdómsins. Sumar af þessum teikningum mynda einnig hluta af sýningunni. Frá Listasafninu á Akureyri fara verkin til Listasafns Færeyja í Þórshöfn þar sem þau verða til sýnis frá 9. til 31. ágúst. Þann 4. október verður sýningin svo opnuð í Þjóðmenningarhúsi Grænlendinga, Katuaq, í Nuuk. Þá stendur til að sýningin fari á fleiri staði, meðal annars til vestnorrænu menningarmiðstöðvarinnar Bryggen í Kaupmannahöfn. Nordisk Kulturfond og Menntamálaráðuneytið styrktu verkefnið að hluta til og Flugfélag Íslands og Air Greenland veittu rausnarlegan afslátt á flugferðum þátttakenda. Sýningunni lýkur 22. júní. Sjá einnig heimasíðu Listasafnsins www.listasafn.akureyri.is
https://www.akureyri.is/is/frettir/god-stemning-a-kjordegi
Góð stemning á kjördegi Mikil og góð stemning hefur verið á Akureyri í gær og í dag vegna alþingiskosninganna 2003. Flokkarnir bjóða gestum og gangandi að þiggja veitingar og verður spennandi að sjá hverju það skilar upp úr kjörkössunum. Kjörstaður í Oddeyrarskóla er opinn til kl. 22. Talning fer hins vegar fram í KA-heimilinu og þaðan senda bæði RÚV og Stöð 2 út beinar kosningafréttir fram á nótt. Veður hefur verið ágætt á Akureyri, fremur milt og hægur vindur, þó byrjaði að rigna svolítið þegar leið á daginn. Unnið að undirbúningi sjónvarpsútsendingar frá KA-heimilinu fyrr í dag.
https://www.akureyri.is/is/frettir/kirkjulistavika-a-akureyri
Kirkjulistavika á Akureyri Kirkjulistavika hófst í gær með glæsilegum hátíðartónleikum í Íþróttahöllinni á Akureyri. Mikið verður um að vera næstu daga og er dagskráin svohljóðandi: Mánudagur 12. maí Kl. 20.30: Fyrirlestur Elsu E. Guðjónssen. Þriðjudagur 13. maí Kl. 9: Morgunsöngur. Miðvikudagur 14. maí Kl. 10: Mömmumorgunn í Safnaðarheimili. Laufey Brá Jónsdóttir fjallar um leiklist og börn. Fimmtudagur 15. maí Kl. 12: Kyrrðarstund í Akureyrarkirkju. Kl. 15: Opið hús fyrir aldraða, ferð að Grund í Eyjafirði. Föstudagur 16. maí Kl. 18: Aftansöngur í Akureyrarkirkju. Prestur er séra Guðmundur Guðmundsson héraðsprestur. Kammerkór Akureyrarkirkju syngur, stjórnandi Eyþór Ingi Jónsson, organisti Björn Steinar Sólbergsson. Laugardagur 17. maí Kl. 17: Vortónleikar Unglingakórs Akureyrarkirkju. Stjórnandi Eyþór Ingi Jónsson en Björn Steinar Sólbergsson leikur á orgel og píanó. Sunnudagur 18. maí Kl. 14: Hátíðarguðsþjónusta. Sr. Sigurbjörn Einarsson biskup prédikar, sr. Svavar Alfreð Jónsson, sr. Jóna Lísa Þorsteinsdóttir, Ingunn Björk Jónsdóttir, djákni og Valgerður Valgarðsdóttir, djákni þjóna fyrir altari. Meðhjálpari: Gunnlaugur P. Kristinsson. Kór Akureyrarkirkju syngur. Einsöngvarar: Sigríður Aðalsteinsdóttir, mezzósópran og Sólbjörg Björnsdóttir, sópran. Málmblásarakvartett. Kórstjóri: Eyþór Ingi Jónsson. Organisti: Björn Steinar Sólbergsson. Kl. 20.30 Æðruleysismessa Sr. Jóna Lísa Þorsteinsdóttir messar. Þátttakendur í Kirkjulistaviku 2003: Akureyrarkirkja, Listvinafélag Akureyrarkirkju, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Minjasafnið á Akureyri, Kór Akureyrarkirkju, Barnakór Akureyrarkirkju, Unglingakór Akureyrarkirkju, Kammerkór Norðurlands, Kór Langholtskirkju og fjölmargir einstaklingar.
https://www.akureyri.is/is/frettir/fyrsta-skoflustungan-tekin-i-naustahverfi
Fyrsta skóflustungan tekin í Naustahverfi Á þriðjudag tók bæjarstjórinn á Akureyri, Kristján Þór Júlíusson, fyrstu skóflustunguna að fyrsta íbúðarhúsinu í Naustahverfi. Hverfið er rammað inn af svipmiklu landslagi og liggur beint fyrir ofan flugvöllinn, frá suðurenda bæjarins að Kjarnaskógi. Rammaskipulag Naustahverfis var unnið af Kanon arkitektum á árunum 1998-2000 á grunni verðlaunatillögu þeirra í hugmyndasamkeppni frá vorinu 1997. Höfuðmarkmiðið með nýja skipulaginu er að skapa nýtt hverfi í framhaldi af núverandi byggð, þar sem gott er að búa og starfa. Áhersla er lögð á fjölbreytt, þægileg og skýr bæjarrými sem mynda gott búsetuumhverfiog eru falleg, vistleg, skjólrík og afmörkuð af byggingum og trjágróðri. Kristján Þór Júlíusson, bæjar- og gröfustjóri, tekur fyrstu skóflustunguna. Í Naustahverfi verður hægt að njóta fjölbreyttra útivistasvæða og fallegs útsýnis. Með skipulaginu er stuðlað að skjólgóðum útirýmum. Lífæð hverfisins, Kjarnagata, mun liggja í gegnum hverfið með íbúðum ásamt þjónustu, verslunum og stofnunum og skilyrði verða sköpuð fyrir fjölskrúðugt mannlíf og öfluga hverfistengda þjónustu. Húsagerðir verða margvíslegar, með áherslu á sambyggð sérbýli, t.d. íbúðir sem hafa sérinnganga en eru sambyggð eða tengd með einhverjum hætti. Naustahverfi á eftir að verða fallegt og gróðursælt hverfi sem verður ekki einangrað, en vex eðlilega í framhaldi af núverandi byggð. Kanon arkitektar hafa unnið deiliskipulag 1.áfanga Naustahverfis út frá markmiðum rammaskipulagsins, en þar er gert ráð fyrir samtals 327 íbúðum ásamt grunnskóla og leikskóla.ArticleÁætlað er að Naustahverfi byggist upp á 15 árum og áætlaður íbúafjöldi verður 6-8 þús. manns í 2300-3000 íbúðum þegar það verður fullbyggt. Hverfið skiptist upp í tvö skólahverfi og eina kirkjusókn. Naustahverfi er á fallegum stað á svokallaðri Suður-Brekku. Í þeim áfanga sem nú er verið að hefja byggingaframkvæmdir í eru alls 158 íbúðir en búið er að úthluta lóðum fyrir 143 íbúðir. Gatnaframkvæmdir við næsta áfanga, þar sem fyrirhugaðar eru 169 íbúðir, hefjast á næstu dögum. Lóðum í þeim áfanga verður úthlutað fyrri hluta sumars og verða þær byggingarhæfar 1. nóvember n.k. Akureyrarbær hefur á undanförnum árum unnið að metnaðarfullri fjölskyldustefnu og verður afrakstur hennar mjög sýnilegur í hinu nýja hverfi. Má þar fyrst og fremst nefna að fyrsta byggingin sem ráðist var í í hinu nýja hverfi er glæsilegur fjögurra deilda leikskóli, sem tekinn verður í notkun 18. ágúst næstkomandi, áður en fyrstu íbúar hverfisins flytja inn. Hér er sennilega um einsdæmi að ræða í byggingu íbúðarhverfa hér á landi. Þá mun nýr grunnskóli rísa við hlið leikskólans þegar íbúafjöldi hefur náð tilsettu marki. Í hverfinu verður einnig lögð áhersla á umferðaröryggi og góðar og öruggar gönguleiðir auk þess sem frá upphafi byggðar mun bærinn gróðursetja skjólbelti til að bæta búsetuumhverfi fyrir væntanlega íbúa. Bæjarstjórinn afhendir væntanlegum íbúum Naustahverfis myndarlegan blómvönd. Eigendur hússins við Stekkjartún 23, sem framkvæmdir hófust við á þriðjudag, eru Anna María Guðmann, myndlistarkona, og Adam Traustason, byggingarverkfræðingur.
https://www.akureyri.is/is/frettir/vorsyning-myndlistaskolans-a-akureyri-2003
Vorsýning Myndlistaskólans á Akureyri 2003 Sýning á verkum nemenda Myndlistaskólans á Akureyri verður opnuð um helgina á tveimur stöðum í Listagilinu á Akureyri. Í Ketilhúsinu verða til sýnis útskriftarverk þeirra 13 nemenda sem útskrifast úr sérnámsdeildum skólans að loknu 90 eininga námi. Nám í fagurlistadeild er fjölþætt, þriggja ára sérhæft nám sem veitir starfsmenntun í frjálsri myndlist. Í Listhönnunardeild - grafískri hönnun er lögð sérstök áhersla margvíslega tækni og miðla. Í húsnæði skólans að Kaupvangsstræti 16 verður fjölbreytt sýning að vanda. Sýnishorn af því helsta sem nemendur á 1. og 2. ári í sérnámsdeildum hafa verið að fást við í myndlist og hönnun á þessu skólaári. Nám í Fornámsdeild er skipulagt með hliðsjón af aðalnámskrá framhaldsskóla og í því felst listrænn og tæknilegur undirbúningur fyrir framhaldsnám á sviði myndlistar og hönnunar. Sýningin gefur greinargott yfirlit þeirrar vinnu sem nemendur í fornámsdeild hafa fengist við á skólaárinu. Að þessu sinni útskrifast 16 nemendur úr Fornámsdeild skólans. Auk þess sem að ofan er talið verða sýnd verk eftir börn sem hafa stundað nám í barnalistadeild skólans um lengri eða skemmri tíma. Vorsýning Myndlistaskólans á Akureyri verður opnuð laugardaginn 17. maí kl. 14.00 í Ketilhúsinu og húsi Myndlistaskólans að Kaupvangsstræti 16. Aðeins verður opið í tvo daga 17. og 18. maí kl. 14.00-18.00 báða dagana. Heimasíða skólans: www.myndak.is
https://www.akureyri.is/is/frettir/husid-ad-granufelagsgotu-6-rifid
Húsið að Gránufélagsgötu 6 rifið Í dag var hafist handa við að rífa húsið að Gránufélagsgötu 6 á Akureyri, nánar tiltekið á horninu við Hótel Norðurland og Herradeild JMJ. Undanfarnar vikur hafa liðsmenn í slökkviliði bæjarins nýtt sér húsið til æfinga og því leikið um það eldur og reykur suma daga. En nú er sem sagt komið að því að jafna húsið við jörðu og sögðu menn á vettvangi að það væri augljóslega sterkt í því og að verkið gæti tekið nokkurn tíma.
https://www.akureyri.is/is/frettir/ithrottahus-og-vidbygging-vid-siduskola
Íþróttahús og viðbygging við Síðuskóla Tréverk ehf. í Dalvíkurbyggð skrifaði á þriðjudag undir samning við Fasteignir Akureyrarbæjar um byggingu íþróttahúss og viðbyggingu við Síðuskóla. Alls bárust fjögur tilboð í verkið og voru þau öll yfir kostnaðaráætlun. Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, og Björn Friðþjófsson, framkvæmdastjóri Tréverks, undirrituðu verksamninginn. Við hlið þeirra situr Guðríður Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri Fasteigna Akureyrarbæjar. Tréverk átti lægsta tilboðið og hljóðaði það upp á tæpar 333 milljónir króna, eða 101,5% af kostnaðaráætlun. Fyrsta skóflustunga verksins verður tekin nk. mánudag og í kjölfarið hefjast framkvæmdir af fullum krafti. Eins og áður hefur komið fram, hafa tilboð í framkvæmdir á vegum Fasteigna Akureyrarbæjar að undanförnu verið yfir kostnaðaráætlunum. Björn Friðþjófsson, framkvæmdastjóri Tréverks, sagði að svo virtist sem verkefnastaða byggingaverktaka væri góð um þessar mundir og því hafi einingaverð verið að hækka. Tréverk var að skila af sér verki í Sundlaug Akureyrar og þá er fyrirtækið að hefja framkvæmdir við innhússbreytingar á gömlu húsum HA á Sólborg. Björn sagði að um 20 starfsmenn störfuðu hjá fyrirtækinu en frá miðju ári 1999 hefur um helmingur starfsmanna verið að vinna við verk á Akureyri. Akureyrarbær stóð fyrir lokaðri samkeppni um íþróttahús og viðbyggingu Síðuskóla og bárust þrjár tillögur í samkeppnina. Sérstök matsnefnd valdi tillögu frá Arkitekta- og verkfræðistofu Hauks ehf. en höfundar eru arkitektarnir Fanney Hauksdóttir, Anna Margrét Hauksdóttir og Friðrik Ó. Friðriksson og Þráinn Hauksson landslagsarkitekt hjá Landslagi ehf. Frétt af www.mbl.is
https://www.akureyri.is/is/frettir/kynja-og-byggdasjonarmid
Kynja- og byggðasjónarmið? Félagsvísinda- og lagadeild boðar í samvinnu við Jafnréttisstofu og Jafnréttisráð til málþings um lýðræði og kynja- og byggðasjónarmið. Málþingið verður haldið föstudaginn 23. maí kl. 9.00 - 12.00 í stofu L203 á Sólborg. Fundarstjóri er Elín Hirst, fréttastjóri sjónvarpsins. Í nýafstöðnum þingkosningum fækkaði konum á Alþingi Íslendinga. Á sama tíma fjölgaði fulltrúum Reykvíkinga. Sú spurning hlýtur að vakna hvort þessar breytingar á samsetningu þingsins skipti raunverulega einhverju máli. Hver eru grundvallarrök fyrir nauðsyn þess að konur séu ámóta margar og karlar í forystusveit (íslenskra) stjórnmála? Með sama hætti má spyrja hvort eitthvað sé við það að athuga að mikill meirihluti þingmanna komi frá Reykjavík og byggðarlögum í nágrenni höfuðborgarinnar? Hvaða kröfur gerir lýðræðið til samsetningar þingsins? Þjónar það hagsmunum allra að gera landið að einu kjördæmi? Á málþinginu verður leitað svara við því hvaða lýðræðislegu sjónarmið beri að hafa að leiðarljósi við kjördæmaskipan og skipan sæta á lista stjórnmálaflokkanna þannig að réttlátt geti talist. Dagskrá málþingsins er eftirfarandi: 09.00 Setning: Mikael M. Karlsson, deildarforseti félagsvísinda- og lagadeildar. 09.05 Erindi Hvers vegna á hlutfall kynja á þingi að vera jafnt? - Valgerður H. Bjarnadóttir. Er rétt að spila alltaf maður á mann? - Grétar Þór Eyþórsson. Konur, kosningar og kjördæmaskipan - Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir. Skiptir kyn nokkru máli í stjórnmálum? - Sigríður Andersen. Eru byggðasjónarmiðin hindrun á vegi kvenna í stjórnmálum? Svanfríður Jónasdóttir. 10.15 Kaffihlé 10.30 Erindi Flokksforysta ræður framgangi kvenna - Una María Óskarsdóttir. 10.45 Pallborð Fulltrúar stjórnmálaflokkanna.
https://www.akureyri.is/is/frettir/einn-gaesluvollur-a-akureyri
Einn gæsluvöllur á Akureyri Sumarið 2003 er rekinn einn gæsluvöllur á Akureyri frá 20. maí til 22. ágúst. Þar er um að ræða Eyrarvöll við Eiðsvöll. Markmið með rekstri gæsluvalla Akureyrar er að veita börnum 2-7 ára örugga útigæslu. Reglur gæsluvalla Akureyrar eru þessar: 1. Gæsluvellir eru eingöngu ætlaðir til útileikja. 2. Á gæsluvellinum er séð fyrir gæslu barna á aldrinum 2-7 ára. 3. Tveggja ára börn mega dvelja á gæsluvellinum í 2 tíma í senn. 4. Meðan barn er að venjast aðstæðum, er nauðsynlegt að hafa náið samstarf við gæslufólk. 5. Skylt er að fylgja barninu á milli gæsluvallar og heimilis og sækja það á réttum tíma. 6. Gætið þess að barnið sé ávallt vel búið, í samræmi við veður og ástand vallarins. 7. Nauðsynlegt er að tilkynna gæslufólki, hvar hægt er að ná í foreldra eða aðstandendur barns, á meðan það dvelur í gæslu á vellinum. 8. Af öryggisástæðum þarf að láta starfsmenn vita þegar aðrir en foreldrar eða systkina sækja börnin á gæsluvöllinn. 9. Engin ábyrgð er tekin á einkaleikföngum. 10. Ef barn sýnir á einhvern hátt hegðun sem gerir það að verkum að það á erfitt með að fara eftir reglum gæsluvallarins, skal hafa samráð við starfsfólk um gæslu. Ekki er tryggt að öll börn geti dvalið í gæslu á gæsluvelli án sérstakra ráðstafanna. Ef barn verður fyrir slysi á gæsluvellinum greiðir gæsluvöllurinn fyrstu heimsókn á slysadeild, þó aðeins upp að tilteknu hámarki. Heimilistrygging barnsins tekur svo á málinu en þegar henni sleppir tekur slysatrygging bæjarins við. Þetta á aðeins við líkamstjón en ekki tjón á munum o.þ.h. Fyrstu dagana á gæsluvellinum köllum við aðlögunartíma. Algengast er að aðlögun taki 5-8 daga, allt eftir því hversu tilbúið barnið er sjálft. Það er mikilvægt fyrir barnið að fá að meðtaka þetta nýja umhverfi hægt og rólega. Því er góður aðlögunartími barninu nauðsynlegur. 1. dagur: Komið þið barnið þitt í stutta heimsókn. Hittið starfsfólk og skoðið aðstæður. Skiljið barnið aldrei eftir eitt á fyrsta degi. 2. dagur: Komið með barninu og lengið viðverutímann lítið eitt. Starfsfólk útskýrir þær reglur sem í gildi eru og fær upplýsingar hjá foreldri varðandi barnið. Örvið barnið í leik en þrýstið ekki á það. 3. dagur: Komið með barninu og dveljið í einhvern tíma. Útskýrið fyrir barninu að þú þurfir að skreppa frá litla stund. Farið í burtu en dveljið aldrei lengur en t.d. í 20 mín. 4. dagur: Eins og sá þriðji, en lengið tímann sem þið eruð í burtu frá barninu. 5. dagur: Ef allt hefur gengið að óskum á að vera óhætt að skilja barnið eftir í fullan tíma. Opnunartími Eyrarvallar er frá kl. 13-16 alla virka daga. Gjald fyrir komu á gæsluvöll er 200 kr. eða 2 gæslumiðar. Hægt er að kaupa kort með 25 gæslumiðum á gæsluvellinum. Kortið kostar kr. 2.000. Systkinaafsláttur er ekki veittur. Öll börn eldri en 2ja ára sem koma til gæslu eða í heimsókn á gæsluvellina greiða gæslugjald. Forstöðumaður gæsluvalla er Inda Björk Gunnarsdóttir, leikskólaráðgjafi á skóladeild Akureyrarbæjar. Sími forstöðumanns er 460 1453. Forstöðumaður hefur með höndum allan daglegan rekstur gæsluvallanna, svo og ráðningar starfsfólks og ráðgjöf til þeirra. Allar stærri ákvarðanir um rekstur t.d. varðandi lokun gæsluvalla eða opnunartíma þeirra eru teknar af skólanefnd Akureyrar. Foreldrar barna á gæsluvöllum geta leitað til forstöðumanns með vandamál tengd börnum sínum og veru þeirra á gæsluvöllunum t.d. varðandi aðlögun barna og samskipti við starfsfólk. Síminn á Eyrarvelli er 462 6298.
https://www.akureyri.is/is/frettir/endurbaetur-a-brekkuskola
Endurbætur á Brekkuskóla Í dag var skrifað undir samning vegna fyrsta áfanga endurbóta og viðbyggingar á Gagnfræðaskólahúsinu, Brekkuskóla. Skóflustunga verður tekin kl. 16.50 í dag og verða nemendur Brekkuskóla þátttakendur í athöfninni. Í kynningarskjali frá Fasteignum Akureyrarbæjar segir: Stjórn Fasteigna samþykkti á fundi þann 21. mars 2003, að efna til boðkeppni um viðbyggingu við Brekkuskóla (GA-hús) og voru 6 hönnuðir valdir í opnu forvali til þátttöku í keppninni. Fasteignir Akureyrarbæjar undirbjuggu samkeppnina þar sem óskað var eftir tillögum um: viðbyggingu við GA- hús, endurhönnun á núverandi húsnæði skólans, GA- húsi, hönnun á lóð, bifreiðastæðum og aðkomu. Markmið með samkeppninni var að fá fram sem besta lausn í húsnæðismálum fyrir Brekkuskóla. Kallað var eftir hagkvæmri lausn sem tæki til viðbyggingar, endurhönnunar á GA-húsi og tengingar við það. Leitað var eftir lausn sem myndaði heildarramma utan um farsælt starf skólans. Áhersla var lögð á það að hönnuðir tækju mið af því umhverfi sem skólinn er í. Brekkuskóli er grunnskóli frá 1.-10. bekk, nemendafjöldi er um 500 nemendur. Leitað er að góðri lausn á húsnæðismálum skólans með það í huga að nýting á GA- húsi verði sem best verður á kosið, út frá því starfi sem á sér stað í skólanum. Hætt verður að nota BA-hús fyrir skólann og er notkun óráðin. Koma þarf viðbyggingu þannig fyrir á lóðinni að tenging við húsnæðið sem til staðar er verði sem best og að skólinn vinni sem ein heild. Samkeppni um hönnun Brekkuskóla var unnin í samvinnu við Arkitektafélag Íslands og skipaði félagið tvo menn í dómnefnd af fimm. Hluti af samkeppnisverkefninu var hönnun á lóð, bifreiðastæðum og aðkomu skólans og að afmarka neðra húsi (BA) lóð. Áhersla var lögð á að aðgreina umferð gangandi fólks og bifreiða. Gert var ráð fyrir að aðkoma að íþróttahúsi við Laugargötu verði sundlaugarmegin. Skilafrestur tillagna var til 17. sept. og bárust fimm tillögur. Tillaga frá arkitektur.is var hlutskörpust og valin til frekari útfærslu. Samningur við arkitektur.is var undirritaður í október 2002. Vel hugsuð og vel unnin tillaga, miðjurými og aðkoma góð. Þungamiðja skólans mjög vel leyst með nýju sameiginlegu rými s.s. sal, bókasafni, eldhúsi ofl. og getur nýst sem hverfismiðstöð utan skólatíma. Frumleg hugmynd að breytingu á eldra húsnæði, sem aðlagar það að nútíma skólastarfi. Nýbygging og breytingar á eldri byggingu falla vel að nágrenninu, þó telur dómnefnd stóra glerveggi óheppilega fyrir kennslurými og viðhald byggingarinnar. Vegalengdir innan skólans eru stuttar og skýrar. Þröngt á milli bygginga, má leysa með einföldum hætti. Huga mætti betur að skjólmyndun. Umferðarleið milli bygginga helst til þröng. Ákveðið var að bjóða framkvæmd út í tveimur áföngum og var sá fyrri boðin út í maí. Þar var óskað eftir tilboðum í jarðvinnu, lagnir, sökkla og botnplötur fyrir nýbyggingu. Fjögur tilboð bárust í verkið og var gengið til samninga við lægstbjóðanda, SS byggir ehf. Verkið verður hafið strax að lokinni undirritun samnings og á fyrsta áfanga að vera lokið eigi síðar en 1. sept. 2003. Annar áfangi verður boðinn út í byrjun júlí 2003. Áætlað er að framkvæmdin taki um tvö ár og verður framkvæmdum við nýbyggingu lokið sumarið 2004, en endurbótum á eldra húsi í ágúst 2005. Brúttó stærð viðbyggingar er um 1673 m² og endurbætur og breytingar verða gerðar á eldra húsi, það breikkað og lengt samtals um 3.448 m² og er stærð lóðar skólans 44.150 m², sem verður endurunnin. Brúttó stærð þess húsnæðis sem skólinn mun hafa til ráðstöfunar verður þá um 5.120 m². Heildarkostnaður er áætlaður um kr. 640 milljónir án fjármagnskostnaðar, á verðlagi maímánaðar 2003. Arkitekt - ráðgjafar: arkitektur.is Burðarþol og lagnir: Hönnun hf. Raflagnir: Raftákn ehf Landslagsarkitekt: Suðaustanátta Aðalverktaki 1. áfanga: SS byggir
https://www.akureyri.is/is/frettir/skippers-d-islande
Skippers d´Islande Skúturnar sem taka þátt í siglingakeppninni Skippers d'Islande nálgast nú óðum Ísland og verða í Reykjavíkurhöfn innan fárra klukkustunda. Þaðan liggur leiðin til Akureyrar og er gert ráð fyrir að skúturnar sigli inn Pollinn 19. júní. Skúturnar sem taka þátt í keppninni eru: Arcelor Dunkerque Port de Gravelines Destination Calais Mistress MioPalmo Galea Ville de Pleneuf Val André Union Commerciale Paimpolaise 3000 Sabords Elvedi Magnolia IV Hægt er að fylgjast með stöðu siglingarkappanna á heimasíðu keppninnar: http://perso.wanadoo.fr/.skippers.d.islande/cartes.htm
https://www.akureyri.is/is/frettir/fyrsta-skemmtiferdaskipid-1
Fyrsta skemmtiferðaskipið Von er á 44 skemmtiferðaskipum til Akureyrar sumarið 2003 og í morgun tók Kristján Þór Júlíusson, bæarjstóri, á móti landfestum hjá því fyrsta. Skipið sem nú liggur við Oddeyrarbryggju er breskt og nefnist Discovery. Þegar landgangurinn var kominn á sinn stað steig bæjarstjórinn um borð og heilsaði upp á skipstjórann. Áætlað er að farþegar með þeim 44 skipum sem koma inn á Pollinn í sumar verði um 23.000 en í fyrra voru þeir 20.199 með 36 skipum. Skipið sem kom í morgun er 20.186 brúttótonn en stærsta skipið sem kemur í sumar er Adonia, 77.000 brúttótonn og 245 metra langt.
https://www.akureyri.is/is/frettir/nyir-studentagardar-vid-trollagil
Nýir stúdentagarðar við Tröllagil Kristján Þór Júlíusson og Árni Magnússon ásamt krökkunum sem tóku fyrstu skóflustunguna. Börn af leikskólanum Kiðagili tóku í morgun fyrstu skóflustunguna að nýjum stúdentagörðum sem taka á í notkun á næsta ári. Árni Magnússon, félagsmálaráðherra, og Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri, aðstoðuðu krakkana við verkið. Frá undirritun samninga um bygginguna. Nýju stúdentagarðarnir við Tröllagil verða starfræktir af Félagsstofnun stúdenta á Akureyri (FÉSTA). Í húsinu verða 36 tveggja og þriggja herbergja íbúðir og fjögurra deilda leikskóli. Íbúðirnar eru svar FÉSTA við mikilli eftirspurn stúdenta eftir hagstæðu leiguhúsnæði og leitað var eftir samstarfi við Akureyrarbæ sem mun koma til móts við vaxandi þörf bæjarbúa fyrir leikskólapláss með rekstri leikskóla í byggingunni. Byggingaraðili er P. Alfreðsson ehf. á Akureyri. Hönnun húsnæðisins er í höndum Teiknistofunnar Forms, VST og Raftákns og að fjármögnun verkefnisins koma Landsbanki Íslands og Íbúðalánasjóður. Fyrirhugað er að ljúka uppsteypu hússins á árinu og taka það í notkun 1. ágúst 2004. Karl Eskill Pálsson, fréttamaður Sjónvarps, tekur viðtal við Árna Magnússon, félagsmálaráðherra, á lóðinni þar sem húsið skal rísa.
https://www.akureyri.is/is/frettir/stjornuleit-a-akureyri
Stjörnuleit á Akureyri Í gær voru á Akureyri tveir fulltrúar Stöðvar 2 að leita að hentugum stað fyrir upptökur og áheyrnarpróf vegna þáttarins Idol-Stjörnuleit sem stöðin sýnir næsta haust. Þór Freysson, dagskrárgerðarmaður, og Heimir Jónasson, dagskrárstjóri innlendrar dagskrárgerðar, fóru víða um bæinn að skoða aðstæður. Upptökur fara fram síðustu helgina í ágúst og er gert ráð fyrir að allt að 700 Norðlendingar á aldrinum 16-28 ára spreyti sig í áheyrnarprófum. Þátturinn er gerður að erlendri fyrirmynd sem íslenskir sjónvarpsáhorfendur þekkja úr American Idol. Boltinn fór fyrst af stað í Bretlandi með Pop Idol en Idol-þættirnir hafa verið settir upp víða um heim við miklar vinsældir. Fyrirkomulag íslensku útgáfunnar verður með sama sniði og annars staðar. Áheyrnarpróf verða á Akureyri og í Reykjavík en að þeim loknum komast 80 manns áfram í Idol-Stjörnuleitina. Keppendum verður síðan fækkað í 32 og þá heldur spennan áfram að magnast en aðeins 9 komast í lokaúrslit. Söngvurum heldur áfram að fækka og að lokum stendur einn uppi sem sigurvegari. Til mikils er að vinna en mjög vegleg verðlaun eru í boði. Idol-Stjörnuleitin er eitt af viðameiri verkefnum sem Stöð 2 hefur ráðist í en margir koma að gerð þáttarins. Dómnefndin hefur þegar verið valin en hana skipa þau Sigga Beinteins, Bubbi Morthens og Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson. Vald þeirra er mikið en framan af munu þau ráða örlögum keppenda. Eftir áheyrnarpróf eru það hins vegar sjónvarpsáhorfendur sem ráða úrslitum en hlutskipti söngvaranna ráðast í símakosningu. Þátttakendur í Idol-Stjörnuleitinni skulu vera á aldrinum 16-28 ára og þeir mega ekki hafa gefið út lag sem farið hefur í almenna dreifingu. Þátttakendur yngri en 18 ára þurfa að framvísa skriflegu leyfi forráðamanna. Frekari upplýsingar um Idol-Stjörnuleitina verður að finna í fjölmiðlum síðar í sumar en skráning keppenda hefst í næsta mánuði. Þátturinn fer svo í loftið á Stöð 2 í haust og verður á dagskrá á föstudagskvöldum.
https://www.akureyri.is/is/frettir/grodurreitur-tileinkadur-konum
Gróðurreitur tileinkaður konum Jafnréttisnefnd Akureyrar stendur fyrir útisamveru við Hamra (ofan Akureyrar) þann 19. júní nk. kl. 17-19 í tilefni Kvenréttindadagsins. Þar hefur konum verið tileinkaður sérstakur reitur og verður gróðursett í hann í fyrsta skipti um leið og kallað verður eftir hugmyndum að nafni á reitinn. Dagskrá: 1. Gerður Jónsdóttir, formaður jafnréttis- og fjölskyldunefndar Akureyrarbæjar, setur samkomuna. 2. Vilborg Ólafsdóttir, nýstúdent, flytur stutt ávarp. 3. Bryngeir Kristinsson spilar á harmonikku og allir syngja með. 4. Þórhalla Andrésdóttir stjórnar leikjum fyrir börn á öllum aldri. 5. Tryggvi Marinósson stjórnar gróðursetningu. Nefndin vonast til þess að sem flestar konur mæti með fjölskyldur sínar, og taki með teppi og nesti. 19. júní hefur lengi verið stór dagur í lífi kvenna á Íslandi en þann dag árið 1915 fengu íslenskar konur kosningarétt og kjörgengi sem þó var háð þeim skilyrðum að þær þurftu að vera 40 ára til að geta kosið. Þessi áfangi í lífi íslenskra kvenna náðist í áföngum. Árið 1911 samþykkti Alþingi að veita konum kosningarétt og kjörgengi en konungur Íslendinga, Kristján X, staðfesti ekki þá samþykkt fyrr en 19. júní 1915. Það var svo árið 1918 þegar ný stjórnarská vegna sambandslaganna gekk í gildi að konur fengu fullt og skilyrðislaust jafnrétti á við karla um kosningarrétt og kjörgengi. Íslenskar konur hafa alltaf haft þennan dag í heiðri enda mikilvægt að komandi kynslóðir gleymi því ekki að réttindi kvenna hafa aldrei komið fyrirhafnarlaust upp í hendurnar á þeim heldur með þrautseigju og þrotlausri vinna. Það er því vert að gleyma ekki þessum degi og því að mikið þurfti að hafa fyrir því að íslenskar konur fengju langþráðan kosningarétt. Kvenréttindafélag Íslands sem stofnað var árið 1907 hafði það sem eitt af sínum höfuðmarkmiðum að vinna að almennum kosningarétti kvenna en fyrir þann tíma eða frá 1882 höfðu ógiftar konur og ekkjur sem stóðu fyrir búi eða áttu með sig sjálfar haft kosningarétt.
https://www.akureyri.is/is/frettir/stefnumotun-fyrir-ferdathjonustu-i-eyjafirdi
Stefnumótun fyrir ferðaþjónustu í Eyjafirði Í gær var haldinn kynningarfundur á vegum Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar (AFE) og Iðntæknistofnunar um stefnumótun í ferðaþjónustu. Fundurinn markaði þáttaskil í starfi AFE þar sem félagið leggur nú niður ferðamálasvið. Að því tilefni veitti AFE eina milljón króna til stuðnings verkefna Markaðsskrifstofu ferðamála á Norðurlandi. Framtíðarsýn verkefnisins er að Eyjafjörður verði talinn framúrskarandi staður fyrir ferðamenn vegna góðrar þjónustu, sterkrar ímyndar og yfirburða á landsvísu í afþreyingu, aðstöðu til útivistar og nálægðar við eftirsóttar náttúruperlur. Þau verkefni sem eru skilgreind sem forgangsverkefni eru: 1. Stofnun Markaðsskrifstofu ferðamála á Norðurlandi - samstarfsvettvangs ferðaþjónustufyrirtækja og sveitarfélaga á Norðurlandi. 2. Samgöngubætur á ferðamannastöðum, s.s. við Dettifoss, sem og bættar flugsamgöngur inn á svæðið erlendis frá. 3. Bæta merkingar á leiðum og svæðum sem ferðamenn hafa áhuga á. Skýrslan dregur eingöngu fram framtíðarsýn hagsmunaaðilana sjálfra. Til þess að ekki verði um enn eina rykfallna skýrsluna að ræða hafa verið skilgreind 29 sértæk verkefni til að ná fram settum markmiðum með skilgreiningu á hverjir leiða verkefnin og hverjir eru samstarfsaðilar. Mörg önnur verkefni eru talin upp í viðauka og er sá listi þó langt frá því að vera tæmandi. Þetta eru eingöngu þau verkefni sem komu fram í umræðum vinnuhópa og í beinum samræðum við einstaka ferðaþjónustuaðila. Styrkur AFE er skilyrtur því að Markaðsskrifstofa ferðamála á Norðurlandi verði stofnuð innan 30 daga, en annars verður styrkurinn ógildur. Ætlast er til að stuðningur AFE verði nýttur í markaðsátak erlendis í tengslum við kynningu á flugi til Akureyrar. www.afe.is